Title
stringlengths
43
45
Keywords
stringlengths
3
239
Summary
stringlengths
73
7.24k
Text
stringlengths
778
682k
Mál nr. 849/2017
Skaðabótamál Vinnuslys Örorka Viðmiðunartekjur
S krafði SA hf. um skaðabætur vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir við jarðgangagerð á árinu 2013. Hafði S hafið störf við jarðgangagerð seint á árinu 2010 og unnið við þau störf fram að slysinu bæði hér á landi og erlendis. Eftir hlé vegna slyssins hóf hann að nýju störf við jarðgangagerð og vann við þau í tæp tvö ár er hann varð að hætta vegna afleiðinga slyssins. Aðilar voru sammála um að árslaun til ákvörðunar bóta skyldu metin sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en greindi á um hvert árslaunaviðmiðið skyldi vera. SA hf. hélt því fram að meðaltekjur verkafólks á árinu 2013 væri réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans. S byggði hins vegar á því að miða skyldi við meðaltekjur hans á árunum 2011 og 2012. Fallist var á með S að líklegt væri að framtíðarstafssvið hans hefði orðið við jarðgangagerð hefði hann ekki orðið fyrir slysinu. Þá hefði SA hf. ekki sýnt fram á að laun S, hvort sem þeirra væri aflað hér á landi eða erlendis, hefðu orðið önnur og lægri hefði hann ekki lent í slysinu. Var krafa S því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Greta Baldursdóttir og Arngrímur Ísberg héraðsdómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. desember 2017. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að áfrýjanda verði gert að greiða sér 13.683.361 krónu með 4,5% ársvöxtum frá 4. júní 2013 til 25. desember 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2008 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 30. desember 2016 að fjárhæð 8.733.097 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Í hinum áfrýjaða dómi er málavöxtum lýst sem og málatilbúnaði aðila. Eins og þar kemur fram er ekki ágreiningur um að stefndi hafi orðið fyrir slysi sem áfrýjanda beri að bæta. Þá er heldur ekki tölulegur ágreiningur og aðilar eru sammála um að árslaun til ákvörðunar bóta skuli metin sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Aðila greinir hins vegar á um hvert árslaunaviðmiðið skuli vera. Áfrýjandi byggir á því að meðaltekjur verkafólks á árinu 2013 sé réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur stefnda og hefur hann þegar greitt stefnda fjárhæð sem samsvarar bótum samkvæmt þeim útreikningi. Stefndi byggir á því að miða skuli við meðaltekjur hans á árunum 2011 og 2012 eins og niðurstaðan varð í hinum áfrýjaða dómi. Stefndi hóf störf við jarðgangagerð seint á árinu 2010 og vann við þau störf fram að slysinu. Eftir hlé vegna slyssins hóf hann störf að nýju við jarðgangagerð og vann við þau í tæp tvö ár er hann varð að hætta þeim vegna afleiðinga slyssins. Eftir það hefur hann starfað sem vélamaður hjá jarðvinnuverktaka. Ekki er um að ræða sérstaka menntun þeirra sem vinna við jarðgangagerð heldur lærast störfin með reynslunni. Stefndi vann við þessi störf bæði hérlendis og erlendis, eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi. Það er því fallist á með stefnda að framtíðarstarfssvið hans myndi verða við jarðgangagerð hefði hann ekki orðið fyrir slysinu. Við þessar aðstæður eru því efni til að fallast á viðmiðun árslauna sem stefndi byggir aðalkröfu sína á. Hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að laun stefnda, hvort sem þeirra hefði verið aflað hér á landi eða erlendis, hefðu orðið önnur og lægri hefði hann ekki lent í slysi því sem mál þetta er sprottið af. Að þessu virtu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnda, Sigursteini Sverri Hilmarssyni, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2017. Mál þetta, sem dómtekið var 29. september sl., er höfðað 7. febrúar sl. af Sigursteini Sverri Hilmarssyni, Viðarási 47, Reykjavík gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík. Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 16.962.525 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 4. júní 2013 til 25. desember 2016, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 8.733.097 krónum sem stefndi greiddi stefnanda 30. desember 2016. Stefnandi krefst þess til vara að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 13.683.361 krónu með 4,5% ársvöxtum frá 4. júní 2013 til 25. desember 2016, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 8.733.097 krónum. Þá krefst stefnandi málskostnaðar. Stefndi krefst sýknu og greiðslu málskostnaðar. I.                         Atvik málsins eru óumdeild. Stefnandi varð fyrir vinnuslysi 4. mars 2013 þegar hann var að störfum fyrir Ístak hf. í vatnsrennslisgöngum við Búðarhálsvirkjun. Var stefnandi að hlaða sprengiefni í holur í stafninum á göngunum. Annar starfsmaður Ístaks hf. var að vinna í körfu ofar í stafninum og var einnig að hlaða sprengiefni í holur. Skyndilega féll stór steinn ofarlega úr stafninum og lenti ofan á baki stefnanda. Stefnandi var fluttur með sjúkrabifreið á Selfoss eftir slysið og síðan á bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss í Reykjavík. Var hann greindur með tognun og mar yfir brjóstkassa. Stefnandi var frá vinnu í nærri mánuð eftir slysið. Eftir að hann byrjaði að vinna aftur fann hann fyrir þreytu og verkjum í baki, sérstaklega yfir mjóhrygg en með leiðni upp í brjóstbakið beggja vegna. Vegna þessa leitaði stefnandi í nokkur skipti á Heilsugæsluna í Árbæ. Stefnandi fór svo að finna fyrir andlegri vanlíðan auk bakeymsla og leitaði einnig á heilsugæsluna vegna þess. Slys stefnanda var tilkynnt stefnda, tryggingafélagi Ístaks hf., með tilkynningu 14. apríl 2015. Félagið staðfesti í kjölfarið bótaskyldu vegna slysatryggingar launþega. Stefnandi taldi að Ístak hf. bæri jafnframt skaðabótaábyrgð á tjóni hans vegna slyssins. Á þeim grundvelli var gerð krafa í ábyrgðartryggingu fyrirtækisins hjá stefnda þann 11. febrúar 2016. Stefndi féllst á greiðsluskyldu úr tryggingunni 26. maí s.á. Í ljósi þessa voru afleiðingar slyssins metnar í samráði við stefnda og samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. fyrirliggjandi matsgerð Sigurðar Ásgeirs Kristinssonar læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hæstaréttarlögmanns frá 24. nóvember 2016. Niðurstöður þeirra voru þær að tímabil óvinnufærni og þjáninga, án rúmlegu, væri þrjár vikur. Varanlegur miski var metinn 7 stig og varanleg örorka 10%. Heilsufar stefnanda taldist, að mati matsmannanna, stöðugt 4. júní 2013. Stefnda var sent kröfubréf á grundvelli matsgerðarinnar 25. nóvember 2016. Bótakrafan var sundurliðuð þannig að gerð var krafa um þjáningabætur á grundvelli 3. gr. laga nr. 50/1993 að fjárhæð 38.850 krónur, krafa um bætur vegna varanlegs miska, samkvæmt 4. gr. sömu laga, að fjárhæð 738.640 krónur og loks krafa um 16.962.525 krónur vegna varanlegrar örorku samkvæmt 5. til 7. gr. laga nr. 50/1993. Samtals var gerð krafa um 17.740.015 krónur.Varðandi útreikning á bótum fyrir varanlega örorku var vísað til þess í kröfubréfinu að stefnandi teldi rétt að byggja á 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Hann hefði ekki haft vinnu öll þrjú árin fyrir slysið. Á árinu 2010 hafi stefnandi verið atvinnulaus hluta ársins og atvinnuþátttaka hans því takmörkuð. Þannig hafi óvenjulegar aðstæður verið fyrir hendi og rétt að víkja frá 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 og nota annað tekjuviðmið en tekjur hans sl. þrjú ár fyrir slysið. Stefnandi byggði á því að eingöngu ætti að miða við launatekjur hans árin 2011 og 2012 þar sem hann hafi verið í fullu starfi allt það tímabil. Stefnandi byggði á því að þær tekjur væru réttasti mælikvarðinn á líklegar framtíðartekjur hans. Stefndi féllst á að uppi hefðu verið óvenjulegar aðstæður á viðmiðunartímabili 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 en féllst ekki á sjónarmið stefnanda varðandi réttan mælikvarða á líklegar framtíðartekjur. Stefndi taldi að leggja ætti meðallaun verkafólks árið 2013 til grundvallar útreikningi. Á það sjónarmið gat stefnandi ekki fallist og var málið þess vegna gert upp við stefnda, með fyrirvara af hálfu stefnanda, 28. desember 2016. Var fyrirvari gerður við uppgjörið vegna tekjuviðmiðs við útreikning á bótum fyrir varanlega örorku. Bótagreiðsla stefnda til stefnanda vegna varanlegrar örorku nam samtals 6.417.928 krónum auk vaxta á þá fjárhæð, samtals 1.076.883 krónum. Ekki var ágreiningur um aðra bótaþætti við uppgjörið. Eins og málið liggur fyrir dóminum er ágreiningur um tekjuviðmið vegna útreiknings bóta fyrir varanlega örorku. Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu fyrir dóminum. II.                    Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína einkum á sakarreglunni, meginreglunni um vinnuveitendaábyrgð sem og á ákvæðum laga nr. 46/1980. Þar sem ekki sé ágreiningur um skaðabótaábyrgð vegna slyssins verði hún ekki rökstudd frekar. Þá sé aðeins ágreiningur um útreikning á bótum fyrir varanlega örorku en ekki afleiðingar slyssins eða aðra bótaþætti samkvæmt skaðabótalögum. Af hálfu stefnanda sé aðallega byggt á því að við útreikning á bótum fyrir varanlega örorku skuli meta árslaun hans sérstaklega í samræmi við undanþágureglu 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Í 2. mgr. 7. gr. séu sett tvö skilyrði fyrir því að ákveða megi árslaun sérstaklega. Annars vegar að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi hjá tjónþola og hins vegar að annar mælikvarði en meðalvinnutekjur síðustu þriggja almanaksára fyrir slys, að viðbættu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs og uppfært eins og segir í ákvæðinu, teljist réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Stefnandi telji að aðstæður í máli hans séu óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. og sé það ágreiningslaust með aðilum. Fyrra skilyrðið fyrir beitingu 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 sé þar af leiðandi uppfyllt. Það sé ágreiningur um það í málinu hvað sé réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur stefnanda í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Stefnandi telji með vísan til atvika eðlilegast að miða við framtaldar tekjur hans á árunum 2011 og 2012. Þau tekjuár séu stór hluti af viðmiðunartímabili meginreglu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 og endurspegli jafnframt raunverulega tekjuöflunargetu stefnanda. Stefnandi telji að tekjur hans árið 2010 gefi ekki rétta mynd af tekjuöflunarhæfni hans enda hafi hann verið atvinnulaus hluta þess árs. Stefndi sé þessu viðmiði ekki sammála og telji að meðallaun verkafólks á árinu 2013 séu réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur stefnanda. Stefnandi sé ungur. Hann hafi aðeins verið 24 ára þegar hann hafi lent í slysinu, og tekjusaga hans því ekki mjög löng. Hann hafi þó verið búinn að marka sér ákveðinn starfsvettvang þegar hann hafi lent í slysinu. Eins og fram komi í fyrirliggjandi matsgerð hafi hann lengst af sinnar starfsævi starfað sem bormaður við jarðgangnagerð, bæði hér á landi og í útlöndum. Hann hafi hafið slík störf seint á árinu 2010. Stefnandi hafi sýnt að hann geti aflað góðra tekna sem bormaður við jarðgangnagerð. Á árinu 2010 hafi hann fengið greitt frá Ístaki hf. 1.611.254 krónur og frá Vinnumálastofnun 860.769 krónur. Á árinu 2011 hafi hann fengið greitt frá Ístaki hf. 337.139 krónur en vegna borvinnu í útlöndum 8.698.434 krónur. Á árinu 2012 hafi hann fengið greitt frá Icelandic Construction 1.650.409 krónur en vegna borvinnu í útlöndum 10.343.799 krónur. Á árinu 2013 hafi hann fengið greitt frá Fæðingarorlofssjóði 710.341 krónu, frá Icelandic Construction 6.359.374 krónur en vegna borvinnu í útlöndum 953.826 krónur. Á árinu 2014 hafi hann fengið greitt frá Fæðingarorlofssjóði 269.441 krónu, frá Icelandic Construction 11.411 krónur og vegna borvinnu í útlöndum 10.522.039 krónur. Stefnandi hafi samkvæmt þessu yfirliti verið með góðar tekjur frá því að hann hóf störf sem bormaður, jafnvel þótt hann hafi verið í fæðingarorlofi hluta árs eins og árin 2013 og 2014. Tekjur hans séu ívið lægri árið 2013 en hin árin. Það ár hafi hann verið í fæðingarorlofi og auk þess í mars það ár lent í slysinu sem hér sé til umfjöllunar. Þrátt fyrir það hafi tekjur hans verið ágætar en hann hafi starfað að mestu hér á landi það ár. Tekjur stefnanda undanfarin ár hafi verið mun hærri en meðaltekjur verkafólks. Meðaltekjur verkafólks hafi samtals numið 4.392.000 krónum árið 2011, samtals 4.872.000 krónum árið 2012, samtals 5.112.000 krónum árið 2013 og samtals 5.364.000 krónum árið 2014. Eins og yfirlit stefnanda beri með sér séu tekjur hans sömu ár um tvöfalt hærri. Stefnandi telji vegna þessa að meðallaun verkafólks gefi engan vegin raunhæfa mynd af tekjuöflunarhæfni hans. Stefnandi bendi á að í dómaframkvæmd hafi meðallaun verkafólks einkum verið notuð sem tekjuviðmið þegar tjónþoli sé mjög ungur, jafnvel ekki orðinn tvítugur, og hafi ekki markað sér ákveðinn starfsvettvang á slysdegi. Stefnandi telji að það eigi ekki við í hans tilviki þar sem hann hafi verið búinn að starfa í nokkur ár á sama vettvangi og hugsað sér að gera það áfram hefði hann ekki lent í slysinu. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð leggi matsmenn til grundvallar að stefnandi hafi viðvarandi verki frá brjóst- og mjóbaki þar sem steinninn hafi lent á honum, 4. mars 2013. Varðandi mat á varanlegri örorku leggi þeir til grundvallar að stefnandi sé með skerta starfsgetu til starfa sem bormaður, líkt og hann hafi haft þegar hann lenti í slysinu, sem og annarra líkamlega erfiðra starfa. Stefnandi hafi takmarkaða almenna menntun þótt hann sé með vinnuvélaréttindi og meirapróf sem bifreiðastjóri. Hann starfi nú sem vélamaður. Með hliðsjón af þessari stöðu hans sé varanleg örorka metin 10% vegna skerðingar á getu til að vinna erfiðari störf. Stefnandi byggi á því að miða verði við ofangreindar niðurstöður matsgerðarinnar við val á réttum tekjumælikvarða samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Eðlilegast sé að miða við tekjur bormanna t.d. af því stefnandi hafi lengst starfað sem slíkur fyrir slys. Hann hafi slasast þegar hann hafi unnið sem bormaður og mat á örorku taki einkum mið af getu hans til að stunda slík störf eftir slys. Ekki liggi fyrir sérstakar upplýsingar um meðaltekjur bormanna. Tekjur stefnanda sjálfs árin fyrir og eftir slysið, þegar hann hafi starfað sem bormaður, gefi þó mjög góða mynd af þeim. Stefnandi telji þ.a.l. eðlilegast að miða við þær. Hann telji í alla staði fráleitt að miða við meðallaun verkafólks líkt og stefndi vilji gera. Hann hafi enda sýnt að hann geti aflað mun hærri tekna en sem svari meðallaunum verkafólks. Meðallaun verkafólks séu mun lægri en framtaldar tekjur stefnanda. Stefnandi byggi ennfremur á því að það væri í andstöðu við tilgang skaðabótalaga, sem sé að stuðla að því að tjónþoli fái fullar bætur vegna tjóns síns, ef miðað væri við meðallaun verkafólks við uppgjör í máli hans líkt og stefndi vilji gera. Markmið skaðabótalaga sé að áætla á sem nákvæmastan hátt framtíðartjón tjónþola vegna afleiðinga líkamstjóns. Verði miðað við meðallaun verkafólks sé ljóst, m.v. tekjusögu stefnanda, að hann fái tjón sitt ekki bætt nema að hluta. Stefnandi hafi aflað sér mun hærri tekna en meðallaun verkafólks og ljóst að markmiði skaðabótalaga verði ekki náð ef miðað verði við þær tekjur. Stefndi hafi vísað til þess í málatilbúnaði sínum að stefnandi starfi ekki lengur við jarðgangnagerð í útlöndum og telji slysið ekki skýra brotthvarf stefnanda frá þeim störfum. Þar af leiðandi sé ekki hægt að miða við tekjur stefnanda árin 2011 og 2012 þegar hann hafi starfað hluta árs í útlöndum. Stefnandi mótmæli þessum rökstuðningi. Hann bendi í fyrsta lagi á að þótt slysið hafi ekki leitt til þess að hann sé alveg óvinnufær hafi slysið haft veruleg áhrif á starfsgetu hans og sé hún nú skert um 10%. Skerðing á starfsgetu um 10% hafi óhjákvæmilega áhrif á starfsmöguleika viðkomandi, sérstaklega þegar um vinnu fjarri heimili sé að ræða. Auk þess hafi stefnandi sýnt að hann hafi getað haft sambærilegar tekjur af borvinnu hér á landi. Í öðru lagi byggi stefnandi á því að þegar réttur mælikvarði sé ákveðinn, samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, verði að horfa til aðstæðna hans á slysdegi en ekki aðstæðna eftir slysið. Á slysdegi hafi stefnandi verið búinn að marka sér ákveðinn starfsvettvang. Hann hafi starfað sem bormaður við jarðgangnagerð bæði hér heima og í útlöndum. Stefnandi byggi á því að ekki sé hægt að horfa til sjónarmiða um hvað kynni að hafa hentað honum síðar, ef hann hefði ekki lent í slysinu, nema slíkar breytingar hafi staðið fyrir dyrum á tjónsdegi. Svo hafi ekki verið. Varðandi útreikning á aðalkröfu stefnanda sé einkum vísað til 5.-7. gr. laga nr. 50/1993. Örorkuprósenta stefnanda, sbr. 5. gr. laganna, sé eins og áður sagði 10%. Margfeldisstuðull stefnanda, samkvæmt 6. gr. laga nr. 50/1993, sé 15,226 með hliðsjón af aldri hans þegar heilsufar hans varð stöðugt eftir slysið þann 4. júní 2013. Stefnandi telji að miða eigi útreikning á bótum fyrir varanlega örorku við tekjur hans árin 2011 og 2012, uppreiknaðar samkvæmt launavísitölu og að viðbættu 8% framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð, með hliðsjón af meginreglu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Tekjur stefnanda hafi samtals numið 9.035.573 krónum árið 2011 og 11.994.208 krónum árið 2012. Meðaltekjur að teknu tilliti til vísitölu og lífeyrisframlags verða samtals 12.420.330 krónur. Það séu hærri tekjur en gert sé ráð fyrir í hámarkslaunaviðmiði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 sem hafi samtals numið 11.140.500 krónum á stöðugleikapunkti. Bótakrafan taki þar af leiðandi mið af hámarkslaunaviðmiðinu. Aðalkrafa stefnanda reiknist því svo: 11.140.500 kr. x 15,226 x 10% = 16.962.525 krónur. Stefndi hafi greitt innborgun 30. desember 2016 að fjárhæð 7.494.811 krónur (6.417.928 kr. +  1.076.883 kr.)  og taki bótakrafa stefnanda mið af því. Þá komi til frádráttar bótagreiðsla úr slysatryggingu launþega, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993, samtals að fjárhæð 1.238.286 krónur, einnig þann 30. desember 2016. Krafa stefnanda beri 4,5% ársvexti, samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993, frá 4. júní 2013 eða stöðugleikapunkti til 25. desember 2016, þegar mánuður var liðinn frá því að kröfubréf var sent stefnda, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Verði ekki fallist á ofangreindan rökstuðning og aðalkröfu stefnanda byggi hann á því að miða verði útreikning á bótum fyrir varanlega örorku við 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Í 1. mgr. 7. gr. laganna megi finna meginregluna um hvaða tekjuviðmið eigi að nota þegar örorkubætur séu reiknaðar út. Samkvæmt ákvæðinu eigi að miða við meðalatvinnutekjur tjónþola, að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Stefnandi byggi á því að verði ekki fallist á ofangreindan tekjumælikvarða sem hann leggi til, verði að miða við meginregluna. Eins og að ofan greini séu skilyrðin fyrir beitingu 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 tvö. Annars vegar þurfi óvenjulegar aðstæður að vera fyrir hendi og hins vegar þurfi annar mælikvarði á líklegar framtíðartekjur að vera réttari en samkvæmt meginreglunni. Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar beri sá sem haldi því fram að 2. mgr. 7. gr. eigi við sönnunarbyrðina fyrir því að bæði skilyrðin séu uppfyllt. Ef sú sönnun takist ekki beri að miða við 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Aðilar séu sammála um að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi. Aðilar séu hins vegar ekki sammála um hvaða tekjumælikvarði sé réttari. Stefnandi byggi á því að það sé stefnda að sanna að meðallaun verkafólks séu réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans en tekjur hans síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið. Stefnandi telji að stefnda hafi ekki tekist sú sönnun enda séu meðaltekjur verkafólks mun lægri og í engum takti við framtaldar tekjur stefnanda á þeim árum sem hann hafi verið í fullu starfi. Hvorki liggi fyrir gögn sem sýni fram á að tekjur stefnanda hafi verið sambærilegar meðallaunum verkamanna á meðan hann hafi verið í fullu starfi fyrir slysið né gögn sem sýni fram á að hann myndi hafa haft slíkar tekjur hefði hann ekki lent í slysinu. Stefnandi telji því að það sé ekki sannað að mælikvarðinn sem stefndi vilji leggja til grundvallar sé réttari en mælikvarðinn samkvæmt 1. mgr. 7. gr. Stefndi hafi þar af leiðandi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu til sönnunar þegar beita eigi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að málatilbúnaður stefnda standist ekki. Stefnandi byggi á því að horfa verði til aðstæðna hans á slysdegi við mat á réttum tekjumælikvarða. Á slysdegi 4. mars 2013 hafi hann starfað sem bormaður við jarðgangnagerð. Hann hafi einnig starfað sem slíkur hluta árs 2010, allt árið 2011 og árið 2012. Stefnandi hafi þannig markað sér starfsvettvang og hann telji að horfa verði til tekna á þeim starfsvettvangi við útreikning á bótum. Stefnandi byggi á því að framlögð skattframtöl hans sýni skýrt hverjar tekjur hans fyrir borvinnu hafi verið árin þrjú sem 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 taki til. Hann hafi lagt fram óyggjandi sönnunargögn um tekjur sínar á þessum árum og ekki sé tilefni til að víkja frá þeim. Stefnandi bendi á að samkvæmt dómaframkvæmd hafi dómstólar gert mjög ríkar kröfur til sönnunar þegar aðili í skaðabótamáli hafi haldið því fram að tekjur séu aðrar en samkvæmt skattframtölum. Sú sönnun hafi sjaldan tekist. Stefnandi byggi á því að stefndi hafi ekki sannað að tekjur hans samkvæmt skattframtölum hafi átt að vera aðrar eða rangar. Stefnandi vilji einnig benda á að í þeim tilvikum sem reynt hafi á 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 fyrir dómi hafi að jafnaði verið deilt um hvort tekjuviðmið við útreikning á bótum fyrir varanlega örorku skuli vera hærra en það sem leiði af 1. mgr. 7. gr. laganna en ekki hvort það skuli vera lægra. Þó að það virðist mögulegt fræðilega, að láta ákvæðið virka til lækkunar, virðist það fyrst og fremst vera þegar tjónþoli hafi að fullu látið af störfum fyrir slys sem slíkt komi til skoðunar. Það eigi ekki við í tilviki stefnanda sem hafi verið ungur, frískur og í fullu starfi þegar hann hafi slasast. Stefnandi telji því að það séu engar ástæður til að beita 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 til lækkunar í hans tilviki. Varðandi útreikning á varakröfu stefnanda sé einnig vísað til 5.-7. gr. laga nr. 50/1993, einkum 1. mgr. 7. gr. Örorkuprósenta stefnanda, sbr. 5. gr. laganna, sé eins og áður sagði 10%. Margfeldisstuðull stefnanda, samkvæmt 6. gr. sé 15,226 með hliðsjón af aldri hans þegar heilsufar hans varð stöðugt eftir slysið. Varakrafa stefnanda byggi á því að miða eigi við tekjur hans árin 2010 til 2012, uppreiknaðar samkvæmt launavísitölu og að viðbættu 8% framlagi, samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Tekjur stefnanda hafi samtals numið 1.611.254 krónum árið 2010, 9.035.573 krónum árið 2011 og 11.994.208 krónum árið 2012. Meðaltekjur að teknu tilliti til vísitölu og lífeyrisframlags verði samtals 8.969.923 krónur og taki krafan mið af því. Varakrafa stefnanda reiknast því svo: 8.986.839 kr. x 15,226 x 10% = 13.683.361 króna. Að öðru leyti en hvað varði tekjuviðmið sé varakrafa stefnanda sú sama og aðalkrafa og vísist til sundurliðunar á henni til frekari skýringar, t.d. varðandi vexti og frádrátt. Stefnandi styður kröfur sínar fyrst og fremst við meginreglur skaðabótaréttar, einkum sakarregluna og meginregluna um vinnuveitendaábyrgð, ákvæði laga nr. 46/1980 og skaðabótalög nr. 50/1993, einkum 5.-7. gr. og 16. gr. Hvað aðild stefnda varðar vísast til 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004. Um varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um málskostnað til 129. og 130. gr. sömu laga. Um dráttarvexti er vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga, og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988. III.                 Sýknukröfu sína byggir stefndi á því að stefnandi hafi fengið greiddar fullar bætur vegna vinnuslyssins 4. mars 2013. Stefnandi eigi því ekki rétt á neinum frekari greiðslum úr hendi stefnda. Ágreiningur aðila lúti aðeins að því hvert skuli vera árslaunaviðmið við útreikning skaðabóta vegna varanlegrar örorku samkvæmt 7. gr., sbr. 6. gr.  laga nr. 50/1993. Auk þess telji stefndi að dráttarvexti skuli ekki dæma frá fyrra tímamarki en dómsuppsögu. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 skuli meta árslaun sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Stefndi telji ljóst að beita skuli ákvæðinu um aðstæður stefnanda. Stefndi mótmæli aðalkröfu stefnanda sem byggi á meðaltekjum stefnanda fyrir árin 2011 og 2012. Að mati stefnda séu ekki líkur fyrir því að stefnandi hefði haft slíkar tekjur til framtíðar. Rétt sé að rekja nánar hverjar stefndi telji vera hinar óvenjulegu aðstæður sem gildi um stefnanda og heimili beitingu ákvæðis 2. mgr. 7. gr. Stefnandi hafi verið ungur að árum, hann hefði ekki markað sér ákveðinn starfsvettvang, auk þess sem ekki sé hægt að miða við skammtímatekjur stefnanda í norskum krónum, þegar gengi norsku krónunnar gagnvart íslenskri krónu hafi verið mjög hátt, við mat á líklegum framtíðartekjum. Stefnandi hafi verið tiltölulega ungur þegar slysið varð eða 24 ára gamall. Af gögnum málsins megi ráða að stefnandi hafi lokið grunnskóla og síðan einu ári í framhaldsskóla en virðist í framhaldinu hefja atvinnuþátttöku. Þegar náms- og vinnuferill stefnanda sé nánar skoðaður þá verði ekki ráðið að hann hafi markað sér ákveðinn starfsvettvang. Ekkert liggi fyrir í gögnum málsins hvaða vinnu stefnandi hafi gegnt á árunum 2005 til 2009 en sé tekið mið af námsferli og þeim störfum sem stefnandi hafi sinnt á árunum 2010 til 2016, þá megi helst gera ráð fyrir að stefnandi hafi á fyrstu árum í fullri atvinnuþátttöku sinnt almennri verkamannavinnu. Stefnandi hafði lokið námi í grunnskóla og einu ári í framhaldsskóla. Þá beri gögn málsins með sér að stefnandi hafi síðar aflað sér vinnuvélaréttinda og aukinna ökuréttinda. Ekkert liggi hins vegar fyrir í gögnum málsins um að stefnandi hafi nýtt starfsgetu sína til að stjórna ökutækjum þar sem aukin ökuréttindi séu gerð að skilyrði. Af þeim gögnum sem liggi fyrir í málinu virðist stefnandi hins vegar hafa unnið sem bormaður í gangnavinnu hjá Iceland Construction ehf. á árunum 2010 til 2012.  Við mat á því hvort aðstæður stefnanda teljist óvenjulegar verði að leggja mat á aðstæður stefnanda síðustu þrjú árin fyrir slys, þ.e. árin 2010 til 2012. Að mati stefnda sé ljóst að aðstæður þessi þrjú ár teljist óvenjulegar og gefi ranga mynd af áætluðum framtíðartekjum hans. Á árunum 2011 og 2012 hafi stefnandi unnið í Noregi og fengið greidd laun í norskum krónum. Hafi laun hans verið verulega hærri en búast megi við hér á landi auk þess sem gengi norsku krónunnar gagnvart íslenskri krónu hafi verið mjög hagstætt á þessum árum. Ekkert bendi hins vegar til að stefnandi hafi þurft að hætta vinnu sinni sem bormaður vegna afleiðinga af vinnuslysinu 4. mars 2013. Þvert á móti hafi matsmenn gefið það í skyn að eitthvað annað en afleiðingar þess slyss hafi verið ástæða þess að stefnandi hafi látið af þeim störfum. Þá beri einnig að taka mið af því að á árunum 2011 og 2012 hafi stefnandi verið barnlaus og því mögulega átt hægara um vik að sækja vinnu í útlöndum. Sé litið til tímabilsins fyrir 2011 þá liggi ekkert fyrir um að stefnandi hafi sótt vinnu í Noregi á þeim árum. Varðandi tímabilið eftir 2012 sé ekkert sem bendi til þess að stefnandi hafi getað aflað sér slíkra tekna sem hann hafi gert á árunum 2011 og 2012, s.s. með vinnu í Noregi. Aðstæður stefnanda hafi því sannarlega verið óvenjulegar á þessum árum og því heimilt að beita ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Næst komi til skoðunar hvort sá mælikvarði sem stefndi hafi beitt við útgreiðslu skaðabóta til handa stefnanda teljist réttari en sá sem stefnandi sjálfur miði við samkvæmt aðal- og varakröfu í stefnu. Að mati stefnda sé réttari mælikvarði um líklegar framtíðartekjur stefnanda fólginn í meðallaunum verkafólks á árinu 2013. Vísist meðal annars til þess sem rakið sé hér að framan um að stefnandi hafi ekki markað sér sérstakan farveg með námi sínu auk þess sem ungur aldur og atvinnuþátttaka stefnanda fram að slysinu hafi ekki gefið til kynna að hann hafi markað sér fastan starfsvettvang til framtíðar. Þá sé málefnalegt að líta til þess að matsmenn árétti að þeir telji afleiðingar slyssins ekki ástæðu þess að stefnandi hafi orðið að hætta sem bormaður. Matsmenn víki hins vegar að því að stefnandi hafi glímt við kvíða og fjárhagsáhyggjur en ekkert bendi til þess að slíkt tengist afleiðingum vinnuslyssins. Þegar skoðuð séu árslaun stefnanda á árunum 2011 til 2016 megi ráða að launatekjur á árunum 2011 og 2012 hafi skorið sig nokkuð úr og skýrist það einkum af því að stefnandi hafi þá fengið greidd laun í norskum krónum og gengi norsku krónunnar gagnvart þeirri íslensku verið mjög hagstætt. Að mati stefnda geti slíkt ekki verið mælikvarði fyrir líklegar framtíðartekjur stefnanda út starfsævina. Stefndi bendi einnig á að eitt af markmiðum skaðabótalaga sé að veita tjónþolum fullar bætur vegna skaðabótaskylds tjónsatburðar. Í því felist einnig að tjónþolar eigi ekki að hagnast á slysum sínum og ef horft sé á aðstæður stefnanda þá sé augljóst að viðmiðun við 2011 til 2012 ellegar 2010 til 2012 myndi veita stefnanda slíkan hagnað sem færi þá gegn skýrum markmiðum skaðabótalaga. Með hliðsjón af þessu telji stefndi að bæði skilyrði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 séu uppfyllt. Aðstæður stefnanda teljist óvenjulegar auk þess sem réttara sé í tilviki stefnanda að miða við meðallaun verkamanna á árinu 2013 við útreikning á varanlegri örorku. Stefndi mótmæli þeim málsástæðum í aðalkröfu í stefnu þar sem því sé haldið fram að aðstæður stefnanda hafi verið óvenjulegar á árinu 2010 sem heimili beitingu 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Vísist um það í það sem áður var rakið um á hvaða grunni skuli byggt við mat á því hverjar séu hinar óvenjulegu aðstæður stefnanda sem fyrir hendi voru og að réttara sé að byggja á meðallaunum verkafólks á árinu 2013 við útreikning skaðabóta vegna varanlegrar örorku. Það sé því ónákvæmt að halda því fram í stefnu að það sé ágreiningslaust með aðilum að aðstæður stefnanda hafi verið óvenjulegar. Báðir aðilar haldi því vissulega fram að aðstæður stefnanda hafi verið óvenjulegar en ljóst sé að slíkar málsástæður byggi á mismunandi forsendum. Að því er varði kröfu stefnanda um að launatekjur hans á árunum 2011 og 2012 séu réttari mælikvarði við útreikning á varanlegri örorku hans, þá sé þeirri málsástæðu einnig mótmælt. Ekkert bendi til þess að aðstæður fyrir 2010 hafi verið sambærilegar auk þess sem stefnandi hafi ekki haft nálægt því sömu tekjur eftir slysatburðinn þótt sýnt hafi verið fram á að brottfall úr fyrra starfi hans verði ekki rakið til afleiðinga vinnuslyssins sem hafi verið metið til 10% varanlegrar örorku. Sé því mótmælt að tekjuöflun árin 2011 til 2012 teljist líklegur mælikvarði um tekjur stefnanda í framtíðinni. Vísist einnig til þess sem áður sé rakið um tiltölulega ungan aldur stefnanda á slysdegi og að hann hafi ekki markað sér neinn fastan starfsvettvang, hvorki með námi né starfsréttindum. Sé því mótmælt að gögn málsins gefi til kynna að stefnandi hafi markað sér slíkan fastan vettvang í starfi enda engum gögnum til að dreifa um slíkt. Ummæli stefnanda sjálfs hjá matsmönnum um að hann hafi lengst af starfsævi sinnar starfað sem bormaður teljist ekki fullnægjandi sönnun í þeim efnum. Að sama skapi sé því mótmælt sem haldið sé fram í stefnu að stefnandi hafi hugsað sér að starfa áfram á sama starfsvettvangi hefði hann ekki lent í slysinu. Stefndi vilji árétta að matsmenn telji ekki að slysið hafi haft þær afleiðingar að stefnandi hafi þurft að hætta starfi sínu sem bormaður. Sé því ekkert sem styðji þær fullyrðingar að stefnandi hefði hugsað sér að starfa áfram á slíkum vettvangi. Þá sé því mótmælt að miða skuli við tekjur stefnanda sem bormanns sem grundvöll við útreikning á skaðabótum fyrir varanlega örorku eins og stefnandi haldi fram. Í því sambandi sé ófullnægjandi að miða við að stefnandi hafi lengst af starfað sem slíkur. Ekki liggi fyrir í gögnum málsins hvað átt sé við með því auk þess sem slíkt sé haft eftir stefnanda sjálfum á matsfundi. Þá verði viðmið um líklegar tekjur í framtíðinni hvorki miðaðar við það starf sem stefnandi hafi stundað á slysdegi né að við mat á umfangi hinnar varanlegu örorku sé horft til slíkra starfa. Horfa þurfi heildrænt á aðstæður stefnanda og með hliðsjón af málsatvikum í heild sinni og þeim gögnum sem liggi fyrir þá verði ekki ráðið að launatekjur bormanna séu réttur mælikvarði til að sýna fram á að líkur séu fyrir því að stefnandi myndi hafa slíkar tekjur í framtíðinni. Stefndi mótmæli því einnig að viðmið sem byggi á meðallaunum verkafólks fari gegn tilgangi skaðabótalaga um fullar bætur eins og stefnandi haldi fram. Þvert á móti telji stefndi að annar mælikvarði myndi veita stefnanda hagnað á tjóni sínu sem sé andstætt þeim sama tilgangi skaðabótalaga um fullar bætur. Að lokum vilji stefndi árétta að matsmenn hafi ekki talið að vinnuslys stefnanda hefði haft þær afleiðingar að hann yrði að hætta starfi sínu sem bormaður. Þá sé ekkert sem bendi til þess að 10% skerðing á starfsgetu stefnanda hafi orsakað það að stefnandi ætti óhægara um vik að starfa fjarri heimili. Í því sambandi vilji stefndi benda á að gögn málsins vísi til þess að kvíði og fjárhagsáhyggjur hafi plagað stefnanda án þess að slíkt verði rakið til vinnuslyssins. Einnig liggi fyrir að stefnandi hafi verið barnlaus þegar hann hafi starfað fjarri heimili á árunum 2011 og 2012. Öll sömu sjónarmið og rakin hafi verið hér að framan eigi við um mótmæli við því að varakrafa stefnanda skuli ná fram að ganga. Þá vilji stefndi taka fram að þótt heimild 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 sé alla jafnan beitt í því skyni að leiðrétta árslaun tjónþola til hækkunar þá sé ekkert í lagaákvæðinu sjálfu eða lögskýringar-gögnum sem einskorði hana við slíkt. Því sé ljóst að heimildinni verði jöfnum höndum beitt við að meta árslaun til lækkunar einkum og sér í lagi ef atvik séu með þeim hætti sem hér um ræði. Í kröfum stefnda um sýknu felist einnig krafa um lækkun dómkrafna ef til þess komi og eigi öll þau sömu sjónarmið við um þá kröfu og þau sem rakin hafi verið hér að framan. Þá mótmæli stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda í aðal- og varakröfu og telji að ef fallist yrði á kröfur stefnanda þá verði dráttarvextir ekki dæmdir frá fyrra tímamarki en dómsuppsögudegi, sbr. 2. málsliður 9. gr. laga nr. 38/2001. Um lagarök vísar stefndi einkum til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Þá vísast til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.                                                                        IV. Í máli þessu er ágreiningur um hver sé réttur mælikvarði um líklegar framtíðartekjur stefnanda við útreikning skaðabóta vegna varanlegrar örorku samkvæmt 7. gr. laga nr. 50/1993. Rökstyðja báðir aðilar kröfur sínar á þann veg að aðstæður stefnanda hafi verið óvenjulegar í skilningi laga nr. 50/1993, sem réttlæti að byggt sé á undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. laganna. Byggir stefnandi á því í aðalkröfu að í stað þess að miða við meðalatvinnutekjur hans þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag sem tjón varð, sbr. 1. mgr. 7. gr., sé rétt að miða við almanaksárin 2011 og 2012. Verði ekki á þá kröfu hans fallist sé rétt að miða við almanaksárin 2010, 2011 og 2012. Stefndi byggir á því að við útreikning á framtíðartekjum stefnanda skuli miða við meðallaun verkafólks á árinu 2013. Aðilar málsins deila fyrst og fremst um hvort stefnandi, sem var 24 ára gamall er slys það varð sem hann sækir skaðabætur vegna, hafi markað sér framtíðarstarfsvettvang við jarðgangnagerð, 4. mars 2013. Svo sem kröfugerð aðila endurspeglar er umtalsverður munur á þeim launum er stefnandi hafði á árunum 2011 og 2012 og meðallaunum verkafólks á árinu 2013. Stefnandi hafði um nokkurn tíma fyrir slysið starfað við jarðgangnagerð, bæði á Íslandi sem og í Noregi. Vann hann áfram við jarðgangnagerð eftir slysið, allt þar til hann lét af slíkum störfum í lok árs 2014. Lét af störfum, að eigin sögn, vegna þess að hann hafi ekki haft næga líkamlega burði til slíkra starfa vegna afleiðinga slyssins. Í fyrirliggjandi matsgerð Sigurðar Ásgeirs Kristinssonar læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, frá 24. nóvember 2016, er aðilar sammæltust um að afla, kemur fram að stefnandi sé í kjölfar slyssins með skerta starfsgetu til líkamlega erfiðra starfa, en hann hafi viðvarandi verki frá brjósti og mjóbaki. Þegar til þess er litið að stefnandi hafði starfað við jarðgangnagerð í þrjú ár fyrir slysið, að hann hélt áfram að starfa við gangnagerð næstu tæp tvö árin, að því hefur verið slegið föstu að stefnandi sé með skerta starfsgetu til líkamlega erfiðra starfa og að umtalsverður launamunur er á meðallaunum verkafólks og þeim launum er stefnandi hafði er slysið varð, hefur stefnandi gert líklegt að hans framtíðar-starfsvettvangur yrði á vettvangi jarðgangnagerðar. Hefur stefnda ekki tekist sönnun um hið gagnstæða. Miðað við þá niðurstöðu verður í niðurstöðu um framtíðartekjuviðmið miðað við launatekjur stefnanda árin 2011 og 2012, jafnvel þó svo sú vinna hafi að mestu verið unnin í Noregi. Verður aðalkrafa stefnanda því tekin til greina, eins og krafist er. Um vexti fer sem í dómsorði greinir. Fjárhæðin ber dráttarvexti að liðnum mánuði frá því stefnandi sendi stefnda kröfubréf þar sem krafan í núverandi mynd lá fyrir. Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.   Mál þetta flutti af hálfu stefnanda Guðmundur Ómar Hafsteinsson hæstaréttarlögmaður en af hálfu stefnda Yngvi Snær Einarsson héraðsdómslögmaður. Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari. Dómsorð: Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnanda, Sigursteini Sverri Hilmarssyni skaðabætur að fjárhæð 16.962.525 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 4. júní 2013 til 25. desember 2016, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 8.733.097 krónum sem stefndi greiddi stefnanda 30. desember 2016. Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 25/2017
Höfundarréttur Lögbann
S krafðist staðfestingar á lögbanni sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði við því að S ehf. veitti viðskiptamönnum sínum í té aðgang að nánar tilgreindum vefsíðum sökum þess að þar væri unnt að nýta án endurgjalds efni, sem háð væri höfundarétti þeim sem S, sem samtök rétthafa eftir ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972, kæmu fram fyrir. Þá krafðist S þess að viðurkennt yrði að S ehf. væri óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að umræddum vefsíðum. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að S hefði sýnt nægilega fram á að rétthafar ættu höfundarétt að efni sem miðlað væri í heimildarleysi á framangreindum vefsíðum fyrir milligöngu fjarskiptafyrirtækja líkt og S ehf. Jafnframt var fallist á að S ehf. bæri að hindra slíka háttsemi og því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms um að taka til greina viðurkenningarkröfu S. Þá var með vísan forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest niðurstaða hans um að uppfyllt hefðu verið öll skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 til að leggja lögbann við háttsemi S ehf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. janúar 2017. Hann krefst þess aðallega „að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 16. október 2015 ... verði felld úr gildi“, og að hann verði „sýknaður af viðurkenningarkröfu“ gagnáfrýjanda. Til vara krefst hann þess að fyrrgreind ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík „verði felld úr gildi að hluta“ og hann sýknaður „að hluta af viðurkenningarkröfu“ gagnáfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, til vara að gagnáfrýjanda verði gert að greiða hluta af málskostnaði aðaláfrýjanda en að því frágengnu að málskostnaður verði látinn niður falla. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 8. mars 2017. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði og fyrir Hæstarétti. Líta verður svo á að með framangreindri kröfugerð leiti aðaláfrýjandi sýknu af kröfum gagnáfrýjanda ýmist með öllu eða að hluta, ásamt því að krefjast málskostnaðar. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi greinir aðila á um hvort aðaláfrýjanda, sem rekur starfsemi á sviði fjarskipta og veitir viðskiptamönnum sínum svonefnda netþjónustu, sé óheimilt að láta þeim í té aðgang að níu tilgreindum vefsíðum sökum þess að þar sé unnt að nýta án endurgjalds efni, sem háð sé höfundarétti þeirra sem gagnáfrýjandi,  sem samtök rétthafa eftir ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972, komi fram fyrir. Fallist verður á með héraðsdómi að gagnáfrýjandi hafi sýnt nægilega fram á að rétthafar, sem hann komi fram fyrir, eigi höfundarétt að efni sem miðlað sé í heimildarleysi á vefsíðum þessum, svo og að gagnvart rétthöfunum feli sú miðlun í sér ólögmæta háttsemi sem háð sé aðgangi að vefsíðunum fyrir milligöngu fjarskiptafyrirtækja svo sem aðaláfrýjanda. Verður jafnframt fallist á með héraðsdómi að aðaláfrýjanda beri að hindra slíka háttsemi og stoði honum hvorki í því sambandi að bera fyrir sig frelsi sitt til atvinnu í skjóli 75. gr. stjórnarskrárinnar né til tjáningar í skjóli 73. gr. hennar. Samkvæmt því verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að taka til greina kröfu gagnáfrýjanda um að viðurkennt verði að aðaláfrýjanda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að umræddum vefsíðum. Um þá kröfu er þess jafnframt að gæta að ekki getur skipt frekar máli hvort aðaláfrýjanda geti reynst nauðsynlegt að grípa til sérstakra ráðstafana til að laga sig að dómi um hana eða hverjar þær yrðu að vera, enda hefur gagnáfrýjandi kosið að gera ekki kröfu um skyldu aðaláfrýjanda til tiltekinna athafna eða bann við tilgreindri háttsemi hans sem fullnægja mætti eftir 11. kafla laga nr. 90/1989 um aðför með aðfarargerð til að leysa af hólmi bráðabirgðavernd á grundvelli lögbanns sem sýslumaður lagði 16. október 2015 við fyrrgreindri háttsemi aðaláfrýjanda. Í málinu krefst gagnáfrýjandi jafnframt staðfestingar á lögbanni sem að framan getur og lagt var á með stoð í 2. mgr. 59. gr. a. höfundalaga og 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að uppfyllt hafi verið öll skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 til að leggja lögbann við háttsemi aðaláfrýjanda, sem eftir gögnum málsins var á þeim tíma byrjuð en ekki aðeins yfirvofandi, svo og að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gagnáfrýjanda geti ekki tryggt þá nægilega í skilningi 1. töluliðar 3. mgr. sömu lagagreinar. Ekki hefur aðaláfrýjandi sýnt fram á að hagsmunir sínir af því að fá að halda áfram þeirri háttsemi, sem lögbannið var lagt við, geti talist meiri en hagsmunir þeirra, sem gagnáfrýjandi kemur fram fyrir, af því að fyrirbyggja þá háttsemi, sbr. 2. tölulið 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, en við mat á því getur ekki ráðið úrslitum hvort stöðvun háttsemi aðaláfrýjanda komi nægilega að haldi til að vernda réttindi gagnáfrýjanda. Samkvæmt þessu verður niðurstaða héraðsdóms um kröfu gagnáfrýjanda um staðfestingu lögbanns jafnframt staðfest. Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála standa engin efni til annars en að dæma aðaláfrýjanda til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað. Aðaláfrýjandi, Símafélagið ehf., greiði gagnáfrýjanda, STEF, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.       Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2016. Mál þetta, sem dómtekið var 19. september 2016, var höfðað með réttarstefnu útgefinni 22. október 2015 og birtri 30. sama mánaðar, af hálfu Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, Laufásvegi 40 í Reykjavík á hendur Símafélaginu ehf., Stórhöfða 23 í Reykjavík, til staðfestingar á lögbanni og viðurkenningardóms. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að þess er krafist að lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði þann 16. október 2015 við því að stefndi veiti viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www. thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org, hvort sem www. er fyrir framan nafn vefsíðnanna eða ekki, verði staðfest með dómi. Jafnframt er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www.thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org. Loks krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, þ.m.t. alls útlagðs og áfallins kostnaðar við lögbannsgerð, að mati dómsins. Stefndi krefst þess aðallega að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 16. október 2015 (lögbannsgerð nr. 2015-24) verði felld úr gildi. Stefndi krefst þess jafnframt aðallega að vera sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnanda. Stefndi krefst þess til vara að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 16. október 2015 (lögbannsgerð nr. 2015-24) verði felld úr gildi að hluta. Stefndi krefst þess jafnframt til vara að vera sýknaður að hluta af viðurkenningarkröfu stefnanda. Í öllum tilfellum krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað. Til vara er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda hluta af málskostnaði stefnda en stefnandi látinn bera sinn kostnað sjálfur. Til þrautavara er þess krafist að hvor aðili verði látinn bera sinn kostnað af dómsmálinu. Í þinghaldi í málinu 17. mars 2016 var þingfest meðalgöngustefna á hendur aðilum málsins af hálfu Hreins Sigurðssonar, sem er viðskiptamaður stefnda. Meðalgöngustefnandi tók undir dómkröfur stefnda í málinu, og studdi stefndi kröfu hans um meðalgöngu, en stefnandi taldi hana óþarfa og lagðist gegn því að aukameðalganga hans yrði heimiluð. Með úrskurði dómsins 16. júní 2016 var kröfu meðalgöngustefnanda um að honum yrði heimiluð slík meðalganga í málinu og kröfugerð hans að öðru leyti vísað frá dómi. Undu aðilar þeirri niðurstöðu. Aðalmeðferð fór fram í einu lagi í þessu máli og í máli stefnanda gegn Hringiðunni ehf./Vortex inc., máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-3783/2015. Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna Stefnandi er samtök sem gætir hagsmuna tónskálda og rétthafa flutningsréttar að tónlist og stefndi er fjarskiptafélag. Stefnandi kveður vefsíðurnar sem kröfugerð hans beinist að vera reknar í þeim tilgangi að gera notendum þeirra kleift að gera öðrum notendum aðgengileg eintök af hugverkum. Nú vísi þessar vefsíður allri netumferð á lénin www.deildu.net og www.thepiratebay.se. Notendum síðnanna sé gert kleift að hlaða niður á tölvur sínar hugverkum, sem aðrir notendur gera aðgengileg og gera þannig eintök af nefndum verkum. Yfirgnæfandi hluti þeirra hugverka sem gerð séu aðgengileg til eintakagerðar á vefsíðunum séu þar aðgengileg án heimildar eigenda þeirra. Stefnandi kveður vefsíðuna deildu.net reka svokallað jafningjanet sem sé rekið í þeim tilgangi að gera notendum kleift að deila eða skiptast á efnisskrám með svokallaðri BitTorrent tækni. Í september 2015 hafi síðan verið sú 22. vinsælasta á Íslandi undir heimasíðunni icetracker.org. Á vefsíðunni sé starfræktur leiðarþjónn (e. tracker). Notendur síðunnar geti leitað eftir ákveðnum skrám, sótt sér skráarskiptiforrit og með því forriti geti þeir sótt efnisskrár og/eða deilt þeim. Gríðarlegur fjöldi notenda deili með sér skrám á þennan hátt og hafi sumar skrár verið sóttar yfir mörg þúsund sinnum. Sjá megi hvaða hljóð- og myndefni hafi mest verið deilt innbyrðis meðal notenda vefsvæðisins í október 2014 og hvaða torrent hafi verið vinsælust í lok september 2015. Umbjóðendur stefnanda eigi höfundaréttindi að nánast öllu hljóð- og myndefni sem þar um ræði. Ekki sé kunnugt um hverjir séu ábyrgðaraðilar deildu.net. Stefnandi kveður vefsíðuna hafa notað IP-töluna 104.28.6.73 þann 28. september 2015 og sé sú vefsíða vistuð í Bandaríkjunum. Því sé ekki unnt að fara fram á lögbann við rekstri vefsíðunnar samkvæmt íslenskum lögum. Í reglum vefsíðunnar deildu.net sé notendum gert að deila efni á síðunni, ella sé aðgangi þeirra lokað, þ.e. ef niðurhal er ekki í samræmi við upphal. Notendur vefsíðunnar séu þannig hvattir til að brjóta gegn ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972.  Stefnandi kveður sambærilegar reglur að finna á www.piratebay.se., þar sem sé að mestu leyti rekin sams konar starfsemi og á vefsíðunni deildu.net. Vefsíðan sé ein fjölsóttasta vefsíða sinnar tegundar í heiminum og hafi verið ein af mest sóttu vefsíðum á Íslandi árið 2013. Stefnandi kveður vefsíðuna www.thepiratebay.se notast við nýrri tækni en deildu.net til að gera notendum kleift að deila efni á milli sín, þar sé ekki notast við leiðarþjón, heldur segulhlekki (e. magnetic links), en síðan sé að öðru leyti sambærileg. Ekki sé kunnugt um hverjir séu ábyrgðaraðilar www.thepiratebay.se. IP-tala vefsíðunnar hafi verið 199.27.134.242 þann 28. september 2015 og sé sú vefsíða vistuð í Hollandi. Því sé ekki unnt að fara fram á lögbann við rekstri vefsíðunnar samkvæmt íslenskum lögum. Rétthafasamtök um allan heim hafi reynt árangurslaust að láta loka vefsíðunni thepiratebay.se um langa hríð. Eina leiðin sem rétthafasamtökum hafi verið fær til að stemma stigu við þeirri háttsemi sem eigi sér stað fyrir milligöngu vefsíðunnar sé sú að krefjast þess að fjarskiptafyrirtæki í hverju landi um sig hindri gagnaflutning að og frá vefsíðunni. Stefnandi lagði fram kæru til lögreglu þann 13. febrúar 2012 vegna vefsíðnanna deildu.net og deildu.com. Í kærunni var vísað til nokkurra þeirra verka sem deilt var fyrir milligöngu rekstraraðila vefsíðnanna, auk þess sem líkur voru að því leiddar að vefsíðurnar væru reknar af nánar tilgreindum aðila. Rannsókn lögreglu var hætt 5. nóvember 2015 með vísun til þess að þær upplýsingar sem fram hafi komið um raunverulega stjórnendur vefsíðunnar deildu.net bentu eindregið til þess að þeir væru erlendir og því yrði mál á hendur þeim ekki rannsakað frekar hér á landi. Var sú ákvörðun lögreglu staðfest af embætti ríkissaksóknara 30. desember s.á. Í september 2013 krafðist stefnandi, ásamt þremur öðrum rétthafasamtökum, lögbanns gegn fimm fjarskiptafyrirtækjum, þ.e. Símanum hf., Fjarskiptum hf. (Vodafone), 365 miðlum ehf., IP fjarskiptum ehf. (Tal) og Hringdu ehf., og krafðist þess að fjarskiptafyrirtækin lokuðu á tiltekin vefsvæði. Sýslumaður hafnaði öllum lögbannsbeiðnunum og vísaði stefnandi þeim ágreiningi til héraðsdóms, sem upphaflega vísaði öllum málunum frá dómi. Hæstiréttur lagði þá fyrir héraðsdóm að taka kröfur stefnanda í málum gegn Fjarskiptum hf. og Hringdu ehf. til meðferðar. Þann 14. október 2014 kvað fjölskipaður héraðsdómur upp úrskurði um efnishlið þessara mála, í málum Héraðsdóms Reykjavíkur nr. K-8/2013 og K-9/2013, þar sem fallist var á kröfur stefnanda. Talið var að tilgangur, virkni og rekstur vefsíðnanna væri sambærilegur við vefsíðuna torrent.is, en Hæstiréttur hafði í dómi sínum í máli nr. 214/2009 staðfest lögbann við starfrækslu hennar. Aðilar undu úrskurðunum og lagði sýslumaður á lögbann í samræmi við niðurstöður þeirra þann 6. nóvember 2014. Jafnframt var þá lagt samsvarandi lögbann á Símann hf. að beiðni stefnanda.  Þann 13. nóvember 2014 skoraði stefnandi á stefnda að loka fyrir aðgengi að ákveðnum torrent vefsíðum, þeim sem staðfestingarmál þetta snýst um, en stefndi varð ekki við því og ekki náðist samkomulag um málið í síðari samskiptum aðila. Í september 2015 gerðu fjarskiptafyrirtækin Síminn, Fjarskipti, Nova, 365 og Hringdu samkomulag við rétthafasamtökin STEF (stefnanda), SÍK, SFH og FRÍSK um að loka aðgengi að vefsvæðunum deildu og piratebay, óháð því á hvaða lénum síðurnar eru skráðar. Samkomulagið nær einnig til þess að loka lénum sem eingöngu eru sett upp til þess að vísa á vefsvæðin. Samkomulag var gert við hvert og eitt fjarskiptafyrirtæki og er grundvöllur þess úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. október 2014 og eftirfarandi lögbannsgerðir sýslumanns. Stefndi hefur ekki fallist á að gera sambærilegt samkomulag. Stefnandi krafðist lögbanns á háttsemi stefnda og þann 16. október 2015 var lagt á lögbann það sem krafist er staðfestingar á í máli þessu. Með lögbanninu var stefnda meinað að veita viðskiptavinum sínum aðgang að þeim vefsíðum sem nefndar eru í dómkröfum, en því er einkum beint gegn vefsvæðunum, deildu.net og thepiratebay.se. Stefnandi kveður eintakagerð fyrir milligöngu umræddra vefsíðna ólögmæta og hafa valdið eigendum verkanna gríðarlegu fjárhagslegu tjóni. Með netþjónustu sinni veiti stefndi viðskiptavinum sínum aðgang að ólögmætum vefsvæðum. Stefndi kveður lögbannsbeiðni stefnanda hafa verið víðtækari en viðurkennt hafi verið með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2014, þar sem krafist sé lögbanns vegna aðgangs að fleiri vefsíðum en þar hafi verið fallist á. Í lögbannsbeiðni stefnanda hafi jafnframt upphaflega verið víðtækara orðalag, sem stefnandi hafi fallið frá við lögbannsgerðina. Stefndi kveður stefnanda með viðurkenningarkröfu sinni ganga mun lengra gagnvart stefnda en fordæmi séu fyrir í íslenskum rétti. Stefndi telur ákvörðun sýslumanns frá 16. október 2015 ekki standast lög og stjórnarskrá og mótmælir jafnframt harðlega viðurkenningarkröfu stefnanda. Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóminn og gáfu aðilaskýrslur þeir Brjánn Jónsson, framkvæmdastjóri stefnda, og Ingvar Bjarnason, tæknistjóri stefnda. Málsástæður og lagarök stefnanda 1. Starfræksla og notkun vefsíðnanna brýtur gegn ákvæðum höfundalaga Samkvæmt 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 eigi höfundur að bókmenntaverki eða listaverki eignarrétt að því með þeim takmörkunum sem í lögunum greini. Í 3. gr. laganna sé mælt fyrir um einkarétt höfundar verks til að gera eintök af því og til að birta í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu og öðrum aðlögunum. Til verka sem njóta verndar höfundalaga teljist samið mál í ræðu og riti, leiksviðsverk, tónsmíðar, myndlist, byggingarlist, kvikmyndir, ljósmyndalist, nytjalist og aðrar samsvarandi listgreinar, á hvern hátt og í hverju formi sem verkið birtist, skv. ákvæði 1. gr. sömu laga. Þá sé listflytjendum í 45. gr. laganna veittur einkaréttur til eintakagerðar af listflutningi sínum og hvers konar dreifingar hans til almennings. Samkvæmt 46. gr. laganna sé eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum óheimil án samþykkis framleiðanda. Rekstraraðilar og stjórnendur vefsíðnanna www.deildu.net og www.thepiratebay.se geri notendum þeirra kleift að fá aðgang að og deila hljóð- og myndskrám sem verndaðar séu af ákvæðum höfundalaga. Langstærstur hluti þeirra verka sem notendur beggja vefsvæða geri aðgengileg, deili og geri eintök af séu varin höfundarétti og séu rekstraraðilar vefsvæðanna grandvísir um þessa staðreynd. Í 1. mgr. 8. gr. höfundalaga segi að höfundur verks teljist sá, uns annað reynist, sem nafngreindur sé á eintökum þess með venjulegum hætti eða lýstur er höfundur, þegar verk sé birt. Gildi þetta einnig um höfunda, sem nota gervinöfn eða merki, þegar almennt sé vitað, hver þar felist að baki. Framangreindum ákvæðum skuli einnig beita um framleiðanda kvikmyndaverks. Þá skuli einnig í þeim tilvikum, þegar verulegur og samfelldur flutningur verka eða umfangsmikil fjölföldun eða útleiga hafi átt sér stað, talið að flutt hafi verið, leigð út eða fjölfölduð verk sem vernduð séu að höfundalögum nema annað verði í ljós leitt. Þau verk sem deilt sé á áðurnefndum vefsvæðum teljist því til verka sem vernduð séu af höfundalögum, nema færðar verði sönnur fyrir hinu gagnstæða. Í ljósi forsendna dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 214/2009, í svonefndu Istorrent máli, sé óhætt að líta svo á að stjórnendur beggja vefsvæðanna vinni að því með markvissum hætti, með starfrækslu vefsvæðanna og tæknilegri uppbyggingu, að fram geti farið greið og umfangsmikil skráarskipti með efni, sem háð sé höfundarétti, og stuðli þannig beinlínis að brotum notenda vefsvæðanna. Þannig sé ljóst að sömu aðilar brjóti gegn lögvörðum rétti umbjóðenda stefnanda. Þá sé einnig ljóst, með vísan til fyrrnefnds dóms, að sömu aðilar valdi stefnanda tjóni með áframhaldandi rekstri vefsvæðanna og beri skaðabótaábyrgð gagnvart umbjóðendum stefnanda. Í úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur sé því slegið föstu að vefsvæðin www.deildu.net og www.thepiratebay.se séu sambærileg að uppbyggingu og www.torrent.is. Ljóst sé að notkun einstaklinga hér á landi á nefndum vefsvæðum fari eingöngu fram í þeim tilgangi að birta og afrita höfundaverk án heimildar rétthafa. 2. Aðkoma stefnda að brotum notenda Starfræksla beggja vefsvæðanna sé ólögmæt, sem staðfest hafi verið í úrskurðum héraðsdóms, en ókleift sé fyrir stefnanda að krefjast lögbanns við rekstri sjálfra vefsíðnanna, enda virðist þær báðar reknar utan íslenskrar lögsögu. Stefnanda hafi ekki reynst unnt að komast að því hverjir séu raunverulegir rekstraraðilar vefsíðnanna. Þeim aðilum sem birti lögvarið efni á vefsíðunum væri ekki kleift að birta efnið fyrir viðskiptamönnum stefnda með góðu móti án atbeina stefnda sjálfs, sem veiti viðskiptamönnum sínum aðgang og alla tæknilega aðstöðu til þess að sækja og senda gögn til og frá vefsíðunum. Stefndi sé því óhjákvæmilegur milliliður milli vefsvæðanna og þeirra notenda sem brjóti gegn höfundarétti umbjóðenda stefnanda. Með því að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsvæðunum www.deildu.net og www.thepiratebay.se tryggi stefndi úrræði og aðstöðu, sem þeim aðilum sem standi að höfundaréttarbrotum á nefndum vefsvæðum séu nauðsynleg til þeirra, og birta höfundaverk opinberlega í heimildarleysi. Af samskiptum stefnanda og stefnda sé ljóst að stefndi sé grandvís um þá starfsemi sem stunduð sé á vefsíðunum. Stærstu seljendur netþjónustu á landinu hafi gengið frá samkomulagi um að hætta að veita aðgang að hinum ólögmætu vefsvæðum og verði stefnda gert að hætta að veita viðskiptavinum sínum aðgang að þeim sé ljóst að úrræði þeirra sem vilja og reyna að brjóta gegn höfundarétti með notkun vefsvæðanna séu skert verulega. Í fjölmörgum ríkjum, s.s. í Belgíu, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi, Grikklandi, Ítalíu, Hollandi og Bretlandi, hafi dómstólar gert fjarskiptafélögum skylt að loka fyrir aðgengi að www.thepiratebay.se í ljósi þess að sú starfsemi sem þar sé rekin brjóti gróflega gegn höfundaréttindum. 3. Ákvæði 2. mgr. 59. gr. a höfundalaga Auk ákvæða laga nr. 31/1991, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., byggi stefnandi jafnframt á ákvæðum höfundalaga, nr. 73/1972, einkum á svohljóðandi ákvæði 2. mgr. 59. gr. a í lögunum: Að því tilskildu að fullnægt sé öðrum þeim skilyrðum lögbanns, sem greind eru í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., geta einstakir rétthafar eða samtök þeirra fengið lagt lögbann við því að þjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi lætur í té um fjarskiptanet, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eða sjálfvirkrar, millistigs- eða skammtímageymslu gagna. Enn fremur verður lögbann lagt við því að þjónustuveitandi hýsi gögn sem látin eru í té af þjónustuþega, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð á gögnunum. Í ákvæðinu felist almenn heimild til handa rétthöfum eða samtökum rétthafa til þess að krefjast lögbanns við miðlun gagna af hálfu þjónustuveitenda í skilningi laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, þegar viðskiptamenn þeirra nýti þjónustu þeirra til að brjóta gegn ákvæðum höfundalaga, að því gefnu að skilyrði samkvæmt lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. séu uppfyllt. Ekki sé þörf á að sýna fram á að þjónustuveitendur beri ábyrgð á háttsemi viðskiptamanna og þeirri miðlun sem fram fari fyrir milligöngu þjónustuveitenda, til að heimildin verði nýtt. Stefndi teljist vera þjónustuveitandi í skilningi laga nr. 30/2002. Með vísan til 2. ml. 1. mgr. 8. gr. höfundalaga megi ganga út frá því að þau verk sem deilt sé á vefsvæðunum www.deildu.net og www.thepiratebay.se séu verk sem vernduð séu af höfundalögum, uns færðar verði sönnur fyrir því að svo sé ekki. Stefnanda sé því tækt að nýta sér þessa heimild höfundalaga til þess að krefjast lögbanns við miðlun gagna að og frá vefsvæðunum. Stefnandi vísi til orðalags í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 93/2010, þar sem fyrrnefnt ákvæði höfundalaga var lögfest. Þar segi m.a.: Tilgangur ákvæðisins er fyrst og fremst að eyða mögulegum vafa um hvort lögbanni verður beint gegn fjarskiptafyrirtækjum vegna miðlunar, skyndivistunar og hýsingar gagna í þeim tilvikum þegar um er að ræða meint brot þjónustuþega á ákvæðum höfundalaga. Í íslenskum rétti hefur verið miðað við að lögbann verði einungis lagt við tilteknum athöfnum sem eru taldar ólögmætar í sjálfu sér. Vegna orðalags ákvæða 12., 13. og 14. gr. laga nr. 30/2002 er mögulegt að vafi yrði talinn leika á því hvort miðlun, skyndivistun eða hýsing þjónustuveitanda væri ólögmæt athöfn í sjálfu sér. Það gerir réttarvörslu rétthafa mun auðveldari ef skýrt er að hann geti lagt lögbann við athöfnum milliliða. Ekki verður séð að neinir lögverndaðir hagsmunir eigi að standa gegn því að sett verði ákvæði af því tagi sem hér er lýst, enda er heimild til lögbanns byggð á þeirri grundvallarforsendu að fyrir hendi sé réttarbrot af hálfu þjónustuþega sem sá sem fer fram á lögbann þyrfti eftir sem áður að sýna fram á. [...] Hins vegar þykir rétt að kveða skýrt á um rétt höfunda og annarra rétthafa til að beina kröfu um lögbann að þjónustuveitanda, t.d. fjarskiptafyrirtæki, svo að ekki fari á milli mála að slíkur réttur sé fyrir hendi samkvæmt íslenskum lögum. Af þessu orðalagi megi sjá að beinlínis sé gert ráð fyrir því í höfundalögum að lögbann megi leggja við gagnamiðlun fjarskiptafyrirtækja þegar viðskiptamenn þeirra nýti þjónustu þeirra til þess að brjóta gegn ákvæðum höfundalaga. Af nefndu ákvæði höfundalaga megi jafnframt ráða að gert sé ráð fyrir því að fjarskiptafyrirtæki stýri því að einhverju leyti með hvaða hætti viðskiptavinir þeirra nýti selda fjarskiptaþjónustu. Ástæða sé því til að ætla að fjarskiptafélögum beri hreinlega að láta sig málið varða ef viðskiptavinir þeirra nýta og/eða hyggjast nýta keypta þjónustu til ólögmætra verka, séu fjarskiptafélögin grandvís um það. Í úrskurðum sínum frá 14. október 2014 hafi Héraðsdómur Reykjavíkur staðfest gildi reglunnar og réttmæti beitingar hennar við sambærilegar aðstæður. 4. Önnur skilyrði lögbanns uppfyllt Brot á lögvörðum réttindum stefnanda Í óheftum aðgangi viðskiptamanna stefnda að vefsvæðunum www.deildu.net og www.thepiratebay.se felist skýlaust brot á lögvörðum réttindum stefnanda, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991, en löglíkur séu fyrir því að notendur vefsvæðanna birti eintök af og afriti hugverk sem njóti verndar höfundalaga, sbr. 1. mgr. 8. gr. höfundalaga, fyrir tilstuðlan rekstraraðila þeirra. Í úrskurðum héraðsdóms frá 14. október 2014 sé því slegið föstu að skilyrði þetta sé uppfyllt varðandi umrædd vefsvæði. Athöfn stefnda er þegar hafin Brot gegn höfundarétti umbjóðenda stefnanda hafi átt sér stað á báðum vefsvæðunum um nokkra hríð og ekki sé fyrirséð að nokkurt lát verði á þeim brotum að óbreyttu. Gerðarþoli veiti enn í dag viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum. Því sé um athöfn að ræða, sem þegar er hafin, sbr. áskilnað 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991. Engu máli skipti þó að hún hafi staðið yfir í töluvert langan tíma, sbr. fyrrnefnda úrskurði héraðsdóms frá 14. október 2014. Réttindi stefnanda hefðu farið forgörðum og bið eftir dómi valdið miklu tjóni Ótvírætt sé að umbjóðendur stefnanda hafi þegar orðið fyrir gríðarlegu tjóni fyrir tilstilli notenda margnefndra vefsíðna. Samkvæmt upplýsingum, sem finna megi á vefsíðunum sjálfum, sé gríðarlega miklu af efni deilt á síðunum. Í september 2013 hafi notendur á www.deildu.net deilt yfir 34.000 skrám. Í lok október 2014 hafi sá fjöldi verið kominn yfir 100.000. Í september 2013 hafi notendur vefsíðunnar www.piratebay.se verið sagðir yfir 30 milljónir, sem deili með sér rúmlega 5 milljónum skráa. Í lok október 2014 hafi þeir verið sagðir yfir 39 milljónir og deili með sér 6 milljónum skráa. Sjá megi hversu margir hafi verið skráðir inn á deildu.net á mismunandi tímum, en þann 22. september 2015 hafi t.d. 1135 notendur verið skráðir inn á ákveðnum tíma þann dag og 1047 á svipuðum tíma daginn eftir. Það sé því ljóst að notkunin sé umfangsmikil og stöðug. www.deildu.net sé ein vinsælasta vefsíða á Íslandi og www.piratebay.se ein af hundrað vinsælustu netsíðum heims. Umfang þeirrar brotastarfsemi sem þar sé rekin sé gífurlegt. Ekki sé að sjá að notendur muni breyta hegðun sinni að óbreyttu. Ómögulegt sé að gera sér grein fyrir því hversu mikið tjón muni hljótast af því í framtíðinni verði aðgangur að nefndum vefsvæðum áfram óheftur. Óhætt sé þó að slá því föstu að tjón stefnanda verði afar mikið verði aðgangur að vefsíðunum framvegis óheftur, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991. Í niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 214/2009 hafi verið litið svo á að rétthafar verka sem deilt hafi verið á vefsíðunni www.torrent.is hefðu orðið fyrir tjóni vegna háttsemi notenda síðunnar og stjórnenda hennar. Sams konar aðstæður séu uppi í máli þessu. Tjón umbjóðenda stefnanda mun ekki fást bætt eftir reglum skaðabótaréttarins Tjón umbjóðenda stefnenda muni ekki fást bætt eftir reglum skaðabótaréttarins. Óljóst sé hverjir séu rekstraraðilar umræddra vefsíðna og einnig sé óljóst hversu mikið tjón muni hljótast af áframhaldandi óheftum aðgangi að vefsvæðunum, sbr. 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991. Engar upplýsingar liggi fyrir um hæfi rekstraraðila vefsíðnanna til að greiða stefnendum skaðabætur vegna þess tjóns sem hlotist hafi af rekstri þeirra. Héraðsdómur hafi samþykkt þessi sjónarmið í úrskurðum sínum frá 14. október 2014. Hagsmunir umjóðenda stefnanda eru mun meiri en hagsmunir stefnda Hagsmunir umbjóðenda stefnenda af því að hefta aðgang að vefsvæðunum séu miklum mun meiri en hagsmunir stefnda af því að halda aðgangi viðskiptavina sinna óheftum, sbr. 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991. Aðgangur viðskiptavina stefnda að vefsíðunum tryggi þeim einungis nauðsynlega aðstöðu til þess að brjóta gegn lögvörðum rétti stefnenda og umbjóðenda þeirra, en ekki til að stunda aðra háttsemi, enda sé starfsemi vefsíðnanna takmörkuð við að auðvelda notendum ólögmætar athafnir. Því verði einfaldlega að virða að vettugi þá hagsmuni sem stefndi kunni að hafa af því að halda þeirri aðstöðu opinni, enda sé hún aðeins nýtt í ólögmætum tilgangi. Héraðsdómur hafi tekið undir og samþykkt þessi sjónarmið í úrskurðum sínum frá 14. október 2014. 5. Ákvæði laga nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu Lög nr. 30/2002, um ábyrgðartakmarkanir þjónustuveitenda, girði ekki á nokkurn hátt fyrir að unnt sé að krefjast lögbanns við miðlun þjónustuveitenda. Þvert á móti sé beinlínis kveðið á um það í athugasemdum með frumvarpi til laganna, sbr. V. kafla athugasemdanna, að ákvæði laganna hafi ekki áhrif á lögbannsúrræði aðila. Þar segir: Ákvæði þessa kafla kveða á um hvenær þjónustuveitandi, sem er milligönguaðili við miðlun gagna, ber ekki ábyrgð á gögnum sem hann miðlar, vistar með skyndivistun eða hýsir. Frumvarpið kveður ekki á um hvenær þjónustuveitandi getur orðið ábyrgur fyrir slíkum gögnum ef skilyrði takmörkunar ábyrgðar eru ekki fyrir hendi. Þá hafa ákvæði frumvarpsins ekki áhrif á lögbannsúrræði aðila. Þetta sé í samræmi við ákvæði 3. mgr. 12. gr. tilskipunar 2000/31/EBE, sem lögfest hafi verið með lögum nr. 30/2002, en þar segi: Ákvæði þessarar greinar hafa ekki áhrif á það úrræði dómstóls eða stjórnvalds, í samræmi við réttarkerfi aðildarríkja, að krefjast þess að þjónustuveitandi stöðvi eða komi í veg fyrir brot. Sams konar ákvæði sé að finna í 13. og 14. gr. tilskipunarinnar. Í 45. mgr. inngangs tilskipunarinnar hafi þetta inntak verið áréttað, en þar segi: Takmörkuð ábyrgð þjónustuveitenda sem eru milliliðir, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, hefur engin áhrif á hugsanleg fyrirmæli af ýmsum toga. Slík fyrirmæli geta einkum falist í úrskurðum dómstóla eða stjórnvalda, þar sem krafa er gerð um að brotum sé hætt eða komið sé í veg fyrir þau, meðal annars að ólöglegum upplýsingum sé eytt eða að aðgengi að þeim sé hindrað. Þessi skilningur hafi verið staðfestur í nýlegum forúrskurði Evrópudómstólsins í máli nr. C-70/10, þar sem dómstóllinn hafi talið að á þjónustuveitendum hvíldi ekki skylda til þess að koma á laggirnar síunarkerfi til að hafa eftirlit með öllum gagnasendingum um kerfi þeirra, um ótiltekinn tíma og á kostnað þjónustuveitenda. Af úrskurðinum megi hins vegar ráða að lögbannskrafa rétthafa á hendur þjónustuveitendum, í þeim tilgangi að stöðva eða hindra veitingu þjónustu sem nýtt sé til að brjóta gegn lögvörðum rétti aðila, sé í samræmi við ákvæði og tilgang tilskipunar 2000/31/EBE og reglur hennar um ábyrgðartakmarkanir þjónustuveitenda. Margnefndir úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. október 2014 séu í samræmi við þessa niðurstöðu. 6. Mótmæli stefnda vegna lögbanns við fyrirtöku hjá sýslumanni Stefndi hafi lagt fram mótmæli við fyrirtöku hjá sýslumanni þann 16. október 2015 og hafi að auki látið bóka sérstök mótmæli í gerðarbók sýslumanns. Í mótmælum sínum byggi stefndi aðallega á því að lögbannsbeiðnin hafi verið vanreifuð auk þess sem skilyrði lögbanns skv. lögum nr. 31/1990 séu ekki uppfyllt. Stefnandi hafni mótmælum stefnda og vísi m.a. til fordæma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum K-8/2013 og K-9/2013. Í bókun í gerðabók sýslumanns haldi stefndi því m.a. fram að vegna þess að lögbann sé neyðarráðstöfun og að stefnandi hafi beðið í ár með að fara fram á lögbann hafi verið sýnt fram á að neyð sé ekki fyrir hendi í málatilbúnaði stefnanda. Stefnandi bendi á að í Hæstaréttardómi í máli nr. 214/2009 hafi verið lagt lögbann við rekstri vefsíðu sem hafi verið starfandi í u.þ.b. tvö ár án þess að dómurinn gerði athugasemdir við þann tíma sem vefsíðan hafði verið starfrækt og að deildu.net og piratebay.se hefðu verið starfandi í töluverðan tíma áður en lögbann hafi verið lagt á samkvæmt úrskurðum héraðsdóms Reykjavíkur. Stefnandi telji það sama eiga við í máli þessu. 7. Aðgerðir sem stefnda er rétt að grípa til Í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms í umræddum úrskurðum sé rétt að stefndi hafi frjálsar hendur með hvaða aðferðum hann beiti til þess að hlíta lögbanninu. Að mati héraðsdóms hafi hann nokkrar leiðir til þess. Ein sé DNS-lokun og sé þá allri umferð inn á lénin www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www. thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org beint með einföldum hætti inn á annað vefsvæði sem svari öllum köllum sem send séu á viðkomandi lén. Æskilegt sé þá að sú síða birti skilaboð um að aðgangur að umræddum lénum sé takmarkaður. Síminn hf. og Fjarskipti hf. hafi þegar komið upp slíkum síðum. Þessi sjónarmið hafi komið til umfjöllunar í úrskurðum héraðsdóms í málum K- 8 og 9/2013 og dómurinn talið að engin gögn sýndu að mjög íþyngjandi væri fyrir fjarskiptafyrirtækin að loka aðgangi að umræddum vefsvæðum. 8. Um stefnanda, umboð, réttindi og lagarök Stefnandi lýsi starfsemi sinni, umboði og réttindum til að krefjast lögbanns svo að STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar) séu samtök tónskálda, textahöfunda og eigenda flutningsréttar sem annist innheimtu vegna opinbers tónflutnings. STEF sé einnig aðili að NCB (Nordisk Copyright Bureau), sem séu samtök tónskálda, textahöfunda og eigenda flutningsréttar á Norðurlöndum og innheimti gjöld vegna eintakagerðar og dreifingar á tónverkum. NCB og STEF hafi gert gagnkvæma samninga við erlend systursamtök sín þar sem samtökin gæti hagsmuna vegna nær allra tónverka sem verndar njóti samkvæmt höfundalögum. Gæti STEF þannig hagsmuna bæði íslenskra og erlendra rétthafa og hafi hlotið löggildingu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til þess að gæta hagsmuna höfunda skv. 23. og 23. gr. a höfundalaga, sbr. 59. gr. a sömu laga. STEF byggi umboð sitt til að krefjast lögbanns m.a. á nefndu lagaákvæði og liggi upplýsingar um aðildarfélög STEF fyrir. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 214/2009, Istorrent-máli, hafi aðild STEF til að reka lögbannsmál f.h. umbjóðenda samtakanna verið staðfest og byggi stefnandi umboð sitt til að krefjast lögbanns f.h. umbjóðenda sinna fyrst og fremst á ákvæði sbr. 2. mgr. 59. gr. a höfundalaga. Að öðru leyti byggir stefnandi umboð sitt á ákvæðum II. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem og á almennum reglum laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á ákvæðum höfundalaga, nr. 73/1972, einkum 1. gr., 3.gr., 1. mgr. 8. gr., 23. gr., 23. gr. a, 45. gr., 46. gr. og 59. gr. laganna. Stefnandi styður kröfu sína um staðfestingu lögbanns við ákvæði 24. og 25. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. ákvæði 36. gr. laganna. Jafnframt sé vísað til 8. gr. tilskipunar EB nr. 2001/29 sem innleidd var með ákvæðum íslensku höfundalaganna. Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Um varnarþing er vísað til 41. og 42. gr. laga nr. 31/1990. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi telji ákvörðun sýslumanns ekki standast lög nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., höfundalög, nr. 73/1972, og stjórnarskrá Íslands. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði lögbanns séu fyrir hendi. Stefnandi hafi með engum hætti tengt saman hina meintu ólöglegu háttsemi við athöfn stefnda eða athafnaleysi. Þar af leiðandi sé rétt að héraðsdómur felli ákvörðun sýslumanns frá 16. október 2015 (lögbannsgerð nr. 2015-24) úr gildi. Athöfn stefnda brýtur ekki gegn rétti stefnanda. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 megi aðeins leggja lögbann við athöfn ef hún brýtur gegn lögvörðum rétti gerðarbeiðanda. Engin athöfn stefnda brjóti gegn réttindum stefnanda, heldur sé um að ræða meinta ólöglega háttsemi viðskiptavina stefnda. Jafnvel þótt talið yrði sannað að brotið hafi verið gegn stefnanda með einhverjum hætti á þeim heimasíðum sem stefnandi tiltaki í stefnu sé ósannað að viðskiptavinir stefnda eigi einhvern hlut að máli. Flestir viðskiptavinir stefnda séu fyrirtæki sem hafi enga hagsmuni af því að brjóta gegn réttindum stefnanda. Stefndi telji ósannað að stefnandi hafi hagsmuni af því að stefnda sé bannað að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að tilteknum vefsíðum. Sú aðferð sem beitt sé til að koma í veg fyrir aðgang viðskiptamanna sé svokölluð DNS-lokun, en stefnandi hafi farið fram á slíka lokun með bréfi 28. nóvember 2014. Í yfirlýsingu tæknistjóra stefnda komi fram að svokölluð „DNS lokun“ hafi hins vegar engin eða takmörkuð áhrif. Ástæðan sé sú að eftir sem áður sé hægt að komast inn á viðkomandi vefsíðu með því að nota IP-tölu. Þetta þýði að viðskiptavinir stefnda geti komist inn á allar þær heimasíður sem um sé að ræða með því að nota IP-tölu í stað nafns viðkomandi heimasíðu. Á sama hátt sé hægt að nota aðra DNS-þjóna en DNS-þjón stefnda. Tæknistjóri stefnda lýsi þessu vel í yfirlýsingu sinni: „Til þess að komast hjá DNS lokun má nota IP tölu rétt eins og hægt er að slá inn símanúmer frekar en að fletta upp í símaskrá þegar hringja á í tiltekinn aðila. DNS lokun hefur þannig afar takmörkuð áhrif. Auk þess geta notendur einfaldlega notað aðra DNS þjóna en Símafélagsins, þeir skipta þúsundum ef ekki milljónum um heim allan.“ Það hafi engan tilgang að banna stefnda að veita viðskiptavinum sínum aðgang að tilteknum heimasíðum og stefnandi hafi því ekki lögvarða hagsmuni fyrir dómkröfum sínum. Stefnandi verði að sýna fram á að lögbrot hafi átt sér stað svo að lögbanni verði beitt gegn stefnda, enda byggi stefnandi á því að hann geti sem samtök rétthafa farið fram á lögbann skv. 2. mgr. 59. gr. a höfundalaga, nr. 73/1972. Ákvæði 2. mgr. 59. gr. a er svohljóðandi: „Að því tilskildu að fullnægt sé öðrum þeim skilyrðum lögbanns, sem greind eru í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., geta einstakir rétthafar eða samtök þeirra fengið lagt lögbann við því að þjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi lætur í té um fjarskiptanet, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eða sjálfvirkrar, millistigs- eða skammtímageymslu gagna.“ Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 93/2010 (ákvæði 59. gr. a höfundalaga nr. 73/1972) segi: „Ekki verður séð að neinir lögverndaðir hagsmunir eigi að standa gegn því að sett verði ákvæði af því tagi sem hér er lýst, enda er heimild til lögbanns byggð á þeirri grundvallarforsendu að fyrir hendi sé réttarbrot af hálfu þjónustuþega sem sá sem fer fram á lögbann þyrfti eftir sem áður að sýna fram á.“ Það hafi verið álit löggjafans að lögverndaðir hagsmunir stefnda og annarra fjarskiptafyrirtækja stæðu því ekki í vegi að ákvæði 59. gr. a yrði bætt við höfundalögin, enda byggðist heimildin á því skilyrði að fyrir hendi sé réttarbrot af hálfu þjónustuþega. Í málinu liggi ekki fyrir réttarbrot af hálfu þjónustuþega stefnda. Þegar af þeirri ástæðu hafi stefnandi ekki lagaheimild til að fara fram á lögbann gagnvart stefnda. Í stefnu sé svokölluð aðkoma stefnda að brotum notenda rakin. Þrátt fyrir þetta sé ekkert réttarbrot af hálfu þjónustuþega stefnda rakið í stefnunni, heldur gengið út frá því að þau séu fyrir hendi þar sem það sé tæknilega mögulegt fyrir þjónustuþega stefnda að brjóta af sér. Stefnandi hefur ekki lögvarða hagsmuni af því að stefnda sé gert að loka heimasíðum Leiðin sem farin sé til að loka heimasíðum sé sú að loka fyrir DNS-aðgang, sem stefnandi fari fram á með bréfi sínu 28. nóvember 2014. Þar sem aðgangur að þeim heimasíðum sem um sé að ræða hafi verið opinn í langan tíma hafi það engan tilgang að loka þeim heimasíðum sem farið sé fram á að verði lokað. Auðvelt sé að komast fram hjá DNS-lokun með því að slá inn viðkomandi IP-tölu viðkomandi heimasíðu. Þá sé hægt að nota aðra DNS-þjónustuveitendur til að komast fram hjá DNS-lokun. Auk þess sé hægt að nota staðgengilsþjónustu (e. proxy) til að komast fram hjá banninu. Fjölmargir dómar hafi fallið erlendis þar sem internetþjónustuaðilar séu sýknaðir í sambærilegum málum á þeim grundvelli að tilgangslaust sé að banna þeim að veita aðgang að tilteknum heimasíðum. Með öðrum orðum verði höfundarrétthafar að sanna að bannið sem slíkt hafi áhrif á ólöglegt niðurhal. Lögbann á ekki að leggja á nema önnur úrræði séu ekki tiltæk Í 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 komi fram að ekki verði lagt lögbann við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann geti ekki náð fram meintum rétti sínum með refsi- eða skaðabótakröfum gagnvart hinum meintu brotamönnum. Í þeim úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur (K-8/2013 og K-9/2013), sem stefnandi byggi mál sitt á, segi að ekki sé hægt að finna ábyrgðarmenn viðkomandi vefsvæða þar sem þau séu skráð erlendis. Stefndi telji þessi rök ekki eiga við í þessu máli. Í fyrsta lagi sé um að ræða rúmlega árs gamla úrskurði og aðstæður hafi breyst. Í öðru lagi séu síðurnar „deildu.net“ og „iceland.pm“ báðar hýstar hjá bandarísku hýsingarþjónustunni Cloudflare. Hægt sé að tilkynna um brot á höfundalögum til Cloudflare. Ekki komi fram í gögnum málsins hvort stefnandi hafi tilkynnt um meint höfundalagabrot eða ekki. Það eina sem fram komi í stefnu sé að stefnandi hafi lagt fram kæru vegna tveggja af vefsíðunum til lögreglu. Gera verði þær kröfur til stefnanda að hann tryggi sína hagsmuni eins og hægt sé áður en hann beini lögbannsbeiðni að stefnda. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, komi fram að lögbann sé í eðli sínu neyðarráðstöfun. Í reglunni felist þannig meðalhófsregla og stefnandi verði að velja aðrar leiðir til að tryggja hagsmuni sína. Ekkert hafi komið fram í málinu um að stefnanda sé nauðsynlegur sá kostur að fara fram á lögbann. Vega hagsmunir stefnanda þyngra en hagsmunir stefnda? Lögbann verði ekki lagt á athöfn ef sýnt þykir að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram og hagsmunum gerðarbeiðanda af því að fyrirbyggja hana, sbr. 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Tilgangur ákvæðisins sé að koma í veg fyrir að gerðarbeiðandi stöðvi athöfn gerðarþola vegna lítilvægra hagsmuna gerðarbeiðanda í samanburði við hagsmuni gerðarþola, jafnvel þótt ótvírætt sé brotið á rétti gerðarbeiðanda. Stefndi telji atvinnuréttindi sín, sem varin eru af 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944, vegi þyngra en meintir hagsmunir stefnanda. Sjá megi af yfirlýsingu framkvæmdastjóra stefnda að netumferð hjá stefnda tengist þjónustu við stóra heildsöluaðila, þ. á m. British Telecom, France Telecom auk fjölmargra innlendra og erlendra hýsingaraðila. Þá sé hluti netumferðarinnar vegna þjónustu við mörg af stærri fyrirtækjum landsins, t.d. Landsbankann, Borgun, Icelandair, CCP, Mannvit, Alvotech og sambærileg fyrirtæki. Þar sem viðskiptavinir stefnda séu fyrst og fremst fyrirtæki hafi stefnandi litla sem enga hagsmuni af lögbanninu. Atvinnuréttindi viðskiptavina stefnda séu stjórnarskrárvarin eins og atvinnuréttindi stefnda sjálfs. Lögbann myndi skerða tjáningarfrelsi stefnda og viðskiptavina hans, sem varið sé í 73. gr. stjórnarskrár, þar sem fram komi að allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Stefndi telji sig og þjónustuþega sína eiga stjórnarskrárvarinn rétt á að tjá sig og taka við upplýsingum. Tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum, sbr. 3. mgr. 73. greinar stjórnarskrárinnar. Tilgangslausar dómkröfur stefnanda fari gegn þeim áskilnaði stjórnarskrárinnar að skorður á tjáningarfrelsi megi aðeins setja með lögum teljist þær nauðsynlegar. Með því að þvinga fyrirtæki til að loka tilteknum vefsíðum rýrni traust á nafnaþjónustu íslenskra þjónustuaðila, enda sé upplifun markaðarins þannig að fram fari ritskoðun á internetinu. Það að skipta um nafnaþjónustu (DNS-þjónustu) sé einföld aðgerð sem flestir internetnotendur ráði við. Sé DNS-þjónusta færð úr höndum internetþjónustuaðila þá missi sá aðili um leið mikilvægt tæki til að tryggja öryggi og gæði þjónustu sinnar. Internetþjónustuaðilinn missi jafnframt möguleika á að tryggja réttleika DNS-þjónustu og notandinn geti þá ekki lengur treyst því að upplýsingarnar séu réttar. Á internetinu megi finna fjölda aðila sem veiti DNS-þjónustu í þeim eina tilgangi að birta notendum auglýsingar eða ná stjórn á tölvubúnaði og í versta falli reyna að komast yfir viðkvæmar persónuupplýsingar eða aðgangsorð. Þeir sem stundi ólöglegt niðurhal séu ekki alltaf þeir sömu og skráðir viðskiptavinir viðkomandi DNS-þjónustu. Þannig geti starfsmaður fyrirtækis eða barn á heimili stundað niðurhal án þess að skráður viðskiptavinur DNS-þjónustu viti af því. Þetta þýði að breyti viðkomandi notandi nafnaþjónustuupplýsingum til að komast fram hjá einföldum aðgangshindrunum af þessum toga, þá geti aðrir notendur tölvubúnaðar og tengingar á viðkomandi vinnustað eða heimili verið berskjaldaðir fyrir mögulegum afleiðingum. Aðgerðir stefnanda, jafnvel þótt framkvæmdar séu í góðri trú, geti þannig haft slæmar afleiðingar og séu engin lausn við því vandamáli sem ólöglegt niðurhal vissulega sé. Aðgerðirnar geti bæði rýrt öryggi notenda og valdið internetþjónustuaðilum tjóni því þeir missi stjórn á gæðum og áreiðanleika internetþjónustu sinnar. Við ákvörðun um lögbann á grundvelli 59. gr. a höfundalaga, nr. 73/1972, og 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, þurfi stjórnvöld og dómstólar að vega og meta eignarrétt rétthafa, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, andspænis atvinnu- og tjáningarfrelsi viðkomandi fjarskiptafyrirtækis og viðskiptavina þess, sbr. 75. og 73. gr. stjórnarskrár. Forsenda þess að lögbann á þessum grundvelli samrýmist ákvæðum stjórnarskrárinnar sé að það gangi ekki lengra í að skerða atvinnufrelsi fjarskiptafyrirtækis og tjáningarfrelsi viðskiptavina þess en nauðsynlegt sé til þess að veita eignarrétti gerðarbeiðanda viðunandi vernd. Það kunni að fara gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár að meðhöndla mál fjarskiptafyrirtækja með ólíkum hætti. Stefnandi hafi sent bréf 28. nóvember 2014 til allra netþjónustuaðila þar sem farið hafi verið fram á lokun á mun færri netsíðum en farið sé fram á í þessu máli. Tryggja verði að jafnræði ríki á milli internetþjónustuaðila á markaði sé farin sú leið að þvinga þjónustuaðilana til að loka fyrir aðgang að heimasíðum. Samkvæmt öllu framansögðu séu hagsmunir stefnanda ekki meiri en hagsmunir stefnda. Stefnandi hafi hvorki lagt fram viðhlítandi sönnunargögn því til staðfestingar né metið þá hagsmuni sem stefnandi segist hafa í samræmi við hagsmuni stefnda, hagsmuni viðskiptavina stefnda og hagsmuni markaðarins. Stefnandi ber sönnunarbyrðina um að skilyrði lögbanns séu uppfyllt Umrætt lögbann uppfylli ekki skilyrði lögbannslaga, nr. 31/1990, og höfundalaga, nr. 73/1972. Meginreglan sé sú að ef gerðarþoli heldur því fram að skilyrði til lögbanns séu ekki uppfyllt eða að gerðarbeiðandi eigi ekki þann rétt, sem hann segir að brotið sé á, verði gerðarbeiðandi að sýna fram á hið gagnstæða. Þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði lögbanns séu uppfyllt verði að fella ákvörðun sýslumanns úr gildi. Þjónusta stefnda er ekki miðlun í skilningi 2. mgr. 59. gr. a höfundalaga nr. 73/1972 Í stefnu sé byggt á 2. mgr. 59. gr. a höfundalaga, nr. 73/1972. Þar komi fram að hægt sé að fara fram á lögbann vegna miðlunar á efni. Stefndi mótmæli því að hann teljist miðla upplýsingum í skilningi lagaákvæðisins, en í stefnu sé ekki útskýrt hvers vegna svo ætti að vera. Þar sem þjónusta stefnda teljist ekki miðlun liggi ekki fyrir lagaheimild fyrir samtök eins og stefnanda til að fara fram á lögbann á því að stefndi miðli upplýsingum. Stefndi mótmæli því að sú athöfn að veita aðgang að vefsíðum teljist miðlun upplýsinga í skilningi 59. gr. a höfundalaga. Nánar um málsástæður stefnda varðandi viðurkenningarkröfu stefnanda Málsástæður stefnda eigi einnig við um sýknukröfu stefnda á viðurkenningarkröfu stefnanda. Stefnandi krefjist staðfestingar á ákvörðun sýslumanns frá 16. október 2015 og auk þess krefjist stefnandi eftirfarandi viðurkenningar með dómi á því að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum. Í stefnu var auk þess krafist viðurkenningar á því að stefnda sé skylt að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til þess að hindra að viðskiptamenn hans geti heimsótt vefsíðurnar. Stefndi telji að stefnandi hafi gengið lengra með viðurkenningarkröfu sinni gagnvart stefnda en fordæmi séu fyrir í íslenskum rétti og að viðurkenningarkrafan sé ekki dómtæk. Í 2. mgr. 24. gr. laga um meðferð einkamála segi að hafi sóknaraðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands geti hann leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum. Viðurkenningarkrafa stefnanda hafi verið of almenn og víðtæk til þess að hún verði lögð til grundvallar. Við meðferð málsins féll stefnandi frá síðari lið þessarar kröfu, þ.e. um viðurkenningu á skyldu stefnanda til að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana, en krefst viðurkenningar á því að stefnda sé óheimilt að veita aðgang, sbr. endanlegar dómkröfur hans hér að framan. Í stefnu sé ekki útskýrt á nokkurn hátt hvers vegna viðurkenningarkröfu stefnanda er skeytt við kröfugerðina sem sé staðfestingarmál samkvæmt 36. gr. laga nr. 31/1990. Hvorki sé farið yfir á hvaða lagagrunni viðurkenningarkrafan byggist né útskýrt hvers vegna krafan sé sett fram með þessum hætti. Þessi vanreifun kunni að varða frávísun á kröfunni ex officio, en annars sé rétt að sýkna stefnda af henni þar sem hún sé óskýr og vanreifuð með öllu. Það væri afar ósanngjarnt og brot á jafnræði að fallast á viðurkenningarkröfu stefnanda gagnvart stefnda sem gangi mun lengra en gert sé gagnvart öðrum aðilum á markaði samkvæmt bréfi sem stefnandi hafi sent öllum netþjónustuaðilum 28. nóvember 2014. Málskostnaður og lagarök Stefndi eigi ekki kost á öðru en að taka til varna í máli sem þessu vegna skyldu sinnar sem þjónustuveitandi gagnvart viðskiptavinum sínum. Fráleitt væri að lögbannsaðgerðir stórra hagsmunasamtaka, eins og stefnanda, bitnuðu á rekstri smárra þjónustuveitenda en ekki á þeim sem standi að viðkomandi brotum. Hvað varðar kröfu um málskostnað sé vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Varðandi skilyrði lögbanns vísi stefndi til höfundalaga nr. 73/1972, ásamt síðari breytingum, og laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr., 31/1990. Stefndi byggi einnig á ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Vísað sé til laga nr. 30/2002 og tilskipunar 2000/31/EB. Niðurstaða Stefnandi krefst í máli þessu, á grundvelli 36. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, staðfestingar á lögbanni sem lagt hefur verið á stefnda. Samkvæmt ákvæðinu skal, hafi ekki áður verið dæmt um kröfu stefnanda eða mál höfðað til þess að fá skorið úr um rétt hans, gera slíka kröfu í sama máli. Stefnandi krefst þess því jafnframt í málinu að viðurkennt verði að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum deildu.net, deildu.com, iceland.pm, icetracker.org, afghanpirate.com, deildu.eu, thepiratebay.se, thepiratebay.sx, og thepiratebay.org. Í höfundarétti felst einkaréttur höfundar til að gera eintök af verki sínu og birta það, sbr. 3. gr. höfundalaga, nr. 73/1972. Viðurkenningarkrafa stefnanda byggir á því að starfsemi umræddra vefsvæða vegi gegn þessum grundvallarrétti og er krafan um viðurkenningu á því að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að þeim. Stefndi hefur ekki andmælt réttmæti staðhæfinga stefnanda um að yfirgnæfandi hluti þess hljóð- og myndefnis, sem hafi að geyma tónlist sem umbjóðendur stefnanda eigi höfundarétt að og finna megi á vefsvæðunum, og gert sé aðgengilegt til eintakagerðar, sé þar án heimildar eigenda þess. Telst óumdeilt að svo sé og fær það stuðning í framlögðum gögnum. Þá er ómdeild heimild stefnanda til aðildar að málinu, sbr. dóma Hæstaréttar í málum réttarins nr. 239/2014, nr. 240/2014 og nr. 214/2009. Stefnandi verður talinn hafa af því lögvarða hagsmuni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, að fá úr því skorið hvort stefnda sé það heimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsvæðunum eða ekki. Hafnað er sjónarmiðum stefnda um að ekki sé nægilega gerð grein fyrir þeim hagsmunum í málatilbúnaði stefnanda og verður viðurkenningarkröfu stefnanda ekki vísað frá dómi. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 214/2009 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að á vefsíðunni torrent.is hafi verið í boði mikið af efni, sem háð var höfundarétti og að notendur hafi með þeim búnaði, sem vefsvæðið bauð upp á, miðlað því sín á milli í umtalsverðum mæli án þess að heimild rétthafa hafi verið fyrir hendi. Í dóminum sagði að því mætti leggja til grundvallar við úrlausn málsins að tilgangur með starfrækslu vefsvæðisins hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir því að notendur gætu með skjótum hætti miðlað sín á milli efni, sem háð er höfundarétti, án tillits til þess hvort fyrir hendi væri tilskilin heimild til slíkrar miðlunar frá rétthafa. Með þessum dómi Hæstaréttar var því slegið föstu að rekstur vefsíðunnar torrent.is væri ólögmætur. Jafnframt var fallist á að ábyrgðartakmarkanir V. kafla laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, ættu ekki við, þegar með þjónustunni sé gagngert stuðlað að því að brotið sé gegn lögvörðum rétti höfunda og listflytjenda samkvæmt höfundalögum. Tilgangur, virkni og rekstur vefsíðnanna deildu.net og thepiratebay.se er að mati dómsins sambærilegur við tilgang, virkni og rekstur vefsíðunnar torrent.is, sem fjallað var um í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Var lögbann á rekstur þeirrar vefsíðu staðfest á þeim forsendum að þar færi fram ólögmæt starfsemi, sem bryti gegn lögvörðum réttindum höfundarréttarhafa. Hinar sjö vefsíðurnar sem taldar eru upp í kröfu stefnanda vísa beint á áðurnefndar vefsíður og falla því sjálfkrafa í sama flokk. Stefnandi þykir hafa sýnt nægilega fram á að umbjóðendur hans eigi höfundaréttindi að hljóð- og myndefni sem deilt er á vefsíðunum sem viðurkenningarkrafa hans tekur til og leggja má til grundvallar að tilgangur með starfrækslu þeirra sé fyrst og fremst sá að greiða fyrir því að notendur geti miðlað sín á milli efni, sem háð er höfundarétti, án tillits til þess hvort fyrir hendi væri tilskilin heimild til slíkrar miðlunar frá rétthafa. Notkun vefsíðnanna felur því í sér ólögmæta háttsemi og fer hún ekki fram nema notandi hafi aðgang að vefsíðunum, fyrir milligöngu fjarskiptafyrirtækja svo sem stefnda. Fjarskiptafyrirtæki geta þurft að sæta því að verða að gera ráðstafanir til að hindra, svo sem þeim er unnt, aðgang viðskiptamanna sinna að ólögmætum vefsvæðum. Stefndi byggir í málinu á því að slík takmörkun brjóti gegn tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. og atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrár. Við mat á því er til þess að líta að slík réttindi þurfa ætíð að sæta takmörkunum af sambærilegum réttindum annarra og almannahagsmunum. Þótt slíkt bann kunni að skerða atvinnufrelsi stefnda þá felst ekki í því stórkostleg skerðing samanborið við þá hagsmuni umbjóðenda stefnanda að stöðva höfundaréttarbrotin. Starfsemi stefnda hefur ekki verið stöðvuð heldur einungis lagt fyrir hann að hamla aðgengi að tilteknum vefsvæðum, sem hafi þann megintilgang að greiða fyrir miðlun höfundavarins efnis án tillits til tilskilinnar heimildar til slíkrar miðlunar frá rétthafa. Stefndi telur lokun vefsíðna rýra traust sitt þar sem markaðurinn upplifi slíkt sem ritskoðun á internetinu. Tjáningarfrelsi stefnda eða viðskiptamanna hans, sem felur m.a. í sér rétt til að miðla og nálgast upplýsingar á netinu, sætir óverulegri takmörkun með slíku banni. Felur sú skerðing að mati dómsins ekki í sér stórfelldari hagsmuni en þá sem felast í hagsmunum umbjóðenda stefnanda. Til þess er og að líta að unnt er að nálgast hið höfundavarða efni eftir löglegum leiðum. Því verður að hafna að slík takmörkun brjóti gegn 73. gr. eða 75. gr. stjórnarskrár Íslands, en þau mannréttindi sem þar um ræðir er heimilt að takmarka með lögum. Að því er varðar málsástæður stefnda um að jafnræðis sé ekki gætt þar sem um víðtækari takmörkun sé að ræða en beitt hafi verið gagnvart öðrum fjarskiptafyrirtækjum er þess að geta að vissulega voru vefsvæðin iceland.pm, afghanpirate.com, deildu.eu og icetracker.org ekki meðal þeirra sem aðgerðir stefnanda beindust að í upphafi og til úrlausnar voru í úrskurðum héraðsdóms 14. október 2014. Með samkomulagi stefnanda við stærstu fjarskiptafyrirtæki á markaði hafa þau fallist á að loka einnig aðgangi að slíkum vefsvæðum sem opnuð eru til að sniðganga það bann sem fallist hefur verið á eða ákveðið í úrskurðum héraðsdóms. Breytir því engu þótt sú takmörkun sem hér er krafist viðurkenningar á taki til fleiri vefsíðna en fyrrgreindir úrskurðir, enda er fram komið í málinu að vefsíðurnar vísa allar beint á síðurnar deildu.net eða thepiratebay.se. Verður að framangreindu virtu fallist á kröfu stefnanda um að viðurkennt verði með dómi þessum að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að framangreindum vefsíðum. Fyrrnefndur dómur Hæstaréttar í máli nr. 214/2009 var kveðinn upp 11. febrúar 2010. Síðar sama ár, þann 2. júlí 2010, tóku gildi lög nr. 93/2010, til breytinga á höfundalögum. Í ákvæði 2. mgr. 59. gr. a, sem þá var bætt í höfundalög með 13. gr. laga nr. 93/2010, er m.a. kveðið á um, að því tilskildu að fullnægt sé öðrum þeim skilyrðum lögbanns sem greind eru í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., að einstakir rétthafar eða samtök þeirra geti fengið lagt lögbann við því að þjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi lætur í té um fjarskiptanet, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eða sjálfvirkrar, millistigs- eða skammtímageymslu gagna. Styðst lögbann það sem krafist er staðfestingar á í máli þessu við þessa heimild í 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum. Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 93/2010, kemur m.a. fram að í ákvæðinu sem varð að 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum sé fólgið nýmæli þar sem gert sé ráð fyrir sérstakri heimild til að leggja lögbann við athöfnum milliliða, fyrst og fremst fjarskiptafyrirtækja. Taki ákvæðið mið af lögum nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Tilgangur ákvæðisins sé fyrst og fremst að eyða mögulegum vafa um hvort lögbanni verði beint gegn fjarskiptafyrirtækjum vegna miðlunar, skyndivistunar og hýsingar gagna í þeim tilvikum þegar um sé að ræða meint brot þjónustuþega á ákvæðum höfundalaga. Í þessu ljósi verður að hafna málsástæðum stefnda og orðskýringum hans í því sambandi, um að skilyrði 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum um miðlun gagna geti ekki átt við um stefnda. Með ákvæðinu var innleitt það efni í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 að ríkjum bæri að sjá til þess að rétthafar séu í aðstöðu til að krefjast lögbanns gegn milliliðum ef þriðji aðili notar þjónustu þeirra til að brjóta gegn höfundarétti eða skyldum rétti. Í 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum felst sérstök lagaheimild til að lögbann verði lagt á fjarskiptafyrirtæki eins og stefnda. Þau önnur skilyrði lögbanns sem vísað er til í ákvæðinu, um að tilskilið sé að einnig sé fullnægt, er einkum að finna í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Samkvæmt því ákvæði má leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Þá er í 1. og 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 tekið fram að lögbann verði ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega eða ef sýnt þykir að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram og hagsmunum gerðarbeiðanda af að fyrirbyggja hana, enda setji gerðarþoli eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni sem athöfnin kann að baka gerðarbeiðanda. Með hliðsjón af því sem fyrr er rakið verður fallist á það með stefnanda að ef þjónustuþegar stefnda, fyrir milligöngu umræddra vefsvæða, hlaða niður á nettengda tölvu sína skrá sem hefur að geyma höfundaréttarvarið efni og gera skrána um leið aðgengilega öðrum til niðurhals, þá gerist þeir sekir um brot á einkarétti höfundar til að gera eintök af verki sínu og birta það, sbr. 3. gr. höfundalaga, og eftir atvikum brot á sambærilegum rétti listflytjenda, sbr. 45. og 46. gr. laganna. Er því uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 að lögbannið beinist að athöfn sem brjóta kann gegn lögvörðum rétti umbjóðenda stefnanda. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt stefndi sjálfur hafi ekki sýnt af sér ólögmæta háttsemi og að ekki sé upplýst um það hvort viðskiptamenn stefnda noti eða vilji nota umræddar vefsíður. Ekki liggur annað fyrir en að notkun og dreifing hins höfundavarða efnis standi enn yfir og nýtt efni bætist sífellt inn á vefsíðurnar. Byggir stefndi m.a. á því að hagsmunir hans af því að fallist verði á kröfu hans felist í því að lokanir samkvæmt lögbanninu séu tilgangslausar og geti rýrt gæði og áreiðanleika þjónustu stefnda vegna þeirra aðferða sem notendur beiti til að komast fram hjá aðgangshindrunum. Þessi sjónarmið stefnda samræmast því, sem stefnandi heldur fram og dómurinn fellst á, að réttarbrotin séu jafnframt yfirvofandi í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Stefndi telur stefnanda ekki hafa sýnt fram á að hann hafi leitað annarra úrræða og að ekki sé sýnt að stefnanda hafi verið nauðsynlegt að krefjast lögbanns á stefnda. Ekki liggur fyrir hverjir eru ábyrgðarmenn vegna reksturs vefsíðnanna thepiratebay.se og deildu.net, en þær vefsíður munu vera skráðar erlendis. Hefur ekki tekist að upplýsa það, þrátt fyrir ítarlega lögreglurannsókn, svo sem ríkissaksóknari hefur staðfest, að þar kunni að vera að finna aðila sem íslensk lögsaga nái til. Hefur stefnanda verið ókleift að krefjast þess af rekstraraðilum vefsíðnanna að þeir láti af rekstri þeirra eða beina til þeirra bótakröfum þar sem þeir eru óþekktir. Stefndi bendir á að beina beri tilkynningum um brot gegn höfundarétti til fyrirtækisins Cloudflare sem hýsi síðurnar deildu.net og iceland.pm. Dómurinn telur Cloudflare ekki vera hýsingarþjónustu, heldur víðtækt net sem er fyrst og fremst byggt til að verja síður og hýsingaraðila fyrir netárásum og feli þannig í raun hýsingaraðilann á bak við eigið net. Við meðferð málsins hefur stefnandi lagt fram gögn um tilraunir sínar til þess að fá Cloudflare til aðstoðar í viðleitni sinni til að stemma stigu við ólögmætri starfsemi á vefsíðunum. Samkvæmt þeim gögnum er þar ekki aðstoð að fá sem komi að gagni. Verður að þessu virtu ekki talið að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna stefnanda tryggi þá nægilega í skilningi 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Við þær aðstæður var lögbann hjá stefnda viðeigandi úrræði til að sporna gegn notkun á vefsíðunum. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi takmarkaða hagsmuni af lögbanninu í samanburði við hagsmuni stefnda og því standi ákvæði 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 því í vegi að leggja hafi mátt það á. Stefndi heldur því fram að sú aðferð sem nú sé beitt við lokun, að loka fyrir DNS-aðgang, sé tilgangslaus, en stefnandi hafi lagt til að þeirri aðferð yrði beitt. Í lögbannsgerðinni sem krafist er staðfestingar á í máli þessu er ekki mælt fyrir um það með hvaða aðferð aðgangi að vefsvæðunum skuli loka og á stefndi því um það nokkurt val, en ætlast verður til þess að beitt sé þeim aðferðum sem komi að notum á hverjum tíma. Í málatilbúnaði stefnanda kemur fram að hann telji rétt að stefndi hafi frjálsar hendur um það hvaða aðferðum hann beiti til að hlíta lögbanninu. Aðrar þekktar aðferðir til að loka fyrir aðgengi að síðunum sem vísa á höfundarvarið efni en umrædd DNS-lokun eru t.d. „IP-tölu lokun“ og „Rýnt í innihaldið“ (e. deep packet inspection). Tekið er undir sjónarmið stefnda um að DNS-lokun geti fylgt meiri kostnaður vegna aukinnar útlandaumferðar og minni gæði þjónustunnar vegna aukins svartíma. DNS-lokun er aðferð sem geti hvatt notendur til að breyta stillingum sínum þannig að öryggi notenda á internetinu minnki. Til lengri framtíðar er DNS-lokun að mati sérfróðra meðdómenda ósamrýmanleg þróun netsins til öruggari DNS-þjónustu og fer gegn heildaruppbyggingu netsins. DNS-lokun sé í besta falli lausn til skamms tíma sem geti leitt til þess að uppbygging internetsins sé ekki eins og best verður á kosið (e.optimal) hvað varðar hagkvæma og skjóta efnisdreifingu. IP-tölu lokun sé tæknilega einföld aðgerð og á færi smærri fjarskiptafélaga ef IP-tölur breytast ekki mjög oft. Margar vefsíður geti þó legið að baki sömu IP-tölu og kynni því að verða lokað á einhverjar löglegar vefsíður sé aðferðinni beitt, en með IP-tölu lokun megi loka með afgerandi hætti á viðkomandi síður. Hún sé því tæknilega möguleg en hafi ýmsa annmarka, sérstaklega þann að um bein inngrip í fjarskiptaumferð væri að ræða. Hjáleiðir eins og staðgengilssíður (e.proxy) muni vera fyrir hendi en þeim megi líka loka með IP-tölu lokun. Þriðja aðferðin sem að framan er nefnd, að rýna í innihaldið, felur í sér eftirlit með netnotkun notenda, ásamt því að vera mjög kostnaðarsöm, og kæmi því vart til álita séu önnur úrræði tiltæk. Engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á að það hafi verið mjög íþyngjandi fyrir stefnda að loka aðgangi að umræddum vefsvæðum með DNS-lokun. Það er aðgerð sem gerð er einu sinni og að mati sérfróðra meðdómenda ættu sérfræðingar á þessu sviði að vera nokkuð fljótir að framkvæma innleiðinguna. Það er mat dómsins að meðalhófs sé gætt með því að stefndi eigi val um aðferð og að þær aðrar aðferðir sem nú kæmi til greina að beita til að framfylgja lögbanninu en DNS-lokun væru meira íþyngjandi fyrir stefnda og viðskiptamenn hans. Aðgerðir sem þessar munu sennilega aldrei loka alveg fyrir síður sem opna á niðurhal höfundavarins efnis en hafa vissulega truflandi áhrif. Þótt viðskiptamenn stefnda kunni að geta farið fram hjá lokun á vefsvæðunum, t.d. með notkun staðgengilsþjónustu, hefur ekki verið sýnt fram á að lögbannið, sem lagt var á til að sporna gegn ólögmætri háttsemi, sé tilgangslaust með öllu. Þykir nægilega sýnt fram á að stefnandi og umbjóðendur hans hafi af því lögvarða hagsmuni að stemmt sé stigu við notkun umræddra vefsíðna með takmörkun á aðgangi viðskiptamanna stefnda að þeim, enda þótt ekki verði með staðfestingu lögbanns komið í veg fyrir starfrækslu þeirra. Að virtum hagsmunum aðila stendur 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 því ekki í vegi að lögbannið verði staðfest. Lagaskilyrði þykja samkvæmt framangreindu hafa verið fyrir hendi til að lögbann yrði lagt við því, að stefndi veitti viðskiptamönnum sínum aðgang að hinum umdeildu vefsíðum, sbr. 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum. Að öllu framangreindu virtu verður fallist á kröfu stefnanda um staðfestingu þess lögbanns sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði þann 16. október 2015 við því að stefndi veitti viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum deildu.net, deildu.com, iceland.pm, icetracker.org, afghanpirate.com, deildu.eu, thepiratebay.se, thepiratebay.sx, og thepiratebay.org, hvort sem www. er fyrir framan nafn vefsíðnanna eða ekki. Aðilar krefjast hvor um sig málskostnaðar úr hendi hins, en stefndi krefst þess til þrautavara að hvor aðili verði látinn bera sinn kostnað af málinu. Þó að með dómi þessum sé fallist á endanlegar kröfur stefnanda er til þess að líta við ákvörðun um málskostnað að við meðferð málsins hefur hann dregið úr upphaflegum dómkröfum sínum. Þá telur meirihluti dómenda að réttmætar röksemdir stefnda, m.a. um tæknilega vankanta við að framfylgja lögbanninu, séu til marks um það að veruleg vafaatriði hafi verið í málinu. Að þessu virtu, og eftir atvikum, þykir rétt að málskostnaður falli niður, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Dóm þennan kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt sérfróðu meðdómsmönnunum Birni Jónssyni, rafmagnsverkfræðingi og tölvunarfræðingi, og Erni Orrasyni fjarskiptaverkfræðingi. D Ó M S O R Ð Staðfest er lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði þann 16. október 2015 við því að stefndi, Símafélagið ehf., veiti viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www. thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org, hvort sem www. er fyrir framan nafn vefsíðnanna eða ekki. Viðurkennt er að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www.thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org. Málskostnaður fellur niður.                                                                                                                  
Mál nr. 190/2017
Sjálfskuldarábyrgð Ógilding samnings Sératkvæði
A höfðaði mál á hendur L og krafðist þess að felld yrði úr gildi sjálfskuldarábyrgð sem hún hafði veitt með undirritun sinni á skuldabréf vegna námslána dóttur sinnar M. Fyrir lá að áður en A gekkst í ábyrgðina lagði L ekki annað mat á greiðslugetu M en það, sem fólst í mati á því hvort hún teldist lánshæf í skilningi úthlutunarreglna L, en við það kom í ljós að M var á vanskilaskrá. Í dómi Hæstaréttar kom fram að mat L á lánshæfi umsækjanda um námslán eftir úthlutunarreglum hans væri bundið við athugun á því hvort umsækjandinn væri í vanskilum við L vegna eldra láns, hvort bú umsækjandans væri til gjaldþrotaskipta og hvort hann gæti af öðrum sökum talist bersýnilega ótryggur lántaki. L hefði ekki gert grein fyrir því hvort könnun á síðastnefnda atriðinu tæki til nokkurs annars en athugunar á vanskilaskrá. Væri lagt til grundvallar að ekki væri gætt að öðru í tengslum við það skilyrði færi því fjarri að mat L á lánshæfi væri reist á upplýsingum meðal annars um áætlaðar tekjur umsækjanda á endurgreiðslutíma láns, aðrar skuldir hans og endurgreiðslur af þeim, eignir hans og áætlaðan framfærslukostnað, svo sem gera yrði við greiðslumat eftir viðurkenndum viðmiðum í skilningi 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Var því ekki talið að L hefði réttilega uppfyllt skyldu sína samkvæmt ákvæðinu til að leggja mat á greiðslugetu M. Ekkert lægi fyrir í málinu um fjárhag M, efnahag hennar eða tekjur, hvorki nú né þegar A tók skuldbindinguna á sínar herðar, og yrði því ekkert ráðið um hvað kynni að hafa verið leitt í ljós með réttilega gerðu greiðslumati. Þótt ætla yrði að almennt hlyti ábyrgðarmaður í þeim fjölskyldutengslum við lántaka, sem A væri við M, að búa yfir nokkurri vitneskju um aðstæður hans og fjárhag væri ófært að byggja á því að greiðslumat hefði ekki í þessu tilviki getað leitt í ljós atriði, sem áhrif gætu haft á töku ákvörðunar um hvort stofna ætti til ábyrgðarskuldbindingar. Var því talið óhjákvæmilegt að víkja til hliðar yfirlýsingu A um sjálfskuldarábyrgð á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og krafa A því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. mars 2017. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Samkvæmt gögnum málsins gerði María Dungal, sem er dóttir stefndu og fædd árið 1972, umsókn 25. mars 2010 til áfrýjanda um námslán vegna fyrirhugaðs meistaranáms í viðskiptafræði við nánar tilgreindan erlendan háskóla. Í umsókninni, sem virðist hafa verið færð inn á rafrænt eyðublað frá áfrýjanda, voru óverulegar upplýsingar um fjárhag og aðstæður Maríu, en þó kom fram að hún ætti nafngreindan maka og tvö börn, hún hafi verið í fullu starfi á árinu 2009 og áætlaði að laun fyrir það hafi numið um 8.000.000 krónum. Þá var þess getið að stefnda yrði umboðsmaður Maríu gagnvart áfrýjanda, en í umboðinu fælist heimild til að annast lántöku, undirrita skuldabréf fyrir láni, útvega ábyrgðarmann og taka við lánsfé. Vegna þessarar umsóknar ritaði áfrýjandi bréf 25. maí 2010 til stefndu sem umboðsmanns Maríu, þar sem fram kom að eftir úthlutunarreglum hans yrði lánþegi að vera í skilum við hann og mætti hvorki vera til gjaldþrotaskipta né teljast af öðrum ástæðum bersýnilega ótryggur lántaki. Nafn Maríu væri að finna á tiltekinni vanskilaskrá og væri því ekki að svo stöddu unnt að veita henni námslán, en hafi skuld, sem valdið hafi færslu á þeirri skrá, verið greidd eða færslan stafað af mistökum yrði að leita til nafngreinds fyrirtækis, sem héldi um skrána. Bent var á að umsækjandi um lán í þessari aðstöðu ætti kost á að leita eftir undanþágu frá úthlutunarreglum að þessu leyti með því að leggja fram ábyrgð, sem áfrýjandi teldi viðunandi. Í tengslum við það sagði einnig: „Tekið skal fram að ábyrgðarmaður mun verða upplýstur um greiðslugetu þína skv. lögum nr. 32/2009. Þær upplýsingar verða í formi stöðu skv. vanskilaskrá“. Þetta ítrekaði áfrýjandi í öðru samsvarandi bréfi til stefndu 16. júlí 2010. Í málinu liggja ekki fyrir upplýsingar um hvað hafi nánar komið fram um Maríu á vanskilaskrá, en áfrýjandi kveðst ekki varðveita gögn um slíkt með tilliti til persónuverndar. Í framhaldi af þessu sendi María tölvubréf til áfrýjanda 19. ágúst 2010, þar sem sagði meðal annars: „Ég er með umsókn um námslán hjá ykkur og er að vinna í því að skila inn þeim gögnum sem vantar. Ég fékk bréf um daginn þar sem fram kom að þar sem ég er á vanskilaskrá þá fái ég ekki lán hjá ykkur. Ég er að vinna í því að klára að greiða þennan reikning sem kom mér á skrána, en vildi spyrja ykkur ... varðandi þetta: 1. Fæ ég námslán þrátt fyrir að vera á vanskilaskrá, ef ég skila inn nafni á ábyrgðarmanni? 2. Ef það tekur mig nokkra mánuði að ná mér af skránni, mun ég samt geta séð lánsáætlun ... sem miðar þá við að ég sé komin af skrá (eða með ábyrgðarmann) og fái námslán?“ Í tölvubréfi áfrýjanda til Maríu 25. sama mánaðar var fyrri spurningunni svarað á þann hátt að yrði hún komin af vanskilaskrá eða skráður hafi verið ábyrgðarmaður fyrir hana stæði henni til boða lán, enda hefðu þá einnig borist gögn um tiltekin önnur atriði, sem ekki er ástæða til að lýsa hér frekar. Af þessu tilefni sendi María tölvubréf til áfrýjanda síðastnefndan dag, þar sem þess var getið að stefnda yrði ábyrgðarmaður fyrir láni til hennar. Áfrýjandi ritaði bréf til stefndu 1. september 2010, þar sem sagði meðal annars: „Þú hefur verið tilefndur sem ábyrgðarmaður fyrir námsmann sem hefur óskað eftir námsláni hjá LÍN. Skv. 5. gr. laga nr. 32/2009 ber LÍN að senda öllum ábyrgðarmönnum meðfylgjandi upplýsingar. Meðfylgjandi er m.a. greiðslusaga námsmannsins skv. Lánstrausti en þar sem ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um greiðslugetu hans til framtíðar er litið svo á að þessar upplýsingar séu fullnægjandi. Athygli er vakin á því að þar sem endurgreiðsla á námsláninu hefst ekki fyrr en tveimur árum eftir námslok mun greiðslugeta námsmannsins verða önnur til framtíðar.“ Fyrir liggur að með þessu bréfi til stefndu hafi fylgt skjal frá áfrýjanda með fyrirsögninni: „Upplýsingar til ábyrgðarmanns skv. 5. gr. laga nr. 32/2009“. Þar var að finna stutta rakningu á reglum um sjálfskuldarábyrgð, tekið var fram að fyrirhuguð ábyrgð ætti að hámarki að ná til skuldar Maríu að fjárhæð 7.000.000 krónur, sem bundin yrði vísitölu neysluverðs miðað við tiltekna grunntölu, og myndi ábyrgðin standa þar til skuldin yrði að fullu greidd. Næði ábyrgðin auk annars til innheimtukostnaðar. Einnig var þess getið að unnt yrði að bera ágreining um ábyrgðina undir málskotsnefnd áfrýjanda eða dómstóla. Þá kom eftirfarandi fram í skjalinu: „LÍN hefur upplýst undirritaðan um greiðslusögu lántakanda í samræmi við 4. gr. laga nr. 32/2009 eins og fram kemur á meðfylgjandi fylgiskjali. Frekari upplýsingar um greiðslugetu lántakanda er ekki að fá. Vakin er athygli á því að umrætt lán mun ekki greiðast fyrr en 2 árum eftir að námi lýkur og þá verða aðstæður lántakanda aðrar en í dag, þ.á m. greiðslugeta.“ Í bréfi áfrýjanda, sem þetta skjal fylgdi, var óskað eftir að stefnda undirritaði skjalið og endursendi honum. Við því varð stefnda 15. desember 2010. María gaf út skuldabréf vegna námsláns frá áfrýjanda 1. desember 2010. Ofan við meginmál skuldabréfsins var tilgreint að stefnda væri umboðsmaður Maríu og jafnframt ábyrgðarmaður fyrir skuldinni. Fjárhæð skuldar var ekki færð inn í viðeigandi eyður í skuldabréfinu, heldur tekið fram að lántaki veitti áfrýjanda heimild til að fylla það að þessu leyti út við námslok með því að setja þar heildarfjárhæð skuldar miðað við þágildandi vísitölu neysluverðs. Í skilmálum bréfsins var meðal annars lýst lánskjörum, endurgreiðslum og vanefndaúrræðum, en að auki var þar eftirfarandi yfirlýsing, sem stefnda undirritaði: „Ábyrgðarmaður hefur verið upplýstur um greiðslugetu lántaka o. fl. atriði skv. 5. gr. laga nr. 32/2009 og staðfest það með undirritun sinni á sérstaka yfirlýsingu þar að lútandi sem skoðast sem hluti þessa skuldabréfs. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól allt að neðangreindri fjárhæð ásamt vöxtum, verðbótum og dráttarvöxtum og öllum kostnaði ef vanskil verða, tekst ég undirritaður á hendur sjálfskuldarábyrgð á láni þessu in solidum. Höfuðstóll ábyrgðar, tilgreindur fyrir framan undirskrift mína, breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs. Fyrir gjaldfallinni fjárhæð má gera fjárnám til tryggingar fullnustu skuldarinnar án undangengins dóms eða réttarsáttar samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 hjá aðalskuldara eða sjálfskuldarábyrgðarmönnum.“ Við undirskrift stefndu var tiltekið að fjárhæð ábyrgðar hennar næmi allt að 7.000.000 krónum, sem bundin væri vísitölu neysluverðs með grunntölunni 363,8. Í framhaldi af útgáfu skuldabréfsins sendi áfrýjandi til stefndu bréf 5. janúar 2011 með yfirskriftinni: „Staðfesting á sjálfskuldarábyrgð.“ Þar var getið um nafn aðalskuldara, númer skuldabréfs og fjárhæð ábyrgðar stefndu, en jafnframt bent á að fjallað væri um ábyrgð á námslánum, réttindi ábyrgðarmanna og skyldur þeirra í tilteknum ákvæðum úthlutunarreglna áfrýjanda, sem birtar væru á vefsíðu hans. Í gögnum málsins er ekki að finna heildstæðar upplýsingar um lánveitingar áfrýjanda til Maríu, sem falla áttu undir fyrrgreint skuldabréf, en á hinn bóginn liggja fyrir yfirlit um stöðu lánsins, sem áfrýjandi sendi stefndu sem ábyrgðarmanni árlega frá 2012 til 2016. Samkvæmt yfirliti 30. janúar 2012 var „upprunalegur höfuðstóll“ lánsins á þeim tíma 2.653.688 krónur, en í yfirliti 4. febrúar 2013 var sá höfuðstóll sagður nema 4.064.507 krónum. Var þess getið í báðum tilvikum að um væri að ræða „opið lán“, sem ætla verður að hafi merkt að María teldist ekki hafa lokið námi og skuldabréfið því ekki enn verið fyllt út að því er fjárhæð varðaði. Af yfirliti 13. febrúar 2014 virðist á hinn bóginn mega ráða að náminu hafi þá verið lokið og höfuðstóll skuldabréfsins orðinn 4.026.086 krónur með grunnvísitölu 398,2 stig, en lánið væri í vanskilum. Samkvæmt yfirlitum 23. febrúar 2015 og 29. mars 2016 var lánið í skilum á báðum dögum, en skuldin á þeim síðari sögð 3.872.789 krónur. Í málflutningi fyrir Hæstarétti kom fram að skuldin hafi nú verið í vanskilum frá hausti 2017 og gjaldfelld af þeim sökum. II Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er það hlutverk áfrýjanda að tryggja þeim, sem falla undir lögin, tækifæri til náms án tillits til efnahags. Í 2. mgr. 1. gr. og 2. gr. laganna er afmarkað til hvers konar náms áfrýjandi veiti lán í þessu skyni, en eftir 1. mgr. 6. gr. þeirra skal það ekki gert fyrr en námsmaður hefur afhent vottorð um tilskilda skólasókn og námsárangur. Einnig er sett að skilyrði í 4. mgr. 6. gr. að námsframvinda sé með eðlilegum hætti. Stjórn áfrýjanda er falið í 7. mgr. sömu lagagreinar að ákveða hvaða skilyrðum lántakar þurfi að öðru leyti að fullnægja, en um það, svo og önnur atriði varðandi svonefnda útfærslu á lögunum, á stjórnin að setja árlegar úthlutunarreglur, sem skulu staðfestar af ráðherra, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna. Eins og lög nr. 21/1992 hljóðuðu í upphafi var að auki tiltekið í 5. mgr. 6. gr. þeirra að námsmenn, sem fengju lán frá áfrýjanda, skyldu undirrita skuldabréf við lántöku og leggja fram yfirlýsingu minnst eins manns um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu þess ásamt vöxtum og verðtryggingu allt að tiltekinni hámarksfjárhæð. Með 1. gr. laga nr. 78/2009, sem tóku gildi 31. júlí 2009, var 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 breytt í núverandi horf, en samkvæmt því ákvæði geta námsmenn, sem teljast lánshæfir samkvæmt reglum stjórnar áfrýjanda, fengið frá honum lán gegn útgáfu skuldabréfs og er þar ekki áskilið að sett sé nokkur ábyrgð. Námsmaður, sem fullnægir á hinn bóginn ekki skilyrðum um lánshæfi, getur allt að einu fengið lán gegn því að leggja fram ábyrgð, sem áfrýjandi telur viðunandi, en hún getur meðal annars falist í yfirlýsingu ábyrgðarmanns um sjálfskuldarábyrgð á námsláni ásamt vöxtum og verðbótum allt að tiltekinni fjárhæð. Samkvæmt grein 5.1.8. í úthlutunarreglum áfrýjanda, sem voru í gildi þegar María Dungal gaf út fyrrgreint skuldabréf til hans, taldist námsmaður ekki lánshæfur ef hann var í vanskilum við áfrýjanda, bú hans var til gjaldþrotaskipta eða hann taldist af öðrum ástæðum bersýnilega ótryggur lántaki, sbr. auglýsingu mennta- og menningarmálaráðherra nr. 533/2010 um staðfestingu úthlutunarreglna Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir skólaárið 2010-2011. Í málinu hefur ekki verið vefengt að áfrýjandi hafi mátt líta á Maríu sem bersýnilega ótryggan lántaka í þessum skilningi sökum vanefnda, sem vanskilaskrá hafi leitt í ljós að hún hafi staðið í við annan eða aðra lánardrottna, og að áfrýjandi hafi af þeim sökum haft fullnægjandi stoð í 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 fyrir því að setja það skilyrði fyrir lánveitingu til Maríu að ábyrgð yrði lögð fram fyrir efndum hennar á þeirri skuldbindingu við hann. Áður en framangreind breyting var gerð á lögum nr. 21/1992 með 1. gr. laga nr. 78/2009 höfðu lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn tekið gildi 4. apríl 2009. Í 1. mgr. 2. gr. síðastnefndu laganna er berum orðum tekið fram að þau nái meðal annars til lánveitinga áfrýjanda í tilvikum, þar sem annar maður gengst í ábyrgð til að tryggja efndir lántaka. Í lögum nr. 32/2009 er ekki mælt fyrir um nokkra sérstöðu áfrýjanda meðal lánveitenda með tilliti til einstakra skyldna þeirra gagnvart ábyrgðarmönnum. Af þessum sökum ná til áfrýjanda ákvæði 1. mgr. 4. gr. laganna um skyldu lánveitanda til að meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán í greiðslumati, sem ber að byggja á viðurkenndum viðmiðum, sbr. og reglugerð nr. 920/2013 um lánshæfis- og greiðslumat, sem sett var á grundvelli heimildar í þeirri málsgrein. Af sömu ástæðu ná einnig til áfrýjanda ákvæði 2. mgr. 4. gr. laganna um skyldu lánveitanda til að ráða manni skriflega frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendir til að lántaki muni ekki geta efnt skuldbindingar sínar. Í málinu er óumdeilt að áður en stefnda gekkst 1. desember 2010 í sjálfskuldarábyrgð fyrir væntanlegum námslánum Maríu lagði áfrýjandi ekki annað mat á greiðslugetu þeirrar síðarnefndu en það, sem fólst í mati á því hvort hún teldist lánshæf í skilningi áðurnefndrar greinar 5.1.8. í þágildandi úthlutunarreglum hans. Í ljósi 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 verður að líta svo á að slíku mati áfrýjanda á lánshæfi sé ætlað að ráða niðurstöðu um greinarmun á umsækjendum, sem geta annars vegar fengið frá honum námslán án nokkurrar tryggingar eða ábyrgðar af hendi annarra, og þeim, sem hins vegar geta ekki fengið slíkt lán nema trygging eða ábyrgð sé sett fyrir endurgreiðslu þess. Falli umsækjandi í fyrrnefnda hópinn geti áfrýjandi veitt honum námslán gegn útgáfu skuldabréfs án þess að hafast nokkuð frekar að við könnun á getu hans til að endurgreiða lánið. Falli á hinn bóginn umsækjandi í síðarnefnda hópinn og hafi hann í hyggju að uppfylla skilyrði fyrir námsláni með því að fá annan mann til að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir þeirri skuldbindingu sinni verði áfrýjandi að fara eftir fyrirmælum laga nr. 32/2009, þar á meðal með því að meta hæfi umsækjandans til að standa í skilum með lánið, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Þótt annað sé ekki sagt í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 um hvers efnis greiðslumat skuli vera en að það eigi að byggja á viðurkenndum viðmiðum verður að gæta að því að í starfsemi fjármálafyrirtækja og ýmissa annarra lánveitenda hafa slík möt verið gerð um langt árabil í tengslum við lánveitingar til einstaklinga og er það nú að auki í ýmsum tilvikum skylt, sbr. 10. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán. Má í því ljósi slá föstu að fyrir gildistöku laga nr. 32/2009 hafi verið fyrir hendi viðteknar venjur um á hvaða grundvelli mat væri byggt á getu lántaka til að standa við greiðslur samkvæmt lánssamningi. Er og ljóst að inntak þeirra venja birtist nú í 1. mgr. 6. gr. áðurnefndrar reglugerðar nr. 920/2013. Verður að líta svo á að þetta séu þau viðurkenndu viðmið, sem skírskotað er til með orðum 2. málsliðar 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009. Mat áfrýjanda á lánshæfi umsækjanda um námslán eftir fyrrnefndu ákvæði úthlutunarreglna hans er sem áður segir bundið við athugun á því hvort umsækjandinn sé í vanskilum við áfrýjanda vegna eldra láns, hvort bú umsækjandans sé til gjaldþrotaskipta og hvort hann geti af öðrum sökum talist bersýnilega ótryggur lántaki. Áfrýjandi hefur ekki gert grein fyrir því hvort könnun á síðastnefnda atriðinu taki til nokkurs annars en athugunar á vanskilaskrá. Sé lagt til grundvallar að ekki sé gætt að öðru í tengslum við það skilyrði fer því fjarri að mat áfrýjanda á lánshæfi sé reist á upplýsingum meðal annars um áætlaðar tekjur umsækjanda á endurgreiðslutíma láns, aðrar skuldir hans og endurgreiðslur af þeim, eignir hans og áætlaðan framfærslukostnað, svo sem gera verður við greiðslumat eftir viðurkenndum viðmiðum í fyrrgreindum skilningi. Verður og að gæta að því að atriði, sem valdið gætu að umsækjandi um námslán teldist ekki fullnægja skilyrðum áfrýjanda um lánshæfi, svo sem vanskil á afborgun af eldra láni frá áfrýjanda eða færsla á vanskilaskrá vegna vanefnda á skuldbindingu við annan lánardrottin, þyrftu ekki um leið að valda því að umsækjandinn teldist að gerðum útreikningi ófær í framtíðinni um að endurgreiða lán frá áfrýjanda og stæðist þar með ekki greiðslumat. Þótt aðstæður umsækjenda um lán frá áfrýjanda kunni í mörgum tilvikum að vera með þeim hætti vegna ungs aldurs þeirra og takmarkaðrar þátttöku á vinnumarkaði að örðugt sé að koma við mati af framangreindum toga á greiðslugetu þeirra í framtíð, sem á þó ekki við um það tilvik sem mál þetta varðar, getur áfrýjandi ekki á þeim grunni látið gagnvart skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 með öllu ógert að gera slíkt mat, þótt á takmörkuðum forsendum yrði byggt, og stuðst þess í stað eingöngu við lánshæfismat sitt. Að virtu framangreindu verður að leggja til grundvallar að áfrýjandi hafi ekki réttilega uppfyllt skyldu sína samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 til að leggja mat á getu Maríu til að endurgreiða námslán, sem hún sótti um 25. mars 2010, áður en stefnda gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld hennar við áfrýjanda. Að fenginni þeirri niðurstöðu getur ekki reynt á hvort áfrýjandi hafi jafnframt brotið gegn skyldu samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar til að ráða stefndu skriflega frá því að gangast undir þessa ábyrgð, svo sem stefnda hefur einnig borið fyrir sig, enda getur ekki komið til slíkrar skyldu nema greiðslumat hafi verið gert og það bendi til að lántaki muni ekki geta efnt skuldbindingar sínar. Um afleiðingar þess að áfrýjandi hafi með áðurgreindum hætti vanrækt gagnvart stefndu skyldu sína samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 er þess að gæta að hvergi er í þeim lögum kveðið á um hverju það geti varðað. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur ítrekað verið slegið föstu að ógilding ábyrgðarskuldbindingar vegna atvika sem þessara geti því aðeins komið til álita að þeirri afleiðingu verði fundin stoð í almennum reglum samningaréttar og þá einkum ákvæðum III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Því til samræmis verður að taka afstöðu til þeirrar málsástæðu stefndu að efni séu til að víkja til hliðar skuldbindingu hennar við áfrýjanda með stoð í 36. gr. síðastnefndra laga. Við mat á því hvort það geti talist ósanngjarnt af áfrýjanda í skilningi þess lagaákvæðis að bera fyrir sig yfirlýsingu stefndu 1. desember 2010 um sjálfskuldarábyrgð á skuld Maríu við hann er til þess að líta að ekkert liggur fyrir í málinu um fjárhag þeirrar síðarnefndu, efnahag hennar eða tekjur, hvorki nú né þegar stefnda tók þessa skuldbindingu á sínar herðar, og verður því ekkert ráðið um hvað kynni að hafa verið leitt í ljós með réttilega gerðu mati á greiðslugetu Maríu. Þótt ætla verði að almennt hljóti ábyrgðarmaður í þeim fjölskyldutengslum við lántaka, sem stefnda er við Maríu, að búa yfir nokkurri vitneskju um aðstæður hans og fjárhag er ófært að byggja á því að greiðslumat hefði ekki í þessu tilviki getað leitt í ljós atriði, sem áhrif gætu haft á töku ákvörðunar um hvort stofna ætti til ábyrgðarskuldbindingar. Þegar af þessum ástæðum er því óhjákvæmilegt að láta vanrækslu áfrýjanda valda því að yfirlýsingu stefndu um sjálfskuldarábyrgð verði vikið til hliðar og staðfesta þar með niðurstöðu hins áfrýjaða dóms. Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, greiði stefndu, Auði Dungal Jónsdóttur, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Sératkvæði Viðars Más Matthíassonar I Stefnda höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi 30. september 2016 og gerir þá kröfu að felld verði úr gildi sjálfskuldarábyrgð sem hún gekkst í 1. desember 2010 á námsláni nr. G-114035 sem áfrýjandi veitti dóttur hennar, Maríu Dungal. Ábyrgðin nam allt að 7.000.000 krónum, sem taka skyldi breytingum til samræmis við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunntölunni 363,8. Áður en málið var höfðað beindi María Dungal því til áfrýjanda í bréfi 24. október 2015 að sjálfskuldarábyrgð stefndu á áðurnefndu námsláni sínu yrði felld niður. Ástæðu þess að fella skyldi sjálfskuldarábyrgðina niður tilgreindi María að áfrýjandi hefði vanrækt að meta greiðslugetu hennar sem lántaka samkvæmt b. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Í bréfinu var fullyrt að sjálfskuldarábyrgð stefndu væri ógild þar sem ,,ófrávíkjanlegum skilyrðum 4. og 5. gr. laga um ábyrgðarmenn“ hefði ekki verið fullnægt.  Í stefnu til héraðsdóms reisti stefnda ógildingarkröfu sína á framangreindri röksemd og jafnframt þeirri að áfrýjandi hefði ekki, í ljósi þess að hann taldi Maríu ekki lánshæfa samkvæmt reglum stjórnar sjóðsins, farið að fyrirmælum 2. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 og ráðið stefndu með skriflegri tilkynningu frá því að gangast í ábyrgð á námsláninu til dóttur hennar. Í stefnunni var á hinn bóginn hvergi byggt á þeirri málsástæðu að ef stefnda hefði fengið slíka skriflega tilkynningu hefði það leitt til þess að hún hefði ekki gengist í sjálfskuldarábyrgðina. Í héraðsgreinargerð áfrýjanda var því á hinn bóginn haldið fram að af atvikum málsins yrði ekki annað ráðið en að stefnda ,,hefði undirgengist ábyrgðina þótt lántakinn hefði, til viðbótar við að standast ekki lögbundið mat [áfrýjanda] á hæfi til að standa í skilum og teljast þannig ólánshæfur, ekki staðist annars konar mat.“ Af gögnum málsins og endurritum þinghalda í héraði kemur hvergi fram að stefnda hafi andmælt þeirri málsástæðu áfrýjanda að hún hefði gengist undir sjálfskuldarábyrgðina á láni dóttur sinnar óháð niðurstöðu um lánshæfi eða greiðslumat. Því var ekki haldið fram af hálfu stefndu að tilkynning samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 hefði einhverju breytt um þessa afstöðu hennar. Í reifun héraðsdóms á málsástæðum og lögfræðilegum rökum málsaðila kemur heldur ekki fram að stefnda hafi reist mál sitt á þessari málsástæðu. Þrátt fyrir að framangreindri málsástæðu hafi þannig ekki verið teflt fram af hálfu stefndu fyrir héraðsdómi reisir dómurinn niðurstöðu sína á henni. Í dóminum segir að margt bendi til að vilji stefndu hafi staðið til þess að tryggja dóttur sinni námslán án tillits til raunverulegrar greiðslugetu hennar. Ekkert verði þó um það fullyrt ef áfrýjandi, sem opinber lánastofnun, hefði með skriflegum hætti ráðið henni frá slíkri ábyrgð með vísan til þess að greiðslumat fyrirhugaðs lántaka samkvæmt viðurkenndum viðmiðum hefði reynst neikvætt, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009. Eins og málið horfi við taldi dómurinn því ekki unnt að leggja til grundvallar að áfrýjanda ,,hafi tekist sönnun þess að áðurlýst brot hafi ekki haft þýðingu um þá ákvörðun stefnanda að takast á hendur hina umdeildu sjálfskuldarábyrgð.“ Var þegar af þessum ástæðum fallist á ógildingu yfirlýsingar stefndu um sjálfskuldarábyrgðina. Eins og rakið er að framan reisti stefnda málatilbúnað sinn í héraði ekki á þeirri málsástæðu að ef hún hefði fengið skriflega tilkynningu frá áfrýjanda samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 þar sem henni var ráðið frá því að gangast í ábyrgð á námsláni dóttur sinnar, þá hefði hún ekki gert það. Héraðsdómi var því samkvæmt 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ekki heimilt að byggja niðurstöðu sína á þessari málsástæðu. Áfrýjandi hafði, í ljósi þess hvernig stefnda hagaði málatilbúnaði sínum, ekkert tilefni til þess að krefjast sönnunarfærslu um það hvaða áhrif slík skrifleg tilkynning hefði haft. Var sem endranær ekkert tilefni til að freista þess að sanna atvik sem ekki voru umdeild með aðilum. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur það almennt leitt til ómerkingar héraðsdóms sé hann reistur á málsástæðum sem málsaðilar hafa ekki teflt fram, sbr. til dæmis dóma réttarins 14. apríl 2011 í máli nr. 560/2010, 10. nóvember 2011 í máli nr. 330/2011, 1. desember 2016 í máli nr. 186/2016 og 26. apríl 2018 í máli nr. 411/2017. Samkvæmt öllu framansögðu tel ég að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til munnlegs flutnings og dómsálagningar á ný. Að fenginni slíkri niðurstöðu tel ég rétt að fella niður málskostnað fyrir Hæstarétti. II Samkvæmt 6. málslið 2. mgr. 189. gr. laga nr. 91/1991 ber mér einnig að greiða atkvæði um efni málsins. Ég er sammála reifun meirihluta dómenda á atvikum í I. kafla dómsins og mestum hluta þess sem fram kemur í II. kafla hans til og með þeirri ályktun að leggja verði til grundvallar að áfrýjandi hafi ekki réttilega uppfyllt skyldu sína samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 til að meta getu Maríu Dungal til að endurgreiða námslán, sem hún sótti um 25. mars 2010, áður en stefnda gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld hennar við áfrýjanda. Ég tel á hinn bóginn að við þær aðstæður hefði áfrýjandi, þótt hann teldi sig ranglega ekki þurfa að framkvæmda sérstakt mat á ætlaðri greiðslugetu Maríu heldur látið nægja að telja hana ekki lánshæfa samkvæmt eigin reglum, borið að senda stefndu skriflega tilkynningu samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009, þar sem sjóðurinn réði henni frá því að gangast í sjálfskuldarábyrgðina. Eins og rakið er í I. kafla þessa sératkvæðis byggði stefnda ekki á því í málatilbúnaði sínum fyrir héraðsdómi að slík tilkynning hefði haft einhver áhrif á ákvörðun hennar um að gangast í sjálfskuldarábyrgðina. Er ekki heldur að sjá í gögnum málsins að málsástæðu áfrýjanda, um að engu hefði skipt um ákvörðunina hvort María hefði ekki talist lánshæf eða ekki staðist lögboðið greiðslumat, hafi verið mótmælt. Þvert á móti var eingöngu byggt á því af hálfu stefndu í héraði að brot áfrýjanda á 4. og 5. gr. laga nr. 32/2009 ættu ein og sér að leiða til ógildingar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur því ítrekað verið hafnað að ógilda löggerninga sem falið hafa í sér sjálfskuldarábyrgð eða veitingu veðleyfis af hálfu löggerningsgjafa, þrátt fyrir að lánveitandi hafi ekki farið að reglum um greiðslumat eða sinnt upplýsingaskyldu við öflun ábyrgða eða veðleyfa, ef sannað þykir eða ella óhætt að leggja til grundvallar dómi að það hefði engu breytt um hvort ábyrgð eða veðleyfið var veitt. Má um þetta meðal annars vísa til dóma réttarins 21. október 2010 í máli nr. 116/2010 og 19. febrúar 2015 í máli nr. 481/2014.  Eins og málatilbúnaði aðila var háttað í héraði tel ég að leggja verði til grundvallar að eiginlegt greiðslumat og tilkynning samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 hefði engu breytt um þá ákvörðun stefndu að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir námsláni dóttur hennar. Þess vegna komi ekki til álita að ógilda yfirlýsingu hennar um ábyrgð á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Samkvæmt öllu framansögðu tel ég að efnisleg niðurstaða eigi að vera sú að áfrýjandi verði sýknaður af kröfu stefndu. Í þessu tilvik tel ég rétt, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.                                                       Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2017. Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 30. september 2016 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 22. febrúar 2017. Stefnandi er Auður Dungal Jónsdóttir, Stjörnugróf 27, Reykjavík. Stefndi er Lánasjóður íslenskra námsmanna, Borgartúni 21, Reykjavík.                 Stefnandi krefst þess að „felld verði úr gildi sjálfskuldarábyrgð sú sem hún veitti, með undirritun á skuldabréf vegna námsláns, númer G-114035, útgefnu af Maríu Dungal, kt. [...], upphaflega að fjárhæð 7.000.000 kr., til stefnda, dags. 1.12.2010“. Hún krefst einnig málskostnaðar.                 Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar. Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika Efnislegur ágreiningur aðila snýr að sjálfsskuldarábyrgð sem stefnandi tókst á hendur gagnvart stefnda með undirritun yfirlýsingar þess efnis á skuldabréf sem dóttir hennar, María, gaf út 1. desember 2010 vegna námsláns sem hún hafði sótt um hjá stefnda. Atvik málsins eru ágreiningslaus. Fyrrnefnd dóttir stefnanda sótti um námslán hjá stefnda í mars 2010 vegna náms í viðskiptafræði í erlendis. Á umsókninni var stefnandi tilgreind sem umboðsmaður lántaka með fullt og ótakmarkað umboð. Jafnframt fólst í umboðinu heimild til að útvega lántaka ábyrgðarmann. Dóttir stefnanda taldist ekki lánshæf samkvæmt reglum stefnda og var því gerð krafa um viðunandi ábyrgð með bréfi 25. maí 2010 til stefnanda. Þar sagði meðal annars: „Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur yfirfarið umsókn þína um námslán. Samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins, grein 5.1.8, verða lánþegar að vera í skilum við sjóðinn og bú þeirra mega ekki vera til gjaldþrotameðferðar eða þeir teljast af öðrum ástæðum bersýnilega ótryggir lántakendur. [/] Nafn þitt er á vanskilaskrá Lánstrausts hf. og því að svo stöddu ekki hægt að afgreiða til þín fyrirhugað námslán. Hafir þú gert upp eða leiðrétt þau mál sem valda því að nafn þitt er á skránni ertu vinsamlegast beðinn að hafa samband við Lánstraust hf. [...] Teljist námsmaður ótryggur lántakandi skv. ofangreindu getur hann sótt um undanþágu frá þessari grein enda sýni hann fram á annað, eða leggi fram ábyrgðir sem sjóðurinn telur viðunandi. Tekið skal fram að ábyrgðarmaður mun verða upplýstur um greiðslugetu þína skv. lögum nr. 32/2009. Þær upplýsingar verða í formi stöðu skv. vanskilaskrá Lánstrausts hf.“ Samhljóða bréf var sent stefnanda sem umboðsmanni lántakans 16. júlí 2010. Samkvæmt greinargerð stefnda var kennitölu námsmannsins flett upp á vef Creditinfo Lánstrausts hf. þann dag og staðfest að hún væri á vanskilaskrá. Hinn 19. ágúst 2010 sendi dóttir stefnanda starfsmanni stefnda tölvuskeyti, þar sem hún óskaði eftir leiðbeiningum, þar á meðal hvort hún gæti fengið lán ef hún aflaði ábyrgðarmanns. Með tölvuskeyti 25. sama mánaðar svaraði starfsmaður stefnda og upplýsti að námslán yrði væntanlega afgreitt, að öðrum skilyrðum uppfylltum, ef lántakinn væri kominn af vanskilaskrá eða ábyrgðarmaður skráður. Sama dag svaraði dóttir stefnanda tölvuskeyti stefnda og upplýsti að ábyrgðarmaður hennar vegna lánsins yrði stefnandi. Hinn 1. september 2010 mun kennitölu námsmannsins aftur hafa verið flett upp á vef Creditinfo Lánstrausts hf. og staðfest að hún væri skráð á vanskilaskrá. Þennan sama dag var stefnanda sent bréf, þar sem upplýst var formlega um tilnefningu hennar sem ábyrgðarmanns. Í bréfinu sagði orðrétt: „Þú hefur verið tilnefndur sem ábyrgðarmaður fyrir námsmann sem hefur óskað eftir námsláni hjá LÍN. Skv. 5. gr. laga nr. 32/2009 ber LÍN að senda öllum ábyrgðarmönnum meðfylgjandi upplýsingar. Meðfylgjandi er m.a. greiðslusaga námsmannsins skv. Lánstrausti en þar sem ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um greiðslugetu hans til framtíðar er litið svo á að þessar upplýsingar séu fullnægjandi. Athygli er vakin á því að þar sem endurgreiðsla á námsláninu hefst ekki fyrr en tveimur árum eftir námslok mun greiðslugeta námsmannsins verða önnur til framtíðar.“ Ekki er um það deilt að með bréfinu fylgdi útprent af stöðu lántaka á vanskilaskrá samkvæmt Creditinfo Lánstrausti hf. Jafnframt fylgdi yfirlýsing með fyrirsögninni „Upplýsingar til ábyrgðarmanns skv. 5. gr. laga nr. 32/2009“ sem stefndi óskaði eftir að yrði undirrituð og send stefnda. Hinn 1. desember 2010 gaf stefnandi út skuldabréf vegna námsláns fyrir hönd dóttur sinnar. Jafnframt undirritaði hún yfirlýsingu um sjálfsskuldarábyrgð fyrir 7.000.000 króna að hámarki, bundinni vísitölu neysluverðs. Sú yfirlýsing sem stefnandi undirritaði var svohljóðandi: „Ábyrgðarmaður hefur verið upplýstur um greiðslugetu lántaka o.fl. atriði skv. 5. gr. laga nr. 32/2009 og staðfest það með undirritun sinni á sérstaka yfirlýsingu þar að lútandi sem skoðast sem hluti þessa skuldabréfs.“ Hinn 15. sama mánaðar, eða um tveimur vikum eftir útgáfu skuldabréfsins, undirritaði stefnandi fyrrgreinda yfirlýsingu með fyrirsögninni „Upplýsingar til ábyrgðarmanns skv. 5. gr. laga nr. 32/2009“. Í yfirlýsingunni segir meðal annars: „LÍN hefur upplýst undirritaðan um greiðslusögu lántakanda í samræmi við 4. gr. laga nr. 32/2009 eins og fram kemur á meðfylgjandi fylgiskjali. Frekari upplýsingar um greiðslugetu lántakanda er ekki að fá. Vakin er athygli á því að umrætt lán mun ekki greiðast fyrr en 2 árum eftir að námi lýkur og þá verða aðstæður lántakanda aðrar en í dag, þ.á.m. greiðslugeta.“ Hinn 5. janúar 2011 var stefnanda send staðfesting á sjálfskuldarábyrgðinni. Í bréfinu segir orðrétt: „Öllum sem ganga í sjálfskuldarábyrgð fyrir námslán hjá LÍN er sent bréf sem þetta til staðfestingar á ábyrgð þeirra. Fjallað er um ábyrgð námslána, réttindi og skyldur ábyrgðarmanna í kafla 5.3. í úthlutunarreglum LÍN. Þær má m.a. nálgast á vef sjóðsins (www.lin.is).“ Stefnandi fékk send yfirlit sem ábyrgðarmaður frá stefnda 30. janúar 2012, 4. febrúar 2013, 13. febrúar 2014, 23. febrúar 2015 og 29. mars 2016. Á yfirlitinu 13. febrúar 2014 var tekið fram að skuldabréfið væri í vanskilum og staða ábyrgðar næmi 4.315.599 krónum. Með bréfi 24. október 2015 óskaði dóttir stefnanda eftir því að stefndi felldi niður ábyrgð stefnanda á námsláni hennar. Stefndi svaraði framangreindu erindi með bréfi 17. nóvember þess árs, þar sem beiðninni var hafnað. Við aðalmeðferð málsins kom fram að téð lán væri ekki í vanskilum að svo stöddu en engu að síður væri talið fyrirsjáanlegt að reyna kynni á ábyrgð stefnanda vegna lánsins. Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi reisir kröfu sína á því að ábyrgð sú sem hún gekkst undir með undirritun sinni á skuldabréfið sé ógild þar sem stefndi hafi brotið með veigamiklum hætti gegn skráðum og óskráðum reglum, einkum 4. og 5. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eins og sú grein hafi verið skýrð í dómum Hæstaréttar þar sem skorið hafi verið úr gildi sjálfsskuldarábyrgðar. Stefnandi vísar til þess að greiðslumat hafi aldrei verið gert og stefnandi ekki upplýstur um þau atriði sem fram koma í 5. gr. laga nr. 32/2009. Stefnandi byggir á því að í bréfi stefnda, dags. 17. nóvember 2015, felist viðurkenning á því að ekkert greiðslumat hafi verið framkvæmt. Stefnandi mótmælir þeirri afstöðu stefnda að þegar atvik málsins gerðust hafi ekki legið fyrir hvernig standa hafi átt að greiðslumati sökum þess að þá hafði ekki verið sett reglugerð um framkvæmd slíks mats. Telur stefnandi að stefnda hafi engu að síður borið að fylgja viðurkenndum aðferðum í þessu sambandi en slíkar aðferðir hafi legið fyrir og verið stefnda vel ljósar. Í hið minnsta sé ljóst að það að leggja fram eitt skjal, þ.e. útprentun um vanskil lántaka, geti undir engum kringumstæðum talist fullnægjandi greiðslumat í skilningi laga nr. 32/2009. Þessu til stuðnings er vísað til athugasemdar við 4. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 32/2009 þar sem segir meðal annars að aðalatriðið sé að matið sé forsvaranlegt og byggist á viðurkenndum viðmiðum. Um hinar viðurkenndu venjur vísar stefnandi meðal annars til núgildandi reglugerðar um lánshæfis- og greiðslumat nr. 920/2013, einkum 6.-8. gr. reglugerðarinnar. Stefnandi byggir á því að um fastmótaðar og vel þekktar venjur sé að ræða sem stefnda hafi borið að fylgja. Hafi stefnda samkvæmt þessu hið minnsta borið að reikna út kostnað við framfærslu lántaka í samræmi við grunnviðmið í íslenskum neysluviðmiðum auk áætlana um rekstrarkostnað bifreiða og húsnæðis, eins og við á. Auk framangreinds byggir stefnandi á því að stefndi hafi brotið gegn 2. mgr. og 3. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009. Sú skylda hafi hvílt á stefnda að ráða stefnanda frá því með skriflegum hætti að gangast í ábyrgðina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. Sömu skyldu megi í raun leiða af 3. mgr. 4. gr., en þar segi að með sama hætti skuli lánveitandi ráða ábyrgðarmanni frá því að undirgangast ábyrgð ef aðstæður ábyrgðarmanns gefa tilefni til. Þar sem lántakinn hafi verið á vanskilaskrá verði að telja nokkuð ljóst að slíkar aðstæður voru til staðar hvað lántakann varðar. Það eina sem komi fram í gögnum stefnda sé að stefndi hafi upplýst stefnanda um greiðslusögu lántakandans og að frekari upplýsingar um greiðslugetu lántakans væri ekki að fá. Byggir stefnandi á því að hér sé um að ræða óundanþægar reglur um veitingu ábyrgðar sem fylgja ber þegar greiðslumat bendir til að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar, sbr. úrskurð Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki nr. 127/2012. Telur hann að ef stefnda yrði heimilað, bæði að láta hjá líða að framkvæma greiðslumat sem og að sleppa því að ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð, sé ljóst að framangreind ákvæði 4. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, yrðu í raun dauð og ómerk og hefðu engin raunveruleg réttaráhrif. Til viðbótar öllu framangreindu telur stefnandi að stefndi hafi ekki í hvívetna fylgt ákvæðum 5. gr. laga nr. 32/2009. Vísar hann einkum til þess að stefndi hafi ekki veitt stefnanda upplýsingar um „hvort ábyrgðarmaður geti orðið sér úti um ábyrgðartryggingu í stað ábyrgðar“, sbr. h-lið 1. mgr. greinarinnar. Einnig telur stefnandi ekki ljóst hvort stefnandi hafi uppfyllt skyldu sína til að senda tilkynningar á grundvelli 7. gr. laganna, m.a. áramótayfirlit sbr. d-lið 1. mgr. 7. gr. Samkvæmt öllu framangreindu verði að telja ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju fyrir stefnda að bera fyrir sig samþykki stefnanda við því að gangast í framangreinda ábyrgð, þannig að uppfyllt séu skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndi hafi haft mikla hagsmuni af því að ábyrgðin væri veitt og hún verið í hans þágu. Öll skjöl hafi verið samin af stefnda sem bjó yfir sérfræðiþekkingu á sviði fjármálaþjónustu. Hvað varðar efni samningsins og atvik við samningsgerðina er bent á að stefnandi naut einskis af láninu. Þvert á móti tók hún eingöngu áhættu með gerningum án nokkurs ávinnings. Stefnandi hafi ekki fengið þær upplýsingar eða aðvaranir sem stefnda bar að afhenda. Staða aðila hafi verið með þeim hætti að stefnandi sé einstaklingur með enga þekkingu á lánastarfsemi á meðan stefndi sé lánastofnun sem hafi á að skipa sérfróðum starfsmönnum með sérfræðiþekkingu á lánamarkaði. Á stefnda hafi hvílt ákveðnar skyldur sem hann hafi brotið. Séu því uppfyllt skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 til að víkja umræddri ábyrgð til hliðar. Málsástæður og lagarök stefnda                 Stefndi byggir varnir sínar á því að umrædd ábyrgð sé ekki ógildanleg á grundvelli ógildingareglna laga nr. 7/1936. Það leiði ekki sjálfkrafa til þess að ábyrgðarsamningur verði ógiltur í heild eða að hluta að lánveitandi hafi við gerð hans brugðist skyldum sínum. Finna þurfi slíkri ógildingu stoð í reglum samningaréttar ef leysa eigi ábyrgðarmann undan skyldum sínum samkvæmt ábyrgðarsamningi. Öll sönnunarbyrði fyrir því að um ógilda ábyrgðarskuldbindingu sé að ræða hvílir á stefnanda en hún hefur í engu sýnt fram á að skilyrði til ógildingar samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 séu uppfyllt. Þvert á móti hafi stefnandi uppi rangar og haldlausar staðhæfingar, svo sem að frumkvæði ábyrgðarskuldbindingarinnar hafi verið hjá stefnda og að stefnandi hafi ekki fengið upplýsingar er lúta að ábyrgðinni. Stefndi vísar til þess að stefnanda hafi verið kunnugt um að lántaki stóðst ekki mat stefnda á hæfi lántakans til að standa í skilum og var á vanskilaskrá. Þá hafi stefnanda verið veittar þær upplýsingar sem kveðið er á um í 5. gr. laga nr. 32/2009. Stefnandi hafi einnig verið umboðsmaður lántaka og fengið öll samskipti í aðdraganda og í tengslum við veitingu lánsins og sjálfsskuldarábyrgðarinnar. Stefnanda hafi verið ljóst að lánið var ætlað til framfærslu lántaka, dóttur hennar, og veiting ábyrgðarinnar forsenda lánveitingarinnar. Ekki sé gerð krafa um ábyrgð af hálfu stefnda nema mat samkvæmt 4. gr. laga nr. 32/2009 leiði til þeirrar niðurstöðu að lántaki sé ótraustur og bendi þar með til þess að hann geti ekki efnt skuldbindingar sínar. Þrátt fyrir þessar upplýsingar hafi stefnandi ákveðið að undirgangast ábyrgðina. Af framangreindu verði ekki annað ráðið en að stefnandi hefði undirgengist ábyrgðina þótt lántakinn hefði, til viðbótar við að standast ekki lögbundið mat stefnda á hæfi til að standa í skilum og teljast þannig ólánshæfur, ekki staðist annars konar mat. Er þessu til stuðnings vísað til tilgreindra dóma Hæstaréttar. Heildarmat á aðstæðum aðila samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 geti ekki leitt til annarrar niðurstöðu en þeirrar að sjálfsskuldarábyrgð stefnanda teljist gild. Þessu öllu til viðbótar liggi fyrir að stefndi fór í einu og öllu eftir lögum og reglum um stefnda og lögum um ábyrgðarmenn þegar stefnandi veitti þá sjálfsskuldarábyrgð sem hér um ræðir. Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi staðfest sjálfsskuldarábyrgð sína með undirritun sinni á fyrrgreint skuldabréf. Þá hafi stefnandi ritað undir sérstaka yfirlýsingu af þessu tilefni. Samandregið hafi stefnandi, með undirritun sinni á nefnd skjöl, staðfest að hafa verið upplýst um greiðslugetu lántaka og önnur atriði samkvæmt 5. gr. laga nr. 32/2009 og að hafa fengið upplýsingar um greiðslusögu lántaka samkvæmt 4. gr. laganna, þ.e. skráningu á vanskilaskrá Creditinfo Lánstrausts hf. Sannað sé að stefnanda hafi verið ljóst að lántakinn var ekki metinn lánshæfur samkvæmt reglum stjórnar stefnanda eða henni hafi í öllu falli mátt vera þetta ljóst. Er vísað til þess að úthlutunarreglur stefnda séu settar af stjórn sjóðsins, staðfestar af ráðherra og birtar með auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda og sé að auki að finna á heimasíðu stefnanda. Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi ekki á nokkrum tímapunkti sett sig í samband við stefnda og mótmælt gildi ábyrgðarinnar eða framkvæmd stefnda hvað hana varðar. Þvert á móti hafi stefnandi frá upphafi gegnt hlutverki umboðsmanns lántaka og þannig móttekið athugasemdalaust erindi og upplýsingar um stöðu lántakans í aðdraganda ábyrgðarveitingarinnar, upplýsingar um stöðu lánsins og ábyrgðarinnar. Þá hafi lántaki ekki gert tilraun til þess að sýna fram á að niðurstaða mats stefnda hafi verið röng, þ.e. sú niðurstaða að lántaki væri ótraustur. Málsástæður stefnanda, sem lúta að formskilyrðum laga um ábyrgðarmenn, verði að skoða í þessu ljósi. Stefndi mótmælir því að hafa brotið gegn 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 og leggur áherslu á að með ákvæðinu hafi ekki verið slegið föstum nákvæmum viðmiðum um framkvæmd greiðslumats. Þvert á móti komi fram í athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 32/2009 að talið hafi verið óþarft að slá föstum slíkum viðmiðum sem leggja beri til grundvallar greiðslumati enda geti framkvæmd í þeim efnum verið háð blæbrigðum lánveitanda. Stefndi bendir á að reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat nr. 920/2013 eigi ekki við um stefnda og komi ekki til skoðunar í málinu. Þá sé fráleit tilvísun stefnanda til neysluviðmiða Rágjafarstofu um fjármál heimilanna o.fl., sem sett sé fram án nokkurs rökstuðnings eða gagna. Stefndi leggur áherslu á að sérlög gildi um starfsemi stefnda sem mæli skýrlega fyrir um hvernig beri að haga mati á því hvort námsmenn teljist traustir lántakar, sbr. 5. mgr. 6. gr. laga um nr. 21/1992, eins og greininni var breytt með lögum nr. 78/2009. Einnig er vísað til V. kafla úthlutunarreglna stefnda. Óumdeilt sé að stefndi hafi framkvæmt mat samkvæmt þessum reglum og niðurstaðan verið sú að lántakinn teldist ekki lánshæfur og þar með ótryggur lántaki. Telur stefndi að leggja verði það mat sem fram fór á grundvelli umræddra reglna að jöfnu við greiðslumat samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009. Önnur túlkun sé ekki tæk, enda hafi fyrrnefndar breytingar á lögum um stefnda verið bundnar í lög, eftir að lög um ábyrgðarmenn tóku gildi. Jafnframt beri að líta svo á að greiðslumat stefnda hafi samkvæmt þessu farið fram samkvæmt viðurkenndum viðmiðum í skilningi laganna. Þá vísar stefndi til félagslegs hlutverks síns og telur að kröfur samkvæmt lögum nr. 32/2009 verði að túlka í því ljósi. Það leiði af eðli málsins að aðili sem þurfi lánsfé til framfærslu og sé í námi, hafi að jafnaði takmarkaðar eða engar tekjur. Endurgreiðsla námslána sé einnig háð tekjum og vextir á þeim niðurgreiddir. Stefndi telur ljóst að aðilar sem þurfi lán til eigin framfærslu standist ekki nokkurt greiðslumat ef fyrir liggi að þeir séu á vanskilaskrá og viðkomandi aðilar veiti engar upplýsingar til að hnekkja því mati. Framkvæmd einhvers konar greiðslumats, að fenginni þeirri niðurstöðu að viðkomandi sé á vanskilaskrá, sem felst í skoðun á neysluviðmiðum og rekstrarkostnaði bifreiða og húsnæðis svo sem stefnandi virðist leggja til, sé því bersýnilega tilgangslaust. Stefndi mótmælir því að hafa brotið gegn 2. og 3. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 og vísar til allra þeirra upplýsinga sem stefnanda hafi verið veittar og þeirra yfirlýsinga sem hún hafi undirritað. Er bent á að engin gögn liggi fyrir sem sýni að stefnandi hafi ekki getað gert sér grein fyrir ábyrgð sinni eða annað sem hefði getað gefið stefnda vísbendingar um að aðstæður stefnanda væru með þeim hætti að tilefni væri til að ráða henni frá því að taka á sig ábyrgðina, sbr. ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga um ábyrgðarmenn. Í raun liggi ekki fyrir nein gögn um stöðu stefnanda að nokkru leyti og þegar af þeirri ástæðu sé útilokað að taka ógildingarkröfu hennar til greina. Niðurstaða                 Við aðalmeðferð málsins lýstu lögmenn aðila því yfir að fyrirsjáanlegt væri að áðurlýst sjálfsskuldarábyrgð stefnanda yrði virk. Að þessu virtu verður á það fallist með aðilum að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr stefnukröfu sinni og kemur sjálfkrafa frávísun málsins því ekki til álita. Þá verður að skilja stefnukröfu á þá leið að þess sé krafist að viðurkennt verði að áðurlýst sjálfsskuldarábyrgð stefnanda sé ógild. Svo sem áður greinir gekkst stefnandi í sjálfsskuldaábyrgð fyrir dóttur sína með undirritun yfirlýsingar þess efnis á skuldabréf vegna námsláns hinn 1. desember 2010. Þá ritaði stefnandi undir sérstakt skjal, „upplýsingar til ábyrgðarmanns skv. 5. gr. laga nr. 32/2009“, hinn 15. sama mánaðar. Liggur þannig fyrir að lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, sem tóku gildi 4. apríl þess árs, giltu um stofnun sjálfsskuldaábyrgðar stefnanda, en stefndi er sérstaklega talinn upp sem ein þeirra stofnana sem fellur undir gildissvið laganna, sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna bar stefnda, sem lánveitanda, því að meta hæfi hlutaðeigandi lántaka til að standa í skilum með það lán sem stefnandi hugðist gangast í ábyrgð fyrir og skyldi greiðslumatið byggjast á viðurkenndum viðmiðum. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar bar stefnda, með skriflegum hætti, að ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat benti til þess að lántaki gæti ekki efnt skuldbindingar sínar.                  Með lögum nr. 78/2009, sem tóku gildi 30. júlí 2009, var breytt 6. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Með lögunum var afnumið það fyrirkomulag að námsmenn skyldu almennt leggja fram sjálfsskuldarábyrgð þriðja manns fyrir þeim námslánum sem þeir sæktu um. Þess í stað var kveðið á um að þeir námsmenn, sem ekki teldust lánshæfir samkvæmt reglum stefnda, gætu lagt fram ábyrgðir sem stefndi teldi viðunandi. Var tekið fram að þessar ábyrgðir gætu meðal annars verið sjálfsskuldarábyrgðir á endurgreiðslu námsláns ásamt vöxtum og verðtryggingu þess allt að tiltekinni fjárhæð. Af athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 78/2009 verður ráðið að í lögunum fólst ráðagerð um að hver námsmaður ætti almennt sjálfur að vera ábyrgur fyrir endurgreiðslu eigin námsláns. Í þágu námsmanna, sem ekki uppfylltu lánshæfisskilyrði, væri hins vegar viðhaldið þeim möguleika að láta ábyrgðarmann ábyrgjast endurgreiðslur námsláns eða þá að lögð væri fram bankatrygging eða veðtrygging. Með hliðsjón af hlutverki stefnda samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 verður samkvæmt framangreindu að miða við að með fyrrgreindum lögum nr. 78/2009 hafi verið að því stefnt að námsmönnum, sem ekki uppfylltu lánshæfisskilyrði stefnda, yrðu veitt námslán að uppfylltum nánari skilyrðum um ábyrgðir í úthlutunarreglum stefnda, þ. á m. sjálfsskuldarábyrgðir. Þrátt fyrir þetta var í frumvarpi til laganna, eða lögunum sjálfum, í engu vikið að því hvernig haga bæri framkvæmd sjálfsskuldarábyrgða, sem stofnað yrði til á þessum grundvelli, með hliðsjón af lögum nr. 32/2009 sem þá höfðu tekið gildi. Í ákvæði til bráðabirgða við breytingarlögin nr. 78/2009 var tekið fram að stjórn stefnda skyldi vera bundin af þeim reglum sem fram kæmu í III. kafla laga nr. 32/2009. Að virtum athugasemdum við þá grein verður hins vegar ályktað að ákvæðinu hafi einungis verið ætlað að taka til lána sem veitt höfðu verið fyrir gildistöku laga nr. 32/2009 og skapa ábyrgðarmönnum þessara lána þannig ríkari rétt við innheimtu og mögulega gjaldfellingu. Samkvæmt framangreindu verður ekki ráðið af lögum nr. 21/1992, eins og þeim var breytt með áðurnefndum lögum nr. 78/2009, að með þeim sé vikið frá fyrirmælum laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Verður raunar gagnstæð ályktun dregin af fyrrgreindum athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 78/2009. Gildir þá einu þótt í athugasemdunum sé því ekki veitt athygli hvernig breyttar reglur um ábyrgðarmenn horfa við því hlutverki stefnda að tryggja námsmönnum tækifæri til náms án tillits til efnahags svo og áðurlýstri ráðagerð um að námsmenn, sem ekki uppfylla lánshæfismats, muni halda áfram að afla sjálfsskuldaábyrgðar þriðja manns eða annarra ábyrgða. Með hliðsjón af fortakslausu orðalagi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 verður því að miða við að fyrrgreindar reglur laganna um stofnun ábyrgðar hafi gilt fullum fetum um þá sjálfsskuldarábyrgð sem stefnandi tókst á hendur í desember 2009. Í málinu liggur fyrir að stefndi gekk úr skugga um greiðslugetu hlutaðeigandi námsmanns með því að kanna hvort hann væri á svonefndri vanskilaskrá. Jafnframt er ekki um það deilt að stefnanda, sem fyrirhuguðum ábyrgðarmanni, voru kynntar þær upplýsingar. Þá bera gögn málsins með sér að stefnanda hafi verið kynnt sú afstaða stefnda að námsmaðurinn teldist af þessum ástæðum ekki uppfylla skilyrði lánshæfismats samkvæmt grein 5.1.8 í úthlutunarreglum stefnda, en af því mátti ráða að stefndi teldi hlutaðeigandi námsmann vera bersýnilega ótryggan lántakanda. Ekki er um það deilt að á vegum stefnda fór ekki fram frekari könnun á greiðslugetu umrædds námsmanns en að framan er lýst. Var þannig ekki horft til tekna væntanlegs lántaka eða skulda- og eignastöðu, svo sem almennt er gert við greiðslumat, sbr. til hliðsjónar 6. gr. reglugerðar nr. 920/2013 um lánshæfis- og greiðslumat. Af hálfu stefnda er hins vegar á því byggt að fyrir hafi legið að hlutaðeigandi námsmaður hafi ekki talist uppfylla lánshæfisskilyrði samkvæmt því greiðslumati sem kveðið sé á um í úthlutunarreglum stefnda sem aftur byggist á 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992. Hafi það mat stefnda á greiðslugetu lántakans, sem fram fór á grundvelli téðra reglna, jafnast á við það mat sem fara eigi fram samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009, enda sé skýrlega tekið fram í athugsemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 32/2009 að greiðslumat geti ráðist af blæbrigðum hvers og eins lánveitanda. Jafnvel þótt fallist yrði á það með stefnda að umrætt mat á greiðslugetu hlutaðeigandi lántaka hafi fullnægt kröfu 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 verður að túlka málatilbúnað stefnda á þá leið að þetta mat hafi bent til þess að lántakinn gæti ekki efnt skuldbindingar sínar að mati stefnda. Samkvæmt fortakslausu orðalagi 2. mgr. 4. gr. laganna bar stefnda því, við þessar aðstæður, að ráða stefnanda frá því, með skriflegum hætti, að gangast í ábyrgð fyrir viðkomandi lántaka. Fyrir liggur að slíkri ábendingu var ekki komið áleiðis til stefnanda þegar hún gekkst undir áðurlýsta sjálfsskuldarábyrgð vegna lánsins. Þá getur dómurinn ekki fallist á að þeim margvíslegu upplýsingum sem komið var áleiðis til stefnanda, bæði sem umboðsmanns lántakans og fyrirhugaðs ábyrgðarmanns, verði jafnað til slíkrar formlegrar ábendingar. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að við stofnun áðurlýstrar sjálfsskuldarábyrgðar stefnanda hafi stefndi brotið gegn þeirri ótvíræðu skyldu sinni að ráða stefnanda frá því, með skriflegum hætti, að gangast undir fyrirhugaða sjálfsskuldarábyrgð. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/2009 eru lögin sett með það fyrir augum að draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar. Í lögunum er ekki kveðið á um réttarfylgjur opinberréttarlegs eðlis, svo sem sektir eða réttindamissi lánveitanda. Þrátt fyrir þetta eru í lögunum engar reglur sem mæla fyrir um einkaréttarleg áhrif brota gegn lögunum, svo sem ógildi samnings, sbr. dóm Hæstaréttar 29. nóvember 2012 í máli nr. 213/2012. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögunum segir engu að síður um 5. gr. þeirra að vanræksla lánveitanda við samningsgerð geti leitt til þess að ábyrgðarmaður verði ekki bundinn við samning sinn. Kemur þar einnig fram að þetta eigi við ef vitneskja um atriði sem lánveitanda ber að upplýsa samkvæmt greininni hefði getað haft áhrif á ákvörðun ábyrgðarmanns um að takast á hendur ábyrgð. Segir enn fremur að sönnunarbyrðin um að vanræksla hafi engin áhrif haft á ákvörðun ábyrgðarmanns um að takast á hendur ábyrgð hvíli á lánveitanda.  Samkvæmt framangreindu telur dómurinn að leggja verði til grundvallar að lögum nr. 32/2009 sé ætlað að vernda þá sem gangast í ábyrgðir fyrir lántaka með ófrávíkjanlegum reglum stofnun og fullnustu ábyrgðarsamninga. Með hliðsjón af því sem áður segir um efni laganna er enn fremur ljóst að réttaráhrif laganna takmarkast við einkaréttarleg áhrif, þ.á m. mögulegt ógildi ábyrgðarskuldbindinga sem stofnað er til í andstöðu við fyrirmæli laganna. Svo sem slegið er föstu í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar getur brot gegn lögunum haft þýðingu við mat á því hvort samningur um ábyrgð teljist ógildur samkvæmt reglum III. kafla laga nr. 7/1936, sbr. einkum 36. gr. laganna eins og henni var breytt með 6. gr. laga nr. 11/1986. Að mati dómsins verður hins vegar einnig að miða við að brot gegn lögunum geti eitt og sér leitt til ógildis við þær aðstæður að fyrir liggur brot hefur haft möguleg áhrif á ákvörðun ábyrgðarmanns um að takast á hendur ábyrgðarskuldbindingu. Myndi lögskýring í aðra átt jafngilda því að téðar laga nr. 38/2009 viðvíkjandi stofnun ábyrgðarskuldbindinga væru sviptar sjálfstæðum réttaráhrifum og sú vernd sem lögunum er ætlað að tryggja ábyrgðarmönnum gerð marklaus. Að mati dómsins bendir margt til þess að vilji stefnanda hafi staðið til þess að tryggja dóttur sinni námslán án tillits til raunverulegrar greiðslugetu hennar. Engu að síður verður ekkert fullyrt um hvort stefnandi hefði verið reiðubúin að takast á hendur sjálfsskuldarábyrgð vegna lánsins við þær aðstæður að stefndi, sem opinber lánastofnun, hefði, með skriflegum hætti, ráðið henni frá slíkri ábyrgð með vísan til þess að greiðslumat fyrirhugaðs lántaka, samkvæmt viðurkenndum viðmiðum, hefði reynst neikvætt, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Eins og málið horfir við er því ekki unnt að leggja til grundvallar að stefnda hafi tekist sönnun þess að áðurlýst brot hafi ekki haft þýðingu um þá ákvörðun stefnanda að takast á hendur hina umdeildu sjálfsskuldarábyrgð. Verður þegar af þessum ástæðum að fallast á kröfu stefnanda um að ógildi umrædds löggernings verði viðurkennt, svo sem nánar greinir í dómsorði. Að fenginni þessari niðurstöðu þarf ekki að taka málsástæður stefnanda byggðar á ógildingarreglum III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga til sérstakrar skoðunar. Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Af hálfu stefnanda flutti málið Daníel Pedersen hdl. Af hálfu stefnda flutti málið Þórir Júlíusson hrl. Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Viðurkennt er að sjálfsskuldarábyrgð, sem stefnandi, Auður Dungal Jónsdóttir, veitti stefnda, Lánasjóði íslenskra námsmanna, með undirritun á skuldabréf vegna námsláns, númer G-114035, útgefið af Maríu Dungal hinn 1. desember 2010, sé ógild.                 Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 805/2017
Vátryggingarsamningur Uppgjör
L ehf. krafði S hf. um bætur vegna tjóns sem hann varð fyrir á veiðihúsi sínu sökum vatnsleka. Óumdeilt var að S hf. viðurkenndi bótaskyldu úr húseigendatryggingu sem hann hafði veitt L ehf. Aðilar deildu á hinn bóginn um hvort S hf. hefði samþykkt án fyrirvara að greiða fyrir viðgerð á húsinu samkvæmt reikningi nafngreinds húsasmíðameistara. Talið var ósannað af hálfu L ehf. að S hf. hefði skuldbundið sig til að greiða kostnað af viðgerðinni í samræmi við reikning húsasmíðameistarans, óháð því hvort hann samrýmdist skyldum S hf. samkvæmt vátryggingarskilmálum. L ehf. hafði undir rekstri málsins í héraði aflað mats dómkvadds manns á tjóninu og kostnaði við að bæta úr því og var niðurstaða þess lögð til grundvallar í héraðsdómi. Fyrir lá að S hf. hafði greitt L ehf. bætur milli dómstiga í samræmi við hinn áfrýjaða dóm. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var S hf. sýknaður af kröfu L ehf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson og Arngrímur Ísberg héraðsdómari.  Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 11.346.630 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. nóvember 2015 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 1. febrúar 2016 að fjárhæð 2.763.430 krónur og 24. október 2017 að fjárhæð 3.497.780 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst sýknu af kröfu áfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Eftir uppsögu hins áfrýjaða dóms greiddi stefndi áfrýjanda 24. október 2017 í samræmi við dómsorð 4.691.688 krónur, þar með talið dráttarvexti, 193.908 krónur, og málskostnað, 1.000.000 krónur, til viðbótar þeim 2.763.430 krónum, sem stefndi innti af hendi til áfrýjanda 1. febrúar 2016 og tilgreindar eru í dómsorði. Krafa áfrýjanda hér fyrir rétti er um það sem eftir stendur af kröfu hans fyrir héraðsdómi, en sýknukrafa stefnda byggist á því að hann hafi þegar greitt áfrýjanda í samræmi við hinn áfrýjaða dóm. Eins og lýst er í héraðsdómi varð áfrýjandi fyrir tjóni á veiðihúsi sínu við Rangá af völdum vatnsleka, en stefnda var tilkynnt 16. febrúar 2015 um tjónið. Óumdeilt er að stefndi viðurkenndi bótaskyldu úr húseigendatryggingu, sem hann hafði veitt áfrýjanda. Aðilar sammæltust um að Guðmundur Stefán Sigurbjörnsson húsasmíðameistari tæki að sér viðgerð á veiðihúsinu, en þeir deila á hinn bóginn um hvort stefndi hafi samþykkt án fyrirvara að greiða fyrir verkið samkvæmt reikningi húsasmíðameistarans, sem upphaflega var að fjárhæð 11.800.321 króna. Stefndi heldur því fram að á honum hvíli aðeins skylda til að greiða vátryggingarbætur í samræmi við skilmála vátryggingarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skilmála um húseigendatryggingu, sem í gildi var milli aðila á tjónsdegi, skyldu bætur miðast við, að svo miklu leyti sem unnt væri, að húseignin yrði ekki í lakara ástandi en fyrir tjónið. Þá sagði í 3. mgr. greinarinnar að bótafjárhæðir skyldu taka mið af kostnaði við viðgerð á hinni vátryggðu húseign og væri félaginu í sjálfsvald sett hvort það bætti tjón með peningagreiðslu eða greiddi kostnað af fullnægjandi viðgerð á hinu vátryggða. Þegar um peningagreiðslu væri að ræða næmi fjárhæð bóta að hámarki þeirri fjárhæð, sem félagið hefði greitt fyrir viðgerð eða enduröflun hins vátryggða. Ósannað er af hálfu áfrýjanda að stefndi hafi skuldbundið sig til að greiða kostnað við viðgerð á veiðihúsinu í samræmi við reikning áðurnefnds húsasmíðameistara, óháð því hvort hann samrýmdist skyldum stefnda samkvæmt vátryggingarskilmálum. Fyrir liggur að áfrýjandi aflaði undir rekstri málsins í héraði mats dómkvadds manns á tjóninu og kostnaði við að bæta úr því og að stefndi samþykkti við aðalmeðferð þess að bæta áfrýjanda tjón sitt í samræmi við niðurstöðu matsgerðarinnar. Þá er sem fyrr segir fram komið í málinu að stefndi hefur greitt áfrýjanda bætur milli dómstiga í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfu áfrýjanda, Lax-ár ehf. Áfrýjandi greiði stefnda 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2017. Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 31. maí 2016 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 14. september sl. Stefnandi er Lax-á ehf., Akurhvarfi 16, Kópavogi. Stefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.                 Endanleg krafa stefnanda er að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 11.346.630 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. nóvember 2015 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 1. febrúar 2016 að fjárhæð 2.763.430 krónur. Hann krefst einnig málskostnaðar.                 Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar, en til vara að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.              Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika                 Stefnandi er eigandi að veiðihúsi við Ytri-Rangá með fastanúmerið 228-5677, merkt 020101. Tjón varð á eigninni og innbúnaði hennar hinn 12. febrúar 2015 vegna þess að vatnslagnir í fjórum herbergjum hússins sprungu vegna frosts og vatn flæddi frá þeim, með þeim afleiðingum að viður í húsinu bólgnaði og skápar, gólf, loft og veggir skemmdust. Stefnandi var með vátryggingar hjá stefnda samkvæmt eignatryggingaskírteini nr. 1895485, húseigendatryggingarskírteini nr. 1895489 og brunatryggingarskírteini nr. 1895491. Er ekki ágreiningur um að stefnandi eigi rétt á bótum úr húseigendatryggingu stefnda vegna þessa tjóns.                 Fyrirsvarsmaður stefnanda tilkynnti stefnda um tjónið þann 16. febrúar 2015. Hinn 19. sama mánaðar var veiðihúsið skoðað af Oddgeiri Sæmundi Sæmundssyni, matsmanni og starfsmanni stefnda. Viðstaddur skoðunina var Guðmundur Sigurbjörnsson húsasmíðameistari, tilkvaddur af stefnanda. Eftir fundinn hófst Guðmundur handa við viðgerðir eftir lekann. Guðmundur mun fljótlega hafa orðið þess áskynja að umfang tjónsins væri meira en ætlað var. Oddgeir skoðaði veiðihúsið á ný hinn 6. mars 2015 að Guðmundi viðstöddum.                 Málsaðila greinir á um hvað hafi farið Oddgeiri og Guðmundi á milli á þessum fundum. Stefnandi byggir á því að á fundinum 19. febrúar 2015 hafi Oddgeir innt Guðmund eftir því hvort hann gæti sinnt viðgerðum og lagfæringum eftir lekann, stefnandi myndi leggja út fyrir öllum viðgerðarkostnaði og stefnandi myndi því næst krefja stefnda um greiðslu. Guðmundur hafi getað sinnt því verki og hafi þeir Oddgeir bundist fastmælum að sá háttur yrði á hafður. Stefnandi segir að þannig hafi stefnandi og stefndi áður samið um uppgjör bóta. Stefnandi fullyrðir einnig að á fundinum 6. mars 2015 hafi Oddgeir samþykkt að Guðmundur héldi áfram verkinu. Stefndi mótmælir þessari lýsingu og fullyrðir að stefnandi hafi sjálfur óskað eftir því að Guðmundur tæki að sér verkið og hafi stefndi orðið við þeirri beiðni. Stefndi hafnar því einnig að Oddgeir og Guðmundur hafi samið um uppgjör bóta með þeim hætti sem stefnandi byggir á.                 Guðmundur mun hafa lokið viðgerðum á veiðihúsinu í október 2015. Í kjölfarið sendi stefnandi stefnda reikning hinn 8. október 2015 fyrir þeim kostnaði sem hann kveðst hafa haft af vinnu Guðmundar og undirverktaka og efniskaupum. Reikningurinn er að fjárhæð 11.800.321 króna, en þar af eru 110.000 krónur vegna húsbúnaðar sem stefndi hefur þegar bætt stefnanda. Fyrrnefndur Oddgeir vann í kjölfarið matsgerð, dags. 11. nóvember 2015, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að kostnaður við viðgerð næmi 2.763.430 krónum. Hinn 1. febrúar 2016 greiddi stefndi stefnanda þá fjárhæð.                 Að beiðni stefnanda var Auðunn Elíson, byggingafræðingur og húsasmíðameistari, dómkvaddur sem matsmaður undir rekstri málsins. Matsgerð hans er dagsett 18. mars 2017 og mun hafa verið kynnt stefnda 28. sama mánaðar. Niðurstaða hins dómkvadda matsmanns er á þá leið að eðlilegur kostnaður stefnanda við viðgerð á veiðihúsinu, miðað við að stefnandi hafi annast viðgerðina sjálfur og miðað við að húseignin hafi eftir viðgerð orðið ekki í lakara ástandi en fyrir tjónið, sé samtals 7.763.900 krónur með virðisaukaskatti, miðað við verðlag í mars 2017, eða 6.261.210 krónur án virðisaukaskatts.                 Við aðalmeðferð málsins lækkaði stefnandi upphaflega dómkröfu sína, sem var 11.690.321 króna, um samtals 343.691 krónu, þar sem láðst hefði að draga virðisaukaskatt frá vinnureikningum fyrir málun og dúklögn, vegna þess að reikningur frá IKEA að fjárhæð 137.700 krónur félli undir innbú, og vegna þess að eigin áhætta við vatnstjón væri 32.100 krónur. Við aðalmeðferð málsins lýsti lögmaður stefnda því yfir að fallist væri á niðurstöður dómkvadds matsmanns og stefndi væri reiðubúinn að gera upp tjón stefnanda samkvæmt matsgerð eða greiða 6.261.210 krónur, að frádreginni innborgun stefnda 1. febrúar 2016 að fjárhæð 2.763.430 krónur. Þar sem fjárhæðir samkvæmt matsgerð séu miðaðar við mars 2017 eigi vextir ekki að reiknast fyrr en mánuði eftir að matsgerð lá fyrir.                 Við aðalmeðferð málsins gaf aðilaskýrslu Valgerður F. Baldursdóttir, stjórnarformaður stefnanda. Einnig gáfu skýrslu vitnin Guðmundur Sigurbjörnsson og Oddgeir Sæmundur Sæmundsson og Auðunn Elísson, dómkvaddur matsmaður. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda                 Stefnandi byggir aðallega á því að samkomulag hafi orðið með stefnda og stefnanda um að Guðmundur Sigurbjörnsson húsasmíðameistari myndi annast viðgerðir á áðurnefndu veiðihúsi, að stefnandi myndi leggja út fyrir öllum kostnaði samfara þeirri vinnu og  endurkrefja síðan stefnda um allan viðgerðarkostnaðinn. Byggir stefnandi á því að það samkomulag hafi fulltrúar beggja samningaaðila, Guðmundur Sigurbjörnsson fyrir hönd stefnanda og Oddgeir Sæmundur Sæmundsson fyrir hönd stefnda, gert hinn 19. febrúar 2015, þegar skoðun þeirra á skemmdum á veiðihúsinu fór fram. Þeir hafi síðan fyrir hönd málsaðila gert með sér viðbótarsamkomulag um að sami háttur yrði hafður á, þegar Guðmundur hafi kallað Oddgeir til sín á staðinn til að skoða og meta frekari skemmdir sem þá höfðu komið í ljós á húsinu hinn 6. mars 2015. Bæði Guðmundur og Oddgeir hafi haft umboð málsaðila til að semja þannig um frágang málsins samkvæmt stöðuumboðum, sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Krafa stefnanda er byggð á framlögðum reikningi stefnanda til stefnda og raunverulegum kostnaði við viðgerðir á veiðihúsinu.                 Stefnandi vísar til þess að stefndi geti ekki byggt á því að Oddgeir hafi ekki haft umboð sitt til samningsgerðarinnar. Með vísun til almennra skyldna stefnda sem vátryggingafélags gagnvart viðsemjanda sínum og sérstaklega ákvæðis 2. mgr. 69. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga, beri stefndi halla af því ef vafi leiki á því hvort slíkur samningur hafi náðst með aðilum eða ekki. Stefnandi telur að líkur séu til þess að samningur hafi náðst með aðilum um að tjón stefnanda yrði gert upp með þessum hætti þegar virt sé að matsgerð Oddgeirs sé samin í nóvember 2015, þegar stefnandi hafði sent stefnda reikning sinn. Gefi auga leið að Oddgeir hafi ekki talið sig þurfa að semja matsgerðina eftir að samningar náðust með honum og Guðmundi 19. febrúar 2015. Stefnandi vísar einnig til þess að stefnandi og stefndi hafi áður haft sama hátt á við uppgjör bóta úr vátryggingum stefnanda hjá stefnda. Stefnandi hafi því verið í góðri trú um að þannig hefði samist um með aðilum þegar Guðmundur Sigurbjörnsson hóf viðgerðarvinnu sína.                 Til vara byggir stefnandi á því að stefnda beri að greiða honum vátryggingarbætur að sömu fjárhæð. Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi viðurkennt að honum beri að greiða stefnanda vátryggingarbætur vegna umrædds tjóns. Stefanndi vísar til framlagðra tölvupóstsamskipta málsaðila, fyrirvaralausrar innborgunar stefnda og framlagðra matsgerða. Stefnda sé skylt að greiða stefnanda fullar bætur á grundvelli framlagðra tryggingaskírteina og sé í því efni vísað til greiðsluskyldu stefnda samkvæmt. 35. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Stefnandi telur að vátryggingarbætur honum til handa verði réttilega ákvarðaðar á grundvelli þeirra vinnulauna og efniskostnaðar sem stefnandi hafi greitt vegna viðgerðar Guðmundar Sigurbjörnssonar á veiðihúsinu. Stefnandi hafi með reikningsgerð sinni og sundurliðun raunkostnaðar við viðgerðir á veiðihúsinu lagt fullnægjandi upplýsingar fyrir stefnda til þess að hann geti greitt út vátryggingabætur til hans á grundvelli 47. gr. laga nr. 30/2004. Stefnandi geti ekki fallist á að til grundvallar bótauppgjöri verði lögð matsgerð Oddgeirs Sæmundssonar frá nóvember 2015, enda ljóst að hún byggi einungis á minnispunktum hans frá skoðun hinn 19. febrúar 2015 og þar sé í engu getið um viðbótarskoðun á tjóni sem hann framkvæmdi síðar eftir að frekara tjón kom í ljós.                 Þess sé krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. nóvember 2015, en þá var liðinn mánuður frá því að stefnandi sendi stefnda reikning sinn, sbr. 3. mgr. 5. gr. sömu laga. Helstu málsástæður og lagarök stefnda                 Stefndi byggir á því að honum beri aðeins að greiða raunverulegt fjártjón stefnanda, þ.e. þann kostnað sem nemi raunverulegum kostnaði við endurbætur. Ekki sé ágreiningur um að stefnandi eigi rétt á bótum úr húseigendatryggingu hjá stefnda.                 Stefndi hafnar því að samkomulag hafi náðst með málsaðilum um að stefndi myndi greiða meintan raunkostnað Guðmundar Sigurbjörnssonar við viðgerðir á áðurnefndu veiðihúsi í samræmi við útgefna reikninga, óháð fjárhæð þeirra. Þegar Oddgeir Sæmundur Oddgeirsson og Guðmundur hittust á tjónsstað 16. febrúar 2015 og 6. mars sama ár til að meta umfang tjónsins hafi ekki annað farið fram þeirra í millum en óformlegar samræður um umfang tjónsins, auk þess sem Oddgeir hafi fallist á að Guðmundur tæki að sér viðgerð fyrir hönd stefnanda.                 Aðilar málsins hafi áður samið um að vátryggingarfjárhæð og uppgjör bóta færi eftir ákvæðum vátryggingarskírteinis og gildandi vátryggingarskilmála. Í 1. mgr. 13. gr. sameiginlegra skilmála húseigendatryggingar segi að bætur skuli miðast við, að svo miklu leyti sem unnt sé, að húseignin verði ekki í lakara ástandi en fyrir tjónið. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skuli bótafjárhæð taka mið af kostnaði við viðgerð á hinni vátryggðu húseign. Stefnda sé í sjálfsvald sett hvort hann bæti tjón með peningagreiðslu eða greiði kostnað af fullnægjandi viðgerð á hinu vátryggða. Þegar peningagreiðsla sé innt af hendi skuli fjárhæð bóta nema að hámarki þeirri fjárhæð sem stefndi hefði greitt fyrir viðgerð eða enduröflun hins vátryggða. Þá sé kveðið á um uppgjör vatnstjóns í 4. gr. sérskilmála fyrir Vatnstjón A. Þar segi að vátryggingarbætur miðist við sannanlegar vatnsskemmdir á hinni vátryggðu húseign. Bætur greiðist fyrir kostnað við uppbrot og rask sem sé óhjákvæmilegt til þess að komast fyrir leka, svo og frágang að nýju vegna aðgerða þannig að húseignin verði ekki í lakara ástandi en fyrir tjón. Ekki sé þó bættur sá hlutur eða hluti sem tjóninu olli.                 Framangreindir tjónaskilmálar byggi á þeirri meginreglu skaðabótaréttar og vátryggingaréttar að tjónþoli skuli vera eins settur fyrir og eftir tjón. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að samið hafi verið um uppgjör bóta með öðrum hætti. Gera verði ríkar kröfur um þá sönnun í ljósi þess að áður hafi verið samið um að uppgjör bóta skyldi fara samkvæmt skilmálum húseigendatryggingar. Stefnanda hafi ekki tekist slík sönnun. Þegar aðilar máls áttu í viðræðum um aðkomu matsmanna að bótauppgjöri hafi stefnandi ekki minnst á hið meinta samkomulag um uppgjör bóta. Það hafi fyrst verið með bréfi, dags. 24. febrúar 2016, sem stefnandi hafi haldið fram slíku samkomulagi. Í öllu falli hafi hvorki Oddgeir né Guðmundur haft umboð til að semja um uppgjör bóta með öðrum hætti en kveðið sé á um í framangreindum tryggingarskírteinum og tryggingarskilmálum.                 Stefndi vísar til sömu málsástæðna fyrir varakröfu sinni eftir því sem við eigi. Jafnframt vísar stefndi til þeirrar almennu reglu að þeim sem greiðir skaðabætur verði ekki gert að bæta nýtt fyrir gamalt. Ætla verði að einhver verðmætaaukning hafi átt sér stað við endurbætur á umræddu veiðihúsi og beri að draga þá aukningu frá bótum. Geti stefnandi nýtt kostnað vegna tjóns til skattafrádráttar eða eigi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna tjónsins beri að lækka bætur sem því nemi. Loks beri að draga frá kostnað vegna endurbóta við hinar sprungnu vatnslagnir, þar sem ekki skuli bæta þann hlut er tjóninu olli. Niðurstaða                 Ekki er um það deilt að stefnandi á rétt á bótum úr hendi stefnda vegna vatnstjóns sem varð í veiðihúsi stefnanda við Ytri-Rangá hinn 12. febrúar 2015. Stefnandi byggir aðallega á því að um hafi samist með Guðmundi Sigurbjörnssyni húsasmíðameistara fyrir hönd stefnanda og Oddgeiri Sæmundi Sæmundssyni fyrir hönd stefnda hinn 19. febrúar 2015 og aftur 6. mars sama ár að stefndi myndi greiða allan kostnað við viðgerðir á veiðihúsinu. Skilja verður málatilbúnað stefnanda á þann veg að komist hafi á munnlegt samkomulag þessa efnis milli Guðmundar og Oddgeirs.                 Guðmundur og Oddgeir komu báðir fyrir dóm og gáfu skýrslu. Meðal gagna málsins er yfirlýsing Guðmundar dagsett 24. maí 2016. Guðmundur kvaðst fyrir dóminum staðfesta efni yfirlýsingarinnar, en þar segir að við skoðun veiðihússins hinn 19. febrúar 2015 hafi Oddgeir innt hann eftir því hvort hann gæti sinnt viðgerðum og lagfæringum eftir lekann; stefnandi myndi leggja út fyrir öllum viðgerðarkostnaði og stefndi myndi síðan greiða þann kostnða eftir reikningi stefnanda. Samkomulag hafi orðið með þeim um að hafa þennan hátt á. Þegar Oddgeir hafi komið aftur á staðinn 6. mars 2015 hafi Oddgeir samþykkt að Guðmundur héldi áfram verkinu þótt umfang þess yrði meira en þeir hafi talið í fyrst. Guðmundur skýrði einnig svo frá í skýrslu sinni fyrir dóminum að Oddgeir hafi beðið hann um að sjá um viðgerð á umræddu veiðihúsi.                 Í skýrslu sinni fyrir dóminum sagði Oddgeir að við skoðun veiðihússins hinn 19. febrúar 2015 hefði Guðmundur tjáð honum að stefnandi hefði óskað eftir því að hann annaðist viðgerðir á tjóninu og hafi hann ekki gert athugasemd við það. Oddgeir hafi tjáð Guðmundi að hann væri að vinna fyrir stefnanda og skyldi gera honum reikning fyrir vinnu sína. Stefnandi gæti sent stefnda afrit reikningsins, sem stefndi myndi greiða án virðisaukaskatts ef reikningurinn myndi stemma miðað við skoðun á veiðihúsinu. Hinn 6. mars 2015 hafi Oddgeir skoðað veiðihúsið á nýjan leik, þar sem í ljós hefði komið að tjónið væri meira en bara á plastparketi og fataskáp. Það hafi alltaf legið fyrir að reikningur gæti aldrei numið hærri fjárhæð en sem næmi tjóninu. Ef stefndi myndi ákveða að bæta tjón með peningagreiðslu myndi félagið senda sundurliðað tjónamat. Aðspurður hversu langan tíma tæki að vinna slíkt mat nefndi Oddgeir dæmi um að slíkt mat hefði legið fyrir degi eftir skoðun á tjóni.                 Í 1. mgr. 13. gr. vátryggingaskilmála stefnda fyrir húseigendatryggingu er kveðið á um að bætur skuli miðast við, að svo miklu leyti sem unnt er, að húseignin verði ekki í lakara ástandi en fyrir tjónið. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skal bótafjárhæð taka mið af kostnaði við viðgerð á hinni vátryggðu húseign. Stefnda er í sjálfsvald sett hvort hann bætir tjón með peningagreiðslu eða greiðir kostnað af fullnægjandi viðgerð á hinu vátryggða. Þegar peningagreiðsla er innt af hendi nemur fjárhæð bóta að hámarki þeirri fjárhæð sem stefndi hefði greitt fyrir viðgerð eða enduröflun hins vátryggða. Í skilmálum húseigendatryggingarinnar eru sérskilmálar fyrir Vatnstjón A, sem bætir skemmdir á vátryggðri húseign sem eiga upptök sín innan veggja hússins og stafa eingöngu af ófyrirsjáanlegum, skyndilegum og óvæntum leka úr vatnsleiðslum, hitakerfi eða frárennslislögnum hennar. Í 4. gr. sérskilmálanna segir að vátryggingarbætur miðist við sannanlegar vatnsskemmdir á hinni vátryggðu húseign. Bætur greiðast fyrir kostnað við uppbrot og rask sem er óhjákvæmilegt til þess að komast fyrir leka, svo og frágang að nýju vegna aðgerða þannig að húseignin verði ekki í lakara ástandi en fyrir tjón. Ekki er þó bættur sá hlutur eða hluti sem tjóninu olli.                 Ekki er hægt að skilja málatilbúnað stefnanda á annan hátt en að hann telji að samið hafi verið um frávik frá þessum skilmálum. Samkvæmt almennum reglum ber sá, sem heldur því fram að samningur hafi komist á við annan aðila, sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu. Er ekki fallist á það með stefnanda að stefndi eigi að bera sönnunarbyrði þar um með vísan til 2. mgr. 69. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Af yfirlýsingu Guðmundar og framburði hans og Oddgeirs fyrir dóminum verður ekki skýrlega ráðið að samið hafi verið um slíkt frávik. Gegn mótmælum stefnda er sérstakur samningur aðila í þessa veru því ósannaður. Verður því að skilja samskipti Guðmundar og Oddgeirs á þann veg að samist hafi um að stefndi myndi bæta tjónið með peningagreiðslu, svo sem honum var heimilt að gera samkvæmt áður tilvitnaðri 3. mgr. 13. gr. vátryggingarskilmálanna.                 Stefndi sendi stefnanda matsgerð áðurnefnds Oddgeirs, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að kostnaður við viðgerð á tjóninu næmi 2.763.430 krónum, sem var nánar sundurliðað eftir verkþáttum, efni, vinnu og tækjum. Þá voru liðnir um níu mánuðir frá seinni skoðun Oddgeirs. Ekkert er fram komið um að stefndi hafi á fyrra tímamarki veitt stefnanda upplýsingar um það hvernig hann hygðist ákveða fjárhæð bóta. Hefur stefndi enga skýringu veitt á þessum drætti, sem er ekki í samræmi við þá skyldu stefnda samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 30/2004 að sjá til þess að tjónþoli fái fullnægjandi upplýsingar um bótarétt sinn og sundurliðun á því hvernig bætur til hans séu ákveðnar.                  Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 30/2004 á vátryggður rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt, sé ekki um annað samið í vátryggingarsamningi. Sömu niðurstöðu leiðir af áður tilvitnuðum ákvæðum 1. og 3. mgr. 13. gr. vátryggingarskilmála stefnda og 4. gr. sérskilmála um Vatnstjón A. Með matsgerð dómkvadds matsmanns var komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegur kostnaður stefnanda við viðgerð á veiðihúsinu, miðað við að stefnandi hafi annast viðgerðina sjálfur og miðað við að húseignin hafi eftir viðgerð orðið ekki í lakara ástandi en fyrir tjónið, sé samtals 7.763.900 krónur með virðisaukaskatti, miðað við verðlag í mars 2017, eða 6.261.210 krónur án virðisaukaskatts. Þessari matsgerð hefur ekki verið hnekkt og verður niðurstaða hennar því lögð til grundvallar. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 6.261.210 krónur. Umrædd matsgerð var kynnt stefnda 28. mars 2017. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda dráttarvexti frá 28. apríl 2017 til greiðsludags, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.                 Svo sem áður greinir lýsti stefndi því yfir við aðalmeðferð málsins að hann féllist á niðurstöður matsmanns og væri tilbúinn að inna greiðslu af hendi til stefnanda í samræmi við það. Verður og að leggja til grundvallar að þessi afstaða stefnda hafi legið fyrir þegar aðalmeðferð málsins var ákveðin. Þótt dómurinn hafi samkvæmt framangreindu að verulegu leyti fallist á málsástæður stefnda verður hann engu að síður, eftir úrslitum málsins, dæmdur til að greiða stefnanda stærstan hluta málskostnaðar hans, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, þ.á m. þann kostnað sem leitt hefur störfum dómkvadds matsmanns. Þykir málskostnaður úr hendi stefnda að þessu virtu hæfilega ákveðinn 1.000.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.                 Af hálfu stefnanda flutti málið Ásgeir Þór Árnason hrl.                 Af hálfu stefnda flutti málið Guðjón Ármannsson hrl.                 Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.                                                                D Ó M S O R Ð Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnanda, Lax-á ehf., 6.261.210 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 6.261.210 krónum frá 28. apríl 2017 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 1. febrúar 2016 að fjárhæð 2.763.430 krónur.                 Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 614/2017
Verkfall Laun Opinberir starfsmenn Aðfinnslur
Verkfall félagsmanna Ljósmæðrafélags Íslands á Landspítala hófst í apríl 2015. Verkfallið varði þrjá sólarhringa í senn, frá þriðjudegi til fimmtudags í hverri viku, og lauk í júní sama ár. Ágreiningur aðila laut að launagreiðslum til B o.fl. meðan á verkfallinu stóð, en þær voru allar félagsmenn í Ljósmæðrafélagi Íslands og unnu á vöktum í hlutastarfi á spítalanum eftir fyrirfram ákveðnu kerfi er tók til allra daga vikunnar. B o.fl. kröfðust launa fyrir vinnu sína á þeim dögum sem verkfall stóð ekki yfir, en Í taldi að draga ætti hlutfallslega jafnt af launum allra félagsmanna Ljósmæðrafélags Íslands sem tóku þátt í verkfallinu samkvæmt reiknireglu í þágildandi kjarasamningi stéttarfélagsins og Í. Kom fram í dómi Hæstaréttar að samkvæmt orðum sínum ætti regla þessi einungis við um hvernig reikna skyldi út brot úr mánaðarlaunum þegar unninn væri átta stunda vinnudagur reglubundið, en ekki samkvæmt vaktafyrirkomulagi sem B o.fl. ynnu eftir. Þótt verkfallið hefði náð til allra ljósmæðra á Landspítala þá hefðu verkfallsaðgerðir takmarkast við þrjá daga í viku hverri. Útreikningsaðferðir Í, sem ættu sér hvorki stoð í lögum né kjarasamningi, hefðu leitt til þess að B o.fl. hefðu ekki fengið að fullu greitt fyrir allar þær stundir sem þær hefðu unnið. Vísaði Hæstiréttur til þess að slík niðurstaða væri í andstöðu við grunnreglur kröfuréttar og vinnuréttar um gagnkvæmni og greiðslu verkkaups. Var því fallist á kröfur B o.fl.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. september 2017 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Stefndu eru allar félagsmenn í Ljósmæðrafélagi Íslands, sem er aðildarfélag Bandalags háskólamanna. Í kjölfar verkfallsboðunar 20. mars 2015 hófst verkfall félagsmanna Ljósmæðrafélags Íslands á Landspítala 7. apríl það ár. Skyldi verkfallið vara þrjá sólarhringa í senn, frá miðnætti aðfaranótt þriðjudags til loka fimmtudags í hverri viku, uns samningar næðust við áfrýjanda.  Verkfallinu lauk 14. júní 2015 með gildistöku laga nr. 31/2015 um kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Í hinum áfrýjaða dómi eru rakin samskipti stéttarfélags stefndu og áfrýjanda vegna verkfallsins og niðurstöður Félagsdóms um ágreiningsefni þeirra í millum. Ágreiningsefni málsins lýtur að launagreiðslum til stefndu meðan á verkfallinu stóð, en eins og nánar greinir í héraðsdómi voru stefndu allar í hlutastarfi á Landspítala og unnu á vöktum eftir fyrirfram ákveðnu kerfi er tók til allra daga vikunnar. Stefndu krefjast launa fyrir vinnu sína á þeim dögum sem verkfall stóð ekki yfir á tilgreindu tímabili. Telja þær einungis heimilt að fella niður laun þeirra vegna vakta sem óumdeilt er að féllu niður vegna verkfallsins. Áfrýjandi telur á hinn bóginn að draga eigi hlutfallslega jafnt af launum allra félagsmanna Ljósmæðrafélags Íslands sem tóku þátt í verkfallinu. Beita eigi frádrætti við greiðslu launa til stefndu á þann hátt að deila eigi hlutfalli verkfallsdaga í viku hverri í heildarfjölda vinnudaga hvers mánaðar samkvæmt reiknireglu í grein 1.1.2 í þágildandi kjarasamningi Ljósmæðrafélags Íslands og áfrýjanda, sem er svofelld: „Þegar unninn er 8 stunda vinnudagur reglubundið, reiknast brot úr mánaðarlaunum þannig að deilt er með 21,67 í mánaðarlaunin og margfaldað með fjölda almanaksdaga annarra en laugardaga og sunnudaga frá upphafi eða til loka starfstíma.“ Samkvæmt orðum sínum á regla þessi einungis við um hvernig reikna skuli út brot úr mánaðarlaunum þegar unninn er átta stunda vinnudagur reglubundið, en ekki samkvæmt vaktafyrirkomulagi sem stefndu unnu eftir. Þótt verkfall það sem um ræðir hafi náð til allra ljósmæðra á vinnustað stefndu þá takmörkuðust verkfallsaðgerðir við þrjá daga í viku hverri, en ekki við aðra daga vikunnar. Óumdeilt er að stefndu unnu þær stundir er þær krefjast launa fyrir. Áfrýjandi þáði vinnuframlag stefndu á því tímabili sem um ræðir í málinu en útreikningsaðferð hans, sem á sér hvorki stoð í lögum né kjarasamningi, leiddi á hinn bóginn til þess að stefndu fengu ekki að fullu greitt fyrir allar þær stundir sem þær unnu. Er slík niðurstaða í andstöðu við grunnreglur kröfuréttar og vinnuréttar um gagnkvæmni og greiðslu verkkaups. Þá hafa útreikningar stefndu á kröfum sínum ekki sætt haldbærum andmælum. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Í rökstuðningi sínum fyrir niðurstöðu fór héraðsdómari í verulegum atriðum út fyrir fyrirmæli f. liðar 1. mgr. og 3. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er það aðfinnsluvert. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefndu, Björgu Pálsdóttur, Brynju Pálu Helgadóttur, Kristínu Svölu Jónsdóttur, Sigrúnu Ingvarsdóttur og Önnu Jónínu Eðvaldsdóttur, hverri um sig 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, þriðjudaginn 30. maí 2017                 Þetta mál, sem var endurflutt og tekið til dóms 15. maí 2017, er höfðað af Önnu Jónínu Eðvalds­dóttur, kt. [...], Gauksási 41, Hafnarfirði, Björgu Páls­dóttur, kt. [...], Vesturbrún 31, Reykjavík, Brynju Pálu Helgadóttur, kt. [...], Gull­engi 17, Reykjavík, Kristínu Svölu Jónsdóttur, kt. [...], Goð­heimum 24, Reykja­vík og Sigrúnu Ingvarsdóttur, kt. [...], Brekkuási 3, Hafn­ar­firði, með stefnu birtri 15. apríl 2016, á hendur íslenska ríkinu, til heimtu van­gold­inna launa.                 Anna Jónína Eðvaldsdóttir krefst þess að stefndi greiði henni 161.734 kr. ásamt dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 130.239 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 207.412 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og loks af 161.734 kr. frá þeim degi til greiðsludags.                 Björg Pálsdóttir krefst þess að stefndi greiði henni 319.679 kr. ásamt dráttar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 142.810 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 270.754 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og loks af 319.679 kr. frá þeim degi til greiðsludags.                 Brynja Pála Helgadóttir krefst þess að stefndi greiði henni 40.643 kr. ásamt drátt­ar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 105.549 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 108.046 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og loks af 40.643 kr. frá þeim degi til greiðsludags.                 Kristín Svala Jónsdóttir krefst þess að stefndi greiði henni 73.369 kr. ásamt drátt­ar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 17.672 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015 og af 73.369 kr. frá þeim degi til greiðsludags.                 Sigrún Ingvarsdóttir krefst þess að stefndi greiði henni 188.369 kr. ásamt drátt­ar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 93.533 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 160.890 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og loks af 188.370 kr. frá þeim degi til greiðsludags.                 Allir stefnendur krefjast málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda auk álags er nemi virðisaukaskatti af mál­flutn­ings­þóknun.                 Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnenda.                 Stefndi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnenda en til vara að máls­kostn­aður verði felldur niður. Málsatvik                 Ágreiningur þessa máls hverfist um það hvernig beri að reikna í verkfalli laun starfs­manna sem vinna hlutastarf í vaktavinnu.                 Í byrjun apríl 2015 hófust sameiginlegar verkfallsaðgerðir hjá 17 stéttar­félögum sem eiga aðild að Bandalagi háskólamanna, þar með talið Ljósmæðrafélagi Íslands. Það boðaði, með bréfi dagsettu 20. mars 2015, til ótímabundins verkfalls meðal félagsmanna sinna sem starfa hjá Landspítala. Verkfallið hófst 7. apríl 2015, kl. 00:00, og var ætlað að standa frá kl. 00:00 til 24:00 alla þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtu­daga þar til samningar hefðu náðst. Í tilkynningu til stefnda um verkfallsboðun sagði: Samkvæmt þessari niður­stöðu hafa félagsmenn í Ljósmæðrafélagi Íslands sam­þykkt að hefja verkfall á Land­spítala Háskólasjúkrahúsi þann 7. apríl 2015, kl. 00:00, hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma.                 Stefnendur eru allar félagsmenn í Ljósmæðrafélaginu og starfa allar á Land­spít­ala háskólasjúkrahúsi. Í apríl 2015 fékk bandalagið veður af því að við launa­út­reikn­ing í verkföllum félagsmanna aðildarfélaganna hygðist stefndi byggja á við­miðum sem lýst er í dreifibréfi stefnda, nr. 6/2001, um launagreiðslur á meðan á verk­falli stendur svo og umfjöllun sem þar er um túlkun á 19. og 20. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Ekki kom þó til frádráttar í byrjun apríl enda byggði stefndi á því að boðað verk­fall væri ólögmætt auk þess sem ráðgert var að verkfallið hæfist 7. apríl. Félags­dómur leysti úr því 6. apríl með dómi í máli nr. 14/2015 að verkfallið væri ekki ólögmætt. Að þeim dómi gengnum árétt­aði Bandalag háskóla­manna athuga­semdir við þessar ráðagerðir um framkvæmd á launa­útreikn­ingum.                 Frá og með þriðjudeginum 7. apríl 2015, kl. 00.00, hófust tímabundnar verk­falls­lotur hjá Ljósmæðrafélagi Íslands sem stóðu frá kl. 00.00 til 24.00 alla þriðju­daga, mið­viku­daga og fimmtudaga á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Þessar tíma­bundnu verk­falls­lotur áttu að standa ótímabundið þar til samið hefði verið.                 Þegar laun voru greidd í byrjun maímánaðar beitti stefndi sem fyrr þeirri reikni­reglu sem hann hefur fylgt í verkföllum opinberra starfsmanna og fram kemur í dreifi­bréfi stefnda nr. 6/2001 um launagreiðslur í verkfalli. Launa­útreikn­ingurinn byggð­ist á túlkun stefnda á frá­dráttar­heim­ildum og útreikn­ingi á því hversu háu hlut­falli launa skyldi haldið eftir þar eð verkfall Ljós­mæðra­félags­ins tók ekki til allra daga vik­unnar, heldur einungis þriggja daga í senn. Stefndi byggði á því að beita ætti frá­drætti á þann hátt að deila ætti hlut­falli verk­falls­daga á viku í heildar­vinnu­daga­fjölda mán­aðar sam­kvæmt reikni­reglu í grein 1.1.2 í kjara­samn­ingi. Reiknireglan hljóðar svo: Þegar unnin er 8 stunda vinnu­dagur reglu­bundið, reiknast brot úr mán­aðar­launum þannig að deilt er með 21,67% í mán­að­ar­launin og margfaldað með fjölda alman­aks­daga annarra en laugar­daga og sunnu­daga frá upphafi til loka starfs­tíma.                 Þessari reglu er beitt þegar gera þarf upp laun starfs­manns fyrir hluta mánaðar af ein­hverjum sökum, starfs­manns sem sinnir dag­vinnu reglubundið. Þessi aðferð stefnda tók ekki mið af því að stefn­endur, eins og aðrir félagsmenn Ljós­mæðra­félags­ins, vinna ekki reglu­bundið í dag­vinnu á virkum dögum heldur í vakta­vinnu alla daga vik­unnar. Þær vaktir eru að auki almennt ekki reglubundnar heldur breytast frá mán­uði til mánaðar. Það er jafnframt óreglulegt hve­nær sólar­hrings vaktirnar eru og á hvaða viku­dögum. Strax af þeirri ástæðu var það frá­drátt­ar­hlutfall sem stefndi kynnti að hann ætlaði að beita alltof hátt þar sem miðað var við þrjá verk­falls­daga af fimm daga vinnu­viku þegar raunin er sú að vinnu­vika félags­manna Ljós­mæðra­félagsins er sjö dagar og því hefði, að mati stefnenda, átt að horfa til 3/7 í stað 3/5. Í annan stað hélt stefndi þeirri afstöðu til streitu að draga bæri frá launum óháð vinnuframlagi, skerða ætti laun allra á sam­ræmdan hátt án tillits til fjarveru hvers og eins frá vinnu vegna hvers verkfalls. Horfa ætti til meðaltals vinnu­skyldu í hverjum mánuði, telja svo verk­falls­daga mán­aðar og deila svo með 21,67% og finna þannig frá­dráttar­hlut­fall. Að mati stefnenda hafi slík stærð­fræði, eðli málsins sam­kvæmt, ekkert tillit tekið til rétt­inda hvers og eins ein­stakl­ings eða raun­veru­legs vinnu­fram­lags.                 Félags­menn Ljósmæðrafélagsins vildu ekki una þessari aðferð við launa­greiðslu í verk­falli. Af því tilefni skoraði framkvæmdastjóri Bandalags háskólamanna á stefnda, með bréfi dags. 7. maí 2015, að leiðrétta án tafar þennan misbrest á launa­greiðslum ella yrði leitað full­tingis dómstóla án frekari fyrirvara.                 Stefndi brást við erindum BHM með tveimur bréfum dags. 8. maí 2015. Annað var svar við tölvupósti lögmanns BHM frá 10. apríl 2015 og hitt svar við fyrr­greindu bréfi framkvæmdastjóra BHM frá 7. maí 2015. Stefndi hafnaði afstöðu félags­ins í báðum bréfunum og tók fram að hann teldi ekkert komið fram í mál­inu sem ætti að leiða til þess að brugðið yrði út af fyrri framkvæmd.                 Stefndi benti á það sjónarmið að verkfall sé félags­leg aðgerð (koll­ektiv) stétt­ar­félagsins. Því verði allir félags­menn að sitja við sama borð um frá­drátt launa. Ekki skipti máli hvort verkfallið sé tíma­bundið eða ótíma­bundið. Stefndi byggði á fyrr­nefndum vinnu­reglum sínum í þessu efni sem hann taldi í samræmi við Félags­dóm í máli nr. 8/1984 frá 17. desember 1984. Í sam­ræmi við þessa afstöðu beitti stefndi þessum reikni­aðferðum við útreikning launa félags­manna Ljósmæðrafélagsins, þar með talið stefn­enda.                 Ljósmæðrafélag Íslands höfðaði mál gegn stefnda fyrir Félagsdómi (nr. 19/2015). Því máli var vísað frá Félagsdómi með úrskurði 29. júní 2015. Áður, eða 13. júní 2015, tóku gildi lög nr. 31/2015, sem lögðu bann við vinnu­stöðvun aðild­ar­félaga BHM, meðal annars Ljósmæðrafélags Íslands. Jafnframt var kveðið á um það í lög­unum, að hefðu aðilar ekki undirritað kjarasamning fyrir 1. júlí 2015, skyldi gerðar­dómur skip­aður til að ákveða kaup og kjör félagsmanna aðildarfélaga BHM fyrir 15. ágúst 2015. Samn­ingar tókust ekki milli aðila fyrir tilsettan tíma. Af þeim sökum tók gerðar­dóm­ur­inn til starfa. Hann afhenti niðurstöðu sína 14. ágúst 2015. Ákvarð­anir hans eru bindandi sem kjarasamningur frá og með 13. júní 2015, sbr. 2. gr. laga nr. 31/2015.                 Ljósmæðrafélag Íslands höfðaði mál gegn stefnda á ný fyrir Félags­dómi. Þess var krafist að viðurkennt yrði að stefndi hefði brotið gegn greinum 1.1 og 1.6, sbr. grein 2.6, í kjarasamningi Ljósmæðrafélags Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkis­sjóðs, með því að greiða tilgreindum félagsmanni Ljósmæðrafélagsins ekki óskert laun vegna vinnu á sex tilgreindum vöktum sem hún hafði unnið í apríl 2015 þá daga sem verkfallið stóð ekki. Með dómi Félagsdóms 14. október 2015 í máli nr. 22/2015 var stefndi sýkn­aður af öllum kröfum Ljósmæðrafélagsins á þeim forsendum að sam­kvæmt ákvæðum kjara­samn­ings­ins yrði að líta svo á að félagsmenn hefðu verið í verk­falli óháð því hvort þeir áttu vinnuskyldu þá daga sem boðað verkfall varði eða ekki. Í sér­atkvæði tveggja dómara Félagsdóms var fallist á kröfur Ljós­mæðra­félags­ins á þeim grun­dvelli að sú framkvæmd að draga laun vegna verkfalls hlutfalls­lega af öllum félags­mönnum sam­rýmd­ist ekki þeirri grunnreglu að starfsmaður skuli fá laun fyrir vinnu­framlag sitt. Íslenska ríkið hefði þegið vinnuframlag starfs­manna athuga­semda­laust og hefði því borið að greiða laun fyrir daga sem unnir voru utan verk­falls.   Dómkröfur stefnenda                 Kröfur stefnenda byggja á útreikningum Ljósmæðrafélags Íslands. Við þann útreikn­ing studdist félagið við tímaskráningu stefn­enda og launa­seðla þar sem fram kemur frádráttur stefnda vegna verkfalls í tilviki hverrar fyrir sig. Fundin eru laun hvers stefnanda um sig fyrir unna klukku­stund með því að deila umsömdu prósentu­hlut­falli samkvæmt grein 1.4.1 í kjara­samn­ingnum, sem fjallar um tíma­kaup í dag­vinnu, í heildar­mán­að­ar­laun þeirra. Tekið er tillit til þess að laun stefn­enda hækk­uðu frá og með 1. maí 2015 samkvæmt úrskurði gerðardóms enda leið­rétti stefndi launa­upp­gjör sitt vegna maí og júní 1. september 2015 samhliða greiðslu launa þess mán­aðar. Síðan er skilgreint hver vinnu­stunda­fjöldi við­kom­andi átti að vera sam­kvæmt vakt­áætlunum stefnda og svo skil­greint hversu margar þeirra vinnu­stunda féllu niður vegna verkfalls. Þá er reiknað út hver frá­dráttur launa hefði átt að vera vegna verk­falls­frá­tafa og það borið saman við raun­veru­legan frá­drátt stefnda. Mis­munur þessa myndi dómkröfu hvers stefnanda fyrir sig. Krafist er greiðslu van­gold­inna launa með svofelldum hætti:   Dómkrafa Önnu Jónínu Eðvaldsdóttur                 Á tímabili verkfallsaðgerða, 7. apríl 2015 til 12. júní 2015, hafi vinnu­skylda stefn­anda, samkvæmt vaktaáætlun sem Landspítali háskóla­sjúkra­hús gaf út, verið 112 klst. í apríl, 125 klst. í maí og 137 klst. í júní. [Við aðalmeðferð var leiðrétt að vinnu­skylda hennar í júní nam 123 klst.] Í apríl 2015 hafi stefnandi verið 8 klst. í verk­falli, 24 klst. í maí og 16 klst. í júní. Stefnandi starfaði á tíma­bili verkfallsaðgerða á deild 22A á Land­spítala háskóla­sjúkra­húsi, Meðgöngu- og sæng­ur­kvennadeild, í 70% starfs­hlut­falli sam­kvæmt vakta­áætlun sem var skipulögð í sam­ræmi við tillögur hennar sjálfrar. Þær tillögur byggðu ekki á neinum séróskum um nánari framkvæmd vinn­unnar og féllu því til á öllum tímum sólarhrings.                 Stefnandi er í launaflokki 9-7. Mánaðarlaun hennar nema því 539.293 kr. eftir niður­stöðu gerðardóms skv. lögum nr. 31/2015. Tímakaup hennar er því 3.317 kr. (539.293*0,615%). Að mati stefnenda hefði frádráttur vegna verkfalls réttilega átt að vera þessi: Mánuður Tímafjöldi Tímakaup Heildarfjárhæð Apríl 2015 8 klst. 3.317 kr. 26.533 kr. Maí 2015 24 klst. 3.317 kr. 79.600 kr. Júní 2015 16 klst. 3.317 kr. 53.066 kr. Samtals     159.199 kr.                   Samkvæmt launaseðli stefnanda frá september 2015 dró stefndi af launum hennar samtals 320.933 krónur. Þar af 156.772 kr., vegna apríl, 156.772 kr., vegna maí, og 7.388 kr., vegna júní. Launaseðillinn sýni hvernig frádráttur af launum hennar hafi verið leið­réttur aftur­virkt í samræmi við niður­stöðu gerðardóms. Stefn­andi telur réttan frá­drátt af launum hennar nema 159.199 kr. Raunar hátti svo til að stefndi hafi dregið minna af launum hennar vegna júní­mán­aðar heldur en þátttaka hennar í verk­falli hafi gefið til­efni til en tekið sé tillit til þess í fram­setningu dómkröfu stefn­anda. Vangoldin laun sund­ur­lið­ast þannig: Mánuður Frádráttur stefnda Réttur frádráttur að mati stefnanda Mismunur Apríl 2015 156.772 -26.533 130.239 Maí 2015 156.772 -79.600 77.173 Júní 2015 7.388 -53.066 -45.678 Samtals     161.734   Dómkrafa Bjargar Pálsdóttur                 Á tímabili verkfallsaðgerða, 7. apríl 2015 til 12. júní 2015, hafi vinnu­skylda stefn­anda, samkvæmt vaktaáætlun sem Landspítali háskóla­sjúkrahús gaf út, verið 93 klst. í apríl, 126 klst. í maí og 80,33 klst. í júní. Í apríl 2015 hafi stefnandi verið fjórar klst. í verkfalli, 8,27 klst. í maí en engar frátafir hafi verið hjá henni af þessum sökum í júní. Stefnandi starfaði á tíma­bili verkfallsaðgerða á deild 23B á Landspítala háskóla­sjúkra­húsi, á fæðingar­vakt­inni við móttöku barna. Stefnandi, sem var í 50% starfi, vann fyrst og fremst á nætur­vöktum að eigin ósk en jafnframt eru vaktir skipu­lagðar í sam­ræmi við tillögur hennar sjálfrar sem hún leggur fram með tveggja mán­aða fyrirvara. Til­viljun hafi ráðið háu hlutfalli verkfallsvakta.                 Stefnandi er í launaflokki 10-7. Mánaðarlaun hennar nema því 566.257 kr. eftir niður­stöðu gerðardóms skv. lögum nr. 31/2015. Tímakaup hennar er því 3.482 kr. (566.257*0,615%). Að mati stefnenda hefði frádráttur vegna verkfalls réttilega átt að vera þessi: Mánuður Tímafjöldi Tímakaup Heildarfjárhæð Apríl 2015 4 klst. 3.482 13.930 Maí 2015 8,27 klst. 3.482 28.796 Júní 2015 0 klst. 3.482 0     Samtals 42.726                   Samkvæmt launaseðli stefnanda frá september 2015 dró stefndi af launum hennar samtals 362.404 kr. Þar af 156.740 kr., vegna apríl, 156.740 kr., vegna maí, og 48.925 kr. vegna júní. Launaseðillinn sýni hvernig frádráttur af launum stefnanda var leið­réttur aftur­virkt í samræmi við niður­stöðu gerðardóms. Stefnandi telur réttan frá­drátt af launum hennar nema 42.726 kr. Vangoldin laun sundurliðast þannig: Mánuður Frádráttur stefnda Réttur frádráttur að mati stefnanda Mismunur Apríl 2015 156.740 -13.930 142.810 Maí 2015 156.740 -28.796 127.944 Júní 2015 48.925 -0 48.925 Samtals     319.679   Dómkrafa Brynju Pálu Helgadóttur:                 Á tímabili verkfallsaðgerða, 7. apríl 2015 til 12. júní 2015, hafi vinnu­skylda stefn­anda, samkvæmt vaktaáætlun sem Landspítali háskóla­sjúkra­hús gaf út, verið 143 klst. í apríl, 154 klst. í maí og 136 klst. í júní. Í apríl 2015 hafi hún verið 20 klst. í verk­falli, 35,2 klst. í maí og 38,4 klst. í júní. Stefnandi starfaði á tíma­bili verk­falls­að­gerða á deild 23B á Land­spítala háskólasjúkrahúsi á fæðingar­vakt­inni við móttöku barna. Hún var í 80% starfi og voru vaktir skipulagðar í sam­ræmi við tillögur hennar sjálfrar.                 Stefnandi er í launaflokki 9-4. Mánaðarlaun hennar nema því 504.780 kr. eftir nið­ur­stöðu gerðardóms skv. lögum nr. 31/2015. Tímakaup hennar er því 3.104 kr. (504.780*0,615%). Að mati stefnanda hefði frádráttur vegna verkfalls réttilega átt að vera þessi: Mánuður Tímafjöldi Tímakaup Heildarfjárhæð Apríl 2015 20 klst. 3.104 62.088 Maí 2015 35,2 klst. 3.104 109.261 Júní 2015 38,4 klst. 3.104 119.194 Samtals     290.542                   Samkvæmt launaseðli stefnanda frá september 2015 dró stefndi af launum hennar samtals 331.186 kr. Þar af 167.637 kr. vegna apríl, 111.758 kr. vegna maí og 51.790 kr. vegna júní. Launaseðillinn sýni hvernig frádráttur af launum stefnanda var leið­réttur aftur­virkt í samræmi við niður­stöðu gerðardóms. Stefnandi telur réttan frá­drátt af launum hennar nema 290.542 kr. Raunar hátti svo til að stefndi hafi dregið minna af launum stefnanda vegna júnímánaðar heldur en þátttaka hennar í verk­falli gaf tilefni til en tekið er tillit til þess í framsetningu dómkröfu stefnanda. Van­goldin laun sundur­lið­ast þannig: Mánuður Frádráttur stefnda Réttur frádráttur að mati stefnanda Mismunur Apríl 2015 167.637 -62.088 105.549 Maí 2015 111.758 -109.261 2.497 Júní 2015 51.790 -119.194 -67.403 Samtals     40.643   Dómkrafa Kristínar Svölu Jónsdóttur                 Á tímabili verkfallsaðgerða, 7. apríl 2015 til 12. júní 2015, hafi vinnu­skylda stefn­anda, samkvæmt vaktaáætlun sem Landspítali háskóla­sjúkra­hús gaf út, verið 33 klst. í apríl, 40 klst. í maí og 24 klst. í júní. Í apríl 2015 var stefnandi 12,3 klst. í verk­falli, en hvorki í maí og júní. Hún starfaði á tímabili verkfallsaðgerða á deild 23D, Vöku­deild, í 20% starfshlutfalli sem hún leysti almennt þannig af hendi að vinna þriðju hverja helgi, því féll ekki niður vinna hjá henni umfram eina aukavakt sem ráð­gert var að hún tæki í apríl.                 Stefnandi er í launaflokki 8-6. Mánaðarlaun hennar nema því 502.684 kr. eftir niður­stöðu gerðardóms skv. lögum nr. 31/2015. Tímakaup hennar er því 3.092 kr. (502.684*0,615%). Að mati stefnenda hefði frádráttur vegna verkfalls rétti­lega átt að vera þessi: Mánuður Tímafjöldi Tímakaup Heildarfjárhæð Apríl 2015 12,3 klst. 3.092 38.026 Maí 2015 0 klst. 3.092 0 Júní 2015 0 klst. 3.092 0 Samtals     38.026                   Samkvæmt launaseðli stefnanda frá september 2015 dró stefndi af launum hennar samtals 111.395 kr. Þar af 55.697 kr. vegna apríl og 55.697 kr. vegna maí, en ekk­ert vegna júní. Launaseðillinn sýni hvernig frádráttur af launum stefnanda var leið­réttur aftur­virkt í samræmi við niður­stöðu gerðardóms. Stefnandi telur réttan frá­drátt af launum hennar nema 38.026 kr. Vangoldin laun sundurliðast þannig: Mánuður Frádráttur stefnda Réttur frádráttur að mati stefnanda Mismunur Apríl 2015 55.697 -38.026 17.672 Maí 2015 55.697 -0 55.697 Júní 2015     0 Samtals     73.369   Dómkrafa Sigrúnar Ingvarsdóttur                 Á tímabili verkfallsaðgerða, 7. apríl 2015 til 12. júní 2015, hafi vinnu­skylda stefn­anda, samkvæmt vaktaáætlun sem Landspítali háskóla­sjúkrahús gaf út verið 96,36 klst. í apríl, 88 klst. í maí og 108 klst. í júní. Í apríl 2015 var stefnandi 20 klst. í verk­falli, 16 klst. í maí og 8 klst. í júní. Stefnandi starfaði á tíma­bili verkfallsaðgerða á deild 22B á Landspítala háskólasjúkrahúsi, við áhættu­mæðra­vernd, en þau verk eru leyst af hendi í dagvinnu milli kl. 8 og 16 þannig að allar vaktir hennar voru á þeim tíma sólar­hrings. Á tíma verkfalls var hún í 60% starfi.                 Stefnandi er í launaflokki 7-3. Mánaðarlaun hennar nema af þeim sökum 447.524 kr. eftir niðurstöðu gerðardóms skv. lögum nr. 31/2015. Tímakaup hennar er því 2.752 kr. (447.524*0,615%). Að mati stefnanda hefði frádráttur vegna verkfalls rétti­lega átt að vera þessi: Mánuður Tímafjöldi Tímakaup Heildarfjárhæð Apríl 2015 20 klst. 2.752 55.045 Maí 2015 16 klst. 2.752 44.032 Júní 2015 8 klst. 2.752 22.016 Samtals     121.093                   Samkvæmt launaseðli stefnanda frá september 2015 dró stefndi af launum hennar samtals 309.463 kr. Þar af 148.578 kr. vegna apríl, 111.389 kr. vegna maí og 49.496 kr. vegna júní. Launaseðillinn sýni hvernig frádráttur af launum stefnanda var leið­réttur aftur­virkt í samræmi við niður­stöðu gerðardóms. Réttur frádráttur af launum hennar hefði átt að nema 121.093 kr. Vangoldin laun sundurliðist þannig: Mánuður Frádráttur stefnda Réttur frádráttur að mati stefnanda Mismunur Apríl 2015 148.578 55.045 93.533 Maí 2015 111.389 44.032 67.357 Júní 2015 49.496 22.016 27.480 Samtals     188.369                   Allir stefnendur krefjast dráttarvaxta frá hverjum gjalddaga launa vegna upp­gjörs vakta sem er fyrsti dagur annarra mánaðarmóta, það er frá 1. júní vegna vakta­tíma­bils til 15. apríl, 1. júlí vegna vaktatímabils til 15. maí og 1. ágúst vegna vakta­tíma­bils til 15. júní 2016.   Málsástæður og lagarök stefnenda Samlagsaðild                 Stefnendur sækja þetta mál í félagi, samkvæmt heimild 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Þær vísa til þess að dómkröfurnar eigi rót sína að rekja til þeirrar aðstöðu að stefn­endur, sem eru allar félagsmenn í Ljósmæðrafélagi Íslands, hafi ekki fengið greitt fyrir vinnu sem þær inntu af hendi. Sömu atvik eigi við í tilviki þeirra allra, þ.e. að stefndi dró af launum þeirra eftir reiknireglu vegna verkfallsaðgerða án tillits til eign­ar­rétt­inda hverrar og einnar af stefnendum á launum fyrir vinnuframlag sem þær höfðu látið í té. Af þeim sökum telja stefnendur mál sitt fullnægja þeim skilyrðum að þær geti nýtt sér rétt­ar­fars­hagræði samlagsaðildar þótt réttindi hverrar og einnar njóti ein­stakl­ings­bund­innar stjórnarskrárverndar. Máls­ástæður og aðstæður allar í til­viki hverrar fyrir sig séu alger­lega sambærilegar að gættum þeim mun sem er á vakta­fjölda, launa­flokki og starfs­hlut­falli hverrar fyrir sig.                 Stefnendur byggja kröfur sínar á ráðningarsamningum sínum og rétti sínum til end­ur­gjalds fyrir þá vinnu í þágu stefnda sem þær hafa innt af hendi. Þær byggja einnig á meginreglum samningaréttar um skyldu til að efna gerða samn­inga.                 Stefnendur vísa til þess að kjör ljósmæðra á Landspítalanum háskólasjúkrahúsi ráðist af kjara­samn­ingi Ljós­mæðrafélags Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkis­sjóðs, frá 28. febrúar 2005, og úrskurði gerðardóms, samkvæmt lögum nr. 31/2015, frá 14. ágúst 2015. Stefnendur hafi allar starfað á Landspítalanum í þágu stefnda. Því beri að líta til kjara­samn­ingsins og úrskurðar gerðardóms um kaup og kjör stefn­enda sem stefndi sé bund­inn af. Stefnendur leggja til grundvallar að ekki sé ágrein­ingur með aðilum um vinnu­stundafjölda og röðun stefnenda í launa­flokka hverju sinni enda komi þetta fram á launa­seðlum sem stefndi gaf út. Vinnustundir, bæði þær sem voru unnar og eins þær sem féllu niður vegna verkfalls, ættu líka að vera óum­deildar enda byggja kröfur stefnenda á gögnum frá stefnda í þessum efnum.                 Kröfur allra stefnenda séu vegna vinnu sem þær inntu af hendi. Stefndi hafi neitað að greiða laun fyrir þessa vinnu og þar með tekið undir sig afrakstur af vinnu­fram­lagi stefnenda, andstætt lögum að þeirra mati. Stefnendur vísa til þess að dæmt hafi verið að aflahæfi fólks sé stjórnarskrárvarin eignarréttindi. Þar að auki sé réttur stefn­enda til launa, sem þær hafi þegar unnið fyrir, stjórnarskrárvarinn, sbr. 72. gr. stjórn­ar­skrárinnar, nr. 33/1944. Stefnendur byggja á því að með því að skerða laun þeirra í sam­ræmi við reiknireglu stefnda brjóti stefndi gegn þessu stjórnar­skrár­ákvæði. Stefndi haldi á lofti þeirri öfug­snúnu jafn­ræðis­reglu, að skerða eigi laun allra félags­manna á grund­velli reiknireglu greinar 1.1.2 í kjarasamningi. Þessi regla eigi ekki við rök að styðj­ast og ryðji ekki úr vegi einstaklingsbundnum eignarrétti hvers stefn­anda fyrir sig á afrakstri eigin verka sem þær hafi innt af hendi.                 Í ákvæðum kjarasamnings Ljósmæðrafélags Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkis­sjóðs og úrskurði gerðardóms, samkvæmt lögum nr. 31/2015, felist að launa­tíma­bil miðast við mánuð og mánaðarlaun skuli greidd þeim sem hafi innt af hendi vinnu í þeim mánuðum sem um ræðir. Stefndi hafi sjálfur byggt útreikn­ing sinn og afstöðu á því að vinnuskylda og laun miðist við mánuð. Fyrir liggi að hluta tíma­bils­ins frá 7. apríl til og með 12. júní 2015 hafi hrina verk­falls­aðgerða staðið, á þriðju­dögum, miðvikudögum og fimmtudögum, sem stefnendur tóku þátt í með því að leggja niður störf þessa daga að því marki sem þær áttu að standa vaktir þessa daga og voru ekki kallaðar til í krafti undanþága. Þetta hafi ekki verið samfellt ótíma­bundið verk­fall heldur tímabundnar verkfallslotur, slitruverkfall, hjá félags­mönnum stéttar­félags stefnenda, Ljósmæðrafélagi Íslands, sem stóð frá kl. 00.00 til 24.00 alla nefnda viku­daga á vinnustað stefnenda.                 Aðra daga vikunnar, föstu-, laugar-, sunnu- og mánudaga hafi stefn­endur sinnt venju­legum störfum sínum eftir því sem kveðið var á um í vakta­áætlun sem stefndi gefur út fyrir hvert vaktatímabil. Vinnutilhögun hverrar og einnar af stefnendum ráð­ist af einstaklingsbundnum ákvæðum ráðn­ingar­samn­ings. Í þeim efnum hafi einkum þrennt áhrif; 1) starfshlutfall, 2) þau verkefni sem hver og ein meðal stefn­enda leysti af hendi og 3) nánari tilhögun vakta.                 Í sumum til­vikum hafi vinna ein­ungis verið innt af hendi á dag­vinnu­tíma, eins og í tilviki Sigrúnar Ing­vars­dóttur, en í öðrum til­vikum hafi vinnan nánast alfarið verið innt af hendi um helgar, sem voru utan þess tíma sem verk­föll höfðu áhrif á, eins og til dæmis í tilviki Kristínar Svölu sem vann að jafnaði ein­vörð­ungu um helgar þótt henni hefði verið ætlað að taka eina auka­vakt í apríl, sem féll svo niður vegna verk­falls.                 Óháð vinnu­fyrir­komu­lagi blasi sú hlut­ræna stað­reynd við í tilviki allra stefn­enda að stefndi tók undir sig stærri hluta launa þeirra heldur en nam því vinnuframlagi sem féll niður vegna verk­falls. Þótt óum­deilt sé að stefn­endur hafi sinnt störfum með venju­legu sniði þessa fjóra daga vik­unnar hafi stefndi kosið að haga launagreiðslum eftir eigin aðferðum án tillits til vinnu­fram­lags stefn­enda. Slíkt sé brot á kjarasamningi og það að greiða ekki fyrir unnin störf sé brot á stjórn­ar­skrá.                 Í þessu sambandi verði líka að hafa í huga að í dreifibréfi nr. 6/2001 felist ekki gild stjórnvaldsfyrirmæli. Það sé gefið út án nokkurrar lagastoðar. Það eigi sér ekki heldur grund­völl í stjórnvaldsfyrirmælum. Skjalið skapi stefnda ekki sjálfstæðan rétt auk þess sem standist ekki, í þessum tilvikum, að beita reiknireglunni sem tilgreind er í skjal­inu.                 Stefnendur árétta að reikniregla greinar 1.1.2 í kjarasamningi, sé aðferð til að finna út hlutfall mán­að­ar­launa. Hún sé mjög víða í kjarasamningum enda hugsuð til þess að reikna út hvaða laun sá starfsmaður, sem vinni reglu­bundið átta stunda vinnu­dag, eigi að fá fyrir brot úr mánuði. Stefndi beiti henni hins vegar undir öfugum for­merkjum – til þess að draga frá launum, í stað þess að reikna út laun. Vinna stefn­enda hjá stefnda falli ekki að hugtaksskilyrðum þessa ákvæðis. Stefnendur vinni ekki reglu­bundna átta stunda dagvinnu án laugardaga og sunnudaga. Þær séu í óreglu­legri vakta­vinnu þar sem vaktir dreifist á alla sjö daga vikunnar. Til dæmis sé mjög algengt að starfs­menn sinni 12 klukkustunda löngum vöktum um helgar þannig að vinnu­fram­lag sé innt af hendi á mun færri dögum vikunnar en ella. Jafnframt sé vinnu­fyrir­komu­lag hvers og eins starfs­manns sniðið að nánara inntaki ráðningarsamnings hvers og eins. Það inntak sé mjög fjölbreytt. Einungis einn stefnenda vinni reglu­bundið átta klukku­stunda vaktir á dagvinnutíma, Sigrún Ingvarsdóttir, sem vinni á göngu­deild mæðra­verndar og fóst­ur­greininga. Þrátt fyrir það hafi reikniregla greinar 1.1.2 leitt til þess að stefndi hélt eftir sem nam 188.963 krónum af launum sem Sigrún vann fyrir með vinnu­fram­lagi sínu. Önd­vert við Sigrúnu vinni stefn­and­inn Krist­ín Svala nán­ast ein­vörð­ungu um helgar, leysi alla sína vinnu­skyldu almennt af hendi á þeim tíma. Ein auka­vakt, sem henni var ætlað að vinna í apríl, hafi fallið niður, önnur vinna ekki, hvorki á öðrum tíma í apríl né í maí eða júní. Engu að síður hafi stefndi tekið undir sig af launum þessa stefn­anda í maímán­uði þótt hún hafi sinnt vinnu­skyldu sinni í hví­vetna. Í til­vikum allra stefn­enda blasi við þegar dóm­kröfur þeirra eru gaum­gæfðar og hugað að vinnu­skyldu hverrar og einnar í hverjum mán­uði að stefndi taki undir sig eign hverrar þeirrar fyrir sig. Því fari þannig fjarri að unnt sé að leggja reikni­reglu greinar 1.1.2 til grundvallar í þessum tilvikum, sú regla miði að allt ann­arri aðstöðu.                 Meðaltalsútreikningsaðferð stefnda, sem miðist alfarið við fimm daga vinnu­viku í reglulegri átta klukkustunda vinnu, valdi skekkju í tilvikum stefnenda. Sam­kvæmt henni detti út tveir vinnudagar í viku hverri, þar sem vaktir eru staðnar rétt eins og alla hina daga vikunnar. Skekkjan verði þeim mun meiri fyrir þær sakir að mjög algengt sé að ljósmæður standi tvöfaldar vaktir um helgi, það er standi tvær tólf stunda langar vaktir, laugardag og sunnudag og hafi því innt af hendi drjúgan hluta vinnu­skyld­unnar utan þess tímabils sem grein 1.1.2 miðist við og að auki utan þess tímabils sem verk­falls­lotur Ljósmæðrafélagsins tóku til.                 Að mati stefnenda er kjarninn sá, þegar horft er til máls­atvika hvers stefnanda um sig, að sú reikniregla sem stefndi vill miða við grípi í engu tilviki rétt utan um rétt­ar­stöðu stefnenda, ekki einu sinni stefn­and­ans Sigrúnar sem þó leysti sínar vaktir af hendi á dagvinnutímabili á virkum dögum. Þessi rök mæli gegn því að nota marg­nefnda reiknireglu kjarasamnings undir öfugum for­merkjum. Enn fremur verði að halda því sér­stak­lega til haga að stéttarfélag stefn­enda hafi ekki efnt til verk­falls í ein­hverju tilteknu starfs­hlut­falli heldur tiltekna daga. Það sé einfaldlega röng nálgun að nota almennan hlut­falls­útreikn­ing til að draga af stefnendum og öðrum félags­mönnum stétt­ar­félagsins.                 Í þessu sambandi verði að árétta að vaktir stefnenda séu almennt gerðar upp ein­stakl­ings­bundið. Stefndi geri upp laun hverrar og einnar þeirra um hver mánaða­mót. Þá horfi hann til starfshlutfalls sem og hugsanlegra aukavakta sem og frátafa sem upp kunni að hafa komið. Stefnda sé því engin vorkunn að gera upp laun hverrar og einnar að teknu tilliti til þátttöku hverrar um sig í verk­falls­að­gerðum án þess að ganga á stjórnarskrárvarin eignarréttindi þeirra. Engar tæknilegar hindr­anir hafi þar staðið í vegi.                 Stefnda beri að efna sinn hluta ráðningarsamnings á sama hátt og stefnendur hafi efnt sinn hluta samningsins með því að inna af hendi vinnuframlag sitt, enda hafi stefndi ekki orðið af vinnuframlagi stefnenda þá daga sem verkfall stóð ekki yfir, ein­ungis þá daga sem stefnendur lögðu niður störf. Samkvæmt meginreglu íslensks vinnu­réttar sé verkfall félagsleg aðgerð sem raski ekki ráðningarsambandi einstakra launa­manna og vinnuveitanda þeirra. Stefnda beri þar af leiðandi að greiða laun í sam­ræmi við unnin störf samkvæmt ráðningarsamningi sem verkfallið kom ekki í veg fyrir að væru unnin.                 Verkfall sé lögbundið úrræði stéttarfélags til að ná fram kjarasamningi við við­semj­anda sinn og sem slíkt sé það vissulega félagsleg aðgerð. Stefnendur hafi, sem félags­menn, tekið þátt í þeirri aðgerð. Það rýri ekki réttindi einstakra félagsmanna til launa og kjara samkvæmt gildandi kjarasamningi ef og þegar svo háttar til að verkfall annað hvort hafi ekki áhrif á störf viðkomandi félagsmanns eða honum beri að lögum að vinna störf sín í verkfalli.                 Stefnendur byggja á því að stefnda hafi einungis verið heimilt að fella niður laun þeirra vegna þeirra vakta sem óumdeilt er að féllu niður vegna verkfalls. Tak­mörkun greiðsluskyldu stefnda sem atvinnurekanda geti að mati stefnenda ekki verið rýmri en sem nemi því vinnuframlagi starfsmanns sem falli niður hverju sinni. Stefndi eigi enga heimtingu á því að stefnendur gangi til starfa án þess að fá greitt fyrir þau og eigi enga heimtingu á því að auðgast á kostnað starfsmanna sinna með því að þurfa ekki að greiða fyrir unnar vinnustundir, einungis vegna þess að aðrir starfs­menn lögðu niður störf hjá stefnda vegna verkfalls.                 Stefnda sé ekki unnt að tyfta stefnendur fyrir þátttöku þeirra í verkfalli með launa­frádrætti til þess að sporna gegn verkföllum. Réttur stefnenda, sem félagsmanna í stétt­ar­félagi sínu, til þess að fara í verkfall sé lögvarinn, sbr. 14. gr. laga nr. 94/1986, um kjara­samninga opinberra starfsmanna. Þar að auki sé rétturinn til að semja um kaup og kjör sérstaklega varinn af stjórnarskránni, sbr. 75. gr. hennar, sbr. einnig 5. og 7. gr. laga nr. 94/1986. Skilyrði þess hins vegar að þessi rétt­indi séu virk og raunhæf séu að félags­menn stéttarfélaga taki þátt í atkvæða­greiðslu um boðun verkfalls og sam­þykki að þessara réttinda sé neytt til að knýja á um nefnd stjórnarskrárvarin rétt­indi. Að mati stefn­enda er undir hælinn lagt að starfs­menn treysti sér til að ljá atbeina sinn og sam­þykki fyrir slíkum aðgerðum ef þeir mega vænta þess að vera sviptir þeim stjórn­ar­skrár­vörðu eignarréttindum, að njóta arðs af vinnu­fram­lagi sem þeir hafa þegar innt af hendi. Alltof langt sé gengið þegar dregið sé af launum stefnenda langt umfram þátt­töku í verkfallinu. Í launa­frá­drætt­inum felist óréttmæt auðgun stefnda, því stefn­endur hafi í raun verið í launa­lausri þegn­skyldu í þágu stefnda þegar þær gengu til starfa.                 Inntak hugtaksins verkfall sé lögbundið í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 84/1996, sbr. 1. gr. laga nr. 67/2000. Til verkfalls í skilningi laganna teljist það þegar starfs­menn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná til­teknu sam­eigin­legu markmiði. Að mati stefnenda ætti að vera óumdeilt að gagn­kvæmni í skyldum aðila fylgist að í þessum efnum, þegar starfsmenn fari í verkfall falli greiðslu­skylda stefnda á launum niður. Hins vegar takmarkist það brottfall að mati stefn­enda á gagn­kvæman hátt. Hagur annars aðilans vænkist ekki á kostnað hins vegna félags­legra aðgerða þess síðarnefnda. Takmörkun greiðsluskyldu atvinnu­rek­anda geti þó að mati stefn­enda ekki verið rýmri en sem nemur því vinnuframlagi starfs­manns sem fellur niður hverju sinni. Stefndi eigi þannig að mati stefnenda enga heimt­ingu á því að þær gangi til starfa án þess að fá greitt fyrir það.                 Félagsdómur hafi komist að þeirri niðurstöðu í dómi í máli nr. 22/2015, Ljós­mæðra­félag Íslands gegn íslenska ríkinu, að frádráttaraðferð stefnda stæðist þar sem horfa ætti til þess að vinnuskylda og vinnulaun ætti að miða við mánuð án tillits til þess hvernig vinna félli til innan mánaðar. Félagsmenn væru í verkfalli tilgreinda verk­falls­daga án tillits til þess hvort þeirra væri að sinna vinnuskyldu á þeim dögum. Því væri rétt­mætt að beita títtnefndri reiknireglu. Þessi dómur byggist á sýn dóm­stóls­ins á rétt­ar­stöðu þeirra málsaðila sem þar deildu en tók lítt eða ekki á gagnkvæmni rétt­ar­sam­bands einstakra félagsmanna. Ekki sé vikið að þeirri aðstöðu þegar starfs­maður hafi innt sína skyldu af hendi í gagnkvæmu réttarsambandi. Starfs­mað­ur­inn hafi látið sín verðmæti af hendi, vinnuframlag sitt, en atvinnurekandinn láti undir höfuð leggjast að láta gagngjaldið, launin, af hendi. Dómur Félags­dóms hafi ekki bind­andi áhrif fyrir stefnendur þessa máls enda hafi þær ekki verið aðilar að því. Þótt þær séu félags­menn í Ljósmæðrafélagi Íslands hafi þær aldrei afsalað sér stjórn­ar­skrár­vörðum eignum sínum, launum sem þær hafi unnið fyrir með vinnu­fram­lagi sínu.                 Stefnendur byggja á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfs­manna, stjórnarskránni, sbr. lög nr. 33/1944, einkum 72. gr. og mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, einkum 1. gr. Kröfur þeirra um vexti og dráttar­vexti styðj­ast við III. kafla laga um vexti og verðbætur, nr. 38/2001. Kröfur um máls­kostnað styðj­ast við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðis­auka­skatt á mál­flutn­ings­þóknun styðst við lög nr. 50/1988, en stefnendur eru ekki virðis­auka­skattsskyldar og því sé þeim nauðsynlegt að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnda.   Málsástæður og lagarök stefnda                 Stefndi mótmælir öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefn­enda. Hann vísar fyrst til þess að í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opin­berra starfs­manna, segir að boðað verkfall taki til allra starfsmanna í viðkomandi stétt­ar­félagi hjá þeim vinnu­veitendum sem verkfall beinist gegn, annarra en þeirra sem óheim­ilt er að leggja niður störf samkvæmt þeim lögum. Það sé því meginreglan að verk­fall taki til allra starfs­manna, nema þeirra sem falli undir undanþáguákvæði 19. eða 20. gr. lag­anna.                 Eins og skýrt sé af verkfallsboðuninni hafi verkfallið náð til allra félagsmanna sem voru við störf hjá Landspítala frá og með 7. apríl 2015 en ekki einungis til þeirra félags­manna sem áttu vinnuskyldu umrædda verkfallsdaga eins og stefnendur halda fram. Hefði það verið vilji Ljósmæðrafélags Íslands að verk­falls­boð­unin tæki ekki til hluta félagsmanna, það er þeirra félagsmanna sem hefðu ekki átt vinnuskyldu umrædda daga, hefði verið eðlilegt að taka það skýrt fram. Verk­falls­boð­unin beri ekki með sér að vilji hafi staðið til að takmarka verkfallsþátttöku félags­manna með þeim hætti. Ljóst sé að verkfallið hafi tekið jafnt til allra félagsmanna Ljós­mæðra­félagsins, óháð því hvaða vikudaga þeir inntu sína mánaðarlegu vinnu­skyldu (21,67 daga) af hendi. Verk­fallið hafi því að fullu tekið til stefnenda og þær verið í verk­falli umrædda daga, að und­an­skildum þeim dögum sem þær unnu samkvæmt undan­þágu­ákvæðum 19. gr. eða 20. gr. lag­anna.                 Samkvæmt meginreglu vinnuréttar hafi stefnda því borið að haga launa­frá­drætti í sam­ræmi við það að verkfallið tæki til allra starfsmanna. Sú máls­ástæða stefn­enda að tíma­bundið verkfall taki einungis til vinnuskyldu þeirra sem hafi, sam­kvæmt fyrir­ fram ákveðnu vaktaskipulagi, átt að vera við störf þessa til­teknu viku­daga, þriðju­daga, mið­viku­daga og fimmtudaga, sé ekki í samræmi við til­gang verk­falls sem félags­legrar aðgerðar, sbr. III. kafla laga nr. 94/1986. Hafa verði hug­fast að verk­fall sé félags­leg (kollektív) aðgerð. Frá­dráttar­regla launa í kjara­samn­ingnum sé reist á grunni jafn­ræðis­reglunnar og taki jafnt til allra þeirra félags­manna sem eru bundnir af lög­legum verkfallsaðgerðum stéttarfélags síns og taki jafnt til tíma­bund­inna og ótíma­bund­inna verkfalla.                 Það sé meginregla í kjarasamningum starfsmanna ríkisins að launagreiðslur mið­ist við meðaltalsmánuð (21,67 daga) og vinnuskyldan þar með. Þrátt fyrir að á árum áður hafi ákveðnir hópar starfsmanna ríkisins fengið vikulaun í samræmi við þágild­andi ákvæði kjarasamninga, fái allir starfsmenn, sem nú séu ráðnir, settir eða skip­aðir í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar, greidd mánaðarlaun.                 Í verk­föllum hafi það ávallt verið framkvæmd stefnda að dregið sé með sama hætti af mán­að­ar­launum allra félagsmanna hlutaðeigandi stéttarfélags óháð því hvort við­kom­andi félags­manni hafi borið að vinna á meðan á verkfalli stóð eða ekki. Óum­deilt sé að stefn­endur fái greidd mánaðarlaun í samræmi við framangreinda reglu, sem og starfs­hlut­fall og launaflokk. Það sé meginregla að í fullu starfi (fullum mánað­ar­launum) fel­ist 40 vinnuskyldustundir á viku. Sú regla sé fest í lög nr. 88/1971, um 40 stunda vinnu­viku, og sé nánar útfærð í kjarasamningum, sbr. grein 1.1.2, sem sé sam­hljóða í öllum kjarasamningum fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Í grein 1.1.2 í kjara­samningi fjármálaráðherra og Ljósmæðrafélags Íslands sé svohljóðandi ákvæði um útreikn­ing á broti úr mánaðarlaunum: Þegar unninn er 8 stunda vinnu­dagur reglubundið, reiknast brot úr mánaðar­launum þannig að deilt er með 21,67 í mánaðarlaunin og margfaldað með fjölda alman­aks­daga annarra en laug­ar­daga og sunnudaga frá upphafi eða til loka starfs­tíma.                 Þetta ákvæði hafi verið lengi í kjarasamningi fjármálaráðherra og Ljós­mæðra­félags Íslands. Sambærileg ákvæði um útreikninga á broti úr mánaðarlaunum séu í öðrum kjarasamningum sem fjármálaráðherra hafi gert. Samn­ings­aðilar hafi talið nauð­syn­legt að hafa ákvæði sem þetta í kjarasamningi, þar eð vinnu­skylda í hverjum mán­uði sé mismikil þótt mánaðarlaunin séu þau sömu. Fjöldi vinnudaga í mánuði sé mis­jafn, en meðal­fjöldi vinnu­daga til grundvallar mánaðarlaunum sé 21,67 dagar. Af þess­ari reikni­reglu leiði að þótt starfsmenn fái sömu krónutölu í mánaðarlaun fyrir hvern mánuð liggi mismargir vinnu­dagar að baki laununum eftir mánuðum. Eðli máls­ins sam­kvæmt séu færri alm­an­aks­dagar í febrúar en í júlí. Starfs­maður sem vinni fulla vinnu, 21,67 daga, fái þó greidd sömu laun fyrir unnin störf í febrú­ar og júlí. Rétt­ur­inn til mán­að­ar­launa sé ekki háður því á hvaða viku­daga vinnu­skyldan dreif­ist og með mán­að­ar­launum í kjara­samn­ingi sé ekki átt við laun fyrir til­tekna viku­daga sam­kvæmt vakta­skipu­lagi, heldur fyrr­greint meðaltal vinnu­daga.                 Framkvæmd stefnda á launafrádrætti í verkföllum sé hlið­stæð því sem kveðið sé á um í umræddri frádráttarreglu kjarasamninga. Reikni­regla vegna frádráttar launa í verk­falli birtist því í grein 1.1.2 í kjarasamningi aðila. Áður hafi verið deilt um reikni­regl­una, meðal annars í fyrri verkföllum Ljós­mæðra­félags Íslands sem og öðrum verk­föllum stéttarfélaga gagnvart stefnda. Niður­staða dóms­mála, bæði fyrir Félags- og héraðs­dómi hafi einatt verið sú að reikni­reglan hafi verið talin rétt og ítrekað stað­fest að beita skuli henni við útreikning á broti úr mánaðarlaunum þegar frá­dráttur vegna launa í verkföllum sé reiknaður út. Sú stað­hæf­ing stefnenda að reikni­reglan mið­ist við dag­vinnumenn sem vinni fimm daga vik­unnar, en ekki vakta­vinnu­menn sem vinni sjö daga vikunnar, sé samkvæmt ofan­greindu röng. Til áréttingar telur stefndi rétt að nefna að vinnuvika starfsmanna í fullu starfi skuli vera 40 stundir á viku skv. grein 2.1.1 í kjarasamningnum, óháð því hvort starfs­menn sinni hefðbundinni dag­vinnu á virkum dögum eða vinni á reglu­bundnum vöktum. Í grein 2.6.1 í kjara­samn­ingi aðila komi fram að þeir sem vinni á reglu­bundnum vöktum, skuli fá vaktaálag fyrir unnin störf á þeim tíma sem falli utan venju­legs dagvinnutímabils, sbr. grein 1.6.1 í kjara­samn­ingi aðila. Að öðru leyti sé ekki gerður greinarmunur á þeim sem inna sína vinnu­skyldu af hendi á dagvinnutíma á virkum dögum og þeim sem sinni vinnuskyldu sinni á reglu­bundnum vöktum sem geti verið utan dagvinnutíma og á öllum viku­dögum. Þessu til stuðnings megi vísa til þess að í grein 2.6.7 í kjarasamningnum komi skýrt fram að ljósmóðir í fullu starfi sem vinnur á reglubundnum vöktum og vinnur til jafn­aðar 40 klst. á viku allt árið geti, í stað greiðslna skv. 2.3.2 (yfir­vinna), fengið frí á óskertum föstum launum í 88 vinnu­skyldu­stundir á ári miðað við heils árs starf. Þessi grein sýni glöggt að gert sé ráð fyrir því að vinnuskylda ljósmóður í fullu starfi á reglu­bundnum vöktum sé með sama hætti og þeirrar sem vinni dag­vinnu skv. 1.1.2, þ.e. þær vinni báðar að jafnaði 40 klst. á viku, allt árið. Eini mun­ur­inn á störfum ljós­móður sem vinnur dagvinnu og þeirrar sem vinnur vaktavinnu sé, að sú sem vinnur vakta­vinnu fær sérstakar álags­greiðslur fyrir unnin störf sem falla utan hefðbundins dag­vinnu­tíma, eins og hann er skil­greindur í kjarasamningi. Einnig fái starfs­menn í vakta­vinnu að jafnaði tvo samfellda frí­daga í viku eins og hefðbundnir dag­vinnu­menn og því eigi viðmiðið um 21,67 daga vegna vinnuskyldustunda í meðal­tals­mánuði jafnt við um báða hópa. Í ljósi dóm­krafna stefn­enda telur stefndi nauðsynlegt að árétta að reikni­reglan, sem frádrátturinn byggist á, miði við greiðslu mánaðarlauna en ekki viku­launa eins og stefn­endur vilja halda fram.                 Stefnendur haldi því fram að með því að draga hlutfallslega jafnt af öllum félags­mönnum Ljósmæðrafélags Íslands sem starfi hjá Landspítala vegna þátttöku þeirra í sam­eigin­legum verkfallsaðgerðum, hafi ekki verið tekið tillit til réttar hvers og eins starfs­manns eða raunverulegs vinnuframlags. Stefndi andmælir þessum full­yrð­ingum og vísar, ásamt ofangreindu, til þess að túlka verði frádráttarregluna með hlið­sjón af 18. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og tilgangi verk­falls­aðgerða sem sameiginlegrar félags­legrar aðgerðar sem allir félagsmenn Ljós­mæðra­félags Íslands, þar með talið stefn­endur, og stefndi sem samningsaðili, eru bundnir af.                 Ljóst sé að gagnkvæmar skyldur samkvæmt ráðn­ing­ar­samningi, svo sem vinnu­skylda starfsmanns og skylda vinnu­veitanda til greiðslu launa, falli niður í verk­falli, þótt einstökum ráðningar­samn­ingum sé ekki slitið með verkfallsaðgerðum. Starfs­manni sé því skylt að leggja niður störf í löglega boð­uðu verkfalli og vinnu­veit­anda sé óheimilt að taka við vinnu­fram­lagi hans á þeim tíma. Starfsmaður geti því ekki átt rétt til launa fyrir þá daga sem verk­fall standi, óháð vinnuskyldu hans á þeim dögum samkvæmt framansögðu og beri því að draga af honum hlutfallslega þau laun sem hann hefði annars fengið greidd með vísan til greinar 1.1.2 í kjarasamningi milli aðila. Vinnuveitanda sé beinlínis óheim­ilt að greiða honum laun í verkfalli án undan­þágu­heim­ildar. Framangreind túlkun hafi verið stað­fest í dómafordæmum, bæði í Félags­dómi, sem og héraðsdómi og Hæsta­rétti.                 Þessu til viðbótar bendir stefndi á, að árið 1994 var, að beiðni BSRB, skipuð sér­stök óháð nefnd lögfróðra manna sem var falið að kanna lögmæti þeirrar aðferðar sem starfs­manna­skrifstofa fjármálaráðuneytisins (fyrirrennara Kjara- og mann­auðs­sýslu ríkis­ins), beitti við frádrátt af launum sjúkraliða sem lagt höfðu niður vinnu í verk­falli dagana 1. til 3. desember árið 1992. Nefndin afhenti niðurstöðu sína 19. maí 1994. Í áliti nefndarinnar segir m.a.: Myndast hefir regla um frádrátt launa vegna verk­falls ýmissa starfshópa opin­berra starfsmanna, mótuð af fjár­mála­ráðu­neyt­inu. Hefir þessari reglu verið beitt þrí­vegis áður. Launafrádrátturinn, sem sjúkra­lið­arnir urðu fyrir, var byggður á þess­ari reglu. Aðgerðin var félagsleg (kollektív) og því verða allir að sitja við sama borð um frádráttinn, einnig þeir sem hugs­an­lega áttu ekki að inna vinnuskyldu af hendi þessa tvo daga, sem vinnu­stöðv­unin stóð. Sam­kvæmt því sem nú hefir verið tekið fram lítur nefndin svo á, að frá­drætti á laun sjúkra­lið­anna hafi verið hagað í samræmi við það sem eðlilegt getur talist.                 Einn nefndarmanna var ósammála meirihluta nefnd­ar­innar og taldi að upp­gjör skyldi gert á grundvelli einstaklingsbundinna efnda við­komandi sjúkraliða á skuld­bind­ingum sam­kvæmt ráðningarsamningi.                 Stefndi hafnar þeirri fullyrðingu stefnenda að frádráttur launa í verkfalli grund­vall­ist á einhliða túlkun stefnda. Kjarasamningur sé tví­hliða samningur um kaup og kjör. Ljósmæðrafélag Íslands hafi ekki séð ástæðu til að fara fram á breytingar á þess­ari frádráttarreglu við kjarasamningsgerð, frá­dráttar­reglu sem hafi verið beitt í öllum verk­falls­aðgerðum félagsins gegn ríkinu.                 Stefndi mótmælir einnig þeirri fullyrðingu stefnenda að niðurstaða Félagsdóms í máli nr. 22/2015, sem Ljósmæðrafélag Íslands höfðaði fyrir hönd félags­manns síns, taki ekki til ágreiningsefnis stefnenda, sem rangri og telur niður­stöð­una bindandi fyrir stefn­endur sem félagsmenn Ljósmæðrafélags Íslands. Í fyrr­greindu Félags­dóms­máli hafi verið deilt um sömu ágreiningsatriði og liggi til grundvallar dóm­kröfum stefn­enda í þessu máli, það er um gildi og túlkun þeirrar frádráttarreglu sem stefndi beitir við frá­drátt á launum starfsmanna í verkfalli. Félagsdómur hafi sýknað íslenska ríkið af kröfum stefn­anda og talið túlkun frádráttarreglunnar hvorki fela í sér brot á almennum reglum vinnu­réttar, né brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar eða Mann­rétt­inda­sáttmála Evrópu. Í niður­stöðu Félagsdóms, sem sé fullnaðarniðurstaða, segi m.a.: Samkvæmt ákvæði greinar 1.1.1 er mælt fyrir um að starfsmaður fái tilgreinda heild­ar­fjárhæð í mánað­ar­laun samkvæmt kjarasamningi ef hann gegnir fullu starfi. Miðast greiðsla launa því ekki við þá tilteknu daga, sem unnir hafa verið, heldur eru laun greidd fyrir mán­uð­inn í heild sinni, án tillits til þess hvernig vinnu innan hans er hagað. [….] Þar sem laun eru greidd fyrir hvern mánuð í heild en ekki fyrir unna daga verður að huga sér­stak­lega að því, hvernig reikna beri brot úr mán­að­arlaunum. Um það eru fyrirmæli í grein 1.1.2 og telur stefndi að í verkfalli skuli beita þessari reglu þannig að frá­dráttur af launum þeirra, sem eru í verkfalli skuli reikna samkvæmt henni.“ [….] „Í þessu ljósi og með vísan til þess sem áður er rakið um að samkvæmt ákvæðum kjara­samn­ings aðila eru bæði vinnuskylda og laun félagsmanna stefnanda miðuð við mánuð, án til­lits til þess hvernig vinnu hans er hagað, verður að líta svo á að félags­menn stefn­anda hafi verið í verkfalli, óháð því hvort þeir áttu vinnuskyldu umrædda daga eða ekki.                 Að mati stefnda er þessi dómur Félagsdóms bindandi fyrir stefn­endur sem félags­menn Ljósmæðrafélags Íslands. Dómar Félagsdóms séu endan­legir og verði ekki áfrýjað, sbr. 67. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Dóm­ur­inn sé því end­an­leg niðurstaða um það ágreiningsefni, sem sé einnig til umfjöll­unar í þessu máli, að stefnda hafi verið heimilt að beita þeirri reglu sem hann beitti við frá­drátt launa stefn­enda í verk­fallinu. Stefndi áréttar sérstaklega að dómur Félags­dóms taki fram að laun félags­manna séu miðuð við mánuð, án tillits til þess hvernig vinnu þeirra sé hagað og því verði að líta svo á að félagsmenn hafi verið í verk­falli, óháð því hvort þeir áttu vinnu­skyldu eða ekki þá daga sem verkfallið stóð. Að mati stefnda verði ekki annað séð en tekið sé á öllum þeim ágreinings­efnum sem til umfjöllunar eru í máls­sókn stefn­enda og séu þeir því bundnir af dóm­inum. Félagsdómur er sérdómstóll um túlkun kjara­samn­inga. Hann hafi slegið því föstu að túlkun stefnda á kjarasamningi aðila um frá­drátt launa í verk­falli sé rétt. Að mati stefnda sé því hæpið að almennir dóm­stólar endur­skoði dóm Félags­dóms um þetta efni.                 Stefndi mótmælir þeim fullyrðingum í stefnu að kröfum stefnenda verði fundin stoð í eignaréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndi hafi hvorki brotið gegn kjara­samn­ingi né öðrum reglum vinnuréttar. Eignarréttarlegt tilkall til launa byggist á þeim kröfu­rétti sem ráðningar- og kjarasamningar mæla fyrir um í hverju til­viki og á megin­reglum vinnuréttar, meðal annars reglunni um að í verkfalli greiðist að megin­reglu ekki laun, þótt ráðningarsamningum sé ekki slitið. Þannig geti 72. gr. stjórn­ar­skrár­innar ekki helgað rétt sem sé ekki lögvarinn eða stofnað til að kröfurétti eða þegar megin­regla vinnuréttar stendur honum í vegi.                 Stefndi hafnar því jafnframt að í aðferð hans við að reikna út laun stefn­enda í verk­fallinu felist ólögmætt inngrip í rétt þeirra til þess að fara í verkfall. Launa­frá­drátt­ur­inn sé í fullu samræmi við meginreglur vinnuréttar um hvernig fari með gagn­kvæmar skyldur vinnusambands í verkfalli. Frádrátturinn sé í samræmi við langa og venju­helgaða framkvæmd sem hafi tíðkast í verkföllum ríkis­starfs­manna. Þessi sama reikni­regla hafi verið notuð í verkfalli Ljósmæðrafélags Íslands árið 2008. Þessi fram­kvæmd sé einnig í samræmi við jafnræðisreglu, en verk­fallið taki til allra félags­manna Ljós­mæðrafélags Íslands. Að mati stefnda er það and­stætt jafn­ræðis­reglu eigi frá­dráttur launa að miðast eingöngu við þá félagsmenn sem ættu vinnu­skyldu á verk­falls­dögum, enda ljóst að vaktir geti dreifst á mis­mun­andi hátt á félags­menn. Þannig gætu sumir þeirra lent í því að eiga vinnuskyldu á verk­falls­dögum mun oftar en aðrir og yrðu þannig fyrir mun meiri launafrádrætti en þeir sem ættu vinnu­skyldu á færri verk­falls­dögum, ef þeirri aðferð yrði beitt við launa­frá­drátt sem stefn­endur byggja á. Stefndi mót­mælir því að hann hafi með þessari framkvæmd gripið á ólög­mætan hátt inn í verk­falls­rétt stefnenda.                 Stefndi mótmælir því að sama skapi að með því að beita fyrrgreindri reikni­reglu auðgist stefndi á ólög­mætan hátt á kostnað stefnenda. Hann mótmælir því jafn­framt að stefnendur hafi verið í þegn­skyldu­vinnu, enda hafi þær fengið greitt fyrir vinnu þá daga sem þær unnu á grundvelli und­an­þágureglna 19. og 20. gr. laga nr. 94/1986. Öll starf­semi Land­spítal­ans hafi raskast veru­lega meðan verkfallið stóð og langan tíma tekið að vinna úr þeirri röskun sem af hlaust. Stefndi telur því óraun­hæft með öllu að launa­frá­drátt­urinn hafi í heild falið í sér sparnað stefnda af verk­fall­inu, enda ekki hugs­aður til sparn­aðar. Það heyri hins vegar undir stefnda að gæta að megin­reglum um það hverjum sé heimilt að vinna í verkfalli og að reglum um laun í verk­falli sé fram­fylgt á réttan hátt, svo sem dómur Félags­dóms í máli nr. 22/2015 hefur staðfest. Fullt sam­ræmi hafi verið í fram­kvæmd stefnda og engum hafi verið mis­munað.   Dómkröfur stefnenda – nánar um útreikning frádráttar                 Stefndi vísar til þess að dómkröfur stefnenda byggist allar á því að endurgreiða skuli þeim frádrátt af launum sem sé kominn til vegna lögmætra verkfallsaðgerða stétt­ar­félags þeirra, Ljós­mæðra­félags Íslands. Stefndi tekur fram að Landspítali hafi reiknað frádrátt á launum vegna verkfallsaðgerða á annan hátt en almennt tíðkast hjá rík­inu og greitt stefnendum svokallaðar forstjórafærslur. Að sögn for­svars­manna Land­spítala hafi það verið gert til þess að koma til móts við starfsmenn spítalans, sem sættu launafrádrætti vegna verkfallsins.   Samanburður á útreikningi frádráttar stefnda annars vegar og stefnenda hins vegar                 Samkvæmt reiknireglu stefnda sé „verkfallsfrádráttur“, þ.e. frádráttur launa vegna verkfalls, reiknaður sem mismunur á fjölda annars vegar verkfallsdaga og hins vegar vinnudaga í meðaltalsmánuði, þ.e. 21,67 daga. Í verkfalli Ljós­mæðra­félags Íslands, sem var boðað frá 7. apríl 2015, séu verkfallsdagar 12 af 21,67 dögum í með­al­tals­mánuði. Þá verði verkfallsfrádráttur um 55,38% af mánaðarlaunum, bæði í apríl og maí. Í júní séu aftur á móti 6 verkfallsdagar af 21,67 sem leiði til 27,69% verk­falls­frá­dráttar. Á launaseðli séu mánaðarlaun og verkfallsfrádráttur talin í ein­ingum. Af því leiðir að mánaðarlaun í 100% starfshlutfalli séu 100 einingar, en í 80% starfs­hlut­falli séu það 80 einingar.                 Þessi tafla sýni verkfallsfrádrátt í einingum fyrir mismunandi starfshlutfall eins og stefndi hafi beitt honum.     100% 80% 70% 60% 50% 20% apríl 55,38 44,30 38,76 33,23 27,69 11,08 maí 55,38 44,30 38,76 33,23 27,69 11,08 júní 27,69 22,15 19,38 16,61 13,84 5,54                   Stefndi mótmælir útreikningum hvers stefnenda um sig um frádrátt sem röngum. Til að sýna fram á það, setur stefndi fram tvær töflur fyrir hvern stefnenda. Í fyrri töflunni beiti hann sinni eigin reiknireglu og í þeirri seinni reikni­reglu stefn­enda. Miðað við aðferð stefnda, sé sami hundr­aðs­hlutinn (prósentu­hlut­fall) dregið af launum þeirra sem séu í verkfalli. Sé hins vegar miðað við reikni­reglu stefn­enda, væri föst krónu­tala dregin af launum við­kom­andi starfs­manna, óháð starfshlutfalli. Það þýddi að meira yrði dregið af þeim starfs­mönnum sem eru í minna starfshlutfalli, miðað við laun.                 Fyrri taflan í samanburðinum hér á eftir sýni niðurstöðu eftir reiknireglu stefnda. Frá­dráttur sé sama hlutfall af mánaðarlaunum hvers og eins, t.d. sé frádráttur 55,38% af mánaðar­launum í apríl, ef engin vakt er unnin á verkfallstíma, þ.e.a.s., þá er frá­dráttur 55,38 ein­ingar af 100% starfi, en 44,30 einingar af 80% starfi o.s.frv., miðað við fram­an­greinda töflu hér að ofan. Undir dálkinum Unnið sé bætt við, hafi starfs­mað­ur­inn unnið á verk­falls­tíma samkvæmt undanþáguákvæðum 19. og 20. gr. laga nr. 94/1986 og er bætt við sama hlutfalli og dregið var frá. Í dálkinum Leiðrétt LSH séu leið­rétt­ing­ar­færslur, sem Landspítali gerði samkvæmt eigin reiknireglu og umfram skyldu, og hafi stefndi ekki staðfest þessa reiknireglu Landspítalans. Í dálkinum Samtals sé nið­ur­staða í sam­ræmi við reiknireglu stefnda, áður en kom að leið­rétt­ingu sem Land­spít­ali gerði. Dálkurinn Útkoma sýni þá fjárhæð sem stefndi dró af launum stefn­enda og sé sú fjár­hæð, sem stefn­endur miða við í dómkröfum.                 Seinni töflunni sé stillt upp samkvæmt reiknireglu stefnenda. Frádráttur vegna verk­fallstíma sé ákvarðaður út frá tímakaupstaxta í dagvinnu 0,615% af mánaðar­launum eða föst krónutala fyrir hvern launaflokk. Sama krónutala sé dregin frá óháð starfs­hlut­falli og verði sá sem er í lægra starfshlutfalli fyrir hlutfallslega hærri skerð­ingu. Það valdi því að starfsmaður í 50% starfshlutfalli fái frádrátt sem sé hlut­falls­lega tvisvar sinnum hærri en þess starfsmanns sem er í 100% starfi, þ.e.a.s. 1,23% væri dregið af 50% mánaðarlaunum, en ekki 0,615% eins og hjá 100% starfshlutfalli.                 Reikniregla stefnenda gangi því ekki upp að mati stefnda og mismuni starfs­mönnum verulega. Ef öll vinnuskylda starfsmanns féll til á verkfallstíma, gæti frá­dráttur orðið mun hærri en mánaðarlaun viðkomandi eins og sýnt sé í dæmum fyrir hvern og einn starfsmann.                 Reikniregla stefnda gætir að því að allir starfsmenn sem eru í verkfalli, verði fyrir sams konar launafrádrætti, það er sama hlutfall af launum er dregið frá öllum. Slíkt leiðir, að mati stefnda, til sanngjarnastrar niðurstöðu.   Dómkröfur Önnu Jónínu Eðvaldsdóttur, 70% starfshlutfall                 Mánaðarlaun samkvæmt launaflokki 9-7 séu 539.293 kr., í 70% starfi verði launin 377.505 kr. Yfir­litið sýni frádrátt í 70% starfshlutfalli og séu mánaðarlaun 70 ein­ingar, áður en komi að verkfallsfrádrætti. Hér sé frádráttur vegna verkfalls 38,76 ein­ingar áður en tekið er tillit til þess sem unnið er, en unnið er á verkfallstíma 4 daga í apríl, 3 í maí og 2 í júní og einingum vegna þessa bætt við. Frádráttur eigi að vera sam­tals 365.802 kr., en ekki 320.933 kr., sem er útkoman, séu leiðréttingarfærslur frá Land­spítala taldar með. Einingar Mánaðarlaun Verkfallsfrádr. Unnið Samtals Leiðrétt LSH Útkoma apríl 70,00 -38,76 12,92 -25,84 1,39 -24,45 maí 70,00 -38,76 9,69 -29,07 4,16 -24,91 júní 70,00 -19,38 6,46 -12,92 2,77 -10,15 -96,90 29,07 -67,83 8,32 -59,51 Krónur apríl 377.505 -209.030 69.677 -139.353 7.496 -131.857 maí 377.505 -209.030 52.257 -156.772 22.435 -134.338 júní 377.505 -104.515 34.838 -69.677 14.938 -54.738 -522.575 156.772 -365.802 44.869 -320.933   krónur í % af mánaðarlaunum   apríl 100,0% -55,4% 18,5% -36,9% 2,0% -34,9% maí 100,0% -55,4% 13,8% -41,5% 5,9% -35,6% júní 100,0% -27,7% 9,2% -18,5% 4,0% -14,5%                   Reikniregla stefnenda sé þannig að frádráttur miðist við vinnustundafjölda sam­kvæmt vaktaáætlunum viðkomandi starfsmanns og þeir tímar í vaktaplaninu taldir með, sem féllu niður vegna verkfalls. Að mati stefnanda Önnu Jónínu sé réttur frá­dráttur samkvæmt þeirri aðferð, 8 klst. í apríl, 24 klst. í maí og 16 klst. í júní og þess kraf­ist að dregið verði frá með tímakaupstaxta í dagvinnu 0,615% af mánaðarlaunum eða kr. 3.317 á klst.                 Töflum sem á eftir fari sé stillt upp samkvæmt reiknireglu stefnenda.                 Samkvæmt reikni­reglu stefnenda, ef ein klukkustund er frádregin: Skýring Tímar Taxti Frádr. Mán.laun Útborgað Frádr. í % Dæmi 1 3.317 -3.317 377.505 374.188 -0,88%                   Samkvæmt reiknireglu stefnenda, ef 8 tímar, 16 tímar og 24 tímar eru frá­dregnir: Skýring Tímar Taxti Frádr. Mán.laun Útborgað Frádr. í % apríl frádregið 8 3.317 -26.533 377.505 350.972 -7,03% júní frádregið 16 3.317 -53.066 377.505 324.439 -14,06% maí frádregið 24 3.317 -79.600 377.505 297.905 -21,09%                   Samkvæmt upplýsingum í stefnu sé vinnuskylda stefnanda Önnu Jónínu í apríl 112 klst., í maí 125 klst. og í júní 137 klst. Reiknireglu stefnanda sé beitt í dæminu hér fyrir neðan. Lendi öll vinnuskylda viðkomandi alltaf á verkfallsdögum væri dregið frá 98,4% af launum í apríl, 109,82% af launum í maí og 120,36% í júní. Niður­staðan yrði að frádráttur gæti verið hærri krónutala en mánaðarlaun viðkomandi starfs­manns. Skýring Tímar Taxti Frádr. Mán.laun Útborgað Frádr. í % vinnusk. apríl 112 3.317 -371.465 377.505 6.040 -98,40% vinnusk. maí 125 3.317 -414.581 377.505 -37.076 -109,82% vinnusk. júní 137 3.317 -454.381 377.505 -76.876 -120,36%   Dómkröfur Bjargar Pálsdóttur, 50% starfshlutfall                 Mánaðarlaun samkvæmt launaflokki 10-7 séu 566.257 kr. en verði í 50% starfi 283.129 kr. Yfirlitið sýni frádrátt samkvæmt reiknireglu stefnda í 50 % starfs­hlut­falli, en unnin var ein vakt í maí á verkfallstíma. Frádráttur eigi að vera samtals 378.770 kr. en ekki 362.404 kr., sem sé útkoman séu leiðréttingarfærslur frá Landspítala taldar með. Einingar Mánaðarlaun Verkfallsfrádr. Unnið Samtals Leiðrétt LSH Útkoma apríl 50,00 -27,68 -27,68 -27,68 maí 50,00 -27,68 2,31 -25,37 2,89 -22,48 júní 50,00 -13,84 -13,84 -13,84 -69,2 2,31 -66,89 2,89 -64 Krónur apríl 283.129 -156.740  - -156.740  - -156.740 maí 283.129 -156.740 13.081 -143.660 16.365 -127.294 júní 283.129 -78.370  - -78.370 - -78.370 -391.851 13.081 -378.770 16.365 -362.404   krónur í % af mánaðarlaunum   apríl 100,0% -55,4% -55,4% -55,4% maí 100,0% -55,4% 4,6% -50,7% 5,8% -45,0% júní 100,0% -27,7% -27,7% -27,7%                   Reikniregla stefnanda sé þannig að frádráttur miðist við vinnustundafjölda sam­­kvæmt vaktaáætlunum viðkomandi starfsmanns og þeir tímar í vaktaplaninu taldir með, sem féllu niður vegna verkfalls.                 Að mati stefnanda Bjargar sé réttur frádráttur samkvæmt þeirri aðferð, 4 klst. í apríl, 8,27 klst. í maí og 0 klst. í júní og þess krafist að dregið verði frá með tíma­kaups­taxta í dag­vinnu 0,615% af mánaðarlaunum eða 3.482 kr. á klst. Í töflum fyrir neðan er stillt upp samkvæmt reiknireglu stefnanda.                 Samkvæmt reiknireglu stefnanda, ef ein klukkustund er frádregin: Skýring Tímar Taxti Frádr. Mán.laun Útborgað Frádr. í % Dæmi 1 3.482 -3.482 283.129 279.646 -1,23%                   Samkvæmt reiknireglu stefnanda, ef 4 tímar og 8,27 tímar eru frádregnir: Skýring Tímar Taxti Frádr. Mán.laun Útborgað Frádr. í % apríl frádr. 4 3.482 -13.930 283.129 269.199 -4,92% maí frádr. 8,27 3.482 -28.800 283.129 254.328 -10,17%                   Samkvæmt upplýsingum í stefnu sé vinnuskylda stefnanda Bjargar í apríl 93 klst., í maí 126 klst. og í júní 80,33 klst. Reiknireglu stefnenda sé beitt í dæmi hér fyrir neðan. Lendi öll vinnuskylda stefnanda alltaf á verkfallsdögum, yrði dregið frá vegna 93 klst. eða 114,39% af launum í apríl og 154,98% af launum í maí. Í maí yrði í þessu dæmi dregið frá 438.793 kr. af 283.129 kr. eða 55% umfram launin. Skýring Tímar Taxti Frádr. Mán.laun Útborgað Frádr. í % vinnusk. júní 80,33 3.482 -279.748 283.129 3.381 -98,81% vinnusk. apríl 93 3.482 -323.871 283.129 -40.742 -114,39% vinnusk. maí 126 3.482 -438.793 283.129 -155.664 -154,98%   Dómkröfur Brynju Pálu Helgadóttur, 80% starfshlutfall                 Mánaðarlaun samkvæmt launaflokki 9-4 séu 504.870 kr., og í 80% starfs­hlut­falli 403.896 kr., í neðri töflu með reiknireglu stefnenda, er eins og í stefnu, miðað við 504.780 kr. en í 80% starfi verður það 403.824 kr.                 Yfirlit sýni frádrátt samkvæmt reiknireglu stefnda í 80 % starfshlutfalli, en unnar voru átta vaktir í apríl og tvær í maí á verkfallstíma. Frádráttur eigi að vera sam­tals 372.590 kr., en ekki 331.241 kr., eins og raunin varð vegna leiðréttingar LSH. Einingar Mánaðarlaun Verkfallsfrádr. Unnið Samtals Leiðrétt LSH Útkoma apríl 80,00 -44,28 29,52 -14,76 4,27 -10,49 maí 80,00 -44,28 7,38 -36,9 3,92 -32,98 júní 80,00 -22,14 0 -22,14 0 -22,14 -110,7 36,9 -73,8 8,19 -65,61 Krónur apríl 403.896 -223.554 149.038 -74.517 21.558 -52.959 maí 403.896 -223.554 37.259 -186.295 19.791 -166.504 júní 403.896 -111.778 - -111.778 - -111.778 -558.887 186.297 -372.590 41.349 -331.241   krónur í % af mánaðarlaunum   apríl 100,0% -55,3% 36,9% -18,4% 5,3% -13,1% maí 100,0% -55,3% 9,2% -46,1% 4,9% -41,2% júní 100,0% -27,7% -27,7% -27,7%                   Reikniregla stefnenda sé þannig að frádráttur miðist við vinnu­stundafjölda sam­kvæmt vaktaáætlunum viðkomandi starfsmanns og þeir tímar í vakta­planinu taldir með, sem féllu niður vegna verkfalls. Í töflum fyrir neðan er stillt upp samkvæmt reikni­reglu stefnenda.                 Samkvæmt reiknireglu stefnenda, ef ein klukkustund er frádregin: Skýring Tímar Taxti Frádr. Mán.laun Útborgað Frádr. í % Dæmi 1 3.104 -3.104 403.824 400.720 -0,77%                   Að mati stefnanda Brynju Pálu sé réttur frádráttur, 20 klukkustundir í apríl, 35,2 klst. í maí og 38,4 klst. í júní og óskað eftir því að dregin verði frá með tíma­kaups­taxta í dagvinnu 0,615% af mánaðarlaunum eða 3.104 kr. á klst. Skýring Tímar Taxti Frádr. Mán.laun Útborgað Frádr. í % apríl frádr. 20 3.104 -62.088 403.824 341.736 -15,38% maí frádr. 35,2 3.104 -109.275 403.824 294.549 -27,06% júní frádr. 38,4 3.104 -119.209 403.824 284.615 -29,52%                   Samkvæmt upplýsingum í stefnu hafi vinnuskylda stefnanda Brynju Pálu í apríl verið 143 klst., í maí 154 klst. og í júní 136 klst. Reiknireglu stefnenda sé beitt í dæmi hér fyrir neðan. Ef öll vinnuskylda lenti alltaf á verkfallsdögum, yrði dregið frá vegna 143 klst. eða 109,93% af launum í apríl, 118,39% af launum í maí og 104,55% í júní. Frá­dráttur samkvæmt þessari reiknireglu næmi hærri fjárhæð en mán­að­ar­launum. Skýring Tímar Taxti Frádr. Mán.laun Útborgað Frádr. í % vinnusk. júní 136 3.104 -422.198 403.824 -18.374 -104,55% vinnusk. apríl 143 3.104 -443.929 403.824 -40.105 -109,93% vinnusk. maí 154 3.104 -478.077 403.824 -74.253 -118,39%   Dómkröfur Kristínar Svölu Jónsdóttur, 20% starfshlutfall                 Mánaðarlaun samkvæmt launaflokki 8-6 séu 502.684 kr., sem verði í 20% 100.537 kr. Yfirlit hér að neðan sýni reiknireglu stefnda í 20% starfshlutfalli, en stefn­andi hafi ekki unnið neinar vaktir á verkfallstíma sem komi til leiðréttingar á verk­falls­frá­drætti. Frá­dráttur eigi að vera samtals 139.243 kr., en ekki 111.395 kr., sem sé frá­dráttur vegna apríl og maí, en láðst hafi að færa frádrátt vegna júní. Einingar Mánaðarlaun Verkfallsfrádr. Unnið Samtals Leiðrétt LSH Útkoma apríl 20,00 -11,08 -11,08 -11,08 maí 20,00 -11,08 -11,08 -11,08 júní 20,00 -5,54 -5,54 -5,54 -27,7   -27,7   -27,7 Krónur apríl 100.537 -55.697 -55.697 -55.697 maí 100.537 -55.697 -55.697 -55.697 júní 100.537 -27.849 -27.849 -27.849 -139.243   -139.243   -139.243   krónur í % af mánaðarlaunum   apríl 100,0% -55,4% -55,4% -55,4% maí 100,0% -55,4% -55,4% -55,4% júní 100,0% -27,7% -27,7% -27,7%                   Reikniregla stefnenda sé á þá leið að frádráttur miðist við vinnustundafjölda sam­kvæmt vaktaáætlunum viðkomandi starfsmanns og þeir tímar í vaktaplaninu taldir með, sem féllu niður vegna verkfalls. Töflum fyrir neðan sé stillt upp samkvæmt reikni­reglu stefnanda.                 Samkvæmt reiknireglu stefnanda, ef ein klukkustund er frádregin: Skýring Tímar Taxti Frádr. Mán.laun Útborgað Frádr. í % Dæmi 1 3.092 -3.092 100.537 97.445 -3,08%                   Að mati stefnanda Kristínar Svölu eigi frádráttur að vera 12,3 klst. í apríl, 0 klst. í maí og 0 klst. í júní og sé þess krafist að dregin verði frá með tímakaupstaxta í dag­vinnu 0,615% af mánaðarlaunum eða kr. 3.092 á klst.   Skýring Tímar Taxti Frádr. Mán.laun Útborgað Frádr. í % apríl frádr. 12,3 3.092 -38.026 100.537 62.511 -37,82%                   Samkvæmt upplýsingum í stefnu sé vinnuskylda 33 klst. í apríl, 40 klst. í maí og 24 klst. í júní. Reiknireglu stefnanda er beitt í dæmi hér fyrir neðan og dæmið sýni, eins og fyrri dæmi, hvernig útkoman væri ef öll vinnuskylda lenti alltaf á verk­falls­dögum. Samkvæmt reiknireglu stefnanda næmi frádráttur 74.196 kr. í júní, ef vinnu­skylda og verkfallsdagar færu saman. Í apríl og maí væri frádráttur hærri en mán­að­ar­laun. Skýring Tímar Taxti Frádr. Mán.laun Útborgað Frádr. í % vinnusk. júní 24 3.092 -74.196 100.537 26.341 -73,80% vinnusk. apríl 33 3.092 -102.020 100.537 -1.483 -101,48% vinnusk. maí 40 3.092 -123.660 100.537 -23.123 -123,00%   Dómkröfur Sigrúnar Ingvarsdóttur, 60% starfshlutfall.                 Mánaðarlaun samkvæmt launaflokki 7-3 séu 447.524 kr., en verði í 60% starfi 268.514 kr. Yfir­lit sýnir frádrátt samkvæmt reiknireglu stefnda í 60% starfshlutfalli, en unnar voru 1,5 vaktir í apríl, 2 vaktir í maí og 1 í júní á verkfallstíma. Landspítali færi inn alls 13,87 ein­ingar samkvæmt launaseðlum (alls 5 vaktir) og stefndi geri ekki efnis­lega athuga­semd við það. Frá­dráttur eigi að vera samtals 309.460 kr. Einingar Mánaðarlaun Verkfallsfrádr. Unnið Samtals Leiðrétt LSH Útkoma apríl 60,00 -33,2 5,548 -27,652 -27,652 maí 60,00 -33,2 5,548 -27,652 -27,652 júní 60,00 -16,62 2,774 -13,846 -13,846 -83,02 13,87 -69,15 -69,15 Krónur apríl 268.514 -148.577 24.829 -123.748 -123.748 maí 268.514 -148.577 24.829 -123.748 -123.748 júní 268.514 -74.378 12.414 -61.964 -61.964 -371.532 62.072 -309.460 - -309.460   krónur í % af mánaðarlaunum   apríl 100,0% -55,3% 9,2% -46,1% -46,1% maí 100,0% -55,3% 9,2% -46,1% -46,1% júní 100,0% -27,7% 4,6% -23,1% -23,1%                   Reikniregla stefnenda sé eins og áður á þá leið að frádráttur miðist við vinnu­stunda­fjölda samkvæmt vaktaáætlunum viðkomandi starfsmanns og þeir tímar í vakta­plan­inu taldir með, sem féllu niður vegna verkfalls. Í töflum fyrir neðan er stillt upp samkvæmt reiknireglu stefnenda.                 Samkvæmt reiknireglu stefnenda, ef ein klukkustund er frádregin: Skýring Tímar Taxti Frádr. Mán.laun Útborgað Frádr. í % Dæmi 1 2.752 -2.752 268.514 265.762 -1,03%                   Að mati stefnanda Sigrúnar sé réttur frádráttur, 20 klst. í apríl, 16 klst. í maí og 8 klst. í júní og þess krafist að dregin verði frá með tímakaupstaxta í dagvinnu 0,615% af mánaðarlaunum eða 2.752 kr. á klst. Skýring Tímar Taxti Frádr. Mán.laun Útborgað Frádr. í % apríl frádr. 20 2.752 -55.045 268.514 213.469 -20,50% maí frádr. 16 2.752 -44.036 268.514 224.478 -16,40% júní frádr. 8 2.752 -22.018 268.514 246.496 -8,20%                   Samkvæmt upplýsingum í stefnu sé vinnuskylda stefnanda Sigrúnar í apríl 96,36 klst., í maí 88 klst. og í júní 108 klst. Reiknireglu stefnenda sé beitt í dæmi hér fyrir neðan. Niðurstaða ef verkfallsdagar og vinnuskylda færu saman sé, að greiða ætti starfs­mann­inum 3.305 kr. í apríl og 26.314 kr. í maí, en í júní væri frádráttur hærri en mán­að­ar­laun. Skýring Tímar Taxti Frádr. Mán.laun Útborgað Frádr. í % vinnusk. apríl 96,36 2.752 -265.209 268.514 3.305 -98,77% vinnusk. maí 88 2.752 -242.200 268.514 26.314 -90,20% vinnusk. júní 108 2.752 -297.245 268.514 -28.731 -110,70%                   Stefn­andi Sigrún vinni í 60% starfshlutfalli og eins og sjá megi af vinnu­skýrslu, ein­göngu á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Sú aðferð að boða verk­fall á þriðju­degi, miðvikudegi og fimmtudegi valdi því að stefnandi skilar að öðru jöfnu 2 af 3 dögum eða 67%. Sú aðferð að boða ótímabundið verkfall, en festa við ákveðna daga (stundum kallað lotuverkfall) geti einmitt haft mikil áhrif á útkomu þeirra sem eru í skertu starfshlutfalli og hafi bundið sig við ákveðna daga. Stefndi bendir á að hefði stefn­andi Sigrún unnið þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga, hefði krafa hennar væntanlega verið sú að draga frá alla vinnuskyldu hennar vegna verk­falls, miðað við þær forsendur sem stefnandi leggi til grundvallar. Að mati stefnda er aug­ljóst að slík aðferð gangi ekki upp, þegar um er að ræða félags­lega aðgerð sem nái til allra félagsmanna Ljósmæðrafélags Íslands. Stefndi telur ljóst, að sú aðferð, sem hann hafi beitt um árabil til þess að reikna frádrátt af launum í verk­falli, sé mun sann­gjarnari og meira í samræmi við jafnræði, en sú aðferð sem stefn­endur vilja beita.                 Stefndi áréttar í lokin að stefnendur hafi allar tekið þátt í verk­falli sem stóð frá 7. apríl til 13. júní 2015, þegar sett voru lög nr. 31/2015 sem bönn­uðu verkfallið. Þær verði af þeim sökum að sæta því að dregið hafi verið af launum þeirra í samræmi við megin­regluna um að laun greiðist ekki fyrir þann tíma sem vinna fellur niður vegna verk­falls. Það sé óumdeilt að stefnendur hafi fengið greidd laun vegna vinnu sinnar sem var unnin á grundvelli undanþágureglna. Verkfallið hafi verið félags­leg (kollektív) aðgerð. Af því leiði að eðlilegt sé og í samræmi við jafn­ræð­is­reglu að allir starfs­menn, sem fá greidd mánaðarlaun, fái sama frádrátt. Þátttaka í verk­fall­inu sé þannig ekki bundin við tíma­vinnu eins og stefnendur virðast byggja á. Það sé mat stefnda að rétt hafi verið staðið að frádrætti launa hjá stefnendum vegna verk­falls­að­gerða Ljós­mæðra­félags Íslands á Landspítala frá 7. apríl 2015 til 13. júní 2015. Lög­var­inn réttur stefn­enda til fullra mánaðarlauna hafi ekki verið fyrir hendi vegna verk­falls enda hafi stefnda verið óheimilt að standa við ákvæði kjarasamnings um greiðslu óskertra mán­að­ar­launa vegna þeirra daga sem verkfallsaðgerðir félags­manna Ljós­mæðra­félags Íslands stóðu yfir, án sérstakrar undanþágu. Þetta mat sé í sam­ræmi við niður­stöðu Félags­dóms í máli nr. 22/2015, sem og önnur dóma­for­dæmi.                 Með vísan til alls framangreinds beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefn­enda og sé málatilbúnaði þeirra að öðru leyti mótmælt.                 Til stuðnings kröfu um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.   Niðurstaða                 Stefnendur krefja stefnda um greiðslu launa fyrir vinnu sem þær inntu af hendi í apríl, maí og júní 2015 en telja sig ekki hafa fengið laun fyrir. Á þeim tíma var stétt­ar­félag þeirra, Ljósmæðrafélag Íslands, í verkfalli sem stóð í þriggja sólarhringa lotum, þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga.   Réttaráhrif dóms Félagsdóms                 Stefndi telur Félagsdóm þegar hafa dæmt um ágreiningsefni þessa máls. Því liggi fyrir bindandi niðurstaða um það. Hann krefst þess þó ekki að málinu verði vísað frá dómi af þessum sökum.                 Í 116. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, segir að dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra, sem koma að lögum í þeirra stað, um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til. Stefnendur voru ekki aðilar að máli nr. 22/2015 fyrir Félags­dómi heldur stéttar­félagið Ljósmæðrafélag Íslands. Þar fyrir utan var þar ekki deilt um og ekki tekin afstaða til þeirra fjárkrafna sem þær gera í þessu máli. Að mati dómsins stendur ekkert því í vegi að þetta mál verði rekið fyrir héraðs­dómi.   Ágreiningsefnið                 Þetta mál snýst um það hvort reikna megi laun vaktavinnufólks, sem er hluta úr mánuði í verkfalli, með þeirri aðferð sem stefndi beitir.                 Stefnendur byggja á því að þegar dregið sé frá mán­aðar­launum þeirra vegna verk­falls­ins eigi að draga frá miðað við þá tíma sem þær felldu niður störf en greiða þeim laun fyrir vinnu sem þær sinntu á þeim dögum sem voru ekki boðaðir verk­falls­dagar, þ.e. hina fjóra viku­dag­ana.                 Stefndi byggir á því að draga eigi frá mánaðarlaunum þeirra þann hlutfallslega tíma sem verkfallið stóð, reiknað út frá 40 stunda, fimm daga vinnuviku í verk­falli í heild, óháð því hvenær hver leysti vinnu sína af hendi.   Frádráttaraðferð stefnda                 Þessi tafla sýnir hlutfall verkfallstímans og frádrátt frá launum eins og stefndi reiknar hann í einingum fyrir mis­munandi starfshlutfall, miðað við að fólk vinni 40 stundir, í fimm daga vinnu­viku.   100% 80% 70% 60% 50% 20% apríl 55,38 44,30 38,76 33,23 27,69 11,08 maí 55,38 44,30 38,76 33,23 27,69 11,08 júní 27,69 22,15 19,38 16,61 13,84 5,54                 Stefndi segist byggja þennan frádrátt á grein 1.1.2 í kjarasamningi stéttarfélags stefn­enda og stefndu sem hljóðar svo: Þegar unnin er 8 stunda vinnu­dagur reglu­bundið, reiknast brot úr mán­aðar­launum þannig að deilt er með 21,67 í mán­að­ar­launin og margfaldað með fjölda alman­aks­daga annarra en laugar­daga og sunnu­daga frá upphafi til loka starfs­tíma.                 Stefndi virðist ekki beita reglu 1.1.2 eftir orðanna hljóðan. Samkvæmt berum orðum reglunnar ætti hann að reikna fyrst þá fjárhæð sem starfsmaðurinn á að fá fyrir hvern virkan dag og margfalda þá fjárhæð með þeim dögum sem hann vann.                 Stefndi byrjar hins vegar á því að telja verkfallsdagana og reiknar þá út sem hlut­fall af meðaltalsmánuði. Í apríl var verk­fall í 12 daga, sem nemur 55,38% (55,376%) af 21,67 daga meðaltalsmánuði. Með sömu aðferð var einnig verkfall 55,38% af vinnutímanum í maí en 6 daga verk­fall í júní samsvarar 27,69% (27,688%) af meðaltalsmánuðinum.                 Þrír meðaltalsmánuðir eru (3 x 21,67) 65 vinnudagar. Þar af stóð verkfallið í 30 daga en vinnudagar voru 35. Með hlutfallsreikningi var verkfallið ((55,38 + 55,38 + 27,69) /3) eða (30/0,65) 46,15% af vinnutímanum þessa þrjá mánuði en vinnu­dag­arnir (35/0,65) 53,85%, ef viðkomandi vann fimm virka daga og átti frí um helgar.                 Launakerfi starfsmanna ríkisins byggist á jöfnum mán­að­ar­launum þrátt fyrir að vinnu­fram­lag hvers starfsmanns sé misjafnt eftir mánuðum þar eð þeir eru mis­langir. Af þessum sökum hefur verið búið til hug­takið meðaltalsmánuður. Í þessum meðal­tals­mán­uði er gert ráð fyrir að fólk sé í fríi á laugardögum og sunnudögum. Í verkfalli sem stendur í þrjár heilar vikur frá miðvikudegi til þriðjudags eru þrjár helgar, sex helgar­dagar. Þeir teljast ekki með verkfallsdögunum enda er ekki gert ráð fyrir vinnu­fram­lagi þá daga. Fyrir helgardagana eru ekki heldur greidd laun.                 Í meðaltalsmánuðinum eru hins vegar taldir með helgidagar og lögboðnir frí­dagar sem lenda á virkum dögum svo sem sumardagurinn fyrsti, 1. maí, upp­stign­ing­ar­dagur og annar í hvítasunnu, enda á að greiða starfsmönnum laun fyrir þá eins og væru þeir virkir dagar.                 Stefndi reiknar laun út frá einingum. Þegar starfsmaður vinnur 100% starf eru laun hans reiknuð út frá 100 einingum. Þegar starfsmaður vinnur 70% starf eru laun hans reiknuð út frá 70 einingum. Mikilvægt er að gera hér greinarmun á einingum og hundr­aðs­hlutum (prósentum) en slíkum reikningi beitir stefndi strangt tiltekið ekki við útreikning launanna. Tölurnar í töflunni fyrir frádrátt launa í verkfalli þeirra sem vinna fullt starf (100%) geta hvort heldur verið hundraðshluti eða einingar. Þegar fullu starfi sleppir eru tölurnar í töflu stefnda ekki prósentutölur heldur ein­ingar. Það þýðir að þegar 38,76 einingar eru dregnar frá launum þess sem vinnur 70% starf eru í raun dregin frá honum laun fyrir 55,38% vinnuskyldu hans miðað við þær forsendur að hann vinni daglega fimm tíma og 36 mínútur fimm daga í viku og eigi frí um helgar.                 Þessi nálgun kann að vera hagkvæm í einhverjum tilvikum og ganga upp þegar reiknuð eru laun í verk­falli þeirra sem vinna með því vinnufyrirkomulagi. Þegar reiknuð eru laun í verkfalli þeirra sem vinna samkvæmt öðru vinnu­fyrir­komu­lagi verður að beita öðrum útreikningsaðferðum.                 Eins og áður segir eru vinnudagar í meðaltalsmánuðinum sam­kvæmt grein 1.1.2 í kjara­samn­ingnum 21,67 og hver vinnu­dagur 8 stundir. Sam­kvæmt þessum forsendum er gert ráð fyrir að hver starfs­maður, sem vinnur 100% vinnu, vinni (12 x 21,67) 260,04 daga á ári ef hann vinnur átta tíma á dag og að mán­að­ar­leg vinnu­skylda hver starfs­manns nemi (8 x 21,67) 173,36 vinnu­stundum.                   Þegar unnið er út frá ein­ingum, verður hver dagur í þessum meðaltalsmánuði (100/21,67) 4,6147 einingar. Hver átta stunda vinnudagur ætti því að vera 4,6147% af vinnu­skyldunni og fyrir hann á að greiða 4,6147% af mánaðarlaununum.                 Út frá þessu viðmiði reiknar stefndi að dagur starfsmanns sem vinnur 70% starf sé (0,7 x 4,6%) 3,23 einingar. Þegar deilt er með 21,67 í 70 (70/21,67) fæst sama niður­staða.                 Séu greiddar 433.400 kr. í mánaðarlaun fyrir 100% starf fær starfsmaður í 70% starfi 303.380 kr. í mánaðarlaun. Laun hans eru reiknuð út frá 70 einingum. Hver ein­ing samsvarar því (303.380 kr./70) 4.334 kr. Sama fjárhæð fæst með því að deila 100 í 433.400 kr. sem eru, eins og áður segir, mánaðarlaunin fyrir 100% starf í dæminu.                 Hver eining samsvarar (8/4,6147) 1,7336 vinnustundum sem er 1/100 af vinnu­stunda­fjölda í meðaltalsmánuði sem er, eins og áður segir, 173,36 stundir.                 Hver eining í kerfi stefnda í þessu dæmi samsvarar því 4.334 krónum og 1,7336 vinnu­stundum. Endurgjaldið fyrir vinnustundina ætti því að vera (4.334 kr./1,7336) 2.500 kr. Sama tímagjald fæst þegar vinnustundafjölda í meðal­tals­mánuði er deilt í mánaðarlaun fyrir fulla vinnu (433.400 kr./173,36) 2.500 kr.                 Þegar unnar stundir og laun fyrir þær eru reiknuð í hundraðshlutum (prósentum) af vinnu­tíma eða af launum á ekki að skipta máli hvort hlutfall af 100 er reiknað út frá því hversu margar stundir starfsmaðurinn innti af hendi í þeim mánuði sem verkfallið stóð eða hvort hundraðs­hlutinn er reikn­aður út frá því hversu margar stundir hann felldi niður störf. Niður­staðan, hlutfallið, hundr­aðs­hlutinn, á í báðum til­vikum að vera sú sama, séu forsend­urnar fyrir útreikn­ing­num þær sömu.                 Sýni útreikningur að starfsmaðurinn hafi unnið 68% þeirra stunda sem hann átti að vinna þann mánuð á útreikningur með frádráttaraðferðinni að gefa þá niður­stöðu að hann hafi fellt niður störf 32% þess tíma sem hann átti samkvæmt ráðn­ingar­samn­ingi að inna af hendi fyrir vinnuveitandann.                 Ekkert er því til fyrirstöðu að reikna starfstíma og laun vaktavinnufólks út sem hlut­fall af 100 hvort sem það vinnur 100% starf eða lægra starfshlutfall.   Reglu greinar 1.1.2 beitt samkvæmt orðanna hljóðan við útreikning launa í verkfalli                 Dómurinn telur ekkert vafamál að samkvæmt grein 1.1.2 eigi að telja þá daga sem starfsmaðurinn, sem af einhverjum ástæðum vann ein­ungis hluta úr mán­uði, innti vinnu sína af hendi en ekki þá sem hann vann ekki. Séu allar forsendur eins ætti þó ekki að skipta máli hvort taldir eru fyrst þeir sem hann vann eða þeir sem hann vann ekki.                 Sá sem vann 8 stunda vinnudag hjá LSH í apríl 2015 og tók þátt í verk­fall­inu vann 1., 2., 3., 6., 10., 13., 17., 20., 24. og 27. apríl, 10 virka daga en var í verkfalli 12 daga.                 Séu mánaðarlaun hans 433.400 kr. og 21,67 deilt í þau samsvarar vinnu­dag­ur­inn 20.000 kr. Fyrir apríl fær hann því greiddar (10 d. x 20.000 kr.) 200.000 kr. en fer á mis við 233.400 af mán­að­ar­launum sínum.                 Sá sem vann 8 stunda vinnudag hjá LSH í maí 2015 og tók þátt í verk­fall­inu vann 1., 4., 8., 11., 15., 18., 22., 25., og 29. maí, alls 9 daga en var í verkfalli 12 daga. Hann fær því greiddar (9 d. x 20.000 kr.) 180.000 kr. en fer á mis við 253.400 kr. af mán­að­ar­launum sínum.                 Sá sem vann 8 stunda vinnudag hjá LSH í júní 2015 og tók þátt í verk­fall­inu vann 1., 5., 8., 12., 15.-19., 22.-26. og 29. og 30., alls 16 virka daga en var í verkfalli í 6 daga. Hann fær því greiddar (16 d. x 20.000 kr.) 320.000 kr. en fer á mis við 113.400 kr. af mánaðarlaunum sínum.                 Samandregið hefur því sá sem vann hjá LSH 8 stunda vinnudag í apríl, maí og júní 2015 átt að fá (3 x 433.400) 1.300.200 kr. samanlagt fyrir þá mánuði. Hann vann 35 virka daga en var í verkfalli 30 virka daga. Hann fékk því greiddar (35 x 20.000) 700.000 kr. en fór á mis við 600.200 sem þýðir að heildarlaun fyrir þá daga hefðu verið 20.007 kr. Þessar aukalegu 7 kr. á dag jafnast út í dagvinnulaun í öðrum mán­uðum ársins.                 Því verður ekki annað séð en að regla 1.1.2 í kjarasamningnum samrýmist vel þeirri meginreglu að sér­hver eigi að fá greitt fyrir allt vinnuframlag sitt.                 Dóminum sýnist reglan einnig gefa þá niðurstöðu að sérhver fái greitt fyrir allt vinnu­framlag sitt þótt fólk vinni í hlutastarfi, svo fram­ar­lega sem það hlutastarf er unnið frá mánudegi til föstudags, t.d. 50% vinna milli kl. 8.00 og 12.00 eða 75% vinna milli kl. 8.00 og 14.00. Vinnudagar þess fólks eru eftir sem áður 21,67 í meðal­tals­mán­uði.                 Sá sem vinnur í 75% starfshlutfalli, það er sex tíma, fimm daga vikunnar, fær þá (0,75 x 20.000 kr.) 15.000 kr. á dag en sá sem vinnur í 50% starfshlutfalli, það er fjóra tíma, fimm daga vikunnar fær 10.000 kr. á dag.                 Sem sagt: reglan í grein 1.1.2 í kjarasamningnum samrýmist þeirri meginreglu að sérhver fái greitt fyrir allt vinnu­fram­lag sitt, ef hann vinnur á virkum dögum og tekur frí um helgar, hvort sem hann vinnur allan daginn eða hluta úr degi.                 Ekki verður annað séð en taflan sem stefndi lagði til grundvallar frádrætti launa í þessu verkfalli samrýmist því að sá sem vann á virkum dögum og átti frí um helgar hafi fengið greidd laun fyrir allt vinnuframlag sitt hvort sem hann vann allan dag­inn eða hluta úr degi.   Meðaltalsmánuður þeirra sem vinna ekki alla virka daga                 Þegar vinna fólks fellur ekki inn í kerfið fimm dagar í vinnu, tveir dagar í frí verður reglunni í grein 1.1.2 ekki beitt samkvæmt orðanna hljóðan til þess að finna út hvað eigi að greiða fyrir hluta úr mánuði. Í það minnsta er ekki lengur hægt að miða við 21,67 daga í meðal­tals­mán­uðinum. Því efnislega inntaki hennar að greiða skuli fyrir allar unnar stundir þarf þó áfram að beita.                 Tökum dæmi af manni sem vinnur 80% starf, 32 klst. á viku, og fær að vinna það þannig að hann vinnur 8 tíma fjóra daga vikunnar, mánudaga, þriðjudaga, fimmtu­daga og föstu­daga en kemur ekki til vinnu á miðvikudögum.                 Miðvikudagurinn fellur þá í flokk með laugardögum og sunnudögum enda fær starfs­maðurinn ekki greitt fyrir þann dag. Því gengur ekki að deila meðaltals­mán­uði, 21,67, í launin hans því sá meðaltalsmánuður er miðaður við 260,04 virka daga sem gera rétt ríflega fimm (5,0008) virka daga í 52 vikur. Okkar maður vinnur 4 virka daga í 52 vikur og vinnur því aðeins 208 daga á ári. Í meðaltalsmánuðinum hans væru því (208/12) 17,33 vinnu­dagar sem eru 8 stunda langir.                 Mánaðarlaunin í starfi hans eru eins og áður 433.400 kr. Hann er í 80% vinnu og á því að fá greiddar (80% af 433.400) 346.720 kr. mánaðarlega. Meðaltalsmánuður hans er eins og áður segir 17,33 vinnudagar. Vinna hans í átta tíma á dag samsvarar því (346.720 kr. /17,33 d.) 20.003 kr. á dag. Ólíkt þeim sem vinnur 100% starf eru þrír launa­lausir dagar í vikunni hans, laugardagur, sunnudagur og miðvikudagur.                 Í apríl vann hann 2., 3., 6., 10., 13., 17., 20., 24. og 27., alls 9 daga. Hann var í verk­falli 7., 9., 14., 16., 21., 23., 28. og 30, alls 8 daga. Hann náði ekki að vinna fullan með­al­tals­mánuð vinnuskyldu sinnar enda er sá 17 dagar og einum þriðja betur (17,33). Miðað við vinnuskyldu hans í apríl, 17 daga, vann hann 52,94% vinnu­skyldu sinnar en felldi niður störf í 47,06% tímans. Miðað við þau fyrirmæli greinar 1.1.2 að telja eigi unna daga þegar reiknað er brot af mánaðarlaunum hefði hann átt að fá greiddar (9 x 20.000) 180.000 kr. en fer á mis við (346.720 – 180.000) 166.720 kr.                 Í maí vann hann 1., 4., 8., 11., 15., 18., 22., 25., og 29. maí, alls 9 daga. Hann var í verkfalli 5., 7., 12., 14., 19., 21., 26. og 28., alls 8 daga. Eins og í apríl náði hann ekki að vinna fullan meðaltalsmánuð vinnuskyldu sinnar. Hann vann 52,94% vinnu­skyldu en felldi niður störf í 47,06% tímans. Eins og í apríl hefði hann átt að fá greiddar 180.000 kr. en farið á mis við 166.720 kr.                 Í júní vann hann 1., 5., 8., 12., 15., 16., 18., 19., 22., 23., 25., 26. og 29. og 30., alls 14 virka daga. Hann var í verkfalli 2., 4., 9. og 11., alls 4 daga. Vinnuskylda hans í þeim mánuði var því 18 dagar. Hann vann því (14/0,18) 77,78% vinnuskyldunnar en felldi niður störf (4/0,18) 22,22%. Hann fær því greiddar (14 x 20.000) 280.000 kr. en fer á mis við (346.720-280.000) 66.720 kr.                 Samandregið hefur sá, sem vann 80% vinnu hjá LSH, í apríl, maí og júní og upp­fyllti vikulega vinnu­skyldu sína með fjórum 8 stunda vinnudögum, sem féllu á mánu­dag, þriðjudag, fimmtudag og föstudag, átt að inna af hendi (3 x 17,33) 52 vinnu­daga og fá greitt (3 x 346.720) 1.040.160 kr. samanlagt fyrir þá mánuði.                 Hann vann 32 daga (61,54%) en var í verkfalli í 20 daga (38,46%). Verk­falls­stund­irnar voru því alls (8 x 20) 160.                 Launin fyrir þessa þrjá mán­uði ættu því að vera (0,615% x 1.040.160 kr.) 639.698 kr. eigi hann að fá greitt fyrir hverja unna stund.                 Þessi hlutfallsaðferð við útreikning launa samræmist mjög því að nota aðferð greinar 1.1.2 aðlagaða að vinnufyrirkomulagi starfsmannsins þannig að meðal­tals­mán­uður í því vinnu­fyrirkomulagi er fundinn. Með þeirri aðferð hefði við­kom­andi átt að fá alls greiddar (180.000 + 180.000 + 280.000) 640.000 kr. fyrir mánuðina þrjá, sem gefur 300 kr. meira en hlut­falls­aðferðin.                 Samkvæmt aðferð stefnda við útreikning launa í verkfalli var það fólk, sem vann 80% vinnu, í verkfalli 44,30 ein­ingar af vinnutímanum í apríl og maí en 22,15 ein­ingar í júní, alls (44,30 + 44,30 + 22,15) 110,75 einingar. Hver eining samsvarar 1,7336 vinnustundum og því nemur frádrátturinn (110,75 x 1,7336) 192 vinnu­stundum, eða 32 stundum fleiri en reiknast til þegar lagður er til grundvallar meðal­tals­mán­uður starfs­manns­ins eða prósentu­reikn­ingur.                 Hver eining sam­svarar eins og áður 4.334 kr. og því nemur launa­frá­drátt­ur­inn alls (110,75 x 4.334 kr.) 479.990 kr. Mánaðarlaunin samtals fyrir mánuðina þrjá verða því samkvæmt eininga­aðferð stefnda (1.040.160 – 479.990) 560.170 kr. eða um 80.000 kr. lægri en sé dagatalning­ar­aðferð greinar 1.1.2 eða hlutfallsaðferð (prósenta) notuð.                 Við útreikning launa í verkfalli tekur stefndi ekki til­lit til þess hvort fólk sem vinnur 80% starf vinnur 6 tíma og 24 mínútur á dag í 5 daga og tekur frí um helgar eða vinnur 8 tíma í 4 daga og á 3 helgardaga. Hann notar aðferð sem er hugsuð fyrir þá sem vinna fimm virka daga en taka frí um helgar. Af þeim sökum fá þeir sem vinna 80% starf fimm daga vikunnar og taka frí um helgar greitt fyrir hverja unna stund sem þeir inna af hendi þá mánuði sem verkfall stendur. Hins vegar fá þeir sem vinna 80% starf með öðru fyrir­komu­lagi, t.d. með því að vinna 8 tíma 4 daga vik­unnar, ekki greitt fyrir allt vinnu­fram­lag sitt.                 Tökum enn dæmi af manni sem vinnur 40% starf, (0,4 x 40) 16 tíma á viku og fær að vinna það þannig að hann vinnur tvo daga vikunnar, mánudaga og föstudaga en kemur ekki til vinnu á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum. Þeir þrír dagar falla þá í flokk með laugardögum og sunnudögum því starfsmaðurinn fær ekki greitt fyrir þá. Frídagar hans eru því fimm. Miðað við að forsendan sé 260,04 virkir dagar á ári vinnur hann því (0,4 x 260,04 = 104,016) rétt rúm­lega 104 daga á ári sem samsvara 8,668 dögum á mánuði.                 Í apríl 2015 vann hann fjóra mánudaga og fjóra föstudaga, alls átta daga en felldi aldrei niður störf því hann átti ekki vinnuskyldu á boðuðum verkfallsdögum. Í maí vann hann fjóra mánudaga en fimm föstudaga, alls níu daga en felldi aldrei niður störf. Í júní vann hann fimm mánudaga og fjóra föstudaga, alls níu daga en felldi aldrei niður störf. Þessa þrjá mánuði vann hann því 26 daga sem er sú vinnuskylda sem á honum hvíldi (3 x 8,668 = 26,004) og átti því rétt á að fá greiddar (0,4 x 433.400 kr.) 173.360 kr. á mánuði eða (3 x 173.360 kr.) 520.080 kr. fyrir alla mánuð­ina þrjá.                 Samkvæmt aðferð stefnda var hann í verkfalli (0,4 x 55,38) 22,15 einingar af vinnu­tíma sínum í apríl og maí, en (0,4 x 27,69) 11,076 einingar í júní. Því dregur stefndi af launum hans (22,15 + 22,15 + 11,07) 55,37 einingar samtals þrátt fyrir að starfs­mann­inn hafi aldrei vantað í vinnu á þeim dögum sem hann var ráðinn til að inna sína vinnu af hendi. Þessar 55,37 einingar samsvara (55,37 x 4.334 kr.) 239.973 kr. Greidd laun samkvæmt aðferð stefnda fyrir alla mánuðina þrjá nema því (520.080 – 239.974) 280.106 kr.                 Samstarfsmaður þessa manns vinnur 40% starf, 16 tíma á viku og fær að vinna það þannig að hann vinnur á miðvikudögum og fimmtudögum. Eins og sam­starfs­maður hans, sem vinnur á mánudögum og föstudögum, er vinnuskylda hans á mánuði 8,668 dagar. Dagvinnulaun hans nema (173.36/8,668) 20.000 kr.                 Í apríl 2015 vann hann 1. og 2. apríl. Í maí vann hann ekkert en í júní vann hann 17. og 18. og 24. og 25. Þessa þrjá mánuði nam vinnuskylda hans fyrir vinnu­veit­and­ann 26 dögum. Þar af vann hann einungis sex en kom ekki til vinnu 20 daga vegna verkfalls. Hann vann því (6/0,26) 23,08% af vinnuskyldu sinni en felldi niður störf (20/0,26) 76,92% þess tíma sem vinnuveitandinn átti ella rétt til vinnu­fram­lags hans.                 Samkvæmt aðferð stefnda var hann í verkfalli 22,15 einingar af vinnu­tíma sínum í apríl og maí en 11,07 einingar í júní, alls 55,37 einingar. Því greiðir stefndi honum fyrir alla mánuðina þrjá 280.106 kr. þrátt fyrir að hann hafi í reynd einungis átt að fá (2 x 20.000 kr.) 40.000 kr. greiddar í apríl, ekkert í maí og (4 x 20.000 kr.) 80.000 kr. í júní, eða alls 120.000 kr. fyrir alla mánuðina þrjá.                 Í þessum tveimur síðastgreindu tilvikum leiðir aðferð stefnda til þess að annar fær ekki greitt fyrir vinnu sem hann innti af hendi í þágu vinnuveitanda síns en hinn fær laun þótt hann hafi ekki innt sína vinnuskyldu af hendi vegna verk­falls.                 Eins og áður segir stafar þessi niðurstaða stefnda af því að hann gengur í öllum til­vikum út frá með­al­tals­mánuði greinar 1.1.2, 21,67 dögum, þótt það sé ekki meðal­tals­mánuður þeirra sem vinna samkvæmt öðru vinnufyrirkomulagi, eins og t.d. því sem er lýst í dæm­unum. Þetta grundvallarviðmið stefnda veldur því einnig að meðal­dagur starfs­manns sem er í 40% starfi er ætíð (0,8 x 4,6147) 1,8459 einingar eða (1,8459 x 1,7336) 3,2 vinnu­stundir sem samsvara 3 tímum og 12 mínútum, þótt starfs­mað­ur­inn vinni í reynd 8 tíma á dag í 8,66 daga í meðaltalsmánuði.                 Árétta má að sá sem vinnur í þrjá tíma og 12 mínútur daglega, fimm daga vik­unnar og á frí um helgar, fær allt sitt vinnuframlag greitt ólíkt þeim sem vann alla mánu­daga og alla föstudaga en lagði aldrei niður störf. Sá sem vinnur 40% starf fimm daga í viku fær ekki heldur ofgreitt, ólíkt þeim sem vann einungis sex daga á þremur mán­uðum.   Störf stefnenda og útreikningur stefnda á launum þeirra í verkfalli                 Viðveruskýrslur stefnenda sýna að sumar þeirra vinna nánast ætíð 8 tíma vaktir en aðrar vinna mjög sveiflukennt, allt frá 4 tíma til ríflega 12 tíma langra vakta. Það auðveldar ekki heldur starf þess sem reiknar út laun stefnenda að sumar hafa unnið talsvert umfram vinnuskyldu sína á því tímabili sem er hér til skoðunar, svo sem Björg Pálsdóttir. Aðrar hafa unnið allnokkru minna en nemur vinnuskyldu þeirra. Hugs­an­lega unnu þær umfram vinnuskyldu í janúar, febrúar og mars. Í það minnsta verður að gera ráð fyrir að þessar sveiflur í vinnuframlagi jafnist út á lengra tímabili þannig að þegar árið er gert upp hafi allar innt alla vinnuskyldu sína af hendi.                 Vegna eðlis starfs stefnenda voru þær flestar kallaðar til, til að vinna nokkra af verk­falls­dögunum, í samræmi við heimild í 20. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opin­berra starfsmanna. Þar segir að þótt verkfall sé hafið sé heimilt að kalla starfs­menn, í verkfalli, tímabundið til vinnu í þeim tilgangi að afstýra neyðar­ást­andi.                 Þegar stefndi reiknaði laun stefnenda í verkfallinu dró hann fyrst af þeim laun í sam­ræmi við einingarnar í töflunni. Hann bætti síðan við einingum fyrir þá daga sem við­komandi starfsmaður vann í verkfallinu vegna undanþágu. Stefndi bætti einnig við greiðslum sem stefn­endur fengu frá vinnu­veit­anda sínum, Landspítala – Háskóla­sjúkra­húsi, og eru kallaðar forstjóra­færslur. Þær voru greiddar til þess að koma til móts við starfs­menn spítalans, sem sættu launa­frá­drætti vegna verkfallsins.                 Í þessu máli er tekist á um aðferð stefnda við að reikna út laun vakta­vinnu­manna í verkfalli. Að mati dómsins kemur því ekki til greina að taka með í þann reikn­ing þessar forstjórafærslur enda eru þær ekki hluti af því sem stefndi telur stefn­endur eiga að fá greitt á verkfallstíma. Stefndi áréttar í greinargerð sinni að frádráttur frá launum stefnenda eigi að vera sú fjárhæð sem hann reiknar út en ekki sú sem fæst þegar forstjóragreiðslunum er bætt við, en með þeim lækkar frádrátturinn.                 Framar er lýst því kerfi stefnda að reikna laun út frá einingum. Þegar starfs­maður vinnur 100% starf eru laun hans reiknuð út frá 100 einingum. Þegar starfs­maður vinnur 70% starf eru laun hans reiknuð út frá 70 einingum.                 Hver dagur í 21,67 daga meðaltalsmánuði verður (100/21,67) 4,6147 einingar. Út frá þessu viðmiði reiknar stefndi að dagur starfsmanns sem vinnur 70% starf sé (0,7 x 4,6) 3,23 einingar. Þegar deilt er með 21,67 í 70 fæst sama niðurstaða.                 Séu greiddar 539.293 kr. í mánaðarlaun fyrir 100% starf fær starfsmaður í 70% starfi 377.505 kr. í mánaðarlaun. Hver ein­ing samsvarar því (377.505 kr./70) 5.393 kr. Sama fjárhæð fæst með því að deila 100 í 539.293 kr. sem eru, eins og áður segir, mán­að­ar­launin fyrir 100% starf í dæminu.                 Hver eining samsvarar (8/4,6147) 1,7336 vinnustundum sem er 1/100 af vinnu­stunda­fjölda í meðaltalsmánuði sem er, eins og áður segir, 173,36 stundir.   Raunhæft dæmi af einum stefnanda                 Starfsmaður sem er í 70% starfi og vinnur alla daga vikunnar á, samkvæmt forsendum greinar 1.1.2, að vinna (0,7 x 8 tímar) 5,8 tíma á dag fimm daga vikunnar en vinnur ekki um helgar. Hann fær greitt fyrir vinnu sína fimm daga vikunnar en ekki fyrir helgar­fríið. Segja má að þá daga sé hann í „vaktafríi“.                 Starfsmaður sem er í 70% starfi í vaktavinnu en vinnur að jafnaði 8 tíma á dag á samkvæmt forsendum greinar 1.1.2 (0,7 x 21,67) að vinna 15,169 daga í meðaltals­mán­uði. Samkvæmt ráðn­ingar­samn­ingi um vaktavinnu á hann þó að vinna hvaða viku­dag sem vera kann, þar á meðal laugar- og sunnudaga. Hinir dag­ar mánaðarins eru allir helgardagar í vinnu­daga­tali hans hvaða vikudagar sem það kunna að vera því vinnu­veit­andinn gerir ekki ráð fyrir vinnu­fram­lagi starfs­manns­ins þá daga.                 Í ráðningarsamningi er starfshlutfallið ákveðið en í vaktaplani hvaða tíma sól­ar­hrings á hvaða vikudegi á að inna vinnuna af hendi. Það er vinnuveitandinn sem ræður vaktaplaninu, í sumum tilvikum, reyndar, að höfðu sam­ráði við starfsmanninn. Engu að síður ræður vinnuveitandinn því hvaða daga vik­unnar starfsmaðurinn innir vinnu­skyld­una af hendi og hvaða dagar vikunnar eru helgar­dagar hans. Þetta er skipu­lagt með allnokkrum fyrirvara.                 Þegar verkföllum er háttað eins og því sem er tilefni þessa máls ræðst það af þeim vöktum sem vinnuveitandinn hefur stillt upp hvort verkfallsdagarnir eru jafn­framt helgardagar, frídagar, hjá einhverjum starfsmönnum hans.                 Hann getur því ekki talið þá með verkfallsdögum, ekki frekar en hann gæti talið laugar- og sunnudaga með verkfallsdögum hjá starfsmanni sem innir sína skyldu af hendi frá mánudegi til föstudags.                 Stefnandi, Anna Jónína, vinnur í 70% starfshlutfalli. Séu vaktir hennar 8 tíma langar ber henni því að vinna af 260,04 virkum dögum á ári (0,7 x 260,04) 182,028 daga sem verða (182,028/12) 15,169 dagar í meðaltalsmánuði hennar. Það samsvarar 121,35 vinnu­stundum á mánuði.                 Á því tímabili sem er hér til skoðunar nam vinnuskylda hennar þó 112 stundum í apríl, 125 stundum í maí og 123 stundum í júní ((112 + 125 + 123)/3) eða 120 tímum að meðaltali á mánuði sem er einum tíma og 20 mínútum minna en í meðal­tals­mán­uði hennar. Þær vinnustundir sem vantaði upp á vinnustundafjölda meðal­tals­mán­aðar jafnast vænt­an­lega út í fleiri vinnustundum aðra mánuði árs­ins. Vinnu­stundirnar röð­uð­ust þannig á vikudagana að hún var eina vakt í verkfalli í apríl, þrjár í maí og tvær í júní, alls (8 + 24 + 16) 48 tíma.                 Þar eð mánaðarlaunin miðast við það vinnutímaframlag stefnanda sem vinnu­veit­andi hennar átti rétt til að meðaltali, og þar eð gera verður ráð fyrir að þeir tímar sem upp á vanti verði unnir í öðrum mánuðum ársins, telur dómurinn rétt að reikna verk­fall hennar út frá þeim vinnutíma, 121,35 tímum, en ekki þeim vinnutíma sem svo vildi til, vegna vakta­plans­ins, að hún innti af hendi á þessu tíma­bili. Þegar einungis fjöldi þeirra vinnutíma sem vinnuveitandinn á mánaðarlega tilkall til af hendi starfs­manns­ins er lagður til grundvallar útreikningi skiptir ekki máli hver var meðal­tals­mán­uður hvers og eins starfs­manns né heldur hversu langa vakt hann vann í hvert sinn.                 Með hlutfallsútreikningi námu verkfallsstundir stefnanda í apríl (8/1,2135) 6,59% af vinnu­skyldu hennar en vinnustundir 93,41%.                 Með aðferð stefnda var hún í verkfalli í 38,76 einingar af vinnutíma sínum. Þar eð stefn­andi vann fjóra verkfallsdaga vegna undanþágu lækkar stefndi verkfalls­frá­drátt­inn um 3,23 einingar fyrir hvern dag (4 x 3,23) 12,92 einingar og fær út að hún hafi verið í verkfalli 25,84 einingar af vinnu­tíma sínum. Það samsvarar (25,84 x 1,7336) 44,8 vinnustundum og (2584/70) 36,91% af launum stefn­anda.                 Með hlutfallsútreikningi lagði stefnandi niður störf (24/1,2135) 19,77% þess tíma í maí sem vinnuveitandinn átti rétt til vinnuframlags hennar og vinnu­stund­irnar námu því 80,23%.                 Með aðferð stefnda var hún í verkfalli 38,76 einingar af vinnutíma sínum. Þar eð hún vann þá í þrjá daga á undanþágu lækkar hann frádráttinn um (3 x 3,23) 9,69 ein­ingar og fær út að stefnandi hafi verið í verkfalli 29,07 einingar af vinnutíma sínum. Það samsvarar (29,07 x 1,7336) 50,4 vinnustundum og (2907/70) 41,53% af launum stefnanda.                 Með hlutfallsútreikningi nam verkfall stefnanda í júní (16/1,2135) 13,18% af vinnu­skyldu hennar en unnar stundir 86,82%.                 Með aðferð stefnda nam verkfall stefn­anda í júní 19,38 einingum af vinnutíma hennar. Í júní vann hún tvo daga á undanþágu og því lækkar hann frádráttinn um (2 x 3,23) 6,46 einingar og fær út að hún hafi verið 12,92 einingar í verkfalli. Það sam­svarar (12,92 x 1,7336) 22,4 vinnustundum og (1292/70) 18,46% af launum stefn­anda.                 Samkvæmt aðferð stefnda nam verkfall stefnanda (25,84 + 29,07 + 12,92) 67,83 ein­ingum. Það samsvarar (67,83 x 1,7336) 117,6 vinnustundum og (67,83 x 5.393 kr.) 365.807 kr.                 Hana vantaði til vinnu 48 stundir af þeim (3 x 121,35) 364,05 vinnustundum sem henni bar að vinna þessa þrjá mánuði samanlagt. Verkfall stefnanda nam því 13,81% af þeim tíma sem vinnuveitandi hennar átti tilkall til yfir allt tímabilið, en 48 stundir samsvara 27,68 einingum. Með aðferð stefnda á þó einungis að reikna henni laun eins og hún hefði verið í verkfalli í 117,6 vinnustundir og draga af launum hennar sam­tals 67,83 ein­ingar.                 Segja má að með þessari aðferð geri stefndi ráð fyrir því að umsam­inn vinnu­tími stefn­anda mánaðarlega sé (117,6-48) 69,6 tímum lengri en stefndi á í reynd tilkall til. Það samsvarar nánast 9 vinnudögum.                 Þetta er sambærilegt því að stefnandi teldi helgardagana með þegar hann reiknar frádrátt frá launum þeirra sem vinna virka daga og eiga frí um helgar. Það er hreint ekki samkvæmt fyrirmælum greinar 1.1.2. Samkvæmt fyrir­mælum hennar á að telja þá daga, þær stundir sem eru unnar en undanskilja helg­ar­dag­ana (launalausu dag­ana) og þá daga, þær stundir sem eru ekki unnar en eru hluti af vinnu­skyldunni.                 Reikna má laun stefnanda, Önnu Jónínu, út í anda greinar 1.1.2 í kjara­samn­ing­num þannig að verð­mæti vinnuframlags hennar sé fundið.                 Í apríl vann hún 93,41% af vinnuskyldunni fyrir þann mánuð. Hún var ráðin í 70% starf og því voru mánað­ar­laun hennar að jafnaði (0,7 x 539.293) 377.505 kr. Miðað við það hlutfall af vinnu­skyldunni sem hún innti af hendi í apríl hefði hún átt að fá greiddar (93,41 x 377.505 kr.) 352.627 kr.                 Í maí vann stefnandi 80,23% af vinnuskyldunni fyrir þann mánuð. Miðað við það hlutfall hefði hún átt að fá greiddar fyrir maí (0,8023 x 377.505 kr.) 302.872 kr.                 Í júní vann stefnandi 86,82% af vinnuskyldunni og hefði samkvæmt því átt að fá greiddar (0,8682 x 377.505) 327.750 kr.   Frádráttaraðferð stefnenda                 Málsaðilar beita báðir frádráttarnálgun þegar þeir reikna út hvaða laun eigi að greiða starfsmanni sem er í verkfalli hluta úr mánuði. Frádráttaraðferð stefnda sem byggir á einingum hefur verið lýst. Fram er komið að þegar starfs­maður innir vinnu­skyldu sína ekki af hendi fimm daga í viku og á frí um helgar leiðir aðferð stefnda til þess að starfsmaðurinn fær ekki greitt fyrir alla þá vinnu sem hann hefur innt af hendi því meira er dregið af launum hans en nemur þeim stundum sem hann vann ekki en vinnu­veitandi hans átti tilkall til, hefði stétt­ar­félag stefnenda ekki boðað verk­fall.                 Á sama hátt hefur stefndi bent á að þegar aðferð stefnenda er beitt og dregið frá launum þeirra með því að margfalda þá tíma sem þær felldu niður störf vegna verk­falls með tímakaupi geti frádrátturinn numið hærri fjár­hæð en mánaðarlaunin sé vakta­planið þannig að allar vaktir starfsmannsins raðist á verk­falls­daga.                 Samkvæmt grein 1.1.2 í kjarasamningnum er meðalmánuðurinn 21,67 dagar og hver vinnudagur 8 stundir. Sam­kvæmt þessum forsendum er gert ráð fyrir að hver starfs­maður sem vinnur 100% vinnu vinni 260,04 daga á ári og að mán­að­ar­leg vinnu­skylda hvers starfs­manns nemi 173,36 vinnustundum.                 Grein 1.4.1 í kjarasamningnum fjallar um útreikning tímakaups. Þar segir að tíma­vinnu­kaup í dagvinnu sé 0,615% af mánaðarlaunum starfsmanna skv. grein 1.2.1 og 1.2.2. Þegar reiknað er út tímakaup í grein 1.4.1 er gengið út frá 162,6016 vinnu­stundum í mánuði (0,615 x 162,6016 = 100). Grein 1.4.1 gefur því hærra tímakaup en sé það reiknað með forsendum greinar 1.1.2, þ.e. út frá 173,36 vinnustundum. Væru þær not­aðar ætti að annaðhvort margfalda mánaðarlaunin með (100 / 173,36) 0,5768 til þess að fá tíma­kaupið eða einfaldlega deila vinnustundum heils mánaðar í laun heils mán­aðar.                 Þar eð stefnendur draga frá launum sínum vegna verkfalls samkvæmt reikni­reglu í grein 1.4.1 draga þær hlutfallslega hærra tímakaup frá en samsvarar því tíma­kaupi sem þær fá greitt.                 Aftur má taka dæmi af stefnandanum Önnu Jónínu. Þegar hún reiknar dóm­kröfu sína styðst hún við grein 1.4.1 og fær út tímakaupið (0,615 x 539.293) 3.317 kr. Önnur aðferðin sem áður var nefnd (0,5768 x 539.293) gefur tímakaupið 3.110,6 kr. en hin (539.293/173,36) gefur tímakaupið 3.110,8. Hér verður því miðað við 3.110,7 kr.                 Samkvæmt aðferð stefnenda og réttu tímakaupi hefði átt að draga frá Önnu Jónínu (8 x 3.110,7) 24.885 í apríl, (24 x 3.110,7) 74.657 kr. í maí og (16 x 3.110,7) 49.771 kr. í júní, alls 149.313 kr. Hún telur hins vegar að frádrátturinn hefði átt að vera alls (48 x 3.317) 159.199 kr., nánast 10.000 kr. hærri en hann ætti með réttu að vera.                 Þar eð stefnendur leggja hærra endurgjald fyrir vinnustundina til grundvallar útreikningi frádráttarins samræmist hann því ekki heldur fyllilega þeirri megin­reglu að sér­hver eigi að fá greitt fyrir alla þá vinnu sem hann innir af hendi.                 Í gagnrýni sinni á útreikning stefnenda leggur stefndi til grundvallar allar stundir sem stefnendur unnu á því tímabili sem boðað verkfall stóð án þess að líta til þess að vinnuframlag þeirra er sveiflukennt frá mánuði til mánaðar og suma mánuðina unnu nokkrar þeirra langt umfram þann vinnustundafjölda sem þeim bar að inna af hendi að jafnaði. Af þeim sökum fær hann þá útkomu að væri frádráttaraðferð stefn­enda beitt yrði dregið meira af þeim en næmi mánaðarlaunum þeirra, ef svo vildi til að allar vaktir lentu á verkfallsdögum. Sú niðurstaða stefnda stenst þó ekki því ekki má við frádrátt frá launum leggja til grundvallar fleiri stundir en þær sem lagðar eru til grund­vallar mán­að­ar­launum, það er þann fjölda stunda sem vinnuveitandinn á rétt til að starfsmaðurinn inni af hendi að meðaltali.   Dreifibréf nr. 6/2001                 Stefndi mótmælir því ekki að stefnendur hafi innt af hendi vinnu í apríl, maí og júní 2015 sem þær hafi ekki fengið greitt fyrir. Rök hans verða þó ekki skilin á annan hátt en þann að það réttlætist af grein 1.1.2 í kjarasamningi stéttarfélags þeirra við stefnda því á þeirri grein byggist frá­drátt­ar­aðferð hans. Stefndi kallar grein 1.1.2 reyndar frádráttarreglu.                 Dómurinn getur ekki fallist á skilning stefnda á efni greinar 1.1.2. Reglan er ekki frádráttarregla. Hún fjallar ekki um það hvernig eigi að draga af launum starfs­manns sem vinnur brot úr mánuði. Þvert á móti segir hún að reikna eigi út hversu háa fjár­hæð beri að greiða starfs­mann­inum fyrir hvern dag, daglaun hans. Þá fjárhæð á að marg­falda með þeim dögum sem hann vann og greiða honum samkvæmt því.                 Allur launakafli kjarasamningsins snýst um það hvernig á að greiða fyrir unnar stundir en ekki um það hvernig á að draga frá fyrir þær sem ekki eru unnar, en vinnu­veit­and­inn á samkvæmt ráðningarsamningi tilkall til.                 Það er efnislegt inntak greinar 1.1.2 að útreikningur launa tryggi að sérhver starfs­maður fái greitt fyrir allt vinnuframlag sitt. Hefði stefndi beitt grein 1.1.2 sam­kvæmt efnis­legu inntaki hennar hefði útreikn­ingur hans ekki gefið honum þá útkomu að honum væri ekki skylt að greiða stefn­endum fyrir allt vinnu­fram­lag þeirra á því tíma­bili sem verkfallið stóð.                 Frádráttaraðferð stefnda við að reikna út laun í verkfalli virðist byggja á dreifi­bréfi starfs­mannaskrifstofu Fjármálaráðuneytisins nr. 6/2001. Þar er stuðst við orðalag greinar 1.1.2 þó þannig að þar segir: Meginreglan er sú að laun falla niður í verkfalli. Í þeim mánuði sem verkfall hefst eða því lýkur, reiknast fastar launa- og kostnaðar­greiðslur fyrir þann tíma sem unninn er þannig, að deilt er með 21,67 í mánaðar­launin og margfaldað með fjölda almanaksdaga annarra en laugardaga og sunnu­daga frá upp­hafi eða til loka starfs­tíma, sbr. gr. 1.1.2 eða 1.1.3 í kjarasamningum ríkis­starfs­manna. Þessi regla er óháð því hvort viðkomandi starfsmaður eigi vinnu­skyldu eða ekki, það dregst jafnt af launum allra starfsmanna félagsins. ...                 Dómurinn fellst á það með stefnendum að þetta dreifibréf sé ekki réttar­heim­ild. Hins vegar er fylli­lega mögulegt að beita frádráttarnálgun við útreikning á launum vakta­vinnufólks í verk­falli sé það gert á réttum forsendum eins og áður segir.   Félagsleg (kollektív) aðgerð                 Helsta röksemd stefnda fyrir þeirri frádráttaraðferð sem hann beitir er að verk­fall sé félagsleg (kollektív) aðgerð stéttarfélagsins. Því verði að líta svo á að allir félags­menn hafi lagt niður vinnu hlutfallslega jafnlengi burtséð frá því hvort vinnu­skylda þeirra rað­að­ist á þá verkfallsdaga sem voru boðaðir eða ekki. Þetta hlutfall beri að draga frá mánaðarlaunum þeirra.                 Það er alveg rétt að aðgerðin er félagsleg því henni er ætlað að ná því félags­lega mark­miði að hækka laun félagsmanna. Hún er einnig félagsleg vegna þess að meiri­hluti félagsmanna getur þvingað þá, sem eru hugsanlega ekki hlynntir verk­falli, til að taka þátt í því.                 Verkfall raskar hins vegar ekki ráðningarsambandinu milli ein­stakra launa­manna og vinnuveitenda þeirra. Verkfall getur því ekki haft þau áhrif á réttarsamband launa­manns og vinnu­veit­anda að vinnuveitandinn þurfi ekki að greiða laun fyrir alla þá vinnu sem launa­mað­ur­inn innir af hendi á dögum sem eru ekki verkfallsdagar. Með því að koma til vinnu og sinna vinnu þá daga sem hefur ekki verið boðað verkfall hlýðir starfs­maðurinn lög­legum fyrir­mælum vinnuveitanda síns enda á starfs­mað­ur­inn hættu á að verða rekinn úr starfi sinni hann ekki þeirri vinnu sem hann er ráðinn til án lög­mætra forfalla.   Hvenær er maður í verkfalli og hvenær er maður ekki í verkfalli?                 Það er ekkert vafamál að verkfallið tók til allra félagsmanna Ljós­mæðra­félags­ins og tók til allra stefnenda.                 Það er hins vegar ekki verkfall ef starfsmaður kemur ekki til vinnu sinnar af þeirri ástæðu að hann átti yfir­höfuð ekki að vera í vinnu þann dag þótt sá dagur sé einn af þeim sem boðað var að verkfall yrði. Á vinnudagatali hans sam­svarar þessi dagur helg­ar­degi hjá þeim sem vinna á virkum dögum og eiga frí um helgar.                 Aðrir vakta­vinnu­menn kunna að hafa átt að vera í vinnu þennan dag og það er þá verk­fall hjá þeim ef þeir inna vinnu sína ekki af hendi þá.                 Vegna aðferðar sinnar telur stefndi hins vegar til verkfallsdaga stefnenda daga sem þeim bar yfir­höfuð ekki að inna neina vinnuskyldu af hendi fyrir hann.                 Að mati dómsins geta til verkfalls einvörðungu talist þær vinnustundir sem starfs­maðurinn vann ekki en launagreiðandinn átti ella tilkall til. Eins og sýnt hefur verið fram á er vitaskuld hægt að reikna þessar vinnu­stundir sem tiltekið hlutfall tíma­bils, svo sem meðaltals­mán­aðar eða sem hlutfall af mánaðarlegri vinnuskyldu. Hins vegar verður ekki reiknað út hvaða hlutfall það er í meðaltalsmánuði eins starfs­manns og það hlutfall síðan notað til frádráttar launum í meðaltalsmánuði ann­ars, séu þeir með­al­tals­mánuðir ekki jafnlangir eða lendi frí­dag­arnir (launalausu dagarnir) í sumum til­vikum á laugardegi og sunnudegi og í öðrum tilvikum á boðuðum verk­falls­dögum. Eigi eitt yfir alla að ganga verða forsend­urnar að vera þær sömu.                 Því gengur ekki heldur að stefndi telji unninn dag þess starfsmanns sem sinnir 70% starfi með því að vinna 8 tíma 15,169 daga í meðaltalsmánuði, jafngilda 3,23 ein­ingum eða (3,23 x 1,7336) 5,60 tímum, þ.e. 5 tímum og 36 mínútum. Þegar stefndi greiðir stefnanda, Önnu Jónínu, fyrir 8 tíma vaktir sem eru unnar á grundvelli undan­þágu 20. gr. laga nr. 94/1986 greiðir hann fjárhæð sem samsvarar launum fyrir 5 tíma og 36 mínútur en telur rétt að starfs­maður­inn vinni 2 tíma og 24 mínútur endur­gjalds­laust. Þessum launa­út­reikn­ingi er beitt þótt vinna starfs­manns­ins þessar 8 stundir grund­vall­ist á lög­boð­inni undanþágu frá verk­falli.   Jafn frádráttur óháður vinnuskyldu                 Eins og margoft er komið fram reiknar stefndi laun í verkfalli þannig að hann dregur frá öllum sama hlutfall vinnu­stunda burtséð frá vinnufyrirkomulagi starfs­manna, svo sem hvort þeir áttu að inna vinnu sína af hendi á verkfallsdegi eða ekki. Þetta getur valdið þeirri mismunun sem áður var rakin að sumir fá greitt fyrir stundir sem þeir unnu ekki en aðrir fá ekki að fullu greitt fyrir þá vinnu sem þeir inntu af hendi.                 Stefndi byggir á því að þessi aðferð við að draga frá launum vegna verk­falls grund­vall­ist á jafn­ræðis­reglunni. Í greinargerð sinni virðist hann fyrst og fremst vísa til þess að hann hann telji sann­gjarn­ast og réttlátast að jafna launa­greiðslur inn­byrðis milli vaktavinnufólks í verk­falli, vegna þess að lotuverkfall geti bitnað misjafnt á þeim.                 Hann virðist mestmegnis líta framhjá þeim ójöfnuði, sem reikniregla hans veldur og er grund­völlur þessa máls, að staða þeirra sem fá ekki greitt fyrir allt vinnu­fram­lag sitt í verk­falli, vakta­vinnu­fólks, er ekki jöfn stöðu þeirra sem fá greitt fyrir sér­hverja stund sem þeir vinna á verkfallstímabilinu, þ.e. þeirra sem vinna hefð­bundna vinnu­viku en eiga frí um helgar.                 Fyrir þessum ójöfnuði hefur hann strangt til tekið ekki fær önnur rök en þau að verk­fall sé félagsleg (kollektív) aðgerð og að dreifibréf nr. 6/2001 mæli fyrir um jafnan frádrátt af öllum.                 Fyrir vinnu sem hefur verið innt af hendi ber vinnuveitandanum að greiða starfs­mann­inum laun. Þetta er grundvallarregla vinnuréttar og helsta skylda vinnu­veit­and­ans í réttarsambandi hans og starfsmannsins, ráðningarsambandinu. Henni verður ekki haggað, jafnvel ekki með verkfalli. Með því að greiða ekki fyrir vinnu sem hefur verið innt af hendi brýtur vinnuveitandinn gegn þessari frumskyldu sinni gagnvart starfs­mann­inum.                 Eins og áður segir telur dómurinn dreifibréf nr. 6/2001 ekki réttarheimild. Setn­ingin í dreifibréfinu „þessi regla er óháð því hvort viðkomandi starfsmaður eigi vinnu­skyldu eða ekki, það dregst jafnt af launum allra starfsmanna félagsins“ kann að eiga sér stoð í réttarheimild þótt sú hafi ekki verið lögð fram. Engu að síður er það mat dóms­ins að þessi setning geti ekki átt við annað starfsfólk en það sem á rétt á laun­uðu veik­inda­leyfi eða launuðu orlofi á boð­uðum verkfallstíma. Vitaskuld verður jafn­framt að skilja hana þannig að það drag­ist hlutfallslega jafnt af öllum.                 Stefnandinn Brynja Pála, sem vinnur í 80% starfshlutfalli, var í orlofi frá 25. maí til 26. júní. Á þeim tíma gilti því ekkert vaktaplan fyrir vinnuframlag hennar. Þess í stað er vinnuskylda hennar skráð í við­veru­kerfinu 6 tímar og 24 mínútur sér­hvern virkan dag þessar fimm vikur. Það sam­svarar 80% af 8 tíma dag­vinnu, 6,40 vinnu­stundum.                 Hún er jafnframt skráð í verkfalli mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga síð­ustu viku í maí og fyrstu tvær vikur í júní, en þá lauk verkfallinu. Þannig voru dregin af henni laun í hlutfalli við verk­fallið þótt henni bæri ekki að inna neina vinnu af hendi.                 Þessi færsla í viðverukerfið sýnir hvenær og hvernig á að beita þeim fyrir­mælum að jafnt eigi að draga frá launum starfsmanna hvort sem þeir eiga vinnu­skyldu eða ekki, þ.e.a.s. á þeim tímabilum þegar þeir taka laun en eiga ekki að koma á vaktir.                 Að mati dómsins er ekki mögulegt að túlka tilvitnaða setningu í dreifibréfinu eins og stefndi gerir. Sú túlkun, að draga eigi af fólki laun fyrir vinnu sem það hefur innt af hendi, verður í það minnsta ekki dregin af grein 1.1.2 í kjarasamningnum en það er sú réttar­heim­ild sem stefndi segist byggja á. Efnislegt inntak hennar er ótvírætt það að sérhver fái allt vinnuframlag sitt að fullu greitt.                 Stefnendur fá vaktaskipulag sitt með fyrirvara og þær vissu, þegar þær kusu þessa útgáfu af lotuverkfalli, að vaktir sumra félagsmanna myndu lenda oftar á verk­falls­dögum en vaktir annarra. Í slíkum tilvikum er það ekki hlutverk vinnuveitandans að draga af launum þeirra sem áttu vaktir utan verkfallsdaganna til þess að laun þeirra verði jafnari launum hinna, sem áttu vaktir á verkfallsdögunum en gátu ekki unnið þær vegna verkfallsins. Vilji stéttarfélagið, Ljós­mæðra­félagið, bæta þeim félags­mönnum sínum sem áttu oftar vakt á verkfalls­dögum en aðrir, getur það bætt þeim það með greiðslum úr verkfallssjóði.                 Vinnuveitandi sem segist byggja útreikning launa á jafnræðisreglunni hlýtur jafn­framt að beita henni þannig að allir starfsmenn hans fái greitt fyrir allt vinnu­fram­lag sitt en ekki einvörðungu þeir sem vinna fimm daga vikunnar en eiga frí um helgar. Honum ber að rækja þá grundvallarskyldu sína, að greiða fyrir unnin störf, við alla starfs­menn sína jafnt. Sú skylda hvílir jafnt á honum í verkfalli sem á öðrum tímum.                 Stefndi getur því ekki vísað til jafnræðisreglu til stuðnings því að draga meira af launum sums vaktavinnufólks en samsvarar þeim stundum sem það felldi niður störf til þess að verkfallið bitni ekki ójafnt á vaktavinnufólki í verkfalli.                 Hann getur ekki heldur réttlætt með jafnræðisreglunni þá mismunun að það fólk sem vinnur fimm virka daga og á frí um helgar fái allt vinnuframlag sitt í verkfalli greitt en vakta­vinnu­fólk beri á sama tíma skarðan hlut frá borði.   Samandregið                 Það er því niðurstaða dómsins að regla 1.1.2 í kjarasamningi stéttarfélags stefn­enda og stefnda samræmist vel þeirri meginreglu vinnuréttar að sérhver starfs­maður eigi að fá greitt fyrir allt vinnu­fram­lag sitt sé berum orðum hennar fylgt og taldir þeir dagar sem starfsmaðurinn sem um ræðir vinnur 21,67 daga í meðaltals­mán­uði.                 Þegar fyrirkomulag vinnu starfsmannsins er annað en regla 1.1.2 gengur út frá er ekki hægt að beita henni samkvæmt berum orðum sínum. Hins vegar verður að beita þeirri efnisreglu sem í henni býr, að greiða skuli sérhverjum starfsmanni fyrir allar unnar stundir.                 Þótt starfsmaður vinni ýmist 12, 9, 8, 6, 5, 4 tíma vaktir á þó sérhver vakta­vinnu­maður, sem vinnur í tilteknu starfshlutfalli, að inna sama tímafjölda af hendi í hverjum meðaltals­mán­uði rétt eins og sá sem vinnur tiltekið hlutfall af virkum degi. Á þessari einföldu grundvallarforsendu má byggja útreikning á því hversu hátt hlutfall vinnu­skyldu sinnar starfsmaðurinn innti af hendi á verkfallstímanum og reikna honum laun í samræmi við það.                 Við útreikning launa í verkfalli tekur stefndi hins vegar forsendur sem eiga ein­vörðungu við um þá sem vinna á virkum dögum og beitir þeim einnig þegar hann dregur frá launum þeirra sem vinna vaktavinnu þótt þær forsendur eigi ekki endi­lega við um þá. Hann horfir t.d. fram hjá því hvort vinnu­skylda þeirra sé á verk­falls­degi eða ekki. Í hefðbundinni vinnuviku er vinnu­skyldan ætíð á verk­falls­degi. Vakta­vinnu­fólk getur hins vegar átt frí á boðuðum verk­falls­degi. Það fólk er þá ekki í verk­falli á þeim degi, ekki frekar en „vinnuvikufólk“ er í verkfalli um helgar.                 Stefnendur fengu ekki greitt fyrir alla þá vinnu sem þær inntu af hendi í apríl, maí og júní 2015. Engu að síður telur stefndi sig hafa beitt réttri aðferð við að reikna út laun þeirra og styður þá skoðun sína nokkrum réttarheimildum.                 Dómurinn telur honum þó ekkert hald í þeim. Í fyrsta lagi samrýmist það ekki efnis­legu inntaki greinar 1.1.2 að starfsmaður fái ekki greitt fyrir alla þá vinnu sem hann hefur innt af hendi.                 Dómurinn fellst einnig á að dreifibréf stefnda nr. 6/2001 sé ekki réttarheimild. Þótt þau fyrir­mæli að draga eigi af öllum jafnt, hvort sem þeir eiga vinnuskyldu eða ekki, ættu stoð í réttarheimild verða þau ekki skilin á annan hátt en þann að þau taki ein­vörðungu til þess starfsfólks sem á rétt á launum þótt það eigi ekki að koma á vaktir, svo sem fólks sem á rétt á laun­uðu veik­inda­leyfi eða launuðu orlofi á boð­uðum verk­falls­tíma.                 Í þriðja lagi fær það fólk, sem innir vinnu sína af hendi samkvæmt forsendum greinar 1.1.2, alla virka daga vikunnar og á frí um helgar, greidd laun fyrir alla þá vinnu sem það innir af hendi hvort sem það er í verkfalli eða ekki og burtséð frá því hvert starfs­hlut­fall þess er. Þó er verkfall þess fólks félagsleg (kollektív) aðgerð.                 Þegar vaktavinnufólk er í verkfalli verður því ekki vikið frá þeirri meginreglu vinnu­réttar að það fái greitt fyrir alla þá vinnu sem það hefur innt af hendi með þeim rökum að verkfallið sé félagsleg (kollektív) aðgerð.                 Fólk sem vinnur virka daga en á frí um helgar þarf ekki að sæta því að stefndi beiti, þegar hann reiknar út laun þeirra í verkfalli, jafnræðisreglu á þann hátt að sumir fái ekki greitt fyrir vinnu sem þeir inntu af hendi en hugsanlega fái aðrir greitt fyrir stundir sem þeir unnu ekki. Það fær laun fyrir unnar stundir, hvorki of né van.                 Frávik frá þeirri meginreglu að sérhver fái greitt fyrir allt vinnuframlag sitt verður því í tilviki vaktavinnufólks ekki heldur réttlætt með tilvísun til jafnræðisreglu.                 Eins og fyrir fólkið sem vinnur virka daga og á frí um helgar verður að reikna verk­fallið, þann tíma sem vaktavinnufólk leggur niður störf, og laun fyrir unna vinnu út þannig að tillit sé tekið til þess vinnufyrirkomulags sem það starfar eftir. Störfin hafa verið unninn, vinnu­tím­arnir inntir af hendi og fyrir það á að greiða laun.                 Það er óumdeilt að stefndi greiddi stefnendum ekki full laun fyrir vinnu þeirra í apríl, maí og júní 2015. Þegar þær reikna út þá fjárhæð, sem þær telja vangoldna, telja þær með forstjóragreiðslurnar, sem þeim voru greiddar án samþykkis stefnda. Vegna þess tímakaups, sem þær styðj­ast við þegar þær finna út fjárhæðina sem upp á vantar, verður launa­krafa þeirra heldur lægri en þær ættu rétt á ef þær reiknuðu tíma­gjald sitt út frá réttum forsendum.                 Þær fjárhæðir sem stefnendur krefjast eru lægri en þær eiga með réttu tilkall til. Því verður fallist á dómkröfur þeirra eins og þær eru settar fram.                 Þar eð fallist hefur verið á fjárkröfur stefnenda verður, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að dæma stefnda til þess að greiða þeim máls­kostnað. Sam­kvæmt 2. mgr. 132. gr. laganna ber að dæma hverri fyrir sig málskostnað úr hendi hans. Þegar litið er til umfangs málsins þykir málflutningsþóknun hvers stefnanda um sig, að teknu til­liti til virðis­auka­skatts, hæfilega ákveðin 250.000 krónur.                 Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm. D Ó M S O R Ð                 Stefndi, íslenska ríkið, greiði Önnu Jónínu Eðvaldsdóttur, 161.734 kr. ásamt drátt­ar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 130.239 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 207.412 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og af 161.734 kr. frá þeim degi til greiðsludags.                 Stefndi greiði Björgu Pálsdóttur, 319.679 kr. ásamt dráttar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 142.810 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 270.754 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og af 319.679 kr. frá þeim degi til greiðslu­dags.                 Stefndi greiði Brynju Pálu Helgadóttur, 40.643 kr. ásamt drátt­ar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 105.549 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 108.046 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og af 40.643 kr. frá þeim degi til greiðslu­dags.                 Stefndi greiði Kristínu Svölu Jónsdóttur 73.369 kr. ásamt drátt­ar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 17.672 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015 og af 73.369 kr. frá þeim degi til greiðsludags.                 Stefndi greiði Sigrúnu Ingvarsdóttur 188.369 kr. ásamt drátt­ar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 93.533 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 160.890 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og af 188.369 kr. frá þeim degi til greiðsludags.                 Stefndi greiði hverjum stefnanda um sig 250.000 kr. í málskostnað.
Mál nr. 154/2017
Skaðabætur EES-samningurinn EFTA-dómstóllinn Ráðgefandi álit Frávísunarkröfu hafnað
F ehf. höfðaði mál á hendur Í og krafðist skaðabóta vegna tjóns sem það taldi sig hafa orðið fyrir vegna synjunar á beiðni um heimild til að flytja inn ferskt nautakjöt frá Hollandi og stöðvun tollafgreiðslu í framhaldinu, en meðal þeirra skilyrða sem gerð voru fyrir innflutningnum var að kjötið hefði verið fryst í tilgreindan tíma fyrir tollafgreiðslu. Var málsókn F ehf. á því reist að ákvörðun Í um að heimila ekki innflutning kjötsins hefði verið í andstöðu við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Undir rekstri málsins í héraði var aflað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, sbr. dóm Hæstaréttar 27. apríl 2015 í máli nr. 220/2015. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu, með hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, að Í hefði ekki haft frjálsar hendur um setningu reglna um innflutning á hrárri kjötvöru. Hefði Í verið bundið af nánar tilgreindum ákvæðum sem tekin hefðu verið upp í viðauka EES-samningsins. Þá hefði það ekki samræmst ákvæðum nánar tilgreindrar tilskipunar að ríki sem ætti aðild að EES-samningnum setti reglur þar sem þess væri krafist að innflytjandi hrárrar kjötvöru sækti um sérstakt leyfi áður en varan væri flutt inn og áskildi að lagt væri fram vottorð um að kjötið hefði verið geymt frosið í tiltekinn tíma fyrir tollafgreiðslu. Hefði Í því verið skuldbundið til að laga íslenskan rétt að framangreindri tilskipun svo að efnislegt samræmi yrði á milli íslenskra réttarreglna og ákvæða tilskipunarinnar. Við úrlausn um hvort F ehf. ætti að þessu frágengnu rétt til skaðabóta úr hendi Í, vegna ætlaðs tjóns F ehf. sökum vanhalda um innleiðingu tilskipunar, rakti héraðsdómur að F ehf. ætti kröfu til þess að íslenskri löggjöf væri hagað til samræmis við EES-reglur og tækist það ekki leiddi af aðdraganda og tilgangi laga nr. 2/1993 að Í yrði skaðabótaskylt að íslenskum rétti, að þremur tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Héraðsdómur taldi öll skilyrðin vera uppfyllt og var Í dæmt til að greiða F ehf. skaðabætur. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að Ríkisstjórn Íslands hefði í október 2007 heimilað staðfestingu á nánar tilgreindum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem fólu í sér breytingar á viðaukum og bókunum við EES-samninginn. Hefðu framangreindar ákvarðanir verið staðfestar síðar sama mánaðar með fyrirvara um samþykki Alþingis. Frumvarp með það að markmiði að leiða matvælalöggjöf Evrópusambandsins í lög hefði verið samþykkt sem lög nr. 143/2009 frá Alþingi og fram kæmi í 78. gr. þeirra að ríkisstjórninni væri heimilt að staðfesta þar tilgreindar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar. Hæstiréttur tiltók jafnframt að eftir uppkvaðningu héraðsdóms hefði Eftirlitsstofnun EFTA höfðað tvö samningsbrotamál á hendur Í fyrir EFTA-dómstólnum sem hefði lokið með dómi 14. nóvember 2017 í sameiginlegum málum nr. E-2/17 og E-3/17. Þar hefði meðal annars verið komist að þeirri niðurstöðu að Í hefði ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum með því að hafa í gildi við innflutning til Íslands á hráu kjöti og kjötvörum frá öðrum EES-ríkjum leyfiskerfi það sem um ræddi í máli þessu. Að þessu gættu staðfesti Hæstiréttur hinn áfrýjaða dóm með skírskotun til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Guðrún Erlendsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. mars 2017 að fengnu áfrýjunarleyfi. Tekur áfrýjun bæði til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2014, þar sem hafnað var kröfu áfrýjanda um frávísun aðal- og varakröfu stefnda, og dóms í málinu 18. nóvember 2016. Áfrýjandi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða úrskurðar og héraðsdóms, auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða að aðal- og varakröfu stefnda verði ekki vísað frá héraðsdómi. Í málinu greinir aðila á um það hvort áfrýjanda beri að greiða stefnda skaðabætur vegna tjóns sem stefndi telur sig hafa orðið fyrir vegna þess að honum var ekki heimilað að flytja til landsins hrátt og ófrosið kjöt frá Hollandi í mars 2014. Er málsókn stefnda á því reist að ákvörðun áfrýjanda um að heimila ekki innflutning kjötsins sé í andstöðu við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Ríkisstjórn Íslands heimilaði 23. október 2007 staðfestingu á sex ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem fólu í sér breytingar á viðaukum og bókunum við EES-samninginn. Í hinum áfrýjaða dómi er nánari grein gerð fyrir umræddum ákvörðunum en með þeim var svokölluð matvælalöggjöf Evrópusambandsins tekin upp í EES-samninginn, þar á meðal ákvörðun nr. 133/2007 varðandi endurskoðun á þeim undanþágum sem Ísland hefur haft frá I. kafla í Viðauka I við EES-samninginn. Framangreindar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar staðfesti hún 26. október 2007 með fyrirvara um samþykki Alþingis. Eins og í héraðsdómi greinir var í ákvörðun nr. 133/2007 ekki gerður annar fyrirvari af Íslands hálfu en sá að ákvæði I. kafla Viðauka I við EES-samninginn skyldu ekki taka til Íslands að því er varðaði ákvæði um lifandi dýr og dýraafurðir á borð við egg, fósturvísa og sæði. Ríkisstjórn Íslands lagði tvívegis á árinu 2008 fram frumvarp á Alþingi með það að markmiði að leiða matvælalöggjöf Evrópusambandsins í lög en þau urðu ekki útrædd og tóku ekki gildi sem lög. Frumvarp með sama markmiði var af ríkisstjórnarinnar hálfu aftur lagt fram á Alþingi 8. júlí 2009 en hafði þá tekið nokkrum breytingum frá fyrri frumvörpum. Í athugasemdum með því frumvarpi sagði að það væri í samræmi við efnisákvæði ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar að öðru leyti en því að innflutningsbann á hráu kjöti og hráum eggjum samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1993 héldist og yrði ekki afnumið. Var frumvarpið þannig samþykkt sem lög nr. 143/2009 frá Alþingi og segir í 78. gr. þeirra að ríkisstjórninni sé „heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 26. október 2007 nr. 133/2007, nr. 134/2007, nr. 135/2007, nr. 136/2007, nr. 137/2007 og nr. 138/2007.“ Eftir uppkvaðningu héraðsdóms höfðaði Eftirlitsstofnun EFTA tvö samningsbrotamál á hendur Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum sem lauk með dómi 14. nóvember 2017 í sameiginlegum málum nr. E-2/17 og E-3/17. Var þar meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum með því að hafa í gildi við innflutning til Íslands á hráu kjöti og kjötvörum frá öðrum EES-ríkjum leyfiskerfi það sem um ræðir í máli þessu. Í 67. málsgrein dómsins var vísað til þess sem áður hafði komið fram í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins 1. febrúar 2016 í máli nr. E-17/15, en þess álits var aflað í tilefni af málshöfðun stefnda á hendur áfrýjanda. Sagði þar að ekki væri unnt að vísa til markmiðsins um vernd lífs og heilsu manna og dýra í viðskiptum innan EES, eins og það birtist í 13. gr. EES-samningsins, til að réttlæta takmarkanir á innflutningi í tilvikum þar sem tilskipun kveður á um samræmingu nauðsynlegra aðgerða til að tryggja vernd heilsu dýra og manna. Þá tók EFTA-dómstóllinn einnig fram í sömu málsgrein í hinum sameinuðu málum að tilvísun 18. gr. EES-samningsins til 13. gr. hans breyti ekki þessari niðurstöðu, þar sem sú tilvísun geti ekki leitt til þess að síðarnefnda ákvæðinu verði beitt í tilvikum þar sem EES-löggjöf mæli fyrir um samræmingu að fullu. Að gættu því sem að framan er rakið verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með skírskotun til forsendna hans. Eftir framangreindum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Ferskum kjötvörum ehf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.                                                                               Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2016. Mál þetta, sem dómtekið var 1. nóvember sl., er höfðað 25. apríl 2014 af Ferskum kjötvörum ehf., Síðumúla 34, Reykjavík gegn íslenska ríkinu. Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.909 evrur og 80.606 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. mars 2014 til þess tíma er mánuður er liðinn frá birtingardegi stefnu, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 381.159 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum sem í aðalkröfu. Loks krefst stefnandi málskostnaðar. Stefndi krefst sýknu og greiðslu málskostnaðar. I. a. Helstu atvik málsins eru þau að í febrúar 2014 pantaði stefnandi 83 kíló af nautalundum frá hollensku fyrirtæki og greiddi fyrir þær 1.909 evrur. Sótti stefnandi um innflutningsleyfi fyrir kjötið 26. febrúar 2014 hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Daginn eftir voru vörurnar fluttar með flugi frá Danmörku til Íslands. Flutningskostnaður nam 80.606 krónum. Kjötið var geymt á starfsstöð tollstjóra í Keflavík á meðan beðið var ákvörðunar varðandi innflutningsleyfið. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið veitti stefnanda innflutningsleyfið 6. mars 2014 fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, með þeim fyrirvara að skilyrði c-, e- og g-liðar 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins, væru uppfyllt. Stefnandi fór þess á leit við Matvælastofnun 11. mars 2014 að hún heimilaði innflutning hins ferska kjöts og tollafgreiðslu án þess að gerð væri krafa um frystingu. Í beiðni stefnanda kom fram að innflutningur hans miðaði að því að bjóða neytendum upp á ferska kjötvöru sem ekki hefði verið fryst. Í svari Matvælastofnunar 14. mars 2014 kom fram að stofnunin hefði ekki heimild til að verða við beiðninni og að skilyrðin væru í samræmi við reglugerð nr. 448/2012. Í kjölfar þessara bréfaskipta hafnaði tollstjóri tollafgreiðslu kjötsins. Að beiðni stefnanda var kjötinu fargað í kjölfarið. b. Með sex ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, 23. október 2007, voru gerðir Evrópusambandsins um matvæli og fóður, eða svokölluð matvælalöggjöf ESB, teknar upp í EES-samninginn. Með umræddum ákvörðunum var matvælalöggjöfin tekin upp í EES-samninginn og aðildarríkjum samningsins gert að innleiða umræddar gerðir Evrópusambandsins. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 133/2007 varðaði endurskoðun á þeim undanþágum sem Ísland hefur haft frá I. kafla í viðauka I við EES-samninginn. Samþykkt þessarar ákvörðunar, að því er Ísland varðar, hafði í för með sér að Ísland þyrfti framvegis að fylgja reglum ESB á þessu sviði að því er varðar búfjárafurðir. Þannig átti frelsi til innflutnings búfjárafurða að aukast og Ísland að verða hluti af innri markaði ESB hvað matvæli varðaði og vera heimilt að flytja til landsins búfjárafurðir á grundvelli heilbrigðiskrafna EES-löggjafar. Þessum breytingum á EES-samningnum var ætlað að auka frelsi til inn- og útflutnings búfjárafurða á grundvelli heilbrigðiskrafna. Í umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar var af Íslands hálfu ekki gerður fyrirvari annar en sá að tekið var fram að ákvæði I. kafla, I. viðauka við EES-samninginn skyldu ekki taka til Íslands að því er varðaði ákvæði um lifandi dýr og dýraafurðir á borð við egg, fósturvísa og sæði. Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 134/2007 og 137/2007 vörðuðu heildarendurskoðun á matvælalöggjöf ESB og voru þá felldar inn í EES-samninginn fjöldi reglugerða og annarra afleiddra gerða ESB, m.a. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 178/2002 um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla auk áorðinna breytinga.  Ríkisstjórn Íslands lagði í tvígang fram frumvarp á Alþingi á árinu 2008, annars vegar 1. apríl 2008 og hins vegar 19. desember 2008, með það að markmiði að leiða matvælalöggjöf ESB í lög. Í báðum frumvörpunum var meðal annars gert ráð fyrir því að afnema ætti innflutningsbann á hráu kjöti og eggjum, en slíkt bann hefur verið í gildi á grundvelli 10. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Samkvæmt frumvörpunum átti einungis að banna innflutning á kjötmjöli, beinamjöli og blóðmjöli til að hindra að dýrasjúkdómar bærust til landsins. Umrædd frumvörp voru ekki útrædd á Alþingi og tóku því ekki gildi sem lög. Frumvarp var lagt fram að nýju 8. júlí 2009 og hafði það tekið nokkrum breytingum frá fyrri frumvörpum. Í athugasemdum með frumvarpinu sagði að frumvarpið væri í samræmi við efnisákvæði ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar að öðru leyti en því að innflutningsbann á hráu kjöti og hráum eggjum, samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1993, héldist og yrði ekki afnumið. Í athugasemdunum kemur fram að innflutningsbanni sé viðhaldið með það að markmiði að tryggja núverandi stöðu sjúkdómavarna vegna dýra og manna, og sé þá ekki síst höfð í huga langvarandi einangrun búfjárstofna Íslands sem reynslan hafi sýnt að geti verið sérlega næmir fyrir sjúkdómum sem litlum skaða valda í öðrum löndum. Framangreint frumvarp tók gildi sem lög nr. 143/2009. Þau ákvæði laganna sem koma til skoðunar í þessu máli tóku gildi 1. nóvember 2011. Samtök verslunar og þjónustu sendu 9. desember 2011 kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, þar sem kvartað var yfir innflutningsbanni á hráu kjöti. Töldu samtökin að bannið bryti í bága við skyldur Íslands samkvæmt EES-samningnum, enda lægju hvorki fyrir vísindalegar rannsóknir né alþjóðlegt áhættumat sem styddu umrætt bann. ESA sendi bréf til íslenska ríkisins, 12. desember 2011, þar sem óskað var rökstuðnings Íslands fyrir umræddu innflutningsbanni. Þá var sérstaklega óskað eftir því að Ísland rökstyddi hvaða ástæður réttlættu bannið og að færð yrðu rök fyrir því að engar minna íþyngjandi aðgerðir gætu náð sama markmiði. Með formlegu erindi 30. desember 2013 komst ESA að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum. Var það þannig niðurstaða ESA að ákvæði í lögum nr. 25/1993 og reglugerð nr. 448/2012 brytu gegn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 89/662/EBE. Þá fælu lagareglurnar í sér tæknilegar hindranir í skilningi 18. gr. EES-samningsins sem ekki yrðu réttlættar á grundvelli 13. gr. samningsins. Með ákvörðun sinni 8. október 2014 gaf ESA út endanlega og rökstudda niðurstöðu sína varðandi álitaefnið þar sem fyrri afstaða var áréttuð. Var skorað á yfirvöld að lagfæra löggjöf sína í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. II. Stefnandi byggir á því að honum hafi verið gert ómögulegt að flytja til landsins ferskt eða ófryst, hrátt nautakjöt. Hann telur að ákvörðun Matvælastofnunar um að hafna innflutningi hins hráa nautakjöts, og eftirfarandi ákvörðun tollstjóra um að stöðva innflutning hennar til landsins, hafi verið í andstöðu við íslensk lög, rétt skýrð í samræmi við EES-rétt og skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, en til vara að íslensk lög séu í bága við EES-rétt, að því leyti að ákvæði íslenskra laga um bann við innflutningi á fersku, hráu nautakjöti séu í andstöðu við EES-samninginn, sbr. 18. gr. hans, og afleiddar gerðir hans, einkum tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 89/662/EBE og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 178/2002. Stefnandi byggi á því að reglur EES-réttar, rétt skýrðar, og almenn lögskýringar-sjónarmið, bæði íslensks réttar og EES-réttar, leiði til þeirrar niðurstöðu að í raun sé heimilt að íslenskum lögum að flytja inn ferskt, hrátt nautakjöt. Fyrir liggi að í meginreglu a.-liðar, 1. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, komi fram að óheimilt sé að flytja til landsins hráar og lítt saltaðar sláturafurðir. Þótt ráðherra geti heimilað innflutning á umræddum vörum, að fengnum meðmælum Matvælastofnunar, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna, eigi það ekki við um ferskt, hrátt kjöt. Þannig sé það gert að skilyrði fyrir innflutningi á hráu kjöti að það hafi verið geymt við a.m.k. -18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu, sbr. c.-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012. Þetta þýði að umrætt reglugerðarákvæði komi í veg fyrir að hægt sé að flytja inn ferskt, hrátt kjöt til landsins. Samkvæmt 3. gr. EES-samningsins skuldbindi samningsaðilar sig til að gera allar viðeigandi almennar eða sérstakar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningnum leiði. Í 3. gr. laga nr. 2/1993 komi jafnframt fram að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Íslenska ríkið sé ennfremur skuldbundið samningsaðilum sínum samkvæmt 7. gr. EES-samnings að innleiða viðeigandi gerðir Evrópusambandsins í innlendan rétt. Í bókun 35 við EES-samninginn komi jafnframt fram að þar sem komið geti til árekstra á milli EES-reglna og annarra settra laga skuldbindi EFTA-ríkin sig til að setja lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum. Samkvæmt a.-lið 7. gr. EES-samningsins sé Ísland skuldbundið til þess að taka reglugerðir Evrópusambandsins, sem séu eða verði hluti EES-samningsins, í heild sinni upp í landsrétti. Ekkert svigrúm sé til breytinga eða aðlögunar reglugerða þegar þær séu felldar í landsrétti. Ef reglugerðir séu innleiddar með þeim hætti sem ákvæðið mæli fyrir um öðlist þær sömu stöðu og almenn lög. Reglugerð EB nr. 178/2002 hafi verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 134/2007. Reglugerðin hafi jafnframt öðlast gildi hér á landi með beinni innleiðingu, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 102/2010. Reglugerðin hafi því augljóslega stoð að íslenskum lögum. Þá sé ljóst að meginmál EES-samningsins hafi lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993. Í 18. gr. EES-samningsins sé sérregla um bann við tæknilegum hindrunum vegna viðskipta með landbúnaðarafurðir. Stefnandi telji að almenn lögskýringarsjónarmið leiði til þeirrar niðurstöðu að bann íslenskra laga við innflutningi á fersku, hráu nautakjöti eigi að víkja fyrir þeim ákvæðum EES-samningsins og afleiddra gerða samningsins sem mæli fyrir um frjáls viðskipti með landbúnaðarvörur. Í fyrsta lagi sé ljóst að bann íslenskra laga við innflutningi á fersku, hráu nautakjöti byggi í raun á reglugerðarákvæði. Þannig hafi stefnanda verið kleift að flytja inn ferskt, hrátt nautakjöt ef ekki hefði verið fyrir ákvæði c.-liðar 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012, sem geri það að skilyrði að innflytjandi hrárrar vöru framvísi vottorði sem staðfesti að hinar innfluttu vörur hafi verið geymdar við a.m.k. -18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu. Sé þetta ákvæði í andstöðu við reglugerð EB nr. 178/2002 og feli í sér tæknilega hindrun í skilningi 18. gr. EES-samningsins. Þar sem 18. gr. EES-samningsins og ákvæði reglugerðar EB nr. 178/2002 hafi stöðu sem almenn lög að íslenskum rétti gangi þau framar ákvæði c.-liðar 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012 í samræmi við þá grundvallarreglu íslensks réttar að æðri lög ganga framar óæðri. Í öðru lagi telji stefnandi að 18. gr. EES-samningsins og ákvæði reglugerðar EB nr. 178/2002 séu sérreglur um innflutning á landbúnaðarvörum gagnvart almennu banni íslenskra laga við innflutningi á fersku, hráu nautakjöti. Í samræmi við meginregluna um að sérlög gangi framar almennum lögum gangi umræddar reglur, sem séu af rót EES-réttar, framar hinu almenna banni íslenskra laga. Í þriðja lagi telji stefnandi að 18. gr. EES-samningsins og ákvæði reglugerðar EB nr. 178/2002 séu nýrri lög en almennt bann íslenskra laga við innflutningi á fersku, hráu nautakjöti, sem verið hafi við lýði í langan tíma hér á landi, þ.e. frá því fyrir gildistöku laga nr. 2/1993. Reglurnar gangi því framar hinu almenna banni í samræmi við meginregluna um að yngri lög gangi framar eldri. Jafnvel þótt íslenskir dómstólar telji að framangreindar reglur, sem séu af rót EES-réttar, og ákvæði íslenskra laga um bann við innflutningi á fersku, hráu nautakjöti séu hliðsett ákvæði að landsrétti, telji stefnandi að EES-reglurnar eigi samt sem áður að njóta forgangs. Stefnandi telji þannig, í ljósi 3. gr. laga nr. 2/1993 og með hliðsjón af þeirri staðreynd að reglugerðir hafi beina stoð að landsrétti, sbr. 7. gr. EES-samningsins, að óhjákvæmilega hljóti sá skýringarkostur að verða ofan á sem sé minnst íþyngjandi fyrir stefnanda. Í ljósi þess beri að veita EES-reglunum forgang eða í það minnsta skýra ósamrýmanleg ákvæði landsréttar til samræmis við EES-reglurnar. Með vísan til alls þessa, og með hliðsjón af lögskýringaraðferðum EES-réttar, telji stefnandi að rétt sé að víkja til hliðar þeim ákvæðum íslenskra laga er banni innflutning á fersku, hráu nautakjöti. Af því leiði að innflutningur á slíkum matvælum teljist lögmætur að íslenskum lögum, sem leiði þá aftur til þess að Matvælastofnun hafi verið óheimilt að banna innflutning á vörum stefnanda og tollstjóranum jafnframt óheimilt að hafna tollafgreiðslu varanna. Af þessu leiði að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Ef ekki verði fallist á framangreint byggi stefnandi á því að áðurnefnt bann íslenskra laga brjóti í bága við EES-rétt, sem leiði til skaðabótaskyldu íslenska ríkisins. Ákvæði 1. kafla II. hluta EES-samningsins, sem mæli fyrir um grundvallarreglur um frjálsa vöruflutninga, gildi ekki um landbúnaðarafurðir. Þannig komi fram í a.-lið 3. mgr. 8. gr. EES-samningsins að ákvæði samningsins taki einungis til framleiðsluvara sem falli undir 25.-97. kafla í samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskránni. Þar sem dýr og dýraafurðir eigi undir vöruflokka 1-5 í umræddri skrá teljist þær ekki falla undir grundvallarreglur EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga. Þrátt fyrir þetta sé mælt fyrir um sérreglur um landbúnaðar- og sjávarafurðir í 2. kafla II. hluta EES-samningsins. Þannig sé mælt fyrir um sérstök ákvæði og fyrirkomulag varðandi heilbrigði dýra og plantna í I. viðauka EES-samningsins, sbr. 17. gr. hans. Í 18. gr. samningsins komi síðan fram að með fyrirvara um sérstakt fyrirkomulag varðandi viðskipti með landbúnaðarafurðir skuli samningsaðilar tryggja að fyrirkomulaginu, sem kveðið sé á um í 17. gr. og a- og b-lið 23. gr. varðandi aðrar vörur en þær er heyri undir 3. mgr. 8. gr., verði ekki stofnað í hættu vegna annarra tæknilegra viðskiptahindrana. Ákvæði 13. gr. skuli gilda. Samkvæmt umræddu ákvæði sé það skylda aðildarríkja að sjá til þess að því fyrirkomulagi sem gildi um dýr og landbúnaðarafurðir sé ekki stofnað í hættu með öðrum tæknilegum hindrunum. EFTA-dómstóllinn hafi túlkað ákvæðið á þá leið að með banni við öðrum tæknilegum hindrunum sé átt við að aðildarríkjum sé óheimilt að mæla fyrir um aðrar takmarkanir en leiði af gerðum Evrópusambandsins. Eins og áður sé rakið sé óheimilt að flytja inn ferskt, hrátt kjöt til Íslands, sbr. c.-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012. Reglugerð EB nr. 178/2002, sem hafi verið innleidd í íslenskan rétt með reglugerð nr. 102/2010, mæli fyrir um samræmingu á regluverki í tengslum við öryggi matvæla og fóðurs í því skyni að gera flutning matvæla og fóðurs innan EES-svæðisins frjálsan. Reglugerðin gildi á öllum stigum framleiðslu, vinnslu og dreifingar matvæla og fóðurs og sé tilgangur hennar að koma á frjálsum flutningum á matvælum og fóðri innan EES-svæðisins, sbr. 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar eigi þannig að vera hægt að flytja hvers kyns matvæli á milli ríkja innan EES-svæðisins, að því gefnu að matvælin uppfylli kröfur reglugerðarinnar, m.a. um öryggi. Þá séu ítarleg ákvæði um samræmdar ráðstafanir ef matvæli, sem flutt séu milli landa, skapi alvarlega áhættu fyrir heilbrigði manna og dýra. Áframhaldandi innflutningsbann Íslands á fersku, hráu kjöti sé í ósamræmi við framangreinda reglugerð og í ósamræmi við efnisákvæði ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar sem varðað hafi innleiðingu á matvælalöggjöf ESB og endurskoðun á þeim undanþágum sem Ísland hafi haft frá I. kafla í viðauka I við EES-samninginn. Þetta sé óumdeilt í málinu, enda komi beinlínis fram í frumvarpi því er varð að lögum nr. 143/2009 að innflutningsbannið sé í ósamræmi við afleiddar gerðir EES-samningsins. Innflutningsbannið feli því sannanlega í sér tæknilega hindrun í skilningi 18. gr. EES-samningsins. Ágreiningurinn standi í raun um það hvort innflutningsbannið sé réttlætanlegt á grundvelli 13. gr. EES-samningsins. Stefnandi telji að svo sé ekki. Af samskiptum Íslands og EFTA megi ráða að íslenska ríkið telji innflutningsbannið nauðsynlegt til þess að vernda líf og heilsu manna og sé því réttlætanlegt á grundvelli 13. gr., sbr. 18. gr. EES-samningsins. Þótt stefnandi telji umrætt markmið vera göfugt í sjálfu sér telji hann ekki fullnægjandi sannanir fyrir því að nauðsynlegt sé að banna innflutning á ófrystu, hráu kjöti til þess að ná umræddum markmiðum. Að mati stefnanda verði stefndi, í samræmi við svokallaða varúðarreglu EES-réttar, að sýna fram á með óyggjandi hætti að umrætt bann sé nauðsynlegt. Þannig hafi Evrópudómstóllinn lagt til grundvallar að aðildarríki þurfi að skilgreina vel þá mögulegu hættu á heilsutjóni sem ríkið geti staðið frammi fyrir. Þá verði aðildarríki að láta fara fram alhliða og umfangsmikið mat á hættunni og verði það að vera byggt á traustustu tiltæku vísindalegu gögnunum og nýjustu niðurstöðum alþjóðlegra rannsókna. Hafi EFTA-dómstóllinn jafnframt talið að ekki sé nægjanlegt fyrir aðildarríki að byggja á tilgátum eða almennum fræðilegum hugleiðingum. Í samskiptum sínum við EFTA hafi stefndi lagt fram skýrslur fræðimanna um möguleg áhrif þess að aflétta banninu. Skýrslur þessar séu verulega almenns eðlis, séu ekki sérstaklega ítarlegar og engin þeirra gerð í kjölfar sérstakrar rannsóknar á því hvort innflutningur á hráu kjöti myndi hafa eins neikvæð áhrif og stefndi haldi fram. Þá sé mikilvægt að hvergi virðist í skýrslunum fjallað um að nauðsynlegt sé að frysta nautakjöt í einn mánuð við -18°C til að koma í veg fyrir hin ætluðu neikvæðu áhrif. Umræddar skýrslur fullnægi því engan veginn framangreindum skilyrðum um að varúðarreglunni verði einungis beitt ef fyrir liggi ítarlegar og traustar vísindalegar rannsóknir. Skýrslurnar fullnægi a.m.k. ekki þessum skilyrðum að því er varði nauðsyn á frystingu kjötvara í einn mánuð. Þá verði einnig að líta til þess að umræddar skýrslur séu allar ritaðar eftir að lög nr. 143/2009 hafi tekið gildi og séu því eftiráskýringar stjórnvalda. Við gildistöku laga nr. 143/2009 hafi því ekki legið fyrir nein vísindaleg gögn sem rennt hafi stoðum undir nauðsyn þess að viðhalda innflutningsbanni á hráu kjöti. Jafnframt verði að líta til þess að niðurstöðurnar séu engan veginn afdráttarlausar, heldur megi ráða af þeim þá meginniðurstöðu að ekki sé hægt að útiloka að aflétting bannsins muni hafa neikvæð áhrif á heilsu dýra og manna. Að mati stefnanda séu slíkar almennar óafdráttarlausar tilgátur engan veginn nægjanlegar til þess að réttlæta bann við innflutningi á hráu kjöti. Stefnandi telji ennfremur að Evrópulöggjöf, einkum reglugerð EB nr. 178/2002, tryggi með fullnægjandi hætti þau atriði sem stefndi hafi helst áhyggjur af. Þannig séu ítarleg ákvæði í reglugerðinni um hvernig eigi að bregðast við í alvarlegum tilvikum og eigi ráðstafanir sem aðildarríki samþykki viðvíkjandi matvælum ávallt að byggjast á áhættugreiningu. Þá sé í reglugerðinni mælt fyrir um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu sem hafi m.a. það hlutverk að safna saman upplýsingum frá aðildarríkjum, samræma vinnu þeirra, framkvæma áhættumat og gera tillögur til úrbóta þegar þess gerist þörf. Hafi stefndi ekki með nokkru móti rökstutt eða gert líklegt að Evrópulöggjöf sé ófullnægjandi til þess að ná þeim markmiðum stefnda að vernda líf og heilsu manna og dýra. Í öllu falli telji stefnandi að stefndi hafi brotið gegn meðalhófsreglu EES-réttar, sbr. einnig 13. gr. EES-samningsins. Í meðalhófsreglunni felist að aðildarríki megi ekki ganga lengra í takmörkun á fjórfrelsisákvæðum EES en nauðsynlegt sé til þess að ná því markmiði sem að sé stefnt. Verði aðildarríkið þannig að sanna, t.d. með vísun til fullnægjandi sönnunargagna, að ekki sé mögulegt að ná markmiðinu með vægara móti. Stefndi geti því ekki réttlætt umrætt bann á grundvelli 13. gr. EES-samningsins ef hægt sé að vernda heilsu manna og dýra með öðrum hætti sem takmarki ekki frjáls viðskipti með eins íþyngjandi hætti og í þessu máli. Að mati stefnanda verði að túlka 13. gr. EES-samningsins þröngt og hvíli sönnunarbyrðin á stefnda að sanna að ekki hafi verið hægt að ganga skemur en raunin hafi orðið í þessu máli. Stefnandi telji að fortakslaust bann við innflutningi á fersku, hráu kjöti sé alltof víðtækt, enda taki það til hvers kyns fersks, hrás kjöts, hvort sem það sé frá nautgripum, sauðfé eða alifuglum og hvort sem það sé unnið eða óunnið. Virðist bannið þannig grundvallast á þeirri fyrirframgefnu forsendu að hverskyns innflutt hrátt kjöt feli ávallt í sér hættu á heilsutjóni nema það sé fryst við -18°C í einn mánuð. Að mati stefnanda sé þessi fyrirframgefna forsenda verulega hæpin, enda styðjist hún ekki við nein vísindaleg gögn. Þá hafi stefndi ekki með nokkru móti sýnt fram á að lagareglur afleiddra gerða Evrópusambandsins, sem teknar hafi verið upp í EES-samninginn, nái ekki þeim markmiðum sem að sé stefnt. Loks verði ekki séð að þeir sjúkdómar sem stefndi vísi til berist með hráu kjöti sem ætlað sé til manneldis, eins og í þessu tilviki. Telji stefnandi að íslenskum búfénaði stafi þannig aðallega hætta af innflutningi lifandi dýra frá öðrum löndum og dýrafóðri, en ekki kjötafurðum sem eingöngu séu ætlaðar til manneldis. Með vísan til alls þessa telji stefnandi að stefndi hafi virt meðalhófsreglu EES-réttar að vettugi þegar ákveðið hafi verið að viðhalda innflutningsbanni á fersku, hráu kjöti.   Í 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012 sé gert að skilyrði að innflytjandi hrárra vara sæki um leyfi til innflutnings varanna og framvísi fjölmörgum vottorðum áður en hann flytji vörurnar inn. Stefnandi byggi á því að þessar kröfur íslenskra laga séu í andstöðu við tilskipun nr. 89/662/EBE um dýraheilbrigðiseftirlit í viðskiptum innan bandalagsins til að stuðla að því að hinum innri markaði verði komið á. Tilskipun nr. 89/662/EBE hafi verið tekin upp í EES-samninginn með viðauka I við samninginn, sbr. 17. gr. EES-samningsins. Í viðaukanum sé sérstaklega tekið fram að tilskipunin eigi við um Ísland. Auk þess hafi tilskipunin sérstaklega verið innleidd með beinum hætti í íslenskan rétt með 16. gr. reglugerðar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nr. 1043/2011 um eftirlit með heilbrigði eldisdýra og dýraafurðum í viðskiptum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Augljóst sé af ákvæðum tilskipunarinnar að tilgangur hennar sé að auka frelsi í flutningi landbúnaðarvara með því að draga úr dýraheilbrigðiseftirliti viðtökuríkisins. Í tilskipuninni sé þannig gert ráð fyrir því að dýraheilbrigðiseftirlit eigi sér einkum stað innan upprunaríkisins, þ.e. þaðan sem viðkomandi dýr eða vara komi frá, sbr. 3. gr. tilskipunarinnar.  Það sé þannig skylda upprunaríkja að sjá til þess að vörur sem séu ætlaðar til viðskipta innan aðildarríkja uppfylli heilbrigðiskröfur á öllum stigum framleiðslu, geymslu, markaðssetningar og í flutningi, sbr. 4. gr. tilskipunarinnar. Í 5. gr. tilskipunarinnar sé að finna undantekningu frá þeirri meginreglu að dýraheilbrigðiseftirlit eigi einkum að fara fram í upprunaríki. Sé þar mælt fyrir um að yfirvöld viðtökuríkis geti framkvæmt takmarkað eftirlit. Sé þar talið upp með tæmandi hætti hvers konar eftirlit það geti verið. Komi fram í ákvæðinu að viðeigandi yfirvöld í viðtökuríki geti framkvæmt óhlutdrægar skyndikannanir í þeim tilgangi að rannsaka hvort flutningsaðili hafi uppfyllt kröfur 3. gr. tilskipunarinnar og geti einnig tekið sýni í því skyni. Sambærileg regla komi fram í 6. mgr. 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 882/2004 frá 29. apríl 2004 um opinbert eftirlit til að staðfesta að lög um fóður og matvæli og reglur um heilbrigði og velferð dýra séu virt. Í umræddu ákvæði segi að lögbæru yfirvaldi í viðtökuríki sé heimilt að gera óhlutdrægar athuganir til að kanna hvort fóður og matvæli samræmist lögum um fóður og matvæli. Í reglugerð nr. 448/2012 séu gerðar miklu strangari eftirlitskröfur til þeirra sem flytji inn hrátt kjöt en leiða megi af tilskipun nr. 89/662/EBE. Þannig sé almenna reglan sú, eins og áður sé rakið, að óheimilt sé að flytja til landsins hrátt og lítt saltaðar sláturafurðir. Ráðherra geti þó heimilað innflutning á slíkum vörum að fengnum meðmælum Matvælastofnunar. Í 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012 sé síðan að finna nánari útfærslu á umræddum ákvæðum. Komi þar fram í 4. gr. reglugerðarinnar að innflytjandi hrárrar vöru skuli ávallt sækja um leyfi til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og leggja fram, til umsagnar Matvælastofnunar, aðflutningsskýrslu, upplýsingar um uppruna- og framleiðsluland vörunnar, tegund vöru og framleiðanda. Þá sé mælt fyrir um í 4. og 5. gr. reglugerðarinnar að umsókn innflytjanda hrárrar vöru þurfi að fylgja fjöldi vottorða, m.a. opinbert uppruna- og heilbrigðisvottorð, vottorð sem staðfesti að vörurnar hafi verið geymdar við a.m.k. -18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu og opinbert vottorð sem staðfesti að afurðirnar séu lausar við salmonellusýkingu. Þessar kröfur um sönnun á ástandi vörunnar feli augljóslega í sér heilbrigðiseftirlit í skilningi 2. gr. tilskipunar nr. 89/662/EBE og 2. gr. reglugerðar nr. 1043/2011. Umrætt eftirlit fari hins vegar langt út fyrir það eftirlit sem sé heimilt í viðtökuríki samkvæmt ákvæðum tilskipunar nr. 89/662/EBE. Þannig sé ekki heimilt samkvæmt tilskipuninni að viðtökuríki krefjist þess að innflytjandi vöru sæki fyrirfram um leyfi fyrir innflutningi hrárra vara. Þá sé ekki heimilt að gera kröfu um að innflytjandi leggi fram þau vottorð sem krafist sé samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar. Að mati stefnanda bendi kröfur íslenskra laga og reglugerða til þess að íslensk stjórnvöld treysti ekki eftirliti innan annarra EES-ríkja. Telji stefnandi að slíkt sé í andstöðu við það gagnkvæma traust og þá gagnkvæmu viðurkenningu eftirlits sem EES-samningurinn og tilskipun nr. 89/662/EBE byggi á. Grafi slíkt ennfremur undan meginmarkmiðum fjórfrelsisákvæða EES-samningsins. Stefnandi telji jafnframt að af dómaframkvæmd Evrópudómstólsins megi ráða að þegar tilskipanir hafi það að markmiði að samræma lagaumhverfi aðildarríkja ESB geti aðildarríki ekki vikið frá ákvæðum þeirra að öðru leyti en leiði af ákvæðum tilskipunarinnar sjálfrar. Aðildarríki geti því ekki réttlætt frávik með vísan til almennu reglu 13. gr. EES-samningsins, heldur verði frávikin að eiga sér stoð í tilskipuninni sjálfri. Eins og ráða megi af tilskipun nr. 89/662/EBE sé megintilgangur hennar að samræma heilbrigðiseftirlit innan aðildarríkja EES, með það að markmiði að einfalda eftirlit með innflutningi landbúnaðarvara. Að mati stefnanda sé í tilskipun nr. 89/662/EBE nákvæmlega talið upp með hvaða hætti viðtökuríki geti framkvæmt heilbrigðiseftirlit með innfluttum vörum. Þannig geti íslenska ríkið ekki réttlætt umrædd frávik með vísan til ákvæða tilskipunar nr. 89/662/EBE. Stefnandi telji því augljóst að íslenska ríkið hafi ekki staðið við þær skuldbindingar sem leiði af EES-samningnum. Íslenska ríkið hafi verið skuldbundið, samkvæmt 7. gr. EES-samningsins, að laga íslenskan rétt að tilskipun nr. 89/662/EBE svo að efnislegt samræmi yrði á milli íslenskra réttarreglna og ákvæða tilskipunarinnar. Þessi aðlögun hafi átt að tryggja það að innflutningur á vörum yrði einkum háður eftirliti upprunaríkja og að viðtökuríki hefði einungis takmarkaðar heimildir til eftirlits. Ekki hafi verið staðið við þessar skuldbindingar af hálfu íslenska ríkisins. Stefnandi telji að af gögnum málsins megi ráða að hann hefði getað flutt inn vörur sínar ef ekki hefði verið fyrir óhóflegar kröfur Matvælastofnunar. Stefnandi hafi ætlað að flytja inn ferskt, hrátt, nautakjöt til landsins og ætlað að bjóða neytendum slíka vöru til sölu. Varan hafi verið komin til landsins en ekki fengið tollafgreiðslu. Matvælastofnun hafi gert kröfu um að stefnandi legði fram þrenns konar vottorð samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012, m.a. um að varan hefði verið geymd í -18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu. Ef Matvælastofnun hefði ekki krafist framlagningar slíks vottorðs hefði stefnandi getað flutt vöru sína inn án teljandi vandræða. Stefnandi telji þannig augljóst af gögnum málsins að hann hefði fengið tollafgreiðslu ef ekki hefði verið fyrir ólögmætar kröfur innlendra stjórnvalda. Stefnandi telji í fyrsta lagi augljóst að íslenskum stjórnvöldum hafi verið óheimilt að hafna innflutningi og tollafgreiðslu varanna, enda innflutningurinn heimill að rétt skýrðum íslenskum lögum í ljósi reglna EES-réttar og hefðbundinna lögskýringarviðhorfa. Ef stefndi hefði tekið réttar og lögmætar ákvarðanir gagnvart stefnanda hefði hann fengið tollafgreiðslu á umræddu nautakjöti. Verði ekki fallist á þetta sé í öðru lagi byggt á því að stefndi hafi brugðist í verulegum mæli skyldum sínum samkvæmt ákvæðum EES-samningsins. Einstaklingar og lögaðilar eigi kröfu til þess að íslenskri löggjöf sé hagað til samræmis við reglur EES-réttar. Takist stefnda ekki að laga löggjöf að EES-samningnum leiði það af lögum nr. 2/1993 og meginreglum og markmiðum EES-samningsins að stefndi verði skaðabótaskyldur að íslenskum rétti. Eins og áður sé rakið sé innflutningsbann á hráu kjöti í ósamræmi við reglugerð nr. 178/2002 og 18. gr. EES-samningsins og eftirlit með innflutningi hrás kjöts hér á landi í ósamræmi við tilskipun nr. 89/662/EBE.  Hvor framangreind röksemd um sig valdi því að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda. Augljóst sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa. Þannig hafi stefnandi greitt fyrir vöruna og flutning hennar en geti ekki boðið hana til sölu í þeim tilgangi sem hún var keypt, og verði henni fargað. Um sé að ræða 83 kíló af nautalundum sem kostað hafi 1.909 evrur. Þá hafi flutningskostnaður numið 80.606 krónum. Fari svo ólíklega að dómstóllinn telji meinbugi vera á að taka til greina umrædda kröfugerð, þannig fram setta, sé til vara gerð krafa um að stefndi greiði stefnanda alla fjárhæðina í íslenskum krónum. Gengi evru sé þá reiknað miðað við sölugengi evru eins og það hafi verið skráð hjá Seðlabanka Íslands á tjónsdegi, þ.e. 20. mars 2014 (157,44). Samkvæmt því sé tjón vegna kaupa á 83 kílóum af nautalundum 300.553 krónur. Samtala tjónsins nemi þá 381.159 krónum með flutningskostnaði, sem nemi varakröfu.  Með vísan til 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 sé í báðum dómkröfum krafist vaxta frá þeim degi er vörunni var synjað um tollafgreiðslu, þ.e. 20. mars 2014. Með vísan til 6. og 9. gr. sömu laga sé gerð krafa um dráttarvexti frá þeim degi er mánuður var liðinn frá birtingu stefnu í málinu. Um lagarök fyrir aðal- og varakröfu sinni vísar stefnandi til EES-samningsins, einkum 7., 13., 17. og 18. gr. samningsins, og laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, einkum 2. og 3. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, einkum 10. gr. laganna, reglugerðar nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins, reglugerðar nr. 1043/2011 um eftirlit með heilbrigði eldisdýra og dýraafurða í viðskiptum innan Evrópska efnahagssvæðisins, reglugerðar nr. 102/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 178/2002 og tollalaga nr. 88/2005. Stefnandi vísar jafnframt til almennra lögskýringarviðhorfa að íslenskum rétti, sbr. reglurnar um lex superior, lex specialis og lex posteriorsem og til eftirfarandi gerða Evrópusambandsins: tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 89/662/EBE um dýraheilbrigðiseftirlit í viðskiptum innan bandalagsins til að stuðla að því að hinum innri markaði verði komið á, einkum 5. gr. tilskipunarinnar, til reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 178/2002 um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla auk áorðinna breytinga og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 882/2004 um opinber eftirlit til að staðfesta að lög um fóður og matvæli og reglur um heilbrigði og velferð dýra séu virt. Loks vísar stefnandi til reglna skaðabótaréttarins vegna vanefnda íslenska ríkisins á alþjóðlegri skuldbindingu, einkum dómaframkvæmdar um skaðabótaskyldu íslenska ríkisins vegna rangrar innleiðingar á gerðum Evrópusambandsins. Vaxta- og dráttarvaxtakrafa í aðal- og varakröfu styðst við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá styður stefnandi málskostnaðarkröfu sína við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing í málinu vísar stefnandi til 3. mgr. 33. gr. sömu laga. III. Stefndi kveður sýknukröfu sína byggja á því að samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993, sbr. 32. gr. laga nr. 143/2009, sé óheimilt að flytja til landsins hráar og lítt saltaðar sláturafurðir. Bann við innflutningi á hráu kjöti sé því að finna í lögum en ekki reglugerð. Ráðherra geti þó leyft innflutning á slíkum vörum, að fengnum meðmælum Matvælastofnunar, enda þyki sannað að ekki berist smitefni með þeim er valdi dýrasjúkdómum, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Í 1. gr. reglugerðar nr. 448/2012 segi að tilgangur reglugerðarinnar sé að hindra að sjúkdómar berist til landsins með sláturafurðum, eggjum, mjólkurafurðum og öðrum vörum sem reglugerðin taki til. Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar skuli innflytjendur hrárrar vöru alltaf sækja um leyfi til ráðherra og leggja fram, til umsagnar Matvælastofnunar, aðflutningsskýrslu, upplýsingar um uppruna- og framleiðsluland vöru, tegund vöru og framleiðanda auk tilskilinna vottorða samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar. Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að nánar tiltekin vottorð skuli fylgja innfluttum matvælum sem flokkist undir ákveðna vöruliði samkvæmt tollskrá. Ákvæði þessi miði öll að því að hindra að dýrasjúkdómar berist til landsins. Það markmið samræmist hvort tveggja tilgangi laga nr. 25/1993 og reglugerðarinnar. Stefnandi byggi á því að honum hefði verið kleift að flytja inn ferskt, hrátt nautakjöt ef ekki hefði verið fyrir ákvæði c-liðar 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012. Á þetta sé ekki unnt að fallast. Ákvæði þetta geri ráð fyrir að nánar tilteknum innfluttum matvælum, sem ráðherra hafi veitt heimild til að flytja til landsins, sbr. 4. gr. og hafi ekki hlotið fullnægjandi hitameðferð, skuli fylgja vottorð sem staðfesti að vörurnar hafi verið geymdar við a.m.k. -18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu. Ákvæði þetta byggi á því að sjúkdómastaða í upprunalandi vöru geti breyst skyndilega og geti vottorð um sjúkdóma því verið úrelt eða hreinlega röng þegar vara komi til landsins. Af framangreindri ástæðu sé það skilyrði fyrir innflutningi ákveðinna vara að þær séu frystar í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu. Þó umrætt skilyrði væri ekki til staðar í reglugerðinni þá væri engu að síður óheimilt að flytja til landsins hrátt kjöt, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993, og stefnandi hefði þurft að sækja um leyfi til ráðherra, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna og 4. gr. reglugerðar nr. 448/2012. Meðmæli Matvælastofnunar með innflutningi þurfi að liggja fyrir til að ráðherra geti veitt leyfi til innflutnings á þeim vörum sem óheimilt sé að flytja til landsins enda þyki sannað að ekki berist smitefni með þeim er valdi dýrasjúkdómum. Á grundvelli þessa mætti setja skilyrði fyrir innflutningi til að tryggja að ekki berist smitefni með vöru sem valdi dýrasjúkdómum og væri þá meðal annars hægt að setja skilyrði um frystingu vöru í ákveðinn tíma. Aðal- og varakrafa stefnanda séu í fyrsta lagi reistar á því að honum hafi verið heimilt á grundvelli íslenskra laga, rétt skýrðra, að flytja inn ferskt, hrátt nautakjöt. Þannig byggi stefnandi á því að reglugerð nr. 102/2010, um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 178/2002 um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla auk áorðinna breytinga, víki til hliðar banni við innflutningi hrárra og lítt saltaðra sláturafurða samkvæmt a. lið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993. Máli sínu til stuðnings vísi stefnandi í fyrsta lagi til þess að bannið styðjist við c. lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012 sem geri það að skilyrði að innflytjandi hrárrar vöru framvísi vottorði sem staðfesti að varan hafi verið geymd við a.m.k. -18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu. Þar sem ákvæði 18. gr. EES-samningsins og reglugerðar EB nr. 178/2002 hafi stöðu sem almenn lög, gangi þau framar ákvæði c. liðar 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012. Stefndi mótmæli þessari málsástæðu stefnanda. Máli sínu til stuðnings vísi stefnandi í öðru lagi til þess að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 178/2002 og 18. gr. EES-samningsins feli í sér sérreglur um innflutning á landbúnaðarvörum gagnvart almennu banni íslenskra laga við innflutningi á fersku, hráu kjöti. Þar sem sérlög gangi framar almennum lögum gangi ákvæði 18. gr. EES-samningsins og reglugerðar nr. 178/2002 framar almennu banni íslenskra laga við innflutningi á fersku, hráu kjöti. Stefndi mótmæli þessari málsástæðu stefnanda. Máli sínu til stuðnings vísi stefnandi í þriðja lagi til þess að 18. gr. EES-samningsins og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 178/2002 feli í sér yngri lög en þau sem felist í almennu banni íslenskra laga við innflutningi á fersku, hráu kjöti. Stefndi mótmæli þessari málsástæðu stefnanda. Hvað sem framansögðu líði byggi stefnandi að endingu á því að EES-reglur eigi að njóta forgangs fram yfir ákvæði íslenskra laga á grundvelli 3. gr. EES-samningsins. Telji stefnandi að þar sem reglugerðir EB hafi beina stoð af landsrétti, sbr. 7. gr. EES-samningsins, beri að veita EES-reglum forgang fram yfir ákvæði landsréttar eða að skýra ósamrýmanleg ákvæði í landsrétti til samræmis við EES-reglur. Á þetta sé ekki unnt að fallast. Innflutningur á hráum og lítt söltuðum sláturafurðum sé bannaður á grunvelli a. liðar 1. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993, en ekki c. liðar 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012 líkt og stefnandi haldi fram. Þannig sé mælt fyrir um innflutningsbannið í almennum lögum en ekki reglugerð. Reglugerð nr. 102/2010, sem kveði á um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 178/2002, gangi ekki framar almennum lögum, svo sem 10. gr. laga nr. 25/1993. Þetta leiði af reglunni um að almenn lög gangi framar stjórnvaldsfyrirmælum. Að gefnu tilefni mótmæli stefndi því að reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins hafi beina stoð að landsrétti á grundvelli 7. gr. EES-samningsins. Í a. lið 7. gr. EES-samningsins sé kveðið á um að gerð sem samsvari reglugerð EBE skuli sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila. Slíkar gerðir hafi því hvorki bein réttaráhrif hér á landi né hafi þær stöðu almennra laga nema þær séu samþykktar sem lög frá Alþingi sem síðar séu undirrituð af forseta Íslands. Af framansögðu leiði jafnframt að ákvæði reglugerðar EB nr. 178/2002, sbr. reglugerð nr. 102/2010, gangi ekki framar ákvæðum laga nr. 25/1993 á grundvelli þess að reglugerðin feli í sér sérlög eða yngri lög. Hvað sem þessu líði mótmæli stefndi því að ákvæði reglugerðarinnar komi með einhverjum hætti í veg fyrir að löggjafarvaldið setji lög sem banni innflutning á hráum og lítt söltuðum sláturafurðum. Geti 18. gr. EES-samningsins engu breytt um þessa niðurstöðu enda fælist í því að hendur löggjafarvaldsins væru þá bundnar til framtíðar. Stefndi byggi einnig á því að bann við innflutningi á hráum og lítt söltuðum sláturafurðum samræmist 13. gr., sbr. 18. gr. EES-samningsins, þar sem kveðið sé á um að samningsaðilar megi leggja á innflutning vara bönn eða höft til að tryggja almannaöryggi, vernd lífs og heilsu manna eða dýra eða gróðurvernd. Aðal- og varakrafa stefnanda séu öðrum þræði reistar á því að bannið við innflutningi hrárra og lítt saltaðra sláturafurða hingað til lands, samkvæmt a. lið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993, stríði gegn 18. gr. EES-samningsins. Ákvæðið skyldi samningsaðila til að tryggja að fyrirkomulaginu, sem kveðið sé á um í 17. gr. og a. og b. lið 23. gr. fyrir aðrar vörur en þær er heyri undir 3. mgr. 8. gr., sé ekki stofnað í hættu vegna annarra tæknilegra viðskiptahindrana. Í þessu felist að aðildarríki megi ekki mæla fyrir um aðrar hindranir en leiði af gerðum Evrópusambandsins. Stefnandi byggi jafnframt á því að bann við innflutningi hrás kjöts samræmist ekki reglugerð EB nr. 178/2002 og ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Reglugerð EB nr. 178/2002 feli í sér samræmingu á regluverki í tengslum við öryggi matvæla og fóðurs í því skyni að gera flutning þeirra innan EES-svæðisins frjálsan. Þannig eigi að vera hægt að flytja hvers kyns matvæli milli ríkja innan EES-svæðisins að því gefnu að þau uppfylli kröfur reglugerðarinnar. Stefndi mótmæli þessum málsástæðum stefnanda. Stefndi byggi á því að honum væri heimilt að hindra innflutning alls kjöts frá EES-svæðinu ef honum byði svo við að horfa. Því til stuðnings bendi stefndi á að sú vara sem um ræði falli ekki undir gildissvið EES-samningsins. Stefndi byggi þess vegna á því að honum sé heimilt að mæla fyrir um takmarkanir á innflutningi hennar. Gildissvið EES-samningsins sé afmarkað í 3. mgr. 8. gr. samningsins og falli kjöt ekki þar undir. Stefndi vísi jafnframt til 10. gr. samningsins sem banni að lagðir séu tollar á innflutning og gjöld sem hafi samsvarandi áhrif. Ákvæðið gildi ekki um þá vöru sem um ræði. Stefndi mætti því jafnframt leggja tolla á innflutt kjöt án þess að brjóta gegn skyldum sínum samkvæmt samningnum. Ástæða sé til að vekja athygli á þessu vegna þeirra staðhæfinga stefnanda að aðeins sé um að ræða tæknilega viðskiptahindrun. Svo sé ekki. Stefndi mótmæli því sérstaklega að bann við innflutningi hrás kjöts samræmist ekki reglugerð EB nr. 178/2002 og ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Stefnda sé heimilt að banna innflutning á hráu kjöti. Stefndi mótmæli því einnig að aðildarríki megi ekki mæla fyrir um aðrar takmarkanir við innflutningi landbúnaðarafurða en leiði af gerðum Evrópusambandsins. EES-samningurinn taki ekki til landbúnaðarafurða. Stefnandi byggi jafnframt á því að stefndi geti ekki réttlætt innflutningsbannið með vísan til 13. gr., sbr. 18. gr. EES-samningsins. Máli sínu til stuðnings byggi stefnandi á því að stefndi hafi ekki sýnt fram á að innflutningsbannið sé nauðsynlegt. Í þeim skýrslum sem stefndi hafi lagt fram komi hvergi fram að nauðsynlegt sé að geyma kjöt við a.m.k. -18°C í einn mánuð til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif. Niðurstöður í skýrslunum séu ekki afdráttarlausar. Auk þess tryggi reglugerð EB nr. 178/2002 með fullnægjandi hætti þau atriði sem stefndi hafi helst áhyggjur af. Hvað sem þessu líði hafi stefndi brotið meðalhófsreglu EES-réttar. Fortakslaust innflutningsbann sé of víðtækt en það grundvallist á þeirri fyrirframgefnu forsendu að hverskyns innflutt hrátt kjöt feli ávallt í sér hættu á heilsutjóni nema það sé fryst við -18°C í einn mánuð. Stefndi mótmæli þessum málsástæðum stefnanda og byggi á því að ákvæði 13. gr., sbr. 18. gr. EES-samningsins feli í sér heimild fyrir stefnda til að banna innflutning hrárra og lítt saltaðra sláturafurða, í því skyni að tryggja almannaöryggi, verndun lífs og heilsu manna eða dýra eða gróðurvernd. Stefndi byggi á því að hann hafi rétt til að ákvarða hvaða áhættu hann telji ásættanlega eða óásættanlega þegar komi að verndun almannaöryggis og verndun lífs og heilsu manna og dýra. Ákvörðun um slíkt sé aftur á móti ekki í höndum stefnanda. Þessi réttur stefnda sé óháður því hvort í reglum/reglugerðum annarra ríkja eða reglum sem ætlaðar séu til að samræma reglur aðildarríkja felist jafn ríkar kröfur og í þessu sambandi eða ekki.  Þá mótmæli stefndi því að hann geti ekki mælt fyrir um frekari kröfur en mælt sé fyrir um í reglugerð EB nr. 178/2002 til að vernda þá hagsmuni sem sérstaklega séu nefndir í 13. gr. EES-samningsins. Stefndi byggi á því að nauðsynlegt sé að tryggja að hrátt kjöt sem flutt sé til landsins beri ekki með sér smitefni sem hvort tveggja mönnum og dýrum stafi hætta af. Með því að áskilja að hrátt kjöt hafi verið geymt við a.m.k. -18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu sé dregið úr líkum á því að hingað til lands berist smitefni í því tilviki að sjúkdómastaða í upprunalandi vöru hafi breyst skyndilega. Stefndi byggi á því að sjúkdómastaða íslensks búpenings sé óvenjuleg í samanburði við önnur ríki og að vegna aldalangrar einangrunar íslenskra búfjárstofna hafi dýrin lítið ónæmi fyrir fjölmörgum smitefnum sem algeng séu í útlöndum en aldrei hafi orðið vart við hér á landi. Stefndi byggi jafnframt á því að staða Íslands sé einstök í þessu tilliti í samanburði við önnur ríki á EES-svæðinu, eins og sjá megi af þeirri staðreynd að af 81 sjúkdómi landdýra sem skráðir séu hjá Alþjóðadýraheilbrigðisstofnuninni finnist aðeins þrír á Íslandi og það í takmörkuðum mæli. Stefndi byggi ennfremur á því að Ísland sé einstakt í evrópsku samhengi að því er snerti verndun ættstofna af norrænum uppruna, þ.e. innlendra mjólkurkúa, sauðfjár, hesta og geita. Sé á því byggt að þýðingarmikið sé að koma í veg fyrir að innfluttir sýklar ógni þessum ættstofnum. Stefndi mótmæli sérstaklega þeim málsástæðum stefnanda að hann hafi ekki gætt að varúðar- og meðalhófsreglu. Í þessu sambandi vísi stefndi til þeirra sjónarmiða sem fram komi í samskiptum hans við eftirlitsstofnun EFTA og þeirra skýrslna, greinargerða og annarra gagna sem lögð séu fram með greinargerð þessari sem og þeirra gagna sem eftir atvikum verði lögð fram síðar. Að því er snerti meðalhólfsreglu byggi stefndi á því að innflutningsbannið sé ekki fortakslaust því ráðherra sé að ákveðnum skilyrðum uppfylltum veitt heimild til að leyfa innflutning. Þá byggi stefndi á því að áskilnaði um að vara sé geymd við a.m.k. -18°C í einn mánuð áður en hún sé afgreidd úr tolli sé ætlað að vernda líf og heilsu manna og dýra hér á landi. Sama eigi við um vottorð til staðfestingar á að afurðir séu lausar við salmonellusýkla.   Aðal- og varakrafa stefnanda sé í þriðja lagi reist á því að ákvæði 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012 sé ekki í samræmi við 5. gr. tilskipunar nr. 89/662/EBE sem hafi að geyma undantekningu frá þeirri aðalreglu að svonefnt dýraheilbrigðiseftirlit eigi að fara fram í upprunaríki. Ákvæði 5. gr. tilskipunarinnar geri ráð fyrir að yfirvöld í viðtökuríki geti framkvæmt takmarkað eftirlit og þar sé með tæmandi hætti fjallað um í hverju slíkt eftirlit geti falist. Þannig geti yfirvöld í viðtökuríki gert skyndikannanir til að rannsaka hvort flutningsaðili hafi uppfyllt kröfur 3. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012 feli í sér mun strangari kröfur til þeirra sem flytji inn hrátt kjöt en leiða megi af tilskipuninni. Þá byggi stefnandi á því að þegar tilskipunum sé ætlað að samræma lagaumhverfi aðildarríkja ESB geti aðildarríki ekki vikið frá ákvæðum þeirra að öðru leyti en leiði af ákvæðum tilskipunarinnar sjálfrar. Stefndi geti því ekki réttlætt slík frávik með vísan til 13. gr. EES-samningsins. Stefndi mótmæli þessum málsástæðum stefnanda og byggi þar á því að honum sé heimilt á grundvelli 13. gr., sbr. 18. gr. EES-samningsins, að víkja frá tilskipunum sem sé ætlað að samræma lagaumhverfi aðildarríkja. Að öðrum kosti væri ákvæði 18. gr. merkingarlaust. Enda þótt tilskipunin geri aðeins ráð fyrir að viðtökuríki geri skyndikönnun byggi stefndi á því að samkvæmt 13. gr. megi hann grípa til þeirra ráðstafana sem séu nauðsynlegar í því skyni að vernda þá hagsmuni sem þar um ræði. Ákvæði reglugerðar nr. 448/2012 byggi á því að unnt sé að tryggja að sýklar og aðrir sjúkdómsvaldar sem séu þekktir á meginlandinu berist ekki hingað til lands. Í þessu sambandi veki stefndi athygli á því að EES-samningurinn geri ráð fyrir því að vörur af EES-svæðinu séu háðar eftirliti við landamæri, meðal annars vegna eftirlits með uppruna og álagningar tolla. Með því að áskilja að fyrir liggi nánar tiltekin vottorð felist ekki innleiðing landamæraeftirlits af neinum toga. Hvað sem framansögðu líði byggi stefnandi á því að EES-samningurinn geri alls ekki ráð fyrir að viðskipti með landbúnaðarafurðir séu frjáls. Hvergi sé mælt fyrir um slíkt í samningnum. Stefnandi kveði aðal- og varakröfu sína um greiðslu skaðabóta reista á því að stjórnvöldum hafi verið óheimilt að hafna innflutningi og tollafgreiðslu þeirrar vöru er hann hugðist flytja inn. Verði ekki á þetta fallist kveði hann stefnda hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt ákvæðum EES-samningsins. Af þessum sökum beri stefndi skaðabótaábyrgð á ætluðu tjóni stefnanda. Stefndi krefjist sem fyrr segi sýknu af aðal-, og varakröfu stefnanda og mótmæli þeim málsástæðum sem þær séu reistar á. Stefndi vísi hér til þess að ákvarðanir stjórnvalda hafi verið í samræmi við lög og reglur og að með þeim hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum EES-samningsins, reglugerð EB nr. 178/2002 eða tilskipunar nr. 89/662/EBE. Verði ekki á þetta fallist mótmæli stefndi allt að einu því að skilyrði skaðabótaábyrgðar stefnda séu fyrir hendi. Séu aðstæður í tilviki stefnanda með allt öðrum hætti en í máli nr. 246/1999, sbr. dóm Hæstaréttar 16. desember 1999, Íslenska ríkið gegn Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur. Verði ekki á þetta fallist byggi stefndi á því að stefnandi hafi ekki gætt að því að takmarka tjón sitt. Í þessu sambandi byggi hann á því að stefnandi hafi ekki fylgt áskilnaði 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 448/2012 um að láta ráðuneytinu í té nauðsynlegar upplýsingar um þá vöru sem hann hafi óskað eftir að flytja inn til athugunar og samþykkis áður en varan hafi verið send hingað til lands frá Hollandi. Ef stefnandi hefði gætt að því yrði að ætla að hann hefði getað takmarkað tjón sitt að öllu eða verulegu leyti. Allt að einu verði að ætla að stefnanda hafi verið kunnugt um afstöðu stjórnvalda til innflutnings á fersku, hráu kjöti áður en hann hafi samið um kaupin enda um nokkurt skeið átt sér stað opinber umræða hér á landi um þetta efni. Allt að einu byggi stefndi á því að þetta leiði til þess að stefnandi beri sönnunarbyrðina á því að hann hafi, óháð þessu, ekki getað gripið til ráðstafana til þess að takmarka tjón sitt. Ekki verði annað séð en að hann hafi með innflutningnum verið að láta reyna á þennan ágreining og að hann hafi getað firrt sig tjóni með því að beina fyrirspurn til yfirvalda varðandi innflutninginn áður en í hann var ráðist. Þá byggi stefndi á því að stefnanda hafi verið í lófa lagið annað hvort að frysta vöruna í einn mánuð og þannig uppfylla skilyrði til innflutnings hennar eða endursenda vöruna og takmarka þannig tjón sitt. Stefndi mótmæli því að krafa stefanda um skaðabætur í evrum beri vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. mars til 25. maí 2014 enda ákvarði Seðlabanki Íslands ekki lengur vexti af peningakröfum í erlendri mynt. Engin heimild sé fyrir þessari kröfugerð stefnanda. Þá mótmæli stefndi því að aðal- og varakrafa stefnanda beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. maí 2014 til greiðsludags enda geri stefnandi ekki nægjanlega grein fyrir fjárhæð hins ætlaða tjóns í stefnu. Verði fallist á aðal- eða varakröfu stefnanda beri því að miða upphafsdag dráttarvaxta við dómsuppsögudag í héraði. Stefndi kveður kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda styðjast við ákvæði 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.                                                                            IV. Á dómþingi 1. desember 2014 fór stefnandi þess á leit að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins varðandi ágreininginn og fyrir dómstólinn yrðu lagðar sex spurningar þar að lútandi. Var kröfu um álit mótmælt af hálfu stefnda. Með úrskurði héraðsdóms 24. febrúar 2015 var fallist á kröfu stefnanda um öflun ráðgefandi álits. Þeim úrskurði var skotið til Hæstaréttar, sem með dómi 27. apríl 2015 staðfesti úrskurð héraðsdóms um öflun ráðgefandi álits, með tilteknum breytingum á spurningum. Í samræmi við dóm Hæstaréttar beindi héraðsdómur, þann 22. maí 2015, sex tilgreindum spurningum til EFTA dómstólsins. Leitað var ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi: 1.      Leiðir gildissvið EES-samningsins, eins og það er markað í 8. gr. hans, til þess að ríki, sem aðild á að samningnum, hafi frjálsar hendur um setningu reglna um innflutning hrárrar kjötvöru og sé í þeim efnum óbundið af ákvæðum samningsins og þeim gerðum, sem á honum byggja. 2.      Ef svarið við fyrstu spurningunni er neikvætt, er í öðru lagi spurt, hvort það samrýmist ákvæðum tilskipunar ráðsins 89/662/EBE, að ríki, sem aðild á að EES-samningnum, setji reglur, þar sem þess er krafist, að innflytjandi hrárrar kjötvöru sæki um sérstakt leyfi áður en varan er flutt inn, og áskilji að lagðar séu fram í þeim tilgangi aðflutningsskýrslur, upplýsingar um uppruna- og framleiðsluland vörunnar, tegund vöru og framleiðanda auk tilskilinna vottorða, þar á meðal um að kjötið hafi verið fryst í tiltekinn tíma fyrir tollafgreiðslu. 3.      Í tengslum við aðra spurninguna er óskað álits á því, hvort ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 hafi sérstaka þýðingu, þegar spurningunni er svarað. 4.      Í framhaldi af annarri og þriðju spurningunni er óskað svara við því, hvort það feli í sér tæknilega hindrun í skilningi 18. gr. EES-samningsins, að ríki, sem á aðild að samningnum, setji reglur þess efnis, að óheimilt sé að flytja til landsins hráa kjötvöru. 5.      Í tengslum við fjórðu spurninguna er óskað álits á því, hvort það hafi þýðingu þegar henni er svarað, ef heimilt er samkvæmt reglum innflutningslandsins að veita undanþágu frá slíku almennu banni, sem um getur í fjórðu spurningunni. 6.      Ef svarið við fjórðu og/eða fimmtu spurningunni er jákvætt, þá er óskað svara við því, í hvaða tilvikum slíkt bann við innflutningi hrárrar kjötvöru, eftir atvikum að teknu tilliti til aðstæðna sem lýst er í fimmtu spurningunni, geti talist réttlætanlegt með vísan til 13. gr. EES-samningsins. Jafnframt er óskað svara við því, hvaða kröfur beri að gera til sönnunar í því sambandi, einkum í ljósi varúðarreglu EES-réttar. Í ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins frá 1. febrúar 2016 segir varðandi fyrstu spurninguna að henni yrði að svara þannig að gildissvið EES samningsins, eins og það væri markað í 8. gr. hans, leiddi ekki til þess að EES-ríki hefðu frjálsar hendur um setningu reglna um innflutning hrárrar kjötvöru og væri því óbundið af viðeigandi ákvæðum sem tekin hefðu verið upp í viðauka EES-samningsins.  Varðandi aðra spurninguna kemur fram í ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins að eins og fram kæmi í formálsorðum með tilskipun nr. 89/662ESB væri lögð áhersla á að tryggja að dýraheilbrigðiseftirlit færi einungis fram á sendingarstað. Þetta væri birtingarmynd meginreglunnar um upprunaland. 1. gr. tilskipunarinnar kvæði á um að dýraheilbrigðiseftirlit með dýraafurðum skyldi ekki lengur fara fram við landamæri, heldur samkvæmt tilskipuninni. Þess væri sérstaklega krafist af EES/EFTA ríkjum, skv. 3. gr. tilskipunarinnar eins og hún hefði verið löguð að EES-samningnum, að þau tryggðu að dýraafurðir hefðu verið fengnar, skoðaðar og merktar í samræmi við reglur ESS-réttar, sem giltu um viðtökustaðinn, og að heilbrigðisvottorð, dýraheilbrigðisvottorð eða eitthvert annað skjal sem kveðið væri á um í dýraheilbrigðisreglum EES fylgdu þeim. Samkvæmt 5. gr. mætti einnig sinna dýraheilbrigðiseftirliti á viðtökustað í formi dýraheilbrigðisskyndikannana eða, ef uppi væri rökstuddur grunur um brot, við flutning varanna á yfirráðasvæði ríkis. Tilskipunin miðaði að samhæfingu grundvallarkrafna um verndun heilbrigðis manna og dýra. Samræmt heilbrigðiseftirlit byggi á ítarlegri skoðun varanna í sendingarríkinu. Kerfinu væri ætlað að koma í stað reglulegs eftirlits á viðtökustað. Ekki væri unnt að réttlæta sérstakar viðbótartakmarkanir EES-ríkis, þegar farið væri yfir landamæri, með vísan til lýðræðissjónarmiða eða dýraheilbrigðis. Markmið tilskipunarinnar og virkni væri ekki unnt að ná ef EES-ríkjum væri frjálst að ganga lengra en þar væri krafist. Það yrði því að telja ósamrýmanlegt tilgangi skipunarinnar að gripið væri til viðbótarráðstafana eða þeim viðhaldið, umfram þær sem sérstaklega væri kveðið á um í henni. Til að tryggja að kröfum 3. gr. tilskipunarinnar hefði verið fullnægt, heimilaði 5. gr. viðtökuaðildarríkinu að framkvæma dýraheilbrigðis-skyndikannanir. Stefndi hefði þó ekki haldið því fram að hinar umdeildu skyldur sem lagðar væru á innflutningsaðila væru skyndikannanir. Þvert á móti væri óumdeilt að þær væru reglulegar og kerfisbundnar. Þær væru því ósamrýmanlegar tilskipuninni. Hið sama ætti við um dýraheilbrigðiseftirlit við tollafgreiðslu á landamærum, þar sem eftirlit yrði að fara fram á viðtökustað, nema uppi væru alvarlegar grundsemdir um misfellur. Engar staðhæfingar um slíkar grunsemdir lægju fyrir í málinu. Þá sagði í álitinu að fyrirfram tilkynningarskylda samkvæmt reglum landsréttar á innflutningsaðila dýraafurða frá öðrum aðildarríkjum væri ósamrýmanleg tilskipuninni. Krafa um innflutningsleyfi, eins og það sem um ræddi í málinu, væri takmarkandi ráðstöfun sem gengi enn lengra en einfalt tilkynningarkerfi. Enn fremur væri í tilskipuninni ekki gert ráð fyrir frystingu kjötvöru í því skyni að vernda dýraheilbrigði, sem lögmætri reglu í viðskiptum milli EES-ríkja. Hún hefði heldur enga lagaheimild að geyma fyrir setningu slíks skilyrðis samkvæmt landsrétti. Þar af leiðandi væri óheimilt að krafist væri vottorðs að landsrétti um frystingu kjötsins. Hafna yrði röksemdum stefnda um að taka bæri tillit til einangraðar landfræðilegrar legu Íslands og ónæmisfræðilegs varnarleysis dýraflóru landsins og hugsanlegra afleiðinga á líf og heilsu manna, við skýringu tilskipunarinnar.  Það hafi verið fullyrt að á Íslandi bæru menn fullt traust til dýraheilbrigðiseftirlits sem fram færi í öðrum aðildarríkjum í samræmi við sameiginlegar EES-reglur. Samkvæmt EES-samningnum væri í gildi aðlögun fyrir Ísland, sem tæki til lifandi dýra, annarra en fiska og lagareldisdýra. Samningurinn hefði þó engin aðlögunarákvæði að geyma vegna innflutnings hrárra kjötvara til Íslands. Við rekstur málsins hefði krafan um vottorð fyrir frystingu verið í forgrunni. Skriflegar athugasemdir og munnlegur málflutningur fyrir dómstólnum hafi ekki veitt nægilega traustan grundvöll til að unnt væri að leggja mat á hin skilyrðin fyrir úthlutun innflutningsleyfis, sem minnst væri á í annarri spurningu landsdómstólsins. Hjá ESA hefði því verið haldið fram að vandinn að baki kröfum um vottorð vegna salmonellu, aðskotaefna í matvælum og merkinga, sem mælt væri fyrir um í e-, f- og g-lið íslensku reglugerðarinnar væri leystur með öðrum reglum EES-réttar. Í meginatriðum teldi dómurinn að leggja bæri mat á slík vottorð með sama hætti og lagt hefði verið mat á vottorðið um frystingu. Ekki væri hægt að vísa til markmiðsins um verndun lífs og heilsu manna og dýra í viðskiptum innan EES, eins og það birtist í 13. gr. EES-samningsins, í tilvikum þar sem tilskipunin kvæði á um samræmingu nauðsynlegra aðgerða til að tryggja verndun heilsu dýra og manna, og um eftirlitsferli með framkvæmd þessa markmiðs. Því yrði að svara annarri spurningunni með þeim hætti að það samrýmdist ekki ákvæðum tilskipunarinnar, að ríki, sem aðild ætti að EES-samningnum, setti reglur, þar sem þess væri krafist, að innflytjandi hrárrar kjötvöru sækti um sérstakt leyfi áður en varan væri flutt inn og áskildi að lagt væri fram vottorð um að kjötið hefði verið geymt frosið í tiltekinn tíma fyrir tollafgreiðslu. Í ljósi þess hvernig annarri spurningunni væri svarað gerðist þess ekki þörf að tekin væri afstaða til þeirra spurninga landsdómstólsins sem eftir stæðu. V. Í máli þessu krefst stefnandi skaðabóta úr hendi stefnda vegna tjóns er stefnandi kveðst hafa orðið fyrir við það að stefndi synjaði honum um innflutning á frystu kjöti í mars 2014. Stefnandi telur synjunina, reista á 10. gr. laga nr. 25/1993 og 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012, vera í andstöðu við EES-rétt, sem Ísland sé skuldbundið eftir. Að kröfu stefnanda lét EFTA dómstóllinn 1. febrúar 2016 í té álit sitt á þeirri spurningu íslenskra dómstóla hvort stefnda hefði frjálsar hendur um setningu reglna um innflutning hrárrar kjötvöru og væri í þeim efnum óbundið af ákvæðum EES-samningsins og þeim gerðum, sem á honum byggja. Þá lét dómstóllinn í té álit sitt á þeirri spurningu íslenskra dómstóla hvort það samrýmist ákvæðum tilskipunar ráðsins 89/662/EBE, að ríki, sem aðild ætti að EES-samningnum, setti reglur þar sem þess væri krafist að innflytjandi hrárrar kjötvöru sækti um sérstakt leyfi áður en varan væri flutt inn, og áskildi að lagðar væru fram í þeim tilgangi aðflutningsskýrslur, upplýsingar um uppruna- og framleiðsluland vörunnar, tegund vöru og framleiðanda auk tilskilinna vottorða, þar á meðal um að kjötið hefði verið fryst í tiltekinn tíma fyrir tollafgreiðslu. Með þeim spurningum sem hér er vísað til er leitað álits á því hvort mistök hafi átt sér stað af hálfu íslenskra stjórnvalda við innleiðingu EES-réttar, sem eftir atvikum getur leitt til bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda að skilyrðum uppfylltum. Þó svo megininntak stefnu í málinu snúi að málsástæðum út frá lagaskýringum er leiða eigi til þess að stefnanda sé innflutningur hins ófrysta kjöts heimill, er engu að síður jafnframt á því byggt í stefnu að innflutningsbann á frystu kjöti sé andstætt EES-rétti, sem aftur leiði til skaðabótaskyldu stefnda. Eru ekki næg efni að vísa málinu frá dómi á þeim grundvelli að skilyrði bótaskyldunnar séu ekki nægjanlega reifuð í stefnu, svo sem stefndi rakti í málflutningi hér fyrir dómi.  EFTA dómstóllinn hefur látið í ljós það álit að samkvæmt grundvallarreglum ESS-samningsins beri aðilar hans skaðabótaábyrgð gagnvart einstaklingum á því tjóni, sem hljótist af ófullnægjandi lögfestingu tilskipunar, enda sé nánar tilgreindum skilyrðum fullnægt. Hefur dómstóllinn lýst því áliti sínu að gildissvið EES samningsins, eins og það væri markað í 8. gr. hans, leiddi ekki til þess að EES-ríki hefðu frjálsar hendur um setningu reglna um innflutning hrárrar kjötvöru og væri því óbundið af viðeigandi ákvæðum sem tekin hefðu verið upp í viðauka EES-samningsins. Þá hefur dómstóllinn látið í té það álit sitt að það samrýmdist ekki ákvæðum tilskipunar nr. 89/662EBE að ríki, sem aðild ætti að EES-samningnum, setti reglur þar sem þess væri krafist, að innflytjandi hrárrar kjötvöru sækti um sérstakt leyfi áður en varan væri flutt inn og áskildi að lagt væri fram vottorð um að kjötið hefði verið geymt frosið í tiltekinn tíma fyrir tollafgreiðslu. Við skýringu ákvæða EES-samningsins ber að hafa hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins komi ekkert fram sem leiði til þess að vikið verði frá því áliti. Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er það hins vegar á valdi íslenskra dómstóla að skera úr um hvort bótaábyrgð stefnda njóti fullnægjandi lagastoðar að íslenskum rétti. Með hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins frá 1. febrúar 2016 verður því slegið föstu að íslensk stjórnvöld hafi, á grundvelli EES-samningsins, ekki haft frjálsar hendur um setningu reglna um innflutning á hrárri kjötvöru. Var íslenska ríkið bundið af viðeigandi ákvæðum sem tekin hafa verið upp í viðauka ESS-samningsins. Þá er það jafnframt niðurstaða dómsins, með hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins 1. febrúar 2016, að það samrýmist ekki ákvæðum tilskipunar nr. 89/662EBE að ríki sem aðild á að EES-samningnum, setji reglur þar sem þess er krafist að innflytjandi hrárrar kjötvöru sæki um sérstakt leyfi áður en varan er flutt inn og áskilji að lagt sé fram vottorð um að kjötið hafi verið geymt frosið í tiltekinn tíma fyrir tollafgreiðslu. Ákvæði laga nr. 25/1993 og reglugerðar nr. 448/2012, sem að þessu snúa, eru í andstöðu við EES-rétt. Hefur íslenska ríkið því gert mistök við innleiðingu EES-réttar eftir að íslenska ríkinu bar að innleiða tilskipun nr. 89/662EBE. Þykir ljóst að stefnandi hefði getað flutt inn hið frysta kjöt í mars 2014 hefði aðlögun tilskipunar nr. 89/662EBE verið með réttum hætti. Var íslenska ríkið þannig skuldbundið samningsaðilum sínum eftir 7. gr. EES-samningsins til þess að laga íslenskan rétt að tilskipun nr. 89/662/EBE svo að efnislegt samræmi yrði á milli íslenskra réttarreglna og ákvæða tilskipunarinnar.  Eftir aðdraganda og tilgangi laga nr. 2/1993 fær skaðabótaábyrgð stefnanda, vegna ófullnægjandi lögfestingar tilskipunar nr. 89/662EBE, stoð í þeim lögum. Hefur því margsinnis verið slegið föstu í íslenskri dómaframkvæmd. Hefur skaðabótaábyrgð EFTA ríkja vegna ófullnægjandi innleiðingar tilskipunar verið talin háð þremur skilyrðum. Í fyrsta lagi þarf í tilskipuninni að felast að einstaklingar öðlist tiltekin réttindi og ákvæði tilskipunarinnar verða að bera með sér hver þau réttindi séu. Í annan stað verður að vera um að ræða nægilega alvarlegt brot. Í þriðja lagi verður að vera orsakasamband á milli tjóns og brots ríkis. Að því er fyrsta skilyrðið varðar er til þess að líta að tilskipun nr. 89/662EBE mælir fyrir um dýraheilbrigðiseftirlit á sendingarstað og heimilar dýraheilbrigðis-skyndikannanir á viðtökustað. Innflytjandi hrás ófrysts kjöts, hvort heldur einstaklingur eða lögaðili, þarf ekki að sæta öðru skipulögðu og reglubundnu eftirliti með því að skilyrðum fyrir innflutningi sé fullnægt en eftirliti á sendingarstað. Reglur sem mæla fyrir um skipulegt og reglubundið eftirlit á viðtökustað eru óheimilar í ljósi ákvæða tilskipunarinnar. Skipulagt og reglubundið eftirlit á viðtökustað var óheimilt og verður ekki réttlætt á grundvelli 18. gr., sbr. 13. gr. EES-samningsins. Er fyrsta skilyrði fyrir bótaskyldu í málinu fullnægt. Að því er annað skilyrðið varðar liggur fyrir að ríkisstjórn Íslands lagði í tvígang fram á Alþingi frumvörp til laga, sem ætlað var að innleiða tilskipun nr. 89/662EBE í íslenskan rétt. Var það gert á löggjafarþingum 2007-2008 og 2008-2009. Þau frumvörp urðu ekki að lögum. Í þessum frumvörpum var innflutningur á hráu ófrystu kjöti heimilaður. Á löggjafarþingi 2009-2010 var lagt fram frumvarp til laga, sem varð að lögum nr. 143/2009, um breytingu á lögum nr. 25/1993, þar sem fellt var úr frumvarpinu heimild til innflutnings á hráu ófrystu kjöti og það því áfram óheimilt. Ganga verður út frá því, svo sem athugasemdir með frumvarpinu bera með sér, að íslensk stjórnvöld hafi verið þess fullmeðvituð að með því að samþykkja frumvarpið á þann veg og með ákvæðum reglugerðar nr. 448/2012, væri ekki verið að innleiða EES-rétt í íslenskan rétt með fullnægjandi hætti. Er einnig til þess að líta að Eftirlitsstofnun EFTA hafði þegar á árinu 2011 kvartað við íslensk stjórnvöld yfir innflutningsbanni á hráu kjöti og komist að niðurstöðu um brot á skuldbindingum að EES-rétti á árinu 2013. Í þessu ljósi var um vísvitandi og alvarlegt brot á samningsskuldbindingum íslenskra stjórnvalda að ræða, sem leiddi til tjóns fyrir stefnanda, sem greitt hafði fyrir kjötið og flutning þess hingað til lands. Er orsakasamband því jafnframt til staðar.  Stefnandi gerir grein fyrir tjóni sínu á þann hátt að gerð sé krafa um greiðslu fyrir kjötið og kostnað við flutning þess hingað til lands. Hann hafi greitt fyrir kjötið 1.909 evrur, en flutningskostnaðurinn numið 80.606 krónum. Sé slík krafa ekki dómtæk sé til vara gerð krafa um 381.159 krónur, en í því tilviki hefur evrum verið breytt í íslenskar krónur. Í báðum tilvikum er krafist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 og síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna. Fjöldamörg dómafordæmi eru fyrir því að dómstólar leggi við kröfur í erlendri mynt vexti samkvæmt 8. og 6. gr. laga nr. 38/2001. Af þeim sökum er ekkert því til fyrirstöðu að fallast á aðaldómkröfur stefnanda. Eru dómkröfur í samræmi við reikninga er stefnandi hefur innt af hendi, sem er hið eiginlega tjón stefnanda. Stefnandi kaus að láta reyna á hvort honum yrði synjað um innflutning á hinu hráa kjöti með því að greiða fyrir kjötið úti og láta flytja það hingað til lands. Var honum það í sjálfsvald sett. Bar enga nauðsyn til þess að stefnandi höfðaði áður mál til einhvers konar viðurkenningar á rétti sínum til innflutnings. Í samræmi við það sem hér að framan greinir greiði stefndi stefnanda skaðabætur í samræmi við aðalkröfu. Vextir samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 reiknast frá því stefnanda var synjað um innflutning á hinu hráa kjöti 14. mars 2014. Mál þetta ber þess öðrum þræði merki að vera prófmál. Þykir rétt að krafan beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/20010 frá dómsuppsögudegi, samkvæmt heimild í 9. gr. i.f. laga nr. 38/2001.  Stefndi greiði stefnanda 1.800.000 krónur í málskostnað. Mál þetta flutti af hálfu stefnanda Arnar Þór Stefánsson hæstaréttarlögmaður en af hálfu stefnda Gizur Bergsteinsson hæstaréttarlögmaður. Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari. Dómsorð: Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Ferskum kjötvörum ehf., 1.909 evrur og 80.606 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. mars 2014 til 18. nóvember 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.  Stefndi greiði stefnanda 1.800.000 krónur í málskostnað.                                                                        
Mál nr. 827/2017
Stjórnsýsla Opinberir starfsmenn Lögreglumaður Miskabætur Lögvarðir hagsmunir Frávísun frá héraðsdómi að hluta
Í málinu krafðist A þess að felld yrði úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á […] frá árinu 2016 um breytingu á starfsskyldum sínum. Þá krafðist hún þess að Í yrði gert að greiða sér miskabætur og bætur vegna fjártjóns, annars vegar vegna útgjalda sem hún hafði orðið fyrir í beinu framhaldi af ákvörðuninni og hins vegar vegna mismunar á framtíðarverðmæti launaréttinda á milli núverandi starfs og starfs síns hjá embætti lögreglustjórans á […]. Síðastnefnda fjárkrafan var af sjálfsdáðum vísað frá héraðsdómi þar sem ákvörðun lögreglustjórans hefði verið tímabundin og enn væri í gildi ráðningarsamband milli A og embættisins, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá var ógildingarkröfunni einnig vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi vegna skorts á lögvörðum hagsmunum. Hvað varðaði miskabótakröfu A og fyrri fjárkröfu hennar vísaði Hæstiréttur til þess að ákvörðun lögreglustjóra hefði verið reist á 19. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og að Í bæri sönnunarbyrði um að gætt hefði verið málefnalegra sjónarmiða við töku hennar. Ekki var fallist á með Í að A hefði ekki ráðið í senn við stjórn deildarinnar er hún gegndi yfirmannsstöðu í og setu í tilgreindum innleiðingarhópi sem átti að vinna að skipulagsbreytingum hjá embættinu. Þá hefði Í engan veginn fært sönnur á að A hefði ekki haft tök á stjórnun deildar sinnar. Með vísan til samtímagagna og framburða vitna í málinu var ráðið að einhverjir flokkadrættir og óeining hefði viðgengist í deildinni. Á hinn bóginn var ekki talið að A gæti borið ábyrgð á einhvers konar óróa innan deildarinnar sem skapaðist hefði vegna rannsóknar á spillingarmálum tveggja lögreglumanna. Loks var litið til þess að þótt launakjör A hefðu ekki verið skert með ákvörðuninni og hún verið tímabundin hefði ákvörðunin verið meira íþyngjandi fyrir A en nauðsyn hefði borið til þar sem í henni hefði falist að A hefði verið færð úr því starfi sem hún hafði verið skipuð í og sett í hliðarverkefni sem hún hafði áður sinnt meðfram aðalstarfi sínu. Samkvæmt framansögðu var fallist á með A að ákvörðunin hefði brotið í bága við 19. gr. laga nr. 70/1996. Talið var að lögreglustjóranum á […] hefði mátt vera ljóst að hin umþrætta ákvörðun hefði verið til þess fallin að vera meiðandi fyrir A, sem í áranna rás hefði unnið sig til metorða innan lögreglunnar og verið falin aukin ábyrgð fáeinum mánuðum áður en ákvörðunin var tekin. Var Í því gert að greiða A 1.500.000 krónur í miskabætur auk þess sem fyrri fjárkrafa hennar var tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Jóhannes Sigurðsson landsréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. desember 2017. Hún krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á […] 22. janúar 2016 um breytingu á starfsskyldum sínum. Þá krefst hún þess að stefnda verði gert að greiða sér annars vegar 2.366.720 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.000.000 krónum frá 22. janúar 2016 til 26. sama mánaðar, af 2.158.900 krónum frá þeim degi til 29. mars 2016, af 2.366.720 krónum frá þeim degi til 20. júlí sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, og hins vegar 126.366.752 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna frá 20. október 2016 til 21. febrúar 2017, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. þeirra frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I 1 Samkvæmt gögnum málsins starfaði áfrýjandi sem lögreglumaður hjá embætti lögreglustjórans í […] frá […]. Hinn […] hóf hún störf sem lögreglumaður við embætti lögreglustjórans […] og starfaði þar til 10. október sama ár, en hóf síðan störf 13. sama mánaðar sem lögreglufulltrúi í efnahagsbrotadeild […]. Því starfi gegndi áfrýjandi til […], en frá þeim degi til 30. nóvember sama ár vann hún hjá endurskoðunarfyrirtækinu […] sem verkefnastjóri í […]. Áfrýjandi hóf […] störf sem lögreglufulltrúi hjá embætti lögreglustjórans á […] í deild sem fékkst við fjármunabrot, en þar starfaði hún til […], en hóf 1. maí sama ár störf hjá […] sem lögreglufulltrúi og hópstjóri. Gegndi hún því starfi til […], er hún var sett í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns og yfirmanns […] hjá embætti lögreglustjórans á […], með skipun í huga, og síðan skipuð í þá stöðu frá […]. Þá er rétt að geta þess að áfrýjandi lauk B.S. prófi í viðskiptafræði í […] frá […]. Samkvæmt fyrrnefndu skipunarbréfi áfrýjanda var um skipun hennar meðal annars vísað til 5. töluliðar 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1051/2006 um starfsstig innan lögreglunnar. Í því ákvæði kemur fram að innan lögreglu séu níu starfsstig og er aðstoðaryfirlögregluþjóni raðað í 5. sæti. Í 6. gr. reglugerðarinnar er fjallað um aðstoðaryfirlögregluþjóna. Segir þar að hjá lögregluliðum með fleiri en 20 lögreglumenn skuli starfa aðstoðaryfirlögregluþjónn og í lögregluliði með fleiri en 35 lögreglumenn, svo og hjá embætti ríkislögreglustjóra, geti þeir verið fleiri en einn. Um verksvið og ábyrgð aðstoðaryfirlögregluþjóns segir að hann sé yfirlögregluþjóni til aðstoðar, hafi með höndum stjórn og ábyrgð á deildum, svo og tilteknum verkefnum sem honum eru falin og krefjast sérstakrar þekkingar, þjálfunar og/eða menntunar, þar með talið rannsókn mála og aðstoð við saksókn, og eftirlit með að reglum og fyrirmælum sé framfylgt og að fjárhagslegur rekstur deilda eða eininga sé innan fjárheimilda. 2 Í júlí 2015 ákvað lögreglustjórinn á […] að gera skipulagsbreytingar hjá embættinu í kjölfar skýrslu svonefnds aðgerðahóps. Meðal breytinganna var að sameina R-1, rannsóknardeild fjármunabrota, og fyrrnefnda R-2 deild, undir stjórn áfrýjanda, sem tók við því hlutverki í sama mánuði. Í framhaldi af því tók svonefndur innleiðingarhópur til starfa í september sama ár, en hann átti að vinna að áðurnefndum skipulagsbreytingum. Átti áfrýjandi sæti í þeim hópi. Næsti yfirmaður áfrýjanda hjá embættinu var N yfirlögregluþjónn, þar næsti yfirmaður var M, yfirmaður rannsóknar- og ákærusviðs, og lögreglustjóri síðan æðsti yfirmaður hennar. Munu undirmenn áfrýjanda hafa verið á þriðja tug eftir sameiningu deildanna. 3 Meðal gagna málsins er svar þáverandi innanríkisráðherra 22. febrúar 2016 á Alþingi við fyrirspurn þingmanns um „samskiptavanda innan lögreglunnar.“ Í svarinu kom meðal annars fram að ráðuneyti hennar hafi síðastliðið ár borist ábendingar um samskiptavanda innan embættis lögreglustjórans á […]. Hafi ráðuneytið fundað með lögreglustjóranum vegna þessa og ákveðið vorið 2015, í samráði við lögreglustjórann, að fá utanaðkomandi ráðgjafa til að greina hvort slíkur vandi væri fyrir hendi og þá hver rót hans væri og hvernig ráða mætti bót á honum. Ráðgjafinn hafi skilað skýrslu til ráðuneytisins í lok árs 2015. Hafi niðurstöður hans verið að eftir viðtöl við stjórnendur við embættið hafi komið fram skýrar vísbendingar um vanda sem snerti samskipti og samstarf, sem væri þess eðlis að hann yrði ekki leystur án utanaðkomandi aðstoðar. Var það mat ráðgjafans að ráðast yrði í aðgerðir sem miðuðu að því að taka á þessum vanda og mælti hann með því að embættið fengi utanaðkomandi hlutlausan aðila sem yfirstjórn þess bæri fullt traust til. Hafi ráðuneytið óskað eftir því við lögreglustjórann að hann fylgdi eftir þessum niðurstöðum og ráðleggingum. Í framhaldinu hafi lögreglustjórinn, í samráði við yfirstjórn embættisins, ráðið sérfræðinga til aðstoðar. Þá liggur fyrir í málinu bréf Landssambands lögreglumanna 29. desember 2016 til innanríkisráðherra varðandi ætlað einelti í starfi og starfshætti lögreglustjórans á […], þar sem lýst var þungum áhyggjum af ástandinu hjá embættinu og talið mjög brýnt að ráðherra gripi þegar til eftirlits- og rannsóknarskyldu þeirrar sem á honum hvíldi og tæki málið til rannsóknar samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Í bréfinu voru í dæmaskyni um stöðu mála og þróun vandans nefnd fjögur einstök tilvik, þar á meðal tilvik áfrýjanda, og þá hafi, allt frá árinu 2015, 20 til 30 aðrir starfsmenn embættisins leitað til sambandsins og lýst stöðu sinni og erfiðleikum sem þeir hafi upplifað í kjölfar eineltis af hálfu lögreglustjórans. 4   Áfrýjandi heldur því fram að áðurnefndur vandi hafi allt frá vormánuðum árið 2015 tekið til samskipta sinna við lögreglustjórann. Bera gögn málsins með sér að á þeim tíma hafi nokkrir lögreglumenn í rannsóknardeild fíkniefnamála borið samstarfsmanni sínum á brýn tiltekið misferli í starfi. Sams konar ásakanir á hendur honum höfðu áður komið fram í deildinni, en þáverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn, S, mun hafa lokið athugun á þeim í janúar árið 2012 og komist að þeirri niðurstöðu að þær ættu ekki við nein rök að styðjast. Er þessar ásakanir vöknuðu að nýju til lífsins á vormánuðum 2015 mun áfrýjandi ekki hafa tekið undir þær og í skýrslu hennar fyrir dómi kom fram að hún hafi einungis viljað að sá sem ásakanirnar beindust gegn „fengi réttláta málsmeðferð.“ Mun afstaða áfrýjanda hafa valdið óánægju hjá áðurnefndum lögreglumönnum, auk þess sem fram kom í skýrslum tveggja þeirra fyrir héraðsdómi að þeir hafi almennt ekki verið sáttir við framkomu áfrýjanda við þá. Þá mun annar lögreglumaður við deildina hafa verið til rannsóknar vegna ætlaðs brots í starfi, en ekkert er fram komið í málinu um að tenging sé milli þeirrar rannsóknar og fyrrnefndrar óánægju umræddra lögreglumannanna. 5 Hinn 14. desember 2015 sendi lögreglustjóri áfrýjanda svofellt tölvubréf: „Sæl. Boða þig til fundar kl 12 á morgun á 5. Hæð.“ Áfrýjandi svaraði erindinu samstundis og staðfesti móttöku þess, en spurðist jafnframt fyrir um hvert efni fundarins væri og hvort hún gæti eitthvað undirbúið sig. Mínútu síðar svaraði lögreglustjóri fyrirspurninni svo: „Ræði það við þig á morgun.“ Í skýrslutökum fyrir dómi bar áfrýjanda og lögreglustjóra ekki saman um hvað fór fram á fundinum. Áfrýjandi kvað lögreglustjóra hafa verið með lista í síma með alls konar ávirðingum í sinn garð, sem hún hafi farið í gegnum og allar hafi þær verið rangar. Þá hafi lögreglustjóri boðið sér að fara til héraðssaksóknara, en hann hefði óskað eftir að fá áfrýjanda til starfa. Héraðssaksóknari hafi á hinn bóginn sagt sér að lögreglustjóri hafi boðið áfrýjanda fram til starfa hjá hinum fyrrnefnda að ósk áfrýjanda. Lögreglustjóri mundi ekki eftir ávirðingum í garð áfrýjanda, en rætt hafi verið um mál tveggja lögreglumanna innan deildarinnar, sem sættu rannsókn vegna spillingar, en áfrýjandi hafi ekki virst átta sig á alvöru málsins. Hafi tilgangur sinn með fundinum verið að fá áfrýjanda til „að vinna þetta með okkur.“ Þá kom fram hjá henni að áfrýjandi hefði aldrei verið flutt til héraðssaksóknara gegn vilja sínum. Vitnið D, þáverandi aðallögfræðingur við embætti lögreglustjórans á […], var einnig á fundinum. Fyrir dómi kvað hún að mikið hafi verið búið að ganga á og þetta verið erfitt fyrir alla og verið að finna út hvernig væri hægt að „lenda þessu vel fyrir alla“, en vegna „ástandsins“ í deild áfrýjanda hafi verið erfitt fyrir hana að stýra henni eins og staðan hafi verið orðin. Hafi sér fundist skrýtið „m.v. það til hvers fundurinn var ætlaður o.s.frv.“ að sér hafi fundist áfrýjandi mæta á hann „með boxhanska“, en enginn hafi verið að fara að reka neinn. Þá kvaðst hún hafa vitað að lögreglustjóri hafi verið búin að hafa samband við héraðssaksóknara og spyrja hann út í flutning. Vitnið I héraðssaksóknari staðfesti fyrir dómi að lögreglustjóri hafi boðið sér starfskrafta áfrýjanda. Hafi hún spurt sig hvort hann hefði hug á því að áfrýjandi kæmi aftur yfir til sín og þar sem áfrýjandi hafi reynst vel sem starfsmaður hafi hann tekið jákvætt í það. 6 Áfrýjandi átti fund með þáverandi innanríkisráðherra föstudaginn 15. janúar 2016, en áfrýjandi mun hafa óskað eftir fundinum í ársbyrjun sama ár. Í skýrslu sinni fyrir dómi kvað áfrýjandi efni fundarins hafa snúist um ýmis atriði, sem voru í gangi hjá lögreglustjóraembættinu og sér hafi blöskrað, en minnst um hana sjálfa.  Allt hafi logað þarna í óánægju, til dæmis hjá ákærusviði, en viðgengist hafi að starfsmenn þar væru „sendir í dóm“ með ákvarðanir sem þeir hafi ekki verið sáttir við, og eins hafi ríkt óánægja með hvernig farið hefði verið með lögreglumann, sem sakaður hafði verið um brot í starfi af tilteknum samstarfsmönnum sínum. Hvað sig varðaði hafi áfrýjandi minnst á að lögreglustjóri hafi boðið sér að fara og eins hafi áfrýjandi lýst framkomu lögreglustjóra við sig er hún hafi „gengið um deildina mína“ og lesið upp úr póstum og sagt: „Ég veit nú ekki hvað ég á að gera við hana […], ég er búin að bjóða henni að fara og hún vill ekki hætta“ og eitthvað þvílíkt. Þá hafi áfrýjandi greint ráðherra frá því að lögreglustjóri hafi sagt næsta yfirmanni áfrýjanda að hún vissi ekki hvað hún ætti að gera við áfrýjanda og væri hún að hugsa um að hafa samband við ríkissaksóknara og láta opna sakamálarannsókn á áfrýjanda fyrir „hylmingu“, en örugglega átt við yfirhylmingu. Lögreglustjóri hafi greinilega vitað af umræddum fundi áfrýjanda með ráðherra því hún hafi komið á skrifstofu áfrýjanda í lok sama dags og fundurinn fór fram, rétt eftir að áfrýjandi var komin til baka af honum, og spurt hvað henni og ráðherra hafi farið í milli. Gat áfrýjandi þess að hún hafi á fundardegi fyrir tilviljun mætt í ráðuneytinu þáverandi aðallögfræðingi embættis lögreglustjórans á […], áðurnefndri D. Strax eftir fundinn hafi síðan komið fram í fjölmiðlum að áfrýjandi hafi verið í ráðuneytinu. Lögreglustjóri kvaðst fyrir dómi hafa frétt af umræddum fundi, en þá hafi hún setið á fundi hjá ríkislögreglustjóra, þar sem meðal annars hafi verið farið yfir málefni áfrýjanda. Hafi fyrrnefnd D hringt í sig úr ráðuneytinu og sagt að hún hafi hitt áfrýjanda þar. Það hafi á hinn bóginn engin áhrif haft, þar sem ákvörðun um breyttar starfsskyldur áfrýjanda hefði verið tekin fyrir þann tíma. Greindi lögreglustjóri frá því að það hafi verið þrýstingur á sig frá ríkislögreglustjóra að gera eitthvað í þessu því „þeir treystu ekki deildinni á meðan hún var þarna.“ Búið hafi verið að „teikna þetta allt saman upp, af því að við vorum náttúrulega með plan A, B, C.“ Plan A hafi verið að bjóða áfrýjanda að fara til héraðssaksóknara, plan B að hún kæmi áfram að framtíðarskipulaginu, eins og hún var byrjuð á og gæti klárað það verkefni „og þegar hún kæmi aftur til starfa að það væru þá þessir böfferar, það væru þá undirstjórnendur, eða millistjórnendur, sem væru þá á milli hennar og almenna starfsmannsins, sem voru þá óánægðir.“ Ef þetta myndi engan veginn ganga þá hafi plan C verið að „reyna að finna önnur störf ... hjá embættinu ... einhverja aðra deild, sem hún gæti stýrt.“ 7 Að morgni mánudagsins 18. janúar 2016 sendi lögreglustjóri áfrýjanda svofellt tölvubréf: „Sæl A. Í ljósi ástandsins í fíkniefnadeildinni hef ég ákveðið að breyta skipan valnefndar fyrir lögreglufulltrúa í miðlægri deild og fela [...] sæti í hópnum í þinn stað.“ Þá sendi lögreglustjóri áfrýjanda að kvöldi sama dags tölvubréf, þar sem hin síðarnefnda var boðuð á fund 20. janúar 2016. Tilgreint fundarefni var: „Fundur um breytt verkefni.“ Hljóðaði tölvubréfið sem hér segir: „Sælar. Tilefni fundarins er að ræða fyrirhugaðar breytingar á verkefnum núverandi stjórnanda í miðlægri rannsóknardeild. Ef óskað er eftir að trúnaðarmaður eða fulltrúi LL eða LR sé viðstaddur þá er það sjálfsagt og eðlilegt.“ Fundurinn fór ekki fram á tilsettum tíma, heldur föstudaginn 22. janúar 2016 og hófst klukkan 14. Sama dag klukkan 13.09 hafði yfirlögregluþjónn deilda R-1 og R-2 boðað með tölvubréfi alla starfsmenn þeirra til fundar klukkan 14.30. Á fundinum sem lögreglustjóri hafði boðað til afhenti hún áfrýjanda bréf, dagsett 25. janúar 2016, þar sem henni var tilkynnt að frá og með þeim degi, til og með 24. júlí sama ár, eða þar til annað yrði ákveðið, yrði störfum og verksviði áfrýjanda breytt þannig að hún myndi tímabundið taka við verkefni, sem fælist í skipulagningu á hinni nýju rannsóknardeild lögreglustjórans á […], sem taka myndi til starfa á vormánuðum í samræmi við hugmyndir og vinnu innleiðingarhóps er áfrýjandi ætti sæti í. Verkefnið yrði unnið á skrifstofu lögreglustjóra, undir stjórn D aðallögfræðings embættisins, sem væri formaður innleiðingarhópsins. Á meðan yrði stjórn miðlægrar deildar um skipulagða brotastarfsemi falin öðrum stjórnanda. Væru breytingarnar gerðar með vísan til skipunarbréfs áfrýjanda 29. apríl 2015 og 19. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Tekið var fram í bréfinu að breytingarnar myndu ekki skerða launakjör eða réttindi áfrýjanda. Í lok þess var athygli áfrýjanda vakin á því hún gæti óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessi ákvörðun mun síðan hafa verið kynnt starfsmönnum deildarinnar á þeim fundi sem yfirlögregluþjónninn hafði samkvæmt áðursögðu boðað til klukkan 14.30 sama dag. Í bréfi áfrýjanda mánudaginn 25. janúar 2016 til lögreglustjóra sagði meðal annars að á fyrrgreindum fundi 22. sama mánaðar hafi þau rök verið færð fyrir breytingu á starfsskyldum áfrýjanda að tveir undirmenn hennar væru til rannsóknar, grunaðir um spillingu. Ástand í deild áfrýjanda væri slæmt og breytingin verið gerð í þágu trúverðugleika deildarinnar. Teldi áfrýjandi ákvörðunina vera lítilsvirðandi, áfrýjandi hefði engin tengsl við tilvitnuð spillingarmál, hún hefði ekki notið andmælaréttar, verið svipt mannaforráðum og falið tiltekið, tímabundið verkefni, sem unnið hafi verið að um skeið og myndi í öllum aðalatriðum vera lokið. Krafðist áfrýjandi að lögreglustjóri viðurkenndi bótaskyldu vegna ákvörðunarinnar eigi síðar en 1. febrúar sama ár. Þá var því lýst yfir að áfrýjandi myndi ekki koma aftur til starfa hjá embætti lögreglustjórans á þeim forsendum sem henni hefðu verið kynntar. Erindi þessu var svarað af hálfu lögreglustjóra með bréfi 5. febrúar 2016. Hvað varðaði andmælarétt áfrýjanda var bent á að breytingar á starfi teldust til ákvarðana um innra skipulag stofnunar og teldust því ekki til stjórnvaldsákvarðana í skilningi stjórnsýslulaga. Þá væri því hafnað að í breytingu á starfsskyldum áfrýjanda fælist fyrirvaralaus brottvikning úr starfi, enda kæmi fram í 19. gr. laga nr. 70/1996 að starfsmaður geti kosið að segja upp starfi sínu. Vegna þeirrar yfirlýsingar áfrýjanda að hún myndi ekki koma aftur til starfa á þeim forsendum sem henni höfðu verið kynntar var í bréfi lögreglustjóra vísað til IV. kafla laga nr. 70/1996, sérstaklega 15. gr. laganna um skyldu starfsmanna til að hlýða löglegum fyrirskipunum um starf sitt, svo og 16. gr. þeirra, þar sem kveðið væri á um að starfsmenn skyldu koma tímanlega til starfa. Sinnti áfrýjandi ekki skyldum sínum gæti slíkt leitt til áminningar, sbr. 21. gr. sömu laga, sem og frádráttar launa. Loks var farið fram á upplýsingar um hvort áfrýjandi hefði í bréfi sínu óskað eftir lausn frá embætti í skilningi 19. gr. laganna. Samdægurs áðurnefndu svarbréfi sendi lögreglustjóri áfrýjanda bréf, þar sem færð voru rök fyrir breytingum á starfsskyldum áfrýjanda. Í bréfinu er rakið að 9. júlí 2015 hafi lögreglustjóri ákveðið að gera skipulagsbreytingar í kjölfar skýrslu umbótahóps. Í breytingunum hafi meðal annars falist breytingar á starfsemi miðlægra deilda. Hafi rannsóknir skipulagðrar brotastarfsemi, áður R-1, R-2 og hluti af R-3, verið sameinaðar undir stjórn áfrýjanda. Hinn 1. september sama ár hafi tekið til starfa með formlegum hætti starfshópur, sem hafi fengið það hlutverk að innleiða þessar breytingar. Ætti áfrýjandi sæti í hópnum fyrir hönd deildar um skipulagða brotastarfsemi. Ásamt því að stjórna deild um skipulagða brotastarfsemi hafi hlutverk áfrýjanda meðal annars verið að útfæra nánar tillögur innleiðingarhópsins sem og skipulag deildarinnar. Ljóst væri að vegna þeirra mála sem upp hefðu komið innan fíkniefnadeildar hafi bæði annir og álag aukist vegna starfsmannastjórnunar og af því hafi leitt að framangreint innleiðingarverkefni hinnar nýju deildar hafi ekki gengið sem skyldi og enn ætti eftir að útfæra frekara skipulag er lyti að innra starfi deildarinnar, svo sem starfslýsingum, vinnutíma, húsnæðis- og launamálum, auk þess að skipuleggja innra málefnastarf deildarinnar, byggja tengslanet og samhæfa þá starfsemi sem hin nýja deild ætti að annast. Umrætt skipulag hafi átt að taka gildi 1. október 2015, en tafist úr hófi í ljósi framangreindra atvika. Í ljósi þessa hafi lögreglustjóri ákveðið að leggja mikla áherslu á þessi innleiðingarverkefni og tilkynnt áfrýjanda bréflega um þær breytingar, sbr. 19. gr. laga nr. 70/1996. Til að gera áfrýjanda betur kleift að sinna þessum verkefnum hafi verið ákveðið að setja utanaðkomandi stjórnanda tímabundið á meðan til að stýra deildinni. Með framangreindum breytingum væri því verið að skapa áfrýjanda svigrúm til að vinna að fullu að þessum mikilvægu skipulagsbreytingum. Að mati lögreglustjóra væri afar mikilvægt og brýnt að þetta skipulag kæmist á sem fyrst. Þessu til viðbótar hafi á vormánuðum 2015 komið upp grunsemdir um ætluð brot starfsmanna í starfi sem lytu stjórn áfrýjanda og haft hefðu með höndum rannsóknir á skipulagðri brotastarfsemi. Annar þessara starfsmanna hafi síðastliðið vor verið fluttur úr deildinni í aðra deild. Áfrýjandi hafi á starfsmannafundi 24. júní 2015 lýst yfir stuðningi við umræddan starfsmann og að flutningurinn væri ekki í samræmi við vilja hennar. Þessi afstaða hafi vakið óróleika í deildinni, óeining hafi skapast og að mati lögreglustjóra og ríkislögreglustjóra hafi deildin verið óstarfhæf undir þeim kringumstæðum. Fyrir dómi kvað áfrýjandi engan aðdraganda hafa verið að þeirri ákvörðun lögreglustjóra að taka sig úr valnefndinni og fela öðrum að taka sæti í henni í sinn stað. Tilkynningin hafi komið á mánudegi, en fundurinn með ráðherra verið föstudaginn þar á undan og fyrstu viðtölin við umsækjendur átt að vera á þriðjudagsmorgninum. Þá hafi heldur enginn aðdragandi verið að fundarboðinu um breytingar á verkefnum hennar. Enn fremur hafi áfrýjandi aldrei fengið neinar athugasemdir við störf sín frá sínum yfirmönnum. Um ástæðu þess að lögreglustjóri ákvað að víkja áfrýjanda úr valnefnd og setja annan mann í nefndina í stað hennar kvað hún fyrir dómi að hluti skipulagsbreytinga, sem fyrirhugaðar hafi verið, hafi verið að ráða nýja lögreglufulltrúa í þá deild, sem áfrýjandi fór fyrir. „Hópur“ lögreglumanna hafi komið „aftur“ að máli við sig og lýst því yfir að „þeir myndu draga umsóknirnar sínar til baka“ ef áfrýjandi yrði þarna, því hún hefði lýst því yfir að hún „vildi þá ekki.“ Um aðdraganda að ákvörðuninni um að breyta starfsskyldum áfrýjanda kvað lögreglustjóri að þar hafi margir samverkandi þættir komið til. Grunur hafi verið um spillingu í deildinni og tveir lögreglumenn þar verið til rannsóknar. Áfrýjandi hafi ekki verið að „vinna með okkur í þessu“ og í rauninni ekki talað við sig. Trúverðugleiki lögreglunnar hafi verið undir og því orðið að gera einhverjar breytingar. Hafi breytingin ekki verið fólgin í því að ýta áfrýjanda út, heldur fyrst og fremst að búa til skjól til þess að velja fulltrúana sem hún tæki síðan við. Þá kvað hún að strax í ársbyrjun 2015 hafi byrjað að berast til sín kvartanir undan áfrýjanda og hefði hún aldrei fengið svo margar kvartanir undan einum stjórnanda. Nánasti samstarfsmaður áfrýjanda, en þau hafi unnið mjög þétt saman, hafi verið grunaður um spillingu og tilteknir starfsmenn í deildinni, sem tilheyrt hafi öðrum af tveimur hópum í henni, viljað lýsa vantrausti á áfrýjanda. Þá hafi gengið mjög illa hjá áfrýjanda að samræma það að vera aðstoðaryfirlögregluþjónn yfir deildinni og vera jafnframt hluti af innleiðingarhópnum. Hafi áfrýjandi verið í algjörri afneitun á því að hún næði ekki utan um hvort tveggja og hinu sama hafi gegnt um yfirmenn hennar. 8 Verður nú gerð grein fyrir framburði vitna fyrir dómi. M, fyrrverandi aðstoðarlögreglustjóri og staðgengill lögreglustjóra og saksóknari og yfirmaður rannsóknar- og ákærusviðs miðlægrar rannsóknardeildar lögreglustjórans á […], kvaðst hafa unnið í áratug með áfrýjanda, fyrst hjá embætti ríkislögreglustjóra og svo hjá embætti lögreglustjórans á […]. Vitnið kvaðst hafa vorið 2014, ásamt tveimur öðrum mönnum, komið að ráðningu aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá síðarnefnda embættinu, en áfrýjandi hafi verið meðal umsækjenda. Hafi hún verið með langhæstu einkunn þeirra við mat á menntun og reynslu og samkvæmt niðurstöðum prófs sem lagt var fyrir þá. Vitnið kvaðst hafa verið yfirmaður áfrýjanda í fyrrnefndri miðlægri rannsóknardeild. Áfrýjandi hafi verið afburðastarfsmaður, hún hafi staðið sig afburðavel, verið skipulögð, vel menntuð og vel undir starfið búin. Vitnið kvað fjarri lagi að afköst deildarinnar hafi verið lítil eftir komu áfrýjanda þangað. Þá kannaðist vitnið ekki við að ríkislögreglustjóri hafi talið deildina óstarfhæfa. Hafi vitnið eingöngu heyrt þetta á lögreglustjóra, sem hafi að því er vitnið taldi, haft þetta eftir L í greiningardeild ríkislögreglustjóra. Fíkniefnadeildin hafi þvert á móti verið mjög vel starfhæf og taldi vitnið að óeiningin þar hafi verið minni en í mjög mörg ár. Hafi einhverjir starfsmenn farið til L undir það síðasta og nefndi vitnið þrjá þeirra sérstaklega, en þar á meðal hafi verið lögreglumaður sem síðar hafi hlotið fangelsisdóm vegna brots í starfi og annar, sem sótt hafi um starfið sem áfrýjandi fékk og vitnið hafi vitað að var ósáttur við að fá ekki sjálfur stöðuna. Enginn þessara manna hafi nokkurn tímann kvartað við vitnið undan áfrýjanda. Þá kvaðst vitnið aldrei hafa heyrt um kvartanir yfir áfrýjanda eða vitað nokkurn tímann af þeim. Um áramótin 2015 og 2016 hafi lögreglustjóri verið að tala um að það væri „lykill að einhverjum breytingum“, sem hún vildi koma fram, að færa áfrýjanda og hafi vitnið þá lýst miklum efasemdum um þetta tal sem lögreglustjóri sagðist hafa heyrt. Hafi vitnið bent lögreglustjóra á að þetta væri alveg haldlaust og bæri vitnið fullt traust til þessarar starfsemi og forystu og stjórnunar áfrýjanda, en þá hafi verið komin tæplega árs reynsla af störfum hennar þarna. Lögreglustjóri hafi ekki rætt þetta mikið við sig, en einhverjir fundir verið undir lok árs 2015, sem alls ekki hafi mátt upplýsa áfrýjanda um. Vitnið kvaðst hafa frétt eftir á að lögreglustjóri hafi boðið áfrýjanda að flytja sig til héraðssaksóknara. Þá hafi ákvörðunin 22. janúar 2016 um breytingar á starfi áfrýjanda aldrei verið borin undir vitnið. N, fyrrverandi yfirlögregluþjónn í miðlægri rannsóknardeild hjá embætti lögreglustjórans á […], kvaðst hafa komið að ráðningu áfrýjanda í starf aðstoðaryfirlögregluþjóns vorið 2014 og eftir það verið næsti yfirmaður hennar. Áfrýjandi hafi að mati vitnisins staðið sig með afbrigðum vel í starfi, verið skeleggur yfirmaður, með skýr markmið og skilvirk í stjórnun, góð í mannlegum samskiptum og haldið vel utan um alla hluti. Vitnið kannaðist ekki við að afköst deildarinnar hafi verið lítil meðan áfrýjandi var þar við stjórnvölinn og lögreglustjóri ekki borið slíkt undir vitnið. Þá hafi vitnið ekki kannast við að deildin hafi verið óstarfhæf, nema frá lögreglustjóra, sem haft hafi eftir einhverjum að greiningardeild ríkislögreglustjóra treysti deildinni ekki. Um kvartanir undan áfrýjanda sagði vitnið að það væru aldrei allir ánægðir, einhverjum hafi fundist fram hjá sér gengið eða eitthvað slíkt, eða ekki metnir að verðleikum, en það ekki verið meira en gengur og gerist. Spurður um hvort ágreiningur hafi verið á milli undirmanna áfrýjanda og hennar sagði vitnið að hann héldi að fyrst og fremst hafi verið svona einhver valdabarátta innan deildarinnar og menn skipst eiginlega í tvo hópa og hafi vitninu fundist sem áfrýjandi, eða hennar daglega stjórnun, drægist einhvern veginn inn í það. Hafi fyrst og fremst verið eitthvað annað þarna í gangi en aðfinnslur um hennar stjórnun. Hún hafi verið hlutlaus stjórnandi og reynt að taka á málum sem slíkur. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað af því að lögreglustjóri hefði boðið áfrýjanda að flytja sig til héraðssaksóknara fyrr en eftir á og heldur ekki af fundi hjá ríkislögreglustjóra viku fyrir fundinn 22. janúar 2016. Ákvörðun um breytingar á störfum áfrýjanda hafi ekki verið borin undir vitnið. Spurður um hvort vitnið hafi fengið einhverjar upplýsingar um hvaða rök hafi verið að baki ákvörðuninni svaraði hann bæði neitandi og játandi. Það hafi verið slegið úr og í, að því er vitninu fannst, hvaða ástæður lægju að baki. Ein ástæðan, sem nefnd var, hafi verið að greiningardeild ríkislögreglustjóra treysti ekki deildinni og þar með ekki áfrýjanda. Önnur að áfrýjandi ynni gegn lögreglustjóra og þriðja að tvær rannsóknir væru í gangi á hendur starfsmönnum deildarinnar. Vitnið kvað áfrýjanda ekkert hafa haft með þessar rannsóknir eða spillingarmál lögreglumanna að gera. Þá hafi vitnið ekki vitað betur en að áðurnefnt innleiðingarferli hafi verið í góðum gangi, launamál hafi verið í þeirri stöðu að ekki hafi verið komist lengra í þeim að svo stöddu, nema með auknu fjármagni, og húsnæðismálum þannig háttað að deildin hafi þurft að losa aðstöðuna á Rauðarárstíg og skila því húsnæði öllu til baka til að geta flutt yfir á Hverfisgötu. Hafi ætluð slæleg frammistaða áfrýjanda því ekkert haft með það að gera að innleiðingin hafi ekki gengið hraðar en raun bar vitni. Um samskipti milli áfrýjanda og lögreglustjóra mundi vitnið til þess að ef til vill hafi einu sinni slegið í brýnu milli þeirra og þær ekki verið sammála. Aðspurður um hvort eitthvað væri hæft í þeirri staðhæfingu áfrýjanda að lögreglustjóri hafi talað um að hún ætlaði að „reyna að fá einhverja kæru“ á áfrýjanda kvaðst vitnið hafa 13. janúar 2016 átt viðtal við lögreglustjóra og þá hafi komið upp að ríkissaksóknari og greiningardeild ríkislögreglustjóra treystu ekki deildinni eða áfrýjanda og hugsanlega væri verið að skoða mál áfrýjanda vegna einhvers konar hylmingar í tengslum við annað hvort málið sem til rannsóknar var vegna starfsmanna deildarinnar.  D, fyrrverandi aðallögfræðingur lögreglustjóra, kvaðst hafa verið reglulega í samskiptum við áfrýjanda og taldi samstarf þeirra hafa verið fínt. Mikill órói hafi verið í deild áfrýjanda og „stanslaus straumur starfsmanna“ að koma til sín og kvarta undan áfrýjanda. Innan deildar áfrýjanda hafi verið þrír hópar, einn þeirra hafi verið hlutlaus og aldrei heyrst í honum, annar sem fannst ástandið ekki gott og kvartaði yfir því og sá þriðji, sem áfrýjandi hafi tilheyrt. Vitnið kvað vinnu innleiðingarhóps, sem hún stýrði, vegna fyrirhugaða skipulagsbreytinga innan embættisins hafa gengið ágætlega, en þó misvel. Þá kvaðst vitnið hafa verið í svonefndri valnefnd. Vegna ástandsins í deild áfrýjanda, þar sem allt hafi logað og menn skipst í flokka, hafi hugsunin verið sú að reyna að fjarlægja hana frá nefndinni. Um aðdraganda að ákvörðuninni um að breyta starfsskyldum áfrýjanda kvað vitnið að spillingarmál hafi verið í gangi í deildinni, en áfrýjandi alltaf farið í vörn á fundum með lögreglustjóra og vitninu þegar verið var að ræða málefni deildarinnar. Mikil óánægja hafi verið meðal sumra starfsmanna í fíkniefnadeildinni með starfshætti áfrýjanda og mjög erfitt hafi verið að halda starfseminni þar gangandi. Til þess að koma einhverjum böndum á starfsemi deildarinnar hafi verið talið rétt að grípa til þeirrar tímabundnu lausnar að gera breytingar á starfsskyldum áfrýjanda. Hafi það verið skoðun vitnisins á þessum tíma að áfrýjandi „væri bara ekki alveg að ráða við starfið.“ P, settur lögreglufulltrúi við embætti lögreglustjórans á […], kvaðst hafa verið rannsóknarlögreglumaður á þeim tíma sem mál þetta tekur til. Hann kvað sér ekki hafa fundist áfrýjandi sérstaklega góður yfirmaður, en hún hafi nánast aldrei talað við sig, nema ef til vill um einstök mál eftir að hann var orðinn fulltrúi. Hún hafi verið þurr á manninn og köld og trúlega átt í erfiðleikum með mannleg samskipti. Menn hafi skipst í tvær fylkingar í deildinni og áfrýjandi tekið afstöðu með annarri þeirra. Hafi einir sex menn úr deildinni farið og talað við yfirstjórnina og einhverjir leitað til stéttarfélags síns og lýst áhyggjum sínum af ástandinu, en ekki borið fram formlega kvörtun. Vitnið kvaðst á sínum tíma hafa sótt um sama starf aðstoðaryfirlögregluþjóns og áfrýjandi gerði, en ekki fundist fram hjá sér gengið þegar áfrýjandi hlaut það. Vitnið kvaðst aldrei hafa rætt óánægju sína í starfi við áfrýjanda og aldrei beðið um flutning. Hún hafi einu sinni rætt við sig og spurt hvort eitthvað væri að. Vitnið hafi svarað því neitandi og sagt að hann myndi sjálfsagt sækja um flutning ef hann væri mjög óánægður. R, lögreglufulltrúi hjá sama embætti, sagðist ekki hafa orðið var við breytingar í fíkniefnadeildinni þegar áfrýjandi kom þar til starfa. Hann hafi sótt um það starf sem áfrýjandi fékk, en alls ekki verið ósáttur við það. Vitnið kvaðst hafa upplifað stjórnunarhætti áfrýjanda frá fyrsta degi á þann hátt að hún væri hrokafull, kynni ekki mannleg samskipti og væri hrædd um að einhver skyggði á sig og það birst í framkomu hennar. Hafi hún látið alla vita að hún væri yfirmaðurinn og „gróf undan svona öryggistilfinningu starfsmanna“ þannig að þeir, þar á meðal vitnið, hafi kviðið fyrir að mæta til vinnu. Vitnið kvaðst hafa verið jafnsettur öðrum nafngreindum lögreglumanni, en fundist sér ýtt til hliðar með því að áfrýjandi hafi fundað með honum og fleiri mönnum sem henni hafi verið þóknanlegir og oftar en ekki hafi vitninu verið haldið utan við ákvörðunartökur. Vitnið mundi ekki til þess að hafa rætt þetta við áfrýjanda og heldur ekki N, næsta yfirmann áfrýjanda, og heldur ekki beðið um flutning. L, aðstoðaryfirlögregluþjónn og deildarstjóri greiningardeildar ríkislögreglustjóra, kvaðst á þeim tíma er mál þetta varðar hafa verið í töluverðum samskiptum við nokkra starfsmenn í deild þeirri sem áfrýjandi starfaði í, sem og lögreglustjóra. Vitnið, sem kvaðst hafa verið stjórnandi fíkniefnadeildarinnar í tíu ár og þekkt flesta starfsmenn hennar, hafi ekki þekkt stjórnunarhætti áfrýjanda, en fundist á þeim starfsmönnum sem hann ræddi við að þeir hafi ekki verið góðir. Hafi áfrýjandi virst taka lítið tillit til þess sem menn sögðu og ekki hafa mikla þekkingu á þeim málum sem heyrðu undir fíkniefnadeildina. Ekki hafi farið milli mála að mikil óeining hafi verið í deildinni, hún skipst í tvo hópa, og heldur ekki að áfrýjandi hafi átt sinn þátt í því. Ekki hafi ríkt fullt traust til deildarinnar af hálfu ríkislögreglustjóraembættisins, en það hafi „kannski“ ekki verið út af „stjórnanda deildarinnar“ heldur því að á þessum tíma hafi verið að koma upplýsingar til greiningardeildarinnar um að það væri ákveðinn leki frá fíkniefnadeildinni „þannig að það var þess vegna sem að það ríkti kannski ekki fullkomið traust.“ S, sem gegndi starfi aðstoðaryfirlögregluþjóns í fíkniefnadeildinni frá árinu 2007 til ársins 2014, kvað oft hafa reynt á færni sína og hæfni í stjórnun við að halda mönnum til góðra verka og hafi það gengið mjög vel. Þó hafi verið þar flokkadrættir, menn hafi skipst í tvo flokka og vandamál tengst þeim báðum. Þá staðfesti vitnið að hafa í janúar 2012 unnið „greinargerð“ til yfirstjórnar lögreglustjóraembættisins vegna ávirðinga sem bornar höfðu verið á lögreglumann í deildinni af samstarfmönnum hans, annan þeirra lögreglumanna sem sætti rannsókn í árslok 2015. Hafi niðurstaða vitnisins verið á þá leið að enginn fótur hafi verið fyrir þessum ásökunum. Eftir að vitnið skipti um starf hafi hluti af starfsmönnum deildarinnar farið að hafa samband við sig og sagt að þeim væri farið að líða illa í starfi vegna þess að þeim fyndist þeir vera útundan og ekki hlustað á þá og þeirra sjónarmið. Hafi þessir menn verið mjög ósáttir, en vitnið ekki viljað skipta sér mikið af þessu. Talsvert seinna hafi lögreglustjóri haft samband við sig og spurt hvort tilteknir menn, sem unnið höfðu með vitninu í talsverðan tíma, væru „alveg vita vonlausir“ rannsóknarlögreglumenn. Hafi þetta komið flatt upp á vitnið vegna þess að þarna hafi meðal annars verið lögreglumenn sem hafi fengið sérstakt hrós fyrir mjög góð störf og væru að mati vitnisins mjög færir og góðir rannsóknarlögreglumenn. 9 Í málinu liggja fyrir tvö læknisvottorð um óvinnufærni áfrýjanda. Hið fyrra er frá 9. febrúar 2016, þar sem fram kom að hún hafi verið undir miklu álagi og komið til mats og meðferðar á Heilsustofnun […] á tímabilinu frá 26. Janúar til 9. febrúar 2016. Síðara vottorðið er dagsett 10. maí 2016, en þar sagði að áfrýjandi hafi verið á stofnuninni frá 29. mars til 26. apríl sama ár. Hún hafi verið óvinnufær við útskrift og yrði það áfram næsta mánuð. Samkvæmt vottorði F […] 3. ágúst 2016, sem vitnið staðfesti fyrir dómi, framkvæmdi hún greiningu á áfrýjanda „með tilliti til andlegra afleiðinga ákvörðunar Lögreglustjórans á […] um að breyta störfum hennar sem var kynnt henni á fundi 22. janúar 2016.“ Sagði í vottorðinu að í kjölfar fundarins […]. Í vottorði G, […], sem er hjúkrunarfræðingur og félagsráðgjafi að mennt, 11. janúar 2017, og hún staðfesti fyrir dómi, kom meðal annars fram að áfrýjandi hafi frá upphafi komið sér fyrir sem einstaklega skýr kona […]. Hafi saga hennar borið vitni um metnaðargjarna, vel menntaða konu með sterka réttlætiskennd, sem unnið hafi starf sitt af miklum heilindum. Hún hafi gefið góða og skýra sögu og skynsama greiningu og innsýn í það sem hún hefði orðið fyrir. Við innritun hafi áfrýjandi lýst […]. Áfrýjandi hafi komið aftur á stofnunina í apríl 2016, þar sem hún hafi einbeitt sér að því að tileinka sér tækni núvitundar til að takast á við […]  Hafi hún lýst betri líðan og verið að vinna markvisst að því að vinna úr áfallinu sem hún hafi orðið fyrir. 10 Áfrýjandi óskaði 25. nóvember 2016 eftir að sér yrði veitt launalaust leyfi og með tölvubréfi 13. desember sama ár veitti lögreglustjórinn á […] slíkt leyfi í eitt ár frá 15. sama mánaðar að telja. Með bréfi lögreglustjórans á […] 20. desember 2017 var vísað til áðurnefnds tölvubréfs embættisins til áfrýjanda frá 13. desember 2016. Sagði í fyrrnefnda bréfinu að gert hefði verið ráð fyrir að áfrýjandi kæmi aftur til starfa 15. desember 2017, en ekki fengist upplýsingar frá henni um það, þrátt fyrir fyrirspurn þar um. Bent var á 16. gr. laga nr. 70/1996 um skyldu starfsmanna til að koma stundvíslega til starfa, nema ef um væri að ræða gild forföll eða leyfi starfsmanns, en ekki hafi borist upplýsingar um slíkt. Með hliðsjón af þessu var skorað á áfrýjanda að koma til starfa og farið fram á upplýsingar frá henni um framangreint eigi síðar en 29. desember 2017. Í svarbréfi áfrýjanda 29. desember 2017 sagði að eins og lögreglustjóri þekkti hafi áfrýjandi höfðað mál á hendur íslenska ríkinu. Í stefnu væri gerð ítarleg grein fyrir því hvernig hún liti á málið og þeirri afstöðu hennar að í ákvörðun lögreglustjóra 22. janúar 2016 um breytingu á starfsskyldum hennar hafi falist fyrirvaralaus brottvikning úr starfi. Þá vekti athygli að ekkert kæmi fram í erindi embættisins til hvaða starfa ætlast væri til að áfrýjandi sneri og þá væri markmið bréfsins lítt skiljanlegt að öðru leyti. Síðastgreindu bréfi svaraði lögreglustjóri með bréfi 24. janúar 2018. Þar sagði meðal annars að áfrýjandi væri skipuð í embætti aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá þeim hluta rannsóknardeildar, þar sem rannsökuð væri alvarleg og skipulögð brotastarfsemi. Meðan á leyfi áfrýjanda hafi staðið hafi tekið gildi breytt skipulag hjá rannsóknardeildinni. Þar væri nú gert ráð fyrir tveimur stöðum aðstoðaryfirlögregluþjóna og væri önnur þeirra ætluð áfrýjanda. Ekki hafi verið sett í stöðuna haustið 2017, þar sem leyfi áfrýjanda hafi þá verið langt komið. Gert hafi verið ráð fyrir að hún myndi gegna áfram stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns við deildina þegar hún sneri til starfa að loknu leyfi. Af þeim sökum væri nauðsynlegt fyrir embættið að skýrt yrði hvað áfrýjandi hygðist gera. Sú almenna regla væri hjá embættinu að lögreglumenn fengju ekki lengra leyfi í senn en til eins árs, en þar sem áfrýjandi hafi höfðað mál á hendur embættinu, sem enn væri til meðferðar hjá dómstólum, væri það reiðubúið að framlengja launalaust leyfi áfrýjanda þar til endanleg niðurstaða lægi fyrir, óskaði áfrýjandi þess, en þó eigi lengur en til hálfs árs í senn, svo unnt væri að setja í afleysingar í stöðu áfrýjanda. Áfrýjandi svaraði þessu bréfi 31. janúar 2018. Áréttaði hún þar þá afstöðu sína að fyrrgreind ákvörðun lögreglustjóra 22. janúar 2016 hafi falið í sér fyrirvaralausa brottvikningu, en þar sem Hæstiréttur ætti enn eftir að kveða upp dóm í máli hennar teldi hún ekki tímabært að taka afstöðu til þeirra atriða sem fyrirspurn lögreglustjóra lyti að. Í svarbréfi lögreglustjóra 21. mars 2018 kom meðal annars fram að í ljósi fyrrgreindra bréfa áfrýjanda liti embættið svo á að hún yrði í launalausu leyfi fram að þeim tíma er dómur Hæstaréttar félli. III Í áfrýjunarstefnu hafði áfrýjandi ekki uppi kröfu um ógildingu ákvörðunar lögreglustjórans á […] 22. janúar 2016 um breytingu á starfsskyldum áfrýjanda. Með því að stefndi hefur ekki haft uppi andmæli gegn kröfunni kemst hún að í málinu, sbr. 1. mgr. 111. gr. og 190. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Auk fyrrnefndrar kröfu hefur áfrýjandi uppi í einu lagi annars vegar kröfu um miskabætur að fjárhæð 2.000.000 krónur og hins vegar fjártjón að fjárhæð 366.720 krónur, sem hún hafi orðið fyrir í beinu framhaldi af áðurnefndri ákvörðun. Til stuðnings þeirri kröfu hefur áfrýjanda lagt fram tvo reikninga vegna dvalar sinnar á Heilsustofnun […], hinn fyrri vegna tímabilsins frá 26. janúar til 9. febrúar 2016, að fjárhæð 158.900 krónur, og þann síðari fyrir tímabilið frá 29. mars til 26. apríl sama ár, að fjárhæð 207.820 krónur. Eru þau rök færð fram fyrir kröfunni að dvölin hafi verið að læknisráði vegna þess áfalls sem áfrýjandi hafi orðið fyrir vegna umræddrar ákvörðunar. Enn fremur gerir áfrýjandi kröfu um bætur fyrir fjártjón að fjárhæð 126.366.752 krónur vegna mismunar á framtíðarverðmæti launa, eftirlaunaréttinda og hlunninda á milli núverandi starfs áfrýjanda og starfs síns hjá embætti lögreglustjórans á […]. Síðastnefnda krafan er reist á því að í umræddri ákvörðun lögreglustjóra hafi falist dulbúin brottvikning úr starfi. Á það verður ekki fallist, enda var ákvörðunin tímabundin og enn er í gildi ráðningarsamband milli áfrýjanda og embættis lögreglustjórans á […] samkvæmt yfirlýsingum embættisins þar að lútandi í bréfum til áfrýjanda í desember 2017 og janúar og mars 2018, sem gerð er grein fyrir að framan. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa af sjálfsdáðum frá héraðsdómi framangreindri fjárkröfu, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Við úrlausn á þeim kröfum áfrýjanda, sem eftir standa, liggur fyrir að taka afstöðu til þess hvort hin umdeilda ákvörðun lögreglustjórans á […], þar sem gerð var tímabundin breyting á starfi hennar, hafi verið ólögmæt í skilningi 19. gr. laga nr. 70/1996 og áfrýjandi eigi af þeim sökum rétt til miskabóta, svo og bóta vegna fjárhagslegs tjóns að fjárhæð 366.720 krónur. Auk fjárkrafna hefur áfrýjandi uppi kröfu um ógildingu fyrrnefndrar ákvörðunar um breytingu á starfsskyldum sínum. Er þess þá að gæta að umrædd breyting var sem fyrr segir tímabundin og hefur nú runnið skeið sitt á enda. Þá kom fram í bréfi lögreglustjóra 24. janúar 2018 að gert væri ráð fyrir að áfrýjandi myndi gegna áfram stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns við deildina þegar hún sneri til starfa að loknu leyfi. Að teknu tilliti til þess, sem og að í ógildingarkröfu áfrýjanda felst heldur ekki, eins og hún er orðuð, að viðurkenndur verði ákveðinn réttur henni til handa umfram það sem felst í fjárkröfum, verður ekki talið að áfrýjandi hafi lögvarða hagsmuni af því að jafnframt verði viðurkennt með dómi ógildi þessarar ákvörðunar. Ber því að vísa ógildingarkröfunni sjálfkrafa frá héraðsdómi. Eftir stendur því að taka afstöðu til kröfu áfrýjanda um miskabætur og kröfu hennar að fjárhæð 366.720 krónur vegna fjárhagslegs tjóns. IV Af hálfu stefnda er því haldið fram að meginástæðan fyrir ákvörðun lögreglustjórans á […] um að breyta starfsskyldum áfrýjanda hafi verið að þætti hennar í áðurnefndu innleiðingarverkefni hafi ekki verið lokið og að henni sóst verkefnið illa. Þá hafi óróa gætt innan deildar áfrýjanda, starfsemin liðið fyrir það og stjórnun deildarinnar verið með þeim hætti að áfrýjandi hafi ekki náð tökum á henni. Með umræddri ákvörðun hafi áfrýjanda því verið veitt svigrúm til að ljúka þeirri vinnu sem henni bar að sinna við innleiðingu nýs skipulag og snúa síðan til baka í síðasta lagi að loknum sex mánuðum. Ráðið verður af gögnum málsins að einhverjir flokkadrættir og óeining hafi á þeim tíma sem mál þetta varðar viðgengist í þeirri deild, sem áfrýjandi var yfirmaður í. Kom fram í vætti D, fyrrverandi aðallögfræðings hjá embætti lögreglustjórans […], að innan deildarinnar hafi menn skipst í þrjá hópa. Einn hópurinn hafi verið hlutlaus og aldrei heyrst í honum, annar hópurinn hafi ekki talið ástandið gott þar og þriðji hópurinn verið sá sem áfrýjandi hafi tilheyrt og þar af leiðindi sá hópur starfsmannanna sem var ánægður með störf áfrýjanda. Áfrýjandi heldur því fram að samskiptavandi milli hennar og lögreglustjórans hafi komið upp á vormánuðum 2015. Verður helst ráðið af gögnum málsins að þegar ásakanir nokkurra lögreglumanna í þeirri deild, sem áfrýjandi var yfirmaður í, á hendur samstarfsmanni sínum um brot í starfi komu upp að nýju um mitt ár 2015, en áfrýjandi ekki tekið undir þær, heldur þvert á móti borið fullt traust til þessa manns, hafi einhvers konar órói eða undiralda aukist í deildinni. Þá er fram komið í málinu að tilteknir lögreglumenn í deildinni kvörtuðu yfir áfrýjanda við lögreglustjórann og deildarstjóra hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra, en ekki næstu yfirmenn áfrýjanda, N yfirlögregluþjón og M, yfirmann rannsóknar- og ákærusviðs. Má ráða af gögnum málsins að þar hafi verið um að ræða sömu menn og báru samstarfsmann sinn áðurnefndum sökum. Þá er upplýst í málinu að starfsmennirnir ræddu umkvartanir sínar ekki við áfrýjanda sjálfa og jafnframt að lögreglustjóri gerði það ekki heldur. Misjöfnum sögum fer af því hve mikil áhrif þessi staða mála í deildinni hafi haft á starfsemi hennar. Vitnið N, næsti yfirmaður áfrýjanda, kvað hana hafa staðið sig með afbrigðum vel í starfi, hún verið skeleggur yfirmaður, með skýr markmið og skilvirk í stjórnun, góð í mannlegum samskiptum og haldið vel utan um alla hluti. Um kvartanir undan áfrýjanda kvað vitnið að einhverjum starfsmanna hafi fundist fram hjá sér gengið eða þeir ekki verið metnir að verðleikum, en það ekki verið meira en gengur og gerist. Fyrst og fremst hafi verið um að ræða einhvers konar valdabarátta innan deildarinnar, þar sem menn hafi skipst í tvo hópa, og vitninu fundist sem áfrýjandi, eða hennar daglega stjórnun, drægist einhvern veginn inn í það. Hafi áfrýjandi verið hlutlaus stjórnandi og reynt að taka á málum sem slíkur. Á sama veg bar vitnið M, þar næsti yfirmaður áfrýjanda, en hann kvað áfrýjanda hafa verið afburðastarfsmann, hún hafi staðið sig afburðavel, verið vel skipulögð, vel menntuð og vel undir starfið búin. Sagði hann fíkniefnadeildina hafa verið mjög vel starfhæfa og taldi að óeiningin þar hafi verið minni en í mjög mörg ár. Þá kvaðst vitnið aldrei hafa heyrt um kvartanir yfir áfrýjanda eða vitað nokkurn tímann af þeim. Á hinn bóginn kvað lögreglustjóri að áfrýjandi hafi ekki áttað sig á hinu alvarlega ástandi, sem ríkti í deildinni vegna spillingarmála, þar sem tvö mál lögreglumanna hafi verið til rannsóknar. Þá hafi áfrýjandi verið í algjörri afneitun á að hún réði ekki í senn við stjórn deildar sinnar og setu í fyrrnefndum innleiðingarhópi, en vinnu í honum lauk ekki fyrr en í apríl 2017. Undir þetta tók áðurnefnd D, sem kvað áfrýjanda „ekki alveg“ hafa verið að ráða við starfið. Fyrir liggur í málinu að áfrýjandi var 14. desember 2015 boðuð á fund lögreglustjóra degi síðar, þar sem rædd var sú tillaga hins síðarnefnda að áfrýjandi flytti sig í starfi til héraðssaksóknara og jafnframt að hún hafi hafnað þeirri tillögu. Verður tillagan ekki skilin á annan veg en þann að leysa hafi átt það ástand, sem lögreglustjóri taldi hafa skapast í deild áfrýjanda, með því að gefa henni kost á flutningi þaðan og jafnframt að hin fyrrnefnda hafi þá þegar verið búin að móta afstöðu sína í málinu. Voru þá aðeins liðnir um fimm mánuðir, að sumarleyfistíma meðtöldum, frá því lögreglustjórinn fól áfrýjanda að taka við stjórnun bæði rannsóknardeildar fíkniefnamála og skipulagðrar brotastarfsemi og rannsóknardeild fjármunabrota, sem þá höfðu verið sameinaðar, og ábyrgð áfrýjanda þar með verið aukin. Það næsta sem gerðist var að lögreglustjóri vék áfrýjanda 18. janúar 2016 úr svonefndri valnefnd og boðaði hana sama dag til fundar tveimur dögum síðar, sem frestaðist til 22. sama mánaðar. Í fundarboði kom fram að tilefni fundarins væri að „ræða fyrirhugaðar breytingar“ á verkefnum áfrýjanda. Í millitíðinni hafði áfrýjandi átt fund 15. janúar 2016 með innanríkisráðherra, sem lögreglustjóri frétti af samdægurs. Á fundinum 22. janúar 2016 voru hinar fyrirhuguðu breytingar ekkert ræddar, heldur afhenti lögreglustjóri þar bréf, þar sem áfrýjanda var tilkynnt um framangreinda ákvörðun. V Ákvörðun lögreglustjóra var reist á 19. gr. laga nr. 70/1996. Samkvæmt ákvæðinu er starfsmanni skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi. Ótvírætt er að forstöðumaður ríkisstofnunar hefur heimild til að breyta störfum og verksviði ríkisstarfsmanns og er það komið undir mati hans hvort tilefni sé til slíkra breytinga, en þær verða þó að vera reistar á málefnalegum sjónarmiðum og mega ekki vera meira íþyngjandi fyrir starfsmann en nauðsyn ber til, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 4. maí 2005 í máli nr. 475/2004. Sönnunarbyrði um að gætt hafi verið málefnalegra sjónarmiða við töku ákvörðunar þeirrar, sem málið snýst um, hvílir á stefnda. Engin skjalleg samtímagögn, svo sem fundargerðir eða minnisblöð, liggja fyrir í málinu um gang mála við vinnu áðurnefnds innleiðingarhóps. Hefur stefndi ekki sýnt fram á að áfrýjandi, sem átti sæti í hópnum fyrir hönd þeirrar deildar er hún gegndi yfirmannsstöðu í, hafi ekki sinnt vinnu sinni þar sem skyldi. Þá hefur stefndi engan veginn fært sönnur á að áfrýjandi hafi ekki haft tök á stjórnun deildar þeirrar, er hún var yfirmaður í. Er sú fullyrðing raunar í brýnni andstöðu við fyrrgreint mat tveggja næstu yfirmanna áfrýjanda á störfum hennar, svo sem rakið er að framan. Þá getur áfrýjandi ekki borið ábyrgð á einhvers konar óróa innan deildarinnar, sem skapast hafi vegna þess að hún treysti þeim lögreglumanni, sem nokkrir samstarfsmenn hans sökuðu öðru sinni ranglega um spillingu, en hann var um mitt ár 2016 hreinsaður af öllum ásökunum eftir ítarlega rannsókn, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 816/2017, sem kveðinn er upp samhliða dómi í máli þessu. Hið sama gildir um óánægju nokkurra starfsmanna með störf áfrýjanda og framkomu hennar í sinn garð, sem áfrýjanda virðist hafa verið ókunnugt um. Samkvæmt framansögðu var ákvörðun lögreglustjórans á […] ekki reist á málefnalegum sjónarmiðum, sem er skilyrði lögmæti ákvörðunar eftir 19. gr. laga nr. 70/1996. Enda þótt launakjör áfrýjanda hafi ekki verið skert með ákvörðuninni og hún verið tímabundin var hún meira íþyngjandi fyrir áfrýjanda en nauðsyn bar til, þar sem í henni fólst að áfrýjandi var færð úr því starfi, sem hún var skipuð í, og sett í hliðarverkefni, sem hún hafði áður sinnt meðfram aðalstarfi sínu. Braut ákvörðunin því í bága við fyrrgreint lagaákvæði. VI Áfrýjandi hefur uppi kröfu í einu lagi, þar sem krafist er annars vegar miskabóta að fjárhæð 2.000.000 krónur og hins vegar 366.720 króna í bætur fyrir fjártjón. Við töku framangreindrar ákvörðunar mátti lögreglustjóranum á […] vera ljóst að hún var til þess fallin að vera meiðandi fyrir áfrýjanda, sem í áranna rás hafði unnið sig til metorða innan lögreglunnar, eins og lýst er að framan, og verið falin aukin ábyrgð fáeinum mánuðum áður en ákvörðunin var tekin. Vó ákvörðunin því að æru áfrýjanda og persónu. Af þessum sökum er fullnægt skilyrðum b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til að dæma áfrýjanda miskabætur úr hendi stefnda. Ljóst er að ákvörðunin hafði mikil áhrif á áfrýjanda, svo sem áður er lýst. Að þessu virtu eru miskabætur ákveðnar 1.500.000 krónur. Þá var innlagning áfrýjanda á Heilsustofnun […] bein afleiðing af hinni ólögmætu ákvörðun og verður fjárkrafa áfrýjanda vegna dvalar þar, samtals 366.720 krónur, því einnig tekin til greina. Loks dæmast vextir eins og krafist er, en upphafstíma þeirra hefur ekki verið sérstaklega mótmælt. Eftir úrslitum málsins verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorð greinir. Dómsorð: Kröfu áfrýjanda, A, um að ákvörðun lögreglustjórans á […] 22. janúar 2016, um breytingu á starfsskyldum áfrýjanda, verði ógilt, og kröfu hennar um að stefndi, íslenska ríkið, greiði sér 126.366.752 krónur, ásamt nánar tilgreindum vöxtum, er vísað frá héraðsdómi. Stefndi greiði áfrýjanda 1.866.720 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.500.000 krónum frá 22. janúar 2016 til 26. sama mánaðar, af 1.658.900 krónum frá þeim degi til 29. mars 2016 og af 1.866.720 krónum frá þeim degi til 20. júlí 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi greiði áfrýjanda samtals 2.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2017. I Mál þetta var höfðað af A, […], á hendur íslenska ríkinu, með stefnu áritaðri um birtingu 20. júlí 2016 og framhaldsstefnu áritaðri um birtingu 17. febrúar 2017. Málið var upphaflega dómtekið 28. september sl. en endurflutt og dómtekið að nýju 1. desember sl.  Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur í stefnu: Að ógilt verði ákvörðun lögreglustjórans á […] frá 22. janúar 2016 um breytingu á starfsskyldu stefnanda. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.366.720 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 2.000.000 króna frá 22. janúar 2016 til 26. janúar 2016, af 2.158.900 krónum frá þeim degi til 29. mars 2016, af 2.366.720 krónum frá þeim degi til stefnubirtingardags en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 2.366.720 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 126.366.752 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. október 2016 til þingfestingardags, 21. febrúar 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda. Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda en til vara að hann verði látinn falla niður. Með úrskurði dómsins, uppkveðnum 27. júní 2017, var hafnað kröfu stefnda um frávísun á kröfum stefnanda í framhaldssök. II Helstu málsatvik eru þau að stefnandi var skipuð aðstoðaryfirlögregluþjónn við embætti lögreglustjórans á […] með skipunarbréfi, dagsettu 29. apríl 2015, en hafði árið áður verið sett til eins árs í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns og yfirmanns R-2, rannsóknardeildar fíkniefnamála og skipulagðrar brotastarfsemi. Sumarið 2015 ákvað lögreglustjórinn á […] að gera skipulagsbreytingar í kjölfar skýrslu svonefnds umbótahóps. Meðal annars voru rannsóknardeild fjármunabrota og deild R-2 sameinaðar og átti stefnandi að fara með stjórn hinnar nýju deildar. Í kjölfar breytinganna hinn 1. september 2015 tók til starfa innleiðingarhópur sem falið var að vinna að innleiðingu breytinganna. Stefnandi átti sæti í innleiðingarhópnum. Í stefnu er rakið að komið hafi upp samskiptavandi innan embættis lögreglustjórans á […] sem m.a. hafi varðað samskipti lögreglustjóra og stefnanda allt frá vormánuðum 2015. Því er lýst í greinargerð stefnda að risið hafi deilur innan deildarinnar, sem stefnandi stýrði, og að tveir starfsmenn deildarinnar hafi sætt rannsókn vegna gruns um spillingu í starfi. Með tölvupósti 14. desember 2016 boðaði B, lögreglustjóri á […], stefnanda til fundar á hádegi daginn eftir. Stefnandi óskaði eftir því að fá að vita hvert efni fundarins væri en því svaraði lögreglustjóri á þann veg að það yrði rætt daginn eftir. Af skýrslum stefnanda og lögreglustjóra fyrir dómi verður ráðið að á fundinum hafi verið rætt um stöðu mála í deild stefnanda. Þá ræddi lögreglustjóri um möguleika á flutningi stefnanda í starf hjá héraðssaksóknara. Í upphafi árs 2016 óskaði stefnandi eftir fundi með innanríkisráðherra vegna málefna embættisins og fór fundurinn fram 15. janúar 2016. Mun stefnandi þá hafa kvartað yfir því umhverfi sem hún og samstarfsmenn hennar byggju við í starfi, auk þess sem hún hafi rætt um samskiptavanda og samstarfsörðugleika innan embættisins. Hinn 18. janúar 2016 tilkynnti lögreglustjóri stefnanda í tölvupósti ákvörðun sína um að breyta skipan valnefndar fyrir lögreglufulltrúa í miðlægri deild og fela C sæti í hópnum í stað stefnanda. Ástand í fíkniefnadeildinni var í tölvupóstinum tilgreint sem ástæða ákvörðunarinnar. Með tölvupósti lögreglustjóra til stefnanda, D, þáverandi aðallögfræðings embættisins, og E, dagsettum 18. janúar 2016, var boðað til fundar 20. sama mánaðar kl. 8.30. Þar kemur jafnframt fram að tilefni fundarins sé að ræða fyrirhugaða breytingu á verkefnum núverandi stjórnanda í miðlægri rannsóknardeild. Þá segir í tölvupóstinum að ef óskað sé eftir því að trúnaðarmaður eða fulltrú LL eða LR sé viðstaddur, sé það sjálfsagt og eðlilegt. Fyrir liggur að fundurinn fór fram 22. janúar 2016 og að þá tilkynnti lögreglustjóri stefnanda um þá ákvörðun sína að breyta starfsskyldum hennar og afhenti henni bréf þess efnis. Í bréfi lögreglustjórans til stefnanda, sem dagsett er 25. janúar 2016, segir að frá og með 25. janúar 2016 til og með 24. júlí sama ár, eða þar til annað verði ákveðið, verði störfum stefnanda og verksviði breytt þannig að hún muni tímabundið taka við verkefni sem felist í skipulagningu á hinni nýju rannsóknardeild lögreglustjórans á […] sem taka muni til starfa á vormánuðum í samræmi við hugmyndir og vinnu innleiðingarhóps sem stefnandi eigi sæti í. Þá er tekið fram að verkefnið verði unnið á skrifstofu lögreglustjóra undir stjórn aðallögfræðings embættisins en á meðan verði stjórn miðlægrar deildar um skipulagða brotastarfsemi falin öðrum stjórnanda. Þá er vísað til þess að breytingarnar séu gerðar með vísan til skipunarbréfs stefnanda, dagsetts 29. apríl 2015, og 19. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Tekið er fram að breytingarnar skerði hvorki launakjör né réttindi starfsmannsins. Loks er athygli vakin á því að stefnandi geti óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi, dagsettu 25. janúar 2016, óskaði stefnandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun lögreglustjórans og krafðist þess jafnframt að viðurkennd yrði bótaskylda vegna hennar, enda væri í raun um að ræða illa dulbúna og fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi. Í bréfinu er vísað til þess að ákvörðunin hafi svipt stefnanda öllum mannaforráðum, auk þess sem stefnanda hafi verið ætlað að vinna tiltekið tímabundið verkefni sem þegar hefði verið unnið að um skeið og muni í öllum aðalatriðum vera lokið. Þá felist í ákvörðuninni að næsti yfirmaður stefnanda verði starfsmaður embættisins sem hafi hvorki lögregluvald né stöðu samkvæmt lögreglulögum nr. 90/1996. Allt sé þetta lítilsvirðandi en stefnandi mótmæli tengingu við spillingarmál sem getið sé í ákvörðuninni. Með ákvörðuninni hafi verið brotið á stefnanda með ólögmætum og saknæmum hætti. Loks er í bréfinu tekið fram að stefnandi muni ekki koma aftur til starfa hjá embættinu. Hún hafi orðið fyrir alvarlegu áfalli og miska vegna framgöngu lögreglustjóra og sætti sig ekki við þá auknu niðurlægingu sem óhjákvæmilega myndi leiða af breyttum störfum sem henni væru ætluð hjá embættinu.  Rökstuðningur lögreglustjórans var settur fram í bréfi til stefnanda, dagsettu 5. febrúar 2016. Þar er vísað til þess að embættið leggi áherslu á innleiðingarverkefni, sem stefnandi hafi tekið þátt í, en vegna anna og álags stefnanda við stjórn deildar um skipulagða brotastarfsemi vegna mála sem risið hafi innan deildarinnar, hafi verið ákveðið að setja utanaðkomandi stjórnanda til að stjórna deildinni tímabundið. Þá er þar sérstaklega vísað til ætlaðra brota starfsmanna í deild stefnanda og aðkomu stefnanda að málefnum þeirra. Loks er um heimild til breytingarinnar vísað til 19. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Af hálfu stefnanda var rökstuðningi lögreglustjóra mótmælt í bréfi, dagsettu 23. febrúar 2016, og m.a. vísað til þess að á stefnanda sé borin vanræksla í starfi og því beri að fara með mál hennar samkvæmt 26. gr. laga nr. 70/1996. Að auki er þess getið að í stað stefnanda hafi verið settur karlmaður sem sé lægri í tign og með mun minni reynslu en stefnandi. Lögreglustjóri svaraði bréfi stefnanda með bréfi, dagsettu 22. mars 2016, þar sem hnykkt er á fyrri rökstuðningi og því síðan lýst hvernig bæst hefðu á stefnanda verkefni tengd skipulagsbreytingum. Í málinu liggja fyrir ýmis gögn sem varða heilsufar stefnanda eftir að hún fór í sjúkraleyfi. Samkvæmt læknisvottorði, dagsettu 9. febrúar 2016, var stefnandi til mats og meðferðar á Heilsustofnun […] frá 26. janúar til 9. febrúar það ár. Þá liggur fyrir að stefnandi var til endurhæfingar á stofnuninni frá 29. mars til 26. apríl sama ár. Stefnandi var þá talin verða óvinnufær a.m.k. næsta mánuð. Í vottorði F sálfræðings, dagsettu 3. ágúst 2016, kemur fram að í kjölfar fundarins 22. janúar 2016 hafi stefnandi fundið fyrir […]. Framlagt læknisvottorð læknis Heilsustofnunar […], dagsett 8. september 2016, og bréf G, […], dagsett 11. janúar 2017, er í aðalatriðum á sama veg um heilsufar stefnanda og meðferð hennar hjá stofnuninni. Fyrir liggur að hinn 13. desember 2016 var samþykkt beiðni stefnanda um ársleyfi frá störfum og henni veitt ársleyfi frá 15. desember 2016 til 15. desember 2017. Í framhaldsstefnu er því lýst að frá því að umþrætt ákvörðun hafi verið tekin hafi stefnandi verið óvinnufær vegna veikinda sem hafi verið afleiðing ákvörðunarinnar og undanfara hennar. Stefndi hafi greitt stefnanda laun í veikindum hennar allt fram til 20. október 2016 en frá þeim degi og til 15. desember 2016 hefði stefnandi þegið sjúkradagpeninga frá Landssambandi lögreglumanna. Stefnandi hafi tekið til starfa hjá Vinnumálastofnun síðastnefndan dag en þar njóti hún lægri launa og þá séu eftirlaunaréttindi hennar lakari en áður. Um þetta nýtur við gagna í málinu. III Stefnandi byggir kröfu sína um að ógilt verði ákvörðun lögreglustjórans á […] frá 22. janúar 2016 á því að hún hafi verið ólögmæt. Við töku ákvörðunarinnar hafi lögreglustjórinn brotið gegn 26. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Stefnandi vísar til þess að stefndi sé ríkisstofnun og stefnandi sé embættismaður sem njóti réttarverndar samkvæmt ákvæðum laganna. Stefnandi byggir á því að samkvæmt rökstuðningi stefnda, dagsettum 5. febrúar 2016, sé ljóst að ákvörðun um breytingu á störfum stefnanda hafi í raun byggst á tilhæfulausum ásökunum á hendur stefnanda um vanrækslu í starfi. Því hafi stefnandi átt rétt á að um mál hennar færi samkvæmt ákvæðum 26. gr. laga nr. 70/1996. Stefnda sé ekki tækt að komast hjá umræddu ákvæði með því að færa lausn stefnanda frá embætti í búning breytinga á grundvelli 19. gr. sömu laga. Óumdeilt sé að stefndi hafi ekki farið að ákvæðum 26. gr. laga nr. 70/1996, því sé framangreind ákvörðun ólögmæt og beri að ógilda hana. Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi einnig brotið gegn 19. gr. laga nr. 70/1996 og skráðum jafnt sem óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins. Stefnandi vísar til þess að ákvörðun um svokallaða breytingu á starfi hennar hafi verið íþyngjandi og varðað réttindi hennar og skyldur í starfi. Að minnsta kosti fimm eftirtalin atriði staðfesti þetta: Í fyrsta lagi hafi ákvörðunin verið tekin gegn vilja stefnanda en fyrir hafi legið að hún hefði ekki áhuga á því að flytja sig úr starfi. Í öðru lagi hafi ákvörðunin haft það í för með sér að stefnandi hafi verið svipt öllum mannaforráðum. Í þriðja lagi hafi stefnandi verið sett undir stjórn starfsmanns sem njóti ekki formlegrar tignar innan lögreglunnar. Í fjórða lagi hafi stefnanda verið fengin verkefni sem séu af allt öðrum toga en hún hafi verið skipuð til að gegna. Í fimmta lagi hafi ákvörðunin verið tekin til sex mánaða, eða þar til annað yrði ákveðið. Þannig hafi ekki legið fyrir hversu lengi hinni nýju skipan hafi verið ætlað að vara. Því telur stefnandi að eins og málum sé háttað verði að telja hina íþyngjandi ákvörðun stefnda um breytingu á starfsskyldum stjórnvalds­ákvörðun. Af þeim sökum hafi lögreglustjóra borið að fara að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verði ekki litið svo á, byggjast kröfur stefnanda til vara á því að ólögfestar reglur feli í sér kröfu um vandaða málsmeðferð sem hér feli í sér sömu kröfur og leiði af stjórnsýslulögum. Stefnandi byggir á því að áður en lögreglustjóri tók ákvörðun um breytingu á störfum stefnanda hinn 22. janúar 2016, hafi honum borið að virða andmælarétt stefnanda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og almennar meginreglur stjórnsýsluréttarins. Þessa hafi lögreglustjóri ekki gætt, heldur þvert á móti hafnað ósk stefnanda um að fá að nýta sér þann lögvarða rétt. Fyrir liggi að aldrei hafi staðið til að stefnandi fengi rétt til að andmæla ákvörðuninni. Í því sambandi bendir stefnandi á að fundur hennar með lögreglustjóra hafi farið fram kl. 14.00 föstudaginn 22. janúar 2016 en tæpri klukkustund áður hafi verið sent út fundarboð til allra starfsmanna deildanna R-1 og R-2. Sá fundur hafi hafist kl. 14.30 og hafi tilgangur hans verið að upplýsa um fyrirhugaða breytingu og kynna til leiks nýjan stjórnanda hinnar miðlægu deildar. Með því að gæta ekki andmælaréttar stefnanda hafi lögreglustjóri hvorki gefið stefnanda færi á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum sem vörðuðu vinnu innleiðingarhópsins né að svara fyrir tilhæfulausar ásakanir í sinn garð áður en ákvörðun var tekin um breytinguna. Með því hafi lögreglustjóri einnig brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993 og almennar meginreglur, þar sem þess hafi ekki verið gætt að mál væri nægjanlega upplýst áður en ákvörðunin hafi verið tekin. Þá byggir stefnandi á því að ákvörðunin frá 22. janúar 2016 hafi brotið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Fyrir liggi að 19. gr. laga nr. 70/1996 sé ekki ætlað að heimila yfirmönnum stofnana að flytja starfsmenn til í starfi á grundvelli eigin geðþótta. Stjórnvöldum sé þvert á móti ætíð skylt að byggja matskenndar ákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. Stefnandi byggir á því að breytingin, sem falist hafi í ákvörðun stefnda, hafi ekki byggst á málefnalegum og faglegum sjónarmiðum. Þvert á móti virðist tilhæfulausar ásakanir gegn stefnanda hafa verið tilraun til að bregðast við ímyndarvanda lögreglustjórans og fjölmiðlaumfjöllun. Orðspori og réttindum stefnanda hafi verið fórnað í því skyni. Þannig hafi ákvörðunin verið rökstudd með dylgjum um að stefnandi hafi ekki sinnt starfsskyldum sínum með fullnægjandi hætti og að ætlaður óróleiki og óeining innan deildar stefnanda hafi á einhvern hátt verið á ábyrgð hennar. Forsendur, sem varði stefnanda persónulega eða ætlaða vanrækslu hennar í starfi, geti ekki talist málefnaleg sjónarmið í þessum skilningi. Þá verði ekki fram hjá því litið að hin umdeilda breyting hafi falið í sér að stjórnanda miðlægrar rannsóknardeildar hjá stærsta lögregluembætti landsins var fyrirvaralaust kippt út úr daglegum rekstri deildarinnar. Slíkt hefur í för með sér aukinn kostnað og neikvæð áhrif á gæði rannsókna, lengir málsmeðferðartíma og skaðar trúverðugleika embættisins gagnvart innlendum og erlendum samstarfsaðilum. Hafi verið tilefni til aðgerða, hefði verið rétt að beita minna íþyngjandi úrræðum, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af ofangreindu sé ljóst að meðferð máls stefnanda hafi verið í andstöðu við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins. Ákvörðunin frá 22. janúar 2016 sé því ólögmæt og hana beri að ógilda. Stefnandi byggir kröfur sínar einnig á því að breyting á starfi hennar hafi falið í sér brot gegn 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Hún bendir á að við breytingu á starfsskyldum hennar og flutning úr stöðu yfirmanns miðlægrar deildar um skipulagða brotastarfsemi, hafi verið settur karlmaður í hennar stað. Viðkomandi sé lægri stefnanda í tign, hafi til muna minni reynslu af rannsókn brota og enga reynslu af stjórnun rannsóknardeildar. Stefnandi byggir á því að setning karls í stöðu hennar endurspegli fordóma gagnvart getu hennar sem konu til að sinna starfinu og leiða deildina á umbrotatímum. Ákvörðunin sé því ólögmæt og hana beri að ógilda. Stefnandi vísar jafnframt til ákvæða reglugerðar nr. nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, sem sett sé með heimild í lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í 3. gr. b í reglugerðinni sé hugtakið einelti skilgreint sem síendurtekin hegðun sem almennt sé til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verði, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Þá komi fram í 6. gr. að atvinnurekanda sé óheimilt að leggja starfsmann eða starfsmenn í einelti á vinnustað. Skuli hann haga vinnuaðstæðum þannig að dregið sé úr hættu á að aðstæður skapist sem leitt geti til eineltis. Stefnandi byggir á því að lögreglustjóri hafi með ámælisverðum og endurteknum hætti valdið stefnanda vanlíðan á vinnustaðnum. Þannig hafi lögreglustjóri m.a. dregið að skipa stefnanda í starf sem aðstoðaryfirlögregluþjón, reynt að koma henni úr starfi með því að leggja til flutning til héraðssaksóknara, gengið um deild stefnanda og lesið upphátt úr tölvuskeytum hennar til sín fyrir undirmenn og aðra samstarfsmenn stefnanda. Þá hafi lögreglustjóri, í kjölfar fundar stefnanda með innanríkisráðherra, tekið hana úr valnefnd vegna ráðningar nýrra lögreglufulltrúa og síðast en ekki síst gert breytingar á starfsskyldum hennar. Stefnandi vísar til þess að lögreglustjóri beri ábyrgð á framkvæmd laga nr. 46/1980 og reglugerðar nr. 1009/2015. Stefndi hafi ekki fylgt ákvæðum reglugerðarinnar og því brotið gegn stefnanda. Þar sem ákvörðunin, sem krafist sé ógildingar á, hafi verið liður í þessu framferði skoðist hún ógild en í öllu falli hljóti lögreglustjóra að hafa brostið sérstakt hæfi til töku ákvörðunarinnar vegna þessa, sbr. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Stefnandi vísar til þess að dómstólar eigi almennt úrskurðarvald um gildi stjórnvaldsákvarðana, sbr. meginreglu 60. gr. stjórnarskrárinnar. Þótt réttaráhrif dóms um ógildingu ákvörðunarinnar frá 22. janúar 2016 geti ekki orðið þau að stefnandi sé sett í fyrra starf, sé ljóst að stefnandi geti haft aðra hagsmuni af því að fá slíkan dóm. Stefnandi byggir á því að ákvörðunin hafi í raun verið dulbúin og fyrirvaralaus brottrekstur og að lögreglustjóri virðist vera sömu skoðunar en í fjölmiðlum hinn 18. júní hafi lögreglustjóri vísað til stefnanda sem „fyrrverandi yfirmanns fíkniefnadeildar lögreglunnar á […]“. Stefnandi byggir á því að með þessu hafi verið brotið gegn lögvörðum réttindum hennar. Þá hafi æra hennar beðið hnekki vegna hinnar ólögmætu ákvörðunar og hafi stefnandi því hagsmuni af því að fá ákvörðunina ógilta. Stefnandi gerir í stefnu bótakröfu á hendur stefnda vegna miska og kostnaðar með þeim rökum að um hafi verið að ræða saknæma og ólögmæta atlögu lögreglustjórans á […] gegn henni. Í hana hafi verið ráðist, án þess að fram hefði farið fullnægjandi málsmeðferð og ákvæða viðeigandi laga verið gætt. Öll þau réttarbrot, sem framin hafi verið gegn stefnanda, hafi valdið henni miska og kostnaði sem hafi verið sennileg afleiðing háttseminnar. Stefnandi sundurliðar bótakröfu sína í stefnu þannig:   Bætur fyrir fjárhagslegt tjón                                                            kr.           366.720 Bætur fyrir ófjárhagslegt tjón                                                          kr.        2.000.000 Samtals                                                                                                kr.        2.366.720   Stefnandi vísar til þess að hún hafi orði fyrir kostnaði vegna dvalar hennar á Heilsustofnun […], samtals að fjárhæð 366.720 krónur. Dvölin hafi verið að læknisráði og komið til vegna gríðarlegs álags á stefnanda vegna framkomu og eineltistilburða lögreglustjóra í hennar garð og þess áfalls sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna ákvörðunarinnar frá 22. janúar 2016. Því eigi hún rétt á bótum úr hendi stefnda vegna þessa fjárhagslega tjóns. Í því sambandi bendir stefnandi á að lögreglustjórinn á […] sé stærsta lögregluembætti landsins og hvergi annars staðar hérlendis sé til að dreifa starfi í líkingu við það sem stefnandi hafi sem aðstoðaryfirlögregluþjónn yfir hinni miðlægu rannsóknardeild, bæði hvað varðar umfang og tegund rannsókna. Stefnanda sé því með öllu ómögulegt að finna starf sambærilegt því sem hún hafi sinnt áður en umdeild breyting á starfi hennar hafi átt sér stað. Stefnandi byggir á því að athafnir stefnda hafi verið framkvæmdar af ásetningi og að þær hafi reynst stefnanda afar þungbærar. Meðferð máls hennar og ákvörðun um breytingu á stafsskyldum hafi verið lítilsvirðandi og niðrandi. Ákvörðunin frá 22. janúar 2016 hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn friði stefnanda, æru og persónu, sem hafi m.a. endurspeglast í fjölmiðlaumfjöllun og í því að stefnandi hafi verið óvinnufær frá því að ákvörðunin var tekin. Því sé skilyrðum almennu sakarreglunar fullnægt sem og skilyrðum fyrir greiðslu miskabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi byggir einnig á því að umfjöllun lögreglustjóra um málefni hennar í fjölmiðlum, þar sem stefnandi hafi m.a. verið nafngreind, hafi aukið á tjón hennar. Málefni stefnanda hafi verið í brennidepli meðan umrædd breyting hafi átt sér stað og orð og gerðir lögreglustjóra, sem gegni einu æðsta embætti í stjórnskipan landsins og njóti stöðu sinnar vegna tiltekinnar virðingar, vegi sérstaklega þungt í umræðunni. Í framhaldsstefnu gerir stefnandi kröfu um að henni verði til viðbótar greiddar skaðabætur vegna þess tjóns sem hún hafi orðið fyrir vegna hinnar ólögmætu ákvörðunar stefnda sem leitt hafi til þess að stefnandi hafi, um ókomna tíð, verið svipt embætti sínu. Ljóst sé að stefnandi muni aldrei eiga afturkvæmt í fyrra embætti gangi málið til dóms. Stefnandi kveður tjón sitt nema mismun þeirra launa og eftirlaunaréttinda, sem hún hefði haft í því starfi það sem hún hafi verið gerð brottræk og þeirra launa sem hún geti nú aflað sér hjá […]. Stefnandi vísar til þess að frá því umþrætt ákvörðun lögreglustjórans hafi verið tekin 22. janúar 2016 og til 15. desember 2016 hafi hún verið óvinnufær vegna veikinda sem hafi verið afleiðing ákvörðunarinnar og undanfara hennar. Meðan á þessum veikindum hafi staðið hafi stefndi greitt henni laun allt fram til 20. október 2016 en frá þeim degi og til 15. desember 2016 hafi hún þegið sjúkradagpeninga frá Landssambandi lögreglumanna. Eftir að veikindunum hafi lokið, 15. desember 2016, hafi stefnandi hafið störf að nýju en hjá nýjum vinnuveitanda,[…]. Þar njóti hún lægri launa, auk þess sem eftirlaunaréttindi hennar séu lakari en áður. Í framhaldsstefnu er rakið að stefnandi hafi viljað halda áfram samskiptum við stefnda á þeim forsendum að hún njóti þar lögbundinna og kjarasamningsákveðinna réttinda. Hafi þetta m.a. leitt til þess að hún teljist nú vera í launalausu leyfi frá störfum hjá stefnda. Því hafi stefnandi, í orði fremur en á borði, viðhaldið ráðningarsambandi sínu við stefnda. Með því geti hún t.d. takmarkað tjón sitt kjósi stefndi, fyrir dómsuppkvaðningu í máli þessu, að falla frá ákvörðuninni 22. jan. 2016 og rétta hlut stefnanda með fjárhagslegu uppgjöri og boði um starf við hæfi sem samkomulag geti orðið um. Fjárkröfur vegna ákvörðunarinnar verði hins vegar að miða við að stefnandi hafi um ókomna tíð verið svipt embætti sínu, enda eigi hún í raun aldrei afturkvæmt í fyrra starf, gangi máli þetta til dóms. Stefnandi kveðst hafa fengið H tryggingastærðfræðing til að reikna út eingreiðsluverðmæti þessa mismunar í launum til framtíðar. Útreikningurinn miðist við verðmætið þann 20. október 2016 þegar stefnandi hafi fallið út af launaskrá hjá stefnda. Útreikningur á eingreiðsluverðmæti launa miðist við 2% ársvexti. Þar sem lífeyrir í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins breytist með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar, sé eingreiðsluverðmæti tapaðra lífeyrisréttinda metið miðað við 3,5% ársvexti umfram hækkun verðlags. Þá sé við útreikning gert ráð fyrir að laun stefnanda hefðu hækkað um 1,5% á ári umfram verðlag hefði hún haldið áfram störfum hjá lögreglustjóranum á […] og sömuleiðis sé miðað við að laun hennar hjá […] hækki árlega um 1,5% umfram verðlag. Jafnframt sé miðað við verðmæti launa og öflun lífeyrisréttinda fram til 65 ára aldurs í samræmi við núgildandi lífeyrisaldur í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og lífslíkur vegna mats á framtíðargreiðslum miði við nýjustu íslensku dánar- og eftirlifendatöflur sem gefnar séu út af Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga. Að öðru leyti vísar stefnandi um forsendur fjárkröfu sinnar í niðurstöður tryggingastærðfræðingsins og ákvæði reglugerðar nr. 391/1998, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Stefnandi kveðst hafa verið í launaflokki 22, þrepi 2, áður en henni hafi verið vikið úr starfi hjá lögreglustjóraembættinu á […]. Þá hafi henni verið greiddir fastir 50 tímar í yfirvinnu, auk 13,04% orlofs á yfirvinnu. Auk þess hafi hún fengið greitt þrekálag og sérstaka álagsgreiðslu lögreglumanna, símakostnað, persónuuppbót og orlofsuppbót. Forsendur útreikninga miði við fjárhæðir eins og þær hafi verið 1. júní 2016 samkvæmt samkomulagi Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra um framlengingu kjarasamnings frá 28. október 2015. Einnig hafi stefnanda verið greiddir sjúkradagpeningar vegna október 2016, 283.500 krónur, vegna nóvember sama ár, 405.000 krónur, og vegna desember sama ár, 202.500 krónur. Samkvæmt ráðningarsamningi við […], dagsettum 11. janúar 2017 raðist stefnandi í 2. þrep 10. launaflokks í launatöflu Kjarafélags viðskipta- og hagfræðinga. Ekki sé kveðið á um fasta yfirvinnu né aðrar aukagreiðslur í kjarasamningi en gert sé ráð fyrir að stefnandi fái persónu- og orlofsuppbætur samkvæmt kjarasamningi. Stefnandi vísar til þess að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi hún greitt í A-deild LSR miðað við fjárhæðir sem gildi 1. júní 2016 í samræmi við samkomulag Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra frá 28. október 2015 meðan hún sinnti störfum hjá lögreglustjóranum á […]. Samkvæmt framlögðum útreikningum tryggingastærðfræðings nemi töpuð lífeyrisréttindi vegna brottvikningarinnar 678.299 krónum á mánuði, miðað við verðlag í október 2016. Þar að auki hafi launagreiðandi greitt mótframlag til séreignarsparnaðar sem hafi numið 2% af mánaðarlaunum, fastri yfirvinnu, þrekálagi, orlofi af yfirvinnu, sérstakri álagsgreiðslu, persónuuppbót og orlofsuppbót. Í forsendum útreikninga sé miðað við 2% ársvexti. Gert sé ráð fyrir að stefnandi, sem starfsmaður […], greiði iðgjald til A-deildar LSR miðað við fjárhæðir sem gildi frá 1. júní 2016 í samræmi við kjarasamninga Kjarafélags viðskipta- og hagfræðinga og fjármálaráðherra. Samkvæmt framlögðum útreikningum tryggingastærðfræðings muni mánaðarlegur lífeyrir hennar nema 322.914 krónum á verðlagi í október 2016. Þar að auki sé gert ráð fyrir að launagreiðandi greiði mótframlag til séreignarsparnaðar sem nemi 2% af mánaðarlaunum, persónuuppbót og orlofsuppbót. Í forsendum útreikninga sé miðað við 2% ársvexti. Stefnandi byggir á því að tryggingafræðilegt núvirði launa og lífeyrisréttinda hennar í fyrra starfi hjá lögreglustjóraembættinu á […] hafi hinn 20. október 2016 numið 264.131.145 krónum miðað við áðurgreindar forsendur, sbr. eftirfarandi:   Tegund greiðslu Fjárhæð Pr. Tryggingafræðilegt núvirði Mánaðarlaun 563.830 kr. Mánuð 131.669.509 kr. Föst yfirvinna 292.769 kr. Mánuð 68.369.456 kr. Þrekálag 23.630 kr. Mánuð 5.518.242 kr. Orlof af yfirvinnu 38.177 kr. Mánuð 8.915.359 kr. Persónuuppbót 82.000 kr. Ár 1.639.382 kr. Sérstök álagsgreiðsla 19.566 kr. Mánuð 4.569.189 kr. Orlofsuppbót 44.500 kr. Ár 856.439 kr. Símakostnaður 2.174 kr. Mánuð 507.688 kr. Eftirlaunaréttindi 678.299 kr. Mánuð 37.655.129 kr. Mótframlag til séreignarsparnaðar     4.430.752 kr. Samtals     264.131.145 kr.   Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar, skaðabótalaga nr. 50/1993, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og almennra og ólögfestra reglna á sviði stjórnsýsluréttarins. Þá vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, reglugerðar nr. 1009/2015 og laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Stefnandi vísar einnig til 60. gr. stjórnarskrárinnar, ákvæða laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og ákvæða laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Krafa stefnanda um málskostnað byggist á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991. IV Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að umrædd ákvörðun lögreglustjórans á […] hafi falið í sér tímabundna breytingu á verkefnum stefnanda sem hafi verið í samræmi við ákvæði 19. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Stefndi leggur áherslu á að stjórnun og starfsmannahald ríkisstofnana sé almennt í höndum hlutaðeigandi forstöðumanns. Heimildir forstöðumanna í þessum efnum byggist fyrst og fremst á ákvæðum laga nr. 70/1996 og hinni óskráðu meginreglu vinnuréttarins um stjórnunarrétt vinnuveitanda. Þá kunni sérákvæði laga um hlutaðeigandi stofnun eða starfsstétt einnig að skipta máli. Stefndi bendir á að í reglunni um stjórnunarrétt vinnuveitanda felist valdheimildir til að stýra og stjórna starfseminni innan þeirra marka sem lög og samningar setji. Forstöðumenn ríkisstofnana þurfi jafnframt að gæta að öðrum atriðum, einkum fyrirmælum æðra stjórnvalds. Stefndi leggur áherslu á að stjórnunarheimildir forstöðumanns lúti meðal annars að ákvörðununum um skipulag vinnunnar, hvaða verk skuli vinna, hver skuli vinna þau, með hvaða hætti, hvenær og hvar. Ákvarðanir, sem teknar séu dagsdaglega um störf og verksvið einstakra starfsmanna, rúmist jafnan innan þeirra heimilda sem felist í reglunni um stjórnunarrétt vinnuveitanda. Almennt séu ekki gerðar sérstakar formkröfur til slíkra ákvarðana. Stefnandi vísar til þess, að í 19. gr. laga nr. 70/1996 segi að starfsmanni sé skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi. Jafnframt sé tekið fram að hafi breytingarnar í för með sér skert launakjör starfsmanns eða réttindi, skuli hann halda óbreyttum launakjörum og réttindum í jafnlangan tíma og réttur hans til uppsagnarfrests sé samkvæmt ráðningarsamningi. Stefndi leggur áherslu á að í dómaframkvæmd hafi meðal annars verið kveðið á um að forstöðumaður ríkisstofnunar eða annar yfirmaður, sem sé til þess bær, hafi á grundvelli lagagreinarinnar ótvíræða heimild til að breyta störfum og verksviði ríkisstarfsmanns og sé það undir hans mati komið hvort tilefni sé til slíkra breytinga. Breytingarnar verði þó að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og ekki vera meira íþyngjandi fyrir starfsmann en nauðsyn beri til. Stefndi bendir á að í 19. gr. laga nr. 70/1996 sé þannig sérstaklega kveðið á um skyldu starfsmanns til að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði, jafnvel þótt það leiði til skerðingar á launakjörum eða réttindum. Hins vegar sé ekki nauðsynlegt að beita 19. gr. laga nr. 70/1996 við minni háttar breytingar. Stefndi leggur áherslu á að við aðrar breytingar, einkum afgerandi breytingar, sé rétt að byggja á heimild 19. gr. laga nr. 70/1996. Með afgerandi breytingum sé til dæmis átt við breytt starfsheiti, breytta stöðu samkvæmt skipuriti stofnunar, til dæmis flutning milli deilda, sem og breytingar sem hafi áhrif á föst launakjör. Rökin að baki breytingum á störfum og verksviði samkvæmt 19. gr. laga nr. 70/1996 tengist ýmist skipulagi og rekstri viðkomandi stofnunar eða atvikum sem varði starfsmanninn sjálfan. Þannig geti skapast þörf fyrir breytingar vegna nýrrar tækni eða að nýjar þarfir og áherslur séu í starfi stofnunar. Oftar en ekki tengist þetta markmiðum um aukna hagkvæmni og skilvirkni í rekstri stofnunar. Þessi lagaheimild byggi á almennum stjórnunarrétti og hafi meðal annars þann tilgang að markmiðum um árangursríka nýtingu fjármuna stofnunar verði náð, sbr. 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996. Ákvæðið eigi við um alla ríkisstarfsmenn, jafnt embættismenn sem aðra starfsmenn. Stefndi bendir á að ekki sé tæmandi talið hvers konar breytingar séu heimilar samkvæmt 19. gr. laga nr. 70/1996. Starfsmaður geti hins vegar ekki vænst þess að eðli og inntak þeirra verka, sem honum séu falin í upphafi haldist með öllu óbreytt út starfstíma hans, enda geti forsendur verksviðs hans breyst. Stefndi leggur áherslu á að forstöðumaður hafi töluvert svigrúm til að breyta einhliða verkefnum starfsmanns, án þess að nauðsynlegt sé að leggja niður starfið og segja ráðningarsamningi upp. Slíkar breytingar geti til dæmis haft í för með sér annað starfsheiti og að starfsmanni beri að sinna störfum sínum í annarri deild eða eftir atvikum annarri starfsstöð og undir stjórn annars yfirmanns en áður. Þá kunni breytingar á starfi á grundvelli 19. gr. laga nr. 70/1996, hverjar svo sem þær séu, að vera gerðar til tiltekins tíma, til dæmis þegar um tímabundin verkefni eða ástand sé að ræða, eins og eigi við í tilviki stefnanda. Stefndi bendir á að hinn 1. september 2015 hafi sérstakur innleiðingarhópur tekið til starfa hjá lögreglustjóranum á […]. Hópnum hafi verið fengið það hlutverk að innleiða skipulagsbreytingar hjá embættinu á grundvelli innleiðingarskýrslu sérstaks umbótahóps. Stefnandi hafi átt sæti í hópnum og jafnframt hafi rannsóknir skipulagðrar brotastarfsemi, áður deildir R-1, R-2 og hluti af deild R-3, verið sameinaðar undir stjórn stefnanda. Stefnanda hafi enn fremur verið fengið það hlutverk að útfæra nánar skipulag deildarinnar. Innleiðingarvinnunni hafi ekki verið lokið fimm mánuðum síðar, m.a. vegna mála sem hafi komið upp innan fíkniefnadeildar og aukins álags og anna vegna starfsmannastjórnunar. Stefndi leggur áherslu á að ekki hafi verið búið að vinna starfslýsingar, skipuleggja vinnutíma starfsmanna, ákveða húsnæðis- og launamál eða skipuleggja innra málefnastarf deildarinnar, byggja tengslanet og samhæfa þá starfsemi sem hin nýja deild hafi átt að annast. Skipulagið hafi átt að taka gildi og vera orðið virkt 1. október 2015. Stefndi bendir á að í janúar 2016 hefði því ekki enn verið lokið og mótmælir stefndi sem rangri fullyrðingu stefnanda um að vinnan hafi sóst vel og verið í aðalatriðum lokið 22. janúar 2016.  Á þessum tíma hafi jafnframt komið upp erfið starfsmannamál í deildinni sem stefnandi stýrði sem hafi leitt til mikilla erfiðleika í samstarfi og vinnu innan deildarinnar. Að mati lögreglustjóra og ríkislögreglustjóra hafi deildin þá verið orðin nánast óstarfhæf vegna þessa. Af þeim sökum hafi lögreglustjóri tekið ákvörðun um að flytja stefnanda tímabundið. Það hafi verið gert til þess að skapa frið innan deildarinnar á meðan rannsókn tiltekinna mála færi fram og ekki síður til þess að veita stefnanda svigrúm til að ljúka innleiðingarvinnunni sem hafi verið langt á eftir áætlun. Telur stefndi að slíkt hafi verið heimilt í samræmi við 19. gr. laga nr. 70/1996. Stefndi mótmælir því að lögreglustjóri hafi brotið gegn 26. gr. laga nr. 70/1996 með því að færa stefnanda tímabundið yfir í annað starf. Að mati stefnda hafi ekkert komið fram í málinu sem réttlætt hefði að fara um mál stefnanda samkvæmt 26. gr. laganna. Slík ráðstöfun hefði gengið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Furðu veki að í stefnu sé því haldið fram að veita hefði átt stefnanda lausn um stundarsakir á hálfum launum samkvæmt 26. gr. laga nr. 70/1996 fremur en að setja málið í þann farveg sem gert hafi verið. Stefndi byggir á því að ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli málefnalegra og lögmætra sjónarmiða. Þá árétti stefndi að ráðstöfunin hafi ekki verið lausn stefnanda frá störfum heldur hafi verið um að ræða tímabundnar breytingar á verkefnum. Stefndi mótmælir því að ákvörðun um að færa stefnanda tímabundið í önnur verkefni hafi verið stjórnvaldsákvörðun sem byggð hafi verið á ómálefnalegum grundvelli og tekin án þess að gætt hafi verið að viðhlítandi ákvæðum laga. Þá er því jafnframt hafnað að ákvörðunin hafi falið í sér dulbúna og fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi. Stefndi byggir á því að breyting á starfi teljist ákvörðun um innra skipulag stofnunar. Slík ákvörðun sé ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga og því eigi þau ekki við. Hafi breytingarnar í för með sér skert launakjör eða réttindi sé þó rétt að fylgja ákvæðum þeirra laga, svo sem þegar um sé að ræða lækkun um launaflokk. Lögreglustjóri hafi, með bréfi dagsettu 25. janúar 2016, tilkynnt stefnanda að störfum og verksviði hennar yrði breytt tímabundið frá og með 25. janúar 2016 til og með 24. júlí sama ár. Verkefnin fælust í því að skipuleggja nýja rannsóknardeild embættisins, sem hafi átt að taka til starfa á vormánuðum, í samræmi við hugmyndir og vinnu innleiðingarhóps sem stefnandi hafi m.a. átt sæti í. Verkefnið yrði unnið í annarri deild en þeirri sem stefnandi starfaði í. Af þeim sökum hafi þótt rétt að beita 19. gr. laga nr. 70/1996 og tilkynna formlega um breytinguna. Í bréfinu komi skýrt fram að breytingin myndi hvorki skerða launakjör né réttindi stefnanda og því ættu málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga ekki við. Stefndi bendir á að engu að síður kunni að vera rétt í sumum tilvikum að hafa ákvæði stjórnsýslulaga til hliðsjónar, sérstaklega um rétt til rökstuðnings svo hlutaðeigandi megi vera ljóst á hvaða grundvelli ákvörðun um breytingu á starfi var tekinn. Stefnanda hafi því verið gefinn kostur á að fá rökstuðning fyrir framangreindri ákvörðun og hafi í því efni verið vísað til 21. gr. stjórnsýslulaga. Stefndi hafnar því að þau fimm atriði, sem eru tilgreind í stefnu, sýni fram á að umrædd ákvörðun lögreglustjóra verði talin stjórnsýsluákvörðun. Í fyrsta lagi þurfi ekki að liggja fyrir samþykki stefnanda vegna ákvörðunarinnar og skipti því ekki máli þótt stefnandi hafi ekki viljað flytjast úr starfi. Í öðru lagi geti breytingar á grundvelli 19. gr. laga nr. 70/1996 haft í för með sér að viðkomandi fari ekki lengur með mannaforráð. Stefndi áréttar að um hafi verið að ræða tímabundna ráðstöfun vegna fyrirliggjandi verkefnis. Í þriðja lagi hafnar stefndi því að það sé málsástæða til ógildingar að stefnandi hafi verið sett undir aðila sem njóti ekki formlegrar tignar innan lögreglu. Í þessu sambandi bendir stefndi á að viðkomandi hafi verið yfirlögfræðingur embættisins sem starfi á skrifstofu lögreglustjóra og stýri einingu sem nefnist stefnumótun og þróun, sem m.a. hafi það hlutverk að koma á umbótum innan embættisins. Í fjórða lagi vísar stefndi til þess, að verkefni opinberra starfsmanna geti tekið breytingum frá því viðkomandi var skipaður eða ráðinn í þjónustu ríkisins, sbr. framangreinda umfjöllun. Í fimmta lagi gerir stefndi athugasemd við fullyrðingu stefnanda um að það sé ógildingarástæða að ráðstöfunin hafi verið tímabundin eða þangað til annað væri ákveðið og að þetta hafi verið óljóst. Stefndi bendir á að ástæða fyrirvarans hafi verið sú að verkefninu hefði getað lokið fyrr en kveðið hafi verið á um í viðkomandi bréfi. Þá hefði stefnandi verið færð aftur í fyrra starf. Umrædd ákvörðun um breytingu á starfi stefnanda til ákvörðunar um skipulag stofnunar sé ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga, enda þótt gefinn hafi verið kostur á rökstuðningi. Að mati stefnda hafi ákvörðunin byggst á málefnalegum sjónarmiðum um að stjórnandi, sem þekkti til, myndi stýra skipulagningu hinnar nýju deildar og þá hafi ákvörðunin ekki gengið lengra en efni hafi staðið til og hafi m.a. verið tímabundin. Stefndi bendir á að víða innan stjórnsýslunnar fari svokölluð lögfræðisvið með stjórn eða komi að starfsmannahaldi stofnana og ráðuneyta. Af þeirri ástæðu fari slík mál þvert á skipulag og vinnu stofnana og veiti slíkar lögfræðideildir því mikilvæga lögfræðiþjónustu og samhæfi afgreiðslu mála. Stefndi hafnar því að brotið hafi verið gegn andmælareglu stjórnsýslulaga, enda ákvörðunin ekki stjórnvaldsákvörðun heldur ákvörðun um innra skipulag og rekstur stofnunar sem hafi ekki haft í för með sér skert réttindi stefnanda. Þá geti rannsóknarregla stjórnsýslulaga ekki átt við í málinu þar sem ekki hafi verið um stjórnvaldsákvörðun að ræða. Þá hafi réttmætisregla ekki verið brotin en ákvörðunin um að færa stefnanda tímabundið til í starfi hafi byggst á skýrri heimild laga nr. 70/1996 og jafnframt verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Um hafi verið að ræða ákvörðun sem tekin hafi verið á rekstrarlegum forsendum að ígrunduðu máli. Hún hafi verið tekin til að bregðast við tilteknum vanda, bæði til að ljúka innleiðingu á innra skipulagi stofnunarinnar og jafnframt til að skapa ró um þá deild sem stefnandi hafi stýrt. Með ákvörðuninni hafi ekki átt að bregðast við ímyndarvanda, svo sem stefnandi haldi fram, enda vandséð hvernig umrædd ákvörðun hafi átt að geta skapað lögreglustjóra betri ímynd í fjölmiðlum. Stefndi hafnar því að dylgjað hafi verið að því að stefnandi hafi ekki sinnt starfsskyldum sínum með fullnægjandi hætti. Stefndi mótmælir því jafnframt sem komi fram í stefnu að umrædd ákvörðun hafi haft í för með sér aukinn kostnað og lengt málsmeðferðartíma. Fyrir liggi að embætti ríkislögreglustjóra hafi talið deildina nánast óstarfhæfa og afköst deildarinnar afar lítil. Hafi það verið mat ríkislögreglustjóra, sé ljóst að lögreglustjóra hafi borið að bregðast við með tilteknum aðgerðum. Stefndi telur að með ákvörðun lögreglustjóra hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Stefnandi hafi ekki verið lækkuð um tign eða starfsstig, enda hafi ekki verið gerð breyting á stöðu hennar innan lögreglunnar. Ákvörðunin hafi falið í sér að stefnanda hafi tímabundið verið falið að sjá um önnur verkefni og það hafi verið byggt á málefnalegum sjónarmiðum. Stefndi hafnar því að forstöðumaður brjóti sjálfkrafa gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 við það að bregðast við tilteknum vanda eða verkefnum innan stofnunar og færa starfsmenn í önnur verkefni. Þá hafi ákvörðunin ekki endurspeglað fordóma í garð stefnanda sem konu um að hún gæti ekki leitt deildina á umbrotatímum. Ákvörðunin hafi verið tekin af lögreglustjóranum á […] sem einnig sé kona og hafi sett fram þá skoðun sína að nauðsynlegt sé að fjölga konum í störfum innan lögreglunnar, sérstaklega í stjórnunarstöðum. Ákvörðunin hafi ekkert haft með kynferði stefnanda að gera, eins og rakið hafi verið. Þá hafnar stefndi því að ákvörðunin hafi falið í sér brot gegn ákvæðum reglugerðar nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Engin gögn hafi verið lögð fram, sem styðji fullyrðingu stefnanda um að um einelti hafi verið að ræða, og þá hafi slík rannsókn ekki farið fram. Um hafi verið að ræða stjórnunarlegar ákvarðanir sem stefnandi hafi verið ósammála. Þá hafnar stefndi því að um síendurtekna hegðun hafi verið að ræða. Stefndi bendir á að mál þetta hafi verið höfðað vegna ákvörðunar lögreglustjóra um breytingu á verkefnum stefnanda en ekki vegna mögulegs eineltis eða áreitis sem stefnandi haldi fram að hún hafi orðið fyrir. Að mati stefnda verði að afmarka málið við breytingu á verkefnum stefnanda, þ.e. hvort sú ráðstöfun við þáverandi aðstæður hafi verið bæði málefnaleg og lögmæt. Að mati stefnda hafi svo verið. Stefndi hafnar því að um fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi hafi verið að ræða, heldur hafi verið gerð tímabundin breyting á verkefnum stefnanda. Hafi verið gert ráð fyrir því að að þessum verkefnum loknum tæki stefnandi við fyrri verkefnum. Í 25. gr. laga nr. 70/1996 sé fjallað um starfslok embættismanna en engin þau atriði, sem talin séu upp í ákvæðinu eigi við í tilviki stefnanda, enda hafi ákvörðunin verið byggð á 19. gr. sömu laga. Stefndi mótmælir skaðabótakröfu stefnanda. Í stefnu komi fram að krafa vegna fjárhagslegs tjóns sé komin til vegna kostnaðar af dvöl stefnanda á heilsustofnun […]. Sú dvöl hafi verið að ráði læknis vegna gríðarlegs álags á stefnanda vegna framkomu og eineltistilburða lögreglustjóra í hennar garð og vegna þess áfalls sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þeirrar ákvörðunar að færa hana tímabundið til í starfi. Stefndi leggur áherslu á að í málinu hafi ekki verið sýnt fram á að lögreglustjórinn á […] hafi lagt stefnanda í einelti eða að sú ákvörðun að færa stefnanda tímabundið til í starfi hafi valdið vanheilsu stefnanda. Engin gögn hafi verið lögð fram um slíkt og þá hafi engin rannsókn í þá veru farið fram. Stefndi bendir einnig á að vanheilsu stefnanda megi væntanlega rekja til gríðarlegs álags vegna erfiðra mála sem upp hafa komið í þeirri deild sem stefnandi stýrði. Það hafi verið liður í ákvörðun lögreglustjóra að losa stefnanda undan því álagi. Ósannað sé að heilsuleysi stefnanda sé til komið vegna ákvörðunar lögreglustjóra um að breyta verkefnum stefnanda tímabundið. Ákvörðunin hafi verið tímabundin og hafi verið gert ráð fyrir því að stefnandi sneri að nýju í starf stjórnanda hinnar miðlægu rannsóknardeildar að því loknu. Umfjöllun í stefnu um að stefnandi geti ekki fundið sér annað sambærilegt starf hvað varðar umfang og tegund rannsókna hjá öðru embætti, sé því úr lausu lofti gripin. Stefndi áréttar að umrædd ákvörðun hafi ekki verið ákvörðun um brottvikningu úr starfi. Stefndi mótmælir miskabótakröfu stefnanda og hafnar fullyrðingum í stefnu um að meðferð á máli stefnanda hafi verið lítilsvirðandi og niðrandi og að ákvörðun lögreglustjóra 22. janúar 2016 hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn friði stefnanda, persónu og æru. Ákvörðun lögreglustjóra hafi byggst á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum og að hans mati hafi verið mikilvægt að ljúka því innleiðingarverkefni, sem stefnandi hafi haft með höndum sem og að skapa starfsfrið í einni erfiðustu og viðkvæmustu rannsóknardeild innan lögreglu. Slík sjónarmið geti ekki talist ómálefnaleg og þá hafi ákvörðunin jafnframt verið byggð á skýrri lagaheimild og stjórnunarrétti forstöðumanns. Þá hafnar stefndi því að lögreglustjóri hafi fjallað um málefni stefnanda í fjölmiðlum til að koma höggi á viðkomandi, enda hafi lögreglustjóri enga hagsmuni haft af því að reka mál stefnanda í fjölmiðlum. Að því er óvinnufærni stefnanda varðar, bendir stefndi á að stefnandi hefði á þessum tíma verið undir miklu og langvarandi álagi og því hafi verið mikilvægt að skapa henni vinnufrið. Stefndi telur að ekki hafi verið sýnt fram á að ákvörðunin hafi valdið slíku áfalli sem haldið sé fram í stefnu. Stefndi bendir auk þess á að í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skaðabótalögum segði að í skilyrðinu um ólögmæta meingerð fælist að um saknæma hegðun væri að ræða. Gáleysi þyrfti þó að vera verulegt til þess að tjónsatvik yrði talið ólögmæt meingerð. Af dómafordæmum Hæstaréttar Íslands verði ráðið að lægsta stig gáleysis uppfylli ekki kröfu þessa ákvæðis um ólögmæta meingerð. Því sé mótmælt að stefnandi eigi rétt til miskabóta, auk þess sem vaxtakröfu sé einnig mótmælt. Í greinargerð í framhaldssök málsins byggir stefndi sýknukröfu sína á því að ráðningarsamband stefnanda og embættis lögreglustjórans á […] sé ekki liðið undir lok, svo sem stefnandi virðist ganga út frá í kröfum sínum. Ljóst sé að stefnandi sé í ársleyfi frá störfum að eigin ósk og á meðan svo hátti til sé ráðningarsamband enn til staðar. Ráðningarsamband sé tvíhliða samband en stefndi hafi ekki veitt stefnanda lausn frá störfum og þá hafi stefnandi ekki sagt starfi sínu lausu. Stefndi mótmælir sem röngum og ósönnuðum staðhæfingum stefnanda um að hún hafi verið gert brottræk úr embætti. Stefndi byggir sýknukröfu sína jafnframt á því að ekkert tjón hafi enn orðið og því séu ekki uppfyllt skilyrði skaðabótaréttarins um greiðslu bóta. Í framhaldsstefnu sé í raun viðurkennt að hið ætlaða fjártjón sé ekki komið fram og þegar af þeirri ástæðu séu ekki uppfyllt skilyrði almennu skaðabótareglunnar um að tjón hafi orðið. Því beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda. Verði ekki fallist á sýknukröfu og komi til bótaskyldu, krefst stefndi verulegrar lækkunar á kröfu stefnanda. Líta verði til dómaframkvæmdar um að bætur skuli metnar að álitum, auk þess sem stefndi mótmælir dómkröfum stefnanda og rökstuðningi fyrir þeim. Stefndi telur að líta verði til meginreglu og grunnraka 32. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, auk annarra þátta. Starfsmenn geti almennt ekki vænst þess að þeir haldi starfi sínu út starfsævina, enda geti komið til starfsloka af ýmsum ástæðum sem t.d. framangreind lög geri ráð fyrir. Þá hafi stefnandi fimm ára skipun í embætti og ekki sé hægt að ganga út frá því að skipanir endurnýist sjálfkrafa. Slíkt sé háð ákvörðun yfirmanns telji hann nauðsynlegt að auglýsa starfið, t.d. vegna breyttra áherslna eða krafna sem gerðar séu til starfsins. Stefnandi byggir á því að um áratugaskeið, og einnig fyrir gildistöku laga nr. 70/1996, hafi bætur, í þeim tilvikum sem stöðumissir sé metinn óréttmætur eða uppsögn talin ólögmæt, verið dæmdar að álitum. Engin rök standi til þess að hverfa frá þeirri dómvenju í málinu. Áður hafi dómvenjan gilt þegar í hlut hafi átt embættismenn eða starfsmenn sem skipaðir höfðu verið eða ráðnir ótímabundið, án uppsagnarfrests. Hafi t.d. verið hafnað að leggja til grundvallar tryggingafræðilega útreikninga um eingreiðsluverðmæti launa til 70 ára aldurs, þótt starfsmenn hafi almennt mátt gera ráð fyrir að halda starfi uns til lögmætra starfsloka kæmi. Sama eigi við um bætur til þeirra sem hafi þolað óréttmætan starfsmissi eftir gildistöku laga nr. 70/1996 og ráðnir hafi verið ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Hæstiréttur Íslands hafi ítrekað vísað til dómvenju um það, hvernig bætur skuli ákveðnar ef uppsögn eða frávikning er metin ólögmæt. Stefndi telur að það skyti skökku við ef bótaréttur manna með tímabundna skipun til fimm ára yrði til muna betri en þeirra sem ráðnir væru ótímabundið til loka starfsævinnar. Í öllum tilvikum séu ýmsir óvissuþættir um starf til framtíðar, hvort sem ráðning sé ótímabundin eða tímabundin, eins og dómstólar hafi bent á. Þá vísar stefndi til þess að Hæstiréttur Íslands hafi hafnað því að skilyrði væru til að dæma bætur sem samsvari fimm ára skipunartíma, sbr. dóm réttarins í máli nr. E-175/2005, þar sem ákvörðun bóta hafi verið miðuð við dómvenju og ákvörðuð að álitum. Stefndi bendir jafnframt á að stefnanda sé skylt að takmarka tjón sitt og að reglan um frádrátt ávinnings eigi hér við. Ekkert liggi fyrir um það hvort stefnandi hafi leitað að starfi þar sem hún eigi kost á sambærilegum kjörum og þá liggi engin gögn fyrir í málinu um að hún hafi átt erfitt með að finna annað starf við hæfi. Nú sé atvinnuleysi á Íslandi með minnsta móti og sé alls óljóst að stefnandi muni starfa hjá […] út starfsævina. Að því er varðar einstaka liði í bótakröfu stefnanda, byggir stefndi á að þeir geti hvorki talist vera í samræmi við dómaframkvæmd né sé tilefni til að fallast á þá. Á sama hátt og ákveða yrði bætur að álitum, séu ekki efni til að dæma jafngildi þrekálags, persónuuppbótar, álagsgreiðslna, orlofsuppbótar eða símakostnaðar. Greiðslur þessar séu bundnar við að viðkomandi sé við störf. Þá mótmælir stefni jafnframt kröfu stefnanda um bætur sem samsvari lífeyrissjóðsframlagi eða framlagi í séreignasjóð. Um sé að ræða greiðslur til lífeyrissjóðs og séreignasjóðs og því sé óraunhæft að dæma stefnanda framlagið sjálft. Að öðru leyti sé kröfunni mótmælt á sama grundvelli og um aðrar launatengdar greiðslur. Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda og vísar til þess að líta verði til 9. gr. laga nr. 38/, um vexti og verðtryggingu, um upphafstíma dráttarvaxta af skaðabótakröfu.  Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. V Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi málsins skýrslu fyrir dóminum. Auk þess gáfu skýrslur sem vitni B, lögreglustjóri á […], I héraðssaksóknari, G, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsustofnun í […], F sálfræðingur, J læknir, sérfræðingur í geðlækningum og yfirlæknir á Heilsustofnun í […], K, aðstoðarsaksóknari hjá lögreglustjóranum á […], L, aðstoðaryfirlögregluþjónn og deildarstjóri greiningardeildar ríkislögreglustjóra, M, saksóknari hjá ríkissaksóknara, N, yfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóranum á […], O, formaður Landssambands lögreglumanna, H trygginga-stærðfræðingur, P, settur lögreglufulltrúi hjá lögreglustjóranum á […], R, lögreglufulltrúi hjá lögreglustjóranum á […], S, tengslafulltrúi Íslands hjá Europol, og D, lögfræðingur hjá lögreglustjóranum á […] og fyrrverandi aðallögfræðingur lögreglustjórans á [...]. Verður efni skýrslna þeirra rakið eins og þurfa þykir. Í máli þessu krefst stefnandi ógildingar á ákvörðun lögreglustjórans á […] frá 22. janúar 2016, um breytingu á starfsskyldu stefnanda og skaðabóta fyrir það tjón sem ákvörðunin og aðdragandi hennar hafi þegar valdið stefnanda við útgáfu stefnunnar. Til viðbótar krefst stefnandi skaðabóta sem nema mismun þeirra launa og eftirlaunaréttinda, sem hún hefði notið um ókomna tíð í starfi sínu sem skipaður aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður rannsóknardeildar fíkniefnamála og skipulagðrar brotastarfsemi, og þeirra launa sem hún geti nú aflað sér hjá Vinnumálastofnun. Stefnandi byggir kröfur sínar á því að umrædd ákvörðun lögreglustjórans á […] um breytingu á starfsskyldu hennar hafi verið stjórnvaldsákvörðun sem hafi verið byggð á ómálefnalegum forsendum og tekin án þess að viðhlítandi ákvæða laga og reglna stjórnsýsluréttar hafi verið gætt. Ákvörðunin hafi í raun falið í sér dulbúna og fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi, án þess að gætt hafi verið að lögbundnum skilyrðum fyrir slíku og án þess að meðferð málsins samrýmdist lögbundnum kröfum, m.a. samkvæmt ákvæðum 26. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þessu mótmælir stefndi og vísar til þess að einungis hafi verið um að ræða tímabundna breytingu á starfi stefnanda og hafi lögreglustjóri haft heimild til að ráðast í breytinguna á grundvelli stjórnunarréttar síns sem yfirmaður embættis lögreglustjórans á […]. Þá vísar stefndi til þess að bæði í umdeildri ákvörðun lögreglustjórans og rökstuðningi fyrir henni komi fram að breytingin byggist á 19. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Svo sem áður er lýst, liggur fyrir bréf lögreglustjórans á […] til stefnanda sem dagsett er 25. janúar 2016 en óumdeilt er hins vegar að var afhent stefnanda á fundi hennar hjá lögreglustjóranum 22. sama mánaðar. Í upphafi bréfsins segir að það varði „[b]reytingu á starfsskyldu með vísan til 19. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“ Í bréfinu er tilkynnt að frá og með 25. janúar 2016 til og með 24. júlí sama ár, eða þar til annað verði ákveðið, verði störfum stefnanda og verksviði breytt þannig að stefnandi muni taka tímabundið við verkefni sem felist í skipulagningu á nýrri rannsóknardeild embættisins sem taka eigi til starfa á vormánuðum. Í rökstuðningi lögreglustjórans í bréfi, dagsettu 5. febrúar 2016, er m.a. rakið að hann leggi mikla áherslu á innleiðingarverkefni og vísað til þess að stefnanda hafi verið falið að útfæra nánar fyrirliggjandi tillögur innleiðingarhópsins. Fram kemur að þetta sé gert í samræmi við hugmyndir og vinnu innleiðingarhóps, sem stefnandi sitji í, og að D, sem þá var aðallögfræðingur embættisins og formaður innleiðingarhópsins, muni stýra verkefninu. Þá segir bæði í ákvörðuninni og rökstuðningnum fyrir henni að breytingin muni hvorki skerða launakjör né önnur réttindi stefnanda og er óumdeilt í málinu að það hafi gengið eftir. Í rökstuðningi lögreglustjóra er jafnframt vísað til óróa innan deildar stefnanda vegna gruns um ætluð brot undirmanna hennar og vikið að stuðningi stefnanda við einn þeirra. Allt að einu er hvorki í rökstuðningnum né ákvörðuninni byggt á því að stefnandi hafi sýnt einhvers konar vanrækslu í starfi. Framangreint orðfæri ákvörðunarinnar og rökstuðnings lögreglustjóra sem og tilvísun til 19. gr. laga nr. 70/1996 ber með sér að ekki hafi staðið til að umrædd breyting á störfum stefnanda og verksviði yrði varanleg. Það fær jafnframt stoð í vætti B lögreglustjóra og D, þáverandi aðallögfræðings embættisins, sem báðar báru á þann veg fyrir dóminum að litið hefði verið svo á að stefnandi kæmi aftur til starfa sem yfirmaður sameinaðrar deildar fíkniefnamála og skipulagðrar brotastarfsemi þegar leyfi hennar lyki 15. desember nk. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber að beita ákvæðum þeirra þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna segir að í lögfræðinni hafi ákvarðanir um skipun, setningu og ráðningu opinberra starfsmanna, svo og lausn þeirra frá störfum og brottvikningu þeirra, verið flokkaðar sem stjórnvaldsákvarðanir. Sama eigi við um ákvarðanir stjórnvalda um að beita opinbera starfsmenn stjórnsýsluviðurlögum, eins og frádrætti frá launum, vegna ólögmætra fjarvista frá vinnu. Í athugasemdunum er síðan tekið fram að lögin gangi út frá þessari hefðbundnu skilgreiningu og því falli slíkar ákvarðanir undir gildissvið þeirra. Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 70/1993, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, var það eitt af markmiðum lagasetningarinnar að auka sjálfstæði forstöðumanna ríkisstofnana og möguleika þeirra til að taka ákvarðanir er varða stjórnun og starfsmannahald. Samkvæmt 19. gr. laganna er starfsmanni skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi. Í dómaframkvæmd hefur almennt verið talið að ákvörðun um breytingu á starfi eða verksviði ríkisstarfsmanns lúti að innra skipulagi stjórnsýslunnar ef hún hefur ekki jafnframt í för með sér skert launakjör eða önnur réttindi starfsmanns. Að öllu framangreindu virtu er ljóst að engin breyting var fyrirhuguð á launakjörum stefnanda eða réttindum hennar að öðru leyti á meðan á hinni tímabundnu breytingu á starfi hennar stæði. Þá liggur fyrir að stefnandi er enn í launalausu leyfi frá störfum sem aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóraembættinu og hefur viðhaldið ráðningarsambandi sínu við embættið á þeim forsendum að hún njóti þar lögbundinna og kjarasamningsákveðinna réttinda, svo sem segir í framhaldsstefnu. Að þessu virtu og þegar litið er til þess, sem að framan er rakið um efni umþrættrar ákvörðunar og rökstuðnings fyrir henni, og að þar sem ekki verður séð að ákvörðunin hafi haft í för með sér skert launakjör eða önnur réttindi stefnanda, er ekki unnt að fallast á það með stefnanda að ákvörðunin hafi verið stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Í þessu ljósi og með vísan til ákvæða 19. gr. laga nr. 70/1993 um að starfsmanni beri að hlíta breytingu á störfum sínum og verksviði, þykir ekki breyta þeirri niðurstöðu þótt vilji stefnanda hafi ekki staðið til þessarar breytingar né heldur þótt hún hafi átt að sinna tímabundið öðrum verkefnum en hún hafði áður sinnt. Enn fremur er það mat dómsins að ekki ráði úrslitum að þessu leyti, þótt breytingin hafi haft í för með sér að stefnandi færi ekki tímabundið með mannaforráð eða að hana hafi átt að setja tímabundið undir stjórn starfsmanns sem nyti ekki formlegrar tignar innan lögreglunnar. Að þessu leyti skiptir mestu að breytingin var tímabundin, hvort sem hún myndi vara sex mánuði, svo sem gert var ráð fyrir í upphafi, eða annan tíma. Loks er það niðurstaða dómsins, að þótt fyrir liggi að á árinu 2015 hafi samskipti stefnanda og lögreglustjóra versnað frá því sem áður var, svo sem síðar verður nánar vikið að, sé í ljósi alls framangreinds ekki unnt að fallast á það með stefnanda að framangreind ákvörðun lögreglustjóra hafi í raun falið í sér dulbúna og fyrirvaralausa brottvikningu í starfi, svo sem stefnandi byggir á. Að þessu virtu og þar sem hvorki var heldur um að ræða lausn frá starfi um stundarsakir né lausn frá embætti er því hafnað að lögreglustjóra hafi borið að gæta ákvæða 26. gr. laga nr. 70/1996 áður en ákvörðunin var tekin. Eins og málið liggur fyrir verður með sömu rökum að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að lögreglustjóri hafi með ákvörðuninni og aðdraganda hennar brotið gegn reglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt og rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga.    Í dómaframkvæmd hefur verið gengið út frá því að af 19. gr. laga nr. 70/1996 verði ráðið að forstöðumenn ríkisstofnana eða aðrir yfirmenn þeirra, sem til þess eru bærir, hafi ótvíræða heimild til að breyta störfum og verksviði ríkisstarfsmanna og að það sé háð mati þeirra fyrrnefndu hvort tilefni sé til slíkra breytinga. Slíkar ákvarðanir verða þó að vera reistar á málefnalegum sjónarmiðum og ekki meira íþyngjandi fyrir starfsmenn en nauðsyn ber til. Svo sem áður er lýst, laut umþrætt ákvörðun að því að breyta tímabundið störfum og verksviði stefnanda þannig að hún ynni tímabundið í fullu starfi í innleiðingarhópi embættisins við skipulagningu á nýrri rannsóknardeild embættisins sem upphaflega stóð til að hæfi störf á vormánuðum 2016. Um ástæður breytingarinnar er þess m.a. getið í rökstuðningi lögreglustjórans að lögð sé rík áhersla á innleiðingarverkefnið, auk þess sem vísað var til þess, að órói og óeining hefði skapast í deild stefnanda vegna rannsóknar ætlaðra brota starfsmanna hennar á vormánuðum 2015. Fyrir liggur að stefnandi hafði setið í innleiðingarhópi lögreglustjóraembættisins frá upphafi haustið 2015. Verkefni hans var m.a. að vinna að breytingum á rannsóknardeildum embættisins. Þannig stóð til að breyta deild R-2, rannsóknardeild fíkniefnamála og skipulagðrar brotastarfsemi, sem stefnandi stjórnaði, með því að sameina hana og rannsóknardeild fjármunabrota, deild R-1. Hin nýja sameinaða deild átti að vera undir stjórn stefnanda. Að sögn vitnisins D,  þáverandi yfirlögfræðings embættisins og stjórnanda innleiðingarhópsins, fundaði innleiðingarhópurinn tvisvar í viku framan af og báru bæði vitnið og stefnandi um það fyrir dóminum að starfið hefði gengið vel. Í stefnu er þess getið að vinnu innleiðingarhópsins hefði, í öllum aðalatriðum, verið lokið í janúar 2016. Stefnandi kannaðist þó við það í skýrslu sinni fyrir dóminum, að vinnan hefði tafist vegna atriða sem lutu að húsnæðis- og ráðningarmálum. Hún kvaðst hafa treyst sér til að vinna áfram með innleiðingarhópnum með fram störfum sínum sem yfirmaður deildar sinnar. Vitnið N yfirlögregluþjónn taldi vinnu við innleiðingarferlið ekki vera fullt starf fyrir stefnanda. D kvað vinnu hópsins hins vegar hafa liðið fyrir óróa og rannsókn á ásökunum í deild stefnanda. Hún taldi deild stefnanda hafa verið nánast óstarfhæfa frá árslokum 2015 og fram á árið 2016. Þá hefði innleiðingarferlinu ekki verið að fullu lokið fyrr en vorið 2017. Hún tók jafnframt fram að sú breyting að færa stefnanda í fullt starf við innleiðingarferlið hefði frá upphafi verið tímabundin, í hæsta lagi til sex mánaða, og að aldrei hefði verið rætt um annað. Í skýrslu sinni fyrir dóminum tók lögreglustjóri í sama streng og vísaði til þess að innleiðingarverkefni innan deildar stefnanda hefðu ekki gengið sem skyldi vegna erfiðleika í deildinni, m.a. vegna gruns um brot starfsmanna deildarinnar, auk þess sem afköst deildarinnar hefðu farið minnkandi. Lögreglustjóri taldi jafnframt að vinna við innleiðingarverkefnið væri fullt starf fyrir stefnanda tímabundið. Stefnandi lýsti því í skýrslu sinni fyrir dómi að þegar hún hefði komið til starfa sem yfirmaður við deild um skipulagða glæpastarfsemi hefði hún orðið vör við að þar ríkti óánægja. B lögreglustjóri, D, þáverandi aðallögfræðingur, K, þáverandi aðstoðarsaksóknari, P, settur lögreglufulltrúi og R lögreglufulltrúi, sem öll voru á þessum tíma starfsmenn embættis lögreglustjórans á […], sem og L, aðstoðaryfirlögregluþjónn og deildarstjóri hjá greiningardeild […], lýstu því öll að í deild stefnanda hefði verið óeining og þá hefðu verið talsverðir samskiptaerfiðleikar milli starfsmanna deildarinnar og stefnanda. Þau báru öll að starfsmenn deildarinnar hefðu kvartað yfir stjórnunarháttum stefnanda og lögreglustjóri, L og S, tengslafulltrúi Íslands hjá Europol og forveri stefnanda í umræddri deild, báru að afköst í deild stefnanda hefðu farið minnkandi á starfstíma hennar. N, yfirlögregluþjónn og næsti yfirmaður stefnanda, og M, þáverandi aðstoðarlögreglustjóri, saksóknari og yfirmaður ákæru- og rannsóknardeildar, könnuðust einnig við að á árinu 2015 hefði ríkt einhver óeining í deild stefnanda en tengdu hana ekki stjórnunarháttum stefnanda. Fyrrnefnt vitni sagði kvartanir hafa verið fáar en síðarnefnt vitni kvaðst aldrei hafa heyrt af þeim kvörtunum sem lögreglustjóri hefði talað um. Hvorugur þeirra kannaðist við að afköst innan deildar stefnanda hefðu verið lítil á þessum tíma. Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að ákvörðun lögreglustjóra hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum sem fá stoð í gögnum málsins og vætti vitna, svo sem gerð er grein fyrir í ákvörðuninni og rökstuðningi lögreglustjóra fyrir henni. Þegar jafnframt er litið til þess að umrædd breyting á störfum og verksviði stefnanda var tímabundin, svo sem kemur fram í bæði ákvörðuninni og rökstuðningi lögreglustjóra, verður að telja að ákvörðunin hafi ekki verið óþarflega íþyngjandi fyrir stefnanda. Verður því hvorki fallist á það með stefnanda að með ákvörðuninni hafi verið brotið gegn ákvæðum 19. gr. laga nr. 70/1996 né gegn reglu stjórnsýslulaga um meðalhóf. Stefnandi byggir jafnframt á því að lögreglustjóri hafi með ámælisverðum og endurteknum hætti valdið henni vanlíðan á vinnustaðnum og að háttsemi hans hafi falið í sér brot gegn reglugerð nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Í stefnu eru tekin sem dæmi um ámælisverða og endurtekna háttsemi lögreglustjóra dráttur á skipun stefnanda í starf sem yfirlögregluþjónn, tilraun lögreglustjóra til að koma stefnanda úr starfi með því að leggja til flutning til héraðssaksóknara, upplestur úr tölvupósti stefnanda í viðurvist undirmanna og annarra samstarfsmanna stefnanda, sú háttsemi að víkja stefnanda úr valnefnd vegna ráðningar nýrra lögreglufulltrúa sem og umþrætt breyting á störfum stefnanda. Stefnandi lýsti því fyrir dóminum að þessi háttsemi lögreglustjóra og aðrir samstarfserfiðleikar þeirra í milli hefðu valdið sér vanlíðan. Stefndi hefur mótmælt þessari málsástæðu stefnanda. Fyrir liggur að stefnandi var sett til eins árs í stöðu aðstoðarlögregluþjóns í apríl 2014 og síðan skipuð af lögreglustjóra í embættið 29. apríl 2015 til fimm ára frá 15. apríl 2015 að telja. Engin gögn hafa verið lögð fram sem styðja fullyrðingu stefnanda um að tímasetning skipunarinnar hafi með einhverjum hætti grundvallast á ámælisverðri háttsemi lögreglustjórans. Fyrir liggur að lögreglustjóri ræddi það við héraðssaksóknara hvort unnt væri að flytja stefnanda til embættis þess síðarnefnda, svo sem héraðssaksóknari kvað oft hafa verið gert, og gaf lögreglustjóri þá skýringu fyrir dómi að hún hefði með þessu viljað koma stefnanda „í skjól“. Af sömu ástæðu hefði hún ákveðið að taka stefnanda út úr valnefnd vegna ráðningar nýs lögreglufulltrúa í deild stefnanda, og vísaði m.a. til óróa innan deildar stefnanda vegna spillingarrannsóknar sem beindist að starfsmönnum deildarinnar. Þá hafnaði lögreglustjóri því alfarið að fundur stefnanda með innanríkisráðherra 15. janúar 2016 hefði haft áhrif á umþrætta ákvörðun sem mál þetta snýst um. Lögreglustjóri kannaðist við að hafa í eitt skipti lesið upphátt í votta viðurvist upp úr tölvupósti stefnanda til sín þar sem fram hefði komið að vitnið væri velkomið á starfsmannafund í deild stefnanda. K þáverandi aðstoðarsaksóknari hjá lögreglustjóranum á […], kvaðst hafa orðið vitni að atvikinu og þótt það lítilsvirðandi en kvaðst þó ekki muna hvert efni tölvupóstsins hefði verið. Í b-lið 3. gr. reglugerðarinnar er einelti skilgreint þannig að það felist í síendurtekinni hegðun sem almennt sé til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Hins vegar er í ákvæðinu tekið fram að skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna falli ekki hér undir. Þegar litið er til þess sem rakið er hér að framan um samskipti stefnanda og lögreglustjóra, og jafnframt með hliðsjón af því sem fram er komið í málinu og ljóst er af gögnum og vætti vitna er augljóst að ekki ríkti nægilegt traust milli stefnanda og lögreglustjóra þegar komið var fram á árið 2015 og því hafði skapast spenna í samskiptum þeirra. Að einhverju leyti þykir mega rekja þá misbresti til þess að lögreglustjóri hafi ekki í öllu tilliti gætt nægilega góðra stjórnunarhátta í þeim samskiptum, og þá einkum með því að upplýsa stefnanda ekki fyrir fram um efni fundar sem hún boðaði hana á 15. desember 2015 og lesa upphátt úr tölvupósti stefnanda í votta viðurvist. Ljóst er af gögnum málsins og skýrslu stefnanda fyrir dómi að stefnandi fór í sjúkraleyfi vegna ástæðna sem raktar hafa verið til erfiðleika í samstarfi hennar og lögreglustjóra. Þegar litið er til alls framangreinds verður hins vegar ekki fallist á það með stefnanda að tilgreind háttsemi lögreglustjóra eða önnur, sem lýst er hér að framan, sé þess eðlis að í henni hafi falist síendurtekin og lítillækkandi, móðgandi, særandi eða ógnandi hegðun eða hegðun sem veldur ótta og er almennt til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, sbr. b-lið 3. gr. reglugerðar nr. 1009/2015. Af þessum sökum telur dómurinn ósannað að lögreglustjóri hafi lagt stefnanda í einelti og þannig brotið gegn reglugerðinni, svo sem stefnandi heldur fram. Þá verður ekki talið að mikil fjölmiðlaumfjöllun um umrædda ákvörðun lögreglustjóra, sem jafnframt hverfðist um stöðu mála innan embættisins að öðru leyti, verði metin lögreglustjóra til sakar. Liggur enda ekkert fyrir í málinu um að hana megi rekja til ámælisverðrar háttsemi hans. Með sömu rökum verður heldur ekki fallist á að lögreglustjóra hafi brostið sérstakt hæfi til töku ákvörðunarinnar, sbr. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.   Loks byggir stefnandi á því að lögreglustjóri hafi, með ákvörðun um að flytja stefnanda úr stöðu yfirmanns og setja í hennar stað karlmann, sem naut lægri tignar en stefnandi og hafði minni reynslu, brotið gegn 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Ákvörðunin hafi því verið ólögmæt. Hér verður að líta til þess að svo sem ákvörðun lögreglustjóra ber með sér, leiddi hún ekki til neinna breytinga á kjörum stefnanda. Þá var um að ræða tímabundna breytingu á störfum stefnanda sem rökstudd var með málefnalegum hætti. Loks verður að telja ósannað að ákvörðunin hafi endurspeglað fordóma gagnvart stefnanda sem kvenkyns yfirmanns. Gegn mótmælum stefnda verður því að hafna þessari málsástæðu stefnanda. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að umþrætt ákvörðun lögreglustjórans á […] hafi samrýmst stjórnunarrétti hans sem forstöðumanns embættisins og að hún hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og hvorki gengið lengra né verið meira íþyngjandi fyrir stefnanda en efni stóðu til. Því verður ekki fallist á það með stefnanda að ákvörðunin sé ólögmæt á þeim grundvelli að með henni hafi lögreglustjóri brotið gegn skráðum eða óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins með saknæmum og ólögmætum hætti. Þá hefur því verið hafnað að lögreglustjóri hafi með áðurgreindri háttsemi sinni og umþrættri ákvörðun brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga eða gerst sekur um einelti í garð stefnanda. Samkvæmt þessari niðurstöðu eru ekki efni til að verða við kröfum stefnanda um ógildingu ákvörðunarinnar og skaðabætur vegna hennar. Stefndi verður því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum öllum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.  Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D ó m s o r ð: Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, A, í máli þessu. Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Mál nr. 816/2017
Stjórnsýsla Opinberir starfsmenn Lögreglumaður Stjórnvaldsákvörðun Rannsóknarregla Meðalhóf Miskabætur
S starfaði sem lögreglumaður hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu en var veitt lausn um stundarsakir í janúar 2016 á grundvelli 2. málsliðar 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1990 vegna ætlaðra brota í starfi. S kærði ákvörðun lögreglustjóra til innanríkisráðuneytisins sem með úrskurði sínum í júlí sama ár felldi ákvörðunina úr gildi. Áður en úrskurður ráðuneytisins lá fyrir hafði héraðssaksóknari lokið rannsókn á ætluðum brotum S og komist að þeirri niðurstöðu að eftir ítarlega rannsókn hefði ekkert komið í ljós sem rennt gæti stoðum undir að S hefði með einhverjum hætti gerst brotlegur í starfi. Hefði málið því verið fellt niður með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008. S krafðist skaðabóta vegna miska og fjártjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna meðferðar málsins. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að ákvörðun lögreglustjóra hefði gengið lengra en efni stóðu til og ekki hefði verið lagður viðhlítandi grunnur að þeirri ákvörðun. Hefði málsmeðferðin því farið í bága við 10. gr. stjórnsýslulaga og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Fallist var á að S ætti rétt á miskabótum úr hendi Í sem voru hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir landsréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og falli þá málskostnaður niður. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Stefndi hefur starfað sem lögreglumaður frá árinu 2000, fyrst við embætti lögreglustjórans í Reykjavík en síðan hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eftir breytingar á lögregluembættunum árið 2007. Eftir að hafa starfað í nokkurn tíma við langtímarannsóknir í ávana- og fíkniefnadeild var starfssviði hans breytt árið 2009 og fólst eftir það í að koma á tengslum við svokallaða upplýsingagjafa lögreglu. Kveður stefndi að nokkru eftir það hafi komist á kreik orðrómur um að hann þægi greiðslur frá sínum upplýsingagjafa gegn því að veittar yrðu upplýsingar um störf lögreglu. Vegna þessa orðróms ritaði Karl Steinar Valsson, þáverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn, minnisblað 30. janúar 2012 vegna upplýsinga sem komu frá einstaklingi er tengdist virkum upplýsingagjafa lögreglu, en viðkomandi hafði greint frá því að stefndi þægi greiðslu fyrir veittar upplýsingar. Í niðurstöðu minnisblaðsins kom fram það álit Karls Steinars að hann bæri „100%“ traust til samskipta stefnda við upplýsingagjafa og hefði hann ekki trú á því að hann hefði tekið við fjármunum frá upplýsingagjafa lögreglu. Jafnframt sagði þar að hann teldi mjög mikilvægt að brugðist yrði við þessum orðrómi og væri stefndi tilbúinn til að gera allt til að upplýsa málið. Stefndi ritaði minnisblað 31. sama mánaðar þar sem fram kom að hann teldi ásakanir á hendur sér vera mjög alvarlegar og nauðsynlegt að yfirstjórn lögreglu tæki afstöðu til þeirra eins og fljótt og auðið væri. Hann tók fram í lokaorðum minnisblaðsins að hann myndi veita atbeina sinn í öllu til þess að hið rétta kæmi fram. Ekkert var þó aðhafst um sinn af hálfu yfirstjórnar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til þess að komast að raun um sannleiksgildi þeirra ávirðinga sem á hann höfðu verið bornar. Hinn 1. janúar 2013 mun stefndi hafa verið settur í stöðu lögreglufulltrúa hjá fíkniefnadeildinni og stýrt á þeim tíma bæði svokölluðum aðgerðahóp og upplýsingateymi en það var hann mjög ósáttur við og taldi það ekki samrýmanlegt að sá sem stýrði aðgerðahóp væri jafnframt í forsvari fyrir upplýsingateymi. Í skýrslu innri endurskoðunar frá apríl 2014, sem unnin var að beiðni þáverandi lögreglustjóra um úttekt á samskiptum fíkniefnadeildar við uppljóstrara, var tekið undir það sjónarmið stefnda að ekki væri æskilegt að sá sem stýrði upplýsingateyminu væri jafnframt í forsvari fyrir aðgerðahópinn. Einnig sagði þar að það væri mat innri endurskoðunar að mjög vel og fagmannlega hefði verið staðið að verki varðandi samskipti við uppljóstrara. Í bréfi Ásgeirs Karlssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra, til ríkissaksóknara 18. maí 2015 kom fram að vikurnar fyrir ritun bréfsins hefðu alls átta lögreglumenn leitað til sín og lýst yfir áhyggjum vegna hugsanlegra brota stefnda í starfi er lytu að því að hindra rannsókn á ætluðum brotum tilgreinds manns. Lögreglustjóra barst sama dag bréf ríkissaksóknara þar sem óskað var eftir lýsingu lögreglustjóra og mati á málefninu auk upplýsinga um hvort og þá hvernig lögreglustjóri hygðist bregðast við framangreindum upplýsingum. Í kjölfarið fól yfirstjórn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tveimur lögreglumönnum, þeim Baldvini Einarssyni og Kristjáni Inga Kristjánssyni, að afla upplýsinga um ávirðingar á hendur stefnda með viðtölum við þá starfsmenn fíkniefnadeildar sem höfðu kvartað yfir störfum stefnda og leitað til fyrrgreinds Ásgeirs vegna ásakana á hendur honum. Skýrslu var skilað um upplýsingarnar 4. júní 2015 og var hún byggð á viðtölum við átta lögreglumenn, auk Ásgeirs Karlssonar. Hinn 23. júní 2015 munu ríkissaksóknari og lögreglustjóri hafa átt fund þar sem ákveðið var að lögreglustjórinn kannaði ákveðin atriði sem komið hefðu fram í fyrrgreindri skýrslu 4. júní 2015. Var fyrrgreindum Baldvini falið það verkefni og skilaði hann skýrslu sinni 14. desember sama ár. Í upphafi skýrslunnar kom fram að Baldvini hafi verið ætlað að fá nánari skýringar á tilteknum atvikum er rakin voru í skýrslu hans og Kristjáns Inga 4. júní 2015. Ekki væri um formlega lögreglurannsókn að ræða, heldur innanhússathugun. Munu ásakanir á hendur stefnda hafa verið tengdar við einstök mál og skoðaðar í tengslum við lögregluskýrslur og skráningar í þau kerfi sem upplýsingateymi fíkniefnadeildarinnar notaði. Yfirstjórn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tók ákvörðun um að flytja stefnda úr fíkniefnadeild yfir í ofbeldis- og kynferðisbrotadeild 1. júlí 2015. Stefndi var aftur fluttur til innan embættisins 15. nóvember sama ár og þá í tölvurannsóknardeild. Sama dag og Baldvin skilaði skýrslu hófst umfjöllun fjölmiðla um málið. Næsta dag var ríkissaksóknara afhent skýrsla Baldvins, en þann dag setti Húnbogi J. Andersen, fyrrum lögreglumaður, sig í samband við ríkissaksóknara og kvað skjólstæðing sinn búa yfir upplýsingum sem sneru að ætluðum brotum ákveðinna yfirmanna í ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar. Í kjölfar þess hringdi ríkissaksóknari í Húnboga sem upplýsti að skjólstæðingur hans, sem jafnframt væri upplýsingagjafi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, væri reiðubúinn að uppfylltum tilteknum skilyrðum að veita upplýsingar um að stefndi hefði brotið af sér í starfi með því að þiggja greiðslur fyrir upplýsingar um málefni fíkniefnadeildarinnar. Hinn 17. desember sama ár tók ríkissaksóknari ákvörðun um að hefja sakamálarannsókn á ætluðum brotum stefnda og óskaði eftir liðsinni ríkislögreglustjóra við rannsóknina. Degi síðar var stefndi fluttur í tæknideild lögreglunnar að ákvörðun lögreglustjóra. Hinn 8. janúar 2016 sendi ríkissaksóknari héraðssaksóknara málið til viðeigandi meðferðar á grundvelli 28. gr. og 3. mgr. 29. gr. laga nr. 47/2015 um breytingu á lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála og lögreglulögum nr. 90/1996 og afturkallaði beiðni sína um aðstoð ríkislögreglustjóra. Með bréfinu fylgdu meðal annars fyrrgreindar innanhússathuganir sem eins og áður greinir, byggðu á viðtölum við þá lögreglumenn sem höfðu kvartað yfir störfum stefnda og borið á hann sakir. Með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til stefnda 14. janúar 2016 var honum veitt lausn frá störfum um stundarsakir. Í því var vísað til framangreindra bréfa ríkissaksóknara og að fram hefði komið að ætluð brot stefnda vörðuðu við 128. og 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hefði málið verið sent til héraðssaksóknara til viðeigandi meðferðar. Í bréfinu sagði jafnframt að það væri niðurstaða lögreglustjóra að þær athafnir sem stefndi væri grunaður um væru ósamrýmanlegar því embætti sem hann gegndi. Í ljósi þess að sú háttsemi sem hann væri grunaður um hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga, yrði hann sakfelldur, væri honum veitt lausn um stundarsakir með vísan til síðari málsliðar 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Með bréfi stefnda til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 15. janúar 2016 óskaði hann eftir gögnum er vörðuðu mál hans á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en var tilkynnt með tölvubréfi þess síðarnefnda 21. sama mánaðar að ekki fengjust gögn frá héraðssaksóknara. Stefndi kærði fyrrgreinda ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 24. febrúar 2016 til innanríkisráðuneytisins sem kvað upp úrskurð sinn 8. júlí sama ár.  Með úrskurðinum var felld úr gildi ákvörðun lögreglustjórans um að veita stefnda lausn frá embætti um stundarsakir. Þar kom meðal annars fram að ekki hafi verið gætt meðalhófs við töku ákvörðunarinnar og brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Áður en úrskurður innanríkisráðuneytisins lá fyrir hafði rannsókn héraðssaksóknara á ætluðum brotum stefnda lokið, eins og fram kom í bréfi hans 8. júní 2016 um niðurstöðu rannsóknarinnar. Þar sagði að eftir ítarlega rannsókn héraðssaksóknara á ætluðum brotum stefnda í starfi hefði ekkert komið í ljós sem rennt gæti stoðum undir að stefndi hefði með einhverjum hætti gerst brotlegur í starfi. Hefði fyrrgreindur „umbjóðandi“ Húnboga J. Andersen verið yfirheyrður og með öllu neitað að hafa átt þau samskipti við stefnda sem Húnbogi hafi tjáð ríkissaksóknara. Héraðssaksóknari hefði því fellt málið niður, sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008. Enn fremur sagði í niðurstöðu héraðssaksóknara að svo virtist sem samskiptaörðugleikar innan fíkniefnadeildar, orðrómur meðal brotamanna og hugsanlega persónulegur ágreiningur skýrt að einhverju leyti þrálátan orðróm um hið gagnstæða. Í kjölfar þessara málalykta var stefndi boðaður til starfa á ný með bréfi aðstoðarlögreglustjóra 9. júní 2016. Stefndi kærði fyrrgreindan Húnboga fyrir rangar sakargiftir með bréfi til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 24. júní 2016. Í bréfinu sagði meðal annars að Húnbogi hefði „veitt saksóknara vísvitandi rangar upplýsingar í samtali þann 15. desember 2015 ... hann viðurkenndi síðan í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara að þær upplýsingar sem hann lét ríkissaksóknara í té voru einvörðungu hans ágiskanir.“ Með bréfi 25. október 2016 setti stefndi fram skaðabótakröfu sína gagnvart áfrýjanda vegna miska og fjártjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna meðferðar málsins. II Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína á því að meðferð málsins og ákvörðun lögreglustjóra 14. janúar 2016 um að veita stefnda lausn frá embætti um stundarsakir hafi verið í samræmi við lög. Gætt hafi verið að ákvæðum stjórnsýslulaga og hvorki hafi rannsóknarregla verið virt að vettugi né hafi verið farið gegn meðalhófi. Áfrýjandi kveður ákvörðunina hafa verið byggða á því að stefndi hafi sætt sakamálarannsókn vegna gruns um mjög alvarleg brot. Í ákvörðuninni, sem byggst hafi á síðari málslið 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996, hafi falist ákveðið meðalhóf, en um bráðabirgðaúrræði sé að ræða sem beita megi við þær aðstæður sem verið hafi uppi í máli stefnda. Stefndi kveður ákvörðun lögreglustjóra um að veita honum lausn frá embætti um stundarsakir hafa falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru hans og persónu í skilningi b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við málsmeðferð og undirbúning ákvörðunarinnar hafi verið farið á svig við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, meðalhófsreglu og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins. Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti kom fram sá skilningur áfrýjanda að ágreiningur aðila væri einskorðaður við lögmæti ákvörðunar lögreglustjóra um að veita stefnda lausn frá embætti um stundarsakir. Af stefnda hálfu var hins vegar áréttað að krafa hans um miskabætur tæki jafnframt til nánar greindrar háttsemi lögreglustjóra gagnvart honum í aðdraganda hinnar tímabundnu lausnar frá starfi á árunum 2015 og 2016. III Ekki verður fallist á það með stefnda að háttsemi lögreglustjóra í hans garð í aðdraganda lausnar hans frá starfi um stundarsakir hafi verið með þeim hætti að leitt geti til bótaskyldu af hálfu áfrýjanda. Er þá meðal annars til þess að líta að stefndi samþykkti flutning milli deilda og kallaði sjálfur eftir því að fram færi rannsókn á ásökunum á hendur honum um brot í starfi. Snýr málið því alfarið að þeim þætti hvort  ákvörðun lögreglustjóra um að veita stefnda lausn frá embætti um stundarsakir hafi verið lögmæt og ef ekki hvort skilyrði séu til greiðslu miskabóta honum til handa á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 veitir það stjórnvald er skipar í embætti lausn frá því um stundarsakir. Í síðari málslið 3. mgr. sömu greinar er mælt fyrir um að lausn megi veita um stundarsakir ef embættismaður er grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga. Í samræmi við þetta ákvæði veitti lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu stefnda lausn um stundarsakir og vísaði til þess að þær athafnir sem hann væri grunaður um væru ósamrýmanlegar því embætti sem hann gegndi og að ef sök sannaðist hefði háttsemin í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga. Ákvörðun um lausn frá embætti um stundarsakir er íþyngjandi ákvörðun og bar lögreglustjóra í því ljósi að rannsaka til hlítar og af hlutlægni þær ávirðingar sem bornar höfðu verið á stefnda. Slík rannsókn fór ekki fram. Einungis var unnin „innanhússathugun“ þar sem aðeins var rætt við þá lögreglumenn sem kvartað höfðu undan störfum stefnda og borið á hann sakir, en hvorki stefnda, næstu yfirmenn hans né aðra. Þá upplýsti lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fyrir dómi að hún hefði ekki kynnt sér fyrrgreint minnisblað Karls Steinars Valssonar frá 2012, er hún kom að máli stefnda árið 2015. Hún kvaðst heldur ekki muna niðurstöður innanhússathugunar fyrrgreinds Baldvins og send var ríkissaksóknara og mun meðal annars hafa orðið grundvöllur þess að ríkissaksóknari ákvað að hlutast til um að rannsókn færi fram á ætluðum brotum stefnda. Hún kvaðst þó hafa ,,flett“ skýrslunni, en aldrei verið „inni í neinu af þessu“. Á lögreglustjóra hvíldi sérstaklega rík skylda til að rannsaka sannleiksgildi þeirra ávirðinga sem á stefnda voru bornar og gæta meðalhófs við töku ákvörðunar sinnar, ekki síst í ljósi þess að stefndi hafði nokkrum árum áður sætt slíkum áburði, án þess að fyrir honum væri nokkur fótur, eins og rakið var í áðurnefndu minnisblaði fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjóns 2012. Athuganir þeirra Baldvins og Kristjáns Inga leiddu ekki til neinnar eiginlegrar niðurstöðu og þá lágu ekki neinar nýjar upplýsingar fyrir um ætluð brot stefnda í starfi þegar lögreglustjóri tók hina umdeildu ákvörðun. Breytir þar engu að ríkissaksóknari hafði ákveðið að hlutast til um rannsókn á ætluðum brotum stefnda. Var málsmeðferð lögreglustjóra að þessu leyti andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga. Þegar ákvörðun lögreglustjóra var tekin hafði stefndi þegar verið fluttur í tæknideild. Bar því eins og á stóð ekki nauðsyn til að grípa til svo afdrifaríkrar ákvörðunar sem tímabundin lausn úr starfi er og gekk hún því lengra en efni stóðu til og fór þannig í bága við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Kröfu sína um miskabætur reisir stefndi á því að ákvörðun lögreglustjóra hafi valdið sér gífurlegum álitshnekki. Með henni hafi verið vegið að starfsheiðri hans og starfsframi borið varanlegan hnekki. Í ákvörðun lögreglustjóra hafi falist meingerð gegn æru stefnda og persónu, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Stefndi hefur starfað sem lögreglumaður frá árinu 2000 og má ráða af gögnum málsins að hann hafi verið metnaðarfullur og farsæll í störfum sínum. Með ákvörðun lögreglustjóra var vegið mjög að starfsheiðri hans og æru. Er samkvæmt öllu framangreindu fullnægt skilyrðum b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga til að dæma stefnda miskabætur úr hendi áfrýjanda sem eru ákveðnar 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Eftir framangreindum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Steindóri Inga Erlingssyni, 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Áfrýjandi greiði stefnda samtals 2.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.                                                                              Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2017. Mál þetta var höfðað 29. nóvember 2016 af Steinþóri Inga Erlingssyni, Lækjarvaði 20, 110 Reykjavík gegn íslenska ríkinu, Vegmúla 3, Reykjavík. Málið var dómtekið eftir lok aðalmeðferðar þess 5. september sl. Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 5.144.210 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 4.000.000 króna frá 14. janúar 2016 til 24. nóvember 2016, af fjárhæðinni allri frá 24. nóvember 2016 til 25. nóvember  2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins. Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda en til vara er krafist lækkunar. Þá krefst stefndi málskostnaðar en til vara að hann verði látinn niður falla. I. Stefnandi er lögreglumaður. Hann útskrifaðist úr Lögregluskóla ríkisins á árinu 2000, með góða meðaleinkunn og var valinn „lögreglumaður skólans“ af kennurum. Stefnandi hefur starfað hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík, síðar lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu eða LRH, allar götur síðan. Á árinu 2002 hóf stefnandi störf hjá ávana- og fíkniefnadeild sem rannsóknarlögreglumaður. Hann hefur komið að og stýrt rannsóknum margra stórra fíkniefnamála á starfsferli sínum hjá deildinni. Þá hefur hann oft þurft starfs síns vegna að hafa afskipti af þeim sem hafa gerst sekir um fíkniefnabrot.   Eftir að stefnandi hafði starfað í nokkurn tíma við langtímarannsóknir í ávana- og fíkniefnadeild var starfssviði hans breytt. Eftir breytinguna, eða frá 2009, fólst starf hans eingöngu í að starfa í svokölluðu upplýsingateymi deildarinnar. Hlutverk upplýsingateymisins var að koma á tengslum við aðila, sem voru taldir búa yfir upplýsingum sem gætu nýst við lögreglurannsóknir, afla upplýsinga og koma þeim áfram til þeirra lögreglumanna sem mögulega gætu nýtt þær. Stefnandi segir að af einhverjum ástæðum, sem honum séu ekki kunnar, hafi farið af stað orðrómur um að hann ætti í óeðlilegu sambandi við upplýsingagjafa deildarinnar. Orðrómurinn um óeðlileg samskipti stefnanda við tiltekinn upplýsingagjafa hafi komist á flug síðla árs 2010 eða í byrjun árs 2011. Á svipuðum tíma hafi verið unnið að því að breyta verklagsreglum lögreglu varðandi upplýsingagjafa. Fram að þeim tíma höfðu sömu lögreglumenn og unnu að rannsókn mála oft einnig séð um samskipti við upplýsingagjafa. Hið breytta verklag hafi falist m.a. í því að nú sá upplýsingateymið um öll samskipti við upplýsingagjafa. Aðrir starfsmenn fíkniefnadeildar áttu ekki að annast slík samskipti. Rannsóknarlögreglumenn hafi svo fengið upplýsingarnar í gegnum upplýsingateymið og hafið rannsókn á grundvelli þeirra. Reglur um breytt verklag tóku gildi á árinu 2011 og kveður stefnandi ákveðna óánægju hafa verið með þær innan fíkniefnadeildar. Í byrjun árs 2012 bárust upplýsingar frá öðrum upplýsingagjafa lögreglu um að stefnandi þægi greiðslur frá sínum upplýsingagjafa gegn því að veita honum upplýsingar um störf lögreglu. Stefnandi vakti athygli yfirmanna sinna á þessum upplýsingum. Karl Steinar Valsson, þáverandi yfirmaður fíkniefnadeildar, ákvað þá að taka málið til sérstakrar skoðunar. Í janúar 2012 vann Karl Steinar minnisblað vegna orðrómsins og kynnti yfirstjórn LRH. Í minnisblaðinu, sem er dagsett 30. janúar 2012, er farið yfir hvernig málið snýr að Karli Steinari og færð rök fyrir því að ekkert bendi til að stefnandi hafi þegið greiðslu frá upplýsingagjafa eða veitt upplýsingar um störf lögreglu. Stefnandi skilaði jafnframt minnisblaði um stöðuna, sem er frá 31. janúar 2012, þar sem hann fór yfir málið eins og það sneri að honum og upplýsti jafnframt að hann væri boðinn og búinn að gera allt sem embættið teldi nauðsynlegt til þess að hið sanna og rétta kæmi fram í málinu. Á þessum tíma virðist yfirstjórn LRH að mati stefnanda hafa ákveðið að það væri ekki tilefni til frekari aðgerða vegna málsins enda hafi ekkert legið fyrir um ætluð brot stefnanda annað en gróusögur. Þann 1. janúar 2013 var stefnandi settur í stöðu lögreglufulltrúa hjá fíkniefnadeildinni og stýrði á þeim tíma bæði svokölluðum aðgerðarhóp og upplýsingateyminu líkt og áður. Stefnandi var frá upphafi ósáttur við að gegna báðum þessum störfum samhliða en tók þetta að sér tímabundið að beiðni Karl Steinars þangað til staða lögreglufulltrúa yfir aðgerðarhóp yrði auglýst. Dráttur varð hins vegar á því að staða yfirmanns aðgerðarhóps væri auglýst. Um miðjan apríl 2014 tók Aldís Hilmarsdóttir við stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns í fíkniefnadeildinni í stað Karls Steinars. Stefnandi ítrekaði við hana að hann vildi eingöngu gegna starfinu í upplýsingateyminu en ekki stýra aðgerðarhópnum. Stefnandi lét nýjan yfirmann fíkniefnadeildar einnig vita af orðrómnum um sig og óskaði eftir því að málið yrði tekið til almennilegrar skoðunar. Í apríl 2014 tók innri endurskoðun LRH fíkniefnadeild til skoðunar m.t.t. sérstakra aðferða og aðgerða deildarinnar. Megináhersla skoðunarinnar var lögð á samskipti við uppljóstrara. Almenn niðurstaða þeirrar skoðunar var að mjög vel og fagmannlega hafi verið staðið að verki varðandi samskipti við uppljóstrara. Innri endurskoðun taldi þó ekki æskilegt, líkt og yfirmaður deildarinnar og stefnandi, að sá sem stýrði upplýsingateymishópnum stýrði jafnframt aðgerðarhópnum. Við því var þó ekki brugðist. Í 1. september 2014 var Sigríður Björk Guðjónsdóttir skipuð í embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Eftir að Sigríður Björk hóf störf sem lögreglustjóri var hún upplýst um stöðu stefnanda hjá fíkniefnadeild af hálfu Aldísar Hilmarsdóttur og að þörf væri á öðrum lögreglufulltrúa í deildina til að taka við stjórn aðgerðarhóps. Vorið 2015 fékk orðrómurinn um stefnanda enn byr undir báða vængi og leituðu starfsmenn deildarinnar þá til þáverandi aðstoðarlögreglustjóra, Öldu Hrannar Jónsdóttur. Aldís Hilmarsdóttir, nýr aðstoðaryfirlögregluþjónn yfir deildinni, ákvað þá, í samráði við Friðrik Smára Björgvinsson yfirlögregluþjón, að boða til fundar í fíkniefnadeildinni og gefa öllum starfsmönnunum færi á að ræða þetta mál opinskátt saman í þeim tilgangi að minnka baktalið í deildinni og sætta menn. Áður en fundurinn var haldinn, sem fyrirhugaður var 22. apríl 2015, ákvað Sigríður Björk lögreglustjóri að stöðva þessi áform og taldi ástandið á deildinni of viðkvæmt fyrir slíkan fund. Varð því úr að Friðrik Smári afboðaði hann. Stefndi lýsir því þó þannig að það hafi verið að ósk nokkurra starfsmanna sem fundinum var frestað, vegna óróa á deildinni sem hafi verið nánast óstarfhæf. Eftir að starfsmannafundurinn var afboðaður ákváðu tilteknir lögreglumenn að fara til Ásgeirs Karlssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra og fyrrum yfirmanns fíkniefnadeildar, og gefa honum upplýsingar um hugsanleg brot stefnanda í starfi. Ásgeir Karlsson fór þann 15. maí 2015 til fundar við ríkissaksóknara vegna málsins. Í kjölfarið sendi ríkissaksóknari Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra erindi og óskaði eftir lýsingu hennar og mati á málefninu auk upplýsinga um hvort og þá hvernig hún hygðist bregðast við. Í framhaldinu, eða þann 19. maí 2015, fól yfirstjórn LRH tveimur lögreglumönnum að afla upplýsinga með viðtölum við þá starfsmenn fíkniefnadeildar sem höfðu leitað til Ásgeirs vegna málefna stefnanda. Upplýsingaöfluninni var lokið með skýrslu þann 4. júní 2015. Niðurstaða skoðunar sýndi að verulegt vantraust var milli nafngreindra starfsmanna. Ljóst var því að ekki yrði lengur unað við óbreytt starfsumhverfi og starfseminni yrði ekki haldið áfram án þess að breytingar yrðu gerðar á mönnun deildarinnar. Var því ákveðið að stefnandi yrði færður yfir í ofbeldisbrotadeild. Þann 23. júní 2015 áttu ríkissaksóknari og lögreglustjóri fund þar sem ákveðið var að LRH myndi kanna nánar tiltekin atriði sem komu fram í áðurnefndri skýrslu frá 4. júní. Ríkissaksóknari þurfti frekari upplýsingar til þess að embættið gæti tekið ákvörðun um hvort sakamálarannsókn yrði hafin eða ekki. Var Baldvini Einarssyni lögreglufulltrúa falið að taka verkefnið að sér að beiðni yfirstjórnar LRH. Lögð mun hafa verið áhersla á að um innanhúsathugun væri að ræða en ekki formlega lögreglurannsókn. Yfirstjórn LRH tók ákvörðun um að flytja stefnanda úr fíkniefnadeild og yfir í ofbeldis- og kynferðisbrotadeild þann 1. júlí 2015. Stefnandi hafði áður samþykkt tímabundinn flutning gegn því að málið yrði þá skoðað. Í október 2015 voru auglýstar til umsóknar sjö stöður lögreglufulltrúa í miðlægri rannsóknardeild, sem m.a. fer með rannsóknir fíkniefnamála. Stefnandi ákvað að sækja um enda hafði hann enn mestan áhuga á að sinna störfum í þeirri deild auk þess sem hann hafði aflað sér mikillar sérþekkingar á málefnum deildarinnar. Stefnandi var aftur fluttur til innan LRH þann 15. nóvember 2015. Stefnandi óskaði þá sjálfur eftir flutningi í tæknideild en var samkvæmt ákvörðun yfirmanns síns fluttur í tölvurannsóknardeild. Ástæðu þess að stefnandi óskaði eftir starfi í tæknideild kveður hann þá að hann hafi viljað í ljósi stöðunnar sem upp var komin frekar vera í starfi þar sem hann hefði engin afskipti eða aðkomu að þeim viðkvæmu upplýsingakerfum sem hann hafði áður starfað við. Hann hafði áður en hann var fluttur verið fullvissaður um að það væri sátt um flutninginn hjá stjórnendum LRH, þ.m.t. lögreglustjóra, þrátt fyrir þann mikla aðgang að upplýsingum sem starfsmenn tölvurannsóknadeildar hafa að öllum rannsóknum á landsvísu. Mætti var svo fluttur yfir í tæknideild eins og hann hafði óskað 18. desember sama ár þegar fyrir hafi legið að nægilegt fjármagn væri til staðar til að standa straum af flutningi hans yfir í deildina. Vegna tilfærslna stefnda í starfi bendir stefndi á að fyrir liggur að stefnandi hafi verið settur í stöðu lögreglufulltrúa í fíkniefnadeild í eitt ár í fjarveru skipaðs lögreglufulltrúa, frá 1. janúar 2013 til 31. desember sama ár. Hann hafi haldið áfram að gegna stöðu lögreglufulltrúa frá 1. janúar 2014 til 31. maí sama ár þar sem óvíst var hvort hinn skipaði lögreglufulltrúi kæmi til starfa á ný. Stefnandi hafi svo verið settur á ný sem lögreglufulltrúi í áframhaldandi fjarveru skipaðs lögreglufulltrúa 1. júní 2014 til 15. september sama ár og svo aftur 16. september 2014 til 30. júní 2015 þar sem ákveðið var að auglýsa ekki stöðuna vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga. Eftir flutning í ofbeldisbrotadeild hafi stefnandi verið settur lögreglufulltrúi frá 1. júlí 2015 til 30. september 2015 í fjarveru skipaðs lögreglufulltrúa deildarinnar. Stefnandi hafi lýst því í tölvupósti 19. júní 2015 til Friðriks Smára Björgvinssonar yfirlögregluþjóns og Aldísar Hilmarsdóttur aðstoðaryfirlögregluþjóns að hann væri tilbúinn og sammála þeirri ákvörðun að víkja tímabundið úr deildinni á meðan skoðun á ávirðingum í hans garð færi fram. Ríkissaksóknari upplýsti LRH í desember 2015 að embættið hefði ákveðið að hefja formlega sakamálarannsókn vegna máls stefnanda og hafði verið óskað eftir liðsinni ríkislögreglustjóra við rannsóknina. Formlegt bréf sama efnis barst 11. janúar 2016 en þar kom fram að rannsókninni hefði verið vísað til héraðssaksóknara. Með hliðsjón af meðalhófi var ákveðið að bíða með að víkja stefnanda úr starfi tímabundið í desember 2015 þegar yfirstjórn LRH var upplýst um að rannsókn væri hafin, enda hafði formleg staðfesting ekki borist. Þann 14. desember 2015 skilaði Baldvin Einarsson lögreglufulltrúi af sér skýrslu um frekari skoðun sína á gögnum innan LRH í tengslum við þær ásakanir sem höfðu komið fram gagnvart stefnanda. Ásakanirnar gagnvart stefnanda voru tengdar við einstök mál, n.t.t. 22 tilvik, og skoðaðar í tengslum við lögregluskýrslur og skráningar í þau kerfi sem upplýsingateymi fíkniefnadeildar notar. Sama dag mun hafa hafist umfjöllun fjölmiðla um málið og birtust t.d. tvær fréttir um það á vef Vísis. Daginn eftir, 15. desember 2015, var ríkissaksóknara afhent ofangreind skýrsla og gögn um málið. Sama dag setti Húnbogi J. Andersen, lögfræðingur og fyrrum lögreglumaður í fíkniefnadeild LRH, sig í samband við ríkissaksóknara með tölvupósti og sagðist vera umbjóðandi (sic!) aðila sem byggi yfir upplýsingum sem sneru að meintu broti ákveðins/ákveðinna lögreglumanna sem gegndu stöðum yfirmanna í ávana- og fíkniefnadeild LRH. Ríkissaksóknari hringdi í Húnboga þann sama dag. Í símtalinu upplýsti Húnbogi að einn umbjóðandi hans, sem væri jafnframt upplýsingagjafi LRH, væri reiðubúinn að bera um að stefnandi hefði brotið af sér í starfi með því að veita upplýsingar um mál/málefni fíknadeildarinnar gegn greiðslu.  Stefnandi var sem fyrr segir enn færður til í starfi 18. desember 2015, nú fluttur yfir í tæknideild LRH eftir ákvörðun lögreglustjóra. Í framhaldi af flutningnum ákvað stefnandi að draga umsókn sína um lögreglufulltrúastöðu til baka. Ríkissaksóknari upplýsti Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra, með tölvupósti þann 11. janúar 2016, um ákvörðun sína um að hefja sakamálarannsókn. Í kjölfarið tók lögreglustjóri ákvörðun um að veita stefnanda lausn frá embætti um stundarsakir. Honum var tilkynnt það á fundi þann 14. janúar 2016 þar sem honum var afhent bréf um sama efni. Stefnandi leitaði í kjölfar þessa til lögmanns, sem þann 15. janúar 2016 óskaði eftir öllum gögnum frá LRH f.h. stefnanda sem vörðuðu mál hans. Með tölvupósti 21. janúar 2016 upplýsti Jón H. B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri að embættið þekkti ekki gögn málsins og hefði ekki yfirlit yfir þau. Stefnandi taldi þetta ekki eiga við rök að styðjast. Stefndi tekur fram að LRH hafi verið beinlínis óheimilt vegna rannsóknarhagsmuna að afhenda stefnanda gögn og þess vegna hafi verið vísað um beiðnina til héraðssaksóknara. Stefnandi ákvað að kæra ákvörðun lögreglustjóra um að víkja honum úr embætti um stundarsakir. Stjórnsýslukæra var send f.h. stefnanda til innanríkisráðherra 24. febrúar 2016. Héraðssaksaksóknari hóf í millitíðinni umfangsmikla sakamálarannsókn vegna máls stefnanda og voru teknar skýrslur af fyrrum og núverandi starfsmönnum fíkniefnadeildar, upplýsingagjafanum sem sögusagnir snerust margar um, stefnanda o.fl. Alls voru teknar skýrslur af 29 vitnum auk stefnanda og upplýsingagjafans. Niðurstaða héraðssaksóknara lá fyrir þann 8. júní 2016 þar kom fram að rannsókn á meintum brotum stefnanda í starfi hefði ekkert leitt í ljós sem renndi stoðum undir að hann hefði með einhverjum hætti gerst brotlegur í starfi. Rannsókn málsins var felld niður með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í framhaldi af því að niðurstaða héraðssaksóknara lá fyrir, eða með bréfi til lögreglustjóra þann 9. júní 2016, krafðist stefnandi þess að hann yrði boðaður til starfa og honum greidd laun vegna tímans sem honum hafði verið veitt lausn frá störfum um stundarsakir. Með bréfi þann sama dag var stefnanda boðið til starfa hjá LRH að nýju. Þann 24. júní 2016 var óskað eftir því með bréfi til lögreglustjóra að stefnanda yrðu afhent þau gögn sem lágu til grundvallar þegar ákveðið var að leysa hann frá störfum tímabundið. Stefnandi ákvað jafnframt að kæra Húnboga J. Andersen fyrir rangar sakargiftir. Þann 8. júlí 2016 kvað innanríkisráðuneytið upp úrskurð í máli stefnanda. Mat ráðuneytið það svo að ekki yrði séð að nauðsynlegt hefði verið að veita stefnanda lausn frá embætti um stundarsakir enda hafði hann áður verið færður úr því starfi sem rannsókn ríkissaksóknara beindist að. Felldi ráðuneytið hina kærðu ákvörðun úr gildi einkum með vísan til sjónarmiða um meðalhóf. Með bréfi þann 11. júlí 2016 upplýsti lögreglustjóri að í gögnum málsins væri ekki að finna lista lögreglumanna sem óskað hafði verið eftir af hálfu stefnanda í lok júní. Upplýsti embættið þannig að listinn sem ítrekað hafði að sögn stefnanda verið vísað til við meðferð málsins af hálfu lögreglustjóra væri ekki til. Stefndi mótmælir þessari fullyrðingu sem rangri enda hafi framangreindur listi legið fyrir löngu áður og hafi meðal annars verið vegna hans sem stefnandi var fluttur yfir í aðra deild. Listinn hafi hins vegar ekki verið hluti af gögnum málsins og því hafi lögreglustjóri greint rétt frá í bréfi sínu. Þann 25. október 2016 var send bótakrafa af hálfu stefnanda til embættis ríkislögmanns f.h. stefnda vegna háttsemi lögreglustjóra í málefnum hans. Sama krafa er gerð í máli þessu. II. Stefnandi gerir annars vegar kröfu um að stefndi greiði honum miskabætur að fjárhæð 4.000.000 kr. og hins vegar skaðabætur að fjárhæð 1.144.210 kr. vegna fjártjóns. Stefnandi vísar til þess að LRH sé ríkisstofnun og stefnandi ríkisstarfsmaður sem njóti réttinda og beri skyldur samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 6. mgr. 6. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 fari lögreglustjóri með stjórn lögregluliðs í sínu umdæmi, annist daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæminu og beri ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess. Stefnandi byggir á því að lögreglustjóri beri ábyrgð á brotum embættisins gagnvart honum. Hann byggir jafnframt á því að stefndi beri ábyrgð á háttsemi lögreglustjóra, á grundvelli meginreglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð, sbr. 1. mgr. 1. gr. og 4. gr. lögreglulaga. Stefnandi byggir á því að í stjórnunarskyldum lögreglustjóra felist að honum beri að stuðla að góðum starfsanda og vinnuumhverfi innan embættisins. Það sé einnig í samræmi við mannauðsstefnu lögreglunnar. Þar sé einnig kveðið á um að upplýsingagjöf til starfsmanna skuli vera skilvirk og gagnvirk. Lögreglustjóra hafi samkvæmt þessu borið að grípa til allra tiltækra ráða, innan ramma laga og málefnalegra sjónarmiða, til að leysa úr þeirri stöðu sem upp kom á fíkniefnadeildinni. Stefnandi telur að það hafi ekki verið gert. Þvert á móti hafi lögreglustjóri tekið sér stöðu gegn honum á grundvelli gróusagna, einhliða og ósannaðra fullyrðinga um ætluð brot hans í starfi, og hann í raun hrakinn úr starfi sínu sem hann hafði mikinn metnað fyrir. Lögreglustjóri hafi t.d. komið í veg fyrir að haldinn væri starfsmannafundur fyrir fíkniefnadeildina þar sem ræða átti málið. Lögreglustjóri hefði auk þess með mjög auðveldum hætti getað fundið gögn sem hröktu gróusögurnar um stefnanda. Stefnandi byggir á því að lögreglustjóri hafi með háttsemi sinni brotið gegn trúnaðar- og tillitsskyldu sinni gagnvart honum. Vegna háttsemi lögreglustjóra hafi öllum starfsmönnum hjá embætti LRH mátt vera fullljóst hver staða stefnanda innan embættisins var, þ.e. að hann væri sakaður um alvarleg brot og lögreglustjóri virtist telja meiri líkur en minni á sekt hans. Auk þess telur stefnandi að fjölmiðlaumfjöllunin hafi verið þannig að ljóst sé að hluta hennar megi rekja beint til háttsemi yfirstjórnar LRH. Miskabótakrafa stefnanda byggir á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi telur þannig að háttsemi embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gagnvart honum og hans málefnum, feli í sér ólögmæta meingerð gegn æru og persónu hans og á henni beri stefndi ábyrgð. Stefnandi vísar einkum til eftirfarandi atriða því til stuðnings. Þegar í ljós hafi komið að þær aðgerðir sem yfirmaður fíkniefnadeildar greip til í janúar 2012, til að stemma stigu við þrálátum gróusögum um stefnanda höfðu ekki skilað árangri, hafi lögreglustjóra borið að grípa inn í og gera allt sem í hans valdi stóð til að leysa úr málinu. Stefnandi telur að rík ástæða hafi verið til að grípa inn í, a.m.k. fyrri part ársins 2015 þegar staðan var orðin alvarleg. Í stað þess að láta fara fram hlutlæga óháða rannsókn hafi lögreglustjóri látið sögurnar grassera þangað til stefnanda var svo til óvært í starfi. Lögreglustjóri hafi komið í veg fyrir að haldinn yrði starfsmannafundur þar sem málið yrði rætt og reynt að hreinsa upp þær ranghugmyndir sem einhverjir samstarfsmenn stefnanda virðast hafa haft um hann og hans störf. Stefnandi hafi allan tímann verið boðinn og búinn að veita upplýsingar um málið til að leysa úr stöðunni. Það hafi hann hins vegar ekki getað gert einn síns liðs og hafi því orðið að sitja undir mjög alvarlegum ásökunum í lengri tíma án þess að geta hreinsað nafn sitt. Frá 1. janúar 2013 hafi stefnanda verið falið að stýra bæði svokölluðum aðgerðarhóp fíkniefnadeildar og upplýsingateyminu. Stefnandi kveðst hafa verið frá upphafi mótfallinn þessu fyrirkomulagi, þar sem hann taldi þetta tvennt ekki geta farið saman, en samþykkti það tímabundið þar til nýr lögreglufulltrúi yrði ráðinn til að stýra aðgerðarhópnum. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir frá yfirmanni fíkniefnadeildar hafi lögreglustjóri ekki gripið til neinna aðgerða til að ráða inn nýjan lögreglufulltrúa eða breyta þessu fyrirkomulagi með öðrum hætti, ekki einu sinni eftir að það var niðurstaða innri endurskoðunar embættisins í apríl 2014 að það væri nauðsynlegt. Þetta fyrirkomulag, að stefnandi sinnti báðum þessum stöðum samhliða, hafi aukið á tortryggni gagnvart honum innan deildarinnar. Með því að viðhalda fyrirkomulaginu hafi lögreglustjóri þannig stuðlað að því að gróusögurnar innan deildarinnar grasseruðu enn frekar en þær hefðu annars gert. Í maí 2015, eftir að tilteknir lögreglumenn við fíkniefnadeild höfðu leitað til aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra, hafi loksins verið tekin ákvörðun af hálfu yfirstjórnar LRH um að grípa til einhverra aðgerða vegna ástandsins. Tveimur lögreglumönnum hafi verið falið að tala eingöngu við þá lögreglumenn sem höfðu kvartað undan störfum stefnanda. Ekki hafi verið rætt við aðra starfsmenn fíkniefnadeildar en þá sem höfðu kvartað, stefnanda sjálfan eða yfirmann deildarinnar. Að mati stefnanda er ljóst að þessi aðferð, sem lögreglustjóri beri ábyrgð á, hafi ekki byggt á hlutlægum og málefnalegum grunni. Stefnandi telur að með þessu hafi lögreglustjóri tekið sterka stöðu gegn honum, veikt stöðu hans enn frekar og séð til þess að málið fór í þann farveg sem síðar varð, þrátt fyrir að ekkert lægi fyrir um ætluð brot hans annað en kjaftasögur. Lögreglustjóri hafi ákveðið að flytja stefnanda á milli deilda hjá LRH eftir að skýrslan frá 4. júní 2015 lá fyrir. Stefnandi kveðst hafa samþykkt flutninginn í góðri trú með því skilyrði að málið yrði þá tekið til almennilegrar skoðunar þannig að hann gæti hreinsað nafn sitt. Þeir flutningar á milli starfa sem fylgdu í kjölfarið hafi kallað á mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Þótt stefnandi hafi upphaflega samþykkt flutning telur hann að þessir síendurteknu flutningar hafi enn grafið undan honum í starfi og vegið að starfsheiðri hans. Þeir gerðu honum ómögulegt að sinna starfi sínu af þeim metnaði sem hann hefur. Auk þess hafi þessar ákvarðanir lögreglustjóra sýnt samstarfsmönnum stefnanda, og öðrum sem fylgdust með fjölmiðlum, að lögreglustjóri bar ekki fullt traust til starfa hans þrátt fyrir að ekki lægi fyrir neitt annað um ætluð brot hans í starfi en gróusögur. Þá hafi þetta orðið til þess að stefnandi sá sér ekki annað fært en að draga umsókn sína um lögreglufulltrúastöðu til baka. Lögreglustjóri ákvað að veita stefnanda lausn frá embætti um stundarsakir 14. janúar 2016. Það liggi fyrir samkvæmt úrskurði innanríkisráðuneytis að sú ákvörðun lögreglustjóra var ólögmæt. Staðfest sé með úrskurðinum að lögreglustjóri hafi ekki gætt meðalhófssjónarmiða við meðferð málsins og vandaði ekki undirbúning og meðferð ákvörðunarinnar líkt og ber samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Að mati stefnanda vegur þetta atriði þyngst við ákvörðun miskabóta honum til handa. Hin ólögmæta ákvörðun lögreglustjóra var enda sérlega íþyngjandi fyrir stefnanda og hafði mikil áhrif á hann. Ákvörðunin var aukinheldur ekki í samræmi við meðferð annarra mála þar sem lausn frá embætti hefur að jafnaði ekki verið veitt fyrr en við útgáfu ákæru. Framangreind atriði hafi öll valdið stefnanda gríðarlegum álitshnekki. Ákvarðanir lögreglustjóra hafa leitt til þess að stefnandi hafi misst orðspor sitt, sem var honum gríðarlega mikilvægt, enda hafi hann verið metnaðarfullur í sínu starfi og ætlað að sinna því áfram. Ásakanirnar sem stefnandi sat undir séu einhverjar þær alvarlegustu sem starfandi lögreglumenn geta orðið fyrir. Fjölmiðlaumfjöllun um málefni stefnanda, sem var umfangsmikil, hafi einnig verið þannig að auðvelt var fyrir utanaðkomandi að átta sig á við hvern var átt, sbr. framlagðar útprentanir af helstu veffréttamiðlum landsins um málefni stefnanda. Stefnandi telur að ákvarðanir lögreglustjóra hafi skaðað starfsframa hans með varanlegum hætti. Stefnandi telur að hin ólögmæta ákvörðun lögreglustjóra, um að veita honum lausn frá embætti um stundarsakir, og sá álitshnekkir sem hann hafi búið við síðan, vegi þyngst við mat á fjárhæð miskabóta. Sú ákvörðun lögreglustjóra leiddi til umfangsmikillar fjölmiðlaumfjöllunar og þess að flestir töldu stefnanda sekan um þau brot sem hann var ranglega sakaður um. Stefnandi telur að krafa hans sé sanngjörn og ekki úr hófi fram miðað við aðstæður og það tjón sem hann hafi orðið fyrir. Stefnandi gerir einnig kröfu um að stefnda greiði honum skaðabætur vegna fjártjóns. Það fjártjón kveður hann tilkomið vegna hinnar ólögmætu ákvörðunar lögreglustjóra um að veita honum lausn frá embætti um stundarsakir. Vegna hennar hafi stefnandi þurft aðstoð lögmanns, m.a. til að kæra ákvörðunina til innanríkisráðherra. Fullt tilefni var af hálfu stefnanda til að kæra ákvörðunina enda taldi ráðuneytið hana ólögmæta og felldi hana úr gildi. Stefnandi byggir kröfu þessa á sakarreglu skaðabótaréttar auk þess sem hann vísar til meginreglunnar um vinnuveitendaábyrgð líkt og fyrr. Stefnandi telur að önnur skilyrði skaðabótaréttar fyrir greiðslu bóta séu uppfyllt og að ríkinu beri að bæta honum þetta tjón. Stefnandi byggir kröfu sína um vexti á skaðabætur á 8. gr. laga nr. 38/2001. Í ákvæðinu sé kveðið á um að skaðabótakröfur beri vexti, samkvæmt 4. gr. laganna, frá þeim degi er bótaskylt atvik átti sér stað. Hvað miskabæturnar varðar byggir stefnandi á því að upphafsdagur vaxta sé 14. janúar 2016. Þann dag hafi lögreglustjóri tekið ákvörðun um að veita honum lausn frá embætti um stundarsakir. Stefnandi telur rétt að miða við þá dagsetningu enda hafi það verið síðasta ólögmæta ákvörðunin sem lögreglustjóri tók í málefnum stefnanda og jafnframt sú alvarlegasta. Stefnandi telur eðlilegt að miða við að hið bótaskylda atvik hafi þá átt sér stað í skilningi 8. gr. laga nr. 38/2001. Upphafsdagur vaxta af skaðabótum vegna fjártjóns stefnanda miðast við dagsetningu reiknings vegna vinnu lögmanns. Upphafsdagur dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga, af kröfunni allri taki mið af þeim degi er mánuður var liðinn frá því að stefnandi krafði stefnda um skaðabætur vegna málsins, sbr. 9. gr. sömu laga. Stefnda hafi verið send bótakrafa þann 25. október 2016 og sé upphafsdagur dráttarvaxta þ.a.l. 25. nóvember s.á. Stefnandi styður kröfur sínar fyrst og fremst við meginreglur skaðabótaréttar, einkum sakarregluna og meginregluna um vinnuveitandaábyrgð. Þá vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 26. gr. Stefnandi vísar einnig til laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, meginreglna vinnuréttar, ólögfestra reglna starfsmannaréttar sem og lögreglulaga nr. 90/1996, t.d. 1. gr., 4. gr. og 6. gr. Um varnarþing vísast til 33. gr. laga um meðferð einkamála og um málskostnaðarkröfu til 129. og 130. gr. sömu laga. III. Stefndi mótmælir miskabótakröfu stefnanda og að háttsemi LRH gagnvart honum hafi falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart æru og persónu hans. Stefndi byggir á því að ákvarðanir lögreglustjóra í málefnum stefnanda hafi þvert á móti verið grundvallaðar á faglegu mati og verið í samræmi við lög og meðalhóf. Stefndi bendir á að stjórnun og starfsmannahald ríkisstofnana sé almennt í höndum hlutaðeigandi forstöðumanns. Heimildir hans í þessum efnum byggi fyrst og fremst á ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og hinni óskráðu meginreglu vinnuréttarins um „stjórnunarrétt vinnuveitanda“. Þá kunni sérákvæði laga um hlutaðeigandi stofnun eða starfsstétt einnig að skipta máli. Í reglunni um „stjórnunarrétt vinnuveitanda“ felist valdheimildir til að stýra og stjórna starfseminni innan þeirra marka sem lög og kjarasamningar setja. Forstöðumenn ríkisstofnana þurfi jafnframt að gæta að öðrum atriðum, sér í lagi fyrirmælum æðra stjórnvalds. Stefndi leggur áherslu á að stjórnunarheimildir forstöðumanns lúti meðal annars að ákvörðunum um skipulag vinnunnar, hvaða verk skuli vinna, hver skuli vinna þau, með hvaða hætti, hvenær og hvar. Ákvarðanir sem teknar séu daglega um störf og verksvið einstakra starfsmanna rúmist jafnan innan þeirra heimilda sem felast í reglunni um „stjórnunarrétt vinnuveitanda“. Almennt séu ekki gerðar sérstakar formkröfur til slíkra ákvarðana. Í 2. málslið 3. mgr. 26. gr. laga nr. nr. 70/1996 komi fram að ef embættismaður er grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 megi veita honum lausn frá störfum um stundarsakir. Í 1. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga kemur fram að fremji opinber starfsmaður refsiverðan verknað megi þá í sakamáli á hendur honum svipta hann heimild til að rækja starfann ef hann telst ekki lengur verður eða hæfur til þess. Stefndi byggir á því að LRH hafi ekki tekið þá ákvörðun að veita stefnanda lausn um stundarsakir fyrr en 14. janúar 2016 þegar greint var frá því í tölvupósti að 17. desember 2015 hefði ríkissaksóknari farið þess á leit við ríkislögreglustjóra, með vísan til þágildandi lögreglulaga, að hann veitti ríkissaksóknara aðstoð við rannsókn á ætluðum refsiverðum brotum stefnanda við framkvæmd lögreglustarfa. Nánar tiltekið hafi verið um að ræða meint brot gegn 128. og 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Gegn brotum við 128. gr. laganna liggi allt að 6 ára fangelsi og gegn 136. gr. laganna liggi allt að 3 ára fangelsisrefsing. Áður hafi farið fram innanhússkoðanir á málum stefnanda og í ljósi þess orðróms sem hafi gengið innan lögreglu um óeðlileg samskipti stefnanda við brotamenn hafi hann verið færður til í starfi. Það sama hafi verið gert í desember 2015 eða allt þangað til ríkissaksóknari ákvað að hefja formlega sakamálarannsókn vegna athafna stefnanda. Unnið hafi verið í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, en þegar ríkissaksóknari hafi tekið framangreinda ákvörðun hafi nýr kafli málsins hafist þar sem stefnandi fékk réttarstöðu grunaðs manns og var sakaður um alvarleg brot. Stefndi bendir á að úrræði laga nr. 70/1996, um lausn um stundarsakir, sbr. 2. málslið 3. mgr. 26. gr. laganna, sé lögmælt bráðabirgðaúrræði sem lög nr. 70/1996 veita til að bregðast við sérstökum aðstæðum. Rökin hér að baki séu þau að ekki sé forsvaranlegt að embættismaður, sem grunaður er um að hafa framið refsivert brot, gegni því embætti á meðan slíkur grunur er til staðar. Í því sambandi verði hins vegar að horfa til bæði eðlis og alvarleika brots og hvaða starfsstétt embættismanna eigi í hlut. Í 38. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 sé fjallað um þær kröfur sem gera verði til nýnema í Lögregluskóla ríkisins. Einnig bendir stefndi á 28 gr. a laganna. Samkvæmt framangreindum ákvæðum sé ljóst að afar ríkar vammleysiskröfur séu lagðar með lögum á starfsstétt lögreglumanna og verði ávallt að meta möguleg brot þeirra í því ljósi, það er hvort viðkomandi sé sætt í starfi reynist ávirðingar réttar. Stefndi bendir á að nefnd sérfróðra manna samkvæmt 27. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996, sem á að rannsaka atvik að baki lausnar um stundarsakir, hafi í fyrri álitum sínum slegið því föstu að skilyrði fyrir því að stjórnvald beiti 2. málslið 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996, það er lausn um stundarsakir, sé samkvæmt orðanna hljóðan tvíþætt. Í fyrsta lagi að grunur liggi fyrir um refsiverða háttsemi og í öðru lagi að háttsemin sé þess eðlis að hún hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga. Að mati stefnda leikur ekki vafi á því að fyrra skilyrði ákvæðisins er uppfyllt, enda hafði héraðssaksóknari hafið rannsókn á stefnda vegna brota í opinberu starfi sem heimfært var undir 128. gr. almennra hegningarlaga sem kveður á um 6 ára fangelsisvist og gegn 136. gr. laganna þar sem við liggur allt að 3 ára fangelsisvist yrði stefndi fundinn sekur. Um var að ræða grun gegn ákvæðum almennra hegningarlaga þar sem þung refsing liggur við og leggur stefndi áherslu á að líta verði á viðbrögð LRH í því ljósi. Hefði verið gefin út ákæra á hendur stefnanda og hann svo fundinn sekur í dómsmáli sé ljóst að sú háttsemi sem hann var grunaður um hefði haft í för með sér embættismissi. Hefði stefnanda ekki verið veitt lausn um stundarsakir hefði hann farið áfram með lögregluvald og ákveðna stöðu innan lögreglu sem slíkur. Að mati stefnda sé það eðlilegt verklag að aðilar sem grunaðir eru um alvarlega refsiverða háttsemi njóti ekki slíkrar stöðu á meðan þeir eru til rannsóknar. Stefndi telur ljóst að þeim brotum í opinberu starfi sem stefnandi var grunaður um að hafa framið þegar ákvörðun um lausn um stundarsakir var tekin í byrjun árs 2016 sé ekki hægt að jafna við þá stöðu sem stefnandi var í þegar ákvörðun var tekin um að flytja viðkomandi til í starfi. Á þeim tíma hafi alvarleiki málsins verið orðinn annar og í því ljósi verði að meta stöðuna. Ávirðingarnar hafi verið það alvarlegar að ríkissaksóknari taldi rétt að taka stefnanda til formlegrar rannsóknar. Að mati stefnda skiptir ekki máli hvort gefin hafi verið út ákæra eða ekki, sú staðreynd að stefnandi var til formlegrar rannsóknar sé næg ástæða þess að hafa verið veitt lausn um stundarsakir eða allt þar til niðurstaða fengist í rannsóknina. Stefndi mótmælir fullyrðingum í stefnu um að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotnar. Stefndi bendir á að LRH hafi fengið formlegt bréf um rannsókn héraðssaksóknara á hendur stefnanda 11. janúar 2016. Stefndi tekur sérstaklega fram að embætti LRH hafi ekki farið með rannsókn máls stefnanda og því ekki haft rannsóknargögn málsins undir höndum og jafnframt takmarkaða möguleika á að krefjast eða óska þess að ríkissaksóknari eða héraðssaksóknari léti embættinu í té rannsóknargögn sakamáls. Réttur aðila að málsskjölum sé hins vegar rúmur, sbr. 16. gr. laga nr. 88/2008. Eigi framangreint við um embætti LRH, þrátt fyrir að vera lögregluembætti, sem og önnur embætti. Stefndi mótmælir því að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga en miklar upplýsingar lágu fyrir og mikil vinna hafi farið fram innan LRH fram að því að formleg sakamálarannsókn hófst. Líkt og fram hafi komið hafi verið beðið með ákvörðun um lausn um stundarsakir þar til ríkissaksóknari vísaði málinu til formlegrar rannsóknar hjá héraðssaksóknara. Hvað varði sjónarmið um andmælarétt málsaðila bendir stefndi á að ekki sé skylt að gefa embættismanni kost á að tjá sig um ástæður lausnar áður en ákvörðun tekur gildi þegar hún byggi á þeim grundvelli að embættismaður sé grunaður um háttsemi sem kunni að hafa för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996. Stefndi ítrekar að LRH hafi ekki tekið ákvörðun um að veita stefnanda lausn um stundarsakir fyrr en 14. janúar 2016 þegar upplýsingar bárust með tölvupósti um að ríkissaksóknari hefði 17. desember 2015 farið þess á leit við ríkislögreglustjóra að hann veitti ríkissaksóknara aðstoð við rannsókn á ætluðum refsiverðum brotum stefnanda við framkvæmd lögreglustarfa. Niðurstaða héraðssaksóknara barst LRH 8. júní 2016. Taldi héraðssaksóknari að stefnandi hefði ekki orðið uppvís að brotum í starfi sínu sem lögreglumaður. LRH hafi sent stefnanda bréf strax degi síðar og boðað hann til starfa á ný. Hafi honum jafnframt verið greint frá því að honum yrðu greidd laun sem upp á vantaði frá því honum var veitt lausn um stundarsakir 15. janúar sama ár, allt í samræmi við lög nr. 70/1996. Með vísan til framangreinds hafni stefndi því að brotið hafi verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga um meðalhóf. Stefndi hafnar því einnig að jafnræðisregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin í málinu. Stefndi leggur áherslu á að fjölmörg dæmi séu um að embættismenn, sem og lögreglumenn, hafi verið leystir frá embætti um stundarsakir þegar mál hafa verið tekin til rannsóknar. Stefndi telur að líta verði á hvert einstakt mál og leysa úr því hverju sinni. Engin tvö mál séu nákvæmlega eins. Í máli stefnanda hafi verið litið til alvarleika mögulegra brota og þeirrar stöðu sem stefnandi var í innan embættis LRH. Hér verði jafnframt að líta til þess að stefnandi var færður til í starfi vegna þeirra ásakana sem komu fram eftir innanhússkoðun áður en formleg sakamálarannsókn hófst vegna starfa hans á grundvelli 128. og 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Vegna umfjöllunar í stefnu um miskabótakröfu bendir stefndi á nokkur atriði til viðbótar því sem þegar hafi verið tíunduð. Stefndi kveðst ekki sjá betur en að stefnandi byggi á því að lögreglustjóri hafi átt að koma í veg fyrir að sögusagnir gengju um stefnanda. Stefndi telur ekki hægt að gera embætti LRH ábyrgt fyrir sögusögnum. Stefndi geti ekki talist bótaskyldur enda þótt ákvarðanir stjórnenda LRH í máli stefnanda hafi ekki verið á þann hátt sem hann sjálfur hefði óskað. Stefnandi virðist telja að það fyrirkomulag að hann hafi stýrt bæði aðgerðarhóp og upplýsingateymi fíkniefnadeildar hafi aukið á tortryggni gagnvart honum innan deildarinnar. Stefndi bendir á að yfirstjórn LRH hafi viðurkennt að umrætt fyrirkomulag hafi ekki verið heppilegt, enda hafi breytingarferli hafist haustið 2014 sem fól meðal annars í sér endurskipulagningu á þessu atriði. Stefndi vísi því hins vegar á bug að staða stefnanda sem stjórnanda aðgerðarhóps og upplýsingateymis hafi leitt til þess hvernig fór, hvað þá að stefndi teljist bótaskyldur vegna þess. Stefndi mótmælir því að umfjöllun fjölmiðla geti verið grundvöllur skaðabótakröfu. Stefndi geti ekki borið ábyrgð á umfjöllun fjölmiðla, en málið var hvorki rætt í fjölmiðlum af hálfu LRH né hafði embættið tök á að stýra þeirri umræðu á nokkurn hátt. Stefndi bendir á að þótt stefnanda hefði ekki verið veitt lausn um stundarsakir hefði fjölmiðlaumfjöllun orðið síst minni eða óvægnari í ljósi alvarleika þeirra brota sem stefnandi var til rannsóknar vegna. Stefndi leggur áherslu á að LRH hafi óskað eftir endurupptöku á úrskurði innanríkisráðuneytisins 8. júlí 2016. Niðurstaða úrskurðarins virðist á því byggð að ekki hafi komið fram ný gögn þegar rannsókn ríkissaksóknara hófst sem réttlætt hafi á því stigi að stefnanda yrði veitt lausn frá embætti um stundarsakir. Stefndi bendir á að í ákvörðun héraðssaksóknara 8. júní sama ár komi fram að ýmis gögn hafi fylgt erindi ríkissaksóknara til héraðssaksóknara. Þau gögn sýni svo ekki verði um villst að ekki hafi verið uppi sömu aðstæður í málinu þegar formleg rannsókn hófst í janúar 2016 og voru þegar stefnandi var fluttur til í starfi um mitt ár 2015. Þrátt fyrir að beiðni um endurupptöku hafi verið hafnað telur stefndi engu að síður að gögn málsins sem fylgdu er héraðssaksóknari tók við því hafi verið til vitnis um að ný staða var í máli stefnanda er hann var leystur frá embætti um stundarsakir í janúar 2016. Að lokum bendir stefndi á að í gögnum málsins komi fram að stefnandi hafi kært Húnboga J. Andersen fyrir rangar sakargiftir 24. júní 2016. Brot Húnboga var að mati stefnanda falið í því að hafa haft samband við embætti ríkissaksóknara og upplýsa um að hann væri að störfum fyrir aðila sem byggi yfir upplýsingum um meint brot lögreglumanna sem gegndu stöðu yfirmanna í ávana- og fíkniefnadeild LRH. Stefndi bendir hér á að eigi upphaf málsins rætur að rekja til þess að bornar hafi verið rangar sakir á stefnanda af hálfu framangreindra aðila geti stefndi ekki borið ábyrgð á því. Telji stefnandi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna málsins þá telur stefndi því að bótakröfum sé beint að röngum aðila. Kröfu stefnanda um skaðabætur er mótmælt. Það sé meginregla að borgarar skuli sjálfir bera kostnað vegna reksturs mála í stjórnsýslunni. Engar réttarheimildir séu fyrir kröfu stefnanda um greiðslu þessa kostnaðar. Ljóst sé að menn geti nýtt sér leiðir til að fá ákvarðanir stjórnvalda endurskoðaðar, eftir atvikum á grundvelli sérstakra heimilda í lögum eða ákvæðum stjórnsýslulaga. Kostnaði vegna þess verði hins vegar að meginreglu ekki velt á stefnda. Stefndi bendir á að samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 skuli óháð og sjálfstæð nefnd rannsaka hvort rétt sé að veita embættismanni lausn að fullu eða láta hann taka aftur við embætti sínu. Í 4. gr. starfsreglna nefndarinnar segi meðal annars að nefndinni sé ætlað sérstakt rannsóknarhlutverk, það sé hlutverk hennar að rannsaka hvert einstakt mál svo upplýst verði hvort rétt hafi verið að veita embættismanni lausn um stundarsakir eða ekki. Reglurnar séu afar ítarlegar og sé nefndinni ætlað, óháð því hvort aðilar hafi yfir að ráða lögmanni eða ekki, að gæta hagsmuna allra aðila. Það að kæra mál til innanríkisráðherra, líkt og stefnandi kaus að gera, heyri til undantekninga. Stefndi bendir á að það hafi alfarið verið ákvörðun stefnanda og að jafnframt hafi það alfarið verið ákvörðun stefnanda að efna til kostnaðar vegna málsins. Stefnanda hafi þegar verið bætt allt launatap þann tíma sem um ræðir. Til vara er kröfunni mótmælt sem of hárri. Stefndi mótmælir jafnframt miskabótakröfu stefnanda. Til viðbótar þeim sjónarmiðum sem rakin hafi verið telur stefndi að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að í ákvörðun stefnda hafi falist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda í skilningi 26. gr. laga nr. 50/1993. Ákvörðun um að veita stefnanda lausn frá embætti um stundarsakir hafi einvörðungu grundvallast á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum sem eiga sér stoð í lögum. Stefndi bendir auk þess á að samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga sé heimilt að láta þann sem ábyrgð beri á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skaðabótalögum segi að í skilyrðinu um ólögmæta meingerð felist að um saknæma hegðun sé að ræða. Gáleysi myndi þó þurfa að vera verulegt til þess að tjónsatvik yrði talið ólögmæt meingerð. Af dómafordæmum Hæstaréttar verði ráðið að lægsta stig gáleysis uppfylli ekki kröfu þessa ákvæðis um ólögmæta meingerð. Stefndi leggur áherslu á að ákvörðun um að veita stefnanda lausn frá embætti um stundarsakir og öll málsmeðferð LRH hafi verið í samræmi við lög.   Stefndi mótmælir einnig fjárhæð miskabótakröfu stefnanda sem of hárri og í engu samræmi við dómaframkvæmd. Verði talið að stefnandi eigi rétt til miskabóta sé því til vara krafist verulegrar lækkunar á henni. Þá er vaxtakröfu einnig mótmælt. IV. Stefnandi og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gáfu aðilaskýrslu. Þá gáfu skýrslu, Erna Dís Gunnþórsdóttir, eiginkona stefnanda, Eiríkur Valberg lögreglumaður, fyrrum starfsmaður fíkniefnadeildar, Þorbjörn Valur Jóhannsson lögreglumaður, þá í upplýsingateymi LHR, Ásgeir Karlsson lögreglumaður, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, Kristinn Sigurðsson lögreglumaður, áður rannsóknarlögreglumaður í fíkniefnadeild, Guðbrandur Hansson, lögreglufulltrúi í fíkniefnadeild, Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri og saksóknari, Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fyrrum settur aðstoðarlögreglustjóri og síðar yfirlögfræðingur hjá LHR, Baldvin Einarsson lögreglufulltrúi, Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar, og í gegnum síma frá Sviss gaf skýrslu Karl Steinar Valsson, fyrrum yfirmaður stefnanda. Framburðar verður getið eftir því sem þurfa þykir í niðurstöðukafla. V. Af skýrslutökum í málinu verður því slegið föstu að stefnandi hafi sýnt mikinn metnað í störfum sínum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, verið afkastamikill og ósérhlífinn. Að auki hafi hann leitast við að afla sér, jafnvel einnig utan vinnutíma, þekkingar á þeim viðfangsefnum sem hann sinnti hverju sinni. Fyrrum yfirmenn stefnanda, Karl Steinar Valsson og Friðrik Smári Björgvinsson, kváðust fyrir dómi alla tíð hafa borið fullkomið traust til stefnanda. Friðrik sagði stefnanda vera mjög traustan stjórnanda og kvaðst aldrei hafa trúað því að nokkur fótur væri fyrir þeim sögusögnum sem gengu um stefnanda á deildinni. Karl Steinar bar á sama veg og lýsti enda sérstökum trúnaðarstörfum sem hann hefði falið stefnanda að sinna, einkum varðandi upplýsingakerfi, sem kölluðu á endurmenntun þ.m.t. í útlöndum, en þessum verkefnum hafi stefnandi sinnt með miklum sóma. Jón H. B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri kvaðst ekki hafa haft ástæðu til að hafa efasemdir um stefnanda, heldur hafi hann litið á hann sem hæfan og efnilegan starfsmann. Ásgeir Karlsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og fyrrum yfirmaður fíkniefnadeildar í tíu ár, kvaðst enga ástæðu hafa haft til að vantreysta stefnanda. Vitnin Eiríkur Valberg og Þorbjörn Valur Jóhansson báru á sama veg og sögðu stefnanda afburða lögreglumann. Ljóst er af skýrslutökum að nokkrir flokkadrættir voru meðal starfsmanna í fíkniefnadeildinni. Eitt vitni lýsti því svo að þar hefðu verið þrír hópar, einn sem studdi stefnanda, annar hópur sem var mjög á móti honum og svo einhver hluti starfsmanna sem stóð utan þessa. Kom þetta glöggt í ljós við skýrslutökur af fyrrum undirmönnum stefnanda. Tveir þeirra sögðu stefnanda mjög góðan og hæfan stjórnanda sem þeir hefðu borið mikið traust til en tveir lögreglumenn sögðu hins vegar farir sínar ekki sléttar í samskiptum við stefnanda, hann hefði til að mynda ásakað þá um að sinna illa starfsskyldum sínum og talað þá niður við aðra starfsmenn. Þessir starfsmenn voru meðal þeirra sem kvörtuðu við yfirstjórn lögreglunnar undan stefnanda, lýstu þeim sögusögnum sem heyrst hefðu og voru í þeim hópi manna sem Baldvin Einarsson lögreglufulltrúi og Kristján Ingi Kristjánsson aðstoðaryfirlögregluþjónn tóku viðtal við, við gerð samantektar um ásakanir á hendur stefnanda sem lá fyrir í júní 2015. Jón H. B. Snorrason taldi skýringar á flokkadráttum þær að stefnandi hafi gert miklar kröfur til undirmanna sinna sem mönnum líkaði misvel. Jón kvaðst þó ekki hafa upplifað mikla flokkadrætti fyrr en líða tók á ferlið. Enn verður vísað til framburðar fyrir dómi sem styðst við önnur gögn málsins, þegar skoðað er hvað hafi orðið til þess að ásakanir á hendur stefnanda fóru af stað og þó einkum varðandi það á hverju ásakanir á hendur honum byggðust. Fyrst þegar orðrómur komst á kreik innan embættisins, líkast til öðru hvorum megin við áramótin 2010/2011, um að stefnandi væri í óeðlilegum tengslum við ákveðinn upplýsingagjafa og síðar að hann þægi jafnvel greiðslur frá honum varð niðurstaðan sú að yfirmaður stefnanda, Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, ákvað að skoða málið sjálfur. Karl Steinar skoðaði upplýsingakerfi lögreglunnar og tók saman minnisblað um athugun sína sem dagsett er 30. janúar 2012. Í seinni hluta minnisblaðsins segir Karl Steinar: „Það er mat mitt á þessum upplýsingum að ég hef 100% traust á samskiptum Steindórs við upplýsingagjafa.“ Karl Steinar kynnti þetta minnisblað fyrir yfirstjórn LRH og verður ekki annað séð en að með því hafi málinu lokið eða að minnsta kosti virðist það hafa legið í láginni allt fram til vorsins 2015. Fram kemur í minnisblaðinu og víðar í málinu að stefnandi var mjög áfram um að allar ásakanir á hendur honum yrðu rannsakaðar ofan í kjölinn, helst af óháðum aðila, svo hann gæti hreinsað sig af þessum áburði. Vorið 2015 verður ekki betur séð en að flokkadrættir hafi magnast, m.a. vegna misklíðar sem ljóslega kom upp á vinnustaðnum fljótlega eftir að Aldís Hilmarsdóttir tók við stöðu Karls Steinars um miðjan apríl 2014 og boðaði nokkrar breytingar sem stefnandi studdi, en nokkur andstaða var við á deildinni. Ekki er óvarlegt að draga þá ályktun að þessi endurnýjun lífdaga sögusagna um stefnanda þetta vor, megi hugsanlega rekja til óánægju nokkurra starfsmanna m.a. með störf stefnanda. Að minnsta kosti varð niðurstaðan sú að óánægðir starfsmenn fóru á fund lögreglustjóra um vorið og kvörtuðu undan stefnanda. Þar hafi umræddar sögusagnir verið látnar fylgja með sbr. framburð fyrir dómi. Það sem styrkir þessa niðurstöðu er sú staðreynd að frá athugun Karls Steinars á málinu í ársbyrjun 2012 og til vorsins 2015 verður ekki séð að nokkuð hafi gerst í málinu og engin ný gögn eða upplýsingar litið dagsins ljós í millitíðinni, að því er best verður séð. Þegar Ásgeir Karlsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, fékk heimsókn frá nokkrum óánægðum starfsmönnum á fíkniefnadeild LRH, lágu þannig engin ný gögn fyrir og sem fyrr var engum gögnum teflt fram til að styðja ásakanir á hendur stefnanda. Aðspurður fyrir dómi sagði Ásgeir að þó hefði verið vísað til framburðar eins manns en hann hefði ekki verið nafngreindur. Ásgeir kvaðst enga ástæðu hafa haft á þessum tíma til að vantreysta stefnanda en taldi þó rétt að tilkynna embætti ríkissaksóknara um stöðu mála í ljósi alvarleika ásakana á hendur stefnanda. Af þessu má ráða að á þessum tímapunkti lágu engin áþreifanleg gögn fyrir í málinu sem bentu til þess að stefnandi hefði gerst sekur um brot í starfi, einungis sögusagnir. Þrátt fyrir það sendi ríkissaksóknari lögreglustjóranum erindi 18. eða 19. maí 2015 þar sem vísað var til fundar hans með Ásgeiri og eftirfarandi ósk sett fram: „Ríkissaksóknari óskar því eftir að fá yðar lýsingu og mat á málefninu auk upplýsinga um hvort og þá hvernig þér hyggist bregðast við framangreindum upplýsingum.“ Baldvin Einarssyni lögreglufulltrúa og Kristjáni Inga Kristjánssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni var þann 19. maí falið að taka viðtal við nokkra nafngreinda starfsmenn og gera í kjölfarið samantekt um ásakanir á hendur stefnanda. Stefnandi gagnrýnir mjög að þessi athugun hafi verið afar einhliða í stað þess að málið yrði skoðað í heild sinni þannig að reynt væri að komast í eitt skipti fyrir öll til botns í því með skoðun óháðs aðila, og viðtölum við starfsmenn; einnig þá sem voru hliðhollir honum. Stefndi hafi litið fram hjá því að málið hafi einnig varðað réttindi stefnanda sem starfsmanns embættisins. Því hafi þurft að gæta meginreglna stjórnsýsluréttar s.s. jafnræðis, andmælaréttar og rannsóknarreglunnar. Stefndi leggur hins vegar áherslu á að hér hafi alls ekki verið um lögreglurannsókn að ræða og embættið hafi ekki verið að rannsaka sig sjálf. Hér hafi einungis verið um að ræða upplýsingaöflun og könnun á hvers eðlis ávirðingar á hendur stefnanda væru. Setja má ákveðin spurningarmerki við það hvernig innanhússskoðun yfirstjórnar var háttað. Það skiptir þó ekki meginmáli við úrlausn þessa máls um lausn um stundarsakir, enda blasir og við að eftir hana, þ.e. þegar skýrslunni var skilað í júní 2015, stóð málið í sömu sporum og áður nema að nú voru ávirðingar stefnanda komnar á prent. Ekki verður þannig séð að frekari gagna hafi verið aflað. Fór það enda svo að ríkissaksóknari fór fram á það á fundi með lögreglustjóra þann 23. júní 2015 að fram færi ítarlegri skoðun í málinu og frekari upplýsinga yrði aflað. Var Baldvin Einarsson fenginn til verksins og skilaði hann 49 síðna skýrslu 14. desember 2015 þar sem fjallað var um 22 tilvik á tímabilinu frá 12. október 2006 til 9. apríl 2015. Í þetta sinn voru öll upplýsingakerfi lögreglunnar skoðuð ásamt lögregluskýrslum og reynt, að því er viðist, að skoða hvert tilvik ofan í kjölinn eins og hægt var. Skýrsluhöfundur tók hins vegar ekki afstöðu til þess hvort þar væri í einhverju tilvika um meinta refsiverða háttsemi að ræða. Skýrslan ásamt fylgigögnum var afhent ríkissaksóknara daginn eftir eða 15. desember. Sama dag mun Húnbogi J. Andersen, lögfræðingur og fyrrum lögreglumaður í fíkniefnadeild, hafa sent ríkissaksóknara tölvuskeyti þar sem hann kvaðst vera umjóðandi (sic!) aðila sem byggi yfir upplýsingum um meint brot stefnanda í starfi. Hringt var í Húnboga í kjölfarið og kvað hann umbjóðanda sinn búa yfir upplýsingum um að stefnandi hefði tekið við einhverjum milljónum fyrir upplýsingagjöf til uppljóstrara. Fyrir dómi taldi Jón H. B. Snorrason mjög líklegt að þessar upplýsingar frá Húnboga hefðu vegið þungt við ákvörðun um að hefja rannsókn á málinu og lögmaður stefnda tók undir þá kenningu í munnlegum málflutningi. Það er hugsanlegt en þó ber að líta til þess að upplýsingar í þessa veru lágu fyrir í málinu a.m.k. frá vorinu áður þegar Kristinn Sigurðsson greindi þeim Baldvin og Kristjáni Inga frá því að Húnbogi Jóhannsson (Andersen), fyrrum rannsóknarlögreglumaður í fíkniefnadeild, byggi yfir upplýsingum um að uppljóstrarinn sem um ræddi, hefði verulegan hag af stefnanda við brotastarfsemi sína. Í rannsókn héraðssaksóknara er þess síðan hins vegar getið að við skýrslutöku af þeim aðila sem Húnbogi hafði bent á hafi komið fram að sá kannaðist ekkert við að hafa greint Húnboga frá því að hann hefði slíkar upplýsingar. Húnbogi hefði boðað sig á skrifstofu sína og þegar hann hafi greint honum frá því að hann hefði gert einhvern samning við ríkissaksóknara um að hann yrði „fríaður“ af málinu hafi hann komið af fjöllum, ekkert vitað um hvað Húnbogi var að tala og labbað út. Hann greindi frá því að Húnbogi þyldi ekki stefnanda og að hann kenndi stefnanda um að hafa verið rekinn af fíkniefnadeildinni. Þá taldi viðkomandi að stefnandi ætti marga óvini sem vildu klekkja á honum. Ríkissaksóknari tók ákvörðun 17. desember 2015 um að hefja sakamálarannsókn á ætluðum brotum stefnanda og óskaði liðsinnis ríkislögreglustjóra. Með bréfi ríkissaksóknara 8. janúar 2016 var embætti héraðssaksóknara sent málið til viðeigandi meðferðar. Var talið að brot stefnanda gætu varðað við 128. gr. og 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu var svo send tilkynning um rannsóknina með tölvuskeyti 11. janúar 2016. Þremur dögum síðar, eða 14. janúar, var stefnanda tilkynnt á fundi að honum væri veitt lausn frá embætti um stundarsakir og fékk hann afhent bréf þess efnis. Héraðssaksóknari óskaði í upphafi rannsóknar eftir viðbótargögnum frá LRH ásamt því að rannsakendur skoðuðu tölvugrunna sem notaðir eru hjá því embætti. Þá var óskað upplýsinga frá bönkum og fjármálastofnunum um fjármál stefnanda og eiginkonu hans en þau gáfu bæði samþykki sitt fyrir því, auk þess sem tölvuskeyti stefnanda voru skoðuð. Teknar voru skýrslur af 29 vitnum og tvær skýrslur þar sem aðilar höfðu stöðu sakbornings, þ.e. af stefnanda og öðrum til. Í bréfi frá embætti héraðssaksóknara 8. júní 2016 þar sem farið var yfir rannsóknina og kynnt ákvörðun um niðurfellingu málsins kemur fram að rannsökuð höfðu verið framangreind 22 tilvik en tekið fram að „að því er varðar sum þeirra lágu engin gögn fyrir og jafnvel ekki hægt að átta sig á með hvaða hætti tilvikin tengdust kærða og/eða vörðuðu meint brot hans í starfi“. Ef tilvik sem um var fjallað í bréfinu gaf tilefni til að álykta um slíkt, kemur fram í öllum tilvikum að ekkert í gögnum málsins eða framburði aðila hafi bent til neinnar refsiverðrar háttsemi af hálfu stefnanda. Í öðrum tilvikum kemur fram að ekkert bendi til óeðlilegra afskipta stefnanda af málum o.s.frv. Í niðurlagi bréfsins frá 8. júní 2016 sagði svo: „Að mati héraðssaksóknara hefur ítarleg rannsókn á meintum brotum kærða í stafi sínu ekkert leitt í ljós sem rennir stoðum undir það að hann hafi með einhverjum hætti gerst brotlegur í starfi. Svo virðist sem samskiptaörðugleikar innan fíkniefnadeildar (m.a. þar sem ekki hafi allir starfsmenn haft yfirsýn yfir og upplýsingar um alla starfsemina), orðrómur meðal brotamanna og hugsanlegur persónulegur ágreiningur skýri að einhverju leiti þrálátan orðróm um hið gagnstæða.“ Málið var því fellt niður sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ágreiningslaust er í málinu að þær sakir sem bornar voru á stefnanda eru með þeim alvarlegri sem bornar verða upp á lögreglumann; sakir um að yfirmaður í fíkniefnadeild taki við greiðslum í staðin fyrir upplýsingar til uppljóstrara til að spilla rannsókn mála og halda hlífiskildi yfir viðkomandi. Vafalaust er að grunur um slík brot geti heimilað yfirmönnum að veita viðkomandi starfsmanni lausn um stundarsakir samkvæmt 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, enda ljóst að ef sakfellt væri fyrir brot í framangreinda veru, hefði það í för með sér að viðkomandi embættismaður yrði sviptur réttindum skv. 68. gr. almennra hegningarlaga. Ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu verður því sem slík talin standast að formi til. Slík ákvörðun verður þó að byggja á málefnalegum forsendum, viðkomandi stjórnvald þarf að sinna rannsóknarskyldu sinni eins og frekast er unnt og gæta þarf meðalhófs. Lögmenn aðila voru sammála, við munnlegan málflutning, um að ákvörðun um lausn um stundarsakir væri undirseld reglum stjórnsýsluréttar. Dómurinn telur og að grunur í skilningi ákvæðisins verði að vera eðli máls samkvæmt rökstuddur. Ófært er að hægt sé að veita embættismönnum, án eftirmála, lausn frá störfum ef engin áþreifanleg og nokkuð afdráttarlaus gögn styðja slíkan grun. Eins og að framan er rakið er óhjákvæmilegt að ganga út frá því að ásakanir á hendur stefnanda hafi alla tíð verið með öllu órökstuddar. Þær byggðu þannig einungis á orðrómi og engu öðru. Þar má hugsanlega taka út úr upplýsingar frá Húnboga J. Andersen, þ.e. ef horft er til afstöðu ríkissaksóknara þegar ákvörðun var tekin um sakamálarannsókn. Dómurinn telur þó að þær upplýsingar hafi ekki réttlætt lausn um stundarsakir því fullyrðingar viðkomandi höfðu þá í engu verið staðreyndar eða skýrsla tekin af meintum umbjóðanda hans. Verður heldur ekki betur séð af gögnum þessa máls en að meintur umbjóðandi lögfræðingsins hafi komið af fjöllum og ekki veitt lögfræðingnum neinar slíkar upplýsingar. Er það því svo að yfirstjórn LRH virðist öll, sem og flestir starfsmenn fíkniefnadeildar, hafa allan tímann borið fyllsta traust til stefnanda að undanskildum lögreglustjóranum að því er virðist. Vitnið Eiríkur Valberg kvaðst hafa verið kallaður á fund lögreglustjóra í lok ágúst 2105 og tekið þar við skömmum fyrir að mæla stefnanda bót á vinnustaðnum. Eiríkur byggði þá afstöðu sína á því að hann taldi stefnanda faglegan og vandaðan í störfum sínum og með öflugri og traustari lögreglumönnum. Eiríkur benti á að hann hefði og sjálfur kannað það í kerfum lögreglunnar hvort þessi orðrómur ætti við rök að styðjast, en það hafi verið mjög einfalt, og hann hefði séð strax að augljóst væri að enginn fótur væri fyrir þessum ásökunum. Lögreglustjóri hefði hins vegar ekki verið til viðræðu um þá hlið málsins og bar því við að hún hefði yfirsýn yfir allar hliðar málsins en ekki vitnið. Þá verður ekki önnur ályktun dregin en að þeir starfsmenn, a.m.k. hluti þeirra, sem kvörtuðu yfir stefnanda við yfirstjórnina, lögðu fram vantraust á hann, og fóru á fund Ásgeirs Karlssonar hafi lagt allt að því fæð á stefnanda. Fram kom í skýrslutökum fyrir dómi að ástæða þess að orðrómur um stefnanda hafi farið af stað væri líkast til óvarleg ummæli ölvaðra lögreglumanna á bar einum í Reykjavík í eyra aðila sem tengdust fíkniefnaheiminum, um að stefnandi væri spilltur lögreglumaður. Engar aðrar getgátur komu fram um upphaf málsins. Horfa verður til þess við úrlausn þessa máls að ástandið á fíkniefnadeildinni var afar slæmt á þeim tíma þegar ásakanir á hendur stefnanda voru rifjaðar upp vorið 2015. Grunur var um einhvern leka á þessum tíma, en síðar kom í ljós að einn þeirra sem lýsti grunsemdum um brot stefnanda var sjálfur dæmdur í apríl sl. fyrir brot á þagnarskyldu sem lögreglumaður, fyrir að taka í starfi við ávinningi sem hann átti ekki tilkall til, að heimta greiðslu við framkvæmd starfs síns. Jafnframt fyrir brot á reglum sem um starfa hans giltu, vanrækslu og hirðuleysi í starfi. Viðkomandi lögreglumaður fékk fimmtán mánaða fangelsisdóm. Lögreglumenn sem gáfu skýrslu fyrir dómi og voru hliðhollir stefnanda greindu frá því að þeir hefðu forðast að láta sjá sig með stefnanda til dæmis í mötuneytinu til að verða ekki spyrtir við hann af yfirstjórninni. Þá hafa sömu menn borið því við að stuðningur þeirra við stefnanda hafi haft bein áhrif á starfsframa þeirra. Eiríkur Valberg kvaðst hafa það skriflegt frá lögreglustjóra að afstaða hans hefði kostað hann stöðu lögreglufulltrúa og að blásin hafi verið af námsferð sem hann átti að fara í nokkrum dögum eftir fund hans og lögreglustjóra. Þorbjörn Valur kveðst hafa verið færður til í starfi vegna stuðnings hans við stefnanda. Þá má rekja slæmt ástand til komu Aldísar Hilmarsdóttur í stöðu yfirmanns í stað Karls Steinars Valssonar vorið 2014 og þær breytingar sem hún vildi gera á deildinni, en Aldís var flutt til í starfi um svipað leyti og stefnandi var leystur frá embætti. Ekki er í málinu gerður ágreiningur um að LRH sé ríkisstofnun og stefnandi ríkisstarfsmaður sem njóti réttinda og beri skyldur samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 6. mgr. 6. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 fer lögreglustjóri með stjórn lögregluliðs í sínu umdæmi, annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæminu og ber ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess. Þá verður lagt til grundvallar að stefndi, íslenska ríkið, beri ábyrgð á háttsemi lögreglustjóra, á grundvelli meginreglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð, sbr. almennar reglur skaðabótaréttar, sbr. 1. mgr. 1. gr. og 4. gr. lögreglulaga. Að virtu öllu framangreindu, einkum um aðdraganda málsins og þau atriði sem réðu því að ákvörðun var tekin, er það niðurstaða dómsins að yfirstjórn LHR hafi gengið of langt gagnvart stefnanda þegar ákveðið var að veita honum lausn um stundarsakir 14. janúar 2016 og að sú ákvörðun hafi verið ólögmæt. Rannsóknarreglu stjórnsýslu­réttar hafi ekki verið gætt sem skyldi og heldur ekki andmælaréttar stefnanda þar sem honum hefði verið hægt að koma við. Jafnframt hafi meðalhófs ekki verið gætt í ljósi atvika málsins og þá einkum þeirrar staðreyndar að engin afgerandi gögn sem ekki var auðveldlega hægt að hnekkja koma fram í málinu frá því að orðrómur fæddist um áramótin 2010/2011, um að stefnandi væri ekki allur þar sem hann væri séður og reyndar gjörspilltur, og þar til framangreind ákvörðun um lausn var tekin. Kröfur um að gæta meðalhófs verða enn meiri og strangari þegar um jafn íþyngjandi ákvörðun er að ræða og þá sem hér er fjallað um. Það undirstrikar að mati dómsins að ákvörðunin var ólögmæt að jafnvel eftir lausn og mjög ítarlega rannsókn héraðssaksóknara varð engu við bætt. Þvert á móti kváðu rannsakendur þar margar ávirðingar á hendur stefnanda óskiljanlegar og óútskýrt væri hvernig þær rötuðu inn í málið og gætu varðað starfsskyldur hans. Dómurinn telur og að stefndi hafi ekki sýnt fram á að málefnaleg sjónarmið hafi verið lögð til grundvallar þegar ákvörðunin var tekin, heldur hafi aðstæður og ástand á vinnustaðnum og persónuleg óvild nokkurra starfsmanna í garð stefnanda verið nokkur drifkraftur þar. Ekki sé nægjanlegt að byggja ákvörðun sem þessa á orðrómi þótt ásakanir séu vissulega alvarlegar. Dómurinn telur að yfirstjórn LHR hefði hæglega, í ljósi málsatvika, getað réttlætt það og rökstutt að stefnandi héldi þáverandi starfi sínu og vammleysiskröfur sem vissulega eru gerðar til lögreglunnar hafi ekki staðið því í vegi. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að sú leið hafi ekki komið til álita. Ef slík niðurstaða var ekki tæk, eins og yfirstjórnin hlýtur að hafa álitið, þá hefði væntanlega sem fyrr, sbr. málavaxtalýsingu, verið hægt að leita enn og aftur eftir tilfærslu stefnanda í starfi, þar sem útilokað væri að hann gæti haft áhrif á þau atriði og atvik sem talin voru andlag meintra brota stefnanda. Ekki verður reyndar betur séð en að það hafi átt við það starf sem stefnandi gegndi þegar honum var veitt lausn og til flutnings hefði því ekki þurft að koma. Ef yfirstjórn LHR taldi með öllu útilokað að stefnandi væri áfram sýnilegur í störfum sínum fyrir lögregluna, eins og virðist hafa verið, þá hefði sá kostur einnig verið fær að leysa hann undan vinnuskyldu meðan á rannsókn stæði án þess að um lausn samkvæmt 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga um stundarsakir væri að ræða, eins og dæmi munu vera um. Því er það niðurstaða dómsins að ákvörðun yfirstjórnar LHR um að víkja stefnanda frá störfum um stundarsakir hafi í senn verið óþörf og ólögmæt. Ákvörðunin var án nokkurs vafa til þess að gefa á þeim tíma mjög alvarlegum ásökunum samstarfs­manna embættisins á hendur stefnanda byr undir báða vængi og valda stefnanda miklum álitshnekki og andlegri vanlíðan. Ákvörðunin fól í sér ólögmæta meingerð gegn æru og persónu stefnanda og eru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sbr. b-lið um að gera stefnda að greiða stefnanda miskabætur. Við ákvörðun fjárhæðar miskabóta verður litið til þess hversu alvarlegar ásakanir á hendur stefnanda voru, sbr. framangreint, sem reyndist ekki fótur fyrir. Fram kom við skýrslutökur fyrir dómi að stefnandi væri að mati samstarfsmanna hans og yfirmanna heiðarlegur maður og tæki störf sín mjög alvarlega. Stefnandi sé metnaðarfullur og hafi átt vaxandi velgengni að fagna innan lögreglunnar og hafi ætlað sér að ná enn frekari árangri. Í ljósi þessa verður að telja að ákvörðun yfirstjórnar LHR um að veita honum lausn um stundarsakir hafi verið stefnanda ákaflega þungbær eins og fram kom fyrir dómi. Eins og atvikum háttar þá verður í þessu máli einnig horft nokkuð til gríðarlegrar umfjöllunar fjölmiðla um málið sem reyndist stefnanda mjög erfið. Það var heldur ekki til þess fallið að bæta líðan stefnanda, en því hefur ekki verið andmælt, að honum var fyrst í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara 29. janúar 2016 kynnt formlega hver meint brot hans í starfi áttu að hafa verið. Þá verður að telja að líkur standi til þess að framangreind ákvörðun hafi skert mjög möguleika stefnanda til framgangs í starfi innan lögreglunnar og jafnvel víðar og gert honum erfitt um stöðuval. Þá er ekki óvarlegt að álykta sem svo að það muni taka langan tíma fyrir stefnanda að hreinsa að fullu af sér orðróm um spillingu innan raða lögreglunnar þrátt fyrir að sá orðrómur hafi verið innihaldslaus, líkt og gerðist þegar málið komst aftur í hámæli vorið 2015 eftir að rannsókn yfirmanns stefnanda hafði í ársbyrjun 2012 hreinsað hann af þeim ásökunum sem þá voru hafðar uppi. Ekki verður talið að tilfærslur í starfi eða sú staðreynd að stefnanda var gert að sinna um langt skeið starfi bæði yfirmanns yfir götudeild og upplýsingateymi, þrátt fyrir sannanleg mótmæli hans, sem hann taldi vekja tortryggni og gera sér erfitt um vik í starfi, hafi sérstök áhrif á ákvörðun miskabóta. Með vísan til framangreindra sjónarmiða telur dómurinn að hæfilegar miskabætur til handa stefnanda skuli nema 2.200.000 krónum. Þótt komist sé að þeirri niðurstöðu að ákvörðun yfirstjórnar LHR hafi verið ólögmæt telur dómurinn ekki efni til að fallast á kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta vegna kostnaðar við rekstur málsins í stjórnsýslunni, einkum vegna kæru til innanríkisráðuneytisins. Sú meginregla hefur þannig verið talin gilda samkvæmt íslenskum rétti að borgararnir verði sjálfir að bera þann kostnað sem þeir hafa af erindum sínum til stjórnvalda og málarekstri fyrir þeim. Kjósi þeir að nota aðstoð sérfræðinga við slík erindi og hafa af því kostnað geti þeir ekki krafist þess að sá kostnaður sé þeim bættur, hvort sem erindið skilar þeim árangri eða ekki. Sérstaka lagaheimild þarf til þess að unnt sé að krefjast endurgreiðslu slíks kostnaðar, en slík lagaheimild er ekki fyrir hendi í máli þessu. Stefnandi hefur í málinu ekki teflt fram haldbærum rökum sem styðja kröfu hans um að víkja frá þessari meginreglu. Því verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 2.200.000 krónur í miskabætur auk vaxta eins og þeirra er krafist í stefnu, þ.e. samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá tjónsdegi, sem telst vera sá dagur er stefnanda var veitt lausn frá störfum, og með dráttarvöxtum frá því mánuður var liðinn frá því að kröfubréf var sent, sbr. 9. gr. laganna, sbr. nánar í dómsorði. Eftir úrslitum málsins og með hliðsjón af framlagðri tímaskýrslu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 2.000.000 króna í málskostnað. Fyrir hönd stefnanda flutti málið Kristján B. Thorlacius hæstaréttarlögmaður og fyrir hönd stefnda Fanney Rós Kristjánsdóttir hæstaréttarlögmaður. Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð : Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Steindóri Inga Erlingssyni, 2.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. janúar 2016 til 25. nóvember 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 2.000.000 krónur í málskostnað.                                                                       
Mál nr. 590/2017
Skattur Rannsókn Stjórnsýsla
G höfðaði mál á hendur Í og gerði þá kröfu að felldir yrðu úr gildi úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar þar sem kveðið hafði verið á um að tilteknar greiðslur til erlends félags, sem sýnt þótti að G og viðskiptafélagi hans nytu ávinnings af, skyldu virtar sem skattskyld laun G. Þá krafðist G þess að Í yrði gert að endurgreiða sér þá fjárhæð sem honum hafði verið gert að greiða í kjölfar endurákvörðunar á opinberum gjöldum hans af þessum sökum. Í niðurstöðu sinni vísaði héraðsdómur meðal annars til þess að afla hefði þurft upplýsinga frá endurskoðanda hins erlenda félags og breskum skattyfirvöldum áður en jafn íþyngjandi ákvörðun hefði verið tekin. Með því að það hefði ekki verið gert yrði að fallast á að skattyfirvöld hefðu ekki séð til þess að málið hefði verið nægilega upplýst áður en hinar umþrættu ákvarðanir voru teknar og þar með brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð þess. Tók héraðsdómur því kröfur G til greina og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ásgeir Magnússon dómstjóri.   Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. september 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að fjárkrafa stefnda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Gunnari Erni Kristjánssyni, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 2017. Mál þetta, sem dómtekið var 10. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri 10. nóvember 2016 af Gunnari Erni Kristjánssyni, búsettum í Slóvakíu, á hendur íslenska ríkinu. I.         Stefnandi gerir þá kröfu að felldir verði úr gildi úrskurður yfirskattanefndar í kærumálinu nr. 321/2015 og úrskurður ríkisskattstjóra dagsettur 31. janúar 2014, með tilvísunarnúmerið 20121002146, sem báðir kveða á um endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009, og stefnda gert að endurgreiða stefnanda 18.310.753 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, sbr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001um vexti og verðtryggingu frá 16. desember 2015 til greiðsludags.          Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað auk virðisaukaskatts.         Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá er einnig krafist málskostnaðar en til vara að hann verði látinn falla niður. II. Málsatvik         Mál þetta varðar kröfu stefnanda um ógildingu á úrskurðum yfirskattanefndar frá 2. desember 2015 og ríkisskattstjóra frá 31. janúar 2014. Þá krefst stefnandi endurheimtu tekjuskatts, sem greiddur var 16. desember 2015 í kjölfar niðurstöðu yfirskattanefndar. Endurákvörðun ríkisskattstjóra fór fram í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum stefnanda vegna tekjuáranna 2005, 2006, 2007 og 2008. Skattrannsóknarstjóri byggir á því að hafa hafið rannsóknina 12. ágúst 2010 með því að tilkynna stefnanda símleiðis að rannsókn væri hafin á skattskilum hans. Í rannsóknarskýrslu skattrannsóknarstjóra frá 2. oktbóber 2012 kemur fram að embættið hafi þann 13. ágúst 2010 sent tölvupóst til stefnanda á netfangið [...] Rannsókninni lauk með rannsóknarskýrslu dagsettri 2. október 2012.         Tilefni rannsóknarinnar verður rakið til rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi og skattskilum Bræðranna Ormsson ehf. og Ormsins fjárfestingafélags ehf. Stefnandi kom til skýrslutöku hjá embætti skattrannsóknarstjóra dagana 27.október 2010, 31. maí 2011 og 20. desember 2011. Einnig voru teknar skýrslur af viðskiptafélaga stefnanda, Sigurði Sigfússyni, og fleiri aðilum.         Þann 17. apríl 2012 sendi skattrannsóknarstjóri stefnanda skýrslu, dags. 17. sama mánaðar, um rannsókn embættisins á skattskilum hans og gaf honum kost á að tjá sig um hana. Andmæli bárust með bréfi 29. júní sama ár og í kjölfarið var tekin saman endanleg skýrsla um rannsóknina. Í skýrslunni var fjallað um framkomin andmæli stefnanda og tekin afstaða til þeirra. Andmælin leiddu ekki til efnislegrar breytingar á skýrslunni, eins og tekið var fram í bréfi skattrannsóknarstjóra frá 9. október 2012.         Í skýrslu skattrannsóknastjóra var fjallað um tengsl stefnanda við erlend félög. Þá kom fram að við skýrslutöku 27. október 2010 hefði verið lögð fyrir stefnanda mynd, sem ætlað væri að sýna tengsl íslenskra og erlendra félaga sem tengdust honum. Stefnandi hafi staðfest að myndin væri í meginatriðum rétt að því undanskildu að Topaz Holding Ltd. væri ekki eigandi íslenskra félaga tilgreindra á myndinni. Nánar væri um að ræða tvo sjálfseignarsjóði, e. trusts, sem nefndust X-Sel Trust og Y-Sel Trust og væru báðir skráðir á Jersey. Saman ættu sjóðirnir félagið Alverglen Limited, sem skráð var á Jómfrúaeyjum. Alverglen Limited ætti breska félagið Topaz Holding Ltd. Í rannsóknarskýrslunni var rakið að við skýrslutökur af stefnanda og viðskiptafélaga hans, Sigurði Sigfússyni, hefði komið fram að stefnandi hefði látið stofna Y-Sel Trust og hann verið rétthafi þess sjóðs eða „named beneficary“. Sama ætti við um Sigurð Sigfússon og Y-Sel Trust. Þeir Sigurður hafi báðir verið skráðir directors hjá Topaz Holding Ltd. Það félag hefði sent reikninga á íslensku félögin Seafood Union ehf., Sturlaug & Co ehf., Vörukaup ehf., Lomacon ehf. og Bræðurna Ormsson ehf.         Í rannsóknarskýrslunni kom ennfremur fram að stefnandi hefði upplýst við skýrslutöku að Topaz Holding Ltd. væri fjárfestingafélag. Félagið hefði ekki starfsmenn, heldur hefði það keypt alla þjónustu. Stjórn félagsins hefi unnið í samráði við sig og Sigurð. Stefnandi hefði talið að samningar hefðu verið gerðir milli Topaz Holding Ltd. og Seafood Union eh., Bræðranna Ormsson ehf. og Vörukaupa ehf. um að þau félög yrðu rukkuð fyrir ráðgjafaþjónustu og greiðslur samkvæmt því hefðu verið mánaðarlegar. Stefnandi taldi samningana liggja fyrir hjá Topaz Holding Ltd. Hann hafi ekki talið viðskiptin milli félaganna óeðlileg enda hefðu stefnandi og Sigurður verið „directors“ hjá Topaz Holding Ltd. en jafnframt tengst íslensku félögunum. Stefnandi hefði unnið í sjálfboðaliðastarfi hjá Topaz Holding Ltd. en vonast til að þar myndu skapast verðmæti í framtíðinni. Viðskiptafélagar hans, Sigurður og Birgir, hefðu heldur ekki þegið laun frá félaginu. Við skýrslutöku 32. maí 2011 hafi stefnandi greint frá því að hann hefði óskað eftir samningum milli Topaz Holding Ltd. og íslensku félaganna frá bókhalds- og endurskoðunarskrifstofu félagsins í Bretlandi en hann hefði ekki fengið nein gögn.         Þá gerði skattrannsóknarstjóri grein fyrir upplýsingum Sigurðar Sigfússonar, sem fram komu við skýrslutöku af honum 30. ágúst 2010. Sigurður hefði greint frá því að með reikningum frá Topaz Holding Ltd. hefðu verið innheimtar greiðslur fyrir ýmis ráðgjafastörf og hefði vinnuframlag hans og Sigurðar að hluta til legið að baki þeirri þjónustu sem Topaz Holding Ltd. hefði innheimt fyrir. Þeir hefðu þó ekki verið á launum hjá félaginu, enda hefðu engir starfsmenn verið hjá félaginu. Um aðkeypta vinnu hefði verið að ræða án þess að Sigurður hefði getað tilnefnt þá aðila sem selt hefðu félaginu þjónustu sína. Samkvæmt skýringum Sigurðar hefði Topaz Holding Ltd. gefið út þessa reikninga vegna ráðgjafar í sambandi við mögulega útrás bræðranna Ormsson ehf. og Vörukaupa ehf. en ekkert hefði orðið af þeirri útrás. Aðspurður hefði Sigurður greint frá því að trúlega hefðu hann, stefnandi og Birgir samið við íslensku félögin fyrir hönd Topaz Holding Ltd. og einnig útbúið sölureikningana. Um óformlegt samkomulag hafi verið að ræða milli Topaz Holding Ltd. og íslensku félaganna og ekki hefðu verið gerðir þjónustusamningar. Sigurður hafi neitað því að hafa fengið helming tekna Topaz Holding Ltd. en tekjurnar hefðu að einhverju leyti verið nýttar til fjárfestinga í íslenskum félögum samkvæmt ákvörðunum hans og stefnanda þegar þeir voru í stjórn félagsins.          Í skýrslu skattrannsóknarstjóra var fjallað nánar um tengsl stefnanda við umrædd íslensk félög og rakið að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og vitnisburði hefðu stefnandi og Sigurður Sigfússon, ýmist annar eða báðir, verið skráðir stjórnarmenn í þeim félögum sem reikningar í nafni Topaz Holding Ltd. voru gefnir út á. Þeir hefðu unnið ýmiss konar ráðgjafastörf í þágu umræddra félaga og hefðu reikningar í nafni Topaz Holding Ltd. verið vegna starfa þeirra. Ekkert hefði komið fram um að aðrir hefðu komi að þeirri þjónustu.         Fram kom að það var mat skattrannsóknarstjóra að greiðslur innheimtar með reikningum útgefnum í nafni Topaz Holding Ltd. hefðu í raun verið greiðslur til stefnanda og Sigurðar Sigfússonar persónulega og þær bæri að skattleggja samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, á grundvelli 1. töluliðarA-liðar lagagreinarinnar að því er stjórnarlaun varðaði eða á grundvelli B-liðar vegna ráðagjafagreiðslna. Það var mat skattrannsóknarstjóra að stefnandi hefði vanframtalið tekjur samtals að fjárhæð 29.940.012 krónur sem innheimtar hafi verið með reikningum í nafni Topaz Holding Ltd. á tekjuárunum 2005 til og með 2008, en stefnandi hefði ekki talið fram neinar tekjur frá Topaz Holding Ltd.         Loks var í skýrslu skattrannsóknarstjóra vikið að reikningum frá Minerva Financial Sevices Ltd. á hendur Vörukaupum ehf., sem það félag hefði fært í bókum sínum. Samkvæmt reikningunum væri um að ræða þjónustu við X-Sel Trust og Y-Sel Trust auk Alvarglen Limited. Það var mat skattrannsóknarstjóra að stefnandi og Sigurður hefðu nýtt fjármuni Vörukaupa ehf. í eign þágu þar sem um væri að ræða greiðslur í þágu sjálfseignarsjóða og erlendra félaga er þeim tendust. Um væri að ræða persónulegan kostnað stefnanda og Sigurðar sem skattleggja bæri samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/2003. Vantaldar tekjur stefnanda á árinu 2006 vegna þessa væru 464.092 kr., eða sem næmi helmingi heildarfjárhæðar umræddra reikninga.         Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 9. október 2012, var mál stefnanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003. Þar kom fram að rannsókn skattrannsóknarstjóra hefði leitt í ljós vantaldar tekur stefnanda að fjárhæð 30.404.104 krónur. Í kjölfar bréfs skattrannsóknarstjóra til stefnanda þar sem honum var meðal annars tilkynnt að mál hans hefði verið sent ríkisskattstjóra til meðferðar sendi umboðsmaður hans skattrannsóknarstjóra bréf þann 2. desember 2012 þar sem afstöðu embættisins var andmælt. Skattrannsóknarstjóri framsendi ríkisskattstjóra umrætt bréf 18. janúar 2013.         Með bréfi ríkisskattstjóra 23. október 2013 var stefnanda tilkynnt um boðaða breytingu á gjöldum gjaldárin 2006 til og með 2009 á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra. Stefnandi sendi ríkisskattstjóra bréf 18. desember 2013, þar sem fyrirhugaðri skattbreytingu var mótmælt. Úrskurður um breytingar á opinberum gjöldum framangreind ár er frá 31. janúar 2014 og nemur hækkun gjaldstofna 30.404.104 krónum auk 25% álags á hækkun stofna, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.         Stefnandi fór fram á endurupptöku úrskurðar ríkisskattstjóra 27. febrúar 2014. Beiðninni fylgdu ljósrit af ársreikningum Topaz Holding Ltd. fyrir rekstrarárin 2005, 2006, 2007 og 2008. Stefnandi sendi ríkisskattstjóra beiðni um endurupptöku skattamáls síns nr. 20121002151 þann 27. febrúar 2014. Með bréfi þessu fylgdu ljósrit ársreikninga Topaz Holding Ltd. fyrir rekstrarárin 2005, 2006, 2007 og 2008. Ríkisskattstjóri hafnaði endurupptökukröfu stefnanda með bréfi 23. maí 2014. Þar sagði m.a. um framlagða ársreikninga:         „Ársreikningar Topaz Holding Ltd. (TH) eru ekki endurskoðaðir. Í ársreikningi 2005 tilgreinir TH veltu upp á 146.979 GBP og stjórnunarkostnað upp á 139.980 GBP. Útskrifaðir tekjureikningar á hendur viðskiptavinum sem lagðir eru fram fyrir það ár í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins nema 87.532 GBP þannig að þeir gætu rúmast innan þeirrar veltu. Engin nánari greining er samt á þessum fjárhæðum í ársreikningi.         Í ársreikningi TH fyrir árið 2006 er ekki getið neinna breytinga á reikningsskilaaðferðum eða á framsetningu ársreiknings. M.a. segir í skýringu 1.2: „Turnover comprises revenue recognised by the company in respect of goods and services supplied, exclusive of Value Added Tax and trade discounts.“ Velta eða brúttótekjur skv. ársreikningi það ár nema 16.007 GBP á meðan reikningar útgefnir á hendur viðskiptavinum af TH sem birtir eru í skýrslu skattrannsóknarstjóra námu 176.706 GBP á því ári. Ekkert samræmi er því í tekjum samkvæmt ársreikningi og tekjureikningum sem skrifaðir voru út í nafni félagsins.         Í ársreikningi TH fyrir 2007 segir í skýringu 2 sem er nýtt: „Fees receivable represent the net of fees paid and received“ án þess að greint sé frekar frá því hvort eða hvaða áhrif þessi framsetning hafi á fjárhæðir sem eru birtar í rekstrarreikningi. Velta eða brúttótekjur samkvæmt ársreikningi þess árs námu 18.079 GBP en útskrifaðir reikningar á hendur viðskiptavinum á því ári, sem birtir eru í skýrslu skattrannsóknarstjóra, námu 336.703 GBP. Ekkert samræmi er því í tekjum samkvæmt ársreikningi og tekjureikningum sem skrifaðir voru út í nafni félagsins.         Í ársreikningi 2008 segir í skýringu nr. 2: „Fees receivable represent the net of fees paid and received“ án þess að greint sé nánar frá því hvort eða hvaða áhrif það hafi á fjárhæðir í rekstrarreikningi. Í skýringu 2 á þessu ári kemur fram að velta eða brúttótekjur, sem námu 106.112 GBP, sundurliðist í sundry income að fjárhæð 25.912 GBP og fees að fjárhæð 80.200 GBP. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að útskrifaðir tekjureikningar á hendur viðskiptavinum hafi numið 186.169 GBP. Ekkert samræmi er því í tekjum samkvæmt ársreikningi og tekjureikningum sem skrifaðir voru út í nafni félagsins. Þegar horft er til framangreindra atriða er ljóst að ekkert samræmi er í þeim upplýsingum sem fram koma í ársreikningi og þeim tekjureikningum sem TH hefur gefið út sem kröfur á hendur þeim félögum sem rannsóknin náði til. Hafi félagið jafnað saman tekjum og gjöldum í framsetningu ársreiknings þá er það almennt andstætt almennum reikningsskilareglum og t.d. í ósamræmi við 13. gr. íslensku ársreikningalaganna nr. 3/2006 þar sem segir: „Óheimilt er að fella saman eignir og skuldir eða tekjur og gjöld innan einstakra liða.“ Ársreikningar TH eru heldur ekki studdir neinum gögnum, s.s. stöðulista aðalbókar eða hreyfingalista yfir tekjur sem gætu skýrt þennan mun, og geta þeir því ekki með nokkru móti orðið grundvöllur þess að RSK ógildi úrskurð sinn.            Í úrskurði sínum byggði ríkisskattstjóri á því að greiðslur félaganna samkvæmt reikningum frá Topaz Holding hefðu verið greiðslur fyrir vinnuframlag gjaldanda og viðskiptafélaga hans. Hvort umræddar greiðslur voru tekjufærðar hjá félaginu breytir engu varðandi tekjufærslu hjá gjaldanda. Í málinu var því haldið fram að umræddir reikningar frá TH væru vegna aðkeyptrar ráðgjafar. Framlögð gögn, þ.e. ársreikningar og skattframtöl Topaz Holding Ltd. ásamt fleiru, styðja í engu þá staðhæfingu gjaldanda og því verður ekki séð að þau breyti neinu varðandi niðurstöðu úrskurðar ríkisskattstjóra. Það hefur ekki áhrif á niðurstöðu ríkisskattstjóra í máli gjaldanda hvernig hann og Sigurður ráðstöfuðu þeim tekjum sem þeir fengu fyrir vinnuframlag sitt fyrir hin íslensku félög. Framlögð gögn gefa því ekki tilefni til endurupptöku nefnds úrskurðar ríkisskattstjóra. Varðandi annað það sem fram kemur í beiðni umboðsmanns gjaldanda um endurupptöku úrskurðar ríkisskattstjóra vísast til viðkomandi úrskurðar.“          Stefnandi og eiginkona hans kærðu 17. apríl 2014 úrskurð ríkisskattstjora um endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda gjalda árin 2006 til og með 2009 og kröfðust þess að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi. Yfirskattanefnd kvað upp úrskurði í málinu 2. desember 2015 og hafnaði öllum kröfum. III. Málsástæður og lagarök stefnanda         Stefnandi vísar til þess að hann hafi verið forstjóri SÍF hf. í nokkur ár og hafi árið 2004 ásamt tveimur fyrrum samstarfsmönnum félagsins, þeim Birgi Sævari Jóhannssyni fyrrum forstjóra SÍF hf. í Frakklandi og Sigurði Sigfússyni sölustjóra félagsins á Ítalíu, ákveðið að stofna til atvinnurekstrar innan Evrópusambandsins og á Evrópska efnahagssvæðinu, meðal annars á Íslandi. Umgjörð rekstrarins hafi verið samkvæmt lögum Englands og verið gerð með aðstoð lögmanna og endurskoðenda í Frakkalandi og á Englandi, þar á meðal enska endurskoðunarfirmans Ladimeji & Co. Meðal eigenda þess er Dapo Ladimeji. Birgir Sævar Jóhannsson, hafi að mestu séð um samskipti við hina erlendu lögmenn og endurskoðendur meðan hann tók þátt í rekstrinum.         Samkvæmt ráðleggingum hinna erlendu sérfræðinga hafi verið stofnaðir sjálfseignarsjóðirnir Y-Sel og X-Sel í janúar 2005 á Jersey. Um þann þátt hafi séð Minerva Financial Services Ltd. á Jersey. Stefnandi og Sigurður Sigfússon voru rétthafar ,,beneficiary“ hvor síns sjálfseignarsjóðs. Stefnandi var rétthafi Y-Sel og Sigurður rétthafi X-Sel. Sjálfseignarsjóðirnir hafi átt að jöfnu félagið Alverglen Ltd., sem skráð var á Jersey. Alverglen Ltd. hafi átt allt hlutafé í Obsidian Properties Ltd. Uk, Topaz Holding Ltd., Opal Seafood Ltd. og 66,7% hlutafjár í Olivine Investment Ltd. UK. Hvert þessara félaga hafi svo átt hluti í ýmsum rekstrarfélögum, eins og mynd á dskj. nr. 8, II. hefti merkt 6.31, sýnir. Rekstrarfélögin voru, Bræðurnir Ormsson ehf., Vörukaup ehf., Sturlaugur & Co ehf. og Seafood Union ehf., sem öll voru íslensk, Mono S.r.o., Ormsson Slovakia S.r.o. og Home Studio S.r.o. frá Slóvakíu.         Stefnandi byggir málssókn sína á þeirri málsástæðu í fyrsta lagi að rannsókn embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkisskattstjóra á skattamáli hans hafi farið í bága við reglur um rannsókn skattamála og haft það eitt að markmiði að telja til tekna hjá stefnanda og viðskiptafélaga hans, Sigurði Sigfússyni, ráðgjafa- og þjónustutekjur Topaz Holding Ltd., sem sé enskur skattþegn.         Stefnandi bendir í fyrsta lagi á að samkvæmt 7. mgr. 103. gr. laga um tekjuskatt beri embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins við skattrannsókn að gæta ákvæða laga um meðferð sakamála eftir því sem við getur átt, einkum varðandi réttarstöðu hins grunaða. Af þessu ákvæði leiði að embætti skattrannsóknarstjóra verði að virða þá meginreglu sakamálaréttarfars, sem leidd er af 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, að hver sakborningur á rétt til þess að vera talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Af þessari reglu leiði að embætti skattrannsóknarstjóra verði að haga rannsókn sinni af þeirri hlutlægni, sem boðin er í 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og gæta jafnt að þeim atriðum, sem horfa til sýknu eða sektar, þess sem grunaður er um skattalagabrot.         Embætti skattrannsóknarstjóra hafi þverbrotið þessa reglu við rannsókn máls stefnanda. Þannig hafi rannsakendur hjá embættinu ekki hirt um að afla gagna frá enskum skattayfirvöldum um enska skattþegninn Topaz Holding Ltd. og skattskil hans þar í landi. Rannsakendur hjá embætti skattrannsóknarstjóra hafi heldur ekki hirt um að afla gagna um rekstur Topaz Holding Ltd. frá stjórnendum félagsins eða endurskoðanda þess, eins og þeir voru þó ítrekað hvattir til að gera. Rannsakandinn, Ómar Ingi Bragason, sem tók þátt í að yfirheyra stefnanda 31. maí 2011, hafi sagt að það væri hugmynd. Þeirri hugmynd hafi aldrei verið hrint í framkvæmd þar sem stjórnendur rannsóknar skattamáls stefnanda hjá embætti skattrannsóknarstjóra hafi frá upphafi gefið sér að greiðslur innheimtar samkvæmt reikningum útgefnum af Topaz Holding Ltd. á hendur Bræðrunum Ormsson ehf., Seafood Union ehf., Lomacon ehf., Sturlaugi & Co ehf. og Vörukaupum ehf. árin 2005 til 2008 hefðu í raun verið greiðslur til stefnanda að hluta og Sigurðar Sigfússonar að hluta. Þetta viðhorf rannsakenda komi m.a. fram hjá Írisi Kristjánsdóttur við yfirheyrslu á stefnanda 27. október 2010, sbr. dskj. nr. 8. Rannsakandi, sem hafi gefið sér niðurstöðu rannsóknar, geti aldrei hafa gætt hlutlægni.         Rannsakendur hjá embætti skattrannsóknarstjóra hafi stofnað til rannsóknar á meintum skattalagabrotum stefnanda á gögnum, sem komið var til embættisins af fyrrum starfsmönnum Bræðranna Ormsson ehf., sem töldu sig eiga harma að hefna. Þessir aðilar hafi með ólögmætum hætti farið inn í gögn stefnanda og Sigurðar Sigfússonar, sem vistuð höfðu verið í tölvukerfum Bræðranna Ormsson ehf., afritað þau að einhverju leyti og látið skattrannsóknarstjóra í té. Með þessu hafi starfsmenn Bræðranna Ormsson ehf. brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda, sem verndað sé af  71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 62/1994. Friðhelgi einkalífs megi ekki takmarka nema með lögum beri brýna nauðsyn til vegna réttinda annarra. Jafnframt hafi starfsmenn Bræðranna Ormsson ehf. brotið gegn ákvæðum laga um fjarskipti nr. 81/2003, sem sé refsivert bæði samkvæmt lögum um fjarskipti og almennum hegningarlögum. Rannsakendur hjá skattrannsóknarstjóra hafi gerst hlutdeildarmenn í þeim brotum þegar þeir hagnýttu sér hin stolnu gögn. Lögmæt skattrannsókn verði ekki byggð á öðrum gögnum, en þeim sem skattyfirvöld afla með þeim hætti sem lög heimila þeim. Með því að hagnýta sér gögn um persónuleg málefni stefnanda og erlendra lögaðila, sem stefnandi hefur hagsmuni af að gangi vel rekstrarlega og varðveitt voru á einkasvæði hans hjá Bræðrunum Ormsson ehf., hafi skattrannsóknarstjóri auk þess brotið gegn ákvæðum IX. og XI. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sem geymi skýrar reglur um það hvernig skuli meðal annars staðið að leit, símhlustun og öðrum sambærilegum úrræðum sem miða að því að rannsaka eða fylgjast með fjarskiptum. Meðal gagna, sem embætti skattrannsóknarstjóra hafi fengið úr tölvugögnum stefnanda, hafi verið reikningar Topaz Holding Ltd. á hendur félögunum, sem ekkert tengdust Bræðrunum Ormsson ehf., svo sem Vörukaupum ehf., Seafood Union ehf., Sturlaugi & Co ehf., Lomacon ehf. og Mono S.r.o. í Slóvakíu. Afrit 14 reikninga á hendur Mono S.r.o. er að finna á dskj. nr. 8, III. hefti merkt 8.69 til 8. 82. Þeir séu allir án fylgiskjalanúmera, enda stöfuðu þau hvorki frá Topaz Holding Ltd. né Mono S.r.o.         Skattrannsóknarstjóri hafi ekki nýtt sér lögbundna heimild í 2. mgr. 94. gr. laga um tekjuskatt til að ganga úr skugga um hvort embættið hefði fengið öll gögn sem skipt gætu máli við rannsókn þess eða aðeins þau sem gagnaþjófarnir hafi talið að kæmu sér verst fyrir stefnanda og Sigurð Sigfússon, sem þeim var í nöp við. Í því sambandi megi benda á að einn þeirra reikninga sem starfsmenn skattrannsóknarstjóra lögðu fyrir stefnanda við yfirheyrslu 27. október 2010, sbr. dskj. nr. 8, I. hefti, merkt 1.64 til 1.97, og sé á hendur Bræðrunum Ormsson ehf., sé sagður útgefinn 28. desember 2008 en vegna þjónustu í nóvember 2007. Stefnandi hvarf úr stjórn Bræðranna Ormsson ehf. í byrjun október 2008. Þessi reikningur sé án fylgiskjalsnúmers og enginn viti hver bjó hann til. Skattrannsóknarstjóri hafi heldur ekki gengið úr skugga um hvort þau gögn sem hann hafði fengið send með tölvupósti hefðu í raun verið fylgiskjöl í bókhaldi hinna íslensku félaga, eins og glöggt kom fram þegar stefnandi var yfirheyrður af starfsmönnum skattrannsókna 2011. Starfsmenn embættis skattrannsóknarstjóra hafi heldur ekki gert sér grein fyrir því að hluti þeirra gagna, sem þeir voru, með geymdu kreditreikninga, eins og stefnandi hafi bent þeim á við yfirheyrsluna 31. maí 2011.         Í rannsóknarskýrslu skattrannsóknarstjóra sé byggt á því að reikningar útgefnir í nafni Topaz Holding Ltd. til Lomacon ehf. að fjárhæð 12.020.217 kr. séu tilkomnir vegna starfa stefnanda og Sigurðar Sigfússonar í þágu þess félags og beri að skoða sem tekjur hjá þeim að jöfnu. Þessi niðurstaða sé beinlínis röng og sýni, eins og það sem að framan er rakið, að markmið rannsóknarinnar var ekki að leiða hið sanna í ljós, heldur að gera tekjur Topaz Holding Ltd. að launatekjum hjá stefnanda og Sigurði Sigfússyni. Þessu til stuðnings sé rétt að benda á skýrslu Reynis Gunnlaugssonar, fyrrum framkvæmdastjóra Lomacon ehf. hjá embætti skattrannsóknarstjóra 7. febrúar 2011, sbr. dskj. nr. 8, I. hefti, merkt 1.128 til 1.136. Í skýrslu Reynis komi fram að Lomacon ehf. hafði greitt sænsku félagi, Lidén Consulting, ýmist beint eða fyrir milligöngu Topaz Holding Ltd. Þessar greiðslur til Lidén sagði Reynir vera verktakalaun til félags hans, Sverker, í Svíþjóð, sem á að hafa komið á viðskiptum fyrir félagið. Stefnandi hafi líka unnið að hagsmunum Lomacon ehf. erlendis og það ekki síður en Sverker, eins og fram kemur í skýrslu Reynis. Stefnandi kom meðal annars að því að tryggja félaginu lánsfé hjá erlendum bönkum, lána félaginu fé og koma á viðskiptum fyrir það. Fyrir þessa þjónustu stefnanda innheimti Topaz Holding Ltd. meðal annars þóknun sína. Sú þóknun hafi ekki gengið til stefnanda og Sigurðar Sigfússonar, frekar en þóknunin sem Topaz Holding Ltd. innheimti fyrir Lidén Consulting. Einu gögnin sem embætti skattrannsóknarstjóra hafi aflað í raun í tengslum við rannsókn skattamáls stefnanda voru annars vegar hreyfingalistar frá hinum íslensku félögum sem Topaz Holding Ltd. hafði selt þjónustu og hins vegar frá skattyfirvöldum á Jersey. Hreyfingarlistar hinna íslensku fyrirtækja séu ekki sönnun um annað en að einhverjir reikningar frá Topaz Holding Ltd. voru greiddir. Gögn fengin frá skattyfirvöldum á Jersey sanni heldur ekki að greiðslur íslensku félaganna til Topaz Holding Ltd. hafi verið tekjur stefnanda og Sigurðar Sigfússonar. Rétt sé svo að benda á að skattyfirvöld á Jersey settu skattrannsóknarstjóra þröngar skorður um notkun þeirra gagna sem þau sendu, eins og sjá má af samskiptum starfsmanna skattrannsóknarstjóra við Malcom Campell hjá Comptroller of Taxes á Jersey. Í bréfi Lisu Karen Yoder, starfsmanns skattrannsóknarstjóra, til Malcom Campell, dagsettu 10. febrúar 2011, staðfesti hún að þær upplýsingar, sem verði veittar af hálfu hinna erlendu skattayfirvalda, verði aðeins notaðar í tengslum við refsiverð skattalagabrot. Engu að síður hafi skattrannsóknarstjóri látið ríkisskattstjóra þessi gögn í té. Síðargreinda embættið hafi aldrei fallist á það fremur en íslenskir dómstólar að endurákvörðun skatts með álagi feli í sér refsingu eða refsikennd viðurlög.         Malcom Campell hjá Comptroller of Taxes á Jersey hafi sent Lisu Karen Yoder hjá skattrannsóknarstjóra bréf, dagsett 11. júlí 2011. Í því komi fram að stefnandi sé það sem kallað er í bréfinu ,,the sole settlor“ sjálfseignarsjóðsins Y-Sel, sbr. dskj. nr. 8, III. hefti. Samkvæmt bréfinu átti þessum sjóði að hafa borist innborganir frá ýmsum fjárfestingarfélögum samtals að fjárhæð 47.241 sterlingspund á tímabilinu 11. janúar 2005 til 13. október 2006. Stefnandi hafi ávallt kannast við tilvist Y-Sel sjálfseignarsjóðsins. Stefnandi kannast hins vegar ekki við þær greiðslur, sem eiga að hafa borist honum frá Y-Sel, sem rétthafa Y-Sel, á tímabilinu 26. október 2005 til 22. febrúar 2006 að fjárhæð 103.899 sterlingspund. Útborgun úr Y-Sel hafi samkvæmt þessu verið hærri en innborgun. Þessi gögn sanni ekki að stefnandi hafi í raun fengið hluta þeirra greiðslna sem Topaz Holding Ltd. innheimti af hinum íslensku félögum. Skattrannsóknarstjóri hefði ekki leitað frekari skýringa á því með atbeina skattyfirvalda á Jersey hvernig stæði á því að útborgun væri hærri en innborgun. Ekki hafi heldur verið reynt að afla upplýsinga um hvort Y-Sel ætti eða hefði einhvern tíma átt bankareikning eða -reikninga. Rannsakendur hjá embætti skattrannsóknarstjóra hafi heldur ekki viljað skoða eða rannsaka hve mikið fé hefði runnið til Bræðranna Ormsson ehf. frá Topaz Holding Ltd. til að mæta viðvarandi rekstrarfjárskorti.                 Stefnandi vísar til þess að starfsmenn ríkisskattstjóra séu við rannsókn og töku ákvarðana í skattamálum bundnir af reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ríkisskattstjóri megi  því ekki taka íþyngjandi skattákvörðun, nema að undangenginni eigin rannsókn, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993. Ríkisskattstjóri hafi ekki unnið sjálfstæða rannsókn á skattskilum stefnanda, heldur lagði til grundvallar ákvörðun sinni niðurstöðu hinnar ólögmætu rannsóknar embættis skattrannsóknarstjóra á skattskilum stefnanda, eins og úrskurðurinn á  dskj. nr. 4, beri með sér. Í úrskurði ríkisskattstjóra sé meðal annars sérstaklega tekið fram að ekkert hefði komið fram við rannsóknina, sem gæfi vísbendingu um að Topaz Holdin Ltd. hefði verið að innheimta ráðgjafarkostnað vegna þriðja aðila. Þetta sé rangt. Topaz Holding Ltd. hafi verið að innheimta ráðgjafarkostnað. Það sé óumdeilt, þar sem stjórnendur hinna íslensku félaga færðu greiðslurnar til Topaz Holding Ltd. til gjalda hjá þeim. Auk þess liggi líka fyrir gögn um það að Topaz Holding Ltd. hafi aldrei greitt stefnanda eitt eða neitt. Ríkisskattstjóri geti ekki upp á sitt eindæmi breytt tekjum erlends skattþegns í tekjur hjá íslenskum skattþegnum með þeim rökum einum að hann geti metið það sjálfstætt hvenær skattskyldu sé til að dreifa og hvers sú skattskylda sé.         Ríkisskattstjóri geti ekki komið sér undan þeirri skyldu að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en hann tekur ákvörðun með því einu að vísa til þess að á stefnanda hafi hvílt skýlaus upplýsingaskylda samkvæmt 94. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Rannsóknarskyldan hvíli á ríkisskattstjóra. Undan þeirri skyldu geti hann ekki vikið sér með því að vísa á skattþegn og krefjast þess að hann leggi fram upplýsingar um starfssemi erlendra aðila. Stefnandi gerði hvað hann gat til að fá nauðsynleg gögn og upplýsingar um Topaz Holding Ltd, meðal annars um rekstur og skattskil. Þegar þær lágu fyrir og staðfestu það, sem stefnandi hafði ávallt haldið fram, hafi ríkisskattstjóri kosið að horfa framhjá þeim en ekki leita upplýsinga um enskan rétt, m.a. um framsetningu ársreikninga í Englandi. Yfirskattanefnd, sem stundum hefur í úrskurðum sínum lagt áherslu á að skattamál væru rannsökuð á fullnægjandi hátt áður en ákvörðun um breytingu á opinberum gjöldum skattþegns væri tekin, hafi horft fram hjá öllum þeim hnökrum, sem á rannsókn máls stefnanda var, og litið svo á að hérlend skattayfirvöld gætu horft framhjá rekstri löglegs erlends félags og skattskyldu þess í heimaríki sínu, og ákveðið að tekjur þess, sem greiddar voru af íslenskum félögum, skuli teljast að hluta til launatekjur stefnanda. Hvergi í íslenskri löggjöf sé skattyfirvöldum falið það vald að breyta lögmætum viðskiptum milli félaga sem stofnað er til í lögmætum tilgangi. Skattamálefnum á að skipa með lögum og skattalög verður að túlka þröngt, þar sem eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar setur skattheimtu ríkisins skorður. Stefnanda hafi verið frjálst að koma að stofnun félaga á Englandi vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þeim félögum, sem stofnuð voru samkvæmt enskum rétti og lutu enskum lögum, hafi verið heimilt að eiga viðskipti við önnur félög innan ríkja Evrópusambandsins og á Evrópska efnahagssvæðinu. Það gerðu hin ensku félög meðal annars í Svíþjóð, í Slóvakíu og á Íslandi. Rekstur íslensku félaganna, sem hin ensku fjárfestu í, fór að mestu illa vegna óðaverðbólgu og gengishruns. Reksturinn Mono S.r.o í Slóvakíu hafi hins vegar gengið betur og starfsemin í Svíþjóð verið seld. Hvort og hvenær starfsemi Topaz Holding Ltd., eins hinna ensku félaga, skilar einhverju til eigenda sinna, sé ekki komið í ljós. Íslensk skattayfirvöld geti hins vegar ekki ákveðið að ákveðinn hluti tekna Topaz Holding Ltd. skuli vera laun stefnanda og þar með tekið fram fyrir hendur á lögmætri stjórn félagsins í Englandi. Hið eina, sem íslensk skattayfirvöld geta, eða gátu, var að reyna að hafna því að greiðslur til Topaz Holding Ltd. væru frádráttarbær gjöld í rekstri þeirra. Skattayfirvöld hafi engan reka gert að því, ekki einu sinni gagnvart Bræðrunum Ormsson ehf. þegar það félag var tekið í skattskoðun á árinu 2005. Stefnandi hafi aldrei getað talið sér til tekna greiðslur, sem hann fékk ekki. Stefnandi   hafi hins vegar gert grein fyrir því á skattaframtali sínum að Topaz Holding Ltd. hefði lánað honum fé. Það hafi félaginu verið heimilt samkvæmt enskum lögum.         Stefnandi geti hvergi fundið heimild skattyfirvalda til að ákveða að hann og Sigurður Sigfússon skuli einir skattskyldir af öllum tekjum sem Topaz Holding Ltd. innheimti hjá hinum íslensku félögum. Skattyfirvöld geti ekki byggt þá ákvörðun á 57. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Stefnandi hafi ekki gert samning-/a við einn eða fleiri íslenska skattaðila um tiltekna fjármálaskiptan, sem er verulega frábrugðin því sem almennt gerist, og hann hefur enga greiðslu fengið frá íslenskum skattaðila, sem hann hefur ekki gert grein fyrir. Stefnandi bendir á að Birgir Sævar Jóhansson kom að hinum erlenda rekstri allt frá árinu 2004 þegar Opal Seafood Ltd. keypti Bræðurna Ormsson ehf. með atbeina Ormsins fjárfestingarfélags ehf. Þá hafi Birgir Sævar setið í stjórn Bræðranna Ormsson ehf. til ársloka 2005 þegar hann hætti að vinna að viðskiptum með stefnanda og Sigurði Sigfússyni, í gegnum hið enska fyrirtækjafyrirkomulag sem hann hafði átt drýgstan þátt í að móta, og snéri sér að eigin rekstri í Frakklandi og á Íslandi. Skattyfirvöld geti ekki ákveðið að greiðslur, sem gengu til Topaz Holding Ltd. frá íslenskum félögum séu skattlagðar hjá honum og Sigurði Sigfússyni en Birgi Sævari sé sleppt.         Með vísan til alls framangreinds beri að taka kröfur stefnanda til greina, fella úrskurði yfirskattanefndar og ríkisskattstjóra úr gildi og dæma stefnda til að endurgreiða ofgreidda skatta auk vaxta, dráttarvaxta og málskostnaðar.                 Stefnandi á einn aðild að máli þessu þó að úrskurður um niðurfellingu barnabóta eiginkonu hans samkvæmt öðrum úrskurði ríkisskattstjóra hafi verið kærður til yfirskattanefndar.         Stefnandi byggir málssóknina á reglum um rannsókn skattamála samkvæmt lögum um tekjuskatt nr. 90/2003, lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 og stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, 70., 71., 72., 75. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, 6. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, og lögum um persónuvernd og persónuupplýsingar, nr. 77/2000. Þá er einnig byggt á reglum í samningnum um jafngildi skráðra sem óskráðra samninga.          Því er hafnað að skattyfirvöld geti byggt skattlagningu í máli þessu á 1. mgr. 57. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003.         Endurgreiðslukrafa og krafa um vexti og dráttarvexti byggir á lögum nr. 29/1995, sbr. lög nr. 38/2001.         Krafa um málskostnað er byggð á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988. IV. Málsástæður og lagarök stefnda         Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda og kröfum á honum reistar og byggir á því að meðferð málsins og úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar um endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda séu í samræmi við lög og ekkert tilefni sé til ógildingar þeirra.         Stefndi mótmælir því að skattayfirvöld hafi ekki gætt hlutlægni í samræmi við lög nr. 88/2008, um meðferð sakamála og jafnframt að brotið hafi verið gegn 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944 og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Stefndi mótmælir því að skattrannsóknarstjóri hafi ekki aflað viðeigandi gagna um Topaz Holding Lt.d. og skattskil félagsins gagnvart enskum skattyfirvöldum ásamt því að hafa gefið sér í rannsókn sinni að tilteknar greiðslur samkvæmt reikningum útgefnum af Topaz Holding Ltd. hafi í raun verið greiðslur til stefnanda og Sigurðar Sigfússonar.         Stefndi byggir á því að af gögnum málsins megi ráða að nægileg greinargóðar upplýsingar hafi legið fyrir um Topaz  Holding Ltd. á því tímabili sem rannsókn málsins varðar. Þá hafi stefnanda verið í lófa lagið að leggja fram allar þær upplýsingar og gögn sem hann taldi að upplýst gætu málið með fullnægjandi hætti. Við rannsókn skattrannsóknarstjóra lágu fyrir gögn um reikningaútgáfu stefnanda og Sigurðar Sigfússonar í nafni Topaz Holding Ltd. og rannsóknin hafi beinst að skoðun þessara reikninga og fyrir hvaða vinnu og þjónustu var innheimt. Rannsóknin hafi ekki varðað skattskil Topaz Holding Ltd.         Stefndi bendir á að niðurstaða rannsókna, bæði skattransóknarstjóra og ríkisskattstjóra, byggist fyrst og fremst á gögnum sem stefnandi lagði fram sjálfur og skýrslutökum yfir stefnanda og þeim aðilum sem komu að gerð reikninganna. Með hliðsjón af þeim hafi skattrannsóknarstjóri og síðan ríkisskattstjóri komist að þeirri niðurstöðu að nokkur íslensk félög hefðu greitt stefnanda og Sigurði fyrir stjórnarsetu og/eða annað vinnuframlag í þágu félaganna. Reikningarnir sem Topaz Holding Ltd. gaf út voru vegna vinnu stefnanda og Sigurðar, en á skattframtölum þeirra hafi engin grein verið gerð fyrir tekjum vegna þessarar vinnu. Í skýrslutökum af forsvarsmönnum þeirra félaga, sem voru kaupendur vinnunnar, hafi komið fram að stefnandi og  Sigurður hafi lagt af mörkum vinnu og jafnframt hafi legið fyrir að frá Topaz Holding Ltd. hefðu ekki aðrir innt af hendi það vinnuframlag sem innheimt var fyrir, andstætt fullyrðingum stefnanda og Sigurðar. Allir reikningar hefðu verið greiddir. Niðurstaða skattyfirvalda hafi því verið sú að greiðslurnar tilheyrðu þeim persónulega en ekki Topaz Holdins Ltd.og að líta ætti á greiðslur íslensku félaganna sem skattskyld laun stefnanda og Sigurðar, sbr. A-lið 7. gr. laga nr. 90/2001 og líta ætti fram hjá aðkomu Topaz Holding Ltd. við innheimtu þeirra greiðslna.         Í úrskurði ríkisskattstjóra segi nánar um þetta atriði: „Með vísan til þess sem að framan greinir er það mat ríkisskattstjóra að í raun hafi gjaldandi sjálfur unnið þá vinnu er Topaz Holding Ltd. innheimti fyrir hjá íslensku félögunum, hvað hans hluta varðar, og tekjurnar því tilheyrt honum persónulega.  Af gögnum málsins og upplýsingum frá gjaldanda og Sigurði verður ekki annað séð en störf hans fyrir hin íslensku félög hafi í eðli sínu verið sambærileg við störf sem alla jafnan falla undir verksvið stjórnenda félaga eða starfandi stjórnarmanna.  Þá hafi gjaldandi innheimt þóknun með svo til jöfnum mánaðarlegum greiðslum eins og um föst laun væri að ræða.  Að mati ríkisskattstjóra eru tekjur gjaldanda af störfum hans fyrir félögin ekki tekjur skv. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, enda ekkert sem bendir til að umrædd störf hafi verið verktakavinna og að hann hafi sinnt afmörkuðum verkefnum fyrir félögin.  Með vísan til þess sem að framan greinir er það mat ríkisskattstjóra að samband gjaldanda og hinna íslensku félaga hafi verið samband launþega og launagreiðanda.  Er það mat ríkisskattstjóra að gjaldandi hafi í raun verið starfsmaður umræddra félaga og hafi greiðslur félaganna til hans því verið skattskyldar tekjur hans skv. 1. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.  Það er mat ríkisskattstjóra að líta beri framhjá aðkomu Topaz Holding Ltd. og skattleggja tekjurnar sem laun hjá gjaldanda persónulega.“         Í VI. kafla úrskurðar yfirskattanefndar nr. 322/2015 í máli stefnanda séu efnisatriði málsins rakin og þar segi meða annars: „Af framburði umræddra starfsmanna og kæranda og Sigurðar sjálfra verður ráðið að útgefnir reikningar Topaz Holding Ltd. hafi alfarið verið að frumkvæði kæranda og Sigurðar og vegna starfa þeirra fyrir félögin. Var um að ræða reglulegar greiðslur á því tímabili er kærandi og Sigurður tengdust félögunum og voru fjárhæðir reikninga á hvert félag svipaðar milli mánaða. Verður að taka undir það með ríkisskattstjóra að greiðslur hinna íslensku félaga til Topaz Holding Ltd. beri öll merki þess að hafa í raun verið launagreiðslur til kæranda og Sigurðar fyrir persónulegt vinnuframlag þeirra. Þá verður ekki annað ráðið af skýrslugjöf kæranda og Sigurðar sem og fyrrum starfsmanna hinna íslensku félaga en að störf kæranda og Sigurðar fyrir félögin hafi í eðli sínu verið störf sem almennt falla undir verksvið stjórnarmanna eða stjórnenda félaga. Ekkert kemur fram í reikningum Topaz Holding Ltd. um aðkeypta þjónustu, svo sem með sundurliðun eða tilvísun til annarra gagna. Verður að telja að það hafi staðið kæranda og Sigurði næst að upplýsa um aðkeypta þjónustu fyrir íslensku félögin hafi verið um slíka þjónustu að ræða. Þá liggur fyrir að Topaz Holding Ltd. hætti að innheimta greiðslur frá félögunum er kærandi og Sigurður hættu afskiptum af félögunum.“         Stefndi bendir á að almennt sé talið að vinna starfandi stjórnarmanna semslíkra í viðkomandi félögum sé launavinna en ekki verktaka vinna:         Í niðurstöðu yfirskattanefndar segi síðan: „Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður að fallast á það með ríkisskattstjóra að sýnt hafi verið fram á það með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að virða beri greiðslur íslensku félaganna til X Ltd. sem skattskyld laun kæranda og Sigurðar, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, og að líta beri fram hjá aðkomu X Ltd. við innheimtu þeirra greiðslna. Ekki er sérstaklega deilt um skiptingu greiðslnanna milli kæranda og Sigurðar í kæru til yfirskattanefndar og verður því byggt á því að greiðslur hafi runnið til þeirra að jöfnu nema í tilviki Seafood Union ehf...Vegna athugasemda í kæru þess efnis að kærandi hafi ekki fengið neinar greiðslur vegna umræddra starfa skal tekið fram að hvað sem því líður liggur fyrir að kærandi og Sigurður komu því þannig fyrir að umræddar greiðslur rynnu til Topaz Holding Ltd. sem eins og fram er komið er félag sem þeir nutu að lokum ávinnings af. Samkvæmt framansögðu verða hinar kærðu tekjuviðbætur ríkisskattstjóra látnar standa óhaggaðar.“         Af framangreindu telur stefndi ljóst að umfangsmikil gögn, þar á meðal skýrslutökur, sem lágu fyrir í máli stefnanda hafi sýnt fram á að reikningar sem Topaz Holding Ltd. gaf út voru vegna vinnu stefnanda og Sigurðar. Stefndi telur því að ekki hafi verið ágallar á rannsókn málsins af hálfu skattyfirvalda og hafi hlutlægni verið gætt í hvívetna.              Stefndi mótmælir sem ósönnuðum staðhæfingum stefnanda um að brotið hafi verið gegn friðhelgi einkalífs hans, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu þar sem persónulegra gagna varðandi stefnanda hafi verið aflað með ólögmætum hætti og rannsakendur hjá skattrannsóknarstjóra séu því hlutdeildarmenn í þeim brotum með því að hagnýta þau. Stefndi leggur áherslu á að í 90. gr. laga nr. 90/2003 sé kveðið á um þá skyldu skattskyldra aðila að afhenda ríkisskattstjóra skýrslur um eignir í árslok á síðastliðnu ári, svo og önnur atriði sem máli skipta við skattlagningu. Verði skattrannsónarstjóri þess áskynja að misbrestur hafi orðið á því að uppfyllt séu ákvæði 90. gr. laga nr. 90/2003 geti hann að eigin frumkvæði hafið rannsókn á hverju því atriði er varði skatta, sbr. 1. mgr. 103. gr. sömu laga. Hvorki lög nr. 90/2003 né lög nr. 88/2008 standi í vegi fyrir því að skattrannsóknarstjóri hagnýti sér gögn sem þriðji aðili afhendir embættinu án þess að kanna hverning þeirra hafi verið aflað en mikilvægir almannahagsmunir felist í því að skattalagabrot séu upplýst. Skattrannsóknarstjóri fékk umrædd gögn afhent frá þriðja aðila og aflaði ekki gagnanna með ólögmætum hætti.         Stefndi bendir ennfremur á að líkt og rakið hefur verið byggði niðurstaða skattrannsóknarstjóra og síðar ríkisskattstjora fyrst og fremst á skýrslutökum af þeim aðilum sem komu að gerða reikninganna sem um ræðir, það er stefnanda og Sigurðar. Fullyrðingu stefnanda um að tölvuskeyti, sem stefnandi fullyrðir að hafi verið fengin með ólögmætum hætti er mótmælt sem ósönnuðu og þau hafi ekki verið grundvöllur  niðurstöðu rannsóknar skattyfirvalda.          Stefndi mótmælir því að skattrannsóknarstjóri hafi ekki nýtt sér lögbundna heimild í 2. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 til að ganga úr skugga um hvort embættið hafi fengið öll gögn sem skipt gætu máli við rannsókn málsins, þar með talið gögn um lántökur Topaz Holding Ltd. Þá er því mótmælt að mat skattrannsóknarstjóra á gögnum málsins, meðal annars reikningum útgefnum í nafni Topaz Holding Ltd., hafi verið rangt og ekki til þess fallið að sýna fram á greiðslur íslensku félaganna til Topaz Holding Ltd. hafi verið tekjur stefnanda og Sigurðar Sigfússonar.         Sem fyrr greinir var rannsókn skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra fyrst og fremst byggð á annars vegar gögnum sem stefnandi lagði fram sjálfur og hins vegar á skýrslutökum af stefnanda og þeim aðilum sem komu bæði að gerð og greiðslu umræddra reikninga. Stefndi telur mikilvægt í þessu sambandi að halda því til haga að rannsókn málsins beindist eingöngu að stefnanda sjálfum en ekki félaginu Topaz Holding Ltd. Gögn málsins bera einnig með sér að stefnandi hafi verið tregur til að láta í té þýðingarmiklar upplýsingar og gögn sem skattyfirvöld fóru fram á en á stefnanda hvíli skýlaus skylda, sbr. 1. mgr. 94. gr. laga nr. 20/2003. Í því ljósi og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat stefnda að skattrannsóknastjóri hafi aflað nægilegra gagna svo að hægt væri að leiða að því nægilega miklar líkur að greiðslur íslensku félaganna til Topaz Holding Ltd. væru í raun og veru launagreiðslur til stefnanda og Sigurðar fyrir vinnuframlag þeirra.         Varðandi athugasemdir í stefnu um reikning sem Topaz Holding Ltd. gaf út á Bræðurnar Ormsson ehf. og dags. sé 28.12.2008 en samkvæmt texta sagður vegna þjónustu og ráðgjafar í nóvember 2007 og samkvæmt númeraröð sé gefinn út í desember 2007 þá áréttar stefndi að rannsóknin hafi varðað skattskil stefnanda. Það hafi ekki verið hluti af rannsókn málsins hvort umræddir reikningar hafi verið fylgiskjöl í bókhaldi íslensku félaganna sem veru greiðendur reikninganna.         Stefndi mótmælir staðhæfingum stefnanda um að ríkisskattstjóri hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni með fullnægjandi hætti þar sem niðurstaða skattrannstjórnarstjóra hafi verið grundvöllurinn að niðurstöðu ríkisskattstjóra. Því hafi ekki verið brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefndi leggur áherslu á að í málum sem tekin hafa verið til rannsóknar af skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. 6. mgr. nr. 90/2003, verði þungamiðjan óhjákvæmilega skýrsla skattrannsóknarstjóra um viðkomandi rannsókna enda sé markmið með skattrannsóknum meðal annars að leggja grunnað endurákvörðun opinberra gjalda, sbr. frumvarp sem varð að lögum nr. 11/1992 og 12. gr. reglugerðar 373/2001 um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna. Ríkisskattstjóra ber eftir sem áður að rökstyðja með fullnægjandi hætti ákvarðanir sem hann tekur  á grundvelli skattrannsóknar bæði við boðun breytinga og í úrskurði. Í boðunarbréfi og úrskurði ríkisskattstjóra hafi verið fjallað ítarlega um rannsókn skattrannsóknarstjóra og færa fram þær forsendur sem ríkisskattstjóri taldi að byggja ætti breytingar á, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Málsmeðferð hafi því verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.         Í stefnu sé því haldið fram að í úrskurði ríkisskattstjóra sé meðal annars  sérstaklega tekið fram  að ekkert hefði komið fram við rannsóknina sem gæfi vísbendingu um að Topaz Holding Ltd. hefði verið að innheimta ráðgjafakostnað vegna þriðja aðila. Það sé rangt. Stefndi bendir á að í úrskurði ríkisskattstjóra komi skýrt fram að ríkisskattstjóri telji að reikningar þeir sem innheimir voru í nafni Topaz Holding Ltd.  hafi verið vegna vinnu stefnanda og Sigurðar. Í skýrslutökum af forsvarsmönnum greiðenda hafi sami skilningur komið fram. Í rannsókn skattrannsóknarstjóra hafi hins vegar ekkert komið fram, gegn staðhæfingum stefnanda og Sigurðar að aðrir aðila hafi innt af hendi þá vinnu sem innheimt var fyrir. Af hálfu stefnanda og Sigurðar hafi ársreikningar Topaz Holding Ltd. fyrir árin 2005 til og með 2008 verið lagðir fram. Um þá sé fjallað í bréfi ríkisskattstjóra 23. maí 2014, sbr. umfjöllun um málsatvik.        Stefnandi staðhæfi að Topaz Holding Ltd. hafi aldrei greitt honum eitt eða neitt. Eins og rakið hafi verið hafi stefnandi og Sigurður hafi verið „beneficaiaries“ að þeim sjóðum, sem voru eigendur félagsins Alverglen Ltd., sem varð svo eigandi Topaz Holding Ltd. Stefnandi og Sigurður hafi því átt félagið Topaz Holding Ltd., sem innheimtu greiðslurnar og hafði ráðstöfunarétt yfir þessum fjármunum. Staðhæfingar um að þeim hafi ekkert verið greitt geti ekki verið réttar enda hafi þeir ákveðið hvert greiðslur félaganna fyrir vinnu þeirra skyldu renna. Á þessum tíma hafi þeir báðir borið fulla skattskyldu hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 90/2003 og bar því að standa skil á skatti af endurgjaldi fyrir þá vinnu.         Stefnandi haldi því fram að íslensk skattyfirvöld geti ekki með stoð í 57. gr. laga nr. 90/2003 breytt lögmætum viðskiptum milli félaga, ákveðið að ákveðinn hluti tekna Topaz Holding Ltd. skuli vera laun stefnanda og þar með tekið fram fyrir hendurnar á lögmætri stjórn félagsins.         Stefndi bendir á að skattyfirvöldum sé almennt heimilt að leggja á það sjálfstætt mat hvort atvik hafi verið með þeim hætti að tiltekin lagaregla taki til þeirra og séu ekki bundin við mat skattaðila á sömu atvikum. Við þetta mat þurfi skattyfirvöld að sýna fram á að skattaðili hafi hagað einkaréttarlegum ráðstöfunum sínum þannig að komast mætti hjá lögmætri skattlagningu, til dæmis með málamyndagerningi, sem ekki væri ætlað að hafa gildi samkvæmt efni sínu, eða óvenjulegum samningi við annan skattaðila, gerðum með það fyrir augum að sniðganga tiltekna sköttunarreglu, sbr. 1. gr. 57. gr. laga nr. 90/2003.        Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins og síðar úrskurður ríkisskattstjóra varðaði stefnanda og tekjur hans en ekki rekstur Topaz Holding Ltd. nema að því leyti að reikningar vegna vinnu stefnanda voru gefnir út í nafni félagsins. Málið hafi ekki varðað tekjufærslur eða gjaldfærslur Topaz Holding Ltd. eða gjaldfærslur þeirra félaga sem greiddu reikningana. Meginatriði málsins sé að stefnandi var að inna af hendi vinnu hér á landi og bar því að gera grein fyrir endurgjaldi fyrir þá vinnu. Stefnandi hafi ekki, þrátt fyrir að hafa staðið að útgáfu reikninganna ásamt Sigurði, gert grein fyrir endurgjaldi fyrir þá vinnu á skattframtölum sínum, þar á meðal stjórnarformennsk og stjórnarsetu í umræddum félögum. Stefndi telur staðhæfingar í stefnu um íhlutun ríkisskattstjóra í málefni erlendra félaga fráleitar.                 Stefndi hafnar öllum málsástæðum og kröfum stefnanda á þeim reistum. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á neitt sem leitt getil þess að úrskurður yfirskattnefndar 2. desember 2015 og úrskurður ríkisskattstjóra 31. janúar 2014 verði felldir úr gildi og því berði að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Þá mótmælir stefndi vaxtakröfu stefnda, einkum upphafstíma dráttarvaxta.           Varðandi málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla lag nr. 91/1991, um meðferð einkamála. V. Niðurstaða         Í máli þessu er deilt um það hvort skattyfirvöld hafi rannsakað mál stefnanda á viðhlítandi hátt áður en ákvarðanir voru teknar. Stefnandi byggir á því að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi ekki aflað viðeigandi gagna um Topaz Holding Ltd. og skattskil félagsins gagnvart enskum skattyfirvöldum. Skattrannsóknarstjóri hafi gefið sér að tilteknar greiðslur samkvæmt reikningum útgefnum af Topaz Holding Ltd. til íslenskra félaga hafi verið greiðslur til stefnanda og Sigurðar Sigfússonar persónulega án þess að styðja þá niðurstöðu sína öðrum rökum en þeim að greiðslur félaganna hafi verið greiðslur fyrir vinnuframlag þeirra og þeir á þessum tíma báðir borið fulla skattskyldu hér á landi. Embætti ríkisskattstjóra hafi ekki hirt um að fá skýringar skráðra eigenda eða endurskoðanda Topaz Holding Ltd. á ársreikningum félagsins þegar búið var að afla þeirra og senda með beiðni stefnanda, dags. 27. febrúar 2014, um endurupptöku úrskurðar ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri hafi þannig ekki nýtt sér lögbundna heimild í 2. mgr. 94. gr. laga nr 90/2003 til að ganga úr skugga um að embættið hefði fengið öll gögn sem skipt gætu máli við rannsókn málsins. Þá hafi ríkisskattstjóri einnig brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að taka íþyngjandi ákvörðun án þess að vinna sjálfstæða rannsókn á skattskilum stefnanda.         Stefndi byggir á því að skattyfirvöld hafi gætt þeirrar hlutlægni sem boðin sé í lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og jafnframt að ekki hafi verið brotið gegn 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Af gögnum málsins megi ráða að nægilega greinargóðar upplýsingar hafi legið fyrir um Topaz Holding Ltd. á því tímabili sem rannsókn tók til. Þá hafi rannsókn skattrannsóknarstjóra og síðar úrskurður ríkisskattstjóra varðað stefnanda og tekjur hans en ekki rekstur Topaz Holding.         Í samantekt í rannsóknarskýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram rökstuðningur skattrannsóknarstjóra fyrir þeirri ákvörðun sinni að umræddar greiðslur samkvæmt reikninum útgefnum af Topaz Holding Ltd. hafi í raun verið greiðslur til stefnanda og Sigurðar Sigfússonar persónulega. Þar segir: „Þrátt fyrir að þjónusta sú sem skattaðili og Sigurður Sigfússon veittu hafi verið innheimt í nafni Topaz Holding Ltd. telur skattrannsóknarstjóri að skattayfirvöld verði að leggja á það sjálfstætt mat hvort atvik hafi verið með þeim hætti að tiltekin lagaregla taki til þeirra. Í dóma- og úrskurðarframkvæmd í skattamálum hafi verið fallist á að skattyfirvöldum sé heimilt að framkvæmt slík mat og hafi þau þá ekki verið talin bundin við mat skattaðila á sömu atvikum. Hefur verið litið svo á að skattyfirvöld þurfi í vissum tilvikum við mat þetta að sýna fram á að skattaðili hafi hagað einkaréttarlegum ráðstöfunum sínum þannig að komast mætti hjá lögmætri skattlagningu, t.d. með málamyndagerningi sem ekki væri ætlað að hafa gildi samkvæmt efni sínu, eða með óvenjulegum samningi við annan skattaðila, gerðum með það fyrir augum að sniðganga tiltekna sköttunarreglu, sbr. 1.mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.“         Það var síðan niðurstaða skattyfirvalda að greiðslur vegna umræddra reikninga væru greiðslur sem tilheyrðu stefnanda og Sigurði Sigfússyni persónulega en ekki Topaz Holding Ltd. Líta bæri á greiðslur íslensku félaganna til Topaz Holding Ltd. sem skattskyld laun stefnanda og Sigurðar Sigfússonar, sbr. 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og að líta ætti fram hjá aðkomu Topaz Holding Ltd. við innheimtu þeirra greiðslna.         Dapo Ladimeji, löggiltur endurskoðandi, búsettur í London, Bretlandi, gaf vitnaskýrslu á ensku við aðalmeðferð málsins og löggiltur dómtúlkur túlkaði af ensku á íslensku og af íslensku á ensku. Vitnið kvaðst starfa í City of London og vinna að alþjóðlegum skattaskilum hjá eigin fyrirtæki,Ladimeji & Co.          Vitnið kvaðst hafa starfað sem löggiltur endurskoðandi fyrir Topaz Holdindg Ltd., um væri að ræða breskt fyrirtæki sem hefði verið stofnað í samræmi við bresk lög. Spurður um reglur sem gilda um bókhald og reikningsskil fyrir Topaz Holding Ltd. í Bretlandi, svaraði hann því að árlega ætti að leggja ársreikninga fyrir stofnun sem heiti Company House, sem væri samsvarandi fyrirtækjaskrá á Íslandi. Jafnframt skuli skila skattframtölum ásamt fylgiskjölum. Lögð voru fyrir vitnið dómskj. nr. 13, 14, 15 og 16, ársreikningar Topaz Holding Ltd. fyrir árin  2005, 2006, 2007 og 2008. Vitnið kvaðst kannast við þessa ársreikninga. Hann kvaðst hafa staðfest þá með áritun sinni á framhlið hvers þeirra og hefði þeim verið skilað til Company House. Þá voru lögð fyrir vitnið dskj. nr. 17, 18, 19 og 20 og  hann spurður að því frá hverjum þau stöfuðu og hvað þau segðu í raun. Vitnið kvað þau koma beint frá skattyfirvöldum í Bretlandi, skattstofunni bresku. Í stöðu sinni sem löggiltur endurskoðandi hefði vitnið heimild til aðgengis að þessum gögnum og jafnframt heimild til að taka afrit. Á skjölunum komi fram greiddur skatttur, sem hafi verið 1.407 pund vegna árins 2005, sama gildi um allar tölu á skjölum nr. 18, 19 og 20, þ.e. að Topaz Holding Ltd. hafi greitt skatta í Bretlandi. Þá var lagt fyrir vitnið dskj. nr. 29 og nr. 30. Vitnið kannaðist við bæði þessi bréf. Vitnið kvað aðspurt það rétt sem fram komi í dómskjali nr. 29 að engin laun eða aðrar greiðslur hafi verið greiddar út úr Topaz Holding Ltd. til nokkurra aðila. Vitnið kvað það rétt sem fram komi á fylgiskjölum með dómskjali nr. 30. Þar séu sundurliðaðar tölur í efnahagsreikningi og hafi fylgiskjölin verið send breskum skattyfirvöldum. Þau tengist dómskjölum nr. 17, nr. 18, nr. 19 og nr. 20 og leiði til skattlagningar þar. Í bréfi á dómskjali nr. 22 komi fram að ársreikningar Topaz Holding Ltd. séu ekki endurskoðaðir. Aðspurður kvað vitnið það ekki lagaskyldu að endurskoða ársreikninga eins og hjá Topaz Holding á Bretlandi, ESB reglur gildi þar sem þýði að félög af þessari stærðargráðu séu ekki skyldug til að láta endurskoða ársreikninga sína. Spurður um það, sem fram kemur í bréfi ríkisskattstjóra, þ.e. að tekjur Topaz Holding Ltd. hafi verið 146.979 pund og stjórnunarkostnaður 139.980 pund, útskrifaðir tekjureikningar á hendur viðskiptavinum sem lagðir fram það ár, næmu 87.532 pundum þannig að tekjurnar gætu rúmast innan þeirrar reglu, hvers vegna nánari greining væri ekki gerð á þessu í ársreikningi svaraði vitnið að ensk lög gerðu ekki kröfu um nánari greiningu.          Spurður um það sem fram kemur í bréfi ríkisskattstjóra á dskj. nr. 22, en þar segir að í ársreikningi fyrir árið 2006 sé ekki gerð grein fyrir breytingum á reikningsskilum eða framsetningu ársreiknings, gerði vitnið grein fyrir mismun á veltuframsetningu annars vegar fyrir árið 2005 og hins vegar ársreikninga á dskj. nr. 14, nr. 15 og nr. 16 og kvað að samkvæmt reikningsskilareglum í Bretlandi væri möguleiki á að jafna út ákveðinn kostnað. Það hafi ekki verið gert árið 2005 en þegar vitnið gerði ársreikning fyrir árið 2006 hafi vitnið talið sanngjarnara að jafn út þessar tölur. Báðar aðferðir væru í samræmi við reiknngsskilareglur í Bretlandi. Þessum ársreikningum hafi aðeins verið skilað til Company House, en gögn til skattyfirvalda hafi verið með öðrum hætti. Aðspurður kvaðst vitnið hafa fært bókhald fyrir Topaz Holding Ltd. og hafi bókhaldsgögn verið í sínum fórum. Þá kvað vitnið Topaz Holding Ltd. ekki hafa greitt móðurfélaginu Alverglen Ltd. neina fjármuni.                Litið hefur verið svo á að stjórnvöld geti ekki komist hjá því að rannsaka mál á viðhlítandi hátt með því að beita sönnunarreglum í stað rannsóknar. Í þeim tilvikum, sem staðreyndir máls eru ekki nægilega skýrar, er stjórnvöldum óheimilt að grípa til mats- eða sönnunarreglna fyrr en þau hafa árangurslaust reynt að rannsaka mál á tilhlýðilegan hátt. Rannsóknarreglan felur í sér að það stjórnvald sem ákvörðun tekur ber ábyrgð á því að mál hafi verið rannsakað nægilega áður en ákvörðunin var tekin. Þannig getur veruleg vanræksla á rannsókn máls leitt til þess að ákvörðun verði talin ógildanleg, sérstaklega þegar um íþyngjandi ákvarðanir er að ræða.         Í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 23. maí 2014, þar sem hann synjaði beiðni stefnanda um endurupptöku úrskurðar síns frá 27. febrúar sama ár, gerði ríkisskattstjóri margvíslegar athugasemdir við ljósrit ársreikninga Topaz Holding Ltd. fyrir rekstrarárin 2005, 2006, 2007 og 2008. Miðað við framburð löggilts endurskoðanda Topaz Holding Ltd., Dapo Ladimeji, sem gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð, verður að telja þrátt fyrir að af hálfu stefnda sé byggt á því að ekki hafi verið þörf á frekari upplýsingum um Topaz Holding Ltd. umfram það sem legið hafi fyrir í málinu, að brýnt og eðlilegt hafi verið að leitað væri eftir upplýsingum frá breskum skattyfirvöldum og endurskoðanda varðandi ráðstöfun umræddra greiðslna frá íslensku fyrirtækjunum. Þó að bókhald þess fyrirtækis hafi ekki verið til rannsóknar hafi ríkisskattstjóra borið að afla upplýsinga og skýringa um Topaz Holding Ltd. þar sem upplýsa þurfti hvað varð um þessar greiðslu.  Félagið er skráð, löglegt félag í Englandi og skilar samkvæmt framburði vitnisins ársreikningum í samræmi við enskan rétt og greiðir þá skatta sem því ber í heimalandi sínu. Þó að stefndi byggi á því að Topaz Holding Ltd. hafi ekki verið til rannsóknar verður að telja að skattyfirvöldum hafi borið að afla upplýsinga um það hvert umræddar greiðslur runnu þar sem um mjög íþyngjandi ákvarðanir var að ræða. Fram kemur í gögnum málsins að íslenskum skattyfirvöldum var ítrekað bent á að afla upplýsinga frá breskum skattyfirvöldum en tvísköttunarsamningur er í gildi milli landanna og því vart vandkvæðum bundið að afla upplýsinga frá þeim. Skattyfirvöld gáfu sér hins vegar að umræddar greiðslur hefðu runnið til stefnanda og Gunnars Arnar.         Ríkiskattstjóri getur ekki komið sér undan þeirri skyldu að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en hann tekur ákvörðun með því einu að vísa til skýlausrar upplýsingaskyldu sem hvíli á stefnanda skv. 94. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003 eins og byggt er á af hálfu stefnda. Telja verður að áður en jafn íþyngjandi ákvörðun og hér um ræðir var tekin hjá skattayfirvöldum hafi þeim borið að afla upplýsinga frá endurskoðanda Topaz Holding Ltd. og breskum skattyfirvöldum en það var ekki gert. Þannig verður fallist á að  að skattyfirvöld hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafi ekki séð til þess að mál væri nægilega upplýst áður en umþrættar ákvarðanir voru teknar. Ríkiskattstjóri gerði engan reka að því að afla upplýsinga frá skattyfirvöldum í Englandi sem hefði átt að vera auðvelt að afla og er úrskurður hans því ekki byggður á nægilega traustum grunni. Samkvæmt því sem rakið hefur verið ber að fallast á kröfu stefnanda um að fella úr gildi úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 31. janúar 2014 með tilvísunarnúmerið 2012002151. Í kæru  stefnanda og eiginkonu 17. apríl 2014 hans til yfirskattanefndar á úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda gjaldaárin 2006-2009 kom fram að bæði kærandi og Sigurður Sigfússon hafi hvatt starfsmenn skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjória til að afla gagna frá Topaz Holding Ltd. en hvorugir hirt um það. Þrátt fyrir þetta horfði yfirskattanefnd fram hjá  ágöllum á rannsókn málsins og hafnaði því að fella úrskurð ríkisskattstjóra um skattbreytingar stefnanda og eiginkonu hans úr gildi. Þar sem yfirskattanefnd byggði niðurstöðu sína á ófullnægjandi rannsókn skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra leiðir af framangreindri niðurstöðu um að fella úr gildi úrskurð ríkisskattstjóra frá 31. janúar 2014 að fella ber einnig úr gildi úrskurð yfirskattanefndar í kærumálinu nr. 321/2015.         Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta, skal þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. greiða dráttarvexir skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma er gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta, en þann 16. desember 2015 greiddi stefnandi endurákvörðuð opinber gjöld, samtals 18.310.753 kr., með fyrirvara um endurheimtu. Með vísan til þessa ber að dæma stefnda til að endurgreiða stefnanda 18.310.753 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. desember 2015 til greiðsludags. Að fenginni þessari niðurstöðu, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber að dæma stefnda a,  til að greiða stefnanda málskostnað eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.         Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest skv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Dómari og aðilar eru sammála um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins.          Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn. Dómsorð:         Felldur er úr gildi úrskurður yfirskattanefndar í kærumáli nr. 321/2015 og úrskurður ríkisskattstjóra, dagsettur 31. janúar 2014, með tilvísunarnúmerið 20121002146, sem báðir kveða á um endurákvörðun opinberra gjalda, stefnanda Gunnars Arnar Kristjánssonar, gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009.         Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda 18.310.753 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 16. desember 2015 til greiðsludags.         Stefndi greiði stefnanda 700.000 kr. í málskostnað.
Mál nr. 364/2017
Aðild Fjármálafyrirtæki Handveð
Ágreiningur aðila sneri að því hvort að krafa sem E ehf. var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 112/2015 gert að greiða G hf., sem áður bar heitið G banki hf., hefði verið tryggð með veði samkvæmt tilgreindri handveðsyfirlýsingu. Samkvæmt yfirlýsingunni setti E ehf. að handveði til tryggingar öllum skuldbindingum sínum gagnvart G banka hf. stöðu allra peningamarkaðslána félagsins hjá bankanum. Fyrir lá að E ehf. hafði veitt G banka hf. peningamarkaðslán í tvígang á árinu 2008 en þeim lánum var síðar breytt í bundin innlán og þau framlengd þar til þau voru greidd af Í hf. til GH ehf., sem áður bar nafnið G hf. Þá hafði E ehf. veitt Í hf. bundið innlán á árinu 2011 sem einnig var deilt um hvort félli undir hið veðsetta samkvæmt handveðsyfirlýsingunni. Undir rekstri málsins í héraði var bú E ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og tók kröfuhafinn T ehf. við rekstri málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið vék stjórn G banka hf. frá í október 2008 og skipaði bankanum skilanefnd hefði eftirlitið tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda hins fallna banka til nýs banka sem nú bar heitið Í hf. Meðal þess sem ráðstafað hefði verið til hins nýja banka voru innlán sem E ehf. hafði veitt hinum fallna banka og framangreind handveðréttindi. Á hinn bóginn hefðu afleiðusamningar og fleiri samningar E ehf. orðið eftir hjá hinum fallna banka sem um síðir hefði krafið E ehf. um greiðslu skuldar samkvæmt samningunum og fengið áðurnefndan dóm fyrir skyldu E ehf. til greiðslu hennar. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hefði Í ehf. borið að standa GH ehf. skil á handveðsettum verðmætum til tryggingar þeirri kröfu og hefði það verið gert í kjölfar dómsins. Talið var að handveðsyfirlýsingin hefði tekið til framangreindra verðmæta er þau voru afhent bankanum og Í hf. og að þau verðmæti sem komið hefðu í þeirra stað hefðu einnig fallið undir handveðið. Var Í hf. því sýknað af kröfu T ehf. um endurgreiðslu lánanna þriggja.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. júní 2017. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 474.160.811 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 20. október 2008 til greiðsludags, en til vara að honum verði gert að greiða sér 2.980.609,66 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. október 2008 til greiðsludags, 1.013.720,03 danskar krónur með sömu dráttarvöxtum frá 8. maí 2009 til greiðsludags og 131.130,21 norskar krónur með sömu dráttarvöxtum frá 31. október 2011 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Mál þetta var höfðað fyrir héraðsdómi af Eignarhaldsfélagi RS ehf. Er málið var tekið fyrir 4. janúar 2017 var bókað í þingbók að bú félagsins hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2016. Jafnframt að fyrir stefnanda hafi mætt nafngreindur lögmaður vegna skiptastjóra þrotabúsins. Loks var bókað: ,,Í samræmi við framangreint er aðild stefnanda breytt með þeim hætti að stefnandi málsins er þrotabú Eignarhaldsfélags RS ehf.“ Við næstu fyrirtöku í málinu 12. janúar 2017 var bókað: ,,Skiptastjóri í stefnanda ... upplýsir að á skiptafundi hafi verið samþykkt að fela kröfuhafanum Taxus ehf. að reka mál þetta fyrir dóminum af hálfu þrotabúsins, sbr. 130. gr. laga nr. 21/1991.“ Við flutning málsins fyrir Hæstarétti upplýsti lögmaður áfrýjanda að félagið hefði tekið við rekstri málsins og reki það í eigin nafni og á eigin kostnað og ábyrgð en til hagsbóta fyrir þrotabúið. Félagið gæti krafið þrotabúið um endurgreiðslu kostnaðar að því marki sem þrotabúinu kynni að áskotnast fé af málarekstrinum. Að réttu lagi átti þrotabúið þessu til samræmis ekki að teljast aðili að málinu eftir þinghaldið 12. janúar 2017. Samkvæmt framangreindu og þar sem stefndi hefur ekki haft uppi dómkröfur sem varða aðild að málinu getur sá annmarki, sem lýst hefur verið á aðild þess, engu breytt um niðurstöðuna. II  Ágreiningsefni málsins lýtur að því hvort krafa að fjárhæð 5.474.701.040 krónur auk vaxta, sem Eignarhaldsfélag RS ehf. var með dómi Hæstaréttar 3. desember 2015 í máli nr. 112/2015 gert að greiða Glitni hf., hafi verið tryggð með veði samkvæmt handveðsyfirlýsingu 10. ágúst 2007 að því marki sem hin veðsettu verðmæti hrykkju til. Samkvæmt yfirlýsingunni setti félagið að handveði til tryggingar öllum skuldbindingum sínum gagnvart Glitni banka hf. verðmæti sem tilgreind voru þannig: ,,Staða allra peningamarkaðslána viðskiptamanns hjá bankanum eins og hún er á hverjum tíma þ.m.t. vextir, gengismunur og verðbætur“. Í yfirlýsingunni sagði einnig: ,,Sé veðsett skjal innleyst má bankinn veita viðtöku og halda hjá sér innlausnarfjárhæðinni til tryggingar ógjaldföllnum hlutum skuldbindinga veðsala. ... Verði vanskil eða aðrar vanefndir á skuldbindingum veðsala gagnvart bankanum, er honum heimilt að selja handveðið eða koma því í verð á hvern þann hátt annan, sem hann kýs, og ráðstafa andvirðinu til greiðslu á þeim, allt að vali bankans, fyrirvaralaust og án aðvörunar. Bankinn má og neyta alls þess réttar, sem útgefandi/veðsali hefur sjálfur yfir hinu veðsetta, svo sem að veita viðtöku öllum tekjum eða arði, er veðið gefur af sér. Yfirlýsing þessi felur jafnframt í sér umboð til bankans til þess að framselja hið handveðsetta, kvitta fyrir allar greiðslur og framkvæma allt það sem með þarf og hann álítur sér hagkvæmt til þess að handveðið geti komið honum að fullum notum, allt fyrirvaralaust og án aðvörunar.“ Eignarhaldsfélag RS ehf. veitti veðhafanum, Glitni banka hf., peningamarkaðslán í tvígang í ágúst og september 2008, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Þeim lánum var svo breytt í það sem nefnt var bundið innlán og þau framlengd þar til þau voru greidd af stefnda til Glitnis HoldCo ehf., sem er núverandi nafn áðurgreinds veðhafa. Þá veitti Eignarhaldsfélag RS ehf. stefnda bundið innlán í nóvember 2011, sem einnig er deilt um hvort falli undir hið veðsetta samkvæmt handveðsyfirlýsingunni. Í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið vék stjórn Glitnis banka hf. frá og skipaði bankanum skilanefnd 7. október 2008 tók eftirlitið ákvörðun 14. sama mánaðar um ráðstöfun eigna og skulda hins fallna banka til nýs banka, Nýja Glitnis banka hf., sem nú ber nafn stefnda. Meðal þess sem ráðstafað var til hins nýja banka voru innlán þau, sem Eignarhaldsfélag RS ehf. hafði veitt hinum fallna banka og handveðréttindi þau, sem áður greinir. Á hinn bóginn voru afleiðusamningar og fleiri samningar eignarhaldsfélagsins eftir hjá hinum fallna banka, sem um síðir krafði það um greiðslu skuldar samkvæmt þessum samningum og fékk í desember 2015 áðurnefndan dóm fyrir skyldu þess til greiðslu skuldarinnar. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins bar stefnda að standa Glitni HoldCo ehf. skil á handveðsettum verðmætum til tryggingar þeirri kröfu sem síðastgreint félag átti á hendur Eignarhaldsfélagi RS ehf. Var það gert í janúar 2016 í kjölfar áðurgreinds dóms Hæstaréttar. Fallist verður á með héraðsdómi að handveðsyfirlýsingin hafi tekið til framangreindra verðmæta er þau voru afhent bankanum og stefnda og að þau verðmæti sem komið hafa í þeirra stað falli einnig undir handveðið. Að gættu öllu framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans á þann hátt sem í dómsorði greinir. Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði segir. Dómsorð: Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfu áfrýjanda, Taxus ehf. Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 2.000.000 krónur.                                                                               Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 26. apríl 2017 I Mál þetta, sem dómtekið var 29. mars 2017, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu en dagsetningu birtingar er þó ekki getið. Stefnandi er Taxus ehf., fyrir hönd þrotabús Eignarhaldsfélags RS ehf., en stefndi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík. Málið var þingfest af Eignarhaldsfélagi RS ehf. 20. september 2016. Þegar undirritaður dómari tók málið fyrst fyrir 4. janúar 2017 var upplýst að bú stefnanda hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dómsins 5. október 2016. Því til samræmis var aðild stefnanda breytt með þeim hætti að stefnandi málsins væri þrotabú Eignarhaldsfélags RS ehf. Í fyrirtöku málsins 12. janúar 2017 var upplýst að á skiptafundi hafi verið samþykkt að fela kröfuhafanum Taxus ehf. að reka mál þetta fyrir dóminum af hálfu þrotabúsins. Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða honum 474.160.811 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 448.581.754 krónum frá 20. október 2008, af 471.455.333 krónum frá 8. maí 2009 og af 474.160.811 krónum frá 31. október 2011 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum 2.980.609,66 evrur (EUR), auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 20. október 2008 til greiðsludags; 1.013.720,03 danskar krónur (DKK), auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 8. maí 2009; og 131.130,21 norska krónu (NOK), auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 31. október 2011 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins. Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins. II Stefnandi er einkahlutafélag og mun hafa verið stofnaður á árinu 2004. Stefnandi mun hafa átt í umfangsmiklum viðskiptum við Glitni banka hf. um afleiður og gjaldeyri. Hinn 10. ágúst 2007 gerðu stefnandi, sem þá hét RedSquare Invest ehf., og Glitnir banki hf. með sér samning um gjaldeyrisstýringu. Samkvæmt samningnum tók bankinn við 50 milljónum króna ,,til sérstakrar fjárfestingar í gjaldeyri samkvæmt skilmálum samnings þessa“. Tekið er fram í 1. kafla samningsins að stefnanda sé hvenær sem er heimilt að auka við þá upphæð sem hann hafi þegar afhent bankanum ,,og gilda ákvæði samnings þessa einnig um hana“. Þá skyldi stefnandi tilkynna um það með a.m.k. mánaðar fyrirvara, vildi hann lækka umrætt fjármagn. Áskilið er að stefnandi tilkynnti um breytingar á fjármagni sínu með sannanlegum hætti. Þá er tekið fram að fjárfestingarframlag stefnanda á hverjum tíma verði ,,varðveitt á lokuðu peningamarkaðsinnláni eða læstum viðskiptareikningi á meðan samningur þessi er í gildi“. Féð verði handveðsett til tryggingar viðskiptunum, sbr. handveðsyfirlýsingu sem væri undirrituð samhliða þessum samningi. Samkvæmt umboði sem fylgir umræddum samningi veitti stefnandi bankanum ,,fullt og ótakmarkað umboð til þess að gera samninga með gjaldeyri í nafni [stefnanda], í samræmi við samning um gjaldeyrisstýringu“. Tekið er fram í umboðinu að það næði jafnframt meðal annars til þess að stofna í nafni stefnanda bankareikninga og gjaldeyrisreikninga hjá bankanum og að ráðstafa greiðslum inn og út af bankareikningum í samræmi við framangreindan samning. Umboðið skyldi gilda þar til samningur stefnanda við bankann um gjaldeyrisstýringu félli úr gildi. Sama dag, 10. ágúst 2007, gaf stefnandi út handveðsyfirlýsingu til Glitnis banka hf. Með yfirlýsingunni setti stefnandi að handveði stöðu ,,allra peningamarkaðslána viðskiptamanns hjá bankanum eins og hún er á hverjum tíma þ.m.t. vextir, gengismunur og verðbætur“. Tekið er meðal annars fram í handveðsyfirlýsingunni að sé ,,veðsett skjal innleyst [megi] bankinn veita viðtöku og halda hjá sér innlausnarfjárhæðinni til tryggingar ógjaldföllnum hlutum skuldbindinga veðsala“. Verði vanskil eða aðrar vanefndir á skuldbindingum veðsala gagnvart bankanum sé honum heimilt að selja handveðið eða koma því í verð á hvern þann hátt sem hann kýs og ráðstafa andvirðinu til greiðslu á þeim, allt að vali bankans, fyrirvaralaust og án aðvörunar. Þá feli yfirlýsingin í sér umboð til bankans til þess að framselja hið handveðsetta, kvitta fyrir allar greiðslur og framkvæma allt sem með þurfi og bankinn álíti sér hagkvæmt til þess að handveðið geti komið honum að fullum notum, allt fyrirvaralaust og án aðvörunar. Hinn 7. nóvember 2007 undirritaði fyrirsvarsmaður stefnanda samþykki þar sem hann lýsir því meðal annars yfir að hann hafi fengið og samþykkt meðfylgjandi verklagsreglur Glitnis um framkvæmd viðskiptafyrirmæla og að hann hafi reglulegan aðgang að internetinu og samþykki að fá framvegis upplýsingar með rafrænum hætti, þar með talið af vefsíðu Glitnis. Með eyðublaðinu var því lýst að starfsemi stefnanda væri fjárfestingarfélag og að ,,þekking og reynsla“ stefnanda af fjármálgerningum væri ,,mikil reynsla“. Þar áður, eða 6. janúar 2006, hafði stefnandi ritað undir almenna skilmála vegna markaðsviðskipta Íslandsbanka hf. Aðilar máls eru sammála um að stefnandi var fagfjárfestir. Mál þetta á rætur að rekja til innlána stefnanda hjá stefnda. Í fyrsta lagi er ágreiningur um tvo samninga sem stefnandi gerði við Glitni banka hf. um peningamarkaðslán. Fyrri samningurinn var gerður 18. ágúst 2008 og er auðkenndur nr. FD0000081972. Lánið var að fjárhæð 2.939.500 evrur og var á gjalddaga mánuði síðar, 18. september sama ár. Vextir voru ákveðnir 8,28 ársvextir og skyldi greiða vextina, að fjárhæð 20.958,64 evrur, á gjalddaga. Á gjalddaga skyldi bankinn því greiða samtals 2.958.362,78 evrur. Hinn 18. september 2008 var samningurinn framlengdur og var nýr gjalddagi ákveðinn 20. október sama ár. Vextir voru ákveðnir 9,40 ársvextir og skyldi greiða vextina, að fjárhæð 24.718,76 evrur, á gjalddaga. Á gjalddaga skyldi bankinn því greiða samtals 2.980.609,66 evrur. Síðari samningurinn var gerður 22. september 2008 og er auðkenndur nr. FD0000084369. Lánið var að fjárhæð 956.475 danskar krónur og var á gjalddaga 8. maí 2009. Vextir voru ákveðnir 10,5 ársvextir og skyldi greiða vextina, að fjárhæð 63.605,59 danskar krónur, á gjalddaga. Á gjalddaga skyldi bankinn því greiða samtals 1.013.720,03 danskar krónur. Í báðum samningunum eru almennir skilmálar sem eru samhljóða. Þar er tekið fram að um samninginn gildi ,,Almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti í Glitni banka hf.“ og ,,Almennir skilmálar um framvirk gjaldmiðlaviðskipti“, útgefnir af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða í febrúar 1998 (1. útgáfa) sem stefnandi hafi kynnt sér og samþykkt. Hinn 7. október 2008 var Glitni banka hf. skipuð skilanefnd og þann 14. október sama ár tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun á nánar tilgreindum eignum og skuldum bankans til stefnda, sbr. 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Ekki er um það deilt að umrædd peningamarkaðslán voru á meðal þeirra skuldbindinga sem færðust yfir til stefnda. Skuldir stefnanda við Glitni banka hf. voru hins vegar ekki fluttar yfir til stefnda. Með dómi Hæstaréttar Íslands 3. desember 2015 í máli nr. 112/2015 var stefnandi dæmdur til þess að greiða Glitni hf., áður Glitni banka hf., 5.474.701.040 krónur ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði, á grundvelli tveggja samninga, annars vegar samnings um framvirk skuldabréfakaup og hins vegar skiptasamnings. Peningamarkaðslánið nr. FD0000081972 var framlengt einhliða af stefnda tvívegis, frá 20. október 2008 til 12. janúar 2009 og aftur frá 12. janúar 2009 til 1. júlí 2009. Eftir það var fjárhæð lánsins, 3.008.499,01 evra, lögð inn á reikning sem bundið innlán. Stefndi hefur síðar framlengt lánið ítrekað. Samkvæmt síðustu framlengingu lánsins var það á gjalddaga 30. september 2013 og nam þá 3.056.213,17 evrum. Framlögð gögn eru misvísandi um hvort peningamarkaðslánið nr. FD0000084369 var framlengt eftir 8. maí 2009 eða fjárhæð lánsins þá þegar lögð inn á reikning sem bundið innlán, en í málatilbúnaði aðila miða báðir aðilar við að lánið hafi verið framlengt einhliða af stefnda einu sinni frá 8. maí 2008 til 1. júlí 2009. Eftir þann dag hefur stefndi framlengt lánið ítrekað. Samkvæmt síðustu framlengingu bundna lánsins var það á gjalddaga 30. september 2013 og nam þá 1.028.280,79 dönskum krónum. Ágreiningur er í öðru lagi um bundið innlán stefnanda hjá stefnda. Lánið var veitt 4. október 2011 og var á gjalddaga 31. október sama ár. Fjárhæð lánsins var 130.949,50 norskar krónur. Að sögn stefnda er fjárhæðin til komin vegna sölu á verðbréfum sem hafi verið í tryggingasafni stefnanda. Lánið skyldi bera 2,30% ársvexti og átti að greiða vextina, að fjárhæð 225,89 norskar krónur, á gjalddaga lánsins. Á gjalddaga skyldi bankinn því greiða samtals 131.130,21 norska krónu. Stefndi framlengi lánið eftir það einhliða frá 31. október 2011 til 30. nóvember sama ár og síðan ítrekað. Samkvæmt síðustu framlengingu lánsins var það á gjalddaga 31. október 2013 og nam þá 134.531,08 norskum krónum. Með bréfi, dags. 18. nóvember 2013, krafðist stefnandi þess að stefndi greiddi honum andvirði peningamarkaðslánsins í evrum og lánsins frá 4. október 2011 auk dráttarvaxta. Stefndi hafnaði þeirri kröfu með bréfi, dags. 4. desember 2013. Stefnandi ítrekaði kröfu sína með bréfi, dags. 6. desember 2013, en stefndi hafnaði kröfunni aftur með bréfi, dags. 11. desember 2013. Í janúar 2016 greiddi stefndi Glitni Hold Co ehf., áður Glitnir banki hf., andvirði innstæðna stefnanda. Í samræmi við undanþágu Seðlabanka Íslands til Glitnis, dags. 16. desember 2015, var fjárhæðin greidd Seðlabankanum þann 4. febrúar 2016. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum þann 5. október 2016, var bú stefnanda tekið til gjaldþrotaskipta. III Stefnandi byggir kröfur sínar á meginreglu fjármunaréttarins um skuldbindingargildi samninga. Tilvist og efni þeirra þriggja samninga um lánveitingar stefnanda til stefnda séu óumdeild. Allir samningarnir hafi haft umsaminn gjalddaga og á þeim tíma hafi stefnda borið að greiða stefnanda skuld samkvæmt samningunum. Þannig hafi stefnda borið að greiða stefnanda 2.980.609,66 evrur þann 20. október 2008, 1.013.720,03 danskar krónur þann 8. maí 2009 og 131.130,21 norska krónu þann 31. október 2011. Samningarnir um lánin hafi með engu móti takmarkað frjálsan ráðstöfunarrétt stefnanda á hinum lánuðu fjármunum eftir að gjalddagi lánanna var kominn og stefnda bar að endurgreiða þá stefnanda. Lánunum hafi ekki verið ætlað að framlengjast sjálfkrafa, enda hafi stefnandi hvorki samið um slíkt við Glitni hf. né stefnda. Stefnandi hafi heldur aldrei samið við stefnda um framlengingu neins þeirra þriggja lána sem um ræðir. Óundirritaðar kvittanir fyrir svokölluðum framlengingum lánanna hafi enga þýðingu og ljóst sé að lánin hafi aldrei verið framlengd svo gildi hefði gagnvart stefnanda. Enn síður sé fyrir hendi viðskiptavenja um sjálfkrafa framlengingu peningamarkaðslána viðskiptamanna til fjármálafyrirtækja eða samninga slíkra aðila um bundin innlán. Peningamarkaðslán geti hvort heldur er verið innlán eða útlán. Þannig semji stefndi og önnur fjármálafyrirtæki bæði um peningamarkaðslántökur frá viðskiptamönnum sínum og peningamarkaðslánveitingar til þeirra. Væri viðskiptavenja fyrir því að peningamarkaðslán framlengdust sjálfkrafa, hlyti það einnig að fela í sér að þegar viðskiptamenn fjármálafyrirtækja væru lántakar slíkra lána, framlengdust lán til þeirra sjálfkrafa, án þess að það fjármálafyrirtæki sem væri lánveitandi þyrfti að hafa að því nokkurn atbeina. Viðskiptamanni myndi aldrei lánast að byggja á slíkri venju gagnvart fjármálafyrirtæki. Það geti stefndi heldur ekki gert gagnvart stefnanda. Það sama eigi við um bundin innlán. Stefnda hafi verið í lófa lagið að koma greiðslum til stefnanda á gjalddögum lánanna þriggja. Stefndi hafi haft allar upplýsingar um bankareikninga stefnanda, þar á meðal um óbundinn innlánsreikning félagsins hjá bankanum nr. 515-26-4240. Teldi bankinn vafa leika á að hann fullnægði greiðsluskyldu sinni með því að leggja endurgreiðslur lánanna inn á þann reikning, hefði honum verið rétt að geymslugreiða umrædda fjármuni, sbr. 1. gr. laga nr. 9/1978, um geymslufé. Ástæða þess að stefnandi gerði ekki fyrr kröfu á hendur stefnda um endurgreiðslu peningamarkaðslána sinna til hans, sé sú að stefnandi hafi ekki verið í aðstöðu til þess að láta reyna á fullyrðingar Glitnis hf. og stefnda um að Glitnir hf. ætti veðrétt í endurgreiðslum lánanna þriggja. Háttsemi stefnda hafi síðan ekki gert annað en að gefa röngum staðhæfingum hans og Glitnis hf. aukna vigt. Þannig hafi stefnandi aldrei fengið upplýsingar frá stefnda um vörslur eða meðferð umræddra fjármuna né nein yfirlit eða tilkynningar þar að lútandi, fyrr en hann hafi sjálfur kallað eftir þeim á seinni hluta árs 2013. Fullyrðingar stefnda um annað í samskiptum aðila séu rangar og ósannaðar. Stefndi og Glitnir hf. hafi á því tímabili sem um ræðir farið með endurgreiðslurnar sem renna áttu til stefnanda eins og þær væru þeirra eigið fé og þeim til frjálsrar ráðstöfunar. Það sjáist best á því að þessir aðilar hafi gert tugi samninga sín á milli eða við sjálfa sig um ráðstöfun þeirra. Framangreind háttsemi sé ein ábyrg fyrir því að stefndi hafi ekki hafist handa við innheimtu endurgreiðslnanna fyrr en hann hafi loks fengið afrit af handveðsyfirlýsingu sinni til Glitnis hf. Þá fyrst hafi hann getað staðreynt þann rétt sem hann hafi alltaf talið sig eiga og lagt fram gögn sem staðfestu þann rétt. Efni handveðsyfirlýsingar stefnanda til Glitnis hf. sýni að fullyrðingar stefnda og Glitnis hf. um tryggingarréttindi hins síðarnefnda yfir endurgreiðslum lánanna þriggja séu rangar. Samkvæmt tryggingarbréfinu hafi Glitni banka hf. verið sett að handveði „[s]taða allra peningamarkaðslána viðskiptamanns hjá bankanum eins og hún er á hverjum tíma þ.m.t. vextir, gengismunur og verðbætur“. Framangreind veðsetning hafi hins vegar ekki náð til neinna annarra fjármuna stefnanda hjá bankanum en peningamarkaðslána, hvorki innlána né nokkurrar annarrar inneignar stefnanda hjá bankanum. Hún hafi heldur ekki náð til peningamarkaðslána hjá neinum öðrum en Glitni banka hf. Stefnandi hafi aldrei, hvorki í handveðsyfirlýsingunni né annars staðar, gengist undir neins konar skuldbindingu um að peningamarkaðsinnlán hans hjá Glitni banka hf. næmu einhverri lágmarksfjárhæð á hverjum tíma eða að einhver tiltekin peningamarkaðslán skyldu framlengjast umfram gjalddaga. Stefnandi hafi þurft að samþykkja slíka skuldbindingu með ótvíræðum hætti til að hún væri til staðar. Fyrir tilvist slíkrar skuldbindingar hafi stefndi sönnunarbyrði. Þvert á móti geri handveðsyfirlýsingin sjálf ráð fyrir að staða þeirra peningamarkaðslána sem þar séu sett að veði geti breyst. Það að sérstaklega sé getið um það í yfirlýsingunni að veðið nái einnig til vaxta sem falli til, sýni að þegar talað sé um stöðu peningamarkaðslánanna eins og hún sé á hverjum tíma sé ekki átt við breytingar á stöðu þeirra vegna áfallinna vaxta. Skuldbindingar sem takmarki ráðstöfunarheimildir veðsala yfir fjármunum sem handveðsettir eru fjármálafyrirtækjum séu síður en svo óþekktar, en þær séu þá undantekningarlaust skýrar og ótvíræðar. Þannig sé því háttað með handveðsyfirlýsingu stefnanda gagnvart Glitni hf. varðandi VS-reikning hans hjá bankanum nr. 67621. Í þeirri yfirlýsingu segi: „Rafræn verðbréf í safninu eru varðveitt á VS-reikningi í umsjón Glitnis banka hf. sem einn hefur aðgang að hinu veðsetta og einn hefur heimild til þess að ráðstafa bréfunum á meðan veðsetning þessi varir.“ Þessi munur á efni handveðsyfirlýsinganna staðfesti enn frekar að þeir fjármunir sem losnuðu þegar peningamarkaðslán stefnanda til Glitnis banka hf. runnu út hafi átt að vera honum til frjálsrar ráðstöfunar. Þar sem umrædd peningamarkaðslán hafi ekki verið framlengd af stefnanda eftir að þau runnu sitt skeið, hafi stefnandi ekki átt nein peningamarkaðslán hjá stefnda frá gjalddaga þeirra. Hvorki Glitnir banki hf. né neinn annar aðili hafi því átt tryggingarréttindi yfir umræddum fjármunum frá þeim tíma. Álitamál kunni að vera hvort peningamarkaðslán, sem stofnað var til við Glitni hf. en sem flutt var fyrir gjalddaga til stefnda vegna ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008, falli undir þau veðréttindi þar til lánið sé á gjalddaga. Telji dómurinn að stofnast hafi til peningamarkaðslána frá stefnanda til stefnda hljóti að vera óumdeilt að slík lán geti ekki fallið undir handveðsyfirlýsinguna. Telji dómurinn framlengingar stefnda á lánunum þremur hafa eitthvert gildi, hafi lánin í evrum og dönskum krónum ekki verið peningamarkaðslán frá 1. júlí 2009, annars vegar, og 8. maí 2009, hins vegar. Frá því tímamarki hafi þau verið svokölluð bundin innlán. Lánið í norskum krónum hafi alla tíð verið svokallað bundið innlán. Þegar af þessum sökum hafi lánin í evrum og dönskum krónum ekki getað fallið undir handveðsyfirlýsinguna frá ofangreindum dagsetningum og lánið í norskum krónum hafi aldrei getað gert það. Þannig geti samþykki dómsins við gildi þeirra framlenginga sem stefndi hafi haldið fram, aldrei haft önnur áhrif en að færa gjalddaga tveggja lánanna aftur til 1. júlí og 8. maí 2009 og lækka dráttarvexti sem því nemur en áhrifin á þriðja lánið væru engin. Leiki einhver vafi á skýringu ákvæða handveðsyfirlýsingar stefnanda til Glitnis hf. verði að líta til þess að veðhafi hafi verið fjármálafyrirtæki á þeim tíma sem um ræðir, hann hafi samið handveðsyfirlýsinguna og það hafi staðið upp á hann að tryggja að orðalag yfirlýsingarinnar endurspeglaði með ótvíræðum hætti vilja hans. Hafi eitthvað skort þar á verði Glitnir hf. að bera hallann af því. Stefnandi byggir fjárhæð aðalkröfu sinnar á því að vegna fyrirmæla Seðlabanka Íslands til íslensku bankanna strax við efnahagshrunið haustið 2008, reglna bankans um gjaldeyrismál frá 28. nóvember 2008, sem voru fyrstar í röð slíkra reglna sem síðan hafa felldar úr gildi og nýjar innleiddar, ásamt lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sé rétt að meta endurgreiðslur stefnanda til íslenskra króna á gjalddögum þeirra og reikna dráttarvexti sem eigi við um íslenskar krónur af viðkomandi fjárhæðum. Framangreindar reglur hafi leitt til þess að ekkert hafi verið hægt að gera við þær erlendu myntir sem lánin voru í þegar þau voru á gjalddaga, annað en að lána þær íslenskum fjármálafyrirtækjum svo gott sem vaxtalaust. Því verði að telja augljóst að stefnandi hafi skipt endurgreiðslunum í íslenskar krónur. Þar sem það sé alfarið sök stefnda að stefnandi hafi ekki fengið fjármunina á gjalddögum lánanna verði sönnunarbyrðin lögð á hann um að stefndi hafi ekki skipt peningunum úr gagnslausri erlendri mynt í nothæfar íslenskar krónur. Í öllu falli verði ekki lögð rík sönnunarbyrði á stefnanda um það atriði. Þá verði einnig að líta til þess að á gjalddögum lánanna hafi gengi íslensku krónunnar gagnvart þeim gjaldmiðlum, sem stefnda bar að endurgreiða stefnanda lánin í, verið afar lágt og því aldrei hagstæðara að skipta erlendum myntum í krónur. Stefnandi byggir fjárhæð varakröfu sinnar á því að dómurinn hafi ekki fallist á að rétt sé að miða við að stefnandi hafi skipt endurgreiðslum lánanna í íslenskar krónur. Sé þá gerð krafa um að stefndi inni endurgreiðslurnar af hendi í samningsmyntum og að dráttarvextir verði reiknaðir með þeim hætti sem við eigi um myntirnar. Stefnandi byggir á almennum reglum fjármunaréttarins um skuldbindingargildi samninga. Þá byggir hann á almennum reglum samningaréttarins um stofnun löggerninga. Loks byggir stefnandi á lögum nr. 9/1978, um geymslufé. Krafa um dráttarvexti byggist á III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 5. gr. Krafa um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. IV Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi afhent stefnda fjármuni til tryggingar efndum viðskiptasamninga sem Glitnir banki hf. hafi gert fyrir hönd stefnanda. Samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands 3. desember 2015 í máli nr. 112/2015 hafi stefnandi skuldað Glitni banka hf. röska 5,4 milljarða króna auk dráttarvaxta vegna uppgjörs skiptasamninga. Stefndi hafi nú afhent hina veðsettu fjármuni til veðhafans, Glitnis hf., í þágu stefnanda og til lækkunar á skuld hans samkvæmt umræddum dómi. Þar með hafi stefndi losnað undan skuldbindingum sínum samkvæmt upphaflegum samningum og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá október 2008. Veði hafi aldrei verið aflétt af fjármununum og því hafi aldrei stofnast til þeirrar greiðsluskyldu gagnvart stefnanda sem málsókn hans byggi á. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi 10. ágúst 2007 gert samning við Glitni banka hf. um gjaldeyrisstýringu. Þar komi fram að stefnandi óski eftir því að bankinn taki við 50 milljónum króna til sérstakrar fjárfestingar í gjaldeyri og sé viðskiptamanni hvenær sem er heimilt að auka við þá upphæð sem hann hefur afhent bankanum til fjárfestingar samkvæmt samningnum og „gilda ákvæði samnings þessa einnig um hana“. Óski viðskiptamaður eftir lækkun á umræddu fjármagni skuli hann tilkynna það með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara með sannanlegum hætti. Í samningnum sé jafnframt kveðið á um að fjárfesting viðskiptamanns á hverjum tíma verði varðveitt á lokuðu peningamarkaðsinnláni eða læstum viðskiptareikningi á meðan samningurinn sé í gildi og að fjármunirnir verði handveðsettir til tryggingar viðskiptunum. Starfsmenn bankans muni taka einhliða ákvarðanir um fjárfestingastefnu og einstakar fjárfestingar og samninga. Viðskiptamaður geti ekki krafist breytinga á samningnum né mælt fyrir um framkvæmd einstakra viðskipta. Samningurinn sé ótímabundinn og gildi frá samningsdegi en sé uppsegjanlegur af hálfu samningsaðila og skuli uppsögn gerð með sannanlegum hætti með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara. Samkvæmt samningnum hafi Glitnir banki hf. fullt og ótakmarkað umboð á gildistíma samningsins til að gera samninga í nafni viðskiptamanns í samræmi við samninginn. Ljóst sé af samningnum að umboðið nái til undirritunar allra skjala sem séu nauðsynleg í tengslum við viðskiptin, ráðstöfun greiðslna inn og út af bankareikningum, uppgjörs samninga, stofnun peningamarkaðsinnlána, ráðstöfunar andvirðis samninga og gerðar nýrra samninga. Umboðið gildi á meðan samningur sé í gildi og fjármunir séu handveðsettir á meðan samningurinn sé í gildi. Stefnandi hafi gengist undir hina almennu skilmála vegna markaðsviðskipta Glitnis banka hf. í janúar 2006. Þar séu ítarleg ákvæði um það hvernig staðið sé að töku trygginga við upphaf viðskipta, viðbótartryggingar o.fl. Aðilar hafi átt í samskiptum á árinu 2008 um fyrirkomulag trygginga og kjör af þeim innstæðum sem stóðu til tryggingar. Peningamarkaðslán stefnanda og framangreindur samningur hafi flust yfir til stefnda  með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008 um ráðstöfun á nánar tilgreindum eignum og skuldum Glitnis banka hf. til stefnda, sbr. 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, en tryggingaréttindin hafi þó áfram verið hjá Glitni á grundvelli 2. gr. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins. Hinn 12. ágúst 2008 hafi Sveinn Biering Jónsson, meðstjórnandi, framkvæmdastjóri, prókúruhafi og eigandi stefnanda, sent tölvupóst til Glitnis banka hf. þar sem hann hafi óskað eftir að bankinn taki við frekari innlánum í gjaldeyri. Þeir fjármunir hafi fallið undir fjárfestingar eða tryggingar fyrir þeim samkvæmt samningnum. Einnig sé ljóst af tölvupósti frá 1. febrúar 2008 að umrædd innlán séu til tryggingar á afleiðuviðskiptum. Þegar stefnandi hafi afhent stefnda 130.949,50 norskar krónur 4. október 2011 hafi þær einnig fallið undir framangreindan samning um gjaldeyrisstýringu og handveðsyfirlýsingu stefnanda frá því í ágúst 2007. Stefnandi hafi ekki sagt upp framangreindum samningi um gjaldeyrisstýringu og sé hann því enn í gildi. Þá hafi stefnandi ekki óskað eftir lækkun á þeirri upphæð sem sé í gjaldeyrisstýringu hjá bankanum. Samkvæmt skýrum ákvæðum samningsins hafi stefndi haft fullt leyfi til að framlengja umrædd innlán og því sé enginn grundvöllur fyrir endurgreiðslukröfu stefnanda í málinu. Fallist dómurinn ekki á að umrædd innlán falli undir samning stefnanda um gjaldeyrisstýringu, telur stefndi allt að einu enga stoð fyrir kröfum stefnanda þar sem framkvæmd stefnda sé í alla staði í samræmi við venjur í bankaviðskiptum sem stefnandi eigi að þekkja. Hinn 26. október 2007 hafi stefnanda borist tilkynning frá Glitni banka hf. um að hann væri flokkaður sem fagfjárfestir og þeirri flokkun hafi ekki verið andmælt, m.a. í áðurnefndu hæstaréttarmáli. Af fyrrnefndri tilkynningu megi sjá að með fagfjárfestum sé átt við viðskiptavini sem búa yfir mikilli reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu og að skyldur fjármálafyrirtækis gagnvart þeim séu minni en gagnvart almennum fjárfestum. Þá liggi fyrir undirrituð yfirlýsing frá stefnanda, dags. 7. nóvember 2007, þar sem fram komi að stefnandi sé fjárfestingarfélag og hafi mikla reynslu af fjármálagerningum og staðfest sé að stefnandi hafi fengið og samþykki verklagsreglur Glitnis um framkvæmd viðskiptafyrirmæla. Þá hafi Jón Snorrason, stjórnarformaður, prókúruhafi og eigandi stefnanda og Sveinn Biering Jónsson, meðstjórnandi, framkvæmdastjóri, prókúruhafi og eigandi stefnanda undirritað almenna skilmála vegna markaðsviðskipta Íslandsbanka hf. þann 14. maí 2007. Í skilmálunum komi fram að þeir gildi um öll markaðsviðskipti. Þá komi skýrt fram í samningunum um peningamarkaðslánin og framlengingu þeirra að almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti gildi um samningana. Í skilmálunum komi m.a. skýrt fram að bankinn ábyrgist ekki tilkynningar til viðskiptamanns um stöðu samninga eða lokun þeirra við ákveðin mörk. Það sé á ábyrgð viðskiptamanns að fylgjast með stöðu og þróun þeirra samninga sem hann hafi gert við bankann. Sem fagfjárfesti, sem átti að baki fjölda peningamarkaðsinnlána hjá Glitni banka hf., hafi stefnanda mátt vera ljóst að venjan varðandi slík innlán, þegar þau standi til tryggingar skuldbindingum, sé að þau séu framlengd, á sambærilegum kjörum og tímabili og fyrri lán, hafi lánveitandi ekki samband við bankann fyrir gjalddaga og mæli fyrir um framlengingu eða aðra ráðstöfun. Þá hafi stefnanda mátt vera ljóst að veðsett peningamarkaðslán yrðu ekki greidd út á tékkareikning veðþola. Óumdeilt sé í málinu að stefnandi hafi ekki haft samband við stefnda vegna framangreindra innlána árum saman. Framlenging stefnda á innlánunum hafi því verið í fullu samræmi við venjur, bæði í bankaviðskiptum almennt og í viðskiptum milli stefnanda og stefnda. Stefndi byggir enn fremur á því að umræddir fjármunir hafi verið handveðsettir og því hafði stefnandi ekki haft rétt til að fá þá greidda frá stefnda. Það felist í eðli handveðsetningar að veðsali sé sviptur umráðum hins veðsetta, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð. Sjá megi af 2. mgr. 22. gr. sömu laga að handveðréttur öðlist réttarvernd við afhendingu veðsins til veðhafa eða aðila sem tekið hafi að sér að hafa umráð veðsins fyrir veðhafa þannig að eigandinn sé sviptur möguleikanum á því að hafa veðið undir höndum. Þetta komi skýrt fram í handveðsyfirlýsingu, dags. 10. ágúst 2007, þar sem segi að stefnandi hafi handveðsett Glitni banka hf. stöðu allra peningamarkaðslána félagsins hjá bankanum eins og hún sé á hverjum tíma. Handveðsyfirlýsingunni sé einnig ætlað að ná til fjármuna sem bankinn veiti viðtöku eftir undirritun yfirlýsingarinnar. Jafnframt komi skýrt fram í handveðsyfirlýsingunni að bankinn megi neyta alls þess réttar, sem veðsali hafi sjálfur yfir hinu veðsetta og feli handveðsyfirlýsingin í sér umboð til að framselja hið handveðsetta, kvitta fyrir allar greiðslur og framkvæma allt það sem þurfi og hann álíti hagkvæmt til þess að handveðið geti komið honum að fullum notum, allt fyrirvaralaust og án aðvörunar. Tryggingaréttindi á grundvelli handveðsyfirlýsingarinnar hafi orðið eftir í Glitni banka hf. við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um uppskiptingu eigna og skulda bankans, en veðandlagið hafi flust til stefnanda. Verði ekki séð að það breyti neinu hvað varðar réttindi og skyldur veðsala og veðhafa. Þá verði ekki séð að það hafi nokkur áhrif á gildi veðsetningarinnar hvort umrædd innlán séu nefnd peningamarkaðslán eða bundnar innstæður, enda sé um að ræða sömu fjármunina. Verði ekki talið að bundnar innstæður falli undir orðalag handveðsyfirlýsingarinnar bendi stefndi á að veðhafi og vörslumaður veðsins skuli samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 7. gr. laga um samningsveð annast um veðið og hafa eftirlit með því á þann hátt sem nauðsyn krefji hverju sinni. Þá sé í handveðsyfirlýsingunni kveðið á um heimild veðhafa til að framkvæma allt það sem með þurfi til að veðið komi honum að notum. Því hafi stefnda verið heimilt að varðveita fjármunina á þann hátt sem hann taldi best til þess fallna að varðveita veðandlagið og því eigi endurgreiðslukrafa stefnanda ekki rétt ár sér. Aðalkrafa stefnanda sé um að stefndi greiði honum nánar tilteknar fjárhæðir í íslenskum krónum. Stefndi mótmælir þeim málatilbúnaði stefnanda að rétt sé að meta greiðslur til íslenskra króna á gjalddögum krafnanna og reikna dráttarvexti sem eiga við um íslenskar krónur af viðkomandi fjárhæðum. Stefnandi hafi ekki á neinn hátt sýnt fram á staðhæfingar sínar um að ekkert hafi verið hægt að gera við þær erlendu myntir sem lánin voru í þegar þau voru á gjalddaga. Stefndi byggir einnig á því að jafnvel þótt talið yrði að stefnandi hafi á einhverjum tíma átt rétt á greiðslu hinna umdeildu innlána, eigi að sýkna vegna tómlætis og aðgerðarleysis stefnanda. Þau innlán sem deilt sé um í málinu séu frá 18. ágúst 2008, 22. september 2008 og 4. október 2011. Stefnanda hafi verið send yfirlit yfir stöðu þeirra og annarra innlána og útlána sinna hjá Glitni banka hf. og síðar stefnda við lok árs 2008, 2009, 2010, 2011 og 2012. Þá hafi stefnandi með yfirlýsingu, dags. 7. nóvember 2007, samþykkt að fá framvegis allar upplýsingar með rafrænum hætti. Því liggi fyrir að stefnandi hefur hvenær sem er haft möguleika á að kanna stöðu umræddra innlána í heimabanka félagsins. Þrátt fyrir þetta hafi stefnandi engin afskipti haft af framangreindum innlánum fyrr en með bréfum, dags. 18. nóvember og 6. desember 2013, þegar hann hafi krafist endurgreiðslu innlánanna frá árinu 2008. Eftir það hafi stefnandi ekki haft samband við stefnda vegna umræddra innlána, þrátt fyrir hvatningu þar um í bréfi stefnda frá 11. desember 2013, fyrr en með málshöfðun þessari haustið 2016. Þá hafi stefnandi aldrei krafist endurgreiðslu innlánsins frá 2011 fyrr en með höfðun máls þessa, meira en fimm árum frá því að samningur um innlánið var gerður. Skýringar stefnanda á þessum töfum standist enga skoðun, enda hafi hann haft aðgang að öllum gögnum í heimabanka og hafi hvenær sem er getað óskað eftir öllum gögnum um málið frá stefnda, en slík beiðni hafi aldrei borist stefnda. Margir mánuðir hafi liðið frá því að stefnandi hafi, að eigin sögn, haft nægilegan grundvöll til að hafa kröfur sínar uppi, eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar í máli nr. 112/2015 3. desember 2015, þar til hann höfðaði mál þetta. Þó hafi öll gögn þess máls legið fyrir frá árinu 2013 og því standist fullyrðingar stefnanda um að hann hafi þurft að bíða niðurstöðu málsins enga skoðun. Telja verði að hafi stefnandi talið sig eiga kröfur á stefnda hafi honum verið skylt að hafa þær uppi miklu fyrr. Krafa stefnanda sé svo seint fram komin að hann hafi glatað ætluðum rétti sínum til að hafa hana uppi fyrir tómlætis sakir. Verði ekki fallist á röksemdir stefnda um sýknu gerir stefndi kröfu um lækkun fjárhæðar kröfu stefnanda og byggir þá kröfu á sömu málsástæðum og sýknukröfu sína. V Stefnandi og Glitnir banki hf. gerðu með sér samning um gjaldeyrisstýringu 10. ágúst 2007. Samkvæmt þeim samningi tók bankinn við 50 milljónum króna til ,,sérstakrar fjárfestingar í gjaldeyri samkvæmt skilmálum samnings þessa“. Þá var tekið fram í 1. kafla samningsins að stefnanda væri ,,hvenær sem er heimilt að auka við þá upphæð sem hann hefur þegar afhent Glitni banka hf. til fjárfestingar samkvæmt samningi þessum og gilda ákvæði samnings þessa einnig um hana“. Þá skyldi stefnandi tilkynna um það með a.m.k. mánaðar fyrirvara, vildi hann lækka umrætt fjármagn. Áskilið er í samningnum að stefnandi tilkynni um breytingar á fjármagni sínu með sannanlegum hætti. Þá er tekið fram að fjárfestingarframlag stefnanda á hverjum tíma verði ,,varðveitt á lokuðu peningamarkaðsinnláni eða læstum viðskiptareikningi á meðan samningur þessi er í gildi“. Féð verði handveðsett til tryggingar viðskiptunum, sbr. handveðsyfirlýsingu sem væri undirrituð samhliða þessum samningi. Tekið er fram í 2. kafla samningsins að bankinn muni nýta fjárfestingarframlag stefnanda til ,,stöðutöku og afleiðuviðskipta með gjaldeyri á alla helstu gjaldeyriskrossa og gengisvísitölur …“. Talið er upp hvaða myntir sé heimilt að versla með samkvæmt samningnum og eru þar á meðal evrur og danskar og norskar krónur. Þá segir í sama kafla að starfsmenn bankans taki ,,einhliða ákvarðanir um fjárfestingastefnu og einstakar fjárfestingar og samninga.“ Í 5. kafla er tekið fram að starfsmenn bankans fari með stöðutöku og áhættustýringu fjármuna stefnanda og fjárfestingastefnan, áhættustýring, vogun og ákvarðanir um einstök viðskipti séu alfarið einhliða ákvarðanir bankans. Stefnandi geti ekki krafist breytinga á samningnum né mælt fyrir um framkvæmd einstakra viðskipta. Í 7. kafla er mælt fyrir um að samningurinn sé ótímabundinn og annar hvor aðili samningsins geti sagt honum upp með sannanlegum hætti með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara. Í sama kafla er mælt fyrir um að bankinn hafi ,,fullt og ótakmarkað umboð á gildistíma samningsins til að gera samninga í nafni [stefnanda] í samræmi við samning þennan …“ og er vísað til umboðs sem fylgi samningnum sem viðauki I. Umboðið nái meðal annars til undirritunar allra skjala sem séu nauðsynleg að mati bankans í tengslum við slík viðskipti hverju sinni og stofnunar bankareikninga hjá bankanum og peningamarkaðsinnlána. Sama dag gaf stefnandi út yfirlýsingu um handveð til Glitnis banka hf. þar sem stefnandi setti að handveði stöðu ,,allra peningamarkaðslána viðskiptamanns hjá bankanum eins og hún er á hverjum tíma þ.m.t. vextir, gengismunur og verðbætur“. Að mati dómsins verður að ganga út frá því að þessi handveðsyfirlýsing sé sú sem vísað er til í fyrrnefndum samningi um gjaldeyrisstýringu. Samningur var gerður um fyrra peningamarkaðslánið, nr. FD0000081972, 18. ágúst 2008 en samningur um seinna peningamarkaðslánið, nr. FD0000084369, var gerður 22. september 2008. Í þessum samningum er ekki minnst berum orðum á það hvort um þessa samninga gildi fyrrgreindur samningur um gjaldeyrisstýringu. Þegar litið er orðalags 1. kafla þess samnings um heimild stefnanda til að auka við þá upphæð sem þar er tilgreind og að upphæðin verði varðveitt á lokuðu peningamarkaðsinnláni eða læstum viðskiptareikningi, sem og orðalags handveðsyfirlýsingarinnar um að hún taki til ,,allra peningamarkaðslána“, er það mat dómsins að þegar samningurinn um gjaldeyrisstýringu og handveðsyfirlýsingin eru lesin saman sé ljóst að tilætlun stefnanda og Glitnis banka hf. hafi verið að þessir löggerningar myndu gilda um lán stefnanda til bankans í þeim gjaldmiðlum sem þar eru taldir upp. Samningur um bundið innlán, nr. IAM 915095, var gerður 4. október 2011. Með sömu rökum telur dómurinn ljóst að tilætlun málsaðila hafi verið að fyrrgreindir löggerningar myndu gilda um þetta lán stefnanda til bankans. Enda var í þessum tilvikum um að ræða lán viðskiptamanns til banka sem ýmist eru kölluð peningamarkaðsinnlán eða bundið innlán sem lögð voru inn á samningsnúmer en ekki tiltekinn bankareiking, svo sem fram kom hjá vitninu, Guðmundi Magnúsi Daðasyni, starfsmanni í gjaldeyrismiðlun hjá stefnda sem undirritaði framlagðan gjaldeyrisstýringarsamning aðila fyrir hönd Glitnis banka hf. Það er mat dómsins að með umræddum samningum um peningamarkaðslán og bundið innlán hafi stefnandi með sannanlegum hætti aukið við þá fjárhæð sem tilgreind er í samningnum um gjaldeyrisstýringu. Samkvæmt þessu er ljóst að samningurinn um gjaldeyrisstýringu gildir um þessi lán. Fjármálaeftirlitið ákvað 14. október 2008 að ráðstafa tilteknum eignum og skuldum Glitnis banka hf. til stefnda. Er óumdeilt að þar á meðal voru peningamarkaðslán stefnanda. Verður því að líta svo á að fyrrnefndur samningur um gjaldeyrisstýringu gildi milli stefnanda og stefnda. Ekki er um það deilt að tryggingaréttindi á grundvelli handveðsyfirlýsingarinnar urðu eftir hjá Glitni banka hf. Þá liggur fyrir að umræddum samningi hefur ekki verið sagt upp og ekki verður ráðið af gögnum málsins að stefnandi hafi óskað eftir lækkun á þeim fjárhæðum sem samningurinn tekur til. Samkvæmt ákvæðum 2. og 5. kafla samningsins um gjaldeyrisstýringu er ljóst að stefndi hafði vald til þess að gera einhliða samninga fyrir hönd stefnanda. Fellst dómurinn því ekki á þann málatilbúnað stefnanda að samningarnir um peningamarkaðslánin og bundna innlánið hafi ekki verið framlengdir svo að gildi hefði gagnvart stefnanda. Vegna ákvæða 1. kafla samningsins um að fjárfestingarframlag stefnanda verði ,,varðveitt á lokuðu peningamarkaðsinnláni eða læstum viðskiptareikningi“ er einnig ljóst að stefnda var heimilt að breyta peningamarkaðslánunum í bundin innlán. Í næstu setningu 1. kafla samningsins er tekið fram að fjármunirnir verði handveðsettir til tryggingar viðskiptunum, sbr. handveðsyfirlýsingu sem sé undirrituð samhliða samningnum. Í handveðsyfirlýsingunni kemur fram að stefnandi setji að handveði stöðu ,,allra peningamarkaðslána“ sinna. Peningamarkaðslánin voru því handveðsett Glitni banka hf. Í handveðsyfirlýsingunni er ekki sérstaklega minnst á bundin innlán. Vegna þeirrar ætlunar stefnanda og Glitnis banka hf., sem fyrr er lýst, um að samningurinn um gjaldeyrisstýringu og handveðsyfirlýsing myndu gilda um lán stefnanda til bankans í þeim gjaldmiðlum, sem þar eru taldir upp, og þeirrar yfirlýsingar í samningnum um að fjármunir verði handveðsettir til tryggingar viðskiptunum, verður þó að fallast á það með stefnda að bundna innlánið í norskum krónum hafi einnig verið sett að handveði með þessum löggerningum. Vegna ákvæðis handveðsyfirlýsingarinnar um að væri veðsett skjal innleyst, mætti bankinn veita viðtöku og halda hjá sér innlausnarfjárhæðinni til tryggingar ógjaldföllnum skuldum stefnanda voru bundnu innlánin, sem urðu til við umbreytingu peningamarkaðslánanna, einnig sett að handveði. Þá verður hvorki fallist á það með stefnanda að sýnt sé að umrædd handveðsyfirlýsing sé efnislega röng né svo óskýr að ekki verði á henni byggt. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2014, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands 3. desember 2015 í máli nr. 112/2015, var stefnandi dæmdur til að greiða Glitni hf., áður Glitnir banki hf., 5.474.701.040 krónur ásamt tilteknum dráttarvöxtum, vegna skuldbindinga sem stefnandi stofnaði til gagnvart bankanum á grundvelli tveggja samninga, annars vegar samnings um framvirk skuldabréfakaup, sem var auðkenndur nr. FS080819807, en hins vegar skiptasamnings, sem auðkenndur var nr. IRS 3051. Varðandi fyrri samninginn er rakið í dómi héraðsdóms að bankinn hafi fjármagnað kaup stefnanda á tilteknu skuldabréfi og hafi bankinn og stefnandi af því tilefni gert með sér samning 30. október 2007 um framvirk verðbréfaviðskipti. Sá samningur var með afhendingardag 20. desember 2007 og markaðsverð í upphafi var ákveðið 30 milljónir evra. Samningurinn rann sitt skeið og var þá gerður nýr samningur sem í reynd framlengdi þann fyrri. Þegar nýi samningurinn rann sitt skeið var enn gerður nýr samningur með sama hætti og síðan koll af kolli. Þessari röð samninga lauk á afhendingardegi samkvæmt þeim síðasta 18. ágúst 2008. Þann dag var skuldbindingum skuldajafnað og þær færðar yfir í nýjan samning, sem var með afhendingardag 18. nóvember 2008. Í dómi héraðsdóms er rakið að síðari samningurinn hafi verið vaxtaskiptasamningur, með samningsdag 21. desember 2007 og lokadag 18. júní 2009. Samkvæmt þeim samningi hafi stefnanda borið að greiða 0,20% vexti af 10 milljörðum króna, vikulega, frá og með 3. janúar 2008 til og með 18. júní 2009. Stefnandi var samkvæmt þessu í skuld við Glitni banka hf. á þeim tíma þegar hann veitti bankanum umrædd lán. Í handveðsyfirlýsingunni er tekið fram að ,,verði vanskil eða aðrar vanefndir á skuldbindingum“ stefnanda gagnvart Glitni banka hf. sé bankanum heimilt að koma handveðinu í verð og ráðstafa andvirðinu til greiðslu á skuldbindingunum, án fyrirvara og aðvörunar. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð, öðlast handveðréttur réttarvernd við afhendingu veðsins til veðhafa eða aðila sem tekið hefur að sér að hafa umráð veðsins fyrir veðhafa þannig að eigandinn er sviptur möguleikanum á því að hafa veðið undir höndum. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á það með stefnanda að hann eigi frjálsan ráðstöfunarrétt á umræddum lánum. Stefndi hefur þegar greitt Glitni banka hf. þá fjármuni, sem settir voru að handveði, í samræmi við ákvæði 2. gr. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 um að stefnda bæri að standa bankanum skil á tryggingum viðskiptamanna vegna kröfuréttinda og afleiðusamninga sem ekki fluttust til stefnda.  Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að þegar af framangreindum ástæðum beri að hafna kröfum stefnanda í máli þessu. Bæði aðalkrafa stefnanda og varakrafa hans eru byggðar á sömu málsástæðum sem hér að framan hefur verið hafnað. Samkvæmt þessu ber, þegar af framangreindum ástæðum, að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur. Af hálfu stefnanda flutti málið Einar Páll Tamimi hdl. Af hálfu stefnda flutti málið Áslaug Árnadóttir hdl. Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð: Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Taxus ehf. fyrir hönd þrotabús Eignarhaldsfélags RS ehf., í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda 700.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 812/2017
Landamerki Vanreifun Frávísun frá héraðsdómi
V ehf. höfðaði mál á hendur P og S og krafðist þess að viðurkennt yrði að merki milli jarðanna Glammastaða, Geitabergs og Þórisstaða væru með nánar tilgreindum hætti. Voru aðilar sammála um að leggja bæri merkjabréf Geitabergs frá 1922 og Glammastaða frá 1923 til grundvallar við úrlausn málsins. Í fyrsta lagi var ágreiningur um hvort landamerki Glammastaðalands og Geitabergs fylgdi syðri eða nyrðri kvísl Merkjalækjar. Af loftmyndum frá 1945 og 1956 virtist mega ráða að farvegur lækjarins hefði fylgt syðri kvíslinni en á mynd frá 1977 sýndist farvegurinn hafa tekið á sig núverandi mynd og fylgdi nyrðri kvíslinni sem V ehf. miðaði kröfulínu sína við. Þótt því yrði ekki slegið föstu með óyggjandi hætti á grundvelli gagna málsins, var talið að það veitti ákveðin líkindi fyrir þeirri staðhæfingu P og S að farvegur Merkjalækjar hefði fylgt syðri kvíslinni við gerð landamerkjabréfanna. Hefði V ehf. ekki lagt fram gögn í málinu til stuðnings kröfugerð sinni að þessu leyti, svo sem matsgerð dómkvadds manns. Í annan stað deildu aðilar um hvar Merkjalækur rynni í mýrinni í framhaldi af því svæði þar sem hann rynni í einu lagi neðan við fossbrún en kröfulína V ehf. fylgdi núverandi rennsli lækjarins. Talið var að á þeirri leið væri ekki að sjá forna skurði, torfvörður eða leifar slíks sem rennt gæti stoðum undir að það væri sá farvegur sem lækurinn féll eftir við gerð landamerkjabréfsins frá 1923. Um þetta atriði hefði V ehf. átt þess kost að afla frekari sönnunargagna. Í þriðja lagi var deilt um staðsetningu Guttormsholts og bentu aðilar hvor á sitt holtið. Samkvæmt landamerkjabréfi Glammastaða var varða staðsett á holtinu en enga slíka vörðu var nú að sjá á holtinu sem P og S vísuðu til. Grjóthrúga var á holti því sem V ehf. benti á en aðila greindi á um hvort það væri sú hrúga sem vísað væri til í landamerkjabréfinu eða hrúga sem vegagerðarmenn komu þar fyrir áratugum eftir gerð þess. Talið var að V ehf. hefði verið unnt að afla frekari gagna um þetta atriði en gerði ekki. Í fjórða lagi var ágreiningur um hvar torfvarða á Þórisstaðanesi, sem vísað var til í landamerkjabréfunum, væri en ummerki hennar voru nú ekki sjáanleg. V ehf. hélt því fram að varðan hefði verið á syðri bakka Þverár. P og S töldu hins vegar, meðal annars með vísan til örnefnalýsingar Geitabergs, að torfvarðan hefði verið nær Glammastaðavatni. Talið var að V ehf. hefði einnig átt þess kost að afla frekari sönnunargagna um þetta atriði. Með vísan til alls framangreinds var talið að V ehf. hefði ekki lagt þann grundvöll að málsókn sinni að dómur yrði lagður á kröfu hans við svo búið og var málinu því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Markús Sigurbjörnsson og Eyvindur G. Gunnarsson prófessor. Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 26. október 2017. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 13. desember 2017 og áfrýjuðu þeir öðru sinni 21. sama mánaðar. Þeir krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara  ómerkingar hins áfrýjaða dóms en að því frágengnu sýknu af kröfu stefnda. Í öllum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi áfrýjenda. Dómendur fóru á vettvang 17. október 2018. I Svínadalur er næsta byggð norðan Hvalfjarðarstrandar og opnast mynni dalsins til Leirársveitar ofan við Miðfellsmúla. Innsti bær í dalnum er Dragháls rétt áður en farið er á Geldingadraga. Þrjú allstór vötn eru í dalnum og heitir hið innsta þeirra Geitabergsvatn, stundum nefnt Draghálsvatn, Glammastaðavatn er í miðið, stundum nefnt Þórisstaðavatn og Eyrarvatn er neðst eða yst. Að því marki sem hér skiptir máli eru í Svínadal þrjár jarðir og er fyrst að nefna Geitaberg sem er þeirra innst. Hún er í eigu áfrýjandans Pálma og standa bæjarhús þeirrar jarðar sunnan Geitabergsvatns. Þá kemur eyðibýlið Glammastaðir en bæjarhúsin þar munu hafa staðið vestan Glammastaðavatns nær norðurenda þess. Loks koma Þórisstaðir sem eru í eigu áfrýjandans Starfsmannafélags íslenska járnblendifélagsins en bæjarhús þar standa austan Glammastaðavatns fyrir miðju vatni. Dragavegur liggur um Svínadal austan Eyrarvatns og Glammastaðavatns, yfir Þverá á brú sunnan Geitabergsvatns og meðfram því vatni vestanverðu að Geldingadraga. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir eigendaskiptum að Glammastöðum og skiptingu þeirrar jarðar í Glammastaði og Glammastaðaland sem nú er í eigu stefnda. Glammastaðaland nær yfir þann hluta upphaflegu jarðarinnar Glammastaða sem veit að merkjum Geitabergs og Þórisstaða. Í málinu er ágreiningur um merki milli Glammastaðalands og Geitabergs og hvernig þau mæta merkjum Þórisstaða við Þverá sem fellur úr Geitabergsvatni í Glammastaðavatn Með dómkröfu sinni leitar stefndi sem eigandi Glammastaðalands viðurkenningar á því að merki þeirrar jarðar, Geitabergs og Þórisstaða liggi milli hnitapunkta 1 og 10 eins og þeir eru nánar tilgreindir í héraðsdómsstefnu. Áfrýjendur krefjast sýknu af kröfu stefnda en ekki viðurkenningar á því að merkin liggi milli annarra hnitapunkta en þeirra sem tilgreindir eru í dómkröfu stefnda. Aðilar eru sammála um að leggja beri merkjabréf Geitabergs og Glammastaða til grundvallar við úrlausn um ágreining þeirra. II Gerð hafa verið landamerkjabréf fyrir Þórisstaði, Geitaberg og Glammastaði. Bréf Þórisstaða er frá 1889 og elst þeirra er hér koma við sögu. Þá kemur bréf Geitabergs sem er frá árinu 1922 og loks bréf Glammastaða frá 1923. Í landamerkjabréfi Þórisstaða dagsettu í júní 1889 og lesnu á manntalsþingi 4. þess mánaðar er merkjum lýst til austurs frá Glammastaðavatni. Þar segir að merki milli Geitabergs og Þórisstaða, sem í gögnum málsins eru ýmist nefndir Þórisstaðir eða Þórustaðir, séu bein „lína úr Þverá uppí endann á skarðinu í svonefndu Þórustaðanesi; þaðan eftir gömlum merkjaskurði; nú ný uppstungnum, úr honum í vörðu á Þórustaðaholti; þaðan ráða torfvörður upp yfir mýrina; síðan sjónhending eftir sömu línu upp á brúnina á Glámunni; þaðan ræður bein stefna eftir fjallinu austur í svokallaða Tómasarvörðu á Grenás.“ Bréfið undirritaði eigandi Þórisstaða og um samþykki eigendur Geitabergs, Glammastaða og Bjarteyjarsands en síðastnefnda jörðin er á Hvalfjarðarströnd norðanverðri austan Ferstiklu. Landamerkjabréf Geitabergs er dagsett 27. maí 1922 og lesið á manntalsþingi 7. júlí sama ár. Það lýsir merkjum milli Geitabergs og Glammastaða til norðvesturs frá Glammastaðavatni. Segir þar að merkin liggi úr „torfvörðu á Þórisstaðanesi í vörðu á Guttormsholti. Þaðan sjónhending í Merkjalæk, þar sem hann rennur í einu lagi. Svo ræður Merkjalækur upp í næsta sund fyrir ofan Seldal. Því næst bein lína í vörðu sem stendur á holti fyrir ofan sundið. Svo úr þeirri vörðu bein lína inn Hlíðarbrúnir í vörðu sem stendur fyrir ofan svonefnt Merkjagil sem er þá hornmark milli Glammastaða, Geitabergs og Dragháls.“ Merkjum milli Geitabergs og Þórisstaða er í bréfinu lýst til vesturs í átt að Glammastaðavatni og segir að þau liggi úr „vörðu á Sesseljuhrygg bein lína í vörðu á brún Glámunnar fyrir sunnan Glámuhausinn, svo bein lína úr þeirri vörðu ofan í skurð í Glámumýrinni og ræður sá skurður merkjum meðan hann er beinn, svo er bein lína í vörðu sem er á holti því sem er næst fyrir innan Hjallholtið. Úr þeirri vörðu í vörðu sem er á holti litlu neðar. Þaðan bein lína í vörðu í Þórisstaðanesi niður við Þverá.“ Undir bréfið ritaði eigandi og ábúandi Geitabergs og um samþykki eigendur Glammastaða, Grafardals, Þórisstaða og Dragháls.  Landamerkjabréf Glammastaða er dagsett 20. nóvember 1922 og lesið á manntalsþingi 4. júlí 1923. Það lýsir merkjum milli Geitabergs og Glammastaða úr vestri í átt að Glammastaðavatni og segir að merkin liggi úr „vörðu sem er hornmerki milli Glammastaða, Dragháls og Geitabergs út Hlíðarbrúnirnar þar sem þær eru hæðstar alla leið í vörðu sem stendur á holti sem er fyrir ofan smá sund fyrir ofan Seldalslækinn. Síðan ræður Seldalslækurinn, sem þá heitir Merkjalækur, merkjum úr því þar til hann fer að renna ofan í mýrina og eru þá eftir mýrinni ýmist torfvörður eða skurðir sem ráða merkjum að grjóthrúgu á Guttormsholti. Úr þeirri grjóthrúgu bein stefna í torfvörðu í Þórisstaðanesi alla leið ofan í Þverá.“ Um merki milli Þórisstaða og Glammastaða segir að Þveráin ráði „ofan í Glammastaðavatn og tilheyrir þá Glammastöðum helmingur vatnsins úr því, alla leið ofan að Selós.“ Undir bréfið rituðu eigandi Geitabergs, eigandi Þórisstaða og umráðamaður Saurbæjar. III Ágreiningslaust er að hnitapunktur 1 í dómkröfu stefnda tekur mið af vörðu þeirri „sem stendur fyrir ofan svonefnt Merkjagil sem er þá hornmark milli Glammastaða, Geitabergs og Dragháls“, eins og segir í landamerkjabréfi Geitabergs, eða eins og segir í landamerkjabréfi Glammastaða, úr „vörðu sem stendur fyrir ofan svonefnt Merkjagil“. Frá hnitapunkti 1 liggur kröfulína stefnda til austurs og suðurs milli punkta 2 og 3 að punkti 4, en úr honum ber Seldalslækur nafnið Merkjalækur og klofnar í tvær kvíslar. Aðila greinir ekki á um staðsetningu hnitapunkts 4 en áfrýjendur héldu því fram undir rekstri málsins í héraði að merkjalínan milli punkta 1 og 4 lægi nokkru sunnar og vestar en kröfulína stefnda gerir ráð fyrir. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu áfrýjandans Pálma að fallist væri á með stefnda að landamerkjalína Glammastaða og Geitabergs liggi milli punkta 1 og 4 eins og þeir eru markaðir í dómkröfu stefnda. Frá hnitapunkti 4 greinist Merkjalækur eins og áður segir í tvær kvíslar, syðri og nyrðri, niður að hnitapunkti 5, og er hann rétt neðan við fossbrún sem þar er. Dómkrafa stefnda er á því reist að merki milli Glammastaða og Geitabergs milli punkta 4 og 5 fylgi nyrðri kvíslinni en áfrýjendur halda því fram að sú syðri ráði merkjum. Á stuttum kafla örskammt sunnan við fossbrúnina rennur Merkjalækur í einum farvegi eða „í einu lagi“ eins og segir í landamerkjabréfi Geitabergs. Af framangreindu leiðir að ágreiningur í málinu stendur nú um það í fyrsta lagi hvort merki Glammastaðalands og Geitabergs fylgi syðri eða nyrðri kvísl Merkjalækjar milli hnitapunkta 4 og 5. Í öðru lagi hvort merkin liggi á línu til suðausturs milli hnitapunkta 5 og 9 og þaðan í punkt 10, eins og stefndi heldur fram, eða til suðvesturs frá hnitapunkti 5 um Guttormsholt og þaðan á stað í miðri Þverá, um það bil 120 metrum suðvestan við punkt 9, eins og áfrýjendur halda fram, en punktur 9 er rétt neðan brúarinnar yfir Þverá. Í þessu sambandi greinir aðila á um hvar Merkjalækur rennur í mýrinni í framhaldi af því svæði þar sem lækurinn rennur „í einu lagi“ neðan við fossbrúnina við hnitapunkt 5. Einnig er ágreiningur um hvar sé Guttormsholt það sem vísað er til í landamerkjabréfum Geitabergs og Glammastaða. Þá er um það deilt hvar sé torfvarða sú á Þórisstaðanesi sem vísað er til í landamerkjabréfum Geitabergs og Glammastaða. IV Eins og áður getur greinir aðila í fyrsta lagi á um hvort landamerki Glammastaðalands og Geitabergs fylgi syðri eða nyrðri kvísl Merkjalækjar milli hnitapunkta 4 og 5. Í landamerkjabréfi Geitabergs þar sem lýst er merkjum við Glammastaði frá austri til vesturs segir um þetta atriði það eitt að Merkjalækur ráði upp í næsta sund fyrir ofan Seldal, og í bréfi Glammastaða sem lýsir merkjum úr gagnstæðri átt segir að Seldalslækur sem þá heiti Merkjalækur ráði merkjum „úr því þar til hann fer að renna ofan í mýrina“. Umrædd landamerkjabréf voru gerð á árunum 1922 og 1923. Áfrýjendur hafa lagt fram loftmyndir frá árunum 1945, 1956 og 1977 sem sýna farvegi lækjarins. Af myndunum frá 1945 og 1956 að ráða virðist farvegur lækjarins fylgja syðri kvíslinni en á myndinni frá 1977 sýnist farvegurinn hafa tekið á sig núverandi mynd og fylgja nyrðri kvíslinni. Þótt ekki verði því slegið föstu með óyggjandi hætti á grundvelli gagna málsins, veitir þetta ákveðin líkindi fyrir þeirri staðhæfingu áfrýjenda að farvegur Merkjalækjar hafi fylgt syðri kvíslinni við gerð landamerkjabréfanna 1922 og 1923. Stefndi hefur ekki lagt fram gögn í málinu til stuðnings kröfugerð sinni að þessu leyti, svo sem matsgerð dómkvadds manns, sem eftir atvikum gæti verið grundvöllur sönnunarmats í þessum efnum. Í annan stað er um það deilt hvar Merkjalækur rennur í mýrinni í framhaldi af því svæði þar sem hann rennur „í einu lagi“ neðan við fossbrúnina í hnitapunkti 5. Mýri þessi er í örnefnalýsingum Glammastaða og Geitabergs nefnd Merkjamýri. Kröfulína stefnda liggur þar sem Merkjalækur rennur nú um mýrina, fyrst til suðurs og austurs að hnitapunkti 6 en síðan í sveig þaðan í sömu átt um punkt 7 að holti því sem stefndi kallar Guttormsholt í punkti 8. Áfrýjendur telja á hinn bóginn að merkjalínan eigi að liggja til suðurs frá farveginum þar sem hann er „einu lagi“ án þess að sveigja til austurs, að holti því sem áfrýjendur kalla Guttormsholt en það er nokkru vestar eða utar en holt það sem stefndi bendir á. Í landamerkjabréfi Geitabergs frá 1922 segir að merki milli Glammastaða og Geitabergs liggi „í vörðu á Guttormsholti. Þaðan sjónhending í Merkjalæk, þar sem hann rennur í einu lagi“. Í bréfi Glammastaða frá 1923 segir að Merkjalækur ráði „þar til hann fer að renna ofan í mýrina og eru þá eftir mýrinni ýmist torfvörður eða skurðir sem ráða merkjum að grjóthrúgu á Guttormsholti.“ Kröfulína stefnda milli hnitapunkta 5 og 8 fylgir rennsli lækjarins eins og hann fellur nú um mýrina. Á þeirri leið er ekki að sjá forna skurði, torfvörður eða leifar slíks sem rennt gæti stoðum undir þá staðhæfingu stefnda að þetta sé sá farvegur sem lækurinn féll eftir við gerð landamerkjabréfsins 1923. Um þetta atriði átti stefndi þess kost að afla frekari sönnunargagna, meðal annars matsgerð dómkvadds manns, til að renna frekari stoðum undir staðhæfingu sína um legu merkjalínunnar. Þá er þess að gæta að staðhæfing stefnda um að Merkjalækur stefni í átt að Guttormsholti og að það komi heim og saman við beina línu frá Merkjalæk og yfir í landamerki milli Geitabergs og Þórisstaða er í mótsögn við það hvernig stefndi dregur merkjalínuna milli hnitapunkta 5 og 8 en á þeim kafla er línan engan veginn bein. Í þriðja lagi er deilt um staðsetningu Guttormsholts og benda aðilar hvor á sitt holtið. Í landamerkjabréfi Geitabergs segir að merkin við Glammastaði liggi í vörðu á Guttormsholti og þaðan sjónhending í Merkjalæk þar sem hann rennur í einu lagi. Enga vörðu er að sjá á því holti sem áfrýjendur vísa til. Í bréfi Glammastaða kemur fram að Merkjalækur ráði merkjum „þar til hann fer að renna ofan í mýrina og eru þá eftir mýrinni ýmist torfvörður eða skurðir sem ráða merkjum að grjóthrúgu á Guttormsholti.“ Að sönnu er grjóthrúga á holti því sem stefndi vísar til, skammt frá hnitapunkti 8, en aðila virðist greina á um hvort það sé hrúga sú sem vísað er til í landamerkjabréfi Glammastaða eða hrúga sem vegagerðarmenn komu þar fyrir áratugum eftir gerð landamerkjabréfsins. Um þetta atriði átti stefndi þess kost að afla frekari sönnunargagna til stuðnings staðhæfingu sinni um legu merkjalínunnar en gerði ekki. Þá er þess að geta að meðal gagna málsins er örnefnalýsing Geitabergs skráð af Ara Gíslasyni. Í henni segir að upplýsingar um örnefni hafi fyrst verið gefnar 1942 og þær yfirfarnar 1968. Í lýsingunni kemur meðal annars fram að á Þverá séu þrjú vöð, Gvendarvað efst, þá Helguvað og neðst Nesvað. Um Helguvað segir að það hafi verið „þrautavað á ánni þar sem nú er sumarbústaður, skammt neðan þess sem Geitabergsá rennur í vatnið.“ Um Guttormsholt segir í lýsingunni að það hafi verið „einnig á merkjum. Það er skammt utan við sumarbústaðinn fyrrnefnda, utar og ofar en Fitin sem síðar getur.“ Stefndi vísar til þess að sumarbústaður sá sem hér er nefndur hafi verið fjarlægður en annar reistur á sama stað og sé hann utar en Guttormsholt það sem stefndi vísi til en það styðji staðhæfingu hans um hvar Guttormsholt sé. Þessu andmæla áfrýjendur og halda því meðal annars fram að sumarbústaður sá sem nú standi í Glammastaðalandi hafi verið reistur tuttugu árum eftir gerð örnefnalýsingarinnar. Stefndi átti þess kost að afla frekari sönnunargagna um þetta atriði til stuðnings staðhæfingu sinni um staðsetningu Guttormsholts en gerði ekki.   Í fjórða lagi er ágreiningur um hvar sé torfvarða sú á Þórisstaðanesi sem vísað er til í landamerkjabréfum Geitabergs og Glammastaða en ummerki slíkrar vörðu eru ekki sjáanleg á Þórisstaðanesi. Stefndi heldur því fram að varðan hafi verið á syðri bakka Þverár í hnitapunkti 11, skammt neðan við brúna sem nú er á ánni. Sé hornmark Geitabergs, Glammastaðalands og Þórisstaða í hnitapunkti 9 sem er í miðjum farvegi árinnar í beinni stefnu að hnitapunkti 11. Áfrýjendur andmæla því að varðan hafi verið þar og telja að hún hafi að minnsta kosti verið á stað um 120 metrum vestar en hnitapunktur 9. Í landamerkjabréfi Geitabergs þar sem lýst er merkjum við Glammastaði segir að þau liggi úr „torfvörðu á Þórisstaðanesi í vörðu á Guttormsholti“ og í landamerkjabréfi Glammastaða segir að merkin liggi úr grjóthrúgu á Guttormsholti og úr „þeirri grjóthrúgu bein stefna í torfvörðu í Þórisstaðanesi alla leið ofan í Þverá.“ Í áðurnefndri örnefnalýsingu Geitabergs segir meðal annars að Þverá „rennur svo í Þórustaðavatn. Á Þverá eru vöð, efst er Gvendarvað en það er rétt fyrir neðan brúna sem nú er á henni. Nokkru neðar er síðan skábrot á henni og sem heitir Helguvað ... Og að lokum neðst á merkjum var vað sem heitir Nesvað. Það þótti gott fjárvað.“ Þetta telja áfrýjendur styðja staðhæfingu sína um að torfvarðan geti ekki hafa verið þar sem stefndi segir hana hafa verið heldur nær Glammastaðavatni. Stefndi átti þessi kost að afla frekari sönnunargagna um þetta atriði til stuðnings staðhæfingu sinni um staðsetningu torfvörðunnar en gerði ekki.   Að gættu öllu því sem hér hefur verið rakið hefur stefndi ekki lagt þann grundvöll að málsókn sinni að dómur verði lagður á kröfu hans við svo búið og verður því að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi. Vegna þess vafa sem er í málinu er rétt að hver aðila beri sinn kostnað af rekstri þess í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.     Dómur Héraðsdóms Vesturlands 28. júlí 2017. Mál þetta, sem dómtekið var 16. júní sl., er höfðað af Valz ehf., Rauðarárstíg 1, Reykjavík, gegn Pálma Jóhannessyni, Geitabergi, Akranesi, og Starfsmannafélagi íslenska járnblendifélagsins, Grundartanga, Akranesi, með stefnu birtri 17. nóvember 2015 á hendur stefnda Pálma og 18. sama mánaðar á hendur stefnda Starfsmannafélagi íslenska járnblendifélagsins. Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að landamerki jarðanna Glammastaðalands, Geitabergs og Þórisstaða, eins og þau eru á hinu umdeilda svæði, séu frá holti sem er fyrir ofan smá sund fyrir ofan Seldalslækinn, hnitapunktur merktur nr. 1: X 376843.87, Y 441696.82, þaðan bein lína í Seldalslæk, sem þá heitir Merkjalækur, hnitapunktur merktur nr. 2: X 377002.65, Y 441663.00. Eftir það eftir Merkjalæk þar sem hann ræður merkjum um hnitapunkta nr. 3: X 377011.09, Y 441517.56, þaðan eftir læknum í hnitapunkt nr. 4: X 377179.40, Y 441423.42, þaðan eftir læknum í hnitapunkt nr. 5: X 377370.84, Y 441184.51, þaðan eftir læknum í hnitapunkt nr. 6: X 377473.32, Y 441140.50, þaðan eftir læknum í hnitapunkt nr. 7: X 377583.05, Y 441093.58, þaðan bein lína í Guttormsholt, hnitapunktur nr. 8: X 377719.31, Y 441024.22, þaðan í miðjan farveg Þverár, hnitapunktur nr. 9: X 377967.68, Y 440866.95, sem er í beinni stefnu á hornmark Glammastaðalands, Geitabergs og Þórisstaða, þar sem áður stóð torfvarða, á Þórisstaðanesi, hnitapunkt merktan nr. 11: X 377991.46, Y 440851.90. Frá hnitapunkti nr. 9 ræður miðlína Þverár allt að hnitapunkt merktum nr. 10: X 377780.46, Y 440725.62, í ósi Þverár. Jafnframt er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða eftir mati dómsins. Stefndu krefjast þess að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins. Með úrskurði dómstjóra Héraðsdóms Vesturlands 12. september 2016 vék hann sæti vegna meðferðar málsins. Með bréfi dómstólaráðs 13. janúar 2017 var dómara málsins falin meðferð þess en hann hafði fram að þeim tíma ekki haft nein afskipti af því. Málsatvik Stefnandi Valz ehf. eignaðist jörðina Glammastaðaland í Svínadal í Hvalfjarðarsveit, landnr. 190661, með kaupsamningi 9. janúar 2013, en félagið hét þá Glammastaðir ehf. og var seljandi jarðarinnar Arion banki hf. Landið tilheyrði upphaflega Glammastöðum landnr. 133175 en var selt frá jörðinni með afsali dagsettu 11. febrúar 2000 og gekk það nokkrum sinnum kaupum og sölum áður en stefnandi eignaðist það. Stefndi Pálmi Jóhannesson er þinglýstur eigandi jarðarinnar Geitabergs, landnr. 133172 og stefndi Starfsmannafélag íslenska járnblendifélagsins er eigandi jarðarinnar Þórisstaða, landnr. 133217. Tvær síðastnefndu jarðirnar liggja að jörðinni Glammastaðaland og eiga því landamerki með henni. Áður en jörðin var seld stefnanda fékk Arion banki hf., samkvæmt því sem fram kemur í stefnu, Óðinn Sigþórsson til að ganga á merki og hnitsetja landamerkjapunkta. Landlínur ehf. gerðu í kjölfarið kort af ætluðum útlínum hins selda lands og merkjum þess gagnvart nærliggjandi jörðum sem lá fyrir þegar stefnandi keypti jörðina. Byggir stefnandi á því að kortið sé í megindráttum í samræmi við uppdrátt sem gerður var við upphaflega sölu á Glammastaðalandi árið 2000 og fylgdi þá afsali. Samkvæmt uppdrættinum liggja landamerki Glammastaðalands að jörðum beggja stefndu.                Með bréfi til Hvalfjarðarsveitar 5. febrúar 2013 lagði stefnandi fram umsókn um skiptingu jarðarinnar Glammastaða og óskaði eftir að sérstök lóð yrði afmörkuð innan lands hans og hugðist skipta landi sínu í tvo hluta. Stefnandi afturkallaði umsókn sína með bréfi 4. apríl 2013 en hafði áður sent nýja umsókn sem móttekin var af sveitarfélaginu 18. mars 2013. Með bréfi Hvalfjarðarsveitar 17. apríl 2013 var stefnanda tilkynnt að sveitarfélagið mundi vegna erindisins frá 18. mars 2013 kalla eftir afstöðu félags landeigenda í Glammastaðalandi vegna mótmæla félagsins vegna fyrri umsóknar stefnanda. Sveitarfélagið sendi félaginu bréf dagsett 17. apríl 2013 þar sem því var gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum vegna málsins á framfæri.                Þann 21. ágúst 2013 var haldinn fundur hjá skipulags- og byggingafulltrúa sveitarfélagsins og mættu þar auk hans stefndi Pálmi, Guðmundur Jóhannsson eigandi Glammastaða og Hallfreður Vilhjálmsson, eigandi Kambshóls. Samkvæmt framlögðu minnisblaði vegna fundarins lýsti stefndi Pálmi þar yfir áhyggjum sínum varðandi uppdrátt Glammastaðalands. Síðan segir í minnisblaðinu að taka skuli út hnitapunkta nr. 5, 6, 7 og 1, línu á milli hnitapunkta nr. 1 og 10, 10 og 9, 9 og 8, og að í texta þurfi að koma fram: Jarðamörk á milli hnitpunkts 4 og 8 er í samræmi við gildandi landamerkjalýsingu milli Glammastaða og Geitabergs sem dagsett er 20. nóv. 1922.                Í stefnu er því lýst að þessar athugasemdir hafi orðið tilefni þess að fyrirsvarsmaður stefnanda átti í tölvupóstsamskiptum við landupplýsingar hjá Þjóðskrá Íslands. Þar kemur fram að starfsmaður Þjóðskrár taldi að hnit nr. 5, 6, 7, 8 og 9 þyrftu að vera á mæliblaði ef þau sýna rétta staðsetningu fyrirbæra sem minnst er á í landamerkjalýsingunni.                Að beiðni stefnanda hélt skipulagsfulltrúi Hvalfjarðarsveitar fund með fyrirsvarsmanni stefnanda, lögmanni stefnanda og sveitarstjóra 30. september 2013. Þar kom fram að á fundi umhverfis-, skipulags- og náttúrverndar 5. júlí 2013 hefði verið ákveðið að fresta afgreiðslu umsóknar stefnanda þar til fyrir lægi samþykki eiganda aðliggjandi lands. Stefnandi taldi sér ekki skylt að afla slíks samþykkis og var þá ákveðið af hálfu sveitarfélagsins að það mundi óska eftir því. Með bréfi dagsettu 28. október 2013 til stefnanda óskaði Hvalfjarðarsveit eftir því að skilað yrði inn lagfærðum uppdrætti af landinu í samræmi við niðurstöðu fundar sem haldin var 21. ágúst 2013, svo hægt væri að afla samþykkisins. Síðar breyttist afstaða nefndarinnar sem taldi það vera stefnanda að afla samþykkis frá eigendum aðliggjandi jarða. Á fundi nefndarinnar 11. desember 2014 lagði nefndin til að sveitarstjórn féllist á umsóknina. Með bréfi dagsettu 17. desember 2014 var stefnanda tilkynnt ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 15. desember 2014 um að fresta afgreiðslu málsins þar sem borist hefðu ný gögn sem ekki hefðu verið kynnt aðilum málsins. Með bréfi dagsettu 10. apríl 2015 sendi lögmaður stefnanda bréf til sveitarfélagsins þar sem þess var óskað að erindið yrði tekið til afgreiðslu. Samkvæmt framlögðum gögnum hefur umsóknin enn ekki verið afgreidd.                Samkvæmt framlögðu minnisblaði Reynis Elíeserssonar, dagsettu 27. apríl 2015, gengu stefndi Pálmi, Þórir Guðnason, Hallfreður Vilhjálmsson og Reynir um landamerki jarðanna Glammastaðalands og Geitabergs 21. apríl 2015. Þar segir m.a. að Merkjalækur hafi legið í tveimur meginkvíslum á neðri hluta svæðisins alveg niður að mýrinni og hafi Hallfreður sagt vestari kvíslina ráða landamerkjum. Minnisblaðinu fylgir kort þar sem dregin hefur verið upp lína sem, samkvæmt minnisblaðinu, stefndi Pálmi taldi að væri rétt landamerki, milli Geitabergs og Glammastaðalands. Með bréfi Hvalfjarðarsveitar frá 9. júní 2015 var stefnanda kynnt efni minnisblaðsins og honum gefinn frestur til að tjá sig um málið sem hann gerði með bréfi dagsettu 6. júlí 2015. Meðal framlagðra gagna sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á er m.a. einnig kort það sem Landlínur ehf. gerðu árið 2015 á grundvelli þinglýstra landamerkjabréfa vegna jarðanna Glammastaða og Geitabergs, frá árinu 1922, arðskrármöt vegna Laxár í Leirársveit og yfirlýsing vegna lagningar jarðstrengs um jörðina Glammastaði, auk framangreindra landamerkjabréfa. Þá er meðal þeirra gagna sem stefnandi byggir á samantekt Örnefnastofnunar vegna Glammastaða. Þar segir m.a: Vatnið hér suður frá bænum er nefnt Glammastaðavatn (1). Í það rennur Þverá (2) og neðst í henni er Hjaltavað (3). Skammt utan með vatninu heita dældir (4), niður þær rennur svo Merkjalækur (5) sem hverfur hér í sundið. Beggja vegna við þann læk heitir Merkjamýri (6). Þar upp af er undirlendi, sem heitir Slitur (7). Sunnan við þau gengur tangi fram í vatnið, sem heitir Grjótnes (8). Heim undir túnið eru svo mýrar og börð. Utan við túnið heitir Stekkjarlág (9) og í henni er Stelkur (10). Rétt utan við Stelkinn og lágina kemur niður lækur, sem heitir Rauðilækur (11). Hann rennur um Rauðalækjarsund (12) og þar út eftir, undir Glammastaðaásnum (13). En það er klettur fremst á ásunum. ... Fram af göngukonuskarði, langt fram á fjall, liggur dalur, sem heitir Seldalur (31) ... ... Úr Seldal rennur smálækur, Seldalslækur (45). Hann breytir um stefnu og fer fram af brúninni og heitir þá Merkjalækur. Hann hverfur í Dældunum og þá eru vörður á merkjunum, t.d. á Guttormsholti (46).                Við aðalmeðferð málsins gaf aðilaskýrslu Vesna Djuric fyrirsvarsmaður stefnanda. Þá gáfu vitnaskýrslur Óðinn Sigþórsson, Þórir Guðnason, Þórður Þórðarson, Sigurbjörg Ósk Áskelsdóttir og Hallfreður Vilhjálmsson. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi byggir kröfu sína, um viðurkenningu á réttum merkjum jarðar sinnar á hinum umdeilda svæði, á landamerkjabréfi jarðanna Glammastaða og Geitabergs frá 1922 og telur að kröfulína hans sé í fullu samræmi við þær landamerkjalýsingar. Dómkrafa stefnanda byggir á landamerkjalínu sem hefur verið afmörkuð og hnitsett af Landlínum ehf., sbr. kort dagsett 22. október 2015. Þá vísar stefnandi til þess að landið hafi gengið kaupum og sölum frá árinu 2000 til 2013 þegar stefnandi keypti landið. Í þremur kaupsamningum var stuðst við og vitnað til korts sem gert var af eigendum Glammastaða þegar Glammastaðalandi var fyrst skipt út úr jörðinni og tilgreint að kortið væri í samræmi við landamerkjalýsingu. Byggir stefnandi á því að kortið, sem er frá árinu 2000, stafi frá fyrri eigendum Glammastaðalands, sem átt hafi jörðina í áratugi, sé í fullu samræmi við kröfugerð hans. Þó sé ljóst að kortið er handgert og því ekki eins nákvæmt og sú afmörkun sem stefnandi hafi nú látið gera. Stefnandi vísar til þess að landamerkjalýsing jarðarinnar Glammastaða sem land stefnanda er skipt úr, var gerð árið 1922 og henni þinglýst í samræmi 2. gr. landamerkjalaga nr. 41/1919. Ekki er vitað til þess að ágreiningur hafi komið upp um túlkun landamerkjalýsingarinnar fyrr en nú. Þegar stefnandi keypti Glammastaðaland, nú lögbýli, af Arion banka hf., sagði í afsali um landamerki jarðarinnar: Seljandi hefur lagt fram óstaðfestan grófan uppdrátt af landamerkjum og legu jarðarinnar þar sem jörðin er talin vera um 515 ha að meðtalinni sumarhúsabyggð og vatni. Kaupandi sér sjálfur um á sinn kostnað að fá nánari staðfestingu á stærð og legu jarðarinnar. Þá byggir stefnandi á því að Arion banki hf. hafi fengið Óðinn Sigþórsson, óháðan aðila, til þess að hnitsetja landamerki Glammastaðalands, út frá landamerkjabréfinu frá 1922 og fyrirliggjandi korti vegna sölu jarðarinnar til stefnanda. Landamerkin voru í kjölfarið hnitsett og dregin upp á loftmynd af Landlínum ehf. Beri ofangreindu korti og því korti sem fyrrum eigendur Glammastaða teiknuðu saman í öllum meginatriðum. Eins og ráða megi af gögnum málsins fór stefndi Pálmi, eigandi Geitabergs, á fund hjá Landlínum ehf. við vinnslu kortsins og fór yfir landamerkin eins og þau voru dregin upp á loftmynd Landlína ehf. Hvorki á fundinum né í beinu framhaldi af honum, fór hann fram á að línunni samkvæmt uppdrætti Landlína ehf. yrði breytt. Á loftmynd þeirri sem stefndi Pálmi fór yfir með Landlínum ehf., er dreginn upp lína yfir tún, sem er að hluta í eigu stefnda Pálma og að hluta í eigu stefnanda en stefndi hafi nytjað með leyfi stefnanda og áður með leyfi fyrri eiganda Glammastaða. Stefndi Pálmi gerði engar athugasemdir við línuna. Hefði hann talið að túnið væri alfarið í hans eigu hefði hann gert athugasemdir við línuna í upphafi og sé breytt afstaða hans til eignarhalds á túninu nú ekki trúverðug. Ennfremur er byggt á því að eyðibýlið Glammastaðir hafi staðið eigi langt frá þeim stað sem umþrætt tún er og því sé fráleitt að telja að það túnið hafi ekki tilheyrt að einhverju leiti gamla lögbýlinu. Um þetta er vísar stefnandi til korts úr ritinu Byggðir Borgarfjarðar II. Þá vísar stefnandi til þess að það auki ótrúverðugleika þess korts sem fylgdi minnisblaði, dagsettu 27. apríl 2015, að landamerki milli Geitabergs og Glammastaða eru í engu samhengi við landamerki Þórisstaða. Landamerkin milli Geitabergs og Þórisstaða liggi eftir beinni línu, en samkvæmt kortinu komi skyndilega um 90 gráðu beygja, ef mæta á þinglýstum landamerkjum Þórisstaða í réttu hornmarki Glammastaðalands, Geitabergs og Þórisstaða. Þá sé áréttað að landamerkjabréfið frá 1922 er ekki einhliða landamerkjalýsing, heldur var það undirritað af eigendum allra aðliggjandi jarða. Einnig vísar stefnandi til þess að í tengslum við gerð nýrrar arðskrár og mats fyrir Veiðifélag Laxár í Leirársveit framkvæmdu Loftmyndir ehf. mælingar á bakkalengd í samræmi við landamerki jarða á vatnasvæði Laxár, eins og fram kemur í bréfi, dagsettu 24. mars 1998. Þar kemur fram að GPS-mælingar hafi legið fyrir á landamerkjapunktum þar sem jarðamörk liggi að vatnasvæðinu. Bakkar hafi verið teiknaðir og mældir eftir loftmyndunum og þeim skipt upp eftir hinum mældu landamerkjapunktum. Samkvæmt ofangreindum mælingum á jörðin Glammastaðir (Glammastaðaland) 303 metra bakkalengdarkafla í Þverá. Passar sú bakkalengdarmæling Þverár við kröfulínu stefnanda í máli þessu. Notast stefndi við sömu mælingar á landamerkjapunktum og umrædd arðskrá, enda liggi fyrir að við vinnslu arðskrár var öllum hlutaðeigandi landeigendum kynntar mælingarnar og landeigendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum við þær. Nú liggi jafnframt fyrir nýr úrskurður um arðskrá fyrir veiðifélagið, dagsettur 29. september 2015. Þar segir: Upphafs- og endapunktar línu hverrar jarðar hafi tekið mið af landamerkjapunktum sem mældir hefðu verið á vettvangi í tengslum við gerð fyrra arðskrármats. Áður hefur því verið lýst í úrskurðinum að landeigendur hafi allir haft tækifæri til að koma að athugasemdum við gerð matsins og við þau gögn sem fyrir lágu. Það liggi því fyrir að stefndu hafa í áratugi ekki gert athugasemdir við landamerkjapunkta við Þverá og staðfest þá sem rétta landamerkjapunkta Glammastaða, Geitabergs og Þórisstaða. Fæst ekki betur séð en bakkalengd og landamerki umræddra jarða hafi verið ágreiningslaus hið minnsta allt frá yfirmatsgerð dagsettri 25. febrúar 1974. Sé því haldið fram að vafi sé uppi um umrædd merki við Þverá telur stefnandi að hefð sé komin á merkin eins og þeirra hefur verið getið í arðskrá veiðifélagsins áratugum saman. Einnig byggir stefnandi á því að kröfulína stefnanda, eins og henni er lýst í dómkröfu málsins og eins og hún kemur fram korti Landlína ehf., sé í fullu samræmi við lýsingar örnefna fyrir Geitaberg, Glammastaði og Þórisstaði. Byggt er á því að ekki sé vafa undirorpið hvar þau örnefni eru sem nefnd eru í landamerkjalýsingunni og styðji fjölmörg gögn og skjöl við þá fullyrðingu. Loks byggir stefnandi á tómlæti en stefndu hafa látið landamerkjalýsinguna frá 1922 óátalda, þar til stefnandi hugðist skipta upp landi sínu. Fjórum kaupsamningum og afsölum hafi verið þinglýst á eign stefnanda frá árinu 2000 þar sem fram kemur að stærð landsins miðist við umrædda landamerkjalýsingu og aldrei hafa stefndu haft uppi mótbárur við þeirri lýsingu fyrr en nú. Ennfremur hafa stefndu ítrekað samþykkt landamerkjapunkta við Þverá sem rétt merki jarða sinna. Nú síðast 2015 við gerð nýrrar arðskrár fyrir veiðifélagið. Þá vísar stefnandi til meginreglna íslensks réttar um gildi landamerkjabréfa og túlkun þeirra og eignaréttarákvæðis stjórnarskrárinnar, sbr. 72. gr. Einnig vísar stefnandi til almennra reglna eignarréttar, meginreglna eignarréttar um nám, töku og óslitin not, sem og um eignarráð fasteignaeigenda, almennra regla samninga- og kröfuréttar og laga nr. 14/1905 um hefð. Loks er vísað til laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6/1986, til ýmissa eignarréttarreglna í Grágás og Jónsbók og um aðild stefndu til 19. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991 og um varnarþing til 34. gr. sömu laga. Málsástæður og lagarök stefndu Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og byggja rétt sinn á landamerkjabréfum frá 1922 vegna jarðanna Glammastaða og Geitabergs, eins og stefnandi en aðilum greini í verulegum atriðum á um hvar landamerkin liggi samkvæmt bréfunum. Í fyrsta lagi telja stefndu kröfulínu stefnanda með öllu órökstudda. Ekki sé gerð tilraun til þess í málatilbúnaði stefnanda að varpa ljósi á ákvörðun fyrir staðsetningu hnita á umræddum stöðum á uppdrætti. Óðinn Sigþórsson hafi gengið á merkin milli Glammastaða, Geitabergs og Þórisstaða og afmarkað legu hnitanna. Óumdeilt sé að hann er ekki staðkunnugur á svæðinu. Í öðru lagi byggja stefndu á því að kröfulína stefnanda byggi ekki á merkjum samkvæmt landamerkjabréfum frá 1922 og benda sérstaklega á að í landamerkjabréfi fyrir jörðina Glammastaði segi að merkjum milli Þórisstaða og Glammastaða ráði Þveráin ofan í Glammastaðavatn. Ár séu náttúruleg landamerki og í 1. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923 segi að ef á skilji að landareignir tilheyri hvorri jörð land út í miðjan farveg ef ekki er önnur lögmæt skipan gerð. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að farvegur árinnar hafi breyst með tímanum og að ekki verði séð af hniti nr. 9 á korti stefnanda að merkin liggi í miðjum farveginum. Í þriðja lagi benda stefndu á að verulegs ósamræmis gæti milli kröfulína stefnanda hvað varðar mörk Glammastaða gagnvart Þórisstöðum og jarðarmörkum samkvæmt Nytjalandsgrunni. Í fjórða lagi byggja stefndu á því að kort með afsölum sé ekki í samræmi við kröfugerð stefnanda og hafi ekki þýðingu í málinu. Um sé að ræða handgert kort án hnita og ógerningur sé að gera sér grein fyrir því hvar landamerki liggi nákvæmlega milli hlutaðeigandi jarða samkvæmt kortinu. Þá vilja stefndu árétta að í afsali frá 11. febrúar 2000 þar sem hluti jarðarinnar Glammastaða var seldur sé tekið fram að merki eigi að miðast við landamerkjabréf frá 1922. Það sama komi fram í afsali frá 30. janúar 2001 en í afsali frá 28. janúar 2003 sé einungis vísað til þess að landamerki eigi að vera samkvæmt landamerkjaskrám. Í afsalinu er ekki vísað til framangreinds korts þó svo að öðru sé haldið fram í stefnu. Þá vilji stefndu árétta það sem fram komi í kaupsamningi og afsali milli Arion banka hf. og stefnanda: Seljandi hefur lagt fram óstaðfestan grófan uppdrátt af landamerkjum og legu jarðarinnar þar sem jörðin er talin vera um 515 ha að meðtalinni sumarhúsabyggð og vatni. Kaupandi sér sjálfur um á sinn kostnað að fá nánari staðfestingu á stærð og legu jarðarinnar. Kaupverð jarðarinnar er óháð stærð og landamerkjum jarðarinnar og helst óbreytt hver sem staðfest stærð eða lega kann að vera en kaupverð eignarinnar tekur mið af þessari óvissu með stærð og legu jarðarinnar og gefinn hefur verið afsláttur frá matsvirði vegna þessa. Stefnandi skrifaði undir kaupsamninginn og hefði verið þýðingarlaust að taka framangreint fram bæði í kaupsamningi og afsali ef ljóst væri hvar merki milli Glammastaðalands og aðliggjandi jarða væru. Þá verði ekki séð hvaða þýðingu það hafi ef uppdráttur með kröfulínu stefnanda verði talinn vera í samræmi við hið handgerða kort. Þá sé óljóst frá hverjum þetta kort stafi en ef það er rétt að kortið stafi frá fyrri eiganda Glammastaða sé ljóst að það er gert einhliða. Í fimmta lagi segir í stefnu að ekki hafi áður komið upp ágreiningur um túlkun landamerkjabréfanna þó svo að land stefnanda hafi gengið kaupum og sölum. Byggja stefndu á því að ekki hafi verið þörf á að gera athugasemdir vegna legu landamerkja fyrr en nú þar sem kröfulína stefnanda fari inn fyrir landamerki stefndu og vegur þannig að eignarrétti þeirra sem varinn sé af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Sú regla gildi að menn geta ekki með einhliða ráðstöfunum aukið við rétt sinn. Í sjötta lagi telja stefndu að meint aðkoma stefnda Pálma að kortagerð Landlína ehf. hafi ekki þýðingu í málinu og að uppdráttur Landlína ehf. sé ekki í samræmi við landamerkjabréf Glammastaða og Geitabergs. Eins og fram komi í atvikalýsingu stefndu og í stefnu fékk Arion Banki hf. fyrrverandi eigandi Glammastaðalands, Óðinn Sigþórsson, hlutlausan aðila, til þess að hnitsetja landamerki fasteignarinnar samkvæmt landamerkjabréfum frá 1922. Ekki verði séð að byggt hafi verið á framangreindu handgerðu korti eins og haldið er fram í stefnu. Óumdeilt er að Óðinn er ekki staðkunnugur á svæðinu og hafði því engar forsendur til þess að átta sig á staðsetningu merkja sem vísað er til í landamerkjabréfunum. Hann naut ekki liðsinnis heimamanna eða annarra sem hafa þekkingu á staðháttum. Í tölvupósti vitnisins Þórðar Þórðarsonar fyrrverandi starfsmanns Landlína ehf. til lögmanns stefnanda, sem dagsettur er 16. júní 2015, segir um gerð uppdráttar Landlína ehf. og aðkomu Óðins að gerð hans: Fyrrverandi eigandi Glammastaða (landnúmer 190661), þ.e. Arion banki hf., fékk Óðinn Sigþórsson í Einarsnesi sem hlutlausan aðila til þess að reyna að finna út hvernig landamerki jarðarinnar liggja vegna fyrirhugaðar sölu á jörðinni. Óðinn ræddi við landeiganda Geitabergs um legu landamerkjanna og fór jafnframt á vettvang og tók hnitpunkta á þeim stöðum sem hann taldi líklegt að þau væru með hliðsjón af lýsingum í landamerkjabréfum Geitabergs og Glammastaða. Landamerkin voru í kjölfarið dregin upp í hnitréttar loftmyndir hjá Landlínum [ehf.] í samræmi við tilmæli Óðins. Landeigandi Geitabergs kom síðar á fund hjá Landlínum [ehf.] og fór yfir landamerkin eins og þau höfðu verið teiknuð upp á loftmynd og fór hann ekki fram á að þeim væri breytt. Stefndu vilja koma því á framfæri að engin lagaskylda hvíldi á stefnda Pálma að gera athugasemdir við merkin. Þá sé ljóst að ekki hefur náðst formlegt samkomulag um landamerkin milli jarðanna þar sem í kaupsamningi og afsali Arion banka ehf., eftir gerð þessa uppdráttar og meinta aðkomu Pálma að gerð hans, segir að einungis sé um að ræða óstaðfestan grófan uppdrátt af landamerkjum. Þeirri málsástæðu stefnanda að athugasemdalaus aðkoma Pálma að þessum uppdrætti hafi þýðingu í málinu er með öllu hafnað. Þá benda stefndu á aðkomu Hvalfjarðarsveitar að málinu. Þegar stefndi Pálmi, ásamt öðrum mönnum sem eru kunnugir staðháttum á hinu umþrætta svæði fór á fund með skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins og vefengdu uppdrátt stefnanda, fór sveitarfélagið fram á að stefnandi myndi breyta uppdrættinum í samræmi við það sem þar kom fram. Sýnir þetta hvaða vægi framburður manna sem eru kunnugir staðháttum hafa varðandi staðsetningu landamerkja. Þetta megi greina af dómafordæmum. Þá vísa stefndu því á bug að uppdráttur er fylgdi minnisblaði, dagsettu 27. apríl 2015, sé í engu samhengi við landamerki Þórisstaða. Þar að auki verði ekki séð annað af kröfulínu stefnanda en að byggt sé á að grunni til sambærilegri legu kröfulínunnar. Í sjöunda lagi byggja stefndu á því að landamerkjabréfin frá 1922 styðji ekki kröfu stefnanda um að umþrætt tún tilheyri að hluta stefnanda. Í stefnu greinir að á uppdrætti stefnanda sé dregin lína yfir tún sem sé að hluta í eigu stefnda Pálma og að hluta í eigu stefnanda. Óumdeilt er að stefndi Pálmi hefur nytjað túnið að öllu leyti. Heldur stefnandi því fram að stefndi Pálmi telji túnið alfarið til sinar eignar en því hafna stefndu. Samkvæmt þeirri línu sem stefndi Pálmi byggir landamerki á og má sjá á uppdrætti er fylgir minnisblaði, dagsettu 27. apríl 2015, sést glögglega að hann telur ekki að allt túnið tilheyri Geitabergi. Stefndi Pálmi er fæddur og uppalinn í Geitabergi og er þriðji ættliðurinn sem hefur búsetu þar. Telur hann að túnið sé að mestu leyti í eigu Geitabergs og hafi alltaf verið það eins og sést á kortinu. Eingöngu smá hluti neðst í túninu tilheyri Glammastöðum. Í ritinu Byggðir Borgarfjarðar II, segir um Glammastaði: Jörðin hefur töluvert fjallland, en lítið sem ekkert undirlendi, og hér hefur verið harðbýlt og ekki stöðug ábúð á kotinu. Bærinn stóð í hárri brekku, norðan Glammastaða-/Þórisstaðavatns, þar sem það er breiðast. Ræktunarmöguleikar mjög litlir. Jörðin nýtur Veiðihlunninda af vatninu. Þarna er eitt sumarhús. Stefndu telja þetta styðja þann málstað stefnda Pálma að túnið tilheyri Geitabergi að mestu leyti. Þá fullyrðir stefndi Pálmi að ávallt hafi ríkt samkomulag milli eigenda Geitabergs og Glammastaða varðandi nýtingu þess hluta túnsins sem tilheyri Glammastaðalandi en stefndi Pálmi hafi séð um að smala fyrir eigendur Glammastaðalands án endurgjalds. Stefndi Pálmi á því að hann hafi unnið beinan eignarrétt að hinu umþrætta túni fyrir hefð. Hann hafi nytjað túnið með útrýmandi hætti í fullan hefðartíma. Það hafi forfeður hans einnig gert. Séu því skilyrði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð uppfyllt, sbr. 3. gr. sömu laga. Í áttunda lagi byggja stefndu á því að bakkalengdarmælingar í arðskrá hafi ekki sönnunargildi fyrir landamerki Glammastaðalands gagnvart Geitabergi og Þórisstöðum. Jarðirnar Glammastaðir, Geitaberg og Þórisstaðir séu allar hluti af Veiðifélagi Laxár í Leirársveit. Í VI. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði er fjallað um veiðifélög en þar segir að mönnum sé skylt að hafa með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi m.a. til þess að skipta arði af veiði milli félagsmanna. Stefnandi og stefndu eru félagsmenn í veiðifélagi Laxár í Leirársveit. Í lögum nr. 61/2006 segir jafnframt að veiðifélaginu sé skylt að láta gera skrá er sýni þann hluta af veiði eða arði sem koma skuli í hlut hverrar fasteignar er á veiðirétt á félagssvæði. Við úthlutun arðs beri að taka m.a. tillit til aðstöðu til netaveiða og strandveiða, landlengdar að veiðivatni, vatnsmagns og stærðar vatnsbotns. Af framangreindu má leiða að tilgangur arðskrár sé ekki að staðfesta landamerki milli fasteigna. Þá sé arðskrá ekki réttindaskrá um eignarréttindi. Þá byggja stefndu á því að með öllu sé ósannað að korti sem fylgir með arðskrá varðandi bakkamælingar og kröfulínu stefnanda beri saman. Séu mælingar á kortunum taldar vera þær sömu þá eigi það einungis við um tvö hnit í kröfulínu stefnanda en ekki alla kröfulínuna. Þá benda stefndu á ummæli sem koma fram í bréfi Ísgrafs ehf. til Veiðifélags Laxár í Leirársveit, dagsettu 24. mars 1998, en sá fyrrnefndi ásamt Loftmyndum ehf. sá um mælingar á bakkalengd, en þar segir: Okkur bárust GPS mælingar á landamerkjapunktum þar sem mörk koma að ánni eða óssvæðinu. Bakkar voru teiknaðir og mældir eftir loftmyndum og skipt upp eftir hinum mældu punktum. Hvergi komi fram hvaðan þessar mælingar á landamerkjapunktum koma eða við hvað landamerkjapunkta var miðað þar sem landamerki eru ekki enn staðfest milli jarðanna og ágreiningur ríkir um staðsetningu þeirra. Þá hvíldi engin lagaskylda á stefndu að gera athugasemdir við arðskrána. Þá sé arðskráin ekki eignarheimild fyrir veiðiréttindum. Í níunda lagi mótmæla stefndu því að stefnandi hafi unnið hefð á landamerkjum eins og þeim er lýst í arðskrá veiðifélagsins. Máli sínu til stuðnings vísa stefndu til þess sem þegar hefur komið fram varðandi arðskrá. Til þess að útrýmandi stofnun eignarréttinda geti átt sér stað er gerð sú krafa að umráð hefðanda séu útrýmandi þannig að umráð annarra séu útilokið. Ósannað sé með öllu að stefnandi hafi notað umrætt svæði við bakka Þverár með útrýmandi hætti. Þá ber að geta þess að við hnit nr. 9 á kröfulínu stefnanda liggi tún sem aðilum greini á um eignarhald á. Óumdeilt sé að stefndi Pálmi nytjar það að öllu leyti. Megintilgangur laga nr. 46/1905 um hefð sé að treysta grundvöll eignarréttinda sem að öllum líkindum eru þegar fyrir hendi en ekki að vinna eignarréttindi sem eru á hendi annars aðila. Stefnandi sé ekki með skilríki fyrir eignarrétti sínum, sbr. skilyrtan kaupsamning og afsal, og hann er ekki grandlaus um betri rétt annarra. Í tíunda lagi mótmæla stefndu því að kröfulína stefnanda sé í samræmi við lýsingar örnefna fyrir Geitaberg, Glammastaði og Þórisstaði. Vísa stefndu til minnisblaðs, dagsetts 27. apríl 2015, og vilja benda sérstaklega á eftirfarandi örnefni sem séu ekki rétt staðsett að mati stefndu: Grjóthrúga á Guttormsholti: Í minnisblaðinu komi fram að tvö holt komi til greina á svæðinu. Annað þeirra sé sunnan Svínadalsvegar en hitt norðan hans og vestar. Grjóthrúga á syðra holtinu, sem uppdráttur stefnanda miðar við, hafi verið gerð af Vegagerðinni samkvæmt Hallfreði Vilhjálmssyni bónda á Kambshóli, sem er fæddur og uppalinn í Svínadal og er mjög staðkunnugur. Sú grjóthrúga sem kröfulína stefnanda byggir á geti því ekki verið rétt þar sem hún sé mun yngri en bréfið sjálft. Torfvarða á Þórisstaðanesi: Þórir Guðnason sem er fæddur og uppalinn á Þórisstöðum fullyrðir að ekki sé rétt að miða við þá þúst sem stefnandi byggir kröfulínu sína á heldur sé um að ræða þúst í landinu á syðri bakka syðri kvíslar Þverár. Þórir hafi þetta eftir föður sínum sem bjó á Þórisstöðum. Merkjalækur: Merkjalækur liggur í tveimur meginkvíslum. Hallfreður Vilhjálmsson, bóndi á Kambshóli, fullyrðir að vestari kvíslin hafi ráðið landamerkjum en ekki sú austari. Hann hafi það eftir föður sínum sem var áður búsettur á Kambshóli. Þá verði ekki séð að merki stefnanda séu í samræmi við lýsingu örnefna í örnefnalýsingu sem Ari Gíslason skráði. Í lýsingu fyrir Geitaberg komi fram að vað sé á Þverá sem sé nefnt Nesvað. Á dönsku herforingjakorti frá 1911 er greinilegt að vað er neðst í Þverá sem passi við merki þar sem stefndi Pálmi telur þau vera. Í ellefta lagi hafni stefndu því að hafa sýnt af sér tómlæti. Vísa stefndu til ofangreindrar umfjöllunar því til stuðnings. Stefnandi og stefndu eru sem fyrr sammála um að byggja merki á landamerkjabréfunum frá 1922 en greini á um hvar línan liggi samkvæmt bréfinu. Einnig vísa stefndu til þess að ef fallist verði á að stefndu hafi sýnt af sér tómlæti að tómlæti hafi ekki þau réttaráhrif að eignarréttur verði talinn fallinn niður. Þá verður reglum kröfuréttar um tómlæti ekki beitt í þessari aðstöðu. Loks benda stefndu á að sá sem heldur fram beinum eignarrétti að landi ber sönnunarbyrði fyrir því. Stefnanda hafi ekki tekist að sanna að landamerki milli jarðanna liggi með þeim hætti sem haldið er fram og mótmæla stefndu öllum kröfum stefnanda og málsástæðum. Þá byggja stefndu á því að meginreglur einkamálaréttarfars um málsforræði og tilhögun kröfugerðar skipti grundvallarmáli við úrlausn ágreinings af þessum toga þar sem dómstólar séu í einkamálum bundnir af kröfugerð og málsástæðum sem færðar eru fram af hálfu málsaðila. Um lagarök vísa stefndu til meginreglna réttarfars og meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Þá sé byggt á ákvæðum landamerkjalaga nr. 41/1991, ákvæðum laga nr. 46/1905 um hefð, ákvæðum vatnalaga nr. 15/1923, óskráðra reglna eignaréttar og 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttinda. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Forsendur og niðurstaða Í máli þessu er deilt um landamerki milli jarðanna Glammastaðalands annars vegar og Geitabergs og Þórisstaða hins vegar og er krafa stefnanda sú að viðurkennd verði þau landamerki sem lýst er í dómkröfu. Málsaðilar eru sammála um að landamerkin fari eftir landamerkjabréfum jarðanna Glammastaða og Geitabergs frá 1922 og byggja kröfur sína á því. Þeim greinir hins vegar á um hvar landamerkin liggi samkvæmt bréfunum og þá hvort kröfugerð stefnanda samrýmist þeim. Við aðalmeðferð málsins var gengið á vettvang, m.a. um ætluð landamerki eins og þeim er lýst í stefnu, allt að holti fyrir ofan sund fyrir ofan Seldalslæk eins og því er lýst í landamerkjabréfi Glammastaða. Voru aðilar sammála um við hvaða holt og sund þar væri miðað. Þá mátti sjá staðhætti á jörðinni m.a. þau tvö holt sem á grundvelli staðsetningar gætu verið það holt sem vísað er til í landamerkjabréfi sem Guttormsholt, og Merkjalæk, auk gróins farvegar í landinu sem gæti hafa verið lækjarfarvegur. Þá bentu viðstaddir á þá staði sem þeir telja vera þann stað á Þórisstaðanesi þar sem áður stóð torfvarða. Í dómkröfu eru landamerkin hnitsett en einnig kemur þar fram tilvísun til þeirra staða sem hnit eru miðuð við. Stefnandi fékk Landlínur ehf. til að hnitsetja landamerkin í samræmi við landamerkjabréfin og liggur það kort fyrir í máli þessu og er krafa stefnanda byggð á því auk landamerkjabréfanna. Einnig byggir stefnandi m.a. á handgerðu korti frá árinu 2000 sem fylgdi afsali vegna sölu Glammastaðalands, korti sem Óðinn Sigþórsson gerði vegna sölu jarðarinnar frá Arion banka hf. til stefnanda, upplýsingum úr örnefnaskrá og arðskrármati. Stefndu byggja sýknukröfu sína m.a. á því að kröfulína stefnanda sé með öllu órökstudd. Stefnandi byggir á því að stefndu hafi sýnt af sér tómlæti og hafi látið landamerkjalýsinguna óátalda þar til stefnandi vildi skipta upp landi sínu. Stefndu telja hins vegar að ekki hafi fyrr verið þörf á því að gera athugasemdir þar sem það sé ekki fyrr en nú sem kröfulína stefnanda fari inn fyrir landamerki stefndu. Gögn málsins bera með sér að stefndu hafi komið að málinu vegna þeirrar málsmeðferðar sem fór af stað þegar stefnandi ætlaði að skipta Glammastaðalandi úr jörðinni Glammastöðum. Fram er komið að stefndu eða fulltrúar þeirra mættu m.a. til fundar hjá skipulagsfulltrúa auk þess að tjá sig m.a. við fyrirsvarsmann stefnanda um merkin og við Óðinn Sigþórsson þegar hann hnitaði upp merkin fyrir Arion banka hf. Ekkert er fram komið sem bendir til þess að áður hafi komið uppi ágreiningur um landamerki jarðanna og túlkun bréfanna. Þá verður tómlæti ekki talið hafa þau réttaráhrif að eignarréttindi falli niður, eins og hér stendur á. Ekki verður því fallist á það með stefnanda að stefndu hafi sýnt af sér tómlæti sem áhrif hafi á réttarstöðu þeirra vegna kröfu stefnanda. Hvað varðar handgerð kort sem fylgdi afsali vegna sölu Glammastaðalands árið 2000 og stefnandi byggir á þá telja stefndu það ekki hafa þýðingu í málinu. Ekki er annað fram komið en þær upplýsingar sem kortið byggir á komi einhliða frá fyrri eigendum jarðarinnar. Þá er kortið í samræmi við það kort sem Óðinn Sigþórsson teiknaði upp eftir að hafa m.a. rætt óformlega við fyrri eigendur Glammastaðalands og stefnda Pálma. Fram kom í skýrslu Óðins við aðalmeðferð málsins að ekki hafi komið fram vafi um staðsetningu þeirra merkja sem hann byggði á og að ef svo hefði verið hefði hann ekki byggt á þeim. Þrátt fyrir að á kortinu komi ekki fram eins nákvæm lýsing á landamerkjum og í kröfugerð stefnanda þá má af því ráða megindrætti landamerkjanna, m.a. að Guttormsholt hefur verið talið vera sunnan vegar og að um landamerki Glammastaða við Þórisstaði fari eftir nyrðri kvísl Þverár og verður því að telja að það styðji kröfu stefnanda hvað hnitapunkta nr. 8 og 9 varðar. Stefndu byggja einnig sýknukröfu sína á því að verulegs ósamræmis gæti milli kröfulína stefnanda hvað varðar mörk Glammastaða gagnvart Þórisstöðum og jarðarmörkum samkvæmt Nytjalandsgrunni. Fyrir liggur kort sem sýnir samanburð á þessum tveimur línum og má þar sjá að ekki er fullt samræmi milli þeirra. Af hálfu stefnda hefur málsástæða þessi ekki verið rökstudd t.d. með samanburði á forsendum línanna og er henni því þegar að þeirri ástæðu hafnað. Samkvæmt kröfu stefnanda er hnitapunktum nr. 1 og 2 lýst svo: ... frá holti sem er fyrir ofan smá sund fyrir ofan Seldalslækinn, hnitapunktur merktur nr. 1: [...], þaðan bein lína í Seldalslæk, sem þá heitir Merkjalækur, hnitapunktur merktur nr. 2: [...] ... Um þetta segir í landamerkjabréfi vegna Glammastaða hvað varðar landamerki við Geitaberg: Úr vörðu sem er hornmerki milli Glammastaða, Dragháls og Geitabergs út Hlíðarbrúnirnar þar sem þær eru hæstar alla leið í vörðu sem stendur á holti sem er fyrir ofan smá sund fyrir ofan Seldalslækinn. Síðan ræður Seldalslækurinn sem þá heitir Merkjalækur merkjum úr því... Í landamerkjabréfi vegna Geitabergs, sem lýsir landamerkjum frá vatni til fjalla, andstætt því sem er hvað varðar Glammastaði, segir um þetta svæði: Svo ræður Merkjalækur upp í næsta sund fyrir ofan Seldal. Því næst bein lína í vörðu sem stendur á holti fyrir ofan sundið. Svo úr þeirri vörðu bein lína inn Hlíðarbrúnir í vörðu sem stendur fyrir ofan svonefnt Merkjagil sem er þá hornmark milli Glammastaða, Geitabergs og Dragháls. Krafa stefnanda nær ekki eins langt upp á fjalllendið og lýst er í landmerkjabréfunum, þ.e. ekki að hornmerki milli jarðanna þriggja. Við vettvangsgöngu kom í ljós að ekki var ágreiningur um staðsetningu holtsins sem stendur ofan við sund ofan við Seldal eða fyrir ofan Seldalslækinn, er vísaði niður að læknum sem er austan til við holtið. Sú varða sem stóð á holtinu samkvæmt landamerkjalýsingunni er ekki lengur sjáanleg. Hnitapunktur nr. 2 er í læknum við sundið þar sem tvær kvíslar lækjarins koma saman eftir beinni línu frá holtinu um sundið til austurs. Staðhættir eins og þeir komu dómara fyrir sjónir við vettvangsgöngu og lýsingar í landamerkjabréfunum styðja kröfu stefnanda hvað varðar hnitapunkta nr. 1 og 2 auk þess sem aðilar eru sammála um staðsetningu þess holts sem lýst er í bréfunum, eins og áður hefur verið rakið. Fyrir liggur að varðan er horfin en nægilega glöggt þykir að miða þess í stað við holtið sjálft. Með vísan til framangreinds er fallist á það með stefnanda að landamerki jarðanna liggi á nefndum hnitapunktum nr. 1 og 2. Hnitapunktum nr. 3 til 7 er lýst svo í kröfu stefnanda: ... Eftir það eftir Merkjalæk þar sem hann ræður merkjum um hnitapunkta nr. 3: [...], þaðan eftir læknum í hnitapunkt nr. 4: [...], þaðan eftir læknum í hnitapunkt nr. 5: [...], þaðan eftir læknum í hnitapunkt nr. 6: [...], þaðan eftir læknum í hnitapunkt nr. 7: [...] ... Í landamerkjabréfi vegna jarðarinnar Glammastaða segir: Síðan ræður Seldalslækurinn sem þá heitir Merkjalækur merkjum úr því þar til hann fer að renna ofan mýrina og eru þá eptir mýrinni ýmist torfvörður eða skurðir sem ráða merkjum að grjóthrúgu á Guttormsholti. Í landamerkjabréfi vegna jarðarinnar Geitabergs segir: Þaðan sjónhending í Merkjalæk, þar sem hann rennur í einu lagi. Svo ræður Merkjalækur upp í næsta sund fyrir ofan Seldal. Við vettvangsskoðun mátti ætla að lækurinn rynni í samræmi við kröfulínu stefnanda eins og hana má sjá á korti Landlína ehf. og var hann áberandi í landslaginu. Stefndi byggir á því að farvegurinn hafi verið vestar og má á minnisblaði Reynis Elíassonar sjá að vitnið Hallfreður Vilhjálmsson, bóndi á Kambsstöðum í Hvalfjarðarsveit sem búið hefur þar frá árinu 1964, hélt því fram 2015 að lækurinn hafi runnið í tveimur meginkvíslum og hafi landamerki verið miðuð við þá vestari. Taldi hann að farvegur lækjarins nú sé tilkominn vegna manngerðra breytinga. Þá bar vitnið um það fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að hann teldi að lækurinn hafi runnið vestar og tengdi breytingu á farvegi lækjarins við skriðuföll og flóð sem hann taldi að hefði orðið á svæðinu árið 1966. Á vettvangi mátti sjá að meginkvísl lækjarins þar sem hann rennur um mýrina er austan megin en vestan við hana er að hluta önnur kvísl með mun minni farveg. Væru landamerki miðuð við þá kvísl fæst ekki annað séð en að það leiddi einungis til annarrar niðurstöðu, stefnda í hag, á litlu svæði og sömu niðurstöðu hvað varðar syðsta hluta lækjarins. Einnig má sjá vestan við lækinn ummerki í landslagi sem hugsanlega hefur verið lækjarfarvegur en óvíst hvert sá farvegur hefði leitt. Þá vísar stefnandi til örnefnalýsingar vegna jarðarinnar kröfu sinni til stuðnings. Af henni má ráða að fleiri lækir hafi verið á svæðinu vestan við Merkjalæk. Þá kemur fram í landamerkjabréfinu að eftir mýrinni séu ýmist torfvörður eða skurðir sem ráða merkjum að grjóthrúgu á Guttormsholti. Á vettvangi mátti sjá að lækurinn rennur að hluta til um skurð en engar upplýsingar liggja fyrir um það hvenær sá skurður var gerður eða hvort með honum hafi verið gerðar einhverjar breytingar á farvegi lækjarins. Loks er til þess að líta að örnefnaskrám ber ekki nákvæmlega saman um það hvernig farvegur lækjarins var og gera þær m.a. ráð fyrir að lækurinn hverfi á köflum eins og nú er. Við skoðun á aðstæðum er ljóst að það samhengi sem er milli lækjarins og Guttormsholts, og annarra landamerkja sem neðar eru samkvæmt kröfu stefnanda, og þeirrar beinu línu sem lýst er í landamerkjabréfi, sem nánar er lýst hér á eftir. Þá er óvíst að ef lækurinn hefur runnið eftir öðrum farvegi eða miðað hefur verið við aðra kvísl að hann næði þá að tengjast öðrum landamerkjum eða hugsanlegum landamerkjum, eins og holtinu norðan Svínadalsvegar, á þann hátt sem landamerkjabréf lýsa. Ekkert er fram komið utan framburðar Hallfreðs sem bendir til þess að lækurinn hafi verið með vestari kvísl og að við hana hafi átt að miða eins og stefndi heldur fram. Fullyrðingar um aðra staðsetningu lækjarins þegar landamerkjabréfið var gert og þá hverja eru því með öllu ósannaðar. Þykir því nægilega glöggt og í samræmi við lýsingar í landamerkjabréfum og aðstæður á vettvangi að miða við rennsli lækjarins eins og því er lýst í dómkröfu. Eftir framangreindu er það niðurstaða dómsins að landamerki jarðarinnar fari eftir hnitapunktum nr. 3 til 7 í dómkröfu. Hnitapunktum nr. 8 til 11 er lýst svo í dómkröfu stefnanda: … þaðan bein lína í Guttormsholt, hnitapunktur nr. 8: […], þaðan í miðjan farveg Þverár, hnitapunktur nr. 9: […] sem er í beinni stefnu á hornmark Glammastaðalands, Geitabergs og Þórisstaða, þar sem áður stóð torfvarða, á Þórisstaðanesi, hnitapunkt merktan nr. 11: […]. Frá hnitapunkti nr. 9 ræður miðlína Þverár allt að hnitapunkt merktum nr. 10: […] í ósi Þverár … Í landamerkjabréfi Glammastaða segir um þetta: Síðan ræður Seldalslækurinn sem þá heiti Merkjalækur merkjum úr því þar til hann fer að renna ofan mýrina og eru þá eptir mýrinni ýmist torfvörður eða skurðir sem ráða merkjum að grjóthrúgu á Guttormsholti. Úr þeirri grjóthrúgu bein stefna í torfvörðu í Þórisstaðanesi alla leið ofan í þverá. Í Landamerkjabréfi Geitabergs segir: Úr torfvörðu á Þórisstaðanesi í vörðu í Guttormsholti. Þaðan sjónhending í Merkjalæk, þar sem hann rennur í einu lagi. Lýsing landamerkjanna er hvað þetta varðar efnislega samhljóða í báðum bréfunum. Stefnandi byggir á því að Guttormsholt, og þar með hnitapunktur nr. 8, sé sunnan Svínadalsvegar. Stefndu telja staðsetningu holtsins vera óvissa og kemur fram í málatilbúnaði þeirra, og kom það einnig fram í vettvangsgöngu, að annað holt norðan vegarins gæti eins verið það. Af aðstæðum á vettvangi má ráða að ekki er grjóthrúga á holtinu norðan vegarins en slík hrúga er á því holti sem er sunnan hans. Þau vitni sem komu fyrir dóminn til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins gátu ekki borið um það hvort holtið væri um að ræða. Þó bar vitnið Hallfreður um þá grjóthrúgu sem er á syðra holtinu. Sagði hann að sú hrúga hafi verið sett þarna af Vegagerðinni í stað vörðu sem hafi áður verið þar og kvaðst hafa þetta eftir sér eldri mönnum. Þá sagði hann að Vegagerðin hefði á sínum tíma tekið efni úr holtinu norðan vegarins til vegagerðar og hafi það breytt holtinu. Þá lagði stefnandi fram minnisblað Reynis Elíassonar sem fór um svæðið, ásamt m.a. stefnda Pálma til að finna þau kennileiti sem nefnd eru í landamerkjabréfinu. Segir á minnisblaðinu, sem dagsett er 27. apríl 2015, að landamerkin séu dregin upp eins og stefndi Pálmi telur þau réttust og er þar miðað við að Guttormsholt sé holtið norðan vegarins. Stefndi Pálmi hefur ekki komið fyrir dóminn og staðfest þetta. Þá er til þessa að líta að Óðinn taldi þegar hann teiknaði upp landamerkin fyrir Arion banka hf. að holtið væri sunnan vegarins og að landamerkjalínan væri í samræmi við kröfugerð stefnanda. Samkvæmt framburði Óðins í skýrslu sem hann gaf við aðalmeðferð málsins ræddi hann bæði við Pálma og fyrrum eigendur Glammastaða um landamerkin og sagði að hann hefði ekki teiknað þau eins og hann gerði hefði komið fram vafi um legu þeirra. Stefnandi byggir kröfu sína einnig á örnefnalýsingum, eins og framar hefur verið rakið. Í lýsingu vegna Geitabergs segir að Guttormsholt sé utar og ofar en Fitin og að Fitin sé svæði niðri við Þverá. Þá segir síðar í lýsingunni þegar lýst er svæði innan túngirðingar, austan Geitabergsár, að Fitin sé slétta túnið neðst. Samrýmist þetta því að staðsetning holtsins sé sunnan vegar. Loks er til þess að líta að holtið er í beinni línu við staðsetningu torfvörðu í Þórisstaðanesi, eins og stefnandi telur hana vera, og Merkjalækjar. Þá er sjónhending frá holtinu að Merkjalæk þar sem hann rennur í einu lagi. Þá byggja stefndu á því að miða beri við vörðu en ekki holtið eins og stefnandi gerir í kröfugerð sinni. Ljóst er að holtið ákvarðar staðsetningu vörðunnar og þykir dómara því nægilega glöggt og nákvæmt að miðað sé við holtið. Eftir því sem hér að framan hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að landamerki jarðarinnar fari eftir hnitapunkti nr. 8 í dómkröfu stefnanda. Hnitapunktur nr. 9 er samkvæmt dómkröfu í miðjum farvegi Þverár sem er í beinni línu í hornmark Glammastaðalands, Geitabergs og Þórisstaða, þar sem áður stóð torfvarða á Þórisstaðanesi sem er hnitapunktur nr. 11. Kröfugerð stefnanda verður ekki skilin öðruvísi en svo að hnitapunktur nr. 9 sé staðsettur í miðri ánni, framan við nesið. Þeirri málsástæðu stefnda að hnitapunktur nr. 9 sé ekki í miðri ánni er því hafnað. Aðilar eru ekki sammála um það hvar torfvarðan stóð en byggja á því að Þórisstaðanes liggi milli kvísla Þverár. Í málsgögnum liggur fyrir kort sem lagt var fram af stefnda þar sem sjá má kröfulínu stefnanda og til samanburðar línu sem stefndi telur að gilda eigi um landamerkin. Byggir stefnandi á því að nesið sé við nyrðri kvísl árinnar en stefndi syðri kvísl á syðri bakka og þá nær vatninu. Orðalag landamerkjalýsingar vegna Glammastaða, sbr. ... bein stefna í torfvörðu í Þórisstaðanesi alla leið ofan í Þverá ... mælir með því að átt sé við það nes sem stefnandi byggir á en séu merki rakin samkvæmt dómkröfu er bein lína frá Merkjalæk í Guttormsholt og þaðan í ætlaða torfvörðu á Þórisstaðanesi en viðmið stefnda er nær vatninu. Í landamerkjabréfi vegna Glammastaða og Þórisstaða segir: Milli Þórisstaða og Glammastaða ræður Þveráin ofan í Glammastaðavatn og tilheyrir þá Glammastöðum helmingur vatnsins úr því, alla leið ofan að Selós. Vitnið Þórir Guðnason sem fæddur er og uppalinn á Þórisstöðum sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að staðsetning nessins sem stefndu miðuðu við væri ekki milli jarðanna þriggja heldur einungis milli Þórisstaða og Glammastaða og að merki milli Geitabergs og Þórisstaða væru ofar og færu eftir ánni. Þar rennur áin í einu lagi og verður því að telja að framburður vitnisins um að landamerkið við Glammastaði sé í syðri kvíslinni sé á skjön við það og vegna aðstæðna og legu jarðanna þriggja. Stefndu hafna því alfarið að lína þeirra sé í engu samhengi við landamerki Glammastaða og Þórisstaða, eins og stefnandi heldur fram, en hann segir þau liggja eftir beinni línu en skyndilega komi 90 gráðu beygja ef mæta á þinglýstum landamerkjum Þórisstaða í réttu hornmarki jarðanna þriggja. Verður að fallast á það með stefnanda að lýsing vitnisins Guðna og staðfesting torfvörðunar á syðri kvísl árinnar sé í andstöðu við framangreinda lýsingu landamerkja milli Þórisstaða og Glammastaða. Þá byggja stefndu á því að landamerkjabréfið styðji ekki þá kröfu stefnanda að túnið sé að hluta í eigu stefnanda. Óumdeilt sé að stefndi Pálmi hafi nytjað túnið að öllu leyti og að stefnandi eigi það að hluta en þá í samræmi við þá landamerkjalínu sem stefndu telja vera rétta. Því til stuðnings vísa stefndu í ritið Byggðir Borgarfjarðar II, þar sem m.a. segir um Glammastaði að ræktunarmöguleikar séu mjög litlir. Stefnandi byggir á því að kort í sama riti styðji að túnið hafi tilheyrt gamla lögbýlinu á Glammastöðum og byggir á því að staðsetning býlisins styðji kröfu hans. Af málatilbúnaði aðila má ráða að þeir eru sammála um að túnið skiptist milli Glammastaða og Geitabergs en ágreiningurinn varði það hvernig það skiptist. Telur dómurinn að í framangreindu riti, bæði texta og kortinu, komi einungis fram lýsing á aðstæðum að Glammastöðum sem verði á engan hátt til þess að skýra aðstæður þannig að eignarhald á túninu verði staðfest á grundvelli þess eða skipting túnsins milli jarðanna. Er þessum málsástæðum aðila því hafnað. Á sama hátt verður niðurstaðan ekki á því byggð að staðsetning túns með örnefninu Fitin lýsi aðstæðum þannig að skipting túnsins eða eignarhald verði á því byggt. Þá byggja stefndu á því að stefndi Pálmi hafi unnið beinan eignarétt að túninu fyrir hefð þar sem hann hafi nytjað túnið fullan hefðartíma á grundvelli samkomulags aðila. Stefndi byggir á því að ávallt hafi ríkt samkomulagi milli eiganda Glammastaða og Geitabergs um nýtingu á þeim hluta túnsins er tilheyri Glammastöðum. Því hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefnanda og verður að telja sannað að svo hafi verið. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga um hefð nr. 46/1905 verður ekki unnin hefð að hlut sem fenginn er að láni. Verður því að hafna þessari málsástæðu stefnda. Stefnandi byggir einnig á því að í arðskrá Veiðifélags Leirár frá komi fram að fyrir hafi legið GPS-mælingar á landamerkjapunktum þar sem jarðamörk liggi á vatnasvæðinu. Bakkar hafi verið teiknaðir og mældir upp eftir loftmyndum og þeim skipt upp eftir landamerkjapunktum. Fyrir liggja þrjú arðskrármat vegna jarðanna og er það elsta frá árinu 1974, annað frá 1998 og það yngsta frá 2015. Takmarkaðar upplýsingar koma fram um þetta í því matinu frá 1974. Samkvæmt matinu frá 1998 átti jörðin Glammastaðir 303 metra bakkalengdarkafla í Þverá. Nýjasta bakkalengdarmælingin sem liggur fyrir er frá árinu 2015 en samkvæmt því er bakkalengd Glammastaða vegna Þverár 287 metrar og var þá mæld miðlína ár. Stefnandi byggir á því að þessar mælingar séu í samræmi við kröfulínu hans. Vísar stefnandi til þess að ekki hafi verið gerð athugasemd við landamerkjapunkta eins og þeim er lýst í arðskrármati. Í þeim er byggt á því að landamerki jarðanna liggi í samræmi við kröfugerð stefnanda hvað varðar hnitapunkta nr. 9 og 10. Í arðskrámatinu frá 2015 kemur fram að eigendum veiðiréttar var gefinn kostur á að senda nefndinni skriflegar greinargerðir um þau atriði sem varðað gætu mat á arði einstakra fasteigna. Af matinu má ráða að ekki bárust athugasemdir sem bentu til þess að jarðeigendur hafi talið að landamerki milli Glammastaða og Geitabergs eða Þórisstaða væru þar röng. Þrátt fyrir að tilgangur arðskrármats sé ekki sá að staðfesta landamerki þá má af þeim ráða hvernig landeigendur hafa talið landamerki jarðanna liggja a.m.k. seinustu tæplega 20 ár. Sönnunarmat dómara í einkamálum er frjálst. Lítur dómari svo á að vegna þeirrar málsmeðferðar sem arðskrármat byggir á og efnis þess sé hægt að líta til þeirra forsendna sem arðskrármatið grundvallast á hvað varðar staðsetningu landamerkjanna eins og þau eru ákveðin í hnitapunkt nr. 9 og 10 telja það þannig styðja málatilbúnað stefnanda hvað þetta varðar. Þá verður að telja að rökstuðning skorti fyrir þeirri málsástæða stefnanda að hann hafi unnið hefð að landamerkjunum eins og þeim er lýst í arðskrá og kemur hún því ekki til frekari skoðunar. Stefndu mótmæla einnig þeirri málsástæðu stefnanda að vísa til yfirlýsingar stefndu o.fl. vegna lagningar jarðstrengs og telur að með undirritun sinni á hana og meðfylgjandi kort sem sýni m.a. landamerki jarðanna Glammastaða og Geitabergs hafi stefndi Pálmi staðfest landamerkin. Þrátt fyrir að nefnd skjöl séu ekki útbúin í því skyni að staðfesta landamerki milli jarðanna verður ekki fram hjá því litið að stefndi ritaði athugasemdalaust á skjölin og þar er landamerkjalínu lýst í samræmi við kröfulínu stefnanda frá Þverá og norður yfir Svínadalsveg, og verður því að telja að styðji einnig kröfu stefnanda. Þá er jafnframt hafnað þeirri málsástæðu stefndu, sem þeir byggja m.a. á örnefnaskrá og dönsku herforingjakorti frá 1911, að staðsetning stefnanda á torfvörðu á Þórisstaðanesinu sé ekki í samræmi við þessi gögn sem sýna vað neðst í Þverá þar sem það samrýmist ekki lýsingu landamerkja við Þórisstaði en í landamerkjabréfi er gert ráð fyrir að þau fari eftir Þverá. Ekki er annað fram komið en framburður vitnisins Þóris, sem hér að framan hefur verið rakinn, sem styður það að torfvarðan hafi verið við syðri kvíslina, eins og stefndi heldur fram. Sá framburður er í andstöðu við þau gögn sem hér að framan hafa verið rakin og talin eru styðja kröfu stefnanda. Samkvæmt því er fallist á það með stefnanda að landamerkin liggi um hnitapunkt nr. 9 þann hnitapunkt sem greinir í dómkröfu. Samkvæmt hnitapunkti nr. 10 ræður miðlína Þverár frá hnitapunkti nr. 9. Hefur hnitapunkti nr. 10 ekki verið mótmælt sérstaklega af stefnda. Þá er ekkert fram komið sem bendir til þess að farvegur Þverár hafi breyst. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923 á hvort land í miðjan farveg skilji á eða lækur að landareignir, og sé ekki vöxtur í vatni, nema önnur lögmæt skipun sé þar á gerð. Verður því að telja að framangreind skipan sé í samræmi við ákvæðið, þá skipan sem ákveðin var í landamerkjabréfi Glammastaða um landamerki jarðarinnar við Þórisstaði og í samræmi við þá niðurstöðu sem hér að ofan getur hvað varðar hnitapunkt nr. 9. Verður því einnig fallist á það með stefnanda að landamerki Glammastaða gagnvart Þórisstöðum séu í samræmi við hnitapunkta nr. 10 í dómkröfu hans. Með vísan til þess sem rakið hefur verið er fallist á kröfu stefnanda og hún tekin til greina eins og nánar greinir í dómorði.                 Vegna anna dómara hefur uppkvaðning dómsins dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Dómari og lögmenn aðila töldu ekki að vegna þess væri þörf á endurflutningi málsins. Eftir úrslitum málsins og með vísan 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verða stefndu Pálmi Jóhannesson og Starfsmannafélag íslenska járnblendifélagsins dæmdir til að greiða stefnanda Valz ehf. óskipt 2.500.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Af hálfu stefnanda flutti málið Atli Már Ingólfsson hdl. og af hálfu stefndu flutti málið Víðir Smári Petersen hrl. Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari. D Ó M S O R Ð: Fallist er á kröfu stefnanda Valz ehf. um að viðurkennt verði með dómi að landamerki jarðanna Glammastaðalands, Geitabergs og Þórisstaða, eins og þau eru á hinu umdeilda svæði, séu frá holti sem er fyrir ofan smá sund fyrir ofan Seldalslækinn, hnitapunktur merktur nr. 1: X 376843.87, Y 441696.82, þaðan bein lína í Seldalslæk, sem þá heitir Merkjalækur, hnitapunktur merktur nr. 2: X 377002.65, Y 441663.00. Eftir það eftir Merkjalæk þar sem hann ræður merkjum um hnitapunkta nr. 3: X 377011.09, Y 441517.56, þaðan eftir læknum í hnitapunkt nr. 4: X 377179.40, Y 441423.42, þaðan eftir læknum í hnitapunkt nr. 5: X 377370.84, Y 441184.51, þaðan eftir læknum í hnitapunkt nr. 6: X 377473.32, Y 441140.50, þaðan eftir læknum í hnitapunkt nr. 7: X 377583.05, Y 441093.58, þaðan bein lína í Guttormsholt, hnitapunktur nr. 8: X 377719.31, Y 441024.22, þaðan í miðjan farveg Þverár, hnitapunktur nr. 9: X 377967.68, Y 440866.95, sem er í beinni stefnu á hornmark Glammastaðalands, Geitabergs og Þórisstaða, þar sem áður stóð torfvarða, á Þórisstaðanesi, hnitapunkt merktan nr. 11: X 377991.46, Y 440851.90. Frá hnitapunkti nr. 9 ræður miðlína Þverár allt að hnitapunkt merktum nr. 10: X 377780.46, Y 440725.62, í ósi Þverár. Stefndi, Pálmi Jóhannesson og Starfsmannafélag íslenska járnblendifélagsins, greiði stefnanda óskipt 2.500.000 krónur í málskostnað.  
Mál nr. 106/2017
Stjórnarskrá Sveitarfélög Málefni fatlaðra
Í málinu kröfðust A og S þess að sveitarfélaginu R og eignarhaldsfélaginu E yrði gert að ráðast í nánar tilgreindar framkvæmdir og úrbætur á tveimur opinberum byggingum til að bæta aðgengi fyrir fatlaða. Reistu þeir kröfur sínar á því að byggingarnar fullnægðu hvorki alþjóðlegum skuldbindingum Íslands né þeim kröfum sem gerðar væru í stjórnarskrá og nánar tilgreindum lögum og reglugerðum um aðgengi fatlaðs fólks að opinberum byggingum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að R hefði fullnægt þeirri skyldu samkvæmt 34. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks að gera sér áætlun um endurbætur á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga og skipulagslaga sem og reglugerða settra á grundvelli þeirra. Þá hefði R hrundið áætluninni í framkvæmd með ráðstöfun fjár til málaflokksins og þeim breytingum á húsnæði í eigu sveitarfélagsins sem þegar hefði verið ráðist í. Vísað var til þess að með lögum nr. 152/2010 hefði sveitarfélögunum í landinu verið falið að annast málefni fatlaðra en sá málaflokkur hafði áður verið viðfangsefni ríkisins. Sveitarfélög hefðu samkvæmt 78. gr. stjórnarskrárinnar sjálfstjórn í þeim málum sem löggjafinn hefði falið þeim og þau færu sjálf með forræði eigin tekjustofna. Þau væru því ein samkvæmt stjórnarskrá og lögum bær til að taka ákvarðanir um þess háttar framkvæmdir og úrbætur sem dómkröfur A og S lytu að og hefðu á grundvelli tekjustofna sinna svigrúm til að ákveða forgangsröðun innan þess ramma sem játa yrði þeim við framkvæmd lögbundinna verkefna sem á þeim hvíldu. Voru R og E ehf. því sýknað af kröfum A og S.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 15. febrúar 2017. Þeir krefjast þess í fyrsta lagi að stefnda Reykjanesbæ verði gert að koma fyrir hjólastólalyftu milli hæða í svonefndu Duushúsi við Duusgötu 2 í Reykjanesbæ, jafna hæðarskil milli sala á 1. hæð hússins með því að útbúa skábraut fyrir hjólastóla, og breyta aðalinngangsdyrum í Duushúsi, allt að viðlögðum 100.000 króna dagsektum frá 25. desember 2015 þar til skyldum stefnda hefur verið fullnægt. Í öðru lagi krefjast áfrýjendur þess að stefndu verði sameiginlega gert að koma fyrir hjólastólalyftu milli hæða í svonefndu 88 Húsinu við Hafnargötu 88 í Reykjanesbæ, jafna hæðarmun milli sala í húsinu með því að koma fyrir skábraut fyrir hjólastóla, útbúa skábraut fyrir hjólastóla frá bílastæði inn í húsið og útbúa bílastæði sérmerkt fötluðum sem næst inngangi hússins og eigi fjær honum en 25 metrar, allt að viðlögðum 100.000 króna dagsektum frá 25. desember 2015 þar til skyldum stefndu hefur verið fullnægt. Í þriðja lagi krefst áfrýjandinn Arnar Helgi þess að stefndu verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. desember 2015 til greiðsludags. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Atvikum málsins sem eru að mestu óumdeild er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram hlaut áfrýjandinn Arnar Helgi mænuskaða í umferðarslysi á árinu 2002, lamaðist við það fyrir neðan brjóst og hefur upp frá því verið bundinn við hjólastól. Hann býr ásamt fjölskyldu sinni í Reykjanesbæ og telur að lélegt aðgengi fyrir fatlaða standi því í vegi að hann geti tekið þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi í húsnæði á vegum sveitarfélagsins nema að mjög takmörkuðu leyti, hvort heldur er á eigin vegum eða til að fylgja börnum sínum. Nánar tiltekið kveðst hann hvorki geta sótt opna viðburði í lista- og menningarmiðstöð sveitarfélagsins í Duushúsi, sem er í eigu sveitarfélagsins, né í 88 Húsinu, sem er félags- og menningarmiðstöð fyrir ungmenni, en það hús leigir sveitarfélagið af hinu stefnda eignarhaldsfélagi. Áfrýjendur kveðast ítrekað hafa bent stefnda Reykjanesbæ á að aðgengi fyrir fatlaða að byggingum sveitarfélagsins væri verulega ábótavant og hvorki í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, stjórnarskrá lýðveldisins né nánar tilgreind ákvæði laga og reglugerða, svo sem ítarlega er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Ábendingarnar hafi á hinn bóginn ekki leitt til úrbóta og hafi áfrýjendum því verið nauðugur einn sá kostur að höfða mál þetta. Sé málsóknin á því reist að stefndi Reykjanesbær hafi brotið gegn þeirri lögbundnu skyldu sinni samkvæmt ofangreindum réttarheimildum að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að byggingum þeim sem um ræðir í málinu. Sveitarfélaginu sé lögum samkvæmt skylt að bæta úr þannig að byggingar á þess vegum verði aðgengilegar fyrir fatlaða til jafns við aðra og sé tilgangur málshöfðunarinnar að fá sveitarfélagið dæmt til efnda í samræmi við þær skyldur. Sama skylda hvíli á hinu stefnda eignarhaldsfélagi sem eiganda 88 Hússins. Varnir stefndu lúta í aðalatriðum að því að þeir hafi fullnægt skyldum sínum gagnvart áfrýjendum samkvæmt ofangreindum réttarheimildum, sveitarfélagið hafi á allan hátt hagað ákvörðunum sínum gagnvart áfrýjendum með málaefnalegum hætti og það sé ekki á forræði áfrýjenda að krefja stefndu um efndir með þeim hætti sem gert sé í dómkröfum áfrýjenda. II Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Samkvæmt lögskýringargögnum er gengið út frá því í stjórnarskrárákvæðinu „að nánari reglur um félagslega aðstoð af þessum meiði verði settar með lögum, en með ákvæðinu er markaður sá rammi að til þurfi að vera reglur sem tryggi þessa aðstoð.“ Til samræmis við 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar hafa verið sett í almenn lög ýmis ákvæði um málefni fatlaðra, sbr. lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem leystu af hólmi lög nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks sem giltu þegar atvik máls þessa urðu.  Síðastnefndu lögin voru sérlög um málefni fatlaðra og samkvæmt 1. mgr. 1. gr. þeirra höfðu þau að markmiði að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til að lifa eðlilegu lífi. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skyldi við framkvæmd laganna taka mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skyldu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðra og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðra. Í 7. gr. laganna sagði að fatlað fólk skyldi eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skyldi leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reyndist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni yrði fullnægt innan almennrar þjónustu skyldi hann fá þjónustu samkvæmt lögunum. Ísland undirritaði samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks 30. mars 2007 og fullgilti hann 23. september 2016, sbr. þingsályktun nr. 61, sem samþykkt var á 145. löggjafarþingi, en ákvæði samningsins hafa ekki verið leidd í lög hér á landi. Í 9. gr. samningsins kemur meðal annars fram að aðildarríkin skuli gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðum kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins. Þær ráðstafanir skulu meðal annars felast í því að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi og ná til bygginga og aðstöðu utan dyra og innan. Samkvæmt 30. gr. samningsins skulu aðildarríkin viðurkenna jafnan rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í menningarlífi til jafns við aðra og gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að greiða fyrir þessum rétti fatlaðs fólks, meðal annars til að njóta aðgengis að stöðum þar sem menningarefni eða þjónusta á sviði menningar fer fram. Þá segir einnig í 30. gr. að aðildarríkin skuli gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að fötluðu fólki sé kleift að taka til jafns við aðra þátt í tómstunda- frístunda- og íþróttastarfi með því meðal annars að tryggja fötluðum aðgang að stöðum þar sem slíkt starf fer fram.  Með lögum nr. 152/2010 var sú breyting gerð á lögum nr. 59/1992 að sveitarfélögum var falið að annast málefni fatlaðra en sá málaflokkur hafði áður verið viðfangsefni ríkisins. Í 34. gr. laga nr. 59/1992, eins og henni var breytt með 31. gr. laga nr. 152/2010, kom fram að sveitarfélög skyldu sinna ferlimálum fatlaðra, meðal annars með gerð áætlana um endurbætur á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga nr. 160/2010, skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerða settra á grundvelli þeirra. Í bráðabirgðaákvæði XIII með lögum nr. 59/1992, sbr. 43. gr. laga nr. 152/2010, var mælt svo fyrir að ráðherra skyldi eigi síðar en 1. október 2011 leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðra. Þar skyldi setja fram stefnu í málefnum fatlaðra, skýra forgangsröðun verkefna, markvissa aðgerðaráætlun og skilgreinda árangursmælikvarða. Tímasetja skyldi meðal annars aðgerðir vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, aðgengismála, biðlista eftir þjónustu, atvinnumála fatlaðra og samræmds mats á þjónustu. Til samræmis við framangreint bráðabirgðaákvæði samþykkti Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011 til 2012 þingsályktun nr. 43 um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014. Þar sagði meðal annars að framkvæmdaáætlunin tæki mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks auk annarra mannréttindasáttmála sem Ísland væri aðili að. Áætlunin myndaði ramma utan um stöðumat og frekari áætlanagerð í málefnum fatlaðra og þjónaði mikilvægu hlutverki í samvinnu ríkis og sveitarfélaga um framkvæmd og endurmat í þjónustu við fatlaða. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi skiptist framkvæmdaáætlunin í málefnasvið, þar á meðal um aðgengi, og um manngert umhverfi sagði að markmiðið væri að tryggja öllum jafnt aðgengi að því. Um framkvæmd sagði að í „hverju sveitarfélagi verði gerð úttekt á aðgengismálum hvað varðar aðgengi að opinberum byggingum, umferðarmannvirkjum og öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Í framhaldinu verði gerð áætlun um úrbætur ef við á ... Úttekt verði lokið fyrir árslok 2012 og áætlun liggi fyrir um úrbætur fyrir árslok 2013 ... Kostnaður: Innan ramma“. III Dómkröfur áfrýjenda lúta að því að fá stefndu á grundvelli þeirra réttarheimilda sem málsóknin er reist á dæmda til að ráðast í nánar tilgreindar framkvæmdir og úrbætur á húsnæði því sem um ræðir í málinu og sveitarfélagið nýtir til samfélagslegra verkefna. Eins og áður greinir hefur Ísland undirritað og fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en ekki leitt ákvæði hans í lög hér á landi. Þegar af þeirri ástæðu geta dómkröfur áfrýjenda í málinu ekki náð fram að ganga á grundvelli ákvæða þess samnings. Hins vegar er það viðurkennd regla að norrænum rétti að skýra skuli lög til samræmis við alþjóðasamninga sem ríki hefur staðfest eftir því sem unnt er, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 4. febrúar 1999 í máli nr. 177/1998 og 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000. Í hinum áfrýjaða dómi er ítarlega gerð grein fyrir framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 sem samþykkt var á Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011 til 2012 og markmiðum hennar. Þar er og gerð grein fyrir úttekt þeirri sem stefndi Reykjanesbær réðst í á árinu 2012 á grundvelli framkvæmdaáætlunarinnar, fjármagni því sem sveitarfélagið ráðstafaði á árunum 2014 og 2015 til aðgengismála og því fé sem sveitarfélagið áætlaði að ráðstafa á árinu 2016 til bæta aðgengi að stofnunum sínum. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi munu fjárveitingar til áætlunarinnar hafa verið minni en væntingar stóðu til og mun gildistími hennar hafa verið framlengdur meðan unnið er að gerð nýrrar áætlunar. Samkvæmt framansögðu fullnægði stefndi Reykjanesbær þeirri skyldu samkvæmt 34. gr. laga nr. 59/1992 að gera sér áætlun um endurbætur á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga og skipulagslaga sem og reglugerða settra á grundvelli þeirra. Þá hefur sveitarfélagið hrundið áætluninni í framkvæmd með þeirri ráðstöfun fjár til málaflokksins sem gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi og þeim breytingum á húsnæði í eigu sveitarfélagsins sem þegar hefur verið ráðist í. Kemur næst til úrlausnar hvort kröfur áfrýjenda um úrbætur á umræddu húsnæði geti náð fram að ganga á grundvelli annarra þeirra réttarheimilda sem áfrýjendur styðja kröfur sínar við. Sveitarfélögunum í landinu var eins og áður er rakið með lögum nr. 152/2010 falið að annast málefni fatlaðra en sá málaflokkur hafði áður verið viðfangsefni ríkisins. Sagði í 4. gr. laga nr. 59/1992 að sveitarfélög bæru ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögunum nema annað væri tekið fram eða leiddi af öðrum lögum. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar skulu sveitarfélög ráða málefnum sínum sjálf eftir því sem lög ákveða og samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skulu tekjustofnar sveitarfélaga ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir. Af ákvæðum 62. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 leiðir að sveitarfélögum er skylt að gera ráð fyrir útgjöldum sínum í árlegri fjárhagsáætlun. Sveitarfélög hafa samkvæmt ákvæðum 78. gr. stjórnarskrárinnar sjálfstjórn í þeim málum sem löggjafinn hefur falið þeim og þau fara sjálf með forræði  eigin tekjustofna. Þau ein eru samkvæmt stjórnarskrá og lögum bær til að taka ákvarðanir um þess háttar framkvæmdir og úrbætur sem dómkröfur áfrýjenda lúta að og hafa á grundvelli tekjustofna sinna svigrúm til að ákveða forgangsröðun innan þess ramma sem játa verður þeim við framkvæmd lögbundinna verkefna sem á þeim hvíla. Tilvísun 34. gr. laga nr. 59/1992 til ákvæða mannvirkjalaga, skipulagslaga sem og reglugerða settra samkvæmt þeim fær þeirri niðurstöðu ekki breytt. Þá geta þau ákvæði mannvirkjalaga, skipulagslaga og reglugerða, sem áfrýjendur vísa til dómkröfum sínum til stuðnings, ein sér og sjálfstætt ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að dómkröfur áfrýjenda á hendur stefndu verði teknar til greina. Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Eftir atvikum er rétt að hver málsaðila beri sinn kostnað af rekstri máls þessa fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjaness 24. nóvember 2016.                 Mál þetta var höfðað 19. nóvember 2015 og dómtekið 2. nóvember 2016. Stefnendur eru Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra, Sléttuvegi 3, Reykjavík, og Arnar Helgi Lárusson, Leirdal 1, Reykjanesbæ. Stefndu eru Reykjanesbær, Tjarnargötu 12, Reykjanesbæ, og Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf., Dvergshöfða 2, Reykjavík. Dómkröfur stefnenda eru í fyrsta lagi þær að stefnda Reykjanesbæ verði gert skylt: a) að koma fyrir lyftu fyrir hjólastóla milli hæða í Duushúsi við Duusgötu 2, 230 Reykjanesbæ, fastanúmer 208-7262, sem skal vera með hindrunarlaust innanmál að lágmarki 1,10 m x 2,10 m og burðargetu að lágmarki 1.000 kg, b) að jafna hæðarskil milli sala, Bátasalar og Gryfju, á 1. hæð Duushússins við Duusgötu 2, 230 Reykjanesbæ, fastanúmer 208-7262, með því að útbúa skábraut fyrir hjólastóla sem er ekki brattari en 1:20, minnst 0,9 m að breidd og án hindrana, og c) að breyta inngangi við inngangsdyr Upplýsingamiðstöðvar Reykjaness sem eru aðalinngangsdyr í Duushús við Duusgötu 2, 230 Reykjanesbæ, fastanúmer 208-7262, þannig að þröskuldur við útidyrnar verði ekki hærri en 25 mm og hæðarmunur milli svæðis framan við inngangsdyr og gólfs verði ekki meiri en 25 mm að meðtaldri hæð á þröskuldi. Allt að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 100.000 krónur til stefnenda sem falli á frá 25. desember 2015 hafi stefndi ekki orðið að öllu leyti við skyldum sínum fyrir þann tíma. Í öðru lagi krefjast stefnendur þess að báðum stefndu verði sameiginlega gert skylt: a) að koma fyrir lyftu fyrir hjólastóla milli hæða í 88 Húsinu við Hafnargötu 88, 230 Reykjanesbæ, fastanúmer 208-8165, sem skal vera með hindrunarlaust innanmál að lágmarki 1,10 x 1,40 m, burðargetu að lágmarki 630 kg og breidd dyra að lágmarki 0,80 m, b) að jafna hæðarmun milli sala félagsmiðstöðvarinnar og menningar­miðstöðvarinnar, matshlutar 01 0101 og 01 0102, í 88 Húsinu við Hafnargötu 88, 230 Reykjanesbæ, fastanúmer 208-8165, með því að koma fyrir skábraut fyrir hjólastóla, sem ekki skuli vera brattari en 1:20 eða með lyftu fyrir hjólastóla sem skal vera með hindrunarlaust innanmál að lágmarki 1,10 x 1,40 m, burðargetu að lágmarki 630 kg og breidd dyra að lágmarki 0,80 m, c) að útbúa skábraut fyrir hjólastóla frá bílaplani inn í 88 Húsið við Hafnargötu 88, 230 Reykjanesbæ, fastanúmer 208-8165, sem er ekki brattari en 1:20, og d) að útbúa bílastæði sérmerkt fötluðu fólki sem næst inngangi 88 Hússins við Hafnargötu 88, 230 Reykjanesbæ, fastanúmer 208-8165, og eigi fjær inngangi hússins en 25 metrar. Allt að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 100.000 krónur til stefnenda sem falli á frá 25. desember 2015 hafi stefndu ekki orðið að öllu leyti við skyldum sínum fyrir þann tíma. Í þriðja lagi krefst stefnandi Arnar Helgi þess að stefndu verði gert að greiða honum 1.000.000 króna, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. desember 2015 til greiðsludags.  Í fjórða lagi krefjast stefnendur þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða stefnendum málskostnað. Báðir stefndu gerðu aðallega kröfu um að öllum kröfum stefnenda á hendur þeim yrði vísað frá dómi, en til vara að stefndu yrðu sýknaðir af kröfum stefnenda. Í báðum tilvikum gera stefndu kröfu um málskostnað. Með úrskurði dómara 10. maí 2016 var frávísunarkröfu stefndu hafnað. I. Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra voru stofnuð 27. september 1981. Félagsmaður getur hver orðið sem hefur hlotið varanlegan mænuskaða. Samkvæmt samþykktum félagsins er markmið þess að efla samhjálp mænuskaddaðra, vinna að auknum réttindum þeirra og bættri aðstöðu í þjóðfélaginu. Í félaginu munu vera um 300 einstaklingar. Stefnandi Arnar Helgi er búsettur í Reykjanesbæ, ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum. Hann lenti í mótorhjólaslysi í september árið 2002 og hlaut við það mænuskaða, með þeim afleiðingum að hann er alveg lamaður fyrir neðan brjóst og hefur verið bundinn við hjólastól eftir það. Sem íbúi í Reykjanesbæ vill hann taka þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi bæjarins, auk þess að sækja opna menningarviðburði, hvort sem er á eigin vegum eða til þess að fylgja börnum sínum eftir. Hann telur að lélegt aðgengi fyrir fatlaða í bænum valdi því að hann geti ekki tekið þátt í slíku starfi nema að mjög takmörkuðu leyti. Hið sama gildi um aðra hreyfihamlaða og fatlaða einstaklinga. Nánar tiltekið geti hann ekki sótt opna viðburði í lista- og menningarmiðstöð bæjarins í Duushúsi, þar sem aðgengi sé hamlað bæði inn í húsið og innan þess. Þá geti hann ekki nýtt sér þá þjónustu sem sé í boði í 88 Húsinu, félags- og menningarmiðstöð fyrir ungmenni, né fylgt börnum sínum þangað, t.d. þegar haldin séu þar barnaafmæli, þar sem aðgengi sé hamlað bæði inn í húsið og innan þess. Duushús er í eigu stefnda Reykjanesbæjar en 88 Húsið er í eigu stefnda Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf. Stefndi Reykjanesbær leigir af félaginu síðarnefndu fasteignina. Undir rekstri málsins var að beiðni stefnenda dómkvaddur matsmaður, Bæring Sæmundsson matstæknir, til að framkvæma ýmsar mælingar í umræddum húsum. Verður vísað síðar til matsgerðarinnar eftir því sem ástæða er til. II. Stefnendur telja að stefndi Reykjanesbær hafi brotið gegn þeirri athafnaskyldu sem hvíli á sveitarfélaginu til að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu þess. Stefnendur telja að stefnda sé skylt að bæta úr þannig að byggingarnar verði aðgengilegar fyrir fatlað fólk til jafns við aðra. Þá beri stefndi Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf. einnig ábyrgð sem eigandi 88 Hússins. Stefnendur byggja á því að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki beri sveitarstjórn ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna. Byggingarfulltrúar annist eftirlit með mannvirkjagerð innan sveitarfélagsins, sbr. 1. og 2. mgr. 9. gr. laganna. Byggingarfulltrúi fari yfir byggingarleyfisumsókn og gangi úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli viðkomandi ákvæði laga og reglugerða og gefi út byggingarleyfi til framkvæmda, samkvæmt 10. og 11. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna beri eigandi ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laganna og reglugerða sem settar séu á grundvelli þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. hafi útgefandi byggingarleyfis eftirlit með því að hönnun mannvirkis sé í samræmi við ákvæði laganna og reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim og að byggt sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög og reglugerðir sem um mannvirkjagerðina gildi. Stefndi Reykjanesbær sé eigandi Duushúss ásamt því að fara með eftirlit og vera útgefandi byggingarleyfis beggja mannvirkjanna sem mál þetta lýtur að. Stefndi Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf. sé eigandi 88 Hússins en leigi það til stefnda Reykjanesbæjar sem rekur starfsemi á vegum sveitarfélagsins í húsinu. Stefnendur telja að það leiði af ákvæðum stjórnarskrár, settra laga og byggingarreglugerða að eigandi byggingar skuli tryggja aðgengi fatlaðra og hreyfihamlaðra inn í bygginguna sem og innan hennar, sér í lagi þegar um sé að ræða byggingu sem ætluð sé öllum almenningi. Hið sama verði ráðið af alþjóðlegum sáttmálum á þessu sviði. Stefnendur vísa til þess að samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar skuli allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skuli öllum, sem þess þurfa, tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í framangreindum ákvæðum felist m.a. að fatlað fólk skuli eiga raunhæfan rétt, til jafns við annað ófatlað fólk, til aðgengis að opinberum byggingum. Þetta sé mikilvægt til þess að fatlað fólk geti tekið þátt í menningu og félagslífi til jafns við aðra. Ísland hafi undirritað Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þann 30. mars 2007, og hafi Ísland fullgilt samninginn. Markmið samningsins sé að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns á við aðra. Samkvæmt 9. gr. samningsins skuli aðildarríki gera viðeigandi ráðstafanir sem miði að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem veitt sé almenningi. Þessar ráðstafanir skuli m.a. felast í því að útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi að byggingum og annarri aðstöðu innan dyra sem utan. Samkvæmt 19. gr. samningsins viðurkenni aðildarríkin jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu með sömu valkosti og aðrir. Gera skuli árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að greiða fyrir þessum rétti fatlaðs fólks til þess að það geti tekið fullan þátt í samfélaginu án aðgreiningar. Meðal annars skuli tryggja að þjónusta á vegum samfélagsins og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra og mæti þörfum þeirra, sbr. c-lið 19. gr. samningsins. Samkvæmt 30. gr. samningsins skuli aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að taka til jafns við aðra þátt í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi, m.a. með því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að stöðum þar sem slík starfsemi fer fram. Þá vísa stefnendur til laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, en markmið laganna sé að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Við framkvæmd laganna skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafi gengist undir, m.a. samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.  Samkvæmt 7. gr. laganna skuli fatlað fólk eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt 34. gr. laganna skuli sveitarfélög sinna ferlimálum fatlaðs fólks með skipulögðum hætti, m.a. með gerð á landi innan landhelginnar og efnahagslögsögunnar. erða settra atvika. ptember 1981 af nokkrum einstaklingum sem höfðu orðið fyrætlana um endurbætur á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga og skipulagslaga sem og reglugerða settra á grundvelli þeirra. Jafnframt vísa stefnendur til laga um mannvirki nr. 160/2010 og skipulagslaga nr. 123/2010, en þau gildi um öll mannvirki sem reist séu á Íslandi, sbr. 2. gr. laganna. Eitt af meginmarkmiðum laganna sé að tryggja aðgengi fyrir alla, sbr. e-lið 1. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 2. tölulið 3. gr. sé með „aðgengi fyrir alla“ átt við að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda, og það geti með öruggum hætti komist inn í og út úr mannvirkjum. Jafnframt skuli sjónarmið algildrar hönnunar höfð að leiðarljósi við hönnun bygginga og umhverfis þeirra, en samkvæmt 3. tölulið 3. gr. sé með „algildri hönnun“ átt við hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu sem allir geti nýtt sér, að því marki sem aðstæður leyfa, án þess að koma þurfi til sérstök útfærsla eða hönnun. Algild hönnun útiloki þó ekki hjálpartæki, sé þeirra þörf. Í athugasemdum með 1. gr. í frumvarpi til mannvirkjalaga segi um aðgengi: „Að lokum er tekið í e-lið upp það mikilvæga markmið að stuðlað sé að aðgengi fyrir alla. Á það ekki síst við um setningu ákvæða reglugerðar þar sem settar eru kröfur um gerð og frágang mannvirkja og mögulegt að setja þar kröfur um útbúnað og frágang mannvirkja í því skyni að allir hafi aðgang. Með aðgengi er átt við að fólk sem á við fötlun eða veikindi að stríða geti með öruggum hætti komist inn og út úr mannvirkjum jafnvel við óvenjulegar aðstæður, t.d. í bruna, en jafnframt að við hönnun og útfærslu mannvirkja séu hafðar í huga mismunandi þarfir og geta fólks með tilliti til sjónar og heyrnar, [...]. Í þessu sambandi má m.a. nefna að 30. mars 2007 undirritaði Ísland samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem og valfrjálsa bókun við samninginn. Í samningnum er sérstaklega kveðið á um aðgengi.“ Eigandi mannvirkis beri ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkisins sé farið að kröfum laganna um aðgengi, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna. Eigandi skuli hafa virkt innra eftirlit með því að þeir sem hann ræður til að hanna, byggja og reka mannvirkið fari eftir ákvæðum laganna og reglugerða sem settar séu á grundvelli þeirra, sbr. 2. mgr. 15. gr. Eigandi beri einnig ábyrgð á því að fram fari lögboðið eftirlit með byggingu mannvirkis í samræmi við ákvæði laganna, sbr. 3. mgr. 15. gr. Skipulagslög hafi að geyma sams konar markmið um aðgengi fatlaðra og sams konar skilgreiningar, sbr. e-lið 1. gr. og 2. og 3. tölulið 2. gr. laganna. Stefnendur kveða að allt frá árinu 1979 hafi verið ákvæði í byggingarreglugerð um að tryggja skuli aðgengi fyrir hreyfihamlað fólk og fólk í hjólastólum að opinberum byggingum, sbr. reglugerð nr. 292/1979. Slík ákvæði hafi síðan verið til staðar allt frá þeim tíma, nánar tiltekið í reglugerðum nr. 177/1992, nr. 441/1998 og núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012. Reglugerð nr. 441/1998 gildi um 88 Húsið og reglugerð nr. 112/2012 gildi um Duushúsið xx. r ﷽﷽﷽um sem höfðu orðið fyrsh1/1998 um 88 Hnyrir hreyfihamlað f fgr. er með algildri hönnun nstaklingum sem höfðu orðið fyr/Bryggjuhúsið. Báðar þessar reglugerðir kveði skýrlega á um að tryggja skuli aðgang fyrir hreyfihamlaða í hjólastól og aðra fatlaða einstaklinga inn í og innan bygginga sem almenningur hafi aðgang að, sbr. einkum 10. kafla í reglugerð nr. 441/1998 og 6. hluta, kafla 6.1, í reglugerð nr. 112/2012. Báðar reglugerðir gangi út frá því að eigandi mannvirkis beri ábyrgð á því að farið sé að ákvæðum þeirra. Stefnendur telja ljóst samkvæmt öllu framangreindu að eigandi byggingar beri ábyrgð á því að fatlað fólk eigi greiðan aðgang inn í bygginguna og innan hennar. Sú skylda sé sérstaklega rík þegar um sé að ræða byggingu sem ætluð sé öllum almenningi, líkt og umræddar byggingar. Nánar varðandi kröfu stefnenda er lýtur að Duushúsi, og er eingöngu beint að stefnda Reykjanesbæ, segja stefnendur að húsið hafi verið tekið í notkun sem hluti af lista- og menningarmiðstöð stefnda Reykjanesbæjar árið 2014 eftir umfangsmiklar endurbætur. Það hýsi m.a. aðalsýningarsal byggðasafns stefnda sem sé opið allt árið um kring fyrir almenning. Reglugerð nr. 112/2012 gildi um Duushúsið, sbr. gr. 6.1.5, en þar segi að við breytta notkun þegar byggðra mannvirkja, sem almenningur hafi aðgang að, skuli tryggja aðgengi í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar eftir því sem unnt sé. Stefnendur telja ljóst að það hafi ekki verið gert í tilfelli Duushússins, þrátt fyrir að það sé unnt. Duushúsið sé alls þrjár hæðir og aðalsýningarsalur byggðasafns stefnda sé á 2. hæð hússins. Hins vegar sé engin lyfta upp á 2. og 3. hæð hússins, hvorki hefðbundin fólkslyfta né annars konar lyfta fyrir fólk í hjólastól. Samkvæmt 4. tölul. í gr. 6.4.12 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skuli að lágmarki vera ein lyfta í öllum byggingum sem sé tvær eða fleiri hæðir og hýsa opinbera starfsemi og starfsemi sem almenningur hefur aðgang að. Burðargeta lyftu skuli vera að lágmarki 1.000 kg og með hindrunarlaust innanmál minnst 1,10 m x 2,10 m, sbr. 7. tölul. ákvæðisins. Hið sama gildi um byggingar sem séu þrjár hæðir eða hærri, sbr. 5. tölul. Greið leið skuli vera að lyftum og þær skuli þannig hannaðar og frágengnar að þær henti til notkunar fyrir alla, þ. á m. gönguskerta og hjólastólanotendur, sbr. 3. tölul. 6.4.12 gr. og 6.1.2 gr. Þegar um sé að ræða áður byggt húsnæði, þar sem erfitt sé að koma fyrir hefðbundinni stokkalyftu, sé heimilt að leysa aðgengi milli hæða með hjólastólapallslyftu, stigalyftu fyrir hjólastól eða sætislyftu sem komið sé fyrir í stiga, sbr. 2. tölul. gr. 6.4.12. Þá skuli þær þannig gerðar að notandi geti nýtt sér búnaðinn án aðstoðar. Umfang flatarins (virka svæðisins) á hjólastólapallslyftu skuli vera minnst 0,90 x 1,40 m og á stigalyftu fyrir hjólastól skuli það vera minnst 0,80 x 1,20 m. Þess beri þó að geta að í Duushúsi sé þegar gert ráð fyrir lyftu enda sé búið að koma fyrir lyftustokki.  Það sé því ljóst að skortur á lyftu upp á 2. og 3. hæð Duushússins sé skýrt brot á framangreindum ákvæðum byggingarreglugerðarinnar. Þá sé skortur á lyftu jafnframt brot á þeim réttarheimildum sem raktar eru að framan og tryggja eiga aðgang fatlaðra inn í og innan bygginga sem almenningur hefur aðgang að. Þá halda stefnendur því fram að skábraut á 1. hæð/jarðhæð sé of brött. Á 1. hæð/jarðhæð Duushússins, þar sem gert sé ráð fyrir gestastofu, sé skábraut fyrir hjólastóla sem sé 4,27 metrar að lengd. Brattinn á skábrautinni sé minnstur 13,5% en mestur um 14%. Samkvæmt gr. 6.4.11 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skuli skábrautir hannaðar þannig að þær séu þægilegar í notkun og öruggar. Þær skuli að jafnaði ekki vera brattari en 1:20 (5%). Ef umferðarleið er styttri en 3 metrar, sem eigi þó ekki við hér, sé heimilt að halli sé mest 1:12 (8,3%). Samkvæmt leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar með ákvæðinu skuli forðast eins og unnt er að hafa skábrautir brattari en 1:20 (5%) á leiðum undir 3 metrar að lengd, og sé það ekki unnt þá skuli hallinn í öllu falli ekki vera meiri en 1:12 (8,3%). Það sé því ljóst að 8,3% sé hámarkshalli skábrautar. Þannig sé skábrautin allt of brött og brjóti gegn framangreindu ákvæði reglugerðarinnar, auk þeirra réttarheimilda sem raktar séu að framan og tryggja eiga aðgang fatlaðra inn í og innan bygginga sem almenningur hafi aðgang að. Nægjanlegt rými sé til þess að lengja brautina og minnka halla hennar. Einnig telja stefnendur að þröskuldar í útidyrum séu of háir. Við inngangsdyr í Duushúsið sé hæð upp á þröskuld að utanverðu 366 mm og engin skábraut sé til að auðvelda aðgengi fólks í hjólastól. Samkvæmt d-lið í gr. 6.4.2 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skuli þröskuldur við inngangsdyr/útidyr ekki vera hærri en 25 mm. Hæðarmunur milli svæðis framan við inngangsdyr/útidyr og gólfs skuli ekki vera meiri en 25 mm, að meðtalinni hæð á þröskuldi. Gólf svala og veranda megi mest vera 100 mm lægra en gólf byggingar, að þröskuldi meðtöldum, að því tilskildu að skábraut sé komið fyrir að utanverðu upp að þröskuldi, skv. d-lið gr. 6.4.2 í reglugerðinni. Samkvæmt leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar með ákvæðinu geti verið erfitt að vera innan hámarkshæðar þegar um sé að ræða svala- og útgangsdyr. Í slíkum tilfellum sé heimilt að leysa þetta með því að leggja eins konar rennu meðfram sökklinum og brúa yfir hana með hallandi riffluðum stálplötum, rist eða öðru þess háttar, að hámarki 300 mm langri, þar sem halli sé að hámarki 1:8 (12,5%). Það sé því ljóst að þröskuldurinn við inngangsdyr í Duushúsið fari langt yfir hámarkshæð og brjóti gegn umræddu ákvæði reglugerðarinnar, auk þeirra réttarheimilda sem raktar eru að framan. Þá byggja stefnendur á því að engin undanþága hafi verið veitt frá kröfum reglugerðar nr. 112/2012. Samkvæmt 3. mgr. gr. 6.1.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skuli taka sérstakt tillit til mannvirkja sem falli undir ákvæði laga um menningarminjar, þ.e. leyfisveitandi geti heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar ef það er sérstökum erfiðleikum bundið að uppfylla ákvæðin án þess að breyta að verulegu leyti megingerð, útliti eða öðrum sérkennum mannvirkis sem vert er að varðveita. Ef um slíkt sé að ræða skuli hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum 6. hluta sé óskað eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki sé unnt að uppfylla ákvæðin og hvort unnt sé með öðrum hætti að tryggja aðgengi að mannvirkinu þannig að markmið 6. hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Engin slík undanþága hafi verið veitt við endurbætur á Duushúsinu, enda hafi engri greinargerð verið skilað inn með beiðni um slíka undanþágu eða rökstuðningi um ástæður þess að ekki væri unnt að uppfylla ákvæði 6. hluta. Enda sé það svo að í öllum framangreindum tilvikum sé um að ræða kröfur sem unnt sé að uppfylla með auðveldu móti og án þess að slíkt breyti megingerð, útliti eða sérkennum hússins að nokkru leyti. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir öðru. Hvað varðar kröfur stefnenda vegna 88 Hússins, sem er beint að báðum stefndu sameiginlega, segja stefnendur að húsið hafi verið tekið í notkun sem félags- og menningarmiðstöð árið 2004, en hafi áður gegnt hlutverki sem vélsmiðja og bílasala. Byggingarreglugerð nr. 441/1998 gildi um húsið, enda hafi verið sótt um leyfi fyrir breytta notkun þess í gildistíð hennar, sbr. gr. 2.2. Reglugerðin geri ráð fyrir því að tryggður sé aðgangur fyrir alla inn í og innan bygginga, þ.m.t. hreyfihamlaða í hjólastól, sbr. t.d. gr. 199.1. Stefnendur telja ljóst að þetta skilyrði sé ekki uppfyllt í tilfelli 88 Hússins. 88 Húsið sé kjallari og tvær hæðir og m.a. sé snyrting fyrir fatlaða á 2. hæð hússins (þ.e. efstu hæð). Hins vegar sé engin lyfta upp á 2. hæð hússins eða niður í kjallara, hvorki hefðbundin stokkalyfta né annars konar lyfta fyrir fólk í hjólastól. Samkvæmt gr. 201.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skuli vera lyfta í öllum byggingum sem séu 2 hæðir eða meira og hýsa opinbera starfsemi. Lyfta skuli vera a.m.k. 1,10 x 1,40 m að innanmáli, burðargeta skuli vera 630 kg og breidd dyra a.m.k. 0,80 m. Samkvæmt gr. 201.7 í reglugerðinni skuli lyftur í opinberum byggingum og byggingum ætluðum almenningi hannaðar þannig að a.m.k. ein þeirra henti hreyfihömluðu fólki í hjólastól. Þá skuli við hönnun á lyftum og lyftuhúsum gætt rýmisþarfa hreyfihamlaðra, sbr. gr. 201.8 í reglugerðinni.  Það sé því ljóst að skortur á lyftu í 88 Húsinu sé skýrt brot á framangreindum ákvæðum byggingarreglugerðarinnar, auk þeirra réttarheimilda sem raktar eru að framan og tryggja eiga aðgang fatlaðra inn í og innan bygginga sem almenningur hefur aðgang að.  Þá segja stefnendur að hvorki lyfta né skábraut sé milli álma. Fimm brattar tröppur séu á milli tveggja sala í 88 Húsinu, þ.e. milli þeirra hluta hússins sem hýsi annars vegar Menningarmiðstöð ungs fólks í Reykjanesbæ og hins vegar Félagsmiðstöð Fjörheima. Þessi hæðarmunur sé hvorki jafnaður með skábraut né viðeigandi lyftubúnaði og fólk í hjólastól komist því ekki þarna á milli. Samkvæmt gr. 200.2  í reglugerð nr. 441/1998 skuli jafna hæðarmun á göngum, allt að 0,35 m, með skábraut, en hæðarmun sem fari yfir 0,35 m skuli jafna með skábraut eða lyftubúnaði. Hæðarmunurinn í tröppunum sem hér um ræðir sé meiri en 0,35 m. Um lyftur gildi sömu kröfur og raktar eru hér að framan, sbr. 201. gr. Skábrautir fyrir umferð í hjólastól skuli uppfylla kröfur 203. gr. en þar komi fram að þær skuli að jafnaði ekki vera brattari en 1:20 (5%). Það sé því ljóst að skortur á hvoru tveggja skábraut og lyftu til að jafna hæðarmun milli álma í 88 Húsinu sé skýrt brot á framangreindum ákvæðum byggingarreglugerðarinnar, auk annarra réttarheimilda sem raktar eru að framan. Þá byggja stefnendur á því að skábraut úti sé of brött og of hátt upp á hana frá bílaplani. Skábrautin sé 8,81 m og minnst 10,1% brött en mest 12,1%. Samkvæmt gr. 199.2  í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skuli umferðarleiðir í byggingum sem almenningur hefur aðgang að þannig gerðar að hreyfihamlaðir í hjólastól geti notað þær. Samkvæmt gr. 199.3 skuli jafna hæðarmismun út á þægilegan hátt og samkvæmt gr. 199.4 skuli aðkoman að byggingum ætluðum almenningi vera þannig að unnt sé fyrir fólk í hjólastól að komast þar inn og út hjálparlaust. Samkvæmt gr. 203.1 í reglugerðinni skuli skábrautir fyrir hjólastóla að jafnaði ekki vera brattari en 1:20. Stefnendur telja því ljóst að skábrautin sé allt of brött. Þá sé einnig of hátt upp á skábrautina frá bílaplaninu, þannig að fólk í hjólastól komist ekki upp á hana hjálparlaust, líkt og það eigi rétt til. Að lokum kveða stefnendur að ekkert sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða og hreyfihamlaða sé næst inngangi að 88 Húsinu. Samkvæmt gr. 64.5-64.7 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skuli vera að lágmarki eitt bílastæði sérstaklega merkt og gert fyrir hreyfihamlaða við opinberar byggingar, samkomuhús, félagsheimili, og önnur sambærileg hús. Samkvæmt gr. 64.11 í reglugerðinni skuli bílastæði sérmerkt fötluðu fólki vera sem næst inngangi. Samkvæmt leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar séu orðin „sem næst“ túlkuð þannig að bílastæði séu ekki fjær en að hámarki 25 metra frá inngangi. Það sé því ljóst að skortur á bílastæði sérmerktu fötluðum sem næst inngangi 88 Hússins sé skýrt brot á framangreindum ákvæðum, auk þeirra réttarheimilda sem raktar eru að framan og tryggja eiga aðgang fatlaðra inn í byggingar sem almenningur hefur aðgang að. Stefnendur telja samkvæmt framangreindu að aðbúnaði og aðgengismálum fasteignanna tveggja sé verulega ábótavant. Stefnendur geri því kröfu um að stefndu breyti fasteignunum og bæti úr framangreindum vanköntum þannig að fasteignirnar uppfylli viðeigandi kröfur laga og reglna um aðgengi fatlaðs fólks. Stefndu sé skylt að bæta úr framangreindum vanköntum enda beri þeir, sem eigendur og umráðamenn, ábyrgð á því að bæta úr því sem áfátt er, skv. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Krafa stefnenda um dagsektir eigi stoð í 4. mgr. 114. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga um mannvirki. Verði stefndu ekki við skyldum sínum til úrbóta sé þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða dagsektir frá og með mánuði eftir þingfestingu, 25. desember 2015, en það sé hæfilegur tími til þess að koma aðgengismálum í lögmætt horf. Upphæð dagsektanna sé hófleg og sanngjörn í ljósi þess að fasteignirnar séu notaðar í þágu almennings, stefndu sé hægt um vik að bæta úr og þeim hafi margoft verið bent á framangreinda vankanta. Upphæðin sé vel innan þeirra marka sem 2. mgr. 56. gr. laga um mannvirki geri ráð fyrir. Rétt sé að dagsektir renni til stefnenda samkvæmt meginreglu laga um meðferð einkamála enda séu þær hvorki lagðar á af byggingarfulltrúa né Mannvirkjastofnun. Auk þess væri óeðlilegt ef þær rynnu til annars stefnda. Verði ekki unnt að fallast á kröfur stefnenda um skyldu til úrbóta benda stefnendur á að í kröfunum felist allar kröfur sem ganga skemur. Meðal þeirra sé krafa um að viðurkennt verði að aðgengi að framangreindum byggingum sé ófullnægjandi og ólögmætt enda sé núverandi ástand þeirra ekki í samræmi við lög um mannvirki ásamt viðkomandi byggingarreglugerðum. Auk krafna um úrbætur gerir stefnandi Arnar Helgi kröfu um að stefndu verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð 1.000.000 kr., auk dráttarvaxta frá 25. desember 2015 en þá hafi verið liðinn mánuður frá þingfestingu málsins. Miskinn felst í því að stefnandi Arnar Helgi hafi ekki átt kost á því að sækja menningarviðburði og félagslíf í húsum á vegum stefnda Reykjanesbæjar. Stefnandi Arnar Helgi greiði skatta og gjöld eftir sömu reglum og aðrir íbúar sveitarfélagsins og eigi auk þess rétt á jöfnu aðgengi að byggingum, félagslífi, menningu og öðru því sem sveitarfélagið bjóði almennt upp á. Þá séu börn hans tíðir gestir í 88 Húsinu en stefnandi Arnar Helgi hafi ekki getað fylgt þeim þangað eins og aðrir foreldrar. Miskabótakrafan eigi stoð í b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 enda felist í framangreindu ólögmæt meingerð gegn stefnanda Arnari Helga. Ferðafrelsi hans sé skert og einnig sé brotið gegn friðhelgi einkalífs hans og fjölskyldu. Þá felist í öllu framangreindu ólögmæt meingerð gegn persónu stefnanda Arnars Helga. Um lagarök vísa stefnendur til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992, laga um mannvirki nr. 160/2010 og skipulagslaga nr. 123/2010. Að auki byggja stefnendur kröfur sínar á byggingarreglugerðum nr. 441/1998 og 112/2012. Loks byggja stefnendur kröfur sínar á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og mannréttindasáttmála Evrópu.  Krafa um dráttarvexti byggist á 9. gr., sbr. III. kafla, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dráttarvextir miðast við 1. mgr. 6. gr. laganna og upphafstími þeirra sé mánuður eftir þingfestingu málsins en þá hafi sannanlega verið lagðar fram þær upplýsingar sem þörf hafi verið á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Málskostnaðarkrafa stefnenda byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. III. Stefndu byggja báðir sýknukröfu sína á sömu málsástæðum. Byggt er á því að stefndi Reykjanesbær hafi í nokkur ár unnið skipulega að aðgengismálum, með það að leiðarljósi að bæta og auka aðgengi fatlaðs fólks að stofnunum og mannvirkjum sveitarfélagsins sérstaklega. Árið 2008 hafi verið gerð sérstök úttektarskýrsla á aðgengismálum fasteigna á Hafnargötu. Árið 2012 hafi stefndi Reykjanesbær gert samning við Gott aðgengi ehf. og í framhaldinu hafi verið sent bréf á allar stofnanir sveitarfélagsins, þar sem hver og ein stofnun hafi fengið sína úttektarskýrslu og leiðarvísi ásamt því sem kynnt hafi verið fyrirhugað verklag við að bæta úr þeim atriðum sem úttektir höfðu leitt í ljós að væri ábótavant. Framangreindar úttektir hafi verið unnar árin 2012 og 2013 og í framhaldi af þeim hafi verið gerð fjárhagsáætlun vegna kostnaðar við að bæta aðgengi fatlaðra að stofnunum stefnda Reykjanesbæjar. Á undanförnum árum hafi stefndi Reykjanesbær varið allverulegum fjárhæðum í endurbætur á aðgengi fyrir fatlaða. Árið 2014 hafi kostnaður stefnda vegna aðgengismála verið 24.000.000 kr. en árið 2015 hafi hann verið um 2.000.000 kr. Þá sé áætlað að um 10.000.000 kr. verði varið í úrbætur m.t.t. betra aðgengis að stofnunum sveitarfélagsins á árinu 2016. Á síðastliðnum tveimur árum hafi stefndi Reykjanesbær ráðist í framkvæmdir til að bæta aðgengi fatlaðra í og við grunn- og leikskóla, sund- og íþróttamannvirkjum, ráðhúsinu og umræddu Duus-húsi. Stefndi Reykjanesbær hafi eðlilega þurft að forgangsraða ráðstöfun fjármuna til aðgengismála og hafi mest áhersla verið lögð á að tryggja aðgengi að og inn í stofnanir. Til marks um það hversu skipulega stefndi Reykjanesbær vinni að bættu aðgengi vísa stefndu til yfirlits yfir kostnað framkvæmda, bæði þeirra sem lokið er og þeirra sem ólokið sé, sundurliðað eftir sviðum sveitarfélagsins. Árið 2014 hafi verið opnaður fyrir almenning sá hluti Duushúsanna sem nefnist Bryggjuhúsið. Bryggjuhúsið hafi verið byggt árið 1879. Aðgengi sé að mati stefnda Reykjanesbæjar gott norðanmegin í húsinu, þ.e. við Kaffi Duus. Þá hafi verið komið fyrir tveim hjólastólalyftum til að vinna á mishæðóttu gólfinu. Aðgengi í húsinu sé því að stórum hluta viðunandi. Endurbygging Duushúsa hafi staðið yfir í áföngum frá árinu 2000. Þegar sé lokið flestum fyrirhuguðum breytingum og séu framkvæmdir við Bryggjuhúsið síðasti áfanginn í endurbyggingu hússins. Mikilvægt sé að hafa í huga að framkvæmdum við Bryggjuhúsið sé ekki endanlega lokið og lokaúttekt byggingarfulltrúa á húsnæðinu hafi því ekki enn farið fram. Þannig sé t.d. gert ráð fyrir fólksflutningalyftu frá jarðhæð á þriðju hæð í húsinu í hönnunargögnum. Lyftustokkur sé nú kominn, en eftir eigi að koma fyrir lyftu, sem til standi að gera. Stefndi Reykjanesbær tekur fram varðandi Bryggjuhúsið sjálft að stefndi hafi tekið þá ákvörðun að fara ekki strax í að lyfta upp gangstéttinni við nýjan inngang í áðurnefnda gestastofu, þar sem það hefði töluverð áhrif á ásýnd hússins, sem sé orðið 136 ára gamalt. Að auki sé um áveðurshlið hússins að ræða og þegar flötur sé færður upp að klæðningu húsa geti það haft töluverð áhrif og jafnvel eyðilagt klæðningar. Félagsstarf í 88 Húsinu hafi hafist árið 2004 í gamalli vélsmiðju að Hafnargötu 88. Eins og gefi að skilja hafi lítið verið hugað að aðgengismálum í húsnæðinu áður en félagsstarf hófst, vegna eðlis húsnæðisins og þeirrar staðreyndar að það hafi verið byggt árið 1963. Frá árinu 2004 hafi breytingar verið gerðar á húsnæðinu í þeim tilgangi að bæta aðgengi fatlaðra að því, m.a. hafi hurðir verið breikkaðar, aðbúnaður fyrir fatlaða settur upp á salernum og skábraut sett upp við austurinngang. Stefndu byggja á því að á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XIII í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, sbr. lög nr. 152/2010, hafi Alþingi samþykkt þann 11. júní 2012 þingsályktun nr. 43/140 um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014. Ákveðið hafi verið að framlengja gildistíma þingsályktunarinnar meðan unnið væri að nýrri framkvæmdaáætlun, en vinna við nýja framkvæmdaáætlun sé nú hafin. Í áætluninni séu tilgreind 43 verkefni á átta málasviðum, þar af einu sem lúti að aðgengi. Í áætluninni segi m.a. að markmiðið sé að tryggja öllum jafnt aðgengi að manngerðu umhverfi. Um framkvæmd segi að í hverju sveitarfélagi verði gerð úttekt á aðgengismálum hvað varðar aðgengi að opinberum byggingum, umferðar­mannvirkjum og öðrum stöðum sem almenningur hafi aðgang að. Í framhaldinu verði gerð áætlun um úrbætur ef við á. Ábyrgðin sé hjá sveitarfélögunum og að úttekt verði lokið fyrir árslok 2012 og áætlun liggi fyrir um úrbætur fyrir árslok 2013. Um kostnað segi: „Innan ramma.“ Mælikvarði sé: „Hlutfall sveitarfélaga sem hafa lokið úttekt og gert áætlun.“ Stefndi Reykjanesbær hafi því á undanförnum árum unnið með markvissum og skipulegum hætti að endurbótum á aðgengi fatlaðs fólks að opinberum byggingum og þjónustustofnunum sveitarfélagsins. Sú vinna hafi að öllu leyti verið í samræmi við fyrirmæli 34. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks auk áðurnefndrar framkvæmdaáætlunar sem í gildi sé og Alþingi hafi samþykkt á grundvelli sömu laga. Á yfirstandandi löggjafarþingi hafi félags- og húsnæðismálaráðherra borist munnleg fyrirspurn um úttekt á aðgengi að opinberum byggingum. Í svari ráðherra (Þingskjal 441  —  215. mál) komi fram að ráðuneytið hafi í júlí 2015 auglýst eftir styrkumsóknum frá sveitarfélögum, þjónustusvæðum eða ferlinefndum til að gera úttektir á aðgengi að opinberum byggingum, umferðarmannvirkjum og öðrum stöðum sem almenningur hafi aðgang að. Hafi 16 sveitarfélög og þjónustusvæði sótt um styrk, þ. á m. stefndi Reykjanesbær. Hafi styrkumsóknir numið 30.700.000 kr. en einungis hafi 5.000.000 kr. verið varið í verkefnið. Stefndu telja að þeir hafi uppfyllt allar lagaskyldur sínar gagnvart stefnendum og að stefndi Reykjanesbær hafi á allan hátt hagað ákvörðunum sínum og gerðum gagnvart stefnendum með málefnalegum hætti. Þá telja stefndu að í heild skorti alfarið á að stefnendur hafi fært fram sannanir á þeim staðreyndum sem byggt er á í málinu af þeirra hálfu. Stefndu byggja á því að ákvæði e-liðar 1 mgr. 1. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og e-liðar 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, ásamt 34. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, feli í sér markmið sem stjórnvöldum beri að stefna að, en mæli ekki fyrir um þá skyldu að mannvirki, þ. á m. opinberar byggingar, fullnægi þegar í stað öllum ýtrustu kröfum og að aðgengi fyrir alla sé þegar tryggt með fullkomnum hætti. Framangreind lagaákvæði, og þá sérstaklega 34. gr. laga nr. 59/1992, geri beinlínis ráð fyrir því að aðgengi fatlaðs fólks að opinberum byggingum sé víða ábótavant. Því sé aðeins mælt fyrir um að sveitarfélög skuli vinna að endurbótum með skipulögðum hætti. Umrædd lagaákvæði geti því ekki verið grundvöllur kröfugerðar stefnenda. Framangreind umfjöllun um stöðu aðgengismála á landinu renni frekari stoðum undir það að enn megi bæta aðgengi í mörgum sveitarfélögum úti um allt land. Stefndi Reykjanesbær vinni eftir fremsta megni að úrbótum er varði aðgengi fatlaðs fólks að byggingum stofnana og fylgi í því tilliti öllum þeim opinberu viðmiðum sem í gildi séu. Stefndu telja ljóst að þegar sveitarfélögum sé gert skylt að gera og vinna eftir áætlunum um úrbætur, sé á sama tíma ekki hægt að gera kröfu um að aðgengi fyrir alla sé fullkomlega tryggt í öllum mannvirkjum þegar í stað. Forgangsröðun sveitarfélaga í þessum efnum sé óhjákvæmileg og um það hafi stefndi Reykjanesbær fullt svigrúm og ákvörðunarvald í samræmi við 78. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944. Jafnræðisreglur, þ.m.t. 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, breyti hér engu um og í stefnu málsins sé ekki leitast við að sýna fram á hvernig stefndu hafi mismunað stefnendum og sé ósannað að stefndu hafi á nokkurn hátt gert það. Málatilbúnaður stefnenda sé óljós hvað meint brot stefndu á framangreindum lagaákvæðum varðar. Stefndu telja með vísan til framangreinds að allar ráðstafanir hans í endurbótum á fasteignum hans hafi verið í samræmi við lagaskyldu hans og aðrar réttarreglur, þær hafi verið málefnalegar og að þær hafi ekki brotið gegn lögvörðum mannréttindum stefnenda.                 Um einstaka kröfuliði stefnenda varðandi Duushús segja stefndu, hvað varðar lyftu milli hæða í Bryggjuhúsi, að framkvæmdum við Bryggjuhúsið sé ekki endanlega lokið og lokaúttekt byggingarfulltrúa á húsnæðinu, samkvæmt kafla 3.9 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, hafi því ekki enn farið fram. Gert sé ráð fyrir fólksflutningalyftu frá jarðhæð á þriðju hæð í húsinu í hönnunargögnum, lyftustokki hafi þegar verið komið fyrir og ekki standi annað til en að koma lyftu endanlega fyrir á næstunni. Um hæðarskil milli sala á 1. hæð segir stefndi Reykjanesbær, þ.e. um fullyrðingu stefnenda um að skábraut sú sem þegar sé til staðar sé of brött, að samkvæmt ákvæði 6.4.11 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé meginreglan sú að skábrautir fyrir hjólastóla skuli hannaðar þannig að þær séu þægilegar í notkun og öruggar. Í greininni séu svo taldar upp viðmiðunarreglur í 13 töluliðum, þ. á m. varðandi halla/bratta skábrauta. Samkvæmt leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar með ákvæðinu sé meginreglan ófrávíkjanleg, en viðmiðunarreglurnar frávíkjanlegar ef sýnt er að skilyrði meginreglunnar sé fullnægt. Stefnendur byggi dómkröfu sína á frávíkjanlegum viðmiðunarreglum í gr. 6.4.11 í reglugerðinni. Í áðurnefndri áætlun stefnda Reykjanesbæjar um bætt aðgengi fyrir fatlað fólk sé síðan þegar að finna fyrirætlanir um það að koma fyrir hjólastólalyftu í stað umræddrar skábrautar. Slíkt sé í samræmi við þá stefnu stefnda að bæta aðgengismál jafnt og þétt eins og kostur er. Um hæð þröskulds við útidyr/inngang segir stefndi Reykjanesbær að aðgengi sé gott norðanmegin í húsinu að mati stefnda og þaðan sé unnt að komast í gegnum húsið. Varðandi umræddan inngang þá hafi verið tekin sú ákvörðun að lyfta ekki strax upp gangstéttinni þar sem það hefði töluverð áhrif á ásýnd hússins, en það sé orðið 136 ára gamalt. Að auki gæti slíkt skemmt klæðningu hússins. Í áætlun stefnda um bætt aðgengi sé einnig gert ráð fyrir því að þröskuldar á útihurðum verði lækkaðir eða hæðarjöfnun framkvæmd með öðrum hætti. Hvað varðar kröfuliði stefnenda varðandi 88 Húsið segja báðir stefndu að í áætlun stefnda um bætt aðgengi hafi 88 Húsið verið tekið út og metið hvaða framkvæmdir þurfi að ráðast í til að tryggja sem best aðgengi, auk kostnaðar við þær. Meðal þess sem sé í umræddri áætlun sé lyfta milli hæða. Einnig sé gert ráð fyrir að til komi hjólastólalyfta milli álmanna. Hvað varðar fullyrðingar stefnenda um að skábraut utandyra sé of brött segja stefndu að ákvæði 199.2, 199.3 og 199.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 mæli á almennan hátt fyrir um greiðar umferðarleiðir og aðkomu fyrir fólk í hjólastólum að byggingum ætluðum almenningi. Samkvæmt gr. 203.1 í reglugerðinni skuli svo skábrautir fyrir hjólastóla að jafnaði ekki vera brattari en 1:20. Stefndu vísa til þess að reglan um hámarksbratta skábrautar sé ekki fortakslaus samkvæmt gr. 203.1, sbr. orðalag ákvæðisins, þ.e. „að jafnaði ekki brattari en 1:20“. Samkvæmt úttekt á aðgengi m.t.t. fólks sem notar hjólastóla í 88 Húsinu sé umrædd skábraut ekki fyrirstaða í þurru veðri. Þá taka stefndu fram að í framangreindri áætlun sé gert ráð fyrir því að aðalinngangur 88 Hússins verði færður í lágbyggingu. Þá sé í framangreindri áætlun gert ráð fyrir sérmerktu bílastæði, sem næst inngangi 88 Hússins. Stefndu benda á, vegna tilvísunar stefnenda til 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, að ákvæðið kveði skýrt á um að það sé hlutverk byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar, opinberrar stofnunar, að meta hvort byggingum sé ábótavant samkvæmt ákvæðinu og þá eftir atvikum gera eiganda viðvart. Stefnendur hafi ekki sýnt fram á að þessir aðilar hafi gert neinar slíkar athugasemdir á grundvelli ákvæðisins vegna þeirra bygginga sem um ræðir í máli þessu. Með hliðsjón af framangreindu mótmæla stefndu því að stefnendum sé kleift að vísa til 1. mgr. 56. gr. laganna, dómkröfum sínum til stuðnings. Stefndu mótmæla eindregið kröfum stefnenda um greiðslu dagsekta til handa þeim frá 25. desember 2015, verði ekki brugðist við kröfum þeirra til athafna. Stefndu hafi fært fyrir því margvísleg rök að dómkröfur stefnenda um skyldu stefndu til athafna séu óréttmætar og að útilokað sé fyrir dómstóla að kveða á um slíka athafnaskyldu. Að auki byggja stefndu á því að stefnendur geti ekki byggt kröfu sína á 2. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, því að þar komi skýrt fram að eingöngu Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa sé heimilt að beita dagsektum samkvæmt lögunum. Dagsektir sem byggingarfulltrúi leggi á renni í sveitarsjóð en í ríkissjóð ef Mannvirkjastofnun leggi þær á. Stefnendur geti því ekki krafist dagsekta sem til þeirra sjálfra skuli renna, á grundvelli ákvæðisins. Stefndu telja að ekkert réttarsamband ríki milli stefndu og stefnanda Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra. Það sé því óeðlilegt að dagsektir vegna máls á borð við þetta myndu renna til samtakanna. Þá geti stefnandi Arnar Helgi ekki talist eiga sérstakra hagsmuna að gæta umfram aðra hjólastólanotendur sveitarfélagsins hvað umræddar byggingar varðar. Verði því einnig að telja óeðlilegt að mögulegar dagsektir í málinu myndu renna til hans. Loks telja stefndu kröfu stefnenda um fjárhæð dagsekta vera allt of háa og í engu samræmi við það hvernig mál þetta sé vaxið í heild sinni. Stefndu hafna kröfu stefnanda Arnars Helga um greiðslu miskabóta. Stefnandi hafi ekki á nokkurn hátt sýnt fram á að í meintu athafnaleysi stefndu hafi falist ólögmæt meingerð gegn honum. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að hið meinta athafnaleysi hafi verið gert af ásetningi eða verulegu gáleysi, líkt og b-liður 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 áskilji. Engin tæk sönnunargögn liggi að baki málsgrundvelli stefnanda, meintu tjóni hans og atburðum í málinu. Stefndu telja sig hafa fullnægt öllum sínum lagaskyldum og vinni stefndi Reykjanesbær að úrbótum á opinberum byggingum sveitarfélagsins m.t.t. aðgengismála á skipulegan hátt, í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 og önnur opinber viðmið. Verði því að telja útilokað að um ólögmæta meingerð gegn persónu stefnanda Arnars Helga sé að ræða. Stefndu telja enn fremur að fjárhæð miskabótakröfunnar sé allt of há og úr samhengi við meintan miska sem stefnandi Arnar Helgi kynni mögulega að hafa orðið fyrir vegna þess að aðgengi sé ekki fullkomið í og við umræddar byggingar. Loks mótmæla stefndu þeim fullyrðingum stefnenda að kröfur byggingarreglugerðar nr. 112/2012 gildi um Duushúsið/Bryggjuhúsið og að byggingarreglugerð nr. 441/1998 gildi, að sama skapi, um 88 Húsið. Báðar byggingar hafi verið reistar talsvert fyrir gildistöku framangreindra byggingarreglugerða. Jafnvel þó að verulegar endurbætur hafi farið fram á húsunum þá leiði það ekki sjálfkrafa til þess að ákvæði núgildandi byggingarreglugerðar eigi við um húsin. Þá geti reglugerðin aldrei átt við um húsin í heild sinni heldur taki þær aðeins til þeirra endurbóta sem ráðist er í hverju sinni. Um lagarök vísa stefndu til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992,  laga um mannvirki nr. 160/2010, skipulagslaga nr. 123/2010, sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá er byggt á byggingareglugerðum nr. 441/1998 og 112/2012. Málskostnaðarkrafa stefndu er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 130. gr. þeirra laga. Þá styðst krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1998 um virðisaukaskatt. IV.                 Í máli þessu gera stefnendur kröfu um tilteknar breytingar á tveimur fasteignum, þar sem þær uppfylli ekki kröfur laga og reglna um aðgengi fatlaðs fólks. Um er að ræða annars vegar Duushús sem er í eigu stefnda Reykjanesbæjar og hins vegar 88 Húsið sem er í eigu stefnda Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf., en stefndi Reykjanesbær leigir það af félaginu.                  Duushús er röð húsa, byggð á mismunandi tímum, hið elsta frá 1877 og hið yngsta frá 1970. Húsið var upphaflega byggt sem pakkhús og vörugeymsla en endurbætur voru gerðar á árunum 2008-2014, en þá var húsið opnað sem lista- og menningarmiðstöð Reykjanesbæjar. Ekki liggur fyrir í málinu í hverju endurbæturnar fólust eða hvort þær voru leyfisskyldar. Stefnendur gera í fyrsta lagi kröfu um að lyftu fyrir hjólastóla verði komið fyrir milli hæða í Duushúsi, í öðru lagi að komið verði fyrir skábraut fyrir hjólastóla sem sé ekki brattari en 1:20 og í þriðja lagi að inngangi verði breytt þannig að þröskuldur verði ekki hærri en 25 mm. 88 Húsið, sem er fasteign við Hafnargötu 88, var upphaflega byggt sem vélsmiðja, á árinu 1963, en var tekið í notkun sem félags- og menningarmiðstöð í janúar 2004, eftir endurbætur og breytingar. Ekki liggur fyrir í málinu hvaða endurbætur voru gerðar og hvort þær voru leyfisskyldar. Stefnendur gera í fyrsta lagi kröfu um að komið verði fyrir lyftu milli hæða, í öðru lagi að komið verði fyrir skábraut eða lyftu milli sala félagsmiðstöðvarinnar og menningar­miðstöðvarinnar, í þriðja lagi að útbúin verði skábraut frá bílaplani sem sé ekki brattari en 1:20 og í fjórða lagi að útbúið verði bílastæði sérmerkt fötluðu fólki.                 Eitt af markmiðum laga um mannvirki nr. 160/2010 er að tryggja aðgengi fyrir alla. Með aðgengi fyrir alla er í lögunum átt við að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti með öruggum hætti komist inn og út úr mannvirkjum. Jafnframt séu sjónarmið algildrar hönnunar höfð að leiðarljósi við hönnun bygginga og umhverfis þeirra. Með algildri hönnun er átt við hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu sem allir geta nýtt sér, að því marki sem aðstæður leyfa, án þess að koma þurfi til sérstök útfærsla eða hönnun. Algild hönnun útilokar ekki hjálpartæki fyrir fatlað fólk sé þeirra þörf. Í grein 6.1.1 í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 er sérstaklega kveðið á um að ávallt skuli „leitast við“ að beita algildri hönnun þannig að byggingar og lóðir þeirra séu aðgengilegar öllum án sérstakrar aðstoðar. Sérstakt ákvæði er í grein 6.1.5 um breytingar á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun. Samkvæmt 1. mgr. skal við breytta notkun þegar byggðra mannvirkja sem almenningur hefur aðgang að tryggja aðgengi í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Þá segir í 2. mgr. að við breytingu á mannvirki sem byggt er í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli „eftir því sem unnt er“ byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar.   Stefndi Reykjanesbær hefur á undanförnum árum unnið að því að tryggja aðgengi fyrir fatlaða að fasteignum sem almenningur hefur aðgang að. Ýmislegt hefur verið gert hvað varðar Duushús, m.a. með því að sérmerkja bílastæði, setja upp pallalyftur og skábraut úr timbri. Aðgengi er að mestu leyti gott en þarfnast úrbóta. Í fyrirliggjandi matsgerð kemur fram að halli á skábrautinni sé minnstur 13% og mestur 14,6% (u.þ.b. 1:7), en samkvæmt grein 6.4.11 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem stefnendur byggja á, skulu skábrautir „að jafnaði“ ekki vera brattari en 1:20 (5%). Skábrautin er því brattari en skábrautir eiga að jafnaði að vera en er ekki ónothæf. Rými fyrir neðan skábrautina er mjög gott og því ætti að vera unnt að lagfæra skábrautina með litlum tilkostnaði. Í matsgerðinni kemur einnig fram að þröskuldur við inngangsdyr sé 51 mm en 31 mm framan við dyrnar. Samkvæmt d-lið í grein 6.4.2 í byggingar­reglugerð nr. 112/2012 skal þröskuldur við inngangsdyr ekki vera hærri en 25 mm. Þröskuldurinn er því samkvæmt þessu of hár en er ekki fyrirstaða. Þetta virðist unnt að lagfæra með litlum tilkostnaði, án þess að það hafi áhrif á ásýnd hússins eða skemmi klæðningu. Hluti byggðasafnsins er ekki aðgengilegur fötluðu fólki þar sem ekki er lyfta upp á 2. hæð, eins og byggingarreglugerð nr. 112/2012 kveður á um. Lyftustokki hefur verið komið fyrir og er það á áætlun hjá stefnda Reykjanesbæ að setja lyftu þar, en kostnaður við það mun hlaupa á milljónum. Það sem gert hefur verið í 88 Húsinu varðandi aðgengi fyrir fatlað fólk er að koma fyrir skábraut frá bílaplani inn í húsið að framanverðu, en skábrautin er með mestan halla 13% (u.þ.b. 1:9) og er því of brött samkvæmt grein 199.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem stefnendur vísa til máli sínu til stuðnings. Gott rými er fyrir neðan skábrautina og því ætti að vera unnt að lagfæra skábrautina með litlum tilkostnaði. Ekki eru sérmerkt bílastæði fyrir fatlað fólk, eins og kveðið er á um í gr. 64.5-64.7 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Um er að ræða auðvelda og kostnaðarlitla framkvæmd. Eftir að mál þetta var höfðað hefur verið komið fyrir skábraut á austurhlið hússins og aðgengi í húsið þannig verið bætt. Hins vegar er enn ekki unnt að komast innanhúss á milli menningar­miðstöðvarinnar og félags­miðstöðvarinnar þar sem fara þarf um álmu þar sem eru fimm tröppur en þar er hvorki lyfta né skábraut, sbr. áskilnað í grein 200.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Þá er ekki lyfta upp á 2. hæð hússins, eins og gert er ráð fyrir samkvæmt grein 201.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, og er hæðin því ekki aðgengileg fötluðu fólki. Hægt er að koma fyrir lyftu í húsinu og er það á áætlun hjá stefnda Reykjanesbæ. Upplýst hefur verið að það sé til lyfta í húsið en kostnaður við að koma henni fyrir nemi um 13-14 milljónum króna. Við vettvangsgöngu kom fram að framtíð menningar- og félagsmiðstöðvarinnar væri óljós og að uppi væru hugmyndir um að færa starfsemina í skólana.      Samkvæmt 34. gr. laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992, sbr. lög nr. 152/2010, skulu sveitarfélög sinna ferlimálum fatlaðs fólks með skipulögðum hætti, m.a. með gerð áætlana um endurbætur á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga og skipulagslaga sem og reglugerða settra á grundvelli þeirra. Í bráðabirgðaákvæði XIII með lögunum var mælt fyrir um að ráðherra skyldi eigi síðar en 1. október 2011 leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Þar átti að setja fram stefnu í málefnum fatlaðs fólks, skýra forgangsröðun verkefna, markvissa aðgerðaráætlun og skilgreinda árangursmælikvarða. Á grundvelli framangreinds bráðabirgðaákvæðis var framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 samþykkt á Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011-2012. Málasvið áætlunarinnar eru átta og er eitt af þeim aðgengi. Framkvæmda­áætlunin tekur mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks auk annarra alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Velferðar­ráðuneytið hefur heildarumsjón með framkvæmd áætlunarinnar og einnig umsjón með tilteknum aðgerðum, en önnur ráðuneyti, þjónustusvæði, sveitarfélög og eftir atvikum aðrir aðilar bera ábyrgð á öðrum einstökum aðgerðum og leggja mat á þær í samræmi við mælikvarða sem tilgreindir eru innan hverrar aðgerðar. Í áætluninni segir um aðgengi að markmiðið sé að tryggja öllum jafnt aðgengi að manngerðu umhverfi. Um framkvæmd áætlunarinnar segir að í hverju sveitarfélagi verði gerð úttekt á aðgengismálum hvað varðar aðgengi að opinberum byggingum, umferðar­mann­virkjum og öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Í framhaldinu verði gerð áætlun um úrbætur ef við ætti. Ábyrgðin væri hjá sveitarfélögunum og að úttekt ætti að vera lokið fyrir árslok 2012 og áætlun að liggja fyrir um úrbætur fyrir árslok 2013. Um kostnað segir: „Innan ramma.“ Mælikvarði er: „Hlutfall sveitarfélaga sem hafa lokið úttekt og gert áætlun.“ Gildistími framkvæmdaáætlunarinnar mun hafa verið framlengdur meðan unnið er að nýrri áætlun, en fjárveitingar til hennar voru minni en væntingar stóðu til. Á grundvelli framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks fór stefndi Reykjanesbær á árinu 2012 í verkefnið: „Gott aðgengi.“ Úttekt var gerð á öllum stofnunum og kostnaðarmetin voru innkaup og framkvæmdir. Stefndi Reykjanesbær gerði fjárhagsáætlun og voru á árinu 2014 settar tæplega 24 milljónir króna í aðgengismál. Á árinu 2015 sótti stefndi Reykjanesbær um styrk sem velferðarráðuneytið auglýsti vegna framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks. Fram kemur í svari félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn á 145. löggjafarþingi 2015-2016, þingskjali 441 – 215. mál, um úttekt á aðgengi að opinberum byggingum, að 16 þjónustusvæði og sveitarfélög sóttu um styrk til úttekta, samtals 30.700.000 kr., þ. á m. stefndi Reykjanesbær, en velferðarráðuneytið varði aðeins 5 millj. kr. í verkefnið á árinu 2015. Stefndi Reykjanesbær setti um 2 millj. kr. í aðgengismál á árinu 2015 en áætlar að setja 10 millj. kr. í að bæta aðgengi að stofnunum á árinu 2016. Í samræmi við fjárhagsáætlun stefnda Reykjanesbæjar hefur verið bætt aðgengi fyrir fatlað fólk við byggingar sem almenningur hefur aðgang að, s.s. skóla og einnig við umræddar fasteignir, Duushús og 88 Húsið. Duushús er eins og áður segir byggt á löngu tímabili eða allt frá 1877 til 1970, löngu fyrir gildistöku núgildandi byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og 88 Húsið var byggt árið 1963, þ.e. fyrir byggingarreglugerð nr. 441/1998, en stefnendur vísa til þeirra kröfum sínum til stuðnings. Samkvæmt 2. mgr. í grein 6.1.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skal við breytingu á mannvirki sem byggt er í gildistíð eldri byggingarreglugerða „eftir því sem unnt er“ byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Byggingar­reglugerð nr. 441/1998 kvað ekki á um að mannvirkjum sem byggð voru fyrir gildistöku reglugerðarinnar bæri að breyta í samræmi við ákvæði hennar. Í dómaframkvæmd hefur verið litið svo á að almennt sé ekki unnt að gera ríkari kröfur til fasteigna en fyrirmæli voru um á þeim tíma sem fasteignin var byggð. Þá hefur verið litið svo á að dómstólar geti almennt ekki mælt fyrir um athafnaskyldu stjórnvalda, vegna valdmarka dómstóla og stjórnvalda, einkum þegar stjórnvöld hafa svigrúm til mats við ákvörðun. Samkvæmt 34. gr. laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992, sbr. lög nr. 152/2010, og framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks, hafa sveitarfélög ákveðið svigrúm við það verkefni að bæta aðgengi að opinberum byggingum og sveitarfélög þurfa að forgangsraða verkefnum þar sem fjárhagur setur þeim skorður. Að öllu þessu virtu, og eins og atvikum er hér háttað, verða stefndu sýknaðir af kröfum stefnenda.    Eftir atvikum þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu. Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari. D ó m s o r ð:                 Stefndu, Reykjanesbær og Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf., eru sýkn af kröfum stefnenda, Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra og Arnars Helga Lárussonar.                 Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 788/2017
Veiðiréttur Fasteign Jörð
Ágreiningur aðila laut að því hvort veiðiréttindi í Deildará og Ormarsá í Norðurþingi tilheyrðu jörðinni Brekku, sem var í eigu D og R, eða jörðinni Grasgeira í eigu H. Grasgeira hafði verið skipt út úr landi Brekku og búið hafði verið þar allt frá miðri 19. öld. Í dómi Hæstaréttar kom fram að Grasgeiri hefði verið leigður nánar tilgreindum ábúendum með byggingarbréfum árin 1874 og 1913 þar til eigninni hefði verið afsalað árið 1928. Í byggingarbréfunum hefði á ýmsum stöðum verið vísað til Grasgeira sem jarðar og þá hefðu lög nr. 1/1884 verið í gildi þegar byggingarbréfið frá 1913 hefði verið gefið út, en efni sínu samkvæmt hefðu lögin einungis tekið til jarða. Þá hefðu landamerkjum Grasgeira verið lýst í framangreindu byggingarbréfi frá 1913, sem og í kaupbréfi og afsali frá 1928. Þegar Grasgeira hefði verið afsalað árið 1928 hefði gilt sú meginregla samkvæmt 2. mgr. 121 gr. vatnalaga nr. 15/1923 að ekki hefði mátt skilja veiðirétt að nokkru leyti eða öllu við landareign nema um tiltekið árabil. Yrði því að leggja til grundvallar að Grasgeiri hefði verið jörð eða landareign með sjálfstæðum landamerkjum þegar árið 1874. Land að Deildará og Ormarsá átti við gildistöku vatnalaga undir Grasgeira og hefði því verið óheimilt samkvæmt 2. mgr. 121. gr. þeirra að gera þar breytingu á þegar afsal hefði verið gefið út fyrir þeirri jörð árið 1928. Var H því sýknaður af kröfu D og R.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Markús Sigurbjörnsson og Eyvindur G. Gunnarsson prófessor. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. desember 2017 og krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjenda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 18. janúar 2018. Þeir krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað sem þeir krefjast í héraði og fyrir Hæstarétti. I Samkvæmt gögnum málsins er aðaláfrýjandi eigandi jarðarinnar Grasgeira, en gagnáfrýjendur munu vera eigendur jarðarinnar Brekku. Jarðirnar, sem eru samliggjandi, eru báðar í Norðurþingi, áður Presthólahreppi. Í málinu er um það deilt hvorri jörðinni, Grasgeira eða Brekku, fylgi veiðiréttindi í Deildará og Ormarsá. Grasgeiri á land að ám þessum, en ekki Brekka. Af gögnum málsins verður ráðið að fyrst hafi verið búið í Grasgeira, sem varð til úr landi Brekku, um miðja 19. öld. Samkvæmt manntölum frá 1860, 1870 og 1920 voru hverju sinni til heimilis tíu manns í Grasgeira. Í bréfi hreppstjórans í Presthólahreppi til Norður- og austuramtsins 7. apríl 1870 sagði meðal annars að fyrir „hjérum bil 11 árum uppbyggði fátæklingurinn Pétur Magnússon nýbýli hjér í heiðinni,- á sjálfs sýns kostnað,- í svo nefndum Grasgeira, eptir leifi og ráði sjálfseignar bóndans Ingimundar Rafnssonar á Brekku“. Ingimundur hefði nú „byggt áðurnefnt nýbýli Grasgeira, - sem staðið hefur í eiði nærfellt tvö næstl. ár,- ábúandanum Kristjáni Sigurðssyni“. Þetta hefði Ingimundur gert án leyfis frá hreppnum sem hreppstjórinn teldi að hefði umráð yfir húsunum í Grasgeira. Væri farið fram á að komið yrði í veg fyrir að „áður nefndir menn Ingimundur Rafnsson og Kristján Sigurðsson, nái að uppi halda byggíngu á Grasgeira framvegis, gegn leifi og samþikki sveitarstjórnarinnar, sem og hlutaðeigandi landeiganda“, en í bréfinu var dregið í efa að Ingimundur ætti landið að réttu lagi. Auk þess yrðu bæði Ingimundur og Kristján látnir sæta hæfilegum sektum, svo framarlega sem að fallist yrði á að ábúðin í Grasgeira væri ekki annað en húsmennska. Í bréfinu kom jafnframt fram að Grasgeiri hefði ekkert hundraðatal og væri landið þar að nokkru leyti örmjó hrauntunga til austurs og vesturs og afréttarland hreppstjóra sjálfs og sveitunga á báðar síður. Skerti þetta ekki aðeins eignarréttindi og afnot ábýlisjarðar hreppstjóra, heldur væri og hreppstjóra og meirihluta sveitunga „og jafnvel hreppsfjélagsins yfir höfuð – til hins mesta ónæðis og skaðræðis, uppá allan Geldfjénað er vanalega gengur á sumrum umhverfis nýbýlið“ sem hreppstjóri þó ætlaði að „eigi hafi nema húsmennskuréttindi“. Í bréfi til sýslumanns 5. september 1870 kvaðst Ingimundur Rafnsson hafa, eftir beiðni fyrrverandi hreppstjóra, eftirlátið hreppnum umráð Grasgeira til að „láta þangað einhvern þurfamann hreppsins, sem ekki kæmist annars staðar niður“, með því skilyrði að geta sótt afgjaldið, tvær veturgamlar kindur, til hreppsins. Þau tvö ár sem síðan hefðu liðið hefði hreppurinn þurft „engan að láta í Grasgeirann“ sem hafi því farið í eyði. Þrátt fyrir það hefði hann átt heimtingu á afgjaldinu úr hreppsins hendi og það orðið að samkomulagi milli sín og þáverandi hreppstjóra að Ingimundur fengi í staðinn þá „4 húskofa sem þurfamaðurinn Pétur Magnússon ljet þar eftir og sem búið var að taka uppí skuld hans við hreppinn.“ Þá tók Ingimundur fram að sér væri ekki kunnugt um að á nokkurt býli eða lögbýli væri sett hundraðatal fyrr en við jarðamat, enda breyttust þá að líkindum dýrleikar á aðalbýlinu. Þá kvað Ingimundur það alveg ranghermt hjá hreppstjóra að Grasgeiraland væri örmjó hrauntunga og vísaði til áreiðargjörðar þar sem landið hefði reynst „jafnbreitt og Brekkuland við sjó niður.“ Með byggingarbréfi 7. júní 1874 byggði Ingimundur Rafnsson bóndanum Lárusi Guðmundssyni „afbýlið Grasgeira“ með nánar tilteknum skilmálum. Þar kom fram hvað Lárus skyldi „árlega gjalda í landskuld af jörðinni“. Ekki þyrfti Lárus að „týunda ábýli sitt“, sem Ingimundur myndi gera með „heimajörðinni“, en önnur gjöld yrði Lárus að greiða. Einnig var þess getið að þegar Lárus „girnist að víkja frá jörðunni skal hann hafa sagt upp ábúð sinni fyrir nærstu veturnætur á undan“. Loks sagði: „Meðan velnefndur Lárus hefur og heldur þessa skilmála, má hann vera svo lengi sem vill á jörðunni Grasgeira.“ Í byggingarbréfinu var landamerkja ekki getið að öðru leyti en því að þar sagði að Lárus skyldu verja „land og eingjar fyrir beit og troðníngi annara manna, (gangandi fjenaðar) líka halda undir ábýli sitt til ystu ummerkja eptir því sem Maldagar, Lögfesta, og Áreiðargjörð, fyrir Brekku, til taka“. Grasgeiri mun síðan hafa farið í eyði en búseta verið tekin þar upp á ný árið 1913. Með byggingarbréfi 1. apríl 1913 byggði Jón Ingimundarson, með umboði frá bræðrum sínum, Eiríki Kristjánssyni „eiðijörðina Grasgeira í Presthólahreppi, sem er byggt úr heiðarlandi eignarjarðar okkar Brekku.“ Í bréfinu var getið um að Eiríkur skyldi inna tiltekna greiðslu af hendi í landskuld „eptir land jarðarinnar“. Í byggingarbréfinu var lýst landamerkjum Brekku og tekið meðal annars fram að í austri næðu þau að Ormarsá. Að því búnu sagði: „Allt þetta land Brekku meðfram Ormarsá og vestur á Veggjabrúnir hefur ábúandinn til afnota.“ Loks var tekið fram að Eiríki væri heimilt Grasgeiraland til lífstíðar, en vildi hann „flytja af jörðinni“ skyldi hann segja henni lausri með nánar tilteknum fyrirvara. Eiríkur mun hafa látist 1921, en ekkja hans, Þorbjörg Guðmundsdóttir, setið í óskiptu búi og búið áfram í Grasgeira, svo sem henni var heimilt eftir þágildandi lögum nr. 1/1884 um bygging, ábúð og úttekt jarða. Í fasteignamati 1916 til 1918 var Grasgeiri metinn sérstaklega, en þar sagði meðal annars svo: „Afbýli frá Brekku og landi ekki skift úr Brekkulandi.“ Tilgreint var matsverð húsa í eigu ábúandans Eiríks, 1.800 krónur, en einnig tekið fram að „jörðin húsalaus“ væri metin á 1.200 krónur. Með kaupbréfi og afsali 1. júní 1928 seldu eigendur jarðarinnar Brekku til fullrar eignar „heiðarlandið sem fylgt hefur heiðarbýlinu Grasgeira, ábúandanum Þorbjörgu Guðmundsdóttur í Grasgeira frá fardögum 1928 að telja.“ Í bréfinu var landamerkjum Grasgeira lýst svo: „Land þetta lyggur meðfram Ormarsá frá Brekkuseli að sunnan, vestur yfir Vatnastykki á vestari Kellingarhraunsbrún sem ræður norður að Hólselsgötu, þá ráða austari Veggjabrúnir norður á mótsvið sunnanvert Deildarvatn og Hjeðinsstaðavatn, þar austur í Ormarsá í sunnanvert hraunsnef er lyggur að Ormarsá yfir svokallaðar Hólsfytjar er lyggja við ána, og er þar hlaðin varða úr hraungrjóti.“ Þá sagði að kaupandinn hafi greitt 1.500 krónur fyrir landið og að auki 400 krónur „sem lánaðar voru til byggingar í Grasgeira 1913 og á því kaupandinn Þorbjörg Guðmundsdóttir öll hús og mannvirki á þessu landi.“ Þorbjörg Guðmundsdóttir mun hafa selt tengdasyni sínum, Þorsteini Steingrímssyni, „eignarjörð sína“ Grasgeira, eins og ráða má af þinglýstri yfirlýsingu sona hennar, Kristjáns og Guðmundar Eiríkssona frá 4. júlí 1951. Þorsteinn afsalaði síðan jörðina syni sínum, aðaláfrýjanda, 22. mars 1974. Aðaláfrýjandi kveðst hafa skráð jörðina Grasgeira og sig sem eiganda hennar hjá veiðifélögum Ormarsár og Deildarár, sem stofnuð hafi verið 1968 og 1971, og tekið við arði af veiði frá félögunum. Í bréfi til aðaláfrýjanda 27. október 2016 tóku gagnáfrýjendur fram að þeir teldu veiðirétt í þessum ám tilheyra sér sem eigenda Brekku. Beindu gagnáfrýjendur þeim tilmælum til aðaláfrýjanda að hann leiðrétti þessa hlunnindaskráningu. Með bréfi 24. janúar 2017 hafnaði aðaláfrýjanda beiðninni. Þetta var tilefni þess að gagnáfrýjendur höfðuðu mál þetta með stefnu 10. febrúar 2017. II Í Landabrigðisþætti Grágásar var kveðið á um að þar sem menn ættu merkivötn saman ætti hver að veiða fyrir sínu landi. Í 56. kapítula Landleigubálks Jónsbókar sagði að hver maður ætti vatn og veiðistöð fyrir sinni jörðu sem að fornu hafi verið nema með lögum væri frá komið. Þessum grunnreglum íslensks réttar um heimild til veiða í straumvötnum og stöðuvötnum var fylgt við setningu vatnalaga nr. 15/1923, þar sem mælt var svo fyrir í 1. mgr. 121. gr. að landeiganda og þeim, sem hann veitti heimild til, væri einum heimil veiði í vatni á landi sínu. Í 2. mgr. sömu lagagreinar voru jafnframt þau nýmæli að ekki mætti skilja veiðirétt að nokkru leyti eða öllu við landareign nema um tiltekið árabil, ekki lengra en tíu ár í senn, og þyrfti þá leyfi ráðherra eða að önnur hlunnindi kæmu á móti, sem landareigninni yrðu ekki metin minna virði en veiðirétturinn. Eftir afnám 121. gr. vatnalaga hafa efnislega sömu reglur gilt áfram samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, sbr. 1. mgr. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 61/1932, 1. mgr. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 112/1941 og 1. mgr. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 76/1970, nú 5. gr. og 9. gr. laga nr. 61/2006. Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum hefur frá gildistöku vatnalaga verið lagt bann við því að skilja veiðirétt frá landareign. Hugtakið landareign var skilgreint í 1. gr. vatnalaga sem land lögbýlis og lóð og lönd innan takmarka kaupstaða og löggiltra verslunarstaða. Aftur á móti var hugtakið lögbýli hvorki skilgreint í vatnalögum né í lögum nr. 1/1884, sem voru fyrstu heildstæðu lögin um ábúð. Af athugasemdum með frumvarpi til vatnalaga má þó ráða að tilgangur löggjafans hafi verið sá að setja takmörk fyrir aðskilnaði veiðiréttar frá landareign til þess að sporna við því að landkostir jarða sem væru í landbúnaðarnotum skertust, þar á meðal verðmæt hlunnindi eins og réttur til veiði í ám og vötnum. Aðaláfrýjandi reisir kröfu sína á því að Grasgeiri hafi haft stöðu jarðar að lögum frá miðri 19. öld eða í síðasta lagi frá árinu 1913 og þar með fyrir gildistöku vatnalaga. Því hefði verið beinlínis í andstöðu við lög að undanskilja veiðiréttinn í Ormarsá og Deildará frá Grasgeira við afsal. Gagnáfrýjendur byggja á hinn bóginn á því að Grasgeiri hafi tilheyrt Brekku og verið hluti af heiðarlandi þeirrar jarðar þar til landspildan hafi verið seld árið 1928, en fram að því hafi jörðin Brekka verið óskipt. Hefði verið óheimilt við þá sölu að skilja veiðihlunnindi frá Brekku samkvæmt 2. mgr. 121. gr. vatnalaga. III Ágreiningur þessa máls lýtur að því hvorri jörðinni, Grasgeira eða Brekku, fylgi veiðiréttindi í Deildará og Ormarsá. Í því sambandi skiptir máli hvort Grasgeiri var sjálfstæð jörð fyrir gildistöku vatnalaga árið 1923 og þá hvort veiðiréttur hafi tilheyrt henni þegar áðurnefnt afsal var gefið út 1. júní 1928. Að framan er rakið að búið var í Grasgeira, sem varð til úr landi Brekku, allt frá miðri 19. öld. Gögn málsins bera með sér að búseta hafi hafist þar um 1860 og jörðin verið hagnýtt allt fram til ársins 1883, en svo að nýju frá árinu 1913. Jafnframt bera framlagðar búnaðarskýrslur fyrir árin 1914 til 1928 með sér að búskapur hafi þá verið starfræktur í Grasgeira. Eins og áður er rakið var Grasgeiri leigður ábúendum með byggingarbréfum árin 1874 og 1913 þar til eigninni var afsalað árið 1928. Í byggingarbréfunum var á ýmsum stöðum vísað til Grasgeira sem „jarðar“. Þá er þess að gæta að þegar byggingarbréfið frá 1913 var gefið út voru í gildi lög nr. 1/1884. Efni sínu samkvæmt tóku þau lög einungis til jarða. Þannig kom fram í 1. gr. þeirra að hver maður sem ætti „jörð“ og nýtti eigi sjálfur skyldi selja hana öðrum á leigu. Einnig var mælt svo fyrir í 3. gr. að greina skyldi í byggingarbréfi landamerki „jarðar“. Landamerkjum Grasgeira var lýst í byggingarbréfinu frá 1913. Í kaupbréfi og afsali frá 1928 voru landamerki jarðarinnar svo rakin að nýju. Allt framangreint hnígur til þess að leggja verði til grundvallar að Grasgeiri hafi verið jörð með sjálfstæðum landamerkjum þegar árið 1874. Af þessu leiðir jafnframt að ekki getur skipt máli það sem sagði í fasteignamati 1916 til 1918 að Grasgeiri væri „afbýli frá Brekku og landi ekki skift úr Brekkulandi“, enda var jörðin Grasgeiri metin sérstaklega til verðs ásamt húsum. Engu breytir þótt þáverandi eigendur beggja jarðanna, Brekku og Grasgeira, hafi ekki hlutast til um að gerð yrðu landamerkjabréf fyrir þær þrátt fyrir lagaskyldu þar að lútandi samkvæmt 1., 3. og 4. gr. þágildandi landamerkjalaga nr. 5/1882, sbr. 2. gr. núgildandi laga nr. 41/1919 um sama efni, enda liggur fyrir að eigandi jarðanna hafði ákveðið landamerki þeirra með framangreindum byggingarbréfum, einkum byggingarbréfinu frá 1913. Eignarhald á jörðunum Brekku og Grasgeira var á sömu hendi þar til eigendur þeirra afsöluðu síðarnefndu jörðinni til Þorbjargar Guðmundsdóttur árið 1928. Af þessu leiðir að það var að öllu leyti á valdi eigendanna sjálfra að ákveða að skipta Brekku í tvær jarðir og hver landamerki milli þeirra yrðu, en sú skipting var ekki háð neinum formlegum skilyrðum að lögum. Hnígur þetta einnig að því að litið hafi verið á Grasgeira sem sjálfstæða jörð þegar árið 1874. Þegar Grasgeira var afsalað árið 1928 gilti sem áður segir sú meginregla samkvæmt 2. mgr. 121. gr. vatnalaga að ekki mátti skilja veiðirétt að nokkru leyti eða öllu við landareign nema um tiltekið árabil. Með hugtakinu landareign var átt við land lögbýlis og lóð og lönd innan takmarka kaupstaða og löggiltra verslunarstaða, sbr. 1. gr. vatnalaga, en skilgreiningu á lögbýli var hvorki að finna í þeim lögum né í lögum nr. 1/1884. Samkvæmt framansögðu verður að leggja til grundvallar að Grasgeiri hafi verið jörð eða landareign með sjálfstæðum landamerkjum þegar árið 1874. Land að Deildará og Ormarsá átti við gildistöku vatnalaga undir Grasgeira og var því óheimilt samkvæmt 2. mgr. 121. gr. þeirra að gera þar breytingu á þegar afsal var gefið út fyrir þeirri jörð 1. júní 1928. Að öllu þessu gættu eru ekki skilyrði til að verða við dómkröfu gagnáfrýjenda og verður aðaláfrýjandi því sýknaður af henni. Eftir framangreindum úrslitum verður gagnáfrýjendum gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi svo sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Aðaláfrýjandi, Höskuldur Þorsteinsson, er sýkn af kröfu gagnáfrýjenda, Dagbjarts Boga Ingimundarsonar og Rafns Ingimundarsonar. Gagnáfrýjendur greiði óskipt aðaláfrýjanda samtals 1.700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. nóvember 2017. Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð miðvikudaginn 4. október, er höfðað af Dagbjarti Boga Ingimundarsyni, Brekku, Norðurþingi, og Rafni Ingimundarsyni, Grófarsmára 5, Kópavogi, á hendur Höskuldi Þorsteinssyni, Aðalbraut 44, Raufarhöfn. Stefna er gefin út 10. febrúar 2017 og málið þingfest 23. febrúar en ekki er dagsetning við áritun stefnda um birtingu. Dómkröfur Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði að veiðiréttindi í Deildará og Ormarsá, sem stefndi telji sér til eignar og að tilheyri jörð hans Grasgeira, séu eign stefnanda sem eiganda jarðarinnar Brekku. Stefndi krefst sýknu. Hvorir krefjast málskostnaðar úr annars hendi. Gengið var á vettvang 25. ágúst 2017. Málavextir Stefnendur eru eigendur jarðarinnar Brekku en stefndi er eigandi jarðarinnar Grasgeira. Jarðirnar eru samliggjandi og eru í Núpasveit í Norðurþingi, áður Presthólahreppi, í Norður-Þingeyjarsýslu. Í málinu deila aðilar um hvorri jörðinni veiðiréttindi í Deildará og Ormarsá skuli heyra til. Ekki er ágreiningur með aðilum um að fyrst hafi verið búið í Grasgeira um miðja nítjándu öld og þá með leyfi eiganda Brekku sem átt hafi landið. Aðilar eru sammála um að Pétur Magnússon hafi þannig átt heima í Grasgeira frá 1860 eða 1861, samkvæmt samningi við Brekkumenn. Samkvæmt manntali 1860 voru til heimilis í nýbýlinu Grasgeira Pétur bóndi, kona hans Guðrún Hallgrímsdóttir og skyldulið þeirra auk vinnumanns og fjölskyldu hans. Með bréfi til Norður- og austuramtsins, dags. 7. apríl 1870, kvartaði hreppstjórinn í Presthólahreppi, Gísli Sæmundsson á Hóli, undan því að sjálfseignarbóndinn Ingimundur Rafnsson í Brekku hefði, án leyfis sveitarstjórnarinnar, byggt utansveitarmanni nokkurum, Kristjáni Sigurðssyni, inn í kofa þá er legið hafi eftir í Grasgeira eftir að þaðan hafi farið Pétur Magnússon. Hefðu kofar þessir orðið hreppsins eign upp í skuld Péturs við hreppinn. Fór hreppstjóri fram á að komið yrði í veg fyrir að Kristján þessi fengi þar bólfestu og að þeir Ingimundur og Kristján yrðu báðir sektaðir, svo framarlega sem það yrði álitið, að ábúðin á Grasgeira væri ekki annað en húsmennska. Þá sagði hreppstjóri að Grasgeiri hefði ekkert hundraðatal og væri að nokkuru leyti örmjó hrauntunga til austurs og vesturs og afréttarland hreppstjóra sjálfs og Núpssveitunga á báðar síður. Skerti þetta ekki aðeins eignarréttindi og afnot ábýlisjarðar hreppstjóra heldur væri og hreppstjóra og meirihluta sveitunga „og jafnvel hreppsfélagsins yfir höfuð – til hins mesta ónæðis og skaðræðis, uppá allan Geldfjenað sem vanalega gengur á sumrum umhverfis nýbýlið“, sem hreppstjóri þó ætlaði að „eigi hafi nema húsmennskuréttindi“. Í bréfi til sýslumanns, dags. 5. september sama ár, sagði Ingimundur Rafnsson að hann hefði eftir beiðni fyrrverandi hreppstjóra eftirlátið hreppnum umráð Grasgeira til að „láta þangað einhvern þurfamann hreppsins, sem ekki kæmist annars staðar niður“, með því skilyrði að geta sókt afgjaldið, tvær veturgamlar kindur, til hreppsins. Þau tvö ár sem síðan hefðu liðið hefði hreppurinn þurft „engan að láta í Grasgeirann“ og Grasgeiri því farið í eyði. Þrátt fyrir það hefði hann átt heimtingu á afgjaldinu úr hreppsins hendi og það orðið að samkomulagi milli sín og þáverandi hreppstjóra að Ingimundur fengi í staðinn þá „4 húskofa sem þurfamaðurinn Pétur Magnússon ljet þar eftir og sem búið var að taka uppí skuld hans við hreppinn“. Þá sagði Ingimundur að sér væri ekki kunnugt um að á nokkurt býli eða lögbýli væri sett hundraðatal fyrr en við jarðamat enda breyttust þá að líkindum dýrleikar á aðalbýlinu. Enn fremur sagði Ingimundur að alveg væri ranghermt hjá hreppstjóra að Grasgeiraland væri örmjó hrauntunga og vísaði til áreiðargjörðar þar sem landið hefði reynzt „jafnbreitt og Brekkuland við sjó niður“. Hinn 7. júní 1874 gaf Ingimundur Rafnsson, eigandi Brekku, út byggingarbréf þar sem hann kvaðst byggja „bóndanum Lárusi Guðmundssyni afbýlið Grasgeira“ með nánar greindum skilmálum. Skyldi árlega gjalda af jörðinni tvo veturgamla sauði. Ekki skyldi ábúandi þurfa að tíunda ábýli sitt, það myndi Ingimundur gera á sinn „kostnað með heima jörðinni“, en önnur gjöld skyldi hann greiða á sinn kostnað. Ábúandi skyldi verja land og engjar fyrir beit og troðningi annarra manna og gangandi fénaðar og einnig „halda undir ábýli sitt til ystu um merkja eptir því sem Máldagar, Lögfestar og Áreiðargjörð fyrir Brekku til taka.“ Þá segir í bréfinu að svo lengi sem ábúandi héldi þessa og aðra skilmála bréfsins mætti hann vera „svo lengi sem vill á jörðinni Grasgeira.“ Aðilar eru sammála um að Grasgeiri hafi síðar farið í eyði þar til aftur hafi þar verið tekin upp búseta árið 1913. Hinn 1. apríl 1913 gáfu eigendur Brekku út byggingarbréf þar sem þeir byggðu Eiríki Guðmundssyni „eiðijörðina Grasgeira í Presthólahreppi, sem er byggt úr heiðarlandi eignarjarðar okkar Brekku.“ Í bréfinu voru „[l]andamerki Brekku“ rakin og því næst sagði: „Allt þetta land Brekku meðfram Ormarsá og vestur á Veggjabrúnir hefur ábúandinn til afnota.“ Ábúðin var til lífstíðar en ábúanda heimilt að segja jörðinni lausri á hverju ári, frá næstu fardögum að telja. Eiríkur lézt árið 1921 en ekkja hans Þorbjörg Guðmundsdóttir sat í óskiptu búi og hélt áfram búrekstri á Grasgeira. Í fasteignamati 1916-1918 segir að Grasgeiri sé „[a]fbýli frá Brekku og landi ekki skift úr Brekkulandi.“ Hinn 1. júní 1928 gáfu eigendur Brekku, Þorbjörg Jóhannesdóttir, Rafn Ingimundarson og Guðmundur Ingimundarson út „Kaupbrjef og afsal“ þar sem gert var kunnugt að „við hjermeð seljum og afhendum til fullrar eignar heiðarlandið sem fylgt hefur heiðarbýlinu Grasgeira, ábúandanum Þorbjörgu Guðmundsdóttur í Grasgeira frá fardögum 1928 að telja. Land þetta lyggur meðfram Ormarsá frá Brekkuseli að sunnan, Vestur yfir Vatnastykki á Vestari [Kerlingarhraunsbrún] sem ræður norður að Hólselsgötu, þá ráða austari Veggjabrúnir norður á mótsvið sunnarvert Deildarvatn og Hjeðinsstaðavatn, þar austur í Ormarsá í sunnanvert hraunsnef er lyggur að Ormarsá yfir svokallaðar Hólsfitjar er lyggja við ána, og er þar hlaðin varða úr hraungrjóti.“ Loks kemur fram að kaupandinn Þorbjörg hafi greitt 1500 krónur fyrir landið og 400 krónur „sem lánaðar voru til bygginga í Grasgeira 1913“ og eigi hún því „öll hús og mannvirki á þessu landi.“ Þorbjörg Guðmundsdóttir seldi tengdasyni sínum Þorsteini Steingrímssyni Grasgeira og hann syni sínum, stefnda. Var afsal til stefnda gefið út 22. marz 1974. Með bréfi til stefnda, dags. 27. október 2016, lýstu stefnendur þeirri skoðun að veiðiréttur í Ormarsá, Deildará og Syðra-Deildarvatni tilheyrði Brekku og hefði ekki verið afsalað hinn 1. júní 1928. Fóru stefnendur fram á að stefndi hlutaðist til um að „leiðrétta þessa hlunnindaskráningu“. Með bréfi dags. 24. janúar 2017 hafnaði stefndi erindinu. Málsástæður og lagarök stefnenda Stefnendur segjast vísa til þess að fyrir liggi í málinu kaupsbréf og afsal dags. 1. júní 1928. Verði það skjal lagt til grundvallar um úrlausn málsins. Skjalið feli í sér að efni til að vera sala á landi, heiðarlandi úr landi Brekku, sem fylgt hafi heiðarbýlinu Grasgeira. Í skjalinu sé lýsing á því, hvaða land sé um að ræða og hver lega þess sé og mörk. Stefnendur segjast halda því fram að umræddar landamerkjalýsingar falli að kröfugerð þeirra í málinu. Í lýsingu í leigusamningi frá 1. apríl 1913 segi svo: „Allt þetta land Brekku meðfram Ormarsár og vestur á Veggjabrúnir hefur ábúandinn til afnota“. Þá segi í lýsingu í fasteignamati frá 1916-1918 um Grasgeira: „Afbýli frá Brekku og landi ekki skipt úr Brekkulandi“. Af þessu sjáist að land Brekku sé óskipt með öllu þegar sala á landi hafi farið fram 1. júní 1928. Heiðarbýlið Grasgeiri hafi þannig ekki verið útskiptur úr jörðinni Brekku heldur tilheyrt Brekku. Stefnendur segja að með framangreindu afsali hafi farið fram sala á heiðarlandi úr landi Brekku og sé í afsalinu tæmandi lýsing á því sem selt hafi verið. Verði afsalið með engu móti túlkað öðru vísi en svo að enginn veiðiréttur hafi fylgt með við söluna. Hefði slíkt ákvæði verið í afsalinu hefði það farið gegn þágildandi ákvæði 121. vatnalaga nr. 15/1923 um bann við aðskilnað veiðiréttar frá landareign. Íslenzkri veiðilöggjöf hafi um langar aldir verið ætlað að tryggja að veiðiréttur væri ekki skilinn frá lögbýlum bújarða. Þegar umræddri landspildu hafi verið skipt út úr jörðinni árið 1928 hafi áðurnefnt ákvæði vatnalaga verið í gildi en með ákvæðinu hafi verið lagt bann við því að réttur til fiskveiða í ám og vötnum væri skilinn frá landareign. Með framangreindu ákvæði 1. mgr. 121. gr. laga nr. 15/1923 hafi verið tekið upp í löggjöfina afdráttarlaus takmörkun á heimildum manna til að skilja rétt til fiskveiða frá landi. Hafi ákvæðið verið í góðu samræmi við 1. mgr. 4. gr. veiðitilskipunar nr. 20/1849 og hafi landbúnaðarsjónarmið ráðið mestu um lögfestingu framangreinds banns. Talið hafi verið eðlilegt að veiðiréttindi fylgdu öðrum nytjum jarða og hlunnindi bújarða yrðu ekki skert að þessu leyti. Stefna löggjafans hafi því um langan aldur verið sú að sporna við því að veiðiréttur væri skilinn frá bújörðum. Stefnendur segjast vísa til þess að árið 1928 hafi jörðin Brekka verið lögbýli og landareign í skilningi laga en skilgreiningu hafi meðal annars verið að finna í 1. gr. laga nr. 15/1923. Á Brekku hafi þá sem nú verið stundaður búrekstur. Vegna þess hafi það beinlínis verið óheimilt að láta veiðirétt fylgja með landspildunni, enda hafi það ekki verið gert. Með dómum Hæstaréttar Íslands hafi verið staðfest að grundvallarmunur sé á því, hvað veiðirétt áhræri, hvort spildu hafi verið skipt út úr jörð í byggð eða eyðijörð þar sem eyðijarðir teljist ekki lögbýli og þar með ekki landareign í áðurnefndum skilningi. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 36/1972 hafi verið vikið að aðskilnaðarbanni 2. mgr. 121. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Til þessa dóms megi líta við túlkun kaupsamningsins frá 1. júní 1928 í máli þessu, við mat á því hvort Brekka hafi á árinu 1928 verið talin landareign í skilningi laga nr. 15/1923. Í máli þessu sé ágreiningslaust að þegar umræddri spildu úr landi jarðarinnar Brekku hafi verið afsalað hinn 1. júní 1928 hafi búrekstur verið stundaður á jörðinni Brekku og því hafi verið um að ræða jörð í byggð. Stefnendur segjast hafna því að stefndi hafi getað fengið veiðirétt fyrir landi Grasgeira á grundvelli hefðar og segjast í því sambandi vísa til ákvæða hefðarlaga um ósýnileg ítök og þess dómafordæmis að ekki verði stofnað verði til veiðiítaks fyrir hefð, ef sú tilfærsla réttinda gangi gegn gildandi lagaákvæði, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 530/2015. Stefnendur segja að í bréfi lögmanns stefnda hafi verið vísað til þess að stefndi hafi skráð sig hjá veiðifélögum Ormarsár og Deildarár sem handhafi hlutar í veiðifélögunum og talið þá fram til eignar um langt árabil. Stefnendur segjast mótmæla því að slík skráning geti leitt til stofnunar eignarréttar eða hefð skapist við slíkt.  Þá sé ennfremur mótmælt að heimildarlaus útgreiðsla arðs til eigenda Grasgeira um árabil geti skapað stefnda nokkurn rétt. Stefnendur segjast vísa til almennra meginreglna eignarréttar, vatnalaga nr. 15/1923 einkum 1. gr. og 121. gr., til núgildandi lax og silungsveiðilaga nr. 61/2006 einkum 9. gr. og forvera þeirra laga nr. 61/1932 og hefðalaga nr. 46/1905. Þá segjast stefnendur vísa til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til 2. mgr. 25. gr. laganna um viðurkenningu á eignarréttindum, til 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. varðandi kröfu um málskostnað og til 32. gr. vegna varnarþings. Þá sé vísað til laga nr. 50/1988 með áorðnum breytingum en stefnendur séu ekki virðisaukaskattskyldir.  Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi segir málatilbúnað stefnanda aðallega á því byggðan að allur veiðiréttur í Deildará og Ormarsá, sem skráður sé tilheyrandi jörðinni Grasgeira, sé og hafi alla tíð tilheyrt jörðinni Brekku og að með afsali dags. 1 júní 1928 hafi einungis verið afsalað landspildu úr jörðinni Brekku en ekki öðrum réttindum svo sem veiðirétti. Þessum sjónarmiðum kveðst stefndi hafna. Stefndi kveðst byggja á því að Grasgeiri hafi haft stöðu jarðar frá miðri nítjándu öld og í afsali jarðarinnar í júní 1928 hafi veiðiréttindi hennar ekki verið undanskilin enda hefði slíkt verið beinlínis í andstöðu við lög, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 530/2015. Stefndi kveðst byggja á því að Grasgeiri hafi haft stöðu jarðar að lögum löngu fyrir gildistöku vatnalaga nr. 15/1923. Stefndi segir að jörðin virðist þá hafa verið í eigu sömu eigenda og jörðin Brekka, fram að því að henni hafi verið afsalað til Þorbjargar Guðmundsdóttur hinn 1. júní 1928. Ljóst sé hinsvegar að búseta hafi hafizt þar árin 1859-1860 og jörðin Grasgeiri hafi verið hagnýtt til búrekstrar og þar rekin landbúnaðarstarfsemi að meira eða minna leyti allt fram til ársins 1883 og svo aftur frá árinu 1913. Þessu til stuðnings vísi stefndi til bréfs Ingimundar Rafnssonar, þáverandi eiganda Brekku og Grasgeira, dags 5. september 1870, en af því megi ráða að Ingimundur, eigandi Brekku og Grasgeira, hafi í reynd sjálfur litið svo á að um tvær aðskildar jarðir væri að ræða. Rökstyður Ingimundur m.a. að ekki skipti máli þó jörðin hafi ekki verið metin í hundraðatali á þeim tíma, enda segist hann áður hafa byggt jörðina Pétri Magnússyni og gert kröfu um landskuld úr hendi hreppsins fyrir leigu á jörðinni. Vegna stærðar jarðarinnar sérstaklega hafi Ingimundur vísað til áreiðar frá 1854 þar sem fram kæmi að Grasgeiraland væri „jafnbreytt Brekkulandi“. Þá hafi Ingimundur neitað því að búseta Kristjáns á Grasgeira 1870 teldist húsmennska en hugtakið húsmaður hafi tekið til þess manns er á annars manns bæ bjó, þó hann væri að öður leyti sjálfum sér ráðandi. Stefndi kveðst byggja á því að með byggingarbréfi, dags. 1. apríl 1913, hafi „eyðijörðin Grasgeiri“ verið byggð Eiríki Kristjánssyni og eiginkonu hans Þorbjörgu Guðmundsdóttur með öllum þeim gögnum og gæðum sem jörðinni fylgdu, þ.m.t. veiðirétti jarðarinnar enda hafi ekkert verið undanskilið í byggingarbréfinu sjálfu, sbr. 12. gr. þágildandi ábúðarlaga nr. 1/1884. Í byggingarbréfinu komi skýrlega fram lýsing þess lands sem tilheyri jörðinni og leigt hafi verið ábúandanum og þar orðað þannig að „allt land meðfram Ormarsá og vestur á Veggjabrúnir“ hafi ábúandinn til afnota, í byggingarbréfinu séu landamerki jarðarinnar Grasgeira afmörkuð. Stefndi kveðst byggja á því að annað verði ekki séð en að í síðasta lagi á þessum tíma, árið 1913, hafi Grasgeiri verið talinn formleg jörð að lögum með tilgreindum landamerkjum sem legið hafi til austurs að Ormarsá og hefðbundnum búrekstri. Stefndi segir að þessu til stuðnings sé að jörðin Grasgeiri hafi verið metin sérstaklega til fasteignamats, samkvæmt mati 1916 til 1918. Þó þar komi fram, að landi Grasgeira hafi ekki verið skipt úr Brekku, kveðst stefndi telja að svo hafi aðeins verið þar sem þáverandi eigandi beggja jarða hafi vanrækt að gera landamerkjabréf fyrir jarðirnar. Kveðst stefndi byggja á að í þessu sambandi hafi ekki þýðingu þótt eignarhald á jörðunum Grasgeira og Brekku hafi verið á sömu hendi og kveðst vísa til hliðsjónar til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 566/2016. Stefndi kveðst telja ljóst að veiðiréttur í Ormarsá og Deildará hafi þegar á þessum tíma tilheyrt jörðinni Grasgeira og hafi veiðirétturinn ekki á löglegan hátt orðið undanskilinn frá jörðinni Grasgeira. Stefndi segir að með kaupbréfi og afsali dags. 1. júní 1928 hafi Þorbjörg Guðmundsdóttir fengið jörðinni Grasgeira afsalað til fullrar eignar. Um merki landsins segi í skjalinu: „Land þetta lyggur meðfram Ormarsá frá Brekkuseli að sunnan, vestur yfir Vatnastykki á vestari Kellingahraunsbrún sem ræður merkjum norður að Hólselsgötu, þá ráða austari Veggjabrúnir norður á mótsvið sunnanvert Deildarvatn og Hjeðinsstaðavatn, þar austur í Ormarsá í sunnanvert hraunnef er lyggur að Ormarsá yfir svokallaðar Hólsfitjar er lyggja við ána, og er þar hlaðin varða úr hraungrjóti,“. Stefndi segir að í afsalinu hafi ekki verið kveðið sérstaklega á um að undanskilin í kaupunum væru veiðiréttindi jarðarinnar Grasgeira, enda hefði slíkt verið í andstöðu við þág. 2. mgr. 121. gr. vatnalaga nr. 15/1923, en eftir gildistöku þeirra laga hafi verið óheimilt að skilja veiðirétt frá landareign. Sé hér og áréttað að með þessu kaupbréfi og afsali hafi ekki verið skipt landi úr landi Brekku heldur hafi jörðin Grasgeiri verið seld en hún hafi þá þegar haft sín sjálfstæðu landamerki og verið metin í fasteignamati. Veiðiréttur í Ormarsá og Deildrá hafi því ekki getað annað en fylgt jörðinni Grasgeira við sölu hennar, enda hafi ekki verið lagaheimild til annars. Þá kveðst stefndi geta þess að jörðin Brekka hafi engin landamerki átt að Ormarsá og Deildará. Kveðst stefndi hér vísa til þeirrar fornu meginreglu að hver maður eigi veiði fyrir landi sínu og til meginreglu 2. gr. vatnalaga nr. 15/1923 um að vatnsréttindi fylgi landareign hverri. Þá kveðst stefndi vísa til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 530/2015 og 566/2016. Stefndi segist auk framangreinds vísa sérstaklega til þeirra skyldna sem hvíli á landeigendum samkvæmt landamerkjalögum. Í fyrstu grein þág. landamerkjalaga nr. 5/1882 komi fram að skyldur sé hver landeigandi að halda við glöggum landamerkjum fyrir jörð sinni, hvort sem hann búi á henni sjálfur eða leigi hana öðrum. Þá komi fram í 3. gr. laganna að hver landeigandi sé skyldur að skrásetja nákvæma lýsingu á landamerkjum jarðar sinnar. Skuli þar getið þeirra ítaka eða hlunninda sem aðrir menn eigi í landi hans svo og þeirri sem hans jörð eigi í annarra manna lönd. Einnig hafi í ákvæðinu verið kveðið á um skyldur landeiganda til að fá samþykki annarra landeigenda sem áttu lönd á móti honum á við komandi landamerkjalýsingu. Samkvæmt 4. gr. laganna hafi landeiganda borið að þinglýsa landamerkjalýsingunni á næsta manntalsþingi. Þá kveðst stefndi vísa til þess að í 2. gr. núgildandi landamerkjalaga nr. 41/1919 komi fram nokkuð sambærilegar skyldur landeiganda. Stefndi segir, að þrátt fyrir skýrar lagaskyldur þar um, virðist sem hvorki hafi verið gert landamerkjabréf fyrir jörðina Brekku né Grasgeira. Verði í því sambandi að telja, með vísan til skyldna hvers landeiganda, að vanræksla landeiganda, í þessu tilviki þáverandi eiganda Brekku og Grasgeira, á því að gera landamerkjabréf fyrir jarðir sínar þar sem merkjum þeirra, ítökum og hlunnindum, sé lýst og samþykki eiganda aðliggjandi jarðar fengið, og landamerkjalýsingum svo þinglýst, hafi þær afleiðingar að réttindi sem landeigandi kunni eftir atvikum að hafa átt, glatist og geti síðari landeigandi ekki, tæpri öld síðar, unnið þau til baka gagnvart grandlausum eiganda nágrannajarðar. Stefndi kveðst í þessu sambandi telja, sem og með vísan til þess sem hann hafi rakið um viðurkenningu þáverandi eiganda Brekku á jörðinni Grasgeira, að vanræksla þáverandi eiganda Brekku, sem síðan hafi haft þau áhrif að í fasteignamati fyrir árið 1916 til 1918 hafi verið sagt að landinu hafi ekki verið skipt úr Brekku, geti ekki haft áhrif í máli þessu, sérstaklega ekki stefnda í óhag. Landeigandi hafi sjálfur afmarkað jörðinni sérstök landamerki, í síðasta lagi með byggingarbréfi 1913, þó svo virðist sem hann hafi vanrækt framangreindar skyldur sínar til gerðar landamerkjabréfs fyrir jarðirnar. Stefndi segir að með vísan til alls þess sem hann hafi rakið liggi fyrir að hann hafi, sem eigandi jarðarinnar Grasgeira, réttilega skráð sig og verið óslitið aðili að Veiðifélagi Ormarsár og Deildarár í tæplega fimmtíu ár og þannig verið hluthafi í veiðifélögunum og talið það fram til eignar sinnar um langt árabil. Allan þennan tíma, um áratugaskeið, hafi hvorki stefnendur né fyrri eigendur jarðarinnar Brekku gert nokkurar athugasemdir við skráninguna, eða ekki fyrr en með bréfi dags. 27. október 2016. Stefndi segir að hvað sem öðru líði byggi hann á því, með hliðsjón af tæplega fimmtíu ára óslitinni skráningu og aðild að Veiðifélagi Ormarsár og Deildarár, áratugalöngu tómlæti stefnenda og fyrri eiganda Brekku, góðri trú og réttmætum væntingum, að hann hafi hefðarrétt til þess að vera skráður eigandi umþrætts veiðiréttar hjá veiðifélögunum, sbr. meðal annars 1. gr., 1. mgr. 2. gr. og 6. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Stefndi segist vísa til þág. landamerkjalaga nr. 5/1882, til laga um byggingu, ábúð og úttekt jarða nr. 1/1884, til landamerkjalaga nr. 41/1919, laga nr. 46/1905 um hefð, til þág. 2. mgr. 121. gr. vatnalaga nr. 15/1923, til laga um lax og silungsveiði nr. 61/1932, 76/1970 og 61/2006, til almennra meginreglna eigna- og kröfuréttar þar á meðal um réttmætar væntingar og áhrif tómlæti og vegna málskostnaðar til XXI. kafla laga nr. 91, 1991. Niðurstaða Stefnandi Dagbjartur Bogi og stefndi gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Það er meginregla og hefur gilt allt frá tímum Grágásar að landeigandi á vatn og veiði fyrir landi sínu. Í 56. kapítula Landleigubálks Jónsbókar sagði að hver maður ætti vatn og veiðistöð fyrir sinni jörðu sem að fornu hafi verið nema með lögum væri frá komið. Þessari meginreglu var fylgt við setningu vatnalaga nr. 15/1923, þar sem mælt var svo fyrir í 1. mgr 121. gr. að landeiganda og þeim, sem hann veitti heimild til, væri einum heimil veiði í vatni á landi sínu. Í 2. mgr. sömu lagagreinar voru jafnframt þau nýmæli að ekki mætti skilja veiðirétt að nokkuru leyti eða öllu við landareign nema um tiltekið árabil, ekki lengra en tíu ár í senn, og þyrfti þá leyfi ráðherra eða að önnur hlunnindi kæmu á móti, sem landareigninni yrðu ekki metin minna virði en veiðirétturinn. Eftir afnám 121. gr. vatnalaga hafa efnislega sömu reglur gilt áfram samkvæmt 1. mgr. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 61/1932 um lax- og silungsveiði, 1. mgr. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 112/1941 og 1. mgr. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 76/1970, nú 5. gr. og 9. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Vísast um þetta til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 453/2009. Rakið hefur verið „Kaupbrjef og afsal“ sem eigendur Brekku gáfu út til Þorbjargar Guðmundsdóttur hinn 1. júní 1928. Á þeim tíma gilti framanrakið bann 2. mgr. 121. gr. vatnalaga nr. 15/1923 við því að veiðiréttur yrði varanlega skilinn frá landareign. Er því ljóst, og má hér vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í málum nr. 530/2015, að sá veiðiréttur, sem deilt er um í málinu, gat þá ekki runnið frá Brekku til Grasgeira. Er þetta í sjálfu ekki umdeilt í málinu. Stefndi byggir á að Grasgeiri hafi verið orðinn sjálfstæð jörð fyrir gildistöku laga nr. 15/1923, og veiðirétturinn hafi þá þegar tilheyrt jörðinni. Ljóst má vera og er ekki umdeilt í málinu að Grasgeiri varð til úr landi Brekku. Með byggingarbréfi sem gefið var út í júní 1874 byggði þáverandi eigandi Brekku, Ingimundur Rafnsson, Lárusi Guðmundssyni „afbýlið Grasgeira“. Grasgeiri fór síðar í eyði. Með byggingarbréfi 1. apríl 1913 byggðu eigendur Brekka Eiríki Guðmundssyni „eiðijörðina Grasgeira í Presthólahreppi, er er byggt úr heiðarlandi eignarjarðar okkar Brekku“. Í bréfinu segir, eftir að landamerki Brekku hafa verið rakin, að allt „þetta land Brekku meðfram Ormarsá og vestur á Veggjabrúnir“ hafi ábúandinn til afnota. Í fasteignamati 1916-1918 segir að Grasgeiri sé „[a]fbýli frá Brekku og landi ekki skift úr Brekkulandi.“ Með afsali 1. júní 1928 selja og afhenda eigendur Brekku Þorbjörgu Guðmundsdóttur til fullrar eignar „heiðarlandið sem fylgt hefur heiðarbýlinu Grasgeira“. Er landið því næst afmarkað,  svo sem áður hefur verið rakið. Þegar á framanritað er horft verður að líta svo á að það hafi ekki verið fyrr en 1. júní 1928 sem Grasgeiri er afmarkaður sem sjálfstæð eign og þá er seld Þorbjörgu Guðmundsdóttur. Önnur framanrakin gögn, sem á sínum tíma var ætlað að hafa réttaráhrif, byggingarbréfin 1874 og 1913, bera ekki með sér að Grasgeiri sé sjálfstæð jörð heldur mun fremur hið gagnstæða. Í byggingarbréfinu 1874 er Grasgeiri nefndur afbýli og í byggingarbréfinu 1913 er eyðijörðin Grasgeiri byggð „úr heiðarlandi eignarjarðar okkar Brekku“ og skuli ábúandinn hafa allt nánar greint „land Brekku“ til afnota. Stefndi hefur vísað til bréfs Ingimundar Rafnssonar til sýslumanns 1870. Í því bréfi andmælir Ingimundur því meðal annars að „áminnst land liggi undir jörðina Hól“ og segir hreppstjóra „vilja láta drotnunargirni og sjerplægni feðra sinna yfir heiðarlandinu gefa Hóli ævarandi rjettindi til þess, gagnvart skjölum þeim, sem [Ingimundur hefir] fyrir, að Brekku tilheyri land það sem Grasgeiri er bygður í“. Bréf Ingimundar til sýslumanns, árið 1870, í tilefni af kvörtun og kröfum hreppstjóra til amtsins, verður ekki talin sönnun þess að Grasgeiri hafi á þeim tíma verið orðinn sjálfstæð jörð. Sumarið 1874 gaf Ingimundur svo út byggingarbréf þar sem hann byggði Lárusi Guðmundssyni „afbýlið Grasgeira“ og var í bréfinu kveðið á um að ábúandi skyldi „halda undir ábýli sitt til ystu um merkja eptir því sem Máldagar, Lögfestar og Áreiðargjörð, fyrir Brekku til taka.“ Stefndi vísar til þess að Grasgeira sé sérstaklega getið í fasteignamati. Í því fasteignamati segir að Grasgeiri sé „[a]fbýli frá Brekku og landi ekki skift úr Brekkulandi.“ Þykir fasteignamatið ekki sanna að Grasgeiri hafi þá réttilega verið orðinn sjálfstæð jörð. Að öllu samanlögðu hafa ekki verið færðar sönnur á það í málinu að Grasgeiri hafi, fyrir gildistöku laga nr. 15/1923, verið orðinn sjálfstæð jörð sem umþrætt veiðiréttindi hafi tilheyrt. Er því óhjákvæmilegt að miða við að við gildistöku laganna hafi veiðiréttindin tilheyrt Brekku og urðu þau ekki löglega skilin frá þeirri jörð árið 1928. Eftir gildistöku 2. mgr. 121. gr. laga nr. 15/1923 gat veiðirétturinn ekki runnið frá Brekku til Grasgeira fyrir hefð. Má þar um vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í málum nr. 453/2009 og 530/2015. Þeim veiðirétti sem eigendur Grasgeira gátu ekki unnið með hefð geta eigendur Brekku ekki glatað með tómlæti. Veiðirétturinn verður samkvæmt meginreglu ekki skilinn frá jörð með aðgerð og ekki heldur aðgerðaleysi. Með vísan til alls framanritaðs verður að telja umþrættan veiðirétt í Deildará og Ormarsá tilheyra Brekku en ekki Grasgeira og verður dómkrafa stefnenda tekin til greina svo sem í dómsorði segir. Með hliðsjón af atvikum öllum verður málskostnaður felldur niður milli aðila. Af hálfu stefnenda fór með málið Sigurður Sigurjónsson en af hálfu stefnda Edda Andradóttir, hæstaréttarlögmenn í Reykjavík. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Þorsteinn Davíðsson kveður upp dóm þennan. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Viðurkennt er, að veiðiréttindi í Deildará og Ormarsá, sem stefndi Höskuldur Þorsteinsson hefur talið sér til eignar sem eiganda Grasgeira, séu eign stefnenda, Dagbjarts Boga Ingimundarsonar og Rafns Ingimundarsonar sem eigenda Brekku. Málskostnaður fellur niður.                                                                                                  
Mál nr. 275/2017
Aðild Samningur Uppsögn Kröfuréttur Eignarréttur
Ágreiningur aðila laut annars vegar að því hvort uppsögn landeigenda jarðarinnar Voga í Skútustaðahreppi, sem A o.fl. leiddu rétt sinn frá, í júlí 1992 á samningi þeirra við Hitaveitu Reykjahlíðar frá júlí 1971 hafi verið heimil og hins vegar um eignarrétt að asbestpípu sem lá frá skiptistöð í landi Reykjahlíðar og að landi Voga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samningurinn frá 1971 hefði verið ótímabundinn, án uppsagnarákvæðis og falið í sér gagnkvæmar skyldur til viðvarandi greiðslna af hálfu hvors aðila hans um sig. Með vísan til þeirrar meginreglu kröfuréttar að ótímabundnir samningar um viðvarandi greiðslur væru uppsegjanlegir með hæfilegum fyrirvara, nema annað væri ákveðið í lögum, samningi eða leiddi af eðli samningsins, var talið að V hefði ekki tekist að færa sönnur á að samningurinn væri enn í gildi. Þá var ekki fallist á með V að landeigendur hefðu afsalað sér með samningi eða öðrum hætti eignarrétti að hinni umþrættu asbestpípu. Voru A o.fl. því sýknað af kröfum V.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson. Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 4. maí 2017. Þau krefjast sýknu af kröfu gagnáfrýjanda um að viðurkennt verði að samningur Hitaveitu Reykjahlíðar og eigenda jarðarinnar Voga í Skútustaðahreppi 1. júlí 1971 sé gildur. Að öðru leyti krefjast þau staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað sem þau krefjast bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 19. júlí 2017. Hann krefst þess að viðurkenndur verði eignarréttur sinn að asbestpípu sem liggur frá skiptistöð í landi Reykjahlíðar að landi Voga samkvæmt nánar tilgreindum hnitapunktum. Að öðru leyti krefst hann staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað sem hann krefst bæði í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi aðaláfrýjenda. I Eigendur jarðarinnar Voga í Skútustaðahreppi, sem aðaláfrýjendur leiða rétt sinn frá, undirrituðu samning 25. mars 1971 við íslenska ríkið, þar sem fram kom að jarðhitaréttindi í landi Voga á jarðhitasvæði, sem afmarkað var nánar á fylgiskjölum með samningnum, ásamt jarðhita sem þar væri að finna og aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingar hans væru frá þeim tíma ríkinu ,,til frjálsra umráða og ráðstöfunar“.  Umsamið endurgjald af hálfu íslenska ríkisins fyrir þessi verðmæti voru annars vegar peningagreiðsla að fjárhæð 1.900.000 krónur, sem varið skyldi til þess að kaupa og leggja aðrennslisæð fyrir hitaveitu úr 80 mm asbestpípum frá vegamótum þjóðvegar og Hlíðarvegar við Reykjahlíð að Vogum III ,,eins og gert er ráð fyrir á áætlun ... um hitaveitu í Reykjahlíðar- og Vogahverfi, ásamt viðeigandi búnaði við upphaf þessarar aðrennslisæðar til að mæla rennsli í henni.“ Um pípuna skyldi flytja vatn frá varmaveitu í Reykjahlíðarhverfi til Vogahverfis. Hins vegar skyldi íslenska ríkið láta eigendum Voga í té allt að 4,5 sekúndulítra af heitu vatni frá varmaveitu í Bjarnarflagi. Samningurinn var ótímabundinn og án uppsagnarákvæðis. Nokkrum dögum fyrr, 18. mars 1971, hafði íslenska ríkið gert sambærilegan samning við eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi um jarðhitaréttindi í eigu þeirra á afmörkuðu svæði í landi jarðarinnar. Sem endurgjald fyrir þau réttindi skyldi íslenska ríkið í fyrsta lagi leggja aðalæð hitaveitu úr 200 mm víðum asbestpípum til flutnings á allt að 25 lítrum á sekúndu frá safnþró í Bjarnarflagi að vesturmörkum jarðhitasvæðisins sem samningurinn tók til. Í öðru lagi skyldi ríkið greiða 4.400.000 krónur til landeigendanna svo þeir gætu sjálfir annast lagningu aðalæðar þaðan og til byggðahverfisins við Reykjahlíð. Í þriðja lagi skyldu landeigendurnir fá 20 sekúndulítra af heitu vatni til ráðstöfunar fyrir væntanlega hitaveitu fyrir Reykjahlíðarhverfi. Áður en þessir samningar voru gerðir munu væntanlegir hitaveitunotendur í Reykjahlíð og Vogum hafa haldið fund þar sem lagt var til að Skútustaðahreppur ætti og ræki væntanlega hitaveitu. Á fundi sveitarstjórnar 28. febrúar 1971 var ákveðið ,,að verða við ósk væntanlegra hitaveitunotenda, um að gerast eignar- og rekstraraðili væntanlegrar hitaveitu. Svo fremi að viðunandi samningar náist við landeigendur um hitaréttindi.“ Í fundargerð var jafnframt bókað að sveitarstjórn hefði ákveðið að hitaveitan skyldi vera sjálfstætt fyrirtæki með sérstakan fjárhag. Skútustaðahreppur ,,f.h. Hitaveitu Reykjahlíðar“ gerði í kjölfarið tvo sambærilega samninga 1. júlí 1971 og var annar þeirra við eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar en hinn, sá sem hér er til úrlausnar, við eigendur jarðarinnar Voga. Samkvæmt þeim samningi skyldu eigendur Voga, sem nefndir voru leigusali, leggja á eigin kostnað asbestpípu þá, sem mælt var fyrir um í samningnum við íslenska ríkið og það hafði greitt fyrir. Leigusalinn skyldi jafnframt leggja til land undir pípuna og ljúka lagningu hennar fyrir 1. október 1971. Að því búnu skyldi hann ,,afhenda hana leigutaka, sem ber allan kostnað af rekstri hennar, viðhaldi og endurnýjun.“ Þá skyldi leigusali leggja til allt að 4,5 sekúndulítra af heitu vatni til leigutaka. Leigutaki skyldi á hinn bóginn greiða leigusala ákveðna fjárhæð árlega ,,fyrir heita vatnið“ sem skyldi að nokkru háð því magni sem notað yrði. Gerð er grein fyrir greiðslunum í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram skyldu þær ,,hækka í sama hlutfalli og vísitala byggingarkostnaðar“ frá grunntölu sem miðaðist við 1. október 1971. Leigutaki skyldi greiða árgjaldið fyrir 1. nóvember ár hvert. Þá kom fram í samningnum að leigusala væri heimilt að nota til eigin þarfa afgangsvatn til heyþurrkunar og ræktunar endurgjaldslaust enda væri það vatn ekki talið með þegar greiðsla til leigusala væri ákveðin. Að öðru leyti mun hafa verið miðað við að eigendur Voga greiddu fyrir það heita vatn sem þeir nýttu til hitunar eða annarra þarfa í íbúðarhúsum eða öðrum fasteignum á löndum sínum. Loks var í samningnum gerðardómsákvæði sem vikið verður að síðar. Af gögnum málsins má ráða að Hitaveita Reykjahlíðar, sem gagnáfrýjandi er nú kominn í staðinn fyrir, hafi lagt dreifikerfi um Vogahverfið til einstakra notenda og  haldið því við. Þá er upplýst að hætt var að nota asbestpípuna fyrir heitt vatn á árinu 1984 og plastleiðsla lögð í staðinn á kostnað gagnáfrýjanda. Gamla pípan mun eftir það hafa verð notuð til að leiða kalt vatn. Af gögnum málsins má einnig ráða að rekstur hitaveitunnar hafi verið erfiður einkum er leið á níunda áratug síðustu aldar og skuldir veitunnar þá farið vaxandi. Landeigendur í Vogum sendu sveitarstjórn Skútustaðahrepps greinargerð um málefni veitunnar 5. febrúar 1990. Þar var bent á að landeigendurnir hafi átt ,,þessa hitaveitu skuldlausa 1971“ þegar hún hafi verið leigð sveitarfélaginu og rekstur hennar hafi byrjað ,,svo til á núlli.“ Fyrir tilstilli landeigenda hafi íslenska ríkið kostað ýmsar úrbætur á heitavatnslögninni, meðal annars hreinsun á henni. Á árinu 1984 hafi, án samráðs við landeigendur, byrjað umræða um að stækka veitusvæðið og leggja lögn í Álftagerði, Grænavatn, Kálfaströnd og Grímstaði. Þótt þetta hafi ekki verið fýsilegt fjárhagslega hafi sveitarstjórn mælt með að ráðist skyldi í að leggja veituna til Álftagerðis og Grímstaða. Fjárhagsáætlanir hafi ekki staðist en þrátt fyrir það hafi ,,eigendum hitaveitunnar“ verið talin trú um að hitaveitugjöld myndu ekki hækka vegna stækkunarinnar. Það hafi þó gerst auk þess sem heimtaugargjald í Reykjahlíð og Vogum hafi einnig hækkað. Jafnframt hefðu skuldir veitunnar hækkað verulega. Í lok greinargerðarinnar sagði að það væri ,,krafa landeigenda í Vogum að þeir fái einn fulltrúa í hitaveitunefnd“ en ekki væri ,,hægt að sætta sig við að þeir njóti engra réttinda þrátt fyrir eignaraðild að hitaveitunni og það mikla fjármagn“ sem þeir hafi lagt fram á sínum tíma með samningum við íslenska ríkið. Var farið fram á viðræður við sveitarstjórn um málefnið. Með bréfi 23. janúar 1991 óskuðu landeigendur í Vogum eftir því að samningurinn frá 1971 yrði endurskoðaður og var á það fallist á fundi sveitarstjórnar 14. febrúar sama ár. Landeigendurnir rituðu enn bréf 17. október 1991 og fóru fram á viðræður um samninginn þar sem forsendur hans væru brostnar. Þeir áttu í framhaldi af þessu fund 19. nóvember 1991 með sveitarstjóra og lýstu því þar að forsendur samningsins væru brostnar þar sem hitaveitan hefði verið stækkuð án samráðs við þá og því færu þeir fram á endurskoðun samningsins. Stækkun veitunnar hafi leitt til skuldasöfnunar sem óhjákvæmilega hafi leitt til hækkunar afnotagjalda. Á fundinum lögðu þeir fram tillögu að breytingu á samningnum, sem fól í sér að þeir afhentu veitunni 2,5 sekúndulítra af vatni, en fengju sjálfir 2 sekúndulítra til eigin nota. Í bréfi landeigenda til sveitarstjórnar 31. desember 1991 kom fram að þeir teldu sig ekki hafa fengið svar við tillögu sinni og frá 1. janúar 1992 myndu þeir láta hitaveitunni í té 2,5 sekúndulítra af heitu vatni en tækju 2 sekúndulítra til eigin þarfa og fyrir það myndu þeir ekki greiða veitunni.  Sveitarstjórn féllst ekki á tillögu landeigendanna og taldi nauðsynlegt að skera úr ágreiningi við þá um eignarhald á mannvirkjum hitaveitunnar. Samkvæmt samningi við þá ætti að gera það fyrir gerðardómi. Á fundi með fulltrúum sveitarstjórnar 28. janúar 1992 lýstu landeigendur Voga því yfir að þeir myndu ekki draga yfirlýsingu sína frá 31. desember 1991 til baka. Með bréfi 23. júní 1992 lýstu landeigendur því yfir að forsendur samningsins frá 1971 væru brostnar og því yrði að segja honum upp til þess að unnt væri að hefja viðræður um gerð nýs samnings en hafnað væri að leggja ágreininginn við sveitarfélagið fyrir gerðardóm. Með tilkynningu 20. júlí 1992 lýstu landeigendurnir því síðan yfir að þeir segðu upp leigusamningnum frá 1971. Með bréfi gagnáfrýjanda 24. febrúar 1994 mótmælti hann uppsögn samningsins. Gagnáfrýjandi skaut ágreiningi við landeigendurna til gerðardóms 14. desember 1995 og taldi dómurinn að ágreiningur þeirra snerist í raun um eignarrétt að pípulögn sem getið væri um í samningnum frá 1. júlí 1971. Taldi gerðardómurinn þann ágreining vera utan þess hann væri bær til að taka til úrlausnar og vísaði málinu frá 4. nóvember 1996. Ýmis gögn í málinu bera með sér að reynt hafi verið að leysa ágreining aðila frá því að gerðardómur vísaði honum frá samkvæmt framansögðu en það hafi ekki borið árangur. Upplýst er að hitaveitunotendur í Vogum hafa ekki greitt fyrir afnot af heitu vatni frá 1. janúar 1992 og að gagnáfrýjandi hefur ekki frá sama tíma innt af hendi greiðslur til þeirra samkvæmt samningnum fyrir afnot af vatni. II Mál þetta var höfðað í héraði af gagnáfrýjanda sem gerir þær kröfur að viðurkennt verði að samningur aðila frá 1. júlí 1971 sé í gildi, auk viðurkenningar á því að hann sé eigandi að asbestpípu þeirri sem áður greinir. Aðaláfrýjendur kröfðust frávísunar málsins í heild og studdu þá kröfu meðal annars við þau rök að með samningnum hefðu aðilar hans skuldbundið sig til þess að fela gerðardómi að skera úr um ágreiningsmál eins og þau sem kröfur gagnáfrýjanda tækju til. Héraðsdómur vísaði frá dómi kröfunni um viðurkenningu á því að samningurinn væri enn í gildi, en hafnaði frávísun að því er varðaði síðari kröfuna. Með dómi Hæstaréttar 12. maí 2016 í máli nr. 311/2016 var ákvæði úrskurðarins um frávísun fellt úr gildi. Fyrir Hæstarétti er ekki gerð krafa um að ágreiningi um eignarrétt að asbestpípunni verði vísað frá héraðsdómi og kemur því ekki til athugunar hvort sú krafa hefði átt undir úrlausn gerðardóms, sbr. 2. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Aðaláfrýjendurnir Anna Skarphéðinsdóttir, Leifur Hallgrímsson og Ólöf Þórelfur Hallgrímsdóttir krefjast sýknu vegna aðildarskorts. Þau hafi með kaupsamningi 25. september 2007 selt aðaláfrýjandanum Vogabúi ehf. jörðina Voga I og hafi félagið þinglýst kaupsamningnum. Það fari því með eignarráð fasteignarinnar og sé eitt bært til að gera ráðstafanir sem hana varða. Þegar málið var höfðað hafði kaupsamningi verið þinglýst, en afsal ekki gefið út. Vogabú ehf. átti því að sönnu eignarrétt samkvæmt kaupsamningnum, en sá réttur var skilyrtur þar sem afsal hafði ekki verið gefið út. Ekki liggur fyrir hvort afsal til Vogabús ehf. hafi verið gefið út og upplýst var fyrir Hæstarétti að slíku skjali hafi ekki verið þinglýst. Framangreindir seljendur eru því enn þinglýstir eigendur samkvæmt afsali. Verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna sýknukröfu þeirra vegna aðildarskorts. III Ágreiningsefni málsins eru sem fyrr greinir tvíþætt. Þau lúta annars vegar að því hvort samningur landeigenda í Vogum og Hitaveitu Reykjahlíðar 1. júlí 1971 sé í gildi og þar með hvort uppsögn hans 20. júlí 1992 hafi verið heimil. Hins vegar er deilt um eignarrétt að asbestpípu sem liggur frá skiptistöð í landi Reykjahlíðar og að landi Voga en lega hennar er nánar tilgreind í héraðsdómi. Samningurinn frá 1971 var ótímabundinn og í honum var ekki að finna uppsagnarákvæði. Skyldur landeigenda samkvæmt honum voru að leggja til 4,5 sekúndulítra af heitu vatni sem leitt yrði um asbestpípu er þeir skyldu afhenda ásamt landi undir pípuna. Hitaveitan skyldi á hinn bóginn greiða fyrir þetta árlegt gjald sem réðist af því magni vatns sem afhent yrði, auk þess sem það skyldi taka breytingum til samræmis við tilgreinda vísitölu. Jafnframt skyldi hitaveitan afhenda landeigendum afgangsvatn sem þeir máttu nýta til ákveðinna þarfa. Samningurinn fól því í sér gagnkvæmar skyldur til viðvarandi greiðslna af hálfu hvors aðila hans um sig. Það er meginregla í kröfurétti að ótímabundnir samningar um viðvarandi greiðslur séu uppsegjanlegir, almennt með hæfilegum fyrirvara, nema annað sé ákveðið í lögum, samningi eða leiði af eðli samningsins, sbr. dóma Hæstaréttar 15. júní 2006 í máli nr. 43/2006 og 7. júní 2007 í máli nr. 423/2006. Gagnáfrýjandi rökstyður kröfu sína um viðurkenningu á að samningurinn sé enn í gildi, hvað sem uppsögninni líður, einkum með því að hann hafi frá upphafi og til uppsagnar efnt samninginn réttilega enda hafi hinu gagnstæða ekki verið haldið fram. Landeigendur hafi unað við samninginn athugasemdalaust í um 20 ár áður en þeir sögðu honum upp. Engin heimild til uppsagnar hafi verið í samningum og hún hafi því verið markleysa. Í ljósi framangreindrar meginreglu kröfuréttar duga þær málsástæður sem gagnáfrýjandi hefur teflt fram til stuðnings því að samningurinn sé enn í gildi ekki til þess að uppsögn landeigenda 20. júlí 1992 eigi ekki að hafa réttaráhrif samkvæmt efni sínu. Verður jafnframt að líta til þess að uppsögnin átti sér um tveggja ára aðdraganda og henni var ekki andmælt svo séð verði fyrr en 24. febrúar 1994 og þá ekki getið um að frestur hafi verið of skammur. Verða aðaláfrýjendur því sýknaðir af þessari kröfu gagnáfrýjanda. Í samningnum 1. júlí 1971 voru landeigendur nefndir leigusali, en Hitaveita Reykjahlíðar leigutaki. Ákvæði samningsins um að landeigendur skyldu á eigin kostnað leggja asbestpípu tiltekna leið og leggja til land undir pípuna, sem þeir skyldu svo hvort tveggja afhenda leigutaka sem annast skyldi rekstur pípunnar, viðhald og endurnýjun, fól ekki í sér afsal á því sem afhenda skyldi. Aðrar röksemdir sem gagnáfrýjandi hefur sett fram til stuðnings því að hann sé eigandi pípunnar leiða ekki til þess að litið verði svo á að leigusalinn hafi afsalað sér eignarrétti að henni með samningi eða með öðrum hætti. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður hann staðfestur um þessa kröfu. Samkvæmt öllu framansögðu verða aðaláfrýjendur sýknaðir af kröfu gagnáfrýjanda um viðurkenningu á því að samningur landeigenda Voga og Hitaveitu Reykjahlíðar frá 1. júlí 1971 sé gildur. Auk þess verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu aðaláfrýjenda af kröfu gagnáfrýjanda um viðurkenningu á eignarrétti hans að asbestpípunni. Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Aðaláfrýjendur, Anna Skarphéðinsdóttir, Elín S. Kristjánsdóttir, Gísli Rafn Jónsson, Gunnar Rúnar Pétursson, Hermann Kristjánsson, Hjördís Sigríður Albertsdóttir, Jakob Stefánsson, Jóhann Friðrik Kristjánsson, Jónas Pétur Pétursson, Jón Árni Sigfússon, Jón Ingi Hinriksson, Leifur Hallgrímsson, Ólöf Þórelfur Hallgrímsdóttir, Sólveig Erla Hinriksdóttir, Valla sf., Vogabú ehf., Vogar 4 ehf., Þórdís Guðfinna Jónsdóttir og Þórhallur Kristjánsson, eru sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Veitustofnunar Skútustaðahrepps, um viðurkenningu á því að samningur landeigenda Voga og Hitaveitu Reykjahlíðar 1. júlí 1971 sé í gildi. Hinn áfrýjaði dómur skal að öðru leyti vera óraskaður um annað en málskostnað. Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjendum hverjum fyrir sig 100.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 10. febrúar 2017. Mál þetta var dómtekið 20. september sl., en endurupptekið og dómtekið á ný 16. desember. Það var höfðað 10. febrúar 2015. Stefnandi er Veitustofnun Skútustaðahrepps, Hlíðavegi 6, Skútustaðahreppi. Stefndu eru Vogabú ehf., Vogum I, Skútustaðahreppi, Anna Skarphéðinsdóttir, sama stað, Leifur Hallgrímsson, Hraunborg, sömu sveit, Ólöf Þórelfur Hallgrímsdóttir, Hraunbergi, sömu sveit, Jóhann Friðrik Kristjánsson,  Sogavegi 129, Reykjavík, Hermann Kristjánsson, Birkihrauni 12, Skútustaðahreppi, Elín S. Kristjánsdóttir, Stekkjarholti 14, Húsavík í Norðurþingi, Þórhallur Kristjánsson, Björk, Skútu­staðahreppi,  Hjördís Sigríður Albertsdóttir, Hólmum, sömu sveit, Þórdís Guðfinna Jónsdóttir, Vogum II, sömu sveit, Gunnar Rúnar Pétursson, sama stað, Jónas Pétur Pétursson, Skútahrauni 16, sömu sveit, Jón Árni Sigfússon, Víkurnesi, sömu sveit, Gísli Rafn Jónsson, Arnarnesi, sömu sveit, Jakob Stefánsson, Skútahrauni 18, sömu sveit, Valla sf., Laugarbrekku 24, Húsavík, Sólveig Erla Hinriksdóttir, Stekkholti, Skútustaðahreppi, Jón Ingi Hinriksson, Bergholti, sömu sveit og Vogar 4 ehf., Dalsgerði 5f, Akureyri. Stefnandi gerir þær kröfur í málinu að viðurkennt verði með dómi að samn­ingur milli stefnanda og stefndu frá 1. júlí 1971 sé gildur, sem og að viðurkenndur verði eignarréttur stefnanda að asbestpípu sem liggur frá skiptistöð í landi Reykjahlíðar að landi Voga, úr hnitpunkti 1 (N 65 38.489 V 16 54.681) að hnitpunkti 2 (N 65 38.403 V 16 54.619) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 3 (N 65 38.356 V 16 54.589) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 4 (N 65 38.234 V 16 54.641) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 5 (N 65 38.171 V 16 54.654) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 6 (N 65 38.137 V 16 54.642) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 7 (N 65 38.090 V 16 54.661) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 8 (N 65 38.066 V 16 54.658) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 9 (N 65 37.865 V 16 54.836) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 10 (N 65 37.699 V 16 55.042) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 11 (N 65 37.679 V 16 55.077) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 12 (N 65 37.565 V 16 55.154) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 13 (N 65 37.531 V 16 55.203) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti14 (N 65 37.514 V 16 55.217) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti15 (N 65 37.502 V 16 55.242) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 16 (N 65 37.447 V 16 55.276) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 17 (N 65 37.424 V 16 55.281) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 18 (N 65 37.383 V 16 55.346) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 19 (N 65 37.340 V 16 55.348) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 20 (N 65 37.313 V 16 55.305) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 21 (N 65 37.313 V 16 55.305).  Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða málskostnað að skað­lausu. Stefndu krefjast sýknu og málskostnaðar. Málinu var vísað frá dómi að hluta með úrskurði 7. apríl sl. Sá úrskurður var felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar 12. maí sl. I Með samningi undirrituðum annars vegar í Vogum 25. mars 1971 og hins vegar í Reykjavík 4. maí 1971, afhentu eigendur Voga í Skútustaðahreppi ríkissjóði jarðhitaréttindi í landi Voga á afmörkuðu jarðhitasvæði ásamt jarðhita sem þar væri að finna og aðstöðu til mannvirkjagerðar til nýtingar hans.  Í endurgjald skyldu þeir fá (g)kr. 1.900.000,- til að koma upp aðrennslisæð hitaveitu frá vegamótum þjóðvegar og Hlíðarvegar við Reykjahlíð að Vogum III ásamt viðeigandi búnaði við upphaf hennar til að mæla rennsli í henni og ókeypis allt að 4,5 sekúndulítra af heitu vatni frá varmaveitu í Bjarnarflagi, sem skyldi afhendast með vatni er ríkissjóður hefði með samningi við eigendur Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi skuldbundið sig til að afhenda þeim. Þann 28. febrúar 1971 ákvað hreppsnefnd Skútustaðahrepps að verða við ósk væntanlegra hita­veitunotenda um að gerast eignar- og rekstraraðili væntanlegrar hitaveitu, ef viðunandi samningar næðust við landeigendur um hitaveituréttindi.  Þann 1. júlí sama ár voru undirritaðir tveir samningar, annar milli landeigenda í Reykjahlíð og Hitaveitu Reykjahlíðar og hinn milli eigenda Voga og Hitaveitu Reykjahlíðar. Síðastnefndi samningurinn er sá sem um er deilt í þessu máli og hljóðar svo: ,,Samningur Við undirritaðir, oddvitinn í Skútustaðahreppi, f.h. Hitaveitu Reykjahlíðar, í samningi þessum nefndur leigutaki, og eigendur jarðarinnar Voga í Skútustaðahreppi, í samningi þessum nefndir leigusali, gerum með okkur eftirfarandi samning:  1.      Leigusali skal á eigin kostnað leggja asbestpípu frá skiptistöð í Reykjahlíð (á mörkum þjóðvegar og Hlíðarvegar) að Vogum, í samræmi við uppdrætti Fjarhit­unar h.f., með öllum nauðsynlegum búnaði, þar á meðal brunnum við báða enda.          Leigusalinn skal bera allan kostnað af pípulögninni, bæði efni og vinnu. 2.      Pípulögnum, sem um getur í 1. gr. skal að fullu lokið fyrir 1. október 1971.  3.      Þegar leigusali hefur lokið við að leggja asbestpípuna og hún prófuð, skal hann afhenda hana leigutaka, sem ber allan kostnað af rekstri hennar, viðhaldi og endurnýjun. 4.      Leigusali leggur endurgjaldslaust til land undir pípuna, og ber hann ábyrgð á öllum landspjöllum, svo og öðru tjóni, sem verða kann við lagningu leiðslunnar, og meðan hún er í hans umsjá.          Eftir að leigutaki hefur tekið við leiðslunni er honum heimil nauðsynleg umferð inn í land leigusala til viðhalds leiðslunni og öðrum mannvirkjum hitaveitunnar.  Þess skal gætt að valda sem minnstum spjöllum, og greiða skal fullar bætur fyrir spjöll þau, sem verða kunna á landi eða mannvirkjum skv. samkomulagi eða mati, ef samkomulag næst ekki.          Um mat skv. samningi þessum skulu gilda reglur um framkvæmd eignarnáms nr. 61/1917. 5.      Leigusali skal leggja leigutaka til allt að 4,5 lítra á sekúndu af heitu vatni fyrir hita­veituna. 6.      Leigusali er ekki bótaskyldur, þótt hitaveitan verði fyrir tjóni vegna ófullnægjandi varmaflutnings, breytinga á borholum og öðrum óviðráðanlegum orsökum. 7.      Leigutaki skal greiða leigusala ákveðna ársgreiðslu fyrir heita vatnið.          Ársgreiðsluna skal miða við mestu vatnssölu hitaveitunnar frá þessari leiðslu á almanaksárinu.  Meðan vatnssala hitaveitunnar er 2,5 sekúndulítri eða minni, skal ársgreiðslan vera sem hér segir:          Árin 1971-73                                                       engin greiðsla.             “   1974-76                                                        kr. 20.000,00 pr. ár             “   1977-79                                                        “    30.000,00  “   “             “   1980-82                                                        “    40.000,00  “  “             “   1983-91                                                        “    50.000,00  “  “             “   1992 og síðar                                              kr.                 40.000,00 pr. ár.          Þegar sala hitaveitunnar er orðin meiri en 2,5 lítrar á sekúndu, samkvæmt bókum hennar, skal ársgreiðslan hækka um kr. 12.000,00 fyrir hvern byrjaðan líter þannig, að þegar allt vatnið, 4,5 lítrar á sekúndu, er nýtt, greiðast kr. 64.000,00 á ári.  8.      Allar ársgreiðslur eru verðtryggðar, þannig að þær hækka í sama hlutfalli og vísi­tala byggingarkostnaðar.  Miða skal við vísitölu byggingarkostnaðar, sem gefin verður út 1. okt. 1971 sem grunn, en síðan skal miða við meðalvísitölu hvers árs. 9.      Leigutaka er óheimilt að selja vatn til iðnaðar á lægra verði en Jarðvarmaveitur ríkisins, nema með samþykki leigusala og Jarðvarmaveitna ríkisins. 10.    Ársgjaldið skal greiða eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. 11.    Leigusala er heimilt að nota til eigin þarfa afgangsvatn til heyþurrkunar og ræktunar endurgjaldslaust, enda sé það vatn ekki talið með, þegar greiðsla til leigusala er ákveðin.  12.    Verði ágreiningur í samskiptum leigusala og leigutaka vegna túlkunar á samningi þessum, skal hann útkljáður á þann hátt, að hvor aðili um sig getur skotið honum til úrskurðar 3ja manna gerðardóms, og er úrskurður hans endanlega bindandi fyrir báða aðila.           Hvor aðili skal útnefna einn mann í gerðardóminn, en sýslumaður Þingeyinga út­nefna oddamann.  Skulu allir gerðardómsmenn fullnægja skilyrðum eml. nr. 85/1936. 13.    Leigusali svarar til vanheimildar og réttar til framangreindrar vatnssölu. 14. Samningi þessum skal þinglýsa á kostnað leigutaka. [...]“ Stefnandi mun nú vera ,,leigutaki“ í skilningi þessa samnings og stefndu ,,leigusali.“  Verður hér á eftir vísað til stefnanda og stefndu sem samningsaðila, þótt þau hafi komið í stað þeirra sem sömdu í öndverðu. Stefnandi tekur fram að 14. nóvember 1985 hafi verið sett ný reglugerð, nr. 432/1985, fyrir Hitaveitu Reykjahlíðar.  Þar hafi verið kveðið á um eignarrétt hennar að lagnakerfi sínu.  Árið 1985 hafi verið ráðist í stækkun á Hitaveitu Reykjahlíðar.  Samhliða henni hafi verið ráðist í stofnun vatnsveitu og farið að reisa varmaskiptistöð hitaveitunnar.  Í kjölfar þessara framkvæmda hafi Hitaveita Reykjahlíðar selt umrædda asbestpípu til Vatnsveitu Reykjahlíðar og lagt plastpípu til flutnings á heitu vatni.  Engin mótmæli hafi borist frá stefndu fyrr en erindi hafi borist sveitarstjórn, dagsett 5. febrúar 1990.  Þar hafi stefndu óskað þess að formlegar viðræður yrðu teknar upp, með endurskoðun samningsins frá 1971 að markmiði.  Gögn liggja frammi sem sýna að aðilar ræddu þetta erindi án niðurstöðu. Þann 20. júlí 1992 sögðu stefndu samningnum upp.  Hafnaði stefnandi upp­sögninni.  Var málinu vísað til gerðardóms 10. nóvember 1993. Eftir sáttatilraunir kvað gerðardómur upp úrskurð um það 4. nóvember 1996 að ágreiningsefnið væri ekki innan lögsögu hans.  Vísaði hann til þess að ágreiningur aðila snerist um eignarrétt að asbestpípunni og ætti heima hjá dómstólum. Stefndu höfðuðu mál fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra og kröfðust viðurkenningar á uppsögn samningsins frá 1. júlí 1971.  Með úrskurði dómsins 9. maí 1997 var málinu vísað frá dómi með skírskotun til þess að það varðaði samskipti aðila og ætti þar með undir gerðardóm, sbr. 12. gr. samningsins frá 1. júlí 1971.  Úrskurð­inum var ekki skotið til æðri réttar. Vatnsveita Reykjahlíðar, sem Hitaveita Reykjahlíðar seldi pípuna, var síðar sameinuð seljandanum og varð stefnandi til við sameininguna. Eftir framangreinda frávísun málsins sem stefndu höfðuðu til viðurkenningar á uppsögn sinni munu aðilar hafa rætt eitthvað saman, án þess að ná samkomulagi. Hefur stefnandi nýtt heita vatnið og pípuna, en ekki greitt árgjaldið. Stefndu hafa ekki greitt fyrir notkun sína á heitu vatni. Stefnandi mun hafa reiknað út árgjaldið og mismun þess og fjárhæða reikninga sem hann hefur gert stefndu fyrir notkun heits vatns, en ekki lýst yfir skuldajöfnuði. II Stefnandi kveðst höfða mál þetta gegn landeigendum í Vogum, sem hafi tekið við réttindum og skyldum þeirra landeigenda sem hafi gert samninginn. Sé óhjákvæmilegt að þeir eigi allir aðild til varnar. Stefndu Anna, Leifur og Ólöf Þórelfur séu eigendur Voga I samkvæmt afsali, en Vogabú ehf. samkvæmt kaupsamningi. Sé óhjákvæmilegt að stefna þeim öllum til varnar í málinu. Stefnandi hafi tekið við öllum réttinum og skyldum Hitaveitu Reykjahlíðar árið 2007. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps fari með stjórn stefnanda samkvæmt reglugerð nr. 432/1985. Fyrirsvarsmaður stefnanda sé Jón Óskar Pétursson sveitar­stjóri. Stefnandi kveðst vísa til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um að hann geti leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar, að því tilskildu að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um efni réttinda hans eða réttarsambands.  Málsaðilar hafi um langt skeið deilt um gildi samnings síns frá 1. júlí 1971.  Stefnandi hafi því beina og verulega fjárhagslega hagsmuni af því að fá viðurkenningardóm um gildi samningsins sem og um eignarhald á þeim veitumannvirkjum sem kveðið sé á um í honum.  Til stuðnings kröfu sinni um að gildi  samningsins verði viðurkennt kveðst stefnandi vísa til meginreglu fjármuna-, kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga.  Í þeirri reglu felist að aðilum sé almennt heimilt að velja sér gagnaðila við samnings­gerð, frelsi um efni löggerninga og frjálsræði til að ákvarða hvort samningur skuli gerður eða hvort látið skuli hjá líða að gera samning eða annan löggerning. Reglan eigi einnig rót sína í meginreglunni um að samninga skuli efna.  Af reglunni leiði að aðili samnings geti almennt ekki komið sér hjá því að efna samningsskyldur sínar.  Beri að skýra allar undantekningar frá þessari reglu þröngt.  Stefnandi kveðst einnig byggja á því að hann hafi efnt samninginn að öllu leyti allt frá upphafi og hafi hinu gagnstæða aldrei verið haldið fram af hálfu stefndu.  Þá kveðst stefnandi byggja á því að ekkert uppsagnarákvæði sé að finna í samningnum.  Hann hafi verið ótímabundinn og óuppsegjanlegur af hálfu beggja aðila.  Uppsögnin með bréfi 20. júlí 1992 sé því markleysa og samningurinn eðli málsins samkvæmt enn í gildi. Þá byggir stefnandi jafnframt á því að stefndu hafi ekki hreyft mótmælum við samninginn fyrr en árið 1990, tæplega 20 árum eftir að hann hafi verið gerður.  Kveðst stefnandi telja að þetta tómlæti af hendi stefndu staðfesti enn frekar gildi samningsins.  Um kröfu sína um að viðurkennt verði með dómi eignarhald stefnanda á asbestpípunni kveðst hann vísa til orðalags samningsins í 3. og 4. gr., um afhendingu og heimila landnotkun. Með þessu hafi stefnandi fengið til eignar, þar með talinn réttinn til frjálsra umráða og ráð­stöfunar, bæði pípuna og land undir hana þegar afhending hafi farið fram.  Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins hafi stefnandi þannig orðið eigandi pípunnar og lands undir hana, frá því að stefndu afhentu pípuna. Með hliðsjón af þessu og meginreglu kröfu- og samningaréttar um skuld­bindingargildi samninga megi vera ljóst að eignarréttur pípunnar sé hjá stefnanda.  Þá styðji það kröfur og málsástæður hans að í samningnum hafi hvorki verið kveðið á um skil þess sem stefndu hafi afhent eða gjald fyrir afnot.  Hlutaðeigandi eignir hafi verið afhentar kvaðalausar til frjálsra umráða og ráðstöfunar stefnanda.  Þá hafi stefnandi greitt allan kostnað af rekstri asbestpípunnar, viðhaldi hennar og endurnýjun, sbr. 3. gr.  Í áðurgreindri 4. gr. hafi þess verið getið að pípan væri í umsjá stefndu á meðan lagning hennar færi fram og bæru þeir ábyrgð á tjóni sem kynni að verða á henni á því tímabili.  Af þessu megi ráða að stefndu hafi einvörðungu tekið að sér að leggja pípuna og á meðan á byggingu hennar hafi staðið hafi hún aðeins verið í þeirra umsjá, en ekki þeirra eign. Þá styðji tilurð samningsins kröfu stefnanda.  Hreppsnefnd hafi borist beiðni frá stefndu um að hreppurinn gerðist eignar- og rekstraraðili væntanlegrar hitaveitu.  Þetta hafi verið snemma árs 1971.  Þágildandi orkulög nr. 58/1967 hafi kveðið á um það í 31. gr. að jarðeigendur sem ættu land þar sem leiðslur hitaveitu sveitarfélags yrðu lagðar, svo og lóðareigendur og lóðarleigjendur í hlutaðeigandi umdæmi, væru skyldir til að láta af hendi land, landsafnot og mannvirki sem þyrfti til að veita mætti vatni um veitusvæðið. Þeim væri einnig skylt að þola grjóttak, malartekju og aðra jarðefnatöku, svo og eignarkvaðir, óhagræði og takmörkun á afnotarétti sem bygging og rekstur hitaveitunnar kynnu að hafa í för með sér.  Fullar bætur skyldu koma fyrir eftir mati, ef samkomulag næðist ekki.  Með samningi sínum hafi aðilar verið að laga sig að því fyrirkomulagi sem þetta ákvæði hafi gert ráð fyrir og samið um þá aðstöðu sem þar greini.  Það leiði af eðli máls að í samræmi við beiðni landeigenda um að hreppurinn yrði eignar- og rekstraraðili hitaveitu, myndi hreppurinn jafnframt verða eigandi að þeim mannvirkjum sem hitaveitu fylgdu, sem og eigandi að landi undir mannvirkin sem skýr ákvæði samningsins 1971 hafi kveðið á um og síðan reglugerð um hitaveitu Reykjahlíðar nr. 432/1985.  Hafi stefndu þannig látið af hendi asbest­pípuna og land undir hana, allt í samræmi við þetta lagaákvæði.  Þá vísar stefnandi til reglugerðarinnar, einkum 57. gr. þar sem er kveðið á um eignarrétt stefnanda að öllum lögnum veitukerfisins og aðveitu- og stofnæðum.  Fari svo að dómurinn telji samning aðila og þágildandi 31. gr. laga nr. 58/1967 ekki hafa kveðið á um eignarrétt stefnanda að pípunni og landi undir hana, þá hafi eignarrétturinn tvímælalaust færst til stefnanda með setningu reglugerðarinnar. III Stefndu Anna, Leifur og Ólöf Þórelfur kveðast byggja á því að kröfum stefn­anda á hendur þeim sé beint að röngum aðila.  Kveðast þau vísa til þess að Vogabú ehf. eigi Voga I samkvæmt þinglýstum kaupsamningi.  Af meginreglum eignaréttar og þinglýsingarlögum leiði að Vogabú I fari með hefðbundin eignarráð jarðarhlutans. Séu þau því ekki með réttu aðilar til að þola þá viðurkenningu sem dómkrafa stefnanda byggir á.  Af þessum sökum geti þau ekki svarað til efnisréttar í málinu og því beri að sýkna þau af kröfum stefnanda með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu byggja kröfu um sýknu af kröfu um viðurkenningu á gildi samnings á þeirri meginreglu kröfuréttar að samningum megi segja upp með hæfilegum fyrirvara, svo framarlega sem slíkt fari ekki gegn lögmætum og skýrum ákvæðum þeirra sjálfra.  Kveðast þau mótmæla sérstaklega fullyrðingu stefnanda um að samningurinn hafi verið óuppsegjanlegur.  Nægur fyrirvari hafi verið á uppsögn samningsins. Þannig hafi stefnandi verið upplýstur af stefndu í byrjun febrúar 1990 um óánægju með framkvæmd á samningnum og hafi síðan átt sér stað viðræður á milli aðila í janúar 1991 um átján mánuðum fyrir uppsögn. Hafi verið farið fram á endurskoðun og það hafi verið samþykkt.  Í framhaldinu hafi stefndu beint erindum ítrekað til stefnanda um nauðsyn endurskoðunar samningsins, enda hafi stefndu talið forsendur hans brostnar.  Lokaviðvörun hafi verið gefin 23. júní 1992 eins og stefnanda hafi verið ljóst og samningnum hafi endanlega verið sagt upp þann 20. júlí 1992.  Uppsögn samnings sé ákvöð sem sé bindandi um leið og hún komi til móttakanda og þurfi ekki að samþykkja uppsögnina sérstaklega.  Það sé óumdeilt að stefndu hafi sagt samn­ingnum upp 20. júlí 1992 og hafi sá ákvaðargerningur sem í uppsögninni hafi falist verið bindandi fyrir stefnanda frá móttöku.  Síðbúin mótmæli stefnanda 24. febrúar 1994 hafi engu breytt um gildi uppsagnarinnar.  Þá byggja stefndu á því að stefnandi hafi með háttsemi sinni viðurkennt gildi uppsagnarinnar því hann hafi ekki innt af hendi höfuðskyldu sína til greiðslu leiguverðs fyrir heitt vatn í samræmi við samn­inginn. Stefndu kveðast einnig vísa til þess að samningurinn hafi verið leigu­samn­ingur. Stefndu hafi átt eignarrétt á bæði 4,5 lítrum á sekúndu af heitu vatni og aðrennslisæð til að flytja það frá Reykjahlíð til Voga.  Þá hafi þeim verið sérstaklega tryggður réttur til endurgjaldslauss flutnings á þessu heita vatni frá Bjarnarflagi og allt til Voga samkvæmt samningi íslenska ríkisins við landeigendur í Reykjahlíð frá 18. mars 1971.  Með hliðsjón af þessu og meginreglu íslensks réttar um nýtingu eigenda á eignarrétti sínum, sbr. einnig 10. gr. laga nr. 57, 1998, hafi stefndu verið bæði heimilt að lögum og samkvæmt samningnum að ráðstafa jarðhitavatni sínu til eigin nota.  Þá kveðast stefndu benda á að þó stefnandi hafi litið svo á að stefndu væru að nýta sér eigin jarðhita samkvæmt samningi sínum við íslenska ríkið, ákvæði 10. gr. laga nr. 57, 1998 og tilkynningu frá 31. desember 1991, þá hafi stefnanda borið skylda til að greiða fyrir a.m.k. 2,5 lítra á sekúndu af heitu vatni ef hann hafi talið samning aðila verið í gildi að einhverju leyti. Í nýlegum ársreikningum stefnanda sé sérstaklega tiltekið í skýringum að samningi aðila hafi verið sagt upp árið 1992 og ekki hafi tekist samningar um áframhaldandi leigu.  Hafi stefnandi þannig staðhæft í opinberum skjölum sem m.a. sé beint til lánardrottna og viðsemjenda hans, að um uppsögn hafi verið að ræða og frá þeim tíma sé enginn samningur á milli aðila um leigu á heitu vatni. Stefndu segjast telja að þeim hafi verið rétt að segja samningi aðila upp bæði vegna breyttra aðstæðna frá samningsgerð, ósanngjarns leiguverðs og vegna brostinna forsendna.  Þannig hafi orðið veruleg og óhagkvæm stækkun á svæði Hitaveitunnar sem hafi leitt til hærri hitaveitugjalda og brotthvarfs afgangsvatns samkvæmt 11. gr. samningsins.  Afleiðing þessa sé m.a. að gróðurhúsum í Vogum hafi fækkað úr fimm í tvö.  Þessu til viðbótar hafi verið og sé verulegur munur á markaðsverði á heitu vatni og leiguverði til stefndu samkvæmt samningnum eins og m.a. hafi verið viðurkennt af veitunefnd stefnanda á fundi þann 7. nóvember 1992. Stefndu kveðast byggja á því að hófleg hitaveitugjöld, raunverð á leiguverði heita vatnsins og notkun á afgangsvatni til heyþurrkunar og ræktunar hafi verið ákvörðunarástæða fyrir samningi þeirra við stefnanda árið 1971.  Megi af gögnum málsins sjá að það hafi þótt sanngirnismál að hækka verð, tryggja stefndu forgangs­vatn til tiltekinna eigin þarfa og jafnvel auka nýtingarmagn í 5 lítra á sekúndu.  Vísa stefndu hér einkum til miðlunartillögu gerðardóms.  Þessu til viðbótar segjast stefndu telja að framangreindar ástæður um brostnar forsendur og munur á söluverðmæti heits vatns miðað við uppreiknað leiguverð samkvæmt samningi aðila, auk vanefnda stefnanda á ákvæðum samningsins til 25 ára, leiði til þess að umræddur samningur geti ekki verið skuldbindandi og ósanngjarnt sé af stefnanda að bera hann fyrir sig, sbr. 36. gr. samningalaga nr. 7, 1936. Stefndu segjast telja sig eiga asbestpípuna. Hún liggi til Voga frá brunni í Reykjahlíð en til Reykjahlíðar liggi pípa sem flytji heitt vatn frá Bjarnarflagi samkvæmt samningum landeigenda Voga og Reykjahlíðar við íslenska ríkið 1971.  Hafi verið sérstök kvöð í síðarnefnda samningnum um endurgjaldslausan flutning á allt að 5 sekúndulítrum af heitu vatni frá Bjarnarflagi allt til Voga til afnota fyrir stefndu sem kveðast byggja á því að þau hafi séð um og kostað gerð umræddrar pípu, bæði með vinnu og fjármagni.  Þessu til viðbótar hafi pípulögnin verið hluti af endurgjaldi sem íslenska ríkið hafi greitt fyrir jarðhitaréttindi stefndu samkvæmt samningi aðila frá 1971.  Hafi ríkið átt að greiða ákveðna peningaupphæð sem stefndu myndu umbreyta með eigin vinnu og viðbótarfjármagni í þau verðmæti sem felist í pípulögninni.  Þannig sé ljóst að frumstofnun eignarréttar yfir henni sé hjá stefndu.  Sú hlunnindaleiga sem hafi falist í leigusamningi aðila þessa máls hafi ekki falið í sér afsal á eignarrétti að pípulögninni.  Hafi gerðardómsmenn komist að sömu niðurstöðu í sinni miðlunartillögu, enda væri önnur niðurstaða ósanngjörn í garð stefndu.  Samningur aðila sé afnotasamningur um tiltekin réttindi eins og megi sjá af orðfæri samningsins þar sem stefnandi sé nefndur leigutaki og stefndu leigusali.  Samið hafi verið um að stefndi fengi á leigu annars vegar 4,5 sekúndulítra af heitu vatni gegn árlegri peningagreiðslu og hins vegar afnotarétt til asbestpípulagnar sem stefndu hafi byggt gegn greiðslu í formi rekstrar, viðhalds og endurnýjunar lagnarinnar.  Benda stefndu á að ef um afsal hefði verið að ræða hefði verið óþarfi að mæla fyrir um það í samningnum hvernig skyldi farið með kostnað af rekstri, viðhaldi eða endurnýjun.  Hefði samningurinn falið í sér afsal hefði verið mælt fyrir um greiðslu endurgjalds af hálfu stefnanda fyrir þau fjárhagslegu verðmæti. Séu engin slík ákvæði í samningnum.  Sérstök ákvæði hans um að land sé endurgjaldslaust lagt undir pípulögnina og heimil sé nauðsynleg umferð til viðhalds henni séu til staðfestingar á því að um afnota­samning sé að ræða.  Hafi verið óþarfi að mæla sérstaklega fyrir um skil leigutaka á hinu leigða við lok samnings enda leiði slíkt af almennum reglum. Þá mótmæla stefndu því að einhliða bókun stefnanda í fundargerð mæli fyrir um eignarheimild, auk þess sem ekki verði ályktað af fundargerðinni að þar hafi átt sér stað bindandi afsal.  Það verði ekki heldur ályktað af ákvæði 31. gr. þágildandi orkulaga nr. 58, 1967, enda samræmist það hvorki tilvitnuðu lagaákvæði né málsatvikum.  Þá hafi setning reglugerðar nr. 432, 1985 ekki leitt til þess að stefnandi eignaðist pípulögnina. Hitaveita Reykjahlíðar hafi ekki getað ráðstafað meiri rétti til pípulagnarinnar en hún hafi átt og þá hafi hita- og vatnsveitunefnd stefnanda lagt til að stefnandi keypti pípuna af stefndu.  Ekki hafi orðið af því en það sýni að árið 1984 hafi það verið álit þessarar nefndar að stefndu ættu pípuna. Stefndu vísa til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944, almennra meginreglna eignaréttar, samningaréttar og kröfuréttar, laga nr. 7, 1936, laga nr. 57, 1998, laga nr. 39, 1978, laga nr. 53, 1989, laga nr. 91, 1991 og loks laga nr. 50, 1988. IV Vitnin Gísli Sigurðsson og Sigurður Rúnar Ragnarsson gáfu skýrslur fyrir dómi. Fallist er á það með stefnanda að nauðsynlegt hafi verið að stefna öllum þinglýstum eigendum. Teljast stefndu Anna, Leifur og Ólöf Þórelfur vera þinglýstir eigendur meðan þau hafa ekki afsalað eignarrétti sínum. Verður ekki fallist á kröfur þeirra að því leyti sem þær eru byggðar á aðildarskorti. Í samningi aðila eru þeir kallaðir leigutaki og leigusali. Orðalag um afhendingu og landnotkun samrýmist því að um leigusamning hafi verið að ræða. Verður að skilja hann svo að með honum hafi asbestpípan verið seld á leigu og leigugjaldið hafi í raun verið innifalið í afgjaldi fyrir vatnsréttindi, sem samningurinn tekur einnig til. Gat stefnandi því ekki eignast pípuna með reglugerð eða á annan hátt án atbeina stefndu. Verður samkvæmt þessu ekki fallist á kröfu stefnanda um viðurkenningu á að hann eigi pípuna. Að pípunni slepptri hljóðar samningurinn um vatnsréttindi. Engin upp­sagnar­ákvæði er að finna í honum og ekki heldur ákvæði um gildistíma. Hvorugum aðila ætti að hafa dulist við gerð samningsins að vatnsréttindin væru látin af hendi vegna hitaveitu. Eðli málsins samkvæmt er slíkur samningur varanlegur svo lengi sem hitaveitan starfar, sé ekki kveðið sérstaklega á um annað. Breytir engu þótt endurgjaldið hafi verið ákveðið sem árlegt afgjald. Að þessu gættu verður fallist á það með stefnanda að samningurinn sé ekki uppsegjanlegur. Stefnandi hætti að greiða afgjaldið eftir uppsögn stefndu. Stefndu hættu einnig að greiða stefnda fyrir notkun á heitu vatni. Stefnandi hefur samt sem áður haldið áfram að afhenda þeim heitt vatn. Þótt stefnandi hafi vanrækt greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum verður ekki framhjá því horft að samningurinn hefur áfram verið framkvæmdur að því leyti að stefnandi hefur tekið vatnið sem hann hljóðar um. Verður ekki fallist á eins og þetta mál er vaxið að stefnandi hafi fallið frá samningnum með því að hætta greiðslum til stefndu. Þá verður ekki litið svo á að stefnandi hafi fallið frá samningnum með því að geta þess í ársreikningi sínum að stefndu hefðu sagt honum upp og ekki hefði tekist að semja við þá. Stefndu telja að samningurinn hafi verið orðinn þeim óhagstæður vegna stækk­unar hitaveitunnar og þess að heitt vatn hafi orðið þeim dýrara en þeir hafi ráðgert. Stefndu er unnt að leita endurskoðunar á endurgjaldsákvæði samningsins, sé það orðið bersýnilega ósanngjarnt vegna breyttra aðstæðna. Þá er ráðgert í samn­ingnum að allt vatn samkvæmt honum verði nýtt af stefnanda. Verður ekki fallist á að skilyrði séu til að víkja samningnum til hliðar með vísun til 1. mgr. 36. gr. samningalaga. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu stefnanda um viðurkenningu á gildi samningsins. Eftir þessum málsúrslitum þykir rétt að hver aðili greiði sinn kostnað af rekstri málsins. Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp dóminn. Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. DÓMSORÐ: Stefndu, Vogabú ehf., Anna Skarphéðinsdóttir, Leifur Hallgrímsson, Ólöf Þór­elfur Hallgrímsdóttir, Jóhann Friðrik Kristjánsson, Hermann Kristjánsson, Elín S. Kristjánsdóttir, Þórhallur Kristjánsson, Hjördís Sigríður Albertsdóttir, Þórdís Guðfinna Jónsdóttir, Gunnar Rúnar Pétursson, Jónas Pétur Pétursson, Jón Árni Sigfússon, Gísli Rafn Jónsson, Jakob Stefánsson, Valla sf., Sólveig Erla Hinriksdóttir, Jón Ingi Hin­riksson og Vogar 4 ehf., eru sýkn af kröfu stefnanda, Veitustofnunar Skútu­staðahrepps um að viðurkenndur verði eignarréttur stefnanda að asbestpípu sem liggur frá skipti­stöð í landi Reykjahlíðar að landi Voga. Viðurkennt er að samningur Hitaveitu Reykjahlíðar og eigenda Voga í Skútustaðahreppi frá 1. júlí 1971 sé gildur. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 836/2017
Gjaldþrotaskipti Skaðabótamál Vanreifun Frávísun frá héraðsdómi
Þrotabú S ehf. höfðaði mál á hendur T til heimtu bóta vegna ábyrgðar sem þrotabúið taldi T bera á því að tækjabúnaður í eigu S ehf., eða andvirði hans, hefði ekki skilað sér inn í búið við skiptin. Í dómi Hæstaréttar kom fram að málatilbúnaður þrotabús S ehf. væri ekki til þess fallinn að unnt væri að staðreyna að sá tækjabúnaður sem talinn væri upp í stefnu til héraðsdóms hefði verið í eigu búsins þegar T hefði stöðvað rekstur S ehf. og eftir atvikum að hvaða marki honum hefði verið ráðstafað án þess að félagið nyti endurgjaldsins. Þá taldi rétturinn ágalla vera á málatilbúnaði þrotabús S ehf. hvað varðaði tölulegan grundvöll skaðabótakröfunnar en engin tilraun hefði verið gerð til að afmarka raunverulegt verðmæti tækjabúnaðarins á þeim degi sem bú S ehf. hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og þar með raunverulegt tjón þrotabús S ehf. Hefði stefna í málinu því ekki uppfyllt kröfur e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem ekki hefði verið úr þessari vanreifun bætt með viðhlítandi hætti undir rekstri málsins væru svo verulegir annmarkar á málatilbúnaði þrotabús S ehf. að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon landsréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. desember 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 4.050.466 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2015 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Einkahlutafélagið Sitrus annaðist auglýsingasölu og auglýsingagerð en bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta 21. október 2015. Áfrýjandi byggir á því að stefndi hafi verið stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi Sitrusar ehf. frá 4. desember 2012 og þar til bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. Stefndi hafi stöðvað rekstur félagsins í lok febrúar 2015 og þá skipt um skrár á starfsstöð þess. Þegar starfsmenn félagsins hafi yfirgefið starfsstöðina hafi allur tækjabúnaður félagsins verið þar. Stefndi hafi tjáð skiptastjóra áfrýjanda að engar eignir væru í búinu en gefið óljós svör um hvað orðið hefði af tækjabúnaðinum. Könnun skiptastjóri á bankareikningi Sitrusar ehf. hjá Landsbankanum hefði leitt í ljós að ekki væri að sjá að eignir búsins hefðu verið seldar og andvirði þeirra runnið inn á reikning félagsins. Áfrýjandi lagði 7. júlí 2016 fram kröfu á hendur stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um afhendingu á nánar tilgreindum tækjabúnaði en undir rekstri málsins komu fram skýringar á afdrifum hluta hans. Kröfu áfrýjanda var hafnað með úrskurði héraðsdóms sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 13. desember 2016 í máli nr. 788/2016. Af hálfu áfrýjanda er byggt á því að eftir að rekstri Sitrusar ehf. hafi verið hætt hafi stefndi einn haft aðgang að húsnæði því sem tækjabúnaðurinn var í. Því viti hann einn um afdrif búnaðarins og beri þar af leiðandi augljóslega ábyrgð á vörslu hans og hvarfi samkvæmt 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutfélög og almennum skaðabótareglum. Skaðabótakrafa áfrýjanda er sundurliðuð með þeim hætti að tilgreind eru þau tæki sem áfrýjandi telur hafa horfið úr eigu félagsins og þá er gerð grein fyrir vörunúmeri, heiti tækis og raðnúmeri auk þess sem kaupverð er tilgreint. Við þingfestingu málsins í héraði voru lagðir fram reikningar sem bera það með sér, utan einn, að vera vegna kaupa Sitrusar ehf. á tölvum og öðrum tækjum en flestir þeirra eru dagsettir á fyrri hluta ársins 2013 en sá síðasti 5. maí 2014. Gengið er út frá því í stefnu að reikningarnir séu vegna þeirra tækja sem voru á starfsstöð Sitrusar ehf. þegar rekstri var hætt og skiptastjóri telur að hafi horfið úr eigu félagsins síðar án endurgjalds. Ekki var sérstaklega vísað til þess í stefnu að þessi gögn hefðu verið fengin úr bókhaldi Sitrusar ehf. Af hálfu áfrýjanda er byggt á því að tölvubúnaður félagins hafi verið mjög vandaður og notkunar- og líftími mun lengri en almennt gerist um heimilistölvur og venjulegar skrifstofutölvur. Vafi um raunverðmæti eignanna sé því á áhættu og ábyrgð stefnda. II Sá ágalli er á málatilbúnaði áfrýjanda að í stefnu til héraðsdóms er aðeins að litlu leyti vísað til þeirra upplýsinga sem lágu fyrir við höfðun málsins um ráðstöfun á tækjabúnaði Sitrusar ehf. en þessar upplýsingar höfðu komið fram í skýrslum stefnda og starfsmanna félagsins hjá skiptastjóra og við rekstur fyrrnefnds máls áfrýjanda á hendur stefnda um afhendingu á búnaði. Upplýsingarnar gáfu þó fullt tilefni til þess að skiptastjórinn gerði frekari reka að því að staðreyna hvernig tækjunum hefði verið ráðstafað, hvort endurgjald hefði komið fyrir þau og hvert það hefði runnið. Ársreikningar Sitrusar ehf. eða önnur bókhaldsgögn voru ekki lögð fram í málinu og ekki til þeirra vísað í málatilbúnaði áfrýjanda. Þá var ekki lagt fram í málinu yfirlit yfir færslur á bankareikningum Sitrusar ehf. heldur aðeins vísað til þess að skiptastjóri hefði kannað yfirlit reikninganna. Málatilbúnaður áfrýjanda er þannig ekki til þess fallinn að unnt sé að staðreyna að sá tækjabúnaður sem talinn er upp í stefnu hafi verið í eigu búsins þegar stefndi stöðvaði rekstur Sitrusar ehf. og eftir atvikum að hvaða marki honum hafi verið ráðstafað án þess að félagið nyti endurgjaldsins. Þá er sá ágalli á málatilbúnaði áfrýjanda hvað varðar tölulegan grundvöll skaðabótakröfunnar að alfarið er byggt á kaupverði nánar tiltekinna tækja á árunum 2013 og 2014, að því er virðist að meðtöldum virðisaukaskatti sem þó má ætla að Sitrus ehf. hafi getað nýtt sem innskatt. Engin tilraun er gerð til að afmarka raunverulegt verðmæti tækjabúnaðarins á þeim degi sem bú Sitrusar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta og þar með raunverulegt tjón áfrýjanda svo sem með því að meta eða áætla endursöluverð tækjanna að teknu tilliti til óhjákvæmilegrar virðisrýrnunar vegna aldurs og notkunar. Samkvæmt framansögðu uppfyllti stefna í málinu ekki kröfur e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem ekki hefur verið úr þessari vanreifun bætt með viðhlítandi hætti undir rekstri málsins eru svo verulegir annmarkar á málatilbúnaði áfrýjanda að óhjákvæmilegt er að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi. Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr., sbr. 190. gr., laga nr. 91/1991 ber að dæma áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi vegna reksturs málsins í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Áfrýjandi, Þrotabú Sitrusar ehf., greiði stefnda, Teiti Guðmundssyni, samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.                                                                               Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. desember 2017. Mál þetta, sem var dómtekið 29. nóvember sl., var höfðað með stefnu þingfestri 14. febrúar sl. Stefnandi er þrotabú Sitrusar ehf., kt. 510507-1690, Suðurlandsbraut 48, Reykjavík. Stefndi er Teitur Guðmundsson, kt. 261173-6389, Fróðaþingi 31, Kópavogi.    Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 4.050.466 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 af stefnufjárhæðinni frá 1. mars 2015 til greiðsludags. Þá er þess jafnframt krafist, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda hæfilegan málskostnað að mati dómsins auk virðisaukaskatts.    Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda auk þess sem hann krefst málskostnaðar. Var málið dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 29. nóvember 2017. Málavextir. Félag Sitrusar ehf. var tekið til gjaldþrotameðferðar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur  þann 21. október 2015. Var Björn Ólafur Hallgrímsson hæstaréttarlögmaður skipaður skiptastjóri þrotabúsins. Var frestdagur 19. júní 2015. Auglýsing um fyrstu innköllun krafna birt í Lögbirtingarblaði þann 2. nóvember 2015. Var fyrsti skiptafundur haldinn hjá stefnanda 18. janúar 2016. Samkvæmt hlutafélagavottorði fyrir Sitrus ehf., dagsettu 19. júní 2015 var stefndi skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi Sitrusar ehf. allt frá fundi í félaginu þann 4. desember 2012.  Í gögnum málsins liggur fyrir skýrsla stefnda hjá skiptastjóra þann 16. desember 2015 þar sem stefndi lýsti því yfir að engar eignir væri að finna í búinu. Þegar stefndi var inntur eftir svörum við því hvar þær eignir væru niður komnar, sem þrotabúið hafði keypt á fyrri helmingi ársins 2013 og sem fram kæmu á reikningum sem fylgdu með kröfulýsingu Emerio ehf., dags. 6. nóvember 2015 og sem hafi verið móttekin af skiptastjóra þann 11. nóvember 2015, svaraði stefndi því til að verktaki hjá Sitrusi ehf. hefði tekið eignirnar út í nafni félagsins í leyfisleysi. Kvað stefndi verktakann heita Stefán Unnar Sigurjónsson.    Í gögnum málsins liggur fyrir krafa skiptastjóra á stefnda dagsett 23. mars 2016 þar sem skorað er á stefnda að afhenda þrotabúinu þær eignir sem tilheyrðu þrotabúinu fyrir þann 12. apríl 2015. Vísaði skiptastjóri til reikninga sem voru í bókhaldi stefnda. Með beiðni þann 7. júlí 2016, krafðist skiptastjóri þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði um kröfu stefnanda um að stefnda yrði gert skylt að afhenda stefnanda ákveðnar eignir sem stefnandi taldi vera eignir þrotabúsins. Var kröfu stefnanda hafnað með úrskurði í málinu X-24/2016, uppkveðnum 8. nóvember 2016. Segir í forsendum úrskurðarins, sem staðfestur var í Hæstarétti að eins og málið liggi fyrir dóminum verði að telja ósannað að umræddir munir hafi verið á starfsstöð félagsins er húsnæðið var innsiglað eða að þeir væru þá í vörslum varnaraðila. Geti niðurstaða dómsins ekki byggst á getgátum um að umræddir munir séu á heimili varnaraðila. Þá hafi ekki verið leitt í ljós með nægilega skýrum hætti hvaða tæki og búnaður hafi verið í húsnæði félagsins er starfsemi þess lauk og húsnæðinu var lokað. Þótti framburður fyrrverandi starfsmanna sóknaraðila ekki varpa ljósi á þetta. Mat dómurinn það svo að stefnandi hafi ekki fært nægar sönnur fyrir kröfu sinn og því skilyrði 3. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991 ekki verið uppfyllt. Málsástæður og lagarök stefnanda. Stefnandi byggir á skýrslum sem voru teknar fyrir héraðsdómi af stefnda, Stefáni Unnari Sigurjónssyni, fyrrverandi verktaka hjá Sitrusi ehf. Hermanni Karlssyni, fyrrverandi starfsmanni Sitrusar ehf., Freymari Þorbergssyni, fyrrverandi starfsmanni Sitrusar ehf. og Mána M. Sigfússyni fyrirverandi starfsmanni Sitrusar ehf., þann 3. nóvember 2016. Við könnun skiptastjóra á eignum búsins hafi stefnandi orðið þess áskynja að stefndi keypti m.a. verðmætan tölvubúnað á árunum 2013 og 2014.  Aðeins lítið brot af þeim eignum sem þrotabúið hafi keypt á þessum árum sé að finna á þeim reikningum sem hafi fylgt með kröfulýsingu Emerio ehf., dags. 6. nóvember 2015.  Við könnun skiptastjóra á bankareikningi þrotabúsins hjá Landsbankanum nr. 0101-26-051057 hafi ekki verið að sjá að fyrrgreindar eignir búsins hafi verið seldar og að andvirði þeirra hafi runnið inn á reikning búsins hjá Landsbankanum.  Þó  hafi síðar komið í ljós að tölvuna skv. tl. nr. 1 hér að neðan, (Z0MS008V iMac 27" 3.4GHz 3TB Fusion, hafði starfsmaðurinn Freymar Þorbergsson keypt af félaginu og greitt fyrir 210.000 krónur. Þá kveður stefnandi að eðlilegar skýringar hafi komið fram undir rekstri fyrra dómsmáls, X-24/2016, á ráðstöfun á neðantöldum eignum: 1 Z0MS008V                                        iMac 27" 3.4GHz 3TB Fusion – sérpöntun.  600.000 krónur. Raðnúmer: SC02KG0EADNMP. Tölvan hafi verið seld starfsmanni/verktaka og hann greitt fyrir hana að fullu.   1  SE9285731                                        Playstation 3 500GB S SLIM M.                       69.900  og 1  SE9287339                                        Playstation 3 12GB S SLIM M. M.                  59.999.   Tveimur playstation tölvum hafi verið ráðstafað sem greiðslu verklauna tónlistarmanna sem hafi sungið 13. jólalög inn á disk fyrir félagið.   1  NIT3DS HW BLUE         Nintendo 3DS Blá                                                              39.999 Einni playstation tölvu hafði verið ráðstafað til starsmanns/verktaka.   4  S2740L                                              Dell S2740L (1920x1080) 27" Wide LED skjár Raðnúmer: 5RBYGT1, 5R91HT1, (5R71HT1 og 5R4XGT1).                                                     264.540/2 Tveimur af fjórum 27“ Wide LED skjám, (Raðnúmer: 5RBYGT1, 5R91HT1)  hafi eignkona stefnda skilað til skiptastjóra þann 6. september 2016 ásamt köplum, lyklaborði og svonefndri „tölvu“, sem í raun sé lítið Appel-breytibox og sem ekki hafi verið á þeim lista sem lagður hafi verið fyrir héraðsdóm. Undir rekstri framangreinds máls fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hafi skýrslutökur farið fram af stefnda og starfsmönnum/verktökum Sitrusar ehf.  Kom m.a. fram í þeim skýrslum, að stefndi hafði stöðvað rekstur félagsins í lok febrúar 2015.  Hafi starfsmannafundur verið haldinn í þáverandi starfsstöð félagsins að Seljavegi 2 í  Reykjavík,  á laugardegi í lok mánaðarins, sem muni hafa verið 28. febrúar 2015.  Urðu þá starfsmenn/verktakar þess varir, er þeir hugðust mæta á fundinn, að búið var að skipta um læsingar þar svo að þeir komust ekki inn með lyklum sínum. Hleypti stefndi þeim inn, tilkynnti þeim að félagið væri hætt rekstri og gaf þeim síðan kost á taka með sér persónulega muni þegar þeir færu af vettvangi.  Samkvæmt fyrirliggjandi framburði var allur tækjabúnaður  félagsins óhreyfður  í starfsstöðinni, þegar starfsmenn/verktakar yfirgáfu staðinn eftir fundinn. Svör stefnda við skýrslugjöf  fyrir dómi hafi verið mjög óljós um hvað orðið hefði af tækjabúnaðinum, en ljóst er hins vegar af fyrirliggjandi gögnum, að búnaðurinn var til staðar þegar starfsmannafundurinn var haldinn og skipt hafði verið um læsingar.  Eftir það hafi stefndi einn haft aðgang að húsnæðinu og hann einn viti því hvað um búnaðinn varð.  Beri hann því augljóslega ábyrgð á vörslu þeirra og hvarfi skv. almennum skaðabótareglum og skv. XV. kafla laga nr. 138/1994, einkum 108. gr.  Sé m.a. á því byggt að hvarf meginhluta eigna þrotabúsins stafi af gáleysi stefnda eða ásetningi stefnda, eins og ljóst má telja af gögnum málsins. Nægir skv. 108 gr. að stefndi hafi sýnt af sér gáleysi við vörslur eignanna til að hann hafi bakað sér bótaskyldu.  Hafi stefndi hins vegar ráðstafað eignunum í þeim tilgangi að koma þeim undan félaginu, hefur tjóninu verið valdið með ásetningi hans.  Þar sem félagið sé undir gjaldþrotaskiptameðferð verði ákvörðun um að hafa uppi skaðabótakröfuna ekki bundin við að hún hafi verið tekin á hluthafafundi skv. 1. mgr. 109 gr. laga um einkahlutafélög heldur af skiptastjóra búsins, sem skv. 122. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 fer með forræði búsins og er skylt að gæta hagsmuna búsins og innheimta kröfur þess. Hafi stefndi af ásetningi tileinkað sér eignir þrotabúsins til eigin nota eða selt þær í eigin reikning, varði slíkt eftir atvikum við 247. og  250. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940 og er hvort sem er grundvöllur bótaábyrgðar og refsiábyrgðar. Í máli þessu sé sýnt fram á upphaflegt verðmæti eigna Sitrusar ehf. og það jafnframt að tölvubúnaður félagsins var sérlega vandaður og þess eðlis, að notkunar- og líftími búnaðarins sé mun lengri en almennt gerist um heimilistölvur og venjulegar skrifstofutölvur.  Allur vafi um raunverðmæti eignanna við bótaskyldar athafnir stefnda er því á hans áhættu og ábyrgð. Töluleg útlistun stefnukröfu: Sá tækjabúnaður þrotabúsins, sem fjárhæð  bótakröfu byggist á, er eftirfarandi:   Magn        Vörunúmer              Samtalsverð                    Vörulýsing 1          CH3 3TB S 64 72.            26.328             3TB SATA3 Seagate Barracuda harður diskur                                                                             (ST3000DM001). 2          CHXS 2TB MIN L.        37.228             2TB LaCie 3.5" Minimus flakkari 32MB, USB 3.0. 1          PRECISIONT1650#05.   188.417           Dell Precision T1650 vinnustöð.               Raðnúmer: 78YMMW1. 2          OPTIPLEX3010DT#04.  199.800           Dell OptiPlex 3010 borðtölva.                                                         Raðnúmer: 8VFXH5J og 7WFXH5J. 2          P2312H.                          70.546              Dell Professional (1920x1080) 23" LED skjár Raðnúmer: CN0YJ3JX7444529OABN og CN0YJ3JX7444529OAHN. 1          SEV-KS9893                    29.989              Kæliskápur m. frystib. 1          PAN-TXP50UT50Y        168.000             Panasonic 3D 50" FHD plasma. 1          VCQ600-PB                     35.965              PNY NVIDIA Quadro 600 1          V313WAIO                      16.315              Dell V313W All-in-One prentari.                                                                                                                     Raðnúmer: 5H8X6Q1. 1          PIHTP-SB300                  77.500              Soundbar fyrir LCD sjónvarp. 2          PRECISIONT1650#04    443.597            Dell Precision T1650 vinnustöð.                                                                               Raðnúmer: B8GZMW1 og C7GZMW1. 1          PET302#02                      507.468            Dell Power Edge T320 netþjónn                                Raðnúmer: 811MF5J. 2          S2740L                            132.270            Dell S2740L (1920x1080) 27" Wide LED skjár.                                                                                  Raðnúmer:  5R71HT1 og 5R4XGT1.                    1         ST32000444SS                44.426               2TB NL SAS 6Gbp/s 7200rpm 3,5".                                     Raðnúmer: 9WM2P106. 1         Z0MR                              326.574              iMac 27" 2.9GHz i5 8GB 1TB.                                                                                Raðnúmer: SC02K54A4DNMN. 1        PRECISIONT3600#07      305.993             Dell Precision T3600 vinnustöð                                                                                Raðnúmer: 3DS76X1. 2        S2740L                             119.980              Dell S2740L (1920x1080) 27" Wide LED skjár.                                                                                Raðnúmer: F91YGT1 og F8N0HT1. 1       CVEGTX6700OC2GG      79.900               Gigabyte GTX 670OC PCI-E3.0 skjákort 2GB            GDDR5. 1            WE-6531068                        209.500               Genesis E330 gas grill – svart. 1           OPTIPLEX3010DT#06        109.990               Dell OptiPlex 3010 borðtölva.                                                                                        Raðnúmer: HVCC3Y1. 2                                                         604.500               Dreamware Render tölva. 1           CH3 3TB L TB                      54.430                3TB LaCie 3.5" d2 Thunderbolt flakkari, USB3.0,Thunderbolt.                                                                                           5          CH3 3TB 128 72                261.750                 3TB SATA3 Seagate Constellation ES.3 harður diskur. Samtals nemi kaupverð þessara horfnu tækja og búnaðar 4.050.466 króna, sem sé stefnufjárhæðin. Auk þessa tækjabúnaðar hafi jafnframt horfið ýmislegur forgengilegri tækjabúnaður og smáhlutir, sem sjáist á kaupnótum, svo og verðmætur hugbúnaður Sitrusar ehf., en í málinu sé ekki gerð bótakrafa vegna þeirra eigna að svo stöddu. Stefnandi styður kröfugerð sína við XV. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, einkum 108. gr. Þá byggir stefnandi á almennu skaðabótareglunni.  Einnig byggir stefnandi á því varðandi almennu skaðabótaregluna, að bótaskylda stefnda verði eftir atvikum studd við fjárdráttarákvæði  247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og skilasvikaákvæði 250. gr. sömu laga. Um heimildir skiptastjóra til málshöfðunar f. h. þrotabúsins vísast til XIX. kafla laga nr. 19/1991, einkum 122. gr. Vísað er til 130. gr. sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um málskostnaðarkröfu stefnanda og til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað er vísað,  en stefnandi er ekki skattaðili skv. lögunum. Málsástæður og lagarök stefnda. Stefndi byggir á því að hann hafi verið fyrirsvarsmaður stefnanda sem hafi selt auglýsingar og auglýsingagerð. Stefndi hafi ekki starfað hjá stefnanda og ekki verið með aðstöðu í starfsstöð stefnanda. Stefndi hafi ekki tekið ákvörðun um það hvaða tæki hafi verið keypt fyrir félagið heldur hafi starfsmenn stefnanda valið búnaðinn, pantað hann og sótt hjá viðkomandi birgi. Stefni bendir á að stefnandi hafi rekið afhendingarmál fyrir dómi vegna sömu muna og hafi þeirri kröfu verið hafnað og sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti Íslands í máli nr. 788/2016. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að þeir munir og búnaður sem hann krefji stefnda um skaðabætur fyrir hafi verið í starfsstöð stefnanda þegar rekstri hafi verið hætt. Enn síður hafi stefnanda tekist að sanna að stefndi hafi nokkurn tímann verið með umrædda muni eða búnað í vörslum sínum. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að meint hvarf umræddra muna eigi rætur sínar að rekja til saknæmrar háttsemi stefnda. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni, hver beri ábyrgð á tjóninu og fjárhæð tjónsins. Sú sönnun hafi ekki tekist og því beri að sýkna stefnda. Þá mótmælir stefndi sérstaklega framkominni bótakröfu en stefnda hafi fyrst verið kynt framkomin bótakrafa þegar málið var höfðað. Skýrslur fyrir dómi. Teitur Guðmundsson kom fyrir dóminn og kvað Sitrus ehf. hafa snúist um auglýsingagerð, sölu á auglýsingum og markaðssetningu. Stefndi kvaðst vera læknir að mennt og reka Heilsuvernd. Hafi hann komið að stefnanda sem fjárfestir og lagt mikið fé til félagsins. Rekstur félagsins hafi gengið illa og því hafi verið óhjákvæmilegt að hætta rekstri. Kvað hann aðila hafa leitað til sín sem fjárfestis og hafi hann verið skráður framkvæmdastjóri með prókúru. Hann hafi ekki verið með starfsstöð þarna en átt samskipti við starfsmenn með tölvupósti og fundum. Kvaðst stefndi ekki hafa vit á tölvubúnaði og hafi starfsmenn því lagt til hvaða tölvubúnað þyrfti og fjárfestar þá lagt félaginu til fé. Starfsmenn hafi oftast sótt sjálfir þær vörur sem þeir hafi pantað en það hafi komið fyrir að stefndi hafi gert það líka. Aðspurður kvaðst Teitur kannast við þá hluti sem taldir séu upp í stefnu en hann viti ekki hvar þeir séu niðurkomnir núna. Kvaðst hann gera ráð fyrir því að þeir munir hafi verið í húsnæðinu þegar það fór í þrot en húsnæðinu hafi verið lokað og síðan óskað eftir því að þar yrði tekið til og það hafi verið gert. Kvað stefndi starfsmenn hafa tekið með sér persónulega muni eftir síðasta fund með þeim en hvað þeir hafi tekið viti stefndi ekki um. Kvaðst stefndi hafa skilað til skiptastjóra þeim munum sem hann hafi haft undir höndum en hann viti ekkert um afdrif annarra muna félagsins utan að einn starfsmaður hafi keypt eina tölvu sem komi fram í gögnum félagsins. Stefndi kvaðst hafa tekið að sér fjármálastjórn en starfsmenn hafi einnig verið með kort á nafni félagsins og því getað keypt tölvubúnað sjálfir í nafni félagsins. Stefndi kvað rétt að hann hefði látið loka fyrirtækinu laugardaginn 28. febrúar 2015 og haldið þá fund með starfsmönnum félagsins. Kvaðst stefndi ekki getað svarað því hvort allir munir félagsins hafi verið til staðar þennan fundardag en stefndi vissi ekki hvaða munir hafi tilheyrt félaginu og hvað hafi tilheyrt starfsmönnum persónulega. Hann hafi ekki staðið yfir þeim þegar þeir tóku sína muni.  Kvað hann Gest Grétarsson, hjá Kvíaholti ehf., hafa séð um að taka til og loka fyrirtækinu og hafi stefndi fengið nokkra muni afhenta frá honum sem eiginkona stefnda hafi síðan farið með til skiptastjóra. Meira viti hann ekki um afdrif þeirra muna sem krafið sé um.    Stefán Unnar Sigurjónsson, kt. 170775-3179, gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa verið stofnandi og starfað sem verktaki hjá stefnanda fram til apríl 2014. Hafi stefndi séð um fjármál fyrirtækisins. Kvað hann rétt að í fyrirtækinu hafi verið öflugur tölvubúnaður til að nota við grafíska vinnslu. Kvaðst vitnið hafa fengið eina tölvu og greitt fyrir hana. Þá hafi hann fengið Playstationtölvu sem laun. Þá hafi stefndi haft samband við vitnið til að aðstoða stefnda við að koma tölvum í verð en úr því hafi ekki orðið. Vitnið kvað vörukaup hafa farið þannig fram að starfsmenn hafi keypt þá muni sem þurfti en öll stærri viðskipti hafi oftast verið gerð í samráði við vitnið eða Teit. Teitur hafi hins vegar oft haft minna um það að segja hvort og hvaða tölvur væru keyptar þar sem Teitur hafði litla þekkingu á þeim búnaði sem notaður var í fyrirtækinu svo og á þeirri vinnu sem þar fór fram. Teitur hafi komið á stjórnarfundi ásamt vitninu, Freymari og Hermanni en þeir hafi allir litið á sig sem jafna varðandi stjórnarsetu fyrirtækisins.    Vitnið Sölvi Sigurðsson, 010980-5709, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað hjá stefnanda þar til starfseminni var hætt. Það hafi verið í kringum páskana. Vitnið starfaði sem hönnuður og stefndi hafi séð um fjármál fyrirtækisins. Mundi vitnið að það hafði verið boðað á fund hjá stefnanda þar sem ákvörðun var tekin um að fyrirtækið væri hætt störfum. Þegar vitnið kom á staðinn hafi verið búið að skipta um skrá. Vitnið hafi tekið tölvuna sína með sér en fyrirtækið hafi leigt tölvuna af vitninu á meðan vitnið starfaði þar. Vitnið taldi að allir munir hafi verið á starfsstöðinni á þeim fundi. Vitnið var innt eftir því hvort þeir munir sem taldir eru upp í stefnu hafi verið á staðnum þegar það kom að sækja sína muni og mundi vitnið eftir einstökum munum en ekki öðrum. Vitnið vissi til þess að Freymar hefði keypt eina tölvuna. Vitnið kvað erfitt að segja til um það hvaða harðir diskar hafi verið þarna á staðnum. Kvað vitnið svona öflugar tölvur vera dýrar en vitnið kvaðst ekki myndu kaupa fjögurra ára gamla skjái. Kvað vitnið tölvubúnað úreldast fljótt.    Vitnið Freymar kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað hjá stefnanda sem faglegur stjórnandi fram að lokun fyrirtækisins. Teitur hafi séð um fjármál fyrirtækisins. Vitnið mundi eftir fundi í febrúar 2014 og hafi hurðin verið opin þegar vitnið kom á fundinn. Á fundinum hafi verið ákveðið að vitnið og fleiri gengju út úr fyrirtækinu og hættu störfum fyrir það. Vitnið kvað tvö stykki af iMac tölvum hafa verið á staðnum ásamt tveimur öflugum vinnslustöðvum, tveimur til þremur minni tölvum, einhverjum skjám, lítilli iMac  tölvu og einhverjum aukahlutum. Vitnið kvað gasgrill aldrei hafa verið í fyrirtækinu. Teitur hafi ekki verið með starfsstöð í fyrirtækinu en komið á fundi á tveggja vikna fresti. Í upphafi hafi stefndi og Stefán keypt tölvur fyrir fyrirtækið, vitnið hafi keypt sína vinnustöð og Stefán verið með innkaupakort en eftir að hann hætti hafi Teitur séð um að greiða fyrir  tölvukaup.    Hermann Karlsson, kt. 11274-5549, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað sem hönnuður fyrir Sitrus ehf. fram að lokum fyrirtækisins. Hafi stefndi séð um fjármál fyrirtækisins. Vitnið kvaðst ekki hafa komist inn í húsnæðið þegar það var boðað á fund í febrúar en á þeim fundi hafi stefndi tilkynnt starfsfólkinu að reksturinn væri að hætta. Vitnið kvaðst muna eftir tveimur  iMac tölvum, PCvinnslutölvu, einhverjum lélegri tölvum og einhverjum  „server“ sem þeir hafi unnið á. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð gasgrill á staðnum. Vitnið minnti að í upphafi hafi stefndi og Stefán keypt vörur inn í húsnæðið, húsgögn o.fl. Þá hélt vitnið að stefndi hafi almennt séð um greiðslur vegna innkaupa en Stefán hafi verið með greiðslukort og séð um greiðslur. Vitnið taldi að stefndi hafi komið í fyrirtækið á tveggja vikna fresti.    Vitnið Máni Matthías Sigfússon, kt.220585-6189, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað sem hreyfihönnuður hjá Sitrus ehf. þar til starfseminni var hætt. Stefndi hafi séð um fjármál fyrirtækisins. Kvað vitnið rétt að það hafi verið boðað á fund hjá Sitrusi þar sem rætt var um að hætta rekstri fyrirtækisins. Teitur hafi þá upplýst þá um að búið væri eða það ætti eftir að skipta um skrá á hurðinni. Vitnið hafi tekið allt það sem það átti hjá fyrirtækinu á þessum fundi. Kvað vitnið að allur búnaður sem hafi verið hjá fyrirtækinu hafi verið ætlaður til grafískrar vinnu. Aðspurt minnti vitnið að allir munir væru á starfsstöðinni þegar það mætti á fundinn á laugardeginum. Kvað vitnið ekkert grill hafa verið á staðnum.   Forsendur og niðurstaða. Bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjaness þann 21. október 2015. Í máli þessu krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 4.050.466 krónur auk dráttarvaxta frá 1. mars 2015 og byggir fjárhæðina á reikningum vegna kaupa umræddra muna frá árinu 2013. Engin önnur gögn styðja fjárkröfu stefnanda. Þá kom fram í skýrslutökum vitna að þeir töldu að sá tölvubúnaður sem þeir höfðu unnið á og var á starfsstöð þeirra hafi verið þar á síðasta fundinum sem þeir fóru á í febrúar 2015. Gátu þeir ekki staðfest hvort það voru sömu munir og taldir eru upp í stefnu utan að þeir kváðu allir að gasgrill hefði aldrei verið þar. Þá er reikningur vegna kröfu að fjárhæð 26.328 krónur og 37. 228 krónur stílaður á Kvíaholt ehf. Engin skýring hefur komið fram hjá stefnanda á því hvernig sá reikningur tengist stefnanda.    Stefnandi vísar kröfu sinni til stuðnings til 108. gr. laga nr. 13/1994 um einkahlutafélög. Í 108. gr. er ákvæði sem segir að stofnendur, stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, endurskoðendur og skoðunarmenn einkahlutafélags, svo og rannsóknarmenn, séu skyldir að bæta félaginu það tjón er þeir hafi valdið því í störfum sínum, hvort sem er af ásetningi eða gáleysi. Eins og máli þessu er háttað verður ekki ráðið að stefndi hafi valdið félaginu tjóni í störfum sínum enda er ekki byggt á því að hann hafi verið að störfum fyrir félagið þegar meint tjón átti að eiga sér stað. Verður stefndi sýknaður af þeirri ástæðu.    Þá byggir stefnandi á almennu skaðabótareglunni. Kveður hann tjón stefnanda vera sannað með þeim reikningum sem byggt er á. Til að geta beitt þeirri reglu fyrir sig verður tjónþoli að sýna fram á hvert raunverulegt tjón hans er. Í máli þessu byggir stefnandi á innkaupsverði sérstæks tölvubúnaðar frá fyrrihluta ársins 2013 en skaðabótakrafan, sem byggist á sömu reikningum, er gerð með stefnu birtri 14. febrúar 2017 eða um fjórum árum eftir að umræddur búnaður var keyptur. Alvita er að tölvubúnaður og sjónvarpsskjáir rýrna í verði við notkun þeirra og úreldast á ákveðnum árafjölda. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á, miðað við þessa augljósu staðreynd, hvert hið raunverulegt tjón stefnanda er. Hefur stefnandi því ekki sýnt fram á að skilyrði sakareglunnar sé uppfyllt þar sem tjón hans er ekki sannað. Ekki er tekið undir þá málsástæðu stefnanda að það sé stefnda að sýna fram á að verðmæti munanna sé minna en krafið er um í stefnu. Verður stefndi því sýknaður af þessari málsástæðu stefnanda. Að lokum byggir stefnandi á 247. og 250. gr. hegningarlaga nr. 19/1940. Verður ekki í einkamáli byggt á ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er varða fjárdrátt og skilasvik. Á tilvísun til þessara lagaákvæða ekki heima í einkamáli.    Að öllu ofangreindu virtu ber að sýkna stefnda í máli þessu.    Stefnandi skal, með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað.    Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð: Stefndi er sýkn í máli þessu.    Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 329/2017
Fjarskipti Fjölmiðill Lögbann Kröfugerð
Á árinu 2011 gerðu SÍ hf. og SÝ hf. með sér samning um dreifingu dagskrárefnis SÍ hf. um dreifikerfi SÝ hf. en SÍ hf. rak sjónvarpsstöðina SkjáEinn. Um mitt ár 2015 sagði SÍ hf. samningnum upp og tilkynnti í kjölfarið að SkjárEinn myndi hætta sem áskriftarstöð og aðgangur að henni opnaður. Samhliða því yrði hætt að bjóða upp á svokallaða ólínulega dreifingu á sjónvarpsefni stöðvarinnar, en áskriftir þess í stað seldar að þeirri þjónustu. Reis í kjölfarið ágreiningur milli aðilanna um réttindi SÝ hf. samkvæmt samningnum, en félagið taldi sig eiga bæði lög- og samningsbundinn rétt til að halda áfram að veita viðskiptavinum sínum aðgang að umræddri þjónustu. Fór svo að SÍ hf. fékk lagt lögbann við því að SÝ hf. tæki upp og miðlaði með ólínulegum hætti sjónvarpsefni tveggja sjónvarpsstöðva sem SÍ hf. rak. Höfðaði félagið í kjölfarið mál þetta til viðurkenningar á réttindum sínum og staðfestingar á lögbanninu. Í dómi sínum rakti Hæstiréttur ákvæði fjölmiðlalaga nr. 38/2011 um skyldu fjarskiptafyrirtækis til að verða við beiðni fjölmiðlaveitu um flutning á sjónvarpsútsendingum og sambærilega skyldu fjölmiðlaveitu til að heimila fjarskiptafyrirtæki að flytja efni. Vísaði rétturinn til þess að ágreiningslaust væri að þær reglur næðu aðeins til línulegrar miðlunar sjónvarpsefnis. Þá yrði ekki ráðið af samningi aðila að hann hefði falið í sér heimild til handa SÝ hf. til flutnings á ólínulegu sjónvarpsefni SÍ hf. og hefði SÝ hf. þar af leiðandi brotið gegn lögvörðum rétti SÍ hf. samkvæmt 60. gr. fjölmiðlalaga og 48. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Staðfesti Hæstiréttur því bæði niðurstöðu héraðsdóms um staðfestingu hins álagða lögbanns og um viðurkenningu á því að SÝ hf. væri óheimilt að taka upp og miðla sjónvarpsefni umræddra sjónvarpsstöðva SÍ hf. með ólínulegum hætti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. maí 2017. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Samkvæmt gögnum sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt hefur heiti áfrýjanda verið breytt úr Fjarskipti hf. í Sýn hf. eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms. I Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. skal leita í einu og sama máli dóms um staðfestingu á lögbanni og þau réttindi sem lögbanni var ætlað að vernda. Í samræmi við það hefur stefndi ekki aðeins krafist í málinu staðfestingar á lögbanni, sem sýslumaður lagði 16. desember 2015 við því að áfrýjandi tæki upp og miðlaði með ólínulegum hætti efni af tilteknum sjónvarpsstöðvum stefnda, heldur einnig viðurkenningar á því að áfrýjanda væri þessi háttsemi óheimil. Með þessu kaus stefndi að klæða síðarnefndu kröfuna sína í búning viðurkenningarkröfu í stað þess að leita dóms um réttindi sín sem fullnægja mætti með aðfarargerð samkvæmt 75. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Þetta getur þó ekki eitt út af fyrir sig valdið því að málinu verði í heild vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi, en áfrýjandi verður þá að sæta því að með dómi í málinu geti hann ekki fengið heimild til aðfarar til að leysa af hólmi bráðabirgðavernd réttinda sinna í skjóli lögbannsins, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar frá 31. maí 2000 í máli nr. 29/2000. II Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi keypti stefndi meirihluta hlutafjár í Íslenska sjónvarpsfélaginu hf. undir lok árs 2004, en félagið rak þá meðal annars sjónvarpsstöðina SkjáEinn. Í ákvörðun 11. mars 2005 komst samkeppnisráð að þeirri niðurstöðu að kaupin fælu í sér samruna í skilningi samkeppnislaga og heimilaði þau með tilteknum skilyrðum. Fólust þau meðal annars í því að starfsemi Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. skyldi rekin af sjálfstæðum lögaðila frá og með 1. júlí 2006 og þáverandi sjónvarpsrekstur stefnda sameinaður félaginu í síðasta lagi á þeim tíma. Þá skyldi stefnda óheimilt að setja það skilyrði fyrir kaupum á þjónustu sinni að þjónusta Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. myndi fylgja með í kaupunum, auk þess sem honum var gert óheimilt í sölu að tvinna saman þjónustu sinni og þjónustu Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. gegn verði eða viðskiptakjörum sem jafna mætti til slíks skilyrðis. Áfrýjandi gerði 25. maí 2011 þjónustusamning um dreifingu dagskrárefnis við Skjáinn ehf. sem þá var komið í stað Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. og hafði þannig á hendi rekstur fyrrnefndrar sjónvarpsstöðvar. Í 2. grein samningsins kom meðal annars fram að honum væri ætlað að tryggja Skjánum ehf. dreifingu á eigin dagskrárefni um kerfi áfrýjanda á landsvísu og að áfrýjandi myndi kappkosta að mæta þörfum viðskiptavina með því að bjóða upp á dreifingu í fjarskiptakerfum eins og þau leyfðu hverju sinni. Þá var einnig tekið fram að áfrýjandi myndi ekki ráðstafa þeim rásum sem Skjárinn ehf. hefði rétt á samkvæmt samningnum nema félagið samþykkti það fyrirfram. Í 4. grein samningsins kom fram að áfrýjandi myndi dreifa dagskrárefni Skjásins ehf. á dreifikerfum fyrir sjónvarp og viðeigandi miðlum sínum sem nánari grein var gerð fyrir í ákvæðinu og viðauka 1 við samninginn. Var og tekið fram að dreifing einstakra sjónvarpsrása gæti verið opin, læst eða blanda af hvoru tveggja. Þá kom fram í 5. grein samningsins að sjónvarpsefni Skjásins ehf. yrði afhent í kjarna „headend“ og það „meðhöndlað og varpað á form og fléttað með öðru efni til dreifingar eftir dreifileiðum.“ Í 5. grein samningsins sagði jafnframt að samningsaðilar myndu nýta sér kerfis- og tækniframfarir ef slíkt leiddi til hagræðingar og væri í samræmi við markmið og tilgang samningsins. Í 8. grein samningsins var fjallað um frekari uppbyggingu á dreifikerfum og þar tekið fram að áfrýjandi skyldi kosta alla frekari uppbyggingu dreifisvæða og nýtingu á nýjum tæknilegum aðferðum sem hann ætti frumkvæði að.  Þá kom fram í 15. grein að samningurinn hefði ekki í för með sér nokkurs konar yfirfærslu á höfundarétti frá einum samningsaðila til annars nema þar sem samningurinn kvæði sérstaklega á um það. Ennfremur kom fram í 16. grein samningsins að hann kæmi í stað eldri samninga um dreifingu efnis frá 30. október 2009 og 16. september 2010. Samkvæmt ákvæðinu skyldi gildistími samningsins vera til 1. maí 2016 og framlengjast að þeim tíma liðnum um eitt ár í senn nema honum yrði áður sagt upp. Gæti slík uppsögn fyrst komið til framkvæmda þremur árum eftir gildistöku samningsins og var þá áskilið að hún bærist skriflega með að minnsta kosti sex mánaða fyrirvara. Var ennfremur tekið fram að hvor samningsaðila hefði rétt til að krefjast endurskoðunar á samningnum ef forsendur hefðu breyst verulega eða ef lögum yrði breytt með þeim hætti að samningurinn uppfyllti ekki lengur þær kröfur sem þar væri mælt fyrir um. Í viðauka 2 við samninginn var að finna ákvæði um „opnun og lokun“ áskrifta og „opnun“ dagskrár. Kom þar fram að allar „opnanir“  á áskriftum á rásum Skjásins ehf. skyldu gerðar í áskriftarkerfi félagsins, hvort heldur væri með vefþjónustuskilum eða í gegnum notendaviðmót. Þá var tekið fram að áfrýjanda væri óheimilt að afhenda myndlykla með opnum áskriftum á rásir Skjásins ehf. nema að undangenginni skráningu í kerfum félagsins. Var og áskilið að í þeim tilvikum þegar lokað yrði fyrir áskrift á rásum Skjásins ehf. skyldi slíkt gert í gegnum áskriftarkerfi félagsins, hvort heldur sem væri með vefþjónustuskilum eða í gegnum notendaviðmót. Ennfremur kom þar fram að áfrýjanda væri óheimilt að opna dagskrá rása Skjásins ehf. nema að fengnu samþykki eða samkvæmt fyrirmælum frá tilgreindum stjórnendum hans. Loks kom fram í viðauka 3 við samninginn að áfrýjandi hefði fullan rétt á að gera breytingar á sjónvarpskerfum sínum en að slíkar breytingar yrðu að hafa það að markmiði að bæta þjónustu og vöruúrval áfrýjanda. Skjárinn ehf. og stefndi tilkynntu áfrýjanda 30. júní 2015 um uppsögn framangreinds þjónustusamnings. Samkvæmt tilkynningunni skyldi uppsögnin taka þegar gildi og samningssambandinu því ljúka 1. maí 2016 samkvæmt 16. gr. samningsins. Var einnig tekið fram í tilkynningunni að Skjárinn ehf. og stefndi væru að ljúka samruna á næstu vikum og óskað eftir því að teknar yrðu upp viðræður um nýjan samning um dreifingu á sjónvarpsefni stefnda um kerfi áfrýjanda. Með ákvörðun samkeppniseftirlitsins 2. júlí 2015 var framangreind ákvörðun samkeppnisráðs frá 11. mars 2005 felld niður og var skilyrðum sem þar höfðu komið fram breytt með hinni nýju ákvörðun. Kom þar meðal annars fram að Skjárinn ehf. skyldi rekið sem sjálfstæður lögaðili eða sem bókhalds- og fjárhagslega aðskilin eining frá öðrum rekstri stefnda yrðu félögin sameinuð. Þá var sérstaklega tekið fram í ákvörðuninni að önnur þjónusta en rekstur innlendrar línulegrar sjónvarpsrásar félli ekki undir hana. Var stefnda jafnframt, enn sem fyrr, óheimilt að tvinna saman þjónustu sinni og Skjásins ehf., svo og setja það skilyrði fyrir kaupum á fjarskiptaþjónustu að einhver þjónusta Skjásins ehf. fylgdi með í kaupunum. Í kjölfar þessa mun stefndi hafa sameinast Skjánum ehf. miðað við 1. janúar 2015. Stefndi mun hafa tilkynnt opinberlega 15. september 2015 að sjónvarpsstöðin SkjárEinn myndi hætta sem áskriftarstöð og yrði aðgangur að henni því öllum opinn. Samhliða því yrði hætt að bjóða upp á svokallaða ólínulega dreifingu á sjónvarpsefni stöðvarinnar en áskriftir seldar að þeirri þjónustu þannig að notendur gætu horft á myndefni eftir opna sýningu þess í línulegri útsendingu. Í kjölfar tilkynningarinnar óskaði stefndi eftir því við áfrýjanda að dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar SkjásEins yrði opnuð og staðfesti jafnframt að loka ætti fyrir svonefnda „Timeshift“ þjónustu frá 1. október 2015. Urðu nokkur samskipti milli aðila eftir þetta, en síðastgreindan dag hafnaði áfrýjandi því að verða við beiðni stefnda um lokun á „Timeshift“ þjónustu þar til niðurstaða fengist um álitaefni sem áfrýjandi kvað vera til skoðunar varðandi samning aðila. Með bréfi 1. október 2015 tilkynnti stefndi áfrýjanda að hann teldi þann síðarnefnda hafa vanefnt framangreindan þjónustusamning. Kvaðst stefndi hafa upplýsingar um að áfrýjandi ætlaði sér að dreifa sjónvarpsstöðinni SkjáEinum í opinni dagskrá, ekki aðeins með línulegum hætti heldur einnig ólínulegum, fyrir alla notendur sjónvarpsþjónustu áfrýjanda. Slík dreifing væri ekki í samræmi við beiðni stefnda heldur beinlínis í andstöðu við vilja hans og fæli í sér brot á höfundarétti hans auk verulegrar vanefndar á þjónustusamningnum. Skoraði stefndi á áfrýjanda að stöðva alla ólínulega dreifingu á efni umræddrar sjónvarpsstöðvar innan tiltekins frests að viðlagðri riftun samningsins. Með bréfi 5. október 2015 lýsti áfrýjandi því yfir að hann teldi sig eiga bæði lög- og samningsbundinn rétt til að halda áfram að veita viðskiptavinum sínum umrædda þjónustu og réðist sá réttur af því að í reynd væri um að ræða svokallaða seinkaða útsendingu í skilningi 2. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla sem flutningsréttur dreifiveitu næði ótvírætt til. Í hinni einhliða ákvörðun stefnda fælist því veruleg vanefnd á ákvæðum samningsins um afhendingu sjónvarpsefnis. Skoraði áfrýjandi á stefnda að láta sér þegar í stað í té umrætt efni og lagði einnig til að aðilar funduðu við fyrsta hentugleika til að leita leiða til að leysa ágreining sinn með samkomulagi. Ekki mun hafa náðst slíkt samkomulag milli aðila um ólínulega myndmiðlun og leituðu þeir í kjölfarið bæði til samkeppniseftirlitsins og Póst- og fjarskiptastofnunar vegna ágreinings síns. Stefndi lagði fram beiðni um lögbannið er mál þetta lýtur að hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 25. nóvember 2015. Í henni krafðist hann að lögbann yrði þá þegar lagt við því að áfrýjandi tæki upp og miðlaði sjónvarpsefni sjónvarpsstöðvanna SkjásEins og SkjásEins HD, sem síðar fengu heitin Sjónvarp Símans og Sjónvarp Símans HD, með ólínulegum hætti. Við fyrirtöku 16. desember 2015 hafnaði sýslumaður mótmælum áfrýjanda gegn framgangi lögbannsins og lagði það á í samræmi við kröfugerð stefnda. Í málinu liggur fyrir nýr þjónustusamningur málsaðila frá 1. júní 2016 um dreifingu dagskrárefnis, en samkvæmt 2. grein hans tekur hann einungis til línulegrar myndmiðlunar í opinni dagskrá. Með hinum áfrýjaða dómi voru dómkröfur stefnda teknar til greina. Leitar áfrýjandi nú endurskoðunar á þeirri niðurstöðu fyrir Hæstarétti. III Eftir að gagnaöflun var lokið hér fyrir dómi 30. ágúst 2017 lagði áfrýjandi fram með bréfi 9. júlí 2018 ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar 3. sama mánaðar í máli um ætluð brot stefnda gegn 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011. Með því að ákvörðun þessi kom fyrst til eftir að fresti til gagnaöflunar var lokið er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 184. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að líta til hennar við úrlausn málsins. Í ákvörðuninni sem að framan greinir tók Póst- og fjarskiptastofnun undir það með stefnda að 1. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 tæki aðeins til hefðbundinna sjónvarpsútsendinga eða svonefndrar línulegrar myndmiðlunar. Ætti það sama við um 46. og 47. gr. laganna. Því varðaði málið ekki skýringu á umræddum ákvæðum varðandi flutningsrétt fjarskiptafyrirtækis á sjónvarpsútsendingum fjölmiðlaveitu, heldur hvort stefndi hefði brotið gegn áðurnefndri 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011. Hefði stofnunin þegar skorið úr um það með ákvörðun í máli sínu nr. 3/2016, sem hefði verið staðfest af úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála 21. nóvember 2016, að nefnd lagagrein tæki bæði til línulegrar og ólínulegrar myndmiðlunar.  Að þessu virtu væri ljóst að 1. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 legði ekki þær skyldur á herðar stefnda að afhenda áfrýjanda eða öðrum fjarskiptafyrirtækjum ólínulegt sjónvarpsefni sitt. Í ákvörðun sinni vísaði Póst- og fjarskiptastofnun jafnframt til þess að ljóst væri að frá og með 1. október 2015 hefði ólínuleg myndmiðlun á sjónvarpsefni stefnda eftir ákvörðun hans sjálfs einungis verið í boði á svonefndu IPTV kerfi hans, en ekki á samvarandi kerfi áfrýjanda eins og raunin hefði verið fyrir þann tíma. Hefði þetta meðal annars leitt til þess að tugþúsundir viðskiptavina áfrýjanda, sem notað hafi nánar tilgreint ljósleiðaranet sem svonefnt undirlag, hefðu ekki átt kost á að nálgast þetta myndefni „nema að færa sig yfir á undirliggjandi fjarskiptanet“ tiltekins dótturfélags stefnda eða „versla heimtaugar“ bæði af því dótturfélagi og Gagnaveitu Reykjavíkur. Var það mat stofnunarinnar að þetta hefði haft í för með sér alvarlegan aðstöðumun milli tilgreindra sjónvarpsdreifikerfa aðila og takmarkað valkosti þeirra sem keyptu þjónustu af áfrýjanda. Var það því niðurstaða stofnunarinnar að stefndi hefði 1. október 2015 fullframið brot gegn 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011, sem legði bann við því að fjölmiðlaveita beindi viðskiptum viðskiptamanna sinna að tengdu fjarskiptafyrirtæki. Stefnda var því gert að greiða sekt að fjárhæð 9.000.000 krónur í ríkissjóð. IV   Í málinu er deilt um hvort áfrýjanda hafi á grundvelli fyrrnefnds samnings frá 25. maí 2011 verið heimilt að miðla með ólínulegum hætti sjónvarpsefni stefnda, en ágreiningur reis með aðilum um þetta eftir að stefndi tilkynnti 15. september 2015 að SkjárEinn yrði ekki lengur áskriftarstöð heldur sjónvarpsstöð í opinni dagskrá. Samhliða því tilkynnti hann að ekki yrði lengur boðið upp á ólínulega dreifingu á sjónvarpsefni stöðvarinnar, en slík þjónusta myndi þó standa þeim til boða sem keyptu þjónustu af stefnda. Áfrýjandi taldi sig aftur á móti hafa heimild til að bjóða upp á slíka dreifingu á sjónvarpsefni á grundvelli samningsins og varð það tilefni þess að stefndi fékk framangreint lögbann lagt við því 16. desember 2015 að áfrýjandi tæki upp og miðlaði sjónvarpsefni sjónvarpsstöðvanna Sjónvarp Símans og Sjónvarp Símans HD, með ólínulegum hætti.   Í VII. kafla laga nr. 38/2011 er að finna reglur um flutning myndefnis. Er þar annars vegar í 44. gr. mælt fyrir um skyldu fjarskiptafyrirtækis, að gættum nánari skilyrðum, til að verða við beiðni fjölmiðlaveitu um flutning á sjónvarpsútsendingum. Hins vegar er í 45. gr. laganna kveðið á um sambærilega skyldu fjölmiðlaveitu til að heimila fjarskiptafyrirtæki að flytja efni. Ágreiningslaust er að þessar reglur laganna nái eingöngu til línulegrar miðlunar sjónvarpsefnis. Í 1. mgr. 46. gr. laganna kemur fram að fjölmiðlaveita og fjarskiptafyrirtæki skuli semja um flutning á sjónvarpsútsendingum á grundvelli 44. og 45. gr. laganna. Náist slíkur samningur ekki kemur til kasta Póst- og fjarskiptastofnunar á grundvelli 2. mgr. 46. gr. laganna sem getur, reynist sáttaumleitanir árangurslausar, skorið úr ágreiningi aðila með ákvörðun. Að þessum reglum slepptum er ekki að finna í lögum aðrar einhliða heimildir fjarskiptafyrirtækis til að flytja sjónvarpsefni fjölmiðlaveitu.   Af orðalagi fyrrnefnds samnings frá 25. maí 2011 verður ekki ráðið að hann feli í sér heimild til handa áfrýjanda til flutnings á ólínulegu sjónvarpsefni stefnda. Þá styðja hvorki tölvupóstsamskipti starfsmanna aðila á árinu 2015 né þau skilyrði sem fram komu í áðurnefndum ákvörðunum samkeppnisyfirvalda þann skilning áfrýjanda að hann hefði slíka heimild, en eins og áður greinir var meðal annars tekið fram í ákvörðun samkeppniseftirlitsins frá 2. júlí 2015 að önnur þjónusta en rekstur innlendrar línulegrar sjónvarpsrásar félli ekki undir hana. Að þessu virtu og með hliðsjón af því að ákvæði 1. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 felur ekki í sér víðtækari skyldu fjarskiptafyrirtækis en til að semja um flutning sjónvarpsefnis í línulegri dagskrá verður fallist á það með stefnda að áfrýjanda hafi ekki verið heimilt að flytja efni stefnda með ólínulegum hætti eftir breytingar þær sem urðu á starfsemi hans 1. október 2015, þegar hann opnaði aðgengi að línulegri sjónvarpsdagskrá umræddra sjónvarpsstöðva og hætti rekstri hefðbundins áskriftarsjónvarps. Þá byggir áfrýjandi á því að hvað sem framangreindri túlkun samningsins varði hafi stefnda allt að einu verið óheimilt að synja áfrýjanda um heimild til að flytja efni í ólínulegri dagskrá. Hafi slíkt meðal annars bæði falið í sér brot gegn banni samkvæmt 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 við misnotkun á markaðsráðandi stöðu og gegn 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 sem banni fjölmiðlaveitu að beina viðskiptum viðskiptamanna að tengdu fjarskiptafyrirtæki. Um ætlað brot stefnda gegn síðarnefnda ákvæðinu hefur áfrýjandi nú vísað til framangreindrar ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar frá 3. júlí 2018, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi brotið gegn 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 með því að ólínuleg myndmiðlun sjónvarpsefnis hans hafi ekki staðið áfrýjanda eða öðrum til boða frá 1. október 2015. Til þess er að líta að þessi ætluðu brot stefnda geta varðað hann viðurlögum eða leitt til annarra afskipta stjórnvalda sem nánar er mælt fyrir um í samkeppnislögum annars vegar og lögum nr. 38/2011 hins vegar, en af slíkum brotum gæti ekki sjálfkrafa leitt að áfrýjandi hefði heimild til að miðla ólínulegu sjónvarpsefni frá stefnda án þess að annað kæmi til. Með áðurgreindri háttsemi braut áfrýjandi því gegn lögvörðum rétti stefnda samkvæmt 60. gr. laga nr. 38/2011 og 1. mgr. 48.  gr. höfundalaga nr. 73/1972. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um viðurkenningu á því að áfrýjanda sé óheimilt að taka upp og miðla sjónvarpsefni tilgreindra sjónvarpsstöðva stefnda með ólínulegum hætti. V Staðfest er sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að skilyrði lögbanns samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 hafi verið fyrir hendi þegar það var lagt á 16. desember 2015. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi byggt á því að hvað sem öðru líði leiki vafi á því að stefndi hafi lengur lögvarða hagsmuni af dómkröfum sínum, enda hafi réttarsamband sem var við lýði milli aðilanna þegar lögbannið var lagt á byggst á samningi þeirra frá 25. maí 2011. Óumdeilt sé að það samningssamband hafi liðið undir lok 1. maí 2016 og hafi aðilarnir gert nýjan samning 1. júní sama ár sem heimili ekki áfrýjanda að flytja ólínulegt sjónvarpsefni stefnda. Með hliðsjón af því að stefndi hefur sýnt nægilega fram á að fjárhagslegt tjón kunni að hafa hlotist af háttsemi áfrýjanda sem lögbannið var lagt við 16. desember 2015 verður að fallast á með stefnda að áfram gæti verið hætta á því að áfrýjandi miðli ólínulegu sjónvarpsefni stefnda án heimildar þrátt fyrir að ágreiningslaust sé að nýr samningur milli þeirra feli ekki slíka heimild í sér. Eru því ekki efni til annars en að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um staðfestingu lögbannsins. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Sýn hf., greiði stefnda, Símanum hf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 2017. Mál þetta, sem dómtekið var 3. apríl 2017, var höfðað með réttarstefnu birtri 21. desember 2015 af hálfu Símans hf., Ármúla 25 í Reykjavík gegn Fjarskiptum hf., Skútuvogi 2 í Reykjavík, til staðfestingar á lögbanni og til viðurkenningar á því að stefnda sé óheimil sú háttsemi sem lögbann var lagt við. Dómkröfur stefnanda eru þessar: 1.       Að staðfest verði lögbann það sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 16. desember 2015 við því að stefndi taki upp og miðli sjónvarpsefni sjónvarpsstöðvanna Sjónvarp Símans og Sjónvarp Símans HD, með ólínulegum hætti. Að viðurkennt verði að stefnda sé óheimilt að taka upp og miðla sjónvarpsefni sjónvarpsstöðvanna Sjónvarp Símans og Sjónvarp Símans HD, með ólínulegum hætti. 3.            Að stefnanda verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefnda. Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu. Gagnaveita Reykjavíkur höfðaði 6. maí 2016 mál á hendur aðilum málsins til meðalgöngu og var meðalgöngusökin sameinuð málinu í þinghaldi 1. september 2016. Meðalgöngusökinni var vísað frá dómi með úrskurði 29. september s.á. Aðilar undu þeirri niðurstöðu og luku gagnaöflun í málinu að fengnum fresti til þess. Aðalmeðferð málsins fór fram 3. apríl sl. og hafði þá áður verið frestað vegna forfalla.   Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna Helstu málsatvik eru þau að stefnandi rekur sjónvarpsstöðvar sem áður hétu SkjárEinn og SkjárEinn HD, en nú nefnast Sjónvarp Símans og Sjónvarp Símans HD. SkjárEinn var áður sjónvarpsstöð í opinni dagskrá, aðgengileg öllum, og var þá án svokallaðrar ólínulegrar þjónustu. Stefnandi nefnir viðlíka þjónustu við viðskiptamenn sína Tímaflakk en stefndi nefnir sína þjónustu af þessum toga Tímavél. Þjónusta sem þessi mun einnig vera nefnd hliðrað áhorf og myndmiðlun eftir pöntun. Frá 1. desember 2009 varð SkjárEinn áskriftarstöð og fylgdi þá áskriftinni ólínuleg þjónusta þar sem unnt var að horfa á myndefni eftir pöntun í svokölluðu frelsi. Stefnandi tilkynnti 15. september 2015 að SkjárEinn myndi hætta sem áskriftarstöð og verða á ný að opinni sjónvarpsstöð. Samhliða því að opna stöðina ákvað stefnandi að hætta að bjóða upp á ólínulega dreifingu á sjónvarpsefni með hinni línulegu dreifingu, sem þá nefndist SkjárEinn í opinni dagskrá. Stefnandi hóf jafnframt að selja áskriftir að ólínulegri þjónustu sinni á efni sem þar er sýnt. Stefndi opnaði aðgengi allra viðskiptavina sinna að línulegri dagskrá stöðvanna 1. október 2015 svo sem stefnandi mælti fyrir um. Hann varð ekki við beiðni stefnanda um að loka fyrir notkun „tímavélar“ og mótmælti þeirri ákvörðun stefnanda að „frelsi“ yrði ekki aðgengilegt fyrir viðskiptavini sína. Stefndi hélt áfram að bjóða þeim hliðrað áhorf á sjónvarpstöðvar stefnanda, með því að taka efnið upp og miðla því með ólínulegum hætti, allt þar til lögbann var lagt við þeirri athöfn að kröfu stefnanda með ákvörðun sýslumanns 16. desember 2015. Mál þetta er höfðað til staðfestingar á því lögbanni og til viðurkenningar á því að stefnda sé þetta óheimilt. Flutningur á efni sjónvarpsstöðvanna um kerfi stefnda byggði á þjónustusamningi sem Skjárinn ehf. og stefndi gerðu sín á milli um dreifingu dagskrárefnis 25. maí 2011. Stefnandi sagði þessum samningi upp 30. júní 2015 og tók uppsögnin gildi 1. maí 2016. Aðilar málsins hafa nú gert með sér nýjan samning, um dreifingu á línulegri myndmiðlun í opinni dagskrá, dags. 1. júní 2016. Stefndi dreifði sjónvarpsefni fyrir stefnanda á grundvelli fyrri samnings í september 2015 þegar fyrrnefndar ákvarðanir stefnanda voru kynntar. Kveður stefndi lögbannið hafa verið lagt við því að hann nýti samningsbundin réttindi sín til að dreifa efni sjónvarpsstöðvanna með ólínulegum hætti, en stefnandi kveður stefnda ekki eiga slík réttindi samkvæmt samningnum. Stefndi taldi jafnframt að huga þyrfti að fleiri álitaefnum áður en þessar ákvarðanir kæmu til framkvæmda. Annars vegar að þeim skilyrðum sem stefnanda hafa verið sett af samkeppnisyfirvöldum vegna reksturs sjónvarpsstöðvanna og ákvæðum samkeppnislaga, nr. 44/2005. Hins vegar að banni fjölmiðlaga, nr. 38/2011, við því að fjölmiðlaveita beini viðskiptum viðskiptamanna að tengdu fjarskiptafyrirtæki. Áður en stefnandi tók við rekstri sjónvarpsstöðvanna hafði hann keypt allt hlutafé félags sem fór með rekstur SkjásEins. Samkeppnisráð hafði með ákvörðun 11. mars 2005, nr. 10/2005, heimilað kaupin með tilteknum skilyrðum. Stefnandi tók við rekstri sjónvarpsstöðvanna þegar hann sameinaðist Skjánum ehf. í maí 2015. Skilyrðin sem sett höfðu verið í ákvörðun Samkeppnisráðs nr. 10/2005 voru felld niður með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins 2. júlí 2015, nr. 20/2015. Í þeirri ákvörðun voru stefnanda sett ný skilyrði, sem ná samkvæmt 1. gr. ákvörðunarorða hennar til reksturs innlendrar línulegrar sjónvarpsrásar. Stefndi taldi að stefnandi bryti með þeim ákvörðunum sem deilt er um í málinu gegn þeim skilyrðum sem sett voru í ákvörðun nr. 20/2015 og gegn 11. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005. Krafðist stefndi þess að Samkeppniseftirlitið tæki ákvörðun til bráðabirgða í tilefni af þeim. Þeirri kröfu var hafnað 13. nóvember 2015, m.a. með vísun til álits fjölmiðlanefndar, dags. 27. október 2015, um að hin umdeilda þjónusta stefnda, Tímavél, væri ólínuleg myndmiðlun. Einnig var vísað til þess að stefndi hefði ekki óskað eftir því að fá að dreifa myndefni SkjásEins með ólínulegum hætti. Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála staðfesti 21. nóvember 2016 þá niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar að gildissvið 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga, nr. 38/2011, um bann við því að fjölmiðlaveita beini viðskiptum viðskiptamanna að tengdu fjarskiptafyrirtæki, nái bæði til línulegrar og ólínulegrar myndmiðlunar. Sömu afstöðu hafði fjölmiðlanefnd látið í ljósi í umsögn sinni, dags. 29. febrúar 2016. Stefndi heldur því fram að stefnandi beini umræddum viðskiptum að eigin fjarskiptaþjónustu og kveður markmið aðgerða stefnanda virðast vera að takmarka valkosti þeirra sem kaupi fjarskiptaþjónustu af stefnda. Stefnandi vilji ekki að áhorfendur eigi alla valkosti um áhorf á efni sjónvarpsstöðvanna nema þeir kaupi fjarskiptaþjónustu af honum í stað stefnda. Stefnandi kveður tilgang sinn ekki hafa verið að takmarka valkosti þeirra sem kaupi fjarskiptaþjónustu af stefnda og komi fjarskiptaþjónustu ekkert við. Stefnandi hafi ákveðið að opna sjónvarpsstöðvarnar og jafnframt að ekki yrði í boði að horfa á efnið ókeypis með ólínulegum hætti, sama hvaða kerfi um væri að ræða. Tilgangur málshöfðunarinnar sé að stöðva og koma í veg fyrir ólögmæta upptöku og miðlun stefnda á sjónvarpsefni Sjónvarps Símans. Snýst ágreiningur málsins í meginatriðum um það hvort stefnda hafi verið heimilt að bjóða viðskiptavinum sínum upp á hliðrað áhorf á sjónvarpsstöðvar stefnanda eftir 1. október 2015 og hvort stefnanda sé skylt að fela stefnda slíka dreifingu efnisins. Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóminn og báru vitni þeir Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri markaðssetningar og vörusviðs hjá stefnanda, og Kjartan Briem, framkvæmdastjóri tæknisviðs hjá stefnda.   Málsástæður og lagarök stefnanda Krafa um staðfestingu lögbanns Krafa um staðfestingu lögbanns byggi á því að öllum lagaskilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 fyrir álagningu lögbanns hafi verið fullnægt og því hafi sýslumaður réttilega lagt lögbann við athöfnum stefnda. Hvað varði fyrsta skilyrðið um yfirvofandi eða byrjaða athöfn, þá leiki ekki vafi á því að stefndi og starfsmenn hans hefðu þegar hafið þá athöfn sem lögbanns hafi verið beiðst við. Stefndi hafi frá og með 1. október 2015 veitt öllum notendum sínum með IPTV þjónustu aðgang að sjónvarpsefni SkjásEins og SkjásEins HD með ólínulegum hætti, í andstöðu við óskir stefnanda. Það sé ágreiningslaust að stefndi hafi komið á ákveðnu ástandi sem unnt hafi verið að stöðva með lögbanni að uppfylltum öðrum skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Upptaka og miðlun stefnda á sjónvarpsefni sjónvarpsstöðvanna með ólínulegum hætti sé ólögmæt og brjóti gegn lögvörðum rétti stefnanda. Því hafi sýslumanni verið rétt að leggja lögbann við athöfnum stefnda til að tryggja að ekki yrði frekar brotið gegn rétti stefnanda. Með lögbanninu hafi stefnandi verið að verjast skerðingu á rétti sínum sem útvarpsstofnunar eins og hann sé verndaður í 48. gr. höfundalaga, nr. 73/1972. Hann sé með lögbanninu að verjast viðvarandi samningsbrotum stefnda á skuldbindandi samningi aðila. Miðlun stefnda á sjónvarpsefni sjónvarpsstöðvanna með ólínulegum hætti skaði réttindi stefnanda með fleiri en einum hætti. Þannig sé í fyrsta lagi farið í bága við skuldbindandi samning sem feli í sér að greitt sé endurgjald fyrir þjónustu sem eigi að veita í samræmi við samninginn.  Þá hafi stefnandi í öðru lagi fjárhagslega hagsmuni af því að selja til sinna viðskiptavina möguleikann á ólínulegu áhorfi á sjónvarpsefni sjónvarpsstöðvanna, sem muni skerðast eða ónýtast ef stefndi veiti viðskiptavinum sínum þennan sama möguleika, án þess að viðskiptavinir stefnda greiði sérstaklega fyrir það og án þess að nokkurt endurgjald komi til stefnanda.  Í þriðja lagi hafi það fælandi áhrif á auglýsendur að viðskiptavinir stefnda geti notið ólínulegs áhorfs á sjónvarpsefni sjónvarpsstöðvanna, enda sé auðvelt að spóla yfir auglýsingar í hliðruðu áhorfi. Auglýsingatekjur séu grundvöllur rekstrar sjónvarpsstöðvanna þar sem línulegt áhorf á sjónvarpsefni þeirra sé nú opið öllum. Stefnandi hafi af því hagsmuni að áhorfendur þjónustunnar SkjárEinn í opinni dagskrá geti ekki spólað yfir auglýsingar enda stöðin alfarið háð því að auglýsingar komist til neytenda og að auglýsendur sjái hag sinn í því að greiða fyrir auglýsingar. Breytingar stefnanda á framboði SkjásEins hafi m.a. verið gerðar til þess að auka möguleika stöðvarinnar á að afla tekna í harðri samkeppni um auglýsingatekjur við Ríkisútvarpið og sjónvarpsstöðvar 365 miðla ehf., sem bæði hafi mikla yfirburði gagnvart SkjáEinum. Breytingarnar hafi einnig verið gerðar til þess að standast samkeppni við erlenda aðila sem bjóði upp á ólínulega þjónustu sem neytendur hérlendis geti nálgast nokkuð auðveldlega, s.s. Netflix, en notendur þeirrar þjónustu séu um 27 þúsund á árinu 2015. Ólögmætar aðgerðir stefnda geri stöðu stefnanda á þessum markaði mun erfiðari.   Í fjórða lagi skaði umrædd miðlun stefnda ímynd og orðspor stefnanda. Upplifun viðskiptavina stefnanda sé neikvæð af því að fá ekki sömu þjónustu hjá stefnanda og stefndi hafi gert eigin viðskiptavinum mögulegt að njóta. Þannig sé þjónustan, sem stefndi hafi veitt án endurgjalds, hluti af þjónustu sem stefnandi bjóði upp á gegn endurgjaldi. Enn fremur kunni háttsemi stefnda að verða til þess að stefnandi verði af viðskiptavinum, með tilheyrandi tjóni fyrir hann. Réttindi stefnanda færu forgörðum ef honum hefði verið gert að bíða efnisdóms. Eins og atvikum sé háttað hafi stefnandi ekki átt að þurfa að þola slíka skerðingu á lögvörðum réttindum sínum, á meðan mál yrði rekið um ágreining aðila. Sú vernd sem reglur skaðabótaréttar veiti sé ekki til þess fallin að tryggja hagsmuni stefnanda nægilega enda sé það verulegum annmörkum háð, að öllum líkindum ómögulegt, fyrir stefnanda að sýna fram á að skilyrðum skaðabótaskyldu stefnda sé fullnægt. Þó að um fjárhagslegt tjón sé að ræða sé erfitt að meta tjón af slíku broti gegn rétti útvarpsstofnunar og hvert tjónið sé vegna vanefndar stefnda á samningi aðila. Illmögulegt sé að segja til um hversu marga viðskiptavini stefnandi hafi misst eingöngu vegna þess að unnt sé að njóta þjónustu hjá stefnda sem stefnandi hafi krafist endurgjalds fyrir úr hendi sinna viðskiptavina, eða að mæla það tjón á ímynd og orðspori stefnanda sem af háttsemi stefnda hafi hlotist. Jafnframt sé nánast útilokað að meta tjón stefnanda vegna lægri auglýsingatekna. Af þeim sökum hafi ólögmæt háttsemi stefnda leitt til skerðingar á réttindum stefnanda þannig að ekki verði bætt úr síðar. Ekki verði séð að réttarreglur refsiréttarins verndi lögvarða hagsmuni stefnanda. Jafnvel þótt svo væri hefði hin ólögmæta háttsemi getað haldið áfram um margra mánaða skeið, allt til 1. maí 2016, með tilheyrandi skerðingu á hagsmunum stefnanda, ef stefnandi hefði orðið að reiða sig á þær reglur. Telja verði ósennilegt að lögregla hefði afskipti af ágreiningi sem sé í eðli sínu einkaréttarlegur. Stefndi hafi ekki neina lögverndaða hagsmuni af því að taka upp og miðla sjónvarpsefni sjónvarpsstöðvanna með ólínulegum hætti. Það teljist bæði brot á lögvörðum rétti útvarpsstofnunar og háttsemi sem fari í bága við skuldbindandi samning aðila. Hagsmunir stefnda séu ekki verulegir enda séu engar hömlur lagðar við því að miðla sjónvarpsefninu með línulegum hætti. Stefndi beri engan kostnað af rekstri sjónvarpsstöðvanna, öfugt við stefnanda, svo sem vegna framleiðslu og innkaupa á dagskrárefni. Þannig hafi stefnandi greitt fyrir framleiðslu á hluta þess myndefnis sem háttsemi stefnda beinist að, auk þess að hafa greitt höfundarréttarhöfum fyrir notkunarrétt, sem stefndi taki sér án heimildar og án þess að greiða fyrir. Það sé kostnaður sem áskriftum á ólínulegri dreifingu sé ætlað að mæta að hluta til. Ekki verði séð að stefndi bíði tjón af lögbanninu, þar sem notendur hans geti ekki snúið sér annað til að njóta ólínulegrar dreifingar á efni sjónvarpstöðvanna, með sama hætti og þeir hafi gert hjá stefnda. Hagsmunir stefnanda af því að koma í veg fyrir háttsemi stefnda séu mun meiri en hagsmunir stefnda af því að hún fari fram. Önnur einkaréttarleg úrræði séu stefnanda ekki tæk. Þannig hafi ekki verið unnt að rifta þjónustusamningnum nema með þriggja mánaða fyrirvara, sbr. gr. 11.2 í samningnum. Stefnandi hafi haft hag af því að samningurinn héldi gildi sínu til 1. maí 2016, þar sem hann hafi haft mikilvæga fjárhagslega hagsmuni af því að umræddum sjónvarpsstöðvum hans væri að öðru leyti miðlað í gegnum kerfi stefnda, sem sé það stærsta og öflugasta á Íslandi. Gripi stefnandi til riftunarúrræðis hefði það í för með sér að rúmlega helmingur landsmanna hefði ekki aðgang að línulegri dreifingu umræddra sjónvarpsstöðva.  Hvers konar málaumleitanir aðila til opinberra eftirlitsstjórnvalda komi ekki í veg fyrir að stefnandi leiti lögbanns við umræddum athöfnum stefnda á grundvelli laga nr. 31/1990. Það megi berlega leiða af texta 24. gr. laganna. Ekki sé von á úrskurði frá samkeppnisyfirvöldum eða öðrum afskiptum yfirvalda af þeim einkaréttarlega ágreiningi aðila sem hér um ræði og verði hann einungis leystur með sátt aðila eða lögbanni og eftirfarandi staðfestingu þess. Stefnda sé óheimilt að taka upp og miðla sjónvarpsefni sjónvarpsstöðvanna Upptaka og miðlun stefnda á sjónvarpsefni sjónvarpsstöðvanna með ólínulegum hætti sé ólögmæt og brjóti gegn lögvörðum rétti stefnanda. Í fyrsta lagi brjóti háttsemi stefnda gegn samningi aðila. Í viðauka 2 við fyrrnefndan þjónustusamning aðila, undir lið sem beri heitið Opnun dagskrár sé skýrlega kveðið á um að stefnda sé óheimilt að opna dagskrá sjónvarpsstöðva stefnanda nema að fengnu samþykki eða fyrirmæla frá stefnanda. Í því felist að fara beri eftir þeim fyrirmælum sem stefnandi veiti, svo sem að opna dagskrá einungis í ákveðinn tíma, eða að ákveðnu marki, eins og að einungis línuleg dagskrá skuli opnuð. Það samrýmist grein 4.1 í samningnum, þar sem fram komi að dreifing sjónvarpsstöðva geti verið opin eða læst, eða blanda af hvoru tveggja, en sambærilegt ákvæði sé að finna í 2. gr. í viðauka 1 með samningnum. Hið sama megi leiða af ákvæðum í viðauka 2 með samningnum, þar sem kveðið sé á um að komi til nýs vöruframboðs yfir dreifikerfin eða nýrra dreifileiða sem „kaupandi vill geta nýtt sér eða boðið upp á“ skuli semja sérstaklega um greiðslur vegna þess. Enn fremur komi fram í viðaukanum að „[v]ilji kaupandi auka/bæta við þjónustu sína, t.d. með fleiri áskriftarpökkum, fleiri sjónvarpsstöðvum, eða annarri þjónustu sem hefur áhrif á kerfi Vodafone“ skuli samið sérstaklega um greiðslur vegna þess. Þannig sé ljóst að allt ákvörðunarvald um dreifileiðir og þjónustu sé hjá stefnanda, sem sé greiðandi þjónustunnar. Stefndi hafi borið því við að samningurinn veiti honum rétt til dreifingar sjónvarpsstöðva. Slíkar fullyrðingar eigi sér hins vegar ekki stoð í samningnum, enda ljóst af texta hans að réttur stefnda nái einungis til þess að fá endurgjald fyrir þá þjónustu sem hann hafi lofað að veita stefnanda með samningnum. Stefndi sé þar með ekki að kaupa einhvers konar upptöku- og dreifingarréttindi af stefnanda. Einungis sé um að ræða þjónustusamning þar sem tiltekin þjónusta sé tryggð stefnanda og tiltekið endurgjald tryggt stefnda. Í öðru lagi séu samkvæmt 1. mgr. 48. gr. höfundalaga nr. 73/1972 eftirgreindar aðgerðir óheimilar án samþykkis útvarpsstofnunar: 1. Endurvarp (samtímisútvarp) á útvarpi hennar og dreifing þess um þráð. 2. Upptaka endurflutnings á útvarpi hennar. 3. Birting á sjónvarpi hennar í atvinnuskyni eða ávinnings. 4. Eftirgerð á áður framkvæmdri upptöku útvarps hennar, sem og það að birta slíka upptöku. Með háttsemi sinni brjóti stefndi gegn 2. tl., sem og gegn 3. tl. og 4. tl. 1. mgr. 48. gr. höfundalaga. Stefndi hafi ekki samþykki stefnanda fyrir því að taka upp og birta sjónvarpsefni stefnanda í atvinnustarfsemi sinni þannig að miðlun á sjónvarpsefninu sé ólínuleg. Í því að sjónvarpsefninu sé miðlað ólínulega felist að upptaka útvarps sé birt, sbr. 4. tl. Þó að vísað sé til sjónvarps í 3. tl. en til útvarps í 4. tl. sé engum vafa undirorpið, að 4. tl. eigi einnig við um sjónvarp, enda nái hugtakið útvarp í lögunum bæði til hljóðvarps og sjónvarps, sbr. 6. mgr. 2. gr. laganna og athugasemdir við 48. gr. frumvarps til þeirra. Útvarp sé þannig yfirheiti yfir bæði hljóðvarp og sjónvarp. Stefndi hafi haldið því fram að hann eigi lögbundinn rétt, svo sem á grundvelli fjölmiðlalaga, til dreifingar þeirrar sem krafist sé staðfestingar lögbanns á. Álit fjölmiðlanefndar frá 27. október 2015 og erindi Samkeppniseftirlitsins frá 13. nóvember 2015 staðfesti hins vegar að stefndi njóti ekki slíks réttar. Kröfu um staðfestingu lögbanns styðji stefnandi við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Um þá efniskröfu að stefnda verði bannað að taka upp og miðla sjónvarpsefni sjónvarpsstöðvanna vísi stefnandi til meginreglna samninga- og kröfuréttar, m.a. um að samninga beri að halda og að samninga beri að efna samkvæmt efni sínu, og til höfundalaga nr. 73/1972, einkum 48. gr. Enn fremur vísi stefnandi til laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, vegna skilsmunar á sjónvarpsútsendingu og myndmiðlun eftir pöntun. Um heimild til að hafa uppi viðurkenningarkröfu vísi stefnandi til 25. gr. laga nr. 91/1991. Kröfu um málskostnað byggi stefnandi á 1. mgr. 130. gr. sömu laga og krefjist þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostnaðar við rekstur lögbannsmáls fyrir sýslumanni. Um varnarþing vísi stefnandi til 1. mgr. 33. gr. sömu laga. Að öðru leyti styðjist höfðun staðfestingarmáls þessa við ákvæði 36. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl.   Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi mótmæli málatilbúnaði stefnanda og áskilji sér allan rétt til að leita réttar síns vegna þess tjóns sem aðgerðir stefnanda hafi valdið honum. Stefndi byggi á að sýkna beri hann af kröfu stefnanda. Athafnir sínar brjóti ekki gegn lögvörðum rétti stefnanda og að aðgerð stefnanda feli í sér brot á samningi aðila um dreifingu sjónvarpsefnis. Kröfugerð stefnanda og háttsemi hans á markaði sé ætlað að beina viðskiptum áhorfenda SkjásEins frá stefnda til stefnanda í andstöðu við 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, og feli í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu í andstöðu við 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Stefnanda skylt samkvæmt samningi að leyfa ólínulega miðlun Túlka beri dreifingarsamning aðila svo að stefnanda hafi verið skylt að heimila stefnda ólínulega miðlun sjónvarpsefnis SkjásEins. Stefnanda hafi því verið óheimilt að láta af afhendingu „frelsis“ efnis til stefnda. Eins hafi stefnanda verið óheimilt að krefjast þess af stefnda að hann hætti að bjóða upp á „tímavél“ um efni SkjásEins. Ákvæði samningsins og áralöng framkvæmd hans styðji þennan skýringarkost. Samkvæmt 10. tl. og 11. tl. ákvörðunar samkeppnisráðs nr. 10/2005 hafi stefnanda verið óheimilt að meina stefnda þessi afnot efnisins við gerð samningsins. Líkur standi til þess að samningurinn hafi falið í sér full afnot efnisins eins og ákvörðun nr. 10/2005 framast hafi miðað við að stefnanda væri skylt að láta í té. Stefnandi haldi því fram að synjun hans helgist af þeim hagsmunum að koma í veg fyrir að aðrir en borgandi áskrifendur gætu nýtt „tímavél“ og „frelsi“. Þessu mótmæli stefndi. Hefði sú verið raunin hefði stefnanda verið í lófa lagið að óska þess við stefnda að takmarka aðgengi þjónustunnar við þessa áskrifendur. Stefnanda óheimilt að misbeita rétti samkvæmt samningi Fari svo að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að stefnanda hafi verið heimilt samkvæmt dreifingarsamningnum að banna stefnda að veita áhorfendum afnot „frelsis“ og „tímavélar“ byggi stefndi engu að síður á því að stefnanda hafi verið óheimilt að misbeita slíkum samningsrétti. Samkeppnissjónarmið Stefnandi sé markaðsráðandi fyrirtæki sem hafi með sátt við Samkeppniseftirlitið axlað þá skuldbindingu að samtvinna ekki þjónustu SkjásEins og fjarskiptahluta rekstrar síns. Ákvæði sáttarinnar séu bindandi fyrir stefnanda, sbr. 17. gr. f samkeppnislaga og ljá 11. gr. samkeppnislaga nánari efnislega þýðingu. Jafnvel þótt stefnandi verði talinn eiga rétt samkvæmt samningi til að takmarka þjónustu SkjásEins gagnvart stefnda, þá geti stefnandi ekki misbeitt þeim rétti til að beina viðskiptum til fjarskiptahluta síns. Með slíkri aðgerð væri brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga sem banni misnotkun markaðsráðandi stöðu. Af þessu leiðir að stefnanda hafi verið óheimilt að misbeita samningsrétti sínum, teldist hann eiga slíkan rétt, með þeim hætti sem um tefli í málinu. Aðgerðir hans hafi snúist um það eitt að nýta markaðsstyrk sinn til að takmarka valkosti áhorfenda og þvinga þá til viðskipta við eigið fjarskiptanet. Stefnandi reyni að draga fjöður yfir þessa samtvinnun með því að segja hana helgast af þeim hagsmunum að koma í veg fyrir nýtingu annarra en áskrifenda að „frelsi“ og „tímavél“. Þessum málflutningi mótmæli stefndi því hægur leikur sé að takmarka nýtingu „frelsis“ og „tímavélar“ hjá stefnda við áskrifendur SkjásEins. Stefnandi hafi hins vegar ekki óskað neins slíks af stefnda, enda markmið hans sýnilega að tvinna saman þjónustu SkjásEins og fjarskiptahluta síns. Í þessu sambandi megi benda á þá augljósu mismunum sem stefnandi beiti stefnda samanborið við aðra aðila sem hafi með höndum dreifingu sjónvarpsefnis. Þannig hafi stefnandi heimilað öðrum fyrirtækjum, svo sem 365 miðlum ehf., að veita áhorfendum „frelsi“ og „tímavél“ á þeirri forsendu að þessi fyrirtæki séu í heildsöluviðskiptum við stefnanda. Með þessu brjóti stefnandi t.d. gegn ákvæðum 11. gr. samkeppnislaga, sbr. til hliðsjónar c-lið 2. mgr. 11. gr. laganna. Brot gegn 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 Stefnandi reki fjölmiðlaveitu í skilningi 45. gr. laga nr. 38/2011. Í 5. mgr. ákvæðisins sé að finna bann við því að fjölmiðlaveita beini viðskiptum viðskiptamanna að tengdu fjarskiptafyrirtæki. Stefndi byggi á því að ákvæðið sé skýrt og verði að túlka þannig að það nái til bæði sjónvarpsútsendinga og ólínulegrar myndmiðlunar, svo sem „frelsis“ og „tímavélar“. Undir þessi sjónarmið hafi Póst- og fjarskiptastofnun tekið í ákvörðun sinni nr. 3/2016 frá 11. apríl 2016, sbr. og umsögn fjölmiðlanefndar dags. 29. feb. 2016. Stefnanda sé með öllu óheimilt að misbeita samningsrétti sínum til að beina viðskiptum áhorfenda fjölmiðlaveitu sinnar til fjarskiptahluta síns, líkt og hann vilji gera. Skilyrðum 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. er ekki fullnægt Skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 hafi ekki verið fullnægt fyrir setningu lögbannsins. Stefndi mótmæli því að hann hafi brotið gegn lögvörðum rétti stefnanda með athöfnum sínum. Mál aðila hafi verið til umfjöllunar stjórnvalda og ekkert hafi bent til þess að stefnandi yrði fyrir teljandi spjöllum af því að bíða úrlausnar þeirra. Lögbannið hafi beinst gegn því að stefndi myndi veita áhorfendum SkjásEins aðgang að „tímavél“. Stefnandi segi þetta hafa verið gert til að fyrirbyggja að aðrir en þeir sem gerðust áskrifendur að þeirri þjónustu gætu notað hana. Stefndi mótmæli þessu enda hefði stefnandi hæglega getað óskað eftir því við stefnda að þjónustan yrði aðeins boðin þessum sömu áskrifendum. Með því að krefjast lögbanns í stað þess að upplýsa stefnda um hverjir þessir áskrifendur væru, svo unnt væri að loka aðgangi að „tímavél“ fyrir öðrum, hafi verið brotið gegn meðalhófi og gengið freklega á hagsmuni stefnda án tilefnis. Engar forsendur hafi því verið fyrir lögbanninu. Ekki brot gegn 48. gr. höfundalaga Stefnandi byggi á því að stefndi hafi brotið gegn 48. gr. höfundarlaga nr. 73/1972. Stefndi mótmæli því að þetta ákvæði eigi við í málinu enda gildi sérstakt ákvæði 60. gr. laga nr. 38/2011 um hagnýtingu efnis fjölmiðla. Óháð því hvort ákvæðið eigi við, megi heita vafalaust að hin umdeilda dreifing stefnda á efninu hafi farið fram með viðhlítandi leyfi samkvæmt gildum dreifingarsamningi milli aðila og því hafi tilgreint samþykki þegar legið fyrir. Samkvæmt ákvæðum dreifingarsamningsins hafi stefnanda verið skylt að tryggja sér allan þann höfundarrétt sem nauðsynlegur hafi talist fyrir framkvæmd samningsins. Ekki liggi annað fyrir en að slíkur réttur hafi verið til staðar og það líka þegar stefndi hafi enn veitt áhorfendum aðgang að „frelsi“ og „tímavél“ varðandi efni SkjásEins. Ekkert í fyrri framkvæmd samnings aðila bendi til að þetta hafi valdið stefnanda sérstökum vanda. Hvað sem líði tilvist höfundarréttar verði honum, líkt og gildi um samningsbundinn rétt, ekki misbeitt í andstöðu við 11. gr. samkeppnislaga og 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011. Stefndi vísi máli sínu til stuðnings einkum til reglunnar um skuldbindingargildi samninga og til laga um fjölmiðla nr. 38/2011, einkum 5. mgr. 45. gr. laganna. Stefndi byggi einnig á ákvæðum samkeppnislaga nr. 44/2005 og ákvæðum laga nr. 31/1990, einkum 24. gr. Um málskostnað sé vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.   Niðurstaða Mál þetta, sem var höfðað í samræmi við 36. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., varðar kröfu stefnanda um staðfestingu á lögbanni, sem lagt var á til að stöðva meint brot stefnda gegn 48. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, og kröfu stefnanda um viðurkenningu á því að stefnda sé óheimil sú athöfn sem lögbannið var lagt við. Óumdeilt er að stefndi dreifði sjónvarpsefni frá stefnanda með ólínulegum hætti gegn vilja stefnanda frá 1. október 2015 þar til lögbann var lagt við því 16. desember s.á. Fallist er á það með stefnanda að háttsemi stefnda teljist til aðgerða sem óheimilar eru samkvæmt fyrrnefndu ákvæði höfundalaga án samþykkis útvarpsstofnunar, sem hér telst vera stefnandi. Stefndi heldur því fram að ákvarðanir stefnanda og fyrirmæli um stöðvun á dreifingu efnis sjónvarpstöðvanna með ólínulegum hætti hafi verið í andstöðu við þágildandi samning aðila um dreifingu á sjónvarpsefni. Í þeim samningi var þó ekki vikið sérstaklega að þeirri aðstöðu sem varð tilefni lögbannsins og ágreiningur aðila snýst um. Stefndi hefur í málinu lagt fram tvo nýja samninga milli aðila málsins um dreifingu sjónvarpsefnis. Annar þeirra er um dreifingu á sjónvarpsefni Sjónvarps Símans og Sjónvarps Símans HD á línulegan máta og hinn er um dreifingu á stöðinni „Síminn Sport“. Fjalla þeir því ekki um þá ólínulegu dreifingu stefnda á sjónvarpsefni stefnanda sem er ágreiningsefni þessa máls. Lögmaður stefnda hélt því fram við málflutning að þar sem fyrri samningur aðila um dreifingu á efni sé liðinn undir lok þá hafi stefnandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og taldi lögmaðurinn að vísa bæri málinu frá dómi án kröfu af þeim sökum. Kröfur stefnanda í málinu eru á hinn bóginn á því byggðar að háttsemi stefnda hafi ekki stuðst við samningsbundin réttindi, sem stefndi heldur fram að hann hafi átt á grundvelli þessa samnings. Ekki verður því á það fallist að vísa beri málinu frá dómi af þeirri ástæðu að stefnandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn þess eftir að samningurinn féll úr gildi. Sá málatilbúnaður stefnda að athafnir hans, sem lögbann var lagt við, eigi stoð í þessum samningi og áralangri framkvæmd hans styðst m.a. við tölvupóstsamskipti frá 4. febrúar 2013. Þar spyr starfsmaður stefnda hvort „Skjárinn“ hafi athugasemdir við að „Network-timeshift“ þjónusta sem svipi til „Tímaflakks“ verði gangsett á kerfum stefnda. Fyrirspurninni var svarað samdægurs þannig: „nei, það er í góðu lagi“. Af þessum samskiptum, sem áttu sér stað meðan Skjárinn var áskriftarstöð, verður ekki ráðið að í samningnum hafi falist að stefnda hafi á grundvelli hans ætíð verið heimilt að dreifa sjónvarpsefni stefnanda með ólínulegum hætti, eins og stefndi heldur fram. Þykja þessi samskipti fremur styðja þá túlkun samningsins að slík framkvæmd sé háð samþykki stefnanda, sem ekki hefur verið fyrir hendi frá 1. október 2015. Þá telur stefndi að skýra verði samninginn til samræmis við þau skilyrði sem Samkeppnisráð hafi sett stefnanda árið 2005 og gilt hafi við gerð samningsins. Af því telur stefndi leiða að stefnanda hafi verið skylt að láta stefnda í té full afnot af efni sjónvarpsstöðvanna. Til þess er að líta að ákvörðun Samkeppnisráðs nr. 10/2005 var felld niður með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins 2. júlí 2015, nr. 20/2015. Í þeirri ákvörðun, sem byggði á sátt við stefnanda, voru sett skilyrði sem að nokkru svara til skilyrða Samkeppnisráðs frá árinu 2005, svo sem um bann við samtvinnun í sölu fjarskiptaþjónustu fyrirtækisins og sjónvarpsþjónustu þess. Þar kemur jafnframt fram, í 3. mgr. 1. gr. ákvörðunarinnar, að önnur þjónusta en rekstur innlendrar línulegrar sjónvarpsrásar falli ekki undir hana. Þær takmarkanir sem stefnandi setur stefnda á dreifingu á efni sjónvarpsstöðva sinna og deilt er um í máli þessu snúast um aðra þjónustu, þ.e. dreifingu efnis með ólínulegum hætti. Samkeppniseftirlitið hafnaði m.a. þess vegna, með bréfi 13. nóvember 2015, kröfu stefnda um ákvörðun til bráðabirgða. Dómurinn telur, að virtum gögnum málsins og framburði vitna fyrir dóminum, ekki unnt að túlka ákvæði í þeim samningi aðila sem í gildi var til 1. maí 2016, að meðtöldum ákvæðum í viðaukum við samninginn, með þeim hætti að í honum hafi falist að stefnanda hafi verið skylt að fela stefnda dreifingu á efni sjónvarpsstöðvanna með ólínulegum hætti. Með samningnum var ákveðið að stefndi tæki að sér, gegn gjaldi, dreifingu á sjónvarpsefni frá stefnanda í samræmi við beiðnir frá honum. Því er fallist á það með stefnanda að ákvörðunarvald um kaup á þjónustu á grundvelli samningsins hafi verið hjá stefnanda, greiðanda þjónustunnar. Stefndi heldur því fram að stefnandi misbeiti umdeildum samningsrétti sínum með ákvörðunum þeim um breytingu á skilmálum um útsendingar á efni Sjónvarps Símans sem hann vill að njóti réttarverndar. Í málatilbúnaði stefnda er á því byggt að stefnandi hafi í raun gert það ómögulegt öðrum en viðskiptavinum sínum og dótturfélagsins Mílu ehf. að fá aðgang að umræddum sjónvarpsstöðvum í ólínulegri dagskrá. Stefnandi hafi með því brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, en í því ákvæði er lagt bann við misnotkun fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu. Kvörtun stefnda til Samkeppniseftirlitsins á þessum grundvelli var tekin til frekari rannsóknar samkvæmt því sem greinir í fyrrnefndu bréfi þess frá 13. nóvember 2015. Stefndi kveður stefnanda beina viðskiptum áhorfenda fjölmiðlaveitu sinnar til fjarskiptahluta síns og að í því felist brot gegn 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga, nr. 38/2011. Þar er lagt bann við því að fjölmiðlaveita beini viðskiptum viðskiptamanna að tengdu fjarskiptafyrirtæki. Aðilar hafa deilt um gildissvið ákvæðisins, en fjölmiðlanefnd, Póst- og fjarskiptastofnun og úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hafa látið í ljósi samdóma álit um að ákvæðið nái bæði til línulegra og ólínulegra sjónvarpsútsendinga. Póst- og fjarskiptastofnun hafnaði með ákvörðun sinni 11. apríl 2016, sem staðfest var af úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála 21. nóvember s.á., kröfu stefnanda um að kvörtun stefnda um meint brot stefnanda gegn ákvæðinu yrði vísað frá stofnuninni og ákvað að taka málið til skoðunar. Í málinu er ekki upplýst um niðurstöðu framangreindra þar til bærra stjórnvalda um það hvort stefnandi hafi með ákvörðunum sínum farið gegn skyldum sínum samkvæmt fyrrnefndum lagaákvæðum, svo sem stefndi heldur fram að hann hafi gert, en stefnandi hefur hafnað því. Svo sem fram er komið ráðast heimildir stefnda til að dreifa efni sjónvarpsstöðva í eigu stefnanda af samningi þeirra á milli um þá þjónustu sem stefnandi kaupir af stefnda. Jafnvel þótt niðurstaða stjórnvalda sem fara með eftirlit á markaði um fyrrgreind álitaefni yrði stefnanda óhagfelld, myndi það eitt ekki þegar leiða til þess að stefnda væri heimilt, án atbeina stefnanda, að dreifa efni sjónvarpsstöðva í eigu hans með þeim hætti sem lögbann var lagt við. Stefndi heldur því fram að lögmæltum skilyrðum lögbanns hafi ekki verið fullnægt. Ekki hafi verið brotið gegn lögvörðum rétti stefnanda, bíða hefði mátt eftir úrlausn stjórnvalda um ágreining aðila og loks hefði stefnanda verið rétt að ganga skemur og veita stefnda nauðsynlegar upplýsingar til þess að hann gæti takmarkað aðgengi að ólínulegri dagskrá við áskrifendur að þeirri þjónustu. Sem fyrr greinir er það mat dómsins að háttsemi stefnda hafi brotið gegn lögvörðum rétti stefnanda sem útvarpsstofnun samkvæmt 48. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, en skilyrði um að fyrir liggi heimild rétthafa efnis til upptöku og miðlunar þess er einnig að finna í 60. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011. Ekki verður fallist á að stefndi hafi átt kröfu til þess samkvæmt samningi aðila að stefnandi fæli stefnda dreifingu á efni sjónvarpsstöðva sinna með ólínulegum hætti til áskrifenda þeirrar þjónustu. Við þær aðstæður að stefndi dreifði efni sjónvarpsstöðva stefnenda með umræddum hætti til allra sinna viðskiptamanna án heimildar og hafnaði kröfum stefnanda um að láta af þeirri háttsemi verður ekki fallist á að stefnandi hafi gengið lengra en efni stóðu til með því að krefjast þess að lögbann yrði lagt við háttsemi stefnda. Samkvæmt framangreindu er fallist á það með stefnanda að upptaka og miðlun stefnda á sjónvarpsefni sjónvarpsstöðvanna Sjónvarp Símans og Sjónvarp Símans HD, með ólínulegum hætti, hafi verið ólögmæt og hafi brotið gegn lögvörðum rétti stefnanda. Fallist er á að lögmælt skilyrði til að lögbann yrði lagt við þeirri háttsemi hafi verið fyrir hendi og verður lögbannið staðfest með dómi þessum. Þá er enn fremur, með vísun til alls framangreinds, fallist á að háttsemin hafi verið og sé stefnda óheimil og verður því einnig fallist á viðurkenningarkröfu stefnanda. Með vísun til úrslita málsins og 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, verður stefnda gert að greiða stefnanda 800.000 krónur í málskostnað. Dóm þennan kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari. D Ó M S O R Ð Staðfest er lögbann sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 16. desember 2015 við því að stefndi, Fjarskipti hf., taki upp og miðli sjónvarpsefni sjónvarpsstöðvanna Sjónvarp Símans og Sjónvarp Símans HD, með ólínulegum hætti. Viðurkennt er að stefnda sé óheimilt að taka upp og miðla sjónvarpsefni sjónvarpsstöðvanna Sjónvarp Símans og Sjónvarp Símans HD, með ólínulegum hætti. Stefndi greiði stefnanda, Símanum hf., 800.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 838/2017
Fjármálafyrirtæki Samningur Lánssamningur Ógilding samnings Brostnar forsendur Tómlæti Uppgjör
Í samningi S ehf. og L hf. frá desember 2013 um fjárhagslega endurskipulagningu ÚS ehf. var kveðið á um að seldi S ehf. hluti sína í ÚS ehf. innan fimm ára frá undirritun samningsins á hærra verði en því virði sem L hf. mat þá félagið, 1.146.800.000 krónur, rynni helmingur af söluandvirðinu, sem væri umfram fyrrgreint eignavirði, til L hf. Í febrúar 2014 seldi S ehf. alla hluti sína í ÚS ehf. til I ehf., en samkvæmt kaupsamningnum var verðið 1.250.000.000 krónur. Með vísan til ákvæði samningsins frá desember 2013 krafðist L hf. þess í málinu að S ehf. yrði gert að greiða sér 51.600.000 krónur. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var ekki fallist á með S ehf. að endanlegt söluverð fyrir hluta hans í ÚS ehf. hefði verið 446.274.174 krónur, líkt og komið hefði fram í uppgjörssamkomulagi hans við I ehf. og fallið hefði í hans hlut að teknu tilliti til skulda ÚS ehf. Þá var ekki talið að tilgreind hlutafjáraukning S ehf. í ÚS ehf. í febrúar 2014 hefði falið í sér eignaaukningu þannig að áhrif hafði á eignavirði félagsins, að niðurgreiðsla lána ÚS ehf. teldist til kostnaðar við söluna, að L hf. hefði sýnt af sér tómlæti við að halda uppi kröfuna og að forsendur hefðu brostið fyrir hlutdeild L hf. í umframvirði ÚS ehf. Loks var talið að S ehf. hefði ekki sýnt fram á að efni samningsins frá desember 2013 og staða samningsaðila eða aðstæður við samningsgerð hefðu verið með þeim hætti að víkja bæri ákvæði samningsins til hliðar með vísan til 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Var því fallist á kröfu L hf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Skúli Magnússon héraðsdómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. desember 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð verulega. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt gögn um ætlaðan kostnað vegna sölu Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. 26. febrúar 2014. Gegn andmælum stefnda komast þessi gögn ekki að í málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr., sbr. 190. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, SAB ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2017. I Mál þetta, sem var dómtekið 6. desember sl., er höfðað 21. september 2016 af Landsbankanum hf., Austurstræti 11 í Reykjavík, gegn SAB ehf., Lundi 1 í Kópavogi. Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum 51.600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 26. febrúar 2014, til greiðsludags. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins. Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að upphafstími dráttarvaxta verði miðaður við uppsögu endanlegs dóms í málinu. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. II Ágreiningur þessa máls varðar kröfu stefnanda, Landsbankans hf., á hendur stefnda, SAB ehf., á grundvelli samnings aðila frá 20. desember 2013. Á þeim tíma bar stefndi heitið Ný-fiskur ehf. Forsögu málsins má rekja til tveggja lánssamninga milli Sæmandi ehf. og Landsbanka Íslands hf., nr. 0142-36-5711 og 0142-36-6652, og lánssamnings milli Vonar ehf. og Sparisjóðsins í Keflavík, nr. 0106-36-12394. Síðastnefndi samningurinn var gerður til að endurfjármagna fjóra eldri lánssamninga Vonar ehf. hjá sparisjóðnum. Sæmandi ehf. og Von ehf. sameinuðust Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. 31. desember 2008 og tók það þá við skuldbindingum samkvæmt framangreindum samningum. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var stefnandi stofnaður og tók hann þá við skuldbindingum Landsbanka Íslands hf. samkvæmt tveimur fyrrnefndu samningunum. Þá var eignum og skuldum Sparisjóðsins í Keflavík ráðstafað til SpKef sparisjóðs með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010. Í kjölfarið var gerður samningur 5. mars 2011 um að stefnandi tæki yfir rekstur SpKef sparisjóðs og tók hann þá við skuldbindingum samkvæmt síðastnefnda samningnum. Árið 2011 hófust viðræður milli aðila málsins um fjárhagslega endurskipulagningu Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. Stefndi var þá eini hluthafinn að öllu hlutafé útgerðarfélagsins. Í málinu eru lögð fram fjölmörg tölvuskeyti sem fóru milli starfsmanna stefnanda og fyrirsvarsmanna stefnda um fjárhagslega endurskipulagningu Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. Í skeytunum kemur fram að af hálfu bankans hafi sú leið verið kynnt að endurfjármagna skuldbindingar útgerðarfélagsins við stefnanda, sem í janúar 2012 voru metnar um 1.275.000.000 króna. Eftir endurskipulagninguna skyldu heildarskuldbindingar félagsins við stefnanda ekki vera hærri en 665.800.000 krónur. Félaginu yrði heimilt að bera lögmæti skilmála lánssamninga sinna undir dómstóla með vísan til nýfallinna dóma um gengistryggingu lána, og ekki missa meiri rétt. Þá yrðu félaginu veitt tvö lán, annars vegar lán til 20 ára að fjárhæð um 484.000.000 króna og hins vegar biðlán að fjárhæð um 181.800.000 krónur til þriggja ára. Þegar þessi leið var kynnt stefnda var tekið fram að tillagan fæli ekki í sér loforð bankans um að semja við félagið með þeim hætti sem í tillögunni greindi. Í málinu eru lögð fram drög að samkomulagi um endurfjármögnun Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. frá mars 2012. Í drögunum eru þrjú lán tilgreind sem endurreiknuð erlend lán sem ætlunin var að endurfjármagna. Hæst þessara lána er lán nr. 0106-36-12394 sem í drögunum er tilgreint að fjárhæð 869.583.147 krónur. Hin lánin voru að fjárhæð 238.997.268 krónur, lán nr. 0142-36-6652, og 145.889.429 krónur, lán nr. 0142-36-5711. Í 13. gr. draganna segir að komi til þess að hluthafinn selji hlutafé sitt í félaginu á næstu þremur árum, þá gerist „hluthafinn og Landsbankinn ásáttir um að 50% af söluandvirðinu renni til Landsbankans“. Ákvæði þetta og hliðstæð ákvæði eru víða í gögnum málsins kölluð „Pelsákvæði“. Gerðar voru athugasemdir við drögin, m.a. fyrrgreinda 13. gr., í tölvuskeytum frá stjórnarformanni stefnda 16. mars og 22. maí 2012. Var þess óskað að framangreint ákvæði 13. gr. draganna yrði tekið út. Í svari starfsmanns stefnanda 22. maí 2012 kemur fram að ákvæðið verði ekki tekið út. Í greinargerð stefnda er því haldið fram að fyrirsvarsmenn félagsins hafi lýst andstöðu við ákvæði 13. gr. draganna á fundum aðila. Þar hafi komið fram að í ákvæðinu væri ekki tekið tillit til þess að á næstu árum kynni Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. að áskotnast frekari kvóti sem stefndi þyrfti líklega að fjármagna sjálfur. Væri þá óeðlilegt að stefnandi tæki helminginn í þeirri eignaaukningu án þess að stefndi fengi áður greiddan kostnað sinn af því að leggja útgerðarfélaginu til viðbótarkvóta. Kveður stefndi að af hálfu stefnanda hafi því þá verið svarað til að hugsunin væri að stefndi færi skaðlaus frá öllum viðbótarkostnaði sem félli á hann vegna reksturs útgerðarfélagsins, umfram skyldur hans samkvæmt samkomulagi aðila um endurfjármögnun félagsins og að tekið yrði tillit til slíks kostnaðar áður en söluandvirðinu yrði skipt. Næsta sem liggur fyrir um samskipti aðila eru tölvuskeyti frá 12. september 2013. Í því skeyti og öðrum frá sama mánuði reyna aðilar að finna tíma til fundar. Í skeyti frá Ragnari Hilmarssyni, starfsmanni stefnanda, 20. september 2013, kveðst hann halda að unnt sé að ganga frá samkomulagi þess efnis að ef stefndi greiddi nýtt eigið fé inn í félagið yrði það „ekki tapað fé þó að þið seljið félagið“. Enn fremur segir í skeyti Ragnars að annaðhvort yrði það gert með því að stefnandi gæfi stefnda „glugga til að ganga frá sölunni án þess að Pelsákvæði verði virkt“ eða að tryggt yrði „að nýtt eigið fé sem þið leggið félaginu til, verði að fullu frádráttarbært frá verðmati áður en til útreiknings Pelsákvæðis kemur“. Kvaðst hann hafa fulla trú á að aðilar fyndu lausn á þessu. Á þessum tíma lá fyrir að stefndi vann að því að selja hluti sína í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. Albert Sveinsson svaraði framangreindu skeyti fyrir hönd stefnda 24. september 2013. Í skeytinu upplýsir hann að viðsemjendur stefnda séu ekki tilbúnir að greiða neitt fyrir Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. umfram virði báts og kvóta, eins og bankinn meti eignirnar. Það þýddi „að allt annað sem við greiðum skv uppgjörinu við bankann, þ.e. kröfur og vanskilaálag verður okkar kostnaður við að gera samning við bankann“. Var því haldið fram að það leiddi til þess að samningurinn gengi ekki upp af þeirra hálfu. Þá segir í skeyti Alberts: „Svo hitt að ef við komum t.d. með aukið hlutafé og greiðum upp biðlánið að öllu leyti eða hluta, og seljum félagið síðan til viðsemjenda okkar hvernig er þá tekið á afslættinum sem fæst við uppgreiðslu, eða hlutagreiðslu á biðláninu, fær bankinn þá helming afsláttarins til baka við sölu?“ Ragnar Hilmarsson svarar fyrir hönd stefnanda með tölvuskeyti 26. september 2013. Setur hann fram dæmi til útskýringar á umþrættu ákvæði í samkomulagi aðila, til þess að aðilar skildu það með sama hætti. Nánar tiltekið er dæmið sett upp með eftirfarandi hætti: Skuldir félags 1.400   Metið eignavirði félags 1.000 Eftir endurskipulagningu Niðurgreiðslulán 700 Biðlán 200 Nýtt eigið fé 100   Afskrift 400 m.kr.   Biðlán gert upp með nýju eiginfé 134 mkr Framlag banka 66   Virði eigna 1.000 Skuldir 700   Félag selt tveimur árum seinna á 1.500 mkr Þá koma 250 mkr til bankans sem ganga upp í 466 mkr. afskrift.   Síðar sama dag svarar Albert Sveinsson með tölvuskeyti þar sem segir: „Pelsákvæðið er skýrt og klart“. Í skeytinu kemur ekki annað fram um þetta ákvæði. Enn síðar sama dag sendi Ragnar Hilmarsson tölvuskeyti með tillögum að samkomulagi aðila sem vörðuðu mat eigna og skulda félagsins. Samkvæmt tillögunni voru eignir félagsins metnar á 1.074.720.000 krónur. Er lagt til að niðurgreiðslulán verði 613.651.000 krónur og biðlán 262.993.000 krónur. Þá segir í skeytinu að tillagan feli í sér að stefndi greiði 25.000.000 króna við undirskrift og hafi fjóra mánuði til að koma með nýtt eigið fé. Ef stefndi greiddi upp biðlán samkvæmt samkomulaginu með nýju eigin fé fengi hann 33% afslátt. Kveður hann hugsanlegt að biðlán yrði ekki nema 186.000.000 króna og að afskrift yrði líka sett sem biðlán sem yrði afskrifað þegar nýtt eigið fé yrði greitt inn í félagið. Þá kemur fram að yrði þetta samþykkt þá yrði afskrift 604.000.000 króna og 88.000.000 króna til viðbótar yrði biðlánið greitt upp. Albert Sveinsson svaraði fyrir hönd stefnda með tölvuskeyti 27. september 2013. Í skeytinu greinir Albert frá því að tillaga Ragnars sé ekki í samræmi við það sem hann hafi lagt til á fundi aðila. Ekki hafi verið tekið tillit til 25.000.000 króna innborgunar til bankans sem hafi átt að vera hluti af eignum félagsins. Virtist honum sem bankinn vildi fá þær „25 millj kr greiddar aftur“. Ef bankinn ætlaði að lækka biðlánið væri að auki ekki ástæða fyrir stefnda til þess að ganga frá málinu því að ef „við greiðum upp biðlánið með nýju fé auk þess 50 millj kr“ í tilgreindar kröfur þá væri „engin eignamyndun í þessu fyrir okkur“. Kveðst Albert eiga eftir að fara yfir málið en að hann sjái ekki neinn hag fyrir stefnda í því að koma með nýtt eigið fé inn í félagið á grundvelli tillögu Ragnars. Ragnar Hilmarsson svarar fyrir hönd stefnanda með tölvuskeyti 30. september 2013. Í skeytinu útlistar hann nánar þá útreikninga sem tillaga stefnanda byggi á. Í skeytinu segir jafnframt að ef stefndi vilji ekki ganga að samningum „byggðum á aðferðarfræði bankans við að verðmeta félög þá [væri] hægt að selja eignir“. Ef það yrði gert lýsti Ragnar efasamdum sínum um að hægt yrði að fá meira en 987.000.000 króna „fyrir bát og kvóta“. Því væri ekki í boði að bankinn lækkaði tillögu sína frekar. Með tölvuskeyti 1. október 2013 svaraði Albert Sveinsson á þá leið að af hálfu stefnda hefði verið farið yfir málið, vilji væri til að ljúka málinu sem fyrst og að ganga frá því eins og Ragnar hefði sett það upp. Kvaðst Ragnar í kjölfarið leggja málið fyrir fund hjá stefnanda. Með tölvuskeyti 9. október 2013 sendi Ragnar Hilmarsson, fyrir hönd stefnanda, tilboð stefnanda um endurfjármögnun Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. Kvað hann einhverjar breytingar hafa orðið á verðmati þar sem verð á þorski hefði lækkað en verð á ýsu, steinbít og humar hefði hækkað. Þá gæti biðlán með uppgreiðsluafslætti mest orðið 20% af verðmæti eigna eða 229.400.000 krónur. Í tilboðinu var þess getið að það væri meðal skilyrða af hálfu bankans að hann fengi „50% af söluverði félagsins umfram núverandi eignarvirði (1.146,8 m kr.)“ yrði það selt innan fimm ára. Endanlegur samningur aðila þessa máls, auk Útgerðarfélags Sandgerðis ehf., var undirritaður 20. desember 2013. Fram kemur að eignarhald útgerðarfélagsins sé þannig að stefndi, sem þá hét enn þá Ný-fiskur ehf., ætti 100% af öllu hlutafé í félaginu og að vísað væri til hans sem „hluthafans“ í samningnum en til útgerðarfélagsins sem „félagsins“. Í grein 2.1 í samningnum segir að skuldir félagsins við stefnanda nemi alls u.þ.b. 1.514.000.000 króna miðað við 9. október 2013. Skuldirnar væru endurreiknað gengistryggt lán, nr. 0106-36-12394, að fjárhæð 1.066.352.000 krónur, endurreiknað gengistryggt lán, nr. 0142-36-5711, að fjárhæð 152.929.000 krónur, og erlent lán, nr. 0142-36-6652, að fjárhæð 295.516.000 krónur. Í grein 3.1 í samningnum er kveðið á um endurskipulagningu á fjárhag útgerðarfélagsins með eftirfarandi hætti: a.     Með því að hluthafinn leggi félaginu til nýtt eigið fé að verðmæti kr. 63.700.000 í formi nýs kvóta. b.     Með nýju vaxtalausu láni að fjárhæð kr. 36.600.000 með einum gjalddaga þann 1.3.2014. Andvirði lánsins skal ráðstafað inn á núverandi lán félagsins. Lán þetta er veitt til þess að gefa hluthafa félagsins frest til þess að koma með nýtt eigið fé í félagið. c.     Með nýju erlendu láni að fjáræð 4.029.465 evrur (kr. 640.000.000), til 5/20 ára. Vextir lánsins skulu vera breytilegir vextir sem skulu vera eins mánaðar LIBOR vextir eins og þeir ákvarðast fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni fyrir viðkomandi vaxtatímabil, að viðbættu 4,25% álagi. Vextir reiknast frá og með 9.10.2013. Fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta er 01.01.2014. Andvirði lánsins skal ráðstafað inn á núverandi skuldir félagsins. d.     Nýju eingreiðsluláni að fjárhæð 1.444.099 evrur (um kr. 229.400.000). Vextir  lánsins skulu vera breytilegir vextir sem skulu vera eins mánaðar LIBOR vextir eins og þeir ákvarðast fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni fyrir viðkomandi vaxtatímabil, að viðbættu 4,50% álagi. Vextir reiknast frá og með 9.10.2013 og höfuðstólsfærast á 12 mánaða fresti. Gjalddagi afborgana og vaxta er 9.10.2016. Andvirði lánsins skal ráðstafað inn á núverandi skuldir félagsins. Greiði félagið lánið upp að hluta eða í heild fyrir 1.3.2014, og greiðslan er að öllu leyti fjármögnuð með nýju eigin fé sem hluthafar eða aðrir hafa lagt félaginu til, þá mun Landsbankinn til viðbótar við slíka innborgun færa niður lánið um 33% af innborgaðri fjárhæð. e.     Með nýju erlendu eingreiðsluláni að fjárhæð 467.356 evrur. Vextir lánsins skulu vera breytilegir vextir sem skulu vera eins mánaðar LIBOR vextir eins og þeir ákvarðast fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni fyrir viðkomandi vaxtatímabil, að viðbættu 4,50% álagi. Vextir reiknast frá og með 9.10.2013 og leggjast á höfuðstól á 12 mánaða fresti. Gjalddagi afborgana og vaxta er 1.9.2016. f.      Með nýju eingreiðsluláni að fjárhæð kr. 511.300.000. Skal lánið bera óverðtryggða K0 vexti (samkvæmt kjörvaxtatöflu Landsbankans). Vextir reiknast frá og með 9.10.2013. Gjalddagi afborgana og vaxta er 1.3.2014. Þegar (i) hluthafinn hefur lagt félaginu til nýtt eigið fé í samræmi við grein 3.1. a), (ii) þegar lán skv. grein 3.1. b) hefur verið greitt upp að fullu sem og (iii) þegar félagið hefur greitt til Landsbankans kr. 25.000.000 í samræmi við grein 3.1. g), mun lán þetta verða afskrifað. g.      Með því að félagið greiði kr. 25.000.000 í reiðufé til Landsbankans við undirritun samnings þessa. Skal ráðstafa greiðslunni inn á vanskil núverandi skulda félagsins.   Í 4. gr. samningsins er kveðið á um að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á þeim lánum sem tilgreind séu í grein 3 verði þáverandi tryggingar í bát og kvóta félagsins. Í 5. gr. samningsins er fyrirvari um endanlegt uppgjör. Þar er kveðið á um að komi til þess að félagið eignist einhvern rétt á hendur stefnanda vegna endurreiknings lána félagsins þannig að um ofgreiðslu eða inneign félagsins teljist hafa verið að ræða, þá samþykki félagið að slíkri ofgreiðslu eða inneign verði (i) ráðstafað inn á lán samkvæmt f-lið greinar 3.1, (ii) því næst á móti kröfum stefnanda samkvæmt d-lið greinar 3.1, (iii) þá á móti kröfum stefnanda samkvæmt e-lið greinar 3.1, (iv) og að lokum á móti öðrum kröfum stefnanda á hendur félaginu, samkvæmt vali félagsins. Í grein 9.1 í samningnum segir: Komi til þess að hluthafinn selji hluti sína í félaginu á næstu 5 árum frá undirritun samnings þessa, á hærra verði en því virði sem bankinn hefur metið félagið (kr. 1.146.800.000), þá gerast hluthafinn og Landsbankinn ásáttir um að 50% af söluandvirðinu sem er umfram fyrrgreint eignavirði renni til Landsbankans. Til skiptingar kemur sá hluti sem er umfram ofangreint eignavirði að frádregnum kostnaði hluthafans vegna sölu félagsins (sem skal vera að hámarki 1% af söluverðinu) og hugsanlegra skattgreiðslna hluthafans vegna sölunnar. Selji hluthafinn ekki alla hluti sína í félaginu þá gildir ákvæði þetta áfram um þann eignarhlut hluthafans sem ekki hefur verið seldur.   Í grein 9.2 er kveðið á um að verði hlutafé félagsins aukið þá verði það aðeins gert gegn því skilyrði að áskrifandi hinna nýju hluta gerist aðili að því samkomulagi sem í samningnum sé kveðið á um, sem hluthafi, þar með talið ákvæði greinar 9.1. Í grein 9.3 er svo kveðið á um að sé „andvirði nýs hlutafjár hins vegar nýtt að öllu leyti til þess að greiða lán skv. grein eiginfjárframlag skv. grein 3.1.b) og lán skv. grein 3.1.d) er hinn nýi hluthafi ekki bundinn af ákvæðum þessarar greinar“. Hlutafé Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. var hækkað 29. janúar 2014, úr 1.500.000 krónum í 101.500.000 krónur. Þar af var 36.600.000 króna hækkun greidd með peningum og 63.400.000 króna hækkun greidd með aflaheimildum. Andvirði hækkunar með peningum, 36.600.000 krónur, var nýtt til að greiða upp lán til stefnanda samkvæmt b-lið í grein 3.1 í samningi aðila. Stefndi kveður að fyrstu áform við sölu á hlutafé hans í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. hafi gert ráð fyrir að hlutafé félagsins yrði 101.500.000 krónur í samræmi við samning hans við stefnanda. Væntanlegur kaupandi, Icelandic Ný-Fiskur hf., hafi hins vegar krafist þess að stefndi yki hlutafé útgerðarfélagsins um 156.000.000 króna, í 257.000.000 króna, og að nýtt hlutafé yrði notað til þess að lækka skuldir félagsins samkvæmt samningi aðila frá 20. desember 2013. Stefndi hafi af þeim sökum hækkað hlutafé félagsins 12. febrúar 2014, úr 101.500.000 krónum í 257.500.000 krónur. Kaupsamningur stefnda og Icelandic Ný-Fisks hf., um alla hluti í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf., var undirritaður 26. febrúar 2014. Í grein 3.1 í kaupsamningnum er kaupverð fyrir hlutina tilgreint 1.250.000.000 króna. Samkvæmt grein 3.2 skyldi kaupandi greiða kaupverðið þannig að (a) 80% af kaupverði, að teknu tilliti til breytinga samkvæmt grein 3.3, skyldi greitt inn á fjárvörslureikning lögmanna seljanda við undirritun samnings, sbr. nánar grein 3.6, og (b) 20% af kaupverði, að teknu tilliti til breytinga samkvæmt grein 3.3, skyldi greitt inn á fjárvörslureikning lögmanna kaupanda á efndadegi, sbr. nánar grein 3.7. Í grein 3.3 segir að kaupverðið miði við að nettó vaxtaberandi skuldir félagsins séu engar og nettó veltufé félagsins ekkert. Jafnframt segir að aðilar séu sammála um að áætlaðar nettó vaxtaberandi skuldir félagsins við undirritun samningsins séu 850.000.000 króna og að áætlað nettó veltufé félagsins sé ekkert. Fjárhagsuppgjör sem fari fram við undirritun samningsins, sbr. grein 3.2 (a), verði miðað við þær áætluðu fjárhæðir. Í 4. gr. kaupsamningsins kemur fram að samningurinn sé m.a. háður þeim skilyrðum að stefndi hafi lagt félaginu til nýtt hlutafé að verðmæti 257.000.000 króna, að félagið hafi greitt upp vaxtalaust lán að fjárhæð 36.600.000 krónur við stefnanda, að það hafi greitt stefnanda 25.000.000 króna í reiðufé og að stefnandi hafi afskrifað lán að verðmæti 511.300.000 krónur. Samkvæmt grein 3.4 í kaupsamningnum eru aðilar sammála um að kaupverðið taki breytingum m.t.t. endanlegrar stöðu nettó vaxtaberandi skulda félagsins og nettó veltufjár eins og hún verði við undirritun samningsins. Í 14. tölulið viðauka 1 við kaupsamninginn segir að félagið hafi skrifað undir bindandi samkomulag við stefnanda um lán félagsins og gert upp öll lán þess við stefnanda á grundvelli þess. Í 14. tölulið viðauka 2 við kaupsamninginn kemur fram að stefndi hafi greitt upp lán hjá stefnanda samkvæmt d-lið greinar 3.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013. Ragnar Hilmarsson sendi tölvuskeyti fyrir hönd stefnanda 10. mars 2014, til Sverris Geirdal fyrir hönd stefnda. Í skeytinu kemur fram að loka eigi afskriftinni í kerfum stefnanda. Þá sé bara eitt mál eftir og það sé að fara yfir „pelsákvæðið“. Þar sem útgerðarfélagið hafi verið selt sé óskað eftir því að kaupsamningurinn verði sendur stefnanda svo unnt sé að ljúka því máli líka. Sverrir sendi Ragnari  eintak af kaupsamningnum með tölvuskeyti síðar sama dag. Í skeyti Sverris segir að efndadagur sé ekki runninn upp og því megi segja að salan sé enn ekki fullfrágengin, eftir sé að uppfylla þau skilyrði sem sett séu fram. Að beiðni Sverris sendi Ragnar stöðu lána Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. hjá stefnanda með tölvuskeyti 25. mars 2014. Jafnframt segir í skeytinu frá Ragnari: „Þá er þetta allt að verða komið. Það eina sem við eigum eftir að ræða er Pelsákvæðið.“ Af hálfu stefnanda var 28. mars 2014 gefin út staðfesting á efndum samnings aðila frá 20. desember 2013. Í staðfestingunni kemur fram að lán samkvæmt 2. gr. samningsins hafi verið að fullu greidd, sem og lán samkvæmt b- og d-liðum greinar 3.1 og að lán samkvæmt f-lið greinar 3.1 hafi verið afskrifað að fullu. Enn fremur er staðfest að stefndi og útgerðarfélagið hafi fullnægt skilyrðum a- og g-liða greinar 3.1 í samningnum. Loks er það staðfest af hálfu stefnanda að einu útistandandi skuldir útgerðarfélagsins við stefnanda séu lánin sem kveðið sé á um í c- og e-liðum greinar 3.1 og að áætluð staða þeirra miðað við 28. mars 2014 sé samtals 4.468.672 evrur. Stefndi og Icelandic Ný-Fiskur hf. undirrituðu uppgjörssamkomulag vegna framangreinds kaupsamnings 4. apríl 2014. Í því kemur fram að stefndi hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt kaupsamningnum. Staða nettó vaxtaberandi skulda félagsins hafi verið 819.995.038 krónur á undirritunardegi en staða nettó veltufjár 16.269.212 krónur. Endanlegt kaupverð hafi þar af leiðandi verið 446.274.174 krónur. Kaupandi hafi þegar greitt 400.000.000 króna og eigi því eftir að greiða 46.274.174 krónur. Næsta sem liggur fyrir um samskipti aðila er tölvuskeyti frá Ragnari Hilmarssyni 13. maí 2015 til Alberts Sveinssonar og Sverris Geirdal. Þar er vísað til þess að í framhaldi af sölu stefnda á útgerðarfélaginu eigi eftir að fara yfir uppgjörið. Kveðið hafi verið á um það í samningi aðila að yrði félagið selt á meira en 1.146.800.000 krónur, myndu aðilar skipta því sem umfram yrði jafnt á milli sín. Ítrekar hann að draga megi frá þeim hluta kostnað vegna sölunnar og hugsanlegar skattgreiðslur og vísar til greinar 9.1 í samningnum. Albert svarar með tölvuskeyti síðar sama dag og kveðst þá ætla að taka til þessar upplýsingar og vera í sambandi innan tíðar. Ragnar Hilmarsson ítrekaði beiðni sína með tölvuskeyti 1. júlí 2015. Í því kemur fram að ef ekkert heyrðist í forsvarsmönnum stefnda fyrir 15. júlí yrði sendur reikningur fyrir 50% af mismun á söluverði og verðmæti sem haft hafi verið til viðmiðunar í samningi aðila frá 20. desember 2013. Í tölvuskeyti Alberts Sveinssonar sama dag kveðst hann hafa talað við endurskoðanda og beðið hann um að taka þetta saman. Í öðru skeyti daginn eftir kveðst Albert munu láta Ragnar vita um framvindu málsins næstu daga.Hinn 6. október 2015 sendi stefnandi stefnda bréf og skoraði á hann að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningi aðila með því að greiða 51.600.000 krónur eigi síðar en 9. október 2015. Kröfu stefnanda var mótmælt með bréfi lögmanns stefnda 23. febrúar 2016. Í bréfinu eru færð fram ítarlög rök fyrir afstöðu stefnda sem lúta að aðdraganda og forsendum samnings aðila frá 20. desember 2013 og atvikum sem síðar komu til. Fram koma m.a. röksemdir sem lúta að því að eldri lán Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. hafi ekki verið endurreiknuð eða ekki verið endurreiknuð rétt, með vísan til þess að þau hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu, og skuldir félagsins þar með metnar of háar. Þá er þar fjallað um þá aðstöðu sem stefndi hafi verið í við samningsgerðina og stöðu hans gagnvart stefnanda. Með vísan til þeirra röksemda telji stefndi ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að stefnandi beri fyrir sig 9. gr. samningsins frá 2013. Um fjárhæð kröfunnar segir enn fremur að stefnandi hafi ekki dregið frá kostnað við söluna í samræmi við samningsákvæðið. Því beri hvað sem öðru líður að draga 12.500.000 krónur frá 103.000.000 króna, þannig að eftir standi 90.000.000 króna. Röksemdum stefnda var svarað með bréfi stefnanda 31. mars 2016. Ítrekaði stefnandi þá kröfu sína. Kröfu stefnanda var enn á ný mótmælt með bréfi lögmanns stefnda 13. maí 2016. Í bréfinu eru fyrri röksemdir ítrekaðar og nýjar færðar fram, m.a. um tómlæti stefnanda við að halda uppi kröfu sinni. III 1. Málsástæður og lagarök stefnanda          Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi hafi selt alla hluti sína í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. með kaupsamningi 26. febrúar 2014. Hafi umsamið kaupverð numið 1.250.000.000 króna. Mismunurinn á kaupverðinu og því verði sem stefnandi hafi metið félagið á samkvæmt uppgjörssamkomulaginu 20. desember 2013 hafi numið 103.200.000 krónum. Er á því byggt af hálfu stefnanda að samkvæmt 9. gr. þess samkomulags hafi helmingur þeirrar fjárhæðar, eða 51.600.000 krónur, átt að renna til stefnanda. Stefnandi telur að stefndi geti ekki vikist undan skuldbindingum sínum samkvæmt samningi aðila frá 20. desember 2013 með vísan til þeirra málsástæðna sem hann hafi vísað til í aðdraganda málshöfðunarinnar eða byggt á öðrum málatilbúnaði. Stefnandi hafnar því að stefndi eigi kröfu á hendur honum vegna láns samkvæmt samningi nr. 12394 sem sé hærri en krafa stefnanda, eins og atvikum sé háttað. Skuldbindingarnar sem kveðið sé á um í lánssamningnum hafi aldrei tilheyrt stefnda þessa máls. Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. hafi verið skuldari samkvæmt lánssamningnum. Stefndi hafi ekki verið skuldari að láninu né að þeim lánum sem hafi verið gerð upp með láni samkvæmt samningi nr. 12394. Stefndi geti ekki byggt rétt sinn á samningssambandi útgerðarfélagsins við Sparisjóðinn í Keflavík og síðar Landsbankann hf. þrátt fyrir að hafa verið eigandi útgerðarfélagsins. Þá hafi stefndi gengist undir þá skuldbindingu sem fram komi í grein 9.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013, án nokkurs fyrirvara varðandi fjárhæð skulda Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. Á þeim tíma hafi fjöldi dóma þegar gengið um gengistryggð lán og því full ástæða fyrir stefnda til að gera fyrirvara þar að lútandi. Fyrir liggi að lán stefnanda til Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. hafi 9. október 2013 numið 1.514.000.000 króna. Það sé sá dagur sem ný lán útgerðarfélagsins hafi byrjað að bera vexti. Með samningi aðila hafi stefnandi veitt útgerðarfélaginu ný lán að fjárhæð 1.489.800.000 krónur. Eitt hinna nýju lána hafi verið svokallað „afskriftarlán“ að fjárhæð 511.300.000 krónur, sbr. grein 3.1 í samningnum, sem hafi fengið númerið 28408 í kerfum bankans. Lánið hafi verið sett upp sem biðlán þannig að fjárhæð þess var látin samsvara þeirri fjárhæð sem ætlunin hafi verið að afskrifa, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Skilyrðin í þessu tilviki hafi verið að greitt yrði nýtt eigið fé inn í félagið. Þegar það skilyrði hafi verið uppfyllt hafi lánið verið afskrifað. Samkvæmt grein 5.1 í samningi aðila hafi útgerðarfélagið samþykkt að kröfu sem félagið kynni að eignast á hendur bankanum vegna endurreiknings lána yrði ráðstafað fyrst inn á afskrift á láni nr. 28408, sem þá hafi numið 522.896.568 krónum, en ella inn á aðrar skuldir, í samræmi við ákvæði samningsins. Þá hafi útgerðarfélaginu verið veitt eingreiðslulán að fjárhæð 1.449.099 evrur sem fært hafi verið inn á skuldir félagsins í samræmi við d-lið í grein 3.1 í samningnum. Samkomulag hafi verið um að yrði lánið greitt upp að hluta eða öllu leyti með nýju hlutafé fyrir 1. mars 2014 yrði það fært niður um 33% af innborgaðri fjárhæð. Það hafi verið gert en með vísan til framangreinds ákvæðis hafi þá 76.321.600 krónur verið afskrifaðar, eða 489.180,19 evrur. Miðað sé við miðgengi evru á afskriftardegi 13. mars 2014, sem hafi verið 156,45. Stefnandi byggir á því að lánin frá árunum 2004, 2005 og 2006, sem vísað sé til í bréfi stefnda, hafi verið lögmæt lán í erlendum gjaldmiðlum. Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. eigi því ekki inneign vegna gengistryggingar þeirra lána sem gerð hafi verið upp með láni nr. 12394. Vísar stefnandi um lögmæti lánanna til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 194/2013. Lánin, sem gerð hafi verið upp með láni nr. 12394, hafi hins vegar verið endurreiknuð miðað við vexti Seðlabanka Íslands til 15. nóvember 2011 og allar innborganir af lánunum hafi verið framreiknaðar með þeim vöxtum til þess sama dags. Það hafi verið gert án þess að stefnanda bæri lagaleg skylda til þess. Hvað varði lán nr. 73370001-2, frá 29. nóvember 2007, skipti ekki máli í lögskiptum aðila hvort lánið hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu eða ekki. Niðurstaða um það hafi ekki áhrif á stöðu Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. sem lántakanda og því síður á stöðu stefnda, sem ekki hafi verið lántakandi og eigi því engan rétt til endurútreiknings. Hvort lánið hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu geti ekki haft áhrif á stöðu útgerðarfélagsins vegna þess að afskriftir samkvæmt samningi aðila frá 20. desember 2013 hafi verið að mun hærri fjárhæð en möguleg krafa á grundvelli hugsanlegs endurútreiknings. Stefnandi hafi reiknað hver staða láns nr. 12394 hefði verið að því gefnu að lán nr. 73370001-2 hefði verið bundið ólögmætri gengistryggingu. Niðurstaða útreiknings stefnanda sé að jafnvel þótt teknar yrðu til greina ýtrustu kröfur stefnda þá hefði lán nr. 12394 numið 896.227.816 krónum 9. október 2013 en ekki 1.066.352.000 krónum, líkt og miðað hafi verið við í a-lið greinar 2.1 í samningi aðila. Það hefði leitt til þess að afskrift stefnanda hefði lækkað um 179.124.184 krónur, úr 599.218.168 krónum, sbr. d- og f-liði greinar 3.1 í samningnum, í 429.093.984 krónur. Niðurstaðan sé ávallt sú að ætluð inneign Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. sé mun lægri en sú krafa sem stefnandi hafi afskrifað á grundvelli samnings aðila frá 20. desember 2013. Þá hafi verið samið um að sú afskrift skyldi greidd upp áður en nokkuð kæmi til greiðslu til handa útgerðarfélaginu. Ekki hafi undir neinum kringumstæðum átt að greiða stefnda nokkuð sem hluthafa í félaginu. Stefnandi vísar til þess að Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. hafi ekki gert kröfu um endurútreikning eða krafist frekari greiðslna vegna mögulegrar inneignar félagsins. Stefnandi byggir á því að stefndi geti ekki átt aðild að slíkri kröfu og vísar um það til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 153/2000. Þá hafi Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. gert upp allar skuldir sínar við stefnanda að teknu tilliti til samnings aðila frá 20. desember 2013 og hafi ekki haft neinar kröfur frammi gagnvart stefnanda. Stefnandi byggir á því að málatilbúnaður stefnda, sem byggir á reglum um rangar og/eða brostnar forsendur, sé jafnframt þýðingarlaus, sem og málatilbúnaður sem byggir á ákvæðum samningalaga. Stefnandi hafnar því sérstaklega að hann hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og að aðstöðumunur hafi verið á aðilum eða að meintur aðstöðumunur geti haft áhrif á skuldbindingu stefnda. Stefnandi hafnar því jafnframt að það sé andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig samning aðila frá 20. desember 2013. Stefnandi mótmælir því að það hafi þýðingu við úrlausn þessa máls að stefnandi kunni að hafa gjaldfellt lán Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. og að félagið hafi þurft að greiða vexti vegna vanskila. Öll lánin hafi verið komin á lokagjalddaga og því sé eðlilegt að þau hafi borið dráttarvexti. Allar athafnir stefnanda hafi verið réttlætanlegar auk þess sem engar athugasemdir eða fyrirvarar hafi verið gerðir vegna framangreinds af hálfu útgerðarfélagsins eða stefnda við gerð samningsins frá 20. desember 2013. Þá hafi samningurinn verið til hagsbóta fyrir útgerðarfélagið og skuldir þess lækkað verulega. Einnig liggi fyrir að allar kröfur komi til frádráttar afskriftum á grundvelli samningsins. Stefnandi telur að lán nr. 12394 sé í erlendum gjaldmiðli. Jafnvel þótt lánið teldist vera bundið ólögmætri gengistryggingu myndi endurkrafa á þeim grundvelli koma til frádráttar á afskriftum. Sama eigi við ef hin eldri lán, sem endurfjármögnuð hafi verið með láni nr. 12394, yrðu endurútreiknuð. Ljóst megi vera að þau hafi ekki verið bundin ólögmætri gengistryggingu. Yrði lagt til grundvallar að öll lánin hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu og þau endurreiknuð, yrði staða þeirra 896.227.816 krónur. Slíkur endurútreikningur veiti Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. engan rétt enda afskriftir langt umfram mismuninn á framangreindri fjárhæð og 1.066.352.000 krónum. Kjarni málsins sé sá að lántakandinn, Útgerðarfélag Sandgerðis ehf., hafi ekki farið fram á endurútreikning lánanna né haldið því fram að nokkurt þeirra lána sem stefndi vísi til séu eða hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu. Stefndi eigi ekki aðild að máli um túlkun samninganna enda ekki lántakandi. Stefnandi mótmælir því að krafa á grundvelli greinar 9.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013 sé fallin niður sökum tómlætis. Salan hafi farið fram 26. febrúar 2014. Stefnandi hafi skömmu eftir söluna haft samband við fyrirsvarsmenn stefnda þar sem skort hafi gögn til þess að ljúka uppgjörinu. Fyrirsvarsmenn stefnda hafi dregið lappirnar, sem leitt hafi til þess að þeim hafi verið sent tölvuskeyti 13. maí 2015. Skeytinu hafi verið svarað samdægurs og upplýst að gögnin yrðu tekin saman. Engin gögn hafi hins vegar borist og hafi stefnandi þá ítrekað beiðni þar um og upplýst að yrðu þau ekki afhent fyrir 15. júlí 2015 yrði sendur reikningur á félagið á grundvelli samnings aðila. Þessu erindi hafi verið svarað degi síðar og upplýst að endurskoðandinn væri að taka gögnin saman. Ekki hafi í þessum samskiptum verið byggt á því að samkomulagið væri óskuldbindandi. Með vísan til framangreinds hafni stefnandi því að krafan sé niður fallin sökum tómlætis og/eða að krafa hafi verið höfð uppi rúmlega tveimur og hálfu ári eftir að salan hafi farið fram, eins og stefndi hafi haldið fram. Fyrrgreind samskipti milli aðila hafi farið fram um það bil fimmtán mánuðum eftir söluna en áður hafi aðilar verið í símasambandi. Málatilbúnaði á grundvelli tómlætis stefnanda sé því með öllu hafnað. Ljóst sé hins vegar að stefndi hafi sýnt af sér algjört tómlæti gagnvart gildi samnings aðila. Mótmæli þar að lútandi hafi fyrst verið höfð uppi um það bil tveimur og hálfu ári eftir gerð samningsins en sá sem ætli að bera fyrir sig ógildingu samnings verði að gera það án nokkurs dráttar. Að teknu tilliti til málatilbúnaðar stefnda leiði sá tími, sem liðið hafi frá undirritun samningsins til þess dags þegar mótmæli hafi verið höfð uppi, til þess að krafa, hafi hún verið fyrir hendi, hafi fallið niður sökum tómlætis. Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda á grein 9.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013, eins og áður greinir. Ákvæðið feli í sér ótvíræða skuldbindingu um að stefnda beri að greiða stefnanda 50% af söluandvirði hluta í félaginu, sem fari umfram 1.146.800.000 krónur. Ágreiningslaust sé að stefndi hafi selt alla hluti sína í félaginu 26. febrúar 2014, sem sé innan þeirra fimm ára tímamarka sem fjallað sé um í grein 9.1 í samningi aðila. Einnig sé ágreiningslaust að stefndi hafi selt hluti sína í félaginu á 1.250.000.000 króna, sem hafi verið 103.200.000 krónum umfram verðmæti félagsins, samkvæmt samningi aðila. Það þýði að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda sem nemi 51.600.000 krónum, eða 50% af 103.200.000 krónum. Stefnandi hafi skorað á stefnda að leggja fram gögn um hver hafi verið kostnaður stefnda af sölunni en samkomulag sé um að hann dragist frá kröfunni, þó þannig að hámarks frádráttur verði 1% af söluverðinu. Þar sem stefndi hafi ekki orðið við þeirri áskorun sé ekki hjá því komist að miða við að enginn kostnaður hafi verið af sölunni. Leggi stefndi hins vegar fram gögn sem staðreyni kostnað og unnt verði að fallast á réttmæti hans áskilji stefnandi sér rétt til að lækka kröfuna á síðari stigum. Stefnandi skorar jafnframt á stefnda að leggja fram gögn um þá frádráttarliði sem vísað sé til í 9. gr. samningsins frá 20. desember 2013. Verði stefndi ekki við þeirri áskorun sé á því byggt að stefndi beri hallann af því að óljóst sé hvað beri að draga frá stefnufjárhæðinni. Stefnandi áskilji sér rétt til þess að lækka stefnufjárhæðina verði fullnægjandi gögn lögð fram til réttlætingar frádrætti með vísan til samningsins. Verði fullnægjandi gögn ekki lögð fram byggir stefnandi á því að fallast beri á dómkröfur hans eins og þær séu settar fram í stefnu málsins. Stefnandi byggir kröfu sína að öðru leyti á meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga, en á því sé byggt að engin ástæða sé til að horfa fram hjá, breyta eða víkja til hliðar samkomulagi aðila. Sérstaklega beri að líta til þess að hlutur stefnda í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. hafi verið verðlaus með öllu þegar bankinn hafi samþykkt fjárhagslega endurskipulagningu félagsins árið 2013. Sú fjárhagslega endurskipulagning hafi leitt til þess að unnt hafi verið að reka áfram félag, sem komið hafi verið í umtalsverð vanskil með lán. Þá hafi endurskipulagningin gert stefnda það mögulegt að selja félagið 66 dögum síðar með umtalsverðum hagnaði. Samið hafi verið um að hluti af þeim hagnaði skyldi koma í hlut stefnanda sem hafi afskrifað verulegar skuldir og hagrætt lánum sem hafi orðið til þess að mögulegt hafi verið að selja félagið. Vandséð sé hvernig unnt sé að halda því fram að samkomulagið hafi verið ósanngjarnt gagnvart stefnda í þessu ljósi. Samkomulagið beri að efna. Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 26. febrúar 2014, þegar stefndi hafi selt Icelandic Ný-Fiski hf. hlut sinn í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. Stefnandi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og tómlæti. Stefnandi vísar um aðild til 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi byggir kröfu um dráttarvexti á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Kröfu um málskostnað byggir hann á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991. Um varnarþing vísar stefnandi til greinar 12.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013. Samkvæmt ákvæðum hennar má reka mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, rísi mál í tengslum við samninginn. 2. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að endanlegt söluverð hlutanna í Útgerðafélagi Sandgerðis ehf. hafi verið 446.274.174 krónur, eins og greini í samningi um uppgjör og efndir milli stefnda og Icelandic Ný-Fisks ef. Stefndi hafi aðeins fengið þá fjárhæð í sinn hlut. Hluti af fjárhæðinni hafi jafnframt verið framlag stefnda til útgerðarfélagsins, umfram skyldu, að fjárhæð 156.000.000 króna. Nettó kaupgreiðsla til stefnda hafi því numið 290.274.174 krónum. Skýra verði ákvæði samnings aðila frá 20. desember 2013 stefnanda í óhag þar sem hann hafi samið texta samningsins. Þá sé ljóst að stefndi hafi ekki selt hlut sinn í útgerðarfélaginu á hærra verði en því virði sem bankinn hafi metið félagið heldur fyrir mun lægri fjárhæð. Stefndi byggir í öðru lagi á því að þótt meta beri söluverð stefnda á hlutum hans í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. á 1.250.000.000 króna, þá hafi eiginlegt virði félagsins í kaupunum ekki farið umfram matsverð stefnanda, 1.142.800.000 krónur, þar sem stefndi hafi lagt útgerðarfélaginu til 156.000.000 króna í formi viðbótarhlutafjár, sem hafi aukið samsvarandi virði félagsins. Eiginlegt söluverð, samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013, sé því 1.094.000.000 króna (1.250.000.000 króna – 156.000.000 króna), sem sé 48.800.000 krónum lægra en viðmiðunarverð samningsins. Stefndi telur bersýnilegt að grein 9.1 í samningi aðila sé reist á því að hlutdeild stefnanda í söluvirði Útgerðarfélags Sandgerðis ehf., umfram virðismat stefnanda, ráðist af því að stefndi öðlist hagnað eða virðisauka af eign sinn í félaginu án frekara fjárframlags en það sem ákveðið hafi verið í samningnum. Stefnandi hafi viljað áskilja sér hlutdeild í verðmætaaukningu sem skapaðist vegna markaðsaðstæðna og velgengni útgerðarfélagsins og félli í hlut stefnda á næstu fimm árum, án sérstakra fjárframlaga hans til félagsins. Grein 9.1 í samningnum hafi miðast við að stefndi legði útgerðarfélaginu til 100.000.000 króna til viðbótar við eigið fé, sem hann og hafi gert. Þá sé einnig bersýnilegt af grein 9.1 að frá þeirri fjárhæð sem yrði til fyrir mismun á söluverði og matsvirði stefnanda skyldi draga allan kostnað af kaupunum sem legðist á stefnda til að tryggja skaðleysi hans af fjárframlögum til útgerðarfélagsins. Stefndi telur að í kjölfar athugasemda hans við 13. gr. draga að samkomulagi aðila hafi stefnandi tekið tillit til sjónarmiða stefnda um að hann yrði skaðlaus ef hann legði útgerðarfélaginu til meira fé en áskilið hafi verið í samningi aðila í því skyni að auka verðmæti félagsins umfram virðismat stefnanda á félaginu, þ.e. 1.142.800.000 krónur. Í grein 9.1 í samningi aðila sé vísað til sölukostnaðar stefnda og skattkvaða sem kunni að falla á hann. Stefndi telji vafalaust að annan kostnað eða útgjöld sem varði söluna beri einnig að fella undir ákvæðið. Sé við það miðað beri að reikna hlutdeild stefnda með þeim hætti að matsvirðið sé dregið frá viðmiðunarverðinu og fáist þá 107.200.000 krónur. Séu 156.000.000 króna dregnar þar frá liggi fyrir að 48.800.000 krónur vanti upp á til þess að stefndi verði skaðlaus af hinu sérstaka hlutafjárframlagi til Útgerðarfélags Sandgerðis ehf., að frádregnum sölukostnaðinum. Það hafi því enginn hagnaður verið af sölunni til að skipta með stefnanda. Stefndi, sem eini hluthafi í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf., hafi lagt 156.000.000 króna til hlutafjárhækkunar í félaginu, að kröfu kaupanda félagsins. Í 4. kafla kaupsamnings milli stefnda og Icelandic Ný-Fisks hf. komi fram sú forsenda og það skilyrði fyrir kaupsamningnum, að hlutafé félagsins yrði 257.000.000 króna. Í 2. viðauka samningsins sé kveðið á um að stefndi hafi greitt upp lán hjá stefnanda samkvæmt d-lið greinar 3.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013. Framangreind hlutafjárhækkun hafi verið nýtt til að greiða niður það lán félagsins við stefnanda. Í raun hafi sölumismunur verið neikvæður fyrir stefnda þegar horft sé til þessara þátta, eins og gerð hafi verið grein fyrir. Að framangreindu virtu eigi stefnandi ekki rétt á hlutdeild í söluvirði Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. enda hafi ákvæði þar um, í samningi aðila frá 20. desember 2013, grundvallast á þeirri forsendu að stefndi hagnaðist af sölu félagsins, miðað við forsendur samningsins. Sá skilningur stefnanda, að hagnaður væri forsenda fyrir hlutdeild stefnanda, komi skýrt fram í framlögðu bréfi hans til stefnda 31. mars 2016. Í bréfinu staðfesti stefnandi að kæmi til þess að stefndi seldi hluti sína í félaginu á hærra verði en lagt hafi verið til grundvallar þegar afskrift hafi verið ákveðin þá yrði hagnaði vegna sölunnar skipt milli eiganda og bankans. Þar sem enginn hagnaður hafi verið af sölunni, samkvæmt grein 9.1 í samningnum, geti ákvæðið ekki leitt til þess að stefnandi eigi lögvarinn rétt til greiðslu úr hendi stefnda. Stefndi byggir á því að sá skilningur hafi verið milli aðila þegar Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. hafi verið selt að stefndi hefði ekki hagnast á sölu hlutanna, samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila. Um þetta vísar stefndi til þess að stefnandi hafi staðfest endanlegar efndir á samningi aðila í mars 2014, sbr. framlagt skjal þar um, dagsett 28. mars 2014, án þess að vísað sé til umþrætts ákvæðis né gerður fyrirvari vegna greiðslu um mismun vegna söluhagnaðar. Í téðu skjali sé vísað til stefnda sem samningsaðila. Með vísan til þessa og þess sem að framan greinir hafi stefndi mátt líta svo á að uppgjöri milli aðila væri lokið og að stefnandi myndi ekki krefjast frekari greiðslna. Byggir stefndi á því að framangreindri staðfestingu stefnanda frá mars 2014 megi jafna til fullnaðaruppgjörs og þar með geti stefnandi ekki talist eiga réttmæta kröfu á hendur stefnda. Þá hafi stefnandi ekkert aðhafst í kjölfar þess að honum hafi verið sendur kaupsamningur stefnda og Icelandic Group um Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. Stefnandi hafi ekki leitað greiðslu fyrr en ríflega ári eftir að kaupin hafi verið gerð, í maí 2015. Þá hafi stefnandi ekki gert formlega kröfu á hendur stefnda fyrr en í október 2015. Stefnandi hafi því sýnt af sér verulegt tómlæti með athafnaleysi sínu í þetta langan tíma og í ljósi vitneskju hans um söluna og skilmála hennar og viðbragða hans í kjölfarið. Þá byggir stefndi á því að brostnar forsendur séu fyrir því að hann sé greiðsluskyldur samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila. Forsenda greiðslu til stefnanda hafi verið að hagnaður yrði af sölu hluta stefnda í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf., án frekari framlaga stefnda til félagsins. Stefndi hafi hins vegar verið knúinn til þess að leggja félaginu til nýtt hlutafé að fjárhæð 156.000.000 króna, að kröfu kaupanda, svo greiða mætti niður skuldir félagsins við stefnanda. Við það hafi forsendur brostið fyrir því að 1.250.000.000 króna söluverð væri viðmiðun um hagnaðarhlutdeild stefnanda. Með viðbótarframlaginu hafi skuldir útgerðarfélagsins við stefnanda lækkað verulega. Við það hafi áhætta stefnanda af lánveitingum hans til félagsins minnkað umtalsvert. Þá hafi hlutdeild stefnanda í hagnaði af sölunni grundvallast á þeirri forsendu að skuldastaða útgerðarfélagsins væri hærri en eignir þess. Það hafi hins vegar ekki verið raunin. Að framangreindu virtu hafi forsendur brostið fyrir því að stefndi greiddi stefnanda hlutdeild af söluandvirði hluta stefnda í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila. Stefndi byggir einnig á því að verði ekki fallist á framangreint beri að sýkna hann á þeim grundvelli að skuldbindingar stefnda hafi verið reistar á röngum fjárhagslegum forsendum og því sé bæði ósanngjarnt og óheiðarlegt af stefnanda að bera skuldir Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. fyrir sig, eins og þær séu tilgreindar í samningi aðila frá 20. desember 2013. Skuldirnar hafi verið ranglega tilgreindar sem allt of háar og því ekkert tilefni fyrir stefnanda til að seilast í eignarréttindi stefnda í útgerðarfélaginu eða fyrir stefnda að láta knýja sig til þess að samþykkja það. Því beri að víkja til hliðar ákvæði greinar 9.1 í samningi aðila, með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndi kveður að hvorki fyrir gerð samningsins né síðar hafi hann eða útgerðarfélagið fengið sundurliðun á því hvernig skuldir félagsins hafi verið reiknaðar út. Þegar stefndi hafi beðið um skýringar hafi svar stefnanda verið á þá leið að það hefði enga þýðingu að upplýsa það, þar sem fyrir lægi að skuldir útgerðarfélagsins væru verulega hærri en verðmæti félagsins og það sem út af stæði færi hvort eð er til afskriftar. Í janúar 2016 hafi stjórnarformaður stefnda óskað eftir því við starfsmann stefnanda að hann léti honum í té gögn um endurreikning á lánum útgerðarfélagsins. Í svari bankans segi m.a. „Það finnast engin gögn um endurreikning á lánum félagsins og eftir að hafa fullreynt leit og skoðað málið nánar með tilliti til endurreiknings, þá er talið lánin hafi aldrei fengið endurreikning og ættu ekki að fá slíkan endurreikning“. Hvað þessa málsástæðu varðar vísar stefndi til þess að stefnandi hafi ekki endurreiknað samninga hans við Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. um lán bundin ólögmætri gengistryggingu, eins og hann hafi lýst yfir að hafa gert við endurskipulagningu fjármála félagsins í árslok 2012. Lán nr. 0106-36-12394, sem tekið hafi verið til endurfjármögnunar fjögurra eldri lána, hafi aðeins verið endurreiknað frá þeim tíma þegar lánunum hafi verið steypt saman árið 2009. Hvert og eitt hinna fjögurra lána hafi hins vegar ekki verið endurreiknað frá upphafi, eins og drög að samkomulagi um endurfjármögnun frá mars 2012 hafi gefið til kynna. Stefndi kveður að stjórnendum Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. hafi ekki verið kunnugt um að endurreikningur lánanna hafi verið með þessum hætti fyrr en löngu síðar. Í stefnu málsins sé viðurkennt að þetta samsteypulán myndi lækka um hér um bil 170.000.000 króna væri endurreikningur miðaður við upphafstíma einstakra lána. Stefndi telji hins vegar að lækkunin yrði meiri. Sé hins vegar miðað við framangreinda fjárhæð úr stefnu málsins þá hefðu samanlagðar skuldir Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. átt að vera um 1.084.000.000 króna. Stefnandi hafi því gefið ranga yfirlýsingu til útgerðarfélagsins og stefnda, sem hafi lagt hana til grundvallar við gerð samnings aðila frá 20. desember 2013. Að því marki sem stefnandi kynni að hafa endurreiknað lánin, þá hafi það aðeins verið gert frá árinu 2009 þegar stefnandi hafi steypt saman eldri lánssamningum og endurlánað útgerðarfélaginu með nýjum samningi, dagsettum 27. mars 2009. Lánin hafi því ekki verið endurreiknuð frá upphafstíma lánanna sem hafi verið frá árunum 2004, 2006 og 2007. Höfuðstóll hins nýja láns hafi því verið mun hærri en efni hafi staðið til. Stefnandi hafi mátt vita að gengistrygging hinna eldri lána hafi verið ólögmæt, ef ekki strax árið 2009 þá í síðasta lagi þegar endurskipulagning fjármála félagsins hafi farið fram árið 2012. Endurfjármögnun stefnanda, samkvæmt samningi aðila, hafi því verið reist á tölulega röngum forsendum, sem varði stefnda vegna skilyrðisins um að stefndi léti af hendi hlutdeild í söluhagnaði, kæmi til sölu útgerðarfélagsins. Að mati stefnda hafi hinar röngu tölulegu forsendur verið grundvöllur þess að stefndi hafi látið til leiðast, undir þrýstingi, að fallast á að 50% af framtíðar­söluhagnaði á hlutum hans í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. skyldu greiðast stefnanda. Hefðu hin erlendu lán útgerðarfélagsins verið endurreiknuð í íslenskar krónur hefði skulda- og rekstrarstaða félagsins verið önnur og lægri en skráð hafi verið í samningi aðila frá 20. desember 2013. Hefði þá ekki komið til þess að stefnandi gæti knúið stefnda til að undirgangast framangreinda skilmála. Stefndi vísar til þess að stefnandi viðurkenni í stefnu málsins að lánssamningur frá 2007 hafi verið of hár sem nemi 170.124.184 krónum. Það sé mat stefnda að lánin hafi öll verið bundin ólögmætri gengistryggingu og því öll verið of hátt reiknuð í samningi aðila. Stefndi byggir á því að það sé óheiðarlegt og andstætt góðum viðskiptaháttum að stefnandi hafi látið undir höfuð leggjast að endurreikna lánin við gerð samningsins. Stefndi geti réttilega borið fyrir sig mótbárur vegna rangra forsendna að baki skuldastöðu útgerðarfélagsins gagnvart stefnanda í samningi aðila, í ljósi reglna kröfuréttar um framsal almennra krafna. Þá vísar stefndi til 33. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Kveður hann fyrrnefnd lán Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. öll hafa verið bundin ólögmætri gengistryggingu. Lánssamningurinn frá 29. nóvember 2007 sé um lán bundið ólögmætri gengistryggingu, sbr. ófrávíkjanleg ákvæði 12. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011. Í framlögðu bréfi stefnanda til stefnda, dagsettu 31. mars 2016, sé viðurkennt af hálfu stefnanda að lán samkvæmt samningnum sé bundið ólögmætri gengistryggingu. Eina fjárhæðin, sem beint eða óbeint sé tilgreind í samningnum, hafi verið í íslenskum krónum. Ekki leiki vafi á að samningurinn hafi verið um skuldbindingu í íslenskum krónum og að það hafi verið óheimilt samkvæmt lögum. Stefndi byggir einnig á því að lánssamningar frá 2004 (nr. 83650008, 83650007 og 83650008), 2005 (nr. 83640026 og 83640027) og 2006 (nr. 83640020, 83640021 og 83540022) hafi verið um lán bundin ólögmætri gengistryggingu. Allir samningarnir séu svipaðir að formi og uppsetningu, að því leyti sem máli skiptir vegna ágreinings þessa máls. Samningarnir beri yfirskriftina „ERLENT ENDURLÁN“. Samkvæmt ákvæðum samninganna hafi stefndi viðurkennt að skulda Sparisjóðnum í Keflavík tilgreindar fjárhæðir í erlendum myntum, eða jafnvirði þeirra fjárhæða í íslenskum krónum, miðað við sölugengi þeirra mynta sem tilteknar hafi verið, á gjalddaga eða greiðsludegi, því sem hærra reyndist. Vextir skyldu vera LIBOR-vextir. Þá sé kveðið á um það í samningunum að lántaki veiti lánveitanda heimild til að skuldfæra tékkareikning hans í íslenskum krónum fyrir afborgunum, vöxtum og innheimtukostnaði af láninu á gjalddögum. Í samningunum sé einnig kveðið á um að dragist greiðsla fram yfir gjalddaga sé skuldareiganda heimilt að láta gengistryggingu halda á gjaldfallinni fjárhæð til greiðsludags. Þá sé kveðið á um að ef gengistrygging héldist í gjaldfallinni fjárhæð eftir gjalddaga skyldi greiða dráttarvexti í samræmi við vaxtalög. Engin þörf hefði verið á að kveða á um slíkt hefði lánið í raun verið í erlendum myntum, eins og stefnandi haldi fram. Stefndi vísar jafnframt til þess að erlendar myntir hafi ekki skipt um hendur og að báðir aðilar hafi uppfyllt aðalskyldur sínar samkvæmt samningunum með greiðslu íslenskra króna. Með því að íslenskar krónur skiptu í raun um hendur þá teljist lánin hafa verið í íslenskum krónum, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 391/2013. Öll lán Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. hafi því verið í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla, og þar með ólögmæt, sbr. ófrávíkjanleg ákvæði 12. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. gr. sömu laga. Að því virtu hafi fjárhagsleg endurskipulagning Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. verið reist á röngum tölulegum forsendum. Uppreiknuð staða lána félagsins hafi verið of há miðað við lögmætar forsendur. Að mati stefnda virðist stefnandi hafa með ólögmætum hætti gjaldfellt eftirstöðvar útistandandi lána Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. eftir að endurskipulagning fjármála félagsins hafi verið samþykkt af hálfu stefnanda. Við fyrstu drög að samningi aðila, í maí 2012, hafi skuldastaða útgerðarfélagsins við stefnanda verið reiknuð 1.254.469.844 krónur. Í endanlegum samningi, um það bil 18 mánuðum síðar, hafi skuldastaðan verið metin 1.514.000.000 króna, miðað við 9. október 2013. Verri skuldastaða hafi haft veruleg áhrif á samningsstöðu aðila og forsendur endurfjár­­mögnunarsamningsins. Vegna atvika sem varði stefnanda hafi umrætt samkomulag ekki verið staðfest en í júlí 2012 hafi stefnandi borið því við að skjöl vegna endurskipulagningar Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. hjá bankanum hefðu týnst og hafi stefnandi látið undir höfuð leggjast að útbúa skjölin að nýju, svo staðfesta mætti samninginn. Samkvæmt samningi aðila frá 20. desember 2013 hafi staða þeirra lána, sem greiða skyldi með nýrri lánum, verið samtals að fjárhæð 1.514.797.000 krónur. Lánin hafi því hækkað um 260.327.156 krónur frá upphaflegu samkomulagi. Að mati stefnda bendi þessi hækkun til þess að stefnandi hafi gjaldfellt og reiknað dráttarvexti á lánin árið 2012. Stefndi hafi hins vegar engar upplýsingar fengið um hvenær það hafi verið gert enda hafi félagið ekki fengið tilkynningu þess efnis. Stefnanda hafi borið skylda til þess að sýna stefnda og Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. tillitsemi í samningssambandi og þar af leiðandi verið óheimilt að gjaldfella lánin og reikna á þau dráttarvexti. Fyrir hafi legið að stefndi og útgerðarfélagið hafi verið reiðubúin að ljúka samkomulaginu í maí 2012 og hafi skilað stefnanda gögnum. Stefnandi hafi hins vegar dregið lappirnar við fráganginn og borið því við að hafa týnt gögnunum. Skrifleg staðfesting samkomulagsins, sem staðfest hafi verið munnlega, hafi því tafist af ástæðum sem varðað hafi stefnanda eingöngu. Stefnandi hafi því ekki haft ástæðu til þess að beita vanefndaúrræðum gagnvart útgerðarfélaginu og hafi hvorki haft heimild til þess að gjaldfella lánin né til þess að reikna dráttarvexti og færa á höfuðstól, sér í lagi í ljósi þess að lánin hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu og að stefnandi hafi ekki endurreiknað þau þrátt fyrir að hafa lýst því yfir að hann hafi gert það. Þetta hafi enn fremur leitt til þess að skuldir útgerðarfélagsins hafi verið ranglega taldar í samningi aðila. Stefndi byggi því á því að ólögmæt gjaldfelling lánanna leiði til rangra forsendna í samningi aðila og að ógilda beri grein 9.1 í samningnum og sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Stefndi byggir enn fremur á því að það sé ósanngjarnt og andstætt góðum viðskiptavenjum að stefnandi beri fyrir sig grein 9.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013, sbr. 36. og 33. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Grundvöllur samningsins hafi byggst á röngum forsendum sem lúti að því að skuldastaða Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. hafi verið reiknuð hærri en raunin hafi verið. Stefnandi hafi mátt vita um hina ólögmætu háttsemi allan tímann, bæði að því er varði ólögmæta gengistryggingu lánanna og ólögmæta gjaldfellingu þeirra. Að mati stefnda hafi það verið afar óvenjulegt og andstætt góðum viðskiptavenjum að þröngva hann, sem í raun hafi verið þriðji aðili utan samninga útgerðarfélagsins og stefnanda, til þess að taka á sig skuldbindingu gagnvart stefnanda. Stefnandi hafi ekki átt neinn lögvarinn rétt til þeirra skuldbindinga. Stefnandi sé fjármálafyrirtæki og um starfsemi slíkra félaga gildi lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 19. gr. laganna skuli fjármálafyrirtæki starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Háttsemi stefnanda í aðdraganda og við gerð samnings aðila hafi, að mati stefnda, verið í meira lagi óeðlileg og andstæð skyldum stefnanda á grundvelli framangreindra laga. Þegar ráðist hafi verið í fjárhagslega endurskipulagningu á Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. hafi verið ljóst að skuldbindingar félagsins hafi verið orðnar þungar í vöfum sökum gengisfalls krónunnar seinni hluta ársins 2008. Stefnandi hafi haft það á valdi sínu að setja félagið í þrot. Í framlögðum tölvuskeytum aðila komi fram að ef skilmálar stefnanda yrðu ekki samþykktir myndi hann hlutast til um að selja eignir útgerðarfélagsins upp í skuldir. Stefndi kveður þetta hafa falið í sér yfirlýsingu um að útgerðarfélagið yrði sett í gjaldþrot. Stefndi og útgerðarfélagið hafi því ekki átt annarra kosta völ en að samþykkja skilmála stefnanda og í kjölfarið hafi stefndi skilað stefnanda öllum umbeðnum gögnum svo staðfesta mætti samninginn. Í raun hafi stefnda, sem eina hluthafa útgerðarfélagsins, verið settir þeir afarkostir í framlögðu tölvuskeyti starfsmanns stefnanda að ganga að tillögum stefnanda eða að stöðva starfsemi félagsins. Öllum aðilum hafi verið ljóst hvað seinni kosturinn þýddi fyrir útgerðarfélagið og stefnda, sem eiganda félagsins. Við þær aðstæður og til að forða þroti útgerðarfélagsins hafi stefndi fallist á að gefa stefnanda hlutdeild í söluhagnaði á félaginu, miðað við verðmat stefnanda, kæmi til sölu félagsins. Skoða verði vilja stefnda til samningsgerðar í því ljósi enda augljóst að ekki hafi verið jafnræði með aðilum. Í stefnu málsins sé endurútreikningur stefnanda sem miði við ólögmæti lánssamningsins frá 2007. Niðurstaða stefnanda sé að endurreikningur leiði í ljós að lán nr. 12394 hefði þá átt að vera 170.124.184 krónum lægra en miðað hafi verið við í samningi aðila. Þar að auki hafi stefnandi með ólögmætum hætti gjaldfellt lán útgerðarfélagsins með þeim afleiðingum að skuldastaða félagsins hafi verið 260.327.156 krónum hærri í samningnum en hún hefði átt að vera. Að framangreindu virtu byggir stefndi á því að afskriftarlánið, að fjárhæð 511.300.000 krónur, hafi ekki falið í sér neinar teljandi afskriftir af lánum Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. Því sé óréttmætt og ósanngjarnt fyrir stefnanda að bera fyrir sig ákvæði greinar 9.1 í samningi aðila. Í samningi aðila frá 20. desember 2013 sé gert ráð fyrir því að stefnandi verði lánveitandi Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. á næstu árum. Af því hafi ekki orðið þar sem öll lán félagsins hafi verið gerð upp í kjölfar sölu stefnda á hlutum hans í félaginu. Því hafi stefnandi ekki borið áhættu af rekstri félagsins eins og ráðgert hafi verið. Það hafi augljóslega verið stefnanda til hagsbóta. Að því virtu sé það ósanngjarnt fyrir stefnda að stefnandi beri fyrir sig ákvæði greinar 9.1 í samningnum og beri þar af leiðandi að víkja ákvæðinu til hliðar og sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar byggir stefndi jafnframt á því að stefnandi hafi misnotað sér yfirburðastöðu sína gagnvart félaginu, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þar sem hann hafi aflað og áskilið sér hagsmuni án nokkurs endurgjalds, á grundvelli greinar 9.1 í samningi aðila. Stefndi byggir einnig á því, framangreindu til stuðnings og sem sjálfstæðri málsástæðu, að í ljósi hlutafjárhækkunar Útgerðarfélags Sandgerðis ehf., með eiginfjárframlagi stefnda, sé bersýnilega ósanngjarnt af stefnanda að bera fyrir sig söluhagnaðarákvæði í samningnum, vegna atvika sem síðar hafi komið til. Vísast um þetta til fyrri umfjöllunar. Að því virtu beri að víkja ákvæði greinar 9.1 í samningi aðila til hliðar og sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Þá byggir stefndi á því að krafa stefnanda sé niður fallin sökum tómlætis. Með kaupsamningi, dagsettum 26. febrúar 2014, hafi stefndi selt Icelandic Ný-Fiski hf. hluti sína í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. Engum vafa sé undirorpið að stefnandi hafi vitað um söluna frá upphafi enda hafi útistandandi lán útgerðarfélagsins verið gerð upp samhliða henni. Þá mótmæli stefnandi því ekki að hann hafi vitað af sölunni. Með hliðsjón af því að stefndi hafi í raun ekki hagnast af sölunni, að teknu tilliti til hlutafjárhækkunarinnar, hafi stefndi mátt líta svo á að stefnandi teldi ekki grundvöll fyrir því að krefja stefnda um greiðslu samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila. Þar að auki hafi staðfesting stefnanda á efndum samnings aðila, dagsett 28. mars 2014, gefið stefnda lögmætar og réttmætar væntingar um að ekki yrði krafist umþrætts mismunar söluverðs og matsvirðis félagsins, enda sé þar hvergi gerður fyrirvari vegna ákvæðisins né vísað til þess með nokkrum hætti. Stefndi kveður að stefnanda hafi verið kunnugt um uppgjör á grundvelli kaupsamningsins við Icelandic Ný-Fisk hf. um Útgerðarfélag Sandgerðis ehf., samkvæmt uppgjörssamkomulaginu frá 4. apríl 2014. Stefndi vísar um það til þess að Icelandic Ný-Fiskur hf. hafi verið dótturfyrirtæki Icelandic Group, sem hafi að hluta til verið í eigu stefnanda. Þá hafi stefnandi verið viðskiptabanki Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. og Icelandic Group. Stefndi vísar einnig til þess að í óformlegum samskiptum aðila hafi stefndi ítrekað að í ljósi þeirra verðmætaaukningar sem leiddi af hlutafjárframlagi stefnda í útgerðarfélaginu, að fjárhæð 156.000.000 króna, umfram skyldur hans samkvæmt samningi aðila frá 20. desember 2013, væri engu til að skipta. Í kjölfarið hafi ekkert heyrst frá stefnanda og hafi stefndi litið svo á að þar með væri málum milli aðila lokið, varðandi endurskipulagningu á útgerðarfélaginu og efndir samnings þar um. Það hafi ekki verið fyrr en með kröfubréfi, dagsettu 6. október 2015, að stefnandi hafi krafið stefnda um greiðslu með vísan til samnings aðila. Þá hafi rúmlega eitt og hálft ár verið liðið frá kaupsamningi aðila 26. febrúar 2014. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi, með aðgerðarleysi sínu glatað kröfu sinni. Í ljósi þess tíma sem liðið hafi frá sölunni þar til stefnandi hafi krafist greiðslu hafi stefndi mátt telja að krafan væri niður fallin. Stefndi hafi þar að auki mátt hafa réttmætar væntingar um að stefnandi félli frá kröfu sinni með vísan til samnings aðila, sér í lagi í ljósi þeirra atvika sem að framan sé lýst, hvernig umþrætt ákvæði hafi komið til og vegna uppgjörs í kjölfar sölunnar til Icelandic Ný-Fisks hf. Krafa stefnanda sé þar af leiðandi fallin niður sökum tómlætis stefnanda og beri af þeim sökum að sýkna stefnda. Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda byggir hann á því að lækka skuli kröfur stefnanda verulega og að miða eigi upphafstíma dráttarvaxta við uppsögu endanlegs dóms í málinu. Í grein 9.1 í samningi aðila sé kveðið á um að draga skuli kostnað stefnda af sölu Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. frá söluandvirði, að hámarki 1% af söluandvirðinu. Sé miðað við að söluandvirði hlutafjár stefnda í útgerðarfélaginu hafi verið 1.250.000.000 króna, sé hámarksfrádráttur vegna sölukostnaðar 12.500.000 krónur. Sölukostnaður stefnda vegna sölu á hlutafé hans hafi falið í sér kostnað vegna þjónustu þriggja aðila og hafi verið á bilinu 50-60.000.000 króna. Inni í þeirri fjárhæð sé falinn kostnaður vegna þjónustu Markó Partners ehf., að fjárhæð 30.000.000 króna, án virðisaukaskatts, samkvæmt framlögðum reikningi. Þar af leiðandi geti dómkrafa stefnanda aldrei verið hærri en sem nemi 45.350.000 krónum. Stefndi mótmælir einnig upphafstíma dráttarvaxta samkvæmt kröfugerð stefnanda. Í samningi aðila sé ekki minnst á gjalddaga vegna kröfu á grundvelli greinar 9.1 í samningnum. Krafa um dráttarvexti geti því í allra fyrsta lagið komið til álita mánuði eftir að stefnandi hafi sannarlega krafið stefnda um greiðslu kröfunnar, samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Stefnandi hafi fyrst krafið stefnda um efndir með bréfi, dagsettu 6. október 2015. Stefndi byggir hins vegar á því að ekki sé unnt að miða upphafstíma dráttarvaxta fyrr en við uppsögu endanlegs dóms í málinu enda fjárhæð kröfunnar ekki ljós við fyrra tímamark, eða hver sé réttmætur grundvöllur hennar. Stefndi byggir kröfur sínar á almennum reglum kröfu- og samningaréttar, reglum um rangar og brostnar forsendur, 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sérstaklega 19. gr. þeirra laga. Stefndi byggir einnig á óskráðum reglum um tómlæti og trúnaðar- og tillitsskyldu í samningssambandi. Þá vísar stefndi til 12. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og til III. kafla sömu laga. Um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. IV Ágreiningur máls þessa lýtur að greiðsluskyldu stefnda samkvæmt samningi aðila frá 20. desember 2013. Ákvæðum samningsins er í grófum dráttum lýst hér að framan. Byggir stefnandi kröfu sína nánar tiltekið á grein 9.1 í samningnum, sem kveður á um að selji stefndi hluti sína í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. innan fimm ára frá undirritun samningsins, á hærra verði en því virði sem stefnandi mat þá félagið, að fjárhæð 1.146.800.000 krónur, rynni 50% af söluandvirðinu, sem væri umfram fyrrgreint eignavirði, til stefnanda. Rúmlega tveimur mánuðum eftir undirritun samningsins seldi stefndi Icelandic Ný-Fiski ehf. alla hluti sína í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. Greint er frá helstu ákvæðum kaupsamningsins, sem máli skipta við úrlausn þessa máls, hér að framan. Samkvæmt samningnum var kaupverð fyrir alla hluta stefnda í útgerðarfélaginu 1.250.000.000 króna. Mismunurinn á tilgreindu söluverði og metnu eignavirði félagsins samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila er 103.200.000 krónur og byggir stefnandi á því að helmingur þeirrar fjárhæðar, 51.600.000 krónur, eigi að renna til hans. Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að endanlegt söluverð fyrir hluta hans í útgerðarfélaginu hafi verið 446.274.174 krónur, líkt og fram komi í uppgjörssamkomulagi hans við kaupandann, Icelandic Ný-Fisk hf., enda hafi stefndi aðeins fengið þá fjárhæð í sinn hlut. Söluverð samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila hafi því ekki verið hærra en metið eignavirði félagsins. Samkvæmt skýru orðalagi greinar 9.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013 var tilgreind fjárhæð, 1.146.800.000 krónur, metið eignavirði útgerðarfélagsins á þeim tíma þegar samningurinn var gerður. Samkvæmt orðanna hljóðan felur það í sér metið virði eigna félagsins án tillits til skulda. Ekki liggur fyrir skýr sundurliðun á því hvernig stefnandi mat eignavirði félagsins en þó er lagt fram í málinu tölvuskeyti sem Ragnar Hilmarsson, starfsmaður stefnanda, sendi Alberti Sveinssyni, forsvarsmanni stefnda, 30. september 2013. Í skeytinu er fjallað um muninn á því að nota áramótauppgjör eða sex mánaða uppgjör. Miðað við sex mánaða uppgjör er staða eigna sett fram með eftirfarandi hætti:   Eignir Virði Von bátur 50.000 Von kvóti 960.533 Kröfur 24.756 Birgðir 277 Sjóður 33.680 Fasteign 0 Samtals 1.069.246 Sparisjóðabanki -132.636 Íslandsbanki 0 Byggðastofnun -11.000 Eignavirði – aðrir en LB 925.610   Í framhaldinu segir í skeytinu að nýuppgerður „Kleópatra 38“ sé meira virði en 50.000.000 króna og ef verðmatið er hækkað um 5.000.000 króna þá sé talan orðið sú sama og ef notast væri við áramótauppgjör. Samtals verðmæti eigna sé þá 1.075.000.000 króna en nettó verðmæti fyrir stefnanda sé 930.500.000 krónur. Svipuð framsetning er á mati eigna í tölvuskeyti Ragnars frá 26. september 2013. Þá er óumdeilt í málinu að helsta ástæða þess að aðilar gerðu með sér samninginn var að útgerðarfélagið var á þessum tíma í fjárhagserfiðleikum og voru skuldir þess metnar á yfir einn milljarð króna. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af skýru orðalagi greinar 9.1 mátti báðum aðilum málsins vera ljóst við gerð samningsins frá 20. desember 2013 að tilgreind fjárhæð, 1.146.800.000 krónur, vísaði til mats á virði eigna félagsins án tillits til skulda. Sé grein 9.1 í samningi aðila lesin í heild sinni verður jafnframt að leggja þann skilning í ákvæðið að þar sem vísað er til verðs og söluandvirðis sé átt við söluverð sem miði, með sama hætti, við verðmæti félagsins án tillits til skulda. Í grein 3.1 í kaupsamningi stefnda og Icelandic Ný-Fisks hf., dagsettum 26. febrúar 2014, er kaupverð fyrir alla hluti í útgerðarfélaginu tilgreint 1.250.000.000 króna. Í kaupsamningnum er ekki greint frá því hvað metið eignavirði félagsins sé en ætla má, sé samningurinn lesinn í heild sinni, að kaupverðið endurspegli virði félagsins án tillits til skulda. Í samræmi við þann skilning er í ákvæði 3.3 tekið fram að kaupverðið miðist við að nettó vaxtaberandi skuldir félagsins séu engar og að nettó veltufé félagsins sé ekkert. Þar af leiðandi er það mat dómsins að umsamið söluverð fyrir útgerðarfélagið, 1.250.000.000 króna, sé það verð sem leggja beri til grundvallar samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013. Það styður framangreinda niðurstöðu að í grein 3.3 í kaupsamningnum er greint frá því að þrátt fyrir að söluverð miðist við að nettó vaxtaberandi skuldir félagsins séu engar séu aðilar sammála um að áætlaðar nettó vaxtaberandi skuldir félagsins við undirskrift séu 850.000.000 króna og að tekið verði tillit til þess við uppgjör samkvæmt samningnum. Samkvæmt uppgjörssamkomulagi stefnda og Icelandic Ný-Fisks hf. tók kaupandi yfir hluta skulda félagsins sem hluta af uppgjöri samkvæmt kaupsamningnum. Þrátt fyrir orðalag uppgjörssamkomulagsins um að endanlegt kaupverð hafi þarf af leiðandi verið 446.274.174 krónur verður, að framangreindu virtu, ekki fallist á það með stefnda að sú fjárhæð hafi verið söluverð fyrir útgerðarfélagið samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila. Var þar aðeins vísað til þess að 446.274.174 krónur skiptu um hendur eftir að tekið hafði verið tillit til skulda félagsins sem hluta af uppgjöri á grundvelli kaupsamningsins. Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að til frádráttar söluverðinu, 1.250.000.000 króna, eigi að koma framlag hans til Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. að fjárhæð 156.000.000 króna. Þá fjárhæð lagði stefndi útgerðarfélaginu til með því að auka hlutafé félagsins 12. febrúar 2014, úr 101.500.000 krónum í 257.500.000 krónur. Telur stefndi að þetta framlag hans hafi aukið virði félagsins og að eiginlegt söluverð hafi þar af leiðandi verið 1.094.000.000 króna, sem sé lægra en metið eignavirði samkvæmt samningi aðila. Líkt og að framan greinir er það mat dómsins að í grein 9.1 í samningi aðila sé skýrt kveðið á um að hlutdeild stefnanda í umframvirði útgerðarfélagsins við sölu þess ráðist eingöngu af því hvort söluverð verði hærra en metið eignavirði. Sá skilningur stefnanda á ákvæðinu, sem fram kemur í bréfi hans, dagsettu 31. mars 2016, samræmist skýru orðalagi ákvæðisins. Segir í bréfinu að rökin fyrir ákvæði greinar 9.1 hafi verið að vegna þeirrar óvissu sem ríkt hafi um verðmæti útgerðarfélagsins hafi þótt eðlilegt að gera þann fyrirvara við afskrift stefnanda á skuldum umfram metið eignavirði að kæmi til þess að stefndi seldi hluti sína í félaginu á hærra verði en lagt hafi verið til grundvallar þegar afskrift hafi verið ákveðin, þá yrði hagnaði vegna sölunnar skipt milli stefnda og stefnanda. Af hálfu stefnanda er því fjallað um hagnað sem mismun á söluverði og metnu eignavirði, líkt og fram kemur í ákvæðinu sjálfu. Með hliðsjón af orðalagi ákvæðisins verður ekki talið að stefnda hafi tekist að færa fullnægjandi rök fyrir því að grein 9.1 í samningnum hafi verið reist á því að hlutdeild stefnanda í söluvirði útgerðar­félagsins, umfram virðismat stefnanda, ætti að ráðast af hagnaði stefnda eða virðisauka án frekara fjárframlags en þess sem ákveðið hafi verið í samningnum. Ágreiningslaust er að nýtt hlutafé, að fjárhæð 156.000.000 króna, var samkvæmt samkomulagi stefnanda, stefnda og kaupanda, Icelandic Ný-Fisks hf., notað til þess að greiða upp lán útgerðarfélagsins samkvæmt d-lið greinar 3.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013. Lánið var að fjárhæð 1.444.099 evrur, eða um 229.400.000 krónur. Í d-lið greinar 3.1 í samningnum er kveðið á um að greiði stefndi upp lánið að hluta eða í heild fyrir 1. mars 2014 og greiðslan sé að öllu leyti fjármögnuð með nýju eigin fé, sem hluthafar eða aðrir hafi lagt félaginu til, þá muni stefnandi til viðbótar við slíka innborgun færa lánið niður um 33% af innborgaðri fjárhæð. Óumdeilt er í málinu að stefnandi færði niður eftirstöðvar lánsins í samræmi við framangreint ákvæði, sbr. og framlagða staðfestingu um efndir á samningnum, dagsetta 28. mars 2014. Í samræmi við það sem áður hefur verið rakið um metið eignavirði félagsins samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila og söluverð samkvæmt kaupsamningnum frá 26. febrúar 2014, verður ekki fallist á það með stefnda að hlutafjáraukning hans í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. 12. febrúar 2014 hafi falið í sér eignaaukningu þannig að áhrif hafði á eignavirði félagsins. Hlutafjáraukningin var nýtt til að greiða niður skuldir sem, samkvæmt framansögðu, voru ekki metnar inn í metið eignavirði eða söluverð útgerðarfélagsins. Þá verður að líta til þess að þar sem stefndi hafði lækkað skuldir útgerðarfélagsins fyrir undirritun kaupsamningsins fékk hann, samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins um uppgjör, hærri fjárhæð greidda í hönd en ella. Er þá ekki aðeins að líta til framlags stefnda að fjárhæð 156.000.000 króna heldur einnig til niðurfærslu stefnanda á eftirstöðvum lánsins. Samtals höfðu skuldir útgerðarfélagsins því lækkað um sem nemur um 230.000.000 króna sem var ótvírætt stefnda til hagsbóta við sölu félagsins skömmu síðar. Er þar af leiðandi ekki fallist á það með stefnda að fjárframlag hans að fjárhæð 156.000.000 króna eigi að koma til frádráttar söluverði fyrir útgerðarfélagið. Stefndi byggir einnig á því að framangreint framlag hans að fjárhæð 156.000.000 króna eigi að koma til frádráttar sem kostnaður eða útgjöld við söluna samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila. Ekki verður fallist á það með stefnda að niðurgreiðsla lána hins selda félags teljist til kostnaðar við söluna. Þá verður að líta til þess að stefnandi færði niður eftirstöðvar lánsins, til móts við fjárframlag stefnda. Sýnt þykir að stefndi hafi þar af leiðandi fengið meira fjármagn í hendur við sölu félagsins en hefði hann ekki greitt lánið og enn meira sökum mótframlags stefnanda í formi niðurfærslu eftirstöðva lánsins. Þar af leiðandi og í ljósi alls þess sem að framan er rakið er ekki fallist á þessa málsástæðu stefnda. Stefndi byggir enn fremur á því að stefnandi hafi staðfest endanlegar efndir á samningi aðila með framlagðri staðfestingu, dagsettri 28. mars 2014, án þess að gera fyrirvara um greiðslu vegna mismunar á söluverði og metnu eignavirði útgerðarfélagsins. Samkvæmt framlögðum tölvuskeytum milli aðila má ljóst vera að stefnandi gaf út staðfestingu um efndir á samningi aðila að beiðni stefnda vegna sölunnar á útgerðarfélaginu. Í staðfestingunni er einungis staðfest hvaða lán, samkvæmt grein 3.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013, hafi verið greidd, hver ekki og hverjar afskriftir stefnanda hafi verið. Samkvæmt efni sínu felur staðfestingin því ekki í sér staðfestingu stefnanda á fullum efndum samkvæmt samningi aðila og verður stefnandi því ekki talinn, með útgáfu staðfestingarinnar, hafa fyrirgert rétti sínum til fullra efnda á samningnum. Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á tómlæti stefnanda við innheimtu kröfu sinnar samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila. Af hálfu stefnanda var forsvarsmönnum stefnda sent tölvuskeyti 10. mars 2014, um tveimur vikum eftir að kaupsamningurinn um Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. var undirritaður. Í skeytinu kemur fram að eitt mál sé eftir milli aðila og það sé að fara yfir „pelsákvæðið“. Ágreiningslaust er með aðilum að þar sé vísað til greinar 9.1 í samningi aðila. Í skeytinu er þess óskað að kaupsamningurinn verði sendur stefnanda. Af hálfu stefnda var kaupsamningurinn sendur stefnanda með tölvuskeyti síðar sama dag, með þeirri athugasemd að efndadagur væri ekki runninn upp og að því mætti segja að salan væri ekki fullfrágengin. Af hálfu stefnanda var ítrekað í tölvuskeyti 25. mars 2014 að enn ætti eftir að ræða „pelsákvæðið“. Af þessum samskiptum aðila má ljóst vera að stefnandi bar fyrir sig rétt sinn, samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila, beint í kjölfar sölu útgerðarfélagsins án þess að fram kæmu mótmæli af hálfu stefnda. Mátti stefnda því vera ljóst að aðilar ættu eftir að fara yfir uppgjör þeirra á milli á grundvelli greinar 9.1. Þá verður að líta til þess að samkvæmt orðalagi greinar 9.1 er ekki kveðið á um heimild til handa stefnanda til þess að krefjast 50% af söluandvirðinu sem sé umfram metið eignavirði heldur gerast aðilar ásáttir um að sá hluti renni til stefnanda, séu skilyrði ákvæðisins að öðru leyti uppfyllt. Með hliðsjón af framangreindu og því að stefnandi byggir rétt sinn á skýru ákvæði í samningi aðila verður ekki talið að stefndi hafi mátt hafa réttmætar væntingar til að ætla að stefnandi myndi ekki innheimta kröfu sína eftir að uppgjörið lægi fyrir. Þá er í grein 9.1 í samningi aðila kveðið á um að til skiptingar milli aðila skuli koma sá hluti sem sé umfram metið eignavirði að frádregnum kostnaði stefnda vegna sölu félagsins og hugsanlegra skattgreiðslna stefnda vegna sölunnar. Að því virtu mátti stefnda jafnframt vera ljóst að stefnandi gæti ekki reiknað út endanlega kröfu á grundvelli ákvæðisins án nánari upplýsinga frá stefnda um kostnað og hugsanlegar skattgreiðslur vegna sölunnar. Stefnandi verður af þeim sökum ekki látinn bera hallann af því að stefndi hafi ekki afhent þessar upplýsingar og að liðið hafi rúmt ár þar til stefnandi ítrekaði við stefnda, með tölvuskeyti 13. maí 2015, að enn ætti eftir að fara fram uppgjör á grundvelli greinar 9.1 í samningi aðila. Ítrekaði stefnandi þá jafnframt að draga mætti frá hluta stefnanda í söluandvirðinu kostnað vegna sölunnar og hugsanlegar skattgreiðslur. Af hálfu stefnda var því svarað, með tölvuskeyti sama dag, að taka ætti þessar upplýsingar til og að haft yrði samband síðar. Stefnandi ítrekaði beiðni sína enn á ný, með tölvuskeyti 1. júlí 2015, og hafði þá ekkert heyrst frá forsvarsmönnum stefnda. Í skeyti stefnanda segir að ef ekkert heyrist í forsvarsmönnum stefnda fyrir 15. júlí verði reikningur sendur fyrir 50% af mismun á söluverði og metnu eignavirði samkvæmt samningi aðila. Svör stefnda voru á sama veg og fyrr og sendi stefnandi stefnda að endingu bréf með kröfu sinni 6. október 2015. Að virtum framangreindum samskiptum aðila er það mat dómsins að stefnandi hafi ekki sýnt af sér tómlæti við að halda uppi kröfu sinni samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila frá 20. desember 2013. Í framangreindum tölvuskeytum koma heldur ekki fram mótmæli stefnda við því að stefnandi geti byggt rétt sinn á grein 9.1 í samningi aðila. Í þessu ljósi verður að hafna málsástæðum stefnda er lúta að tómlæti stefnanda og réttmætum væntingum stefnda. Stefndi byggir jafnframt á því að brostnar forsendur séu fyrir því að honum beri að greiða kröfu stefnanda samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila þar sem ekki hafi verið hagnaður af sölu Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. Byggir stefndi á því að framlag hans til hækkunar í hlutafé félagsins, að fjárhæð 156.000.000 króna, eigi að koma til frádráttar meintum hagnaði enda hafi það verið forsenda fyrir söluverði að fjárhæð 1.250.000.000 króna. Líkt og þegar hefur verið rakið er það mat dómsins að orðalag greinar 9.1 í samningi aðila sé skýrt um að hlutdeild stefnanda skyldi miðast við mismun á söluverði og metnu eignavirði útgerðarfélagsins og að stefnda hafi ekki tekist að sýna fram á að beinn hagnaður hans af sölunni hafi verið forsenda fyrir hlutdeild stefnanda í söluandvirðinu. Hvað sem því líður þá er það niðurstaða dómsins, líkt og að framan greinir, að söluverð félagsins, að fjárhæð 1.250.000.000 króna, hafi miðast við eignir félagsins, án tillits til skulda. Þá hafi stefndi hagnast á því að greiða 156.000.000 króna inn á lán samkvæmt d-lið greinar 3.1 í samningi aðila þar sem stefnandi hafi þá, samkvæmt ákvæðinu, fært niður eftirstöðvar lánsins og hafi það verið hagstætt fyrir stefnda við sölu útgerðarfélagsins skömmu síðar. Verður því ekki talið að framlag stefnda til útgerðarfélagsins, að fjárhæð 156.000.000 króna, hafi leitt til þess að forsendur hafi brostið fyrir hlutdeild stefnanda í umframvirði útgerðarfélagsins. Stefndi byggir sýknukröfu sína enn fremur á því að skuldbindingar hans samkvæmt samningi aðila frá 20. desember 2013 hafi verið byggðar á röngum fjárhagslegum forsendum og að þar af leiðandi hafi verið ósanngjarnt og óheiðarlegt af stefnanda að bera skuldir Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. fyrir sig, eins og þær séu tilgreindar í samningnum. Um rangar forsendur vísar stefndi til þess að skuldir útgerðarfélagsins hafi verið tilgreindar allt of háar í samningi aðila þar sem þær hafi ekki verið endurreiknaðar eða ekki verið endurreiknaðar með réttum hætti, samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og dómum Hæstaréttar Íslands um endurútreikning lána sem bundin eru ólögmætri gengistryggingu. Af þeim sökum beri að víkja ákvæðum greinar 9.1 í samningi aðila til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Við mat á því hvort ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig ákvæði greinar 9.1 í samningi aðila skal líta til efnis ákvæðisins, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Eins og fram hefur komið var samningur aðila frá 20. desember 2013 gerður um fjárhagslega endurskipulagningu Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. sem þá var að öllu leyti í eigu stefnda. Samningurinn felur í sér að skuldbindingar útgerðarfélagsins, sem metnar voru u.þ.b. 1.514.000.000 króna, miðað við 9. október 2013, voru endur­fjármagnaðar. Fram kemur í grein 9.1 að metið eignavirði félagsins hafi þá verið 1.146.800.000 krónur. Óumdeilt er í málinu að Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. var í greiðsluerfiðleikum á þessum tíma. Ekki hafa þó verið lögð fram gögn sem sýna fram á það með skýrum hætti hvernig skuldir félagsins voru metnar og gefur orðalag greinar 2.1 í samningi aðila, þar sem vísað er til þess að skuldir félagsins við stefnanda nemi „u.þ.b.“ tilgreindri fjárhæð, til kynna að fjárhæðin sé ekki fastákveðin. Hins vegar ber að líta til þess að í 5. gr. samningsins er fyrirvari um endanlegt uppgjör. Í ákvæðinu segir að komi til þess að útgerðarfélagið eignist einhvern rétt á hendur stefnanda vegna endurreiknings lána félagsins þannig að um ofgreiðslu eða inneign félagsins teljist vera að ræða, þá samþykki félagið að slíkri ofgreiðslu eða inneign verði (i) ráðstafað inn á lán samkvæmt f-lið greinar 3.1, (ii) því næst á móti kröfum stefnanda samkvæmt d-lið greinar 3.1, (iii) þá á móti kröfum stefnanda samkvæmt e-lið greinar 3.1, (iv) og að lokum á móti öðrum kröfum stefnanda á hendur félaginu, samkvæmt vali félagsins. Af hálfu stefnda var stefnanda sent tölvuskeyti 22. maí 2012 þar sem segir: „Falli hæstaréttadómar um erlend lán á þann veg að eigið fé félagsins verði jákvætt við endurútreikning lána verði samningur þessi ógildur.“ Af hálfu stefnanda var þessu svarað með tölvuskeyti síðar sama dag á þann veg að kveðið yrði á um það í 5. gr. samnings aðila að ef lán félagsins yrðu „dæmd niður“ þá færi sú lækkun fyrst á móti afskrift bankans sem væri um 500.000.000 króna og síðan á móti biðláni. Stefndi myndi því ekki missa meiri rétt gagnvart stefnanda þótt hann undirritaði samninginn. Með tölvuskeyti næsta dag er því svarað af hálfu stefnda: „göngum frá þessu á þennan hátt, þ.e. eins og tillagan ykkar gerir ráð fyrir.“ Í ljósi framangreinds og að virtu ákvæði 5. gr. samningsins er ekki hægt að fallast á það með stefnda að mat stefnanda á skuldum Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. hafi verið reist á röngum forsendum, þar sem beinlínis er kveðið á um það í samningnum hvernig fara eigi um mögulega kröfu félagsins á hendur stefnanda á grundvelli endurútreiknings hinna eldri lána, sem gerð voru upp með nýjum lánum samkvæmt samningnum. Þá gekkst stefndi við því að heildarskuldir útgerðarfélagsins yrðu tilgreindar með þessum hætti, með undirritun sinni á samninginn. Einnig ber að líta til þess að hvorki af hálfu stefnda né útgerðarfélagsins var farið fram á að hin eldri lán yrðu endurútreiknuð við uppgjör á nýjum lánum samkvæmt samningi aðila, með vísan til 5. gr. samningsins, eða gerður fyrirvari þar um. Hefur stefndi ekki fært fram skýringar á því hvers vegna það var ekki gert og verður stefnandi ekki látinn bera hallann af því nú. Þá ber einnig að líta til þess að Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. hélt, eftir sölu félagsins, rétti sínum samkvæmt 5. gr. samningsins. Um rangar forsendur vísar stefndi einnig til þess að hin eldri lán hafi hækkað um 260.327.146 krónur frá fyrri drögum að samningnum, sem bendi til þess að lánin hafi verið gjaldfelld með ólögmætum hætti og dráttarvextir reiknaðir á þau. Líkt og að framan greinir liggja ekki fyrir gögn í málinu sem skýra það hvernig fjárhæð hinna eldri lána var reiknuð inn í endanlegan samning aðila. Hvað varðar samning um lán nr. 0106-36-12394, þá kveður hann á um að lántaki skuldbindi sig til þess að endurgreiða lánið á þremur árum, í fyrsta sinn 15. október 2009 og síðan á mánaðar fresti. Það lán hefði því átt að vera að fullu greitt 15. september 2012 og þar af leiðandi heimilt að reikna dráttarvexti á vangreiddar afborganir og áfallna vexti, í samræmi við ákvæði samningsins þar um. Samningar um lán nr. 0142-36-5711 og 0142-36-6652 hafa ekki verið lagðir fram í málinu en fullyrt er af stefnanda að lánin hafi verið fallin í gjalddaga áður en samningur tókst með aðilum 20. desember 2013. Í ljósi þess að stefndi gekkst við þessari tilgreiningu skulda útgerðarfélagsins með undirritun sinni á samning aðila verður að telja að hann beri sönnunarbyrði um hið gagnstæða. Líkt og fram hefur komið eru samningarnir ekki lagðir fram í málinu. Þá verður ekki séð, af framlögðum gögnum eða skýrslum aðila og vitna fyrir dómi, að stefndi hafi, í aðdraganda eða við samningsgerðina, gert athugasemdir eða fyrirvara við tilgreiningu lánanna, með vísan til gjaldfellingar þeirra. Hefur stefnda því ekki tekist að færa sönnur fyrir því að lánin hafi verið gjaldfelld og dráttarvextir reiknaðir á þau með ólögmætum hætti. Þá hefur að mati dómsins ekkert komið fram um það, í framlögðum gögnum eða skýrslum aðila og vitna fyrir dómi, að tafir á samningaviðræðum aðila, fram yfir þann tíma þegar lánin féllu í gjalddaga, hafi verið vegna atvika sem vörðuðu stefnanda frekar en stefnda. Að öllu framangreindu virtu er ekki fallist á það með stefnda að tilgreining skulda Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. í samningi aðila frá 20. desember 2013 leiði til þess að ósanngjarnt eða óheiðarlegt sé af stefnanda að byggja rétt sinn á grein 9.1 í samningnum. Stefndi vísar einnig til þess að aðstöðumunur hafi verið á aðilum málsins við samningsgerðina. Þótt aðstöðumunur kunni að hafa verið á milli aðila við samningsgerðina getur það eitt ekki ráðið úrslitum. Þrátt fyrir að útgerðarfélagið hafi verið komið í veruleg vanskil á þeim tíma þegar samningurinn var gerður verður ekki séð að hallað hafi á stefnda við samningsgerðina svo einhverju nemi. Samkvæmt framlögðum tölvuskeytum um samskipti aðila í aðdraganda samningsgerðarinnar var aðilum kunnugt um efni samningsins og forsendur hans þegar samningurinn var undirritaður. Samningurinn var því gerður með fullri vitund stefnda og vilja og gildir þá einu þótt einstök ákvæði samningsins hafi verið sett þar inn þvert á athugasemdir stefnda. Er það enda eðli samninga sem þessa að aðilar taka á sig skuldbindingar jafnt sem byggja á þeim rétt. Þá verður ekki talið ósanngjarnt af stefnanda eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig umþrætt ákvæði greinar 9.1 í samningi aðila, sé litið til annarra atriða sem skipta máli við þetta heildarmat. Samkvæmt grein 3.1 í samningi aðila fólst í endurfjármögnun útgerðarfélagsins að félagið þyrfti að greiða stefnanda 25.000.000 króna í reiðufé við undirritun samningsins, inn á vanskil þáverandi skulda, samkvæmt g-lið greinar 3.1. Eftirstöðvar skulda félagsins, 1.489.800.000 krónur, yrðu fjármagnaðar með nýjum lánum, samkvæmt liðum b til f í grein 3.1. Lán samkvæmt d-lið greinar 3.1 var að fjárhæð 1.444.099 evrur sem þá voru að jafnvirði um 229.400.000 króna. Líkt og að framan greinir er í d-lið kveðið á um að greiddi útgerðarfélagið lánið upp að hluta eða í heild fyrir 1. mars 2014, og væri greiðslan að öllu leyti fjármögnuð með nýju eigin fé hluthafa, þá myndi stefnandi til viðbótar við slíka innborgun færa lánið niður um 33% af innborgaðri fjárhæð. Ágreiningslaust er með aðilum að í samræmi við þetta ákvæði afskrifaði bankinn eftirstöðvar lánsins þegar stefndi greiddi 156.000.000 króna inn á það. Kveður stefnandi að lánið hafi þá staðið í 76.321.600 krónum, miðað við gengi evrunnar á afskriftardegi, 13. mars 2014, og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu stefnda. Lán samkvæmt f-lið greinar 3.1 var að fjárhæð 511.300.000 krónur og skyldi að öllu leyti afskrifað að uppfylltum þremur skilyrðum, þegar stefndi hefði lagt félaginu til nýtt eigið fé að verðmæti 63.700.000 krónur, í formi nýs kvóta, samkvæmt a-lið greinar 3.1, þegar nýtt lán samkvæmt b-lið greinar 3.1, að fjárhæð 36.600.000 krónur, hefði verið greitt upp að fullu, og þegar útgerðarfélagið hefði greitt stefnanda 25.000.000 króna inn á vanskil eldri skulda samkvæmt g-lið greinar 3.1. Ágreiningslaust er að stefnandi afskrifaði lán samkvæmt f-lið greinar 3.1, sbr. og framlagða staðfestingu stefnanda 28. mars 2014, þar sem fram kemur að lánið hafi verið afskrifað að fullu og að stefndi og útgerðarfélagið hafi fullnægt skilyrðum samkvæmt a- og b-lið greinar 3.1, auk þess sem lán samkvæmt b- og d-lið hafi verið greidd upp að fullu. Kveður stefnandi að lánið hafi við afskrift þess staðið í 522.896.568 krónum og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu stefnda. Þrátt fyrir að stefndi hafi því lagt til samtals 219.700.000 krónur af eigin fé til fjárhagslegrar endurskipulagningar útgerðarfélagsins þá leiddi það til þess að stefnandi afskrifaði skuldir félagsins að virði 599.218.168 krónur miðað við forsendur samningsins. Mismunurinn þar á er 379.518.168 krónur. Gat það ekki verið annað en hagstætt fyrir stefnda sem var eini hluthafinn í útgerðarfélaginu og seldi félagið beint í kjölfar framangreindra afskrifta. Að framangreindu virtu er ekki fallist á það með stefnda að stefnandi hafi með grein 9.1 í samningnum áskilið sér hagsmuni án nokkurs endurgjalds. Að virtu því heildarmati sem að framan greinir og með hliðsjón af umfangi afskrifta stefnanda á lánum útgerðarfélagsins, þykir stefndi ekki hafa sýnt fram á að efni samnings aðila frá 20. desember 2013, staða samningsaðila eða aðstæður við samningsgerðina hafi verið með þeim hætti að víkja beri ákvæði greinar 9.1 í samningnum til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá þykir stefndi ekki hafa fært rök fyrir þeirri fullyrðingu sinni að stefnandi hafi ekki starfað í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði í samræmi við 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Með sömu rökum og að framan greinir er ekki fallist á það með stefnda að ógilda beri ákvæði greinar 9.1 í samningi aðila á grundvelli 33. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið mátti báðum aðilum þessa máls vera ljóst við samningsgerðina að einhver óvissa væri um rétt Útgerðarfélags Sandgerðis ehf. til endurútreiknings hinna eldri lána og var kveðið á um það í 5. gr. samnings aðila hvernig fara skyldi um kröfu á þeim grundvelli, teldu aðilar að hún væri fyrir hendi. Hafði stefndi því ekki réttmætar væntingar til þess að ætla að hann þyrfti ekki að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt ákvæði greinar 9.1, kæmi síðar í ljós að útgerðarfélagið ætti kröfu á hendur stefnanda vegna hinna eldri lána. Í munnlegum málflutningi við aðalmeðferð málsins var af hálfu stefnda vísað til þess að í grein 9.3 í samningi aðila segi að sé andvirði nýs hlutafjár nýtt að öllu leyti til þess að greiða lán samkvæmt b- og d-liðum greinar 3.1 sé hinn nýi hluthafi ekki bundinn af ákvæðum þessarar greinar. Var þessari málsástæðu mótmælt af hálfu stefnanda sem of seint fram kominni. Þótt fallast megi á að svo sé þykir eftir sem áður rétt að árétta að grein 9.3 vísar til nýs hluthafa og nær því samkvæmt efni sínu og samhengi við ákvæði greinar 9.2 í samningnum ekki til stefnda. Að öllu framangreindu virtu er kröfu stefnda um lækkun á dómkröfum stefnanda, með vísan til fyrrgreindra málsástæðna, einnig hafnað. Stefndi byggir kröfu um lækkun á dómkröfum stefnanda einnig á því að draga eigi kostnað, að hámarki 1% af söluverði, frá þeim hluta söluverðsins sem var umfram metið eignavirði útgerðarfélagsins, samkvæmt grein 9.1 í samningi aðila. Um kostnað við söluna vísar stefndi til tveggja reikninga sem gefnir eru út af Markó partners til handa stefnda, sem þá hét Ný-fiskur ehf., fyrir ráðgjöf „vegna sölu á Ný-Fiski“. Fyrri reikningurinn, að fjárhæð 18.825.000 krónur, er gefinn út 1. nóvember 2013 og hinn síðari, að sömu fjárhæð, er gefinn út 29. nóvember 2013. Í munnlegum málflutningi við aðalmeðferð málsins var reikningunum mótmælt af hálfu stefnanda þar sem þeir vísi til sölu á öðru félagi en Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. Framangreindir reikningar vísa, eins og fram hefur komið, til sölu á Ný-Fiski en ekki til sölu á Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf. Í greinargerð stefnda er ekki útskýrt hvernig á því stendur að ekki sé í reikningunum vísað til sölu útgerðarfélagsins. Einnig er til þess að líta að engin sundurliðun er á reikningnum eða leitast við að útskýra efni þeirra í greinargerð málsins. Þá var ekki leitast við af hálfu stefnda að útskýra efni eða tilefni reikninganna við aðalmeðferð málsins. Af gögnum málsins, einkum inngangi kaupsamningsins frá 26. febrúar 2014 og viljayfirlýsingu Icelandic Group hf. og Ný-Fisks ehf. frá 26. september 2013, má ráða að félagið Ný-Fiskur ehf. hafi selt Icelandic Group hf. fiskvinnslu félagsins, þ.e. rekstrartæki, fasteignir o.fl., með kaupsamningi 10. desember 2013. Sú sala tók ekki til eignarhluta Ný-Fisks ehf. í Útgerðarfélagi Sandgerðis ehf., þrátt fyrir að kveðið sé þar á um kauprétt Icelandic Group hf. á útgerðarfélaginu. Að því virtu er að mati dómsins ósannað að framangreindir reikningar, sem dagsettir eru í nóvember 2013, endurspegli kostnað stefnda vegna sölu útgerðarfélagsins sem fram fór í lok febrúar 2014. Hefur stefndi þar af leiðandi ekki sýnt fram á útlagðan kostnað sem dragast eigi frá þeim hluta söluverðs fyrir Útgerðarfélag Sandgerðis ehf., sem var umfram metið eignavirði félagsins. Af ákvæði greinar 9.1 er ekki ljóst hvenær greiðsla samkvæmt ákvæðinu skyldi fara fram. Gjalddagi kröfunnar var því ekki fyrir fram ákveðinn í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Í samræmi við 3. mgr. sömu greinar verður upphafstími dráttarvaxta því miðaður við þann dag þegar mánuður var liðinn frá því að stefnandi sannanlega krafði stefnda um greiðslu, með bréfi dagsettu 6. október 2015. Samkvæmt þessari niðurstöðu og í samræmi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur. Af hálfu stefnanda flutti málið Ólafur Örn Svansson hrl. Af hálfu stefnda flutti málið Axel Ingi Magnússon hdl. fyrir Hróbjart Jónatansson hrl. Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð: Stefndi, SAB ehf., greiði stefnanda, Landsbankanum hf., 51.600.000 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 6. nóvember 2015, til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 33/2017
Höfundarréttur Lögbann
S krafðist staðfestingar á lögbanni sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði við því að H ehf./V Inc. veitti viðskiptamönnum sínum í té aðgang að nánar tilgreindum vefsíðum sökum þess að þar væri unnt að nýta án endurgjalds efni, sem háð væri höfundarétti þeim sem S, sem samtök rétthafa eftir ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972, kæmu fram fyrir. Þá krafðist S þess að viðurkennt yrði að H ehf./V Inc. væri óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að umræddum vefsíðum. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að S hefði sýnt nægilega fram á að rétthafar ættu höfundarétt að efni sem miðlað væri í heimildarleysi á framangreindum vefsíðum fyrir milligöngu fjarskiptafyrirtækja líkt og H ehf./V Inc. Jafnframt var fallist á að H ehf./V Inc.bæri að hindra slíka háttsemi og því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms um að taka til greina viðurkenningarkröfu S. Þá var með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest niðurstaða hans um að uppfyllt hefðu verið öll skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 til að leggja lögbann við háttsemi H ehf./V Inc.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2017. Hann krefst þess að „synjað verði staðfestingar lögbanns“, svo og að hann „verði sýknaður af viðurkenningarkröfu“ gagnáfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 8. mars 2017. Hann krefst  staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði og fyrir Hæstarétti. Líta verður svo á að með framangreindri kröfugerð leiti aðaláfrýjandi sýknu af kröfum gagnáfrýjanda ásamt því að krefjast málskostnaðar. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi greinir aðila á um hvort aðaláfrýjanda, sem rekur starfsemi á sviði fjarskipta og veitir viðskiptamönnum sínum svonefnda netþjónustu, sé óheimilt að láta þeim í té aðgang að níu tilgreindum vefsíðum sökum þess að þar sé unnt að nýta án endurgjalds efni, sem háð sé höfundarétti þeirra sem gagnáfrýjandi, sem samtök rétthafa eftir ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972, komi fram fyrir. Fallist verður á með héraðsdómi að gagnáfrýjandi hafi sýnt nægilega fram á að rétthafar, sem hann komi fram fyrir, eigi höfundarétt að efni sem miðlað sé í heimildarleysi á vefsíðum þessum, svo og að gagnvart rétthöfunum feli sú miðlun í sér ólögmæta háttsemi sem háð sé aðgangi að vefsíðunum fyrir milligöngu fjarskiptafyrirtækja svo sem aðaláfrýjanda. Verður jafnframt fallist á með héraðsdómi að aðaláfrýjanda beri að hindra slíka háttsemi og stoði honum ekki í því sambandi að bera fyrir sig frelsi sitt til atvinnu í skjóli 75. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt því verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að taka til greina kröfu gagnáfrýjanda um að viðurkennt verði að aðaláfrýjanda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að umræddum vefsíðum. Um þá kröfu er þess jafnframt að gæta að ekki getur skipt frekar máli hvort aðaláfrýjanda geti reynst nauðsynlegt að grípa til sérstakra ráðstafana til að laga sig að dómi um hana eða hverjar þær yrðu að vera, enda hefur gagnáfrýjandi kosið að gera ekki kröfu um skyldu aðaláfrýjanda til tiltekinna athafna eða bann við tilgreindri háttsemi hans sem fullnægja mætti eftir 11. kafla laga nr. 90/1989 um aðför með aðfarargerð til að leysa af hólmi bráðabirgðavernd á grundvelli lögbanns sem sýslumaður lagði 23. október 2015 við fyrrgreindri háttsemi aðaláfrýjanda. Í málinu krefst gagnáfrýjandi jafnframt staðfestingar á lögbanni sem að framan getur og lagt var á með stoð í 2. mgr. 59. gr. a. höfundalaga og 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að uppfyllt hafi verið öll skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 til að leggja lögbann við háttsemi aðaláfrýjanda, sem eftir gögnum málsins var á þeim tíma byrjuð en ekki aðeins yfirvofandi, svo og að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gagnáfrýjanda geti ekki tryggt þá nægilega í skilningi 1. töluliðar 3. mgr. sömu lagagreinar. Ekki hefur aðaláfrýjandi sýnt fram á að hagsmunir sínir af því að fá að halda áfram þeirri háttsemi, sem lögbannið var lagt við, geti talist meiri en hagsmunir þeirra, sem gagnáfrýjandi kemur fram fyrir, af því að fyrirbyggja þá háttsemi, sbr. 2. tölulið 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, en við mat á því getur ekki ráðið úrslitum hvort stöðvun háttsemi aðaláfrýjanda komi nægilega að haldi til að vernda réttindi gagnáfrýjanda. Samkvæmt þessu verður niðurstaða héraðsdóms um kröfu gagnáfrýjanda um staðfestingu lögbanns jafnframt staðfest. Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála standa engin efni til annars en að dæma aðaláfrýjanda til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað. Aðaláfrýjandi, Hringiðan ehf. / Vortex Inc., greiði gagnáfrýjanda, STEF, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.       Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2016. Mál þetta, sem dómtekið var 19. september 2016, var höfðað með réttarstefnu, útgefinni 29. október 2015 og birtri 3. nóvember sama ár, af hálfu Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, Laufásvegi 40 í  Reykjavík á hendur Hringiðunni ehf./Vortex Inc., Skúlagötu 19 í Reykjavík til staðfestingar á lögbanni og viðurkenningardóms. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að þess er krafist að lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði þann 23. október 2015 við því að stefndi veiti viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www. thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org, hvort sem www. er fyrir framan nafn vefsíðnanna eða ekki, verði staðfest með dómi. Jafnframt er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www. thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org. Loks krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, þ.m.t. alls útlagðs og áfallins kostnaðar við lögbannsgerð, að mati dómsins. Endanlegar dómkröfur stefnda eru að þess er krafist að synjað verði um staðfestingu lögbanns og að stefndi verði sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins. Aðalmeðferð fór fram í einu lagi í þessu máli og í máli stefnanda gegn Símafélaginu ehf., mál Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-3784/2015. Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna Stefnandi er samtök sem gætir hagsmuna tónskálda og rétthafa flutningsréttar að tónlist og stefndi er fjarskiptafélag. Stefnandi kveður vefsíðurnar sem kröfugerð hans beinist að vera reknar í þeim tilgangi að gera notendum þeirra kleift að gera öðrum notendum aðgengileg eintök af hugverkum. Nú vísi þessar vefsíður allri netumferð á lénin deildu.net og thepiratebay.se. Notendum síðnanna sé gert kleift að hlaða niður á tölvur sínar hugverkum, sem aðrir notendur gera aðgengileg og gera þannig eintök af nefndum verkum. Yfirgnæfandi hluti þeirra hugverka sem gerð séu aðgengileg til eintakagerðar á vefsíðunum séu þar aðgengileg án heimildar eigenda þeirra. Stefnandi kveður vefsíðuna deildu.net reka svokallað jafningjanet sem sé rekið í þeim tilgangi að gera notendum kleift að deila eða skiptast á efnisskrám með svokallaðri BitTorrent tækni. Í september 2015 hafi vefsíðan verið sú 22. vinsælasta á Íslandi undir heimasíðunni icetracker.org. Á vefsíðunni sé starfræktur leiðarþjónn (e. tracker). Notendur síðunnar geti leitað eftir ákveðnum skrám, sótt sér skráarskiptiforrit og með því forriti geti þeir sótt efnisskrár og/eða deilt þeim. Gríðarlegur fjöldi notenda deili með sér skrám á þennan hátt og hafi sumar skrár verið sóttar yfir mörg þúsund sinnum. Sjá megi hvaða hljóð- og myndefni hafi mest verið deilt innbyrðis meðal notenda vefsvæðisins í október 2014 og hvaða torrent hafi verið vinsælust í lok september 2015. Umbjóðendur stefnanda eigi höfundaréttindi að nánast öllu hljóð- og myndefni sem þar um ræði. Ekki sé kunnugt um hverjir séu ábyrgðaraðilar deildu.net. Stefnandi kveður vefsíðuna hafa notað IP-töluna 104.28.6.73 þann 28. september 2015 og sé sú vefsíða vistuð í Bandaríkjunum. Því sé ekki unnt að fara fram á lögbann við rekstri vefsíðunnar samkvæmt íslenskum lögum. Í reglum vefsíðunnar deildu.net sé notendum gert að deila efni á síðunni, ella sé aðgangi þeirra lokað, þ.e. ef niðurhal er ekki í samræmi við upphal. Notendur vefsíðunnar séu þannig hvattir til að brjóta gegn ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972.  Stefnandi kveður sambærilegar reglur að finna á piratebay.se., þar sem sé að mestu leyti rekin sams konar starfsemi og á vefsíðunni deildu.net. Vefsíðan sé ein fjölsóttasta vefsíða sinnar tegundar í heiminum og hafi verið ein af mest sóttu vefsíðum á Íslandi árið 2013. Stefnandi kveður vefsíðuna thepiratebay.se notast við nýrri tækni en deildu.net til að gera notendum kleift að deila efni á milli sín, þar sé ekki notast við leiðarþjón, heldur segulhlekki (e. magnetic links), en vefsíðan sé að öðru leyti sambærileg deildu.net. Ekki sé kunnugt um hverjir séu ábyrgðaraðilar thepiratebay.se. IP-tala vefsíðunnar hafi verið 199.27.134.242 þann 28. september 2015 og sé sú vefsíða vistuð í Hollandi. Ekki sé unnt að fara fram á lögbann við rekstri vefsíðunnar samkvæmt íslenskum lögum. Rétthafasamtök um allan heim hafi árangurslaust reynt að láta loka vefsíðunni thepiratebay.se um langa hríð. Eina leiðin sem rétthafasamtökum hafi verið fær til að stemma stigu við þeirri háttsemi sem eigi sér stað fyrir milligöngu vefsíðunnar sé sú að krefjast þess að fjarskiptafyrirtæki í hverju landi um sig hindri gagnaflutning að og frá vefsíðunni. Stefnandi lagði fram kæru til lögreglu þann 13. febrúar 2012 vegna vefsíðnanna deildu.net og deildu.com. Í kærunni var vísað til nokkurra þeirra verka sem deilt var fyrir milligöngu rekstraraðila vefsíðnanna, auk þess sem líkur voru að því leiddar að vefsíðurnar væru reknar af nánar tilgreindum aðila. Rannsókn lögreglu var hætt 5. nóvember 2015 með vísun til þess að þær upplýsingar sem fram hefðu komið um raunverulega stjórnendur vefsíðunnar deildu.net bentu eindregið til þess að þeir væru erlendir og því yrði mál á hendur þeim ekki rannsakað frekar hér á landi. Var sú ákvörðun lögreglu staðfest af embætti ríkissaksóknara 30. desember s.á. Í september 2013 krafðist stefnandi, ásamt þremur öðrum rétthafasamtökum, lögbanns gegn fimm fjarskiptafyrirtækjum, þ.e. Símanum hf., Fjarskiptum hf. (Vodafone), 365 miðlum ehf., IP fjarskiptum ehf. (Tal) og Hringdu ehf., og krafðist þess að fjarskiptafyrirtækin lokuðu á tiltekin vefsvæði. Sýslumaður hafnaði öllum lögbannsbeiðnunum og vísaði stefnandi þeim ágreiningi til héraðsdóms, sem upphaflega vísaði öllum málunum frá dómi. Hæstiréttur lagði þá fyrir héraðsdóm að taka kröfur stefnanda í málum gegn Fjarskiptum hf. og Hringdu ehf. til meðferðar. Þann 14. október 2014 kvað fjölskipaður héraðsdómur upp úrskurði um efnishlið þessara mála, í málum Héraðsdóms Reykjavíkur nr. K-8/2013 og K-9/2013, þar sem fallist var á kröfur stefnanda. Talið var að tilgangur, virkni og rekstur vefsíðnanna væri sambærilegur við vefsíðuna torrent.is, en Hæstiréttur hafði í dómi sínum í máli nr. 214/2009 staðfest lögbann við starfrækslu hennar. Aðilar undu úrskurðunum og lagði sýslumaður á lögbann í samræmi við niðurstöður þeirra þann 6. nóvember 2014. Jafnframt var þá lagt samsvarandi lögbann á Símann hf. að beiðni stefnanda.  Þann 13. nóvember 2014 skoraði stefnandi á stefnda að loka fyrir aðgengi að ákveðnum torrent vefsíðum, þeim sem staðfestingarmál þetta snýst um, en stefndi varð ekki við því og ekki náðist samkomulag um málið í síðari samskiptum aðila. Í september 2015 gerðu fjarskiptafyrirtækin Síminn, Fjarskipti, Nova, 365 og Hringdu samkomulag við rétthafasamtökin STEF (stefnanda), SÍK, SFH og FRÍSK um að loka aðgengi að vefsvæðunum deildu og piratebay óháð því á hvaða lénum síðurnar eru skráðar. Samkomulagið nær einnig til þess að loka lénum sem eingöngu eru sett upp til þess að vísa á vefsvæðin. Samkomulag var gert við hvert og eitt fjarskiptafyrirtæki og er grundvöllur þess fyrrnefndir úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. október 2014 og eftirfarandi lögbannsgerðir sýslumanns. Stefndi hefur ekki fallist á tilmæli stefnanda um að gera sambærilegt samkomulag. Stefnandi krafðist lögbanns á háttsemi stefnda og þann 23. október 2015 var það lögbann lagt á sem krafist er staðfestingar á í máli þessu. Með lögbanninu var stefnda meinað að veita viðskiptavinum sínum aðgang að þeim vefsíðum sem nefndar eru í dómkröfum, en því er einkum beint gegn vefsvæðunum, deildu.net og thepiratebay.se. Stefnandi kveður eintakagerð fyrir milligöngu umræddra vefsíðna ólögmæta og hafa valdið eigendum verkanna gríðarlegu fjárhagslegu tjóni. Með netþjónustu sinni veiti stefndi viðskiptavinum sínum aðgang að ólögmætum vefsvæðum. Stefndi kveður lögbannsbeiðnina hafa verið víðtækari en viðurkennt hafi verið með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2014, þar sem krafist sé lögbanns vegna aðgangs að fleiri vefsíðum en þar hafi verið fallist á. Í lögbannsbeiðni stefnanda hafi jafnframt upphaflega verið víðtækara orðalag, sem stefnandi hafi fallið frá við lögbannsgerðina. Framkvæmdastjóri stefnda, Guðmundur Kristján Unnsteinsson, kom fyrir dóm og gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Málsástæður og lagarök stefnanda 1. Starfræksla og notkun vefsíðnanna brýtur gegn ákvæðum höfundalaga Samkvæmt 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 eigi höfundur að bókmenntaverki eða listaverki eignarrétt að því með þeim takmörkunum sem í lögunum greini. Í 3. gr. laganna sé mælt fyrir um einkarétt höfundar verks til að gera eintök af því og til að birta í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu og öðrum aðlögunum. Til verka sem njóta verndar höfundalaga teljist samið mál í ræðu og riti, leiksviðsverk, tónsmíðar, myndlist, byggingarlist, kvikmyndir, ljósmyndalist, nytjalist og aðrar samsvarandi listgreinar, á hvern hátt og í hverju formi sem verkið birtist, skv. ákvæði 1. gr. sömu laga. Þá sé listflytjendum í 45. gr. laganna veittur einkaréttur til eintakagerðar af listflutningi sínum og hvers konar dreifingar hans til almennings. Samkvæmt 46. gr. laganna sé eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum óheimil án samþykkis framleiðanda. Rekstraraðilar og stjórnendur vefsíðnanna www.deildu.net og www.thepiratebay.se geri notendum þeirra kleift að fá aðgang að og deila hljóð- og myndskrám sem verndaðar séu af ákvæðum höfundalaga. Langstærstur hluti þeirra verka sem notendur beggja vefsvæða geri aðgengileg, deili og geri eintök af séu varin höfundarétti og séu rekstraraðilar vefsvæðanna grandvísir um þessa staðreynd. Í 1. mgr. 8. gr. höfundalaga segi að höfundur verks teljist sá, uns annað reynist, sem nafngreindur sé á eintökum þess með venjulegum hætti eða lýstur er höfundur, þegar verk sé birt. Gildi þetta einnig um höfunda, sem nota gervinöfn eða merki, þegar almennt sé vitað, hver þar felist að baki. Framangreindum ákvæðum skuli einnig beita um framleiðanda kvikmyndaverks. Þá skuli einnig í þeim tilvikum, þegar verulegur og samfelldur flutningur verka eða umfangsmikil fjölföldun eða útleiga hafi átt sér stað, talið að flutt hafi verið, leigð út eða fjölfölduð verk sem vernduð séu að höfundalögum nema annað verði í ljós leitt. Þau verk sem deilt sé á áðurnefndum vefsvæðum teljist því til verka sem vernduð séu af höfundalögum, nema færðar verði sönnur fyrir hinu gagnstæða. Í ljósi forsendna dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 214/2009, í svonefndu Istorrent máli, sé óhætt að líta svo á að stjórnendur beggja vefsvæðanna vinni að því með markvissum hætti, með starfrækslu vefsvæðanna og tæknilegri uppbyggingu, að fram geti farið greið og umfangsmikil skráarskipti með efni, sem háð sé höfundarétti, og stuðli þannig beinlínis að brotum notenda vefsvæðanna. Þannig sé ljóst að sömu aðilar brjóti gegn lögvörðum rétti umbjóðenda stefnanda. Þá sé einnig ljóst, með vísan til fyrrnefnds dóms, að sömu aðilar valdi stefnanda tjóni með áframhaldandi rekstri vefsvæðanna og beri skaðabótaábyrgð gagnvart umbjóðendum stefnanda. Í úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur sé því slegið föstu að vefsvæðin www.deildu.net og www.thepiratebay.se séu sambærileg að uppbyggingu og www.torrent.is. Ljóst sé að notkun einstaklinga hér á landi á nefndum vefsvæðum fari eingöngu fram í þeim tilgangi að birta og afrita höfundaverk án heimildar rétthafa. 2. Aðkoma stefnda að brotum notenda Starfræksla beggja vefsvæðanna sé ólögmæt, sem staðfest hafi verið í úrskurðum héraðsdóms, en ókleift sé fyrir stefnanda að krefjast lögbanns við rekstri sjálfra vefsíðnanna, enda virðist þær báðar reknar utan íslenskrar lögsögu. Stefnanda hafi ekki reynst unnt að komast að því hverjir séu raunverulegir rekstraraðilar vefsíðnanna. Þeim aðilum sem birti lögvarið efni á vefsíðunum væri ekki kleift að birta efnið fyrir viðskiptamönnum stefnda með góðu móti án atbeina stefnda sjálfs, sem veiti viðskiptamönnum sínum aðgang og alla tæknilega aðstöðu til þess að sækja og senda gögn til og frá vefsíðunum. Stefndi sé því óhjákvæmilegur milliliður milli vefsvæðanna og þeirra notenda sem brjóti gegn höfundarétti umbjóðenda stefnanda. Með því að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsvæðunum www.deildu.net og www.thepiratebay.se tryggi stefndi úrræði og aðstöðu, sem þeim aðilum sem standi að höfundaréttarbrotum á nefndum vefsvæðum séu nauðsynleg til þeirra, og birta höfundaverk opinberlega í heimildarleysi. Af samskiptum stefnanda og stefnda sé ljóst að stefndi sé grandvís um þá starfsemi sem stunduð sé á vefsíðunum. Stærstu seljendur netþjónustu á landinu hafi gengið frá samkomulagi um að hætta að veita aðgang að hinum ólögmætu vefsvæðum og verði stefnda gert að hætta að veita viðskiptavinum sínum aðgang að þeim sé ljóst að úrræði þeirra sem vilja og reyna að brjóta gegn höfundarétti með notkun vefsvæðanna séu skert verulega. Í fjölmörgum ríkjum, s.s. í Belgíu, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi, Grikklandi, Ítalíu, Hollandi og Bretlandi, hafi dómstólar gert fjarskiptafélögum skylt að loka fyrir aðgengi að www.thepiratebay.se í ljósi þess að sú starfsemi sem þar sé rekin brjóti gróflega gegn höfundaréttindum. 3. Ákvæði 2. mgr. 59. gr. a höfundalaga Auk ákvæða laga nr. 31/1991, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., byggi stefnandi jafnframt á ákvæðum höfundalaga, nr. 73/1972, einkum á svohljóðandi ákvæði 2. mgr. 59. gr. a í lögunum: Að því tilskildu að fullnægt sé öðrum þeim skilyrðum lögbanns, sem greind eru í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., geta einstakir rétthafar eða samtök þeirra fengið lagt lögbann við því að þjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi lætur í té um fjarskiptanet, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eða sjálfvirkrar, millistigs- eða skammtímageymslu gagna. Enn fremur verður lögbann lagt við því að þjónustuveitandi hýsi gögn sem látin eru í té af þjónustuþega, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð á gögnunum. Í ákvæðinu felist almenn heimild til handa rétthöfum eða samtökum rétthafa til þess að krefjast lögbanns við miðlun gagna af hálfu þjónustuveitenda í skilningi laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, þegar viðskiptamenn þeirra nýti þjónustu þeirra til að brjóta gegn ákvæðum höfundalaga, að því gefnu að skilyrði samkvæmt lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. séu uppfyllt. Ekki sé þörf á að sýna fram á að þjónustuveitendur beri ábyrgð á háttsemi viðskiptamanna og þeirri miðlun sem fram fari fyrir milligöngu þjónustuveitenda, til að heimildin verði nýtt. Stefndi teljist vera þjónustuveitandi í skilningi laga nr. 30/2002. Með vísan til 2. ml. 1. mgr. 8. gr. höfundalaga megi ganga út frá því að þau verk sem deilt sé á vefsvæðunum www.deildu.net og www.thepiratebay.se séu verk sem vernduð séu af höfundalögum, uns færðar verði sönnur fyrir því að svo sé ekki. Stefnanda sé því tækt að nýta sér þessa heimild höfundalaga til þess að krefjast lögbanns við miðlun gagna að og frá vefsvæðunum. Stefnandi vísi til orðalags í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 93/2010, þar sem fyrrnefnt ákvæði höfundalaga var lögfest. Þar segi m.a.: Tilgangur ákvæðisins er fyrst og fremst að eyða mögulegum vafa um hvort lögbanni verður beint gegn fjarskiptafyrirtækjum vegna miðlunar, skyndivistunar og hýsingar gagna í þeim tilvikum þegar um er að ræða meint brot þjónustuþega á ákvæðum höfundalaga. Í íslenskum rétti hefur verið miðað við að lögbann verði einungis lagt við tilteknum athöfnum sem eru taldar ólögmætar í sjálfu sér. Vegna orðalags ákvæða 12., 13. og 14. gr. laga nr. 30/2002 er mögulegt að vafi yrði talinn leika á því hvort miðlun, skyndivistun eða hýsing þjónustuveitanda væri ólögmæt athöfn í sjálfu sér. Það gerir réttarvörslu rétthafa mun auðveldari ef skýrt er að hann geti lagt lögbann við athöfnum milliliða. Ekki verður séð að neinir lögverndaðir hagsmunir eigi að standa gegn því að sett verði ákvæði af því tagi sem hér er lýst, enda er heimild til lögbanns byggð á þeirri grundvallarforsendu að fyrir hendi sé réttarbrot af hálfu þjónustuþega sem sá sem fer fram á lögbann þyrfti eftir sem áður að sýna fram á. [...] Hins vegar þykir rétt að kveða skýrt á um rétt höfunda og annarra rétthafa til að beina kröfu um lögbann að þjónustuveitanda, t.d. fjarskiptafyrirtæki, svo að ekki fari á milli mála að slíkur réttur sé fyrir hendi samkvæmt íslenskum lögum. Af þessu orðalagi megi sjá að beinlínis sé gert ráð fyrir því í höfundalögum að lögbann megi leggja við gagnamiðlun fjarskiptafyrirtækja þegar viðskiptamenn þeirra nýti þjónustu þeirra til þess að brjóta gegn ákvæðum höfundalaga. Af nefndu ákvæði höfundalaga megi jafnframt ráða að gert sé ráð fyrir því að fjarskiptafyrirtæki stýri því að einhverju leyti með hvaða hætti viðskiptavinir þeirra nýti selda fjarskiptaþjónustu. Ástæða sé því til að ætla að fjarskiptafélögum beri hreinlega að láta sig málið varða ef viðskiptavinir þeirra nýta og/eða hyggjast nýta keypta þjónustu til ólögmætra verka, séu fjarskiptafélögin grandvís um það. Í úrskurðum sínum frá 14. október 2014 hafi Héraðsdómur Reykjavíkur staðfest gildi reglunnar og réttmæti beitingar hennar við sambærilegar aðstæður. 4. Önnur skilyrði lögbanns uppfyllt Brot á lögvörðum réttindum stefnanda Í óheftum aðgangi viðskiptamanna stefnda að vefsvæðunum www.deildu.net og www.thepiratebay.se felist skýlaust brot á lögvörðum réttindum stefnanda, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991, en löglíkur séu fyrir því að notendur vefsvæðanna birti eintök af og afriti hugverk sem njóti verndar höfundalaga, sbr. 1. mgr. 8. gr. höfundalaga, fyrir tilstuðlan rekstraraðila þeirra. Í úrskurðum héraðsdóms frá 14. október 2014 sé því slegið föstu að skilyrði þetta sé uppfyllt varðandi umrædd vefsvæði. Athöfn stefnda er þegar hafin Brot gegn höfundarétti umbjóðenda stefnanda hafi átt sér stað á báðum vefsvæðunum um nokkra hríð og ekki sé fyrirséð að nokkurt lát verði á þeim brotum að óbreyttu. Gerðarþoli veiti enn í dag viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum. Því sé um athöfn að ræða, sem þegar er hafin, sbr. áskilnað 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991. Engu máli skipti þó að hún hafi staðið yfir í töluvert langan tíma, sbr. fyrrnefnda úrskurði héraðsdóms frá 14. október 2014. Réttindi stefnanda hefðu farið forgörðum og valdið miklu tjóni væri beðið dóms Ótvírætt sé að umbjóðendur stefnanda hafi þegar orðið fyrir gríðarlegu tjóni fyrir tilstilli notenda margnefndra vefsíðna. Samkvæmt upplýsingum, sem finna megi á vefsíðunum sjálfum, sé gríðarlega miklu efni deilt á síðunum. Í september 2013 hafi notendur á www.deildu.net deilt yfir 34.000 skrám. Í lok október 2014 hafi sá fjöldi verið kominn yfir 100.000. Í september 2013 hafi notendur vefsíðunnar www.piratebay.se verið sagðir yfir 30 milljónir, sem deili með sér rúmlega 5 milljónum skráa. Í lok október 2014 hafi þeir verið sagðir yfir 39 milljónir og deili með sér 6 milljónum skráa. Sjá megi hversu margir hafi verið skráðir inn á deildu.net á mismunandi tímum, en þann 22. september 2015 hafi t.d. 1135 notendur verið skráðir inn á ákveðnum tíma þann dag og 1047 á svipuðum tíma daginn eftir. Það sé því ljóst að notkunin sé umfangsmikil og stöðug. www.deildu.net sé ein vinsælasta vefsíða á Íslandi og www.piratebay.se ein af hundrað vinsælustu netsíðum heims. Umfang þeirrar brotastarfsemi sem þar sé rekin sé gífurlegt. Ekki sé að sjá að notendur muni breyta hegðun sinni að óbreyttu. Ómögulegt sé að gera sér grein fyrir því hversu mikið tjón muni hljótast af því í framtíðinni verði aðgangur að nefndum vefsvæðum áfram óheftur. Óhætt sé þó að slá því föstu að tjón stefnanda verði afar mikið verði aðgangur að vefsíðunum framvegis óheftur, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991. Í niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 214/2009 hafi verið litið svo á að rétthafar verka sem deilt hafi verið á vefsíðunni www.torrent.is hefðu orðið fyrir tjóni vegna háttsemi notenda síðunnar og stjórnenda hennar. Sams konar aðstæður séu uppi í máli þessu. Tjón umbjóðenda stefnanda mun ekki fást bætt eftir reglum skaðabótaréttarins Tjón umbjóðenda stefnenda muni ekki fást bætt eftir reglum skaðabótaréttarins. Óljóst sé hverjir séu rekstraraðilar umræddra vefsíðna og einnig sé óljóst hversu mikið tjón muni hljótast af áframhaldandi óheftum aðgangi að vefsvæðunum, sbr. 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991. Engar upplýsingar liggi fyrir um hæfi rekstraraðila vefsíðnanna til að greiða stefnendum skaðabætur vegna þess tjóns sem hlotist hafi af rekstri þeirra. Héraðsdómur hafi samþykkt þessi sjónarmið í úrskurðum sínum frá 14. október 2014. Hagsmunir umjóðenda stefnanda eru mun meiri en hagsmunir stefnda Hagsmunir umbjóðenda stefnenda af því að hefta aðgang að vefsvæðunum séu miklum mun meiri en hagsmunir stefnda af því að halda aðgangi viðskiptavina sinna óheftum, sbr. 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991. Aðgangur viðskiptavina stefnda að vefsíðunum tryggi þeim einungis nauðsynlega aðstöðu til þess að brjóta gegn lögvörðum rétti stefnenda og umbjóðenda þeirra, en ekki til að stunda aðra háttsemi, enda sé starfsemi vefsíðnanna takmörkuð við að auðvelda notendum ólögmætar athafnir. Því verði einfaldlega að virða að vettugi þá hagsmuni sem stefndi kunni að hafa af því að halda þeirri aðstöðu opinni, enda sé hún aðeins nýtt í ólögmætum tilgangi. Héraðsdómur hafi tekið undir og samþykkt þessi sjónarmið í úrskurðum sínum frá 14. október 2014. 5. Ákvæði laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu Lög nr. 30/2002, um ábyrgðartakmarkanir þjónustuveitenda, girði ekki á nokkurn hátt fyrir að unnt sé að krefjast lögbanns við miðlun þjónustuveitenda. Þvert á móti sé beinlínis kveðið á um það í athugasemdum með frumvarpi til laganna, sbr. V. kafla athugasemdanna, að ákvæði laganna hafi ekki áhrif á lögbannsúrræði aðila. Þar segir: Ákvæði þessa kafla kveða á um hvenær þjónustuveitandi, sem er milligönguaðili við miðlun gagna, ber ekki ábyrgð á gögnum sem hann miðlar, vistar með skyndivistun eða hýsir. Frumvarpið kveður ekki á um hvenær þjónustuveitandi getur orðið ábyrgur fyrir slíkum gögnum ef skilyrði takmörkunar ábyrgðar eru ekki fyrir hendi. Þá hafa ákvæði frumvarpsins ekki áhrif á lögbannsúrræði aðila. Þetta sé í samræmi við ákvæði 3. mgr. 12. gr. tilskipunar 2000/31/EBE, sem lögfest hafi verið með lögum nr. 30/2002, en þar segi: Ákvæði þessarar greinar hafa ekki áhrif á það úrræði dómstóls eða stjórnvalds, í samræmi við réttarkerfi aðildarríkja, að krefjast þess að þjónustuveitandi stöðvi eða komi í veg fyrir brot. Sams konar ákvæði sé að finna í 13. og 14. gr. tilskipunarinnar. Í 45. mgr. inngangs tilskipunarinnar hafi þetta inntak verið áréttað, en þar segi: Takmörkuð ábyrgð þjónustuveitenda sem eru milliliðir, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, hefur engin áhrif á hugsanleg fyrirmæli af ýmsum toga. Slík fyrirmæli geta einkum falist í úrskurðum dómstóla eða stjórnvalda, þar sem krafa er gerð um að brotum sé hætt eða komið sé í veg fyrir þau, meðal annars að ólöglegum upplýsingum sé eytt eða að aðgengi að þeim sé hindrað. Þessi skilningur hafi verið staðfestur í nýlegum forúrskurði Evrópudómstólsins, í máli nr. C-70/10, þar sem dómstóllinn hafi talið að á þjónustuveitendum hvíldi ekki skylda til þess að koma á laggirnar síunarkerfi til að hafa eftirlit með öllum gagnasendingum um kerfi þeirra, um ótiltekinn tíma og á kostnað þjónustuveitenda. Af úrskurðinum megi hins vegar ráða að lögbannskrafa rétthafa á hendur þjónustuveitendum, í þeim tilgangi að stöðva eða hindra veitingu þjónustu sem nýtt sé til að brjóta gegn lögvörðum rétti aðila, sé í samræmi við ákvæði og tilgang tilskipunar 2000/31/EBE og reglur hennar um ábyrgðartakmarkanir þjónustuveitenda. Margnefndir úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. október 2014 séu í samræmi við þessa niðurstöðu. 6. Mótmæli stefnda vegna lögbanns við fyrirtöku hjá sýslumanni Stefndi hafi lagt fram mótmæli við fyrirtöku hjá sýslumanni þann 23. október 2015 og hafi að auki látið bóka sérstök mótmæli í gerðarbók sýslumanns. Þar sé aðallega byggt á því að skilyrði lögbanns samkvæmt lögum nr. 31/1990 séu ekki uppfyllt, auk þess sem stefnandi geti náð fram rétti sínum með refsi- og skaðabótakröfum og að atvinnuréttindi stefnda séu varin af 75. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi hafni mótmælum stefnda og vísi m.a. til fordæma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum K-8/2013 og K-9/2013. Í bókun í gerðabók sýslumanns haldi stefndi því m.a. fram að vegna þess að lögbann sé neyðarráðstöfun og að stefnandi hafi beðið í ár með að fara fram á lögbann hafi verið sýnt fram á að neyð sé ekki fyrir hendi í málatilbúnaði stefnanda. Stefnandi bendi á að í Hæstaréttardómi í máli nr. 214/2009 hafi verið lagt lögbann við rekstri vefsíðu sem hafi verið starfandi í u.þ.b. tvö ár án þess að dómurinn gerði athugasemdir við þann tíma sem vefsíðan hafði verið starfrækt. Í úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur í málum K-8/2013 og K-9/2013 hefðu deildu.net og piratebay.se jafnframt verið starfandi í töluverðan tíma áður en lögbann hafi verið lagt á. Stefnandi telji sömu atriði eiga við í máli þessu. Mótmælt sé þeim skilningi stefnda á 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum að sú athöfn stefnda að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að ofangreindum vefsvæðum samræmist engan veginn eðlilegri skilgreiningu á orðinu athöfn og að greinin sé ósamrýmanleg þeim kröfum sem gera verði til lögbanns. Stefndi vísi til 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi máli sínu til stuðnings. Stefnandi mótmæli þessari málsástæðu. Atvinnufrelsi megi setja skorður með lögum samkvæmt ákvæðinu, enda krefjist almannahagsmunir þess. Alþingi hafi sett skorður með lögum og hafi samhliða tekið afstöðu til almannahagsmuna með þeim en Hæstiréttur hafi í framkvæmd talið að löggjafinn ætti sjálfur fullnaðarmat um það hvort skilyrði um almannahagsmuni væri uppfyllt. 7. Aðgerðir sem stefnda er rétt að grípa til Í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms í umræddum úrskurðum sé rétt að stefndi hafi frjálsar hendur með það hvaða aðferðum hann beiti til þess að hlíta lögbanninu. Að mati héraðsdóms hafi hann nokkrar leiðir til þess. Ein sé DNS-lokun og sé þá allri umferð inn á lénin www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www. thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org beint með einföldum hætti inn á annað vefsvæði sem svari öllum köllum sem send séu á viðkomandi lén. Æskilegt sé þá að sú síða birti skilaboð um að aðgangur að umræddum lénum sé takmarkaður. Síminn hf. og Fjarskipti hf. hafi þegar komið upp slíkum síðum. Þessi sjónarmið hafi komið til umfjöllunar í úrskurðum héraðsdóms í málum K-8/2013 og K-9/2013 og dómurinn talið að engin gögn sýndu að mjög íþyngjandi væri fyrir fjarskiptafyrirtækin að loka aðgangi að umræddum vefsvæðum. 8. Um stefnanda, umboð, réttindi og lagarök Stefnandi lýsi starfsemi sinni, umboði og réttindum til að krefjast lögbanns svo að STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar) séu samtök tónskálda, textahöfunda og eigenda flutningsréttar sem annist innheimtu vegna opinbers tónflutnings. STEF sé einnig aðili að NCB (Nordisk Copyright Bureau), sem séu samtök tónskálda, textahöfunda og eigenda flutningsréttar á Norðurlöndum og innheimti gjöld vegna eintakagerðar og dreifingar á tónverkum. NCB og STEF hafi gert gagnkvæma samninga við erlend systursamtök sín þar sem samtökin gæti hagsmuna vegna nær allra tónverka sem verndar njóti samkvæmt höfundalögum. Gæti STEF þannig hagsmuna bæði íslenskra og erlendra rétthafa og hafi hlotið löggildingu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til þess að gæta hagsmuna höfunda skv. 23. og 23. gr. a í höfundalögum, sbr. 59. gr. a sömu laga. STEF byggi umboð sitt til að krefjast lögbanns m.a. á nefndu lagaákvæði og liggi upplýsingar um aðildarfélög STEF fyrir. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 214/2009, Istorrent-máli, hafi aðild STEF til að reka lögbannsmál f.h. umbjóðenda samtakanna verið staðfest og byggi stefnandi umboð sitt til að krefjast lögbanns f.h. umbjóðenda sinna fyrst og fremst á ákvæði 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum. Að öðru leyti byggir stefnandi aðild sína og umboð sitt á ákvæðum II. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem og á almennum reglum laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á ákvæðum höfundalaga, nr. 73/1972, einkum 1.gr., 3.gr., 1. mgr. 8. gr., 23. gr., 23. gr. a, 45. gr., 46. gr. og 59. gr. laganna. Stefnandi styður kröfu sína um staðfestingu lögbanns við ákvæði 24. og 25. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. ákvæði 36. gr. laganna. Jafnframt sé vísað til 8. gr. tilskipunar EB nr. 2001/29 sem innleidd var með ákvæðum íslensku höfundalaganna. Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Um varnarþing er vísað til 41. og 42. gr. laga nr. 31/1990. Málsástæður og lagarök stefnda Skilyrði lögbanns Í 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum nr. 73/1972 segi að rétthafi eða samtök þeirra geti fengið lagt lögbann við því að þjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi láti í té um fjarskiptanet, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eða sjálfvirkrar, millistigs- eða samtímageymslu gagna. Enn fremur verði lögbann lagt við því að þjónustuveitandi hýsi gögn sem látin séu í té af þjónustuþega, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð á gögnunum. Heimildin sé sett að því tilskildu að hún fullnægi öðrum skilyrðum lögbanns og sé þar vísað til laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Stefnandi byggi lögbannskröfu sína á þessu ákvæði höfundalaga og geri stefndi því eftirgreindar athugasemdir. Stefnandi hafi ekki með nokkru móti sýnt fram á að stefndi hafi miðlað gögnum sem ímyndaður þjónustuþegi hafi látið í té um fjarskiptanet, eða hafi hýst gögn sem látin séu í té af þjónustuþega. Þar sem lögbann sé neyðarráðstöfun verði að gera ríkar kröfur til þess að stefnandi sanni eða geri sennilegt að athöfn muni brjóta gegn lögvörðum rétti stefnanda. Stefnandi hafi hvorki sannað né gert sennilegt að stefndi brjóti gegn lögmætum rétti hans, hvorki með framlögðum gögnum né rökstuðningi í lögbannsbeiðni eða stefnu. Að auki verði ekki séð að um neyð sé að ræða hjá stefnanda sem hafi knúið hann til að leita lögbanns þar sem hann hafi ekki getað beðið dóms, enda liggi fyrir að hann hafi beðið í meira en ár með að gera lögbannskröfuna. Skilyrði 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum um miðlun gagna eigi ekki við um starfsemi og aðkomu stefnda að þessu máli. Stefndi miðli ekki gögnum þjónustuþega eða þeirra vefsíðna sem lögbann beinist gegn, enda sé slíkt ekki með nokkru móti á forræði stefnda. Hugtakið „að miðla“ sé hvergi skilgreint í höfundalögum, en það feli samkvæmt orðabók í sér að veita, úthluta eða láta af hendi. Þá sé sögnin „að veita“ skilgreind sem það að afhenda, láta einhvern fá eitthvað eða láta í té. Engin framangreindra skilgreininga geti náð til þeirrar þjónustu sem stefndi veiti með því að veita viðskiptavinum sínum aðgang að internetinu gegn gjaldi. Stefndi hýsi hvorki né hlutist til um hýsingu þeirra gagna sem aðgengileg séu á vefsíðum sem lögbannsbeiðni stefnanda hafi snúið að og geti því eðli málsins samkvæmt heldur ekki afhent þau. Stefndi geti ekki afhent eða látið í té gögn sem ekki séu í vörslu stefnda. Verði ekki fallist á að skilyrði 59. gr. a í höfundalögum um miðlun gagna eigi ekki við um starfsemi stefnda, sé byggt á því að stefndi uppfylli skilyrði 12. gr. laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti o.fl. Í lagagreininni sé kveðið á um takmörkun ábyrgðar vegna miðlunar. Samkvæmt henni beri þjónustuveitandi, sem miðli gögnum sem þjónustuþegi láti í té um fjarskiptanet eða veiti aðgang að fjarskiptaneti, ekki ábyrgð vegna miðlunar að því tilskildu að þjónustuveitandinn eigi ekki frumkvæði að miðluninni, velji ekki viðtakanda þeirra gagna sem miðlað sé, og velji hvorki né breyti þeim gögnum sem miðlað sé. Stefndi sé hvorki ábyrgðarmaður þeirra vefsíðna sem lögbannsbeiðni stefnanda beinist að né tengist þeim með nokkrum öðrum hætti. Því hafi stefndi augljóslega ekki frumkvæði að miðlun efnis gegnum vefsíðurnar. Það gefi augaleið að stefndi stýri því ekki hvaða vefsíður viðskiptavinir hans heimsæki eða eftir atvikum hverju þeir hlaði þaðan niður og því sé ljóst að stefndi velji ekki viðtakanda þeirra gagna sem miðlað sé. Stefndi hvorki velji né breyti þeim gögnum sem miðlað sé, enda alls ótengdur umræddum vefsíðum. Það sé stefnda því ómögulegt að hafa nokkur slík áhrif á gögn sem miðlað sé. Verði því að líta svo á að stefndi geti ekki borið ábyrgð sem þjónustuveitandi á þeirri miðlun sem fram fari á vefsíðunum. Áðurgreind lagagrein höfundalaga samræmist engan veginn eðlilegri skilgreiningu á orðinu athöfn. Í málatilbúnaði stefnanda sé á því byggt að aðkoma stefnda sé sú að hann sé óhjákvæmilegur milliliður milli vefsvæðanna og þeirra notenda, sem brjóti gegn höfundarétti umbjóðenda stefnanda. Þó að notendur geti þannig nálgast umræddar vefsíður sé ekki um athöfn eða verknað stefnda að ræða og því síður athöfn eða verknað einstaklings, fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar, svo sem áskilið sé í 1. mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Því megi vera ljóst að 59. gr. a í höfundalögum sé að þessu leyti ósamrýmanleg þeim kröfum sem gera verði til lögbanns. Beiðninni sé ranglega beint að stefnda, enda verði að beina lögbannsbeiðni að fyrirsvarsmanni þess félags sem lögbannsbeiðni beinist gegn, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Í 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. segi einfaldlega að lögbann verði ekki lagt á ef sýnt þyki að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram og hagsmunum gerðarbeiðanda af því að fyrirbyggja hana, enda setji gerðarþoli eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni sem athöfnin kunni að baka gerðarbeiðanda. Staða stefnda sé skólabókardæmi um notkun þessa ákvæðis. Um sé að ræða lítið fjarskiptafyrirtæki sem hafi mun meiri hag af því að starfsemi þess haldist óskert en stefnandi, sem hafi mjög óljósan ávinning eða hag af því að lögbann verði lagt á stefnda. Þá verði stefnandi jafnframt að sanna tjón sitt telji hann að setja verði tryggingu, en hún verði ekki sett nema eftir atvikum vegna þess tjóns sem kunni að verða af athöfn stefnda. Þetta leiði af almennum reglum skaðabótaréttar og sé krafa um lögbann þar ekki undanskilin. Um þetta segi nánar í athugasemdum með frumvarpi til laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl.: Loks er í 2. tölul. sama ákvæðis gert ráð fyrir að synjað verði um lögbann ef hagsmunir gerðarþola af athöfn eru stórfelldir í samanburði við hagsmuni gerðarbeiðanda af stöðvun hennar, enda setji gerðarþoli þá að öðru jöfnu tryggingu fyrir því tjóni sem gerðarbeiðandi yrði að þola. Í báðum þeim tilvikum, sem hér um ræðir, má segja að ætlast sé til að hagsmunir gerðarbeiðandans af framgangi lögbanns verði metnir sérstaklega, en munurinn milli hinna tveggja töluliða 3. mgr. 24. gr. felst í því í hverju samhengi eða hverjum samanburði þetta mat yrði lagt  á hagsmunina. Þótt reglur þessa efnis hafi ekki verið í lögum hefur verið gengið út frá því í framkvæmd að niðurstaða hagsmunamats af þessum toga geti leitt til synjunar um lögbann, en slík sjónarmið styðjast við viðteknar fræðikenningar á þessum vettvangi. Sýslumaður hefði þurft að gera sjálfstætt hagsmunamat, óháð öðrum lögbannsbeiðnum stefnanda. Mikilvægt sé að í slíku hagsmunamati komi fram hverjir séu hagsmunir stefnda og hverjir séu hagsmunir stefnanda í þessu tiltekna máli. Hagsmunir stærri fjarskiptafyrirtækja, sem jafnframt selji með beinum hætti aðgang að höfundavörðu efni, séu allt aðrir og minni en hagsmunir minni fjarskiptafyrirtækja eins og stefnda. Stefnandi verði að sýna fram á að lögbrot hafi átt sér stað svo að lögbanni verði beitt gegn stefnda. Í athugasemdum með frumvarpi sem urðu að lögum nr. 93/2010 segi: Ekki verður séð að neinir lögverndaðir hagsmunir eigi að standa gegn því að sett verði ákvæði af því tagi sem hér er lýst, enda er heimild til lögbanns byggð á þeirri grundvallarforsendu að fyrir hendi sé réttarbrot af hálfu þjónustuþega sem sá sem fer fram á lögbann þyrfti eftir sem áður að sýna fram á. Þar sem ekkert lögbrot liggi fyrir í málinu segi sig sjálft að ekki verði lagt lögbann á stefnda og því beri að hafna staðfestingu þess. Önnur sjónarmið og rök stefnda Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann geti ekki náð fram meintum rétti sínum með refsi- eða skaðabótakröfum þrátt fyrir að það sé skilyrði lögbanns að gerðarbeiðandi „sanni eða geri sennilegt að hagsmunir hans muni fara forgörðum verði hann knúinn til að bíða dómsúrlausnar um vernd þeirra“. Í þeim úrskurðum, K-8/2013 og K-9/2013, sem stefnandi byggi mál sitt á, segi að ekki sé hægt að finna ábyrgðarmenn viðkomandi vefsvæða þar sem þau séu skráð erlendis. Um sé að ræða eins árs gamla úrskurði og aðstæður hafi breyst. Síðurnar deildu.net og iceland.pm séu báðar hýstar hjá bandarísku hýsingarþjónustunni Cloudflare. Hægt sé að tilkynna um brot á höfundalögum til Cloudflare. Ekki komi fram í lögbannsbeiðni hvort stefnandi hafi tilkynnt um meint höfundalagabrot eða ekki. Það eina sem komi fram í lögbannsbeiðninni sé að stefnandi hafi lagt fram kæru vegna tveggja af vefsíðunum til lögreglu. Gera verði þær lágmarkskröfur til stefnanda að hann tryggi sína hagsmuni eins og hægt sé áður en hann beini lögbannsbeiðni að stefnda. Sænskur dómstóll hafi lokað PirateBay.se og thepiratebay.se þann 19. maí 2015 og geti krafa gerðarbeiðanda því ekki beinst að þessum vefsvæðum. Sýni þetta, svo ekki verði um villst, að stefnandi hafi ýmiss konar úrræði önnur en að krefjast lögbanns hjá stefnda. Sænskur dómstóll hafi komist að þeirri niðurstöðu í lok ársins 2015 að rétthafar verði að sýna fram á að þeir hafi leitað annarra leiða áður en krafist sé lögbanns á grundvelli sambærilegs ákvæðis í sænskum lögum. Eðlilegt sé að álykta svo að sambærileg túlkun gildi í íslenskum rétti. Atvinnuréttindi stefnda séu varin af 75. gr. stjórnarskrárinnar og ljóst sé að þau vegi þyngra en hagsmunir stefnanda. Ekki verði séð að þau skilyrði 75. gr. að skerða megi atvinnufrelsi ef almannahagsmunir krefjist þess eigi við. Þvert á móti sé stefndi lítið fjarskiptafyrirtæki og það sé ljóst að lögbannið geti haft verulega neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu stefnda sem og þjónustustig og netöryggi. Það sé alþekkt að þeir notendur eða þjónustuþegar sem ætli að ná sér í efni geri það einfaldlega með öðrum hætti og fari þá iðulega í gegnum erlenda DNS-þjóna sem geti leitt til þess að hraði tengingar hjá stefnda geti minnkað, auk þess sem netöryggi sé ógnað. Þetta geti haft verulega neikvæðar afleiðingar fyrir stefnda, sérstaklega þar sem stór hluti hans viðskiptavina séu hugbúnaðarfyrirtæki sem treysti á það öryggi sem stefndi hafi getað veitt hingað til. Stefndi haldi því fram með mótmælum þessum að lögbannsbeiðni stefnanda uppfylli ekki skilyrði sem gerð séu með lögbannslögunum. Ef gerðarþoli heldur því fram að skilyrði til lögbanns séu ekki uppfyllt eða að gerðarbeiðandi eigi ekki þann rétt, sem hann segir að brotið sé á, verður gerðarbeiðandi að sýna fram á hið gagnstæða. Þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á hið gagnstæða verði að hafna því að staðfesta lögbannið. Stefndi geri athugasemdir við viðurkenningarkröfu stefnanda. Ekki verði séð að þörf sé á sérstakri viðurkenningarkröfu vegna málsins. Auk þess hafi viðurkenningarkrafan gengið mun lengra en krafa stefnanda um staðfestingu lögbanns með orðalaginu að stefnda „sé skylt að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til þess að hindra að viðskiptamenn hans geti heimsótt vefsíðurnar“. Stefndi líti svo á að þessi krafa eigi ekki heima í málinu, en geri þó ekki sérstaka kröfu um frávísun vegna þess. Við aðalmeðferð málsins gerði stefndi, með samþykki stefnanda, nýja kröfu um sýknu af viðurkenningarkröfunni og féll stefnandi jafnframt í sama þinghaldi frá þeim hluta kröfu sinnar sem hafði að geyma hið umdeilda orðalag. Um lagarök vísi stefndi til höfundalaga, nr. 73/1972, laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1991, og til laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, m.a. vegna málskostnaðar. Niðurstaða Stefnandi krefst í máli þessu, á grundvelli 36. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, staðfestingar á lögbanni sem lagt hefur verið á stefnda. Samkvæmt ákvæðinu skal, hafi ekki áður verið dæmt um kröfu stefnanda eða mál höfðað til þess að fá skorið úr um rétt hans, gera slíka kröfu í sama máli. Stefnandi krefst þess því jafnframt í málinu að viðurkennt verði að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum deildu.net, deildu.com, iceland.pm, icetracker.org, afghanpirate.com, deildu.eu, thepiratebay.se, thepiratebay.sx, og thepiratebay.org. Í höfundarétti felst einkaréttur höfundar til að gera eintök af verki sínu og birta það, sbr. 3. gr. höfundalaga, nr. 73/1972. Viðurkenningarkrafa stefnanda byggir á því að starfsemi umræddra vefsvæða vegi gegn þessum grundvallarrétti og er krafa stefnanda um viðurkenningu á því að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að þeim. Stefndi hefur ekki andmælt réttmæti staðhæfinga stefnanda um að yfirgnæfandi hluti þess hljóð- og myndefnis, sem hafi að geyma tónlist sem umbjóðendur stefnanda eigi höfundarétt að og finna megi á vefsvæðunum, og gert sé aðgengilegt til eintakagerðar, sé þar án heimildar eigenda þess. Telst óumdeilt að svo sé og fær það stuðning í framlögðum gögnum. Þá er óumdeild heimild stefnanda til aðildar að málinu, sbr. dóma Hæstaréttar í málum réttarins nr. 239/2014, nr. 240/2014 og nr. 214/2009. Stefnandi verður talinn hafa af því lögvarða hagsmuni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, að fá úr því skorið hvort stefnda sé það heimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsvæðunum eða ekki. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 214/2009 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að á vefsíðunni torrent.is hafi verið í boði mikið af efni, sem háð var höfundarétti og að notendur hafi með þeim búnaði, sem vefsvæðið bauð upp á, miðlað því sín á milli í umtalsverðum mæli án þess að heimild rétthafa hafi verið fyrir hendi. Í dóminum sagði að því mætti leggja til grundvallar við úrlausn málsins að tilgangur með starfrækslu vefsvæðisins hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir því að notendur gætu með skjótum hætti miðlað sín á milli efni, sem háð er höfundarétti, án tillits til þess hvort fyrir hendi væri tilskilin heimild til slíkrar miðlunar frá rétthafa. Með þessum dómi Hæstaréttar var því slegið föstu að rekstur vefsíðunnar torrent.is væri ólögmætur. Jafnframt var fallist á að ábyrgðartakmarkanir V. kafla laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, ættu ekki við, þegar með þjónustunni sé gagngert stuðlað að því að brotið sé gegn lögvörðum rétti höfunda og listflytjenda samkvæmt höfundalögum. Tilgangur, virkni og rekstur vefsíðnanna deildu.net og thepiratebay.se er að mati dómsins sambærilegur við tilgang, virkni og rekstur vefsíðunnar torrent.is, sem fjallað var um í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Var lögbann á rekstur þeirrar vefsíðu staðfest á þeim forsendum að þar færi fram ólögmæt starfsemi, sem bryti gegn lögvörðum réttindum höfundarréttarhafa. Hinar sjö vefsíðurnar sem taldar eru upp í kröfu stefnanda vísa beint á áðurnefndar vefsíður og falla því sjálfkrafa í sama flokk. Stefnandi þykir hafa sýnt nægilega fram á að umbjóðendur hans eigi höfundaréttindi að hljóð- og myndefni sem deilt er á vefsíðunum sem viðurkenningarkrafa hans tekur til og leggja má til grundvallar að tilgangur með starfrækslu þeirra sé fyrst og fremst sá að greiða fyrir því að notendur geti miðlað sín á milli efni, sem háð er höfundarétti, án tillits til þess hvort fyrir hendi væri tilskilin heimild til slíkrar miðlunar frá rétthafa. Notkun vefsíðnanna felur því í sér ólögmæta háttsemi og fer hún ekki fram nema notandi hafi aðgang að vefsíðunum, fyrir milligöngu fjarskiptafyrirtækja svo sem stefnda. Fjarskiptafyrirtæki geta þurft að sæta því að verða að gera ráðstafanir til að hindra, svo sem þeim er unnt, aðgang viðskiptamanna sinna að ólögmætum vefsvæðum. Stefndi byggir á því að slík takmörkun brjóti gegn atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrár. Við mat á því er til þess að líta að slík réttindi þurfa ætíð að sæta takmörkunum af sambærilegum réttindum annarra og almannahagsmunum. Þótt takmörkunin kunni að skerða atvinnufrelsi stefnda þá felst ekki í því stórkostleg skerðing samanborið við þá hagsmuni umbjóðenda stefnanda að stöðva höfundaréttarbrotin. Þó að sú takmörkun sem hér er krafist viðurkenningar á taki til fleiri vefsíðna en fjallað var um í úrskurðum héraðsdóms 14. október 2014, er til þess að líta, svo sem fram er komið í málinu, að vefsíðurnar sem mál þetta snýst um vísa allar beint á síðurnar deildu.net eða thepiratebay.se. Með samkomulagi stefnanda við stærstu fjarskiptafyrirtæki á markaði hafa þau fallist á að loka einnig aðgangi að vefsvæðum sem opnuð eru til að sniðganga það bann sem fallist hefur verið á eða ákveðið í úrskurðum héraðsdóms. Starfsemi stefnda hefur ekki verið stöðvuð heldur einungis lagt fyrir hann að hamla aðgengi að tilteknum vefsvæðum, sem hafa þann megintilgang að greiða fyrir miðlun höfundavarins efnis án tillits til tilskilinnar heimildar til slíkrar miðlunar frá rétthafa. Því verður að hafna að slík takmörkun brjóti gegn 75. gr. stjórnarskrár Íslands, en atvinnufrelsið sem þar um ræðir er heimilt að takmarka með lögum. Í framburði fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dóminum kom m.a. fram að slíkar hömlur geti skaðað þá ímynd sem hann kýs að standa fyrir, um eftirlitslausa netnotkun viðskiptamanna sinna. Þótt tjáningarfrelsi stefnda eða viðskiptamanna hans, sem felur m.a. í sér rétt til að miðla og nálgast upplýsingar á netinu, sæti óverulegri takmörkun þá felur sú skerðing að mati dómsins ekki í sér stórfelldari hagsmuni en þá sem felast í hagsmunum umbjóðenda stefnanda. Til þess er og að líta að unnt er að nálgast hið höfundavarða efni eftir löglegum leiðum. Að framangreindu virtu verður fallist á kröfu stefnanda um að viðurkennt verði með dómi þessum að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að framangreindum vefsíðum. Fyrrnefndur dómur Hæstaréttar í máli nr. 214/2009 var kveðinn upp 11. febrúar 2010. Síðar sama ár, þann 2. júlí 2010, tóku gildi lög nr. 93/2010, til breytinga á höfundalögum. Í ákvæði 2. mgr. 59. gr. a, sem þá var bætt í höfundalög með 13. gr. laga nr. 93/2010, er m.a. kveðið á um, að því tilskildu að fullnægt sé öðrum þeim skilyrðum lögbanns sem greind eru í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., að einstakir rétthafar eða samtök þeirra geti fengið lagt lögbann við því að þjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi lætur í té um fjarskiptanet, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eða sjálfvirkrar, millistigs- eða skammtímageymslu gagna. Styðst lögbann það sem krafist er staðfestingar á í máli þessu við þessa heimild í 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum. Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 93/2010, kemur m.a. fram að í ákvæðinu sem varð að 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum sé fólgið nýmæli þar sem gert sé ráð fyrir sérstakri heimild til að leggja lögbann við athöfnum milliliða, fyrst og fremst fjarskiptafyrirtækja. Taki ákvæðið mið af lögum nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Tilgangur ákvæðisins sé fyrst og fremst að eyða mögulegum vafa um hvort lögbanni verði beint gegn fjarskiptafyrirtækjum vegna miðlunar, skyndivistunar og hýsingar gagna í þeim tilvikum þegar um sé að ræða meint brot þjónustuþega á ákvæðum höfundalaga. Í þessu ljósi verður að hafna málsástæðum stefnda og orðskýringum hans í því sambandi, um að skilyrði 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum um miðlun gagna geti ekki átt við um stefnda. Með ákvæðinu var innleitt það efni í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 að ríkjum bæri að sjá til þess að rétthafar séu í aðstöðu til að krefjast lögbanns gegn milliliðum ef þriðji aðili notar þjónustu þeirra til að brjóta gegn höfundarétti eða skyldum rétti. Með hliðsjón af fyrrnefndum dómi Hæstaréttar og forsögu og orðfæri ákvæðisins í höfundalögum verður ekki fallist á að sú takmörkun á ábyrgð stefnda á grundvelli 12. gr. laga nr. 30/2002, sem stefndi ber fyrir sig, geti átt við. Í 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum felst sérstök lagaheimild til að lögbann verði lagt á fjarskiptafyrirtæki eins og stefnda. Þau önnur skilyrði lögbanns sem vísað er til í ákvæðinu um að tilskilið sé að einnig sé fullnægt, er einkum að finna í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Samkvæmt því ákvæði má leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Þá er í 1. og 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 tekið fram að lögbann verði ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega. Heldur ekki ef sýnt þykir að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram og hagsmunum gerðarbeiðanda af að fyrirbyggja hana, enda setji gerðarþoli eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni sem athöfnin kann að baka gerðarbeiðanda. Með hliðsjón af því sem fyrr er rakið verður fallist á það með stefnanda að ef þjónustuþegar stefnda, fyrir milligöngu umræddra vefsvæða, hlaða niður á nettengda tölvu sína skrá sem hefur að geyma höfundaréttarvarið efni og gera skrána um leið aðgengilega öðrum til niðurhals, þá gerist þeir sekir um brot á einkarétti höfundar til að gera eintök af verki sínu og birta það, sbr. 3. gr. höfundalaga, og eftir atvikum brot á sambærilegum rétti listflytjenda, sbr. 45. og 46. gr. laganna. Er því uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 að lögbannið beinist að athöfn sem brjóta kann gegn lögvörðum rétti umbjóðenda stefnanda. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt stefndi sjálfur hafi ekki sýnt af sér ólögmæta háttsemi og að ekki sé upplýst um það hvort viðskiptamenn stefnda noti eða vilji nota umræddar vefsíður. Ekki liggur annað fyrir en að notkun og dreifing hins höfundavarða efnis standi enn yfir og nýtt efni bætist sífellt inn á vefsíðurnar. Byggir stefndi m.a. á því að hagsmunir hans af því að fallist verði á kröfu hans felist í því að lokanir samkvæmt lögbanninu geti skaðað fjarskiptaöryggi og valdið auknum kostnaði í erlendu niðurhali vegna þeirra aðferða sem notendur beiti til að komast fram hjá þeim aðgangshindrunum. Þessi sjónarmið stefnda samræmast því, sem stefnandi heldur fram og dómurinn fellst á, að réttarbrotin séu jafnframt yfirvofandi í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Stefndi vísar til sænskra tilvika og telur að stefnandi hafi átt annarra kosta völ en að beina kröfu um lögbann að stefnda. Ekki liggur fyrir hverjir eru ábyrgðarmenn vegna reksturs vefsíðnanna thepiratebay.se og deildu.net en þær vefsíður munu vera skráðar erlendis. Hefur ekki tekist að upplýsa það, þrátt fyrir ítarlega lögreglurannsókn, svo sem ríkissaksóknari hefur staðfest, að þar kunni að vera að finna aðila sem íslensk lögsaga nái til. Hefur stefnanda verið ókleift að krefjast þess af rekstraraðilum vefsíðnanna að þeir láti af rekstri þeirra eða beina til þeirra bótakröfum, enda eru þeir óþekktir. Stefndi bendir á að beina beri tilkynningum um brot gegn höfundarétti til fyrirtækisins Cloudflare sem hýsi síðurnar deildu.net og iceland.pm. Dómurinn telur Cloudflare ekki vera hýsingarþjónustu, heldur víðtækt net sem er fyrst og fremst byggt til að verja síður og hýsingaraðila fyrir netárásum og feli þannig í raun hýsingaraðilann á bak við eigið net. Við meðferð málsins hefur stefnandi lagt fram gögn um tilraunir sínar til þess að fá Cloudflare til aðstoðar í viðleitni sinni til að stemma stigu við ólögmætri starfsemi á vefsíðunum. Samkvæmt þeim gögnum er þar ekki aðstoð að fá sem komi að gagni. Verður að þessu virtu ekki talið að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna stefnanda tryggi þá nægilega í skilningi 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Við þær aðstæður var lögbann hjá stefnda viðeigandi úrræði til að sporna gegn notkun á vefsíðunum. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi takmarkaða hagsmuni af lögbanninu í samanburði við hagsmuni stefnda og því standi ákvæði 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 því í vegi að leggja hafi mátt það á. Stefndi heldur því fram að sú aðferð sem nú sé beitt við lokun, að loka fyrir DNS-aðgang, hafi neikvæð áhrif á þjónustustig og netöryggi. Í lögbannsgerðinni sem krafist er staðfestingar á í máli þessu er ekki mælt fyrir um það með hvaða aðferð aðgangi að vefsvæðunum skuli loka og á stefndi því um það nokkurt val, en ætlast verður til þess að beitt sé þeim aðferðum sem komi að notum á hverjum tíma. Í málatilbúnaði stefnanda kemur fram að hann telji rétt að stefndi hafi frjálsar hendur um það hvaða aðferðum hann beiti til að hlíta lögbanninu. Aðrar þekktar aðferðir til að loka fyrir aðgengi að síðunum sem vísa á höfundarvarið efni en umrædd DNS-lokun eru t.d. „IP-tölu lokun“ og „Rýnt í innihaldið“ (e. deep packet inspection). Tekið er undir sjónarmið stefnda um að DNS-lokun geti fylgt meiri kostnaður vegna aukinnar útlandaumferðar og minni gæði þjónustunnar vegna aukins svartíma. DNS-lokun er aðferð sem geti hvatt notendur til að breyta stillingum sínum þannig að öryggi notenda á internetinu minnki. Til lengri framtíðar er DNS-lokun, að mati sérfróðra meðdómenda, ósamrýmanleg þróun netsins til öruggari DNS-þjónustu og fer gegn heildaruppbyggingu netsins. DNS-lokun sé í besta falli lausn til skamms tíma sem geti leitt til þess að uppbygging internetsins sé ekki eins og best verður á kosið (e.optimal) hvað varðar hagkvæma og skjóta efnisdreifingu. IP-tölu lokun sé tæknilega einföld aðgerð og á færi smærri fjarskiptafélaga ef IP-tölur breytast ekki mjög oft. Margar vefsíður geti þó legið að baki sömu IP-tölu og kynni því að verða lokað á einhverjar löglegar vefsíður sé aðferðinni beitt, en með IP-tölu lokun megi loka með afgerandi hætti á viðkomandi síður. Hún sé því tæknilega möguleg en hafi ýmsa annmarka, sérstaklega þann að um bein inngrip í fjarskiptaumferð væri að ræða. Hjáleiðir eins og staðgengilssíður (e.proxy) muni vera fyrir hendi en þeim megi líka loka með IP-tölu lokun. Þriðja aðferðin sem að framan er nefnd, að rýna í innihaldið, felur í sér eftirlit með netnotkun notenda, ásamt því að vera mjög kostnaðarsöm, og kæmi því vart til álita séu önnur úrræði tiltæk. Engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á að það hafi verið mjög íþyngjandi fyrir stefnda að loka aðgangi að umræddum vefsvæðum með DNS-lokun. Það er aðgerð sem gerð er einu sinni og að mati sérfróðra meðdómenda ættu sérfræðingar á þessu sviði að vera nokkuð fljótir að framkvæma innleiðinguna. Því er hafnað að mikil vinna fylgi því að innleiða DNS-lokun og vega þær röksemdir stefnda að lögbannið leggist vegna smæðar fyrirtækisins þyngra á hann en á stærri fjarskiptafyrirtæki ekki þungt í þessu sambandi. Það er mat dómsins að meðalhófs sé gætt með því að stefndi eigi val um aðferð og að þær aðrar aðferðir sem nú kæmi til greina að beita til að framfylgja lögbanninu en DNS-lokun væru meira íþyngjandi fyrir stefnda og viðskiptamenn hans. Aðgerðir sem þessar munu sennilega aldrei loka alveg fyrir síður sem opna á niðurhal höfundavarins efnis en hafa vissulega truflandi áhrif. Þótt viðskiptamenn stefnda kunni að geta farið fram hjá lokun á vefsvæðunum, t.d. með notkun staðgengilsþjónustu, hefur ekki verið sýnt fram á að lögbannið, sem lagt var á til að sporna gegn ólögmætri háttsemi, sé tilgangslaust með öllu. Þykir nægilega sýnt fram á að stefnandi og umbjóðendur hans hafi af því lögvarða hagsmuni að stemmt sé stigu við notkun umræddra vefsíðna með takmörkun á aðgangi viðskiptamanna stefnda að þeim, enda þótt ekki verði með staðfestingu lögbanns komið í veg fyrir starfrækslu þeirra. Að virtum hagsmunum aðila stendur 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 því ekki í vegi að lögbannið verði staðfest. Lagaskilyrði þykja samkvæmt framangreindu hafa verið fyrir hendi til að lögbann yrði lagt við því, að stefndi veitti viðskiptamönnum sínum aðgang að hinum umdeildu vefsíðum, sbr. 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum. Að öllu framangreindu virtu verður fallist á kröfu stefnanda um staðfestingu þess lögbanns sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði þann 23. október 2015 við því að stefndi veitti viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum deildu.net, deildu.com, iceland.pm, icetracker.org, afghanpirate.com, deildu.eu, thepiratebay.se, thepiratebay.sx, og thepiratebay.org, hvort sem www. er fyrir framan nafn vefsíðnanna eða ekki. Aðilar krefjast hvor um sig málskostnaðar úr hendi hins. Þó að með dómi þessum sé fallist á endanlegar kröfur stefnanda er til þess að líta við ákvörðun um málskostnað að við meðferð málsins hefur stefnandi dregið úr upphaflegum dómkröfum sínum. Meirihluti dómenda telur að réttmætar röksemdir stefnda, m.a. um tæknilega vankanta á því að framfylgja lögbanninu, séu til marks um það að veruleg vafaatriði hafi verið í málinu. Að þessu virtu, og eftir atvikum, þykir rétt að málskostnaður falli niður, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Dóm þennan kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt sérfróðu meðdómsmönnunum Birni Jónssyni, rafmagnsverkfræðingi og tölvunarfræðingi, og Erni Orrasyni fjarskiptaverkfræðingi. D Ó M S O R Ð Staðfest er lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði þann 23. október 2015 við því að stefndi, Hringiðan ehf./Vortex inc, veiti viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www. thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org, hvort sem www. er fyrir framan nafn vefsíðnanna eða ekki. Viðurkennt er að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www.thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 835/2017
Fjármálafyrirtæki Innstæða Dráttarvextir Frávísun frá héraðsdómi að hluta Lögvarðir hagsmunir Aðfinnslur
B Ltd. gerði samning um einkabankaþjónustu við bankann G hf. árið 2007. Á grundvelli samningsins var stofnaður vörslureikningur hjá bankanum auk þess sem fleiri bankareikningar voru stofnaðir í tengslum við þann reikning. B Ltd. sagði samningnum upp í ágúst 2008 og voru allar innstæður félagsins í kjölfarið millifærðar til annars banka, að undanskilinni innstæðu í norskum krónum á nánar tilgreindum reikningi. Var sú innstæða ekki greidd til B Ltd. fyrr en á árinu 2016, en félagið hélt því fram að það hefði fyrst fengið upplýsingar um innstæðuna á árinu 2015. Höfðaði B Ltd. í kjölfarið mál á hendur Í hf., sem tekið hafði við tilteknum réttindum og skyldum G hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins í október 2008. Krafðist B Ltd. aðallega viðurkenningar á skyldu Í hf. til að greiða sér dráttarvexti af umræddri innstæðu, en til vara viðurkenningar á bótaskyldu Í hf. Í dómi sínum vísaði Hæstiréttur til nefndrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins og benti á að samkvæmt henni hefði Í hf. tekið yfir umrædda innstæðu B Ltd. 15. október 2008. Frá sama tímamarki hefði Í hf. tekið við réttindum og skyldum samkvæmt samningum um vörslu og eignastýringu við viðskiptavini G hf., en B Ltd. hefði sagt upp samningi sínum við bankann 4. ágúst 2008. Hefði því engin samningsskuldbinding félagins á hendur G hf. flust yfir til Í hf. samhliða yfirfærslu innstæðunnar. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um sýknu Í hf. af aðalkröfu B Ltd. Þá vísaði Hæstiréttur varakröfu B Ltd. frá héraðsdómi á þeim grundvelli að félagið hefði ekki sýnt fram á að það hefði orðið fyrir tjóni í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 þannig að það hefði lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfunni.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Ragnheiður Harðardóttir landsréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. desember 2017. Hann krefst þess aðallega að „viðurkennd verði með dómi skylda stefnda til þess að greiða áfrýjanda dráttarvexti, samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af innstæðu á bankareikningi áfrýjanda nr. 580-38-553217 hjá stefnda þann 15. október 2008, að frádregnum þegar greiddum innlánsvöxtum, frá þeim degi til greiðsludags“. Til vara krefst áfrýjandi þess að „viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda vegna tjóns áfrýjanda af því að honum var ekki unnt að leysa til sín innstæðuna á bankareikningi hans hjá stefnda nr. 580-38-553217, þar sem stefndi upplýsti áfrýjanda ekki um tilvist, fjárhæð eða uppruna innstæðu reikningsins, frá 15. október 2008 til 28. desember 2015“. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Stefndi tók yfir innstæðu áfrýjanda á bankareikningi þeim sem aðalkrafa hans lýtur að 15. október 2008, klukkan 9 samkvæmt 7. tölulið, sbr. 5. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008. Frá sama tímamarki tók stefndi við réttindum og skyldum samkvæmt samningum um vörslu og eignastýringu við viðskiptavini Glitnis banka hf. á Íslandi en áfrýjandi hafði sagt upp slíkum samningi við bankann 4. ágúst 2008. Engin samningsskuldbinding áfrýjanda á hendur Glitni banka hf. fluttist því yfir til stefnda samhliða yfirfærslu innstæðu í norskum krónum á umræddum reikningi. Þegar af þessari ástæðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að stefndi skuli vera sýkn af aðalkröfu áfrýjanda í málinu. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er heimilt að leita dóms um viðurkenningu á skaðabótaskyldu. Gildir það án tillits til þess hvort unnt væri að leita dóms sem mætti fullnægja með aðför. Þessi heimild er þó háð því að sá sem höfðar mál hafi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni. Í héraðsdómsstefnu kemur fram að varakrafa áfrýjanda sé á því reist að hann hafi orðið fyrir tjóni við það að geta ekki hagnýtt sér þá fjármuni sem hann átti á bankareikningi nr. 580-38-553217 eftir að innstæðan fluttist til stefnda 15. október 2008. Í greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar segir að tjón þetta sé augljóst og þarfnist hvorki frekari rökstuðnings né sé unnt að veita hann. Er þar jafnframt vísað til þess sem felist í „hinni algerlega óumdeildu hagfræðifullyrðingu um tímavirði peninga“, það er að „peningur í nútíð sé meira virði en sama fjárhæð í framtíðinni vegna ávöxtunarmöguleika sinna“. Þá segir að ekki sé unnt að rökstyðja nákvæmlega hvert tjón áfrýjanda hafi verið þar sem ekki sé unnt að fullyrða um hvernig hann hefði varið fjármununum ef stefndi hefði millifært þá til hans á fyrra tímamarki. Áfrýjandi hefur ekki lagt fram gögn til stuðnings því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni við það að hafa ekki leyst til sín innstæðu á framangreindum bankareikningi á þeim tíma sem um ræðir. Jafnframt liggur fyrir að hann naut ávöxtunar innstæðunnar á reikningnum hjá stefnda. Samkvæmt framangreindu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 þannig að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr varakröfu sinni fyrir dómi. Verður kröfunni því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi. Það athugast að við meðferð málsins lagði áfrýjandi fram fjölmörg skjöl á enskri tungu án þess að þeim fylgdi þýðing á íslensku. Var þetta ekki í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991. Er það aðfinnsluvert. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af aðalkröfu áfrýjanda, Bedula Ltd. Varakröfu áfrýjanda er vísað frá héraðsdómi. Áfrýjandi greiði stefnda 1.000.000 króna í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2017.                                                                                                                               I. Mál þetta sem höfðað var hinn 23. desember 2016, var dómtekið 18. október 2017. Stefnandi er Bedula Ltd., 28-30 Parade Street, Jersey, en stefndi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi, Reykjavík.                 Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennd verði með dómi skylda stefnda til þess að greiða stefnanda dráttarvexti, samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af innstæðu á bankareikningi stefnanda nr. 580-38-553217 hjá stefnda hinn 15. október 2008, frá þeim degi til 5. ágúst 2016, að frádregnum þegar greiddum innlánsvöxtum.                 Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda vegna tjóns stefnanda af því að honum var ekki unnt að leysa til sín innstæðuna á bankareikningi hans hjá stefnda nr. 580-38-553217, þar sem stefndi upplýsti stefnanda ekki um tilvist, fjárhæð eða uppruna innstæðu reikningsins, frá 15. október 2008 til 28. desember 2015.                 Þá krefst stefnandi málskostnaðar.                 Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar.                                                                                                                                      II. Í janúar árið 2007 gerði stefnandi samning um einkabankaþjónustu við Glitni banka hf. Samkvæmt samningnum tók bankinn að sér vörsluþjónustu, valkvæða eignastýringu og einkabankaþjónustu fyrir stefnanda. Í tengslum við vörslu- og eignastýringaþjónustu Glitnis banka hf. skyldi bankinn m.a. opna vörslureikning þar sem færa bæri inn öll verðbréf stefnanda.                 Á grundvelli samningsins við stefnda um einkabankaþjónustu var stofnaður vörslureikningur nr. 13289. Í tengslum við þann reikning voru einnig opnaðir nokkrir bankareikningar þar á meðal bankareikningur nr. 580-38-553217.                  Hinn 4. ágúst 2008, sagði stefnandi upp umræddum samningi um einkabankaþjónustu við Glitni banka hf., með þeim fyrirmælum að loka skyldi reikningum með númerin 13289, 13290 og 13489, sem tengdust einkabankaþjónustusamningnum, og að innstæður þeirra yrðu millifærðar til Kaupthing Bank í Lúxemborg S.A. Er óumdeilt að allar eignir stefnanda á vörslureikningum hans hjá Glitni banka hf. voru millifærðar og reikningum lokað eins og óskað var eftir en að undanskilinni innstæðu á áðurgreindum bankareikningi nr. 580-38-553217 sem varð eftir hjá Glitni banka hf.                 Í tölvupósti sem stefnandi sendi stefnda hinn 4. júní 2009 í kjölfar fyrirspurnar frá stefnda, eru taldir upp átta bankareikingar sem tengdir voru vörslureikningi 13289. Í þeirri upptalningu er ekki getið um bankareikning nr. 580-38-553217.                 Í september árið 2015, bárust stefnanda óformlegar upplýsingar um að hann ætti u.þ.b. fjórar milljónir norskra króna á fyrrgreindum bankareikningi hjá stefnda. Var þar um að ræða söluandvirði verðbréfa sem áttu sér stað á árunum 2006 til 2008.                 Með tölvupósti fyrirsvarsmanns stefnanda, dags. 11. desember 2015 til starfsmanns stefnda, var þess óskað að innstæðan yrði millifærð á reikning stefnanda í Arion banka hf. Stefndi samþykkti að verða við þeirri beiðni hinn 15. desember sama mánaðar, en áður en til þess kom sendi stefnandi beiðni um að hætt yrði við millifærsluna og óskaði um leið eftir nánari upplýsingum. Varð stefndi við þeirri beiðni stefnanda og afturkallaði áður gefin fyrirmæli um millifærsluna til stefnanda. Í kjölfarið fóru bréf á milli málsaðila þessu tengdu, sbr. bréf stefnanda, dags. 23. desember 2015 og svarbréf stefnda hinn 4. janúar 2016.                 Með bréfi stefnanda, dags. 8. júní 2016, krafði hann stefnda um greiðslu dráttarvaxta og skaðabóta vegna þess tjóns sem stefnandi taldi sig hafa orðið fyrir vegna vörslu stefnda á umræddri innstæðu stefnanda í norskum krónum.                 Stefndi hafnaði kröfu stefnanda með bréfi, dags. 7. júlí 2016. Í svari stefnda kemur m.a. fram að umrædd innstæða hafi verið á safnreikningi, sem tengdist eignastýringareikningi. Innstæðan hafi því einungis verið merkt stefnanda í athugasemd á safnreikningi, eins og tíðkast hafi um reikninga sem tengdir voru vörslureikningum vegna eignastýringar. Þar sem ekki hafi lengur verið til að dreifa eignastýringarsamningi, þar eð honum hafi áður verið sagt upp af stefnanda, og þess vegna engri tengingu við vörslureikninga, hafi kerfi bankans ekki gripið innstæðuna. Því hafi engin yfirlit um tilvist hennar verið send til stefnanda, svo vitað væri.                 Með tölvupósti stefnanda hinn 4. ágúst 2016, var þess óskað að innstæðan yrði greidd stefnanda og var millifærslan framkvæmd næsta dag með greiðslu höfuðstóls og áfallinna vaxta.                      Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 tók stefndi frá og með 15. október 2008 við skuldbindingum vegna innlána viðskiptavina Glitnis banka hf., sbr. 7. tölul. ákvörðunarinnar. Jafnframt tók stefndi við réttindum og skyldum bankans samkvæmt samningum um vörslu og eignastýringu við viðskiptavini Glitnis banka hf. á Íslandi, sbr. 5. tölul. ákvörðunarinnar.                 Soffía Gunnarsdóttir fyrrverandi starfsmaður eignastýringar Glitnis banka hf. kom fyrir dóminn og gaf skýrslu þegar aðalmeðferð málsins fór fram. III. 1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á því að að stefnda hafi borið að greiða honum út alla innstæðuna á bankareikningi nr. 580-38-553217, í samræmi við fyrri kröfu hans til Glitnis banka hf. í ágústmánuði árið 2008, um að öllum reikningum í hans eigu hjá bankanum yrði lokað og fjármunir sem á þeim væru yrðu fluttir til Kaupthing Bank Lúxemborg. Þann 15. október 2008 kl. 9.00, hafi Glitnir banki hf. ekki verið búinn að flytja innstæðuna og því hafi sú skylda fylgt innstæðunni við yfirfærsluna til stefnda. Um hafi verið að ræða skuldbindingu sem stefndi hafi tekið yfir.                 Stefnandi vísar til 5. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008. Þó að stefnandi hafi sagt samningnum upp hinn 4. ágúst 2008 sé ljóst að sú uppsögn hafi ekki komið að fullu til framkvæmda af hálfu Glitnis banka hf. Bankinn hafi haldið eftir innstæðunni og skyldur hans hafi flust yfir til stefnda hinn 15. október 2008, að því er innstæðuna varðar. Stefndi telur að við flutning innstæðunnar hafi verið fyrir hendi tvö aðskilin en tengd samningssambönd á milli Glitnis banka hf. og stefnanda sem bæði hafi flust yfir til stefnda. Annars vegar samningssamband samkvæmt samningi um einkabankaþjónustu, hins vegar samningssamband um innstæðu sem varð til þegar innlánsreikningur var stofnaður í nafni stefnanda hjá stefnda. Efni samningssambandsins um innstæðuna hafi ráðist af þeim skilmálum Glitnis banka hf. sem giltu um kjör slíkra reikninga og réttindi og skyldur aðila að öðru leyti, t.d. að því er varðar vaxtastig og skyldu bankans til að senda stefnanda yfirlit.                 Stefnandi telur að í uppsögn hans á samningi um einkabankaþjónustu og fyrirmælum um flutning fjármuna til Kaupthing Bank Lúxemborg sé ákvöð sem hafi verið bindandi fyrir Glitni banka hf. þegar hún barst honum.                 Stefnandi telur að þegar uppsögnin og greiðslufyrirmælin bárust Glitni banka hf. hinn 4. ágúst 2008, hafi frestur samkvæmt 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 byrjað að líða. Hafi Glitni banka hf. því borið að greiða stefnanda dráttarvexti af innstæðunni þegar liðinn var einn mánuður frá því að hann var krafinn um greiðslu hennar og allt þar til bankinn greiddi innstæðuna. Skyldan til að greiða vexti af innstæðunni hvort sem um var að ræða samningsvexti eða dráttarvexti, hafi fylgt innstæðunni til stefnda þann 15. október 2008 kl. 9.00, enda hafi stefndi ekki getað öðlast betri eða meiri rétt gagnvart stefnanda að þessu leyti en Glitnir banki hf. hafi notið. Þar sem liðinn hafi verið meira en einn mánuður frá uppsögninni og greiðslufyrirmælunum þegar innstæðan fluttist til stefnda hafi viðeigandi vextir verið dráttarvextir. Stefnandi byggir ekki á því að stefnda beri skylda til að greiða áfallna dráttarvexti á því tímamarki þegar innstæðan fluttist frá Glitni banka hf. til stefnda, enda ljóst að slíkri kröfu væri réttilega beint að Glitni banka hf. Hins vegar sé skyldan til greiðslu dráttarvaxta frá því tímamarki skuldbinding vegna innstæðunnar, enda réttur stefnanda til dráttarvaxta þá orðinn virkur og á þeim vaxtagreiðslum beri stefndi ábyrgð.                 Til grundvallar varakröfu sinni tekur stefnandi fram að hann telji sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þess að stefndi hafi hvorki upplýst hann um tilvist né innstæðu bankareiknings nr. 580-38-553217. Stefndi beri bótaábyrgð á því tjóni. Tekur stefnandi fram að umfang tjóns hans sé ekki til umfjöllunar samkvæmt varakröfunni, en einu gildi hvort það verði bætt með greiðslu dráttarvaxta, annarra vaxta eða annarra skaðabóta. Tjón hans stafi af því að þann tíma sem hann átti innstæðu á bankareikningi nr. 580-38-553217 hjá stefnda hafi hann ekki getað hagnýtt sér þá fjármuni. Tjón stefnanda hafi verið fyrirsjáanleg afleiðing af saknæmri háttsemi starfsmanna stefnda, sem stefndi beri ábyrgð á. Stefndi hafi viðurkennt að honum hafi borið að senda stefnanda yfirlit vegna reikningsins, og að það hafi ekki verið gert. Telur stefnandi að skyldu þessa leiði af almennum skilmálum stefnda. Vísar stefnandi til 2. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 og 9. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 670/2013.                 Þá byggir stefnandi varakröfu sína á því að bankareikningur nr. 580-38-553217 hafi verið stofnaður á grundvelli samnings hans og Glitnis banka hf. um einkabankaþjónustu. Við þeim skyldum hafi stefndi tekið, sbr. 5. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins. 2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi ekki átt aðkomu að samningi stefnanda við Glitni banka hf. Stefndi hafi einungis yfirtekið innstæðuskuldbindingu Glitnis banka hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og hafi greitt stefnanda innstæðuna þegar krafa um það hafi verið gerð.                 Stefndi bendir á að innstæða á reikningi nr. 580-38-553217 hafi ekki verið millifærð í kjölfar uppsagnarbréfs stefnanda hinn 4. ágúst 2008 til Glitnis banka hf. þar sem um það hafi ekki verið beðið í umræddu bréfi, hvorki þá né síðar.                 Stefndi hafnar því að hafa tekið á sig ábyrgð á einstaka verkum eða störfum Glitnis banka hf. almennt, þar með töldum ætluðum misgjörðum, þegar hann tók við skuldbindingum samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008. Stefndi hafi frá 15. október 2008, tekið við innlánum viðskiptavina Glitnis banka hf. svo og réttindum og skyldum bankans samkvæmt samningum um vörslu og eignastýringu við viðskiptavini hans á Íslandi. Á þeim tíma hafi samningur stefnanda við Glitni banka hf. verið niður fallinn, en innstæðukrafan eftir þetta verið skuldbinding stefnda. Stefndi hafi gengist við henni og efnt að fullu. Stefndi beri ekki ábyrgð á því að innstæðan á bankareikningi nr. 580-38-553217 í eigu stefnanda hafi ekki verið millifærð til Kaupthing í Lúxemborg í ágúst 2008.                 Stefndi telur að stefnandi hafi sýnt af sér algjört tómlæti. Þegar upp hafi komist um stöðu mála stefnanda um sjö árum síðar, hafi stefndi tilkynnt stefnanda hvers kyns væri og lýst sig reiðubúinn til að greiða fjárhæðina. Í ljósi þessa og með vísan til uppsagnar einkabankaþjónustu stefnanda hjá Glitni banka hf. í ágúst 2008 og að kröfu um millifærslu innstæðunnar hafi fyrst verið beint að stefnda með bréfi 11. desember 2015, líti stefndi svo á að ekki sé unnt að fallast á kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta.                 Stefndi telur að stefnandi hafi ekki sýnt fram á neitt tjón af ætluðum mistökum Glitnis banka hf. eða stefnda. Ekki hafi verið sýnt fram á að afdrif þessara hagsmuna hefðu orðið betri á þeim tíma sem um ræðir með öðrum fjárfestingum. Með lögum nr. 125/2008 hafi innstæðuskuldbindingar verið gerðar að forgangskröfum við slitameðferð og í framhaldinu hafi íslensk stjórnvöld flutt þær skuldbindingar án nokkurrar skerðingar yfir til stefnda. Stefnandi virðist byggja á því að flytja hafi átt innstæðurnar til Kaupþings í Lúxemborg sem sætti slitameðferð. Telur stefndi að ef stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, þá sé það fyrst og fremst sprottið af því að stefnandi hafi sjálfur gefið óskýr fyrirmæli um millifærslu peningainnstæðna.                 Stefndi hafnar því að í uppsögn stefnanda á einkabankaþjónustusamningi við annan lögaðila, felist að stefnandi hafi sannanlega krafið stefnda með réttu um greiðslu kröfunnar. Þá geti upplýsingabeiðni stefnanda sem fram kom í bréfi hans 23. desember 2015 ekki jafngilt kröfu um greiðslu sem virki upphafstíma dráttarvaxta.                 Staðreyndin sé sú að stefnandi hafi fyrst farið þess á leit við stefnda með tölvupósti 11. desember 2015, að bankinn millifærði innstæðu reikningsins á annan reikning félagsins í öðrum banka. Stefndi hafi orðið við þeirri beiðni 15. desember. Síðar sama dag hafi stefnandi sent beiðni um að hætt yrði við millifærsluna og hafi óskað eftir frekari upplýsingum. Stefndi hafi að sjálfsögðu orðið við þeirri beiðni. Um átta mánuðum síðar, 4. ágúst 2016, sendi stefnandi stefnda með tölvupósti annað bréf og fór þess á leit að innstæðukrafan yrði greidd. Millifærslan hafi verið framkvæmd næsta dag með greiðslu höfuðstóls og áfallinna vaxta. Með greiðslunni hafi stefndi staðið við allar skuldbindingar hvað innstæðuna varðar og áfallna vexti. Samkvæmt þessu standi engin rök til þess að verða við kröfu stefnanda um reiknaða dráttarvexti.                 Fallist dómari ekki á framangreindan málatilbúnað stefnda um að ekki sé heimilt að reikna dráttarvexti af kröfunni er á því byggt að lög heimili einungis reiknaða dráttarvexti til 15. desember 2015, þegar stefndi bauð sannanlega fram greiðslu sína. Dráttarvextir eftir þann dag komi ekki til athugunar enda fyrirskipaði stefnandi sjálfur bankanum að hætta við millifærsluna. Þá er kröfu um eldri dráttarvexti en fjögurra ára frá stefnubirtingu mótmælt, enda sé hún fallin niður fyrir fyrningu. Dráttarvextir reiknist því tímabilið 23. desember 2012 til 15. desember 2015, verði fallist á kröfu stefnanda.                 Með vísan til sjónarmiða fyrir sýknukröfu krefst stefndi sýknu af varakröfu stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu. Stefndi telur einnig að varakrafa stefnanda sé algerlega ósönnuð og hafnar því að uppfyllt séu önnur lagaskilyrði fyrir skaðabótaskyldu hans, hvort heldur á grundvelli almennra reglna kröfuréttar um skaðabótaábyrgð innan samninga eða á grundvelli hinnar ólögfestu sakarreglu skaðabótaréttarins vegna skaðaverka utan samninga. Hvað fyrrgreinda atriðið varðar bendir stefndi á að málatilbúnaður stefnanda um ætlað tjón hans sé bæði vanreifaður og órökstuddur með öllu. Í stefnu sé ekki útskýrt í hverju ætlað tjón stefnanda felist. Bendir stefndi á að innstæða stefnanda beri vexti í samræmi við skilmála frá 15. október 2008 þegar innlánið var fært frá Glitni banka hf. til stefnda. Fjármunir hans hafi því aukist fremur en hitt.                 Að mati stefnda uppfyllir varakrafa stefnanda ekki skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og geti af þeim sökum varðað frávísun án kröfu.                 Stefndi byggir á því á að hann hafi hvorki vanefnt skyldur sínar gagnvart stefnanda ný sýnt af sér gáleysi sem hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda. Í þessu sambandi verði að líta til aðkomu stefnda að málinu og vitneskju hans um innstæðu stefnanda. Í reynd sé það svo að sökum þess að innstæðan hafi tengst í upphafi eignastýringareikningi  þá hafi fjármunirnir verið geymdir á safnreikningi í Glitni banka hf. og síðar Íslandsbanka hf. Innstæðan hafi því einungis verið merkt stefnanda í athugasemd á safnreikningnum, líkt og tíðkast með reikninga sem tengdir séu vörslureikningum vegna eignastýringar. Þar sem eignastýringarsamningi sé ekki til að dreifa, sökum þess að honum hafði verið sagt upp af stefnanda, hafi safnreikningurinn ekki verið tengdur neinum vörslureikningi. Af þeirri ástæðu „gripu“ kerfi stefnda ekki innstæðuna þegar hún fluttist yfir í október 2008 með þeim afleiðingum að starfsmenn stefnda voru grandlausir um tilvist hennar. Það sé því ekki við stefnda að sakast að hafa ekki rekið augu í fjármunina eða upplýst stefnanda um þá, t.d. með útgáfu yfirlita. Orsökin virðist liggja hjá stefnanda sjálfum sem virðist ekki hafa haft yfirsýn yfir eigin fjármál og sýndi af sér stórfellt tómlæti varðandi innstæðuna. Stefndi hafði einfaldlega engar forsendur til að aðhafast gagnvart stefnanda með öðrum hætti en gert var. Um er að ræða eigin sök stefnanda.                                                                                                                                     IV. Stefnandi sagði upp samningi sínum um einkabankaþjónustu við Glitni banka hf. í ágúst árið 2008 með þeim fyrirmælum að loka skyldi tilgreindum vörslureikningum og millifæra innstæður þeirra til Kaupthing Bank í Lúxemborg. Er óumdeilt að allar inneignir stefnanda samkvæmt samningnum voru millifærðar af reikningum stefnanda hjá Glitni banka hf., en að undanskilinni innstæðu á nánar tilteknum bankareikningi, að fjárhæð fjórar milljónir NOK, sem varð eftir og fluttist síðan yfir til stefnanda hinn 15. október 2008, með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til nýja Glitnis banka hf. Í aðalkröfu sinni krefst stefnandi þess að viðurkennd verði með dómi skylda stefnda til greiðslu dráttarvaxta á innstæðuna frá 15. október 2008 til 5. ágúst 2016, sem er sá tími sem innstæðan var í vörslu stefnda. Stefnandi telur að með yfirfærslunni hafi stefndi tekið á sig skuldbindingar vegna ætlaðra mistaka forvera stefnda í tengslum við uppsögn stefnanda á samningi sínum um einkabankaþjónustu, þegar hann óskaði eftir því að allar inneignir hans yrðu færðar yfir til Kaupthing bank í Lúxemborg hinn 4. ágúst 2008.                 Stefndi hafnar því að hafa tekið á sig ábyrgð á einstaka verkum eða störfum Glitnis banka hf. almennt, þar með töldum ætluðum misgjörðum sem orðið hafi fyrir yfirtökuna hinn 14. október 2008.                 Samkvæmt 7. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 tók stefndi yfir innstæðu stefnanda á bankareikningi hans á tímamarki framsals samkvæmt 5. tölul. ákvörðunarinnar. Þá tók stefndi frá og með því tímamarki við réttindum og skyldum samkvæmt samningum um vörslu og eignastýringu við viðskiptavini Glitnis banka hf. á Íslandi, sbr. 5. tölulið ákvörðunarinnar. Þegar yfirfærsla fjármunanna átti sér stað hafði stefnandi sagt upp samningi sínum um einkabankaþjónustu við Glitni banka hf. Því verður ekki fallist á með stefnanda að réttindi og skyldur sem tengdust þeim samningi hafi flust yfir til stefnda. Þá er einnig ljóst af ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 að kröfur viðskiptavina Glitnis banka hf. um skaðabætur á hendur þeim banka vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi starfsmanna hans voru ekki á meðal þeirra skuldbindinga sem fluttust yfir til stefnda með þeirri ákvörðun. Getur stefnandi því ekki heldur á þeim grunni beint máli þessu á hendur stefnda.                 Stefnandi byggir aðalkröfu sína um viðurkenningu einnig á því að stefnda beri að greiða honum dráttarvexti þar sem hann hafi ekki sent honum yfirlit um innstæðuna eftir að hún var millifærð til stefnda. Stefnandi vísar til 2. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 9. gr. reglna nr. 670/2013, um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, en einnig til 15. gr. samnings stefnanda og Glitnis banka hf. um einkabankaþjónustu. Í greindu ákvæði reglna nr. 670/2013 er m.a. mælt fyrir um að allar viðeigandi upplýsingar um vöru og þjónustu, þ. á m. um allan kostnað, séu veittar á skýran og skiljanlegan hátt, áður en viðskipti fara fram og meðan á viðskiptasambandi stendur. Stefndi hefur borið því við að hann hafi ekki haft vitneskju um innstæðu stefnanda, sem rekja megi til þess að eignastýringarsamningnum hafi verið sagt upp og inneignin því ekki tengd við sérstakan vörslureikning, heldur hafi hún verið geymd á sérstökum safnreikningi í Glitni banka hf. og síðar Íslandsbanka hf. Af þeim sökum hafi starfsmenn stefnda verið grandlausir um tilvist inneignarinnar.                 Almenn skylda hvílir á kröfuhafa til að gæta kröfu sinnar. Það á sérstaklega við um stefnanda máls þessa sem er fagfjárfestir. Á honum hvíldi viss ábyrgð til að fylgjast með því að inneignir hans skiluðu sér eftir að hann sagði upp samningi sínum um einkabankaþjónustu hjá forvera stefnda og enn fremur í framhaldi af því að sjá til þess að gjaldfella kröfur sínar hjá stefnda ef því var að skipta. Það hefur hann ekki gert. Af því leiðir að aðalkrafa stefnanda á hendur stefnda um viðurkenningu á dráttarvöxtum telst ekki á rökum reist.                 Stefnandi reisir varakröfu um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að stefndi hafi hvorki upplýst hann um tilvist né innstæðu bankareikningsins. Stefnandi tekur fram að umfang tjóns hans sé ekki til umfjöllunar samkvæmt varakröfunni, en einu gildi hvort það verði bætt með greiðslu dráttarvaxta, annarra vaxta eða annarra skaðabóta.                 Sem fyrr greinir sagði stefnandi upp samningi sínum um einkabankaþjónustu áður en yfirfærslan til stefnda fór fram 15. október 2009 og í framhaldi af því bar honum sem fjárfesti að fylgjast með því að eignir hans skiluðu sér. Er það því niðurstaða dómsins eins og atvikum er hér háttað að ekki hafi verið sýnt fram á að stefndi beri ábyrgð á því fjártjóni sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir samkvæmt varakröfu sinni. Ber því einnig að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda.                  Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri máls þessa.                 Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.                                                                                                                        DÓMSORÐ: Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Bedula Ltd., í máli þessu.                 Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Mál nr. 249/2017
Samkeppni Skaðabætur Matsgerð Sératkvæði
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 355/2012 var úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá árinu 2010 staðfestur um að L hf. hefði á tilteknu tímabili brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 með því að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem beinst hefðu gegn A ehf. Voru aðallega um að ræða aðgerðir sem fólu í sér óeðlilegan þrýsting til að hindra innkomu A ehf. á lyfsölumarkaðinn á Akranesi með útgáfu vildarkorta og svonefnda baráttuafslátta. A ehf. höfðaði mál gegn L hf. og krafðist skaðabóta vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir af völdum aðgerðanna. Í málinu lá fyrir undirmatsgerð með þeirri niðurstöðu að A ehf. hefði orðið fyrir tilteknu tjóni, sem grundvallaði stefnufjárhæð A ehf., en með yfirmatsgerð var ályktað að A ehf. hefði ekki orðið fyrir beinu tapi vegna hinna ólögmætu samkeppnishindrana L hf. Hæstiréttur vísaði til þess að gerólíkar forsendur hefðu verið lagðar til grundvallar niðurstöðum matsgerðanna. Í yfirmati hefði fyrst og fremst verið horft til rekstraráætlunar A ehf., en í undirmati hefði verið styðst við samanburðaraðferðir. Í dómi Hæstaréttar sagði að hafa yrði í huga að tjón gæti hlotist af ólögmætum samkeppnishindrandi aðgerðum þótt rekstur þess sem brotið væri gegn hefði verið í samræmi við fyrirliggjandi rekstraráætlun. Þótti grunnforsenda yfirmatsgerðar því haldin slíkum annmarka að á henni yrði ekki byggt um áhrif hinna svokölluðu baráttuafslátta, en matsgerðin hefði að öðru leyti fjallað með rökstuddum og efnislegum hætti um áhrif vildarklúbbs L hf. án tengsla við rekstraráætlun A ehf. og út frá sömu forsendum og undirmatsmenn. Samkvæmt framansögðu var niðurstaða undirmatsgerðar um að A ehf. hefði orðið fyrir tjóni sem rekja mætti til baráttuafslátta L hf. lögð til grundvallar, en fallist á með L hf. og yfirmati að A ehf. hefði ekki sannað að hann hefði orðið fyrir tjóni af völdum vildarklúbbsins. Þar sem ekki lágu fyrir skýr gögn um tímalengd áhrifa aðgerða L hf. gegn A ehf. voru honum dæmdar bætur að álitum.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Aðalsteinn E. Jónasson landsréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. apríl 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 18.506.678 krónur, en til vara lægri fjárhæð, í báðum tilvikum með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2011 til 1. júní 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 16. júní 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I             Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi opnaði áfrýjandi lyfjaverslun á Akranesi 30. júní 2007. Fyrir var þar lyfjaverslun stefnda sem var sú eina sinnar tegundar í þeim bæ á árunum 2000 til 2007, en það ár mun stefndi hafa rekið 25 lyfjaverslanir og útibú undir merkjum Lyfja og heilsu og fjórar verslanir undir heitinu Apótekarinn. Síðla sumars 2007 sendi áfrýjandi Samkeppniseftirlitinu óformlega kvörtun um að stefndi beitti sértækum verðlagningaraðferðum með það að markmiði að hindra að áfrýjandi næði fótfestu á sama markaði. Í kjölfarið tók Samkeppniseftirlitið til athugunar háttsemi stefnda og fór meðal annars fram húsleit hjá honum 14. september 2007. Í ákvörðun 26. febrúar 2010 lagði eftirlitið á 130.000.000 króna sekt á stefnda vegna brota gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Fylgdi ákvörðuninni sá rökstuðningur að stefndi hefði verið í ráðandi stöðu fyrir smásölu lyfja á staðbundna markaðnum sem áfrýjandi hafi leitast innkomu á og sem slíkur gripið til aðgerða í aðdraganda þess að áfrýjandi hóf rekstur sinn og einnig síðar með það að markmiði að raska samkeppni á Akranesi. Aðgerðir þessar hafi einkum lýst sér í framboðnum vildarkortum stefnda með tryggðarhvetjandi afsláttarkerfi til viðskiptavina sinna og sérstökum öðrum afsláttum eftir að áfrýjandi kom á markaðinn. Stefndi kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem staðfesti niðurstöðu eftirlitsins með úrskurði 11. júní 2010 um að stefndi hefði sem aðili með markaðsráðandi stöðu brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Var tiltekið að brot stefnda hefðu í fyrsta lagi falist í óeðlilegum þrýstingi til að hindra innkomu áfrýjanda á markaðinn, í öðru lagi tilboðum eftir tryggðarhvetjandi afsláttarkerfi með vildarkortum, bæði fyrir og eftir innkomu áfrýjanda á markaðinn, og loks með því að bjóða upp á framlegðarafslætti eftir það. Var sekt lækkuð í 100.000.000 krónur.             Stefndi skaut málinu til Héraðsdóms Reykjavíkur meðal annars með kröfum á hendur Samkeppniseftirlitinu um ógildingu á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála og til lækkunar á sektarfjárhæð. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. febrúar 2012 var Samkeppniseftirlitið sýknað af þessum kröfum stefnda og með dómi Hæstaréttar 14. mars 2013 í máli nr. 355/2012 var héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans. II Að beiðni áfrýjanda voru dómkvaddir tveir sérfróðir menn 3. febrúar 2012 til að svara eftirfarandi spurningum: 1. Hvort þær samkeppnishindrandi aðgerðir sem stefndi greip til við og fyrir opnun lyfjaverslunar áfrýjanda í júní 2007 hefðu dregið úr sölu áfrýjanda og hvað ætla mætti að sú lækkun hefði numið hárri fjárhæð og skert hagnað hans um háa upphæð. 2. Hvort aðgerðir stefnda við og fyrir opnun þessa hefðu valdið lækkun á álagningu áfrýjanda á árunum 2007 og 2008 og hvað ætla mætti að sú lækkun hefði numið hárri fjárhæð. 3. Hvort aðgerðir stefnda við og fyrir opnun þessa hefðu minnkað framlegð áfrýjanda á árunum 2007 og 2008 og þá um hve háa fjárhæð í heild sundurliðað eftir árum. 4. Hvort aðgerðir þessar hefðu aukið rekstrarkostnað áfrýjanda. 5. Hvað ætla mætti að beint tap áfrýjanda hefði verið vegna lægra verðs og færri viðskiptavina vegna samkeppnishindrana stefnda á árunum 2007 og 2008. 6. Hversu miklum áhrifum á lántöku- og vaxtakostnað aðgerðirnar hefðu valdið áfrýjanda. Í matsgerð 28. apríl 2014 sagði að fyrstu þrjár spurningarnar væru eðlislíkar og með svörum við fyrstu tveimur spurningunum fengjust jafnframt svör við hinni þriðju þar sem bæði söluminnkun og lækkun álagningar hefðu bein áhrif á framlegðina sem að jafnaði væri skilgreind sem andvirði seldrar vöru að frádregnum breytilegum kostnaði. Hafi breytilegur kostnaður hækkað vegna aðgerða stefnda ætti svarið við því að koma fram í svari við fjórðu spurningunni sökum þess að óskað væri eftir upplýsingum á áhrifum aðgerða stefnda á rekstrarkostnað. Í fimmtu spurningu væri reyndar talað um beint tap áfrýjanda sem túlka mætti á þann veg að verslun áfrýjanda hafi verið rekin með tapi, sem verið hafi raunin á árinu 2007. Í ljósi þess að tap væri neikvæður hagnaður fengist svar við fimmtu spurningu einnig með svörum við fyrstu tveimur spurningunum. Í matsgerðinni kom fram að einkum hafi verið litið til upplýsinga um afgreiðslu málsaðila á lyfseðilsskyldum lyfjum á árunum 2007 og 2008, málsgagna Samkeppniseftirlitsins við rannsókn þess á stefnda og upplýsinga frá Sjúkratryggingum Íslands um álagningu apóteka á Akranesi. Þá könnuðu matsmenn veitta afslætti hjá tilteknum apótekum í Reykjavík og á Vesturlandi. Að virtu þessu var það niðurstaða þeirra að afslættir umfram 10% hefðu haft í för með sér tjón fyrir áfrýjanda. Í skriflegu svari stefnda við ítrekuðum fyrirspurnum matsmanna um gögn varðandi svokallaðan vildarklúbb hans sagði að gögn þar að lútandi væru ekki lengur til staðar þar sem þeim hefði verið fargað sökum tíðra flutninga á starfsemi yfirstjórnar hans í ný húsnæði. Nýttu matsmenn þess í stað ýmis frumgögn Samkeppniseftirlitsins þar um, en meðal annars vegna þessa skorts á gögnum féll áfrýjandi við meðferð matsmálsins frá fjórðu og sjöttu spurningu. Í matsgerðinni sagði að þeir tveir þættir sem líta ætti til samkvæmt niðurstöðum samkeppnisyfirvalda og dómstóla í máli þessu væru annars vegar stofnun vildarklúbbs stefnda og hins vegar svonefndir baráttuafslættir hans. Stefndi hefði byrjað að beita afsláttum þessum 3. júlí 2007 en vildarklúbburinn hefði verið stofnaður fyrr. Hefðu þessi atriði getað haft áhrif lengur en til 14. september 2007, þegar húsleit Samkeppniseftirlitsins hjá stefnda fór fram, jafnvel þótt stefndi hefði hætt atferli sínu þá. Áfrýjandi hefði ekki verið í aðstöðu til að vita nákvæmlega um aðgerðir stefnda, samkeppni milli þeirra hefði verið grimm og áfrýjanda „staðið viss ógn“ af stefnda allt þar til rannsókn Samkeppniseftirlitsins lauk í febrúar 2010. Töldu matsmenn því ekki óeðlilegt að líta allt til loka árs 2008 við mat á tjóni. Á hinn bóginn vísuðu þeir til þess að samkvæmt sölugögnum lyfja frá báðum málsaðilum hefði áfrýjandi verið með yfir ¾ hlutdeild í sölu lyfja á Akranesi frá húsleit Samkeppniseftirlitsins 14. september 2007 til loka þess árs. Töldu matsmenn að nýtt fyrirtæki gæti vart reiknað með því að það tæki skemmri tíma að ná til sín meirihluta markaðar þegar annað sams konar fyrirtæki væri þar fyrir. Væri því ekki forsenda til að meta skaða vegna minnkunar selds magns vegna hinna sérstöku afslátta stefnda. Áfrýjandi hefði sjálfur veitt mikla afslætti, þannig að hann hefði haldið hlut sínum í seldu magni gagnvart stefnda. Hefði skaði áfrýjanda því birst í afsláttunum sem hann hefði þurft að veita. Það tjón hefði verið reiknað til svars við fyrstu og annarri matsspurningu. Var það niðurstaða matsmanna að tjón áfrýjanda vegna þessa frá 30. júní til 14. september 2007 hefði numið 2.007.179 krónum, en 2.728.160 krónum frá þeim degi til ársloka. Þá hefði samsvarandi tjón vegna ársins 2008 numið alls 9.749.752 krónum. Um vildarklúbb var vísað til þess að ágreiningur hefði verið milli stefnda og Samkeppniseftirlitsins hvort samningar stefnda um vildarkort til viðskiptavina sinna hefðu í raun haft áhrif á viðskiptavinina. Hefðu dómstólar talið vildarkortin tryggðarhvetjandi þótt ekki hefði verið tekin afstaða til árangurs stefnda vegna þeirra. Vísuðu matsmenn til þess að eftir ítrekaðar fyrirspurnir til stefnda um gögn þar um hefði loks fengist það svar að upplýsingar um vildarklúbbinn væru ekki lengur til staðar og því hefðu þeir í ríkari mæli litið til annarra tilgreindra gagna meðal annars úr rannsókn samkeppnisyfirvalda til mats á áhrifum vildarklúbbsins á afkomu áfrýjanda. Hefðu þeir í fyrsta lagi horft til umfangs viðskipta stefnda við aðila í vildarklúbbnum, í öðru lagi hversu lengi þeir hefðu haldið tryggð við klúbbinn, í þriðja lagi hversu hratt viðskiptavinir færðust almennt frá stefnda yfir til áfrýjanda og loks í fjórða lagi mats á fjárhagslegum áhrifum á áfrýjanda vegna tryggðar viðskiptavina við vildarklúbbinn. Í matsgerð voru gögn þvínæst ítarlega rakin og skýrð í þessu tilliti með þeirri niðurstöðu að tjón áfrýjanda vegna vildarklúbbs stefnda hefði frá júlí til ársloka 2007 numið 1.123.315 krónum, en 775.053 krónum árið 2008. Samandregin voru svör matsmanna við matsspurningum þau að vegna vildarklúbbs stefnda hefði söluminnkun áfrýjanda numið 1.898.368 krónum og sérstakir afslættir stefnda hefðu valdið lækkun á álagningu áfrýjanda á árunum 2007 og 2008 sem næmi 16.607.710 krónum. Grundvallast stefnufjárhæð málsins á þessum tveimur tölum. Þá tiltóku matsmenn sem svar við þriðju og fimmtu spurningu að samkeppnishindrandi aðgerðir stefnda hefðu minnkað framlegð áfrýjanda um 6.616.308 krónur á árinu 2007, en 11.889.770 krónur á árinu 2008, eða samtals 18.506.078 krónur. Í skýrslugjöf fyrir dómi skýrðu undirmatsmenn frekar þá athugun hjá öðrum lyfsölum sem þeir vísuðu til að þeir hefðu framkvæmt við mat sitt. Viðurkenndu þeir að sökum sérstöðu markaða á Íslandi hefði verið örðugt að fá réttan samanburð, en á hinn bóginn lægju einnig fyrir margvíslegar upplýsingar hjá Sjúkratryggingum Íslands og Tryggingastofnun um lyfjaverð. III Að beiðni stefnda fór fram yfirmat þriggja sérfróðra manna vegna sömu fjögurra spurninga og svarað hafði verið með undirmati. Í forsendum yfirmatsgerðar 15. september 2015 var tiltekið í upphafi að matsmenn hefðu byggt aðferðir sínar við mat á tjóni á leiðbeiningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 11. júní 2013. Væri aðferðum þeim sem beita mætti skipt í tvo meginflokka. Í fyrri flokknum væru samanburðaraðferðir sem byggðu á því að bera saman aðstæður á þeim markaði og tímabili sem um ræðir við aðstæður þar sem ekki væri um samkeppnisbrot að ræða. Bera mætti saman aðstæður á sama markaði á mismunandi tímabilum eða við annan markað á sama tímabili. Í hinum flokknum, sem bæri heitið „aðrar aðferðir“, væri fjallað um hermilíkön, aðferðir við mat á kostnaði og aðferðir sem byggðu á greiningu á fjárhag og rekstri brotaþola. Þá væru „einnig nefndar aðrar aðferðir sem ekki er sérstaklega fjallað um í leiðbeiningunum en geta engu að síður verið gagnlegar að mati framkvæmdastjórnarinnar. Þar er sérstaklega talað um „praktískar“ og einfaldar aðferðir, svo sem að byggja á rekstaráætlun brotaþola.“ Yfirmatsmenn tóku fram að undirmatsgerð væri ítarleg og greinargóð með rækilegri greiningu á afsláttum sem stefndi veitti á árunum 2007 og 2008 sem og hugsanlegum áhrifum vildarklúbbs stefnda. Þá var vísað til þess að undirmatsmenn hefðu borið saman afslætti á tilteknu tímabili við afslætti sem almennt væru veittir á sambærilegum mörkuðum samkvæmt þeirra athugunum. Hefðu undirmatsmenn miðað við að allir afslættir umfram það sem þeir hefðu talið eðlilega væru afleiðing af samkeppnisbrotum stefnda og því tapaðar tekjur sem marki tjón áfrýjanda. Aðferð undirmatsmanna varðandi afslætti mætti flokka sem samanburðaraðferð þar sem afslættir á lyfsölumarkaðnum á Akranesi á árunum 2007 og 2008 væru bornir saman við afslætti á öðrum mörkuðum á Íslandi. Niðurstaða undirmats „hangir alfarið“ á því hvað gætu talist eðlilegir afslættir og að mat undirmatsmanna byggðist á „eigin reynslu af viðskiptalífinu og samtölum við apótekara sem ráku lyfjabúðir bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma.“ Þá hefði hvorki komið fram á hvaða mörkuðum þeir lyfsalar, sem undirmatsmenn hefðu átt samtöl við, störfuðu né hvort þeir markaðir gætu talist sambærilegir markaðnum á Akranesi á þessum árum. Viðeigandi markaður til samanburðar þyrfti að hafa svipuð einkenni og markaðurinn á Akranesi á þeim tíma sem um ræðir. Væri nærtækast að bera markaðinn saman við markað þar sem ekki hefðu komið upp samkeppnisbrot við það að nýr aðili hæfi rekstur þar sem fyrir væri einokun. Í yfirmatsgerð kom fram að ekki væru forsendur til að ætla að brot stefnda hefðu hafist fyrr en 6. desember 2006 en ekkert væri í gögnum málsins er benti til þess að innkoma áfrýjanda á markaðinn hefði seinkað vegna aðgerða stefnda. Þá var vísað til úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að húsleitin 14. september 2007 hefði haft veruleg áhrif á framvindu mála og væri ljóst að stefndi hefði dregið verulega úr aðgerðum sínum eftir hana og einnig mætti ætla að hún hefði orðið til þess að vekja samúð viðskiptavina með veikari aðilanum. Lægra framlegðarhlutfall á markaðnum eftir innkomu áfrýjanda mætti útskýra á einfaldari hátt en með vísan til samkeppnisbrota stefnda, það er með aukinni samkeppni og fyrirætlunum áfrýjanda að ná fljótt mikilli hlutdeild á markaðnum. Töldu yfirmatsmenn að þróun lyfsölumarkaðarins á Akranesi á árunum 2007 til 2012 hefði að mestu verið í takt við það sem ætla mætti þegar samkeppni á markaði breyttist. Aukin samkeppni þýddi lægra framlegðarhlutfall og við það væri hugsanlegt að veltan ykist vegna betri samkeppnisstöðu við aðra nálæga markaði. Þróun á árunum 2007 til 2009 mætti því hugsanlega skýra að stórum hluta eða að öllu leyti með aukinni samkeppni. Á árunum 2010 til 2012 hefði samkeppnin minnkað aftur og áfrýjandi aukið markaðshlutdeild sína áfram. Samhliða því hefði veltan minnkað og framlegðarhlutfallið hækkað. Þá kváðu yfirmatsmenn ekki forsendur að telja tjón hafa orðið vegna vildarklúbbs stefnda þar sem hlutfall þeirra sem færðu sig úr vildarklúbbinum hefði ekki verið stórkostlega frábrugðið tölum um heildarhlutfall áfrýjanda á lyfsölumarkaðnum á Akranesi seinni hluta árs 2007 og á árinu 2008. Í matsgerðinni sagði undir kaflanum „Val á aðferð við mat á tjóni“ að stefndi hefði verið í einokunarstöðu á umræddum markaði áður en áfrýjandi hóf starfsemi sína. Eftir að stefndi fór af markaði þaðan á árinu 2012 hefði áfrýjandi að sama skapi verið í einokunarstöðu. Væri því hvorki unnt að bera saman tímabil það sem um ræðir við tímabilið áður en áfrýjandi hóf starfsemi né eftir að stefndi hætti starfsemi sinni á Akranesi. Þá hefði samanburður við annan markað, sambærilegan lyfsölumarkaði á Akranesi á árunum 2007 til 2012, kallað á gagnaöflun sem matsmönnum þótti ekki ástæða til að fara í. Loks sagði: „Í ljósi þeirra hagsmuna sem undir eru í málinu töldu matsmenn rétt að beita fyrst umfangsminni aðferðum sem kölluðu ekki á mikla viðbótargagnaöflun og ráðast eingöngu í frekari gagnaöflun og greiningu ef tilefni væri til. Þetta er í samræmi við leiðbeiningar framkvæmdastjórnarinnar að umfang matsins taki mið af þeim hagsmunum sem undir eru ... Í gögnum málsins liggja fyrir ársreikningar [áfrýjanda] og rekstrarafkoma [stefnda] á Akranesi sem og rekstraráætlanir [áfrýjanda] áður en það hóf starfsemi. Því er unnt að beita án mikillar fyrirhafnar tveimur aðferðum sem nefndar eru í leiðbeiningunum, annars vegar greiningu á fjárhag og rekstri brotaþola ... og hins vegar að byggja á rekstraráætlunum brotaþola.“ Í kjölfarið var farið yfir samandregna rekstaráætlun áfrýjanda þar sem sett var fram áætlun um heildarstærð markaðarins og ætlaða hlutdeild áfrýjanda á markaðnum á fyrstu tveimur árum rekstrarins. Hefði markaðshlutdeild áfrýjanda orðið vel umfram áætlanir hans, jafnframt því sem rekstrarkostnaður hans hefði reynst minni en gert hefði verið ráð fyrir. Hið eina sem reynst hefði lakara hefði verið framlegðarhlutfall áranna 2008 og 2009, eða 21% í stað 22,6%. Framlegð í krónum talið hefði þó ætíð verið hærri en áætlanir hefðu gert ráð fyrir. Í svari yfirmatsmanna við fyrstu matsspurningu sagði að árleg sala áfrýjanda fram til ársins 2012 hefði reynst meiri en áætlanir hans hefðu gert ráð fyrir og á þeim tíma hefði mikil söluaukning orðið á lyfsölumarkaðnum á Akranesi. Væru engin óyggjandi merki um að aðgerðir stefnda hefðu dregið úr sölu áfrýjanda. Var annarri og þriðju matsspurningu einnig svarað með vísan til rekstaráætlana áfrýjanda þannig að ekki væru óyggjandi merki um að aðgerðir stefnda hefðu dregið úr framlegð áfrýjanda. Í svari við síðustu matsspurningu var á sama hátt vísað til þess að markaðshlutdeild áfrýjanda hefði þegar frá opnun orðið meiri en hann hefði gert ráð fyrir og jafnframt tiltekið að af þeim viðskiptahópi stefnda sem hefði skráð sig í vildarklúbb hans hefðu einungis 101, eða um 29% verið í viðskiptum nægilega lengi, eða 12 mánuði, til að fá þann kaupbæti sem í boði var handa meðlimum. Þá sagði: „Ekki er því ástæða til að ætla að vildarklúbbur ... hafi dregið sérstaklega úr fjölda viðskiptavina“ áfrýjanda. Því væri ekki unnt að fullyrða að áfrýjandi hefði orðið fyrir „beinu tapi vegna samkeppnishindrana“ stefnda. Við skýrslugjöf í héraði lýsti einn yfirmatsmanna því að samkvæmt framangreindum leiðbeiningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins væri yfirleitt miðað við að beita skyldi svokallaðri samanburðaraðferð og reynt að finna sambærilegan markað þar sem ekki hefðu verið til staðar samkeppnisbrot. Á hinn bóginn hefði komið í ljós strax við skoðun á fjárhagsupplýsingum og samanburð við rekstraráætlun áfrýjanda að ekki hefði verið unnt að segja „að þessar aðgerðir hefðu haft einhver neikvæð áhrif á apótekið. Þannig að í rauninni lauk skoðuninni þar og við sáum ekki að við gætum eitthvað farið að bera þetta saman við aðra markaði eða slíkt því að það voru engin, hlutdeild apóteksins var miklu meiri heldur en gert var ráð fyrir, framlegðin var á svipuðum nótum í prósentum. Í krónutölum meiri, markaðurinn varð stærri við þessar aðstæður, við sáum ekki að það væri hægt að segja að apótekið hafi orðið fyrir tjóni, alla vega ekki þannig að það væri hægt að leggja mat á það með þessum aðferðum sem yfirleitt eru lagðar til grundvallar. Þetta er svona samantekt á aðferðum sem við beittum og niðurstöðum.“ Annar yfirmatsmanna bar í þessu sambandi fyrir dómi að yfirmatsmenn hefðu hvorki haft undirmatsgerð til hliðsjónar í störfum sínum né aflað upplýsinga frá undirmatsmönnum heldur hefðu rekstraráætlanir áfrýjanda verið viðmiðið um tjón og gengið hefði verið út frá að þær væru vel unnar. Þriðji yfirmatsmanna staðfesti einnig að yfirmatsmenn hefðu ekki borið saman framlegð áfrýjanda miðað við framlegð annarra lyfsala með sams konar eða svipað viðskiptamódel. Nánar um aðferðarfræði við mat á rekstraráætlunum áfrýjanda sagði hann: „Nú auðvitað þekki ég kannski ekki nákvæmlega hvaða forsendur eða hvernig áætlanirnar voru unnar sem slíkar en þær voru lagðar fram af eða unnar af Apóteki Vesturlands og ég geri ráð fyrir því að apótekarinn, hann þekki auðvitað mjög vel til markaðarins og þessa reksturs, þannig að við höfum ekki ástæðu til þess að ætla annað en að þetta væru vel unnar áætlanir.“ IV Með framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 355/2012 var því slegið föstu að brot stefnda gegn 11. gr. samkeppnislaga voru alvarleg og fólust í þeim aðgerðum sem að framan er lýst og komu til skoðunar við framkvæmd mats. Höfðu þær það að markmiði annars vegar að hindra með markvissum hætti að áfrýjandi næði fótfestu á markaði og hins vegar beinlínis að bola honum burt af markaðnum. Var það skýr afstaða samkeppnisyfirvalda sem staðfest var með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar að aðgerðir stefnda ógnuðu rekstrargrundvelli áfrýjanda. Eins og fyrr hefur verið rakið voru gerólíkar forsendur lagðar til grundvallar niðurstöðum matsgerða. Í yfirmati er fyrst og fremst horft til rekstraráætlunar áfrýjanda við mat á því hvort hann kunni að hafa orðið fyrir tjóni vegna hinna ólögmætu samkeppnishindrana stefnda. Engin sjáanleg tilraun er þar gerð til að svara því hver áhrif þeirra aðgerða voru á rekstur áfrýjanda óháð þeirri áætlun. Verður þannig hvorki séð að í yfirmati hafi verið gerður samanburður á forsendum rekstraráætlunar áfrýjanda við gögn um samanburðarmarkaði né að greiningar hafi verið gerðar eða réttmæti þeirra kannað. Er ekkert að því vikið hvort og þá hvaða áhrif það hefði haft á rekstur áfrýjanda að hann hefði ekki þurft að grípa til varnaraðgerða til að mæta hinum svokölluðu baráttuafsláttum stefnda. Til samanburðar er á hinn bóginn ítarlega um þetta fjallað í undirmati. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að tjón getur hlotist af ólögmætum samkeppnishindrandi aðgerðum þótt rekstur þess sem brotið er gegn hafi verið í samræmi við fyrirliggjandi rekstraráætlun. Tjónið væri við slíkar aðstæður fólgið í því að brotaþoli hefði getað náð enn betri rekstrarárangri en raun bar vitni. Sé hægt að sanna slíkt tjón á tjónþoli rétt á að fá það bætt, enda fæli önnur niðurstaða í sér að tjónvaldur væri að hagnast á tjónsatburði. Samkvæmt framangreindu þykir grunnforsenda yfirmatsgerðar haldin slíkum annmarka að á henni verður ekki byggt um áhrif hinna svokölluðu baráttuafslátta stefnda. Í málinu liggja ekki fyrir önnur gögn en undirmatsgerð, um hvaða áhrif þessir afslættir höfðu á rekstur áfrýjanda. Ljóst er af gögnum máls að áfrýjandi þurfti að grípa til varnaraðgerða með því að veita afslætti sem voru umtalsvert umfram þá sem almennt eru veittir á sambærilegum mörkuðum sem undirmatsmenn gerðu nánar grein fyrir í skýrslutöku fyrir héraðsdómi. Er samkvæmt öllu framanrituðu nægilega sannað að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni af völdum samkeppnisbrota stefnda. Í undirmatsgerð er lagt til grundvallar að afsláttur í eðlilegu samkeppnisumhverfi sé 5-10% af hlutdeild sjúklings við kaup á lyfseðilsskyldum lyfjum og er áætlað tjón áfrýjanda metið út frá afsláttum sem voru umfram 10%. Af hálfu stefnda hafa á hinn bóginn ekki verið lögð fram gögn sem renna stoðum undir að þessi viðmiðun fái ekki staðist og verður hann látinn bera hallann af sönnunarskorti um það. Samkvæmt undirmatsgerð nam tjón áfrýjanda vegna svonefndra baráttuafslátta 2.007.179 krónum fyrir tímabilið 30. júní 2007 til 14. september sama ár þegar húsleit var gerð hjá stefnda. Áætlað tjón frá þeim tíma til loka þess árs nam 2.728.160 krónum, eða samtals 4.735.339 krónum vegna sölu lyfseðilsskyldra lyfja. Í málinu liggja ekki fyrir skýr gögn um tímalengd áhrifa hinna ólögmætu samkeppnishindrandi aðgerða. Þannig er ekki ljóst hvort áhrifa þeirra hafi alfarið hætt að gæta er húsleit fór fram hjá stefnda eða síðar. Í undirmatsgerð er lagt til grundvallar að gera verði ráð fyrir að áhrif þeirra hafi varað lengur en til 14. september 2007 þar sem áfrýjandi hafi ekki haft forsendur til að ætla að stefndi hefði þá þegar hætt aðgerðum sínum. Í yfirmatsgerð er á hinn bóginn lagt til grundvallar að áhrifin hafi ekki getað varað lengur en til þess dags. Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála kemur fram að stefndi hafi „verulega dregið úr aðgerðum sínum gagnvart [áfrýjanda] eftir“ húsleitina. Þótt lagt sé til grundvallar að verulega hafi dregið úr samkeppnishindrandi aðgerðum stefnda 14. september 2007 verður ekki framhjá því litið að stefndi mótmælti strax í upphafi að hafa gerst brotlegur við samkeppnislög sem gaf áfrýjanda tilefni til að ætla að áhrifanna hafi ekki hætt að gæta þegar á því tímamarki. Í undirmatsgerð er loks sett fram nokkuð ítarleg greining á áhrifum svonefnds vildarklúbbs stefnda og komist að þeirri niðurstöðu að tilvist hans hafi valdið fækkun viðskiptavina áfrýjanda sem hafi aftur valdið honum tjóni að fjárhæð 1.123.315 krónur vegna ársins 2007. Í yfirmatsgerð er á hinn bóginn komist að þeirri niðurstöðu að hlutfall vildarklúbbsmeðlima sem færðu viðskipti sín frá stefnda til áfrýjanda hafi ekki verið stórkostlega frábrugðið hlutfalli annarra viðskiptamanna stefndu sem gerðu slíkt hið sama. Er þá til þess að líta að yfirmatsmenn fjalla með rökstuddum og efnislegum hætti um áhrif vildarklúbbsins án tengsla við rekstraráætlun áfrýjanda, út frá sömu forsendum og undirmatsmenn. Samkvæmt því verður niðurstaða yfirmats um að áfrýjandi hafi ekki sannað að hafa orðið fyrir tjóni sem rekja megi til vildarklúbbsins lögð til grundvallar. Að því virtu sem nú hefur verið rakið er ljóst að áhrifa aðgerða stefnda vörðu lengur en gert var ráð fyrir í yfirmatsgerð þótt ekki liggi fyrir með ótvíræðum hætti hversu lengi. Verður í því ljósi að dæma áfrýjanda bætur að álitum sem með hliðsjón af undirmatsgerð þykja hæfilega ákveðnar 4.500.000 krónur. Með vísan til 2. töluliðar 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, verður ekki fallist á með stefnda að krafa áfrýjanda sé fyrnd. Þá eru atvik heldur ekki með þeim hætti að krafa áfrýjanda sé fallin niður fyrir tómlæti. Samkvæmt öllu framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 4.500.000 krónur í skaðabætur með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Verður við ákvörðun hans litið til þess að áfrýjanda var nauðsyn á að afla sér mats til sönnunar um tjón sitt. Dómsorð: Stefndi, Lyf og heilsa hf., greiði áfrýjanda, Apóteki Vesturlands ehf., 4.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2011 til 1. júní 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6 gr. sömu laga frá 16. júní 2014 til greiðsludags. Stefndi greiði áfrýjanda samtals 8.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.   Sératkvæði Þorgeirs Örlygssonar og Viðars Más Matthíassonar Áfrýjandi hefur að okkar mati ekki fært sönnur að því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna samkeppnisbrota stefnda. Við teljum því rétt að staðfesta hinn áfrýjaða dóm, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, með vísan til forsendna hans. Til samræmis við framangreint teljum við að dæma hefði átt áfrýjanda til þess að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2017. I Mál þetta, sem var höfðað með stefnu birtri 11. desember 2014, var dómtekið 28. nóvember 2016. Stefnandi er Apótek Vesturlands ehf., Smiðjuvöllum 32, Akranesi. Stefndi er Lyf og heilsa hf., Síðumúla 20, Reykjavík. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi: Aðallega: Að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 18.506.678 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2011 til 1. júní 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 5. gr., sbr. 9. gr., laganna frá þeim degi til greiðsludags og leggist dráttarvextir við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 1. júní 2015, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001. Til vara: Að stefndi verði dæmdur til að greiða aðra og lægri fjárhæð að mati dómsins auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2011 til 1. júní 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 5. gr., sbr. 9. gr., laganna frá þeim degi til greiðsludags og leggist dráttarvextir við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 1. júní 2015, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda. Í greinargerð stefnda var þess krafist að málinu yrði vísað frá dómi en fallið var frá frávísunarkröfunni undir rekstri málsins fyrir dóminum. II Forsaga málsins er sú að stefnandi opnaði lyfjaverslun á Akranesi 30. júní 2007. Fyrir var þar rekin lyfjaverslun stefnda sem var sú eina sinnar tegundar sem var starfandi á Akranesi á árunum 2000 til 2007. Stefndi rak á árinu 2007 25 lyfjaverslanir og útibú undir merkjum Lyfja og heilsu og fjórar verslanir undir nafninu Apótekarinn. Eftir opnun lyfjaverslunar stefnanda á Akranesi brást stefndi við með því að bjóða viðskiptavinum upp á afslætti sem einvörðungu stóðu til boða í verslun stefnda á Akranesi ekki í öðrum verslunum í lyfjakeðju stefnda. Síðla sumars 2007 barst Samkeppniseftirlitinu óformleg kvörtun frá stefnanda þess efnis að stefndi beitti sértækum verðlagningaraðferðum í lyfjaverslun stefnda á Akranesi, með það að markmiði að hindra að stefnandi næði fótfestu á sama markaði. Í kvörtuninni var bent á að umræddar aðgerðir kynnu að fara gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Samkeppniseftirlitið tók í kjölfarið til skoðunar, hvort stefndi hefði með aðgerðum gegn keppinautum farið gegn ákvæðum samkeppnislaga og framkvæmdi húsleit hjá stefnda 14. september 2007. Með ákvörðun, sem birt var stefnda 26. febrúar 2010, komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að stefndi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og lagði 130.000.000 króna sekt á stefnda. Rökstuðningur að baki ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var í stuttu máli sá að stefndi hefði verið í markaðsráðandi stöðu á staðbundna markaðinum fyrir smásölu lyfja, sem stefnandi leitaðist við að eiga innkomu á. Ennfremur að stefndi hafi gripið til aðgerða, sem hafi haft það að markmiði að raska samkeppni á Akranesi. Framboðin vildarkort til viðskiptavina og afslættir, sem stefndi hefði boðið viðskiptavinum í aðdraganda þess að stefnandi hóf rekstur og í kjölfar þess, hefðu verið liður í því. Um tryggðarhvetjandi aðgerðir hefði verið að ræða sem hefðu falið í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Þá var því hafnað að aðgerðir stefnda mætti réttlæta sem eðlileg viðbrögð við aukinni samkeppni á þeim markaði sem skilgreindur var í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Stefndi kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Með úrskurði, uppkveðnum 11. júní 2010, staðfesti áfrýjunarnefndin að stefndi, sem hafi á umræddum tíma verið í markaðsráðandi stöðu, hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 með þrenns konar háttsemi, í fyrsta lagi með því að hafa beitt óeðlilegum þrýstingi til þess að hindra innkomu stefnanda inn á þann markað, í öðru lagi með því að bjóða upp á tryggðarhvetjandi afsláttarkerfi, þ.e. með framboði á vildarkortum og í þriðja lagi með því að bjóða upp á framlegðarafslætti eftir innkomu stefnanda á markaðinn. Samkvæmt því staðfesti áfrýjunarnefnd samkeppnismála þá ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að stefndi hefði með aðgerðum sínum brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Sektin var hins vegar lækkuð í 100.000.000 króna. Stefndi skaut málinu til dómstóla og krafðist þess m.a. að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála yrði felldur úr gildi. Með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 14. mars 2013, í máli réttarins nr. 355/2012 var með vísan til forsendna staðfest sú niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur, að sýkna Samkeppniseftirlitið af kröfugerð stefnda. Stefnandi telur sig hafa orðið fyrir tjóni sem samsvari hið minnsta kröfugerð í máli þessu, vegna þeirrar háttsemi sem stefndi viðhafði vegna innkomu stefnanda á smásölumarkaði fyrir lyf á Akranesi og var talin brjóta í bága við 11. gr. samkeppnislaga. Árið 2012 hætti stefndi rekstri lyfjaverslunar á Akranesi, sem hann hafði rekið frá árinu 2000, fyrst undir nafni Lyfja og heilsu en frá árinu 2010 undir nafninu Apótekarinn. Með matsbeiðni 23. nóvember 2011 óskaði stefnandi eftir því að „dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir matsmenn sérfróðir um fyrirtækjarekstur, verðlagningu lyfjaverslana, samkeppni á markaði og áhrif samkeppnishindrana, [til] að skoða og meta hvað tjón [stefnanda] varð mikið vegna ólögmætra aðgerða [stefnda] sem hafi falist í broti á 11. gr. samkeppnislaga, til að koma í veg fyrir að [stefnandi] gæti rekið fyrirtæki sitt [...] á Akranesi með eðlilegum hætti á þeim viðskiptaforsendum sem stofnendur og eigendur fyrirtækisins byggðu á.“ Hinn 3. febrúar 2012 voru Brynjólfur Sigurðsson prófessor og Jóhann Viðar Ívarsson rekstrarhagfræðingur dómkvaddir til að framkvæma umbeðið mat. Matsgerð þeirra lá fyrir 28. apríl 2014. Niðurstaða matsins var í fyrsta lagi sú, að dregið hefði úr sölu stefnanda og að hagnaður hans hefði dregist saman um 1.898.368 krónur á árunum 2007 til 2009. Í öðru lagi hefði lækkun á álagningu stefnanda numið 16.607.710 krónum vegna svonefndra baráttuafslátta á sama tímabili og loks hefði háttsemi stefnda orðið þess valdandi að framlegð stefnanda hefði minnkað samtals um 18.506.078 krónur á árunum 2007 og 2008. Lögmaður stefnanda sendi stefnda kröfubréf hinn 16. maí 2014 sem byggði á matsgerð dómkvaddra matsmanna. Lögmaður stefnda hafnaði bótaskyldu stefnda með bréfi, dagsettu 12. júní 2014, með vísan til þess að ætlað tjón stefnanda væri ósannað. Sættir tókust ekki og var mál þetta höfðað með stefnu birtri 11. desember 2014. Undir rekstri málsins óskaði stefndi dómkvaðningar þriggja yfirmatsmanna til að endurmeta atriði sem metin voru í matsgerð 28. apríl 2014. Í þinghaldi 6. maí 2015 voru Hersir Sigurgeirsson, lektor í fjármálum, Jóhanna Waagfjörð viðskiptafræðingur og Lárus Finnbogason endurskoðandi dómkvödd til að framkvæma yfirmat samkvæmt yfirmatsbeiðni stefnda. Yfirmatsgerð þeirra lá fyrir 15. september 2015 og var lögð fram í þinghaldi 23. september 2015. Helstu niðurstöður yfirmatsgerðarinnar voru þær að vildarklúbbur stefnda hefði haft lítil sem engin áhrif á færslu viðskiptamanna frá stefnda til stefnanda. Þá hefðu baráttuafslættir ekki haft í för með sér tjón fyrir stefnanda og loks væri ekki unnt að færa óyggjandi rök fyrir því að samkeppnisbrot stefnda hefði valdið stefnanda tjóni. Var talið að stefnandi kynni jafnvel að hafa hagnast á aðgerðum stefnda og afleiðingum þeirra. Ágreiningur máls þessa lýstur að því, hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem rekja megi til þeirra háttsemi stefnda sem lýst er í stefnu. Af hálfu stefnda er þeirri málsástæðu stefnanda hafnað en byggt á því m.a. að ekki séu sönnuð orsakatengsl á milli þeirrar háttsemi og ætlaðs tjóns stefnanda, auk þess sem stefndi heldur því fram, að stefnanda hafi ekki tekist að sanna umfang ætlaðs tjóns síns sem um er deilt í málinu. III Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi orðið fyrir umtalsverðu tjóni vegna samkeppnishindrandi aðgerða stefnda sem sannað sé að hafi átt sér stað. Um það vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 355/2012 og 116.gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnandi byggir bótakröfur sínar á því að tjón hans vegna ólögmætra samkeppnishindarana stefnda hafi hið minnsta numið þeirri fjárhæð sem krafa í stefnu kveði á um. Stefnandi vísar um það til niðurstöðu undirmatsgerðar dómkvaddra matsmanna sem er á meðal gagna málsins. Stefnandi byggir á því að með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2010, sem staðfest hafi verið bæði af kærustjórnvaldi og Hæstarétti Íslands, hafi verið staðfest að stefndi hafi beitt sér skipulega með samkeppnishamlandi aðgerðum gegn innkomu stefnanda á markað lyfjasölu á Akranesi og nágrenni og að þessi samkeppnisbrot stefnda hafi beinst gegn stefnanda og valdið stefnanda tjóni sem samsvari dómkröfum stefnanda í máli þessu. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi valdið sér því tjóni með því að grípa til samkeppnishindrandi aðgerða sem hafi m.a. farið í bága við 11. gr. samkeppnislaga. Aðgerðir stefnda hafi m.a. verið í því fólgnar að taka upp sérstakan baráttuafslátt fyrir viðskiptavini sína og koma á sérstökum vildarklúbbi, allt í því skyni að koma í veg fyrir að stefnandi gæti rekið lyfjaverslun á Akranesi og stofnað til samkeppni við stefnda. Með þessum samkeppnisbrotum, sem hafi verið staðfest m.a. með ákvörðun Samkeppniseftirlits, úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála og dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 355/2012, hafi stefndi með grófum og saknæmum hætti brotið gegn hagsmunum stefnanda og valdið honum því tjóni sem krafist sé bóta fyrir í máli þessu.  Stefnandi vísaði um alvarleika brotastarfsemi stefnda á tiltekin atriði úr framangreindum niðurstöðum stjórnvalda og dómstóla. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2010 hafi komið fram að stefndi hefði gripið til aðgerða sem hafi falið í sér skipulega atlögu gegn innkomu stefnanda á markaðinn. Hefðu þær aðgerðir beinlínis haft það að markmiði að raska samkeppni og falið í sér sértækar verðlækkanir og aðgerðir til að skapa tryggð mikilvægra viðskiptavina og koma í veg fyrir að þeir hæfu viðskipti við hinn nýja keppinaut á Akranesi. Aðgerðirnar hefðu falið í sér misbeitingu á þeim efnahagslega styrk sem stefndi hefði getað beitt á Akranesi og hafi því farið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Einnig hafi það verið mat Samkeppniseftirlitsins að þessar aðgerðir hefðu falið í sér misnotkun á sameiginlegri markaðsráðandi stöðu stefnda á höfuðborgarsvæðinu. Hafi aðgerðirnar verið til þess fallnar að senda skýr skilaboð til annarra aðila um að ekki myndi borga sig að reyna innkomu á a.m.k. þeim landfræðilega markaði. Jafnframt hefði þótt ljóst að brotin hafi verið umfangsmikil. Þannig hafi flestir mikilvægustu viðskiptavina stefnda átt aðild að vildarklúbbnum, auk þess sem baráttuafslættir hafi náð til mest seldu lyfja apóteksins. Það væri því ljóst að brot stefnda væru í eðli sínu alvarleg. Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 5/2010 hefði komið fram að ef tekið væri tillit til þess  rökstuðnings, sem fram komi í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um einstök atriði, væri það niðurstaða áfrýjunarnefndar að stefndi hefði verið í markaðsráðandi stöðu á hinum skilgreinda markaði og að hann hefði gripið til ólögmætra aðgerða sem hefðu haft það að markmiði að raska samkeppni. Með því hefði stefndi hafa brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Brot stefnda hefðu verið alvarleg og falist í því að hindra innkomu stefnanda á markaðinn fyrir smásölu lyfja á Akranesi, í því að gera samning um vildarkort við helstu viðskiptavini sína á Akranesi og í því að beita sértækum afsláttum, þ.e. baráttuafsláttum. Hafi  þessum aðgerðum verið beitt í þeim tilgangi að veikja nýjan keppinaut og raska samkeppni. Þær hafi verið til þess fallnar að viðhalda og styrkja stöðu stefnda með óeðlilegum hætti á umræddum markaði. Stefnandi vísar til þess, að í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. september 2012, sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti í máli 355/2012 með vísan til forsendna, hefði komið fram að ljóst þætt af gögnum málsins að tilgangur veittra afslátta hafi verið að mæta samkeppni við stefnanda enda hefðu afslættirnir raunar verið kallaðir „baráttuafslættir“ af hálfu stefnda. Vísað hafi verið til umfjöllunar í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála og þeirrar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins sem þar hefði verið vísað til, í tengslum við þá niðurstöðu að stefndi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga, enda hefðu önnur sjónarmið sem stefndi hefði fært fram ekki breytt þeirri niðurstöðu. Slíkur fullnaðardómur hafi fullt sönnunargildi um staðreyndir máls þessa, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Tjón stefnanda vegna þessara samkeppnisbrota stefnda hafi verið metið og sé höfuðstóll kröfugerðar í aðalkröfu máls þessa í samræmi við það. Stefnandi byggir á því að ríkar kröfur verði að gera til markaðsráðandi fyrirtækja á borð við stefnda um hlýðni við ákvæðum samkeppnislaga og að slík fyrirtæki leitist við að misbeita ekki markaðsráðandi stöðu sinni. Stefnandi telur að fyrir liggi að forsvarsmenn stefnda hafi lagt á ráðin um að hindra aðgengi stefnanda inn á markað lyfjasölu á Akranesi og að hindra þannig samkeppni. Beri stefndi skaðabótaábyrgð á þeirri bótaskyldu háttsemi á grundvelli meginreglna skaðabótaréttar. Stefndi hefði getað komist hjá því að valda stefnanda tjóni með því að fylgja samkeppnisreglum og leggja ekki beinlínis á ráðin um það hvernig stefndi gæti komið í veg fyrir samkeppni. Stefnandi byggir á því að orsakatengsl hafi verið á milli háttsemi stefnda og umkrafinna bóta. Stefndi verði að bera ábyrgð á afleiðingum þeirrar atburðarásar sem hafi farið af stað með hinni bótaskyldu háttsemi. Stefnda hafi mátt vera ljóst að misnotkun hans á markaðsráðandi stöðu, sem hafi miðað að því að hindra stefnanda í því að veita stefnda samkeppni, hafi fyrirsjáanlega verið til þess fallin að skaða rekstur stefnanda og valda honum tjóni. Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna brota stefnda á samkeppnislögum, m.a. 11. gr. samkeppnislaga, og stefndi hafi þannig valdið stefnanda því tjóni sem hér sé krafist bóta fyrir, af ásetningi með löglausum og saknæmum hætti. Fyrir liggi staðfesting dómkvaddra matsmanna á því að ólögmæt og saknæm háttsemi stefnda hafi valdið stefnanda því tjóni sem nemi umkrafinni fjárhæð í máli þessu. Stefnandi vísar að lokum til þess að þar sem stefndi hafi bæði hafnað að greiða kröfu stefnanda, sem byggi á undirmatsgerð, sem og að semja um lyktir málsins með öðrum hætti, hafi stefnandi ekki átt annan kost en að leitast við að fá aðfararhæfan dóm um kröfu sína.  Stefnandi byggir á meginreglum skaðabótaréttarins og kröfuréttarins. Stefnandi byggir á samkeppnislögum nr. 44/2005 einkum 11. gr. Um vaxtakröfur vísar stefnandi til 8., 9. og 12. gr. laga nr. 38/2001, vexti og verðtryggingu. Stefnandi vísar um málskostnaðarkröfu sína til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. IV Sýknukrafa stefnda byggir í fyrsta lagi á því að skilyrði skaðabótaskyldu séu ekki fyrir hendi. Ekki liggi fyrir að saknæm og ólögmæt háttsemi hafi leitt til tjóns stefnda eða að það tjón sé sennileg afleiðing slíkrar háttsemi. Ekki sé nægjanlegt fyrir stefnanda í einkamáli að vísa, til stuðnings kröfum sínum, alfarið til stjórnvaldsákvörðunar á öðru réttarsviði til sönnunar á skaðabótaskyldu. Niðurstaða stjórnvalda eða dómstóla um brot aðila gegn samkeppnislögum sé ekki nægjanleg sönnun þess að skaðabótaskyld háttsemi gagnvart þriðja aðila hafi átt sér stað. Eðli máls samkvæmt sé ekkert fjallað um skilyrði skaðabótaskyldu í úrlausnum stjórnvalda eða dómstóla vegna brota gegn samkeppnislögum og þaðan af síður um orsakatengsl og sennilega afleiðingu í skilningi skaðabótaréttar. Staðhæfing stefnanda um ætlaða saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda sé einvörðungu reist á úrlausnum samkeppnisyfirvalda, auk niðurstöðu dómstóla vegna sama máls. Í tilvitnuðum úrlausnum sé ætluðum brotum stefnda lýst með mjög almennum hætti. Þannig sé ekki tiltekið í hvaða tilvikum stefndi hafii beitt svonefndri sértækri verðlækkun. Þrátt fyrir það virðist dómkvaddir undirmatsmenn hafa lagt einstök tilvik til grundvallar niðurstöðum sínum og byggt þær m.a. á gögnum frá stefnanda. Þetta fái ekki staðist, mat á því hvort og hvenær verðlækkun teljist ólögmæt sértæk verðlækkun sé flókið og vandmeðfarið lögfræðilegt úrlausnarefni sem ekki sé á valdi dómkvaddra matsmanna að leggja mat á. Þar sem einstök tilvik séu ekki tilgreind í fyrirliggjandi úrlausnum, sé ósannað hvaða tilteknu aðgerðir stefnda eru talin ólögmæt af Samkeppniseftirlitinu. Af því leiði að ósannað sé í málinu að stefndi hafi viðhaft saknæma og ólögmæta háttsemi sem hafi valdið stefnanda tjóni. Séu skilyrði skaðabótaskyldu því ekki uppfyllt. Þá byggir stefndi á því að orsakatengsl milli ætlaðrar saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda og ætlaðs tjóns stefnanda séu ósönnuð. Nær enga umfjöllun sé að finna í undirmatsgerð um orsakatengsl milli þeirrar almennu lýsingar á háttsemi, sem komi fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, og ætlaðs tjóns stefnda. Þar sem engin frekari gögn liggi til stuðnings ætluðum orsakatengslum þar á milli, verði að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Sýknukrafa stefnda byggir á því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni og í öllu falli sé ætlað tjón ósannað. Stefndi bendir á að það sé langt því frá sjálfgefið að samkeppnisaðili fyrirtækis, sem brýtur gegn ákvæðum samkeppnislaga, verði fyrir tjóni, eins og stefnandi virðist gefa sér. Bæði sé langt því frá um tjón að ræða í öllum tilvikum og eins geti mögulegt tjón lent hjá öðrum aðilum en samkeppnisaðilum. Stefndi byggir á því að innkoma stefnanda á markaðinn hafi tekist vel og strax á fyrstu mánuðunum hafi markaðshlutdeild stefnda, sem áður hafi verið 100%, verið komin niður í 40% og árið 2008 í 30%. Markaðshlutdeild stefnda hafi nálgast 20% á árinu 2009 og á endanum hafi orðið ljóst að ekki væri grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri hans á Akranesi. Samhliða hafi markaðshlutdeild stefnanda aukist með samsvarandi hætti, enda hefðu stefnandi og stefndi verið einu aðilarnir á markaðnum. Stefndi telur að þessi þróun sýni ótvírætt fram á að hann hafi ekki valdið stefnanda tjóni. Af samandregnum ársreikningum stefnanda megi ráða að rekstrarhagnaður stefnanda fyrir vexti o.fl. fyrir árið 2007 hafi verið neikvæður um 600.000 krónur. Rekstrarhagnaður fyrir árið 2008 hafi verið jákvæður um 13.072.000 krónur og rekstrarhagnaður fyrir árið 2009 hafi verið jákvæður um 18.477.000 krónur. Stefndi byggir á því að samkeppnisaðstæður hafi verið eðlilegar 2009 en þá hafi stefnandi verið á sínu þriðja starfsári. Afkoma ársoms hafi verið í eðlilegu samhengi við árin á undan og beri með sér að ekkert hafi verið óeðlilegt við afkomu fyrri áranna tveggja. Stefndi telji raunar að afkoma ársins 2009 sé skýr sönnun um að rekstur stefnanda árið 2008 hafi verið mjög eðlilegur og afkoma stefnanda árið 2007 ásættanleg á fyrsta hálfa starfsári félags sem hafi komið nýtt inn á markað þar sem fyrir hafi verið félag með 100% markaðshlutdeild. Með hliðsjón af framangreindu byggir stefndi á því að stefnanda sé í raun ekkert, enda hefðu ætlaðar ólögmætar aðgerðir stefnda ekki haft nein áhrif á markaðsstöðu hans. Þá beri framangreindar tölur um rekstrarhagnað stefnanda með sér að aðgerðirnar hafi ekki varðað hann nokkru. Þvert á móti virðist þær aðstæður, sem hafi skapast á markaðnum, nýst stefnanda og hjálpað honum við að komast inn á markaðinn og byggja upp markaðshlutdeild sína. Stefndi vísar til þess að eina sönnunargagn stefnanda í málinu fyrir þeirri staðhæfingu að hann hafi orðið fyrir tjóni sé fyrirliggjandi undirmatsgerð. Stefndi byggir hins vegar á því að undirmatsgerðin geti ekki talist fullnægjandi sönnun á ætluðu tjóni stefnanda. Þar sé tiltekið að við mat á tjóni stefnanda sé rökréttast að miða við „eðlilegan jafnaðarafslátt“ af hluta sjúklings á  „þessum tíma eða almennt“. Sé í því samhengi miðað við efri mörk 5-10% jafnaðarafsláttar. Það fái ekki staðist þar eð ekkert bendi til þess að umrædd efri mörk (10%) séu þau mörk sem með réttu greini á milli ólögmæts og lögmæts afsláttar stefnda, þ.e. ekkert bendi til þess að veittir afslættir, sem hafi verið hærri en 10%, hafi verið ólögmætir. Það hlyti að vera svo að skaðabótaskylda næði einungis til þess hluta afslátta sem hafi verið yfir þeirri afsláttaprósentu hafi verið lögmæt. Ekki sé rétt að miða við prósentu jafnaðarafsláttar, heldur beri fremur að miða við lögmætismörk afsláttarprósenta í því máli sem til úrlausnar hafi verið hjá samkeppnisyfirvöldum. Stefndi byggir á því að ekkert sé fram komið um að verðlagning sú, sem kölluð hafi verið „baráttuafslættir“, hafi verið svo lág að hún bryti óhjákvæmilega gegn samkeppnislögum. Í því samhengi áréttar stefndi að aldrei hafi verið veittur meiri afsláttur en 70% af framlegð en afsláttur af álagningu hafi þannig falið í sér að álagning hafi lækkað úr 25-30% í 10% í ákveðnum tilvikum. Verðlagningin hafi undantekningalaust verið yfir innkaupaverði og því hafi verið um að ræða verðlagningu, sem skilvirkur keppinautur hefði getað mætt og jafnvel boðið betur, enda hafi verðlagningin óumdeilanlega verið yfir meðaltali breytilegs kostnaðar. Stefndi byggir á því að ætlað tjón stefnanda verði ekki fundið öðruvísi en með samanburði þeirrar afsláttarprósentu, sem hafi falið í sér hina svonefndu „baráttuafslætti“, annars vegar og hins vegar þá afsláttarprósentu, sem ætla verði að markaðsráðandi lyfjafyrirtæki á Akranesi hefði verið heimilt að bjóða upp á. Markaðsráðandi fyrirtækjum sé heimilt að mæta samkeppni til að verjast verðlagningu undir kostnaðarverði svo lengi sem útilokunartilgangur liggi ekki til grundvallar aðgerðunum. Stefndi vísar um það til dómaframkvæmdar á sviði evrópuréttar. Verði ekki annað séð en að 70% afsláttur af framlegð, sem aðeins sé ætlað að mæta samkeppni en ekki að útiloka keppinaut eða hrekja hann af markaði, sé lögmæt aðgerð. Í öllu falli telji stefndi ljóst að 10% „eðlilegur jafnaðarafsláttur“ geti ekki verið rétt viðmið, enda hafi lögmætismörk afsláttarprósenta ekki verið metin í undirmatsgerðinni, líkt og rétt hefði verið að leggja til grundvallar. Því sé ekki fyrir hendi fullnægjandi sönnun fyrir ætluðu tjóni stefnanda. Stefndi bendir á að í undirmatsgerð sé viðskiptavinum í vildarklúbbnum skipt í tvo hópa, annars vegar þá sem ekki hafi verið nógu lengi í klúbbnum til þess að fá kaupbæti í lok tímabilsins, sem ætluð brot stefnda eigi að ná til, og hins vegar þá sem hafi verið nógu lengi í klúbbnum til að fá kaupbætinn. Þá geri undirmatsmenn ráð fyrir því að stefnandi hefði, í samræmi við markaðshlutdeild sína, fengið til sín viðskipti þeirra sem fengu kaupbætinn. Líkt og fram komi í undirmatsgerðinni hafi viðskiptavinir í umræddum vildarklúbbi verið 347 um tíma og minna en þriðjungur hafi verið þar nógu lengi til þess að fá kaupbætinn. Kveðið sé á um það í undirmatsgerðinni að „sennilegt“ þyki að þetta hafi stafað af því að líklegt sé að eldra fólk „sem eðli máls samkvæmt [sé] uppistaðan í vildarklúbbnum, [hafi litið] svo á að það hafi gert samning við [stefnda] sem réttast [hefði verið] að standa við“. Verði þessar aðferðir matsmanna vart taldar fullnægjandi við mat á áætluðu tjóni, hér séu fremur um að ræða spámennsku sem ekki verði lögð til grundvallar sönnun í einkamáli. Með hliðsjón af framangreindu byggir stefndi á því að undirmatsgerðin samræmist ekki þeim áskilnaði 5. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að teljast rökstudd matsgerð á ætluðu tjóni stefnanda og teljist það því ósannað. Vegna þessara röngu forsendna og ágiskana um ætlað tjón, auk annarra verulegra ágalla á undirmatsgerð, sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna háttsemi stefnda. Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Stefndi byggir sýknukröfu sína jafnframt á því að krafa stefnanda sé niður fallin sökum tómlætis. Stefndi vísar til þess að stefnandi byggi á því að ætluð skaðabótaskyld háttsemi stefnda hafi hafist á árinu 2007 eða rúmum sjö árum fyrir málshöfðun þessa. Þá komi fram í stefnu að stefnandi hafi sent kvörtun til samkeppnisyfirvalda síðla sumars 2007. Því sé ljóst að stefnandi hafi talið, a.m.k. frá árinu 2007, að stefndi hefði sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi og hafi stefnanda þegar á þeim tímapunkti verið í lófa lagið að krefja stefnda um skaðabætur, hafi stefnandi talið ætlaða ólögmæta háttsemi hafa valdið sér tjóni. Það hafi hann hins vegar ekki gert. Stefndi vísar til þess að ekkert að lögum hafi krafist þess að stefnandi biði með kröfu um skaðabætur á meðan á rekstri máls fyrir samkeppnisyfirvöldum stóð. Það hafi hins vegar fyrst verið með bréfi 16. maí 2014 sem stefnandi hafi gert eiginlegar rökstuddar kröfur á hendur stefnda um greiðslu skaðabóta tiltekinnar fjárhæðar. Þá hafi verið liðin sjö ár frá upphafi ætlaðrar skaðabótaskyldrar háttsemi og frá því stefnandi lýsti því yfir að hann teldi háttsemi stefnda ólögmæta. Verði að telja að við slíkar aðstæður sé krafa stefnanda niður fallin vegna tómlætis. Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Fyrningarfrestur hafi byrjað að líða við hvert einstakt ætlað brot þegar þau hafi átt sér stað. Stefndi vísar til þess að hann hafi átt erfitt með að átta sig á því, á hvaða brotatímabili stefnandi byggi en þó talið að leiða mætti af undirmatsgerð að stefnandi reisi tjón sitt á atvikum á árunum 2007 til 2008. Beri að miða upphaf fyrningarfrests við sérhverja ólögmæta athöfn, þ.e.a.s. sértækt verðtilboð til söluaðila, enda hafi stefnandi byggt á því að slíkar athafnir hafi valdið honum tjóni og sé undirmatsgerð grundvölluð á því. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, fyrnist krafa um skaðabætur á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli öðlast nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ber ábyrgð á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Verði ekki fallist á framangreindan fyrningarfrest, byggir stefndi á því að stefnandi hafi í öllu falli haft nægt svigrúm til að afla sér upplýsinga um ætlað tjón sitt í skilningi 9. gr. fyrningarlaga þegar ár var liðið frá því að hann beindi kvörtunum til Samkeppniseftirlitsins 2007. Í síðarnefnda tilvikinu hafi fyrningarfrestur byrjað að líða 1. janúar 2009 og hafi því verið liðinn þegar mál þetta var höfðað með birtingu stefnu. Því séu kröfur stefnanda í báðum tilvikum fyrndar. Sýknukrafa stefnda er til viðbótar reist á því, að ætlað tjón stefnanda falli ekki innan verndarhagsmuna 11. gr. samkeppnislaga. Markmið samkeppnislaga sé samkvæmt 1. gr. laganna að efla virka samkeppni í viðskiptum og byggi á þeirri grundvallarforsendu að virk samkeppni sé neytendum til hagsbóta til lengri tíma litið. Tilgangur 11. gr. laganna, sem sé ætlað að ná þessu markmiði, hafi verið skýrður þannig að ákvæðinu sé ætlað að vernda virka samkeppni en ekki samkeppnisaðila. Vernd samkeppnisaðila sé enda afar fjarri markmiðum samkeppnislaga og þvert á móti ættu samkeppnisaðilar almennt að berjast berskjaldaðir hvor við annan. Bætur til samkeppnisaðila fyrir brot á 11. gr. samkeppnislaga myndu þannig ekki þjóna markmiðum samkeppnislaga. Vernd samkeppnisaðila gegn samkeppni myndi því ganga þvert gegn verndarhagsmunum ákvæðisins og á þeim grundvelli beri að hafna bótakröfu stefnanda. Stefndi byggir til vara á því að lækka beri dómkröfur stefnanda verulega. Um það vísar stefndi til málsástæðna til stuðnings aðalkröfu sinni og þeirra sem hér á eftir verður getið. Stefndi byggir á því að í íslenskum rétti gildi meðalhófsregla um sönnunarfærslu. Stefndi yrði ekki látinn líða fyrir það ef ljóst þætti af gögnum málsins að sú undirmatsgerð, sem liggur til grundvallar kröfum stefnanda, væri ekki nægilega skýr eða jafnvel byggð á röngum matsaðferðum. Stefnandi hafi sjálfur valið að byggja málatilbúnað sinn alfarið á undirmatsgerð og verði hann að bera áhættuna af því. Takmarkaðan sjálfstæðan rökstuðning sé að finna fyrir fjárhæð ætlaðs tjóns stefnanda í stefnu og verði því að líta svo á að eiginlegar málsástæður hans fyrir fjárhæð þess komi fram í undirmatsgerð. Stefndi vísar til þess að meirihluti þess áætlaða tjóns, sem undirmatsgerðin taki til, gerist eftir það brotatímabil sem málsmeðferð hjá samkeppnisyfirvöldum hafi tekið til, þ.e. eftir 14. september 2007 þegar húsleit hefði verið framkvæmd hjá stefnda. Til stuðnings þessu vísi undirmatsmenn til þess, að hið brotlega tímabil hafi haft áhrif fram í tímann. Þyki stefnda aðfinnsluvert í þessu samhengi að við mat á áætluðu tjóni eftir 14. september 2007 sé í undirmatsgerðinni einungis tekið mið af afsláttum sem veittir hafi verið eftir hið brotlega tímabil. Sé þannig ekki verið að meta eftirfarandi áhrif þeirra afslátta sem veittir hafi verið fyrir 14. september 2007. Stefndi bendir á að ef greiða ætti bætur vegna áætlaðs tjóns af afsláttum, sem veittir hafi verið eftir framangreint tímamark, þurfi að liggja fyrir að veiting þeirra hafi verið saknæm. Staðreynd málsins sé hins vegar sú að í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hafi ekkert verið fjallað um ætluð brot gegn samkeppnislögum eftir framangreint tímamark og liggi því ekkert fyrir um samkeppnishamlandi aðgerðir eftir það. Stefndi telur skorta á að í undirmatsgerð sé gerð grein fyrir raunverulegum hagnaðarmissi, framlegðarmissi og öðru tjóni stefnanda. Nánar tiltekið sé ekki greint frá því hversu áreiðanleg niðurstaða undirmatsmanna sé, hvaða atriði hafi haft áhrif á áreiðanleikann og hversu mikil þau áhrif hafi verið. Þannig sé ljóst, og beinlínis tekið fram í niðurstöðu undirmatsmanna, að þeir hafi þurft að gefa sér ýmsar forsendur við matið og að það ríki þar af leiðandi töluverð óvissa um grundvöll fjárhæðar tjóns stefnanda. Þá séu rök fyrir þeim atriðum, sem undirmatsmenn telji sig hafa þurft að gefa sér, afar takmörkuð. Stefndi telur þetta vera til þess fallið að rýra mjög áreiðanleika matsins en ljóst sé að undirmatið sé að stórum hluta byggt á gefnum forsendum en ekki því sem hafi gerst í raun. Stefndi byggir á því að lækka beri dómkröfu stefnanda þar sem rétt sé að miða við missi hagnaðar en ekki missi framlegðar, eins og gert sé í dómkröfu stefnanda. Byggir stefndi á því að missir framlegðar sé umfram eiginlegt tjón stefnanda. Stefndi bendir á að stærstur hluti nýrra fyrirtækja dragi sig af markaði innan nokkurra ára frá innkomu á hann og því sé yfirleitt mjög erfitt fyrir ný fyrirtæki að fóta sig á markaði þar sem þau hafi engin tengsl við markaðinn. Umtalsverð hækkun á markaðshlutdeild nýs fyrirtækis sé því almennt afar ólíkleg og telji stefndi vöxt markaðshlutdeildar stefnanda skýrt dæmi um að ætluð ólögmæt háttsemi stefnda hafi engin áhrif haft á stefnanda og þaðan af síður valdið honum tjóni. Ekki sé hins vegar vikið að þessum aðstæðum í undirmatsgerð. Þá sé ekki rökstutt í undirmatsgerð með hvaða hætti einstaka ætluð skaðabótaskyld háttsemi stefnda hafi valdið stefnanda tjóni, þ.e. hver orsakatengslin séu. Nauðsynlegt sé að slíkur rökstuðningur komi fram í matsgerð, enda séu áhrif einstakra ætlaðra brota stefnda á stefnanda forsenda þess að um tjón í skilningi skaðabótaréttar geti verið að ræða. Undirmatsmenn horfi framhjá því að aðgerðir stefnda á umræddu rannsóknartímabili hafi í heild verið taldar ólögmætar en á skorti að sýnt sé, hvort hver og ein verðlagning hafi falið í sér saknæma háttsemi sem kynni að leiða til skaðabótaskyldu. Leggi undirmatsmenn til grundvallar aðferðafræði, sem sé ætlað að mæla áhrif þess að stefndi hafi boðið ólögmæta afslætti, en litið sé framhjá því að einangruð veiting þeirra kynni að hafa verið lögmæt. Brot stefnda samkvæmt úrlausnum dómstóla hafi falist í því að útilokunarásetningur hafi verið talinn hafa ráðið för sem hafi nægt svo um brot gegn samkeppnislögum hafi verið að ræða. Aðferðafræði undirmatsmanna við könnun á orsakatengslum sé því ekki í samræmi við staðreyndir og geti ekki talist sanna orsakatengsl milli aðgerða stefnda á markaði og ætlaðs tjóns stefnanda. Stefndi telur að í undirmatsgerð skorti á að tekið sé til þess að í samkeppnisumhverfi þurfi eðli máls samkvæmt að lækka álagningu og við það minnki framlegð. Slíkt gerist burtséð frá lögmæti aðgerða stefnda. Þá gerir stefndi athugasemd við útreikning undirmatsmanna á jafnaðarafsláttum. Í undirmatsgerðinni sé greint frá því að undirmatsmenn hafi kynnt sér auglýsta afslætti lyfjabúða hjá „ýmis konar samtökum og félögum“. Einnig segi að þeir hafi „rætt við hóp núverandi og fyrrverandi apótekara“ til að fá sem gleggsta og hlutlægasta mynd. Í fyrsta lagi sé engar niðurstöður eða tölulegar upplýsingar að finna í undirmatsgerðinni um athugun undirmatsmanna á auglýstum afsláttum lyfjabúða. Þá verði það vart talinn vísindalegur útreikningur að eiga samtal við núverandi og fyrrverandi apótekara. Stefndi gerir ennfremur athugasemd við mat á tjóni vegna lausasölulyfja. Í undirmatsgerðinni sé tjónið metið í hlutfalli við áætlað tjón vegna lyfseðlisskyldra lyfja en þessi nálgun undirmatsmanna sé ekki rökstudd. Telur stefndi að eðlilegt hefði verið að taka við útreikninginn m.a. tillit til þess hlutfalls baráttuafslátta sem náði til lausasölulyfja.  Rétt sé að nefna í því samhengi að í „síðustu verðkönnun ASÍ“ hafi komið fram að lægstu verð á 14 af 40 lyfjum hafi annaðhvort verið undir kostnaðarverði eða lyfin seld með minna en 9% framlegð. Samkeppni á verði lausasölulyfja sé og hafi verið mjög virk. Stefndi gerir því verulegar athugasemdir við að undirmatsmenn hafi gefið sér forsendur um afslætti af lyfjum almennt og því næst reiknað út að allir afslættir, umfram þær gefnu forsendur,  væru samkeppnishamlandi fyrir stefnanda. Telur stefndi framangreint til marks um að undirmatsmenn hafi ekki skilið til hlítar þá aðferð sem beitt hafi verið á markaðnum við útreikning afslátta, enda hafi verið um nokkuð óvenjulega aðferð að ræða. Sem dæmi um þetta megi nefna mest selda lyfseðilsskylda lyf landsins, IMUVAN. Algengt söluverð á því sé hámarksverð að frádregnum 70% framlegðarafslætti. Stefndi byggir á því að í stað hinna ógagnsæju jafnaðarafslátta hefði undirmatsmönnum borið að styðjast við svokallaða mismunaraðferð. Sú aðferð gangi út á að bera saman tvær atburðarásir, annars vegar  atburðarás sem ætla megi að hefði orðið og hins vegar þá sem hafi orðið eftir atburðinn. Sá missir tekna eða auknu útgjöld sem tjónþoli hafi orðið fyrir teljist tjón hans. Ekki liggi fyrir í málinu mat dómstóla eða samkeppnisyfirvalda á því að afsláttur sem nemi allt að 70% framlegðar brjóti einn og sér í bága við samkeppnislög, enda væri um verðlagningu yfir meðaltali breytilegs kostnaðar að ræða. Yrði hins vegar ekki fallist á að slík verðlagning gæti verið heimil og því tæk til samanburðar, með vísan til reglna um skaðlega undirverðlagningu og meginregluna um heimild markaðsráðandi fyrirtækja til að mæta samkeppni, telur stefndi einsýnt að það þyrfti að fara fram mat á því hver hæsti lögleyfði afsláttur markaðsráðandi fyrirtækis hefði verið við þær aðstæður sem hafi verið á hinum skilgreinda markaði á Akranesi á því tímabili sem til rannsóknar hafi verið hjá samkeppnisyfirvöldum. Þar sem slíkt mat hafi ekki farið fram telur stefndi að enginn grundvöllur sé fyrir skaðabótakröfu stefnanda. Stefndi telur að á það hafi skort að leitast við að rannsaka hvernig afsláttum hafi verið háttað í öðrum apótekum innan keðju stefnda og einnig að farið hafi verið í gagnsæa rannsókn á sambærilegum mörkuðum til samanburðar á umfangi afsláttanna á Akranesi. Stefndi gerir athugasemd við vangaveltur matsmanna um að stefnandi hafi þurft að „skjóta í myrkri“ þegar komið hafi að lækkun á lausasölulyfjum og að það hafi orðið honum til aukins tjóns að vita ekki af hvaða vörum stefndi hafi veitt afslátt. Stefndi telur að það sé til marks um að í undirmatsgerð sé ekki verið að bera saman líklegar aðstæður á raunverulegum samkeppnismarkaði, enda hafi fyrirtæki almennt ekki tæmandi upplýsingar um högun verðlækkana keppinauta sinna. Mótmælir stefndi því að tækt sé að framangreint yrði talið leiða til aukins tjóns stefnanda sem hann ætti rétt á skaðabótum vegna. Þá sé því ennfremur mótmælt að framangreint gæti verið grundvöllur þess að metið tjón stefnanda væri afleidd stærð af metnu tjóni í lyfseðilskyldum lyfjum. Slík aðferð sé sannkallað skot í myrkri svo notað sé orðfæri undirmatsmanna. Stefndi telur að sambærileg sjónarmið eigi við um mat undirmatsmanna á tjóni stefnanda vegna vildarklúbbs stefnda. Stefndi gerir athugasemd við það að ekki hafi verið beitt fyrrnefndri mismunaraðferð heldur einfaldlega gert ráð fyrir því að þeir sem hafi verið í vildarklúbbi stefnda hefðu sjálfkrafa í réttu hlutfalli við markaðshlutdeild stefnanda flutt viðskipti sín yfir til stefnanda ef vildarklúbbsins hefði ekki notið við. Sé það ekki í samræmi við viðurkenndar aðferðir við mat á tjóni vegna samkeppnislagabrota. Stefndi byggir á því að ekkert hafi legið fyrir um áhrif vildarklúbbsins á markaðinn. Byggir stefndi á því að ekki hafi verið um samkeppnishamlandi aðgerð að ræða og að undirmatsgerð sé í engu nægjanleg til að sanna að stefnandi hafi orðið fyrir raunverulegu tjóni. Matið byggist allt á forsendum sem undirmatsmenn hafi gefið sér. Loks telur stefndi að verulega hafi skort á að undirmatsmenn tækju afstöðu til þess hvort líkur hefðu verið á að viðskipti hefðu beinst í auknum mæli til höfuðborgarsvæðisins. Telur stefndi að líta megi til þess að tiltölulega hátt hlutfall Akurnesinga starfi á höfuðborgarsvæðinu og því nærtækara en ella að beina viðskiptum utan hinnar samkeppnisréttarlegu skilgreiningu markaðar sem liggi til grundvallar í málinu. Telur stefndi það vera galla á mati undirmatsmanna að engin afstaða hafi verið tekin til þessa heldur gert ráð fyrir að þeir viðskiptamenn sem ætlaðar ólögmætar aðgerðir stefnda hefðu beinst að hefðu sjálfkrafa fært viðskipti sín til höfuðborgarsvæðisins.  Stefndi mótmælir vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda, bæði að því er varðar upphafstíma og þær fjárhæðir sem krafist sé vaxta- og dráttarvaxta af. Upphafstíma dráttarvaxta sé sérstaklega mótmælt. Engin efni séu til að reikna dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögu þar sem ekki yrði ljóst fyrr en þá hvort stefnandi ætti einhverja kröfu á hendur stefnda. Fyrir þann tíma gæti ekki verið um vanefndir á greiðslu að ræða sem réttlæti dráttarvexti. Annað sé í andstöðu við tilgang heimildar til að reikna dráttarvexti. Í öllu falli gætu dráttarvextir ekki reiknast frá fyrra tímamarki en mánuði eftir að stefnandi hafi fyrst gert kröfu um greiðslu skaðabóta með bréfi dags. 16. maí 2014, enda hafi stefnandi þá fyrst sett fram kröfu sem hafi með einhverjum hætti verið rökstudd. Kröfum sínum til stuðnings vísar stefndi meðal annars til almennra reglna skaðabótaréttar utan samninga og ákvæða samkeppnislaga nr. 44/2005, einkum 10. og 11. gr. laganna. Um vexti og dráttarvexti er tilvísun til laga nr. 38/2001. Þá vísar stefndi til almennra reglna um tómlæti og laga nr. 150/2007 og 14/1905 um fyrningu. Þá er tilvísun til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, um málskostnað vísar stefndi til 129. gr. og 130. gr. laganna. V Við aðalmeðferð málsins gaf aðilaskýrslu Ólafur Guðmundur Adolfsson, fyrirsvarsmaður stefnanda. Þá gáfu vitnaskýrslu yfirmatsmennirnir Hersir Sigurgeirsson, Jóhanna Waagfjörð og Lárus Finnbogason sem og undirmatsmennirnir Brynjólfur Sigurðsson og Jóhann Viðar Ívarsson. Verða skýrslur þeirra raktar eins og þurfa þykir.  Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna samkeppnishindrandi aðgerða stefnda sem sannað sé að hafi átt sér stað. Stefnandi reisir kröfu sína um skaðabætur úr hendi stefnda á meginreglum skaðabótaréttar og kröfuréttar, auk þess sem hann vísar til ákvæða samkeppnislaga nr. 44/2005. Fjárhæð skaðabótakröfunnar er byggð á niðurstöðu undirmatsgerðar um umfang tjóns stefnanda sem stefnandi lagði fram í málinu en helstu niðurstöður undirmatsgerðarinnar eru raktar í málavaxtakafla hér að framan. Í málinu er óumdeilt að stefndi gerðist brotlegur við 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Brot stefnda voru talin felast í því að stefndi hefði beitt sér skipulega með samkeppnishamlandi aðgerðum gegn innkomu stefnanda á staðbundnum markaði lyfjasölu á Akranesi á árunum 2007-2008, svo sem komið hafi fram í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands frá 14. mars 2013 í máli réttarins nr. 355/2012. Brot stefnda voru að mati Hæstaréttar fólgin í því að veita framlegðarafslætti af völdum vörum og með starfrækslu sérstaks vildarklúbbs fyrir viðskiptavini stefnda á þeim landfræðilega markaði lyfjasölu sem afmarkast af Akranesi og nágrenni. Önnur sjónarmið, sem stefndi hefur fært fram, geta ekki breytt þeirri niðurstöðu, sbr. einkum 116. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Aðilar deila hins vegar um það, hvort og þá hvaða afleiðingar þær aðgerðir stefnda, sem niðurstöður samkeppnisyfirvalda ná til og staðfestar voru með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands, hafi haft á rekstur stefnanda. Til þess ber að líta að ekki er gerð krafa um það, við heimfærslu háttsemi undir 11. gr. samkeppnislaga, að samkeppnisaðili á markaði hafi sannanlega orðið fyrir tjóni vegna framferðis samkeppnisaðila með markaðsráðandi stöðu sem talin er brjóta í bága við ákvæðið. Þar af leiðandi lítur löggjafinn svo á, að misnotkun á markaðsráðandi stöðu valdi því ekki sjálfkrafa að samkeppnisaðilar þess, sem  brýtur gegn ákvæðinu, verði fyrir tjóni. Brotið eitt og sér, óháð afleiðingum, valdi því að aðili kunni að vera beittur viðurlögum samkvæmt heimildum samkeppnisyfirvalda í lögum nr. 44/2005. Slík túlkun er í samræmi við verndarandlag 11. gr. laganna og samkeppnislöggjafarinnar í heild sinni, þ.e. að stuðla að skilvirkri samkeppni á markaði og vænka þar með hag neytenda til lengri tíma litið. Þar af leiðandi verður ekki talið, að það eitt að samkeppnisyfirvöld og dómstólar hafi talið stefnda hafa brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga, feli í sér fulla sönnun þess að stefndi hafi sýnt af sér skaðabótaskylda háttsemi. Eftir sem áður ber stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni og að tjónið verði að öllu leyti rakið til háttsemi stefnda.  Stefnandi vísar til þess að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna brota stefnda gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Í því skyni að færa sönnur á orsakasamhengi milli ætlaðs tjóns og háttsemi stefnda og umfang þess tjóns, hefur stefnandi lagt fram undirmatsgerð Brynjólfs Sigurðssonar og Jóhanns Viðars Ívarssonar. Eins og áður er lýst er samandregin niðurstaða undirmatsmanna sú, að stefnandi hafi, vegna aðgerða stefnda á markaði í aðdraganda innkomu stefnanda á lyfjasölumarkað á Akranesi og í kjölfar hennar, orðið fyrir tjóni sem nemi 18.506.678 krónum. Fjárhæðin er samsvarandi höfuðstólsfjárhæð dómkröfu stefnanda í máli þessu og er dómkrafa hans byggð á niðurstöðu undirmatsgerðarinnar.  Undir rekstri málsins aflaði stefndi framlagðrar yfirmatsgerðar. Í yfirmatsgerðinni er komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni sem rekja megi til þeirrar háttsemi sem stefndi viðhafði og var talin fela í sér brot gegn 11. gr. samkeppnislaga. Samkvæmt niðurstöðu yfirmatsmanna í yfirmatsgerð var framlegð stefnanda umfram áætlanir á árunum sem matið tekur til. Samantekið hefði rekstur stefnanda gengið mun betur en áætlanir við opnun hefðu gert ráð fyrir. Markaðshlutdeild stefnanda hefði strax orðið talsvert meiri en gert hefði verið ráð fyrir og umfram langtímamarkmið þegar á fyrsta heila starfsári stefnanda. Heildarsala og framlegð hefði verið töluvert umfram áætlanir og rekstrarkostnaður talsvert lægri en áætlað hefði verið. Hagnaður stefnanda hefði því verið langt umfram það sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Það eina sem hefði verið lakara en áætlanir gerðu ráð fyrir, hefði verið framlegðarhlutfall áranna 2008 og 2009 en það hefði verið um það bil 21% í stað 22,6% eða um 1,6% lægra en áætlað var. Framlegð í krónum hefði þó alltaf verið hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Í þessu ljósi töldu yfirmatsmenn að ekki væri hægt að færa óyggjandi rök fyrir því að samkeppnisbrot stefnda hefðu valdið stefnanda tjóni. Brot stefnda hefðu staðið yfir frá lokum árs 2006 til 14. september 2007 en rekstur stefnanda og framlegðarhlutfall hafi verið talsvert umfram áætlanir 2007. Einungis á árunum 2008 og 2009 hafi framlegðarhlutfall stefnanda farið undir áætlanir en þrátt fyrir það hafi velta og framlegð verið vel umfram áætlanir og rekstrarkostnaður verið vel undir áætlun. Þá hafi framlegðarhlutfall stefnanda alltaf verið lægra en hjá stefnda á sama tíma. Yfirmatsmenn taka undir með áfrýjunarnefnd samkeppnismála sem benti á það í úrskurði sínum að jafnvel mætti „[...] ætla að [húsleit Samkeppniseftirlitsins] hafi orðið til þess að vekja samúð viðskiptavina apótekanna gagnvart veikari aðilanum“ og þannig hafi stefnandi í raun jafnvel hagnast á aðgerðum stefnda og afleiðingum þeirra. Þrátt fyrir að stefnandi hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með aðgerðum sínum væru hvorki sjáanleg merki um að þær aðgerðir hefðu borið árangur né að stefnandi hefði orðið fyrir tjóni vegna þeirra. Lægra framlegðarhlutfall á markaðnum eftir innkomu stefnanda megi útskýra á einfaldari hátt með aukinni samkeppni og fyrirætlunum stefnanda um að ná fljótt mikilli hlutdeild á markaðnum. Yfirmatsmenn komust að því að þróun lyfsölumarkaðarins á Akranesi á árunum 2007-2012 hefði að mestu leyti verið í takt við það sem ætla mætti þegar samkeppni á markaði breyttist. Aukin samkeppni þýddi lægra framlegðarhlutfall og við það væri hugsanlegt að veltan ykist vegna betri samkeppnisstöðu við aðra nálæga markaði. Þróun áranna 2007-2009 megi því hugsanlega skýra að stórum hluta eða jafnvel eingöngu með aukinni samkeppni. Á árunum 2010-2012 hafi samkeppnin minnkað aftur og stefnandi hafi aukið markaðshlutdeild sína áfram. Samhliða því hafi veltan minnkað og framlegðarhlutfallið hækkað. Í yfirmatsgerð er bent á að í undirmatsgerð sé sett fram ítarleg greining á vildarklúbbi stefnda og áhrifum hans á þeim tíma sem stefnandi fyrirhugaði og hóf innreið sína á lyfjasölumarkaðinn á Akranesi. Niðurstaða undirmatsmanna hefði verið sú að vildarklúbburinn hefði valdið fækkun viðskiptavina stefnanda og þannig valdið tjóni. Að mati yfirmatsmanna sýni greining undirmatsmanna hins vegar að vildarklúbburinn hafi haft lítil eða engin áhrif á færslu viðskiptamanna frá stefnanda og stefnda á umræddu tímabili. Þannig sýni undirmatsgerðin að 347 manns hafi gengið í vildarklúbb stefnanda á tímabilinu frá mars til desember 2007. Þar af hafi 304 viðskiptamenn þegar gengið í klúbbinn fyrir opnun lyfjaverslunar stefnanda. Þá komi þar fram að af þeim hafi 101 haldið tryggð við stefnda næstu 12 mánuði, allt til loka árs 2008, þ.e. 29%. Heildarhlutdeild stefnanda á lyfjasölumarkaðnum á Akranesi hafi verið 58% á seinni hluta árs 2007 og 71% á árinu 2008. Hlutfall vildarklúbbsmeðlima, sem hefðu fært viðskipti sín frá stefnda til stefnanda, hafi því ekki verið stórkostlega frábrugðið hlutfalli annarra viðskiptamanna stefnda sem færðu viðskipti sín. Því væru engar forsendur til þess að ætla að vildarklúbburinn hefði haft nokkur skaðleg áhrif á starfsemi stefnanda eða valdið honum tjóni. Yfirmatsmennirnir komu fyrir dóminn og staðfestu yfirmatsgerðina. Stefndi byggir endanlegar dómkröfur sínar um sýknu en til vara til lækkunar á kröfum stefnanda á niðurstöðu yfirmatsgerðarinnar.  Af hálfu stefnanda er niðurstaða yfirmatsgerðarinnar dregin í efa. Í því skyni að færa sönnur á galla hennar hefur stefnandi aflað umsagnar endurskoðanda síns, KPMG ehf., þar sem farið er yfir niðurstöður yfirmatsgerðarinnar í níu liðum. Í umsögninni eru gerðar athugasemdir við aðferðafræði og niðurstöður yfirmatsins. Hins vegar er þar ekki að finna hlutlægar almennar upplýsingar um ætlað tjón stefnanda vegna háttsemi stefnda sem kunna að skipta máli við úrlausn málsins. Þá ber að líta til þess að umsagnarinnar var einhliða aflað af stefnanda, án þess að stefndi ætti þess kost að gæta hagsmuna sinna og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við gerð hennar. Svanbjörn Thoroddsen, endurskoðandi og höfundur umsagnarinnar, gaf ekki skýrslu fyrir dóminum. Verður að meta þýðingu umsagnarinnar sem sönnunargagns í málinu í þessu ljósi. Það er mat dómsins, sem skipaður er sérfróðum meðdómsmönnum á sviði endurskoðunar og hagfræði, að yfirmatsgerð dómkvaddra yfirmatsmanna sé nægilega rökstudd. Þá telur dómurinn að þeir ágallar, sem stefnandi telur vera á yfirmatsgerðinni, séu ekki til þess fallnir að varpa rýrð á niðurstöðu hennar um að ekki sé unnt að fullyrða að stefnandi hafi orðið fyrir beinu tjónu vegna umræddrar háttsemi stefnda. Í yfirmatsgerðinni endurmeta yfirmatsmenn þau matsatriði sem undirmatsmenn lögðu mat á í matsgerð sinni. Í skýrslu dómkvaddra yfirmatsmanna fyrir dómi var staðfest að að aðferðafræðin, sem beitt hefði verið í undirmatsgerð, væri að þeirra mati ekki tæk við mat á ætluðu tjóni stefnanda. Bæði í undirmati og yfirmati hefðu verið lagðar til grundvallar sams konar aðferðir og leiðbeiningar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gera ráð fyrir við mat á því hvernig eigi að meta hugsanlegt tjón vegna samkeppnisbrota. Í undirmatsgerð hafi samanburðaraðferðum verið beitt og athugað hvernig staðan hefði verið á sams konar markaði á sama tíma, þar sem ekki hefði verið beitt samkeppnishamlandi aðgerðum. Hins vegar hafi ekki verið til staðar viðeigandi markaður til samanburðar við  markaðinn á Akranesi á þeim tíma sem samkeppnisbrot stefnda áttu sér stað og hugsanlegar afleiðingar þeirra hafi komið fram. Þar af leiðandi hafi ekki verið ástæða til að beita samanburðaraðferðum í yfirmatsvinnunni. Því hafi verið byggt á rekstraráætlunum stefnanda fyrir innkomu á lyfjasölumarkaðinn á Akranesi við endurmat undirmati og þær bornar saman við fjárhagsupplýsingar sem stafi frá stefnanda vegna rekstraráranna sem matsspurningar í yfir- og undirmati hefðu náð til. Sú matsvinna hafi að mati yfirmatsmanna veitt nákvæmari yfirsýn yfir stöðu mála og hugsanlegt tjón stefnanda, sem matsmenn hefðu komist að að hefði ekki verið neitt. Yfirmatsgerð byggir á framlagðri rekstraráætlun stefnanda sem ekki er mjög ítarleg. Þá kom fram hjá fyrirsvarsmanni stefnanda að hennar hefði verið aflað í því skyni að fá fyrirgreiðslu hjá bankastofnunum. Yfirmatsmenn kváðust hafa gert samanburð á áætlununum við rekstur annarra verslana stefnda en ekki við rekstur verslana annarra rekstraraðila. Þrátt fyrir þessa takmörkun á fyrirliggjandi gögnum og skoðun yfirmatsmanna er það mat dómsins að yfirmatsgerð sé ekki haldin slíkum annmörkum að hún verði ekki lögð til grundvallar niðurstöðu í máli þessu. Að öllu jöfnu hlýtur yfirmatsgerð þriggja yfirmatsmanna, sem ekki hefur verið hnekkt með öðrum gögnum, að vega þyngra við mat á sönnun en undirmatsgerð tveggja matsmanna og umsögn sem aflað er einhliða af öðrum málsaðila. Þá er það mat dómsins að ekki hafi verið sýnt fram á þá ágalla á yfirmatsgerðinni sem gætu haft áhrif á mat dómsins á sönnunargildi hennar, svo sem áður er getið. Jafnframt verður að líta til þess að í undirmatsgerð er einungis horft til fráviks í verðum, þ.e. afslátta, en en ekki var lagt mat á áhrif á selt magn. Í kjölfarið var því slegið föstu að ekki hefði verið hægt að búast við hærri markaðshlutdeild stefnanda, án þess að því hefði verið velt upp hvort markaðshlutdeild stefnanda hefði mögulega orðið lægri ef ekki hefði komið til samkeppnisbrota af hálfu stefnda. Að mati dómsins skortir því á að ætlað tjón stefnanda sé metið með heildstæðum hætti í undirmatsgerð. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður yfirmatsgerðin lögð til grundvallar við úrlausn ágreinings aðila í máli þessu, enda hefur henni ekki verið hnekkt. Stefnandi rökstyður tjón sitt með vísan til niðurstaðna undirmatsgerðar og hefur ekki lagt fram önnur gögn sem styðja dómkröfur hans eða málsástæður þeim til stuðnings. Hefur stefnanda því ekki tekist að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni sem verður að öllu leyti rakið til umræddrar háttsemi stefnda. Þegar af framangreindum ástæðum verður stefndi sýknaður af bæði aðal- og varakröfu stefnanda, enda hefur stefnanda ekki tekist sönnun þess að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna háttsemi stefnanda. Eftir úrslitum málsins og með vísan til meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem að virtum m.a. framlögum gögnum um yfirmatskostnað stefnda þykir hæfilega ákveðinn 5.800.000 krónur. Af hálfu stefnanda flutti málið Jón Magnússon hrl. Af hálfu stefnda flutti málið Halldór Brynjar Halldórsson hdl. Dóm þennan kveða upp Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari sem dómformaður og meðdómsmennirnir Sigrún Guðmundsdóttir, löggiltur endurskoðandi og Smári Rúnar Þorvaldsson hagfræðingur. Við dómsuppsögu var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Dómsorð: Stefndi, Lyf og heilsa hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Apóteks Vesturlands ehf., í máli þessu. Stefnandi, Apótek Vesturlands ehf., greiði stefnda, Lyfjum og heilsu hf., 5.800.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 644/2017
Gjaldþrotaskipti Riftun Óvenjulegur greiðslueyrir Ábyrgð
Fallist var á kröfu þrotabús H ehf. um riftun á greiðslu félagsins til C ehf. að tiltekinni fjárhæð. Var talið að greiðslan hefði verið innt af hendi með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og að C ehf. hefði ekki sýnt fram á að greiðslan hefði virst venjuleg eftir atvikum. Þá var einnig fallist á kröfu þrotabús H ehf. um að C ehf., D og S yrði óskipt gert að endurgreiða fjárhæðina, enda þótti C ehf. ekki hafa sýnt fram á að atvikum væri þannig háttað að því hefði tekist að fá fullnustu kröfunnar, án tillits til gjaldþrotaskiptanna, ef greiðslan hefði ekki verið innt af hendi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Sigurður Tómas Magnússon landsréttardómari og Skúli Magnússon héraðsdómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. október 2017. Hann krefst þess að rift verði greiðslu 25. júní 2014 á skuld Harlem ehf. við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. að fjárhæð 12.451.379 krónur. Hann krefst þess einnig að stefndu verði óskipt gert að greiða sér aðallega þá fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. júní 2014 til greiðsludags, en til vara 3.061.450 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt sama lagaákvæði af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 15. júlí 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast hvert fyrir sitt leyti staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Samkvæmt gögnum málsins gerðu stefndu Dagný Ósk Aradóttir Pind og Steindór Grétar Jónsson fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags samning 24. nóvember 2012 við Þýska barinn ehf. um kaup á rekstri síðarnefnda félagsins að Tryggvagötu 22 í Reykjavík, en þar mun það hafa starfrækt samnefnt veitingahús. Eftir samningnum tóku kaupin meðal annars til innréttinga í húsnæðinu, tækja og lausafjármuna, en að auki var þess getið að eigandi húsnæðisins hafi samþykkt að gera nýjan leigusamning um það við væntanlegt félag stefndu. Kaupverðið skyldi nema samtals 13.500.000 krónum, en þar af átti að greiða 405.849 krónur með peningum 26. nóvember 2012, 7.500.000 krónur með yfirtöku viðskiptaskuldar við Vífilfell hf., sem nú ber heiti stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf., og 5.594.151 krónu með yfirtöku skuldar við leigusala húsnæðisins, Eik fasteignafélag hf. Áður en framangreindur kaupsamningur var gerður höfðu stefndu Dagný og Steindór gert fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags samning 20. nóvember 2012 við Eik fasteignafélag hf. um leigu á húsnæðinu að Tryggvagötu 22, en samkvæmt fyrirsögn hans var hann „viðaukasamningur við leigusamning“. Þar var húsnæðinu lýst sem veitinga- og skemmtistað á jarðhæð og í kjallara, en húsaleiga skyldi greidd 1. hvers mánaðar og fjárhæð hennar bundin vísitölu neysluverðs. Í samningnum voru ekki ákvæði um leigutíma, en á hinn bóginn tekið fram að leigutakinn nyti forleiguréttar að honum loknum. Lagt var bann við framsali leiguréttar án samþykkis leigusala og skyldi það sama eiga við um eigendaskipti að hlutum í leigutakanum. Þá voru ákvæði í samningnum um heimild leigusala til riftunar vegna vanefnda leigutaka, auk þess sem tekið var fram að samningurinn félli úr gildi ef leigutakinn yrði tekinn til gjaldþrotaskipta eða leitaði nauðasamnings. Samningi þessum var þinglýst 23. október 2013. Félagið, sem stefndu Dagný og Steindór gerðu framangreinda samninga fyrir, var eftir gögnum málsins stofnað 24. nóvember 2012 og fékk það heitið Harlem ehf. Samkvæmt tilkynningu um stofnun félagsins, sem barst fyrirtækjaskrá 3. desember sama ár, voru stefndu Dagný og Steindór stofnendur og var tilgangur þess sagður vera rekstur kráa og dansstaða ásamt almennri veitingasölu og þjónustu, svo og lánastarfsemi og kaup og sala fasteigna. Hlutafé var 500.000 krónur. Tilgreint var að í stjórn félagsins hefðu verið kjörnir Villý Þór Ólafsson sem formaður og stefndi Steindór sem meðstjórnandi, en sá fyrrnefndi mun á þessum tíma hafa verið sambúðarmaður stefndu Dagnýjar. Þá var henni veitt prókúruumboð fyrir félagið ásamt stefnda Steindóri, sem gegna átti stöðu framkvæmdastjóra þess. Harlem ehf. gerði 12. desember 2012 ýmsa samninga við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf., sem sneru að rekstri veitingastaðarins að Tryggvagötu 22. Þar var í fyrsta lagi um að ræða viðskiptasamning, sem marka átti ramma um vörukaup Harlem ehf. af stefnda til endursölu á veitingastaðnum, og átti hann að gilda til fimm ára, en í honum voru meðal annars ákvæði um vanefndir, sem heimilað gætu riftun hans. Í annan stað var gerður svonefndur samningur um þjónustuvörur, en með honum tók stefndi að sér að leggja Harlem ehf. endurgjaldslaust til bjórdælur, gosvélar, kæla og klakavélar til að nota fyrir vörur frá stefnda. Í þriðja lagi voru gerðir samningar um viðskiptakjör, þar sem annars vegar var kveðið á um afslætti, sem Harlem ehf. skyldi njóta við kaup á vörum frá stefnda, og hins vegar um ráðstöfun á afsláttunum, sem verja ætti til greiðslu á skuldum félagsins við stefnda samkvæmt lánssamningi og vegna vöruúttekta. Í fjórða lagi var um að ræða samstarfssamning um markaðsráðstafanir, en samkvæmt honum skuldbatt Harlem ehf. sig meðal annars til að láta starfsmenn sína nota við vinnu sína fatnað, sem bæri vörumerki stefnda, koma fyrir auglýsingaskiltum með vörumerkjum stefnda innanhúss og utan, hafa vörur frá stefnda sýnilegar á veitingastaðnum og standa að kynningum á þeim. Fyrir þetta skyldi stefndi greiða tilteknar fjárhæðir að minnsta kosti einu sinni á ári. Í fimmta lagi var gerður samningur um lán stefnda til Harlem ehf. að fjárhæð 12.000.000 krónur, sem skyldi endurgreitt á fimm árum með jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti. Í samningnum var ekki mælt fyrir um að lánið bæri vexti að öðru leyti en því að greiða ætti dráttarvexti yrði afborgun ekki innt af hendi innan fimmtán daga frá gjalddaga. Greiða skyldi afborganir með peningum, en Harlem ehf. var þó heimilað að standa skil á þeim með afsláttum af vörukaupum frá stefnda. Þá var tekið fram að yrðu eigendaskipti að veitingastað félagsins bæri því að tryggja að kaupandi tæki við skyldum þess samkvæmt samningnum, en félagið skyldi ábyrgjast efndir kaupandans á honum þar til stefndi leysti það undan þeirri ábyrgð með sérstakri yfirlýsingu. Tækist félaginu ekki að tryggja þetta væri stefnda heimilt að gjaldfella eftirstöðvar lánsins, sem bæri þá að greiða upp innan 30 daga. Auk þessara samninga rituðu stefndu Dagný og Steindór undir yfirlýsingu um óskipta sjálfskuldarábyrgð sína á öllum skuldum Harlem ehf. við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. að fjárhæð allt að 15.000.000 krónur, sem bundin yrði vísitölu neysluverðs með tiltekinni grunntölu. Samhliða framangreindum samningum gerðu Harlem ehf., stefndi Coca-Cola European Partners Ísland ehf. og Eik fasteignafélag hf. 12. desember 2012 svonefndan viðaukasamning við leigusamning. Í samningi þessum var mælt svo fyrir að aðilar hans væru samþykkir því að þessum stefnda yrði heimilt „að yfirtaka öll réttindi leigutaka hvað varðar leigusamning ... komi til þess að leigusamningnum verði rift, hann ógiltur eða honum sagt upp vegna a) vanskila, riftunar, ógildingar eða uppsagnar á viðskiptasamningi, b) riftunar, ógildingar eða uppsagnar á leigusamningi, eða c) verði gert árangurslaust fjárnám í búi leigutaka á leigutímanum.“ Kæmi til verulegra vanefnda á skyldum Harlem ehf. við stefnda samkvæmt viðskiptasamningi þeirra skyldu þær „jafngilda verulegri vanefnd á leigusamningi aðila sem heimilar leigusala riftun“ og bæri leigusala eftir kröfu stefnda að rifta leigusamningi af þeim sökum. Yrði leigusamningnum sagt upp eða rift á þennan hátt að frumkvæði stefnda skyldi hann ábyrgjast frá þeim tíma greiðslu húsaleigu til leigusala þar til hann fengi húsnæðið afhent á ný. Segði á hinn bóginn leigusali upp leigusamningnum eða rifti skyldi stefndi ekki bera slíka ábyrgð nema hann neytti heimildar til að yfirtaka réttindi leigutaka. Tæki stefndi yfir leigusamninginn á framangreindan hátt skyldi hann sem leigutaki njóta sömu kjara og mælt væri fyrir um í samningnum. Yrði stefnda jafnframt heimilt að framselja réttindi sín sem leigutaki til þriðja manns til að hafa þar sambærilegan rekstur og húsnæðið væri nýtt til og skyldi þá stefndi losna undan skuldbindingum sínum við leigusala, en slíkt framsal yrði þó háð samþykki leigusala, sem skylt væri að veita nema til kæmu „haldgóðar ástæður til að synja“. Eintakið af þessum samningi, sem liggur fyrir í málinu, ber með sér að hann hafi verið afhentur sýslumanni til þinglýsingar 20. desember 2012, en hafi síðan á ótilgreindum degi verið áritaður af Eik fasteignafélagi hf. um að fallið væri frá ósk um þinglýsingu, sem varð þannig ekki af. Í málinu liggja ekki fyrir reikningsskil eða önnur gögn um rekstur eða afkomu Harlem ehf. á tímabilinu eftir að framangreindir samningar voru gerðir. Fyrirtækjaskrá var tilkynnt 1. apríl 2014 að stefndi Steindór hefði látið af störfum sem framkvæmdastjóri Harlem ehf. og jafnframt vikið úr sæti aðalmanns í stjórn félagsins, en þess í stað orðið varamaður í henni. Fyrrnefndur Villý Þór Ólafsson yrði áfram stjórnarmaður í félaginu, tæki við starfi framkvæmdastjóra og væri honum veitt prókúruumboð fyrir það. Hann undirritaði sama dag af hálfu Harlem ehf. samning við félagið 22 niðri ehf. um kaup þess á rekstri Harlem ehf. að Tryggvagötu 22. Þar kom fram að kaupin næðu meðal annars til allra vörubirgða, innréttinga og tækja í eigu seljanda á veitingastaðnum, svo og að seljandinn hefði greitt upp allar skuldir við leigusala, sem hefði samþykkt kaupandann sem nýjan leigutaka og myndi gera húsaleigusamning við hann. Kaupverð var samtals 24.000.000 krónur, en þar af átti að greiða 1. og 2. apríl 2014 alls 4.369.807 krónur með innborgunum á bankareikning Harlem ehf. Að öðru leyti átti kaupandinn að greiða kaupverðið með því að taka yfir skuldir seljandans við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf., 12.451.379 krónur, leigusalann Eik fasteignafélag hf., 3.720.272 krónur, og Sánd ehf., 3.458.542 krónur. Afhenda átti veitingastaðinn nýjum eiganda samdægurs, en kaupverð skyldi að fullu greitt 2. maí 2014. Í málinu hefur komið fram að Sánd ehf. hafi verið í eigu stefnda Steindórs og átt kröfu á hendur Harlem ehf. vegna hljóðkerfis, sem hafi verið notað á veitingastaðnum, svo og að fyrrgreind skuld Harlem ehf. við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf., sem 22 niðri ehf. tók að sér að greiða, hafi annars vegar átt rætur að rekja til vörukaupa Harlem ehf., 3.716.658 krónur, og hins vegar til eftirstöðva skuldar samkvæmt áðurnefndum lánssamningi, 8.734.721 króna. Eftir framangreind kaup gerði 22 niðri ehf. 25. júní 2014 ýmsa samninga við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf., sem að efni til voru hliðstæðir áðurnefndum samningum Harlem ehf. við þann sama frá 12. desember 2012. Meðal þeirra var samningur um lán stefnda til 22 niðri ehf. að fjárhæð 12.245.816 krónur. Telur áfrýjandi að með láni þessu hafi verið gerð upp skuld Harlem ehf. við stefnda að fjárhæð 12.451.379 krónur, sem 22 niðri ehf. hafði skuldbundið sig til að taka yfir með kaupsamningnum við Harlem ehf. frá 1. apríl 2014. Samkvæmt gögnum málsins barst héraðsdómi 28. október 2014 krafa frá Gildi lífeyrissjóði um að bú Harlem ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta, en árangurslaust fjárnám mun hafa verið gert hjá félaginu 15. september sama ár. Krafa þessi var tekin til greina með úrskurði 7. janúar 2015 og gaf skiptastjóri út innköllun til lánardrottna, sem birt var fyrra sinni 15. sama mánaðar. Innan kröfulýsingarfrests, sem lauk þannig 15. mars 2015, bárust skiptastjóra kröfur að fjárhæð samtals 20.481.609 krónur. Á fyrsta skiptafundi í áfrýjanda, sem haldinn var 31. mars 2015, kom meðal annars fram að engar eignir hefðu fundist við skiptin, en skiptastjóri teldi á hinn bóginn hugsanlegt að rifta greiðslum, sem Harlem ehf. hafi innt af hendi í tengslum við sölu á rekstri sínum. Hefði verið leitað eftir því hvort Gildi lífeyrissjóður myndi vegna eignaleysis áfrýjanda takast á hendur ábyrgð á kostnaði af rekstri riftunarmála, en svar hefði ekki enn fengist við því og var skiptafundi við svo búið frestað til 24. apríl 2015. Ekki liggja fyrir í málinu frekari gögn um svör lífeyrissjóðsins við málaleitan áfrýjanda, en skiptastjóri beindi á hinn bóginn yfirlýsingu til stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. 10. ágúst 2015 um riftun á greiðslu skuldar Harlem ehf. við hann að fjárhæð 12.451.379 krónur, sem hann hafi fengið með yfirtöku 22 niðri ehf. á skuldinni. Því andmælti sá stefndi með bréfi 2. september 2015 og höfðaði áfrýjandi í kjölfarið mál þetta 25. og 28. sama mánaðar. II Svo sem lýst var að framan mun áfrýjandi ekki hafa átt eignir við lok kröfulýsingarfrests til að standa straum af kostnaði af rekstri þessa máls á hendur stefndu og taldi skiptastjóri sig réttilega þurfa af þeim sökum að leita eftir ábyrgð eins eða fleiri lánardrottna áfrýjanda til að láta verða af málsókn. Skiptastjóri átti þess því ekki kost að höfða málið fyrr en slík ábyrgð hafði fengist, en ljóst er af áðursögðu að það hafi ekki gerst fyrr en eftir skiptafund 31. mars 2015. Málið var þannig höfðað innan sex mánaða frá því að ábyrgð lá fyrir og þar með innan þess frests, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt kaupsamningi Harlem ehf. við 22 niðri ehf. 1. apríl 2014 átti síðarnefnda félagið að greiða hluta af kaupverði veitingastaðarins að Tryggvagötu 22 með því að taka að sér skuld þess fyrrnefnda við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. að fjárhæð 12.451.379 krónur. Í málinu liggur ekkert fyrir um að þessi stefndi hafi samþykkt slíka skuldskeytingu áður en hann gerði fyrrgreinda samninga við 22 niðri ehf. 25. júní 2014. Hann hefur ekki mótmælt þeirri staðhæfingu áfrýjanda að 22 niðri ehf. hafi staðið við þessa skuldbindingu sína með því að gera við hann lánssamning síðastnefndan dag. Líta verður svo á að með þessari ráðstöfun hafi þessi stefndi fengið uppgerða skuld Harlem ehf. við sig að fjárhæð 12.451.379 krónur. Greiðsla þessi fór þannig fram innan sex mánaða fyrir frestdag við gjaldþrotaskipti á áfrýjanda, sem var eins og fyrr segir 28. október 2014. Greiðsla, sem fengin er með viðtöku greiðsluskuldbindingar þriðja manns, verður að teljast innt af hendi með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Standa atvik í málinu ekki til þess að líta svo á að greiðslan, sem áfrýjandi leitar eftir að fá rift, hafi virst venjuleg eftir atvikum, en um það hefur stefndi Coca-Cola European Partners Ísland ehf. sönnunarbyrði. Er því fullnægt skilyrðum þessa lagaákvæðis til að verða við kröfu áfrýjanda um riftun greiðslunnar. Í málinu liggur ekki annað fyrir en að greiðslan, sem innt var af hendi í framangreindu horfi, hafi orðið stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. að notum, þótt enn virðist ekki hafa reynt á hvort 22 niðri ehf. muni að fullu gera skil á skuld sinni samkvæmt lánssamningi þeirra frá 25. júní 2014, sem ekki er að öllu leyti komin í gjalddaga eftir ákvæðum hans. Þegar metið er samhliða þessu hvort greiðslan hafi valdið áfrýjanda tjóni, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, verður að gæta að því að stefndi Coca-Cola European Partners Ísland ehf. naut samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi við Harlem ehf. frá 12. desember 2012 réttar til að gjaldfella kröfu sína ef eigendaskipti yrðu að veitingastað síðarnefnda félagsins án þess að því tækist að tryggja að nýr eigandi tæki þá skuld að sér. Eftir samningi stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. við Harlem ehf. og Eik fasteignafélag hf. frá sama degi hefði stefndi undir þeim kringumstæðum getað brugðist við greiðslufalli Harlem ehf. með því að knýja fram riftun á leigusamningi um húsnæðið, þar sem félagið rak veitingastað sinn, taka yfir réttindi sem leigutaki að húsnæðinu og ráðstafa því síðan til nýs leigjanda, eftir atvikum með áskilnaði um sérstaka greiðslu úr hendi hans. Með þessu naut þannig stefndi Coca-Cola European Partners Ísland ehf. á óbeinan hátt eins konar tryggingar fyrir greiðslu kröfu sinnar. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að kaupsamningur Harlem ehf. við 22 niðri ehf. frá 1. apríl 2014 náði að vísu meðal annars til aðstöðu til að reka veitingahús að Tryggvagötu 22, sem háð var tilvist húsaleigusamnings, en að öðru leyti til margvíslegra lausafjármuna og óefnislegra verðmæta, sem ekki tengdust því húsnæði sérstaklega. Í þeim munum og verðmætum naut stefndi Coca-Cola European Partners Ísland ehf. engra tryggingarréttinda. Í ljósi ákvæðis 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 verður þessi stefndi að bera sönnunarbyrði fyrir því hvort eitthvað og þá eftir atvikum hversu mikið af 24.000.000 króna kaupverðinu samkvæmt samningnum frá 1. apríl 2014 hafi komið fyrir aðstöðu í skjóli húsaleigusamningsins, sem hann hafði þó ekki einn forræði á óháð afstöðu leigusalans Eikar fasteignafélags hf. Þá sönnunarbyrði hefur stefndi að engu leyti axlað. Að öllu framangreindu virtu verður því að taka til greina aðalkröfu áfrýjanda um að þessum stefnda verði gert að greiða honum 12.451.379 krónur. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 getur sú krafa ekki borið dráttarvexti fyrr en að liðnum mánuði frá því að áfrýjandi krafðist fyrst greiðslunnar með áðurnefndu bréfi 10. ágúst 2015 og verða þeir vextir því dæmdir eins og í dómsorði greinir. Eins og fyrr var rakið efndi 22 niðri ehf. ekki skuldbindingu sína samkvæmt kaupsamningnum frá 1. apríl 2014 til að taka að sér skuld Harlem ehf. við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. með því að gerast nýr skuldari samkvæmt lánssamningnum milli síðargreindu félaganna tveggja frá 12. desember 2012, heldur gerði 22 niðri ehf. nýjan lánssamning við þennan stefnda 25. júní 2014 og greiddi þannig upp skuld Harlem ehf. Eftir ákvæðum lánssamningsins frá 12. desember 2012 bar Harlem ehf. enga ábyrgð á kröfu stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. á hendur 22 niðri ehf. samkvæmt yngri lánssamningnum. Stefndu Dagný og Steindór losnuðu af þessum sökum undan skuldbindingum sínum samkvæmt fyrrnefndri yfirlýsingu frá 12. desember 2012 um sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skulda Harlem ehf. við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. með greiðslunni, sem rift er samkvæmt framansögðu. Ekki getur orkað tvímælis að þeim hafi þegar greiðslan fór fram verið kunnugt um aðstæðurnar, sem riftunin er reist á. Er því fullnægt skilyrðum 1. mgr. 147. gr. laga nr. 21/1991 til að dæma þau til að greiða áfrýjanda fyrrgreinda fjárhæð óskipt með stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. Af gögnum málsins verður ekki séð að áfrýjandi hafi krafið þau um greiðslu þessa fyrr en með birtingu héraðsdómsstefnu 25. september 2015 og verður þeim því ekki gert að greiða dráttarvexti fyrr en frá þeim degi, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Stefndu verða dæmd í sameiningu til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Rift er greiðslu 25. júní 2014 á skuld Harlem ehf. við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. að fjárhæð 12.451.379 krónur. Stefndi Coca-Cola European Partners Ísland ehf. greiði áfrýjanda, þrotabúi Harlem ehf., 12.451.379 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. september 2015 til greiðsludags. Þar af greiði stefndu Dagný Ósk Aradóttir Pind og Steindór Grétar Jónsson áfrýjanda óskipt með stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. sömu fjárhæð með dráttarvöxtum frá 25. september 2015 til greiðsludags. Stefndu greiði óskipt áfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.                                                                               Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2017. Mál þetta var höfðað af þrotabúi Harlem ehf. þann 28. september 2015 gegn Vífilfelli hf., Stuðlahálsi 1, Reykjavík, en 25. september 2015 gegn stefndu Dagnýju Ósk Aradóttur Pind, Skarphéðinsgötu 6, 105 Reykjavík og Steindóri Grétari Jónssyni, Njálsgötu 22, 101 Reykjavík. Málið var dómtekið í lok aðalmeðferðar 2. júní sl. Við upphaf aðalmeðferðar upplýsti lögmaður stefnda Vífilfells hf. að félagið hefði breytt um nafn og héti nú Coca - Cola European Partners Ísland ehf. í dómnum verður þó fram að niðurstöðu fjallað um stefnda sem Vífilfell. Stefnandi gerir þá kröfu að rift verði með dómi greiðslu á skuld Harlem ehf., við stefnda Vífilfell hf. að fjárhæð samtals 12.451.379 krónur sem fór fram með afhendingu eða sölu til 22 niðri ehf. á rekstri veitingarstaðarins Harlem ásamt aðstöðu, nafni og réttindum, sem og öllum birgðum á staðnum, innréttingum og tækjum, gegn því að móttakandi verðmætanna, félagið 22 niðri ehf., yfirtæki m.a. skuld Harlem ehf. við stefnda Vífilfell hf. tilgreindrar fjárhæðar sem hluta kaupverðs, en 22 niðri ehf. greiddi fjárhæðina beint til stefnda í formi lánssamnings þann 25. júní 2014 á grundvelli kaupsamnings dags. 1. apríl 2014. Þá kveðst stefnandi krefjast þess aðallega að stefndu verði dæmd sameiginlega til að greiða stefnanda 12.451.379 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 25. júní 2014 til greiðsludags. Til vara að stefndu verði dæmd sameiginlega til að greiða stefnanda 3.061.450 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 612.290 krónum frá 15. júlí 2014 til 15. október 2014, af 1.224.580 krónum frá 15. október 2014 til 15. janúar 2015, af 1.836.870 krónum frá 15. janúar 2015 til 15. apríl 2015, af 2.449.160 krónum frá 15. apríl 2015 til 15. júlí 2015 og af 3.061.450 krónum til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefndu sameiginlega. Stefndu krefjast öll sýknu. Þá krefjast þau málskostnaðar úr hendi stefnanda. Stefndu kröfðust öll í fyrstu frávísunar málsins en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins 18. mars 2016. I. Stefnandi, sem var félag stofnað um rekstur skemmtistaðarins Harlem við Tryggvagötu í Reykjavík, var tekinn til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 7. janúar 2015. Frestdagur við skiptin er 28. október 2014. Innköllun birtist fyrra sinni 15. janúar 2015 og kröfulýsingarfresti lauk 15. mars 2015. Fyrsti skiptafundur var haldinn 31. mars 2015. Viðskiptasamband Harlem ehf. og stefnda Vífilfells hf. hófst 12. desember 2012, þegar gerður var viðskiptasamningur vegna reksturs á veitingastaðnum. Vegna rekstrarerfiðleika Harlem ehf. á fyrri hluta ársins 2014 varð greiðsludráttur á viðskiptaskuldum við stefnda Vífilfell hf. Stefndi kveðst þó ekki hafa áttað sig á alvarleika málsins fyrr en upplýsingar bárust um að forsvarsmenn Harlem ehf. vildu hætta rekstri. Vegna framangreindra samningsskuldbindinga og yfirtökuréttar stefnda á því húsnæði sem veitingastaðurinn var rekinn í þurfti að koma til samþykki stefnda fyrir aðilaskiptum á húsaleigusamningnum. Stefndi Vífilfell hf. gerði aðilum ljóst að slíkt samþykki yrði ekki veitt nema nýr rekstraraðili tæki yfir þær skuldbindingar sem Harlem ehf. hafði stofnað til við hann. Þann 1. apríl 2014 var undirritaður kaupsamningur f.h. Harlem ehf. við félagið 22 niðri ehf., um kaup þess félags á rekstri Harlem ehf. Hið selda var tilgreint sem rekstur veitingastaðar Harlem ehf. ásamt réttindum. Einnig allar birgðir á staðnum, innréttingar og tæki. Í samningnum kom fram að hluti kaupverðsins væri greiddur með yfirtekinni viðskiptaskuld við Vífilfell hf. að fjárhæð 12.451.379,00 krónur. Í þessu fólst að 22 niðri ehf. tók yfir lánssamning stefnanda að fjárhæð 8.734.721 króna og almenna viðskiptaskuld að fjárhæð 3.716.658 krónur. Stefndi Vífilfell hf. gerði nýjan lánssamning við 22 niðri ehf. til fimm ára þann 25. júní 2014. Félagið 22 niðri ehf. hefur nú þegar greitt stefnda Vífilfelli hf. 3.061.450 krónur af þessu nýja láni. Til tryggingar á öllum kröfum stefnda Vífilfells ehf. á hendur Harlem ehf., undirrituðu stefndu Dagný Ósk Aradóttir Pind og Steindór Grétar Jónsson yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð og náði ábyrgðin til 15.000.000 króna.   Með bréfi til stefnda Vífilfells hf., 10. ágúst 2015, rifti skiptastjóri ofangreindri greiðslu á skuld stefnanda en kröfum búsins var hafnað með bréfi lögmanns Vífilfells hf. 2. september 2015. Hvorki stefndi Vífilfell hf. né aðrir stefndu lýstu kröfu í þrotabúið. Stefndu Dagný Ósk og Steinþór Grétar fullyrða að skiptastjóri hafi aldrei óskað eftir skýringum frá þeim vegna greiðslna af áðurgreindu skuldabréfi og þeim þannig fyrst orðið kunnugt um kröfur stefnanda eftir að stefnur voru birtar á lögheimilum þeirra þann 25. september 2015. II. Stefnandi telur almenn skilyrði til riftunar fyrir hendi. Ljóst sé að nái riftun fram að ganga aukist möguleikar kröfuhafa á að fá fullnustu krafna sinna og einnig sé ljóst að greiðsla til stefnda Vífilfells hf. á skuld Harlem ehf. hafi ekki verið í samræmi við greiðslur til annarra kröfuhafa og hafi því leitt til mismununar kröfuhafa og orðið félaginu til tjóns. Stefnandi byggir kröfu um riftun á því að greiðsla á skuld Harlem ehf. við stefnda Vífilfell að fjárhæð 12.451.379 krónur hafi verið innt af hendi 25. júní 2014 með því að stefndi Vífilfell hf. hafi í raun tekið við greiðslunni í formi skuldaviðurkenningar nýs aðila, 22 niðri ehf., og því hafi hún farið fram á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, sem var þann 28. október 2014. Félagið 22 niðri ehf. hafi þannig gert lánssamning við stefnda Vífilfell vegna greiðslu skuldar Harlem ehf. í samræmi við efni kaupsamnings frá 1. apríl 2014. Þetta sé í samræmi við þá meginreglu kröfuréttar um að greiðsla teljist hafa verið innt af hendi þegar hún sé komin til kröfuhafa. Byggt er á því að greiðslan sé öll riftanleg þar sem um hafi verið að ræða óvenjulegan greiðslueyri, hvort heldur ef litið sé til yfirtöku þriðja aðila á lánssamningi eða nýs lánssamning þriðja aðila til greiðslu á skuld. Þá byggir stefnandi á því að greidd hafi verið fjárhæð sem hafi skert greiðslugetu Harlem ehf. verulega, enda geti greiðslan ekki hafa virst eðlileg eftir atvikum. Byggt er á því að ekki skipti máli þótt félagið 22 niðri ehf. hafi átt aðild að því að koma greiðslunni í kring, enda hafi verið samið um það strax að þeir greiddu stefnda Vífilfelli hf. Stefnandi byggir einnig á því að ofangreind ráðstöfun hafi á ótilhlýðilegan hátt verið stefnda Vífilfelli hf. til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og að hún hafi leitt til þess að eignir Harlem ehf. voru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, sbr. 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og fleira. Þá hafi Harlem ehf. verið ógjaldfært eða orðið það vegna umræddrar ráðstöfunar og stefndi Vífilfell hf. hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg. Varðandi skilyrði 141. gr. laganna, bendir stefnandi á að Harlem ehf. hafi verið með skráningu í vanskilaskrá á þessum tíma og stefndi Vífilfell hf. virðist hafa haft áhyggjur af fjárhagsstöðu Harlem ehf., en við uppflettingu 20. febrúar 2014 hafi gjaldfallin viðskiptaskuld Harlem ehf. við stefnda Vífilfell numið 3.716.658 krónur. Vegna tilkynningaskyldu samkvæmt samningi aðila bar Harlem ehf. að tilkynna um breytingar og því sé ljóst að stefndi Vífilfell hf. hafi haft fulla vitneskju um efni kaupsamnings Harlem ehf. og 22 niðri ehf. Í bréfi f.h. stefnda Vífilfells 2. september 2015, þar sem riftun stefnanda var mótmælt sé m.a. vísað til þess að stefndi hafi notið „samningsbundins yfirtöku- og forgangsréttar til leigusamnings um það húsnæði sem rekstur Harlem var stundaður í“. Í viðaukasamningur við leigusamning aðila komi fram að stefnda sé veitt heimild til að yfirtaka réttindi Harlem ehf. varðandi leigusamning, komi til þess að leigusamningi verði rift, hann ógiltur eða honum sagt upp vegna vanskila, riftunar, ógildingar eða uppsagnar á viðskiptasamningi eða ef gert er árangurslaust fjárnám í búi Harlem ehf. á leigutímanum. Sama gildi varðandi verulegar vanefndir á skyldum Harlem ehf. við stefnda samkvæmt viðskiptasamningi þeirra. Um ekkert slíkt hafi hins vegar verið að ræða, heldur hafi Harlem ehf. selt rekstur sinn o.fl. og var kaupverðið meðal annars greitt með yfirtekinni viðskiptaskuld Harlem ehf. við stefnda. Í stað þess að kaupverðið rynni til staðarins og yrði síðar til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, hafi það runnið til stefnda Vífilfells hf. Varðandi kröfu á hendur stefndu Dagnýju Ósk og Steindóri Grétari byggir stefnandi á því að þau hafi losnað undan sjálfskuldarábyrgð sinni vegna umræddrar riftanlegrar ráðstöfunar, sbr. 1. mgr. 147. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og fleira, en stefnandi telur að stefndu hafi vitað eða mátt vita um aðstæðurnar sem riftunarkrafan byggist á þegar þau losnuðu frá skuldbindingu sinni. Þar að auki séu stefndu nákomin þrotabúinu, sbr. 4. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 147. gr. laganna, en stefndu voru stofnendur félagsins og höfðu þar prókúruumboð, auk þess sem stefndi Steindór Grétar hafi verið meðstjórnandi og framkvæmdastjóri félagsins. Þá hafi stefnda Dagný Ósk lýst því yfir við fyrirsvarsmann eins af kröfuhöfum stefnanda í samtali þann 7. maí 2014 að hún borgaði frekar „skuld sem [hún væri] í persónulegri ábyrgð fyrir en að borga aðra skuld“. Vegna vitneskju stefndu um þær aðstæður sem leiddu til þess að umræddar ráðstafanir voru ótilhlýðilegar kveðst stefnandi einnig byggja á 141. gr. laga nr. 21/1991. Ábyrgð stefndu Dagnýjar Óskar og Steindórs Grétars nái til 15.000.000 króna án virðisaukaskatts og séu þau því krafin in solidum um endurgreiðslu fjármunanna ásamt stefnda Vífilfelli hf. Hvað varðar kröfu um endurgreiðslu er byggt á 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og fleira. Dráttarvaxta er krafist frá 25. júní 2014 varðandi aðalkröfuna, en varðandi varakröfuna er miðað við dagsetningar afborgana lánssamnings 22 niðri ehf. og stefnda Vífilfells hf.. Krafa um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafan um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varakrafa stefnanda er reist á sömu málsástæðum og lagarökum og aðalkrafa, en þar er aðeins krafist endurgreiðslu á afborgunum sem 22 niðri ehf. hafði þegar innt af hendi af lánssamningi 22 niðri ehf. og stefnda Vífilfells hf. Varakrafa stefnanda var óbreytt við aðalmeðferð málsins þrátt fyrir að í málinu liggi fyrir að innborganir hafi numið 5.510.610 krónum í júlí 2016.  III. Stefndi Vífilfell hf. mótmælir því að skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. fyrir riftun séu uppfyllt á þann hátt sem byggt er á af hálfu stefnanda. Stefndi bendir á að kaupsamningur sá sem stefnandi grundvallar riftunarkröfu sína á var gerður 1. apríl 2014. Þótt stefndi hafi ekki vitað af tilvist eða efni þessa kaupsamnings feli hann í sér staðfestingu á því að á þessum tímapunkti hafði 22 niðri ehf. tekið yfir rekstur í húsnæði stefnanda að Tryggvagötu 22 í Reykjavík, með leyfi stefnda. Sú ráðstöfun sem fólst í því að 22 niðri ehf. tæki yfir rekstur í húsnæðinu gegn yfirtöku á skuldum stefnanda við stefnda hafi því átt sér stað nærri 7 mánuðum fyrir frestdag. Þegar af þeirri ástæðu séu skilyrði 134. gr. ekki uppfyllt. Í því sambandi skipti ekki máli þótt skjalagerð vegna þessarar ráðstöfunar hafi lokið síðar. Þá sé því mótmælt að greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri. Óvenjulegur greiðslueyrir sé fyrir hendi þegar kröfuhafi samþykkir aðra greiðslu en upphaflega var samið um, t.d. tekur við lausafé í stað peninga.  Í máli þessu sé ekki um neitt slíkt að ræða. Stefnandi hafi staðið í skuld við stefnda, að hluta til vegna lánafyrirgreiðslu stefnda og að hluta til vegna reikningsviðskipta með drykkjarvörur til endursölu. Samkvæmt viðskiptasamningi aðila, hafi stefndi getað rift samningnum ef til kæmu verulegar vanefndir stefnanda, sbr. 9. gr. samningsins. Veruleg vanefnd fólst m.a. í vanskilum með greiðslur afborgana af vörukaupum eða viðskiptaskuldum sem stæðu lengur en í 30 daga, ef stefnandi leitaði nauðasamninga, gert væri hjá honum árangurslaust fjárnám eða bú hans tekið til gjaldþrotaskipta. Við riftun hafi stefnda verið heimilt að gjaldfella allar skuldbindingar stefnanda, lán og aðrar kröfur. Samkvæmt 10. gr. viðskiptasamnings hvíldi sú skylda jafnframt á stefnanda, ef til eigendaskipta kæmi á veitingastaðnum Harlem, að tryggja að nýr rekstraraðili tæki við skyldum stefnanda samkvæmt samningnum, sbr. 10. gr. Samkvæmt 14. gr. myndaði viðskiptasamningurinn og tilgreind fylgiskjöl hans eina heild, þar á meðal       voru lánasamningur og viðaukasamningur við leigusamning. Samkvæmt framangreindu hafi ekki skipt máli hvort afborganir af lánasamningi kæmust í veruleg vanskil eða greiðslur vegna vörukaupa, í báðum tilvikum hafi stefndi getað rift samningnum og gjaldfellt allar skuldbindingar. Stefndi vísar til viðaukasamnings við leigusamning um húsnæðið sem gerður var með  með aðild og samþykki leigusala. Í honum hafi í 1. mgr. I. kafla verið vísað til viðskiptasamnings stefnanda og stefnda. Viðaukasamningurinn hafi mælt fyrir um heimild stefnda til að yfirtaka öll réttindi stefnanda hvað varðar leigusamning kæmi til þess að leigusamningi yrði sagt upp, hann ógiltur eða honum rift vegna m.a. vanskila, riftunar, ógildingar eða uppsagnar á viðskiptasamningnum milli stefnanda og stefnda sem og riftunar, ógildingar eða uppsagnar á leigusamningi. Mælt er fyrir um að veruleg vanefnd á viðskiptasamningi jafngilti verulegri vanefnd á leigusamningi. Því hafi verið alveg ljóst að í vegna greiðsluerfiðleika hjá stefnanda hafi stefndi verið í þeirri samningsbundnu stöðu að geta tekið yfir húsaleigusamning stefnanda og fengið hann borinn útúr eigninni ef á þyrfti að halda. Augljóst sé að enginn rekstrar-grundvöllur sé fyrir veitingastað sem ekki hefur yfir húsnæði að ráða. Til viðbótar við framangreint hafi viðaukasamningurinn tryggt stefnda forleigurétt að húsnæðinu. Stefndi kveðst benda á að handhöfn leiguréttinda að húsnæði sem nýta má undir veitingarekstur sé fjárhagslega verðmæt. Réttur stefnda til leigunnar og möguleiki stefnda til að framselja þann rétt til nýs rekstraraðila hafi gert stefnda kleyft að gera þá kröfu til slíks aðila að slíkur greiddi stefnda fyrir réttinn. Slíkar greiðslur fyrir aðgang að leiguréttindum séu stundum kallaðar lyklagjald. Stefndi hefði getað farið þá leið að setja verðmiða á leiguréttinn sem samsvaraði mati stefnda á verðmæti hans miðað við markaðskjör.  Þess í stað hafi stefndi einfaldlega farið þá leið að setja þann verðmiða á réttinn sem samsvaraði skuld fyrri rekstraraðila við hann. Í tilviki þessa máls hafi 22 niðri ehf. fengið framseldan til sín leigusamning, sem leigutaki, með samþykki stefnda sem hafði stjórn á því hver fengi þann rétt til sín á eftir stefnanda. Gegn afhendingu leiguréttindanna greiddi 22 niðri ehf. fyrir með yfirtöku skulda stefnanda við stefnda sem gerður var nýr lánasamningur um.  Ekkert sé óvenjulegt við þann greiðslueyri.  Enginn annar kröfuhafi hafi átt þann rétt til leigunnar sem stefndi átti. Það sé einfaldlega svo að kröfur sumra kröfuhafa séu betur tryggðar en annarra. Tryggingarréttindi stefnda hafi verið þinglýst og því mátt vera öllum viðsemjendum stefnanda kunnug. Stefndi hafnar því að yfirtaka 22 niðri ehf. á skuldum stefnanda við stefnda hafi skert greiðslugetu stefnanda.  Stefndi hafi ekki tekið við neinum verðmætum úr hendi stefnanda nema leiguréttinum sem stefndi átti samningsbundinn tryggingarétt í og ekki var hægt að ráðstafa nema með samþykki stefnda. Leiguréttindin sem um ræðir hafi aldrei getað verið verðmæti í hendi þrotabúsins, en slík réttindi falla niður við gjaldþrot samkvæmt b lið XIV. kafla leigusamningsins sjálfs. Verðmæti sem þrotabúið átti ekki og gat aldrei átt hafi því verið notað til að jafna kröfu eins kröfuhafa sem af þeim sökum lýsti ekki kröfu í búið.  Staða þrotabúsins hafi því sannarlega ekki verið verri heldur þvert á móti betri fyrir vikið ef eitthvað er. Hvað sem öðru líði, telur stefndi að yfirtaka 22 niðri ehf. á skuldum stefnanda við stefnda hafi verið venjuleg eftir atvikum.  Allt framangreint feli í sér að skilyrði 134. gr. fyrir riftun séu ekki uppfyllt í málinu. Stefndi mótmælir því að ráðstöfun sú sem krafist er riftunar á af hálfu stefnanda hafi á ótilhlýðilegan hátt verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og að hún hafi leitt til þess að eignir Harlem ehf. hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, sbr. 141. gr. laga nr. 21/1991. Vísar stefndi til framangreinds rökstuðnings. Þá er því mótmælt að Harlem hafi orðið ógjaldfært vegna ráðstöfunarinnar.  Ráðstöfun sem feli í sér brot á jafnræði kröfuhafa er að jafnaði ótilhlýðileg. Hin umþrætta ráðstöfun feli ekki í sér neitt slíkt brot enda var staða stefnda sem kröfuhafa ekki sambærileg stöðu annarra kröfuhafa sbr. framangreint. Þá blasi við að ráðstöfunin hafi ekki leitt til þess að eignir þrotamannsins væru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiddu til skuldaaukningar. Ráðstöfunin hafi þvert á móti leitt til skuldalækkunar og forsenda hennar hafi verið ráðstöfunarréttur stefnda yfir leiguréttindum stefnanda sem þrotabúið átti ekki og gat aldrei átt né ráðstafað. Stefndi mótmælir því að hann hafi haft fulla vitneskju um efni kaupsamnings Harlem ehf. og 22 niðri ehf.  Fullyrðing stefnanda um þetta sé ósönnuð.  Í því sambandi breyti engu þótt stefndi hafi fylgst með skráningum varðandi stefnanda á vanskilaskrá.  Það sé eðlilegur þáttur í eftirliti stefnda með þeim viðskiptavinum sínum sem skulda honum fé.  Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi verið ógjaldfær þegar til þess kom að 22 niðri ehf., með samþykki stefnda, tók við leiguréttindum stefnanda og samdi við stefnda um endurgjald fyrir það í formi yfirtöku á skuldum stefnanda. Um þetta beri stefnandi sönnunarbyrðina og hafi ekki axlað þá byrði. Stefndi mótmælir endurgreiðslukröfum stefnanda. Endurgreiðslukrafan sé reist á 142. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt því ákvæði skal sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun, ef riftun fer fram með stoð í 131. - 138. gr. laganna greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Hér kveðst stefndi benda í fyrsta lagi á að "greiðsla" 22 niðri ehf. á skuldum stefnanda, sem fólst þá í yfirtöku á skuldunum, geti aldrei talist hafa komið stefnda að notum nema að því marki sem 22 niðri hefur greitt lánið raunverulega niður.  Til viðbótar liggi svo ekkert fyrir í málinu um að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Stefnandi beri einnig sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni þannig að samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laganna skuli sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun, ef riftun fer fram skv. 139. eða 141. gr. laganna greiða bætur eftir almennum reglum. Slíkt tjón sé með öllu ósannað. Verði ekki fallist á kröfu stefnda um algera sýknu af kröfum stefnanda telur stefndi felast í sýknukröfunni krafa um lækkun dómkrafna, sem byggð sé á öllum framangreindum málsástæðum. Vaxtakröfu stefnanda er mótmælt. Engar forsendur standi til þess, fari svo að einhverjar kröfur stefnanda verði teknar til greina, að telja þær bera vexti fyrr en frá dómsuppsögudegi enda augljóst hvað sem öðru líði að verulegur vafi leiki á um grundvöll kröfu stefnanda og rökstuðningur fyrir grundvelli tölulegrar kröfugerðar sé engin. Um lagarök vísar stefndi til fyrri lagatilvísana og um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. og 130. gr. IV. Stefndu, Dagný og Steindór, byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. eml. enda hafi þau engan hag haft af hinni riftanlegu ráðstöfun í skilningi 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Þannig sé ósannað að stefndu, Dagný og Steindór hafi losnað undan sjálfsskuldarábyrgð sinni gagnvart stefnda, Vífilfelli, vegna hinnar meintu riftanlegu ráðstöfunar, ábyrgðinni hafi ekki verið sagt upp eins og nauðsynlegt sé samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni. Því sé ekki loku fyrir það skotið að stefndi, Vífilfell, muni reyna að gera fjárkröfur á hendur stefndu, Dagnýju og Steindóri, verði félagið dæmt til þess að endurgreiða þrotabúinu fjármuni. Stefndu kveða að í stefnu málsins sé fjárkrafa stefnanda á hendur stefndu, Dagnýju og Steindóri,  grundvölluð á því að þau hafi losnað undan sjálfsskuldarábyrgð sinni, sbr. 1. mgr. 147. gr. laganna, gagnvart stefnda, Vífilfelli hf., vegna tiltekinnar ráðstöfunar sem fullyrt sé að sé riftanleg m.a. á grundvelli 134. gr. laganna. Hin meinta riftanlega ráðstöfun hafi falist að mati skiptastjóra í því að félagið 22 niðri ehf. greiddi skuld Harlem ehf. við Vífilfell hf. Stefndu benda á að yfirtaka 22 niðri ehf. á áðurgreindri viðskiptaskuld átti sér stað þann 1. apríl 2014 og hafi greiðslan ekki farið fram á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, sem var þann 28. október 2014 og sé því ekki riftanleg. Engu máli skipti þó aðilar hafi ekki gengið frá nýjum láns- eða viðskiptasamningum fyrr en síðar. Af gögnum málsins megi ráða að stefndi, Vífilfell, hafi verið samþykkt ráðstöfuninni enda beitti félagið engum vanefndaúrræðum. Stefndu, Dagný og Steindór, mótmæla því að ráðstöfunin feli í sér greiðslu með óvenjulegum greiðslueyri. Af gögnum málsins megi sjá að stefndi, Vífilfell, hafi haft tvenns konar tryggingar fyrir efndum Harlem ehf. vegna skuldbindinga þess við félagið. Annars vegar sjálfsskuldarábyrgð stefndu, Dagnýjar og Steindórs og hins vegar naut félagið samningsbundins yfirtöku- og forgangsréttar til leigusamnings um það húsnæði sem rekstur Harlem var stundaður í, sbr. viðauka við leigusamning. Þegar rekstur Harlem hafi stöðvast hafi verið samið um að félagið 22 niðri ehf. tæki umrædd leiguréttindi yfir gegn því að standa skil á greiðslum til stefnda, Vífilfells hf. sem jafngilda skuldbindingum fyrri rekstraraðila, þ.e. Harlem ehf. Nákvæmlega sami háttur var hafður á þegar óstofnað einkahlutafélag sem varð Harlem ehf. tók yfir skuldbindingar Þýska barsins ehf. við stefnda, Vífilfell, þann 24. nóvember 2012. Stefndu, Dagný og Steindór, mótmæla því að ráðstöfunin hafi skert greiðslugetu Harlem ehf. Áðurgreindur yfirtöku- og forgangsréttur stefnda, Vífilfells, til leigusamnings um það húsnæði sem rekstur Harlem var stundaður í hafi ekki verið og hafi aldrei getað verið á hendi stefnanda enda falli leiguréttindi af því sem sem Harlem ehf. átti tilkall til niður við gjaldþrot gagnvart þrotabúinu. Þá hafna stefndu Dagný og Steindór, því að greiðslan hafi ekki verið eðlileg eftir atvikum. Í því sambandi benda þau á að stefndi, Vífilfell, var í fullum rétti að framselja, með samþykki leigusala, þau leiguréttindi sem félagið naut til 22 niðri ehf. gegn greiðslu frá því félagi sem jafngilti töpuðum skuldbindingum Harlem ehf. gagnvart stefnda, Vífilfelli hf. Þá hafi sambærilegar greiðslur átt sér stað áður í tengslum við breytingar á rekstri í húsnæðinu. Stefndu benda á að hefði 22. niðri ehf. ekki yfirtekið framangreinda viðskiptaskuld við stefnda, Vífilfell, sem endurgjald fyrir leiguréttindi, þá hefði ekki verið til staðar neitt andlag í formi reksturs og viðskiptavildar sem Harlem ehf. hefði getað selt, enda hefði þá Vífilfell ehf. nýtt sér forgangsrétt sinn til leigu, sbr. 1. gr. viðaukasamnings við leigusamning og framselt svo réttindin til þriðja aðila. Stefndu mótmæla því að skilyrðum 141. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt en þar sé gert að skilyrði að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg og að uppfylla þurfi öll skilyrði ákvæðisins. Stefndu, Dagný og Steindór, hafna því að greiðslan sem krafist var riftunar á hafi verið stefnda, Vífilfelli til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Sem rök fyrir framangreindu vísa stefndu, Dagný og Steindór, til framangreindra röksemda. Stefndu, hafna því einnig með vísan til framangreinds að greiðslan sem krafist er riftunar á hafi leitt til þess að eignir Harlem hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Þá telja stefndu að stefnandi hafi með engu móti sýnt fram á að hann hafi verið ógjaldfær á þeim tíma sem hin meinta riftanlega greiðsla fór fram. Um það beri hann sönnunarbyrði. Stefndu, benda á að þær skráningar sem félagið hafði í vanskilaskrá á þessum tíma hafi ekki verið vegna alvarlega vanskila heldur hafi annars vegar verið um að ræða skráningu vegna áritaðrar stefnu og hins vegar vegna greiðsluáskorunar, í báðum tilvikum vegna lágra fjárkrafa. Í ljósi framangreinds telja stefndu, ósannað að Harlem ehf. hafi verið ógjaldfært eða hafi orðið ógjaldfært við hina hina meintu riftanlegu ráðstöfun. Stefndu, krefjast sýknu af aðalkröfu stefnanda á þeim grundvelli að skilyrði 1. mgr. 147. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt. Það sé fortakslaust skilyrði samkvæmt ákvæðinu að þriðji maður hafi losnað frá skuldbindingu en ósannað er að það eigi við í tilviki stefndu, Dagnýjar og Steindórs. Í yfirlýsingu um sjálfsskuldarábyrgð vegna skulda við Vífilfell hf. sem stefndu, Dagný og Steindór rituðu undir segir eftirfarandi: „Sjálfsskuldarábyrgðin stendur frá útgáfudegi og þar til henni hefur verið sagt upp“. Stefnandi hafi engin gögn lagt fram um að stefndi, Vífilfell, hafi sagt upp áðurgreindri sjálfskuldarábyrgð og því sé ósannað að stefndu, hafi losnað undan sjálfsskuldarábyrgðinni. Stefndu, krefjast sýknu af endurgreiðslukröfu stefnanda enda liggi ljóst fyrir að þau hafi með engu móti haft hag af hinni meintu riftanlegu ráðstöfun. Ef fallist verði á kröfur stefnanda er á því byggt af hálfu stefndu, Dagnýjar og Steindórs, að atvik þessa mál séu með þeim hætti að fella skuli kröfuna niður eða lækka hana með vísan til 145. gr. laga nr. 21/1991. Þá telja stefndu að sýkna beri þau af fjárkröfu stefnanda þar sem meint tjón stefnanda sé ofmetið. Í þessu sambandi sé bent á að aðalkrafa stefnanda nemur 12.451.379 krónum auk vaxta þrátt að fyrir gögn málsins staðfesti að 22. niðri ehf. hafi aðeins greitt kr. 3.061.450,- til stefnda, Vífilfells en stefndu telja að meint fjártjón stefnanda geti aldrei numið hærri fjárhæð en þeirri sem 22 niðri ehf. hafi greitt til stefnda, Vífilfells, þegar mál þetta var höfðað. Stefndu mótmæla því að endurgreiðslukrafan skuli bera dráttarvexti. Inntak endurgreiðslureglu 142. gr. sé skýrt, að sá sem þola þurfi riftun, verði að endurgreiða þrotabúinu fé, þ.e. peningagreiðslu, sem svari til þeirra verðmæta sem hann fékk, þ.e. í formi peninga eða annars, s.s. niðurfelldra ábyrgða. Af þessu megi sjá að engin lagaheimild sé fyrir greiðslu vaxta af kröfum á grundvelli 142. gr. laganna. Ef fallist verður á vexti þá mótmæla stefndu upphafstíma dráttarvaxta skv. kröfu stefnanda. Stefnandi hafi aldrei sent stefndu, Dagnýju og Steindóri, innheimtubréf eða riftunaryfirlýsingu, sem stefndu hafa getað tekið afstöðu til fyrr en stefna var birt þann 25. september 2015.  Ef dómurinn fallist á fjárkröfu stefnanda þá byggja stefndu, á því að ekki séu efni til að fallist á dráttarvaxtakröfu hans fyrr en í fyrsta lagi frá þingfestingardegi stefnu. Stefndu krefjast sýknu af varakröfu stefnanda með vísan til framangreindra röksemda þ.e. þeirra sem um varakröfuna geta gilt. Hið sama á við um vaxtakröfur stefnanda. V. Í niðurstöðu verður með tilvísun til stefnda einungis átt við stefnda Vífilfell hf., nú Coca-Cola European Partners Ísland ehf., nema annað sé tekið fram. Af framlögðum skjölum málsins og framburði fyrir dómi, verður að mati dómsins ráðið með nokkuð skýrum hætti að þau viðskipti sem urðu til þess að nýr aðili tók við greiðslu á skuld Harlem við stefnda hefðu aldrei litið dagsins ljós nema með samþykki stefnda. Aðilaskipti í rekstrinum voru þannig samkvæmt lánasamningi Vífilfells og Harlem háð því að tryggt væri að nýr aðili tæki við öllum skuldbindingum hins fyrri gagnvart stefnda. Jafnframt skyldi fyrri eigandi rekstrarins ábyrgjast efndir nýs eiganda allt þar til stefndi leysti hann með sérstakri yfirlýsingu undan þeirri skyldu. Þá var stefnda samkvæmt viðaukasamningi í lófa lagið að yfirtaka leigusamning um húsnæðið ef ekki yrði tryggð yfirtaka á viðskiptaskuld við hann og samþykkis aflað. Ekki er hægt að líta svo á að sökum þess að stefndi beitti ekki vanefndaúrræðum í málinu heldur samþykkti framsal, hafi hann misst einhver þau réttindi sem framangreindir samningar veittu honum. Fallist verður á að leiguréttur eins og sá sem um ræðir í málinu sé verðmætur og jafnframt að hann sé grundvallaratriði í rekstri sem þessum. Fyrrum forsvarsmaður stefnanda tók reyndar svo djúpt í árinni að segja staðinn verðlausan án leiguréttarins. Þannig skiptir sköpum að mati dómsins fyrir starfsemi eins og hér um ræðir að í gildi sé leigusamningur um húsnæði á vænlegum stað. Ekki er sjáanlegur ágreiningur í málinu um þetta en stefnandi hefur þó haldið því fram að önnur verðmæti sem seld voru með kaupsamningnum 1. apríl 2014 hafi verið talsverð en ekkert liggur þó nákvæmlega fyrir um skilin þarna á milli. Fyrrum fyrirsvarsmaður stefnanda sagði reyndar í skýrslutöku hjá skiptastjóra 15. janúar 2015, að engin eignaaukning hafi orðið frá því Harlem keypti reksturinn og fram að sölu. Það endurspeglast reyndar ekki í samanburði á kaup- og söluverði, en á þeim mun kunnu að vera aðrar skýringar. Hitt liggur fyrir að kaupandi rekstrarins og nýr leigutaki var reiðubúinn að tryggja sér  leiguréttinn með því að yfirtaka þá skuld sem Harlem stóð í við stefnda við gerð kaupsamningsins og því má líta svo á að það hafi í raun verið kaupverð réttarins.  Þetta skiptir máli því ekki verður betur séð en að verðmæti sem fólust í leigusamningum hafi aldrei getað nýst þrotabúinu og leitt til eignaaukningar í félaginu kröfuhöfum til hagsbóta nema stefndi hefði samþykkt slíka ráðstöfun, en í því hefði verið fólgin örlætisgerningur stefnda gagnvart stefnanda umfram skyldu. Þá verður litið til þess að ef stefndi hefði ekkert aðhafst og synjað um yfirtöku nýs aðila þá hefði leigusamningurinn fallið niður við gjaldþrotaskipti skv. beinu ákvæði í samningnum. Því er ekki hægt að líta svo á að þessir löggerningar hafi orðið búinu til tjóns. Öðru máli hefði gegnt ef tekist hefði að sanna að leigurétturinn væri minna virði en greitt var í raun fyrir hann en slíkur mismunur hefði þá að óbreyttu átt að ganga til þrotabúsins. Engin slík sönnun hefur verið reynd en telja verður með vísan til framangreinds að sönnunarbyrði um þetta hvíli á stefnanda. Því verður litið svo á að eðlilegt verð hafi verið greitt fyrir leiguréttinn enda stefnukröfur í raun ekki byggðar á hinu gagnstæða. Þá hefur engum málsástæðum verði hreyft um að hægt sé að vefengja með einhverju móti þá samninga sem grundvölluðu réttarstöðu stefnda. Þegar af framangreindum ástæðum verður stefndi Coca - Cola European Partners Ísland ehf. sýknaður af kröfum stefnanda. Er þá jafnframt óhjákvæmilegt að sýkna einnig meðstefndu Dagnýju Ósk og Steinþór Grétar, sbr. 1. mgr. 147. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.v enda verið komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið um að ræða riftanlega greiðslu til stefnda Vífilfells hf. Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 130. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er óhjákvæmilegt að dæma stefnanda til að greiða stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf., áður Vífilfell hf. málskostnað sem telst hæfilegur 800.000 krónur. Jafnframt greiði stefnandi stefndu Dagnýju Ósk og Steinþóri Grétari 400.000 krónur til hvors. Við ákvörðun málskostnaðar er litið til tímaskýrslu, fjölda þinghalda og þess að málið var flutt sérstaklega um frávísunarkröfu stefndu. Af hálfu stefnanda flutti málið Diljá Mist Einarsdóttir héraðsdómslögmaður. Af hálfu stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. flutti málið Heimir Örn Herbertsson hæstaréttarlögmaður og af hálfu stefndu Dagnýjar Ósk og Steinþórs Grétars, Ólafur Hvanndal Ólafsson héraðsdómslögmaður.   Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en aðilar og dómari voru sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins. Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Stefndu, Coca-Cola European Partners Ísland ehf., Dagný Ósk Aradóttir Pind og Steindór Grétar Jónsson eru sýknuð af kröfum þrotabús Harlem ehf. Stefnandi greiði stefnda Coca - Cola European Partners Ísland ehf. 800.000 krónur í málskostnað og stefndu Dagnýju Ósk Aradóttur Pind og Steindóri Grétari Jónssyni hvoru um sig 400.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 760/2017
Kröfugerð Dómur Ómerking héraðsdóms
G höfðaði mál á hendur M hf. vegna vangoldinna launa. Gerði G kröfu um tilekna fjárhæð og hafði þá tekið tillit til greiðslna sem M hf. hafði greitt inn á ætlaða kröfu, með því að láta þær koma jafnharðan til lækkunar á höfuðstólnum. Héraðsdómur tók kröfu G til greina en mælti hins vegar fyrir um það í dómsorði að greiðslur M hf. skyldu koma til frádráttar heildarkröfu G eins og hún stæði á tilgreindum greiðsludögum. Í dómi sínum vísaði Hæstiréttur til þess að sökum þessa væri höfuðstóll kröfunnar sem G hefði verið dæmd í raun hærri en hann hefði krafist dóms um. Þá hefði M hf. samkvæmt dómsorði í nær öllum tilvikum verið gert að greiða dráttarvexti af hærri fjárhæðum á einstökum tímabilum en G hefði krafist, auk þess sem ekki væri samræmi milli kröfugerðar hans annars vegar og dómsorðs hins vegar um dagsetningar þegar fjárhæðir, sem bera áttu dráttarvexti, voru látnar taka breytingum. Hefði með þessu verið farið út fyrir kröfugerð G í hinum áfrýjaða dómi í andstöðu við 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Karl Axelsson og Jóhannes Sigurðsson landsréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. desember 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Stefndi höfðaði mál þetta með stefnu 24. febrúar 2017. Þar krafðist hann þess að áfrýjanda yrði gert að greiða sér 1.838.609 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 370.506 krónum frá 1. janúar 2013 til 1. febrúar sama ár, af 428.670 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 378.670 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2014, af 970.308 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 1.369.015 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2015, af 2.438.514 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár og af 1.838.609 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krafðist stefndi málskostnaðar. Af gögnum málsins verður ráðið að með þessari kröfugerð, sem sætti engum breytingum undir rekstri þess í héraði, hafi stefndi tekið tillit til greiðslna áfrýjanda á samtals 599.905 krónum inn á ætlaða kröfu 30. apríl 2013, 30. desember 2013 og 31. júlí 2015 á þann hátt að hann hafi látið þær koma jafnharðan til lækkunar á höfuðstól hennar og þar með einnig á þeim fjárhæðum, sem hann krafðist að bæru dráttarvexti á hverjum tíma. Samkvæmt því, sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi, varð niðurstaða málsins þar sú að krafa stefnda yrði tekin að fullu til greina. Eftir dómsorði var það þó gert á þann hátt að áfrýjandi var dæmdur til að greiða stefnda 2.438.514 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði af 408.186 krónum frá 24. desember 2012 til 24. janúar 2013, af 472.265 krónum frá þeim degi til 24. ágúst sama ár, af 961.270 krónum frá þeim degi til 24. desember sama ár, af 1.021.440 krónum frá þeim degi til 24. október 2014, af 1.613.078 krónum frá þeim degi til 24. janúar 2015 og af 2.438.514 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum greiðslum áfrýjanda 30. apríl 2013, 30. desember 2013 og 31. júlí 2015 á samtals 599.905 krónum en að viðbættum 800.000 krónum í málskostnað. Með framangreindu dómsorði var stefnda án nokkurra skýringa dæmd fjárhæð, sem að höfuðstól var 599.905 krónum hærri en hann gerði kröfu um. Virðist því sem héraðsdómur hafi tekið upp hjá sér að lækka ekki höfuðstól kröfu stefnda um fjárhæðir, sem svöruðu til greiðslna áfrýjanda eins og stefndi hafði gert í kröfugerð sinni, og mæla þess í stað sérstaklega fyrir um að greiðslurnar kæmu til frádráttar heildarkröfu stefnda eins og hún stæði á tilgreindum greiðsludögum. Höfuðstóll kröfunnar, sem stefnda var þannig dæmd, er þrátt fyrir þessa frádrætti í raun ekki sá sami og hann krafðist dóms um samkvæmt kröfugerð sinni, enda verður að gæta að því að eftir dómsorðinu áttu greiðslur áfrýjanda að ganga á tilgreindum dögum inn á skuld hans að meðtöldum áföllnum dráttarvöxtum og koma þá samkvæmt viðtekinni venju fyrst til uppgjörs á þeim vöxtum en afgangur síðan eftir atvikum til skerðingar á höfuðstól, sem bæri upp frá því dráttarvexti. Af þessum sökum er heildarfjárhæðin, sem áfrýjandi var þannig dæmdur til að greiða samkvæmt dómsorði, að öllu samanlögðu hærri en stefndi gerði kröfu um. Að auki var áfrýjanda samkvæmt dómsorðinu í nær öllum tilvikum gert að greiða dráttarvexti af hærri fjárhæðum á einstökum tímabilum en stefndi hafði krafist, en í hinum áfrýjaða dómi voru þær fjárhæðir ekkert skýrðar út og verður munurinn á þeim og kröfugerð stefnda ekki rakinn eingöngu til þess hvernig þar var farið með fyrrnefndar greiðslur áfrýjanda. Þá er ekki samræmi milli kröfugerðar stefnda annars vegar og dómsorðs hins áfrýjaða dóms hins vegar um dagsetningar þegar fjárhæðir, sem bera áttu dráttarvexti, voru látnar taka breytingum, en frávik í dómsorði í þessum efnum eru áfrýjanda í óhag. Með framangreindu var farið í hinum áfrýjaða dómi út fyrir kröfugerð stefnda í andstöðu við 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður því án kröfu að ómerkja dóminn og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjaness 24. október 2017. Mál þetta, sem þingfest var 1. mars sl., og dómtekið 29. september sl., var höfðað með stefnu, birtri 24. febrúar 2017.                 Stefnandi er Guðmundur Vikar Sigurðsson, kt. [...], Kjarrhólma 8, 200 Kópavogi. Stefndi er Miklatorg hf., kt. [...], Kauptúni 4, 210, Garðabæ.  Stefnandi krefst þess að hið stefnda félag verði dæmt til greiðslu launa og orlofs að fjárhæð kr. 1.838.609,- ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, af kr. 370.506 frá 1. janúar 2013 til 1. febrúar 2013 og frá þeim degi af kr. 428.670,- til 1. apríl 2013 og frá þeim degi af kr. 378.670 til 1. janúar 2014 og frá þeim degi af kr. 970.308,- til 1. nóvember  2014 og frá þeim degi af kr. 1.369.015,- til 1. febrúar  2015  og frá þeim degi af kr. 2.438.514 til 1. ágúst 2015 og frá þeim degi af kr. 1.838.609 til greiðsludags. Þess er krafist að dæmt verði að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 1. janúar 2015 en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins. Einnig er krafist virðisauka af málskostnaði þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur.                 Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð. Þá er krafist málskostnaðar. Málsatvik. Stefnandi, sem er bakari, skrifaði undir ráðningarsamning þann 2. júní 2012 hjá stefnda og hóf störf í ágúst 2012. Í starfslýsingu segir að stefnandi sé bakari og starfi samkvæmt starfslýsingu auk annarra verkefna sem yfirmaður feli honum. Vinnustaður er í IKEA við Kauptún í Garðabæ. Á ráðningartímanum geti starfsmanni verið falið að sinna sömu eða samsvarandi störfum á öðrum starfsstöðvum á vegum fyrirtækisins. Ráðningartíminn var ótímabundinn og var starfið fullt starf. Þá segir að heildarvinnustundir yfir mánuðinn séu að meðaltali 184 yfir árið og að vinnutími sé í samráði við yfirmann. Samfelldur hvíldartími skyldi að lágmarki vera 11 klukkustundir á sólarhring reiknað frá byrjun vinnudags. Óski yfirmaður eftir því að starfsmaður vinni það lengi að ekki náist 11 klukkustunda hvíld fyrir upphaf næsta vinnudags skuli starfsmaður ekki mæta aftur til vinnu fyrr en 11 klukkustunda hvíld sé náð nema annars sé sértaklega óskað eða starfsmaður hafi fyrr um daginn fengið tilskilda 11 klukkustunda hvíld. Mánaðarlaun fyrir 100% starf var ákveðið 370.000 krónur, flöt laun. Undir liðnum „Annað/nánari skýring á launakjörum/greiðslufyrirkomulag:“ segir að laun séu greidd mánaðarlega, fyrsta dag eftir að mánuði þeim ljúki sem laun séu greidd fyrir. Mánaðarlaun reiknist frá 1. til 31. hvers mánaðar og eftir- og yfirvinna frá 25. til 24. hvers mánaðar. Þá segir að stefnandi greiði sjálfur fyrir allar ferðir milli vinnustaðar og heimilis og sé yfirborgun starfsmanns miðuð við það. Þá er gerð grein fyrir neysluhléum og segir þar að sé unnið í neysluhléum milli kl. 9.00 og 18.00 greiðist það með eftirvinnukaupi til hlutastarfsfólks en yfirvinnukaupi til starfsfólks í fullu starfi. Að öðru leyti fór um réttindi og skyldur samkvæmt kjarasamningi VR. Stefnandi hætti störfum hjá stefnda í janúar 2015.                 Hinn 14. janúar 2014 lagði stefnandi fram fyrirspurn til stefnda vegna yfirvinnu stefnanda og svaraði stefndi því að allir tímar væru skráðir í tímaviðverukerfi stefnda. Þá segir stefndi að kaupaukinn sem stefnandi hafi fengið greiddan í desember hafi verið ætlaður til að ná yfir alla yfirvinnu á haustmánuðum (september-desember). Þann 24. febrúar 2014 sendi stefnandi tölvupóst  til stefnda og spurði hvort hann ætti einhverja orlofsdaga eftir frá því í fyrra þar sem hann væri að fara í nokkurra daga frí. Þá spyr stefnandi stefnda um uppsafnaða yfirvinnutíma sína og þá hvort hann geti gripið til þeirra ef það komi rólegur mánuður eða það vanti tíma upp á kvótann og svoleiðis. Stefndi svaraði stefnanda með tölvupósti og segir stefnanda eiga 24 orlofsdaga fyrir orlofsárið. Þá segir stefndi jafnframt að það hafi verið meiningin að stefnandi myndi jafna út yfirvinnustundir með því að taka frí á móti en stefndi sjái að stefnandi hafi unnið mikla yfirvinnu í janúar og febrúar. Auk þess segir stefndi að best væri ef stefnandi gæti tekið þá út í fríi fljótlega og spyr hvernig verkefnastaðan sé hjá honum á næstunni.                 Samkvæmt launaseðlum fékk stefnandi greidd í föst laun 370.000 krónur á mánuði. Stefnandi fékk hækkun á launum sínum samkvæmt kjarasamningi í febrúar 2013. Þann 30. apríl 2013 fékk stefnandi greitt aukalega 50.000 krónur sem kemur fram sem kaupauki með orlofi. Í september 2013 hækkuðu föst laun stefnanda í 430.000 krónur.  Í desember 2013 fékk stefnandi kaupauka með orlofi vegna mikillar yfirvinnu, 300.000 krónur. Í janúar 2014 hækkuðu laun stefnanda samkvæmt kjarasamningi í 442.040 krónur.                 Í gögnum málsins er afrit bréfs, dagsett 22. júní 2015, frá VR til stefnda þar sem krafa stefnanda er reifuð og skorað á stefnda að greiða 2.088.514 krónur til VR eða stefnanda innan tíu daga.  Bréf frá lögmanni stefnda, dagsett 13. júlí 2015, liggur frammi í málinu þar sem tekið er fram að stefndi hafi greitt stefnanda 249.905 krónur að frádregnum gjöldum fyrir 99,05 klukkustundir, sem stefnandi hefði ella fengið að njóta með frítökum. Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 13. október 2015, til stefnda gerði stefnandi kröfu um að stefndi greiddi umkrafða launakröfu að frádreginni innborgun að fjárhæð 249.905 krónur auk fyrri greiðslna. Lögmaður stefnda mótmælti þeirri kröfu lögmanns stefnanda með bréfi 13. nóvember 2015. Málsástæður og lagarök stefnanda. Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann hafi starfað í fullu starfi sem bakari hjá stefnda frá 22. ágúst 2012 og þar til í janúar 2015. Hafi laun hans verið ákveðin 370.000 krónur á mánuði miðað við 184 klukkustunda vinnu að meðaltali á mánuði. Hafi mánaðarlaun samkvæmt kjarasamningi í dagvinnu miðast við 171,15 klukkustundir og því yfirvinna verið 12,85 klukkustundir á mánuði. Stefnandi hafi unnið flesta mánuði umfram meðaltals vinnutíma sem samið hafði verið um en stefnandi hafi ekki fengið þá yfirvinnutíma greidda. Ástæðan hafi verið sú að stefndi hafi óskað eftir því við stefnanda að hann tæki yfirvinnutíma út með fríi þegar tækifæri gæfist. Verkefnastaðan hafi hins vegar verið þannig að stefnandi hafi átt mjög erfitt með að taka frí á móti yfirvinnunni. Oftar en ekki hafi stefnandi verið kallaður til vinnu úr fríi vegna anna en stefnandi hafi getað tekið út fimm aukafrídaga á árinu 2014. Stefnandi byggir á því að hann hafi krafið stefnda um vangoldna yfirvinnu en stefndi hafnað því og haldið því fram að í umsömdum mánaðarlaunum fælist fullnaðargreiðsla fyrir alla vinnu.                 Stefnandi byggir á því að samkvæmt  ráðningarsamningi hafi verið samið um föst laun miðað við 184 stunda vinnuframlag að meðaltali á mánuði. Laun umfram þá tíma beri að greiða með yfirvinnu sem nemi 1,0385% af mánaðarlaunum eins og fram komi í kjarasamningi VR og SA, grein 1.7.  Stefnandi hafi ekki fengið tækifæri til að taka yfirvinnu út í fríi og beri stefnda því að gera upp við stefnanda á grundvelli kjarasamnings.   Sönnunarbyrði fyrir að samið hafi verið um annað eða að þær greiðslur sem inntar voru af hendi teljist fullnaðargreiðslur samkvæmt samningi hvíli alfarið á stefnda.                 Stefnandi hafi á árinu 2012 unnið 15,6 tíma í ágúst, 185,15 í september, 206,47 tíma í október, 231,81 tíma í nóvember og 232,39 tíma í desember eða alls 871,42 tíma en fengið greitt fyrir 184 tíma á mánuði eða samtals 761,47 tíma. Hafði stefnandi þá unnið 109,947 klukkustundir umfram umsaminn vinnutíma.  Tímakaup í yfirvinnu hafi verið 3.369,86 krónur  á tímann samkvæmt kjarasamningi. Sé mismunur á greiddum tímum samkvæmt ráðningarsamningi og gildandi kjarasamningi því 370.506 krónur auk 10,17% orlofs, 37.680 krónur. Sundurliðun á ári 2012 hafi verið sem hér segir:   2012 Alls klst. Skv. samn. Mism. Mánaðarlaun   Ágúst 15,6 25,47 -9,87 September 185,15 184 1,15 135% 370.000 kr. 499.500 kr. Október 206,47 184 22,47 100% 370.000 kr. 370.000 kr. Nóvember 231,81 184 47,81 100% 370.000 kr. 370.000 kr. Desember 232,39 184 48,39 100% 370.000 kr. 370.000 kr. 871,42 761,47 109,95   Árið 2012 hafi stefnandi unnið á tímabilinu 22. október til og með 8. desember alls 20 daga í röð. Hafi myndast frítökuréttur, tveir dagar, þar sem brotið hafi verið á hvíldartímaákvæði kjarasamnings skv. gr. 2.4.3. í kjarasamningi VR og SA. Auk þess hafi komið fyrir að það vantaði 1,66 klst. upp á að 11 klst. hvíld væri náð. Samkvæmt gr. 2.4.2 í kjarasamningi VR og SA ávinnur starfsmaður sér frítökurétt ef ekki næst 11 klst. hvíld milli vinnulotna sem nemi 1,5 dagvinnutímum fyrir hvern tíma sem á vanti í 11 stunda hvíld. Stefnandi eigi því í lok árs 2012 tvo frídaga á dagvinnulaunum, samtals 16 klst., og vegna brots á 11 klst. hvíldarreglunni  2,49 klst. í dagvinnu. Árið 2013 hafi laun stefnanda hækkað um 2,8% skv. kjarasamningi þann 1. febrúar 2013. Því hafi hækkun á yfirvinnukaupi verið í hlutfalli við það sem nam 3.479,38 kr. (3.369,86 x 1,028). Í janúar 2013 hafi verið mismunur á unnum vinnutímum og tímum samkvæmt ráðningarsamningi fyrir tímabilið 25. desember 2012 – 24. janúar 2013, en þá  hafi unnir tímar verið alls 201,26 eða 17,26 tímar umfram ráðningarsamning. Tekur stefnandi fram að á tímaskýrslu hafa rauðir dagar (25. des., 26. des. og 31. des., og 1. janúar) ekki verið reiknaðir með í vinnuskyldu en þeim sé bætt hér við 8 stundir á dag 2 stundir vegna 31. des. Mismunur þennan mánuð vegna yfirvinnu sé því 17,26 stundir margfaldað með 3.369,86 á tímann, þ.e. tímakaup fyrir hækkun eða samtals 58.164 krónur auk 10,17% orlofs upp á 5.915 krónur. Milli 21. og 22. janúar 2013 hafi vantað 2 klukkustundir upp á 11 klukkustunda hvíld og voru aðstæður þannig að stefnandi komst ekki upp með að mæta eftir að 11 klukkustunda hvíld lauk eins og hann átti að gera og því hafi stefnandi verið búinn að ávinna sér 3 klukkustundir í frítökurétt, skv. gr. 2.4.2 í kjarasamningi VR og SA. Frá og með 1. febrúar og til 31. ágúst 2013 hafi tímakaup stefnanda breyst vegna kjarasamningsbundinna hækkana um 2,8%. Breyttist yfirvinnukaup þá í 3.479,38 krónur. Á þessu tímabili hafi alls 127,57 klukkustundir verið unnar umfram 184 klst. að meðaltali á mánuði og því sé yfirvinnukaup alls 443.864 krónur auk 10,17% orlofs. Á því tímabili hafi einnig verið skilgreindir frídagar skv. gr. 2.3 í kjarasamningi og hafi þeir ekki verið skráðir í tímaskýrslu. Á þessu tímabili hafi stefnandi einnig unnið tvisvar umfram 7 daga í röð sem gefi honum rétt til frídags. Fyrst á tímabilinu 28. janúar 2013 til og með 13. febrúar 2013, sem séu 17 dagar, hafi stefnandi áunnið sér 2 frídaga og svo hafi hann aftur unnið meira en 12 daga í röð frá 1. til og með 13. júlí 2013 og hafi þá bæst við 3 frídagar á dagvinulaunum á þessu tímabili. Þann 1. september 2013 hafi aðilar samið um kauphækkun sem nam 12,56%. Þar með hafi tímakaup fyrir yfirvinnu hækkað í hlutfalli við það. Í september 2013 til og með desember 2013 hafi stefnandi unnið 151,07 klukkustundir umfram umsamdar vinnustundir,  þ.e. 184 klukkustundir á þessu tímabili. Mismunur launa sé því vegna þessa 591.638 krónur auk 10,17% orlofs upp á 60.170 krónur. Sundurliðun fyrir árið 2013 sé eftirfarandi: 2013 Alls klst. skv. samn. Mism. Mánaðarlaun Janúar 201,26 184 17,26 100% 370.000 kr. 370.000 kr. Febrúar 241,14 184 57,14 100% 382.025 kr. 382.025 kr. Mars 152,62 184 -31,38 100% 382.025 kr. 382.025 kr. Apríl 193,99 184 9,99 100% 382.025 kr. 382.025 kr. Maí 212,54 184 28,54 100% 382.025 kr. 382.025 kr. Júní 199,33 184 15,33 100% 382.025 kr. 382.025 kr. Júlí 208,3 184 24,3 100% 382.025 kr. 382.025 kr. Ágúst 207,65 184 23,65 100% 382.025 kr. 382.025 kr. September 181,18 184 -2,82 100% 430.000 kr. 430.000 kr. Október 250,3 184 66,3 100% 430.000 kr. 430.000 kr. Nóvember 255,73 184 71,73 100% 430.000 kr. 430.000 kr. Desember 199,86 184 15,86 100% 430.000 kr. 430.000 kr. 2503,9 2208 295,9   Á tímabilinu 13. október 2013 til og með 26. október 2013 hafi stefnandi unnið 13 daga í röð og áunnið sér einn frídag á dagvinnulaunum vegna þess. Árið 2013 hafi því áunnir frídagar verið alls fjórir. Árið 2013 hafi stefnandi fengið 50.000 krónur greitt sem kaupauka með orlofi í apríl 2013 og aftur í desember 2013. Hafi stefnandi fengið 300.000  krónur greiddar í kaupauka með orlofi. Þessar upphæðir séu því alls 350.000 krónur og komi til frádráttar sem uppgjör á kröfum sem til féllu á árinu 2012. Þann 1. janúar 2014 hafi laun hækkað samkvæmt kjarasamningi um 2,8%. Þar með hafi tímakaup hækkað fyrir yfirvinnu í sama hlutfalli. Laun hafi aftur hækkað þann 1. nóvember og því er mismunur launa, þ.e. umfram meðaltal 184 klukkustundir, vegna tímabils janúar til og með október 2014, samtals 99,11 klukkustundir margfaldað með 4.025,98 krónum (reiknast út 3.916,32 x 1,028) þ.e. alls 399.015 krónur, auk 10,17% orlofs, 40.580 krónur. Á þessu tímabili hafi ekki verið tekið tillit í tímaskýrslu til skilgreindra frídaga samkvæmt kjarasamningi og einnig hafi orlofsdagar og veikindi verið skráðir inn sem 7,5 klukkustundir en hefðu átt að vera skráð sem 8,49 klukkustundir. Á tímabilinu 10. til og með 22. febrúar 2014 hafi stefnandi unnið 13 daga í röð án hvíldar og áunnið sér frídag á launum. Frá 18. apríl til og með 10. maí 2014 hafi stefnandi unnið aftur 13 daga í röð og áunnið sér aftur frídag á launum. Á tímabilinu 1. til og með 19. september 2014 hafi stefnandi unnið 19 daga í röð og áunnið sér tvo frídaga á launum. Á tímabilinu 3. til og með 15. nóvember 2014 hafi stefnandi unnið 13 daga í röð og áunnið sér frídag og aftur á tímabilinu 1. til 13. desember 2014. Árið 2014 hafi stefnandi því áunnið sér inn 6 frídaga vegna brots á 7 daga hvíldarreglunni. Sundurliðun fyrir árið 2015 sé eftirfarandi: 2014 Alls klst. skv. samn. Mism. Mánaðarlaun Janúar 197,58 184 13,58 100% 442.040 kr. 442.040 kr. Febrúar 236,33 184 52,33 100% 442.040 kr. 442.040 kr. Mars 149,23 184 -34,77 100% 442.040 kr. 442.040 kr. Apríl 196,36 184 12,36 100% 442.040 kr. 442.040 kr. Maí 203,47 184 19,47 100% 442.040 kr. 442.040 kr. Júní 175,13 184 -8,87 100% 442.040 kr. 442.040 kr. Júlí 199,25 184 15,25 100% 442.040 kr. 442.040 kr. Ágúst 186,15 184 2,15 100% 442.040 kr. 442.040 kr. September 214,31 184 30,31 100% 442.040 kr. 442.040 kr. Október 181,3 184 -2,7 100% 442.040 kr. 442.040 kr. Nóvember 186,54 184 2,54 100% 464.142 kr. 464.142 kr. Desember 210,85 184 26,85 100% 464.142 kr. 464.142 kr. 2336,5 2208 128,5   Þann 1. nóvember hafi laun hækkað um 5%. Hækkaði tímakaup í yfirvinnu í samræmi við það og nam 4.227,28 krónum (4.025,98 x 1,05). Mismunur launa vegna 1. nóvember 2014 til 24. janúar 2015 hafi því verið alls 50,85 klukkustundir og hafi því verið vegna þessa 214.957 krónur auk 10,17% orlofs upp á 21.861 krónu.  Á starfstímanum hafi stefnandi áunnið sér alls 12 frídaga á dagvinnulaunum (m.v. 8 klst. á dag) samtals 96 klukkustundir auk 5,49 klukkustundir  (2,49 klst. x 3 klst.) í frítökurétt, alls 101 klukkustund á dagvinnulaunum (101 t x1.339.27 kr.) eða 135.266 krónur.  Stefnandi hafi fengið frí vegna unninnar yfirvinnu í 5 daga margfaldað með 7,5 klst. eða alls 37,5 klst. auk þess sem hann hafi verið einn dag frá vegna jarðarfarar sem vinnuveitanda beri ekki skylda að greiða. Til frádráttar koma því 45 klukkustundir en eftirstöðvar séu 56,49 dagvinnustundir x 2.394,52 krónur sem var dagvinnukaup stefnanda við starfslok, samtals 135.266 krónur auk 10,17% orlofs, 13.757krónur. Einnig komi til frádráttar kröfunni innborgun að fjárhæð 249.905 krónur, sem tilkynnt var með bréfi lögmanns stefnda þann 15. júlí 2015, og séu innborganir því samtals 599.950 krónur, sem kemur til frádráttar. Krafan sé sett þannig fram að þar sem í einhverjum tilfellum hafi stefnandi ekki unnið fulla vinnuskyldu sé krafan ekki reiknuð frá mánuði til mánaðar heldur á ákveðnu tímabili og sé dráttarvaxtakrafan miðuð við það, en í dómskjölum fylgi sundurliðaður útreikningur.  Krafan sundurliðast sem hér segir: Mismunur launa 22. ágúst – 24. desember 2012 370.506,- Orlof 10,17% vegna kr. 370.506,- 37.680,- Mismunur launa 25. desember 2012 – 24. janúar 2013 58.164,- Orlof 10,17 vegna kr. 58.164,- 5.915,- Mismunur launa 25. janúar – 24. ágúst 2013 443.864,- Orlof 10,17% vegna kr. 443.864,- 45.141,- Mismunur launa 25. ágúst – 24. desember  2013 591.638,- Orlof 10,17% vegna kr. 591.638,- 60.170,- Mismunur launa 25. desember 2013 – 24. október 2014 399.015,- Orlof 10,17% vegna kr. 399.015,- 40.580,- Mismunur launa 25. október 2013 – 24. janúar 2015 214.957,- Orlof 10,17% vegna kr. 214.957,- 21.861,- Eftirstöðvar frítökuréttar v/7daga reglu og 11 klst. hvíld 135.266,- Orlof 10,17% vegna kr. 135.266,- 13.757,- Höfuðstóll 2.438.514,- Innborgun -599.905,- Samtals 1.838.609,-   Stefnandi byggir á því að samkvæmt gr. 1.9 í kjarasamningi VR og SA, sem gildi frá 1. maí 2015, eigi laun að greiðast fyrsta dag eftir að mánuði þeim lýkur sem laun séu greidd fyrir. Að auki skuli vinnuveitandi greiða áunnið orlof til launþega við lok ráðningarsambands skv. 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987. Þar sem innheimtutilraunir, sbr. bréf frá VR, dagsett 22. júní 2015, og  ítrekunarbréf frá Guðmundi B. Ólafssyni hrl., dagsett 13. október 2015, og sáttatilraunir í framhaldi af bréfaskriftum milli aðila, hafi reynst árangurslausar sé málshöfðun því nauðsynleg. Sé hér farið fram á ýtrustu kröfur samkvæmt lögum og kjarasamningum. Stefnandi byggir kröfur sínar á lögum nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, lögum nr.  55/1980 um starfskjör o.fl., lögum nr. 30/1987 um orlof, lögum nr. 7/1936 um samninga umboð o.fl., meginreglum kröfuréttar, meginreglum vinnuréttar, kjarasamningum VR og vinnuveitenda og bókunum sem teljast hluti kjarasamninga. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 129. gr. 4. tl. um vexti af málskostnaði. Einnig sé krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur. Málsástæður og lagarök stefnda. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda þar sem hann hafi þegar greitt stefnanda laun fyrir þann tíma sem hann sinnti störfum fyrir stefnda og gott betur eins og rakið sé í málavaxtalýsingu stefnda. Stefnandi hafi notið fastra mánaðarlauna fyrir allt vinnuframlag sitt. Umsamið kaup hafi verið langt umfram alla launataxta VR og bakara. Aðilum hafi því verið heimilt að semja um kaup sín á milli og sé á því byggt að umsamið kaup, hvernig sem á málið sé litið, hafi á hverjum tíma farið langt fram úr lágmarkslaunum.  Við samningsgerðina hafi verið ákveðið að tilgreina í ráðningarsamningnum að heildarvinnustundir í hverjum mánuði yrðu að meðaltali 184 en ákveðið að skoða síðar, að ef viðvera stefnanda færi verulega fram úr því meðaltali á ársgrundvelli, myndu aðilar leitast við að jafna það með því að hækka kaup stefnanda, með því að greiða honum kaupauka eða með frítöku hans en jafnframt var við það miðað að stefnanda bæri að stilla vinnutíma sínum í hóf og taka sér frí í samráði við yfirmann ef vinnutími færi fram úr viðmiðinu enda hafi hann ráðið vinnutíma sínum að miklu leyti sjálfur. Á því sé byggt að stefnanda hafi verið þetta fullkomlega ljóst við ráðninguna og að með þessu hafi samist með aðilum um að stefnandi nyti fastra mánaðarlauna fyrir allt vinnuframlag sitt.  Stefndi byggir á því að umsamin laun frá upphafi hafi átt að ná til allrar vinnu og að tilgreining í ráðningarsamningi um að heildarvinnustundir yfir mánuðinn væru að meðaltali 184 stundir hafi einungis verið áætlun. Þegar þannig hátti til að launamanni séu greidd föst laun fyrir alla vinnu sé ekki um það að ræða að hann eigi kröfu til frekari launagreiðslna, sbr. niðurstöðu í Hæstaréttarmálum nr. 83/2000, nr. 273/2010 og nr. 678/2012.  Eftir því sem starf stefnanda þróaðist hafi komið í ljós að viðvera hans hafi verið að meðaltali nokkuð umfram hinar áætluðu viðmiðunarstundir og af þeim sökum hafi honum, í samræmi við tilætlan aðila við samningsgerðina, verið greiddur kaupauki í apríl 2013 að fjárhæð kr. 50.000, kaup hans hækkað í september 2013 upp í 430.000 krónur á mánuði og í árslok 2013 hafi honum verið greiddur kaupauki að fjárhæð 300.000 krónur. Þá hafi kaup hans aftur verið hækkað í nóvember 2014 upp í 464.142 krónur á mánuði, m.a. af sömu ástæðu. Á því sé byggt að stefnandi hafi samþykkt að greiðslur þessar væru til að mæta vinnuframlagi hans sem var umfram það sem aðilar hafi gert ráð fyrir og að þær væru ekki eingöngu vegna þess að stefndi væri sáttur við störf stefnanda. Þá hafi stefnandi fengið á starfstíma sínum hjá stefnda ítrekað frí umfram reglubundið orlof, einnig til að mæta slíkri yfirvinnu. Á því sé byggt að stefnanda hafi borið að segja alveg sérstaklega til þess ef hann teldi að greiðslur þessar og frítaka hans væru ekki nægjanlegar til að mæta þessari umframvinnu. Það hafi hann ekki gert og aldrei óskað eftir endurskoðun á ráðningarsamningnum eða að forsendum launaútreiknings yrði breytt, auk þess sem hann hafi enga athugasemd gert við orlofstöku sumarið 2014 og frítöku umfram hefðbundinn orlofsrétt. Stefndi telji alveg ljóst að með sérstakri frítöku 2014 hafi stefnandi fengið að fullu gert upp alla hugsanlega yfirvinnu fram til loka orlofsársins frá 1. maí 2013 til 30. apríl 2014. Verði stefnandi að bera hallann af því að hafa ekki sett fram þær kröfur sem hann hafi nú uppi fyrr en eftir starfslok sín. Í þessu ljósi verði jafnframt að telja þá skýringu stefnanda ekki standast að telja að launahækkanir og kaupaukar hafi eingöngu helgast af ánægju stefnda með vinnu hans. Stefndi mótmælir þeim málatilbúnaði stefnanda að telja að í ráðningarsamningnum hafi falist að 12,85 yfirvinnustundir væru fyrirfram reiknaðar inn í föst laun á mánuði og vinna sem stefnandi ynni umfram það ætti að greiðast sérstaklega með tiltekinni krónutölu fyrir hverja stund eða brot úr stund, nánar tiltekið með 1,0385% af mánaðarlaunum. Þessari túlkun verði hvergi fundin stoð í samningi aðila og tilvísun til þess í ráðningarsamningnum, um það að að öðru leyti fari um „réttindi og skyldur skv. kjarasamningi VR“, geti ekki vísað til slíks grundvallaratriðis þegar á það sé ekki minnst í texta samningsins. Verði að telja að tilvísun ráðningarsamningsins til þess að um „flöt laun“ sé að ræða vísi til þess að ekki hafi verið tilætlan aðila að greiða sérstaklega fyrir unnar stundir sem stefnandi kynni að vinna umfram þær 184 stundir „að meðaltali“. Þessar meðaltalsstundir hafi því verið áætlun við samningsgerðina en ekki fast viðmið til útreiknings. Vísað sé til þess að framkvæmd samningsins gefi vísbendingu um að skilningur stefnda að þessu leyti sé réttur enda hafi stefndi tekið tillit til þess að viðvera stefnanda við vinnu hafi reynst meiri en áætlað var og því hafi kaup hans hækkað, honum greiddir kaupaukar og honum heimiluð frítaka umfram það sem upphaflega var ráðgert. Hafi þetta allt verið gert í fullkominni sátt við stefnanda og athugasemdalaust af hans hálfu um að hann teldi sig eiga betri rétt. Við starfslok stefnanda hafi stefndi ekki gert sérstaklega upp yfirvinnu, sem ætla megi að hafi verið umfram það sem aðilar hafi ráðgert við samningsgerðina, fyrir tímabilið frá 1. maí 2014 til starfsloka. Það gerði stefndi hins vegar eftir að hann móttók kröfubréf VR í júlí 2015. Þá hafi stefndi greitt stefnanda jafnframt til viðbótar fyrir 46,05 klukkustunda vinnu, sem stefnandi vann umfram framangreint meðaltal á tímabilinu frá 1. janúar 2014 til 30. apríl 2014, á sömu forsendum. Geti stefnandi því ekki átt neina kröfu á hendur stefnda vegna þessa umfram þær 249.905 krónur, að frádregnum gjöldum, sem stefndi hafi greitt honum hinn 14. júlí 2015 fyrir 99,05 klst. vinnustundir miðað við að meðallaun stefnanda fyrir hverja klukkustund hafi verið 2.523 krónur (kr. 464.142/184 klst.).    Stefndi kveðst hafna öllum kröfum stefnanda er lúti að því að hann hafi ekki notið 11 klukkustunda hvíldar í einhver skipti enda liggi fyrir að samkvæmt ráðningarsamningi hafi stefnanda borið að gæta að þessu og sé því algerlega neitað að yfirmaður hafi nokkurn tíma óskað eftir því að stefnandi tæki sér minni hvíld. Stefndi vísar því á bug, að vinnuálag stefnanda hafi á einhverjum tíma verið það mikið að hann hafi ekki getað tekið 11 klst. hvíld og jafnframt er því mótmælt að veitingastjóri eða framkvæmdastjóri hafi einhvern tíma óskað sérstaklega eftir því að hann tæki minni hvíld. Stefnanda hafi ekki getað dulist að mjög mikilvægt var fyrir hann að tefla strax fram slíkum kröfum ef hann teldi vera tilefni til þeirra og í því sambandi sé vísað til ákvæðis í ráðningarsamningnum um skyldu hans til að tilkynna um minnstu frávik í neysluhléum ef hann ætlaðist til þess að stefndi greiddi sérstaklega fyrir þau. Af sömu ástæðum mótmælir stefndi því að stefnandi geti átt kröfur á grundvelli þess að hann hafi á tilteknum tímabilum unnið samfleytt í það marga daga umfram sjö daga í samfellu að vegna þess hafi myndast frítökuréttur. Stefnanda hafi sjálfum borið að gæta að því að vinna ekki í lengri lotum en eðlilegt væri og engin fyrirmæli voru honum gefin af yfirmanni um að sleppa venjulegum helgarfríum. Tilvísun stefnanda til ákvæða kjarasamnings VR í þessu sambandi getur ekki átt við af sömu ástæðu og að framan er rakin. Mótmælt sé öllum málatilbúnaði stefanda sem lúti að því að verkefnastaða hans hafi verið með þeim hætti að hann hafi átt mjög örðugt með að komast í frí og að hann hafi oftar en einu sinni verði kallaður úr fríi vegna anna.  Stefndi mótmælir því að á honum hafi hvílt skylda til að gera nýjan ráðningarsamning við stefnanda, þegar ákveðið var að hækka laun hans, og að þess vegna beri að líta á launahækkanirnar án tillits til þess að þar væri m.a. um að ræða að stefndi væri að bæta stefnanda upp að aðilar teldu að vinnustundir hans væru að meðaltali fleiri en 184 stundir á mánuði yfir árið, eins og gert hafi verið ráð fyrir við gerð ráðningarsamningsins. Vísað sé til þess að engin skylda hvíli á vinnuveitanda að hækka laun starfsmanns hlutfallslega miðað við hækkanir almennra launa skv. kjarasamningum enda séu greidd laun eigi lakari en kjarasamningar kveði á um, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. og Hæstaréttardóm í máli nr. 308/2010. Því sé sérstaklega mótmælt að kauphækkanir til stefnanda og frítaka hans umfram umsamið orlof hafi ekki fyllilega nægt til að laun hans teldust áfram vera langt umfram umsamda launataxta bakara. Stefndi byggir einnig sérstaklega á því að tómlæti stefnanda við að hafa uppi kröfur þær sem hann setur fram í máli þessu leiði til þess að hann eigi engar frekari kröfur vegna vinnusamningsins. Er í því sambandi sérstaklega vísað til þess að stefnandi hreyfði aldrei við því við stefnda að hann teldi sig eiga viðbótarkröfur umfram þau laun sem honum hafi mánaðarlega verið greidd og heldur ekki þegar hann þáði aukagreiðslur frá stefnda. Þá sé sérstaklega vísað til þess að stefnandi gerði aldrei athugasemdir við stefnda um launauppgjör á meðan hann var starfsmaður. Þvert á móti gat starfsmannastjóri stefnda ekki skilið annað á stefnanda, á fundum þeirra þegar vinnufyrirkomulag hans var til umræðu, en að hann væri mjög sáttur og að hann gerði sér vel grein fyrir því að launahækkanir og frítaka kæmu til móts við að vinnutími hans hefði reynst lengri en upphaflega ver gert ráð fyrir til viðmiðunar. Tómlæti og aðgerðarleysi stefnanda í þessu sambandi, og fyrirvaralaus móttaka á launauppgjörum, hafi þau áhrif að stefnandi geti nú ekki haft uppi þær kröfur sem málatilbúnaðurinn lúti að, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 273/2010 og nr. 438/2012. Ekki verði annað séð af málatilbúnaði stefnanda en að hann hafi við starfslok einungis gert athugasemdir við að hafa ekki fengið greidda yfirvinnutíma, sbr. tölvupóst á dómskjali 4, en engar athugasemdir sé þar að finna um önnur atriði sem hann krefji nú stefna um greiðslu á.   Allar kröfur stefnanda á hendur stefnda um laun sem í gjalddaga séu talin hafa fallið, samkvæmt málatilbúnaði stefnanda, fyrir 27. febrúar 2013 séu fyrndar skv. 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 en fyrningu hafi verið slitið með birtingu stefnu hinn 27. febrúar 2017. Eigi þetta við um allar kröfur hans vegna ársins 2012 og vegna janúar 2013. Beri því, hvernig sem málið fari að öðru leyti, að lækka kröfur stefnanda vegna þessa.  Mótmælt sé að kaupaukagreiðslur á árinu 2013 verði taldar „uppgjör“ á kröfum sem til féllu á árinu 2012 svo sem málatilbúnaður stefnanda lúti að.  Stefndi mótmælir öllum útreikningum stefnanda og þeim forsendum sem hann hafi gefið sér og lagt til grundvallar kröfugerð sinni. Sérstaklega sé vísað til þess að stefndi samþykkir ekki að leggja eigi til grundvallar einhliða fullyrðingu stefnanda um tímakaup fyrir yfirvinnu, sem hann gefi sér að sé samkvæmt kjarasamningi þegar litið sé til þess að inntak samnings aðila hafi ekki verið um að stefndi ætti að greiða stefnanda tiltekna kjarasamningsbundna hlutfallstölu fyrir yfirvinnutíma. Verði fallist á að stefnda beri að greiða stefnanda fyrir einhverjar klukkustundir sem hann hafi ekki þegar greitt honum sé á því byggt að stefnda beri þá að greiða honum meðallaun stefnanda fyrir hverja klukkustund eða 2.011 krónur (kr. 370.000/184 klst.) frá 22. ágúst 2012 til 1. september 2013;  2.336 krónur (kr. 430.000/184 klst.) frá þeim degi til 1. janúar 2014; 2.429 krónur (kr. 442.000/184 klst.) frá þeim degi til 1. nóvember 2013 og  2.523 krónur (kr. 464.142/184 klst.) frá þeim degi. Mótmælt sé að stefnandi reikni sér 17,26 klukkustundir vegna „rauðra daga“, þ.e. 25., 26. og 31. desember 2012 og 1. janúar 2013, enda stefnandi ekki við vinnu þessa daga. Að endingu vill stefndi árétta að hann telji að með greiðslu sinni, umfram skyldu, hinn 14. júlí 2015, hafi launauppgjöri við stefnanda lokið. Skýrslur fyrir dómi. Stefnandi kom fyrir dóminn og kvaðst hafa hafið störf hjá stefnda 21. ágúst 2012. Samkvæmt starfssamningi átti stefnandi að vinna frá kl. 6.00 til 15.00 á daginn en samkomulag var um að stefnandi gæti ráðið því nokkuð sjálfur eftir því sem starfið þróaðist. Hafi stefnandi verið eini bakarinn á veitingasviði. Arnar  hafi verið yfirmaður veitingasviðs og hafi hann ákveðið hvað og hvenær þyrfti að vinna, t.d. fyrir helgar. Samið hafi verið um 184 meðalvinnustundir á mánuði miðað við árið og þá í samráði við yfirmann. Stefnandi hafi ráðið vinnutíma sínum nokkuð sjálfur og hafi hann getað farið þegar verkefni dagsins væri lokið. Samið hafi verið um 370.000 króna flöt laun en rætt hafi verið um að stefnandi tæki yfirvinnu umfram 184 klukkustundir út í fríi. Stimpilklukka hefði verið á staðnum og allar vinnustundir  verið skráðar samkvæmt henni. Hins vegar hafi verið erfitt að fá frí því að sífellt hafi menn verið að hringja í stefnanda í fríi til að spyrja um hvar þetta eða hitt væri keypt og jafnvel hafi stefnandi verið beðinn um að koma úr fríi til að vinna. Mikið álag hafi verið á bakaríinu og hafi stefnandi í raun stjórnað öllu verklagi í því. Stefnandi kvaðst hafa rætt álagið við Guðbjart og fleiri yfirmenn á árinu 2012 og 2013. Stefnandi kvaðst hafa sent yfirmanni sínum tölvupóst með fyrirspurn um yfirvinnutíma stefnanda og hafi hann fengið svar um að haldið væri utan um yfirvinnustundir hans. Stefnandi kvaðst ekki hafa litið svo á að föst laun hans hafi átt að vera fyrir alla yfirvinnu hans. Stefnandi kvaðst hafa tekið sex aukafrídaga umfram orlof á tímabilinu. Varðandi launahækkanir, sem stefnandi fékk umfram lögbundna hækkun samkvæmt kjarasamningi, kvaðst stefnandi hafa litið svo á að þær væru vegna velunninna starfa enda hafi honum verið tjáð það á fundi með yfirmönnum. Honum hafi verið hrósað fyrir störf sín. Stefnandi fékk 300.000 króna greiðslu í desember 2013 og hafi Fjóla, yfirmaður hans, hringt í hann og sagt það vera bónus vegna velunninna starfa. Stefnandi kvaðst hafa óskað eftir því að fá yfirvinnu greidda þegar hann hætti störfum en ekki fengið. Stefnandi kvað skýringu á því að hann hafi ekki fengið lögbundna 11 klukkustunda hvíld vera mistök sem hafi orðið í bakaríinu og hafi stefnandi ákveðið að taka það á sig svo að varan yrði tilbúin til sölu morguninn eftir og hafi því verið fram eftir degi að vinna. Stefnandi hafi orðið að mæta daginn eftir klukkan 6.00 til að hefa deig og baka svo að varan yrði tilbúin fyrir viðskiptavini klukkan 9.00 um morguninn. Því hafi verið ómögulegt að ná ellefu stunda hvíld í það skipti. Þá hafi stefnandi ekki alltaf fengið einn hvíldardag á sjö daga fresti eins og lögbundið sé. Það hafi t.d. gerst í kringum jól en þá hafi verið mikið um smákökukynningar um helgar. Hafi stefnandi þurft að vera á staðnum til að kenna nýjum krökkum sem voru komnir í hlutavinnu til að fylla á, frysta og kæla smákökur auk þess að baka fyrir bakaríið. Stefnandi hafi tekið þetta að sér í samráði við yfirmenn en ekki hafi verið rætt um að hann tæki þá vinnu út í fríi.                 Stefnandi kveðst hafa litið á „flöt laun“ sem laun sem stefnandi fengi greidd í lok mánaðar ef hann uppfyllti 184 klukkustunda vinnu á undangengnum mánuði. Kvað stefnandi að ef hann ynni ekki 184 klukkustundir einn mánuðinn þá myndi mánuður sem hann ynni fleiri klukkustundir jafna það út. Stefnandi kvað í upphafi hafi verið samið um að ef hann ynni að meðaltali meira en 184 klst. á mánuði yfir árið þá tæki hann það út í fríi. Stefnandi kvað launahækkanir sem hann fékk hafa verið vegna vel unninna starfa en ekki fyrir unna yfirvinnu. Þá hafi Fjóla, yfirmaður hans, hringt í hann þegar bónusar voru greiddir og sagt að það væri vegna vel unninna starfa. Stefnandi hafi ekki litið svo á að það væru greiðslur fyrir unna yfirvinnu. Stefnandi kvaðst hafa óskað eftir því að starfssamningur hans yrði endurskoðaður eftir sex mánaða starf en svo hafi ekki verið gert. Stefnandi útskýrði „veikindabónus“ þannig að ef hann væri ekki veikur yfir árið væri veikindabónus greiddur. Aðspurður kvað stefnandi ekki hafa verið rætt við hann um hvernig ætti að greiða honum fyrir yfirvinnu utan að hann hafi ætlað að taka hana út með fríi en bjóst við því að kjarasamningar myndu annars gilda. Stefnandi kvaðst hafa verið eini bakarinn á sinni starfstöð en fleiri bakarar störfuðu innan stefnda.                 Vitnið Fjóla Helgadóttir gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Kvaðst hún hafa starfað sem mannauðsstjóri, þegar stefnandi var ráðinn til starfa, og undirritað ráðningasamninginn við stefnanda. Spurð um „fullt starf 100%“ og „launakjör 370.000 flöt laun“ kvað vitnið þetta hafa verið föst laun miðað við fullt starf. Um væri að ræða sömu föstu krónutöluna hvort sem starfsmaður ynni ekki fullt starf eða umfram fullt starf þá væri greidd sama fjárhæðin. Áætlað hafi verið að stefnandi ynni 184 klukkustundir að meðaltali á mánuði yfir árið þar sem mismunandi gæti verið hversu mikið unnið væri. Átti þetta að vera einhvers konar viðmið og reiknað hafi verið með að einhver yfirvinna yrði á álagstímum og það síðan jafnað út eftir árið. Ef annað kæmi í ljós ætti að endurskoða þetta. Þá hafi verið rætt um að stefnandi fengi aukafrí ef hann ynni meira en þetta og/eða einhvers konar bónus. Hafi verið um nýtt starf að ræða og hafi stefnandi komið að þróun og skipulagi en stefnandi hafi verið eini bakarinn í þessu bakaríi. Stefnandi hafi haft í hendi sér hvort hann mætti klukkan sjö eða átta á morgnana en það færi eftir því hvernig starfið þróaðist og átti hann að gera það í samræmi við veitingastjórann. Stefndi hafi endurskoðað laun stefnanda í febrúar 2013 en hann hafi þá séð að þetta var mikil vinna og stefnandi verið mjög samviskusamur og skilað vel sínu starfi. Fyrirtækinu hafi því fundist rétt að hækka laun stefnanda. Það sama hafi verið í september 2013. Fyrst hafi stefndi talið að mikil vinna væri tímabundin en svo hafi ekki reynst vera. Í nóvember 2014 hafi stefndi ákveðið að hækka laun stefnanda vegna vel unninna starfa hans. Bónusgreiðslur til stefnanda, 300.000 krónur, hafi verið vegna mikils álags fyrir jól og stefnandi unnið mikið. Stefnda hafi því þótt rétt að greiða stefnda bónus vegna þessa. Vitnið hafi hringt sérstaklega í stefnanda milli jóla og nýárs og tilkynnt honum það. Stefnandi hafi þá verið í fríi. Það sama hafi verið þegar stefnandi fékk 50.000 krónur greiddar í bónus. Vitnið kvaðst hafa rætt við næstu yfirmenn stefnanda um það hvort stefnandi væri ekki að taka yfirvinnu út með fríum. Aðspurt um það hvort stefnandi ætti að fá umbun fyrir vinnu umfram 184 klukkustundir að meðaltali á mánuði hafi það verið rætt með kaupaukum eða fríi eða endurskoðun launa. Í tölvupósti í maí 2015 hafi verið rætt um að stefnandi tæki yfirvinnu út með fríum en vitnið kvaðst ekki muna það sérstaklega. Hugsun stefnda með hækkuðum launum til stefnanda hafi verið til að mæta auknu vinnuálagi. Forsendur og niðurstaða. Á þeim tíma er stefnandi réð sig til vinnu hjá stefnda var í gildi kjarasamningur milli VR og Samtaka atvinnulífsins sem gilti frá 22. júní 2011 til 31. janúar 2014. Stefnandi undirritaði ráðningarsamning við stefnda þann 2. júní 2012. Var í ráðningarsamningnum samið um föst laun fyrir 100% starfshlutfall sem fólst í 184 klukkustunda vinnu að meðaltali á mánuði yfir árið. Áttu vinnustundir að jafnast út milli mánaða færi svo að einhverjir mánuðir teldu færri en 184 klukkustundir og einhverjir mánuðir fleiri klukkustundir. Inni í launum stefnanda, sem voru í upphafi 370.000 krónur, átti að rúmast sú yfirvinna sem talin var að fylgdi starfinu. Þá liggur fyrir og er óumdeilt að stefnanda stóð til boða að taka vinnu umfram 184 klukkustundir út í launuðu fríi. Samkvæmt stefnanda vannst ekki tími til þess nema að litlu leyti en hann hafi samtals tekið út sex frídaga utan lögbundins orlofs á tímabilinu. Er ekki ágreiningur um það.                 Þá hefur ekki verið gerður ágreiningur um fjölda vinnustunda sem stefnandi hefur unnið enda teknir út úr skráningarkerfi stefnda. Stefndi heldur því hins vegar fram að stefnandi hafi þegar fengið fullnaðargreiðslu fyrir vinnuframlag sitt og hafi launahækkanir til dæmis verið til að greiða fyrir vinnu umfram 184 meðalklukkustundir á mánuði.                 Í ráðningarsamningi milli aðila segir í kaflanum „Annað/nánari skýring á launakjörum/greiðslufyrirkomulag“ að mánaðarlaun reiknist frá 1. til 31. hvers mánaðar (eftir- og yfirvinna frá 24. til 24. hvers mánaðar). Í kaflanum um neysluhlé utan dagvinnutímabils segir að sé unnið í neysluhléum milli kl. 9:00 og 18:00 greiðist yfirvinnukaup til starfsfólks í fullu starfi. Gildi það bæði á virkum dögum og um helgar. Samkvæmt þessu hefur stefndi gert ráð fyrir því að greiða stefnanda yfirvinnukaup við ákveðnar aðstæður. Af þessu telur dómurinn að stefndi hafi ekki sýnt fram á að öll yfirvinna stefnanda væri innifalin í 184 klukkustunda vinnuframlagi að meðaltali á mánuði. Miðað við þann tímafjölda sem stefnandi vann hefði það verið brot á kjarasamningi VR og SA. Þá hefur stefndi viðurkennt í framkvæmd, með því að greiða stefnanda fyrst 50.000 krónur og síðan 300.000 krónur, að stefndi hafi unnið umfram umsaminn tímafjölda samkvæmt ráðningarsamningi. Telur dómurinn að stefndi geti ekki með einhliða ákvörðun, án samráðs við stefnanda, ákveðið hvaða greiðslur stefnanda beri fyrir vinnuframlag sitt umfram umsamda vinnuskyldu. Stefndi heldur því fram að með launahækkunum í september 2013 hafi stefndi verið að greiða stefnanda fyrir umfram vinnuframlag. Þessu mótmælir stefnandi og kveðst hafa fengið launahækkun vegna ánægju vinnuveitanda hans með störf hans. Vitnið Fjóla kvað rétt að stefndi hafi verið ánægður með vinnu stefnanda og viljað umbuna honum með launahækkun. Gegn neitun stefnanda telur dómurinn að stefndi hafi ekki sýnt fram á að umræddar launahækkanir hafi verið til að greiða fyrir unna yfirvinnu enda hefði slíkt þurft að koma fram á launaseðli eða á annan óyggjandi hátt. Svo var ekki. Þá greiddi stefndi stefnanda sérstaklega 350.000 krónur aukalega sem stefndi kvað vera vegna yfirvinnu stefnanda. Að öllu ofangreindu virtu telur dómurinn að stefnandi hafi sýnt fram á að hann hafi átt að fá yfirvinnu umfram 184 klukkustundir greiddar aukalega. Staðfesti vitnið Fjóla að stefnandi hafi getað tekið umfram yfirvinnustundir út með fríi. Svo leit stefnandi einnig á en kvað það hafa verið ómögulegt vegna mikils vinnuálags og anna. Því hafi hann átt inni óuppgerða yfirvinnu þegar hann lauk störfum í janúar 2015. Þegar Verslunarmannafélag Reykjavíkur gerði athugasemdir með bréfi dagsettu 22. júní 2015 til stefnda, greiddi stefndi stefnanda 249.905 krónur 14. júlí 2015 sem hann kvað vera lokauppgjör. Í þeirri greiðslu felst viðurkenning á því að stefndi ætti ógreiddar greiðslur til stefnanda.                 Telur dómurinn að stefnandi hafi sannað, þrátt fyrir mótmæli stefnda, að honum beri að fá greitt fyrir yfirvinnu umfram 184 klukkustundir að meðaltali á mánuði.                 Stefndi byggir á því að kröfur stefnanda séu niður fallnar vegna tómlætis stefnanda. Þessu mótmælir stefnandi. Í gögnum málsins liggur fyrir að uppgjör aðila átti að fara fram um áramót eða þegar séð væri hvort 184 klukkustunda vinnuframlagi væri náð að meðaltali yfir árið. Stefnandi hóf störf 21. ágúst 2012 en samkvæmt útreikningi stefnanda átti hann þá óuppgerðar 109,95 klukkustundir um næstu áramót. Stefndi greiddi stefnanda í apríl og desember 2013 samtals 350.000 krónur sem stefnandi reiknar með sem yfirvinnugreiðslu í uppgjöri aðila. Í janúar 2014 sendi stefnandi fyrirspurn til stefnda í tölvupósti um hvort einhver hætta væri á því að allir yfirvinnutímarnir gufuðu upp og var honum tjáð að haldið væri utan um þá alla. Í mars 2015 sendi stefnandi aftur fyrirspurn um uppsafnaða yfirvinnutíma hjá stefnda og fékk hann það svar að meiningin væri að hann myndi jafna þá yfirvinnu út með fríum. Stefnandi leitaði til Verslunarmannafélags Reykjavíkur sem gerði kröfu á stefnda vegna ógreiddrar yfirvinnu stefnda í júní 2015. Í kjölfar greiddi stefndi stefnanda laun sem stefnandi heldur fram að hafi farið til greiðslu á elstu skuld stefnda við stefnanda í júlí 2015. Að þessu sögðu er því hafnað að krafa stefnanda hafi fallið niður sökum tómlætis. Mátti stefnandi vera í þeirri trú að stefndi myndi gera upp óuppgerða yfirvinnu samkvæmt tímaskráningu í skráningarkerfi stefnda.                 Ágreiningslaust er að óheimilt er að semja um lægri laun en gildandi kjarasamningar segja til um á hverjum tíma. Heimilt er að semja um hærri laun og innihélt ráðningarsamningur aðila í sér hærri laun en lægstu launataxtar VR gera ráð fyrir.                  Á þeim tíma sem stefnandi starfaði hjá stefnda segir í grein 1.7.1 í kjarasamningi VR og SA að tímafjöldi fyrir fulla dagvinnu sé á mánuð171,15 klukkustundir og skuli vinna sem unnin er umfram það greiðast með tímakaupi sem nemi 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Af þessu verður sú ályktun dregin að öll dagvinna, 171,5 klukkustundir, rúmist innan 184 klukkustunda vinnuframlags stefnanda en 12,5 klukkustundir hafi verið reiknaðar inn sem yfirvinna. Um lakari kjör gat stefndi ekki samið þrátt fyrir að hann hafi greitt stefnanda hærri mánaðarlaun en lágmarkstaxti kjarasamningsins sagði til um.                 Ekki er ágreiningur um þann tímafjölda sem stefnandi vann og er skráður í skráningarkerfi stefnda. Stefnandi lagði fram leiðrétta útreikninga fyrir kröfu sinni undir rekstri málsins. Á árinu 2012 vann stefnandi 109,95 klukkustundir umfram 184 klukkustundir að meðaltali á mánuði. Á árinu 2013 vann stefnandi samtals 295,9 klukkustundir umfram 184 klukkustundir að meðaltali á mánuði. Á árinu 2014 vann stefnandi 128,5 klukkustundir umfram 184 klukkustundir að meðaltali á mánuði.                  Stefndi mótmælir því að við útreikning á yfirvinnu skuli 1,0385% lögð ofan á mánaðarlaun stefnanda. Telur dómurinn að þar sem um heildarlaun hafi verið samið eða „flöt laun“ verði ekki litið svo á að sérstaklega verði útreiknað hvað hefði átt að greiða fyrir dagvinnu og hvaða hluti launanna hafi verið fyrir yfirvinnu. Að þessu virtu verða kröfur stefnanda eins og þær eru fram settar í stefnu teknar til greina enda í samræmi við kjarasamning VR og SA.                 Stefndi mótmælti því að stefnandi hafi ekki fengið 11 klukkustunda lögboðið frí eins og hann heldur fram. Af framburði stefnanda fyrir dómi um að hann hafi orðið að mæta til vinnu áður en hann hafði náð að taka 11 klukkustunda frí, og styðst við tímaskráningu stefnda, telur dómurinn fram komna sönnun um að stefnandi eigi rétt á greiðslum samkvæmt því.                 Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi ekki náð að taka einn lögbundinn frídag á sjö daga tímabili en hann hafi ráðið vinnutíma sínum nokkuð sjálfur. Vitnið Fjóla kvað fyrir dómi að stefnandi hafi staðið sig vel í vinnu og verið samviskusamur og því hafi honum verið umbunað með hærri launum og bónusum. Styður það framburð stefnanda um að hann hafi ekki getað tekið sér lögbundna frídaga vegna álags og stöðu verkefna enda hafi hann verið eini bakarinn á þessari vinnustöð. Telur dómurinn að stefnandi hafi sýnt fram á að honum beri greiðslur fyrir þessa daga.                 Eins og rakið hefur verið kemst dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi sýnt með nægilegum hætti fram á að stefnda beri að greiða stefnanda fyrir yfirvinnu sem var umfram vinnuskyldu samkvæmt ráðningarsamningi aðila auk lögboðinna greiðslna, s.s. orlof og fyrir hvíldartíma. Verða kröfur stefnanda því teknar að fullu til greina. Við kröfugerð stefnanda hefur verið tekið tillit til innborgana stefnda að fullu. Samkvæmt þessu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 2.438.514 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1, sbr. 6., gr. laga nr. 38/2001 af 408.186 krónum frá 24. desember 2012 til 24. janúar 2013 en af 472.265 krónum frá þeim degi til 24. ágúst 2013, en af 961.270 krónum frá þeim degi til 24. desember 2013, en af 1.021.440 krónum frá þeim degi til 24. október 2014, en af 1.613.078 krónum frá þeim degi til 24. janúar 2015, en af 2.438.514 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 50.000 krónum er greiddar voru 30. apríl 2013, 300.000 krónum sem greiddar voru 30. desember 2013 og 249.905 krónum sem greiddar voru 31. júlí 2015. Þess er krafist að dæmt verði,að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 1. janúar 2015 en síðan árlega þann dag. Með vísan til 12. gr. laga nr. 38/2001 er óþarft að dæma um þá vaxtakröfu.                 Með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, samtals 800.000 króna. Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð. Stefndi, Miklatorg hf., greiði stefnanda, Guðmundi Vikari Sigurðssyni, 2.438.514 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1., sbr. 6., gr. laga nr. 38/2001 af 408.186 krónum frá 24. desember 2012 til 24. janúar 2013 en af 472.265 krónum frá þeim degi til 24. ágúst 2013, en af 961.270 krónum frá þeim degi til 24. desember 2013, en af 1.021.440 krónum frá þeim degi til 24. október 2014, en af 1.613.078 krónum frá þeim degi til 24. janúar 2015, en af 2.438.514 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 50.000 krónum sem greiddar voru 30. apríl 2013, 300.000 krónum sem greiddar voru 30. desember 2013 og 249.905 krónum sem greiddar voru 31. júlí 2015. Stefndi greiði stefnanda 800.000 króna í málskostnað.
Mál nr. 11/2018
Kærumál Kæruheimild Virðisaukaskattur Mannréttindasáttmáli Evrópu Frávísunarúrskurður staðfestur
Kært var ákvæði í dómi Landsréttar um að vísa frá héraðsdómi sakargiftum á hendur einkahlutafélögunum X, Y, Z og Þ um brot gegn 8. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á þeim grundvelli að málsmeðferðin sem félögin sættu færi í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Krafðist ákæruvaldið þess að frávísunin yrði felld úr gildi annars vegar á þeim grunni að lögaðilar yrðu ekki felldir undir bann samkvæmt 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu og hins vegar með vísan til þess að álag á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988 fæli ekki í sér refsingu í skilningi framangreinds ákvæðis samningsviðaukans með sama hætti og þegar gjaldandi sætti álagi á gjaldstofna samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Um fyrrgreinda atriðið vísaði Hæstiréttur til þess að þótt ekki yrði með skýrum hætti ráðið af orðalagi ákvæðisins hvort það tæki einungis til einstaklinga yrði ekki annað séð af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu en að þar hefði ákvæðinu einnig verið beitt gagnvart lögaðilum. Til þess væri einnig að líta að á grundvelli laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu væri ákvæðið íslensk réttarheimild og sætti sem slíkt skýringu sem hvert annað lagaákvæði fyrir dómstólum. Eðli máls samkvæmt stæðu ekki haldbær efnisrök til að fella lögaðila utan þeirrar verndar, sem ákvæðinu væri ætlað að veita. Að því er varðaði síðargreinda álitaefnið sló Hæstiréttur því föstu að þótt hundraðshluti álags væri ólíkur milli ákvæðanna auk þess munar sem væri á ákvörðun um beitingu þess stæðu ekki efni til þess að gera greinarmun í þessum tveimur tilvikum, enda væri í báðum ákvæðunum um að ræða viðurlög sem taka bæri tillit til við ákvörðun sektar í sakamáli. Að þessu virtu og með vísan til þess að ekki væri ágreiningur um þá niðurstöðu Landsréttar um að rekstur máls gegn félögunum fyrir skattayfirvöldum annars vegar og rannsókn sakamáls á hendur þeim og meðferð þess fyrir dómi hins vegar hafi ekki staðist efnislegan áskilnað 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu var hið kærða ákvæði staðfest.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. maí 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kært er ákvæði í dómi Landsréttar 4. maí 2018 um að vísa frá héraðsdómi sakargiftum á hendur varnaraðilum um brot gegn 8. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til a. liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hann krefst þess að ákvæði þetta um frávísun málsins að hluta verði fellt úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið að því leyti til efnismeðferðar. Varnaraðilar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 11. september 2018. I Aðalkröfu sína um frávísun málsins frá Hæstarétti byggja varnaraðilar á því að í a. lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 sé ekki að finna heimild til að kæra til Hæstaréttar dóm þótt með honum sé máli að hluta vísað frá dómi, enda nái kæruheimild eftir orðalagi greinarinnar aðeins til úrskurða Landsréttar. Ákvæði a. liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 öðlaðist gildi 1. janúar 2018 er nýr dómstóll, Landsréttur, tók til starfa. Fyrir þann tíma hafði ítrekað verið lagt til grundvallar í dómaframkvæmd Hæstaréttar að þegar farin var sú leið í einum og sama héraðsdómi að vísa máli að hluta frá dómi og taka að öðru leyti efnislega afstöðu til þess, gæti ákvæði dómsins um frávísun ekki komið til endurskoðunar við áfrýjun hans, heldur bæri að kæra það til að leitast við að fá því hnekkt. Í þágildandi ákvæðum laga nr. 88/2008 og enn eldri laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var þó á hliðstæðan hátt og nú aðeins mælt fyrir um heimild til að kæra úrskurði. Standa engin rök til þess að þeirri venjubundnu framkvæmd verði breytt í þeim tilvikum þar sem svo háttar til að Landsréttur kveður í dómi á um frávísun máls að hluta, sbr. og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 5. júní 2018 í máli nr. 8/2018. II Sóknaraðili reisir kröfu sína í fyrsta lagi á því að ekki séu forsendur til að vísa málinu frá héraðsdómi að því er varnaraðila varðar, þar sem lögaðilar verði ekki felldir undir bann samkvæmt 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, við því að nokkur sæti lögsókn eða refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot, sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur fyrir með lokadómi. Um þessa röksemd er þess að gæta að þótt ekki verði með skýrum hætti ráðið af orðalagi ákvæðisins sem hér um ræðir hvort það taki einungis til einstaklinga verður ekki annað séð af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu en að þar hafi ákvæðinu einnig verið beitt gagnvart lögaðilum, sbr. dóm hans 4. mars 2014 í málinu Grande Stevens o.fl. gegn Ítalíu. Til þess er einnig að líta að á grundvelli laga nr. 62/1994 er ákvæði þetta íslensk réttarheimild og sætir sem slíkt og óháð framangreindu skýringu sem hvert annað lagaákvæði fyrir dómstólum hér á landi. Eðli máls samkvæmt standa ekki haldbær efnisrök til að fella eftir íslenskum landsrétti lögaðila utan þeirrar verndar, sem ákvæði þessu er ætlað að veita. Að þessu virtu verður hafnað þeirri röksemd sóknaraðila, sem hér um ræðir. Þá hefur sóknaraðili í annan stað stutt dómkröfu sína þeim rökum að álag á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988 feli ekki í sér refsingu í skilningi 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu með sama hætti og þegar gjaldandi sætir álagi á gjaldstofna samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Þótt rétt sé hjá sóknaraðila að hundraðshluti álags af gjaldstofni sé í fyrrnefnda tilvikinu nokkru lægri en í því síðarnefnda og talsverður munur sé að auki á því hvernig staðið er að ákvörðun um beitingu álags í þessum tveimur tilvikum standa engin efni til að gera greinarmun af þessu tagi, enda er í þeim báðum um að ræða viðurlög, sem taka ber tillit til við ákvörðun sektar í sakamáli, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lýsti sóknaraðili því yfir að unað væri við þá niðurstöðu Landsréttar að rekstur máls gegn varnaraðilum fyrir skattayfirvöldum annars vegar og rannsókn sakamáls á hendur þeim og meðferð þess fyrir dómi hins vegar hafi ekki uppfyllt skilyrði um nægjanlega samþættingu í tíma til þess að slík tvíþætt málsmeðferð fengi staðist gagnvart 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Kemur sá þáttur málsins því ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Að framangreindu virtu verður hið kærða ákvæði í dómi Landsréttar um frávísun málsins að hluta staðfest með vísan til forsendna dómsins. Samkvæmt lögjöfnun frá 3. mgr. 237. gr. laga nr. 88/2008 verður kærumálskostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda varnaraðila, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Staðfest er ákvæði í dómi Landsréttar um að vísa frá héraðsdómi sakargiftum á hendur varnaraðilum, X ehf., Y ehf., Z ehf. og Þ ehf., um brot gegn 8. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Allur kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda varnaraðila, Björgvins Þorsteinssonar lögmanns, samtals 1.240.000 krónur.   Dómur Landsréttar 4. maí 2018. Mál þetta dæma landsréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Jón Finnbjörnsson og Oddný Mjöll Arnardóttir.  Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1. Ákæruvaldið skaut máli þessu til Hæstaréttar 30. maí 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2016 í málinu nr. [...]. 2. Gögn málsins bárust Landsrétti 2. janúar 2018 en samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 49/2016 um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), sbr. 76. gr. laga nr. 117/2016 og 4. gr. laga nr. 53/2017, hefur málið verið rekið fyrir Landsrétti frá þeim tíma. 3. Með bréfum 15. janúar 2018 tilkynntu málsaðilar að þeir óskuðu ekki eftir því að skýrslutökur færu fram eða að upptökur framburðar fyrir héraðsdómi yrðu spilaðar við aðalmeðferð málsins og dómurinn hefur ekki talið að slík sönnunarfærsla hafi þýðingu við endurskoðun hins áfrýjaða dóms. 4. Ákæruvaldið krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.  5. Ákærðu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þeir verði sýknaðir af kröfum ákæruvalds. Að þessu frágengnu krefjast ákærðu þess að refsing verði látin niður falla en ella að refsing verði svo væg sem lög heimila. Málsatvik og sönnunarfærsla 6. Með bréfum 31. maí 2012 tilkynnti skattrannsóknarstjóri ríkisins ákærðu Y ehf. (þá A ehf.) og Þ ehf. að hafin væri rannsókn á bókhaldi og skattskilum þeirra vegna rekstrarársins 2011. Sambærilegri tilkynningu var 19. júní sama ár beint til ákærðu X ehf. (þá B ehf.) og Z ehf. Vegna þessa kom ákærði Æ, fyrirsvarsmaður félaganna, til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra 14. ágúst 2012. Í upphafi hverrar skýrslutöku var ákærða Æ, sem hafði stöðu sakbornings, kynnt sakarefni. Þá var hann spurður út í stöðu sína hjá félögunum og aðkomu annarra að stjórn þeirra. Ákærði var því næst spurður út í bókhald félaganna og virðisaukaskattskil, útgefna sölureikninga og ástæður þess að vanhöld voru á skýrslugjöf og skattskilum. Skýrsla var tekin af C [...] vegna Z ehf. 20. september sama ár. Aðrar skýrslutökur fóru ekki fram. 7. Með bréfi 27. september 2012 í máli Y ehf., 11. október sama ár í málum X ehf. og Þ ehf., og 12. sama mánaðar í máli Z ehf., sendi skattrannsóknarstjóri hverju þeirra skýrslu um niðurstöðu rannsóknar embættisins til athugasemda ef þurfa þætti. Engar athugasemdir bárust. Endanlegar skýrslur embættisins um rannsókn á skattskilum félaganna lágu fyrir 17. október 2012 í máli ákærða Y ehf., 29. sama mánaðar í málum X ehf. og Þ ehf. og 30. sama mánaðar í máli Z ehf. Niðurstöður rannsókna voru í öllum tilvikum á sama veg, að virðisaukaskattskýrslum vegna allra uppgjörstímabila rekstrarársins 2011 hefði ekki verið skilað, að leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts vegna rekstrarársins 2011 hefði verið skilað til ríkisskattstjóra eftir upphaf rannsóknar og að bókhald hefði einnig verið fært eftir að rannsókn hófst. Þá hefðu skattskyld velta og útskattur verið vantalin og gögn gefið til kynna mögulegan innskatt. Loks hefðu í tilviki Y ehf. verið gefnir út sölureikningar. 8. Með bréfi 18. október 2012 í tilviki Y ehf., 31. sama mánaðar í tilviki X ehf. og Þ ehf., og 2. nóvember sama ár í tilviki Z ehf., framsendi skattrannsóknarstjóri ríkisskattstjóra mál ákærðu til meðferðar á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Samhliða sendi skattrannsóknarstjóri hverju félaganna og ákærða Æ bréf þar sem tilkynnt var um lok rannsóknar skattrannsóknarstjóra og að mál félaganna hefðu á grundvelli fyrirliggjandi gagna verið send ríkisskattstjóra sem myndi taka ákvörðun um hugsanlega endurálagningu. Kom þar jafnframt fram að fyrir lægi af hálfu skattrannsóknarstjóra að taka ákvörðun um refsimeðferð í samræmi við ákvæði 41. gr. laga nr. 50/1988 og 41. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Þar sem félögin og fyrirsvarsmenn þeirra kynnu að hafa bakað sér refsiábyrgð vegna þeirra brota sem rannsókn embættisins hefði leitt í ljós gæfist viðkomandi aðilum færi á að tjá sig um fyrirhugaða refsimeðferð. Engin svör bárust frá ákærðu. 9. Hinn 14. janúar 2013 endurákvarðaði ríkisskattstjóri virðisaukaskatt hinna ákærðu félaga á grundvelli innsendra virðisaukaskattskýrslna þeirra. Jafnframt var lagt á lögbundið álag samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988. Ríkisskattstjóri tilkynnti félögunum og skattrannsóknarstjóra um málalok 12. og 19. febrúar sama ár. Kom þá fram að með vísan til þeirrar endurákvörðunar sem fram hefði farið hefði ríkisskattstjóri ekki í hyggju að nýta sér heimild til endurákvörðunar virðisaukaskatts, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988. 10. Með bréfum 28. febrúar 2013 vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins málefnum ákærðu til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Í bréfunum kom fram að málin væru send á grundvelli fyrirliggjandi gagna um rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattskilum hinna ákærðu félaga. Hefðu félögin meðal annars vanrækt að standa skil á virðisaukaskattskýrslum fyrir rekstrarárið 2011 og færa bókhald á tilskildum tíma. Þá hefði rannsókn leitt í ljós vanframtalda skattskylda veltu, útskatt og mögulegan innskatt. Á það var bent að leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts hefði verið skilað eftir upphaf rannsóknar. Kynni háttsemin að varða félögin og fyrirsvarsvarsmenn þeirra refsingu. 11. Hinn 20. júní 2013 gaf C skýrslu hjá sérstökum saksóknara vegna Z ehf. og hafði réttarstöðu sakbornings. Þá mætti ákærði Æ til skýrslutöku 11. desember 2013 vegna félaganna fjögurra. Í upphafi hverrar skýrslutöku var ákærða Æ, sem hafði réttarstöðu sakbornings, kynnt sakarefnið. Ákærði kvaðst hafa kynnt sér efni skýrslna skattrannsóknarstjóra. Í framhaldinu var ákærði Æ spurður út í stöðu sína hjá félögunum og aðkomu annarra að stjórn þeirra. Ákærði var því næst spurður út í bókhald félaganna og virðisaukaskattskil, og ástæður þess að vanhöld voru á skýrslugjöf og skattskilum, allt með vísan til fyrri skýrslugjafar hans hjá skattrannsóknarstjóra. Til grundvallar skýrslutökunum lágu einnig yfirlit embættis sérstaks saksóknara yfir vanframtalda veltu, vanframtalinn útskatt og mögulegan innskatt, að sömu fjárhæðum og rannsókn skattrannsóknarstjóra hafði áður leitt í ljós. Því til viðbótar voru nýjar upplýsingar um greiðslustöðu félaganna vegna virðisaukaskatts bornar undir ákærða. Frekari skýrslutökur fóru ekki fram. 12. Samkvæmt framangreindum yfirlitum embættis sérstaks saksóknara, sem byggja á útprentunum úr tekjubókhaldskerfi ríkisins, nam vanframtalinn útskattur X ehf. 5.912.845 krónum, en að teknu tilliti til greiðslustöðu félagsins miðað við færslur, þar á meðal afturvirkar, sem átt hefðu sér stað til 4. apríl 2013 voru 2.269.158 krónur vangoldnar eftir lögboðinn gjalddaga. Með sama hætti nam vanframtalinn útskattur Y ehf. 12.171.984 krónum, en að teknu tilliti til greiðslustöðu félagsins miðað við 4. apríl 2013 voru 699.684 krónur vangoldnar eftir lögboðinn gjalddaga, vanframtalinn útskattur Þ ehf. nam 22.078.908 krónum, en að teknu tilliti til greiðslustöðu félagsins miðað við 4. apríl 2013 voru 6.157.390 krónur vangoldnar eftir lögboðinn gjalddaga og vanframtalinn útskattur Z ehf. nam 7.098.584 krónum, en að teknu tilliti til greiðslustöðu félagsins miðað við 7. mars 2013 voru 2.276.226 krónur vangoldnar eftir lögboðinn gjalddaga. 13. Mál þetta var höfðað á hendur ákærðu 17. júlí 2014. Ákærufjárhæðir samsvara í öllum tilvikum þeim vangoldna virðisaukaskatti sem að framan greinir. 14. Málið var þingfest 9. september 2014. Var þá bókað eftir verjanda ákærðu að óskað væri eftir því að málinu yrði frestað þar til fyrir lægi dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um tvöfalda refsingu sem svo var nefnd. Í bókuninni sagði að sækjandi legðist ekki gegn frestun málsins. Var málinu frestað til 16. desember 2014. Þegar málið var tekið fyrir síðastnefndan dag var því aftur frestað og nú til 3. mars 2015 þar sem dómur mannréttindadómstólsins lá ekki fyrir. Við fyrirtöku málsins 3. mars, 15. apríl og 23. júní 2015 lá umræddur dómur heldur ekki fyrir og var málinu enn frestað af þeim sökum og síðast til 31. ágúst sama ár. Þá var bókað að dómur hefði enn ekki gengið og hefði dómari ákveðið að aðalmeðferð málsins færi fram 14. janúar 2016. Næst var málið tekið fyrir 23. febrúar 2016 og þá bókað að fyrirhugaðri aðalmeðferð hefði verið frestað utan réttar að ósk ákærðu. Jafnframt var þá bókað: „Máli þessu var frestað eftir þingfestingu að ósk ákærða þar sem beðið var dóms mannréttindadómstóls Evrópu um tvöfalda refsingu. Sá dómur liggur ekki fyrir enn sem komið er en dómurinn telur ekki fært að fresta málinu lengur.“ Bókað var að verjandi ákærðu óskaði eftir að skila greinargerð í málinu og að veittur væri frestur í því skyni til 4. mars 2016. Jafnframt var bókað að aðalmeðferð málsins færi fram 4. apríl 2016. 15. Hjá embætti sérstaks saksóknara lagði ákærði Æ fram bréf ríkisskattstjóra 17. september 2013 sem sýndu ýmsar breytingar á virðisaukaskatti X ehf. vegna ársins 2008, meðal annars vegna innskatts sem ekki hefði áður verið tekinn til greina. Í bréfunum er tekið fram að útborgun innskattsins sé háð greiðslustöðu hjá innheimtumanni ríkissjóðs. Undir rekstri málsins lagði verjandi ákærðu einnig fram útprentun úr tekjubókhaldskerfi ríkisins miðað við 17. febrúar 2016 og gögn um að X ehf. hefðu 4. október 2013 fengið greiddar út 2.322.111 krónur vegna skattbreytinga virðisaukaskatts frá árinu 2008. Upphafleg yfirlit embættis sérstaks saksóknara um vangoldinn virðisaukaskatt hinna ákærðu félaga miðuðust við greiðslustöðu 4. apríl 2013 en af þessu tilefni hlutaðist ákæruvaldið til um endurskoðun yfirlitanna miðað við 4. apríl 2016. Ákærufjárhæð vegna vangoldins virðisaukaskatts X ehf. lækkaði við þetta úr 2.269.158 krónum í 1.014.413 krónur en ákærufjárhæðir voru að öðru leyti óbreyttar. Af útprentun úr tekjubókhaldskerfi ríkisins má ráða að breytingin hafi orðið vegna skuldajafnaðar 18. september 2013 við ógreiddan virðisaukaskatt ársins 2011 að fjárhæð 1.254.745 krónur. Þar af má rekja skuldajöfnuð á 19.255 krónum til breytinga á virðisaukaskatti félagsins vegna ársins 2008. 16. Við aðalmeðferð málsins í héraði gaf ákærði Æ skýrslu. Auk þess voru teknar skýrslur af vitnum. Um framburð ákærða og vitna fyrir héraðsdómi, sem og framburð ákærða hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og embætti sérstaks saksóknara, er vísað til hins áfrýjaða dóms. Málsástæður aðila Málsástæður ákæruvaldsins 17. Ákæruvaldið hafnar því að vísa beri máli þessu frá dómi. Þá er bent á að skattyfirvöld hafi ekki lagt álag á ákærða Æ og því hafi honum ekki áður verið gerð refsing eða refsikennd viðurlög vegna sömu háttsemi og greinir í ákæru. 18. Af hálfu ákæruvaldsins er á því byggt að ákærðu hafi unnið sér til refsingar fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir. Þá er málsástæðum ákærðu varðandi sýknu og niðurfellingu refsingar mótmælt. Málsástæður ákærðu 19. Ákærðu reisa aðalkröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi á því að efnismeðferð og sakfelling í því fari í bága við 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Einnig er frávísunarkrafa ákærðu á því reist að útreikningar af hálfu ákæruvalds í málinu séu óskiljanlegir og rangir, meðal annars þar sem ekki hafi verið gætt að því af hálfu innheimtumanns ríkissjóðs að ráðstafa greiðslum á þann hátt sem hagkvæmast væri fyrir ákærðu. 20. Ákærðu reisa varakröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að sá galli sé á ákæru að sú háttsemi sem ákærðu sé gefin að sök falli ekki undir verknaðarlýsingu 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, auk þess sem ekki sé gerð nægilega skýr grein fyrir því á hvern hátt ákærðu hafi brotið gegn lögum um bókhald. Í öðru lagi vísa ákærðu til þess að það standist ekki jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og sé ekki í samræmi við 1. og 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 6. og 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að gera ákærðu refsingu í málinu vegna þess að sambærileg brot hafi með lögum nr. 24/2010 um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri verið gerð refsilaus. Þá er á því byggt að sök sé ekki sönnuð þar sem framlögð gögn séu takmörkuð og útreikningar rangir. 21. Kröfu um niðurfellingu refsingar byggja ákærðu á sömu sjónarmiðum og að framan eru rakin. Niðurstaða Landsréttar Frávísunarkrafa ákærðu vegna banns við tvöfaldri saksókn eða refsingu 22. Krafa ákærðu um frávísun frá héraðsdómi byggist sem fyrr segir á því að efnismeðferð og sakfelling í málinu fari í bága við 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Í íslenskri þýðingu ákvæðisins, sem ber fyrirsögnina réttur til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis, segir að enginn skuli sæta lögsókn eða refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis. 23. Með dómi Hæstaréttar 21. september 2017 í máli nr. 283/2016 var því slegið föstu með vísan til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu að beiting stjórnsýsluviðurlaga í formi álags á vantalinn skattstofn fæli í sér „sakamál“ í merkingu 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmálann og að um „sama mál“ í skilningi ákvæðisins væri að ræða ef sömu atvik eða að öllu verulegu sambærileg atvik lægju til grundvallar endurtekinni saksókn eða refsingu. Beiting ríkisskattstjóra á álagi gagnvart hinum ákærðu félögum samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988 annars vegar og rannsókn sérstaks saksóknara, ákæra og sakfelling ákærðu fyrir héraðsdómi hins vegar voru reist á sömu atvikum og því gildir 4. gr. 7. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu um málsmeðferðina. 24. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu A og B gegn Noregi frá 15. nóvember 2016 var ákvæði 4. gr. 7. samningsviðaukans skýrt þannig að það útilokaði ekki beitingu staðlaðs skattálags hjá skattyfirvöldum vegna vangreiðslu skatta í alvarlegri málum þar sem jafnframt gæti verið viðeigandi að efna til saksóknar fyrir refsivert brot. Í slíkum tilvikum þyrfti rekstur málanna þó að vera nægilega tengdur að efni til og í tíma til að úr verði samþætt heild, allt í því skyni að meðalhófs sé gætt og hin samþætta málsmeðferð leggi ekki óhóflegar byrðar á viðkomandi. Við mat á því hvort málsmeðferð teldist nægilega samþætt að efni til bæri í fyrsta lagi að líta til þess hvort meðferð seinna málsins hefði verið til fyllingar eða viðbótar meðferð hins fyrra, í öðru lagi til þess hvort hin tvíþætta málsmeðferð hefði verið fyrirsjáanleg afleiðing þeirrar háttsemi sem um ræðir, í þriðja lagi til þess hvort leitast hefði verið við af fremsta megni að forðast endurtekna öflun og mat sönnunargagna og í fjórða lagi til þess hvort í síðari málsmeðferðinni hefði verið tekið tillit til þeirra viðurlaga sem áður voru á lögð. Við mat á því hvort rekstur málanna teldist nægilega samþættur í tíma væri ekki gerð krafa um að meðferð beggja mála hefði farið fram samhliða frá upphafi til enda en þó þyrftu tímaleg tengsl að vera nægilega náin til að koma í veg fyrir óhóflegt óhagræði, óvissu og tafir vegna málareksturs sem dregst yfir lengri tíma. Jafnframt var því slegið föstu að þrátt fyrir að orðalag ákvæðisins gæfi til kynna að um endanlega ákvörðun þyrfti að vera að ræða í fyrra málinu, en það hefur í framkvæmd mannréttindadómstólsins verið metið með tilliti til þess hvort kæru- eða málshöfðunarfrestir séu liðnir, væri í málum af þessu tagi ekki nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hvort eða hvenær ákvörðun er orðin endanleg þar sem það hafi ekki áhrif á mat á því hvort nægileg tengsl, í framangreindum skilningi, séu á milli meðferðar málanna. 25. Með dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar gegn Íslandi frá 18. maí 2017 og dómi Hæstaréttar 21. september 2017 í máli nr. 283/2016 var því slegið föstu að beiting álags af hálfu skattyfirvalda og sakfelling fyrir dómi á grundvelli sömu eða að öllu verulegu sambærilegra atvika séu fyrirsjáanlegar afleiðingar brota á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í málunum var því jafnframt slegið föstu að sakamálið hefði verið til viðbótar eða fyllingar skattálagi þar sem það hefði haft ólíkan tilgang. Málsmeðferð samkvæmt 40. og 41. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sem á reynir í máli þessu, er fyllilega sambærileg málsmeðferð vegna brota á lögum nr. 90/2003. Verður því talið að framangreindum skilyrðum sé fullnægt í máli þessu. Þá ber einnig að gæta þess við ákvörðun sektarfjárhæðar samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 að skattálag samkvæmt 27. gr. laganna sé dregið frá. 26. Kemur þá til skoðunar hvort leitast hafi verið við af fremsta megni að forðast endurtekna öflun og mat sönnunargagna í málinu. Samkvæmt dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu A og B gegn Noregi frá 15. nóvember 2016 verður það einkum gert með samstarfi á milli þeirra aðila sem koma að rannsókn máls þannig að öflun og mat sönnunargagna úr öðru málinu sé einnig lagt til grundvallar í hinu. Við mat á þessu skilyrði ber einnig að hafa í huga að samkvæmt 7. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003 skal við rannsóknaraðgerðir skattyfirvalda gæta ákvæða laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 eftir því sem við getur átt, einkum varðandi réttarstöðu grunaðra manna á rannsóknarstigi. 27. Með dómi Hæstaréttar 21. september 2017 í máli nr. 283/2016 var því slegið föstu að það gæti verið hluti af efnislega samþættri málsmeðferð sem standist kröfur 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmálann þegar lögreglurannsókn byggir á rannsókn skattrannsóknarstjóra en nauðsynlegt reynist að afla viðbótargagna um einhverja þætti máls sem ekki hafa verið nægilega rannsakaðir af skattyfirvöldum. Í því máli hafði lögregla tekið skýrslur af að minnsta kosti fimm nýjum vitnum. 28. Þau skattalagabrot sem ákært er fyrir í máli þessu lúta að því að ekki hafi verið skilað virðisaukaskattskýrslum vegna hinna ákærðu félaga fyrir öll uppgjörstímabil rekstrarársins 2011 og að þeim virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félaganna hafi ekki verið skilað til ríkissjóðs á gjalddaga. Við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra gaf ákærði Æ svör um ástæður þess að vanhöld voru á skýrslugjöf og skattskilum og um það hver bæri ábyrgð á því að svo væri, auk þess sem hann staðfesti helstu tölulegu upplýsingar sem lágu til grundvallar rannsókninni. Skýrslutökur hjá embætti sérstaks saksóknara byggðu á grundvelli þeirrar rannsóknar og lutu að öllum sömu atriðum en því til viðbótar voru bornar undir ákærða nýjar upplýsingar um greiðslustöðu hinna ákærðu félaga. Verður því ekki talið að um ónauðsynlega endurtekningu hafi verið að ræða. Hin tvíþætta málsmeðferð var því einnig að þessu leyti nægilega samþætt að efni til. 29. Við mat á því hvort hin tvíþætta málsmeðferð hafi verið nægilega samþætt í tíma ber að leggja heildstætt mat á tímaþætti með það fyrir augum að staðreyna hvort meðalhófs hafi verið gætt. Af þeim dómum Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu sem áður voru nefndir má ráða að hér skipti mestu að sá heildartími sem rekstur beggja mála tók sé ekki úr hófi, að rekstur þeirra fari að töluverðu leyti fram samtímis og að ekki líði nema tiltölulega skammur tími á milli loka stjórnsýslumálsins og útgáfu ákæru eða öfugt. 30. Ríkisskattstjóri endurákvarðaði virðisaukaskatt hinna ákærðu félaga og lagði á þau lögbundið álag, samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988, 14. janúar 2013. Var það gert á grundvelli innsendra virðisaukaskattskýrslna félaganna. Tilkynnti ríkisskattstjóri ákærðu um málalok 12. og 19. febrúar sama ár og tók fram að hann hygðist ekki nýta sér heimild til endurákvörðunar virðisaukaskatts samkvæmt 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988 á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra. Skattrannsóknarstjóri vísaði málunum til embættis sérstaks saksóknara 28. febrúar 2013 og voru í framhaldi af því teknar skýrslur af C 20. september sama ár og af ákærða Æ 11. desember sama ár. Rannsókn sakamálsins hófst þannig ekki fyrr en eftir að málsmeðferð fyrir skattyfirvöldum var lokið. Þar sem málin gegn hinum ákærðu félögum voru þannig aldrei rekin samhliða í tíma uppfyllti hin tvíþætta málsmeðferð sem þau sættu ekki það skilyrði 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu að hafa verið nægilega samþætt í tíma. Verður þeim hluta ákæru sem varðar brot einkahlutafélaganna X, Y, Þ og Z gegn 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga því vísað frá héraðsdómi. 31. Markmið 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu er að koma í veg fyrir málsmeðferð að nýju eftir að annarri er lokið gagnvart sama aðila vegna sömu eða sambærilegra atvika. Engin afstaða var tekin til refsiábyrgðar ákærða Æ þegar ríkisskattstjóri endurákvarðaði 14. janúar 2013 virðisaukaskatt hinna ákærðu félaga og lagði lögbundið álag á þau, enda er það yfirskattanefnd sem úrskurðar sektir á grundvelli 40. gr. laga nr. 50/1988 nema máli sé vísað til rannsóknar lögreglu, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna. Þar sem málsmeðferð gagnvart ákærða Æ lauk ekki með fyrrgreindum ákvörðunum ríkisskattstjóra verður málinu ekki vísað frá héraðsdómi hvað hann varðar á grundvelli 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Með ákvörðunum ríkisskattstjóra 14. janúar 2013 var heldur ekki tekin afstaða til þeirra ákæruliða er varða brot hinna ákærðu félaga gegn lögum nr. 145/1994 og verður þeim því ekki vísað frá héraðsdómi á grundvelli 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmálann. Frávísunarkrafa ákærða vegna óskiljanlegra og rangra útreikninga 32. Ákærði Æ krefst einnig frávísunar frá héraðsdómi á þeim grundvelli að útreikningar þeir sem ákæra byggir á um vangoldinn virðisaukaskatt séu óskiljanlegir og rangir, misræmis gæti í framlögðum gögnum og að málið sé ekki fullrannsakað að þessu leyti. 33. Upphafleg yfirlit embættis sérstaks saksóknara yfir vangoldinn virðisaukaskatt hinna ákærðu félaga miðuðust við greiðslustöðu þeirra samkvæmt tekjubókhaldskerfi ríkisins 7. mars og 4. apríl 2013, en voru síðar endurskoðuð miðað við greiðslustöðu þeirra 4. apríl 2016. Ekkert misræmi kom fram í útreikningum varðandi vangoldinn virðisaukaskatt Y ehf., Z ehf. og Þ ehf. við þá endurskoðun og eru útreikningar ákærufjárhæða einnig í samræmi við útprentun úr tekjubókhaldskerfi ríkisins miðað við 17. febrúar 2016 sem ákærði lagði fram undir rekstri málsins. Eru því ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi hvað viðkomandi ákæruliði varðar enda eru ákærufjárhæðir í fullu samræmi við framlögð gögn. 34. Hvað varðar X ehf. leiddi endurskoðun útreikninga ákæruvalds miðað við 4. apríl 2016 til þess að ákærufjárhæð lækkaði um 1.254.745 krónur þar sem einungis 1.014.413 krónur teldust hafa verið vangreiddar á gjalddaga þegar tekið hefði verið tillit til ráðstöfunar allra greiðslna og skuldajöfnuðar. Eru þessar niðurstöður einnig í samræmi við útprentun úr tekjubókhaldskerfi ríkisins miðað við 17. febrúar 2016 sem ákærði lagði fram undir rekstri málsins. 35. Af útprentun úr tekjubókhaldskerfi ríkisins sem fylgdi endurskoðuðu yfirliti yfir vanframtalinn og vangoldinn virðisaukaskatt X ehf. má ráða að breyting ákærufjárhæðar hafi orðið vegna skuldajöfnuðar 18. september 2013 inn á ógreiddan virðisaukaskatt tímabilsins nóvember-desember 2011, sem var með gjalddaga 6. febrúar 2012. Þar af má þó einungis rekja skuldajöfnuð upp á 19.255 krónur til breytinga á virðisaukaskatti félagsins vegna ársins 2008. Samkvæmt gögnum málsins leiddu skattbreytingar sem afgreiddar voru hjá ríkisskattstjóra 17. september 2013 þó til þess að félagið átti inni 2.322.111 krónur vegna ársins 2008. Það er hærri fjárhæð en sá 1.014.413 króna vangoldni virðisaukaskattur sem ákært er fyrir í 1. tl. ákæruliðar A. Vegna þessa misræmis, sem ekki hefur verið skýrt undir rekstri málsins, verður að telja að rannsókn þess sé svo áfátt hvað virðisaukaskattskil X ehf. varðar að efnisdómur verði ekki lagður á þann hluta 1. tl. ákæruliðar A sem lýtur að því að ákærði Æ hafi sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins X ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti, sem innheimtur var í rekstri félagsins vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember rekstrarárið 2011, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, samtals að fjárhæð 1.014.413 krónur. Verður honum því vísað frá héraðsdómi, sbr. dóm Hæstaréttar frá 26. mars 1998 í máli nr. 519/1997. 36. Ákærði Æ byggir einnig á því að þess hafi ekki verið gætt af hálfu innheimtumanns ríkissjóðs að ráðstafa greiðslum á þann hátt sem hagkvæmast væri fyrir ákærða þar sem innborgunum hafi verið varið til greiðslu álags, dráttarvaxta og gjalda áður en þeim var ráðstafað inn á höfuðstól skattskulda. Þá hafi innborgunum meðal annars verið ráðstafað til greiðslu 5.000 króna sérstaks gjalds, en innheimta þess sé löglaus, auk þess sem fjármagnstekjuskattur hafi með ólögmætum hætti verið tekinn af endurgreiðslu oftekinna dráttarvaxta. 37. Það leiðir af eðli máls og er í samræmi við lög að skattgreiðslur gangi fyrst upp í eldri skuldir en álag og dráttarvextir eru lögbundnar greiðslur sem greiða ber eftir ákveðnum reglum og verða hluti af viðeigandi skattskuld, sbr. dóm Hæstaréttar 22. júní 2000 í máli nr. 49/2000. Hið sama gildir um 5.000 króna sérstakt gjald sem lagt er á samkvæmt 27. gr. b laga nr. 50/1988 fyrir hverja virðisaukaskattskýrslu sem ekki hefur verið skilað á réttum tíma. 38. Af útprentunum úr tekjubókhaldskerfi ríkisins sem fylgdu yfirlitum embættis sérstaks saksóknara yfir innheimtan og skilaskyldan virðisaukaskatt félaganna verður ráðið að auk dráttarvaxta sem lögðust við skattskuldir þeirra hafi dráttarvextir í einhverjum tilvikum verið færðir skuldunum til lækkunar og að í þeim tilvikum hafi fjármagnstekjuskattur verið dreginn frá lækkuninni. Færslur vegna þessa eru annars vegar auðkenndar sem „Innv. virðisauk“ en hins vegar sem „Greiðsla v/fts“. Hjá Y ehf. nemur þessi fjármagnstekjuskattur 7.060 krónum, hjá Z ehf. nemur hann 213 krónum en hjá Þ ehf. er ekki um slíkar færslur að ræða. Við uppgjör virðisaukaskatts Y ehf. og Þ ehf. vegna ársins 2011 var einnig skuldajafnað vegna inneigna frá eldri tímabilum en samkvæmt 4. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988 ber ríkissjóði að greiða dráttarvexti ef afgreiðsla og endurgreiðsla innskatts tefst lengur en mánuð frá lokum þess 21 dags frests sem kveðið er á um í 25. gr. laganna. Ekki verður því talið að um endurgreiðslur oftekinna dráttarvaxta hafi þarna verið að ræða. 39. Með vísan til framangreinds verður þeim ákæruliðum er varða vanskil einkahlutafélaganna Y, Z og Þ á virðisaukaskatti ekki vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að útreikningar ákærufjárhæða séu óskiljanlegir eða rangir eða vegna þess að málið sé ekki fullrannsakað, sbr. 53. og 54. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru engin efni til að vísa öðrum ákæruliðum frá dómi. Brot gegn lögum um virðisaukaskatt og lögum um bókhald 40. Sem skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélaganna X, Y og Þ, og sem skráður stjórnarformaður og daglegur stjórnandi einkahlutafélagsins Z, bar ákærði Æ ábyrgð á því að skipulag og starfsemi félaganna væri í réttu og góðu horfi, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Bar hann því ábyrgð á því að bókhald væri fært í samræmi við lög og venjur og að staðin væru skil á lögboðnum sköttum og skýrslum til skattyfirvalda. 41. Ákærði Æ reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að sá galli sé á ákæru að sú háttsemi sem honum sé gefin að sök falli ekki undir verknaðarlýsingu 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 þar sem þess sé ekki getið að hann hafi vanrækt að standa ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félaganna „á tilsettum tíma“. Þá byggja ákærðu á því að ekki sé gerð nægilega skýr grein fyrir því á hvern hátt hafi verið brotið gegn lögum nr. 145/1994. 42. Samkvæmt 152. gr. laga nr. 88/2008 skal í ákæru meðal annars tilgreina nafn, kennitölu og heimili eða dvalarstað hins ákærða og hver sú háttsemi er sem ákært er út af. Samkvæmt 180. gr. laga nr. 88/2008 má ekki dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir en þó má sakfella ákærða þótt aukaatriði brots, svo sem staðsetning og stund þess, séu ekki skýrt eða rétt greind, enda telji dómari að vörn hafi ekki orðið áfátt þess vegna. Í þeim ákæruliðum er varða vanskil á greiðslu virðisaukaskatts er ekki vísað berum orðum til þess að skatturinn hafi ekki verið greiddur „á lögmæltum tíma“ líkt og segir í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Þess í stað er vísað til þess að hann hafi ekki verið greiddur „í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988“ en þar er kveðið á um uppgjörstímabil, gjalddaga og fleira. Hvað brot á lögum nr. 145/1994 varðar er verknaðarlýsing á þá leið að ekki hafi verið fært „tilskilið bókhald … í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994 um bókhald“ vegna starfsemi einkahlutafélaganna X, Y, Z og Þ á rekstrarárinu 2011, en í 9. gr. þeirra laga er meðal annars kveðið á um að í bókhaldi skuli skrá viðskipti jafnskjótt og þau fara fram. Fer því ekki á milli mála fyrir hvaða háttsemi er ákært og er ákæran ekki haldin slíkum annmörkum að ákærðu hafi ekki getað tekið til varna hvað þessi ákæruatriði varðar. 43. Ákærði Æ byggir sýknukröfu sína einnig á því að það stríði gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar að gera honum refsingu í málinu þar sem brot sambærileg þeim brotum á lögum nr. 50/1988 sem ákært er fyrir hafi verið gerð refsilaus með lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, eða í réttarframkvæmd í kjölfar setningar þeirra. Telji hann hegðun sína því refsilausa með vísan til 1. og 2. gr. almennra hegningarlaga og 6. og 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. 44. Í skýringum með frumvarpi til laga nr. 24/2010 kemur fram að lögunum var ætlað að bregðast við hruni íslensku bankanna í október 2008 með ívilnandi aðgerðum í þágu rekstraraðila í tímabundnum greiðsluvandræðum með opinber gjöld. Samkvæmt 1. gr. laganna, sem féllu úr gildi 31. desember 2011, gátu lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sótt um frest til 1. júlí 2011 til uppgjörs á vanskilum virðisaukaskatts og fleiri opinberra gjalda, en þó aðeins að viðkomandi skattar og gjöld hefðu gjaldfallið fyrir 1. janúar 2010. Í 3. gr. laganna var kveðið á um að frestur til greiðsluuppgjörs fæli í sér að dráttarvextir væru ekki lagðir á viðkomandi kröfur á fresttímabilinu frá 1. janúar 2010 til 30. júní 2011, að innheimtumaður ríkissjóðs skyldi skuldajafna inneignum vegna krafna sem frestað hefði verið upp í þær kröfur og að fullnustugerðum vegna þeirra skyldi frestað eða þær afturkallaðar. 45. Samkvæmt jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar skulu sambærileg tilvik hljóta sambærilega meðferð, nema hlutlægar og málefnalegar ástæður réttlæti mismunandi meðferð þeirra. Þau vanskil á greiðslu virðisaukaskatts sem ákært er fyrir í máli þessu varða nánar tilgreind virðisaukaskattstímabil sem voru með gjalddaga á árunum 2011 og 2012. Er ákærði því ekki í sambærilegri stöðu og fyrirsvarsmenn félaga sem féllu undir lög nr. 24/2010. Þá verður að játa löggjafanum rúmt svigrúm til þess að bregðast við því efnahagshruni sem varð á Íslandi haustið 2008 með sértækum ívilnandi úrræðum og til að marka þeim frávikum frá almennum reglum og framkvæmd sem í þeim felast tiltekinn afmarkaðan tíma. Verður því að telja að hlutlægar og málefnalegar ástæður réttlæti það að ákærði naut ekki góðs af neinum ívilnunum vegna vanskila félaganna sem hann var í forsvari fyrir. Þá var refsiheimildum laga nr. 50/1988 og ákvæði 262. gr. almennra hegningarlaga ekki breytt við setningu laga nr. 24/2010. Verður því með engu móti litið svo á að lagaheimildir skorti fyrir því að gera ákærða refsingu í málinu teljist sök hans sönnuð. 46. Að framangreindu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms varðandi efnishlið málsins verður staðfest sú niðurstaða hans að ákærði Æ hafi á rekstrarárinu 2011 ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum einkahlutafélaganna X, Y, Z og Þ á lögmæltum tíma og að hann hafi ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félaganna Y, Z og Þ á gjalddaga þeirra tímabila og að þeim fjárhæðum er nánar greinir í dóminum. Ákærði er því sakfelldur fyrir að hafa á árinu 2011 ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum fjögurra félaga og fyrir að hafa ekki greitt virðisaukaskatt sem innheimtur var í rekstri þriggja félaga, samtals að fjárhæð 9.133.300 krónur. Er um meiri háttar brot að ræða í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. 47. Á sama hátt er staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að ákærði Æ hafi brotið gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, með því að hafa ekki fært tilskilið bókhald fyrir öll félögin vegna starfsemi þeirra á rekstrarárinu 2011, og að háttsemin varði við 40. gr. sömu laga að því er hin ákærðu félög varðar. 48. Ákærði hefur ekki sætt refsingu áður svo vitað sé og þær virðisaukaskattskuldir sem ákært er fyrir hafa verið greiddar að fullu. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði og verður hún bundin skilorði á þann hátt sem í dómsorði greinir. 49. Ákærða verður að auki gert að greiða sekt til ríkissjóðs. Þar sem virðisaukaskattskýrslum var ekki skilað verður heimild 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 til að víkja frá fésektarlágmarki ekki beitt. Fésektarlágmark nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var að greiða, að frádregnu álagi samkvæmt 27. gr. laganna. Álag þetta skal vera 1% af þeirri fjárhæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga en þó ekki hærra en 10%, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Hinn áfrýjaði dómur byggir á því að heildarfjárhæð vangoldins virðisaukaskatts hafi numið samtals 10.147.713 krónum en frá tvöfaldri þeirri fjárhæð voru dregnar samtals 2.033.426 krónur. Ljóst er því að við ákvörðun sektarfjárhæðar í héraði var dregin frá hærri fjárhæð en sem nemur álagi samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988. Ákæruvaldið hefur í máli þessu krafist staðfestingar þeirrar refsingar sem ákveðin var í hinum áfrýjaða dómi og samkvæmt því verður ákærða ekki gerð hærri sekt en ákveðin var í héraði vegna brota í starfsemi hvers og eins þeirra félaga sem hann var í fyrirsvari fyrir. Verður sekt ákærða því ákveðin 16.437.000 krónur en um vararefsingu fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir. 50. Með vísan til fyrri málsliðar 40. gr. laga nr. 145/1994 verður hverju hinna ákærðu félaga jafnframt gert að greiða sekt til ríkissjóðs sem þykir hæfilega ákveðin 50.000 krónur. 51. Öllum ákæruatriðum vegna hinna ákærðu einkahlutafélaga X, Y, Z og Þ að undanskildu bókhaldsbroti þessara félaga hefur verið vísað frá héraðsdómi. Samkvæmt því verður helmingur sakarkostnaðar eins og hann var ákveðinn í héraðsdómi felldur á ríkissjóð, en ákærðu greiði sameiginlega helming þess kostnaðar. Þá verður ákærðu gert að greiða sameiginlega helming 1.786.748 króna áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talinn helming 1.740.000 króna málsvarnarlauna skipaðs verjanda fyrir Landsrétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi að því er varðar þær sakargiftir á hendur hinum ákærðu félögum X ehf., Y ehf., Z ehf. og Þ ehf. að hafa brotið gegn 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Máli þessu er vísað frá héraðsdómi að því er varðar þær sakargiftir á hendur ákærða, Æ, að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins X brotið gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Ákærðu, X ehf., Y ehf., Z ehf. og Þ ehf., greiði hver um sig 50.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa. Ákærði, Æ, sæti fangelsi í fjóra mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði, Æ, greiði 16.437.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa en sæti ella fangelsi í átta mánuði. Ákærðu greiði sameiginlega helming sakarkostnaðar í héraði eins og hann var ákveðinn í hinum áfrýjaða dómi, svo og helming áfrýjunarkostnaðar málsins 893.374 krónur, þar með talinn helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda, Björgvins Þorsteinssonar lögmanns, 870.000 krónur. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2016 Mál þetta, sem dómtekið var 5. apríl sl., er höfðað með ákæru útgefinni af sérstökum saksóknara 17. júlí 2014 á hendur Æ, kt. [...], [...], [...], X ehf., kt. [...], [...], [...], Y ehf. (áður A), kt. [...], [...], [...], Z ehf., kt. [...], [...], [...] og Þ ehf., kt. [...], [...], [...], fyrir eftirtalin meiriháttarbrot gegn skattalögum og lögum um bókhald: A.                        Á hendur ákærða Æ sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni einkahlutafélagsins X, með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins fyrir öll tímabil rekstrarársins 2011 og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af rekstri félagsins vegna uppgjörstímabilsins nóvember – desember, rekstrarárið 2011, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 2.269.158, sem sundurliðast sem hér greinir: Árið 2011 nóvember – desember       kr.  1.014.413                                                kr.  1.014.413 Samtals:                               kr. 1.014.413 Á hendur ákærða Æ fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald einkahlutafélagsins, X, í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994 um bókhald, vegna starfsemi einkahlutafélagsins á rekstrarárinu 2011.   Á hendur ákærða Æ sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni einkahlutafélagsins Y (áður A), með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins fyrir öll tímabil rekstrarársins 2011 og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af rekstri félagsins vegna uppgjörstímabilsins nóvember – desember, rekstrarárið 2011, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 699.684, sem sundurliðast sem hér greinir: Árið 2011 nóvember – desember       kr.    699.684                                                kr.    699.684 Samtals:                               kr.   699.684 Á hendur ákærða Æ fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald einkahlutafélagsins Y, í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994 um bókhald, vegna starfsemi einkahlutafélagsins á rekstrarárinu 2011.   Á hendur ákærða Æ sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni einkahlutafélagsins Þ, með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins fyrir öll tímabil rekstrarársins 2011 og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af rekstri félagsins vegna uppgjörstímabilanna mars – apríl, júlí - ágúst og september – október,  rekstrarárið 2011, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 6.157.390, sem sundurliðast sem hér greinir:   Árið 2011 mars – apríl                                         kr.       80.336 júlí – ágúst                                           kr.  1.544.754 september – október                         kr.  4.532.300                                                                kr.  6.157.390 Samtals:                                              kr.  6.157.390   Á hendur ákærða Æ fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald einkahlutafélagsins Þ, í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994 um bókhald, vegna starfsemi einkahlutafélagsins á rekstrarárinu 2011.   Á hendur ákærða Æ sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni einkahlutafélagsins Z, með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins fyrir öll tímabil rekstrarársins 2011 og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af rekstri félagsins vegna uppgjörstímabilanna mars – apríl, september – október og nóvember – desember, rekstrarárið 2011, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 2.276.226, sem sundurliðast sem hér greinir: Árið 2011 mars - apríl                                          kr.          1.263 september – október                          kr.   1.714.732 nóvember – desember                       kr.      560.231                                                                kr.   2.276.226 Samtals:                                              kr.   2.276.226 Á hendur ákærða Æ fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald einkahlutafélagsins, Z, í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994 um bókhald, vegna starfsemi einkahlutafélagsins á rekstrarárinu 2011. Framangreind brot ákærða Æ samkvæmt A til D – liðum ákæru eru talin varða við: a)       1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið A – liðar, 1. tölulið B – liðar, 1. tölulið C - liðar og 1. tölulið D – liðar ákæru. b)       2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995, að því er varðar 2. tölulið A – liðar, 2. tölulið B – liðar, 2. tölulið C - liðar og 2. tölulið D – liðar ákæru. Framangreind brot ákærðu X ehf., Y ehf., Þ ehf. og Z ehf. eru talin varða við: a)       8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt að því er varðar 1 töluliði A – D liða ákæru, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005. a)       40. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995, að því er varðar 2. töluliði A – D liða ákæru. Er þess krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Ákærðu neita sök. Af hálfu verjanda er krafist sýknu og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Með kærum 28. febrúar 2013 vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins málefnum ákærðu til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara vegna gruns um brot gegn lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, ákvæðum laga nr. 145/1994 um bókhald og lögum nr. 19/1940. Í kærunni kemur meðal annars fram að með bréfum skattrannsóknarstjóra, 2. nóvember 2012, hafi ákærðu verið tilkynnt um fyrirhugaða ákvarðanatöku um refsiverða háttsemi. Hafi ákærðu verið gefinn frestur til athugasemda, en engar slíkar borist. Rannsókn skattrannsóknarstjóra á bókhaldi og virðisaukaskattskilum ákærðu hafi m.a. leitt í ljós að ákærðu hafi vanrækt að standa skil á virðisaukaskattskýrslum fyrir uppgjörstímabilin á rekstrarárinu 2011. Þá hafi bókhald rekstrarársins 2011 ekki verið fært fyrr en eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hafi byrjað 19. júní 2012, en bókhaldið hafi verið afhent skattrannsóknarstjóra 1. ágúst 2012. Leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts vegna rekstrarársins 2011 hafi verið skilað til ríkisskattstjóra eftir að rannsókn málsins hafi hafist. Með bréfi skattrannsóknarstjóra 2. nóvember 2012 hafi skýrsla embættisins verið send ríkisskattstjóra til endurákvörðunar opinberra gjalda vegna endurákvörðunarheimilda. Á meðal rannsóknargagna málsins eru yfirlit úr tekjubókhaldskerfi ríkisins sem fylgdu kæru skattrannsóknarstjóra til embættis sérstaks saksóknara. Á grundvelli þessara yfirlita hefur embætti sérstaks saksóknara tekið saman yfirlit yfir innheimtan og skilaskyldan virðisaukaskatt af hálfu hinna ákærðu félaga. Eru yfirlit þessi miðuð við stöðu félaganna 4. apríl 2013. Ákærði Æ gaf skýrslu hjá embætti sérstaks saksóknara 11. desember 2013. Í skýrslu ákærða kom fram að helsta ástæða þess að hann hafi dregið að skila inn virðisaukaskattskýrslum vegna hinna ákærðu félaga hafi verið reynsla sem hann hafi lent í varðandi X ehf. Árið 2008 hafi hann skilað inn inneign á innskatti í rekstri félagsins sem hafi orðið til þess að skattyfirvöld hafi óskað eftir bókhaldi félagsins. Hafi ákærði ekki fengið bókhaldið til baka, ásamt innskattinum, fyrr en fimm árum síðar. Hafi það fyrst verið um einum og hálfum mánuði fyrir skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara. Þegar X ehf. hafi fengið innskattinn greiddan hafi félagið átt inneign upp á einhverjar milljónir króna. Hafi sú inneign átt að þurrka út virðisaukaskattskuld félagsins. Samkvæmt yfirliti er ákærði Æ hefur gefið út 11. desember 2013 kemur fram að X ehf. hafi átt inni innskatt að fjárhæð 2.678.085 krónur. Þessu yfirliti fylgir afrit af bréfi skattstjóra í Reykjavík frá 25. september 2008 þar sem fram kemur að skattstjóri hafi móttekið frá félaginu virðisaukaskattskýrslu fyrir uppgjörstímabilið maí - júní 2008. Áður en hægt sé að taka afstöðu til skýrslunnar óski skattstjórinn í Reykjavík eftir að lagður sé fram hreyfingalisti fyrir hvert tímabil fyrir sig á innskattslyklum og útskattslyklum fyrir uppgjörstímabilið maí – júní 2008. Ennfremur sé óskað eftir hreyfingalista allra lykla í bókhaldi félagsins fyrir tímabilið. Með bréfi skattstjóra 15. október 2008 óskaði skattstjóri eftir bókhaldsgögnum félagsins vegna þessa sama tímabils. Verjandi ákærða skoraði á ákæruvald, undir meðferð málsins, að leggja fram endurskoðað yfirlit um virðisaukaskattskil ákærðu í ljósi þess að fyrst eftir að yfirlit embættis sérstaks saksóknara, sem tekið hafi mið af stöðu hinna ákærðu félaga í tekjubókhaldskerfi ríkisins 4. apríl 2013, hafi borist leiðrétting á innsendum virðisaukaskatti vegna tímabilsins maí – júní 2008.  Vinna ætti málið með þeim hætti að öllum þeim innborgunum sem borist hefðu inn á skuldir hinna ákærðu félaga yrði ráðstafað þannig að þær færu fyrst til greiðslu höfuðstóls áður en tekið væri af vegna álags, dráttarvaxta og kostnaðar. Þá myndi koma í ljós að aldrei hafi verið um skuld á höfuðstól að ræða vegna þeirra tímabila sem ákært væri fyrir.  Ákæruvald hlutaðist til um endurútreikning á yfirlitum um innheimtan og skilaskyldan virðisaukaskatt hinna ákærðu félaga fyrir þau tímabil sem ákært væri fyrir. Yfirlit miðuðu við stöðu félaganna í tekjubókhaldskerfi 4. apríl 2016. Samkvæmt yfirlitum kom í ljós að engar breytingar höfðu átt sér stað á þeim tímabilum sem ákært væri fyrir vegna Y ehf., Z ehf. og Þ ehf. Breytingar áttu sér hins vegar stað hjá X ehf. Þær breytingar leiddu til þess að ákæra vegna 1. tl. A. liðar ákæru var leiðrétt og fór ákærufjárhæð vegna tímabilsins nóvember – desember 2011 úr 2.269.158 krónum niður í 1.014.413 krónur. Á yfirlitum sérstaks saksóknara um innheimtan og skilskyldan virðisaukaskatt af hálfu X ehf. kemur fram að vangoldinn virðisaukaskattur hafi eftir lögboðinn eindaga, vegna greiðslutímabilsins nóvember – desember 2011, verið samtals 1.014.413 krónur. Höfuðstóll til greiðslu þetta tímabil hafi numið 3.563.470 krónum, en greitt hafi verið fyrir eða á eindaga samtals 2.549.057 krónur. Greiðslum hafi verið varið inn á höfuðstól, en til viðbótar hafi komið 101.941 króna sem varið hafi verið til greiðslu á álagi, 126.078 krónum sem varið hafi verið til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Fram kemur að virðisaukaskattskýrslum hafi ekki verið skilað fyrir neitt tímabil ársins 2011. Fram kemur á yfirlitum sérstaks saksóknara um innheimtan og skilskyldan virðisaukaskatt af hálfu Y ehf. að vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga, vegna greiðslutímabilsins nóvember – desember 2011, hafi verið samtals 699.684 krónur. Höfuðstóll til greiðslu þetta tímabil hafi numið 6.540.858 krónum, en greitt hafi verið fyrir eða á eindaga samtals 5.841.174 krónur. Greiðslum hafi verið varið inn á höfuðstól, en til viðbótar hafi komið 70.468 krónur sem varið hafi verið til greiðslu á álagi og 44.810 krónur til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Fram kemur að virðisaukaskattskýrslum hafi ekki verið skilað fyrir neitt tímabil ársins 2011. Á yfirlitum sérstaks saksóknara um innheimtan og skilskyldan virðisaukaskatt af hálfu Þ ehf. kemur fram að vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga, vegna greiðslutímabilsins mars – apríl 2011, hafi verið samtals 80.336 krónur. Höfuðstóll til greiðslu þetta tímabil hafi numið 222.501 krónu, en greitt hafi verið fyrir eða á eindaga samtals 142.165 krónur. Greiðslum hafi verið varið inn á höfuðstól, en til viðbótar hafi 8.534 krónum verið varið til greiðslu á álagi og 14.024 krónum til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Að því er greiðslutímabilið júlí – ágúst 2011 varði hafi vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga numið 1.544.754 krónum.  Höfuðstóll til greiðslu þetta tímabil hafi numið 1.615.650 krónu, en greitt hafi verið fyrir eða á eindaga, samtals 70.896 krónur. Greiðslum hafi verið varið inn á höfuðstól, en til viðbótar hafi 154.475 krónum verið varið til greiðslu á álagi og 109.571 krónu verið varið til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Að því er greiðslutímabilið september – október 2011 varðar hafi vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga numið 4.532.300 krónum.  Höfuðstóll til greiðslu þetta tímabil hafi numið 4.532.300 krónum, en ekkert hafi verið greitt fyrir eða á eindaga. Greiðslum hafi verið varið inn á höfuðstól, en til viðbótar hafi 453.230 krónum verið varið til greiðslu á álagi og 384.506 krónu til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Fram kemur að virðisaukaskattskýrslum hafi ekki verið skilað fyrir neitt tímabil ársins 2011. Fram kemur á yfirlitum sérstaks saksóknara um innheimtan og skilskyldan virðisaukaskatt af hálfu Z ehf. að vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga vegna greiðslutímabilsins mars – apríl 2011 hafi verið samtals 1.263 krónur. Höfuðstóll til greiðslu þetta tímabil hafi numið þeirri fjárhæð, en ekkert hafi verið greitt fyrir eða á eindaga. Greiðslum hafi verið varið inn á höfuðstól, en til viðbótar hafi 126 krónum verið varið til greiðslu á álagi og 12.248 krónum til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Að því er greiðslutímabilið september – október 2011 varði hafi vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga numið 1.714.732 krónum.  Höfuðstóll til greiðslu þetta tímabil hafi numið 4.086.857 krónum, en greitt hafi verið fyrir eða á eindaga samtals 2.372.125 krónur. Greiðslum hafi verið varið inn á höfuðstól, en til viðbótar hafi 171.473 krónum verið varið til greiðslu á álagi og 267.681 krónu til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Að því er greiðslutímabilið nóvember – desember 2011 varði hafi vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga numið 560.231 krónu. Höfuðstóll til greiðslu þetta tímabil hafi numið þeirri fjárhæð, en ekkert hafi verið greitt fyrir eða á eindaga. Greiðslum hafi verið varið inn á höfuðstól, en til viðbótar hafi 56.023 krónum verið varið til greiðslu á álagi og 73.089 krónum til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Fram kemur að virðisaukaskattskýrslum hafi ekki verið skilað fyrir neitt tímabil ársins 2011.  Ákærði gaf skýrslu hjá embætti sérstaks saksóknara 11. desember 2013. Hann kvaðst hafa verið skráður stjórnarformaður og prókúruhafi hjá hinum ákærðu félögum á þeim tíma er ákæruefnið tæki til. Ákærði kvaðst hafa haft með höndum daglegan rekstur félaganna og borið ábyrgð á skattskilum vegna rekstrarársins 2011. Við uppgjör hafi ákærði notast við bókhaldsþjónustu. Aðrir skráðir stjórnarmenn í félögunum hafi enga aðkomu átt að rekstrinum. Ákærði kvað bókhald og bókhaldsgögn hinna ákærðu félaga hafa verið afhent skattrannsóknarstjóra 1. ágúst 2012. Hafi bókhaldið verið fært eftir að rannsókn málsins fór af stað hjá skattrannsóknarstjóra. Þrátt fyrir að bókhaldsþjónusta hafi séð um færslu bókhalds hafi færsla þess verið á ábyrgð ákærða. Ákærði hafi ekki skilað virðisaukaskattskýrslum vegna tímabila rekstrarársins 2011. Hafi hann ákveðið að skila inn leiðréttingarskýrslu í lok ársins. Margar skýrslur hafi verið með inneign vegna innskatts. Ákærði hafi ákveðið að draga það að leggja skýrslurnar inn þar sem skatturinn hafi ekki greitt inneignir út fyrr á árinu en félögin hafi verið með innskatt á fyrri hluta árs. Félögin hafi fengið áætlun, sem greitt hafi verið eftir. Ákærði hafi einfaldlega treyst á leiðréttingarskýrslur við uppgjör ársins. Óverulegur munur hafi verið á milli áætlaðs skatts og raunverulegs skatts þegar árið hafi verið gert upp. Innskattur hafi jafnan verið mjög hár í byrjun árs sem skýrðist af viðhaldi vörubifreiða og tækja, sem fram færi á veturna. Útseld vinna ætti sér stað á sumrin. Ákærði kvaðst ekki gera athugasemdir við yfirlit um innheimtan og skilaskyldan virðisaukaskatt félaganna fyrir árið 2011 sem embætti sérstaks saksóknara hefði tekið saman. Yfirlit vegna félaganna X ehf., Y ehf. og Þ ehf. væru frá 4. apríl 2013 en vegna Z ehf. frá 7. mars 2013. Að því er varðaði félagið X ehf. hafi ákærði átt inni innskatt á árinu 2008. Hafi skattstjóri kallað eftir bókhaldi félagsins á því ári en hins vegar ekki skilað því til baka fyrr en á árinu 2013. Hafi félagið átt inni innskatt upp á um tvær milljónir króna. Búið væri að loka bókhaldsári vegna Þ ehf. og enginn innskattur komið fram sem ekki hefði verið gerð grein fyrir. Sama ætti við um félögin Y ehf. og Z ehf. Framburður ákærða fyrir dómi var á sama veg og hjá lögreglu. Kvaðst hann hafa verið eigandi og umráðamaður þeirra félaga er sættu ákæru í málinu. Daglegur rekstur hafi alfarið verið í höndum ákærða. Þannig hafi skil á virðisaukaskattskýrslum og virðisaukaskatti vegna rekstrarársins 2011 verið á ábyrgð ákærða. Bókari hafi séð um að færa bókhaldið fyrir ákærða. Ákærði hafi greitt og gefið út reikninga og sett fylgiskjöl í möppur og í framhaldi hafi hann komið möppum til bókara sem fært hafi bókhaldið. Færsla þess hjá bókara hafi oft dregist talsvert fram eftir næsta ári og hvað rekstrarárið 2011 varði þá hafi ákærði sennilega afhent bókaranum þau gögn í júní 2012. Ákærði kvaðst hafa vitað að virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti ætti að skila á tveggja mánaða fresti. Rekstur ákærða hafi verið með þeim hætti að töluvert af innskatti hafi jafnan verið á fyrri hluta árs. Innkoma í rekstri hafi hins vegar verið yfir sumarið. Ef innskattur hafi legið fyrir hafi ríkisskattstjóri jafnan kallað eftir bókhaldinu til að fara yfir það. Ákærði hafi þess vegna ákveðið að skila ekki skýrslum fyrir hvert tímabil heldur greiða miðað við áætlun yfirvalda. Síðan hafi leiðréttingarskýrslu verið skilað eftir árið. Ákærði kvaðst sjálfur hafa tekið ákvörðun um að haga hlutum með þessum hætti. Ákærði kvaðst ekki gera athugasemdir við yfirlit embættis sérstaks saksóknara um innheimtan og skilaskyldan viðrisaukaskatt vegna rekstrarársins 2011. Að því er varðaði X ehf. hafi ákærði á árinu 2008 átt inni innskatt. Skattstjóri hafi tekið bókhald félagsins og hafi því ekki verið skilað fyrr en á árinu 2013. Félagið hafi átt inni um tvær milljónir króna og félagið því ekki í skuld. Ákærði kvað stöðuna hafa verið þá að þegar ákæra í málinu vegna félaganna hafi verið gefin út hafi félögin verið búin að greiða upp skattskuldir sínar, að viðbættu álagi, dráttarvöxtum og kostnaði. Bókari ákærða kom fyrir dóminn. Kvaðst hann hafa aðstoðað ákærða, Æ. við færslu bókhalds hinna ákærðu félaga. Venjulega hafi ákærði komið með bókhaldsgögn félaganna eftir árið og bókarinn fært bókhaldið í framhaldi. Eins hafi bókarinn gengið frá ársreikningum og skattframtölum vegna félaganna. Á þeim tíma er virðisaukaskattskýrslum hafi verið skilað í pappírsformi hafi ákærði sjálfur skilað skýrslum og virðisaukaskatti. Er tekin hafi verið upp rafræn skil á skýrslum hafi ákærði hætt að skila skýrslum og leitað aðstoðar hjá bókaranum við skil. Ákærði hafi tekið ákvörðun um að senda ekki inn virðisaukaskattskýrslur vegna einstaka tímabila heldur skila leiðréttingaskýrslu í lok árs. Bókarinn kvaðst muna eftir því að á árinu 2008 hafi félagið X ehf. átt innskatt. Skattstjóri hafi kallað eftir bókhaldi félagsins vegna þessa. Bókhaldinu hafi hins vegar ekki verið skilað fyrr en nokkrum árum síðar. Kvaðst bókarinn hafa átt í samskiptum við ríkisskattstjóra vegna skila á bókhaldinu. Tafir á skilum hafi eitthvað haft með flutning hjá skattyfirvöldum að gera. Það hafi verið inneign hjá félaginu vegna þessa. Að því er varðaði rekstrarárið 2011 hafi leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts verið skilað í júní 2012, eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hafi farið af stað. Fyrir dóminn kom starfsmaður tollstjóra. Gerði starfsmaðurinn grein fyrir yfirlitum úr tekjubókhaldskerfi ríkisins og hvernig greiðslur væru skráðar í kerfið og þeim skuldajafnað á mótum öðrum skuldum félaga. Þá kom fyrir dóminn skrifstofustjóri hjá ríkisskattstjóra. Kvað hann mál X ehf. hafa verið til skoðunar hjá skattyfirvöldum vegna innskatts á árinu 2008. Kallað hafi verið eftir frekari gögnum vegna málsins. Máli hafi síðar af einhverjum ástæðum mislagst hjá skattyfirvöldum og því dregist úr hófi að skila félaginu bókhaldsgögnum. Loks kom fyrir dóminn lögreglufulltrúi er vann að tilteknum þáttum í rannsókn málsins. Niðurstaða: Ákærðu krefjast frávísunar málsins frá dómi. Reisa þau kröfu sína í fyrsta lagi á því að búið sé að refsa ákærðu með því að leggja á ákærðu álag, auk þess sem ákærðu hafi greitt dráttarvexti og kostnað vegna vanhalda við skil á virðisaukaskatti. Verði ekki refsað aftur vegna sömu brota. Með því að sækja ákærðu í annað sinn til sakar fyrir sama brot væri verið að brjóta gegn reglunni ne bis in idem, sbr. 4. gr. 7 samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Ef svo væri gert væri um að ræða brot gegn 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur það ekki verið talið fara í bága við bann við endurtekinni málsmeðferð að stjórnvöld hafi gert manni að greiða skatt af álagi á skattstofn og sama manni séu síðan í öðru máli gerð viðurlög vegna sama brots, sbr. dóm Hæstaréttar 11. júní 2015 í máli nr. 550/2014 og aðra dóma réttarins sem þar er vísað til. Málinu verði því ekki vísað frá héraðsdómi á þessum grundvelli. Í öðru lagi telja ákærðu að vísa beri málinu frá dómi á þeirri forsendu að útreikningar þeir sem ákæruvaldið byggi á í málinu séu óskiljanlegir. Það sé augljóst af gögnum málsins að þess hafi ekki verið gætt af hálfu innheimtumanns ríkissjóðs að ráðstafa greiðslum á þann hátt sem hagkvæmast hafi verið fyrir ákærðu. Ef svo hefði verið gert hefði engin skuld verið á höfuðstól krafna. Þá sé verulegt ósamræmi á milli gagna málsins og ekkert samræmi á milli hreyfingalista yfir kröfur á hendur ákærðu sem ákæruvald hafi lagt fram við þingfestingu málsins og þess hreyfingalista sem lagður hafi verið fram í þinghaldi 23. febrúar 2016. Hin ákærðu félög hafi oft á tíðum átt inni verulegar fjárhæðir hjá innheimtumanni ríkissjóðs vegna ofgreiðslna. Þegar þessar fjárhæðir hafi komið til útborgunar hafi þeim verið ráðstafað til greiðslu álags, dráttarvaxta og gjalda sem ákærðu telji m.a. að hafi ekki verið lagastoð til þess að innheimta. Megi þar benda á að sérstakt gjald að fjárhæð 5.000 krónur hafi verið innheimt í hvert sinn og haldi ákærðu því fram að innheimta gjaldsins sé ólögmæt. Þá sé við innheimtu oftekinna dráttarvaxta dreginn af fjármagnstekjuskattur, sem einnig sé ólögmætt. Á rannsóknarstigi hjá lögreglu og við meðferð málsins hér fyrir dómi voru borin undir ákærða Æ yfirlit embættis sérstaks saksóknara um innheimtan og skilaskyldan virðisaukaskatt vegna þeirra tímabila sem ákæra tekur til. Hvorki við rannsókn málsins hjá lögreglu né hér fyrir dómi bar ákærði brigður á þessa útreikninga. Ákærði bar því hins vegar við að félagið X ehf. hafi átt inni innskatt frá árinu 2008, sem skattyfirvöld hefðu dregið að ganga frá. Hefði ekki verið tekið tillit til þess við útreikninga. Í málinu liggur fyrir að tölulegar niðurstöður í yfirlitum lögreglu voru miðaðar við greiðslustöðu í tekjubókhaldskerfi ríkisins 4. apríl 2013. Ákæruvald lét endurskoða og uppfæra yfirlit yfir stöðu félaganna miðað við stöðu í tekjubókhaldi ríkisins 4. apríl 2016. Yfirlitin sýndu engar tölulegar breytingar á þeim tímabilum sem ákært er fyrir varðandi önnur félög en X ehf. Voru fjárhæðir varðandi það félag lækkaðar miðað við stöðuna 4. apríl 2016 og þannig tekið tillit til innskattsins frá árinu 2008.  Tekjubókhaldskerfi ríkisins er hið almenna innheimtukerfi ríkisins. Er það upplýsingakerfi þar sem haldið er utan um innheimtu skatta og gjalda fyrir hönd ríkissjóðs, ríkisstofnana og annarra opinberra aðila. Jafnframt er kerfið sjálfvirk bókun vegna bókhaldsskila. Berast kerfinu innheimtukröfur frá fjölmörgum álagningarkerfum, m.a. álagningarkerfum ríkisskattstjóra og tollstjóra. Samkvæmt opinberum upplýsingum af vef Fjársýslu ríkisins samanstendur kerfið af níu kerfishlutum. Tengjast þeir náið innbyrðis. Hið almenna innheimtukerfi ríkisins byggir á lögum og reglugerðum settum á grundvelli laga. Standa þannig löglíkur til þess að upplýsingar úr kerfinu á hverjum tíma séu réttar. Yfirlit úr tekjubókhaldskerfinu liggja til grundvallar rannsóknum í málum sem þessum. Þó svo flókið geti verið að lesa upplýsingar úr kerfinu verður ekki á þær varnir ákærðu fallist að útreikningar séu óskiljanlegir þannig að varði frávísun málsins frá dómi.  Samkvæmt skýrum dómafordæmum Hæstaréttar leiðir það af eðli máls og er í samræmi við lög að skattgreiðslur ganga fyrst upp í eldri skuldir. Álag og dráttarvextir eru lögbundnar greiðslur, sem greiða ber eftir ákveðnum reglum og verða hluti viðeigandi skattskuldar. Hið sérstaka gjald sem ákærðu vísa til að greitt hafi verið til viðbótar við skattskuldir verður á sama hátt hluti viðkomandi skattskuldar. Þá mæla lög ekki gegn því að fjármagnstekjuskattur sé lagður á endurgreidda dráttarvexti, eins og aðrar inneignir í lánastofnunum. Í máli þessu eru ákærða og hinum ákærðu félögum gefin að sök meiriháttar brot gegn skattalögum og lögum um bókhald. Eru brot ákærða Æ talin varða við 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 að því leyti sem brot voru framin í rekstri hinna ákærðu félaga, sem ákærði var fyrirsvarsmaður fyrir. Að öðru leyti eru brot hans talin varða við 2. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940, og 1. tl., 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994. Brot hinna ákærðu félaga eru talin varða við 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 40. gr. laga nr. 145/1994.  Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 er mælt fyrir um að skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um virðisaukaskatt sinn eða afhendi hann eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum bar að innheimta skal hann greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, vanrækt var greiðsla á eða endurgreidd var um of og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri þessari skattfjárhæð. Fésektarlágmark samkvæmt þessari málsgrein á ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindum virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur verið miklar. Sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður hinna ákærðu félaga tók ákærði ákvörðun um að skila ekki virðisaukaskattskýrslum fyrir hvert og eitt uppgjörstímabil rekstrarársins 2011, heldur ákvað að skila einungis leiðréttingarskýrslum þegar bókhald ársins hafði verið fært. Var það ekki fyrr en á miðju ári 2012. Með því braut ákærði gegn umræddri 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, en samkvæmt 24. gr. laganna er hvert uppgjörstímabil tveir mánuðir og skulu skráningarskyldir aðilar eftir lok hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða þann virðisaukaskatt sem þeim bar að standa skil á. Með sama hætti brutu hin ákærðu félög gegn 8. mgr. 40. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 40. gr.   Þá stóð ákærði ekki skil á innheimtum virðisaukaskatti fyrir hluta ársins 2011, sem innheimtur var af rekstri hinna ákærðu félaga. Að því er félagið X ehf. varðar á það við um tímabilið nóvember – desember 2011 og nemur fjárhæðin eftir leiðréttingu 1.014.413 krónum. Með sama hætti og fyrir sama tímabil stóð hann ekki skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var fyrir Y ehf., samtals að fjárhæð 699.684 krónur. Eins stóð hann ekki skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af rekstri Þ ehf. fyrir tímabilin mars – apríl, júlí – ágúst og september – október 2011, samtals að fjárhæð 6.157.390 krónur. Að lokum stóð hann ekki skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af rekstri Z ehf. fyrir tímabilin mars – apríl, september – október og nóvember – desember 2011, samtals að fjárhæð 2.276.226 krónur. Brot þessi voru fullframin með því að lögboðnar greiðslur voru ekki inntar af hendi á eindaga. Ákærði, sem er skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður hinna ákærðu félaga, bar ábyrgð á því að félögin stæðu skil á skýrslum og skilagreinum til skattyfirvalda. Um er að ræða fjögur einkahlutafélög og nema skattundanskot alls ríflega 10.100.000 krónum. Er um meiriháttar brot í skilningi 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 að ræða. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 145/1994 skal í bókhaldi skrá viðskipti jafnskjótt og þau fara fram, enda sé það í samræmi við góða bókhaldsvenju. Önnur atvik skulu skráð svo fljótt sem unnt er eftir að þau eiga sér stað. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 37. gr. laganna telst meiriháttar brot gegn lögunum ef bókhaldsskyldur maður eða fyrirsvarsmaður lögaðila færir ekki tilskilið bókhald fyrir sjálfan sig eða lögaðila þannig að hann uppfylli ekki kröfur laga í meginatriðum. Samkvæmt 2. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 skal sömu refsingu sæta og samkvæmt 1. mgr. sá sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gerist sekur um meiri háttar brot gegn 37. og 38. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994. Ákærði hefur lýst því að bókari hafi aðstoðað hann við færslu bókhalds fyrir hin ákærðu félög. Ákærði hafi greitt og gefið út reikninga og sett þessi fylgiskjöl í möppu. Eftir árið hafi ákærði látið bókara fá þessi gögn, sem í framhaldi hafi fært bókhaldið, og á sama tíma hafi bókari unnið ársreikninga og gert skattaskýrslur fyrir félögin. Miðað við framburð ákærða og bókara hinna ákærðu félaga var það ekki fyrr en í júní 2012 sem bókari tók til við að færa eiginlegt bókhald ársins 2011, en röðun fylgiskjala í möppur telst eitt og sér ekki færsla á bókhaldi í skilningi laga nr. 145/1994. Með þessari háttsemi braut ákærði gegn 2. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 og 1. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994. Að því er hin ákærðu félög varðar á þessi háttsemi undir 40. gr. sömu laga. Samkvæmt öllu ofanrituðu verða ákærðu sakfelld samkvæmt ákæru og er háttsemi þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.     Ákærði Æ er fæddur í [...]. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, svo kunnugt sé. Með hliðsjón af því er hér að framan greinir og refsilágmarki laga nr. 50/1998 er refsing ákærðu ákveðin þannig að ákærði Æ sæti fangelsi í 6 mánuði, sem bundið verður skilorði með þeim hætti er í dómsorði greinir. Þá greiði ákærði Æ 18.262.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 10 mánuði. X ehf. greiði óskipt með ákærða Æ 1.825.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Y ehf. greiði óskipt með ákærða Æ 1.258.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Z ehf. greiði óskipt með ákærða Æ 4.097.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Þ ehf. greiði óskipt með ákærða Æ 11.082.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Ákærðu greiði sakarkostnað með þeim hætti er í dómsorði greinir. Hefur við ákvörðun hans verið litið til virðisaukaskatts.  Mál þetta var þingfest hér fyrir dómi 9. september 2014. Að ósk ákærðu og með samþykki ákæruvalds var meðferð málsins frestað á meðan beðið væri dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í íslensku máli varðandi tvöfalda refsingu, eða ne bis in idem. Varð dómurinn við þessari beiðni ákærðu. Í lok árs 2015 taldi dómurinn ekki fært að fresta málinu frekar en ekki liggur enn fyrir sá dómur Mannréttindadómstólsins sem beðið hefur verið eftir. Var þá ákveðið að aðalmeðferð málsins færi fram á fyrri hluta árs 2016. Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kristín Ingileifsdóttir saksóknarafulltrúi. Símon Sigvaldason kveður upp þennan dóm. D ó m s o r ð : Ákærði, Æ, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði Æ greiði 18.262.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 10 mánuði. X ehf. greiði óskipt með ákærða Æ 1.825.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Y ehf. greiði óskipt með ákærða Æ 1.258.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Z ehf. greiði óskipt með ákærða Æ 4.097.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Þ ehf. greiði óskipt með ákærða Æ 11.082.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Ákærðu greiði sameiginlega málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 1.395.000 krónur.
Mál nr. 853/2017
Ráðningarsamningur Uppsögn Frestur Fæðingarorlof
Á var ráðin til starfa hjá M ehf. í fullt starf 1. september 2015 en lét af störfum í nóvember sama ár er hún varð óvinnufær vegna veikinda á meðgöngu. Krafði Á M ehf. um greiðslu fjárhæðar er nam launum í þrjá mánuði auk orlofs. Deildu aðilar um það hvort samkomulag hefði orðið með þeim um að ráðningarsambandi þeirra hefði verið slitið í nóvember 2015. Hæstiréttur taldi að í tilkynningu um fæðingarorlof sem undirrituð var í desember 2015 af þáverandi framkvæmdastjóra M ehf. hefði falist vísbending um að við það tímamark hefði verið litið svo á af hálfu M ehf. að Á væri enn í fullu starfi og ráðningarsambandi þeirra þá ekki verið slitið. Með hliðsjón af því og að teknu tilliti til þess, sem fram kom í héraðsdómi um þetta efni, staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að ósannað væri að ráðningarsambandinu hefði verið slitið í nóvember 2015, en M ehf. sem vinnuveitandi bæri hallann af þeim sönnunarskorti. Þá staðfesti Hæstiréttur jafnframt að Á hefði í fæðingarorlofinu öðlast rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests í samræmi við kjarasamningsákvæði og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof og að hún hefði hvorki glatað réttindum sínum vegna tómlætis né annarra atvika. Var krafa Á því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Eiríkur Tómasson fyrrverandi hæstaréttardómari.   Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. desember 2017. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.  Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Í máli þessu heldur áfrýjandi því fram gegn mótmælum stefndu að hún, sem ráðin hafi verið í fullt starf hjá honum 1. september 2015, hafi látið af störfum í nóvember það ár með samkomulagi aðila þannig að ráðningarsambandi þeirra hafi verið slitið. Meðal málsgagna er tilkynning um fæðingarorlof sem fylgdi umsókn stefndu um slíkt orlof til Vinnumálastofnunar. Í tilkynningunni, sem undirrituð var 10. desember 2015 af Pétri Árna Jónssyni, þáverandi framkvæmdastjóra áfrýjanda fyrir hans hönd, var meðal annars tekið fram að starfshlutfall stefndu hjá áfrýjanda væri 100% síðustu fimm mánuðina fyrir fæðingardag tvíburanna, sem hún gekk með, og áætlaður var 11. febrúar 2016. Í þessu felst vísbending um að í desember 2015 hafi verið litið svo á af hálfu áfrýjanda að stefnda væri enn í fullu starfi og ráðningarsambandi þeirra þá ekki verið slitið. Í samræmi við það og að teknu tilliti til annars þess, sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi um þetta ágreiningsefni, verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að fyrrgreind staðhæfing áfrýjanda sé ósönnuð og verður hann sem vinnuveitandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað hér fyrir dómi eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Myllusetur ehf., greiði stefndu, Ástu Andrésdóttur, 900.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2017. I Mál þetta, sem var dómtekið 20. nóvember sl., er höfðað 18. maí sl. af Ástu Andrésdóttur, Reynimel 39 í Reykjavík, gegn Myllusetri ehf., Nóatúni 17 í Reykjavík. Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda félag greiði stefnanda 1.569.923 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 1.569.923 krónum frá 10. mars 2017 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar. Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda auk málskostnaðar að skaðlausu. Í öndverðu krafðist stefndi þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins 13. september 2017. II Stefnandi hefur starfað um árabil sem blaðamaður og er félagi í Blaðamannafélagi Íslands. Stefndi er félag sem rekur Viðskiptablaðið auk fleiri blaða. Í málinu er ágreiningslaust að stefnandi hóf í september 2014 að skrifa greinar í Viðskiptablaðið og fylgirit þess s.s. „Framúrskarandi fyrirtæki“, „Eftir vinnu“ og „Áhrifakonur“. Til að byrja með var um svonefnda lausamennsku að ræða og gerði hún þá stefnda reikninga fyrir þá vinnu sem hún leysti af hendi eins og hún væri verktaki. Stefnandi heldur því fram að breyting hafi orðið á þessu í júní 2015 þegar henni hafi verið falin umsjón með einu fylgiriti Viðskiptablaðsins, „Eftir vinnu“ og fékk aðstöðu á ritstjórnarskrifstofu stefnda. Frá þeim tíma telur hún sig hafa verið starfsmann stefnda. Ekki var þó gerður skriflegur ráðningarsamningur við hana. Af hálfu stefnda er því ekki mótmælt að samið hafi verið um það í júní 2015 að stefnandi tæki að sér að sjá um umrætt fylgirit. Félagið telur hins vegar að hún hafi ekki orðið starfsmaður stefnda í skilningi vinnuréttar fyrr en 1. september 2015, en þá mun hún hafa farið á launaskrá hjá stefnda og fengið launagreiðslur. Stefnandi mun hafa tilkynnt þáverandi framkvæmdastjóra stefnda, Pétri Árna Jónssyni, haustið 2015 að hún væri þunguð og ætti von á tvíburum. Áætlaður fæðingardagur samkvæmt framlagðri umsókn um fæðingarorlof, dags. 10. desember 2015, var um miðjan febrúar 2016. Fyrir liggur að stefnandi fékk greidd laun fyrir september, október og hluta nóvember 2015, en hún kveðst hafa farið í veikindaleyfi í lok nóvember 2015 vegna erfiðleika á meðgöngu. Í málinu liggur fyrir læknisvottorð 4. nóvember 2015 en þar kemur fram að stefnandi yrði með öllu óvinnufær frá og með 9. sama mánaðar. Stefnandi eignaðist tvíbura í lok janúar 2016 og hóf þá töku fæðingarorlofs. Samkvæmt umsókn stefnanda um fæðingarorlof, sem framkvæmdastjóri stefnda ritaði undir, var sótt um samfelldan orlofstíma og við það miðað að stefnandi tæki 270 daga í orlof. Stefnandi mun hafa sett sig í samband við ritstjóra stefnda, Bjarna Ólafsson, í gegnum Facebook um mitt ár 2016 í því skyni að kanna hvenær hún ætti að snúa aftur til starfa. Hún kveðst ekki hafa fengið nein svör við fyrirspurn sinni fyrr en í febrúar 2017 þegar henni var tjáð að búið væri að ráða nýjan starfsmann til þess að sjá um sérblaðið „Eftir vinnu“. Stefnandi og ritstjórinn voru í frekari samskiptum í kjölfarið og sammæltust að lokum um að ræða málið á kaffihúsi 10. mars 2017. Stefnandi kveður ritstjórann þar hafa samþykkt að stefndi myndi greiða henni þriggja mánaða laun auk orlofs. Í stefnu kemur fram að framkvæmdastjóri stefnda hafi hafnað því að ritstjórinn gæti skuldbundið félagið með þessum hætti. Lögmaður stefnanda sendi stefnda innheimtubréf 21. apríl 2017 þar sem félagið var krafið um greiðslu í samræmi við samkomulagið 10. mars 2017. Nam höfuðstóll kröfunnar 1.569.923 krónum. Með bréfi framkvæmdastjóra stefnda 27. apríl 2017 var lögmanninum tjáð að hann kannaðist ekki við neitt samkomulag við stefnanda og óskaði eftir afriti af því. Með bréfi lögmannsins 28. apríl 2017 var framkvæmdastjórinn upplýstur að um munnlegt samkomulag hefði verið að ræða við ritstjóra blaðsins á fundi 10. mars 2017. Þar kom einnig fram að hvað sem liði þessu samkomulagi léki enginn vafi á því að stefnandi ætti „rétt til a.m.k. þriggja mánaða launa auk orlofs og framlags í lífeyrissjóð vegna uppsagnar hennar“. Ekki liggur fyrir að þessu erindi hafi verið svarað skriflega. III 1. Málsástæður og lagarök stefnanda Af hálfu stefnanda er á því byggt að tekist hafi munnlegt samkomulag milli aðila sem fyrrverandi yfirmaður stefnanda hafi staðfest í samskiptum við stefnanda í samskiptum á Facebook. Um sé að ræða þriggja mánaða laun auk orlofs en mánaðarlaun stefnanda hafi numið 475.000 krónum eða samtals 1.425.000 krónum auk 10,17% orlofs eða samtals 1.569.923 krónum sem sé stefnufjárhæð málsins. Stefnandi hafnar því alfarið að fyrrverandi yfirmaður hennar hafi ekki haft heimild til þess að gera umrætt samkomulag við hana. Hann hafi verið ritstjóri Viðskiptablaðsins og ábyrgðarmaður þess og hafi komið að ráðningu hennar sem ritstjóra „Eftir vinnu“. Þá hafi hann augljóslega heimild til þess að segja stefnanda upp starfi og ráða nýjan ritstjóra enda hafi fyrirsvarsmenn stefnda ekki gert athugasemdir við þann þátt málsins. Verði ekki fallist á að tekist hafi samkomulag milli stefnanda og stefnda er á því byggt að stefnandi sé með þriggja mánaða uppsagnarfrest samkvæmt kjarasamningi Blaðamannafélags Íslands (BÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA). Stefnandi hafi verið ráðin í starf ritstjóra „Eftir vinnu“ í júní 2015 og frá þeim tíma hafi hún verið launamaður hjá félaginu. Því til stuðnings vísar stefnandi til þess að samkvæmt meginreglum vinnuréttar hafi stefnandi ekki uppfyllt skilyrði þess að vera verktaki, enda hafi hún fengið aðstöðu hjá stefnda og starfað undir boðvaldi yfirmanns síns. Það hafi verið staðfest þegar stefnandi hafi verið gerð að launamanni í september 2015. Því hafi hún verið fastráðinn starfsmaður stefnda í meira en fjóra mánuði, en skv. kjarasamningi BÍ og SA sé blaðamaður fastráðinn eftir fjögurra mánaða samfellt starf. Þessu til frekari stuðnings er bent á að í tilkynningu til Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. desember 2015, hafi Pétur Árni Jónsson, staðfest fyrir hönd stefnda að stefnandi hafi verið í 100 % starfi síðustu fimm mánuði fyrir tilkynninguna. Stefnandi byggir einnig á því að fæðingarorlof hennar teljist til starfstíma við áunninn uppsagnarrétt og því leiki enginn vafi á því að stefnandi eigi rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti samkvæmt umræddum kjarasamningi enda haldist áunnin réttindi í fæðingarorlofi. Um sömu fjárhæð sé að ræða og samningur aðila kveði á um eða þriggja mánaða laun ásamt orlofi. Stefnandi vísar til þess að uppsagnarfrestur hafi hafist í síðasta lagi um áramótin 2016/2017 þegar nýr ritstjóri hafi verið ráðinn í stað stefnanda en þar með hafi ráðningarsamningi aðila í raun verið sagt upp. Ekki hafi verið óskað eftir vinnuframlagi frá stefnanda frá þeim tíma og gildi því meginregla vinnuréttar að aðilum í ráðningarsambandi verði að bjóðast að bæta úr telji annar aðilinn að hinn brjóti ákvæði ráðningarsamnings. Telji stefndi að stefnanda hafi verið sagt upp áður en fæðingarorlofi hennar lauk þann 1. nóvember 2016 byggir stefnandi einnig á því að um ólögmæta uppsögn hafi verið að ræða, sbr. skýr ákvæði laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Leggur stefnandi áherslu á að hún hafi hvorki fengið að hverfa aftur að starfi sínu eftir fæðingarorlof né hafi henni verið boðið sambærilegt starf hjá stefnda, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga nr. 95/2000. Stefnandi kveður dráttarvaxtakröfu sína miðast við dagsetningu samkomulags um starfslok 10. mars 2017. Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar og samningalaga nr. 7/1936, almennra reglna vinnuréttar og kjarasamnings SA og BÍ. Þá vísar stefnandi til laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Kröfu sína um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 8. og 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Þá styðjist krafa hennar um málskostnað við 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991. 2. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi krefst sýknu með þeim rökum að stefnandi hafi ekki verið fastráðin hjá stefnda í skilningi vinnuréttar þegar hún hætti störfum hjá stefnda í nóvember 2015. Af þeim sökum geti hún ekki hafa átt rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti samkvæmt kjarasamningi Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Til stuðnings því að stefnandi hafi ekki verið orðin fastráðin þegar hún hætti störfum vísar stefndi til þess að ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við hana. Í þessu starfsumhverfi sé mikið um „lausapenna“, þ.e. einstaklinga í blaðamennsku sem skrifi einstakar greinar í blöð, sem stefndi gefi út, án þess að sinna fullu starfi. Aftur á móti sé gerður ráðningarsamningur við alla sem séu í fullu starfi. Stefndi vísar til þess að samkvæmt hreyfingarlista úr bókhaldi stefnda hafi stefnandi sinnt verktöku fyrir stefnda allt til september 2015. Eftir að stefnandi tók að sér umsjón sérblaðsins „Eftir vinnu“ í júní 2015 hafi stefnandi því haldið áfram að gefa út reikninga í verktöku, eins og framlagðir reikningar sýni. Þá vísar stefndi til tölvubréfs stefnanda 14. júlí 2015 sem stefndi telur vera til marks um að hún hafi sjálf talið sig eiga að byrja í fastri vinnu í september 2015. Á því er byggt af hálfu stefnda að hún hafi verið færð á launaskrá 1. september 2015. Í kjölfarið hafi átt að gera við hana ráðningarsamning en af því hafi ekki orðið eftir að stefnandi tilkynnti um þungun sína. Af þessu dregur stefndi þá ályktun að stefnandi hafi unnið sem launþegi hjá stefnda um tveggja og hálfs mánaða skeið, þ.e. frá september til 12. nóvember 2015. Samkvæmt grein 3.1 í viðkomandi kjarasamningi teljist blaðamaður fastráðinn eftir fjögurra mánaða samfellt starf. Stefnandi hafi ekki verið fastráðinn blaðamaður hjá stefnda í skilningi kjarasamningsins er hún hafi hætt störfum í nóvember 2015. Þar af leiðandi sé haldlaus sú málsástæða stefnanda að hún eigi rétt á starfslokagreiðslu sem svari til launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti. Stefndi byggir einnig á því að athafnir og framferði stefnanda í aðdraganda starfslokanna og samskipti hennar við Bjarna Ólafsson, þáverandi ritstjóra Viðskiptablaðsins, gefi síður en svo tilefni til þess að ætla að hún hafi talið sig vera fastráðinn blaðamann. Í því efni vísar stefndi til skilaboða stefnanda til Bjarna 13. febrúar 2017, auk svara Bjarna við þeim skilaboðum og viðbragða stefnanda við þeim svörum. Stefndi telur samskiptin undirstrika að stefnandi hafi aldrei talið sig vera fastráðna hjá fyrirtækinu. Fyrir það fyrsta hafi stefnandi þar lýst því yfir að fæðingarorlofið væri löngu búið. Stefndi vísar til þess að samkvæmt 29. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, skuli starfsmaður eiga rétt á því að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- og foreldraorlofi. Fæðingarorlofi stefnanda hafi lokið 1. nóvember 2016. Á þeim tíma hafi stefnandi því átt að geta horfið aftur að starfi sínu hjá stefnda. Tveimur mánuðum eftir það hafi stefnandi óskað eftir því að hitta ritstjórann og „fara yfir málin“. Engra gagna njóti við í málinu um að stefnandi hafi þurft, af heilsufarsástæðum eða af öðrum ástæðum, að framlengja fæðingarorlofið. Sú staðreynd, að stefnandi hafi ekki talið ástæðu til að tilkynna stefnda sérstaklega um að hún ætlaði að vera lengur í fæðingarorlofi en lög geri ráð fyrir, staðfesti að mati stefnda að hún hafi ekki talið sér það skylt þar sem hún hafi ekki verið fastráðin hjá stefnda. Að sama skapi telur stefndi einboðið að hann hefði á einhverjum tímapunkti, eftir að fæðingarorlofinu lauk, skorað á stefnanda að mæta aftur til starfa hafi hún verið fastráðin. Stefndi bendir einnig á að stefnandi spyrji Bjarna í framangreindum samskiptum hvort hann vanti lausapenna og hver staðan sé með „Eftir vinnu“. Hefði stefnandi verið fastráðinn starfsmaður líkt og hún haldi fram, hefði verið ástæðulaust með öllu að spyrja slíkra spurninga, enda réttur hennar til að snúa aftur í sitt gamla starf ótvíræður. Einhliða tilkynning um hvenær hún hygðist snúa aftur til starfa hefði nægt í því sambandi. Stefndi hefði ekki átt neitt val um hvort hann vildi fá stefnanda til starfa að nýju. Ef stefndi hefði neitað stefnanda um að snúa aftur til starfa að loknu fæðingarorlofi hefði það jafngilt ólögmætri uppsögn með tilheyrandi réttaráhrifum. Sú staðreynd að stefnandi hafi hvorki tilkynnt um endurkomu sína né gert nokkurn reka að því á annan hátt að fá gamla starfið sitt aftur eða annað sambærilegt starf hjá stefnda, auk þess sem stefndi hafi ekki óskað eftir vinnuframlagi hennar eftir að fæðingarorlofinu lauk, staðfesti að mati stefnda að stefnandi hafi ekki verið fastráðinn starfsmaður. Þá gefi sú huglæga afstaða, sem fram komi í orðum hennar: „veit að langt er um liðið og skil vel ef þið hafið gert aðrar ráðstarfanir eða vantar ekkert fleira fólk“, ótvíræða vísbendingu um að stefnandi hafi ekki talið sig eiga rétt á því að hverfa aftur að starfi sínu. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi tilkynnt þáverandi framkvæmdastjóra stefnda í september 2015 að hún væri ólétt að tvíburum. Hlutirnir hafi æxlast þannig hjá stefnanda að hún hafi þurft að hætta störfum hjá stefnda 12. nóvember 2015 vegna erfiðleika á meðgöngu. Líkt og læknisvottorð sem stefnandi hafi aflað í þessu sambandi sýni hafi hún talist óvinnufær frá 9. nóvember 2015 fram að væntanlegri fæðingu í lok janúar 2016. Í samræmi við stöðu sína sem launþegi hafi stefnandi fengið útborguð laun vegna nóvember. Athygli sé vakin á því að ekki hafi verið um fulla launagreiðslu að ræða sem helgaðist af því að stefnandi hafi ekki skilað fullu vinnuframlagi tilgreindan mánuð. Stefnandi hafi ekki gert kröfu um greiðslu launa í veikindum, hvorki fyrir desember 2015 né janúar 2016, heldur notið greiðslna frá öðrum aðilum. Það sé í samræmi við yfirlýsingu, sem stefnandi hafi gefið þáverandi framkvæmdastjóra stefnda, um að hún myndi ekki krefjast launa í veikindaleyfi. Þrátt fyrir að réttur stefnanda til launa í veikindaleyfi hafi verið ótvíræður, enda kjarasamningsbundinn, hafi stefnandi engu að síður kosið að gefa hann frá sér. Áhersla sé lögð á að um upplýsta ákvörðun hafi verið að ræða sem stefnandi hafi tekið af yfirlögðu ráði, m.t.t. stöðu sinnar hjá stefnda. Stefndi telur augljóst að þetta atriði hefði aldrei komið til umræðu hefði stefnandi talið sig vera fastráðinn starfsmann hjá fyrirtækinu. Á því er byggt að þegar þáverandi ritstjóri stefnda, Bjarni Ólafsson, hafi fallist á að hitta stefnanda á kaffishúsi hér í borg 10. mars sl. hafi ekki staðið til að ræða starfslok hennar. Líkt og tölvupóstssamskipti þeirra á milli staðfesti, hafi viðræðurnar þróast út í það á hvern hátt bæri að standa að starfslokum stefnanda hjá fyrirtækinu. Heldur stefndi því fram að stefnandi hafi þar sannfært Bjarna um að hún hafi verið fastráðin og ætti þar af leiðandi rétt á launum í þriggja mánaða uppsagnarfresti. Á grundvelli þeirrar forsendu hafi Bjarni gefið yfirlýsingu um að gengið yrði frá starfslokum stefnanda á þann hátt sem um hafi verið rætt. Nánar sé á því byggt að Bjarni hafi verið í góðri trú er hann hafi gefið yfirlýsinguna og að sá réttur, sem stefnandi hafi talið honum trú um að hún ætti, væri óumdeildur. Stefndi telur sig hafa leitt í ljós að stefnandi hafi aldrei áunnið sér þann rétt sem dómkrafa hennar grundvallist á. Yfirlýsingin sem Bjarni hafi gefið stefnanda varðandi starfslok hennar geti aldrei talist skuldbindandi gagnvart stefnda í samningaréttarlegum skilningi. Reglur samningaréttar um brostnar forsendur leiði þegar til þeirrar niðurstöðu. Stefndi áréttar að frá því að fæðingarorlofi stefnanda lauk og þar til hún hitti Bjarna Ólafsson á kaffihúsi í Borgartúni hafi liðið fjórir mánuðir. Allan þann tíma hafi stefnandi hvorki krafist þess að hverfa aftur að gamla starfi sínu né að stefndi útvegaði henni sambærilegt starf. Fésbókarfærsla stefnanda 13. febrúar 2016 undirstriki þetta sjónarmið enn frekar en þar spyrji hún hvort stefnda vanti lausapenna og að hún skilji vel að hann hafi gert aðrar ráðstafanir eða vanti ekki fleira fólk. Á því sé byggt að við svo búið hafi stefnda verið rétt að líta svo á að stefnandi myndi ekki gera ágreining um þetta. Nánar sé á því byggt að með tómlæti sínu um svo langan tíma hafi stefnandi glatað rétti til að krefja stefnda um starfslokagreiðsluna. Sönnunarlega telur stefndi stöðuna vera þá að engin gögn liggi fyrir um að stefnandi hafi verið orðinn fastráðinn starfsmaður í skilningi vinnuréttar þegar hún hætti þar störfum í nóvember 2015. Afstaða beggja aðila og háttsemi sýni svo ekki verði um villst að báðir hafi litið svo á að samskiptum þeirra hafi lokið við það að stefnandi hafi farið í veikindaleyfi án frekari skuldbindinga. Að mati stefnda stoði það ekki stefnanda að bera fyrir sig umsókn um fæðingarorlof þar sem fram komi að hún hafi verið í 100% starfshlutfalli hjá stefnda síðustu fimm mánuðina fyrir fæðingu sem sönnun þess að hún hafi verið fastráðin. Líkt og fram komi í tölvubréfi 9. desember 2015 hafi stefnandi fyllt eyðublaðið út einhliða. Eina aðkoma stefnda að málinu hafi verið sú að framkvæmdastjóri félagsins hafi undirrita skjalið. Ljóst sé að stefnandi hafi fyllt út reitina um starfshlutfall gegn betri vitund, væntanlega í þeim tilgangi að njóta óskertra greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þá dragi það enn frekar úr sönnunargildi skjalsins að upplýsingar, sem fram komi í því, séu í andstöðu við málatilbúnað stefnanda. Samkvæmt eyðublaðinu hafi áætlaður fæðingardagur barnanna verið 11. febrúar 2016. Í umsókninni kveðst stefnandi hafa verið sjálfstætt starfandi sex mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag, eða í ágúst 2015. Í stefnu sé á hinn bóginn á því byggt að stefnandi hafi orðið launþegi hjá stefnda 1. júní 2015 eða tveimur mánuðum áður en hún hafi að eigin sögn orðið sjálfstætt starfandi. Telur stefndi að stefnandi verði að bera hallann af óskýrleika um þetta atriði. Hitt sé alveg ljóst að stefndi hafi ekki staðið skil á launatengdum gjöldum vegna stefnanda fyrr en við fyrstu launagreiðsluna fyrir september 2015 líkt og upplýsingar úr bókhaldi stefnda staðfesti. Fyrir þann tíma hafi stefnandi borið sjálf ábyrgð á því sem verktaki að standa skil á staðgreiðslu. Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og reglna samningaréttar um brostnar forsendur. Auk þess sé vísað til meginreglna íslensks vinnuréttar um skilyrði fastráðningar og lok ráðningarsambands. Loks er vísað til laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, einkum 29. gr. laganna og ákvæða kjarasamnings. Til stuðnings kröfu sinni um málskostnað vísar stefndi til laga nr. 91/1991, sbr. einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laganna. IV Í máli þessu er enginn ágreiningur um að stefnandi hafi verið ráðin í starf blaðamanns hjá stefnda þegar hún varð óvinnufær í nóvember 2015 vegna veikinda á meðgöngu. Naut hún á þeim tíma starfstengdra réttinda samkvæmt gildandi kjarasamningi Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, en hluti hans hefur verið lagður fram í málinu. Hvorki verður ráðið af skýrslu þáverandi framkvæmdastjóra stefnda, Péturs Árna Jónssonar, né skýrslu þáverandi ritstjóra Viðskiptablaðsins, Bjarna Ólafssonar, fyrir dómi að stefnandi hafi sagt upp starfi sínu hjá stefnda þegar hún tilkynnti um þungunina eða lét vita um veikindaforföllin. Spurður um það atriði bar Pétur á þann veg að hún hefði tilkynnt hvenær hún ætlaði „að hætta störfum“. Þar sem hún var að fara í fæðingarorlof gáfu þau ummæli ekki tilefni til þeirrar ályktunar að stefnandi væri að slíta ráðningarsambandi sínu við stefnda. Þá er ágreiningslaust að stefndi batt ekki enda á ráðningu hennar við það tækifæri, en hún naut verndar gegn uppsögn vinnuveitanda síns samkvæmt 30. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Telst því ósannað að ráðningarsambandi aðila hafi verið slitið áður en fæðingarorlof hennar hófst í janúar 2016. Breytir engu í því sambandi þó að hún kunni að hafa átt takmarkaðan rétt til veikindalauna úr hendi stefnda fram að fæðingu barna sinna með tilliti til þess hvenær hún fór á launaskrá. Samkvæmt fyrrgreindum lögum nr. 95/2000 er fæðingarorlof leyfi frá störfum sem starfsmaður á rétt á frá fæðingu barns að jafnaði. Helst ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda óbreytt í orlofinu og á hann rétt á því að hverfa aftur að starfi sínu að því loknu, eins og mælt er fyrir um í 29. gr. laganna. Sé þess ekki kostur  skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning. Í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 95/2000 er kveðið á um að fæðingarorlof reiknist til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum svo sem rétti til uppsagnarfrests. Samkvæmt grein 3.1 í fyrirliggjandi kjarasamningi, sem áður er getið, telst blaðamaður fastráðinn eftir fjögurra mánaða samfellt starf. Í grein 3.2 er síðan mælt fyrir um að gagnkvæmur uppsagnarfrestur fastráðins blaðamanns og útgefanda sé þrír mánuðir. Hafi stefnandi verið ráðin til starfa 1. september 2015, eins og stefndi heldur fram, er því ljóst að hún öðlaðist í fæðingarorlofinu rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests sem fastráðinn blaðamaður í samræmi við framangreind kjarasamningsákvæði og ótvíræð lagaboð 2. mgr. 14. gr. laga nr. 95/2000.    Í málsvörn sinni vísar stefndi til þess að stefnandi hafi í samskiptum sínum við ritstjóra stefnda, Bjarna Ólafsson, sýnt það í verki að hún hafi sjálf ekki talið sig eiga réttindi sem fastráðinn blaðamaður. Dómurinn lítur svo á að umrædd samskipti og sú óvissa sem stefnandi kann að hafa verið í við lok fæðingarorlofs um réttarstöðu sína geti engu breytt um þann rétt sem hún öðlaðist að lögum til þriggja mánaða uppsagnarfrests. Dómurinn fær heldur ekki séð að stefnandi hafi glatað starfstengdum réttindum sínum við það að mæta ekki af sjálfsdáðum til starfa við lok fæðingarorlofs í nóvember 2016. Í því sambandi ber m.a. að líta til þess að stefnandi leitaði í júlí 2016 til þáverandi ritstjóra Viðskiptablaðsins, sem var hennar næsti yfirmaður, með fyrirspurn er ljóslega tengdist starfinu án þess að fá svar. Um miðjan desember óskaði hún einnig eftir því að „kíkja við“ og „fara yfir málin“ og áréttaði þá beiðni síðar í þeim mánuði án þess að svar bærist. Þegar hún fékk að lokum viðbrögð í febrúar 2017 voru þau á þann veg að búið væri að ráða aðra manneskju til að sjá um „Eftir vinnu“, sem hún hafði haft umsjón með. Var henni gefið til kynna að ekki væru önnur störf fastráðinna blaðamanna í boði með þeim orðum að ekki væri „útilokað að við þurfum lausapenna í það blað eða önnur“. Þær greiðslur, sem gögn málsins bera með sér að ritstjóri Viðskiptablaðsins hafi lofað stefnanda á fundinum 10. mars 2017, um laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti auk orlofs, voru í samræmi við áunnin starfstengd réttindi hennar eins og rakið hefur verið. Stefnandi fer einungis fram á að við það loforð verði staðið. Dómurinn fær ekki séð að stefnandi hafi glatað rétti sínum að þessu leyti fyrir tómlæti. Í ljósi þess sem rakið hefur verið ber að fallast á framangreinda kröfu stefnanda. Enginn ágreiningur er um tölulegan útreikning á höfuðstól hennar og ber að taka þá kröfu til greina eins og hún er fram sett. Stefnandi krefst dráttarvaxta frá þeim degi er samkomulagið var gert 10. mars 2017. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, er kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga hafi hann verið fyrir fram ákveðinn. Hvorki í stefnu né í öðrum gögnum málsins er að því vikið að gjalddagi kröfunnar hafi verið fyrir fram ákveðinn. Upphafstími dráttarvaxtakröfunnar er því vanreifaður og ber að hafna dómkröfu stefnanda að því leyti. Hafi ekki verið samið um gjalddaga peningakröfu er samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu. Stefnandi krafði stefnda um greiðslu kröfunnar með innheimtubréfi 21. apríl 2017. Í þessu ljósi verður stefnda gert að greiða stefnanda dráttarvexti frá 21. maí 2017. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur. Þó að stefndi hafi gert tilefnislausa kröfu um frávísun málsins á grundvelli efnislegra sjónarmiða og varnir hans hafi reynst haldlausar í ljósi atvika telur dómurinn engin skilyrði til þess að beita álagi á málskostnað með vísan til 131. gr. laga nr. 91/1991, eins og stefnandi fór fram á við aðalmeðferð málsins. Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð: Stefndi, Myllusetur ehf., greiði stefnanda, Ástu Andrésdóttur, 1.569.923 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 21. maí 2017 til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 814/2017
Líkamstjón Skaðabætur Viðmiðunartekjur Gengi
A, norskur ríkisborgari, krafði V hf. um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í vélsleðaslysi. Fyrir lá að A hafði síðustu þrjú ár fyrir slysið haft tekjur í norskum krónum. Sneri deila aðila að því hvort umreikna ætti tekjur A yfir í íslenskar krónur miðað við uppgjörsdag bóta fyrir varanlega örorku eða hvort miða bæri við virði þeirra í íslenskum krónum fyrir hvert ár á síðustu þremur árum fyrir slysið að teknu tilliti til miðgengis norsku krónunnar. Talið var að ákvarða yrði tekjur A í íslenskum krónum þannig að sem næst yrði komist rauntekjum hans á þeim tíma sem þeirra var aflað eins og raunin yrði um tjónþola sem aflað hefði tekna í íslenskum krónum. Samkvæmt því var fallist á með A að miða bæri útreikning bótanna við miðgengi norsku krónunnar á þeim árum sem teknanna var aflað. Var V hf. því gert að greiða A umkrafða fjárhæð.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Karl Axelsson og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2017. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en til vara að áfrýjanda verði gert að greiða sér 28.234.504 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 4. mars 2015 til 11. desember 2016 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 11. janúar 2017 að fjárhæð 21.761.302 krónur. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í  dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnda, A, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2017. Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 19. júní sl. og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 20. október sl. Stefnandi er A […], Noregi. Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.                 Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi greiði 34.312.124 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 4. mars 2015 til 11. desember 2016, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 21.761.302 krónur 11. janúar 2017. Til vara er krafist greiðslu 28.234.504 króna með sömu vöxtum og dráttarvöxtum og að frádreginni sömu innborgun. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.                 Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar. Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika                 Stefnandi, sem er norskur ríkisborgari og búsettur í Noregi, varð fyrir slysi á vélsleða hér á landi 4. mars 2014, en sleðinn var tryggður lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda. Atvik slyssins eru óumdeild, afleiðingar þess á heilsu stefnanda og einnig greiðsluskylda stefnda samkvæmt tryggingunni, sbr. einkum 91. og 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1984. Fékk stefnandi, sem metinn var til 30% miska og varanlegrar örorku, greiddar bætur frá stefnda 11. janúar 2017. Meðal annars námu bætur fyrir varanlega örorku 21.761.302 krónur samkvæmt tjónskvittun 9. janúar sl. Af hálfu stefnanda var tekið við greiðslunni með fyrirvara.                 Við útreikning stefnda á bótum fyrir varanlega örorku var miðað við launatekjur stefnanda síðustu þrjú ár fyrir slysið, leiðréttum samkvæmt íslenskri launavísitölu, samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Er ekki ágreiningur um fjárhæðir þessara tekna sem stefnandi aflaði í norskum krónum. Hins vegar deila aðilar um hvort umreikna hafi átt tekjur stefnanda yfir í íslenskar krónur miðað við uppgjörsdag bóta eða hvort miða beri við virði þeirra í íslenskum krónum fyrir hvert ár að teknu tilliti til miðgengis norsku krónunnar.                 Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins. Lagarök og málsástæður aðila                 Málsókn stefnanda er reist á ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 91. og 92. gr. laganna, og meginreglu skaðabótaréttar um fullar bætur til tjónþola. Stefnandi vísar til þess að allar bætur samkvæmt skaðabótalögum séu greiddar í íslenskum krónum samkvæmt þeirri útreikningsaðferð sem lögin kveða á um fyrir einstaka bótaflokka. Skaðabætur fyrir varanlega örorku samkvæmt 5. gr. laganna miðist við meðaltal launatekna tjónþola síðustu þrjú almanaksár fyrir slysdag samanber 1. mgr. 7. gr. laganna. Eðli málsins samkvæmt sé með þessu átt við laun í íslenskum krónum ár hvert en ekki tekjur þessara ára sem stefnandi fékk greiddar í norskum krónum samkvæmt norskum lögum og kjarasamningi. Þessari rökréttu útreikningsaðferð hafi íslensk tryggingafélög að jafnaði beitt hvort sem hinn slasaði sé íslenskur eða erlendur.                 Stefnandi byggir á því að við útreikning árslaunaviðmiðs samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga beri að miða við meðalgildi norskra króna á þeim tíma sem stefnandi aflaði þeirra tekna sem leggja grunn að útreikningi skaðabóta fyrir varanlega örorku, þ.e. árin 2011, 2012 og 2013. Þessi aðferð sé í fullu samræmi við þá meginreglu skaðabótalaga að gera tjónþola eins settan fjárhagslega og hann var fyrir tjónsatburðinn og þá meginreglu laganna sem í því felst að horfa beri til fortíðar við ákvörðun viðmiðunarlauna en ekki atvika eða aðstæðna sem upp kunna að koma eftir tjónsatburð eða stöðugleikatímapunkt. Að mati stefnanda eru aðrar nálganir, t.d. að miða við þann dag sem kröfubréf var ritað eða móttekið, eins og stefndi telur rétt að gera, til þess fallnar að valda réttaróvissu enda gætu tjónþolar þá beðið með að setja fram kröfu þar til gengið yrði þeim hagfellt.                 Fari svo að ekki verði fallist á aðalkröfu stefnanda gerir hann til vara þá kröfu að útreikningur skaðabóta fyrir varanlega örorku taki mið af meðalgildi norskra króna á stöðugleikatímapunkti, þ.e. 4. mars 2015. Byggir þessi krafa á sömu málsástæðum og aðalkrafa en einnig á því að launatekjur skulu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga reiknaðar upp með launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við, þ.e. stöðugleikatímapunkts. Sú útreikniaðferð að umreikna launatekjur stefnanda til stöðugleikatímapunkts samræmist þerri aðferð sem beitt er í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.                 Sýknukrafa stefnda byggir á því að með þegar greiddum skaðabótum hafi stefnandi fengið greiddar þær bætur sem hann eigi rétt til samkvæmt skaðabótalögum og þar með fengið tjón sitt vegna umstefnds slyss að fullu bætt. Stefndi telur að umreikningur viðmiðunarlauna vegna ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku komi fyrst til álita þegar skaðabæturnar eru greiddar. Tilgangur reglna skaðabótalaga um útreikning á skaðabótum fyrir varanlega örorku sé að bæta tjónþola framtíðartekjutap. Hann eigi hvorki að hagnast né tapa á því að hafa orðið fyrir tjóni. Skaðabæturnar séu bætur fyrir skerðingu á hæfi til að afla tekna. Í því tilviki að tjónþoli starfar erlendis og sé með atvinnutekjur í erlendri mynt sé því eðlilegt að bætur séu reiknaðar í þeim sama gjaldmiðli sem um ræðir.                 Í tilviki stefnanda sé tekjuöflun hans, bæði fyrir og eftir slysið, í Noregi. Tjón hans vegna varanlegrar örorku sé því skerðing á hæfi hans til að afla tekna í Noregi. Af þessu leiðir að hið eina rétta sé að bætur til stefnanda skuli reikna í norskum krónum. Eingöngu það geti gefið rétta mynd af tjóninu sem sé skerðing á hæfi til að afla tekna í þeirri sömu mynt. Umreikningur árslauna stefnanda yfir í íslenskar krónur, á mismunandi gengi, geri það hins vegar ekki, enda hafi laun hans aldrei verið reiknuð í íslenskar krónur þegar hann aflaði þeirra. Stefndi telur að það leiði beint af orðalagi 1. mgr. 7. gr. að uppreikna beri vinnutekjur tjónþola með þessum hætti, enda sé ekki gerður áskilnaður í greininni um að tekjur skuli vera í innlendri mynt.                 Stefndi hafnar því sem segir í stefnu að sú aðferð sem stefndi telur rétta við útreikning leiði til réttaróvissu. Þvert á móti sé sú aðferð í samræmi við 1. mgr. 7. gr. og því ekki nein réttaróvissa því tengd, frekar en almennt við útreikning á skaðabótum. Aðferð sem stefnandi vilji beita leiði hins vegar til þess að rauntjón hans sé ekki rétt bætt. Gengisbreytingar á mismunandi tímum geri það að verkum að raunverulegt fjártjón stefnanda skekkist þannig að annaðhvort halli á hann eða hann fái tjón sitt verulega ofbætt. Slíkur útreikningur sé því mun frekar til þess fallinn að valda réttaróvissu. Niðurstaða       Skaðabótalög nr. 50/1993 gera ráð fyrir því að bætur fyrir líkamstjón séu reiknaðar út í íslenskum krónum. Hafa lögin þannig ekki að geyma heimild til þess að við uppgjör og útreikning bóta, svo sem um lágmarkstekjuviðmið bóta samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna og hámark viðmiðunartekna samkvæmt 4. mgr. greinarinnar, sé miðað við erlenda mynt. Við þær aðstæður að tjónþoli hefur haft tekjur sínar í erlendum gjaldmiðli ber því að umreikna árslaun samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna til íslenskra króna. Verður að líta svo á að ágreiningur aðila snúist í reynd um nánara tímamark þessa umreiknings.       Þótt markmið ákvæða skaðabótalaga um útreikning bóta fyrir varanlega örorku sé að gera tjónþola eins settan fjárhagslega og tjón hefði ekki orðið, er ljóst að útreikningur á bótum byggir á líkum og er því eðli málsins samkvæmt óvíst hvort bætur muni í reynd svara til raunverulegs fjárhagslegs tjóns tiltekins manns. Slík óvissa leiðir ekki einungis af óvissuþáttum um raunverulegt aflahæfi tjónþola til framtíðar heldur einnig af verðmæti og ávöxtunarmöguleikum þeirrar eingreiðslu sem hann hlýtur vegna varanlegrar örorku sinnar. Er ljóst að þessir þættir geta verið breytilegir eftir aðstæðum á hverjum tíma í því landi sem tjónþoli er búsettur, þ. á m. vegna þróunar gengis gjaldmiðla, bæði hérlendis og erlendis. Engu að síður byggja skaðabótalög á þeirri meginreglu að bætur fyrir varanlega örorku ber að miða við raunverulegar tekjur sem aflað hefur verið áður en tjón varð, að viðbættum tilteknum öðrum almennum forsendum um lífslíkur manna, ávöxtun eingreiðslu o.fl. Eru núgildandi skaðabótalög þannig reist á þeirri hugsun að varanleg örorka sé bætt í eitt skipti fyrir öll með eingreiðslu og er því ekki um það að ræða að raunverulegt tjón tjónþola sé síðar tekið til endurskoðunar með ákveðnu millibili þegar raunverulegt tjón tjónþola liggur fyrir með vissu.       Ákvæði skaðabótalaga um útreikning bóta fyrir varanlega örorku eru ófrávíkjanleg og gera ekki ráð fyrir því að tjónþolar sæti mismunandi meðferð eftir þjóðerni eða búsetu. Getur það því engu skipt fyrir úrlausn málsins hvort stefnandi er erlendur ríkisborgari og búsettur erlendis eða t.d. íslenskur ríkisborgari sem haft hefur tekjur erlendis en hyggst búa hér á landi til framtíðar. Að mati dómsins verður samkvæmt þessu að ákveða tekjur stefnanda í íslenskum krónum þannig að sem næst verði komist rauntekjum hans á þeim tíma sem þeirra var aflað, líkt og raunin yrði um tjónþola sem aflað hefur tekna í íslenskum krónum. Er því ekki á það fallist að það sé samrýmanlegt ákvæðum skaðabótalaga, eða þeim sjónarmiðum sem liggja þeim til grundvallar, að horfa til sérstakra aðstæðna tjónþola til framtíðar, svo sem að hann muni líklega búa erlendis og hafa tekjur sínar í erlendri mynt. Þá tekur dómurinn undir með stefnanda að sú aðferð sem stefndi telur sér heimilt að beita gagnvart stefnanda leiði til óvissu um nánara tímamark gengisviðmiðs bóta fyrir örorku þegar um er að ræða tjónþola með tekjur í erlendri mynt. Er slík tilhögun einnig í bersýnilegu ósamræmi við þær meginreglur íslensks skaðabótaréttar sem áður ræðir.       Samkvæmt framangreindu verður á það fallist með stefnanda að miða beri útreikning bóta til hans við miðgengi norsku krónunnar á þeim árum sem teknanna var aflað. Svo sem áður greinir er ekki ágreiningur um fjárhæð þessara tekna eða nánari umreikning þeirra til íslenskra króna að fenginni þessari forsendu. Sömuleiðis er ekki deilt um vexti og dráttarvexti að fenginni þessari afstöðu dómsins. Verður því fallist á aðalkröfu stefnanda eins og hún er fram sett og nánar greinir í dómsorði.                 Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 950.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Hefur þá verið tekið tillit til kostnaðar stefnanda af þýðingu matsgerðar dómkvadds matsmanns yfir á norsku, sbr. g-lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af hálfu stefnanda flutti málið Styrmir Gunnarsson hrl. Af hálfu stefnda flutti málið Svanhvít Axelsdóttir hrl. Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, A, 34.312.124 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 4. mars 2015 til 11. desember 2016, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 21.761.302 krónur 11. janúar 2017.                 Stefndi greiði stefnanda 950.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 160/2017
Einkahlutafélag Samruni Tekjuskattur Hæfi stjórnvalds Stjórnsýsla
Ágreiningur aðila laut að því hvort Ö ehf. hefði verið heimilt að gjaldfæra fjármagnskostnað, sem fallið hafði á hann vegna lánaskuldbindinga sem hann yfirtók við samruna tveggja félaga við sig árið 2007, móðurfélagsins L ehf. og systurfélagsins D ehf., á móti tekjum í skattskilum sínum á gjaldárunum 2008 til 2012. Ríkisskattstjóri úrskurðaði árið 2013 að fjármagnskostnaðurinn væri ekki frádráttarbær kostnaður í skilningi 1. töluliðar 31. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og staðfesti yfirskattanefnd þann úrskurð árið 2015. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti, var hvorki fallist á með Ö ehf. að sviðsstjóri eftirlitssviðs ríkisskattstjóra, og þar með starfsmanna þess, hefðu verið vanhæfir til að fjalla um endurákvörðun opinberra gjalda Ö ehf. né að ríkisskattstjóri hefði sýnt tómlæti við meðferð málsins sem hefði skapað Ö ehf. réttmætar væntingar um að ekkert yrði aðhafst í málefnum hans eftir samruna félaganna. Talið var að L ehf. hefði tekið umrætt lán í þágu eigenda þess félags til að greiða þáverandi eigendum Ö ehf. og D ehf. kaupverð hlutafjár í þeim félögum. Lántakan hefði því ekki varðað resktur Ö ehf. eftir samrunann og teldust vextir vegna hennar því ekki til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar Ö ehf. í skilningi 1. töluliðar 31. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 49. gr. laganna. Var því fallist á með Í að heimildin til að framkvæma skattfrjálsan samruna samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003 færði Ö ehf. ekki ríkari rétt til gjaldfærslu rekstrarkostnaðar en 31. gr. sömu laga heimilaði. Loks var talið að fullt tilefni hefði verið til þess að beita 25% álagi við skattstofna Ö ehf. gjaldárin 2010 til 2012, eins og gert hafði verið í úrskurði ríkisskattstjóra og yfirskattanefnd staðfest.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.   Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. mars 2017. Hann krefst þess aðallega að felldir verði úr gildi úrskurðir ríkisskattstjóra 20. desember 2013 og yfirskattanefndar 15. apríl 2015 um endurákvörðun opinberra gjalda á gjaldárunum 2008 til 2012. Til vara krefst hann þess að úrskurðum þessum verði breytt á þann hátt að frádráttarbær fjármagnskostnaður hans verði ákveðinn þannig að hann hækki um 138.193.217 krónur gjaldárið 2008, 1.324.468.748 krónur 2009 og 964.462.796 krónur 2010, en verði byggður á skattframtölum hans gjaldárin 2011 og 2012. Verði þá einnig fellt niður 25% álag, sem bætt var í úrskurðunum við skattstofna áfrýjanda gjaldárin 2010, 2011 og 2012. Bæði í aðalkröfu og varakröfu krefst hann þess jafnframt að stefnda verði gert að greiða sér 582.755.417 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. janúar 2014 til greiðsludags, svo og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi reisir áfrýjandi framangreinda aðalkröfu sína meðal annars á því að starfsmenn ríkisskattstjóra hafi verið vanhæfir til að fara með mál um endurákvörðun opinberra gjalda hans. Vísar áfrýjandi í því sambandi einkum til þess að svo hafi verið ástatt um Aðalstein Hákonarson, sem hafi gegnt starfi sviðsstjóra eftirlitssviðs ríkisskattstjóra, en vegna vanhæfis hans hafi starfsmenn á því sviði brostið hæfi til þessa verks. Áfrýjandi bar upp röksemdir á þessum grunni þegar í bréfi 9. desember 2013 um andmæli sín gegn ráðagerð ríkisskattstjóra um endurákvörðun gjalda hans, sem honum var tilkynnt um 15. nóvember sama ár. Af því tilefni var þess getið í úrskurði ríkisskattstjóra 20. desember 2013, sem dómkröfur áfrýjanda varða, að Aðalsteinn hefði ekki komið að máli áfrýjanda „enda hafði verið tilkynnt um yfirmannsskipti“ á fundi ríkisskattstjóra með starfsmönnum eftirlitssviðsins 4. febrúar 2013, tæpum tveimur mánuðum áður en meðferð málsins hafi byrjað. Í úrskurði yfirskattanefndar 15. apríl 2015 var vísað til þess sama með þeim orðum að „hinn 4. febrúar 2013 hafi umræddur starfsmaður embættisins látið af starfi sínu sem yfirmaður eftirlitssviðs“, en „sú deild ríkisskattstjóra“ hafi farið með málið. Í báðum úrskurðunum var málatilbúnaði áfrýjanda, sem að þessu laut, hafnað með vísan til þessa og varð niðurstaða héraðsdóms á sama veg. Í málinu hefur áfrýjandi lagt fram gögn, sem hann telur sýna að fyrrnefndur Aðalsteinn hafi í raun ekki látið af störfum sem sviðsstjóri eftirlitssviðs ríkisskattstjóra í byrjun febrúar 2013, enda komi þar fram að hann hafi í þremur tilvikum verið nefndur með því starfsheiti í fjölmiðlum og fréttablaði ríkisskattstjóra í mars og maí á því ári. Vegna þessa málatilbúnaðar áfrýjanda beindi Hæstiréttur því til stefnda að afla bréflegra upplýsinga frá ríkisskattstjóra um störf Aðalsteins við þá stofnun á árinu 2013, sbr. 2. mgr. 46. gr. og 5. málslið 1. mgr. 184. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í bréfi ríkisskattstjóra 12. september 2018, sem lagt var fram af þessu tilefni, er þess meðal annars getið að um miðjan janúar 2013 hafi að frumkvæði Aðalsteins farið í hönd viðræður um starfslok hans við stofnunina og niðurstaðan orðið sú að hann léti af stöðu sviðsstjóra eftirlitssviðs, minnkaði starfshlutfall sitt í 60% og myndi upp frá því sinna sérverkefnum. Hafi verið tilkynnt um ákvörðun um þetta á fundi ríkisskattstjóra með starfsmönnum eftirlitssviðsins 4. febrúar 2013, svo sem getið hafi verið um í úrskurði hans 20. desember sama ár, og hafi Aðalsteinn í framhaldi af því „dregið sig út úr öllum verkefnum eftirlitssviðs“, en um þetta sé þó ekki til „formleg staðfesting“. Samkvæmt 3. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991 eru ekki efni til annars en að leggja þetta til grundvallar við úrlausn málsins og hafna þegar af þeim sökum málsástæðum áfrýjanda, sem varða ætlað vanhæfi Aðalsteins og þar með starfsmanna á eftirlitssviði ríkisskattstjóra til að fjalla um endurákvörðun gjalda áfrýjanda, en við úrlausn um þetta getur ekkert vægi haft að úrskurður ríkisskattstjóra 20. desember 2013 beri ekki merki um hlutdrægni, svo sem vikið var að í niðurstöðum hins áfrýjaða dóms. Með framangreindum athugasemdum verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2016 I Mál þetta, sem dómtekið var 1. desember sl., er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 16. október 2015. Stefnandi er Ölgerð Egils Skallagrímssonar ehf., Grjóthálsi 7-11 í Reykjavík en stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli í Reykjavík. Stefnandi krefst þess aðallega að úrskurður yfirskattanefndar nr. 103/2015, dagsettur 15. apríl 2015, og úrskurður ríkisskattstjóra, dagsettur 20. desember 2013, um endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda gjaldárin 2008, 2009, 2010, 2011 og 2012, verði felldur úr gildi og stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 582.755.417 krónur ásamt dráttarvöxtum, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 30. janúar 2014, auk vaxtavaxta, sbr. 12. gr. síðarnefndra laga, allt til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að úrskurði yfirskattanefndar nr. 103/2015, dagsettum 15. apríl 2015, og úrskurði ríkisskattstjóra, dagsettum 20. desember 2013, um endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda gjaldárin 2008, 2009, 2010, 2011 og 2012, verði breytt þannig að frádráttarbær fjármagnskostnaður stefnanda gjaldárin 2008, 2009 og 2010 verði hækkaður frá því sem byggt er á í úrskurðunum um sem nemur 138.193.217 krónum gjaldárið 2008, 1.324.468.748 krónum gjaldárið 2009 og 964.462.796 krónum gjaldárið 2010, en frádráttarbær fjármagnskostnaður stefnanda gjaldárin 2011 og 2012 verði byggður á skattframtölum stefnanda þau ár. Þá verði fellt niður 25% álag sem ríkisskattstjóri bætti við skattstofna stefnanda gjaldárin 2010, 2011 og 2012. Loks að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 582.755.417 krónur ásamt dráttarvöxtum, sbr. 2. mgr. laga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 30. janúar 2014, auk vaxtavaxta, sbr. 12. gr. síðarnefndra laga, allt til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins. Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda. Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfurnar verði lækkaðar og málskostnaður verði látinn niður falla. Málið var upphaflega dómtekið 5. september sl. en flutt á ný 1. desember sl. og dómtekið á ný sama dag eftir fyrirmælum 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  II Snemma árs 2007 keypti Límonaði ehf. alla eignarhluti í félögunum Ölgerð Egils Skallagrímssonar ehf., Daníel Ólafssyni ehf. og fasteignafélaginu G-7 ehf. Kaupverðið var 5.708.000.000 krónur og voru kaupin fjármögnuð með eigin fé Límonaðis ehf. og 3.790.000.000 króna láni frá Kaupþingi banka hf. Hinn 31. ágúst 2007 sameinuðust félögin þannig að Límonaði ehf. og Daníel Ólafsson ehf. runnu inn í stefnanda. Fasteignafélagið G-7 ehf. var jafnframt fært inn í eignasafn stefnanda. Við samrunann tók stefnandi yfir lánaskuldbindingar Límonaðis ehf. að fjárhæð 3.870.743.826 krónur og gjaldfærði í kjölfarið fjármagnskostnað af lánunum í skattaskilum sínum. Í stefnu er því lýst að ástæður þess að Límonaði ehf. rann inn í stefnanda en ekki öfugt, hafi einkum verið mikill fjöldi viðskiptasamninga í nafni stefnanda, auk þess sem heiti og stefnanda og kennitala hafi verið vel þekkt á þeim samkeppnismarkaði sem hann starfaði á. Rekstrarlegar ástæður hafi því legið til grundvallar ráðstöfuninni. Ríkisskattstjóri óskaði eftir því með bréfum til stefnanda, dagsettum 2. apríl 2013 og 12. júní 2013, að stefnandi legði til útskýringar og gögn vegna tiltekinna liða í skattaskilum félagsins gjaldárin 2008 til og með 2012. Stefnandi svaraði fyrirspurnum ríkisskattstjóra með bréfum, dagsettum 24. apríl 2013, 8. júlí 2013, og 12. ágúst 2013. Með bréfi, dagsettu 15. nóvember 2013, boðaði ríkisskattstjóri stefnanda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 2008, 2009, 2010, 2011 og 2012 á þeim grundvelli að sá fjármagnskostnaður, sem féll á stefnanda vegna umræddra lánaskuldbindinga, hafi ekki verið frádráttarbær kostnaður í skattskilum hans, sbr. 1. tölul. 31. gr. sbr. 2. mgr. 49. gr. laga nr. 90/2003. Lánaskuldbindingarnar hafi upphaflega verið gerðar til að fjármagna kaup Límonaðis ehf. á hlutabréfum í stefnanda og Daníel Ólafssyni ehf. en ekki verið tengdar rekstri stefnanda. Upplýst var að fjármagnskostnaður yrði lækkaður um 252.867.163 krónur gjaldárið 2008, um 2.130.475.140 krónur gjaldárið 2009, um 1.408.445.927 krónur gjaldárið 2010, um 380.980.352 krónur gjaldárið 2011 og um 398.291.306 krónur gjaldárið 2012. Þá skyldi 25% álag lagt á þá hækkun skattstofna, sem leiddi af breytingunni gjaldárin 2010, 2011 og 2012, með vísan til 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Stefnandi andmælti boðaðri endurákvörðun ríkisskattstjóra með bréfi, dagsettu 9. desember 2013. Breytingunum var mótmælt bæði með formlegum og efnislegum rökum. Stefnandi taldi að ríkisskattstjóri og starfsmenn embættisins væru vanhæfir til meðferðar málsins, auk þess sem frestur til endurákvörðunar samkvæmt 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 væri liðinn. Þá byggði stefnandi á því að hér væri um að ræða lögmæta skattalega gjaldfærslu fjármagnsgjalda af þeim lánum, sem hefðu verið tekin yfir af stefnanda við samrunann, en hann hefði grundvallast á viðskiptalegum sjónarmiðum og gerður í þeim tilgangi að einfalda eignarhald og rekstur samstæðu félaganna. Félögin hefðu haft með höndum skyldan rekstur eða starfsemi í skilningi 54. gr. laga nr. 90/2003 og því hefði verið heimilt að draga frá yfirfært tap sem hefði myndast í rekstri Límonaðis ehf. Stefnandi gerði sömuleiðis athugasemdir við aðferðarfræði og útreikninga ríkisskattstjóra vegna lækkunar gjaldfærðs fjármagnskostnaðar. Umþrætt fjármagnsgjöld hefðu verið til komin vegna kaupa Límonaðis ehf. á fleiri félögum en stefnanda. auk þess sem stefnandi hefði gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu 2010, m.a. með höfuðstólslækkun skulda, og bæri að taka tillit til þess við ákvörðun lækkunarfjárhæðar. Þá mótmælti stefnandi sérstaklega álagningu álags. Með úrskurði ríkisskattstjóra 20. desember 2013 var hinum boðuðu breytingum hrint í framkvæmd, að teknu tilliti til athugasemda stefnanda, þannig að lækkun gjaldfærðs fjármagnskostnaðar varð lægri en boðað hafði verið og opinber gjöld endurákvörðuð í samræmi við það fyrir árin 2008 til og með 2012. Stefnandi kærði úrskurð ríkisskattstjóra til yfirskattarnefndar hinn 12. febrúar 2014. Með úrskurði yfirskattanefndar 15. apríl 2015 var öllum kröfum stefnanda hafnað. Stefnandi hefur höfðað mál þetta til þess aðallega að fá báðum þessum úrskurðum hnekkt en til vara til að fá þeim breytt með þeim hætti að frádráttarbær fjármagnskostnaður stefnanda verði hækkaður, svo sem nánar er rakið í stefnukröfu, og að fellt verði niður 25% álag ríkisskattstjóra. III Stefnandi reisir aðalkröfu sína um ómerkingu úrskurða ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar bæði á formlegum og efnislegum rökum sem hann rekur ítarlega í stefnu málsins. Í samræmi við e-lið 1. mgr. 114. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verða hér rakin aðalatriði málatilbúnaðar stefnanda eftir því sem þurfa þykir. Rökstuðningur stefnanda varðandi ógildingu umþrættra úrskurða vegna galla á formhlið málsins er þríþættur. Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að starfsmenn ríkisskattstjóra hafi verið vanhæfir til að fjalla um málið og taka afstöðu til þess. Í öðru lagi að ríkisskattstjóri hafi sýnt af sér tómlæti og þá leiði sjónarmið um réttmætar væntingar stefnanda til þess að ógilda beri úrskurði hans og yfirskattanefndar. Í þriðja lagi byggir stefnanda á því, að tímafrestir vegna endurákvörðunar skatta stefnanda fyrir gjaldárið 2008, þ.e. vegna tekjuársins 2007, hafi verið liðnir. Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að ríkisskattstjóri og önnur skattyfirvöld hafi verið vanhæf til að fara með mál stefnanda og vísar að því leyti til ákvæða 104. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Samkvæmt lagaákvæðinu megi maður ekki taka þátt í rannsókn eða annarri meðferð máls, hvorki skattaákvörðun né kæru, ef honum hefði borið að víkja sæti sem héraðsdómari í málinu. Um hæfi ríkisskattstjóra og annarra skattayfirvalda í þessu máli fari því eftir hæfisreglum 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Samkvæmt g-lið lagagreinarinnar sé maður vanæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru atvik eða aðstæður sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Bæði Aðalsteinn Hákonarson, fyrrverandi forstöðumaður eftirlitssviðs ríkisskattstjóra, og undirmaður hans hafi því verið vanhæfir til meðferðar málsins þar sem draga megi óhlutdrægni þeirra í efa. Vanhæfi Aðalsteins Hákonarsonar felist í því að hann hafi skrifað tvær greinar í tímaritið Tíund ábyrgðarmaður og útgefandi ritsins sé ríkisskattstjóri. Inntak greinanna sé beinlínis um þann ágreining sem sé til úrlausnar í þessu máli. Í greinunum sé að finna dómharða umfjöllun um samruna með yfirtöku dótturfélags á móðurfélagi, svo kölluðum öfugum eða lóðréttum samruna, og dyljist engum augljós vandlæting greinarhöfundar á álitaefninu. Þá hafi Aðalsteinn tjáð sig um málefni stefnanda í fréttatíma Stöðvar 2 2. desember 2009. Við það tækifæri hafi hann fjallað um ætlað ólögmæti gjaldfærslu fjármagnsgjalda af lánum, sem tekin hefðu verið til kaupa á hlutum í félagi, sem síðar hafi verið sameinað því félagi sem lánið tók. Þar hafi hann sagt að sér kæmi til hugar eitt nýlegt dæmi þar sem uppsagnir séu sagðar vegna fyrirhugaðrar hækkunar á virðisaukaskatti en vandi þess fyrirtækis sé líklegast af völdum slíkrar yfirtöku. Aðspurður um það, hvort hann ætti við stefnanda í þessu máli, hafi hann játað því. Þessi ummæli Aðalsteins hafi fengið talsverða umfjöllun í fjölmiðlum í kjölfarið, enda hafi afstaða hans til álitaefnisins komið skýrt fram. Aðalsteinn hafi svo svarað gagnrýninni opinberlega með greinaskrifum þar sem hann hafi meðal annars sagt að „búið [væri] að eyðileggja mörg af glæsilegustu fyrirtækjum þjóðarinnar með því að skuldsetja þau upp fyrir haus“ og „jafnvel þessi samvöðluðu samtök atvinnulífsins virðast tilbúin til að reka upp gelt og styðja svona sjálfseyðingu“. Hann hafi þannig, sem yfirmaður þeirra starfsmanna, sem síðar önnuðust meðferð í máli stefnanda, látið opinberlega í ljósi augljósa afstöðu sína til þess úrlausnarefnis sem málið lúti að. Stefnandi bendir á að af fordæmisgefandi dómum Hæstaréttar Íslands í málum, þar sem vikið hafi verið að hæfi ríkisskattstjóra og starfsmanna embættisins vegna ummæla þeirra um þau skattalegu álitaefni sem hafi verið til úrlausnar, megi ráða að meðal forsendna réttararins fyrir því að fallast ekki á málsástæður um vanhæfi sem valdi ómerkingu úrskurða, sé að mál hlutaðeigandi skattaðila hafi ekki verið til umfjöllunar eða þeir nefndir. Í þessu máli hafi starfsmaður ríkisskattstjóra hins vegar tjáð sig með beinum hætti á opinberum vettvangi um málefni stefnanda. Stefnandi mótmælir sérstaklega sem ósönnum og ótrúverðugum fullyrðingum ríkisskattstjóra og forsendum yfirskattanefndar um að Aðalsteinn hafi ekki komið að máli stefnanda þar sem hann hafi látið af stöfum sem forstöðumaður eftirlitssviðs í febrúar 2003. Af hálfu ríkisskattstjóra hafi verið viðurkennt að vinnsla mála vegna skuldsettra yfirtaka og öfugs samruna byggi á yfirgripsmikilli greiningarvinnu gagna sem skilað sé inn til fyrirtækjaskrár. Að virtum fyrirliggjandi gögnum sé því ljóst að þeirri greiningarvinnu hafi verið lokið hjá þeirri deild, sem Aðalsteinn stýrði, áður en hann lauk störfum þar. Þá liggi fyrir í málinu tölvuskeyti hans til lögmanns stefnanda 14. janúar 2014 þar sem fram komi að starfsmaðurinn hafi kynnt sér inntak andmælabréfs stefnanda frá 9. desember 2013. Stefnandi vísar jafnframt til þess að annar þeirra undirmanna Aðalsteins, sem hafi komið að máli stefnanda frá upphafi, hafi skrifað meistararitgerð í lögfræði sem tekur á því álitaefni sem hér sé til úrlausnar þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að vaxtagjöld, sem falli til eftir samruna eignarhaldfélags og rekstrarfélags og séu tilkomin vegna þeirra lánaskuldbindinga sem stofnað hafi verið til vegna skuldsettrar yfirtöku á rekstrarfélagi, teljist ekki vera frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tölul. 31. gr., sbr. 1. mgr. 49. gr., laga nr. 90/2003. Þar sem afstaða hans til álitaefnisins hafi verið ljós frá upphafi og akademískur heiður hans jafnframt verið í húfi, sé ljóst að óhlutdrægni hans við afgreiðslu máls stefnanda verði dregin í efa. Stefnandi byggir á því að vegna þessa hafi hann haft gilda ástæðu til að ætla að mál hans hafi ekki fengið sanngjarna og hlutlæga málsmeðferð og fari sú staða gegn megin tilgangi settra hæfisreglna sem eigi að stuðla að réttri og málefnalegri niðurstöðu máls. Stefnandi byggir í öðru lagi á því að samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli  ákvarðanir teknar svo fljótt sem unnt er. Af ummælum Aðalsteins Hákonarsonar í áðurnefndu sjónvarpsviðtali síðla árs 2009 liggi ljóst fyrir að ríkisskattstjóra hafi þegar á þeim tíma verið kunnugt um það, hvernig staðið hafi verið að samruna stefnanda, Límonaðis ehf. og Daníels Ólafssonar ehf. Engu að síður hafi ríkisskattstjóri látið vel á fjórða ár líða þar til hann óskaði eftir frekari upplýsingum um málið. Þessi óhæfilega langi dráttur undirstriki tómlæti af hálfu ríkisskattstjóra og það eitt og sér eigi að leiða til þess að úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar verði felldir úr gildi. Ríkisskattstjóri hafi með athafnaleysi sínu og tómlæti skapað réttmætar væntingar hjá stefnanda, hluthöfum hans og kröfuhöfum um að ekki yrði aðhafst í málinu og stefnandi hafi gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu í lok árs 2010 á þeim grundvelli. Stefnandi vísar jafnframt til þess að í skýrslum umboðsmanns Alþingis hafi verið fjallað um það að í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti skuli gerð sú krafa til stjórnvalda að við breytingar á venjubundinni stjórnsýsluframkæmd skuli kynna þær fyrir fram svo aðilar, sem breytingin varði, eigi kost á því að bregðast við og gæta hagsmuna sinna. Ljóst sé að í þessu máli hafi þessa ekki verið gætt og því hafi málsaðilar ekki getað brugðist við og gætt hagsmuna sinna. Þvert á móti hafi þeir gripið til ýmissa ráðstafana sem annað hvort hefði ekki verið gripið til eða með öðrum hætti en gert var, hefði afstaða ríkisskattstjóra legið fyrir.  Stefnandi byggir á því að ríkisskattstjóra hafi ekki verið heimilt að endurákvarða skatta stefnanda fyrir gjaldárið 2008 vegna rekstrarársins 2007, enda hafi stefnandi í skattframtölum sínum og fylgigögnum veitt fullnægjandi upplýsingar sem hafi mátt byggja rétta álagningu á. Því séu heimildir yfirvalda til endurákvörðunar takmarkaðar með vísan til 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003. Stefnandi vísar jafnframt til þess að samruni hans við Límonaði ehf. og Daníel Ólafsson ehf. hafi grundvallast af rekstrarlegum ástæðum en ekki á grundvelli skattalegra sjónarmiða. Félögin hafi fyrir samrunann myndað samstæðu, sem hefði mátt skattleggja sameiginlega í samræmi við 55. gr. laga nr. 90/2003, og því sé ljóst að aðrar ástæður en skattalegar hafi legið að baki samrunanum. Slíkir samrunar, þar sem dótturfélag taki yfir móðurfélag ásamt skattalegum réttindum og skyldum þess, hafi tíðkast hér á landi um árabil, án nokkurra athugasemda af hálfu skattayfirvalda. Lögin takmarki ekki að neinu leyti að dótturfélag yfirtaki móðurfélag. Meðal annars vegna vörumerkis stefnanda, einkaleyfa og viðskiptasamninga og hagkvæmnissjónarmiðum hafi stefnandi yfirtekið Límonaði ehf., auk þess sem það hafi janframt verið einfaldari og ódýrari leið. Þá sé mál stefnanda frábrugðið öðrum dómsmálum, þar sem tekist hafi verið á um samruna móðurfélags við dótturfélag, að því leyti að um hafi verið að ræða sameiningu þriggja félaga, auk eins félags sem færst hafi inn í eignasafn stefnanda en ekki tveggja félaga, líkt og í dómum Hæstaréttar Íslands í málum réttarins nr. 555/2012 og 529/2013. Dómarnir hafi því ekki fordæmisgildi í þessu máli. Varakrafa stefnanda byggist á málsástæðum, sem hann kveður eiga sér stoð í eðli máls og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sem sé lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Varakrafa stefnanda er sett upp í fjórum liðum og byggir á því að hver þeirra um sig eða tveir eða fleiri saman leiði til þess að frádráttarbær fjármagnskostnaður af þeim lánum sem úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar fjalla um hækkar umtalsvert umfram það sem byggt er á í úrskurðunum. Í fyrsta lagi beri að líta svo á að sá hluti eigin fjár, sem lagður hafi verið til kaupanna á eignarhlutum í stefnanda, Daníel Ólafssyni ehf. og fasteignafélaginu G-7 ehf., hafi allur runnið til kaupanna á eignarhlutum í stefnanda. Við það myndi hlutfall af upphaflegri lánsfjárhæð, sem notuð var til kaupa á eignarhlut í stefnanda breytast úr 64% í 41,3%. Þá myndi hlutfall ófrádráttarbærs fjármagnskostnaðar af heildarlánum stefnanda, eftir fyrri endurfjármögnun félagsins 17. apríl 2008, lækka úr 64,55% niður í 27,8%. Í öðru lagi að fjármagnsgjöld vegna þess lánshluta, sem ætla megi að hafi farið til kaupa á eignarhlutum í Daníel Ólafssyni ehf,. teljist frádráttarbær. Ríkisskattstjóri hafi fallist á þau rök stefnanda að fjármagnsgjöld vegna lána sem notuð voru til kaupa á hlutum í fasteignafélaginu G-7 ehf. hafi verið frádráttarbær í skattskilum stefnanda á þeim forsendum að fasteignafélagið G-7 ehf. hefði runnið inn í eignasafn stefnanda og því væri eign og skuld á sömu hendi. Hins vegar hafi hvorki ríkisskattstjóri né yfirskattanefnd fallist á að meðhöndla fjármagnskostnað vegna kaupa á eignarhlutum í Daníel Ólafssyni ehf. með sama hætti með þeim rökum að eftir samrunann hefði stefnandi greitt fjármagnskostnað vegna kaupanna en eignin hafi verið komin í hendur hluthafa Límonaðis ehf. Á þessi rök sé ekki hægt að fallast, enda hafi Daníel Ólafsson ehf. verið rekstarafélag, sem átti eignir og til féllu tekjur af starfsemi félagsins, og tekjurnar hafi runnið til stefnanda við samruna félaganna. Því sé ekki óeðlilegt að fjármagnsgjöld vegna öflunar þeirra eignarhluta,, sem tekjurnar stafi frá komi til frádráttar þeim tekjum. Límonaði ehf. hafi í mars 2007 greitt samtals 5.708.000.000 fyrir eignarhluti í stefnanda, Daníel Ólafssyni ehf. og fasteignafélaginu G-7 ehf. Kaupverðið hafi skipst þannig: eignarhlutir í stefnanda 3.674.000.000 krónur eða 64% af kaupverðinu, eignarhlutir í Daníel Ólafssyni ehf. 1.830.000.000 krónur, 32% af kaupverðinu og eignarhlutir í fasteignafélaginu G-7 ehf. 204.000.000 krónur eða 4% af kaupverðinu. Ef miðað væri við að lánsfjárhæðin skiptist milli þeirra eignarhluta sem keyptir voru af hálfu Límonaðis ehf. í stefnanda, Daníel Ólafssyni ehf. og fasteignafélagsins G-7 ehf. í hlutföllum út frá kaupverði eignarhlutanna, þá hafi að lágmarki 32% af hinni umþrættu lánsfjárhæð runnið til kaupanna á eignarhlutum í Daníel Ólafssyni ehf. Þannig beri því að líta á sem svo að 64% af þeim lánum, sem stöfuðu frá Límonaði ehf., hafi verið vegna kaupanna á eignarhlutum í stefnanda. Sé það hlutfall af upphaflegri lánsfjárhæð lagt til grundvallar en að öðru leyti forsendur ríkisskattstjóra fyrir hlutfalli ófrádráttarbærs fjármagnskostnaðar af heildar lánum stefnanda eftir fyrri endurfjármögnun 17. apríl 2008, lækki hlutfall ófrádráttarbærs kostnaðar úr 64,55% niður í um það bil 43%. Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að reikna beri út ófrádráttarbæran fjármagnskostnað vegna þess hluta lánsfjárhæðarinnar, sem hafi gengið til kaupa á eignarhlutum í stefnanda, miðað við að allar greiðslur inn á lán stefnanda hafi gengið til þess að greiða niður þann hluta lánsins sem hafi verið stefnanda hagstæðast miðað við forsendur ríkisskattstjóra. Myndi það leiða til þess að frádráttarbær fjármagnsgjöld yrðu hærri en miðað hafi verið við í úrskurðum ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar, á þeim forsendum annars vegar að miðað væri við að fjármagnsgjöld vegna þess lánshluta, sem ætli mætti að hafi farið til kaupanna á eignarhlutum í Daníel Ólafssyni ehf., teljist frádráttarbær, en hins vegar að sá hluti eigin fjár sem lagður hafi verið til kaupanna á eignarhlutum í stefnanda, Daníel Ólafssyni ehf. og fasteignafélaginu G-7, hafi allur runnið til kaupanna á eignarhlutum í stefnanda.   Í fjórða lagi vísar stefnandi til þess að í lok árs 2010 hafi hann gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu með nýju hlutafé og höfuðstólslækkun skulda. Nýr hlutahafi hafi gengið inn í félagið og greitt 850.000.000 króna inn á skuldir þess. Viðskiptabanki félagsins, Arion banki hf., hafi jafnframt eignast hlut í félaginu með því að breyta hluta krafna bankans á hendur félaginu samkvæmt lánasamningum í hlutafé, sem numið hafi um 472.000.000 króna. Þá hafi bankinn sömuleiðis leyst til sín hlutafé í fasteignafélaginu G-7 ehf. að verðmæti ríflega 205.000.000 króna en um leið hafi stefnandi framselt kröfu sína á hendur fasteignafélaginu G-7 ehf. að fjárhæð 26,7 milljónir króna en hvoru tveggja hafi gengið til lækkunar á lánum stefnanda hjá Arion banka hf. Þá hafi bankinn lækkað skuldir félagsins samkvæmt lánasamningum um ríflega 1.342 milljónir króna með höfuðstólsleiðréttingu. Um leið hafi eftirstöðvar eldri lánasamninga við Arion banka hf. verið gerðar upp með þremur nýjum samningum, samtals að fjárhæð 6.646 milljónum króna. Stefnandi telur að réttast sé að líta svo á að sú lækkun, sem hafi átt sér stað á lánsfjárhæðinni með nýju hlutafé, greiðslum og leiðréttingunni, eigi að koma fyrst til lækkunar á þeim hluta lánsfjárhæðinnar sem teljist tilheyra hinum ófrádráttarbæra hluta hennar að áliti ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar. Vísar stefnandi til bindandi álits ríkisskattstjóra nr. 02/14 þessu til stuðnings. Framangreint leiði til þess að ætlaður ófrádráttarbær hluti lánaskuldbindinganna hafi verið greiddur upp í árslok 2010 og frádráttarbær fjármagnskostnaður stefnanda gjaldárin 2011 og 2012 verði byggður á skattframtölum stefnanda þau ár. Í stefnu er gerð töluleg grein fyrir hækkun á frádráttarbærum fjármagnsgjöldum samkvæmt þessari kröfugerð stefnanda.                 Stefnandi byggir varakröfu sína um niðurfellingu 25% álags á því að samkvæmt heimildarákvæði ríkisskattstjóra um álagsbeitingu í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 sé ekki lögð skylda á ríkisskattstjóra að beita slíku álagi. Því hafi fyrst og fremst verið beitt þegar enginn vafi hafi ríkt eða mátt ríkja af hálfu skattaðila um að skattstofnar væru vantaldir í skattframtölum. Álagi hafi að öllu jöfnu ekki verið beitt í málum sem varði álitaefni um túlkun laga eða þegar skattaðilar hafi gert grein fyrir ráðstöfunum í skattskilum sínum. Þá vísar stefnandi til þess að samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skuli fella niður álag færi skattaðili rök fyrir því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali. Vegna þeirra fjölmörgu álitaefna sem séu uppi í þessu máli, fari beiting ríkisskattstjóra á ákvæðinu um álagsbeitingu gegn venjubundinni notkun þess í framkvæmd og reglum um meðalhóf. Samruninn hafi verið eðlilegur og löglegur og slíkir samrunar hafi tíðkast hér á landi árum saman, án athugasemda af hálfu skattayfirvalda. Upplýsingar um samrunann hafi legið fyrir skattstjóra með skýrum hætti allt frá árinu 2007 sem og upplýsingar um skuldir og eignir hvers félags fyrir sig og þá hafi komið fram með beinum hætti í skattframtölum að fært væri á móti tekjum skattalegt tap yfirtekinna félaga. Jafnframt hafi embætti ríkisskattstjóra verið fullkunnugt um tilhögun skattskila stefnanda en engu að síður hafi ekki verið gerðar athugasemdir við skattframtöl stefnanda, heldur þau lögð til grundvallar álagningu opinberra gjalda stefnanda umrædd gjaldár. Loks vísar stefnandi til þess að í frumvarpi, sem orðið hafi að lögum nr. 128/2009, hafi komið fram með ótvíræðum hætti að löggjafinn hafi talið slíkan vafa leika á um réttarstöðu við skattlagningu fyrirtækja við öfugan samruna að lagasetningar um hana væri þörf.                    Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á þeim lagaákvæðum, sem hér að framan er gerð grein fyrir, auk þess sem hann byggir málskostnaðarkröfu sína á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sér í lagi 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laganna. IV Stefndi hafnar öllum kröfum, málsástæðum og lagarökum stefnanda og krefst sýknu af kröfum stefnanda en til vara að þær verði lækkaðar. Varðandi meint vanhæfi Aðalsteins Hákonarsonar vegna ummæla hans í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 bendir stefndi á að í viðtalinu hafi ekki verið vikið sérstaklega að skattskilum stefnanda. Þá sé leitt í ljós að Aðalsteinn hafi látið af störfum sem yfirmaður eftirlitssviðs ríkisskattstjóra 4. febrúar 2013 og hafi því ekki komið að máli stefnanda þegar formlegur málarekstur gegn stefnanda hófst með bréfi, dagsettu 2. apríl 2013. Stefndi vísar að þessu leyti til úrskurðar yfirskattanefndar þar sem komi fram að með vísan til þess að starfsmaðurinn hafi þegar verið hættur störfum hafi ekki verið fyrir hendi starfstengsl, sem leitt geti til vanhæfis þeirra starfsmanna ríkisskattstjóra sem unnið hafi að málinu. Greiningarvinnan, sem þá hefði þegar farið fram, hafi eingöngu falist í öflun og yfirferð gagna frá hlutafélagaskrá og snúið að málaflokknum í heild en ekki sérstaklega að stefnanda. Þá bendir stefndi á að yfirskattanefnd hafi í úrskurði sínum vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 661/2006 þessu til stuðnings. Þá hafi yfirskattanefnd talið að engu breytti um ætlað vanhæfi þótt fallist væri á að andmælabréf stefnanda eða hluti þess hefði verið borið undir umræddan starfsmann.  Varðandi greinaskrif starfsmannsins í Tíund, tímariti ríkisskattstjóra, byggir stefndi á því að ummæli, sem höfð séu eftir starfsmanninum, séu almenn og aðeins séu dregin fram meginsjónarmið tekjuskattslaga. Á ríkisskattstjóra hvíli ákveðin upplýsinga- og leiðbeiningarskylda og almenn ummæli og umfjöllun ríkisskattstjóra um meginsjónarmið að baki tekjuskattslaga leiði ekki til þess að ríkisskattstjóri hafi tekið sérstaka afstöðu með starfmanninum. Um vanhæfi ríkisskattstjóra vísar stefndi enn fremur til niðurstöðu dóma Hæstaréttar Íslands í málum réttarins nr. 555/2012 og nr. 626/2010 en um sambærilega aðstöðu sé að ræða hjá málsaðilum í því máli og stefnanda í þessu máli. Þá hafi yfirskattanefnd komist að sömu niðurstöðu um vanhæfi ríkisskattstjóra í sambærilegum málum, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 38/2013. Stefndi vísar alfarið á bug fullyrðingu stefnanda um að annar tilgreindur starfsmaður ríkisskattstjóra hafi verið vanhæfur til þess að vinna að máli stefnanda vegna þess að akademískur heiður hans hafi verið í húfi. Loks mótmælir stefndi því að um breytta stjórnsýsluframkvæmd ríkisskattstjóra hafi verið að ræða í máli stefnanda. Stefndi mótmælir málsástæðum stefnanda um málshraða, tómlæti og réttmætar væntingar. Hann vísar til þess að ráðstafanir í andstöðu við lög geti ekki leitt til réttmætra væntinga. Þá hafi verið gætt jafnræðis við afgreiðslu máls stefnanda hjá ríkisskattstjóra, auk þess sem ekki hafi verið um að ræða breytingu á stjórnsýsluframkvæmd. Loks telur stefndi að ekki verði séð að óeðlileg töf hafi orðið á meðferð málsins og hafnar hann því tilvísun stefnanda til ákvæða 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefndi vísar til þess að finna megi meginreglu um tímamörk endurákvörðunar í 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt henni sé heimilt að endurákvarða opinber gjöld samkvæmt 96. gr. laganna vegna tekna og eigna síðustu sex ár sem næst séu á undan því ári þegar endurákvörðun fari fram. Hafi skattaðili hins vegar látið í té allar þær upplýsingar í framtali sínu eða fylgigögnum, sem byggja mætti rétta álagningu á, sé aðeins heimilt að endurákvarða skattaðila skatt vegna síðustu tveggja ára sem næst séu á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram, sbr. 2. mgr. 97. gr. sömu lagi. Í síðastgreindu lagaákvæði sé um að ræða undantekningu frá meginreglunni og beri því að skýra hana þröngt. Þá komi fram í athugasemdum í frumvarpi sem varð að lögum nr. 40/1978, um tekju- og eignarskatt, að við skýringu á 2. mgr. 97. gr. laga beri að hafa til hliðsjónar 95. gr. laganna og því hversu skamman tíma skattayfirvöld hafa til að fara yfir framtöl og fylgigögn, ásamt því að gera leiðréttingar áður en réttur til endurákvörðunar er liðinn. Samkvæmt 95. gr. laga nr. 90/2003 geti skattstjóri leiðrétt fjárhæðir einstakra liða, séu þeir í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattayfirvalda, svo og einstaka liði framtals ef telja megi að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi. Segi jafnframt að skattaðila skuli gert viðvart um slíkar breytingar. Framtöl stefnanda hafi ekki uppfyllt þessi skilyrði og því hafi reynst nauðsynlegt að óska eftir frekari skýringum um umrædd fjármagnsgjöld, enda hafi ekki verið unnt að greina á framtölum stefnanda einum og sér hvort fjármagnsgjöldin hefðu verið gjaldfærð í skattskilum félagsins og ef svo hefði verið, hefði einnig þurft að afla upplýsinga um það hversu há sú gjaldfærsla hafi verið. Framtalsgögn hafi því ekki, án skýringa, gefið fullnægjandi upplýsingar um umrædda gjaldfærslu fjármagnsgjalda svo á þeim mætti byggja rétta álagningu. Ríkisskattstjóra verði því ekki settar skorður vegna breytinga, sem hann gerði á umræddri gjaldfærslu, með vísan til 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003, en við ákvörðunina hafi verið gætt tímamarka sem um geti í 1. mgr. 97. gr. laganna. Máli sínu til stuðnings vísar stefndi til þess að efnisþáttur málsins sé í grundvallaratriðum sá sami og í dómum Hæstaréttar Íslands í málum réttarins nr. 555/2012 og 529/2013. Eignarhaldsfélag, sem hafi yfirtekið rekstarfélag með skuldsettum kaupum, hafi verið stofnað og að því búnu hafi eignarhaldsfélagið runnið inn í rekstarfélagið með öfugum samruna. Um leið hafi allar eignir og skuldir eignarhaldsfélagsins færst inn í rekstrarfélagið. Eina eign eignarhaldsfélagsins sé eignarhlutur í rekstrarfélaginu sem falli niður við samrunan því rekstrarfélagið geti ekki átt sig sjálft. Í rekstarfélaginu sitji eftir lánaskuldbindingar eignarhaldfélagsins sem rekstarfélagið greiði síðan af með rekstrartekjum sínum. Í kjölfarið dragi rekstrarfélagið vaxtagjöld vegna umræddra lánaskuldbindinga, óviðkomandi rekstri félagsins, frá hagnaði þess og um leið lækki skattgreiðslur þess. Liggi ljóst fyrir að lán Límonaðis ehf. hafi verið tekin til að greiða þáverandi eigendum stefnanda og Daníels Ólafssonar ehf. kaupverð hlutafjár í þeim félögum og því hafi þau verið ótengd rekstri stefnanda. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 555/2012 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að slíkar ráðstafanir teljist ekki heimilar samkvæmt gildandi lögum. Þá breyti hér engu þótt hin sameinuðu félög hafi verið þrjú en ekki tvö, líkt og í áðurnefndum dómum Hæstaréttar Íslands, enda hafi Daníel Ólafsson ehf., sem runnið hafi saman við stefnanda, verið að öllu leyti í sömu stöðu gagnvart Límonaði ehf. og stefnandi. Sömuleiðis breyti það engu þótt Límonaði ehf. hafi búið yfir verulegu eigin fé sem hafi verið nýtt til kaupa á hlutum í stefnanda. Þá teljist það ekki vera eðlismunur við skuldsetta yfirtöku, þótt um það sé að ræða að dótturfélag yfirtakið móðurfélag í stað þess að móðurfélag yfirtaki dótturfélag. Stefndi bendir á að túlka beri þröngri lögskýringu undanþágur í tekjuskattslögum frá almennum reglum um skattlagningu við slit félaga. Sömuleiðis hafi áralöng framkvæmd yfirskattanefndar og dómstóla verið á þann veg að ekki sé nægilegt að horfa til þess, hvort orðalagi 1. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003 sé fylgt, heldur beri að líta til samrunans í heild sinni. Því sé ljóst að vaxtagjöld af skuldum, sem stofnað sé til við þessar aðstæður, teljist jafnan ófrádráttarbær í skattskilum þegar skuldirnar eru ekki til komnar vegna öflunar tekna, til tryggingar þeirra eða viðhalds, sbr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Því beri að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnanda. Stefndi hafnar varakröfu stefnanda og þeim rökstuðningi sem hún er byggð á.  Varðandi rökstuðning stefnanda að umþrætt fjármagnsgjöld séu tilkomin vegna kaupa Límonaðis ehf. á eignarhlutum í fleiri félögum en í stefnanda, nánar tiltekið Daníel Ólafssyni ehf. og fasteignafélaginu G-7 ehf., telur stefndi að líta beri til þess að lántaka til kaupa á eignarhlutum í Daníel Ólafssyni ehf. standi ekki nær því að teljast varða tekjuöflun í rekstri stefnanda, ekki frekar en gilda myndi um lánveitingu til kaupa á hlutabréfum í stefnanda. Lántaka Límonaðis ehf. til kaupa á hlutabréfum í Daníel Ólafssyni ehf. og fasteignafélaginu G-7 ehf. hafi verið í þágu eiganda þess félags til öflunar eignarhluta í umræddum félögum og því beri að hafna kröfunni. Með sömu rökum beri að hafna sjónarmiðum stefnanda sem lúti að samsetningu fjármögnunar kaupa á eignarhlutum í stefnanda, enda byggist hún á sömu forsendu og áður, þ.e. að vaxtagjöld af lánum til öflunar eignarhluta í Daníel Ólafssyni ehf. teljist frádráttarbær í rekstri stefnanda. Stefndi hafnar málsástæðu stefnanda um að allar greiðslur, sem hafi átt sér stað inn á lán stefnanda, hafi gengið til að greiða niður þann hluta lánsins sem hafi verið stefnanda hagstæðastur, þ.e. þann hluta lánanna sem ekki teljist bera frádráttarbær vaxtagjöld. Þá hafnar stefndi því að almenn höfuðstólslækkun skulda, hækkun hlutafjár og aðrar ráðstafanir í tengslum við endurskipulagningu stefnanda á árinu 2010, sem hafi leitt til lækkunar á skuldum hans um rúmlega 2,8 milljarða króna, skuli fyrst koma til lækkunar á þeim hluta skuldar stefnanda, sem teljist í skattalegu tilliti tilheyra þeim hluta skulda sem sé óviðkomandi rekstri stefnanda, ásamt ófrádráttarbærum vaxtagjöldum af þeim hluta skuldar. Umrætt skuldabréfalán Límonaðis ehf. hafi verið að fjárhæð 3.700.914.902 krónur en það hafi verið endurfjármagnað í apríl 2008 og rekstur stefnanda endurnýjaður á nýjan leik í desember 2010. Ríkisskattstjóri hafi byggt á því í úrskurði sínum 20. desember 2013, að við fyrri endurfjármögnun stefnanda hefðu eftirstöðvar upphaflegs láns numið 64,5% af nýja láninu, með tilliti til fjárfestingar í hlutafé í fasteignafélaginu G-7 ehf., þannig að fjármagnskostnaður vegna hins nýja láns teldist ófrádráttarbær með því hlutfalli. Ríkisskattstjóri hafi áætlað skiptingu samkvæmt því hlutfalli í frádráttarbæran og ófrádráttarbæran fjármagnskostnað og þannig hafi verið reynt að afmarka ófrádráttarbæran fjármagnskostnað með þeim hætti að hvorki meiri né minni kostnaður yrði felldur niður en sá sem leiða mætti af þeim lánaskuldbindingum sem færst hefðu yfir á efnahagsreikning stefnanda með samrunanum við Límonaði ehf. Almennar afborganir af nýjum lánum frá því í apríl 2008 geti ekki talist tilheyra eingöngu þeim hluta lánanna sem hafi verið varið til að endurfjármagna hið yfirtekna lán frá Límonaði ehf. Þá sé ljóst að endurskipulagning á fjárhag stefnanda í desember 2010 hafi tekið til rekstrar stefnanda í heild en hafi ekki verið einskorðuð við skuldir stefnanda vegna lántöku Límonaðis ehf. frá árinu 2007. Varðandi vísun stefnanda í bindandi álit ríkisskattstjóra frá 30. september 2014, vísar stefndi til þess að álitið snúi að framtíðarráðstöfunum stefnanda en ekki þannig að það hafi afturvirk áhrif eða haggi í einhverju afborgunum af lánum, sem þegar hafi verið inntar af hendi, þannig að almennar afborganir inn á höfuðstól láns renni einungis inn á þann hluta láns sem telst grundvöllur ófrádráttarbærra vaxtagjalda. Um hafi verið að ræða álit á fyrirhugaðri skiptingu láns. Krafa um niðurfellingu álags Stefndi mótmælir kröfu kröfu stefnanda um niðurfellingu álags og bendir á að í málinu hafi stefnandi fært fjármagnskostnað ranglega inn á skattframtöl sín og því ekki uppfyllt skilyrði 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 49. gr. sömu laga. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á eða fært rök fyrir því að fella eigi niður álag með vísan til 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Séu aðstæður í þessu máli sambærilegar og í dómi Hæstaréttar í máli 555/2012 þar sem kröfu um niðurfellingu álags hafi verið hafnað. Vísun stefnanda í frumvarp, sem orðið hafi að lögum 128/2009, breyti hér engu, enda hafi umrætt ákvæði verið fellt úr frumvarpinu en með dómi héraðsdóms Reykjavíkur E-4614/2011, sem hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 555/2012, hafi verið skorið úr sambærilegum ágreining. Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr.  V Stefnandi byggir aðalkröfu sína bæði á formlegum og efnislegum rökum. Varðandi formhlið málsins er á því byggt að ríkisskattstjóri og starfsmenn hans hafi verið vanhæfir til að fjalla um mál stefnanda, einnig byggir stefnandi á því að tómlæti og réttmætar væntingar hans eigi að leiða til ógildingar úrskurða ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar. Þá hafi tímafrestir til endurákvörðunar skatta stefnanda vegna gjaldársins 2008, tekjuársins 2007 verið liðnir. Um vanhæfi skattayfirvalda er fjallað í 104. gr. laga nr. 90/2003 en þar segir að maður megi ekki taka þátt í rannsókn eða annarri meðferð máls, hvorki skattákvörðun né kæru, ef honum hefði borið að víkja sæti sem héraðsdómari í málinu. Í a-g-liðum 5. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 eru raktar þær ástæður sem geta valdið vanhæfi héraðsdómara. Stefnandi byggir á því að starfsmenn ríkisskattstjóra hafi verið vanhæfir til meðferðar málsins þar sem draga mætti óhlutdrægni þeirra í efa, sbr. ákvæði g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi bendir á að atvik þessa máls séu með talsvert öðrum hætti en í öðrum dómsmálum þar sem vikið hafi verið að hæfi ríkisskattstjóra og starfsmönnum hans. Í þeim málum þar sem ekki hafi verið fallist á málsástæður um ómerkingu úrskurða vegna ætlaðs vanhæfis ríkisskattstjóra eða starfsmanna hans, hafi verið byggt á því að mál hlutaðeigandi skattaðila hafi ekki til umfjöllunar eða þeir nefndir á nafn. Í þessu máli hafi yfirmaður eftirlitssviðs ríkisskattstjóra, Aðalsteinn Hákonarson, hins vegar komið fram á opinberum vettvangi, utan Tíundar, hins faglega tímarits ríkisskattstjóra, og tjáð sig um málefni stefnanda með beinum hætti. Samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra, dagsettum 20. desember 2013, lét Aðalsteinn af störfum hjá eftirlitssviði ríkisskattstjóra 4. febrúar 2013. Samkvæmt gögnum málsins hófst formlegur málarekstur gegn stefnanda með bréfi ríkisskattstjóra, dagsettu 2. apríl 2013. Starfsmaðurinn hafði því látið af störfum þegar málefni stefnanda voru tekin til skoðunar. Þá er því lýst í úrskurðinum að sú greiningarvinna, sem hafði farið fram áður en málefni stefnanda voru tekin til formlegrar athugunar, hafi einungis falist í yfirferð gagna sem skilað hafi verið inn til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra og vörðuðu samruna almennt. Ekkert hefur komið fram í málinu sem leiðir líkur að því að því að Aðalsteinn hafi komið að meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra og þá hefur hvorki með haldbærum rökum né gögnum verið færðar sönnur fyrir því að hann hafi enn verið að störfum hjá eftirlitssviði ríkisskattstjóra þegar meðferð máls stefnanda hófst hjá ríkisskattstjóra eða að hann hafi með einhverjum hætti komið að úrlausn þess. Þar sem Aðalsteinn hafði lokið störfum hjá eftirlitssviði ríkisskattstjóra þegar formlegur málarekstur gegn stefnanda hófst 2. apríl 2013 er þegar af þeirri ástæðu ekki unnt að fallast á þá málsástæðu stefnanda að fyrir hafi legið vanhæfi Aðalsteins sem valdi því að fella beri úr gildi úrskurði ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar í máli stefnanda. Með sömu rökum þykir engu breyta um þá niðurstöðu, þótt andmælabréf lögmanns stefnanda frá 9. desember 2013 hafi verið borið undir Aðalstein, enda var í því vísað til ummæla starfsmannsins og því ekki óeðlilegt að borið væri undir hann hvort í bréfinu væri rétt eftir honum haft. Í ljósi framangreinds er það jafnframt niðurstaða dómsins að tilvitnuð ummæli Aðalsteins í fréttamiðlum, greinaskrifum og í tölvuskeyti hans til lögmanns stefnanda, sem dagsett er eftir að hann lét af störfum á eftirlitssviði ríkisskattstjóra, geti engu breytt við úrlausn málsins að þessu leyti. Óumdeilt er að Sveinn Gíslason kom að vinnu við úrlausn á máli stefnanda sem starfsmaður ríkisskattstjóra. Af hálfu stefnanda er byggt á því að hann hafi verið vanhæfur til þeirrar aðkomu að málinu þar sem hann hafi komist að þeirri niðurstöðu í lokaritgerð sinni í lögfræði við Háskólann á Bifröst að vaxtagjöld, sem falla til eftir samruna eignarhaldsfélags og rekstrarfélags og séu til komin vegna þeirra lánaskuldbindinga sem stofnað hafi verið til vegna skuldsettrar yfirtöku á rekstrarfélaginu, teljist ekki vera frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tölulið 31. gr., sbr. 1. mgr. 49. gr., laga nr. 90/2003. Ekki verður fallist á það með stefnanda að almenn ummæli og niðurstaða starfsmannsins um tilvitnuð ákvæði tekjuskattslaga í ritgerð, sem samkvæmt lýsingu í stefnu var rituð þegar hann var enn við nám háskóla í júní 2011, geti talist vera atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans við úrlausn á máli stefnanda löngu síðar með réttu í efa. Sjónarmið stefnanda sem lúta að akademískum heiðri Sveins eru ekki studd haldbærum rökum og verður því ekki á þeim byggt. Að þessu virtu og í ljósi þess, sem áður er komið fram um að Aðalsteinn Hákonarson, fyrrverandi yfirmaður Sveins, hafi verið hættur störfum þegar unnið var að máli stefnanda hjá eftirlitssviði ríkisskattstjóra og hafi því ekki komið að úrlausn þess, og þar stefnandi hefur ekki fært fram önnur rök til stuðnings málsástæðu sinni um vanhæfi Sveins Gíslasonar, verður ekki á hana fallist. Með vísan til alls framangreinds og þar sem ekki verður séð að úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar í máli stefnanda beri með einhverjum hætti merki um hlutdrægni verður ekki á það fallist með stefnanda að fella beri umrædda úrskurði yfirskattanefndar og ríkisskattstjóra úr gildi á grundvelli vanhæfis.    Stefnandi byggir aðalkröfu sína jafnframt á því, að óeðlilega langur tími hafi liðið frá því að ríkisskattstjóra hafi verið kunnugt um hvernig staðið hefði verið að samruna stefnanda og skattskilum hans þar til ríkisskattstjóri óskaði eftir frekari útskýringum varðandi tiltekna liði í skattskilum hans. Ljóst sé að ríkisskattstjóri hafi vitað hvernig málefnum stefnanda væri háttað 2. desember 2009 þegar umræddur starfsmaður hafi í viðtali í fréttatíma Stöðvar 2 tjáð sig með beinum hætti um málefni stefnanda. Með tómlæti og athafnaleysi sínu hafi ríkisskattstjóri skapað stefnanda, hluthöfum hans og kröfuhöfum réttmætar væntingar um að ekkert yrði aðhafst í málefnum hans. Þetta hafi leitt til aðgerða af hans hálfu sem ekki hefðu verið framkvæmdar ef fyrirfram hefði verið vitað hvert stefndi. Fram kemur í úrskurði ríkisskattstjóra, dagsettum 20. desember 2013, að ríkisskattstjóra hafi á þeim tímapunkti þegar starfsmaðurinn viðhafði umrædd ummæli ekki verið kunnugt um það að mál stefnanda hafi verið til sérstakrar skoðunar hjá embættinu. Málefni stefnanda hafi ekki komið til skoðunar fyrr en fyrri hluta árs 2013 eftir yfirgripsmikla greiningarvinnu á þeim gögnum sem hafi verið skilað inn til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra. Mál stefnanda hafi farið í sama ferli og önnur sambærileg mál í þessum málaflokki. Ríkisskattstjóri hafi ekki tekið mál stefnanda til skoðunar fyrr en fyrri hluta árs 2013 og hafið formlega skoðun á málefnum hans með bréfi, dagsettu 2. apríl 2013. Því sé ekki um að ræða tómlæti, athafnaleysi eða óeðlilega langan aðdraganda að meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra. Ekkert er komið fram í málinu sem bendir til þess að framangreindar yfirlýsingar ríkisskattstjóra séu rangar. Að því virtu verður ekki fallist á það með stefnanda að ríkisskattstjóri hafi með tómlæti skapað honum eða öðrum tilgreindum aðilum réttmætar væntingar um framhald máls stefnanda hjá ríkisskattstjóra. Með sömu rökum verður ekki byggt á sjónarmiðum stefnanda um að hann hefði hagað málum sínum með öðrum hætti en hann gerði og er þeim því hafnað.  Stefnandi byggir á því að allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn hafi legið fyrir til grundvallar réttri álagningu vegna gjaldársins 2008 og tekjuársins 2007. Tímafrestir endurákvörðunar skatta stefnanda fyrir það ár hafi því verið liðnir með vísan til 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 þegar ríkisskattstjóri ákvað að endurákvarða opinber gjöld stefnanda. Meginreglu um tímamörk endurákvörðunar opinberra gjalda er að finna í 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt þeirri reglu nær heimild til endurákvörðunar skatta samkvæmt 96. gr. sömu laga til skatts vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Undantekningarreglu er að finna í 2. mgr. 97. gr. laganna. Samkvæmt þeirri reglu er aðeins heimilt að endurákvarða framteljanda skatt vegna síðustu tveggja ára, sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram, að því skilyrði uppfylltu að framteljandi hafi látið í té í framtali sínu eða fylgigögnum fullnægjandi upplýsingar sem byggja megi rétta álagningu á. Ef í ljós kemur fyrir eða eftir álagningu að framtal, einstakir liðir þess eða fylgigögn eru ófullnægjandi, óglögg eða tortryggileg, eigi skráð á lögmætan hátt eða ófullnægjandi undirrituð, eða að ríkisskattstjóri telur frekari skýringa þörf á einhverju atriði, skal hann skriflega skora á framteljanda að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té skriflegar skýringar og þau gögn sem ríkisskattstjóri telur þörf á að fá. Fái ríkisskattstjóri umbeðin gögn og telji hann þau fullnægjandi, endurákvarðar hann skattinn samkvæmt framtali og að fengnum skýringum og gögnum og eftir atvikum að viðbættu álagi. Sé hins vegar ekki bætt úr annmörkum á framtali, svar frá framteljanda berst ekki innan tiltekins tíma, skýringar hans eru ófullnægjandi, ekki eru send þau gögn, sem óskað er eftir, gögnin eru ófullnægjandi eða tortryggileg eða önnur þau gögn sem skattframtal byggir á verða ekki talin nægilega örugg um atvinnurekstur eða starfsemi skattaðila, skal ríkisskattstjóri áætla tekjur og eign skattaðila svo ríflega að eigi sé hætt við að fjárhæðir séu áætlaðar lægri en þær eru í raun og veru og ákvarða eða endurákvarða skatta hans í samræmi við þá áætlun og eftir atvikum að viðbættu álagi, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Með bréfum ríkisskattstjóra, dagsettum 2. apríl 2013, 12. júní 2013 og 12. júlí sama ár, óskaði ríkisskattstjóri eftir útskýringum vegna tiltekinna liða í skattframtali stefnanda. Stefnandi svaraði fyrirspurnum ríkisskattstjóra með bréfum, dagsettum 24. apríl 2013, 8. júlí 2013 og 12. ágúst 2013. Liggur því ekki annað fyrir í málinu en að ríkisskattstjóra hafi verið ógerlegt að greina af framtalinu eða fylgigögnum hvort umrædd fjármagnsgjöld hefðu verið gjaldfærð í skattskilum félagins og ef svo hafi verið hversu há sú gjaldfærsla var. Fullnægjandi upplýsingar fengust því ekki af framtalsgögnum svo byggja mætti rétta álagningu á þeim. Eins og hér stóð á var ríkisskattstjóra því ekki heimilt að breyta skattframtölum stefnanda á grundvelli 1. mgr. 95. gr. laganna, án þess að leita áður skýringa stefnanda og gefa honum kost á andmælum. Því átti regla 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 um tveggja ára frest til endurákvörðunar opinberra gjalda ekki við í málinu, heldur meginregla 1. mgr. sömu lagagreinar þar sem mælt er fyrir um heimild til endurákvörðunar skatta samkvæmt 96. gr. laganna vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Ekki verður fallist á það með stefnanda að möguleiki ríkisskattstjóra á öflun upplýsinga úr Hlutafélagaskrá leiði til þess að framangreind meginregla teljist ekki eiga við í málinu svo sem það liggur fyrir. Að þessu virtu og með vísan til þess, sem þegar hefur verið lýst um málavexti við rannsókn og meðferð á máli stefnanda hjá ríkisskattstjóra, verður ekki fallist á það með stefnanda að ríkisskattstjóri hafi sýnt af sér tómlæti við málsmeðferðina.  Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að samruni hans við Límonaði ehf. og Daníel Ólafsson ehf. hafi grundvallast á rekstrarlegum ástæðum og að skattalegar ástæður hafi ekki hafi legið til grundvallar samrunanum. Vísar stefnandi því til stuðnings til þess að fyrir samrunann hafi félögin myndað samstæðu, sem unnt hefið verið að skattleggja sameiginlega á grundvelli 55. gr. laga nr. 90/2003, og ljóst sé að til samrunans hefði ekki komið ef stefnandi hefði gert sér grein fyrir því að núverandi staða kæmi upp. Loks byggir stefnandi á því að lög setji því engin skilyrði hvaða félag geti verið yfirtökufélag við samruna tveggja eða fleiri félaga og að svokallaðir öfugir, lóðréttir samrunar með yfirfærslum allra skattaréttarlegra réttinda og skyldna yfirtekna félagsins til yfirtökufélagsins hafi farið fram athugasemdalaust árum saman. Tilgreind fordæmi í dómum Hæstaréttar Íslands í málum réttarins nr. 555/2012 og 529/2013 eigi ekki við í máli þessu svo sem byggt sé á í umræddum úrskurðum ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar. Í úrskurðum ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar er atvikum í aðdraganda samruna stefnanda, Límonaðis ehf. og Daníels Ólafssonar ehf. lýst með ítarlegum hætti. Enginn ágreiningur virðist vera um þá lýsingu og þá liggur fyrir að ekki er tölulegur ágreiningur milli málsaðila. Í stefnu er því lýst að stefnandi, Límonaði ehf. og Daníel Ólafsson ehf. hafi verið sameinaðir með samruna þannig að Límonaði ehf. og Daníel Ólafsson ehf. hafi runnið inn í stefnanda 31. ágúst 2007. Við samrunann hafi lánaskuldbindingar Límonaðis ehf. færst til stefnanda sem þar með hafi tekið við því að greiða af þeim. Af hálfu stefnanda er byggt á því að vegna þessa séu vextir af lánaskuldbindingum frádráttarbærir í skattskilum stefnanda, rétt eins og þeir hefðu verið hjá Límonaði ehf. í samræmi við ákvæði 1. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003. Í 1. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003 segir að sé hlutafélagi slitið þannig að það sé algjörlega sameinað öðru hlutafélagi og hluthafar í fyrrnefnda félaginu fái eingöngu hlutabréf í síðarnefnda félaginu sem gagngjald fyrir hlutafé sitt í félagi því sem slitið var, þá skuli skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann, sem hlutabréfin lét af hendi. Síðan er tekið fram í lokamálslið lagagreinarinnar að við slíkan samruna hlutafélaga skuli það félag, sem við tekur, taka vð öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum þess félags sem slitið var. Ákvæði lokamálsliðarins verða ekki skýrð óháð öðrum ákvæðum laga nr. 90/2003 og ber því jafnframt að líta til ákvæða 31. gr. um frádrátt frá tekjum lögaðila sem stafa af atvinnurekstri og 49. gr. sömu laga þar sem er að finna nánari skilgreiningu á frádráttarbærum vöxtum, afföllum gengistapi samkvæmt 1. tölulið 31. gr. laganna.  Í dómaframkvæmd hefur verið litið svo á að sú almenna regla felist í 1. tölulið 31. gr. laga nr. 90/2003 að rekstrarkostnaður, sem draga má frá tekjum, skuli vera tengdur tekjuöflun í rekstrinum ár árinu. Þá sé í 2. mgr. 49. gr. laganna tekið af skarið um að þau rekstrargjöld, sem í 1. mgr. þeirrar greinar sé sérstaklega fjallað um, séu því aðeins frádráttarbær að fullu að þau séu tengd atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Af því leiðir að vextir, afföll og gengistap, sem ekki uppfylli það skilyrði, séu því ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður í skilningi framangreindra lagaákvæða. Óumdeilt er að lán Límonaðis ehf. voru tekin í þágu eigenda þess félags til þess að greiða þáverandi eigendum stefnanda og Daníels Ólafssonar ehf. kaupverð hlutafjár í þeim félögum. Verður því ekki talið að lántakan hafi varðað rekstur stefnanda eftir samruna hans við Límonaði ehf. og Daníel Ólafsson ehf. og teljast vextir vegna hennar því ekki til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar stefnanda í skilningi 1. töluliðar 31. gr. laganna. Ekki verður séð að lántaka til að fjármagna kaup á hlutum í Daníel Ólafssyni ehf. teljist frekar varða tekjuöflun í rekstri stefnanda en gilti um lánveitingu vegna kaupa á hlutabréfum í stefnanda. Hins vegar var því öðruvísi farið þegar stefnandi eignaðist hlut í Fasteignafélaginu G-7 ehf. Því er ómótmælt að svo virðist sem Fasteignafélagið G-7 ehf. hafi ekki verið sameinað stefnanda, heldur hafi stefnandi eignast hlutabréfin, sem Límonaði ehf. átti í félaginu, við samruna félaganna. Þá komst eign og skuld á sömu hendi og því var sá hluti lánanna, sem notaður var til að fjárfesta í Fasteignafélaginu G-7 ehf., frádráttarbær í skattskilum stefnanda, svo sem ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd byggðu niðurstöður sínar á. Í ljósi alls framangreinds verður því, þegar af framangreindum ástæðum, að fallast á þá niðurstöðu ríkisskattstjóra að heimildin til að framkvæma skattfrjálsan samruna samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003 færi stefnanda ekki ríkari rétt til gjaldfærslu rekstrarkostnaðar en 31. gr. sömu laga heimilar. Liggur fyrir í málinu að yfirskattanefnd komst að sömu niðurstöðu. Í ljósi þessarar niðurstöðu dómsins verður ekki fallist á það með stefnanda að neinu skipti við úrlausn þessa máls þótt um sameiningu þriggja félaga hafi verið að ræða, enda hefur stefnandi ekki fært fram haldbær rök fyrir þeim sjónarmiðum sínum. Þá er ósannað í málinu að í framkvæmd hafi skapast venja um þau ágreiningsatriði, sem uppi er í máli þessu, sem leiði til annarrar niðurstöðu en hér að framan er komist að. Ekki verður að öðru leyti séð að umræddir úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar hafi byggst á ómálefnalegum og ólögmætum sjónarmiðum, hvorki að stjórnsýslulögum né með öðrum hætti. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að ekki séu efni til að fallast á málsástæður stefnanda fyrir aðalkröfu sinni um niðurfellingu úrskurðar yfirskattanefndar nr. 103/2015 og úrskurðar ríkisskattstjóra frá 20. desember 2013 og um greiðslu 582.755.417 króna með dráttarvöxtum, svo sem nánar er lýst í stefnu. Verður stefndi því sýknaður af aðalkröfu stefnanda. Stefnandi gerir þá kröfu til vara að fellt verði niður 25% álag sem ríkisskattstjóri bætti við skattstofna stefnanda gjaldárin 2010, 2011 og 2012. Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 er ríkisskattstjóra heimilt að bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna, séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr. laganna, eða einstakir liðir ranglega framtaldir. Færi skattaðili rök fyrir því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali, bæri úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess skal fella niður álag, sbr. 3. mgr. 108. gr. sömu laga. Fyrir liggur að ríkisskattstjóra var nauðsynlegt að óska eftir frekari upplýsingum hjá stefnanda varðandi skattskil hans svo unnt væri að leggja mat á skattskyldu hans. Samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar nr. 103/2015 var staðfest að stefnandi hefði fært ranglega í skattframtöl sín til gjalda fjármagnskostnað sem ekki uppfyllti skilyrði 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 49. gr. sömu laga. Stefnandi hefur heldur ekki með haldbærum rökum sýnt fram á að skilyrði fyrir beitingu 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 hafi verið uppfyllt í málinu með þeim hætti að hann hafi fært rök að því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma eða að hann hafi bætt úr annmörkum á framtali eða leiðrétt einstaka liði þess. Vegna þessa voru aðstæður í málinu þær, sem lýst er í 96. gr. laga nr. 90/2003, og voru því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 108. gr. sömu laga til beitingar 25% álags, svo sem gert var. Í þessu ljósi verður að telja að fullt tilefni hafi verið til þess að beita álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laganna, eins og gert var í úrskurði ríkisskattstjóra. Þá er ekkert fram komið í málinu sem styður að öðru leyti þau sjónarmið stefnanda að við ákvörðun um álag hafi ekki verið gætt meðalhófs. Vísun stefnanda til ummæla í frumvarpi, sem varð að lögum nr. 128/2009, sem sýni réttaróvissu og sem skattyfirvöld hafi talið þörf á að bregðast við með sérstakri lagasetningu haustið 2009, þykir engu breyta um þessa niðurstöðu. Að þessu virtu og með vísan til dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands, m.a. í dómi í máli réttarins nr. 555/2012, verður kröfu stefnanda um niðurfellingu álags hafnað.  Varakrafa stefnanda að öðru leyti er byggð á málsástæðum, sem samkvæmt stefnu sækja stoð í tvenns konar sjónarmið, annars vegar á grundvelli eðli máls og hins vegar á grundvelli meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefnandi kveður varakröfuna að þessu leyti byggja á ítrustu kröfum. Hér að framan hefur dómurinn komist að því að fjármagnsgjöld stefnanda eftir samruna hans við Límonaði ehf. og Daníel Ólafsson ehf. teljist ekki til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar stefnanda í skilningi 1. töluliðar 31. gr. laganna. Ekki verður séð að lántaka til að fjármagna kaup á hlutum í Daníel Ólafssyni ehf. teljist frekar varða tekjuöflun í rekstri stefnanda en gilti um lánveitingu vegna kaupa á hlutabréfum í stefnanda. Þá hefur dómurinn fallist á niðurstöðu ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar í úrskurðum þeirra um það, hvernig haga skuli frádrætti fjármagnskostnaðar við skattskil stefnanda á umræddu árabili og jafnframt forsendur úrskurðanna um það, hvað teljist vera frádráttarbær fjármagnskostnaður í máli stefnanda vegna umræddra viðskipta stefnanda. Fallast verður á að almennar afborganir af lánum frá því í apríl 2008 geti ekki talist tilheyra eingöngu þeim hluta þeirra sem hafi verið varið til að endurfjármagna yfirtekin lán frá Límonaði ehf. Jafnframt verður að líta svo á að endurskipulagning á fjárhag stefnanda í desember 2010 hafi tekið til rekstrar hans í heild en hafi ekki verið einskorðuð við skuldir stefnanda vegna lántöku Límonaðis ehf. frá árinu 2007, svo sem stefnandi gerir ráð fyrir í kröfugerð sinni. Loks verður vísan stefnanda til bindandi álits ríkisskattstjóra frá 30. september 2014 ekki talin styðja varakröfu stefnanda eins og hún er fram sett, enda er álitið byggt á tilteknum forsendum til framtíðar og getur því ekki talist hafa að geyma einhvers konar úrlausn embættisins vegna þess ágreinings sem hér er til meðferðar.   Varakrafa stefnanda byggir í raun á forsendum, sem tekin var afstaða til í þeim úrskurðum sem dómurinn telur ekki háða annmörkum hvað varðar form eða efni. Stefnandi hefur ekki fært frekari rök fyrir þessari varakröfu sinni sem teljast haldbær í því ljósi. Varakrafa stefnanda verður því ekki tekin til greina og ber að sýkna stefnda af henni. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að hafna beri bæði aðal- og varakröfum stefnanda en fyrir liggur að fjárkröfur í stefnu byggjast einnig á þeim málsástæðum sem hér að framan hefur verið hafnað. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu.  Í ljósi niðurstöðu málsins og að teknu tilliti til meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna. Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D ó m s o r ð: Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Ölgerðar Egils Skallagrímssonar ehf., í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda 1.000.000 króna í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.
Mál nr. 798/2017
Húsfélag Skaðabætur Matsgerð
Húsfélag fjöleignarhússins að L í Garðabæ höfðaði mál til heimtu skaðabóta vegna galla í utanhússklæðningu hússins. Beindi húsfélagið kröfum sínum aðallega að bankanum A hf. á þeim grundvelli að hann hefði í raun verið eigandi og byggingaraðili hússins eftir að hafa yfirtekið L ehf., sem áður hafði staðið að byggingu þess. Til vara beindi húsfélagið kröfum sínum að sveitarfélaginu G og byggingarstjóranum J. Fyrir lá að húsfélagið og A hf. höfðu áður gert með sér samkomulag um fullnaðaruppgjör á kostnaði við úrbætur á fjöleignarhúsinu, en húsfélagið byggði á því að umfang gallans hefði verið stórlega vanáætlað í samkomulaginu og forsendur þess því brostið. Héraðsdómur féllst á að A hf. hefði í raun stjórnað L ehf. frá því að húsið varð fokhelt og að húsfélaginu væri því rétt að beina kröfum sínum að bankanum. Féllst dómurinn jafnframt á að húsfélaginu hefði ekki verið umfang gallans ljóst er gengið var til samkomulagsins og vék því til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Var krafa húsfélagsins á hendur A hf. því tekin til greina. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms að A hf. hefði í raun haft öll ráð L ehf. í hendi sér og farið með allt forræði á því hvernig ljúka skyldi við byggingu hússins. Hefði bankinn tekið ákvörðun um að leita ódýrari lausna við bygginguna, þar með talið að notast við aðra einangrun og múrklæðningu heldur en aðalhönnuður hússins hafði mælt fyrir um og samþykktar teikningar hefðu gert ráð fyrir. Samkvæmt matsgerð dómkvadds manns uppfyllti sú einangrun og múrklæðning ekki kröfur byggingarreglugerðar og laga um brunvarnir og mætti rekja orsök þeirra skemmda sem krafist væri bóta fyrir til þessa. Var niðurstaða héraðsdóms um skaðabótaábyrgð A hf. því staðfest. Þá staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að víkja bæri samkomulagi aðila til hliðar, meðal annars með vísan til þess að A hf. hefði borið ábyrgð á þeirri ákvörðun að setja aðra einangrun og múrklæðningu á útveggi hússins. Var hinn áfrýjaði dómur samkvæmt því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2017. Hann krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar úr hendi gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti. Til vara krefst aðaláfrýjandi þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 149.027.350 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. júní 2016 til greiðsludags, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 21. desember 2017. Hann krefst sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar úr hendi hans í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast hvor um sig staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar úr hendi aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti.     I Aðaláfrýjandi er húsfélag fjöleignarhússins að Löngulínu 2 í Garðabæ. Aðild sína að málinu reisir félagið á 3. mgr. 71. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Verður ekki litið svo á að ágreiningur sé um að aðaláfrýjandi sé bær til þess að fara með þá kröfu sem hann hefur uppi í málinu. Gagnáfrýjandi, sem áður hét Nýi Kaupþing banki hf., var stofnaður í því skyni að taka yfir tilteknar eignir og skuldbindingar Kaupþings banka hf. eftir að Fjármálaeftirlitið hafði 9. október 2008 á grundvelli heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, vikið stjórn bankans frá, tekið yfir vald hluthafafundar í honum og sett yfir hann skilanefnd. Er ágreiningslaust að kröfur vegna lána sem Kaupþing banki hf. hafði veitt til byggingar hússins að Löngulínu 2 voru meðal þess sem fluttist yfir til hins nýstofnaða banka. Aðaláfrýjandi reisir kröfu sína í málinu um skaðabætur úr hendi gagnáfrýjanda á því að Kaupþing banki hf. hafi fjármagnað með lánsfé byggingu hússins að Löngulínu 2. Gagnáfrýjandi hafi yfirtekið réttindi og skyldur þess banka að því er laut að fjármögnuninni. Ris ehf. hafi upphaflega staðið að byggingu hússins en selt flestar íbúðir í því til Riss fjárfestinga ehf. í lok árs 2008 og hafi nafni þess félags svo verið breytt í Löngulínu 2 ehf. Þegar gagnáfrýjandi hafi yfirtekið þau réttindi og skyldur Kaupþings banka hf. sem hér um ræðir hafi húsið verið fokhelt. Langalína 2 ehf., þá Ris fjárfestingar ehf., hafi samkvæmt ársreikningi verið svo gott sem eignalaust 31. desember 2008 og í árslok 2009 hafi eigið fé þess verið neikvætt um 1.161.000.000 krónur og ári síðar um 1.547.000.000 krónur. Aðaláfrýjandi heldur því fram að gagnáfrýjandi beri ábyrgð á ákvörðunum um endanlega gerð einangrunar og múrklæðningar á útveggjum hússins og annan frágang, sem haldinn sé miklum ágöllum. Mikilla endurbóta sé þörf á gerð og frágangi utanhússklæðningarinnar en það hafi í för með sér mikinn kostnað fyrir aðaláfrýjanda, sem hann krefjist í málinu að fá bættan. II Gagnáfrýjandi, sem virðist hafa verið eini lánardrottinn Löngulínu 2 ehf., tók ákvörðun um að halda áfram að fjármagna byggingu hússins og ljúka því. Hann lét þinglýsa kvöð á fjöleignarhúsið í desember 2008 þar sem lagt var bann við því að Ris ehf., sem þá var enn þinglýstur eigandi hússins, seldi það eða hluta þess eða veðsetti án skriflegs samþykkis gagnáfrýjanda. Kvaðarinnar er getið í afsali til Riss fjárfestinga ehf., sem samkvæmt því fékk húsið afhent 31. desember 2008. Gagnáfrýjandi hafði frá 14. ágúst 2009 veð í öllum hlutum í Löngulínu 2 ehf. en eignaðist þá fyrst í maí 2010 og tók fulltrúi hans um það leyti sæti í stjórn félagsins. Fyrri eigendur hluta í Löngulínu 2 ehf. munu ekki hafa haft bolmagn til þess að halda áfram byggingu hússins og verður lagt til grundvallar að fjárhagslegir hagsmunir þeirra sem eigenda hafi verið upp urnir vegna slæmrar stöðu félagsins. Gagnáfrýjandi hafði við framangreindar aðstæður þegar í árslok 2008 einn nánast alla fjárhagslega hagsmuni sem tengdust því að ljúka við byggingu fjöleignarhússins og freista með sölu íbúða í því að takmarka tjón sitt svo sem kostur var með því að taka til sín söluverðið. Sölu íbúða í húsinu lauk samkvæmt þeim gögnum, sem lögð hafa verið fram í málinu, á árinu 2010. Vottorð um lokaúttekt vegna byggingar þess var gefið út 6. júlí 2012.  Með bréfi 19. september sama ár til Héraðsdóms Reykjavíkur óskaði félagið eftir að bú þess yrði tekið til gjaldþrotaskipta þar sem það væri ógjaldfært. Heimili félagsins var þá sagt vera að Borgartúni 19 í Reykjavík sem er hið sama og heimili gagnáfrýjanda. Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að gagnáfrýjandi hafi í raun haft öll ráð Löngulínu 2 ehf. í hendi sér og farið með allt forræði á því hvernig ljúka skyldi byggingu hússins. Var sú ákvörðun á ábyrgð gagnáfrýjanda að leita ódýrari lausna þar með talið að hverfa frá því að notast við þá einangrun og klæðningu sem aðalhönnuður þess hafði mælt fyrir um og samþykktar teikningar gerðu ráð fyrir og notast í staðinn við þá einangrun og múrklæðningu sem gert var. Í matsgerð dómkvadds manns var komist að þeirri niðurstöðu að sú einangrun og múrklæðning sem notuð var uppfyllti ekki áskilnað um að vera í flokki 1 eins og skilyrðum þess var lýst í 1. mgr. 148. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem gilti þegar verkið var unnið. Hönnuður hússins hafði, í samræmi við fyrirmæli í grein 135.8 í reglugerðinni, mælt fyrir um að klæðningin skyldi vera í flokki 1. Þá taldi matsmaður að múrkerfið uppfyllti heldur ekki þær öryggiskröfur sem leiða af 1. mgr. 25. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir. Í matsgerðinni voru raktir ýmsir ágallar á múrklæðningunni sem notuð var og jafnframt tekið fram að uppsetningu hennar og frágangi hafi verið ábótavant. Þá komst matsmaður að þeirri niðurstöðu að gerð og frágangur einangrunar og múrklæðningar á húsinu að utan sé meginástæða sprungumyndunar í múrskelinni og leka inn í múrkerfið. Í matsgerðinni sagði meðal annars: ,,Opnar sprungur í múrskelinni, tengingar á niðurfallsrörum, ásamt lélegum frágangi við glugga, valda leka inn í múrkerfið, sem síðan veldur raka- og lekaskemmdum innanhúss. Einnig eru byrjandi frostskemmdir í múrköntum yfir gluggum og á flötum þar sem flögnun er í málningu eða sílikonmúr“.  Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi voru breytingar á einangrun og klæðningu hússins ekki kynntar byggingaryfirvöldum í Garðabæ og teikningar af þeirri einangrun og múrklæðningu sem notuð var, voru ekki lagðar fyrir byggingarfulltrúa eða aflað samþykkis á þeim. Aðaláfrýjandi reisir kröfu sína á reglum um skaðabætur utan samninga og kveður sakarregluna vera bótagrundvöllinn. Gagnáfrýjandi bar sem fyrr greinir ábyrgð á þeirri ákvörðun að breyta einangrun og klæðningu útveggja frá því sem aðalhönnuður hússins hafði mælt fyrir um og á því að sett yrði á það einangrun og múrklæðning, sem ekki stóðst þær kröfur sem gerðar eru, auk þess sem miklir annmarkar voru á uppsetningu hennar og frágangi. Hann aflaði ekki samþykkis byggingaryfirvalda á þessum breytingum. Sú einangrun og múrklæðning sem notuð var og annmarkar á uppsetningu hennar eru helsta orsök þeirra skemmda, sem krafist er bóta fyrir. Verður slegið föstu að fullnægt sé skilyrðum reglunnar um vinnuveitandaábyrgð, um að háttsemi starfsmanna gagnáfrýjanda sem hann ber ábyrgð á samkvæmt reglunni hafi verið saknæm og ólögmæt. Verður niðurstaða héraðsdóms um skaðabótaábyrgð gagnáfrýjanda því staðfest. III Gagnáfrýjandi byggir einnig á þeirri málsástæðu að hvað sem öðru líði hafi aðaláfrýjandi með gerð samkomulags um skaðabætur 13. ágúst 2013 og fyrirvaralausum yfirlýsingum í því um að ekki geti komið til frekari bótakrafna af hans hálfu, firrt sig rétti til að hafa uppi þær kröfur, sem hann geri í málinu. Í bréfi formanns aðaláfrýjanda til gagnáfrýjanda 18. apríl 2013 var meðal annars fjallað um mat Þrastar Bjarnasonar byggingafræðings og húsasmíðameistara á kostnaði við úrbætur á þeim ágöllum, sem hann taldi þá vera á húsinu. Í bréfinu kom fram að áætlaður kostnaður við lagfæringar á útfellingum, sem talinn var 2.500.000 krónur, væri að líkindum vanmetinn. Þá sagði einnig að það væri vilji húsfélagsins að gagnáfrýjandi sæi sjálfur um viðgerðir og endurbætur þar sem kostnaður við það gæti hæglega farið úr böndunum. Jafnframt sagði: ,,Bankinn virðist hins vegar ekki til viðræðu um annað en að leysa þetta mál með eingreiðslu. Öll óvissa við þessar framkvæmdir mun því lenda á bágstöddu húsfélaginu en bankinn yrði laus allra mála.“ Á fundi í aðaláfrýjanda 2. júlí 2013 var fjallað um drög að samkomulagi við gagnáfrýjanda, sem fól í sér greiðslu hins síðarnefnda að fjárhæð 6.500.000 krónur, gegn því að ekki yrðu af hálfu aðaláfrýjanda gerðar frekari kröfur. Samþykkti fundurinn samkomulagið. Það var undirritað 9. ágúst 2013 og kom þar fram að gagnáfrýjandi teldi greiðsluna umfram skyldu, en féllist ,,eins og máli þessu er háttað“ á að inna hana af hendi. Í 1. grein þess var tíundað í níu töluliðum til hvaða verkþátta samkomulagið næði og voru þar meðal annars tilgreind eftirtalin atriði: ,,1. Útfellingar á austurhlið hússins 2. Vatnsleki í bílageymslu ... 4. Steypuskemmdir á svölum“. Í 3. grein samkomulagsins sagði að aðilar væru sammála um að greiðslan ,,skuli vera fullnaðaruppgjör ... Húsfélagið lýsir því yfir með óafturkræfum og óskilorðsbundnum hætti, að þegar greiðslan hefur verið innt af hendi inn á reikning húsfélagsins“ falli það ,,frá öllum kröfum um galla eða annars konar vanefndir hverju nafni sem nefnast vegna fasteignarinnar, á hendur Arion og/eða Landey ehf., hvort sem galla eða vanefnd megi rekja til þeirra verkþátta sem tilgreindir eru í 1. gr. samkomulags þessa eða annarra atvika, hvort sem eru til staðar við gerð samnings þessa eða koma til síðar.“ Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi fékk aðaláfrýjandi síðla árs 2014 sama sérfræðing og áður hafði lagt mat á kostnað við viðgerðir og endurbætur fyrir gagnáfrýjanda, til þess að gera ,,Ástands- og kostnaðarmat vegna galla á utanhússklæðningu“ hússins. Í áliti hans kom fram að þegar hafist hafi verið handa um viðgerðir sumarið 2014 hafi komið í ljós að umfang verksins var miklu meira en hann hafði áður gert sér grein fyrir. Hann hafi þá áttað sig á því að einangrun og utanhússklæðning var ekki eins og sú, sem aðalhönnuður hafi mælt fyrir um. Var niðurstaðan í álitinu sú að taka þyrfti niður núverandi klæðningu í heild sinni og einangrun að hluta og gera við og endurnýja einangrun að hluta og múra á nýjan leik. Taldi hann kostnað við þetta ekki vera undir 100.000.000 krónum. Í hinum áfrýjaða dómi er lýst niðurstöðu dómkvadds manns um ágalla á húsinu og kostnað við viðgerðir og endurbætur. Í dóminum er komist að þeirri niðurstöðu að ósanngjarnt sé af gagnáfrýjanda að bera fyrir sig framangreint samkomulag um fyrirvaralaust afsal aðaláfrýjanda á frekari rétti til skaðabóta og því vikið til hliðar að þessu leyti með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Við mat á því hvort víkja eigi til hliðar framangreindu samkomulagi um rétt aðaláfrýjanda til þess að hafa uppi kröfu um viðbótargreiðslur, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, ber meðal annars að líta til þess að gagnáfrýjandi vissi að önnur einangrun og múrklæðning hafði verið sett á útveggi hússins í sparnaðarskyni og hann bar samkvæmt framansögðu ábyrgð á þeirri ákvörðun. Hann mátti að minnsta kosti hafa ástæðu til að ætla að skemmdir þær sem voru á múrskel hússins þegar samkomulagið var gert gætu átt rót sína að rekja til þeirra breytinga og vissi jafnframt að hvorki sá sérfræðingur, sem hann fékk á árinu 2013 til að veita álit á viðgerðarkostnaði, sem samkomulagið var síðan reist á, né aðaláfrýjandi vissu um þær breytingar sem gerðar höfðu verið á áður ákveðinni einangrun og klæðningu útveggja. Þá ber einnig að líta til þess hve stórfelldar breytingar urðu á mati þess sérfróða manns sem áður greinir. Að teknu tilliti til þessa og þeirra atriða sem héraðsdómur reisir niðurstöðu sína um þetta á verður dómurinn staðfestur að þessu leyti. Í héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, var komist að þeirri niðurstöðu að gagnáfrýjanda bæri að bæta aðaláfrýjanda tjón vegna endurnýjunar  á einangrun og múrklæðningu útveggja, endurnýjun þakniðurfalla, frágangs kringum glugga og hurðaop og vegna eftirlits og tæknilegrar umsjónar en samtala skaðabóta vegna þessara þátta, að frádregnum vátryggingabótum sem ábyrgðartryggjandi byggingarstjóra greiddi og að teknu tilliti til endurgreiðslu á hluta virðisaukaskatts af vinnu á verkstað, bæri gagnáfrýjanda að greiða 161.753.910 krónur í skaðabætur. Með vísan til forsendna dómsins verður sú niðurstaða staðfest. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Málskostnaður fyrir Hæstarétti milli aðaláfrýjanda og stefndu fellur niður.  Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Gagnáfrýjandi, Arion banki hf., greiði aðaláfrýjanda, Löngulínu 2, húsfélagi, 2.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður að öðru leyti.   Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. október 2017.                 Mál þetta var þingfest 15. júní 2016 og tekið til dóms 5. september sl. Stefnandi er Húsfélagið Löngulínu 2, Garðabæ, en stefndu eru Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík, Garðabær, Garðatorgi 7, Garðabæ, og Jóhann Guðni Hlöðversson, Markarflöt 35, Garðabæ.                 Stefnandi gerir þær kröfur aðallega að aðalstefndi Arion banki hf. verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 181.370.350 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags auk málskostnaðar.                 Til vara krefst stefnandi þess að varastefndu Garðabær og Jóhann Guðni Hlöðversson verði saman dæmdir til þess að greiða stefnanda 149.027.350 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags auk málskostnaðar.                 Stefndu Garðabær og Arion banki hf. krefjast sýknu og málskostnaðar en stefndi Jóhann Guðni Hlöðversson krefst aðallega sýknu en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda. I Í málinu krefst stefnandi skaðabóta úr hendi stefndu vegna galla sem stefnandi telur vera á fasteigninni að Löngulínu 2 í Garðabæ. Fjöleignarhúsið er steinsteypt sex hæða hús með 48 íbúðum. Upphaflegur húsbyggjandi var Ris ehf. sem seldi flestar íbúðir til Riss fjárfestingar ehf. en nafni þess félags var síðar breytt í Löngulínu 2 ehf. Eftir hrun bankana í október 2008 yfirtók forveri aðalstefnda, Nýi Kaupþings banki hf., Löngulínu 2 ehf., en þá var fasteignin fokheld, og hélt Langalína 2. ehf. áfram byggingu hússins uns byggingu þess lauk haustið 2010. Forveri Arion banka h.f. og síðan aðalstefndi Arion banki hf. veittu lán til byggingar hússins. Í desember 2008 var þinglýst þeirri kvöð á húsið að veðsetning væri óheimil án samþykkis forvera aðalstefnda Arions banka hf. Varastefndi Jóhann Guðni var starfsmaður Riss ehf. er hann tók við sem byggingarstjóri hússins þann 21. febrúar 2008. Þá var húsið uppsteypt án þaks og útveggir bílakjallara voru einnig uppsteyptir. Ris ehf. var þá eigandi flestra íbúða hússins. Húsið varð fokhelt þann 25. september 2008. Lokaúttekt byggingarfulltrúa Garðabæjar fór fram án athugasemda í júlí 2012. Stefnandi setti fram kröfu í nóvember 2012 á hendur Landey ehf., dótturfélagi aðalstefnda Arion banka ehf., um að bankinn myndi ljúka lokafrágangi á eigninni. Samkomulag tókst um það 9. ágúst 2013. Vorið 2014, er framkvæmdir skyldu hefjast, kom í ljós að tjónið var talsvert umfangsmeira. Í samantekt Þrastar Bjarnasonar frá nóvember 2014 kom fram að teikningar gerðu ráð fyrir að húsið væri einangrað að utan með 100 mm steinullareinangrun. Í ljós kom hins vegar að sú einangrun var 100 mm plasteinangrun. Þá kom fram hjá honum að vatn virtist eiga greiða leið í gegnum múr hússins. Komst hann að þeirri niðurstöðu að taka yrði klæðningu hússins niður í heild sinni og múra húsið upp á nýtt. Stefnandi ákvað að freista þess að ná bótum úr ábyrgðartryggingu byggingarstjóra og hönnuðar. Sjóvá almennar tryggingar hf. gerðu það að skilyrði fyrir greiðslu slíkra bóta að dómkvaddur yrði matsmaður til þess að meta tjónið. Freyr Jóhannesson var dómkvaddur til verksins af Héraðsdómi Reykjaness þann 3. desember 2015 og skilaði matsgerð í mars 2016 og viðbótarmatsgerð í febrúar 2017. Helstu niðurstöður matsmanns voru þær að verktaki hefði við klæðningu hússins notast við brennanlega plasteinangrun í stað steinullareinangrunar, glertrefjanet í stað stálnets og að þykkt múrskeljar væri víðast hvar of lítil. Þannig uppfyllti frágangur hússins hvorki reglur byggingarreglugerðar nr. 441/1998, né lög um brunavarnir nr. 75/2000. Múrkerfi hússins væri ekki hannað af viðurkenndum burðarþolshönnuði og væri í algjöri andstöðu við teikningar aðalhönnuðar sem samþykktar hefðu verið af varastefnda Garðabæ. Þannig þyrfti að fjarlægja allt efni klæðningarinnar og setja nýtt múrkerfi á útveggi í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti aðalhönnuða hússins. Þá var það einnig niðurstaða matsmanns að frágangur í kringum glugga hússins væri óviðunandi. Þannig kom fram að engar þéttingar væru frá ytra byrði gluggakarma yfir á yfirborð steypu. Þannig hafi ekki verið farið eftir leiðbeiningum hönnuðar. Gluggar hefðu auk þess verið steyptir í, í stað þess að vera settir í eftir á. Þéttikant hafi alfarið vantað á samskeyti múrs og glugga sem aftur hafi leitt af sér leka. Matsmaður mat viðgerðarkostnað samtals að fjárhæð 190.723.500 krónur. Stefnandi fékk greitt úr ábyrgðartryggingu byggingarstjóra og hönnuða 18.524.800 krónur auk matskostnaðar og hluta lögmannsþóknunar. Hinn 3. mars 2016 var óskað viðræðna við varastefnda Garðabæ um bætur til handa stefnanda. Með bréfi lögmanns varastefnda Garðabæjar þann 19. maí 2016 var því hafnað að ábyrgð á meintum göllum hússins lægi hjá Garðabæ. Hinn 8. apríl 2016 var aðalstefnda Arion banka h.f. sent kröfubréf og þann 4. maí 2016 var lögmanni byggingastjóra ennfremur sent kröfubréf. Á húsfundi stefnanda þann 17. maí 2016 var samþykkt að höfða mál á hendur stefndu. Varastefndi Garðabær tekur fram í greinargerð sinni varðandi málavexti að bygging fasteignarinnar Löngulínu 2, Garðabæ, hafi hafist í lok árs 2006 en teikningar aðalhönnuðar hússins hafi verið samþykktar af byggingarfulltrúa varastefnda á árunum 2006 til 2007. Nokkrar breytingar hafi síðan verið gerðar á upphaflegum teikningum en engar breytingar verið gerðar á fyrirkomulagi múrkerfis hennar. Byggingarfulltrúi varastefnda hafi gert alls 45 úttektir á byggingartíma og á öllum byggingarstigum. Af hálfu byggingarfulltrúa hafi verið gerðar athugasemdir í nokkrum úttektanna. Ekki hafi verið óskað sérstaklega eftir áfangaúttekt á utanhússklæðningu af hálfu byggingarstjóra og hún því ekki farið fram. Við úttektir og aðrar skoðanir byggingarfulltrúa hafi ekkert komið fram sem benti til þess að fasteignin væri ekki reist í samræmi við samþykktar teikningar sem lagðar höfðu verið fram hjá byggingarfulltrúa. Þá hafi ekkert bent til þess að við framkvæmdir húsbyggjandans hefðu verið viðhöfð ófullnægjandi vinnubrögð. Ekkert hafi því gefið tilefni til athugasemda. Megi í því sambandi m.a. vísa til ljósmynda af fasteigninni sem teknar hafi verið í júlí og september 2010. Aðdragandi lokaúttektar hafi verið með þeim hætti, venju samkvæmt, að samhliða því sem öryggisúttekt hafi farið fram hafi byggingarfulltrúi yfirfarið eldri úttektir og athugasemdir og fengið staðfestingu byggingarstjóra á því að búið væri að lagfæra þau atriði sem athugasemdir höfðu verið gerðar við sem og á því að byggt hefði verið í samræmi við samþykktar teikningar. II Af hálfu stefnanda er á því byggt að fjöleignarhúsið nr. 2 við Löngulínu, Garðabæ, hafi ekki verið byggt í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, lög nr. 75/2000 um brunavarnir og lög nr. 160/2000 um mannvirki. Við byggingu þess hafi heldur ekki verið farið eftir byggingarreglugerðum nr. 441/1998 og byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá hafi húsið ekki verið byggt samkvæmt viðurkenndum aðferðum og verið haldið verulegum göllum þegar lokaúttekt þess fór fram. Á þessu beri stefndu ábyrgð.                 Krafa á hendur aðalstefnda Arion banka hf. Krafa á hendur aðalstefnda Arion banka h.f. sé byggð á matsgerðum Freys Jóhannessonar byggingartæknifræðings. Þá sé á því byggt að fjöleignarhúsið nr. 2 við Löngulínu, Garðabæ, hafi ekki verið byggt í samræmi við samþykktar teikningar og að galla þess, sem nú hafa fram komið megi beinlínis rekja til þess. Um sundurliðun kröfunnar er vísað til þess sem rakið er hér á eftir undir dómkröfu og eins til matsgjörðar. Stefndi byggir ábyrgð aðalstefnda á því að hann hafi í raun verið eigandi hússins frá 9. október 2008 eftir að Nýi Kaupþing banki h.f. var stofnaður. Þannig hafi sá banki og síðar stefndi, er tók við öllum réttindum Nýja Kaupþings banka hf., í raun ráðið öllum framkvæmdum við húsið eftir þann tíma. Til marks um það sé sú staðreynd að bankinn hafi í desember 2008 þinglýst kvöð á húsið um að Ris ehf. skuldbindi sig til þess að selja ekki eða veðsetja eignir í Löngulínu 2, Garðabæ, nema með samþykki bankans, nema því aðeins að fyrir lægi skriflegt samþykki Nýja Kaupþings banka hf. Þetta styðjist og við frásögn fyrrverandi stjórnarmanna félagsins sem staðfesti að bankinn hafi frá þessum tíma í raun ráðið öllu um framkvæmdir, fjármögnun þeirra og sölu þeirra eigna sem voru fullkláraðar. Þannig hafi allir fjármunir í raun runnið til bankans. Lögmaður aðalstefnda hafi á grundvelli 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki neitað að gefa upp hvenær bankinn tók yfir alla hluti í Risi fjárfestingum ehf., síðar Löngulínu 2 ehf. Ef skoðuð séu gögn frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra sé ljóst að bankinn hafi tilkynnt fulltrúa sína í stjórn félagsins þann 12. apríl 2010. Á hluthafafundi 7. maí 2010 sé skráð að eigendaskipti hafi orðið á félaginu. Ekki sé hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að bankinn hafi í raun verið seljandi þeirra nýju eigna sem voru í byggingu í húsinu. Hann hafi þannig leitast við að ljúka byggingu hússins með það í huga að fá eins mikið upp í kröfur sínar á hendur félaginu og hægt var. Á kaupsamningi frá 30. júní 2010 sjáist að aðalstefndi lofi að aflétta öllum veðböndum af seldri eign þegar kaupandi hafi greitt 90% af kaupverði. Þess vegna byggi stefnandi á því að aðalstefndi Arion banki hf. hafi í raun eftir 9. október 2008 verið húsbyggjandi og eigandi hússins og borið ábyrgð sem slíkur. Þannig hafi hann borið á því ábyrgð að allar lögbundnar áfangaúttektir færu fram. Hann beri ábyrgð á þeim göllum sem lýst sé í matsgerð. Þannig hefðu íbúðir hússins ekki átt að fara í almenna sölu fyrr en allir þeir ágallar, sem hefðu komið fram við slíkar úttektir, hefðu verið lagfærðir. Er um þetta vísað til þeirra málsástæðna er þetta varðar og eru reifaðar hér á eftir undir kröfu á hendur Garðabæ. Aðalstefndi Arion banki hf. hafi við lokaúttekt verið hinn raunverulegi eigandi hússins og húsbyggjandi. Þannig hafi hann verið eigandi alls hlutafjár í Löngulínu ehf. er lokaúttekt fór fram. Sem raunverulegur eigandi hússins hafi hann borið ábyrgð á því við lokaúttekt að fram færi skoðun á því hvort húsið væri byggt í samræmi við samþykktar teikningar, sbr. gr. 3.9.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá hafi hann borið sem eigandi mannvirkis í skilningi reglugerðar nr. 112/2012 ábyrgð á því að húsið væri byggt í samræmi við lög og reglur, sbr. ákvæði gr. 2.7.1 í þeirri sömu reglugerð. Þá beri hann sem eigandi mannvirkis ábyrgð á því að það uppfylli reglur um brunavarnir, sbr. ákvæði 1. mgr. 23. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir. Þá beri aðalstefnda sem eiganda að hafa virkt eftirlit með þeim sem hann ráði til að hanna og byggja mannvirki, sbr. 15. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Því fari fjarri að svo hafi verið. Þá vísar stefnandi einnig til neytendasjónarmiða og fasteignakauparéttar um þá staðreynd að flestir kaupendur eigna í fjöleignarhúsinu hafi verið ósérfróðir. Aðalstefndi hafi hins vegar á sínum snærum sérstakt fasteignafélag, Landey hf. Hann hafi haft í vinnu sérfróða aðila og beri sem slíkur ábyrgð gagnvart grandlausum kaupendum og sé um það einnig vitnað til undirstöðuraka 2. mgr. 19. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup og eins 18. og 27. gr. sömu laga. Þá byggir stefnandi kröfu sína á hendur aðalstefnda Arion banka hf. einnig á því að hann hafi með samkomulaginu frá 13. ágúst 2013 viðurkennt ábyrgð sína. Það samkomulag hafi m.a. náð til tjóns vegna útfellinga á austurhlið hússins og rakaskemmda í einni íbúð. Við mat á kostnaði hafi aðalstefndi stuðst við álit Þrastar Bjarnasonar en Þröstur hafi þá verið starfsmaður VSB verkfræðistofu. Landey hf. hafi ráðið þessa sömu verkfræðistofu til þess að meta þennan kostnað. Þannig hafi hér verið um að ræða sérfræðing á vegum aðalstefnda sem hafi metið kostnað við lagfæringar upp á um 6.500.000 krónur. Þessi sami sérfræðingur hafi svo ári seinna komist að þeirri niðurstöðu að kostnaður væri miklu nær 100.000.000 króna. Þannig segi í niðurstöðu hans að það sé hans mat að um sé að ræða „algjörlega óásættanleg vinnubrögð við frágang múrklæðningar og niðurfalla hússins.“ Aðalstefndi, sem réð sérfræðinginn til verksins þegar samkomulagið var gert, beri ábyrgð á þessari stórkostlegu vanáætlun. Þannig hefðu útfellingar á austurhlið, og eins leki inn í einstaka íbúðir hússins, átt að kalla á frekari skoðun þessa sama sérfræðings. Og ef slík skoðun hefði farið fram, hefði stefnandi aldrei gengið frá samkomulagi við bankann upp á 6.500.000 krónur. Þannig séu brostnar forsendur fyrir gerð samkomulagsins og stefnandi krefji því aðalstefnda um allt tjón sitt sem rekja megi til þess að húsið var ekki byggt í samræmi við samþykktar teikningar og í andstöðu við reglur um brunavarnir. Þá eigi með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að víkja til hliðar ákvæði samningsins frá 9. ágúst 2013 að því leyti sem hann takmarki ábyrgð aðalstefnda. Þannig sé það verulega ósanngjarnt að hinn almenni íbúðarkaupandi eigi að sitja uppi með svo verulegt tjón sem hér um ræðir. Það sé andstætt almennri viðskiptavenju að raunverulegur eigandi geti þannig velt áhættunni af slíkum göllum yfir á hinn almenna kaupanda fasteignar. Verulegt ójafnvægi hafi verið með aðilum við gerð samningsins. Þannig sé aðalstefndi fjármálastofnun sem á þessum tíma hafi haft í starfi hjá sér sérfróða aðila um rekstur fasteignafélaga. Aðalstefndi hafi auk þess ráðið sérfróða verkfræðistofu til þess að meta tjónið og það hafi algjörlega verið vanmetið, sbr. mat þessa sama manns ári síðar. Þá hafi stefnandi við gerð samkomulagsins ekki haft möguleika á því að vita um það hversu umfangsmikið tjónið í raun var. Sú vitneskja hafi ekki verið til staðar hjá honum fyrr en síðar. Aðalstefndi Arion banki hf. hafi haft stöðu móðurfélags gagnvart Löngulínu 2 ehf. og Landey ehf. í skilningi 3. mgr. 2. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Í stað þess að fylgja eftir lögbundnum úttektum og lagfæringum á göllum hafi bankinn tekið til sín alla fjármuni Löngulínu ehf. og skilið það eftir eignalaust og þannig valdið eigendum íbúða og húsfélaginu að Löngulínu 2, Garðabæ, tjóni. Sú háttsemi hafi verið brot á 76. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 51. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og til þess eins gerð að afla aðalstefnda fjárhagslegra hagsmuna á kostnað félagsins. Ábyrgð á öllu þessu eigi að falla á aðalstefnda Arion banka hf. á grundvelli sakarreglunnar. Þannig hafi aðalstefndi og starfsmenn á hans vegum ekki sinnt þeim skyldum er hvíldu á honum sem fasteignareiganda og á því beri þeir ábyrgð. Tjón stefnanda megi rekja til þessa og er um það vitnað til matsgerðar og sundurliðunar hér að neðan. Þá er um ábyrgð aðalstefnda Arion banka hf. einnig vitnað til 2. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og 2. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Krafa á hendur varastefnda Garðabæ Á því er byggt að varastefndi Garðabær beri ábyrgð á því að eftirliti hússins í byggingu hafi verið stórkostlega ábótavant og því að eigandi þess og húsbyggjandi á sínum tíma hafi komist upp með það að byggja húsið þvert á samþykktar teikningar og í andstöðu við lög um mannvirki, byggingarreglugerðir og lög um brunavarnir. Er bygging hússins hófst hafi verið í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Markmið laganna hafi verið skilgreind í 1. gr. þeirra en þar segi m.a. að þau séu til að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn og ennfremur að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi, endingu, útlit og hagkvæmni bygginga og annarra mannavirkja sé fullnægt. Þessi sömu markmið sé nú að finna í gildandi mannvirkjalögum nr. 160/2010. Í 7. gr. laga nr. 73/1997 komi fram að í hverju sveitarfélagi skuli starfa byggingarfulltrúi og að hann skuli uppfylla skilyrði 48. og 49. gr. s.l. Í 40. gr. laganna komi fram að byggingarfulltrúi, sem framkvæmdastjóri byggingarnefndar sveitarfélags, skuli annast eftirlit með því að allar framkvæmdir við byggingar séu í samræmi við samþykktar teikningar. Þá skuli hann einnig annast úttekt og eftirlit með einstökum byggingarþáttum svo og lokaúttekt mannvirkja. Þá komi fram í 41. gr. sömu laga að byggingarfulltrúi skuli gera eiganda mannvirkis aðvart ef eitthvað það væri að mannvirki sem ekki uppfyllti þessi ákvæði laga og reglugerða. Þá komi einnig fram í 42. gr. sömu laga að byggingarefni skuli hafa hlotið vottun faggiltrar prófunarstofu á byggingarsviði og að þau skuli uppfylla ákvæði byggingar- og brunavarnareglugerða áður en heimilt sé að nota þau til byggingarframkvæmda. Þá hafi verið í sama ákvæði umfjöllun um rétt byggingarfulltrúa til þess að krefja húsbyggjendur um slíkar staðfestingar. Í 48. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem gilti út árið 2011, hafi komið fram að fram yrðu að fara áfangaúttektir á frágangi ystu klæðningar, á verkþáttum er lytu að eldvörnum, og eins áfangaúttektir um hita og hljóðeinangrun. Þá vitnar stefnandi einnig til ákvæða 12. gr. laga nr. 75/2000 um brunamál og þeirra skyldna varastefnda og byggingarfulltrúa hans sem þar séu upp taldar. Á því er byggt að varastefndi Garðabær hafi á engan hátt uppfyllt þær skyldur sem þar voru á hann og starfsmenn hans lagðar. Af þeim gögnum, sem varastefndi Garðabær hafi sent til stefnanda og eins af þeim gögnum sem fulltrúar stefnanda hafi sjálfir aflað frá bænum, sé ekki að sjá að slíkar áfangaúttektir hafi farið fram. Eigi það m.a. við um úttekt á klæðningu hússins og einangrun þess. Þá sé ljóst að í lokaúttekt sé þess á engan hátt getið að það vanti áfangaúttektir. Þá sé með lokaúttekt í raun veitt viðurkenning á því að við byggingu fjöleignarhússins nr. 2 við Löngulínu hafi verið fylgt öllum þeim reglum og fyrirmælum er um getur í skipulags- og byggingarlögum og eins mannvirkjalögum nr. 160/2010 sem tóku gildi 1. janúar 2011. Í 3. mgr. 36. gr. þeirra laga segi um lokaúttekt að við lokaúttekt skuli gerð úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laga þessara og reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Engin athugasemd hafi verið gerð af hálfu byggingarfulltrúa um þau atriði sem fram komi í matsgerð dómkvadds matsmanns og hafi lotið að rangri efnisnotkun, skorti á notkun efna sem hlotið hefðu faggildingu viðurkenndra aðila, notkun á ólögmætri brennanlegri plasteinangrun sem hafi verið í andstöðu við samþykktar teikningar og reglur um brunavarnir, né hafi verið vikið að gölluðum vinnubrögðum við klæðningu hússins og frágang á gluggum. Þá hafi þess heldur í engu verið getið að stór hluti áfangaúttekta hafði aldrei farið fram. Allt sé þetta í andstöðu við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, sjá einkum gr. 3.9.1. Þá hafi byggingarfulltrúi á þessum tímapunkti átt að grípa til þeirra ráðstafana sem sú sama reglugerð veitti honum. Ef byggingarfulltrúi, sem framkvæmdastjóri byggingarnefndar varastefnda Garðabæjar, hefði fylgt eftir kröfu um áfangaúttektir á þeim tíma sem þær áttu að fara fram, hefði hann við slíka úttekt átt að sjá að húsið var ekki byggt í samræmi við samþykktar teikningar hönnuða. Og þá hefði hann getað gripið til þeirra ráða sem lög og reglugerðir buðu honum, t.d. samkvæmt 29. gr. laga nr. 75/2000 um brunamál. Og þá hefði hann einnig átt að sjá að efnisnotkun var í andstöðu við samþykktar teikningar og ákvæði um brunavernd. Og í síðasta lagi við lokaúttekt hefði hann átt að sjá að skyldubundnar áfangaúttektir höfðu ekki farið fram sem aftur hefði átt að kalla á frekari skoðun. Þannig hefði hann aldrei átt að gefa út athugasemdalausa lokaúttekt, heldur leggja fyrir þáverandi byggingarstjóra og síðasta byggjanda/eiganda eignarinnar að bæta úr þessum göllum. Afgreiðsla hans á lokaúttekt hafi auk þess verið í fullkominni andstöðu við leiðbeiningar Mannvirkjastofnunar um lokaúttektir. Sú staðreynd að ekkert af þessu var gert hafi leitt til þess að íbúðir í húsinu fóru í almenna sölu. Einstaklingar, sem keyptu eignir þessar, hafi ekki getað varað sig á þeim göllum er leyndust í húsinu og áttu rót sína að rekja til þess að það var ekki byggt í samræmi við samþykktar teikningar, lög og reglur. Einstakir kaupendur eigna hafi þannig ekki verið í þeirri stöðu að geta véfengt að nýlega byggt hús væri í samræmi við slíkar reglur. Og þegar sú staðreynd síðan bætist við að húsbyggjandinn sé orðinn gjaldþrota sitji hinir einstöku kaupendur og borgarar uppi með skaðann. Það er á því byggt í máli þessu að varastefndi Garðabær sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda á grundvelli almennu sakarreglunnar og beri húsbóndaábyrgð á ólögmætum athöfnum og athafnaleysi starfsmanna bæjarins, þar með talið byggingarfulltrúa hans. Tjónið megi rekja beint til athafna eða athafnaleysis byggingarfulltrúa bæjarins og sé bein afleiðing af þeim ólögmætu athöfnum. Varastefndi Garðabær geti ekki skýlt sér á bak við ábyrgð byggingarstjóra, enda sé ábyrgð hans afleidd af lögbundnum skyldum bæjarins. Ábyrgð byggingarstjóra geti á engan hátt fellt niður lögbundna ábyrgð varastefnda Garðabæjar á því eftirliti sem fram þurfi að fara við nýbyggingar. Þá er á því byggt að sök bæjarins sé enn meiri þar sem um íbúðarhúsnæði sé að ræða sem selt sé í mörgum einingum. Kaupendur séu í flestum tilvikum ósérfróðir og hafi mátt treysta því að sveitarfélagið hefði sinnt þeim skyldum sem á því hvíla þar sem um nýja fasteign sé að ræða. Kaupendur séu velflestir með lögheimili í Garðabæ og greiði þangað útsvar og fasteignagjöld til bæjarins til þess að bærinn geti aftur sinnt lögbundnum skyldum sínum við íbúa hans. Það sé klárt brot á borgararétti þessa fólks að sveitarfélagið Garðabær skuli á svo grófan hátt bera hag þess fyrir borð. Þannig sé það í andstöðu við borgararétt að velta áhættunni, sem svo auðveldlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir, yfir á íbúana í stað þess að sveitarfélagið beri þá áhættu. Krafa á hendur varastefnda Jóhanni Guðna Hlöðverssyni Varastefndi Jóhann Guðni Hlöðversson beri ábyrgð sem byggingarstjóri á þeim miklu göllum sem fram hafi komið og eigi allir rót sína að rekja til þess að húsið var ekki byggt í samræmi við samþykktar teikningar og hafi auk þess verið í andstöðu við lög og reglur og viðurkenndar aðferðir við byggingu húsa. Um ábyrgð hans er vísað til 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og til 51. gr. sl. þar sem fram komi að stjórnandi framkvæmda hvers mannvirkis skuli vera byggingarstjóri. Þær framkvæmdir, sem fram hafi farið á klæðningu hússins, ytri einangrun þess og eins frágang á gluggum hafi allar farið fram á þeim tíma sem hann var byggingarstjóri. Ábyrgð hans lúti að því að byggt sé í samræmi við samþykktar teikningar, uppdrætti, lög og reglugerðir. Þessar skyldur hans hafi svo verið áréttaðar í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og eins 1. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og VI. kafla þeirra sömu laga. Þá vísar stefnandi sérstaklega til 5. mgr. 29.r. laga nr. 160/2010. Það hafi verið á ábyrgð varastefnda Jóhanns Guðna að áfangaúttektir færu fram og að athugasemdir yrðu gerðar við þær úttektir sem aftur hefðu átt að leiða til endurbóta á því sem framkvæmt hafði verið í andstöðu við lög og reglur. Á því sé byggt að varastefndi Jóhann Guðni hafi valdið stefnanda tjóni á saknæman hátt og að honum beri á grundvelli almennu sakarreglunnar að bæta stefnanda tjón hans. Hann hafi gróflega brotið þær skyldur sem á hann voru lagðar og að hann beri því með varastefnda Garðabæ óskipta skyldu og ábyrgð á því tjóni sem athafnir hans og athafnaleysi hafi leitt af sér fyrir stefnanda. Tjónið hafi mátt koma í veg fyrir með ábyrgu eftirliti og athugasemdum til byggingarnefndar og eins með stöðvun framkvæmda eins og rakið sé hér að framan undir þætti varastefnda Garðabæjar. Þá beri hann ábyrgð á því að áfangaúttektir hafi ekki farið fram sem aftur hefðu átt að leiða til réttrar efnisnotkunar og vinnubragða við byggingu hússins. Allt hafi þetta leitt til þess að óbreyttir borgarar sem kaupendur hafi ekki getað varist þeim göllum sem í upphafi voru á hinu nýbyggða fjöleignarhúsi. Af gögnum málsins megi sjá að sótt hafi verið um skipt yrði um  byggingarstjóra á árinu 2011. Hins vegar beri gögn varastefnda Garðabæjar það ekki með sér að það hafi gengið eftir. Hafi það ekki verið reyndin og hafi hann þannig verið byggingarstjóri er lokaúttekt fór fram í júlí 2012, sé á því byggt að hann beri ábyrgð á því að hún hafi farið fram án þess að þá hafi farið fram áfangaúttektir lögum samkvæmt. Þá beri hann einnig ábyrgð á því að það hafi þá ekki verið kannað hvort húsið hafi verið byggt í samræmi við samþykktar teikningar. Að öðru leyti byggir stefnandi á sömu málsástæðum og á er byggt í máli varðandi ábyrgð varastefnda Garðabæar. Sundurliðun dómkröfu Dómkrafan byggist á niðurstöðu í matsgerðum Freys Jóhannessonar byggingartæknifræðings en þar sé lýst þeim göllum og þeim afleiðingum sem af því hlutust að húsið var ekki byggt í samræmi við samþykktar teikningar, byggingarreglugerðir og ákvæði laga nr. 75/2000 um brunavarnir. Dómkrafan sundurliðist þannig gagnvart aðalstefnda Arion banka hf.: Viðgerð á múrklæðningu                                                                  152.341.150 kr. Endurnýjun þakniðurfalla                                                                                   3.900.000 kr. Frágangur í kringum glugga og hurðaop                                         26.128.000 kr. Tæknileg umsjón og eftirlit                                                                                  9.000.000 kr. Frádráttur vegna greiðslu úr ábyrgðartryggingu                          - 10.813.800 kr. Samtals                                                                                                                        180.555.350 kr. Gagnvart varastefndu sundurliðast dómkrafa stefnanda þannig: 1.       Lagfæring múrklæðningar                                                                               152.341.150 kr. 2.       Tæknileg umsjón og eftirlit                                                                                  7.500.000  kr. 3.       Frádráttur vegna greiðslu úr ábyrgðartryggingu                             10.813.800 kr. Samtals                                                                                                 149.027.350  kr.   Um viðgerð á múrklæðningu komi fram í matsgerð að það sé niðurstaða matsmanns að fjarlægja þurfi plasteinangrun af útveggjum og setja steinullareinangrun í staðinn til að uppfylla ákvæði byggingarreglugerða. Þá þurfi að bæta úr ágöllum og skemmdum sem séu í múrskel og því þurfi að fjarlægja eldri klæðningu og setja nýtt múrkerfi utan á útveggi hússins í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Þá komi fram að notkun brennanlegrar plasteinangrunar sé í andstöðu við ákvæði laga nr. 75/2000 um brunavarnir og múrkerfið sem slíkt ekki vottað af þar til bærum yfirvöldum, sbr. 148. gr. í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Þá sé ljóst að klæðningin uppfylli ekki reglur Brunamálastofnunar á þeim tíma um lágmarksþykkt klæðningar í flokki 1 er lutu að brunaeiginleikum undirlags og því hvort holrúm væri á bak við klæðninguna, sbr. gr. 148.2 í sömu reglugerð. Í matsgerð komi fram að þak- og svalaniðurföll séu innbyggð í múrkerfi hússins. Mikill leki hafi verið greindur frá þeim hin síðari ár og umtalsverðar aðgerðir hafa farið fram til þess að bæta úr því vandamáli. Matsmaður leggi til að úr þessum ágalla verði bætt með því að færa niðurfallsrör út fyrir múrkerfið ásamt tengingum við svalaniðurföll. Í matsgerð komi einnig fram að leki hafi greinst í bílageymslu og að hann stafi af því að gölluð þétting hafi verið notuð milli þaks og bílageymslu þar sem yfirborðsvatn á þaki bílageymslu og regnvatn úr einangrun múrkerfis fái framrás. Þétta þurfi samskeyti þessi þegar skipt verður um múrkerfi. Þá þurfi einnig að stækka loftræstikerfi kjallara. Að mati matsmanns sé frágangur kringum glugga óviðunandi og valdi leka inn í íbúðir. Orsökina megi rekja til þess að yfirleitt vanti ytri þéttingu milli steypu og yfir á gluggakarma eða þéttingar séu það illa gerðar að þær virki ekki sem skyldi til að varna leka inn með rifum milli glugga og steyptra útveggja. Vatn og raki í múrklæðningunni séu tilkomin vegna slagregns eða rakaþéttingar og leka frá niðurfallsrörum á þökum eða milli svala. Vatn sem safnist fyrir ofan á köntum múrklæðningar eigi greiða leið inn í íbúðir og valdi þannig rakaskemmdum innanhúss. Til þess að bæta úr þessum galla leggi matsmaður til að allir múrkantar verði fjarlægðir og þéttingar settar í kringum glugga í samræmi við teikningar hönnuða hússins. Matsmaður komist að þeirri niðurstöðu að kostnaður við tæknilega umsjón og eftirlit með viðgerðum losi 9.500.000 krónur. Gerð sé krafa um 9.000.000 króna í ljósi þess að niðurstaða matsmanns nái til fleiri þátta. Sjóvá almennar tryggingar hf. hafi greitt úr ábyrgðartryggingu byggingarstjóra 10.813.800 krónur. Þá hafi félagið greitt matskostnað hins dómkvadda matsmanns.   Krafa stefnanda lúti einungis að þeim þáttum er varði sameign fjöleignarhússins. Um aðild húsfélagsins er vísað til 3. mgr. 71. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignahús. Um varnarþing er vísað til 1. mgr. 34. gr. og 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um samaðild stefndu er vísað til 1. mgr. 19. gr. sömu laga. III Aðalstefndi Arion Banki hf. krefst sýknu og styður þá kröfu einkum við þrjár málsástæður. Í fyrsta lagi geti stefnandi engar kröfur gert á aðalstefnda þar sem hann hafi með bindandi hætti afsalað sér þeim. Í öðru lagi geti stefnandi engar kröfur gert á aðalsstefnda þar sem byggjandi hússins, Langalína 2 ehf., hafi verið sjálfstæður lögaðili og á starfsemi hans beri aðalsstefndi enga ábyrgð. Í þriðja lagi geti stefnandi engar kröfur gert þar sem þær séu ýmist fyrndar eða þær hafi glatast fyrir tómlæti. Í máli þessu sé fjallað um byggingu hússins Löngulínu 2 í Garðabæ sem sé fjölbýlishús með 45 íbúðum. Bygging þess hafi farið fram á árunum 2007 til 2012, fyrst á vegum Riss ehf. en síðar á vegum Löngulínu 2 ehf. Þess beri að vísu að geta að þegar Langalína 2 ehf. hafi tekið við verkinu af Risi ehf. hafi ekki fylgt með þrjár íbúðir hússins, með fastanr. 230-0587, 230-0596 og 230-0597. Aðalstefndi hafi veitt húsbyggjandanum, með hefðbundnum hætti, lánsfjármögnun til byggingarinnar. Kvöðin sem stefnandi vitni til frá 5. desember 2008 um að sala og veðsetning húsbyggingarinnar væri óheimil án samþykkis aðalstefnda hafi verið venjubundinn þáttur í þessu. Meðan á framkvæmdum stóð hafi Langalína 2 ehf. selt frá sér óbyggða eignarhluta smám saman. Helst sé þar að nefna sölu síðla árs 2009 á 15 íbúðum hússins til Þórsgarðs ehf. og um mitt ár 2010 á sjö íbúðum til Fjallatinda ehf., þremur til Öryrkjabandalagsins og tveimur til Víðis Finnbogasonar ehf. Þegar framkvæmdir voru komnar nokkuð á rekspöl hafi orðið ljóst að Langalína 2 ehf. bjó ekki yfir þeim fjárhagslega styrk sem þurfti til að ljúka verkinu. Fyrir því hafa sjálfsagt verið ýmsar ástæður en sem dæmi megi nefna minnkaða eftirspurn eftir fasteignum samfara verðfalli þeirra á framkvæmdatímanum. Þessi staða hafi verið óheppileg fyrir aðalstefnda sem fjármögnunaraðila og þá sem þegar höfðu keypt hlutdeild í húsinu. Í kjölfarið hafi átt sér stað viðræður milli aðalstefnda og þáverandi eiganda hlutafjár húsbyggjandans. Þeim viðræðum hafi lyktað með því að aðalstefndi keypti 7. maí 2010 allt hlutafé Löngulínu 2 ehf. Af hálfu aðalstefnda er byggt á því að framkvæmdir hússins hafi á þessum tíma verið langt komnar. Klæðningu hússins hafi verið lokið sem og málun þess í ljósum lit. Enginn þeirra ágalla, sem lýst sé í matsgerð, hafi þá verið sýnilegir eða kunnir starfsmönnum aðalstefnda. Stefnandi miði við að húsið hafi orðið fokhelt 25. sept. 2008 en taki að öðru leyti enga afstöðu til ástands hússins 7. maí 2010. Í gögnum máls séu engar upplýsingar um stöðu framkvæmda á þessum tíma. Afstaða aðalstefnda um ástand hússins 7. maí 2010 standi því óhrakin. Eftir að aðalstefndi eignaðist Löngulínu 2 ehf. hafi hann sett menn í stjórn þess sem hafi eftirleiðis borið ábyrgð á rekstri þess. Stjórnarmenn þessir hafi gert skynsamlegar ráðstafanir til að tryggja áframhald reksturs húsbyggjandans og lok framkvæmda. Þannig hafi þeir fyrir hönd húsbyggjandans gert sérstakan verksamning við Grandabrú 2 ehf. 13. júlí 2010. Verksamningurinn hafi miðast við að verkið yrði unnið samkvæmt samþykktum teikningum og skilalýsingum. Til að fylgjast með framvindu verksins hafi stjórnarmennirnir, fyrir hönd húsbyggjandans, fengið VSB verkfræðistofu til aðstoðar. Við verkið hafi starfað byggingarstjóri sem hafi fullnægt kröfum laga. Meðan á framkvæmdum stóð hafi Langalína 2 ehf. selt einstaka hluti fasteignarinnar. Fermetraverð íbúðanna við sölu hafi í flestum tilvikum legið nærri 200.000 krónum og í engu tilviki hafi það verið hærra en 270.000 krónur. Verð í viðskiptunum hafi því verið kaupendum hagstætt og tekið mið af erfiðum aðstæðum á markaði. Langalína 2 ehf. hafi gert ráðstafanir til að bregðast við þeim helstu kvörtunum sem bárust frá kaupendum eftir að þeir fluttu inn. Lokaúttekt hafi farið fram á húseigninni 6. júlí 2012. Fjárhagsleg afkoma Löngulínu 2 ehf. af verkinu hafi verið neikvæð og dugi þar að horfa á ársreikninga félagsins fyrir árin 2008 til 2010. Langalína 2 ehf. hafi keypt byggingarframkvæmdirnar í árslok 2008 fyrir u.þ.b. 1.564 milljónir króna. Á árinu 2009 hafi félagið selt 15 íbúðir til Þórsgarðs fyrir u.þ.b. 346 milljónir króna eða með umtalsverðu tapi. Bókfært tap á því ári hafi numið 1.161 milljón króna og verðmæti verka húsbyggjandans í vinnslu var um 659 milljónir króna í lok árs. Á árinu 2010 seldi húsbyggjandinn þær 27 íbúðir sem eftir stóðu fyrir 893 milljónir króna. Kostnaðarverð þeirra hafi hins vegar verið um 1.239 milljónir króna og því voru þær seldar með 346 milljóna króna tapi. Húsbyggjandinn hafi því tapað verulegum fjárhæðum af byggingu húseignarinnar. Tap aðalstefnda hafi með sama hætti verið verulegt, enda hafi aðalstefndi fjármagnað allan taprekstur húsbyggjandans. Þetta tap aðalstefnda hafi aukist ár frá ári. Bú Löngulínu 2 ehf. hafi svo verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 24. sept. 2012. Við skiptin hafi aðalstefndi lýst kröfu að fjárhæð 1.933 milljónir króna í búið. Rétt rúm milljón hafi fengist upp í kröfu aðalstefnda við skiptin. Endurspegli þetta tap aðalstefnda vegna húsbyggingarinnar. Stefnandi haldi því fram að söluandvirði íbúðanna hafi ekki runnið til húsbyggjandans. Þessu mótmælir aðalstefndi. Söluandvirðið hafi verið greitt inn á reikninga Löngulínu 2 ehf. og því hafi verið ráðstafað til greiðslu kostnaðar við húsbygginguna eins og ársreikningar húsbyggjandans staðfesti. Söluandvirðið hafi ekki komist nærri því að hrökkva fyrir þeim kostnaði. Staðreyndin sé því sú að aðalstefndi hafi lagt meiri fjármuni til framkvæmdanna en hann hafi fengið til baka. Málflutningur stefnanda um hið gagnstæða sé því haldlaus. Með bréfi 25. nóvember 2012 hafi stefnandi beint kröfu að dótturfélagi stefnda, Landey ehf., vegna húsbyggingarinnar. Húsfélagið hafi lýst kröfum sínum nánar með bréfi 18. apríl 2013. Nokkru síðar, eða 9. ágúst 2013, hafi þessir aðilar gert með sér samkomulag sem fól í sér að stefnandi hafi fallið frá öllum kröfum sem hugsast gætu gegn aðalstefnda. Skömmu áður, eða 2. júlí 2013, hafi húsfundur stefnanda heimilað stjórn að ganga frá umræddu samkomulagi. Aðalstefndi hafi engar fréttir haft af málinu fyrr en löngu síðar eða þegar stefnandi óskaði dómkvaðningar matsmanna með matsbeiðni 18. nóvember 2015. Stefnandi hafi loks gert kröfu á hendur aðalstefnda með kröfubréfi 8. apríl 2016. Aðalstefndi hafi gert samkomulag um fullnaðaruppgjör við stefnanda 9. ágúst 2013 þar sem stefnandi falli frá öllum mögulegum kröfum gegn aðalstefnda. Ferlið, sem hafi lyktað með gerð samkomulagsins, hafi miðaðast í heild sinni við að eftir gerð þess gæti stefnandi engar frekari kröfur gert á stefnda og Landey ehf. Orðalag samkomulagsins hafi verið og sé afdráttarlaust um þetta. Stefnanda sé því óheimilt að halda fram kröfum gegn aðalstefnda. Af þeirri ástæðu beri að sýkna aðalstefnda. Aðalstefndi mótmælir því að nokkurt tilefni sé í málinu til að beita 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga til að setja til hliðar til eða ógilda samkomulagið frá 9. ágúst 2013. Engin ástæða sé til að víkja frá þessu fullnaðaruppgjöri. Forsenda þess hafi einmitt verið sú að frekari kröfur kynnu að vera til staðar eða koma í ljós síðar en stefnandi hafi afsalað sér þeim engu að síður. Stefnendur víki t.d. sérstaklega að þessu í bréfum sínum 25. nóvember 2012 og 18. apríl 2013 og samkomulagið beri þessa skýr merki og hafi tekið mið af þessu. Þá komi þetta skýrt fram á húsfundi stefnanda 2. júlí 2013. Öllum málflutningi stefnanda um að forsendur samkomulagsins hafi brostið sé því mótmælt. Enn frekar sé því mótmælt að aðalstefndi geti borið einhverja ábyrgð á því að slíkar forsendur hafi brostið teljist sú hafa verið raunin. Aðalstefndi mótmælir því að aðalstefndi hafi með einhverjum hætti verið í yfirburðastöðu gagnvart stefnanda. Þvert á móti hafi stefnandi verið í ákjósanlegri aðstöðu gagnvart aðalstefnda til að meta stöðu mála. Félagar stefnanda hafi búið í húseigninni og verið í ákjósanlegri aðstöðu til að afla sér hverra þeirra sérfræðiálita um ástand hússins sem þeir vildu. Aðalstefndi hafi verið í erfiðari aðstöðu því hann hafi fengið alla sína vitneskju um eignina frá starfsmanni VSB verkfræðistofu. Stefnandi hafði hins vegar haft fullan aðgang að þessum sama starfsmanni. Stefnandi hafi því að lágmarki vitað jafn mikið og aðalstefndi um ástand eignarinnar og líklega meira. Formaður húsfélagsins, sem undirritaði samkomulagið, sé löggiltur fasteignasali og húsfélagið hafi að auki notið ráðgjafar sérfræðings í eignaumsjón. Stefnandi sé því bundinn af fullnaðaruppgjörinu og geti engar kröfur gert á stefnda. Húsbyggjandinn Langalína 2 ehf. beri ábyrgð á byggingarframkvæmdum. Sé húsbyggjandinn einkahlutafélag beri móðurfélag húsbyggjandans enga slíka ábyrgð. Þetta sé grundvallarregla félagaréttar og leiði m.a. af ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, sbr. einkum 1. mgr. 1. gr. Stefnandi geri í stefnu enga viðhlítandi grein fyrir grundvelli þess að hann vill að vikið verði frá þessari grundvallarreglu. Stefnandi mótmælir því að skilyrði séu til þess. Aðalstefndi hafi t.d. aldrei lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum húsbyggjandans í málinu. Aðalstefndi mótmælir málflutningi stefnanda um að aðalstefndi hafi með gerð samkomulagsins 9. ágúst 2013 viðurkennt ábyrgð sína. Í samkomulaginu sé hið gagnstæða beinlínis tekið fram. Aðalstefndi mótmælir einnig málflutningi stefnanda um að aðalstefndi hafi veitt einhvers konar yfirlýsingu um ábyrgð á framkvæmdum með ákvæði í kaupsamningi 30. júní 2010 sem vísi til yfirlýsingar frá aðalstefnda um afléttingu veða. Sú yfirlýsing staðfesti ekki annað en að litið hafi verið svo á að til stofnunar skuldbindingar aðalstefnda gagnvart kaupendum hafi einmitt þurft sérstaka yfirlýsingu aðalstefnda. Hún hafi hins vegar aldrei verið gefin. Hið eina sem stefndi hafi gert eftir að hann eignaðist hlutafé félagsins 7. maí 2010 hafi verið að skipa menn í stjórn Löngulínu 2 ehf. sem hafi svo rekið félagið í samræmi við ákvæði laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Ekkert bendi til að þessir stjórnarmenn hafi sýnt af sér óheiðarleika í störfum sínum. Þeir hafi gert viðskiptalega samninga fyrir hönd félagsins um að ljúka byggingarframkvæmdum, hafi tryggt áframhaldandi fjármögnun þeirra, ráðið verkfræðistofu til að fylgjast með framvindu verksins fyrir hönd félagsins og tryggt að félagið hefði á sínum snærum byggingarstjóra í samræmi við lög. Vafasamt sé að stjórnarmenn Löngulínu 2 ehf., og hvað þá hluthafi hans, beri einhverja skyldu til frekari ráðstafana en þetta. Þótt aðalstefndi hafi fjármagnað framkvæmdir þá felist ekki í því nein ábyrgð af hans hálfu. Í slíkri fjármögnun felist ekki að aðalstefndi hafi „í raun ráðið öllu“ um húsbygginguna, líkt og stefnandi haldi fram, hvort heldur horft sé til tímans fyrir 7. maí 2010 eða eftir hann. Í því sambandi tekur aðalstefndi fram að stefnandi haldi því ekki einu sinni fram í málinu að starfsmenn aðalstefnda hafi haft vitneskju um hina meintu ágalla 7. maí 2010 eða við gerð samkomulagsins 9. ágúst 2013. Staðreyndin sé enda sú að stjórnarmenn Löngulínu 2 ehf. hafi gert sér far um eftir því sem kostur var að lagfæra þá ágalla sem upp komu. Þetta staðfesti t.d. minnisblað frá VSB verkfræðistofu. Engar forsendur séu því sjáanlegar í málinu fyrir að gera aðalstefnda ábyrgan fyrir skuldbindingum húsbyggjandans. Aðalstefnda beri því að sýkna á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hinir ætluðu ágallar hafi allir verið til staðar um margra ára skeið. Þeir hafi að vísu ekki verið aðalstefnda kunnir og alls óljóst sé hvenær stefnanda hafi orðið ljóst um þá. Stefnandi hafi kosið vísvitandi að gera engar kröfur við búskipti Löngulínu 2 ehf. Hann geti því ekki haldið því fram hér að ráðstafanir aðalstefnda hafi verið „til þess eins“ að afla stefnda „hagsmuna á kostnað félagsins og kröfuhafa þess.“ Hafi stefnandi litið svo á hafi honum verið rétt að lýsa kröfu við búskipti Löngulínu 2 ehf. og krefjast þess af skiptastjóra að skoðun færi fram á þessu, sbr. m.a. XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þetta hafi stefnandi ekki gert og því verði nú að leggja til grundvallar að allar ráðstafanir stjórnarmanna Löngulínu 2 ehf. í samskiptum við aðalstefnda séu hafnar yfir vafa. Hafi stefnandi þar fyrir utan ætlað sér að gera kröfur gegn aðalstefnda hafi þeim að auki verið nauðsynlegt að framkvæma viðhlítandi úttekt á ástandi hússins fyrir löngu. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að óska dómkvaðningar matsmanna fyrir löngu hafi vilji hans staðið til málaferla. Sé því rétt að líta svo á að krafan hafi verið fyrnd þegar málið var höfðað, sbr. 3. og 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Í öllu falli verði að líta svo á að stefnendur hafi glatað kröfu sinni fyrir tómlæti. Stefnandi haldi því fram að „neytendasjónarmið“ eigi að hafa vægi við úrlausn málsins. Þessu mótmælir aðalstefndi og bendir á að stefnandi vísi ekki til viðhlítandi lagaákvæða þessu til stuðnings. Að auki hafi Langalína 2 ehf. selt stóran hluta íbúðanna, 27 í heildina, til lögaðila sem þarfnist engrar sérstakrar verndar. Þrjár íbúðanna hafi aldrei orðið eign Löngulínu 2 ehf. Eigendum 30 íbúðanna hafi þannig verið í lófa lagið að gæta réttar síns hafi þeir álitið ábyrgð Löngulínu 2 ehf. á framkvæmdum ófullnægjandi fyrir hagsmuni sína. Aðeins upphaflegir kaupendur 15 íbúða hafi verið einstaklingar. Um forsendur þeirra fyrir  kaupunum liggi engar upplýsingar fyrir. Þó sé ljóst að fasteignasali haf haft milligöngu um viðskiptin. Miða megi við að hann hafi útskýrt fyrir kaupendum hver teldist seljandi eignarinnar og bæri ábyrgð á efndum kaupsamninganna. Hefði fasteignasalinn talið ábyrgð á framkvæmdunum ófullnægjandi, með hliðsjón af verði í viðskiptunum og öðrum skilmálum, hafi honum verið skylt að láta þessa kaupendur vita. Aðalstefndi mótmælir því að byggingarreglugerð nr. 112/2012 geti átt við í málinu. Bygging hússins haf farið fram fyrir gildistöku hennar. Aðalstefnda sé ókunnugt um hvernig staðið var að áfangaúttektum fyrir 7. maí 2010. Engin gögn staðfesti að um vanhöld hafi verið að ræða á þeim. Reynist eitthvað hafa skort á þær beri aðalstefndi þess utan enga ábyrgð þar á. Einnig sé óljóst hvernig skortur á áfangaúttektum geti hafa orsakað hið meinta tjón stefnanda. Aðalstefndi mótmælir þeirri ályktun matsmanns að nauðsynlegt sé að fjarlægja eldri klæðningu og setja nýtt múrkerfi utanhúss í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Þessa sé ekki þörf því að nægjanlegt sé að skila inn nýjum teikningum til að fullnægja kröfum byggingarreglugerðar. Sú aðferð, sem notuð hafi verið, teljist fagleg þótt ekki hafi nægjanlega vel tekist til við framkvæmd hennar. Þá sé vert að nefna að hefði stefnandi haldið rétti sínum til haga án þess tómlætis sem um teflir í málinu hefði hann mögulega getað notið góðs af 100% niðurfellingu virðisaukaskatts af vinnu á verkstað. Hann geti því ekki gert aðra ábyrga fyrir þeim aukakostnaði sem hann verður nú fyrir þegar niðurfellingin tekur aðeins til 60% virðisaukaskatts eftir 1. jan. 2015, sbr. reglugerð nr. 449/1990 og 440/2009. Forsendum matsgerðarinnar sé svo um annað mótmælt. Aðalstefndi telur hins vegar óþarft að skýra nánar frá þeim mótmælum, enda eðlilegt að frumkvæði í þeim efnum komi frá varastefnda Jóhanni sem hafi verið byggingarstjóri við framkvæmdirnar. Upphafsdegi og forsendum vaxtakröfu stefnanda sé mótmælt. Ekki fáist séð að kröfugerð stefnanda taki tillit til greiðslna samkvæmt fullnaðaruppgjörinu 9. ágúst 2013 líkt og rétt væri. Stefndi vísar máli sínu til stuðnings einkum til reglunnar um skuldbindingargildi samninga og laga nr. 138/1994. Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. IV Varastefndi Garðabær mótmælir öllum kröfum og málsástæðum stefnanda. Að því er varðar varastefnda Garðabæ sérstaklega sé á því byggt af hálfu stefnanda að „eftirliti hússins í byggingu hafi verið stórkostlega ábótavant og því að eigandi þess og húsbyggjandi á sínum tíma hafi komist upp með það að byggja húsið þvert á samþykktar teikningar og í andstöðu við lög um mannvirki, byggingarreglugerðir og lög um brunavarnir. Nánar tiltekið sé til þess vísað af hálfu stefnanda að ekki hafi farið fram áfangaúttektir á vegum byggingarfulltrúa, þ.m.t. á klæðningu fasteignarinnar og einangrun hennar. Engar athugasemdir hafi komið frá byggingarfulltrúa er lutu að „rangri efnisnotkun“, skorti á notkun efna sem hlotið hafi faggildingu viðurkenndra aðila, notkun á brennanlegri plasteinangrun, í andstöðu við samþykktar teikningar og reglur um brunavarnir, og ekki hafi verið „vikið að gölluðum vinnubrögðum við klæðningu hússins og frágangi á gluggum.“ Þá hafi í lokaúttekt, sem gera skyldi á því hvort mannvirki uppfyllti ákvæði laga og reglugerða og væri í samræmi við hönnunargögn, ekki verið vikið að því að tilteknar áfangaúttektir hefðu ekki farið fram. Hefðu áfangaúttektir farið fram hefði komið fram „að húsið var ekki byggt í samræmi við samþykktar teikningar hönnuða“ svo sem nánar sé rakið í stefnu. Af hálfu stefnanda sé varðandi skaðabótaábyrgð varastefnda vísað til almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um húsbóndaábyrgð en fjártjónið megi rekja til „athafna eða athafnaleysis“ byggingarfulltrúa sem ekki geti skýlt sér bak við ábyrgð byggingarstjóra „enda sé ábyrgð hans afleidd af lögbundnum skyldum bæjarins.“ Varastefndi Garðabær byggir sýknukröfu sína aðallega á því að hann, eða þeir sem hann beri ábyrgð á, hafi ekki sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem valdið hafi stefnanda fjártjóni. Þá er á því byggt, verði talið að húsbyggjandi eða eftir atvikum byggingarstjóri, hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi, að hvorki séu til staðar orsakatengsl né uppfylltar kröfur skaðabótaréttar um sennilega afleiðingu vegna meintrar háttsemi varastefnda í því sambandi. Þegar bygging fasteignarinnar Löngulínu 2 hófst og þeir verkþættir voru unnir, sem stefnandi vísi til í málatilbúnaði sínum, hafi verið í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, og byggingarreglugerð nr. 441/1998. Samkvæmt gr. 17.1 í reglugerðinni hafi hönnuðir fasteigna borið ábyrgð á því að hönnun væri faglega unnin og í samræmi við lög og reglugerðir um byggingarmál og með áritun þeirra hafi verið ábyrgst að viðkomandi mannvirki stæðist kröfur sem til þess væru gerðar í reglugerðinni, enda „verið fylgt að fullu uppdráttum hans, verklýsingu og skriflegum fyrirmælum.“ Samkvæmt skýru orðalagi gr. 32.2 í nefndri byggingarreglugerð nr. 441/1998, sbr. og 3. mgr. 51. gr. þágildandi laga nr. 73/1997, hafi byggingarstjóri borið ríka ábyrgð á því að byggt væri í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, sbr. hér að framan. Í gr. 118 í nefndri reglugerð hafi verið sagt að tryggja skyldi að framkvæmdir væru unnar með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti. Byggingarstjóri hafi ráðið iðnmeistara til verks eða samþykkti ráðningu þeirra og hafi iðnmeistarar borið ábyrgð gagnvart byggingarstjóra og eiganda byggingarframkvæmda á því að verk hans væri unnið í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga nr. 73/1997. Í gr. 48.1 í reglugerðinni hafi verið kveðið á um að byggingarstjóri skyldi óska tiltekinna úttekta á verkþáttum og samkvæmt gr. 48.2 hafi byggingarstjóra verið skylt að tilkynna byggingarfulltrúa þegar bygging væri fokheld. Við lok úttektarskyldra verkþátta skyldi byggingarstjóri gera byggingarfulltrúa viðvart en við lok framkvæmda skyldi byggingarstjóri staðfesta skriflega að byggt hafi verið í samræmi við framangreindar kröfur, sbr. gr. 35.2. Í gr. 53 hafi síðan verið kveðið á um lokaúttektir en lokaúttekt vegna umrædds mannvirkis hafi farið fram 6. júlí 2012 en þá hafði reglugerð nr. 112/2012 tekið gildi, sbr. nánar kafli 3.9 reglugerðarinnar. Í gr. 39.1 hafi svo sérstaklega verið vikið að ábyrgð múrarameistara sem ábyrgðist m.a. múrhúðun og frágang á einangrun undir múrvinnu. Ákvæði mannvirkjalaga nr. 160/2010, sbr. og áður lög nr. 73/1997, að því er varðar eftirlit sveitarfélaga með mannvirkjagerð, sem og ákvæði í löggjöf um aðferðir og efni sem notuð eru við mannvirkjagerð, séu fyrst og fremst sett með tilliti til almannahagsmuna. Í eftirliti byggingarfulltrúa, fyrir hönd sveitarfélags, felist þannig að mati varastefnda hvorki almennt gæðaeftirlit, né eftirlit með vinnubrögðum, nema að sérstakt tilefni gefist til. Aðeins sé um að ræða almennt eftirlit með mannvirkjagerð sem fari fram á grundvelli viðurkenndrar hönnunar og sé framkvæmd af löggiltum iðnmeisturum undir eftirliti og á ábyrgð byggingarstjóra. Í eftirliti byggingarfulltrúa í umræddu tilviki hafi hvorki falist sértæk rannsókn á hefðbundnum verkþáttum svo sem á múrverki, né á frágangi klæðningar útveggja að öðru leyti. Því síður hafi verkþættirnir verið greindir með sýnatöku eða efnisnotkun viðkomandi iðnmeistara rannsökuð sérstaklega. Beri hér og að hafa í huga að hvorki sjónskoðun né annað hafi gefið byggingarfulltrúa tilefni til slíkra sértækra ráðstafana.  Af hálfu varastefnda Garðabæjar er og sérstaklega á því byggt að af tilvísuðum lögum og reglugerðum verði ekki ráðið að á byggingarfulltrúa sveitarfélags hvíli skylda til að eiga frumkvæði að því að lögbundnar úttektir séu gerðar á einstökum verkþáttum við byggingu mannvirkja eins og stefnandi virðist í raun byggja á. Um byggingarfulltrúa hafi verið fjallað í 40. gr. laga nr. 73/1997 en samkvæmt 2. mgr. 40. gr. hafi hlutverk byggingarfulltrúa m.a. verið að annast úttektir og eftirlit einstakra þátta byggingarframkvæmda eftir því sem nauðsyn krafði, sbr. einnig ákvæði 9.4 í þágildandi byggingarreglugerð. Það hafi verið hlutverk byggingarstjóra að óska eftir úttektum tiltekinna verkþátta. Þá hafi það og verið byggingarstjóri sem hafi borið ábyrgð á því að byggt væri í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Eins og fyrr segi séu ákvæði laga og reglna um byggingareftirlit sveitarfélaga einkum sett til verndar almannahagsmunum og til að efla almennt öryggi. Slík ákvæði dragi á engan hátt úr fyrrgreindum skyldum og ábyrgð byggingarstjóra samkvæmt lögum og reglum og byggir varastefndi á því að þeirri ábyrgð verði ekki velt yfir á byggingarfulltrúa eða eftir atvikum sveitarfélag eins og hér stendur á. Í lýsingu stefnanda á dómkröfu sinni komi fram að eftirfarandi atriði teljist til galla á nefndri fasteign: Í fyrsta lagi þurfi að koma til viðgerð á múrklæðningu, í öðru lagi endurnýjun á þakniðurföllum, í þriðja lagi þurfi að lagfæra bílageymslu, í fjórða lagi þurfi að koma til lagfæringar í kringum glugga og hurðarop og loks í fimmta lagi sé tjónið fólgið í kostnaði við umsjón og eftirlit vegna viðgerðanna. Í matsgerð sé vikið að ofangreindum liðum nánar, sbr. og skýrslu Odds Hjaltasonar, dags. í mars 2016, sem sé fylgiskjal með matsgerðinni. Í matsgerðinni komi fram sú niðurstaða matsmanns að m.t.t. þykktar á múrskel, bendingar múrskeljar með glertrefjaneti, og með tilliti til þess að plasteinangrun hafi verið notuð í stað steinullar, teljist múrkerfi hússins ekki uppfylla kröfur sem gerðar hafi verið í 148. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, og 25. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir. Að því er varðar einangrun fasteignarinnar sérstaklega komi fram í tilvísaðri úttekt Odds Hjaltasonar að skemmdir séu á múrskel fasteignarinnar, þ.e. sprungur í undir- og yfirmúr á glugga- og hurðarköntum og í yfirborði yfirmúrs, frostskemmdir í yfirborði yfirmúrs og útfellingar og lekaskemmdir í málningu. Þá sé og tiltekið að því er varðar múrkerfi útveggja að veruleg frávik séu frá samþykktum teikningum aðalhönnuðar. Komi þar m.a. fram að notuð hafi verið 100 mm plasteinangrun í stað 100 mm steinullareinangrunar. Þá komi og fram að sýnataka hafi leitt í ljós að þykkt á múrskel sé á bilinu 6-30 mm en teikningar geri ráð fyrir að þykktin sé 20-25 mm Stefnandi byggir á því að framangreind atriði, þ.e. að notuð hafi verið plasteinangrun í stað steinullar og mismunandi þykkt múrskeljar, hefðu komið í ljós við áfangaúttekt byggingarfulltrúa ef hún hefði farið fram en byggingarfulltrúi varastefnda hafi ekki „fylgt eftir kröfu um áfangaúttektir“ og þannig ekki sinnt lögbundnum skyldum sínum. Þessu mótmælir varastefndi sem þýðingarlausu. Að mati varastefnda sé ljóst og á því byggt að það hafi verið á ábyrgð byggingarstjóra að óska eftir áfangaúttektum og að það hafi verið byggingarstjóri sem hafi átti að sjá til þess og bera ábyrgð á að byggt væri í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Samkvæmt byggingarlýsingu aðalhönnuðar fyrir Löngulínu 2 skyldu útveggir vera „járnbundin steinsteypa, staðsteyptir upp á hefðbundinn hátt (200mm) einangraðir að utan með 100mm steinullareinangrun. Að utan eru veggir klæddir með slitsterkri viðhaldslítilli klæðningu í flokki 1. Ljóst sé að þessi lýsing aðalhönnuðar teljist vera til samræmis við þær kröfur sem gerðar voru til byggingaruppdrátta, sbr. gr. 20.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Við eftirfarandi byggingareftirlit mannvirkisins, sbr. 61. gr., hafi ekkert verið sem hafi gefið tilefni til þess að ætla að framkvæmd umrædds verkþáttar væri ekki í samræmi við tilvísaða byggingarlýsingu eða að frávik hefðu verið ákveðin frá nefndri lýsingu aðalhönnuðar. Þannig hafi ekkert gefið byggingarfulltrúa tilefni til að efast um að ekki væri um að ræða klæðningu í flokki 1, sbr. og gr. 148.1 í þágildandi byggingarreglugerð, eða að frágangi einangrunar eða múrverks væri að öðru leyti verulega ábótavant. Í þessu sambandi megi og m.a. vísa til fyrirliggjandi ljósmynda af mannvirkinu sem teknar hafi verið sumarið og haustið 2010. Þá byggir varastefndi á því að tilvísuð frávik frá teikningum hönnuðar, þ.e. að plasteinangrun var notuð í stað steinullar og mismunandi þykkt múrskeljar, hefðu ekki komið í ljós við áfangaúttekt á þessum atriðum, enda fari slík úttekt almennt fram með sjónskoðun. Byggingarfulltrúi framkvæmi engar sértækar rannsóknir eða mælingar nema sérstakt tilefni gefist til. Svo hafi ekki verið í þessu tilviki. Í þessu sambandi bendir varastefndi einnig á að samkvæmt því er fram komi hafði VSB verkfræðistofa yfirumsjón með framkvæmdum við bygginguna að því er virðist frá hausti árið 2009. Sá eftirlitsaðili virðist ekki hafa gert sér grein fyrir tilvísuðum frávikum frá samþykktum teikningum og því ljóst að mati varastefnda að þau frávik hafi ekki verið sýnileg. Þá komi einnig fram að VSB verkfræðistofa hafi unnið mat á „viðgerðarkostnaði og kostnaði við að ljúka framkvæmdum“ á árinu 2013. Af því mati megi einnig ráða að þeir gallar, sem fyrirliggjandi matsgerð telur vera á eigninni, hafi ekki verið sýnilegir, þ.m.t. byggingarfulltrúa. Þá er og á því byggt af hálfu varastefnda að einangrun sú sem notuð var í stað steinullar, þ.e. einangrunarplast, sé hvort tveggja heimil og algeng við mannvirkjagerð. Hönnun, sem gert hefði ráð fyrir slíkri einangrun, hefði því ekki sætt athugasemdum af hálfu byggingarfulltrúa ef á hefði reynt að því leyti til. Notkun á plasteinangrun áskilji hins vegar m.t.t. brunaálags tiltekna þykkt á múrhúð. Ljóst sé hins vegar að þykkt múrhúðar, sem sé á ábyrgð múrarameistara, sé ekki úttekin sérstaklega eða mæld af hálfu byggingarfulltrúa við úttektir. Sé því ljóst að nauðsynlegt orsakasamhengi teljist ekki vera á milli þess að vanrækt hafi verið gera grein fyrir breyttu fyrirkomulagi á útveggjaklæðningu, meintri vanrækslu á eftirliti af hálfu byggingarfulltrúa, og þess fjártjóns sem stefnandi telur að rekja megi til galla í klæðningu fasteignarinnar. Þá sé meint fjártjón ekki sennileg afleiðing af meintri vanrækslu á tilkynningu um breytingu á hönnun einangrunar. Skilyrði bótaábyrgðar varastefnda teljast því ekki uppfyllt. Að auki gerir varastefndi og sérstaklega athugasemd við þá ályktun matsmanns að þykkt á múrskel sé „víðast hvar of lítil“, með hliðsjón af þeirri sýnatöku sem greint er frá í úttekt Odds Hjaltasonar, dags. í mars 2016. Megi allt eins ráða af úttektinni að frávik séu ekki veruleg. Að því er varðar kröfugerð stefnanda vegna meintra galla, sem tengist frágangi glugga, sé til þess vísað af hálfu varastefnda að hvort tveggja sé heimilt og algengt við mannvirkjagerð, þ.e. að steypa gluggakarma í eins og hafi verið gert, eða að þeir séu settir í eftirá eins og teikningar hafi gert ráð fyrir. Hönnun, sem gerði ráð fyrir því að steypa gluggakarma í upphafi, hefði því ekki sætt athugasemdum byggingarfulltrúa ef á hefði reynt. Alltaf sé þá miðað við að framkvæmdin sé til samræmis við viðurkennd vinnubrögð, sbr. hér að framan. Stefnandi byggi á því að varastefndi hafi ekki sinnt skyldum sínum í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Eins og rakið hafi verið geti skortur á tilteknum áfangaúttektum byggingarfulltrúa ekki talist saknæm háttsemi af hálfu varastefnda í skilningi skaðabótaréttar, enda hafði hann enga frumkvæðisskyldu í þeim efnum. Þá hafi varastefndi auk þess bent á að ekki sé til að dreifa viðeigandi orsakasamhengi milli meints skorts á slíkum úttektum og þeirra ágalla sem stefnandi vísi til í málatilbúnaði sínum. Þvert á móti sé á því byggt að um sé að ræða atriði sem ekki hefðu komið fram við áfangaúttektir. Að því er varðar aðra liði í kröfugerð stefnanda, þ.e. varðandi endurnýjun á þakniðurföllum, lagfæringar í bílageymslu, lagfæringar í kringum glugga og hurðir o.fl., sé því með öllu hafnað að byggingarfulltrúi, eða eftir atvikum aðrir starfsmenn varastefnda, geti borið sakarábyrgð á meintu tjóni vegna þessara liða. Sé með öllu ósannað að eftirlit af hálfu byggingarfulltrúa hafi á nokkurn hátt tengst umræddum liðum. Þá verði heldur ekki séð að bótaábyrgð varastefnda verði reist á öðrum atriðum, enda ekki á slíku byggt af hálfu stefnanda. Af hálfu varastefnda er m.a. vísað til almennra reglna skaðbótaréttar, skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, laga nr. 75/2000 um brunavarnir og byggingarreglugerða nr. 441/1998 og 112/2012. Um málskostnaðarkröfu vísast til dómkrafna. Varastefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda. V Varastefndi Jóhann Guðni Hlöðversson telur nauðsynlegt að gera athugasemd við aðild málsins sóknarmegin. Ekki sé gerð viðhlítandi grein fyrir aðild stefnanda en auk þess hafi stefnandi ekki staðið fyrir byggingu hússins. Hann sé því rangur aðili til þess að hafa uppi skaðabótakröfu á hendur varastefnda á grundvelli 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 en í 3. mgr. komi fram að ábyrgðin takmarkist við ábyrgð gagnvart eiganda byggingarframkvæmda. Í stefnu segi réttilega að varastefndi Jóhann Guðni hafi tekið við sem byggingarstjóri byggingarinnar Löngulínu 2, Garðabæ, þann 21. febrúar 2008 en það hafi hann gert að beiðni aðalstefnda Arion banka hf. Í framlögðum gögnum stefnanda sé að finna staðfestingu á því að byggingarstjóraskipti hafi farið fram í júlí 2011 að beiðni byggingaraðila hússins, Riss ehf. Varastefndi hafi talið að þar sem hann hefði móttekið beiðni Riss ehf. um byggingarstjóraskipti yfirtæki nýr byggingarstjóri skyldur þær sem hvíldu á herðum byggingarstjóra og að hann væri þar með leystur undan verkinu. Varastefndi Jóhann Guðni hafi sérstaklega tekið fram að hann teldi að lokaúttekt væri þá á ábyrgð þess byggingarstjóra sem tæki við verkinu af honum. Varastefndi mótmælir fullyrðingum í stefnu um að fasteignin Löngulína 2 hafi ekki verið byggð í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, lög nr. 75/2000 um brunavarnir og lög nr. 160/2000 um mannvirki. Því er jafnframt mótmælt að ekki hafi verið byggt samkvæmt viðurkenndum aðferðum og að byggingin hafi verið haldin verulegum göllum þegar lokaúttekt fór fram en lokaúttekt á byggingunni hafi farið fram án athugasemda. Þá sé það rangt sem stefnandi haldi fram í stefnu að lögbundnar úttektir hafi ekki farið fram á ástandi hússins á hverjum tíma en líkt og sjá megi á yfirliti af byggingarsögu hússins hafi þær sannarlega farið fram í samræmi við lög og reglugerðir og verið án verulegra athugasemda. Varastefndi Jóhann Guðni mótmælir því að hann hafi valdið stefnanda tjóni með saknæmum hætti og að hann hafi ekki sinnt lögbundnu eftirliti með umræddri framkvæmd. Því er mótmælt að varastefndi beri ábyrgð sem byggingarstjóri á meintum göllum byggingarinnar þar sem þeir „eigi allir rót sína að rekja til þess að húsið var ekki byggt í samræmi við samþykktar teikningar ...“ Í framlagðri matsgerð komi enda skýrlega fram að meirihluta matsliða megi rekja til þess sem matsmaður telur vera annmarka í aðaluppdráttum aðalhönnuðar og lagnahönnuðar. Varastefnda verði ekki metið það til saknæmrar vanrækslu að hafa treyst því að umræddar teikningar, sem höfðu verið samþykktar af þar til bæru stjórnvaldi, væru í samræmi við lög og reglugerðir. Getur hann því ekki borið skaðabótaábyrgð á meintum göllum sem leiði af þessu. Málsástæðum sínum til stuðnings vísi stefnandi til 5. mgr. 29. gr. laga nr. 160/2010 en lögin hafi tekið gildi þann 1. janúar 2011. Í greinargerð með frumvarpi að umræddum lögum komi fram að hlutverk byggingarstjóra hafi verið óljóst og að deilt hafi verið um umfang ábyrgðar þeirra, m.a. um stöðu þeirra gagnvart iðnmeisturum. Hafi því verið leitast við með lögunum að skýra þetta hlutverk og sé lögð áhersla á hlutverk byggingarstjóra sem faglegs fulltrúa eiganda mannvirkis „við framkvæmd innra eftirlits og samskipti við hönnuði, iðnmeistara og byggingaryfirvöld.“ Það sé eigandi mannvirkis sem beri ábyrgð á því að farið sé að kröfum umræddra laga og tengdra reglugerða, sbr. meginreglu 15. gr. laganna. Í greinargerð segi að reglu 15. gr. laganna hafi hingað til ekki „verið að finna með beinum hætti í lögum um byggingarmál“ og hafi ábyrgð eiganda því verið óljós. Ákvæðið sé í samræmi við eitt af meginmarkmiðum laganna, að skýra ábyrgð aðila. Af greinargerð megi jafnframt ráða að með lögunum sé verið að skýra gildandi rétt og taka af allan vafa, m.a. um ábyrgð og hlutverk aðila sem koma að byggingu húsa. Við umrætt verk hafi ekki verið gerður sérstakur samningur um ábyrgð byggingarstjóra, sbr. 3. mgr. 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og hafi varastefndi því ekki tekist á hendur ríkari ábyrgð sem byggingarstjóri en greinir í ákvæðum þá- og núgildandi skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar. Varastefndi byggir á því að meintir gallar heyri undir ábyrgð viðkomandi iðnmeistara og að hann geti ekki sem byggingarstjóri verið látinn bera ábyrgð á verkum þeirra eins og atvikum sé háttað í máli þessu. Um það er vísað til þess að um ábyrgð iðnmeistara á verkum sínum fari eftir 52. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga, sbr. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Varastefndi Jóhann Guðni geti ekki verið látinn bera sérstaka ábyrgð á verkum iðnmeistara, enda verður slík ábyrgð ekki dregin af orðalagi 51. og 52. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga en í 51. gr. sé ekki kveðið á um faglega ábyrgð byggingarstjóra á verkum þeirra iðnmeistara sem að verki geta komið. Til þess að varastefndi gæti talist bera almenna verkábyrgð á umræddu verki þyrfti slíkt að koma skýrt fram í umræddum lögum. Þetta hafi verið áréttað í 29. gr. mannvirkjalaga, sbr. 7. mgr. laganna, þar sem fram komi að byggingarstjóri beri ekki ábyrgð á faglegri framkvæmd verkþátta á ábyrgð einstakra iðnmeistara eða hönnuða, né því að iðnmeistarar og aðrir sem að verkinu komi uppfylli skyldur sínar samkvæmt verk- eða kaupsamningi. Varastefndi Jóhann Guðni byggir sýknukröfu sína jafnframt á því að saknæm háttsemi hans í málinu sé ósönnuð, þ.e. að hann hafi sem byggingarstjóri umræddrar byggingar sýnt af sér saknæma háttsemi sem leiði til þess að hann beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á meintu tjóni sem hafi hlotist af þeirri hegðun. Um það vísar varastefndi meðal annars til þess að úttektir byggingarfulltrúa vegna umræddrar byggingar hafi í öllum aðalatriðum verið athugasemdalausar. Þá hafi stefnandi hvorki lagt fram gögn um saknæma háttsemi af hálfu varastefnda, né sýnt fram á það með öðrum hætti að hann hafi valdið stefnanda tjóni. Varastefndi mótmælir sérstaklega upphafsdegi dráttarvaxta í kröfugerð stefnanda og telur rétt að miða við uppkvaðningu dóms ef ekki verður sýknað. Varastefndi Jóhann Guðni byggir á því að slíkir annmarkar séu á framlagðri matsgerð að ekki verði á henni byggt í málinu. Í matsgerð komist matsmaður að þeirri niðurstöðu að múrkerfi byggingarinnar sé haldið ágöllum og skemmdum sem aðeins verði bætt úr með heildarendurnýjun en þannig yrði einangrun fjarlægð af útveggjum, allt efni eldri múrklæðningar og nýtt múrkerfi sett utan á útveggi. Þá geri varastefndi athugasemd við almennt og óljóst orðalag í matsgerð, eins og það að þykkt á múrskel sé víðast hvar of lítil. Matsmaður komist að þeirri niðurstöðu að múrklæðning byggingarinnar sé frábrugðin því sem aðalhönnuður hússins hafi gert ráð fyrir á samþykktum byggingarnefndarteikningum. Innkaupastjóri verktaka, Einar Stefánsson, hafi staðfest að múrkerfi vegna byggingarinnar hafi verið Mapei-efni keypt frá Steypustöðinni í samræmi við hönnun. Þetta komi jafnframt fram í tölvupósti frá Steypustöðinni. Varastefndi Jóhann Guðni hafi lagt á það ríka áherslu við iðnmeistara að verkinu að teikningum yrði fylgt eftir í einu og öllu en hafi verið brugðið út frá því og ekki farið eftir lögum og reglugerðum sé það á ábyrgð viðkomandi iðnmeistara, í þessu tilviki múrarameistarans. Enda hafi hann ekkert samráð haft við varastefnda um frávik frá samþykktum teikningum. Að þykkt á múrskel sé ábótavant á sumum stöðum á byggingunni sé dæmi um óvönduð vinnubrögð en niðurstaða matsmanns í lið 1 í matsgerð sé sú að meginhluta skemmdar megi rekja til lélegs frágangs og deililausna. Í 39. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé kveðið á um að múrarameistari beri ábyrgð m.a. á múrhúðun og frágangi á einangrun. Múrkerfið hafi verið málað að undirlagi arkitekts, aðalhönnuðar hússins. Varastefndi bendir á að algengt sé að plastkerfi séu notuð samhliða steinullarkerfum hérlendis, þ.m.t. í svokölluðum kubbahúsum, en í leiðbeiningarblaði Mannvirkjastofnunar um val og frágang útveggjaklæðninga m.t.t. til brunavarna nr. 135.7 komi fram að í allt að átta hæða húsum sé heimilt að nota plasteinangrun. Skuli þá slíta einangrunina á hæðaskilum og hafi það verið gert í þessu tilfelli en byggingin sé steinsteypt á sex hæðum. Þetta sé staðfest í ástands- og kostnaðarmati. Varastefndi mótmælir því að nauðsynlegt sé að fjarlægja einangrun af útveggjum.          Varastefndi gerir verulegar athugasemdir við dómkröfu stefnanda sem byggð er á kostnaðarmati í matsgerð. Varastefndi mótmælir einkum lið átta í kostnaðarmati í matsgerð sem sé 7.500.000 krónur fyrir tæknilega umsjón og eftirlit. Sá kostnaður sé ekki sundurliðaður neitt frekar eða það sem búi að baki honum. Varakröfu sína um lækkun dómkrafna styður varastefndi við sömu málsástæður og hér að framan varðandi sýknukröfu sína. Varastefndi vísar til þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, til byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og til laga nr. 160/2010 um mannvirki, einkum 29. gr. laganna, sem og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Hann vísar einnig til almennra reglna kröfuréttar og til almennra reglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar. Krafa um málskostnað styðst við lög um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. VI                 Fasteignin Langalína 2, Garðabæ, er sex hæða fjöleignarhús með 48 íbúðum. Lóðarleigusamningur var gerður 4. júlí 2006 og fyrstu teikningar aðalhönnuðar af húsinu voru samþykktar árið 2007. Húsið varð fokhelt 25. september 2008. Upphaflegur húsbyggjandi var Ris ehf. sem seldi flestar íbúðir hússins til Riss fjárfestinga ehf. með afsali 18. ágúst 2009. Samkvæmt gögnum málsins virðist síðan nafni Riss fjárfestinga ehf. hafa verið breytt í Löngulínu 2 ehf. sem hélt áfram byggingu hússins. Húsbyggjandinn hafði frá öndverðu notið lánafyrirgreiðslu hjá forvera aðalstefnda Arion banka hf. Þann 5. janúar 2009 var þinglýst kvöð á fasteignina um að Ris ehf. mætti ekki veðsetja fasteignina nema með samþykki Nýja Kaupþings banka ehf. Fyrirsvarsmenn Löngulínu 2 ehf., þeir Þorgeir Jósefsson og Magnús Jónsson, sögðu í skýrslu sinni fyrir dómi að aðalstefndi hafi í raun yfirtekið Löngulínu 2 ehf. fljótlega eftir bankahrunið í október 2008 en dregið að skipta um stjórn í félaginu. Bankinn hafi verið með veð í hlutabréfum í Löngulínu 2 ehf. og fasteigninni og sagst myndu ganga að veðinu. Þáverandi eigendur Löngulínu 2 ehf. hafi ekki fengið frekari fyrirgreiðslu hjá aðalstefnda og bankinn tilkynnt að hann yfirtæki félagið. Eftir það hafi allar ákvarðanir verið teknar af nýjum stjórnendum Löngulínu 2 ehf., m.a. þær að velja múrklæðningu á húsið. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár keypti aðalstefndi Arion banki hf. allt hlutafé í Löngulínu 2 ehf. 7. maí 2010 og skipaði nýja stjórn í félaginu. Á árinu 2010 seldi Langalína 2 ehf. þær íbúðir í húsinu sem ekki hafði áður verið ráðstafað af Risi ehf. og Risi fjárfestingum ehf.                 Fram hefur komið í vitnaframburði að utanhússklæðning var sett á húsið árin 2009 og 2010. Þá hefur jafnframt komið fram í framburði Þorgeirs Jósefssonar, Magnúsar Jónssonar, Guðmundar E. Hallsteinssonar, múrarameistara hússins, svo og í framburði varastefnda Jóhanns Guðna Hlöðverssonar, byggingarstjóra hússins, að eftir yfirtöku aðalstefnda Arion banka hf. á Löngulínu 2 ehf. í október 2008 hafi verið ákveðið að leita ódýrari lausna við byggingu hússins, þ. á m. að hætta við að klæða húsið með álklæðningu, heldur með þeirri klæðningu sem deilt er um í málinu. Einnig hafi veri hætt við að leggja flísar á fyrstu hæð hússins.  Lokaúttekt á húsinu fór fram 6. júlí 2012.                 Varastefndi Jóhann Guðni Hlöðversson tók við starfi byggingarstjóra með tilkynningu Riss ehf. til varastefnda Garðabæjar 21. febrúar 2008 og var byggingarstjóri hússins allt til þess er lokaúttekt fór fram 6. júlí 2012. Í skýrslu sinni fyrir dómi upplýsti varastefndi Jóhann Guðni að eftir að ný stjórn Löngulínu 2 ehf. tók yfir byggingu hússins haustið 2008 hafi verið ákveðið að breyta teikningum varðandi utanhússklæðningu og arkitektastofa fengin til að gera sérteikningar. Breytingarnar hafi falist í því að sett yrði steinull undir glugga og samskeyti en plasteinangrun þar á milli. Hafi verið unnið eftir þessum teikningum. Fyrir liggur í málinu að þessar sérteikningar voru ekki lagðar fyrir byggingaryfirvöld til samþykktar. Varastefndi Jóhann Guðni sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hann kynni ekki skýringar á því. Teikningarnar hafa ekki verið lagðar fram í málinu.                 Þann 25. nóvember 2012 sendi stefnandi Landey ehf. bréf, en það félag mun hafa verið eigandi Löngulínu 2 ehf. um tíma og jafnframt dótturfélag aðalstefnda Arion banka hf., þar sem fram kemur ósk um að Landey ehf. skili húsinu í ásættanlegu horfi og bætt yrði úr nokkrum göllum og frágangi. Í bréfinu eru eftirfarandi verkefni tiltekin: Útfellingar á austurhlið hússins, vatnsleki í bílgeymslu, rakaskemmdir inni í íbúð 301, steypuskemmdir á svölum, garðhlið og þungatakmarkanir í garði, hljóðbært er á stigapöllum, ljósnemar, útloftun eða loftskipti á stigapöllum og sorpgeymslur. Þröstur Bjarnason byggingarfræðingur var fenginn til að meta kostnað við framangreindar lagfæringar sem hann mat á 4.700.000 krónur.                 Þann 9. ágúst 2013 gerðu aðalstefndi Arion banki hf. og stefnandi með sér samkomulag „um fullnaðaruppgjör á kostnaði við úrbætur á fasteigninni Löngulínu 2, Garðabæ.“ Segir m.a. í samkomulaginu, 2. gr.: „Í fyrstu grein samkomulags þessa eru taldir þeir verkþættir sem húsfélagið telur að bæta þurfi úr vegna lokafrágangs fasteignarinnar. Ýmist er um að ræða verkþætti sem sannanlega þarf að bæta úr eða verkþætti sem Arion hefur hafnað og annað hvort má telja til hönnunargalla eða þátta sem ekki var gert ráð fyrir á teikningum hússins. Arion telur að hvorki Arion né Landey ehf. beri ábyrgð að lögum gagnvart húsfélaginu á lokafrágangi fasteignarinnar. Sú ábyrgð hvílir á Löngulínu 2 ehf. sem nú er gjaldþrota, hvorki á eiganda þess félags né móðurfélaginu Arion. Arion hefur þó, eins og máli þessu er háttað, fallist á að ljúka málinu gagnvart húsfélaginu með samkomulagi þessu um fullnaðargreiðslu að fjárhæð kr. 6.500.000.“                 Þá segir í 3. gr. samkomulagsins: „Húsfélagið og Arion eru sammála um að greiðsla skv. 2. gr. skuli vera fullnaðaruppgjör á milli húsfélagsins og Arion og/eða Landeyjar ehf. Húsfélagið lýsir því yfir með óafturkræfum og óskilorðsbundnum hætti, að þegar greiðslan hefur verið innt af hendi inn á reikning húsfélagsins nr. 0318-13-300491 falli húsfélagið frá öllum kröfum um galla eða annars konar vanefndir hverju nafni sem nefnast vegna fasteignarinnar, á hendur Arion og/eða Landey ehf., hvort sem galla eða vanefnd megi rekja til þeirra verkþátta sem tilgreindir eru í 1. gr. samkomulags þessa eða annarra atvika, hvort sem eru til staðar við gerð samnings þessa eða koma til síðar.“                 Þröstur Bjarnason var aftur kallaður til í nóvember 2014 til þess að vinna ástands- og kostnaðarmat vegna galla á utanhússklæðningunni. Í skýrslu hans kemur m.a. fram að múrklæðning hússins hafi mikið breyst frá hausti 2013, er hann skoðaði húsið í fyrra skiptið, og fram á haust 2014. Mikið af sprungum hafi opnast í múrnum yfir veturinn og því spurning um endingu þessarar múrklæðningar. Hann bar á sama veg fyrir dómi.                 Langalína 2 ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 19. september 2012. Undirverktaki Löngulínu 2 ehf., Grandabrú 2 ehf., sem sá um byggingu hússins frá því að það var fokhelt þar til byggingu hússins var lokið, var tekið til gjaldþrotaskipta 5. maí 2011.                 Í byggingarlýsingu aðalhönnuðar hússins segir: „Útveggir eru járnbundin steinsteypa, staðsteyptir upp á hefðbundinn hátt (200 mm), einangraðir að utan með 100 mm steinullareinangrun. Að utan eru veggir klæddir með slitsterkri viðhaldslítilli klæðningu í flokki 1“.                 Matsmaður hefur komist að þeirri niðurstöðu að múrkerfið, þykkt þess víðast hvar, gerð þess, bending og frágangur í kringum glugga- og hurðakanta, sé ekki í samræmi við samþykktar teikningar aðalhönnuðar. Múrkerfið sé ekki hannað að viðurkenndum burðarþolshönnuði né aðalhönnuði hússins og samþykktar teikningar af múrkerfinu utan á húsinu liggi ekki fyrir hjá embætti byggingarfulltrúa. Þykkt á múrskel múrkerfisins sé á bilinu 6-30 mm en á leiðbeiningablaði Mannvirkjastofnunar nr. 148.1. BR2, dags. í nóvember 2007, séu tekin nokkur dæmi um efnisþykktir á klæðningu í flokki 1. Á blaðinu séu tekin til nokkur dæmi um viðurkenndar klæðningar í flokki 1 og þar komi fram að þykkt á múrhúð skuli vera a.m.k. 15 mm ef múrhúðað sé á vírnet. Á ljósum flötum hússins sé notað glertrefjanet víðast hvar í staðinn fyrir vírnet. Þá hafi verktaki notað brennanlega plasteinangrun í stað steinullareinangrunar, glertrefjanet víða í stað stálnets og þykkt á múrskel sé víðast hvar of lítil. Matsmaður telur að þessi frávik á efnisvali einangrunar og þykkt á múrskel valdi því að múrkerfið utan á húsinu uppfylli ekki ákvæði um að vera klæðning í flokki 1, sbr. grein 148.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, né uppfylli múrkerfið 1. mgr. 25. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000. Að auki hefur matsmaður metið að beiðni stefnanda kostnað við endurnýjun þakniðurfalla, kostnað við lagfæringu á bílgeymslu og kostnað við frágang í kringum glugga og hurðarop.                 Krafa stefnanda á hendur aðalstefnda Arion banka hf. byggist á því að aðalstefndi hafi í raun verið aðaleigandi byggingarframkvæmdanna og húsbyggjandi að Löngulínu 2, Garðabæ. Hann hafi ráðið öllu við framkvæmdirnar eftir að hann yfirtók Löngulínu 2 ehf. haustið 2008. Staðfest hefur verið með vitnaframburði fyrir dómi að forveri aðalstefnda yfirtók Löngulínu 2 ehf. fljótlega eftir bankahrunið í október 2008 og stjórnaði aðalstefndi félaginu eftir það. Birtist yfirtakan með þeim hætti að aðalstefndi tilkynnti þáverandi eigendum Löngulínu 2 ehf. að þeir fengju ekki frekari lánafyrirgreiðslu og að bankinn yfirtæki félagið, ennfremur með þeim hætti að aðalstefndi tryggði hagsmuni sína með því að þinglýsa kvöð á fasteignina um að ekki mætti selja eða veðsetja eignina nema með samþykki bankans, auk þess með því að aðalstefndi gerði þáverandi stjórnendum grein fyrir að starfi þeirra í þágu félagsins væri lokið og setti tvo starfsmenn sína í stjórn Löngulínu 2 ehf. sem var með sömu starfsstöð og aðalstefndi að Borgartúni 19, Reykjavík. Hinir nýju stjórnendur Löngulínu 2 ehf. tóku eftir það allar ákvarðanir um byggingu hússins, þ.á.m. um að byggt skyldi eftir ósamþykktum teikningum, teikningum sem matsmaður telur vera helstu orsök fyrir tjóni stefnanda. Í skilningi 3. mgr. 2. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 hafði aðalstefndi stöðu móðurfélags gagnvart Löngulínu 2 ehf., enda náin eigna- og stjórnunartengsl milli félagana. Er því ekki varhugavert að leggja til grundvallar niðurstöðu að aðalstefndi hafi haft raunveruleg yfirráð yfir Löngulínu 2 ehf. frá því að húsið var fokhelt 21. febrúar 2008 uns byggingu þess var lokið haustið 2010.                 Aðalstefndi tilkynnti þessa breytingu á stjórn Löngulínu 2 ehf. ekki til fyrirtækjaskrár fyrr en 7. maí 2010 en þar kemur m.a. fram að aðalstefndi keypti félagið á eina krónu en samkvæmt ársreikningi félagsins 2008 námu skuldir þess 1.564.325.880 krónum. Eigið fé í árslok 2009 var neikvætt um 1.161.216.322 krónur. Langalína 2 ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 19. september 2012 og í kröfu félagsins um að bú þess verði tekið til gjaldþrotaskipa segir að skuldir félagsins nemi þá 2.045.913.000 krónum. Líta verður til þess að ef aðalstefndi hefði gefið Löngulínu 2 ehf. upp til gjaldþrotaskipta þegar hann yfirtók félagið, eins og rétt hefði verið að gera, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., má ætla að forða hefði mátt tjóni þeirra íbúðareigenda sem keyptu sínar eignir 2009-2010, alls 43 íbúðir. Með stjórn sinni og sem einn eigandi að Löngulínu 2 ehf. gaf aðalstefnandi kaupendum auk þess til kynna að þeir þyrftu ekki að efast um fjárhag félagsins. Samkvæmt öllu framansögðu verður fallist á með stefnanda að aðalstefndi hafi í raun stjórnað Löngulínu 2 ehf. frá því að húsið varð fokhelt og telst aðalstefndi því réttur aðili málsins til að beina kröfum að.                  Eins og að framan er rakið gerðu stefnandi og aðalstefndi með sér samkomulag um fullnaðaruppgjör á kostnaði við úrbætur á fasteigninni 9. ágúst 2013. Efni þess er rakið hér að framan. Staðreynt hefur verið í málinu með skýrslu Þrastar Bjarnasonar byggingarfræðings að galli á utanhússklæðningu kom ekki í ljós fyrr en ári síðar. Fyrirsvarsmönnum stefnanda var því ekki gallinn ljós er þeir gengu til samkomulags við aðalstefnanda um fullnaðaruppgjör.                 Fram kom í málinu við aðalmeðferð þess að áður en kom að því að klæða húsið að utan hafi fyrirsvarsmenn Löngulínu 2 ehf. ákveðið að leita ódýrari leiða til þess að klæða húsið. Efnisvali klæðningar var breytt og aflað sérteikninga arkitektastofu til þess að fara eftir. Var húsið klætt eftir þessum teikningum með svokölluðu múrkerfi á þann veg sem lýst er í matsgerð. Óupplýst er af hverju hinar nýju teikningar voru ekki lagðar fyrir byggingaryfirvöld til samþykktar. Eiganda mannvirkis ber að hlutast til um að byggingarstjóri byggi í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, sbr. 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/19997. Í málinu hefur stefnandi sannað með matsgerð hins dómkvadda matsmanns að farið var á svig við framangreind ákvæði 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga með því að byggja ekki í samræmi við samþykktar teikningar aðalhönnuðar, heldur eftir ósamþykktum teikningum, sem ekki hafa verið lagðar fram í málinu. Ákvörðun um að klæða húsið eftir þessum teikningum var tekin af Löngulínu 2 ehf. Varastefndi Jóhann Guðni lét undir höfuð leggjast að fá breytingar á hönnun klæðningarinnar samþykktar hjá byggingaryfirvöldum og með matsgerð hefur verið sýnt fram á að í breytingunum fólst annað efnisval en aðalhönnuður hafði ákveðið og fengið samþykkt, efnisval sem uppfyllir hvorki ákvæði laga um brunavarnir, né að vera klæðning í flokki 1, sem aðalhönnuður hafði fyrirskrifað. Af þessu hefur hlotist tjón fyrir stefnanda. Þegar  framangreint er virt verður fallist á með stefnanda að víkja beri til hliðar ákvæðum samnings aðila frá 9. ágúst 2013 að því leyti sem hann takmarkar ábyrgð aðalstefnda, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.                 Samkvæmt öllu framansögðu er tjón stefnanda á ábyrgð aðalstefnda á grundvelli 2. mgr. 108. gr. laga nr. 38/1994 um einkahlutafélög og með vísan til sakarreglunnar. Ekki verður fallist á með aðalstefnda að sjónarmið um fyrningu eða tómlæti eigi við í málinu.                 Aðalkrafa stefnanda byggist á matsgerð hins dómkvadda matsmanns og hefur henni ekki verið hnekkt með yfirmati eða með öðrum hætti. Verður hún því tekin til greina eins og hún er fram sett í stefnu að öðru leyti en því að krafa stefnanda um þéttingar í kringum glugga og hurðir að fjárhæð 7.952.000 krónur verður ekki tekin til greina þar sem verk við ísteypta glugga hafði farið fram áður en aðalstefndi tók byggingu hússins yfir. Í samræmi við þá niðurstöðu verður krafa stefnanda vegna kostnaðar við tæknilega umsjón og eftirlit lækkuð hlutfallslega, eða í 8.564.962 krónur. Aðalkrafa stefnanda verður því tekin til greina með 172.168.312 krónum (152.341.150 krónur vegna viðgerðar á múrklæðningu, 3.900.000 krónur vegna endurnýjunar þakniðurfalla, 18.176.000 krónur vegna frágangs í kringum glugga og hurðarop, 8.564.962 krónur vegna eftirlits og tæknilegrar umsjónar, allt að frádregnum 10.813.800 krónum vegna greiðslu úr ábyrgðartryggingu). Þegar tekið hefur verið tillit til reglna um endurgreiðslu virðisaukaskatts á byggingarstað, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, verður aðalstefndi dæmdur til að greiða stefnanda 161.753.910 krónur með dráttarvöxtum eins og krafist er í stefnu og í dómsorði greinir.                 Eftir þessari niðurstöðu verða varastefndu sýknaðir í varasök.                 Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli varastefndu og stefnanda en aðalstefndi greiði stefnanda 4.000.000 króna í málskostnað og hefur þá ekki verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt. Gunnar Aðalsteinsson dómstjóri, Hjalti Sigmundsson, byggingartæknifræðingur og húsasmíðameistari, og Stanley Pálsson byggingarverkfræðingur kveða upp dóm þennan. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómsorð Aðalstefndi, Arion banki hf., greiði stefnanda, húsfélaginu Löngulínu 2, Garðabæ, 161.753.910 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi 15. júní 2016 til greiðsludags og 4.000.000 króna í málskostnað. Varastefndu, Garðabær og Jóhann Guðni Hlöðversson, eru sýkn af kröfum stefnanda í málinu. Málskostnaður í varasök fellur niður.
Mál nr. 824/2017
Líkamstjón Skaðabætur Tímabundið atvinnutjón Varanleg örorka Kröfugerð Frávísun frá héraðsdómi Gjafsókn
A krafði V hf. um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í umferðarslysi. Fyrir lá að A gegndi á slysdegi 60% starfi við E en utan þeirrar vinnu kvaðst hún hafa gegnt ólaunuðum störfum á heimili sínu og eiginmanns síns ásamt því að sinna með honum verkum við búskap, sem þau höfðu ekki tekjur af. Deildu aðilar um hvort A ætti rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku til heimilisstarfa, sem reiknaðar yrðu á grundvelli launa sem hún hefði borið úr býtum fyrir fullt starf við E, sbr. 3. mgr. 1. og 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Talið var að við ákvörðun á fjártjóni af þeim toga, sem A hafði orðið fyrir en ekki þegar fengið bætt, yrði að miða við verðmæti vinnu við heimilisstörf. Ekkert lægi fyrir um hvert hefði verið umfang slíkra starfa A en ólaunuð störf við búskap gætu ekki talist til heimilisstarfa í skilningi 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Þá yrði fjártjón vegna ófærni til heimilisstarfa ekki ákveðið á grundvelli endurgjalds fyrir launað hlutastarf utan heimilis. Hvað varðaði bætur fyrir ófærni til heimilisstarfa vegna varanlegrar örorku væri heldur ekki unnt að styðjast við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga enda hefði A sinnt hlutastafi utan heimilis um langt árabil. Var því talið að A hefði þurft að reisa útreikning á fjárhæð beggja liða dómkröfu sinnar á sérstöku mati á verðmæti þeirrar vinnu sem hún hafði lagt af mörkum til heimilisstarfa. Þar sem það hefði ekki verið gert væri kröfugerð A ekki byggð á viðhlítandi grunni og var málinu því vísað frá héraðsdómi án kröfu.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. desember 2017. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 13.117.343 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.499.599 krónum frá 10. desember 2013 til 10. desember 2014 og af 13.117.343 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af síðastnefndri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni 2.932.641 krónu miðað við 10. desember 2014 og 5.113.181 krónu 25. október 2016. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi varð áfrýjandi, sem er fædd […], fyrir líkamstjóni í umferðarslysi 10. desember 2013. Aðilana greinir ekki á um að hún hafi að fullu verið óvinnufær af þessum sökum frá slysdegi til 24. febrúar 2014 og aftur frá 10. mars til 10. desember sama ár, heilsufar hennar hafi orðið stöðugt síðastnefndan dag, varanlegur miski hennar af völdum slyssins nemi 22 stigum og sé varanleg örorka hennar 50%, allt eins og komist var að niðurstöðu um í örorkumati 10. mars 2016, sem aðilarnir leituðu sameiginlega eftir. Þá er óumdeilt að stefndi beri með stoð í samningi um slysatryggingu ökumanns bótaábyrgð gagnvart áfrýjanda vegna afleiðinga slyssins. Fyrir liggur að áfrýjandi hafi á slysdegi gegnt 60% starfi við E, svo sem hún hafi gert frá árinu 2007, en fram að því hafi hún allt frá árinu 1991 verið þar í hlutastarfi ef frá séu talin tvö tímabil 1997 og 1998, alls innan við fimm mánuði að lengd, þegar hún hafi verið í fullu starfi. Utan þessarar vinnu kveðst áfrýjandi hafa gegnt ólaunuðum störfum á heimili sínu og eiginmanns síns ásamt því að sinna með honum verkum til eigin þarfa við búskap, sem þau hafi ekki haft tekjur af. Vegna þessara aðstæðna telur áfrýjandi sig eiga rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku, sem reiknaðar verði á grundvelli launa sem hún hefði borið úr býtum fyrir fullt starf við E, sbr. 3. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefndi telur á hinn bóginn áfrýjanda ekki eiga í þessum efnum tilkall til bóta, sem taki mið af öðru en raunverulegum launatekjum hennar fyrir störf við E. Hún hafi notið launa fyrir 60% starf frá þeim vinnuveitanda á öllu tímabilinu, sem hún hafi tímabundið verið óvinnufær, og eigi því ekki rétt til frekari greiðslu á þeim grunni. Þá hafi stefndi greitt henni samkvæmt uppgjöri, sem hún hafi samþykkt með fyrirvara 24. október 2016, þjáningabætur ásamt bótum fyrir varanlegan miska og varanlega örorku að fjárhæð samtals 7.469.231 krónu auk vaxta og þóknunar lögmanns, en með því hafi fullar bætur verið greiddar. Af þeirri fjárhæð hafi bætur fyrir varanlega örorku numið 4.739.991 krónu. Þær hafi verið reiknaðar eftir meðaltali rauntekna áfrýjanda frá E síðustu þrjú ár fyrir slysdag, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en frá þeim hafi síðan verið dregin 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum, sem áfrýjandi hafi notið og muni njóta til 67 ára aldurs samkvæmt útreikningi tryggingarstærðfræðings, alls 2.932.641 króna, sbr. 4. mgr. 5. gr. sömu laga. Fyrir Hæstarétti stendur ágreiningur aðilanna um tvö atriði varðandi höfuðstól kröfu áfrýjanda. Annars vegar hvort hún eigi tilkall til frekari bóta vegna tímabundins atvinnutjóns, þar sem heimilisstörf hennar verði metin hlutfallslega til sömu launa og hún naut fyrir vinnu sína hjá E. Hins vegar hvort meta skuli árslaun hennar sérstaklega vegna óvenjulegra aðstæðna þrjú síðustu ár fyrir slysið og tekið þá mið af launum, sem hún hefði fengið hjá sama vinnuveitanda fyrir fullt starf. Á hinn bóginn stendur ekki lengur deila milli aðilanna um frádrátt eingreiðsluverðmætis örorkulífeyris áfrýjanda frá bótum hennar fyrir varanlega örorku og fellir hún sig þannig við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að því leyti. II Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skal verðmæti vinnu við heimilisstörf lagt að jöfnu við launatekjur við ákvörðun bóta, bæði fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku. Gildir þetta hvort sem tjónþoli hefur ekki gegnt launuðu starfi utan heimilis eða verið í hlutastarfi, sbr. dóma Hæstaréttar 14. október 1999 í máli nr. 153/1999 og 7. júní 2001 í máli nr. 451/2000. Eftir hljóðan fyrrnefnds lagaákvæðis verður fjártjón í slíkum tilvikum miðað við verðmæti vinnu við heimilisstörf og breytir þá engu hvort tjónþoli hafi þurft að bera kostnað af því að annar leysti af hendi þá vinnu í sinn stað, sbr. dóm réttarins 10. febrúar 2000 í máli nr. 362/1999. Að þessu gættu hefur því áfrýjandi ekki fengið bætt að fullu tjón sitt af slysinu 10. desember 2013 með því að fá annars vegar óskert laun úr hendi vinnuveitanda síns fyrir 60% starf á tímabili tímabundinnar óvinnufærni og hins vegar bætur frá stefnda vegna varanlegrar örorku, sem tóku mið af meðaltekjum hennar fyrir þetta hlutastarf á þriggja ára tímabili. Svo sem greinir hér að framan verður við ákvörðun á fjártjóni af þeim toga, sem áfrýjandi hefur orðið fyrir en ekki þegar fengið bætt, að miða við verðmæti vinnu við heimilisstörf. Í málinu liggur ekkert fyrir um hvert hafi verið umfang slíkra starfa áfrýjanda, sem eins og áður segir gegndi 60% launuðu starfi utan heimilis ásamt því að sinna ólaunuðum störfum við búskap, en þau síðarnefndu geta ekki talist til heimilisstarfa í skilningi 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Að auki verður fjártjón vegna ófærni til heimilisstarfa ekki ákveðið á grundvelli endurgjalds fyrir launað hlutastarf utan heimilis, en um það er ekki að finna fordæmi í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 14. október 1999, þar sem ekki var uppi ágreiningur um slíkar forsendur fyrir útreikningi dómkröfu svo sem þar var tekið fram. Að því er varðar bætur fyrir ófærni til heimilisstarfa vegna varanlegrar örorku er heldur ekki unnt í tilviki þessu að styðjast við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sem áfrýjandi hefur lagt til grundvallar, enda hafði hún samkvæmt áðursögðu sinnt hlutastarfi utan heimilis um langt árabil og aðstæður hennar að þessu leyti því ekki óvenjulegar síðustu þrjú ár fyrir slysdag. Óhjákvæmilega hefði því áfrýjandi þurft að reisa útreikning á fjárhæð beggja liða dómkröfu sinnar á sérstöku mati á verðmæti þeirrar vinnu, sem hún hafi í framangreindu ljósi lagt af mörkum til heimilisstarfa. Með því að það hefur ekki verið gert er kröfugerð áfrýjanda ekki byggð á viðhlítandi grunni og verður af þeim sökum að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu. Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði verður ákveðinn eins og gert var í hinum áfrýjaða dómi, en um þann kostnað hennar fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar í héraði, 600.000 krónur, og fyrir Hæstarétti, 750.000 krónur.       Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2017. Mál þetta, sem var dómtekið 7. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, […] á hendur Verði tryggingum hf., Borgartúni 25, Reykjavík, til greiðslu fullra skaðabóta vegna umferðarslyss sem hún lenti í 10. des. 2013. Stefna málsins var birt 7. febrúar 2017. Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 13.117.343 kr. með 4,5% ársvöxtum af 1.499.599 kr. frá 10. desember 2013 til 10. desember 2014, af fjárhæðinni allri frá þeim degi til 30. apríl 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 1.294.868 kr. þann 10. desember 2014 og 5.113.181 kr. þann 25. október 2016. Þá er krafist málskostnaðar eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.                 Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hennar hendi. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. I                 Stefnandi lenti í umferðaróhappi 10. desember 2013. Stefndi hefur viðurkennt bótaskyldu gagnvart stefnanda en ágreiningur er um fjárhagslegt uppgjör. Málsaðilar öfluðu sameiginlega mats B læknis og D hrl. á afleiðingum slyssins. Niðurstaðan var meðal annars sú að varanleg örorka stefnanda væri 50%, en tímabundið atvinnutjón frá 10. desember 2013 til 24. febrúar 2014 og frá 10. mars 2014 til 10. desember 2014. Matið var lagt til grundvallar uppgjöri bóta en ágreiningur er um tekjuviðmið til grundvallar útreikningi á varanlegri örorku og eingreiðsluverðmæti greiðslna frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum. Stefnandi var í 60% starfi sem […] hjá Eþegar hún lenti í slysinu og hafði verið frá 2007. Hún og maður hennar voru að auki með smábúskap sem hún sinnti samhliða starfi sínu. Stefnandi sinnti auk þess húsmóðurstörfum og ýmsu öðru, líkt og að gæta barnabarna. Í mars 2016 sendi stefnandi kröfubréf sem tók mið af niðurstöðum nefndrar matsgerðar. Varðandi útreikning á bótum fyrir varanlega örorku var vísað til þess að stefnandi teldi rétt að byggja á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þar sem hún hefði verið í hlutastarfi þrjú ár fyrir slysið. Hún teldi því rétt að uppreikna tekjur sínar miðað við að hún hefði verið í 100% starfi. Heildarkrafa stefnanda vegna bóta fyrir varanlega örorku var samtals 11.617.744 kr.                 Í kjölfar kröfubréfsins óskaði stefndi eftir útreikningi á eingreiðsluverðmæti bóta frá lífeyrissjóðum vegna slyssins með hliðsjón af 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt ákvæðinu á að draga 40% eingreiðsluverðmætis frá bótum vegna varanlegrar örorku. Útreikningsins var aflað af hálfu stefnanda og hann sendur stefnda 22. september 2016. Þar kom fram að eingreiðsluverðmæti bóta næmi 2.932.641 kr. með tilliti til þess að stefnandi yrði metin til örorku til ófyrirséðrar framtíðar, í það minnsta til 67 ára aldurs. Í tölvupósti til stefnda var byggt á því f.h. stefnanda að miða ætti frádrátt vegna þessa við að greiðslur frá lífeyrissjóðum myndu falla niður í apríl 2018, enda gilti örorkumat eingöngu til þess dags. Frádráttur ætti samkvæmt því að vera 1.294.868 kr. Stefndi svaraði kröfubréfinu 12. október 2016. Í tölvupósti stefnda kemur fram að hann fallist ekki á sjónarmið stefnanda varðandi árslaunaviðmið. Stefndi teldi ekki vera fyrir hendi óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sl. þrjú ár fyrir slysið. Stefndi vísaði til þess að stefnandi hefði verið í hlutastarfi í mörg ár og ekki líklegt að hún hefði farið í 100% starf í framtíðinni. Hún hafi verið 58 ára á slysdegi með uppkomin börn sem væru öll flutt að heiman. Aðstæður stefnanda væru því ekki sambærilegar og í dómum Hæstaréttar sem hefðu fjallað um þetta álitaefni. Þá byggði stefndi á því að draga ætti frá eingreiðsluverðmæti lífeyrisgreiðslna m.v. óbreyttar forsendur til 67 ára aldurs stefnanda. Frádráttur samkvæmt því væri 2.932.641 kr. Hinn 12. október 2016 gerði stefndi upp við stefnanda, þar sem bætur fyrir varanlega örorku miðuðust við tekjur stefnanda fyrir 60% starf. Auk þess miðaðist frádráttur vegna eingreiðsluverðmætis bóta frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum við fyrirliggjandi niðurstöðu örorkumats vegna greiðslna frá lífeyrissjóði eins og það mat var á stöðugleikapunkti og horft allt til 67 ára aldurs. Stefnandi tók við bótum með fyrirvara um þessa þætti málsins og áskildi sér jafnframt rétt til að setja fram kröfu á hendur stefnda vegna tímabundins tekjutaps og var hún sett fram í stefnu málsins. II Vegna tímabundins atvinnutjóns tekur stefnandi fram að jafnframt því að vera í 60% […] á E sinnti hún hefðbundnum heimilisstörfum, smábúskap og gætti barnabarna, þegar þörf var á. Stefnandi varð óvinnufær þegar hún lenti í slysinu þann 10. des. 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð var tímabil tímabundins atvinnutjóns, samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga, frá 10. desember 2013 til 24. febrúar 2014 og frá 10. mars 2014 til 10. desember s.á. Stefnandi fékk greidd veikindalaun frá E þetta tímabil vegna þess 60% starfs sem hún gegndi þar. Stefnandi fékk ekki greiddar neinar bætur, lífeyri eða slíkt vegna þess að hún var óvinnufær á tímabili atvinnutjóns, hvorki frá lífeyrissjóði, stéttarfélagi, TR, SÍ né öðrum aðilum. Í 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé kveðið á um að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. laganna. Hæstiréttur hafi túlkað ákvæðið þannig að því sé ætlað að leiða til jafnræðis fyrir þá sem kjósa að nýta vinnugetu sína að hluta eða öllu leyti til heimilisstarfa um lengri eða skemmri tíma. Þeirri skipan hafi því verið komið á með lögum, að sá, sem gegni ekki launuðu starfi eða einungis hlutastarfi utan heimilis, teldist verða fyrir fjártjóni vegna þess eins, að hann fari, vegna líkamstjóns, á mis við að geta sinnt heimilisstörfum að hluta eða öllu leyti. Orðalag 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga um réttindi tjónþola sem vinna heimilisstörf sé ótvírætt samkvæmt dómaframkvæmd og miða eigi fjárhæð tekjutaps við sambærileg laun og stefnandi hefði haft ef hún hefði verið í fullu starfi á E, að frádregnu því sem hún fékk greitt í veikindalaun.                 Í annan stað telur stefnandi að við útreikning bóta fyrir varanlega örorku skuli meta árslaun hennar sérstaklega í samræmi við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en ekki skv. 1. mgr. sama ákvæðis. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. megi víkja frá meginreglu 1. mgr. ef fyrir hendi eru óvenjulegar aðstæður á síðastliðnum þremur almanaksárum sem leiði til þess að laun tjónþola á tímabilinu séu ekki réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans. Stefnandi hafi verið í 60% starfi á E en jafnframt sinnt hefðbundnum heimilisstörfum, smábúskap og gætt barnabarna þegar þörf var á. Stefnandi og eiginmaður hennar hafa lengi haft 30 kindur, hænsn og hross á heimili sínu. Stefnandi hafi aðallega séð um að sinna kindunum en eiginmaður hennar hænsnunum. Hrossunum sinntu þau sameiginlega. Eftir slysið hafi stefnandi átt erfitt með að stunda þennan búskap og hafi t.d. ekkert getað sinnt sauðburði. Þá treystir hún sér ekki á hestbak eftir slysið. Stefnandi byggir á því að það, að vera einungis í launuðu starfi að hluta, teljist óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og vísar til athugasemda með frumvarpi því sem síðar varð að skaðabótalögum nr. 50/1993. Þar segir m.a. í 2. mgr. 7. gr. að túlka eigi orðin „óvenjulegar aðstæður“ þröngt. Stefnandi telur ekki réttmætt að miða eingöngu við tekjur fyrir 60% starf í hennar tilviki þar sem hún sinnti ekki eingöngu 60% starfi fyrir slysið, hún sinnti einnig heimilisstörfum og búskap á heimili sínu. Starfsgeta hennar til þessara starfa sé skert. Það verði að bæta henni tjón vegna þess. Þá telur stefnandi að réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur sé, að miða útreikning á bótum fyrir varanlega örorku við þær tekjur sem hún hafði hjá E sl. þrjú ár fyrir slysið, uppreiknaðar m.v. 100% starfshlutfall, að viðbættu 11,5% framlagi í lífeyrissjóð. Bent sé á að stefnandi sinnti heimilisstörfum fyrir slysið og hlýtur að teljast óumdeilt samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga að verðmæti þeirra skuli leggja að jöfnu við launatekjur. Jafnvel þótt hægt sé að leiða líkur að því, að stefnandi hefði ekki stefnt á að auka starfshlutfall sitt hjá E, þá hefði hún alltaf sinnt heimilisstörfunum, auk þess sem hún sinnti búskapnum og gætti barnabarna þegar þörf var á. Stefnandi telur það því ekki skipta máli hvort hún hefði farið í 100% starf í framtíðinni eða ekki. Aðalatriði málsins sé að hún sinnti vinnu utan heimilis að hluta og heimilisstörfum að hluta fyrir slysið. Ef hún hefði ekki lent í slysinu þá hefði hún mögulega getað aukið starfshlutfall sitt utan heimilis. Það geti hún nú ekki gert vegna afleiðinga slyssins. Varðandi aldur stefnanda, og þá staðreynd að börn hennar eru öll uppkomin, þá bendir stefnandi á að það sé alltaf ákveðin vinna fólgin í því að halda heimili, óháð því hvort börn séu á heimilinu eða ekki. Stefnandi byggir á því að sú vinna sé að jafnaði meiri þegar um er að ræða heimili þar sem búrekstur sé stundaður.                 Varðandi frádrátt samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga telur stefnandi að miða eigi útreikning við það tímabil er örorkumat hennar sé í gildi, það er út apríl 2018. Stefnandi telur að túlka verði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga með hliðsjón af sanngirnissjónarmiðum og tilgangi skaðabótalaga, sem sé að stuðla að því að tjónþoli fái fullar bætur fyrir tjón sitt. Auk þess byggir hún á því að 4. mgr. 5. gr. sé undantekningarregla sem beri þ.a.l. að túlka þröngt samkvæmt viðteknum venjum sem gilda við lögskýringar. Ekki sé hægt að túlka ákvæðið víðar en eftir orðanna hljóðan. III Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að óvenjulegar aðstæður hafi verið í lífi hennar þremur árum fyrir slysið, sem réttlætt geti beitingu undanþáguákvæðis 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við útreikning bóta fyrir varanlega örorku. Í málinu liggi fyrir starfsvottorð frá vinnuveitanda stefnanda sem sýni starfshlutfall hennar á 23 ára tímabili, eða allt frá árinu 1991. Samkvæmt vottorðinu hefur starfshlutfall stefnanda hjá E aldrei verið 100%, ef frá eru taldir tveir mánuðir árin 1997 og 1998. Starfshlutfall stefnanda hafi um langt skeið verið um eða undir 60%. Frá árinu 2007 var stefnandi óslitið í 60% starfi, allt til slysdags í sjö ár. Að mati stefnda séu engar forsendur til að líta svo á að stefnandi hafi sannað að tekjur hennar, uppreiknaðar eins og um fullt starf verði að ræða, feli í sér þær framtíðartekjur sem leggja beri til grundvallar. Atvinnusaga stefnanda um áratugaskeið mæli beinlínis gegn slíkum málatilbúnaði. Stefnandi kveðst einnig reka búskap með eiginmanni sínum og hafi þau sinnt bústofni sameiginlega. Að mati stefnda hefði verið nærtækara fyrir stefnanda að byggja kröfu sína um bætur fyrir varanlega örorku meðal annars á þeim tekjum sem vinnuframlag hennar hafði gefið af sér í búrekstur þeirra hjóna, enda því lýst í stefnu að tjón stefnanda felist í skertri getu til bústarfa. Þess sé ekki freistað af hennar hálfu. Að sama skapi sé takmarkað fjallað um skerta getu til heimilisstarfa, að öðru leyti en að stefnandi hafði fyrir slysið sinnt barnabörnum af og til. Engin gögn séu lögð fram sem sýnt gætu fram á þá verðmætisaukningu sem bústörfin höfðu skilað henni á viðmiðunarárum þremur árum fyrir slysið, skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Krafa stefnanda byggir enda ekki á því að útreikningur fyrir varanlega örorku skuli ásamt launum hennar fyrir 60% hlutastarf hjá E byggja á verðmætaaukningu við bústörf. Stefnandi byggir í raun á því að hún hafi verið í 100% starfi á viðmiðunartímabilinu, sem […] hjá E annars vegar en við bústörf hins vegar. Engin sönnunargögn séu lögð fram um síðarnefnda starfið. Að mati stefnda sé það ótæk nálgun af hálfu stefnanda að leggja til grundvallar útreikningi á varanlegri örorku uppreiknuð laun fyrir störf sín hjá E, sérstaklega þegar því sé haldið fram að stefnandi hafi verið í starfi samhliða […] sem einfalt hefði verið fyrir stefnanda að leggja til grundvallar bótakröfu sinni hafi slíkum tekjum verið til að dreifa. Það eitt að fullyrða að hún hafi sinnt verðmætum bústörfum og heimilisstörfum dugir ekki eitt og sér. Stefnandi beri hallann af því að tjón hennar vegna varanlegrar örorku sé ósannað að þessu leyti og beri að sýkna stefnda af þeim sökum. Þá sé á því byggt að ráðningarsaga stefnanda gefi ekki til kynna að 60% starfshlutfall hennar þremur árum fyrir slysið hafi falið í sér óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sem réttlætt gætu frávik frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. sömu laga. Ekkert gefi til kynna að stefnandi hafi haft hug á að vinna í 100% starfshlutfalli, en stefnandi var 58 ára gömul á slysdegi og hafði þá kosið að nýta starfsgetu sína einungis að takmörkuðu leyti til launaðra starfa í rúmlega tvo áratugi. Þá liggur ekkert fyrir um bústörf stefnanda og eiginmanns hennar, m.a. hvort þau hafi verið í atvinnuskyni. Börn stefnanda séu uppkomin og flutt að heiman, vart sé því í raun um það að ræða að stefnandi hafi hagnýtt starfsgetu sýna að öllu leyti til tekjuöflunar eða verðmætasköpunar. Það eitt að stefnandi hafi verið í launuðu hlutastarfi á viðmiðunartímabili 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skapar ekki sjálfkrafa óvenjulegar aðstæður í skilingi 2. mgr. 7. gr. sömu laga, líkt og stefnandi byggi á. Stefndi byggir á því að frádráttur vegna 40% af eingreiðsluverðmæti lífeyrisgreiðslna eigi að miða við 67 ára. Skaðabætur fyrir varanlega örorku séu greiddar fyrir líkindatjón fram í tímann sem miðast við stöðugleikapunkt, en frá þeim bótum dragast áætlaðar framtíðargreiðslur frá almannatryggingum og lífeyrissjóði vegna slyssins samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Um sé að ræða mat á líkindagreiðslum á sama hátt og greiðslur fyrir varanlega örorku fela í sér greiðslur fyrir líkindatjón. Endurmat á vegum lífeyrissjóðs sem væntanlegt mun vera í apríl 2018 breytir þeirri staðreynd ekki að stefnanda hafði verið metinn réttur til örorkubóta hjá lífeyrissjóðnum á stöðugleikapunkti 10. desember 2014 sem uppgjör bóta úr hendi stefnda miðast við. Frádráttur vegna greiðslna úr lífeyrissjóði tekur þannig mið af heilsufari stefnanda þegar hún hafði náð stöðugleikapunkti við uppgjör. Sá frádráttur getur ekki tekið mið af hugsanlega bættu heilsufari samkvæmt mati lífeyrissjóðs nærri fjórum árum eftir stöðugleikapunkt eins og stefnandi virðist byggja á. Útreikningum tryggingastærðfræðingsins hafi ekki verið hnekkt, en frádráttur frá kröfu stefnanda tók mið af þessum útreikningum. Því beri að sýkna stefnda af kröfu sem nemur þeirri fjárhæð sem stefnandi telur hafa verið dregna frá bótakröfunni umfram það sem lög heimila. Þá hafnar stefndi því að bætur vegna tímabundins atvinnutjóns skuli taka mið af því að stefnandi hefði verið í 100% starfi á óvinnufærnistímabilinu. Stefnandi var í 60% starfi á E þegar slysið varð og hafði verið það um nokkra hríð. Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi orðið fyrir raunverulegu tjóni vegna launamissis á óvinnufærnistímabilinu, en hún hefur ekki lagt fram gögn til sönnunar á tjóni sínu í þessum efnum. Þar sem greiðslur frá atvinnurekenda dragast frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón ber stefnanda engar greiðslur úr hendi stefnda fyrir tímabundið atvinnutjón, sbr. 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda engu óbættu tjóni til að dreifa. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu. IV Stefnandi málsins lenti í slysi 10. desember 2014. Stefndi hefur viðkennt bótaskyldu sína. Ágreiningslaust er að varanleg örorka stefnanda vegna slyssins er 50% og tímabundið atvinnutjón frá 10. desember 2013 til 24. febrúar 2014 og frá 10. mars 2014 til 10. desember 2014. Matið var lagt til grundvallar uppgjöri bóta og var bótauppgjörið undirritað með fyrirvara 12. október 2016. Ágreiningur málsins er þríþættur, það er um útreikning á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga, um tekjuviðmið samkvæmt 2. mgr. 7. gr. og eingreiðsluverðmæti greiðslna frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum, samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laganna.                 Stefnandi byggir kröfu sína um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns á því að hún hafi auk 60% starfs síns á E sinnt hefðbundnum heimilisstörfum, smábúskap og gætt barnabarna, þegar þörf var á. Í 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga sé kveðið á um að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. skaðabótalaga. Hún eigi því rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón, á grundvelli 2. gr. skaðabótalaga, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna, vegna þess að hún var óvinnufær til heimilisstarfa tímabilið 10. desember 2013 til 24. febrúar 2014 og frá 10. mars 2014 til 10. desember s.á. Stefnandi telur eðlilegt að miða fjárhæð tekjutaps á tímabilinu við sambærileg laun og hún hefði haft ef hún hefði verið í fullu starfi á E, að frádregnu því sem hún fékk greitt í veikindalaun. Stefndi hafnar þessu og bendir á að stefnandi hafi ekki lagt fram gögn til sönnunar tjóni sínu. Stefnandi hafi fengið laun meðan hún var óvinnufær vegna slyssins. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á hvaða tekjum hún hafi orðið af og hafnar því að miða eigi við 100% laun hjá E. Samkvæmt starfsvottorði stefnanda hefur hún starfað á E allt frá nóvember 1991. Tvisvar hefur hún verið í 100% starfi, það er í sex vikur að sumri til árið 1997 og júní, júlí og ágúst 1998. Annars hefur hún mestmegnis verið í 50% og 60% starfshlutfalli. Frá 1. október 2007 til slysdags 2013 var stefnandi í 60% starfi. Með tilvísun til starfsvottorðs stefnanda verður að telja að það sé val hjá stefnanda að vera í hlutastarfi. Það sé ekki vegna þess að stefnandi hafi til dæmis annast börn sín eða umönnun annarra á heimilinu. Ekkert liggur fyrir um að til hafi staðið hjá stefnanda að auka starfshlutfallið og verður að telja það ólíklegt miðað við starfsvottorð hennar. Stefnandi krefst þess að hún fái greidd laun með vísan til 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga en þar segir: „Verðmæti vinnu við heimilisstörf skal lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr.“ Stefnandi byggir á því að hún hafi sinnt hefðbundnum heimilisstörfum, smábúskap og gætt barnabarna. Varðandi smábúskapinn kemur fram í gögnum málsins að stefnandi og eiginmaður hennar hafi lengi haft 30 kindur, hænsn og hross á heimilinu og hafi stefnandi aðallega sinnt kindunum og eiginmaðurinn hænsnum og bæði hafi þau sinnt hrossunum. Í málinu liggur ekkert annað fyrir um umfang búskapar eða hugsanlegar tekjur eða hlunnindi af honum. Þá gerir skattframtal stefnanda ekki ráð fyrir því að hún hafi haft tekjur af búskapnum. Ekki liggur annað fyrir í málinu en að stefnandi og eiginmaður hennar séu tvö í heimili. Börnin séu flogin úr hreiðrinu og barnabörnin komi í pössun, án þess að nokkur grein sé gerð fyrir umfangi þess. Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi þurft að kaupa sér eða fá sérstaka aðstoð við heimilisstörfin eftir slysið. Heimilisstörfin virðast hjá stefnanda vera þau sömu fyrir og eftir slysið. Má ætla að þau séu sambærileg við það sem er hjá meginþorra fólks á þessu aldursskeiði, það er að hugsa fyrir þrifum, matseld og um sjálft sig. Telur dómurinn að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga um að heimilisstörf hennar skapi verðmætaaukningu umfram það sem almennt gerist. Yrði krafa stefnanda um að hún fengi laun vegna heimilisstarfa, sem svarar til launa fyrir 100% starf sem […] á E, tekin til greina væri stefnandi í raun að hagnast á því að hafa lent í slysinu. Með vísan til þess sem að framan greinir er stefndi sýknaður af kröfu stefnanda um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns.                 Í annan stað byggir stefnandi á því að meta skuli árslaun hennar sérstaklega í samræmi við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en ekki samkvæmt 1. mgr. 7. gr. svo sem gert var. Hún hafi sinnt hefðbundnum heimilistörfum, smábúskap og gætt barnabarna samhliða starfi sínu á E. Stefnandi telur að það að vera einungs í launuðu starfi að hluta séu óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Því eigi að miða útreikninginn við að hún hafi verið í 100% starfi. Þessu hafnar stefndi. Stefnandi hafi verið óslitið í 60% starfi frá 2007. Engar forsendur séu til að líta svo á að stefnandi hafi sannað að tekjur hennar, uppreiknaðar eins og um fullt starf væri að ræða, feli í sér þær framtíðartekjur sem leggja beri til grundvallar. Stefndi telur að nærtækara hafi verið að byggja kröfuna um bætur fyrir varanlega örorku meðal annars á þeim tekjum sem vinnuframlag hennar hafði gefið af sér í búrekstur þeirra hjóna, enda því lýst í stefnu að tjón stefnanda felist í skertri getu til bústarfa.                 Í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga segir: „Árslaun skulu þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónaþola.“ Ekki er fallist á það að það eitt að hafa verið í hlutastarfi uppfylli skilyrði ákvæðisins um óvenjulegar aðstæður. Það þarf að sýna fram á að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur. Eins og áður segir liggur ekkert fyrir um að stefnandi hafi haft hug á hærra starfshlutfalli enda ólíklegt í ljósi þess að hún hefur nánast alla sína tíð verið í hlutastarfi. Þá verður, með vísan til þess sem að framan greinir, ekki fallist á að heimilisstörf stefnanda réttlæti kröfu hennar um að miðað verði við 100% starfshlutfall hjá E. Þar sem stefnandi hefur ekki sýnt fram á að til sé annar mælikvarði sem sé réttari á líklegar framtíðartekjur hennar, verður ekki hjá því komist að sýkna stefnda.                 Þá telur stefnandi að frádráttur samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eigi að nema 1.294.868 kr. það er að við útreikning á endurgreiðsluverðmæti bóta frá lífeyrissjóðum eigi að miða við apríl 2018, en örorkumat stefnanda gildi til þess tíma. Stefndi telur hins vegar að miða eigi við 67 ára aldur stefnanda því greiðslur haldi áfram til þess tíma.                 Samkvæmt matsgerð þeirra B læknis og D hrl. er stöðuleikapunkturinn 10. desember 2014 og miðast bótaréttur og bótafjárhæðir við þann dag. Ekkert liggur fyrir um það hvort eða hvernig örorkumat stefnanda breytist í lok apríl 2018. Eingreiðsla skaðabóta eru bætur fyrir varanlega örorku sem eru greiddar fyrir líkindatjón fram í tímann og frá þeim dragast að sama skapi áætlaðar framtíðargreiðslur frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum, samanber 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Kröfu stefnanda er því hafnað og til hliðsjónar er einnig vísaða til dóma Hæstaréttar í málum nr. 119/2005 og 20/2013.                 Með vísan til þess sem að framan greinir er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að fella málskostnað niður.                 Stefnandi hefur lagt fram gjafsóknarleyfi dags. 27. desember 2016. Allur gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda svo sem getur í dómsorði og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.                 Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. DÓMSORÐ Stefndi, Vörður tryggingar hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, A. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Guðmundar Ómars Hafsteinssonar hrl., 600.000 krónur.
Mál nr. 495/2017
Fasteignakaup Galli Riftun Skaðabætur Matsgerð Áhættuskipti
SK höfðaði mál á hendur G og SL til heimtu eftirstöðva kaupverðs samkvæmt kaupsamningi um nánar tilgreinda fasteign. G og SL kröfðust þess á hinn bóginn á grundvelli yfirmatsgerðar aðallega að staðfest yrði riftun þeirra á kaupsamningnum, en til vara að þau ættu rétt til skaðabóta eða afsláttar vegna galla á fasteigninni. Fyrir lá að leki varð í eigninni eftir að kaupsamningur komst á en áður en hún var afhent. Talið var að SK hefði á þessum tíma borið áhættu af eigninni og var henni því gert að bæta G og SL það tjón sem af lekanum stafaði, sbr. 1. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 43. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, svo og tjón vegna leka með skorsteinum, sbr. 26. og 27. gr. laganna, sbr. og 2. mgr. 43. gr. þeirra. Hins vegar var fallist á með SK að rakaskemmdir á eigninni hefðu ágerst verulega frá afhendingartíma hennar fram til þess tíma sem vettvangsskoðun yfirmatsmanna fór fram um einu og hálfu ári síðar. Talið var að G og SL hefðu ekki gripið til viðeigandi ráðstafana til að takmarka tjón á fasteigninni og voru þau því talin bera halla af skorti á sönnun um að hún hefði við afhendingu verið haldin þeim auknu raka- og mygluskemmdum sem gerð hefði verið grein fyrir í yfirmatsgerð samanborið við undirmatsgerð. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af því að áætlaður kostnaður við úrbætur á göllum fasteignarinnar nam samkvæmt undirmatinu einungis 4,5% af kaupverði eignarinnar, sbr. 18. gr. laga nr. 40/2002, var fallist á kröfu SK um greiðslu eftirstöðva kaupverðs, en að frádregnum þeim skaðabótum sem henni bar að bæta.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Karl Axelsson og Eiríkur Tómasson fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 23. maí 2017. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 5. júlí 2017 og áfrýjuðu þau öðru sinni 2. ágúst sama ár. Áfrýjendur krefjast þess aðallega að staðfest verði riftun 21. september 2016 á kaupsamningi sínum og stefndu 30. júní 2014 um fasteignina að Hagaflöt 20 í Garðabæ og að stefndu verði gert að greiða sér aðallega 57.303.905 krónur, en til vara 53.672.674 krónur, í báðum tilvikum með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. júlí 2014 til 21. september 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, gegn því að áfrýjendur afhendi stefndu fasteignina. Að öðrum kosti krefjast áfrýjendur þess að stefndu verði gert að gefa út afsal til sín fyrir fasteigninni og greiða sér 4.063.695 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt síðastgreindu lagaákvæði frá 28. október 2016 til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Í hinum áfrýjaða dómi er því slegið föstu af héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að ósannað sé að meiri skemmdir hafi verið af völdum raka á húseigninni að Hagaflöt 20 þegar áfrýjendur fengu hana afhenta 1. ágúst 2014 en fram komu við skoðun undirmatsmanns á eigninni í júní 2015. Þessu til stuðnings er meðal annars vísað til skýrslu sérfróðs manns um skoðun á eigninni, sem fram fór að tilhlutan áfrýjenda 25. ágúst 2014, þar sem sagði að við grjóthleðslu við arin í stofu hafi mátt sjá rakaskemmd í loftklæðningu en ekki mælst þar raki og engar sýnilegar rakaskemmdir verið í svefnherbergjum og ekki mælst raki í þeim. Þá er í hinum áfrýjaða dómi litið svo á að ein af orsökunum fyrir hinum miklu rakaskemmdum, sem komu í ljós við skoðun yfirmatsmanna á eigninni á tímabilinu frá janúar til maí 2016, hafi verið sú að rakavarnarlag í þaki hennar hafi verið rofið við framkvæmd undirmatsins í júní 2015, en það var sannanlega gert á þremur stöðum. Engin rök standa til að hrófla við þessum ályktunum héraðsdóms. Eins og tekið er fram í hinum áfrýjaða dómi var mat á kostnaði við að bæta úr göllum á húseigninni ekki sundurliðað í yfirmatsgerð eftir einstökum matsliðum, svo sem óskað var eftir í matsbeiðni. Eftir uppkvaðningu dómsins fóru áfrýjendur fram á við yfirmatsmenn að bætt yrði úr þeim ágalla og hefur sundurliðun á kostnaðarmati þeirra eftir matsliðum verið lögð fyrir Hæstarétt. Þegar matið er borið saman við undirmat eru þær fjárhæðir, sem yfirmatsmenn áætla að viðgerðirnar muni kosta, í öllum tilvikum miklum mun hærri en samsvarandi fjárhæðir undirmatsmanns. Virðist það einkum stafa af því að yfirmatsmenn miða við að bætt verði úr þeim rakaskemmdum, sem á eigninni voru við skoðun þeirra fyrri hluta árs 2016, auk þess sem mat þeirra er á því byggt að fjarlægð verði öll mygluð og rakaskemmd byggingarefni og ný sett í staðinn. Af þessum sökum er fallist á með héraðsdómi að við úrlausn málsins beri að leggja til grundvallar áætlaðan viðgerðarkostnað í undirmatsgerð. Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjendum verður gert að greiða stefndu málskostnað hér fyrir dómi eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjendur, Guðmundur Ingi Kristinsson og Steinunn Lilja Hannesdóttir, greiði stefndu, Sigrúnu Kristjönu Óskarsdóttur, óskipt 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 24. febrúar 2017 Mál þetta, sem var dómtekið 27. janúar síðastliðinn, var upphaflega höfðað 18. mars 2015 af Sigrúnu Kristjönu Óskarsdóttur, Sómatúni 21, Akureyri, á hendur Guðmundi Inga Kristinssyni og Steinunni Lilju Hannesdóttur, Hagaflöt 20 í Garðabæ. Stefnandi krefst þess að stefndu greiði óskipt 27.852.013 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 25.222.013 krónum frá 5. september 2014 til 1. október sama ár en af 27.852.013 krónum frá þeim degi til greiðsludags gegn útgáfu afsals fyrir fasteigninni Hagaflöt 20, fastanúmer 207-0298, Garðabæ. Þá er krafist málskostnaðar. Stefndu krefjast aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Þá krefjast stefndu málskostnaðar.  Stefndu höfðuðu mál á hendur stefnanda 28. september 2016 og gera aðallega þá kröfu að staðfest verði riftun 21. september 2016 á kaupsamningi stefnenda og stefndu frá 30. júní 2014 um fasteignina að Hagaflöt 20, Garðabæ, fastanúmer 207-0296, ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber og að stefnandi verði dæmd til að greiða þeim 57.303.905 krónur auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.068.737 krónum frá 1. júlí til 1. ágúst 2014, af 15.206.006 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, af 15.342.649 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, af 15.479.905 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 15.616.710 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 15.753.707 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2015, af 15.889.995 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 16.026.703 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 16.162.440 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 16.299.082 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 16.437.115 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 16.575.341 krónu frá þeim degi til 1. júlí sama ár, af 16.713.955 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, af 16.852.926 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, af 16.992.121 krónu frá þeim degi til 1. október sama ár, af 17.132.059 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 17.271.449 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 17.410.936 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2016, af 17.549.936 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 17.689.390 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 17.828.436 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 17.968.021 krónu frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 18.108.120 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 18.248.509 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, af 18.389.482 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, af 18.530.713 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, af 18.671.493 krónum frá þeim degi til 21. september sama ár en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 57.303.905 krónum frá þeim degi til greiðsludags, gegn afhendingu fasteignarinnar að Hagaflöt 20, fastanúmer 207-0296, Garðabæ, ásamt öllu sem eigninni fylgir og fylgja ber. Til vara gera stefndu þá kröfu að staðfest verði riftun 21. september 2016 á kaupsamningi stefnanda og stefndu 30. júní 2014 um fasteignina að Hagaflöt 20, Garðabæ, ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber og að stefnandi verði dæmd til að greiða þeim 53.672.674 krónur auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 5.000.000 króna frá 1. júlí 2014 til 1. ágúst sama ár, af 15.000.000 króna frá þeim degi til 21. september 2016 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 53.672.674 krónum frá þeim degi til greiðsludags, gegn afhendingu fasteignarinnar að Hagaflöt 20, Garðabæ, með ásamt öllu sem eigninni fylgir og fylgja ber.  Til þrautavara gera stefndu þá kröfu að stefnanda verði gert skylt að gefa út afsal fyrir fasteigninni að Hagaflöt 20, fastanúmer 207-0296, Garðabæ, ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber og dæmd til að greiða þeim 4.063.695 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu að liðnum mánuði frá málshöfðun stefndu til greiðsludags. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar. Stefnandi krefst sýknu og málskostnaðar. Aðilar málsins gerðu með sér samning 30. júní 2014 um kaup stefndu á einbýlishúsinu að Hagaflöt 20 í Garðabæ og var kaupverðið 71.000.000 króna. Með samkomulagi aðila 31. júlí sama ár var samið um að greiðslufyrirkomulag skyldi vera með þeim hætti að 5.000.000 króna yrðu greiddar við undirritun kaupsamnings, 10.000.000 króna 1. ágúst 2014, 28.270.000 krónur með yfirtöku láns við afhendingu, 25.100.000 krónur 5. september 2014 og 2.630.000 krónur 1. október sama ár. Fjárkröfu sína byggir stefnandi á því að stefndu hafi ekki staðið skil á tveimur síðustu greiðslunum. Stefndu halda því á hinn bóginn fram að vegna verulegra galla á fasteigninni hafi þeim verið heimilt að rifta kaupunum og því skuli stefnanda gert að endurgreiða þeim það kaupverð sem þegar hafi verið innt af hendi og greiða þeim skaðabætur. Verði ekki á það fallist halda stefndu því fram að þau eigi gagnkröfu á hendur stefnanda í formi skaðabóta eða afsláttar að fjárhæð 31.793.695 krónur. Gera stefndu í því tilviki kröfu um skuldajöfnuð við kröfu stefnanda og sjálfstæðan dóm um eftirstöðvar gagnkröfunnar. Samkvæmt ákvörðun dómsins og með vísan til 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála voru málin sameinuð í þinghaldi 7. desember 2016. Til einföldunar og enda þótt ekki sé um eiginlega gagnsök að ræða verður hér eftir talað um stefnanda samkvæmt framansögðu sem aðalstefnanda, en stefndu sem gagnstefnendur. I                 Ágreiningur málsaðila er samkvæmt framansögðu sprottinn af kaupum gagnstefnenda á einbýlishúsinu að Hagaflöt 20 í Garðabæ. Í málinu hefur verið lagt fram söluyfirlit fasteignarinnar frá 25. apríl 2014 sem var samið af starfsmanni fasteignasölunnar Remax Lind og gagnstefnendur kynntu sér áður en þau gerðu tilboð í eignina. Kom þar fram að um væri að ræða 225,1 m² einbýlishús með bílskúr byggt árið 1967. Í reit á söluyfirlitinu, sem ætlaður er fyrir nánari lýsingu á eigninni, sagði meðal annars: „Húsið er mikið endurnýjað, allar innréttingar, baðherbergi, gólfefni, rafmagn, skolp, allt gler og opnanleg fög, ofnar og vatnslagnir að mestu. Húsið var málað og steypuviðgert árið 2006. Þak málað 2013.“ Ásett verð samkvæmt söluyfirlitinu var 73.900.000 krónur. Í skýrslutöku af aðalstefnanda við aðalmeðferð málsins kom fram að hún hefði keypt fasteignina á árinu 2005 í upprunalegu ástandi og að endurbætur sem tilgreindar hafi verið í söluyfirlitinu væru frá því ári og árinu 2006. Á þeim tíma sem kaupin áttu sér stað bjuggu gagnstefnendur erlendis og skoðuðu foreldrar gagnstefnanda Steinunnar Lilju því fasteignina í aðdraganda kaupanna. Afhending fasteignarinnar fór fram 1. ágúst 2014. Fyrir liggur að tveimur dögum fyrir afhendinguna upplýsti aðalstefnandi gagnstefnendur um vatnsleka í þvottahúsi fasteignarinnar sem orsakaðist af því að gleymst hafði að setja tappa í vatnslagnir þegar þvottavél var aftengd. Við sama tilefni upplýsti aðalstefnandi um að fasteignatrygging hennar hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. bætti tjónið. Gagnstefnendur kveða smið og pípulagningamann á vegum Sjóvár hafa komið til að meta tjón vegna vatnslekans 14. ágúst. Hafi þeir opnað hurðarop á milli þvottahúss og eldhúss og mygla þá komið í ljós. Í kjölfarið hafi fúkkalykt farið versnandi, korkur á eldhúsgólfi tekið að bólgna upp og veggur farið að „freyða“ niður við gólfefni. Þann 28. sama mánaðar hafi dúklagningarmaður á vegum Sjóvár rifið gólfefni af eldhúsi og svört mygla komið í ljós undir korki á gólfi. Hafi gólfplatan verið blaut og mygluð og borið ummerki eldri leka. Þá hafi málari á vegum Sjóvár skafið af veggjum þar sem brúnleitur vökvi hafi lekið úr bólum. Þann 1. september sama ár hafi smiður á vegum Sjóvár losað hluta af innréttingu í eldhúsi og þá komið í ljós skemmdir, raki og bleyta í vegg á milli eldhúss og þvottahúss og bleyta í útvegg og á gólfplötu við minni eldhúseiningu. Enn fremur hafi vatn lekið þegar sökkull innréttingarinnar hafi verið fjarlægður. Í kjölfarið hafi pípari á vegum Sjóvár komið og skoðað hitakompu íbúðarinnar. Gagnstefnendur kveða Sjóvá ekki hafa aðhafst frekar í málinu enda talið að hinar umfangsmiklu skemmdir gætu vart stafað frá leka þegar þvottavél hafi verið aftengd. Um orsök rakamyndunar á vegg og í gólfi í eldhúsi segir í skoðunarskýrslu Helga Þórs Sigurbjörnssonar pípulagningameistara á vegum Sjóvár, dagsettri 2. september 2014, að affallslögn í hitakompu við hlið eldhúss væri leidd í stíflað ídráttarrör og flæddi affallsvatnið upp úr rörinu og þaðan niður á gólf. Gólfið í hitakompunni héldi ekki vatni og hallaði ekki í áttina að niðurfalli. Vatnið úr ídráttarrörinu læki niður um göt og sprungur í gólfinu og einnig inn undir vegginn að eldhúsinu. Í málinu liggur fyrir skýrsla Gunnars Fannbergs Gunnarssonar, byggingafræðings og framkvæmdastjóra Hönnunar og eftirlits ehf., dagsett 2. september 2014, um ástandsskoðun á fasteigninni. Í skýrslunni kemur fram að við vettvangsskoðun sem farið hafi fram 25. ágúst sama ár hafi eldhús, stofa og svefnherbergi verið skoðuð og rakamæld. Hafi leka- og rakaskemmdir verið sjáanlegar í hurðargati sem opnað hafi verið á milli eldhúss og þvottahúss og í eldhúsinnréttingu, gólfefnum og hluta veggja í umræddum rýmum. Þá hafi mátt sjá rakaskemmd í loftklæðningu við grjóthleðslu við arin en að raki hafi ekki mælst þar við skoðun. Í svefnherbergjum hafi engar sýnilegar rakaskemmdir verið að finna og enginn raki mælst. Fram kemur að við aðra vettvangsskoðun 1. september 2014 hafi verið búið að taka frá hluta af eldhúsinnréttingu og gólfefni og rakaskemmdir og mygla þá verið sjáanleg undir gólfefni og bak við innréttingu. Þá hafi prófun leitt í ljós að returlögn hússins, sem tengd væri í gegnum rör í gólfplötu í inntaksklefa, annaði ekki nauðsynlegu vatnsmagni og hafi vatn skilað sér upp úr rörinu aftur og niður á gólf í inntaksklefa fasteignarinnar. Í skýrslunni er greint frá því að niðurstöður greininga Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur, sveppafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, á myglusvepp staðfesti nokkrar gerðir myglu/sveppa víðs vegar um fasteignina en „einna helst í kringum eldhús og inntaksklefa“. Við úrbætur skyldi returlögn sem tengdist í fráveitukerfi brotin upp og endurnýjuð þar sem umrædd lögn væri stífluð að hluta og hefði valdið umræddu vatnstjóni. Við endurbætur vegna leka og rakaskemmda skyldi fjarlægja eldhúsinnréttingu og gólfefni í eldhúsi, þvottahúsi og inntaksklefa og slípa niður um 2-4 millimetra yfirborð steypu til að tryggja að öll mygla yrði fjarlægð. Áður en uppbygging hæfist skyldi mygluhreinsa alla fasteignina með viðurkenndum aðferðum. Var kostnaður við niðurrif, hreinsun, endurnýjun returlagnar, innréttingar, gólfefni og málun metinn 2.930.000 krónur, með virðisaukaskatti. Sama dag og skýrsla Hönnunar og eftirlits ehf. lá fyrir óskuðu gagnstefnendur eftir fundi með aðalstefnanda um þá kröfu sína að kaupsamningi yrði rift vegna ástands eignarinnar. Ekki varð af því að sá fundur væri haldinn. Þann 1. september 2014 tók Guðmundur Óli Scheving meindýraeyðir loftsýni, snertisýni og sýni af byggingarefnum í fasteigninni og sendi til rannsóknar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Í greinargerðum Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur 11. september 2014 og 30. október sama ár er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknar á myglusveppum í sýnunum. Í kjölfarið óskuðu gagnastefnendur eftir því við Hönnun og eftirlit ehf. að ágallar á fasteigninni yrðu endurmetnir. Í viðaukaskýrslu Gunnars Fannbergs Gunnarssonar, sem dagsett er 1. desember 2014, kemur fram að ný vettvangsskoðun og sýnataka af byggingarefnum í fasteigninni hafi farið fram 29. nóvember sama ár. Hafi skoðun og rannsókn á sýnum staðreynt myglu og myglusvepp í hluta sýnanna. Í skýrslunni kemur fram að við skoðun og ákvörðun á úrbótum hafi verið haft samband við Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur og komi tvær leiðir til greina við úrbætur á húsnæðinu. Um leið A var vísað til skýrslu Hönnunar og eftirlits ehf. frá 2. september 2014. Leið B fælist í því að fjarlægð væru öll sýkt eð gljúp byggingarefni og þeir byggingarhlutar endurgerðir frá grunni, meðal annars gólfefni, innréttingar, innveggir og hugsanlega hluti af þaki. Kostnaður við síðarnefndu leiðina var metinn 20.000.000 til 30.000.000 króna. Er síðarnefnd leið sögð taka mið af því að íbúar væru með ofnæmi eða sérstaklega viðkvæmir fyrir þeim tegundum myglu/sveppa sem greinst hafi í fasteigninni. Undir rekstri þess máls sem aðalstefnandi höfðaði á hendur gagnstefnendum óskuðu gagnstefnendur eftir að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta og láta í té skriflegt og rökstutt álit á göllum og tjóni á fasteigninni. Matsbeiðnin, sem var samtals í 18 liðum, tók í fyrsta lagi til þess að meta hvort ofnlögn/returlögn sem gengi í gegnum gólfplötu fasteignarinnar annaði því vatnsmagni sem ofnakerfi gæfi frá sér og væri fullnægjandi. Í öðru lagi hvort vatnstjón eða leki hafi átt sér stað í þvottahúsi og eldhúsi fasteignarinnar eða hvort þar væri af öðrum orsökum rakamyndun eða ummerki eftir slíkt. Í þriðja lagi hvort leka eða raka væri að finna í lofklæðningu, í veggjum, í herbergjum, hitakompu, rafmagnsinntaki, baðherbergjum, stofu, bílskúr, eldhúsi eða holi fasteignarinnar. Í fjórða lagi hvort frágangur á þaki bílskúrs, endurnýjaðra neysluvatnslagna og loku á strompi væri fullnægjandi. Í fimmta lagi hvort læki inn með gluggum í stofu og eldhúsi og í sjötta lagi hvort sveppagróður eða mygla hafi myndast í fasteigninni við leka eða raka. Óskað var eftir því að mat væri lagt á orsakir og afleiðingar ágalla sem kæmu fram og hvaða lagfæringa væri þörf. Þá var þess óskað að matsmaður legði mat á kostnað við úrbætur og kostnað við leigu á sambærilegu húsnæði þann tíma sem endurbætur stæðu yfir. Kostnaður við úrbætur skyldi vera sundurliðaður og taka til alls efnis og vinnu með og án virðisaukaskatts. Í þinghaldi 12. maí 2015 var Auðunn Elíson, byggingafræðingur og húsasmíða­meistari, dómkvaddur til að vinna hið umbeðna mat. Lá matsgerð hans fyrir 20. júlí 2015. Í matsgerðinni segir að vettvangsskoðanir hafi farið fram 8. og 19. júní 2015. Í niðurstöðum matsgerðarinnar kemur fram að returlögn hafi verið breytt og verið lögð frá tengigrind með lausri pípu að röri í gólfi. Gólf við affallsrörið halli ekki að niðurfalli og að yfirborð þess haldi ekki vatni. Þá væri hugsanlega tregða í rörinu sem valdi því að lögnin hafi ekki undan affalli. Að auki kæmi umtalsverður raki upp um rörið þar sem tenging lagnanna væri ekki þétt. Var það niðurstaða matsmanns að returlögnin væri hvorki í samræmi við reglugerðir né góðar venjur og vinnubrögð. Fælust úrbætur í því að taka niður núverandi returlögn frá tengigrind, brjóta upp hluta gólfs og leggja pípu frá tengigrind og í fráveitulögn aftan við gólfniðurfall, loka gólfi og mála. Þá var það lagt til grundvallar í matsgerðinni, með hliðsjón af greinargerð Sigurðar Inga Geirssonar f.h. Sjóvár Almennra trygginga til matsmanns 29. júní 2015 um tjónaskoðun félagsins, að vatnstjón hafi orðið vegna leka frá krana í þvottahúsi. Í matsgerðinni er lýst greinilegum ummerkjum eftir raka í útvegg í eldhúsi og í millivegg milli eldhúss og þvottahúss og hitakompu. Þá væru rakaummerki á gólfi í eldhúsi og á eldhús- og vaskaskápum. Orsakir þessara skemmda taldi matsmaður vera allt í senn raka frá krana í þvottahúsi, vatn sem lekið hafi upp úr returlögn í gólfi og raki sem streymt hafi upp með lögninni. Þá mætti rekja hluta rakaskemmda til leka með gluggum. Hljóðar kostnaðarmat samkvæmt matsgerðinni við úrbætur á returlögn upp á 89.200 krónur, úrbætur vegna leka frá krana í þvottahúsi 474.800 krónur og á skemmdum í eldhúsi og þvottahúsi af öðrum orsökum 279.100 krónur. Í matsgerðinni er lýst ummerkjum um langvarandi raka við skorstein í stofu fasteignarinnar og raka- og lekaskemmdum í loftklæðningu við skorstein í geymslu við þvottahús. Um þetta segir nánar að skorsteinn í stofu bæri þess merki að lekið hafi með honum í nokkurn tíma og þá væru skemmdir á parketi við arin. Skemmdir væru á loftklæðningu við skorsteininn og að borðaklæðning þaks við skorsteininn væri farin að fúna. Orsakir mætti rekja til þess að skorsteinn í stofu væri töluvert sprunginn að utanverðu og að hluti þeirra sprungna næði í gegnum vegg skorsteinsins. Skorsteinn við hitakompu væri einnig með ákveðnum sprungum í veggjum og áfella ofan við skorsteininn gapi. Samkvæmt matsgerðinni nemur kostnaður við úrbætur á skorsteinum og lagfæringar á stofulofti og í geymslu og hitakompu 706.100 krónum með virðisaukaskatti. Í matsgerðinni kemur fram að ekki væri að finna merki um raka- eða lekaskemmdir í loftklæðningu í öðrum rýmum hússins. Í matsgerðinni er að öðru leyti lýst ummerkjum raka eða lekaskemmda í veggjum í stofu/borðstofu, undir glugga í stofu, í veggjum í hitakompu, í lofti og veggjum í geymslu, undir glugga og gönguhurð í bílskúr og í loftklæðningu næst útvegg við þakenda í bílskúr. Eru rakaskemmdir á veggjum við glugga taldar að rekja til leka með gluggum og skemmdir á veggjum í geymslu til leka við skorstein. Orsakir skemmda í loftklæðningu í bílskúr eru taldar mega rekja til lítils halla á þaki og  þakrennu. Tekið er fram að loftun þaks væri góð og þakvirki heilt og án nokkurra ummerkja um rakaskemmdir. Þá mætti rekja rakaskemmdir í útvegg og við gönguhurð og glugga í bílskúrnum til þess að hurða- og gluggakarmar væru fúnir og því óþéttir. Nemur metinn kostnaður við lagfæringu á veggjum í geymslu og skúr, endurnýjun glugga og hluta karms í bílskúr, hluta klæðningar og á lofti bílskúrs og þakrennu 665.800 krónum og lagfæringar á gluggum í borðstofu, stofu og veggjum 290.300 krónum. Þá er frágangur endurnýjaðra neysluvatnslagna talinn að mestu leyti í samræmi við góðar venjur við slíka framkvæmd en að lagnir sem liggi í eldhúsi að eldhúsvaski skyldi festa við gólf eða veggi. Er kostnaður við þá framkvæmd metinn 15.000 krónur. Þá kemur fram að smávægilegar rakaskemmdir væru í gipsplötuklæðningu niður við gólf við handlaug í gestasalerni en að ekki væri gott að greina orsakir þeirra skemmda. Mætti hugsanlega rekja þær til þess að flætt hafi upp úr gólfniðurfalli eða vatn flætt um hluta gólfs. Þá læki vatn með blöndunartækjum í sturtuklefa sem skilaði sér með neysluvatnslögn niður að gólfi á baðherbergi. Þá læki vatn niður á gólf með sturtubarka sem tekinn væri upp í gegnum brún á baðkari. Kostnaður við úrbætur á baðherbergjum er metinn 37.400 krónur. Í matsgerðinni kemur fram að niðurstöður rannsókna á sýnum, sem tekin hafi verið úr gólfi og gólfefni í eldhúsi, útvegg í eldhúsi, gólfi í gangi undir parketi og vegg undir stofuglugga, og tegundagreind af Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur, sýni umtalsverða myglu. Nokkuð minni mygla væri í sýnum úr millivegg í eldhúsi og úr vegg í þvottahúsi. Þá mældist óverulegt magn myglu í sýnum frá loftefni í stofu, salernisvegg og í útvegg bílskúrs. Í matsgerðinni eru úrbætur taldar felast í því að gólfefni í eldhúsi sé tekið af og yfirborð múrílagnar slípað upp og hreinsað. Hluta neðri skápa af eldhúsinnréttingu þurfi að taka niður á meðan á hreinsun standi. Þá þurfi að hreinsa alla veggi, þar sem raki hafi verið, með því að hreinsa af málningu, slípa múr, gera við veggina og mála. Þar sem sýni undir parketi í stofu hafi sýnt fram á myglu, við leka undir stofuglugga, sé talin þörf á að taka upp parket í stofu og endurnýja. Þá þurfi að þrífa allt húsið, bæði vegna framkvæmda og vegna myglu. Nemur kostnaðarmat samkvæmt matsgerðinni við allt framangreint 918.600 krónum. Þá er kostnaður við lagfæringar á reykspjaldi í skorsteini, sem sitji fast, metinn 44.000 krónur og kostnaður vegna afnotamissis meðan á framkvæmdum standi, sem áætlað sé að taki mánuð, 200.000 krónur. Loks er gert ráð fyrir kostnaði við tæknilega umsjón 180.000 krónur. Samtals nemur kostnaðarmat samkvæmt matsgerðinni 3.900.300 krónum að virðisaukaskatti meðtöldum. Sundurliðast sú fjárhæð þannig að efniskostnaður nemur 1.500.600 krónum en vinnuliðurinn 2.399.700 krónum. Þegar tekið hefur verið tillit til þess að virðisaukaskattur vegna vinnu á verkstað fæst að hluta til endurgreiddur lækkar heildarkostnaður við að bæta úr göllum fasteignarinnar samkvæmt mati dómkvadds matsmanns og nemur 3.621.625 krónum. Gagnstefnendur töldu matsgerð hins dómkvadda matsmanns ófullnægjandi og óskuðu því eftir að dómkvaddir yrðu matsmenn til að láta í té yfirmat. Í þinghaldi 24. september 2015 voru dómkvödd sem yfirmatsmenn Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir líffræðingur og Kristmann Magnússon byggingatæknifræðingur, löggiltur mannvirkja­hönnuður og húsasmíðameistari. Matsgerð þeirra lá fyrir í maí 2016. Í matsgerðinni kemur fram að fyrsta vettvangsskoðun hafi farið fram 5. nóvember 2015 er gengið hafi verið um fasteignina. Þá hafi önnur vettvangsskoðun farið fram 5. janúar 2016 er framkvæmdar hafi verið  rakamælingar og sýnatökur og teknar myndir og myndbönd af herbergjum. Í matsgerðinni er því lýst að við vettvangsskoðunina hafi þegar verið búið að opna upp í þak á nokkrum stöðum, inn í útveggi og lyfta upp gólfefnum. Yfirmatsmenn hafi við skoðun sína opnað þak og parket á öðrum svæðum. Þá hafi frekari vettvangsskoðanir yfirmatsmanna farið fram á tímabilinu frá mars til maí sama ár, meðal annars sýnatökur. Í niðurstöðu yfirmatsgerðar er, líkt og í undirmatsgerð, gerð grein fyrir rakamyndun, leka og vatnstjóni í þvottahúsi og eldhúsi. Orsakirnar eru taldar leki frá strompi, leki frá lögnum (returlögn), leki frá krana í þvottahúsi, leki frá gluggum og leki frá útvegg. Í matsgerðinni er gerð grein fyrir þeim úrbótum sem ráðast þurfi í á gólfi, steypu utanhúss, bæði á strompi og útvegg, á gluggum, vegg milli eldhúss og þvottahúss og innréttingum á útvegg. Þá þurfi sérhæfða hreinsun eftir aðgerðir á yfirborðsflötum, innréttingu og heimilistækjum. Í yfirmatsgerðinni er, líkt og í undirmatsgerð, gerð grein fyrir ummerkjum um leka í loftklæðningu í kringum skorsteina hússins. Í yfirmatinu er því til viðbótar lýst ummerkjum um leka í þaki, raka í þakklæðningu og í timbri ofan við einangrun. Einnig séu ummerki í gólfi í stofu við skorstein, þar sem lekið hafði niður með skorsteini og úr þaki þar sem loftklæðning hefði verið opnuð. Í yfirmatinu segir að loftun þaks væri fullnægjandi utan þess hluta bílskúrs sem liggi að vegg íbúðar. Þá segir að á „einhverjum tímapunkti“ frá því að þakið hafi verið byggt hafi það náð að „sagga“ og/eða leka þannig að rakasöfnun hafi verið nægileg til mygluvaxtar og hafi flest sýni úr þaki staðfest myglu. Telja yfirmatsmenn orsök leka og rakaþéttingar í þaki vera leka frá strompi og saggamyndun í þaki sem leitt hafi til mygluvaxtar. Í niðurstöðum matsgerðarinnar er auk framangreinds gerð grein fyrir því að raki hafi mælst á tilteknum svæðum í herbergjum, hitakompu, rafmagnsinntökum, baðherbergi og gestasalerni, borðstofu og stofu, á gangi og í bílskúr. Á þeim svæðum sem raki hafi mælst staðfesti sýnatökur enn fremur myglu og miði úrbætur í matsgerðinni við að fjarlægja mygluð og rakaskemmd byggingarefni. Til að koma í veg fyrir leka og raka þurfi að þétta sprungur í steypu, þétta með gluggum, skipta út skemmdum hluta glugga og í einhverjum tilvikum skipta út gluggum og hurðum alfarið. Þá þurfi að skipta út gólfefnum á íbúð, saga gólfílögn, fjarlægja múr og einangrun útveggja að stærstum hluta í rafmagnsinntaki, hitakompu og eldhúsi og undir gluggum og hurðum þar sem raki hafi mælst og steinslípa málningarfleti með sjáanlegum rakaskemmdum. Þá telja matsmenn að festa þurfi neysluvatnslagnir á nokkrum stöðum og einangra þær og verja með því að byggja stokk. Enn fremur þurfi að liðka loku í strompi sem sitji föst. Kostnaðarmat yfirmatsmanna er þannig sett fram að kostnaðarliðir eru sundurliðaðir eftir heildarkostnaði við byggingarhluta, svo sem steypuviðgerðir, glugga- og hurðaviðgerðir, málun, þakviðgerðir, viðgerðir á gólfi og svo framvegis, en ekki eftir matsliðum í matsbeiðni. Hljóðar kostnaðarmat samkvæmt matsgerðinni upp á 25.019.030 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Sundurliðast sú fjárhæð þannig að efniskostnaður nemur 11.711.980 krónum, þar af kostnaður vegna leigu á sambærilegu húsnæði í fjóra mánuði 320.000 krónum, en vinnuliðurinn 13.307.050 krónum. Þegar tekið hefur verið tillit til þess að virðisaukaskattur vegna vinnu á verkstað fæst að hluta til endurgreiddur lækkar heildarkostnaður við að bæta úr göllum fasteignarinnar samkvæmt yfirmatinu í 23.743.695 krónur. Samkvæmt skýrslu heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 4. september 2015 er það niðurstaða þess samkvæmt sjónskoðun heilbrigðisfulltrúa 1. sama mánaðar að húsið sé óíbúðarhæft á meðan ekki hafi verið ráðin bót á mygluvanda. Í bréfi lögmanns gagnstefnenda til lögmanns aðalstefnanda 30. maí 2016 var vísað til niðurstöðu yfirmatsgerðar og aðalstefnanda boðið að ganga til samkomulags um að kaupin gengju til baka en ella áskilinn réttur til að rifta kaupunum. Með bréfi 21. september 2016 lýstu gagnstefnendur yfir riftun á kaupsamningnum. Var aðalstefnandi krafinn um endurgreiðslu kaupsamningsgreiðslna og bætur vegna tjóns gagnstefnenda, gegn afhendingu hússins. Eins og fyrr greinir höfðuðu gagnstefnendur mál til staðfestingar á riftuninni, endurgreiðslu kaupverðs og til heimtu skaðabóta. II Aðalstefnandi byggir kröfu sína um greiðslu eftirstöðva kaupverðsins á því að komist hafi á bindandi kaupsamningur á milli aðila. Gagnstefnendum beri að efna kaupsamninginn og samkomulag um breytingu á greiðsluskilmálum samkvæmt efni sínu samkvæmt 1. mgr. 50. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Hafnar aðalstefnandi því að gagnstefnendum hafi verið heimilt að halda eftir kaupsamningsgreiðslum með vísan til kostnaðar við úrbætur samkvæmt leið B í viðauka við ástandsskoðun fasteignarinnar frá  1. desember 2014. Við mat á kostnaði við úrbætur, og þá hvort fasteignin teljist gölluð, geti sérstakar aðstæður gagnstefnanda Steinunnar Lilju ekki haft þýðingu. Aðalstefnandi hafnar því að sýnt hafi verið fram á að fasteignin hafi verið haldin galla sem hún beri ábyrgð á. Er byggt á því að meintur galli á fasteigninni sé ekki slíkur að rýri verðgildi fasteignarinnar svo nokkru nemi í skilningi 18. gr. laga um fasteignakaup. Að því er varðar skemmdir á húsinu vegna leka fyrir afhendingu er vísað til þess að gagnstefnendur hafi öðlast rétt á hendur vátryggingafélagi aðalstefnanda. III Svo sem fram er komið byggja gagnstefnendur kröfur sínar í málinu á því að fasteignin að Hagaflöt 20 í Garðabæ hafi verið gölluð í skilningi laga um fasteignakaup. Aðal- og varakrafa gagnstefnenda snúi að staðfestingu á riftun kaupsamningsins en til þrautavara er gerð krafa um sýknu af kröfum aðalstefnanda á þeim grundvelli að gagnstefnendur eigi rétt til afsláttar eða skaðabóta úr hendi aðalstefnanda sem nemi hærri fjárhæð en krafa aðalstefnanda. Hafa gagnstefnendur krafist sjálfstæðs dóms um eftirstöðvar gagnkröfu sinnar eftir skuldajöfnun, 4.063.695 krónur. Verður í einu lagi gerð grein fyrir þeim málsástæðum gagnstefnenda sem upphaflega var teflt fram fyrir sýknukröfu í greinargerð þeirra í tengslum við málshöfðun aðalstefnanda, og komu að nýju fram í stefnu þeirra á hendur aðalstefnanda, og þeim sem byggt er á í stefnu.  Gagnstefnendur byggja á því að samkvæmt yfirmatsgerð sé fasteignin að Hagaflöt 20 haldin verulegum göllum. Því sé um verulega vanefnd að ræða af hálfu aðalstefnanda sem veiti þeim rétt á að rifta kaupunum. Gagnstefnendur vísa til þess að samkvæmt yfirmatsgerð sé kostnaður við að bæta úr göllum fasteignarinnar 23.473.695 krónur, að teknu tilliti til endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu, eða um 33,5% af kaupverði fasteignarinnar. Gagnstefnendur byggja í fyrsta lagi á því að fasteignin sé gölluð í skilningi 18. og 19. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Samkvæmt 18. gr. laganna teljist fasteign gölluð standist hún ekki þær kröfur um gæði, búnað og annað sem leiði af lögunum og kaupsamningi. Gagnstefnendur byggja á því að við afhendingu hafi fasteignin verið haldin verulegum leyndum göllum í skilningi ákvæðisins. Í söluyfirliti hafi verið fullyrt að húsið væri mikið endurnýjað, þar á meðal allar innréttingar, baðherbergi, gólfefni, rafmagn, skólp, allt gler, opnanleg fög, ofnar og vatnslagnir að mestu og hafi kaupverðið tekið mið af því góða ástandi sem fasteignin hafi virst vera í við skoðun og söluyfirlit hafi borið með sér. Gagnstefnendur byggja á því að niðurstöður Hönnunar og eftirlits ehf. og yfirmatsgerðar staðfesti að fasteignin hafi ekki staðist þær almennu kröfur um gæði, búnað og annað sem ætla hafi mátt. Hafi gagnstefnendur ekki mátt búast við því að „mikið endurnýjuð“ fasteign væri með raka- og mygluvandamál á því stigi að hún væri óíbúðarhæf eða að ráðast þyrfti í umfangsmiklar lagfæringar. Gagnstefnendur byggja á því að skemmdir vegna raka, leka, myglu og galla á lögnum hafi verið til staðar við afhendingu eignarinnar, sbr. 20. gr. laga nr. 40/2002. Vísa gagnstefnendur í því sambandi til gagna málsins og yfirmatsgerðar sem staðfesti langvarandi raka- og lekaskemmdir. Þá henti fasteignin ekki til þeirra afnota sem íbúðarhús eru venjulega notuð þar sem húsnæðið hafi verið óíbúðarhæft vegna raka og myglu. Gagnstefnendur byggja á því að skilyrði um að ágallinn rýri verðmæti fasteignarinnar svo nokkru varði sé uppfyllt, enda nemi ágalli fasteignarinnar samkvæmt yfirmatsgerð 33,5% af kaupverði eignarinnar.  Gagnstefnendur byggja enn fremur á því að aðalstefnandi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi í skilningi lokamálsliðar 1. mgr. 18. gr. laga nr. 40/2002 með því að upplýsa þau ekki um þá galla sem hún hafi mátt vita af. Ótrúverðugt sé að aðalstefnandi hafi ekki vitað um svo umfangsmikla galla sem eignin hafi verið haldin. Gagnstefnendur byggja einnig á því að fasteignin sé gölluð í skilningi 26. og 27. gr. laga nr. 40/2002. Gagnstefnendur telja að þau hafi ekki fengið þær upplýsingar um fasteignina sem aðalstefnandi vissi eða mátti vita um og gagnstefnendur hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að þau fengju. Hafi gagnstefnendur leitað eftir því að kaupa fasteign án aðkallandi viðhalds og hefðu því upplýsingar um framangreinda galla haft áhrif á ákvörðun þeirra um kaup á fasteigninni. Í þessu sambandi telja gagnstefnendur að aðalstefnandi hafi að minnsta kosti mátt vita af raka í vegg milli eldhúss og hitakompu, þaki og vegg bílskúrs fasteignarinnar og um loku í strompi sem ekki hafi virkað. Auk þess hafi aðalstefnandi vitað eða mátt vita um leka- og rakaummerki sem yfirmatsmenn hafa staðfest að hafi verið til staðar víðs vegar í húsinu. Þar sem aðalstefnandi hafi kosið að upplýsa þau ekki um framangreint teljist fasteignin gölluð í skilningi 26. gr. laga nr. 40/2002. Gagnstefnendur taka fram að þau hafi sinnt skoðunarskyldu sinni í samræmi við lög um fasteignakaup með tilliti til upplýsinga og aðstæðna með því að foreldrar gagnstefnanda Steinunnar Lilju hafi skoðað eignina fyrir þeirra hönd fyrir kaupin. Við venjulega skoðun á eigninni hafi ekkert sést sem bent hafi til hinna umfangsmiklu galla sem síðar hafi komið í ljós. Þá byggja gagnstefnendur á því að lýsing fasteignarinnar í söluyfirliti hafi verið röng og í besta falli villandi þar sem komið hafi á daginn að fasteignin hafi verið haldin verulegum göllum, meðal annars leka- og rakavandamálum. Þá hafi neysluvatnslagnir ekki verið endurnýjaðar nema að mjög litlu leyti. Með vísan til þessa og að öðru leyti til niðurstöðu yfirmatsgerðar telja gagnstefnendur fasteignina gallaða í skilningi 27. gr. laga nr. 40/2002.                  Með bréfi 21. september 2016 hafi gagnstefnendur rift kaupunum en þá hafi legið fyrir sundurliðaður útreikningur yfirmatsmanna á kostnaði við úrbætur. Samkvæmt yfirmatsgerð nemi kostnaður við úrbætur 25.019.030 krónum, með virðisaukaskatti, og 23.473.695 krónum, að teknu tilliti til 60% endurgreiðslu virðisaukaskatts af kostnaði við vinnu. Kostnaður við úrbætur nemi því verulegum hluta af verðmæti eignarinnar eða um 33,5%. Gagnstefnendur vísa til þess að fasteignin hafi ekki verið í umsömdu ástandi á afhendingardegi hennar og þá sé eðli og umfang gallanna slíkt að þeir teljist vera veruleg vanefnd. Hafi fasteignin verið haldin verulegum leyndum göllum auk þess að aðalstefnandi hafi veitt rangar upplýsingar og vanrækt upplýsingaskyldu sína. Aðalstefnandi hafi samkvæmt framangreindu vanefnt kaupsamning aðila svo verulega að gagnstefnendum sé heimilt að rifta kaupunum samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 40/2002 og krefjast skaðabóta. Gagnstefnendur taka fram að þau hafi ekki farið í neinar framkvæmdir á eigninni eftir afhendingu hennar nema til að koma í veg fyrir frekara tjón, staðreyna galla og kanna orsakir þeirra. Starfsmenn Sjóvár, á vegum aðalstefnanda, hafi tekið ofn af eldhúsvegg, opnað gifsvegg í eldhúsi, tekið niður innréttingu í þvottahúsi til að kanna leka, fjarlægt gólfefni o.fl. Gagnstefnendur telja að þær framkvæmdir hafi engin áhrif á heimild þeirra til riftunar samkvæmt 32. gr. laga nr. 40/2002. Kveðast gagnstefnendur einungis hafa fjarlægt gamla fataskápa en að öðru leyti sé eignin í sama horfi og við kaupin. Gagnstefnendur taka fram að vegna verulegrar raka- og mygluvandamála hafi þau ekki getað flutt inn í fasteignina. Þá hafi þau boðið aðalstefnanda að láta kaupin ganga til baka, skil á greiðslum og að afhenda henni fasteignina, án árangurs. Gagnstefnendur muni vart eiga þess kost að flytja inn í fasteignina þrátt fyrir að ráðist yrði í úrbætur á eigninni samkvæmt yfirmati þar sem gagnstefnandi Steinunn Lilja sé sérstaklega viðkvæm fyrir myglu auk þess að tvö yngstu börn gagnstefnenda séu með ofnæmissjúkdóma og viðkvæm fyrir myglu. Þá hafi ein dóttir gagnstefnenda glímt við alvarleg veikindi. Gagnstefnendur vísa jafnframt til þess að gera megi ráð fyrir því að verðmæti hússins og sölueiginleikar séu skertir þrátt fyrir að úrbætur kæmu til, enda verði að gera grein fyrir málinu við sölu hússins. Gagnstefnendur hafi því ekki átt aðra kosti í stöðunni en að rifta kaupunum til að tryggja hagsmuni sína. Hafi það haft verulega þýðingu fyrir gagnstefnendur að kaupa fasteign án galla. Gagnstefnendur byggja á því að þar sem kaupsamningi milli aðila málsins hafi verið rift hafi skyldur aðila til efnda fallið brott samkvæmt 1. mgr. 33. gr., sbr. 3. mgr. 42. gr., laga um fasteignakaup. Því eigi aðilar rétt á að fá til baka þær greiðslur sem þeir hafa innt af hendi samkvæmt 2. mgr. 33. gr., sbr. 3. mgr. 42. gr., laganna. Í málinu sé óumdeilt að gagnstefnendur hafi greitt greiðslur samkvæmt kaupsamningi 30. júní og 1. ágúst 2014 og tekið yfir lán aðalstefnanda í samræmi við kaupsamning og samkomulag um breytt greiðslufyrirkomulag frá 31. júlí sama ár. Beri því að fallast á kröfu þeirra um riftun og dæma aðalstefnanda til að endurgreiða kaupsamnings-greiðslur, afborganir af láninu og eftirstöðvar þess. Verði aðilar þá eins settir og viðskiptin hefðu ekki átt sér stað. Aðalkrafa gagnstefnenda taki mið af því að áhvílandi lán, sem þau hafi yfirtekið frá aðalstefnanda, verði greidd upp gegn skilum á eigninni, enda sé ekki hægt að krefjast þess að aðalstefnandi yfirtaki lánin, enda háð samþykkti lánveitanda. Aðalkrafan sé því miðuð við stöðu lánanna á riftunardegi 21. september 2016. Gagnstefnendur byggja á því að krafan sé í samræmi við meginreglu kauparéttar um að við riftun skuli skila greiðslum sem þegar hafi verið inntar af hendi. Gagnstefnendur sundurliða aðalkröfu sína með svofelldum hætti: Greitt við kaupsamning 30. júní 2014 með peningum 5.000.000 krónur Greitt með peningum 1. ágúst 2014 10.000.000 krónur Yfirtekið áhvílandi lán að fjárhæð (við riftun) 28.270.000 krónur Innborganir af lánum, samtals 3.671.493 krónur Gagnstefnendur byggja á því að þau eigi rétt á að fá skilað til baka þeim greiðslum sem þau hafi þegar greitt, samtals 47.132.640 krónur. Gera þau kröfu um vexti á greiðslurnar frá því að þær voru inntar af hendi samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 3. gr. sömu laga og 61. gr. laga um fasteignakaup, fram að riftun 21. september 2016 og um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma, enda verði það talið sanngjarnt viðmið. Dráttarvextir verði ekki miðaðir við síðara tímamark en frá þingfestingu stefnu gagnstefnenda samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Verði ekki fallist á framangreint sé í varakröfu gagnstefnenda krafist endurgreiðslu innborgana, samtals að fjárhæð 15.000.000 króna, og höfuðstóls yfirtekinna lána við yfirtöku að fjárhæð 28.501.409 krónur, eða samtals 43.501.409 króna. Byggjast kröfur um vexti og dráttarvexti af varakröfu á sömu forsendum og áður. Í aðal- og varakröfu gera gagnstefnendur einnig kröfu um skaðabætur. Gagnstefnendur byggja á því að þau hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna vanefnda aðalstefnanda og að skilyrði um orsakatengsl og sennilega afleiðingu séu uppfyllt. Skaðabótakröfuna byggja gagnstefnendur á 37. gr., 43. gr. og 59. gr. laga nr. 40/2002. Þá byggja gagnstefnendur á því að aðalstefnandi beri ábyrgð á óbeinu tjóni þeirra samkvæmt 2. mgr. 43. gr. sömu laga. Samtals nemi krafa þeirra 10.171.265 krónum. Krafan byggist á kostnaði við undirbúning samningsgerðar og við samningsgerðina, sérfræðikostnað og kostnaði vegna skjalagerðar og þinglýsingar. Auk þess skuli aðalstefnandi bæta þeim kostnað vegna húsaleigu þar sem húsið hafi verið óíbúðarhæft. Sé um beint tjón að ræða hvort sem litið verði svo á að þau hafi þurft að afla sér húsnæðis að sömu stærð eða tapað leigutekjum af Hagaflöt 20 en tjónið miði við leiguverð á sambærilegu húsnæði samkvæmt niðurstöðu yfirmats. Gagnstefnendur sundurliða skaðbótakröfu sína svo: Tryggingar                                                                          228.754   krónur Fasteignagjöld                                                                   885.640   krónur Orkukostnaður                                                   221.571   króna Fasteignasali                                                                        54.900    krónur Stimpilgjöld                                                                        460.400    krónur Leiga frá ágúst 2014 til október 2016                     8.320.000   krónur Samtals                        10.171.265   krónur   Fjárkrafa aðalkröfu samanstandi af samanlögðum skaðabótum og kröfu um endurgreiðslu eða samtals 57.303.905 krónur (10.1717.265 + 47.132.640). Fjárkrafa varakröfu samanstandi af samanlögðum skaðabótum og kröfu um endurgreiðslu eða samtals 53.672.674 krónur (10.1717.265 + 43.501.409). Gagnstefnendur gera kröfu um dráttarvexti á skaðabætur samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá riftun 21. september 2016, enda verði að telja það sanngjarnt viðmið. Dráttarvextir verði þó ekki miðaðir við síðara tímamark en frá þingfestingu stefnu gagnstefnenda samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Til þrautavara gera gagnstefnendur kröfu um að aðalstefnandi verði dæmd til greiðslu skaðabóta eða afsláttar vegna galla á fasteigninni og útgáfu afsals. Um galla á eigninni er vísað til umfjöllunar um aðal- og varakröfu. Kröfu um skaðabætur styðja gagnstefnendur við 37. gr., 43. gr., 59. gr. og 2. mgr. 43. gr. laga nr. 40/2002 Um heimild til að beita stöðvunarrétti vísa gagnstefnendur til 44. gr. sömu laga. Krafa gagnstefnenda byggist á kostnaði við að bæta úr göllum samkvæmt yfirmatsgerð samtals 23.473.695 krónur, og tjóni vegna húsaleigu sambærilegs húsnæðis frá afhendingardegi 1. ágúst 2014 til stefnudags, alls 8.320.000 krónur. Byggist þrautavarakrafan á mismuni eftirstöðva kaupverðs, 27.730.000 krónum, og fjárhæð bótakröfu, 31.793.695 krónum. Mismunurinn sé 4.063.695 krónur. Gagnstefnendur taka fram að ekki sé þá tekið tillit til verðrýrnunar eða minni sölumöguleika á húsinu vegna orðspors sem líklegt sé að fara muni af húsinu jafnvel þótt ráðist verði í lagfæringar þess. Verði ekki fallist á skaðabótaskyldu aðalstefnanda byggja gagnstefnendur á því að þau eigi rétt á afslætti að sömu fjárhæð, enda séu umræddir gallar það umfangsmiklir að þeir rýri verðmæti hins selda verulega. Gagnstefnendur byggja kröfu um afslátt á 1. mgr. 41. gr. laga um fasteignakaup. Um rétt til skuldajöfnunar við kröfur aðalstefnanda vísa gagnstefnendur til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um skyldu aðalstefnanda til útgáfu afsals til 2. mgr. 11. gr. laga um fasteignakaup. Um lagarök vísa gagnstefnendur að öðru leyti til laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, almennra reglna fasteignakauparéttar og kauparéttar, einkum um riftun, reglna samninga- og kröfuréttar og skaðabótaréttar. Um málskostnaðarkröfu er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. IV Í greinargerð sem aðalstefnandi lagði fram í málinu sem gagnstefnendur  höfðuðu á hendur henni bendir aðalstefnandi á að kröfur gagnstefnenda kunni að teljast svo vanreifaðar að varði frávísun málsins frá dómi án kröfu. Þá beri að vísa frá þeim hluta krafna gagnstefnenda er varði bætur vegna óbeins tjóns á þeim grundvelli að engin gögn hafi verið lögð fram um þann kostnað við þingfestingu málsins. Að því er sýknukröfu varðar vísar aðalstefnandi til þess að áhætta af seldri fasteign flytjist frá seljanda til kaupanda við afhendingu samkvæmt 12. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Samkvæmt 20. gr. sömu laga skuli við mat á því hvort fasteign teljist gölluð miða við það tímamark þegar áhætta flyst til kaupanda. Aðalstefnandi byggir á því að skýrslur frá Hönnun og eftirliti ehf. í september og desember 2014 sýni ástand fasteignarinnar við afhendingu. Fyrir liggi að húsið hafi staðið ónotað frá afhendingu og gagnstefnendur hafi ekkert gert til að bæta úr ágöllum þess. Í áhættuflutningum felist að gagnstefnendur hafi borið ábyrgð á fasteigninni frá afhendingu, þar á meðal eðlilegu viðhaldi hennar. Þá er vísað til skyldu gagnstefnenda til að takmarka tjón sitt í 1. mgr. 60. gr. laga nr. 40/2002. Aðalstefnandi byggir á því að fasteignin hafi ekki verið gölluð við afhendingu. Samkvæmt 18. gr. laga nr. 40/2002 teljist notuð fasteign ekki gölluð nema ágalli rýri verðmæti hennar svo að nokkru varði eða seljandi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Við túlkun á ákvæðinu hafi verið miðað við að metinn ágalli þurfi að rýra verðmæti fasteignar allt að 10% af kaupverði eignarinnar. Mat á ágalla fasteignar sé almennt í þeirri merkingu að ofnæmi í fjölskyldu gagnstefnenda hafi ekki sérstaka þýðingu. Þá verði að horfa til þess að hin selda fasteign hafi verið 47 ára gömul. Aðalstefnandi vísar til þess að í matsgerð dómkvadds matsmanns frá júlí 2015 hafi kostnaður við viðgerðir á húsnæðinu verið metinn 3.621.625 krónur. Sá kostnaður sé langt frá því að ná 10% af gallaþröskuldi. Í matsgerðinni hafi enn fremur ekki verið tekið tillit til þess að nýtt komi í stað gamals. Aðalstefnandi mótmælir því að hún hafi ekki veitt allar upplýsingar um ástand hússins sem henni hafi verið kunnugt um. Þá hafi upplýsingar í söluyfirliti verið réttar. Aðalstefnandi byggir á því að kaupendur hafi ekki mátt ætla annað um ástand einstakra hluta hússins en að þeir væru í samræmi við aldur hússins að frátöldu því sem talið hafi verið upp í söluyfirliti. Hafi gagnstefnendum mátt vera ljóst að fyrir dyrum stæði viðhald á húsinu að öðru leyti. Aðalstefnandi leggur áherslu á að við mat á galla beri að miða við ástand fasteignarinnar við afhendingu að teknu tilliti til aldurs eignarinnar og fleiri þátta. Aðalstefnandi byggir á því að við mat á því hvort húsið hafi verið haldið galla verði ekki miðað við yfirmat enda hafi skoðun og sýnataka verið framkvæmd löngu eftir afhendingu hússins. Um ástand hússins við afhendingu verði að horfa til úttekta sem farið hafi fram skömmu eftir afhendingu eignarinnar og til undirmats sem framkvæmt hafi verið mun nær afhendingartíma. Er á því byggt að gagnstefnendur hafi ekki axlað sönnunarbyrði fyrir því að húsið hafi verið gallað við afhendingu. Hvað varðar kröfu um riftun kaupsamningsins vísar aðalstefnandi til þess að gagnstefnendur rökstyðji skilyrði um verulega vanefnd eingöngu með vísan til heildarkostnaðar við úrbætur samkvæmt niðurstöðum yfirmatsgerðar. Aðalstefnandi vekur athygli á gríðarlegum mun á kostnaði við endurbætur samkvæmt álitsgerðum sem unnar hafi verið skömmu eftir afhendingu hússins og í undirmati samanborið við yfirmat og ætlar að sá tími sem liðið hafi frá afhendingu eignarinnar og þar til yfirmat hafi farið fram skipti þar verulegu máli. Telur aðalstefnandi mega ráða af yfirmatsgerð að mygla eigi verulegan þátt í mati matsmanna á því hvað þurfi að gera við húsið. Fyrir liggi að gagnstefnendur hafi ekkert gert til að koma í veg fyrir að mygla breiddist um húsið þann tíma sem húsið hafi staðið autt. Vísað er til meginreglu í fasteignakauparétti um að tjónþola beri að draga úr tjóni sínu en verði annars að bera það sjálfur, sbr. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 40/2002. Þá vísar aðalstefnandi til þess skilyrðis riftunar samkvæmt 3. mgr. 42. gr. laga nr. 40/2002, sbr. 3. mgr. 32. gr. sömu laga, að fasteign hafi ekki rýrnað á meðan kaupandi hafi borið áhættu á henni. Ekki séu skilyrði til að rifta kaupsamningnum, enda verði að ætla að eignin hafi rýrnað frá því að hún var afhent þar til yfirmatið hafi farið fram. Aðalstefnandi byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 40/2002 sé það skilyrði riftunar að galli teljist veruleg vanefnd. Matið sé heildstætt þar sem fleiri atriði geti skipt máli en hvort ágalli sé tiltekið hlutfall af söluverði. Aðalstefnandi vísar til þess að kostnaðarmat samkvæmt yfirmatsgerð miðist við nývirði án afskrifta en ekki að nýtt komi í stað gamals. Sem dæmi geti kostnaðarmat yfirmatsgerðar við að setja nýtt þak á húsið ekki verið lagt til grundvallar. Þá hafi gagnstefnendur ekki tilkynnt um riftun innan frests 2. mgr. 42. gr. laga nr. 40/2002 en gagnstefnendur hafi fengið yfirmatið í hendur í maí 2016 en ekki tilkynnt um riftun fyrr en 21. september sama ár. Aðalstefnandi byggir á því að samkvæmt 2. mgr. 33. gr. laga nr. 40/2002 sé það meginregla við riftun að aðilar skili til baka þeim greiðslum sem þeir hafi innt af hendi. Aðalkrafa gagnstefnenda sé ekki við það miðuð og óljóst og órökstutt hvernig fjárhæð aðalkröfu gagnstefnenda sundurliðist. Þá verði að sýkna aðalstefnanda af kröfum um bætur fyrir óbeint tjón samkvæmt 2. mgr. 59. gr. laga nr. 40/2002, enda sé bótaskylda hennar á óbeinu tjóni háð því að hún hafi sýnt af sér saknæma háttsemi, sbr. 1. mgr. 43. gr. sömu laga. Í gögnum málsins sé ekkert sem bendi til saknæmrar háttsemi aðalstefnanda.             Að því er varði kröfu gagnstefnenda um afslátt eða skaðabætur er á því byggt að í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 40/2002 sé sú meginregla lögfest að aðeins beri að bæta fjárhagslegt tjón. Verði ekki við yfirmatið miðað í því tilliti. Hin keypta eign hafi verið 47 ára gömul og beri að lækka bætur mjög verulega með hliðsjón af því að verulega hafi verið liðið á líftíma einstakra hluta hússins við afhendingu þess. Þá bendir aðalstefnandi á að frágangur á affalli ofnalagna í kompu hafi ekki leynt sér við skoðun. Þá sé bæði í undir- og yfirmati tekið fram að greinileg merki hafi verið um leka í loftklæðningu í kringum skorstein í stofu. Einnig hafi verið upplýst um það við undirritun kaupsamnings að loka í strompi í arni hafi verið föst. Þá hafi mátt sjá við skoðun sprungur í útveggjum og að allir gluggar í húsinu hafi verið upprunalegir og þarfnast viðhalds. Geti endurbætur vegna atriða sem sjá hafi mátt við eðlilega skoðun ekki verið á ábyrgð aðalstefnanda. Þá skipti það einnig meginmáli við mat á hugsanlegum skaðabótum til gagnstefnenda að húsið hafi verið byggt í samræmi við gildandi reglur á byggingartíma þess. Blasi við að ágallar á húsinu falli undir viðhald en geti ekki talist gallar í merkingu laga um fasteignakaup. Aðalstefnandi mótmælir vaxta- og dráttarvaxtakröfum gagnstefnenda í aðal- og varakröfu. Gagnstefnendur krefjist vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2014 af nánar tilgreindum fjárhæðum. Aðalstefnandi byggir á því að krafa gagnstefnenda hafi í fyrsta lagi orðið til við riftun kaupsamnings 21. september og verði ekki krafist vaxta fyrir það tímamark samkvæmt 3. og 4. gr. laga nr. 38/2001. Einnig er upphafstíma dráttarvaxta í aðal- og varakröfu mótmælt þar sem hann sé ekki í samræmi við 5. gr. laga nr. 38/2001. Rétt sé að miða upphafstíma dráttarvaxta við 4. mgr. 5. gr. laganna. V Svo sem fram er komið höfðaði aðalstefnandi upphaflega mál þetta til heimtu eftirstöðva kaupverðs samkvæmt kaupsamningi málsaðila um íbúðarhúsnæði að Hagaflöt 20 í Garðabæ, sem undirritaður var 30. júní 2014. Gagnstefnendur krefjast staðfestingar á riftun þeirra á kaupsamningnum vegna galla sem verið hafi á húsinu þegar þau festu kaup á því, en að því gengnu að aðalstefnanda verði gert að greiða þeim mismun eftirstöðva kaupverðs og gagnkröfu þeirra vegna gallanna eða eftir atvikum að krafa aðalstefnanda verði lækkuð á grundvelli gagnkröfu þeirra. Samkvæmt 18. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup telst fasteign gölluð ef hún stenst ekki þær kröfur um gæði, búnað og annað sem leiðir af lögunum eða kaupsamningi. Notuð fasteign telst þó ekki gölluð nema ágallinn rýri verðmæti hennar svo nokkru varði eða seljandi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Þá segir í a. lið 1. mgr. 19. gr. laganna að fasteign teljist gölluð ef hún hentar ekki til þeirra nota sem sambærilegar eignir eru venjulega notaðar til. Samkvæmt 26. gr. laga um fasteignakaup telst fasteign enn fremur gölluð ef kaupandi hefur ekki fengið þær upplýsingar um hana sem seljandi vissi eða mátti vita um og kaupandi hafði réttmæta ástæðu til að ætla að hann fengi. Hefur þessari skyldu seljanda verið lýst á þann veg að hann eigi að hafa það viðhorf að betra sé að segja of mikið en of lítið, jafnvel þótt í því felist orðræða um sjálfsagða hluti. Framangreint gildir þó aðeins ef það hefur haft áhrif á gerð eða efni kaupsamnings að upplýsingarnar voru ekki veittar. Vanræki seljandi þessa skyldu kann það að leiða til þess að eign teljist gölluð enda þótt gallinn rýri ekki verðmæti hennar svo nokkru varði, sbr. 2. málslið 18. gr. laganna. Það sama á við ef fasteign er ekki í samræmi við upplýsingar sem seljandi, eða þeir sem koma fram fyrir hans hönd, hafa veitt kaupanda eða fasteign er ekki í samræmi við upplýsingar sem veittar eru í auglýsingum, söluyfirliti eða öðrum sölu- eða kynningargögnum samkvæmt 27. gr. laganna. Í 29. gr. sömu laga er kveðið á um skoðun og aðra rannsókn á fasteign af hálfu kaupanda áður en kaup eru gerð. Getur kaupandi ekki borið fyrir sig galla á fasteign sem hann þekkti til eða átti að þekkja til þegar kaupsamningur var gerður. Af 3. mgr. 29. gr. leiðir að upplýsingaskylda seljanda samkvæmt 26. gr. takmarkast ekki af þeirri aðgæsluskyldu kaupanda. Við mat á því hvort fasteign telst gölluð segir í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 40/2002 að miða skuli við það tímamark er hún flyst yfir í áhættu kaupanda, sem í þessu máli var við afhendingu eignarinnar 1. ágúst 2014, sbr. 1. mgr. 12. gr. laganna. Um galla getur þó verið að ræða þótt hann eða afleiðingar hans komi í ljós síðar. Ber seljandi ábyrgð á slíkum göllum, sé staðreynt að orsök eða tilvist gallans hafi verið fyrir hendi við afhendinguna. Samkvæmt 60. gr. sömu laga ber samningsaðila skylda til að grípa til hæfilegra aðgerða til að takmarka tjón. Geri hann það ekki verður hann sjálfur að bera þann hluta tjóns síns sem koma hefði mátt í veg fyrir. Kröfur gagnstefnenda styðjast við matsgerð dómkvaddra yfirmatsmanna, en gerð er grein fyrir niðurstöðum þeirra í kafla II hér að framan. Eins og lýst er í sama kafla víkur niðurstaða yfirmatsins að verulegu leyti frá niðurstöðum undirmats að því er snertir útbreiðslu raka- og mygluskemmda um fasteignina og þeirra aðgerða sem talin er þörf á til lagfæringa á húsnæðinu og kostnaði við þær. Aðalstefnandi reisir andmæli sín við kröfum gagnstefnenda sérstaklega á því að ósannað sé að fasteignin hafi verið gölluð við afhendingu. Vísar aðalstefnandi í því sambandi til skýrslna Hönnunar og eftirlits ehf. um ástand eignarinnar frá september og desember 2014, mats dómkvadds matsmanns í júlí 2015 á kostnaði við viðgerðir á húsnæðinu og til aldurs eignarinnar. Við aðalmeðferð málsins byggði aðalstefnandi á því að við úrlausn málsins beri að horfa til þess að faðir gagnstefnanda Steinunnar Lilju, sem skoðað hafi húsið fyrir kaupin, sé menntaður húsasmiðameistari. Gagnstefnendur andmæltu síðastnefndri málsástæðu sem of seint fram kominni. Þar sem fyrst var upplýst um menntun föður gagnstefnanda við aðalmeðferð málsins verða málsástæður aðalstefnanda sem að því snúa ekki taldar of seint fram komnar í málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sönnunarbyrði um að fasteignin Hagaflöt 20 hafi verið gölluð við afhendingu 1. ágúst 2014, þar á meðal um umfang galla sem aðalstefnandi ber ábyrgð á, hvílir á gagnstefnendum. Í gögnum máls þessa liggja fyrir, auk undirmatsgerðar frá 20. júlí 2015 vegna vettvangsskoðana í júní sama ár og yfirmatsgerðar frá maí 2016 vegna vettvangsskoðana í janúar til maí sama ár, skýrslur vegna skoðana á vegum Sjóvá- Almennra trygginga hf. í ágúst til september 2014, skýrslur Gunnars Fannbergs Gunnarssonar byggingafræðings hjá fasteignaskoðunar fyrirtækinu Hönnun og eftirliti ehf. frá 2. september og 1. desember 2014 vegna vettvangsskoðana í ágúst og nóvember sama ár, myndir af fasteigninni og greinargerðir Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur sveppafræðings um skoðun og greiningu á ýmist loftsýnum, snertisýnum og sýnum af byggingarefnum í rýmum fasteignarinnar í nokkrum tilvikum í ágúst til október 2014. Þá liggja að auki fyrir greiningarskýrslur Guðríðar Gyðu vegna undir- og yfirmatsgerðar. Í skýrslu Guðríði Gyðu fyrir dómi  kom fram að sveppir geta vaxið og byrjað að mynda gró allt frá nokkrum dögum upp í tvo mánuði. Erfitt sé að meta aldur myglu að liðnum mánuði frá því hún byrjaði að vaxa. Þá kom fram í skýrslu Guðríðar Gyðu og í skýrslu yfirmatsmannsins Sylgju Daggar að sveppir vaxa með auknum raka en standa ella í stað. Sé gert við rakavaldinn þorni myglan upp, en sé þó síst skaðminni sem slík. Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu, auk aðila málsins, Hannes Gísli Ingólfsson faðir gagnstefnanda Steinunnar Lilju, Hannes Steindórsson fasteignasali, Auðunn Elíson, Kristmann Magnússon, Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir og Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir. Þá gengu dómarar á vettvang við upphaf aðalmeðferðar. Með matsgerðunum, hvort tveggja undir- og yfirmati, vitnisburði matsmanna fyrir dómi og öðrum gögnum málsins telst í ljós leitt að rakaskemmdir hafi orðið í þvottahúsi fasteignarinnar, í vegg milli þvottahúss og eldhúss og í gólfi eldhúss sem stafi frá leka frá krana í þvottahúsi. Leki þessi varð eftir að kaupsamningur komst á en áður en afhending eignarinnar fór fram. Þar sem aðalstefnandi bar á þessum tíma áhættu af eigninni verður henni gert að bæta gagnstefnendum tjón sem af lekanum stafaði. Breytir þar engu þó svo vátrygging aðalstefnanda kunni að bæta tjónið enda hafa gagnstefnendur val um að hvorum þau beini kröfum sínum vegna þessa. Með matsgerðum í málinu og öðrum gögnum málsins telst jafnframt sannað að frágangur á returlögn í þvottahúsi fasteignarinnar hafi verið ófullnægjandi sem leitt hafi til þess að hvort tveggja flaut vatn upp úr gólflögn og raki komist upp með lögninni sem leiddi til raka- og mygluskemmda í þvottahúsi og eldhúsi, meðal annars í gólfi og gólfefnum. Þá megi rekja raka- og mygluskemmdir á útvegg í eldhúsi og hitakompu og á eldhúsinnréttingu til returlagnarinnar og að hluta til leka með glugga í eldhúsi og glugga í hitakompu. Samkvæmt gögnum málsins og skýrslum yfirmatsmanna, Kristmanns Magnússonar og Sylgju Daggar Sigurjónsdóttur, fyrir dómi verður að telja að skemmdirnar hafi ekki verið nýtilkomnar. Þessir gallar á eigninni urðu ljósir stuttu eftir afhendingu eignarinnar og telst í ljós leitt að fasteignin hafi verið haldin þeim við afhendinguna. Með matsgerðunum telst einnig í ljós leitt að við afhendingu fasteignarinnar hafi lekið með gluggum í stofu og borðstofu sem leitt hafi til raka og lekaskemmda undir gluggum og á aðliggjandi veggjum. Jafnvel þó ekki liggi fyrir að skemmdirnar hafi verið komnar fram fyrir afhendingu, samkvæmt framburði aðila, föður gagnstefnanda Steinunnar Lilju og fasteignasala fyrir dómi og öðrum gögnum málsins, telst engu að síður um galla á fasteigninni að ræða enda voru þeir staðreyndir þegar í undirmati í júní 2015. Með vísan til eðlis ágallans og þess hversu tiltölulega skammur tími var liðinn frá afhendingu verða taldar löglíkur fyrir því að orsök hans hafi verið til staðar fyrir afhendinguna. Þá telst enn fremur í ljós leitt að raka- og lekaskemmdir hafi, við afhendingu eignarinnar, verið í loftklæðningu hvort tveggja við skorstein í stofu og skorstein á mörkum geymslu og hitakompu inn af þvottahúsi. Í skýrslu Hannesar Gísla Ingólfssonar, föður gagnstefnanda Steinunnar Lilju, fyrir dómi kvaðst hann við skoðun hafa orðið var við skemmd á loftklæðningu við skorstein í stofu en kvað Hannes Steindórsson fasteignasala hafa sagt að gert hafi verið við leka sem valdið hafi skemmdunum. Hafi Hannes Steindórsson jafnframt sagt að enginn leki væri í húsinu. Þá hafi hann ekki bent honum á aðrar skemmdir. Í skýrslu Hannesar Steindórssonar kom fram að við söluna hafi hann séð raka í kompu eða þvottahúsi og smá skellu fyrir ofan arinn en ekki verið kunnugt um önnur rakaummerki í fasteigninni. Með hliðsjón af vitnisburði Hannesar Gísla Ingólfssonar, sem metinn er trúverðugur, verður lagt til grundvallar að við skoðun hafi honum verið sagt að gert hafi verið við þann leka sem valdið hafi skemmdum á loftklæðningu við skorstein í stofu hússins. Þá telst ósannað að rakaskemmdir á loftklæðningu við skorstein í geymslu hafi mátt vera svo augljósar við skoðun að afsakanlegt sé að aðalstefnandi, eða fasteignasali á hennar vegum, léti undir höfuð leggjast að upplýsa sérstaklega um rakaskemmdir í hitakompu. Með hliðsjón af því telst leki við skorsteina fasteignarinnar til galla á fasteigninni sem hafi verið til staðar við afhendingu hennar eða megi rekja til orsaka sem hafi verið til staðar fyrir afhendinguna. Niðurstaða yfirmatsgerðar sker sig frá undirmatsgerð að því varðar ástand á þaki. Í yfirmatsgerðinni er lýst útbreiddum ummerkjum um raka í þaki og þakklæðningu fasteignarinnar, raka í timbri ofan við einangrun og mygluvexti í þakinu. Er talið nauðsynlegt að skipt sé um þakið í heild sinni. Í undarmati, sem var framkvæmt tæpu ári fyrr, var þakinu lýst sem heilu og án rakaskemmda eða myglu svo einhverju næmi. Fyrir liggur að við framkvæmd undirmatsins var rakavarnarlag þaksins rofið og op skilið eftir upp í þakið. Með hliðsjón af niðurstöðu undirmatsgerðar, sem fær stuðning í niðurstöðum rakamælinga við loftklæðningu í skýrslu Hönnunar og eftirlits ehf. frá 2. september 2014, og þegar horft er til þess að rof á rakavarnarlagi þaksins var til þess fallið að valda rakaskemmdum í þakinu, þess að ekkert var gert til að stöðva rakaleiðir inn í húsið frá afhendingu þess fram til þess tíma er yfirmat var framkvæmt og þess hversu skamman tíma það tekur myglu að vaxa, er það álit dómsins að ósannað sé að þakið hafi verið skemmt og haldið myglu við afhendingu fasteignarinnar. Þar við bætist að þak íbúðarhússins er upprunalegt, eða frá árinu 1967, og við kaupin mátti gagnstefnendum vera ljóst að ráðast þyrfti í endurnýjun þess áður en langt um liði. Um er að ræða einhalla timburþak með bárujárni og er halli þess undir 3°. Fram kemur í matsgerð yfirmatsmanna að reikna megi með að köld uppstóluð þök með timburklæðningu og bárujárni á steinsteyptri plötu geti enst í allt að 50 ár. Reynslan hafi þó sýnt að létt þök með bárujárni og litlum þakhalla með loftun þurfi viðgerð allt að tíu til fimmtán árum eftir að þau eru reist. Í ljósi alls framangreinds telst ósannað að þak íbúðarhússins hafi við afhendingu hússins verið haldið galla, eða að orsakir ástands þess eins og því er lýst í matsgerð yfirmatsmanna í maí 2016 sé á ábyrgð aðalstefnanda. Óumdeilt er að við afhendingu eignarinnar hafi trekkspjald í skorsteini í stofu staðið fast. Aðalstefnandi heldur því fram að upplýst hafi verið um þetta við undirritun kaupsamnings og hefur því til stuðnings lagt fram söluyfirlit fasteignarinnar, undirritað af málsaðilum, þar sem athugasemd um þetta er handskrifuð. Efni skjalsins að þessu leyti hefur ekki verið mótmælt og telst því sannað að gagnstefnendur hafi verið upplýstir um ástand á trekkspjaldinu við kaupsamning. Með matsgerðum í málinu telst í ljós leitt að frágangur neysluvatnslagna hafi við afhendingu eignarinnar verið ófullnægjandi. Þar sem þetta var ekki sýnilegt við skoðun telst um galla að ræða. Þá telst jafnframt leitt í ljós að við afhendingu eignarinnar hafi verið rakaskemmdir í vegg milli baðherbergja. Samkvæmt yfirmatsgerð mældist raki í nær til öllum rýmum íbúðarhússins, annað hvort í veggjum, gólfi eða hvoru tveggja, með snertirakamæli. Til viðbótar því sem áður er lýst á þetta við um öll herbergi hússins og gólfi í skála. Þá mældist raki víðar í öðrum rýmum en við sambærilegar skoðanir við framkvæmd undirmats, svo sem í gólfum í stofu og borðstofu. Í matsgerð yfirmatsmannanna kemur fram að mygla hafi mælst í öllum rýmum sem haldin séu rakavandamáli. Að mati yfirmatsmanna eru raka- og mygluskemmdir í byggingarefnum íbúðarhúsnæðinu þess eðlis að við lagfæringar sé nauðsynlegt að þétta sprungur í steypu hússins, þétta með gluggum og skipta út skemmdum hlutum þeirra og í einhverjum tilvikum skipta út gluggum og hurðum alfarið. Þá þurfi að fjarlægja mygluð og rakaskemmd byggingarefni, svo sem skipta út gólfefnum á öllu íbúðarhúsnæðinu og steinslípa gólf, saga gólfílögn, fjarlægja múr og einangra útveggi þar sem raki hafi mælst og steinslípa málningarfleti með sjáanlegum rakaskemmdum. Ljóst er af undirmatsgerð, sem byggði á vettvangsrannsóknum í júní 2015, að upptök raka í húsinu mátti að meginstefnu til rekja til leka og raka í þvottahúsi og eldhúsi. Í samræmi við það mældist raki og mygla einkum í kring um það svæði íbúðarhússins. Að auki olli ástand glugga í stofu og borðstofu rakamyndun innandyra. Svo sem áður segir liggja fyrir í málinu skýrslur og greinargerðir vegna skoðana sérfræðinga á ástandi hússins á fyrstu mánuðum eftir afhendingu þess. Styðja þau gögn niðurstöðu í undirmati um upptök og dreifingu raka og myglu um íbúðarhúsið á þeim tíma sem matið fór fram. Með vísan til þessa og atvika að öðru leyti verður fallist á það með aðalstefnanda að skemmdir af völdum raka og myglu í húsinu hafi ágerst verulega frá afhendingartíma hússins fram til þess tíma sem vettvangsrannsóknir vegna yfirmatsins fóru fram en þá voru liðnir meira en 18 mánuðir frá afhendingu þess. Fyrir liggur að gagnstefnendur gripu ekki til neinna ráðstafana eftir að niðurstaða undirmatsgerðar varð þeim ljós í júlí 2015 til að koma í veg fyrir að raki hefði greiðan aðgang inn í húsið, né gerðu þau ráðstafanir til að koma í veg fyrir að raki kæmist upp í þakrými hússins eftir að rakavarnarlag var rofið. Að þessu gættu verður talið að gagnstefnendur hafi vanrækt skyldu sína til að grípa til aðgerða til að takmarka tjón á fasteigninni af orsökum sem þeim voru að hluta til ljósar strax eftir afhendingu og voru síðar staðreyndar með matsgerð dómkvadds matsmanns eins og áður segir. Þá verður ekki fram hjá því horft að við skoðun fyrir kaupin nutu gagnstefnendur aðstoðar húsasmíðameistara og mátti þeim því vera ljóst slæmt ástand gluggakarma hússins sem voru upprunalegir og verður ástand þeirra ekki talið galli við kaupin. Í reynd átti ekkert eðlilegt viðhald sér stað eftir að gagnstefnendur báru áhættu og ábyrgð á fasteigninni og má leiða af samanburði matsgerða og vitnisburði Hannesar Gísla Ingólfssonar húsasmíðameistara fyrir dómi að verulegar sprunguskemmdir á útveggjum hússins hafi fyrst komið til eftir að gagnstefnendur fengu fasteignina afhenta og báru áhættu af henni. Með hliðsjón af öllu framangreindu verða gagnstefnendur að bera halla af skorti á sönnun um að húsið hafi við afhendingu verið haldið þeim auknu raka- og mygluskemmdum sem gerð er grein fyrir í matsgerð yfirmatsmanna samanborið við undirmatsgerð. Að því virtu verður horft til ástands eignarinnar við afhendingu eins og því er lýst í undirmati. Með matsgerðum dómkvaddra matsmanna í málinu telst í ljóst leitt að raka- og lekaskemmdir hafi verið á vegg við glugga og gönguhurð í bílskúr og á hluta loftklæðningar í skúr við afhendingu hússins. Fyrir liggur að við skoðun á eigninni huldu hillur skemmdir á veggnum. Teljast rakaskemmdirnar því til galla á eigninni. Á hinn bóginn verður með vísan til matsgerða í málinu talið að skemmd við loftklæðningu í skúr hafi mátt vera greinileg við skoðun og verður því ekki talin galli, sbr. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 40/2002. Að því virtu sem hér hefur verið rakið telst ósannað að heildarkostnaður við úrbætur á göllum á eigninni sé sá sem í yfirmatsgerð greinir. Svo sem áður segir er kostnaðarmat yfirmatsmanna þannig fram sett að kostnaðarliðir eru sundurliðaðir eftir heildarkostnaði við byggingarhluta en ekki eftir matsliðum. Þá er ekki tekið tillit til þess að nýtt komi í stað gamals og kostnaður við endurbætur miðaður við gildandi reglugerðir en ekki við reglur og góðar venjur á byggingartíma fasteignarinnar eins og um er beðið í matsbeiðni. Verður því við mat á kostnaði við endurbætur á einstökum hlutum og rýmum fasteignarinnar að miða við kostnaðarmat í undirmatsgerð frá 20. júlí 2015 eftir því sem við á. Samkvæmt undirmatsgerðinni nemur kostnaður vegna endurbóta á returlögn samtals 89.200 krónum, vegna endurbóta vegna leka frá krana í þvottahúsi 474.800 krónum og endurbóta á eldhúsi og þvottahúsi af öðrum orsökum 279.100 krónum allt að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá nemur kostnaður við úrbætur á skorsteinum og lagfæringar á stofulofti og lofti í geymslu og hitakompu samtals 706.100 krónum með virðisaukaskatti. Kostnaður vegna lagfæringar í geymslu og skúr nemur samtals 422.300 krónum og vegna lagfæringar á gluggum og veggjum í borðstofu og stofu samtals 290.300 krónum með virðisaukaskatti. Annar kostnaður vegna hreinsunar, viðgerða og endurnýjunar gólfefna og þrifa vegna sveppagróðurs og myglu nemur samtals 918.600 krónum. Þá nemur kostnaður vegna frágangs neysluvatnslagna samtals 15.000 krónum og kostnaður vegna endurbóta á baðherbergjum samtals 37.400 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti. Í matsgerðinni er kostnaður við tæknilega umsjón verksins talinn nema samtals 180.000 krónum. Framangreindar fjárhæðir nema samtals 3.412.800 krónum og hefur þá ekki verið tekið tilliti til þess að hluti virðisaukaskatts vegna vinnu á verkstað fæst endurgreiddur. Aðalkrafa gagnstefnenda er á því reist að gallar þeir sem á húseigninni eru uppfylli skilyrði 42. gr. laga nr. 40/2002 um verulega vanefnd og því megi rifta kaupunum. Með hliðsjón af því sem áður segir um kostnað við að bæta úr göllum á fasteigninni verður ekki talið að sá kostnaður nemi verulegum hluta af verðmæti eignarinnar. Af sömu ástæðu verður ekki talið að fasteignin hafi vegna þeirra ekki hentað til þeirra nota sem íbúðarhús eru venjulega notuð, sbr. a. lið 1. mgr. 19. gr. laga nr. 40/2002, en veikindi í fjölskyldu gagnstefnenda verða ekki talin leiða til annarrar niðurstöðu. Þá verður efni söluyfirlitsins ekki túlkað sem ábyrgðaryfirlýsing á sérstökum eiginleikum eignarinnar umfram það sem sagt er hafa verið endurnýjað. Hafa gagnstefnendur ekki stutt málsástæðu sína um að fasteignin hafi ekki verið í því ástandi sem lýst var í söluyfirliti haldbærum rökum. Á henni verður því ekki byggt við úrlausn málsins. Þá verður talið ósannað að aðalstefnandi hafi mátt vita af raka og rakaskemmdum í fasteigninni að frekara marki en áður er lýst um skemmdir á stöku stað í loftklæðningum. Verður því ekki fallist á það með gagnstefnendum að aðalstefnandi hafi veitt rangar upplýsingar við söluna eða vanrækt upplýsingaskyldu sína með þeim hætti að skilyrði riftunar um verulega vanefnd verði talið fullnægt. Þar við bætist að þegar gagnstefnendur lýstu yfir riftun á kaupsamningi aðila með bréfi 21. september 2016 voru liðin rúm tvö ár frá gerð kaupsamnings um eignina og afhendingu hennar. Jafnframt voru liðnir um fimm mánuðir frá því yfirmat lá fyrir. Riftun er viðurhlutamikið vanefndaúrræði og því mikilvægt að hún komi fram eins fljótt og tilefni verður til en jafnframt innan eðlilegs tíma frá samningsgerð, með hliðsjón af hagsmunum beggja aðila. Í ljósi alls sem að framan er rakið verður riftun gagnstefnenda ekki komið við eins og mál þetta liggur fyrir. Af þessu leiðir að ekki þarf að taka afstöðu til bótakrafna á hendur aðalstefnanda sem reistar eru á riftun kaupsamningsins. Að frágenginni kröfu um riftun krefjast gagnstefnendur skaðabóta eða afsláttar vegna galla á fasteigninni. Áður hefur verið gerð grein fyrir göllum á fasteigninni Hagaflöt 20 við sölu eignarinnar til gagnstefnenda. Samkvæmt því verður lagt til grundvallar að kostnaður við úrbætur á göllum á fasteigninni nemi samtals 3.161.299 krónum, þegar tekið hefur verið tillit til þess að 60% virðisaukaskatts á vinnu á verkstað fæst endurgreiddur (3.412.800 – 251.501). Við þetta bætist kostnaður við leigu á sambærilegu húsnæði á meðan á viðgerð stæði, samtals 200.000 krónur, samkvæmt matsgerðinni 20. júlí 2015. Kaupverð fasteignarinnar nam 71.000.000 króna og var umrædd fasteign tæplega 50 ára gömul. Kostnaður við úrbætur á göllunum nemur 4,5% af kaupverði eignarinnar. Verða gallarnir samkvæmt því ekki taldir rýra verðmæti eignarinnar svo nokkru varði, sbr. síðari málslið 18. gr. laga nr. 40/2002. Sem áður segir verður enn fremur ekki fallist á það með gagnstefnendum að fasteignin hafi ekki verið í því ástandi sem lýst var í söluyfirliti eða að aðalstefnandi hafi vitað um raka í húsnæðinu en látið hjá líða að upplýsa um það við söluna. Á hinn bóginn verður talið að hin selda fasteign hafi verið haldin göllum vegna leka með skorsteinum hússins, sbr. 26. og 27. gr. laga nr. 40/2002, og að aðalstefnandi sé skaðabótaskyldur gagnvart gagnstefnendum vegna þess samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna. Þá ber aðalstefnanda að bæta gagnstefnendum tjón vegna vatnsleka frá krana í þvottahúsi á meðan aðalstefnandi bar áhættu af eigninni, samkvæmt 12. gr., sbr. 43. gr. sömu laga. Samkvæmt þessu verður aðalstefnanda gert að greiða gagnstefnendum skaðabætur að samtals fjárhæð 1.087.172 krónum og hefur þá verið tekið tilliti til frádráttar á virðisaukaskatti af vinnu á verkstað. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er aðalstefnandi sýkn af riftunarkröfum gagnstefnenda samkvæmt aðal- og varakröfu þeirra. Krafa gagnstefnenda um skaðabætur kemur til skuldajafnaðar kröfu aðalstefnanda um greiðslu eftirstöðva kaupverðs, sem ekki er tölulegur ágreiningur um, en af því leiðir að sú krafa ber ekki dráttarvexti að því marki sem henni er mætt með gagnkröfunni, sbr. 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Verður gagnstefnendum því gert að greiða aðalstefnanda 26.764.841 krónur (27.852.013 – 1.087.172) ásamt dráttarvöxtum svo sem í dómsorði greinir. Málskostnaður verður ákveðinn í einu lagi. Að virtum málsúrslitum og með hliðsjón af 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður gagnstefnendum gert að greiða aðalstefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 2.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Málið dæma Jón Höskuldsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir Gústaf Vífilsson og Stanley Pálsson byggingaverkfræðingar. D ó m s o r ð: Aðalstefnandi, Sigrún Kristjana Óskarsdóttir, er sýkn af riftunarkröfum gagnstefnenda, Guðmundar Inga Kristinssonar og Steinunnar Lilju Hannesdóttur. Gagnstefnendur, Guðmundur Ingi Kristinsson og Steinunn Lilja Hannesdóttir, greiði aðalstefnanda, Sigrúnu Kristjönu Óskarsdóttur, 26.764.841 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 24.134.841 krónu frá 5. september 2014 til 1. október sama ár en af 26.764.841 krónu frá þeim degi til greiðsludags, gegn útgáfu afsals fyrir fasteigninni Hagaflöt 20, fastanúmer 207-0296, Garðabæ. Gagnstefnendur greiði aðalstefnanda 2.000.000 króna í málskostnað.
Mál nr. 17/2018
Kærumál Félagsdómur Kröfugerð Sakarefni Frávísunarúrskurður staðfestur
Staðfestur var úrskurður Félagsdóms þar sem máli S gegn Í var vísað frá dómi. Í málinu krafðist S þess að viðurkenndur yrði sá skilningur félagsins að Í væri bundið af tiltekinni bókun við kjarasamning milli aðila og niðurstöðu starfshóps um að meðallaun almennra hljóðfæraleikara SÍ skyldu ekki vera undir meðallaunum aðildarfélaga BHM frá tilteknu tímamarki. Var talið að kröfugerð S lyti að hagsmunaágreiningi og atriðum varðandi gerð kjarasamnings, en ekki að réttarágreiningi um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Ætti úrlausn um viðurkenningarkröfu S því ekki undir Félagsdóm. Þá væri kröfugerð S ekki í samræmi við ákvæði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júní 2018 en kærumálsgögn bárust réttinum 10. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Félagsdóms 22. júní 2018 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Félagsdómi. Kæruheimild er í 1. tölulið 67. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Félagsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Orðalag bókunar 2 við samkomulag fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2. nóvember 2011 um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila ber með sér að vera stefnuyfirlýsing og markmiðssetning en ekki ákvæði kjarasamnings um tiltekin réttindi eða skyldur aðila að samningnum. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 350.000 krónur í kærumálskostnað.   Úrskurður Félagsdóms 22. júní 2018. Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda 14. júní sl. Úrskurðinn kveða upp Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Ragnheiður Harðardóttir, Sonja María Hreiðarsdóttir og Guðmundur B. Ólafsson. Stefnandi er Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Hörpu, Austurbakka 2, Reykjavík. Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli við Lindargötu, Reykjavík. Dómkröfur stefnanda Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði með dómi Félagsdóms sá skilningur stefnanda að stefndi sé bundinn af bókun nr. 2 í kjarasamningi aðila frá 2. nóvember 2011 og niðurstöðu starfshóps frá 20. ágúst 2012, að meðallaun almennra hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands skuli frá 1. september 2012 ekki vera undir meðallaunum aðildarfélaga BHM. Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda. Þá krefst hann þess að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns. Dómkröfur stefnda Stefndi gerir þær dómkröfur að málinu verði vísað frá Félagsdómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati Félagsdóms. Málavextir Stefnandi er stéttarfélag starfsmanna Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hefur félagið  staðið að gerð kjarasamninga við stefnda um kaup og kjör félagsmanna sinna. Allir hljóðfæraleikarar sinfóníuhljómsveitarinnar eru félagsmenn stefnanda. Aðilar undirrituðu 2. nóvember 2011 samkomulag um breytingar og framlengingu á þágildandi kjarasamningi þeirra til 31. mars 2014. Samkomulaginu fylgja fimm bókanir sem varða meðal annars vinnuvernd, vinnufyrirkomulag, launaákvarðanir o.fl. Bókun 2 er svohljóðandi: „Samningsaðilar munu fjalla um niðurstöður starfshóps Stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands og gera viðeigandi breytingar til samræmis við þær og skulu þær koma til framkvæmda eigi síðar en 1. september 2012 eða í samræmi við þá útfærslu sem leiðir af niðurstöðu samningsaðila. Þar til aðilar hafa komist að niðurstöðu fá hljómsveitarmenn sérstaka greiðslu vegna vinnu á laugardögum, sunnudögum og sérstökum frídögum sem fellur innan vinnuskyldunnar sem nemur kr. 7.000 fyrir hvern dag. Komi til vinnu á stórhátíðardögum sem falla innan vinnuskyldunnar fá hljómsveitarmenn kr. 10.500 fyrir hvern dag.“  Starfshópurinn var skipaður fulltrúum Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands og stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Greinargerð starfshópsins er dagsett 20. ágúst 2012 og þar er því lýst að honum hafi verið falið „að setja fram tillögur um breytingar á tilhögun vinnufyrirkomulags og launaákvarðana, sem þjóni betur hagsmunum annars vegar hljóðfæraleikara og hins vegar SÍ.“ Síðan segir að í þessu hafi falist athugun á launasetningu og vinnufyrirkomulagi hljóðfæraleikaranna, meðal annars í samanburði við laun og tekjur stétta með sambærilega menntun. Í 4. kafla greinargerðarinnar er fjallað um launasetningu og þar segir: „Við launasetningu er æskilegt að tekið verði tillit til mismunandi hópa innan hljómsveitarinnar og tryggt að meðallaun almennra hljóðfæraleikara í SÍ verði ekki undir meðallaunum BHM.“ Óumdeilt er að ekki hefur náðst samkomulag milli aðila um nánari útfærslu á grundvelli bókunarinnar og greinargerðar starfshópsins. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi kveður málið eiga undir Félagsdóm með vísan til 3. töluliðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Stefnandi vísar til þess að þrátt fyrir framangreinda bókun 2 og niðurstöðu starfshóps stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Starfmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafi launasetning samkvæmt greinargerð starfshópsins ekki komist til framkvæmda.  Með bréfi til stefnda 4. desember 2012 hafi Erna Guðmundsdóttir, lögmaður BHM, kallað eftir því að bókun 2 yrði framfylgt en engin viðbrögð orðið af hálfu stefnda.  Stefnandi byggir á því að áðurnefnd bókun hafi sama gildi og kjarasamningur og því sé stefndi bundinn af henni líkt og af öðrum ákvæðum kjarasamnings aðila. Þá sé ljóst að stefndi sé einnig bundinn af niðurstöðu starfshópsins 20. ágúst 2012. Í bókuninni komi fram að aðilar skuli gera viðeigandi breytingar og að þær skuli koma til framkvæmda eigi síðar en 1. september 2012. Stefnandi bendir á að hann hafi í þrígang kallað eftir leiðréttingu af hálfu stefnda, þ.e. á árunum 2012, 2014 og 2017, en stefndi hafi ekki sinnt því. Þar sem stefndi hafi ekki orðið við ítrekuðum óskum stefnanda um launaleiðréttingu félagsmanna sinna sé stefnandi knúinn til að höfða mál þetta. Málsástæður og lagarök stefnda Til stuðnings frávísunarkröfu sinni vísar stefndi í fyrsta lagi til þess að dómkrafa málsins sé þess eðlis að dómsorð eftir henni myndi ekki ráða til fullnaðarlykta tilteknu sakarefni á einn veg eða annan. Í kjarasamningum sé fjallað af nákvæmni og með afgerandi hætti um launalið, venjulega í launatöflum, og laun tilgreind í krónum. Þá sé þar fjallað um tiltekna þætti launa, til dæmis ef um sé að ræða tilkall til hækkunar, um fjárhæðir, jafngildi hundraðshluta þeirra eða með öðrum ótvíræðum mælikvörðum eins og flokkahækkunum. Dómkrafa um að laun hjá félagsmönnum í heilu stéttarfélagi, sem skiptist í mismunandi hópa, séu ekki undir meðallaunum tiltekinna aðildarfélaga geti ekki staðist, þótt markmið í kjaraviðræðum geti verið slík. Þótt slík markmið næðust með samningi myndi launaliður og ákvæði um laun engu að síður vera tilgreind með ótvíræðum hætti. Dómkrafa stefnanda, eins og hún sé fram sett, fullnægi því ekki 2. mgr. 25. gr. og d-lið 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Stefndi bendir á að með hliðsjón af orðalagi bókunarinnar og tillagna starfshópsins sé dómkrafa stefnanda fremur ráðagerð um gerð kjarasamnings og beiðni um að Félagsdómur ákvarði launalið. Það sé ekki á valdi Félagsdóms svo sem hann hafi bent á í fordæmum sínum og þá muni dómstólar ekki skylda aðila til samningsgerðar. Þá sé ekki unnt með dómi að knýja annan samningsaðila til samningsgerðar eða að þola skyldu sem ekki hafi náðst samningar um, enda hafi ekki verið kveðið á um efnisatriði í umræddri bókun. Jafnframt leiki vafi á því hvort málið heyri undir Félagsdóm eftir 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, þar sem ekki sé ágreiningur um skilning á kjarasamningi eða gildi hans, heldur hvort niðurstaða starfshóps á grundvelli bókunar við kjarasamning skuli hafa sama gildi og kjarasamningur. Loks bendir stefndi á að engin reifun liggi fyrir á launasetningu einstakra hópa innan Sinfóníuhljómsveitar Íslands, meðallaunum „almennra hljóðfæraleikara“ eða meðallaunum BHM. Málið sé því vanreifað um þá meginþætti sem í kröfugerð stefnanda felist. Niðurstaða Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að viðurkenndur verði með dómi Félagsdóms sá skilningur stefnanda að stefndi sé bundinn af bókun 2 í samkomulagi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2. nóvember 2011 um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila og þeirri niðurstöðu starfshóps 20. ágúst 2012, að meðallaun almennra hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands skuli frá 1. september sama ár ekki vera undir meðallaunum aðildarfélaga BHM. Af hálfu stefnanda er til stuðnings kröfugerðinni vísað til þess að þrátt fyrir bókunina og niðurstöðu starfshópsins sem og ítrekanir af hálfu stefnanda hafi launasetning henni til samræmis ekki komist á. Í bókun 2 í kjarasamningnum 2. nóvember 2011 segir að samningsaðilar muni fjalla um niðurstöður starfshóps stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og starfsmannafélags hljómsveitarinnar og gera viðeigandi breytingar til samræmis við þær. Síðan segir að breytingarnar skuli koma til framkvæmda eigi síðar en 1. september 2012 eða í samræmi við þá útfærslu sem leiði af niðurstöðu samningsaðila. Loks er í bókuninni mælt fyrir um með hvaða hætti beri að greiða hljómsveitarmönnum sérstaklega vegna vinnu á tilteknum dögum þar til aðilar hafa komist að niðurstöðu að þessu leyti. Að því er fram kemur í greinargerð starfshópsins var honum falið að „hafa að leiðarljósi að setja fram tillögur um breytingar á tilhögun vinnufyrirkomulags og launaákvarðana“ sem þjónuðu betur hagsmunum annars vegar hljóðfæraleikara og hins vegar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Segir í greinargerðinni að í þessu hafi falist athugun á launasetningu og vinnufyrirkomulagi hljóðfæraleikaranna, meðal annars í samanburði við laun og tekjur stétta með sambærilega menntun. Í því augnamiði hafi hópurinn átt að skoða hvernig slíku væri háttað, til dæmis í nágrannalöndunum. Jafnframt er fjallað um sameiginleg markmið sinfóníuhljómsveitarinnar og hljóðfæraleikara, vinnutíma og vinnufyrirkomulag og launasetningu. Að því er varðar launasetningu er rakið að laun hjá hljómsveitinni hafi dregist verulega aftur úr meðallaunum félagsmanna innan BHM sem megi álíta hentugustu viðmiðunina með hliðsjón af sérhæfingu og menntun. Síðan segir um tillögu starfshópsins, sem lýtur að launasetningu, að æskilegt sé að tekið verði tillit til mismunandi hópa innan hljómsveitarinnar og tryggt að meðallaun almennra hljóðfæraleikara í hljómsveitinni verði ekki undir meðallaunum BHM. Í minnisblaði starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins 5. desember 2012, þar sem gerð er grein fyrir afstöðu ráðuneytisins til tillagna starfshópsins, kemur fram sú afstaða að þetta markmið þurfi að útfæra í stofnanasamningi. Almennt er litið svo á að ekki skipti máli hvort samningsatriði er komið fyrir í sérstakri bókun, sem ekki er hluti af meginmáli kjarasamnings, eða í kjarasamningnum sjálfum. Fyrir liggur að ekki hefur náðst samkomulag milli málsaðila um útfærslu á launasetningu hljóðfæraleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands til samræmis við það sem fram kemur í bókun 2 með kjarasamningi 2. nóvember 2011 og niðurstöðu starfshóps stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og starfsmannafélags hljómsveitarinnar. Orðalag bókunar 2 og niðurstöðu starfshópsins, sem hér þykir skipta máli, hefur verið rakið hér að framan. Í bókuninni segir að samningsaðilar muni fjalla um niðurstöður starfshópsins og gera viðeigandi breytingar til samræmis við þær, án þess að þar sé því lýst með skýrum hætti hvernig eigi að útfæra þær eða hvers efnis kjarasamningurinn eigi að verða að þeim breytingum loknum. Í niðurstöðu greinargerðar starfshópsins, sem vitnað er til í viðurkenningarkröfu stefnanda, er tekið þannig til orða að við launasetningu sé æskilegt að tryggt verði að meðallaun almennra hljóðfæraleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands verði ekki undir meðallaunum BHM. Það er mat Félagsdóms að þetta orðalag beri frekar með sér að vera stefnuyfirlýsing og markmiðssetning höfunda þess heldur en ákvæði kjarasamnings um tiltekin réttindi eða skyldur kjarasamningsaðila. Þegar litið er til alls framangreinds er það því niðurstaða Félagsdóms að kröfugerð stefnanda lúti að hagsmunaágreiningi og atriðum, sem lúta að gerð kjarasamnings, en ekki að réttarágreiningi um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Úrlausn um viðurkenningarkröfu stefnanda á því ekki undir Félagsdóm, hvorki á grundvelli 3. töluliðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sem stefnandi reisir málsókn sína á, né samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Þá er kröfugerð stefnanda, eins og hún er fram sett, ekki í samræmi við ákvæði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.  Þegar af þessum ástæðum verður máli þessu vísað frá Félagsdómi. Eftir þessari niðurstöðu verður stefnanda gert að greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað. Ú R S K U R Ð A R O R Ð: Máli þessu er vísað frá Félagsdómi. Stefnandi, Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 400.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 626/2017
Einkahlutafélag Samruni Málsástæða
Hafnað var kröfu MT B.V. um að viðurkennd yrði innlausnarskylda MH ehf. á hlutum MT B.V. í MH ehf. sem og fjárkröfum sem MT B.V. gerði á hendur MH ehf. á þeim grundvelli. Meðal annars var vísað til þess að með dómi Hæstaréttar í máli nr. 418/2012 hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að forgangshlutir í L ehf. hefðu breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt MH ehf. undir nafni þess síðarnefnda. Var hvorki talið að MT B.V. gæti reist kröfu sína á tilteknum ákvæðum samþykkta MH ehf. né á ákvæðum samnings um áskrift að forgangshlutum með breytirétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Valtýr Sigurðsson fyrrverandi ríkissaksóknari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2017. Hann krefst þess að viðurkennd verði innlausnarskylda stefnda á hlutum áfrýjanda í stefnda að nafnvirði 1.082.250 krónur. Þá krefst hann þess aðallega að stefndi greiði sér 10.061.633 bandaríkjadali aðallega með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. janúar 2012 til greiðsludags, en til vara með „8% vöxtum p.a. frá þeim degi til greiðsludags.“ Til vara krefst hann þess að stefndi greiði sér 1.232.650.674 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. janúar 2012 til greiðsludags. Að því frágengnu krefst áfrýjandi þess að stefndi greiði sér 6.121.035 bandaríkjadali aðallega með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. janúar 2012 til greiðsludags, en til vara með „8% vöxtum p.a. frá þeim degi til greiðsludags.“ Að öllu þessu frágengnu krefst hann þess að stefndi greiði sér 656.284.262 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. janúar 2012 til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi hafa deilur milli hluthafa í stefnda staðið lengi og hefur komið til kasta dómstóla að skera úr um ágreining þeirra í millum. Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort áfrýjandi, sem er fyrrum eigandi forgangshluta í stefnda, eigi rétt á því að hlutafé hans í stefnda verði innleyst í kjölfar þess að forgangshlutir hans breyttust í almennt hlutafé við samruna félaganna Leikhúsmógúlsins ehf. og dótturfélags þess Mogul Holding ehf. undir nafni þess síðarnefnda. Byggir áfrýjandi einkum á því að vegna samrunans sé stefnda skylt að innleysa hlutafjáreign hans í félaginu. Leiði af 24. gr. samþykkta stefnda að áfrýjandi geti krafist þess að vera leystur út úr félaginu með peningagreiðslu. Krafa hans fái jafnframt stoð í ákvæðum samnings um áskrift að forgangshlutum með breytirétti frá 21. ágúst 2006, en önnur túlkun myndi leiða til óréttmætrar auðgunar af hálfu stefnda sem og forsendubrests fyrir kaupum áfrýjanda á hlutabréfunum. Stefndi byggir á hinn bóginn einkum á því að á grundvelli dóms Hæstaréttar 28. febrúar 2013 í máli nr. 418/2012 sé ekki fyrir hendi innlausnarskylda af hans hálfu á andvirði hluta áfrýjanda. Með fyrrgreindum dómi komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að „forgangshlutir í Leikhúsmógúlnum ehf. ... hafi breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt, Mogul Holding ehf. ... 30. júní 2008, undir nafni hins síðarnefnda.“ Með dóminum var jafnframt fellt úr gildi hluthafasamkomulag 30. nóvember 2007 milli nánar tilgreindra hluthafa í stefnda. Deilur hluthafa í stefnda héldu áfram í kjölfar dómsins og 21. mars 2013 krafðist áfrýjandi innlausnar á hlutum sínum í stefnda öðru sinni, en hann hafði með bréfi 27. janúar 2010 gert sams konar kröfu, á öðrum grundvelli, sem stefndi hafnaði. Stefndi hafnaði kröfu áfrýjanda um innlausn á ný 23. apríl 2013. Með stefnu birtri 20. júní 2013 höfðaði áfrýjandi mál gegn stefnda og krafðist viðurkenningar á innlausnarskyldu þess síðarnefnda. Undir rekstri þess máls aflaði áfrýjandi mats dómkvadds manns um innlausnarvirði hluta í stefnda. Málinu var vísað frá héraðsdómi þar sem breytt kröfugerð áfrýjanda á grundvelli matsins rúmaðist ekki innan upphaflegrar kröfugerðar hans. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 28. janúar 2016. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september það ár var málinu vísað frá dómi. Var úrskurðurinn kærður til Hæstaréttar sem með dómi 26. október 2016 í máli nr. 665/2016 felldi hinn kærða úrskurð úr gildi og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar svo sem nánar er gerð grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Málsástæður og lagarök áfrýjanda eru nægilega rakin í hinum áfrýjaða dómi.  Eins og þar greinir heldur áfrýjandi að hluta til fram röksemdum í máli þessu sem efnisleg afstaða var tekin til í framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 418/2012. Í máli þessu hefur í engu verið hnekkt því sem var slegið föstu í þeim dómi. Þá er og til þess að líta, sem greinir í hinum áfrýjaða dómi, að réttaráhrif samruna einkahlutafélaganna Leikhúsmógúlsins og Mogul Holding voru meðal annars þau að forgangshlutir í hinu fyrrgreinda félagi breyttust í almenna hluti. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjandi greiði stefnda málskostað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Mango Tree B.V., greiði stefnda, Mogul Holding ehf., 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 5. júlí 2017 Mál þetta var höfðað með stefnu þingfestri 28. janúar 2016 og dómtekið 30. maí 2017. Stefnandi er Mango Tree B.V., Laan Copes van Cattenburch 52, Hollandi, en stefndi er Mogul Holding ehf., Bankastræti 10, Reykjavík. Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði innlausnarskylda stefnda á forgangshlutum stefnanda í stefnda að nafnvirði ISK 1.082.250 og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda fjárhæðir sem hér segir: Aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda USD 10.061.633 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. janúar 2012 til greiðsludags en til vara með 8% vöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.232.650.674 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. janúar 2012 til greiðsludags. Til þrautavara að stefndi verði dæmdur til greiða stefnanda USD 6.121.035 ásamt dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. janúar 2012 til greiðsludags, en til vara með 8% vöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautaþrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 656.284.262 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar. II. Stefnandi er hollenskt félag sem er að verulegu leyti í eigu helstu lífeyrissjóða landsins. Sú fjárfesting sem deilt er um í máli þessu var í fyrstu gerð af Brú II ehf. en öll réttindi og skyldur Brúar II ehf. fluttust síðan til stefnanda eigi síðar en 23. júlí 2008. Stefnandi var því eigandi þeirra forgangshluta í stefnda sem hér síðar greinir. Stefndi var stofnað á árinu 2000 í því skyni að setja upp sýningar á leikritinu Hellisbúanum í Þýskalandi og hét þá Leikhúsmógúllinn ehf. Snemma árs 2006 bauðst stefnda að kaupa sýningarrétt á leikritinu um allan heim gegn greiðslu 16,5 milljóna USD og var þá ákveðið að leita að fjárfesti sem væri tilbúinn til þess að kaupa hlut í stefnda til að afla fjármagns til kaupa á sýningarréttinum. Úr varð að Brú II ehf. skráði sig fyrir nýjum hlutum í stefnda hinn 21. ágúst 2006. Þegar samið var um þátttöku nýrra hluthafa í félaginu og fjárframlög var gert hluthafasamkomulag 21. ágúst 2006. Tilgangur þess og samninga sem því tengdust var að tryggja forgangsstöðu þeirra sem um þetta leyti lögðu fram fjármuni til félagsins. Samkvæmt því var heildarnafnverð hluta í félaginu 4.578.750 krónur, þar af voru svonefndir almennir hlutir að nafnverði 3.330.000 krónur en forgangshlutir að nafnverði 1.248.750 krónur. Í hluthafasamkomulaginu var jafnframt kveðið á um ýmis önnur atriði svo sem forkaupsrétt og takmarkanir á framsali hluta. Sama dag og hlutahafasamkomulagið var gert, var gerður „Samningur um áskrift að forgangshlutum með breytirétti“. Í 3. gr. þess samnings voru ákvæði um réttindi eigenda forgangshluta í félaginu umfram eigendur almennra hluta. Skyldu þeir meðal annars eiga rétt til arðs umfram eigendur almennra hluta, sérstakan rétt til greiðslna við slit félagsins, rétt til þess að krefjast innlausnar á hlutum sínum o.fl. Í grein 3.4 í samkomulaginu sagði meðal annars: „Sjálfkrafa umbreyting: Forgangshlutir skulu breytast sjálfkrafa í almenna hluti á því breytiverði sem þá gildir, ... (iii) þegar samningur tekur gildi um samruna, yfirtöku eða sölu á ráðandi hlut í félaginu eða nær öllum eignum þess, þ.á.m. hugverkaréttindum félagsins til grandlauss þriðja aðila á verði á hlut sem nemur a.m.k. 3,5 földu upphafskaupverði hlutar (að teknu tilliti til útgáfu jöfnunarhluta, arðgreiðslna umfram 8%, sbr. skilgreiningu í gr. 3.1. að ofan, og atvika af þeim toga).“ Samþykktum félagsins var breytt 21. ágúst 2006 til samræmis við þá samninga sem gerðir höfðu verið. Þar var tilgreind skipting hluta í almenna hluti og forgangshluti eins og áður greinir, sérstök réttindi forgangshluta og aðrar reglur um þá. Í 4. gr. samþykktanna var ákvæði um hvaða atvik yllu því að forgangshlutir breyttust í almenna hluti og var það sama efnis og áður hefur verið lýst, sbr. ákvæði iii) liðar 5. mgr. 4. gr.    Í 13. gr. samþykktanna var áskilið að samþykki allra hluthafa í félaginu þyrfti til tiltekinna ákvarðana og eigenda 51% forgangshluta til ýmissa annarra ákvarðana þar á meðal tiltekinna ákvarðana sem lutu að stöðu forgangshluta í félaginu.    Í 21. gr. var m.a. mælt fyrir um að engin sérréttindi, önnur en þau sem fram komi í samþykktunum, fylgi hlutum í félaginu. Í 22. gr. samþykktanna sagði að þeim mætti breyta á lögmæltum aðal- eða aukafundi þannig að breytingin væri samþykkt með 2/3 hlutum samanlagt greiddra atkvæða forgangshluta og almennra hluta, svo og með samþykki hluthafa sem réðu yfir að minnsta kosti 2/3 þeirra hluta sem farið væri með atkvæði fyrir á fundinum, enda væri annað atkvæðamagn ekki áskilið í lögum. Auk þess væri það skilyrði fyrir því að breytingar á samþykktum teldust gildar að þær hefðu verið samþykktar með 51% heildaratkvæða forgangshluta hið minnsta. Í 2. og 3. mgr. 24. gr. samþykktanna var mælt fyrir um hvernig ákvarða bæri innlausnarverð til forgangshluthafa við slit félagsins. Þar segir svo: „Við slit á félaginu skulu forgangshluthafar eiga rétt á úthlutun verðmæta félagsins umfram almenna hluthafa sem hér segir að því tilskyldu að eignir félagsins við slit þess séu nægar. Áður en kemur til úthlutunar til almennra hluthafa skal greiða forgangs hluthöfum fjármuni sem svara til kaupverðs þeirra að hlutum í félaginu við skráningu nýrra forgangshluthafa í ágúst 2006 að viðbættu 8% álagi fyrir hvert ár sem liðið er hafi það ekki verið greitt út til hluthafa á tímabilinu. Eftir forgangsúthlutun til forgangs hluthafa skal úthlutun annarra verðmæta til forgangs hluthafa og almennra hluthafa vera í samræmi við reglur hlutafélagalaga eins og um einn hluthafaflokk væri að ræða.“ Þá var svohljóðandi ákvæði í 4. mgr. 24. gr. samþykktanna: „Eigendur forgangshluta skulu hafa sama rétt til að fá greidd út verðmæti úr félaginu í skiptum fyrir hluti þeirra ef félagið sameinast eða er yfirtekið af öðru félagi, meiri hluti þess er seldur eða verulegur hluti eigna þess er seldur ef hluthafar félagsins verða ekki eigendur meirihluta í því félagi sem lifir eftir slíkar umbreytingar.“ Leikhúsmógúllinn ehf. átti dótturfélagið Mogul Holding ehf. Í stjórnum beggja félaganna sátu sömu menn og stjórn þeirra var einnig skipuð sömu mönnum. Stjórnir Leikhúsmógúlsins ehf. og Mogul Holding ehf. samþykktu 15. desember 2008 að sameina félögin þannig að hið síðarnefnda rynni inn í hið fyrrnefnda og að samþykktir þess giltu eftir samrunann, en félagið skyldi þó bera nafn hins síðarnefnda. Samrunaáætlun vegna samrunans var send fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra 29. desember og miðaðist uppsetning sameiginlegs efnahags- og rekstrarreiknings fyrir félögin við 30. júní 2008. Samruni þessi gekk eftir og var hann auglýstur í Lögbirtingablaðinu 12. janúar 2009, staðfestur af stjórn Leikhúsmógúlsins ehf. 24. febrúar 2009 og tilkynntur til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra 13. mars 2009. Samkvæmt hlutaskrá í félaginu frá 17. mars 2009 voru eigendur hluta hinir sömu og fyrir samrunann og skipting eignarhluta hin sama. Lögmaður almennra hluthafa í stefnda, þeirra Signýjar, Óskars og Sigynjar Eiríksbarna og Eiríks Óskarssonar, ritaði hinn 7. apríl 2009 bréf til lögmanns Brúar II Venture Capital Fund S.C.A. SICAR, hluthafa í Leikhúsmógúlnum ehf., þar sem tilkynnt var að í kjölfar sameiningarinnar hefðu forgangshlutir í félaginu sjálfkrafa breyst í almenna hluti „sbr. lið (iii) í 5. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins“. Var þess krafist að hluthafafundur yrði haldinn innan 14 daga „þar sem tekið verði fyrir kjör nýrrar stjórnar, sbr. 60. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög“. Af hálfu stefnanda var því mótmælt að samruni móðurfélagsins Leikhúsmógúlsins ehf. og dótturfélagsins Mogul Holding ehf. hefði þau áhrif á stöðu forgangshluta sem haldið væri fram. Hinn 27. janúar 2010, óskaði lögmaður stefnanda eftir innlausn forgangshluta sinna í stefnda með vísan til greinar 3.6 í áskriftarsamningnum, dags. 21. ágúst 2006. Var krafan ítrekuð með bréfi, dags. 30. júní 2011, og bréfi, dags. 21. mars 2013. Hluthafar stefnda höfðuðu mál á hendur stefnda og stefnanda hinn 25. júní 2009. Var dómur kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 7. júní 2012. Stefnandi í máli þessu áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar hinn 15. júní 2012 og féll dómur í málinu nr. 418/2012, Mango Tree B.V. gegn Eiríki Óskarssyni, Óskari Erni Eiríkssyni, Signýju Eiríksdóttur og Sigyn Eiríksdóttur, hinn 28. febrúar 2013. Með dóminum var fallist á kröfu stefnenda í málinu, að forgangshlutir í Leikhúsmógúlnum ehf. hefðu breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt Mogul Holding ehf., m.a. með vísan til beinna fyrirmæla í 5. málsgrein 4. gr. í samþykktum félagsins sem í gildi voru þegar samruninn átti sér stað. Með dóminum var einnig fellt úr gildi hluthafasamkomulag á milli Mango Tree B.V. annars vegar og Eiríks, Óskars, Signýjar og Sigynjar hins vegar. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 13. september 2016, vísaði dómari sem þá fór með málið, máli þessu frá dómi án kröfu. Stefnandi skaut málinu til Hæstaréttar með kæru, dags. 26. september s.á. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 665/2016, var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Í rökstuðningi Hæstaréttar segir m.a. svo: „Í hinum kærða úrskurði er réttilega að því vikið að sóknaraðili haldi öðrum þræði fram málsástæðum sem efnisleg afstaða var tekin til í [dómi Hæstaréttar í máli nr. 418/2012]. Niðurstöður þess dóms um þær málsástæður hafa ekki réttaráhrif hér samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 heldur sönnunargildi um atvik að baki málinu samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar. Við efnisúrlausn málsins yrði að taka afstöðu til þess hvort svo sé ástatt um einstaka málsástæður sem sóknaraðili heldur fram nú en þetta getur ekki valdið því að málinu verði vísað frá héraðsdómi.“ Skýrslur fyrir dóminum gáfu Gísli Hjálmtýsson, Signý Eiríksdóttir og Haukur Gunnarsson. III. 1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi byggir dómkröfur sínar á þeirri málsástæðu að stefnda sé skylt að innleysa hlutabréf hans í stefnda og greiða sér bæði upphaflegt kaupverð forgangshlutabréfanna auk arðs og sem nemur hlutdeild hans í eignum stefnda, hvort heldur sé miðað við ákvæði 3.6 í áskriftarsamningi og 21. gr. samþykkta stefnda sem voru í gildi í maí 2013, eða ákvæði 3.2 í áskriftarsamningi, sbr. 24. gr. samþykkta stefnda sem í gildi voru í maí 2013. Tekur stefnandi sérstaklega fram að tilvitnuð ákvæði séu samhljóða í áskriftarsamningnum og samþykktunum. Stefnandi reisir kröfu sína um innlausn á samningsbundnum rétti sem fylgt hafi forgangshlutunum, þ.e. að vegna samrunans og staðfestingar hans hafi skapast skilyrði fyrir stefnanda til að krefjast innlausnar hlutabréfa sinna í stefnda. Innlausnarkrafan sé því ekki bundin tímamörkum. Stefnandi byggir einnig á því að hann hafi verið forgangshluthafi í stefnda allt þar til hlutaskrá félagsins og ákvæðum samþykkta félagsins var breytt hinn 2. maí 2013. Stefnandi byggir á því að ekki sé unnt að líta svo á að dómur Hæstaréttar í máli nr. 418/2012 hafi breytt samþykktunum með afturvirkum hætti, enda hafi hann ekki haft önnur áhrif en að heimila stefnda að fella forgangshlutina niður án atbeina stefnanda sem forgangshluthafa að dómi gengnum. Þá hafi Hæstiréttur vísað til þess að ekki yrði dæmt um eftirfarandi uppgjör milli aðila ef fallist yrði á kröfur stefnanda þess máls. Telur stefnandi að innlausn á forgangshlutum sé því óhjákvæmileg afleiðing af samrunanum. Stefnandi byggir á því að stefnda hafi borið að fallast á innlausnarkröfu þá sem stefnandi setti fram í bréfi til stefnda hinn 27. janúar 2010, á grundvelli 21. gr. samþykkta félagsins og grein 3.6 í áskriftarsamningnum. Stefnandi byggir einnig á því að hann eigi skýlausan rétt á innlausn á forgangshlutum sínum með sama hætti og ef stefnda hefði verið slitið vegna skýrra og beinna fyrirmæla 24. gr. samþykkta félagsins sem voru í gildi þegar samruninn var staðfestur. Í því sambandi byggir stefnandi sérstaklega á því að skýra beri 4. mgr. greinarinnar með sömu skýringaraðferð og beitt var í Hæstaréttarmálinu nr. 418/2012, sbr. 5. mgr. 4. gr. lið iii) í samþykktum stefnda. Telur stefnandi að önnur túlkun hafi í för með sér óeðlilega auðgun stefnda og almennra hluthafa félagsins og að sama skapi forsendubrest fyrir kaupum stefnanda á forgangshlutum í stefnda. Þá reisir stefnandi innlausnarkröfu sína einnig á þeirri málsástæðu að grein 3.2 í áskriftarsamningi, dags. 21. ágúst 2006, feli einnig í sér rétt stefnanda til handa til að krefjast þess að stefndi innleysi hluti hans í félaginu fyrir upphaflegt kaupvirði forgangshlutabréfanna auk hvers konar áunnins en ógreidds arðs ef samruni á sér stað. Innlausnarkrafan verði aðeins virk þegar samruninn hafi verið staðfestur.    Þá byggir stefnandi á því að áskriftarsamningurinn standi sjálfstætt samhliða samþykktum stefnda og að stefndi sé bundinn af honum á grundvelli almennra reglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Breyting á samþykktum stefnda hafi ekki áhrif á gildi hans eða réttarstöðu stefnanda gagnvart stefnda á grundvelli hans. 2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda. Stefndi telur að með vísan til 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, beri að líta fram hjá sumum málsástæðum stefnanda sem einnig voru hafðar uppi í hæstaréttarmáli nr. 418/2012. Í héraðsdómsmálinu hafi verið byggt á málsástæðum sem lutu að túlkun ákvæðis iii) liðar 5. mgr. 4. gr. samþykkta stefnda, túlkun á efni 24. gr. samþykkta stefnda og túlkun á grein 3.2 í áskriftarsamningi. Af þessum sökum beri að líta alfarið fram hjá þessum málsástæðum við úrlausn máls þessa. Um gildi áskriftarsamningsins tekur stefndi fram að með vísan til 1. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda fylgi engin sérréttindi hlutum í stefnda nema þau sem fram komi í samþykktunum. Greinar 3.2 og 3.6 í áskriftarsamningi hafi ekki sjálfstætt gildi sem hægt sé að byggja dómkröfur á, sbr. 2. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 11. gr. laga um einkahlutafélög. Stefndi telur einnig að innlausnarkrafa stefnanda sé fyrnd, sbr. lög nr. 150/2007. Telur stefndi að ekki sé unnt að byggja á innlausnarkröfu á grein 3.6 í áskriftarsamningi, sbr. innlausnarkröfu stefnanda 27. janúar 2010. Greinin feli í sér fyrirvara. Þá sé innlausnarkrafa 21. mars 2013 og eftirfarandi málssókn of seint fram komin. Stefnandi telji að samruninn hafi orðið virkur 24. febrúar 2009 og því sé fjögurra ára fyrningarfrestur, sbr. 1. mgr. 2. gr. og 3. gr. fyrningarlaga, liðinn. Stefndi telur að réttarstaða stefnanda hafi markast af dómi Hæstaréttar í máli nr. 418/2012. Í málinu hafi verið tekist á um réttaráhrif þess að stefndi sameinaðist dótturfélagi, þ.e. hvort sameiningin hafi sjálfkrafa leitt til þess að forgangshlutir í stefnda hafi breyst í almenna hluti. Úr þessu hafi verið leyst í dóminum. Dómurinn feli í sér að ákvæðin hafi tapað gildi sínu. Það sé því rangt að forgangshlutir væru áfram virkir eftir þann tíma. Auk þess telur stefndi að í þessum málatilbúnaði stefnanda felist tilraun til að fá dómstóla til að fjalla um sama sakarefni á nýjan leik, er sé andstætt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi telur að innlausnarskylda stefnda verði ekki byggð á 21. gr. samþykktanna og grein 3.6 í áskriftarsamningi, með vísan til dóms Hæstaréttar í máli 418/2012, enda sé innlausnarkrafan, dags. 27. janúar 2010, sett fram tæpum 19 mánuðum eftir að forgangshlutir höfðu breyst í almenna hluti. Samkvæmt dómi Hæstaréttar komi skýrt fram að forgangshlutir í stefnda hafi breyst sjálfkrafa í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt. Frá þeim tíma voru engir forgangshlutir í stefnda. Skipti engu máli í því sambandi hvort samþykktum hafi verið breytt á þennan veg áður en innlausnarkröfur stefnanda voru settar fram. Stefndi hafnar þeirri túlkun stefnanda á dómi Hæstaréttar þar sem tiltekið er að uppgjör í kjölfar slíks viðurkenningardóms verði ekki dæmt í málinu. Telur stefnandi að skírskotun Hæstaréttar feli ekki annað í sér en að í málinu hafi ekki verið höfð uppi kröfugerð um uppgjör og vísar í því sambandi til eftirfarandi setningar í dóminum: Á hinn bóginn verður ekki dæmt um hvernig greitt verði úr stöðu aðila, ef á viðurkenningarkröfu stefndu verður fallist. Stefndi telur að innlausnarskylda stefnda verði ekki byggð á 24. gr. samþykkta stefnda, enda hafi það verið gert fyrir héraðsdómi í hæstaréttarmáli nr. 418/2012. Í Hæstarétti hafi ekkert tillit verið tekið til þessarar málsástæðu við úrlausn málsins. Dómurinn sé bindandi um sakarefni. Vísar stefndi til 1 mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi tekur fram að það sé óumdeilt að meirihluti hluthafa í stefnda voru hinir sömu bæði fyrir og eftir samruna stefnda við dótturfélag sitt. Efnislega er því mótmælt að skýra beri 4. mgr. 24. gr. samþykktanna með sama hætti og Hæstiréttur hafi skýrt ákvæði iii) liðar 5. mgr. 4. gr. samþykktanna. Hafnar stefndi því að samruninn hafi vakið upp rétt handa stefnanda sem forgangshluthafa í yfirtökufélaginu til þess að fá forgangshluti sína innleysta á grundvelli þeirrar aðferðar sem tilgreind sé í 4. mgr. 24. gr. samþykktanna. Vísar stefndi m.a. til orðalags dóms Hæstaréttar þar sem segir svo: Varð þessi breyting [forgangshluta í almenna hluti] vegna beinna fyrirmæla í 5. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins [...] Getur viðhorf einstakra stjórnarmanna, sem þó er ekki upplýst um, ekki haggað þessari niðurstöðu sem leiðir af ótvíræðu orðalagi samþykktanna. Tekur stefndi fram að í dóminum sé engin tilvísun til 24. gr. samþykktanna. Stefndi tekur fram að ákvæði 4. mgr. 24. gr. samþykktanna sé með öðru sniði en ákvæði 5. mgr. 4. gr. þeirra. Skipti þar mestu máli niðurlag 4. mgr. 24. gr. sem segir svo: ... ef hluthafar félagsins verða ekki eigendur meirihluta í því félagi sem lifir eftir slíkar umbreytingar. Þetta skilyrði sé ekki í 5. mgr. 4. gr. samþykktanna. Skilyrðið taki til allra þeirra tilvika sem nefnd hafi verið á undan í ákvæðinu en ekki einungis til þess tilviks að verulegur hluti eigna félagsins sé seldur eins og stefnandi haldi fram. Telur stefndi túlkun stefnanda á orðalagi 4. mgr. 24. gr. samþykktanna ranga. Innlausnarréttur á grundvelli ákvæðisins verði því aðeins virkur ef hluthafahópur stefnda verði í minnihluta eftir samruna, yfirtöku eða sölu verulegs hluta af eignum félagsins. Slíkt hafi ekki gerst við sameiningu stefnda við dótturfélag sitt og hluthafahópurinn hafi haldist óbreyttur. Stefndi bendir á ákvæði 21. gr. samþykktanna þar sem tekið er fram að Engin sérréttindi, önnur en þau sem koma fram í samþykktum þessum, fylgja hlutum í félaginu. Með vísan til þess er tilvísunum stefnanda til áskriftarsamningsins hafnað. Telur stefndi að stefnandi geti ekki borið fyrir sig áskriftarsamninginn að öðru leyti en því sem efni hans kemur fram í samþykktum stefnda. Telur stefndi að túlkun stefnanda, ef rétt væri, myndi leiða til óþolandi réttaróvissu fyrir stefnda, hluthafa félagsins, kröfuhafa og aðra viðsemjendur. Telur stefndi enn fremur skýringaraðferð stefnanda í andstöðu við meginreglur félagaréttar. Stefndi mótmælir öllum sjónarmiðum um auðgun hans, auk þess sem ekki verði séð hvernig almennir hlutahafar sem einnig voru forgangshluthafar hafi auðgast óeðlilega verði ekki fallist á skýringar stefnanda. Stefndi hafnar því að innlausnarskylda stefnda verði byggð á grein 3.2 í áskriftarsamningi. Stefnandi hafi byggt á greininni í hæstaréttarmálinu nr. 418/2012. Í dóminum var ekkert tillit tekið til málsástæðu stefnanda í úrlausn réttarins. Dómurinn sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Því beri að víkja þessari málsástæðu til hliðar. Um sundurliðun kröfugerðar stefnanda tekur stefndi fram að matsbeiðni hafi verið áfátt. Þar hafi viðmiðunarmynt ekki verið tilgreind. Ekkert tillit hafi verið tekið til dóms Hæstaréttar í máli nr. 418/2012. Kaupverð forgangshluta Guðmundar Magnasonar hafi verið rangt tilgreint. Matsgerðin sé miðuð við ársreikning stefnda fyrir árið 2013 og sé að því leyti byggð á röngum upplýsingum. Hlutafé stefnda sé tilgreint í íslenskum krónum og notkun á USD eigi því ekki við. Miða beri fjárkröfur við íslenskar krónur. Þá muni fjárkröfur skv. útreikningum leiða til gjaldþrots stefnda, andstætt ákvæðum 2. mgr. 37. gr. laga um einkahlutafélög. Matsgerðin sé því ónothæf við úrlausn málsins og beri að víkja henni til hliðar. IV. Niðurstöður Í máli þessu liggur fyrir að réttaráhrif samruna einkahlutafélaganna Leikhúsmógúlsins ehf. og Mogul Holding ehf. hafi meðal annars verið þau að forgangshlutir í Leikhúsmógúlnum ehf. hafi sjálfkrafa breyst í almenna hluti. Varð þessi breyting vegna beinna fyrirmæla í 5. málsgrein 4. greinar samþykkta félagsins sem í gildi voru þegar samruninn átti sér stað, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 28. febrúar 2013 í máli nr. 418/2012, Mango Tree B.V. gegn Eiríki Óskarssyni, Óskari Erni Eiríkssyni, Signýju Eiríksdóttur og Sigyn Eiríksdóttur. Stefnandi heldur því í fyrsta lagi fram að stefnda sé þrátt fyrir þetta skylt að innleysa hlutabréf hans í stefnda og greiða sér bæði upphaflegt kaupverð forgangshlutabréfanna auk arðs og sem nemur hlutdeild hans í eignum stefnda með vísan í ákvæði 3.6 í áskriftarsamningi og 21. gr. samþykkta stefnda sem voru í gildi til maí 2013 er samþykktunum var breytt. Á þetta er ekki unnt að fallast þar sem við samrunann breyttust forgangshlutir sjálfkrafa í almenna hluti eins og fyrr segir. Sá réttur, sem forgangshluthafar áttu, m.a. samkvæmt 21. gr. samþykkta stefnda og ákvæði 3.6 í samningi frá 21. ágúst 2006 um áskrift að forgangshlutum með breytirétti, féll niður við þann atburð. Af því leiðir að innlausnarréttur var ekki lengur fyrir hendi upp frá því enda fylgdi hann forgangshlutum. Með svipuðum hætti verður heldur ekki fallist á þann skilning stefnanda að hann hafi verið forgangshluthafi í stefnda þar til hlutaskrá félagsins og ákvæðum samþykkta var breytt. Réttarstaða hans miðast ekki við þær breytingar heldur þegar réttarstaða hans breyttist úr forgangshlutum í almenna hluti samkvæmt ákvæðum samþykktanna sem áður sagði. Telst þessi niðurstaða í samræmi við fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 418/2012. Í öðru lagi telur stefnandi að hann eigi rétt á innlausn á forgangshlutum sínum með sama hætti og ef stefnda hefði verið slitið vegna skýrra og beinna fyrirmæla 24. gr. samþykkta félagsins, sbr. einnig grein 3.2 í áskriftarsamningi, dags. 21. ágúst 2006. Telur stefnandi að önnur túlkun hafi í för með sér óeðlilega auðgun fyrir stefnda og almenna hluthafa félagsins og að sama skapi forsendubrest fyrir kaupum stefnanda á forgangshlutum í Leikhúsmógúlnum ehf. Í 4. mgr. 24. gr. samþykktanna er kveðið á um sama rétt forgangshluthafa til að fá greidd út verðmæti úr félaginu, og ef því væri slitið, „ef félagið sameinast eða er yfirtekið af öðru félagi, ...“. Rétturinn er þó háður því skilyrði að „hluthafar félagsins verða ekki eigendur meirihluta í því félagi sem lifir eftir slíkar umbreytingar“. Óumdeilt er að hluthafar stefnda voru þeir sömu fyrir og eftir sameininguna og því eigendur meirihluta sameinaðs félags. Skilyrði 4. mgr. 24. gr. samþykktanna er því ekki uppfyllt og getur stefnandi þar með ekki reist kröfu um innlausn á þessu ákvæði. Í 2. mgr. 24. gr. samþykkta félagsins er rætt um réttarstöðu forgangshluthafa við slit á félaginu og það sama á við um ákvæði 3.2 í áskriftarsamningi félagsins um forgang við félagsslit. Í báðum tilvikum þykir ljóst miðað við efni ákvæðanna að þau taka aðeins til félagsslita samkvæmt XIII. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, en ákvæði 4. mgr. 24. gr. samþykktanna taka hins vegar sérstaklega til sameiningar og yfirtöku. Hér var hins vegar ekki um félagsslit að ræða í þessum skilningi. Því verður ekki heldur fallist á með stefnanda að hann eigi rétt á innlausn á forgangshlutum sínum með sama hætti og ef stefnda hefði verið slitið vegna fyrirmæla 2. og 3. mgr. 24. gr. samþykkta félagsins eða grein 3.2 í áskriftarsamningi. Samkvæmt framansögðu er það einnig niðurstaða dómsins að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að áskriftarsamningurinn veiti honum aukin réttindi umfram samþykktir stefnda. Loks hefur heldur engin viðhlítandi grein verið gerð fyrir því hvernig rétt túlkun umræddra heimilda geti orðið grundvöllur að óeðlilegri auðgun eða forsendubresti þeim sem stefnandi ber fyrir sig. Með vísan til framangreinds er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir niðurstöðum málsins, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber stefnanda að greiða stefnda 1.200.000 krónur í málskostnað. Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Gylfa Magnússyni, dósent við Háskóla Íslands, og Hersi Sigurgeirssyni, dósent við Háskóla Íslands. DÓMSORÐ: Stefndi, Mogul Holding ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Mango Tree B.V., í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda 1.200.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 755/2017
Ríkisstarfsmenn Ráðningarsamningur Kjarasamningur Laun
B, sem starfað hafði sem heilsugæslulæknir, höfðaði mál á hendur Í og krafðist mismunar annars vegar á því sem hann hafði fengið greitt fyrir svokallaðar gæsluvaktir á nánar tilgreindu tímabili og hins vegar því sem hann hefði borið úr býtum hefðu greiðslur til hans vegna þeirra verið miðaðar við hærra vaktaálag. Í fylgiriti, sem var hluti af ráðningarsamningi B, var skýrlega mælt fyrir um að laun hans fyrir gæsluvaktir skyldu miðuð við ákvæði kjarasamnings um 0 til 9% álag. Ekki væri byggt á því í málinu að Í hefði vanefnt ráðningarsamning B að þessu leyti og yrði að auki að gæta að því að B hafði fengið að hluta hærri greiðslur fyrir gæsluvaktir en áskilið var í samningnum. Í kjarasamningi Í við Læknafélag Íslands hefði ekki verið mælt fyrir um hvernig skipa ætti gæsluvöktum sem þessum í álagsflokka af þeirri nákvæmni að unnt væri að slá því föstu að ákvæði um þetta efni í ráðningarsamningi B hefðu stangast á við lágmarkskjör sem hann átti að njóta samkvæmt kjarasamningi. Yrði krafa B um greiðslu frekari launa fyrir gæsluvaktir því hvorki reist á ráðningarsamningi hans né kjarasamningi. Var Í því sýknaður af kröfu B.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Eiríkur Tómasson fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. desember 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 53.045.366 krónur en til vara 40.186.532 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. júní 2016 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að fjárhæð kröfu áfrýjanda verði lækkuð og falli þá málskostnaður niður.                                                                      I                                                                     Samkvæmt gögnum málsins hefur áfrýjandi starfað sem læknir við Heilsugæslu Vopnafjarðar frá árinu 1988, upphaflega sem annar tveggja lækna en einn frá 1996. Frá árinu 1999 mun starfsemin þar hafa heyrt undir Heilbrigðisstofnun Austurlands, en að auki munu eiga undir þá stofnun fjórar heilsugæslustöðvar á Djúpavogi, Egilsstöðum og Seyðisfirði og í Fjarðabyggð. Bæði á Egilsstöðum og í Fjarðabyggð munu um lengri tíma hafa starfað fleiri en einn læknir hverju sinni, en á Djúpavogi og Seyðisfirði aðeins einn á hvorum stað eins og á Vopnafirði. Frá 1. febrúar 2006 munu starfskjör áfrýjanda og annarra lækna, sem starfað hafa á vegum Heilbrigðisstofnunar Austurlands, hafa farið á hverjum tíma eftir kjarasamningi stefnda við Læknafélag Íslands, þar á meðal um atriði varðandi vinnutíma og vinnutilhögun, og verður ekki annað séð af fyrirliggjandi gögnum en að ákvæði einstakra samninga um þau atriði hafi verið efnislega á sama veg allt fram til 1. janúar 2016. Í þeim var að finna meðal annars skilgreiningar á dagvinnu og yfirvinnu ásamt lýsingu á vinnutilhögun „utan dagvinnu á sjúkrahúsum og heilsugæslu“. Við þær stofnanir skyldi vera fast vaktafyrirkomulag, sem tæki mið af vinnuálagi á hverri deild og skipt væri á einstaka lækna, þar á meðal vegna gæsluvakta utan dagvinnutíma. Læknum á slíkum vöktum hafi ekki verið skylt að halda til á viðkomandi stofnun á meðan þær stæðu yfir, en þeim hafi á hinn bóginn borið að sinna útkalli til starfa. Tekið var fram að fyrir gæsluvaktirnar skyldi greitt „samkvæmt fyrirfram metnu vinnuálagi“ og yrði því „ekki greitt sérstaklega fyrir mælt vinnuframlag á hverri vakt fyrir sig.“ Fyrir þessar vaktir átti að greiða laun, sem tækju mið af starfsönnum eftir röðun í sjö mismunandi flokka. Fóru launin stighækkandi milli flokka og var sá fyrsti ætlaður fyrir 0 til 9% álag, annar flokkurinn 10 til 19%, sá þriðji 20 til 29%, sá fjórði 30 til 39%, fimmti flokkurinn 40 til 49%, sá sjötti 50 til 59% og loks sá sjöundi 60 til 69%. Í kjarasamningunum var að litlu leyti mælt fyrir um hvernig raða ætti gæsluvöktum í þessa flokka. Áfrýjandi gerði nýjan ótímabundinn ráðningarsamning við Heilbrigðisstofnun Austurlands 11. júní 2009 um stöðu yfirlæknis í fullu starfi við Heilsugæslu Vopnafjarðar og Hjúkrunarheimilið Sundabúð. Í samningnum, sem var einfaldur í sniðum, kom fram að hann fæli í sér endurnýjun á eldri samningi og var þar mælt fyrir um fjárhæð grunnlauna og röðun áfrýjanda í launaflokk, auk nokkurra atriða almenns eðlis. Í samningnum var þó einnig vísað til þess að nánar væri kveðið á „um ráðningarkjör í fylgiriti með ráðningarsamningi.“ Í því fylgiriti, sem áfrýjandi undirritaði ásamt viðsemjanda sínum, voru fyrirmæli um margvísleg atriði í tengslum við launakjör áfrýjanda, þar á meðal að laun fyrir gæsluvaktir skyldu miðast við „0-9% álag“. Ekki verður séð af gögnum málsins að gerður hafi verið skriflegur samningur um breytingar á ráðningarkjörum áfrýjanda frá því, sem kveðið var á um í þessum skjölum. Í málinu liggja fyrir launaseðlar áfrýjanda fyrir tímabilið frá ársbyrjun 2012 til ársloka 2015. Í launaseðlum frá 2012 og 2013 var greint á milli launa áfrýjanda fyrir annars vegar 90% starf sem læknir við Heilsugæslu Vopnafjarðar og hins vegar 10% starf við Hjúkrunarheimilið Sundabúð. Grunnlaun og laun fyrir yfirvinnu vegna beggja þátta voru þau sömu en grunnlaunum skipt hlutfallslega. Á launum fyrir gæsluvaktir á hvorum stað, sem eftir einingatölum um fjölda vaktstunda skiptust einnig í fyrrgreindum hlutföllum, var á hinn bóginn munur. Af héraðsdómsstefnu má ráða að þessi munur á laununum hafi komið til af því að gæsluvaktir við heilsugæsluna hafi verið felldar undir flokk fyrir 0 til 9% álag, en gæsluvaktir við hjúkrunarheimilið undir 10 til 19% álag. Í byrjun árs 2014 leið þessi tvískipting í launaseðlum undir lok og voru launin upp frá því tilgreind í einu lagi til ársloka 2015 eins og þau stöfuðu öll frá störfum við heilsugæsluna. Greiðslum fyrir gæsluvaktir var þó áfram skipt í tvennt án frekari skýringa, þar sem annars vegar voru tiltekin laun fyrir 90% af heildartölu eininga vegna vaktstunda, sem ákveðin fjárhæð var greidd fyrir, og hins vegar 10% af heildartölunni, sem hærri fjárhæð kom fyrir. Af héraðsdómsstefnu verður aftur ráðið að þetta hafi tengst sömu skiptingu á gæsluvöktum milli álagsflokka og áður var getið. Þessi munur á álagsflokkum átti sér ekki stoð í samningum um störf áfrýjanda. Af gögnum málsins verður ráðið að áfrýjandi hafi í fjölda ára átt í viðræðum og að nokkru í deilum við Heilbrigðisstofnun Austurlands sökum þess að greiðslur til lækna innan vébanda hennar fyrir gæsluvaktir hafi verið felldar undir mismunandi álagsflokka eftir fyrrgreindum ákvæðum kjarasamninga. Í þessu sambandi hefur áfrýjandi meðal annars vísað til þess að heilsugæslulæknir á Seyðisfirði, sem eins og áfrýjandi sinni umdæmi sínu einn, hafi fengið greitt fyrir gæsluvaktir samkvæmt flokki fyrir 30 til 39% álag, en bæði sé það umdæmi minna að flatarmáli en umdæmi áfrýjanda og fámennara. Þá hafi læknar á Egilsstöðum og í Fjarðabyggð, sem séu fleiri en einn á hvorum stað, fengið greiðslur, sem miðast hafi við 40 til 49% álag. Telur áfrýjandi sig ekki hafa fengið viðhlítandi skýringar á þessum mun, sem stríði gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og einnig réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Í máli þessu, sem áfrýjandi höfðaði 27. júní 2016, krefst hann á þeim grunni greiðslu sem hann kveður svara til mismunar annars vegar á því, sem hann hafi í raun fengið fyrir gæsluvaktir á tímabilinu frá 1. júlí 2012 til 31. desember 2015, og hins vegar því, sem hann hefði borið úr býtum hefðu gæsluvaktir hans verið felldar aðallega undir 40 til 49% álag, sem verði 53.045.366 krónur, en til vara 30 til 39% álag, sem verði 40.186.532 krónur. II Um framangreindan grundvöll, sem áfrýjandi hefur lagt að málsókn sinni, er til þess að líta að í fylgiritinu, sem áður var getið og var hluti af ráðningarsamningi hans við Heilbrigðisstofnun Austurlands frá 11. júní 2009, var skýrlega mælt fyrir um að laun hans fyrir gæsluvaktir skyldu miðuð við ákvæði kjarasamnings um 0 til 9% álag. Ekki er á því byggt að stefndi hafi vanefnt ráðningarsamning áfrýjanda að þessu leyti og er þess að auki að gæta að hann fékk að hluta hærri greiðslur fyrir gæsluvaktir en áskildar voru í samningnum. Í fyrirliggjandi kjarasamningum stefnda við Læknafélag Íslands, sem að nokkru var lýst hér að framan, var ekki mælt fyrir um hvernig skipa ætti gæsluvöktum sem þessum í álagsflokka af þeirri nákvæmni að unnt sé að slá því föstu að ákvæði um þetta efni í ráðningarsamningi áfrýjanda hafi stangast á við lágmarkskjör, sem hann átti að njóta samkvæmt kjarasamningi, sbr. 24. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Verður krafa áfrýjanda um greiðslu frekari launa fyrir gæsluvaktir því hvorki reist á ráðningarsamningi hans né kjarasamningi. Þótt áfrýjandi hafi sem fyrr segir skírskotað til þess í málatilbúnaði sínum að ekki hafi verið gætt jafnræðis milli sín og ýmissa annarra lækna á starfsvæði Heilbrigðisstofnunar Austurlands um röðun gæsluvakta í álagsflokka, svo og að sú röðun hafi að því er hann varðar ekki verið reist á málefnalegum forsendum, verður ekki fram hjá því horft að samið var um þetta atriði í ráðningarsamningi áfrýjanda og var það því ekki háð einhliða ákvörðun vinnuveitanda hans. Í engu hefur verið byggt á því í málinu að stefndi geti borið skaðabótaskyldu gagnvart áfrýjanda vegna atvika í tengslum við skipan starfskjara hans að þessu leyti. Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda. Eftir atvikum er þó rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2017 Mál þetta, sem dómtekið var 19. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 27. júní 2016. Stefnandi er Baldur Helgi Friðriksson, kt.[...], Kolbeinsgötu 14, 690 Vopnafirði. Stefndi er íslenska ríkið, kt. 540269-6459, Arnarhvoli, 101 Reykjavík. Í endanlegum dómkröfum krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum 53.045.366 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá þingfestingardegi til greiðsludags, en til vara að stefndi greiði honum 40.186.532 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar. Stefndi gerir aðallega þær dómkröfur að verða sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður. I Málsatvik Stefnandi hóf störf sem heilsugæslulæknir á Vopnafirði á árinu 1988. Heilsugæslan á Vopnafirði er hluti af Heilbrigðisstofnun Austurlands sem skiptist í fimm læknisumdæmi utan umdæmissjúkrahúss Austurlands. Þau eru: Egilsstaðir og Fjarðabyggð, sem hafa á að skipa fleiri en einum lækni, og þrjú einmenningsumdæmi, Seyðisfjörður, Vopnafjörður og Djúpivogur. Fram til 1. janúar 2016 voru laun heilsugæslulækna fyrir gæsluvaktir mismunandi í umdæmunum fimm en tóku þá breytingum í samræmi við nýjan kjarasamning milli fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands, dags. 7. janúar 2015. Nánar tiltekið voru vaktlaun fyrir „Gæsluvakt 1- læknir með sérfræðileyfi“ á Egilsstöðum og í Fjarðabyggð í álagsflokki 40-49%, á Djúpavogi og Vopnafirði í álagsflokki 0-9% og á Seyðisfirði í álagsflokki 30-39%. Til viðbótar var greitt fyrir unnin gjaldskrárverk á gæsluvakt í öllum umdæmum. Greiðslur fyrir gæsluvaktir byggðu á greinum 4.4.4 og 3.6.1.3 í þágildandi kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og St. Franciskusspítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar, dagsettum 5. mars 2006. Samkvæmt ákvæðunum skyldi greiða fyrir gæsluvaktir samkvæmt fyrirfram metnu vinnuálagi. Stefnandi höfðar mál þetta til heimtu vangoldinna launa fyrir gæsluvaktir fram til 1. janúar 2016. Hann telur að sér hafi borið vaktlaun í álagsflokki 40-49% en til vara að sér hafi borið vaktlaun í álagsflokki 30-39%, til samræmis við lækna í öðrum umdæmum Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Í stefnu kemur fram að stefnandi, sem starfi sem yfirlæknir heilsugæslustöðvarinnar á Vopnafirði, vinni í um átta mánuði á ári og standi þann tíma vakt allan sólarhringinn. Á Vopnafirði sé rekið hjúkrunarheimili fyrir aldraða, með 11 rúmum. Héraðið sé afskekkt miðað við flest læknishéruð landsins og langt að sækja landleiðin á næsta sjúkrahús, eða um 230 kílómetra til Akureyrar og um 140 kílómetra til Egilsstaða, um Möðrudalsöræfi, en um 90 kílómetrar sé farið yfir Hellisheiði eystri sem lokuð sé að vetri til. Starfið feli í sér móttöku allra þeirra sem til heilsugæslunnar leiti á hvaða tíma sólarhrings sem er. Læknisumdæmið nái yfir Vopnafjarðarhrepp og Skeggjastaðahrepp hinn gamla og sé flatarmál þess um 2500 km², stærstur hlutinn öræfi. Læknir á Vopnafirði geti þurft að fara í vitjanir allt að 90 kílómetra leið (Biskupsháls) í alls konar veðrum og færð. Hinn 1. janúar 2012 hafi íbúar á Vopnafirði verið 772 og 765 1. janúar 2016. Til samanburðar hafi íbúafjöldi Seyðisfjarðarumdæmis verið 677 1. janúar 2012 og 658 1. janúar 2016. Fram til 2014 hafi tveir læknar skipt með sér vöktum á Seyðisfirði auk þess að sem umdæmi Seyðisfjarðar sé mun minna en Vopnafjarðar eða 213,8 km² og flestir íbúar búsettir í kaupstaðnum. Þá séu einungis um 25 kílómetrar milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða þar sem ávallt séu tveir læknar á vakt og vel búinn alþjóðaflugvöllur. Því sé mun styttra í bjargir frá Seyðisfirði eigi stórir atburðir sér stað, að því gefnu að Fjarðarheiði sé ekki ófær. Á Seyðisfirði sé hjúkrunarheimili með 18 rúmum sem að hluta til sé skilgreint sem lokuð heilabilunardeild. Hvað aðstöðu í læknisumdæmi Egilsstaða varðar, sé þar ávallt læknir á bakvakt sem unnt sé að kalla til í stærri verkefni en engin slík bakvakt hafi nokkru sinni verið á Vopnafirði. Að þessu virtu séu engin málefnaleg rök fyrir því að aðrir heilsugæslulæknar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands hafi borið hærri greiðslur fyrir gæsluvaktir en stefnandi. Í greinargerð stefnda kemur fram að álagsgreiðslur til heilsugæslulækna hafi fyrst og fremst miðast við umfang vaktsvæðis, áætlaða starfsemi og fjölda íbúa í umdæmi. Í Egilsstaðahéraði og Fjarðabyggð sé fólksfjöldi svipaður og svæðin víðfeðm. Læknisumdæmi Djúpavogs og Vopnafjarðar séu mjög sambærileg að umfangi og fólksfjölda. Á Vopnafirði sé haldið úti áætlunarflugi alla virka daga og sjúkraflugi fyrir alvarlegustu tilvikin. Seyðisfjörður sé landfræðilega minnsta læknishéraðið og íbúafjöldi þar svipaður og á tveimur þeim síðastnefndu. Sú álagsprósenta sem greidd hafi verið á Seyðisfirði hafi að líkum helgast af því að erfitt hafi verið að fá lækna til starfa í umdæminu vegna mikillar einangrunar þess, en eini akvegurinn til og frá Seyðisfirði sé einn hæsti fjallvegur landsins sem oft sé ófær nokkra dag í senn, ásamt því álagi sem fylgt hafi sjúkrahúsi á Seyðisfirði og síðar þungri heilabilunardeild. Þá hafi samningar við lækna á Seyðisfirði verið tilkomnir fyrir stofnun Heilbrigðisstofnunar austurlands og ákvörðun um röðun þeirra lækna í álagsþrep því ekki verið tekin af Heilbrigðisstofnun Austurlands. Gæsluvakt á Seyðisfirði hafi því í raun raðast í hærri álagsflokk en stærð vaktsvæðis og íbúafjöldi gæfi til kynna. Á síðari hluta árs 2013 hafi vaktlaun á Seyðisfirði verið tekin til skoðunar í því augnamiði að lækka þau til samræmis við sambærileg héruð innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands, þ.e. Vopnafjörð og Djúpavog, og ákvæði kjarasamninga. Hafi þær hugmyndir mætt mikilli andstöðu lækna innan stofnunarinnar. Frá 2014 hafi vaktsvæði Seyðisfjarðar og Egilsstaða þó verið sameinuð yfir sumartímann. Í málinu er komið fram að við sameiningu heilbrigðisstofnana á Austurlandi í Heilbrigðisstofnun Austurlands 1. janúar 1999, HSA, voru launakjör lækna sem heyrðu undir hina nýju stofnun með ólíku móti, m.a. um vaktaálagsprósentu, og að samningar sem gerðir voru við einstaka heilsugæslulækna hafi að mestu miðað við sömu kjör. Þá voru nýir ráðningarsamningar gerðir við heilsugæslulækna stofnunarinnar á árinu 2009 þar sem m.a. var á ný samið um greiðslur fyrir gæsluvaktir. Í málinu liggur fyrir ráðningarsamningur stefnanda sem dagsettur er 11. júní 2009 þar sem kemur fram að laun stefnanda fyrir gæsluvaktir á heilsugæslu fari eftir kafla 3.6.1.3, lið 8 í kjarasamningi lækna frá 1. febrúar 2006, og skuli miða við 0-9% álag. Þá segir í fylgiskjali með ráðningarsamningnum: „Þegar kreppunni linnir og tækifæri gefst til leiðréttinga verður vaktaálag lækna í einmenningshéruðum endurskoðað til hækkunar.“ Stefnandi gerði ítrekað athugasemdir við ólíkar greiðslur fyrir gæsluvaktir innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands fyrir og eftir undirritun ráðningarsamningsins á árinu 2009. Með tölvupósti Einars Rafns Haraldssonar, þáverandi forstjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands, dags. 18. júlí 2014, var stefnanda tilkynnt að boðað yrði til símafundar með læknum þar sem kynntar yrðu tillögur framkvæmdastjórnar um endurskoðun kjara vegna gæsluvakta og að ákvarðanir yrðu í kjölfarið kynntar hverjum og einum bréflega. Á símafundi með heilsugæslulæknum 30. september 2014 var tilkynnt um þær fyrirætlanir framkvæmdastjórnar stofnunarinnar að lækka vaktlaun á Seyðisfirði til samræmis við Vopnafjörð. Þá var jafnframt kynnt að til stæði að segja upp greiðslum fyrir gjaldskrárverk á þeim vaktsvæðum sem fengju greitt í hærri álagsþrepum. Einungis skyldi greiða þeim læknum fyrir gjaldskrárverk er fengju vaktina greidda í lægsta álagsþrepi. Með bréfi allra heilsugæslulækna Heilbrigðisstofnunar Austurlands, þar á meðal stefnanda, 2. október 2014, var þess óskað að framkvæmdastjórn staldraði við og endurskoðaði framangreindar hugmyndir sínar meðal annars vegna yfirvofandi kjaradeilu lækna. Með bréfi forstjóra stofnunarinnar fyrir hönd framkvæmdastjórnar 24. október 2014 var hlutaðeigandi læknum tilkynnt, með vísan til bréfs þeirra, að ákveðið hefði verið að fresta endurskoðun á vaktkjörum þar til kjaraviðræðum lækna og ríkisins lyki. Sem áður segir var í kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands, undirrituðum 7. janúar 2015, fallið frá fyrrgreindri álagsflokkun en þess í stað skyldu laun fyrir gæsluvaktir vera tiltekið hlutfall af dagvinnukaupi. Breytt tilhögun skyldi gilda frá og með 1. janúar 2016. Fyrir liggur að í mars 2015 sagði Heilbrigðisstofnun Austurlands upp gjaldskrárverkum þeirra heilsugæslulækna Heilbrigðisstofnunar Austurlands sem voru í öðrum álagsþrepum en 0-9%. Uppsagnarfrestur á gjaldskrárverkum var frá þremur til sex mánuðum eftir starfsaldri lækna. Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu stefnandi málsins og vitnin Einar Rafn Haraldsson og Kristín B. Albertsdóttir, hvort tveggja fyrrverandi forstjórar Heilbrigðisstofnunar Austurlands, Stefán Þórarinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri lækninga sömu stofnunar, Emil Sigurjónsson mannauðsstjóri, Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga, og Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar. II Málsástæður stefnanda Stefnandi byggir fjárkröfu sína á því að honum hafi um árabil verið mismunað með ólögmætum hætti við útgreiðslu launa. Hann eigi því rétt til vangoldinna launa úr hendi stefnda, að því marki sem kröfur hans séu ekki fyrndar. Stefnandi styður kröfur sínar við meginreglur stjórnsýsluréttar um jafnræði og réttmæti, það er að málefnalegra sjónarmiða skuli gætt við ákvarðanir stjórnvalds. Heilbrigðisstofnun Austurlands sé ríkisrekin þjónustustofnun sem veiti alhliða heilsugæslu-, sjúkra- og hjúkrunarþjónustu og sé stjórnvald í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við ákvörðun launa stefnanda beri stefnda því að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, meðal annars jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, og meginreglum á réttarsviðinu. Stefnandi bendir á að samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eigi starfsmenn rétt á launum fyrir störf sín samkvæmt ákvörðun kjararáðs eða kjarasamningum. Um starf stefnanda gildi kjarasamningur fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands. Í ljósi réttmætisreglu stjórnsýsluréttar verði ákvörðun um vaktagreiðslur heilsugæslulækna að byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Hvorki í lögum nr. 70/1996 né kjarasamningi séu skýrar leiðbeiningar um hvaða sjónarmið skuli búa að baki mati á vinnuálagi í hverju tilviki fyrir sig og þar af leiðandi hvað nákvæmlega skuli ráða niðurstöðu um hæfilegt hlutfall álagsgreiðslna fyrir gæsluvaktir. Allt að einu geti vinnuveitandi ekki haft frjálsar hendur með það hvernig vinnuálag sé metið, heldur verði matið að byggja á málefnalegum sjónarmiðum sem taki mið af þeim opinberu hagsmunum sem viðkomandi stofnun beri að vinna að. Í þessu sambandi bendir stefnandi á að ekkert mat hafi farið fram af þessu tilefni. Stefnandi byggir á því að við matið verði að horfa til jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Þá megi að einhverju leyti líta til sjónarmiða að baki 2. mgr. 9. gr. laga nr. 70/1996 um greiðslu viðbótarlauna, en sú heimild sé bundin því að gætt sé jafnræðis á milli starfsmanna, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna og reglur um viðbótarlaun frá 7. mars 2007. Sjónarmið um að stefnandi eigi að njóta lakari kjara en aðrir heilsugæslulæknar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands þar sem heildarlaun hans yrðu annars svo há, rúmist ekki innan þess sem heita megi málefnaleg sjónarmið. Stefnandi bendir á að frá árinu 2006 hafi laun heilsugæslulækna fallið undir kjarasamning fjármála- og efnahagsráðherra og Læknafélags Íslands. Fyrir þann tíma hafi launakjör heilsugæslulækna fallið undir ákvörðunarvald kjaranefndar. Í úrskurði kjaranefndar frá 15. október 2002, um starfskjör heilsugæslulækna, hafi ekki verið gerður greinarmunur á launum lækna fyrir gæsluvaktir 1 og 2 að öðru leyti en því að greint hafi verið milli sérfræðinga annars vegar og lækna án sérfræðileyfis hins vegar. Innan hvors hóps fyrir sig hafi læknar notið sömu kjara fyrir unnar gæsluvaktir. Í úrskurði kjaranefndar hafi ekki verið vikið að greiðslu samkvæmt fyrirfram metnu vinnuálagi. Gildi úrskurður kjaranefndar að því leyti sem hann fari ekki í bága við kjarasamning, meðal annars um greiðslur fyrir læknisvottorð. Stefnandi gerir kröfu um að laun hans verði leiðrétt fjögur ár aftur í tímann. Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga hafi greiðslur fyrir einingu á gæsluvakt 1 á hverju tímabili verið eftirfarandi: Álag Til  2012 Frá 1.3. 2012 Frá 1.3.2013 Frá 1.6. 2014 Frá 1.1. 2015 0-9% 1.516 1.569 1.620 1.678 1.850 10-19% 1.991 2.061 2.128 2.205 2.429 30-39% 2.939 3.042 3.141 3.254 3.586 40-49% 3.411 3.530 3.645 3.776 4.161   Stefnandi gerir svofellda grein fyrir þeim launum sem honum voru greidd samkvæmt launaseðlum og þeim tekjum sem hann hefði fengið ef honum hefði verið greitt 40-49% vaktaálag eða 30-39% vaktaálag: Mánuður Launaseðill Fjöldi eininga 0-9% Fjöldi eininga 10-19% Greitt 0-9% Greitt 10-19% Samtals greitt 30-39% 40-49% júl.12 7 509 57 798.621 117.477 916.098 1.721.772 1.997.980 ágúst.12 8 511 57 801.759 117.477 919236 1.727.856 2.005.040 sept.12 9 511 57 801.759 117.477 919236 1.727.856 2.005.040 okt.12 10 497 55 779.793 113.355 893148 1.679.184 1.948.560 nóv.12 11 504 56 790.776 115.416 906192 1.703.520 1.976.800 des.12 12 497 55 779.793 113.355 893148 1.679.184 1.948.560 jan.13 1 563 63 883.347 129.843 1.013.190 1.904.292 2.209.780 feb.13 2 504 56 790.776 115.416 906.192 1.703.520 1.976.800 mar.13 3 461 51 746.820 108.528 855.348 1.608.192 1.866.240 apr.13 4 551 61 892.620 129.808 1.022.428 1.922.292 2.230.740 maí.13 5 511 57 827.820 121.296 949.116 1.784.088 2.070.360 jún.13 6 524 58 848.880 123.424 972.304 1.828.062 2.121.390 júl.13 7 509 57 824.580 121.296 945.876 1.777.806 2.063.070 ágúst.13 8 511 57 827.820 121.296 949.116 1.784.088 2.070.360 sept.13 9 518 58 839.160 123.424 962.584 1.809.216 2.099.520 okt.13 10 490 54 793.800 114.912 908.712 1.708.704 1.982.880 nóv.13 11 504 56 816.480 119.168 935.648 1.758.960 2.041.200 des.13 12 504 56 816.480 119.168 935.648 1.758.960 2.041.200 jan.14 2 453 51 733.860 108.528 842.388 1.583.064 1.837.080 feb.14 3 511 57 827.820 121.296 949.116 1.784.088 2.070.360 mar.14 4 461 51 746.820 108.528 855.348 1.666.048 1.933.312 apr.14 5 511 57 827.820 121.296 949.116 1.848.272 2.144.768 maí.14 6 536 48 868.288 127.680 995.968 1.900.336 2.205.184 jún.14 7 524 68 858.600 144.704 1.003.304 1.945.892 2.258.048 júl.14 8 528 24 855.328 48.600 903.928 1.796.208 2.084.352 ágúst.14 9 511 57 827.820 121.296 949.116 1.848.272 2.144.768 sept.14 10 504 56 816.480 119.168 935.648 1.822.240 2.114.560 okt.14 11 490 54 793.800 114.912 908.712 1.770.176 2.054.144 nóv.14 12 511 57 827.820 121.296 949.116 1.848.272 2.144.768 des.14 13 500 50 810.000 106.400 916.400 1.789.700 2.076.800 jan.15 1 500 52 925.000 126.308 1.051.308 2.474.340 2.296.872 feb.15 2 518 58 958.300 140.882 1.099.182 2.581.920 2.995.920 mar.15 3 461 51 852.850 123.879 976.729 2.295.040 2.663.040 apr.15 4 474 60 876.900 145.740 1.022.640 2.393.655 2.777.468 maí.15 5 511 57 945.350 138.453 1.083.803 2.546.060 2.954.310 jún.15 6 524 60 980.512 145.740 1.126.252 2.644.675 3.068.738 júl.15 7 505 53 945.362 128.737 1.074.099 2.528.130 2.933.505 ágúst.15 8 425 47 1.622.891 236.170 1.859.061 2.115.740 2.454.990 sept.15 9 605 277 2.036.453 805.766 2.842.219 3.953.565 4.587.503 okt.15 10 490 54 1.133.370 163.944 1.297.314 2.438.480 2.829.480 nóv.15 11 518 58 1.198.134 176.088 1.374.222 2.581.920 2.995.920 des.15 12 490 54 1.133.370 163.944 1.297.314 2.438.480 2.829.480   Stefnandi gerir í málinu kröfu um að fá greitt mismun þeirra greiðslna sem hann naut á tímabilinu og þeirra sem hann hefði fengið miðað við 40-49% vaktaálag en til vara 30-39% vaktaálag. Stefnandi sundurliðar kröfur sínar svo: Mánuður Mism. M.v. 30-39% vaktaálag Mism. M.v. 40-49% vaktaálag júl.12 805.674 1.081.882 ágúst.12 808.620 1.085.804 sept.12 808.620 1.085.804 okt.12 786.036 1.055.412 nóv.12 797.328 1.070.608 des.12 786.036 1.055.412 Samtals 2012 4.792.314 6.434.922 jan.13 891.102 1.196.590 feb.13 797.328 1.070.608 mar.13 752.844 1.010.892 apr.13 899.864 1.208.312 maí.13 834.972 1.121.244 jún.13 855.758 1.149.086 júl.13 831.930 1.117.194 ágúst.13 834.972 1.121.244 sept.13 846.632 1.136.936 okt.13 799.992 1.074.168 nóv.13 823.312 1.105.552 des.13 823.312 1.105.552 Samtals 2013 9.992.018 13.417.378 jan.14 740.676 994.692 feb.14 834.972 1.121.244 mar.14 810.700 1.077.964 apr.14 899.156 1.195.652 maí.14 904.368 1.209.216 jún.14 942.588 1.254.744 júl.14 892.280 1.180.424 ágúst.14 899.156 1.195.652 sept.14 886.592 1.178.912 okt.14 861.464 1.145.432 nóv.14 899.156 1.195.652 des.14 873.300 1.160.400 Samtals 2014 10.444.408 13.909.984 jan.15 1.423.032 1.245.564 feb.15 1.482.738 1.896.738 mar.15 1.318.311 1.686.311 apr.15 1.371.015 1.754.828 maí.15 1.462.257 1.870.507 jún.15 1.518.423 1.942.486 júl.15 1.454.031 1.859.406 ágúst.15 256.679 595.929 sept.15 1.111.346 1.745.284 okt.15 1.141.166 1.532.166 nóv.15 1.207.698 1.621.698 des.15 1.141.166 1.532.166 Samtals 2015 14.887.862 19.283.082 Alls samtals 40.186.532 53.045.366   Um lagarök vísar stefnandi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglna stjórnsýsluréttar, sérstaklega jafnræðis- og réttmætisreglu. Þá vísar stefnandi til kjarasamninga fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands frá 7. janúar 2015, með gildistíma til 30. apríl 2017 og kjarasamnings sömu aðila frá 5. mars 2006 með framlengingum með gildistíma til 31. janúar 2014. Jafnframt byggir stefnandi á úrskurðum kjaranefndar frá 29. apríl 2002 og 15. október 2002, lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum nr. 120/1992 um kjaradóm og kjaranefnd, sbr. ákvæði laga nr. 47/2006 um kjararáð. Krafa um málskostnað byggir á 130. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 65. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. III Málsástæður stefnda Stefndi mótmælir öllum málsástæðum og lagarökum stefnanda. Stefndi hafnar því að stefnanda hafi verið mismunað með ólögmætum hætti. Beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir fullyrðingu sinni og fyrir því hvers vegna hann ætti að fá greidda hærri álagsprósentu en hann fékk skv. kjarasamningi. Krafa stefnanda byggi á samanburði á vaktlaunum ólíkra læknishéraða, bæði varðandi stærð og íbúafjölda, sem ekki eigi sér stoð í kjarasamningi Læknafélags Íslands við íslenska ríkið. Stefndi vísar til greina 4.4.1 til 4.4.6 í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og St. Franciskusspítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar, dagsettum 5. mars 2006, um vinnutilhögun lækna með sérfræðileyfi utan dagvinnu á sjúkrahúsum og heilsugæslu. Í grein 4.4.4 komi fram að greitt skuli fyrir gæsluvaktir samkvæmt fyrirfram metnu vinnuálagi og því sé ekki greitt sérstaklega fyrir mælt vinnuframlag á hverri vakt fyrir sig. Þá fjalli grein 4.4.4.1 í kjarasamningnum um mat á vinnuálagi á gæsluvakt og grein 4.4.4.2 um framkvæmd endurmats á hlutfalli gæsluvaktarálags. Verkefni stefnanda sem heilsugæslulæknis og mat á álagi á gæsluvöktum hafi fallið undir framangreind ákvæði. Um greiðslur fyrir gæsluvaktirnar gildi grein 3.6.1.3 í kjarasamningnum. Stefndi telur að stefnandi hafi ekki fært fram nein málefnaleg rök fyrir því hvers vegna hann hefði átt að fá hærra álag en hann fékk samkvæmt kjarasamningi. Ekki nægi að vísa til þess að læknar á Egilstöðum og Seyðisfirði hafi fengið greidda hærri álagsprósentu og þar með eigi hann rétt á hærri álagsprósentu með vísan til jafnræðis. Skv. nefndri grein 4.4.4.2 hefði stefnanda borið að óska eftir því við HSA að endurskoðun færi fram á gæsluvaktarálagi, en það hafi hann aldrei gert. Þá hafi stefndi heldur ekki borið málefnið undir Félagsdóm skv. 26. gr. laga nr. 94/1986.    Stefndi hafnar því að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið kjörum stefnanda. Þá hafnar stefndi því að stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Austurlands hafi metið það svo að stefnandi skyldi njóta lakari kjara en aðrir heilsugæslulæknar hjá stofnuninni þar sem heildarlaun stefnanda yrðu að öðrum kosti of há. Slíkt hafi aldrei verið gefið í skyn af hálfu forstjóra eða annarra stjórnenda stofnunarinnar.    Stefndi byggir á því að greiðslur til stefnanda fyrir gæsluvaktirnar hafi verið í samræmi við þágildandi kjarasamning frá 5. mars 2006. Samkvæmt bókun 1 með kjarasamningnum skyldu greiðslur til heilsugæslulækna fyrir gjaldskrárverk samkvæmt úrskurði kjaranefndar dags. 15. október 2002, og samkomulagi fjármálaráðherra og Læknafélags Íslands f.h. heilsugæslulækna dags. 17. desember 2003, verða óbreytt á gildistíma kjarasamningsins. Ef heilsugæslulæknar fengju greitt samkvæmt gjaldskrá fyrir læknisverk á vöktum skyldi gæsluvaktarkaup greiðast í föstu álagsþrepi 0-9% samkvæmt grein 3.6.1.3 kjarasamningnum. Stefndi bendir enn fremur á að í 8. mgr. í bókun 5 við núgildandi kjarasamnings Læknafélags Íslands, þar sem fjallað sé um greiðslur til heilsugæslulækna er sinni gjaldskrárverkum utan dagvinnu, segi: „Læknar sem starfa við heilsugæslu og sinna gjaldskrárverkum utan dagvinnu (t.d. milli kl. 16 og 19 virka daga) fá í dag greitt fast álag sem er 0-9%. Þann 1. janúar 2016 tekur gildi breyting á álagsgreiðslum skv. grein 3.6.1.3 Þá verður ekki lengur miðað við þyngd vakta eins og áður var og álag verður tiltekið hlutfall af dagvinnukaupi sbr. gr. 3.4.1. Fái læknir sem starfa við heilsugæslu greitt samkvæmt gjaldskrá fyrir læknisverk á vöktum greiðist auk gjaldskrárverka einungis gæsluvaktarálag skv. gr. 3.6.1.3 og ekki er greitt fyrir bindingu að öðru leyti.“ Stefndi bendir á, að stefnanda hafi meðal annars leitað vegna þessa máls til stéttarfélags síns sem hafi ekki viljað liðsinna honum, enda hafi það talið að stefnandi fengi greitt í samræmi við kjarasamning, lög og reglur. Sama afstaða komi fram í kæru stefnanda til kærunefndar jafnréttismála og þá hafi velferðarráðuneytið heldur ekki talið að stefnandi ætti neinn rétt þar sem hann hefði fengið greitt samkvæmt kjarasamningi. Það rétta væri að stefnandi hefði fengið greitt umfram kjarasamning og meðal annars fengið greidd laun sem yfirlæknir þótt hann væri ekki með sérfræðimenntun auk þess að fá gæsluvaktarálag greitt alla daga ársins. Stefndi vísar til þess að samkvæmt 9. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins séu laun almennra ríkisstarfsmanna ákveðin með þrennum hætti. Í fyrsta lagi á grundvelli kjarasamninga, í öðru lagi á grundvelli stofnanasamninga og í þriðja lagi sé unnt að greiða starfsmönnum, öðrum en embættismönnum, laun til viðbótar grunnlaunum samkvæmt kjarasamningi vegna sérstakrar hæfni er nýtist í starfi eða sérstaks álags í starfi, svo og fyrir árangur í starfi. Grunnlaun teljist því þau laun sem ákveðin séu samkvæmt kjarasamningi og stofnanasamningi. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna fari stéttarfélög starfsmanna ríkis og sveitarfélaga eða samtök slíkra félaga með fyrirsvar félagsmanna sinna um gerð kjarasamninga samkvæmt lögunum og aðrar ákvarðanir í sambandi við þá. Kjarasamningar séu samningar gerðir á milli stéttarfélaga og atvinnurekenda eða samtaka þeirra um laun, vinnutíma, yfirvinnu, orlof, veikindarétt o.s.frv. Af þessu leiði að ákvörðun um launasetningu starfsmanna ríkisins byggist á kjarasamningi og vinnurétti en sé ekki einhliða ákvörðun stjórnvalds og því ekki stjórnvaldsákvörðun. Stefnandi hafi á árinu 2009 samið um  kaup sín og kjör og því eigi við ákvæði samninga- og vinnuréttar. Í athugasemdum með 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sé tíundað hvað teljist til stjórnvaldsákvarðana en þar undir eigi ekki ákvörðun eða samningar um laun einkaréttarlegs eðlis. Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda sem settar hafi verið fram á grundvelli 11. gr. laga nr. 37/1993, um jafnræði, og málsástæðum um réttmætisregluna. Álag og aðstæður innan umdæma HSA séu ólíkar og beri að meta með ólíkum hætti. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að álag og aðstæður í þeim umdæmum sem hann beri sig saman við, séu sambærilegar. Við mat á álagsgreiðslum fyrir vaktir hafi verið gengið út frá þyngd vakta, eins og skýrt komi fram í bókun 5, með nýjum kjarasamningi lækna frá 7. janúar 2015. Stefndi byggir á því að það að einstaka starfsmönnum kunni að hafa verið greidd hærri laun, veiti stefnanda ekki sjálfstæðan rétt til sömu kjara. Ráðningarsamningur við stefnanda hafi verið endurnýjaður árið 2009 og tekið mið af gildandi kjarasamningum. Með undirritun sinni hafi stefnandi samþykkt þau kjör sem þar greini. Stefndi tekur fram að greiðslur til lækna í hærri álagsþrepum hafi nú verið lækkaðar og með því hafi launaákvarðanir, sem teknar hafi verið á röngum forsendum, verið leiðréttar. Ríkið eigi þó ekki endurkröfurétt á viðkomandi starfsmenn þar sem ákvörðun um launasetningu þeirra varði rangar ákvarðanir forstöðumanna Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Það veiti stefnanda þó ekki sjálfstæðan rétt til sambærilegra greiðslna. Þá fari forstöðumenn ríkisins með almennar stjórnunarheimildir og vald til að taka ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna við hlutaðeigandi stofnun og ákvörðunum þeirra í starfsmannamálum verði almennt hvorki skotið til hlutaðeigandi fagráðuneytis né fjármálaráðuneytis. Stefndi vísar í því sambandi til 49. gr. laga nr. 70/1996. Stefndi byggir á því að málefnaleg sjónarmið hafi legið að baki launasetningu stefnanda og á stefnanda hvíli að sýna fram á að kjör hans hafi ekki tekið mið af ákvæðum gildandi kjarasamninga. Það hafi honum ekki tekist. Verði allt að einu fallist á með stefnanda að hann eigi kröfu á hendur stefnda, byggir stefndi á því að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir tómlæti. Stefnandi, sem starfað hafi hjá stefnda frá árinu 1988, hafi skrifað undir nýjan ráðningarsamning 2009 án athugasemda, tekið við launum frá þeim tíma án fyrirvara og engan reka gert að kröfugerð sinni, fyrr en með höfðun málsins. Varakröfu um lækkun dómkrafna stefnanda reisir stefndi á sömu sjónarmiðum og kröfu um sýknu. Stefndi byggir auk þess á því að aðalkrafa stefnanda, sem miði við að honum hafi borið 40-49% álag, byggi ekki á málefnalegum rökum. Loks byggir stefndi á því að frá kröfum stefnanda beri að draga greiðslur sem stefnandi, einn lækna, hafi fengið fyrir gjaldskrárverk frá hausti 2015. Þá mótmælir stefndi vaxtakröfu stefnanda, þar sem dómvenja sé fyrir því að dæma dráttarvexti frá dómsuppsögudegi þegar dómkröfur hafi fyrst komið fram í stefnu. Ekki sé um skaðabótakröfu að ræða og því hefði borið að vísa til 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.   IV Niðurstöður Á því tímabili sem mál þetta tekur til fékk stefnandi, sem starfaði sem heilsugæslulæknir við Heilsugæsluna á Vopnafirði, greitt fyrir gæsluvaktir í álagsflokki 0-9% auk þess að fá greitt fyrir unnin gjaldskrárverk á vakt. Stefnandi reisir kröfugerð sína á því að samið hafi verið við lækna í tilteknum umdæmum Heilbrigðisstofnunar Austurlands um vaktlaun í álagsflokkum 40-49% og 30-39%, ofan á greiðslur fyrir gjaldskrárverk. Telur stefnandi engin málefnaleg rök fyrir því að vaktir heilsugæslulækna innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands hafi verið í ólíkum álagsflokkum og hafi það fyrirkomulag brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, samnefndri meginreglu stjórnsýsluréttar og réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Vegna þess eigi hann kröfu á hendur stefnda sem nemi mismun greiðslna eftir álagsflokkum. Svo sem fram er komið var í kjarasamningi Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og St. Franciskusspítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar, dags. 5. mars 2006, mælt fyrir um greiðslur fyrir „Gæsluvakt 1- læknir með sérfræðileyfi“ í lið 3.6.1.3, sem samkvæmt lið 4.4.4 í samningnum skyldu miðaðar við fyrirfram metið vinnuálag á vakt. Í lið 4.4.4.1 í kjarasamningnum kom fram að við mat á hlutfalli gæsluvaktarálags skyldi taka mið af skráðri vinnu á gæsluvöktum, þar sem horft væri til útkalla og nætursímtala með nánar tilgreindum hætti. Samkvæmt lið 4.4.4.2 skyldi endurmat á hlutfalli gæsluvaktarálags framkvæmt reglulega samkvæmt ákvörðun vinnuveitanda eða þegar a.m.k. helmingur lækna á viðkomandi vakt óskaði þess skriflega. Í 3. mgr. í bókun 1 með kjarasamningnum var kveðið á um að heilsugæslulæknar skyldu halda óbreyttum rétti til greiðslna fyrir gjaldskrárverk, samkvæmt úrskurði kjaranefndar frá 15. október 2002 og samkomulagi fjármálaráðherra og Læknafélags Íslands f.h. heilsugæslulækna frá 17. desember 2003, á gildistíma kjarasamningsins. Þeir heilsugæslulæknar sem fengju greitt samkvæmt gjaldskrá fyrir læknisverk á vöktum skyldu fá gæsluvaktarkaup greitt í föstu álagsþrepi 0-9% samkvæmt lið 3.6.1.3 í kjarasamningnum. Af 9. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 24. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, leiðir að laun og önnur starfskjör sem samið er um í kjarasamningi skulu vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfi. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 70/1996 er forstöðumönnum stofnana heimilt að greiða einstökum starfsmönnum, laun til viðbótar grunnlaunum samkvæmt kjarasamningi vegna sérstakrar hæfni er nýtist í starfi eða sérstaks álags í starfi, svo og fyrir árangur í starfi. Ákvörðun forstöðumanns um laun til viðbótar grunnlaunum er unnt að segja upp hvenær sem er, að virtum uppsagnarfresti starfsmanns. Samkvæmt 42. gr. sömu laga skulu ráðningarkjör starfsmanns koma fram í skriflegum ráðningarsamningi. Launasetning stefnanda byggir samkvæmt framangreindu á vinnuréttar­sambandi málsaðila og er því einkaréttarlegs eðlis en felur ekki í sér einhliða ákvörðun stjórnvalds um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiðir að hafna verður þeirri málsástæðu stefnanda að brotið hafi verið gegn 11. gr. laga nr. 37/1993 við launasetningu stefnanda.  Í málinu er óumdeilt að greiðslur til stefnanda fyrir gæsluvaktir voru í samræmi við gildandi kjarasamning og umsamin launakjör samkvæmt ráðningarsamningi hans við Heilbrigðisstofnun Austurlands frá 11. júní 2009. Sú staðreynd að samið var við tiltekna heilsugæslulækna Heilbrigðisstofnunar Austurlands um hærra álagsþrep en 0-9% auk greiðslna fyrir gjaldskrárverk, þrátt fyrir ákvæði í bókun 1 í þágildandi kjarasamningi, og þar með laun umfram lágmarksrétt leiðir ekki eitt og sér, að virtum stjórnunarheimildum vinnuveitanda, til þess að stefnandi eigi rétt til sömu launa fyrir störf sín. Þvert á móti þykir fram komið í málinu, að virtum málsgögnum og skýrslum vitna við aðalmeðferð málsins og í máli stefnanda sjálfs, að aðstæður í læknisumdæmum stofnunarinnar séu um margt ólíkar og að til þess hafi verið horft við launasetningu einstakra lækna. Hefur stefnandi að mati dómsins ekki fært fyrir því haldbær rök né gögn að ómálefnalega hafi verið staðið að launaröðun eða að matið hafi verið óforsvaranlegt. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur dómurinn að stefnandi hafi ekki fært sönnur á að honum hafi borið laun fyrir gæsluvaktir í öðrum álagsflokki en honum voru greidd og þar með kröfur sínar á hendur stefnda. Með vísan til framangreinds ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda og reynir þá ekki sérstaklega á það hvort stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum vegna tómlætis. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur. Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð: Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Baldurs Helga Friðrikssonar. Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 617/2017
Ærumeiðingar Tjáningarfrelsi
Með héraðsdómi var fallist á kröfu BO, fyrrum formanns Blindrafélagsins, um að ómerkt yrðu ummæli í ályktun sem samþykkt var með atkvæðum BSB o.fl. á stjórnarfundi félagsins um að hann hefði vélað ungan félagsmann þess til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki væri unnt að draga þá ályktun að í ummælunum hefði falist aðdróttun um refsiverða háttsemi BO, en það breytti því þó ekki að í þeim hefðu verið fólgnar alvarlegar ásakanir sem gætu talist ærumeiðandi samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við úrlausn um það yrði í fyrsta lagi að líta til stöðu Blindrafélagsins og starfsemi þess sem væri að stórum hluta háð fjárframlögum frá öðrum. Eflaust ekki síst af þeirri ástæðu væri lögð áhersla á það í lögum félagsins að hver og einn stjórnarmaður þess virti siðareglur félagsins, hagsmuni þess og einstakra félagsmanna, en yrði misbrestur á því væri félagsstjórn heimilt að samþykkja tillögu um vantraust á hann. Við þær aðstæður, sér í lagi ef talið yrði að stjórnarmaðurinn hefði gengið gegn hagsmunum félagsmanns sem stæði höllum fæti vegna fötlunar sinnar, yrði að játa öðrum stjórnarmönnum rýmkuðu tjáningarfrelsi. Í annan stað hefði það verulega þýðingu hvort ummælin í garð BO ættu sér stoð í málsatvikum. Að sögn BO hefði A, sem var ungur að árum og hafði nýlega misst sjónina að mestu leyti, leitað til sín og hann í kjölfarið lagt til að A stofnaði fasteignafélag með sér og föður sínum. Gert var ráð fyrir að stofnfé félagsins yrði 7.000.000 krónur og legði A fram 20% þess og BO og faðir hans samtals 80%. Við stofnun félagsins var hins vegar ákveðið að stofnféð yrði 500.000 krónur, en engu að síður greiddi A skömmu síðar 1.400.000 krónur inn á persónulegan reikning BO. Í dómi Hæstaréttar sagði að ekkert í málsgögnum benti til að BO og faðir hans hefðu lagt neitt fé eða annars konar verðmæti til félagsins við stofnun þess eða strax í kjölfar hennar. Þá væri engar upplýsingar að finna um það hvort fé sem A hafði ítrekað lagt á reikning BO hefði verið ráðstafað af reikningnum og þá í hvaða tilgangi. Ályktun stjórnarfundarins hefði verið reist á frásögn A af málsatvikum og gögnum sem hann hafði ýmist látið BSB o.fl. í té eða þau aflað með öðrum hætti. Áður en tillaga að ályktunninni hefði verið tekin til afgreiðslu á fundinum hefði BO verið gefinn kostur á að skýra málið frá sinni hlið, auk þess sem hann svaraði fyrirspurnum um einstök atriði þess. Þrátt fyrir að BSB o.fl. hefðu tekið óþarflega sterkt til orða með hinum umdeildu ummælum var ekki talið að þau hefðu með þeim farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 10. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Voru BSB o.fl. því sýknuð af kröfum BO.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Eiríkur Tómasson fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 28. september 2017. Þau krefjast sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi áfrýjenda. I 1 Í lögum Blindrafélagsins, sem svo eru nefnd, kemur fram að félagsmaður þess geti orðið hver sá sem hefur sjón, sem nemur 6/18 eða minna, eða sjóngalla eða augnsjúkdóm sem jafna má við slíka sjónskerðingu að mati augnlæknis. Á aðalfundi félagsins, sem haldinn er árlega, skal kosinn formaður þess til tveggja ára, svo og tveir aðalmenn í stjórn og tveir varamenn til jafn langs tíma. Stjórn félagsins, sem þannig er skipuð fimm mönnum að meðtöldum formanni, ræður framkvæmdastjóra þess og hefur eftirlit með störfum hans. Í félagslögum er kveðið á um að gerist stjórnarmaður brotlegur við refsilög eða siðareglur félagsins, vinni gegn hagsmunum þess eða félagsmanna eða sýni af sér aðra verulega ámælisverða háttsemi og allar sáttatilraunir reynist árangurslausar sé stjórninni heimilt að samþykkja tillögu um vantraust á stjórnarmanninn. Sé slík tillaga samþykkt er skylt að boða til félagsfundar innan tveggja vikna þar sem tekin skal afstaða til tillögunnar. Sú venja mun hafa tíðkast að varamenn í stjórn og framkvæmdastjóri sitji alla fundi félagsstjórnar. Samkvæmt starfslýsingu, sem gerð mun hafa verið sumarið 2014, eru meðal verkefna formanns félagsins, sem nýtur launa til helmings á við framkvæmdastjóra, að vera talsmaður þess á opinberum vettvangi, bera ábyrgð á undirbúningi og boðun stjórnarfunda og sjá um félagslegt starf. Hlutverk framkvæmdastjóra er á hinn bóginn að hafa með höndum daglega stjórn á starfsemi félagsins sem mun hafa verið tiltölulega viðamikil. Kristinn Halldór Einarsson, sem verið hafði formaður Blindrafélagsins, var í árslok 2013 ráðinn framkvæmdastjóri þess frá 1. júlí 2014 og gaf ekki kost á sér til endurkjörs á aðalfundi félagsins sem haldinn var 17. maí það ár. Í stað hans var stefndi kjörinn formaður á aðalfundinum með eins atkvæðis mun, en mótframbjóðandi hans var áfrýjandinn Rósa María Hjörvar. Að afstöðnum aðalfundi félagsins árið 2015 skipuðu aðalstjórn þess, auk stefnda, áfrýjendurnir Halldór Sævar Guðbergsson, sem gegndi stöðu varaformanns, Baldur Snær Sigurðsson, Lilja Sveinsdóttir og áðurnefnd Rósa María. Áfrýjendurnir Guðmundur Rafn Bjarnason og Rósa Ragnarsdóttir voru varamenn í stjórn og sömleiðis A. Meðal málsgagna er skýrsla svonefndrar sannleiksnefndar, en nefndin var skipuð á grundvelli samþykktar sem gerð var á félagsfundi Blindrafélagsins 30. september 2015 eins og síðar verður vikið að. Í skýrslunni, sem dagsett er 8. febrúar 2016, er tekið fram að spenna hafi ríkt innan stjórnar félagsins í formannstíð stefnda og hafi margt valdið henni, þar á meðal stjórnarhættir hans sem hafi meðal annars verið fólgnir í því að knýja ítrekað fram atkvæðagreiðslu á stjórnarfundum um tillögur sínar sem hafi síðan verið felldar með atkvæðum annarra stjórnarmanna. Þá hafi fljótlega eftir að Kristinn tók við starfi framkvæmdastjóra farið að bera á erfiðleikum í samskiptum þeirra tveggja sem hafi magnast sumarið 2015. 2 Af vottorði úr fyrirtækjaskrá 29. maí 2015, sem lagt hefur verið fram í málinu, verður ráðið að Fasteignafélagið Hnjúkur ehf. hafi verið stofnað 12. þess mánaðar. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Oddur Magni Guðmundsson, faðir stefnda, stefndi og A sem áður er nefndur. Stefndi var framkvæmdastjóri félagsins og prókúruhafi þess. Hlutafé var 500.000 krónur. Spurður hver hafi verið aðdragandi að stofnun félagsins svaraði stefndi því svo í aðilaskýrslu sinni fyrir héraðsdómi að þeir feðgar, hann og Oddur, hafi verið „búnir að vera í að kaupa og selja fasteignir“. Móðir A, sem hafi verið góð vinkona sín, hafi „heillast af því hvað við feðgar höfum verið að gera“ og sagt sér að A „langi að gera eitthvað og hann eigi einhverja fjármuni ... og hún sem sagt kynnir mig og A saman þarna snemma ársins 2015 og þá fer nú bara ... boltinn að rúlla.“ Stefndi kvaðst oft hafa hitt A og móður hans og rætt við þau í síma áður en félagið var stofnað. Í vitnaskýrslu A fyrir dómi kvaðst hann hafa greinst með augnsjúkdóm í byrjun árs 2014 og síðan misst sjónina að mestu leyti í júní það ár. Við það hafi hann, sem þá var nýorðinn tvítugur, orðið fyrir miklu áfalli. Aðspurður sagðist A líklega hafa kynnst stefnda í mars 2015 þegar hann bjó hjá móður sinni. Stefndi hafi hringt oft til hennar og viljað fá að heyra í sér. Þeir hafi þá margsinnis spjallað saman í síma. Nokkru síðar hafi stefndi komið fram með þá hugmynd að hann langaði til að stofna fasteignafélag og hafi sér þótt sú hugmynd hljóma „ágætlega“. A kvaðst þó ekki hafa verið tilbúinn að gefa stefnda svar um þátttöku í hinu fyrirhugaða félagi, en hann hafi þrýst á sig að koma að stofnun þess. Að lokum hafi hann látið til leiðast og fallist á að leggja fram 1.400.000 krónur sem hlutafé í félaginu gegn því að eignast 20% hlut í því. Af málsgögnum verður ráðið að A hafi fyrir þennan tíma fest kaup á íbúð. Meðal gagna málsins er tölvubréf frá stefnda 30. apríl 2015 þar sem fjallað var um hið fyrirhugaða félag. Þar kom meðal annars fram að hlutafé þess yrði 7.000.000 krónur sem skiptist þannig að A legði fram 20% þess, stefndi 30% og Oddur 50%. Í tölvubréfinu sagði ennfremur: „A setur 1,4m kr. og við feðgar setjum Móhellu 4d ... markaðsverð 4,0m kr. og Túngata 15 Súðavík markaðsvirði 4,8m kr. Við feðgar þurfum svo að setja tæplega 100.000 kr. í félagið til þess að okkar hlutur sé 5,6m kr. mínus áhvílandi lán og markaðsverð fasteignanna ... Við erum núna að reyna að kaupa íbúð í eyjum og ætlum að setja Móhelluna uppí. Er þetta nokkuð flókið að stofna ehf á sama tíma og önnur eignin er í söluferli. Ég fæ fasteignasala til að sanna markaðsvirði eignanna.“ Þá hafa verið lögð fram drög að stofnskrá fyrir umrætt einkahlutafélag sem óumdeilt er að lágu fyrir og voru kynnt A áður en félagið var stofnað. Þar var hlutaféð sagt vera 7.000.000 krónur og gert ráð fyrir að væntanlegir stofnendur skrifuðu sig fyrir því þannig að í hlut Odds kæmu 3.500.000 krónur, í hlut stefnda 2.100.000 krónur og í hlut A 1.400.000 krónur. Ennfremur var tekið fram í drögunum að allt hlutaféð væri þegar greitt. Stefndi skýrði svo frá fyrir dómi að hann og eiginkona sín hafi á þessum tíma átt fasteign í Súðavík og faðir sinn fasteign í Hafnarfirði. Ætlunin hafi verið að þeir feðgar legðu andvirði þessara tveggja eigna, að frádregnum veðskuldum, um 5.600.000 krónur fram sem hlutafé af sinni hálfu við stofnun einkahlutafélagsins. Það hefði hins vegar verið að ráði endurskoðanda, sem fenginn hafi verið til ráðgjafar við stofnun félagsins og setið stofnfund þess ásamt þeim feðgum, A og föðurbróður stefnda, að hlutaféð yrði 500.000 krónur í stað 7.000.000 króna eins og upphaflega hefði verið ráðgert. Ástæðan hefði verið sú að því hefði fylgt mikill kostnaður fyrir félagið ef andvirði fasteignanna tveggja yrði greitt sem hlutafé inn í það, meðal annars vegna þess að meta þyrfti verðmæti þeirra af tveimur skoðunarmönnum. Í vitnaskýrslu endurskoðandans fyrir dómi kvaðst hann ekki muna sérstaklega eftir þessu, en tók fram að væri stofnfjárframlag í einkahlutafélagi í formi fasteigna þyrfti að liggja fyrir sérfræðiskýrsla um verðmæti þeirra. Þegar stefndi var spurður að því fyrir dómi hvort þeir feðgar hefðu þá ekkert stofnfé lagt fram af sinni hálfu við stofnun félagsins svaraði hann: „Tæknilega séð ekki.“ Hins vegar hefði það verið „algjörlega á kristaltæru að þegar þessar eignir yrðu seldar að þá myndi söluhagnaður þeirra renna inn í félagið“ samkvæmt fyrirliggandi verðmati hvorrar eignar fyrir sig. Meðal málsgagna eru þrjú skjöl, dagsett 3. júlí 2015, þar sem stefndi og A, fyrir hönd Fasteignafélagsins Hnjúks ehf., veittu umboð til þess að félagið festi kaup á þremur fasteignum, Móhellu 4A í Hafnarfirði, Túngötu 15 í Súðavík og Áshamri 67, 2. hæð, í Vestmannaeyjum. Einnig liggur fyrir samningur um kaup félagsins á síðastgreindu eigninni 25. júlí 2015 fyrir 12.800.000 krónur. Af kaupverðinu skyldu 3.840.000 krónur greiðast í reiðufé, þar af 2.000.000 krónur við undirritun samningsins, 840.000 krónur 15. ágúst 2015 og 500.000 krónur annars vegar 1. október og hins vegar 15. nóvember sama ár. Með afsali 28. desember 2016 lét Oddur af hendi fasteign sína að Móhellu 4A til félagsins og var fasteignamat hennar sagt þar vera 3.130.000 krónur. Í afsalinu var tekið fram að gerður hefði verið samningur um kaupin 28. desember 2015, en eintak af honum hefur ekki verið lagt fram í málinu. Hins vegar seldi félagið umrædda fasteign samkvæmt kaupsamningi 31. október 2016 fyrir 4.600.000 krónur sem greiða skyldi að fullu við undirritun hans. Ekki hafa verið lögð fram í málinu skjöl um að fasteign stefnda og eiginkonu hans að Túngötu 15 í Súðavík hafi verið afsalað til félagsins, en hins vegar er meðal málsgagna afsal þeirra 9. október 2015 á eigninni til annarra kaupenda. Samkvæmt upplýsingum um fasteignamat eignarinnar, sem er sumarhús, nam það 2.520.000 krónum á þeim tíma. Hinn 7. júní 2015 greiddi A samkvæmt málsgögnum 1.400.000 krónur inn á bankareikning stefnda, síðan 112.000 krónur 12. júlí 2015 og loks 114.000 krónur 14. ágúst sama ár. Fyrsta greiðslan var innt af hendi í samræmi við áður gert samkomulag um stofnfjárframlag A og kvað stefndi fyrir dómi að það hefði verið „skilgreint sem eigendalán“ þótt ekki hafi verið gerður um það samningur eða það skjalfest með öðrum hætti. Síðari greiðslurnar hefðu falið í sér hlutafjáraukningu af hálfu A, en í tölvubréfi stefnda til hans 12. ágúst 2015, sem fjallaði meðal annars um það atriði, var hann beðinn um að leggja 114.000 krónur inn á áðurgreindan reikning stefnda. Þegar stefndi var spurður að því fyrir dómi hvers vegna A hafi lagt stofnféð inn á persónulegan reikning hans í stað félagsins svaraði hann að ekki hafi gefist tími til að stofna bankareikning fyrir félagið fyrr en í júlí 2015. Spurður hvers vegna síðari greiðslurnar hafi verið lagðar inn á sama persónulega reikning hans gat stefndi ekki gefið viðhlítandi skýringu á því. Þá sagði hann að gengið hefði verið út frá því að þeir feðgar myndu auka hlutafé sitt á sama hátt og A þótt sú hlutafjáraukning hefði ekki að öllu leyti verið fólgin í greiðslu fjár inn á bankareikning félagsins. Á yfirliti yfir hreyfingar á þeim reikningi á tímabilinu frá 11. ágúst 2015 til 3. september sama ár sést að Oddur greiddi inn á hann samtals 650.000 krónur 11. og 17. ágúst og stefndi 210.000 krónur síðarnefnda daginn. Við meðferð málsins í héraði lagði stefndi fram skjal með yfirskriftinni „Uppfærð dagbók“ fyrir Fasteignafélagið Hnjúk ehf. Þar er fasteign í Súðavík færð til hreinnar eignar hjá félaginu 15. maí 2015 að fjárhæð 3.103.096 krónur og fasteign í Hafnarfirði sama dag að fjárhæð 2.408.004 krónur. Hinn 5. september sama ár eru færðar til tekna hjá félaginu leigutekjur „v/Súðavík júní-sept“, samtals 71.020 krónur. Föðurbróðir stefnda, sem sá um að færa bókhald fyrir félagið, kom sem vitni fyrir dóm og kvaðst hafa fært fyrrgreindar fasteignir í bækur þess „á því verði sem var talað um og skuldir á móti“. Litið hafi verið á fasteignirnar sem eign félagsins í bókhaldi þess og af þeim sökum hafi leigutekjur af þeim verið bókfærðar hjá því. Þá hafi stofnframlag A verið fært til bókar á viðskiptareikningi hans hjá félaginu. Spurt hvenær fasteignirnar hafi verið færðar til eignar í bókhaldinu svaraði vitnið að það hefði verið gert eftir á, einhvern tíma í júlí eða ágúst 2015. 3 Fyrir héraðsdómi bar A að hann hafi haft samband við framkvæmdastjóra Blindrafélagsins í september 2015 eftir að hafa árangurlaust reynt að fá stefnda til að ræða hvernig hann gæti komið sér „út úr fyrirtækinu“ og skýrt út fyrir framkvæmdastjóranum sína hlið málsins. Ástæðuna kvað A hafa verið þá að hann hafi lagt meira fé inn í Fasteignafélagið Hnjúk ehf. en gengið hefði verið út frá í upphafi, jafnframt því sem gert hefði verið ráð fyrir að hann legði félaginu til enn meira fé. Stefndi hefði ekki fengist til að ræða það við sig hvernig hann gæti losnað út úr félaginu, heldur svarað því einu að „þú verður bara að selja hlut þinn.“ Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir því hvað átti sér stað í framhaldi af framangreindu. Boðað hafði verið til stjórnarfundar í félaginu 22. september 2015, en áður en hann var haldinn munu áfrýjendur hafa hist án vitundar stefnda, rætt mál A, meðal annars við hann sjálfan og lögmann félagsins, og lagt á ráðin um tillögu að ályktun sem lögð yrði fram á stjórnarfundinum. Samkvæmt fundargerð lagði áfrýjandinn Halldór fram þá tillögu í upphafi fundarins að teknar yrðu „til umræðu upplýsingar sem hann hefði undir höndum sem, ef réttar væru, fælu í sér að mjög alvarlegur trúnaðarbrestur væri kominn upp milli formanns og stjórnar.“ Var þessi dagskrártillaga varaformannsins samþykkt samhljóða. Síðan sagði í fundargerðinni: „HSG rakti það síðan að ungur félagsmaður, sem mjög nýlega hefur misst nánast alla sjón á skömmum tíma, hafi komið að máli við bæði hann og framkvæmdastjóra félagsins um síðast liðna helgi og óskað eftir að félagið aðstoðaði hann í að ná til baka (fjármunum) sem hann sagði að formaður Blindrafélagsins hafi haft út úr sér. Eftir að hafa hlýtt á frásögn félagsmannsins, skoðað tölvupósta milli formanns félagsins og þessa unga félagsmanns, sem hann lét í té og fengið álit lögmanns á málinu, þá væri það sín skoðun að það væri algert ábyrgðarleysi af stjórn félagsins að hafna því að verða við ósk þessa unga félagsmanns og taka málið fyrir á vettvangi stjórnar félagsins og leita eftir skýringum formanns á þeim gögnum sem fyrir lágu.“ Þegar áfrýjandinn hafði lokið máli sínu var bókað að stefndi gerði ekki við það athugasemd að fjallað yrði um málið. Hafi stefndi bætt því við að þeir A „hefðu stofnað saman fasteignafélag í maí með föður sínum og hann skyldi skýra sína hlið á því en annars teldi hann að þetta kæmi stjórn Blindrafélagsins ekkert við.“ Í fundargerðinni kom fram að áfrýjandinn Halldór hafi rakið „frásögn og upplifun A á málavöxtum og samskiptum sínum við Bergvin Oddsson formann Blindrafélagsins“. Að því búnu hafi áfrýjandinn óskað eftir að stefndi útskýrði sína hlið á málinu. Í fundargerðinni sagði síðan: „BO gerði grein fyrir að A hafi komið að máli við hann og leitað ráða varðandi fjárfestingar. Hann hafi sagst eiga smá sparifé sem hann hefði áhuga á að nýta í fjárfestingar. BO kvaðst hafa veitt A fjármálaráðgjöf og t.d. útskýrt fyrir honum muninn á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Hann hafi svo stungið upp á því við A að hann kæmi til samstarfs við sig og föður sinn og saman myndu þeir stofna fasteignafélag. BO ítrekaði að ... það væri ekkert athugavert við þetta og hann sæi ekki hvað þetta kæmi stjórn Blindrafélagsins við. A hafi síðan óskað eftir því að fara út úr félaginu og það væri sjálfsagt að kaupa hann út þegar að fjármunir til þess væru til í félaginu, sem væri ekki núna.“ Eftir að stefndi hafði lokið við að svara ýmsum fyrirspurnum stjórnarmanna var fært til bókar að áfrýjandinn Halldór hafi spurt hvað hann sæi fyrir sér um viðbrögð og stefndi svarað: „BO kvaðst ætla að tala við bankann sinn og útvega féð til að greiða A út úr félaginu og þar með ætti málið að vera úr sögunni.“ Samkvæmt fundargerðinni vék stefndi við svo búið af fundinum til að gefa öðrum stjórnarmönnum kost á að ræða málið að honum fjarstöddum. Því næst sagði þar: „Stjórnarmenn voru mjög gagnrýnir á afstöðu BO og að honum væri fyrirmunað að sjá hinn siðferðislega þátt málsins. Stjórnarmenn voru allir sammála um að BO yrði að segja af sér sem formaður Blindrafélagsins úr því að hann sæi ekkert athugavert við framgöngu sína og væri í algerri afneitun um að hann kynni að hafa gert nokkuð rangt í samskiptum sínum við A. Formaður Blindrafélagsins, sem sæi ekkert athugavert við að nýta aðstöðu sína sem formaður, til að fá félagsmenn til að leggja fé í persónuleg viðskiptaáform, væri félaginu, orðspori þess og þá um leið fjáröflunum og starfsemi, hættulegur.“ Þegar stefndi kom aftur inn á fundinn sagði í fundargerð að áfrýjandinn Halldór hafi gert honum grein fyrir að stjórnin væri þeirrar skoðunar að hann yrði að segja af sér sem formaður og væri þess farið á leit við hann. Stefndi hafi hafnað því og ekki sagst sjá neitt tilefni til þess þar sem hann hefði ekki brotið af sér í starfi. Því næst hafi áfrýjandinn lagt fram tillögu að ályktun sem samþykkt hafi verið af öllum stjórnarmönnum að stefnda undanskildum. Ályktunin er tekin upp í heild í héraðsdómi, en upphaf hennar var svohljóðandi: „Í ljósi alvarlegs trúnaðarbrests sem upp er kominn á milli formanns Blindrafélagsins og stjórnar þess, þá lýsir stjórn félagsins yfir vantrausti á formann. Málsatvik eru þau að formaður félagsins hefur nýtt sér vettvang þess til að véla ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt. Mál sem komið er í hendur á lögmanni. Að mati stjórnar félagsins þá hefur formaður með athæfi sínu misnotað vald sitt og brugðist trausti þessa unga félagsmanns og þar með sýnt af sér siðferðilegt dómgreindarleysi.“ Að loknum stjórnarfundinum var ályktunin birt sem frétt á vefsíðu Blindrafélagsins. Þar var einnig degi síðar birt fréttatilkynning frá stefnda þar sem fram komu andsvör gegn ályktuninni. Urðu þessar fréttir tilefni umfjöllunar í framhaldinu í ýmsum fjölmiðlum um málefni stefnda og félagsins. Hinn 30. september 2015 var haldinn félagsfundur í Blindrafélaginu til að ræða tillögu stjórnar félagsins um vantraust á stefnda sem formann þess. Ekki kom þó til þess að sú tillaga væri tekin til afgreiðslu á fundinum því að í lok hans var samþykkt önnur tillaga, sem borin var fram af öllum stjórnarmönnum, þar á meðal stefnda. Samkvæmt þeirri samþykkt steig hann til hliðar sem formaður, jafnframt því sem aðalfundur félagsins skyldi haldinn eigi síðar en 1. febrúar 2016 og sett yrði á stofn sannleiksnefnd sem skilaði áliti fyrir þann fund. Tveimur dögum fyrir félagsfundinn, 28. september 2015, var undirritaður samningur um kaup stefnda og Odds Magna Guðmundssonar á 20% hlut A í Fasteignafélaginu Hnjúki ehf. Umsamið kaupverð var 1.676.000 krónur og var það greitt A við undirritun samningsins, auk þess sem svo var um samið að honum hefði með því verið endurgreitt lán, sem hann hefði veitt félaginu, og ætti hann engar kröfur á hendur því. 4 Eftir uppkvaðningu héraðsdóms hafa áfrýjendur lagt fram ný gögn hér fyrir dómi. Um er að ræða tölvupóstsamskipti lögmanns þeirra, sem jafnframt er lögmaður A, við lögreglu út af kæru þess síðarnefnda „vegna meintra auðgunarbrota“ stefnda. Þótt vísað hafi verið til kærunnar í greinargerð áfrýjenda í héraði hefur hún ekki verið lögð fram af þeirra hálfu, en af hinum nýju gögnum má ráða að hún hafi borist lögreglu á fyrri hluta árs 2016. Lögregla mun hafa tekið skýrslu af stefnda á liðnu hausti, en af gögnunum verður ekki séð að hún hafi aðhafst neitt frekar í tilefni kærunnar. II Í máli þessu krafðist stefndi þess að tvenn ummæli í ályktun þeirri, sem samþykkt var með atkvæðum áfrýjenda á stjórnarfundi Blindrafélagsins 22. september 2015, yrðu dæmd ómerk. Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á þá kröfu stefnda að ómerkt yrðu ummælin „vélað ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt“ og áfrýjendum gert að greiða honum miskabætur af þeim sökum. Hins vegar voru áfrýjendur sýknuð af kröfu stefnda um ómerkingu hinna ummælanna og unir hann þeirri niðurstöðu. 1 Stefndi heldur því fram að áfrýjendur hafi með framangreindum ummælum vegið með alvarlegum hætti að æru sinni svo að fari í bága við 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og beri af þeirri ástæðu að ómerkja þau samkvæmt 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Í ummælunum felist aðdróttun um refsiverða háttsemi af sinni hálfu, sem ekki eigi sér stoð, auk þess sem í þeim felist tilhæfulaus móðgun í sinn garð. Með þessu hafi áfrýjendur farið út fyrir takmörk tjáningarfrelsis samkvæmt 2. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og þar með brotið gegn friðhelgi einkalífs síns sem njóti verndar 1. mgr. 71. gr. hennar. Þá hafi það ekki verið hlutverk stjórnar Blindrafélagsins eða á valdsviði hennar að kveða á um hvað væri rétt og hvað rangt í skiptum þeirra A Andrésar Axelssonar, sem sé lögráða einstaklingur, í tengslum við starfsemi Fasteignafélagsins Hnjúks ehf. Þegar tekin er afstaða til þess hvort ummælin, sem stefndi krefst að ómerkt verði, feli í sér aðdróttun um refsiverða háttsemi af hans hálfu verður að horfa til þess hver er merking sagnorðsins „að véla“ í því samhengi sem það kemur þar fyrir. Í íslensku máli getur það þýtt að tæla, svíkja, ginna, beita brögðum eða svikum. Sé síðastnefnda merkingin, sem gengur einna lengst, lögð til grundvallar voru áfrýjendur með hinum umdeildu ummælum að bera stefnda á brýn að hann hafi beitt ungan félagsmann í Blindrafélaginu, sem var verulega sjónskertur, brögðum eða svikum til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask, tengt sér. Þótt orðið „brask“ sé vissulega notað í neikvæðri merkingu um viðskipti er ekki unnt að gefa orðunum, sem notuð voru, annað inntak en þau almennt hafa í íslensku máli. Því er ekki unnt að draga þá ályktun af ummælunum að með þeim hafi áfrýjendur verið að saka stefnda um að hafa beitt hinn unga félagsmann brögðum eða svikum til að fá hann til að leggja allt sparifé sitt í vafasöm viðskipti í þeim tilgangi að auðgast á kostnað hans. Vegna þess að refsiákvæðunum, sem stefndi hefur vísað til í þessu sambandi, 248. gr. og 253. gr. almennra hegningarlaga, verður því aðeins beitt að brotið hafi verið gegn þeim í auðgunarskyni, sbr. 243. gr. laganna, verður samkvæmt því ekki fallist á með stefnda að í ummælunum hafi falist aðdróttun um að hann hafi framið refsiverða háttsemi. 2 Það sem að framan greinir breytir þó ekki því að í ummælum áfrýjenda voru fólgnar alvarlegar ásakanir í garð stefnda sem gætu talist ærumeiðandi samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga. Við úrlausn um það verður í fyrsta lagi að líta til stöðu Blindrafélagsins sem frjálsra félagasamtaka og starfsemi þess sem að stórum hluta er háð fjárframlögum frá öðrum. Eflaust ekki síst af þeirri ástæðu er eins og fyrr segir lögð áhersla á það í lögum félagsins að hver og einn stjórnarmaður þess virði siðareglur félagsins, hagsmuni þess og einstakra félagsmanna, en verði misbrestur á því sé félagsstjórn heimilt að samþykkja tillögu um vantraust á þann stjórnarmann sem í hlut á. Við þær aðstæður, sér í lagi ef talið hefur verið að stjórnarmaðurinn hafi gengið gegn hagsmunum félagsmanns sem stendur höllum fæti vegna fötlunar sinnar, verður að játa öðrum stjórnarmönnum rýmkuðu tjáningarfrelsi, enda vega hagsmunir annarra félagsmanna og bakhjarla félagsins af því að fá upplýsingar um forsendur að baki slíkri tillögu þyngra en orðspor hlutaðeigandi stjórnarmanns, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 21. júlí 2011 í máli Heinisch gegn Þýskalandi.   Í annan stað hefur það verulega þýðingu hvort ummælin í garð stefnda eigi sér stoð í málsatvikum. Í máli þessu, sem rekið er eftir reglum um meðferð einkamála, verður þess ekki krafist af áfrýjendum, að teknu tilliti til þess sem áður greinir, að þau færi óyggjandi sönnur á sannleiksgildi ummæla sinna, heldur að þau leiði nægar líkur að góðri trú sinni um réttmæti þeirra þegar þau voru viðhöfð, sbr. meðal annars til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 3. maí 2018 í máli nr. 404/2017. 3 Sé lagður til grundvallar framburður stefnda fyrir héraðsdómi og það, sem eftir honum var haft í fundargerð stjórnarfundar Blindrafélagsins 22. september 2015, voru tildrög máls þessa þau að A leitaði til stefnda fyrir tilstilli móður sinnar og óskaði eftir ráðgjöf hjá honum um hvernig hann gæti ávaxtað sparifé sitt. Stefndi hafði þá gegnt stöðu formanns félagsins í tæpt ár og hafði að eigin sögn talsverða reynslu af því að kaupa og selja fasteignir. A var hins vegar ungur að árum, hafði nýverið orðið fyrir því áfalli að missa sjónina að mestu leyti og virðist hafa verið var lítt kunnugur fjármála- og fasteignaviðskiptum þótt hann hefði fest kaup á íbúð nokkru áður. Í kjölfar þess að A leitaði til stefnda lagði sá síðarnefndi til að hann kæmi til samstarfs við sig og föður sinn og stofnaði með þeim fasteignafélag. Í tölvubréfi stefnda 30. apríl 2015 og drögum að stofnfundargerð var gert ráð fyrir að stofnfé hins fyrirhugaða einkahlutafélags yrði 7.000.000 krónur og skiptist þannig að A legði fram 20% þess, stefndi 30% og faðir stefnda 50%. Samkvæmt tölvubréfinu var gengið út frá því að þeir síðarnefndu legðu félaginu til tvær fasteignir í sinni eigu við stofnun þess og yrðu stofnframlög þeirra í formi markaðsvirðis þeirra að frádregnum áhvílandi skuldum. Við stofnun félagsins var hins vegar ákveðið að stofnféð yrði 500.000 krónur í stað 7.000.000 króna, en eftir sem áður var gengið út frá þeim forsendum, að sögn stefnda, að þeir feðgar létu fasteignirnar ganga til félagsins. Úr þeirri fyrirætlun varð þó ekki meðan A var hluthafi í einkahlutafélaginu, en fasteignirnar voru ranglega færðar til eignar hjá því í bókhaldi þess þar sem þær höfðu ekki verið framseldar félaginu á þeim tíma. Þegar ákveðið var að lækka stofnfé félagsins í 500.000 krónur brustu forsendur fyrir því að A legði fram í reiðufé þær 1.400.000 krónur, sem áður hafði verið gert ráð fyrir, heldur hefði honum að réttu lagi borið að inna af hendi 100.000 krónur til félagsins við stofnun þess. Engu að síður greiddi hann fyrrgreindu fjárhæðina inn á reikning stefnda 7. júní 2015 að því er virðist í trausti þess að þeir feðgar myndu leggja andvirði fasteignanna tveggja inn í félagið, svo sem þeir ætluðu sér eftir sem áður að gera að sögn stefnda fyrir dómi. Þau skjöl, sem lögð hafa verið fram í málinu, gefa ekki til kynna að um hafi verið að ræða lán A til félagsins, enda var hvorki gerður um það samningur, svo sem um hvenær lánið ætti að endurgreiða og hvort og þá hvaða ávöxtun það skyldi bera, né gefin út skuldaviðurkenning eða kvittun fyrir móttöku framlagsins sem láns. Ekkert í gögnum málsins bendir til að stefndi og faðir hans hafi lagt fram af sinni hálfu þær 400.000 krónur af stofnfé félagsins sem þeir höfðu skuldbundið sig til að gera. Sem framkvæmdastjóra félagsins hlaut stefnda að vera kunnugt um að A, sem var skráður fyrir 20% hlutafjár þess, hafði lagt því til áðurgreinda fjárhæð í reiðufé án þess að séð verði að aðrir hluthafar, hann sjálfur og faðir hans, hefðu lagt neitt fé eða annars konar verðmæti af mörkum til félagsins, hvorki við stofnun þess né strax í kjölfar hennar. Þar sem vottorð fyrirtækjaskrár um Fasteignafélagið Hnjúk ehf., sem vísað er til að framan, var gefið út 29. maí 2015 liggur fyrir að þá þegar hafði félagið verið tilkynnt til skráningar hjá hlutafélagaskrá samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Að því loknu hefði ekkert átt að vera því til fyrirstöðu að stofnaður yrði bankareikningur fyrir félagið, svo sem stefndi hefur haldið fram, en hann hefur ekki lagt fram nein gögn til sönnunar þeirri staðhæfingu sinni. Þrátt fyrir þetta innti A greiðsluna 7. júní 2015 inn á persónulegan bankareikning stefnda og lagði síðan 112.000 krónur inn á hann 12. júlí og 114.000 krónur 14. ágúst sama ár. Yfirlit yfir hreyfingar á bankareikningi félagsins ber með sér að hann hafi verið stofnaður í síðasta lagi 11. ágúst 2015. Samt sem áður bað stefndi A um það í tölvupósti daginn eftir að leggja síðastnefndu fjárhæðina inn á sama persónulega reikning sinn. Engar upplýsingar er að finna um það í málsgögnum hvort fénu, sem A lagði inn á reikning stefnda sumarið 2015, hafi verið ráðstafað af reikningnum og þá í hvaða tilgangi. Á hinn bóginn verður ráðið af því, sem haft var eftir stefnda í fundargerð stjórnarfundarins 22. september það ár, að féð hafi ekki verið tiltækt honum sjálfum eða félaginu á þeim tíma. Fyrir dómi bar stefndi að greiðslur A 12. júlí og 14. ágúst 2015 hefðu falið í sér hlutafjáraukningu af hans hálfu, en ekkert liggur fyrir um það í málsgögnum að hlutafé umrædds félags hafi verið hækkað á þeim tíma í samræmi við fyrirmæli V. kafla laga nr. 138/1994. Ályktun stjórnarfundarins 22. september 2015 var reist á frásögn A af málsatvikum og gögnum sem hann hafði ýmist látið áfrýjendum í té eða þau aflað með öðrum hætti. Áður en tillaga að ályktuninni var tekin til afgreiðslu á fundinum var stefnda gefinn kostur á að skýra málið frá sinni hlið, auk þess sem hann svaraði fyrirspurnum um einstök atriði þess. Þótt stefndi hafi síðan svarað þeim ásökunum, sem á hann voru bornar, og lagt fram frekari gögn af sinni hálfu virðist myndin af því, sem átti sér stað í samskiptum þeirra A í tengslum við starfsemi Fasteignafélagsins Hnjúks ehf. og lá þá þegar fyrir í stórum dráttum, ekki hafa breyst að neinu ráði eins og rakið hefur verið. Þrátt fyrir að áfrýjendur hafi tekið óþarflega sterkt til orða með hinum umdeildu ummælum í garð stefnda verður ekki talið, með vísan til alls þess sem að framan greinir, að þau hafi með þeim farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskárinnar, sbr. 1. mgr. 10. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Verða áfrýjendur því sýknuð af kröfum stefnda í máli þessu. Rétt er að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum. Dómsorð: Áfrýjendur, Baldur Snær Sigurðsson, Guðmundur Rafn Bjarnason, Halldór Sævar Guðbergsson, Lilja Sveinsdóttir, Rósa María Hjörvar og Rósa Ragnarsdóttir, eru sýkn af kröfum stefnda, Bergvins Oddssonar. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2017. Mál þetta er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, með stefnu birtri fyrir stefndu þann 9. og 10. ágúst 2016, um þingfestingu málsins þann 1. september 2016. Málið var dómtekið þann 13. júní 2017 að loknum málflutningi. Stefnandi er Bergvin Oddsson, kt. [...], Lyngrima 14, 112 Reykjavík. Stefndu eru: Halldór Sævar Guðbergsson, kt. [...], Hólatúni 11, 600 Akureyri, Baldur Snær Sigurðsson, Hamrahlíð 17, kt. [...], 105 Reykjavík, Rósa María Hjörvar, kt. [...], Þórsgötu 8, 101 Reykjavík,  Lilja Sveinsdóttir, [...], Laufrima 21, 112 Reykjavík, Guðmundur Rafn Bjarnason, kt. [...], Ljósabergi 48, 221 Hafnafirði og Rósa Ragnarsdóttir, kt.[...], Dalhúsum 7, 112 Reykjavík. Stefnandi gerir þær dómkröfur á hendur stefndu: „Að eftirfarandi ummæli, í stafliðum a og b., sem stefndu viðhöfðu um stefnanda í ályktun sem birt var opinberlega á heimasíðu Blindrafélagsins, blind.is þann 22. september 2015 verði dæmd dauð og ómerk:       a.       vélað ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt. b.       þá hefur formaður með athæfi sínu misnotað vald sitt og brugðist trausti þessa unga félagsmanns og þar með sýnt af sér siðferðilegt dómgreindarleysi. Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt 1.800.000 krónur í miskabætur með 4,7% vöxtum, skv. 4. gr. laga nr. 38/2001, sbr. og 8. gr. sömu laga, frá 22. september 2015 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. og 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndu greiði stefnanda óskipt, 500.000 krónur, til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendur og niðurstöðu dóms í málinu í tveimur dagblöðum, sbr. 2. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940. Til vara er krafist birtingarkostnaðar að álitum.“ Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt málskostnað samkvæmt mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Stefndu gera öll þá kröfu að vera sýkn af dómkröfum stefnanda í málinu. Þá krefjast stefndu þess öll að þeim, hverju og einu, verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins. I Málavextir Á stjórnarfundi Blindrafélagsins þann 22. september 2015, var samþykkt eftirfarandi ályktun sem birt var sama dag á vefsíðu Blindrafélagsins, blind.is.: „Í ljósi alvarlegs trúnaðarbrests sem upp er kominn á milli formanns Blindrafélagsins og stjórnar þess, þá lýsir stjórn félagsins yfir vantrausti á formann. Málsatvik eru þau að formaður félagsins hefur nýtt sér vettvang þess til að véla ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt. Mál sem er komið í hendur á lögmanni. Að mati stjórnar félagsins þá hefur formaður með athæfi sínu misnotað vald sitt og brugðist trausti þessa unga félagsmanns og þar með sýnt af sér siðferðilegt dómgreindarleysi. Mikilvægt er að halda því til haga að ekki er um að ræða fjármuni Blindrafélagsins í þessu máli. Stjórn félagsins samþykkir jafnframt að rifta ráðningarsamningi formanns. Þá afturkallar stjórn félagsins skipun formanns sem fulltrúa félagsins í ráð og nefndir. Stjórn Blindrafélagsins boðar ennfremur til félagsfundar miðvikudaginn 30. september til þess að kynna málið fyrir félagsmönnum.“ Ályktunin samþykkt af öllum stjórnarmönnum, nema stefnanda. Stjórnarfundinn þann 22. september 2015 sátu: stefnandi sem stjórnarformaður, stefndu Halldór Sævar varaformaður, Rósa María gjaldkeri, Lilja Sveinsdóttir ritari, Baldur Snær meðstjórnandi, Guðmundur Rafn varamaður, Rósa Ragnarsdóttir, varamaður og þá sat einnig fundinn Kristinn Halldór Einarsson, framkvæmdastjóri Blindrafélagsins. Mun sú hefð hafa skapast í stjórn Blindrafélagsins að varamenn sitji alla stjórnarfundi. Upphaf þessa máls má rekja til þess að A, varamaður í stjórn Blindrafélagsins, sem var forfallaður á framangreindum fundi, hafði þann 19. september 2015 rætt við framkvæmdastjóra félagsins um málefni er tengdust Fasteignafélaginu Hnjúki ehf. sem A rak ásamt stefnanda og föður hans, en auk þess hafði varaformaður þá haft veður af málinu. Fram kom hjá A fyrir dómi að áhyggjur hans hafi varðað þróun á rekstri félagsins sem hafði ekki verið í samræmi við það sem hann hafði ætlað. Taldi hann að honum hefði einungis borið að leggja fram stofnframlag við stofnun félagsins og að ekki yrði um frekari greiðslur af hans hálfu að ræða. Þegar stefnandi hafi síðan krafið hann um tvær greiðslur í júlí og ágúst 2015, og boðað frekari fjárútlát, hafi hann fengið bakþanka, orðið áhyggjufullur út af fjárframlagi sínu og viljað losna út úr félaginu, en stefnandi hefði ekki getað veitt honum fullnægjandi svör þegar eftir því hefði verið leitað. Með þær áhyggjur fór A til framkvæmdastjóra Blindrafélagsins. Í framhaldi af þessu munu hafa átt sér stað nokkur símasamskipti á milli framkvæmdastjórans og stefndu auk þess sem sömu aðilar hittust á óformlegum fundi þann 21. september 2015. Á þeim fundi voru lögð fram gögn um tölvupóstsamskipti stefnanda og A og afrit af greiðslum A, auk þess sem búið var að afla vottorðs frá hlutafélagskrá um Fasteignafélagið Hnjúk ehf. Þá kom fram fyrir dómi að á þeim fundi hefðu verið mótuð drög að framangreindri ályktun sem birt var þann 22. september 2015. Hafi þess verið gætt af hálfu stefndu að stefnandi fengi ekki veður af framangreindum samskiptum eða upplýsingum. Á stjórnarfundinum þann 22. september 2015, hófust fundarhöld með því að varaformaður stjórnar gerði tillögu að því að fyrst yrðu teknar til umræðu upplýsingar sem hann hefði undir höndum, sem fælu í sér að mjög alvarlegur trúnaðarbrestur væri kominn upp milli formanns og stjórnar, ef réttar væru. Gerði stefnandi ekki athugasemd við að þau mál yrðu rædd. Í bókun fundargerðar þann dag er í upphafi rakið að ungur félagsmaður sem nýlega hafi misst nánast alla sjón á skömmum tíma hafi „óskað eftir að félagið aðstoðaði hann við að ná til baka (fjármunum) sem hann sagði að formaður Blindrafélagsins hafi haft út úr sér“. Stefnandi rakti sína hlið málsins á fundinum en hafði eðli málsins samkvæmt ekki gögn til að leggja fram og óskaði ekki eftir fresti til að leggja fram gögn. Upplýsti hann að hann teldi, að öðru leyti kæmi þetta stjórn Blindrafélagsins ekki við. Í framhaldi af þessu var frekari dagskrárliðum stjórnar frestað og var ályktun stjórnar fullmótuð og birt sama dag. Boðað var til félagsfundar Blindrafélagsins þann 30. september 2015 þar sem ræða skyldi framkomna ályktun og vantraust. Með fréttatilkynningu, dags. 23. september 2015, hafnaði stefnandi þeim ásökunum sem hann taldi á sig bornar í ályktun stjórnar Blindrafélagsins. Á félagsfundinum þann 30. september 2015 var ekki tekin ákvörðun um vantraust meirihluta stjórnar/stefndu gegn stefnanda en ákveðið að stefnandi myndi stíga til hliðar og fara í leyfi og að aðalfundi yrði flýtt. Þá var ákveðið af félagsfundi að setja á stofn sannleiksnefnd sem skipuð yrði utanaðkomandi aðilum. Hlutverk þeirrar nefndar væri að fara yfir og skila skýrslu um þann mikla ágreining sem kominn var upp innan Blindrafélagsins. Nefndin átti að leggja mat á öll gögn tengd atvikum, sem leiddu til þess að meirihluti stjórnar og varastjórnar Blindrafélagsins lýsti yfir vantrausti á stefnanda sem formann félagsins á stjórnarfundi þann 22. september 2015. Nefndin var skipuð þeim Gesti Páli Reynissyni, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingi, Helgu Baldvins og Bjargardóttur, lögfræðingi og sérfræðingi í málefnum fatlaðs fólks hjá Stígamótum og Salvöru Nordal forstöðumanni Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Skýrsla sannleiksnefndarinnar ber heitið „Skýrsla um tilefni og málsmeðferð vegna vantrausts stjórnar á formann félagsins, sem samþykkt var á fundi stjórnar þann 22. september 2015“. Skýrslan er 51 blaðsíða og var birt í febrúar 2016. Í niðurstöðum skýrslunnar segir að það sé mat nefndarinnar að stjórnin hafi farið offari með framgöngu sinni. Sé andmælaréttur bæði grundvallarregla íslensks réttar og grunnur mannlegra samskipta. Hafi stjórnin haft takmarkaðar upplýsingar undir höndum sem í besta falli hafi verið hægt að útskýra sem viðskiptalegan ágreining en í versta falli sem fjárhagslega misnotkun formanns Blindrafélagsins gagnvart yngri félagsmanni. Svo virtist sem flestir stjórnarmenn hafi tekið ákvarðanir út frá verstu mögulegu niðurstöðu án þess að gefa stefnanda almennilegt tækifæri til þess að útskýra sína hlið eða að undirbúa sig fyrir fundinn 22. september 2015. Þá segir í einnig í skýrslu sannleiksnefndar að sama eigi við um ályktun þá sem birt hafi verið á heimasíðu Blindrafélagsins í kjölfar fundarins. Þar sé notast við harkalegt orðalag þar sem formaðurinn sé meðal annars sakaður um að hafa „vélað ungan félagsmann til viðskipta“. Þetta orðalag geti sannleiksnefndin ekki fallist á í ljósi þess að viðkomandi einstaklingur sé lögráða og því bæði sjálfráða og fjárráða. Ekki verður rakið frekar efni nefndrar skýrslu og eru málsaðilar ekki á eitt sáttir um niðurstöðu hennar en benda þó báðir á ýmislegt í henni máli sínu til stuðnings. Ljóst er þó af þeirri skýrslu að ágreiningur og samskiptaörðugleikar voru með málsaðilum innan stjórnar Blindrafélagsins á árinu 2015 þegar ályktunin var gerð. Stefnandi sendi stefndu bréf, dags. 16. febrúar 2016, þar sem fram kom að ef stjórn Blindrafélagsins myndi biðja stefnanda opinberlega afsökunar væri hann tilbúinn að eiga samtal um það, að öðrum kosti væri hann knúinn til þess að fara dómstólaleiðina með málið. Með svarbréfi stjórnar Blindrafélagsins, dags. 26. febrúar 2016, var erindi stefnanda hafnað. Stefnandi lagði fram með stefnu meðal annars afrit fréttatilkynningar hans, dags. 23. september 2015, afrit af fréttaflutningi málsins í dagblöðum, bréf lögmanns hans til stjórnar Blindrafélagsins, dags. 28. september 2015, skýrslu sannleiksnefndar, bréf lögmanns hans til stjórnar Blindrafélagsins dags. 16. febrúar 2016 og svarbréf stjórnar Blindrafélagsins dags. 26. febrúar 2016, samning um uppgjör láns milli Fasteignafélagsins Hnjúks ehf. og A, dags. 28. september 2015, dagbókarfærslur vegna Fasteignafélagsins Hnjúks ehf. og afrit kaupsamninga þess félags. Stefndu lögðu meðal annarra gagna fram, afrit af millifærslum A inn á bankareikning stefnanda, færslur af reikningi Fasteignafélagsins Hnjúks ehf., vottorð úr hlutafélagaskrá um nefnt félag, stofnskrá Fasteignafélagsins Hnjúks ehf., bréf A til stefnda, dags. 22. september 2015, tölvuskeyti á milli stefnanda og A og lögmanna þeirra, fasteignamatsupplýsingar og vottorð frá augnlækni og sálfræðingi A. Fyrir dóminn komu stefnandi og stefndu og gáfu aðilaskýrslur. Þá gáfu vitnaskýrslur Oddur Magni Guðmundsson, faðir stefnanda, Hólmar Guðmundsson, endurskoðandi og föðurbróðir stefnanda, Theodór Siemsen Sigurbergsson löggiltur endurskoðandi og eigandi Grant og Thornton, og Kristinn Halldór Einarsson, framkvæmdastjóri Blindrafélagsins. Þá gaf A símaskýrslu fyrir dóminum. II Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi byggir ómerkingarkröfu sína á því að stefndu beri ábyrgð á hinum umstefndu ummælum í stafliðum a og b, sem þau viðhöfðu um stefnanda og birt voru á heimasíðu blind.is, á grundvelli 1. mgr. 51. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011, sbr. og til hliðsjónar 234. gr., 235. gr., 1. og 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá byggir stefnandi á því að stefndu hafi með hinum umstefndu ummælum vegið með alvarlegum hætti að æru stefnanda. Í ummælunum notist stefndu við einkar harkalegt og óvægið orðalag þar sem stefnandi sé meðal annars sakaður um að hafa vélað ungan félagsmann til viðskipta í fasteignabraski honum tengdum og þannig að mati stjórnarinnar misnotað vald sitt sem formaður og brugðist trausti þessa unga félagsmanns. Með þess hafi hann sýnt af sér siðferðilegt dómgreindarleysi. Ummælin í stafliðum a og b eigi sér enga stoð í raunveruleikanum í ljósi þess að A, sé lög-, sjálf- og fjárráða einstaklingur, ásamt því að hann hafi haft móður sína sér við hlið sem vottaði þar skjöl á umboðum sem A veitti sameigendum sínum til kaupa og sölu á fasteignum. Hið rétta sé að umræddur félagsmaður hafi af fúsum og frjálsum vilja ákveðið að taka þátt í stofnun fyrirtækis með stefnanda og föður hans. Stefnandi hafi engum blekkingum beitt né sýnt af sér háttsemi sem jafna megi við misneytingu. Stefnandi hafi einungis verið að stunda heiðarleg viðskipti í samstarfi við föður sinn og A og sé því enginn fótur fyrir svo svívirðilegum ummælum stefndu. Að mati stefnanda gefi það augaleið að stefndu, höfðu það eitt að markmiði með framferði sínu að koma höggi á stefnanda með þungum aðdróttunum og ekki skeytt eigi um æru og mannorð stefnanda. Þá hafi andmælaréttur hans verið virtur að vettugi og honum hvorki gefinn kostur á að gefa skýringar á sinni hlið málsins né að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings. Sérstaklega sé brýnt að virða rétt til að verjast ásökunum þegar um svo þungar sakir sem þessar sé að ræða. Eins og fram kom í skýrslu sannleiksnefndarinnar þá hafi það verið mat nefndarinnar að stjórnarmenn hafi tekið ákvarðanir út frá verstu mögulegu niðurstöðu án þess að gefa stefnda færi til andsvara og undirbúnings fyrir stjórnarfundinn 22. september 2015. Stefndu hafi ekki velt öðrum kostum fyrir sér til að leysa málið, þess í stað hafi stefnandi verið leyndur vitneskju um málið, þar til á ofangreindum stjórnarfundi þar sem vegið hafi verið svo stórlega að stefnanda úr launsátri. Stefnandi taki undir með sannleiksnefndinni, og hann telur að stefndu hafi með framgöngu sinni farið offari og sakað stefnanda um alvarlega háttsemi, án þess að nokkur fótur væri fyrir ásökunum. Hafi stefndu meira að segja gengið svo langt að ásaka hann um refsiverða háttsemi, sbr. orðalagið í staflið a í kröfugerð stefnanda. Stefnandi bendir á að samkvæmt skýrslu sannleiksnefndarinnar hafi stefnanda sem formanni Blindrafélagsins og A sem varamanni stjórnar ekki verið skylt á grundvelli gildandi laga eða reglna Blindrafélagsins að upplýsa stjórn þess um viðskiptatengsl sín. Það hafi heldur ekki verið hlutverk stjórnar Blindrafélagsins að hafa vit fyrir þeim í viðskiptum. Stefnanda hafi því ekki borið skylda til að gefa upp eigin fjárhags- eða hagsmunatengsl, hvorki við félagsmenn Blindrafélagsins né aðra. Stefnandi hafi ekki brotið af sér í starfi sem formaður Blindrafélagsins í ljósi þess að ekki hafi átt sér stað trúnaðarbrestur af hans hálfu. Stefnandi telur hin umstefndu ummæli í stafliðum a og b, sem stefndu létu falla í ályktun stjórnar, algjörlega úr lausu lofti gripin. Með þeim fullyrðingum sé verið að væna stefnanda um refsivert athæfi, sem fyrr greini. Hin umstefndu ummæli séu ósönn, óviðurkvæmileg og rætin og til þess fallin að varpa rýrð á mannorð stefnanda. Þá hafi þau tekið mjög á hann andlega. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu miklir, enda hafa ummælin valdið honum verulegum álitshnekki bæði innan Blindrafélagsins og samfélagsins alls, vegna mikillar dreifingar í fjölmiðlum þar sem ályktun stefndu hafi verið tekin orðrétt upp. Ef ekki verður fallist á að í ummælunum felist ærumeiðandi aðdróttun sé til vara á því byggt að þau feli í sér ærumeiðandi móðgun og fari í bága við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Stefnandi mótmælti þeim hluta málflutnings stefndu sem of seint fram komnum, þar sem vísað sé til ummæla skýrslu sannleiksnefndar, enda sé ekkert vísað til skýrslunnar í greinargerð stefndu. Miskabótakrafa stefnanda er á því reist að stefndu hafi með ummælum sínum veist með alvarlegum hætti og af ásetningi að æru stefnanda. Æra stefnanda og virðing hafi beðið hnekki við ummælin, enda hafi með þeim verið vegið að persónu stefnanda og gerð atlaga til að rýra hann trausti sem formanns Blindrafélagsins. Með því hafi stefndu framið ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda sem stefndu beri skaðabótaábyrgð á, enda um ærumeiðandi aðdróttun að ræða sem bæði sé röng og borin út og birt opinberlega gegn vitund stefnanda. Stefnandi telur að við mat á miskabótum stefnanda til handa verði að hafa í huga að ummæli þau er stefndu viðhöfðu í ályktun sinni, hafi komið rækilega fyrir sjónir almennings og ekki hafi verið reynt að draga úr umfjöllun fjölmiðla, sem hafi verið afar yfirgripsmikil, eða draga í land ásakanir í garð stefnanda á félagsfundi. Beri einnig að hafa hugfast að stefndu hafi verið í stjórn Blindrafélagsins þegar ummælin voru látin falla og höfðu ummælin af þeirri ástæðu gríðarlegt vægi. Miskabótakrafa stefnanda sé því hófleg. Stefnandi njóti verndar 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 8. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Skilyrði b-liðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993 séu fyrir hendi til að taka kröfu stefnanda til greina. Kröfu um birtingu dóms í tveimur dagblöðum byggir stefnandi á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í ákvæðinu sé kveðið á um að dæma megi þann sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun, til þess að greiða þeim sem misgert var við hæfilega fjárhæð, til þess að kosta birtingu dóms í opinberu blaði eða riti, einu eða fleiri. Fjallað hafi verið um málið í flestum fjölmiðlum og ummælin því komið fyrir sjónir allmargra. Mikilvægt sé að leiðrétta þá röngu mynd sem almenningur kunni að hafa af stefnanda eftir opinbera umfjöllun fjölmiðla um málið, sem hafi verið yfirgripsmikil og birst m.a. á ruv.is, visi.is og mbl.is, þar sem ályktunin hafi verið orðrétt tekin upp, sem fyrr greini. Í ljósi þess hve málið hafi hlotið mikla umfjöllun og um hve alvarleg meiðyrði og aðdróttanir hafi verið um að ræða, sé nauðsynlegt að kynna ómerkingardóminn rækilega. Stefnandi krefjist þess því að stefndu verði óskipt dæmd til að greiða honum kostnað vegna birtingar í fjölmiðlum.   Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940, aðallega XXV. kafla laganna um ærumeiðingar og brot á friðhelgi einkalífs, sérstaklega 234. gr., 235. gr., 1. og 2. mgr. 241. gr. og 3. tl. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá vísar stefnandi til 51. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Stefnandi vísar jafnframt til 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Krafa um miskabætur er byggð á b-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993. Kröfur um vexti og dráttarvexti styður stefnandi við II., III. og IV. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Vegna varnarþings vísar stefnandi til 1. mgr. 42. gr. sömu laga. III Málsástæður og lagarök stefndu Stefndu mótmæla öllum málsástæðum og lagarökum stefnanda. Ummæli stefndu hafi á engan hátt verið ólögmæt, enda vel innan þess tjáningarfrelsis sem stefndu sé tryggt samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndu segja ummælin ekki ærumeiðandi, þau feli ekki í sér aðdróttun og eigi þannig ekki við tilvísanir til 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Af sömu ástæðu séu ekki skilyrði til þess að ómerkja ummælin samkvæmt 241. gr. sömu laga. Þá feli ummælin ekki í sér ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda og skilyrði miskabóta skv. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu þannig ekki til staðar. Stefndu telja að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að uppfyllt séu skilyrði þeirra lagaákvæða sem hann hafi vísað til. Þá beri hann sönnunarbyrðina fyrir þeim atvikum sem hann byggi á og þeirri huglægu afstöðu sem hann fullyrði að stefndu hafi haft. Þannig beri stefnanda t.d. að sanna að stefndu hafi haft slæmar hvatir þegar ákvörðun hafi verið tekin og að stefndu hafi verið í vondri trú um staðreyndir málsins. Stefndu benda á að samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 séu allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og sé það í samræmi við 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hafi verið hér á landi með lögum nr. 62/1994. Vissulega sé hægt að setja tjáningarfrelsinu skorður séu þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands og Mannréttindadómstóls Evrópu beri með sér að miklar kröfur séu gerðar til þess að sýnt sé fram á að takmörkun tjáningarfrelsis sé nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Engin nauðsyn sé til að takmarka rétt stefndu til ummæla á borð við þau sem mál þetta snúist um. Einkum þegar litið sé til þess að ummælin tengist alvarlegu máli, eðli Blindrafélagsins, stöðu stefnanda sem formanns Blindrafélagsins og uppsögn hans úr starfi. Stefndu segja ummælin ekki sett fram ein og sér og hafi þau verið til útskýringar fyrir félagsmenn. Eins og fram hafi komið hafi stjórnin talið að upp væri kominn trúnaðarbrestur milli stefnanda, sem formanns Blindrafélagsins, og stjórnar félagsins, sem stefndu skipuðu. Af því tilefni hafi stjórnin talið ótækt að aðhafast ekkert, heldur hafi verið rétt og skylt að grípa til aðgerða. Úr hafi orðið að stjórnin hafi lýst yfir vantrausti á stefnanda, rift ráðningarsamningi hans og afturkallað skipun hans í ráð og nefndir á vegum félagsins. Þessi ákvörðun eða ályktun stjórnarinnar sé meginatriði málsins. Ummælin, sem mál þetta fjalli um, hafi þannig augljóslega ekki verið sett fram í þeim tilgangi að „koma höggi á stefnanda“ eða af öðrum hvötum sem haldið er fram í stefnu. Ummælin hafi ekki verið sett fram ein og sér til þess að hafa sérstök áhrif. Ummælin hafi verið birt til þess að upplýsa félagsmenn um þá ákvörðun sem stjórnin hafði tekið. Ákvörðunin hafi verið þess eðlis að ekki hafi verið hægt að leyna félagsmenn henni og um leið hafi félagsmenn átt rétt á því að vita ástæður sem lágu að baki. Ummælin hafi þannig ekki verið sett fram sem sjálfstæð yfirlýsing heldur sem órjúfanlegur hluti af ákvörðun stjórnar um að rifta samningi við stefnanda. Ákvörðunin sé í raun grundvöllurinn en yfirlýsingin aðeins birt til upplýsingar um ákvörðunina. Öll umfjöllun um lögmæti yfirlýsingarinnar sé þannig nátengd ákvörðun stjórnarinnar. Ummælin ein og sér verði ekki ómerkt eða gerð að grundvelli miskabóta nema ákvörðunin sjálf verði fundin ólögmæt. Stefnandi hafi ekki borið ákvörðunina sjálfa undir dóm og reynt að fá henni hnekkt eða ólögmæti hennar viðurkennt. Í því felist viðurkenning á því að stefnandi uni ákvörðuninni. Í málinu sé þannig ekki deilt um ákvörðunina sjálfa, hún liggi fyrir óhögguð. Stefnandi geti ekki unað ákvörðuninni og sleppt því að bera hana undir dóm en farið í meiðyrðamál við stefndu fyrir það eitt að hafa upplýst um ákvörðunina og forsendur hennar. Til þess að fá úr því skorið hvort ákvörðunin og forsendur stefndu hafi verið lögmætar hefði stefnandi þurft að bera ákvörðunina sjálfa, mögulega ásamt birtingu ummælanna, undir dómstóla. Ummælin séu rökstuðningur fyrir því að stefnandi var rekinn úr starfi sínu fyrirvaralaust. Í ummælunum komi fram raunveruleg ástæða fyrir ákvörðun stjórnarinnar. Stjórnin hafi talið háttsemina fela í sér dómgreindarbrest. Stjórnin hafi því ekki getað sleppt því að upplýsa félagsmenn um raunverulegar ástæður og þaðan af síður gefið aðrar ástæður fyrir ákvörðuninni. Stefndu telja ummælin fela í sér gildisdóm. Verði að skoða yfirlýsinguna í heild sinni í samhengi við allt orðalag hennar og í samhengi við þau málsatvik sem hafi verið ástæða hennar. Ummælin hafi ekki verið sett fram ein og sér og ekki ætluð til að koma höggi á stefnanda. Ummælin hafi verið til útskýringar fyrir félagsmenn Blindrafélagsins. Það hafi ekki verið tilgangur stefndu að niðurlægja stefnanda eða vega að honum á neinn hátt. Yfirlýsingin hafi einfaldlega verið nauðsynleg í samhengi þeirra atvika sem höfðu átt sér stað. Í ummælunum felist ekki fullyrðing um refsiverða háttsemi, heldur sú skoðun stefndu að athæfi stefnanda hafi verið siðferðislega rangt og ekki samrýmst stöðu hans sem formanns Blindrafélagsins. Í ummælunum hafi þannig falist gildisdómur og mat stefndu á því hvernig formanni Blindrafélagsins ber að haga sér. Beri orðalag yfirlýsingarinnar það berlega með sér að vera gildisdómur sem feli í sér mat stjórnar á siðferðilegum efnum. Þannig komi skýrt fram í orðalaginu: „Að mati stjórnar“ og „siðferðilegt dómgreindarleysi“ sem geti ekki vísað til annars en gildisdóms. Öll önnur framsetning beri einnig skýrlega með sér að ummælin séu skoðun stjórnarinnar og mat hennar á málsatvikum. Stefndu telja að ekki þurfi að sanna siðferðilegt gildismat stefndu. Sú skoðun stefndu að stefnandi hafi sýnt af sér dómgreindarbrest og brugðist trausti sé einfaldlega álit stefndu. Aðrir gætu mögulega haft aðra skoðun á háttseminni en það skipti ekki máli. Stefndu sé heimilt að tjá skoðun sína og stefnandi verði að þola þá skoðun stefndu á athæfi hans. Gildisdómar falli innan tjáningarfrelsisins og þess sem aðrir verði að þola í lýðræðisþjóðfélagi. Stefndu byggja á því að staðhæfingarnar séu réttur og stefndu a.m.k. í góðri trú. Verði talið að ummælin feli í sér staðhæfingar sem stefndu beri að sanna þá séu ummælin engu að síður lögmæt. Stefndu hafi haft réttmætt tilefni til ummælanna miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Eins og rakið hafi verið höfðu stefndu upplýsingar um að stefnandi hefði átt í mjög óeðlilegum „viðskiptum“ með A. Stefndu hafi byggt ákvörðun sína og ummælin á fullnægjandi upplýsingum. Í því samhengi sé mikilvægt að ítreka að stefnandi hafi ekki enn útskýrt með trúverðugum hætti öll þau vafasömu atriði sem ákvörðun stefndu hafi byggt á. Grundvallaratriði málsins að mati stefndu séu þau að stefnandi hafi verið formaður Blindrafélagsins og vingast við ungan félagsmann sem hafi staðið höllum fæti í lífinu og gagnvart stefnanda. Stefnandi hafi fengið þennan unga félagsmann til þess að greiða sér A 1.600.000 krónur inn á persónulegan bankareikning stefnanda. Tilvísanir stefnanda til þess að A væri fjárráða og að þeir starfræktu fasteignafélag hafi alls ekki verið fullnægjandi. Framlag A hafi verið langt umfram hlutdeild hans í félaginu og allar upplýsingar stefnanda til A ýmist verið óljósar eða rangar. Stefnandi hafi enn ekki gefið trúverðugar skýringar á því hvers vegna greiðslum A hafi verið beint inn á persónulegan reikning stefnanda. Þá hafi ekki verið útskýrt hvernig hann hafi ráðstafað fjármunum A eftir að þeir hafi borist inn á A reikning stefnanda. Hafi fjármunirnir runnið til félagsins þarf stefnandi að útskýra hvers vegna A greiddi langt umfram það sem stefnandi og faðir hans greiddu til félagsins. Stefnandi hafi gefið mjög mismunandi skýringar á málsatvikum, ýmist kallað þau hluthafalán, hlutafjárhækkun o.s.frv. Þá séu ýmsar skýringar stefnanda gríðarlega ótrúverðugar, eins og t.d. sú fullyrðing að A hafi lagt fjárhæðir inn á persónulegan reikning stefnanda vegna þess að ómögulegt hafi verið að leggja inn á reikning félagsins. Byggja stefndu á því að ummæling hafi þannig a.m.k. verið látin falla í góðri trú um málsatvik, enda hafi þau byggt á upplýsingum sem stefndu höfðu kynnt sér þegar ákvörðunin hafi verið tekin og ummælin sett fram. Rétt sé að ítreka að engar nýjar upplýsingar hafa síðar komið fram sem hafi gefið aðra mynd af málsatvikum en stefndu hafi lagt til grundvallar þann 22. september 2015. Ummæli sem séu sönn, séu stefndu og öðrum að vítalausu. Það sama eigi við ef stefndu höfðu réttmætt eða nægjanlegt tilefni til að ætla að ummælin væru sönn, þ.e. ef stefndu hafa verið í góðri trú um staðreyndir. Góð trú endurspeglist í því að stefndu séu sex mismunandi manneskjur sem allar hafi komist að sömu ályktun um háttsemi stefnanda. Stefnandi þurfi að sýna fram á að stefndu hafi með samanteknum ráðum ákveðið að haga orðum sínum gegn betri vitund. Ekkert liggi fyrir um slíkt, enda hafi ekki átt sér stað neitt samsæri, allir stjórnarmenn hafi einfaldlega verið sammála um að háttsemin væri ósiðleg. Stefndu benda á að stefnandi hafi verið í sérstakri stöðu þegar samskipti hans og A hafi átt sér stað og einnig þegar ummælin féllu. Stefnandi hafi verið opinber persóna sem formaður Blindrafélagsins. Aðrar kröfur hafi orðið að gera til háttsemi hans, einkum í samskiptum við unga, óreynda félagsmenn í Blindrafélaginu. Að sama skapi hafi stefnandi orðið, stöðu sinnar vegna, að þola meiri umfjöllun um sig og störf sín, einkum ef störf hans tengdust félagsmönnum Blindrafélagsins. Þessi sjónarmið eiga svo enn betur við í allri umræðu innan Blindrafélagsins og gagnvart stjórn félagsins. Stefndu höfðu þannig rýmkað tjáningarfrelsi gagnvart stefnanda. Við mat á ummælunum og orðalagi þeirra verði að líta til stöðu stefnanda, stöðu stefndu sem stjórnarmanna og eðli Blindrafélagsins. Stefnandi hafi borið sérstakan trúnað gagnvart félaginu, félagsmönnum þess og stjórn. Sá trúnaður hafi átt við í samskiptum stefnanda við félagsmenn utan veggja félagsins. Í ljósi þess að stjórn hafi talið þennan trúnað brotinn hafi ekkert athugavert verið við orðfæri ummæla stjórnarmanna. Þeim hafi verið rétt og skylt að lýsa yfir fordæmingu á athæfinu, enda hafi stefndu þótt háttsemin vera ósamrýmanlegt stöðu stefnanda. Í raun hefði verið alvarlegt ef stefndu hefðu fengið upplýsingarnar en ekkert aðhafst þrátt fyrir að vera öll á þeirri skoðun að háttsemin væri óásættanleg. Með slíku athafnaleysi hefðu stefndu brotið gegn skyldum sínum sem stjórnarmenn Blindrafélagsins. Stefndu hafi ekki getið setið hjá og aðhafst ekkert eftir að hafa fengið upplýsingar um háttsemi stefnanda, formanns félagsins. Stefndu hafi talið nauðsynlegt að gæta orðspors Blindrafélagsins og gefa skýrt til kynna að slík hegðun væri ekki ásættanleg. Þá hafi stefndu talið að ekki væri rétt að leyna þessum atvikum fyrir félagsmönnum. Þvert á móti hafi verið rétt að upplýsa félagsmenn um málsatvik. Í þessu samhengi sé minnt á að ekki hafi verið reynt að halda upplýsingum frá félagsmönnum eða koma í veg fyrir að mismunandi sjónarmið kæmust að. Boðað hafi verið til opins félagsfundar viku síðar þar sem allir félagsmenn gátu fengið nánari útskýringar og rætt málið. Að mati stefndu eru orð þeirra eins hófstillt og varfærin og hægt hafi verið miðað við tilefnið. Stefndu hafi haft upplýsingar um að stefnandi hefði fengið A til að greiða sér fé, eins og lýst hafi verið að framan. Orðalagið í yfirlýsingunni sé þannig mun vægara en orð sem vísi beint til refsiverðrar háttsemin eins og t.d. „svik“ o.fl. Þess í stað komi skýrt fram að stjórnin telji stefnanda hafa brugðist trausti stjórnarmanns og sýnt af sér „siðferðilegt dómgreindarleysi“. Stefndu hafi með þessum orðum ekki verið að fullyrða að stefnandi hefði framið refsiverða háttsemi. Aftur á móti hafi stefndu talið að háttsemin væri ekki boðleg hjá formanni Blindrafélagsins í samskiptum hans við ungan félagsmann. Eins og áður segi komi raunar skýrt fram í yfirlýsingunni að ummælin byggist á „mati stjórnar“ á fyrirliggjandi upplýsingum. Ummælin hafi ekki verið sett fram til að særa stefnanda. Þau hafi verið sett fram að gefnu tilefni og hafi falið í sér mat stefndu á fyrirliggjandi atvikum. Þau hafi verið nauðsynleg til að útskýra fyrir félagsmönnum ákvörðun sem stefndu neyddust til að taka. Að mati stefndu varði ummælin þjóðfélagshagsmuni. Rétt sé að ítreka að stefndu hafi einungis birt ummælin á heimasíðu Blindrafélagsins, enda hafi verið um að ræða útskýringu á ákvörðun og hafi hún verið ætluð félagsmönnum. Stefndu hafi ekki breitt út til fjölmiðla þau ummæli sem stefnandi krefst ómerkingar á. Fjölmiðlar hafi tekið þá ákvörðun að birta yfirlýsinguna, og hafi stefndu engan atbeina haft að því. Það að flestir fjölmiðlar hafi ákveðið að vinna frétt upp úr yfirlýsingunni bendi þó augljóslega til þess að um hafi verið að ræða málefni sem hafi átt erindi til almennings. Rýmra tjáningarfrelsi gildi um ummæli sem eigi erindi við almenning og varði þjóðfélagshagsmuni. Eins og áður hafi verið rakið sé staða Blindrafélagsins og formanns þess sérstök. Með því að bjóða sig fram og gegna slíkri stöðu hafi stefnandi komið sér í aðstöðu sem opinber persóna. Sem slíkur hafi stefnandi orðið að þola að um hann og störf hans væri rætt á opinberum vettvangi, einkum ef umræðan beindist að ætluðu misferli gagnvart félagsmönnum. Nauðsynlegt hafi verið að varðveita orðspor Blindra­félagsins og að enginn vafi væri á því að ámælisverð hegðun stjórnenda félagsins gagnvart ungum, óreyndum félagsmanni væri óásættanleg. Þá hafi verið talið mikilvægt að slík mál væru ekki þögguð niður og hylmt yfir þau. Stefndu telja rétt í þessu sambandi að benda á að þau hafi ekkert tjáð sig við fjölmiðla og ekkert gert til þess að mál þetta yrði fréttaefni, hvorki í aðdraganda ákvörðunarinnar né dagana og vikurnar á eftir. Aftur á móti hafi stefnandi sjálfur verið mjög virkur í því að blása málið upp sem fréttaefni, hafi hann mætt í fjölda viðtala o.s.frv. Sú mikla athygli sem málið hafi fengið, hafi þannig ekki síst verið af hans völdum. Hann hafi komið sjónarmiðum sínum að á mörgum fjölmiðlum og sagt sína sögu og fært fram sínar útskýringar. Umfjöllun stefnanda hafi m.a. falið í sér staðhæfingar í garð stefndu, eða hluta þeirra, sem ekki eigi sér nokkra stoð í raunveruleikanum. Stefndu hafi þó ekki kvartað yfir þeirri umfjöllun. Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og innan þeirrar sýknukröfu felist allar kröfur sem gangi skemur.  Stefndu byggja jafnframt á því að jafnvel þótt ummælin, eða einhver hluti þeirra, verði dæmd dauð og ómerk þá séu skilyrði miskabóta ekki til staðar. Stefnandi sjálfur geri þá kröfu að „við mat á miskabótakröfu [beri] að líta til 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940“. Þessi málsástæða sé mjög óljós og algerlega órökstudd, enda sé ekki krafist refsingar í málinu. Þó beri að geta tveggja atriða í því sambandi. Annars vegar að mat á skilyrðum miskabóta miðist við ásetning til brotsins, enda sé það í samræmi við huglægar kröfur ofangreindra lagaákvæða. Hins vegar geri 1. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga þá kröfu að ærumeiðandi aðdróttun hafi verið höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund. Verða miskabætur þannig ekki dæmdar nema sýnt sé fram á að stefndu hafi vitað betur en komi fram í ummælunum, þ.e. að þau hafi beinlínis sagt ósatt. Stefnandi beri auðvitað sönnunarbyrðina fyrir því samkvæmt meginreglum um sönnunarbyrði í refsirétti og skaðabótarétti. Verði talið að skilyrði miskabóta séu til staðar þá krefjast stefndu verulegrar lækkunar, enda sé sú fjárhæð sem stefnandi geri kröfu um í engu samhengi við dómafordæmi. Sönnunarbyrði um tjón og umfang þess hvíli á þeim sem krefjist bótanna. Hér verði að lokum að geta þess að b-liður 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé einungis heimildarákvæði og því sé dómstólum ekki skylt að dæma miskabætur jafnvel þótt þeir telji að öllum skilyrðum ákvæðisins og stjórnarskrárinnar sé fullnægt. Dómstólar hafi þannig svigrúm við þessar aðstæður til að meta hvort aðstæður allar leiði engu að síður til þess að ekki beri að dæma miskabætur. Krafa stefnanda um greiðslu kostnaðar við birtingu dóms sé byggð á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það ákvæði eigi hins vegar eingöngu við um „þann, sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun“. Ákvæðið vísi þannig til þess að maður þurfi að vera sakfelldur fyrir brot gegn 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga, sem fjalli um ærumeiðandi aðdróttanir. Þessi krafa stefnanda eigi því engan rétt á sér í þessu máli þar sem ekki sé krafist refsingar samkvæmt ofangreindum ákvæðum. Auk þess telja stefndu enga ástæðu til þess að greiða kostnað af birtingu dóms. Fari svo að dómur falli stefnanda í hag sé rétt að birting fari fram á sama vettvangi og þau ummæli sem málið er sprottið af, þ.e. á heimasíðu Blindrafélagsins, blind.is. Stefndu hafi hvorki miðlað né samþykkt miðlun ummælanna til annarra fjölmiðla en heimasíðu félagsins, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Verði fallist á kröfu um miskabætur og vexti telja stefndu að framangreind sjónarmið eigi a.m.k. að leiða til þess að vextir verði ekki dæmdir fyrr en að liðnum mánuði frá dómsuppsögu, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Um önnur lagarök vísa stefndu um málskostnaðarkröfu til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  IV Niðurstaða Stefndu telja kröfugerð málsins óljósa og órökstudda, enda sé ekki krafist refsingar í málinu. Þá hafi ummælin ekki verið sett fram sem sjálfstæð yfirlýsing, heldur sem hluti af ákvörðun stjórnar og til útskýringar fyrir félagsmenn og ekki sé hægt að krefjast ómerkingar ummæla í ákvörðun, nema að ákvörðunin sjálf verði fundin ólögmæt. Um þetta atriði þykir nægjanlegt að vísa almennt til dómaframkvæmdar Hæstaréttar þar sem dæmt hefur verið í málum sem þessum með vísan til ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940, án þess að refsingar sé jafnframt krafist, og heimild stendur til í 3. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá eru engin lagarök eða nauðsyn sem liggur því til grundvallar að haga verði kröfugerð með þeim hætti að jafnframt sé krafist ógildingar ákvörðunar þeirrar þar sem ummælin birtust. Stefnandi krefst þess að eftirfarandi tvenn ummæli verði dæmd dauð og ómerk með vísan til 1. mgr. 51. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011, sbr. og til 234. gr., 235. gr., 1. og 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. a.        vélað ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt. b.        þá hefur formaður með athæfi sínu misnotað vald sitt og brugðist trausti þessa unga félagsmanns og þar með sýnt af sér siðferðislegt dómgreindarleysi. Stefndu vísa til þess að ummælin feli í sér gildisdóm sem falli innan tjáningarfrelsis 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Séu staðhæfingar réttar, a.m.k. hafi þær verið settar fram í góðri trú auk þess sem við eigi rýmkað tjáningarfrelsi, enda sé stefnandi opinber persóna. Ummæli í staflið a í stefnu: Stjórn Blindrafélagsins átti sjálf engra hagsmuna að gæta tengda Fasteignafélaginu Hnjúki ehf. eða hafði við það viðskiptaleg tengsl. Þá er það ekki tilgangur eða hlutverk stjórnar Blindrafélagsins að hafa eftirlit með nefndu félagi eða að kveða á um það hvort réttilega hafi verið staðið að stofnun þess félags eða hvernig hlutafjárframlagi félagsins hafi verið háttað. Stjórn Blindrafélagsins var ekki rétti aðilinn til þess að kveða á um, hvað væri rétt og rangt um þau atriði milli tveggja einstaklinga, þótt þeir einstaklingar hafi báðir verið stjórnarmenn í Blindrafélaginu. Í máli þessu eru ekki forsendur til þess að ákvarða hvort pottur hafi verið brotinn í starfsemi Fasteignafélagsins Hnjúks ehf. Fyrir dóminn komu vitni með sérfræðiþekkingu og staðfestu að réttilega hefði verið staðið að stofnun félagsins lögum samkvæmt og að eign A hafi verið þar skráð, sama hvernig greiðslum A inn á reikning stefnanda var háttað. Þá liggur fyrir staðfesting í málinu um að A hafi fengið alla sína fjármuni greidda út úr félaginu. Í fundargerð stjórnar Blindrafélagsins þann 22. september 2015 segir að stefndu hafi undir höndum upplýsingar sem feli í sér að mjög alvarlegur trúnaðarbrestur sé kominn upp milli stefnanda og stefndu, „ef réttar væru“. Er jafnframt fært til bókar að A, varamaður í stjórn félagsins, hafi óskað eftir því að stjórnin aðstoðaði hann við að ná til baka fjármunum sem stefnandi hefði haft út úr honum. Stefndu höfðu í þrjá daga fyrir fundinn rætt málefnið sín á milli og ákveðið að hafa leynd um málið, auk þess sem gerð voru drög að umþrættri ályktun þegar þann 21. september 2015, út frá þeim gögnum sem stefndu höfðu þá undir höndum. Þau gögn voru tölvuskeyti og greiðsluseðlar sem A lét þeim í té og vottorð hlutafélagaskrár um Fasteignafélagið Hnjúk ehf. sem stefndu öfluðu. Stefndu fengu engin frekari gögn í hendur áður en ályktunin var birt, en báru að þau hefði sannfærst um að ávirðingarnar væru réttar út frá afstöðu stefnanda sjálfs á nefndum fundi. Hefði orðalag ályktunarinnar eftir það verið mikið rætt og orðin „að féflétta“, „að svíkja“ og „plata“ komið upp í þeirri umræðu, en þau hafi annaðhvort verið talin of harkaleg eða of léttvæg en sumir hinna stefndu báru að þeir hefðu viljað taka sterkar til orða en gert hefði verið. Af þessu er ljóst að stefndu töldu háttsemi stefnanda refsiverða áður en fundur stjórnar var haldinn þann 22. september 2015. Ályktunin var byggð á takmörkuðum hlutlægum og munnlegum upplýsingum án þess að stefndu hefðu fulla yfirsýn yfir málefnið. Með vísan til framangreinds geta stefndu ekki byggt á því í um staflið a í stefnu að þau hafi verið í góðri trú um réttmæti yfirlýsingarinnar. Að mati dómsins verða ummælin „að véla“, í samhengi með öðrum ummælum í ályktuninni, ekki skilin með öðrum hætti en verið sé að vísa til þess að stefnandi hafi blekkt viðkomandi einstakling til vafasamra viðskipta og haft af honum allt sparifé hans. Er jafnframt vísað til þess að „málið“ sé komið í hendur á lögmanni. Er þannig gefið í skyn að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi, háttsemi sem gæti átt undir 248. gr. eða 253. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ef rétt væri. Í ályktun stefndu segir: „Málsatvik eru þau ...“. Orðalag ályktunarinnar er ekki sett fram með þeim hætti að um gildisdóm sé að ræða, heldur felist í því fullyrðing um tiltekna refsiverða háttsemi. Sönnun fyrir réttmæti þessara ummæla hvílir á stefndu. Í greinargerð stefndu segir að A hafi kært stefnanda til lögreglu, en ekkert er sannað um þá staðhæfingu. Ekki liggur fyrir í hverju meint blekking eða vélun hafi verið fólgin, enda ekki ljóst af gögnum málsins hjá hverjum frumkvæðið var að þessum samskiptum og ekki liggur fyrir að ásetningur hafi staðið til þess hjá stefnanda að hafa af nefndum einstaklingi fé. Eru ummælin því ósönnuð. Með vísan til alls framangreinds er ekki hægt að fallast á það með stefndu að um hafi verið að ræða gildisdóm sem falli innan tjáningarfrelsis þeirra. Þá er með sama hætti ekki hægt að fallast á þá málsástæðu stefndu að framangreind atriði tengdu nefndu hlutafélagi hafi varðað þjóðfélagshagsmuni eða að við eigi rýmkað tjáningarfrelsi um það málefni gagnvart stefnanda á þeim grundvelli að stefnandi hafi verið opinber persóna. Óumdeilt er að ummælin voru birt á heimasíðu Blindrafélagsins, blind.is að beiðni stefndu, sem bera því ábyrgð á ummælunum samkvæmt ákvæði a-liðar 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla. Með vísan til framangreinds verður talið að ummælin í staflið a lið í stefnu, vélað ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt, hafi falið í sér ærumeiðandi aðdróttun í garð stefnanda í merkingu 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verða hin óviðurkvæmilegu ummæli dæmd ómerk að kröfu stefnanda, með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Ummæli í staflið b í stefnu: Í nefndum ummælum er vísað til þess að það sé mat stjórnar félagsins að stefnandi hafi með athæfi sínu misnotað vald sitt, brugðist trausti og sýnt af sér siðferðislegt dómgreindarleysi. Ekki voru til skráðar siðareglur eða starfsreglur hjá stjórn Blindrafélagsins á þeim tíma sem mál þetta tekur til og ekki hefur af hálfu stefndu verið sýnt fram á skyldu stefnanda til þess að upplýsa stjórn Blindrafélagsins um viðskiptaleg tengsl sín. Með orðinu „athæfi“ stefnanda í ummælunum, verður ekki fullyrt í öðru samhengi að verið sé að vísa til refsiverðrar háttsemi, heldur til þess að það sé mat stefndu að stefnandi hafi sem formaður Blindrafélagsins brotið óskráðar siðareglur Blindrafélagsins með því að upplýsa ekki um framangreind viðskiptatengsl hans við annan stjórnarmann. Ekki er talið að í ummælunum felist móðgun eða aðdróttun um eitthvað sem ekki er fótur fyrir, enda óumdeilt að framangreind viðskiptatengsl áttu sér stað og ekki er óeðlilegt að stjórn Blindrafélagsins hafi á því siðferðislega skoðun og ákveði að leggja þá skoðun fyrir félagsfund til ákvörðunar. Með vísan til framangreinds telst vera um að ræða gildisdóm um staflið b í stefnu, um málefni sem stefnandi, sem formaður Blindrafélagsins, þurfti að þola umræðu um. Verður því ekki fallist á að ómerkja þau ummæli og stefndu sýknuð af þeirri kröfu. *** Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða honum óskipt 1.800.000 krónur í miskabætur, auk nánar tilgreindra vaxta og dráttarvaxta. Krafan er byggð á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í hinum ómerktu ummælum stefndu í a-lið stefnu, fólst ólögmæt meingerð gegn æru og persónu stefnanda. Eru ummælin meinlegri fyrir þær sakir að þau eru borin fram sem hluti rökstuðnings fyrir vantrausti og riftun á ráðningarsamningi og afturköllun skipunar hans í ráð og nefndir sem fulltrúa Blindrafélagsins. Stefndu bera óskipta ábyrgð á því ófjárhagslega tjóni stefnanda sem af ummælunum leiddi samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalagalaga. Þykja miskabætur stefnanda til handa, að öllum atvikum máls virtum, hæfilega ákveðnar 900.000 krónur, með vöxtum og dráttarvöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði.  Stefnandi gerir kröfu um að stefndu verði dæmd til að greiða honum óskipt 500.000 krónur til að kosta birtingu á forsendum og dómsorði í máli þessu í tveimur dagblöðum og er krafan studd ákvæði 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Til þess er að líta að hin ómerktu ummæli voru birt á heimasíðu Blindrafélagsins, blind.is þótt þau hafi síðar ratað í fjölmiðla. Þykja því ekki nægjanleg efni til þess að dæma stefndu til að greiða stefnanda peningafjárhæð til að kosta birtingu dómsins opinberlega í tveimur dagblöðum. Með vísan til úrslita málsins, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að dæma stefndu til að greiða stefnanda óskipt hluta málskostnaðar hans, sem er að mati dómsins með þeim hætti sem nánar greinir í dómsorði, að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts. Dóm þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari. DÓMSORÐ: Eftirtalin ummæli í kröfulið a í stefnu skulu vera dauð og ómerk: vélað ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt. Stefndu, Halldór Sævar Guðbergsson, Baldur Snær Sigurðsson, Rósa María Hjörvar, Lilja Sveinsdóttir, Guðmundur Rafn Bjarnason og Rósa Ragnarsdóttir, skulu sýkn af kröfu stefnanda, Bergvins Oddsonar, um ómerkingu ummæla þeirra sem um getur í kröfulið b í stefnu. Stefndu greiði stefnanda óskipt 900.000 krónur í miskabætur með 4,7% vöxtum, skv. 4. gr. laga nr. 38/2001, sbr. og 8. gr. sömu laga, frá 22. september 2015 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. og 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Stefndu greiði stefnanda óskipt 750.000 krónur í málskostnað.  
Mál nr. 623/2017
Skuldamál Fjármálafyrirtæki Gengistrygging Ógilding samnings Brostnar forsendur Tómlæti Viðtökudráttur
L hf. krafðist greiðslu skuldar á grundvelli fjölmyntaláns sem J tók hjá bankanum og óumdeilt var að hefði verið tengt gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Þá krafðist L hf. jafnframt að honum yrði heimilt að gera fjárnám hjá E og L ehf. fyrir eignarhluta þeirra í tilteknum fasteignum sem settar voru að veði til tryggingar endurgreiðslu lánsins. J, E og L ehf. reistu sýknukröfu sína á því að lánið hefði verið að fullu greitt upp með tiltekinni greiðslu J til L hf. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að J bæri að greiða L hf. hina umkröfðu fjárhæð að frádreginni þeirri greiðslu sem J hafði innt af hendi. Var hvorki talið að óskráðar reglur um réttaráhrif brostinna forsendna né 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að sýkna bæri J af fjárkröfunni. Þá yrði krafan ekki lækkuð með vísan til réttarreglna um viðtökudrátt eða tómlæti eða á þeim grundvelli að J hefði gert L hf. lögmætt greiðslutilboð sem sá síðarnefndi hefði hafnað. Loks var L hf. heimilað að gera fjárnám í fasteignum E og L ehf. fyrir fjárkröfu þeirri sem um ræddi í málinu, en fyrir Hæstarétti afmarkaði L hf. kröfur sínar nánar hvað þetta varðaði.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson og Símon Sigvaldason dómstjóri. Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 29. september 2017. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda en til vara að kröfur hans verði lækkaðar. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 13. desember 2017. Hann  krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað í héraði, sem hann krefst, og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Aðaláfrýjandinn Jón Þór tók 23. ágúst 2007 fjölmyntalán hjá Landsbanka Íslands hf., forvera gagnáfrýjanda, í þeim tilgangi og með þeim kjörum og veðtryggingum sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Lánið var í japönskum jenum og svissneskum frönkum að jafnvirði 11.000.000 krónur og skyldi greiðast að fullu með einni greiðslu afborgunar og vaxta við lok lánstímans 1. september 2008. Lánið fór í vanskil á umsömdum gjalddaga og nam fjárhæð þess þá 16.409.136 krónum. Í hinum áfrýjaða dómi eru rakin samskipti aðaláfrýjandans Jóns Þórs og gagnáfrýjanda allar götur frá því er framangreint lán fór í vanskil og þar til sá síðarnefndi höfðaði mál þetta til endurgreiðslu lánsfjárhæðarinnar og viðurkenningar á rétti sínum til að gera fjárnám í þeim fasteignum, sem settar höfðu verið að veði til tryggingar láninu, en fyrir þeim er nánari grein gerð í héraðsdómi. Framangreind samskipti lutu aðallega að því hvort og með hvaða hætti koma mætti láni aðaláfrýjandans Jóns Þórs í skil án þess að til málshöfðunar kæmi en samskipti þessi leiddu ekki til niðurstöðu svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Ágreiningslaust er með aðilum að lán það sem aðaláfrýjandinn Jón Þór tók umrætt sinn féll í flokk þeirra sem með dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 töldust vera lán í íslenskum krónum tengd gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2010, um breytingu á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, var lán hans ásamt lánum annarra lánþega hjá stefnda, sem líkt stóð á um, endurreiknað miðað við 1. apríl 2011. Námu eftirstöðvar lánsins 31.327.830 krónum fyrir endurútreikning en 17.020.778 krónum eftir hann. Gagnáfrýjandi beinir fjárkröfu í málinu að aðaláfrýjandanum Jóni Þór sem skuldara umrædds láns en kröfum um viðurkenningu á heimild til fjárnáms beinir hann að eigendum þeirra eigna sem settar voru að veði til tryggingar endurgreiðslu lánsins. II Aðaláfrýjendur krefjast eins og áður getur aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda en til vara lækkunar. Sýknukrafan er studd þeim rökum að áðurgreint lán sem gagnáfrýjandi veitti aðaláfrýjandanum Jóni Þór hafi að fullu verið gert upp með greiðslu hans til gagnáfrýjanda 2. janúar 2015 að fjárhæð 12.000.000 krónur. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest að hvorki óskráðar réttarreglur um réttaráhrif brostinna forsendna né regla 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga geti leitt til þeirrar niðurstöðu að aðaláfrýjandinn Jón Þór verði sýknaður af endurgreiðslukröfu gagnáfrýjanda. Þá er og með skírskotun til forsendna staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hvorki réttarreglur um viðtökudrátt né tómlæti geti leitt til þess að lækka beri fjárkröfu gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjandanum Jóni Þór. Þá er einnig með skírskotun til forsendna staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að krafa gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjandanum Jóni Þór verði ekki lækkuð á þeim grundvelli að hann hafi gert gagnáfrýjanda lögmætt greiðslutilboð í tölvupósti 21. júní 2010 sem sá síðarnefndi hafi hafnað. Af framangreindu leiðir að staðfest er niðurstaða héraðsdóms um skyldu aðaláfrýjandans Jóns Þórs til að greiða gagnáfrýjanda 17.095.244 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði og að frádreginni þeirri innborgun sem þar greinir. Við munnlegan flutnings málsins fyrir Hæstarétti afmarkaði gagnáfrýjandi nánar kröfur sínar um heimild til að gera fjárnám inn í veðrétt sinn í fasteignunum að Burknavöllum 8 í Hafnarfirði með fastanúmerinu 227-0316 og Lambhaga í Rangárþingi ytra með fastanúmerinu 219-5492. Lýsti gagnáfrýjandi því yfir að með þeim kröfum leitaði hann viðurkenningar á rétti til að gera fjárnám í umræddum eignum á grundvelli tryggingarbréfanna 20. júní 2005 nr. 0111-63-217201 og 27. ágúst 2007 nr. 0106-63-052144 einungis fyrir fjárkröfu sinni samkvæmt lánssamningi þeim sem um ræðir í málinu. Að gættri þessari yfirlýsingu um takmörkun á umfangi krafnanna og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um heimild gagnáfrýjanda til að gera fjárnám í umræddum eignum fyrir fjárkröfu þeirri sem um ræðir í þessu máli. Málskostnaðarákvæði hins áfrýjaða dóms skal vera óraskað. Eftir atvikum er rétt að hver aðili beri sinn kostnað af rekstri máls þessa fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, föstudaginn 4. ágúst 2017 Þetta mál, sem var endurflutt og tekið til dóms 20. júlí 2017, er höfðað af Lands­bank­anum hf., kt. [...], Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu birtri 14. október 2014 á hendur Jóni Þór Helgasyni, kt. [...], og Emilíu Þor­steins­dóttur, kt. [...], báðum til heimilis að Burknavöllum 8, Hafnarfirði svo og Lamb­haga­búinu ehf., kt. [...], Lambhaga, Hellu. Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjár­hæð 17.095.244 kr., ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 1. maí 2011 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 2. janúar 2015 að fjárhæð 12.000.000 kr. Stefnandi krefst þess einnig að honum verði með dómi heimilað að gera fjár­nám inn í veðrétt sem hann á í eignarhluta stefndu Emilíu í fast­eign með fasta­núm­erið 227-0316, að Burknavöllum 8, Hafnarfirði, ásamt til­heyr­andi hlutdeild í eign­ar­lóð og öllu því, sem eigninni fylgir og fylgja ber, sam­kvæmt tryggingar­bréfi nr. 0106-63-052144, útgefnu 27. ágúst 2007, til tryggingar skuldum stefnda Jóns Þórs fyrir samtals 61.227.692 kr. Stefnandi krefst þess jafnframt að honum verði með dómi heimilað að gera fjár­nám inn í veðrétt sem hann á í eignarhluta stefnda Lambhagabúsins ehf. í fast­eign­inni Lambhaga með landnúmerið 164528 og fastanúmerið 219-5492, Rangár­völlum, ásamt til­heyr­andi hlut­deild í eign­ar­lóð og öllu því, sem eigninni fylgir og fylgja ber, sam­kvæmt trygg­ing­ar­bréfi nr. 0111-63-217201, útgefnu 20. júní 2005, til trygg­ingar skuldum stefnda Jóns Þórs fyrir samtals 24.757.113 kr. Stefnandi krefst málskostnaðar að mati dómsins, auk virð­is­auka­skatts af mál­flutn­ings­þóknun. Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Til vara krefjast þau þess að stefnukröfur verði lækkaðar verulega. Stefndu krefjast jafnframt málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda og virð­is­aukaskatts á málskostnað. Málsatvik  Í þessu máli er þremur stefnt. Einum lántaka og tveimur veðsölum. Þar eð veð­sal­arnir koma lítið við sögu málavaxta verður lántakinn, Jón Þór, nefndur stefndi án frek­ari tilgreiningar.  Stefndi starfaði hjá Landsbanka Íslands hf. í sex og hálft ár sem sér­fræðingur í fyrir­tækja­viðskiptum en hætti störfum þar í október 2007. Vitnið Daníel Jakobs­son, gegndi sama starfi og stefndi en í öðru útibúi bankans. Að hans sögn var stefndi, á þessum tíma, í hópi tíu mestu lánasérfræðinga bankans. Eftir starfslok hjá bankanum vann stefndi á öðrum vett­vangi í tæpt ár en fór þá í nám. Hann starfaði hjá annarri banka­stofnun frá október 2009 til des­em­ber 2010 við að endurskipuleggja lán fyrir­tækja. Stefndi og eigin­kona hans, Emilía Þorsteinsdóttir, seldu hús á Álftanesi og keyptu sér annað að Burkna­völlum 8 í Hafnarfirði árið 2007. Til kaupanna tók stefndi lán hjá Landsbanka Íslands en það lán kemur svo gott sem ekk­ert við sögu þessa máls. Hjónin munu hafa fest sér húsið í Hafnarfirði áður en eignin á Álftanesi seldist. Af þeim sökum stóðust illa á greiðslur sem þau áttu að fá frá þeim sem keypti húsið á Álfta­nesi og þær greiðslur sem þeim bar að inna af hendi fyrir húsið í Hafnarfirði. Þess vegna tók stefndi annað lán, 23. ágúst 2007, það lán sem er orsök þessa máls, og er í gögnum nefnt „brúunarlán“. Sá láns­samn­ingur fékk númerið 0111-36-9067 og er kall­aður fjöl­mynta­lán. Samningurinn nam upp­haflega jafn­virði 11.000.000 kr., helm­ing­ur­inn í jap­önskum jenum og helm­ing­ur­inn í sviss­neskum frönkum (JPY 50% og CHF 50%). Fjár­hæð höfuðstóls þess var sem sagt tengd gengi þessara tveggja gjaldmiðla á láns­tím­anum sem var eitt ár. Stefndi segir þennan skamma lánstíma skýr­ast af því að aðeins hafi verið þörf á að brúa það sex mánaða bil sem var á milli greiðslna sem hann átti að inna af hendi og þeirra sem hann átti að fá. Lánið skyldi greið­ast að fullu með einni greiðslu afborg­unar og áfall­inna vaxta í lok láns­tím­ans, 1. sept­em­ber 2008. Greiða skyldi LIBOR-vexti af láninu, eins og þeir væru ákveðnir fyrir framangreinda gjald­miðla á alþjóðlegum fjármálamarkaði, ásamt 2,5% vaxtaálagi. Stæði lán­taki ekki skil á greiðslu vaxta eða afborg­ana á gjalddaga bar honum sam­kvæmt samn­ing­num að greiða dráttar­vexti samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af gjald­fall­inni fjár­hæð frá gjalddaga til greiðslu­dags. Greiðsluáætlun vegna lánsins var gefin út á lántökudegi, 23. ágúst 2007. Sam­kvæmt henni stóð til að á gjalddaga þyrfti stefnandi að greiða sem næst 11.550.000 kr. Lánið var strax greitt út og í íslenskum krónum, alls 10.934.000 kr., en þá höfðu lán­töku­gjald og kostnaður verið dregin frá. Til tryggingar greiðslu lánsins var sett tryggingarbréf nr. 0106-63-052144 sem veitir veð í fasteigninni að Burknavöllum 8, Hafn­ar­firði, sem stefndu Jón Þór og Emilía eiga til helm­inga. Stefndi Jón Þór gaf trygg­ingar­bréfið út 27. ágúst 2007 til trygg­ingar öllum skuldum og fjár­skuld­bind­ingum sínum, upphaflega að fjár­hæð 39.600.000 kr., verð­tryggt sam­kvæmt vísi­tölu neyslu­verðs. Trygg­ing­ar­bréfið var afhent sýslu­mann­inum í Hafn­ar­firði til þinglýsingar 30. ágúst 2007. Lánssamningur nr. 0111-36-9067 er einnig tryggður með tryggingarbréfi nr. 0111-63-217201 sem veitir veð í jörðinni Lamb­haga, Rang­ár­þingi ytra. Eigandi þeirrar fast­eignar er stefndi Lambhagabúið ehf. Stefndi, Jón Þór, gaf trygg­ing­ar­bréfið út 20. júní 2005, til trygg­ingar öllum skuldum og fjár­skuld­bind­ingum sínum upp­haf­lega að fjár­hæð 14.100.000 kr. verð­tryggt samkvæmt vísi­tölu neysluverðs. Trygg­ing­ar­bréfið veitti upp­haflega veð í hús­inu sem stefndu Jón Þór og Emilía áttu á Álfta­nesi. Við­auki var gerður við trygg­ing­ar­bréfið 5. september 2007. Með honum var bank­anum til við­bótar fyrri trygg­ing­ar­réttindum einnig sett að veði fast­eignin Lamb­hagi, Rang­ár­þingi ytra, með land­núm­erið 164528 og fastanúmer 219-5492. Viðaukinn var afhentur til þing­lýs­ingar 10. sept­em­ber 2007. Enn á ný var gerður viðauki við tryggingarbréfið 14. sept­em­ber 2007. Með honum var fast­eignin á Álftanesi leyst úr veð­böndum. Við­auki var gerður við trygg­ing­ar­bréfið 8. desember 2010, veð­bands­lausn að hluta þar sem leyst var undan veð­böndum Lambhagi lóð 219768, fastanúmer 219768, Rang­ár­þingi ytra. Eftir þessa veð­bands­lausn stóðu eftir veð­rétt­indi stefnanda í Lamb­haga, Rang­ár­þingi ytra, land­númer 164528 og fastanúmer 219-5492. Að sögn stefnda var ætlunin að greiða brúunarlánið upp um leið og honum bær­ust kaup­samn­ings­greiðslur fyrir húsið á Álftanesi. Þær bárust, að hans sögn að hluta í lok janúar 2008 og það sem eftir stóð í febrúar sama ár, alls 12.000.000 kr. Þá hafði íslenska krónan veikst nokkuð og fjárhæð lánsins var, vegna gengis­trygg­ing­ar­innar, orðin nokkru hærri en kaup­samningsgreiðslurnar og jafn­framt hærri en kom fram í greiðslu­áætl­un­inni, sem fylgdi láninu. Samkvæmt útreikn­ingi stefnanda hefði upp­greiðslu­virði lánsins í lok janúar 2008 numið tæplega 12.600.000 kr. Stefndi segist hafa beðið með að greiða lánið upp að ráðleggingum starfs­manna stefnanda þar eð allar líkur hafi verið á því að íslenska krónan myndi styrkjast og á þeim tíma hafi verið jákvæður vaxta­munur lántaka í hag milli útlánsvaxta lánsins og inn­láns­vaxta á reikningi með kaup­samn­ings­greiðslum. Í samræmi við lánssamninginn féll lánið í gjalddaga 1. september 2008. Láns­fjár­hæðin ásamt vöxtum nam þá um það bil 16.410.000 kr. vegna geng­is­trygg­ing­ar­innar. Að sögn stefnda hafði þáverandi úti­bús­stjóri stefn­anda hug­myndir um að breyta lán­inu í íslenskt lán og ætti stefndi að greiða mis­mun­inn á lán­inu og inn­stæðu sinni að fjár­hæð 12.000.000 kr. Úti­bús­stjór­inn, Daníel Jakobs­son, og stefndi hafi þó á þessum tíma reynt að fá leyfi til þess að framlengja lánið, vegna þess að íslenska krónan hafði fallið mikið. Jákvæður vaxta­munur hafi þá verið á íslensku krón­unni og þeim myntum sem lánið tengdist. Hins vegar hafi verið ákveðið að halda láninu eins og það stóð og sjá hver fram­vindan yrði. Vitnið Daníel Jakobsson rám­aði ekki í að hann hefði komið neitt að því að framlengja lánið eða breyta því, í skýrslu sem hann gaf við aðal­með­ferð. Í málinu eru ekki heldur gögn um það að sótt hafi verið um að framlengja lánið eða gera viðauka við það. Fjármálaeftirlitið ákvað 7. október 2008, með heim­ild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjár­mála­fyrir­tæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjár­veit­ingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjár­mála­mark­aði o.fl., að taka yfir vald hlut­hafa­fundar Landsbanka Íslands hf. og skipa félaginu skilanefnd sem tók yfir allt vald banka­stjórnar. Tveimur dögum síðar, 9. okt­ó­ber 2008, ákvað eftirlitið með heim­ild í áður nefndum lögum að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, til Nýja Lands­banka Íslands hf., kt. 471008-0280, sem heitir nú Lands­bank­inn hf. Þar á meðal því láni sem er orsök þessa máls. Þó mun um nokkurn tíma hafa verið óvissa um hvort stefnandi yfirtæki lán sem þetta. Vegna hins mikla gengisfalls tók einnig við óvissa um hvernig ætti að meðhöndla gengistryggð lán, sem síðar kom í ljós að voru ólög­leg. Vitnið Arnheiður Klausen Gísladóttir var útibússtjóri hjá Landsbanka Íslands hf. frá því í byrjun árs 2007, á sviði einstaklingsviðskipta, og gegndi eftir „hrun“ sama starfi hjá stefn­anda. Ekki eru til nein gögn um samskipti stefnanda og starfsmanna Landsbankans hf., sem tók, eins og áður greinir, við kröfu Landsbanka Íslands, vegna þessa láns fyrr en í janúar 2010. Að sögn Arnheiðar kom stefndi, sem þá starfaði í öðrum banka, stundum í heim­sókn og þau ræddu málin yfir kaffibolla. Af þeim sökum séu samskipti þeirra ekki samfelld í tölvu­skeytum. Í upphafi árs 2010 hafi lánið verið í vanskilum í vel ríf­lega ár og því hafi verið þrýst á hana að senda það í lögfræðiinnheimtu. Hún kvaðst því hafa hvatt stefnda til þess að semja við bankann. Í tölvupósti 13. janúar 2010 sendi hann henni fyrstu gögn fyrir greiðslumat. Í þeim tölvupósti segist stefndi reyndar bjart­sýnn á að geta losað sig við lánið með skuldajöfnuði við slitabú gamla bank­ans en óskar engu að síður eftir til­lögu að lausn. Í apríl sama ár sendi Arnheiður honum umsókn um úrræði vegna greiðslu­erfið­leika. Í byrjun maí rekur hún á eftir því að fá gögn til þess að hún geti haldið áfram að koma í veg fyrir að lánið verði sent í lög­fræði­inn­heimtu og aftur í lok maí. Hæstiréttur kvað upp dóma 16. júní 2010 þar sem komist var að þeirri nið­ur­stöðu að fjölmyntalán, eins og stefndi tók, væri lán í íslenskum krónum tengt gengi erlendra gjaldmiðla á ólögmætan hátt. Nokkrum dögum síðar, 21. júní 2010, ritaði stefndi Arnheiði tölvupóst og lagði til að brúunarlánið yrði greitt upp miðað við höfuðstól að viðbættum erlendum vöxtum frá lán­töku­degi. Hann tók jafn­framt fram að stefnandi gæti farið í mál við hann teldi stefn­andi sig eiga ríkari rétt en þessu næmi. Stefndi hefði þá komið sínum málum í réttan farveg í bili og hægt væri að losa pen­inga sem lágu á innlánsreikningi. Stefndi fór ekki fram á að neinum trygg­ingum yrði aflétt. Í lok árs 2010 nam húsnæðislán stefnda um 80.087.000 kr. og brúunarlánið um 29.178.000 kr. Vitnið Arnheiður hringdi í stefnda í lok þessa dags. Að sögn stefnda var það til þess að tilkynna að stefn­andi gæti ekki orðið við til­lögu stefnda, þar eð stefn­andi vissi ekki hvort brúunarlánið væri ólög­legt. Hún hafi sömuleiðis ekki talið sig geta tekið við pen­ingunum því þennan morg­un hafi yfirstjórn bankans til­kynnt að hún teldi sig ekki vita hvaða vexti ætti að reikna á lán sem þessi. Því vildi yfir­stjórnin að beiðnin biði. Fyrir dómi kvaðst Arnheiður telja að stefndi, sem bankamaður, hafi vitað að það gengi ekki að gera bankanum tilboð sem þetta. Á þessum tíma hafi lánið ekki verið endurreiknað og því óvissa um það hver endurreiknaður höfuð­stóll ætti að vera. Til­lög­unni hafi verið hafnað þar eð ekki hafi verið hægt að vinna út frá henni. Í lok júní 2010 ritaði stefndi Arnheiði aftur og óskaði eftir því að bankinn tæki lána­mál hans fyrir. Hann benti á að ekkert tillit hafi verið tekið til þeirrar kröfu sem hann hafi gert við slit gamla bankans. Í öðru lagi hafi Hæstiréttur dæmt lánin ólög­leg. Í þriðja lagi leggi hann áherslu á að losa veðið af Lamb­haga­búinu því hann vilji ekki að skuldir hans falli á ættingja sína. Bankinn vann mat á greiðslugetu stefnda árið 2010 og í framhaldi af því var honum, að sögn Arnheiðar, kynnt tillaga að lausn málsins sem stefnda hugnaðist ekki. Um miðjan september 2010 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að gengis­tryggð lán sem hefðu verið metin ólögmæt skyldu bera vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Um miðjan desember 2010 voru sett lög nr. 151/2010 sem breyttu lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Eftir breytinguna segir í 1. mgr. 18. gr. þeirra að telj­ist samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti ógild skuli peningakrafan bera vexti skv. 1. málslið 4. gr., enda eigi önnur ákvæði 18. gr. greinar ekki við. Vextir samkvæmt 4. gr. eru vextir sem Seðla­banki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum, almennum, óverð­tryggðum útlánum hjá lánastofnunum. Snemma árs 2011 stofnaði stefndi, ásamt nokkrum öðrum, félag um að fá sænsku varahlutakeðjuna Mekonomen A/S til landsins. Stefndi kvaðst hafa lánað félag­inu, í mars 2011, 11.000.000 kr. í stað þess að hafa þær á lágum vöxtum í bank­anum. Þannig hafi hann getað sparað fyrirtækinu vaxtagreiðslur. Hann var fjár­mála­stjóri félagsins og kvaðst ætíð hafa getað losað þá fjárhæð sem hann lánaði hefði hann þurft á því að halda. Vegna dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána svo og um hvaða vexti slík lán skyldu bera hóf bankinn að end­ur­reikna lán viðskiptavina sinna í sam­ræmi við ákvæði laga nr. 151/2010. Það var mat bank­ans, sem stefndi hefur ekki mót­mælt, að brúunarlán stefnda væri gengistryggt. Í sam­ræmi við ákvæði laganna voru eftir­stöðvar lánsins endur­reikn­aðar miðað við lægstu óverð­tryggðu vexti sem Seðla­banki Íslands birtir, sbr. 10. gr. sömu laga. Eftir­stöðvar láns­samn­ingsins fyrir endur­reikn­ing námu 31.327.830 kr. en eftir endur­reikn­ing námu þær 17.020.778 kr. End­ur­reikn­ingurinn miðaðist við 1. apríl 2011. Að sögn stefnda mótmælti hann ætíð þessum endurreikningi með vísan til for­sögu máls­ins og þeirrar staðreyndar að hann hafi ætíð haft til reiðu 12.000.000 kr. til þess að greiða upp lánið eins og ávalt stóð til þegar kaupsamningsgreiðslur höfðu verið greiddar í janúar 2008. Stefnda var send tilkynning um vanskil 3. maí 2011, ítrekun 30. maí 2011 og inn­heimtu­bréf 1. desember 2011. Á síðustu dögum júnímánaðar 2011 ritaði stefndi Arnheiði og spurði um stöð­una á málunum sínum. Hún svaraði og sagði að mál hans hefði legið óhreyft hjá henni vegna þess að hún biði eftir viðbrögðum frá honum. Í tölvuskeyti hennar kemur fram að 110% aðlögun húsnæðiskaupaláns hafi verið sam­þykkt fyrir stefnda í desember 2010 en hann hafi ekki gengið frá því. Hún hafi nú gefist upp og sent lánið í lög­fræði­inn­heimtu en hafi stefndi áhuga á að gera eitt­hvað í lána­mál­unum sé hægt að ná mál­inu úr lögfræði­inn­heimt­unni. Miðað við hversu lágt fast­eigna­matið á húsinu hans var ætti hann að fara sjálf­krafa í útreikning miðað við 110% af fast­eigna­mati. Hún var þó ekki viss um að brú­un­ar­lánið, með veði í Lamb­haga, félli undir greiðsluúrræðið „Lækkun ann­arra skulda“ en vildi athuga það betur. Hún tók þó fram að hann fengi enga vexti end­ur­greidda því hann hefði ekki greitt neitt inn á lánið. Stefndi ritaði bankanum greinargerð í lok júní 2011 og gerði grein fyrir sýn sinni á málið. Hann óskaði í fyrsta lagi eftir að fá niðurfellingu á húsnæðisláninu niður í 110% af fasteignamati eins og bankinn hafði boðið honum. Hann krafðist þess að gengið yrði frá brúarláninu honum að skað­lausu þannig að hann greiddi höfuðstólinn, 11 millj­ónir, og eina milljón að auki. Þá yrði trygg­ingar­bréf­inu aflétt af Lambhaga og mál­inu lokið. Hann gerði einnig grein fyrir því að þegar hann hafi séð að hann tapaði á geng­is­falli krónunnar hafi hann velt fyrir sér leið til að vinna tapið upp og hafi hugmynd hans verið sú að lágmarka tjónið með mun á vöxtum sem honum bæri að greiða af lán­inu og vöxtum sem hann fengi á inneign í íslenskum krónum. Honum finnist skítt að lánið hafi verið dæmt ólögmætt en hefði það verið íslenskt hefði hann að sjálfsögðu greitt það upp en ekki kerfisbundið skaðað sig á neikvæðum vaxtamun. Hann kvaðst einnig vilja koma málum sínum í skikk en ætlaði að gæta hagsmuna sinna eins og starfs­menn bankans gættu hagsmuna bankans. Viku síðar, 7. júlí 2011, ritaði Arnheiður honum og fagnaði því að hann sýndi samn­ings­vilja og sagðist myndi óska eftir endurupptöku á málum hans. Að sögn Arnheiðar lagði hún tillögu fyrir fagráð bankans í ágúst 2011. Málinu hafi þá verið frestað því fagráðið vildi fá endanlegan endurútreikning á brúunarláninu. Síðla í október 2011 ritaði stefndi Arnheiði og kvaðst hafa fengið húsnæðis­lánið endurreiknað en hann myndi aldrei samþykkja endurútreikning á brúarláninu þar eð það hafi verið ólöglegt. Í tölvupósti til Arnheiðar 2. nóvember 2011 kvaðst stefndi, vegna þess að bank­inn hefði gert við hann ólöglegan lánasamning og brotið gegn lögum um gjald­eyr­is­jöfnuð með því að eiga á þeim tíma ekki erlendu myntina sem var tilgreind í láns­samn­ingnum, hafa tekið ranga ákvörðun með því að halda 12 millj­ónum króna inni á reikn­ingi því hann hefði tapað vaxtamun á því. Hún svaraði því til að hún væri að skoða lausn fyrir hann. Arnheiður lagði mál stefnda aftur fyrir fagráð bankans í desember 2011 og þá var sam­þykkt, 21. desember, að stefndi greiddi 12 milljónir króna. Það sem eftir stæði af skuld­inni færi í feril sem hét „Lækkun annarra skulda“ og fólst í því að fólk greiddi í þrjú ár 10% af launum sínum, eftir að skattur hafði verið dreginn frá þeim. Að þremur árum liðnum voru eftirstöðvarnar felldar niður. Jafnframt átti að aflétta trygg­ing­ar­bréfinu af Lambhaga. Arnheiður bar að það hafi ætíð verið forgangsmál hjá stefnda að losa veðið af Lamb­hagabúinu. Hún kvaðst hafa viljað færa honum góðar fréttir fyrir jólin og hafi því hringt í hann á Þorláksmessu og gert honum grein fyrri þessu samþykki fagráðs bank­ans. Hún kvaðst einnig hafa rætt við hann milli jóla og nýárs en þá vegna íbúðar­láns­ins. Þá hafi stefndi ákveðið að greiða upp vanskil þess láns fyrir áramót til þess að hann fengi vaxtabætur. Arnheiður kunni ekki skýringar á því af hverju stefndi gekk ekki að til­boði bank­ans um uppgjör brúunarlánsins þótt í því fælist að veðinu yrði aflétt af Lamb­haga­búinu. Stefndi kveðst ekki hafa fengið neinar upplýsingar um þessa samþykkt fag­ráðs, hvorki munnlega né skriflega. Hann kvaðst hafa skilið efni símtalsins við Arn­heiði á Þor­láks­messu 2011 þannig að bank­inn ætlaði að setja hann í gjaldþrot með því að láta hann greiða af láninu vexti samkvæmt 4. gr. vaxtalaga. Stefndi tekur fram að í árslok 2011, hefði hann getað greitt í samræmi við sam­þykki fagráðsins, þótt hann hafi lánað félaginu Mekonomen lausafé sitt fyrr á árinu. Að sögn Arnheiðar giltu samþykktir fagráðs í sex mánuði og þar eð ekkert svar barst frá stefnda við samþykktinni frá í desember hafi hún þurft að leggja málið fyrir aftur. Í júlí 2012 fékk hún samþykkt fagráðsins frá 21. desember 2011 end­ur­vakta. Þá var stefnda boðin sama lausn nema hann þurfti að greiða vexti samkvæmt vaxtaflokki bank­ans K0 frá 21. des­em­ber. Arnheiður bar að þá hafi stefndi sagt henni að hann hefði lánað félaginu Mekon­omen 11 milljónir króna. Vegna svika samstarfsmanns síns í félaginu næði hann fénu ekki út úr félaginu og hefði því ekki fjármuni til að taka til­boðinu. Stefndi bar að hann hefði, af þeim 11 milljónum sem hann lánaði Mekonomen, fengið átta milljónir króna í ágúst 2012 þegar hann sagði skilið við félagið eftir svik sam­starfs­mannsins. Þar eð stefndi hafði ekki alla fjárhæðina til reiðu kveðst hann hafa leitað leiða með Arn­heiði í september 2012 um hvort ekki væri mögulegt að greiða þegar 8.000.000 kr. en stefnandi myndi lána 4.000.000 kr. og tryggingum yrði ekki aflétt fyrr en við fulla upp­greiðslu í samræmi við það. Þessari munnlegu beiðni hafi ekki verið svarað. Vitnið Arnheiður bar að stefndi hafi ekki haft greiðslugetu til að taka slíkt lán á þessum tíma. Að sögn stefnda ítrekaði hann beiðni um 4.000.000 kr. lán á fundi með Arn­heiði 17. janúar 2013 og hafi hún og Þór­halla Bald­urs­dóttir aðstoðarútibústjóri tekið vel í beiðn­ina. Í framhaldi af þeim fundi ritaði hann Arnheiði tölvupóst 17. janúar 2013 þar sem hann mælir svo fyrir að greiða skuli átta milljónir króna af tilteknum reikn­ingi hans í bankanum inn á brú­un­ar­lánið. Fyrir þessari greiðslu setur hann þó þann fyrirvara að hann missi ekki neinn rétt sem hann gæti fengið með því að greiða lánið ekki upp. Sama dag, 17. janúar 2013, svaraði hún að Fag­ráð fengi afrit af beiðn­inni ásamt skýringum á því sem þeim fór í milli. Gengið yrði frá milli­færsl­unni þegar hún hefði fengið „comment“ á það. Arnheiður kvaðst hafa sent fagráði bankans þetta boð og hafi óskað eftir því að fag­ráðssamþykktin gilti áfram. Fagráð hafi ekki viljað að samþykktin frá desember 2011 gilti nema stefndi greiddi að fullu 12 milljónir, vexti og „það sem átti að vera til við­bótar“. Hún hafi því ekki tekið átta millj­ónir af reikningi stefnda til þess að greiða inn á lánið. Hún bar að stefndi hefði hins vegar ætíð getað farið til gjaldkera, alveg frá því að hann tók lánið og óskað eftir að milli­færa hvaða fjárhæð sem var inn á það en það myndi hann þá gera án þess að setja bank­anum einhver skilyrði. Stefndi kveðst hafa tekið svari Arnheiðar 17. janúar 2013 þannig að komið væri á ein­hvers ­konar sam­komulag og hafi því beðið með að óska eftir að greiða inn á lánið þrátt fyrir nei­kvæðan vaxta­mun milli innláns- og útláns­vaxta. Á reikningum hans í bankanum hafi því legið átta millj­ónir króna sem bank­inn hafi fengið tekjur af á meðan. Stefnandi sendi stefnda bréf 12. nóvember 2013 þar sem kom fram að með dómum í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012 hafi Hæstiréttur meðal annars komist að þeirri nið­ur­stöðu að greiðslu­kvitt­anir hefðu jafn­gilt fullnaðarkvittunum og að endur­útreikn­ingur lána hefði átt að taka mið af því. Þar eð aldrei hafi verið greitt af lán­inu hafi bankinn ekki gefið út neinar fulln­aðar­kvitt­anir. Ekki þyrfti því að leið­rétta lánið frekar. Stefndi ritaði Arnheiði tölvupóst 23. janúar 2014 og minnti hana á að hann hefði beðið hana að taka átta milljónir króna upp í 12 milljónirnar sem þau hafi samið um. Nú hafi lánið verið hækkað úr 12 milljónum króna í 24 milljónir og þá hækkun geti hann ekki sætt sig við. Arnheiður kvaðst hvorki minnast þess að stefndi hefði komið eða skrifað henni tölvu­póst um að hún greiddi átta milljónir króna inn á lánið nema þann sem hann sendi henni 17. janúar 2013 þar sem hann setti þann fyrirvara að fagráðssamþykktin myndi engu að síður gilda. Mánuði síðar, 27. febrúar 2014, ritaði stefndi Arnheiði tölvupóst þar sem stóð að hann liti svo á að tæki hún átta milljónir af reikningi hans og greiddi inn á lánið þá stæði fag­ráðs­sam­þykktin enn. Hann taldi betra að fara með málið í gegnum fagráð fyrst og lagði til að hann kæmi í heimsókn eftir viku og þá yrði málið klárað. Stefndi bendir á að hann hafi langa reynslu af útlánum og samningum við banka og hafi starf­að sex og hálft ár í sama útibúi og veitti lánið. Hann hafi því vitað vel að að óbreyttu myndi hann ekki hagn­ast á að bíða með pen­inga inni á reikn­ingi. Arn­heiður hafi ekki heldur átt frum­kvæði að því að benda honum á betri lausn. Í apríl 2014 endurheimti stefndi 4.000.000 kr. og hafði þá fengið að fullu höfuð­stól þess sem hann hafði lánað Mekonomen. Hann hafði þá strax samband við stefn­anda og óskaði eftir að málið yrði tekið upp að nýju. Vitnið Arnheiður bar að þegar stefndi hefði haft alla peningana til reiðu vorið 2014 hafi þau farið að ræða saman aftur. Stefndi hafi þá á ný þurft að koma með gögn til þess að meta mætti greiðslugetu hans aftur þannig að leggja mætti málið á ný fyrir fag­ráð. Á þessum tíma hafi verið búið að breyta fagráði og komnir aðrir aðilar að mál­inu þar. Hún hafi lagt til að gamla tillagan, upphaflega frá desember 2011, yrði endur­vakin og stefndi fengi að greiða samkvæmt því. Á sama tíma hafi hún verið að færast yfir í fyrir­tækja­útibúið, nýr útibússtjóri verið kominn í einstaklingsútibúið og þar með nýr aðili að mál­inu innan bankans. Auk þess hafi fagráð ekki viljað að hún kæmi meira að mál­inu, sem fyrrum samstarfsmaður stefnda. Fagráð hafi jafnframt viljað að tekið yrði tillit til þess að myndast hefði eigið fé í húsi stefndu Jóns Þórs og Emilíu með verðhækkun á húsinu sem og í jörðinni Lamb­haga. Ráðið hafi ekki talið fært að ganga fram hjá þeirri vinnureglu að afskrifa ekki skuldir sem tryggingar séu til fyrir. Þegar hún hafi hætt að hafa afskipti af málinu hafi það staðið þannig að kalla hafi átt eftir frekari gögnum, meðal annars um verð­mæti jarðarinnar Lamb­haga og eignar stefnda. Síðan hafi átt að vinna málið áfram í úti­bú­inu. Henni virt­ist að vinna í því hafi dottið niður. Stefndi hefði þó getað ýtt á eftir því, hefði hann viljað. Málið virð­ist því hafa farið fljótlega í lögfræðiinnheimtu. Í tölvupósti sem Ásgeir H. Jóhannsson útibússtjóri sendi stefnda 12. febrúar 2015 kemur fram að áður en bankinn ákvað að höfða dómsmálið hafi lengi verið beðið eftir gögnum frá stefnda. Að sögn stefnda var hann ekki krafinn frekari gagna en hann hafði afhent vorið 2014 og hafi hann ekki frétt frekar af málinu, fyrr en með birtingu stefnu í októ­ber 2014, án nokk­urrar undanfarandi viðvörunar. Í desember 2014 lagði stefnandi til ákveðin greiðslukjör talsvert óhagstæðari en þau sem fólust í sam­þykktum fagráðs frá desember 2011 og júlí 2017. Meðal ann­ars átti ekki að aflétta veð­inu af Lambhaga. Með tölvupósti 2. janúar 2015 óskaði stefndi eftir því að bankinn millifærði af reikn­ingi hans 12.000.000 kr. en féllst ekki á greiðslukjör stefnanda. Hann kveðst engu að síður hafa leitað leiða til þess að leysa málið. Málsástæður og lagarök stefnanda Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi til þess að stefndi hafi ekki greitt lán sem fyrirrennari stefnanda, Landsbanki Íslands hf., veitti stefnda 23. ágúst 2007 þrátt fyrir margvíslegar tilraunir stefnanda til þess að fá lánið endurgreitt án málshöfðunar.    Eftirstöðvar lánsins hafi, þegar það var gjaldfellt 1. maí 2011, numið 17.020.778 kr. og áfallnir samningsvextir þann dag verið 74.466 kr. Samtalan, 17.095.244 kr., sé stefnu­fjár­hæðin. Stefn­andi vísar til þess að honum sé einnig nauðsynlegt að fá dóm þess efnis að honum sé heim­ilað fjárnám í fasteignum stefndu Emilíu og Lamb­haga­bús­ins ehf. að því marki sem veðtryggingin taki til dóm­kröf­unnar sam­kvæmt ákvæðum þeirra trygg­ingarbréfa sem hvíla á eign­ar­hlutum stefndu að Burkna­völlum 8, Hafnar­firði og Lamb­haga, Rang­ár­völlum. Bæði þessi bréf veiti alls­herj­ar­veð og því sé ekki unnt að fara beint í aðför sam­kvæmt 1. gr. laga nr. 90/1989 eða beið­ast nauð­ung­ar­sölu sam­kvæmt 6. gr. laga nr. 90/1991 á grund­velli þeirra. Upp­reiknuð staða tryggingarbréfsins sem veiti veð í Burknavöllum 8 hafi, 3. sept­em­ber 2014, numið 61.227.692 kr. Auk þess sé krafist dráttarvaxta eitt ár aftur í tím­ann frá nauðungarsölubeiðni, sbr. b-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997, um samn­ings­veð. Uppreiknuð staða trygg­ing­ar­bréfsins sem veiti veð í jörðinni Lambhaga hafi, 3. sept­em­ber 2014, numið 24.757.113 kr. Auk þess sé krafist dráttar­vaxta eitt ár aftur í tím­ann frá nauðungarsölubeiðni, sbr. b-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997, um samn­ings­veð. Kröfur sínar byggir stefnandi á meginreglu kröfu- og samningaréttar um greiðslu­skyldu fjár­skuld­bindinga. Kröfur um dráttarvexti, þar með talið vaxtavexti, styður hann við reglur III. kafla vaxtalaga, nr. 38/2001, einkum 1. mgr. 6. gr., 5. gr. og 12. gr. sömu laga. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einka­mála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því sé honum nauð­syn­legt að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefndu. Val á varnarþingi styðjist við 42. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en í 15. gr. í lánasamningi aðila sé svo samið að ágreiningsmál vegna samningsins skuli reka fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur. Aðild stefndu styðjist við 18. og 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Málsástæður og lagarök stefndu Aðalkrafa Aðalkröfu sína um sýknu af dómkröfum stefnanda byggja stefndu á því að krafa samkvæmt lánssamningi nr. 9067 sé að fullu uppgerð með greiðslu 2. janúar 2015 að fjárhæð 12.000.000 kr. með vísan til eftirfarandi málsástæðna: Brostnar forsendur lántaka Eins og áður sé rakið hafi stefndi, Jón Þór, tekið lán samkvæmt lánssamningi nr. 9067 vegna þess að stefndu, honum og Emilíu, bárust ekki kaup­samn­ings­greiðslur á umsömdum tíma. Greiðsl­urnar hafi verið væntanlegar innan nokkurra mán­aða. Láns­tími og greiðslu­fyrir­komu­lag sýni það. Í raun hafi báðir aðilar gengið út frá því að lánið yrði greitt upp löngu fyrir gjalddaga lánsins. Kaup­samn­ings­greiðslur hafi verið ríf­lega sú fjárhæð sem stefndi tók að láni í brúunarláninu og ljóst að lánið átti að greið­ast upp um leið og greiðslurnar bær­ust. Lán í íslenskum krónum án ólögmætrar gengistryggingar hefði verið greitt upp um leið og kaupsamningsgreiðslur bárust. Stefndi hafi lagt fram endurreikning á láninu miðað við að það væri ekki tengt gengi erlendra gjaldmiðla og bæri vexti Seðlabanka Íslands skv. 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Sá reikningur sýni að kaup­samn­ings­greiðslur hefðu nægt til þess að greiða upp lánið alveg fram í apríl 2008, þrátt fyrir gríð­ar­lega háa vexti. Sú forsenda lántaka að kaupsamningsgreiðslur myndu greiða upp lánið innan mjög skamms tíma hafi verið ákvörðunarástæða þeirra fyrir lántökunni. Það hafi lán­veit­andi vitað eða mátt vita um. Ekki verði annað ályktað en að sanngjarnt sé í alla staði að stefndi sé laus undan skuldbindingu sinni gegn þeirri greiðslu sem hann innti af hendi 2. janúar 2015. Greiðsla sem hafi staðið stefnanda til boða allt frá því í janúar 2008. Hefði lánið ekki verið bundið hinni ólögmætu gengistryggingu, sem stefnandi beri ábyrgð á, hefði stefndi undir öllum kringumstæðum þegar greitt lánið að fullu í janúar 2008. Ekki geti með neinum rökum talist sanngjarnt að stefnandi geti, með vísan til síð­ari tíma lagasetningar, reiknað upp lán með óverðtryggðum vöxtum, skv. 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, þegar horft sé til þess að peningafjárhæð var færð inn á reikning hjá stefnanda sem nægði til uppgreiðslu lánsins og þegar horft er til upp­haf­legra forsendna lántökunnar. Með því að stefnandi hafi samþykkt árið 2012 að stefndi greiddi lánið upp með 12.000.000 kr. megi segja að stefnandi hafi tekið undir sjónarmið stefndu og í raun við­ur­kennt það sem stefndu hafi ætíð haldið fram. Þar eð stefnandi hafi haldið uppi hinni ólögmætu gengistryggingu, ekki ein­vörð­ungu á hinum umstefnda lánssamningi nr. 9067, heldur líka á lánssamningi nr. 9229 (sjálfu íbúðakaupaláninu), hafi brostið allar forsendur stefndu til þess að geta haldið lánum í skilum eða greiða þau upp. Eftirstöðvar láns nr. 9229, sem nam upp­haf­lega 33.000.000 kr., hafi sam­kvæmt skatt­fram­tali numið í árs­lok 2008, 75.009.794 kr. og eftir­stöðvar láns nr. 9067 numið 26.879.044 kr., eða samtals 101.888.838 kr. Í árs­lok 2009 voru eftir­stöðvar lán­anna sam­kvæmt skatt­fram­tali 109.265.951 kr. Forsendur lántaka og allar ákvarðanir hans hafi verið teknar í ljósi þeirrar stöðu sem stefn­andi beindi ranglega að honum. Stefnandi beri ábyrgð á þeirri stöðu. Stefndi, Jón Þór, hafi árið 2008 lagt nægilegt fé inn á reikning til þess að greiða lánið að fullu hefði stefn­andi reiknað það rétt. Taka verði sérstaklega fram og árétta að stefndi, Jón Þór, hafi undir­ritað greiðslu­áætlun samhliða lánssamningi í samræmi við lög nr. 121/1994, um neyt­enda­lán. Í henni komi fram að á gjalddaga lánsins, 1. september 2008, skyldu greiðast 11.549.786 kr. Þar eð ætíð hafi legið fyrir að lánið myndi greið­ast upp fyrr , hafi verið ljóst að kostnaður við lántökuna yrði mun minni. Í greiðslu­áætl­un­inni sé engin aðvörun um gengisáhættu, einungis að hún byggi á 0% verð­bólgu, núgild­andi vöxtum og gjaldskrá bankans. Lánssamningi vikið til hliðar – 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 Stefndu byggja jafnframt á því að víkja skuli lánssamningnum, og endur­reikn­ingi hans í samræmi við lög nr. 151/2010, til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, því óheiðarlegt sé og ósann­gjarnt af stefn­anda að bera hann fyrir sig. Í 1. mgr. 36. gr. segi að víkja megi samn­ingi til hliðar í heild eða að hluta eða breyta. Í 2. mgr. 36. gr. segi að við mat sam­kvæmt 1. mgr. skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samn­ings­gerð­ina og atvika sem síðar komu til. Ekki verði annað talið en að öll skilyrði séu uppfyllt til þess að breyta samn­ingi aðila að teknu tillit til allra málsatvika. Það verði talið ósanngjarnt af stefn­anda að bera fyrir sig endurreikning samkvæmt síðar settum lögum þegar hann viti að lán­taki hafi allan tímann getað greitt upp lánið ef stefnandi hefði reiknað lánið á réttan hátt. Stefndi hafi ætíð haft fullan hug á því og leitað allra leiða til þess gagnvart stefn­anda. Varakrafa Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu af dómkröfum stefnanda, krefjast þau lækk­unar fjárkröfu stefnanda. Fyrir utan það að greiddar hafi verið 12.000.000 kr., 2. janúar 2015, eftir útgáfu stefnu, krefjast stefndu þess að dráttar­vaxta­kröfu og máls­kostn­að­ar­kröfu stefnanda verði hafnað með vísan til eftirfarandi máls­ástæðna: Viðtökudráttur Stefndu byggja á sjónarmiðum um viðtökudrátt stefnanda. Stefndi, Jón Þór, hafi 21. júní 2010 boðið fram greiðslu/úrlausn í ljósi þess að fé, sem var ætlað að greiða lánið upp, hafði legið á reikningi hjá stefnanda frá því í janúar 2008. Stefn­andi hafi hafnað þeirri tillögu. Ekki sé hægt að líta á málið á annan hátt en að stefn­andi beri ábyrgð á hinni ólögmætu gengistryggingu og óvissa stefn­anda um með­ferð kröf­unnar sam­kvæmt lánssamningi sé alfarið á hans ábyrgð. Taka verði tillit til þess ef atvik, sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt, valda því að greiðsla fer ekki fram. Í slíkum tilvikum skuli, samkvæmt 7. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, ekki reikna dráttarvexti. Tómlæti Stefndi bendir á að gjalddagi lánssamnings nr. 9067, sem leggi grunn að fjár­kröfu stefnanda, hafi verið 1. september 2008. Lánið hafi verið endurreiknað 1. apríl 2011 og stefnandi einhliða ákveðið gjalddaga lánsins 1. maí 2011. Þrátt fyrir þetta hafi stefn­andi ekki gert neinn reka að því að innheimta kröfuna fyrr en með útgáfu stefnu í okt­óber 2014. Hvort sem miðað sé við gjalddaga samkvæmt lánssamningi 1. september 2008 eða þann gjalddaga sem stefnandi tilgreinir eftir endurreikning sinn, 1. maí 2011, sé ljóst að stefndu, Emilíu og Lambhagabúinu ehf., hafi aldrei verið til­kynnt um afdrif láns­ins sem stefnandi haldi þó fram að þau séu í ábyrgð fyrir. Þótt tryggingarbréfin veiti allsherjarveð geti stefndu, sem veðsalar, ekki sætt því að geta ekki gripið til ráðstafana til varnar frekara tjóni. Það stríði beinlínis gegn eðli­legum og heilbrigðum viðskiptaháttum að stefn­andi hafi aldrei sent veðsölum til­kynn­ingar af neinu tagi. Um stefndu, Emilíu, gildi lög nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn. Í 3. mgr. 7. gr. lag­anna sé sérstaklega tekið fram að ábyrgðarmaður verði ekki krafinn um greiðslur drátt­ar­vaxta eða innheimtukostnaðar lán­taka sem falli til eftir gjald­daga nema að liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðar­manni var sannanlega gefinn kostur á að greiða gjaldfallna afborgun. Stefndu, Emilíu, hafi ekki verið birt til­kynn­ing fyrr en með birtingu stefnu 14. október 2014. Hún geti því ekki borið ábyrgð að hærri fjárhæð en sem nemi höfuðstól lánsins og dráttarvextir reikn­ist fyrst frá 28. október 2014. Með vísan til almennra tóm­lætis­sjónar­miða, gildi það sama fyrir stefnda, Lamb­haga­búið ehf., sem hafi aldrei verið upplýst um afdrif lánssamnings nr. 9067 og aldrei verið gefinn kostur á að greiða lánið vegna ábyrgðar sinnar samkvæmt veð­trygg­ingar­bréfi. Að síðustu byggja stefndu á því að stefndi, Jón Þór, hafi 21. júní 2010 gert stefn­anda til­boð um uppgjör kröfunnar sem fólst í uppgjöri í samræmi við láns­samn­ing aðila þar sem höfuðstóll yrði greiddur, auk erlendra vaxta. Ekki hafi átt að létta af neinum trygg­ingum samhliða því og áréttað að stefnandi gæti í framhaldi af þessu sótt frek­ari rétt, ef hann teldi sig eiga hann. Stefndi hafi hafnað tilboðinu. Ekki verði litið á það með öðrum hætti en þeim að stefnandi hafi gert stefnda lög­mætt/­rétt­mætt til­boð í samræmi við lánssamning aðila miðað við þær forsendur sem lágu fyrir á þeim tíma og ekki verði annað séð en að taka verði fullt til­lit til þess við end­ur­reikn­ing lánsins í samræmi við lög nr. 151/2010. Ekki sé sanngjarnt að stefn­andi reikni sér vexti, eftir 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verð­trygg­ingu, eða eftir atvikum dráttavexti, þegar stefnandi reikni ekki vexti á innistæðu að fjár­hæð 12.000.000 kr. með sama hætti frá þeim tíma. Stefndu hafi lagt fram endurreikning á 12.000.000 kr. miðað við vexti sam­kvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá júní 2010 til 1. mars 2015, þar sem áfallnir vextir á tíma­bilinu eru 4.071.360 kr. eða sam­tals 16.071.360 kr. Þau hafi einnig lagt fram end­ur­reikn­ing sömu fjárhæðar miðað við dráttarvexti frá júní 2010 til 1. mars 2015, þar sem áfallnir vextir eru 9.602.048 kr. eða samtals 21.602.048 kr. Stefndu krefjast þess að litið verði til þessara útreikn­inga til lækkunar á kröfum stefn­anda. Kröfum sínum til stuðnings vísa stefndu til almennra reglna kröfu- og samn­inga­réttar, til sjónarmiða um brostnar forsendur, viðtökudráttar og tómlætis. Stefndu vísa til laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr. lag­anna svo og laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þau vísa einnig til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010 og laga nr. 32/2009, um ábyrgð­ar­menn, og enn fremur laga nr. 121/1994, um neytendalán. Vegna kröfu um máls­kostnað vísa stefndu til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einka­mála, einkum 129. og 130. gr.   Niðurstaða Stefnandi höfðar þetta mál til þess að fá greitt lán sem stefndi, Jón Þór, tók, svo og til þess að fá gefna út aðfararheimild, þ.e. dóm sem veitir honum heimild til að fá gert fjár­nám í fasteignum stefndu, Emilíu og Lambhagabúsins ehf., sem voru settar að veði til trygg­ingar greiðslu lánsins. Stefndu krefjast sýknu en til vara lækkunar fjárkröfu. Stefndu byggja kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að forsendur stefnda, Jóns Þórs, fyrir lán­tök­unni hafi brostið. Það hafi verið ákvörð­un­ar­ástæða fyrir lán­tök­unni að kaup­samn­ings­greiðslur myndu greiða lánið upp innan mjög skamms tíma. Það er að fjárhæðin sem þau áttu von á vegna sölu á eign sinni, 12 milljónir króna, myndi nægja til þess að greiða lánið upp jafnvel fyrir gjalddaga. Í fræðum er sagt að grundvöllur hugtaksins brostin forsenda í samningarétti sé að löggerningsgjafi hefði ekki stofnað til löggerningsins ef hann hefði séð eða mátt sjá fyrir þau atvik eða aðstæður sem hann síðar vill bera fyrir sig. Það er einnig meg­in­regla að menn verða sjálfir að bera áhættuna af því að forsenda þeirra fyrir samn­ings­gerð brestur. Það heyrir því til undantekninga að brostin forsenda sé viðurkennd sem ógild­ing­ar­ástæða eða að víkja megi samningsákvæði til hliðar á grundvelli hennar. Stefndu hafa lagt fram útreikning á því að 12 milljónir króna hefðu nægt þeim til að greiða vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 af 11 milljóna króna láni allt fram í mars 2008. Þótt stefndi orði kröfu sína ekki þannig er engu líkara en hann vilji að dóm­ur­inn breyti þeim lánssamn­ingi, sem hann gerði 23. ágúst 2007, í skamm­tíma­láns­samn­ing, með gjalddaga í mars eða apríl 2008, í íslenskum krónum sem beri vexti sam­kvæmt 4. gr. vaxtalaga og láti samninginn steinrenna þá. Stefndi Jón Þór hefur ekki sýnt fram á að hann hafi átt kost á venjulegu skamm­tímaláni í íslenskum krónum með vöxtum samkvæmt 4. gr. vaxtalaga. Hann bar fyrir dómi að hann hefði gjarnan viljað taka yfirdrátt í íslenskum krónum í stað þess að standa í þessu bulli. Hann bar einnig að ástæða þess að hann gerði það ekki var sú að yfirdráttur bar þá, að hans sögn, margfalt hærri vexti en það lán sem hann tók. Ákvörðunarástæða stefnda Jóns Þórs fyrir því að taka þetta tiltekna lán voru því vext­irnir sem það bar. Hann vissi þó að venjuleg lán í íslenskum krónum báru ekki svo lága vexti heldur voru þessir lágu vextir ein­vörð­ungu í boði af lánum sem voru tengd gengi erlendra gjaldmiðla. Hann bar jafnframt að í starfi sínu hjá bankanum, sem fyrir­tækja­ráð­gjafi, hafi hann ráðlagt mörgum fyrirsvarsmönnum fyrir­tækja að taka lán í erlendum myntum. Það hafi hann gert vegna þess að sam­kvæmt öllum greiningum, einnig grein­ingum bank­ans sem hann vann hjá, hafi lán í erlendum myntum verið hag­kvæm­ara til lengri tíma litið fyrir þá sem höfðu greiðslu­getu og þoldu miklar sveiflur á gengi. Hann vissi því að lánsfjárhæðin gæti hækkað og lækkað verulega eftir sveiflum á gengi þeirra gjaldmiðla sem tilgreindir voru í láninu, en þá valdi hann sjálfur, svo og að slík skammtímalán kynnu að vera óhagkvæm fyrir þá sem höfðu ekki mikla greiðslu­getu. Stefndi byggir á því að í greiðsluáætluninni hafi ekki verið nein aðvörun um geng­is­áhættu. Eins og fram er komið var gengisáhættan stefnda kunn og gat það því ekki haft nein áhrif á ákvörðun hans að hennar var ekki getið í greiðsluáætluninni. Dómurinn telur því að stefndi hafi fyllilega vitað hvaða áhætta væri bundin láni sem þessu og geti því ekki borið fyrir sig að hann hafi ekki mátt sjá fyrir að verð­mæti höfuðstóls þess gæti sveiflast eins og það gerði á skömmum tíma. Hann mátti því sjá fyrir að svo gæti farið að 12 milljón­irnar sem hann átti von á að fá greiddar í janúar eða febrúar nægðu ekki til að greiða lánið, hvorki þá né þegar það féll í gjald­daga 1. september 2008. Þar eð hann mátti því sjá fyrir þau atvik sem hann vill nú bera fyrir sig er ekki unnt að fallast á að forsendur hans fyrir lántökunni hafi brostið. Það er rétt að fagráð bankans samþykkti tiltekna greiðslulausn í desember 2011. Að sögn stefnda var honum aldrei greint frá því, hvorki munnlega né skrif­lega. Sam­þykktin var endurvakin 11. júlí 2012. Samkvæmt henni bar stefnda að greiða 12 millj­ónir króna, með tilteknum vöxtum frá 21. desember 2011, og það sem ógreitt var af láninu skyldi greiða að svo miklu leyti sem hægt væri með greiðsluúrræði sem hét „Lækkun ann­arra skulda“. Hún fólst í því að fólk greiddi í þrjú ár 10% af launum sínum, eftir að skattur hafði verið dreginn frá þeim. Að þremur árum liðnum voru eftir­stöðvarnar felldar niður. Stefnandi bauð stefnda því aldrei að hann gæti gert lánið upp með því að greiða einvörðungu 12 millj­ónir króna. Jafnframt verður ekki fallist á að stefnandi hafi í orði eða verki fallist á að forsendur stefnda fyrir lántökunni hafi brostið. Stefndi byggir sýknukröfu sína í öðru lagi á því að það eigi að víkja láns­samn­ingnum og endur­reikn­ingi hans til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Stefndi hafði starfað í sex og hálft ár hjá Landsbanka Íslands þegar hann tók lánið. Þar veitti hann fyrirtækjum fjármálaráðgjöf og kveðst hafa talsverða þekkingu á lánum. Því verður ekki fallist á að á hann hafi hallað þegar hann tók lánið 23. ágúst 2007. Þegar lánið var tekið seldu stefndu Jón Þór og Emilía fasteign og keyptu aðra og tóku lánið til að brúa bil milli kaupsamningsgreiðslna. Dómurinn telur þessi atvik við samnings­gerð­ina ekki geta haft þýðingu. Hæstiréttur hefur þegar tekið afstöðu til efnis lánssamninga, sem jafnast á við þennan, og vikið til hliðar því ákvæði sem batt láns­fjárhæðina við gengi erlendra gjald­miðla svo og ákvæði þeirra um vexti vegna þess að bein og órjúfanleg tengsl væru milli þessara tveggja samningsákvæða. Stefndi, Jón Þór, hefur einkum bent á það að hann hafi ætíð átt 12 milljónir króna og hefði því getað greitt lánið upp hefði það verið rétt reiknað út á fyrstu mán­uðum árs­ins 2008, það er eins og höfuðstóll þess væri ekki tengdur gengi erlendra gjald­miðla. Stefndi hafi ætíð haft fullan hug á því og leitað allra leiða til þess gagn­vart stefn­anda. Af þeim sökum sé ósann­gjarnt af stefnanda að krefjast þess að hann greiði sam­kvæmt útreikningi sem hafi verið ákveðinn í lögum nr. 151/2010 sem voru sett á Alþingi 18. desember 2010. Það er rétt að samkvæmt skattframtölum átti stefndi í lok árs 2008 tæplega 12.400.000 kr. í lausafé. Gjalddagi lánsins var 1. september 2008. Þá bar stefnda að greiða lánið í síðasta lagi en gerði ekki. Hann vissi þó að skuldbinding hans við bank­ann gat aldrei numið lægri fjár­hæð en þeirri sem bankinn hafði afhent honum 23. ágúst 2007, það er 11 millj­ónum króna, og þeim vöxtum sem þá var samið um að höfuð­stóll lánsins bæri. Þessa fjárhæð bauð hann ekki fram á gjalddaga, né aðra fjár­hæð hærri eða lægri og ekki fyrr en sex og hálfu ári síðar. Dómurinn telur það ekki geta haft þýðingu þótt stefndi hafi átt 12 milljónir króna í lausafé. Stefndi bauð það aldrei fram til greiðslu án fyrirvara eða skilyrða fyrr en eftir að málið var höfðað. Dómurinn fær því ekki séð að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 fyrir því að víkja efni samningsins til hliðar. Stefndi byggir varakröfu sína um lækkun fjárkröfu á viðtökudrætti stefnanda. Stefndi hafi, skömmu eftir að Hæstiréttur kvað upp þann dóm að óheimilt væri að tengja lán í íslenskum krónum gengi erlendra gjaldmiðla, í tölvupósti 21. júní 2010, boðið fram greiðslu/úrlausn. Í tölvupóstinum lagði hann til að brúunarlánið yrði greitt upp miðað við höfuð­stól, auk erlendra vaxta frá lántökudegi. Hann tók jafn­framt fram að stefnandi gæti svo farið í mál við sig ef talið yrði að stefn­andi ætti ríkari rétt. Stefndi hefði þá komið sínum málum í réttan farveg í bili og hægt að losa pen­inga sem lágu á inn­láns­reikn­ingi. Stefndi fór ekki fram á að neinum trygg­ingum yrði aflétt. Að mati dómsins bauð stefndi ekki fram greiðslu heldur bar tillögu að lausn undir stefnanda. Stefnandi hafnaði því að taka þessari tillögu sem fullnaðargreiðslu fyrir lánið enda var þá óvissa um það hvaða vexti lánið skyldi bera úr því að forsenda hinna lágu vaxta, tenging fjárhæðarinnar við gengi erlenda gjaldmiðla, hafði verið dæmd ólög­mæt. Úr því að stefndi Jón Þór tengdi þessa greiðslu ekki við það að allsherjar­veð­inu yrði létt af Lambhagabúinu hefði hann getað farið í næsta útibú Landsbankans og óskað eftir því að andvirði þessarar tillögu sinnar yrði millifært af reikningi sínum og greitt inn á lánið, eins og hann gerði 2. janúar 2015 þegar hann óskaði eftir því við þáver­andi úti­bús­stjóra að 12 milljónir yrðu þegar í stað teknar af reikningi hans og greiddar inn á lánið. Þetta gerði hann ekki. Dómurinn getur því ekki fallist á að það geti talist viðtökudráttur af hálfu stefn­anda þótt hann hafi ekki viljað samþykkja þessa tillögu stefnda Jón Þórs sem fulln­að­ar­greiðslu á láninu. Til stuðnings varakröfu sinni um lækkun fjárkröfunnar byggja stefndu einnig á tóm­læti stefnanda. Hann hafi aldrei tilkynnt stefndu Emilíu og Lambhagabúinu um afdrif láns­ins sem þau hafi tryggt með veði í eignum sínum. Dómurinn fellst ekki á það með stefndu að stefnandi hafi ekki reynt að inn­heimta kröfuna fyrr en stefnan var birt stefndu 14. október 2014. Í málsatvikakafla eru rakin samskipti málsaðila og þar sést að stefnandi leitaði lausna í því skyni að krafan greidd­ist án málshöfðunar. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, er forsenda þess að lánveitandi geti innheimt dráttarvexti og annan vanskilakostnað, sem féll til eftir gjald­daga, sú að hann hafi sann­an­lega tilkynnt ábyrgðarmanni vanefndir lántakans með tveggja vikna fyrirvara. Þótt stefnandi hafi, í þeim tilkynningum sem hann sendi stefndu Emilíu, eigin­konu stefnda, ekki tekið fram að lánið væri fallið í gjalddaga getur dómurinn ekki fall­ist á að ósannað sé að hún hafi vitað af því. Dómurinn telur því að veðið sem stefnda veitti í fasteign sinni tryggi einnig dráttarvexti og vanskilakostnað sem féll til eftir gjald­daga. Lög um ábyrgðarmenn taka til einstaklinga sem gangast í persónulega ábyrgð eða veita veð en taka ekki til lögaðila sem það gera. Að auki er stefnandi hluthafi í Lamb­hagabúinu og því er ekki trúverðugt að öðrum hluthöfum þess hafi ekki verið kunn­ugt um stöðu lánsins. Því verður það veð sem veitt var í Lambhaga einnig talið tryggja dráttarvexti og vanskilakostnað sem féll til eftir gjalddaga lánsins.   Dómurinn telur að skilja beri lokamálsástæða stefndu þannig að þau vilji að fjár­krafa stefnanda sé lækkuð um sem nemur annaðhvort vöxtum eða dráttarvöxtum af 12 milljónum króna frá 1. júní 2010 til 1. mars 2015. Það beri að gera vegna þess að stefndi, Jón Þór, hafi gert stefnanda réttmætt tilboð í tölvupósti 21. júní 2010 og því verði að taka tillit til þess við endurreikning lánsins. Komið er fram að dómurinn telur það ekki viðtökudrátt að stefnandi vildi ekki fall­ast á þetta tilboð stefnda sem fullnaðaruppgjör. Hefði stefndi, Jón Þór, engu að síður vilja greiða þessa fjárhæð inn á lánið í júní hefði hann getað fært alla fjár­hæð­ina inn á einn þeirra reikninga sem hann átti í bankanum og krafist þess að starfsmaður bank­ans tæki fjárhæðina af reikningnum og legði inn á lánið, eins og hann gerði þegar hann sendi starfsmanni stefnanda tölvupóst 2. janúar 2015, eftir að þetta mál var höfðað, og krafðist þess að 12 milljónir króna yrðu teknar af reikningi hans og greiddar inn á lánið. Slíka greiðslukröfu sendi stefndi bankanum ekki, hvorki í júní 2010 né síðar. Dóm­ur­inn getur því ekki fallist á að lækka eigi stefnufjárhæðina um fjárhæð sem sam­svarar vöxtum eða dráttarvöxtum af 12 milljónum króna reiknuðum frá júní 2010. Það er rétt að bankinn á ekki að hagnast á því að lánið reyndist, að ígrunduðu máli, ólögmætt. Stefndi hefur hins vegar ekki sýnt fram á að það væri honum hag­stæð­ara að greiða lánið í samræmi við lánssamninginn, miðað við að höfuðstóll hans væri tengdur gengi japansks jens og svissneskra franka og bæri LIBOR-vexti ásamt vaxta­álagi, það er eins og lánið stóð á gjalddaga 1. sept­em­ber 2008 og með dráttarvöxtum frá 14. október 2010, heldur en stefnukröfuna. Dómurinn hefur því hafnað öllum þeim málsástæðum sem stefndu færðu fyrir kröfu sinni um sýknu og varakröfu um lækkun fjárkröfu og veðkröfu. Í dómkröfu krefst stefnandi þess að stefndu öll greiði vangoldna fjárhæð. Stefndi Jón Þór tók þó lánið og stefndu Emilía og Lambhagabúið veittu einvörðungu veð í eignum sínum en gengust ekki í greiðsluábyrgð fyrir láninu. Því verður að skilja kröfu stefnanda svo að hann krefjist þess að einvörðungu stefndi Jón Þór greiði fjár­hæð­ina sem krafist er greiðslu á. Rétt þykir, eins og þetta mál er vaxið, að hvor málsaðili beri sinn kostnað af mál­inu. Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm. D Ó M s o r ð Stefndi, Jón Þór Helgason, greiði stefnanda, Landsbankanum hf., 17.095.244 kr., ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 1. maí 2011 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 2. janúar 2015 að fjárhæð 12.000.000 kr. Stefnanda er heimilt að fá gert fjár­nám inn í veðrétt sem hann á í eignarhluta stefndu Emilíu Þorsteinsdóttur, í fast­eign með fasta­núm­erið 227-0316, að Burkna­völlum 8, Hafnarfirði, ásamt til­heyr­andi hlutdeild í eign­ar­lóð og öllu því, sem eigninni fylgir og fylgja ber, sam­kvæmt tryggingar­bréfi nr. 0106-63-052144, útgefnu 27. ágúst 2007, til tryggingar skuldum stefnda Jóns Þórs. Stefnanda er heimilt að fá gert fjár­nám inn í veðrétt sem hann á í eignarhluta stefnda, Lambhagabúsins ehf., í fast­eign­inni Lambhaga með landnúmerið 164528 og fasta­númerið 219-5492, Rangár­völlum, ásamt til­heyr­andi hlut­deild í eign­ar­lóð og öllu því, sem eigninni fylgir og fylgja ber, sam­kvæmt trygg­ing­ar­bréfi nr. 0111-63-217201, útgefnu 20. júní 2005, til trygg­ingar skuldum stefnda Jóns Þórs. Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Mál nr. 747/2017
Vátryggingarsamningur Kröfugerð Málsástæða Vanreifun Frávísun frá héraðsdómi
Aðilar deildu um hvort P ehf. hefði fengið tjón sem það varð fyrir við bruna fasteignar að fullu bætt úr rekstrarstöðvunartryggingu sem félagið hafði hjá V hf. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að tiltekna skilmála vátryggingarinnar bæri að skýra þannig að til lækkunar reiknuðum bótum kæmi rekstrarkostnaður eins og húsaleigukostnaður sem fallið hefði niður við vátryggingaratburðinn og sparaðist samkvæmt því við tjónið. Því næst var rakið að í héraðsdómi hefði komið fram að lögmenn málsaðila hefðu ítrekað lýst því yfir að ekki væri tölulegur ágreiningur um endanlegan höfuðstól dómkröfu P ehf. Hefði héraðsdómur ályktað út frá því að höfuðstólskrafa P ehf. samsvaraði áætluðum leigukostnaði og öðrum húsnæðistengdum kostnaði á tilteknu tímabili. P ehf. lagði fyrir Hæstarétt gögn sem félagið taldi sýna að kostnaður vegna húsnæðis hefði numið lægri fjárhæð en dómkrafan var í málinu og bar því við að ekki hefði verið bent á annan kostnað sem draga ætti frá bótum. Hefði héraðsdómur því að minnsta kosti átt að fallast á lægri dómkröfu P ehf. Hæstiréttur vísaði til þess að reyndust þau gögn sem P ehf. hefði lagt fyrir dóminn rétt fengist ekki staðist framangreind ályktun héraðsdóms um höfuðstólsfjárhæð kröfu P ehf. Af öðrum gögnum málsins yrði ekki ráðið hvernig sú fjárhæð væri fundinn samkvæmt vátryggingarskilmálunum. P ehf. hefði ekki lagt fram viðhlítandi gögn svo unnt yrði að ákveða raunverulegt tjón félagsins og væri málið vanreifað að því leyti. Yrði ekki úr þeim annmarka bætt með því að dómstólar mætu honum skaðabætur að álitum. Með vísan til e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var málinu því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. nóvember 2017. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 61.783.228 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júlí 2015 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Þegar bruni sá varð í fasteigninni Skeifunni 11 í Reykjavík 6. júlí 2014 sem um ræðir í málinu var áfrýjandi með gilda rekstrarstöðvunartryggingu hjá stefnda. Um hana giltu vátryggingarskilmálar stefnda nr. ER20 og auk þeirra sameiginlegir skilmálar félagsins, yfirlit yfir útreikning vátryggingarfjárhæðar og lög um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Í málinu er um það deilt hvort áfrýjandi hafi fengið tjón sitt í brunanum að fullu bætt úr rekstrarstöðvunartryggingunni. Snýst ágreiningurinn fyrst og fremst um það hvort vátryggingin eigi að bæta framlegðartap áfrýjanda eða hvort stefnda sé heimilt að draga frá bótum kostnaðarliði í rekstrinum sem féllu niður við brunann. Um bótasviðið sagði í 3. grein skilmála rekstrarstöðvunartryggingarinnar að hún bætti rekstrartap sem vátryggður yrði fyrir við stöðvun rekstrar á vátryggingartímabilinu og leiddi til samdráttar í sölu vöru eða þjónustu vátryggðs af völdum bruna, vatns og innbrotsþjófnaðar. Um vátryggingarfjárhæðina sagði í grein 11.1 að hún skyldi nema áætlaðri framlegð vátryggðs á vátryggingartímabilinu. Í grein 11.2 var framlegð skilgreind sem rekstrartekjur vátryggingartímabilsins að frádreginni vörunotkun, breytilegum launakostnaði, öðrum breytilegum kostnaði og birgðabreytingu fullunninna vara ef við ætti. Yfirlit yfir útreikning framlegðar skyldi gert af vátryggðum og samþykkt af báðum aðilum. Um breytilegan kostnað sagði í grein 11.4 að það væru þeir kostnaðarliðir sem breyttust í réttu hlutfalli við rekstrartekjur og þyrfti því ekki að vátryggja, til dæmis hráefniskaup, pökkun og flutningskostnað. Reglur um ákvörðun bóta voru í 13. grein vátryggingarskilmálanna. Þar sagði í grein 13.1. að félagið greiddi bætur þann tíma sem kæmi fram í vátryggingarskírteini eða endurnýjunarkvittun en þó aldrei fyrir lengra tímabil en fyrirtækið væri stöðvað að meira eða minna leyti. Um útreikning tjóns sagði í grein 13.2 að það næmi mismun á reiknaðri framlegð eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur annars vegar og  hins vegar raunverulegri framlegð á bótatímabilinu. Þá sagði í grein 13.3 að bætur yrðu aðeins greiddar fyrir það raunverulega tjón sem orðið hefði á bótatímabilinu að svo miklu leyti sem vátryggingin næði til og aðeins fyrir þann hluta af tjóninu sem eingöngu orsakaðist af stöðvun þeirri eða samdrætti á rekstrinum sem átt hefði sér stað. II Málsástæðum og lagarökum aðila er ítarlega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur telur áfrýjandi að rekstrarstöðvunartryggingin eigi að bæta tapaða framlegð í hefðbundnum skilningi. Samkvæmt grein 13.2 í skilmálum tryggingarinnar eigi að ákvarða bætur vegna rekstrarstöðvunar sem mismun á annars vegar reiknaðri framlegð eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur og hins vegar raunverulegri framlegð á bótatímabilinu. Áætluð framlegð frá júlí 2014 til júní 2015 hafi numið samtals 128.640.125 krónum. Raunframlegð í ágúst til september 2014 hafi verið 43.354.439 krónur og mismunurinn því 85.285.686 krónur. Af þeirri fjárhæð hafi stefndi greitt áfrýjanda 23.502.457 krónur en eftir standi 61.783.228 krónur sem sé sú fjárhæð sem áfrýjandi krefji stefnda um. Stefndi andmælir því ekki að bætur til handa áfrýjanda eigi að reikna út samkvæmt grein 13.2 í vátryggingarskilmálunum sem mismun á reiknaðri og raunverulegri framlegð. Hins vegar verði bætur samkvæmt grein 13.3 í skilmálunum aðeins greiddar fyrir það raunverulega tjón sem orðið hafi á bótatímabilinu að svo miklu leyti sem vátryggingin nái til og aðeins fyrir þann hluta af tjóninu sem eingöngu orsakist af stöðvun þeirri eða samdrætti á rekstrinum sem orðið hafi. Af því leiði að draga eigi frá bótum kostnað í rekstri áfrýjanda sem hafi sparast við tjónið eins og húsaleigu sem fallið hafi niður.  III Vátryggingarfjárhæð rekstrarstöðvunartryggingar þeirrar sem áfrýjandi tók hjá stefnda var samkvæmt skilmálum hennar hvorki fyrir fram ákveðin sem föst krónutala né samkvæmt föstu viðmiði óháð frádrætti. Var því ekki um að ræða fyrir fram umsamdar meðalhófsbætur fyrir það tjón sem vátryggður yrði fyrir við það að rekstur hans stöðvaðist vegna þeirra atvika sem féllu undir bótasvið vátryggingarinnar. Er fallist á með héraðsdómi að grein 13.2 í vátryggingarskilmálunum beri að skýra til samræmis við grein 13.3 og þá þannig að til lækkunar reiknuðum bótum samkvæmt grein 13.2 komi rekstrarkostnaður eins og húsaleigukostnaður sem féll niður við vátryggingaratburðinn og sparaðist samkvæmt því við tjónið. Leiðir þetta og af ákvæðum 35. gr. laga nr. 30/2004. Á þessum grunni bar áfrýjanda að haga kröfugerð sinni í málinu. Í forsendum hins áfrýjaða dóms kemur fram að lögmenn málsaðila hafi ítrekað lýst því yfir og þar á meðal við aðalmeðferð málsins að ekki væri tölulegur ágreiningur um endanlegan höfuðstól dómkröfu áfrýjanda, 61.783.228 krónur. Ályktaði héraðsdómur út frá því og með vísan til málsástæðna aðila að höfuðstólskrafa áfrýjanda samsvaraði áætluðum leigukostnaði og öðrum húsnæðistengdum kostnaði á tímabilinu 6. júlí 2014 til og með 5. júlí 2015. Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt gögn sem hann telur sýna að kostnaður vegna húsnæðis á bótatímabilinu hafi numið um það bil 2.600.000 krónum á mánuði eða samtals um 31.000.000 krónum allt bótatímabilið og sé það helmingi lægri fjárhæð en dómkrafan í málinu. Stefndi hafi ekki bent á neinn annan kostnað sem hann telji að hafi sparast við vátryggingaratburðinn og eigi að draga frá bótum. Því blasi við að tjón áfrýjanda vegna tapaðrar framlegðar sé að stórum hluta óbætt ef fallist yrði á sjónarmið stefnda um skýringu vátryggingarskilmálanna. Af því leiði að héraðsdómur hefði að minnsta kosti átt að fallast á helming dómkröfu áfrýjanda. Áður er gerð grein fyrir því hvernig áfrýjandi reiknar höfuðstól dómkröfu sinnar. Ef rétt reynast þau gögn sem áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt samkvæmt framansögðu fengi ekki staðist sú ályktun héraðsdóms að dómkrafa áfrýjanda samsvaraði áætluðum leigukostnaði og öðrum húsnæðistengdum kostnaði hans á bótatímabilinu. Af öðrum gögnum málsins verður ekki ráðið hvernig höfuðstólsfjárhæð kröfu hans er fundin samkvæmt greinum 13.2 og 13.3 í vátryggingarskilmálunum. Áfrýjanda var í lófa lagið að leggja fram viðhlítandi gögn um þetta efni svo unnt yrði að ákveða raunverulegt tjón hans en gerði ekki og er málið vanreifað að því leyti til. Verður ekki úr þeim annmarka bætt með því að dómstólar meti honum skaðabætur að álitum. Að þessu gættu þykir slíkt ósamræmi vera milli kröfugerðar áfrýjanda, málsástæðna hans og málflutningsyfirlýsinga að óhjákvæmilegt er með vísan til e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að vísa málinu frá héraðsdómi. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2017. Mál þetta sem dómtekið var 21. september 2017 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 23. febrúar 2016 af Pennanum ehf., Skeifunni 10, Reykjavík, á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík. Kröfur aðila Stefnandi gerir þá kröfu að stefndi greiði honum 61.783.228 krónur með dráttarvöxtum frá 23. júlí 2015 og til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu samkvæmt að mati dómsins. Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins. Atvik máls Þann 6. júlí 2014 kviknaði mikill eldur í fatahreinsun, sem starfrækt var í Skeifunni 11 í Reykjavík. Olli hann verulegu tjóni á eigninni og nálægum fasteignum. Stefnandi starfrækti á þessum tíma ritfanga- og bókaverslun þ.m.t. svonefndan skiptibókamarkað í leiguhúsnæði í Skeifunni 11. Var starfsemin rekin undir auðkenninu Griffill. Var öll yfirbygging þess húsnæðis dæmd ónýt eftir brunann og eignin felld og fjarlægð. Þegar bruninn varð var stefnandi með lausafjár- og rekstarstöðvunartryggingar hjá stefnda m.a. vegna framangreindrar starfsemi sinnar í Skeifunni 11. Óumdeilt er að um rekstrarstöðvunartrygginguna giltu vátryggingarskilmálar stefnda nr. ER20 (hér eftir skilmálar nr. ER20). Fyrir liggur að rekstri Griffils lauk við brunann að því undanskildu að stefnandi rak skiptibókamarkað í Laugardalshöll í ágúst og september 2014 undir nafni Griffils. Í gögnum málsins er að finna bréfaskipti aðila í framhaldi brunans vegna uppgjörs á bótum samkvæmt framangreindum lausafjár- og rekstrarstöðvunartryggingum. Ekki náðist fullt samkomulag um fjárhæð bótanna og höfðaði stefnandi mál þetta 16. febrúar 2016 til greiðslu meintra vangreiddra bóta úr lausafjár- og rekstrarstöðvunartryggingunum. Nam höfuðstóll stefnufjárhæðarinnar 103.746.622 krónum. Undir rekstri málsins náðu aðilar samkomulagi um fjárhæð og greiðslu bóta  samkvæmt lausafjártryggingunni þ.m.t. vegna svonefnds viðbótarkostnaðar en eftir stendur ágreiningur þeirra um uppgjör á grundvelli rekstarstöðvunartryggingarinnar. Hefur stefnandi lækkað stefnukröfur sínar samsvarandi. Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda Stefnandi byggir kröfur sínar í máli þessu á rekstrarstöðvunartryggingu þeirri sem hann var með hjá stefnda, þegar umræddur eldsvoði varð í Skeifunni, 6. júlí 2014, og húsnæði það sem hann hafði á leigu í Skeifunni 11, undir starfsemi Griffils,  eyðilagðist og starfsemi hans þar stöðvaðist. Af hálfu stefnanda er á því byggt að um rekstarstöðvunartrygginguna hafi gilt skilmálar stefnda nr. ER20. Í endanlegri kröfugerð stefnanda sé stefndi krafinn um bætur umfram það sem hann hafi þegar greitt á grundvelli rekstarstöðvunartryggingarinnar enda sé tjón stefnanda ekki enn að fullu bætt samkvæmt skilmálum hennar. Stefnandi byggi kröfu sína um frekari bætur úr rekstrarstöðvunartryggingunni á því að í skilmálum hennar komi skýrt fram í gr. 11.1 að vátryggingarfjárhæð skuli nema áætlaðri framlegð vátryggðs á vátryggingartímabilinu. Með vátryggingarfjárhæð sé átt við fjárhæð, sem tilgreind sé í vátryggingarsamningi og hagsmunir séu að hámarki vátryggðir fyrir, sbr. h-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Í gr. 11.2 í skilmálum nr. ER20 sé hugtakið framlegð skilgreint þannig, að hún sé rekstrartekjur vátryggingartímabilsins að frádreginni vörunotkun, breytilegum launakostnaði, öðrum breytilegum kostnaði og birgðabreytingu fullunninna vara, ef við eigi. Þessi skilgreining sé í fullu samræmi við hefðbundnar skilgreiningar á hugtakinu framlegð. Í gr. 13 sé fjallað um ákvörðun bóta. Í gr. 13.1 segi að vátryggingarfélagið greiði bætur í þann tíma sem fram komi í vátryggingarskírteini eða endurnýjunarkvittun, en þó aldrei fyrir lengra tímabil en fyrirtækið sé stöðvað að meira eða minna leyti. Ekki sé ágreiningur um að vátryggingartímabilið hafi verið 12 mánuðir, frá tjónsatburði, 6. júlí 2014 að telja, og að bótatímabilið eigi að miðast við það. Rekstur Griffils hafi stöðvast við tjónsatburðinn og ekki hafist enn, að undanskildu stuttu tímabili, þegar stefnandi hafi rekið skólamarkað í Laugardalshöll undir merkjum Griffils. Samkvæmt gr. 11.1 skuli vátryggingarfjárhæð nema áætlaðri framlegð vátryggðs á vátryggingartímabilinu. Í gr. 11.5 sé tekið fram að við áætlun á framlegð, rekstrartekjum og breytilegum kostnaði sé byggt á ársreikningi síðasta rekstrarárs hins vátryggða eða árshlutauppgjöri og áætlun um breytingar á vátryggingartímabilinu. Við ákvörðun vátryggingarfjárhæðar beri því að miða við framlegð eins og hún hefði orðið, ef ekki hefði komið til tjónsatburðar. Þótt stefndi haldi því fram að fastur kostnaður stefnanda verði að breytilegum kostnaði, þegar hann hverfi eða minnki, verði framlegð rekstursins ekki reiknuð út frá þeirri forsendu. Samkvæmt gr. 13.2  skuli bótafjárhæð nema mismun á reiknaðri framlegð eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur og hins vegar raunverulegri framlegð. Sem fyrr segi hafi rekstur stefnanda í Skeifunni 11 stöðvast  algerlega að undanskildum tímabundnum rekstri í Laugardalshöll og ekki hafist aftur. Krafa stefnanda sé byggð annars vegar á áætlaðri  framlegð eins og hún hefði orðið ef reksturinn hefði ekki stöðvast og hins vegar raunverulegri framlegð á vátryggingartímabilinu. Enginn vafi leiki á því að „raunverulegt tjón“, sem beri að bæta samkvæmt skilmálum rekstrarstöðvunartryggingarinnar, sé töpuð framlegð af rekstri Griffils. Stefndi hafi hafnað slíku uppgjöri á grundvelli „meginreglna vátryggingaréttarins“. Með því hafi stefndi litið framhjá þeirri staðreynd að í gildi hafi verið samningur milli aðila. Skipti „meginreglur vátryggingaréttarins“ því ekki máli, enda geti þær ekki breytt því hvernig aðilar hafi samið um uppgjör tjóns, sem falli undir trygginguna. Skilmálar vátryggingarinnar verði ekki, með vísan til meginreglna vátryggingaréttarins, túlkaðir í andstöðu við skýrt orðalag þeirra, en skilmálana beri að túlka í samræmi við  meginreglur samningaréttarins m.a. andskýringarregluna um að sá sem samið hafi skilmála einhliða beri hallann af óskýrleika þeirra. Í bréfum stefnda til stefnanda hafi birst sú afstaða, að ákvæði laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, séu að meginstefnu ófrávíkjanleg. Það sé hins vegar ekki rétt. Í lögunum segi að óheimilt sé að víkja frá I. og II. hluta þeirra, ef það leiði til lakari stöðu þess sem öðlist kröfu á hendur félaginu samkvæmt vátryggingarsamningi. Þannig sé heimilt að víkja frá ákvæðum laganna, vátryggingartaka til hagsbóta. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segi enda, að það skuli undirstrikað að einungis sé óheimilt að víkja frá ákvæðum laganna, ef það leiði til lakari stöðu þess sem öðlist kröfu á hendur félaginu. Af hálfu stefnanda sé litið svo á að það veiti vátryggingartaka betri rétt að tryggja framlegð fremur en beinan hagnað af rekstri. Samningur um slíka vátryggingarskilmála sé því fyllilega lögmætur. Tjón á rekstri stefnanda hafi verið altjón. Hafi stefnandi talið að með umræddri rekstarstöðvunartryggingu yrði honum tryggð framlegð reksturs Griffils, ef reksturinn stöðvaðist, enda hafi það verið markmið hans. Því kæmi sér verulega illa fyrir stefnanda ef bæta ætti tjónið með öðrum hætti. Stefnandi vísi til og byggi á 4. gr. laga nr. 30/2004, hvað varði upplýsingar við töku vátryggingar. Í ákvæðinu segi, að við töku vátryggingar skuli vátryggingarfélagið, eða sá sem komi fram fyrir þess hönd, veita nauðsynlegar upplýsingar til þess að vátryggingartaki geti metið tilboð þess. Sérstaklega skuli gera grein fyrir því hvort verulegar takmarkanir séu á gildissviði vátryggingarinnar eða þeirri vernd er hún veiti. Væri það svo, að gera ætti upp tjónið á grundvelli vátryggingarinnar með allt öðrum hætti heldur en skilmálar hennar mæli skýrt fyrir um, þannig að munurinn hlaupi á tugum milljóna króna, hljóti að hafa verið nauðsynlegt við töku vátryggingarinnar að vátryggingarfélagið veitti upplýsingar um það, þannig að vátryggingartakinn, stefnandi í þessu tilviki, hefði getað metið tilboð tryggingarfélagsins. Stefndi hafi hins vegar engar upplýsingar veitt um að uppgjör tjóns myndi fara fram með öðrum hætti en skilmálarnir segðu til um. Stefndi beri hallann af því að hafa brotið gegn þessu ákvæði, fyrst hann haldi því fram nú að gera eigi tjónið upp með öðrum hætti en skilmálar tryggingarinnar segi til um. Stefnandi vísi til þess að fyrir liggi fordæmi um sambærilegt mál hjá úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum, sbr. mál nr. 207/2014. Í málinu hafi verið ágreiningur um það hvað félli undir hugtakið „hráefnisbirgðir á geymslustöðum“ og hvort dekkjalager, sem hafði brunnið, félli undir rekstrarstöðvunartryggingu. Í úrskurði nefndarinnar komi fram að þegar litið væri til efnis vátryggingarsamningsins um rekstrarstöðvunartryggingu, væri verulegur vafi uppi um túlkun hugtaksins „hráefnisbirgðir á geymslustöðum“. Einnig yrði að telja tilvísun til hráefnisbirgðanna í vátryggingarskírteininu verulega óskýra. Nefndin hafi áréttað, að mikilvægi þess að skýrt kæmi fram í vátryggingarsamningi um hvað væri samið, væri ótvírætt þegar litið væri til anda laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Því til viðbótar yrði að benda á að vátryggingarfélaginu hefði verið í lófa lagið að tilgreina með nákvæmari hætti hvaða hráefni væru hluti af hráefnisbirgðum og þá undanskilja sérstaklega dekkjalagerinn, ef ætlunin hafi verið að semja með þeim hætti. Hallann af óljósu orðalagi vátryggingarinnar yrði vátryggingarfélagið að bera. Væri það í samræmi við anda laganna um vátryggingarsamninga, sem og andskýringarregluna, sem úrskurðarnefndin hafi tekið fram að væri vel þekkt í vátryggingasamningarétti. Stefnandi telji sjónarmiðin í framangreindum úrskurði eiga við, þ.e.a.s. að stefnda hafi verið í lófa lagið að taka fram, ef markmið tryggingarinnar væri að gera upp tjón með öðrum hætti en skilmálar vátryggingarinnar segðu skýrt til um. Stefnandi bendi í þessu sambandi á að stefndi hafi gert það í öðrum skilmálum fyrir rekstrar-stöðvunartryggingar, sbr. skilmála vátryggingar nr. ER25, rekstrarstöðvunartryggingar kúabúa, en ekki í skilmálum nr. ER20, sem gildi í þessu máli. Í samræmi við andskýringarregluna, sem hafi mikið vægi í vátryggingarréttinum, beri stefndi hallann af því ef skilmálar hans séu ekki skýrir. Raunar sé ekki hægt að tala um óskýra skilmála, þar sem afstaða stefnda sé beinlínis í andstöðu við orðalag skilmálanna. Sú niðurstaða að gera tjón upp með allt öðrum hætti en skilmálar segi til um sé ótæk fyrir vátryggingartaka. Stefnandi bendi á að vátryggingarfjárhæð vátryggingarskírteinisins hafi numið um 130 milljónum króna, en sú fjárhæð sé í engu samræmi við hagnað af starfseminni á einu ári. Fjárhæðin í vátryggingarskírteininu sé vísbending þess að hún hafi átt að tryggja framlegð rekstursins en ekki hagnað af honum. Í bréfi stefnda til stefnanda, 12. janúar 2015, sé vitnað til frumvarps til laga um vátryggingarsamninga, þar sem fram komi að sú meginregla gildi „eftir sem áður“ að skaðatryggingar eigi ekki að bæta meira en raunverulegt tjón hins vátryggða. Rétt sé að taka fram að hugtakið „raunverulegt tjón“ sé ekki skilgreint í lögum, en stefnandi líti svo á að krafa hans sé ekki um annað en raunverulegt tjón hans. Raunverulegt tjón sé töpuð framlegð af rekstrareiningunni Griffill. Það sé tjón stefnanda. Þá vísi stefnandi til þess, að í eldri lögum um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954, hafi verið ákvæði í 39. gr. laganna sem kveðið hafi á um að þótt samið hafi verið á annan veg, væri vátryggingarfélagi óskylt að greiða hærri bætur en með þyrfti til þess að bæta tjón það sem orðið hefði. Þetta ákvæði hafi hins vegar ekki verið tekið upp í gildandi lög um vátryggingarsamninga. Í greinargerð með frumvarpi til laganna, í umfjöllun um þetta atriði, sé skýringin sögð sú, að því væri ekki að neita að í framkvæmd hefðu vátryggingafélög í skilmálum sínum samið um að bæta tjón á tilteknum munum umfram raunverulegt verðmæti þeirra. Þætti því ekki rétt að halda sem sérstakri grein hinni fortakslausu reglu 39. gr. Því megi vera alveg ljóst að vátryggingarfélögum sé heimilt að semja hvernig sem sé, vátryggingartaka til hagsbóta. Hvað sem því líði telji stefnandi ekki að krafa hans sé umfram raunverulegt tjón hans. Gild rök séu fyrir því að bæta fremur framlegð en beinan hagnað, þegar rekstur stöðvist. Hið vátryggða séu fyrst og fremst tekjumöguleikar reksturs að frádregnum breytilegum kostnaði við að skapa tekjurnar. Ein meginröksemd stefnda fyrir höfnun frekari bóta sé sú að stefndi hafi sparað sér húsaleigu og að húsaleiga verði að breytilegum kostnaði við tjón. Stefnandi hafni því alfarið að fastur kostnaður hans, s.s. húsaleiga o.fl., verði skyndilega að breytilegum kostnaði við bruna fasteignar. Fyrir þessu hafi engin rök verið færð af hálfu stefnda, enda vandséð hvernig þetta geti átt við rök að styðjast. Skýrt sé tekið fram í skilmálum vátryggingarinnar, að horfa eigi til framlegðarinnar eins og hún hefði orðið ef vátryggingaratburður hefði ekki orðið. Húsaleiga hefði verið fastur kostnaður án tjónsatburðar og hún ekki haft nein áhrif á framlegðina. Með því að líta á húsaleigu sem breytilegan kostnað þannig að hún hafi áhrif á framlegð í rekstrinum sé vikið frá fyrirmælum skilmála vátryggingarinnar um að bæta tjón á þeim forsendum að leggja til grundvallar það sem hefði orðið án tjónsatburðar, svo ekki sé minnst á að þessi túlkun stefnda sé í andstöðu við almennan og viðurkenndan skilning um hugtökin framlegð og fastur kostnaður. Þá árétti stefnandi að í 35. gr. laga nr. 30/2004, sem fjalli um útreikning bóta og vátryggingarverðmæti, segi að sé ekki um annað samið í vátryggingarsamningi eigi vátryggður rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt. Ekki þurfi að fjölyrða um að stefnandi hafi orðið fyrir altjóni á rekstri sínum, sem ekki verði endurreistur. Rekstrarstöðvunartrygging bætir framlegðartap, sem vátryggður verði fyrir. Hann fái ekki fullar bætur nema hann fái að fullu bætta tapaða framlegð sína af rekstri Griffils. Uppgjör með öðrum hætti feli í sér að stefnandi fái ekki fullar bætur fyrir fjártjón sitt. Aðeins sé deilt um bótaskyldu í málinu en ekki tölulegur ágreiningur.  Endanleg fjárhæð stefnukröfunnar nemi útreiknaðri og áætlaðri framlegð stefnanda vegna reksturs Griffils á bótatímabilinu samkvæmt fyrirliggjandi útreikningi endurskoðanda, 104.840.962 krónum að frádreginni greiðslu stefnda í lok vátryggingartímabilsins 23. júlí 2015 að fjárhæð 23.502.457 krónur og lækkun upphaflegrar kröfu vegna rekstrarstöðvunartryggingarinnar um 19.555.277 krónur vegna viðbótarkostnaður sem fallið hafi undir lausafjártryggingu stefnanda hjá stefnda en fyrir mistök hafi verið reiknuð inn í kröfu vegna rekstarstöðvunartryggingarinnar. Mismunurinn 61.783.228 krónur samsvari höfuðstól endanlegar kröfugerðar stefnanda í málinu. Stefnandi krefjist þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. júlí 2015 og sé þá miðað við það tímamark, þegar uppgjör stefnda hafi borist stefnanda. Til stuðnings kröfum sínum vísi stefnandi til laga um vátryggingarsamninga og almennra reglna vátryggingaréttarins. Um dráttarvaxtakröfu vísi stefnandi til 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 og III. kafla laganna almennt. Um varnarþing sé vísað til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991. Um málskostnað sé vísað til 129., sbr. 130. gr. laga um meðferð einkamála,  nr. 91/1991. Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda Af hálfu stefnda er á því byggt að hann hafi greitt stefnanda fullar bætur á grundvelli þeirrar rekstrarstöðvunartryggingar sem stefnandi hafi verið með hjá honum, þegar vátryggingaratburðurinn hafi átt sér stað. Hvað varði lausafjártryggingu stefnanda hjá stefnda hafi stefndi þegar greitt stefnanda 10.531.876 krónur umfram skyldu vegna þeirrar tryggingar og sé krafist skuldajafnaðar hvað þá fjárhæð varði, komi til þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda bætur umfram það sem hann hafi þegar greitt honum skv. rekstrarstöðvunartryggingunni. Stefndi byggi á því að gera verði skýran greinarmun á 11. gr. í skilmálum  nr. ER20, sem fjalli um ákvörðun vátryggingarfjárhæðar, og 13 gr., sem fjalli um ákvörðun bóta. Samkvæmt ákvæðum 11. gr. skuli vátryggingarfjárhæðin taka mið af áætlaðri framlegð á vátryggingartímabilinu. Framlegð sé síðan í grófum dráttum skilgreind sem rekstrartekjur að frádregnum breytilegum kostnaði. Vissulega sé það svo að í gr. 13.2 sé mælt fyrir um að tjón nemi mismuni á reiknaðri framlegð eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur annars vegar og hins vegar raunverulegri framlegð á bótatímabilinu. Að öllu öðru óbreyttu reiknist bætur til vátryggðs á þeim grundvelli. Í ákveðnum tilvikum komi þó fyrir að tjónsatburður leiði til þess að ýmsir kostnaðarliðir í rekstri sparist vegna vátryggingaratburðarins. Í slíkum tilvikum sé mikilvægt að hafa í huga þá meginreglu vátryggingarréttar að tjónþoli skuli ekki hagnast á vátryggingaratburði en sú regla sé meðal annars sett fram í 35. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga þar sem fram komi að hafi ekki verið um annað samið eigi vátryggður rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt. Í skýringum greinargerðar frumvarps þess sem orðið hafi að lögum nr. 30/2004 komi meðal annars fram að skýra verði regluna svo að vátryggður verði að sætta sig við eðlilegar bætur, verði t.d. að sætta sig við enduröflunarverð vátryggðs hlutar en geti ekki krafist viðgerðarkostnaðar, ef sá kostnaður fari langt umfram enduröflunarverðið. Í reglunni felist því með öðrum orðum lögfesting þeirrar meginreglu að tjónþoli megi ekki hagnast á vátryggingaratburði. Þá sé einnig vert að benda á að fram komi í skýringunum að ekki sé ætlunin að breyta gildandi rétti hvað þessi atriði varði en í eldri lögum hafi sérstaklega verið mælt fyrir um að vátryggingarfélagi væri óskylt að greiða hærri bætur en með þyrfti til að bæta það tjón sem orðið hefði. Í samræmi við þessa meginreglu og til að unnt sé að taka á þeim ólíku tilvikum sem upp geti komið sé í gr. 13.3 í skilmálum nr. ER20 sérstaklega mælt fyrir um að bætur séu aðeins greiddar fyrir það raunverulega tjón sem orðið hafi á bótatímabilinu. Í því sambandi skipti engu máli hvernig vátryggingarfjárhæðin sé reiknuð eða hvort kostnaður, sem falli niður við vátryggingaratburð, teljist fastur kostnaður eða breytilegur. Það sé eingöngu hið raunverulega tjón sem sé bætt. Vátryggður skuli ekki hagnast á vátryggingaratburði. Fjárhæð sem jafngildi kostnaði, sem fallið hafi niður við vátryggingaratburð, sé ekki tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir. Stefnandi þurfti ekki að greiða húsaleigu eftir brunann og hafi því ekki orðið fyrir tjóni vegna húsaleigukostnaðar. Húsaleigukostnaður stefnanda hafi vissulega verið talinn fastur kostnaður fyrir brunann þar sem ekki hafi verið fyrirséð að fjárhæð húsaleigunnar tæki  breytingum í takt við breytingar á framleiðslu eða sölu Griffils. Þetta hafi þó ekki verið án undantekninga. Ákvæði húsaleigusamningsins hafi verið þess eðlis að ef sala Griffils hætti að fullu sökum bruna á húsnæðinu þá félli húsaleigan niður. Í þeim skilningi hafi kostnaðurinn verið breytilegur. Á sama tíma og reksturinn hafi stöðvast vegna brunans hafi skylda stefnanda til greiðslu húsaleigu fallið niður. Stefnandi hafi því ekki orðið fyrir tjóni sem jafngildi fjárhæð húsaleigunnar og hafi því í raun verið um breytilegan kostnað að ræða í þessu tilviki. Í stefnu sé lagt út frá því að vátryggingarfjárhæðin hafi tekið mið af framlegð sem sé hærri fjárhæð en hagnaður af starfseminni og af því dregin sú ályktun að vátryggingarfjárhæðin, sem sé grundvöllur iðgjalda, hafi ekki verið í samræmi við áhættu af tryggingunni. Þetta sé ekki rétt. Það séu ekki allir mögulegir vátryggingaratburðir sem undir trygginguna geti fallið þess eðlis að húsaleiga eða annar fastur kostnaður falli niður. Það hafi hinsvegar gerst í þessu tilviki sem valdi því að tjón stefnanda nemi í þessu tilviki ekki allri framlegð rekstrarins. Þessi niðurstaða sé í fullu samræmi við ákvæði skilmála tryggingarinnar enda sé þar sérstaklega tekið fram að einungis raunverulegt tjón á bótatímabilinu sé greitt. Að lokum bendi stefnda á að málatilbúnaður stefnanda, til að mynda varðandi kaup á tölvu og kassakerfi fyrir skiptibókamarkað og tímasetning framsetningu kröfu um greiðslu allrar vátryggingarfjárhæðar rekstrarstöðvunartryggingarinnar, beri þess merki að stefnandi hafi verið búinn að ákveða löngu áður en vátryggingartímabilinu lauk að hann myndi ekki hefja rekstur Griffils að nýju eftir brunann. Samkvæmt gr. 13.4 í skilmálum nr. ER20 takmarkist bætur til aðila sem ekki hyggist hefja vátryggða starfsemi að nýju við óhjákvæmilegan, sannanlegan kostnað vátryggðs. Stefndi hafi í öllu falli greitt stefnanda bætur sem nema hærri fjárhæð en nemi slíkum kostnaði. Stefndi byggi á að það sé stefnanda að sanna að hann hafi í raun haft hug á því að hefja reksturinn að nýju eftir brunann, enda standi slík sönnun honum mun nær en stefnda. Takist stefnanda ekki sú sönnun sé ljóst að stefndi hafi greitt fullar bætur á grundvelli gr. 13.4 í skilmálum nr. ER20 og vel það. Að öllu framangreindu athuguðu telji stefndi ljóst að hann hafi þegar greitt stefnanda fullar bætur úr rekstrarstöðvunartryggingu aðila. Beri því að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda og dæma stefnanda til að greiða honum málskostnað að skaðlausu. Stefndi vísi til almennra reglna vátrygginga- og skaðabótaréttar, einkum laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, meginreglu skaðabótaréttar og vátryggingaréttar um að einungis raunverulegt fjártjón verði bætt, meginreglunnar um að tjónþoli eða vátryggingartaki skuli ekki hagnast á tjónsatburði eða vátryggingaratburði. Þá vísi stefndi til þeirra skilmála nr. ER20.  Krafa stefnda um málskostnað byggi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Forsendur og niðurstaða Í máli þessu greinir aðila á um túlkun skilmála rekstrarstöðvunartryggingar, sem stefnandi var með hjá stefnda, þegar sú starfsemi hans, sem rekin var undir auðkenninu Griffill, stöðvaðist við eldsvoða í Skeifunni í Reykjavík, 6. júlí 2014. Óumdeilt er að um trygginguna giltu skilmálar stefnda nr. ER20. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu. Af hálfu stefnanda er á því byggt að bætur samkvæmt tryggingunni beri að greiða á grundvelli gr. 11.1 í skilmálum nr. ER20 þar sem mælt sé svo fyrir að vátryggingarfjárhæð skuli nema áætlaðri framlegð vátryggðs á vátryggingar-tímabilinu. Í gr.11.2 sé að finna skilgreiningu á hugtakinu framlegð þ.e. að hún sé rekstrartekjur vátryggingartímabilsins að frádreginni vörunotkun, breytilegum launakostnaði, öðrum breytilegum kostnaði og birgðabreytingu fullunninna vara ef við eigi. Þessi skilgreining sé í fullu samræmi við hefðbundnar skilgreiningar á hugtakinu framlegð. Í 13. gr. skilmálanna sé mælt fyrir um ákvörðun bóta. Í ákvæði 13.1 segi að vátryggingarfélagið greiði bætur í þann tíma sem fram komi í vátryggingarskírteini eða endurnýjunarkvittun, en þó aldrei fyrir lengra tímabil en fyrirtækið sé stöðvað að meira eða minna leyti. Ekki sé ágreiningur um að vátryggingartímabilið hafi verið 12 mánuðir, frá tjónsatburði, hinn 6. júlí 2014 að telja. Rekstur Griffils hafi stöðvast við tjónsatburðinn og ekki hafist að nýju, að undanskildu stuttu tímabili í ágúst og september 2014, þegar stefnandi hafi rekið skólamarkað í Laugardalshöll undir merkjum Griffils. Í gr. 11.5 í skilmálunum sé tekið fram að við áætlun á framlegð, rekstrartekjum og breytilegum kostnaði sé byggt á ársreikningi síðasta rekstrarárs hins vátryggða eða árshlutauppgjöri og áætlun um breytingar á vátryggingartímabilinu. Við ákvörðun vátryggingarfjárhæðar beri því að miða við framlegð eins og hún hefði orðið ef ekki hefði komið til tjónsatburðar. Samkvæmt ákvæði 13.2 skuli bótafjárhæð tryggingarinnar nema mismun á reiknaðri framlegð eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur og hins vegar raunverulegri framlegð. Sé kröfugerð stefnanda í fullu samræmi við þetta ákvæði. Við endanlegt uppgjör aðila á grundvelli umræddrar rekstrarstöðvunartryggingar beri að leggja framangreinda skilmála stefnda nr. ER20 til grundvallar enda feli þeir í sér bindandi samning milli aðila. Sé því sjónarmiði stefnda að „meginreglur vátryggingaréttar“ eigi að skerða rétt stefnanda í þessum efnum með öllu hafnað enda fari það gegn skýru orðalagi skilmálanna og krafa stefnanda ekki byggð á öðru en raunverulegu tjóni hans þ.e. tapaðri framlegð vegna rekstrareiningarinnar Griffils. Af hálfu stefnanda sé á því byggt að vátryggingarfélögum sé heimilt að semja hvernig sem er, vátryggingartaka til hagsbóta. Hvað sem því líði telur stefnandi ekki að krafa hans sé umfram raunverulegt tjón hans. Gild rök séu fyrir því að bæta fremur framlegð en beinan hagnað, þegar rekstur stöðvist. Hið vátryggða séu fyrst og fremst tekjumöguleikar reksturs að frádregnum þeim breytilega kostnaði sem til falli við að skapa tekjurnar. Stefnandi hafni því alfarið að fastur kostnaður hans, s.s. húsaleiga o.fl., verði skyndilega að breytilegum kostnaði við bruna fasteignar enda sé það með öllu órökstutt. Skýrt er tekið fram í skilmálum rekstarstöðvunartryggingarinnar, að horfa eigi til framlegðarinnar eins og hún hefði orðið ef vátryggingaratburður hefði ekki orðið. Húsaleiga hefði verið fastur kostnaður án tjónsatburðar og hún ekki haft nein áhrif á framlegðina. Með því að líta á húsaleigu sem breytilegan kostnað þannig að hún hafi áhrif á framlegð í rekstrinum sé vikið frá skýrum ákvæðum skilmála nr. ER20 um að bæta tjón á þeim forsendum að leggja til grundvallar það sem hefði orðið án tjónsatburðar, svo ekki sé minnst á að þessi túlkun stefnda sé í andstöðu við almennan og viðurkenndan skilning um hugtökin framlegð og fastur kostnaður. Þá byggir stefnandi á því að í 35. gr. laga nr. 30/2004, sem fjalli um útreikning bóta og vátryggingarverðmæti, segi að sé ekki um annað samið í vátryggingarsamningi eigi vátryggður rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt. Ljóst sé að stefnandi fá ekki fullar bætur nema hann fái að fullu bætta tapaða framlegð sína af rekstrareiningu Griffils. Uppgjör með öðrum hætti feli í sér að stefnandi fái ekki fullar bætur fyrir fjártjón sitt. Af hálfu stefnda er á því byggt að hann hafi greitt stefnanda fullar bætur á grundvelli þeirrar rekstrarstöðvunartryggingar sem stefnandi hafi verið með hjá honum við vátryggingaratburðinn, 6. júlí 2014. Stefndi byggi á því að gera verði skýran greinarmun á ákvæðum 11. gr. skilmála nr. ER20, sem fjalli um ákvörðun vátryggingarfjárhæðar og ákvæðum 13. gr. Samkvæmt 11. gr. skuli vátryggingarfjárhæðin taka mið af áætlaðri framlegð á vátryggingartímabilinu. Framlegð sé síðan í grófum dráttum skilgreind sem rekstrartekjur að frádregnum breytilegum kostnaði. Vissulega sé það svo að í gr. 13, ákvæði 13.2, sé mælt fyrir um að tjón nemi mismuni á reiknaðri framlegð eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur annars vegar og hins vegar raunverulegri framlegð á bótatímabilinu. Að öllu öðru óbreyttu reiknist bætur til vátryggðs á þeim grundvelli. Í ákveðnum tilvikum komi þó fyrir að tjónsatburður leiði til þess að ýmsir kostnaðarliðir í rekstri sparist vegna vátryggingaratburðarins. Í slíkum tilvikum sé mikilvægt að hafa í huga þá meginreglu vátryggingarréttar að tjónþoli skuli ekki hagnast á vátryggingaratburði en sú regla sé meðal annars sett fram í 35. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga þar sem fram komi að hafi ekki verið um annað samið eigi vátryggður rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt. Jafnframt feli reglan í sér lögfestingu þeirrar meginreglu að tjónþoli eigi ekki að hagnast á vátryggingaratburði. Í samræmi við þessa meginreglu og til að unnt sé að taka á þeim ólíku tilvikum sem upp geti komið sé í ákvæði 13.3  sérstaklega mælt fyrir um að bætur séu aðeins greiddar fyrir það raunverulega tjón sem orðið hafi á bótatímabilinu. Í því sambandi skipti engu máli hvernig vátryggingarfjárhæðin sé reiknuð eða hvort kostnaður sem falli niður við vátryggingaratburð teljist fastur kostnaður eða breytilegur. Það sé eingöngu hið raunverulega tjón sem sé bætt. Fjárhæð sem jafngildi kostnaði sem fallið hafi niður við umræddan tjónsatburð, 6. júlí 2014, sé ekki tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir. Fyrir liggi að stefnandi hafi ekki þurft að greiða húsaleigu vegna húsnæðisins í Skeifunni 11 eftir brunann og hafi því ekki orðið fyrir tjóni vegna leigu eða annars húsnæðistengds kostnaðar sem nemi fjárhæð þessa kostnaðar. Þessi kostnaður hafi því orðið breytilegur við tjónsatburðinn og sé sú niðurstaða í fullu samræmi við ákvæði skilmála nr. ER20. Samkvæmt ákvæði 13.4 í umræddum skilmálum takmarkist bætur til tryggingartaka, sem ekki hyggist hefja vátryggða starfsemi að nýju, við óhjákvæmilegan, sannanlegan kostnað vátryggðs. Fyrir liggi og sé óumdeilt að stefnandi hyggist ekki hefja starfsemi Griffils að nýju. Stefndi hafi í öllu falli greitt stefnanda bætur sem nema hærri fjárhæð en slíkum kostnaði. Meginágreiningur aðila snýst um það hvort leiguna, sem stefnandi greiddi vegna húsnæðisins í Skeifunni 11 fram til 6. júlí 2014 og annan húsnæðistengdan kostnað, beri að skilgreina sem fastan kostnað eða breytilegan kostnað eftir brunann 6. júlí en fyrir liggur og er óumdeilt að leigan féll niður frá og með 6. júlí samkvæmt ákvæðum í leigusamningi stefnanda og leigusala. Þá liggur fyrir að annar húsnæðistengdur kostnaður vegna leiguhúsnæðisins í Skeifunni 11 svo sem hiti, rafmagn, ræsting og annað þess háttar féll niður frá og með tjónsatburðinum. Eins og áður er rakið var mælt svo fyrir í vátryggingarskilmálum stefnda vegna rekstrarstöðvunartryggingar nr. ER20, sem í gildi voru þegar tjónið varð, sbr. ákvæði 13.2, að tjón vegna rekstrarstöðvunar í merkingu skilmálanna næmi mismun annars vegar á áætlaðri framlegð eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur og hins vegar raunverulegri framlegð á bótatímabilinu. Óumdeilt er að bótatímabilið í þessu tilviki var frá 6. júlí 2014 til og með 5. júlí 2015. Þetta ákvæði skilmálanna verður að skýra í samræmi við ákvæði 13.3 þar sem segir að bætur séu aðeins greiddar fyrir það raunverulega tjón sem orðið hafi á tímabilinu að svo mikil leyti sem vátryggingin nái til og aðeins fyrir þann hluta af tjóninu sem  eingöngu orsakist af stöðvun þeirri eða samdrætti í rekstrinum sem átt hafi sér stað. Í 35. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga er mælt svo fyrir að sé ekki á annan veg samið í vátryggingarsamningi eigi vátryggður rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt. Þótt ákvæðið mæli ekki fyrir um bann við auðgun, svo sem leitt varð af 1. mgr. 39. gr. eldri laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954, þykir rétt að skýra ákvæðið svo að gagnálykta eigi út frá því á þann veg að vátryggður eigi að fá fullar bætur fyrir tjón sitt en ekki meira. Hugtakið framlegð vísar til þeirra fjármuna sem fyrirtæki fær í afgang til að mæta föstum kostnaði, þegar breytilegur kostnaður fyrirtækisins, þ.e. sá kostnaður sem breytist með breyttu framleiðslumagni, hefur verið dreginn frá sölutekjum.  Það er mat dómsins að yrði fallist á þá skoðum stefnanda að húsaleigu og annan  húsnæðistengdan kostnað, sem féll niður við brunann í Skeifunni 11, 6. júlí 2014, beri að skilgreina sem fastan kostnað en ekki breytilegan við uppgjör á umræddri rekstrarstöðvunartryggingu myndi það leiða til auðgunar stefnanda, sem fjárhæð þessa kostnaðar næmi. Þykir því rétt að fallast á þá málsástæðu stefnda að skilgreina beri umræddan kostnað sem breytilegan kostnað í framhaldi brunans og að rétt sé að hann  komi til til lækkunar á áætlaðri framlegð skv. ákvæði 13.2 í skilmálum nr. ER20.    Endanlegur höfuðstól dómkröfu stefnanda í máli þessu er 61.783.228 krónur. Hafa lögmenn aðila ítrekað lýst því yfir undir rekstri málsins þ.á.m. við aðalmeðferð þess að ekki sé tölulegur ágreiningur í málinu. Verður því að álykta með vísan til þeirra málsástæðna sem aðilar byggja á og að framan hafa verið raktar að höfuðstólskrafa stefnanda samsvari áætluðum leigukostnaði og öðrum húsnæðistengdum kostnaði, á tímabilinu 6. júlí 2014 til og með 5. júlí 2015. Með vísan til alls framangreinds ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu. Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.    Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð: Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Pennans ehf., í máli þessu. Málskostnaður milli aðila falli niður.
Mál nr. 615/2017
Málskostnaður
S ehf. féll frá áfrýjun máls á hendur T og SU ehf., en hinir síðarnefndu höfðu með gagnáfrýjun krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti sem kom til úrlausnar Hæstaréttar. Var niðurstaða héraðsdóms um að málskostnaður félli niður milli aðila staðfest, en S ehf. gert að greiða T og SU ehf. málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Arngrímur Ísberg héraðsdómari. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. september 2017. Með bréfi til réttarins 7. júní 2018 tilkynnti aðaláfrýjandi að hann félli frá áfrýjun málsins. Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 13. desember 2017. Þeir  krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað, sem þeir krefjast í héraði og fyrir Hæstarétti. Með tölvubréfi til réttarins 13. júní 2018 í tilefni af framangreindu bréfi aðaláfrýjanda tilkynntu gagnáfrýjendur að þeir héldu sig við kröfu sína. Í kjölfarið var málið dómtekið án sérstaks málflutnings um kröfu gagnáfrýjenda í samræmi við óskir aðila, sbr. 3. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eins og það ákvæði hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 49/2016, sbr. 1. mgr. 78. gr. þeirra laga, sbr. 4. gr. laga nr. 53/2017. Í ljósi atvika málsins verður ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað staðfest en aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjendum málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað. Aðaláfrýjandi, Straumhvarf ehf., greiði gagnáfrýjendum, Torfa G. Yngvasyni og Sumardal ehf., hvorum fyrir sig 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2017. Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 29. júní 2015 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 7. júní sl. Stefnandi er Straumhvarf hf., Vatnagörðum 8, Reykjavík. Stefndu eru Torfi G. Yngvason og Sumardalur ehf., bæði til heimilis að Barónsstíg 59, Reykjavík. Endanleg krafa stefnanda er sú að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda sameiginlega 25 milljónir króna að frádregnum þremur milljónum króna, sem var kaupverð stefnda Sumardals ehf. á tveimur milljónum hluta í Vélsleðaleigunni ehf. af Eyju ehf., auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. júní 2016 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar. Stefndu krefjast aðallega sýknu, en til vara lækkunar kröfu stefnanda, auk málskostnaðar. Yfirlit málsatvika og helstu ágreiningsefni Stefndi Torfi var um skeið framkvæmdastjóri stefnanda og jafnframt eigandi 25% hlutafjár í félaginu í gegnum einkahlutafélag sitt, stefnda Sumardal ehf. Á fyrri hluta ársins 2015 seldi hann hlut sinn í félaginu og lét af störfum fyrir félagið. Í málinu liggur fyrir starfslokasamningur Torfa við stefnanda 11. mars þess árs. Samkvæmt aðilaskýrslu stefnda Torfa keypti hann þriðjungshlut í Vélsleðaleigunni ehf. fyrir hönd fyrrnefnds einkahlutafélags síns 2. eða 3. febrúar 2015 þegar hann gegndi enn starfi framkvæmdastjóra stefnanda, en sá samningur hefur ekki verið lagður fram í málinu þrátt fyrir áskorun stefnanda. Seljandi hlutarins var Eyja ehf. og er ekki um það deilt að kaupverð nam þremur milljónum króna. Munu aðrir hluthafar í Vélsleðaleigunni ehf. og stjórn áður hafa fallið frá forkaupsrétti vegna kaupa stefnda Torfa á hlutunum. Þá er ekki um það deilt að stefndi Sumardalur ehf. seldi félaginu hlut sinn í Vélsleðaleigunni ehf. 30. október 2015 og nam kaupverðið 25 milljónum króna. Lýtur ágreiningur aðila að því hvort kaup stefnda Torfa á hlutunum hafi falið í sér brot í starfi hans sem framkvæmdastjóri stefnanda og hvort stefndu beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á þeim grundvelli. Aðila greinir verulega á um þau atvik sem þýðingu hafa fyrir málið og er þeim nánar lýst í tengslum við málsástæður þeirra og lagarök. Við aðalmeðferð málsins gaf stefndi Torfi aðilaskýrslu. Þá kom fyrir dóminn sem vitni Ragnar O. Rafnsson, ráðgjafi hjá Ernst & Young, sem vann að áreiðanleikakönnun á stefnanda í tengslum við sölu á hlutum í félaginu í upphafi ársins 2015. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi, sem hefur um árabil rekið ferðaþjónustu undir heitinu „Arctic Adventure“ vísar til þess að hann hafi átt í áralöngu samstarfi við Vélsleðaleiguna ehf. og á árinu 2013 hafi komið til tals að hann keypti þriðjungshlut í félaginu. Hafi þannig verið komið upp viðskiptatækifæri eða kaupréttur að hlutnum sem stefnda Torfa hafi verið vel kunnugt um. Á haustmánuðum 2014 hafi stefndi Torfi upplýst nafngreinda menn um umræddan kauprétt eða viðskiptatækifæri í tengslum við viðræður um kaup þeirra á hlut í stefnanda. Í febrúar 2015 hafi starfsmaður Ernst & Young hf. unnið áreiðanleikakönnun í tengslum við sölu á hlut stefnda Torfa í stefnanda og hafi þar meðal annars verið farið yfir kauprétt eða möguleika stefnanda á því að kaupa hlutinn í Vélsleðaleigunni ehf. Stefnandi vísar til þess að á fundi með starfsmanni Ernst & Young hf. í febrúar 2015 hafi stefndi Torfi veitt starfsmanninum þær upplýsingar að ekki væri til neinn samningur um kauprétt eða kauptækifæri stefnanda á hlutum í Vélsleðaleigunni ehf. Hafi stefndi Torfi skýrt svo frá að stefnanda hafi á sínum tíma staðið til boða að kaupa þriðjungshlut í félaginu á 4,5 milljónir króna en síðar á 3,5 milljónir króna en ekki hafi orðið af því. Hafi stefndi Torfi útskýrt þetta þannig að velta Vélsleðaleigunnar ehf. hefði stóraukist og væri félagið því ekki lengur jafn háð stefnanda og áður. Stefnandi telur að í umræddu samtali, sem stefndi Torfi hefur staðfest að átti sér stað, hafi stefndi viðurkennt að stefnanda hafi staðið til boða að kaupa hlutinn. Hins vegar hafi stefndi Torfi leynt því að á þessum tíma hafði hann þegar keypt hlutinn sjálfur og þannig brotið gróflega gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefnanda. Stefndi Torfi hafi hvorki á þessum tíma né síðar tilkynnt stjórn stefnanda um kaup sín á hlutnum í Vélsleðaleigunni af Eyju ehf. og stjórninni hafi ekki verið kunnugt um kaupin þegar gerður var starfslokasamningur við stefnda 11. mars 2015. Stefnandi kærði háttsemi stefnda Torfa til lögreglu 17. september 2015. Stefnandi telur að með því að ljúka ekki kaupum stefnanda á umræddum hluta í Vélsleðaleigunni ehf., en kaupa hlutinn þess í stað sjálfur, hafi hann brotið gegn skyldum sínum sem framkvæmdastjóri stefnanda og valdið honum tjóni. Þá er á því byggt að stefndi Sumardalur ehf. hafi vitað af broti stefnda Torfa enda sitji sá síðarnefndi einn í stjórn félagsins. Stefnda Sumardal ehf. hafi því með ólögmætum og ótilhlýðilegum hætti verið aflað ávinnings á kostnað stefnanda sem eigi rétt á því að fá tjón sitt bætt. Stefnandi vísar til meginreglna vinnuréttar um samningssamband starfsmanns og vinnuveitanda og til laga um hlutafélög nr. 2/1995, einkum 2. mgr. 68. gr., 72. gr. og 76. gr. Þá er vísað til 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og almennra reglna skaðabóta- og kröfuréttar. Helstu málsástæður og lagarök stefndu Stefndu mótmæla málsástæðum stefnanda um brot stefnda Torfa á trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefnda og óréttmæta auðgun vegna kaupa stefnda Sumardals ehf. á þriðjungshlut í Vélsleðaleigunni ehf. af Eyju ehf. Þá er harðlega mótmælt fullyrðingum um umboðssvik. Stefndu vísa til þess að stefnanda hafi ekki staðið til boða að kaupa þann þriðjungshlut í Vélsleðaleigunni ehf. sem stefndi Sumardalur ehf. keypti. Ekkert renni stoðum undir staðhæfingar stefnanda um kauprétt eða kauptækifæri í þessa veru og einnig sé ósannað að aðrir hluthafar eða stjórn Vélsleðaleigunnar ehf. hefðu fallið frá forkaupsrétti við slíka sölu. Stefndu vísa til þess að sá hlutur í Vélsleðaleigunni ehf. sem staðið hafi stefnanda til kaups á sínum tíma hafi verið í eigu tilgreindra stjórnarmanna Vélsleðaleigunnar ehf. Stefndi Sumardalur ehf. hefði hins vegar keypt sinn hluta af Eyju ehf. og hefði fyrirsvarsmaður þess félags lýst því fyrir dómi, vegna annars dómsmáls sem rekið var á milli aðila, að hún hefði aldrei boðið stefnanda þann hluta til kaups. Samkvæmt þessu hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið af viðskiptatækifæri sem honum stóð til boða, hvað þá kauprétti sem stefndu telja enga stoð fyrir. Stefndu mótmæla einnig fullyrðingum stefnanda um brot stefnda Torfa gegn skyldum sínum sem framkvæmdastjóri. Telja þeir, með vísan til ákvæða hlutafélagalaga, að skyldur stefnda Torfa hafi ekki náð til þess að ráðast í áhættusamar fjárfestingar fyrir hönd stefnanda og geti engu skipt í því sambandi þótt Vélsleðaleigan ehf. hafi verið í föstum viðskiptum við stefnanda. Slík ráðstöfun hafi verið óvenjuleg eða mikils háttar og því ekki á færi framkvæmdastjóra félagsins. Stefndi Torfi geti því ekki hafa bakað sér skaðabótaskyldu á grundvelli 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Stefndu telja einnig að nauðsynlegt hefði verið að afla samþykkis hluthafafundar til slíkrar ráðstöfunar og a.m.k. hefði stjórn þurft að taka ákvörðun um slík kaup á stjórnarfundi. Ekkert liggi hins vegar fyrir um vilja hluthafafundar eða stjórnar til að kaupa umræddan hlut. Stefndu mótmæla því að stefndi Torfi hafi ekki upplýst stjórn stefnanda með viðhlítandi hætti meðan hann gegndi starfi framkvæmdastjóra. Stefndu vísa meðal annars til gr. 5.3 í starfslokasamningi stefnda Torfa þar sem tekið er fram að honum sé heimilt að starfa fyrir Vélsleðaleiguna ehf. eða eiga hlut í því félagi eftir að hann hafi lokið störfum fyrir stefnanda. Fyrirsvarsmenn stefnanda hafi samkvæmt þessu hlotið að vita um tengsl stefnda Torfa við Vélsleðaleiguna ehf. Hafi stjórn stefnanda borið að gera athugasemdir ef hún taldi að stefnandi ætti rétt á því að kaupa hlut í Vélsleðaleigunni ehf. og hafi stefnandi við engan að sakast nema sig sjálfan að hafa látið umrædd viðskipti sér úr greipum ganga. Í reynd sé því aðildarskortur stefndu fyrir hendi sem leiði til sýknu samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu telja einnig ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Stefndi Sumardalur ehf. hafi keypt hlutinn í Vélsleðaleigunni ehf. á markaðsvirði og eftir að hluthafar og stjórn síðargreinda félagsins höfðu fallið frá forkaupsrétti sínum. Um hafi verið að ræða áhættusama fjárfestingu og sé þýðingarlaust þótt stefndu hafi tekist að selja hlutinn fyrir hærra verð mun síðar þegar aðstæður félagsins höfðu breyst til batnaðar. Í raun sé því stefnandi að krefjast þess að stefndu greiði sér hagnað af viðskiptum eftir að í ljós kom að þau reyndust ábatasöm. Er því mótmælt að stefnandi geti skilgreint tjón sitt með þessum hætti. Samkvæmt þessu skorti allt orsakasamhengi milli kaupa stefnda Sumardals ehf. á umræddum hlut og ætluðu tjóni stefnanda. Tjón stefnanda, sem stefndu telja ósannað, geti því síður talist sennileg afleiðing viðskiptanna. Varakrafa stefndu um lækkun byggist á því að tjón stefnanda geti ekki grundvallast á mismun á kaupverði stefnda Sumardals ehf. á umræddum hlut og söluverði síðar. Er vísað til þess að sala Sumardals ehf. á hlutunum í Vélsleðaleigunni ehf. hafi farið fram við þær aðstæður að stefnandi þrýsti á aðra hluthafa Vélsleðaleigunnar ehf. um að kaupa hlut stefnda Sumardals ehf. og selja stefnanda alla hluti í félaginu. Sú hafi og orðið raunin og sé stefnandi nú einn eigandi félagsins. Ljóst sé að ekki sé tækt að miða tjón stefnanda við söluverð sem orðið hafi til við þessar aðstæður. Niðurstaða Svo sem áður greinir var Vélsleðaleigan ehf. viðvarandi samstarfsaðili stefnanda í ferðaþjónustu og var stefnda Torfa vel kunnugt um að af hálfu stefnanda hafði verið áhugi á því kaupa hlut í fyrirtækinu eða jafnvel félagið í heild. Hvað sem líður skyldu stefnda Torfa, sem starfaði sem framkvæmdastjóri stefnanda, til þess að upplýsa stjórnarformann eða stjórn félagsins um fyrirhuguð kaup sín á hlut í Vélsleðaleigunni ehf. við þessar aðstæður, er hins vegar ósannað að stefnanda hafi staðið sá samningur til boða sem stefndi Torfi gerði fyrir hönd einkahlutafélags síns, stefnda Sumardals ehf., við Eyju ehf. 2. eða 3. febrúar 2015. Þá hefur stefnandi ekki fært fyrir því sönnur að hann hefði keypt umræddan hlut, ef stefndi Torfi hefði vakið athygli stjórnar félagsins á slíku viðskiptatækifæri, eða gert viðhlítandi grein fyrir því tjóni sem hann varð af af þessum sökum. Að síðustu hefur stefnandi engin haldbær rök fært fyrir því að hann hafi átt eiginlegan kauprétt að hlutum í Vélsleðaleigunni ehf. eða gert grein fyrir því hvernig stefndi Torfi braut gegn slíkum rétti. Samkvæmt framangreindu hefur stefnandi ekki sýnt fram á að téð samningsgerð stefnda Torfa, fyrir hönd hins stefnda einkahlutafélag síns, hafi valdið honum tjóni. Verða báðir stefndu því sýknaðir af kröfu stefnanda. Í ljósi atvika málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður. Af hálfu stefnanda flutti málið Bernhard Bogason hdl. Af hálfu stefndu flutti málið Skarphéðinn Pétursson hrl. Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Stefndu, Torfi G. Yngvason og Sumardalur ehf., eru sýkn af kröfu stefnanda, Straumhvarfs ehf. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 598/2017
Líkamstjón Endurupptaka bótaákvörðunar Miski Uppgjör
A varð fyrir líkamstjóni í umferðarslysi á árinu 2005. Í desember 2006 greiddi S hf. honum bætur á grundvelli álitsgerðar læknis og lögmanns sem þá lá fyrir. Síðar taldi A að ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsu sinni vegna slyssins og höfðaði mál gegn S hf. til heimtu frekari bóta. Byggði A kröfu sína á matsgerð dómkvaddra manna sem hann hafði aflað af því tilefni. Deildu aðilar um hvort skilyrði endurupptöku samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga væru fyrir hendi og hvort krafa A væri fyrnd. Þá deildu aðilar jafnframt um hvort, og þá að hvaða leyti, bætur til A skyldu sæta frádrætti vegna greiðslna frá almannatryggingum. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að skilyrði endurupptöku væru til staðar og að krafa A væri ófyrnd. Þá taldi dómurinn að draga bæri bæði frá miskabótum og bótum fyrir varanlega örorku þær greiðslur sem A kynni að eiga rétt á frá almannatryggingum. Með því að enn lægi ekki fyrir hvort og þá hve háar greiðslur A ætti rétt á í þeim efnum, var S hf. sýknað að svo stöddu af kröfum hans með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að skilyrði endurupptöku væru fyrir hendi og að krafa A væri ófyrnd. Þá taldi rétturinn sömuleiðis að bæði miskabætur A og bætur hans vegna varanlegrar örorku skyldu sæta frádrætti vegna greiðslna frá almannatryggingum. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu, meðal annars með vísan til nýrra gagna sem lögð höfðu verið fyrir réttinn, að þær greiðslur sem A ætti rétt á frá almannatryggingum væru hærri en þær bætur sem hann ætti rétt á frá S hf. Var félagið því sýknað af kröfum hans.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. september 2017. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér aðallega 12.981.923 krónur, til vara 11.973.873 krónur, að því frágengnu 1.512.075 krónur, en að öðrum kosti 504.025 krónur, í öllum tilvikum með 4,5% ársvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 17. júní 2005 til 25. mars 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 20. desember 2017. Hann krefst sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. I Aðaláfrýjandi slasaðist í umferðaróhappi 17. júní 2005, en hann var þá farþegi í framsæti bifreiðar sem ekið var á mikilli ferð út af þjóðvegi í Öxnadal. Bifreiðin mun hafa farið margar veltur og gereyðilagst. Auk aðaláfrýjanda voru þrír aðrir í bifreiðinni og létu tveir þeirra lífið af völdum áverka, sem þeir hlutu í slysinu. Aðaláfrýjandi var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar, en hann reyndist viðbeinsbrotinn, með mar á brjóstkassa og hægra lunga, auk þess sem hann var með sár í andliti. Hann dvaldi í tvo sólarhringa á sjúkrahúsi en fékk að því búnu að fara til síns heima. Gagnáfrýjandi, sem veitt hafði lögboðna ábyrgðartryggingu vegna bifreiðarinnar, og aðaláfrýjandi óskuðu sameiginlega skriflegs álits tveggja sérfræðinga, læknis og lögmanns, á afleiðingum umferðarslyssins. Álit þeirra lá fyrir 9. desember 2006 og var niðurstaðan sú að aðaláfrýjandi hefði verið óvinnufær frá slysdegi til batahvarfa, sem verið hafi 17. mars 2006, tímabil þjáningabóta hefði verið frá slysdegi til sama dags. Varanlegur miski var talinn 40 stig og var það vegna eftirstöðva áverka á hægra axlarsvæði, eftirstöðva háls- og baktognunar, tognunar í hné og eftirstöðva heilahristings. Auk þess byggi aðaláfrýjandi við nokkra sjónsviðsskerðingu sem rekja mætti til slyssins, hann bæri merki eftirstöðva áverka á tönnum og hefði ör í andliti og á hálsi. Jafnframt byggi hann við taugasálfræðilega veikleika sem raktir yrðu til umferðarslyssins og loks var talið að líkamstjónið hefði haft í för með sér sérstaka erfiðleika í lífi hans í skilningi 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 umfram það sem fælist í því mati sem fram hafi farið á grundvelli læknisfræðilegra sjónarmiða. Varanleg örorka aðaláfrýjanda var talin 35% og var það einkum rakið til líkamlegra og taugasálfræðilegra afleiðinga af slysinu. Þá sagði að afleiðingar þeirra heilaáverka, sem aðaláfrýjandi hlaut í slysinu, myndu geta háð honum við flest störf. Í kjölfar þeirrar niðurstöðu um afleiðingar umferðarslyssins fyrir aðaláfrýjanda, sem getur að framan, fór fram uppgjör á skaðabótum til hans 19. desember 2006 og nam útreiknuð fjárhæð bóta ásamt vöxtum 16.000.768 krónum. Af læknisfræðilegum gögnum í málinu má sjá að aðaláfrýjandi leitaði læknisaðstoðar af ýmsum ástæðum á árunum 2006 til 2012. Hann leitaði meðal annars aðstoðar geðlækna vegna þunglyndis. Hann sendi 21. febrúar 2012 umsókn um örorkubætur til Tryggingastofnunar ríkisins en þeirri umsókn var hafnað þar sem endurhæfing hefði ekki verið reynd. Á árinu 2012 leitaði aðaláfrýjandi bæði til bæklunarskurðlækna og sálfræðings, sem gerði á honum taugasálfræðilegt mat. Aðaláfrýjandi beiddist dómkvaðningar matsmanna 15. apríl 2013 til þess að reisa á kröfu sína um endurupptöku bótaákvörðunarinnar, sem áður greinir, en hann taldi að skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga fyrir endurupptöku væri fullnægt. Aðaláfrýjandi óskaði svara matsmanna við þremur spurningum. Í fyrsta lagi hver væri varanlegur miski vegna slyssins, sbr. 4. gr. skaðabótalaga, í öðru lagi hver væri varanleg örorka, sbr. 5. gr. sömu laga, og í þriðja lagi, ef breyting hefði orðið á heilsu aðaláfrýjanda frá því sem lagt var til grundvallar bótauppgjöri, sem rekja mætti til umferðarslyssins, hvort þær breytingar hefðu verið ófyrirsjáanlegar í skilningi 11. gr. laganna.    Í matsgerð dómkvaddra manna 17. febrúar 2014 var komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski aðaláfrýjanda vegna slyssins væri 45 stig. Sú niðurstaða var á því reist að afleiðingar slyssins fælust í vitrænni skerðingu eftir heilaskaða, vægri sjónsviðsskerðingu til beggja hliða, áfallastreituröskun, talsvert áberandi öri hægra megin á hálsi og öðru við hægra eyra, eftirstöðvum eftir viðbeinsbrot og axlaráverka og vægum einkennum eftir tognun í hægra hné og hægri ökkla. Matsmenn tóku fram að í álitsgerðinni 9. desember 2006 hefði verið gengið út frá því að aðaláfrýjandi hefði hlotið tognun í hálsi og baki í slysinu, en þeir væru því ósammála og teldu slík einkenni ekki verða rakin til slyssins 17. júní 2005. Þá töldu þeir heldur ekki rök til þess að hækka varanlegan miska umfram það sem leiddi af læknisfræðilegu mati, eins og gert var í álitsgerðinni frá 2006, en þá hækkun töldu þeir hafa verið um 5 stig. Í matsgerðinni kom fram að matsmenn teldu varanlegan miska hafa verið ofmetinn um minnst 10 stig í álitsgerðinni vegna tognunaráverkanna. Þar sem þeirra niðurstaða, þegar litið væri framhjá framangreindum tveimur atriðum, væri að varanlegur miski vegna slyssins væri 45 stig þá fæli það í sér aukningu um 15 stig. Þessa aukningu röktu matsmenn til meiri einkenna frá heilaskaða en áður var talið og töldu þeir jafnframt að þessi aukning hefði verið ófyrirsjáanleg við gerð álitsgerðarinnar í desember 2006. Matsmenn töldu varanlega örorku vera 70%, sem fæli í sér tvöföldun frá fyrra mati, en ástæða þess væri að afleiðingar heilaskaða væru mun meiri en áður var talið. Munurinn væri þó enn meiri ef tekið væri tillit til þess að áður var mat á varanlegri örorku einnig byggt á tognunareinkennum frá hálsi og baki. Matsmenn létu þessar ástæður þó ekki leiða til hækkunar á mati sínu á varanlegri örorku frá því sem fram kom í álitsgerðinni. Að fengnum þessum niðurstöðum krafðist aðaláfrýjandi endurupptöku á bótaákvörðuninni sem uppgjörið 19. desember 2006 var reist á. Beindi hann á þessum grundvelli kröfu á hendur gagnáfrýjanda, sem hann leitar dóms um í þessu máli, 1.512.075 krónur fyrir 15 stiga varanlegan miska og 11.469.848 krónur vegna 35% varanlegrar örorku eða samtals 12.981.923 krónur auk vaxta. Útreikningurinn miðar við batahvörf 17. mars 2006. Aðaláfrýjandi höfðaði málið 16. júní 2015, degi áður en 10 ár voru liðin frá slysdegi. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir ágreiningi málsaðila um það hvort áfrýjandi fullnægi skilyrðum til þess að eiga rétt til örorkulífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins vegna afleiðinga umferðarslyssins. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf stofnunarinnar 4. október 2017 þar sem fram kom að aðaláfrýjandi uppfylli læknisfræðileg skilyrði um hæsta örorkustig. Gildistími örorkumats var sagður frá 1. febrúar 2017 til 31. janúar 2020, en í þeim mánuði ætti endurmat að fara fram. Gagnáfrýjandi hefur aflað útreiknings tryggingastærðfræðings 6. nóvember 2017 á eingreiðsluverðmæti þess örorkulífeyris miðað við batahvörf sem áfrýjandi hefur fengið greiddan og getur vænst þess að fá greiddan frá Tryggingastofnun ríkisins til 67 ára aldurs. Niðurstaðan er sú að eingreiðsluverðmætið að teknu tilliti til frádráttar vegna ætlaðs tekjuskatts nemi 14.605.767 krónum. Ekki er tölulegur ágreiningur um þennan útreikning. II Gagnáfrýjandi reisir vörn sína í fyrsta lagi á því að aðaláfrýjandi hafi ekki sannað að skilyrði endurupptöku samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga séu fyrir hendi. Auk þess sem fullnaðaruppgjör hafi farið fram, án fyrirvara af hálfu aðaláfrýjanda. Í öðru lagi, ef aðaláfrýjandi teljist hafa átt kröfu um frekari bætur, sé sú krafa fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í þriðja lagi telur gagnáfrýjandi að aðaláfrýjandi hafi ekki gætt þeirrar skyldu að takmarka tjón sitt. Hann hafi lengi fullnægt, samkvæmt áliti sérfræðilæknis, skilyrðum þess að njóta réttar til örorkulífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins vegna afleiðinga slyssins, 17. júní 2005, óháð því hvort fleiri sjúkdómar eða heilsuvandamál hrjái hann. Eins og að framan greinir hafi hann nú öðlast rétt til örorkulífeyris og sé eingreiðsluverðmæti hans miðað við 17. mars 2006, að frádregnum ætluðum tekjuskatti, 14.605.767 krónur, sem sé hærri fjárhæð en krafa aðaláfrýjanda í málinu. Í þessu sambandi deila málsaðilar um það hvort einungis sé heimilt, sbr. 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, að draga greiðslur vegna örorkulífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins frá kröfu um bætur fyrir varanlega örorku, eða hvort einnig megi draga þær frá kröfu um bætur fyrir varanlegan miska. Þá teflir gagnáfrýjandi fram þeirri málsvörn að hvað sem öðru líði séu vextir, sem aðaláfrýjandi geri kröfu um frá 17. júní 2005 til greiðsludags, fyrndir að því leyti sem þeir hafa fallið til meira en fjórum árum áður en málið var höfðað. III Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga fyrir endurupptöku bótaákvörðunar 19. desember 2006 hafi verið fyrir hendi. Krafa aðaláfrýjanda, sem hann reisir á ófyrirséðum og verulega auknum afleiðingum líkamstjónsins, sætir fyrningu samkvæmt 99. gr. umferðarlaga. Staðfest verður sú niðurstaða héraðsdóms að aðaláfrýjanda hafi fyrst mátt vera ljóst að hann ætti viðbótarkröfu um skaðabætur þegar matsgerð dómkvaddra manna lá fyrir 17. febrúar 2014. Eins og greinir í dóminum var málið höfðað 16. júní 2015 og var það áður en 10 ára fyrningarfresti 99. gr. lauk. Verður sú niðurstaða dómsins staðfest að krafa aðaláfrýjanda, sem hann hefur uppi í máli þessu, hafi ekki verið fyrnd er það var höfðað. Fyrir Hæstarétt hafa, eins og fram er komið, verið lögð gögn um rétt aðaláfrýjanda til fulls örorkulífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins og útreikningur tryggingastærðfræðings á eingreiðsluverðmæti hans miðað við batahvörf að frádregnum ætluðum tekjuskatti. Málið liggur að þessu leyti öðruvísi fyrir Hæstarétti en héraðsdómi, sem sýknaði gagnáfrýjanda að svo stöddu með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa aðaláfrýjanda, 11.469.848 krónur, um bætur fyrir varanlega örorku, auk vaxta sætir samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og þau voru á slysdegi 17. júní 2005, frádrætti vegna greiðslna sem hann fær ,,frá almannatryggingum“. Lagt verður til grundvallar samkvæmt framansögðu að aðaláfrýjandi eigi rétt til greiðslna ,,frá almannatryggingum“ sem nemi 14.605.767 krónum. Sú fjárhæð er á því reist að hann njóti til frambúðar og allt til 67 ára aldurs örorkulífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins, en ekki aðeins til 31. janúar 2020 eins og stofnunin hefur lýst yfir í bréfi sínu. Með vísan til dóma Hæstaréttar 20. október 2005 í máli nr. 119/2005 og 13. júní 2013 í máli nr. 20/2013 verður miðað við að þótt réttur aðaláfrýjanda til greiðslna úr almannatryggingum geti verið háður óvissu, að því leyti að endurmeta eigi örorku hans í janúar 2020, verður lagt hér til grundvallar að þetta mat muni ekki breytast í þeim mæli í framtíðinni að ekki sé unnt að draga reiknaðar örorkubætur, sem áður eru tilgreindar, frá metnum skaðabótum vegna varanlegrar örorku. Verður gagnáfrýjandi því sýknaður af kröfu aðaláfrýjanda um skaðabætur fyrir varanlega örorku. Gagnáfrýjandi krefst þess að sú fjárhæð sem eftir stendur, 3.135.919 krónur, þegar metnar skaðabætur vegna varanlegrar örorku hafa verið dregnar frá eingreiðsluverðmæti þess örorkulífeyris sem lagt er til grundvallar að aðaláfrýjandi njóti og muni njóta frá Tryggingastofnun ríkisins, verði dregin frá kröfu um bætur fyrir varanlegan miska 1.512.075 krónur. Aðaláfrýjandi telur á hinn bóginn að örorkulífeyrir sem sé í raun greiðsla bóta fyrir fjárhagslegt tjón geti aðeins komið til frádráttar kröfu um skaðabætur vegna fjárhagslegs tjóns, hér kröfu um bætur fyrir varanlega örorku. Krafa um miskabætur samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga sé krafa um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón og frá henni verði ekki dreginn örorkulífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins. Reglum 4. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, sbr. 4. mgr. 5. gr. laganna, var breytt með lögum nr. 37/1999, sem tóku gildi 1. maí 1999. Þeim var aftur breytt með lögum nr. 53/2009, sem tóku gildi 1. maí 2009. Hæstiréttur hefur í dómum sínum er varða skaðabætur, vegna slysa sem urðu á síðastgreindu tímabili, fjallað um ágreiningsefni sambærilegt því, sem hér er til úrlausnar. Í dómi réttarins 14. febrúar 2008 í máli nr. 252/2007 var niðurstaðan sú að bætur úr slysatryggingu launþega og örorkulífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins skyldu meðal annars dragast frá kröfu tjónþola um bætur fyrir varanlegan miska. Í dómi réttarins 15. nóvember 2012 í máli nr. 192/2012 var einnig talið að meðal annars skyldi draga bætur úr slysatryggingu launþega frá bótum fyrir varanlegan miska. Verður því fallist á með gagnáfrýjanda að aðaláfrýjandi skuli sæta því að örorkulífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins komi til frádráttar kröfu hans um bætur fyrir varanlegan miska, 1.512.075 krónur. Með vísan til alls framangreinds verður gagnáfrýjandi sýknaður af kröfu aðaláfrýjanda. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verður staðfest. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, sem ákveðst eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Gagnáfrýjandi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfum aðaláfrýjanda, A. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.000.000 krónur.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2017.                 Þetta mál, sem var endurflutt og dómtekið 20. júní 2017, höfðar A, kt. [...],[...], Reykjavík, með stefnu, birtri 16. júní 2015, á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. [...], Kringlunni 5, Reykja­vík, til heimtu skaða- og miskabóta, auk vaxta, dráttarvaxta og málskostnaðar.                 Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 12.981.923 kr. ásamt 4,5% vöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, af 1.512.075 kr. frá 17. júní 2005 til 17. mars 2006 og af 12.981.923 kr. frá þeim degi til 25. mars 2014, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.                 Stefnandi krefst þess til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 11.973.873 kr. ásamt 4,5% vöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, af 504.025 kr. frá 17. júní 2005 til 17. mars 2006 og af 11.973.873 kr. frá þeim degi til 25. mars 2014, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.                 Stefnandi krefst þess til þrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefn­anda 1.512.075 kr. ásamt 4,5% vöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, frá 17. júní 2005 til 25. mars 2014, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðslu­dags.                 Stefnandi krefst þess til þrautaþrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 504.025 kr. ásamt 4,5% vöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, frá 17. júní 2005 til 25. mars 2014, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðslu­dags.                 Stefnandi krefst í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt fram lögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins, eins og málið væri eigi gjaf­sókn­armál. Þá er þess krafist að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til að greiða virð­is­aukaskatt af málflutningsþóknun, þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskatts­skyldur aðili.                 Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.                 Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og máls­kostnaður milli aðila falli niður. Málavextir                 Þetta mál varðar bætur stefnanda fyrir varanlegar afleiðingar hans af umferðar­slysi. Ágrein­ing­ur­inn varðar einungis lagaatriði og réttaráhrif matsgerða en hvorki atvikið sjálft né afleiðingar þess fyrir stefnanda.                 Stefnandi lenti í alvarlegu umferðarslysi fyrir 12 árum, 17. júní 2005, í Öxna­dal. Hann var farþegi í framsæti bifreiðar, sem fór út af veginum, fór margar veltur og gjör­eyði­lagð­ist. Tveir aðrir farþegar voru í bílnum, auk ökumanns. Tveir voru úrskurð­aðir látnir á slys­stað. Beita þurfti klippum til þess að ná stefnanda úr bif­reið­inni. Hann var fluttur á slysa­deild Fjórð­ungs­sjúkra­húss­ins á Akureyri strax í kjöl­far slyss­ins. Hann hlaut fjöl­áverka í slysinu. Auk þess hefur hann glímt við veru­legar and­legar afleið­ingar slyss­ins.                 Málsaðilar, stefnandi og tryggingafélag sem tryggði bifreiðina, öfluðu sameig­in­lega matsgerðar um afleiðingar slyssins fyrir stefnanda (fyrri matsgerð). B læknir og C hrl., luku mati sínu 9. desember 2006. Það var niður­staða þeirra að tímabundið atvinnutjón stefnanda væri 100% frá 17. júní 2005 til 17. mars 2006, tíma­bil þján­inga­bóta væri níu mánuðir, þar af tveir dagar rúm­liggj­andi, var­an­legur miski stefn­anda væri 40 stig og varanleg örorka hans næmi 35%. Það var jafn­framt niður­staða mats­manna að stefnandi hefði ekki getað vænst frekari bata eftir 17. mars 2006.                 Að fenginni matsgerðinni sendi lögmaður stefnanda stefnda kröfubréf 12. des­em­ber. Tjónið var gert upp viku síðar, 20. desember 2006, á grundvelli mats­gerð­ar­innar. Stefndi tekur fram að lögmaður stefnanda hafi ritað undir upp­gjörið án þess að setja nokkurn fyrirvara við það.                 Síðar fór að koma í ljós, að tauga­sál­fræði­leg og geðræn einkenni sem stefnandi hlaut vegna höfuðhöggsins í slysinu, voru ekki komin fyllilega í ljós þegar fyrrgreint mat fór fram. Því lágu fullnægjandi gögn um þær afleiðingar ekki fyrir þegar matið var unnið. Stoðkerfiseinkenni stefnanda versnuðu sömuleiðis eftir að matið var unnið.                 Af þeim sökum óskaði stefnandi, með vísan til IX. og XII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einnig 11. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, eftir end­ur­mati dómkvaddra matsmanna, með beiðni dagsettri 15. apríl 2013.                 Dómkvaddir voru D, sérfræðingur í heila- og tauga­sjúk­dómum og mati á líkamstjóni, og E hdl., sem afhentu mats­gerð dag­setta 17. febrúar 2014 (seinni matsgerð).                 Í mati sínu lögðu matsmenn til grundvallar að varanlegar heilsufarslegar afleið­ingar slyssins fyrir stefnanda væru vitræn skerðing eftir heilaskaða, væg sjón­sviðs­skerðing til beggja hliða, áfallastreituröskun, talsvert áberandi ör hægra megin á hálsi með kláða og skertu húðskyni og annað minna áberandi ör við hægra eyra, eftir­stöðvar eftir viðbeinsbrot og áverkar á öxl hægra megin og væg einkenni eftir tognun í hægra hné og hægri ökkla.                 Þeir fundu því ekki stað í frumgögnum málsins að stefn­andi hefði tognað í hálsi og baki í slysinu og álitu einkenni hans frá hálsi og baki ekki verða rakin til þess, ólíkt þeim sem unnu fyrri matsgerðina. Að auki töldu þeir tjón í þessu slysi ekki þess eðlis að það valdi sér­stökum erfið­leikum í lífi stefnanda sem ástæða væri til að meta til miska umfram miska sem metinn er sam­kvæmt miska­töflu. Varanlegan miska vegna þessara þátta töldu þeir því ofmet­inn í fyrri matsgerðinni.                 Dómkvaddir matsmenn komust að þeirri niðurstöðu að munurinn á miska­mati þeirra og í fyrra mati lægi í mati á einkennum vitrænnar skerðingar vegna heilaskaða og áfalla­streitu­röskunar. Þeir töldu líklegt, miðað við þróun einkenna vegna heila­skað­ans, að í fyrra mati hefði miskamatið miðað við lýsingu miska­taflna um heilkenni eftir höfuð­áverka (IE) eða „let posttraumatisk belastning­reaktion (J.1.1.)“. Niðurstaða þeirra var að þessi einkenni hefðu versnað og vísuðu til saman­burðar til tauga­sál­fræði­legra mata sem höfðu verið gerð á stefnanda. Að mati dómkvaddra mats­manna var lík­legt að einkennin vegna heilaskaða hefðu í fyrra mati verið metin 10 stig en þeir mátu ein­kennin í febrúar 2014 25 stig. Þeir töldu að mats­menn sem unnu fyrra matið hefðu ekki getað séð þessa 15 stiga breyt­ingu fyrir og hefðu því ekki gert ráð fyrir henni. Því hefðu orðið ófyrir­sjá­an­legar breytingar á heilsu stefn­anda frá fyrra mati. Þar eð miski vegna togn­unar á hálsi og baki og sérstaks miska var talinn með í fyrri matsgerðinni hækk­aði miska­matið í heild þó ein­ungis úr 40 stigum í 45 stig.                 Dómkvaddir matsmenn töldu mun á varanlegri örorku á milli mata liggja í því að afleiðingar heilaskaða væru miklu meiri en gert hafi verið ráð fyrir í eldra mati og var­an­leg örorka stefnanda því helmingi hærri, það er 70% í stað 35%. Munurinn væri enn meiri væri tekið til­lit til þess að mat á örorku í eldra mati byggði einnig á varan­legum einkennum frá hálsi og baki.                 Lögmaður stefnanda sendi stefnda matsgerð dómkvaddra matsmanna ásamt kröfu 25. febrúar 2014. Stefndi bendir á að lögmaðurinn hafi í kröfubréfinu ein­ungis kraf­ist bóta vegna þess 5 stiga miska sem bættist við heildarmiskamatið með seinni mats­gerðinni.                 Á þessum tíma hafði stefnandi ekki fengið neinar greiðslur frá Trygginga­stofnun þar eð beiðnum hans um örorkulífeyri og endur­hæf­ing­ar­lífeyri hafði verið vísað frá eða hafnað.                 Aflað var álits B læknis á því hvort stefnandi ætti rétt til greiðslna úr almannatryggingum sem draga mætti frá bótum frá stefnda, skv. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eins og hún var orðuð á slysdegi. Læknirinn kynnti sér við­kom­andi gögn, hitti stefnanda, ræddi við hann, og skoðaði og mat á sama hátt og gert er fyrir umsókn um örorku­líf­eyri hjá TR. Í greinar­gerð sinni dags. 4. júní 2014 komst lækn­ir­inn að þeirri niður­stöðu að stefn­andi fengi 12 stig á fyrri hluta stað­als Trygg­inga­stofn­unar og 10 stig á seinni hluta hans. Þar með upp­fylli stefnandi skil­yrði almanna­trygg­inga um örorkulífeyri því honum nægi að fá sex stig á hvorum hluta stað­als­ins um sig.                 Að fengnu mati læknisins var óskað eftir útreikningi F trygg­ing­ar­stærð­fræðings á eingreiðsluverðmæti örorku­lífeyris sem stefnandi ætti rétt á ætti hann rétt til bótagreiðslna frá Trygginga­stofnun, miðað við niður­stöðu B og núgildandi reglur. Þar eð stefnandi hafði þá ekki notið slíkra greiðslna var miðað við að hann myndi fyrst sækja bætur frá 1. júní 2014.                 Með tölvuskeyti 30. júní 2014 tilkynnti stefndi að eingreiðsluverðmæti ætl­aðs bóta­réttar stefnanda til framtíðar hjá TR og þar með frá­drátt­ur­inn, næmi að teknu tilliti til skatt­greiðslna samtals 12.813.952 kr. sem væri hærri fjár­hæð en útreikn­aðar bætur vegna miska og örorku samkvæmt ofangreindri kröfu. Með vísan til þessa féllst stefndi ekki á frekari greiðslur vegna slyssins þrátt fyrir niður­stöðu örorku­mats­ins í febrúar 2014.                 Stefnandi sótti fyrst um örorkubætur hjá Tryggingastofnun 21. febrúar 2012, tæpum sjö árum eftir slysið. Umsókninni fylgdi læknisvottorð G, dag­sett 8. febrúar 2012. Í svarbréfi tryggingalæknis, 15. mars 2012, segi að ekki virð­ist tíma­bært að taka afstöðu til örorku þar eð endur­hæf­ing hafi að hans mati ekki verið reynd. Örorkumati var því vísað frá.                 Stefnandi sótti um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun rúmu ári síðar, 24. júní 2013. Umsókninni fylgdi, eins og áður, læknisvottorð G, dags. 19. apríl 2013, og endur­hæf­ing­ar­áætlun læknis. Í bréfi stofnunarinnar, dagsettu 15. júlí 2013, segir að end­ur­hæf­ingarhópur TR telji endur­hæf­ingar­áætlun lækn­is­ins hvorki nógu skýra né markvissa til að byggja umsækjanda upp fyrir þátt­töku á atvinnu­mark­aði og réttlæti hún því ekki veitingu endur­hæf­ing­ar­líf­eyris. Því var beiðni stefn­anda synjað.                 Stefnandi sótti um örorkulífeyri árið 2014. Í svari dagsettu 27. október 2014 segir að ekki sé tímabært að taka afstöðu til örorku stefnanda þar eð endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Í bréfinu var óskað eftir því að endurhæfingaráætlun yrði lögð fram innan fjögurra vikna. Af fram lögðum gögnum verður ekki séð að stefnandi hafi orðið við þeirri beiðni.                 Stefnandi sótti um örorkulífeyri 11. júní 2015 og höfðaði jafnframt þetta mál með því að birta stefnu 16. júní 2015.                 Stefnandi fór í endurhæfingu á Reykjalundi í desember 2015 og sótti um end­ur­hæfingarlífeyri í febrúar 2016. Tryggingastofnun sam­þykkti 12. febrúar 2016 að stefn­andi fengi endur­hæf­ing­ar­líf­eyri í þrjá mánuði frá 1. janúar til 31. mars 2016 með það markmið að hann næði betri líðan og kæm­ist í vinnu, hugsan­lega hluta­starf. Stofn­unin sam­þykkti 29. mars að hann fengi endurhæfingarlífeyri til 30. júní 2016 í sama skyni og áður.                 Stefnandi var í endurhæfingu á Reykjalundi til 7. apríl 2016. Þegar hann útskrif­að­ist þaðan var lagt til að hann færi í sjálf­boða­vinnu við garðyrkju sem honum bauðst um sumarið til þess að hann gæti náð reglu­bundnum takti í líf sitt og einnig til þess að tækifæri gæfist til að meta vinnufærni hans.                 Sumarið 2016 starfaði stefnandi við garðyrkju og fékk greitt fyrir það starf en fékk einnig endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun. Í nóv­em­ber og desember 2016 starf­aði hann í hlutastarfi hjá byggingarverktaka og fékk einnig greitt fyrir það starf.                 Tryggingastofnun samþykkti endurhæfingarlífeyri fyrir stefnanda frá 1. októ­ber 2016 til 31. janúar 2017. Í endurhæfingaráætlun sem lá til grundvallar þeirri ákvörðun er tekið fram að stefnandi hafi verið í eftirfylgd á Reykjalundi og hafi smám saman tekið framförum. Áhersla hafi verið á að hann fylgi föstum venjum og hreyfi sig reglubundið. Hann sé ekki orðinn vinnufær nema að litlu leyti en talið sé rétt­ara að láta reyna á frekari end­ur­hæf­ingu en að sækja um örorku. Síðan segir að stefn­andi sé í vinnu­þjálfun og markmiðið sé að hann verði kominn í 70-80% starf sum­arið 2017.                 Vegna afstöðu stefnda til greiðslu bóta á grundvelli matsgerðar dómkvaddra mats­manna telur stefnandi ekki hjá því komist að höfða mál til heimtu kröfu sinnar. Hann telur stefnda óheimilt að draga frá áætlaðar greiðslur á meintum bóta­rétti stefn­anda hjá Tryggingastofnun því óvissa sé um þær. Þá telur stefnandi enn fremur, hvað sem öllu öðru líður, að óheim­ilt sé að draga meintar örorku­líf­eyr­is­sgreiðslur TR frá var­an­legum miska stefn­anda. Málsástæður og lagarök stefnanda Almennt um grundvöll bótaábyrgðar og aðild málsins                 Stefnandi byggir á því að stefnda, Sjóvá Almennum tryggingum ehf., beri að greiða honum fullar skaðabætur vegna tjóns sem hann hlaut í umferðarslysi 17. júní 2005. Í 1. mgr. 88. gr. umferð­ar­laga, nr. 50/1987, segi að sá sem beri ábyrgð á skrán­ing­ar­skyldu vél­knúnu ökutæki skuli bæta það tjón sem hlýst af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns. Í 1. mgr. 90. gr. lag­anna segi að skráður eða skrán­ing­ar­skyldur eigandi vélknúins ökutækis beri ábyrgð á því og sé fébóta­skyldur sam­kvæmt 88. gr. og 89. gr. laganna.                 Bótaskylda sé skýr og hið stefnda vátryggingafélag sé greiðsluskylt, skv. 1. mgr. 91. gr., sbr. 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. Ágreiningur málsins lúti að fjárhæð bóta og bótauppgjöri í kjöl­far end­ur­upptöku skaðabótamáls á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993.                 Málið sé höfðað á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf. sem vátryggði öku­tækið sem stefnandi var farþegi í á slysdegi, sbr. 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga. Þar eð skráður eig­andi bif­reiðar­innar lést í umferð­ar­slysinu 17. júní 2005 sé trygg­inga­félag­inu einu stefnt til varnar kröfum stefn­anda með vísan til 44. gr. og 1. mgr. 45. gr. laga nr. 30/2004, um vátrygg­inga­samn­inga, og niður­stöðu Hæsta­réttar, 30. september 2009, í máli nr. 683/2009. Öll skilyrði fyrir endurupptöku skv. 11. gr. skaðabótalaga uppfyllt                 Stefnandi byggir kröfur sínar á 11. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, og byggir á því að skil­yrði til að taka fyrri bótaákvörðun upp að nýju á grundvelli lagagreinarinnar séu upp­fyllt.                 Samkvæmt 11. gr. sé það skilyrði þeirrar kröfu tjónþola að tekin verði upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur, að ófyrir­sjá­an­legar breyt­ingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miska­stig eða örorku­stig sé verulega hærra en áður var talið.                 Stefnandi byggir á því að dómkvaddir matsmenn, D, sér­fræð­ingur í heila- og taugasjúkdómum og mati á líkamstjóni, og E hdl., hafi komist að þeirri niðurstöðu að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu hans frá því að fyrra matið var gert 9. desember 2006.                 Jafnframt hafi dómkvaddir matsmenn metið þær ófyrir­sjáan­legu breytingar sem hafi orðið á heilsufari og starfsorku hans, frá því að fyrra mat var gert, þannig að var­an­legur miski hafi hækkað um 15 stig, úr 10 í 25, og varanleg örorka hafi hækkað um 35%. Stefn­andi telur því ljóst að bæði miskastig og örorkustig sé veru­lega hærra en áður var talið.                 Það sé niður­staða dómkvaddra matsmanna að mun­ur­inn á miskamati þeirra (síð­ari matsgerð) og fyrra mati (dags. 9. desember 2006) liggi í mati á einkennum vit­rænnar skerð­ingar vegna heilaskaða og áfallastreituröskunar og að þessi einkenni hafi versnað frá því að fyrra matið var gert.                 Matsmennirnir hafi jafnframt talið varan­lega örorku tvisvar sinnum hærri en í fyrra mati og hafi rakið þá aukningu til þess að afleið­ingar heila­skaða væru miklu meiri en gert hafi verið ráð fyrir í fyrra mati.                 Stefnandi telur sig eiga rétt til bóta sem nemi þeirri ófyrirsjáanlegu breytingu sem hafi orðið á heilsufari hans og starfsorku frá fyrra mati að mati dómkvaddra mats­manna, þ.e. 15 stig vegna varanlegs miska og 35% vegna varanlegrar örorku.                 Hann byggir á því að leggja eigi til grundvallar þá ófyr­ir­sjáanlegu breytingu sem dómkvaddir matsmenn telji að hafi orðið á varanlegum miska og varanlegri örorku frá fyrra mati en ekki til heildarmats dómkvaddra matsmanna. Heildarmat dóm­kvaddra mats­manna hafi hækkað varanlegan miska um 5 stig frá fyrra mati þrátt fyrir að þeir hafi komist að þeirri niðurstöðu að ófyrirsjáanlegar breytingar á varan­legum miska stefn­anda séu 15 stigum hærri en talið var í fyrra mati. Það að heildar­mat dóm­kvaddra mats­manna hækki fyrra mat á varanlegum miska einungis um 5 stig en ekki um 15 stig, skýr­ist af því að dómkvaddir matsmenn hafi endurmetið í heild þær var­an­legu afleið­ingar sem stefnandi hlaut af slysinu. Þeir hafi meðal annars verið ósam­mála mats­mönnum fyrra mats­ins um orsakatengsl milli eftirstöðva háls- og bak­togn­unar og slyss­ins.                 Stefnandi byggir á því að málsaðilar séu bundnir af bótauppgjörinu sem fór fram 20. desember 2006. Til grundvallar því bótauppgjöri hafi verið forsendur og niður­stöður matsgerðar B læknis og C hrl., dags. 9. desember 2006. Í þeirri matsgerð hafi meðal annars verið lögð til grund­vallar, við mat á var­an­legum miska, einkenni vegna háls- og bak­togn­unar. Þótt dóm­kvaddir mats­menn tengi þau einkenni ekki við slysið 17. júní 2005, þar eð þeir hafi ekki fundið því stað í frumgögnum máls­ins, breyti það ekki þeirri niður­stöðu, að mati stefn­anda, að aðilar málsins hafi verið sam­mála um að leggja þá niður­stöðu til grund­vallar bótauppgjöri árið 2006. Þá hafi öll frum­gögn máls­ins legið fyrir. Stefn­andi telji því ótækt að horfa á heildarmat hinna dóm­kvöddu mats­manna sem leiði ein­göngu til 5 stiga hækkunar á varanlegum miska. Þess í stað beri að líta til þeirra ófyrir­sjá­an­legu breyt­inga sem hafi orðið á heilsufari hans frá fyrra mati, þ.e. breyt­inga sem nemi 15 stigum fyrir varanlegan miska og 35% vegna var­an­legrar örorku.                 Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til þess að Hæstiréttur hafi túlkað 11. gr. skaða­bótalaga þannig að mat á varanlegum miska eða varanlegri örorku sam­kvæmt ákvæð­inu eigi að réttu lagi eingöngu að lúta að því að metnar séu þær breyt­ingar sem orðið hafa á heilsufari tjónþola eða starfsorku hans frá því að fyrra mat var unnið. Með sama hætti eigi nýtt mat réttilega að lúta að þessum breytingum en almennt ekki að fela í sér nýtt heildarmat á þeim varanlegu afleiðingum sem tjónþoli hafi hlotið af slysi, sbr. rökstuðning Hæstaréttar í máli nr. 286/2013 frá 14. nóvember 2013. Stefnandi á ekki bótarétt hjá Tryggingastofnun ríkisins sem kemur til frádráttar                 Stefnandi áréttar að stefndi byggi á því að stefnandi eigi að öllum lík­indum rétt á lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun, sem eigi að koma til frádráttar bóta­kröfu hans samkvæmt 4. gr. og 5. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, eins og þær voru orð­aðar þegar atvik málsins gerðust. Máli sínu til stuðn­ings hafi stefndi annars vegar lagt fram grein­ar­gerð B læknis, sem telji stefn­anda uppfylla skil­yrði almanna­trygg­inga um örorkulífeyri, og hins vegar útreikn­ing trygg­ing­ar­stærð­fræð­ings stefnda um ein­greiðsluverðmæti meints og ætl­aðs bóta­réttar stefn­anda til fram­tíðar hjá TR. Með hliðsjón af þessum gögnum telji stefndi að frá­drátt­ur­inn þurrki út bótakröfu stefn­anda og hafi hafnað að greiða stefn­anda frek­ari bætur þrátt fyrir þær ófyrir­sjá­an­legu breyt­ingar sem hafi orðið á heilsu­fari hans frá fyrra mati.                 Stefnandi hafnar því alfarið að stefnda sé heimilt að draga frá áætlaðar greiðslur á meintum bótarétti stefnanda hjá Tryggingastofnun. Það sé bæði rangt og ósannað að hann eigi bótarétt hjá stofnuninni sem geti komið til frádráttar.                 Stefnandi vísar aðallega til þess að hann hafi þegar málið var höfðað ekki fengið krónu frá Tryggingastofnun sem gæti komið til frádráttar bóta­greiðslu sam­kvæmt skaða­bóta­lögum, eins og þau voru þá orðuð, þrátt fyrir ítrekaðar umsóknir stefn­anda um örorku­bætur frá stofnuninni. Tryggingastofnun telji greini­lega að endur­hæf­ing geti skilað stefnanda þeim árangri að örorku­bætur frá stofnuninni þurfi ekki að koma til.                 Með hliðsjón af því að Tryggingastofnun hafi í þrígang hafnað umsókn stefn­anda um örorkubætur byggi stefnandi á því að hann eigi ekki rétt til örorku­bóta hjá henni. Það sé í besta falli talsverðum vafa undirorpið hvort hann eigi yfir­höfuð nokk­urn rétt á bótum hjá TR sem geti komið til frádráttar skaðabótum hans samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og hún var orðuð á slysdegi. Þá sýni afgreiðsla TR einnig að fyrir­liggj­andi grein­ar­gerð B hafi ekkert gildi varð­andi rétt hans hjá stofn­un­inni enda hefði TR átt að samþykkja umsókn stefnanda um örorku án nokk­urs fyrir­vara tæki TR mark á niðurstöðum í greinargerð B.                 Stefnandi leggur áherslu á að á stefnda hvíli sönnunarbyrðin fyrir réttmæti frá­dráttar frá bótum, sem hann er réttilega krafinn um, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2005 frá 6. apríl 2006.                 Þá bendir stefnandi á að með 1. gr. laga nr. 53/2009 hafi 4. mgr. 5. gr. skaða­bóta­laga verið breytt þannig að til frádráttar skaðabótum komi aðeins ein­greiddar örorku­bætur úr almannatryggingum. Eftir gildistöku þeirrar breytingar, 1. maí 2009, taki regla 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga ekki lengur til lífeyrisgreiðslna úr almanna­trygg­ingum. Samkvæmt lögskýringargögnum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 53/2009 sé ljóst að löggjafarvaldið hafi talið lagabreytinguna mikið rétt­læt­is­mál og mikla rétt­ar­bót fyrir þá sem höfðu misst heilsu sína og vinnugetu í slysum. Meðal ann­ars sé vísað til sann­girnis­sjónarmiða í athugasemdum við frumvarpið sjálft. Alþing­is­menn, sem tjáðu sig um lagabreytinguna við afgreiðslu þess á þinginu, hafi getið þess að skaða­bóta­lögin frá 1999 hefðu reynst „gölluð að ýmsu leyti“, að með frum­varp­inu væru „leiðrétt þau mistök sem voru gerð á sínum tíma við setningu skaða­bóta­laga 1999 […]“ og að með samþykkt frumvarpsins „heyrir þessi ósann­girni sög­unni til gagn­vart fólki sem verður fyrir tjóni og á um afskap­lega sárt að binda“. Í ljósi þess að lög­gjafar­valdið hafi nú afnumið þá reglu sem stefndi byggir höfnun sína á, meðal ann­ars með vísan til þess að reglan hafi á sínum tíma verið ósanngjörn og bein­línis mis­tök, telur stefn­andi að túlka beri regluna þröngt og að ein­göngu beri að beita henni í und­an­tekn­ing­ar­til­vikum.                 Stefnandi byggir á því að í fyrirliggjandi útreikningi stefnda á frádrætti hafi trygg­ing­ar­stærðfræðingur stefnda ekki tekið tillit til áhrifa fjár­magns­tekna af ávöxtun slysa­bóta stefnanda til skerðingar á meintum áætluðum tekju­tengdum bótum frá TR. Dóma­fordæmi Hæstaréttar sýni að við útreikning á frá­drætti á bótum úr almanna­trygg­ingum samkvæmt þágildandi 4. mgr. 5. gr. skaða­bóta­laga beri að taka til­lit til þess að tekjutengdar bætur frá TR skerðist vegna fjár­magns­tekna stefnanda af þeim bótum sem hann hafi fengið og muni fá frá stefnda.                 Fari svo að dómurinn leggi til grundvallar að stefnandi yrði met­inn til örorku hjá TR byggir hann einnig sér­stak­lega á því að hann eigi ekki rétt til heimilisuppbóta hjá TR. Af þessu sé ljóst að ótækt sé að leggja útreikn­ing tryggingarstærðfræðings stefnda til grund­vallar frá­drætti í máli þessu.                 Fallist dómurinn á þá málsástæðu stefnda að stefnandi eigi rétt til bóta hjá TR, sem komi til frádráttarkröfu stefnanda um varanlega örorku, byggir stefnandi einnig á því að slíkur réttur sé háður óvissu svo og að ekki liggi fyrir hvaða rétt stefnandi kynni að hafa öðlast til greiðslna úr almannatryggingum vegna afleiðinga slyssins 17. júní 2005 einu út af fyrir sig. Fyrirliggjandi gögn sýni að fyrra heilsufar stefnanda myndi hugs­an­lega hafa áhrif á niðurstöðu örorkumats hjá TR, eins og það hefur haft áhrif á niður­stöður fyrirliggjandi matsgerðar um varanlegar afleið­ingar slyssins.                 Allt framangreint sýni að slíkur vafi leiki á því hvort stefnandi eigi yfir­höfuð rétt til bóta úr almannatryggingum, og þá hvaða rétt, í hve langan tíma og að hve miklu leyti slíkur réttur tengist beinlínis slysinu, að ekki sé annað hægt en að hafna frá­drætti stefnda. Til þess að slíkur frádráttur sé heimill þurfi réttur stefnanda til greiðslna frá TR að vera skýr og hafinn yfir allan vafa. Nánar um aðalkröfu stefnanda                 Aðaldómkrafa stefnanda byggist á því að skilyrði endurupptöku skv. 11. gr. skaða­bótalaga séu uppfyllt og að stefnda beri að greiða stefnanda fullar skaðabætur vegna líkamstjóns hans. Skaðabætur skuli taka mið af matsgerð dómkvaddra mats­manna, D læknis og E hdl. (fyrri matsgerð), þar sem fram komi að ófyrir­sjá­an­legar breyt­ingar hafi orðið á heilsu stefnanda frá fyrra mati. Að mati dóm­kvaddra mats­manna hafi munurinn á breytingu frá fyrra mati verið 15 stig í miska og 35% í varan­legri örorku. Aðaldómkrafa stefnanda um fullar bætur mið­ast við þá niður­stöðu og sund­ur­liðast svo: Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl. (15 stig) 15% af 10.080.500 kr. (4.000.000 x 8.271/3.282) 1.512.075 kr.- Varanleg örorka skv. 5. gr. skbl. (35%) Árslaun 1.801.000 kr.*18,196*35% 11.469.848 kr. Heildarbætur: 12.981.923 kr.                   Bætur fyrir varanlegan miska eru reiknaðar á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga, sbr. 15. gr. laganna. Bætur fyrir varanlega örorku eru reiknaðar á grundvelli lágmarks­launa skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga (1.200.000 kr. * 4.926/3.282 = 1.801.000). Útreikn­ingur kröfu vegna varanlegrar örorku tekur mið af margföldunarstuðli 6. gr. skaða­bótalaga.                 Stefnandi krefst 4,5% vaxta, samkvæmt 16. gr. skaða­bóta­laga, vegna varanlegs miska frá tjónsdegi 17. júní 2005 til 17. mars 2006 þegar batahvörfum (stöð­ug­leika­punkti) var náð og einnig vegna varanlegrar örorku frá batahvörfum til 25. mars 2014, þegar mánuður var liðinn frá því að krafa stefnanda var send stefnda ásamt matsgerð dóm­kvaddra matsmanna. Þá er kraf­ist drátt­ar­vaxta skv. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, vegna allra bóta­liða frá 25. mars 2014, þegar mánuður var liðinn frá þeim degi er krafa stefn­anda var send stefnda ásamt matsgerð dómkvaddra matsmanna, og til greiðslu­dags. Nánar um varakröfu stefnanda                 Varakrafa stefnanda byggist á því að skilyrði endurupptöku skv. 11. gr. skaða­bóta­laga séu uppfyllt og að stefnda beri að greiða stefnanda fullar skaðabætur vegna lík­ams­tjóns hans. Skaðabætur skuli taka mið af matsgerð dómkvaddra matsmanna, D læknis og E hdl. Í henni komi fram að var­an­leg örorka stefn­anda vegna slyssins sé 70% og varanlegur miski 45 stig og að ófyrir­sjá­an­legar breyt­ingar hafi orðið á heilsu stefnanda frá fyrra mati, sbr. fyrri umfjöllun. Stefndi hafði áður greitt stefnanda bætur vegna afleiðinga slyssins á grund­velli mats­gerðar B læknis og C hrl., (dags. 9. des­em­ber 2006), sem mátu varan­legan miska 40 stig og varanlega örorku 35%. Í mats­gerð dóm­kvaddra mats­manna felist hækkun á miska um 5 stig og örorku um 35% frá fyrra mati, sé miðað við heild­ar­mat matsmanna í stað þess að miða eingöngu við hvaða ófyr­ir­sjá­an­legar breyt­ingar höfðu orðið á heilsufari stefnanda frá fyrra mati og hvað dóm­kvaddir mats­menn mátu þær breytingar til miska og örorku, eins og gert er í aðal­kröfu. Stefn­andi krefst því bóta vegna hækkunar á framangreindum liðum. Vara­dóm­krafa stefn­anda sund­ur­liðast svo: Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl. (5 stig) 5% af 10.080.500 kr. (4.000.000 x 8.271/3.282) 504.025 kr. Varanleg örorka skv. 5. gr. skbl. (35%) Árslaun 1.801.000 kr.*18,196*35% 11.469.848 kr. Heildarbætur: 11.973.873 kr.                   Bætur fyrir varanlegan miska eru reiknaðar á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga, sbr. 15. gr. laganna. Bætur fyrir varanlega örorku eru reiknaðar á grundvelli lág­marks­launa skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga (1.200.000 * 4.926/3.282 = 1.801.000). Útreikn­ingur kröfu vegna varanlegrar örorku taki mið af margföldunarstuðli 6. gr. skaða­bóta­laga.                 Stefnandi krefst 4,5% vaxta, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, vegna varanlegs miska frá tjónsdegi 17. júní 2005 til 17. mars 2006 þegar batahvörfum (stöðug­leika­punkti) var náð og einnig vegna varanlegrar örorku frá batahvörfum (stöðug­leika­punkti) til 25. mars 2014, þegar mánuður var liðinn frá því að krafa stefnanda var send stefnda ásamt matsgerð dóm­kvaddra matsmanna. Þá er krafist drátt­ar­vaxta skv. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, vegna allra bóta­liða frá 25. mars 2014, þegar mánuður var liðinn frá þeim degi er krafa stefn­anda var send stefnda, og til greiðsludags. Nánar um þrautavarakröfu stefnanda                 Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að áætlað eingreiðsluverðmæti meints bóta­réttar stefnanda hjá Tryggingastofnun eigi að koma til frádráttar bótakröfu stefn­anda á hendur stefnda byggir stefnandi á því, til þrautavara, að frádrátturinn geti ein­göngu komið til frá­dráttar fjárhagslegu tjóni stefnanda, það er varanlegri örorku hans, en ekki ófjár­hags­legu tjóni hans, það er varanlegum miska.                 Stefnandi byggir á því að greiðslur frá almannatryggingum geti eingöngu komið til frádráttar varanlegum miska, skv. þágildandi 4. mgr. 4. gr. skaða­bóta­laga, að því leyti sem þær greiðslur séu miskabætur. Þær áætlaðar greiðslur frá stofn­un­inni sem stefndi telur að koma eigi til frádráttar teljast hins vegar ekki miska­bætur heldur séu það greiðslur vegna fjárhagslegs tjóns, varanlegrar örorku.                 Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til þess að í almennum athugasemdum við það lagafrumvarp sem varð að lögum nr. 37/1999 og breytti 4. mgr. 5. gr. skaða­bóta­laga og heimilaði frádrátt vegna lífeyrisgreiðslna frá almannatryggingum, segi orð­rétt: Samkvæmt frumvarpinu eru helstu breytingar frá gildandi lögum þessar: [...] 4. Reglum um frádrátt frá skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku er breytt þannig að auk þeirra greiðslna sem nú dragast frá koma greiðslur frá almanna­trygg­ingum til frádráttar og hluti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði.                 Í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins, sem varð að lögum nr. 37/1999 og breytti 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, sé sérstaklega tekið fram að samkvæmt þeim lögum sem giltu fyrir lagabreytinguna hafi verið óheimilt að draga bætur frá almanna­trygg­ingum frá bótum fyrir varanlega örorku. Af lögskýringargögnum sé ljóst að til­gangur lagabreytingarinnar hafi verið að breyta því réttarástandi og heimila tjón­valdi að draga bætur frá almannatryggingum frá bótum vegna varanlegrar örorku, en ekki frá bótum vegna varanlegs miska.                 Í fræðiritum sé tekið fram að vegna varanlegs miska, komi ekki til álita miklar greiðslur frá þriðja aðilja. Greiðslur frá almanna­trygg­ingum geti komið til frádráttar, að því leyti sem þær séu miskabætur, en fátítt yrði þó, að greiðslur frá almanna­trygg­ingum hefðu áhrif á rétt tjónþola til miskabóta, sbr. dóm Hæsta­réttar í máli nr. 340/1998.                 Með hliðsjón af framansögðu byggist þrautavarakrafa stefnanda á því að skil­yrði endurupptöku samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga séu uppfyllt og að meint réttindi stefn­anda til örorkulífeyris hjá TR geti ekki komið til frádráttar varanlegum miska stefn­anda skv. 4 .gr. skaðabótalaga. Stefnandi krefst því fullra bóta fyrir varanlegan miska.                 Stefnandi krefjist til þrautavara bóta vegna breytingar á varanlegum miska frá fyrra mati, þ.e. sama miskabótakrafa og í aðalkröfu sem sundurliðist svo: Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl. (15 stig) 15% af kr. 10.080.500 (4.000.000 x 8.271/3.282) 1.512.075 kr. Heildarbætur: 1.512.075 kr.                   Bætur fyrir varanlegan miska eru reiknaðar á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga, sbr. 15. gr. laganna. Stefnandi krefjist 4,5% vaxta, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, vegna var­an­legs miska frá tjónsdegi 17. júní 2005 til 25. mars 2014, þegar mánuður var lið­inn frá því að krafa stefnanda var send stefnda ásamt matsgerð dómkvaddra mats­manna. Hann krefst einnig dráttarvaxta, samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá 25. mars 2014, þegar mán­uður var lið­inn frá þeim degi er krafa stefnanda var send stefnda, og til greiðsludags. Þrautaþrautavarakrafa                 Þrautaþrautavarakrafa stefnanda byggist á því að skilyrði endurupptöku sam­kvæmt 11. gr. skaðabótalaga séu uppfyllt og að meint réttindi stefnanda til örorku­líf­eyris hjá TR geti ekki komið til frádráttar varanlegum miska stefnanda skv. 4. gr. skaða­bóta­laga, eins og í þrautavarakröfu stefnanda. Stefnandi krefst því bóta fyrir var­an­legan miska.                 Stefnandi krefst til þrautaþrautavara bóta vegna hækkunar á varanlegum miska frá fyrra mati og er miðað við heildarmat dómkvaddra matsmanna sem hækkuðu matið um 5 stig, úr 40 stig í 45 stig, þ.e. sama miskabótakrafa og í varakröfu stefn­anda sem sundurliðast svo: Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl. (5 stig) 5% af 10.080.500 kr. (4.000.000 x 8.271/3.282) 504.025 kr. Heildarbætur: 504.025 kr.                   Bætur fyrir varanlegan miska séu reiknaðar á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga, sbr. 15. gr. laganna. Stefnandi krefst 4,5% vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, vegna var­an­legs miska frá tjónsdegi, 17. júní 2005, til 25. mars 2014, þegar mánuður var lið­inn frá því að krafa stefnanda var send stefnda ásamt matsgerð dómkvaddra mats­manna. Stefnandi krefst enn fremur dráttarvaxta skv. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verð­trygg­ingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá 25. mars 2014, þegar mán­uður var liðinn frá þeim degi er krafa stefnanda var send stefnda, og til greiðslu­dags. Málskostnaður                 Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda í öllum tilvikum eins og málið væri eigi gjaf­sókn­ar­mál. Stefnandi sé ekki virðis­auka­skatt­sskyldur aðili. Hins vegar sé lög­mönnum gert að innheimta virðisaukaskatt af þjón­ustu sinni og því sé stefnanda nauð­syn­legt að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnda.                 Um bótaábyrgð er vísað til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 11. gr. lag­anna um endurupptöku, og almennra reglna skaðabótaréttar. Stefnandi vísar einnig til þágild­andi 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga sem var síðar breytt með lögum nr. 53/2009. Hann vísar til umferðarlaga, nr. 50/1987, einkum 88. gr. þeirra og XIII. kafla. Krafa hans um vexti byggist á 16. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, og krafa um dráttar­vexti byggist á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.                 Aðild stefnda styður stefnandi við 44. gr. og 1. mgr. 45. gr. laga nr. 30/2004, um vátrygg­inga­samninga, III. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991 og 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. Um varnarþing vísast til ákvæða V. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á máls­kostnað byggir á ákvæðum laga nr. 50/1988. Málsástæður og lagarök stefnda Aðalkrafa um sýknu                 Stefndi byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að krafa stefnanda sé fyrnd, í öðru lagi á því að skilyrði 11. gr. skaða­bóta­laga til endurupptöku séu ekki upp­fyllt og stefnandi hafi þegar fengið að fullu greiddar þær bætur, sem hann á rétt á sam­kvæmt lögum. Stefndi mótmælir öllum máls­ástæðum stefnanda.                 Sönnunarbyrði um rétt stefnanda til frekari skaðabóta úr hendi stefnda hvíli á stefn­anda. Honum hafi ekki tekist að sanna að fyrir hendi séu atvik sem eigi að leiða til frek­ari bótaskyldu stefnda og því beri að sýkna. I. Fyrning                 Stefndi áréttar að á stefnanda hvíli sönnunarbyrðin fyrir því að krafa hans sé ófyrnd. Stefndi krefst sýknu á grundvelli þess að viðbótarbótakrafa stefnanda vegna lík­ams­tjóns, sem má rekja til umferðarslyss 17. júní 2005, hafi verið fyrnd þegar mál um hana var höfðað með birtingu stefnu 16. júní 2015. Bótakrafan sé reist á ákvæðum XIII. kafla umferð­ar­laga, nr. 50/1987, en um fyrningu slíkra krafna gildir sérákvæði 99. gr. lag­anna. Samkvæmt ákvæðinu fyrnist bótakröfur samkvæmt XIII. kafla lag­anna gagn­vart þeim sem ábyrgð ber, og vátryggingafélagi, á fjórum árum frá lokum þess alman­aks­árs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fulln­ustu hennar.                 Í matsgerð D og E, dags. 17. febrúar 2014, sé ekki tekin afstaða til þess hvenær heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöð­ugt þannig að stefn­andi hefði átt þess kost að leita fullnustu. Í útreikningum sínum í stefnu og málatilbúnaði öllum hafi stefnandi miðað við 17. mars 2006, það er bata­hvörf (stöð­ug­leikapunkt) sam­kvæmt mats­gerð B og C. Byggt á mála­til­bún­aði stefnanda sjálfs hafi fyrningarfresturinn hafist 1. janúar 2007 og krafa stefn­anda hafi því verið fyrnd 1. janúar 2011. Það sé stefnanda að sýna fram á að hann hafi á síðara tímamarki fengið vitneskju sem rétt sé að miða upp­haf fyrn­ing­ar­frests við. II. Fullnaðaruppgjör hefur farið fram                 Stefndi reisir kröfu sína um sýknu einnig á því að fram hafi farið fullnaðar­upp­gjör milli stefnanda og stefnda, 20. desember 2006. Eng­inn fyrir­vari hafi verið gerður við uppgjörið. Á skaðabótakvittuninni sé tekið fram að bóta­fjár­hæðin sé fulln­aðar- og loka­greiðsla vegna slyssins og að með greiðsl­unni sé lokið öllum kröfum á hendur félag­inu vegna slyssins. Stefndi telur að ekki sé unnt að taka upp bótauppgjör stefn­anda vegna umrædds umferðarslyss nema endurupptaka sé heimil samkvæmt skaða­bóta­lögum. Á stefnanda hvíli sönnunarbyrðin fyrir því að þröng skilyrði endur­upp­töku séu uppfyllt, sbr. 11. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. III. Skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 fyrir endurupptöku ekki uppfyllt                 Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki sannað að skilyrði 11. gr. skaða­bóta­laga, nr. 50/1993, um endurupptöku séu uppfyllt.                 Ákvæði 2. málsliðar 11. gr. hljóði svo: Skilyrði endurupptöku er að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjón­þola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.                 Stefnanda nægi ekki, til að axla sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrði ákvæðis­ins séu uppfyllt, að afla matsgerðar um hærra örorku- og miskastig en áður, heldur þurfi að afla sönnunar fyrir því að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið frá fyrra mati og að þær breytingar leiði til verulega hærra miska- og örorkustigs.                 Stefndi telji skilyrðið um ófyrirsjáanlegar breytingar ekki hafa verið upp­fyllt. Fyrir liggi í taugasálfræðilegri athugun H sál­fræð­ings, sem sé grund­vallargagn í seinni matsgerðinni og raunar það gagn sem sé grund­völlur niður­stöðu matsmannanna, að ætla megi að uppgjöf og vanlíðan eigi sinn þátt í slakri útkomu nú til viðbótar við afleiðingar heilaáverka og heila­skaða. Þá mæli H með því í skýrslu sinni að leitað verði eftir sérhæfðu læknis­fræði­legu áliti á því hvort líf­fræði­legar ástæður geti skýrt slakari útkomu nú að meira eða minna leyti. Stefnandi hafi ekki aflað slíks læknisfræðilegs álits og því sé alfarið ósannað að ástæða slakari útkomu úr taugasálfræðiathuguninni tengist slys­inu.                 Í seinni matsgerðinni, þ.e. í matsgerð D og E, komist matsmennirnir að þeirri niðurstöðu að einkenni frá hálsi og baki hafi verið ofmetin í fyrri matsgerðinni, þ.e. matsgerð B og C, dags. 9. desember 2006. Í fyrri matsgerðinni hafi verið komist að þeirri nið­ur­stöðu að slysið hafi valdið stefnanda sérstökum erfiðleikum í skilningi 4. gr. skaða­bótalaga. Í fyrra mati sé varanlegur miski stefnanda talinn 40 stig en sé ekki sund­ur­greindur. Engu að síður gefi D og E sér í seinna matinu hversu mörg miska­stig fyrri mats­menn gáfu til­teknum einkennum en það sé byggt á getgátum einum. Á grundvelli þessara vanga­veltna telji matsmennirnir sig geta slegið því fram að lík­lega hafi ein­kenni vegna heila­skað­ans í fyrra matinu verið metin sem 10 stig en séu í síðara mat­inu metin sem 25 stig. Stefndi mótmælir sér­stak­lega þessari nálgun í mats­gerð D og E og telur að það sé engan veginn á færi þeirra að giska á hvernig sund­ur­greina megi misk­ann í mats­gerð B og C. Það eina sem liggi fyrir sé að miskinn samkvæmt fyrra mati hafi veri 40 stig ósund­ur­greint og samkvæmt því síð­ara sé miskinn 45 stig. Stefndi mót­mælir því sér­stak­lega að varanlegur miski hafi breyst um 15 stig, þ.e. að miski vegna heila­skaða samkvæmt eldra mati hafi verið 10 stig en sé samkvæmt nýrra mati 25 stig. Það sé algjör­lega ósannað og getgátur einar hver miskinn fyrir heilaskaða var í fyrra mati. Þetta komi raunar skýrt fram í mats­gerð D og E þar sem segi: Í eldra mati er misk­inn ekki sundurgreindur og því ekki hægt að segja með fullri vissu hvað framan­greind ein­kenni frá baki og hálsi auk sér­staks miska voru metin hátt. og [l]íklegt er að ein­kennin vegna heila­skaða hafi í eldra mati verið metin 10 stig.                 Kjarni málsins sé að samkvæmt seinni matsgerðinni hafi miski stefnanda verið met­inn 5 stigum hærri en samkvæmt fyrri matsgerð. Stefnandi hafi, óháð einkennum, þegar fengið bætur fyrir 40 stiga miska og yrði fallist á aðal­kröfu stefn­anda fengi hann bætur vegna 55 stiga miska og þar með bætur umfram tjón. Megin­reglur skaða­bóta­réttar og sann­girnis­rök standi ekki til þess að stefnandi fái bætur umfram það tjón sem hann hlaut. Stefndi telur að líta beri til heild­ar­misk­ans sem bótauppgjör var reist á ann­ars vegar og hins vegar þess heildarmiska sem slysið var síðar talið hafa leitt til og að ekki skipti mála hvernig einstakir þættir í mat­inu kunni að hafa breyst eða séu taldir mis­mun­andi. Stefnandi hafi þegar fengið bætur vegna 40 stiga miska og 5 stiga breyt­ing sé óveruleg. Þessu til stuðnings vísar stefndi einnig til kröfu­bréfs stefnanda dags. 25. febrúar 2014, sem var sent stefnda eftir að síðari mats­gerðin lá fyrir. Í bréfinu krefj­ist stefn­andi ein­ungis bóta vegna 5 miska­stiga enda sé það eina mögu­lega krafan sem stefn­andi hafi ekki þegar fengið bætta.                 Hækkun miska á milli fyrri matsgerðar og seinni sé 5 stig og samkvæmt mats­gerð D og E hafi breytingin verið ófyrir­sjá­an­leg. Sam­kvæmt skýrum fordæmum Hæstaréttar sé ljóst að 5 stiga hækkun miska telst ekki vera verulega hærra en áður var talið og skilyrði 11. gr. skaðabótalaga því ekki upp­fyllt. IV. Mat á varanlegri örorku of hátt                 Stefndi telur mat D og E á var­an­legri örorku hafi verið of hátt. Hann mótmælir því sérstaklega að misnotkun stefn­anda á áfengi og vímuefnum verði rakin til slyssins. Varakrafa stefnda um verulega lækkun krafna stefnanda                 Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu um sýknu og komist dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að krafa stefnanda sé ekki fyrnd og skilyrði 11. gr. skaðabótalaga séu upp­fyllt krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og raunar svo mikið að stefnda beri ekki að greiða stefnanda neitt.                 Stefndi telur, með vísan til þess sem að framan greinir, að hvorki sé unnt að fall­ast á þá kröfu stefnanda að hann fái bætur fyrir 15 stiga miska, né þá kröfu að hann fái bætur fyrir 5 stiga miska. Stefnandi hafi þegar fengið greiddar fullar bætur fyrir 40 stiga miska. Hækkun til viðbótar um 5 stig sé ekki verulega hærri miski í skiln­ingi 11. gr. skaðabótalaga og uppfyllir því ekki þröng skilyrði 11. gr. skaða­bóta­laga um endur­upp­töku eftir fullnaðaruppgjör aðila.                 Stefndi mótmælir því enn fremur harðlega að frádráttur vegna bótaréttar frá þriðja aðila eigi einungis að koma til frádráttar á bótum vegna varanlegrar örorku en ekki bótum vegna varanlegs miska. Fjallað sé um frádrátt frá miskabótum í 4. mgr. 4. gr. skaða­bóta­laga. Þar segi einfaldlega: Um greiðslur frá þriðja manni fer eftir 4. mgr. 5. gr. Þessi grein hafi komið inn í skaðabótalögin með breytingalögum nr. 37/1999, þ.e. fyrir slysið sem varð árið 2005. Stefndi vísar til skýrra dóma Hæstaréttar um það að sam­kvæmt 4. mgr. 5. gr., sbr. 2. mgr. 3. gr. og 4. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, eins og þeim var breytt með lögum nr. 37/1999 og þau hljóðuðu á slysdegi, beri að draga frá skaða­bótakröfu vegna líkamstjóns verðmæti greiðslna til stefnanda frá almanna­trygg­ingum og lífeyrissjóðum sem séu beinlínis greiddar vegna sama slyss og skaða­bæt­urnar voru greiddar fyrir.                 Stefndi mótmælir tilvísunum stefnanda til breytingalaga nr. 53/2009 sem breyttu þágildandi 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi lent í slysinu árið 2005, löngu áður en lög nr. 53/2009 tóku gildi. Ótvírætt verði að haga ákvörðun skaða­bóta eftir þeim lögum sem voru í gildi á slysdegi. Í lögum nr. 53/2009 sé hvorki stoð fyrir því að lögin taki til uppgjörs skaðabótakröfu sem hafi stofnast fyrir gildis­töku þeirra, né verði slík niðurstaða leidd af öðrum réttarreglum og óhjá­kvæmi­lega væri þörf á skýrri lagaheimild til að ljá lagareglu afturvirk áhrif.                 Stefnandi hafi samkvæmt fyrirliggjandi gögnum ekki, þegar málið var höfðað, fengið greiðslur frá Tryggingastofnun. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum virðist hann fyrst hafa sótt um örorkubætur frá stofnuninni í febrúar 2012. Í gögnum málsins sé læknis­vott­orð vegna umsóknar um örorkubætur frá G, lækni á heilsu­gæslunni í Efra Breiðholti. Hins vegar séu ekki lögð fram svör stefn­anda við spurn­inga­lista vegna færnisskerðingar né sjálf umsókn stefnanda um örorku­bætur. Með bréfi I tryggingalæknis, 15. mars 2012, hafi örorku­mati á stefn­anda verið vísað frá þar sem [e]kki virðist tímabært að taka afstöðu til örorku þar sem endurhæfing hefur ekki verið reynd.                 Stefnandi virðist hafa sótt um endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun 24. júní 2013 þótt umsóknin sé ekki meðal gagna málsins. Umsókninni fylgdi vottorð frá fyrr­greindri G lækni og endurhæfingaráætlun sem ekki liggur fyrir í mál­inu. Með bréfi, dags. 15. júlí 2013, hafi beiðni stefnanda um endurhæfingarlífeyri verið hafnað á þeim grund­velli að núverandi [endurhæfingar]áætlun þykir ekki nógu skýr eða mark­viss til að byggja umsækjanda undir þátttöku á atvinnumarkaði og rétt­lætir því ekki veitingu endur­hæf­ing­ar­lífeyris.                 Á árinu 2014 virðist stefnandi aftur hafa sótt um örorkulífeyri þótt umsóknin og fylgi­gögn með henni séu ekki lögð fram. Í bréfi frá TR, dags. 27. októ­ber 2014, segir: Til að unnt sé að afgreiða umsókn þína er nauðsynlegt að lögð séu fram frekari upp­lýsingar og gögn. Þá er í bréfinu sérstaklega óskað eftir því að lögð verði fram end­ur­hæf­ing­ar­áætlun.                 Þetta sýni að stefnandi hafi fengið að vita í júlí 2013 að endurhæfingaráætlun hans fullnægði ekki þeim kröfum Tryggingastofnunar. Stefnandi hafi aftur sótt um örorku­líf­eyri 2014 og hafi þá ekkert gert til að bæta úr fyrri endur­hæf­ing­ar­áætl­un­inni heldur sækir um aftur og láti endurhæfingaráætlun ekki einu sinni fylgja með. Trygg­inga­stofnun hafi óskað eftir slíkri áætlun í október 2014. Ekki liggi fyrir í gögnum máls­ins hvort stefnandi hafi orðið við þeirri beiðni.                 Af fyrirliggjandi gögnum að dæma virðist stefnandi því ekki hafa fengið neinar greiðslur frá Tryggingastofnun þegar málið var höfðað. Stefndi telur það ekki vera vegna þess að hann eigi ekki þau réttindi heldur vegna þess að stefnandi hafi ekki sinnt því að afhenda TR umbeðin gögn og mögulega ekki sinnt endurhæfingu sinni á full­nægj­andi hátt. Á stefnanda hvíli rík skylda til að takmarka tjón sitt. Í því felist meðal annars að sinna eðli­legri endurhæfingu og sækja þann bótarétt sem hann eigi hjá þriðja aðila, þar á meðal TR. Stefndi telur að á meðan stefnandi hafi ekki sinnt nægj­an­lega endur­hæf­ingu að mati Tryggingastofnunar og þannig ekki uppfyllt þau skil­yrði sem hún setur fyrir því að örorku­mat geti farið fram, hafi stefnandi ekki sinnt tjóns­tak­mörk­un­ar­skyldu sinni á við­hlít­andi hátt. Ríf­lega 10 ár séu liðin frá slysinu og á þeim tíma hefði stefnandi hæg­lega átt að geta full­reynt endurhæfingu í samráði við lækna og aðra meðferðaraðila og í kjölfarið sótt bótarétt sinn hjá TR. Stefnandi verði sjálfur að bera hallann af því að van­rækja skyldur sínar svo verulega. Stefnandi hafi hvorki fengið endanlega höfnun á end­ur­hæf­ing­ar­líf­eyri né örorkulífeyri. Einungis hafi verið óskað eftir fyllri upp­lýs­ingum og gögnum sem stefnandi hafi ekki sinnt að veita. Stefndi hafi aflað álits­gerðar B læknis. Það sé álit hans að stefn­andi upp­fylli skilyrði örorkustaðals TR þótt eingöngu sé litið til afleið­inga slyss­ins. Sinnu­leysi og skortur á vilja stefnanda til endurhæfingar virðist því vera það eina sem standi í vegi bótaréttar hans frá TR.                 Í fyrrgreindri álitsgerð B komi skýrt fram að stefn­andi upp­fylli skil­yrði almannatrygginga um örorkulífeyri vegna afleið­inga slyssins ein­göngu. Sam­kvæmt álitsgerðinni fengi stefnandi 12 stig á fyrri hluta staðalsins og 10 stig á þeim seinni. Samkvæmt skilyrðum almannatrygginga þurfi að fá a.m.k. 6 stig á hvorum hluta staðalsins til að uppfylla skilyrði almanna­trygg­inga um örorkulífeyri. Í álits­gerð­inni sé tekið fram að sé tekið tillit til þess að dóm­kvaddir matsmenn töldu afleið­ingar slyss­ins ekki vera einkenni frá baki drag­ist 3 stig frá fyrra hluta og stefn­andi fengi því 9 stig. Eins mætti færa rök fyrir að draga ætti 2 stig af síðari hlutanum þar sem stefn­andi hafi fyrri sögu um einbeit­ing­ar­truflun. Þannig fengi stefnandi 8 stig á síðari hlut­anum. Jafnvel þótt tekið yrði tillit til ofan­greindra þátta liggi fyrir að afleið­ingar slyss­ins eingöngu nægi til að stefnandi upp­fylli skilyrði almannatrygginga um örorku­líf­eyri. Það sé rangt sem stefnandi haldi fram að ekki liggi fyrir hvaða rétt hann hafi öðl­ast til greiðslna úr almanna­trygg­ingum vegna afleiðinga slyss­ins einu út af fyrir sig. Þetta komi skýrt fram í álitsgerð B og það er stefn­anda að reyna að hnekkja því mati kjósi hann það.                 Með vísan til álitsgerðar B telur stefndi að allur réttur stefnanda til bóta frá Tryggingastofnun skuli koma til frádráttar bótum hans frá stefnda þar eð afleið­ingar slyss­ins einar og sér nægi til að uppfylla skilyrði TR. Komist dómur­inn að þeirri niður­stöðu að rekja megi hluta af rétti stefnanda til greiðslna til ein­kenna sem ekki tengjast slys­inu krefjist stefndi þess að bætur verði lækkaðar að því leyti sem greiðslur séu taldar eiga rót að rekja til slyssins.                 Stefndi hafi einnig aflað útreiknings F trygg­inga­stærð­fræð­ings á eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris stefnanda. Í útreikningum hafi verið reiknað með greiðslum til stefnanda frá 1. júní 2014 og til 67 ára aldurs stefn­anda. Frá júní 2014 sé reiknað með atvinnutekjum sem nemi 30% af við­mið­un­ar­launum stefn­anda í samræmi við metna varanlega örorku. Samkvæmt útreikningum F sé ein­greiðslu­verðmæti við batahvörf (stöðugleikapunkt) að teknu tilliti til skatta 12.813.952 kr. Sú fjárhæð ætti að koma til frádráttar bótum til handa stefn­anda. Stefndi hafi ekki bent á sérstaka annmarka á útreikningi F.                 Frádráttur vegna greiðslna frá þriðja aðila byggist alltaf á áætluðum bótarétti til fram­tíðar, þ.e. þeim bótum sem stefnandi eigi rétt á að gefnum ákveðnum forsendum og lífs­aldri. Þar eð stefnandi hafi ekki sinnt því að afhenda Trygginga­stofnun gögn liggi ekki fyrir nákvæmlega hver bótaréttur hans hjá stofnuninni sé nú og því þurfi að áætla hann. Það sé ljóst að stefnda sé rétt að krefjast frádráttar á þeim bóta­rétti hjá þriðja aðila sem stefnandi eigi rétt á óháð því hvort hann hafi sinnt því að sækja þann rétt, hvort mögulega einhver hluti réttarins sé fyrndur eða jafnvel þótt stefn­andi hefði afsalað sér réttinum. Stefnandi geti ekki vanrækt að sækja bótarétt sinn til TR og í stað þess krafið stefnda um alla fjárhæðina. Allur vafi um nákvæmlega hver réttur stefn­anda sé hjá Tryggingastofnun sé á ábyrgð stefnanda þar sem hann hafi ekki sinnt tjóns­tak­mörk­un­ar­skyldu sinni nægjanlega.                 Stefnandi krefjist vaxta frá slysdegi, þ.e. 17. júní 2005, en ljóst sé að bróð­ur­hluti vaxtakröfunnar sé fyrndur. Stefndi mótmælir sem fyrndum vöxtum, sem hafi fallið til meira en fjórum árum frá því að greiðslu var krafist. Þá er því sér­stak­lega mót­mælt að bætur fyrir 15 stiga miska beri dráttarvexti frá 25. mars 2014 enda hafi ein­ungis verið krafist 5 stiga miska í kröfubréfinu frá 25. febrúar sem vaxtakrafan mið­ast við. Stefndi mótmælir vaxtakröfu og dráttarvaxtakröfu stefn­anda frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.                 Kröfum sínum til stuðnings vísar stefndi einkum til umferðarlaga, nr. 50/1987, skaða­bótalaga, nr. 50/1993, með síðari breytingum, meðal annars þeim sem urðu með lögum nr. 37/1999, og megin­reglna skaða­bóta­réttar um sönnun tjóns, sönnunarbyrði og skyldu tjónþola til að tak­marka tjón sitt. Þá vísar stefndi sérstaklega til 99. gr. umferð­ar­laga, nr. 50/1987, vegna fyrningar kröf­unnar og til 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, vegna frádráttar frá dæmdum skaða­bótum. Um máls­kostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einka­mála. Niðurstaða                 Stefnandi slasaðist alvarlega í bílslysi 17. júní 2005. Matsmenn sem unnu mat á afleiðingum slyssins fyrir hann árið 2006 töldu varanlegan miska hans af slysinu vera 40 stig og varanlega örorku 35%. Á grundvelli þess mats greiddi stefndi, trygg­inga­félag ökumanns bifreiðarinnar, stefnanda bætur í lok árs 2006.                 Að nokkrum árum liðnum varð ljóst að afleiðingar slyssins fyrir stefnanda voru meiri en þær sem voru komnar fram þegar matið var unnið árið 2006. Af þeim sökum voru dómkvaddir tveir matsmenn sem unnu nýtt mat, árið 2014, á ófyrirséðum afleið­ingum slyss­ins fyrir stefnanda. Að þeirra mati nam miski stefnanda vegna heila­skaða 25 stigum en hafði áður numið 10 stigum. Heildarmiskamatið hækkaði þó ein­ungis úr 40 stigum í 45 stig þar eð dómkvaddir matsmenn töldu að í fyrra mati hefði verið tekið til­lit til einkenna stefnanda sem yrðu ekki rakin til bílslyssins. Enn fremur töldu þeir hann ekki búa við sérstakan miska vegna slyssins eins og talið var í fyrra mati. Var­an­lega örorku stefnanda, sem hafði áður verið talin 35%, mátu þeir 70%.                 Það er óumdeilt að ábyrgð á greiðslu bóta vegna afleiðinga slyssins hvílir á stefnda þar eð félagið tryggði bifreiðina sem stefnandi var farþegi í á slysdegi. Gegn fjár­kröfu stefn­anda færir stefndi fyrst þau rök að krafan sé fyrnd. Því til stuðnings vísar hann til þess að í mati dóm­kvaddra matsmanna í febrúar 2014 hafi batahvörf ekki verið endurmetin og því beri að miða við 17. mars 2006 eins og í sam­eigin­lega mat­inu í desember 2006. Fjögurra ára fyrningarfrestur kröfunnar hafi því hafist í lok þess árs. Hún hafi því verið fyrnd 1. janúar 2011.                 Þegar afstaða er tekin til fyrningar kröfu sem byggist á umferðarlögum þarf að greina að tvö atriði: annars vegar slysið og hins vegar afleiðingar þess. Hið fyrra stofnar rétt til bóta en hið síðara ræður fjár­hæð bótanna.                 Tjónþoli eignast rétt til bóta úr hendi tjónvalds eða trygg­inga­félags hans á slys­degi. Hafi ekkert tjón hlotist af slysinu reynir ekkert á þennan bótarétt. Reynist tjón hafa hlotist af slysinu getur tjónþoli krafist fjár úr hendi tjónvalds á grund­velli þessa bóta­réttar í samræmi við umfang tjóns síns. Hversu mikið líkams­tjónið verður er sjaldn­ast vitað á slysdegi, heldur síðar þegar heilsu­far tjónþola er orðið stöð­ugt og ekki er að vænta frekari bata, það er við batahvörf. Þá fyrst verða var­an­legar afleið­ingar metnar og lagður grundvöllur að fjárkröfu á hendur tjónvaldi. Oft­ast nær greiðir tjón­valdur eða tryggingafélag hans tjónþola skaða­bætur skömmu eftir að umfang tjóns­ins hefur verið staðreynt.                 Í 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er gert ráð fyrir þeim tilvikum að við bata­hvörf hafi ekki komið fram allar afleið­ingar slyss heldur kunni mun meiri ófyrir­séðar afleið­ingar að koma í ljós síðar. Samkvæmt lagaákvæðinu veita þessar aðstæður tjón­þola heimild til þess að fá fyrri bótaákvörðun tekna upp og bætur reikn­aðar út frá þeim var­an­legu afleiðingum slyssins sem þá eru komnar fram í heild sinni.                 Fjárkrafa stefnanda grundvallast á því að verulegar og ófyrirsjáanlegar breyt­ingar á heilsu hans hafi komið í ljós eftir að honum voru greiddar bætur 2006. Stefn­di hefur fallist á það sjónarmið vegna varanlegrar örorku stefnanda. Af þessum sökum verður að hafna því að fyrningarfrestur fjárkröfu stefnanda vegna aukinna afleið­inga slyssins hefj­ist við bata­hvörf.                 Þegar umfang tjónsins reynist verulega meira en hægt var að sjá fyrir við bata­hvörf veitir 11. gr. skaðabótalaga tjónþola með öðrum orðum rétt til þess að hækka fjár­kröfu sína á hendur tjónvaldi og fá bætur frá honum sem samrýmast þeim varan­legu afleiðingum sem þá eru komnar fram.                 Dómur­inn telur að líta verði svo á að rétturinn sem tjón­þoli á til bóta hafi afmark­aðan líftíma, sjálfstæðan fyrn­ing­ar­frest, í þessu til­viki tíu ár frá slysdegi sam­kvæmt 99. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. Fjár­krafan sem bygg­ist á þessum rétti, en ræðst þó af því hversu alvar­legar var­an­legar afleiðingar tjón­þoli hlýtur af slysinu, hefur annan og skemmri fyrn­ing­ar­frest. Í þessu tilviki fjögur ár frá lokum þess alman­ak­sárs sem tjón­þoli fékk vitn­eskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fulln­ustu hennar, sam­kvæmt 99. gr. umferð­ar­laga.                 Fyrningarfrestur er ekki annað en það lögboðna, tímabundna svigrúm sem rétt­hafi, hér tjón­þoli, hefur til athafna. Annars vegar lifir réttur hans til bóta úr hendi tjón­valds einvörðungu í tíu ár frá slysdegi og hins vegar hefur hann fjögur ár til að krefjast fulln­ustu fjárkröfu á grundvelli þess réttar þegar honum er ljóst umfang hennar og hún telst gjaldkræf.                 Þegar ljóst er að réttilega metnar bætur eiga að vera mun hærri en þær sem áður höfðu verið greiddar er eðlilegt að tjónþoli hafi sambærilegt ráðrúm til þess að krefj­ast fullnustu við­bót­ar­fjárhæðarinnar, enda er ráðrúmið sem hann hafði til að heimta fyrri hluta bót­anna, fyrningarfresturinn, löngu liðið.                 Stefnandi fékk ekki staðfestingu þess að varanlegar afleiðingar slyssins fyrir hann væru meiri en áður var talið fyrr en hann fékk matsgerð dómkvaddra matsmanna dag­setta 17. febrúar 2014. Frá lokum þess almanaksárs hafði hann fjögur ár til að krefj­ast bóta. Hann höfðaði málið með birtingu stefnu 16. júní 2015, áður en liðin voru 10 ár frá því að réttur hans til bóta úr hendi tjónvalds eða tryggingarfélags hans stofn­að­ist. Það var jafnframt langt innan sjálfstæðs fyrningarfrests viðbótar­fjár­kröf­unnar. Fjár­krafa hans á hendur stefnda vegna aukinna afleiðinga slyssins fyrir hann var því ekki fyrnd þegar málið var höfðað.                 Gegn fjárkröfu stefnanda færir stefndi næst fram þau rök að skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 séu ekki uppfyllt vegna varanlegs miska stefnanda. Fullnaðaruppgjör hafi því farið fram þegar bætur voru greiddar á grundvelli matsgerðar í desember 2006.                 Hæstiréttur hnykkti á því, í dómi í máli nr. 286/2013, að mat, sem er unnið í því skyni að taka megi afstöðu til þess hvort uppfyllt sé það skilyrði 11. gr. að veru­legar breyt­ingar hafi orðið á heilsu tjónþola frá fyrra mati, á að snúast um þær breyt­ingar en í því á ekki að felast nýtt heildarmat á varanlegum afleiðingum tjónþola af slys­inu.                 Ákvæði 11. gr. tryggir eingöngu tjónþola rétt til endurupptöku en ekki hinum bóta­skylda. Stefndi áréttar þá meginreglu að bætur eigi að samsvara tjóni en það eigi hvorki að vera van- né ofbætt. Engu að síður gerir ákvæðið, með því að útiloka endur­upp­töku bótagreiðanda, ráð fyrir því að tjón­þoli geti fengið hærri bætur en sem nema tjóni hans, reynist það síðar minna en talið var þegar bætur voru greiddar. Hafi stefndi sætt sig við það mat B og C, sem unnu fyrra matið, að hluti af miska stefnanda yrði rakinn til einkenna vegna togn­unar í hálsi og baki verður við það að sitja. Stefndi getur ekki fengið það mat þeirra end­ur­upp­tekið þótt dóm­kvaddir matsmenn telji þann miska ekki verða rakinn til slyss­ins. Sama gildir um sér­stakan miska sem slysið var talið hafa valdið stefnanda sam­kvæmt fyrra mati en ekki í mati dómkvaddra mats­manna.                 Til þess að geta séð hversu miklar breytingar höfðu orðið á tilteknum afleið­ingum slyssins fyrir stefnanda frá árinu 2006 urðu matsmenn, sem voru dómkvaddir til að vinna síðari mats­gerð­ina, að greina hversu mörg miskastig tilteknir þættir höfðu fengið í fyrra matinu. Út frá þeirri greiningu komust þeir að því að ein­kenni stefnanda vegna heilaskaða hafi í fyrra mati verið metin til 10 stiga. Þau ein­kenni hafi aukist svo mikið frá fyrra mati að þau hafi borið, þegar síðara matið var unnið, að telja til 25 stiga.                 Telji stefndi hina dómkvöddu matsmenn ekki hafa greint réttilega hversu mörg miska­stig þeir sem unnu fyrra matið gáfu einkennum stefnanda vegna tiltekinna afleið­inga slyss­ins fyrir hann, verður stefndi að fá því mati hnekkt með yfirmati. Hann hefði í það minnsta getað leitt þá sem unnu fyrra matið fyrir dóm og innt þá eftir því hversu mörgum miskastigum þeir töldu til­tekna áverka og önnur ein­kenni stefnanda sam­svara, þegar þeir unnu matið. Til þess að hrekja greiningu dóm­kvaddra mats­manna á sund­ur­liðun miska í fyrra mati nægir stefnda ekki að segja að sund­ur­liðunin sé hrein ágiskun. Dómkvaddir matsmenn kváðust hafa lagt til grundvallar greiningu sinni á miskastigi hvers þáttar, hug­læg og hlut­læg ein­kenni sem var lýst í fyrra mati. Þeir höfðu jafnframt undir höndum öll þau læknis­fræðilegu gögn sem þeir sem unnu fyrra matið byggðu á. Að mati dómsins hefur stefndi því ekki hnekkt því mati dóm­kvaddra matsmanna að miski stefnanda vegna heilaskaða hafi verið metinn 10 stig árið 2006 en hafi verið orðinn 25 stig í febrúar 2014.                 Þessa breytingu á einkennum stefnanda vegna heilaskaða töldu dómkvaddir mats­menn að þeir sem unnu sameiginlega matið hefðu ekki getað séð fyrir og því ekki gert ráð fyrir að hún yrði. Breyting á einkennum stefnanda vegna heilaskaða sé því ófyr­ir­sjá­an­leg.                 Þeir sem unnu fyrra matið töldu varanlega örorku stefnanda nema 35%. Dóm­kvaddir matsmenn mátu varanlega örorku hans tvöfalt hærri eða 70%. Það við­bótar­tjón skýrist af því að afleiðingar heilaskaðans reyndust miklu meiri en komið var fram þegar fyrra matið var unnið. Eins og áður segir töldu þeir að fyrri matsmenn hefðu ekki getað séð þá breytingu fyrir.                 Að mati dómsins er því ótvírætt að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda frá því að fyrra matið var unnið. Það er jafnframt veruleg breyting þegar miski vegna tiltekins þáttar hækkar úr 10 stigum í 25 stig, svo og þegar varanleg örorka tvöfaldast og hækkar úr 35% í 70%. Að mati dómsins eru því bæði skilyrði 11. gr. skaða­bóta­laga nr. 50/1993 uppfyllt og upptaka bótaákvörðunar þar með heimil.                 Dómurinn telur því að fullnaðaruppgjör hafi ekki farið fram þegar stefndi greiddi stefnanda bætur á grundvelli þess mats sem var unnið árið 2006.                 Gegn fjárkröfu stefnanda færir stefndi loks fram þau rök að stefnandi eigi rétt til bóta frá Tryggingastofnun sem megi draga frá þeim bótum sem stefnandi á rétt á úr hendi stefnda, á grund­velli síðari mats­gerð­arinnar, sbr. 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaða­bótalaga.                 Á tjónvaldi, eða þeim sem er sóttur til að greiða bætur vegna tjóns sem hann hefur valdið, hvílir sönnunarbyrði fyrir réttmæti þess frádráttar sem hann heldur fram. Tjón­þola er hins vegar skylt að leita eftir slíkum greiðslum og upplýsa um þær.                 Stefndi telur sig hafa axlað sönnunarbyrði sína með áliti B læknis, dags. 4. júní 2014, sem hafi komist að þeirri nið­ur­stöðu að stefnandi upp­fylli skilyrði stað­als Trygginga­stofn­unar fyrir því að fá örorku­líf­eyri frá stofn­un­inni.                 Stefnandi höfðaði þetta mál 16. júní 2015 til þess að rjúfa 10 ára fyrningarfrest 2. máls­liðar 99. gr. umferð­ar­laga, nr. 50/1987.                 Á stefnanda hvílir tjónstakmörkunarskylda. Hann reyndi í þrígang að fá bætur frá Trygginga­stofnun; fyrst í febrúar 2012, næst í júní 2013 og svo hausið 2014. Beiðni hans var fyrst vísað frá, þar eð endurhæfing hafði ekki verið reynd. Næst var henni hafnað, þar eð endurhæfingaráætlun var ekki fullnægjandi og í þriðja skiptið var ekki talið tímabært að taka afstöðu til örorku fyrr en stefnandi legði fram fullnægjandi gögn.                 Eftir að málið var höfðað afhenti hann stofnuninni loks vottorð og endur­hæf­ing­ar­áætlun sem hún taldi við­un­andi. Samkvæmt fram lögðum gögnum hefur stefn­andi fengið, frá því að hann lagði fram fullnægjandi end­ur­hæf­ing­ar­áætlun, greiddan end­ur­hæfingarlífeyri frá 1. janúar 2016 til og með 31. janúar 2017. Hvorki er vitað hvort hann hafi fengið frekari end­ur­hæfingarlífeyri né hvaða árangri hann náði í end­ur­hæfingunni.                 Reglugerð nr. 379/1999, um örorkumat, var sett með stoð í lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar. Þau lög voru endurútgefin og fengu þá númerið 100/2006 en veittu reglugerðinni áfram lagastoð. Í 1. gr. hennar segir að þeir sem eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa [...] eigi rétt á örorku­líf­eyri að öðrum skil­yrðum upp­fylltum. Samkvæmt ákvæðinu er einnig heimilt að greiða þeim, sem eru metnir til 50-74% örorku, örorkustyrk, að öðrum skilyrðum upp­fylltum. Samkvæmt 2. gr. er það trygg­inga­yfir­læknir sem metur örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá Trygg­inga­stofnun út frá staðli sem er byggður á læknis­fræði­lega viðurkenndum sjúk­dómum og fötlun. Í 2. gr. segir enn fremur að trygginga­yfir­lækni sé heimilt að setja það skil­yrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á mögu­leikum til endurhæfingar og við­eig­andi endurhæfingu, áður en til örorkumats kemur, sbr. nú 2. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2006.                 Eins og komið er fram var stefnandi þar til fyrir skemmstu, og er hugsanlega enn, í endur­hæf­ingu. Sam­hliða henni vann hann hlutastarf í garðyrkju og síðar hluta­starf í byggingarvinnu. Hann bar að hann og félagsráðgjafi hans ynnu að því að koma honum í virka atvinnu­leit. Markmiðið samkvæmt nýjustu endurhæfingaráætluninni var að stefnandi yrði kominn í 70-80% starf sumarið 2017.                 Þegar endurhæfing er hafin og jafnframt virk atvinnuleit tjónþola hlýtur það að lokum að vera tryggingayfirlæknir sem metur það hvort tjónþoli á rétt til bóta svo og til hversu mik­illa bóta, þrátt fyrir álit sjálfstætt starfandi endurhæfingarlæknis á rétti hans til örorku­líf­eyris frá stofnuninni. Hvorki eru upp­lýs­ingar um starfs­getu stefn­anda eftir end­ur­hæfingu né endanleg afstaða stofnunar­innar. Það liggur því ekki fyrir hvort og þá hvaða rétt stefnandi kann að eiga til bóta frá almanna­trygg­ingum sem ber að draga frá þeim bótum sem hann á rétt til úr hendi stefnda, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaða­bóta­laga, nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999.                 Stefnda verður ekki heimilað að draga frá þeim bótum, sem honum ber að greiða stefnanda, fjárhæð sem ekki er víst að stefnandi fái frá þriðja manni. Sá frá­dráttur er honum ekki heimill fyrr en fyrir liggur hvort stefnandi fái greiðslur frá þriðja manni svo og hversu háa fjárhæð.                 Enn sem komið er liggur því ekki fyrir hvort stefnda beri að efna þá skyldu sem á honum hvílir að lögum eða hvort greiðslur frá almanna­trygg­ingum leysi hann undan henni að öllu leyti eða að hluta, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, um með­ferð einkamála.                 Vara- og þrautavarakrafa stefnanda byggjast á því að bætur frá þriðja manni verði ekki dregnar frá skaðabótum fyrir varanlegan miska.                 Skaðabótum er ætlað að gera tjónþola eins settan fjárhagslega og hefði tjónið ekki orðið. Þótt miski sé nefndur ófjár­hags­legt tjón er hann engu að síður metinn til fjár. Ætla verður að skaðabótakrafa vegna líkams­tjóns, sem getið er í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993, vísi bæði til fjárkröfu vegna miska og fjár­kröfu vegna varanlegrar örorku sem líkamstjón hefur valdið. Þegar litið er til þeirra heildarbreytinga sem voru gerðar, með lögum nr. 37/1999, á útreikningi bóta samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993 verður að telja að draga megi greiðslur, sem tjónþoli fær frá þriðja manni, frá skaða­bótum fyrir var­an­legan miska nemi þær hærri fjárhæð en skaðabætur fyrir varan­lega örorku.                   Það er því niðurstaða dómsins að fjárkrafa stefnanda á hendur stefnda, sem stofn­að­ist [...], hafi ekki verið fyrnd þegar hann höfðaði þetta mál til greiðslu frek­ari bóta 16. júní 2015. Dómurinn telur jafnframt uppfyllt þau skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993, að breytingar sem urðu á heilsu stefnanda frá því að mat var unnið á afleið­ingum slyssins fyrir hann 2006 þar til unnið var nýtt mat á þeim afleiðingum 2014, hafi verið verulegar og ófyrirsjáanlegar þegar fyrra matið var unnið.                 Þar eð krafan sé ekki fyrnd og skilyrði 11. gr. uppfyllt beri stefnda að greiða stefn­anda skaðabætur í samræmi við aukið fjártjón hans.                 Dómurinn telur jafnframt að draga beri frá bæði miskabótum og bótum fyrir var­an­lega örorku það fé sem stefnandi kann að eiga rétt á frá almanna­tryggingum. Þótt stefn­andi hafi farið í endurhæfingu og fengið endur­hæf­ing­ar­líf­eyri í rúmt ár liggur ekki enn fyrir hvaða rétt tryggingayfirlæknir telur hann eiga á grund­velli laga um almanna­tryggingar. Af þeim sökum er enn óljóst hvort stefnandi fái greiðslur frá Trygg­inga­stofnun sem komi til frá­dráttar þeirri skaðabótakröfu sem hann á á hendur stefnda, svo og hversu háar þær kunna að verða. Því liggur ekki fyrir hvort stefnandi geti krafið stefnda um greiðslu skaðabótanna. Af þeim sökum, og með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, verður stefndi sýknaður af fjárkröfu stefnanda að svo stöddu.                 Rétt þykir að málskostnaður milli málsaðila falli niður.                 Stefnanda var, með bréfi innanríkisráðuneytisins 25. mars 2013, veitt gjaf­sókn til þess að reka þetta mál fyrir héraðsdómi. Gjaf­sóknarkostnaður hans, þar með talin mál­flutn­ings­þóknun lögmanns hans, Erlings Daða Emilssonar hdl., sem þykir að teknu til­liti til virðisaukaskatts hæfilega ákveðin 1.365.000 kr., greið­ist úr ríkissjóði.                 Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm. DÓMSORÐ:                 Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er að svo stöddu sýkn af kröfum stefn­anda, A.                 Málskostnaður milli aðila fellur niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Erlings Daða Emilssonar hdl., 1.365.000 krónur.
Mál nr. 802/2017
Lögmaður Skaðabætur Starfsábyrgðartrygging Sönnun
S fól lögmanni að annast um innheimtu bóta fyrir sína hönd vegna vinnuslyss sem hann lenti í á árinu 2005 og fór uppgjör bóta vegna slyssins fram á árinu 2009. S taldi að lögmaðurinn hefði sýnt af sér vanrækslu við gæslu hagsmuna sinna og krafðist bóta á grundvelli starfsábyrgðartryggingar lögmannsins hjá V hf. Byggði S annars vegar á því að lögmaðurinn hefði valdið sér tjóni með því að stofna til kostnaðar við öflun matsgerðar dómkvaddra manna sem ekki hefði fengist endurgreiddur. Hins vegar taldi S að tjón sitt mætti rekja til ætlaðs mismunar fjárhæðar þeirra bóta sem hann hafði fengið greiddar vegna slyssins og fjárhæðar þeirra bóta sem S taldi sig hafa átt tilkall til hefði lögmaðurinn haldið rétt á máli hans. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms að hafna fjárkröfu S vegna þess kostnaðar sem hlaust af öflun matsgerðarinnar. Þá taldi rétturinn jafnframt að S hefði ekki tekist að sýna fram á að hann hefði orðið fyrir frekara tjóni en því sem bætt var með uppgjörinu 2009. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu V hf. af kröfum S því staðfest.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson og Hildur Briem héraðsdómari.   Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 10. október 2017. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 22. nóvember 2017 og áfrýjaði hann öðru sinni 19. desember það ár. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 5.285.444 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 493.900 krónum frá 13. mars 2008 til 10. mars 2009, en af 5.285.444 krónum frá þeim degi til 9. maí 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Svo sem rakið er í héraðsdómi lítur ágreiningur málsaðila að því hvort lögmaður, sem tryggður var starfsábyrgðartryggingu hjá stefnda, og áfrýjandi hafði falið hagsmunagæslu af sinni hálfu vegna vinnuslyss 30. apríl 2005, hafi vanrækt þá þjónustu með saknæmum og ólögmætum hætti og valdið áfrýjanda af þeim sökum fjártjóni. Bótakrafa áfrýjanda af þessu tilefni er tvíþætt. Er hún annars vegar á því reist að lögmaðurinn hafi valdið áfrýjanda tjóni með því að stofna til útgjalda með öflun matsgerðar dómkvaddra manna en kostnaður við hana hafi ekki fengist endurgreiddur. Hins vegar telur áfrýjandi að tjón sitt megi rekja til ætlaðs mismunar fjárhæðar bóta sem hann fékk greiddar 11. mars 2009, frá viðkomandi tryggingarfélagi vegna afleiðinga slyssins 30. apríl 2005, og þeirrar fjárhæðar bóta sem hann telur sig hafa átt tilkall til hefði lögmaðurinn haldið rétt á máli hans. Með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að hafna fjárkröfu áfrýjanda vegna kostnaðar hans af öflun mats dómkvaddra manna. Hvað varðar síðari þátt bótakröfu áfrýjanda er til þess að líta að í málinu liggur fyrir yfirmatsgerð dómkvaddra manna, 27. febrúar 2009, um afleiðingar umrædds slyss áfrýjanda. Var hún lögð til grundvallar fyrrnefndu uppgjöri bóta til áfrýjanda og hefur niðurstöðum hennar ekki verið hnekkt. Þá er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ekki verði fallist á með áfrýjanda að við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku hans af völdum umrædds slyss hafi verið forsendur til þess að miða við árslaun sem metin yrðu sérstaklega vegna óvenjulegra aðstæðna, samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Bar þvert á móti, svo sem gert var í nefndu uppgjöri, að miða við meðalatvinnutekjur áfrýjanda síðustu þrjú almanaksárin fyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7. gr. sömu laga. Af þessu leiðir að áfrýjanda hefur ekki tekist að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir neinu frekara tjóni en bætt var með uppgjöri því sem fram fór 11. mars 2009. Eru því engin efni til þess að fjalla frekar um hugsanlega bótaskylda háttsemi umrædds lögmanns í hagsmunagæslu hans fyrir áfrýjanda og verður stefndi því þegar af þessari ástæðu sýknaður af þessum hluta bótakröfu áfrýjanda. Hinn áfrýjaði dómur verður samkvæmt þessu staðfestur, þar með talið um ákvörðun málskostnaðar. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2017. Mál þetta, sem var höfðað með birtingu stefnu þann 3. maí 2016, var dómtekið 16. maí sl. Stefnandi er Sigurður Steinar Jónsson, Drekavöllum 20 í Hafnarfirði og stefndi er Vörður tryggingar hf., Borgartúni 26 í Reykjavík.                 Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 5.285.444 krónur með vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af af 493.900 krónum frá 13. mars 2009 til 10. mars 2009 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til 9. maí 2015 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags.                 Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda en til vara að kröfur hans verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður. I. Stefnandi slasaðist við vinnu sína hjá HB Granda hf. um borð í Venusi HF-519 þann 30. apríl 2005. Stefnandi tilkynnti slysið til Sjóvá-Almennra trygginga hf., sem var tryggingafélag vinnuveitanda hans, með tjóntilkynningu 7. september 2005. Kemur þar fram að slysið hafi orðið með þeim hætti að stefnandi hafi fallið úr koju og að hann sé algerlega óvinnufær um óákveðinn tíma.                 Þann 8. september sama ár veitti stefnandi Steingrími Þormóðssyni hrl. fullt og ótakmarkað umboð til að gæta hagsmuna sinna vegna áverka eftir slysið. Steingrímur átti í bréfaskiptum og öðrum samskiptum við tryggingafélagið í september og október vegna máls stefnanda og með bréfi þess 23. október 2005 féllst félagið á að greiða stefnanda ósundurgreinda innborgun á tjónsbætur sem nam rétti hans til þjáningabóta frá slysdegi til 1. október en frekari bótagreiðslum var hafnað að svo stöddu.                 Þann 7. nóvember afturkallaði stefnandi umboð Steingríms og fól Birni L. Bergssyni hrl. umboð til að gæta hagsmuna sinna í málinu. Í bréfi til stefnanda 2. maí 2006 upplýsir Björn hann um að tímabært sé að leggja mat á afleiðingar slyssins enda hafði þá borist læknisvottorð frá Stefáni Dalberg bæklunarlækni sem var meðferðarlæknir stefnanda. Tilkynnir hann stefnanda að hann sé í viðræðum við tryggingafélagið um hvernig best sé að standa að því mati. Í tölvuskeyti 21. ágúst sama ár upplýsir lögmaðurinn stefnanda og þáverandi sambýliskonu hans, Elínu Hönnu Jóndóttur, um að hann og tryggingafélagið hafi sammælst um að fá tilgreinda matsmenn, lækni og lögfræðing, til að leggja mat á afleiðingar slyssins. Þau svara skeytinu daginn eftir og kveðast ósátt við þá ákvörðun að umræddir matmenn vinni verkið og kveða þá ekki hæfa til þess. Krefjast þau þess að tveir nánar tilgreindir læknar verði fengnir til að vinna matsgerð. Lögmaðurinn svarar þessu skeyti og úrskýrir hefðbundinn gang matsvinnu í málum af þessu tagi og stingur upp á því að stefnandi fái annan lögmann til að vinna fyrir sig, beri hann ekki fullt traust til vinnu lögmannsins. Þann 5. mars 2007 tilkynnir stefnandi lögmanninum að hann hafi ákveðið að leita annað og með umboði dagsettu 1. maí 2007 felur stefnandi Steingrími á ný að gæta hagsmuna sinna og afturkallar um leið umboð Björns.                 Þann 14. desember 2007 eru dómkvaddir tveir matsmenn til að meta tjón stefnanda. Í matsgerð þeirra frá 15. febrúar 2008 er niðurstaðan sú að stöðugleika skv. 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hafi verið náð 30. október 2005, stefnandi hafi verið óvinnufær frá slysdegi til 1. júlí 2006, án þess að það hafi valdið honum fjártjóni og tímabil þjáninga hafi verið það sama. Þá telja matsmenn varanlegan miska skv. 4. gr. skaðabótalaga vera 25 stig og varanleg örorka skv. 5. gr. sömu laga sé 30%. Lögmaðurinn sendir tryggingafélaginu bótakröfu á grundvelli framangreindrar matsgerðar með kröfubréfi dagsettu sama dag og matsgerðinni er skilað 15. febrúar 2008. Þar gerir hann kröfu um að fjárhæð bóta verði miðuð við viðmiðunarlaun skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og að miðað verði við 6.000.000 króna árslaun og vísar til þess að það launaviðmið byggi á launum stefnanda fyrir sjósókn á árinu 2005. Krafan var ítrekuð með bréfi lögmannsins dags. 25. júní 2008.                 Að beiðni tryggingafélagsins var óskað eftir dómkvaðningu yfirmatsmanna. Skiluðu þeir yfirmatsgerð 27. febrúar 2009. Í millitíðinni aflaði lögmaður stefnanda vottorðs geðlæknis, varðandi andlegar afleiðingar slyssins og var það meðal gagna sem yfirmatsmenn höfðu undir höndum við mat sitt. Niðurstaða yfirmatsgerðar varðandi varanlegar afleiðingar slyssins var á þá leið að varanlegur miski stefnanda væri 20 stig og varanleg örorka 15%. Lögmaðurinn mótmælti niðurstöðu matsgerðar í bréfi til tryggingafélagsins og sendi stefnanda jafnframt afrit af því bréfi ásamt yfirmatgerðinni. Bæði þessi bréf eru dagsett 10. febrúar 2009 en líkur eru á að rétt dagsetning þeirra sé 10. mars það ár. Í bréfinu til tryggingafélagsins er handskrifuð athugasemd þess efnis að launaviðmiðið fái ekki staðist. Í bréfinu til stefnanda biður hann stefnanda að hafa samband sem fyrst.                 Þann 10. mars 2009 sendi tryggingafélagið lögmanninum uppgjörstillögu félagsins sem byggði á niðurstöðu yfirmatsgerðar. Í tillögunni var miðað við uppreiknaðar meðaltekjur stefnanda sl. þrjú ár fyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Lögmaðurinn undirritaði fullnaðaruppgjör með fyrirvara sem m.a. hljóðar þannig: „samþykkt með fyrir um bætur skv. undirmati [...].“ Daginn eftir sendir lögmaðurinn á ný bréf til tryggingafélagsins. Bréfið er dagsett 11. febrúar 2009 en ber með sér að hafa verið faxað til tryggingafélagsins þann 11. mars s.á. Í því bréfi lýsir lögmaðurinn því yfir að hann samþykki að taka við bótum með fyrirvara um „kröfur stefnanda skv. undirmati dómkvaddra matsmanna“. Segir jafnframt í bréfinu að niðurstaða yfirmatsmanna um miskastig sé ekki rökstudd með fullnægjandi hætti. Í tölvuskeyti Gunnars Péturssonar, starfsmanns tryggingafélagsins, sem sent var sama dag, innir hann lögmanninn eftir því hvort skilja megi hann þannig að fyrirvari hans einskorðist við þann mismun sem sé á yfirmati og undirmati hvað varðar varanlegan miska og varanlega örorku en ekki um árslaunaviðmiðið eða aðra uppgjörshluta. Ekki er að sjá af gögnum málsins að lögmaðurinn hafi svarað þessu skeyti. Greiðslur tryggingafélagins, samtals 3.997.436 krónur, voru inntar af hendi sama dag en félagið féllst ekki á að greiða útlagaðan kostnað stefnanda vegna undirmatgerðarinnar.                 Með bréfi 14. mars 2009 sendi lögmaðurinn stefnanda skilagreinar og reikninga vegna málsins og yfirmatsgerðina og segir frá því að greiðslur séu inntar af hendi í samræmi við hana. Jafnframt segir í bréfinu að tekið hafi verið við bótum með ákveðnum fyrirvara og biður lögmaðurinn stefnanda að vera í sambandi sem fyrst. Þá liggur fyrir í málinu bréf frá Steingrími til Elínar Hönnu, dagsett 15. febrúar 2009, en efni þess ber með sér að það hafi verið skrifað eftir að framangreint bréf til stefnanda var sent og eftir að lögmaðurinn sendi tryggingafélaginu bréf með faxi þann 11. mars s.á. Í því bréfi segir að ef fara á í mál sé nauðsynlegt að fá skattframtöl til að biðja um gjafsókn. Þá kvartar hann yfir því að ná aldrei í stefnanda og biður þau að koma saman til fundar við sig þar sem óþægilegt sé að ræða við stefnanda í gegnum millilið. Stefnandi neitar því að þetta bréf hafi borist Elínu Hönnu.                 Í ársbyrjun 2013 veitir stefnandi Elínu Hönnu umboð til að annast fyrir sína hönd sjóslysamál sem í umboðinu segir að Steingrímur Þormóðsson reki fyrir hönd stefnanda. Umboðið er dagsett 24. janúar 2013. Í bréfi frá Steingrími til Elínar Hönnu, sem dagsett er 6. apríl 2013, segir hann að málið eigi að vera opið til loka apríl 2015 og hann hafi verið að skoða möguleika á málaferlum og kröfugerð þar að lútandi. Tekur hann fram að sjálfsagt sé að fara í dómsmál en það sé kostnaðarsamt. Endar bréfið á því að lögmaðurinn segir nauðsynlegt að hittast og fara yfir málið. Stefnandi staðhæfir að þetta bréf hafi aldrei borist Elínu Hönnu. Þann 12. ágúst sama ár skrifar stefnandi lögmanninum og kveðst vilja gagna frá lokauppgjöri við tryggingafélagið á grundvelli yfirmatsins, sem hann kveðst þó ekki vera sáttur við. Óskar hann eftir því að lögmaðurinn afli þegar í stað tillögu að lokauppgjöri frá tryggingafélaginu og sendi stefnanda og kveðst síðan munu láta lögmanninn vita hvort hann sé sáttur við tillöguna. Í framhaldi af þessu skeyti sendir lögmaðurinn tryggingafélaginu bréf 14. ágúst s.á. og óskar eftir upplýsingum um það hvort lokauppgjör hafi ekki þegar farið fram og fær staðfestingu daginn eftir þess efnis að tryggingafélagið líti svo á að málinu sé lokið auk þess sem sennilegt sé að mati þess að frekari kröfur séu fyrndar. Ekki verður séð af gögnum málsins að lögmaðurinn hafi sent stefnanda upplýsingar um þessi samskipti hans við tryggingafélagið en fyrir liggja afrit margra tölvuskeyta frá stefnanda til lögmannsins á tímabilinu september 2013 til febrúar 2014 þar sem hann innir hann eftir svörum frá tryggingafélaginu. Í maí 2014 sneri stefnandi sér til tryggingafélagsins og spurðist fyrir um málið og fékk sömu svör og lögmaðurinn hafði fengið í ágúst 2013.                 Í bréfi sem lögmaðurinn ritar og dagsett er 16. ágúst 2013 kveðst hann vera reiðubúinn að höfða mál fyrir stefnanda og vísar til samskipta sinna við Elínu Hönnu en óskar eftir innágreiðslu á málið áður. Þá segir í sama bréfi að lögmaðurinn telji ekki líkur á að stefnandi geti fengið gjafsókn í málinu og jafnframt að tvísýnt sé um að árangur náist í kröfu um árslaunaviðmið skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Stefnandi kveðst aldrei hafa fengið þetta bréf.                 Með umboði dags. 10. mars 2015 veitti stefnandi Steini S. Finnbogasyni hdl. umboð til að fara með mál hans vegna slyssins árið 2005. Skömmu síðar krafði sá lögmaður tryggingafélagið um bætur til handa stefnanda fyrir varanlega örorku þar sem árslaun til ákvörðunar bóta yrðu metin sérstaklega með vísan til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Miðaði krafa hans við meðaltekjur stefnanda á því tímabili árið 2006 sem hann var í fullu starfi. Tryggingafélagið hafnaði kröfu hans með tölvuskeyti 25. mars 2015 og vísaði til þess að félagið teldi að fyrirvarinn sem gerður var við móttöku bóta hefði ekki tekið til árslaunaviðmiðsins heldur einvörðungu lotið að mismun á milli undirmatsgerðar og yfirmatsgerðar að því er varðar varanlegan miska og örorku. Auk þess taldi félagið að allar kröfur stefnanda hefðu fyrnst skv. 29. gr. þágildandi laga um vátryggingasamninga, nr. 20/1954, í síðasta lagi í árslok 2012.                 Stefnandi telur sig hafa átt rétt til hærri bóta vegna tjóns af völdum slyssins í apríl 2005 og að ástæða þess að sú krafa hafi ekki náð fram að gagna sé sú að lögmaður hans, Steingrímur Þormóðsson hrl., hafi sýnt af sér gáleysi við gæslu hagsmuna hans. Í máli þessu krefur hann stefnda um bætur á grundvelli starfsábyrgðartryggingar lögmannsins.                 Stefnandi, Steingrímur Þormóðsson hrl., Skorri Steingrímsson hdl. og Gunnar Pétursson hdl., lögmaður Sjóvá-Almennra trygginga hf., gáfu skýrslu fyrir dómi. Framburður þeirra er rakinn í niðurstöðukafla dómsins eftir því sem tilefni er til. II. Stefnandi byggir kröfur sínar á því að Steingrímur Þormóðsson hrl. hafi valdið sér tjóni með saknæmri og ólögmætri háttsemi. Steingrímur hafi sýnt af sér gáleysi við gæslu hagsmuna stefnanda annars vegar við innheimtu fullra og réttra bóta vegna vinnuslyss hans og hins vegar við ranga ráðgjöf vegna kostnaðar af matsgerð dómkvaddra matsmanna. Steingrímur hafi ekki lagt sig fram um að gæta hagsmuna stefnanda, hann hafi ekki rækt verkið, sem stefnandi hafi trúað honum fyrir, af alúð og ekki neytt allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna hans. Þjónusta Steingríms teljist því gölluð og hafi valdið stefnandi tjóni og stefnandi eigi af þeim sökum rétt til skaðabóta. Þá hafi skort á hlutlausa sérfræðiráðgjöf, heiðarleika og fagmennsku sem telja verði áskilið þegar um sérfræðing á tilteknu þjónustusviði sé að ræða.                 Stefnandi byggir fjárkröfur sínar á hendur stefnda á vátryggingarábyrgð félagsins vegna starfsábyrgðartryggingar sem Steingrímur hafði í gildi hjá félaginu á þeim tíma sem hann veitti stefnanda sérfræðiþjónustu.                 Sú bótaskylda háttsemi sem stefnandi byggir á að Steingrímur hafi sýnt af sér og valdið honum tjóni felst í því að hafa vanrækt að sækja kröfu stefnanda um bætur miðað við árslaun skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og honum hafði verið falið og hann fallist á að gera. Við uppgjör bóta hafi Steingrími borið að árita uppgjörið með skilmerkilegum fyrirvara um rétt stefnanda til að krefjast fullra bóta, og að við útreikning þeirra yrðu árslaun metin sérstaklega skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, og gera starfsmanni tryggingafélagsins ljóst efni fyrirvarans þegar eftir því hafi verið leitað. Þá hafi honum borið að höfða dómsmál gegn tryggingafélaginu í samræmi við þá kröfu sem hann hafði gert innan hæfilegs tíma og áður en krafa stefnanda fyrndist auk þess sem honum hafi borið að veita stefnanda fullnægjandi upplýsingar um framvindu verksins og ástæður tafa.                 Stefnandi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að Steingrímur hafi metið stöðuna þannig að ekki hafi verið tilefni til að meta árslaun sérstaklega skv. 2. mgr. 7. gr. Þá beri stefndi sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu að tryggingafélagið hefði ekki fallist á þá kröfu enda láðist Steingrími að færa rök fyrir kröfu um bætur á grundvelli 2. mgr. 7. gr. í bótakröfu dags. 25. júní 2008.                 Lögmaðurinn hafi einnig vanrækt að veita stefnanda fullnægjandi upplýsingar í málinu og hlutlægt álit á réttarstöðu sinni og því hafi stefnanda ekki gefist kostur á að taka upplýsta ákvörðun um framhald málsins.                 Stefnandi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að Steingrímur hafi metið það svo að gjafsókn fengist ekki, að hann hafi upplýst stefnanda um að dómsmál yrði áhættusamt, að Steingrímur hafi farið fram á innborgun á verkið áður en hafist yrði handa við málshöfðun og að stefnandi hafi ekki haft frekara samband við Steingrím vegna mögulegrar málshöfðunar. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir staðhæfingum um að málið hafi verið í biðstöðu vegna athafnaleysis stefnanda enda sé það í engu samræmi við gögn málsins sem benda eindregið til þess að stefnandi og umboðsmaður hans hafi ítrekað reynt að fá upplýsingar um gang málsins frá Steingrími en erfitt hafi reynst á fá samband við hann og ná fundi með honum. Gögn sýni skilmerkilega að stefnandi og sambýliskona hans hafi aldrei verið upplýst um annað en að fullnaðaruppgjör með fyrirvara hafi að mati lögmannsins eingöngu verið innborgun og lögmaðurinn væri að vinna að uppgjöri fullra bóta eftir þeirri kröfu sem hann gerði 25. júní 2008.                 Stefnandi byggir á því að vegna sérreglna skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð hvíli sönnunarbyrði á stefnda um að lögmaðurinn hafi ekki sýnt af sér gáleysislega háttsemi og athafnaleysi við hagsmunagæslu stefnanda enda liggur fyrir í gögnum málsins að Steingrímur hafi talið stefnanda eiga frekari bótarétt sem Steingrími hafði verið falið að sækja en ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi tekið ákvörðun um að falla frá frekari innheimtu á þeim bótarétti. Hefði Steingrímur haldið rétti stefnanda til laga þá hefði réttur hans til bóta samkvæmt árslaunaviðmiði 2. mgr. 7. gr. verið viðurkenndur hjá úrskurðarnefnd eða fyrir dómstólum og stefnandi því fengið hærri bætur. Sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvílir á stefnda samkvæmt sérreglum skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð.                 Fyrir slysið þann 30. apríl 2005 hafi stefnandi haft fulla starfsorku. Atvinnusaga stefnanda á tímabilinu 2000-2005 sýni að stefnandi hafi sóst eftir fullu starf eftir því sem honum hafi boðist en þess á milli hafi hann notið takmarkaðra tekna vegna atvinnuleysis auk þess sem hann hafi á sama tímabili sinnt járnabindingum án þess að staðgreiðsluyfirlit beri þess merki. Á árunum 2002 til 2004 hafi hann unnið fulla vinnu þegar honum hafi boðist það, þ.e. samtals í sex mánuði á þessum árum. Þess á milli hafi hann þegið atvinnuleysisbætur og haft tekjur sem ekki hafi verið gefnar upp til skatts. Þá liggi fyrir að stefnandi sé vel menntaður og búi yfir mikilli starfsreynslu. Í ljósi þessa og atvinnusögu hans fyrir og eftir viðmiðunartímabilið, sbr. 1. mgr. 7. gr., sé ljóst að óvenjulegar aðstæður hafi verið uppi á því tímabili og skilyrði 2. mgr. til að meta tekjur hans sérstaklega hafi verið fyrir hendi. Með réttu hefðu bætur vegna varanlegrar örorku átt að miðast við árslaun sem byggðust á launum stefnanda hjá Íbúðalánasjóði á árunum 2002 til 2004 þá mánuði sem hann var í fullu starfi. Sé krafa hans í málinu miðuð við það. Til viðbótar komi 6% lífeyrissjóðsiðgjald og verðbætur miðað við launavísitölu októbermánaðar 2005. Viðmiðunarlaunatekjur verði þannig 3.921.302 kr. vegna ársins 2002, 4.391.499 kr. vegna ársins 2003 og 3.570.795 kr. vegna ársins 2004. Samtals verði árslaun skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga meðaltal þessara ára eða 3.961.199 kr. Við útreikning kröfunnar sé miðað við að stuðullinn skv. 6. gr. skaðabótalaga sé 10,533 en stefnandi hafi verið 40 ára og 73 daga gamall þegar stöðugleika var náð þann 30. október 2005. Þá sé miðað við 15% varanlega örorku. Samkvæmt þessu séu réttar bætur til stefnanda 6.258.496 kr. (3.961.199 x 10,533 x 15%). Stefnandi hafi fengið greiddar 2.125.933 kr. vegna varanlegrar örorku og nemi því fjárhæð vangreiddra bóta 4.132.563 kr. Krafist sé 4,5% vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga frá 30. október 2005 til 10. mars 2009, samtals 658.981 kr., og nemi því tjón stefnanda vegna þessa liðar 4.791.544 kr. Krafist er vaxta skv. 8. gr.laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 10. mars 2009 til 9. maí 2015, en þá hafi mánuður verið liðinn frá bótakröfu stefnanda, og sé krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags.                 Auk framangreindrar kröfu gerir stefnandi kröfu um að stefndi greiði honum 493.900 kr. með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 13. mars 2008 til 9. maí 2015, en þá var mánuður liðinn frá bótakröfu stefnanda, og dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags. Þessi þáttur kröfu stefnanda er byggður á því að Steingrímur hafi sýnt af sér gáleysi þegar hann fór fram á dómkvaðningu matsmanna. Í fyrsta lagi hafi hann án samráðs við stefnanda afturkallað drög fyrri lögmanns að sameiginlegri matsbeiðni hans og tryggingafélagsins. Þá hafi hann veitt stefnanda ranga ráðgjöf þegar hann sagði stefnanda að tryggingafélagið myndi endurgreiða honum kostnað af öflun matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Hann hafi þannig brotið gegn skyldu sinni að veita stefnanda hlutlægar upplýsingar um kostnað og hagkvæmni þess að afla matsgerðar með dómkvaðningu matsmanna og þjónusta hans að þessu leyti verið gölluð í skilningi laga nr. 42/2000, um þjónustukaup. Kostnaðurinn af undirmatsgerðinni hafi ekki fengist endurgreiddur og tjón stefnanda sem af því hlaust hafi numið 493.900 krónum sem stefnda beri að greiða stefnanda með vöxtum eins og rakið er að framan. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að þetta tjón megi ekki rekja til hinnar röngu ráðgjafar lögmannsins. III. Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að hagsmunagæslu Steingríms Þormóðssonar hrl. fyrir stefnanda hafi í engu verið ábótavant, gögn málsins beri með sér að málið hafi verið rekið af festu og á eðlilegum hraða. Ósannað sé að Steingrímur Þormóðsson hafi sýnt af sér saknæma háttsemi auk þess sem tjón og orsakatengsl séu ósönnuð. Þá mótmælir stefndi því að beita eigi ströngu sakarmati og öfugri sönnunarbyrði svo sem stefnandi byggi á.                 Stefndi byggir á því að fyrirvarinn sem Steingrímur hafi gert þegar hann tók við bótum fyrir hönd stefnanda hafi verið fullnægjandi. Í kröfubréfi lögmannsins frá 25. júní 2008 og í fyrra kröfubréfi hans frá 15. febrúar sama ár, sé krafist bóta miðað við 6.000.000 króna árslaun og vísað til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna til stuðnings þeirri kröfu. Í fyrra bréfinu sé sú krafa sérstaklega rökstudd. Í báðum bréfunum sé gerð bótakrafa á grundvelli undirmatsgerðar. Þessi krafa sé ítrekuð með handskrifaðri athugasemd á bréfi til Sjóvá, dags. 10. febrúar 2009, sem sent hafi verið í kjölfar yfirmatsgerðar sem tryggingafélagið hafi aflað. Krafan sé loks einnig rituð á uppgjörskvittun tryggingafélagsins. Stefnandi hafi sérstaklega verið upplýstur um þessa fyrirvara, m.a. með bréfi lögmannsins frá 14. mars 2009.                 Stefndi byggir á því að tryggingafélagið hafi synjað kröfu um að miða bætur til stefnanda við árslaunaviðmið skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Félagið hafi greitt bætur í samræmi við niðurstöðu yfirmatsgerðar og miðað bótauppgjör við meðallaun stefnanda þrjú síðustu ár fyrir slysdag, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Fyrirvarinn sem lögmaðurinn hafi gert þegar hann hafi tekið við bótunum hafi vísað til framangreindra kröfubréfa hans en orðrétt standi „samþykkt með fyrirvara um kröfu skv. undirmati“. Innan þessa fyrirvara rúmist mismunurinn á þeirri kröfu sem gerð var samkvæmt undirmati og þeirri greiðslu sem tekið hafi verið á móti, þ.m.t. mismunurinn sem felst í meðallaunum skv. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga annars vegar og sérstökum viðmiðunarlaunum skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sem krafa hafi verið gerð um. Fyrirvarinn hafi verið fullnægjandi og viðbrögð eða túlkun tryggingafélagsins breyti engu þar um. Í öllu falli sé það ósannað að fyrirvarinn hafi verið ófullnægjandi og sönnunarbyrðin um það atriði hvíli á stefnanda.                 Jafnvel þótt fyrirvarinn teldist ófullnægjandi sé ekki um saknæma háttsemi að ræða af hálfu lögmannsins. Honum hafi verið veitt heimild til að semja um og taka við greiðslu með umboði frá stefnanda dagsettu 1. maí 2007 og hafi ekki þurft frekari heimild frá stefnanda til að inna það verk af hendi. Hvorki í umboðinu né öðrum gögnum sé að finna fyrirmæli frá stefnanda um að taka eigi við greiðslu með fyrirvara um að hafa uppi frekari kröfur. Móttaka greiðslna án fyrirvara rúmist innan þess umboðs sem stefnandi hafi veitt lögmanninum.                 Stefndi byggir einnig á því að upplýsingagjöf og ráðgjöf Steingríms hafi verið fullnægjandi. Í kjölfar uppgjörs frá tryggingafélaginu árið 2009 hafi hann, bæði munnlega og skriflega, upplýst stefnanda og þáverandi sambýliskonu hans, Elínu Hönnu Jónsdóttur, sem hafi alfarið séð um samskipti við lögmenn vegna málsins, um stöðu mála og sagt þeim að á brattann væri að sækja í dómsmáli varðandi kröfu um launaviðmið á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Í kjölfar þessara samskipta hafi Steingrímur gert þeim ljóst að ef stefnandi hygðist sækja frekari rétt sinn ætti hann að hafa samband við Steingrím. Það hafi stefnandi ekki gert fyrr en um áramót 2012-2013 þegar Elín Hanna, sem þá hafði slitið sambúð með stefnanda, hafi haft samband við Steingrím. Eftir að lögmaðurinn hafi gengið eftir því að hún legði fram umboð frá stefnanda hafi hann upplýst hana munnlega um stöðu mála og mögulegt framhald þess og ítrekað þær upplýsingar með bréfi dagsettu 6. apríl 2013. Þar segir m.a. ,,auðvitað er hægt að fara í mál en það er kostnaðarsamt, þ.e. leggja þarf í vinnu“. Þetta sé ítrekað í bréfi til stefnanda sjálfs í kjölfar síðari fyrirspurnar hans 16. ágúst 2013. Sérstaklega sé því mótmælt að Steingrímur hafi vanrækt að gefa stefnanda hlutlægt álit á málinu. Það gerði hann ítrekað svo sem að framan hefur verð greint frá, bæði munnlega og skriflega. Þá komi fram í bréfaskiptum lögmannsins að hann fari fram á að fá greitt inn á verkið áður en mál verði höfðað og það hafi hann einnig gert munnlega á fyrri stigum. Sérstaklega sé þetta skýrt í áðurnefndu bréfi til stefnanda frá 16. ágúst 2013. Staðhæfingum um annað sé mótmælt sem röngum.                 Stefndi byggir jafnframt á því að lögmanninum hafi ekki verið heimilt að höfða mál fyrir dómi án þess að fá bein fyrirmæli um slíkt. Umboð stefnanda hafi ekki náð til málshöfðunar. Ósannað sé að fyrirmæli um málshöfðun hafi borist frá stefnanda og beri stefnandi hallann af skorti um sönnun hvað það atriði varðar. Skjalfest sé og sannað að Steingrímur hafi upplýst stefnanda um að nauðsynlegt væri að greiða inn á verkið ef halda ætti áfram með málið fyrir dómi. Fyrir liggi að engin slík innborgun hafi borist lögmanninum. Hvorki stefnandi né sambýliskona hans hafi haft samband við lögmanninn í hartnær fjögur ár, frá miðju ári 2009 til áramóta 2012-2013. Þá liggi að auki fyrir skrifleg yfirlýsing stefnanda frá 12. ágúst 2013 um að hann hafi ekki áhuga á frekari málarekstri. Ekkert í nefndu bréfi hafi gefið Steingrími ástæðu til að höfða mál vegna launaviðmiðs án tafar eða grípa til einhverra annarra aðgerða. Þvert á móti beri bréfið með sér að stefnanda hafi verið ljóst að ekki væri hægt að aðhafast frekar nema með því að fara fyrir dóm.                 Stefndi byggir á því að atvik og gögn þessa máls gefi enga vísbendingu um að líklegt hefði verið að árangur hefði náðst í málshöfðun á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og lögmaðurinn hafi réttilega bent stefnanda á það. Út frá atvinnusögu og menntun stefnanda hafi úrslit málaferla í öllu falli verið tvísýn. Í þessu efni verði að líta til þeirra dómafordæma varðandi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sem legið hafi fyrir árið 2009 þegar uppgjör til stefnanda hafi farið fram. Við þessar kringumstæður sé það ekki saknæm vanræksla lögmanns að halda ekki áfram málarekstri gagnvart tryggingafélaginu, eftir atvikum með málaferlum, án beinna fyrirmæla frá stefnanda og samkomulags við hann um greiðslu fyrir þá þjónustu. Einu gildir hvort unnt hefði verið að fá gjafsókn eða ekki enda útiloki gjafsókn ekki að kostnaður falli á stefnanda máls.                 Þá mótmælir stefndi því að möguleg krafa stefnanda hafi fyrnst í síðasti lagi 1. janúar 2013. Það sé í öllu falli óljóst og ósannað og beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni.                 Stefndi mótmælir því að Steingrímur hafi viðhaft saknæma háttsemi við dómkvaðningu undirmatsmanna sem hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda. Jafnframt sé því mótmælt bæði sem röngu og ósönnuðu að hann hafi einhliða afturkallað samkomulag fyrri lögmanns stefnanda við tryggingafélagið um öflun sameiginlegar matsgerðar. Bréfaskipti stefnanda og sambýliskonu hans til fyrri lögmanns stefnanda sýni að stefnandi hafi ekki fellt sig við þá matsmenn sem samkomulag hafi náðst um að ynnu verkið. Staðhæfingar hans um að unnt hefði verið að ná samkomulagi við tryggingafélagið um að nánar tilgreindir matsmenn ynnu verkið er ósönnuð og ólíkleg. Einnig megi ráða af bréfi sambýliskonu stefnanda til fyrri lögmanns stefnda að hann sjálfur hafi óskað eftir því að dómkvaddir yrðu matsmenn enda sé það eina leiðin til að ráða vali á matsmönnum og ekki einu sinni öruggt að hún nægi. Í öllu falli er ófær sú leið sem fyrri lögmaður stefnanda hafi ætlað að fara. Því sé mótmælt, bæði almennt og í ljósi atvika þessa máls, að dómkvaðning matsmanna án samráðs við tryggingafélag feli í sér saknæma háttsemi lögmanns. Ýmsar réttmætar ástæður geti verið fyrir því að slík leið sé valin. Að jafnaði greiðist slíkar matsgerðir af tryggingafélögum. Í þessu máli hafi hins vegar verið krafist yfirmats. Niðurstaða þess hafi orðið önnur en undirmats og sé meginskýringin á því sú að í ljós hafi komið ný gögn um eldri áverka stefnanda sem höfðu áhrif á niðurstöðu matsmanna um orsakir varanlegs tjóns hans. Stefnandi hafi ekki upplýst um þetta atvik í upprunalegri slysatilkynningu og hvorki lögmaðurinn né undirmatsmenn höfðu vitneskju um þetta atvik. Þetta hafi leitt til þess að tryggingafélagið hafi neitað að greiða fyrir undirmatsgerðina. Á því beri stefnandi sjálfur ábyrgð.                 Af grunnreglum skaðabótaréttar leiði, jafnvel þótt fallist verði á sök Steingríms, að stefnanda beri að sanna hvaða tjón leiddi af þeirri saknæmu háttsemi. Slíkt sé ósannað í máli þessu. Ósannað sé að niðurstaða dómsmáls eða úrlausn ágreinings við tryggingafélagið utan réttar hefði orðið sú sem stefnandi haldi fram. Grundvöllur fjárkröfu hans vegna varanlegs tjóns sé hæpinn og ósannað að hún hefði getað orðið grundvöllur kröfu sem tekin hefði verið til greina fyrir dómi. Miði hann kröfu sína við laun sem hann naut í ágúst og september á hverju ári þrjú síðustu árin fyrir slysdag, sem séu einu mánuðir þeirra ára sem hann hafi verið í fullri vinnu. Óútskýrt sé hvers vegna stefnandi hafi verið að mestu atvinnulaus í hina 39 mánuðina og þarfnist það sérstakra skýringa í ljósi þess að stefnandi staðhæfi að hann hafi haft fulla starfsorku og sé vel menntaður. Miðað við þau dómafordæmi sem hafi legið fyrir hafi ekki verið ástæða til að ætla að vænlegt væri að byggja kröfu skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga á launum sem stefnandi hafi aflað eftir slys, eða að slíkt hefði einhverju breytt. Sama eigi við um launatekjur sem ekki komi fram á skattframtölum. Sérstaklega mótmælir stefndi því að atvinnusaga stefnanda á tímabilinu 2000-2005 beri þess merki að hann hafi sóst eftir fullu starfi. Sú staðhæfing sé ósönnuð og gögn málsins bendi til hins gagnstæða.                 Loks mótmælir stefndi vaxtakröfum stefnanda sem vanreifuðum auk þess sem ósannað sé að lagarök standi til að taka þær til greina. IV. Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort lögmaður, sem stefnandi fól að gæta hagsmuna sinna í bótamáli vegna vinnuslyss, hafi með mistökum og vanrækslu við hagsmunagæsluna valdið honum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Beinir stefnandi kröfu sinni að stefnda sem seldi lögmanninum starfsábyrgðartryggingu á því tímabili sem umdeild þjónusta var veitt.                 Bótakrafa stefnanda nemur 5.285.444 krónum. Hún er annars vegar reist á því að hann hafi orðið fyrir tjóni með því að hafa stofnað til útgjalda við öflun matsgerðar dómkvaddra matsmanna sem ekki hafi fengist endurgreidd. Stefnandi greiddi 493.900 krónur fyrir matsgerðina. Hins vegar krefst hann 4.791.544 króna bóta, sem hann kveður vera mismun bóta sem hann fékk greiddar frá Sjóvá-Almennum tryggingum fyrir varanlegt tjón af völdum vinnuslyssins og þeirra bóta sem hann hefði fengið frá félaginu vegna sama tjóns ef lögmaðurinn hefði haldið rétt á máli hans.                 Hvað fyrri bótaliðinn varðar, kostnaðinn af matsgerðinni, má af gögnum málsins sjá að stefnandi naut um tíma aðstoðar annars lögmanns. Sá hafði í ágúst 2006 gengið frá samkomulagi við tryggingafélagið um að afla matsgerðar nafngreindra matsmanna utan réttar. Stefnandi felldi sig ekki við að matsgerðar yrði aflað með þeim hætti og krafðist þess að fengnir yrðu tveir aðrir nafngreindir matsmenn til verksins. Lögmaðurinn útskýrir í tölvuskeytum ítarlega fyrir stefnanda hvers vegna hann hafi leitað eftir samkomulagi við tryggingafélagið um öflun sameiginlegrar matsgerðar og og til hvaða úrræða hægt sé að grípa verði niðurstaða matsins óásættanleg fyrir tjónþola. Nefnir hann í því sambandi að við þær aðstæður sé unnt að afla álits örorkunefndar eða mats dómkvaddra matsmanna. Í kjölfar þessara samskipta ákveður stefnandi að afturkalla umboð sitt til lögmannsins og felur Steingrími Þormóðssyni nokkru síðar að taka við málinu á ný með umboði sem dagsett er 1. maí 2007.                 Bréf stefnanda til fyrri lögmanns hans verða ekki skilin öðru vísi en svo að stefnandi sjálfur hafi verið andvígur því að afla sameiginlegrar matsgerðar með tryggingafélaginu. Í áðurnefndu tölvuskeyti til lögmannsins gerir hann skýra kröfu um að óhlutdrægir matsmenn með tiltekna sérþekkingu verði fengir til að vinna matsgerðina og krefst þess að tveir nafngreindir menn verði fengnir til verksins. Í ljósi þessa er sú staðhæfing stefnanda að Steingrímur hafi upp á sitt eindæmi tekið ákvörðun um að óska eftir mati dómkvaddra matsmanna ótrúverðug eða að minnsta kosti ósönnuð en engra gagna nýtur við um að beiðnin hafi verið afturkölluð með formlegum hætti. Auk þess verður, í ljósi þeirra ítarlegu upplýsinga sem fyrri lögmaður stefnanda veitti honum í tölvupóstsamskiptum þeirra, að gera ráð fyrir að stefnandi hafi mátt gera sér grein fyrir því að til að verða við eindreginni kröfu hans um að velja sjálfur nafngreinda matsmenn með tiltekna sérfræðiþekkingu væri torvelt að afla matsgerðar í samráði við tryggingafélagið utan réttar.                 Ekki nýtur við gagna um það hvaða upplýsingar Steingrímur veitti stefnanda um kostnað af öflun matgerðarinnar en fyrir liggur að tryggingafélagið féllst ekki á að greiða fyrir hana enda aflaði það síðar yfirmatsgerðar og byggði bótagreiðslur til stefnanda á þeirri matsgerð. Sú staðhæfing stefnanda að Steingrímur hafi fullyrt að kostnaður af öflun hennar fengist endurgreidd er ósönnuð. Verður stefnandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti og er ekki fallist á að víkja beri frá almennum sönnunarreglum í þessu tilviki jafnvel þótt deilt sé um sérfræðiábyrgð lögmanns. Í því efni ber að líta til þess að Steingrímur hafi fullt umboð frá stefnanda til að vinna að málinu og ekki verður gerð sú krafa til lögmanna að þeir tryggi sér sönnun á öllum samskiptum við umbjóðanda sinn eða því hvaða leiðbeiningar þeir veita þeim á sérhverju stigi málsins.                 Síðari kröfuliður stefnanda lýtur að tjóni sem stefnandi byggir á að Steingrímur hafi valdið honum með því að halda ekki rétt á máli hans. Svo sem rakið er í atvikalýsingu dómsins greiddu Sjóvá-Almennar tryggingar stefnanda bætur á grundvelli niðurstöðu yfirmatsgerðar þar sem varanleg örorka hans var metin 15% og varanlegur miski 20 stig. Stefnandi hafði á hinn bóginn sett fram kröfu á grundvelli niðurstöðu undirmatsgerðar sem mat varanlegt tjón stefnanda talsvert hærra. Þá lagði tryggingafélagið til grundvallar bótaútreikningi meðallaun stefnanda sl. þrjú árin fyrir slys svo sem meginreglan gerir ráð fyrir, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna, en stefnandi hafði áður krafist þess að árslaun yrðu metin sérstaklega á grundvelli 2. mgr. sömu greinar og að miðað yrði við 6 milljóna króna árslaun.                 Mistökin sem stefnandi byggir á að lögmaðurinn hafi gert felast aðallega í tvennu. Annars vegar hafi hann gert ófullnægjandi fyrirvara við uppgjör tryggingafélagsins og með því komið í veg fyrir að unnt væri að krefja félagið um frekari bætur á síðari stigum. Hins vegar hafi hann ekki gert reka að því að innheimta frekari bætur frá tryggingafélaginu, á grundvelli annars og hærra árslaunaviðmiðs, annað hvort utan réttar eða með höfðun dómsmáls. Auk þessa telur stefnandi að lögmaðurinn hafi veitt honum ófullnægjandi upplýsingar og ráðgjöf.                 Svo sem að framan greinir tók lögmaðurinn við bótum fyrir hönd stefnanda með tilteknum fyrirvara sem hann handskrifaði á fullnaðaruppgjör félagsins 11. mars 2009. Sá hluti fyrirvarans sem deilt er um hvort sé nægilega skýr er svohljóðandi: „Samþykkt með fyrirvara um kröfu skv. undirmati [...].“ Sama orðalag kemur fram í bréfi lögmannsins sem sent er tryggingafélaginu sama dag. Við mat á skýrleika fyrirvarans verður að líta til þess að áður hafði lögmaðurinn sent tryggingafélaginu kröfu um bætur sem byggðust á mati á varanlegu tjóni eins og það var metið af undirmatsmönnum og jafnframt lagt til grundvallar kröfugerðinni að árslaun stefnanda yrðu metin sérstaklega. Í tveimur kröfubréfum, dagsettum 15. febrúar og 25. júní 2008, er bótakrafan sundurliðuð og miðað við árslaun upp á 6 milljónir króna auk lífeyrissjóðsiðgjalds. Í fyrra bréfinu er tekið fram að sú fjárhæð byggist á launum stefnanda fyrir sjómennsku á árinu 2005, sem hann stundaði hluta af árinu. Þá gerir lögmaðurinn athugasemd við launaviðmiðið sem tryggingafélagið notar í bréfi hans til félagsins 10. febrúar 2009.                 Jafnvel þótt unnt hefði verið að orða fyrirvarann með skýrari hætti verður, með hliðsjón af framangreindum gögnum, að skilja fyrirvara lögmannsins á þann veg að hann lúti bæði að örorkustigi og árslaunaviðmiði bótagreiðslunnar, enda er það í samræmi við þá kröfugerð sem lögmaðurinn hafði ítrekað sett fram á þeim tíma þegar hann ritar umdeildan fyrirvara. Breytir engu í því efni þótt tryggingafélagið kunni að hafa verið annarrar skoðunar á síðari stigum. Er því hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að lögmaðurinn hafi gert ófullnægjandi fyrirvara þegar hann tók við bótum fyrir hans hönd.                 Í öðru lagi heldur stefnandi því fram að lögmaðurinn hafi vanrækt skyldu sína til að halda rekstri málsins áfram eftir að tryggingafélagið greiddi honum bætur og ekki veitt honum fullnægjandi upplýsingar og ráðgjöf um réttarstöðu sína. Er á því byggt að lögmaðurinn hafi ekki fullreynt að ná samkomulagi við tryggingafélagið um bætur á grundvelli hærra árslaunaviðmiðs og látið undir höfuð leggjast að höfða mál til heimtu hærri bóta.                 Engin gögn liggja fyrir sem veita vísbendingu um að tryggingafélagið hefði fallist á kröfu stefnanda um að meta árslaun hans sérstaklega en lögmaðurinn hafði ítrekað sett fram slíka kröfu áður en félagið sendi honum uppgjörstillögu sína sem byggðist á meðallaunum sl. þrjú ár fyrir slysið. Í þeirri tillögu birtist afstaða félagsins til kröfu stefnanda. Staðhæfingar stefnanda um að unnt hefði verið að fá þeirri afstöðu breytt eru ósannaðar og verður stefnandi að bera hallann af skorti á sönnun um það atriði.                 Ekki er fallist á það með stefnanda að lögmanninum hafi borið að höfða dómsmál fyrir hans hönd án frekari fyrirmæla frá stefnanda þar að lútandi. Umboðið sem stefnandi veitti lögmanninum 1. maí 2007 felur ekki í sér umboð til málshöfðunar enda verður að taka af tvímæli um það í umboðinu sjálfu eigi svo að vera.                 Í málinu er einnig deilt um það hvort lögmaðurinn hafi gert stefnanda fullnægjandi grein fyrir því að hann myndi ekki höfða mál án frekari fyrirmæla og jafnframt að hann hafi óskað eftir innborgun frá stefnanda vegna vinnu við málshöfðun. Í málinu liggur fyrir bréf lögmannsins til stefnanda, dagsett 10. febrúar 2009, þar sem segir að meðfylgjandi bréfinu séu yfirmatsgerðin og athugasemdabréf lögmannsins til tryggingafélagsins og því beint til stefnanda að hafa samband sem fyrst. Þá er bréf til Elínar Hönnu, sambýliskonu stefnanda, sem dagsett er 15. febrúar s.á., þar sem segir að sama athugasemdabréf sé meðfylgjandi. Af því bréfi má ráða að lögmaðurinn sé að skoða málssókn þar sem hann óskar eftir skattframtölum stefnanda sl. tvö ár vegna gjafsóknarbeiðni. Segir hann jafnframt að hann nái engu sambandi við stefnanda og óskar eftir því að þau, Elín Hanna og stefnandi, komi saman til fundar við sig. Allar líkur eru á að dagsetning þessara bréfa sé röng með hliðsjón af því að yfirmatsgerðin, sem vísað er til í þeim, er dagsett 27. febrúar sama ár. Þá er bréf frá lögmanninum til stefnanda dagsett 14. mars 2009 þar sem hann upplýsir stefnanda um að hann hafi tekið á móti bótum með ákveðnum fyrirvara og biður hann að vera í sambandi sem fyrst.                 Engin gögn liggja fyrir um það hvað stefnanda og lögmanninum fór á milli eftir að þessi bréfaskipti fóru fram og fram á árið 2012. Staðhæfing stefnanda um að Elínu Hönnu hafi aldrei borist framangreint bréf sem stílað er á hana verður hins vegar að teljast ósönnuð en Elín Hanna er nú látin þannig að vitnisburðar hennar nýtur ekki við. Þá bera gögn málsins með sér, andstætt því sem stefnandi bar fyrir dómi, að hún hafi að stórum hluta annast samskipti fyrir hans hönd við þá lögmenn sem komu að málinu.                 Framburður stefnanda og lögmannsins fyrir dómi vörpuðu ekki frekara ljósi á samskipti þeirra á árunum sem í hönd fóru og gögn málsins bera ekki með sér að stefnandi hafi verið í sambandi við lögmanninn fyrr en rúmlega fjórum árum síðar eða 12. ágúst 2013. Þá skrifar hann honum bréf og kveðst vilja ganga frá lokauppgjöri við tryggingafélagið á grundvelli yfirmatsgerðarinnar. Hvorki í þessu bréfi né nokkrum öðrum gögnum málsins er að finna vísbendingu um að stefnandi hafi falið lögmanninum að höfða mál til heimtu frekari bóta. Verður því að mati dómsins að telja ósannað að lögmaðurinn hafi sýnt af sér saknæma vanrækslu með því að hefjast ekki handa um málshöfðun án frekari fyrirmæla þar að lútandi. Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt fallast megi á það með stefnanda að nokkuð hafi skort á að vinnubrögð lögmannsins væru eins vönduð og gera má kröfu til. Þannig liggur fyrir að nokkur bréfa hans eru ranglega dagsett, ekki er alltaf getið viðtakenda né skýrlega greint frá því hvaða gögn fylgi þeim. Þá andmælir lögmaðurinn ekki staðhæfingum stefnanda um að hann kunni að hafa gleymt að mæta á fund og ef til vill ekki alltaf svarað skilaboðum. Á hinn bóginn er ósönnuð sú staðhæfing stefnanda að hann hafi svo árum skiptir árangurslaust reynt að ná í lögmanninn en svo sem að framan greinir er engum gögnum til að dreifa sem styðja þá staðhæfingu. Hvað sem þessu líður verður eins og áður segir ekki hjá því komist að telja ósannað að lögmaðurinn hafi fengið fyrirmæli um að hefja málssókn og eins og atvikum er háttað verður stefnandi að bera hallann af skorti á sönnun um það atriði.                 Jafnvel þótt fallist yrði á þá málsástæðu stefnanda að lögmanninum hafi borið án frekari fyrirmæla að grípa til aðgerða til að knýja á um frekari bótagreiðslur til stefnanda þá er það jafnframt niðurstaða dómsins að stefnandi hafi hvorki fært fram sönnun þess að hann hafi orðið fyrir tjóni né að tjónið nemi þeirri fjárhæð sem hann byggir bótakröfu sína á. Ekki er fallist á það með stefnanda að atvinnusaga hans á árunum fyrir slysið sýni að hann eigi rétt á því að því árslaun hans séu metin sérstaklega við útreikning bótafjárhæðar samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Skilyrði þess að unnt sé að víkja frá því að miða bætur við meðallaun tjónþola síðastliðinna þriggja almanaksára fyrir slys, sbr. 1. mgr. sömu greinar, eru þau að aðstæður séu óvenjulegar á því tímabili og að þær aðstæður leiði til þess að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.                 Gögn málsins sem lúta að atvinnusögu stefnanda eru yfirlit úr staðgreiðsluskrá fyrir árin 2001-2004 og skattframtöl áranna 2007-2009, vegna tekna áranna 2006-2008. Þá er óumdeilt að stefnandi hafi verið í vinnu í sjö mánuði á árinu 2000 en án atvinnu aðra mánuði þess árs. Framangreind gögn bera ekki með sér að atvinnuþátttaka hans á árunum 2002-2004 hafi verið verulega frábrugðin árunum á undan. Þá verður ekki fram hjá því litið að bæði í stefnu og í skýrslu stefnanda fyrir dómi bar hann að hann hefði á viðmiðunarárunum unnið við járnabindingar, ýmist sem launþegi eða í eigin rekstri, án þess að upplýsingar um þær tekjur komi fram í gögnum skattyfirvalda. Af þessum yfirlýsingum leiðir að ósannað er hverjar raunverulegar tekjur hans voru á viðmiðunartímabilinu og jafnframt verður ekki af skattframtali eða öðrum gögnum frá skattyfirvöldum dregin ályktun um hvort eða að hve miklu leyti greiðslur úr atvinnutryggingasjóði endurspegli raunverulegt atvinnuleysi hans á sama tíma. Því er ósannað að aðstæður hans hafi verið óvanalegar á viðmiðunartímabilinu svo sem áskilið er í 2. mgr. 7. gr. Þá er því jafnframt hafnað að laun stefnanda hjá Íbúðalánasjóði, fyrir þá tvo mánuði á hverju viðmiðunaráranna sem hann starfaði þar, séu réttari mælikvarði á framtíðartekjur hans. Fyrir dómi upplýsti stefnandi að um hefði verið að ræða vinnu í sumarafleysingum hjá stofnuninni. Ekki er fallist á að laun fyrir slíka vinnu geti eins og hér standi á verið grundvöllur bótaútreiknings skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Af framangreindu leiðir að ósannað er að stefnandi hafi orðið fyrir því tjóni sem bótakrafa hans er byggð á.                 Með ofangreindum rökstuðningi verður öllum kröfum stefnanda hafnað. Með hliðsjón af atvikum máls er rétt að hvor aðili beri sinn málskostnað af málinu.    Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan dóm. Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. DÓMSORÐ Stefndi, tryggingafélagið Vörður, er sýkn af kröfu stefnanda, Sigurðar Steinars Jónssonar. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 13/2018
Kærumál Endurupptaka Frávísun frá Hæstarétti
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli G á hendur Í hf. var vísað frá Landsrétti. Með úrskurði héraðsdóms var bú G tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu Í hf. en útivist varð af hálfu G þegar málið var tekið fyrir. Óskaði G í kjölfarið eftir því að málið yrði endurupptekið og reisti beiðnina á því að hann hefði haft lögmæt forföll. Með úrskurði héraðsdóms var hafnað að taka beiðni G til efnismeðferðar þar sem hann hefði ekki sinnt leiðbeiningum héraðsdómara um hvernig hann skyldi bera sig að við að leita endurupptöku og beiðni hans því ekki fullnægt lagafyrirmælum. Að fengnum þeim úrskurði kærði G til Landsréttar úrskurð héraðsdóms um að bú hans skyldi tekið til gjaldþrotaskipta. Í úrskurði Landsréttar kom fram að úrskurður um gjaldþrotaskipti yrði ekki kærður til æðri dóms ef útivist hefði orðið af hálfu skuldarans í héraði. Brysti því heimild til kæru og var málinu vísað frá Landsrétti. Taldi Hæstiréttur að kæra G á úrskurði Landsréttar væri með öllu tilefnislaus. Yrði ekki af henni annað ráðið en að G hefði kært úrskurðinn í því skyni einu að tefja framgang málsins. Var málinu því samkvæmt 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2018, en kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 7. maí 2018, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Landsrétti. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi „og breytt á þá leið að úrskurður Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. X-5/2017 frá 14. mars sl. um að bú sóknaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta, verði felldur úr gildi.“ Til vara krefst hann þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar, en að því frágengnu að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi „og breytt á þá leið að málinu verði vísað aftur heim [í] hérað til efnislegrar umfjöllunar og munnlegs málflutnings“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. I Samkvæmt gögnum málsins krafðist varnaraðili 20. janúar 2017 gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila á grundvelli tveggja árangurslausra fjárnámsgerða sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem gerðar höfðu verið nokkru áður. Ágreiningsmál vegna beiðninnar  fékk númerið X-5/2017 og í  þinghaldi í því 15. febrúar 2018 var bókað að málinu væri frestað til munnlegs flutnings 14. mars sama ár klukkan 10. Þann dag var bókað í þingbók að málið hafi verið tekið fyrir og í því kveðinn upp úrskurður um að bú sóknaraðila væri tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Var jafnframt bókað að úrskurðarorð hefði verið lesið í réttinum að aðilum fjarstöddum og að tilgreindur lögmaður hefði verið skipaður til að vera skiptastjóri í þrotabúinu. Degi síðar sendi sóknaraðili dómara málsins beiðni um endurupptöku þess og vísaði í því sambandi til 4. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni sína reisti sóknaraðili á því að hann hefði haft lögleg forföll er málið var tekið fyrir 14. mars 2018 vegna slyss sem hann hafi orðið fyrir fáeinum dögum áður. Hann hefði tilkynnt forföll sín í tölvubréfi til dómsins 13. mars og aftur að morgni næsta dags, auk þess sem hann hefði sent dómstjóra Héraðsdóms Reykjaness afrit tölvubréfanna. Þá hefði hann sent dóminum vottorð læknis 14. mars um áverka sína. Með bréfi héraðsdómara 15. mars 2018 til sóknaraðila var upplýst að beiðni hans um endurupptöku málsins X-5/2017 hefði borist dóminum. Þar kom meðal annars fram að 97. gr. laga nr. 91/1991 ætti ekki við um beiðni sóknaraðila. Í bréfinu var jafnframt vakin athygli sóknaraðila á því að samkvæmt 138. gr. laga nr. 91/1991 skuli í beiðni um endurupptöku greina skýrlega hverra breytinga ,,stefndi“ krefjist á fyrri málsúrslitum og á hverjum málsástæðum, réttarheimildum og sönnunargögnum það sé reist. Ekki hafi verið getið um það í beiðni um endurupptöku hverra breytinga væri krafist. Þá benti héraðsdómarinn á að samkvæmt 3. mgr. 137. gr. laganna verði beiðni um endurupptöku ekki sinnt nema ,,stefndi“ setji áður tryggingu sem dómari meti gilda fyrir greiðslu þess málskostnaðar sem lagður var á hann í dómi eða hann sanni að hann hafi greitt málskostnaðinn. Frá þessu megi þó víkja með samþykki gagnaðila. Dómarinn tók fram að hann hefði ekki fengið upplýsingar um að svo hefði verið gert. Með vísan til þessa taldi héraðsdómarinn ekki skilyrði til þess að taka beiðni sóknaraðila um endurupptöku fyrir og væri henni ,,því hafnað.“ Í lok bréfsins sagði: ,,Bent er á lokamálslið 2. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991 þar sem segir að dómari synji þegar í stað um endurupptöku telji hann sýnt að skilyrðum 137. gr. sé ekki fullnægt en úrskurður skuli kveðinn upp um synjunina sé þess krafist.“ Sóknaraðili sendi héraðsdómara bréf 19. mars 2018 og ítrekaði kröfu sína um endurupptöku, auk þess að gera kröfu um að úrskurðurinn 14. mars yrði felldur úr gildi, en ella úrskurðar héraðsdóms um synjun um að taka kröfu hans um endurupptöku til efnismeðferðar. Úrskurður um það var kveðinn upp 20. sama mánaðar og var málið merkt nr. Ö-7/2018. Þar var meðal annars rakið að máli nr. X-5/2017 um beiðni um gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila hafi verið frestað 19 sinnum auk þess sem sóknaraðili hafi boðað forföll í ,,um 30 skipti“. Í fyrirtöku 15. febrúar 2018 hafi verið boðað til munnlegs málflutnings 14. mars sama ár, en sóknaraðili fullyrt að hann myndi þá ekki hafa lausan tíma. Héraðsdómari hafi þá gert sóknaraðila grein fyrir því að málið yrði þá tekið fyrir að honum fjarstöddum hefði hann ekki lögmæt forföll. Sóknaraðili hefði sent dómaranum tölvubréf að morgni þess dags, sem málflutningur hafði verið boðaður og upplýst um meiðsl sín og að hann myndi senda dóminum vottorð því til staðfestingar síðar. Í upplýsingum sóknaraðila um slys það er hann varð fyrir hafi komið fram að hann ,,færi allra nauðsynlegustu ferða á hækjum.“ Dómurinn hafi því ekki talið um lögmæt forföll að ræða ,,sbr. a-lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991“ og því verið um útivist af hálfu sóknaraðila að ræða þegar hann mætti ekki til dómþings er málið skyldi flytja munnlega. Hafi málið því verið tekið til úrskurðar þar sem því hafi verið hafnað að beiðni sóknaraðila um endurupptöku máls nr. X-5/2017 fengi efnismeðferð. Hafi úrskurðinn verið sendur honum í tölvupósti samdægurs. Var niðurstaða héraðsdómara á því reist að beiðni sóknaraðila hefði að efni til ekki fullnægt lagafyrirmælum og auk þess hefði hann hvorki greitt málskostnað þann er honum var gert að greiða í málinu né sett tryggingu fyrir greiðslu hans. Þá hefði hann heldur ekki sýnt fram á að hann hefði aflað samþykkis varnaraðila fyrir því að verða leystur undan skyldu til að greiða eða setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Sóknaraðili kærði 23. mars 2018 að fenginni framangreindri niðurstöðu, úrskurð í máli nr. X-5/2017 til Landsréttar og krafðist þess að niðurstaðan um að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta yrði felld úr gildi. Í úrskurði Landsréttar 7. maí 2018 sagði að því hafi ítrekað verið slegið föstu að skýra verði kæruheimild í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991. Þannig verði úrskurður um gjaldþrotaskipti ekki kærður til æðra dóms ef útivist hefur orðið af hálfu skuldarans í héraði, heldur verði hann, úr því sem komið er, að leita endurskoðunar slíks úrskurðar með kröfu um endurupptöku máls fyrir héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 137. gr. síðarnefndu laganna en ,,af þeim sökum brestur heimild til kæru í máli þessu og verður því vísað af sjálfdáðum frá Landsrétti.“ II Eins og rakið hefur verið krafðist varnaraðili gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila 20. janúar 2017. Sóknaraðili andmælti kröfunni og var málið nr. X-5/2017 rekið um ágreininginn. Sóknaraðili hefur margsinnis fengið fresti í málinu en samkvæmt endurritum úr þingbók hefur það verið tekið fyrir oftar en 20 sinnum, auk þess sem hann hefur margítrekað boðað forföll er málið skyldi taka fyrir. Hann hefur einkum borið fyrir sig að á kröfu um gjaldþrotaskipti séu formgallar. Sá dráttur sem varð á lyktum málsins fyrir héraðsdómi var að mestu vegna ástæðna sem sóknaraðila varða. Að gengnum úrskurði í málinu sinnti hann ekki ráðgjöf héraðsdómara um hvernig hann skyldi bera sig að við að leita endurupptöku máls nr. X-5/2017. Að fengnum úrskurði í máli nr. Ö-7/2018 þar sem hafnað var að taka til meðferðar beiðni hans um endurupptöku á fyrrnefnda málinu með röksemdum, sem honum hafði áður verið gerð grein fyrir er dómari freistaði þess að leiðbeina honum um framhald málsins, kærði hann til Landsréttar úrskurð í máli nr. X-5/2017. Landsréttur vísaði málinu frá réttinum með úrskurði, sem hér er til endurskoðunar. Eins og fram er komið sinnti sóknaraðili ekki leiðbeiningum héraðsdómara um efni beiðni um endurupptöku máls nr. X-5/2017 og fullnægði heldur ekki öðrum skilyrðum þess að fá beiðni um það tekna til meðferðar, heldur krafðist þess að héraðsdómari úrskurðaði um beiðnina þótt honum hafi verið bent á að málatilbúnaður hans væri ófullburða. Að fengnum þeim úrskurði hefur hann freistað þess að fá fyrri úrskurð í máli nr. X-5/2017 endurskoðaðan með kæru til Landsréttar. Kæra sóknaraðila á úrskurði Landsréttar er, eins og málið er allt vaxið, með öllu tilefnislaus. Verður ekki af henni, og öðru því sem rakið hefur verið, annað ráðið en að  sóknaraðili hafi kært úrskurðinn í því skyni einu að tefja framgang málsins. Verður málinu samkvæmt 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, vísað frá Hæstarétti. Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Sóknaraðili, Gunnar Árnason, greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 750.000 krónur í kærumálskostnað.     Úrskurður Landsréttar 7. maí 2018. Landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Kristbjörg Stephensen og Oddný Mjöll Arnardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu. Málsmeðferð og dómkröfur aðila Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 26. mars 2018 en kærumálsgögn bárust Landsrétti 9. næsta mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. mars 2018 í málinu nr. X-5/2017, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og XXV. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að málinu verði vísað frá dómi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Niðurstaða Landsréttar Sóknaraðili boðaði forföll með tölvupósti 13. mars 2018, vegna máls varnaraðila á hendur honum er skyldi flutt í héraði daginn eftir. Þar upplýsti sóknaraðili að hann hefði slasast á fæti síðastliðna helgi og að hann væri sem stæði „í hvíld heima við en fer allra nauðsynlegustu ferða á hækjum“. Sóknaraðili ítrekaði tilkynningu sína að morgni 14. mars 2018 og tók fram að honum hefðu ekki borist viðbrögð vegna fyrri tölvupóstsins. Var málið tekið til úrskurðar að loknu þinghaldinu 14. mars að kröfu varnaraðila. Í þingbók við það tækifæri var meðal annars bókað að sóknaraðili „sækir ekki þing og hefur ekki boðað lögmæt forföll“. Úrskurður var kveðinn upp sama dag. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, teljast forföll aðila frá þinghaldi lögmæt ef þau stafa af sjúkdómi hans sjálfs, heimilismanns hans eða annars manns sem hann þarf að annast eða leita læknishjálpar fyrir. Mátti sóknaraðila, sem sjálfur upplýsti um að hann færi „allra nauðsynlegustu ferða á hækjum“, vera ljóst að meiðsli hans féllu ekki undir lögmæt forföll í skilningi ákvæðisins. Var því um útivist að ræða af hans hálfu. Hæstiréttur hefur ítrekað slegið því föstu að skýra verði kæruheimild í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991. Þannig verði úrskurður um gjaldþrotaskipti ekki kærður til æðra dómstigs ef útivist hefur orðið af hálfu skuldarans í héraði, heldur verður hann, úr því sem komið er, að leita endurskoðunar slíks úrskurðar með kröfu um endurupptöku máls fyrir héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 137. gr. síðarnefndu laganna. Af þeim sökum brestur heimild til kæru í máli þessu og verður því vísað af sjálfsdáðum frá Landsrétti. Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður. Úrskurðarorð: Máli þessu er vísað frá Landsrétti. Kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 16/2018
Kærumál Málskostnaðartrygging
Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem S var gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli hans á hendur L hf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júní 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 30. maí 2018, en með honum var tekin til greina krafa varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur honum þar fyrir dómi. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu verði hafnað, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Steingrímur Erlendsson, greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.   Úrskurður Landsréttar 30. maí 2018. Landsréttardómararnir Hervör Þorvaldsdóttir, Jóhannes Sigurðsson og Ragnheiður Bragadóttir kveða upp úrskurð þennan. Sakarefni       Stefndi höfðaði mál á hendur áfrýjanda til greiðslu yfirdráttarskuldar á bankareikningi að fjárhæð 8.428.880 krónur. Áfrýjandi tók til varna og krafðist sýknu með þeim rökum að krafa stefnda byggðist á lögbrotum, blekkingum og svikum af hálfu stefnda auk rangrar og villandi upplýsingagjafar. Hafi framgangan farið í bága við III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Fjármunirnir sem stefndi krefjist greiðslu á hafi verið notaðir í verðbréfaviðskiptum þar sem áfrýjandi og einkahlutafélag hans hafi verið skilgreind sem fagfjárfestar þrátt fyrir að uppfylla ekki skilyrði þess. Byggir áfrýjandi á að bankinn hafi, með því að heimila honum og félagi hans slík viðskipti, brotið gegn margs konar löggjöf er lúti að bankastarfsemi, svo sem lögum um fjármálafyrirtæki og verðbréfaviðskipti.       Áfrýjandi hefur haft uppi gagnkröfur, skaðabótakröfu að fjárhæð 35.000.000 króna, og kröfu um að stefnda verði gert að aflétta tryggingarveðbréfi af fasteign sem áfrýjandi átti og nú hefur verði seld nauðungarsölu. Báðum kröfunum var vísað frá héraðsdómi án kröfu, þeirri fyrri vegna vanreifunar en þeirri síðari með vísan til þess að gagnsök hefði ekki verið höfðuð. Öllum málsástæðum áfrýjanda var hafnað með rökstuddum hætti í dómi héraðsdóms og þar sem áfrýjanda hefði ekki tekist að hnekkja framlögðu reikningsyfirliti sem krafa stefnda byggðist á var hann dæmdur til greiðslu yfirdráttarskuldarinnar í samræmi við kröfugerð stefnda.       Áfrýjandi, sem er ólöglærður, áfrýjaði dómi héraðsdóms til Landsréttar með áfrýjunarstefnu 25. janúar 2018 og krefst þess að dómi héraðsdóms verði hrundið auk þess sem hafðar eru uppi kröfur á hendur stefnda. Boðað er að kröfurnar muni meðal annars byggjast á niðurstöðu mats dómkvadds matsmanns sem krafist er að verði dómkvaddur svo að „kröfum Steingríms verði þannig komið með réttu í fjárhæð“. Grundvöllur kröfu um málskostnaðartryggingu       Stefndi krafðist málskostnaðartryggingar að fjárhæð 1.000.000 króna, með bréfi dagsettu 12. febrúar 2018, á þeim grunni að líkur væru á að áfrýjandi væri ófær um greiðslu málskostnaðar með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þar sem gert hefði verið árangurslaust fjárnám hjá áfrýjanda 15. desember 2017 vegna dómkröfu þessa máls með áföllnum vöxtum og kostnaði, samtals að fjárhæð 17.414.336 krónur.       Áfrýjandi andmælti kröfunni um málskostnaðartryggingu meðal annars með vísan til þess að með kröfugerð sem dómur héraðsdóms byggðist á hefði stefndi tekið þennan þátt viðskipta aðila úr samhengi við aðra þætti viðskiptasambands þeirra sem lokið hefði í ágúst og september 2008 þegar bankinn hefði leyst til sín eignasafn á móti yfirdráttarskuld með lokun afleiðusamninga. Áfrýjandi byggir sérstaklega á því að krafa um málskostnaðartryggingu byggist á undantekningarreglu sem yrði honum þung í skauti í efnislega flóknu máli sem gæti um leið skert rétt hans til aðgangs að dómstólum. Undantekningarákvæðið eigi að túlka þröngt með vísan til 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Niðurstaða       Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði fjárnám hjá áfrýjanda 15. desember 2017 til fullnustu kröfu samkvæmt hinum áfrýjaða dómi og lauk fjárnáminu án árangurs. Áfrýjandi hefur hvorki sýnt fram á að úrlausn sýslumanns sé haldin annmörkum né að hún gefi ekki rétta mynd af fjárhag hans. Á grundvelli hinnar árangurslausu fjárnámsgerðar getur hver sá sem á gjaldfallna kröfu á hendur áfrýjanda krafist þess að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.       Með vísan til framangreinds hafa verið leiddar líkur að því að áfrýjandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar komi til þess að málskostnaður verði dæmdur stefnda, sbr. b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru skilyrði að öðru leyti fyrir því að krafa stefnda um málskostnaðartryggingu verði tekin til greina.       Samkvæmt framangreindu verður áfrýjanda gert að setja innan tveggja vikna frá uppsögu þessa úrskurðar málskostnaðartryggingu, sem er hæfilega ákveðin 1.000.000 króna, í formi reiðufjár eða bankatryggingar, en að öðrum kosti verður málinu vísað frá dómi, sbr. 3. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Úrskurðarorð: Áfrýjanda, Steingrími Erlendssyni, ber innan tveggja vikna frá uppsögu þessa úrskurðar að setja tryggingu í formi reiðufjár eða bankatryggingar að fjárhæð 1.000.000 króna fyrir greiðslu málskostnaðar í máli nr. 126/2018 fyrir Landsrétti.
Mál nr. 604/2017
Vátryggingarsamningur Slysatrygging Líkamstjón Uppgjör Fyrirvari
Aðilar deildu um það hvort A gæti krafið V hf. um frekari bætur úr slysatryggingu sem hún hafði hjá félaginu. Óumdeilt var að A átti rétt til bóta samkvæmt skilmálum tryggingarinnar, en V hf. byggði á því að mat dómkvadds manns, sem A reisti kröfu sína á, hefði farið fram eftir að þrjú ár hefðu verið liðin frá slysdegi og væri A því bundin við mat sem aðilar öfluðu sameiginlega á grundvelli skilmála tryggingarinnar. Var talið að orðalag skilmála slysatryggingar A hjá V hf. væri fortakslaust um að framkvæma bæri örorkumat innan þriggja ára frá tjónsatburði og gilti þá einu þótt afleiðingar slyss væru ekki að fullu komnar fram innan þess tíma. Þá var ekki fallist á með A að hún væri óbundin af ákvæðum slysatryggingarinnar á grundvelli 36. gr. og 36. gr. b. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Loks yrði fyrirvari sem A gerði við bótauppgjör á grundvelli matsgerðar sem aðilar öfluðu sameiginlega ekki túlkaður á þann veg að samkomulag hefði legið fyrir um að víkja frá tímamarki slysatryggingarinnar samkvæmt framangreindu. Var V hf. því sýknað af kröfu A.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. september 2017. Hún krefst þess að stefndi greiði sér 2.312.339 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. júní 2014 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.   Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Eins og nánar greinir í héraðsdómi var áfrýjandi á slysdegi 14. nóvember 2010 með slysatryggingu hjá stefnda og giltu um hana skilmálar stefnda um almennar slysatryggingar. Í vátryggingarskírteini sagði að vátryggingartaki og vátryggðir væru „hvattir til þess að kynna sér efni vátryggingarskilmálans í heild sinni. Sérstaklega hvað varðar varúðarreglur sem vátryggðum ber að fylgja, afleiðingar vanskila á iðgjaldi og ábyrgðartakmarkanir þær, sem um vátrygginguna gilda.“ Jafnframt var tekið fram að alla skilmála mætti skoða á heimasíðu stefnda. Án tillits til þess hvort ákvæði 36. gr. og 36. gr. b. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem áfrýjandi vísar til í málatilbúnaði sínum, geti eftir efni sínu átt við í málinu er til þess að líta að áfrýjanda var í lófa lagið að kynna sér framangreinda skilmála en með þeim var markað nánar inntak þess réttar sem hún naut á grundvelli slysatryggingarinnar. Þau ákvæði skilmálanna sem um ræðir í málinu geta hvorki talist óeðlileg né óvenjuleg á sínu sviði, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 27. maí 2004 í máli nr. 22/2004, og hafa ekki verið færð fyrir því haldbær rök af hálfu áfrýjanda að hún sé óbundin af þeim ákvæðum. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur, þar með talið um málskostnað og gjafsóknarkostnað. Eftir atvikum er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2017. Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 28. desember 2016 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 12. júní sl. Stefnandi er A, [...], [...]. Stefndi er Vörður tryggingar hf., Kópavogsbakka 15, Kópavogi. Stefnandi krefst þess að stefndi greiði 2.312.339 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. júní 2014 til greiðsludags. Hún krefst einnig málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfu stefnanda. Hann krefst einnig málskostnaðar. Yfirlit málsatvika og helstu ágreiningsefni Mál þetta lýtur að fjárkröfu stefnanda úr slysatryggingu stefnda vegna slyss sem hún varð fyrir 14. nóvember 2010, þegar hún lenti í ryskingum við hest með þeim afleiðingum að taumur vafðist um fingur hennar og hann brotnaði, svo og vegna ítrekaðrar ófullnægjandi læknismeðferðar á Landspítala vegna sýkingar í fingrinum í kjölfar slyssins. Er þar einkum um að ræða ísetningu æðarleggs í bláæð 11. janúar 2011 á Landspítalanum til að auðvelda sýklalyfjagjöf vegna sýkingar í fingrinum. Á slysdegi var stefnandi með slysatryggingu hjá stefnda og er ekki deilt um bótarétt hennar samkvæmt skilmálum tryggingarinnar, bæði vegna afleiðinga slyssins og hinnar ófullnægjandi læknismeðferðar. Með matsbeiðni 29. desember 2011 óskuðu málsaðilar sameiginlega eftir álitsgerð B bæklunarskurðlæknis um örorku stefnanda vegna slyssins. Matsfundur var haldinn 8. maí 2012 og kom þar fram að rannsóknum á meiðslum stefnanda og læknismeðferðum var ekki lokið. Verður ráðið af gögnum málsins að þar hafi fyrst og fremst verið um að ræða afleiðingar ísetningar fyrrgreinds æðaleggs. Taldi matsmaður ekki unnt að ljúka við gerð matsins fyrr en rannsóknum og meðferð væri að fullu lokið. Matsgerð B lá fyrir 28. maí 2014 og er í matsgerðinni vísað til vottorða sérfræðinga á sviði heila- og taugasjúkdóma og afleiðingar ísetningar æðaleggsins, meðal annars óháðs álits C taugalæknis 29. apríl 2014 þar sem talið var að orsakatengsl væru á milli ísetningar æðaleggsins og einkenna stefnanda í og frá hægra axlarsvæði. Í matsgerðinni er tekið fram að meðferð stefnanda sé enn ekki að fullu lokið. Í fyrrgreindri matsgerð var lagt til grundvallar að í slysinu hefði stefnandi hlotið skyntruflun og eymsli í enda- og miðkjúku vinstri löngutangar og stífun í endalið. Þá hefði stefnandi fengið sýkingu í fingurinn, en í tengslum við sýklalyfjameðferð vegna sýkingarinnar hafði verið lagður æðaleggur á hægra axlarsvæði í bláæð. Erfiðlega hafði gengið að leggja æðalegginn og sé stefnandi með óþægindi á axlarsvæðinu, sem ekki höfðu minnkað þrátt fyrir sjúkraþjálfun og læknismeðferðir. Í niðurstöðu matsgerðarinnar lagði B því einnig til grundvallar að stefnandi hefði skaddast á húðtaugum til háls-, herða- og axlarsvæðis hægra megin við ísetningu æðaleggsins, án þess að skaddast á taugum niður til handarinnar. Varanlegur miski var metinn 5 stig vegna áverka á löngutöng vinstri handar og 15 stig vegna skaða á taugaflækju til hægri handar, alls 20 stiga miski. Í matsgerðinni er ekki vikið að andlegum afleiðingum slyssins fyrir stefnanda. Stefndi bauð stefnanda uppgjör á grundvelli umræddrar matsgerðar. Á tilboð stefnda 16. júní 2014 sem liggur frammi í málinu ritaði lögmaður stefnanda: „Samþykkt með fyrirvara um mat á varanlegum afleiðingum og tímabundnum afleiðingum slyssins en umbj. minn telur þær aðrar og/eða meiri.“ Á tjónskvittun sem útbúin var af hálfu stefnda samdægurs var fyrirvari lögmannsins tekinn orðrétt upp. Með bréfi 14. nóvember 2014 var af hálfu stefnanda óskað eftir áliti D geðlæknis og óskað eftir því að hann legði mat á hvort um andlegar afleiðingar af sjúkratryggingaatburðum væri að ræða, þ.e. þunglyndi eða áfallastreituröskun eða aðrar andlegar afleiðingar. Samkvæmt því sem fram kemur í vottorði D, sem dagsett er 8. desember þess árs, var tilefni beiðninnar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands 22. ágúst þess árs, þar sem varanlegur miski stefnanda var metinn 12 stig og varanleg örorka 25%. Þá kemur fram að stefnandi sé ósátt við fyrrgreint mat B. Í niðurstöðum vottorðsins segir að fyrir utan líkamleg einkenni sem lýst sé mjög vel í fyrirliggjandi gögnum hafi stefnandi fengið alvarleg einkenni þunglyndis og séu þau einkenni verulegur hluti heildareinkenna hennar. Nauðsynlegt sé að meta þau einkenni til miska þegar slysið í heild sé gert upp. Í stefnu segir að stefnandi hafi einnig talið sig eiga rétt á hærri bótum frá Sjúkratryggingum Íslands eða íslenska ríkinu vegna þeirra læknamistaka sem hún hafi orðið fyrir á Landspítala. Af þessu tilefni hafi stefnandi leitað réttar síns með því að biðja aftur um mat á miska og varanlegri örorku vegna afleiðingar slyssins og þeirra læknamistaka sem hún hafði orðið fyrir. Er um það vísað til matsbeiðni til E læknis, F lögfræðings og G geðlæknis frá 14. febrúar 2015. Var stefnda send boðun á matsfund 27. janúar 2015 og gefinn kostur á að leggja fram athugasemdir. Stefndi kynnti matsmönnum þá afstöðu sína að hann samþykkti ekki nýja matsgerð. Matsgerð umræddra þriggja lækna lá fyrir 24. febrúar 2015, en samkvæmt henni var varanlegur miski stefnanda vegna sjúklingatryggingaatburðar metinn 38 stig og varanleg örorka 40%. Í matsgerðinni segir meðal annars: „Við mat á varanlegum miska vegna sjúklingatryggingaratburðarins frá 18. 11. 2010 ganga matsmenn út frá varanlegum taugaskaða á cercical plexus með viðvarandi  verkjum sem valdið hafi þunglyndi.“ Matsgerðin var send stefnda 26. febrúar 2015 ásamt bréfi frá lögmanni stefnanda þar sem krafist var frekari greiðslu úr slysatryggingunni á grundvelli matsgerðarinnar, Með bréfi 13. mars 2015 hafnaði stefndi því að greiða stefnanda frekari bætur á grundvelli matsgerðarinnar og vísaði til þess að málinu væri lokið af hálfu félagsins, sbr. grein 4.7 í 1. kafla skilmála slysatryggingar stefndu. Stefnandi bar ágreininginn undir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum með bréfi 8. nóvember 2015. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 445/2015 var niðurstaðan sú að stefnandi ætti rétt á frekari bótum á grundvelli hinnar nýju matsgerðar, þar sem stefnandi hefði með fyrirvara við upphaflegt bótauppgjör áskilið sér rétt til að fá örorkuna endurmetna og væri því óbundin við ákvæði vátryggingarskilmálans um að örorkumat skuli undantekningarlaust framkvæma í síðasta lagi þremur árum eftir slysið. Stefndi hafnaði niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar með bréfi 9. febrúar 2016. Hinn 3. mars 2016 höfðaði stefnandi mál gegn stefnda þar sem krafist var greiðslu bóta á grundvelli matsgerðarinnar 24. febrúar 2015. Með úrskurði 10. júní 2016 var máli stefnanda vísað sjálfkrafa frá dómi þar sem málatilbúnaður stefnanda þótti fara í bága við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, enda hefði stefnandi ekki gert neina tilraun til að afla mats dómkvaddra matsmanna og höfðað málið á grundvelli mats sem hann hafði aflað einhliða og án aðkomu stefnda. Í kjölfarið óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu matsmanns og var dómkvaddur til starfans H taugalæknir. Samkvæmt niðurstöðu matsgerðar hans frá 19. desember 2016 nemur læknisfræðileg örorka stefnanda 35 stigum. Í matsgerðinni segir meðal annars: „Vegna afleiðinga sjúklingatryggingaatburða 18. og 24. nóvember 2010 og síðan þann 11. janúar 2010 hefur matsbeiðandi viðvarandi verki sem matsmaður telur að rekja megi til skaða sem orðið hafi á taugum sem tengjast hægri armflækju. Verkirnir eru alltaf til staðar  og ýfast upp við allar hreyfingar í hægri öxl og hálsi og við alla notkun handarinnar. Við allt álag á herðasvæði hafa verkirnir tilhneygingu til að breiðast út og ná yfir stærra svæði. Þeir valda því talsvert skertu starfshæfi hægri griplims. Við skoðun er skyntruflun á verkjasvæðinu, dofatilfinning við snertiskynsprófun, sem ekki fylgir útbreyðslusvæðum einstakra tauga og ofurnæmi er fyrir stungu. Matsbeiðandi hefur þannig einkenni um ástand sem nefnt hefur verið miðlægt ofurnæmi (central sensitisation). Auk verkja hefur matsbeiðandi einnig fundið fyrir talsverðum geðrænum einkennum og vegna depurðareinkenna hefur hún verið í meðferð hjá geðlækni og er nú í lyfjameðferð. Í upphafi var matsbeðandi frá vinnu vegna einkenna frá broti á vinstri löngutöng en frá miðjum desember 2010 og fram til dagsins í dag hefur hún verið óvinnufær vegna einkenna á hægra herðasvæði af völdum taugaskaða 11. janúar 2011.“ Í framhaldi af matsgerð H höfðaði stefnandi mál þetta. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi vísar til úrskurðar úrskurðarnefndar í vátryggingamálum í málinu nr. 445/2015 frá 19. janúar 2016. Byggir stefnandi á því að samkvæmt téðum úrskurði og matsgerð dómkvadds matsmanns frá 19. desember 2016 eigi hún rétt á frekari bótum úr slysatryggingu stefnanda hjá hinu stefnda félagi. Stefnandi vísar til þess að skýr fyrirvari hafi verið gerður af hálfu stefnanda við bótauppgjör aðila 18. júní 2014 sem samþykktur hafi verið af hinu stefnda félagi. Fyrir vikið hafi hið stefnda félag fyrirgert rétti sínum til að bera fyrir sig skilmála slysatryggingarinnar til takmörkunar á rétti stefnanda til frekari bóta. Hið stefnda félag hafi vikið til hliðar skilmálum vátryggingar með samþykki sínu á fyrrgreindum fyrirvara. Stefnandi byggir á því að almennt sé lagt til grundvallar í vátryggingarrétti að ákvæði sem sérstaklega er samið um, líkt og ofangreindur fyrirvari, gangi framar almennum ákvæðum vátryggingarskilmála. Ljóst sé að matsgerðin frá 28. maí 2014 hafi ekki skilgreint þær líkamlegu afleiðingar sem hún varð fyrir vegna slyssins. Af fordæmum Hæstaréttar megi ráða að í þeim tilvikum sem fyrirvarar eru orðaðir með ótvíræðum hætti og snúi að tilteknum forsendum mats, líkt og hér, eigi tjónþoli rétt til frekari bóta.   Í annan stað byggir stefnandi á því að skilmálar vátryggingarinnar séu staðlaðir einhliða samningaskilmálar, sem beri samkvæmt meginreglum samningaréttar að túlka vátryggðum í hag að því leyti sem skilmálarnir kunni að vera óskýrir. Í því samhengi byggi stefnandi einnig á andskýringarreglunni við túlkun vátryggingarsamninga og á 36. gr. b samningalaga nr. 7/1936. Stefnandi byggir einnig á því að hugtakið „endanlegt örorkumat“ í skilmálum tryggingarinnar í téðu skilmálaákvæði 4.7, sé ekki nægilega skýrt. Stefnandi bendir á að fyrra örorkumatið, þ.e. örorkumat B læknis hafi verið framkvæmt innan áðurnefnds þriggja ára ramma. Því hafi alla vega ekki verið mótmælt af hinu stefnda félagi. Það mat hafi verið samþykkt af stefnanda með þeim fyrirvara að líkamstjón stefnanda væri meira en þar hafi verið metið, enda matsgerðin ekki vönduð og skýr í alla staði. Byggir stefnandi jafnframt á því, samkvæmt meginreglum vátryggingaréttar, að þótt vátryggður beri sönnunarbyrðina fyrir því að atvik falli undir gildissvið vátryggingarinnar, beri vátryggingafélagið sönnunarbyrðina fyrir því að tjón falli undir undanþáguákvæði í skilmálum tryggingarinnar og jafnframt sönnunarbyrði um að ákvæði vátryggingarskilmálanna sem heimili takmörkun á bótaskyldu brjóti ekki í bága við II. hluta vátryggingarsamningalaga um persónutryggingar, en óheimilt sé skv. 63. grein laga nr. 30/2004 að víkja frá ákvæðum II. hluta laganna um persónutryggingar.  Stefnandi vísar einnig til þess að umrætt ákvæði í skilmálum slysatryggingar stefnda geti ekki falið annað í sér en að framkvæma skuli örorkumat þremur árum eftir slysið eins og gert hafi verið. Hins vegar geti ákvæðið ekki komið í veg fyrir að vátryggður afli annars mats, hafi hann gert fyrirvara við hið fyrra og krafist frekari bóta innan fyrningarfrests. Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 125. greinar laga nr. 30/2004 fyrnist krafa stefnanda, sem sé höfuðstólskrafa, á 10 árum frá því tjónþoli fær vitneskju um kröfu sína og getur krafist fullnustu hennar. Byggir stefnandi á því að téð skilmálaákvæði í grein 4.7 í 1. kafla skilmála tryggingarinnar brjóti með grófum hætti í bága við 1. mgr. 125. greinar laganna, en óheimilt sé með öllu að víkja frá þessu skýra lagaákvæði með því að setja slíkt ákvæði í skilmála tryggingarinnar sem stytti fyrningarfrest kröfunnar nánast niður í þrjú ár frá slysi. Téð skilmálaákvæði, sem hið stefnda félag byggi kröfur sínar á, sé því ekki í samræmi við þau lög sem um vátryggingarsamninga gildi, sem vátryggingafélög verði að hafa í heiðri, samanber téða 63. grein vátryggingarsamningalaga og verði því að víkja fyrir kröfum stefnanda.    Þá byggir stefnandi á því að í vátryggingarrétti verði að horfa til þess hvenær tjónþoli eða hinn slasaði fái raunverulega vitneskju um tjón sitt. Í því sambandi vísar stefnandi til þess að töluverðan tíma hafi tekið að greina afleiðingar læknamistakanna svo sem hvers eðlis taugaskaðinn í raun var og stefnandi hafi ekki gert sér raunverulega grein fyrir hinu geðræna tjóni fyrr en hún leitaði til D geðlæknis í desember 2014, er þrjú ár voru liðin frá slysinu og þeim læknamistökum sem í framhaldinu urðu. Þá byggir stefnandi einnig á því að krafa um bætur vegna líkamstjóns sé varin af 72. grein stjórnarskrár, sem eignarréttindi. Til að skerða slíkar bætur verði að styðjast við skýr lagaákvæði og því séu óskýr skilmálaákvæði, einhliða samin af hinu stefnda félagi, hæpinn grundvöllur undir kröfur hins stefnda félags. Þá sé tryggingarskírteinið sá samningur sem í gildi hafi verið milli stefnanda og hins stefnda félags, sbr. h-lið 62. gr. laga nr. 30/2004. Einnig hafi þeim skilyrðum, sem fram koma í 70. grein laganna ekki verið fullnægt til að skilmálarnir hafi slíkt gildi í þessu efni, en skilmálar tryggingarinnar hafi í raun aldrei verið afhentir og skýrðir sérstaklega fyrir stefnanda.  Stefnandi vísar til þeirra réttarreglna, sem hér að ofan eru tilgreindar og skírskotar um leið til 1. greinar laga nr. 56/2010 um vátryggingarstarfsemi. Einnig vísar stefnandi til andskýringarreglunnar og sanngirnisskýringarreglu vátryggingarréttar, samanber 36. grein b samningalaga og til 22. liðar 9. gr. laga nr. 56/2010 og meginreglna neytendaréttar.  Helstu málsástæður og lagarök stefnda Stefndi byggir kröfu um sýknu á því að stefnandi eigi ekki rétt til frekari bóta úr almennu slysatryggingunni, þar sem ákvæði vátryggingarskilmála vegna tryggingarinnar komi í veg fyrir frekari bótagreiðslur vegna slyssins. Um almennu slysatrygginguna gildi skilmálar stefnda nr. S-1. Í grein 4.7 í 1. kafla skilmálans segi: „Telji slasaði eða félagið að örorkan geti breyst, getur hvor aðili um sig krafist þess að endanlegu örorkumati verði frestað, þó ekki lengur en í þrjú ár frá slysdegi. Þótt gera megi ráð fyrir því, að ástand hins slasaða kunni að breytast, skal undantekningarlaust framkvæma örorkumat í síðasta lagi þremur árum eftir slysið. Í þessu tilfelli ber að ákveða örorkuna eins og gera má ráð fyrir, að hún verði endanleg.“ Slys stefnanda hafi orðið 14. nóvember 2010 og hafi þriggja ára hámarksbiðtími eftir örorkumati því verið liðinn þegar stefnandi æskti einhliða endurmats á afleiðingum slyssins með matsbeiðni 11. desember 2014. Þá hafi hann jafnframt verið liðinn þegar stefnandi aflaði mats dómkvadds matsmanns með matsbeiðni 20. september 2016. Ákvæði skilmálans sé skýrt og afdráttarlaust um það að endanlegt örorkumat skuli fara fram í síðasta lagi þremur árum eftir slys. Því er mótmælt að skilmálanir séu óskýrir eða gefi tilefni til túlkunar, enda um að ræða eðlilega og venjulega skilmála á þessu sviði, sbr. fordæmi Hæstaréttar. Þar sem stefnandi hafi ekki óskað eftir því að endurmat færi fram innan þriggja ára frá slysatburðinum, né heldur leitað hófanna um frekari tíma til mats, hafi stefnandi glatað rétti sínum til frekari bóta og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu. Stefndi vísar til þess að stefnanda hafi staðið opin leið til að hlutast til um mat á afleiðingum innan þeirra marka sem grein 4.7 kveður á um en þar er sérstaklega gert ráð fyrir þeim möguleika að tryggðar afleiðingar séu ekki að fullu komnar fram þegar mat á sér stað. Stefnandi virðist hafa verið þeirrar skoðunar þegar mat B fór fram en ekki nýtt sér þetta úrræði. Á því beri ekki aðrir ábyrgð en stefnandi enda hans að leitast við að færa sönnur á tjón það sem hann telur sig hafa orðið fyrir. Á því er byggt af hálfu stefnda að einhliða fyrirvari sem lögmaður stefnanda gerði við bótauppgjörið 18. júní 2014 geti ekki vikið til hliðar ákvæði 4.7 í 1. kafla vátryggingarskilmálans. Því er mótmælt af hálfu stefnda að með því að bæta inn á tjónskvittun almennt orðuðum fyrirvara, hafi stefnandi vikið frá skýru ákvæði vátryggingarskilmála um að örorkumat skuli framkvæma innan þriggja ára frá slysi. Fyrirvarinn feli ekki í sér sérstaklega umsamið ákvæði, sem skuli ganga framar almennum ákvæðum skilmálans, þar sem fyrirvarinn var hvorki ritaður á vátryggingarskírteini tryggingarinnar né samið um hann sérstaklega við stefnda þegar uppgjör átti sér stað í júní 2014. Stefndi vísar til þess að um vátryggingarsamninga gildi almennar reglur samningaréttar, og þar með lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, til fyllingar laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Samkvæmt meginreglu samningaréttar geti annar samningsaðili ekki einhliða breytt skilmálum samnings. Samningsaðilar verði sérstaklega að semja um slíkar breytingar á vátryggingarsamningi og með ótvíræðum hætti. Um það hafi ekki verið að ræða þegar uppgjörið fór fram 18. júní 2014, enda beri tjónskvittunin með sér að þar var á ferðinni fullnaðar- og lokauppgjör málsins og fyrirvarinn ritaður einhliða af þáverandi lögmanni stefnanda. Nýr lögmaður stefnanda hafi auk þess verið sérstaklega upplýstur um það að málinu væri lokið af hálfu stefnda með tölvupósti 28. janúar 2015, mánuði áður en stefnandi fékk einhliða mat í hendurnar. Ekkert í samskiptum stefnanda og stefnda hafi gefið tilefni til að leggja þann skilning í fyrirvarann að stefndi hygðist víkja frá skýrum ákvæðum vátryggingarskilmálans sem um vátrygginguna giltu. Því er mótmælt að stefndi hafi með því að greiða stefnanda bætur undir þessum formerkjum fyrirgert rétti sínum með því að bera fyrir sig skilmála tryggingarinnar til takmörkunar á rétti stefnanda til frekari bóta. Er áréttað að það sé stefnanda að sanna að efni vátryggingarsamnings sé annað en það sem vátryggingarsamningur, vátryggingarskírteini eða vátryggingarskilmáli vegna tryggingarinnar gefi til kynna. Sú sönnun hafi ekki tekist og beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu. Stefndi byggir á því að ákvæði greinar 4.7 í 1. kafla skilmála slysatryggingarinnar sé í samræmi við lög um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, einkum 1. mgr. 125. gr. laganna. Lög um vátryggingarsamninga girði ekki fyrir það að svigrúm sé til samninga við gerð og framkvæmd vátryggingarsamninga, enda taki ákvæði laganna einungis til takmarkaðra þátta slíkra samninga. Krafa stefnanda hafi ekki fallið niður fyrir fyrningu og eigi 1. mgr. 125. gr. laganna því ekki við. Sjónarmið að baki skilmálaákvæði stefnda sé að gagna sé aflað fljótt til að staðreyna tjón, en slík sönnun sé erfiðari eftir því sem lengra líður frá slysi. Frestur stefnanda til að afla gagna kröfu sinni til stuðnings hafi hins vegar verið fallinn niður samkvæmt skilmálum tryggingarinnar þegar hann leitaði aftur mats á afleiðingum slyssins. Sé þar tvennu ólíku saman að jafna. Þá er því mótmælt að við túlkun á ákvæði skilmálans beri að líta til þess hvenær tjónþoli fékk raunverulega vitneskju um tjón sitt. Slík sjónarmið eigi við um mat á því hvenær ársfrestur samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 hafi byrjað að líða. Ekki sé ágreiningur um upphaf ársfrests í tilvikinu sem hér um ræði. Loks vísar stefndi til þess að ekkert bendi til þess að stefnanda hafi ekki verið gefið færi á að kynna sér skilmála tryggingarinnar við töku hennar þannig að upplýsingaskylda stefnda hafi verið virt að vettugi skv. 70. gr. laga nr. 30/2004. Sönnunarbyrði um að orsakatengsl á milli meintrar vanrækslu stefnda í þeim efnum og meints tjóns vegna þess hvíli á stefnanda, en engar sönnur hafi verið færðar fyrir slíku af hálfu stefnanda. Þegar stefnandi leitaði eftir vátryggingavernd hjá stefnda hafi henni verið skylt að bera sig eftir upplýsingum og leitast við að tileinka sér inntak vátryggingarsamningsins, sbr. 64. gr. laga nr. 30/2004. Hafi stefnandi ekki kynnt sér efni vátryggingarsamningsins beri hún hallann af því, en eðli málsins samkvæmt séu takmörk fyrir því hversu langt vátryggingafélag geti seilst til þess að knýja vátryggingartaka til að tileinka sér efni vátryggingarskilmála til hlítar. Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu er krafist lækkunar á dómkröfu stefnanda. Tímamarki dráttarvaxtakröfu er sérstaklega mótmælt. Að mati stefnda standa engar forsendur til þess að miða tímamark dráttarvaxta við 18. júní 2014, en engar skýringar geti að líta í stefnu hvers vegna horft sé til þess dags í dómkröfu. Ekki séu forsendur til að horfa til fyrra tímamarks en 19. janúar 2017, en þá hafi verið liðinn mánuður frá því stefnandi krafði stefnda um greiðslu á grundvelli matsgerðar dómkvadds matsmanns, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.  Niðurstaða Samkvæmt grein 4.7 í skilmálum þeirrar slysatryggingar, sem stefnandi byggir rétt sinn á, getur hvor aðili um sig krafist þess að endanlegu örorkumati vegna ákvörðunar bóta verði frestað, þó ekki lengur en í þrjú ár frá slysdegi. Þá segir í greininni að þótt gera megi ráð fyrir að ástand hins slasaða kunni að breytast skuli undantekningarlaust framkvæma örorkumat í síðasta lagi þremur árum eftir slysið. Í þessu tilfelli beri að ákveða örorkuna eins og gera megi ráð fyrir að hún verði endanleg. Svo sem áður greinir er efnislegur ágreiningur aðila takmarkaður við hvort stefnandi geti krafist frekari bóta úr slysatryggingu stefnda á grundvelli matsgerðar H taugalæknis, dómkvadds matsmanns, 19. desember 2016, samkvæmt matsbeiðni stefnanda dagsettri 20. september 2016. Af hálfu stefnda er réttur stefnanda til bóta á grundvelli slysatryggingar hennar hjá stefnda viðurkenndur og er téðri matsgerð H ekki sérstaklega mótmælt í því sambandi. Hins vegar er á því byggt að umrætt mat, svo og annað læknisfræðilegt mat sem stefnandi byggir kröfu sína á, hafi farið fram eftir að þrjú ár voru liðin frá slysdegi. Samkvæmt skilmálum slysatryggingar stefnanda hjá stefnda sé stefnandi því bundin við það uppgjör sem áður er lýst og fram fór á grundvelli matsgerðar B bæklunarskurðlæknis sem aflað var samkvæmt sameiginlegri beiðni aðila 29. desember 2011. Er ekki um það deilt að aðilar stóðu sameiginlega að matsbeiðninni til B innan áðurlýsts tímamarks og eins liggur fyrir að stefnandi óskaði eftir öðrum matsgerðum, sem lagðar hafa verið fram í málinu, eftir að þrjú ár voru liðin frá þeim tjónsatburðum sem krafa stefnanda er grundvölluð á. A Að mati dómsins var orðalag fyrrgreindra skilmála slysatryggingar stefnanda hjá stefnda fortakslaust um að framkvæma bæri örorkumat innan þriggja ára frá tjónsatburði og gilti þá einu þótt afleiðingar slyss væru ekki að fullu komnar fram innan þess tíma. Í málinu verður að horfa til þess að vátryggjandi hefur af því réttmæta hagsmuni að mat á örorku samkvæmt slysatryggingu fari fram innan hæfilegs tíma og greiðsluskylda félags liggi fyrir með endanlegum hætti, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 27. maí 2004 í máli nr. 22/2004. Í lögum nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga er ekki kveðið á um framkvæmd örorkumats vegna uppgjörs bóta úr slysatryggingum eða fresti í því sambandi. Er því ekki til að dreifa ófrávíkjanlegum reglum um hámarksfrest við mat á örorku samkvæmt slysatryggingu. Er ekki á það fallist með stefnanda að umrætt ákvæði skilmálanna, sem fjallar ekki um brottfall kröfuréttinda heldur tímafrest við mat á líkamstjóni, brjóti gegn fyrningarreglu 1. mgr. 125. gr. laganna. Að mati dómsins verður einnig að horfa til þess að samkvæmt gildandi lögum er vátryggjanda heimilt að takmarka ábyrgð sína með ýmsum hætti. Getur það því ekki ráðið úrslitum þótt ákvæði í skilmálum slysatryggingar, svo sem það sem hér um ræðir, kunni að leiða til einhverrar skerðingar á bótum þegar ófyrirsjáanlegar afleiðingar slyss koma fram eftir ákveðið tímamark. Athugast í þessu sambandi að bótaréttur vátryggingartaka byggist á og takmarkast af vátryggingarsamningi aðila en grundvallast ekki á ábyrgð samkvæmt ólögfestum reglum skaðabótaréttar. Er því ekki um það að ræða að réttur stefnanda til að fá líkamstjón sitt bætt, sem nýtur verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, hafi verið skertur á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis í skilmála slysatryggingarinnar. B Í málinu er ekki á því byggt að fyrrgreint ákvæði í skilmálum slysatryggingar stefnda sé ógilt eða að því beri að víkja til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, eins og greininni var breytt með 6. gr. laga nr. 11/1986. Hins vegar er því haldið fram að túlka beri skilmálana samkvæmt 36. gr. b laga nr. 7/1936, eins og lögunum hefur síðar verið breytt. Verður því að líta svo á að nægilega sé á því byggt að ógildingarreglur samningaréttar leiði til þess að stefnanda hafi verið heimilt að afla nýrrar matsgerðar um tjón sitt þótt liðin væru meira en þrjú ár frá tjónsatburðum og jafnframt að vörnum stefnda sé ekki áfátt að þessu leyti. Með hliðsjón af grunnreglu 36. gr. laga nr. 7/1936 telur dómurinn að leggja verði til grundvallar að vátryggjandi geti ekki átt fyllilega óheft mat um afmörkun á hámarksfresti við mat á örorku samkvæmt slysatryggingu. Verður tjónþoli þannig að eiga raunhæfa möguleika á því að fá líkamstjón sitt metið og bætt samkvæmt nánari ákvæðum slysatryggingar. Þótt því sé ekki sérstaklega mótmælt að þriggja ára hámarksfrestur í þessu skyni sé alla jafnan eðlilegur í þessu sambandi, verður fyrrgreint ákvæði í skilmálum slysatryggingar stefnda ekki túlkað svo að tjónþola sé fortakslaust óheimilt að óska eftir endurskoðun örorkumats við þær aðstæður að matsgerð, sem óskað hefur verið eftir innan þriggja ára frá tjónsatburði, liggur ekki fyrir fyrr en eftir lok umrædds frests. Hins vegar verður við slíkar aðstæður að gera ríkar kröfur til þess að tjónþoli geri þegar í stað reka að því að fyrirliggjandi mat verði endurskoðað um nánar tiltekin atriði, eftir atvikum með tafarlausri beiðni um kvaðningu matsmanns fyrir dómi þegar ekki er fyrir hendi samkomulag við vátryggjanda um endurskoðun örorkumats. Í málinu hefur stefnandi lýst því yfir að hún hafi ekki gert sér raunverulega grein fyrir hinu geðræna tjóni fyrr en hún leitaði til D geðlæknis í desember 2014. Þá ber fyrrgreind matsgerð B bæklunarskurðlæknis ekki með sér að stefnandi hafi vísað til slíkra einkenna þegar mat hans fór fram. Hefur stefnandi og ekki stutt það gögnum að þau geðrænu einkenni, sem vísað er til í matsgerð E læknis, G geðlæknis og F lögfræðings 11. desember 2014, svo og matsgerð hins dómkvadda matsmanns, H taugalæknis, 19. desember 2016, hafi verið komin fram innan þriggja ára frá tjónsatburði þannig að rétt hafi verið að taka tillit til þeirra við mat á varanlegum miska. Hvað sem líður niðurstöðu um þetta atriði leið meira en hálft ár frá því að fyrrgreind matsgerð B lá fyrir, og stefnandi hafði móttekið tilboð stefnda um fullnaðaruppgjör á þeim grundvelli, þar til stefnandi gerði reka að endurskoðun matsins með matsbeiðni til þriggja framangreindra sérfræðinga. Þótt stefnandi hafi gert fyrirvara um mat á örorku sinni við móttöku bóta samkvæmt uppgjöri stefnda 18. júní 2014 var sá fyrirvari almennur og laut ekki að tilgreindum atriðum, t.d. því að láðst hefði að taka tillit til geðrænna afleiðinga slyssins. Að þessu virtu, svo og að teknu tilliti til þess umtalsverða tíma sem stefnandi lét líða frá því að matsgerð B bæklunarskurðlæknis lá fyrir, telur dómurinn ekki að téð ákvæði í skilmálum slysatryggingar stefnda verði við þessar aðstæður túlkað þrengjandi, með vísan til 36. gr. og 36. gr. b laga nr. 7/1936, á þá leið að stefnanda hafi allt að einu verið heimilt að afla nýrrar matsgerðar um tjón sitt og byggja bótakröfu sína á henni. C Líkt og áður er rakið tók stefnandi við bótum úr slysatryggingu stefnda samkvæmt uppgjöri 18. júlí 2014 með fyrirvara um mat á tímabundnum og varanlegum afleiðingum slyssins sem hún taldi aðrar og/eða meiri. Yfirlýsing stefnanda var ákvöð sem skuldbatt stefnda þegar við móttöku að því marki sem hún hafði áhrif að lögum. Er og ekki um það deilt að stefnda var kunnugt um fyrirvara stefnanda og lét fyrirvarann koma fram á áðurnefndu bótauppgjöri. Hins vegar liggur ekkert fyrir um að stefndi hafi við þetta tækifæri samþykkt að víkja frá áðurgreindum skilmálum slysatryggingarinnar og fallist á að stefnandi gæti byggt bótarétt á matsgerð sem aflað yrði síðar. Þá verður sú afstaða stefnda, að byggja uppgjör á örorkumati B bæklunarskurðlæknis, sem ekki lá fyrir fyrr en eftir téðan þriggja ára frest, ekki túlkað sem samþykki stefnda fyrir slíkri heimild stefnanda. Er því í málinu ekki fram komin sönnun fyrir samkomulagi aðila um að víkja frá skilmálum þeirrar slysatryggingar sem stefnandi byggir rétt sinn á. Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða dómsins að samkvæmt grein 4.7 í skilmálum þeirrar slysatryggingar, sem stefnandi byggir rétt sinn á, hafi stefnanda ekki verið heimilt að byggja kröfu um bætur á þeim matsgerðum sem aflað var eftir að matsgerð B bæklunarskurðlæknis lá fyrir. Er þar af leiðandi ekki fallist á rökstuðning og niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingamálum 19. janúar 2016 í máli nr. 445/2015 að þessu leyti sem stefnandi vísar til. Verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda. Eftir atvikum málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður, en gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ. á m. þóknun lögmanns hennar, hæfilega ákveðin 1.630.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði. Af hálfu stefnanda flutti málið Fjölnir Vilhjálmsson hdl. Af hálfu stefnda flutti málið Björn Bergsson hrl. Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Stefndi, Vörður tryggingar hf., er sýkn af kröfu stefnanda, A. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Fjölnis Vilhjálmssonar hdl., að fjárhæð 1.630.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 622/2017
Laun Vanreifun Frávísun frá héraðsdómi
P krafði Í um greiðslu vangoldinna launa fyrir yfirvinnu sem hann kvaðst hafa leyst af hendi við menntaskóla. Fyrri liðurinn í kröfu P tók til greiðslu vegna 104 kennslustunda við undirbúning og skipulagningu nánar tilgreinds meistaranáms. Í dómi Hæstaréttar kom fram að um umfang þeirrar vinnu, sem sá kröfuliður sneri að, lægju ekki fyrir önnur gögn í málinu en yfirlit sem stafaði frá P sjálfum. Í héraðsdómsstefnu hefði vinnuframlagi P við þetta verkefni verið lýst á sama hátt og ráða mætti af niðurstöðum yfirlitsins en þar var einnig tekið fram að hafa mætti til viðmiðunar að samið hefði verið um í öðrum slíkum tilvikum að greiða fyrir átta kennslustundir fyrir hverja áfangalýsingu og hefði P samið fjórar áfangalýsingar í þessari undirbúningsvinnu. Af þeim ummælum að dæma hefði mátt ætla að krafa P tæki til greiðslu fyrir 32 kennslustundir. Yfirlitið bæri enga staðfestingu af hálfu menntaskólans og væri ekki að sjá að það hefði verið kynnt stjórnendum skólans á nokkru stigi áður en P höfðaði málið. Var því talið að krafa samkvæmt þessum lið væri svo vanreifuð að dómur yrði ekki felldur á hana. Síðari liðurinn í kröfu P tók til greiðslu fyrir yfirvinnu vegna 629,6 kennslustunda í meistaranáminu. Var talið að verulega skorti á að skýrt hefði verið í héraðsdómsstefnu með viðhlítandi hætti hvernig P kæmist að framangreindri niðurstöðu um fjölda kennslustunda og hefði ekki verið úr því bætt í öðrum málatilbúnaði hans. Fram hefði komið í bréfi frá menntaskólanum, sem lægi fyrir í málinu, að ógerlegt væri að meta námsgreinina til eininga og greiða fyrir kennslu í henni á þeim grunni með hefðbundnum hætti en þess í stað hefði P hverju sinni gert tillögur um uppgjör, sem samkomulag hefði tekist um, og launin verið ákveðin í samræmi við það. P hefði ekki leitast við að sýna fram á hvernig fjöldi eininga, sem hann byggði á, yrði fundinn út frá fyrirliggjandi stundaskrám eða vinnuskýrslum hans eða hvar því yrði fundin stoð að mat skólans á umfangi kennslu hans hefði tekið mið af þeirri forsendu. Var sá liður í kröfu P því talin svo vanreifaður að dómur yrði ekki felldur á hann. Var málinu því vísað í heild frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Greta Baldursdóttir og Hildur Briem héraðsdómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 4.124.486 krónur en til vara aðra lægri fjárhæð, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2015 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda vann hann í áratugi sem kennari, síðast við Menntaskólann í Kópavogi, þar sem hann hafi látið af störfum sumarið 2015 á sjötugasta aldursári. Hann kveður nafngreindan umsjónarmann meistaranáms við skólann hafa óskað eftir því í mars 2010 að hann skipulegði nýtt nám af þeim toga fyrir matvælagreinar, sem hann hafi tekið að sér, en ekki hafi verið samið um endurgjald fyrir það verk. Áfrýjandi hafi gert fjórar áfangalýsingar fyrir námið, en að því búnu hafi menntamálaráðuneytið samþykkt tillögu um tilraunakennslu Hótel- og matvælaskólans við Menntaskólann í Kópavogi á námi fyrir iðnmeistara, sem hafi verið reist á verki áfrýjanda. Kennsla hafi síðan byrjað við skólann á þessum grunni haustið 2010 og hafi áfrýjandi fengist við hana frá upphafi. Í málatilbúnaði áfrýjanda er því lýst að áðurnefndur umsjónarmaður meistaranáms hafi ásamt aðstoðarskólameistara tekið ákvörðun hverju sinni um umfang kennslu í þessari námsgrein og hverjir hefðu hana á hendi. Staðið hafi verið þannig að verki að í samræmi við þær ákvarðanir hafi verið gerðar stundatöflur, sem kennurum hafi verið afhentar, og jafnframt vinnuskýrslur fyrir hvern þeirra, en útreikningur launa hafi verið reistur á þeim skýrslum. Í málinu liggja fyrir vinnuskýrslur fyrir áfrýjanda frá haustönn 2010, vorönn og haustönn á árunum 2011 og 2012 og vorönn 2013 ásamt stundatöflum vegna kennslu hans á þessum tímabilum. Í skýrslunum, sem allar voru undirritaðar án athugasemda af áfrýjanda og skólameistara, kom hverju sinni fram að kennsluskylda þess fyrrnefnda væri 19 kennslustundir í viku og jafnframt hver heildarfjöldi kennslustunda hans væri á viðkomandi önn, en í öllum tilvikum fór hún fram úr kennsluskyldu. Að öðru jöfnu var einnig tiltekið í skýrslunum hver væri fjöldi vikulegra kennslustunda umfram kennsluskyldu og til hvers þessar kennslustundir svöruðu í fjölda yfirvinnustunda, en um síðastnefnt atriði virðist hafa verið byggt á ákvæði í kjarasamningi Kennarasambands Íslands við stefnda, sem var í gildi á þessum tíma, um að í yfirvinnu teldist hver kennslustund, sem væri 40 mínútur að lengd, svara til 1,3 yfirvinnustunda. Af framlögðum launaseðlum áfrýjanda verður ekki annað séð en að hann hafi á umræddu tímabili fengið greiðslur fyrir yfirvinnu í samræmi við það, sem fram kom í skýrslunum. Af gögnum málsins verður ráðið að vorið 2013 hafi áfrýjandi leitað til Félags framhaldsskólakennara vegna útreiknings á launum sínum með tilliti til þess hvernig kennsla í fyrrnefndu meistaranámi hafi verið metin til vinnustunda. Í tölvubréfi félagsins til Menntaskólans í Kópavogi 6. júní 2013 var vísað til þess að samkvæmt áðurnefndum kjarasamningi væru aðeins til „tvær uppgjörsaðferðir fyrir kennslu.“ Önnur þeirra væri „hefðbundið fyrirkomulag þar sem tvær kennslustundir eru á bak við hverja námseiningu“, en hin tæki til kennslu í öldungadeildum og meistaraskóla, þar sem miðað væri við að farið væri „allt að tvöfalt hraðar yfir námsefni en í venjulegu skólahaldi“, og skyldi kennsla þar „metin með 60% álagi.“ Teldi félagið að vinnuskýrslur áfrýjanda bæru með sér „að kennsla hans hefur ekki verið gerð upp skv. ákvæðum kjarasamnings.“ Að undangengnum frekari bréfaskiptum félagsins og skólans krafðist það þess í bréfi 30. september 2013 að laun áfrýjanda yrðu leiðrétt samkvæmt tilteknu ákvæði kjarasamningsins og bókunar með honum, sem tæki til „greiðslu fyrir kennslu í öldungadeildum, meistaraskóla og sambærilegu námi.“ Í svari skólans 31. október 2013 var meðal annars staðhæft að greitt hafi verið fyrir kennslu í námi þessu „út frá mati á umfangi áfanganna m.a. miðað við fjölda kennslustunda.“ Hafi ekki verið unnt að „miða við einingar“, þar sem áfangarnir hafi verið „tilraunanám, sem ekki er reiknað til eininga“ og því ekki tök á að „gera kennsluna upp með hefðbundnum hætti.“ Hafi af þessum sökum verið gengið frá „vinnuskýrslu/samkomulagi um vinnuframlag fyrir hverja önn“ við áfrýjanda, sem hafi ritað undir allar skýrslurnar. Hafi samkomulag þetta verið reist á tillögum áfrýjanda, sem skólinn hafi ekki gert athugasemdir við, og laun verið gerð upp við hann samkvæmt því. Bent var á að áfrýjandi hafi verið annar þeirra, sem hafi skipulagt þetta nám, hann hafi jafnframt „starfað að félags- og kjaramálum kennara“ og hafi því engum verið betur kunnar forsendur samkomulagsins en honum. Af þessum sökum væri því hafnað að brotið hafi verið gegn ákvæðum kjarasamnings við greiðslu launa áfrýjanda á árunum 2010 til 2013. Áfrýjandi höfðaði upphaflega mál gegn stefnda 28. september 2015 og krafðist greiðslu vangoldinna launa annars vegar fyrir vinnu við áðurnefndan undirbúning og skipulagningu meistaranámsins á árinu 2010, 718.016 krónur, og hins vegar fyrir kennslu í því námi frá haustönn 2010 til vorannar 2013, 4.250.102 krónur, eða samtals 4.968.118 krónur. Því máli var vísað frá dómi með úrskurði 11. maí 2016, sem ekki var kærður til Hæstaréttar. Í framhaldi af því höfðaði áfrýjandi mál þetta 25. október 2016 og krafðist þess að stefnda yrði gert að greiða sér aðallega 5.723.667 krónur, til vara 5.460.080 krónur, en að því frágengnu „lægri fjárhæð að álitum að mati réttarins“, í öllum tilvikum með nánar tilgreindum vöxtum. Samkvæmt því, sem fram kom í héraðsdómsstefnu, taldi áfrýjandi sig eiga tilkall til vangoldinna launa fyrir yfirvinnu sem annars vegar svari 104 kennslustundum á árinu 2010 við undirbúning og skipulagningu námsins og hins vegar samtals 629,6 kennslustundum við kennslu á áðurnefndu tímabili á árunum 2010 til 2013. Í aðalkröfu hans var byggt á því að greiða ætti 6.904 krónur fyrir hverja kennslustund að viðbættu 13,01% vegna orlofs, en þetta hafi verið fjárhæð yfirvinnulauna við starfslok hans 1. júlí 2015. Í varakröfu væri á hinn bóginn „miðað við yfirvinnutaxta eins og í gildi voru er vinna var innt af hendi á tímabilinu 2010-2013“ að viðbættu orlofi. Við aðalmeðferð málsins í héraði 24. maí 2017 lækkaði áfrýjandi fjárhæð varakröfu sinnar í 4.570.487 krónur, en hana hefur hann svo enn lækkað í 4.124.486 krónur hér fyrir dómi. Sú krafa er nú aðalkrafa áfrýjanda, enda var upphaflegri aðalkröfu hans vísað frá héraðsdómi með hinum áfrýjaða dómi og er sú niðurstaða ekki til endurskoðunar hér. II Aðalkrafa áfrýjanda er mynduð af tveimur liðum, sem báðir varða sem fyrr segir ógreidd laun fyrir yfirvinnu sem hann kveðst hafa leyst af hendi við Menntaskólann í Kópavogi, annars vegar vegna 104 kennslustunda á árinu 2010 við undirbúning og skipulagningu meistaranámsins, sem um ræðir í málinu, og hins vegar vegna 629,6 kennslustunda við kennslu í því námi á árunum 2010 til 2013. Í fyrri kröfuliðnum telur áfrýjandi sig eiga að fá greidda 4.661 krónu fyrir hverja kennslustund eða 484.744 krónur, sem að viðbættu 13,01% vegna orlofs svari til 547.809 króna. Í síðari kröfuliðnum byggir áfrýjandi á framlögðu yfirliti, þar sem er að finna sundurliðun á fjölda kennslustunda sem hann telur sig ekki hafa fengið greitt fyrir í einstökum starfsmánuðum á tímabilinu frá ágúst 2010 til maí 2013. Þar er jafnframt greint frá vinnulaunum fyrir kennslustundirnar, sem áfrýjandi kveður ráðast af kjarasamningi hverju sinni, en samanlagt telur hann þessi laun nema 3.164.921 krónu. Að viðbættu 13,01% vegna orlofs, 411.756 krónum, er þessi kröfuliður að fjárhæð 3.576.677 krónur. Um umfang þeirrar vinnu, sem fyrri kröfuliður áfrýjanda snýr að, liggja ekki fyrir önnur gögn í málinu en yfirlit, sem virðist stafa frá honum sjálfum, en þar er í 13 liðum talinn upp fjöldi stunda, sem hann hafi varið til að leysa af hendi tiltekna þætti í vinnu við undirbúning og skipulagningu námsgreinarinnar á tímabilinu frá lokum mars til september 2010. Vinnutími þessi er þar af óskýrðum ástæðum ekki tilgreindur í klukkustundum, heldur kennslustundum, samtals 104, en einnig er í hverju tilviki greint frá því hver „rauntími“ hafi verið og hann sagður hafa numið alls 200 stundum. Í héraðsdómsstefnu var vinnuframlagi áfrýjanda við þetta verkefni lýst á sama hátt og ráða má af niðurstöðum yfirlitsins, en einnig tekið fram að til „viðmiðunar má benda á, að fyrir lá, að samið hafði verið við kennara að greiða skyldi 8 kennslustundir fyrir hverja áfangalýsingu“, svo og að áfrýjandi hafi samið „fjórar áfangalýsingar“ í þessari vinnu. Af þessum ummælum að dæma hefði mátt ætla að krafa áfrýjanda tæki til greiðslu fyrir 32 kennslustundir, en ekkert er heldur útskýrt hvers vegna hún nái ekki til 200 stunda. Yfirlitið, sem áður var getið, ber enga staðfestingu af hendi Menntaskólans í Kópavogi og er ekki sjá að það hafi verið kynnt stjórnendum skólans á nokkru stigi áður en áfrýjandi höfðaði mál um ætlaða kröfu á grundvelli þess, en ekki hefur verið skýrt af hvaða ástæðu hann hafi haldið að sér höndum um að hafa hana uppi svo lengi sem raun ber vitni. Krafa samkvæmt þessum lið í aðalkröfu áfrýjanda, sem var jafnframt fallin niður fyrir fyrningu þegar hann höfðaði fyrra mál sitt 28. september 2015, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, er þannig svo vanreifuð að dómur verður ekki felldur á hana. Síðari liðurinn í aðalkröfu áfrýjanda tekur sem fyrr segir til greiðslu fyrir yfirvinnu vegna 629,6 kennslustunda í meistaranáminu á árunum 2010 til 2013. Útreikningur á þessum fjölda kennslustunda er settur þannig fram í héraðsdómsstefnu að áfrýjandi hafi fengið greidd frá stefnda laun fyrir kennslu í meistaranáminu, sem miðuð hafi verið við að hann hafi kennt sem svari 9 kennslustundum á viku í 18 vikur á hverri önn á tímabilinu frá hausti 2010 til vors 2013, að undanskilinni haustönn 2012 þegar stundirnar hafi verið 12 á viku. Telur áfrýjandi sig þannig hafa fengið greitt fyrir samtals 1.012 kennslustundir á tímabilinu öllu, en reyndar yrðu þær eftir þessari reikniaðferð að réttu lagi 1.026 talsins. Þessar kennslustundir hefði á hinn bóginn átt að meta til launa með 60% álagi eftir ákvæðum kjarasamnings um kennslu í öldungadeildum og meistaranámi, þannig að þær hefðu svarað til 1.641,6 stunda. Sé þá mismunurinn áðurnefndar 629,6 kennslustundir. Verulega skortir á að skýrt hafi verið í héraðsdómsstefnu með viðhlítandi hætti hvernig áfrýjandi komist að framangreindum niðurstöðum um fjölda kennslustunda og hefur ekki verið úr því bætt í öðrum málatilbúnaði hans. Samkvæmt því, sem fram kom við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti og ráða má þó að nokkru af héraðsdómsstefnu, virðist sem áfrýjandi hafi í þessu sambandi lagt til grundvallar að mat á kennslu hans hafi átt að byggja á því að námið hafi svarað til 9 eininga á önn. Um þetta verður að gæta að því að í fyrrgreindu bréfi Menntaskólans í Kópavogi 31. október 2013 var gagnstætt þessu byggt á því að ógerlegt væri að meta námsgreinina til eininga og greiða fyrir kennslu í henni á þeim grunni „með hefðbundnum hætti“, en þess í stað hafi áfrýjandi hverju sinni gert tillögur um uppgjör, sem samkomulag hafi tekist um, og launin verið ákveðin í samræmi við það. Áfrýjandi hefur ekkert leitast við að sýna fram á hvernig fjöldi eininga, sem hann byggir á, yrði fundinn út frá fyrirliggjandi stundaskrám eða vinnuskýrslum hans eða hvar því verði fundin stoð að mat skólans á umfangi kennslu hans hafi tekið mið af þessari forsendu. Þegar af þessum ástæðum er þessi liður í aðalkröfu áfrýjanda svo stórlega vanreifaður að dómur verður ekki felldur á hann. Samkvæmt framansögðu verður að vísa máli þessu í heild frá héraðsdómi. Að teknu tilliti til þess að reifun málsins hefur ekki aðeins verið verulega ábótavant af hendi áfrýjanda, heldur einnig stefnda, er eftir atvikum rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.                                                                               Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2017.         Mál þetta, sem dómtekið var 24. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri 27. október 2016 af Pétri Birni Péturssyni, Smáraflöt 41, Garðabæ á hendur íslenska ríkinu. I.         Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.723.667 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1.mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1.8.2015 til greiðsludags.         Til vara er gerð sú krafa að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.570.487 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur af 1.757.288 krónum frá 1.10.2011 til 31. desember 2011, en frá þeim degi af 2.101.087 krónum til 31. maí 2012, en frá þeim degi af 2.604.973 krónum til 31. desember 2012, en frá þeim degi af 3.956.997 krónum til 31. maí 2013, en frá þeim degi af 4.540.810 krónum til 1. ágúst 2015, en frá þeim degi af 4.570.487 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur til greiðsludags.         Til þrautavara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða lægri fjárhæð að álitum að mati réttarins auk dráttarvaxta frá 1.8.2015 eins og í aðalkröfu greinir.         Í öllum tilvikum gerir stefnandi kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins að teknu tilliti til 24% virðisaukaskatts, en stefnandi er eigi virðisaukaskattsskyldur og ber nauðsyn til að hann fái skattinn á tildæmdan málskostnað.          Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins.         Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn niður falla.          Í upphafi aðalmeðferðar 24. maí sl. lagði stefnandi fram breytta varakröfu, en í upphaflegri kröfugerð var varakrafa að upphæð 5.460.080 kr. auk vaxta. II. Málsatvik Málsatvik eru í meginatriðum þau að haustið 2010 heimilaði menntamálaráðuneytið Menntaskólanum í Kópvogi að hefja tilraunakennslu samkvæmt nýrri námsskrá um meistaranám i matvæla- og veitingagreinum. Forsendur fyrir slíku komu fram í lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 og var þetta nám sett á dagskrá samkvæmt þeim lögum. Fyrir lá námsbrautalýsing, áfangalýsingar skv. nýju einingakerfi og þar var þrepaskiptingu náms gerð skil auk grunnþátta og lykilhæfni. Baldur Sæmundsson áfangastjóri matvæla- og veitingagreina og stefnandi máls þessa ákváðu kennslufyrirkomulag og fjölda kennslustunda og tóku eldra meistaranám og settu í nýtt umhverfi. Það var mat þeirra að heppilegt væri að haga kennslufyrirkomulagi þannig að kenndur væri einn áfangi í einu og að nemendur kæmu í skólann heilan dag, 10 kennslustundir, í ákveðinn fjölda daga, 4 daga í hvern áfanga í fyrstu en þeim fjölgaði síðan í sex daga.  Námið var miðað við ákveðinn fjölda eininga sem kallast f-einingar en það hugtak nær til þess að ein f-eining samsvarar 3ja daga vinnu nemandans 6-8 tíma á dag og tekur til allrar vinnu nemandas við áfangann, svo sem þáttöku í kennslustundum og verkefnavinnu bæði í skóla og heima. Um þetta er fjallað í 15. gr. laga nr. 92/2008 þar sem fjallað er um námseiningar nemenda í framhaldsskólum og aðalnámsskrá. Greitt var fyrir umrædda kennslu í meistaraskóla samkvæmt mati á umfangi áfanganna, m.a. miðað við fjölda kennslustunda. Ekki var unnt að miða við einingar eins og áður var gert þar sem námið var miðað við f-einingar eins og áður er rakið. Gengið var frá vinnuskýrslum/samkomulagi um vinnuframlag fyrir hverja önn við stefnanda og voru allar vinnuskýrslur undirritaðar af fulltrúum stefnda og stefnanda án nokkurs fyrirvara eða athugasemda. Stefnandi mun hafa rætt við Margréti Friðriksdóttur skólameistara Menntaskólans í Kópavogi og Helga Kristjánsson aðstoðarskólameistara án þess að niðurstaða hafi fengist. Stefnandi leitaði í kjölfarið til Félags framhaldsskólakennara sem ritaði skólameistara menntaskólans bréf, dags. 30. september 2013, þar sem farið var fram á að laun stefnanda yrðu leiðrétt. Í bréfinu sagði meðal annars svo:   „Kennsla meistaranáms samkvæmt nýrri námsskrá hófst í MK haustið 2010, og var námið samtals 30 fein [framhaldsskólaeiningar] fram til haust 2012 og þá aukið í 35 fein. Vinnuskýrslur Péturs Bjarnar frá og með haust 2010 og til og með vorannar 2013 sýna að kennsla hans hefur ekki verið gerð upp samkvæmt ákvæðum kjarasamnings. Sú útlistun sem skólinn lét félaginu í té 28. júní sl. sýnir þetta einnig. Félagið bendir á að þótt MK skipuleggi meistaranámið í fein þá hefur það engin áhrif á ákvæði gildandi kjarasamnings KÍ/framhaldsskóla um uppgjörsaðferðir fyrir kennslu. Ákvæði kjarasamnings heimila aðeins tvær uppgjörsaðferðir fyrir kennslu. Annars vegar hefðbundið fyrirkomulag þar sem tvær kennslustundir eru á bak við hverja námseiningu og hins vegar kennsla í öldungadeildum, meistaraskóla og sambærilegu námi skv. gr. 2.6.3. kjarasamnings, þar sem miðað er við að farið sé allt að tvöfalt hraðar yfir námsefni en í venjulegu skólahaldi. Við þessar aðstæður skal kennsla metin með 60% álagi.                                      Félagið telur að framkvæmd skólans á kjarasamningum gagnvart Pétri Birni vera brot á kjarasamningi. Félagið fer fram á að skólinn leiðrétti laun Péturs Bjarnar hið fyrsta samkvæmt grein 2.6.3. í kjarasamningi og bókun með sama kjarasamningi um greiðslu fyrir kennslu í öldungadeildum, meistaraskóla og sambærilegu námi.“   Lögmaður Menntaskólans í Kópavogi svaraði þessu bréfi með bréfi, dags. 31. október 2013, fyrir hönd skólans. Í bréfinu kemur fram að menntamálaráðuneytið hafi haustið 2010 heimilað skólanum að hefja tilraunakennslu samkvæmt nýrri námskrá um meistaranám í matvæla- og veitingagreinum. Fyrir hafi legið námsbrautarlýsing og áfangalýsingar samkvæmt nýju einingakerfi þar sem þrepaskiptingu námsins og grunnþáttum lykilhæfni voru gerð skil. Skólinn hafi síðan endurnýjað tilraunakennsluleyfið árlega og síðast með bréfi menntamálaráðuneytisins dagsettu 7. ágúst 2013 fyrir skolárið 2013-2014.       Í bréfinu kemur jafnframt fram að umfang námsins hafi verið með þeim hætti að kenndir hafi verið fjórir áfangar, tveir á haustönn og tveir á vorönn, en samtals hafi kennslan numið 30 framhaldsskólaeiningum. Á haustönn 2012 hafi síðan verið ákveðið að bæta við einum áfanga í samráði við menntamálaráðuneytið og hafi námið þá verið 35 framhaldsskólaeiningar á skólaárinu 2012-2013. Í bréfinu segir síðan svo:   „Baldur Sæmundsson áfangastjóri matvæla- og veitingagreina við skólann og umræddur Pétur Björn Pétursson, þáverandi fagstjóri viðskiptagreina við Menntaskólann í Kópavogi, ákváðu kennslufyrirkomulag og fjölda kennslustunda. Í anda laga um framhaldsskola nr. 98/2008 og þess að um fullorðna nemendur var að ræða var það mat þeirra að heppilegt kennslufyrirkomulag væri að kenna einn áfanga í einu og að nemendur kæmu í skólann heilan dag (10 kennslustundir) í ákveðinn fjölda daga, 4 daga í hvern áfanga í fyrstu. Þeim fjölgaði síðan í 6. Greitt var fyrir umrædda kennslu í meistaraskóla út frá mati á umfangi áfanganna, m.a. miðað við fjölda kennslustunda. Ekki var hægt að miða við einingar þar sem áfangarnir voru ekki mældir í einingum heldur feiningum [framhaldsskólaeiningum]. Gengið var frá vinnuskýrslu/samkomulagi um vinnuframlag fyrir hverja önn við Pétur Björn Pétursson. Eru allar vinnuskýrslurnar undirritaðar af fulltrúa skólans og Pétri. Byggði samkomulag aðila á tillögum Péturs enda var hann fagstjóri viðskiptagreina þegar námið hófst. Skólinn gerði ekki athugasemdir við þær og gerði kennsluna upp með þeim hætti sem Pétur lagði til. Stjórnendur skólans treystu Pétri til að gera sanngjarnar tillögur, enda er Pétur með reyndustu kennurum skólans, var fagstjóri á þessum tíma, auk þess að vera annar þeirra sem skipulagði framangreinda kennslu. Þá hefur Pétur starfað að félags- og kjaramálum kennara og rekið sumarskóla svo nokkuð sé nefnt. Engum voru forsendur samkomulagsins því betur kunnar en Pétri sjálfum og hefði honum því átt að vera ljóst hvað þær fólu í sér. [...] Menntaskólinn í Kópavogi hafnar því alfarið að skólinn hafi brotið gegn kjarasamningi við greiðslu launa til Péturs Bjarnar Péturssonar fyrir árin 2010 til 2013. Skólinn byggir á því að þar sem um var að ræða tilraunanám, sem ekki er reiknað til eininga heldur feininga, hafi ekki verið hægt að gera kennsluna upp með hefðbundnum hætti. Skólinn hafi fengið tillögu Péturs um uppgjör og fallist á það. Samkomulag hafi því orðið með skólanum og Pétri, með vísan til greinar 2.1.2. í kjarasamningi, um að greiða fyrir kennsluna með þeim hætti sem gert var. Engum var betur ljóst en Pétri sjálfum hvað fólst í umræddu samkomulagi. Telji Félag framhaldsskólakennara að gera eigi upp kennsluna á annan hátt en gert hefur verið er óskað eftir því að félagið geri nánar grein fyrir því hvernig reikna hafi átt út laun fyrir umrædda kennslu með vísan til ákvæða kjarasamnings aðila. Er í því sambandi minnt á að námið er ekki metið til eininga heldur eftir nýrri námskrá og lögum um framhaldsskóla frá 2008 í feiningum.“   Félag framhaldsskólakennara svaraði bréfi lögmanns Menntaskólans í Kópavogi með bréfi, dags. 19. nóvember 2013. Í bréfinu sagði meðal annars svo:   „Lög nr. 92/2008, um framhaldsskóla kveða á um nýjar skilgreiningar á námi og vinnu nemenda. Til að taka þær upp þarf að endurgera ákvæði 2. kafla miðlægs kjarasamnings KÍ/framhaldsskóla og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs 18. mars 2005 um vinnutíma kennara. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðum laga 2008 áttu IV. og V. kafli að taka gildi haustið 2011, og að tíminn fram að því yrði notaður til að undirbúa breytingar. Bent er á að IV. kafli felur m.a. í sér 15. gr. um námseiningar. Efnahagshrunið 2008 gerði það að verkum að stéttarfélagið og fjármálaráðuneytið frestuðu samningsgerð um nýja mælikvarða með bókun 10. mars 2009 [...]. Sama ár veitti menntamálaráðherra tveimur framhaldsskólum heimild til að starfa sem þróunarskólar um lög 2008 [...]. Stéttarfélagið gerði sérstaka kjarasamninga við þessa skóla um vinnu kennara í nýju fyrirkomulagi, [...]. Í þeirri samningsgerð var í engu hróflað við kjarasamningsbundnum réttindum um vinnumat kennara þó að skólarnir tækju upp breytt skipulag samkvæmt lögum 2008 og skilgreindu námið í fein. Bókun samningsaðila 10. mars 2009 felur í sér að framhaldsskólar geta ekki tekið upp nýja mælikvarða á vinnu kennara fyrr en búið er að endurgera 2. kafla miðlægs kjarasamnings um vinnutíma. Burtséð frá þessu geta skólarnir að sjálfsögðu unnið að þróunar- og breytingastarfi á grundvelli annarra ákvæða laga 2008, eins og segir í bókuninni. Árið 2010 staðfesti Alþingi bókun samningsaðila og frestaði gildistöku IV. og V. kafla laga 2008 til ársins 2015. Ákvæði kjarasamninga heimila aðeins tvær uppgjörsaðferðir fyrir kennslu. Annars vegar hefðbundið fyrirkomulag þar sem tvær kennslustundir eru á bak við hverja námseiningu og hins vegar kennsla í öldungadeildum, meistaraskóla og sambærilegu námi skv. gr. 2.6.3. í 2. kafla miðlægs kjarasamnings um vinnutíma, þar sem miðað er við að farið sé allt að tvöfalt hraðar yfir námsefni en í venjulegu skólahaldi. Við þessar aðstæður skal kennsla metin með 60% álagi, og bókun um greiðslu fyrir kennslu í öldungadeildum, meistaraskóla og sambærilegu námi í sama kjarasamningi en hún á sér bakgrunn í 2. kafla sama kjarasamnings. Þó að MK hafi aflað sér leyfis til að tilraunakenna nýja námskrá meistaranáms í matvæla- og veitingagreinum og skilgreini námið í fein hefur skólinn enga heimild til að breyta mati á vinnu kennara og greiðslum til þeirra eins og þær eru skilgreindar í 2.6.3. kjarasamnings og bókun sama kjarasamnings. Breytingar á vinnumati í kennslustörfum og öðrum störfum félagsmanna KÍ í framhaldskólum sem fjallað er um í kjarasamningi verða ekki gerðar öðruvísi en með kjarasamningum.“   Bréfi Félags framhaldsskólakennara fylgdi útreikningur á þeim tímafjölda sem félagið taldi að leggja ætti til grundvallar útreikningi á launum stefnanda árin 2010 til 2013. Lögmaður stefnda svaraði bréfi félagsins með bréfi, dags. 4. desember 2013, þar sem athygli var vakin á því að í skjalinu væri kennsla stefnanda umreiknuð úr f-einingum yfir í einingar án þess að grein væri gerð fyrir því hvernig það væri gert en niðurstaða félagsins var að um væri að ræða 1640 kennslustundir. Í bréfi lögmannsins sagði enn fremur svo:   „Menntaskólinn í Kópavogi telur þessa aðferð ekki tæka, enda sé ekki hægt að umreikna kennsluna yfir í einingar á þann hátt sem félagið gerir. Launakerfi kennara, sem tengt er einingum, byggir á því hver raunveruleg viðvera kennara er í kennslustofunni (1 eining er 2 kenndar stundir). Þar sem umrædd kennsla er ekki reiknuð til eininga og viðvera kennarans við kennslu ekki í samræmi við það er eina rétta viðmiðið gagnvart launagreiðslum til kennarans viðvera hans við kennsluna. Í málinu liggur fyrir að viðvera umrædds kennara vegna hinnar umdeildu kennslu var samtals 691 kennslustund, sbr. yfirlit sem fylgdi bréfi undirritaðs 31. október sl. og vinnuskýrslur umrædds kennara. Með samningi við kennarann greiddi Menntaskólinn honum fyrir 1170 kennslustundir. Ef stuðst væri við núgildandi kjarasamning og 691 kennslustund reiknuð í samræmi við ákvæði hans þ.e. margfölduð með 1,6 myndi það gera 1105 tíma. Greiðslur skólans til kennarans eru því nokkuð umfram það sem sá kjarasamningur mælir fyrir um. Ef frá eru dregnir 40 tímar (1170-40=1130), sem honum voru greiddir aukalega fyrir nýjan áfanga, hefur skólinn greitt 25 tíma (1130-1105 = 25) umfram það sem miðað er við í þeim kjarasamningi.   Í bréfinu kom jafnframt fram að fjármálaráðuneytið og Félag framhaldsskólakennara hefðu rætt um að Þórir Ólafsson kæmi að málinu sem óháður aðili og mæti vinnuframlag kennarans. Þórir skilaði skýrslu um málið 30. desember 2013 en þar kom fram að hann treysti sér ekki til að „kveða upp úr um rétt eða rangt í þessu deilumáli“ og að hann kæmi „ekki auga á tiltekna aðferð sem leiða [mætti] af málsatvikum þess og nota [mætti] sem grundvöll að málamiðlun“.         Stefnandi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu sem þingfest var 29. september 2015 á hendur stefnda vegna sömu krafna en höfuðstóll aðalkröfu var þá 4.968.118 kr. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 11. maí 2016 var málinu vísað sjálfkrafa frá dómi með vísan til e- og f-liða 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Úrskurði þessum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar. III. Málsástæður og lagarök stefnanda         Stefnandi höfðaði mál E-3183/2015 gegn íslenska ríkinu af sama tilefni og mál þetta með stefnu þingfestri í Héraðsdómi Reykjavíkur 29. september 2015. Málinu var vísað frá dómi með úrskurði 11. maí 2016. Í niðurstöðum dómara hafi verið færð rök fyrir því að kröfugerð og sönnunarfærslu stefnanda hafi verið áfátt en stefnanda var synjað um framlagningu gagna í málinu. Með málshöfðun þessari freisti stefnandi þess að bæta úr málabúnaði með lýsingu atvika og framlagningu gagna í því skyni að fá viðurkenningu á dómkröfum sínum. Rétt þykiað styðjast við gögn úr fyrra máli, einkum er varða samskipti aðila og einnig skýrslu Aðalheiðar Steingrímsdóttur fv. formanns KÍ.                Aðeins einn kjarasamningur sé í gildi við ákvörðun launa kennara, þ.e. kjarasamningur frá árinu 2005, með áorðnum breytingum, sem reyndar hafi engin áhrif á mál þetta. Í kjarasamningi sé aðeins gert ráð fyrir tveimur leiðum við greiðslu launa:  a) svokallaðri dagskólaleið: Við útreikning launa skv. dagskólaleið er hver eining jafngildi tveggja kennslustunda.   b) öldungadeilda-/meistaranámsleið: Við útreikning launa öldungadeilda/meistaraskóla er hver eining jafngildi einnar kennslustundar, að viðbættu svokölluðu hraðaálagi. Hraðaálagið er 60%, vegna allt að tvöföldum hraða við kennslu í slíku námi.          Stjórnendum/kennurum sé ekki heimilt að semja um lægri kjör en kjarasamningur tilgreinir, nema með aðkomu stéttarfélagsins, KÍ.          Aðstoðarskólameistari MK hafi sent stefnanda excel-skjal þann 25.6.2013, sbr.dskj. nr. 6., og ritað tölvubréf til stefnanda þann 26. júní 2013, sbr. dskj. 27, þar sem vísað sé í fjölda kenndra daga sem grundvöll fyrir greiðslu til stefnanda. Þessi grundvöllur sé augljóslega rangur enda ekki byggt á gildandi kjarasamningi heldur vísað til nýrrar námskrár kjarasamnings sem tók fyrst gildi á árinu 2015.          Kennslustundir í öldungadeildum/meistaraskóla fylli upp í kennsluskyldu kennara á sama hátt og kennslustundir í dagskóla. Öldungadeildarkennsla/meistaraskólanám fari jafnt fram að degi til og að kveldi. Daglegur vinnutími kennara sé frá kl. 08.00–17.00. Í kjarasamningi sé talað um kvöldskólaálag en það sé greitt fyrir vinnu sem unnin er eftir kl. 17.00. Stefnandi geri ekki tilkall til þessa álags í kröfugerð sinni. Engin tengsl séu á milli kvöldskólaálagsins og hraðaálagsins, sjá kjarasamning  2.2.2. Í kjarasamningi, grein 2.3.1, sé yfirvinna við kennslu skilgreind svo: „Yfirvinna telst sú vinna sem fram fer utan tilskilins daglegs vinnutíma, svo og vinna sem innt er af hendi umfram vikulega vinnutímaskyldu þó á dagvinnutímabili sé.“ Þetta fyrirkomulag sé ólíkt venjulegri dagvinnu, þar sem yfirvinna hefst að lokinni dagvinnu hvers dags. Í þessu fyrirkomulagi geti kennari uppfyllt kennsluskyldu sína á t.d. tveimur dögum og þá fengið alla vinnu, sem hann vinnur aðra virka daga vikunnar, greidda í yfirvinnu. Þetta sjáist skýrlega á stundatöflu stefnanda frá haustönn 2012, sbr. dskj. 23, en þá kennir stefnandi skv. stundatöflu 20 kennslustundir á viku í meistaranáminu alla mánudaga og þriðjudaga í 18 vikur. Þar sem kennsluskylda stefnanda hafi verið 19 kest. í viku verði ein kennslustund frá þriðjudegi og allar aðrar kest. vikunnar greiddar í yfirvinnu. Stefnandi bendir á að skv. þessari stundatöflu, sem unnin sé skv. fyrirmælum aðstoðarskólameistara, sé hvergi um kvöldskólaálag að ræða né heldur í vinnuskýrslu. Vinnuskýrsla fyrir sömu önn, sbr. dskj. nr. 23, gerir svo hins vegar ráð fyrir 9 kest. í viku en ekki 20, eins og stundataflan sýnir. Vinnuskýrslan sé því augljóslega röng.          Yfirvinna skal reiknuð sem 1.0385% af mánaðarlaunum, sbr. kjarasamning 1.5.1 og yfirvinnuálag á kennslu er 30% fyrir hverjar 40 mín., sbr. ákvæði í kjarasamningi 1.5.5. Í kaflanum um laun og kröfur stefnanda sé tafla yfir yfirvinnulaun stefnanda á umræddu tímabili. Í grein 2.1.6.4 í kjarasamningi standi að fjöldi kennslustunda, sem kennari tekur að sér í upphafi annar/árs, sé bindandi til loka annar/árs. Samkvæmt kjarasamningi sé kennsluskylda kennara í 100% starfi frá 17-24 kennslustundir á viku og fjöldi kennslustunda fari eftir lífaldri kennara. Þannig var kennsluskylda stefnanda 19 kest. þessi þrjú ár, sem um ræðir, þ.e. frá hausti 2010 til vors 2013, sbr. bókun 7.1.2001, dskj. nr. 15. Hefðbundin kennsla sé oft nefnd staðbundin kennsla/nám þar sem nemendur sækja kennslustundir í skóla sínum og njóta kennslu kennara. Það sé hin almenna regla skólastarfs í landinu.         Fyrir dómi 13. apríl 2016, sbr. dskj. nr. 30, hafi Aðalheiður Steingrímsdóttir gert grein fyrir aðkomu KÍ að samningum við tvo skóla, Kvennó og Framhaldsskólann í Mosfellsbæ vegna hinnar nýju námskrár. Engir aðrir skólar hafi haft heimild til að annast slíka tilraunakennslu. Þar hafi verið lögð áhersla á að aðlaga mætti kennsluna nemendum skv. nýrri námskrá en áfram yrði að nota einingar hvers áfanga gagnvart kjörum kennara. Þar komi fram að fimm f-einingar jafngildi þremur gömlum einingum.         Stefnandi telur einsýnt að málsatvik hafi verið ranglega lögð fyrir Þóri Ólafsson sérfræðing. Þórir vísi í greinargerð sinni til þess að stefnandi hafi fengið greitt fyrir vinnuframlag sitt en segir jafnframt að Félag framhaldsskólakennara (FF) bendi réttilega á að „...skólinn hefði getað fundið sanngjarna samsvörun hins nýja skipulags við eldra einingakerfi og greitt samkvæmt því“. Hann sé þar að vísa til nýrra framhaldsskólalaga um framlag kennara til kennslu, en ákvæði þetta tók ekki gildi fyrr en árið 2015. Undarlegt sé að Þórir blandi saman gildandi kjarasamningi við þann sem tók gildi löngu síðar. Það séu sömu mistök og stjórnendur MK geri. Þórir taldi jafnframt að stefnandi hefði gert samning við MK og/eða mennta- og menningarmálaráðuneytið um kjör, sem væru allmiklu lægri en gildandi kjarasamningur, sem stefnandi starfar eftir. Í niðurstöðu Þóris gæti  rangra forsendna. Þar segi m.a. svo: „Ekki er um það deilt, að PBP fékk vinnuframlag sitt greitt. Um það er hins vegar deilt, hvort það vinnuframlag hafi verið í samræmi við kjarasamning kennara, hvort MK og PBP hafi mátt semja um það með þeim hætti, sem gert var. Þar með snýst deilan um grundvallaratriði í túlkun á kjarasamningi kennara. Vilji menn fá úr því deiluefni skorið verður væntanlega að leggja málið fyrir Félagsdóm.“         Stefnandi hafi alls ekki samið um uppgjör við MK eins og Þórir hefur talið. Þessi ranga niðurstaða virðist hafa valdið því að lögmaður hjá Landslögum komst að þeirri niðurstöðu hjá skólameistara MK að stefnandi ætti ekki rétt á að fá leiðréttingu á röngu launauppgjöri. Augljóst sé að MK hefur farið þá leið að reyna að svæfa málið og losna við að greiða stefnanda af fjárveitingum til skólans. Ágreiningur aðila varði launalegt uppgjör og sé fráleitt úrlausnarefni fyrir Félagsdóm. Ekki sé deilt um gildi kjarasamninga, heldur einfaldlega um launagreiðsluskyldu samkvæmt gildandi kjarasamningi framhaldsskólakennara við ríkissjóð. Því sé haldið fram að stefnandi hafi gert samning um verkið, sem hafi verið með öðrum hætti en samkvæmt kjarasamningi stefnanda. Slíkur samningur var aldrei gerður, enda óheimilt skv. kjarasamningi. Stefnandi undirritaði vinnuskýrslur frá skólameistara en launauppgjör reyndist hins vegar ekki vera í samræmi við gildandi kjarasamning og vinnuskýrslur voru auk þess rangar. Stefnandi hafi mátt treysta því að réttilega væri að gerð vinnuskýrslna og launauppgjöri staðið. Helgi aðstoðarskólameistari hafi upplýst stefnanda síðar að um mistök hefði verið að ræða við uppgjörið, sbr. dskj. nr. 5, sem hann hefði afhenti stefnanda.          Áfangastjóri verknáms og umsjónarmaður meistaranáms MK hafi verið Baldur Sæmundsson. Hann og aðstoðarskólameistari hafi tekið ákvörðum um kennslumagn í meistaranáminu og hver/hverjir skyldu kenna þar og hafi stefnanda verið falin kennslan. Veturinn 2010-2011 hafi stefnandi verið fagstjóri viðskiptasviðs skólans en sem slíkur komi hann hvergi nálægt kennslumagni úr öðrum deildum. Þegar kennslu hafi verið skipt milli kennara hefjist stundatöflugerð í umsjá aðstoðarskólameistara. Búin sé til stundaskrá fyrir alla kennara skólans og hún afhent þeim áður en kennsla hefst. Þegar kennsla er hafin sé unnin vinnuskýrsla fyrir hvern kennara og hann beðinn um að undirrita hana. Þetta hafi stefnandi gert án athugasemda umrædd þrjú ár þar sem hann hafi treyst aðstoðarskólameistara fullkomlega og talið að hann færi eftir gildandi kjarasamningi um námið. Dráttur hafi hins vegar orðið á undirritun haustið 2012 vegna ágreinings vegna stækkunar meistaranámsins um 5 f-einingar. Vinnuskýrslur stefnanda hafi verið lagðar fram í málinu sem dskj. nr.21-23. Undir liðnum Kennsla á vinnuskýrslu vorið 2011 séu fimm dálkar, þ.e. Dagskóli – Almenn braut 1 – Fjarken/sérken. – Kvöld/Lotur – Önnur ke., en á sama hátt á vinnuskýrslu 2012 Dagskóli – Sérkennsla – Skrifstofubraut – Kvöldskóli – Cesar Ritz . Meistaranámið sé allar þær annir sem um ræðir (haustönn 2010 – vorannar 2013), sett undir liðinn Dagskóli. Undir þann lið falli eingöngu dagskólanám, þ.e. eftir kjarasamningi um dagskóla. Undir liðinn Kvöldskóli falli hins vegar öldungadeildanám með 60% hraðaálagi. Það fer því ekki á milli mála að á þessum tíma álitu skólastjórnendur að meistaranámið félli undir dagskólanám. Stundatafla stefnanda fyrir haustönn 2012, sbr. dskj. nr. 23, sé einnig athyglisverð en þar ætli Helgi Kristjánsson stefnanda að kenna eins og um venjulegan dagskóla væri að ræða.         Stefnandi hafi upplýst að aðstoðarskólameistari, Helgi Kristjánsson, hafi lagt fram tillögu til lausnar sem fól í sér að sleppa fyrsta árinu þ.e. hausti 2010 og vori 2011, sbr. dskj. nr. 5. sem sé skjal frá honum komið. Helgi Kristjánsson hafi neitað að svo hafi verið. Engu að síður hafi hann gengist við því, að dskj. nr. 6 sé frá honum komið. Það skjal sé sama skjal og dskj. nr. 5 með viðauka og breytingum. Í því skjali sé með sama hætti sleppt útreikningi vegna haustannar 2010 og vorannar 2011. Ljóst sé að það var ekki gert að frumkvæði stefnanda heldur var það einhliða tillaga stjórnenda MK til samkomulags.         Málsmeðferð MK hafi verið ámælisverð eins og stundatöflur og vinnuskýrslur stefnanda beri með sér. Verði að telja ljóst að um sé að tefla mistök í launalegu uppgjöri hjá aðstoðarskólameistara, sem „kerfið“ hafni að leiðrétta og viðurkenna. Það sé skýlaust brot gagnvart stefnanda. Stefnandi vill geta þess, að um miðjan júní 2013 hafi Helgi aðstoðarskólameistari boðið fram lausn, í líki excel-skjals, sbr. dskj.nr. 5, sem fólst í því að uppgjör færi fram eftir kjarasamningi Fjármálaráðuneytisins og KÍ. Einnig megi sjá í samskiptum Margrétar skólameistara við Aðalheiði, formann KÍ, dags 19. júní, að Helgi og stefnandi hafi náð samkomulagi um að greitt yrði eftir gildandi kjarasamningi. Þannig hafi Helgi boðið að greitt yrði fyrir vinnu stefnanda við meistaranámið með sama hætti og greitt er fyrir kvöldnám, sbr. bls. 54 í kjarasamningi frá 2008, þ.e. að ein eining sé ein kennslustund, en með 60% álagi, (1 x 1,6). Því hefði stefnanda borið að fá greiddar 9 x 1,6 = 14,4 kennslustundir í 18 vikur á hverri önn í stað 9 kennslustunda. Vísast til töflu á bls. 4 í stefnu. Helgi hafi lagt til að sleppt yrði leiðréttingu fyrsta árið, þ.e. veturinn 2010-2011 og stefnandi fallist á það, enda yrðu viðbótartímar á haustönn 2012 leiðréttir.         Stefnandi fullyrðir að Helga hafi verið orðið ljóst að um mistök í launaútreikningi hefði verið að ræða, sem hann vildi leiðrétta. Stefnandi hafi verið samþykkur þessu, enda vildi hann fyrir alla muni ná samningum við skólann. Af þessari niðurstöðu varð ekki eins og áður er rakið. Helgi hafi upplýsti stefnanda um að eftir samtal skólameistara MK við starfsmenn ráðuneyta væri það álit þeirra að ekki þyrfti að greiða stefnanda neitt, þar sem þeir töldu að uppgjör ætti að fara fram eftir ákvæðum nýs kjarasamnings, sem ekki hafði tekið gildi! Að sjálfsögðu hafi það ekki komið til álita, enda stefnandi ekki aðili að þeim samningi. Vísast til dskj. nr. 6 þar sem Helgi leggi fjölda kenndra kennslustunda (lotur) til grundvallar við uppgjör en ekki einingar eins og kveðið sé á um í kjarasamningi. Mikilvægt sé að gera grein fyrir samskiptum aðila á tímabilinu, sérstaklega samskiptum formanns KÍ, Aðalheiðar Steingrímsdóttur og skólameistara MK, Margrétar Friðriksdóttur annars vegar og hins vegar samskiptum stefnanda og Helga Kristjánssonar, sem fram koma á dskj. nr. 26. og 27.         Af  samskiptum þeirra megi sjá að skólameistari hafi „uppgötvað mistökin“ og að Helgi og stefnandi hafi komist að samkomulagi um uppgjör. Skólameistari ítreki að greitt verði eftir gildandi kjarasamningi um öldungadeildir/meistaranám. Á samskiptum Helga og stefnanda megi sjá að þeir hittust og daginn eftir hafi stefnandi sent bréf til Helga, sem vitni í „tilboð“ hans. Síðar segi Helgi að svarbréf stefnanda „hafi sett allt í baklás“. Því næst vitni Helgi í kjarasamninga, þar sem greitt sé eftir kenndum tímum, og sendi sem fylgiskjal útreikninga, sem vísa í nýju námskrána, sbr. dskj. nr. 6. og kennda tíma. Þetta sé með ólíkindum en kjaraliður nýju námskrárinnar hafi fyrst tekið gildi árið 2015. Með þessu hafi aðstoðarskólameistari, Helgi Kristjánsson, slitið samningaviðræðum við stefnanda.         Stefnandi vill mótmæla dskj. nr. 29 í málinu frá 13. apríl sl. Svo virðist sem höfundur skjalsins, hver svo sem hann er, sé að gefa í skyn að umræddar greiðslur hafi runnið til stefnanda fyrir vinnu hans við hönnun á námi til meistaranáms. Það sé rangt en ekkert hefur verið greitt inn á dómkröfur stefnanda. Vissulega sé efsti liðurinn vinna við námskrá, en það hafi verið áfanginn bókfærsla 103 í dagskóla og ekki komið meistaranáminu neitt við. Það staðfesti hins vegar að 8 kest. voru greiddar fyrir hverja námskrá. Enginn liður í upptalningu skjalsins sé viðkomandi meistaranáminu nema vegna aukaáfanga í meistaraskóla, en það var greiðsla fyrir 40 kest. vegna stækkunar námsins á haustönn 2012, þ.e. 40 kest. x yfirvinnuálag, 30%, sem gera 52 klst. Vísast til töflu á bls. 4 hér að framan, þar sem greiðslutilhögun er útskýrð. Stefnandi hafi starfaði við framhaldsskólakennslu í 38 ár, þar af 16 ár við MK. Hann hafi tekið þátt í að móta nám við MK og verið brautryðjandi í kennsluháttum á sínu sviði. Það sé niðurlæging og brot á grundvallarmannréttindum gagnvart honum af hálfu skólayfirvalda og mennta- og fjármálaráðuneytis að hafa ekki fyrir margt löngu gengið frá uppgjöri á réttmætri launakröfu stefnanda eins og hér háttar til. Krafa stefnanda styðjist við gildandi kjarasamning, sbr. bókun á bls. 54 í samningnum, en bókunin sé óbreytt frá 28.11.1985 sbr. dskj. nr. 15 og 16. Þá sé ógreitt fyrir þá vinnu, sem stefnandi varði til að móta umrætt nám, sem eru 104 klst. og honum beri með fullum rétti að fá greiðslu fyrir, enda hafi honum verið falið að vinna að þessu verki af hálfu skólayfirvalda.         Stefnandi gerir þá kröfu að uppgjör við hann vegna vangoldinna launa fari fram á grundvelli gildandi kjarasamnings. Jafnframt er gerð krafa til þess að greitt verði vegna undirbúnings- og skipulagsvinnu vegna meistaranámsins.         Varðandi dómkröfur þá miðar stefnandi aðalkröfu við launauppgjör 1. júlí 2015 þegar hann lauk störfum við MK. Þá hafi taxti yfirvinnu verið 6.904 kr., sbr. töflu á bls. 4 í stefnu. Um sé að ræða 733.6 vinnustundir, sem unnar voru utan daglegrar vinnuskyldu að viðbættu lögbundnu orlofi 13,01% eða samtals 5.723.667 kr. Vaxtakrafa tekur mið af vaxtalögum en gerð er krafa um dráttarvexti frá næstu mánaðamótum eftir að skrifleg krafa var gerð á hendur stefndu.         Í stefnu er í varakröfu miðað við yfirvinnutaxta eins og í gildi voru er vinna var innt af hendi á tímabilinu 2010-2013, sbr. dskj. nr. 29, auk lögbundins orlofs. Þá er gerð krafa um vexti skv. 8. gr. frá 1.10.2011 en fyrning hafi verið rofin með þingfestingu máls hinn 29.09.2015. Dráttarvaxta er krafist frá 1. ágúst 2015 eins og í aðalkröfu. Við upphaf aðalmeðferðar lagði stefnandi fram breytta kröfugerð.          Þrautavarakrafa er gerð um lægri fjárhæð að mati réttarins verði eigi fallist á aðal- eða varakröfur.          Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu að mati réttarins að teknu tilliti til virðisaukaskatts 24 % en stefnandi er eigi virðisaukaskattsskyldur.         Stefnandi vísar til þess að eins og fram komi í framlögðum vinnuskýrslum hafi hann uppfyllt dagvinnuskyldu sína öll þau þrjú ár sem um ræðir, og stundum gott betur. Því verði öll viðbót við kennslu, það er það sem hann telur vangoldið, reiknað í yfirvinnu.          Meðfylgjandi er tafla, sem sýnir laun stefnanda frá 1.1.2011 í lok fyrstu annar Meistaraskóla MK fram til 1.7.2013 eftir síðustu lotu, sem hann kenndi við Meistaraskólann og loks 1.7.2015 þegar hann lét af störfum við MK.         Yfirvinna stefnanda sé fundin með því að margfalda mánaðarlaun hans með stuðlinum 1.0385% og þá fáist yfirvinnulaun hans á klst. Sú fjárhæð er síðan margfölduð með stuðlinum 1.3 (30% álag vegna kennslu skv. kjarasamningi KÍ og menntamálaráðuneytisins, sbr. 2.3.1 í kjarasamningi). Dagsetning   Mánaðarlaun PBP Yfirvinnulaun pr. klst. Yfirvinnulaun pr. kest. * 1.0385% af mán.laun * 1.3 1.1.2011 345.211 3585      4661 1.1.2012 375.279 3897 5066 1.1.2013 388.414 4033 5243 1.7.2013 401.037 4165 5415 1.7.2015 511.381 5311 6904     Eins og málið liggur fyrir, sé útreikningum á kröfugerð stefnanda svo háttað: A)  Kennsla: Sundurliðun á kröfugerð vegna vangreiðslu á kennslustundum við meistaranám í MK veturna 2010-2013. Veturinn                               Greitt af MK til Péturs Björns:                                                        2010 – 2011                        9   kennslustundir x 18 vikur = 162 x 2 annir = 324                                                  kennslustundir     2011 – 2012                        9   kennslustundir x 18 vikur = 162 x 2 annir = 324                                                  kennslustundir                     2012 (haust)        12 kennslustundir x 18 vikur = 202  x 1 önn =   202                                                 kennslustundir 2013 (vor)                            9   kennslustundir x 18 vikur = 162 x 1 önn =   162                                                   kennslustundir                                                                                                                   Samtals:1.012 kennslustundir Veturinn                               Greiðslur skv. kjarasamningi: 2010 – 2011                        9  kennslustundir x 1.6 x 18 vikur x 2 annir = 518,4 kennslustundir 2011 – 2012                        9   kennslustundir x 1.6 x 18 vikur x 2 annir = 518,4                                                kennslustundir 2012 (haust)        12 kennslustundir x 1.6 x 18 vikur x 1 önn   = 345,6                                                kennslustundir 2013 (vor)                            9   kennslustundir x 1.6 x 18 vikur x 1 önn   = 259,2                                                 kennslustundir                                                Samtals: 1.641 kennslustundir Vangreiddar kennslustundir vegna kennslu því (1.641,6 – 1.012) =  629,6 kennslustundir. Vangreiðsla vegna kröfuliðar I.  629.6 kest x kr. 6.904.- =  samtals kr.                                                                                                                                                                              4.346.758.-   Meðfylgjandi eru dómskjöl 19. og 20. Tafla 1, dskj. nr. 19 sýnir mánaðarlaun stefnanda frá 1. ágúst 2010 til 31. maí 2013 og einnig vangoldnar kennslustundir fyrir hvern mánuð fyrir sama tímabil. Tafla 2, dskj. nr. 20 sýnir yfirvinnulaun stefnanda á kest. og vangoldin laun á mánuði fyrir tímabilið. 2.  B)  Hönnun meistaranámsins:  Vinna við undirbúning og skipulagningu náms á meistarastigi, samtals 104 kennslustundir. Samkvæmt tímaskrá sundurliðast vinna eftirfarandi: 1.    Söfnun og öflun gagna, lestur kennsluefnis frá fyrri námsskrá o.fl., leit að nýju kennsluefni til að byggja nýjan áfanga: 4 kest. fyrir hvern áfanga, unnið í apríl 2010:16 kest. 2.    Hönnun náms, úr 12 námsáföngum frá fyrri námskrá, í fjóra námsáfanga (sjá bls. 16 í skýrslu  Baldurs Sæmundssonar, Sagan – reynsla: 4 kest. fyrir hvern áfanga, unnið í lok apríl og byrjun maí 2010:16 kest. 3.    Vinna við skipulagningu námsins, röðun á einstaka þáttum og uppsetning áfanga, unnið í  maí  2010: 3 kest. fyrir fyrstu þrjá áfangana og 1 kest. fyrir kennslufræðina: 10 kest. 4.    Fundir og skipulagsvinna með áfangastjóra meistaranáms, BS. Unnið í maí 2010: 14 kest 5.    Samþætting og frágangur tillagna, unnið í júní – júlí 2010 16 kest. 6.    Gerð áfangalýsinga (sjá viðauka í skýrslu BS): Lærdómsviðmið sameiginl. námsþátta í iðnmeistaranámi 8 kest. f. hvern 4 áfanga 32 kest. Krafa vegna ógreiddrar skipulagsvinnu og undirbúnings v. náms á meistarastigi kröfuliðar II. 104 kest. x kr. 6.904.- = samtals kr. 484.744.-. Kröfur stefnanda skv. kröfuliðum I-II nema því samtals 5.064.774 kr.. Um aðild og varnarþing. Af 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður leitt að máli skuli að meginreglu beint að íslenska ríkinu þótt það varði atriði sem heyri undir sérstaka stofnun þess. Menntaskólinn í Kópavogi heyrir undir mennta- og menningamálaráðuneytið en fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með ríkisfjármál. Varnarþing íslenska ríkisins er í Reykjavík.         Varðandi lagarök er byggt á því að stefnanda beri launalegt uppgjör eftir gildandi kjarasamningi framhaldsskólakennara en vísað er til bókunar frá árinu 1985 á bls. 54. í kjarasamningi framhaldsskólakennara við fjármálaráðuneytið frá 2008. Þá vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar og kröfuréttar. Vísað er til vaxtalaga nr. 38/2001 varðandi vaxtakröfur og til 17. gr. laga nr. 91/1991 varðandi aðild og 1. mgr. 130. gr. og 129. gr. s.l. varðandi málskostnaðarkröfu og loks til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt m. áorðnum breytingum, en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og er honum nauðsynlegt að fá skatt þennan dæmdan.  IV. Málsástæður og lagarök stefnda             Stefndi vísar til þess að fyrra máli vegna krafna stefnanda, sem þingfest var 29. september 2015 hafi lokið með frávísunarúrskurði sem stefnandi hafi fallist á og kærði ekki til Hæstaréttar. Sá úrskurður hafi því sönnunargildi um þau málsatvik sem þar er fjallað um, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 uns hið gagnstæða er sannað. Því beri að hafa hliðsjón af þeim málsatvikum sem fram koma í niðurstöðu kafla þess úrskurðar.         Stefndi kveður ástæðu til að leiðrétta sérstaklega ákveðin atriði í málavaxtalýsingu í stefnu. Á bls. 3 í stefnu sé fullyrt að stefnandi hafi hannað heildstætt eins árs nám fyrir meistaranemendur í matvælagreinum. Hins vegar segi í inngangi á bls. 3 í stefnu að á haustönn 2010 hafi hótel- og matvælaskólinn í MK heimild til að byrja tilraunakennslu á nýju meistaranámi. Skólinn hafi farið í samstarf við Iðuna og starfsgreinaráð matvæla- veitinga- og ferðaþjónustugreina um útfærslu á kennslu í áföngum meistaranámsins. Þannig sé þessi fullyrðing stefnanda röng. Þá segi á sömu síðu að kenna skyldi á tveimur önnum með dreifnámsfyrirkomulagi. Það byggi á því að kennt sé nokkra fasta daga í mánuði en einnig í fjarnámi, þar sem nemendur hafa greiðan aðgang að kennara. Þetta sé rangt. Ekki hafi verið um að ræða neina fjarnámskennslu heldur aðeins dreifnám. Það að nemandi geti haft samband við kennara utan kennslustundar, t.d. í tölvupósti, sé hluti af starfsskyldum kennara og felist í launum hans. Fjarnám sé síðan önnur kennsluaðferð. Sést það enn betur á upplýsingum um kennslulotur á dómskjali nr. 9. Það sé því einnig rangt sem fram komi á bls. 6 í stefnu og stefnanda sé fullkunnugt um það. Stefnandi geri ekki grein fyrir því að námið fór fram sem dreifnám kennt í stuttum lotum en ekki 18 vikum. Stefnandi vísi til stundatöflu fyrir vor 2011 og haust 2011 (dskj. nr. 22 og 23), þar séu einungis tvær stundir í töflu og miðað við röksemdafærslu stefnanda hafi hann fengið verulega ofgreitt fyrir kennslu á þessum önnum.         Áfram á bls. 3 í stefnu sé fjallað um þegar kennsludögum var fjölgað. Það hafi allt verið greitt og aldrei ágreiningur milli aðila um það, sbr. það sem fram komi hjá Þóri Ólafssyni (dskj. nr. 10). Þá sé tilvitnun stefnanda til Helga Kristjánssonar aðstoðarskólameistara röng og eigi ekki við nein rök að styðjast þar sem meistaranámið fór ekki fram sem hefðbundin dagskólakennsla heldur var námið dreifnám eins og áður kom fram. Það hafi verið greitt samkvæmt sérstakri bókun í kjarasamningi KÍ og fjármálaráðherra (dskj. nr. 15). Ef námið hefði farið fram sem hefðbundin dagskólakennsla, sbr. stúdentsbrautir, hefði tilvitnun stefnanda átt við. Þá hefði kennsla verið alla virka daga auk prófa í 18 vikur á önn. Stefnandi hafi því ekki hannað meistaranám í matvælagreinum heldur tekið þátt í að skrifa áfangalýsingar í fjórum áföngum með Baldri Sæmundssyni, áfangastjóra verknáms.        Á bls. 7 í stefnu reyni stefnandi að gera lítið úr áliti Þóris Ólafssonar (dskj. nr. 10). Hið rétta sé að lög um framhaldsskóla nr. 92/2008 voru samþykkt 12. júní 2008 og þar með var rofið samhengi eininga og kennslustunda. Samkvæmt lögunum miði einingar við vinnuframlag nemenda en ekki kennslutíma kennara. Meistaranám við MK hafi verið þróunarverkefni sem samþykkt var ítrekað ár fyrir ár með bréfi frá mennta- og menningarmálaráðuneyti þar sem umrætt kennslufyrirkomulag var ljóst. Stefnandi hafi vitað þetta enda samþykkti stefnandi bæði vinnuskýrslur og launagreiðslur um árabil.         Síðar segir í stefnu á bls. 8 varðandi vinnuskýrslur og stundatöflur að stefnandi hafi undirritað vinnuskýrslur frá skólameistara en launauppgjör hafi ekki verið í samræmi við gildandi kjarasamning og vinnuskýrslur auk þess verið rangar. Þessu er alfarið mótmælt. Vinnuskýrslur séu í fullkomnu samræmi við vinnuframlag enda undirritaðar af stefnanda á hverri önn án nokkurra athugasemda eða fyrirvara. Aðrir sem hafa skoðað þetta, t.d. trúnaðarmenn skólans, sérfræðingar (dskj. nr. 10) og fleiri, hafa komist að því að greitt hafi verið í fullu samræmi við vinnuskýrslur og vinnuframlag stefnanda.         Það sé rangt sem stefnandi heldur fram að undir liðinn dagskóli falli einungis nám í dagskóla. Undir liðinn dagskóli á vinnuskýrslu fellur öll kennsla sem fer fram á dagtíma eins og í þessu tilfelli meistaranáms. Launagreiðslur fari eftir kjarasamningi um meistaraskóla en ekki dagskóla.         Loks varðandi málsmeðferð og samninga þá vill stefndi koma því á framfæri að auðvitað hafi verið vilji til sátta við stefnanda enda hafi hann verið farsæll kennari við skólann og stjórnendum fundist slæmt ef stefnandi hætti ósáttur en stefnandi hafi hafnað öllum sáttatilraunum.           Af hálfu stefnda er öllum kröfum, málsástæðum og lagarökum stefnanda hafnað. Óljóst sé við lestur stefnu hvað séu málsatvik og hvað teljist málsástæður og lagarök. Stefnan sé því ekki í samræmi við ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að þessu leyti. Það veldur vandkvæðum við vörnina enda sé málið ekki skýrt af hálfu stefnanda þó að hann reyni að setja það í annan búning en þegar því var vísað frá.        Aðalkrafa stefnanda hefur ekki sést áður í samskiptum milli aðila, enda sé hún hærri en sem nam kröfubréfi stefnanda og mun hærri en sú krafa sem var aðalkrafa stefnanda í fyrra dómsmáli. Óneitanlega bendi það til þess að stefnandi hafi í raun ekki hugmynd um hver krafan ætti að vera og að öll hans kröfugerð sé í besta falli ágiskun.          Þau gögn sem stefnandi styðjist við, hafi legið fyrir í fyrra máli svo og skýrsla fyrrverandi formanns KÍ. Rétt sé að taka fram að stefndi hafnaði framlagningu launaseðils fyrir árið 2015 í fyrra máli enda hefði sá launaseðill ekki neitt að gera með laun stefnanda fyrir árin 2010 til 2013 sem eru þó grundvöllur máls þessa sem og hins fyrra. Hið sama megi segja um útreikning stefnanda á þeim tímum sem hann telur sig eiga inni vangreidda, þ.e. að stefnandi fær út töluna 629,6 kest. sem mismun á greiddum tímum og því sem kröfugerð hans snýr að. Það hafi hins vegar í fyrra málinu verið 615,6 kest. að mati stefnanda sjálfs.         Stefnandi leggur fram að nýju í þessu dómsmáli dskj. nr. 5 en í fyrra dómsmáli hafi því skjali verið hafnað sem röngu og eru þau mótmæli ítrekuð hér. Stefnandi slíti það skjal síðan úr samhengi við dskj. nr. 27. Til þess að leiðrétta þetta leggur stefndi fram tölvuskeyti, dskj. nr. 40 og útreikning á dskj. nr. 41 sem sé hið rétta dómskjal og það sem stefnanda var sent. Þar komi fram eins og segi í tölvupóstinum, dskj. nr. 40, að stefnandi hafi fengið ofgreitt eða 37 tíma umfram kjarasamninga. Í þeim tölvupósti komi fram að meðfylgjandi sé útreikningur, dskj. nr. 41, en stefnandi haldi því fram að hann að hafi fengið skjalið (dskj. nr. 5) afhent. Stefndi heldur því aftur á móti fram að hann hafi sent stefnanda skjalið (dskj. nr. 40) með tölvupóstinum (dskj. nr. 27).          Það kemur reyndar fram í frávísunarúrskurði málsins E-3183/2016, á bls. 13, að ekki séu efni til að fallast á þá fullyrðingu í stefnu að aðstoðarskólameistari Menntaskólans í Kópavogi hafi upplýst stefnanda um að mistök hafi átt sér stað við launauppgjör hans. Ný gögn hafa ekki verið lögð fram af hálfu stefnanda um það efni og er því ekki komin fram nein sönnun um þessa fullyrðingu stefnanda.         Því er mótmælt, sem fram kemur í stefnu, að málsatvik hafi verið ranglega lögð fyrir Þóri Ólafsson. Málið hafi verið lagt fyrir hann með samkomulagi aðila. Félag framhaldsskólakennara, sem kom fram fyrir hönd stefnanda enda hafði stefnandi leitað til félagsins, var sammála þessari aðferð (dskj. 7,8 og 9).   Félag framhaldskólakennara átti því fulla aðild að því hvernig málið var lagt fyrir Þóri Ólafsson og hafa verður í huga að eftir niðurstöðu hans dró félagið sig út enda væntanlega sammála niðurstöðu hans. Félag framhaldsskólakennara hafi komið fram fyrir hönd stefnanda í bréfaskriftum og voru aðilar í góðri trú um umboð þess félags. Það sé ekki við stefndu að sakast þó að félagið hafi ekki tilkynnt stefnanda um það sem fram fór né sé það á ábyrgð stefndu, sbr. dskj. nr. 7,8 og 9.         Félag framhaldsskólakennara kom fram fyrir hönd stefnanda í bréfaskriftum. Aðilar hafi því verið í góðri trú um umboð félagsins og það sé ekki við stefnda að sakast. Hlutlaus aðili er því búinn að skoða kröfugerð stefnanda og komast að þeirri niðurstöðu að hún sé röng og í besta falli geti verið ágreiningur um túlkun kjarasamninga en ekki vangreiðslu launa, eða eins og segir í dskj. nr. 10 í niðurstöðu: „Ekki er um það deilt að PBP fékk vinnuframlag sitt, sem fram kemur á vinnuskýrslum, greitt.“. Rétt er að hafa hugfast að stefnandi var reynslumikill kennari og gerði ekki á neinum tíma athugasemdir eða fyrirvara við vinnuskýrslurnar, sem honum bar auðvitað að gera ef hann hafði athugasemdir.         Í máli þessu reynir á sönnun um málavexti, þ.e. hvort stefnandi hafi fengið greitt það sem honum bar. Um var að ræða tvenns konar vinnu. Annars vegar vinnu við uppsetningu meistaranáms, sem átti að lúta almennum ákvæðum kjarasamnings Kennarasambands Íslands og ríkisins um aðra vinnu en kennslu. Hins vegar var um að ræða kennslu.         Stefnandi heldur því fram að launauppgjör hafi ekki verið í samræmi við kjarasamning. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi alltaf fengið greitt fyrir þá vinnu sem hann innti af hendi vegna þessa tilraunanáms. Við útreikning launa vegna hönnunar námsins hafi stefnandi fengið greitt samkvæmt framlögðum tímaskýrslum. Við útreikning launa vegna þessa hafi verið miðað við bókun um greiðslu fyrir kennslu í öldungadeildum, meistaraskóla og sambærilegu námi, dags. 28. nóvember 1985, sbr. lið 2, þ.e. stundakennara á tímataxta (dskj. nr. 15). Reyndar megi halda því fram að stefnandi hefði átt að fá greitt skv. almennum ákvæðum kjarasamnings um aðra vinnu en kennslu og því fengið 60% álag ofgreitt fyrir þá vinnu. Stefnandi hafi aldrei gert athugasemdir við þessar greiðslur á sínum tíma, það sé miklu síðar sem hann kemur fram með nýjar og óútskýrðar kröfur um vangreidd laun.        Varðandi dskj. nr. 17 þá sé það útbúið einhliða af hálfu stefnanda og því sé mótmælt sem þýðingarlausu.        Fram kemur í stefnu að þessi vinna hafi verið unnin á árinu 2010 sem þýði að þegar stefna var birt í fyrra dómsmálinu þann 28. september 2015 voru liðin rúmlega fimm ár frá því að vinnu við gerð áfangalýsinga lauk. Því sé krafa vegna þessa liðar fyrnd í samræmi við 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, þar sem fram kemur að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda sé fjögur ár. Kröfuliður 2 B komi því ekki til frekari skoðunar vegna fyrningar. Ef ekki er fallist á að sá liður sé fyrndur sé hann fallinn niður vegna tómlætis stefnanda, sem fyrst birti stefnu 28. september 2015. að öðru leyti sé hann ósannaður og órökstuddur.         Fyrir sjálfa kennsluna í meistaranáminu hafi stefnandi fengið greitt skv. kjarasamningi sbr. bókun (dskj. nr. 15). Reyndar hafi hann fengið greitt umfram kjarasamninga eins og kemur fram í tölvupósti, sbr. dómskjal 40 og meðfylgjandi útreikning á dómskjali 41. Samkvæmt yfirlitsblaði kemur fram fyrir hvað margar kennslustundir á önn stefnandi fékk greitt og hvaða daga kennsla fór fram. Einnig sé lagt fram dómskjal nr. 28 sem sýni fram á hvaða upplýsingar nemendur fengu varðandi mætingar í viðkomandi nám. Vinnuskýrslur sýna að stefnandi undirritaði þær athugasemdalaust og gerði ekki ágreining um útreikninga á þeim. Allt hafi verið unnið í samræmi við kröfur og óskir stefnanda og hann ráðið algerlega ferðinni um kennslu og þar með launagreiðslur. Stefnandi hafi einu sinni gert athugasemd við greiðslur, þá hafi verið bætt við 40 tímum aukalega að hans kröfu og á það hafi verið fallist.          Stefndi vísar því á bug að hann hafi hegðað sér með ámælisverðum hætti eins og nefnt sé í stefnu. Fullyrðingu stefnanda um að mistök hafi orðið í launalegu uppgjöri hjá aðstoðarskólameistara sé röng. Launagreiðslur byggi á kennslustundafjölda, það sé fagstjóri, stefnandi í þessu tilfelli, sem ákveður kennslustundafjölda, sem eru forsendur launauppgjörs. Þetta komi fram í gögnum málsins, sbr. dskj. nr. 42, þar sem stefnandi sendir skiptingu kennslustunda til kennara og aðstoðarskólameistara og því augljóst að stefnandi hafði stjórn á því. Kennslustundir eru síðan skráðar af fjármálastjóra MK í launaforrit sem reiknar laun út miðað við fjölda kenndra stunda. Tilvísun stefnanda til dskj. nr. 5 og 6 sé töluvert sérstök enda sé þetta skeyti tekið úr samhengi við önnur tölvuskeyti sem lögð eru fram og þar kemur fram að stefnandi hafi fengið greitt umfram þá tíma sem hann kenndi, þ.e. hann fékk greitt fyrir 792 tíma með álagi en kenndi 755 tíma með álagi, sbr. dómskjal 40 og 41.         Við þennan útreikning var miðað við þáverandi kröfugerð stefnanda, þ.e. stefnandi vildi blanda saman tveimur launakerfum, því gamla og því nýja með því að fá álag en ekki neina skerðingu. Niðurstaða þess útreiknings er ofangreind, það er stefnandi fékk ofgreitt. Stefndi telur að kröfugerð stefnanda byggi hvorki á neinum gögnum né að fyrir henni sé rökstuðningur. Töflur stefnanda á dómskjölum nr. 19 og 20 séu alfarið búnar til af stefnanda sjálfum eftir hans hentisemi og séu því þýðingarlausar sem sönnun fyrir launakröfum. Tímafjöldi liggi fyrir en sérstakur útreikningur á launum fyrir þá tíma sem stefnandi kenndi sé ekki til þar sem þessir tímar féllu inn í vinnuskyldu stefnanda, þeir séu hluti af 100% dagvinnulaunum hans og því ekki greiddir sérstaklega. Eins og kröfur stefnanda líti út virðist sem kröfugerðin byggi á svokölluðu öldungadeildarálagi, þ.e. lið 1 í bókun um greiðslu fyrir kennslu í öldungadeildum o.s.frv. Liður 1 í þeirri bókun miði m.a. við að kennt sé á kvöldin og því fái kennarar greitt sérstakt kvöldálag fyrir vinnu utan dagvinnutíma. Bæði hönnun námsins og kennsla hafi farið fram innan dagvinnutíma og innan daglegrar vinnuskyldu stefnanda Þessari kröfugerð sé því hafnað. Þrátt fyrir ofangreint leggur stefnandi á kvöldálag án þess þó að hafa kennt á kvöldin og miðar jafnvel við launataxta fyrir árið 2015. Eins og fram komi í yfirliti yfir laun stefnanda á umræddum tíma, sbr. dskj. nr. 43, var yfirvinnutaxti reiknaður út frá dagvinnulaunum margfaldað með 1,0385. Hvergi á þessu tímabili nái taxtinn þeirri fjárhæð sem stefnandi styðst við í aðalkröfu.         Raundagvinnutaxti tímabilsins sé á bilinu 1.786 kr. til 2.075 kr. en yfirvinna á bilinu 3.585 kr. til 4.168 kr. Allt þetta geri það að verkum að mjög erfitt sé að verjast kröfugerðinni enda sé hún óljós og órökstudd og jafnvel vanreifuð jafnvel svo að leitt geti til frávísunar máls þó að ekki sé á þessu stigi gerð krafa um frávísun. Stefnandi miði t.d. alla útreikninga við sama tímagjald burt séð frá því á hvaða ári þeir voru unnir, sem fæst ekki staðist enda kemur fram á dskj. nr. 43 að laun hans voru mismunandi yfir þann tíma sem kröfugerðin snýr að.         Ýmsar fullyrðingar séu í stefnu eins og t.d. um hvað aðstoðarskólameistari eigi að hafa sagt og eða samþykkt en þeim fullyrðingum er alfarið hafnað.         Í kafla V. í stefnu er fjallað um dómkröfur. Varðandi aðalkröfu þá segir að aðalkrafa stefnanda miðist við launauppgjör 1. júlí 2015, þegar hann lauk störfum við MK. Vísi hann til þess að þá hafi taxti yfirvinnu verið 6.904 kr. Ekki sé unnt að skilja kröfuna öðruvísi en svo að stefnandi telji sig eiga að fá greitt fyrir þá vinnu sem hann telur vangreidda á árunum 2010 til 2013 eftir þeim launataxta sem gilti 2015. Stefnandi gerir ekki einu sinni tilraun til að útskýra eða sýna fram á hvers vegna hann ætti að fá greitt samkvæmt launataxta ársins 2015 fyrir vinnu sem lýkur tveimur árum fyrr. Engin rök séu til þess að fallast á slíka kröfu enda ef stefnandi heldur því fram að um sé að ræða vangreidd laun hlýtur sú krafa að taka mið af þeim launum sem honum bar þegar vinnan var unnin. Það komi beinlínis fram í stefnu á bls. 2, í kafla sem heitir Upphaf málsins, að mál þetta sé sprottið vegna vanefnda og vangreiðslu á launauppgjöri gagnvart stefnanda vegna starfa hans við Menntaskólann í Kópavogi á skólaárunum 2010 til 2013. Ekki sé unnt annað en að sýkna af aðalkröfu stefnanda vegna þess að viðmiðunin sé röng, a.m.k. sé algerlega vanreifað í stefnu hvers vegna miða ætti við launataxta 2015. Jafnvel beri að vísa kröfu frá vegna vanreifunar. Þá hefur verið gerð grein fyrir röksemdum stefnda um fyrningu á þeim hluta kröfunnar sem snýr að undirbúningi námsins. Hið sama gildi um allar kröfur um laun fram að þeim tíma að stefnandi rauf fyrningu með birtingu stefnu þann 28. september 2015. Hér verði einnig að hafa í huga tómlætissjónarmið. Stefnandi vann þau verk sem hann geri nú launakröfur um á árunum 2010-2013. Stefnandi hafi undirritað allar vinnuskýrslur og tekið við launagreiðslum án athugasemda eða fyrirvara. Það leiði til þess að hafi hann átt einhverjar kröfur séu þær niður fallnar fyrir tómælti hans.          Dráttarvaxtakröfu varðandi þennan lið er mótmælt enda hafi hún ekki legið fyrir í þessu formi fyrr en með þessari málshöfðun og því ekki hægt að fallast á dráttarvexti frá ágúst 2015. Hún sé ekki rökstudd með neinum hætti og upphafsdagur ekki rökstuddur.         Í töflu á bls. 4 í stefnu fái stefnandi út vangreiddar 629,6 kest. og krefst þess að fá þær greiddar sem yfirvinnu með vísan til gr. 2.3.1 í kjarasamningi. Þeirri tilvísun er alfarið hafnað enda hafi stefnandi fengið að fullu greitt fyrir sína vinnu.         Í varakröfu falli stefnandi frá því að miða við laun fyrir árið 2015. Hann miði nú við yfirvinnutaxta þegar vinna var innt af hendi auk lögbundins orlofs og bæti síðan við yfirvinnutaxtann 30% álagi sem engin heimild sé fyrir. Þannig verði ekki frekar hægt að fallast á kröfugerð í varakröfu þar sem sjá má hver yfirvinnutaxtinn er samkvæmt launaseðlum sem stefnandi hefur sjálfur lagt fram. Stefnandi fái því yfirvinnu greidda samkvæmt gildandi yfirvinnutaxta. Í stefnu sé ekki gerð tilraun til að útskýra hvers vegna stefnandi eigi að fá frekari yfirvinnu greidda, hvað þá með álagi eins og hann haldi fram. Þá sé vaxtakröfu hafnað þar sem stefnandi vísi til ákvæðis vaxtalaga nr. 38/200 sem fjalli um vexti af skaðabótakröfum. Hér sé ekki um skaðabótakröfu að ræða og/eða í stefnu eða öðrum gögnum málsins að á því sé byggt.        Dráttarvaxtakröfu er mótmælt með sömu rökum og áður, að krafan hafi ekki legið fyrir fyrr en með þessari málshöfðun auk þess sem hún sé að hluta til fyrnd og stefnandi viðurkenni það í raun með því að reikna ekki vexti samkv. 8. gr. laga fyrr en frá 1. október 2011. Að öðru leyti vísar stefndi til þegar fram kominna málsástæðna sinna, ekki síst fyrningar og tómlætis varðandi þennan kröfulið.         Varðandi þrautavarakröfu stefnanda þá hafnar stefndi þessum kröfulið enda um launakröfu að ræða og ef stefnandi á ekki rétt á kröfu í samræmi við aðal- og varkröfu geti dómurinn ekki fundið út fjárhæð að álitum sem stefnandi ætti ef til vill að fá. Þá séu framlögð gögn stefnanda þannig að ekki sé unnt að dæma um kröfugerð hans að álitum. Mótmælt er dráttarvaxtakröfu enda liggi dómkrafan sjálf ekki fyrir.        Stefndi telur að allt framangreint leiði til þess að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda.          Ef ekki verður fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu er þess krafist að kröfugerð stefnanda verði hafnað.          Til stuðnings kröfu stefnda um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála. Einkum er vísað til 129. og 130. gr. þeirra laga. V. Niðurstaða          Ágreiningur aðila um launagreiðslur hefur áður komið fyrir dómstóla. Stefnandi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu sem þingfest var 29. september 2015 á hendur stefnda vegna vangreiddra launa. Höfuðstóll aðalkröfu var þá 4.968.118 kr. en er í máli þessu 5.723.667 kr. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 11. maí 2016 var fyrra málinu, nr. E-3183/2015, vísað sjálfkrafa frá dómi með vísan til e- og f-liða 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Úrskurði þessum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar og hefur hann því sönnunargildi um þau málsatvik sem greinir í niðurstöðum hans þar til hið gagnstæða er sannað, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.         Skýrslutökur í fyrra máli fóru fram þann 13. apríl 2016 og endurrit skýrslutaka var lagt fram í máli þessu í þinghaldi þann 6. febrúar 2017 sem dómskjal nr. 45 og þá bókað að samkomulag væri milli aðila um að þessar skýrslutökur yrðu lagðar fram til hliðsjónar í þessu máli.         Í málinu er um það deilt hvort stefnandi hafi fengið það sem honum bar fyrir vinnu sína. Um var að ræða tvenns konar vinnu, annars vegar vinnu við uppsetningu meistaranáms sem átt hafi að lúta almennum ákvæðum kjarasamnings Kennarasambands Íslands og ríkisins. Tímaskýrslum stefnanda á dómskjali nr. 17 er mótmælt af stefnda þar sem það sé útbúið einhliða af stefnanda. Krafa stefnanda vegna þessa liðar, B-liðar hönnunar meistaranáms, er að fjárhæð 484.744 kr. vegna 104 ógreiddra kennslustunda á 6.904 kr. Varðandi þennan lið kröfugerðar stefnanda þá var umrædd vinna unnin á árinu 2010 og stefna í fyrra dómsmáli var birt þann 28. september 2015. Þá voru þannig liðin rúmlega fimm ár frá því að gerð áfangalýsingar lauk.          Í aðalkröfu miðar stefnandi við launauppgjör 1. júlí 2015, þegar hann lauk störfum hjá Menntaskólanum í Kópavogi. Þá hafi taxti yfirvinnu verið 6.904 kr. og höfuðstóll A-liðar aðalkröfu 5.723.667 kr., hann hafi því ekki fengið greiddar 629,6 kennslustundir. Í fyrra máli var aftur á móti byggt á því að ógreiddar hafi verið 615,6 kennslustundir. Stefndi byggir á því að algjörlega sé vanreifað hvers vegna miða eigi launagreiðslur til stefnanda við launataxta við launauppgjör 1. júlí 2015 og stefnandi geri enga tilraun til að sýna fram á hvers vegna hann ætti að fá greitt samkvæmt þessu launataxta fyrir vinnu sem hafi lokið tveimur árum fyrr.         Það er mat dómsins að stefnandi hafi ekki fært nein rök eða forsendur fyrir því að miðað verði við yfirvinnutaxta sem fram kemur á launaseðli árisins 2015 fyrir vinnu sem innt var af hendi á árunum 2010 til 2013. Grundvöllur aðalkröfu stefnanda er því að þessu leyti svo óljós og vanreifaður að dómur verður ekki á lagður, sbr. d- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Óhjákvæmilegt er því að vísa þessari kröfu sjálfkrafa frá dómi.         Stefnandi hefur krafist þess til vara að stefnda verði gert að greiða lægri fjárhæð eða 4.570.487 kr. auk vaxta og dráttarvaxta, eins og greinir í endanlegum dómkröfum stefnanda, og til þrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða lægri fjárhæð að álitum að mati réttarins auk dráttarvaxta frá 1.8.2015. Í varakröfu miðar stefnandi við yfirvinnutaxta þegar vinna var innt af hendi auk lögbundins orlofs. Þá uppreiknar stefnandi yfirvinnutaxtann með 30% álagi, en fyrir því telur stefndi enga heimild.         Málatilbúnaður stefnanda um þessar kröfur hvílir sem fyrr á því að hann hafi ekki fengið þær greiðslur sem honum beri samkvæmt ákvæðum kjarasamninga fyrir kennslu í meistaranámi veturinn 2010-2011, veturinn 2011 til 2012 og veturinn 2012 til 2013, svo og vegna undirbúnings og skipulagningar námsins á tímabilinu apríl til júlí 2010. Stefnandi hefur sönnunarbyrði fyrir því að svo sé.         Stefndi byggir hins vegar á því að stefnandi hafi fengið að fullu greitt fyrir vinnu sína eins og fram kemur á viðhengi með tölvupósti Helga Kristjánssonar aðstoðarskólameistara með tölvuskeyti þann 25. júní 2013. Þar kemur fram að stefnandi hafi fengið greitt fyrir kennslu 37 tímum of mikið. Stefndi Helgi Kristjánsson staðfesti þetta í vitnaskýrslu sinni við aðalmeðferð og bar á sama veg í skýrslu sinni í fyrra máli, sem liggur fyrir í málinu og hann staðfesti jafnframt. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi fengið greitt skv. kjarasamningi Kennarasambands Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, sbr. bókun um greiðslu fyrir kennslu í öldungadeildum, meistaraskóla og sambærilegu námi frá 28. nóvember 1985, sbr. lið 2. Fram kemur í gögnum málsins að greitt hafi verið fyrir umrædda kennslu út frá mati á umfangi áfanga og meðal annars miðað við fjölda kennslustunda og hafi námið verið miðað við svonefndar f-einingar.         Þá var gengið frá vinnuskýrslum og samkomulagi um vinnuframlag  fyrir hverja önn við stefnanda og fyrir liggja vinnuskýrslur undirritaðar af fulltrúa stefnda og stefnanda án nokkurs fyrirvara og athugasemdalaust. Af hálfu stefnda er á því byggt að launauppgjör hafi verið byggt á tillögum stefnanda sem hafi verið fagstjóri viðskiptagreina og kennslan gerð upp samkvæmt þeim. Margrét Friðriksdóttir, skólameistari stefnda, og Helgi Kristjánsson aðstoðarskólameistari staðfestu vitnaskýrslur sínar frá 13. apríl 2016 í símaskýrslum við aðalmeðferð, en þau hafa bæði borið að stefnandi hafi ritað undir allar vinnuskýrslur án athugasemda eða fyrirvara. Margrét Friðriksdóttir neitaði því að stefnandi hefði átt samtal við hana á árinu 2012 og óskað eftir leiðréttingu á launum sínum. Margrét bar að það hafi verið áfangastjóri verknáms og fagstjóri, sem fyrsta árið hafi verið stefnandi, sem hafi ákveðið hvað þyrftu að vera margir tímar í þessum áföngum. Helgi Kristjánsson aðstoðarskólameistari bar á sama veg.          Í máli þessu hefur stefnandi ekkert fært fram sem hrekur þá niðurstöðu í úrskurði í máli nr. E-3183/2015 frá 11. maí 2016 að ekki séu efni til að fallast á fullyrðingu stefnanda um að mistök hafi átt sér stað við launauppgjör hans og enn fremur að ekki séu forsendur til að draga þá ályktun að stefndi hafi á einhverjum tíma samþykkt þann fjölda vinnustunda sem kröfugerð stefnanda lýtur að.         Stefnandi staðfesti við aðilaskýrslu við aðalmeðferð undirritun sínar á vinnuskýrslur á dómskjölum nr. 21-23, sem hann ritaði undir án fyrirvara og athugasemda. Ekkert liggur fyrir í málinu um að stefnandi hafi gert athugasemdir við útreikninga á þeim tíma sem vinnuskýrslurnar tóku til. Fyrir liggur í gögnum málsins að stefnandi hafi einu sinni gert athugasemd við greiðslur og þá hafi verið bætt við 40 tímum aukalega að hans kröfu. Fyrir liggur að launagreiðslur byggðu á kennslustundafjölda sem fagstjóri ákveður sem var stefnandi er námið hófst. Á dómskjali nr. 41, sem er tölvuskeyti stefnanda þann 17. maí 2011, kemur fram að stefnandi er að senda Helga aðstoðarskólameistara og kennurum kennsluskiptingu vegna námsins og hafði hann því stjórn á þessum málum. Stefnandi hafði sinnt kennslu í tugi ára og hafði mikla þekkingu á kjörum kennara. Hann hafði komið að skipulagningu námsins og ákvörðun um kennslustundafjölda og var einn af reyndustu kennurum skólans. Það tímabil sem stefnandi krefst vangoldinna launa vegna kennslu fyrir er frá haustinu 2010 til vorsins 2013.         Stefndi byggir á því að þar sem um var að ræða tilraunanám sem ekki er reiknað til eininga heldur svokallaðra f-eininga, hafi ekki verið hægt að gera upp kennsluna með hefðbundnum hætti. Stefndi hafi fengið tillögu stefnanda um uppgjör og fallist á það  og hafi stefnandi fengið greitt skv. kjarasamningi, sbr. bókun um greiðslu fyrir kennslu í öldungadeildum, meistaraskóla og sambærilegu námi frá 28. nóvember 1985. Í málinu liggur fyrir, skv. yfirlitsblaði, dskj. nr. 41, fyrir hve margar kennslustundir á önn stefnandi fékk greitt og hvaða daga kennsla fór fram. Einnig liggja fyrir málaskjöl sem sýna hvaða upplýsingar nemendur fengu varðandi mætingar í viðkomandi námi. Meistaranám við stefnda var þróunarverkefni sem samþykkt var ítrekað ár fyrir ár með bréfi frá mennta- og menningarmálaráðuneyti þar sem umrætt kennslufyrirkomulag var ljóst. Um þetta var stefnanda fullkunnugt og samþykkti hann bæði vinnuskýrslur og launagreiðslur um árabil.         Kröfugerð stefnanda hefur tekið breytingum frá því í upphafi samskipta milli aðila varðandi málið. Kröfugerð skv. kröfubréfi, dags. 23.6.2015 var 5.630.902 kr. vegna 815,6 kennslustunda, Í fyrra dómsmáli var hún 4.968.118 kr. vegna 615,6 kennslustunda, en í þessu máli er hún 5.723.667 kr. vegna 629,6 kennslustunda. Mat stefnanda sjálfs hefur þannig verið mjög á reiki varðandi það hvað hann telur vangreitt og þannig hefur rökstuðningi verið verulega áfátt. Stefnandi byggir á því að hann hafi átt rétt á sérstöku kvöldálagi fyrir vinnu utan dagvinnutíma, en honum hefur hvorki tekist að sýna fram á að hönnun námsins og kennsla hafi ekki farið fram innan dagvinnutíma eða innan dagslegrar vinnuskyldu sinnar. Þá verður ekki litið fram hjá því að gengið var frá vinnuskýrslum við stefnanda og samkomulagi um vinnuframlag við hverja önn og það samkvæmt gögnum málsins byggðum á tillögum stefnanda, sem stefndi gerði ekki athugasemdir við og féllst á, enda taldi hann þær sanngjarnar. Stefnandi ritaði síðan án athugasemda undir allar vinnuskýrslur og launaseðla. Telja verður að kröfugerð stefnanda byggi ekki á fullnægjandi gögnum og er töflum stefnanda á dómskjölum nr. 19 og 20 mótmælt af stefnda þar sem þær séu alfarið búnar til af stefnanda og því ekki sönnun fyrir launakröfum.         Samkvæmt launaseðlum sem liggja fyrir í málinu verður ráðið að stefnandi fái yfirvinnu greidda samkvæmt gildandi yfirvinnutaxta. Stefnanda hefur hvorki tekist að sýna fram á að hann hafi átt að fá frekari yfirvinnu greidda né hefur hann fært fullnægjandi rök fyrir því að hann eigi rétt á álagi.         Samkvæmt því sem rakið hefur verið ber að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda.         Varðandi þrautavarakröfu stefnanda um lægri fjárhæð að álitum verður að hafna því þar sem stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann eigi kröfu um frekari launagreiðslur í samræmi við aðal- og varakröfu. Þegar af þeirri ástæðu getur dómurinn ekki dæmt stefnanda fjárhæð að álitum. Með vísan til þess sem rakið hefur verið ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.          Að fenginni þessari niðurstöðu ber með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnaðar eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.          Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Aðilar eru sammála dómara um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins.          Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kemur upp dóminn. Dómsorð.         Aðalkröfu stefnanda, Péturs Björns Péturssonar, er vísað frá dómi.         Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af vara- og þrautavarakröfu stefnanda.         Stefnandi greiði stefnda 400.000 kr. í málskostnað.
Mál nr. 597/2017
Fjármálafyrirtæki Lánssamningur Neytendalán Gengistrygging Aðfararheimild Tryggingarbréf
Í hf. krafði R um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar samkvæmt lánssamningi útgefnum af R til forvera Í hf. á árinu 2008. Þá krafðist Í hf. þess jafnframt að honum yrði dæmdur réttur til að gera fjárnám í tiltekinni fasteign S ehf. á grundvelli tryggingarbréfs sem tryggt var með veði í fasteigninni. R byggði sýknukröfu sína á því að lánið samkvæmt lánssamningnum hefði verið tekið til uppgreiðslu á eldra láni, samkvæmt samningi hans við SV frá 2005 og bæri að líta á síðara lánið sem skilmálabreytingu hins eldra og því væru þau einn gerningur sem fæli í sér lán í íslenskum krónum sem bundið væri við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við þágildandi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Talið var að lánssamningurinn frá 2005 hefði verið í erlendum myntum og að síðari lánssamningurinn yrði ekki skilinn öðruvísi en svo að hann mælti fyrir um lán til R í íslenskum krónum til að greiða upp lán í erlendum gjaldmiðlum sem væri lögmætt. Þá var hvorki fallist á með R að lækka bæri kröfu Í hf. á grundvelli bráðabirgðaákvæðis X í lögum nr. 38/2001 né að vísa bæri lánssamningunum til hliðar á grundvelli tiltekinna ógildingarreglna laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Voru kröfur Í hf. því teknar til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson og Gunnar Aðalsteinsson dómstjóri. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 21. september 2017. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnda en til vara að kröfur hans verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.   Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað. Málskostnaður í héraði fellur niður. Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað. Málskostnaður í héraði fellur niður. Áfrýjendur, Róbert Þ. Bender og Skandinavíska háskólastofnunin ehf., greiði óskipt stefnda, Íslandsbanka hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2017. Mál þetta, sem var dómtekið 12. maí sl. er höfðað 21. nóvember 2016. Stefnandi er Íslandsbanki, Kirkjusandi 2, Reykjavík en stefndu eru, Róbert Þ. Bender, Kleppsvegi 6, Reykjavík og Skandinavíska háskólastofnunin ehf., Hafnarstræti 20, Reykjavík. Stefnandi krefst þess að stefnda Róberti verði gert að greiða honum 16.787.086 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 21. ágúst 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum 300.000 krónum sem greiðst hafi inn á kröfuna 21. nóvember 2010. Þá krefst stefnandi þess að honum verði dæmdur réttur til þess að gera fjárnám í fasteign stefnda Skandinavísku háskólastofnunarinnar ehf., að Kleppsvegi 6, Reykjavík, fnr. 201-6052, á grundvelli veðtryggingabréfs að höfuðstól, 11.000.000 krónur, auk verðbóta í samræmi við breytingu neysluverðsvísitölu, miðað við grunnvísitöluna 248, sem gefið var út 12. desember 2005, allsherjarveð, tryggt með 1. veðrétti í eigninni. Stefnandi krefst og málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu. Stefndu krefjast sýknu og stefndi Róbert krefst til vara lækkunar dómkrafna. Þá krefjast stefndu málskostnaðar.   I Deila aðila á rót að rekja til tveggja lánssamninga sem stefndi Róbert stofnaði til. Hinn fyrri var við Sparisjóð vélstjóra sem síðar rann inn í Byr sparisjóð, en sá síðarnefndi var lánveitandi stefnda Róberts samkvæmt síðari samningnum, eins og nánar er lýst hér að neðan. Telur stefnandi að með láni því sem þar hafi verið veitt hafi eldri lánssamningur verið greiddur upp, en stefndu telja að í hinum nýja samningi hafi einungis falist skilmálabreyting. Í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 22. apríl 2010, tók BYR hf. við öllum eignum Byrs sparisjóðs og 29. nóvember 2011 yfirtók stefnandi allar skyldur og réttindi BYRS hf. og telst hann því réttur aðili að máli þessu. Málavextir eru þeir helstir, að hinn 27. desember 2005 gerðu stefndi, Róbert Þ. Bender, sem lántaki og Sparisjóður vélstjóra, sem lánveitandi, með sér lánssamning sem bar heitið „Lánssamningur (lán í erlendum gjaldmiðlum)“. Samkvæmt lánssamningnum skyldi stefndi lána stefnanda Róberti Þ. Bender 103.300 svissneska franka (CHF) og 9.193.000 japönsk jen (JPY). Lánið skyldi bera sex mánaða LIBOR/EURIBOR-vexti af hverjum gjaldmiðli, að viðbættu 2,25% vaxtaálagi. Í samningnum greinir að stefndi Róbert skuli endurgreiða skuldina að fullu með einni greiðslu, 22. desember 2008, ásamt áföllnum vöxtum. Samkvæmt viðskiptakvittun BYRS hf. voru, 29. desember 2005, greiddar 9.841.831 króna inn á reikning stefnda. il tryggingar greiðslu skuldarinnar og jafnframt öllum skuldbindingum sínum við stefnanda, gaf stefndi Róbert út tryggingarbréf, 12. desember 2005, að fjárhæð 11.000.000 krónur, sem tryggt var með 1. veðrétti í fasteigninni Kleppsvegi 6 í Reykjavík, með fastanúmerið 201-6052. Fjárhæðin skyldi hækka í samræmi við neysluverðsvísitölu.      Að sögn stefndu var tilgangur lántökunnar sá, að greiða systkinum stefnda Róberts út eignarhlut þeirra í fasteign að Kleppsvegi 6 í Reykjavík. Stefndi Skandinavíska háskólastofnunin ehf., sem er félag að fullu í eigu stefnda Róberts, hafi síðan orðið þinglýstur eigandi umræddrar fasteignar. Stefndi Róbert kveðst alla tíð eftir gerð lánssamningsins hafa búið í fasteigninni þrátt fyrir að hafa lengst af átt lögheimili í Noregi. Hinn 21. nóvember 2008 gerðu stefnandi Róbert og Byr sparisjóður með sér lánssamning um lán að jafnvirði 104.188,95 svissneskra franka og 9.242.508 japanskra jena. Í fyrirsögn samningsins segir: Lánssamningur (Lán í íslenskum krónum). Í 1. gr. samningsins kemur fram að tilgangur lánveitingarinnar sé að myntbreyta lánssamningi í erlendum myntum nr. 175ERLB053630001/2, sem sé að eftirstöðvum 104.188,95 svissneskir frankar og 9.242.508 japönsk jen, 21. nóvember 2008, yfir í íslenskar krónur. Samkvæmt lánssamningnum skyldi lántaki endurgreiða lánið að fullu ásamt áföllnum vöxtum á einu ári með einni greiðslu, 21. nóvember 2009. Vextir lánsins reiknuðust frá 21. nóvember 2008 og skyldu greiðast eftir á með þremur vaxtagjalddögum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 21. febrúar 2009 og síðan á sama gjalddaga og höfuðstóll lánsins. Vextir af láninu voru íslenskir kjörvextir skuldabréfalána. Stefnandi kveður að með þessu láni hafi hið fyrra lán verið greitt upp, enda hafi engar upplýsingar um hið eldra lán fylgt þegar Byr hf. hafi tekið við skuldaskjölum vegna síðara lánsins. Stefndu byggja hins vegar á að nýi lánssamningurinn hafi verið gerður á grunni þess gamla og hafi í raun verið viðauki eða nokkurs konar skilmálabreyting án þess að lánað væri fé til stefnanda. Ekki er um það deilt að vextir voru greiddir í samræmi við ákvæði lánssamningsins til og með 21. maí 2009. Á gjalddaga, 21. ágúst 2009, varð greiðslufall og er krafa stefnanda við það miðuð að lánið hafi þá fallið í gjalddaga í samræmi við ákvæði samningsins. Ekki er ágreiningur um að sé miðað við forsendur stefnda hafi eftirstöðvar lánsins þá numið 16.787.086 krónum, sem er stefnufjárhæð málsins. Hinn 15. janúar 2010 sendi stefnandi stefnda viðvörun um innheimtuaðgerðir og síðan innheimtubréf, 8. febrúar 2010. Stefnandi kveður að stefndi Róbert hafi í kjölfarið greitt 300.000 krónur inn á lánið, en stefndi Róbert fullyrðir að sú greiðsla hafi ekki verið innborgun á lánið heldur hafi hann verið að greiða lögmannskostnað vegna samningaumleitana við stefnanda. Stefnandi höfðaði mál á hendur stefnda til innheimtu skuldarinnar 8. maí 2014. Því máli lauk með dómi Hæstaréttar 14. apríl 2016 í máli réttarins nr. 649/2015 með því að málinu var vísað frá héraðsdómi vegna ágalla á málatilbúnaði stefnanda. Stefnandi höfðaði mál þetta í kjölfarið til innheimtu sömu fjárkröfu. II Stefnandi kveður skuld þessa vera samkvæmt lánssamningi 21. nóvember 2008 milli stefnda Róberts Þ. Bender og Byrs sparisjóðs. Lánsfjárhæðin hafi verið tilgreind að fjárhæð 104.188,95 svissneskir frankar og 9.242.508 japönsk jen og skyldi greiðast út í íslenskum krónum með einni greiðslu þann sama dag. Lánið hafi hvorki verið verðtryggt né gengistryggt. Af láninu hafi stefndi átt að greiða kjörvexti skuldabréfalána eins og þeir væru ákveðnir af lánveitanda á hverjum tíma, við útgáfu lánssamningsins 21,75% að viðbættu 2,5% vaxtaálagi. Vextir lánsins hafi átt að greiðast á þremur vaxtagjalddögum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 21. febrúar 2009 og síðan á sama gjalddaga og höfuðstóll lánsins. Vextir hafi verið greiddir af láninu í samræmi við ákvæði samningsins til og með 21. maí 2009. Hafi stefnandi greitt 9.588.296 krónur inn á höfuðstól skuldarinnar 25. maí 2009 um leið og hann hafi greitt áfallna vexti þann dag. Á næsta gjalddaga lánsins, 21. ágúst 2009, hafi orðið greiðslufall og við það hafi lánið allt fallið í gjalddaga í samræmi við ákvæði samningsins. Þá hafi eftirstöðvar höfuðstóls numið 16.249.936 krónum og samningsvextir frá 25. maí til og með 21. ágúst 2009 numið 537.150 krónum. Samtals hafi skuldin því numið 16.787.086 krónum 21. ágúst 2009 sem sé stefnufjárhæð málsins. Krafist er dráttarvaxta frá þeim degi að telja. Í grein 1.2 í lánssamningi komi fram að tilgangur lánveitingarinnar hafi verið að myntbreyta lánssamningi í erlendum myntum sem stefndi Róbert hafi gert við Sparisjóð vélstjóra 27. maí 2005. Höfuðstóll þess lánssamnings hafi numið 103.300 svissneskum frönkum og 9.193.000 japönskum jenum. Það lán hafi stefndi átt að greiða upp í einu lagi 22. desember 2008. Þegar til hafi komið hafi stefndi Róbert greitt það lán upp með andvirði þess láns er mál þetta varði. Fyrrgreint lán sé að mati stefnanda löglegt erlent lán enda samræmist ákvæði þess að öllu leyti þeim lánum sem staðfest hafi verið af Hæstarétti, sbr. hrd. nr. 542/2011, 50/2012 og 57/2014 svo dæmi séu tekin. Helstu einkenni þessara lána séu að heiti lánssamninganna vísi til þess að um erlent lán sé að ræða, tilgreining lánsfjárhæðar sé í erlendum myntum og vextir af skuldinni miðist við að um lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða. Stefndi hafi heldur engum andmælum hreyft við lögmæti ákvæða bréfsins og hafi greitt það upp án athugasemda. Það hafi ekki verið fyrr en en í greinargerð hans í fyrra máli vegna þess samnings sem þetta mál varði, sem lögð hafi verið fram í júní 2014, sem stefndi hafi fyrst byggt á því áð ákvæði eldri samningsins hafi í einhverjum atriðum verið ógild. Skuldin samkvæmt fyrri lánssamningnum hafi verið greidd að fullu til Byrs sparisjóðs og hafi ekki verið í bókum Byrs hf. þegar hann hafi sameinast stefnanda, en þá hafi stefnandi eignast samning þann sem krafa hans í málinu byggist á. Það hafi verið í nóvember 2011 eða þremur árum eftir uppgreiðsluna á eldra láninu. Bráðabirgðaákvæði X í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eigi ekki við um lánssamninginn frá 2005. Því hafi ekki orðið að endurreikna hann vegna þeirra ákvæða enda samningurinn löngu uppgreiddur þegar ákvæðið hafi tekið gildi, 22. desember 2010, með lögum nr. 151/2010. Ákvæðið eigi samkvæmt efni sínu eingöngu við um húsnæðislán en þau séu skilgreind með vísan til B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Leiði það til þess að þetta ákvæði nái eingöngu til lána sem tekin séu til kaupa á húsnæði til eigin nota. Það eigi ekki við í því tilviki sem hér um ræði. Stefnandi krefjist þess að honum verði dæmdur réttur til þess að gera fjárnám í fasteign stefnda, Skandinavísku háskólastofnunarinnar ehf. að Kleppsvegi 6, Reykjavík, fastanúmer 201-6052, til tryggingar framangreindri skuld stefnda Róberts á grundvelli tryggingabréfs þess sem að framan hafi verið lýst. Krafan sé sett fram til þess að stefnandi geti fullnustað kröfu sína sem tryggð sé með veði í fasteigninni samkvæmt bréfinu. Bréfið, sem gefið hafi verið út 12. desember 2005 tryggi efndir allra skuldbindinga útgefandans, stefnda Róberts Þ. Bender, gagnvart lánveitandanum. Það hafi upphaflega verið að höfuðstól 11.000.000 krónur en hann hækki í samræmi við breytingar á neysluverðsvísitölu miðað við grunnvísitöluna 248. Um lagarök kveðst stefnandi vísa til almennra reglna kröfuréttar um skyldu til greiðslu fjárskuldbindinga. Vaxtakrafa sé studd við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um rétt stefnanda til að gera fjárnám sé studd við ákvæði tryggingabréfsins en einnig vísi stefnandi til ákvæða laga nr. 75/1997 um samningsveð. Um réttarfar sé vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfur um málskostnað séu studdar við 1. mgr. 130. gr. sömu laga. III Stefndi, Róbert Þ. Bender, kveðst byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því, að ekki sé um um tvo aðskilda lánssamninga að ræða í máli þessu, heldur hafi síðari samningurinn einungis falið í sér myntbreytingu á þeim fyrri. Hafi myntbreytingin komið til að frumkvæði stefnanda og hafi hún gert það að verkum að endanleg greiðsluskuldbinding lánsins hafi orðið í íslenskum krónum, en fjárhæð hennar í krónum innhaldi hins vegar alla þá gengishækkun sem lánið hafi tekið fyrir þá myntbreytingu. Þannig sé í raun um að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum sem hafi verið bundin gengi erlendra gjaldmiðla og hafi þannig brotið í bága við 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Það sem styðji framangreint sé að upphaflega hafi verið sótt um lánið í íslenskum krónum, það hafi verið afgreitt í íslenskum krónum og endurgreitt í íslenskum krónum, en myntbreyting með samningi 2008 staðfesti það. Í upphaflegum samningi frá 2005 segi um erlendar myntir í lið 1 í 1. mgr.: „Lántaki lofar að taka að láni og lánveitandi að lána umsamda lánsfjárhæð“. Tilvitnað orðalag virðist aðeins hafa verið til málamynda þar sem stefnandi hafi ekki afhent eða lánað erlendar fjárhæðir heldur íslenska mynt. Framangreindu til áréttingar, komi fram í lið 2 í fyrri samningnum: „Dragist greiðsla höfuðstóls eða vaxta fram yfir gjalddaga er lánveitanda heimilt að láta gengistryggingu haldast á gjaldfallinni fjárhæð til greiðsludags.“. Sambærilegt ákvæði sé einnig í 1. mgr. 16. gr. samningsins. Þótt þessi ákvæði þyki ekki samrýmast efni fyrri lánssamnings málsaðila að öðru leyti verði ekki framhjá því litið að í þeim sé kveðið á um að gengistrygging skuldi haldast við vanefndir á samningnum, en engin þörf hafi verið á því að kveða á um slíkt ef lánið hafi í raun og veru verið í erlendum gjaldmiðli eins og stefnandi haldi fram. Hér hafi því verið um misræmi að ræða sem valdi því að ekki sé afdráttarlaust hvort samningurinn kveði á um gilt lán í erlendum gjaldmiðli eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum. Jafnframt komi fram í 6. mgr. 2. liðar fyrri samningsins að: „Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur af lánshluta í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi lánveitanda á gjalddaga.“ Allt framangreint bendi til að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Síðari samningurinn frá 2008 hafi því ekki verið nýtt lán heldur sama lánið, þar sem endanleg greiðsluskuldbinding hafi verið í krónum. Með því að myntbreyta láninu í krónur hafi gengistrygging þess raunverulega verið fullkomnuð þ.e.a.s. að sá höfuðstóll í krónum hafi innihaldið öll áhrif af hinu ólögmæta gengisviðmiði. Ákvæði samningsins um þetta séu þó sérstök að því leyti að fram komi í meginmáli hans að aðilar geri „….með sér samning um lán að jafnvirði CHF 104.188,95….. og JPY 9.242.508 … sem greitt skal út í eftirtöldum myntum og hlutföllum: ISK 100%“ Hafi því tilfærslan í íslenskar krónur verið alveg eins og í fyrri samningi aðila, þ.e. að samningurinn hafi verið í erlendum myntum en hafi greiðst út í íslenskum krónum. Í stefnu í fyrra máli aðila um sama samning segi: „Vegna óvissu um lögmæti ákvæða samnings er lúta að tengingu lánsfjárhæðarinnar við þróun gengis erlendra mynta, hefur krafan verið reiknuð út í íslenskum krónum allt frá stofndegi samningsins.“ Þegar þessir tveir samningar séu virtir saman heildstætt, sem sé rétt að gera hér, sé um einn og sama samninginn að ræða í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu, en dómaframkvæmd Hæstaréttar um svipuð mál þar sem myntbreyting eigi sér stað í íslenskar krónur t.d. með skilmálabreytingu hafi hnigið að sömu niðurstöðu. Þar sem atriði þau er varði samninga aðila í máli þessu séu mjög sérstök, verði að líta framhjá tilgreiningu fjárhæða í erlendum myntum í upphaflega samningnum frá 2005 og leggja frekar áherslu á önnur atriði eins og að framan greini. Að sótt hafi verið um lánið í íslenskum krónum, það greitt út í íslenskum krónum og afborganir af því hafi verið greiddar í krónum. Þegar til hafi staðið að greiða lánið upp með erlendum gjaldmiðli hafi það ekki verið hægt fyrr en búið hafi verið að skipta þeim fjármunum yfir í krónur með myntbreytingu og síðast en ekki síst að samkvæmt texta samningsins hafi hann verið gengistryggður. Vísbendingar um þessa afstöðu megi einnig finna í því að lánsfjárhæðin hafi verið í sléttum milljónum íslenskra króna og sé augljóst að sú fjárhæð hafi einfaldlega verið umreiknuð yfir í þann fjölda mynta sem prentaðar hafi verið á lánssamninginn. Enn fremur að með myntbreytingu samkvæmt viðaukanum 2008 hafi hin gengisbundna skuldbinding í raun verið ákvörðuð og fastsett í íslenskum krónum og þar sem lánið hafi verið eingreiðslulán hafi endanleg skuldbinding, hvað varði endurgreiðslu lánsins, því verið í íslenskum krónum. Með seinni samningnum (viðaukanum) hafi í raun ekkert breyst og sé því verulega óljóst hvort líta beri á fyrri samninginn sem erlent lán eður ei. Þar sem efni samningsskilmála samninganna sé ekki ljóst, hvað þá þegar litið sé á þá sem einn samning, verði að líta til gagna um framkvæmd og efndir þeirra með hliðsjón af framangreindu og telja að í lánssamningi aðila hafi falist lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Telja verði að það standi lánveitanda nær, sem fjármálafyrirtæki, heldur en neytanda, að þurfa að bera áhættuna af því að óljóst sé í hvaða mynt samningurinn í raun og veru hafi verið, þegar litið sé heildstætt á samningana og tilurð þeirra. Hafni dómurinn framangreindum sjónarmiðum þá byggi stefndu á að lánssamningur aðila, bæði að efni til og í framkvæmd, hafi verið í andstöðu við lög nr. 121/1994 um neytendalán, sem gilt hafi á þeim tíma sem samningurinn var gerður. Tenging samningsins við erlendar myntir, jafnvel þótt lánið yrði talið hafa verið í þeim veitt, sé þess vegna ólögmæt. Af þeim sökum beri að miða skuldbindingu stefnda við íslenskar krónur með erlendu gengisviðmiði. Telja verði að frá því fasteignalán hafi fallið undir lög nr. 121/1994, með lögum nr. 179/2000, er tekið hafi gildi 11. janúar 2001, hafi stefnanda borið skylda til að fara eftir þeim ófrávíkjanlegu ákvæðum laganna um upplýsingaskyldu til neytenda sem komi fram í 5. gr. og töluliðum 1 til 9 í 1. mgr. 6. gr. laganna. Lögin hafi verið í gildi þegar fyrri lánssamningur aðila hafi verið gerður og hafi skilyrðislaust borið að fara eftir þeim. Ekki sé nokkrum vafa undirorpið að mati stefndu að lánssamningur stefnda Róberts við Sparisjóð vélstjóra 27. desember 2005 um fasteignalán hafi fallið undir þágildandi lög nr. 121/1994, sbr. lög nr. 179/2000, sbr. 4. gr. laganna. Af því leiði að stefnandi hafi borið sérstaka ábyrgð á að stefnda Róberti væru veittar, skriflega, skýrar og fullnægjandi upplýsingar við upphaf lántöku samkvæmt 5. gr. laganna. Vísi stefndu í þessu sambandi til ófrávíkjanlegra ákvæða 1. til 7. töluliða 1. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994. Telji stefndi að upplýsingaskylda þessi hafi verið vanrækt við gerð og framkvæmd lánssamningsins. Í lögum nr. 121/1994 sé ekki gert ráð fyrir öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum og ef um sé að ræða neytendalán sem sé „löglegt erlent lán“ þá sé ekki hægt að veita neinar af þeim upplýsingum sem lögin áskilji. Sé lánið því í lagalegu tómarúmi að þessu leyti og ólögmætt því það standist ekki fyrrnefnd lög um neytendalán að veitt séu „lögleg erlend neytendalán“. Til þess að lánið teldist lögmætt yrði að umreikna það yfir í íslenskar krónur frá töku þess fram til þess tíma þegar stefndi hafi sjálfur umbreytt því í íslenskar krónur. Í lögum nr. 121/1994 komi „gjaldmiðill“ aðeins fyrir á einum stað þar sem segi að heildarlántökukostnaður skuli reiknaður út í krónum, sbr. 4. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna, sem leiði til þess að miða skuli heildarlántökukostnað við íslenskar krónur. Í lánssamningnum hafi lánsfjárhæðin ekki verið tilgreind í krónum. Sama hafi átt við um vexti, heildarlántökukostnað, árlega hlutfallstölu kostnaðar eða annað sem máli kunni að skipta fyrir neytendalán, sbr. 1. til 6. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna. Þá hafi greiðsluáætlun samkvæmt 7. tl. sömu lagagreinar ekki legið fyrir en hún sé talinn hluti lánssamnings sem skylt sé að leggja fram af hálfu lánveitanda, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 672/2012. Skorti því mjög á að stefnda hafi verið veittar fullnægjandi upplýsingar fyrir og við lántökuna. Af því leiði að ef þessar mikilvægu upplýsingar séu ekki veittar geti lánssamningurinn ekki talist „löglegt gjaldeyrislán“ með þeim hætti sem hann hafi verið útbúinn af stefnanda. Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar teljist lán einkum vera í erlendri mynt, ef hvergi séu í lánsskjali tilgreindar fjárhæðir í krónum. Sú tilhögun við samningsgerð standist hins vegar ekki að mati stefnda gagnvart lögum nr. 121/1994, nema því aðeins að samtímis eða áður séu veittar fullnægjandi upplýsingar, sbr. framangreint. Með öðrum orðum, sé neytendalán í erlendum gjaldeyri að þá beri að umreikna og veita jafnframt upplýsingar um kostnað og fjárhæðir í krónum. Að öðrum kosti sé tenging lánsins við erlenda gjaldmiðla óheimil, sbr. 24. gr. laganna þar sem segi: „Eigi má með samningi víkja frá ákvæðum laga þessara né reglugerða, sem settar kunna að verða samkvæmt lögunum neytanda í óhag.“ Hvergi hafi verið að finna í framangreindum lögum heimild til að veita neytendum erlent lán án þess að lögin næðu yfir slíka lánafyrirgreiðslu, sbr. 1. og 2. gr. laganna, en þar séu taldir með tæmandi hætti þeir lánssamningar sem undanþegnir séu lögunum. Megi um þetta vísa til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 243/2015, um vanrækslu á upplýsingaskyldu. Sé neytendalán tilgreint í erlendum gjaldmiðli beri að umreikna og veita jafnframt upplýsingar um kostnað og fjárhæðir í krónum. Að öðrum kosti sé tenging lánsins við erlenda gjaldmiðla óheimil. Vanræksla stefnanda hafi jafnframt brotið gegn 11. gr. laga nr. 121/1994, sem kveði á um að árleg hlutfallstala kostnaðar skuli reiknuð út á þeim tíma sem lánssamningur sé gerður. Við slíkan útreikning skuli gengið út frá því að lánssamningur gildi umsaminn tíma og að lánveitandi og neytandi standi við skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum samningsins. Þar sem stefnandi hafi ekki fullnægt ákvæðum 1. til 7. töluliðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 5. gr. laganna, m.a. um það hver fjárhæð heildarlántölukostnaðarins væri við töku lánsins, hafi hann ekki getað fullnægt ákvæði 11. gr. sbr. 10. gr. laganna, en upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar sé helsta upplýsingaveita laganna til neytenda þar sem saman komi allur heildarkostnaðurinn af láninu reiknaður í prósentum talið, sbr. þó 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laganna, en þeim ákvæðum hafi heldur ekki verið fullnægt að þessu leyti. Af framangreindu leiði að ekki hafi verið heimilt samkvæmt lögum nr. 121/1994 að lána fé í erlendum gjaldmiðlum til neytenda, án tilskilinnar upplýsingagjafar. Lög nr. 121/1994 séu ennfremur ófrávíkjanleg og gangi framar ákvæðum lánssamningsins og meginmáli hans ef hann reynist andstæður þeim. Geti fyrri lánssamningurinn því ekki staðið óbreyttur að þessu leyti og sé í lagalegu tómarúmi eins og hann hafi verið útbúinn. Breyti engu þótt honum hafi verið myntbreytt í íslenskar krónur. Verði því að mati stefnda að virða að vettugi tengingu lánssamningsins við erlenda gjaldmiðla og líta svo á að í honum hafi falist íslenskt lán sem bundið hafi verið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Þá byggi stefndi á því að samkvæmt 13. gr. laga nr. 38/2001 gildi ákvæði VI. kafla um skuldbindingar sem varði sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofi að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið sé að greiðslurnar skuli verðtryggðar og séu ákvæði kaflans ófrávíkjanleg sbr. 2. gr. laganna. Utan kaflans falli þau tilvik þegar raunverulega sé lánuð erlend mynt. Stefndi telji það hafa meginþýðingu í þessu sambandi hvernig skuldbindingar og efndir aðila hafi verið í raun og veru en fyrir liggi að aðeins íslenskar krónur hafi verið afhentar sem lánsfé. Samkvæmt framangreindu sé auk 24. gr. laga nr. 121/1994 einnig vísað til 36. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. c. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, um að lánssamningnum skuli breyta að þessu leyti þannig, en skilyrði 36. gr. sé fullnægt þar sem það væri bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera samninginn fyrir sig, auk þess sem efni hans, staða samningsaðila og atvik sem síðar hafi komið til með hækkandi gengi hafi hallað á stefnda. Um svipuð tilvik, þ.e.a.s. þegar lánssamningi sé breytt að þessu leyti megi vísa til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 92/2010, 153/2010 og 471/2010, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að ógilt væri ákvæði um bindingu fjárhæðar láns í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla í samningum. Sú niðurstaða hafi verið reist á því að slík gengistrygging bryti í bága við ófrávíkjanlegar reglur laga nr. 38/2001. Þegar komist hafi verið að því að nefnd ákvæði í samningum um gengistryggingu væri ógilt og bein og órjúfanleg tengsl milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti hafi ekki verið unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan eða gefa þeim með skýringu annað inntak og hafi því verið óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta hafi orðið með öllu framhjá ákvæðum samnings um vaxtahæð. Eingöngu hafi verið miðað við að ákvæði í samningi aðila væri í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt framangreindu sé það mat stefnda að samningurinn sé í íslenskum krónum með gengistryggingu sem sé í andstöðu við síðastnefnd ákvæði laga nr. 38/2001 og sé því ólögmætur og því gildi endurútreikningur stefnanda um fullnaðarkvittanir. Öll sömu sjónarmið eigi við um 36. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. c í lögum nr. 7/1936 og eigi við um 24. gr. laga nr. 121/1994 að þessu leyti. Varakröfu sína um lækkun fjárkröfu stefnanda kveðst stefndi Róbert byggja á því að hann telji að endurútreikna eigi lánið í samræmi við bráðabirgðaákvæði X í lögum nr. 38/2001. Hafi stefnandi endurútreiknað öll fasteignalán burtséð frá því hvort þau hafi verið lögmæt í erlendri mynt eða ekki og hafi því gengið lengra en honum hafi verið skylt samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði. Komi fullyrðingar í þessa veru fram í fréttatilkynningum frá árinu 2011 sem stafi frá stefnanda. Engin skýring liggi fyrir á því í málinu af hverju lán stefnda hafi ekki verið endurútreiknað en stefndi hafi fullnægt efnisskilyrðum ákvæðis X, með því að hafa tekið erlent fasteignalán sem greitt hafi verið út í íslenskum krónum til íbúðarkaupa þótt félagið Skandinavíska háskólastofnunin ehf. hafi verið skráð fyrir íbúðinni, og hafi hann haft íbúðina að Kleppsvegi 6 til eigin nota vegna vinnu sinnar hér á landi frá árinu 2005 og raunar fyrr eða frá árinu 2000. Samkvæmt fyrrnefndri fréttatilkynningu virðist stefnandi ekki hafa haft til hliðsjónar skilyrði bráðabirgðaákvæðis X um afmörkun skuldbindinga sem hafi fallið undir ákvæðið vegna endurútreikninga erlendra gengislána sem greidd hafi verið út í íslenskum krónum. Samkvæmt B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt um afmörkun skuldbindinga fyrir endurútreikningi stefnanda sem vísað sé til í ákvæði X í lögum nr. 38/2001 komi fram að það að „hafa lögheimili“ á ákveðnum stað sé ekki skilyrði til að fá vaxtabætur heldur að íbúðarhúsnæði sé til „eigin nota“. Jafnframt sé í B-lið 68. gr. vísað til 1. gr. laganna þar sem farm komi hverjir séu skattskyldir aðilar og megi heimfæra stefnda undir 3. og 4. tölulið greinarinnar en orðið „lögheimili“ eða „skráð heimili“ sé þar ekki skilyrði um skattskyldu. Þessu til stuðnings sé vísað til yfirlýsingar formanns húsfélagsins að Kleppsvegi 6, Reykjavík þar sem komi fram staðfesting á að stefndi hafi verið nágranni hennar í fasteigninni frá 2005. Jafnframt hafi verið lögð fram yfirlýsing frá Landspítalanum þar sem komi fram staðfesting á því að stefndi hafi starfað samfellt sem verktaki fyrir spítalann frá 2000 til 2015. Að endingu hafi stefndi lagt fram skattframtal ársins 2006. Ástæða þess að stefndi hafi ekki skipt um lögheimili á sínum tíma hafi verið sú að hann hafi verið með lífeyrisskuldbindingar í Noregi og hafi sinnt þar öðrum áhugamálum sínum. Stefndi Róbert hafi því starfað og búið á Íslandi og hafi talið þar fram til skatts eins og sjá megi af skattframtali 2006 vegna skatta ársins 2005. Eins og sjáist af meðfylgjandi skattframtali frá Noregi vegna sama árs hafi stefndi engar tekjur haft þar eða hafi hann greitt þar skatta. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 hafi ríkisskattstjóri úrskurðarvald um það hverjir skuli teljast heimilisfastir á Íslandi og skuli við þá ákvörðun miða við reglur laga um lögheimili, eftir því sem við eigi. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili  teljist lögheimili manns sá staður þar sem hann hafi fasta búsetu. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar teljist maður hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hafi bækistöð sína, dveljist jafnan í tómstundum sínum, hafi heimilismuni sína og svefnstaður hans sé. Í frumvarpi að lögum um lögheimili segir um 2. mgr. 1. gr. að gert sé ráð fyrir að upp verði tekin upp svokölluð svefnstaðarregla en í því felist að maður teljist hafa fasta búsetu þar sem svefnstaður hans sé þegar hann sé ekki fjarverandi um stundarsakir. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 beri þeir einstaklingar sem heimilisfastir séu hér á landi ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Telji stefndi Róbert sig fullnægja þessu skilyrði. Ljóst sé einnig að stefndi Róbert hafi búið lengur en 183 daga hér á landi á hverju ári frá árinu 2000 fram til dagsins í dag. Verði því að líta svo á að stefndi Róbert teljist samkvæmt framlögðum gögnum í málinu ekki hafa flutt heimili sitt úr landi í skilningi 2. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, enda þótt hann hafi tilkynnt sig brottfluttan af landinu. Hafi stefndi því verið heimilisfastur hér á landi allt að einu á tekjuárinu 2005 og áfram fram til dagsins í dag. Stefndi Róbert vísi framangreindri varakröfu sinni til stuðnings til 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, þ.e. að félög eins og stefnandi skuli stunda heilbrigða viðskiptahætti og að viðskiptavinir með sambærileg mál eigi að fá sambærilega úrlausn. Stefnandi hafi með fréttatilkynningu sinni túlkað gildissvið ákvæðis X víðtækara en gengur og gerist. Af framangreindu leiði að endurútreikna eigi lán til stefnda til samræmis við bráðabirgðaákvæði X í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Endurútreikningur stefnda á láninu í samræmi við síðasttilvitnað lagaákvæði liggi fyrir í málinu. Samkvæmt honum hafi staða lánsins 21. nóvember 2008, þegar seinni lánssamningurinn hafi verið útbúinn, átt að vera 12.615.040 krónur, auk vaxta frá 25. mars 2008 til 21. nóvember 2008 sem nemi 1.143.874 krónum (1.474.734 mínus 330.860) eða samtals 13.758.914 krónur. Eftir innborganir stefnda inn á lánið 25. maí 2009 hafi staða þess átt að vera 2.491.089 krónur þann dag með óverðtryggðum vöxtum til dagsins í dag. Stefndi Skandinavíska háskólastofnunin ehf. byggir í fyrsta lagi á sömu röksemdum og stefndi Róbert færir fram hér að framan um að krafa stefnanda sé uppgreidd. Í öðru lagi komi fram í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 673/2013 að tryggingarbréf með allsherjarveði eins og hér hátti til, með beinni uppboðsheimild skv. 2. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, veiti ekki heimild til að krefjast nauðungarsölu á tiltekinni eign nema, meðal annars, að uppfylltu skilyrði að um sé að ræða tryggingu fyrir tiltekinni peningakröfu sem sé þegar í bréfinu við útgáfu þess samkvæmt 2. tölulið sömu lagagreinar. Í nefndu tryggingarbréfi sé ekki um slíkt að ræða og sé ekki hægt að bæta úr því eftirá. Um þetta segi í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu að heimild til að krefjast nauðungarsölu á þessum grundvelli sé aðeins fyrir hendi þegar samningur sé gerður um veðrétt í eign fyrir tiltekinni peningakröfu. Með þessu sé áréttað að samningurinn þurfi sem slíkur að taka af öll tvímæli um fyrir hverri skuld sé verið að veita þessa heimild. Allsherjarveð, sem væri veitt til tryggingar öllum skuldbindingum samkvæmt tryggingarbréfinu myndi þannig ekki fullnægja þessum áskilnaði ákvæðisins. Utan skilgreiningar þess sem 2. töluliður 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 geri ráð fyrir að geti verið uppboðsheimild, falli því svokölluð allsherjarveð, þar sem kröfuhafa hafi verið veittur veðréttur fyrir margskonar kröfum sínum á hendur tilteknum skuldara án sérstakrar afmörkunar á hverri kröfu fyrir sig. Þannig virðist útilokað fyrir stefnda að ná fram uppboði á fasteign stefnda Skandinavísku háskólastofnunarinnar ehf., eins og yfirlýstur tilgangur hans sé samkvæmt dómkröfu í stefnu enda sé tryggingarbréfið ekki rétt úr garði gert að þessu leyti og verði stefnandi sem sérfrótt fjármálafyrirtæki að bera hallann af því. Stefnandi virðist þannig ekki hafa lögvarða hagsmuni af dómkröfu sinni. Samkvæmt framangreindu beri því að sýkna stefnda Skandinavísku háskólastofnunina ehf. af kröfum stefnanda um staðfestingu veðréttar í fasteign félagsins þar sem krafan veiti engan rétt né séu lögvarðir hagsmunir fyrir hendi. Til stuðnings kröfum sínum vísa stefndu til 2. gr., 13. gr., 14. gr. og bráðabirgðaákvæðis X í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá vísa þeir til 36. gr. a til d laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. tilskipun 93/13/EBE og til 1., 2., 4.,5.,6., 1. mgr. 7., 9., 11., 12.,14. og 24. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán, sbr. lög nr. 179/2000 og til 1. gr. og 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 2. og 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Loks vísa þeir til 1. og 7. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og til 2. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.   V Ágreiningur máls þessa lýtur að greiðsluskyldu stefnda samkvæmt lánssamningi, útgefnum af stefnda til forvera stefnanda, hinn 21. nóvember 2008. Byggir stefnandi á því að ekki hafi verið greitt af láninu frá því 21. ágúst 2009 og sé það í vanskilum frá þeim tíma. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að lán þetta hafi verið tekið til uppgreiðslu á eldra láni, samkvæmt samningi hans við Sparisjóð vélstjóra, dagsettum 27. desember 2005 og beri eins og hér standi á að líta á hið síðara lán einungis sem skilmálabreytingu á því eldra og að meta verði bæði lánin sem einn gerning sem telja verði íslenskt lán með ólögmætri gengistryggingu í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Eins og greinir í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt þeim er hins vegar óheimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að leggja til grundvallar skýringar á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindinginn er tilgreind í þeim efnum. Ákvæðum fyrri lánssamningsins hefur verið lýst hér að framan, en þar sagði að lánið væri að fjárhæð 103.300 svissneskir frankar og 9.193.000 japönsk jen. Þannig er eina tilgreining lánsins í erlendum gjaldmiðlum, en hvergi í samningnum er vikið að fjárhæð skuldarinnar í íslenskum krónum. Eins var tekið fram á forsíðu samningsins að hann væri um lán í erlendum gjaldmiðlum. Þá er og ákvæði samningsins um vexti í samræmi við það að um erlent lán sé að ræða, en í samningnum er kveðið á um að skuldin beri LIBOR-vexti. Um endurgreiðslu stefnda á láninu er sagt að lántaki skuli við greiðslu lánshluta í erlendri mynt greiða inn á gjaldeyrisreikning lánveitanda, en sé greitt með íslenskum krónum skuli greiða samkvæmt sölugengi lánveitanda á gjalddaga. Með skírskotun til þess að heiti lánssamningsins bar með sér að um væri að ræða skuldbindingu í erlendum myntum og enn frekar að þar var hún nákvæmlega tilgreind í þeim tveimur gjaldmiðlum, sem að framan greinir, verður að telja að skuld stefnda samkvæmt lánssamningi dagsettum 27. desember 2005 hafi verið ákveðin í þeim gjaldmiðlum en ekki í íslenskum krónum, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar í málum nr. 551/2011 og 25/2014. Ekki er unnt að líta svo á að umsókn stefnda um lánið breyti hinu eiginlega skuldaskjali. Að því gættu gat ákvæði um endurgreiðslu skuldarinnar eða útgreiðslu lánsins engu breytt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 446/2013. Þá er það mat dómsins að hvort sem litið er á síðari lánssamning aðila sem nýtt lán eða skilmálabreytingu eldra láns þá standi ekki rök til að þeir skilmálar sem um það lán giltu geti haft áhrif á mat á lögmæti hins fyrra láns í þessu samhengi. Verður að mati dómsins að líta til þeirra skilmála sem giltu á hverjum tíma enda geta skilmálabreytingar á viðvarandi samningi á samningstíma falið í sér að samningur sem áður var lögmætur verði ólögmætur og öfugt. Stefndi Róbert byggir og á því að lög nr. 121/1994 um neytendalán feli í sér meðal annars að ekki sé unnt að lána neytanda erlenda gjaldmiðla svo löglegt sé. Telur hann afleiðingu þessa vera þá að líta verði á lán til stefnda Róberts sem ólögmætt og í andstöðu við ófrávíkjanleg ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Málatilbúnaður stefnda Róberts í þessa veru er ítarlega reifaður hér framar. Í nefndum lögum um neytendalán er mælt fyrir um skyldu lánveitanda til að veita neytanda tilteknar upplýsingar um lánskjör. Þá er mælt fyrir um að bótaskylda stofnist sé þessara ákvæða ekki gætt með fullnægjandi hætti. Í máli þessu liggur ekkert fyrir um upplýsingagjöf stefnanda til stefnda á grundvelli umræddra laga en stefndi hefur ekki lagt þann grundvöll að kröfum sínum að þær verði með réttu studdar við ákvæði laga nr. 121/1994. Verður ekki fallist á að í þeim lögum komi fram reglur sem mæli fyrir um, beint eða óbeint, að vanræksla á lögbundinni upplýsingagjöf geti leitt til þess að lán teljist vera með ólögmætri gengistryggingu. Um þetta atriði má einnig vísa til dóms Hæstaréttar fimmtudaginn 15. júní 2017 í máli réttarins nr. 861/2016. Skuld sú sem stefnandi krefur stefnda um greiðslu á nú er samkvæmt lánssamningi aðila frá 21. nóvember 2008, sem nánar er lýst hér að framan. Kemur fram á forsíðu samningsins að hann sé um lán í íslenskum krónum. Þá kemur fram í samningnum að lán samkvæmt honum sé veitt í þeim tilgangi að myntbreyta fyrri samningi sem lýst hefur verið hér að framan. Ber samningurinn því með sér eð veitt hafi verið lán í íslenskum krónum að jafnvirði 104.188,95 svissneskra franka og 9.242.508 japanskra jena en það var staða hins fyrra láns á samningsdegi. Verður hinn síðari samningur, sem til innheimtu er í þessu máli, ekki skilinn öðruvísi en að hann mæli fyrir um lán til stefnda Róberts í íslenskum krónum til að greiða upp lán í erlendum myntum, sem telja verður lögmætt. Heimilt var samkvæmt ákvæðum fyrir samnings að greiða skuldbindingu samkvæmt honum í krónum eins fyrr hefur verið nefnt. Er framangreint í fullu samræmi við þau sjónarmið sem fest hafa sig í sessi í fordæmum Hæstaréttar og vísað er til hér að framan þegar fjallað var um fyrri samninginn. Er þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar ekki unnt að fallast á með stefndu að efni samninganna, hvorki saman, né sitt í hvoru lagi, geti talist fela í sér lán í íslenskum krónum með ólögmætri tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Varakrafa stefnda Róberts um lækkun dómkrafna byggist á bráðabirgðaákvæði X sem kom inn í lög 38/2001 með lögum nr. 151/2010. Í nefndu lagaákvæði er meðal annars mælt fyrir um að afmörkun þeirra skuldbindinga sem ákvæðið nái til skuli vera í samræmi við skilyrði B-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, en greinin fjallar um rétt til vaxtabóta. Kemur meðal annars fram í 1. mgr. ákvæðisins að skattskyldur maður samkvæmt 1. gr. laganna sem beri vaxtagjöld af lánum sem tekin hafi verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota eigi rétt á vaxtabótum með nánar tilgreindum skilyrðum. Í 5. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að réttur til vaxtabóta sé bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Stefndi Róbert er ekki eigandi húsnæðisins að Kleppsvegi 6. Fellur hann þegar af þeirri ástæðu ekki undir skilgreiningu bráðabirgðaákvæðis X og verður því fallist á með stefnanda að ákvæðið eigi ekki við í tilviki stefnda Róberts. Breytir engu um þessa niðurstöðu þótt stefndi Róbert sé eini eigandi stefnda Skandinavísku háskólastofnunarinnar ehf. Verður varakröfu stefnda Róberts hafnað þegar af þeirri ástæðu. Að virtum þeim forsendum sem að framan er lýst eru engin efni til að fallast á að víkja beri samningum sem mál þetta snýst um til hliðar á grundvelli tilvísaðra ógildingarreglna laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá eru engar þeirra röksemda annarra sem stefndu byggja á til þess fallnar að hagga niðurstöðunni. Stefndi Róbert hefur hafnað því að 300.000 krónur sem stefnandi hefur fært sem innborgun á skuld hans hafi verið innborgun á skuldina. Kemur fram hjá honum að hann hafi talið sig vera að greiða lögmannskostnað. Sú lækkun kröfunnar sem af þessu hlýst er á ábyrgð stefnanda og stefndu til hagsbóta. Er enda engin eiginleg dómkrafa höfð uppi af hálfu stefndu af þessu tilefni og hefur ágreiningur um þetta því ekki áhrif á úrlausn málsins. Að gættu öllu því sem að framan greinir er ekki ágreiningur um kröfufjárhæð og verður krafa stefnanda tekin til greina með þeirri fjárhæð sem krafist er og með dráttarvöxtum frá gjalddaga í samræmi við ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt framlögðu tryggingarbréfi gaf stefndi, Róbert Þ. Bender, út tryggingarbréf til Sparisjóðs Vélstjóra, til tryggingar hvers konar skuldum hans við sparisjóðinn, að fjárhæð 11.000.000 króna, bundið vísitölu neysluverðs. Var umræddu tryggingabréfi þinglýst á eignina Kleppsveg 6, Reykjavík, núverandi eign stefnda, Skandinavísku háskólastofnunarinnar ehf. og hvílir á 1. veðrétti eignarinnar. Með því að hér að framan hefur verið staðfest að stefndi Róbert standi í skuld við stefnanda hefur veðréttur stefnanda orðið virkur. Krefst stefnandi heimildar til að gera aðför fyrir kröfunni , sbr.1. tölulið 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Aðför samkvæmt þeirri grein veitir heimild til að krefjast nauðungarsölu, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Geta tilvísanir stefnda Skandinavísku háskólastofnunarinnar ehf. til 2. töluliðar 6. gr. sömu laga engu breytt í þessu tilliti og verður að hafna því að á skorti að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af kröfu þessari. Aðrar málsástæður sem stefndu halda fram breyta ekki framangreindri niðurstöðu. Verður því fallist á með stefnanda að veita beri honum heimild til fjárnáms fyrir kröfu sinni í umræddri fasteign að því marki sem tryggingabréfið afmarkar veðrétt stefnanda. Eftir þessari niðurstöðu verða stefndu dæmdir óskipt til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur og hefur við þá ákvörðun verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. D Ó M S O R Ð: Stefndi, Róbert Þ. Bender, greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., 16.787.086 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. ágúst 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum 300.000 krónum, sem voru greiddar inn á kröfuna 11. nóvember 2010. Stefnanda er heimilt að gera fjárnám í fasteign stefnda, Skandinavísku háskólastofnunarinnar ehf., að Kleppsvegi 6, Reykjavík, fnr. 201-6052, á grundvelli veðtryggingabréfs að höfuðstól, 11.000.000 krónur, auk verðbóta í samræmi við breytingu neysluverðsvísitölu, miðað við grunnvísitöluna 248, sem gefið var út 12. desember 2005, allsherjarveð, tryggt með 1. veðrétti í eigninni. Stefndu greiði óskipt stefnanda, 800.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 552/2017
Fjármálafyrirtæki Skuldabréf Veð Gengistrygging Kröfugerð Vanreifun Frávísun frá héraðsdómi
J tók tvö lán hjá forvera Í hf. með veðskuldabréfum útgefnum 21. október 2004 og 23. mars 2007. Á árinu 2011 greiddi J upp bæði veðskuldabréfin með útgáfu tveggja nýrra veðskuldabréfa hjá Í hf. Í málinu krafðist J þess aðallega að hann bæri ekki greiðsluskyldu samkvæmt hinum nýju skuldabréfum, en til vara að skuld hans við Í hf. væri lægri en sem næmi kröfum samkvæmt bréfunum. Byggði J meðal annars á því að Í hefði aldrei eignast kröfurnar á hendur sér frá forvera sínum og að hann væri ekki réttur eigandi þeirra. Þá byggði J á því að hin upphaflegu lán hefðu verið bundin ólögmætri gengistryggingu og að hann hefði að verulegu leyti verið búinn að greiða þau upp og nægjanlega miðað við þær fjárhæðir sem upphaflega hafi verið teknar að láni. Í héraði var varakröfu J vísað frá dómi og Í hf. sýknaður af aðalkröfu hans. Í dómi sínum vísaði Hæstiréttur til þess að þar sem J hefði ekki skotið ákvæði héraðsdóms um frávísun til Hæstaréttar eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991 kæmi hún ekki til skoðunar fyrir réttinum. Hvað aðalkröfu J varðaði taldi Hæstiréttur að verulega skorti á að rökrétt samhengi væri á milli hennar og málsástæðna hans og væri málatilbúnaður hans í slíkri andstöðu við d. og e. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að ekki yrði hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi vegna vanreifunar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Oddný Mjöll Arnardóttir landsréttardómari.   Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. september 2017. Hann krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að hann „beri ekki greiðsluskyldu vegna krafna stefnda skv. skuldabréfum stefnda nr. 510-158202 og 549-182640 (182641)“, en til vara að viðurkennt verði með dómi „að skuld áfrýjanda við stefnda sé lægri en skv. kröfum stefnda vegna skuldabréfa nr. 510-158202 og 549-182640 (182641).“ Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi þess jafnframt að stefnda verði gert að aflýsa framangreindum veðskuldabréfum af fasteigninni að Roðamóa 3 í Mosfellsbæ. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi undirgekkst áfrýjandi skuldbindingar við forvera stefnda annars vegar samkvæmt veðskuldabréfi 21. október 2004 og hins vegar samkvæmt veðskuldabréfi 23. mars 2007. Gefin voru út tvö ný veðskuldabréf 23. maí 2011 og var tekið fram í þeim báðum að þau kæmu í stað fyrrnefndra bréfa sem jafnframt væru greidd upp með hinum nýju bréfum. Í hinum áfrýjaða dómi eru ítarlega raktar þær röksemdir sem áfrýjandi ber fram til stuðnings kröfum sínum. Í héraði krafðist stefndi frávísunar á varakröfu áfrýjanda og í þinghaldi 18. nóvember 2016 var ákveðið að málflutningur yrði um þá kröfu samhliða flutningi um efni máls, með vísan til 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með hinum áfrýjaða dómi var varakröfu áfrýjanda vísað frá héraðsdómi, en stefndi jafnframt sýknaður af aðalkröfu hans. Til að koma fram endurskoðun á niðurstöðu héraðsdóms um frávísun varakröfunnar hefði áfrýjandi þurft að skjóta til Hæstaréttar ákvæði héraðsdóms um frávísun eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 19. júní 2002 í máli nr. 3/2002. Með því að þessa var ekki gætt kemur varakrafa áfrýjanda ekki til skoðunar fyrir Hæstarétti. Þær málsástæður sem áfrýjandi teflir fram til stuðnings aðalkröfu sinni sýnast annars vegar þess efnis að þeim sé ætlað að leiða til sýknu í samræmi við kröfugerð hans en hins vegar aðeins til lækkunar á kröfum stefnda. Áfrýjandi vísar meðal annars til þess að þau tvö veðskuldabréf, sem tilgreind eru í dómkröfu hans, hafi komið í stað tveggja eldri veðskuldabréfa sem bæði hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu og að endurútreikningar stefnda á skuld samkvæmt síðargreindum bréfum hafi verið rangir. Ekki er gerð fullnægjandi töluleg grein fyrir kröfugerð áfrýjanda, en þær forsendur og viðmið sem hann vísar til gefa helst til kynna, svo sem fyrr segir, að hann telji sig öðrum þræði í skuld við stefnda þótt hann krefjist sýknu að öllu leyti. Sú staðreynd að varakröfu áfrýjanda var vísað frá héraðsdómi eykur jafnframt enn á óskýrleikann í málatilbúnaði hans. Samkvæmt framansögðu skortir verulega á að rökrétt samhengi sé milli málsástæðna áfrýjanda og aðalkröfu hans í málinu. Er málatilbúnaður hans í slíkri andstöðu við d. og e. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að ekki verður hjá því komist að vísa aðalkröfu áfrýjanda frá dómi sökum vanreifunar. Af því leiðir að kröfum áfrýjanda um afléttingu veðskuldabréfa verður jafnframt vísað frá héraðsdómi og þar með málinu í heild sinni. Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi vegna reksturs málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Áfrýjandi, Jóhannes Þór Hilmarsson, greiði stefnda, Íslandsbanka hf., samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2017. Mál þetta, sem var dómtekið 23. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Jóhannesi Þór Hilmarssyni og Rakel Baldursdóttur, Lundi 3, Mosfellsbæ, á hendur Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu birtri 28. júní 2016. Hinn 18. nóvember 2016 féll stefnandi Rakel Baldursdóttir frá öllum kröfum á hendur stefnda. Því stendur stefnandi, Jóhannes Þór Hilmarsson, einn að málssókn þessari. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að viðurkennt verði með dómi að stefnandi beri ekki greiðsluskyldu vegna krafna stefnda skv. skuldabréfum stefnda nr. 510-158202 og 549-182640 (182641). Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að skuld stefnanda við stefnda sé lægri en skv. kröfum stefnda vegna skuldabréfa nr. 510-158202 og 549-182640(182641). Í báðum tilvikum er jafnframt gerð krafa um að ákveðið verði með dómi að stefndi skuli aflýsa veðlánum nr. 510-158202 og 549-182460(182641) af fasteigninni Roðamóa 3 í Mosfellsbæ, fnr. 226-0502. Þá krefst stefnandi þess að hafnað verði frávísunarkröfu stefnda á varakröfu stefnanda. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnda. Stefndi krefst frávísunar varakröfu stefnanda og að því marki sem kröfum er ekki vísað frá dómi er krafist sýknu af öllum kröfum hans. Þá er krafist málskostnaðar. I Stefnandi tók tvö gengistryggð lán hjá Íslandsbanka hf., annað árið 2004 og hitt árið 2007. Bæði voru þau tryggð með veði í fasteign stefnanda að Roðamóa í Mosfellsbæ. Nafni Íslandsbanka hf. var síðar breytt í Glitnir banki hf. Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið hinn 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Í framhaldi af því var á grunni Glitnis banka hf. stofnaður nýr banki, Nýi Glitnir banki hf., sem nú ber heitið Íslandsbanki hf., stefndi í þessu máli, og fjallar mál þetta um greiðslukröfur þess banka gagnvart stefnanda. Hinn 23. maí 2011 voru gefin út tvö ný veðskuldabréf í stað eldri bréfa. Í öðru skuldabréfinu að höfuðstól 25.054.805 kr. er kveðið á um að það sé gefið út til uppgreiðslu á veðskuldabréfi á sömu eign, útgefnu hinn 21. október 2004 að fjárhæð 19.000.000 kr. að eftirstöðuvum 35.779.788 kr. hinn 29. apríl 2011. Því er hér um lækkun að ræða að fjárhæð 10.724.983 kr. Í hinu skuldabréfinu, að höfuðstól 6.375.639 kr., segir að það sé gefið út til uppgreiðslu á veðskuldabréfi á sömu eign, útgefnu hinn 23. mars 2007 að fjárhæð 5.000.000 kr. að eftirstöðvum 13.241.807 kr. hinn 29. apríl 2011. Með því að gefa út ný skuldabréf voru fyrri lánin endurútreiknuð og lækkuð um samtals 17.591.151 kr., það er lækkun að fjárhæð 10.724.983 kr. vegna eldra bréfsins og 6.866.168 kr. vegna yngra bréfsins. Samkvæmt gögnum málsins hefur stefnandi greitt af lánum þessum síðan. Í ljósi orðalags kröfugerðar stefnanda verður að líta svo á að ekki sé tölulegur ágreiningur í málinu. Stefnandi kveður að honum hafi ekki verið ljóst fyrr en eftir undirritun hinna nýju skuldabréfa á árinu 2011, að við fall Glitnis, kt. 550500-3530, og stofnun og yfirfærslu krafna til Nýja Glitnis hf., kt. 491008-0160 (nú Íslandsbanki hf.), skv. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008, hafi þinglýsing lánaskjala við stefnanda yfir á hinn nýja banka misfarist. Þannig hafi í erindi Fjármálaeftirlitsins til Sýslumannsins í Reykjavík, dags. 28. október 2008, verið óskað eftir því að öll bein og óbein eignarréttindi, þ.m.t. veðkröfur yrðu færð yfir á nafn Nýja Glitnis banka. Af þinglýsingarvottorði vegna Roðamóa 3 í Mosfellsbæ, verði ekki séð að slík yfirfærsla hafi farið fram, fyrr en eftir 3. október 2014. Stefnandi telur því að hann hafi ekki haft upplýsingar um þetta þegar hann skrifaði undir ný lánaskjöl við stefnda á árinu 2011. Því telji hann með öllu óljóst, að stefndi hafi nokkurn tíma átt þær kröfur, sem bréfin er hann undirritaði á árinu, áttu að greiða. Stefnandi óskaði hinn 18. desember 2012 og 3. nóvember 2014 eftir endurútreikningi á lánum við stefnda, miðað við dóm Hæstaréttar sem féll 14. febrúar 2011. Stefndi féllst ekki á að endurreikna lánin frekar samanber bréfin frá 11. mars 2013 og 18. desember 2014 og vísaði til þess að af hálfu stefnda væri talið að lán stefnanda væru sambærileg lánum sem dæmd höfðu verið lögmæt. Þar sem stefnandi hefur dregið í efa að stefndi hafi átt upprunalegu skuldabréfin hefur hann krafist þess að fá afrit af frumritum upprunalegu skuldabréfanna frá 2004 og 2007. Stefndi kveðst í bréfi dags. 5. janúar 2016 ekki hafa bréf þessi undir höndum þar sem hann hafi sent stefnanda þau hinn 21. júlí 2011. Því mótmælir stefnandi. II Stefnandi telur sig ekki bera greiðsluskyldu á kröfum samkvæmt þeim skuldabréfum sem tilgreind séu í stefnukröfum. Byggist krafan í fyrsta lagi á því, að við stofnun stefnda í október 2008 hafi þær kröfur sem stefnandi hafi þá skuldað gamla Íslandsbanka/Glitni ekki verið færðar með réttum hætti yfir til stefnda og hafi því fallið niður. Stefndi hafi aldrei eignast kröfurnar á hendur stefnanda, sem hann hafi stofnað til með lántökum í eldri bankanum á árunum 2004 og 2007 og þegar af þeirri ástæðu sé hann ekki réttur eigandi að þeim í dag. Þá hafi stefnandi aðeins skrifað undir ný skuldabréf hjá stefnda á árinu 2011, til skuldbreytingar á eldri lánunum, þar sem hann hafi verið í góðri trú um að stefndi ætti þær kröfur sem hann beindi að honum. Þau skuldabréf séu því ekki skuldbindandi gagnvart honum í dag, þar sem honum hafi við undirritun bréfanna, bæði verið gefnar ófullnægjandi og rangar upplýsingar af starfsmönnum stefnda og upplýsingum sem máli skiptu hafi verið haldið fyrir honum. Byggir stefnandi á því að með þessu hafi starfsmenn stefnda með sviksamlegum og ósanngjörnum hætti fengið stefnanda til að undirrita bréfin. Því sé stefnanda ekki skylt að greiða þær kröfur sem lýst sé í dómkröfum. Í annan stað byggist krafa stefnanda á því að stefndi sé ekki réttur eigandi kröfunnar. Kröfur stefndu séu byggðar á eldri skuldabréfum sem hafi áður sannanlega verið í eigu gamla Íslandsbanka/Glitnis og þeim hafi stefndi neitað að framvísa. Telji stefnandi því slíkan vafa leika á því að stefndi eigi réttmætar kröfur á hendur stefnda, að fallast beri á kröfu hans. Stefnandi telur að stefndi eigi ekki rétt á greiðslu án framvísunar upphaflegu skuldabréfanna og áritana á það um greiðslur. Stefnandi heldur því fram að þar sem stefndi hafi hafnað því að framvísa frumriti skuldabréfanna þá kunni stefndi mögulega ekki að vera réttur eigandi að bréfinu og þar með eigi stefndi ekki þær kröfur á stefnanda sem lýst sé í dómkröfum. Hafi stefnda skv. 1. gr. tilskipunar um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798, borið við uppgreiðslu hinna fyrri bréfa, að skila stefnanda aftur bréfinu, með áritaðri kvittun. Þá hafi stefnandi verið nauðbeygður til að undirrita þau skuldabréf sem hafi komið í stað hinna fyrri. Í þriðja lagi byggist krafa stefnanda á því að hann hafi að verulegu leyti greitt kröfur skv. veðskuldabréfum nr. 510-158202 og 549-182640(182641) og nægjanlega miðað við þær fjárhæðir sem hafi upphaflega verið teknar að láni. Hin upphaflegu skuldabréf hafi verið ólögmæt gengistryggð lán og valdi það ógildi á loforði stefnanda um endurgreiðslu. Af hálfu stefnanda sé byggt á því að nauðsynlegt sé að skoða lánasamningana og endurnýjanir þeirra heildstætt. Stefnandi vísar sérstaklega til þess að á umsóknareyðublaði um lánin hafi annars vegar verið sótt um lán að fjárhæð 19.000.000 kr. í íslenskum krónum, og hins vegar 5.000.000 kr. lán í íslenskum krónum, sem síðan hafi af hálfu bankans verið breytt í erlendar myntir. Hafi þannig verið um lán í íslenskum krónum að ræða með gengisviðmiði. Hafi lánin borið heitin ,,Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum. Húsnæðislán“ og ,,Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Hafi lán stefnanda verið greitt út í íslenskum krónum og verið tekin vegna fjármögnunar íslenskrar fasteignar. Stefnandi, sem hafi verið lántaki þessara lána, hafði á þessu tímabili aðeins tekjur í íslenskum krónum og því enga möguleika á að greiða afborganir með erlendum myntum, né not fyrir útgreidda erlenda mynt sér til handa. Engar erlendar myntir hafi þannig skipt um hendur, heldur hafi báðir samningsaðilar uppfyllt aðalskyldur sínar með greiðslu íslenskra króna. Hafi stefnandi ávallt greitt útsenda greiðsluseðla lánsins með íslenskum krónum og efnt þannig skyldu sína skv. samningi aðila. Í samræmi við meginreglur samningaréttar sé rétt að horfa fremur til efnis lánasamnings en forms hans, og með hliðsjón af því verði að telja að í skuldabréfunum felist ólögmæt gengistrygging láns. Telur stefnandi að gengistrygging þessi hafi verið ólögmæt skv. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og þegar af þeirri ástæða sé ekki til staðar greiðsluskylda vegna lánanna. Í fjórða lagi byggist sýknukrafan á því að við gerð lánasamninga sinna hafi kröfuhafi í upphafi ekki sinnt skyldu sinni skv. lögum nr. 121/1994 um neytendalán, s.s. skyldu sinni til að greina stefnanda frá heildarlántökukostnaði, árlegri hlutfallstölu kostnaðar, heildarupphæð greiðslu, þ.e. samtölu höfuðstóls, vaxta og kostnaðar, fjárhæð greiðslna og mögulegum breytingum á lánskjörum á samningstímanum, sbr. 4. og 6. gr. laganna. Þá sé stefnandi neytandi sem hafi verið í viðskiptum við sérhæft fjármálafyrirtæki þar sem stefnanda hafi ekki verið gerð grein fyrir eðli skuldabréfanna með fullnægjandi hætti við töku upphaflegu lánanna. Hafi stefndi ekki sinnt þessari skyldu sinni sem skyldi og sé því ósanngjarnt af honum í skilningi 33. og 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að krefjast frekari innheimtu krafnanna. Þá séu skuldabréfin enn fremur óskýr um fleiri hluti og í raun svo miklum annmörkum háð að furðu sæti að notast hafi verið við það í lánsviðskiptum. Þannig sé sérstaklega byggt á því af hálfu stefnanda að skjölin séu óskýr, sem og þau skjöl sem þau hafi átt að koma í staðinn fyrir, að greiðslukröfur stefnda verði ekki byggðar á þeim. Í fimmta lagi byggist krafa stefnanda á því að veðréttur fyrir kröfu stefnda hafi tapast þar sem stefndi hafi sýnt af sér tómlæti við að tryggja veðréttindi sín. Þannig hafi stefndi ekki sinnt þeirri skyldu sinni eftir hrun íslenska bankakerfisins og eftirfarandi kröfuhafaskipti á upphaflegum skuldabréfum, að láta þinglýsa nauðsynlegum skjölum um veðrétt sinn skv. ákvörðun Fjármálaeftirlits. Beri stefnda af þessum ástæðum að hlutast til um að veðréttindum þessum verði aflýst, þegar af þeirri ástæðu. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi veðréttur fyrir kröfunum fallið niður og þá hafi hin nýju skuldabréf, sem hafi eingöngu verið gefin út vegna þeirra fyrri, ekki átt að njóta veðréttar í fasteign stefnanda, skv. meginreglu 34. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Þá hafi við meðferð málsins hjá sýslumannsembættinu ekki verið fylgt ákvæðum þinglýsingalaga og ekki sé fyrir hendi leiðréttingarheimild til handa þinglýsingarstjóra í tilviki sem þessu, sbr. 27. gr. þinglýsingalaga. Beri stefnda því einnig að hlutast til um aflýsingu bréfanna, verði fallist á aðalkröfu stefnanda, enda sé þá ekki lengur til staðar skuld stefnanda við stefnda. Varakrafan byggist á sömu málsástæðum og aðalkrafan, auk þess sem sérstaklega sé vísað til þess að stefnandi hafi þegar greitt þá fjárhæð sem stefnandi hafi tekið að láni. Þannig sé krafa stefnda of há og hafi stefndi þannig krafist of hárra vaxta af stefnanda. Byggir stefnandi á því að ólögmætt og ósanngjarnt sé af stefnda að krefjast hærri eftirstöðva en sem nemi upphaflegum höfuðstól að frádregnum innborgunum stefnanda. Einnig byggist krafan á því að stefndi geti ekki krafist viðbótarvaxta fyrir liðna tíð og með hliðsjón af reglu um fullnaðarkvittanir hafi stefndi krafist of hárrar greiðslu af stefnendum og ekki fært höfuðstól lánanna með réttum hætti. Stefnandi hafi verið í góðri trú um lögmæti skuldbindingar sinnar og hafi stefndi tekið við greiðslum þeirra án fyrirvara. Þá hafi mikill aðstöðumunur verið á milli kröfuhafa og skuldara, enda séu skuldarar neytendur sem hafi tekið lán hjá stefnda, fjármálastofnun með sérþekkingu á sínu sviði. Þá telur stefnandi að það standi stefnda nær að bera þann vaxtamun sem leitt hafi af ólögmætri gengistryggingu. Stefnandi hafi haft réttmætar væntingar um að greiðsluseðlar sem honum hafi verið sendir væru réttir. III Stefndi hafnar málatilbúnaði stefnanda og krefst sýknu af aðalkröfu hans. Stefndi telur það hafið yfir vafa að hann hafi tekið við kröfum á hendur stefnda við bankahrunið. Stefndi tekur fram að margoft hafi verið staðfest í dómaframkvæmd um skil stefnda og Glitnis banka hf. Þá leiði af stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til Nýja Glitnis banka hf., sem nú beri heiti stefnda, að öllum eignum Glitnis banka hf., þ.m.t. „kröfuréttindum“, skyldi ráðstafað til stefnda nema þær væru sérstaklega „undanskildar framsalinu“ samkvæmt nánari tilgreiningu í viðauka við ákvörðunina. Kröfuréttindi Glitnis banka hf. á hendur stefnanda falli ljóslega ekki undir þennan viðauka og sé því ekki einu sinni borið við. Allur málatilbúnaður stefnanda sé því haldlaus. Málatilbúnaði á borð við að stefnanda hafi verið gefnar „ófullnægjandi og rangar upplýsingar ...“ og viðlíka sé jafnframt mótmælt. Eins sé að því að gæta, formsins vegna, að jafnvel þótt kröfuréttindin hefðu ekki færst yfir til stefnda, þá leiði slíkt að lögum ekki til niðurfellingar kröfuréttar, líkt og stefnandi virðast telja og krefjast í reynd viðurkenningar á, heldur hlyti stefnandi að standa í skuld við Glitni banka hf. Eins sé að því að gæta, að hvað sem líði framsali kröfuréttindanna þá hafi stefnandi undirgengist gildar skuldbindingar gagnvart stefnda samkvæmt tveimur skuldabréfunum dags. 23. maí 2011 og viðurkennt þær í verki með greiðslum af þeim. Varðandi þá málsástæðu stefnanda að „stefndi eigi ekki rétt á greiðslu án framvísunar upphaflegu skuldabréfanna og áritanna á það um greiðslur“ tekur stefndi fram að frumrit hinna upphaflegu veðskuldabréfa á frá 2004 og 2007, hafi verið send stefnanda í almennum pósti 21. júlí 2011. Stefndi hafi þau því ekki undir höndum. Hvað sem líði mótmælum stefnanda hér að lútandi þá standi lög, þ.m.t. reglur fjármunaréttar, aldrei til þess, þ.m.t. eins og málatilbúnaður stefnenda sé upp byggður, að „stefndi eigi ekki rétt á greiðslu án framvísunar upphaflegu skuldabréfanna og áritanna á það um greiðslur“, og sé málatilbúnaður stefnanda hér að lútandi verulega á reiki, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Vegna umfjöllunar stefnanda þessu tengdu um að stefndi kunni „mögulega ekki að vera réttur eigandi að bréfinu“, og viðlíka, þá sé jafnframt að því að gæta að stefnandi hafi undirgengist gildar skuldbindingar gagnvart stefnda samkvæmt veðskuldabréfunum tveimur frá 23. maí 2011. Einnig sé því sérstaklega andmælt að stefnandi hafi verið nauðbeygður til að undirrita nýju veðskuldabréfin. Hvað sem öðru líði verði að líta svo á að stefnandi hafi í verki viðurkennt greiðsluskyldu sína samkvæmt skuldabréfunum. Varðandi þriðju málsástæðu stefnanda um að hann telji greiðsluskyldu sína niður fallna, eða í öllu falli of háa, á þeim grunni að hann hafi greitt „nægjanlega miðað við þær fjárhæðir sem voru upphaflega teknar að láni“ og að hin „upphaflegu skuldabréf hafi verið ólögmæt gengistryggð lán og valdi það ógildi á loforði stefnanda Jóhannesar um endurgreiðslu“, tekur stefndi fram að sambærilegum málsástæðum hafi margoft verið hafnað í réttarframkvæmd. Af heiti hinna upphaflegu veðskuldabréfa, tilgreiningu vaxta og síðast en ekki síst tilgreiningu skuldbindinganna sem slíkra, þ.m.t. þeirrar staðreyndar að höfuðstólsfjárhæða sé skýrlega getið í erlendum gjaldmiðlum, leiðir að um gild lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011 og fjölmarga fleiri dóma réttarins af sama toga. Form og efni skuldaskjalanna hafi ótvírætt borið með sér að um væri að ræða lán í hinum tilgreindu erlendu myntum. Og jafnvel þótt um gengistryggð lán væri að tefla þá leiði slíkt ekki til brottfalls greiðsluskyldu í heild sinni. Auk þess hafi enginn reki verður gerður að því að sýna fram á að skuldbindingarnar teldust upp greiddar miðað við þá forsendu að þær teldust gengistryggðar. Þvert á móti leiðir ljóslega af gögnum málsins, þ.m.t. framlögðum útreikningum stefnanda, að svo getur aldrei verið, þ.m.t. þótt stuðst yrði við svokallaða „fullnaðarkvittanaleið“. Þá sé einnig tekið fram, þótt stefnandi virðist reyndar ekki halda öðru fram, að órjúfanleg forsenda „fullnaðarkvittanaleiðar“, þ.m.t. skylda til slíks endurútreiknings, sé að hinar upphaflegu skuldbindingar séu gengistryggðar skuldbindingar í íslenskum krónum, enda að öðrum kosti ekki að lögum verið að beina viðbótarkröfu vegna vangreiddra vaxta að lántaka, þ.m.t. með hinum „nýju“ veðskuldabréfum, og svo sem liggi í hlutarins eðli. Þá hafnar stefndi þeirri málsástæðu stefnanda að stefndi hafi „við gerð lánssamninga“ í upphafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 121/1994 um neytendalán og vísar í því sambandi meðal annars til 4. og 6. gr. laganna. Stefnanda hafi heldur ekki verið gerð næg grein fyrir „eðli skuldabréfanna með fullnægjandi hætti við töku upphaflegu lánanna“. Ósanngjarnt sé að „krefjast frekari innheimtu krafnanna“, sbr. 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Eins sé því haldið fram að „skjölin séu óskýr“, o.þ.u.l. Öllum þessum málsástæðum, þ.m.t. um óskýrleika skuldaskjala, sé hafnað. Af stefnu málsins verði reyndar ekki ráðið hvort hér sé vísað til hinna upphaflegu veðskuldabréfa eða þeirra sem hafi komið í þeirra stað, eða beggja. Að því er varði fyrsta veðskuldabréfið þá verði ekki annað ráðið af greiðsluáætlun sem var fylgiskjal veðskuldabréfsins og veðskuldabréfinu sjálfu, en að fyrirmælum laga nr. 121/1994 sé fylgt í einu og öllu. Sama sé að segja um nýju veðskuldabréfin og framlagða greiðsluáætlun. Stefndi hafi á hinn bóginn ekki í fórum sínum greiðsluáætlun vegna skuldabréfs dags. 23. maí 2007, en sú skylda verði heldur ekki talin hvíla á fjármálafyrirtækjum að varðveita slík gögn þannig að þau séu aðgengileg níu árum síðar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 17. apríl 2012 í máli nr. 141/2012, að breyttu breytanda. Stefndi telji enga ástæðu til að ætla að brotalöm hafi verið hér á og það sé stefnanda að sanna slíkt. Þess utan séu mótbárur sem þessar haldlausar gagnvart grandlausum framsalshafa, hér stefnda, sbr. almennar viðskiptabréfareglur, þ.m.t. um form og efni skuldaskjala, en byggt sé á sömu sjónarmiðum í tengslum við aðrar málsástæður stefnanda, eftir því sem við geti átt. Hvað sem öllum málatilbúnaði stefnanda líði þá leiði jafnframt af 3. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994 og grunnrökum þess ákvæðis og laganna í heild, þ.m.t. eins og þau verði skýrð með hliðsjón af skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum og almennum reglum fjármuna- og neytendaréttar, að brot gegn lögunum leysi ekki skuldara sjálfkrafa undan greiðsluskyldu, svo sem málatilbúnaður stefnanda virðist hins vegar ganga út frá, hvað þá þegar horft sé til þess að stefnandi hafi greitt athugasemda- og fyrirvaralaust vexti og annan kostnað af umræddum skuldbindingum frá öndverðu, sem og til þeirrar staðreyndar að ákvæði þeirra um vexti og annan kostnað séu skýr og ótvíræð. Hafi stefnanda ekki getað dulist inntak skuldbindinga sinna í þessu tilliti. Hafi í dómaframkvæmd heldur ekki verið talið að vanræksla upplýsingagjafar samkvæmt lögum nr. 121/1994 hafi þá réttarverkan í för með sér sem stefnandi krefst, heldur þurfi annað og meira að koma til. Þá verði ekki ráðið hvernig ætluð brotalöm í tengslum við þegar uppgreiddar eldri skuldbindingar geti haft réttarverkanir í för með sér að því er áhræri hinar nýju skuldbindingar og hvað þá eins og málatilbúnaður stefnanda sé fram settur. Varðandi sjöttu málsástæðu stefnanda um að veðréttur stefnda sé fallinn niður vegna tómlætis þá hafnar stefndi því. Af málatilbúnaði stefnanda sé helst að skilja að hann telji þinglýsingu veðskjala, og ætlað tómlæti stefnda í þeim efnum, geti ráðið úrslitum um veðrétt stefnda og raunar leiða til niðurfellingar hans. Þessi málatilbúnaður, þ.m.t. tilvísun til 34. gr. laga nr. 39/1978 um þinglýsingar, sé haldlaus og ósamþýðanlegur verndarhagsmunum þinglýsinga, þ.e. að tryggja vernd gagnvart þriðja manni, og almennum reglum veðréttar. Málatilbúnaði stefnanda er tengist „meðferð málsins hjá sýslumannsembættinu“, o.þ.u.l., sé jafnframt hafnað, þ.m.t. að ekki hafi verið farið að lögum nr. 39/1978, en þess utan geti slíkt að réttu lagi ekki haft í för með sér þá réttarverkan sem stefnandi krefst. Stefndi krefst þess að varakröfu stefnanda verði vísað frá dómi. Krafa uppfylli ekki skilyrði þau sem gerð séu til skýrleika viðurkenningarkrafna og svo sem orðalag kröfugerðar beri með sér, sbr. orðalagið að „... skuld stefnanda sé lægri en skv. kröfum stefnda ...“, án frekari tilgreiningar, sem leiði til frávísunar þessa kröfuliðar. Efnislega sé varakröfunni mótmælt með sömu rökum og aðalkröfunni. Stefndi leyfi sér þó að taka fram, að væru upphaflegu veðskuldabréfin haldin ólögmætri gengistryggingu svo sem stefnandi byggi á, þvert gegn réttarframkvæmd Hæstaréttar, og sem stefndi andmæli sérstaklega, þá standi ekki rök til þess að krefjast vangreiddra vaxta fyrir liðna tíð og eðlilegt sé að leiðrétta fjárhæð/stöðu hinna nýju skuldbindinga til samræmis. Varakrafa stefnanda sé hins vegar slíkum annmörkum háð, þ.á m. með tilliti til skýrleikakrafna, að hún teljist raunar ódómtæk. Þá mótmælir stefndi framlögðum einhliða útreikningi stefnanda. Af öllu framangreindu leiði jafnframt að engin rök standa til þess að fallast á kröfu stefnanda um aflýsingu veða. Í tengslum við allt framangreint sé byggt á því að stefnandi hafi í verki viðurkennt greiðsluskyldu sína, sem leiði þegar til sýknu. IV Mál þetta er höfðað með þeirri aðalkröfu að viðurkennt verði að stefnandi beri ekki greiðsluskyldu vegna krafna samkvæmt skuldabréfum stefnda nr. 510-158202 og 549-182640 (182641). Í varakröfu stefnanda er þess krafist að „viðurkennt verði með dómi að skuld stefnanda við stefnda sé lægri en skv. kröfum stefnda vegna skuldabréfa nr. 510-158202 og 549-182640 (182641)“. Stefndi hefur krafist þess að varakröfu stefnanda verði vísað frá dómi. Verulega skortir á skýrleika dómkröfunnar. Í stefnu er ekki að finna tölulega útlistun til stuðnings varakröfunni. Einungis er hér um fullyrðingar að ræða. Varakrafan og framsetning hennar fullnægir ekki skilyrðum d- og e-liða 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og verður ekki hjá því komist að vísa henni frá dómi. Aðalkrafa stefnanda lýtur að tveimur skuldabréfum. Skuldabréf nr. 510-158202, sem er að fjárhæð 25.054.805 kr., er lýst svo á veðskuldabréfinu sjálfu að það sé húsnæðislán, jafngreiðslulán, óverðtryggt með breytilegum vöxtum. Skuldabréfið er tryggt með 1. veðrétti í Roðamóa 3, Mosfellsbæ. Í lok skuldabréfsins segir: „Skjal þetta er gefið út til uppgreiðslu veðskuldabréfs á sömu eign, útgefnu þann 21/10 ´04 upphaflega að fjárhæð kr. 19.000.000, að eftirstövum þann 29/4 ´11 kr. 35.779.788, þ.a vanskil kr. 0.“ Seinna skuldabréfið sem dómkrafan tekur til er nr. 549-182640 og er sambærilegt fyrra bréfinu. Höfuðstóll þess er þó lægri eða 6.375.639 kr. Það er einnig tryggt með veði í Roðamóa 3, Mosfellsbæ. Í lok skuldabréfsins segir: „Skjal þetta er gefið út til uppgreiðslu veðskuldabréfs á sömu eign, útgefnu þann 23/3 ´07 upphaflega að fjárhæð kr. 5.000.000, að eftirstövum þann 29/4 ´11 kr. 13.241.807, þ.a vanskil kr. 0.“ Í málinu liggur fyrir að nefnd skuldabréf eru í skilum og hefur stefnandi því sinnt greiðsluskyldu sinni samkvæmt þeim. Bæði skuldabréfin eru gefin út 23. maí 2011 og bera það greinilega með sér að verið er að endurreikna skuldabréf stefnanda sem gefin voru út á árunum 2004 og 2007. Eldri bréfin voru veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum, aðallega í japösnkum jenum. Stefndi hefur reiknað lánin út að nýju, og við endurútreikning þeirra lækkuðu þau um samtals 17.591.151 kr. Þá voru gefin út ný skuldabréf sem mál þetta varðar. Þegar litið er til orðalags skuldabréfsins, á stefnandi ekki að velkjast í vafa um að eldri bréfin voru greidd upp með útgáfu skuldabréfa þeirra er dómkrafan tekur til. Þá bera framlögð ljósrit skuldabréfanna frá 2004 og 2007 það með sér að þau hafi verið afmáð og þess getið í þinglýsingabókum. Ágreiningur er í málinu um afdrif eldri veðskuldabréfanna frá 2004 og 2007, en stefndi kveður að þeim hafi verið aflýst í þinglýsingabókum og síðan send stefnanda. Stefnandi kveðst aldrei hafa móttekið bréfin. Hér er orð gegn orði, en eins og dómkrafa málsins er sett fram, skiptir ekki máli hvað varð um eldri bréfin. Dómkrafan varðar skuldabréfin sem gefin voru út 23. maí 2011 og krafa stefnanda lýtur að greiðsluskylda á þeim bréfum. Eldri skuldabréfin voru greidd upp með þessum nýju bréfum. Því er málsástæða um afdrif eldri bréfanna haldlaus og ætluð áhrif afdrifa þeirra á greiðsluskyldu stefnanda hinna umdeildu skuldabréfa. Þá byggir stefnanda einnig á því að við stofnun stefnda í október 2008 hafi þær kröfur sem stefnandi skuldaði þá gamla Íslandsbanka/Glitni ekki verið færðar með réttum hætti yfir til stefnda. Því hafi kröfurnar fallið niður og hafi stefndi aldrei eignast kröfurnar á hendur stefnanda sem hann hafi stofnað til með lántökum í eldri bankanum 2004 og 2007. Varðandi þessa málsástæðu stefnanda þá hefur Hæstiréttur margoft dæmt um réttaráhrif ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til Nýja Glitnis banka hf. Sambærilegar ákvarðanir voru teknar í Fjármálaeftirlitinu varðanda aðrar bankastofnanir í kjölfar bankahrunsins. Hæstiréttur hefur tekið fram að kröfuréttindi eldri bankans hafi færst þegar í stað til nýja bankans og ekki hafi þurft sérstakt framsal í hverju og einu tilviku, eins og stefnandi virðist halda fram. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi verið almenns eðlis, tekin á grundvelli sérstakrar lagaheimildar og varð skuldbindandi fyrir stefnanda við birtingu ákvörðunarinnar án þess að tilkynna hefði þurft hverjum og einum skuldara um að kröfur hefðu flust yfir til bankans. Þar af leiðandi er því hafnað að stefndi hafi ekki eignast greindar kröfur. Þá heldur stefnandi því fram, að stefndi hafi við undirritun skuldabréfanna 23. maí 2011 gefið stefnanda ófullnægjandi og rangar upplýsingar og stefnandi verið nauðbeygður til að undirrita nýju veðskuldabréfin. Því hefur stefndi mótmælt. Eins og málatilbúnaði stefnanda er háttað eru þessar fullyrðingar vanreifaðar og með öllu ósannaðar og er þessari málsástæðu hafnað. Hins vegar verður hvað sem öðru líður að líta svo á að stefnandi hafi í verki viðurkennt greiðsluskyldu sína samkvæmt skuldabréfunum sem gefin voru út 23. maí 2011 og greitt af þeim svo sem framlögð dómskjöl bera með sér og tilgreint er hér að framan. Stefnandi heldur því fram, að stefndi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni eftir hrun íslenska bankakerfisins og eftirfarandi kröfuhafaskipti á upphaflegum skuldabréfum, að láta þinglýsa nauðsynlegum skjölum um veðrétt sinn skv. ákvörðun Fjármálaeftirlits. Beri stefnda af þessum ástæðum að hlutast til um að veðréttindum þessum verði aflýst, þegar af þeirri ástæðu. Hér er vandséð að tengsl séu á milli þessarar málsástæðu stefnanda og aðalkröfu málsins. Vanreifað er hvernig ætlaður skortur á veðsetningu eldri skuldabréfanna frá 2004 og 2007 í kjölfar bankahrunsins í október 2008 eigi að leiða til þess að stefnandi beri ekki greiðsluábyrgð samkvæmt skuldabréfum er gefin voru út hinn 23. maí 2011 og hann hefur undirritað og staðið í skilum með síðan. Því er málsástæða þessi haldlaus. Þá heldur stefnandi því fram að skuldabréfin frá 2004 og 2007 hafi verið ólögmæt gengistryggð lán og það sé ógildi á loforði stefnanda um endurgreiðslu lánanna frá 2011. Stefndi telur að sambærilegum málsástæðum hafi margoft verið hafnað í réttarframkvæmd. Tekið er undir með stefnda að oft hafi reynt á gildi sambærilegra skuldabréfa, og þessa málsástæðu stefnanda, í dómum Hæstaréttar. Með samanburði á skuldabréfum stefnanda og niðurstöðu Hæstaréttar Íslands til dæmis í málinu nr. 524/2011 var um gild lán í erlendum gjaldmiðli að ræða. Skiptir hvorki máli þótt lánin hafi verið greidd út í íslenskum krónum eða tekin vegna fjármögnunar íslenskrar fasteignar né að stefnandi hafi haft tekjur í íslenskum krónum og er þessari málsástæðu hafnað.  Þá byggir stefnandi á því að við gerð lánasamninga sinna hafi kröfuhafi í upphafi ekki sinnt skyldu sinni skv. lögum nr. 121/1994 um neytendalán, s.s. skyldu sinni til að greina stefnanda frá heildarlántökukostnaði, árlegri hlutfallstölu kostnaðar, heildarupphæð greiðslu, þ.e. samtölu höfuðstóls, vaxta og kostnaðar, fjárhæð greiðslna og mögulegum breytingum á lánskjörum á samningstímanum, sbr. 4. og 6. gr. laganna. Skilja verður málatilbúnað stefnandi á þann veg að hann eigi við atvik við gerð skuldabréfanna árið 2004 og 2007 með því að í stefnu segir að kröfuhafi hafi ekki sinnt skyldu sinni í „upphafi.“ Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir óundirrituð greiðsluáætlun vegna lánsins sem tekið var árið 2004 að fjárhæð 19.000.000 kr., sem stefnandi leggur fram. Þar er gerð grein fyrir heildarlántökukostnaði, árlegri hlutfallstölu kostnaðar, heildarupphæð greiðslu og fleira. Stefndi kveðst ekki hafa samsvarandi skjal vegna lánsins frá 2007 svo sem honum bar. Það leiðir þó ekki til þess að greiðsluskylda stefnanda samkvæmt skuldabréfum frá 23. maí 2011 sé ekki til staðar. Greiðsluáætlun, undirrituð af stefnanda, liggur fyrir í málinu vegna beggja þeirra skuldabréfa er dómkrafan tekur til. Því er málsástæðu þessari hafnað sem og tilvitnun stefnanda til 33. og 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá er ekki fallist á að skuldabréfin séu óskýr og annmörkum háð en í engu getið er í stefnu í hverju óskýrleikinn eða annmarkarnir felast. Þá er heldur ekki rökstudd sú fullyrðing stefnanda að honum hafi ekki verið gerð grein „fyrir eðli skuldabréfanna með fullnægjandi hætti við töku upphaflegu lánanna“. Þá byggir stefnandi á því að veðréttur fyrir kröfu stefnda hafi tapast þar sem stefndi hafi sýnt af sér tómlæti við að tryggja veðréttindi sín. Stefndi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni eftir bankahrunið, og eftirfarandi kröfuhafaskiptum á upphaflegum skuldabréfum, að láta þinglýsa nauðsynlegum skjölum um veðrétt sinn samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Að mati dómsins vantar hér verulega á skýrleika málsástæðunnar. Enn og aftur skal áréttað að aðalkrafa málsins lýtur að tveimur skuldabréfum sem gefin voru út 23. maí 2011. Ætlað tómlæti við að tryggja veðréttindi eldri bréfa er greidd voru upp með nýju bréfunum skiptir ekki máli eins og dómkrafan er fram sett. Þá ber ekki nauðsyn til að þinglýsa kröfuhafaskiptum samanber 30. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Með vísan til þess sem að framan greinir er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda. Í samræmi við 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað svo sem greinir í dómsorði. Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. DÓMSORÐ                 Varakröfu stefnanda er vísað frá dómi.                 Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Jóhannesar Þórs Hilmarsson.                 Stefnandi, Jóhannes Þór Hilmarsson, greiði stefnda 800.000 kr. í málskostnað.
Mál nr. 557/2017
Ráðningarsamningur Opinbert hlutafélag Uppsögn Einelti Lögskýring Miskabætur Skaðabætur
A krafði R ohf. um skaða- og miskabætur og reisti kröfur sínar annars vegar á því að hann hefði mátt sæta einelti af hálfu yfirmanns í starfi sínu hjá R ohf og hins vegar á því að uppsögn hans úr starfi hefði verið ólögmæt þar sem ekki hefði verið fullnægt skilyrðum 12. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að hvorki tilhögun lýsinga íþróttakappleikjum né breytingar á starfstilhögun A gætu hafa falið í sér einelti í skilningi þágildandi a. liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Hæstiréttur taldi jafnframt að sú málsástæða A að ekki hefði verið staðið við samkomulag um óbreytt launakjör A samhliða breytingu á starfi gæti ekki falið í sér ámælisverða og ótilhlýðilega háttsemi í merkingu a. liðar 3. gr. reglugerðar 1000/2004, enda hefðu málefnaleg sjónarmið getað búið að baki þeim skilningi þáverandi íþróttafréttastjóra R ohf. að henni hefði ekki verið heimilt að semja við A um greiðslu vaktaálags við nýjar starfsaðstæður. Þá gætu þeir ágallar sem voru á meðferð kvörtunar A um einelti ekki einir og sér hafa falið í sér einelti í skilningi a. liðar 3. gr. reglugerðarinnar. Þess utan hefði A ekki sýnt fram á að ágallar á meðferð kvörtunar hans hefðu haft í för með sér fjártjón fyrir hann né yrðu þeir taldir svo alvarlegir eða þess eðlis að miskabótaábyrgð yrði felld á R ohf. vegna þeirra. Að því er varðaði uppsögn R ohf. á ráðningarsambandi á milli aðila vísaði Hæstiréttur til þess að um opinber hlutafélög, líkt og R ohf., giltu almennt ekki reglur opinbers starfsmannréttar þótt frá því kynnu að vera undantekningar. Með hliðsjón af því stæðu ekki rök til þess að skýra sérreglu 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013 rýmra en leiddi af efni hennar og lögskýringargögnum. Óumdeilt væri að A hefði verið sagt upp vegna aðhaldsaðgerða í rekstri R ohf. og hefði uppsögn hans verið liður í hópuppsögn af því tilefni. Hefði ekki verið sýnt fram á annað en að þær forsendur hefðu verið málefnalegar eins og rekstri R ohf. hefði verið háttað. Hefði R ohf. því skýrt nægilega forsendur uppsagnarinnar, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013. Að þessu virtu var R ohf. sýknað af kröfum A.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. september 2017. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi höfðaði stefndi mál þetta til heimtu bóta úr hendi áfrýjanda. Reisir stefndi kröfur sínar annars vegar á því að hann hafi mátt sæta einelti af hálfu yfirmanns í starfi sínu hjá áfrýjanda. Hafi áfrýjandi hvorki sinnt skyldum sínum á grundvelli þágildandi reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað né brugðist við umkvörtunum stefnda í þessu sambandi með fullnægjandi hætti. Hins vegar byggir stefndi á því að uppsögn áfrýjanda á ráðningarsamningi þeirra á milli hafi verið ólögmæt þar sem ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 12. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. II Kröfu sína um bætur úr hendi áfrýjanda byggir stefndi sem fyrr segir meðal annars á því að hann hafi sætt einelti í starfi. Hafi það átt sér stað með ferns konar hætti. Í fyrsta lagi hafi yfirmaður hans sem var þáverandi íþróttafréttastjóri „markvisst útilokað [stefnda] frá kappleikjalýsingum“ með nánar tilteknum hætti. Í öðru lagi hafi áfrýjandi fyrir tilstilli íþróttafréttastjórans „verið færður af starfsstöð sinni ... og þannig útilokaður frá starfsbræðrum sínum þrátt fyrir að tilheyra ennþá hópi íþróttafréttamanna.“ Í þriðja lagi hafi nefndur íþróttafréttastjóri ekki staðið við samkomulag sem hann hafi gert þess efnis að stefndi héldi óbreyttum kjörum og vaktaálagsgreiðslum samhliða breytingum sem gerðar voru á starfi hans. Þá byggir stefndi loks á því í fjórða lagi að íþróttafréttastjórinn hafi ásamt þáverandi mannauðsstjóra áfrýjanda „séð til þess að eineltiskvörtun [stefnda] hafi aldrei fengið lögmæta málsmeðferð.“ Samkvæmt a. lið 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004, sem í gildi var þegar atburðir máls þessa áttu sér stað, var með einelti átt við ámælisverða eða síendurtekna ótilhlýðilega háttsemi, það er athöfn eða hegðun, sem væri til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beindist að. Þetta næði þó ekki til skoðanaágreinings eða hagsmunaáreksturs sem kynni að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna, enda leiddi slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til fyrrgreindrar háttsemi. Í b. lið 3. gr. gildandi reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum segir á hinn bóginn að með einelti sé átt við síendurtekna hegðun sem almennt sé til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Þannig gat háttsemi í skilningi eldri reglugerðar talist einelti þótt hún væri ekki endurtekin, svo sem nú er lagt til grundvallar skilgreiningu eineltis. Við mat á því hvort átt hafi sér stað einelti gagnvart starfsmanni í skilningi a. liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004 er það þó jafnan atvikabundið í hverju einstöku máli hvort einelti verði metið heildstætt út frá fleiri atburðum eða endurtekinni hegðun sem falið getur í sér einelti í skilningi ákvæðisins ellegar um einn einstakan atburð sé að ræða. Staðfest er með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms sú niðurstaða að hvorki tilhögun lýsinga á íþróttakappleikjum né breytingar á starfstilhögun stefnda geti hafa falið í sér einelti í skilningi a. liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004. Af hálfu stefnda er því haldið fram að ekki hafi af íþróttafréttastjóra hálfu verið staðið við samkomulag um óbreytt launakjör stefnda samhliða breytingu á starfi. Í því sambandi er til þess að líta að þegar hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi ekki sýnt fram á að breytingar á lýsingu á íþróttakappleikjum og starfstilhögun stefnda, sem áttu sér stað í aðdraganda þess að ætlað samkomulag um launakjör tókst með aðilum, geti falið í sér einelti í skilningi ákvæðis reglugerðarinnar. Að því gættu og án tillits til þess að áfrýjandi viðurkenndi síðar tilvist slíks samkomulags getur sá ágreiningur einn og sér ekki falið í sér ámælisverða og ótilhlýðilega háttsemi í merkingu a. liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004, enda gátu málefnaleg sjónarmið búið að baki þeim skilningi íþróttafréttastjórans að henni væri ekki heimilt að semja við stefnda um greiðslu vaktaálags við nýjar starfsaðstæður. Stendur þá eftir sú málsástæða stefnda að íþróttafréttastjórinn hafi ásamt þáverandi mannauðsstjóra áfrýjanda komið í veg fyrir að eineltiskvörtun stefnda 18. júní 2010 hlyti lögmæta meðferð. Upphaflega beindi stefndi kvörtun sinni til þáverandi fréttastjóra Óðins Jónssonar sem með tölvuskeyti 21. júní 2010 fól mannauðsstjóra málið til „skoðunar“. Sá mun í framhaldinu hafa átt fund með stefnda og íþróttafréttastjóranum, fyrst hvoru í sínu lagi en síðan saman. Fyrir dómi bar mannauðsstjórinn að það hafi orðið niðurstaða sín að um samskipta- og samstarfsörðugleika væri að ræða. Í framhaldi þessara samskipta var 15. september 2010 gert minnisblað sem bæði stefndi og íþróttafréttastjórinn undirrituðu þar sem tilgreind voru nánar atriði sem þau þyrftu bæði að bæta vegna samstarfs síns og samskipta. Fyrir liggur að á þessum tíma var ekki til staðar hjá  áfrýjanda áætlun í samræmi við 5. gr. reglugerðar nr. 1000/2004 og málinu var ekki af hálfu mannauðsstjóra markaður sá farvegur sem ráðgerður var í 7. gr. hennar. Allt að einu verður það ekki talin ólögmæt nálgun af hennar hálfu að kanna fyrst af öllu með sjálfstæðum hætti hvort hugsanlega væri um skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur að ræða fremur en einelti, hvað sem leið efnislegri niðurstöðu hennar þar að lútandi. Þá fær hvorki stoð í gögnum málsins né framburði annarra sú staðhæfing stefnda að honum hafi verið hótað uppsögn skrifaði hann ekki undir minnisblaðið. Þeir ágallar sem voru á meðferð eineltiskvörtunar stefnda geta ekki einir og sér, og með hliðsjón af því að einelti á hendur honum telst að öðru leyti ósannað, hafa falið í sér einelti í skilningi a. liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004. Þess utan hefur stefndi hvorki sýnt fram á að umræddir ágallar á meðferð kvörtunar hans hafi haft í för með sér fjártjón fyrir hann né verða þeir taldir svo alvarlegir eða þess eðlis að vegna þeirra verði miskabótaábyrgð felld á áfrýjanda á grundvelli b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. III Í annan stað gerir stefndi kröfu um bætur á þeim grundvelli að uppsögn áfrýjanda á ráðningarsamningi þeirra hafi verið ólögmæt þar sem ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 12. gr. laga nr. 23/2013. Með lögum nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. var stefnda breytt í opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Um slík félög gilda almennt ekki reglur opinbers starfsmannaréttar, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 2. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Frá því kunna þó að vera undantekningar á grundvelli lagaákvæða, samkomulags eða vegna annarra atvikabundinna aðstæðna. Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013 er sú regla lögfest að útvarpsstjóri skuli í samráði við starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins setja starfsreglur fyrir starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn og skilyrði áminningar og starfsloka. Í þeim reglum skal meðal annars kveðið á um að málefnalegar ástæður þurfi ætíð að liggja að baki brottrekstri starfsmanns. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að telji starfsmaður ástæður brottrekstrar ekki málefnalegar eigi hann rétt á skriflegri skýringu. Óumdeilt er að við uppsögn stefnda 27. nóvember 2013 höfðu slíkar reglur ekki verið settar. Stefndi reisir kröfu sína á því að með umræddu ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga 23/2013 sé þeim starfsmönnum áfrýjanda sem þar um ræðir ætluð sérstök vernd og þá þannig að áfrýjanda beri að rökstyðja sérstaklega uppsögn þeirra og hvaða málefnalegu sjónarmið hafi ráðið henni. Sé sú skylda almenn og eigi þar að lútandi jafnframt við undir þeim kringumstæðum þegar uppsögn er sögð hluti af aðhaldsaðgerðum í rekstri en óumdeilt sé að samhliða uppsögn stefnda hafi komið til hópuppsagnar af hálfu áfrýjanda. Af hálfu hans hafi ekki verið færður fram málefnalegur rökstuðningur fyrir því hvers vegna til þess kom að stefnda var sagt upp störfum. Að auki vísar stefndi til þess að „félagsstjórn“ áfrýjanda hafi borið að taka ákvörðun um hópuppsögn starfsmanna þar sem slík ákvörðun teljist „mikils háttar“ og geti ekki fallið undir daglegan rekstur. Af áfrýjanda hálfu er þessum sjónarmiðum stefnda hafnað og vísað til þess að regla 12. gr. hafi að geyma sérreglu hvers verndarandlag sé eingöngu að verja fréttamenn fyrir því að verða sagt upp störfum vegna skoðana sinna og tjáningar og með því vega að frelsi fjölmiðlamanna og mikilvægi þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Þá hafi ákvörðun um uppsögn stefnda og annarra starfsmanna áfrýjanda rúmast innan starfsheimilda útvarpsstjóra og annarra yfirmanna áfrýjanda. Fallist er á með héraðsdómi að það hafi verið útvarpsstjóra að ákveða, eftir atvikum í samráði við aðra stjórnendur, til hvaða aðgerða þurfti að grípa til þess að hagræða í rekstri áfrýjanda. Að því er varðar skýringu á 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013 var í hinum áfrýjaða dómi fallist á sjónarmið stefnda og þrengri skilningi áfrýjanda hafnað. Þar sagði að þegar tekin væri afstaða til ágreinings aðila þessa efnis væri ekki „óvarlegt“ að líta til þess hvernig dómstólar hafi skýrt reglur stjórnsýsluréttarins um að málefnalegar ástæður þyrftu að búa að baki uppsögn almennra ríkisstarfsmanna við hagræðingu. Taldi héraðsdómur að ekki væru komnar fram fullnægjandi skýringar á því hvers vegna stefndi var tekinn í hóp þeirra sem sagt var upp störfum í nóvember 2013 og leiddi það til þess að uppsögn hans hafi verið ólögmæt. Voru stefnda dæmdar skaða- og miskabætur af þeim sökum. Við skýringu á 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013 verður litið til lögskýringargagna en þar segir meðal annars: „Greinin, sem er nýmæli, kveður á um réttindi og skyldur starfsmanna fréttastofu og dagskrárgerðarmanna. Um viðkomandi starfsmenn gilda ákveðin sérsjónarmið vegna ritstjórnarlegrar ábyrgðar þeirra. Ástæðan er sú að talið er nauðsynlegt að veita þeim sem vinna við að veita „lýðræðislegt aðhald“ vernd umfram aðra starfsmenn.“ Fyrirmæli í framangreinda veru eiga sér beina samsvörun í ýmsum sérstökum réttindum blaða- og fréttamanna samkvæmt V. kafla laga nr. 38/2011 um fjölmiðla. Áréttað er það sem fram er komið að almennt gilda hvorki reglur opinbers starfsmannaréttar né reglur stjórnsýsluréttar um réttarstöðu, þar með talið um uppsögn, starfsmanna opinberra hlutafélaga heldur reglur hins almenna vinnumarkaðar. Þegar af þeirri ástæðu standa ekki rök til þess að skýra umrædda sérreglu rýmra en augljóslega leiðir af efni hennar og lögskýringargögnum og felst í því að vernda starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn gegn því að vera sagt upp vegna skoðana sinna og tjáningar. Fæli rýmri skýring jafnframt í sér ósamrýmanlega mismunun gagnvart öðrum starfsmönnum áfrýjanda sem ekki njóta verndar sérreglu 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013. Óumdeilt er að stefnda var sagt upp vegna aðhaldsaðgerða í rekstri áfrýjanda og uppsögn hans liður í hópuppsögn af því tilefni. Hefur ekki í málinu verið sýnt fram á annað en að þær forsendur hafi verið málefnalegar eins og rekstri áfrýjanda var háttað. Hefur áfrýjandi, að kröfu stefnda, því skýrt nægilega forsendur uppsagnarinnar, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013. Er samkvæmt framansögðu ekki fallist á með stefnda að uppsögn hans úr starfi hafi verið ólögmæt og verður fjárkröfum hans af því tilefni hafnað. Að öllu framangreindu virtu verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefnda í málinu. Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Dómsorð: Áfrýjandi, Ríkisútvarpið ohf., er sýkn af kröfu stefnda, Adolfs Inga Erlingssonar. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2017 I. Dómkröfur Mál þetta er höfðað 16. febrúar 2016 og tekið til dóms 12. maí sl. Stefnandi er Adolf Ingi Erlingsson, Sporðagrunni 5 í Reykjavík en stefndi Ríkisútvarpið ohf., Efstaleiti 1 í Reykjavík. Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða honum kr. 10.324.768,- með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. nóvember 2013 og til 3. október 2014, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá 4. október 2014 og til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi greiði stefnanda bætur að álitum með vöxtum og dráttarvöxtum á sama hátt og greinir í aðalkröfu.  Í báðum tilvikum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað stefnanda auk virðisaukaskatts, að mati dómsins eða eftir málskostnaðarreikningi framlögðum við aðalmeðferð málsins ef til hennar kemur. Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda, að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. II. Málavextir Stefnandi hóf störf hjá stefnda vorið 1991 við dagskrárgerð í útvarpi og síðar um haustið 1992 á íþróttadeild stefnda þar sem hann starfaði sem íþróttafréttamaður allt þar til honum var sagt upp störfum þann 27. nóvember 2013. Stefnandi telur að upphaf málsins megi rekja til þess að skipulagsbreytingar urðu hjá stefnda haustið 2008 sem m.a. fólu í sér að íþróttadeild RÚV ohf. var færð undir sameiginlega fréttastofu. Var varafréttastjóra, Margréti Marteinsdóttur, falið að stýra íþróttadeildinni og starfsmaður úr bókhaldi, Kristín Hálfdánardóttir, fengin henni til aðstoðar. Vorið 2009 var Kristín Hálfdánardóttir síðan ráðin í starf íþróttastjóra. Í málatilbúnaði stefnanda og framburði hans fyrir dómi kemur fram að hann hafi í kjölfarið lýst yfir óánægju sinni með ráðninguna á grundvelli þess að Kristín væri reynslulaus af fréttamennsku og dagskrárgerð. Hjörtur Júlíus Hjartarson, sem starfaði sem íþróttafréttamaður hjá stefnda frá hausti 2007 til janúar 2012, bar fyrir dómi, aðspurður um stjórnarhætti Kristínar að sér hefði virst að hún hefði ekki mikla þolinmæði gagnvart stefnanda Adolfi Inga. Hún hefði virkað „pirruð og þreytt“ á honum og það hefði endurspeglast í framkomu gagnvart honum. Þannig hefði hún sjaldan verið ánægð með hans störf, en vitnið kvaðst byggja það mat á eigin tilfinningu frekar en einhverjum einstökum dæmum sem það gæti tekið. Það væri tilfinning vitnisins að Kristínu hefði „ekki líkað neitt sérstaklega“ við stefnanda. Í framburði Þorkels Gunnars Sigurbjörnssonar, íþróttafréttamanns hjá stefnda, kom fram að framkoma Kristínar og viðmót hennar í garð starfsmanna íþróttadeildar, hefðu verið misjöfn. Hann kvað óumdeilt að samstarfsörðugleikar og togstreita hefðu verið á milli stefnanda og Kristínar. Aðspurður kvað vitnið þessa örðugleika hafa lýst sér í því að þau hefðu ekki átt skap saman og að þau hefðu verið ósammála um starfshætti hvors annars. Hann gæti hins vegar ekki nefnt einstök dæmi og hann treysti sér ekki til að fullyrða að um einelti hefði verið að ræða í garð stefnanda. Í framburði Kristínar fyrir dómi bar hún hins vegar að henni hefði ekki verið kunnugt um að stefnandi hefði verið gagnrýninn á ráðningu hennar, nema að því leyti að hún hefði vitað að hann hefði áhuga á starfinu sjálfur og hefði verið ósáttur við fyrirrennara hennar í starfi. Kristín bar fyrir dómi að hún hefði aldrei upplifað nein „sérstaklega slæm samskipti“ við stefnanda. Hún hefði þurft að gagnrýna hann fyrir vinnubrögð sín á köflum en það hafi verið hennar hlutverk sem yfirmanns og stefnandi hefði ekki verið sá eini sem hefði þurft að sæta slíkri gagnrýni. Kristín andmælti framburði stefnanda um að hún hefði reglulega „hellt sér yfir hann“ þótt vissulega hefðu þau átt orðaskipti. Óðinn Jónsson kvaðst í framburði sínum fyrir dómi ekki hafa orðið þess var að Kristín hefði verið öðruvísi í garð stefnanda en annarra undirmanna. Kristín hafi verið sett í starf íþróttastjóra sem manneskja utan deildarinnar. Hún hafi ekki verið „ein af hópnum“ og það hefði þurft að snúa af ýmsa agnúa vegna þess, enda hafi sumir starfsmenn íþróttadeildar verið lengi í starfi. Það hafi leitt til „árekstra“ og „núnings“ og hann hafi orðið var við það. Í gögnum málsins kemur fram að Kristín hafi sent stefnanda tölvupóst aðfararnótt 26. mars 2010 í framhaldi af samtali sem þau áttu föstudagskvöldið 19. mars 2010 en í þeim pósti sagði m.a:  „Frá því að ég byrjaði á íþróttadeild hef ég orðið vör við töluverða óánægju með annars vegar samskipti þín við samstarfsmenn og svo frammistöðu á fréttavöktum. Eftir að þú byrjaðir að vera aftur á vöktum eftir þó nokkurt hlé vegna annarra verkefna blossuðu þessi vandamál upp aftur og aftur. Þau vandamál sem aðallega um ræðir eru eftirfarandi: Stirðleiki í samskiptum við vaktstjóra. Mikil tilhneiging til að vera alltaf á síðustu stundu með fréttavinnslu. Uppbygging fréttatíma ekki í samræmi við viðmið frá vaktstjóra íþrótta. Íþróttavefur og textavarp vanrækt. Neikvætt viðhorf til vinnunnar og fyrirtækisins. Þegar um er að ræða deild sem er undir miklu álagi er mikilvægt að allir vinni saman sem eitt lið og því nauðsynlegt að breyting verði hér á. Ég vonast til að sjá þessa breytingu eftir páska svo ekki þurfa að koma til uppsagnar á ráðningarsamningi þínum eins og ég benti þér á að hætta væri á í samtali okkar.“ Í kjölfar Evrópumótsins í handknattleik 2010 mun Kristín Hálfdánardóttir hafa tilkynnt stefnanda um breytingar á verkefnum hans. Ljóst er að með þessum breytingum var stefnandi að miklu leyti tekinn úr reglulegum verkefnum í sjónvarpi, svo sem dagskrárgerð, lýsingum á kappleikjum og fleiru en í staðinn falið að skrifa fréttir fyrir vefsíðu Ríkisútvarpsins auk vefútvarpsfrétta. Þann 21. júní 2010 fór stefnandi á fund Óðins Jónssonar fréttastjóra stefnda þar sem hann kvartaði undan einelti Kristínar í sinn garð. Í kjölfarið ritaði Óðinn Berglindi Bergþórsdóttur, mannauðsstjóra RÚV ohf., tölvuskeyti en í því sagði meðal annars:  „Adolf Ingi sakar Kristínu Hörpu um einelti, hún setji sig til hliðar og niðurlægi með því að útiloka hann frá verkum sem hann hafi sinnt lengi. Benti hann sérstaklega á lýsingar á HM. Ég benti honum strax á að þetta væru alvarlegar ásakanir sem ég tæki alvarlega og ég vildi að skoðaðar væru faglega. Benti ég sérstaklega í því sambandi á að mannauðstjóri væri kominn til starfa hjá RÚV. Mál þetta á sér nokkra forsögu (Adolf Ingi hefur fengið áminningu vegna samstarfsörðugleika) og legg ég því ríka áherslu á að með það verði farið á faglegan hátt. Enginn vafi leikur á því að íþróttastjórinn hefur fullt umboð til þess frá fréttastjóranum að ákveða hverjir sinna hvaða verkum á deildinni, hver lýsir hvaða leik o.s.frv. Auðvitað er til þess ætlast að þar ráði faglegt og sanngjarnt mat. Ég óska eftir því að þú takir þetta mál til skoðunar.“ Af gögnum málsins verður ráðið að mannauðsstjóri stefnda hafi í framhaldinu átt fundi með stefnanda og Kristínu, fyrst hvoru í sínu lagi en síðan saman. Í kjölfarið var gert minnisblað sem mannauðsstjóri stefnda og stefnandi undirrituðu, dags. 15. september 2010, þar sem kveðið var á um að bæði Kristín og stefnandi þyrftu „að leggja sitt af mörkum til að bæta samstarfið og samskiptin“. Þau atriði sem stefnandi var talin geta bætt, voru (i) „samstarfs- og samskiptaörðugleikar milli [hans] og samstarfsmanna“, (ii) „stundvísi í setti“ og (iii) „vinnubrögð við vinnslu og lýsingu íþróttafrétta“. Í framburði Berglindar Bergþórsdóttur, þáverandi mannauðsstjóra stefnda, kom fram að það hefði verið niðurstaða fundanna að um samskiptaörðugleika væri að ræða og að þau þyrftu bæði að leggja sitt af mörkum til að samstarfið gengi betur. Þá minntist Berglind þess ekki að áminningarbréf sem Kristín sendi stefnanda 26. mars 2010 hafi verið rætt á fundunum. Hvorki Berglind né Kristín minntust þess að stefnanda hefði verið hótað uppsögn ef hann skrifaði ekki undir minnisblaðið. Þá minntist Berglind þess ekki hvort rætt hefði verið við aðra starfsmenn en stefnanda og Kristínu um sannleiksgildi þeirra athugasemda sem þau höfðu gagnvart hvort öðru. Óðinn Jónsson bar á sama veg fyrir dómi og kvaðst ekki hafa gert sérstaka rannsókn á sannleiksgildi athugasemda Adolfs Inga og Kristínar í garð hvors annars. Samkvæmt framburði Kristínar fyrir dómi mun hún einnig hafa skrifað undir annað minnisblaðið. Aðspurð kvað hún að að þeim atriðum sem fram komu í minnisblaðinu hefði ekki verið fylgt sérstaklega eftir. Í framburði Óðins Jónssonar kom hins vegar fram að hann hefði fylgt málinu eftir á fundum með mannauðstjóra og að hann vissi ekki betur en að mál hefðu eitthvað „róast“ eftir þetta. Í framburði sínum fyrir dómi lýsti stefnandi því hins vegar að einelti í hans garð hefði ágerst eftir að hann undirritaði yfirlýsinguna frá 15. september 2010. Þannig hefði hann verið færður af starfsstöð sinni og frá öðrum starfsmönnum íþróttadeildar sem allir höfðu aðstöðu nálægt hver öðrum til almennra fréttamanna án skýringa. Í framburði Kristínar fyrir dómi skýrði hún þessa tilhögun þannig að talið hefði verið fara best á því að stefnandi væri með starfsstöð meðal annarra starfsmanna veffrétta, þar sem hann átti að vera sá starfsmaður íþróttadeildar sem hefði umsjón með þeim fréttamiðli. Íþróttafréttum á vefmiðli stefnda hefði verið ábótavant og að það hafi þótt tilraunarinnar virði að hafa íþróttafréttamann, sem skrifaði á vefinn, með starfsstöð á sama stað og veffréttastjórinn og aðrir fréttamenn sem skrifuðu á vefinn.  Í framburði sínum fyrir dómi kvaðst Kristín hafa lýst því yfir þegar hún tók við starfi íþróttastjóra að hún myndi fela starfsmönnum verkefni á grundvelli hæfni. Í ljósi þess að stefnandi hefði átt í samskiptaörðugleikum við samstarfsmenn undir álagi í beinni útsendingu og ekki gætt stundvísi í útsendingu, auk þess sem aðrir starfsmenn hefðu gert auknar athugasemdir um tæknileg mistök í sjónvarpsfréttum sem stefnandi hefði séð um, hefði henni þótt nær að fela stefnanda önnur verkefni en lytu að sjónvarpsútsendingum. Stefnandi hefði hins vegar verið góður íslenskumaður, skrifað vandaðan texta og haft góða framsögu, og hún hefði talið að þeir hæfileikar myndu nýtast vel í útvarps- og veffréttum. Um þá ákvörðun að færa til starfsstöð hans sagði Kristín að eðlilegt hefði þótt að færa stefnanda nær starfsmönnum veffrétta og útvarps í ljósi þeirra breytinga sem orðið hefðu á starfi hans. Í framburði Láru Ómarsdóttur, ritstjóra veffrétta, kom fram að henni hefði ekki þótt óeðlilegt að stefnandi hefði starfsstöð á sama stað og aðrir sem sinntu veffréttum. Í málatilbúnaði og framburði stefnanda kom fram að hann hefði ákveðið að halda áfram störfum sínum hjá stefnda þrátt fyrir að hann sætti sig ekki við breytingarnar. Stefnandi heldur því fram að í kjölfarið hafi Kristín Hálfdánardóttir íþróttastjóri samþykkt að hann myndi halda kjörum sínum, þ.e. einkum greiðslu vegna vaktaálags. Þær greiðslur hafi síðan fallið niður af óútskýrðum ástæðum. Í framburði sínum fyrir dómi bar Kristín að hún hefði samþykkt að stefnandi myndi halda álagsgreiðslum sem hann hafði vegna verkefna í sjónvarpi út uppsagnartíma en hún hefði engar heimildir haft til að lofa honum neinu umfram það. Samkvæmt vitnisburði Hallgríms Indriðasonar, fréttamanns hjá stefnda og formanns Félags fréttamanna, óskaði stefnandi eftir aðstoð félagsins til að innheimta umræddar greiðslur. Kvaðst Hallgrímur hafa borið málið undir Láru Ómarsdóttur, fréttamann, sem hafi verið vitni að samtali stefnanda og Kristínar, sem hafi staðfest skilning stefnanda á samtalinu. Hallgrímur hafi síðan haft samband við Kristínu og í kjölfarið átt fund með henni og Berglindi mannauðsstjóra þar sem þær hafi lýst þeim skilningi að álagsgreiðslur til stefnanda hafi aldrei átt að halda sér. Þau hafi síðan öll þrjú átt fund með stefnanda haustið 2013 þar sem þær hafi staðið fast á því að stefnandi hafi aldrei átt rétt á þessum greiðslum. Stefndi hafi síðan greitt stefnanda umræddar greiðslur eftir uppsögn hans í nóvember 2013. Greiðslur þessar munu ekki hafa fengist innheimtar fyrr en samhliða uppsögn þegar Lára Ómarsdóttir staðfesti frásögn stefnanda. Þessa atburðarás staðfesti Lára enn fremur í vitnisburði sínum fyrir dómi.   Stefnandi telur að þar sem tilraunir hans til þess að taka á einelti Kristínar hafi verið til þess fallnar að ógna starfsöryggi hans enn frekar, hafi hann ekki átt annarra kosta völ fram að uppsögn en að bera harm sinn í hljóði. Vanlíðan stefnanda hafi fljótlega farið að bitna á fjölskyldulífi hans og hafi hann leitað sér fagaðstoðar af því tilefni. Samkvæmt gögnum málsins mun Bjarni Guðmundsson, þáverandi framkvæmdastjóri RÚV ohf. hafa boðað trúnaðarmenn starfsmanna til fundar föstudaginn 22. nóvember 2013 þar sem þeim voru kynntar aðhaldsaðgerðir sem grípa þyrfti til í því skyni að bæta rekstur félagsins. Var þar jafnframt tilkynnt að gripið yrði til uppsagna á grundvelli laga nr. 63/2000, um hópuppsagnir en í fundargerð sagði meðal annars svo:  „Ástæður fyrirhugaðra uppsagna eru þær að nú stefnir í að það vanti um 500 m. kr. upp á að endar nái saman í rekstri RÚV. Gangi uppsagnir eftir verður stöðugildum fækkað um 55 af heildarfjölda 267 stöðugilda og má gera ráð fyrir að uppsagnir nái til um 60 starfsmanna af 279 starfsmönnum RÚV. Um er að ræða dagskrárgerðarmenn, fréttamenn, tæknimenn og starfsfólk stoðdeilda. Vinna tímavinnufólks mun einnig dragast saman sem og vinna verktaka sem sumir hverjir eru með allar sínar tekjur af þjónustu við RÚV. Stefnt er að því að tekin verði ákvörðun um uppsagnir í síðustu viku nóvembermánaðar og að farið verði í uppsagnir fyrir lok mánaðarins. Uppsagnarfrestur starfsmanna er frá 1 mánuði til 6 mánaða og mun því koma til starfsloka á tímabilinu 31. desember 2013 til 31. maí 2014. Viðmiðanir sem stendur til að nota við val á starfsmönnum sem segja á upp felast í því að dagskrárliðir styttast og falla út og þar af leiðir að starfsfólki fækkar. Breyting verður gerð á framleiðslu með það að markmiði að fækka starfsfólki. Vegna minni umsvifa dregur úr umfangi stoðdeilda sem leiðir til fækkunar á starfsfólki. Tillögurnar voru mótaðar í samræmi við lykilstjórnendur. Ekki er um að ræða bráðabirgðaaðgerðir heldur er verið að minnka starfsemina til frambúðar. Ekki var farið í flatan niðurskurð, aðhaldsaðgerðirnar miðast við að standa, eins og kostur er, vörð um hlutverk og stefnu félagsins. Ljóst er þó að með aðgerðunum þynnist dagskráin töluvert og þar með verða breytingarnar mjög sjáanlegar. Ekki þykir ástæða til að bíða með aðgerðir þar til búið er að samþykkja fjárlög því miðað við yfirlýsingar stjórnvalda og það sem fram hefur komið í umræðum m.a. á Alþingi er ekkert sem bendir til þess að dregið verði úr aðhaldskröfu til RÚV heldur þvert á móti virðist stefna í að hagræðingarkrafa til RÚV verði aukin frá því sem er í fjárlagafrumvarpinu. Reynt verður að milda aðgerðirnar eins og kostur er. Í nokkrum tilvikum er ekki ráðið í stöður sem losna, beðið er eftir starfslokum þar sem stutt er í þau og er reynt að milda starfslok elstu starfsmannanna með starfslokasamningum sem í einhverjum tilfellum brúa bilið þar til þeir komast á lífeyri. Þrátt fyrir þetta verður ekki hjá því komist að fækka um rúmlega 40 stöðugildi með beinum uppsögnum. Í þeim tilvikum er ekki gert ráð fyrir vinnuskyldu og viðveru á vinnustað meðan á uppsagnarfresti stendur.“ Stefnanda var síðan sagt upp störfum í hópuppsögn þann 27. nóvember 2013. Með bréfi útvarpsstjóra til Vinnumálastofnunar sem dagsett er sama dag er stofnuninni tilkynnt um að áformað sé að segja upp 39 starfsmönnum, gera starfslokasamning við 8 starfsmenn og ekki ráða fyrir 2 starfsmenn sem hætta, en samtals fækki um 49 starfsmenn. Í bréfinu segir að við val á starfsmönnum sem segja eigi upp komi helst þeir til álita sem tilheyra þeirri starfsemi sem er minnkuð eða lögð af eða tengist henni beint eða óbeint. Breyting verði gerð á framleiðslu með það að markmiði að fækka starfsfólki. Þá verði dregið úr umfangi stoðdeilda sem leiði til fækkunar á starfsfólki. Um það hvernig staðið var að umræddum hópuppsögnum ber framburði vitna fyrir dómi ekki saman að öllu leyti. Þannig sagði Kristín Hálfdánardóttir í framburði sínum að hún gæti ekki upplýst með hvaða hætti lagt var mat á hverjum ætti að segja upp í hópuppsögninni þar sem hún hefði ekki komið að ákvörðuninni um að Adolf Ingi væri meðal þeirra sem sagt var upp með neinum hætti. Hún hefði verið kölluð inn á skrifstofu kvöldi áður en uppsagnir fóru fram þar sem Berglind Bergþórsdóttir þáverandi mannauðstjóri stefnda hefði tilkynnt henni um hverjum yrði sagt upp. Ekki hefði verið óskað eftir áliti eða mati hennar sem íþróttastjóra á því hverjum yrði sagt upp. Aðspurð um þetta atriði fyrir dómi bar Berglind að framkvæmdastjórar stefnda hefðu haft „mikið um þetta að segja“. Aðspurð um hvort Kristín hafi komið að þessari ákvörðun sagði Berglind að hana minnti að „þetta hefði legið meira hjá fréttastjóra stefnda“, Óðni Jónssyni. Óðinn Jónsson, þáverandi fréttastjóri stefnda, sagði hins vegar í framburði sínum að við val á því hverjum ætti að segja upp hefði í meginatriðum verið byggt á mati næstu yfirmanna viðkomandi starfsmanns sem í tilviki stefnanda Adolfs Inga hafi verið Kristín Hálfdánardóttur og Einar Örn Jónsson, varaíþróttastjóri stefnda. Tillögur um uppsagnir hafi hins vegar að lokum verið lagðar fyrir útvarpsstjóra sem bar hina endanlegu ábyrgð, sem hafi í ýmsum tilvikum breytt því hverjum yrði sagt upp. Stefnanda var tilkynnt um uppsögn sína með bréfi útvarpsstjóra 27. nóvember 2013. Í bréfinu kom fram að ráðningarsamningi hans við RÚV frá 5. október 1992 væri sagt upp með samningsbundnum fyrirvara frá næstu mánaðamótum. Í bréfinu sagði að ástæður ákvörðunarinnar vörðuðu ekki það með hvaða hætti stefnandi hefði rækt starf sitt hjá stefnda heldur neyddist félagið til að fækka starfsmönnum sínum vegna tekjuskerðingar. Með bréfi, dags. 6. desember 2013, óskaði stefnandi eftir skriflegum skýringum stefnda á uppsögn sinni. Í bréfinu sagði meðal annars svo: „Brottreksturinn grundvallaðist ekki á málefnalegum ástæðum. Með vísan til 2. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, er Ríkisútvarpið ohf. hér með krafið um skriflegar skýringar á brottrekstrinum. Jafnframt krefst undirritaður þess að fá afrit af staðfestum starfsreglum fyrir starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn Ríkisútvarpsins og skilyrði áminningar og starfsloka, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.“    Með bréfi lögmanns stefnanda til lögmanns stefnda, dags. 3. september 2014 var beiðni stefnanda um skriflegar skýringar á uppsögn hans ítrekuð. Lögmaður stefnda svaraði bréfinu með bréfi, dags. 17. desember 2014. Í því bréfi kom fram að uppsögnin hafi verið gerð í hagræðingarskyni samhliða því að fjölmörgum öðrum starfsmönnum var sagt, eins og fram hefði komið í uppsagnarbréfi, og mótmælt öðrum skýringum stefnanda á uppsögn hans. III. Málsástæður og lagarök aðila Málsástæður stefnanda. Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi beri fébótaábyrgð á saknæmri háttsemi og aðgerðarleysi starfsmanna sinna vegna eineltis, ítrekaðra meingerða og ólögmætrar uppsagnar. Sú krafa er reist á meginreglum íslensks skaðabótaréttar einkum hinni ólögfestu reglu um húsbóndaábyrgð. Stefnandi byggir á því að málsástæður hans geti allar staðið sjálfstætt og hver um sig leiði til þess að taka beri kröfu stefnanda til greina, þá sérstaklega þegar þær koma fleiri eða allar saman. Einelti sem stefnandi telur sig hafa sætt og brot stefnda í því sambandi. Um skyldur vinnuveitanda til að gæta fyllsta öryggis á vinnustað Stefnandi byggir á því að öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi teljist til grundvallarréttinda, ekki síst þegar um er að ræða félag í opinberri eigu. Stefnandi vísar að þessu leyti til alþjóðlegra skuldbindinga ríkisins sem íslenska ríkið hafi mætt með lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum ásamt reglugerðum og reglugerð nr. 1000/2004, um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, sem sett var á grundvelli þeirra laga. Stefnandi vísar til þess að markmið laga nr. 1000/2004 sé að koma í veg fyrir heilsutjón með því að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi þannig að starfsmenn njóti velsældar og virðingar í starfi. Stefnandi byggir á því að stefndi beri ábyrgð á brotum gegn ákvæðum fyrrgreindra laga og reglugerða, með saknæmri vanrækslu á innleiðingu áætlana og vítaverðu aðgerðaleysi í kjölfar tilkynningar stefnanda um einelti af hálfu forstöðumanns íþróttadeildar stefnda. Um lögbundna skyldu til athafna vegna ásakana um einelti á vinnustað Stefnandi vísar til þess að í 37. gr. laga nr. 46/1980 sé kveðið á um að vinnu skuli haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Í e-lið 38. gr. laganna segi að ráðherra setji nánari reglur um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum. Á þeim tíma sem atvik málsins áttu sér stað hafði ráðherra sett reglur um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum með reglugerð nr. 1000/2004, með það að markmiði að stuðlað yrði að forvörnum og aðgerðum gegn einelti á vinnustöðum. Stefnandi vísar til þess að í 4. gr. reglugerðarinnar sé að finna almennt ákvæði um skyldur atvinnurekanda, en þar segi m.a. að atvinnurekandi skuli gera starfsfólki ljóst að einelti og önnur ótilhlýðileg háttsemi sé óheimil á vinnustað. Atvinnurekanda beri, samkvæmt fyrrgreindu reglugerðarákvæði, skylda til að láta slíka háttsemi á vinnustað ekki viðgangast og skuli hann leitast við að koma í veg fyrir ótilhlýðilega háttsemi sem hann fær vitneskju um. Í 7. gr. sé svo vikið sérstaklega að viðbragðsskyldu atvinnurekanda þegar fram kemur ábending eða grunur um einelti á vinnustað. Segir þar að atvinnurekandi skuli bregðast við eins fljótt og kostur er og meta aðstæður í samvinnu við vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins og utanaðkomandi ráðgjafa, ef með þarf. Í niðurlagi ákvæðisins sé svo sérstaklega tekið fram að grípa verði til viðeigandi ráðstafana og fylgja því eftir að einelti endurtaki sig ekki á vinnustaðnum. Stefnandi vísar til þess að í greinargerð Vinnumálastofnunar með reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað komi fram að í samskiptum milli stjórnenda og starfsmanns hafi starfsmaðurinn veikari stöðu og sé það á þeirra ábyrgð að kanna hvaða aðstæður í vinnuumhverfinu liggja að baki niðrandi framkomu og koma í veg fyrir slíkt. Í máli því sem hér um ræðir hafi stefnandi tilgreint yfirmann sinn sem geranda í því einelti sem hann hafði þurft að þola. Kvörtun stefnanda að þessu leyti hafi hins vegar verið afgreidd með fundi hjá mannauðsstjóra stefnda, þar sem stefnanda var gert ljóst að gripið yrði til uppsagnar ef hann myndi ekki bæta ráð sitt. Eðli málsins samkvæmt gerði stefnandi ekki frekari tilraunir til að fá úrlausn mála sinna, enda ljóst hvaða afleiðingar það hefði í för með sér. Stefnandi telur ljóst að ekki hafi verið aðhafst í samræmi við þær lögbundnu skyldur sem hvíla á stefnda í kjölfar ásakana um einelti af hálfu yfirmanns. Af óútskýrðum ástæðum hafi ekki þótt tilefni til að kanna hvort grundvöllur væri fyrir þeim ásökunum með aðstoð utanaðkomandi ráðgjafa. Þá hafi aðstæður ekki verið metnar í samráði við vinnuverndarfulltrúa, þar sem ekkert vinnuverndarstarf hafi verið til staðar hjá stefnda. Það liggi því í hlutarins eðli að hvorki hafi verið gripið til viðeigandi ráðstafana né tryggt að eineltið myndi ekki endurtaka sig. Um skyldur vinnuveitanda um skriflega áætlun um öryggi og áhættumat á vinnustað Þá vísar stefnandi til þess að samkvæmt XI. kafla laga nr. 46/1980 sé ljóst að atvinnurekandi beri ábyrgð á því að til sé skrifleg áætlun um heilsuvernd á vinnustað sbr. 65. og 66. gr. laganna. Fyrsti liður slíkrar áætlunar sé áhættumat, sem felur í sér athugun á vinnuaðstæðum til þess að kanna hvort eitthvað í vinnuumhverfinu, vinnuskipulaginu eða við framkvæmd vinnunnar geti hugsanlega leitt til andlegs eða líkamlegs tjóns, þar á meðal eineltis. Stefnandi bendir á að á grundvelli framangreindra ákvæða hefur verið sett reglugerð nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Samkvæmt 27. og 28. gr. reglugerðarinnar skuli atvinnurekandi framkvæma skriflegt áhættumat og gera áætlun um forvarnir. Þá sé ljóst samkvæmt fyrirmælum 26. gr. sömu reglugerðar að áætlunin skuli vera aðgengileg öllum starfsmönnum fyrirtækisins. Þessi skylda atvinnurekanda sé ítrekuð í 5. gr. reglugerðar nr. 1000/2004, um aðgerðir gegn einelti, en tilgangur áætlana um heilsuvernd sé m.a. að tryggja að starfsmenn fái verkefni við hæfi, sbr. b-liður 2. mgr. 66. gr. laga nr. 46/1980. Af ofangreindum ákvæðum laga og reglugerða verður að mati stefnanda ráðið að rík skylda hvíli á herðum atvinnurekanda til að sjá til þess að fyllsta öryggis sé gætt á vinnustað. Þar sé kveðið á um forvarnir og áætlanagerð með það að markmiði að sporna gegn einelti á vinnustað, ásamt því að leggja almennar skyldur á stefnda til að láta slíka háttsemi ekki viðgangast og grípa til viðeigandi ráðstafana. Það hafi hins vegar ekki verið gert, stefndi hafi aldrei lokið gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og því engin viðbragðsáætlun vegna eineltis til staðar. Vísar stefnandi til þess að stefndi hafi með lítilli fyrirhöfn og án mikils tilkostnaðar getað komið til móts við þessi mikilvægu réttindi og komið í veg fyrir tjón stefnanda eða takmarkað umfang þess. Stefnandi vísar til þess að framangreind vanræksla stefnda á innleiðingu vinnuverndar hafi verið staðfest af Vinnueftirliti ríkisins. Byggir stefnandi á því að athafnaleysi stefnda sé refsivert samkvæmt 99. gr. laga nr. 46/1980 og stefndi sé jafnframt bótaskyldur gagnvart stefnanda vegna tjóns, sem rekja megi til ólögmæts aðgerðarleysis hans. Þá telur stefnandi að athafnaleysið og afleiðingar þess fyrir stefnanda feli í sér ólögmæta meingerð í skilningi b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem stefndi beri ábyrgð á. Þá verði ekki framhjá því litið að vanræksla stefnda í þessum efnum leiði óhjákvæmilega til þess að stefndi verði að bera hallann af upplýsingaskorti og slakri sönnunarstöðu, enda hafi honum borið lagaleg skylda til að meta aðstæður í kjölfar tilkynningar stefnanda og afla sér sönnunar um staðreyndir máls í stað þess að ljúka málinu óupplýstu og þar með að gera stefnanda erfiðara um við að fá viðurkenningu á einelti og bót á ólögmætri og meiðandi háttsemi í hans garð. Einelti og önnur ótilhlýðileg háttsemi starfsmanna stefnda     Stefnandi kröfur sínar á því að starfsmaður stefnda, Kristín Hálfdánardóttir, forstöðumaður íþróttadeildar og yfirmaður stefnanda hafi í áraraðir, allt frá því hún tók við starfi íþróttastjóra og þar til stefnanda var sagt upp störfum þann 27. nóvember 2013, lagt stefnanda í einelti í skilningi 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004. Stefnandi vísar í fyrsta lagi til þess að íþróttastjóri hafi markvisst útilokað stefnanda frá kappleikjalýsingum og íþróttafréttamenn með margfalt minni starfsreynslu þess í stað verið fengnir til að annast þau verkefni í hans stað. Rétt sé að geta þess að lýsingar frá alþjóðlegum stórmótum þyki eftirsóknarverðustu atburðir íþróttafréttamanna, auk þess sem þessi verkefni séu betur launuð en hefðbundnar vaktir. Hagsmunir starfsmanna af því að sækja slíka viðburði séu því ríkir. Mismunun íþróttastjóra í úthlutun verkefna hafi verið til þess fallin að niðurlægja stefnanda og ógna starfsöryggi hans en þar sem stefnandi fékk aldrei viðhlítandi skýringar verði ekki séð að ákvarðanataka íþróttastjóra hafi stjórnast af öðru en persónulegri óvild í garð stefnanda.  Í öðru lagi vísar stefnandi til þess að í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar voru á stöðu hans hjá stefnda, hafi íþróttastjóri samþykkt að stefnandi myndi halda kjörum sínum, þ.e. einkum greiðslu vaktaálags. Slíkar greiðslur hafi hins vegar fallið niður og ekki fengist innheimtar af hálfu stefnanda þar sem íþróttastjóri neitaði alfarið að viðurkenna tilvist samkomulagsins. Þurfti stefnandi að berjast fyrir rétti sínum og hafði loks árangur erfiði síns eftir að vitnisburðar samstarfsmanns var aflað, sem staðfesti það sem um var samið. Framferði íþróttastjóra hafi verið verulega niðurlægjandi, enda hafi hún gefið stjórnendum stefnda tilefni til að ætla að stefnandi hafi komið fram af óheiðarleika og logið til um samkomulagið. Í þriðja lagi vísar stefnandi til þess að íþróttastjóri hafi í samráði við mannauðsstjóra stefnda, séð til þess að eineltiskvörtun stefnanda hafi aldrei fengið lögmæta málsmeðferð. Á fundi mannauðsstjóra hafi stefnanda verið tjáð að hann þyrfti að undirrita skjal þar sem hann lofaði bót, að öðrum kosti yrði honum sagt upp störfum. Telur stefnandi þessa háttsemi einstaklega ámælisverða, sérstaklega í ljósi þess að umræddur yfirmaður hafi verið gerandi í því einelti sem stefnandi gerði ráð fyrir að rætt yrði á fundinum. Í fjórða lagi vísar stefnandi til þess að hann hafi verið færður af starfsstöð sinni fyrir tilstilli íþróttastjóra og þannig útilokaður frá samstarfsmönnum sínum þrátt fyrir að tilheyra ennþá hópi íþróttafréttamanna. Sú háttsemi íþróttastjóra hafi verið bæði til þess fallin að niðurlægja og særa stefnanda, sem fram að þessu hafði alltaf upplifað sig sem hluta af heildinni, þrátt fyrir óverðskuldaðar skammir og niðrandi athugasemdir sem hann hafði þurft að þola frá yfirmanni sínum. Stefnandi hafi af augljósum ástæðum illa getað sinnt störfum sínum sem einn af liðsmönnum íþróttadeildarinnar þegar hann hafði verið jaðarsettur í orðins fyllstu merkingu með þessum hætti, enda snúist starfið að miklu leyti um samstarf og samtal á milli starfsmanna sviðsins. Þá vísar stefnandi til þess að, óháð því hvort eineltistilburðir íþróttastjóra falli undir skilgreiningu eineltis samkvæmt fyrrgreindri reglugerð sé ljóst að síendurtekin hegðun starfsmanns stefnda hafi verið til þess fallin að gera lítið úr störfum og ógna starfsöryggi hans og afkomu verulega. Niðrandi framkoma hafi varpað rýrð á starfsheiður og persónu stefnanda og fól í sér ólögmæta meingerð í skilningi b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem stefndi ber ábyrgð á. Ólögmæt uppsögn á ráðningarsamningi Stefnandi reisir dómkröfur sínar einnig á því að uppsögn stefnda á ráðningarsamningi hans, sem tilkynnt var um með bréfi dagsettu 27. nóvember 2013 hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið. Þá telur stefnandi að framkvæmd uppsagnarinnar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 2/1995, um hlutafélög og samþykktir Ríkisútvarpsins. Telur stefnandi að allir þessir annmarkar leiði til þess að uppsögnin sé ólögmæt hver um sig, en sérstaklega þegar þeir séu metnir til samans. Uppsögn stefnanda ekki byggð á málefnalegum sjónarmiðum Í fyrsta lagi vísar stefnandi til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013 sem kveði á um aukið starfsöryggi starfsmanna stefnda og segi að starfsreglur skuli kveða á um að málefnalegar ástæður þurfi ætíð að liggja að baki brottrekstri. Starfsmaður eigi svo rétt á skriflegum skýringum telji hann ástæður brottrekstrar ekki málefnalegar, sbr. 2. mgr. 12. gr. Stefnandi bendir á að þrátt fyrir skýr fyrirmæli laganna hafi fréttareglur og vinnuleiðbeiningar fyrir starfsmenn Fréttastofu RÚV, dags. 8 mars 2011, engar slíkar reglur að geyma. Samkvæmt upplýsingum frá stefnda sé öðrum reglum ekki til að dreifa.                Með bréfi til stefnda, dags. 6. desember 2013, krafðist stefnandi skriflegra skýringa á brottrekstrinum með vísan til 2. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013. Með bréfi frá lögmanni stefnda dags. 11. maí 2015, bárust loks eftirfarandi skýringar:  „[…]Ekki verður séð að sú beiðni styðjist við neinn lagagrundvöll en þess utan, og sem fram hefur komið í fyrri erindum, þá varð, eins og liggur í hlutarins eðli, er kom til fækkunar starfsfólks að taka mið af því hverjir væru best fallnir til að gegna áfram störfum fyrir RÚV á umræddu sviði, enda þótt ástæður uppsagnarinnar væru ekki með hvaða hætti [stefnandi] hefur rækt starf sitt sérstaklega.“ Í framangreindri fullyrðingu felst að mati stefnanda ekki málefnaleg ástæða enda væri slíkt skilyrði innantómt og með öllu haldlaust ef uppfylla mætti ákvæði 12. gr. laga nr. 23/2013 með slíkum alhæfingum. Ljóst er að stefnandi hafði við uppsögn margfalda starfsreynslu samanborið við aðra íþróttafréttamenn og uppfyllti auk þess ýmis önnur hæfisviðmið. Hafi uppsögnin raunverulega tekið mið af því hverjir væru best fallnir til að gegna störfum íþróttafréttamanna hefði stefnda verið í lófa lagið að rökstyðja mat sitt með hlutlægum hætti. Þar sem slíkar málefnalegar skýringar hafi ekki borist hlýtur stefnandi að telja að valið hafi hreinlega tekið mið af geðþóttamati íþróttastjóra stefnda á því „hverjir væru best fallnir til að gegna áfram störfum fyrir RÚV“, án þess að það hafi verið útskýrt nánar. Í þessu samhengi skal athugað að þegar gripið var til uppsagna hafði stefnanda verið skipað í lægstu röð íþróttafréttamanna og ekki notið trausts yfirmanna sinna, hvorki mannauðsstjóra né íþróttastjóra, sem báðar virðast hafa komið að ákvarðanatökunni. Ákvörðun um uppsögn framkvæmd með ólögmætum hætti Í öðru lagi er á því byggt að ákvörðun þess efnis að gripið verði til hópuppsagna sé mikils háttar og geti ekki fallið undir daglegan rekstur. Stefnandi telur því óhjákvæmilegt að slíka ákvörðun hafi orðið að taka af félagsstjórn stefnda. Samkvæmt 5.2.2. gr. samþykkta RÚV ohf., sé það hlutverk stjórnar félagsins að taka meiri háttar ákvarðanir um rekstur Ríkisútvarpsins, þ.e. ákvarðanir sem ekki falla undir daglegan rekstur. Þá kemur fram í 5.3. gr. samþykktanna að útvarpsstjóri sé framkvæmdastjóri félagsins sem hafi með höndum daglegan rekstur þess. Samkvæmt 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög tekur hinn daglegi rekstur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Við mat á því hvað teljist til óvenjulegra eða mikils háttar ráðstafana beri að taka mið af tilgangi félagsins, umfangi og efnahagsstöðu og verður það mat ekki falið framkvæmdastjóra félagsins. Þá getur stjórn stefnda ekki framselt vald sitt til að taka ákvarðanir um ótilgreindar ráðstafanir án tillits til þess hvort þær séu óvenjulegar eða mikils háttar og breytir þar engu þótt hluthafafundur kunni að hafa samþykkt slíkt framsal, sbr. ítrekuð dómafordæmi Hæstaréttar sem rakin verða í munnlegum málflutningi. Í aðdraganda málsóknarinnar óskaði stefnandi eftir upplýsingum um málsmeðferð og aðdraganda uppsagna, þá sérstaklega endurriti úr fundargerð stjórnar. Við því var ekki orðið þrátt fyrir ítrekun, og hefur stefnandi því ástæðu til að ætla að stjórn stefnda hafi ekki tekið ákvörðun um hópuppsögnina. Telur stefnandi að gera verði þá kröfu til stefnda, sem leiðandi fjölmiðils og opinbers hlutafélags, að honum hafi borið skylda að framfylgja þeim reglum sem hann sjálfur hafi samþykkt að vinna eftir og er ætlað að tryggja að vandað sé til verka. Telur stefnandi ljóst að útvarpsstjóra hafi ekki verið heimilt að standa að uppsögn stefnda án þess að samþykki meirihluta stjórnar hafi legið fyrir og því hafi uppsögn stefnanda verið framkvæmd með ólögmætum hætti. Þegar af þeirri ástæðu að um ólögmæta framkvæmd sé að ræða myndar ákvörðunin bótarétt til handa stefnanda þessa máls. Um bótaskyldu og fjárhæð bóta Stefnandi byggir á því að stefndi beri fébótaábyrgð á saknæmri háttsemi og aðgerðaleysi starfsmanna sinna á grundvelli meginreglu skaðabótaréttarins um húsbóndaábyrgð vinnuveitanda. Telur stefnandi ljóst að orsakatengsl séu á milli tjónsins og hinnar bótaskyldu háttsemi sem er lýst hér að framan. Meginreglan sé sú að sá sem valdi tjóni eigi að greiða fullar bætur fyrir tjón sem leiði af athöfnum hans og athafnaleysi. Af ofangreindu sé ljóst að stefndi hafi hegðað sér með gáleysislegum hætti auk þess sem hann beri ábyrgð á saknæmri háttsemi starfsmanna sinna. Þá sé ljóst með tilliti til ofangreinds að tjónið sé sennileg afleiðing af saknæmri háttsemi stefnda. Stefndi beri því ekki aðeins ábyrgð á því fjártjóni sem stefnandi beið vegna ólögmætrar uppsagnar, heldur einnig álitshnekki og heilsutjóni vegna viðvarandi eineltis og ítrekaðra meingerða með ólögmætu framferði og viðbragðsleysi starfsmanna sinna, skorti á lögbundnum viðbragðsáætlunum og annarri vanvirðingu. Stefnandi sundurliðar kröfu sína á hendur stefnda um skaðabætur á eftirfarandi hátt að skaðabætur vegna fjártjóns nemi 6.324.768 kr. en krafa hans um miskabætur 4.000.000 kr. Samtals nemi krafa stefnaanda því 10.324.768 kr. Stefnandi skýrir skaðabótakröfu sína vegna fjártjóns þannig að hún svari til launa í 24 mánuði, miðað við föst mánaðarlaun. Samkvæmt kjarasamningi Félags fréttamanna og stefnda nemi föst mánaðarlaun eftir 3 ára samfellt starf 360.754 krónum á mánuði frá og með 1. febrúar 2014. Að teknu tilliti til greiðslu launatengdra gjalda nemi mánaðarlaun þá 263.532 krónum. Við útreikninga kveðst stefnandi líta framhjá greiðslum vegna vaktaálags og yfirvinnu, sem gera megi ráð fyrir að hafi orðið nokkrar. Samtals nemi þessi kröfuliður því 6.324.768 krónum. Stefnandi telur bótakröfu sína hóflega. Við mat á fjártjóni stefnanda verði m.a. að líta til þess langa og farsæla starfsferils sem hann átti hjá stefnda. Stefnandi hafi verið 51 árs þegar honum var sagt upp störfum hjá stefnda þar sem hann hafði starfað við góðan orðstír í 22 ár og mátti að óbreyttu gera ráð fyrir að fá að gegna starfi sínu sem íþróttafréttamaður áfram, nema málefnaleg sjónarmið kæmu til með að réttlæta uppsögn sem kæmi svo til framkvæmda með lögmætum hætti. Ljóst er að atvinnumöguleikar stefnanda séu takmarkaðir hér á landi, sérstaklega þegar kemur að störfum þar sem sérþekking og starfsreynsla hans komi að notum. Stefnandi hafi frá uppsögn ekki haft erindi sem erfiði með starfsumsóknum til annarra miðla, enda hafi starf hans verið opinbert og eðlilegt að aðrir fjölmiðlar telji að einhverjar réttmætar ástæður hafi leitt til stöðulækkunar og uppsagnar. Miskabætur telur stefnandi hæfilega metnar kr. 4.000.000,- með vísan til afleiðinga og dómvenju í sambærilegum málum. Stefnandi rökstyður kröfu um miskabætur úr hendi stefnda með því að hann hafi mátt þola fjölmörg brot og viðvarandi einelti á vinnustað. Við ákvörðun miskabóta verði til þess að líta að vinnan sé mjög stór þáttur í lífi einstaklinga. Stefnandi hafi í raun aldrei átt sér viðreisnar von eftir fund mannauðsstjóra og verði að líta til þess langa tíma sem hið ólögmæta ástand var látið viðgangast. Þá hafi stefnandi komið fyrir á sjónvarpsskjá landsmanna í rúma tvo áratugi og skyndilegt brotthvarf hans hafi ekki farið framhjá nokkrum sem fylgst hafi með íþróttum. Telur stefnandi sérstaklega íþyngjandi hvað miska varðar að verða fyrir jaðarsetningu og ólögmætum brottrekstri úr starfi sem er jafn opinbert og starf hans var þar sem engin leið sé fyrir hann að leyna því sem fram fór. Þannig hafi stefnandi mátt þola ítrekaðar spurningar frá vinum og vandamönnum svo sem ókunnugum um hvers vegna hans nyti ekki lengur við. Þær spurningar reyndust stefnanda mjög íþyngjandi sem upplifði að eineltið færi fram fyrir opnum tjöldum, án þess að hann gæti varið sig. Stefnandi bendir enn fremur á að hann hafi sinnt mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir starfsstéttina og hafði flekklausan starfsferil, því hafi skapast miklar umræður meðal samstarfsmanna og fréttamanna annarra miðla um ástæður brotthvarfsins enda öllum fullkunnugt um ástríðu hans til íþróttafréttamennsku. Stefnandi hafi skyndilega verið farinn að kvíða fyrir því að mæta í vinnu sem áður veitti honum lífsfyllingu og átti hug hans allan. Varakrafa stefnanda lýtur að því að fjártjón hans verði metið af dóminum að álitum út frá heildarmati á öllum atvikum og aðstæðum. Um lagarök vísar stefnandi til almennra meginreglna kröfuréttar og skaðabótaréttar, sbr. skaðabótalög nr. 50/1993. Þá vísar stefnandi til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerða settum á grundvelli þeirra ásamt tilskipunum ESB á sviði vinnuréttar, þá einkum tilskipunar nr. 89/391/EBE. Kröfur um vexti styðjast við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988, en stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber því nauðsyn til að fá dóm fyrir þeim skatti úr hendi stefnda. Málsástæður stefnda. Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda. Stefndi byggir jafnframt sjálfstætt á því að stefnandi hafi glatað hvers konar kröfum sökum tómlætis, en það var ekki fyrr en löngu eftir starfslok sem stefnandi hafði uppi formlegar ávirðingar um meint einelti í sinn garð. Einelti, o.fl. Stefndi bendir á að málatilbúnaður stefnanda á hendur stefnda sé öðrum þræði reistur á því að stefnandi hafi verið lagður í einelti í störfum sínum hjá stefnda. Þá hafi framkoma stefnda, þ.e. starfsmanna hans, gagnvart stefnanda, óháð því hvort háttsemin teljist til eineltis í skilningi þeirra laga og reglna sem stefnandi vísar til, falið í sér ólögmæta meingerð í skilningi 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá vísar stefnandi til ýmissa fleiri atriða, þ.m.t. ætlaðra skyldna stefnda sem vinnuveitanda. Stefndi mótmælir þessum málatilbúnaði í heild sinni, svo og um einstök atriði. Stefndi mótmælir því meðal annars sem röngu, og jafnframt ósönnuðu, að háttsemi stefnda og/eða starfsmanna hans, falli undir skilgreiningu eineltis samkvæmt 3. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Stefndi vísar til þess að samkvæmt greininni var með einelti átt við ámælisverða eða síendurtekna ótilhlýðilega háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun, sem væri til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beindist að. Þetta nái þó ekki til skoðanaágreinings eða hagsmunaáreksturs sem kynni að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna, enda leiddi slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til fyrrgreindrar háttsemi. Stefndi telur að þegar af þessum ástæðum sé málatilbúnaður stefnanda haldlaus. Að sama skapi telur stefndi ljóst, að hvað sem líður ætluðum skyldum hans að lögum (þ.m.t. samkvæmt reglugerðum) „til að gæta fyllsta öryggis á vinnustað“, „til athafna vegna ásakana um einelti á vinnustað“ og að gera „skriflega áætlun um öryggi og áhættumat á vinnustað“, þá geti meint athafnaleysi í þeim efnum, eitt og sér ekki megnað því að um ólögmæta meingerð í skilningi 26. gr. laga nr. 50/1993 eða skaðabótaskylda háttsemi sé að ræða. Eins er því mótmælt að slíkt réttlæti að sönnunarbyrðinni verði snúið við í andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars og skaðabótaréttar. Í þessu sambandi skal og ítrekað að leitast var við að bregðast við þeim athugasemdum sem stefnandi færði fram, og rétt að minna á að stefnandi sjálfur viðurkennir að hafa ekki sett fram frekari athugasemdir eftir þann tíma, og raunar ekki fyrr en talsvert eftir að honum var sagt upp störfum. Ítrekar stefndi jafnframt mótmæli sín við því að stefnandi hafi verið nauðbeygður til að skrifa undir minnisblað 15. september 2010. Stefndi vísar hér jafnframt til þess að honum var ekki ljóst að stefnandi liti svo á að hann væri lagður í einelti, hafi sú verið raunin á annað borð, heldur var talið, eftir fundi í aðdraganda þess að minnisblaðið var gert, að um samskiptavanda milli starfsmanna væri að ræða. Þá bendir stefndi á að í lögskýringargögnum með b-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993 kemur fram að í skilyrðinu um ólögmæta meingerð felist að um saknæma hegðun sé að ræða. Gáleysi þurfi þó að vera verulegt til þess að tjónsatvik verði talið ólögmæt meingerð, og í réttarframkvæmd hefur verið við það miðað að lægsta stig gáleysis fullnægi ekki kröfum ákvæðisins. Hvað sem líður háttsemi stefnda og/eða starfsmanna hans, þ.m.t. meintu athafnaleysi, telur stefndi hana ekki slíka að miskabótaábyrgð verði felld á stefnda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993. Virðist og raunar ekki á því byggt í stefnu að stefndi, eða starfsmenn hans, hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi, svo sem nauðsynlegt hlýtur að teljast. Lög nr. 23/2013, o.fl. Stefnandi kveðst einnig reisa dómkröfur sínar á því að uppsögn hans hafi brotið gegn lögum nr. 23/2013, sem og „að framkvæmd uppsagnarinnar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 2/1995 um hlutafélög og samþykktir Ríkisútvarpsins“. Kveðst stefnandi telja að „allir þessir annmarkar leiði til þess að uppsögnin sé ólögmæt hver um sig, en sérstaklega þegar þeir eru metnir til samans“. Stefndi mótmælir þessum málatilbúnaði í heild sinni sem og um einstök atriði. Stefndi vísar í þessu sambandi til ákvæðis 12. gr. laga nr. 23/2013. Telur stefndi að með ákvæðinu sé leitast við að tryggja, sbr. bréf lögmanns stefnda til lögmanns stefnanda frá 17. desember 2014, að starfsmönnum fréttastofu og dagskrárgerðarmönnum sé ekki sagt upp vegna ástæðna er ganga gegn grunnskyldum þeirra sem fjölmiðlamanna, svo sem að standa vörð um tjáningarfrelsi, frelsi og sjálfstæði fjölmiðla. Engar slíkar ástæður bjuggu að baki uppsögn stefnanda, sem var íþróttafréttamaður, svo sem fram kom í fyrrnefndu uppsagnarbréfi, heldur neyddist stefndi til að fækka starfsmönnum vegna tekjuskerðingar. Með öðrum orðum, þá hafi þurft að leggja niður stöður. Verði því ekki séð að uppsögn stefnanda gangi gegn verndarhagsmunum nefnds ákvæðis. Stefndi telur að þegar af þeim ástæðum stoði ekki fyrir stefnanda að vísa til umrædds ákvæðis í fyrirliggjandi samhengi. Stefndi telur enn fremur rétt að taka fram að þó svo að ástæður uppsagnar stefnanda hafi ekki varðað „með hvaða hætti [stefnandi hafði] rækt starf sitt“, þá þurfti stefndi eðli málsins samkvæmt að velja og hafna, þ.m.t. að tryggja starfhæfa heild, og ósannað, en þau vandamál sem lutu að stefnanda og vísað er til í tölvupósti til hans 26. mars 2010 og í minnisblaði 15. september 2010 hafi enn verið til staðar. Því hafi sú ákvörðun að segja stefnanda upp störfum, frekar en öðrum, ekki verið ómálefnaleg. Stefndi kveður það einnig vera rangt að fyrrverandi forstöðumaður íþróttadeildar og mannauðsstjóri hafi tekið ákvörðun um uppsögn stefnanda. Lög nr. 2/1995, um hlutafélög. Stefndi vísar einnig til þess að stefnandi virðist í öðru lagi byggja á því að uppsögn hans hafi brotið gegn lögum nr. 2/1995 þar sem hún, þ.m.t. hópuppsögnin, hafi ekki verið ákvörðuð af stjórn félagsins. Stefndi hafnar því að sú regla verði leidd af lögum nr. 2/1995, þ.m.t. í fyrirliggjandi samhengi, að stjórn félagsins hafi þurft að taka ákvörðun um uppsagnir starfsmanna, þ.m.t. stefnanda. Telur stefndi að slík ákvörðun rúmist þvert á móti innan starfsheimilda framkvæmdastjóra (útvarpsstjóra), og annarra yfirmanna. Í þessu samhengi sé jafnframt að því að gæta að þó svo að ákvörðunin sé ekki tekin af stjórn félagsins þá sé stjórnin eðli málsins samkvæmt ekki í tómarúmi gagnvart aðhaldsaðgerðum og ákvörðunum sem þessum og ekkert sem bendi til að svo hafi verið. Stefndi bendir enn fremur á í þessu samhengi, að jafnvel þótt talið væri, þvert gegn málatilbúnaði stefnda, að stjórn félagsins hafi borið að taka ákvörðun um uppsögn stefnanda, þá getur slíkt ekki skapað stefnanda kröfurétt, þ.m.t. skaðabótarétt, gagnvart stefnda, meðal annars með hliðsjón af verndarhagsmunum þeim sem búa að baki ákvæðum laga nr. 2/1995. Með sömu rökum og að ofan, að breyttu breytanda, hafnar stefndi því að uppsögn stefnanda brjóti gegn samþykkum stefnda og, jafnvel þótt svo yrði talið, þá geti slíkt ekki skapað stefnanda kröfurétt, þ.m.t. skaðabótarétt, gagnvart stefnda, meðal annars með hliðsjón af verndarhagsmunum þeim sem búa að baki ákvæðum laga nr. 2/1995, þ.m.t. reglum um samþykktir félaga. Fjárkröfur Stefndi telur að skaðabótakrafa stefnanda sé tvíþætt. Annars vegar, sbr. aðalkröfu, sé krafist skaðabóta vegna meints fjártjóns, sem eru sagðar svara til launa stefnanda í 24 mánuði, miðað við föst mánaðarlaun. Hins vegar sé krafist miskabóta. Þá er til vara krafist bóta að álitum. Varðandi kröfur stefnanda um skaðabætur vegna meints fjártjóns, þá mótmælir stefndi fjárhæð skaðabóta, verði á annað borð talið að stefnandi eigi skaðabótakröfur á hendur stefnda. Stefndi telur að með hliðsjón af dómaframkvæmd verði slíkar bætur aldrei verið ákvarðaðar öðruvísi en að álitum, sbr. varakröfu stefnanda, þar sem taka þurfi tillit til ýmissa þátta, svo sem að samningsbundinn uppsagnarfrestur stefnanda var 3 mánuðir og að hann fékk laun á uppsagnarfresti. Þá hafi stefnanda, að teknu tilliti til aldurs og menntunar, átt að vera í lófa lagið að finna sér nýtt starf, að því marki sem það hefði ekki þegar orðið raunin. Eins þyrfti eðli málsins samkvæmt að liggja fyrir hvort og þá hvaða tekjur stefnandi hefði haft eftir starfslok sín hjá stefnda, eða eftir atvikum bætur, svo sem atvinnuleysisbætur, og skorað á hann að leggja fram viðhlítandi upplýsingar og skýringar í því sambandi. Telur stefndi ljóst þegar horft er til þessara þátta að krafa stefnanda sé úr öllu hófi. Með sama hætti verði að mótmæla fjárhæð miskabóta alveg sérstaklega, sé á annað borð fallist á að skilyrði séu til að dæma miskabætur. Þannig verði ekki ráðið með hliðsjón af dómaframkvæmd og dómvenju, að skaðabætur vegna ólögmætrar meingerðar í skilningi 26. gr. laga nr. 50/1993, séu nándar nærri þeirrar fjárhæðar sem stefnandi krefst, þ.m.t. að virtum öllum atvikum máls. Til hliðsjónar, bendir stefndi á ákvörðun miskabóta vegna eineltis í dómi Hæstaréttar 18. september 2014 í máli nr. 64/2014. Þá vill stefndi taka fram, án þess að gert sé lítið úr því áfalli sem uppsögn getur fylgt, að því fari fjarri að stefnanda hafi einum verið sagt upp störfum hjá stefnda, heldur var uppsögnin liður í hópuppsögn og ástæðan ekki tengd við rækslu starfa stefnanda, og sem áður segir. Stefndi telur að stefnandi rökstyðji ekki sérstaklega kröfur sínar um vexti og dráttarvexti, og þær kröfur séu því vanreifaðar. Hvað sem öðru líður, mótmælir stefndi einnig vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda, og þá sér í lagi upphafstíma dráttarvaxta. Telur stefndi, að upphafstími dráttarvaxta eigi að miðast við dómsuppsögu, en að öðrum kosti mánuði frá þingfestingu málsins. Um lagarök vísar stefndi meðal annars til almennra reglna vinnu- og skaðabótaréttar, laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, laga nr. 2/1995 um hlutafélög, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og almennra reglna skaðabóta- og vinnuréttar. Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. IV. Niðurstaða 1. Afmörkun ágreinings Stefnandi, Adolf Ingi Erlingsson, hefur í máli þessi krafist þess að stefndi RÚV ohf. greiði sér samtals 10.324.758 í skaða- og miskabætur. Krafa hans byggist annars vegar á því að stefndi RÚV ohf. hafi brugðist almennum skyldum vinnuveitanda sem leiddar verði af þágildandi lögum og stjórnvaldsfyrirmælum, um að gæta fyllsta öryggis á vinnustað og útbúa sérstaka áætlun um áhættumat og öryggi á vinnustað, og jafnframt þeirri sérstöku skyldu að bregðast við sérstaklega vegna kvörtunar hans yfir einelti yfirmanns síns. Hins vegar byggist krafa stefnanda á því að uppsögn hans hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 23/2013. Stefnandi hefur í þessu sambandi vísað þess að í 4. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1000/2004, um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, hafi verið lögð sú skylda á atvinnurekanda gera starfsfólki ljóst að einelti og önnur ótilhlýðileg háttsemi væri óheimil á vinnustað. Atvinnurekanda hafi samkvæmt fyrrgreindu reglugerðarákvæði borið skylda til að láta slíka háttsemi á vinnustað ekki viðgangast og leitast við að koma í veg fyrir ótilhlýðilega háttsemi sem hann fær vitneskju um. Í 7. gr. reglugerðarinnar hafi síðan verið vikið sérstaklega að viðbragðsskyldu atvinnurekanda þegar fram hefði komið ábending eða grunur um einelti á vinnustað. Þar hafi sagt að atvinnurekandi skyldi bregðast við eins fljótt og kostur væri og meta aðstæður í samvinnu við vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins og utanaðkomandi ráðgjafa, ef með þyrfti. Í niðurlagi ákvæðisins hafi síðan verið sérstaklega tekið fram að grípa yrði til viðeigandi ráðstafana og fylgja því eftir að einelti endurtæki sig ekki á vinnustaðnum. Þegar leyst er úr því hvort unnt sé að fallast á þann málatilbúnað stefnanda að eigi rétt til skaðabóta vegna vanrækslu og athafnaleysis stefnda RÚV ohf. á því að tryggja honum viðunandi starfsumhverfi í samræmi við kröfur laga nr. 46/1980 og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett hafa verið á grundvelli þeirra laga verður að hafa í huga þær kröfur sem gerðar eru til tjónþola samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins. Samkvæmt þeim reglum er það forsenda skaðabótaskyldu að tjónþoli sýni fram á að bótaskyld háttsemi hafi átt sér stað, auk sem hann verður að færa sönnur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna háttseminnar. Í því sambandi verður enn fremur ekki horft fram hjá því að stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn í þessu máli um þau áhrif sem starfsumhverfi hans hjá stefnda hafði á heilsu hans og líðan á þessum tíma. Að sama skapi er ljóst að stefnandi rekur starfsmissi sinn hjá stefnda og fjártjón sitt í því sambandi til eineltis sem hann telur sig hafa sætt af hálfu starfsmanns stefnda, svo og því sem hann lýsir sem vanrækslu og athafnaleysi stefnda í því að koma í veg fyrir að einelti ætti sér stað á vinnustaðnum og taka með viðunandi hætti á kvörtun hans af því tilefni. Ekki er því unnt að ráða annað af málatilbúnaði stefnanda en að bótakröfur hans vegna vanrækslu og athafnaleysis stefnda standi í nánum efnislegum tengslum við þann málatilbúnað að stefnandi hafi sætt einelti af hálfu þáverandi yfirmanns síns í starfi og að framangreind atriði hafi meðal annars leitt til starfsmissis hans. Þá byggir stefnandi á því að sú framkoma sem hann sætti af hálfu yfirmanns síns hafi verið til þess fallin að gera lítið úr störfum hans, varpa rýrð á starfsheiður hans og persónu, sem hafi falið í sér ólögmæta meingerð í skilningi 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, óháð því hvort hún falli undir skilgreiningu eineltis samkvæmt þágildandi reglugerð nr. 1000/2004. Þar sem bótakröfur stefnanda byggja samkvæmt framansögðu ýmist á því að hann hafi sætt „einelti“ í skilningi reglugerðar nr. 1000/2004 eða háttsemi sem fellur að öðru leyti undir 26. gr. skaðabótalaga er að mati dómsins nauðsynlegt að taka fyrst afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti atvik málsins falli undir ákvæði reglugerðarinnar eða, eftir atvikum, 26. gr. skaðabótalaga. 2. Hugtakið einelti Samkvæmt e-lið 38. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. 1. mgr. 38. gr., setur ráðherra reglugerð að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins um, hvaða kröfur skuli uppfylltar varðandi skipulag, tilhögun og framkvæmd vinnu, svo sem um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Á grundvelli m.a. þessarar heimildar setti ráðherra reglugerð nr. 1000/2004, um aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar var markmiðið með reglugerðinni það að innan vinnustaða yrði stuðlað að forvörnum og aðgerðum gegn einelti á vinnustöðum. Í 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004, var einelti skilgreint sem:  „Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir.“ Í ákvæði 3. gr. reglugerðarinnar er einnig tekið fram að með „einelti“ sé ekki átt við „skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur“ sem kunni að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna „enda leiði slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til þeirrar háttsemi“ sem lýst er í ákvæðinu. Þegar litið er til gagna málsins og framburða vitna fyrir dómi verður ekki um villst að mati dómsins að samskiptaörðugleikar voru á milli stefnanda og næsta yfirmanns hans, Kristínar Hálfdánardóttur. Um það atriði má vísa til framburðar vitnanna Hjartar Júlíusar Hjartarsonar, Þorkels Gunnars Sigurbjörnssonar og Óðins Jónssonar. Framburður vitnanna er hins vegar á nokkuð mismunandi veg um ástæður þessara samstarfsörðugleika og það hvort Adolf Ingi hafi sætt annarri meðferð af hálfu Kristínar en aðrir samstarfsmenn hans. Þannig sagði í vitnisburði Óðins Jónssonar að hann hefði ekki orðið þess var að Kristín hefði verið öðruvísi í garð Adolfs Inga en annarra undirmanna og að árekstrar hafi orðið á milli Kristínar og starfsfólks íþróttadeildar þar sem Kristín var sett í starf íþróttastjóra án þess að hafa starfað áður í íþróttadeild. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, samstarfsmaður stefnanda, lýsti atvikum þannig að stefnandi og Kristín hefðu „ekki átt skap saman“ en hann treysti sér ekki til að fullyrða að þar hefði verið um einelti að ræða. Vitnið Hjörtur Júlíus Hjartarson bar að Kristín hefði sjaldan verið ánægð með störf Adolfs og ekkert verið sérlega vel við hann, en það mat væri fremur byggt á tilfinningu hans en einstökum dæmum. Stefnandi hefur í máli þessu haldið því fram að sú háttsemi Kristínar að fela öðrum en honum að annast lýsingar á íþróttakappleikjum og færa hann til af starfsstöð sinni hafi falið í sér einelti í skilgreiningu 3. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1000/2004, eða eftir atvikum ólögmæta meingerð í skilningi b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem stefndi beri ábyrgð á. Að mati dómsins verður ekki séð að þessi atvik geti sem slík talist til eineltis í skilgreiningu 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004 eða ólögmætrar meingerðar í skilningi b-liðar 26. gr. laga nr. 50/1993. Í því sambandi er rétt að benda á að í ákvæði 3. gr. er sérstaklega tiltekið að einelti taki ekki til skoðanaágreinings eða hagsmunaárekstrar sem kunni að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns. Auk þess verður almennt að ganga út frá því að stjórnendur hafi ákveðið svigrúm um hvernig þeir skipta verkefnum milli einstakra starfsmanna. Eðli málsins samkvæmt kunna ákvarðanir stjórnenda um verkaskiptingu að vekja misjöfn viðbrögð meðal starfsmanna. Að mati dómsins þykir hins vegar nægilega sýnt fram á, m.a. með tilliti til vitnisburðar Hallgríms Indriðasonar og Láru Ómarsdóttur að Kristín Hálfdánardóttur, næsti yfirmaður stefnanda hjá RÚV ohf. hafi fellt niður vaktaálagsgreiðslur til hans í andstöðu við munnlegt samkomulag þeirra í milli um að hann skyldi halda þeim kjörum þrátt fyrir að hann tæki að sér önnur verkefni á vegum stefnda. Jafnframt liggur fyrir að í kjölfar þess að stefnandi bar fram kvörtun til Óðins Jónssonar, þáverandi fréttastjóra, yfir því sem hann lýsti sem einelti Kristínar, og sú kvörtun var send til meðferðar Berglindar Bergþórsdóttur, þáverandi mannauðsstjóra RÚV ohf., þá var stefnanda gert að undirrita minnisblað þar sem hann samþykkti að bæta úr tilteknum ávirðingum sem Kristín hafði borið á hann, þrátt fyrir að hvorki Óðinn né Berglind hefðu kannað frekar sannleiksgildi eða efnislegar forsendur þeirra ávirðinga sem Kristín bar á hann, svo og umkvartana hans um einelti, áður en þau afhentu honum minnisblað til undirritunar um atriði sem hann þyrfti að bæta. Að sama skapi verður ekki séð að þáverandi mannauðsstjóri og fréttastjóri RÚV ohf. hafi leitað upplýsinga frá öðrum um ástæður og orsakir samstarfsörðugleika Kristínar og Adolfs Inga. Telja verður að sú framganga ofangreindra starfsmanna RÚV ohf. að standa ekki við gert samkomulag við um að Adolf Ingi héldi vaktaálagsgreiðslum og hirða ekki frekar um að kanna sannleiksgildi þeirra ávirðinga sem yfirmaður hans bar á hann fyrir undirritun minnisblaðs hafi verið til þess fallin gera lítið úr honum. Þessi tilgreinda háttsemi fellur því undir skilgreiningu eineltis í skilningi þágildandi 3. gr. nr. 1000/2004. Í því sambandi verður að leggja áherslu á að samkvæmt skilgreiningu á einelti í 3. gr. eins og hún var orðuð þegar atvik málsins áttu sér stað, var ekki áskilið að háttsemi væri endurtekin. Að mati dómsins verður ekki séð að stefnanda hafi tekist að sýna fram á að tengsl hafi verið á milli ofangreindrar háttsemi starfsmanna stefndu og starfsmissis hans og að framkoman hafi þar með leitt til fjártjóns fyrir stefnanda með þeim hætti sem rakið er í stefnu. Hins vegar fellst dómurinn á það með stefnanda að sú háttsemi starfsmanna stefndu sem fyrr er lýst hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru eða persónu stefnanda þannig að það hafi valdið honum miska í skilningi b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Verður þá að hafa í huga að stefnandi hafði starfað í rúmlega 22 ár hjá stefnanda. Í samræmi við ákvæðið hefur stefnandi því rétt til bóta sem hann hefur ekki glatað sökum tómlætis. Verða bætur ákveðnar 500.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir. 3. Uppsögn stefnanda Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, er Ríkisútvarpið sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. sömu laga gerir ráðherra samning við Ríkisútvarpið um fjölmiðlun í almannaþágu til fjögurra ára í senn. Í samningnum skal nánar kveðið á um markmið, hlutverk, skyldur og umfang starfseminnar samkvæmt 1. og 3. gr. laganna, en auk þess skal í samningnum kveðið á um fjármögnun fjölmiðlunar í almannaþágu á öllu samningstímabilinu.  Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 23/2013 er kveðið á um að útvarpsstjóri sé framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins. Er útvarpsstjóri jafnframt forstöðumaður í skilningi 13. tölul. 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laganna ber forstöðumaður ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Í máli þessu er óumdeilt að þegar ákvarðanir voru teknar um hópuppsagnir af hálfu stefnda haustið 2013 lá fyrir að umtalsverð hagræðing þurfti að fara fram í starfsemi RÚV ohf. vegna fjárhagsstöðu félagsins. Í samræmi við hlutverk útvarpsstjóra og skyldur hans samkvæmt lögum nr. 23/2013 og lögum nr. 70/1996 er jafnframt ljóst að það var útvarpsstjóra að ákveða, eftir atvikum í samráði við aðra stjórnendur, til hvaða aðgerða þurfti að grípa til þess að hagræða í rekstrinum. Þegar tekin er afstaða til þess hvaða svigrúm útvarpsstjóri og aðrir stjórnendur stefnda höfðu í þessu sambandi verður þó að horfa til þess að samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013 bar útvarpsstjóra að setja starfsreglur fyrir starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn Ríkisútvarpsins, í samráði við starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins, og skilyrði áminningar og starfsloka. Í 1. mgr. 12. gr. segir að í reglunum skuli m.a. kveðið á um að málefnalegar ástæður þurfi ætíð að liggja að baki brottrekstri starfsmanns. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að telji starfsmaður ástæður brottrekstrar ekki málefnalegar eigi hann rétt á skriflegri skýringu.  Í athugasemdum við ákvæði 12. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 23/2013 kemur fram að í greininni, sem sé nýmæli, sé kveðið á um réttindi og skyldur starfsmanna fréttastofu og dagskrárgerðarmanna. Um þetta atriði segir síðan: „Um viðkomandi starfsmenn gilda ákveðin sérsjónarmið vegna ritstjórnarlegrar ábyrgðar þeirra. Ástæðan er sú að talið er nauðsynlegt að veita þeim sem vinna við að veita „lýðræðislegt aðhald“, vernd umfram aðra starfsmenn. Má vísa til þess að annars staðar á Norðurlöndunum njóta blaða- og fréttamenn aukinnar verndar í kjarasamningum sínum. Í Austurríki eru samsvarandi lagaákvæði til að vernda frétta- og dagskrárgerðarmenn ríkisfjölmiðilsins. Með greininni er komið til móts við framangreind sjónarmið og mælt fyrir um aukið starfsöryggi þessara starfsmanna Ríkisútvarpsins. Í 1. mgr. segir að útvarpsstjóri skuli í samráði við starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins setja starfsreglur fyrir starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn Ríkisútvarpsins og skilyrði áminningar og starfsloka. Jafnframt er gerður sá áskilnaður samkvæmt ákvæðinu að málefnalegar ástæður þurfi ætíð að liggja að baki brottrekstri framangreindra starfsmanna.“ Í athugasemdum við ákvæðið er einnig rakið að við fyrri meðferð frumvarpsins á 140. löggjafarþingi hafi komið fram athugasemdir við ákvæðið, m.a. um hugtakanotkun milli texta ákvæðisins og athugasemda við greinina, auk þess sem það fyrirkomulag að útvarpsstjóri setti starfsreglur einhliða hefði verið gagnrýnt. Að tillögu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar var því lagt til að umræddar reglur yrðu settar í samráði við starfsmenn og samtök þeirra, með vísan í ákvæði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla.  Um rétt starfsmanns til skriflegra skýringa samkvæmt ákvæði 2. mgr. 12. gr. segir í athugasemdum við ákvæðið að „viðkomandi starfsmaður eigi rétt á skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögn ef hann telur ástæður brottrekstrar ekki málefnalegar.“ Þar kemur hins vegar fram að „slík skýring [sé] valkvæð fyrir viðkomandi starfsmann þar sem það [geti] verið mjög íþyngjandi fyrir hann að hafa neikvæða skýringu í farteskinu þegar hann sækir um starf síðar meir. Einnig [kunni] að vera að starfsmaður geri sér grein fyrir afglöpum sínum í starfi og þurfi því ekki á skýringu að halda.“ Í máli þessi er ekki ágreiningur um það að útvarpsstjóri setti engar reglur um rétt starfsmanna fréttastofu og dagskrárgerðarmanna stefnda með þeim hætti sem áskilið er í 1. mgr. 12. gr. Að mati dómsins breytir sú staðreynd engu um þá lagalegu skyldu stefnda færa fram málefnalegar ástæður fyrir uppsögn þessara starfsmanna og samsvarandi rétt starfsmannanna að því leyti. Enn fremur er ljóst að samkvæmt ákvæði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013 eiga starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn hjá RÚV ohf. rétt á því að fá skriflegan rökstuðningi við uppsögn í starfi, ef þeir óska á annað borð eftir slíkum rökstuðningi. Í ákvæðinu er ekki sett fram hvert efni slíks rökstuðnings á að vera. Þegar litið er til þeirra fyrirmæla 1. mgr. 12. gr. að málefnalegar ástæður verði að liggja að baki uppsögn þeirra starfsmanna sem þar eru tilgreindir verður á hinn bóginn að telja ljóst að markmiðið með því að leggja þá skyldu á RÚV ohf. að veita rökstuðning er að starfsmenn geti staðreynt hvaða ástæður liggja að baki uppsögn þeirra og hvort þær hafi í reynd verið málefnalegar. Í máli þessu liggur fyrir að stefnandi óskaði skriflega eftir skriflegum skýringum á uppsögn sinni með bréfi, dags. 6. desember 2013, enda hefur stefndi ekki andmælt staðhæfingu stefnanda um að slíkt bréf hafi verið sent. Eins og áður er rakið var þessi beiðni ítrekuð með bréfi lögmanns stefnanda til lögmanns stefnda, dags. 3. september 2014 en skýringar voru ekki veittar fyrr en með bréfi lögmanns stefnda, dags. 17. desember 2014. Þar sagði um ástæður uppsagnarinnar:  „Varðandi uppsögn umbj. yðar þá liggur fyrir, og svo sem fram kom í uppsagnarbréfi til hans, að RÚV neyddist „til að fækka starfsmönnum sínum vegna tekjuskerðingar“. Var uppsögnin því gerð í hagræðingarskyni, samhliða því að fjölmörgum öðrum starfsmönnum var sagt upp, og öðrum skýringum umbj. yðar um ástæður uppsagnarinnar mótmælt. Verður hvorki ráðið að slík ástæða uppsagnar geti talist ómálefnaleg í skilningi 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013, eigi ákvæðið á annað borð við um umbj. yðar, né að ákvæðið, rétt lögskýrt, feli í sér sambærilegar kröfur til niðurlagningu starfa og þegar opinberir starfsmenn eru annars vegar, svo sem helst er að skilja að umbj. yðar telji. Þvert á móti sé ákvæðinu ætlað að sporna við því að starfsmönnum fréttastofu og dagskrárgerðarmönnum sé sagt upp vegna ástæðna sem ganga gegn grunnskyldum þeirra sem fjölmiðlamanna, svo sem að standa vörð um tjáningarfrelsi, frelsi og sjálfstæði fjölmiðla, en engar slíkar ástæður bjuggu að baki uppsögn umbjóðanda yðar. Þá er því líka að gæta að þótt í uppsagnarbréfi RÚV komi fram að ástæður uppsagnarinnar séu ekki „með hvaða hætti [umbj. yðar] hefur rækt starf þitt“ þá fær það því ekki breytt, og svo sem liggur í eðli málsins, að er kom til fækkunar starfsfólks varð RÚV að taka mið af því hverjir væru best fallnir til að gegna áfram störfum fyrir RÚV á umræddu sviði.“ Að mati dómsins er ekki unnt að fallast á þá málsástæðu stefnda að ákvæði 1. mgr. 12. gr. feli einungis í sér bann við að starfsmönnum fréttastofu RÚV ohf. og dagskrárgerðarmönnum sé sagt upp vegna ástæðna sem ganga gegn grunnskyldum þeirra sem fjölmiðlamanna, svo sem að standa vörð um tjáningarfrelsi, frelsi og sjálfstæði fjölmiðla. Ljóst er að ákvæði 1. mgr. 12. gr. leggur samkvæmt orðalagi sínu þá skyldu á stefnda að segja ekki upp þessum tilteknu starfsmönnum nema málefnalegar ástæður liggi að baki því. Þrátt fyrir að sjónarmið að baki ákvæðinu tengist augljóslega því hlutverki starfsmanna fréttastofu og starfsmanna að veita lýðræðislegt aðhald og þörf þeirra á sérstakri vernd gegn uppsögnum í því sambandi eru engar vísbendingar í ákvæðum laga nr. 23/2013 eða lögskýringargögnunum að sú vernd einskorðist við aðstæður þar sem þeim er beinlínis sagt upp vegna þessa hlutverks eða þeir þurfi með öðrum hætti að sýna fram á að svo sé. Dómurinn getur heldur ekki fallist á að þegar stefndi segir starfsmanni fréttastofu, líkt og stefnandi óumdeilanlega var, upp störfum sé það nægilegt fyrir stefnda samkvæmt 12. gr. laga nr. 23/2013 að vísa um það almennt til hagræðingarsjónarmiða. Þegar tekin er afstaða til þess hvaða kröfur gerðar verða til stefnda í þeim efnum er ekki óvarlegt að líta til þess hvernig dómstólar hafa skýrt reglur stjórnsýsluréttarins um að málefnalegar ástæður þurfi að liggja að baki uppsögn almennra ríkisstarfsmanna við hagræðingu, sjá hér t.d. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar frá 26. janúar 2017 í máli nr. 331/2016 og frá 16. febrúar 2017 í máli nr. 376/2016. Af þessum dómum leiðir m.a. að fara verður fram ákveðin greining á því hvernig staðið skuli að hagræðingu og hvaða mat og sjónarmið séu lögð til grundvallar við val á því hverjum er sagt upp.  Þegar horft er til þeirra skyldna stefnda samkvæmt 12. gr. laga nr. 23/2013 um að leggja málefnalegar ástæður til grundvallar uppsögn og veita skriflegar skýringar á henni þegar þess er óskað verður að telja að það standi stefnda almennt nær að færa sönnur á að uppsögn hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar verða samkvæmt framangreindu. Ljóst er að í gögnum málsins sem urðu til hjá stefnda þegar ákvörðun um uppsögn stefnanda var tekin kemur ekkert fram um það hvers vegna stefnandi var tekinn í hóp þeirra sem sagt var upp í nóvember 2013. Framburðum núverandi og fyrrverandi starfsmanna stefnda fyrir dómi ber enn fremur ekki saman um hverjir hefðu komið að þeirri ákvörðun að velja þá starfsmenn sem sagt var upp í nóvember 2013 og með hvaða hætti sú ákvörðun var tekin. Enn fremur liggur fyrir að stefnandi óskaði eftir slíkum skýringum á uppsögn sinni 6. desember 2013 og að lögmaður hans ítrekaði þessa beiðni 3. september 2014 en lögmaður stefnda svaraði beiðninni sem fyrr segir 17. desember 2014, eða rúmlega ári eftir stefnandi setti upphaflega fram beiðni um skýringar. Í ljósi þess sem að framan er rakið verður að telja að stefndi RÚV ohf. hafi ekki sýnt fram á að málefnalegar ástæður hafi legið að baki því að segja Adolfi Inga Erlingssyni upp störfum þann 27. nóvember 2013. Af þeim sökum er fallist á það með stefnanda að við uppsögn hans hafi ekki verið gætt ákvæðis 12. gr. laga nr. 23/2013. Samkvæmt því var uppsögnin ólögmæt og á stefnandi því rétt til skaðabóta úr hendi stefnda. Skaðabótakrafa stefnanda vegna fjártjóns nemur alls 6.322.768 kr. og samsvarar hún föstum mánaðarlaunum hans í 24 mánuði frá 1. febrúar 2014. Af gögnum málsins verður hins vegar ráðið að starfslok hans hjá RÚV ohf. voru 28. febrúar 2014 að liðnum uppsagnarfresti, sbr. uppsagnarbréf, dags. 27. nóvember 2013. Við ákvörðun bóta vegna fjártjóns ber að líta til þess að stefnandi var 51 árs þegar honum var vikið úr starfi og hefur reynst örðugt um vik að finna sér starf sem hæfir menntun hans og reynslu. Af skattframtölum sem stefnandi hefur lagt fram í málinu verður ráðið hins vegar að stefnandi hafi haft alls 1.160.262 kr. í tekjur á árinu 2014 sem ekki stöfuðu frá stefnda RÚV ohf. og alls 3.745.205 á árinu 2015, en stefnandi hefur ekki lagt fram upplýsingar um tekjur sínar á árinu 2016. Eins og skaðabótakrafa stefnanda er sett fram verður að mati dómsins að horfa til fyrirliggjandi upplýsinga um tekjur stefnanda við ákvörðun bóta vegna fjártjóns sem þykja hæfilega ákvarðaðar að álitum 1.200.000 kr. Enn fremur verður að telja að sú framganga stefnda segja stefnanda upp eftir 22 ára starf án þess að leggja fullnægjandi grundvöll að þeirri ákvörðun í samræmi við 12. gr. laga nr. 23/2013 hafi verið meiðandi í garð stefnanda og að hann eigi rétt á miskabótum af þeim sökum, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að mati dómsins þykja þær hæfilega ákveðnar 500.000 kr. vegna uppsagnar stefnanda. Í ljósi þessarar niðurstöðu dómsins þykir ekki þörf að fjalla sérstaklega um málsástæður stefnanda í tengslum við lög nr. 2/1995, um hlutafélög. Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að stefndi skuli greiða stefnanda alls 1.200.000 kr. í bætur vegna fjártóns og alls 1.000.000 vegna miska, eða samanlagt 2.200.000 kr., með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 27. nóvember 2013, þeim degi sem stefnanda var sagt upp, en með dráttarvöxtum frá 4. október 2014, sbr. 9. og 1. mgr. 6. gr. sömu laga, en þá var mánuður liðinn frá því að lögmaður stefnanda krafði stefnda um greiðslu bóta. Í samræmi við þessi málsúrslit skal stefndi greiða málskostnað stefnanda, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.400.000 kr. Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm. Við uppsögu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Dómsorð: Stefndi, Ríkisútvarpið ohf., greiði stefnanda alls 2.200.000 kr., með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 27. nóvember 2013, en með dráttarvöxtum frá 4. október 2014, sbr. 9. gr. og 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Stefndi greiði stefnanda 1.400.000 kr. í málskostnað.
Mál nr. 575/2017
Samningur Veðleyfi Ábyrgð Veðskuldabréf
M höfðaði mál á hendur L hf. og krafðist þess að felld yrði úr gildi veðsetning sem hún hafði veitt í fasteign sinni með áritun á veðskuldabréf útgefnu af H og að L hf. yrði gert að aflýsa veðskuldabréfinu af fasteigninni. Hélt M því fram að L hf. hefði við lánveitinguna til H ekki gætt skyldna sinna samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Bæri því að víkja veðsetningunni til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í fyrsta lagi byggði M á því að sér hefði í engu verið kynnt að verja ætti lánsfénu í öllu verulegu til að greiða upp vanskilaskuldir H, bæði við L hf. og aðra, áður en hún samþykkti veðsetninguna. Í áðurnefndu samkomulagi var kveðið á um að ef ráðgert væri að verja meira en helmingi lánsfjár til að endurgreiða önnur lán skuldara hjá fjármálafyrirtæki væri skylt að afla skriflegrar staðfestingar ábyrgðarmanns um að honum hefði verið kynnt það. Var ekki talið að sú staða hefði verið uppi í málinu og þessi málsástæða M því haldlaus. Í öðru lagi vísaði M til þess að hún hefði hvorki undirritað skjöl um mat á greiðslugetu H né fengið að sjá þau andstætt ákvæðum samkomulagsins. Þá hefði L hf. ekki afhent henni upplýsingabækling um skuldaábyrgð og veðsetningar eins og mælt væri fyrir um í samkomulaginu. Í skuldabréfinu sem M áritaði um samþykki fyrir veðsetningunni var tekið fram að veðsali staðfesti með undirritun sinni að hafa kynnt sér upplýsingabækling L hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila. Í bæklingnum var kveðið á um að ábyrgðarmaður skyldi eiga þess kost að kynna sér niðurstöðu greiðslumats lántaka áður en hann gengist í ábyrgð. Var því talið að M hefði með undirritun skuldabréfsins viðurkennt að hún hefði fengið bæklinginn í hendur og kynnt sér hann og þar með fengið næga vitneskju um rétt sinn til að fá aðgang að greiðslumati. Hefði M ekki gert það yrði hún að bera halla af því. Í þriðja lagi hélt M því fram að mat L hf. á greiðslugetu H hefði í ýmsu verið reist á röngum forsendum. Að samanlögðum mánaðarlegum útgjöldum H og greiðslum hennar af nýja láninu og eldri skuldum var talið að niðurstaða greiðslumatsins hefði verið jákvæð þó svo að lögð væri til grundvallar lægri fjárhæð heildartekna en þar var gert. Hefði því ekki hvílt skylda á L hf. samkvæmt samkomulaginu til að afla skriflegrar staðfestingar frá M um að henni hefði verið kynnt greiðslumat fyrir H með neikvæðri niðurstöðu. Var L hf. því sýknaður af kröfum M.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Gunnar Aðalsteinsson dómstjóri. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. september 2017. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda leitaði Halla Vilbergsdóttir í júní 2007 til Landsbanka Íslands hf. með ósk um lán til að gera upp tilteknar skuldir sínar við þann banka og aðra lánardrottna. Henni hafi þá verið veitt það svar að slík lántaka væri háð þeim skilyrðum að hún stæðist greiðslumat og setti tryggingu fyrir láninu. Í framhaldi af því hafi Halla tjáð bankanum að stefnda, sem mun vera móðir þáverandi unnusta Höllu, fengist til að veita veð fyrir láninu í fasteign sinni að Vogagerði 16 í Sveitarfélaginu Vogum. Bankinn hafi af þessu tilefni aflað verðmats á fasteigninni 8. júní 2007 og Halla jafnframt afhent gögn vegna mats á greiðslugetu hennar. Þegar það mat hafi legið fyrir hafi Halla komið í bankann 18. sama mánaðar og undirritað allt í senn umsókn um lán, greiðslumat, skuldabréf fyrir láninu og önnur gögn sem því hafi tengst. Í umsókn Höllu óskaði hún eftir að Landsbanki Íslands hf. veitti sér lán að fjárhæð 1.750.000 krónur, sem yrði endurgreitt á fimm árum með mánaðarlegum afborgunum frá 1. ágúst 2007 að telja. Fram kom að boðið væri fram veð fyrir skuldinni í fasteign stefndu að Vogagerði 16, sem væri að áætluðu markaðsverði 49.900.000 krónur. Verja ætti lánsfénu til að greiða „kröfur á vanskilaskrá Lánstrausts hf.“ Halla undirritaði einnig 18. júní 2007 skjal, sem fyllt hafði verið út á eyðublaði frá bankanum og bar fyrirsögnina: „Forsendur greiðslumats“. Þar kom fram að matið væri gert vegna fyrirhugaðs láns til fimm ára að fjárhæð 2.100.000 krónur og væri áætluð greiðslubyrði af því 46.064 krónur á mánuði. Í fimm liðum voru tilgreindar skuldir Höllu og í fjórum tilvikum merkt í viðeigandi reiti að þær yrðu greiddar upp, en það voru í fyrsta lagi skuld með auðkenninu „Gjaldheimtan v/Vís“ að uppgreiðsluverði 300.000 krónur, í öðru lagi „Kollekta v/húsaleigu“, 444.000 krónur, í þriðja lagi „Lögheimtan v/LÍ afskrift“, 960.952 krónur, og í fjórða lagi „Intrum v/Reykjanesbær“, 322.555 krónur. Í fimmta liðnum var getið um „aðrar skuldir hjá Intrum“ að fjárhæð 257.695 krónur, en ekki var ráðgert að þær yrðu greiddar þegar í stað og yrði mánaðarleg greiðslubyrði af þeim 20.000 krónur. Um tekjur Höllu kom fram að útborguð mánaðarlaun hennar væru 246.588 krónur, en jafnframt fengi hún mánaðarlega meðlag að fjárhæð 51.747 krónur og 50.000 krónur í barnabætur. Væru tekjur hennar þannig alls 348.335 krónur á mánuði. Framfærslukostnaður hennar væri mánaðarlega 128.640 krónur auk húsaleigu að fjárhæð 25.000 krónur, en hvorki bæri hún kostnað af rekstri bifreiðar né fasteignar. Að meðtöldum greiðslum af nýju láni og áðurgreindum skuldum, sem ekki yrðu greiddar upp, yrðu því mánaðarleg útgjöld Höllu samtals 219.704 krónur og stæði þannig eftir af tekjum hennar 128.631 króna á mánuði. Samhliða þessu undirritaði Halla annað skjal á eyðublaði frá bankanum um „niðurstöður greiðslumats“, þar sem sömu upplýsingar komu fram ásamt því að hún ætti engar eignir, en samanlagðar skuldir hennar myndu nema 2.357.695 krónum að meðtöldu nýja láninu. Á þessu síðastnefnda eyðublaði var gert ráð fyrir undirritun ábyrgðarmanns, en það var ekki áritað af stefndu fremur en hin skjölin tvö, sem áður var getið. Auk þess, sem að framan greinir, gaf Halla út 18. júní 2007 skuldabréf til Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 1.750.000 krónur, sem bundin var vísitölu neysluverðs með grunntölunni 271 stig. Átti skuldin að bera breytilega vexti, sem væru 11,2% á ári við útgáfu bréfsins, og yrði höfuðstóll hennar ásamt vöxtunum endurgreiddur á fimm árum með mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 1. ágúst 2007. Til tryggingar skuldinni var fasteignin að Vogagerði 16 sett að veði á 11. veðrétti að baki tilteknum veðskuldum að upphaflegri fjárhæð samtals 14.035.994 krónur. Í skuldabréfinu, sem var undirritað bæði af stefndu um samþykki sem þinglýstur eigandi fasteignarinnar og maka hennar, var meðal annars svofellt ákvæði: „Með undirritun sinni á skuldabréf þetta staðfestir veðsali, sem ekki er útgefandi, að hafa kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila, en Landsbankinn er aðili að samkomulagi fjármálafyrirtækja, stjórnvalda og Neytendasamtakanna um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.“ Skuldabréfinu, sem var þinglýst 18. júní 2007, fylgdi jafnframt greiðsluáætlun, sem Halla undirritaði, en þar kom fram að mánaðarleg greiðslubyrði af skuldinni yrði um 37.950 krónur til loka lánstímans ef ekki væri tekið tillit til verðtryggingar. Í málinu virðist óumdeilt að láni samkvæmt skuldabréfinu hafi verið varið til að greiða upp vanskilaskuldir Höllu eins og ráðgert var í fyrrnefndu skjali um forsendur greiðslumats, en þó að teknu tilliti til þess að fyrir liggur samkvæmt kvittun Landsbanka Íslands hf. 21. júní 2007 að Halla hafi gert að fullu upp skuld sína við hann, sem í skjalinu var sögð vera að fjárhæð 960.952 krónur, með 450.000 krónum. Er þess þá einnig að gæta að í skjalinu um forsendur greiðslumats var miðað við að lán bankans til Höllu yrði sem fyrr segir að fjárhæð 2.100.000 krónur, en ekki 1.750.000 krónur eins og raunin varð. Í fyrirliggjandi gögnum er hvorki að sjá skýringar á ástæðum að baki þessu né upplýsingar um ráðstöfun lánsfjárins að öðru leyti. Af gögnum málsins verður ráðið að skuldabréfið hafi í meginatriðum verið í skilum frá fyrsta gjalddaga fram til 1. febrúar 2009, en á því tímabili komst það í eigu áfrýjanda á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, sem tekin var í framhaldi af því að sú stofnun tók 7. sama mánaðar yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., vék stjórn félagsins frá og setti yfir það skilanefnd. Vanskil urðu á hinn bóginn í framhaldi af þessu á greiðslum samkvæmt skuldabréfinu þar til því var aftur komið í skil í október 2009, en með samningi Höllu við áfrýjanda 28. þess mánaðar, sem stefnda áritaði um samþykki, var skilmálum bréfsins, sem þá var að eftirstöðvum 1.408.583 krónur, jafnframt breytt með tiltekinni lengingu lánstíma. Eftir það mun hafa verið greitt af skuldabréfinu til og með gjalddaga 1. nóvember 2010. Ekki verður séð að greiðslur hafi verið inntar af hendi upp frá því, en umboðsmaður skuldara samþykkti 16. janúar 2012 umsókn Höllu um að leita samnings til greiðsluaðlögunar, sem áfrýjandi tilkynnti stefndu 29. janúar 2014 að náðst hafi. Bæði fyrir þann tíma og eftir tilkynnti áfrýjandi stefndu ítrekað um vanskil á skuldabréfinu. Með bréfi til áfrýjanda 10. september 2015 krafðist stefnda þess að ógilt yrði leyfi, sem hún hafi veitt til veðsetningar á fasteign sinni með áritun á skuldabréfinu 18. júní 2007. Því hafnaði áfrýjandi 5. október 2015 og höfðaði stefnda mál þetta 3. maí 2016 með kröfu um að veðsetningin yrði felld úr gildi, svo og að áfrýjanda yrði gert að aflýsa skuldabréfinu. Þær kröfur voru teknar til greina með hinum áfrýjaða dómi. II Svo sem fram kemur í héraðsdómi hefur stefnda reist framangreindar kröfur sínar á þremur málsástæðum. Í meginatriðum tengjast þær allar því að Landsbanki Íslands hf. hafi að mati stefndu vanrækt við lánveitinguna til Höllu Vilbergsdóttur 18. júní 2007 að gæta skyldna sinna samkvæmt samkomulagi fjármálafyrirtækja, stjórnvalda og Neytendasamtakanna frá 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga og þá í þeim mæli að víkja verði til hliðar veðsetningu fasteignarinnar að Vogagerði 16 á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í fyrsta lagi hefur stefnda byggt á því að sér hafi í engu verið kynnt að verja ætti lánsfénu í öllu verulegu til að greiða upp vanskilaskuldir Höllu, bæði við bankann og aðra, áður en stefnda veitti honum veðrétt í fasteign sinni 18. júní 2007. Um þessa málsástæðu er þess að gæta að í 2. mgr. 4. gr. áðurnefnds samkomulags, sem stefnda hefur vísað til í þessu sambandi, var mælt svo fyrir að ef ráðgert væri að verja meira en helmingi lánsfjár „til að endurgreiða önnur lán skuldara hjá fjármálafyrirtæki“ væri skylt að afla skriflegrar staðfestingar ábyrgðarmanns um að honum hafi verið kynnt það. Eins og áður var rakið kom fram í skjali um forsendur greiðslumats frá 18. júní 2007 að væntanlegt lán Landsbanka Íslands hf. til Höllu yrði að fjárhæð 2.100.000 krónur og ætti að verja 960.962 krónum af þeirri fjárhæð til að gera upp skuld hennar við bankann. Aðrar vanskilaskuldir, sem þar voru taldar upp og til stóð að greiða, voru ekki við fjármálafyrirtæki, hvorki þann banka né önnur. Þegar til kom var lánið sem fyrr segir að fjárhæð 1.750.000 krónur og 450.000 krónum af henni ráðstafað til uppgjörs á skuld Höllu við Landsbanka Íslands hf. Þegar af þessum ástæðum er haldlaus sú málsástæða stefndu, sem hér um ræðir. Í öðru lagi hefur stefnda vísað til þess að hún hafi hvorki undirritað skjöl um mat á greiðslugetu Höllu né fengið að sjá þau. Hafi þetta verið andstætt ákvæðum 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins frá 1. nóvember 2001, auk þess sem Landsbanki Íslands hf. hafi ekki afhent stefndu upplýsingabækling um skuldaábyrgðir og veðsetningar, svo sem mælt hafi verið fyrir um í 1. og 2. mgr. sömu greinar. Um þetta verður að líta til þess, sem áður var greint, að í skuldabréfinu, sem stefnda áritaði um samþykki fyrir veðsetningu fasteignar sinnar, var tekið fram að veðsali staðfesti með undirritun sinni að hafa kynnt sér upplýsingabækling Landsbanka Íslands hf. „um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila“. Eintak af bæklingi þessum liggur fyrir í málinu. Þar var greint frá ýmsum efnisatriðum í samkomulaginu frá 1. nóvember 2001, þar á meðal varðandi skyldu til að meta greiðslugetu lántaka og tryggja að ábyrgðarmaður ætti þess kost að kynna sér niðurstöðu slíks mats áður en hann gengist í ábyrgð. Leggja verður til grundvallar að stefnda hafi með undirritun skuldabréfsins viðurkennt að hún hafi fengið þennan bækling í hendur og kynnt sér hann, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 3. nóvember 2011 í máli nr. 669/2010, og þar með fengið næga vitneskju um rétt sinn til að fá aðgang að greiðslumati. Hafi hún ekki gert þetta verður hún að bera halla af því og verður þessari málsástæðu hennar af þeim sökum hafnað. Í þriðja lagi hefur stefnda borið fyrir sig að mat Landsbanka Íslands hf. frá 18. júní 2007 á greiðslugetu Höllu hafi í ýmsu verið reist á röngum forsendum, svo sem lýst er að nokkru í hinum áfrýjaða dómi. Hér að framan hefur í meginatriðum verið greint frá upplýsingum, sem fram komu í skjali um þetta mat, en í samantekt á niðurstöðum þess var tekið fram að það tæki mið af „núverandi fjárhagsstöðu greiðanda“, svo og að upplýsingar um það efni væru að hluta komnar frá honum. Ekki er unnt að láta áfrýjanda bera halla af því að gögn að baki matinu hafi ekki reynst vera tiltæk þegar stefnda bar fyrst brigður á réttmæti matsins við höfðun þessa máls 3. maí 2016, nærri níu árum eftir að matið var gert, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 26. maí 2016 í máli nr. 648/2015. Eins og áður var getið var lagt til grundvallar greiðslumati að útborguð mánaðarlaun Höllu næmu 246.588 krónum, en að auki fengi hún mánaðarlega barnsmeðlög, 51.747 krónur, og barnabætur, 50.000 krónur. Í málinu hefur áfrýjandi lagt fram yfirlit vegna bankareiknings Höllu hjá Landsbanka Íslands hf. frá byrjun árs til júlí 2007 og telur mega ráða af því að útborgaðar launatekjur Höllu og greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins hafi á því tímabili verið að meðaltali samtals 246.230 krónur á mánuði. Barnabætur hafi að auki mánaðarlega numið 50.390 krónum. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið hvort meðlag hafi fallið undir áðurnefndar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, en hafi það verið voru útborgaðar tekjur Höllu þó að minnsta kosti 296.620 krónur á mánuði á fyrri hluta árs 2007. Samkvæmt samkomulaginu frá 1. nóvember 2001 átti við áætlun um framfærslukostnað í greiðslumati að leggja að lágmarki til grundvallar „viðmiðun Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna“. Liggur fyrir eftir gögnum málsins að þær 128.640 krónur, sem tilgreindar voru í þessu sambandi í greiðslumati fyrir Höllu, fóru nokkuð fram úr þeirri viðmiðun. Fjárhæð mánaðarlegrar húsaleigu samkvæmt greiðslumatinu, 25.000 krónur, gat ekki stafað frá öðrum en Höllu og verður ekki litið svo á að efni hafi verið til að Landsbanki Íslands hf. tortryggði réttmæti þeirra upplýsinga, en að því verður og að gæta að stefnda leiddi hvorki Höllu fyrir dóm til skýrslugjafar um þetta í héraði né aflaði annarra gagna í þessu sambandi. Að samanlögðum þessum mánaðarlegum útgjöldum Höllu og fyrrnefndum greiðslum hennar af nýja láninu og eldri skuldum var niðurstaða greiðslumatsins jákvæð þó svo að lögð sé til grundvallar lægri fjárhæð heildartekna en þar var gert. Hvíldi því ekki skylda á Landsbanka Íslands hf. samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins frá 1. nóvember 2001 til að afla skriflegrar staðfestingar frá stefndu um að henni hafi verið kynnt greiðslumat fyrir Höllu með neikvæðri niðurstöðu en óskaði allt að einu eftir að þeirri síðarnefndu yrði veitt umbeðið lán. Málsástæðu stefndu, sem að þessu lýtur, verður því einnig hafnað. Samkvæmt öllu framangreindu verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefndu. Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Áfrýjandi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefndu, Margrétar Helgu Helgadóttur. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2017                 Mál þetta höfðaði Margrét Helga Hallgrímsdóttir, Vogagerði 16, Vogum, með stefnu birtri 3. maí 2016 á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík.  Málið var dómtekið 22. júní sl.                  Stefnandi krefst þess að felld verði úr gildi veðsetning á fasteign hennar að Vogagerði 16, Vogum samkvæmt veðskuldabréfi nr. 143-74-430671, útgefnu af Höllu Vilbergsdóttur 18. júní 2007, að fjárhæð 1.750.000 krónur, til stefnda.  Þá verði stefnda gert að aflýsa skuldabréfi þessu af fasteigninni.  Loks krefst stefnandi máls­kostnaðar.                  Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar.                  Þann 18. júní 2007 gekk Halla Vilbergsdóttir frá lánsumsókn og undirritaði skuldabréf í útibúi stefnda í Grindavík.  Bréfið er að fjárhæð 1.750.000 krónur, verð­tryggt.  Það var tryggt með 11. veðrétti í fasteigninni Vogagerði 16 í Vogum.                  Stefnandi var og er þinglýstur eigandi þessarar fasteignar og ritaði undir skuldabréfið um heimild til veðsetningar á húseign sinni.  Eiginmaður hennar veitti og samþykki sitt.  Í stefnu segir að stefnandi hafi verið í miðri lyfjameðferð vegna krabbameins og ritað undir bréfið á heimili sínu.  Hún hafi verið öryrki frá árinu 2006.  Fram kom við meðferð málsins að lántakinn hefði verið unnusta sonar stefnanda, en að sambandi þeirra hefði síðar verið slitið.  Stefnandi kom ekki fyrir dóm til skýrslu­gjafar og ekki heldur lántakinn eða nokkur starfsmaður stefnda.                  Stefnandi lagði fram tvö skjöl er varða mat á greiðslugetu lántakans.  Annars vegar er skjal sem nefnist Forsendur greiðslumats.  Þar eru tilgreindar fjórar skuldir sem greiða skal upp, þar af ein við Landsbanka Íslands sem sögð er nema 960.982 krónum.  Hinar þrjár eru samtals að fjárhæð 1.066.555 krónur.  Lögð var fram kvittun frá Landsbanka Íslands, dags. 21. júní 2007, þar sem viðurkennd er greiðsla að fjár­hæð 450.000 krónur og að þar með sé umrædd skuld að fullu greidd.  Hinar skuldirnar þrjár eru sagðar í innheimtu hjá Gjaldheimtunni, Kollekta og Intrum.                  Útborguð laun lántaka á mánuði eru sögð nema 248.588 krónum og að við­bættu meðlagi og barnabótum eru tekjur á mánuði sagðar nema samtals 348.355 krónum.  Framfærslukostnaður er sagður nema 219.704 krónum, en þar er ekki reiknað með rekstri bifreiðar, en húsaleiga sögð nema 25.000 krónum á mánuði.  Skjal þetta er undirritað af lántakanum einum.                  Samkvæmt skattframtölum lántakans var tekjuskattsstofn hennar á árinu 2006 3.130.400 krónur, en 2.988.652 krónur á árinu 2007.                  Annað skjal nefnist Niðurstöður greiðslumats.  Þar kemur fram að lán sem um ræðir er talið að fjárhæð 2.100.000 krónur og að greiðslubyrði verði 46.064 krónur á mánuði.  Greiðslugeta að teknu tilliti til skulda er metin 128.631 króna á mánuði.  Undir þetta skjal ritaði lántakinn einn, en ekki stefnandi.                  Öll skjöl varðandi lánið, skuldabréfið, umsóknin og skjöl um greiðslumatið eru dagsett sama dag.  Stefnandi byggir á því að hún hafi ekki fengið að sjá greiðslumatið eða önnur skjöl.  Í greinargerð stefnda segir að umsóknarferlið hafi tekið nokkra daga, þótt umsóknin hafi formlega verið undirrituð sama dag og skuldabréfið.                  Stefnandi skrifaði eins og áður segir aðeins undir skuldabréfið, en ekki niður­stöður greiðslumats, þótt gert sé ráð fyrir undirritun þess er veitir veðleyfi á það skjal.                  Þann 28. október 2009 var gengið frá breytingu á greiðsluskilmálum skulda­bréfsins.  Stefnandi skrifaði athugasemdalaust undir það skjal.                  Lántakinn, Halla Vilbergsdóttir, fékk heimild til að leita samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010.  Hefur verið lögð fram innköllun umsjónarmanns og tilkynning stefnda til stefnanda, dags. 29. janúar 2014, þar sem segir að samningur Höllu um greiðsluaðlögun hefði verið samþykktur.                  Málsástæður og lagarök stefnanda                 Stefndi byggir á því að forveri stefnda, Landsbanki Íslands hf., hafi brotið gegn ákvæðum Samkomulags um notkun ábyrgða frá árinu 2001.  Skylt hafi verið að meta greiðslugetu greiðanda.  Reifuð eru í stefnu meginatriðin um slík greiðslumöt.                  Stefnandi byggir á því að láninu hafi öllu verið ráðstafað til uppgreiðslu skulda Höllu sem hafi verið í vanskilum.  Stefnandi hafi ekki verið upplýst um þetta.  Með því hafi bankinn brotið gegn 2. mgr. 4. gr. Samkomulagsins og þágildandi 19. gr. laga nr. 161/2002.                  Stefnandi byggir á því að hún hafi ekki fengið að sjá greiðslumat um lán­takann.  Með því hafi verið brotið gegn 3. mgr. 4. gr. Samkomulagsins.  Þá hafi bankinn ekki haft nein samskipti við stefnanda, heldur látið lántakann alfarið um að afla undirritunar hennar.  Með því hafi verið brotið gegn 1. mgr. 4. gr. Sam­komulagsins og þágildandi 19. gr. laga nr. 161/2002.  Afhenda hafi átt upplýsinga­bækling um ábyrgðir en það hafi ekki verið gert.                  Stefnandi segir hæpið að vinna greiðslumat sama dag og sótt er um lán.  Fjármálafyrirtæki beri ábyrgð á því að upplýsingar séu réttar og verði að afla nauðsynlegra gagna til þess að matið gefi góða mynd af ætlaðri greiðslugetu skuldara.  Vafasamt sé að unnt sé að afla gagna á nokkrum klukkustundum.  Stefnandi bendir á að ekki hafi verið veitt heimild til upplýsingaöflunar með lánsumsókn.  Því virðist sem bankinn hafi ekki aflað neinna gagna.  Hann sé þó skyldur til þess, sbr. fordæmi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 376/2013.  Byggir stefnandi á því að fullægjandi greiðslu­mat hafi ekki verið unnið.                  Stefnandi byggir á því að upplýsingar í greiðslumatinu hafi verið rangar.  Tekjur hafi verið sagðar of háar.  Þá hafi verið sagt að leigugreiðslur næmu 25.000 krónum á mánuði.  Lántakinn hafi hins vegar greitt 100.000 krónur í leigu.  Bendir stefnandi á að láninu hafi m.a. verið varið til að greiða upp skuld vegna húsaleigu að fjárhæð 444.000 krónur.                  Stefnandi telur að ef upplýsingar hefðu verið réttar hefði greiðslumatið verið neikvætt um 54.074 krónur á mánuði, en ekki jákvætt um 128.632 krónur.  Ef réttum aðferðum hefði verið beitt hefði niðurstaðan orðið neikvæð, sama við hvaða tímabil hefði verið miðað.                  Stefnandi byggir á því að vegna galla á greiðslumatinu sé það ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af stefnda að bera fyrir sig veðleyfi hennar.  Beri að ógilda veðsetninguna samkvæmt 36. gr. samningalaga.  Þá byggir stefnandi einnig á því að bankinn hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt þágildandi 19. gr. laga nr. 161/2002.  Loks hafi bankinn brotið gegn meginreglu samningaréttar um trúnað.                  Þá telur stefnandi einnig að hún geti byggt kröfur sínar á 2. mgr. 36. gr. samningalaga.  Hún hafi ekki haft nein samskipti við bankann og hann hafi samið skil­mála einhliða.  Stefnandi hafi ekki notið neins af láninu.  Þá hafi bankinn átt frum­kvæði að veðsetningunni.                  Í stefnu segir að stefnandi sé einstaklingur sem hafi litla þekkingu á lána­starfsemi, en stefndi og forveri hans séu fjármálastofnanir með fjölda sérfræðinga í sinni þjónustu.  Aðstöðumunur aðila sé verulegur.  Þá sé stefnandi öryrki og fjárhags­staða hennar hafi síst farið batnandi.                  Málsástæður og lagarök stefnda                 Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að nota hafi átt meira en helming lánsins til að greiða upp skuldir við fjármálafyrirtæki í skilningi 2. mgr. 4. gr. Samkomulags um notkun ábyrgða.  Stefndi byggir á því að ákvæðið eigi eftir efni sínu aðeins við ef greiddar séu skuldir hjá sama fjármálafyrirtæki og veitir lánið, ákvæðið eigi ekki við um greiðslu skulda við önnur fjármálafyrirtæki.  Af umræddu láni hafi einungis 450.000 krónum verið varið til greiðslu skuldar við Landsbanka Íslands hf.  Ákvæðið eigi því ekki við.  Þá hafi verið greiddar aðrar skuldir af lánsfénu, en þær hafi verið við fjármálastofnanir.                  Stefndi byggir á því að stefnandi hafi staðfest með undirritun sinni á veð­skuldabréfið að hún hefði kynnt sér upplýsingabækling bankans um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðjamanns.  Með þessari staðfestingu sjáist að stefnanda hafi átt að vera kunnugt um mat á greiðslugetu lántakans.  Henni hafi verið í sjálfsvald sett hvort hún kynnti sér matið eða ekki áður en hún heimilaði veðsetningu fasteignar sinnar.                  Stefndi segir að ekki sé hægt nú níu árum síðar að staðreyna hvernig undir­ritunar stefnanda hafi verið aflað.  Það hafi heldur enga þýðingu.  Með undirritun sinni hafi stefnandi staðfest yfirlýsingu þess efnis að hún hefði kynnt sér efni bæklingsins.  Ekki geti skipt mál þótt lántakinn hafi kynnt stefnanda þessi skjöl.  Mótmælir stefndi því að bankinn hafi brotið gegn 1. og 3. mgr. Samkomulagsins eða 19. gr. laga nr. 161/2002, eins og hún hljóðaði á þeim tíma.  Því séu skilyrði 36. gr. samningalaga ekki uppfyllt.                  Stefndi mótmælir því að greiðslumat bankans hafi verið rangt.  Þá skipti það ekki máli, stefnandi hefði veitt veðleyfið hvernig sem greiðslumatið hefði hljóðað.                  Stefndi segir að greiðslumatið hafi gert ráð fyrir láni að fjárhæð 2.100.000 krónur, en lánið hafi numið 1.750.000 krónum.  Greiðslubyrði hafi því verið mun lægri.  Þá hafi tekjur lántaka verið vanáætlaðar en ekki ofáætlaðar.  Stefndi kveðst hafa notað skattframtal til að kanna eigna- og skuldastöðu en metið tekjur eftir launa­seðlum síðustu þriggja mánaða.  Afrit þeirra hafi ekki fundist eftir að mál þetta var höfðað.  Af yfirlitum um bankareikning lántakans megi sjá greiðslur frá Trygginga­stofnun og launagreiðslur frá Sílfelli ehf.  Meðaltal greiðslnanna í apríl og maí 2006 hafi numið 247.453 krónum.  Ráðstöfunartekjur hafi að lágmarki numið þeirri fjár­hæð.  Greiðslumatið hefði miðað við þetta verið jákvætt um 35.861 krónu og þá séu ótaldar barnabætur að fjárhæð 606.687 krónur á árinu 2006.                  Stefndi mótmælir því að tilgreining á 25.000 króna húsaleigu sé röng.  Gögn hafi ekki fundist um þetta atriði, en þetta hljóti að byggjast á upplýsingum frá lántaka.  Ósannað sé að hún hafi greitt hærri húsaleigu en 25.000 krónur.  Samkvæmt skatt­framtali 2007 hafi hún ekki fengið neinar húsaleigubætur, sem bendi til þess að upplýsingarnar í greiðslumatinu séu réttar.                  Stefndi mótmælir því að bankinn hafi brotið gegn 3. og 4. gr. Samkomulagsins eða þágildandi ákvæðum laga nr. 161/2002.  Eðlilegt hafi verið að krefjast tryggingar fyrir láninu.  Þá sé ósannað að heilsufar stefnanda hafi verið svo slæmt að hún hafi ekki getað áttað sig á efni yfirlýsingar sinnar.                  Stefndi mótmælir því að bankinn hafi brotið gegn öðrum ákvæðum samkomu­lagsins eða eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum eða meginreglu samningaréttar um trúnaðarskyldu í samningssambandi.                  Loks byggir stefndi á að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir tómlæti.  Hún hafi skrifað undir veðskuldabréfið þann 18. júní 2007, en ekki gert athugasemd við veð­setninguna fyrr en með bréfi dags. 10. september 2015.  Þá hafi hún skrifað athugasemdalaust undir skilmálabreytingu þann 28. október 2009.  Verði ekki fallist á að krafa hennar sé fallin niður fyrir tómlæti geti hún þó ekki byggt á því nú að greiðslumatið hafi verið rangt eða ófullnægjandi.                  Niðurstaða                  Samkvæmt Samkomulagi um notkun ábyrgða sem nefnt hefur verið hér að framan bar forvera stefnda, Landsbanka Íslands hf., að meta greiðslugetu lántakans, Höllu Vilbergsdóttur, áður en hann tók við yfirlýsingu stefnanda um að hún samþykkti veðsetningu á fasteign sinni til tryggingar láni til Höllu.  Slíkt greiðslumat var unnið.                  Stefnandi ritaði ekki undir skjal þar sem útlistuð var niðurstaða greiðslu­matsins.  Í skuldabréfi því sem hún ritaði undir er í 15. tl. að finna svofellt ákvæði:                  „Með undirritun sinni á skuldabréf þetta staðfestir veðsali, sem ekki er útgefandi, að hafa kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila ...“                  Stefnandi heldur því fram að henni hafi ekki verið kynnt greiðslumatið, en hún kom ekki sjálf fyrir dóm til skýrslugjafar.  Þó hefur hún undirritað framangreinda yfir­lýsingu, sem er skýrlega orðuð, en er að finna í stöðluðum texta.  Þá er ekki upplýst hvort stefnandi kom sjálf í útibú bankans til undirritunar, en sömu vitundarvottar stað­festa undirritun hennar og lántakans.  Í stefnu er því haldið fram að stefnandi hafi verið í lyfjameðferð þegar gengið var frá undirritun skuldabréfsins.                  Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 575/2012 var talið að þar sem ábyrgðarmaður hefði staðfest að honum hefði verið kynntur upplýsingabæklingur um ábyrgðir, hefði honum átt að vera kunnugt um að greiðslumat hefði verið gert.  Hefði hann þá sjálfur ákveðið hvort hann kynnti sér matið eða ekki, áður en hann samþykkti veðsetningu eignar sinnar.  Hæstiréttur komst að sömu niðurstöðu í máli nr. 749/2013.  Eins og hér stendur á er ekki með öllu réttmætt að byggja á stöðluðum texta skuldabréfsins sem stefnandi skrifaði undir.  Er þá einnig litið til þess að lánsfénu var ráðstafað að hluta til greiðslu vanskilaskulda.  Niðurstaða greiðslumatsins var hins vegar jákvæð, en ýmis atriði í matinu kölluðu þó á frekari skýringar.                  Stefnandi byggir á því að upplýsingar um ráðstöfunartekjur lántakans séu rangar.  Nákvæm gögn um tekjurnar liggja ekki frammi.  Þá liggja ekki frammi hald­bærar upplýsingar um húsaleigu sem lántakinn greiddi.  Ósennilegt er að fjögurra manna fjölskylda greiði 25.000 krónur í húsaleigu, þó ekki með öllu fráleitt.  Hefði lánveitandi átt að afla haldbærra skýringa á fjárhæðinni.  Stefndi hefur ekki lagt fram þau gögn sem byggt var á við gerð greiðslumatsins.  Telja verður að honum og forvera hans hafi borið að varðveita þessi gögn svo lengi sem skuldin var ekki að fullu greidd.  Á móti ber að líta til þess að stefnandi kom ekki fyrir dóm og leiddi lántakann ekki sem vitni.                  Með þeim gögnum sem fram hafa komið í málinu hefur ekki verið sýnt fram á að verulega skeiki í áætlun um ráðstöfunartekjur lántakans.  Gögnin eru þó ófull­komin.  Hallar hér fremur á stefnda sem eins og áður segir hefði átt að geta lagt fram þau gögn sem mat hans á greiðslugetu lántakans var byggt.                  Það er ekki rétt sem stefnandi byggir á að meira en helmingur láns­fjárhæðarinnar hafi gengið til greiðslu skuldar við lánveitandann sjálfan.  Hins vegar var meira en helmingi varið til greiðslu skulda sem voru í vanskilum.  Ákvæði 2. mgr. 4. gr. Samkomulagsins vísar til greiðslu skulda hjá sama fjármálafyrirtæki og veitir lán það sem um ræðir, en ekki skulda hjá öðrum fjármálafyrirtækjum.                  Upplýsingar um framfærslukostnað í forsendum greiðslumatsins eru ekki studdar gögnum.  Hann er þó sýnilega metinn mjög lágur.                  Stefnandi hefur lagt fram nokkur gögn um heilsufar sitt.  Sjá má að hún hefur átt í erfiðleikum, en ekki er sýnt fram á að hún hafi verið ófær um gera sér grein fyrir efni og inntaki ábyrgðarskuldbindingar sem hún gekkst undir með því að heimila veð­setningu hússins.                  Ekki verður fallist á að stefnandi hafi glatað mótbárum við gildi veðleyfisins sakir tómlætis, en því er ekki haldið fram að hún hafi nokkru sinni greitt sjálf af skuldinni.                  Samkvæmt öllu framangreindu verður við úrlausn málsins að leggja mestu áherslu á þá staðreynd að stefndi og forveri hans varðveittu engin gögn um vinnslu og forsendur greiðslumatsins.  Þá er fjárhæð húsaleigu óstaðfest og forsendur um fram­færslu ósannfærandi.  Loks er ekki hægt að byggja á því að stefnandi hafi haft nægt tækifæri til að kynna sér greiðslumatið.  Verður að þessu virtu að fallast á það með stefnanda að ósanngjarnt sé af stefnda að byggja á veðleyfi því sem hún veitti umrætt sinn.  Verður skuldbinding stefnanda því felld úr gildi samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 1. gr. laga nr. 14/1995.                  Eftir þessari niðurstöðu verður stefnda gert að greiða stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.  Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.                  Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  Dómsorð                 Felld er úr gildi veðsetning á fasteign stefnanda, Margrétar Helgu Helgadóttur, að Vogagerði 16 í Vogum, samkvæmt veðskuldabréfi útgefnu af Höllu Vilbergsdóttur til Landsbanka Íslands hf. þann 18. júní 2007 að fjárhæð 1.750.000 krónur.                  Stefnda, Landsbankanum hf., ber að láta aflýsa veðskuldinni af fasteigninni.                  Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað. 
Mál nr. 584/2017
Lánssamningur Gengistrygging
Ú ehf. krafðist þess að viðurkennt yrði að lánssamningur milli hans og LÍ hf., forvera L hf., hafi verið bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Var um að ræða fjölmyntalán „að jafnvirði“ 85.000.000 krónur í þremur erlendum gjaldmiðlum sem skiptust í jöfnum hlutföllum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að slík tilgreining á fjárhæð lánsins nægði ekki ein og sér til að komast að niðurstöðu um hvort hann tæki til láns í erlendum gjaldmiðli eða í íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar heldur yrði að líta til þess hvernig aðilar efndu aðalskyldur sínar samkvæmt samningnum. Var tekið fram að andvirði lánsins hefði verið ráðstafað að ósk Ú ehf. inn á gjaldeyrisreikninga, en með því móti hefði stofnast samsvarandi krafa í erlendum myntum á hendur bankanum vegna reikninganna. Talið var að þegar lánveitandi efni aðalskyldu sína með því móti hefði fé í erlendum gjaldmiðlum í reynd skipt um hendur. Var því fallist á það með héraðsdómi að um hafi verið að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum og L hf. því sýknað af kröfu Ú ehf.
                                                        Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Símon Sigvaldason dómstjóri. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2017. Hann krefst þess að viðurkennt verði að lánssamningur milli áfrýjanda og Landsbanka Íslands hf. 20. febrúar 2004 sé bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Málsatvikum og málsástæðum aðila er lýst í héraðsdómi. Við úrlausn um hvort samningur sé um lán í erlendum gjaldmiðli eða í íslenskum krónum bundið gengi erlendra mynta hefur í fjölmörgum dómum Hæstiréttar verið lagt til grundvallar að fyrst og fremst verði byggt á skýringu á texta viðkomandi samnings þar sem lýst er skuldbindingunni sem lántaki gengst undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um efni lánssamningsins hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hann hefur verið efndur og framkvæmdur að öðru leyti. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi sagði í fyrrgreindum lánssamningi að um væri að ræða fjölmyntalán „að jafnvirði“ 85.000.000 krónur í þremur erlendum gjaldmiðlum sem skiptust í jöfnum hlutföllum. Hæstiréttur hefur ítrekað slegið því föstu að slík tilgreining á fjárhæð láns í texta samnings nægi ekki ein og sér til að komast að niðurstöðu um hvort hann taki til láns í erlendum gjaldmiðli eða í íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 15. júní 2012 í máli nr. 3/2012. Verður því að líta til þess hvernig lánveitandinn og lántakinn efndu aðalskyldur sínar samkvæmt samningnum. Svo sem rakið er í héraðsdómi var andvirði lánsins ráðstafað að ósk áfrýjanda inn á gjaldeyrisreikninga, en með því móti stofnaðist samsvarandi krafa í erlendum myntum á hendur bankanum vegna reikninganna. Þegar lánveitandi efnir aðalskyldu sína með því móti hefur verið talið að fé í erlendum gjaldmiðlum skipti í reynd um hendur, sbr. meðal annars dóma réttarins 11. september 2014 í máli nr. 90/2014 og 15. janúar 2015 í máli nr. 409/2014. Samkvæmt þessu verður fallist á það með héraðsdómi að um hafi verið að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum. Verður dómurinn því staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, en fjárhæð hans tekur mið af því að samhliða er rekið annað mál um samkynja sakarefni. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Útgerðarfélagið Dvergur ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.       Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, 27. júní 2017, í máli nr. E-2161/2015: Mál þetta, sem dómtekið var 17. maí sl., var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 12. júní 2015, af Útgerðarfélaginu Dverg hf., Grundarbraut 26, Ólafsvík, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík. Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf., frá 20. febrúar 2004, að fjárhæð 85.000.000 króna, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. II Stefnandi, sem er útgerðarfyrirtæki, gerði samning við Útgerðarfélagið Tjald í febrúar 2004 um kaup stefnanda á aflahlutdeild skipsins Tjalds SH-270, ásamt 70.000 kg aflamarki í þroski fiskveiðiárið 2003/2004.  Kaupverð aflahlutdeilda var ákveðið 75.600.000 krónur og kaupverð aflamarks 8.400.000 krónur og bar stefnanda að leggja fjárhæðina inn á fjárvörslureikning Magnúsar Helga Árnasonar hdl., nr. 0101-26-27175, en honum bar svo að flytja fjárhæðina inn á reikning Útgerðarfélagsins Tjalds, nr. 190-26-200058, þegar Fiskistofa hefði staðfest að flutningur aflahlutdeildanna og aflamarksins hefði farið fram. Stefnandi kveður að vegna framangreindra kaupa hafi hann óskað eftir því að Landsbanki Íslands hf. lánaði honum íslenskar krónur og hafi honum verið boðið lán í íslenskum krónum, bundið við gengi annarra gjaldmiðla. Stefnandi og Landsbanki Íslands gerðu með sér lánssamning, dagsettan 20. febrúar 2004, um lán að fjárhæð 85.000.000 króna.  Umdeilt lán er á forsíðu lánssamningsins tilgreint í íslenskum krónum en í upphafsorðum samningsins segir að aðilar geri með sér lánssamning um „fjölmyntalán til 15 ára að jafnvirði“ 85.000.000 króna „í neðanskráðum myntum og hlutföllum: EUR 1/3, CHF 1/3, JPY 1/3“.  Síðan segir:  „Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum.  Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“ Í grein 1.1 segir að lántaki, þ.e. stefnandi, lofi að taka að láni og Landsbanki Íslands hf. að lána umsamda lánsfjárhæð.  Í grein 1.2 segir að lántaki sendi bankanum beiðni um útborgun með að minnsta kosti tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn sé sá reikningur sem leggja skuli lánshlutann inn á.  Form að útborgunarbeiðni sé viðauki 1 við samninginn. Í útborgunarbeiðni, dagsettri 20. febrúar 2004, óskar stefnandi eftir því að lánið verði greitt út 23. febrúar 2004, inn á IG-reikning í eigu Útgerðarfélagsins Tjalds ehf.  Þá segir að stefnandi heimili Landsbanka Íslands hf. að skuldfæra greiðslu afborgana, vaxta og annarra gjalda samkvæmt lánssamningnum af reikningi hans nr. 190-26-30002. Samkvæmt framlögðu tölvuskeyti fór Útgerðarfélagið Tjaldur ehf. fram á að andvirði kvótasölu félagsins til Útgerðarfélaganna Hauks og Dvergs yrði „að eins miklu leyti og hægt er“ greitt í erlendum myntum inn á gjaldeyrisreikninga félagsins í bandaríkjadölum, evrum, sterlingspundum, japönskum jenum og svissneskum frönkum.  Eftirstöðvar skyldu greiðast inn á tékkareikning félagsins í íslenskum krónum. Í grein 2.1 í lánssamningnum segir að lánið sé til fimmtán ára og skuli greiða með 30 jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti, fyrst 1. júní 2004.  Í grein 2.2 kemur fram að lántaki óski eftir því að reikningur hans hjá bankanum verði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum en númer reikningsins er ekki tilgreint. Í grein 2.3 segir meðal annars að lántaka sé heimilt að greiða lánið hraðar eða að fullu áður en að lokagjalddaga komi en það sé þó háð samþykki bankans.  Sé þessi heimild nýtt skuli „lágmarksgreiðsla nema a.m.k. jafnvirði 10 milljóna íslenskra króna hverju sinni“. Í grein 2.5 er kveðið á um að komi til vanefnda af hálfu lántaka skuldbindi hann sig til þess að greiða bankanum, auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, allan kostnað sem bankinn leggi út vegna vanefndanna. Í grein 3.1 segir að lántaki lofi að greiða bankanum vexti sem skuli vera breytilegir vextir jafnháir sex mánaða LIBOR-vöxtum, auk 1,50% vaxtaálags. Í grein 4.1 er kveðið á um að sé skuldin í skilum geti lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að myntsamsetningu lánsins verði breytt, þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið.  Síðan segir: „Við myntbreytingu skal við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt gengisskráning Landsbanka Íslands hf. á íslensku krónunni, tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna nema um annað sé sérstaklega samið.“ Í grein 7.1 er kveðið á um að standi lántaki ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar beri honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001.  Bankinn hafi um það val, hvort hann krefjist dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt, eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur. Í grein 10.1 kemur fram að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta samkvæmt samningnum skuli lántaki gefa út tryggingarbréf að fjárhæð 102.000.000 króna, tryggt með 3. veðrétti í skipinu Sveinbirni Jakobssyni SH-10, skipaskráningarnúmer 260. Í grein 11.2 er kveðið á um að sé samningurinn gjaldfelldur á grundvelli ákvæða í grein 11.1 í samningnum, sé bankanum heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur á gjalddaga eða uppsagnardegi miðað við skráð sölugengi bankans á þeim myntum sem hver lánshluti sé í og krefja lántaka um greiðslu hans í samræmi við ákvæði samningsins.  Samkvæmt grein 11.3 bera allar skuldir í tilvikum gjaldfellingar dráttarvexti í samræmi við III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð. Samkvæmt framlögðum kaupnótum millifærði forveri stefnda inn á reikninga Útgerðar­félagsins Tjalds ehf., 23. febrúar 2004, 325.344,44 evrur inn á reikning nr. 190-38-710006, 513.736,70 svissneska franka inn á reikning nr. 190-38-600558 og 44.235.925 japönsk jen inn á reikning nr. 190-38-670058. Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd.  Í framhaldi af því var stofnaður Nýi Landsbanki Íslands hf., nú Landsbankinn hf., stefndi þessa máls.  Tók stefndi við ýmsum réttindum og skyldum eldri bankans og er óumdeilt að hann hafi þar á meðal tekið yfir kröfu á hendur stefnanda samkvæmt lánssamningnum frá 20. febrúar 2004. Af hálfu stefnanda og stefnda var undirritaður viðauki við umþrættan lánssamning 28. janúar 2009.  Í viðaukanum segir að samningurinn hafi verið um lán að fjárhæð 85.000.000 króna, í eftirtöldum myntum og hlutföllum: CHF 1/3, EUR 1/3 og JPY 1/3.  Eftirstöðvar lánsins, 2. júní 2008, eru tilgreindar 47.946.035 japönsk jen og 575.490,62 svissneskir frankar.  Lánstímanum var breytt þannig að eftirstöðvar lánsins skyldi endurgreiða að fullu með 21 jafnri afborgun á sex mánaða fresti.  Vexti skyldi einnig greiða á sex mánaða fresti og reiknast frá 2. júní 2008. Í framlögðum tilkynningu um gjalddaga frá stefnda, dagsettum 20. maí 2009, 25. maí 2010 og 21. maí 2012, eru fjárhæðir afborgana og vaxta tilgreindar í svissneskum frönkum og japönskum jenum.  Samkvæmt framlögðum kvittunum, útgefnum 1. september 2015, greiddi stefnandi af láninu 2. júní 2009 í svissneskum frönkum og japönskum jenum, 1. júní 2010 í sömu gjaldmiðlum og 1. júní 2012 í svissneskum frönkum.  Þá er lögð fram kvittun, gefin út 1. júní 2007, og samkvæmt henni greiddi stefnandi af láninu þann sama dag í evrum, japönskum jenum og svissneskum frönkum. Stefnandi kveður stefnda ekki hafa samþykkt ítrekuð erindi hans þess efnis að lán hans verði leiðrétt í samræmi við niðurstöður dóma Hæstaréttar Íslands sem kveða á um ólögmæti lána í íslenskum krónum, sem bundin séu við gengi erlendra gjaldmiðla, líkt og ágreiningur aðila stendur nú um. III Stefnandi byggir kröfur sínar á því að lánssamningurinn frá 20. febrúar 2004, nr. 445, sé um lán sem verðtryggt hafi verið við gengi erlendra mynta og að slík verðtrygging fari í bága við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 13. og 14. gr. laganna, eins og dómstólar hafi margsinnis staðfest.  Stefnandi heldur því fram að samningur þessi sé sams konar og fjallað var um í dómi Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011, þar sem staðfest hafi verið að samhljóða samningur væri um lán í íslenskum krónum, bundinn með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla. Stefnandi vísar til forsíðu lánssamningsins og að hvergi sé þar að finna tilgreiningu á láninu í erlendum myntum.  Hafi það verið ætlun stefnda að veita lán í erlendri mynt hefði slíkt vitaskuld verið tekið fram á forsíðu samningsins.  Í upphafsorðum samningsins sé lánsfjárhæðin jafnframt aðeins tilgreind í íslenskum krónum.  Hvorki þar né annars staðar í lánssamningnum sé að finna ákvæði um hversu há lánsfjárhæðin sé í erlendum myntum en slíkt er, að mati stefnanda, forsenda þess að skuldbinding geti talist vera í erlendum myntum.  Aðeins hlutföll hinna erlendu mynta séu tilgreind.  Að mati stefnanda gefi þetta bersýnilega til kynna að lánið sé í raun og veru í íslenskum krónum og bundið við gengi umræddra gjaldmiðla í tilgreindum hlutföllum.  Þá komi fram í aðfaraorðum samningsins að fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðist ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Með öðrum orðum ákvarðist „viðmiðunargengið“ ekki fyrr en tveimur bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Þetta ákvæði þjóni vart öðrum tilgangi en að binda skuld­bindinguna, sem sé í íslenskum krónum, við gengi gjaldmiðlanna á þeim tiltekna degi.  Vísar stefnandi um þetta til dóma Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011, frá 14. febrúar 2011, í máli nr. 603/2010, og frá 8. mars 2011, í máli nr. 30/2011.  Í ljósi þess að skuldbinding aðila sé eingöngu tilgreind í íslenskum krónum geti lánið ekki hafa verið í erlendum myntum.  Af þeim sökum blasi við að umþrætt lán hafi verið gengistryggt lán. Stefnandi vísar jafnframt í grein 4.1 í lánssamningnum um heimild lántaka til þess að óska eftir því að myntsamsetningu lánsins verði breytt þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða hluta við aðrar erlendar myntir en upphaflega hafi verið samið um.  Ákvæðið gefi það bersýnilega til kynna að verið sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum enda komi það beinlínis fram í ákvæðinu að hægt sé að greiða eftirstöðvar skuldarinnar þannig að þær „miðist“ við aðrar myntir.  Stefnandi fái ekki séð hvers vegna erlent lán ætti að miðast við aðrar myntir, hafi það í raun verið í erlendum myntum.  Lántaka hafi verið veitt heimild til þess að breyta „vísitölu“ lánsins meðan á lánstíma stæði og sýni það glöggt að lánið hafi aldrei verið í erlendum myntum heldur í íslenskum krónum með tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla.  Hefði lánið í reynd verið í erlendum myntum hefði heimildarákvæði um breytingu á andlagi lánsfjárhæðar ekki kveðið á um breytingu á viðmiðum heldur beinlínis um sölu eins gjaldmiðils og kaup annars.  Í grein 4.1 sé jafnframt útfært með hvaða hætti skuli staðið að myntbreytingu.  Þar segi að við umreikning skuli nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt sé að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skuli miða við, samkvæmt gengisskráningu bankans á íslensku krónunni.  Að mati stefnanda staðfesti framangreint ákvæði enn betur að verið sé að miða lánið við erlendar myntir, þ.e. gengistryggja það.  Þá staðfesti ákvæðið einnig, að við slíka breytingu á „myntvísitölu“ eða gengistryggingu, sé höfuðstóll lánsins ávallt reiknaður í íslenskum krónum.  Þýðingarlaust hefði verið að vísa til gengisskráningar íslensku krónunnar, hefði höfuðstóllinn ekki verið í íslenskum krónum, t.d. ef umbreyta ætti láni sem í raun væri í evrum í japönsk jen.  Vísar stefnandi um þetta til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011.  Samkvæmt dóminum hafi ákvæði 4. gr. samningsins verulegt vægi við mat á því hvort lán sé gengistryggt eða í erlendum myntum. Í málinu liggi fyrir beiðni um útborgun, dagsett 20. febrúar 2004, þar sem vísað sé til lánssamningsins og með vísan til greinar 1.2 í lánssamningi aðila óskað eftir því að lánið verði greitt út 23. febrúar 2004.  Þess sé óskað að útborgunarfjárhæð lánsins verði greidd inn á IG-reikning í eigu Útgerðarfélagsins Tjalds ehf.  Í útborgunarbeiðninni sé einnig tiltekið að stefnandi heimili bankanum að skuldfæra greiðslu afborgana, vaxta og annarra gjalda samkvæmt lánssamningnum af reikningi stefnanda nr. 190-26-30002. Samkvæmt framlögðum tölvupósti hafi, af hálfu Útgerðarfélagsins Tjalds ehf., verið óskað eftir því að andvirði kvótasölu félagsins yrði greitt að eins miklu leyti og hægt væri í erlendum myntum inn á tilgreinda reikninga félagsins í bandaríkjadölum, evrum, sterlingspundum, japönskum jenum og svissneskum frönkum, og að eftirstöðvar yrðu greiddar inn á tékkareikning félagsins nr. 0106-26-1055.  Á grundvelli þeirrar beiðni hafi verið ákveðið að nýta lánsfjárhæðina, sem stefnandi hafi tryggt sér í íslenskum krónum, til þess að kaupa erlendan gjaldeyri.  Kaupnótur þar að lútandi, dagsettar 23. febrúar 2004, hafi verið útbúnar og stílaðar á stefnanda.  Í kaupnótunum segi: „Við höfum keypt af yður erlent lán.“  Stefnandi hafi hins vegar aldrei átt erlendir myntir eða erlendan gjaldeyrisreikning og erlendur gjaldeyrir hafi ekki verið færður milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf.  Stefnandi skilji því ekki hvernig ætluð gjaldeyrisviðskipti eigi að hafa farið fram eða hvernig bankinn geti hafa „keypt“ lán af stefnanda. Tilefni lánveitingarinnar hafi verið kaup stefnanda á aflahlutdeild af Útgerðarfélaginu Tjaldi ehf.  Í kaupsamningi vegna þeirra viðskipta hafi kaupverðið eingöngu verið tilgreint í íslenskum krónum og í raun hafi átt að leggja það inn á íslenskan tékkareikning, þ.e. fjárvörslureikning í eigu Magnúsar Helga Árnasonar hdl.  Það hafi hins vegar ekki verið gert vegna óska Útgerðarfélagsins Tjalds um að fá kaupverðið greitt í erlendri mynt.  Bankinn hafi orðið við þeirri beiðni og því hafi erlendur gjaldeyrir verið lagður inn á gjaldeyrisreikninga Útgerðarfélagsins Tjalds.  Að mati stefnanda geti krafa þriðja aðila um útborgun, og þaðan af síður útborgunarbeiðni eða kaupnótur, ekki breytt eðli lánssamningsins sem kveði á um skuldbindingu í íslenskum krónum.  Stefnandi leggi áherslu á að túlka verði ákvæði samningsins eins og þau komi fram í samningnum sjálfum og að beita beri hefðbundinni textaskýringu þeirra ákvæða.  Sú leið hafi enda verið farin í dómum Hæstaréttar Íslands og vísar stefnandi í því samhengi til dóms réttarins frá 17. janúar 2013, í máli nr. 386/2012.  Í málinu hafi verið deilt um hvort lánssamningur væri gengistryggður eða í erlendi mynt.  Líkt og í þessu máli hafi lánssamningur aðila aðeins kveðið á um skuldbindingu í íslenskum krónum.  Í útborgunarbeiðni, eða lánsumsókn, hafi hins vegar verið tilgreind tiltekin fjárhæð erlendrar myntar.  Lánveitandi hafi talið að slík umsókn væri hluti af samningi aðila en því hafi Hæstiréttur Íslands hafnað og talið að einungis bæri að líta til orðalags lánssamningsins sjálfs.  Að virtri niðurstöðu framangreinds dóms sé ljóst að útborgunarbeiðni geti aldrei breytt efni samningsins, sem sé um lán í íslenskum krónum með verðtryggingu í erlendri mynt. Hafa beri í huga að lánssamningur aðila hafi verið saminn einhliða af forvera stefnda.  Af þeim sökum beri að beita andskýringarreglu við túlkun ákvæða samningsins.  Samkvæmt þeirri túlkunarreglu skuli óljós samningsákvæði, sem ágreiningi valda, skýrð þeim aðila í óhag sem hafi samið þau einhliða eða ráðið þeim atriðum til lykta.  Löggerninga skuli, í samræmi við þetta, túlka þeim aðila í óhag sem hefði átt að hlutast til um skýrara form samningsins eða tjá sig skýrar um viðkomandi ágreiningsatriði.  Stefndi beri þar af leiðandi hallann af óljósum ákvæðum samningsins. Stefnandi hafi greitt allar afborganir lánsins með íslenskum krónum, í samræmi við útborgunarbeiðni samkvæmt samningnum.  Í henni hafi sérstaklega verið tekið fram að tékkareikningur stefnanda í íslenskum krónum skyldi skuldfærður fyrir afborgunum.  Það sýni, svo ekki verði um villst, að lánið hafi verið gengistryggt. Í ljósi alls framangreinds sé þess krafist að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur aðila frá 20. febrúar 2004, að fjárhæð 85.000.000 króna, kveði á um lán bundið ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Til grundvallar viðurkenningakröfu stefnanda liggi fyrir útreikningar PWC sem sýni að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið byggir stefnandi á því að umþrætt lán hafi verið greitt út í íslenskum krónum en fært í þann búning að það hafi verið millifært inn á innlenda gjaldeyrisreikninga Útgerðarfélagsins Tjalds.  Frá árinu 1960 hafi almennt verið óheimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla.  Þessi almenna regla hafi verið tekin upp í lög nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl.  Með setningu reglugerðar um gengisbundin inn- og útlán í bönkum og sparisjóðum, sem sett hafi verið með heimild í 3. mgr. 65. gr., sbr. b-lið 4. töluliðar 1. mgr. 39. gr. laganna, hafi bönkum og sparisjóðum verið heimilað að taka við innlánum sem tengd hafi verið við ECU, sem sé evrópsk reiknieining, og SDR, sem sé reiknieining Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.  Eftir setningu reglugerðarinnar hafi innstæða í bönkum og sparisjóðum því getað breyst eftir gengi íslensku krónunnar gagnvart ECU og SDR.  Með setningu laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, hafi þessi heimild fjármálastofnanna verið felld úr gildi.  Í sérstökum athugasemdum við 13. og 14. gr. í frumvarpi til laganna segir orðrétt:  „Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.“ Eins og alkunna sé hafi Hæstiréttur Íslands margstaðfest að óheimilt sé að gengistryggja lánssamninga og vísast um það m.a. til dóma réttarins frá 16. júní 2010, í málum nr. 92/2010 og 153/2010.  Lög nr. 38/2001 banni hins vegar ekki einungis gengistryggingu lánssamninga heldur einnig sparifjár og innlánsreikninga.  Að mati stefnanda sé einsýnt að þeir reikningar sem forveri stefnda hafi lagt lánsféð inn á, á grundvelli umþrætts lánssamnings, hafi verið ólögmætir gengistryggðir reikningar samkvæmt lögum nr. 38/2001 og því óhjákvæmilegt að líta svo á að umþrætt lán hafi verið ólögmætt gengistryggt lán. Stefnandi byggir á því að þegar lán sé lagt inn á reikning með höfuðbók 38 felist ekki í því afhending á erlendum gjaldeyri heldur íslenskum krónum með gengistryggingu, þ.e. tengingu við erlenda gjaldmiðla.  Innlendir viðskiptabankar hafi til marga ára boðið upp á sparireikninga í erlendum myntum, svokallaða IG-reikninga.  Höfuðbók IG-reikninga sé einkennd með númerinu 38.  Um það sé ekki deilt.  Hins vegar sé nákvæmlega sami texti í umþrættum lánssamningi og í þeim samningi sem Hæstiréttur Íslands hafi þegar dæmt um að feli í sér ólögmæta gengistryggingu, sbr. dóm réttarins frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011.  Það liggi því fyrir að lánssamningurinn sjálfur kveði á um ólögmæta gengisviðmiðun. Að mati stefnanda sé það útbreiddur misskilningur að með því að fá millifærslu inn á slíka gjaldeyrisreikninga, sem að framan greini, flytjist gjaldeyrir til Íslands.  Gjaldeyrir þjóðarinnar sé aldrei geymdur á Íslandi heldur sé hann í því landi eða löndum sem gefi út viðkomandi gjaldmiðil.  Til dæmis séu öll japönsk jen ávallt geymd í Japan og svissneskir frankar í Sviss.  Stefnandi byggir á því að afhending á gjaldeyri felist ekki í því að „leggja inn“ gjaldeyri á reikninga nr. 38 hér á landi, heldur sé þar einungis um færslu á blaði að ræða.  Eina leiðin til þess að afhenda gjaldeyri í raun sé að leggja hann inn á reikning í eigu lántakans í banka í því landi sem gefi út viðkomandi gjaldeyri, eða að afhenda gjaldeyrinn í seðlum hjá gjaldkera.  Hvorugt eigi við í tilviki þessu og þar sem viðskiptin hafi farið fram innan sömu bankastofnunar, Landsbanka Íslands hf., forvera stefnda þessa máls, hafi ekki farið fram neinar færslur af „nostro“ reikningum Landsbanka Íslands hf. hjá erlendum bankastofnunum. Stefnandi kveður reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisjöfnuð taka af öll tvímæli í þessum efnum.  Í reglum um gjaldeyrisjöfnuð og um flokkunarlykla Seðlabanka Íslands komi fram að það sé afstaða Seðlabanka Íslands að íslenskar krónur með gengisviðmiðun séu innstæður á innlendum gjaldeyrisreikningum, IG-reikningum, eins og höfuðbók 38.  Millifærsla stefnda inn á IG-reikninga feli því ekki í sér að erlendur gjaldeyrir skipti um hendur heldur séu það íslenskar krónur sem miðist við gengi erlendra gjaldmiðla, sem stefnda sé ekki heimilt að lána viðskiptamönnum.  Lög séu því brotin þegar lán sé greitt út með millifærslu inn á reikning þar sem innstæðan sé í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla. Innstæður á innlendum gjaldeyrisreikningum, IG-reikningum, eins og höfuðbók 38, teljist samkvæmt reglum um gjaldeyrisjöfnuð til eignaliða og skuldaliða, þegar nústaða gjaldmiðla í eignaliðum og skuldaliðum sé metin í gjaldeyrisjöfnuði, samanber reglur Seðlabanka nr. 387 frá 22. maí 2002, sem í gildi hafi verið við undirritun umþrætts lánssamnings.  Reglur um gjaldeyrisjöfnuð, hafi að mestu haldist óbreyttar allt til ársins 2010.  Reglur um gjaldeyrisjöfnuð frá árinu 2010 tilgreini í fyrsta sinn „nostro“ reikninga bindisskyldra lánastofna, við mat á opinni gjaldeyrisstöðu til gjaldeyrisjöfnunar.  Innstæður “nostro“ reikninga stefnda séu erlendar myntir enda séu þeir reikningar í banka í því landi sem gefi út þá mynt sem sé innstæða slíkra reikninga.  Hlutverki íslenskra króna, sem bundnar séu við gengi erlendra gjaldmiðla, sem eignir og skuldir í gjaldeyrisjöfnuði þjóðarinnar, hafi lokið með setningu Seðlabankans á reglum nr. 950 frá 6. desember 2010 um gjaldeyrisjöfnuð. Stefnandi byggir kröfur sínar á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum á 13. og 14. gr. laganna, reglum Seðlabanka Íslands frá 22. maí 2002, nr. 387/2002, um gjaldeyrisjöfnuð, og á almennum reglum kröfu- og samningaréttarins.  Um heimild til að höfða viðurkenningarmál vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um málskostnaðarkröfu til XXI. kafla sömu laga, einkum 1. mgr. 130. gr. laganna. IV Stefndi mótmælir öllum málsástæðum, lagarökum og dómatilvísunum stefnanda og telur að engin þeirra eigi að leiða til þess að dómkröfur hans verði teknar til greina.  Sýknukrafa stefnda sé byggð á því að með undirritun lánssamnings nr. 442 hafi stefnandi skuldbundið sig til þess að taka lán í erlendum gjaldmiðlum.  Stefnanda beri að efna gerða samninga og virða skuldbindingar sínar.  Stefndi telur að krafa hans á hendur stefnanda samkvæmt umþrættum lánssamningi sé skuldbinding í erlendri mynt og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. sömu laga.  Stefndi byggir á því að láns­samningurinn og framkvæmd lánveitingarinnar, m.a. útgreiðsla lánsins, beri það með sér að skuldbindingin sé í erlendri mynt og vísar um það m.a. til dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands. Eftir að stefnandi hafi tekið lán nr. 442 hjá Landsbanka Íslands hf. hafi hann tekið tvö önnur lán hjá bankanum í erlendum myntum. Í stefnu málsins sé á því byggt að lán samkvæmt lánssamningi aðila sé í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, þar sem lánsfjárhæðin sé tilgreind í íslenskum krónum og aðeins getið um hlutfall hinna erlendu mynta.  Lögð sé áhersla á að í fyrirsögn lánssamningsins segi „lánssamningur um fjölmyntalán“ og vísað til þess að talað sé um „jafnvirði“ íslenskra króna, sem ekki geti talist vera tilgreining á skuldbindingu í íslenskum krónum.  Stefndi vísar hins vegar til þess að skuldbindingin sé, í öðrum skjölum sem tengd séu lánssamningnum órjúfanlegum böndum, tilgreind í hinum erlendu myntum.  Í skilmálabreytingu lánsins hafi skuldbinding stefnanda einungis verið tilgreindar í hinum erlendu myntum og sama eigi við um tilkynningu um gjalddaga og kvittanir fyrir greiðslu hvers gjalddaga.  Stefnandi hafi fengið öll framangreind skjöl send til sín og aldrei gert athugasemd við efni þeirra.  Það liggi því fyrir að skuldbinding stefnanda hafi í öllum skjölum, frá og með útgreiðslu lánsins, verið tilgreind í þeim erlendu gjaldmiðlum sem hún hafi verið tilgreind í, en ekki í íslenskum krónum. Í dómum Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010, í málum nr. 92/2010 og 153/2010, hafi því verið slegið föstu að ófrávíkjanleg ákvæði 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, stæðu því í vegi að lántaki væri skuldbundinn af ákvæði í samningi um að fjárhæð láns í íslenskum krónum tæki breytingum eftir gengi erlends gjaldmiðils.  Frá þeim tíma hafi rétturinn kveðið upp marga dóma, þar sem á það hafi reynt hvort skuldbinding samkvæmt lánssamningi teljist vera um fjárhæð í íslenskum krónum, sem á þennan óheimila hátt hafi verið gengistryggð, eða fjárhæð í erlendum gjaldmiðlum, einum eða fleiri, sem fyrrnefnt lagaákvæði taki ekki til.  Af þeim meiði séu meðal annarra dómar Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011, frá 15. júní 2012, í máli nr. 3/2012, frá 1. nóvember 2012, í máli nr. 66/2012, og frá 14. nóvember 2013, í máli nr. 337/2013.  Í þeim öllum hafi verið deilt um samninga um lán, sem tilgreind hafi verið sem jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum í tilteknum gjaldmiðlum, og hafi þess þá einnig verið getið hvert hlutfall hvers erlends gjaldmiðils ætti að vera af fjárhæð lánsins.  Í þessum tilvikum hefi verið litið svo á að orðalag í samningi um skuldbindingu í þessari mynt dygði ekki eitt og sér til að komast að niðurstöðu heldur yrði jafnframt að líta til þess hvernig aðilar samnings hefðu í raun efnt hann, hvor fyrir sitt leyti.  Að framangreindu virtu, hafi í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011, verið litið svo á að samningur hafi verið um lán í íslenskum krónum, bundið með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla.  Í hinum dómunum, sem að framan greini, hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að samningar væru um lán í erlendum gjaldmiðlum, sem væru skuldbindandi fyrir lántaka. Í dómum Hæstaréttar Íslands, í málum nr. 3/2012, 66/2012 og 337/2013, hafi orðalag þeirra lánssamninga, sem til umfjöllunar hafi verið, í öllum meginatriðum verið það sama og í umþrættum samningi.  Í málum nr. 3/2012 og 66/2012 hafi lánin verið greidd út með því að bankinn hafi lagt tilteknar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum inn á gjaldeyrisreikninga lántaka í þeim sömu gjaldmiðlum en í máli nr. 337/2013 hafi verið lagt til grundvallar að lánsfjárhæðin hafi verið greidd út í evrum.  Fé í erlendum gjaldmiðlum hafi því í reynd skipt um hendur þegar lánveitandi hafi efnt aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum.  Í máli nr. 3/2012 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að samningsaðilar hefðu báðir efnt skyldur sínar með því að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum hafi skipt um hendur.  Í máli nr. 66/2012 hafi hins vegar sérstaklega verið vísað til þess að að það breytti ekki niðurstöðunni þótt lántaki hafi ekki greitt afborganir af skuld sinni, þ.e. efnt aðalskyldu sína, með fé í sömu erlendu gjaldmiðlum, enda hafi borið að endurgreiða lánið eftir hljóðan samningsins „í þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur af“.  Í samningnum hafi því verið kveðið á um að „fé í erlendum gjaldmiðlum myndi einnig skipta um hendur við efndir [lántaka] á aðalskyldu sinni, þótt svo hafi ekki verið í raun“.  Þá hafi það ekki verið látið ráða úrslitum í máli nr. 337/2013 að lántaka hafi verið heimilt samkvæmt samningi að inna af hendi afborganir í íslenskum krónum og sé vísað til dóms í máli nr. 66/2012 til stuðnings þeirri niðurstöðu.  Þvert á móti sé í niðurstöðu réttarins sérstaklega vísað til þess að efndir á aðalskyldu lánveitanda hafi farið fram í hinum umsömdu erlendu gjaldmiðlum.  Stefndi vísar einnig til dóma Hæstaréttar Íslands frá 6. mars 2014, í máli nr. 602/2013, og frá 11. september 2014, í máli nr. 90/2014.  Í þeim málum hafi orðalag lánssamninga í öllum meginatriðum verið það sama og í umþrættum samningi og hafi þá verið litið til þess hvernig aðilar hefðu efnt samninginn.  Komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að efndir samningsaðila á aðalskyldum sínum samkvæmt hinum umdeildu samningum hefðu að verulegu en ekki öllu leyti falið í sér að erlendir gjaldmiðlar hafi skipt um hendur.  Hafi því verið talið að um gild erlend lán væri að ræða. Eins og í þeim dómum sem að framan greini telji stefndi að leggja verði til grundvallar að umþrættur lánssamningur sé um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum.  Óumdeilt sé í málinu að lánið hafi verið greitt út í erlendum gjaldmiðlum.  Í útborgunarbeiðni, sem sé hluti af lánssamningnum, hafi stefnandi farið fram á að lánið yrði greitt inn á IG-reikning í eigu Útgerðarfélagsins Tjalds ehf.  Útgerðarfélagið Tjaldur ehf. hafi tilgreint gjaldeyrisreikninga sína í þeim myntum sem lánið hafi verið tekið í og hafi lánið verið greitt út í þeim myntum inn á reikninga.  Það sé ekki rétt sem fram komi í stefnu að lánið hafi verið greitt út í þeim myntum af því að Útgerðarfélagið Tjaldur ehf. hafi farið fram á greiðslu í erlendum myntum.  Stefnandi sjálfur hafi farið fram á að lánið yrði greitt út í erlendum myntum inn á reikninga sem Útgerðarfélagið Tjaldur ehf. myndi tilgreina.  Stefnandi vísi til framlagðs kaupsamnings sem kveði á um það hvernig stefnandi skyldi greiða Útgerðarfélaginu Tjaldi ehf. fyrir aflahlutdeild í þorski.  Stefndi hafi ekki verið aðili að þessum samningi og sé því ekki bundinn af efni hans.  Hvorugur samningsaðila hafi farið eftir ákvæði samningsins um greiðslu kaupverðsins þegar þeir hafi óskað eftir því að lán nr. 442 yrði greitt út í erlendum myntum þess. Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda um að hann hafi, þegar hann hafi tekið lánið í febrúar 2004, talið að heimilt væri að tengja lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og talið gengistryggð lán lögleg.  Á árinu 2004 hafi engin umræða verið um að þessi lán væru gengistryggð.  Sú umræða hafi ekki komið fram fyrr en í júní 2010 þegar fyrstu dómarnir þar um hafi verið kveðnir upp í Hæstarétti Íslands.  Stefnandi hafi sótt um erlent lán hjá Landsbanka Íslands hf. í febrúar 2004, skrifað undir lán nr. 442 og óskað eftir því að lánið yrði greitt út í erlendum myntum.  Stefndi leyfi sér að benda á að ársreikningar stefnanda bendi ótvírætt til þess að hann hafi talið skuldbindingarnar í erlendum gjaldmiðlum, sbr. framlagða ársreikninga fyrir árin 2004-2007.  Þá hafi stefnandi gert tvo lánssamninga við Landsbanka Íslands hf. árið 2006, sem séu sambærilegir umþrættum lánssamningi nr. 442.  Þar af leiðandi sé ljóst að vilji stefnanda hafi staðið til þess að taka erlend lán. Greiðsla afborgana og vaxta af láni nr. 442 hafi verið í samræmi við beiðni stefnanda um að íslenskur tékkareikningur hans skyldi skuldfærður.  Erlendar myntir lánsins hafi verið keyptar fyrir íslensku krónurnar og erlendu myntirnar greiddar inn á lánið.  Í meginatriðum hafi samningsaðilar því efnt aðalskyldur sínar samkvæmt lánssamningnum með því að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum hafi skipt um hendur, eins og skýrlega hafi verið gengið út frá í lánssamningnum. Því sé ranglega haldið fram í stefnu að stefnandi hafi tryggt sér lánsfjárhæðina í íslenskum krónum og því hafi íslenskar krónur verið notaðar til að kaupa hinar erlendu myntir lánsins og þær millifærðar inn á gjaldeyrisreikninga Útgerðarfélagsins Tjalds ehf.  Landsbanki Íslands hf. hafi átt gjaldeyrisreikninga í framangreindum myntum lánsins og hafi millifært af þeim inn á gjaldeyrisreikninga Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. af því að stefnandi hafi óskað eftir því að sá háttur yrði hafður á varðandi útgreiðslu lánsins en ekki að erlendu myntirnar yrðu færðar inn á hans eigin gjaldeyrisreikninga.  Því hafi erlendar myntir ekki verið keyptar, eins og stefnandi haldi fram, heldur hafi Landsbanki Íslands hf. millifært af eigin gjaldeyrisreikningum.  Framlagðar kaupnóturnar staðfesti þessa framkvæmd.  Í kaupnótunum staðfesti bankinn að hann hafi keypt lánssamninginn, erlent lán, af stefnanda og greitt lánið út í erlendri mynt.  Með vísan til framangreinds telji stefndi ljóst að form og meginefni lánssamningsins bendi eindregið til þess að skuldbindingin hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.  Því sé ekki tilefni til að líta svo á að samningsskilmálar séu svo óskýrir eða óljósir að beita eigi einhvers konar „andskýringarreglu“, svo sem stefnandi vísi til.  Einnig sé til þess að líta að umþrættur samningur sé í eðli sínu gagnkvæmur.  Við skýringu hans beri að hafa í huga meginreglu íslensks réttar um frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum við aðra þannig að samningar teljist gildir nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum.  Þá verði að telja, hvað sem öðru líði, að stefnandi hafi með athafnaleysi sínu viðurkennt að umþrættar skuldbindingar séu að sönnu í erlendum gjaldmiðlum og í öllu falli að hann hafi fyrirgert rétti til að bera öðru við. Samkvæmt ákvæði 3.1 í lánssamningnum hafi stefnandi átt að greiða stefnda breytilega vexti, jafnháa sex mánaða LIBOR-vöxtum, auk 1,50% vaxtaálags.  Stefnandi hafi því ekki átt að greiða vexti á íslenskar krónur.  Ef svo hefði verið hefði skuldbinding stefnanda að grunni til byggst á svokölluðum REIBOR-vöxtum og vextirnir orðið umtalsvert hærri en þeir hafi í raun verið enda séu LIBOR-vextir ekki ákvarðaðir á íslenskar krónur.  Skuldbinding stefnanda hafi því án alls vafa verið í erlendum myntum. Samkvæmt ákvæðum samningsins hafi stefnanda verið heimilt að greiða afborganir, vexti og dráttarvexti, eða aðrar greiðslur, í íslenskum krónum en þá skyldi hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.  Því sé ljóst að aðalskylda stefnanda hafi verið að greiða í viðeigandi mynt en honum hafi verið heimilt að greiða í íslenskum krónum samkvæmt samningnum.  Engin þörf hefði verið á að kveða á um slíkan rétt hefði lánið verið að öllu leyti í íslenskum krónum. Stefnandi byggi á því að orðalag myntbreytingarheimildar í ákvæði 4.1 bendi ótvírætt til þess að verið sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum.  Þessu sé mótmælt af hálfu stefnda.  Myntbreytingarákvæðið sé ákvæði sem veiti skuldara heimild til að breyta hinni erlendu mynt sem lánið hafi upphaflega verið tekið í, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.  Beiðni um breytingu mynta skyldi setja fram með ákveðnum fyrirvara til þess að gera bankanum kleift að kaupa viðkomandi myntir eða eftir atvikum gera skiptasamning við annan aðila um viðkomandi myntir, til að geta veitt skuldara þau vaxtakjör sem umræddar myntir bjóði upp á.  Skýrlega megi ráða af ákvæðinu að við hugsanlega myntbreytingu á láni fari fram viðskipti með viðkomandi myntir.  Orðrétt segi:  „[g]eti bankinn ekki útvegað lántaka einhverja tiltekna mynt eða útvegun hennar myndi hafa í för með sér verulegan kostnað fyrir bankann er honum heimilt að nota USD í stað þeirrar myntar.“  Hefði ætlunin verið að miða íslenska fjárhæð við gengi myntar væri framangreint orðalag óþarft enda ljóst að þá þyrfti ekki að útvega neina mynt.  Í orðalaginu felist að gert sé ráð fyrir því að við hugsanlega myntbreytingu sé raunveruleg umsýsla með þær myntir sem lántaki kunni að óska eftir að umbreyta láninu í. Málatilbúnaður stefnanda virðist byggður á því að þrátt fyrir að stefndi hafi millifært hinar erlendu myntir lánsins af eigin gjaldeyrisreikningum inn á gjaldeyrisreikninga Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. breyti það engu um lögmæti samningsins þar sem erlendur gjaldeyrir hafi ekki í reynd skipt um hendur.  Að mati stefnanda hafi allar greiðslur, jafnt útgreiðsla lánsins sem og endurgreiðslur, verið í íslenskum krónum.  Um þennan málatilbúnað stefnanda, sem stefndi mótmæli, vísast til allrar framangreindrar og jafnframt eftirfarandi umfjöllunar. Málatilbúnaður stefnanda um að „IG reikningar séu í raun ekki annað en gengistryggðir innlánsreikningar í íslenskum krónum“, sé ekki studdur neinum haldbærum rökum eða gögnum.  Fráleitt sé, m.a. í ljósi tilvísaðrar dómaframkvæmdar, að halda því fram að á IG-reikningum hvíli ekki raunverulegur gjaldeyrir.  Við úrlausn þessa ágreinings geti ekki skipt máli hverjir flokkunarlyklar Seðlabanka Íslands séu eða hvernig hann líti á skuldbindingar á innlendum gjaldeyrisreikningum.  Því sé jafnframt mótmælt að Seðlabanki Íslands líti á þær sem skuldbindingar í íslenskum krónum með gengisviðmiðun.  Þá sé því hafnað að „greiðslur inn og út af IG reikningum geti ekki falið í sér yfirfærslu erlends gjaldeyris milli aðila í reynd“.  Árétta beri í þessu sambandi að andvirði lánsins í erlendum gjaldmiðlum hafi verið ráðstafað inn á gjaldeyrisreikninga þriðja aðila, Útgerðarfélagsins Tjalds ehf., í samræmi við beiðni stefnanda. Samkvæmt afdráttarlausri dómaframkvæmd hér á landi teljist innlendir gjaldeyrisreikningar, með höfuðbók 38, fela í sér innstæðu í erlendum gjaldmiðlum, með sama hætti og innstæður á reikningum í íslenskum krónum teljast í íslenskum krónum.  Stefndi vísar um þetta m.a. til dóms Hæstaréttar Íslands frá 1. nóvember 2012, í máli nr. 66/2012, þar sem sérstaklega hafi verið tekið fram að lánveitandi í því tilviki hefði lagt tilteknar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum „inn á fjóra gjaldeyrisreikninga [lántaka] í þeim gjaldmiðlum“ og að „[f]é í erlendum gjaldmiðlum skipti því í reynd um hendur þegar [lánveitandi] efndi aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum“.  Stefndi vísar um þetta einnig til dóms Hæstaréttar Íslands frá 11. september 2014, í máli nr. 90/2014. Í öllu falli sé langsótt að halda því fram, í ljósi fyrirliggjandi dómaframkvæmdar sem að framan sé vísað til, að erlendur gjaldeyrir geti aðeins „talist hafa skipt um hendur“ ef framkvæmdin sé með þeim hætti sem stefnandi lýsi, þ.e. með afhendingu erlends gjaldeyris í „seðlum og mynt“ og endurgreiðslu með sama hætti eða með því að tilgreina lánið í erlendri mynt í samningi og greiða það svo út í sömu mynt eða myntum „inn á bankareikninga í fjármálafyrirtækjum í þeim löndum þar sem viðeigandi myntir væru gefnar út (svonefnda „nostro“ reikninga)“. Stefndi byggir kröfur sínar á meginreglum samninga- og kröfuréttar, um skuldbindingargildi samninga og efndir kröfuréttinda, og á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr. laganna.  Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn á að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda. V Við aðalmeðferð komu og gáfu skýrslu vitnin Ásgeir Brynjar Torfason og Halldór Hildimundarson. Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort skuldbinding stefnanda samkvæmt umþrættum lánssamningi sé um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum eða lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna, dagsett 31. október 2016. Í máli þessu er krafist viðurkenningar á því að lánssamningur aðila, dagsettur 20. febrúar 2004, sé um lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Byggir stefnandi á því að lán samkvæmt lánssamningnum sé í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og þar af leiðandi ekki skuldbindandi fyrir stefnanda.  Um lögvarða hagsmuni af viðurkenningarkröfunni vísar stefnandi til endurreiknings PWC, frá 4. maí 2015, sem lagður er fram í málinu. Samkvæmt framangreindum endurreikningi var síðasti greiddi gjalddagi lánsins 1. desember 2014.  Miðað við að lánið hefði þá verið endurreiknað í samræmi við 18. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og niðurstöður dóma Hæstaréttar Íslands um endurútreikninga gengistryggðra lána, má ráða af framlögðum útreikningum að stefnandi hafi þá ofgreitt af láninu.  Að því gefnu verður fallist á að stefnandi hafi af því lögvarða hagsmuni að fá greitt úr viðurkenningarkröfu sinni. Ákvæðum samningsins er lýst hér að framan.  Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands, meðal annars í máli nr. 602/2013, gefa ákvæði sambærilegra samninga ekki skýrt til kynna hvort skuldbinding aðila sé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum og þarf þá að meta heildstætt, meðal annars eftir efndum aðila, hvort samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Þegar litið er til efnda aðila á skyldum sínum samkvæmt umdeildum lánssamningi er óumdeilt að útborgunarfjárhæð lánsins var ráðstafað inn á reikninga Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. í samræmi við beiðni um útborgun lánsins, sem er hluti af lánssamningnum, samkvæmt grein 1.2 í samningnum.  Hvergi í lánssamningnum eða í útborgunarbeiðninni er vísað í kaupsamning stefnanda og Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. en óumdeilt er að lán samkvæmt lánssamningnum var notað til að greiða Útgerðarfélaginu Tjaldi ehf. kaupverð samkvæmt kaupsamningnum.  Í framangreindri útborgunarbeiðni segir eingöngu að óskað sé eftir því að útborgunarfjárhæð lánsins verði greidd inn á IG-reikning í eigu Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. Í framlögðu tölvuskeyti frá 18. febrúar 2004 er, af hálfu Útgerðarfélagsins Tjalds ehf., óskað eftir því að kaupverðið verði greitt að eins miklu leyti og hægt sé í erlendum myntum inn á meðfylgjandi gjaldeyrisreikninga félagsins, sem tilgreindir eru í bandaríkjadölum, evrum, japönskum jenum, svissneskum frönkum og sterlingspundum.  Samkvæmt framlögðum kaupnótum voru eftirfarandi fjárhæðir lagðar inn á reikninga Útgerðarfélagsins Tjalds ehf., 23. febrúar 2004:  325.344,44 evrur, 513.736,70 svissneskir frankar og 44.235.925 japönsk jen.  Sé miðað við skráð gengi Seðlabanka Íslands þann dag voru hlutföll framangreindra gjaldmiðla þannig að fjárhæð hvers gjaldmiðils var um 1/3 af heildarlánsfjárhæðinni, 85.000.000 króna.  Er það í fullu samræmi við tilgreind hlutföll í lánssamningi aðila frá 20. febrúar 2004 og eru efndir bankans, forvera stefnda, á aðalskyldu sinni samkvæmt samningnum því að fullu leyti í hinum erlendu gjaldmiðlum og í þeim hlutföllum sem í samningnum eru tilgreind.  Að mati dómsins og í samræmi við það sem að framan er rakið verður ekki talið að framangreint tölvuskeyti hafi breytt einhverju um efndir aðila á samningnum heldur hafi skeytið, samkvæmt efni sínu, aðeins verið til upplýsinga um þau reikningsnúmer Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. sem óskað var eftir að kaupverðið, þ.e. lánsfjárhæðin, yrði lagt inn á. Í málinu eru ekki lögð fram ítarleg gögn um greiðslur stefnanda á afborgunum og vöxtum af láni samkvæmt lánssamningnum.  Stefnandi kveðst hafa greitt af láninu í íslenskum krónum og er því ekki mótmælt af stefnda að tékkareikningur stefnanda í íslenskum krónum hafi verið skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum af láninu.  Kveður stefndi hins vegar að erlendir gjaldmiðlar hafi verið keyptir fyrir íslensku krónurnar og notaðir til uppgreiðslu lánsins.  Samkvæmt framlögðum kvittunum, útgefnum 1. september 2015, greiddi stefnandi af láninu 2. júní 2009 í svissneskum frönkum og japönskum jenum, 1. júní 2010 í sömu gjaldmiðlum og 1. júní 2012 í svissneskum frönkum.  Þá er lögð fram kvittun, gefin út 1. júní 2007, og samkvæmt henni greiddi stefnandi af láninu þann sama dag í evrum, japönskum jenum og svissneskum frönkum.  Þau takmörkuðu gögn sem liggja fyrir um uppgreiðslu lánsins bera því með sér að lánið hafi verið gert upp í erlendum gjaldmiðlum þannig að stefndi skuldfærði tékkareikning stefnanda fyrir afborgunum og vöxtum og notaði svo íslensku krónurnar til þess að kaupa erlendan gjaldmiðil til uppgjörs á láninu. Af dómum Hæstaréttar Íslands, meðal annars í máli nr. 66/2012, má ráða að rétturinn gerir ekki fortakslausa kröfu til þess að skuldbindingar aðila á grundvelli samninga, eins og þeirrar sem deilt er um í þessu máli, séu að öllu leyti efndar með greiðslum í erlendum gjaldmiðlum til þess að lán verði talin í þeim gjaldmiðlum.  Þegar efndir á hinum umdeilda samningi eru virtar í heild verður að telja að þær hafi að svo verulegu marki falist í því að erlendir gjaldmiðlar skiptu um hendur, að leggja verði til grundvallar að samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum. Það styður framangreinda niðurstöðu að í viðauka við lánssamninginn, dagsettum 28. janúar 2009, og undirrituðum af hálfu beggja aðila, eru eftirstöðvar lánsins aðeins tilgreindar í erlendum gjaldmiðlum.  Gefur það vísbendingu um að aðilar hafi litið svo á að lán samkvæmt samningnum væri í hinum erlendu gjaldmiðlum. Loks verður, með hliðsjón af niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 602/2013, ekki litið fram hjá því að stefnandi færði hið umdeilda lán sem skuldir í erlendum gjaldmiðlum í framlögðum ársreikningum félagsins.  Í ársreikningum félagsins frá árunum 2004-2007 eru undir liðnum „Langtímaskuldir“ tilgreindar heildarfjárhæðir lána í erlendum myntum.  Í sundurliðun ársreiknings eru skuldir félagsins í erlendum gjaldmiðlum svo sundurliðaðar eftir hverjum og einum gjaldmiðli.  Gefur það einnig vísbendingu um að samningsvilji stefnanda hafi staðið til þess að umdeilt lán væri í erlendum gjaldmiðlum. Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands ræðst niðurstaða um það hvort lán séu í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum af ákveðnu heildarmati, sér í lagi séu ákvæði lánssamninga ekki skýr hvað það varðar.  Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að slíkt heildarmat leiði til þess að umdeilt lán teljist hafa verið í erlendum gjaldmiðlum. Þá byggir stefnandi mál sitt á því að þeir reikningar sem stefndi hafi lagt lánsféð inn á séu reikningar með ólögmætri gengistryggingu samkvæmt lögum nr. 38/2001 og því óhjákvæmilegt að líta svo á að umþrætt lán hafi verið ólögmætt gengistryggt lán.  Byggir stefnandi jafnframt á því að millifærsla á innlenda gjaldeyrisreikninga geti ekki falið í sér færslu á erlendum gjaldmiðli og vísar um það m.a. til reglna Seðlabanka Íslands. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, dagsettri 31. október 2016, kemur fram að niðurstaða matsins sé að „líta verði svo á að lánveiting [stefnda] til [stefnanda] hafi í raun verið skuldbindingar í formi innistæðna í íslenskum krónum sem bundnar voru gengi erlendra gjaldmiðla“.  Jafnframt segir í samantekt matsins: Þessi niðurstaða byggir á því að banki getur með lánveitingu sinni aukið peningamagn í umferð, en aðeins í eigin gjaldmiðli, eða nánar tiltekið í gjaldmiðli þess lands sem bankinn starfar í, banki getur ekki aukið peningamagn í umferð í öðrum gjaldmiðli en þeim sem seðlabanki sá sem yfir honum vakir ræður yfir.  Þó að lánveiting geti verið skráð í eða bundin erlendri mynt, þá verður sú lánveiting ávallt að hafa að baki sér erlenda gjaldeyrisstöðu bankans. Loks segir að það sé samdóma álit matsmanna „að greiðslukerfi íslenskra banka hafi ekki getað í raun millifært erlendan gjaldeyri inn á bankareikninga á Íslandi og að við útgreiðslu [stefnda] á lánsfjárhæð inn á reikning [stefnanda] þá hafi engin fjárhæð færst af öðrum reikningi í eigu [stefnda] heldur hafi innistæðan orðið til við lánveitinguna og því ekki verið um aðrar færslur að ræða“. Í dómum Hæstaréttar Íslands hefur ítrekað verið komist að þeirri niðurstöðu að hér á landi hafi lán verið veitt í erlendum gjaldmiðlum, m.a. með millifærslu banka inn á gjaldeyrisreikninga, eins og atvik voru til að mynda í dómum réttarins frá 1. nóvember 2012, í máli nr. 66/2012, og frá 11. september 2014, í máli nr. 90/2014.  Með hliðsjón af dómum Hæstaréttar Íslands í málum sem varða lán í erlendum gjaldmiðlum getur niðurstaða matsmanna því ekki breytt framangreindri niðurstöðu um að umdeilt lán teljist vera lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum. Að öllu framangreindu virtu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 800.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð : Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Útgerðarfélagsins Dvergs hf. Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.                                                                                    
Mál nr. 611/2017
Skaðabætur Orsakatengsl Eigin sök Vátryggingarsamningur Vátrygging Ábyrgðartrygging Endurgreiðsla
S hf. krafði SF ehf. og T hf., ábyrgðartryggjanda félagsins, um greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem B ehf. varð fyrir er skip þess Perlan RE sökk í Reykjavíkurhöfn. Hafði B ehf. samþykkt tilboð SF ehf. um að taka skipið í slipp. Tilboðið fól meðal annars í sér að taka skipið upp og sjósetja á ný þegar slippvinnu lyki. Til viðbótar óskaði B ehf. eftir því að SF ehf. ynni ýmis aukaverk og var eitt þeirra vinna við botntanka skipsins. Voru göt gerð á stokk og á botntank í tengslum við viðgerðir til að koma í veg fyrir leka milli botntanka í skipinu. Þegar verkinu samkvæmt tilboðinu var lokið var skipið sjósett á ný. Tók þá sjór að leka í lestar þess og fylltist það að lokum af sjó og sökk. Greiddi S hf. bætur til B ehf. á grundvelli vátrygginga sem félagið var með hjá S hf. Talið var að þrjár samverkandi orsakir hefðu verið fyrir því að sjór náði að berast inn í skipið með þeim afleiðingum að sökk. Í fyrsta lagi hefði blöndunarloki verið opinn þegar skipið var sjósett, í öðru lagi hefðu verið skorin tvö göt í lestargólfið og ofan við botntank stjórnborðsmegin þannig að sjór átti greiða leið niður úr lestinni í botntankinn. Í þriðja lagi hefði mannop verið opið úr botntanknum og inn í verkstæði. Þar með hefði sjór komist úr honum inn í þurrrými skipsins. Var talið að engin ein þessara orsaka hefði verið nægileg en hver þeirra nauðsynleg forsenda skipskaðans. Ósannað var í málinu að skipið hefði verið yfirfarið af SF ehf. með fulltrúum B ehf. áður en því var slakað niður í sjó eins og áskilið var í verklagsreglum sem SF ehf. hafði sett sér. Þá hefði meðal þeirra aukaverka sem SF ehf. tók að sér verið smíðavinna og önnur aðstoð til að komast fyrir leka milli botntanka. Hlyti úttekt og yfirferð yfir þau verk sem unnin hefðu verið áður en sjósetning fór fram meðal annars að hafa náð til stöðu þess verks og aðstæðna þar, þó að verkið hefði að einhverju leyti verið unnið í samvinnu við B ehf. Gæti SF ehf. því ekki borið fyrir sig að það hefði ekki verið í verkahring hans að taka þennan verkþátt út með tilliti til öryggis við sjósetninguna. Þá hefðu það verið saknæm mistök af hálfu starfsmanna SF ehf. að huga ekki að stöðu blöndunarlokans áður en niðurslökun fór fram. Var því talið að SF ehf. bæri skaðabótaábyrgð á tjóninu. Á hinn bóginn var talið að B ehf. eða skipstjóri skipsins, sem ekki var um borð umrætt sinn, hefði ekki tryggt að vélstjóri hjá B ehf., sem var um borð, væri upplýstur um nauðsyn þess að loka blöndunarlokanum og hvernig það skyldi gert. Með þessu hefði B ehf. sýnt af sér vanrækslu sem átti þátt í því að tjónið varð. Var jafnframt talið að ófullnægjandi mönnun skipsins við sjósetninguna hefði átt þátt í því að viðbrögð skipverja urðu fálmkennd eftir að það fór að halla. Var S hf. því látinn bera helming tjónsins. SF ehf. og T hf. héldu því fram að sýkna bæri þá af kröfu um greiðslu úr hagsmunatryggingu skipsins þar sem S ehf. hefði í engu sannað að B ehf. hefði orðið fyrir tilteknu tjóni við að missa skipið úr rekstri sínum vegna þess að skipið hefði orðið ónýtt. Kom fram að hagsmunatrygging fæli í sér fyrirfram umsamdar bætur, meðalhófsbætur, fyrir það tjón sem B ehf. yrði fyrir við að missa skipið úr rekstri sínum. Fullvíst væri að B ehf. hefði við það orðið fyrir tjóni. Gæti S hf. því krafið SF ehf. og T ehf. um þá fjárhæð sem hann hafði þegar greitt B ehf. úr hagsmunatryggingunni, sbr. 2. mgr. 19. gr. og 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Var SF ehf. og T hf. gert að greiða S hf. helming þess sem S hf. hafði greitt B ehf. úr húfutryggingu meðal annars vegna björgunar, hagsmunatryggingu og áhafnartryggingu skipsins.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Arngrímur Ísberg héraðsdómari. Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 27. september 2017. Þeir krefjast  aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hann „verði látinn bera meginhluta tjónsins.“ Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 25. október 2017. Hann krefst þess að aðaláfrýjendum verði óskipt gert að greiða sér 225.025.790 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2016 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Staðfest verður sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að sannað sé að skilyrðum þess að gagnáfrýjandi innti af hendi greiðslu vátryggingarbóta, 16.500.000 krónur, úr hagsmunatryggingu Perlu RE hafi verið fullnægt. Aðaláfrýjendur halda því fram að allt að einu beri að sýkna þá af þessum kröfulið þar sem gagnáfrýjandi hafi í engu sannað að hinn vátryggði hafi orðið fyrir tilteknu tjóni við það að missa Perlu RE úr rekstri sínum vegna þess að skipið hafi orðið ónýtt. Ekki sé unnt að gera kröfu um endurgreiðslu vátryggingarfjárhæðarinnar nema að því marki sem raunverulegt fjártjón hins vátryggða hafi verið sannað. Hagsmunatrygging sú, sem vátryggði tók hjá gagnáfrýjanda, felur í sér vernd gegn því tjóni sem hann verður fyrir við að missa skipið úr rekstri sínum. Vátryggingarfjárhæðin er fyrirfram umsamin sem tiltekið hlutfall af vátryggingarverði þess skips, sem hún tengist. Ágreiningslaust er að vátryggingarfjárhæðin hafi verið ákveðin í samræmi við vátryggingarskilmála. Vátryggingarfjárhæðin er því fyrirfram umsamdar bætur, meðalhófsbætur, fyrir það tjón sem vátryggður verður fyrir við að missa skipið úr rekstri sínum. Fullvíst er að vátryggður hefur við það orðið fyrir tjóni. Það kann að hafa verið meira eða minna en greitt var samkvæmt vátryggingunni. Vátryggingarfjárhæðin er ákveðin með þessum hætti þar sem vandkvæðum er bundið að sanna tjón hins vátryggða eins og við á í rekstrarstöðvunartryggingum. Í 2. mgr. 19. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er mælt fyrir um að skaðabótaréttur stofnist vegna tjóns sem munatryggingar og rekstrarstöðvunartryggingar taka til. Með sama hætti veitir 1. mgr. 22. gr. laganna vátryggingafélagi, sem greitt hefur bætur úr skaðatryggingu, en til hennar heyra meðal annars framangreindar vátryggingar, rétt tjónþola á hendur hinum skaðabótaskylda að því marki sem það hefur greitt bætur. Gagnáfrýjandi gat því krafið aðaláfrýjendur um þá fjárhæð sem hann hafði greitt vátryggða úr hagsmunatryggingunni. Með framangreindum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður hann staðfestur. Með því að héraðsdómi hefur verið áfrýjað af hálfu allra málsaðila er rétt að hver þeirra beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.     Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2017 I          Mál þetta, sem var dómtekið 23. maí 2017, er höfðað 1. nóvember 2016 af Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5 í Reykjavík, gegn Stálsmiðjunni-Framtaki ehf., Vesturhrauni 1 í Garðabæ, og Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24 í Reykjavík.          Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði gert að greiða félaginu óskipt (in solidum) 231.234.990 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. desember 2016 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar óskipt úr höndum stefndu.          Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur hans verði lækkaðar verulega. Þá gera stefndu kröfu um greiðslu málskostnaðar.          Aðalmeðferð málsins hófst með vettvangsgöngu 26. apríl sl. Þá var sanddæluskipið Perlan RE skoðað á athafnasvæði Furu ehf. við Hafnarfjarðarhöfn, en félagið hafði þá eignast skipið til niðurrifs. Sama dag var gengið á vettvang á athafnasvæði stefnda, Stálsmiðjunnar-Framtaks ehf., við Reykjavíkurhöfn. Aðalmeðferð var svo fram haldið dagana 22. og 23. maí sl. II          Stefnandi er vátryggingafélag. Félagið gerði vátryggingarsamning við Björgun ehf. þar sem stefnandi samþykkti að húftryggja skipið Perlu RE með skipsnúmerið 1402. Skipið er dýpkunar- og sanddæluskip sem er ríflega 331 rúmlest að stærð. Samkvæmt framlögðu vátryggingarskírteini nam vátryggingarverðmæti skipsins 135.000.000 króna og eigin áhætta í hverju tjóni nam 4.830.000 krónum. Einnig veitti stefnandi Björgun ehf. hagsmunatryggingu vegna sama skips að fjárhæð 16.500.000 krónur sem og áhafnatryggingu með vátryggingarfjárhæð allt að 270.000.000 króna vegna hvers einstaks tjóns. Að lokum sömdu stefnandi og Björgun ehf. um svokallaða P&I ábyrgðartryggingu vegna skipsins og var vátryggingarfjárhæð 500.000.000 bandaríkjadollara.          Stefndi, Stálsmiðjan-Framtak ehf. (Stálsmiðjan) rekur viðgerðar- og skipaþjónustu í Reykjavíkurhöfn. Þar eru skip tekin í slipp, en þá eru þau skorðuð í þar til gerðan sleða og dregin á land þar sem viðhalds- og viðgerðarvinna fer fram. Skipin eru síðan sjósett þannig að sleðanum er slakað út í sjó að nýju þar sem þau eru losuð úr sleðanum. Stefndi Stálsmiðjan er með ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf.          Stefndi Stálsmiðjan gerði Björgun ehf. tilboð 15. september 2015 um að taka Perlu RE í slipp. Tilboðið fól meðal annars í sér að taka „skipið upp og sjósetja að nýju þegar slippvinnu lýkur“. Að öðru leyti laut tilboðið m.a. að botnþvotti og -málningu, þvotti og málningu á síðum, sem og þvotti og málningu „ofandekks“. Ef nauðsyn krefði yrðu botn- og síðulokar einnig teknir í sundur og lokahús hreinsað og málað, auk þess sem „sæti og keila“ yrðu slípuð, spindill liðkaður og hreinsaður og allt sett saman að nýju. Um verktíma sagði í tilboðinu að hann réðist af veðurfari og umfangi verks, en áætlað var að það tæki u.þ.b. tvær til þrjár vikur. Þá kom fram í tilboðinu að verkið gæti hafist frá 1. til 20. október 2015 „eða eftir samkomulagi“.          Ekki liggur annað fyrir en að fyrirsvarsmenn Björgunar ehf. hafi samþykkt tilboðið og samningur hafi því komist á á grundvelli þess. Ágreiningslaust er að skipið hafi verið tekið í slipp 23. september 2015.          Í greinargerð stefndu kemur fram að til viðbótar við verk sem tilgreind voru í tilboðinu hafi Björgun ehf. óskað eftir því að ýmis önnur verk yrðu unnin. Hafi átt að vinna þau gegn gjaldi samkvæmt tilboðinu. Í stefnu segir um þetta atriði að þegar unnið hafi verið að viðgerð í samræmi við samkomulag aðila hafi komið í ljós að tiltekin aukaverk hafi verið óhjákvæmileg, s.s. að skipta um forpikksþil, þétta þil milli sjótanka og þrýstiprófa þá. Stefnandi kveður stefnda Stálsmiðjuna hafi samþykkt að vinna þessi aukaverk. Í málinu er að nokkru leyti deilt um að hvaða marki stefndi hafi samþykkt að vinna aukaverk af þessum toga.          Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi var slipptöku Perlu RE hagað á þann veg að skipinu var siglt 23. september 2015 að slippnum í Reykjavíkurhöfn. Ægir Þór Sverrisson skipstjóri sigldi skipinu ásamt Björgvini Helgasyni stýrimanni, en auk þeirra var Ágúst Ágústsson vélstjóri um borð. Þegar skipinu hafði verið komið fyrir í sleðanum sem notaður var til að draga það á land opnaði skipstjórinn, í samráði við Gunnar Richter, slippstjóra hjá stefnda Stálsmiðjunni, fyrir sérstakan blöndunarloka sem er notaður til að hleypa sjó inn og út úr lest skipsins, til að tæma lestina af sjó. Blöndunarloki þessi er framarlega á skipinu en er stjórnað úr brú með vökvadælu.          Daginn eftir, 24. september 2015, varð að slaka skipinu aftur niður í sjó þar sem það sat skakkt í sleðanum. Fyrrgreindur blöndunarloki var þá opinn. Þegar skipið hafði náð að setjast rétt í sleðann var það dregið á land að nýju.          Meðan unnið var að viðgerð á skipinu var Ágúst Ágústsson vélstjóri á verkstað fyrir hönd Björgunar ehf. Fyrir dómi kvaðst hann hafa verið að fylgjast með og sjá til þess að verkið gengi eðlilega fyrir sig. Stefndu telja aftur á móti að Ágúst hafi haft stjórn á verkum sem Björgun ehf. hafi haft umsjón með, þ. á m. viðgerð á þili milli botntanka undir lest skipsins og þrýstiprófun þeirra.          Upplýst er að meðal þess sem stefndi Stálsmiðjan gerði meðan skipið var í slipp var að skera göt á botni skipsins til að unnt væri að hreinsa sand úr lestum þess. Þeirri hreinsun sinnti verktaki á vegum Björgunar ehf. Þegar henni var lokið lokuðu starfsmenn stefnda þessum götum. Þá liggur fyrir að starfsmenn stefnda hafi skorið þrjú göt á botni lestar skipsins, tvö ofan í botntank nr. 1 stjórnborðsmegin og eitt í stokk sem liggur eftir miðri lestinni. Samkvæmt því sem fram kom í skýrslu Ágústs Ágústssonar og Jóhanns Humarang, starfsmanns stefnda, Stálsmiðjunnar, voru götin gerð í tengslum við viðgerðir til að koma í veg fyrir leka milli botntanka í skipinu.          Í greinargerð stefndu er því haldið fram að vinnu samkvæmt tilboði hafi verið lokið í lok október 2015. Hafi Páll Kristjánsson, aðalverkstjóri og einn eigenda stefnda Stálsmiðjunnar, því óskað eftir því að skipið yrði sjósett 29. október 2015. Jóhann Garðar Jóhannsson, útgerðarstjóri Björgunar ehf. hafi þá óskað eftir því að sjósetningu yrði frestað. Sjósetning fór fram 2. nóvember 2015. Hafði Hermann Baldvinsson verkstjóri og einn eigenda stefnda Stálsmiðjunnar þá tekið við yfirumsjón verksins af hálfu Stálsmiðjunnar. Ágreiningur er um samskipti Jóhanns Garðars við Pál og síðar Hermann í aðdraganda sjósetningarinnar og tilefni hennar sem og um hvort vinnu af hálfu stefnda Stálsmiðjunnar hafi að öllu leyti verið lokið þegar sjósetningin fór fram.          Fyrir liggur í málinu að ekki hafi staðið til að ræsa aðalvél skipsins og að dráttarbáturinn Magni frá Faxaflóahöfnum hafi átt að flytja skipið að Ægisgarði í Reykjavíkurhöfn þar sem stefnandi segir að ljúka hafi átt vinnu við skipið. Í greinargerð stefndu kemur fram að starfsmenn stefnda Stálsmiðjunnar hafi í fyrstu talið að skipinu yrði siglt að athafnasvæði Björgunar ehf. við Sævarhöfða, en þar hafi átt að ljúka vinnu við að lagfæra skipið af hálfu útgerðarinnar.          Sjósetning hófst að morgni dags 2. nóvember 2015, eins og áður segir. Þrír voru um borð í skipinu, Ágúst Ágústsson vélstjóri og tveir starfsmenn stefnda Stálsmiðjunnar, fyrrgreindur Jóhann Humerang auk Jasons Pineda. Gunnar Richter, slippstjóri hjá stefnda Stálsmiðjunni, stjórnaði sjósetningunni. Hann stóð á bryggju sem liggur út í sjó til hliðar við hallann þar sem sleðanum með skipinu var slakað niður. Hann var í talstöðvarsambandi við áhöfn dráttarbátsins og í kallfæri við þá sem stóðu á dekki skipsins. Sjósetningin mun hafa hafist kl. 10, en fram er komið að bilun í rafbúnaði í spili hafi seinkað henni.          Ágúst vélstjóri mun hafa ræst ljósavél skipsins og aftengt landstraum. Skipinu var því næst slakað niður á hefðbundinn hátt. Þegar skutur skipsins var kominn í sjó var spilið stöðvað og þeir sem voru um borð gengu úr skugga um hvort botn- og síðulokar lækju. Í ljós kom að leki var á tveimur stöðum í afturvélarými sem Ágúst og Jason þéttu. Fram kemur í stefnu að þeir hafi síðan athugað hvort leki væri í lest og framvélarými skipsins. Skipinu var eftir það slakað áfram niður í sjó. Í stefnu segir að Ágúst hafi þá verið í afturvélarými skipsins. Þegar skipið var komið nógu langt niður til þess að það gæti flotið voru gálgar sem héldu því á sleðanum látnir síga.          Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi byrjaði skipið að halla á stjórnborða fljótlega eftir að það losnaði úr sleðanum. Að sögn stefnanda mun Ágúst þá hafa tekið eftir því að sjór hafði lekið inn í lestina. Ágreiningur er um samskipti Ágústs og Gunnars í kjölfarið. Ágúst kveðst hafa farið upp í brú og reynt að ræsa vökvadæluna sem stjórnar lokum, en það hafi ekki tekist sem skyldi. Kvað hann rafkerfið í skipinu hafa slegið út og að hann hafi ekki náð að slá því inn aftur þar sem of mikill sjór var þá kominn neðan þilja. Það hafi enn fremur komið í veg fyrir að unnt væri að ræsa sanddæluna úr lest skipsins.          Klukkan 10.25 lagðist dráttarbáturinn Magni upp að hlið Perlu RE og dráttartaug var komið fyrir milli skipanna. Hafnsögumaður af Magna, Erling Þór Pálsson, átti að fara um borð í Perlu RE, en það var ekki talið óhætt sökum þess að skipið hallaði of mikið. Meðan á flutningi skipsins stóð jókst hallinn á því. Klukkan rúmlega 10.34 óskaði áhöfn dráttarbátsins eftir því að Gunnar Richter kallaði eftir dælum til að dæla sjó úr Perlu RE þar sem dælurnar í skipinu virkuðu ekki. Skipið lagðist að bryggju við Ægisgarð um klukkan 10.43 og var það bundið við bryggjuna. Fimm mínútum síðar var framskipið komið á kaf og landfestar slitnuðu. Skipið sökk dýpra, fyrst með stefnið, auk þess sem það hallaði mikið á stjórnborða. Afturskipið náði síðan að fyllast af sjó þannig að skipið sökk til botns í höfninni kl. 11.13.          Slökkvilið kom á vettvang en dælur höfðu ekki undan að dæla sjó úr skipinu þegar hér var komið sögu. Þremenningunum sem voru um borð var hjálpað í land. Lögregla kom einnig á vettvang. Í lögregluskýrslu kemur fram að Ágústi vélstjóra hafi verið boðið inn í lögreglubíl til viðræðna um atvikið. Í henni er gerð grein fyrir lýsingu hans á því sem gerst hafði. Þar segir orðrétt: Ágúst kvaðst hafa óskað eftir því fyrr um morguninn, við yfirmann hjá Björgun, að fá skipstjóra með sér í verkefnið en verið neitað um það þar sem ekki hafi staðið til að sigla úr höfninni. Ástæða þess að skipið sökk sagði Ágúst vera að einhverjar stórar lestarlokur í stefni skipsins hafi verið opnar. Aðspurður um hver bæri ábyrgðina á þessu sagði Ágúst „ætli ábyrgðin sé ekki mín“ en tók það jafnframt skýrt fram að hann hefði þurft meiri mannskap í þetta verkefni. Ágúst sagði að venjulega stjórnaði skipstjórinn svona lokum og hann hefði hreinlega aldrei komið að því að loka eða opna lestarlokum. Ágúst sagðist hafa steingleymt þeim.          Ágúst ritaði ekki undir skýrsluna. Þá ber hún ekki með sér að honum hafi verið kynnt vitnaskylda og vitnaábyrgð.          Fulltrúar stefnanda og stefndu sem og Björgunar ehf., hafnaryfirvalda, lögreglu, Umhverfisstofnunar, slökkviliðsins og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur funduðu um björgunaraðgerðir sama dag og óhappið varð. Þar mun hafa verið ákveðið að Björgun ehf. skyldi senda hafnarstjóra áætlun um hvernig koma skyldi í veg fyrir mengun og ná skipinu af botni hafnarinnar. Degi síðar var lögð fram aðgerðaráætlun sem var samþykkt af Faxaflóahöfnum með tilteknum skilyrðum.          Allt frá því að skipið sökk unnu kafarar að því að þétta öll op skipsins. Við skoðun kafara kom m.a. í ljós að mannop, sem liggur úr botntanki nr. 1 á stjórnborða upp í rými framan við lestina, sem er skilgreint sem verkstæði/geymsla á teikningum, var opið. Reynt var að ná skipinu á flot 4. og 6. nóvember 2015, en það tókst ekki þar sem ekki náðist að lyfta framskipinu. Aðgerðaráætlunin var þá endurskoðuð og frekari stöðugleikaútreikningar gerðir af hálfu skipaverkfræðinga og -tæknifræðinga frá NAVIS ehf. og Ráðgarði skiparáðgjöf ehf. Kafarar unnu áfram að því að þétta skipið. Ný aðgerðaráætlun var samþykkt á fundi 12. nóvember 2015. Aðgerðir til að ná skipinu á flot hófust að nýju 16. nóvember 2015. Þá tókst að lyfta skipinu og flaut það bundið við bryggju þá um kvöldið.          Stefnandi fékk skiptatæknifræðinga og -verkfræðinga hjá NAVIS ehf. til þess að skoða og meta „með óháðum hætti, með tilliti til ábyrgðar vátryggjenda, eðli, umfang og orsakir tjóns sem varð af völdum“ þessa slyss, „ásamt því að skoða og meta viðgerðir á umræddu tjóni með tilheyrandi skýrslugerð“. Skýrsla um þessi atriði er dagsett 30. nóvember 2015 og undirrituð af Hirti Emilssyni skiptatæknifræðingi. Þar er farið yfir atburðarásina 2. nóvember 2015 þegar Perla RE var sjósett. Þá er björgunaraðgerðum þar lýst og gerð grein fyrir því sem fram kom við skoðun kafara og aðgerðum þeirra meðan skipið var á hafsbotni. Í niðurstöðukafla um ástæður þess að skipið sökk segir orðrétt í skýrslunni: Þegar skipið var sjósett úr dráttarbraut Stálsmiðjunnar í Reykjavík streymdi sjór óhindrað í gegnum opinn Ø 450 mm blöndunarloka á botni skipsins framanverðum. Sjór komst þannig í lest skipsins í gegnum gat sem skorið hafði verið í tankbotninn í stokk sem liggur eftir miðri lestinni endilangri. Úr lestinni streymdi sjórinn niður í ballasttank nr. 1, SB-megin í gegnum tvö mannop sem skorin höfðu verið á tanktoppinn. Þegar tankur nr. 1 fylltist streymdi sjór upp úr honum í gegnum opið mannop á tanktoppnum á verkstæðinu/geymslunni sem er framan við lestina og einnig inn í þurrrými sem opin eru frá verkstæðinu aftur með lestinni á bæði borð. ... Af þessu orsökum fylltist skipið af sjó og hallaði í SB og sökk að lokum til botns í höfninni þar sem það hafði verið bundið við Ægisgarð.          Í skýrslunni kemur fram að engin mengun hafi hlotist af óhappinu og að engin slys hafi orðið á fólki. Var áætlað að viðgerðarkostnaður skipsins myndi nema u.þ.b. 202.400.000 krónum og að kostnaður við björgunaraðgerðir væri áætlaður 70 milljónir króna. Í stefnu kemur fram að vátryggingafélagið hafi metið það svo að um altjón væri að ræða.          Niðurstaða í lokaskýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa frá 16. september 2016 var á sömu leið um ástæður þess að skipið sökk og virðast aðilar sammála um framangreindar meginorsakir þess að svo fór. Aðila greinir hins vegar á um hver beri ábyrgð á tjóninu.          Með bréfi 10. desember 2015 áskildi stefnandi sér rétt til þess að endurkrefja stefnda, Tryggingamiðstöðina hf., um þann kostnað sem stefnandi kæmi til með að verða fyrir vegna þessa tjónsatviks. Í bréfinu var hinu stefnda tryggingafélagi gefið færi á því að skoða skipið frekar til að leggja eigið mat á hvort um altjón væri að ræða. Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., svaraði með tölvuskeyti 21. desember 2015. Þar kom fram að félagið gæti ekki fallist á að atvik málsins væru með þeim hætti að þau ættu undir ábyrgðartryggingu stefnda Stálsmiðjunnar.          Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi greitt Björgun ehf. og aðilum sem komu að björgunaraðgerðum samtals 232.911.668 krónur. Skipið hafi verið selt Furu ehf. til niðurrifs en engar greiðslur hafi komið til vegna þess. III 1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda          Stefnandi reisir kröfur sína á hendur stefndu á því að starfsmenn stefnda Stálsmiðjunnar beri ábyrgð á því tjóni sem varð þegar sanddæluskipið Perlan sökk í Reykjavíkurhöfn 2. nóvember 2015. Telur stefnandi ljóst að við niðurslökun Perlunnar umrætt sinn hafi starfsmenn stefnda sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Í fyrsta lagi hafi stefndi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við undirbúning sjósetningar Perlunnar, meðal annars hafi ekki verið farið eftir þeim reglum sem stefndi hafi sjálfur sett um niðurslökun skipa úr dráttarbraut, s.s. þá reglu að kanna áður alla botnloka. Í öðru lagi hafi Gunnar Richter slippstjóri hjá stefnda ekki sinnt beiðni um að taka skipið aftur upp í dráttarbrautina þegar í ljós hafi komið að mikill leki var kominn að skipinu. Í þriðja lagi hafi Gunnar Richter ekki sinnt óskum um að koma skipinu að bryggjunni við hlið slippsins en með því hefði mátt koma í veg fyrir það tjón sem varð.          Stefnandi telur að öll skilyrði almennu skaðabótareglunnar séu uppfyllt og að hann eigi því rétt á því að endurkrefja stefndu um þær bætur sem hann hafi þurft að greiða Björgun og öðrum aðilum vegna tjónsins sem varð þegar sanddæluskipið sökk. Um bótaskyldu stefnda Stálsmiðjunnar fari eftir hinni almennu reglu um ábyrgð vinnuveitenda á skaðaverkum starfsmanna fyrirtækisins en ábyrgð stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar byggi á 44. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingasamninga, enda sé stefndi Stálsmiðjan með ábyrgðartryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni.          Stefnandi telur að orsakir tjónsins megi rekja til stórkostlegs gáleysis starfsmanna stefnda Stálsmiðjunnar. Hann byggir á því að vanræksla þeirra hafi verið saknæm og ólögmæt auk þess sem tjónið sé sennileg afleiðing hennar.          Stefnandi kveður endurkröfuna byggja á almennum reglum skaðabótaréttar um heimild til að endurkrefja þann sem ber skaðabótaábyrgð á tjóni að því marki sem tjónsbætur hafi verið greiddar. Þá vísar stefnandi til 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og ákvæða í skilmálum þeirra vátrygginga sem stefnandi hafði veitt Björgun. Að mati stefnanda verði þessi réttur hans ekki takmarkaður með nokkrum hætti, sbr. II. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993.          Til stuðnings því að starfsmenn stefnanda hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi vísar stefnandi til þess að stefndi Stálsmiðjan hafi haft umráð og borið ábyrgð á Perlunni meðan á framkvæmdum við viðgerð stóð. Hafi meðal annars verið tekið fram í verktilboði að upptaka og sjósetning skipsins væri hluti af verki stefnda. Þá liggur fyrir að viðgerð hafi ekki verið lokið. Ætlunin hafi verið að halda henni áfram við bryggju við austanverðan Ægisgarð. Umráðaréttur og ábyrgð á skipinu hafi því verið hjá stefnda þegar skipið sökk í Reykjavíkurhöfn 2. nóvember 2015. Jafnframt vísar stefnandi til þess að Hermann Baldvinsson, verkstjóri hjá stefnda, hafi talið að fullnægjandi væri að einungis Ágúst vélstjóri yrði viðstaddur úr áhöfn skipsins við niðurslökunina.          Stefnandi kveður starfsmenn stefnda hafa gert röð mistaka við niðurslökunina. Hafi verklag og framkvæmd hennar af hálfu stefnda farið í bága við hans eigin verklagsreglur. Í þessu sambandi tekur stefnandi fram að starfsmenn stefnda hafi haft vitneskju um að blöndunarloki á skrokki skipsins væri opinn, enda hafi Gunnar Richter, slippstjóri stefnda, veitt skipstjóra Perlunnar leyfi fyrir því að hann yrði hafður opinn eftir að skipið hafði verið tekið í slipp þann 23. september 2015. Einnig hafi starfsmönnum stefnda verið ljóst að sjór kæmist í lest skipsins þar sem degi síðar, eða þann 24. september 2015, hafi skipinu verið slakað niður og það tekið aftur upp þar sem það hafi setið skakkt í sleðanum. Við þá aðgerð hafi sérstaklega verið vísað til þess að við framkvæmdina þyrfti að hafa hraðar hendur þar sem sjór kæmist inn í lestina.          Stefnandi bendir einnig á að við viðgerðina hafi starfsmenn stefnda síðan skorið þrjú göt á framanverðan botn lestar skipsins ofan í botntank nr. 1 stjórnborðsmegin. Hafi götin verið opnuð til að komast að vegna viðgerðar í botntönkunum sem enn hafi ekki verið lokið. Þar sem viðgerð hafi enn verið yfirstandandi hafi starfsmenn stefnda ekki heldur verið búnir að loka opnanlegu mannopi á botntanki nr. 1 stjórnborðsmegin í framvélarrými enda suðuvinnu ekki lokið og hafi hún átt að klárast við bryggju. Að öllu eðlilegu kveður stefnandi að þessu mannopi hefði verið lokað eftir viðgerð og síðan hefði farið fram þrýstiprófun til að taka viðgerðina út áður en skipinu hefði verið slakað úr slippnum.          Stefnandi dregur þá ályktun af framangreindu að starfsmönnnum stefnda Stálsmiðjunnar hafi verið fulljóst hver verkstaðan var og að blöndunarloki væri opinn. Þá hafi starfsmenn stefnda skorið götin í botntankinn og opnað framangreint mannop sem hafi átt eftir að skipta sköpum þegar altjón varð á Perlunni. Stefnandi kveður umrædd mannop hafa verið ástæðu þess að sjór hafi komist í þurrrými skipsins og skipið sokkið. Fullyrðir stefnandi að ekkert tjón hefði orðið hefðu mannopin ekki verið skorin á botntankinn enda hefði sjór þá ekki komist úr botntankinum og yfir í þurrrými.          Af hálfu stefnanda er á það bent að í verklagsreglu sem stefndi Stálsmiðjan hafi sett sér um niðurslökun skipa komi fram að yfirfara skuli öll verk sem hafi veri framkvæmd. Þá segi þar að athuga skuli sérstaklega að allir botnlokar og síðulokar séu komnir í. Einnig sé vísað til þess að áður en niðurslökun hefjist skuli yfirfara skipið með verkkaupa. Að mati stefnanda sé ljóst að stefndi hafi ekki sinnt þessum starfsskyldum. Ekki hafi verið farið yfir þau verk sem höfðu verið unnin eða voru enn í vinnslu. Þá hafi botnlokar ekki verið athugaðir og yfirferð yfir skipið ekki átt sér stað með verkkaupa áður en niðurslökun hófst.          Stefnandi tekur einnig fram að í umræddum verklagsreglum komi fram að upptökustjóri hafi samband við áhöfn og dráttarbáta um hvenær allt sé tilbúið til slökunar. Stefnandi byggir á því að þegar Gunnar Richter hafi hafið niðurslökun hafi ekki verið gengið úr skugga um að allt væri tilbúið til slökunar. Því hafi hann brotið gegn þessari verklagsreglu.          Í verklagsreglunum sé því einnig lýst að eftir að byrjað er að slaka skipi niður skuli dráttarbraut stoppuð þegar sjávarhæð nær u.þ.b. sjólínu og athuga hvort botnlokar og síðulokar séu þéttir. Verkstjórinn, Gunnar Richter, hafi einnig brotið gegn þessari reglu. Þegar Gunnar hafi stoppað niðurslökun og gefið Ágústi, ásamt Jóhannesi og Jasoni, tækifæri til að kanna hvort leka væri vart, þá hafi skipið ekki verið komið nægjanlega langt niður þannig að hægt væri að kanna leka í framvélarrými eða lest. Enginn sjór hafi því verið kominn undir framskipið þegar Gunnar stöðvaði niðurslökunina. Gunnar hafi verið á bryggjunni að stýra niðurslökun og hafi því haft þá yfirsýn sem hafi þurft til að meta hversu langt skipið væri komið og hvort hægt væri að kanna leka í framvélarrými eða lest. Þeir sem hafi verið í skipinu hafi hins vegar ekki haft slíka yfirsýn og orðið að treysta alfarið á Gunnar að þessu leyti. Gunnar hafi því brotið gegn hinni skýru verklagsreglu um að stöðva skipið þegar sjávarhæð væri náð auk þess sem honum hafi mátt vera ljóst, miðað við afstöðu skipsins á þeim tíma sem hann stöðvaði niðurslökunina, að það hefði enga þýðingu að kanna leka í framvélarrými þegar skipið var ekki komið nægjanlega langt niður þannig að sjór gengi undir framskipið. Öll skoðun þeirra starfsmanna sem hafi verið um borð í skipinu á framvélarrými á þessum tíma hafi því verið algerlega þýðingarlaus.          Að lokum byggir stefnandi á því að verkstjórinn hafi brotið gegn þeirri verklagsreglu að samþykki þurfi frá fulltrúa útgerðar fyrir endanlegri slökun skips úr dráttarbraut. Ekkert liggi fyrir um að Gunnar hafi fengið samþykki frá Ágústi Ágústssyni vélstjóra um að endanlega mætti slaka Perlunni úr dráttarbrautinni. Ágúst hafi gefið Gunnari meldingu um að komist hefði verið fyrir leka í afturvélarrými. Hins vegar verður ekki ráðið að með því hafi hann verið að veita samþykki fyrir endanlegri slökun skipsins úr dráttarbrautinni. Með vísan til þess að viðgerð á skipinu var ekki lokið var enn ríkari ástæða fyrir stefnda til að fylgja öllum verklagsreglum um sjósetningu.          Þegar allt framangreint er virt telur stefnandi ljóst að starfsmenn stefnda hafi þverbrotið eigin verklagsreglur um niðurslökun umrætt sinn. Hafi sú vanræksla falið í sér stórkostlegt gáleysi af þeirra hálfu en afleiðing af þeirri vanrækslu hafi verið að sjór hafi komist óhindraður inn í gegnum opinn blöndunarloka á framanverðum botni skipsins og niður um göt sem starfsmenn stefnda höfðu skorið ofan í botntank nr. 1 stjórnborðsmegin og þaðan inn í geymslu og þurrrými í framvélarrými skipsins. Um hafi verið að ræða göt sem starfsmenn stefnda höfðu sjálfir ýmist skorið upp eða opnað með því að losa marga bolta í tilviki mannopsins í framvélarrými, enda hafi viðgerð skipsins enn þá staðið yfir. Við þetta hafi skipið fyllst af sjó og sokkið til botns á innan við 50 mínútum.          Stefnandi telur að vanræksla starfsmanna stefnda hafi einnig falist í því að hafa ekki orðið við ósk Ágústs Ágústssonar vélstjóra um að taka Perluna aftur upp dráttarbrautina þegar ljóst var að skipið hallaði verulega, að sjór streymdi inn um blöndunarlokann og inn um mannopin. Perlan hafi þá enn verið við dráttarbrautina og telur stefnandi að tiltölulega einfalt hefði verið að taka skipið aftur upp hana eða í það minnsta halda því við dráttarbrautina þar sem dýpi hafi verið lítið. Gunnar Richter slippstjóri hafi hins vegar ekki fallist á þessa beiðni og óskað eftir því við áhöfn dráttarbátsins Magna að koma línu yfir í Perluna. Einnig hafi hann óskað eftir dælum þegar í ljós hafi komið að dælur Perlunnar virkuðu ekki þar sem vélar og rafkerfi hafi verið komið á kaf í sjó og því óstarfhæf.          Að mati stefnanda hafi Gunnar Richter slippstjóri sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hann hunsaði beiðni Ágústs um að skipið yrði tekið aftur upp dráttarbrautina. Hafi Gunnari mátt vera vel ljóst á þessum tímapunkti að eitthvað verulega mikið hefði farið úrskeiðis, enda hafi verið kominn töluverður halli á skipið. Einnig sé ljóst að bæði Ágúst, ásamt þeim Jóhannesi og Jasoni, hafi upplýst Gunnar um að sjór streymdi inn í lest skipsins og hafi hann því fengið fullnægjandi upplýsingar um ástandið í skipinu sjálfu.          Stefnandi kveður Gunnar hafa haft fullnægjandi upplýsingar til að leggja mat á hvaða úrræði myndu fela í sér minnsta röskun á þeim hagsmunum sem í húfi voru. Í stað þess að bregðast við hafi Gunnar haldið óbreyttri áætlun um að dráttarbáturinn Magni myndi halda áfram með sitt hlutverk auk þess sem hann hafi óskað eftir dælum þegar í ljós hafi komið að skipsdælur Perlunnar yrðu ekki virkjaðar. Telur stefnandi að þetta stórkostlega gáleysi Gunnars hafi átt meðvirkandi þátt í því að tjónið hafi orðið eða í það minnsta að tjón stefnanda hafi orðið svo umfangsmikið sem raun bar vitni.          Stefnandi telur að starfsmenn stefnda hafi einnig sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að bregðast ekki við beiðni Ágústs Ágústssonar vélstjóra um að leggja Perlunni við setningsbryggjuna þegar í ljós kom að sjór streymdi inn í lest og vélarrými skipsins. Ágúst hafi kallað til Gunnars Richter slippstjóra að leggja skipinu við setningsbryggjuna til að hægt væri að kanna botnlokana nánar. Gunnar hafi hins vegar ekki orðið við þessari beiðni heldur haldið því til streitu að láta draga skipið til bryggju við austanverðan Ægisgarð eða alls um 400 metra leið.          Stefnandi telur ljóst að Gunnar Richter hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi umrætt sinn. Augljóst hafi verið á þessu tíma að eitthvað verulega mikið hafði farið úrskeiðis enda hafi skipið hallað töluvert. Þá bárust Gunnari strax upplýsingar frá Ágústi, Jóhannesi og Jasoni um að sjór streymdi inn í skipið. Gunnar hafi því haft fullnægjandi upplýsingar til að leggja mat á hvað skyldi taka til bragðs og skynsamlegast væri að leggja skipinu við setningsbryggjuna svo að tóm gæfist til að kanna nánar með botnloka ellegar gera aðrar ráðstafanir til að fyrirbyggja það tjón sem síðar hafi orðið raunin.          Í þessu sambandi bendir stefnandi á að dýpi við setningsbryggjuna sé 1,5 til 1,9 metrar þar sem stefni skipsins var en 3,8 metrar við skut þess. Þannig sé ljóst að ef skipinu hefði verið lagt við setningsbryggjuna, og allt farið á versta veg, hefði sjór ekki komist í þurrrými. Í stað þess hafi Gunnar Richter tekið þá afdrifaríku ákvörðun að láta dráttarbátinn Magna draga Perluna að bryggjunni í austanverðum Ægisgarði þar sem dýpi sé um 7 metrar. Þar virðist hafa ráðið mestu að stefndi hafi viljað tryggja að ekkert gæti hindrað upptöku annarra skipa í dráttarbrautina í stað þeirra hagsmuna sem fólust í því að tryggja að Perlan myndi ekki sökkva.          Í tengslum við sakarmatið telur stefnandi nauðsynlegt að hafa í huga að stefndi sé sérfræðingur á sínu sviði og selji útgerðum þjónustu sem felist í viðgerð og endurbótum á skipum. Öll sérfræðiþekking og reynsla liggi því hjá starfsmönnum stefnda og hafi þeir áratuga reynslu af slíkum verkum. Þá hafi Gunnar Richter slippstjóri ekki brugðist við beiðnum frá vélstjóra um borð sem hefði orðið til þess að koma í veg fyrir tjónið eða allavega stærstan hluta þess. Að mati stefnanda feli háttsemi starfsmanna stefnda við niðurslökun skipsins í sér stórkostlegt gáleysi eða að minnsta kosti einfalt gáleysi og því teljist saknæmisskilyrði almennu skaðabótareglunnar uppfyllt.          Í stefnu er gerð grein fyrir umfangi tjónsins. Þar kemur fram að þegar hafi verið hafist handa við að kanna það af hálfu eiganda skipsins, Björgunar ehf., eftir að tekist hafði að koma því á flot. Daníel Friðriksson, skipatæknifræðingur hjá Ráðgarði skiparáðgjöf ehf., hafi verið fenginn til þess að leggja mat á kostnað við viðgerð skipsins eftir tjónið. Að mati bæði eiganda skipsins og Daníels Friðrikssonar hafi verið talið að um altjón væri að ræða á skipinu. Því hafi Björgun krafist fullra bóta úr þeim tryggingum sem stefnandi hafði veitt félaginu.          Stefnandi upplýsir í stefnu að félagið haf greitt samtals 232.911.668 krónur í vátryggingabætur vegna þess tjóns sem orðið hafi þegar Perlan sökk. Bótagreiðslurnar séu sundurliðaðar þannig að 130.170.000 krónur hafi komið til greiðslu úr húftryggingu skipsins, 85.615.747 krónur hafi verið greiddar vegna björgunaraðgerða, 16.500.000 krónur hafi verið greiddar úr hagsmunatryggingu skipsins og 625.921 króna úr áhafnatryggingu. Í stefnu er nánar fjallað um hvernig þessar kröfur eru til komnar.          Varðandi kröfu um greiðslu 130.170.000 króna, sem greitt hafi verið úr húftryggingu, vísar stefnandi til vátryggingarskírteinis nr. 1928204. Vátryggingarverðmæti skipsins hafi numið 135.000.000 króna en eigin áhætta numið 4.830.000 krónum. Samkvæmt ákvæði í grein 20.2 í vátryggingarskilmálum hafi stefnanda borið að greiða bætur í þeim tilvikum þegar skipið verður fyrir svo miklum skemmdum að kostnaður við að bjarga því og gera við það nemur hærri fjárhæð en vátryggingarverði. Að mati stefnanda sé ljóst að Perlan hafði orðið fyrir algeru tjóni og voru Björgun ehf. greiddar fullnaðarbætur samkvæmt tryggingunni að teknu tilliti til eigin áhættu eða alls 130.170.000 krónur. Þá sé í 23. gr. vátryggingarskilmála húftryggingar skipsins vísað til þess réttar stefnanda að öðlast rétt vátryggðs gagnvart þriðja manni sem ber skaðabótaábyrgð á tjóni, að því marki sem tjón hafi verið bætt. Þetta ákvæði sé sama efnis og 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.          Stefnandi kveðst hafa fengið greiðslu frá endurtryggjendum vegna tjónsatburðarins sem nemi 76.591.015 krónum. Endurtryggjendur hafi framselt stefnanda þá kröfu með vísan til þess að þeim beri einnig réttur til að endurkrefja tjónvald um það tjón sem þeir hafa orðið fyrir. Þar af leiðandi endurkrefur stefnandi stefndu um alla þá greiðslu sem greidd hafi verið Björgun ehf.          Um útlagðan kostnað við björgunaraðgerðir að fjárhæð 85.615.747 krónur vísar stefnandi til þess að stefnandi hafi greitt útlagðan kostnað sem stofnast hafi til í því skyni að bjarga Perlunni. Kostnaðurinn felist að stærstum hluta í greiðslum til þeirra aðila sem komið hafi að björguninni, s.s. köfunarþjónustu og skipatæknifræðinga en einnig fyrir vinnu starfsmanna Björgunar. Í stefnu sé þessi kostnaður sundurliðaður með eftirfarandi hætti:          Kostnaður vegna köfunarþjónustu                                                      kr.                48.231.903,-          Kostnaður vegna þjónustu Navis ehf.                                                 kr.                   1.977.138,-          Kostnaður vegna vinnu/kostnaðar Björgunar ehf.                           kr.                35.405.206,-          Kostnaður sýslumanns v/veðbókarvottorðs                                      kr.                           1.500,-          _______________________________________________________________          Samtals:                                                                                                     kr.                85.615.747,-            Stefnandi bendir á að við björgunaraðgerðir hafi verið nauðsynlegt að leita til kafara til að koma í veg fyrir olíuleka úr skipinu, auk þess sem þeir hafi séð um að þétta öll op. Hafi það verið nauðsynlegur undanfari þess að dæla sjó úr skipinu og lyfta því upp á yfirborðið. Kostnaður köfunarþjónustu felist einkum í vinnu kafara ásamt útlögðum kostnaði í tengslum við dælur, kapla og annan útbúnað. Stefnandi hafi greitt Köfunarþjónustu Sigurðar ehf. samtals 48.231.903 krónur úr vátryggingunni.          Stefnandi tekur fram að hluti af björgunaraðgerðum hafi verið að fá skipaverkfræðinga til að gera ítarlega stöðugleikaútreikninga fyrir skipið og útbúa teikningar sem hafi síðan verið lagðar til grundvallar aðgerðaáætlun við björgun skipsins. Stefnandi hafi greitt Navis ehf. samtals 1.977.138 krónur úr vátryggingunni til.          Eins og áður segir vísar stefnandi til þess að hann hafi greitt Björgun ehf. kostnað í tengslum við björgunaraðgerðir skipsins, samtals 35.405.206 krónur. Hafi sá kostnaður einkum falist í vinnuframlagi starfsmanna, kaupum á efni sem nýtt hafi verið við björgunaraðgerðir, vinnu starfsmanna og notkun tækja frá Faxaflóahöfnum, auk þjónustu skipaverkfræðinga og lögmanna. Sá kostnaður er sundurliðaður í stefnu auk þess sem þar er vísað til framlagðra reikninga án virðisaukaskatts. Undir rekstri málsins lækkaði stefnandi kröfu sem á þessu byggist um 1.679.678 krónur. Þeir liðir sem eftir standa og stefnandi krefst endurgreiðslu á eru eftirfarandi:            Olía                                                                                                                      kr.                         401.760,-          Einangrun                                                                                                           kr.                            57.961,-          Akstur, lestun og losun                                                                                     kr.                              4.560,-          Aðstoð starfsmanna Hafrannsóknastofnunar                                            kr.                      1.250.000,-          Plötuefni                                                                                                              kr.                            30.411,-          Krossviður                                                                                                           kr.                            12.760,-          Leiga á dælum og börkum                                                                               kr.                         434.796,-          Olíubíll                                                                                                                 kr.                         447.252,-          Dælubíll                                                                                                               kr.                      1.082.662,-          Vörubíll og vinna bílstjóra                                                                               kr.                         188.250,-          Suðumúffa                                                                                                         kr.                              9.355,-          Faxaflóahafnir                                                                                                  kr.                      5.441.559,-          Ráðgarður skiparáðgjöf                                                                                   kr.                      1.684.800,-          Stálsmiðjan-Framtak – vinna og útlagður kostnaður                                kr.                      7.196.758,-          Lögfræðiráðgjöf                                                                                                kr.                         874.820,-          Teikningar – Samgöngustofa                                                                          kr.                              9.350,-          Stöðugleikaútreikningar – Navis                                                                    kr.                      2.037.551,-          Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins                                                                   kr.                      7.007.373,-          Vinna starfsmanna Björgunar ehf.                                                                kr.                      6.209.200,-          _______________________________________________                __________________          Samtals:                                                                                                              kr.                    34.381.178,-            Samkvæmt vátryggingarskírteini hafi eigin áhætta numið 5.000 bandaríkjadollurum. Við útgreiðslu úr vátryggingunni hafi verið miðað við sölugengi bandaríkjadollars 8. janúar 2016 og miðist eigin áhætta því við 652.650 krónur (130,53 x 5.000 = 652.650). Útgreiðsla úr vátryggingu stefnanda hafi því numið alls 35.405.206 kr. vegna þessa hluta tjónsins (36.057.856 – 652.650 = 35.405.206). Stefnandi kveðst hafa greitt Björgun ehf. úr tryggingunni sem þessu nemur, en vegna lækkunar kröfunnar á hendur stefnanda í þessum lið er gerð krafa um 34.381.178 – 652.650 krónur eða 33.728.528 krónur.          Auk þessa liggi fyrir útlagður kostnaður að fjárhæð 1.500 kr. vegna veðbókarvottorðs, en stefnandi hafi greitt þann útlagða kostnað úr vátryggingunni. Að viðbættum framangreindum liðum vegna köfunarþjónustu, 48.231.903 krónur, og vegna þjónustu Navis ehf., 1.977.903 krónur, nemi kröfugerð á hendur stefndu vegna björgunarkostnaðar 83.939.069 krónum.           Stefnandi bendir á að samkvæmt ákvæðum liðum A-D í 12. kafla undir reglu 2 í skilmálum P&I í vátryggingunni eigi vátryggingartaki rétt til greiðslu fyrir allan þann kostnað sem til fellur við að bjarga skipsflaki. Réttur stefnanda til endurkröfu ráðist af ákvæði 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.          Stefnandi vísar og til þess að Björgun hafi haft hagsmunatryggingu skipa hjá stefnanda á tjónsdegi, sbr. vátryggingarskírteini nr. 1931324. Samkvæmt ákvæði 4. og 5. gr. skilmála tryggingarinnar skuli stefnandi greiða vátryggingartaka vátryggingarverðið ef hið vátryggða skip verður fyrir algeru tjóni í skilningi 20. gr. húftryggingarskírteinis. Með greiðslu 21. mars 2016 hafi stefnandi greitt Björgun ehf. vátryggingarverðið, alls 16.500.000 krónur. Með vísan til 6. gr. skilmála hagsmunatryggingar, sbr. 23. gr. skilmála húftryggingar og 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, byggir stefnandi á því að honum sé rétt að endurkrefja þann sem skaðabótaábyrgð ber á tjóninu um þennan kostnað.          Stefnandi kveður Björgun hafa á tjónsdegi haft gilda áhafnatryggingu hjá stefnanda, sbr. skírteini nr. 1924735. Samkvæmt ákvæði 1. gr. C-hluta vátryggingarskilmála tekur tryggingin til tjóns á eigum skipverja. Þegar Perlan sökk hafi orðið tjón á farangri skipverja sem fellur undir framangreint ákvæði skilmálanna. Í stefnu eru þær greiðslur sundurliðaðar með eftirfarandi hætti:          Tjón á fatnaði Ægis Þórs Sverrissonar                                                 kr.                      121.810,-          Tjón á fatnaði Ágúst Ágústssonar                                                        kr.                      193.100,-          Tjón á fatnaði Óttars Jónssonar                                                           kr.                        90.700,-          Tjón á fatnaði Péturs Matthíassonar                                                   kr.                        62.500,-          Tjón á fatnaði Þórs Sævaldssonar                                                        kr.                       157.811,          ________________________________________________________________          Samtals:                                                                                                     kr.                      625.921,-                   Fram kemur í stefnu að stefnandi hafi bætt framangreint tjón með greiðslum til áhafnameðlima. Með hliðsjón af 4. gr. skilmála áhafnatryggingar og 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 geti stefnandi endurkrafið þann sem skaðabótaábyrgð beri á tjóninu um þennan kostnað.          Stefnandi áréttar að endurkrafa hans sé reist á almennum reglum skaðabótaréttar um heimild til að endurkrefja þann sem ber skaðabótaábyrgð á tjóni að því marki sem tjónsbætur hafi verið greiddar. Þá vísar stefnandi til 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og áðurgreindra ákvæða í skilmálum þeirra vátrygginga sem stefnandi hafi veitt Björgun. Að mati stefnanda verði þessi réttur hans ekki takmarkaður með nokkrum hætti, sbr. II. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993. Tjóninu hafi verið valdið í einkaatvinnurekstri auk þess sem stefnandi telur ljóst að tjóninu hafi verið valdið með stórfelldu gáleysi starfsmanna stefnda.          Stefnandi vísar einnig til þess að stefndi beri ábyrgð á skaðaverkum starfsmanna sinna samkvæmt hinni ólögfestu reglu íslensks skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð. Fyrir liggi að tjóni því sem hafi orðið þegar sanddæluskipið Perlan sökk hafi verið valdið með saknæmri og ólögmætri háttsemi starfsmanna stefnda við niðurslökun skipsins úr dráttarbraut stefnda. Óumdeilt sé að þeir starfsmenn sem komið hafi að verkinu umrætt sinn teljist hafa verið starfsmenn stefnda í skilningi reglunnar.          Stefnandi kveður kröfu sína á hendur stefnda Tryggingamiðstöðinni byggja á 44. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, en félagið sé ábyrgðartryggjandi stefnda. Um varnarþing vísar stefnandi til 42. gr. laga nr. 91/1991 en varnarþing stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar sé í Reykjavík. Kröfu sína um dráttarvexti byggir stefnandi á 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, en stefnandi telur að dráttarvextir skuli lagðir á dómkröfuna frá því þegar mánuður var liðinn frá þingfestingu málsins, eða þann 8. desember 2016.          Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um með­ferð einka­mála, einkum 1. mgr. 130. gr. 2. Málsástæður og lagarök stefndu          Stefndu vísa til þess að því sé haldið fram af hálfu stefnanda að stefndi Stálsmiðjan beri ábyrgð á tjóni því sem hlaust þegar Perla RE sökk í Reykjavíkurhöfn. Geri stefnandi annars vegar kröfu um húftryggingarverðmæti skipsins, sem greitt hafi verið útgerð þess, og hins vegar um afleiddan kostnað vegna björgunar skipsins af hafsbotni, en þær greiðslur hafi verið inntar af hendi til fjölmargra aðila. Stefndu vísa til þess að samkvæmt meginreglum skaðabótaréttarins verði stefnandi að sýna fram á og sanna að tjóninu hafi verið valdið af stefnda með saknæmum og ólögmætum hætti og að orsakasamband sé á milli bótaskyldrar háttsemi og þess tjóns sem gerð sé krafa um.          Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að stefndi Stálsmiðjan hafi að öllu leyti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart útgerð Perlu og að tjónið verði með engu móti rakið til saknæmrar og ólögmætrar athafnar starfsmanna stefnda.          Í tilefni af málsástæðum stefnanda fyrir kröfum sínum leggur stefndi áherslu á nokkur atriði sem hafa verði í huga. Í fyrsta lagi fari skipstjóri með æðsta vald á skipi samkvæmt 15. tölulið 2. mgr. 3. gr. laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laganna skuli vera skipstjóri á hverju skipi.  Samkvæmt 6. gr. siglingalaga nr. 34/1985 annist skipstjóri um að skip sé haffært og að það sé vel útbúið. Þegar Perlu hafi verið siglt í slipp í Reykjavíkurhöfn hafi Ægir Sverrisson skipstjóri, Björgvin Helgason stýrimaður og Ágúst Ágústsson vélstjóri verið um borð í skipinu. Þeir hafi allir verið um borð meðan upptakan fór fram og ekki farið frá borði fyrr en skipið hafði verið dregið á land.          Stefndu taka fram að samkvæmt 23. tölulið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 30/2007 sé það útgerð sem manni skipið, en í því felist ábyrgð á að skip sé rétt mannað. Útgerðin hafi metið það svo að nauðsynlegt væri að hafa skipið vel mannað við upptökuna. Við sjósetningu hafi verið gert ráð fyrir því að skipstjóri yrði um borð enda hafi hann verið lögskráður á skipið. Útgerðin hafi hins vegar ákveðið að hafa hvorki skipstjóra né stýrimann við sjósetninguna og þar með hafi enginn verið um borð sem hafi þekkt til stjórnbúnaðar í brú skipsins. Með þessu hafi útgerðin ekki aðeins brotið gegn lögum nr. 30/2007 og lögum nr. 34/1985 heldur hafi útgerðin einnig sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.          Stefndu vísa einnig til þess að blöndunarloki hafi verið hafður opinn til að hleypa sjó úr lestum skipsins eftir að skipið var komið í slipp. Hafi það verið venjubundið verk þegar Perla kom í slipp. Blöndunarlokanum sé stýrt frá brú skipsins. Af stefnu verði ráðið að skipstjórinn hafi lítið eða ekkert komið á verkstað meðan á viðgerð og viðhaldi stóð. Að loka blöndunarlokanum hafi verið verkefni skipstjórans. Með því að loka ekki blöndunarlokanum eða fela öðrum fulltrúa útgerðarinnar að gera það hafi skipstjórinn sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Tjónið verði með beinum hætti rakið til þessa gáleysis skipstjórans. Starfsmenn stefnda hafi aldrei annast þetta verk og hafi engan aðgang haft að stýribúnaði blöndunarlokans í brú skipsins. Af framburði Ágústs Ágústssonar vélstjóra hjá lögreglu, en Ágúst hafi verið eini fulltrúi útgerðarinnar við sjósetningu, verði ráðið að hann hafi ekki kunnað að loka blöndunarlokanum „og hann hefði hreinlega aldrei komið að því að loka eða opna lestarlokum“. Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa sé haft eftir Ágústi að „hann hafi ekki haft þekkingu á stjórnun blöndunarlokans“.          Stefndu benda einnig á að í lögregluskýrslunni sé haft eftir Ágústi vélstjóra að hann hafi fyrr um morguninn óskað eftir því við yfirmann hjá Björgun að fá skipstjóra með sér í verkefnið en verið neitað um það þar sem ekki hafi staðið til að sigla úr höfninni. Útgerðin hafi því ákveðið að eini fulltrúi hennar um borð yrði vélstjórinn, sem áður hafi farið fram á að vera leystur undan þeirri ábyrgð sem fólst í því að tilkynna skipið hæft til sjósetningar og bera ábyrgð á flutningi þess um Reykjavíkurhöfn. Með því að hafa ekki skipstjóra um borð hafi útgerðin brotið gegn 1. mgr. 12. gr. laga nr. 30/2007. Þá hafi skipstjóri ekki sinnt þeirri skyldu sem á honum hafi hvílt að annast um að skip sé haffært og að það sé vel útbúið og nægilega mannað, sbr. 1. mgr. 6. gr. siglingarlaga.          Af hálfu stefndu er enn fremur vísað til þess að Ágúst vélstjóri hafi óskað eftir því að starfsmenn stefnda Stálsmiðjunnar skæru tvö göt á botn lestar skipsins ofan í botntank nr. 1 stjórnborðsmegin og eitt í stokk sem liggur eftir miðju lestarinnar. Þessi verk hafi ekki verið hluti tilboðsins en skilgreind sem aukaverk. Starfsmenn stefnda hafi að öðru leyti ekki komið að vinnu við botntankinn og aldrei verið beðnir um að loka þessum götum. Stefndi hafi lánað einn starfsmann sem hafi verið vélstjóranum til aðstoðar. Einnig hafi vélstjórinn opnað mannop á tanktoppnum. Opið mannop og göt á botntanki 1 hefðu ekki komið að sök hefði skipstjórinn lokað blöndunarlokanum eða vélstjóri gætt að því áður en hann tilkynnti skipið hæft til sjósetningar. Áður en vélstjóri hafi gefið fyrirmæli um að skipið væri hæft til sjósetningar hafi honum borið að yfirfara þá verkþætti sem voru á ábyrgð útgerðarinnar, s.s. að sjá til þess að blöndunarloki væri lokaður og að sjór gæti ekki flætt um göt eða mannop sem hann hafði fyrirskipað að yrðu gerð.          Þegar skipið var komið á flot og ábyrgð alfarið í höndum útgerðarinnar hafi þeir sem um borð voru orðið varir við leka. Vélstjórinn, sem ábyrgð bar á flutningi skipsins, hafi m.a. getað gripið til þess að gangsetja dælustöð fyrir opnun og lokun blöndunarlokans og lokað blöndunarlokanum. Það hafi hann ekki gert, en fram hafi komið að hann hafi ekki kunnað að loka blöndunarlokanum. Hann hafi einnig getað ræst dæluvél skipsins. Þetta hafi hann getað gert hvenær sem var frá því að skipið flaut og þar með einnig frá því að menn um borð urðu fyrst varir við að sjór flæddi inn í lestar skipsins. Þetta hafi hann ekki gert. Þá hefði hann getað óskað eftir því að skipið yrði fært aftur í sleða og dregið á þurrt. Það hafi hann ekki heldur gert. Jafnframt hefði hann getað óskað eftir því að Magni flytti skipið að setningsbryggjunni en þar hefði skipið aldrei sokkið í kaf, enda dýpi þar innan við tveir metrar. Það hafi hann ekki gert. Að lokum hefði hann getað óskað eftir því að Magni ýtti skipinu á land að vestanverðu á athafnasvæði slippsins en „strand“ þar hefði ekki haft skemmdir í för með sér þar sem skipið er flatbotna. Þetta hafi hann ekki gert. Í stað þess að grípa til þeirra aðgerða sem hér sé lýst hafi fulltrúi útgerðarinnar, vélstjórinn um borð, ákveðið að halda áætlun um að Magni flytti skipið að Ægisgarði. Með þessu háttalagi telur stefndi að vélstjórinn hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi sem hafi orðið þess valdandi að skipið sökk.          Stefndi vísar til þess að skýrslum rannsóknarnefndar samgönguslysa um rannsókn einstakra slysa og atvika verði ekki beitt sem sönnunargögnum í dómsmálum, sbr. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 18/2013, um rannsókn samgönguslysa. Í ljósi meginreglu íslensks réttar um frjálst mat á sönnun er tilvitnað lagaákvæði því hins vegar ekki til fyrirstöðu að við staðreynslu atvika málsins sé litið til lýsingar rannsóknarnefndar samgönguslysa á tildrögum atviks, svo og gagna sem nefndin kann að hafa aflað, þ. á m. frásagna sjónarvotta, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu E- 962/2016.          Stefndi tekur fram að við rannsókn rannsóknarnefndar samgönguslysa hafi m.a. komið fram hjá skipstjóra að hann hefði opnað blöndunarlokann þegar skipið var tekið í slipp eins og alltaf sé gert við þær aðstæður. Skipstjórinn hafi ekki verið um borð í skipinu við sjósetninguna og engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja þéttleika lokans, en umræddum loka var stjórnað úr brú. Enn fremur að einn vélstjóri úr áhöfn hafi verið um borð þegar skipið var sjósett og hafi hann einungis haft eftirlit með ástandi í vélarúmi. Komið hafi fram hjá honum að hann hafi ekki haft þekkingu á stjórnun blöndunarlokans. Þá hafi komið fram við rannsóknina að þegar dráttarbáturinn Magni hafði tekið við Perlu hafi að þeirra mati verið kominn talsverður stjórnborðshalli og kvaðst hafsögumaðurinn þá hafa óskað eftir upplýsingum um ástandið hjá vélstjóranum um borð. Áhöfn Magna hafi dregið þá ályktun af fyrstu upplýsingum um ástandið að lítil hætta væri á ferðinni. Á grundvelli þeirra upplýsinga hafi verið haldið áfram með skipið að Ægisgarði. Að lokum hafi komið fram við rannsóknina að eigendur skips séu samkvæmt verklagi slippsins ávallt áminntir um að manna skip þannig að sigling og/eða flutningur þess úr slippnum sé öruggur. Skipum sé ekki slakað nema samþykki skipsmanna liggi fyrir enda skipið á þeirra ábyrgð þegar það flýtur.          Af hálfu stefndu er gerð athugasemd við það sem fram kemur í stefnu að stefndi Stálsmiðjan hafi haft umráð og borið ábyrgð á skipinu meðan á viðgerð þess stóð. Í því sambandi leggja stefndu áherslu á að ábyrgð stefnda hafi fyrst og fremst lotið að þeim verkþáttum sem hann hafði tekið að sér samkvæmt tilboði eða samkvæmt umsömdum aukaverkum. Ábyrgð útgerðarinnar hafi áfram verið til staðar á þeim verkum sem útgerðin hafi framkvæmt sjálf og aðrir á hennar vegum. Verki stefnda samkvæmt tilboðinu hafi verið lokið þegar ákveðið hafi verið að sjósetja skipið. Við sjósetninguna hafi ábyrgðin venju samkvæmt og samkvæmt eðli máls alfarið færst á hendur útgerðar, enda enginn starfsmaður stefnda með skipstjórnarréttindi eða með þekkingu á stjórnbúnaði skipsins. Stefndi hafi fyrst gert ráð fyrir því að skipinu yrði siglt á starfsstöð Björgunar við Sævarhöfða. Útgerðin hafi hins vegar ákveðið að færa skipið aðeins að bryggju við Reykjavíkurhöfn. Útgerðin hafi ákveðið hvernig staðið yrði að mönnun skipsins. Útgerðinni hafi lögum samkvæmt borið að hafa skipstjóra um borð við sjósetninguna enda hafi slíkt verið ráðgert samkvæmt lögskráningarvottorði. Stefndi mótmælir því að Hermann Baldvinsson, verkstjóri hjá stefnda, hafi talið fullnægjandi að Ágúst vélstjóri yrði einn viðstaddur úr áhöfn skipsins. Þetta hafi aldrei verið borið undir Hermann. Það sé heldur ekki í verkahring Hermanns, né annarra starfsmanna stefnda, að ákveða hvernig útgerðin vill manna skip sitt. Það sé hlutverk útgerðarinnar og skipstjóra, sbr. 23. tölulið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 30/2007 og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 34/1985.          Stefndu mótmæla því að starfsmenn stefnda Stálsmiðjunnar hafi borið ábyrgð á því að blöndunarlokinn hafi verið opinn. Starfsmenn hans hafi ekki opnað blöndunarlokann. Það hafi skipstjórinn gert. Enginn annar en fulltrúi útgerðarinnar hafi getað lokað blöndunarlokanum, enda stjórnbúnaðurinn í brú skipsins. Þetta sé sérstakur loki tengdur sérhæfðu hlutverki skipsins. Hann sé ekki sjáanlegur ólíkt síðu- og botnlokum. Blöndunarlokinn sé staðsettur framarlega í skipinu og hafi verið notaður til að taka sjó í lestina til blöndunar við farm (jarðefni) til að auðvelda losun með dælingu. Jóhann Garðar Jóhannsson, útgerðarstjóri Björgunar, hafi gefið heimild til að sjósetja skipið 2. nóvember. Ágúst vélstjóri hafi tilkynnt starfsmönnum stefnda að skipið væri af hálfu útgerðarinnar tilbúið til sjósetningar. Jóhann Garðar útgerðarstjóri, Ægir skipstjóri og Ágúst vélstjóri beri fulla ábyrgð á þeim verkþáttum sem hafi tilheyrt útgerðinni, þ. á m. að loka blöndunarlokanum. Það sé alfarið skipstjórans að taka ákvörðun um hvort blöndunarlokinn sé opinn eða lokaður við sjósetningu.          Stefndu gera athugasemd við það sem stefnandi haldi fram, að rekja megi tjónið til þess að starfsmenn stefnda Stálsmiðjunnar hafi skorið þrjú göt á framanverðum botni lestar skipsins ofan í botntanka nr. 1 stjórnborðsmegin og að starfsmenn stefnda hafi ekki verið búnir að loka opnanlegu mannopi á botntanki nr. 1 stjórnborðsmegin í framvélarrými. Stefndi tekur fram að starfsmenn hafi skorið götin að fyrirskipan vélstjóra enda hluti af verkþætti sem útgerðin hafi haft með höndum og borið ábyrgð á. Að öðru leyti hafi starfsmenn stefnda ekki komið að neinni vinnu í framhluta skipsins. Stefndi hafi lánað útgerðinni einn starfsmann sem hafi verið vélstjóranum til aðstoðar og lotið verkstjórnarvaldi hans. Útgerðin sjálf hafi ætlað að annast þéttingu og þrýstiprófun tanksins, enda hafi vinna við hann alfarið verið á vegum útgerðarinnar. Engin beiðni hafi borist stefnda um að loka þessum götum eða mannopi fyrir sjósetningu. Þá hafi Ágúst vélstjóri komið fram í skipið fyrir sjósetningu, væntanlega til að ganga úr skugga um að enginn leki kæmist þar að skipinu. Götin og opið mannop hafi ekki getað farið fram hjá honum við þá skoðun. Opið mannop og göt á botntanki 1 hefðu ekki komið að sök hefði skipstjórinn lokað blöndunarlokanum eða vélstjóri gætt að því áður en hann tilkynnti skipið hæft til sjósetningar.          Stefndu taka fram að réttilega sé fullyrt í stefnu að komast hefði mátt hjá tjóninu hefði mannopið ekki verið opið. Fyrir það fyrsta hafi það verið opnað af vélstjóranum sjálfum og sem liður í þeim verkþætti sem útgerðin hafi sjálf haft með höndum. Það sem skipti sköpum hafi verið að útgerðin hafi gleymt og vanrækt að loka blöndunarlokanum sem skipstjórinn opnaði. Ekkert tjón hefði orðið hefði hann munað eftir að loka blöndunarlokanum eða falið einhverjum sem kunni á stjórnbúnað skipsins í brúnni að gera það. Enn hafi verið hægt að loka blöndunarlokanum eftir sjósetningu meðan straumur var á skipinu ef einhver hefði verið um borð á vegum útgerðarinnar sem kunni á stjórnbúnað blöndunarlokans í brú skipsins.          Stefndu mótmæla því að stefndi Stálsmiðjan hafi ekki sinnt starfsskyldum sínum og verklagsreglum, eins og haldið sé fram í stefnu, og gætt að því hvort botnlokar og síðulokar væru komnir í. Venju samkvæmt hafi starfsmenn stefnda farið yfir þá verkferla sem tilheyrðu þeim. Allir síðu- og botnlokar hafi verið í, en engin vanræksla á yfirferð þeirra hafi orðið þess valdandi að skipið sökk. Til hafi staðið að sjósetningin færi fram 30. október en um hádegi þann dag hafi Jóhann Garðar, útgerðarstjóri Björgunar, haft samband við Hermann Baldvinsson, verkstjóra hjá stefnda, og beðið hann um að sjósetningu yrði frestað til mánudagsmorguns 2. nóvember. Eftir að hafa ráðfært sig við Hilmar Kristinsson, verkstjóra hjá stefnda, hafi Hermann samþykkt þessa seinkun með því fororði að skipið yrði klárt og mannað af hálfu útgerðar á þessum degi. Hermann hafi boðist til að fara yfir skipið fyrir sjósetningu með Jóhanni Garðari og Ágústi. Því hafi verið hafnað með þeim orðum að þeir tveir ætluðu að yfirfara skipið og þyrftu ekki á hjálp Hermanns að halda við það.          Stefndu gera jafnframt athugasemd við þá staðhæfingu í stefnu að skipið hafi ekki verið tilbúið til niðurslökunar þegar Gunnar Richter, slippstjóri hjá stefnda, hóf að slaka skipin niður. Af hálfu stefndu er á það bent að í verklagsreglum stefnda Stálsmiðjunnar segi m.a.: „Upptökustjóri hefur samband við áhöfn og dráttarbáta um hvenær allt er tilbúið til slökunar.“ Þetta hafi Gunnar gert. Vélstjórinn fyrir hönd áhafnar og útgerðar hafi gefið heimild til slökunar og sjósetningar. Skipum sé aldrei slakað nema með leyfi skipsmanna.          Stefndu gera einnig athugasemd við þá staðhæfingu í stefnu að starfsmaður stefnda, Gunnar Richter, hafi brotið verklagsreglur með því að stöðva ekki sjósetningu þegar sjávarhæð náði u.þ.b. sjólínu og athuga hvort botnlokar og síðulokar væru þéttir. Botnlokar sem stefndi hafi unnið við hafi eingöngu verið í afturskipi og hafi þeir allir verið yfirfarnir af starfsmönnum stefnda. Tjónið verði ekki rakið til þess að lekið hafi með botnlokum eða síðulokum. Tjónið verði rakið til þess að skipstjórinn eða fulltrúi útgerðarinnar lokaði ekki blöndunarlokanum sem var eingöngu á færi hans og útgerðarinnar að gera.          Þá gera stefndu athugasemd við það sem segir í stefnu að ekkert liggi fyrir um að Gunnar hafi fengið samþykki Ágústs vélstjóra fyrir endanlegri slökun skipsins. Samt sé staðhæft að Ágúst hafi gefið Gunnari meldingu um að komist hefði verið fyrir leka í afturrými. Þessi melding hafi verið gefin eftir að slökun hófst. Ágúst vélstjóri hafi verið þátttakandi í slökun skipsins frá upphafi til enda. Hann hafi gefið leyfi fyrir slökun og tilkynnt að skipið væri tilbúið af hálfu útgerðarinnar. Það hafi hins vegar verið rangt mat hjá honum og á því beri stefndi enga sök. Jóhann Garðar, útgerðarstjóri Björgunar, hafi áður gefið heimild til sjósetningar þennan dag og fullyrt að skipið yrði þá tilbúið til sjósetningar og fullmannað. Fullyrðing stefnanda, að ekki hafi legið fyrir samþykki útgerðar fyrir sjósetningu, sé því með öllu haldlaus að mati stefnda.          Þegar allt framangreint er virt telja stefndu að verklag stefnda Stálsmiðjunnar við sjósetningu skipsins hafi verið með hefðbundnum hætti. Starfsmenn stefnda hafi farið yfir þá verkþætti sem þeir höfðu unnið við og hafi verið á þeirra ábyrgð. Skipstjóri skuli annast um að skip sé haffært, sbr. 6. gr. siglingarlaga nr. 34/1985. Stefndi hafnar því alfarið að starfsmenn hans hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við undirbúning og sjósetningu skipsins.          Stefndu staðhæfa að starfsmenn útgerðarinnar, útgerðarstjóri og vélstjóri hafi fullvissað starfsmenn stefnda að skipið væri tilbúið til sjósetningar af þeirra hálfu. Það hafi reynst rangt. Útgerðin hafi neitað vélstjóranum um að hafa skipstjórann viðstaddan sjósetninguna, skipstjórann sem hafi opnað blöndunarlokann. Með því hafi útgerðin brotið gegn lögum nr. 30/2007. Svo virðist sem vélstjórinn hafi ekki vitað að skipstjórinn hafði skilið blöndunarlokann eftir opinn. Vélstjórinn hafi ekki kunnað að loka blöndunarlokanum enda aldrei komið að því að loka eða opna lestarlokum. Sú yfirsjón útgerðarinnar, að hafa ekki skipstjórann við sjósetninguna, hafi valdið því að enginn hafi verið í áhöfn skipsins sem hafi haft þekkingu til að bregðast við og loka blöndunarlokanum. Þar sé um saknæma og ólögmæta yfirsjón að ræða af hálfu útgerðarinnar og verði tjónið að öllu leyti rakið til þessarar yfirsjónar.          Stefndu mótmæla því sem haldið er fram í stefnu að rekja megi tjónið til þess að Gunnar Richter, slippstjóri hjá stefnda, hafi hafnað beiðni Ágústs vélstjóra um að taka skipið aftur upp í dráttarbrautina. Stefndi kveður þessi samskipti aldrei hafa átt sér aldrei stað. Fullyrðingum stefnanda um þau er hafnað, þau sé ósönnuð og er þeim mótmælt. Þegar þeir sem komið hafi að sjósetningunni hafi orðið þess áskynja að skipið hallaði hafi vélstjórinn sagt að hann ætlaði að dæla milli tanka og rétta skipið af eins og algengt sé við sambærilegar aðstæður. Hvorki Gunnar Richter slippstjóri eða aðrir í landi hafi gert sér grein fyrir því að útgerðin hefði gleymt að loka blöndunarlokanum.          Ágúst vélstjóri hafi aldrei óskað eftir því að færa skipið aftur upp í dráttarbrautina. Engin ástæða hefði verið til að synja beiðni um slíkt hefði henni verið komið á framfæri við starfsmenn stefnda. Vélstjórinn hefði einnig getað komið beiðni um að færa skipið aftur í upptökusleða á framfæri við áhöfn Magna. Það hafi hann ekki gert. Vélstjórinn, fulltrúi útgerðarinnar um borð, og sá sem stjórnaði flutningnum hafi ekki gert sér grein fyrir alvarleikanum. Það hafi verið vélstjórinn sem hafi ákveðið að halda óbreyttri áætlun. Þá benda stefndu á að í samskiptum áhafnar dráttarbátsins Magna og Gunnars Richters slippstjóra, sé aldrei minnst á að færa skipið aftur að upptökusleðanum. Þá halda stefndu því fram að enn hafi verið rafmagn í skipinu á þessum tíma og setja hefði mátt dælubúnað skipsins í gang.          Stefndu mótmæla enn fremur staðhæfingum í stefnu þess efnis að starfsmenn stefnda Stálsmiðjunnar hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að bregðast ekki við beiðni Ágústs vélstjóra um að leggja Perlu við setningsbryggjuna þegar í ljós hafi komið að sjór streymdi inn í lest og framvélarrými skipsins. Sé því haldið fram að Gunnar Richter, slippstjóri, hafi hunsað beiðni Ágústs vélstjóra um þetta. Þeim fullyrðingum mótmæla stefndu sem ósönnuðum. Þegar skipið hafi verið komið á flot og færst fjær landi hafi samskipti milli lands og skips verið erfiðari en vélstjórinn hafi þá verið í talfæri við áhöfn dráttarbátsins og getað gefið henni fyrirmæli um að leggja skipinu við setningsbryggjuna. Það hefði þá verið gert. En það hafi vélstjórinn ekki gert, heldur ákveðið að halda áfram með skipið að Ægisgarði.          Stefndu árétta í þessu sambandi að Gunnar Richter slippstjóri hafi ekki haft stjórn á skipinu eftir að útgerðin tók alfarið yfir stjórn þess við sjósetningu. Stjórnanda skipsins, Ágústi vélstjóra, hafi borið að grípa til þeirra ráðstafana sem hann taldi réttar til að bjarga skipinu gerði hann sér á annað borð grein fyrir að það væri í hættu. Hann hafi getað gefið áhöfn Magna fyrirmæli um að færa skipið að setningsbryggjunni. Allar aðgerðir til að bjarga skipi sem er í hættu að geta sokkið séu réttlætanlegar við slíkar aðstæður. Hafi Ágúst vélstjóri talið einhverja fyrirstöðu á því að leggjast við setningsbryggjuna hafi hann getað gefið áhöfn Magna fyrirmæli um að fleyta skipinu upp í fjöru í vestanverðum slippnum. Það hefði ekki haft neinar varanlegar afleiðingar í för með sér enda skipið flatbotna og hefði setið vel í fjörunni. Vélstjórinn, fulltrúi útgerðarinnar, ákvað að grípa ekki til neinna varúðarráðstafana og koma skipinu í var. Þess í stað hafi hann ákveðið að halda óbreyttri áætlun og látið færa skipið að Ægisgarði þar sem það sökk eftir skamma viðlegu.          Stefndi Stálsmiðjan hafnar því alfarið að starfsmenn hans hafi sýnt af sér vanrækslu eða gáleysi, hvað þá stórkostlegt gáleysi eftir að skipið hafði verið sjósett. Eins og rakið hafi verið hafi ábyrgð á stjórn og flutningi skipsins eftir sjósetningu þess alfarið verið í höndum útgerðar. Útgerðin hafi ekki getað reitt sig á að starfsmenn stefnda gætu komið í stað skipstjóra um borð enda hafi þeir enga þekkingu á stjórnbúnaði skipsins eða réttindi til að sinna störfum skipstjóra um borð. Því hafi útgerðinni verið rétt og skylt að manna skip með áhöfn sem þekki eiginleika skipsins og stjórnbúnað. Útgerðin hafi kosið að gera það ekki í þessu tilviki. Þá hafi hún hafnað framsettri beiðni vélstjórans um að skipstjóri yrði hafður um borð eins og kveðið sé á um í lögum nr. 30/2007. Útgerðarstjóri skipsins hafi ákveðið að vélstjórinn hefði umsjón með flutningi skipsins um Reykjavíkurhöfn. Vélstjórinn hafi ekki kunnað á stjórnbúnað skipsins, hann hafi ekki kunnað að loka blöndunarlokanum, og hann hafi ekki ræst dælustöðina meðan enn var rafmagn í skipinu. Vélstjórinn hafi ekki hætt við flutninginn. Enginn kannast við að hann hafi sett fram beiðni um að færa skipið aftur upp í dráttarbrautina. Enginn kannast við að hann hafi óskað eftir að leggja skipinu við setningsbryggjuna. Vélstjórinn hafi ekki gripið til neinna þeirra ráða sem tiltæk voru þegar ljóst hafi orðið í hvað stefndi.          Í þessu sambandi benda stefndu einnig á að í talstöðvarsamskiptum skipstjóra Magna við Gunnar Richter kl. 10:34 komi fram af hálfu skipstjórans að það verði „að dæla úr honum það virkar ekkert hjá honum hérna“. Í kjölfarið spyr Gunnar „virka ekki dælurnar hjá honum“. Áhöfn Magna hafi því næst óskað eftir því að stefndi útvegaði dælur þar sem dælurnar um borð virkuðu ekki. Gunnar Richter hafi strax brugðist við þessari beiðni og sett sig í samband við Hilmar Kristinsson, verkstjóra hjá stefnda, sem hafi haft samband við slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, en það hafi yfir að ráða öflugum dælubúnaði. Af gögnum málsins verði ekki annað ráðið en að á þessum tíma hafi Gunnar og aðrir starfsmenn stefnda fyrst orðið þess varir að ekki væri allt með felldu, en þá hafi skipið verið komið út á höfnina við vesturhorn Ægisgarðs. Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa komi fram að samkvæmt mati hafnaryfirvalda hafi eini kosturinn á þessu stigi verið að halda áfram með skipið að bryggju þar sem ekki hafi verið nægur tími til að koma því aftur í sleðann vegna þeirra aðstæðna sem höfðu skapast.          Að mati stefndu beri útgerð Perlu, útgerðarstjóri, skipstjóri og vélstjóri ábyrgð á því að Perla RE sökk í Reykjavíkurhöfn. Starfsmenn útgerðarinnar hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi og með saknæmri og ólögmætri hegðun sinni hafi þeir valdið því tjóni sem um er deilt í dómsmáli þessu. Í ljósi þeirra röksemda sem stefndu hafi sett fram í málinu telja þeir að sýkna beri þá af öllum kröfum stefnanda.          Til vara er þess krafist af stefndu að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Kveða stefndu að sú krafa sé öðrum þræði reist á því að skipta beri sök en hinum þræðinum á því að dómkröfur stefnanda séu tölulega of háar.          Krafa stefndu um sakarskiptingu byggist á sömu málsástæðum og lagarökum og aðalkrafa. Þá telja stefndu ljóst að starfsmenn útgerðar Perlu beri meginábyrgð á því hversu hrapallega tókst til eftir sjósetningu skipsins. Því geti einungis komið til álita að stefndu beri lítinn hluta sakar.          Í tengslum við athugasemdir stefndu við fjárhæð kröfugerðar stefnanda telja stefndu nauðsynlegt að hafa í huga að krafa á hendur þeim sé endurkrafa á skaðabótagrundvelli og lúti því þeim skilyrðum og þeim sönnunarlögmálum sem um slíkar kröfur gildi. Gildi þá einu hvort stefnandi hafi ákveðið að bæta kostnað eða tjón úr vátryggingu hjá því félagi á vátryggingarréttarlegum grundvelli.          Af hálfu stefndu eru ekki gerðar athugasemdir við fjárhæð kröfunnar að því er lýtur að bótum fyrir algert tjón. Stefndu gera heldur ekki athugasemdir við greiðslu bóta úr áhafnatryggingu. Hins vegar gera stefndu athugasemdir við fjárhæðina að því er lýtur að kostnaði við björgunaraðgerðir. Í greinargerð eru tilgreindir tilteknir liðir og reikningar sem stefndi mótmælir í þessu sambandi. Að hluta var þeim mótmælt á þeim grunni að ekki bæri að greiða bætur vegna muna sem hefðu verið keyptir við björgunaraðgerðir og aðilinn eignast eftir að hafa fengið þá greidda í formi skaðabóta. Undir rekstri málsins féll stefnandi frá hluta þessara krafna. Eftir standa mótmæli við reikning að fjárhæð 874.820 krónur vegna lögfræðiráðgjafar, reikning að fjárhæð 9.350 krónur frá Samgöngustofu vegna teikninga og reikningur Björgunar ehf. að fjárhæð 6.209.200 krónur vegna ósundurliðaðrar vinnu útgerðarinnar í 750 klukkustundir.          Í greinargerð gera stefndu sérstaka athugasemd við reikninga frá lögmannsstofnunni Lex, en þeir telja óljóst á hvaða forsendu stefndu eigi að greiða þennan kostnað í formi skaðabóta. Sá reikningur sem enn er til umfjöllunar í máli þessu vísi aðeins til tjóns á Perlu.          Stefndu gera einnig athugasemd við reikning vegna vinnu starfsmanna Björgunar ehf. að fjárhæð 6.209.200 kr. Reikningurinn tilgreini annars vegar aðeins vinnu Jóhanns Garðars að fjárhæð 2.117.200 krónur og hins vegar annarra starfsmanna að fjárhæð 4.092.000 krónur. Enga frekari tilgreiningu sé að finna, hvorki um fjölda tíma, hvaða verk hafi verið unnin eða á hvaða einingaverðum. Þar sem um sjálfan tjónþola sé að auki að ræða verði að telja þennan lið ósannaðan.          Stefndu telja framangreinda reikningsliði með öllu vanreifaða og að þeir verði ekki teknir til greina.          Varðandi greiðslu 16.500.000 króna úr hagsmunatryggingunni benda stefndu á að skilyrði greiðslu samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar sé að altjón verði á skipinu. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga öðlist vátryggingafélagið rétt tjónþola á hendur hinum skaðabótaskylda að svo miklu leyti sem það hafi ekki greitt bætur. Tjónþoli verði að sanna að hann hafi orðið fyrir tilteknu fjártjóni gagnvart hinum skaðabótaskylda. Stefnandi geti ekki gert kröfu um endurgreiðslu vátryggingarfjárhæðarinnar nema að því marki sem sýnt sé fram á hvert raunverulegt fjártjón útgerðarinnar hafi verið. Hvorki í stefnu né dómskjölum sé sýnt fram á neitt fjártjón útgerðarinnar að þessu leyti. Tjón útgerðarinnar sé því ósannað og þar með endurkrafa stefnanda.          Af hálfu stefndu er krafist málskostnaðar, en krafan byggist á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. IV          Í máli þessu gáfu eftirfarandi einstaklingar ýmist aðila- eða vitnaskýrslu fyrir dómi: Jóhann Garðar Jóhannsson, útgerðarstjóri hjá Björgun; Ágúst Ágústsson, fyrrverandi vélstjóri hjá Björgun; Ægir Þór Sverrisson, skipstjóri hjá Björgun; Hjörtur Emilsson skipatæknifræðingur; Sverrir Steindórsson, verkstæðisformaður hjá Björgun, Oddur Jósep Halldórsson, skipstjóri hjá Faxaflóahöfnum; Erling Þór Pálsson, hafnsögumaður hjá Faxaflóahöfnum; Sæmundur Örn Sveinsson lögreglumaður; Bjarni E. Thoroddsen, framkvæmdastjóri og einn eigenda stefnda Stálsmiðjunnar, Óskar Rúnar Olgeirsson, verkefnastjóri, stjórnarformaður og einn eigenda stefnda Stálsmiðjunnar; Páll Kristjánsson, verkstjóri og einn eigenda stefnda Stálsmiðjunnar; Hermann Baldvin Baldvinsson, verkstjóri og einn eigenda stefnda Stálsmiðjunnar; Hilmar Kristinsson, verkefnastjóri, stjórnarmaður og einn eigenda stefnda Stálsmiðjunnar; Gunnar Stefán Richter, fyrrverandi slippstjóri hjá stefnda Stálsmiðjunni; Þröstur Sigfreður Daníelsson verktaki; Jóhannes Bouy Perea Humarang, starfsmaður stefnda Stálsmiðjunnar og Jason Dela Cruz Pineda, starfsmaður stefnda Stálsmiðjunnar. Gerð verður grein fyrir því sem fram kom í skýrslum þeirra eftir því sem tilefni er til.          Eins og rakið hefur verið hefur stefnandi greitt samtals 232.911.668 krónur á grundvelli vátrygginga sem Björgun ehf. var með hjá stefnanda í tilefni af því að skip í eigu félagsins, Perla RE, sökk í Reykjavíkurhöfn 2. nóvember 2015. Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um 231.234.990 krónur af framangreindum bótagreiðslum með þeim rökum að stefndi, Stálsmiðjan-Framtak ehf., beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hlaust af því að skipið sökk.          Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 stofnast ekki skaðabótaréttur vegna tjóns sem munatrygging tekur til. Sú regla á þó ekki við í tveimur tilvikum, annars vegar þegar tjóninu er valdið af ásetningi eða stórfelldu gáleysi, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 19. gr. laganna, og hins vegar þegar því er valdið í opinberri starfsemi eða einkaatvinnurekstri eða sambærilegum rekstri, sbr. 2. tölulið sömu málsgreinar. Stefndi Stálsmiðjan er atvinnufyrirtæki og er á því byggt af hálfu stefnanda að starfsmenn þess hafi bakað því skaðabótaábyrgð við rækslu starfa sinna í þágu fyrirtækisins. Af 2. tölulið 1. mgr. 19. gr. skaðabótalaga leiðir því að einfalt gáleysi af þeirra hálfu nægir til þess að til skaðabótaábyrgðar stefnda Stálsmiðjunnar stofnist.          Í málinu er ekki ágreiningur um ástæður þess að Perlan RE sökk í Reykjavíkurhöfn 2. nóvember 2015. Eins og ráða má af greinargerð Hjartar Emilssonar, skiptatæknifræðings hjá NAVIS ehf., og fleiri gögnum barst sjór inn um op framarlega á botni skipsins, um opinn blöndunarloka og inn í stokk sem lá eftir lestinni endilangri og þaðan inn í lestina, annars vegar um op sem skorið hafði verið í stokkinn og hins vegar um tvo opna renniloka aftarlega á stokknum. Úr lestinni barst sjór um tvö göt sem skorin höfðu verið í lestargólfið niður í botntank nr. 1 stjórnborðsmegin í skipinu. Þegar botntankurinn hafði náð að fyllast streymdi sjór því næst upp úr tankinum í gegnum mannop sem liggur upp í þurrrými í skipinu sem er kallað verkstæði/geymsla á teikningum. Þaðan mun sjór hafa borist inn í önnur þurrrými sem eru opin frá verkstæðinu.          Samkvæmt framansögðu voru þrjár samverkandi meginástæður fyrir því að sjór náði að berast inn í skipið með þeim afleiðingum að það sökk. Engin þeirra var út af fyrir sig nægileg til að svo illa færi, en hver þeirra var nauðsynleg forsenda óhappsins.          Í fyrsta lagi var blöndunarlokinn opinn þegar skipið var sjósett. Þessi blöndunarloki er 450 mm í þvermál og staðsettur fremst í stokknum sem liggur eftir endilangri lestinni. Að utanverðu sést ekki hvort lokinn er opinn eða lokaður öndvert við botn- og síðuloka skipsins. Eins og fram hefur komið er stjórnbúnaður lokans í brú skipsins. Tilgangur blöndunarlokans er að hleypa sjó inn í lestina þegar sandi er dælt úr henni. Þessi útbúnaður tengist því sérstöku hlutverki skipsins. Í skýrslu Ægis Þórs Sverrissonar skipstjóra fyrir dómi kom fram að hann hafi opnað lokann í samráði við Gunnar Richter, slippstjóra hjá stefnda Stálsmiðjunni, þegar komið var með skipið í slipp. Gunnar staðfesti fyrir dómi að hann hefði beðið Ægi Þór um að bíða með að opna blöndunarlokann þar til skipið væri „staðið í kjölinn“ bæði að framan og aftan. Síðan hafi hann gefið Ægi Þór til kynna að það væri í lagi að opna lokann. Í greinargerð sem og í skýrslum Páls Kristinssonar, verkefnisstjóra hjá stefnda Stálsmiðjunni, og Ægis Þórs skipstjóra fyrir dómi kemur fram að blöndunarlokinn sé ávallt hafður opinn meðan skipið er í slipp. Gunnar Richter staðfesti fyrir dómi að daginn eftir að skipið hafði verið tekið í slipp hafi þurft að færa það til. Hafi skipið þá verið sjósett í stutta stund, en ekki skipti þá máli hvort blöndunarlokinn var opinn eða lokaður. Hann kvaðst fyrir dómi hins vegar ekki hafa áttað sig á því að blöndunarlokinn var enn þá opinn þegar skipið var sjósett 2. nóvember 2015.          Í öðru lagi verður óhappið rakið til þess að tvö göt höfðu verið skorin í lestargólfið ofan við botntank nr. 1 stjórnborðsmegin þannig að sjór átti greiða leið niður úr lestinni í botntankinn. Við það jókst slagsíðan á skipinu og stöðugleika þess var raskað. Af skýrslu Ágústs Ágústssonar vélstjóra og Jóhanns Humarang, starfsmanns stefnda Stálsmiðjunnar, verður ráðið að þessi göt hafi verið gerð til þess að finna út hvar læki milli botntanka skipsins og komast að lekastöðum til að unnt væri að lagfæra þilið þar á milli. Fyrir liggur að Jóhann skar götin en ljóst er af skýrslu þeirra beggja að Ágúst tók þátt í vinnu við að komast fyrir lekann milli tankanna. Af skýrslum þeirra verður jafnframt ráðið að búið hafi verið komast fyrir leka á einum stað milli tankanna, en Ágúst kvað þá hafa átt eftir að finna fleiri lekastaði þegar skipið var sjósett. Ljóst er af skýrslum Jóhanns og Gunnars Richter, sem og því sem fram kom fyrir dómi í skýrslum Páls Kristinssonar verkefnastjóra og Hermanns Baldvinssonar, verkstjóra stefnda Stálsmiðjunnar, að þeir hafi, auk Ágústs, vitað af því að opið var niður í botntank úr lestinni þegar skipið var sjósett.          Í þriðja lagi var mannop opið sem liggur úr verkstæði ofan við botntank nr. 1 niður í tankinn. Þar með komst sjór úr honum inn í þurrrými skipsins, en það, ásamt stjórnborðshallanum, leiddi að lokum til þess að skipið sökk. Í skýrslu Ágústs fyrir dómi kemur fram að mannop þetta hafi verið opnað, en lokað aftur, og opnað að nýju miðvikudaginn 28. október 2015 vegna fyrirhugaðrar eftirlitsheimsóknar frá Samgöngustofu. Þá má ráða af skýrslu hans sem og þeim skýrslum sem Jóhann Garðar Jóhannsson, útgerðarstjóri Björgunar ehf., og Sverrir Steindórsson, verkstæðisstjóra fyrirtækisins, gáfu fyrir dómi að eftirlitsmaður frá Samgöngustofu hafi skoðað skipið fimmtudaginn 29. sama mánaðar. Hafi þá verið farið niður um mannop þetta og hafi eftirlitsmaðurinn m.a. viljað að þilið milli botntankanna yrði þykktarmælt. Samkvæmt skýrslum Ágústs og Sverris hafi sérfræðingur í þykktarmælingu ætlað að koma daginn eftir til að mæla þykkt þilsins, en hann hafi ekki látið sjá sig. Af þessari ástæðu virðist mannopið enn þá hafa staðið opið að morgni mánudagsins 2. nóvember 2015. Ekki verður annað ráðið af skýrslu Ágústs en að hann hafi vitað af þessu þegar sjósetningin fór fram. Þá bar Hermann Baldursson, verkstjóri stefnda Stálsmiðjunnar, fyrir dómi að hann hafi haft „hugmynd um“ að mannop þetta væri opið, en Ágúst og Jóhannes hefðu minnst á það. Gunnar Richter kvaðst hins vegar ekki hafa vitað af því að mannop væri opið frá botntanki upp í þurrrými þar fyrir ofan.          Í því ástandi sem lýst hefur verið er einsýnt að skipið Perla RE var ekki nægilega öruggt til að láta það fljóta, enda átti sjór greiða leið upp í þurrrými þess um opinn blöndunarloka og þau mannop sem rakin hafa verið. Stefnandi rökstyður kröfu sína á hendur stefnda Stálsmiðjunni einkum með því að við undirbúning og framkvæmd sjósetningar Perlu RE hafi starfsmenn stefnda gert röð mistaka sem leiddi til þess að skipið var sjósett í þessu ástandi. Hafi þeir m.a. ekki fylgt því verklagi sem stefndi hafði sett sér við niðurslökun skipa úr slippnum.          Mótmæli stefndu lúta einkum að því að starfsmenn stefnda Stálsmiðjunnar hafi ekki borið ábyrgð á því að blöndunarlokinn var opinn, en honum sé stjórnað úr brú skipsins. Þá hafi vinna við að þétta botntanka og þrýstiprófa þá ekki verið í höndum stefnda heldur hafi útgerðin, Björgun ehf., borið ábyrgð á þeim verkþáttum. Hafi fulltrúi útgerðarinnar borið að yfirfara þá fyrir sjósetninguna og geti stefndu ekki borið hallann af misbrestum við þá yfirferð. Þá byggja stefndu á því að starfsmenn stefnda Stálsmiðjunnar hafi fylgt viðeigandi verklagi við niðurslökunina og farið gaumgæfilega yfir þau verk sem félagið bar ábyrgð á.          Eins og rakið er í kafla II var sjósetning hluti af tilboðsverki því sem stefndi Stálsmiðjan tók að sér þegar Perla RE var tekin í slipp. Félagið seldi Björgun ehf. sérfræðiþjónustu á því sviði og verður að meta ábyrgð þess í því ljósi.          Félagið hafði sett sér skriflega verklýsingu um niðurslökun skipa úr slippnum. Liggur hún fyrir í málinu. Páll Kristinsson, verkefnastjóri hjá stefnda, sem og slippstjórinn, Gunnar Richter, og Hermann Baldursson verkstjóri, báru allir á þann veg að þessu verklagi sé ávallt fylgt við sjósetningu hjá stefnda Stálsmiðjunni. Páll gat þess jafnframt að eintak af þessu skjali eigi að liggja fyrir þegar farið sé yfir skipið og að þeir sem annist þá yfirferð setji upphafsstafi sína á skjalið að henni lokinni. Hann gat hins vegar ekki borið um hvort þessi háttur hefði verið hafður á við niðurslökun á Perlu RE í umrætt sinn, enda hefði hann farið í frí fimmtudaginn 29. október 2015. Ekki hefur verið lagt fram í málinu eintak af verklýsingunni sem ber með sér að hafi verið notað við sjósetningu Perlunnar RE 2. nóvember 2015.          Verklýsing þessi gerir ráð fyrir því að farið sé yfir öll verk „sem voru framkvæmd“. Þar eru einstakir liðir tilgreindir og bent á hvað þurfi að „athuga sérstaklega“. Enn fremur er gert ráð fyrir því að farið skuli yfir skipið með verkkaupa áður en niðurslökun hefst. Eru útgerðarstjóri og vélstjóri sérstaklega nefndir í þessu sambandi. Áður en byrjað er að slaka niður er við það miðað í verklýsingunni að slippstjóri hafi samband við áhöfn og dráttarbát um hvenær „allt er tilbúið til slökunar“. Síðan er landtenging aftengd og hafist handa við að slaka skipinu niður. Þegar sjávarhæð „nær c.a. sjólínu“ er dráttarbrautin stöðvuð „og botnlokar og síðulokar athugaðir hvort þeir séu þéttir“, eins og segir í verklýsingunni. Að því loknu er fengið „samþykki frá fulltrúa útgerðar fyrir endanlegri slökun skips úr dráttarbraut“.          Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi hugðist stefndi Stálsmiðjan sjósetja skipið fimmtudaginn 29. október 2015. Jóhann Garðar Jóhannsson, útgerðarstjóri Björgunar ehf., mótmælti því og var sjósetningu þá frestað. Hermann Baldvinsson tók við verkstjórn af Páli Kristinssyni frá þeim tíma. Aftur var fyrirhugað að sjósetja skipið föstudaginn 30. sama mánaðar. Fram kemur í skýrslum Hermanns og Jóhanns Garðars fyrir dómi að sá síðarnefndi hafi þá óskað eftir því að henni yrði aftur frestað þar sem útgerðin taldi vinnu við skipið ólokið. Hermann kvaðst fyrir dómi hafa samþykkt í samráði við annan verkefnisstjóra Stálsmiðjunnar, Hilmar Kristinsson, að fresta sjósetningu til mánudagsins að því tilskildu að útgerðin sæi til þess að skipið „yrði klárt af þeirra hálfu“ að morgni þess dags. Jóhann Garðar kannaðist fyrir dómi ekki við að Hermann hafi sagt þetta. Þvert á móti kvað hann sig hafa tjáð Hermanni að kæmi til þess að skipið yrði sjósett á mánudeginum þyrfti Stálsmiðjan „að klára skipið“ um helgina.          Hermann bar einnig fyrir dómi að hann hafi boðið þeim Jóhanni Garðari og Ágústi vélstjóra að fara yfir skipið með þeim þegar þeir hittust föstudaginn 30. október 2015. Hann kvað þá hafa afþakkað það, en að þeir hafi síðan farið sjálfir um borð til að ganga úr skugga um að allt væri í lagi. Í skýrslum Jóhanns Garðars og Ágústs var ekki vikið að þessu. Þvert á móti kvað Jóhann Garðar að hann hafi aldrei verið beðinn um að koma „í úttekt“ á skipinu. Gunnar Richter slippstjóri var einnig spurður að því fyrir dómi hvort hann vissi til þess að úttekt hefði farið fram á skipinu áður en það var sjósett. Svaraði hann spurningunni með því að vísa til þess að Hermann hafi boðið Jóhanni Garðari upp á úttekt en að hann hafi ekki þegið það. Kvaðst Gunnar hins vegar hafa farið „í kringum skipið á landi“ með Ágústi á mánudagsmorgninum án þess þó að þeir færu um borð.          Ganga verður út frá því að úttekt af hálfu stefnda Stálsmiðjunnar yfir unnin verk sem og yfirferð yfir skipið með verkkaupa, sem verklýsing stefnda mælir fyrir um, miði m.a. að því að meta, í samvinnu við verkkaupa, hvort óhætt sé að sjósetja skipið. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið úr skýrslum fyrir dómi er upplýst að skipið var ekki yfirfarið af hálfu stefnda með fulltrúum Björgunar ehf. áður en því var slakað niður mánudaginn 2. nóvember 2015, eins og kveðið er á um í fyrrgreindum verklagsreglum. Með vísan til þess sem fram hefur komið fyrir dómi verða fullyrðingar af hálfu starfsmanna og eigenda stefnda Stálsmiðjunnar, um að Jóhann Garðar hafi hafnað því að slík úttekt færi fram, að teljast ósannaðar.           Aðilar eru sammála um að stefndi Stálsmiðjan tók að sér að vinna aukaverk við skipið meðan það var í slipp. Í málinu hefur verið lagt fram yfirlit stefnda Stálsmiðjunnar yfir svonefnd reikningsverk í tengslum við vinnu við Perlu RE. Lýtur hún m.a. að vinnu við tanka í lest, en þar eru tilgreindir samtals 825 tímar. Páll Kristinsson, sem áður er getið, bar fyrir dómi að mestur hluti þessarar vinnu hafi lotið að því að skera göt og loka þeim aftur á ytra byrði skipsins í tengslum við hreinsun á sandi úr lest skipsins. Hluti þessara reikningsverka hafi þó verið vegna vinnu Jóhanns Humarangs við þrýstiprófun og lagfæringu á botntönkum. Áður hefur verið gerð grein fyrir því sem fram kom í skýrslum Ágústs Ágústssonar vélstjóra og Jóhanns Humarang fyrir dómi um þá vinnu. Af því verður ekki annað ráðið en að þeir hafi unnið sameiginlega að því að finna út úr því hvar læki milli botntanka og ráða fram úr því hvernig skyldi brugðist við. Jóhann virðist þó einn hafa unnið nauðsynlega smíðavinnu í tengslum við þennan verkþátt, en ekkert liggur fyrir um að Ágúst hafi haft réttindi til slíkrar vinnu.          Í þessu ljósi verður að ganga út frá því að meðal þeirra aukaverka sem stefndi Stálsmiðjan tók að sér hafi verið smíðavinna og önnur aðstoð til að komast fyrir leka milli botntanka. Hlaut úttekt og yfirferð yfir þau verk sem unnin höfðu verið áður en sjósetning færi fram m.a. að ná til stöðu þessa verks og aðstæðna þar, þó að verkið hafi að einhverju leyti verið unnin í samvinnu við útgerðina. Getur stefndi Stálsmiðjan, sem eins og áður segir hafði tekið að sér að sjósetja skipið úr slippnum, ekki borið fyrir sig að það hafi ekki verið í verkahring félagsins að taka þennan verkþátt út með tilliti til öryggis við sjósetninguna. Þá verður að ætla að við yfirferð um skipið með verkkaupa hefði verið skoðað hvort óhætt væri að hafa mannop opið niður í botntank nr. 1 við sjósetningu skipsins í ljósi þess að göt voru úr lestinni niður í tankinn. Eins og áður segir fór sú yfirferð hins vegar aldrei fram þvert á verklýsingu stefnda Stálsmiðjunnar um niðurslökun.          Hvað sem þessu líður þá er ljóst að frumástæða tjónsins var að blöndunarlokinn var opinn þegar skipið var sjósett. Aðstæður í lest og botntönkum hefðu ekki skapað þá hættu sem til staðar var við sjósetninguna 2. nóvember 2015 ef blöndunarlokinn hefði verið lokaður. Eins og rakið hefur verið vissu verkefnastjóri og slippstjóri hjá stefnda Stálsmiðjunni af því að blöndunarlokinn hafði verið opnaður þegar skipið var tekið í slipp. Þá var staðfest í skýrslu Páls Kristinssonar fyrir dómi að þessi loki væri alltaf hafður opinn meðan skipið væri í slipp. Ekkert er fram komið í málinu um að fulltrúi útgerðarinnar á staðnum hafi í orði eða verki gefið starfsmönnum stefnda Stálsmiðjunnar til kynna að blöndunarlokinn hefði verið lokaður. Að mati dómsins voru það því saknæm mistök af hálfu starfsmanna stefnda Stálsmiðjunnar, sem stjórnuðu sjósetningu skipsins, að huga ekki að stöðu blöndunarlokans áður en niðurslökun hófst, eða gefa sér að honum hefði verið lokað.          Í ljósi þess hvernig skipið var útbúið, og með vísan til þess að blöndunarlokinn hafði staðið opinn í slippnum og starfsmenn stefnda Stálsmiðjunnar vissu eða máttu vita um götin í lestargólfinu niður í botntank nr. 1, er það einnig mat dómsins að rétt hefði verið að stöðva niðurslökun, og gefa þeim sem voru um borð í skipinu færi á því að athuga hvort sjór læki inn í lestina áður en skipið var losað af sleðanum og það látið fljóta. Eins og rakið hefur verið er blöndunarlokinn inni í stokk sem liggur af framanverðum botni skipsins og undir endilöngu lestargólfinu. Inntakið í stokkinn er framar á skipinu en botn- og síðulokar í vélarrými. Þá þarf skipið að ná sjávarhæð sem nær upp fyrir botn lestarinnar til að í ljós komi hvort sjór leki þangað inn. Af þeim sökum verður að ganga út frá því skipið hafi ekki verið komið nógu djúpt við inntakið inn í stokkinn þegar slippstjóri stöðvaði niðurslökun til að athuga botn- og síðuloka og fleira. Því urðu þeir sem voru um borð ekki varir við leka þegar litið var inn í lestina í umrætt sinn, heldur varð að slaka skipinu lengra út til að ganga úr skugga um hvort þar læki. Það var ekki gert. Við niðurslökunina var því ekki hugað nægilega að lekahættu í lestina. Verður að virða það starfsmönnum stefnda Stálsmiðjunnar, sem önnuðust sjósetningu skipsins og stjórnuð framkvæmd hennar, til sakar að hafa ekki gert það.          Samkvæmt framansögðu er upplýst að starfsmenn stefnda Stálsmiðjunnar hafi sýnt af sér saknæmt aðgæsluleysi við undirbúning og framkvæmd niðurslökunar á Perlu RE 2. nóvember 2015. Af þeim sökum var skipið sjósett í ástandi sem skapaði mikla hættu á því að það yrði fyrir tjóni þegar það varð laust úr sleðanum við slippinn. Skilyrðum um orsakatengsl og sennilega afleiðingu er við þessar aðstæður fullnægt að mati dómsins. Í þessu ljósi og að teknu tilliti til almennra reglna skaðabótaréttar verður því að fallast á með stefnanda að stefndi Stálsmiðjan beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hlaust af því að skipið sökk í Reykjavíkurhöfn.          Kemur þá skoðunar hvort viðbrögð starfsmanna stefnda Stálsmiðjunar eftir að skipið var sjósett auki þá ábyrgð sem stefndu bera á tjóninu. Í því sambandi verður að hafa í huga að viðgerð á skipinu á vegum stefnda Stálsmiðjunnar var ólokið, eins og rakið hefur verið, en ganga verður út frá því henni hafi átt að ljúka með skipið bundið við Ægisgarð. Í þessu efni verður þó einnig að líta til fyrirmæla siglingalaga nr. 34/1985 um stjórn skipa. Samkvæmt 6. gr. laganna er það skipstjóri sem annast um að skip sé haffært og það sé vel útbúið og nægilega mannað. Þá á hann að sjá til þess að skipi sé stjórnað og með það farið í samræmi við góðar venjur og kunnáttu í siglingum og sjómennsku, sbr. 7. gr. laganna. Sé skip ekki fest í höfn eða við akkeri í tryggu lægi má skipstjóri ekki vera frá skipi „nema að nauðsynjaerindum“, eins og segir í 2. mgr. 12. gr. siglingalaga. Fari skipstjóri frá skipi skal hann áður gefa „hinum æðsta stýrimanni sem kostur er á eða að öðrum kosti, ef ekki næst til stýrimanns, öðrum skipverja eða skipverjum nauðsynleg fyrirmæli eða leiðbeiningar um það sem þörf er á“, sbr. 1. mgr. sömu greinar.          Með gagnályktun af fyrrgreindri 2. mgr. 12. gr. siglingalaga verður að komast að þeirri niðurstöðu að við flutning á skipi innan hafnarsvæðis eigi skipstjóri eða skipverji, sem fengið hefur nauðsynleg fyrirmæli eða leiðbeiningar skipstjóra, að vera um borð. Ekki eru fyrirmæli í lögum sem létta þessari kvöð af skipstjóra sem og útgerð og eiganda skips þó að ætlunin sé að draga skipið stutta vegalengd innan hafnarsvæðisins. Vélstjóri, sem var lögskráður á skipið, var um borð þegar Perla RE var sjósett. Í þessu ljósi verður að ganga út frá því að við sjósetninguna hafi ábyrgð á skipinu færst í hendur útgerðar og skipstjóra þó að vinnu stefnda Stálsmiðjunnar við það hafi ekki enn þá verið lokið.          Í málinu er ágreiningur um hvað hafi farið á milli Gunnars Richters slippstjóra og Ágústs Ágústssonar vélstjóra eftir að skipið byrjaði að halla. Við það kveðst Ágúst hafa óskað eftir því að skipið færi aftur í sleðann, en að Gunnar hafi neitað því þar sem skipið hallaði of mikið. Fyrir dómi þvertók Gunnar fyrir að slíkri ósk hafi verið komið á framfæri af hálfu Ágústs. Þá kveðst Ágúst hafa farið fram á leyfi Gunnars til þess að skipinu yrði lagt við bryggjuna þar sem Gunnar stóð. Gunnar neitaði því einnig fyrir dómi að beiðni þess efnis hafi komið fram. Lýsti hann því yfir að ekkert hefði verið því til fyrirstöðu að skipið hefði verið fest við þá bryggju en dýpi þar er minna en við Ægisgarð.          Oddur Jósep Halldórsson, skipstjóri á dráttarbátnum Magna, og Erling Þór Pálsson hafnsögumaður gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Að þeirra sögn var kominn of mikil slagsíða á Perlu RE, þegar dráttarbáturinn kom upp að hlið skipsins, til þess að Erlingur Þór kæmist um borð. Var á Erlingi að skilja að hann hafi frá þeim tíma þó verið í aðstöðu til að heyra samskipti Gunnars og Ágústs. Kvaðst hann hvorki hafa heyrt Ágúst fara fram á að skipið yrði dregið á land né að það fengi að leggjast upp að setningsbryggjunni. Í skýrslum Odds Jóseps og Erlings Þórs fyrir dómi kom einnig fram að ekki sé óvenjulegt að skip halli þegar þau eru sjósett. Gunnar Richter slippstjóri bar á sama veg um þetta atriði en kvað Perlu RE hafa hallað óvenjumikið. Því hafi hann kallað til Ágústs og spurt hann hvort allt væri lagi og hafi hann svarað því játandi, það þyrfti bara að „dæla á milli tanka“. Erlingur Þór kvaðst fyrir dómi einnig hafa spurt Ágúst hvort eitthvað væri að þegar dráttarbáturinn var kominn upp að Perlu RE. Kvað hann Ágúst hafa ítrekað fullyrt að svo væri ekki.          Staðhæfingar stefnanda um að Gunnar Richter hafi neitað að gripið yrði til framangreindra ráðstafana, til koma í veg fyrir eða draga úr hættu á því að skipið yrði fyrir tjóni, fá samkvæmt framansögðu ekki stoð í öðru en skýrslu Ágústs fyrir dómi. Í ljósi staðfastrar neitunar Gunnars um þetta atriði, og að teknu tilliti til framburðar Erlings Þórs, þykir stefnandi ekki hafa fært sönnur á framangreindar staðhæfingar sínar. Liggur þannig ekki fyrir að Ágúst hafi óskað eftir því að vikið yrði frá upphaflegri áætlun um að fara með skipið að Ægisgarði. Í þessu ljósi verður ekki talið upplýst að Gunnar Richter eða aðrir starfsmenn stefnda Stálsmiðjunnar hafi sýnt af sér sök, er auki auki ábyrgð stefndu í málinu, eftir að skipið var komið á flot og fór að halla.          Stefndi krefst lækkunar á bótakröfu stefnanda m.a. á þeim grunni að tjónþoli, Björgun ehf., hafi sýnt af sér eigin sök. Félagið var eigandi skipsins og fulltrúi þess, Ágúst Ágústsson vélstjóri, fylgdist með viðgerðum og tók þátt í vinnu við að komast fyrir leka milli botntanka þess. Þá verður í ljósi þess sem rakið hefur verið að ganga út frá því að hann hafi tekið við skipinu af hálfu eiganda við sjósetningu þess. Ágúst hóf störf sem vélstjóri hjá Björgun ehf. í febrúar 2015 og hafði því aðeins unnið í skamman tíma hjá félaginu þegar atvik urðu. Fyrir liggur að hann kunni ekki á stjórnbúnað blöndunarlokans, enda er honum stjórnað af skipstjóra eða stýrimanni úr brú. Þá má af skýrslu hans fyrir dómi og framlagðri lögregluskýrslu ráða að hann hafi verið í óvissu um það hvort blöndunarlokinn væri opinn eða lokaður.          Eins og rakið hefur verið opnaði skipstjóri Perlu RE, Ægir Þór Sverrisson, blöndunarlokann þegar skipið var tekið í slipp. Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi varð honum ekki lokað nema með því að ræsa rafstöð fyrir glussakerfi og þrýsta á hnapp í brú skipsins. Það stóð því raunar skipstjórnarmönnum nær en starfsmönnum stefnda Stálsmiðjunnar að loka fyrir blöndunarlokann fyrir sjósetningu. Skipstjórinn var lögskráður á skipið 28. október 2015, daginn áður en fyrst stóð til að sjósetja skipið, og allt til 3. nóvember 2015. Gefur það vísbendingu um að það hafi staðið til að hann væri um borð við sjósetningu skipsins. Jóhann Garðar Jóhannsson, útgerðarstjóri Björgunar ehf., ákvað hins vegar að skipstjórinn yrði fjarstaddur. Áleit hann ekki þörf á því að hann væri um borð þar sem ekki var fyrirhugað að skipið sigldi fyrir eigin vélarafli auk þess sem ætlunin var að ljúka vinnu við skipið við Ægisgarð skammt frá slippnum.          Þegar hefur verið gerð grein fyrir efni 6. og 7. gr. siglingalaga er lýtur að hlutverki og ábyrgð skipstjóra á skipi. Þá ber að árétta að skipstjóra Perlu RE bar samkvæmt 12. gr. sömu laga, sem rakin hefur verið, að vera við stjórn skipsins eftir að skipið varð laust úr sleðanum við slippinn nema að nauðsyn krefði að hann væri annars staðar, enda skipið ekki fest í höfn eða við akkeri. Hafi ekki verið kostur á því bar honum að tryggja  að skipverjinn, sem þar var um borð, fengi þau fyrirmæli og leiðbeiningar sem honum voru nauðsynlegar.          Dómurinn telur að alvarlegur misbrestur hafi orðið á þessu við sjósetningu Perlu RE. Þannig verður ekki séð að tryggt hafi verið að Ágúst vélstjóri væri upplýstur um nauðsyn þess að loka blöndunarlokanum áður en skipið var sjósett og hvernig það skyldi gert. Sérstaklega var mikilvægt að huga að þessu í ljósi þess að viðgerð á botntönkum var ólokið og enn þá opið niður úr lestinni í botntank nr. 1 stjórnborðsmegin. Með þessu sýndu starfsmenn tjónþola af sér vanrækslu sem átti þátt í því að tjónið varð. Þá er það niðurstaða dómsins að ófullnægjandi mönnun skipsins við sjósetningu þess hafi átt þátt í því að viðbrögð skipverja urðu fálmkennd eftir að skipið fór að halla. Með skipstjóra um borð hefði mögulega mátt draga úr því tjóni sem varð. Í þessu ljósi verður einnig að fella sök á tjónþola í máli þessu.          Réttur stefnanda til endurgreiðslu vátryggingarbóta helgast af upphaflegum rétti tjónþola til bóta. Endurgreiðslukrafan er reist á almennum reglum skaðabótaréttar. Verður að virða saknæma vanrækslu tjónþola á þann veg að endurgreiðsluréttur stefnanda skerðist í hlutfalli við meðábyrgð tjónþola. Vanræksla af hálfu stefnda Stálsmiðjunar og tjónþola varð til þess að skipið sökk. Dómurinn telur hins vegar ekki efni til þess að álykta að annar beri meiri sök en hinn á tjóninu. Í ljósi alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að skipta sök þannig að stefndi Stálsmiðjan beri helming tjónsins en að það hvíli að öðru leyti á stefnanda.          Eins og rakið hefur verið eru gerðar athugasemdir af hálfu stefnda við einstaka liði í fjárkröfu stefnanda. Lúta mótmæli stefnda m.a. að kröfu sem á rætur að rekja til reiknings tjónþola, Björgunar ehf., vegna vinnu starfsmanna og stjórnarmanna félagsins í tengslum við björgun á skipinu af botni hafnarinnar. Reikningurinn er að fjárhæð 6.209.200 krónur auk virðisaukaskatts. Hann byggist annars vegar á vinnu „v/Perlu við Ægisgarð, Jóhann G.“, að fjárhæð 2.117.200 krónur, og hins vegar á vinnu „v/Perlu við Ægisgarð, aðrir starfsmenn“, að fjárhæð 4.092.000 krónur. Undir rekstri málsins lagði stefnandi fram nánari sundurliðun á því hvaða starfsmenn og stjórnarmenn ættu í hlut auk þess sem þar er gerð grein fyrir vinnutíma þeirra hvern sólarhring við málið á tímabilinu 2. til 17. nóvember 2015. Einingaverð eru breytilegt eftir því hver á í hlut, allt frá 15.800 krónum niður í 6.500 krónur. Af þessum gögnum verður ekki ráðið á hvaða grunni þessi krafa er fram sett. Þannig er óljóst hvort ætlað tjón, sem reikningurinn á að endurspegla, helgist af greiddum launum og launatengdum gjöldum vegna þeirrar vinnu sem um ræðir, eða hvort um sé að ræða útselda vinnu. Krafa stefnanda er að þessu leyti vanreifuð og kemur því ekki til álita að fallast á hana.          Stefndu mótmæla einnig kröfu sem byggist á reikningi frá lögmannsstofunni LEX að fjárhæð 874.820 krónur auk virðisaukaskatts. Reikningur þessi er beint að tjónþola, Björgun ehf. Til stuðnings þessari kröfu hefur stefnandi lagt fram yfirlit yfir vinnu tveggja lögmanna í samtals 38,75 klukkustundir. Yfirlit þetta gefur til kynna að umrædd vinna hafi lotið að hagsmunagæslu fyrir tjónþola í tengslum við tjónið sem varð á Perlu RE og aðstoð vegna samskipta við vátryggingafélag tjónþola. Fyrir liggur að stefnandi hefur greitt reikninginn og ber að fallast á það með honum að sá kostnaður sem hann lýtur að sé afleitt tjón sem hlaust af því að skipið sökk. Verður krafan því tekin til greina að þessu leyti.          Stefndu mótmæla einnig kröfu sem byggist á reikningi Samgöngustofu vegna vinnu við að afla teikninga. Reikningur þessi var gerður á hendur Björgun ehf. og er að fjárhæð 9.350 krónur. Með reikningnum fylgdi vinnuskýrsla þar sem fram kemur að vinnan, sem liggur honum til grundvallar, átti sér stað 9. nóvember 2015. Þar er vinnunni lýst á þann veg að teikningar hafi verið fundnar og „sendar Daníel Ráðgarði og Frímann Navis ehf.“. Eins og málið liggur fyrir má ganga út frá því að um sé að ræða teikningar af skipinu Perlu RE sem hafi þurft að afla í tengslum við stöðugleikaútreikning og endurskoðun aðgerðaráætlunar til að ná skipinu af hafsbotni. Fyrir liggur að stefnandi hefur greitt reikninginn og ber að fallast á með honum að sá kostnaður sem hann lýtur að sé afleitt tjón sem hlaust af því að skipið sökk. Verður krafa þessi því tekin til greina.          Stefndi mótmælir því einnig að hann eigi að bera ábyrgð á greiðslu úr hagsmunatryggingu tjónþola hjá stefnanda að fjárhæð 16.500.000 krónur. Mótmælin eru á því reist að ekki liggi fyrir að skilyrði greiðslu samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar um altjón hafi verið fullnægt.          Samkvæmt skilmálum tryggingar þessarar greiðir vátryggingafélagið bætur þegar „algert tjón verður á skipinu, sbr. 20. gr. húftryggingarskírteinisins“. Í 20. gr. skilmála húftryggingarinnar kemur fram að algert tjón verði m.a. þegar skipið verður fyrir svo miklum skemmdum að kostnaður við að bjarga því og gera við það nemi hærri fjárhæð en vátryggingarverði. Fyrir liggur að vátryggingarverð Perlu RE nam 135 milljónum króna.          Stefnandi leitaði til verkfræði- og ráðgjafafyrirtækisins Navis ehf. m.a. til að meta kostnað við að gera við Perlu RE. Samkvæmt framlagðri skoðunarskýrslu fyrirtækisins, dags. 30. nóvember 2015, var það mat unnið af Hirti Emilssyni skipatæknifræðingi og Karli Lúðvíkssyni skipaverkfræðingi. Þeir áætluðu að þessi kostnaður næmi samtals 202.400.000 krónum. Áætlunin var gerð 6. nóvember 2015, en þá hafði skipinu ekki verð náð upp af botni hafnarinnar. Áætlunin er sundurliðuð þannig að hreinsun á innréttingum á tækjum sem og raflögnum úr ýmsum vistarverum skipsins kæmi til með að verða 10 milljónir króna. Þá var áætlað að viðgerð og hreinsun á aðalvél og gír, á fjórum hjálparvélum, á skrúfu- og stýrisbúnaði sem og yfirferð á drifbúnaði þverskrúfu, yfirferð og hreinsun á dælum og skilvindum o.fl. myndi kosta 45 milljónir króna. Talið var að kostnaður við nýjar innréttingar í stýrishús, íbúðum í reisn og undir afturþilfari næmi 41 milljón króna. Nýjar raflagnir, lýsing og tæki í íbúðum, stýrishúsi og vélarúmi var áætlað að myndi kosta 35 milljónir króna. Jafnframt var talið að endurnýja þyrfti fjarskipta- og rafeindatæki sem og annan tækjabúnað fyrir 20 milljónir króna. Kostnaður við ýmsar lagfæringar og viðgerðir ofan þilfars var áætlaður 7 milljónir króna. Þá myndi slipptaka og málun kosta 8 milljónir króna og teikningar og eftirlit 10 milljónir króna. Ófyrirséður kostnaður var áætlaður 15% eða 26.400.000 krónur.          Stefndu var með bréfi stefnanda 10. desember 2015 gerð grein fyrir því að framangreind kostnaðaráætlun lægi fyrir sem og önnur áætlun frá Ráðgarði skiparáðgjöf ehf. þar sem viðgerðarkostnaður var talinn nema 241 milljón króna. Var stefndu gerð grein fyrir því að Björgun ehf. hefði lýst yfir altjóni á skipinu. Þá var þar vísað til þess að tjónamatsmaður frá Tryggingamiðstöðinni hefði þegar skoðað ástand skipsins eftir að það náðist upp af botni hafnarinnar. Með bréfinu var félaginu gefið færi á því að skoða skipið frekar ef það teldi að ekki væri um altjón að ræða. Ekki liggur fyrir hvort slík skoðun hafi farið fram af hálfu stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar.          Stefndu áttu þess kost samkvæmt framansögðu að leggja sjálfir mat á viðgerðarkostnað skipsins eða afla mats sérfræðinga, eftir atvikum með dómkvaðningu matsmanna, til að hnekkja þeim áætlunum um viðgerðarkostnað sem stefnandi aflaði í öndverðu. Það gerðu stefndu ekki og er ósannað að viðgerðarkostnaður skipsins nemi lægri fjárhæð en 135 milljónum króna. Telur dómurinn að stefndu verði að bera hallann af því. Ekki er því efni til annars en að greiðsla úr hagsmunatryggingunni komi ásamt öðrum tryggingabótum til endurgreiðslu í samræmi við ábyrgð stefndu á tjóninu sem varð þegar Perla RE sökk í Reykjavíkurhöfn.          Samkvæmt framansögðu er á það fallist að stefndu greiði stefnanda óskipt helming þess sem stefnandi hefur greitt úr húftryggingu Perlu RE, eða 65.085.000 krónur. Enn fremur verður stefndu gert að greiða stefnanda helminginn af 77.726.869 krónum (83.939.069 - 6.209.200), eða 38.863.435 krónur, sem stefnandi hefur greitt úr P&I ábyrgðartryggingu Perlu RE. Þá er á það fallist að stefndu greiði stefnanda helminginn af því sem stefnandi hefur greitt úr hagsmunatryggingu sama skips, eða 8.250.000 krónur, sem og helming þess sem greitt hefur verið úr áhafnatryggingu skipsins, eða 312.960 krónur. Samtals verður stefndu því gert að greiða stefnanda óskipt 112.511.395 krónur.          Stefnandi krefst dráttarvaxta á grundvelli 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi er mánuður var liðinn frá málshöfðuninni. Dráttarvaxtakröfunni er ekki mótmælt og verður á hana fallist eins og í dómsorði greinir.          Í ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að hver aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir dómi.          Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 vegna embættisanna dómsformanns. Dómendur og aðilar töldu ekki efni til þess að málið yrði flutt að nýju.          Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Bárði Hafsteinssyni skipaverkfræðingi og Jóni I. Pálssyni skipatæknifræðingi. D Ó M S O R Ð:          Stefndu, Stálsmiðjan-Framtak ehf. og Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefnanda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., óskipt 112.511.395 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. desember 2016 til greiðsludags.          Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Mál nr. 471/2017
Verksamningur Aðild
SS ehf. krafði B ehf. um greiðslu verklauna vegna vinnu S við uppsetningu og starfrækslu vindmyllna í eigu B ehf. Deildu aðilar annars vegar um hvort SS ehf. væri réttur aðili að málinu og hins vegar hvort S hefði samþykkt að taka við greiðslu fyrir vinnuna með viðtöku hlutabréfa í B ehf. Í málinu lá fyrir framsal S á kröfunni til SS ehf. og var því talið að SS ehf. væri réttur aðili að málinu. Var talið að af gögnum málsins yrði ráðið að upphaflega hefði staðið til að S fengi greitt fyrir vinnuna með afhendingu hlutabréfa í B ehf. Hins vegar bæru gögnin skýrlega með sér að samningur um greiðslu með þeim hætti hefði ekki tekist. Þá hefði B ehf. aldrei boðið fram greiðslu til samræmis við tillögur þess efnis sem lágu fyrir í málinu og B ehf. vísaði til. Hefði B ehf. því ekki fært nægar sönnur á að S hefði fallið frá kröfu um greiðslu verklauna í peningum með samningi við B ehf. eða eiganda félagsins. Var B ehf. því gert að greiða SS ehf. umkrafða fjárhæð.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Ása Ólafsdóttir dósent. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júlí 2017. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Stefndi hefur engin haldbær rök fært fyrir framangreindri aðalkröfu sinni sem verður þannig hafnað. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Biokraft ehf., greiði stefnda, SS-Raf ehf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.                                                                               Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2017. Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 22. september 2015 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 17. mars sl. Stefnandi er SS Raf ehf., Drekavöllum 33, Hafnarfirði. Stefndi er Biokraft ehf., Borg, Hellu.                 Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 22.177.611 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 89.429 krónum frá 10. júní 2016 til 1. júlí 2016, en frá þeim degi af stefnufjárhæð til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.                 Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.                 Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp. Yfirlit málsatvika og helstu ágreiningsefni Krafa stefnanda í máli þessu er samkvæmt tveimur reikningum, öðrum útgefnum 7. júní 2016 að fjárhæð 89.429 krónur, en hinum útgefnum 14. sama mánaðar að fjárhæð 22.088.182 krónur, báðir vegna vinnu Snorra Sturlusonar. Í báðum tilvikum er um að ræða vinnu við uppsetningu og starfrækslu vindmylla sem stefndi rekur við Þykkvabæ. Reikningurinn 7. júní 2016 byggist á vinnu Snorra við viðgerð í byrjun júní 2016, en síðari reikningurinn byggist á vinnu frá júní 2012 til febrúar 2016 þegar Snorri hætti reglulegum störfum fyrir stefnda. Meginágreiningur aðila snýst annars vegar um hvort stefnandi sé réttur aðili málsins til sóknar en hins vegar hvort téður Snorri hafi samþykkt gagnvart Steingrími Bjarna Erlingssyni, eiganda stefnda, að taka við greiðslu fyrir vinnu sína með viðtöku hlutabréfa í stefnda. Steingrímur Bjarni Erlingsson stofnaði stefnda árið 2012 með 500.000 króna hlutafjárframlagi, en einnig veitti hann félaginu 37 milljón króna lán. Við stofnun var Steingrímur Bjarni kosinn aðalmaður í stjórn og varamaður áðurnefndur Snorri Sturluson. Var tilgangur félagsins að festa kaup á vindmyllum erlendis og setja þær upp á Íslandi. Voru myllurnar síðar keyptar í Þýskalandi, yfirfarnar í Danmörku, og settar upp við Þykkvabæ á Suðurlandi. Árið 2012 var tap á rekstri stefnda. Eigið fé stefnda var neikvætt um 863.458 krónur. Tap var einnig á rekstri stefnda árið 2013, og neikvæð staða eigin fjár jókst í 4.212.846 krónur. Stefndi hafði þá, auk fjárfestingar í vindmyllunum þremur, lagt grunn að vindmyllugarðinum í Þykkvabæ og varið 107,3 milljónum króna í uppbyggingu rekstrarins. Tap var á starfsemi stefnda árið 2014. Stefndi hafði hins vegar þá hafið sölu á raforku. Á hluthafafundi 15. júlí 2015 var ákveðið að auka hlutafé stefnda um 95.959.486 krónur með því að breyta stærstum hluta hluthafaláns Steingríms, sem þá nam 105.959.486 krónum, í hlutafé. Snorri Sturluson, sem er eigandi stefnanda og rafvirki að mennt, hóf að vinna við uppbyggingu á vindmyllum fyrir stefnda þegar samhliða stofnun hans. Með hliðsjón af úrlausn málsins er ekki ástæða til að gera sérstaka grein fyrir störfum Snorra fyrir stefnda en þau voru margvísleg. Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu lagði Steingrímur Erlingsson, eigandi stefnda, til við Snorra fljótlega eftir að hann tók að sér störf fyrir félagið að hann fengi greitt með hlutum. Af hálfu stefnda er á því byggt að viðræðum Snorra og Steingríms hafi lyktað með samkomulagi um að sá fyrrnefndi fengi greitt með afhendingu 10% af heildarhlutafé stefnda og er í því sambandi einkum vísað til óundirritaðrar viljayfirlýsingar 11. mars 2016 og tölvuskeytis 14. apríl 2016, en í báðum skjölum koma fram tillögur um afhendingu 10% hlutar til Snorra. Af hálfu stefnanda er því hins vegar mótmælt að komist hafi á endanlegur samningur um uppgjör við Snorra vegna verklauna. Umræddur Snorri hætti reglulegum störfum fyrir stefnda í febrúar 2016. Er óumdeilt að ástæða þess var trúnaðarbrestur milli hans og téðs Steingríms og hafa aðilar týnt ýmislegt til í því sambandi. Af hálfu stefnda er vísað til þess að umræddir tveir menn hafi átt saman einkahlutafélagið SCO sem stofnað var 1. september 2010 og sérstaklega nefnt að arður félagsins fyrir árið 2014 hafi verið greiddur Snorra einum auk þess sem hann hafi ranglega gjaldfært ýmsan kostnað á félagið. Þá hafi hann verið í fullu starfi fyrir SCO ehf. á sama tíma og hann hafi starfað fyrir stefnda. Af hálfu stefnanda er hins vegar vísað til þess að fyrrgreindur Steingrímur hafi ekki greitt skuldir við Snorra vegna ýmissa verka sem hann vann fyrir hann og félög á hans vegum. Með hliðsjón af úrlausn málsins er ekki ástæða til að rekja frekar samskipti umræddra tveggja manna vegna téðs einkahlutafélags eða nánari tildrög þess að umræddir tveir menn slitu samstarfi.                 Samkvæmt stefnu tók stefnandi yfir kröfur Snorra Sturlusonar og liggur fyrir í málinu skrifleg staðfesting þess efnis dagsett 5. janúar 2017.                 Við aðalmeðferð málsins gaf Snorri Sturluson aðilaskýrslu sem fyrirsvarsmaður stefnanda. Þá gáfu skýrslu sem vitni Alda Þorsteinsdóttir, Davíð B. Scheving og Elísabet Björney Lárusdóttir sem öll störfuðu fyrir stefnda með einum eða öðrum hætti sem verktakar. Helstu málsástæður og lagarök aðila Stefnandi byggir kröfur sínar á tveimur áðurlýstum reikningum. Vegna síðari reikningsins er sérstaklega vísað til þess að fyrirsvarsmaður stefnda hafi staðfest að greitt yrði fyrir vinnuna. Einnig er vísað til þess að reikningunum hafi ekki verið mótmælt. Þá byggir stefnandi á því að hann hafi fengið kröfu sína framselda frá Snorra Sturlusyni en auk þess hafi stefndi ekki hagsmuni af því hvort krafa téðs Snorra sé sett fram af honum sjálfum eða einkahlutafélagi í hans eigu. Hvað sem öðru líði beri stefnda að greiða fyrir vinnuframlag fyrirsvarsmanns stefnanda samkvæmt meginreglum kröfu-, samninga- og verktakaréttar. Dráttarvaxta sé krafist frá gjalddaga reikninganna. Stefndi mótmælir því að áðurnefndur Snorri hafi átt að fá greitt fyrir vinnu sína samkvæmt gjaldskráverði útseldrar vinnu. Það hafi aldrei verið samþykkt af hálfu stefnda. Eina sem hafi legið ljóst fyrir hafi verið að Snorri Sturluson gæti eignast hlut í stefnda vegna vinnu í hans þágu. Ekki hafi verið gengið frá því hve stór hlutur Snorra yrði og á hvaða gengi hann mundi eignast hlutinn. Það sem liggi fyrir sé að Snorri Sturluson hafi aldrei verið til umræðu um að eignast hlutafé í stefnda meðan verið var að leggja grunn að rekstri hans og óvissa um framtíð stefnda meiri en nú kunni að vera. Hugmyndin hafi ávallt verið sú að Snorri yrði persónulega hluthafi í stefnda, enda varði það hluthafa í tveggja manna einkahlutafélagi miklu vegna forkaupsréttar að hlutir séu skráðir á nafn einstaklinga en ekki félag með takmarkaða ábyrgð. Þá er á það bent að stefnandi hafi aldrei átt nein viðskipti við stefnda. Stefndi bendir á að annar reikningur stefnanda taki til vinnu við vindmyllur stefnda á árunum 2012 til 2016, en á þeim tíma hafi Snorri Sturluson ekkert átt í stefnanda. Einnig er vísað til þess að téður Snorri hafi verið í fullu starfi fyrir SCO ehf. á sama tíma og hann kveðist hafa unnið fyrir stefnda. Stefndi vísar til þess að sú hugmynd að Snorri Sturluson gæti átt hlut sinn í stefnda í félagi hafi fyrst verið viðruð á árinu 2016 þegar aðilar voru að reyna að ná sátt um frágang mála í SCO ehf. Hafi meðal annars verið reynt að halda hluthafafund í félaginu á fyrri hluta árs 2016. Í viðræðum við Snorra Sturluson hafi hins vegar komið á daginn að hann virtist ekki gera sér grein fyrir því að allt hlutafé, sem hann eignaðist í stefnda, myndi leiða til skattskyldu með einum eða öðrum hætti, nema hann greiddi fyrir það með reiðufé. Þannig myndi bein afhending Steingríms Bjarna á hluta hlutafjár hans í stefnda leiða til tekjuskattsskyldu hjá Snorra. Af þessum sökum hafi í viðræðum við Snorra Sturluson verið velt upp þeim spurningum hvort best kynni að vera að stefndi fengi reikning með virðisaukaskatti frá SCO ehf. eftir að Snorri hefði eignast alla hluti í félaginu. SCO ehf. myndi jafnframt við uppgjörið greiða skuld sína við Steingrím Bjarna. Aldrei hafi náðst að klára þá umræðu hvert nafnverð hluta Snorra í stefnda ætti að vera. Ekki hafi heldur tekist að ljúka hluthafaágreiningi í SCO ehf. sem síðar hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta vegna atvika sem Snorri Sturluson beri ábyrgð á. Af hálfu stefnda er lögð á það áhersla að um hafi verið að ræða persónulegan samning milli Steingríms Bjarna Erlingssonar og Snorra Sturlusonar. Með vísan til framangreinds telur stefndi ljóst að hann skuldi stefnanda ekki fyrir vinnu við vindmyllur hans á árunum 2012 til 2016. Beri því að sýkna stefnda af kröfu samkvæmt reikningum þessum vegna aðildarskorts sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Teljist Snorri Sturluson sig hafa getað framselt til þriðja manns kröfu sína og réttindi til óljósrar hlutaeignar í stefnda, er á því byggt, að stefnandi verði að sæta öllum sömu mótbárum og Snorri. Eina krafan og réttindi sem stefnandi kunni að eiga á hendur stefnda sé krafa um afhendingu óviss fjölda hluta í stefnda. Beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda einnig af þessari ástæðu. Að því er varðar reikning vegna vinnu í júníbyrjun 2016 er einnig á því byggt að stefndi hafi aldrei óskað eftir þjónustu stefnanda við vindmyllur í Þykkvabæ. Hið rétta sé að Snorri, sem einn hafði yfir að ráða gögnum um stýrikerfi vindmyllanna í Þykkvabæ, hafi verið beðinn um að fara austur í Þykkvabæ til að endurræsa þær í júní 2016. Fyrir það hafi Snorri áskilið sér þóknun sem Steingrímur samþykkti. Aldrei hafi verið um það rætt að reikningur kæmi frá öðrum aðila. Niðurstaða                 Í málinu er ágreiningslaust að Snorri Sturluson sinnti ýmsum verkefnum fyrir stefnda frá og með stofnun hans árið 2012 þar til hann hætti reglulegum störfum í febrúar 2016. Samkvæmt málatilbúnaði stefnanda, svo og aðilaskýrslu Snorra fyrir dómi, sinnti hann þessum störfum sem verktaki og hefur þeirri fullyrðingu ekki verið sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda. Einnig liggja fyrir tímaskýrslur Snorra sem engin rökstudd mótmæli hafa komið fram við. Þá hefur því ekki verið haldið fram af hálfu stefnda að það tímagjald sem miðað er við í reikningum stefnanda sé í ósamræmi við gangverð eða með öðrum hætti ósanngjarnt. Verður því að leggja til grundvallar úrlausn málsins tímafjölda og tímagjald samkvæmt reikningum stefnanda, sbr. meginreglu 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Þá telur dómurinn ósannað að téður Snorri hafi beint eða óbeint fengið greitt fyrir störf sín fyrir stefnda frá SCO ehf. svo sem hreyft hefur verið af stefnda.                 Af gögnum málsins verður ráðið að upphaflega hafi staðið til að áðurnefndur Snorri fengi greitt fyrir vinnu sína með afhendingu hlutabréfa í stefnda. Að mati dómsins bera gögn málsins hins vegar skýrlega með sér að samningur um greiðslu með þessum hætti hafi ekki tekist. Er þá meðal annars horft til þess að af hálfu stefnda, eða aðaleiganda hans, var aldrei boðin fram greiðsla til samræmis við þær tillögur sem fyrir liggja í málinu og stefndi vísar til. Eins og málið liggur fyrir verður stefndi að bera hallann af skorti um sönnun fyrir því að komist hafi á samningur ákveðins efnis um greiðslu verklauna áðurnefnds Snorra og geta nánari ástæður þess að samningaviðræður umræddra manna fóru út um þúfur ekki skipt máli í því sambandi. Verður því ekki á það fallist að færðar hafi verið nægilegar sönnur fyrir því að téður Snorri hafi fallið frá kröfu um verklaun til samræmis við almennar reglur með samningi við stefnda eða eiganda hans, Steingrím Bjarna Erlingsson.                 Samkvæmt greinargerð stefnda hafa eigendur málsaðila, Steingrímur Erlingsson og Snorri Sturluson, átt í ýmsu öðru samstarfi og viðskiptum, meðal annars með sameiginlegu eignarhaldi á SCO ehf. sem síðar mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta. Hefur komið fram að téður Steingrímur telji sig eiga kröfur gegn Snorra vegna þessara viðskipta, en sá síðarnefndi hafi meðal annars greitt sér arð úr félaginu eins og hann væri einn eigandi þess. Af hálfu stefnda hefur hins vegar engin ákveðin gagnkrafa verið sett fram til skuldajöfnunar á þessum grundvelli. Þegar af þessari ástæðu geta þessi atvik því ekki haft þýðingu um úrlausn málsins. Af sömu ástæðum eru þýðingarlaus þau gögn sem stefndi lagði fram við upphaf aðalmeðferðar og lúta að skiptum fyrrnefnds Snorra við umrætt einkahlutafélag. Þarf því ekki að taka sérstaka afstöðu til þess hvort umrædd gögn teljast of seint fram komin þannig að á þeim verði ekki byggt gegn mótmælum stefnanda.                 Í málinu liggur fyrir framsal áðurnefnds Snorra á kröfu sinni til stefnanda. Verður því að leggja til grundvallar að stefnandi sé réttur aðili til sóknar í málinu. Af hálfu stefnda hefur upphafsdegi dráttarvaxta ekki verið sérstaklega mótmælt. Samkvæmt öllu framangreindu verður fallist á kröfu stefnanda eins og hún er fram sett og nánar greinir í dómsorði.                 Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 750.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til málskostnaðar. Af hálfu stefnanda flutti málið Ólafur Svansson hrl. Af hálfu stefnda flutti málið Sigurður G. Guðjónsson hrl. Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Stefndi, Biokraft ehf., greiði stefnanda, SS Raf ehf., 22.177.611 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 89.429 krónum frá 10. júní 2016 til 1. júlí 2016, en frá þeim degi af 22.177.611 krónum til greiðsludags.                 Stefndi greiði stefnanda 750.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 619/2017
Hjón Ógilding hjúskapar
A krafðist þess að ógiltur yrði hjúskapur hennar og B sem stofnað var til 2016. Var A þá 27 ára og bjó í foreldrahúsum en B 24 ára frá C. Lá fyrir í málinu að A hefði allt frá barnsaldri glímt við alverleg þroskafrávik og hafi af þeim sökum þurft á miklum stuðningi að halda í daglegu lífi. Í dómi Hæstaréttar var tiltekið að ekki hefði annað komið fram en að foreldrar A hefðu enga vitneskju haft um hjónaband A og B fyrr en 2017 og þá í tengslum við umsókn B til Útlendingarstofnunar um dvalarleyfi hér á landi. Þá hefði mjög skammur tími liðið frá því að A og B kynntust og þar til þau stofnuðu til hjúskapar eða innan við tveir mánuðir. Kom fram að í samræmi við málatilbúnað A mætti slá því föstu að þar að baki hefði legið eindregin ráðagerð B um að öðlast dvalarleyfi hér á landi og að hjúskapar hans og A hefði verið nauðsynlegur liður í því. Var talið að líta mætti svo á að þegar A og B hefðu stofnað til hjúskapar síns og aðdraganda hans hefðu verið uppi svo sérstakar aðstæður með tilliti til andlegrar stöðu hennar að þeim yrði fyllilega jafnað við að hún hafi í skilningi niðurlagsorða 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 ekki verið bær til að takast þá skuldbindingu á hendur. Var krafa A því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Þorgeir Ingi Njálsson landsréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2017. Hún krefst þess að ógiltur verði hjúskapur hennar og stefnda sem stofnað var til 7. desember 2016. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem hún nýtur hér fyrir dómi. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti. I             Málsaðilar gengu í hjónaband [...] 2016 hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Var áfrýjandi þá 27 ára og bjó í foreldrahúsum. Liggur fyrir að hún hefur allt frá barnsaldri glímt við alvarleg þroskafrávik, svo sem nánar verður vikið að hér síðar, og þarf af þeim sökum á miklum stuðningi að halda í daglegu lífi. Stefndi, sem er  24 ára, er frá C. Kemur fram í gögnum málsins að hann hafi komið hingað til lands í lok [...] 2016 og stuttu síðar komist í kynni við áfrýjanda. Er ekki annað fram komið en að foreldrar áfrýjanda hafi enga vitneskja haft um hjónaband hennar og stefnda fyrr en í [...] 2017 og þá í tengslum við umsókn hans til Útlendingastofnunar [...] 2016, fimm dögum eftir hjónavígsluna, um dvalarleyfi hér á landi. Hafði hann áður sótt um hæli en verið synjað um það. Málið var síðan höfðað 27. janúar 2017. II Ógildingarkrafa áfrýjanda er meðal annars reist á ákvæði 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Samkvæmt ákvæðinu getur annað hjóna krafist ógildingar hjúskapar síns hafi það verið viti sínu fjær þegar vígsla fór fram eða að öðru leyti svo ástatt um það að það mátti þá eigi skuldbinda sig til hjúskapar að lögum. Þá er jafnframt byggt á 3. og 4. tölulið sömu málsgreinar.             Í hinum áfrýjaða dómi er stuttlega vikið að vitnisburði sálfræðings sem metið hafði andlegt atgervi áfrýjanda í tengslum við málshöfðunina. Kemur þar meðal annars fram það mat sálfræðingsins að áfrýjandi búi við vitsmunaskerðingu og einhverfu og sé alvarlega fötluð. Hugtakaskilningur hennar sé á við 6 til 8 ára barn og skilningur á félagslegum aðstæðum sé á við 6 ára barn eða jafnvel yngra. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð matsgerð D, barna- og unglingageðlæknis, [...] 2017, sem var eftir uppkvaðningu héraðsdóms dómkvaddur til að gefa álit sitt á fötlun áfrýjanda, getu hennar til að skynja eðli félagstengsla eins og hjónabands og hvort andlegt ástand hafi dregið úr hæfi hennar til að gera sér grein fyrir hvað fólst í hjónabandi hennar og stefnda á þeim tíma þegar til þess var stofnað. Í matsgerðinni segir að í viðtölum matsmanns við áfrýjanda hafi komið fram skýr einkenni einhverfu og þroskaskerðingar. Ljóst sé að hún þurfi á miklum stuðningi að halda í daglegu lífi. Þessi fötlun hennar geri henni erfitt fyrir við félagslega aðlögun og myndun félagstengsla. Greindarskerðing hennar hafi einnig áhrif í þessu sambandi. Skilningur hennar á félagslegum samskiptum sé því takmarkaður. Hún hafi gefið þá lýsingu á hjónabandi að það feli í sér að einstaklingar séu lengi saman og dýpri lýsing eða skilningur á því hafi ekki fengist fram. Leiki enginn vafi á því að geta einstaklings með greindarskerðingu og dæmigerða einhverfu til að skynja eðli félagstengsla sé verulega skert. Í niðurlagi matgerðarinnar er sett fram það álit að hafið sé yfir allan vafa að færni áfrýjanda til að gera sér grein fyrir hvað felist í hjónabandi hennar og stefnda hafi verið verulega skert. Við vinnslu matsgerðarinnar hafði matsmaður undir höndum greinargerð E sálfræðings frá [...] 2017. Þar kemur meðal annars fram það álit sálfræðingsins að áfrýjandi átti sig ekki á fyrirætlunum annarra. Hún sé leiðitöm og auðvelt sé að blekkja hana. Þá hafi hún fá bjargráð til að leysa flóknar aðstæður og eigi erfitt með að setja fólki mörk.             Mjög skammur tími leið frá því málsaðilar kynntust og þar til þau stofnuðu til hjúskapar síns. Þá er þess áður getið að foreldrar áfrýjanda höfðu enga vitneskju um þessi áform og ekki er annað fram komið en að hið sama eigi við um aðra þá sem gætt höfðu hagsmuna hennar. Hélt áfrýjandi þessu þannig leyndu fyrir þeim sem næst henni stóðu. Í samræmi við málatilbúnað áfrýjanda þykir mega slá því föstu að þar að baki hafi legið eindregin ráðagerð stefnda um að öðlast dvalarleyfi hér á landi og að hjúskapur hans og áfrýjanda væri nauðsynlegur liður í því. Hafi áfrýjandi í þeim tilgangi verið beitt þrýstingi sem hún hafði enga burði til að standa gegn í ljósi fötlunar sinnar.              Að framangreindu virtu og í ljósi þeirra sérfræðigagna um áfrýjanda sem lögð hafa verið fram í málinu verður litið svo á að þegar hún og stefndi stofnuðu til hjúskapar síns og í aðdraganda hans hafi verið uppi svo sérstakar aðstæður með tilliti til andlegrar stöðu hennar að þeim verði fyllilega jafnað við að hún hafi í skilningi niðurlagsorða 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga ekki verið bær til að takast þá skuldbindingu á hendur. Verður krafa áfrýjanda um ógildingu á hjúskap hennar og stefnda því tekin til greina.             Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.             Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir. Dómsorð:             Hjúskapur áfrýjanda, A, og stefnda, B, sem stofnað var til [...] 2016, er ógiltur.             Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjanda skulu vera óröskuð.             Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.             Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.000.000 krónur.                                                                                   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2017. Mál þetta, sem dómtekið var 28. júní 2017, var höfðað 27. janúar s.á. af hálfu A, [...], Reykjavík á hendur B, ríkisborgara C með dvalarstað að [...], Garðabæ, til ógildingar á hjúskap þeirra. Dómkröfur stefnanda eru þær að hjúskapur hennar og stefnda, sem stofnað var til þann [...] 2016, verði ógiltur. Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða honum málskostnað, auk virðisaukaskatts. Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna Aðilar málsins gengu í hjúskap [...] 2016 hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Stefnandi krefst í máli þessu ógildingar á hjúskap þeirra. Hún er 27 ára gömul kona, sem býr í foreldrahúsum í Reykjavík. Stefndi er 23 ára gamall maður frá C sem sótti um hæli hér á landi [...] 2016, en var synjað um það. Í stefnu segir að stefnandi sé greindarskert, með greiningu um dæmigerða einhverfu, og samkvæmt mati lækna uppfylli hún skilyrði um hæsta örorkustig. Hún beri afar takmarkað skynbragð á eðli félagstengsla, eins og vináttu eða annarra sambanda, hvað þá hjúskapar. Þá hafi hún takmarkaða ábyrgðartilfinningu gagnvart eigin aðstæðum. Stefnandi hvorki treysti sér til né hafi nokkra burði til þess að búa í eigin húsnæði. Stefnandi starfi við þjónustu- og afgreiðslustörf hjá [...] og hafi gert um nokkurt skeið. Stefnandi njóti mikils stuðnings foreldra og systkina við daglegt líf og með aðstoð þeirra hafi það verið í nokkuð föstum skorðum. Málavöxtum er lýst svo í stefnu að stefnandi hafi [...] 2016 komist í kynni við stefnda. Hann hafi tekið að venja komur sínar að starfsstöð stefnanda, ásamt [...] félögum sínum, og tekið að senda henni skilaboð á samskiptamiðlum. Stefnandi hafi hrifist af stefnda, sem hafi tjáð henni að nauðsynlegt væri fyrir þau að ganga í hjúskap. Það sama hafi félagar hans sagt. Ef stefnandi giftist ekki stefnda gæti hann ekki haldið sambandi við hana og það myndi hafa slæmar afleiðingar í för með sér. Stefndi hafi þrýst mjög á stefnanda að giftast sér og hafi talið henni trú um að það væri nauðsynlegt. Stefnandi hafi ekki viljað slíkan ráðahag, en hafi ekki getað staðist þann þrýsting sem stefndi hafi beitt og látið að lokum undan honum. Útlendingastofnun barst umsókn um dvalarleyfi fyrir stefnda hér á landi [...] 2016, fimm dögum eftir hjónavígslu aðila. Þegar stofnunin sendi stefnanda bréf á heimili hennar, dags. [...] 2017, með ósk um frekari gögn og upplýsingar vegna umsóknar um dvalarleyfi fyrir stefnda, maka stefnanda, var foreldrum hennar enn ókunnugt um hjónavígsluna. Í svarbréfi lögmanns stefnanda til Útlendingastofnunar, dags. [...] 2017, segir að stefndi hafi augljóslega beitt stefnanda blekkingum og þrýstingi til að giftast sér og að til ráðahagsins hafi verið stofnað til málamynda í þeim tilgangi einum að afla honum dvalarleyfis. Stefnandi hafi ekki verið fær um að meta hvað fælist í hjúskap eða af hvaða hvötum stefndi hafi sótt hann svo fast. Stefndi kveður stefnanda hafa verið fullkunnugt um samskipti stefnda við Útlendingastofnun og að hann væri að sækja um dvalarleyfi. Það hafi aldrei verið leyndarmál og óljóst sé hvaða veittar upplýsingar stefnandi telji að hafi verið rangar.  Stefndi kveður fjölskyldu stefnanda vera andstæða ráðahagnum og hafnar því að hann og vinir hans hafi beitt stefnanda þrýstingi. Sýslumaður rannsaki hvort hjónaefni uppfylli skilyrði fyrir því að mega ganga í hjúskap. Þannig sé gengið úr skugga um aldur hjónaefna, lögræði og hvort aðilar hafi verið í hjúskap áður. Aðilar þurfi að afhenda viðeigandi vottorð og undirritun tveggja svaramanna. Sýslumaður gefi út könnunarvottorð til staðfestingar á því að skilyrði fyrir hjónavígslu séu fyrir hendi. Aðilar hafi undirgengist þetta ferli og sýslumaður hafi samþykkt það. Vígsla hefði ekki farið fram ef sýslumaður hefði séð á sambandi þeirra einhverja meinbugi. Í stefnu segir að stefnandi hafi ekki átt í eiginlegu sambandi við stefnda, enda hafi hún aðeins þekkt hann í örfáa mánuði. Samskipti þeirra hafi einkum verið á vettvangi samskiptamiðla, en stefndi hafi einungis tvisvar komið stuttlega að heimili stefnanda og hafi ekki hitt foreldra hennar eða fjölskyldu. Stefnandi viti lítil sem engin deili á stefnda eða hans einkahögum og hafi haft lítið af honum að segja eftir giftinguna. Stefndi hafi þó ítrekað reynt að setja sig í samband við stefnanda og fjölskyldu hennar samhliða afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn hans um dvalarleyfi. Stefnandi hafi ekki viljað ræða við hann þar sem hún óttist viðbrögð hans og að hann muni reyna að fá hana til að undirrita fleiri skjöl eða gerninga. Stefndi hafi fengið stefnanda til þess að undirrita skjöl sem tengist umsókn hans um dvalarleyfi, m.a. staðfestingu á því að stefndi væri búsettur á heimili foreldra hennar. Stefndi hafi ekki viljað láta stefnanda í té umrædd gögn og hafi hún takmarkaða hugmynd um hvaða skjöl og gögn hún hafi undirritað að fyrirmælum stefnda. Stefndi hafnar því að hann neiti að láta í té gögn, hann hafi skilað gögnum til Útlendingastofnunar og séu þau gögn öll tiltæk þar. Í stefnu segir að stefnandi hafi átt við mikla vanlíðan að stríða vegna þessara aðstæðna, sem hún hafi takmarkaðan skilning á. Hún hafi m.a. þurft að vera frá vinnu þar sem hún telji að stefndi muni mæta á starfstöð hennar og reyna að beita hana frekari þrýstingi. Stefndi telur að fjölskylda stefnanda meini honum samskipti við eiginkonu sína, hún njóti mikils stuðnings foreldra sinna og systkina við daglegt líf og telur stefndi að ráðskast sé með líf stefnanda. Hún hafi ekki verið svipt sjálfræði sínu og sé fullfær um að taka ákvarðanir um eigið líf.                 Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar þess skýrslur og auk þess komu fyrir dóm og gáfu skýrslur vitnin F sálfræðingur, G, faðir stefnanda, H og svaramennirnir I og J. Málsástæður og lagarök stefnanda Kjarni þessa máls sé að stefnandi hafi augljóslega verið blekkt og beitt þrýstingi til að ganga í hjúskap með stefnda. Til hjónabandsins hafi verið stofnað í þeim eina tilgangi, sem hafi verið dulinn stefnanda, að styðja við umsókn stefnda um dvalarleyfi. Fyrirliggjandi gögn um sjúkrasögu stefnanda og andlegt atgervi sýni svo ekki verði um villst að hún hafi ekki verið fær um að sporna við blekkingum og þrýstingi í aðdraganda og við stofnun hjúskaparins. Hún sé ekki fær um að meta afleiðingar þess að ganga í málamyndahjónaband með nánast ókunnugum manni frá C í þeim tilgangi einum að afla honum dvalarleyfis. Stefnandi krefjist ógildingar hjúskaparins og byggi þá kröfu á 1., 3. og 4. tl. 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Nánar tiltekið á þeim grundvelli að (i) stefnandi hafi verið viti sínu fjær eða svo hafi verið ástatt um stefnanda þegar vígsla fór fram að hún mátti þá eigi skuldbinda sig til hjúskapar að lögum, (ii) stefndi hafi komið stefnanda til að eiga sig með því að villa vísvitandi á sér heimildir eða leyna atvikum úr lífi sínu er mundu hafa fælt stefnanda frá hjúskapnum ef vitað hefði og/eða (iii) stefnandi hafi verið neydd til vígslunnar. Til stuðnings framangreindu sé í fyrsta lagi lagt til grundvallar að andlegt atgervi stefnanda og hugarástand hennar í kjölfar þess þrýstings sem stefndi og félagar hans hafi beitt hana í aðdraganda og við vígsluna, hafi verið með þeim hætti að jafnað verði til þess að hún hafi verið viti sínu fjær eða þannig ástatt um hana að hún hafi ekki mátt skuldbinda sig til hjúskapar að lögum. Gögn um sjúkrasögu og heilsufar stefnanda renni stoðum undir þetta. Í öðru lagi hafi stefnandi staðið í þeirri trú að til hjúskaparins væri stofnað til að forða stefnda frá bráðri hættu og að það væri eina leiðin til að þau gætu haldið sambandi. Síðar hafi stefnandi gert sér grein fyrir því að um svokallað málamyndahjónaband hafi verið að ræða sem haft hafi þann eina tilgang að styðja við umsókn stefnda um dvalarleyfi. Stefnandi viti í raun engin deili á stefnda og telji að hann eigi eiginkonu, ástkonu eða fjölskyldu annars staðar. Stefndi hafi villt á sér heimildir gagnvart sér með vísvitandi hætti og leynt atvikum úr lífi sínu sem hefðu fælt stefnanda frá hjúskapnum hefði hún vitað um þau. Stefnandi byggi í þriðja lagi á því að líta verði svo á, að teknu tilliti til aðstæðna allra og andlegs atgervis hennar, að stefndi hafi neytt hana til vígslunnar, eftir atvikum með fulltingi félaga sinna. Í öllu falli sé ljóst að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim eina tilgangi að afla stefnda dvalarleyfis og að slík stofnun hjúskaparins sé ekki með vilja stefnanda. Slíkt brjóti óhjákvæmilega í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga, sbr. til hliðsjónar 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, og ætti að leiða til þess að fallist verði á kröfu stefnanda. Mál þetta sé hjúskaparmál samkvæmt XV. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. 1. tl. 113. gr. laganna, og sé höfðað hér á landi á grundvelli 114. gr. hjúskaparlaga, sbr. 2. tl. 1. mgr. 114. gr. og 2. mgr. ákvæðisins. Þar sem stefndi eigi ekki heimilisvarnarþing hér á landi sé málið höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á heimilisvarnarþingi stefnanda, með heimild í 1. mgr. 115. gr. hjúskaparlaga. Um heimild stefnanda til málshöfðunarinnar vísist til 1. mgr. 116. gr. hjúskaparlaga.                 Stefnandi reisi kröfur sínar meðal annars á hjúskaparlögum, nr. 31/1993, einkum V. og XV. kafla laganna og á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Þá byggi stefnandi kröfur sínar á meginreglum sifjaréttar og grunnreglum að baki ákvæðum laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, eftir því sem við eigi. Stefnandi byggi einnig á og vísi til laga um útlendinga, nr. 80/2016, einkum 8. mgr. 70. gr. Krafa um málskostnað sé reist á 129. gr., 130. gr. og 131. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Málsástæður og lagarök stefnda Stefnandi fullyrði að hún hafi verið beitt augljósum blekkingum og þrýstingi til þess að ganga í hjúskap. Stefndi mótmæli þessu og bendi á að engin gögn styðji þessa fullyrðingu. Þvert á móti hafi aðilar undirgengist könnun hjá sýslumanni áður en til hjúskapar hafi verið stofnað. Fyrirliggjandi gögn sem vísað sé til sé vottorð frá Borgarspítalanum frá árinu 1994 og athugun á einkennum á einhverfurófi í [...] 2014. Þar komi m.a. fram: Hún er myndarleg ung kona sem var samvinnufús og jákvæð við athugun. Það var gaman að spjalla við A og hún hafði góða nærveru. Hún sagði prófanda frá því að það skemmtilegasta sem hún gerði væri að taka ljósmyndir, mála og lesa bækur. Einnig finnst henni gaman að vera með vinum sínum. Stefnandi starfi við afgreiðslustörf hjá [...]. Hún haldi úti facebook síðu þar sem hún birti upplýsingar um sig, myndir með vinum og úr ferðalögum o.fl. o.fl. Draga megi þá ályktun að stefnandi sé opin, lífsglöð og hress kona. Stefndi hafni því að það eigi að vera á einhvern átt ljóst að stefnandi sé með skert atgervi. Stefndi mótmæli því að ákvæði 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 eigi við. Töluliður 1. Því sé hafnað að stefnandi hafi verið viti sínu fjær eða ástand hennar verið með þeim hætti að hún hafi ekki mátt skuldbinda sig til hjúskapar að lögum. Stefndi haldi því fram að það sé stefnanda að sýna fram á að svo hafi verið og verði þá að telja að fulltrúa sýslumanns hafi einnig átt að vera það ljóst. Stefnandi hafi ekki verið svipt sjálfræði þegar hjónavígslan fór fram. Töluliður 3. Stefndi hafni röksemdum stefnanda. Stefnanda hafi ætíð verið það ljóst að eiginmaður hennar hafi verið B frá C, sem hafi verið með umsókn um dvalarleyfi í gangi. Stefndi hafni því að um málamyndahjónaband hafi verið að ræða. Stefndi hafi engum blekkingum beitt. Hann leggi fram fjölskylduvottorð frá C sem sýni fram á að hann sé maður einhleypur. Ávirðingum um eiginkonu, ástkonu eða fjölskyldu annars staðar sé mótmælt og telji stefndi stefnanda þurfa að styðja fullyrðingar sínar með einhverjum hætti. Töluliður 4. Stefnandi brigsli stefnda um refsiverða háttsemi. Ekki liggi fyrir að stefnandi hafi nokkru sinni séð ástæðu til þess að leggja fram kæru til lögreglu vegna stefnda. Stefndi mótmæli því með vísan til 4. tl. ákvæðisins. Almenn tilvísun stefnanda til allsherjarreglu og meginreglna íslenskra laga eigi ekki við. Mál þetta sé hjúskaparmál samkvæmt ákvæðum XV. kafla hjúskaparlaga, nr. 31/1993. Krafa um málflutningsþóknun sé byggð á ákvæðum í XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur, því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum. Niðurstaða Í máli þessu krefst stefnandi ógildingar á hjúskap sínum og stefnda á grundvelli 28. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993. Skilyrði þess að fallist verði á slíka kröfu er að fyrir hendi hafi verið einhver þau atvik sem talin eru upp í fjórum töluliðum í 1. mgr. ákvæðisins. Þau eru í fyrsta lagi að annað hjóna hafi verið viti sínu fjær þegar vígsla fór fram eða að öðru leyti svo ástatt um það að það mátti þá eigi skuldbinda sig til hjúskapar að lögum. Í öðru lagi, hafi það af vangá látið vígja sig öðrum en þeim sem það hafði bundist hjúskaparorði eða hafi það verið vígt án þess að það ætlaðist til þess, en í málinu er ekki byggt á ógildingarástæðum samkvæmt þessum tölulið. Í þriðja lagi, hafi eiginkona þess eða eiginmaður komið því til að eiga sig með því að villa vísvitandi á sér heimildir eða leyna atvikum úr lífi sínu er mundu hafa fælt hitt frá hjúskapnum ef vitað hefði og loks í fjórða lagi, hafi það verið neytt til vígslunnar.                  Í málinu liggja fyrir gögn um andlegt atgervi stefnanda og nýlegt mat sem stefnandi aflaði í tilefni af þessu máli. Fyrir dóminn kom sá sálfræðingur sem framkvæmdi matið, en hún hafði ekki sinnt stefnanda fyrir þann tíma. Kvað hún sjúkdómsgreiningu hennar vera tvíþætta, vitsmunaskerðingu og einhverfu. Stefnandi byggi við alvarlega fötlun og hefði hugtakaskilning á við 6-8 ára barn og skilning á félagslegum aðstæðum á við sex ára barn eða jafnvel yngra. Hún hefði ekki burði til að sjá um sig sjálf eða búa ein. Stefnandi hefði styrkleika í sjónúrvinnslu og geti unnið einhæf verkefni hratt og vel. Hún geti tjáð sig í einföldu máli í ræðu og riti. Fyrir liggur að stefnandi stundaði nám á starfsbraut í fjölbrautaskóla og vinnur á kassa á [...]. Faðir stefnanda bar fyrir dóminum að hann og móðir stefnanda hefðu alla tíð reynt að styðja hana til sjálfstæðis, langan tíma hefði tekið að kenna henni að aka bifreið en það hefði tekist og stefnandi hefur bílpróf. Hún sé félagslynd og eigi skara af kunningjum sem sumir hverjir vilji hafa gott af henni. Hún trúi engu illu upp á fólk, vilji öllum vel og sé því útsett fyrir misnotkun. Stefnandi kom fyrir dóm og gerði grein fyrir afstöðu sinni með einföldum en skýrum og skiljanlegum hætti.                 Stefnandi er lögráða. Hún krefst ógildingar á hjúskap sínum og stefnda, en ekki er á því byggt af hennar hálfu að hún sé ekki bær til að ganga í hjúskap eða sé ekki fær um það. Í framburði stefnanda fyrir dóminum kom fram að hún kynni að vilja ganga í hjúskap síðar og að hún hefur skýrar hugmyndir um hvernig að því skuli staðið, m.a. að unnusti biðji föður stúlku um leyfi og að hjónavígsla færi fram í kirkju. Ljóst er að stefnandi sér nú eftir því að hafa gifst stefnda. Henni finnst að rangt hafi verið að hjúskaparstofnuninni staðið, hún hafi gert mistök með því að giftast stefnda hjá sýslumanni og með því að leyna því fyrir foreldrum sínum. Hún kvaðst hafa gert sér grein fyrir því eftir á að hún hefði gert rangan hlut. Í stefnu er því haldið fram að andlegt atgervi stefnanda og hugarástand hennar í kjölfar þess þrýstings sem stefndi og félagar hans hafi beitt hana í aðdraganda og við vígsluna, hafi verið með þeim hætti að jafnað verði til þess að hún hafi verið viti sínu fjær eða þannig ástatt um hana að hún hafi ekki mátt skuldbinda sig til hjúskapar að lögum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga. Þar segir að gögn um sjúkrasögu og heilsufar stefnanda renni stoðum undir þetta. Stefnandi undirritaði gögn vegna hjónavígslunnar [...] 2016. Gögnin hafði, samkvæmt framburði stefnanda, útvegað stúlka, sem verið hafði vinkona hennar frá árinu 2011. Sú ætti maka frá C og hefði kynnt hana fyrir stefnda. Þær hefðu rætt saman um þau áform að stefnandi giftist stefnda. Samkvæmt framburði svaramannsins J, sem einnig á maka frá C, hitti hún stefnanda í fyrsta sinn að kvöldi [...] 2016. J undirritaði svaramannavottorð vegna hjúskaparstofnunar stefnanda og stefnda daginn eftir. Hún bar fyrir dómi að þær hefðu eytt miklum tíma saman fram að hjónavígslu, sem fór fram tíu dögum síðar. Stefnandi hefði verið venjuleg og ekki komið henni undarlega fyrir sjónir, þó hefði henni síðar dottið í hug að stefnandi væri hugsanlega með athyglisbrest. Það hefði verið gaman að spjalla við stefnanda, en vitnið hefði ekki gert sér grein fyrir því að hún væri greindarskert. Faðir stefnanda bar fyrir dóminum að stefnandi hefði á þessum tíma verið mikið með þessu fólki, strákum frá C og einhverri J, en ekkert hefði bent til þess að neitt sérstakt væri í gangi. Engin gögn eða framburður vitna benda til þess að ástand stefnanda á þessu tímabili, eftir að hún virðist hafa tekið ákvörðun um að ganga að eiga stefnda og fram á vígslustundina, hafi verið með þeim hætti að hún hafi þá virst vera viti sínu fjær eða að hún hafi verið það við vígsluna. Stefnandi hefur ekki fært að því viðhlítandi rök hvernig gögn um fötlun hennar sýni fram á að hún hafi verið viti sínu fjær í skilningi 1. tl. 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga við vígsluna og í aðdraganda hennar eða að ástandi hennar verði jafnað til þess.                 Samkvæmt framburði stefnanda tók hún þá ákvörðun að giftast stefnda á þessum tíma vegna þess að hún vildi að hann gæti haldið áfram að dvelja hér á landi. Hún vildi líka, með því að giftast honum, bjarga honum frá því að sæta refsiviðurlögum sem stefndi hefði upplýst hana um að biðu hans í C. Sannað þykir að stefnandi hafi verið upplýst um þá stöðu sem stefndi var í þegar til hjúskapar þeirra var stofnað og að hún hafi gert sér grein fyrir því að honum yrði ella gert að fara af landi brott. Framburður stefnanda um þennan tilgang hjónavígslunnar fær stoð í framburði vitnisins H. Einnig í framburði föður stefnanda um hjálpsemi hennar og að hún hafi séð hjónavígsluna sem hjálp við manninn. Stefndi heldur því fram að hjónavígslan hafi ekki verið til málamynda, hann hefði hrifist af stefnanda og hafi viljað giftast henni þess vegna. Þessar ástæður þurfa ekki að útiloka hvor aðra. Vitnið J bar um að aðilar hafi virst vera sæl saman og stefnandi kvaðst sjálf hafa hrifist af stefnda á þessum tíma, en hún hefði viljað bíða með giftingu ef ekki hefði verið svona ástatt fyrir stefnda. Virðist hún ekki hafa verið í neinni villu um það hver stefndi væri eða hver staða hans hafi verið.                 Framburður stefnanda um ástæður sinnaskipta sinna um hug sinn til stefnda er trúverðugur og varða þær ástæður aðallega stjórnsemi hans og framkomu við hana, en einnig grunsemdir hennar um að hann eigi kærustu. Sinnaskipti af slíkum toga verða vart talin einsdæmi eða rakin til fötlunar stefnanda. Ekki hefur verið sýnt fram á að stefnandi hafi eftir hjónavígsluna fengið nýjar upplýsingar um líf stefnda og verða sinnaskipti hennar því ekki rakin til nýrra upplýsinga um atvik úr lífi stefnda sem hann hafi áður leynt hana. Stefnanda hefur ekki tekist að sýna fram á að stefndi hafi vísvitandi villt á sér heimildir eða leynt atvikum úr lífi sínu er fælt hefðu stefnanda frá hjúskapnum ef vitað hefði. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á að ógilda megi hjúskapinn á grundvelli 3. tl. 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga.                 Sú lýsing í stefnu að stefnandi hafi verið neydd til vígslunnar af stefnda, eftir atvikum með fulltingi félaga hans, styðst við það eitt að líta verði svo á að sú hafi verið raunin, að teknu tilliti til andlegs atgervis hennar og aðstæðna allra. Að virtu því sem upplýst þykir um hug stefnanda til stefnda á sínum tíma, og vilja hennar til þess að giftast honum þá, verður ekki fallist á að hún hafi verið neydd til vígslunnar, þannig að ógilda megi hjúskap aðila á grundvelli 4. tl. 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga.                 Af framburði stefnanda er ljóst að það er nú einlægur vilji hennar að vera ekki lengur í hjúskap með stefnda. Stefnandi krefst ógildingar hjúskaparins, en hún hefur ekki sótt um hjónaskilnað. Samkvæmt 29. gr. hjúskaparlaga hefur ógilding hjúskapar sömu áhrif að lögum og lögskilnaður nema lög greini annað. Lagaskilyrði til hjónaskilnaðar og til ógildingar hjúskapar eru þó ekki hin sömu og ekki er það því alfarið á færi stefnanda að velja hér um leiðir. Þegar ákvæði um tvíkvæni eða ólögmætan skyldleika hjóna eiga ekki við, en svo stendur á í máli þessu, verður hjúskapur ekki ógiltur með dómi nema framangreind lagaskilyrði 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga til ógildingar séu fyrir hendi. Stefnanda hefur að mati dómsins ekki tekist að sýna fram á að svo sé. Verður því að hafna kröfu stefnanda um ógildingu hjúskapar hennar og stefnda. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.                 Stefnandi hefur leyfi til gjafsóknar. Samkvæmt því greiðist allur gjafsóknarkostnaður hennar úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Þóris Júlíussonar hdl., sem ákveðin er 850.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm. D Ó M S O R Ð Stefndi, B, er sýkn af kröfu stefnanda, A, um ógildingu hjúskapar þeirra, sem stofnað var til þann [...] 2016. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Þóris Júlíussonar hdl., 850.000 krónur.
Mál nr. 829/2017
Húsaleigusamningur Galli
G krafði N ehf. um skaðabætur vegna tjóns sem varð á innbúi hans af völdum myglusvepps í íbúðarhúsnæði sem hann tók á leigu hjá N ehf. N ehf. hafði hins vegar uppi gagnkröfu í málinu um greiðslu vangoldinnar leigu. Talið var að ekki yrði annað ráðið af gögnum málsins en að ákvæðum byggingarreglugerðar hefði verið fylgt við byggingu hússins. Þá hefði ekkert komið fram sem benti til þess að myglusveppur hefði verið til staðar í því þegar G tók það á leigu og yrði að miða við að N ehf. hefði ekki fengið vitneskju um tilvist hans fyrr en um einu og hálfu ári eftir að leiguafnot G hófust. Í kjölfar lagfæringa sem þá var ráðist í hefði G látið hjá líða að fylgja tilmælum frá N ehf. um að lofta betur út úr húsinu og yrði ekki séð að félagið hefði verið upplýst um þróun mála fyrr en í algjört óefni hefði verið komið og tjón á innbúinu orðið að veruleika. Var því ekki talið að skilyrði væru til að fella skaðabótaskyldu á N ehf. Var N ehf. því sýknaður af kröfu G en krafa N ehf. um endurgjald fyrir leigu húsnæðisins tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 12. október 2017. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 29. nóvember 2017 og áfrýjaði hann öðru sinni 27. desember sama ár. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.826.864 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. maí 2015 til 14. janúar 2017, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Gunnar H. Pálsson, greiði stefnda, Nesvöllum íbúðum ehf., 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. júlí 2107.                 Mál þetta, sem var dómtekið 15. f.m., var í aðalsök höfðað 8. desember 2016 af Gunnari H. Pálssyni, nú til heimilis að Greniteig 9 í Reykjanesbæ, á hendur Nesvöllum íbúðum ehf., Hafnargötu 51-55 í Reykjanesbæ. Gagnsök var höfðuð 5. janúar 2017. Í aðalsök eru dómkröfur aðalstefnanda þær að gagnstefnanda verði gert að greiða honum 1.826.864 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. maí 2015 til 14. janúar 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar. Gagnstefnandi krefst sýknu af kröfum aðalstefnanda í aðalsök og málskostnaðar úr hendi hans.                 Í gagnsök gerir gagnstefnandi þá kröfu að aðalstefnanda verði gert að greiða félaginu 1.783.608 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 176.551 krónu frá 1. apríl 2016 til 1. maí sama ár, en af 353.757 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, en af 531.332 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, en af 709.644 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, en af 888.283 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, en af 1.066.349 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, en af 1.245.029 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, en af 1.424.569 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, en af 1.604.109 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2017, en af 1.783.608 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar. Aðalstefnandi krefst aðallega sýknu af framangreindri kröfu gagnstefnanda, en til vara lækkunar á henni. Þá er gerð krafa um málskostnað. I                 Samkvæmt gögnum málsins gerðu aðilarnir samning 11. nóvember 2013, þar sem aðalstefnandi tók á leigu raðhús í eigu gagnstefnanda að Stapavöllum 3 í Reykjanesbæ. Mun aðalstefnandi hafa flutt inn í húsið ásamt sambýliskonu sinni 1. nóvember 2013 og bjuggu þau þar ásamt syni hennar þar til í mars á þessu ári. Aðalstefnandi hefur haldið því fram að hann hafi fljótlega orðið var við myglusvepp í húsinu. Þá hafi farið að bera á veikindum hjá heimilisfólki sem rakin hafi verið til myglunnar. Í kjölfar kvörtunar og kröfu um úrbætur sem hann hafi beint til gagnstefnanda í mars 2015 hafi húsið verið þrifið og veggir málaðir. Þær ráðstafanir hefðu ekki skilað tilætluðum árangri. Leitaði aðalstefnandi þá til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og óskaði eftir því að það skoðaði húsnæðið. Var það gert 18. mars 2016 og er gerð grein fyrir niðurstöðu skoðunarinnar í bréfi sem ritað var aðalstefnanda þann sama dag. Samkvæmt því kom í ljós mjög mikill sýnilegur mygluvöxtur á útveggjum í stofu, baðherbergi, svefnherbergjum og þvottaherbergi. Þá voru víða merki um rakaskemmdir. Í bréfinu segir meðal annars svo: „Ljóst er að grípa verður tafarlaust til ráðstafana til að fjarlægja sýnilegan myglugróður ásamt byggingarefnum þar sem myglusveppur hefur tekið sér bólfestu og gera aðrar nauðsynlegar endurbætur á húsnæði til að fyrirbyggja ... rakasöfnun og mygluvöxt á útveggjum. Ekki er hægt að mæla með notkun húsnæðisins fyrr en að úrbótum loknum.“ Hinn 29. mars 2016 sendi gagnstefnandi símskeyti til aðalstefnanda þar sem leigusamningnum var sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara. Í skeytinu var þó skorað á aðalstefnanda að rýma húsnæðið eins fljótt og auðið væri „svo hægt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana í samræmi við óskir Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja“. Lögmaður aðalstefnanda ritaði gagnstefnanda bréf af þessu tilefni 6. apríl 2016 þar sem þess var í fyrsta lagi krafist að aðalstefnanda yrði endurgreidd leiga frá því hann lagði fram kvörtun vegna myglusvepps, í öðru lagi að gagnstefnandi útvegaði honum nýtt húsnæði til afnota út leigutímann og í þriðja lagi að búslóð hans yrði þrifin á kostnað gagnstefnanda. Þessum kröfum hafnaði gagnstefnandi með tölvubréfi 14. sama mánaðar. Var tekið fram í því að kysi aðalstefnandi að dvelja í húsinu út leigutímann væri honum það frjálst en að því gefnu að hann efndi skyldur sínar samkvæmt leigusamningnum. Þá var þeirri skoðun lýst að rekja mætti tilvist myglusvepps í húsinu til þess að „húsráðendur [væru] augljóslega ekki að lofta eðlilega út úr íbúðinni“. Gagnstefnandi hafi leigt út 30 sams konar íbúðir í íbúðakjarnanum og enginn annar leigutaki hjá félaginu hefði kvartað undan myglusvepp. Með bréfi til héraðsdóms 24. júní 2016 óskaði aðalstefnandi eftir dómkvaðningu matsmanns til að skoða og meta orsakir þess „að myglusveppur hefur myndast í fasteigninni að Stapavöllum 3, íbúð 0101“. Þá tók matsbeiðnin einnig til þess að metið yrði tjón sem aðalstefnandi hefði orðið fyrir vegna myglusvepps í húsinu. Fór dómkvaðningin fram 30. sama mánaðar og var Ríkharði Kristjánssyni byggingarverkfræðingi falið að hafa hið umbeðna mat með höndum. Í matsgerð hans, sem lá fyrir í september 2016, segir svo um fyrra matsatriðið: „Myglusveppur og raki eru tengd órjúfanlegum böndum. Spurningin er oftast bara sú, hvaðan kom rakinn sem olli því að það mynduðust ákjósanleg skilyrði fyrir gró að spíra og mynda myglu. Í köflum 4.1 til 4.5, er fjallað um sýnilega myglu í húsinu og tengingar hennar við kuldabrýr. Enginn vafi er á því í huga matsmanns að rannsóknir hans hafi leitt í ljós að mygluvöxturinn tengist því að rakastig inni hefur orðið of hátt fyrir þessa gerð húsa. Hefðbundin íslensk hús einangruð að innan, með opinni tengingu milli stofu og eldhúss og með gólfhitun án ofna undir gluggum eru mjög viðkvæm fyrir háu rakastigi inni og kalla á mjög mikla loftun og upphitun eigi rakastig ekki að fara yfir þau mörk sem kuldabrýr í kverkum og í gluggum setja. Margir, þ.á m. undirritaður matsmaður telja þessi hús gölluð vegna kuldabrúnna og mygluhættunnar en lítill hljómgrunnur hefur fengist fyrir slíkt. Þau eru viðurkennd af byggingayfirvöldum og engar athugasemdir gerðar við þau af hálfu Mannvirkjastofnunar þrátt fyrir opinbera umræðu. Þetta eru auk heldur algengustu húsin á Íslandi og hafa sýnt sig vera í lagi svo lengi sem duglega er kynt og vel loftað. Ef vel er loftað og vel hitað valda þau yfirleitt ekki þeim vandamálum sem hér er við að glíma og koma fram að vetrarlagi. Alltaf getur þó daggað á gluggum og þarf þá að opna opnanleg fög og þurrka strax úr gluggunum. Matsmaður telur vegginn milli húsanna meingallaðan að uppbyggingu og að hann valdi vandamálum í mörgum húsum í hverfinu vegna rakaþéttingar á mörkum einangrunar og steypta veggsins. Sýnilega myglan er þó síst meiri þar en í kverkum annarra veggja. Það er því niðurstaða matsmannsins að sýnilega myglan eigi rót sína að rekja til þess að rakastig inni hefur farið yfir þolanleg mörk að vetrarlagi, þ.e. yfir þau mörk sem þessi hefðbundna gerð húsa þolir í kuldabrúnum í kverkum. Þessi þolanlegu mörk væru vissulega miklu hærri ef húsin væru einangruð að utan, eða með ofna undir gluggum, með eldhús aðskilið frá stofu og stærri opnanleg fög og betri loftun í efsta hluta rýmisins. Matsmaður telur þessi hús að vissu marki gölluð þar sem þau setja rakaíbætingu innanhúss þröngar skorður. Þessi gerð húsa er hins vegar mjög algeng á Íslandi ekki síst í nýrri bylgju „funkishúsa“ og hús einangruð að innan eru algengasta húsagerðin á Íslandi. Þau setja þær kvaðir á notendur að halda rakastigi inni lágu vegna kuldabrúna.“                 Í matsgerðinni segir jafnframt að mygla myndist ekki á þessum stöðum eða af þessum orsökum að sumarlagi. Myglan sé mjög útbreidd og umfangsmikil og hafi þurft nokkurn tíma til að myndast. Matsmaður geti „ekki sett fram nákvæm mörk en það er a.m.k. eitt ár, líklega mun lengur“.                 Um seinna matsatriðið kemur fram í matsgerðinni að sýnataka hafi sýnt að mygluleifar voru á yfirborði tausófa í stofu. Í svefnherbergi hjóna hafi verið svo mikil mygla „að mjög líklegt er að mygluleifar sé einnig að finna á eða í innbúi í því herbergi þó límborðapróf hafi ekki sýnt það“. Loks er þess getið að umfang myglu í húsinu hafi verið mjög mikið. Í umfjöllun sinni um mat á kostnaði við að hreinsa búslóð aðalstefnanda telur matsmaður að óhjákvæmilegt sé að farga hluta hennar þar sem illmögulegt sé að hreinsa viðkomandi hluti svo öruggt megi teljast. Um mat á tjóni aðalstefnanda, sem tekur þá mið af framansögðu, segir svo í matsgerðinni: „Hreinsun sú sem matsmaður metur kostnað við miðast við að einstaklingur sem er viðkvæmur fyrir myglu geti búið í húsinu með þessari búslóð. Um er að ræða umfangsmikið verk. Við útreikning á förgunarkostnaði er reiknað gróflega með endurstofnverði en hluturinn afskrifaður eftir metnu ástandi og metnum aldri. Reiknað er með að öll búslóð verði fjarlægð úr húsinu meðan viðgerð og hreinsun á húsinu fer fram. Hreinsun með sterkri ryksugu með hepafilter sem hreinsar gró og mygluleifar og sterkur loftblástur fari fram úti í vörðu umhverfi og alls ekki inni í húsinu sjálfu. Strokið verði af öllu hörðu yfirborði. Öll föt og rúmföt verði þvegin og þau föt hreinsuð sem ekki er hægt að þvo. Reiknað er með 50 stk. í kemíska hreinsun. Þurrkað verði af öllum hlutum sem eru með hörðu yfirborði og blásið sterklega af öllum tækjum og hlutum þ.á m. raftækjum. Reiknað er með að farga eftirfarandi: Tausófa í stofu, rúmdýnum úr svefnherbergjum ásamt sængum og koddum úr rúmum þar inni og gardínu úr hjónaherbergi. Reiknað er með að allir sófapúðar í stofu hverfi. Ekki er reiknað með að farga dýnum eða sófa úr bílskúr, þau verði hinsvegar hreinsuð mjög rækilega. Reiknað er með innkaupsverði á Íslandi fyrir þá hluti sem verði fargað. Matið inniheldur allan þann kostnað sem þarf til verksins, vinnu, efni og tæki en einnig allar tryggingar og skatta þ.á m. gildandi 24% virðisaukaskatt. Reiknað er með afskriftum í samræmi við mat matsmanns á ástandi hluta.“ Er það niðurstaða matsmanns að kostnaður við hreinsun nemi 1.123.200 krónum og að endurstofnverð þeirra hluta sem þurfi að farga sé 703.664 krónur. Til samræmis við þetta og á grundvelli málsástæðna sem síðar verða raktar hefur aðalstefnandi í aðalsök uppi kröfu um skaðabætur úr hendi gagnstefnanda að fjárhæð 1.826.864 krónur.                 Svo sem fram er komið bjó gagnstefnandi í húsinu ásamt fjölskyldu sinni allt þar til í mars á þessu ári. Hafði hann þá ekki staðið skil á leigu í um það bil ár, eða frá og með apríl 2016. Hafði gagnstefnandi lýst yfir riftun á leigusamningi aðila 27. maí maí 2016 á grundvelli 1. töluliðar 61. gr. húsaleigulagalaga nr. 36/1994 og að undangenginni greiðsluáskorun. Þar sem greiðsla barst ekki og aðalstefnandi varð ekki við kröfum um að rýma húsið var þess krafist fyrir héraðsdómi að hann yrði borinn út úr fasteigninni. Var fallist á þá kröfu 7. febrúar 2017. Við fyrirtöku málsins hjá sýslumanni 6. mars 2017 lýsti aðalstefnandi því yfir að hann myndi rýma húsið eigi síðar en 13. sama mánaðar og mun það hafa gengið eftir. Verði fjárkrafa aðalstefnanda í aðalsök tekin til greina krefst gagnstefnandi þess að kröfu hans um ógreidda húsaleigu frá 1. apríl 2016 til þess tíma er leigusamningurinn féll úr gildi vegna riftunar og kröfu um sams konar endurgjald þaðan í frá og til og með mars 2017, en hún hljóðar upp á 2.142.074 krónur, verði skuldajafnað við kröfu aðalstefnanda. Gagnsök hefur gagnstefnandi á hinn bóginn höfðað til sjálfstæðs dóms um þann hluta kröfu sinnar sem tekur til tímabilsins 1. apríl 2016 til og með janúar 2017. II Aðalstefnandi telur ljóst að gagnstefnandi beri ábyrgð á því tjóni sem orðið hafi á innbúi hans vegna myglu í hinu leigða húsnæði. Í fyrsta lagi sé ljóst að tjón hans megi rekja til ólögmætrar háttsemi gagnstefnanda sem leigusala. Gagnstefnanda hafi borið skylda til lögum samkvæmt að halda hinu leigða húsnæði í leiguhæfu ástandi, sbr. 19. gr. og 20. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Vísast í því sambandi einnig til b- liðar 1. mgr. 6. gr. leigusamnings aðilanna frá 11. nóvember 2013. Er sérstaklega á það bent að aðalstefnandi hafi upplýst gagnstefnanda um mygluna í mars 2015 og lagt fram kvörtun vegna ástands fasteignarinnar. Hafi verið brugðist við af hálfu gagnstefnanda með þrifum á íbúðinni og með því að mála yfir mygluna. Þær ráðstafanir hafi eðli máls samkvæmt ekki verið til þess fallnar að bæta úr hinu slæma ástandi fasteignarinnar og því verið með öllu ófullnægjandi. Aðalstefnandi hafi í kjölfarið leitað til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja sem hefði staðfest að undangenginni skoðun að fasteignin væri óíbúðarhæf sökum myglu. Þrátt fyrir að gagnstefnanda hafi strax borist vitneskja um þetta hafi ekkert verið aðhafst af hans hálfu til þess að bæta aðalstefnanda það tjón sem hann hafi orðið fyrir sökum myglunnar. Loks hafi ekki verið brugðist við kröfum aðalstefnanda í kjölfar þess að fyrir lá matsgerð sem hann aflaði, en með henni hafi verið staðfest að húsið væri óíbúðarhæft og að innbú hefði skemmst. Í öðru lagi telur aðalstefnandi að hann hafi með fyrirliggjandi matsgerð fært sönnur á tjón sitt og fjárhæð þess og að það sé á ábyrgð gagnstefnanda. Í þriðja lagi sé ljóst að rekja megi tjón aðalstefnanda til vanrækslu gagnstefnanda á að tryggja að hið leigða húsnæði væri í leiguhæfu ástandi. Tjónið sé jafnframt sennileg afleiðing þess að fasteignin hafi verið haldin ýmsum göllum og verið óíbúðarhæf. Fram komi í matsgerðinni að matsmaður hafi fengið afhentar skýrslur verkfræðistofunnar Verkís, sem unnar hafi verið fyrir gagnstefnanda. Í skýrslunni og jafnframt í matsgerðinni sjálfri sé margháttuðum byggingargöllum lýst sem leiði af sér rakavandamál og leka, m.a. í kringum glugga, þar sem myglusveppur hafi vaxið. Ljóst sé samkvæmt þessu að orsök myglunnar liggi í göllum á fasteigninni sem alfarið séu á ábyrgð gagnstefnanda sem leigusala. Er sérstaklega á það bent að umrædd skýrsla hafi legið fyrir árið 2014 og gagnstefnanda þá þegar verið kunnugt um framangreinda galla á þeim raðhúsum í eigu félagsins sem hér um ræðir. Gagnstefnandi hafi engu að síður haldið áfram að leigja íbúðirnar út, þar á meðal gert leigusamning við aðalstefnanda, og ekki framkvæmt viðunandi úrbætur þegar eftir því var leitað. Þegar þannig háttar til sé um sök að ræða hjá leigusala sem leiði til bótaábyrgðar gagnvart aðalstefnanda. Er þessu til stuðnings vísað til dóms Hæstaréttar frá 22. september 2016 í máli nr. 744/2015. Atvik þess máls sem hér er til úrlausnar séu á þann veg að sakarábyrgð leigusala eigi enn frekar við. Með vísan til framangreinds telur aðalstefnandi ljóst að gagnstefnandi beri samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins ábyrgð á því tjóni sem hann hafi orðið fyrir og sannreynt hafi verið með fyrirliggjandi matsgerð. Aðalstefnandi hafi leitast við að takmarka tjón sitt eins og mögulegt var, enda margsinnis gert gagnstefnanda viðvart um hið óíbúðarhæfa ástand fasteignarinnar og krafist úrbóta og skaðabóta vegna þess. Þá hafi hann ekki haft annað húsnæði til umráða og af illri nauðsyn dvalið í húsnæðinu á uppsagnartíma leigusamnings og eftir að honum lauk. III Af hálfu gagnstefnanda er á því byggt að ekki liggi fyrir í málinu sönnun um sök hans sem réttlætt geti kröfu aðalstefnanda. Í fyrirliggjandi matsgerð sé ekki tekin afstaða til sakar og því sé ósannað að myglusveppur, sem fyrirfinnst í raðhúsi gagnstefnanda að Stapavöllum 3, eigi rót sína að rekja til saknæmrar háttsemi stefnda. Þvert á móti sé það niðurstaða matsmanns að myglusveppur í húsinu stafi af of háu rakastigi fyrir þessa tilteknu gerð húsa sem bendi til þess að aðalstefnandi hafi ekki loftað nægilega vel út. Í matsgerðinni taki matsmaður fram að fasteignin sé byggð í samræmi við byggingarreglugerð. Því liggi ekki fyrir að fasteignin sé haldin byggingargöllum sem gagnstefnandi beri ábyrgð á sem eigandi og leigusali. Starfsmenn gagnstefnanda hefðu leiðbeint aðalstefnanda og sambýliskonu hans um hvernig þeim bæri að ganga um húsið en ljóst megi vera að þau hafi ekki fylgt þeim leiðbeiningum. Sú skylda gagnstefnanda að halda fasteigninni í leiguhæfu ástandi breyti hér engu enda ósannað að félagið hafi ekki gert það og að fasteignin hafi orðið óíbúðarhæf vegna háttsemi þess eða vegna atriða sem það beri ábyrgð á. Þá verði að hafa það í huga að á aðalstefnanda sem leigjanda hafi hvílt sú skylda að hirða vel um fasteignina, sbr. 18. gr. húsaleigulaga. Gagnstefnandi hafnar því sérstaklega að skýrsla Verkís sýni fram á sök hans í málinu og að vitneskja hans um tilvist hennar leiði til sakar. Skýrsla hafi að sönnu legið fyrir við gerð matsgerðar. Í henni sé ekki verið að fjalla um þau atriði sem matsmaður telur orsök myglunnar. Niðurstaða matsmanns hafi verið sú að leka væri ekki um að kenna heldur hafi rakastig í húsinu verið of hátt. Sé ósannað með vísan til niðurstöðu matsmanns að mygla hafi verið í fasteigninni frá upphafi leigutíma eða að gagnstefnandi hafi haft vitneskju um tilvist myglu frá upphafi. Samkvæmt niðurstöðu matsmanns hafi mygla verið til staðar í húsnæðinu í að minnsta kosti ár, en aðalstefnandi hafi haft afnot fasteignarinnar mun lengur, eða frá 11. nóvember 2013. Í þessu samhengi sé rétt að geta þess að mygla fyrirfinnist ekki í sams konar fasteignum gagnstefnanda. Þá hafnar gagnstefnandi því að aðalstefnandi hafi krafist úrbóta á fasteigninni. Hann hafi þvert á móti krafist afhendingar sams konar fasteignar meðan á uppsagnarfresti stæði. Ekkert sé hæft í þeim fullyrðingum aðalstefnanda að gagnstefnandi hafi beinlínis hafnað úrbótum. Hins vegar hafi fyrirsvarsmaður gagnstefnanda skorað á aðalstefnanda að yfirgefa fasteignina svo að hægt væri að bæta úr því ástandi sem upp var komið. Sönnunarbyrði fyrir sök gagnstefnanda hvíli á aðalstefnanda. Þannig verði aðalstefnandi að sanna að tilvist myglusvepps í húsnæðinu Stapavöllum 3 verði rakin til sakar af hálfu gagnstefnanda eða atriða sem hann beri ábyrgð á. Í málinu sé slíkri sönnun ekki til að dreifa og beri því að sýkna gagnstefnanda af kröfu aðalstefnanda. Þá vísar gagnstefnandi til þess að í málavaxtalýsingu aðalstefnanda komi fram að hann hafi fyrst orðið var við myglu árið 2015 en ekki aflað álits Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja fyrr en í mars 2016. Í kjölfar álitsins hafi gagnstefnandi sagt upp leigusamningi við aðalstefnanda og skorað á hann að rýma húsið. Hafi aðalstefnandi hætt að greiða leigu og samningi aðila um húsaleigu því verið rift eftir að greiðsluáskorun hafði verið send. Þá hafi gagnstefnandi skorað á aðalstefnanda að rýma eignina með sérstakri áskorun 1. desember 2016. Það hafi aðalstefnandi ekki gert fyrr en um miðjan mars 2017 að undangengnu útburðarmáli fyrir héraðsdómi og hjá sýslumanni. Aðalstefnandi hafi fullyrt að ómögulegt hafi verið fyrir hann að leigja aðra íbúð og af þeim sökum hafi hann ekki sinnt framangreindum áskorunum gagnstefnanda. Sú fullyrðing verði að teljast mjög ósennileg og beri aðalstefnandi sönnunarbyrði fyrir réttmæti hennar. Ekkert sé fram komið í málinu sem rennt gæti stoðum undir hana. Þá sé málatilbúnaður aðalstefnanda mótsagnakenndur að þessu leyti. Hann hafi krafist skaðabóta fyrir hreinsun á búslóð og fatnaði en á sama tíma neitað að yfirgefa fasteign þar sem myglusveppur hafði skotið rótum og valdið honum tjóni. Í öllu falli sé það ljóst að aðalstefnandi hafi ekki á nokkurn hátt leitast við að takmarka tjón sitt og hann hafi ekki flutt úr húsinu þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir gagnstefnanda og málsókn og ekki fyrr en fyrir lá að til útburðar kæmi. Að mati gagnstefnanda beri einnig af þeirri ástæðu að sýkna hann af kröfu aðalstefnanda. Þá telur gagnstefnandi að fullnægjandi sönnun liggi fyrir um fjárhæð meints tjóns aðalstefnanda. Í fyrirliggjandi matsgerð sé tjónið talið nema 1.826.864 krónum. Þar sé hins vegar ekki að finna nákvæma sundurliðun á þeim munum sem um ræðir, tegund þeirra og við hvaða viðmið fjárhæðir styðjist. Krafan sé því vanreifuð og verði af þeim sökum einum að hafna henni. Verði ekki fallist á framangreindar röksemdir gagnstefnanda krefst hann sýknu á grundvelli skuldajafnaðar krafna sinna við kröfu aðalstefnanda, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnstefnandi eigi gagnkröfu á hendur aðalstefnanda um leigugjald og gjald fyrir afnot hans af fasteigninni frá 1. apríl 2016 til og með mars 2017. Krafist sé sama endurgjalds og felist í umsaminni leigu vegna afnota aðalstefnanda af fasteigninni frá því að leigusamningur féll úr gildi. Tilvist myglusvepps í húsinu breyti engu um þessa skyldu gagnstefnanda, enda hafi hann dvalið í því og haft af því afnot og ekkert liggi fyrir um að þau afnot hafi verið skert. IV Gagnstefnandi krefst þess í gagnsök að aðalstefnanda verði gert að greiða félaginu leigugjald og endurgjald fyrir afnot af umræddri fasteign á tímabilinu apríl 2016 til og með janúar 2017 að fjárhæð 1.783.608 krónur. Samkvæmt leigusamningi aðila hafi grunnleiga verið ákveðin 170.000 krónur sem hafi verið bundin vísitölu neysluverðs miðað við október 2013. Gjalddagi var fyrsti mánaðardagur hvers mánaðar og eindagi fimmti hvers mánaðar. Aðalstefnandi hafi ekki greitt leigugjald frá 1. apríl 2016 og leigusamningi hafi verið rift 27. maí 2016 í kjölfar greiðsluáskorunar. Krefst gagnstefnandi greiðslu á umsaminni húsaleigu frá 1. apríl 2016 fram til þess tíma er leigusamningur féll úr gildi í kjölfar riftunar og sams konar endurgjalds vegna afnota aðalstefnanda af fasteigninni þaðan í frá. Aðalstefnandi hafi haft afnot af fasteigninni allan þennan tíma og ekki greitt fyrir þau. Gagnstefnandi hafi sent honum reikninga fyrir afnot hans og hafi þeir ekki sætt andmælum. Gagnstefnandi vísar til reglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Enn fremur vísar gagnstefnandi til reglna leigu- og kröfuréttar vegna vanrækslu aðalstefnanda á skilaskyldu leiguandlags. Aðalstefnandi hafi þannig komið í veg fyrir að gagnstefnandi hefði réttmætan arð af fasteign sinni eftir að leigusamningur aðila féll úr gildi með því að halda áfram afnotum sínum af henni og án þess að greiða fyrir þau. V                 Í greinargerð sinni í gagnsök tekur aðalstefnandi fram að málsástæður um aðalkröfu eiga einnig við um varakröfu að breyttu breytanda eftir því sem við á. Er öllum kröfum og málsástæðum gagnstefnanda mótmælt sem röngum og ósönnuðum og aðallega krafist sýknu af þeim.                 Aðalstefnandi byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að honum verði ekki gert að greiða leigu fyrir húsnæði sem verið hafi í óíbúðarhæfu ástandi. Lög standi einfaldlega ekki til þess að slík skylda verði felld á hann. Vísar hann um ástand hússins til stefnu í aðalsök og gagna sem byggt er á þar að lútandi. Aðalstefnandi bendir á að hann hafi greitt leigu fyrir íbúðina skilvíslega fram til þess dags sem gagnstefnanda var sannarlega kunnugt um myglu í fasteigninni og reyndar lengur. Hann hafi ekki greitt leigu frá 1. apríl 2016, en gagnstefnandi hafi þá verið búinn að fá í hendur staðfestingu frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja um ástand fasteignarinnar. Megi í raun halda því fram að aðalstefnandi hefði getað hætt að greiða leigu mun fyrr, eða frá því að leigusala varð fyrst kunnugt um mygluna hinn 8. maí 2015. Sé ljóst að gagnstefnandi hafi vanefnt skyldu sína sem leigusali frá og með þeim degi með því að gera ekki viðunandi úrbætur á hinu leigða húsnæði þrátt fyrir að vera kunnugt um óviðunandi ástand þess, sbr. 3. mgr. 19. gr. húsaleigulaga. Krefjist slíkar framkvæmdir þess að leigutaki yfirgefi húsnæði beri leigusala að útvega honum annað húsnæði á meðan og efna þannig skyldur sínar gagnvart leigutaka. Það sé raunar ljóst að gagnstefnanda hafi verið kunnugt um galla hins leigða húsnæðis talsvert fyrr, eða á árinu 2014 þegar hann aflaði sérfræðiskýrslu frá Verkís um ástand húsa í umræddri raðhúsalengju. Með því að gagnstefnandi sinnti ekki þeirri skyldu sinni að ráðast í úrbætur á eigninni hafi aðalstefnanda verið heimilt að halda eftir leigugreiðslum.                 Framangreint eigi bæði við um það tímabil sem leigusamningur var í gildi milli aðila og þann tíma sem aðalstefnandi dvaldi í íbúðinni að leigutíma loknum. Að því er fyrra tímabilið varðar verði að horfa til þess að gagnstefnandi hafi vanefnt verulega skyldur sínar sem leigusali samkvæmt gildum leigusamningi og ekki gætt að ákvæðum 19. gr. húsaleigulaga. Ljóst megi vera að ástand hinnar leigðu fasteignar hafi verið með þeim hætti að hún hafi verið óíbúðarhæf. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi aðalstefnandi ekki með nokkru móti getað spornað við mygluvexti í húsnæðinu. Alkunnugt sé að mygla myndist meðal annars vegna raka. Staðfest sé í matsgerð að fasteignin þoli illa raka og sé gölluð að því leyti. Þá séu gallar á hinu leigða húsnæði enn fremur staðfestir með skýrslum Verkís sem gagnstefnanda var kunnugt um, enda aflaði hann þeirra sjálfur. Þar komi meðal annars fram að grípa þurfi til víðtækra viðgerða á fasteignum aðalstefnanda við Stapavelli vegna þess að frágangur þeirra sé ófullnægjandi. Þannig sé frágangi glugga ábótavant og gera þurfi á þeim lagfæringar sem fyrst. Það að gluggar séu óþéttir hafi það augljóslega í för með sér að meiri raki myndast en ella. Skýrslur Verkís staðfesti að um sök af hálfu gagnstefnanda sé að ræða þar sem honum hafi verið fullkunnugt um að umræddar fasteignir væru haldnar margvíslegum göllum. Hann hafi engu að síður leigt þær út til eldri borgara án þess að upplýsa um ástand þeirra og gera á þeim viðeigandi úrbætur eða veita afslátt af leigu. Ábyrgð gagnstefanda á óíbúðarhæfu ástandi fasteignarinnar að Stapavöllum 3 sé því augljós. Þá er því mótmælt að aðalstefnandi hefði getað fyrirbyggt mygluvöxt á einhvern hátt. Öllum staðhæfingum um að hann hefði getað loftað betur út með því að hafa glugga opna sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Þá verði ekki gerð sú krafa að leigjendur íbúðarhúsnæðis hafi glugga opna öllum stundum.                 Ljóst sé að leigusala hafi verið kunnugt um hið óíbúðarhæfa ástand hinnar leigðu fasteignar allan þann tíma sem aðalstefnandi hélt eftir leigugreiðslu. Gagnstefnandi hafi á sama tíma ekki leitast við að gera úrbætur á húsnæðinu. Gagnstefnandi hafi því vanefnt leigusamning aðila, en af því leiði að aðalstefnanda hafi ekki borið að greiða leigu á meðan samningurinn var í gildi. Er til frekari skýringar byggt á þeirri almennu reglu kröfuréttar að leigutaki hafi heimild til að halda eftir greiðslu vegna vanefnda leigusala. Með vísan til framangreinds sé ljóst að aðalstefnandi verði ekki krafinn um greiðslu leigu fyrir húsnæði sem sé ekki í leiguhæfu húsnæði, sbr. 2. mgr. 19. gr. húsaleigulaga. Verði því að sýkna hann af kröfu um greiðslu leigu fyrir umrætt tímabil.                 Auk framangreinds megi leiða líkur að því að hið leigða húsnæði hafi verið haldið göllum við afhendingu þess, en það verði ráðið af fyrirliggjandi skýrslum Verkís. Hafi gagnstefnandi þannig ekki gætt að því að leiguhúsnæðið væri í fullnægjandi ástandi miðað við fyrirhugaða notkun þess við afhendingu til leigutaka, sbr. 14. gr. húsaleigulaga. Verði aðalstefnanda ekki gert að greiða leigu fyrir húsnæði sem ekki uppfylli skilyrði laganna.                 Að því er varðar tímabilið frá því að leigusamningur aðila rann út beri í fyrsta lagi að líta til þess að gagnstefnandi hafi ekki rökstutt þessa kröfu í gagnstefnu. Verði hann að bera hallann af þessari vanreifun kröfunnar. Í öðru lagi verði að horfa til þess að gagnstefnandi hefði ekki getað leigt íbúðina einhverjum öðrum en aðalstefnanda á því tímabili sem hann dvaldi í henni eftir að leigusamningurinn rann út, enda ljóst að hún hafi verið óíbúðarhæf og uppfyllti ekki kröfur húsaleigulaga. Þar með geti gagnstefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni á umræddu tímabili. Verði því að hafna kröfu gagnstefnanda og sýkna aðalstefnanda af kröfu um greiðslu fyrir afnot af hinni leigðu fasteign. Í þessu sambandi sé einnig bent á að aðalstefnandi hafi greitt leigu skilvíslega til gagnstefnanda þar til í apríl 2016, jafnvel þó svo að húsnæðið væri þá þegar gallað og óíbúðarhæft vegna myglu. Ekki hafi verið veittur afsláttur af leigu þrátt fyrir að húsnæðið væri haldið verulegum göllum. Hafi aðalstefnandi þannig þegar greitt gagnstefnanda hærri leigugreiðslu en honum beri réttur til.                  Verði ekki fallist á sýknukröfu krefst aðalstefnandi þess að kröfur gagnstefnanda verði lækkaðar verulega. Byggir hann þá kröfu sína á því að verði það niðurstaða málsins að honum hafi borið skylda til að greiða leigu af fasteigninni á umræddu tímabili eða greiða fyrir afnot hennar eigi hann rétt á verulegum afslætti á leigunni sökum ástands fasteignarinnar. Er sem fyrr vísað til þess að hún hafi verið óíbúðarhæf og gagnstefnandi hafi vanefnt úrbótaskyldu sína, sbr. 19. gr. húsaleigulaga. Eignin hafi í reynd verið óíbúðarhæf frá upphafi leigutíma og vísast um það til fyrirliggjandi gagna. Að öðru leyti er varakrafa byggð á þeim málsástæðum sem aðalstefnandi hefur teflt fram til stuðnings sýknukröfu sinni. VI 1.                 Í málinu krefst aðalstefnandi fébóta vegna ætlaðs tjóns sem orðið hafi á innbúi hans af völdum myglusvepps í íbúðarhúsinu að Stapavöllum 3 í Reykjanesbæ sem hann tók á leigu hjá gagnstefnanda í lok árs 2013. Byggir hann kröfu sína á almennum skaðabótareglum og vísar þá sérstaklega til ætlaðrar sakar gagnstefnanda sem hann reisir einkum á ákvæðum 19. og 20. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, en þau lúta að skyldu leigusala til að halda húsnæði í leiguhæfu ástandi.                 Leigusamningur málsaðilanna tók gildi 1. nóvember 2013. Hafði gagnstefnandi þá leigt húsið út í nokkur ár, en það mun hafa verið byggt á árunum 2006 og 2007. Bjó aðalstefnandi í húsinu ásamt sambýliskonu sinni og syni hennar þar til í mars 2017, eða í rúm þrjú ár. Um það bil einu ári áður leitaði aðalstefnandi til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja vegna ástands hússins. Svo sem áður er rakið var það niðurstaða skoðunar á húsinu sem þá var framkvæmd að mjög mikill sýnilegur mygluvöxtur væri á útveggjum í stofu, baðherbergi, svefnherbergjum og þvottaherbergi. Þá voru víða merki um rakaskemmdir. Var umfang þessara skemmda enn frekar staðfest með matsgerð dómkvadds matsmanns, sem unnin var í júlí, ágúst og september 2016,  og myndum sem hann tók. Er engum blöðum um það að fletta að íbúðin var mjög illa farin vegna raka og myglu þegar hér var komið sögu og full ástæða til að ætla að tjón á innbúi af þeim sökum væri þá þegar fyrir hendi. Um leið og gagnstefnanda varð þetta ljóst sendi hann aðalstefnanda símskeyti þar sem skorað var á hann að rýma húsnæðið svo að hægt væri að grípa til viðeigandi ráðstafana í samræmi við óskir heilbrigðiseftirlits, en í bréfi þess kom fram að ekki væri mælt með notkun húsnæðisins fyrr en að úrbótum loknum. Svo sem rakið hefur verið varð aðalstefnandi ekki við þessari áskorun og hélt áfram að búa í húsinu allt þar til í það stefndi að hann yrði borinn út úr því.                 Fyrir liggur að starfsmönnum gagnstefnanda barst vitneskja um myglu í húsinu vorið 2015. Var af hálfu félagsins brugðist við því ástandi með því að hreinsa veggi þar sem mygla hafði myndast og mála þá. Í vitnisburði Erlendar Guðnasonar, sem hefur um nokkurra ára skeið haft umsjón með fasteignum í eigu gagnstefnanda, kom fram að brýnt hafi verið fyrir húsráðendum í tengslum við framangreindar úrbætur vorið 2015 að lofta betur út úr húsinu til að koma í veg fyrir myndun myglusvepps í því. Í skýrslu sinni fyrir dómi staðfesti aðalstefnandi þetta og gekkst að auki við því að hafa ekki fylgt þessum tilmælum. Tiltók hann sérstaklega að það hafi einfaldlega ekki verið hægt að skilja glugga eftir opna á meðan enginn dvaldi í húsinu og að þeir hefðu almennt verið lokaðir frá klukkan 8 á morgnana og fram til klukkan 19 á kvöldin þegar „fólk var í vinnu“.                 Í matsgerð kemur fram að matsmaður hafi skoðað að minnsta kosti sjö önnur raðhús í eigu gagnstefnanda á umræddu svæði og að mygla hafi einungis fundist í einu þeirra. Umfang hennar hafi þó verið umtalsvert minna en í tilviki aðalstefnanda og illa hafi verið gengið um það hús. Svo sem áður er rakið er það niðurstaða matsmanns að sýnileg mygla í húsinu sem gagnstefnandi hafði á leigu eigi rót sína að rekja til þess að rakastig inni hafi farið yfir þolanleg mörk að vetrarlagi, nánar tiltekið „yfir þau mörk sem þessi hefðbundna gerð húsa þolir í kuldabrúnum í kverkum“. Þrátt fyrir tiltekinn byggingargalla sem matsmaður telur vera á þessari tegund húsa og hann lýsir í matsgerð sinni séu þau viðurkennd af byggingaryfirvöldum. Þá segir svo í matsgerðinni: „Þetta eru auk heldur algengustu húsin á Íslandi og hafa sýnt sig að vera í lagi svo lengi sem duglega er kynnt og vel loftað. Ef vel er loftað og vel hitað valda þau yfirleitt ekki þeim vandamálum sem hér er við að glíma og koma fram að vetrarlagi.“  Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst matsmaður ekki geta sagt til um það með vissu hvort raki í húsinu hafi orðið til inni í því og þá af mannavöldum eða hvort hann hafi komið til með leka utan frá, en því hefur aðalstefnandi haldið fram. Þó kom fram hjá honum að hann hafi ekki orðið var við mikil ummerki um leka.                          Í málinu liggur ekki annað fyrir en að ákvæðum byggingarreglugerðar hafi verið fylgt við byggingu hússins. Þá er ekkert komið fram sem bendir til þess að myglusveppur hafi verið til staðar í því þegar aðalstefnandi tók það á leigu og við það verður að miða að gagnstefnanda hafi ekki borist vitneskja um tilvist hans fyrr en vorið 2015, um það bil einu og hálfu ári eftir að leiguafnot aðalstefnanda hófust. Í kjölfar lagfæringa sem þá var ráðist í lét aðalstefnandi hjá líða að fylgja tilmælum frá gagnstefnanda um að lofta betur út úr húsinu og verður ekki séð að félagið hafi verið upplýst um þróun mála fyrr en með áðurgreindu bréfi Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja í lok mars 2016 þegar í algjört óefni var komið og tjón á innbúi orðið að veruleika.                 Af hálfu aðalstefnanda hefur verið vísað til þess að fyrirliggjandi skýrslur um ástandsskoðun tveggja raðhúsa í eigu gagnstefnanda við Stapavelli, sem Verkís hf. vann fyrir félagið, renni stoðum undir bótakröfu hans. Í matsgerð er vikið að þessum skýrslum og tekið fram að í þeim sé gerð grein fyrir allmörgum göllum á húsunum. Fæstir þeirra snerti á hinn bóginn „úrvinnslu þessa máls“. Er undir þetta tekið af hálfu dómsins og að umræddar skýrslur hnekki í engu niðurstöðum matsgerðar.                   Að því virtu sem að framan er rakið verður að fallast á það með gagnstefnanda að ekki séu skilyrði til að fella á hann skaðabótaskyldu vegna ætlaðs fjártjóns aðalstefnanda. Er þess þá jafnframt að gæta að í húsaleigulögum verður því ekki fundin stoð að leigusali beri undir þessum kringumstæðum ríkari ábyrgð á vanefndum en leiðir af almennum reglum. Samkvæmt þessu verður gagnstefnandi sýknaður af bótakröfu aðalstefnanda. 2.                 Svo sem fram er komið bjó aðalstefnandi í húsinu í tæplega eitt ár án þess að greiða fyrir þau afnot sín af því, nánar tiltekið frá 1. apríl 2016 og fram í mars á þessu ári. Það gerð hann enda þótt Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefði í bréfi til hans í mars 2016 tekið fram að ekki væri mælt með notkun húsnæðisins fyrr en að loknum nauðsynlegum endurbótum á því og þrátt fyrir staðhæfingu hans um veikindi heimilisfólks sem rekja mætti til myglusvepps í því, en engin gögn hafa verið lögð fram og engin vitni leidd því til stuðnings. Við þetta bætist að í kjölfar þess að bréf heilbrigðiseftirlitsins barst gagnstefnanda lá fyrir sú afstaða félagsins að ekki yrði gerð krafa um að aðalstefnandi efndi leigusamninginn samkvæmt efni sínu og að fullur skilningur væri á því ef hann kysi að losna undan skuldbindingum sínum sem fyrst. Að öðrum kosti bæri gagnstefnanda réttur til leigu. Þá greip aðalstefnandi ekki til úrræða sem honum stóðu opin og mælt er fyrir um í 20. gr. húsaleigulaga heldur setti fram kröfur sem fólust í því í fyrsta lagi að leiga frá 1. maí 2015 yrði endurgreidd, í öðru lagi að gagnstefnandi útvegaði honum nýtt húsnæði til afnota út leigutímann, en á gagnstefnanda hvíldi engin slík skylda að lögum, og í þriðja lagi að búslóð hans yrði þrifin á kostnað gagnstefnanda.                    Í gagnsök gerir gagnstefnandi kröfu um endurgjald úr hendi aðalstefnanda sem taki mið af umsaminni leigu samkvæmt leigusamningi. Tekur krafan til apríl 2016 til og með janúar 2017, en leiga fyrir þetta tímabil var gjaldfallin við höfðun gagnsakar.                 Með vísan til þess sem að framan er rakið er fallist á það með gagnstefnanda að honum beri réttur til endurgjalds úr hendi aðalstefnanda fyrir afnot hans af húsinu á umræddu tímabili og að þannig séu engin efni til að líta svo á að honum hafi verið þau heimil án endurgjalds af hans hálfu. Þá er sú staða fyrir hendi að þrátt fyrir að ástand hússins á þessum tíma hafi verið með þeim hætti að ekki var mælt með því að búið væri í því hefur dómurinn engar forsendur til að mæla fyrir um rétt aðalstefnanda til afsláttar af umsömdu endurgjaldi fyrir þessi afnot og enn síður að ákvarða fjárhæð hans. Samkvæmt þessu verður fjárkrafa gagnstefnanda að fullu tekin til greina. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir, en krafa gagnstefnanda um þá hefur ekki sætt sérstökum andmælum.                      Eftir framangreindum málsúrslitum verður aðalstefnanda gert að greiða gagnstefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í dómsorði greinir.                 Dóm þennan kveða upp Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir Ásmundur Ingvarsson byggingarverkfræðingur og Þór Tómasson efnaverkfræðingur. Dómsorð:                 Gagnstefnandi, Nesvellir íbúðir ehf., er sýkn af kröfu aðalstefnanda, Gunnars H. Pálssonar.                 Aðalstefnandi greiði gagnstefnanda 1.783.608 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 176.551 krónu frá 1. apríl 2016 til 1. maí sama ár, en af 353.757 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, en af 531.332 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, en af 709.644 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, en af 888.283 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, en af 1.066.349 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, en af 1.245.029 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, en af 1.424.569 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, en af 1.604.109 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2017, en af 1.783.608 krónum frá þeim degi til greiðsludags.                 Aðalstefnandi greiði gagnstefnanda 700.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 773/2017
Líkamstjón Skaðabótamál Fyrirvari Uppgjör Samningur Varanleg örorka Örorkumat
A slasaðist þegar bifreið var ekið yfir fót hennar í janúar 2014. Í júní 2015 greiddi V hf. henni bætur á grundvelli álitsgerðar læknis og lögmanns sem þá lá fyrir, en þeir töldu að slysið hefði ekki haft í för með sér varanlega starfsorkuskerðingu fyrir A. Tók A við bótunum með fyrirvara um mat á varanlegri örorku og aflaði í kjölfarið álits örorkunefndar á afleiðingum slyssins, sem komst að þeirri niðurstöðu að varanleg örorka hennar væri 10%. Höfðaði A þá mál á hendur V hf. til heimtu frekari bóta. Deildu aðilar bæði um gildi fyrirvarans sem A hafði gert við bótauppgjörið og hvort leggja bæri niðurstöðu örorkunefndar til grundvallar. Héraðsdómur taldi að fyrirvari A hefði verið fullgildur og að leggja bæri álit örorkunefndar til grundvallar niðurstöðu um varanlega örorku hennar. Var krafa A því tekin til greina. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms að leggja bæri álit örorkunefndar til grundvallar í málinu. Hvað fyrirvarann varðaði vísaði Hæstiréttur til þess að í honum hefði falist nýtt tilboð af hálfu A þess efnis að hún samþykkti ekki uppgjörið að því er laut að varanlegri örorku. Yrði að leggja til grundvallar að V hf. hefði samþykkt það tilboð. Þá hefði uppgjörið farið fram að teknu tilliti til fyrirvarans sem hefði verið ótvíræður og skýr. Hefði uppgjöri vegna líkamstjóns A því ekki verið lokið að því er laut að varanlegri örorku. Var hinn áfrýjaði dómur samkvæmt því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Valtýr Sigurðsson fyrrverandi ríkissaksóknari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. desember 2017. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði látinn niður falla. Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. Stefnda slasaðist er bifreið var ekið yfir hægri fót hennar 22. janúar 2014. Áfrýjandi, sem veitt hafði lögboðna ábyrgðartryggingu vegna bifreiðarinnar, viðurkenndi bótaábyrgð vegna þess líkamstjóns sem stefnda varð fyrir í slysinu. Leitað var álits tveggja sérfræðinga, bæklunarskurðlæknis og lögmanns, um mat á tímabundnum og varanlegum afleiðingum slyssins fyrir stefndu og skiluðu þeir áliti 24. maí 2015. Þeir töldu að slysið hefði haft tilgreindar tímabundnar afleiðingar fyrir stefndu og mátu varanlegan miska 15 stig. Í ljósi takmarkaðrar atvinnuþátttöku stefndu síðustu árin fyrir slys var það niðurstaða þeirra að það hefði ekki haft í för með sér varanlega starfsorkuskerðingu fyrir hana. Í kjölfar þessarar niðurstöðu sendi áfrýjandi tölvubréf 11. júní 2015 til lögmanns stefndu þar sem upplýst var um bótatilboð af hálfu félagsins, en það var reist á niðurstöðu í áliti framangreindra sérfræðinga. Bótatilboðinu svaraði lögmaður stefndu með tölvubréfi samdægurs svo, að hann samþykkti tilboðið, en bætti við að hann hefði sett ,,fyrirvara á mati v/varanlegar örorku“. Á blaði sem bar yfirskriftina ,,Fullnaðaruppgjör“ og dagsett var sama dag var undirritun fyrir hönd stefndu, en þar fyrir neðan var ritað: ,,Með fyrirvara um varanlega örorku“. Á tjónskvittun 12. júní 2015, sem áfrýjandi gaf út og undirrituð var eingöngu af starfsmanni hans, kom fram: ,,Lögmaður tjónþola undirritar uppgjör með fyrirvara um varanlega örorku.“ Stefnda beiddist 14. apríl 2016 álits örorkunefndar á afleiðingum slyssins og var niðurstaða nefndarinnar meðal annars sú að varanleg örorka hennar vegna þess væri 10%. Aðila greinir í fyrsta lagi á um gildi þess fyrirvara, sem stefnda gerði við bótauppgjörið í júní 2015 og í öðru lagi, ef talið verður að fyrirvarinn hafi þau réttaráhrif sem stefnda heldur fram, um það hvort leggja beri til grundvallar niðurstöðu örorkunefndar um varanlega örorku eða álit þeirra sérfræðinga sem áður greinir. Í svari stefndu við bótatilboði áfrýjanda, sem rakið er að framan, kom fram að hún samþykkti tilboðið en gerði þó fyrirvara um matið á varanlegri örorku. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga fólst í fyrirvara stefndu nýtt tilboð þess efnis að hún samþykkti ekki uppgjörið að því er laut að varanlegri örorku. Verður lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi samþykkt þetta tilboð, enda bundinn af 48. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga, og fór uppgjörið 12. júní 2015 fram að teknu tilliti til fyrirvarans. Fyrirvarinn var ótvíræður og nægilega skýr, einkum í ljósi þess að bótatilboðið miðaði við að engin varanleg örorka hefði leitt af slysinu. Eins og atvikum var háttað var uppgjöri vegna líkamstjónsins ekki lokið að því er laut að varanlegri örorku. Vegna fyrirvarans var stefndu heimilt að afla nánari gagna um ætlaða varanlega örorku hennar vegna slyssins og þegar þau lágu fyrir krefjast bóta fyrir þennan þátt á grundvelli þeirra.   Fallist er á með vísan til forsendna héraðsdóms að leggja beri niðurstöðu örorkunefndar um 10% varanlega örorku stefndu vegna slyssins til grundvallar uppgjöri. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, sem ákveðst eins og í dómsorði greinir. Áfrýjandi greiði málskostnað fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi greiði 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2017.                 Mál þetta höfðaði A, […], með stefnu birtri 20. janúar 2017 á hendur Verði tryggingum hf., Borgartúni 25, Reykjavík.  Málið var dómtekið 26. október sl.                  Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni bætur að fjár­hæð 2.641.629 krónur með 4,5% vöxtum frá 22. janúar 2014 til 4. ágúst 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.                  Stefnandi krefst málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en henni var veitt gjafsókn 22. nóvember 2016.                 Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar.                  Stefnandi slasaðist er bifreið ók yfir hægri fót hennar á bílastæði við verslun á […] þann 22. janúar 2014.  Bifreiðin var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda.                  Áverkum stefnanda er lýst í læknisvottorðum sem lögð voru fram.                  Í vottorði Ómars Þorsteins Árnasonar bæklunarskurðlæknis, dags. 15. apríl 2014, segir:  „... hún hlaut opið liðhlaup í stóru tá hægri fótar.  Bíllinn rakst einnig á hægri mjöðm og hafði hún verki á mjaðmasvæði...   Um er að ræða alvarlegan áverka.  Áverkinn á mjúkparta fótarins er verulegur og mjög líklega mun alvarlegri en lið­hlaupið í stóru tánni.  Það tekur oft langan tíma fyrir mjúkpartana að gróa og oftar en ekki verður mikil örvefsmyndun í fætinum sem gerir það að verkum að sjúklingarnir ná ekki fullum bata ...“                 Í vottorði Rúnars Reynissonar, læknis á […], dags. 3. mars 2015, segir m.a.:  „Nú, rúmum 13 mánuðum eftir slysið, er A enn með talsverðar eftirstöðvar eftir þetta slys.  Hún er alltaf með dálítinn bláma á hægri ristinni og hann eykst í kulda.  Hún er með skert blóðflæði í hægri ristinni og mjög kulvís á henni.  Er einnig með breytta skynjun í tánni, dofin innanvert á henni og upp á ristina, en hún er ofurviðkvæm fremst á tánni...  Hún getur til dæmis ekki gengið eðlilega ef hún er á sokkunum eða berfætt, þarf þá að ganga á jarkanum.  Skárra ef hún er í góðum skóm.  Þarf að nota númeri stærri skó en fyrir slysið, sem veldur því að skórinn á vinstri fæti er að jafnaði of rúmur.  Á erfitt með ýmis heimilisverk ...“                 Til að undirbúa bótauppgjör sammæltust aðilar um að fela Sveinbirni Brands­syni bæklunarskurðlækni og Eiríki Elís Þorlákssyni lektor að meta miska og örorku stefnanda. Þeir skiluðu áliti 24. maí 2015.                  Í álitinu var stefnandi talin hafa verið óvinnufær frá slysdegi til 1. júní 2014 og væri það tímabil þjáningabóta, þar af 3 vikur rúmliggjandi.  Varanlegur miski var talinn 15 stig en varanleg örorka engin.                  Þann 11. júní 2015 sendi stefndi lögmanni stefnanda bótatilboð með tölvu­pósti.  Í svarpósti lögmanns stefnanda sama dag segir að í viðhengi sé „samþykkt bótatilboð, ég set þó inn fyrirvara á mati v/varanlega Örorku“.  Lögmaðurinn skrifaði undir uppgjörsblað sem bar fyrirsögnina Fullnaðaruppgjör.  Þar undir setti hann þennan texta:  „Með fyrirvara um varanlega örorku“ og setti stafina sína undir.                  Með þessu uppgjöri voru greiddar þjáningabætur og bætur fyrir varanlegan miska, auk lögmannskostnaðar.  Ekkert var sagt um varanlega örorku á skjalinu, en eins og áður segir töldu álitsgjafar að hún væri engin.                  Á sérstakri tjónskvittun, dags. 12. júní 2016, var greiðslan sundurliðuð og í lokin sagt:  „Greiðsla þessi er fullnaðar- og lokagreiðsla vegna þessa tjóns og allar kröfur vegna málsins eru að fullu greiddar.“  Síðan segir:  „Lögmaður tjónþola undir-ritar uppgjör með fyrirvara um varanlega örorku.“  Undir þessa kvittun ritaði starfs­maður stefnda, en hvorki stefnandi né lögmaður hennar.                  Stefnandi óskaði eftir mati örorkunefndar þann 25. febrúar 2016.  Í áliti nefndarinnar, dags. 29. júní 2016, er varanleg örorka stefnanda metin 10%.  Í kjölfarið krafðist stefnandi frekari greiðslu úr hendi stefnda, sem neitaði.                  Í álitsgerð Sveinbjörns Brandssonar og Eiríks Elíss Þorlákssonar segir um varanlega örorku stefnanda:  „Við mat á varanlegri örorku er þannig rétt að hafa í huga framtíðarmöguleika við tekjuöflun tjónþola.  Fyrir liggur að tjónþoli hefur nýtt starfsgetu sína mjög takmarkað til um 8 ára.  Hún starfar 16 klukkustundir á mánuði við liðveislu.  Telja verður að hún geti enn sinnt þeirri eða sambærilegri  vinnu með sömu tekjur þrátt fyrir það slys sem hér um ræðir.  Að teknu tilliti til framangreindra þátta og tjónstakmörkunarskyldu verður vart séð að hún verði fyrir tekjuskerðingu vegna slyssins og er því varanleg örorka hennar engin (núll) metin.“                 Í áliti örorkunefndar segir:  „Tjónþoli var 46 ára á slysdegi.  Hún starfaði þá við liðveislu í hluta starfi og hélt því áfram rúmum fjórum mánuðum eftir slysið.  Tjónþola var sagt upp störfum í júlí 2015 og hefur ekki unnið launuð störf eftir það.  Tjónþoli hefur verið metin til meira en 75% örorku hjá Tryggingastofnun frá 2003.  Tjónþoli er með félagsliðapróf frá menntaskóla og var við slík störf frá árinu 2009 en hafði áður unnið við ræstingar.  Örorkunefnd telur að afleiðingar slyssins hafi enn dregið úr möguleikum tjónþola til að fá atvinnu og afla sér atvinnutekna og með vísan til alls ofangreinds er varanleg örorka hennar vegna slyssins 10%-tíu af hundraði.“                 Málsástæður og lagarök stefnanda                 Stefnandi telur að tjón sitt vegna slyssins þann 22. janúar 2014 hafi ekki verið bætt að fullu.  Bifreiðin […] hafi verið tryggð hjá stefnda.                  Stefnandi byggir á því að hún hafi gert fyrirvara við mat á varanlegri örorku.  Hún hafi ekki lýst því yfir að hún teldi að greiðsla stefnda væri fullnaðargreiðsla.  Hún áskildi sér rétt til að láta meta varanlega örorku á nýjan leik.                  Stefnandi bendir á að tjónskvittun, dags. 12. júní 2015, sé einhliða yfirlýsing stefnda.                  Stefnandi byggir á því að bætur fyrir varanlega örorku er hún hlaut í umræddu slysi hafi ekki verið greiddar.  Hún byggir kröfu sína á mati örorkunefndar og vísar til 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga um heimild sína til að leggja málið fyrir örorkunefnd.                  Kröfu um bætur fyrir varanlega örorku reisir stefnandi á 2. mgr. 1. gr. og 5.-7. gr. skaðabótalaga.  Útreikningur bótakröfu er útskýrður nákvæmlega í stefnu.  Þar sem fjárhæð stefnukröfu er ekki mótmælt þarf því ekki að reifa hann.                  Málsástæður og lagarök stefnda                 Stefndi segir að þegar gengið var frá bótagreiðslu til stefnanda hafi lögmaður hennar einungis gert almennan fyrirvara við mat á varanlegri örorku.  Engin gögn liggi fyrir um hvernig hafi átt að skýra þennan fyrirvara.  Byggir stefndi á því að fyrirvarinn sé haldlaus, hann sé ekki ótvíræður.  Ekki sé ljóst að hverju hann lúti.  Vísar stefndi þessu til stuðnings til dóma Hæstaréttar í málum nr. 576/2013 og 391/2015.                  Stefndi kveðst byggja á því að ekki sé unnt að dæma stefnanda frekari bætur nema með endurupptöku bótauppgjörs samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga.  Þau skilyrði séu ekki uppfyllt.  Engar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda.                  Stefndi byggir á því að álit örorkunefndar hnekki ekki fyrri álitsgerð.  Segir hann að ekkert í lögum segi að leggja skuli meiri áherslu á niðurstöðu örorkunefndar en álitsgerðina, sönnunarmatið sé frjálst.  Niðurstaða örorkunefndar sé síður rökstudd en álitsgerðin, sem sé bæði vandaðri og ítarlegri.  Ekki verði séð af áliti örorkunefndar hvaða þættir hafi leitt til þess að varanleg örorka sé metin 10 stigum hærri en áður.  Niðurstaðan sé ekki rökstudd.                  Niðurstaða                 Stefnandi krefst skaðabóta vegna tjóns síns af slysi, sem stefndi viðurkennir að hann eigi að bæta.  Stefndi byggir á móti á því annars vegar að tjónið sé fullbætt, hins vegar á því að stefnda hafi tekið við bótum og ekki gert nægan fyrirvara um að bæturnar væru ekki full greiðsla.                  Stefnandi krefst bóta vegna varanlegrar örorku samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skaða­bótalaga, þ.e. bóta fyrir varanlega skerðingu á getu til að afla vinnutekna.  Stefnandi gekk ekki heil til skógar þegar slysið varð.  Hafði hún verið metin til 75% örorku á árinu 2004 vegna vefjagigtar, en ekki er ljóst í gögnum málsins hvort það mat var enn í gildi á slysdegi.  Hún aflaði nokkurra tekna fyrir slysið.                  Aðilar sammæltust um að fela sérfræðingi í bæklunarskurðlækningum og háskóla­kennara í lögfræði að meta afleiðingar slyss stefnanda.  Þeir töldu að varanleg örorka væri engin, en ágreiningur er ekki um aðra þætti í mati þeirra.  Stefnandi leitaði þá til örorkunefndar, sem taldi að varanleg örorka væri 10%.  Hér að framan er orðrétt að finna kjarnann í rökstuðningi bæði álitsgjafanna og örorkunefndar.                  Í fyrrnefnda álitinu er talið að stefnandi geti sinnt sambærilegri vinnu og hún hafði sinnt fyrir slysið og að vart yrði séð að hún yrði fyrir tekjuskerðingu.  Hér er ekki litið til þess að varanlegir áverkar stefnanda eru nokkrir og ekki leyst úr því hvort þeir muni hamla henni við vinnu.  Ekki er fjallað um hvort áverkarnir geti þrengt enn kosti hennar um tekjuöflun.                  Í áliti örorkunefndar er aftur á móti talið að vegna afleiðinga slyssins hafi enn dregið úr möguleikum stefnanda til að fá atvinnu og afla sér vinnutekna.  Þetta er ekki ítarlegt, en dregur fram það sjónarmið að möguleikar stefnanda til að afla tekna séu nokkuð skertir eftir slysið, enn minni en þeir voru áður.  Er það einnig augljóst af lýsingum á áverkum stefnanda í gögnum málsins.                  Þegar litið er til þessara álita verður ekki fallist á það með stefnda að fyrr­nefnda álitsgerðin sé betur unnin eða rökstudd heldur en álit örorkunefndar.  Verður að leggja álit nefndarinnar til grundvallar.                  Eftir að fyrrnefnt álit lá fyrir greiddi stefndi bætur samkvæmt því og tók stefnandi við þeim.  Lögmaður hans gerði fyrirvara, en stefndi telur hann haldlausan.  Því beri að líta svo á að stefnandi hafi viðurkennt viðtöku fullra bóta og geti ekki krafið um meira.                  Lögmaður stefnanda tók við bótum og gerði þessa athugasemd:  „Með fyrir­vara um varanlega örorku.“  Þessi athugasemd kom til vitundar stefnda og verður því að skýra hvað í þessu felst, eða hvort og þá hvaða breyting verði á samkomulagi aðila um bótagreiðsluna.                  Aðilar gerðu samning.  Stefndi samþykkti að greiða og stefnandi að taka við sem fullri greiðslu tilgreindri fjárhæð sem var reiknuð eftir niðurstöðu áðurnefndrar álitsgerðar.  Þeir samþykktu að vera bundnir af niðurstöðu álitsgerðarinnar um varanlegar afleiðingar slyssins.  Þetta var staðfest með undirritun þar til bærs starfs­manns stefnda og lögmanns stefnanda.  Umboðsmaður stefnanda ritaði áðurgreind orð á blaðið.  Eftir hljóðan þessara orða hefur lögmaðurinn ekki samþykkt þann þátt samkomulagsins sem laut að bótum fyrir varanlega örorku.  Í samkomulaginu var ekki gert ráð fyrir neinum slíkum bótum í samræmi við niðurstöðu álitsgerðarinnar.  Hann hefur ekki samþykkt að engar bætur skyldu greiddar fyrir varanlega örorku.  Þessi merking orðanna er augljós og hlaut stefnda, sem hefur starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi, að vera hún ljós.  Orðin eru ótvíræð og þarfnast ekki frekari útskýringa eða afmörkunar.  Samkomulag tókst því ekki um fullnaðaruppgjör.                  Stefndi vísar einkum til tveggja dóma Hæstaréttar frá síðustu misserum, þar sem fyrirvari sem lögmaður gerði um bótagreiðslur var talinn haldlítill, dóma í málum nr. 576/2013 og 391/2015.  Fyrirvararnir sem gerðir höfðu verið í þessum tilvikum voru ekki nákvæmlega eins orðaðir og fyrirvarinn sem hér reynir á.  Í fyrrnefnda málinu var fyrirvarinn svohljóðandi:  ,,Gerður er fyrirvari við mat á miska og varanlegri örorku.“  Hæstiréttur taldi að tjónþoli hafi með þessu „... áskilið sér rétt til frekari bóta ef varanlegur miski eða varanleg örorka yrði meiri en talið var í áliti [matsmanna] vegna síðari breytinga.  Eðli máls samkvæmt verður fyrirvarinn á hinn bóginn ekki skýrður svo að áfrýjandi hafi áskilið sér rétt til endurupptöku bóta­ákvörðunar vegna þess að matið, sem hún var reist á, kynni að vera rangt.“                  Ekki er augljóst hvers vegna Hæstiréttur telur að skýra verði fyrirvarann svo að hann taki einungis til þeirrar aðstöðu að heilsufar tjónþola breytist til hins verra eftir að matsgerð er unnin.  Vegna 11. gr. skaðabótalaga er slíkur fyrirvari óþarfur, nema ætlunin sé að víkja frá skilyrðum ákvæðisins.  Fyrirvarinn sem hér er deilt um er ekki samhljóða áðurnefndum fyrirvörum og aðstæður ólíkar.  Fyrirvarinn er stuttur, en eins og áður segir er merking hans augljós.  Bætur voru greiddar vegna slyss, en engar vegna varanlegrar örorku.  Fyrirvarann er ekki hægt að skýra á annan hátt en að stefnandi hafi lýst því yfir að hún félli ekki frá rétti sem hún teldi sig eiga til bóta fyrir varanlega örorku með því að taka við bótum fyrir aðra liði.  Fyrirvarinn verður metinn fullgildur.  Verður því að dæma stefnda til að greiða stefnanda bætur fyrir varanlega örorku er hún hlaut í umræddum slysi.  Ekki er ágreiningur um fjárhæðir og verður stefndi því dæmdur til að greiða 2.641.629 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.                  Stefnandi hefur gjafsókn.  Málskostnaðarreikningur lögmanns hennar er óhóflegur og verður ekki lagður til grundvallar.  Útlagður kostnaður nemur 350.910 krónum, en málflutningsþóknun ákveðst með virðisaukaskatti 1.250.000 krónur.  Þetta ber að greiða úr ríkissjóði.  Stefnda verður gert að greiða 1.600.000 krónur í máls­kostnað til ríkissjóðs.                  Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  Dómsorð                 Stefndi, Vörður tryggingar hf., greiði stefnanda, A, 2.641.629 krónur með 4,5% vöxtum frá 22. janúar 2014 til 4. ágúst 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.                  Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 1.600.910 krónur, greiðist úr ríkissjóði.                 Stefndi greiði 1.600.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.
Mál nr. 636/2017
Samningur Neytendalán Gengistrygging Vextir Fjármálafyrirtæki
Aðilar deildu um hvernig haga skyldi vaxtaútreikningi á lánssamningi sem var bundinn ólögmætri gengistryggingu. G og H kröfðust viðurkenningar á því að árleg hlutfallstala kostnaðar 3,95% í greiðsluáætlun sem gerð var samhliða veðskuldabréfinu skyldi halda gildi sínu fram að endurútreikningi lánsins hjá A hf. Var sýknukrafa A hf. reist á því að um útreikning vaxta skyldi fara samkvæmt bráðabirgðaákvæði X við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu þannig að um uppgjör skuldbindingarinnar færi eftir því sem greindi í 18. gr. laganna. Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 327/2013 taldi Hæstiréttur að bein og órjúfanleg tengsl hefðu verið milli gengisbreytingarinnar og þeirra vaxta sem vísað var til í lánssamningnum. Samkvæmt því hefði ákvæði hans um vexti verið ógilt í skilningi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Þá var ekki fallist á að greiðsluáætlunin hefði falið í sér bindandi loforð um að árleg hlutfallstala kostnaðar yrði óbreytt óháð þeim forsendum sem bjuggu að baki lánskjörum og skilmálabreytingum sem átt höfðu sér stað. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu A hf. því staðfest.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Ása Ólafsdóttir dósent.   Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 5. október 2017. Þau krefjast þess að viðurkennt verði að upphafleg árleg hlutfallstala kostnaðar 3,95% í greiðsluáætlun, sem gerð var samhliða veðskuldabréfi útgefnu 13. október 2006, númer 3999, að fjárhæð 13.000.000 krónur og „gengistryggt miðað við erlendar myntir CHF 50% og JPY 50%, skuli halda gildi sínu fram að endurútreikningi lánsins hjá stefnda sem gerður var 3. febrúar 2011 á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða X laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010.“ Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi gáfu áfrýjendur 13. október 2006 út skuldabréf til stefnda að fjárhæð 13.000.000 krónur og settu fasteign sína til tryggingar skuldinni. Lánið var bundið ólögmætri gengistryggingu, að hálfu tengt við gengi svissnesks franka og að hinum helmingnum við japanskt jen og bar skuldin breytilega vexti með grunnkjörvöxtum 2,22% og vaxtaálagi sem var við lántöku 1,35%. Samhliða lántökunni var gerð greiðsluáætlun fyrir neytendalán þar sem fram kom að nafnvextir á ári yrðu 3,6% og árleg hlutfallstala kostnaðar 3,95%. Skilmálum lánsins var breytt fimm sinnum á tímabilinu 8. desember 2008 til 16. júlí 2010. Vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar endurreiknaði stefndi lánið 3. febrúar 2011 með vísan til bráðabirgðaákvæðis X við lög nr. 38/2001, sbr. 2. gr. laga nr. 151/2010, þannig að uppreiknaður höfuðstóll lánsins sem sagður var hafa verið orðinn 29.431.154 krónur fyrir endurútreikning var færður í 17.335.399 krónur og vísað um útreikning vaxta til fyrri málsliðar 4. gr. laga nr. 38/2001. Vegna dóma Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og 18. október 2012 í máli nr. 464/2102 endurútreiknaði stefndi lánið á ný 18. mars 2013 og færði uppgreiðsluvirði þess úr 19.556.804 krónum í höfuðstól 14.775.512 krónur. Í héraðsdómi er því lýst að áfrýjendur gerðu á öllum stigum máls ýmsar athugasemdir við útreikninga stefnda. Krafa áfrýjenda lýtur að því að ákvæði í framangreindri greiðsluáætlun um hlutfallstölu kostnaðar 3,95% hafi átt að halda gildi sínu sem vaxtafótur fram að fyrri endurútreikningi lánsins 3. febrúar 2011. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi bera þau einkum fram þær röksemdir að stefndi hafi við endurútreikninginn brotið gegn þágildandi lögum nr. 121/1994 um neytendalán, sbr. nú lög nr. 33/2013 með sama heiti, og að ákvæði laganna gangi framar þeim ákvæðum vaxtalaga sem vísað hafi verið til við endurútreikninginn. II Samkvæmt 1. gr. laga nr. 121/1994 tóku þau til lánssamninga sem lánveitandi gerði í atvinnuskyni við neytendur. Er í máli þessu um að ræða samning sem féll undir ákvæði laganna. Samkvæmt 6. gr. laganna hvíldi á lánveitanda meðal annars sú skylda að gefa neytandanum upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar. Í e. lið 4. gr. laganna kom fram að árleg hlutfallstala kostnaðar væri heildarlántökukostnaður sem hlytist af gerð lánssamnings, lýst sem árlegri prósentu af upphæð láns þess er veitt væri og reiknuð út í samræmi við 10. gr. til 12. gr. laganna. Í 10. gr. laganna sagði að árleg hlutfallstala kostnaðar væri það vaxtaígildi sem jafnaði núvirðið af greiðsluskuldbindingum lánveitanda annars vegar og neytanda hins vegar samkvæmt lánssamningi þeirra. Árlegri hlutfallstölu kostnaðar skyldi lýst sem árlegri prósentu af upphæð höfuðstóls lánsins og hún reiknuð út í samræmi við stærðfræðilíkingu sem nánar væri mælt fyrir um í reglugerð er ráðherra setti. Í samræmi við það var sett reglugerð nr. 377/1993 um neytendalán, sem breytt var með reglugerðum nr. 491/1993 og nr. 236/2000. Eins og áður greinir var árlegri hlutfallstölu kostnaðar lýst í áðurnefndri greiðsluáætlun líkt og lög buðu og var í áætluninni tekið fram að hún væri hluti lánssamningsins, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. apríl 2013 í máli nr. 672/2012. Á hinn bóginn er til þess að líta að árleg hlutfallstala kostnaðar tekur ekki einungis til vaxta, sem áfrýjendur krefjast að skuli vera 3,95% árlegir, heldur einnig annars kostnaðar vegna láns, en bæði í lánssamningnum og greiðsluáætluninni var kveðið á um breytilega vexti, eins og þeir væru ákveðnir af lánveitanda á hverjum tíma og tæki „það jafnt til kjörvaxta hverrar myntar og vaxtaálags.“ Bráðabirgðaákvæði X við lög nr. 38/2001 var beinlínis ætlað að taka til lánssamninga eins og þeim sem um ræðir í þessu máli og kvað skýrt á um að hefði húsnæðislán til neytanda verið greitt út í íslenskum krónum eða umbreyting úr erlendum myntum væri hluti viðkomandi lánssamnings, en endurgreiðsla skuldarinnar miðaðist að einhverju leyti við gengi erlendra gjaldmiðla, færi um uppgjör vegna ofgreiðslu og framtíðarskilmála skuldbindingarinnar eftir því sem greindi í 18. gr. laganna. Í 1. mgr. 18. gr. var svo kveðið á um eftirfarandi: „Ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljast ógild skal peningakrafan bera vexti skv. 1. málsl. 4. gr., enda eigi önnur ákvæði þessarar greinar ekki við ...“ Samkvæmt öllu framansögðu er aðstaðan hér sambærileg, um atriði þau er máli skipta, þeirri sem um var fjallað í dómi Hæstaréttar 31. maí 2013 í máli nr. 327/2013 þannig að telja verður að bein og órjúfanleg tengsl hafi verið milli gengisbreytingar og þeirra vaxta sem vísað var til í lánssamningnum. Samkvæmt þessu var ákvæði lánssamningsins um vexti ógilt í skilningi fyrrnefndrar 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Þá verður ekki fallist á að greiðsluáætlun sem fylgdi lánssamningnum hafi falið í sér bindandi loforð um að árleg hlutfallstala kostnaðar yrði óbreytt óháð þeim forsendum um lánskjör og skilmálabreytingum sem að framan eru nefnd. Að þessu sérstaklega gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna. Rétt er að hver aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins hér fyrir dómi. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2017 I Mál þetta, sem dómtekið var 27. júní 2017, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 22. september 2016. Stefnendur eru Guðmundur Þór Pétursson og Harpa Guðmundsdóttir, bæði til heimilis að Leirutanga 9 í Mosfellsbæ. Stefndi er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.  Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði með dómi að upphafleg árleg hlutfallstala kostnaðar 3,95% í greiðsluáætlun, sem gerð var samhliða veðskuldabréfi, útgefnu 13. október 2006, nr. 3999, að fjárhæð 13.000.000 króna, sem var gengistryggt miðað við erlendar myntir CHF 50% og JPY 50%, skuli halda gildi sínu fram að endurútreikningi lánsins hjá stefnda, sem gerður var 3. febrúar 2011, á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða X laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts á málskostnað. Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins. II Atvik málsins eru í meginatriðum ágreiningslaus. Stefnendur tóku fasteignalán hjá stefnda að fjárhæð 13.000.000 króna til 30 ára. Um var að ræða veðskuldarbréf nr. 3999 sem stefnendur gáfu út til Kaup­þings banka hf., nú stefnda, þann 13. október 2006 sem tengt var við gengi sviss­nesks franka (50%) og ja­pansks jens (50%). Í skuldabréfinu kemur jafn­framt fram að „[g]runnkjörvextir“ séu 2,22%, „[v]axta­álag nú“ 1,35% og því séu „[v]egn­ir vextir samtals nú“ 3,60%. Við lán­tökuna var gerð áætlun fyrir neyt­enda­­lán og þar kemur fram að nafnvextir á ári verði 3,60% og árleg hlutfallstala kostn­aðar verði 3,95%. Þar segir jafnframt að andvirði skulda­bréfs verði 12.669.750 krónur, heildar­lán­töku­kostn­aður 7.441.650 krónur og heildar­endurgreiðsla láns­ins verði 20.111.400 krónur. Skilmálum skuldabréfsins var breytt fimm sinnum. Þann 8. desember 2008 var gerð breyting á greiðsluskilmálum lánsins þannig að vanskilum var bætt við höfuðstól og afborgunum af láninu frestað í sex mánuði með fyrsta gjalddaga 4. maí 2009. Þann 5. maí 2009 var gerð breyting á greiðsluskilmálum lánsins og greiðslu lánsins frestað til 4. ágúst 2009 og áfallnir vextir frá 8. desember 2008 til og með 4. júlí 2009 lagðir við höfuðstól lánsins. Jafnframt lengdist greiðslutími lánsins sem þessu nam. Í stefnu er rakin ákvörðun Neytendastofu í máli nr. 6/2009 „Kvörtun [...] yfir skilmálum myntkörfuláns Kaupþings banka hf.“ frá 9. febrúar 2009, en þar var komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hefði brotið gegn ákvæðum 6. gr. og 9. gr. laga um neytendalán nr. 121/1994, „með því að tilgreina ekki í skilmálum myntkörfulánasamnings með hvaða hætti vextir væru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breytist“.  Með vísan til 26. gr. laganna bannaði Neytendastofa stefnda að notast við umþrætt ákvæði og skyldi bannið taka gildi við birtingu ákvörðunar Neytendastofu, þann 12. mars 2009. Með úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála 25. september þess árs var ákvörðun Neytendastofu staðfest. Samkvæmt málatilbúnaði stefnda brást hann þannig við ákvörðun Neytendastofu að hinn 25. mars 2010 var þeim sem tekið höfðu erlend myntkörfulán með kjörvöxtum send tilkynning um breytingu á 1. gr. skilmála skuldabréfa á borð við það sem deilt er um í þessu máli og skyldi breytingin taka gildi frá og með 1. apríl 2010. Í skilmálabreytingunni koma fram upplýsingar um útreikning kjörvaxta án þess að um sé að ræða breytingu á efnislegum réttindum og skyldum. Stefnendur kannast ekki við að hafa móttekið umrætt bréf stefnda. Þann 25. ágúst 2009 var gerð breyting á greiðsluskilmálum lánsins á þann veg að gjalddaga þess með afborgunum var breytt úr 4. ágúst 2009 í 4. nóvember sama ár.  Stefnendur greiddu vexti að öðru leyti á gjalddögum lánsins.  Þann 2. nóvember 2009 gerðu stefnendur samkomulag við stefnda um greiðslujöfnun á skuldabréfinu og loks gerðu aðilar þann 16. júlí 2010 samkomulag um tímabundna breytingu á greiðslutilhögun þannig að mánaðarleg greiðsla yrði 65.000 krónur frá 1. júlí 2010 til 31. mars 2011. Stefnendur greiddu umsamda fjárhæð, 65.000 krónur, fram til 4. mars 2011. Skuldabréfið var endurreiknað 3. febrúar 2011 á grundvelli bráðabirgðaákvæðis X í lög­um nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. a-lið 2. gr. laga nr. 151/2010, í samræmi við ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Í bréfi stefnda til stefnenda, dagsettu 7. febrúar 2011, var stefnendum kynnt­ur endur­reikningur lánsins og jafn­framt gefinn kostur á að velja milli þeirra endurgreiðsluskilmála, sem skulda­bréfið skyldi hafa til frambúðar. Lántakendum var gefinn frestur til 28. mars sama ár til að staðfesta endurútreikning og val um boðna endurgreiðsluskilmála. Í bréfinu segir m.a. að endur­reikningurinn fari þannig fram að upp­haflegur höfuðstóll lánsins í íslenskum krón­um sé vaxtareiknaður miðað við þá vexti sem tilgreindir eru í 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Stefnendur mótmæltu endur­reikn­ingi lánsins með bréfi til stefnda, dagsettu 28. mars 2011, með vísan til þess að hann byggði á brotum gegn grundvallarréttindum þeirra samkvæmt neytendarétti og íslensku stjórnarskránni. Jafnframt höfnuðu stefnendur þeim kostum að því er varðaði endurgreiðsluskilmála sem stefndi hafði boðið upp á. Stefndi svaraði bréfi stefnenda 1. apríl 2011 og skýrði lagagrundvöll endurútreikningsins. Með bréfi, dagsettu 30. ágúst sama ár var tilkynnt um endurútreikninginn og að þar sem ekki hefði verið valin ein af þeim leiðum, sem í boði hefðu verið og ekki undirrituð viðeigandi skjöl, hefði láninu verið breytt í óverðtryggt lán með jöfnum afborgunum í íslenskum krónum. Þetta væri í samræmi við fyrirmæli bráðabirgðaákvæðis X í lögum nr. 38/2001. Með bréfi stefnenda til stefnda, dagsettu 14. nóvember 2011, voru mótbárur við innheimtu láns nr. 3999 ítrekaðar og jafnframt ítrekuð höfnun á tilboðum bankans. Jafnframt kröfðust stefnendur þess að bankinn léti þegar af innheimtu ólögmætra krafna og leiðrétti eftirstöðvar lánsins til samræmis við eðlilega og viðurkennda viðskiptahætti.  Lánið var endurreiknað öðru sinni 18. mars 2013 og var stefnendum tilkynnt um það 20. sama mánaðar. Endurreikningurinn var gerður vegna tveggja dóma Hæstaréttar Íslands sem féllu á árinu 2012, þ.e. dóma í málum réttarins nr. 600/2011 og 464/2012. Samkvæmt yfirliti yfir endurreikninginn voru eftirstöðvar höfuðstóls  14.775.512 krónur og hafði lækkað um 4.781.292 krónur. Óumdeilt virðist að stefnendur hafi greitt af láninu allt frá seinni endurútreikningi lánsins.  Í málinu hafa verið lögð fram ýmis gögn um þróun kjörvaxta samanborið við LIBOR-vexti svo og skuldatryggingaálag Kaupþings banka hf. og vaxtatöflur íslensku bankanna. Ekki þykir ástæða til að rekja efni þessara gagna sérstaklega. Stefnendur fengu Hagsmunasamtök heimilanna til þess að gera nýjan endurútreikning á láninu miðað við að árleg hlutfallstala kostnaðar 3,95% hefði haldið gildi sínu frá fyrsta gjalddaga fram að síðustu greiðslu þeirra þann 4. mars 2011. Samkvæmt þeim endurútreikningi var staða lánsins þann dag 10.571.340 krónur í stað 17.335.399 króna samkvæmt endurútreikningi stefnda. Vegna þessa ákváðu stefnendur að stefna máli þessu fyrir dóm. Eins og áður er getið, var mál þetta höfðað 22. september 2016. III Stefnendur byggja stefnukröfur sínar í fyrsta lagi á því að stefndi hafi brotið gegn 2. málslið 2. mgr. 14. gr., sbr. 1. málslið 2. mgr. 14. gr., þágildandi laga nr. 121/1994, um neytendalán, sem hafi gilt um lán það sem stefnendur tóku hjá stefnda. Fasteignalán hafi einnig fallið undir lögin, sbr. breytingu á lögunum með lögum nr. 179/2000. Lán stefnenda sé og hafi verið neytendalán sem falli undir ákvæði c- liðar 4. gr. neytendalánalaga. Telja stefnendur að hugtakið „lánssamningur“ nái ekki aðeins yfir þann samning, sem samningsaðilar undirriti, heldur jafnframt til fylgiskjala með honum, eins og t.d. greiðsluáætlun, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 672/2012. Samkvæmt e-lið 4. gr. framangreindra laga sé árleg hlutfallstala kostnaðar, „...heildarlántökukostnaður sem hlýst af gerð lánssamnings, lýst sem árlegri prósentu af upphæð láns þess sem veitt er og reiknuð út í samræmi við 10.-12. gr.“. Um útreikning prósentufjárhæðar vísist til 5. gr. reglugerðar nr. 377/1993, um neytendalán, og fylgiskjals með reglugerðinni. Stefnendur vísa til þess, að við setningu neytandalánalaga í Evrópu og hér á landi, sem innleidd hafi verið af neytendalánatilskipun 87/102/EBE og breytingu á henni með tilskipun nr. 90/88/EBE, hafi það verið meginmarkmið laganna að tryggja að neytandi fengi fullnægjandi upplýsingar í tengslum við lántöku í því skyni að hann yrði betur í stakk búinn að bera saman mismunandi lánskjör og þann kostnað sem fylgdi lántökunni og þá um leið ábyrgð sína á lántökunni. Telja verði að upplýsingaskylda samkvæmt lögunum gegni afar mikilvægu hlutverki við að tryggja aukna samkeppni á lánamarkaði. Í því skyni að tryggja fullnægjandi upplýsingargjöf sé lánveitanda skylt að upplýsa neytandann um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Stefnendur benda á að fyrirmæli neytendalánatilskipana hafi verið talin fela í sér lágmark neytendaverndar og hafi verið stefnt að upplýsingaskyldu af hálfu lánveitanda, sem gæti tryggt að neytandinn væri í aðstöðu til að taka upplýsta ákvörðun um lántöku sína. M.a. hafi verið mælt fyrir um lögfestingu þess að lánveitanda bæri skylda til að veita lántakandanum upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar og skyldi tilgreina hana í lánssamningi aðila. Ákvæði um þessa skyldu gagnvart neytandanum sé meðal grundvallaratriða í tilskipuninni og síðari tilskipunum og fyrirmælum innan Evrópusambandsins. Árleg hlutfallstala kostnaðar sé skilgreind í 10. gr. laga nr. 121/1994 og hún sé helsta upplýsingaform laganna fyrir neytendur og til að tryggja þeim lágmarksvernd.  Í 11. gr. laga nr. 121/1994 komi fram að árleg hlutfallstala kostnaðar skuli reiknuð út á þeim tíma sem lánssamningur er gerður. Þá segi að við útreikning árlegrar hlutfallstölu skuli gengið út frá því að lánssamningur gildi umsaminn tíma og að lánveitandi og neytandi standi við skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum samningsins. Hið sama komi fram í frumvarpi með lögum nr. 121/1994, þ.e. að útreikningur lánsins eigi að fara fram þegar lánssamningur sé gerður og að ekki skuli tekið tillit til breytinga, sem verða kunni á samningnum, né hugsanlegra vanefnda á samningi. Markmið upplýsingagjafarinnar sé að koma í veg fyrir dulinn kostnað við lántöku og gera stefnendum kleift að átta sig á heildarkostnaði við lántökuna.    Stefnendur vísa til 24. gr. laga nr. 121/1994 þar sem segi: „Eigi má með samningi víkja frá ákvæðum laga þessara né reglugerða, sem settar kunna að verða samkvæmt lögunum, neytanda í óhag.“ Samkvæmt áskilnaði ákvæðisins hafi stefndi ekki mátt víkja frá ákvæðum laganna með lánssamningi, þ.e. fasteignaveðbréfinu og fylgiskjölum þess, stefnendum í óhag. Hins vegar hafi stefndi, með því að fara ekki eftir eigin greiðsluáætlun sinni um árlega hlutfallstölu kostnaðar, brotið gegn 5. gr. og 3.-7. tölul. 1. mgr. 6. gr., sbr. 11. gr. laganna, stefnendum í óhag. Því sé ljóst að af hálfu stefnda hafi ekki verið farið eftir lögum nr. 121/1994 og þau hafi vísvitandi verið brotin. Stefndi hafi því hvorki lagaheimild né samningsgrundvöll til þess að krefja stefnendur um frekari heildarlántökukostnað en árleg hlutfallstala kostnaðar segi til um.  Dómkröfur stefnenda byggjast á því að upphafleg greiðsluáætlun, sem gerð hafi verið við töku lánssamningsins, eigi að standa óbreytt ásamt árlegri hlutfallstölu kostnaðar yfir það tímabil sem krafist sé. Þar sem um ólögmætt gengisbundið lán hafi verið að ræða, telji stefnendur að stefndi eigi að bera hallann af því en ekki stefnendur þegar eftir standi lán sem sé miklu hærra en upphaflega hafi verið samið um.  Stefnendur vísa til þess að engin ákvæði hafi verið í lánssamningi aðila sem samsvari þágildandi ákvæðum 2. mgr. 6. gr. og/eða 9. gr. laga nr. 121/1994 en þau ákvæði vísi til heimilda um breytingar á lánskostnaði eða öðrum atriðum lánskjara í lánssamningi. Ákvæði lánssamnings aðila hafi hvorki veitt leiðbeiningar um það, hvaða ástæður eða aðstæður gætu leitt til breytinga á afborgunum, vöxtum eða öðrum lánskostnaði né með hvaða hætti breytingarnar yrðu gerðar. Stefndi hafi því brotið gegn nefndum ákvæðum laga nr. 121/1994. Stefnendur vísa að þessu leyti til úrskurðar áfrýjunarnefndar neytendamála í máli nr. 6/2009 þar sem fjallað hafi verið um sams konar vaxtaákvæði í lánssamningi og jafnframt til dóms Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 672/2012. Hvorki hafi verið vísað til ákvæða 2. mgr. 6. gr. eða 9. gr. framangreinda laga í lánssamningi aðila né fylgt þeim skilyrðum, sem þar komi fram, með því að tilgreina ekki í skilmálum myntkörfulánssamningsins með hvaða hætti vextir samningsins væru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breyttust. Stefnda sé því óheimilt að krefja stefnendur um annan lántökukostnað (vexti) en þann, sem tilgreindur hafi verið í samningi aðila, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994, með svo skýrum hætti að samrýmst geti eindregnum áskilnaði 1. málsliðar 2. mgr. 14. gr. laganna um að lánveitanda sé ekki heimilt að krefjast frekari lántökukostnaðar en tilgreindur sé í samningi aðila. Slíku hafi ekki verið til að dreifa um fjárhæðir hækkandi afborgana og vaxta. Stefnandi telur að af framangreindu leiði að stefnda hafi því síður verið heimilt samkvæmt síðastgreindu lagaákvæði, ef árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994, væri of lágt reiknuð, að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar. Stefnda hafi eingöngu verið heimilt að krefja stefnendur um þann heildarlántökukostnað sem fullnægði þeim áskilnaði 2. málsliðar 2. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994 að vera innan marka þeirrar árlegu hlutfallstölu kostnaðar, sem reiknuð hafi verið við gerð lánssamnings aðila samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna.    Stefnendur hafa lagt fram endurútreikning á láni sínu sem upplýst er að unninn var af Hagsmunasamtökum heimilanna fyrir stefnendur. Stefnendur vísa til þess að í endurútreikningnum sé reiknuð 3,95% árleg hlutfallstala kostnaðar á hvern gjalddaga. Fjárhæð árlegrar hlutfallstölu kostnaðar á hverjum gjalddaga dragist síðan frá því sem greitt sé á hverjum gjalddaga og mismunurinn sé síðan dreginn frá höfuðstól lánsins. Sem dæmi sé tekinn gjalddagi 4. janúar 2007 en þá hafi árleg hlutfallstala kostnaðar numið 41.159 krónum en á gjalddaganum hafi verið greiddar 80.202 krónur. Mismunurinn nemi 39.043 krónum (80.202 – 41.159) sem dragist því frá höfuðstól lánsins og síðan koll af kolli. Eftir þá afborgun verði eftirstöðvar lánsins því 12.728.707 - 39.043 = 12.689.664 krónur. Til frekari útskýringar vísa stefnendur til þess að vaxtatímabilið á gjalddaganum hafi verið einn mánuður, þ.e. frá síðasta gjalddaga 1. desember 2006. Á því vaxtatímabili nemi endurreiknaðar eftirstöðvar höfuðstólsins 12.728.707 krónum. Þá séu reiknaðir 3,95% dagvextir af þeirri fjárhæð með formúlunni: 12.728.707*((1+0,0395)^(1/12)-1) = 41.159 krónur. Stefnendur byggja jafnframt á ófrávíkjanlegu ákvæði 2. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og því að í lánssamningi þeirra við stefnda hafi verið samið um vexti sem árleg hlutfallstala kostnaðar hafi verið byggð á sem nái yfir umrætt greiðslutímabil frá 4. nóvember 2006 til 4. mars 2011. Hins vegar séu ákvæði 3. gr. og 4. gr. í II. kafla laganna frávíkjanleg en stefndi hafi stuðst við þau í endurútreikningi sínum. Verulegar takmarkanir séu settar við beitingu á þeim ákvæðum og gildi þau því aðeins að annað leiði ekki af samningum, venjum eða lögum. Skilyrði 2. gr. laganna sé þröngt en þó megi ávallt víkja frá lögunum skuldurum til hagsbóta. Það hafi þó ekki verið gert með endurútreikningi stefnda. Af framangreindu leiði að á greiðslutímabili afborgana máls þessa hafi átt að gilda þeir vextir sem um hafi verið samið í lánssamningi aðila og árleg hlutfallstala kostnaðar hafi verið reiknuð af í upphafi lántöku, sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Stefnendur byggja kröfur sínar einnig á því að þágildandi lög nr. 121/1994, um neytendalán, hafi gengið framar lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Stefnendur telja að lög nr. 121/1994 séu sérlög gagnvart lögum nr. 38/2001 og eigi því að ganga framar ákvæðum þeirra. Ljóst sé að neytendalánalög snúi fyrst og fremst að neytendum og hagsmunum þeirra sem gangi framar þeim almennu hagsmunum lánveitenda og annarra sem um sé fjallað í lögum nr. 38/2001. Þá séu neytendalánalög leidd af Evrópulöggjöf sem ætlað sé að tryggja samræmi og einsleitni í lagareglum meðal allra þeirra Evrópulanda sem beri skylda til að innleiða hinar sameiginlegu réttarreglur sem þannig hafi verið mótaðar í þágu neytenda.  Auk þess vísa stefnendur til frumvarps með lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem fram komi að hefð sé fyrir þeirri reglu í íslenskum rétti að sérlög gangi framar almennum lögum. Oftar en ekki myndi EES-regla vera talin sérregla um tiltekið efni. Enn fremur mæli frumvarpið að lögum nr. 2/1993 fyrir um að innlend lög, sem eiga sér stoð í EES-samningnum, eigi að túlka sem sérreglur laga gagnvart ósamrýmanlegum yngri lögum að því leyti að yngri lög víki þeim ekki til hliðar ef árekstrar milli þeirra eiga sér stað. Í ljósi dómaframkvæmdar hér á landi sé ljóst að dómstólar teygi sig langt í að túlka lög í samræmi við ákvæði EES-réttar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 477/2002. Þá byggja stefnendur á því að stefndi sé sérfrótt fjármálafyrirtæki sem hafi samið öll lánsgögn vegna lántöku stefnenda, m.a. lánssamning og greiðsluáætlun, og verði hann því að bera hallann af því að hafa ekki farið eftir skýrum ákvæðum 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 við gerð lánssamningsins. Þetta hafi stefndi m.a. undirgengist þegar lög nr. 179/2000 hafi tekið gildi þann 11. janúar 2001 þegar fasteignalán hafi verið felld undir lögin. Um lagarök vísa stefnendur til 1. gr., 2. gr., 4. gr., 2. mgr. 6. gr., 9. gr., 10. gr., 11. gr., 2. mgr.14. gr. og 24. gr. laga nr. 121/1994. Jafnframt er vísað til laga nr. 2/1993, um evrópska efnahagssvæðið. Um varnarþing er vísað til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um samlagsaðild stefnenda er vísað til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Varðandi kröfu um málskostnað vísa stefnendur til 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og varðandi kröfu um virðisaukaskatt á málskostnaðarfjárhæð vísast til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. IV Til stuðnings sýknukröfu sinni vísar stefndi í fyrsta lagi til þess að lög­gjaf­inn hafi, með setningu 4. gr. og 18. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010, þegar tekið afstöðu til þess hvaða vexti gengis­tryggð lán eigi að bera. Þá hafi Hæstiréttur Íslands komist að niðurstöðu um það, hvaða vexti gengistryggt lán eigi að bera, sbr. niðurstöðu réttarins í dómi í máli réttarins nr. 471/2010. Hæstiréttur hafi tekið fram að „bein og órjúfanleg tengsl“ séu milli umræddra vaxta og ákvæða í lánasamningi aðila um gengistryggingu lánsfjárhæðar og þar sem síðarnefnda ákvæðið hefði verið ógilt, væri óhjákvæmilegt að líta með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Vegna þessa, og þar sem í samningi aðila sé ákvæði um vaxtahæð, sem ekki varð beitt, hafi atvik málsins svarað til þess þegar samið hafi verið um vexti af peningakröfu, án þess að tiltaka hverjir vextirnir væru. Því hafi niðurstaðan verið sú að vextir af láninu skyldu vera samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Í kjölfar þessarar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands hafi verið sett lög nr. 151/2010 sem hafi falið í sér viðbótarákvæði við lög nr. 38/2001 um hvernig haga skyldi útreikningi og uppgjöri vegna gengistryggðra lána. Í bráða­birgða­ákvæði X í lögunum komi m.a. fram að um uppgjör vegna ofgreiðslu og framtíðarskil­mála þeirra skuldbindinga, sem falli undir þá grein, fari eftir 18. gr. laganna. Í þeirri grein segi enn fremur að „[e]f samn­ingsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljast ógild skal peningakrafan bera vexti skv. 1. málsl. 4. gr. ...“. Þá komi jafnframt fram í 18. gr. nánari ákvæði um endurreikning gengis­tryggðra lána og uppgjör þeirra. Af 18. gr. og bráðabirgðaákvæði X laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. og a-lið 2. gr. laga nr. 151/2010, leiði að þar sem gengistrygging umþrætts skuldabréfs hafi verið ólögmæt og óskuldbindandi, beri skuldabréfið vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá útgáfudegi og fram til þess dags þegar fyrri endurreikningur skuldabréfsins hafi verið gerður, eða nánar tiltekið allan þann tíma sem viðurkenningarkrafa stefnenda taki til. Fyrir­mæli 1. mgr. 18. gr., sbr. bráðabirgðaákvæðis X í lögum nr. 38/2001, séu fortaks­laus og leiði af þeim að ákvæði umþrætts skuldabréfs um vexti verði ekki beitt eftir efni sínu. Síðar hafi Hæstiréttur kveðið upp úr um það, að kröfuhafa væri ekki heimilt að beina viðbótarkröfu um greiðslu vaxta fyrir það tímabil sem skuldari hafði kvittanir fyrir fullnaðargreiðslu vaxta. Stefndi hafi þegar endurreiknað umrætt skuldabréf í samræmi við 18. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001, og niðurstöður Hæstaréttar Íslands og sé sá útreikningur því í samræmi við ákvæði laganna. Umrætt skuldabréf sé, að því leyti sem skipti máli, keim­líkt þeirri skuld­­bindingu sem fjallað hafi verið um í dómi Hæstaréttar Íslands í máli  réttarins nr. 471/2010 og því eigi um­ræddur dómur við um úrlausn þessa máls. Auk þess falli skuldabréfið undir 18. gr. og bráða­birgða­ákvæði X í lögum nr. 38/2001 og því eigi að fara eftir fyrir­mælum þeirra laga um endurreiknig skuldabréfsins, þ.m.t. hvaða vexti skulda­bréfið eigi að bera. Stefndi leggur sérstaka áherslu á að bein og órjúfanleg tengsl hafi verið milli ákvæða skuldabréfsins um vexti annars vegar, þ.e. kjörvexti af japönsku jeni og svissneskum franka, og hins vegar gengis­trygg­ing­u skuldabréfsins. Því hefði ekki verið unnt að styðjast við vaxtaákvæði skulda­bréfs­ins óbreytt eða gefa þessum orðum með skýringu það inntak, að um geti verið að ræða kjörvexti af láni í íslenskri krónu, enda vísi skuldabréfið til tveggja er­lendra mynta. Auk þess liggi fyrir í framlögðum vaxtatöflum Kaupþings banka hf. og stefnda, að vaxtakjör lána í tilteknum erlendum myntum annars vegar og svo hins vegar lána í íslenskum krónum, þ.m.t. lána á kjörvöxtum, hafi verið allt önnur. Það sama eigi við um sambærileg lán annarra lánveitenda. Þótt einungis yrði litið til þess, væri ljóst að það hafi verið bein og órjúfanleg tengsl milli gengistryggingar skuldabréfsins og fyrirmæla þess um kjörvexti af japönsku jeni og svissneskum franka. Í tengslum við ofangreint áréttar stefndi að kjörvextir Kaupþings banka hf. og stefnda hafi m.a. samanstaðið af LIBOR-vöxtum (e. London Inter Bank Offered Rate) af þeim erlendum myntum sem Kaup­þing og stefndi hafi boðið til láns með kjörvöxtum. Því eigi við þau sjónarmið, sem hafi komið komið fram í dómi Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 471/2010, enda hafi þar verið fjallað um lán sem hafi borið LIBOR-vexti. Hafi kjör­vextir skuldabréfalána Kaupþings og stefnda í erlendum myntum, og þ. á m. umrædds skulda­bréfs, samanstaðið af i) LIBOR-vöxtum viðkomandi myntar (3 mánaða), ii) fjármögn­unar­kostn­aði bankans og iii) smásöluálagningu. Auk þessa hafi kjör­vaxtalán borið vaxtaálag sem í tilviki umrædds skuldabréfs hafi verið 1,35% við útgáfu þess og út lánstímann. Stefndi hefur lagt fram skjöl um þann mun sem var á milli LIBOR-vaxta og kjör­vaxta á þeim tíma sem deilt er um í málinu, þ.e. frá því lánið var tekið 13. október 2006 til þess tíma er það var endurreiknað í fyrra sinn 3. febrúar 2011. Stefndi telur þau sýna að ákveðin fylgni sé milli LIBOR-vaxta og kjörvaxta hverrar myntar. Ástæða þess að dregið hafi í sundur með LIBOR-vöxtum og kjörvöxtum eftir því sem leið á tímabilið, sé sú að fjármögnunar­kostnaður Kaup­þings, og raunar allra íslensku bankanna, hafi aukist hratt í aðdraganda hrunsins í október 2008. Af skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingi megi sjá hvernig skulda­tryggingar­­álag Kaupþings hafi þróast á tímabilinu 2006–2008. Skulda­tryggingarálag sé vís­bending um markaðskjör sem bönkum bjóðist á alþjóðlegum skulda­bréfa­mörkuð­um. Við samanburð á upplýsingum í gögnum málsins, sem sýni þróun skulda­trygg­ingar­álags Kaupþings og þróun LIBOR-vaxta og kjör­vaxta Kaup­þings af japönsku jeni og svissneskum franka, megi sjá samsvörun milli hækkunar á skulda­­tryggingarálagi Kaup­þings og hækkunar á kjörvöxtum á þessu tímabili. Þróun vaxta­kjara í skuldabréfaútgáfum Kaup­þings til 2008 og þeirra mikilvægustu á því ári styðji þetta einnig. Af framlögðum gögnum sé því ljóst að þegar lánskjör Kaupþings eða stefnda hafi versnað, hafi kjörvextir af umþrættu skuldabréfi hækkað, enda hafi skuldabréfið, eins og önnur lán Kaup­þings og stefnda í erlendum myntum til viðskiptavina sinna, m.a. verið fjármögnuð af lántökum Kaupþings og stefnda á markaði í erlendum myntum. Því sé ljóst að þegar litið sé til allra þessara atriða styrkist enn frekar sú niðurstaða að bein og órjúfanleg tengsl hafi verið milli gengis­tryggingar láns stefnenda og þeirra kjörvaxta í japönsku jeni og sviss­neskum franka sem vísað sé til í umþrættu skuldabéfi. Þá bendir stefndi á að ljóst sé af framlögðum vaxtatöflum Kaupþings banka hf. og stefnda að kjörvextir hafi verið ákveðnir fyrir hverja og eina mynt sérstaklega sem Kaup­þing og stefndi hafi stundað lánsviðskipti með. Þá sé einnig ljóst af þeim gögnum að kjörvextir af lánum í íslenskum krónum hafi verið mun hærri en kjörvextir af lánum í tilgreindum erlendum myntum (sem síðar hafi komið í ljós að voru gengistryggð lán í íslensk­um krónum), eins og eigi við um skuldabréf það sem mál þetta lýtur að. Sömu sögu sé að segja um kjörvexti annarra lánveitanda. Því liggi fyrir að stefnendur hafi aldrei getað notið þeirra kjörvaxta sem skuldabréf þeirra bar nema í tengslum við gengis­tryggt lán. Fyrir þá sök eina hafi verið fyrir hendi bein og órjúfanleg tengsl milli gengis­trygg­ingar og fyrirmæla í skuldabréfinu um kjörvexti í japönskum jenum og sviss­neskum franka. Stefndi telur að í samræmi við allt framangreint verði að líta svo á að þar sem gengis­trygging umþrætts skuldabréfs hafi verið talin ógild, hafi forsendur brostið eða reynst rangar fyrir umsömdum vöxtum skuldabréfsins. Vaxtakjör þess hafi verið algjörlega háð gengistryggingarkröfunni. Um sé að ræða sömu stöðu og verið hafi í máli því sem lokið hafi með dómi Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 471/2010. Því eigi lán stefnenda að bera þá vexti sem tilgreindir séu í 18. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, þ.e. vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Í samræmi við framangreint byggir stefndi á því að þar sem ákvæði laga nr. 38/2001, sérstaklega 4. gr., og einnig 18. gr. og bráðabirgðaákvæði X, sem voru hvort tveggja sett með lögum nr. 151/2010, séu allt yngri lagaákvæði en ákvæði laga nr. 121/1994, um neytendalán, beri að leggja ákvæði laga nr. 38/2001 til grundvallar. Auk þess verði ákvæði laga nr. 38/2001, þar sem sér­stak­lega sé tiltek­ið hvaða vexti gengistryggð lán eigi að bera, að teljast sérlög gagn­vart ákvæð­um laga nr. 121/1994. Þannig geti ætlaðir annmarkar samkvæmt lögum nr. 121/1994 á umþrættu skuldabréfi ekki leitt til þess að fallist verði á viðurkenn­ingar­kröfu stefnenda. Þá mótmælir stefndi öllum lögskýringar­sjónar­miðum sem ganga gegn framangreindum sjónarmiðum og eru reifuð í stefnu. Framangreindu til viðbótar vísar stefndi til niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 202/2014 og gerir sjónarmið réttarins fyrir niðurstöðu í því máli að sínum.  Stefndi byggir jafnframt á því að engir þeir annmarkar séu á umþrættu skuldabréfi eða greiðsluáætlun sem brjóti gegn ákvæðum laga nr. 121/1994, um neytendalán. Í skuldabréfinu komi fram allar þær upplýsingar sem þurfi til að uppfylla ákvæði 6., 9. og annarra greina laganna. Þar komi fram í fyrirsögn að lánið beri breytilega vexti og þá segi í texta þess að grunnkjörvextir séu 2,22%, „vaxta­álag nú“ sé 1,35% og „vegnir vextir samtals nú“ 3,60%. Þá komi fram við hvaða myntir lánið sé tengt, þ.e. svissneska franka (CHF) að jöfnu við japönsk jen (JPY). Jafnframt sé tiltekið að grunn­vextir svissnesks franka séu 2,91% og 1,53% fyrir japönsk jen. Í 1. tölulið skuldabréfsins segi um vexti skuldabréfsins: „Í vexti af höfuðstól skuldar þessarar eins og hann er á hverjum tíma, ber skuld­ara að greiða breytilega vexti eins og þeir eru ákveðnar af Kaupþingi banka hf. á hverjum tíma og tekur það jafnt til kjörvaxta hverrar myntar og vaxta­álags. Kaup­þingi banka hf. er heimilt að breyta vöxtunum á 3ja mánaða fresti til samræmis við þá vexti sem gilda gagnvart nýjum sambærilegum og/eða hliðstæðum lánum. Ákveði Kaup­þing banki hf. að breyta vaxtaálagi skuldabréfs þessa verður skuldara til­kynnt um það bréflega, en vilji skuldari ekki una breytingunni er honum heimilt að greiða skuld­ina upp með óbreyttu vaxta­álagi innan mánaðar frá dagssetningu til­kynn­ingar. Vexti ber að greiða eftir á, á sama tíma og afborganir. Skuldara er heim­ilt að greiða skuldina upp á gjalddögum.“ Stefndi telur að með þessu ákvæði hafi hann fullnægt þeim skyldum sem hvíli á honum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 121/1994, enda sé tekið fram í tilvís­uðum skilmálum „með hvaða hætti“ kjörvextirnir séu breytilegir og „við hvaða aðstæður þeir breytist“, sbr. 9. gr. laganna. Þá hafnar stefndi því að orðalag 9. gr. laganna gefi tilefni til þess að líta svo á að frekari kröfur séu gerðar og alls ekki þær að tilgreina þurfi þær „breytur“ sem horft sé til við vaxtaákvörðun, eins og áfrýjunarnefnd neytenda­mála hafi gert í úrskurði sínum í máli nr. 6/2009 og sem stefnendur vísi til í stefnu. Orðalag laganna eigi að skýra samkvæmt orðanna hljóðan. Þá gefi ekkert í lög­skýr­ingar­gögnum eða reglugerð nr. 377/1993 vís­bend­ingu um að veita eigi aðrar og ítarlegri upplýsingar, þ.e. þær „breytur“ sem horft sé til við vaxta­ákvörðun, en sem komi fram í tilvísuðum skilmálum. Úrskurður áfrýjunar­­­­nefndar neytenda­mála í fyrrgreindu máli hvorki hafi né eigi að hafa bein áhrif í þessu máli. Þá vísar stefndi til umfjöllunar hér að framan um kjörvexti Kaupþings og stefnda og framlagðra vaxta­taflna Kaup­þings og stefnda þar sem skýrlega komi fram hæð kjörvaxta af er­lendum myntum á hverjum tíma. Á grundvelli alls þessa eigi að hafna viðurkenningarkröfu stefnenda. Stefndi áréttar að lög nr. 121/1994 virðist ekki sjálf gera ráð fyrir að brot gegn ákvæðum laganna leiði til ógildingar samnings­ákvæða eða að samningsákvæðum verði breytt, eins og viðurkenningarkrafa stefnenda felur í raun í sér. Lögin kveði á um að brot gegn lögunum geti leitt til skaðabóta­skyldu, sbr. 15. gr. og 27. gr. laganna, sem eitt og sér mæli gegn því að lögin geti leitt til ógildingar eða breytingar á samningsákvæðum. Fyrst ekki sé kveðið á um það með beinum hætti í lögum nr. 121/1994 að ekki sé hægt að víkja samningsskilmála til hliðar eða breyta honum á grundvelli laganna, verði það ekki gert. Þá beri að líta til þess að taka breytilegra vaxta sé heimil samkvæmt lögum og þótt eitthvað bregði út af við gerð eða kynningu þeirra, breyti það engu um að taka þeirra sé allt að einu heimil. Stefndi telur þetta eindregið mæla gegn því að hægt sé að ógilda eða breyta vaxta­ákvæðum umþrætts skuldabréfs. Það sé vandséð að lög nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, geti staðið til þess að víkja til hliðar skilmálum skuldabréfsins um vexti, eins og stefnendur geri kröfu um, en á þeim lögum sé ekki byggt í málinu. Í öllu falli virðist af lög­un­um, t.d. 14. gr. þeirra, sem stefnendur vísi einkum til í málatilbúnaði sín­um, ekki ekki gert ráð fyrir að vöxtum og lán­töku­­kostnaði sé breytt aftur í tímann, þ.e.a.s. fyrir liðið tímabil, eins og viðurkenningarkrafa stefn­enda miði við. Á grund­velli alls framangreinds eigi því að hafna viðurkenningarkröfu stefnenda. Þá er jafnframt á því byggt að þar sem stefnendur hafi ekki að öllu leyti staðið við upphaflega skilmála skuldabréfsins og sjálfir samþykkt að breyta skilmálum þess, sé ekki hægt að verða við viður­kenningarkröfu þeirra í málinu, sbr. ákvæði 11. gr. laga nr. 121/1994. Af yfirliti um greiðslur sé ljóst að greiðslur af umþrættu skuldabréfi féllu niður á tilteknum tímabilum, þ.e. frá og með 6. október 2008 til og með 6. júlí 2009, eða a.m.k. á hluta þess tímabils. Einnig hafi upphaflegum skilmálum skuldabréfsins verið breytt með viðaukum þar sem vanskilum hafi verið bætt við höfuðstól skuldabréfsins eða afborgunum annað hvort frestað (sbr. viðaukar dagsettir 8. desember 2008, 5. maí 2009 og 25. ágúst 2009), lánið greiðslujafnað (sbr. viðauka dagsettan 2. nóvember 2009) eða samið um að stefnendur greiddu fasta fjárhæð í afborgun af láninu í tiltekinn tíma (sbr. viðauka dagsettan 16. júlí 2010). Allt hafi þetta gerst á því tímabili sem viður­kenningarkrafa stefnenda taki til, þ.e. frá 13. október 2006 til 3. febrúar 2011, og hafi óum­flýjanlega haft áhrif á afborganir og kostnað vegna lánsins og því á árlega hlut­fallstölu kostnaðar. Umrædd greiðsluáætlun hafi því lítið sem ekkert gildi. Á grundvelli framangreinds eigi að sýkna stefnda af kröfu stefnenda. Stefndi hafnar því að unnt sé að skýra eða túlka ákvæði laga nr. 121/1994 á þann hátt að í þeim felist önnur merking en komi fram í skýru orðalagi laga­ákvæð­anna, svo sem sjá megi m.a. af niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 79/2010. Af framangreindu sé ljóst að umrætt skuldabréf hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 121/1994. Jafnvel þótt komist yrði að því að ákvæði skulda­bréfs­ins uppfylltu ekki skilyrði 6. og 9. gr. laga nr. 121/1994, standi engin rök til þess að það leiði til þess að 3,95% kostnaðarhlutfall (vextir), sem til­greind­ir séu í greiðsluáætlun skuldabréfsins, eigi að gilda á tilgreindu tímabili í viður­kenningarkröfu stefnenda. Verði ekki fallist á framangreindar röksemdir stefnda, byggist sýknukrafa hans á því að sýkna eigi hann af öllum kröfum stefnenda á grundvelli eftirfarandi samþykkis þeirra á eftirstöðvum skuldabréfs nr. 3999/18682. Stefnendur hafi enda greitt af skuldabréfinu frá síðari endur­reikningi þess, sem gerður hafi verið 18. mars 2013, til dagsins í dag. Stefndi hafi því allt eins getað gert ráð fyrir að stefnendur hefðu fallið frá fyrri mót­mæl­um sínum vegna skuldabréfsins og því samþykkt eftirstöðvar kröfunnar, eins og hún komi fram í síðari endur­reikn­ingi hennar. Því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnenda. Um lagarök vísar stefndi til meginreglu samninga- og kröfuréttar um að samninga skuli efna, um eftirfarandi samþykki og tómlætisáhrif. Einnig er vísað til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 4. og 18. gr. laganna. Þá er vísað til laga nr. 121/1994, um neytendalán, og reglugerðar nr. 377/1993. Um máls­kostn­að vísar stefndi til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laganna.   V Ágreiningslaust er að útgáfa skuldabréfs hinn 13. október 2006, sem upphaflega bar númerið 3999 en síðar 18682, hafi verið þáttur í lánssamningi stefnenda og stefnda sem fól í sér ólögmæta gengistryggingu. Þá er óumdeilt að við lántökuna var gerð greiðsluáætlun fyrir neytendalán. Gögn málsins bera með sér að greiðsluskilmálum lánsins var breytt fimm sinnum með samningum málsaðila áður en fyrri endurútreikningur lánsins fór fram 3. febrúar 2011, þ.e. 8. desember 2008, 5. maí 2009, 25. ágúst 2009, 2. nóvember 2009 og 16. júlí 2010. Jafnframt liggur fyrir og er óumdeilt að stefndi lét endurreikna lán stefnenda 3. febrúar 2011 í samræmi við ákvæði 18. gr. og bráðabirgðaákvæði X í lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Við endurútreikninginn var upphaflegur höfuðstóll lánsins í íslenskum krónum reiknaður miðað við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum, almennum og óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Lánið var síðan endurreiknað að nýju 18. mars 2013 til samræmis við niðurstöður dóma Hæstaréttar Íslands í málum réttarins nr. 600/2011 og 464/2012. Óumdeilt er að stefnendur hafa greitt af láninu allt frá því það var endurútreiknað í seinna skiptið hinn 18. mars 2013. Stefnendur vísa til þess að samkvæmt framlögðum endurútreikningi þeirra, sem unninn var af Hagsmunasamtökum heimilanna, hafi staða lánsins hinn 4. mars 2011 numið 10.571.340 krónum en hafi hins vegar numið 17.335.399 krónum samkvæmt endurútreikningi stefnda. Mismunurinn nemi 6.764.059 krónum stefnendum í vil og því sé mál þetta höfðað. Stefndi hefur mótmælt framlögðum útreikningum stefnenda. Ágreiningur málsaðila lýtur þannig í meginatriðum að því, hvort umrætt skuldabréf hafi fram til 3. febrúar 2011 átt að bera 3,95% vexti, sem var árleg hlutfallstala kostnaðar við lántökuna, svo sem stefnendur byggja á, eða hvort vextir skuldabréfsins hafi á þeim tíma átt að ráðast af ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, að teknu tilliti til þess hvort stefnendur hafi fullnaðarkvittanir fyrir greiðslu vaxta á tímabilinu, eins og stefndi byggir sýknukröfu sína á. Stefndi vísar þar til þess að í ljósi dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands beri að horfa til ákvæða 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 við úrlausn um það, hvaða vexti eigi að reikna af skuldabréfum með ólögmætri gengistryggingu. Fyrir liggur í málinu að stefndi lítur svo á að stefnendur hafi fullnaðarkvittanir fyrir greiðslum á tímabilinu frá 19. október 2006 til 6. október 2008. Með ákvæðum 2. gr. laga nr. 151/2010, sem lúta m.a. að breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu frá 18. desember 2010, var gerð breyting á þágildandi 18. gr. laga nr. 38/2001 þannig að tekið var mið af þeim fordæmum Hæstaréttar Íslands, sem fram komu í dómum réttarins frá 16. júní 2010 og 16. september 2010, um skilning á lagagreininni. Af athugasemdum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 151/2010 var lagabreytingin gerð í því augnamiði að setja skýrari reglu um tengsl verðtryggingar og vaxtaákvæða þannig að sú staðreynd verði endurspegluð í lögunum að órjúfanleg tengsl séu á milli ákvæða um verðtryggingu og samninga um vexti af fjárskuldbindingum. Þar segir jafnframt að af því leiði að ef annað hvort ákvæði samninga um vexti eða verðtryggingu (eða hvort tveggja) eru ógildanleg á grundvelli laga, verði að koma til heildarendurskoðunar í samræmi við ákvæðin í 4. gr. laganna, þ.e. að litið sé á þá aðstöðu eins og ekki hafi verið samið um tiltekna vexti eða verðtryggingu. Eftir þessa lagabreytingu segir í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 að ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljast ógild, skuli peningakrafan bera vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna, enda eigi önnur ákvæði greinarinnar ekki við.    Svo sem áður er rakið var fjárhæð umrædds skuldabréfs í íslenskum krónum tengd við gengi svissnesks franka að 50% og gengi japansks jens að 50%. Óumdeilt er að skuldabréfið fól í sér gengistryggingu sem var í andstöðu við 14. gr. laga nr. 38/2001 og var því um að ræða ólögmætt samningsákvæði um endurgjald fyrir lánveitingu í skilningi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Jafnframt liggur fyrir og er óumdeilt að stefndi lét endurreikna lán stefnenda 3. febrúar 2011 í samræmi við ákvæði 18. gr. og bráðabirgðaákvæði X í lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Við endurútreikninginn var upphaflegur höfuðstóll lánsins í íslenskum krónum reiknaður miðað við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum, almennum og óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Lánið var síðan endurreiknað að nýju 18. mars 2013 til samræmis við niðurstöður dóma Hæstaréttar Íslands í málum réttarins nr. 600/2011 og 464/2012. Við útreikninginn var tekið tillit til þess að stefnendur hefðu haft fullnaðarkvittanir fyrir greiðslu vaxta lánsins fyrir tímabilið 19. október 2006 til 6. október 2008. Af hálfu stefnenda hafa ekki verið gerðar tölulegar athugasemdir við endurútreikning stefnda. Stefndi hefur upplýst og lagt fram gögn því til stuðnings að kjörvextir Kaupþings banka hf. og stefnda hafi m.a. verið byggðir á LIBOR-vöxtum af þeim erlendu myntum sem Kaupþing banki hf. og stefndi buðu til láns með kjörvöxtum. Af framlögðum gögnum er ljóst að ákvörðun kjörvaxta í hinum erlendu myntum hafi, a.m.k. að einhverju marki, miðast við vaxtakjör lánveitandans á millibankamarkaði í hlutaðeigandi mynt og virðist það ágreiningslaust í málinu. Þá virðist jafnframt ágreiningslaust að ekki var um að ræða kjörvexti í íslenskum krónum fyrir lán af þeirri tegund sem mál þetta snýst um. Að þessu virtu er það mat dómsins að bein og órjúfanleg tengsl hafi verið milli gengistryggingar umrædds láns og þeirra kjörvaxta í hinum erlendu myntum sem vísað var til í skuldabréfinu. Í ljósi dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands er það því niðurstaða dómsins að líta beri svo á að ákvæði skuldabréfsins frá 13. október 2006, sem upphaflega bar númerið 3999 en síðar 18682, um vexti hafi verið ógilt í skilningi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Það er mat dómsins að fortakslaus fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, um að ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljast ógild, skuli peningakrafan bera vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna, sem og bráðabirgðaákvæði X sömu laga, feli í sér sérreglu sem tekur til þeirrar aðstöðu þegar ákvæði um vexti telst ógilt, svo sem á við í þessu máli. Samkvæmt almennum lögskýringarreglum geta því hvorki ákvæði þágildandi laga nr. 121/1994, um neytendalán, né ógildingarreglur laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, m.a. um sanngirnissjónarmið, ekki gengið framar þessu ákvæði. Í þessu ljósi er það mat dómsins að sjónarmið stefnenda um að lög nr. 121/1994 hafi falið í sér lágmarksvernd fyrir neytendur geti ekki haggað þeirri niðurstöðu. Þá er til þess að líta að ekki verður ráðið af lögum nr. 121/1994 að brot gegn þeim leiði sjálfkrafa til ógildingar samningsákvæða eða breytinga á þeim. Ákvæði 15. gr. og 27. gr. laganna bera hins vegar með sér að slík brot geti skapað lánveitanda skaðabótaskyldu. Með sömu rökum verður hvorki fallist á það með stefnendum að niðurstaða áfrýjunarnefndar neytendamála í máli nefndarinnar nr. 6/2009 né neytendalánatilskipun nr. 87/102/EBE, svo sem henni var breytt með tilskipun nr. 90/88/EBE, sem lýtur m.a. að reglum um upplýsingaskyldu lánveitanda gagnvart neytendum að því er varðar heildarlántökukostnað, geti haft úrslitaáhrif við úrlausn ágreinings aðila í máli þessu. Loks er það niðurstaða dómsins að í ljósi framangreindrar sérreglu laga nr. 38/2001, um að reikna beri vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna þegar ákvæði skuldabréfs um vexti telst ógilt, verði heldur ekki fallist á það með stefnendum að með vísan til 2. gr. laga nr. 38/2001 beri að miða endurútreikning á láni þeirra við þá vexti sem samið hafi verið um í öndverðu að árleg hlutfallstala kostnaðar á umræddu tímabili yrði byggð á. Þegar af framangreindum ástæðum er öllum málsástæðum stefnenda hafnað. Ágreiningslaust er í málinu að umrætt lán stefnenda var endurreiknað tvisvar sinnum í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 og bráðabirgðaákvæði X í lögum nr. 38/2001 sem og í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands um hvernig taka skal tillit til fullnaðarkvittana vegna greiðslu vaxta af láninu. Stefnendur hafa ekki haft uppi töluleg mótmæli við útreikning stefnda við endurreikning láns síns. Þá virðist óumdeilt að stefnendur hafi greitt af láninu frá því það var endurreiknað öðru sinni 18. mars 2013. Samkvæmt þessu og með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefnda af kröfum stefnenda í málinu. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verða stefnendur dæmdir til að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.    D Ó M S O R Ð Stefndi, Arion banki hf., er sýkn af öllum kröfum stefnenda, Guðmundar Þórs Péturssonar og Hörpu Guðmundsdóttur, í máli þessu. Stefnendur greiði stefnda í sameiningu 600.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.
Mál nr. 637/2017
Brottrekstur úr starfi Ráðningarsamningur Skaðabætur Miskabætur
B var vikið úr starfi sem stuðningsfulltrúa á sambýli sem Ö rak í kjölfar atviks sem átti sér stað milli B og eins íbúa sambýlisins. Deildu aðilar um lögmæti brottvikningarinnar og hvort B ætti rétt á skaða- og miskabótum úr hendi Ö. Héraðsdómur taldi að Ö hefði brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga með því að láta ekki fara fram fullnægjandi rannsókn á atvikinu og þeim ávirðingum sem á B voru bornar áður en honum var vikið fyrirvaralaust úr starfi. Hefði brottvikning hans því verið ólögmæt. Dómurinn taldi hins vegar ósannað að B hefði orðið fyrir tjóni vegna brottvikningarinnar, en dæmdi Ö til að greiða honum miskabætur. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að málsmeðferð Ö hefði verið í andstöðu við 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá taldi rétturinn að B ætti rétt á skaðabótum úr hendi Ö vegna þessa sem voru hæfilega metnar 2.000.000 krónur, auk miskabóta sem ákveðnar voru 500.000 krónur. Var Ö því gert að greiða B samtals 2.500.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. október 2017. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 12.682.396 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. maí 2016 til 30. júní sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 15. desember 2017. Hann krefst sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Málavöxtum og málsástæðum aðila er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Fallist er á með héraðsdómi að ekki hafi farið fram fullnægjandi rannsókn af hálfu gagnáfrýjanda á þeim ávirðingum sem bornar voru á aðaláfrýjanda í atvikalýsingu samstarfskonu hans og lagðar voru til grundvallar í bréfi gagnáfrýjanda 8. apríl 2016, þar sem aðaláfrýjanda var tilkynnt að til athugunar væri að víkja honum úr starfi. Sömuleiðis er fallist á að ekki hafi farið fram fullnægjandi rannsókn á því hvort ætluð háttsemi aðaláfrýjanda hafi falið í sér svo alvarlegt brot á starfsskyldum hans að það réttlætti riftun ráðningarsamnings samkvæmt ákvæðum kjarasamnings þar um eða hvort áframhaldandi viðvera aðaláfrýjanda á vinnustað myndi valda skaða fyrir starfsemina, aðra starfsmenn eða vistmenn í skilningi samningsins. Var hvoru tveggja þó lagt til grundvallar þeirri ákvörðun gagnáfrýjanda að víkja aðaláfrýjanda fyrirvaralaust frá störfum 27. maí 2016. Var málsmeðferð gagnáfrýjanda að þessu leyti í andstöðu við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar af þeirri ástæðu verður staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að brottvikning aðaláfrýjanda úr starfi umrætt sinn hafi verið ólögmæt. Vegna hinnar ólögmætu ákvörðunar á aðaláfrýjandi rétt á bótum úr hendi gagnáfrýjanda. Í samræmi við dómaframkvæmd verða bætur honum til handa ákveðnar að álitum, að teknu tilliti til aldurs hans, menntunar, launatekna, atvinnumöguleika og atvika að öðru leyti. Verður í þeim efnum meðal annars að líta til þess að aðaláfrýjandi var ráðinn ótímabundið til starfa með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti og að honum voru greidd laun á meðan á tímabundinni brottvikningu hans stóð og í tvo mánuði eftir að honum hafði endanlega verið vikið úr starfi. Verður jafnframt að taka tillit til þess að aðaláfrýjandi var 67 ára að aldri á þeim tíma, en ágreiningslaust er að hann hafði sinnt starfi sínu átölulaust fram að því. Að þessu virtu og þegar litið er til starfsreynslu og menntunar aðaláfrýjanda, svo og meðaltals mánaðarlauna hans fyrir starfslok og tekna hans fyrir og eftir brottvikninguna, eru bætur vegna fjártjóns hans hæfilega metnar 2.000.000 krónur. Aðaláfrýjandi hafði um árabil gegnt starfi sínu hjá gagnáfrýjanda allt þar til hann sætti brottvikningu umrætt sinn. Voru þær ávirðingar sem á aðaláfrýjanda voru bornar, og lágu til grundvallar hinni ólögmætu brottvikningu hans, alvarlegar og meiðandi í hans garð og til þess fallnar að valda honum álitshnekki. Á aðaláfrýjandi rétt til miskabóta af þessum sökum samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og verða þær ákveðnar 500.000 krónur. Samkvæmt framansögðu verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 2.500.000 krónur með vöxtum eins og krafist er, en upphafsdegi þeirra hefur ekki verið andmælt. Eftir úrslitum málsins verður gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Gagnáfrýjandi, Sveitarfélagið Ölfus, greiði aðaláfrýjanda, Braga Andréssyni, 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. maí 2016 til 30. júní sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 2.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Suðurlands 7. júlí 2017.             Mál þetta, sem dómtekið var þann 9. júní sl., er höfðað af Braga Andréssyni, kennitala [...], til heimilis að Hjalladæl 13, Sveitarfélaginu Árborg, gegn Sveitarfélaginu Ölfusi, kennitala [...], Hafnarbergi 1, Þorlákshöfn, með stefnu birtri 26. október 2016.             Dómkröfur stefnanda eru: 1.       Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 14.192.396 með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. maí 2016 til 31. júní 2016, með dráttarvöxtum samkvæmt  1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. 2.       Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.             Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulegar. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.   Málavextir Helstu málavextir samkvæmt gögnum málsins eru þeir að stefnandi hóf þann 1. september 2004 störf sem stuðningsfulltrúi á sambýli sem stefndi rekur fyrir fatlaða einstaklinga á Selvogsbraut 1 í Þorlákshöfn. Upphaflegur ráðningarsamningur stefnanda var við Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Suðurlandi, en á þeim tíma heyrði málaflokkurinn undir ríkið. Við yfirfærslu málaflokksins til sveitarfélaganna, þann 1. janúar 2011, var komið á ráðningarsambandi milli stefnanda og stefnda með gerð viðauka við ráðningasamning stefnanda, dags. 23. desember 2010. Íbúar sambýlisins munu vera sex og starfsmenn í 7,26 stöðugildum, en sambýlið er rekið á grundvelli laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992. Tildrög máls þessa má rekja til samskipta milli stefnanda og A, eins íbúa sambýlisins, en atvikið mun hafa átt sér stað að kvöldi 9. september 2015. Í kjölfar atburðarins var þann 21. desember sama ár gefin út ákæra á hendur stefnanda fyrir líkamsárás sem ákærði var sýknaður af með dómi Héraðsdóms Suðurlands, uppkveðnum 10. maí 2016. Meðal gagna málsins er skjal sem ber heitið „Minnispunktar ef upp kemur krísa“ undirritað af Berglindi Hallmarsdóttur og Jóhönnu H. Óskarsdóttur, starfsmönnum á áðurnefndu sambýli og fyrrverandi samstarfsmönnum stefnanda, þar sem lýst er atvikum að kvöldi 9. september 2015 þegar stefnandi hafði í starfi sínu á sambýlinu afskipti af áðurnefndri A. Í niðurlagi skjalsins kemur fram að Berglind og Jóhanna hafi kallað til forstöðumann sambýlisins, Steinunni E. Þorsteinsdóttur og liggur fyrir í málinu að hún mun hafa áminnt stefnanda munnlega vegna atviksins að morgni 10. september 2015. Þá segir í málavaxtalýsingu í stefnu að eftir að yfirmanni stefnanda varð kunnugt um að atvikið hafði verið kært til lögreglu hafi stefndi tilkynnti stefnanda að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi stefnanda á meðan málið væri til rannsóknar eða fyrir dómstólum. Í málavaxtalýsingu í greinargerð stefnda segir að stefndi hafi tilkynnt stefnanda, þegar lögreglurannsókn hófst, að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi stefnanda á meðan málið væri til rannsóknar. Fyrir liggur að stefnandi fékk greidd laun frá stefnda þann tíma sem hann var í leyfi. Með bréfi dags. 8. apríl 2016, sem Steinunn E. Þorsteinsdóttir forstöðumaður sambýlisins undirritar, er stefnanda tilkynnt að til skoðunar væri hvort tilefni væri til að segja stefnanda fyrirvaralaust upp störfum. Í bréfinu segir. „Hér með tilkynnist að til skoðunar er hvort tilefni sé til að segja þér fyrirvaralaust upp störfum vegna háttsemi sem samræmist ekki starfsskyldum þínum. Áframhaldandi viðvera þín á vinnustaðnum er talin geta skaða starfsemina.“ Þá segir í bréfinu að tilefnið sé áðurnefnt atvik 9. september 2015. Í bréfinu er tilefnið tilgreint með eftirfarandi hætti: „Þann 9. september 2015 átti sér stað atburður í íbúð [...] á Selvogsbraut. Íbúi (sem er kvenkyns), búsettur í annarri íbúð á Selvogsbraut 1, er inni hjá [...] og kemur starfsmaður og biður hana að opna. Íbúi skellir á starfsmann, starfsmaður opnar þá dyrnar og er íbúi mjög æstur og orðljótur. Þú ert vitni að þessu og samkvæmt atburðarskýrslu rýkur þú til með miklum látum - þú og íbúi öskrið hvort á annað og þú rekur íbúa út úr íbúð [...] og inn í sína íbúð. Íbúi er hávær, orðljót og reið og fer að tína til dótið sitt. Þú stendur yfir henni og öskrar á hana sem endar á því að þú rífur í íbúa hendir henni í gólfið og sparkar í bakið á henni að sögn starfsmanns sem varð vitni að atburðinum. Í atburðaskýrslu kemur fram að þú segist hafa ýtt í hana með fætinum þar sem hún var liggjandi á gólfinu. Þegar starfsmaður sér þessi viðbrögð þín gengur hann að þér og stoppar þig af segir að nú sé komið gott og vel það. Starfsmaður segir þér að fara sem þú gerir. Tveir starfsmenn (konur) hjálpa íbúa á fætur. Íbúa og starfsfólki er mikið brugðið. Annar starfsmaður hjálpar íbúa inn til sín og hinn starfsmaðurinn sinnir öðrum íbúum. Þú fórst eftir þetta inn í starfsmannaaðstöðu. Starfsmaður kemur þar til þín og spyr hvað þú hafir verið að gera og af hverju þú hafir sparkað í íbúa og látið svona. Þú segist hafa ýtt til hennar og sagðir: „Það þarf að venja hana af frekjunni.“ Íbúi fór til læknis og fékk áverkavottorð þar sem fram kemur eftirfarandi: „Hún er með nokkuð mar á vinstra handbaki [sic] 3x3 cm að stærð á upphandlegg vinstri um 4x7 cm að stærð. Einnig með smá marbletti á hægri handlegg stærstur um 1x1 cm á stutt distald við olnboga. Yfirborðsáverkar á báðum hnjám. Sár á vinstri hné og mar um 4x4 cm. Marblettir á hægra hné um 3x2 cm á stærð veit medialt við hnéskel. Kvartar ekki yfir öðrum einkennum eða verkjum.“                 Íbúi kærði atburðinn í framhaldi til lögreglunnar. Þér var tjáð af hálfu vinnuveitanda að ekki yrði óskað eftir vinnuframlagi þínu meðan málið væri í lögreglurannsókn. Eins og þér er kunnugt var málið rannsakað af lögreglu sem endaði með ákæru og bíður nú aðalmeðferðar hjá dómstólum.“ Í lok bréfsins er stefnanda gefinn kostur á að tjá sig um málið annað hvort á fundi með þremur yfirmönnum stefnda að viðstöddum trúnaðarmanni, eða skriflega óski hann þess. Þá er stefnanda bent á að honum sé heimilt að hafa trúnaðarmann með á framangreindan fund. Með bréfi dags. 27. apríl 2016, sem Gunnsteinn Ómarsson, bæjarstjóri, undirritar, er vísað til fyrri samskipta vegna málsins. Þá segir: „Sveitarfélagið Ölfus ítrekar fyrra erindi, dags. 8. apríl sl., og þá frumniðurstöðu að háttsemi starfsmannsins hafi verið alvarlegt frávik frá starfsskyldum. Sveitarfélagið telur niðurstöðu þess sakamáls sem rekið er gegn starfsmanninum engin áhrif hafa á þá afstöðu sveitarfélagsins.“ Í lok bréfsins var nýr fundartími tilkynntur auk þess sem vakin var athygli stefnanda á því að honum stæði einnig til boða að tjá sig skriflega um málið eigi síðar en 6. maí sama ár. Það gerði stefnandi með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 9. maí 2016. Í bréfinu var fyrirhugaðri fyrirvaralausri uppsögn stefnanda mótmælt og meðal annars vísað til þess að beðið væri dóms Héraðsdóms Suðurlands í sakamáli gegn ákærða vegna sama atviks og vísað hafi verið til í áðurnefndu bréfi stefnda frá 8. apríl 2016. Þá segir í málavaxtalýsingu í stefnu að stefnandi hafi óskað eftir því að skila inn ítarlegri andmælum gegn fyrirhugaðri ákvörðun, ef stefndi teldi sér heimilt að taka ákvörðun í málinu. Það var síðan með bréfi, dags. 27. maí 2016, undirritað af áðurnefndum bæjarstjóra stefnda sem stefnanda var tilkynnt um fyrirvaralausa frávikningu úr starfi með vísan til bréfs stefnda til stefnanda, dags. 8. apríl 2016, vegna háttsemi stefnda gagnvart íbúa sambýlisins þann 9. september 2015. Kemur fram að stefndi hafi móttekið andmælabréf stefnanda dags. 9. maí 2016 og að tekin hafi verið afstaða til þeirra sjónarmiða sem þar komi fram. Í bréfinu er rakin ákvæði 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og gr. 11.1.6.1 í kjarasamningi aðila. Síðan segir: „Hér skal það áréttað að í riftun ráðningarsamningsins felst ekki ásökun um refsiverða háttsemi líkt og haldið er fram í andamælabréfi dags. 9. maí 2016. Byggir riftun samningsins á alvarlegu broti gegn starfsskyldum þínum og á hún sér stoð í framangreindum kjarasamningi. Þá skal það áréttað að sveitarfélagið átti ekki frumkvæði að refsimáli vegna atburðarins og er hér um að ræða tvö aðskilin mál; annars vegar refsimál og hins vegar brot á starfsskyldum sem heimilar fyrirvaralausa frávikningu úr starfi. Niðurstaða refsimálsins er óháð niðurstöðu sveitarfélagsins um brot á starfsskyldum. Þá ber einnig að geta þess að sönnunarstaða er önnur þegar um er að ræða refsimál, enda ríkari sönnunarkröfur gerðar í refsimálum, sbr. t.d. Hrd. 1997, bls. 490 (mál nr. 110/1996). Þá gat starfsmaður ekki haft réttmætar væntingar til þess að honum yrði ekki vikið fyrirvaralaust úr starfi í ljósi allra aðstæðna þessa máls, jafnvel þó strax í kjölfar atburðarins hafi ekki verið talin ástæða til að bregðast við með öðrum hætti en áminningu.“ Þá er í bréfinu vísað til atvikaskráningar vegna atburðarins 9. september 2015, læknisvottorðs og fram kemur það mat stefnda að viðbrögð stefnanda hafi bæði í orði og athöfum verið úr hófi. Þá segir: „Var þér strax veitt áminning í kjölfar atburðarins, sem ekki var sérstaklega andmælt af þinni hálfu, og í kjölfarið fór af stað rannsókn hjá lögreglu eftir kæru íbúans á atvikinu. Á meðan hafði sveitarfélagið í skoðun hvort segja ætti þér upp störfum vegna atburðarins. Ekki var óskað eftir vinnuframlagi þínu á meðan á rannsókn lögreglu og skoðun sveitarfélagsins stóð yfir. Skoðun sveitarfélagsins hefur leitt í ljós að umrætt atvik sé þess eðlis að áframhaldandi viðvera þín á vinnustaðnum sé til þess falin að skaða starfsemina. Um er að ræða alvarlegt atvik sem samrýmist ekki starfsskyldum þínum. Starfsmenn þjónustuíbúða verða við allar aðstæður að geta sinnt starfi sínu af yfirvegun, án þess að hræða, ógna eða veitast að íbúum, sama í hvaða ástandi íbúar kunna að vera. Er atvikið því þess eðlis að óhjákvæmilegt er að víkja þér fyrirvaralaust úr starfi og tekur sú ákvörðun gildi við dagsetningu bréfs þessa.“ Þá liggur fyrir að með bréfi dags. 6. september 2016 krafðist stefndi þess að stefnandi endurgreiddi stefnda ofgreidd laun að fjárhæð 551.657 krónur. Kemur fram að stefndi hafi orðið þess áskynja að þrátt fyrir riftun ráðningarsamnings, sem samkvæmt bréfi bæjarstjóra tók gildi við dagsetningu bréfsins, þ.e. 27. maí 2016, hafi stefnandi fyrir mistök fengið greidd laun við útborgun launa 1. júlí og 1. ágúst 2016. Málsástæður og lagarök stefnanda                 Stefnandi krefst skaða- og miskabóta úr hendi stefnda með vísan til þess að riftun stefnda á ráðningarsamningi stefnanda hafi verið ólögmæt. Stefnandi hafi orðið fyrir tjóni í form tekjumissis enda hafi hann ekki getað aflað sér sambærilegs starfs. Einnig verði að ætla að stefnandi hafi takmarkaða möguleika á að afla sér sambærilegs starfs í framtíðinni þegar litið sé til aldurs, búsetu, starfsreynslu og menntunar hans. Samkvæmt þessu séu skilyrði sakarreglunnar um ólögmæti, tjón og orsakatengsl uppfyllt í máli þessu.                 Stefnandi byggir á því að ákvörðun stefnda um lausn stefnanda frá störfum hafi verið stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verði ákvörðunin því að vera í samræmi við skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttar, auk þess sem kjarasamningur milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og SFR hafi gilt um ráðningarsamband aðila. Samkvæmt kjarasamningunum skal uppsögn byggjast á málefnalegum ástæðum, sbr. grein 11.1.6.1. Þá sé heimild stefnda til að víkja starfsmanni fyrirvaralaust úr starfi jafnframt bundin við þau tilvik þegar starfsmaður verið uppvís um „gróft brot í starfi“ og að áframhaldandi viðvera hans á staðnum valdi „skaða fyrir starfsemina, aðra starfsmenn eða viðskiptavini.“ Vísar stefnandi til þess að hvorugt hafi átt við í tilviki stefnanda.                 Stefnandi byggir dómkröfu sína á því í fyrsta lagi að hann hafi ekki orðið  orðið uppvís að „grófu broti“ í starfi sem sé skilyrði fyrirvaralausrar riftunar á ráðningarsambandi. Stefnandi mótmælir að orðræða hans eða athafnir umrætt sinn hafi verið of harkalegar og vísar stefnandi í því sambandi til langrar starfsreynslu og þess að hann viti hvernig eigi að bregðast við vissum kringumstæðum. Hafnar stefnandi því að hann hafi öskrað á íbúanna, hent honum í gólfið eða sparkað í bak hans og vísar stefnandi í því sambandi til dóms Héraðsdóms Suðurlands frá 10. maí 2016. Þá hafnar stefnandi því að íbúinn hafi fengið áverka umrætt sinn af völdum stefnanda enda hafi komið fram í framburði Jóhönnu Hólmfríðar Óskarsdóttur í áðurnefndum dómi, að umræddur íbúi hafi verið með „lélegar fætur“ og „dettin“. Hafnar stefnandi því að umrætt atvik hafi réttlætt riftun á ráðningarsamningi stefnanda.                 Stefnandi byggir dómkröfu sína í öðru lagi á því að stefndi hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993, enda hafi riftunin verið byggð á framburði samstarfsmanns stefnanda sem ekki hafi verið vitni að atvikinu og atvikaskráning umrædds starfsmanns hafi aldrei verið borin undir stefnanda. Auk þess hafi stefndi ákveðið að bíða ekki eftir niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands og þá hafi enginn á vegum stefnda verið viðstaddur aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn stefnanda.                 Stefnandi byggir dómkröfu sína í þriðja lagi á því að ákvörðun stefnda um riftun ráðningarsamningsins hafi byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum og þar með brotið gegn ólögfestri réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins og grein 11.1.6.1 í kjarasamningi stefnanda. Stefndi hafi tekið ákvörðun um að áminna vegna umrædds atviks og engin skilyrði hafi verið fyrir hendi til að afturkalla þá ákvörðun, sbr. 25. gr. laga nr. 37/1993. Jafnframt hafi stefndi tekið ákvörðun um að senda stefnanda í leyfi meðan mál hans var til rannsóknar hjá viðeigandi stjórnvöldum en engar nýjar upplýsingar hafi legið fyrir þegar ráðningarsamningnum hafi verið rift. Því hafi verið um geðþóttaákvörðun að ræða og um leið brot gegn réttmætisreglunni og áðurnefndrar 25. gr.                 Loks byggir stefnandi dómkröfu sína á því að ákvörðun stefnda hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Stefnandi, sem hafi verið með langa starfsreynslu og aldrei verið áminntur vegna starfa sinni, hafi eingöngu verið að sinna sínu starfi umrætt sinn. Stefndi hefði því getað áminnt stefnanda, ekki síst í ljósi þess að hann hafi verið sýknaður af tilhæfulausri ákæru.                 Við mat á fjártjóni stefnanda verði til þess að líta að stefnandi naut lögfestra og ólögfestra réttinda stjórnsýsluréttar. Því hafi stefnandi mátt vænta þess að halda starfi sínu til venjulegra starfsloka opinbers starfsmanns svo lengi sem starfseminni yrði haldið áfram á vegum stefnda og stefnandi ekki gerst brotlegur í starfi. Einnig verði við mat á fjártjóni stefnanda að líta til aldurs hans, starfsreynslu, menntunar og búsetu. Atvinnumöguleikar 67 ára manns í Þorlákshöfn og nágrenni séu því miður fáir með tilliti til starfsreynslu og menntunar stefnanda. Stefnandi hafi að baki 25 ára starfsreynslu við umönnun fatlaðra en ákvörðun stefnda um riftun hafi leitt til þess að atvinnumöguleikar stefnanda á þessu sviði séu mjög takmarkaðir, nánast útilokaðir. Þannig svari skaðabótakrafa stefnanda til fjártjóns vegna tvöfaldra árslauna stefnanda, samtals kr. 12.692.396. Miðað sé við 6.346.198 króna árslaun stefnanda árið 2015. Krafan sé sett fram á hefðbundinn hátt en samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar beri að ákvarða fjártjónsbætur að álitum með tilliti til allra atvika með það að leiðarljósi að tjónþoli fái bætt sitt tjón.                 Stefnandi geri kröfu um 1.500.000 krónur í miskabætur með vísan til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Vísar stefnandi til þess að riftunin og hvernig að henni hafi verið staðið hafi falið í sér meingerð gegn æru og persónu stefnanda enda hafi engar málaefnalegar ástæður verið að baki ákvörðuninni. Út á við hafi riftunin borið þess merki að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverðan verknað þrátt fyrir að hafa verið sýknaður í héraðsdómi af tilhæfulausri ákæru. Að því virtu hversu alvarlega hafi verið vegið að starfsheiðri stefnanda sé krafan hófleg.                 Um dráttarvexti er vísað til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Upphafsdagur vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna miðist við þá dagsetningu þegar ráðningarsamningi stefnanda hafi verið rift og dráttarvaxtakrafa miðist við 3. mgr. 5. gr. laganna en stefndi hafi verið upplýstur um ólögmæti riftunarinnar með tölvupósti 31. maí 2016. Um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé stefnandi ekki virðisaukaskattsskyldur og eigi hann því ekki frádráttarrétt við greiðslu virðisaukaskatts. Málsástæður og lagarök stefnda Til stuðnings kröfu sinni um sýknu sem og réttar stefnda til að segja stefnanda upp starfi með bréfi 27. maí 2016, vísar stefndi til gr. 11.16.1 í kjalsamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og SFR, þ.e. að heimilt sé að segja upp starfsmanni séu fyrir því málefnalegar ástæður sem og ef starfsmaður verði uppvís að grófu broti í starfi enda valdi viðvera hans á vinnustað áframhaldandi skaða fyrir starfsemina, aðra starfsmenn eða viðskiptavini. Hagi þannig til skuli víkja starfsmanni úr starfi fyrirvaralaust. Telur stefndi að áðurnefnt ákvæði eigi ekki síst við í þeim tilvikum þegar sýna þurfi tillitssemi gagnvart öðrum starfsmönnum eða viðskiptavinum/skjólstæðingum stefnda. Stefndi telur uppsögnina hafa verið málefnalega sem og að stefnandi hafi orðið uppvís að grófu broti í starfi og að áframhaldandi vera hans hefði valdið skaða fyrir starfsemina, aðra starfsmenn og skjólstæðinga sambýlisins. Í þessu sambandi skipti það engu þótt stefnandi hafi verið sýknaður af ákæru um líkamsárás enda hafi þar verið um sakamál að ræða þar sem gerðar séu mun ríkari sönnunarkröfur en í einkamálum. Byggir stefndi á því að stefnandi hafi brotið gegn starfsskyldum sínum með grófum hætti enda verði að hafa í huga að starf með fötluðum sé viðkvæmt starf sem krefst oft náins sambands milli starfsmanns og skjólstæðings sem verði að byggja á gagnkvæmri virðingu og trausti, sbr. og lög nr. 59/1992 og reglugerðir settar með stoð í þeim lögum. Að mati stefnda hafi stefnandi gengið alltof langt þegar komið hafi að því að fá íbúann til að gegna fyrirmælum hans. Í starfi eins og stefnandi hafi sinnt eigi aldrei að ganga eins langt í starfi og stefnandi hafi gert og vísar stefndi í því sambandi til þeirra áverka sem lýst sé í læknisvottorði sem gefið hafi verið út eftir rannsókn læknis á íbúanum. Þá vísar stefndi til þess að hvað teljist sannað um framangreind atriði geti líklega oltið nokkuð á munnlegum skýrslum fyrir dómi.   Stefndi kveður framangreinda háttsemi stefnanda hafa leitt til þess að rofinn hafi verið trúnaður og traust milli hans og íbúans og eðli málsins samkvæmt  einnig grafið undan trausti sem aðrir skjólstæðingar sambýlisins verði að geta haft til starfsmanna. Sama gildi um traust og trúverðugleika stefnanda gagnvart samstarfs- og yfirmönnum sínum. Því hafi verið einsýnt að áframhaldandi viðvera stefnanda á vinnustaðnum hefði komið til með að skaða starfsemina, aðra stafsmenn og íbúa sambýlisins. Þá hafi tíminn og reynslan leitt í ljós að stefnandi hafi ekki getað átt afturkvæmt, enda ljóst að verulegt vantraust hafi ríkt enn í hans garð, jafnvel þótt margir mánuðir væru liðnir frá umræddu atviki. Einnig hefði það valdið verulegum álitshnekki út á við, t.d. gagnvart vandamönnum skjólstæðinganna og öðrum íbúum sveitarfélagsins, ef starfsmaður sem hefði valdið skjólstæðingum sínum áverkum gæti hafið störf að nýju. Því hafi stefnda verið skylt samkvæmt áðurnefndri grein kjarasamningsins að segja stefnanda upp störfum. Í öllu falli hafi honum verið það heimilt þar sem uppsögnin byggði á málefnalegum ástæðum. Þá sé einnig á því byggt að háttsemi stefnanda hafi, með vísan til framangreindra sjónarmiða, falið í sér verulega vanefnd á ráðningarsamningi aðila sem hafi heimilað stefnda að rifta samningnum. Stefndi hafnar því að hafa brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins. Atvik máls hafi verið fremur einföld, um hafi verið að ræða afmarkaðan atburð sem vitni hafi verið að. Stefndi hafi vandað til verka við að upplýsa málið og hafi m.a. óskað eftir sjónarmiðum stefnanda sem hann hafi komið á framfæri skriflega með bréfi, dags. 9. maí 2016, og hafi þau verið skoðuð áður en endanleg ákvörðun um brottreksturinn hafi verið tekin 27. maí sama ár. Stefndi hafnar því að brottvikningin hafi eingöngu byggst á framburði starfsmanns sem ekki hafi orðið vitni að atvikinu enda óumdeilt að Berglind Hallmarsdóttir hafi verið vitni að atvikum og hafi fyrst og fremst verið horft til framburðar hennar við mat á tilefni brottvikningar. Eðli málsins samkvæmt hafi brottvikningin einnig verið byggð á framburði A sem brotaþola. Þá er því hafnað sem röngu að stefnanda hafi verið sagt upp áður en dómur Héraðsdóms Suðurlands lá fyrir. Hið rétta sé að dómur hafi verið uppkveðinn 10. maí 2016 en stefnanda ekki sagt upp störfum fyrr en 27. sama mánaðar. Þá hafnar stefndi því að það hafi þýðingu hvort stefndi hafi verið viðstaddur aðalmeðferð málsins eða ekki, enda hafi brottvikningin ekki verið grundvölluð á niðurstöðu sakamálsins heldur á háttsemi stefnanda og broti hans á starfsskyldum sínum. Stefndi hafnar því einnig að hafa brotið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins enda eigi þau sjónarmið sem legið hafi til grundvallar uppsögninni stoð í kjarasamningi aðila og ákvörðunin því grundvölluð á málefnalegum forsendum. Einnig hafi verið gætt að andmælarétti stefnanda sem hafi ekki getað haft réttmætar væntingar til þess að honum yrði ekki vikið úr starfi í ljósi allra aðstæðna málsins, jafnvel þótt strax í kjölfar atviksins hafi ekki verið talin ástæða til þess að bregðast við með öðrum hætti en með áminningu. Í þessu sambandi sé til þess að líta að stefnandi hafi verið sendur í leyfi meðan á lögreglurannsókn stóð og því hafi honum hlotið að vera ljóst að háttsemi hans hefði getað haft frekari og alvarlegri afleiðingar í för með sér en áminningu. Það að víkja stefnanda úr starfi hafi ekki falið í sér afturköllun á endanlegri stjórnvaldsákvörðun, eins og stefnandi haldi fram. Stefndi hafnar því að hafa brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Í samræmi við þau sjónarmið sem að framan hafi verið rakið hafi ekki komið til greina að ljúka málum með þeim hætti að veita stefnanda aðeins áminningu. Um hafi verið að ræða gróft brot á starfskyldum og hafi því, eins og atvikum hafi verið háttað, beinlínis verið skylda stefnda gagnvart skjólstæðingum sínum og öðrum starfmönnum að segja stefnanda upp með vísan til áðurnefndrar greinar kjarasamnings aðila. Jafnvel þótt fallist verði á það með stefnanda að óheimilt hafi verið að segja honum upp störfum byggir stefndi á því að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að hann hafi orðið fyrir nokkru fjárhagstjóni vegna uppsagnarinnar. Hafa verði í huga að starfsöryggi stefnanda sætti takmörkunum eins og annarra starfsmanna hjá opinberum aðilum enda hefði t.d. verið hægt að segja stefnanda upp störfum ef fækka hefði átt starfsmönnum vegna hagræðingar. Stefndi kveður það vekja furðu að krefjast bóta tvö ár fram í tímann en málið hafi verið höfðað 26. október 2016, aðeins fimm mánuðum eftir að stefnanda var sagt upp störfum, auk þess sem stefnandi hafi notið launa allt þar til í ágúst 2016. Því hafi meint tjón stefnanda við málshöfðun ekki getað numið nema í mesta lagi tveggja mánaða launagreiðslum (1. september og 1.október 2016). Krafa stefnanda taki hins vegar að langstærstum hluta til meints tjóns til framtíðar litið. Vegna þess vakni sú spurning hvort ekki sé rétt af þeim sökum að vísa málinum frá dómi samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Ljóst sé að stefnandi geti á næstu tveimur árum takmarkað meint tjón sitt verulega með því að fá sér annað starf. Skorar stefndi á stefnanda að leggja fram gögn því til sönnunar að hann hafi sinnt skyldum sínum um að takmarka tjón sitt að þessu leyti. Ella verði óhjákvæmilega að sýkna stefnda. Varðandi varakröfu vísar stefndi til þess að verði það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna ólögmætrar uppsagnar verði að lækka fjárhæð kröfunnar verulega. Minnir stefndi á að dómstólar hafi í málum sem þessu einkum dæmt bætur að álitum og komi því ekki til greina að fallast á kröfu stefnanda eins og hún sé sett fram. Jafnframt vísar stefndi til áðurnefndra sjónarmiða um starfsöryggi stefnanda, að meint fjárhagstjón hans taki að langstærstum hluta til óráðinnar framtíðar og skyldu stefnanda til að takmarka meint tjón sitt. Með vísan til framangreindra sjónarmiða geti stefnandi aldrei fengið hærri bætur en sem nemi sex mánaðar uppsagnarfresti og því aldrei hærri en 2.020.050 krónur, þ.e. 336.675 x 6. Þar sem stefnandi hafi nú þegar fengið greidd laun, án vinnuframlags, sem nema miklu hærri fjárhæð, hafi hann ekki orðið fyrir neinu tjóni, sbr. nánari útreikning sem  rakinn er í greinargerð. Í öllu falli sé ótækt að miða bótakröfuna við meðallaun ársins 2016, sem samkvæmt stefndu eigi að vera 6.346.198 krónur, enda geti tjón stefnanda aldrei numið hærri fjárhæð en umsömdum grunnlaunum. Samkvæmt síðustu tveimur launaseðlum hafi grunnlaun stefnanda verið 336.675 krónur. Bótakrafa vegna næstu tveggja ára geti því aldrei numið hærri fjárhæð en 8.073.000 [sic] krónum, þ.e. 336.675 x 24. Því til frádráttar hljóti að koma greiðslur sem stefndi innti af hendi til stefnanda á meðan hann hafi verið í leyfi vegna lögreglurannsóknarinnar, en á þeim tíma hafi stefnandi ekkert vinnuframlag innt af hendi. Nánar tiltekið hafi verið um að ræða eftirfarandi greiðslur: 1.       1. október 2015                                         596.296 krónur. 2.       1. nóvember 2015                                     442.830 krónur. 3.       1. desember 2015                                      521.459 krónur. 4.       Áramótaútborgun                                     467.799 krónur. 5.       1. febrúar 2016                                          482.086 krónur. 6.       1. mars 2016                                              471.220 krónur 7.       1. apríl 2016                                               444.945 krónur. 8.       1. maí 2016                                539.926 krónur. 9.       1. júní 2016                                485.160 krónur. Samtals kr.                                                         4.451.721 Einnig hljóti að koma til frádráttar á grundvelli almennra reglna um skuldajöfnuð þær greiðslur sem stefndi innti af hendi til stefnanda í tvo mánuði eftir uppsögnina, samtals að fjárhæð 832.757 krónur, enda hafi stefnanda hlotið að vera ljóst að um mistök hafi verið að ræða þar sem búið hafi verið að rifta ráðningarsamningi hans. Skaðabótakrafa stefnanda geti því aldrei numið hærri fjárhæð en 2.788.522 krónum, þ.e. 8.073.000–4.451.721–832.757 krónur.          Þá hafnar stefndi því að lagaskilyrði séu til að fallast á miskabótakröfu stefnanda. Staðið hafi verið að uppsögn með eðlilegum hætti og stefnanda gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum. Stefndi hafnar því alfarið að riftunin beri þess merki að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverðan verknað. Ljóst sé að stefnandi hafi verið sýknaður af ákærunni og hafi uppsögnin ekki verið grundvölluð á niðurstöðu umrædds dómsmáls.          Um lagarök að öðru leyti vísar stefndi til meginreglna starfsmannaréttar og meginreglna samninga- og kröfuréttarins, þ.m.t. um riftun samninga. Kröfu um málskostnað styður stefndi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Forsendur og niðurstaða Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur stefnandi, Bragi Andrésson, og vitnin Berglind Hallmarsdóttir, starfsmaður á sambýlinu að Selvogsbraut 1, og Steinunn Emilía Þorsteinsdóttir, þroskaþjálfi og forstöðumaður sambýlisins.             Ekki er fallist á það með stefnda að málatilbúnaður stefnanda leiði til þess að máli þessu verði vísað frá dómi án kröfu.               Aðila málsins greinir á um brottvikningu stefnanda úr starfi stuðningsfulltrúa á sambýli fyrir fatlaða í Þorlákshöfn sem tilkynnt var stefnanda með bréfi dags. 27. maí 2016. Stefnandi vísar til þess að riftun stefnda á ráðningarsamningi stefnanda hafi verið ólögmæt og krefst skaða- og miskabóta úr hendi stefnda, sem hafnar öllum kröfum stefnanda.   Í 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, segir að um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga fari eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og ákvæðum ráðningarsamninga. Ákvæðið kom inn með lögum nr. 45/1998, en í eldri sveitarstjórnarlögum var vísað til þess að starfsmenn sveitarfélaga hefðu réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sbr. lög nr. 38/1954. Framangreint ákvæði sveitarstjórnarlaga hefur verið túlkað svo, að einstök réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga í vinnuréttarlegum skilningi, séu í grundvallaratriðum ekki lögbundin, heldur taki mið af kjarasamningum og ráðningarsamningum eins og þeir eru á hverjum tíma. Hins vegar hefur 57. gr. einnig verið túlkuð svo að sveitarstjórnir geti ekki samið um frávik frá grundvallarreglum stjórnsýsluréttar hvort sem er í kjarasamningum eða ráðningarsamningum. Þá hefur verið á því byggt að veigamiklar ákvarðanir stjórnvalda, s.s. við uppsögn starfsmanna sveitarfélaga teljist stjórnvaldsákvarðanir í skilningi 1. gr. stjórnsýslulaga, þannig að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga gildi við uppsögn starfsmanna sveitarfélaga. Samkvæmt þessu bar stefnda við undirbúning og ákvörðun um brottvikningu stefnanda úr starfi að fara að stjórnsýslulögum nr. 37/1993.             Óumdeilt er að umrædda brottvikningu stefnanda úr starfi megi rekja til atviks sem átti sér stað að kvöldi 9. september 2015 er stefnandi var við störf á sambýlinu að Selvogsbraut 1. Fyrir dómi lýsti stefnandi atvikum þannig að hann hafi verið að fá íbúa sambýlisins, A, til að fara yfir í hennar eigin íbúð. A hafi verið í sófa og hann reynt að fá hana til að standa upp, en hún hafi brugðist ókvæða við þegar samstarfsmaður stefnanda, Berglind, hafi komið inn. Hafnaði stefnandi því að hafa veist að a með því að rífa í hönd hennar, kasta henni í gólfið og sparka í hana, en stefnandi kvaðst hafa sett fótinn í A, þ.e. ýtt aðeins við henni með hnénu, og talið að við það myndi hún standa upp. Staðfesti stefnandi þann framburð sinn sem fram kemur í dómi Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. S-464/2015, sem höfðað var gegn honum fyrir líkamsárás gegn a, þ.e. að a hafi látið sig falla á fjóra fætur og hann þá ýtt við henni með hnénu. Stefnandi kvað A hafa hækkað róminn. Það hafi hann einnig gert í samræmi við það sem honum hafi verið kennt, þ.e. að ef raddstyrkur sjúklings væri 5-6 þá ætti raddstyrkur starfsmanns að vera 6-7.              Vitnið Berglind Hallmarsdóttir, starfsmaður á sambýlinu, kom fyrir dóm og lýsti atvikinu í frjálsri frásögn þannig að þegar stefnandi hafi verið að fá A til að yfirgefa íbúðina, hafi hann rifið í a, þar sem hún hafi setið í sófa í stofunni, þannig að hún hafi dottið á gólfið, borð hafi þeyst til og kanna full af vatni fallið á gólfið. A hafi legið emjandi, grenjandi og öskrandi og hafi stefnandi þá reitt upp hönd gegn A og sett fótinn í hana. Við það kvaðst vitnið hafa gengið á milli.  Stefnandi og A hafi bæði verið mjög hávær og stefnandi mjög reiður. Eftir atvikið kvaðst vitnið hafi rætt við stefnanda í eldhúsi sambýlisins og spurt af hverju hann hafi sparkað í A. Stefnandi hafi þá sagt orðrétt, „ég sparkaði ekki í hana, ég sett fótinn í hana [...].“ Kvaðst vitnið ekki hafa séð betur en að stefnandi hafi sparkað  í a, en vegna framangreinds svars stefnanda verði hún að trúa að svo hafi ekki verið.               Meðal gagna málsins er skýrsla eða atvikalýsing, sem vitnið Berglind staðfesti fyrir dómi að hafa ritaði eigin hendi daginn eftir atvikið, en blaðið ber heitið „Minnispunktar ef upp kemur krísa“, svokallað „krísublað“. Kom fram í skýrslu vitnisins Steinunnar Emelíu Þorsteinsdóttur, forstöðumanns sambýlisins, fyrir dómi að slík minnisblöð/atvikalýsing væru notuð ef upp kæmu atvik milli íbúa sambýlisins innbyrðis og/eða milli íbúa og starfsmanna. Atvikalýsingin er undirrituð af framangreindri Berglindi og Jóhönnu H. Óskarsdóttur sem einnig var við störf á sambýlinu umrætt kvöld. Fyrir dómi var borinn undir vitnið Berglindi eftirfarandi texti í áðurnefndri atvikalýsingu: „- endar á að rífa í [...] [A, innskot dómara] henda henni á gólfið og að því ég best sá sparka í bakið – sagði sjálfur ég ýtti í hana liggjandi á gólfinu með fætinum.“ Einnig var borinn undir vitnið texti úr samantekt lögreglu af skýrslutöku af Berglindi sem vitni í lögreglurannsókn, sem fyrir liggur að hófst á umræddu atviki þann 11. september 2015, en þar segir: „Þetta hafi gerst mjög hratt, þau hafi verið að rífast og hvort hún leit eitthvað fram á ganginn þegar hún hafi litið til baka er það næsta sem hún sá hvar [A, innskot dómara] lenti á gólfinu og Bragi haldið áfram að þusa og Bragi lyft löppinni sem henni sýndist að Bragi hafi látið í [...].“ Þá var eftirfarandi samantekt lögreglu af síðari yfirheyrslu yfir Berglindi þann 23. nóvember 2015 einnig borin undir vitnið: „Aðspurð í hvor [sic] hendina [sic] Bragi hafi tekið sagðist Berglind ekki vera viss á þessari stundu, hún sagðist hafa staðið í hurðagættinni og horft bæði fram á gang og inn í íbúðina og þetta hafi verið atvik sem hún átti ekki von á.“ Vitnið var í framhaldinu innt eftir því hvort hún gæti staðfest  texta þann úr atvikalýsingu vitnisins sem vísað var til hér að framan innan tilvitnunarmerkja. Því svaraði vitnið þannig: „Sko, þegar ég lít inn þá er hann [stefnandi] með hendurnar á henni, hún er að detta, og [...] nei, ekki henda, hann henti henni ekki á gólfið, en hann reif í hana, hún fer í gólfið, nei ekki hent.“ Þá kvaðst vitnið á öllum stigum málsins hafa sagt að stefnandi hafi sparkað í A, hún hafi ekki séð betur. Ítrekað aðspurð hvort hún hafi séð stefnanda sparka í A, svaraði vitnið. „Sá hann setja fótinn í hana, hvort hann sparkaði, ég sá ekki hvort, þegar þú sparkar það er tvennt ólíkt, þú átt hvorugt að gera.“ Ítrekaði vitnið að stefnandi hafi sagt sér að hann hafi sett fótinn í A og því trúi vitnið. Fram kom í skýrslu vitnisins Steinunnar fyrir dómi að A búi við mikla andlega fötlun. Þá eigi hún erfitt með hreyfingar og sé bæði slæm í baki og fótum. Vitnið var innt eftir því hvort oft þyrfti að toga í A til að fá hana til að hlýða, eins og fram hafi komið í framburði Jóhönnu, starfsmanns sambýlisins, í áðurnefndum dómi Héraðsdóms Suðurlands í sakamálinu gegn stefnanda. Kvað vitnið Steinunn að oft þurfi „að beina A“ eins og vitnið orðaði það, en það eigi ekki að toga í hana.             Í máli þessu eru ekki aðrir til frásagnar um samskipti stefnanda og íbúans A að kvöldi 9. september 2015 en stefnandi og vitnið Berglind Hallmarsdóttir. Framburður þeirra hefur verið rakinn hér að framan. Að mati dómsins ber nokkuð í milli í lýsingum stefnanda og vitnisins Berglindar um hið ætlaða grófa brot ákærða í starfi. Auk þess er framburður vitnisins Berglindar í máli þessu nokkuð á annan veg en hin skriflega atvikalýsing vitnisins í áðurnefndu krísublaði. Er það og mat dómsins að vitnið hafi gert heldur minna úr þætti stefnanda í framburði sínum í máli þessu en í hinni skriflegu atvikalýsingu, dags. 10. september 2015. Einnig bendir framburður vitnisins hjá lögreglu, sem kynntur var vitninu sérstaklega, til þess að vitnið hafi ekki verið í þeirri aðstöðu að sjá nákvæmlega hvað átti sér stað í umræddum samskiptum stefnanda og A. Að öllu framangreindu virtu hefur stefnda að mati dómsins ekki tekist að sanna að atvik í samskiptum stefnanda og A hafi verið með þeim hætti sem greinir í atvikalýsingu vitnisins Berglindar frá 10. september 2015. Þá er til þess að líta að með dómi Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. S-464/2015, var ekki talið sannað hvort A hafi látið sig detta á gólfið eða stefnandi þrifið í hönd hennar með þeim afleiðingum að hún féll á gólfið, en framangreindur dómur hefur fullt sönnunargildi um framangreint atriði þar til hið gagnstæða sannast, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.             Stefnandi vísar til þess að málsmeðferð stefnda við brottvikningu stefnanda úr starfi hafi falið í sér brot gegn rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.  Þá vísaði lögmaður stefnanda til þess í munnlegum málflutningi við aðalmeðferð málsins að í bréfi hans til bæjarstjóra stefnda, dags. 9. maí 2016, hafi verið gerður áskilnaður um ítarlegri andmæli gegn hinni fyrirhuguðu ákvörðun, teldi stefndi sér heimilt að taka ákvörðun um lok á ráðningarsambandi stefnanda, en að framangreindu var vikið í málavaxtalýsingu í stefnu. Þar sem svo hafi ekki verið gert hafi stefndi einnig brotið andmælarétt gagnvart stefnanda. Þessu hafnaði lögmaður stefnda í munnlegum málflutningi sem of seint framkominni málsástæðu.              Kemur þá í fyrsta lagi til skoðunar hvort stefndi hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga eins og stefnandi heldur fram en í því fellst að stefnda bar að eigin frumkvæði að upplýsa málsatvik nægilega áður en ákvörðun var tekin um brottvikningu stefnanda úr starfi. Stefndi byggir málatilbúnað sinn meðal annars á því að sýknudómur Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. S-464/2015 hafi ekkert að gera með það mat stefnda að stefnandi hafi brotið gróflega gegn starfsskyldum sínum í samskiptum við A að kvöldi 9. september 2015. Vísar stefndi til þess að hann byggi þá ákvörðun sína að víkja stefnanda frá störfum vegna grófs brots í starfi fyrst og fremst á atvikaskráningu vitnisins Berglindar og framburði A sjálfrar.              Í framburði vitnisins Steinunnar kom fram að í samráði við Maríu, yfirmann vitnisins, hafi verið ákveðið, eftir að lögreglurannsóknin hófst, að afþakka vinnuframlag stefnanda. Vitnið Steinunn var innt eftir því fyrir dómi hvort fram hafi farið rannsókn af hálfu stefnda á hinu umrædda atviki að kvöldi 9. september 2015. Kvaðst vitnið, sem eins og áður segir var á þeim tíma yfirmaður sambýlisins, hafa rætt við starfsmenn sem voru á vakt í umrætt sinn og lögreglu. Engin gögn liggja frammi í málinu um framangreinda rannsókn stefnda. Hins vegar kvaðst vitnið ekkert hafa komið að málinu eftir að hún sendi stefnanda áðurnefnt bréf dags. 8. apríl 2017. Þá hafi hún á tímabilinu frá 11. september 2015 til 8. apríl 2016, rætt við Maríu yfirmann sinn um hvað hægt væri að gera í málinu enda hafi vantað starfsmann á sambýlið og erfitt hafi verið að ráða í afleysingar. Þetta hafi verið óljóst hjá þeim í fyrstu en niðurstaðan hafi verið sú að senda stefnda umrætt bréf 8. apríl 2016. A hafi verið hrædd sem og heimilismenn og ekki hafi verið vilji af hálfu vitnisins eða yfirmanns hennar að stefnandi kæmi aftur til starfa.             Eins og áður greinir byggði stefndi þá ákvörðun sína að víkja stefnanda úr starfi meðal annars á atvikaskráningu vitnisins Berglindar, dags. 10. september 2015, sem vitnið staðfesti fyrir dómi að hafa ritað eigin hendi. Kemur framangreint skýrlega fram í bréfi forstöðumanns sambýlisins, vitnisins Steinunnar, til stefnanda, dags. 8. apríl 2016. Í bréfinu er stefnanda tilkynnt að til skoðunar sé hvort tilefni sé til að segja honum fyrirvaralaust upp störfum vegna háttsemi sem ekki hafi samræmst starfsskyldum hans og tekið er fram að áframhaldandi viðvera hans á vinnustaðnum sé talin geta skaðað starfsemina. Þá segir að tilefnið sé atvik í samskiptum milli stefnanda og A að kvöldi 9. september 2015 og ráða má af efni bréfsins að byggt hafi verið á atvikalýsingu vitnisins Berglindar þó þess sé ekki getið sérstaklaga. Meðal annars er tilefni skoðunar á hvort víkja eigi stefnanda úr starfi þannig lýst í bréfinu: „Þú stendur yfir henni [A, innskot dómara] og öskrar á hana sem endar á því að þú rífur í íbúa hendir henni í gólfið og sparkar í bakið á henni að sögn starfsmanns sem varð vitni að atburðinum“. Við samanburð á framangreindum texta og texta atvikalýsingar vitnisins Berglindar má sjá að forstöðumaðurinn og vitnið Steinunn, hefur valið að geta þess ekki sem fram kemur í atvikalýsingunni, þ.e. að ritari þess, vitnið Berglind, setur fyrirvara varðandi ætlað spark í bak A með orðunum „að því ég best sá“. Í bréfi forstöðumannsins er athygli stefnda vakin á rétti hans til að tjá sig munnlega á fundi með yfirmönnum sveitarfélagsins, að viðstöddum fulltrúa stéttarfélags, eða bréflega. Hins vegar er í bréfinu ekki vísað til viðeigandi ákvæðis í kjarasamningi aðila. Í andmælabréfi stefnanda, dags. 9. maí 2016, var því meðal annars haldið fram að ósamræmi væri milli atvikalýsingar vitnisins Berglindar og framburðar hennar hjá lögreglu skömmu eftir atvikið. Verður ekki ráðið af bréfi stefnda til stefnanda, dags. 27. maí 2016, og framlögðum gögnum málsins að stefndi  hafi, eftir móttöku andmælabréfs stefnanda, dags. 9. maí 2016, látið fara fram frekari athugun á hinu umrædda atviki 9. september 2015.              Að öllu framansögðu virtu og með vísan til framburðar vitnisins Steinunnar er fallist á það með stefnanda að stefndi hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga með því að afla ekki að eigin frumkvæði nægilegra upplýsinga um þær ávirðingar sem bornar voru á stefnanda í atvikalýsingu vitnisins Berglindar áður en ákvörðun var tekin um að víkja stefnanda úr starfi. Með því braut stefndi gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.             Vitnin Berglind og Steinunn tjáðu sig um líðan íbúans A og ástandið á vinnustaðnum eftir atvikið að kvöldi 9. september 2015 í skýrslugjöf fyrir dómi. Kemur framburður þeirra til skoðunar við mat á því hvort uppfyllt hafi verið skilyrði 4. mgr. gr. 11.1.6.1 í kjarasamningi aðila um að áframhaldandi viðvera stefnanda á vinnustaðnum hefði valdið skaða fyrir starfsemina, aðra starfsmenn eða viðskiptavini. Vitnið Berglind kvað A hafa kvartað eftir atvikið og hafi hún verið mjög æst og óróleg og sé það enn. Lýsti vitnið þeirri skoðun sinni að ef stefnandi hefði komið aftur til starfa „hefði þurft að vinna hressilega í málinu“, eins og vitnið orðaði það. Í framburði vitnisins Steinunnar kom ítrekað fram að A væri enn hrædd vegna þessa atviks og liði illa eftir það og hafi það strax komið í ljós. Kvað vitnið ekki hægt að hafa starfsmann í vinnu sem íbúar sambýlisins væru hræddir við. Kom einnig fram það álit vitnisins að samkvæmt atvikalýsingu vitnisins Berglindar og lýsingum A, sem vitnið kvað hafa greint frá atburðarásinni í hlutum, hafi stefnandi gengið of langt í umrætt sinn. Hann hefði átt að leyfa A að róast og vinna úr sínum málum. A sé stundum lengi að standa upp og það verði að gefa henni tækifæri.              Vitnin Berglind og Steinunn lýstu fyrir dómi, eins og að framan greinir, slæmri líðan íbúans A og hræðslu eftir atvikið. Vitnið Steinunn var sérstaklega spurð hvort unnið hefði verið með A í kjölfar atviksins. Kvað vitnið svo ekki hafa verið. „A hafi ekki farið til sálfræðings né neitt svoleiðis, bara haldið sínum geðlækni“, eins og vitnið orðaði það. Hún hafi fengið að ræða atvikið eins og hún hafi viljað og hafi það stundum komið fyrir. Hins vegar staðfesti vitnið að A hafi í einhver skipti hringt í stefnanda eftir atvikið. Á sama hátt og stefnda bar að afla upplýsinga og staðreyna þær upplýsingar sem fyrir lágu um atvik að baki samskiptum stefnanda og A, bar stefnda að afla gagna þeirri fullyrðingu sinni til stuðnings að áframhaldandi viðvera stefnanda á vinnustaðnum myndi hafa skaðleg áhrif á starfsemi sambýlisins, íbúa þess og aðra starfsmenn. Þeirri rannsóknaskyldu, sem var sérstaklega brýn þar sem um var að ræða íþyngjandi ákvörðun gagnvart stefnanda, sinnti stefndi ekki á fullnægjandi hátt að mati dómsins.             Varðandi það hvort stefndi hafi brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga er til þess að líta að samkvæmt framburði vitnisins Berglindar ræddu hún og Jóhanna, samstarfsmaður hennar, við vitnið Steinunni á heimili Jóhönnu eftir vinnu að kvöldi 9. september 2015 og lýstu atvikum. Tók vitnið Berglind fram að þær hafi verið miður sín eftir atvikið. Vitnið Steinunn kvaðst í framhaldinu hafa boðað stefnanda til sín morguninn eftir og rætt við hann um atvikið, þ.e. samskipti hans við A. Komið hafi fram hjá stefnanda það mat hans að hann hafi ekkert gert af sér. Samkvæmt því sem fram kemur í niðurlagi atvikalýsingar vitnisins Berglindar má ráða að blaðið hafi ekki verið afhent vitninu Steinunni fyrr en eftir að Steinunn ræddi við stefnanda að morgni 10. september 2015. Í niðurlagi atvikalýsingarinnar segir: „Bergl. og Jóhanna kalla Steinunni forstöðumann til Jóhönnu – segja allt af létta – Steinunn talar við Braga og lætur áminningu duga.“ Er það og í samræmi við framburð vitnisins Berglindar fyrir dómi, en vitnið kvaðst hafa fengið þær upplýsingar hjá Steinunni að hún hafi áminnt stefnanda og til stæði að stefnandi kæmi aftur til vinnu. Kvaðst vitninu ekki hafa fundist það ásættanlegt. Vitnið Steinunn staðfesti að í umræddu viðtali við stefnanda að morgni 10. september 2015 hafi hún áminnt hann munnlega fyrir að ganga svona hart að A eins og vitnið orðaði það. Stefnandi staðfesti framangreint í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi. Kvað hann að rætt hafi verið um að fara hægar í sakirnar við að stoppa íbúana af. Samkvæmt þessu verður ekki annað ráðið en það hafi verið mat þáverandi yfirmanns stefnanda, vitnisins Steinunnar, eftir viðræður við vitnið Berglindi og Jóhönnu, að umrætt atvik í samskiptum stefnanda við A hafi ekki kallað á frekari aðgerðir af hálfu stefnda en munnlega áminningu. Hins vegar er ljóst af gögnum málsins, skýrslu stefnanda og framburði vitnisins Steinunnar að umrædd áminning var ekki í samræmi við fyrirmæli kjarasamnings aðila, sbr. gr. 11.1.6.2. Það er mat dómsins að með framangreindri málsmeðferð og þeim langa tíma sem leið frá því að vinnuframlag stefnanda var afþakkað þangað til stefnanda var tilkynnt að til skoðunar væri að víkja honum úr starfi, eða tæpir sjö mánuðir, án þess að nokkur rannsókn hafi átt sér stað á umræddu atviki af hálfu stefnda, hafi stefnanda verið gefnar væntingar um að hann ætti afturkvæmt í starf sitt þegar niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands lægi fyrir. Þykir málsmeðferð stefnda að þessu leyti ekki í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.              Dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð stefnda allt frá því yfirmaður hans boðaði hann til viðtals að morgni 10. september 2015 þar til stefnanda var tilkynnt um að honum væri vikið úr starfi með vísan til 4. mgr. gr. 11.1.6.1 í kjarasamningi aðila, hafi farið í bága við málsmeðferðareglur stjórnsýslulaga og ákvæði kjarasamnings aðila. Uppsögnin var reist á lýsingu samstarfsmanns stefnanda á atvikum milli stefnanda og íbúa sambýlisins án þess að þær hafi verið kannaðar nægilega, auk þess sem við málsmeðferðina var ekki gætt meðalhófs.             Stefnandi krefst skaðabóta vegna hinnar ólögmætu brottvikningar úr starfi vegna fjártjóns er svari til tvöfaldra árslauna hans hjá stefnda og miðar fjárhæðina við heildarlaun stefnanda árið 2015, eða 6.346.198 krónur. Samkvæmt framlögðum launaseðlum stefnanda á árinu 2015 voru útborguð heildarlaun hans að meðaltali tæpar 322.000 krónur á mánuði. Vísar stefndi til þess að við mat á fjártjóni stefnanda verði að líta til þess atvinnumöguleikar 67 ára manns í Þorlákshöfn og nágrenni séu fáir þegar litið sé til starfsreynslu og menntunar stefnanda, en stefnandi hafi mátt vænta þess að hann héldi starfi sínu til venjulegra starfsloka svo lengi sem starfsemin yrði áfram á hendi stefnda og stefnandi gerðist ekki brotlegur í starfi. Stefnandi upplýsti í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi frá 1. apríl 2016, þegar hann varð 67 ára, þegið greiðslur frá Tryggingarstofnun ríkisins og lífeyrissjóði og að hafa síðast fengið 329.000 krónur útborgaðar. Engin gögn liggja frammi í málinu varðandi framangreindar greiðslur eða réttindi stefnanda að þessu leyti. Stefndi hefur mótmælt tölulegum útreikningum stefnanda og vísar meðal annars til þess að verði fallist á það með stefnanda að stefnda hafi verið óheimilt að segja honum upp störfum, eins og það er orðað í stefnu, hafi stefnanda ekki tekist að sanna að hann hafi orðið fyrir nokkru fjárhagslegu tjóni vegna uppsagnarinnar. Með vísan til framritaðs er fallist á það með stefnda að stefnandi hafi ekki sannað fjártjón sitt.             Stefnandi styður miskabótakröfu sína við b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Fyrir liggur að stefnandi var sýknaður af broti gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þ.e. líkamsárás gegn íbúa sambýlisins, með dómi Héraðsdóms Suðurlands 10. maí 2016. Að þeim dómi gengnum mátti stefnandi hafa væntingar til þess að hann héldi starfi sínu sérstaklega í ljósi athugasemda sem fram komu í andmælabréfi hans um réttmæti atvikalýsingar vitnisins Berglindar sem stefndi vísaði til í bréfi sínu dags. 8. apríl 2016 og þess að stefndi aflaði ekki nægilegra upplýsinga um þær ávirðingar sem bornar voru á stefnanda í atvikalýsingu samstarfsmanns hans. Eins og rakið hefur verið hér að framan var ákvörðun stefnda um brottvikningu stefnanda úr starfi ólögmæt og til þess fallin að valda stefnanda miklum álitshnekki og andlegri vanlíðan. Að mati dómsins þykja miskabætur til handa stefnanda hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Bera bæturnar vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 27. maí 2016 til 30. júní 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, en þann dag var liðinn mánuður frá því stefnandi sendi stefnda tölvupóst þar sem fram komu upplýsingar sem nægilegar voru til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.              Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað og telst hann hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur. Af hálfu stefnanda flutti málið Hilmar Gunnarsson hdl., en af hálfu stefnda flutti Víðir Smári Petersen hrl., málið. Dóm þennan kvað upp Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari. Dómsorð: Stefndi, Sveitarfélagið Ölfus, greiði stefnanda, Braga Andréssyni, 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. maí 2016 til 30. júní 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludag. Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 729/2017
Ærumeiðingar Tjáningarfrelsi Friðhelgi einkalífs Stjórnarskrá Dagsektir
A og B kröfðust ómerkingar á nánar tilgreindum ummælum í 32 liðum sem N o.fl. höfðu viðhaft í starfi sínu sem fréttamenn hjá tilteknum fjölmiðlum. Lutu öll ummælin að ætluðum kynferðisbrotum A og B sem þá voru til rannsóknar lögreglu, en málin á hendur þeim voru síðar felld niður. Héraðsdómur féllst á að ómerkja 13 af þeim ummælum sem um ræddi. Þá var N o.fl. gert að greiða A og B nánar tilgreindar miskabætur og jafnframt mælt fyrir um birtingu forsenda dómsins og dómsorðs í fjölmiðlum. Í dómi sínum rakti Hæstiréttur atvik málsins með hliðsjón af ákvæðum stjórnarskrár um tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs. Þá fór rétturinn jafnframt yfir hin umþrættu ummæli og þau áhrif sem málið hafði haft á A og B. Staðfesti Hæstiréttur í öllum tilvikum niðurstöðu héraðsdóms um ómerkingu ummælanna, svo og niðurstöðu hans um rétt A og B til miskabóta. Þá kvað rétturinn sömuleiðis á um birtingu forsendna dómsins og dómsorðs í fjölmiðlum að viðlögðum dagsektum.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Sigurður Tómas Magnússon landsréttardómari. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 23. nóvember 2017. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfum stefndu, en til vara að ,,kröfur stefndu verði lækkaðar“. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Í stefnu til héraðsdóms var 365 miðlum hf. stefnt til réttargæslu. Var það skýrt svo í stefnu að félagið væri fjölmiðlaveita, sem ætti fjölmiðlana Stöð 2, Bylgjuna, Fréttablaðið og vefmiðilinn Vísi. Réttargæslustefndi væri vinnuveitandi áfrýjenda og bæri samkvæmt  2. mgr. 50. gr. og 2. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla ábyrgð meðal annars á greiðslu skaðabóta sem starfsmanni hennar kynni að verða gert að greiða samkvæmt greininni. Með sama hætti væri kveðið á um það í 59. gr. sömu laga að fjölmiðlaveitu væri skylt að birta í prentmiðli eða gera ella grein fyrir forsendum og dómsorði þegar ummæli væru dæmd ómerk eða fébætur dæmdar. Þá var því lýst að um væri að ræða skyldur sem ættu stoð í skýrum lagaákvæðum og styddust að auki við dómvenju. Þess vegna væri ekki nauðsynlegt að stefna félaginu sem aðila í málinu. Væri engu að síður rétt að veita því kost á að gæta hagsmuna sinna og væri félaginu því stefnt til réttargæslu. 365 miðlar hf. gerðist ekki meðalgöngumaður í málinu, sbr. 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Félagið gat því ekki gert kröfu um annað en málskostnað sér til handa, sbr. 2. mgr. 21. gr. laganna. Af greinargerð áfrýjenda í héraði má ráða að félagið standi einnig að henni. Í greinargerðinni kemur fram að ekki séu gerðar athugasemdir við að niðurstaða dómsins verði birt í þeim fjölmiðlum fjölmiðlaveitunnar sem málið varðar, þótt því sé andmælt að ákveðið sé hvar niðurstaðan skuli birt. Þar sem aðild 365 miðla hf. fólst aðeins í réttargæslu í héraði gat félagið ekki staðið að áfrýjun dóms í því til Hæstaréttar, sbr. þágildandi 1. mgr. 151. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og dóm Hæstaréttar frá 10. maí 2001 í máli nr. 370/2000, sem birtur er á bls. 1788 í dómasafni réttarins það ár. II Atvik málsins eru skilmerkilega rakin í hinum áfrýjaða dómi. Svo sem þar kemur fram er mál þetta höfðað í héraði af hálfu stefndu hér fyrir dómi til ómerkingar ummæla sem tilgreind voru í 32 liðum. Áfrýjendurnir störfuðu sem fréttamenn hjá fjölmiðlaveitunni 365 miðlum hf., sem átti og rak fjölmiðlana; sjónvarpsstöðina Stöð 2, útvarpsstöðina Bylgjuna, Fréttablaðið og vefmiðilinn Vísi á þeim tíma, sem atvik málsins urðu. Ummælin, sem krafist var ómerkingar á, voru viðhöfð af áfrýjendum í áðurnefndum fjölmiðlum, eins og gerð er grein fyrir í héraðsdómi, á tímabilinu frá 4. til 11. nóvember 2015. Héraðsdómur féllst á að ómerkja 13 ummælanna, en hafnaði ómerkingarkröfunni að öðru leyti. Þar sem málinu hefur ekki verið gagnáfrýjað er dómurinn til endurskoðunar hér að því er framangreind 13 ummæli varðar, svo og um miskabætur og önnur atriði sem í dómsorði héraðsdóms greinir. III Ummæli þau sem ómerkt voru með héraðsdómi voru hluti af umfjöllun fjölmiðlanna fjögurra, sem áður greinir, um ætluð kynferðisbrot sem kærð höfðu verið til lögreglu. Tvær ungar konur höfðu kært stefndu fyrir slík brot. Önnur þeirra kærði báða stefndu fyrir ætlað kynferðisbrot aðfaranótt 17. október 2015 sem rannsakað var með hliðsjón af 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hin kærði annan stefndu fyrir brot sem átti að hafa verið framið að morgni sunnudagsins 19. september sama ár. Það kæruefni var rannsakað með hliðsjón af 2. mgr. 194. gr. áðurnefndra laga. Bæði brotin áttu að hafa verið framin í íbúð í Reykjavík sem annar stefndu bjó í. Ekki er upplýst í málinu hvenær brotin voru kærð til lögreglu og kærurnar hafa ekki verið lagðar fram. Fyrir liggja á hinn bóginn bréf héraðssaksóknara 5. og 18. febrúar 2016 þar sem stefndu var tilkynnt að gögn málanna hafi verið yfirfarin af embættinu og að rannsókn þeirra teldist lokið. Í báðum bréfunum var svofelld tilkynning: ,,Með hliðsjón af rannsóknargögnum, sbr. 145. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, verður ekki talið að það sem fram er komið sé nægilegt eða líklegt til sakfellis og er málið því hér með fellt niður.“ Stefndu komu báðir fyrir dóm í héraði og neituðu því eindregið að hafa haft nokkur kynferðisleg samskipti við konurnar og annar stefndu kvaðst hafa frábeðið sér slík samskipti þegar önnur konan vildi hafa að þeim frumkvæði. Þá neituðu þeir báðir eindregið að hafa beitt konurnar nokkru ofbeldi. Hvorug kærenda gaf skýrslu fyrir dómi. Verður að leggja framangreindar staðhæfingar stefndu til grundvallar í málinu. Áfrýjandinn Nadine Guðrún og Kristín Þorsteinsdóttir, sem gegndi starfi útgefanda og aðalritstjóra fjölmiðlaveitunnar 365 miðla hf., báru í skýrslum fyrir dómi að upplýsingar um að ætluð kynferðisbrot hefðu verið kærð til lögreglu hefðu borist ritstjórn fjölmiðlaveitunnar viku til tíu dögum áður en fyrsta frétt um þau var birt í Fréttablaðinu 4. nóvember 2015. Umræða um kynferðisbrot, meðal annars um rannsókn slíkra brota af hálfu lögreglu og meðferð mála um þau fyrir dómstólum, hafði verið fyrirferðarmikil í opinberri umræðu á Íslandi síðustu misserin áður en atvik máls þessa gerðust. Hluti þessarar umræðu laut að því hvort stuðningur við brotaþola, einkum á frumstigi mála, væri nægilegur og hvort sönnunarstaða í slíkum málum fyrir dómi leiddi til þess að brotaþolar leituðu síður til lögreglu í því skyni að kæra slík brot. Í þessu ljósi var eðlilegt að málefnið vekti sérstakan áhuga hjá ritstjórn fjölmiðlaveitunnar og að um það væri fjallað í fjölmiðlum hennar. Þar sem ætluð brot höfðu verið kærð til lögreglu var slík umfjöllun tímabær og verða ekki gerðar athugasemdir við mat fjölmiðlaveitunnar á því hvaða rými í fjölmiðlum hennar málið fékk. Við umfjöllun um slík mál vegast sem endranær á, annars vegar tjáningarfrelsið, sem varið er af 73. gr. stjórnarskrárinnar og réttur fjölmiðla til þess að gera almenningi grein fyrir málefnum af þessum toga og hins vegar réttur einstaklinga til verndar einkalífs síns, sem varið er af 71. gr. stjórnarskrárinnar. Við umfjöllun um það málefni sem hér um ræðir verður að játa fjölmiðlum ríkan rétt og svigrúm til að gera grein fyrir slíkum málum á rannsóknarstigi, en sem fyrr greinir varð við þá umfjöllun að gæta, eftir því sem kostur var, að friðhelgi einkalífs stefndu. Sú skylda er enda lögð á fjölmiðlaveitu í 26. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla að gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í fréttaflutningi sínum og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram. Fjölmiðlaveitan hefur sett sér ritstjórnarreglur í samræmi við fyrirmæli 24. gr. laga nr. 38/2011. Þar sagði meðal annars í 2. grein: ,,Þeir sem fjallað er um eiga rétt á að koma sínum sjónarmiðum að í umfjöllun og skulu verndaðir gegn óréttmætri efnismeðferð.“ Í 6. grein reglnanna sagði: ,,Ritstjórn ber virðingu fyrir meginreglu réttarríkisins um að menn eru saklausir uns sekt er sönnuð.“ Í 3. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands er mælt fyrir um sambærilegar skyldur blaðamanna. Stefndu voru ekki svonefndar opinberar persónur, annar þeirra stundaði nám á frumstigi í háskóla en hinn starfaði á skrifstofu. Ekkert liggur fyrir um að þeir hafi áður tekið þátt í opinberri umræðu eða með öðrum hætti látið til sín taka í samfélaginu svo eftir væri tekið. Þegar í fyrstu frétt um málið, sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins 4. nóvember 2015, kom fram að annar mannanna ,,væri í [...] Háskólans í Reykjavík“ og að skólinn hefði gripið til aðgerða vegna málsins. Degi síðar var upplýst í fjölmiðlum fjölmiðlaveitunnar að hinn maðurinn væri starfsmaður tilgreinds [...] í Reykjavík og starfaði þar á skrifstofu en hefði verið sendur í leyfi vegna málsins. Við mat á því hvernig skuli draga mörk milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs verður að taka tillit til þess að í fámennu og opnu samfélagi eins og hér á landi, þar sem miklar upplýsingar um persónur fólks eru öllum tiltækar, nægja framangreindar upplýsingar til þess að vandalítið er fyrir þá sem vilja að komast að hvaða menn ættu hér í hlut. Var enda að framangreindum upplýsingum fengnum fjallað um það á samfélagsmiðlum hvaða menn væri hér um að ræða og 9. nóvember voru birtar af þeim myndir á samfélagsmiðlum. Í ljósi þess hve alvarleg hin ætluðu brot voru, sem kærð höfðu verið til lögreglu, og þeirrar skyldu áfrýjenda, sem áður er rakin, að fjalla um málið þannig að stefndu teldust saklausir af kæruefnum uns sekt þeirra væri sönnuð bar áfrýjendum  að sýna aðgæslu við umfjöllun um málið einkum þar sem fjölmiðlarnir höfðu ákveðið að birta framangreindar vísbendingar um stefndu. Eins og áður greinir leið vika til tíu dagar frá því að ritstjórn fjölmiðlaveitunnar bárust upplýsingar um ætluð brot og þar til umfjöllun hófst 4. nóvember 2015. Áfrýjandinn Nadine Guðrún bar í skýrslu fyrir dómi að hún hefði aldrei rætt við stefndu í aðdraganda umfjöllunarinnar. Ekkert liggur heldur fyrir um að aðrir áfrýjenda hafi gert það. Hún kvaðst á hinn bóginn hafa aflað heimilda hjá fleiri en einum og fleirum en tveimur og talið þær traustar. Hið sama kom fram hjá útgefanda og aðalritstjóra fjölmiðlaveitunnar. Nadine Guðrún kvaðst ekki hafa vitað hverjir stefndu væru fyrr en eftir birtingu fyrstu fréttarinnar 4. nóvember 2015 og að hún hefði reynt án árangurs að hringja til stefndu ,,en það hafi verið slökkt á síma eða eitthvað“ auk þess sem hún hefði haft samband við þann lögmann sem upphaflega gætti hagsmuna þeirra. Stefndu andmæla því eindregið að haft hafi verið samband við þá með nokkrum hætti vegna málsins og verður að leggja til grundvallar að ósannað sé að það hafi verið gert áður en umfjöllunin hófst eða meðan á henni stóð. Eins og áður greinir höfðu áfrýjendur nægar upplýsingar til þess að finna út hvaða menn áttu hér í hlut. Af framangreindu verður dregin sú ályktun að áfrýjendur hafi ekki gætt þeirrar skyldu að afla upplýsinga frá stefndu til þess að freista þess að renna stoðum undir sannleiksgildi þeirra upplýsinga sem birtar voru í fjölmiðlunum. Við rekstur máls þessa hefur heldur ekki verið reynt að afla upplýsinga, hvorki með gögnum eða skýrslum fyrir dómi, sem gætu orðið grundvöllur að ályktun um hvernig samskipti stefndu og þeirra kvenna, sem þá kærðu, voru í raun. Fréttir af ætluðum brotum stefndu voru fluttar í fjórum fjölmiðlum 365 miðla hf. eins og áður greinir.  Hefur því ekki verið mótmælt að fréttir um efnið hafi verið fluttar meira en 30 sinnum frá 4. til 11. nóvember 2015, auk þess sem málið var rætt í ritstjórnargrein í Fréttablaðinu 12. nóvember, en samkvæmt gögnum lauk umfjölluninni þar með. Fréttaflutningur fjölmiðlanna af málinu hafði mikil áhrif og varð tilefni til mikillar umræðu á samfélagsmiðlum. Í Fréttablaðinu 9. nóvember var frétt um málið á forsíðu, sem rituð var af áfrýjandanum Nadine Guðrúnu, og bar fyrirsögnina: ,,Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“ og undirfyrirsögnina: ,,Tveir karlar, grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, ganga lausir. Málið er í rannsókn.“ Sama frétt að efni til var lesin á útvarpsstöðinni Bylgjunni að morgni þessa dags og birt á vefmiðlinum Vísi. Í þeim fjölmiðli var svo upplýst um klukkan 13 að boðað hefði verið til mótmæla klukkan 17 þennan dag við lögreglustöðina við Hverfisgötu. Ómótmælt er að þangað mætti fjöldi manns og að mótmælin hafi einkum beinst að því að stefndu hafi ekki verið settir í gæsluvarðhald á meðan á rannsókn málsins stóð, en til þess taldi lögregla sig ekki hafa lagaheimild. Málið hafði mikil áhrif á stöðu og hagi stefndu. Annar þeirra taldi sig þurfa að hverfa frá námi sínu og hinn frá starfi sínu. Þeim bárust fljótlega hótanir um alvarlegar líkamsmeiðingar og annan ófarnað og töldu sér ekki vært hér á landi þar sem allir þekktu þá vegna myndbirtinga á samfélagsmiðlum. Þeir fóru úr landi og hafa dvalist langdvölum erlendis. Annar þeirra kvaðst fyrir dómi þó eiga hér barn, sem hann vildi gjarnan sinna. Þeir hafa báðir verið atvinnulausir í lengri tíma og bar annar þeirra því við að hann gæti ekki sótt hér um vinnu þar sem málið kæmi strax upp þegar leitað væri eftir nafni hans með leitarvélum á netinu. Báðir lýstu þeir fyrir dómi andlegri vanlíðan og að þeir forðuðust samskipti við fólk. Kvaðst annar þeirra hafa leitað sér aðstoðar sálfræðings. IV Þau atvik málsins sem eru upplýst lúta að því að tvær konur höfðu kært stefndu fyrir alvarleg kynferðisbrot og lögregla hafið rannsókn á málunum. Lögregla hafði farið í íbúð annars stefndu þar sem ætluð brot áttu að hafa verið framin og lagt þar hald á gamla reiðsvipu, sem annar stefndu segist hafa fengið frá afa sínum, keðju sem notuð hafi verið til þess að hengja upp púða til að æfa sig í hnefaleikum og tölvu annars stefndu. Önnur atvik hafa ekki verið upplýst í málinu. Við mat á sanngjörnu jafnvægi milli tjáningarfrelsis annars vegar og einkalífsverndar hins vegar verður í máli þessu einkum að líta til þess að fallist hefur verið á með áfrýjendum að umfjöllun um málefni eins og hér um ræðir hafi átt brýnt erindi í almenna þjóðfélagsumræðu og að fyrir hafi legið að kærur á hendur stefndu um ætluð kynferðisbrot hafi verið sendar lögreglu sem tekið hafði þær til rannsóknar. Á hinn bóginn verður ekki hjá því komist að líta til þess hvernig umrædd ummæli voru sett fram af hálfu áfrýjenda og lýsingar þeirra á ætluðum brotum stefndu sem samkvæmt fréttaflutningnum voru mjög alvarleg og hrottafengin. Hér hefur sérstaka þýðingu að birtar voru vísbendingar um hverjir hinir brotlegu væru sem leiddu til þess að auðvelt var að bera kennsl á þá þótt þeir væru ekki opinberar persónur í íslensku samfélagi. Þetta hafði þær afleiðingar að stefndu sættu alvarlegum hótunum og töldu sig þurfa að hverfa úr landi. Einnig hefur þýðingu við mat á sanngjörnu jafnvægi í þessu máli að ósannað er að áfrýjendur hafi sinnt þeirri skyldu sinni að gefa stefndu færi á því að koma að upplýsingum áður en fréttaflutningur af málinu hófst og meðan á honum stóð. Að þessu gættu ræðst mat á því hvort staðfesta eigi niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um ómerkingu ummæla meðal annars af þeim atriðum sem rakin eru í III. kafla þessa dóms og að hluta er beitt við mat héraðsdómara. Ummæli, sem eru í kröfuliðum 3 og 19 í stefnu: ,,Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“ voru ósönn og tilefnislaus. Á þeim var enginn fyrirvari og verður niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu þeirra staðfest. Ummæli í kröfuliðum 5, 9, 14 og 20 í stefnu: ,,Samkvæmt heimildum [Frétta-] blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka“. Þótt í upphafi þessarar setningar sé vísað til heimilda blaðsins eru orðin sett í samhengi við að íbúð annars stefndu hafi verið útbúin til ofbeldisverka, sem enginn fótur var fyrir. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaðan um ómerkingu þessara ummæla. Ummæli í kröfuliðum 8, 13, 18 og 25 í stefnu: ,,Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana“. Engum stoðum hefur verið rennt undir að slíkur útbúnaður hafi verið í íbúðinni. Ekkert kemur fram um það hver hafi haft þann grun, sem nefndur er í hinum tilvitnuðu orðum, sem hefði verið rétt að geta um, einkum í ljósi þeirra alvarlegu ásakana sem fram koma í lok setningarinnar. Verður niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu þessara ummæla því staðfest. Ummæli í kröfulið 26 í stefnu: ,,Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að íbúðin væri búin tækjum og tólum til ofbeldisiðkunar“. Verða þessi ummæli samkvæmt framansögðu og með vísan til forsendna héraðsdóms ómerkt. Ummæli í kröfulið 30 í stefnu: ,,en í fyrra tilfellinu var annarri þeirra nauðgað af bekkjarbróður hennar en seinni konunni nauðgað af báðum mönnunum í heimahúsi í Hlíðunum“. Þessi ummæli eru gróf og fyrirvaralaus og verður niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu þeirra staðfest með vísan til forsendna. Ummæli í kröfulið 31 í stefnu: ,,Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar, sem lögregla gerði upptæk“. Þótt vísað sé til heimilda um eðli ætlaðra árása er fyrirvaralaust sagt að íbúðin hafi verið búin tækjum til ofbeldisiðkunar. Þótt engum úrslitum ráði, var það ónákvæmt að segja að lögregla hafi gert muni upptæka, en rétt mun vera að lögregla hafi lagt hald á í rannsóknarskyni gamla reiðsvipu, keðjur til að hengja upp hnefaleikapúða og tölvu. Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verða þessi ummæli einnig ómerkt. Þá verður með vísan til forsendna staðfest niðurstaða héraðsdóms um brot áfrýjandans Þórhildar Þorkelsdóttur á friðhelgi einkalífs stefnda, B, með fréttaflutningi úr stigagangi þar sem heimili hans var. Eins og áður greinir hafði mál þetta mikil áhrif á stefndu. Þótt gæta verði þess að setja frelsi fjölmiðla til umfjöllunar um einstök mál ekki takmörk með miskabótum sem geta verið íþyngjandi fyrir þá, verður að taka tillit til þess að áfrýjendur kusu að veita þær upplýsingar um stefndu sem nægðu þeim sem áhuga höfðu til þess að afla upplýsinga um hverjir þeir væru. Vakti umfjöllun um málið reiði á samfélagsmiðlum sem beindist harkalega gegn persónum stefndu. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um miskabætur úr hendi áfrýjenda til stefndu staðfest. Þá skal birta og gera grein fyrir dómi þessum í samræmi við 2. mgr. 59. gr. laga nr. 38/2011 í fjölmiðlum þeim sem í dómsorði greinir að viðlögðum þeim dagsektum sem þar segir innan sjö daga frá uppkvaðningu dómsins. Loks verður málskostnaðarákvæði héraðsdóms staðfest. Áfrýjendur greiði óskipt hvorum stefnda um sig málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um ómerkingu ummæla og miskabætur, sem og um málskostnað. Birta skal og gera grein fyrir forsendum dóms þessa og dómsorði innan sjö daga í eftirtöldum fjölmiðlum: Stöð 2, Bylgjunni, Fréttablaðinu og vefmiðlinum visi.is að viðlögðum 50.000 króna dagsektum. Áfrýjendur, Nadine Guðrún Yaghi, Heimir Már Pétursson, Stefán Rafn Sigurbjörnsson og Þórhildur Þorkelsdóttir, greiði óskipt stefndu, A og B, hvorum um sig 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2017              Mál þetta sem var höfðað 19. janúar 2017 var dómtekið 28. september sl.              Stefnendur eru A, [...], [...] og B, [...], Reykjavík.              Stefndu eru Nadine Guðrún Yaghi, Stórholti 32, Reykjavík, Heimir Már Pétursson, Nýlendugötu 19b, Reykjavík, Stefán Rafn Sigurbjörnsson, Meðalholti 4, Reykjavík, og Þórhildur Þorkelsdóttir, Sólvallagötu 43, Reykjavík. 365 miðlum ehf., Skaftahlíð 24, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu.              Stefnendur gera í fyrsta lagi hvor um sig þá kröfu að eftirfarandi ummæli í töluliðum 1-32, verði dæmd dauð og ómerk: Bylgjan, 5. nóvember, fréttir kl. 08:00, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi. 1.       „... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og eiturlyfjum.“ 2.       „Þá munu þeir hafa beitt konuna kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.“ Fréttablaðið, 9. nóvember 2015 (forsíða), höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi. 3.       „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“ 4.       „Tveir karlar, grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, ganga lausir“ 5.       „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka.“ 6.       „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað, í sömu íbúð, af báðum mönnunum ...“ 7.       „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“ 8.       „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“ Bylgjan, 9. nóvember 2015, fréttir kl. 08:00, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi. 9.       „Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“ 10.    „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum ...“ 11.    „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“ 12.    „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“ 13.    „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“ Bylgjan, 9. nóvember 2015, fréttir kl. 12:00, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi. 14.    „Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“ 15.    „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum ...“ 16.    „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“ 17.    „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“ 18.    „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“ Vísir, 9. nóvember 2015, kl. 06.00, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi. 19.    „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“ 20.    „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“ 21.    „Grunur um byrlun ólyfjan“ 22.    „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum ...“ 23.    „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“ 24.    „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla í íbúðinni ýmis tól og tæki sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“ 25.    „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“ Fréttablaðið 11. nóvember 2015 (forsíða), höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi. 26.    „Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að íbúðin væri búin tækjum og tólum til ofbeldisiðkunar.“ 27.    „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“ Bylgjan, 5. nóvember 2015, fréttir kl. 12:00, flytjandi stefndi, Heimir Már Pétursson. 28.    „Starfsmaður [...] sem grunaður er um aðild að hrottalegri nauðgun á konu í félagi við annan ...“ 29.    „... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og beitt hana kynferðislegu og öðru líkamalegu ofbeldi.“ Fréttablaðið, 6. nóvember 2015, bls. 8, höfundar stefndu, Heimir Már Pétursson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson. 30.    „... en í fyrra tilfellinu var annarri þeirra nauðgað af bekkjarbróður hennar en seinni konunni var nauðgað af báðum mönnum í heimahúsi í Hlíðunum.“ Stöð 2, 9. nóvember 2015, fréttir kl. 18:30, flytjandi stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir. 31.    „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar sem lögregla gerði upptæk.“ 32.    „Ég er stödd hérna í stigagangi hússins í Hlíðunum þar sem tvær hrottafengnar nauðganir eiga að hafa átt sér stað í október síðastliðnum.“              Stefnendur gera í öðru lagi hvor um sig þá kröfu að:              A) stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, verði dæmd til þess að greiða hvorum þeirra um sig miskabætur að fjárhæð 10.000.000 króna, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. nóvember 2015 til 27. maí 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.              B) stefndi, Heimir Már Pétursson, verði dæmdur til þess að greiða hvorum stefnanda um sig miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. nóvember 2015 til 27. maí 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.              C) stefndi, Stefán Rafn Sigurbjörnsson, verði dæmdur til þess að greiða hvorum stefnanda um sig miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. nóvember 2015 til 27. maí 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.              D) stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir, verði dæmd til þess að greiða hvorum stefnanda um sig miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. nóvember 2015 til 27. maí 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.              Í þriðja lagi gera stefnendur hvor um sig þá kröfu að forsendur og niðurstaða dóms í málinu verði birt á forsíðu Fréttablaðsins, í hádegisfréttum Bylgjunnar, í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 og á vefsvæðinu www.visir.is, eigi síðar en sjö dögum eftir dómsuppsögu, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 50.000 krónur fyrir hvern dag sem líður umfram áðurgreindan frest, án þess að birting fari fram.              Í fjórða og síðasta lagi krefjast stefnendur þess að stefndu verði hver um sig dæmd til að greiða stefnendum hvorum um sig málskostnað samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti eða mati héraðsdóms, auk virðisaukaskatts.              Stefndu og réttargæslustefndi skiluðu sameiginlegri greinargerð í málinu. Stefndu krefjast þess öll sem einn að verða sýknuð af öllum kröfum stefnenda, en til vara að þær verði lækkaðar verulega.              Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnenda að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins, auk virðisaukaskatts.                                                                                               I          Málavextir eru þeir að þann 4. nóvember 2015 hófu fréttamiðlar á vegum réttargæslustefnda, 365 miðla ehf., nánar tiltekið Fréttablaðið, Bylgjan, Stöð 2 og vefmiðillinn Vísir, að flytja fréttir af ætluðum kynferðisbrotum stefnenda gegn tveimur konum sem áttu að hafa verið framin í október sama ár. Stefnandi, A, var nemandi við [...] Háskólans í Reykjavík á þeim tíma og stefnandi, B, starfaði hjá [...]. Fjallað var um málið í morgun- og hádegisfréttum Bylgjunnar, í kvöldfréttum Stöðvar 2, í Fréttablaðinu og á Vísi dagana 4. til 11. nóvember 2015.          Samkvæmt gögnum málsins birtist frétt á forsíðu Fréttablaðsins þann 4. nóvember 2015 sem stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, ritaði undir fyrirsögninni „Grunur um nauðgun á bekkjarskemmtun HR“. Í undirfyrirsögn kom fram að samkvæmt heimildum blaðsins rannsakaði lögreglan kynferðisbrot sem sagt var að hefði átt sér stað á bekkjarskemmtun nemenda við Háskólann í Reykjavík. Var nemandi sagður hafa nauðgað tveimur samnemendum sínum og að skólinn hefði gripið til aðgerða. Í megintexta fréttarinnar var síðan rakið að samkvæmt heimildum blaðsins hefði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu til rannsóknar gróft kynferðisbrot sem sagt var að hefði átt sér stað á bekkjarskemmtun nemenda Háskólans í Reykjavík helgina [...] október sl. Meintur gerandi væri karlmaður á þrítugsaldri en tvær skólasystur mannsins í [...] Háskólans í Reykjavík, einnig á þrítugsaldri, væru taldar hafa orðið fyrir grófu kynferðisofbeldi af hans hendi. Í yfirlýsingu af hálfu skólans var greint frá því að fram hefðu komið upplýsingar um alvarlegt atvik innan hóps nemenda í [...] skólans og að skólinn hefði veitt hlutaðeigandi nemendum alla þá aðstoð sem hann gæti veitt. Þá kom fram að lögreglan verðist allra fregna af málinu og vildi hvorki staðfesta það né neita því að umrætt kynferðisbrotamál væri til rannsóknar.          Í morgunfréttum Bylgjunnar daginn eftir þann 5. nóvember 2015, sem stefnda Nadine Guðrún Yaghi flutti, var greint frá því að tvær kærur hefðu verið lagðar fram í nauðgunarmáli sem Fréttablaðið hefði greint frá deginum áður að væri til rannsóknar hjá lögreglunni. Í fréttinni, þar sem stefnendur voru ekki nafngreindir, kom fram að tveir karlmenn væru meintir gerendur í málinu, sem sagt væri gróft. Báðir mennirnir væru á fertugsaldri og annar þeirra stundaði nám við [...] Háskólans í Reykjavík. Hinn maðurinn væri starfsmaður [...]. Um tvö aðskilin tilvik væri að ræða sem átt hefðu sér stað sitt hvorn daginn í október. Tvær skólasystur hins fyrrnefnda hefðu lagt fram kæru í málinu en samkvæmt heimildum blaðsins hefði hann nauðgað skólasystur sinni eftir bekkjarskemmtun á skemmtistaðnum [...] í byrjun október það ár. Þá hefðu báðir mennirnir nauðgað hinni konunni 10 dögum síðar eftir bekkjarskemmtun á [...] en barinn væri rekinn í sama húsnæði og [...]. Í fréttinni greinir einnig frá því að meintir gerendur hafi verið á staðnum það kvöld og eigi að hafa farið með konunni í heimahús í Hlíðunum síðar um kvöldið, en hún hafi verið í annarlegu ástandi. Samkvæmt upplýsingum frá nemendum léki grunur á að meintir gerendur hefðu byrlað konunni ólyfjan og beitt hana kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.          Í hádegisfréttum Bylgjunnar sama dag, sem stefndi, Heimir Már Pétursson, flutti, var fréttinni frá því um morguninn fylgt eftir og hún í meginatriðum endurtekin, en auk þess greint frá því að sá mannanna sem starfaði hjá [...] og grunaður væri um aðild að hrottalegri nauðgun, hefði verið sendur í leyfi. Það hefði gerst um leið og [...] fékk veður af málinu en hann væri skrifstofumaður og hefði ekki starfað við þjónustu, hvorki á bar né við gesti samkvæmt heimildum fréttastofu. Þá kom fram að í Fréttablaðinu sama dag væri greint frá því að bekkjarbróðir annarrar konunnar við Háskólann í Reykjavík hefði átt að hafa nauðgað henni og báðir ætlaðir gerendur síðan nauðgað hinni konunni. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefði fyrra atvikið átt sér stað 7. október 2015 en þá hefðu nemendur hist á svokölluðu pub quiz á skemmtistaðnum [...]. Umræddur nemandi hefði það kvöld átt að hafa nauðgað annarri stúlkunni. Þá var greint frá því í fréttinni að um það mál hefði ekki verið upplýst fyrr en eftir síðara atvikið, sem hefði átt sér stað eftir bekkjarskemmtun á [...].          Þann 6. nóvember 2016 birtist frétt í Fréttablaðinu eftir stefndu, Stefán Rafn Sigurbjörnsson og Heimi Má Pétursson. Þar voru þau atriði rakin sem þegar höfðu komið fram í fjölmiðlum og greint frá því að nauðganirnar hefðu átt að hafa átt sér stað hvor í sínu lagi, aðra og þriðju helgina í október. Í fyrra tilfellinu hefði konu verið nauðgað af bekkjarbróður sínum en seinni konunni af báðum mönnunum í heimahúsi í Hlíðunum. Þá kom fram að samkvæmt upplýsingum frá nemendum skólans léki grunur á að konunum hefði verið byrluð ólyfjan.          Þá birtist frétt í Fréttablaðinu 9. nóvember 2015 með fyrirsögninni „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“ ásamt undirfyrirsögninni „Tveir karlar, grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, ganga lausir. Málið er í rannsókn“. Einnig birtist frétt sama dag með sömu fyrirsögn, þ.e. „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“ á vefmiðlinum visir.is sem var efnislega samhljóða. Þá var sama frétt einnig flutt í morgun- og hádegisfréttum Bylgjunnar. Höfundur fréttarinnar í öllum tilvikum var stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, sem jafnframt flutti hana í útvarpi þennan dag. Stefnendur voru ekki nafngreindir í fréttinni en þar kom fram að rannsókn lögreglu í tveimur aðskildum kynferðisbrotamálum beindist að húsnæði í fjölbýlishúsi í Hlíðahverfi í Reykjavík þar sem talið væri að árásirnar hefðu átt sér stað. Þá staðfesti lögregla að tvær kærur hefðu verið lagðar fram í málunum. Einnig kom fram að samkvæmt heimildum blaðsins hefðu árásirnar verið hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar. Tveir karlar væru grunaðir um árásirnar og væri annar þeirra á fertugsaldri og stundaði nám við Háskólann í Reykjavík, þar sem fórnarlömb árásanna stunduðu báðar nám. Hinn maðurinn væri á svipuðum aldri og starfaði á [...] en hefði verið sendur í leyfi meðan á rannsókn málsins stæði. Þá var rakið í fréttinni hvar og hvenær nauðganirnar væru sagðar hafa átt sér stað og jafnframt kom fram að umráðamaður íbúðarinnar í Hlíðunum væri starfsmaður fyrrgreinds [...] sem ræki [...]. Þá var greint frá því að samkvæmt upplýsingum frá samnemendum kvennanna léki grunur á að mennirnir hefðu í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist hefði verið á hana. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins hefði lögreglan fundið ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir hefðu átt að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur. Þá hefðu verið hankar í loftinu sem grunur léki á að mennirnir hefðu notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist hefði verið á hana. Loks kom fram að lögregla vildi ekki staðfesta hvað hefði fundist við húsleit sem hefði verið gerð í kjölfar þess að mennirnir voru handteknir. Þá hefði mönnunum verið sleppt að lokinni frumrannsókn lögreglu en ekki verið farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim.          Fyrir hádegið þennan sama dag, 9. nóvember 2015, birtist viðtal á Vísi við Guðrúnu Jónsdóttur, talskonu Stígamóta, þar sem hún lagði mat á stöðu málsins. Kvaðst hún taka það fram að hún vissi ekki hvað væri rétt í málinu en væri það rétt sem hún læsi, að þarna væri um að ræða hópnauðgun, lyfjanauðgun og raðnauðgun, gerðust málin ekki alvarlegri og væri þetta með þeim ljótari. Eftir hádegið þennan sama dag birtist önnur frétt á Vísi þar sem greint var frá því að boðað hefði verið til mótmæla við lögreglustöðina klukkan fimm sama dag. Tilgangur mótmælanna væri að mótmæla aðgerðaleysi lögreglunnar í kynferðisbrotamálum og sýna þolendum slíkra afbrota stuðning í verki í ljósi frétta um að ekki hefði verið krafist gæsluvarðhalds yfir tveimur mönnum, sem kærðir hefðu verið vegna nauðgana í Hlíðunum fyrir skemmstu. Sú ákvörðun lögreglunnar að krefjast ekki gæsluvarðhalds hefði sætt harðri gagnrýni á samfélagsmiðlum fyrr um daginn í kjölfar fréttaflutnings Fréttablaðsins. Þá var ætluð atburðarás málsins einnig rakin í stuttu máli á ný.          Í kvöldfréttum Stöðvar 2 hinn 9. nóvember 2015 flutti stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir, áfram fréttir af málinu. Í fréttinni var greint frá því að skortur á sönnunargögnum væri ástæða þess að ekki hefði verið óskað eftir gæsluvarðhaldi yfir tveimur mönnum sem kærðir hefðu verið í tveimur nauðgunarmálum og að mikil reiði hefði gripið um sig í samfélaginu vegna málsins. Þá kom fram að Fréttablaðið hefði greint frá því að lögreglan hefði gert húsleit í fjölbýlishúsi í Hlíðahverfi í október þar sem talið væri að árásirnar hefðu átt sér stað. Samkvæmt heimildum blaðsins hefðu árásirnar verið hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar, sem lögregla gerði upptæk. Stefnda, Þórhildur, flutti fréttina af ætluðum brotavettvangi málsins þ.e. frá stigagangi hússins í Hlíðunum þar sem hinar hrottafengnu nauðganir hefðu átt að hafa farið fram. Stefnda greindi frá því að annar meintra gerenda í síðara málinu hefði leigt íbúð „hér í húsinu“ en aðrir íbúar þess hefðu verið grunlausir um málið þar til þeir lásu um það í fjölmiðlum. Þá kom fram að mennirnir hefðu hvorki verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald né hefði verið farið fram á farbann yfir þeim.          Í sama kvöldfréttatíma tók stefnda, Þórhildur, viðtal við Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, þáverandi yfirlögfræðing lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Spurt var að því hvort þessi brot væru ekki talin nógu alvarleg til að farið væri fram á gæsluvarðhald eða farbann yfir mönnunum. Alda Hrönn kvaðst illa geta talað um þetta einstaka mál en almennt væru ströng skilyrði til að fara fram á almenna gæslu. Sterkan rökstuddan grun þyrfti til þess og hefðu dómstólar ályktað að nánast þyrfti að vera ljóst að sakfellt yrði í málinu. Því þyrfti sterkan rökstuðning sem væri dálítið annað en rökstuddur grunur. Þá var greint frá því að ekki væri sterkur rökstuddur grunur fyrir sakfellingu í málunum en rannsókn þeirra væri langt á veg komin. Einnig kom fram í máli Öldu Hrannar að ekki væri rétt að íbúðin hefði verið sérútbúin til nauðgana, eins og hún komst þar að orði, en hún neitaði því ekki að tæki til ofbeldisiðkunar hefðu verið gerð upptæk. Þá var greint frá því að málin hefðu vakið mikla reiði í samfélaginu og fjölmargir gagnrýnt verklag lögreglu í kynferðis-brotamálum. Spurð um hennar viðbrögð við hinni miklu reiði sem málin hefðu vakið ítrekaði Alda Hrönn að hún gæti ekki talað um einstök mál en lögregla gerði allt sem hún gæti og myndi reyna að gera betur, væru mistök fyrir hendi.          Næst greindi stefnda, Þórhildur, frá því að boðað hefði verið til mótmæla „hér fyrir utan lögreglustöðina“ með mjög stuttum fyrirvara fyrr um daginn, en stefnda var á staðnum og var fréttin að hluta til send út í beinni útsendingu. Klukkan fimm um daginn hefðu 500 manns verið mættir og enn væri töluverður mannfjöldi viðstaddur klukkan hálfsjö. Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri hefði komið fram og talað við fólkið klukkan fimm. Þá kom fram í máli stefndu, Þórhildar, að ennþá væri rafmögnuð stemning á Hverfisgötu og fólk kæmi upp eitt af öðru til að tjá sig um sína reynslu og reynslu vina og fjölskyldumeðlima. Einnig tók stefnda viðtal við skipuleggjanda mótmælanna, Oddnýju Arnardóttur, og Gunnar Inga Jóhansson, hæstaréttarlögmann. Í máli stefndu Þórhildar, kom fram að meintir gerendur í málinu hefðu verið nafngreindir og myndir birtar af þeim. Ekki hefðu verið settir fyrirvarar við að mennirnir væru sekir og spurði stefnda lögmanninn út í hvaða lagalegar afleiðingar slíkar myndbirtingar gætu haft. Þá lauk útsendingunni á því að stefnda greindi frá því að rannsókn málsins væri ekki lokið og það ætti eftir að koma í ljós hvort ákært yrði í málunum. Áfram yrði fjallað um málið í Íslandi í dag um kvöldið.          Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins kl. 22:00 sama dag, hinn 9. nóvember 2015 var greint frá því að aðalritstjóri Fréttablaðsins sæi ekki ástæðu til að leiðrétta forsíðufrétt blaðsins sama dag um meinta nauðgun og hrottaleg kynferðisbrot tveggja manna. Yfirlögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Alda Hrönn Jóhannsdóttir, segði fréttina ekki rétta í öllum efnisatriðum en meintir gerendur hefðu verið nafngreindir á samfélagsmiðlum fyrr um daginn og væri annar þeirra farinn úr landi. Greint var frá því að í forsíðufrétt Fréttablaðsins sama dag væri fjallað um rannsókn lögreglu á kynferðisbrotamálum sem hefðu átt sér stað í Hlíðunum í Reykjavík og hefði blaðið heimildir fyrir því að árásirnar hefðu verið hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar. Þá var einnig greint frá því að mönnunum hefði verið sleppt úr haldi eftir skýrslutökur og hefði fjöldi manna komið saman við lögreglustöðina fyrr um daginn til að mótmæla því. Enn fremur hefðu samfélagsmiðlar logað, myndir verið birtar af mönnunum tveimur og þeir nafngreindir. Að sögn Öldu Hrannar væri það ekki rétt sem fram hefði komið á forsíðu Fréttablaðsins að íbúðin í Hlíðahverfi hefði verið sérútbúin fyrir athafnir sem þessar, það væri orðum aukið. Sú mynd sem hefði verið dregin upp af málinu í fjölmiðlum væri gríðarlega alvarleg og teldi Alda Hrönn að væri hún rétt, hefði lögreglan farið fram á almannagæslu, ef fyrir hendi væri sérútbúin íbúð til þess að stunda þessa iðju eða brjóta gegn öðru fólki. Þá var Alda Hrönn spurð að því hvort hún segði þannig að svo væri ekki og játaði hún því, hún hefði sagt að þetta væri ekki rétt, íbúðin væri ekki sérútbúin til þessa.          Í sama kvöldfréttatíma kom einnig fram að Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi og aðalritstjóri 365 miðla ehf., segði ekkert gefa ástæðu til að bera efnisatriði fréttarinnar til baka. Það sem yfirlögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefði við hana að athuga væri að sagt hefði verið að íbúðin væri sérútbúin, eins og lögfræðingurinn sjálf hefði orðað það, en hvergi væri það orð að finna í fréttinni sjálfri, hvorki þennan sama dag né í fyrri fréttum um málið. Þá hefði Fréttablaðið staðfestar heimildir fyrir því að tól og tæki í íbúðinni hefðu verið gerð upptæk. Að sögn Kristínar væri það sem skipti máli að kærur sem staðfestu fréttirnar væru komnar fram.          Sama dag, eða þann 9. nóvember 2015, sendi lögmaður stefnenda tvö bréf sem stíluð voru á réttargæslustefnda, 365 miðla ehf., og Kristínu Þorsteinsdóttur. Þar var þess krafist fyrir hönd umbjóðenda hans að þeir yrðu beðnir afsökunar og að nánar tilgreind ummæli, sem birst hefðu í forsíðufrétt Fréttablaðsins sama dag, yrðu leiðrétt. Þá var einnig gerð krafa um að afsökunarbeiðnin birtist á forsíðu blaðsins og að réttargæslustefndi, 365 miðlar ehf., greiddi stefnendum 10.000.000 króna í skaðabætur vegna fjártjóns og miska. Frestur til að birta afsökunarbeiðni var veittur til 11. nóvember 2015 og frestur til að greiða skaðabætur til 16. nóvember sama ár. Þá var réttur til málshöfðunar áskilinn án frekari viðvörunar.          Í Fréttablaðinu daginn eftir, þann 10. nóvember 2015, birtist grein eftir stefndu, Nadine Guðrúnu Yaghi, þar sem greint var frá atburðum næstliðins dags og að hinir grunuðu væri taldir vera farnir úr landi. Í fréttinni var greint frá því sem áður var fram komið um hagi hinna grunuðu, að tvær kærur hefðu verið lagðar fram vegna málsins hjá lögreglunni og að hún hefði gert húsleit hjá þeim hinna grunuðu sem hefði afnot af íbúðinni í Hlíðunum. Í fréttinni kom að öðru leyti fram að hart hefði verið sótt að lögreglu á samfélagsmiðlum vegna forsíðufréttar Fréttablaðsins daginn áður um tvö kynferðisafbrotamál sem lögreglan hefði til rannsóknar. Þá var rakið að ekki hefði verið farið fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum og hefðu hundruð manns mætt fyrir framan lögreglustöðina við Hverfisgötu í því skyni að mótmæla því, sem og aðgerðaleysi lögreglunnar í kynferðisbrotamálum. Fjöldi fólks hefði stigið í pontu og sagt sögur af eigin reynslu af viðbrögðum lögreglu vegna kynferðisbrotamála og að lögreglustjóri hefði ávarpað hópinn og sagt lögregluna ætla að reyna að gera betur í þessum málum. Þá var efni fréttar blaðsins frá því daginn áður rakið um að árásirnar hefðu verið hrottalegar og íbúðin verið búin tækjum til að beita ofbeldi. Að sögn fyrrnefndrar Öldu Hrannar væri ekkert í gögnum lögreglunnar um málin sem hefði sýnt að íbúðin væri útbúin til nauðgana og gætu þau ekki fullyrt neitt um það. Þetta væri þó matskennt hugtak sem og önnur hugtök sem notuð hefðu verið í umræðunni. Þá kvað hún það eitt og sér að eiga tæki og tól ekki vera refsivert en vildi að öðru leyti ekki greina frá því hvað nákvæmlega hefði verið haldlagt við leit í íbúðinni. Jafnframt hefði engin afstaða verið tekin til þess hvort mistök hefðu verið gerð þegar ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum. Á mótmælafundinum hefðu jafnframt margir verið reiðir yfir því að báðir meintir gerendur væru farnir úr landi, sem samkvæmt heimildum Vísis væri raunin, og gagnrýnt hvers vegna farbanni hefði ekki verið beitt yfir þeim. Kvað Alda farbanni sjaldnast beitt á íslenska ríkisborgara, en Ísland væri aðili að alþjóðasáttmála sem gerði að verkum að mögulegt væri að fá íslenska ríkisborgara framselda vegna ætlaðra glæpa.          Í Fréttablaðinu þann 11. nóvember 2015 birtist síðan frétt eftir stefndu, Nadine Guðrúnu Yaghi, undir fyrirsögninni „Skýrsla kæranda lýsir notkun tóla“. Þar var greint frá því að í skýrslu annars brotaþola hjá lögreglu hefði komið fram að annar meintra gerenda hefði bundið hendur hennar saman með keðju. Þá hefði hún verið slegin með svipu. Þetta staðfestu heimildir Fréttablaðsins og hefði lögregla lagt hald á svipu og keðju við húsleit í íbúð í Hlíðunum. Þá var atburðarás málsins rakin enn á ný, greint frá högum hinna ætluðu gerenda og hvar og hvenær árásirnar áttu að hafa farið fram. Í lok fréttarinnar kom fram að ekki hefði verið krafist gæsluvarðhalds yfir mönnunum og hefði það vakið hörð viðbrögð í samfélaginu og hundruð manna krafist þess að þeir yrðu úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Þá var haft eftir lögmönnum beggja hinna ætluðu gerenda að þeir neituðu alfarið sök í málunum og hefði annar lögmannanna lagt fram kæru á hendur konunum fyrir rangar sakargiftir.          Í Fréttablaðinu þann 12. nóvember sama ár birtist leiðari eftir fyrrnefnda Kristínu Þorsteinsdóttur undir fyrirsögninni „Segja eða þegja“. Þar greindi hún meðal annars frá því að hún hefði fengið sent hótunarbréf í vikunni og vísaði þar til bréfa lögmanns stefnanda sem hann sendi henni 9. nóvember sama ár. Bréfin hefðu borist í kjölfar forsíðufréttar Fréttablaðsins þar sem fjallað hefði verið um íbúð sem kom við sögu í tveimur nauðgunarmálum sem lögreglan hefði til rannsóknar. Fram kom að lögreglan hefði gert tæki og tól upptæk sem grunur léki á að notuð hefðu verið í tengslum við meintar nauðganir. Fyrir þessu hefði Fréttablaðið traustar heimildir og ekkert hefði komið fram síðar sem rengdi efnisatriði fréttarinnar. Ekkert væri því til að biðjast afsökunar á. Þá kom einnig fram að Fréttablaðið hefði birt aðra frétt deginum áður þar sem finna mátti hluta úr skýrslu kæranda og hefði blaðið aldrei birt slíkt nema fyrir lægju traustar heimildir úr fleiri en einni átt. Þá var því mótmælt, eins og gefið væri í skyn í fyrrnefndu bréfi lögmannsins, að forsíða Fréttablaðsins 9. nóvember sama ár. hefði orðið til þess að mennirnir tveir hefðu verið nafngreindir á samfélagsmiðlum. Ekkert væri fjær sanni og væri það ekki á ábyrgð fjölmiðla að nöfn þeirra væru á allra vitorði og myndir birtar af þeim. Hefði það verið vilji fjölmiðla hefðu nöfn og myndir af þeim einfaldlega verið birt með fréttinni.          Þann 5. febrúar 2016 tilkynnti embætti héraðssaksóknara stefnandanum, A, bréflega að mál sem embættið hefði rannsakað á hendur honum og stefnandanum B með hliðsjón af 194. gr. almennra hegningarlaga gegn nánar tilgreindri konu, hefði verið fellt niður. Þá var stefnandanum, A, sent sams konar bréf þann 18. febrúar sama ár þar sem tilkynnt var að rannsókn máls vegna ætlaðs brots hans gegn 194. gr. almennra hegningarlaga væri lokið og málið fellt niður. Lögmaður stefnenda sendi stefndu, Nadine Guðrúnu, Þórhildi, Heimi Má og Stefáni Rafni, einnig bréf þann 27. apríl 2016 þar sem farið var fram á afsökunarbeiðni, leiðréttingu á nánar tilgreindum ummælum og greiðslu miskabóta að viðlagðri málshöfðun. Þar sem stefndu urðu ekki við þeim kröfum sem þar voru gerðar var mál þetta höfðað í kjölfarið eða þann 19. janúar 2017.                                                                                               II          Stefnendur byggja á því að með hinum umstefndu ummælum í fjölmiðlum réttargæslustefnda hafi þeim verið gefin að sök refsiverð háttsemi sem varði við XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 194. gr. laganna. Stefndu hafi ekki sparað lýsingarorðin í umfjöllun sinni. Brotum stefnenda hafi verið lýst sem hrottalegum árásum þar sem konum hafi verið byrluð eiturlyf og ólyfjan áður en þeim hafi verið nauðgað í íbúð sem búin hafi verið tækjum til ofbeldisverka og nauðgana.          Stefnendur byggja á því að í öllum hinum umstefndu ummælum í töluliðum 1 til 32 í dómkröfukafla stefnu felist ásakanir um að þeir hafi gerst sekir um hrottaleg hegningarlagabrot sem enga stoð hafi átt sér í raunveruleikanum, eins og stefndu hefðu komist að, hefðu þau vandað til verka. Öll ummælin séu til þess fallin að meiða æru stefnenda. Hér á eftir verði gerð grein fyrir því hvers vegna hver og ein hinna umstefndu ummæla séu ærumeiðandi aðdróttanir sem beri að ómerkja. Bylgjan, 5. nóvember, fréttir kl. 08:00, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi.   1.       „... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og eiturlyfjum.“                Hér sé því haldið fram að stefnendur hafi byrlað konu ólyfjan og eiturlyfjum áður en þeir brutu gegn henni kynferðislega. Það sé alrangt. Stefnendur hafi ekki byrlað neinum ólyfjan og eiturlyf og séu ummælin uppspuni frá rótum.   2.       „Þá munu þeir hafa beitt konuna kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.“                Stefnendur halda því fram að þeir hafi hvorki haft samfarir né önnur kynferðismök við umrædda konu. Hvað þá heldur hafi þeir beitt hana ofbeldi. Á nýjan leik fari stefnda því með staðlausa stafi.   Fréttablaðið, 9. nóvember 2015 (forsíða), höfundur stefnda Nadine Guðrún Yaghi.   3.       „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“                Íbúðin sem hér sé vísað til hafi verið heimili stefnandans B á þeim tíma sem ummælin hafi verið látin falla, en um hafi verið að ræða litla risíbúð að [...], Reykjavík. Íbúðin hafi ekki verið útbúin til nauðgana, enda séu fasteignir sjaldan gerendur í kynferðisbrotamálum. Að mati stefnenda séu ummælin því hvort tveggja rökleysa og þvættingur.   4.       „Tveir karlar, grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, ganga lausir“                Af hálfu stefnenda kemur fram að þeir hafi verið kærðir fyrir kynferðisbrot. Lögreglan hafi rannsakað málin og héraðssaksóknari fellt þau niður, enda hafi ásakanir meintra brotaþola verið tilhæfulausar. Staðhæfing stefndu þess efnis að hin meintu kynferðisbrot hafi verið hrottaleg eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.   5.       „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka.“                Stefnendur árétti að enginn hafi sætt árásum af þeirra hálfu, hvorki hrottalegum né annars konar árásum. Þá hafi íbúð stefnandans B ekki verið búin tækjum til ofbeldisverka og séu ummælin skáldskapur stefndu.   6.       „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað, í sömu íbúð, af báðum mönnunum ...“                Stefnendur hafi hvorki haft samfarir né önnur kynferðismök við umrædda konu. Af því leiði að þeir hafi ekki nauðgað henni. Hér sé því um tilhæfulausar ásakanir stefndu að ræða um að stefnendur hafi brotið gegn 194. gr. laga nr. 19/1940.   7.       „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“                Hér sé því haldið fram á nýjan leik að stefnendur hafi byrlað konu ólyfjan og eiturlyfjum áður en þeir hafi brotið gegn henni kynferðislega. Það sé alrangt og einnig það að stefnendur hafi ráðist á konuna. Stefnendur hafi ekki byrlað neinum ólyfjan og eiturlyf og ekki ráðist á neinn. Ummælin séu uppspuni frá rótum.   8.       „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“                Stefnendur hafi ekki hengt neinn upp og ekki ráðist á neinn. Ásakanir stefndu séu því rangar og tilhæfulausar.   Bylgjan, 9. nóvember 2015, fréttir kl. 08:00, höfundur stefnda Nadine Guðrún Yaghi.   9.       „Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“   Vísað er til rökstuðnings í tölulið 5 hér að ofan.   10.    „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum ...“   Vísað er til rökstuðnings í tölulið 6 hér að ofan.   11.    „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“   Vísað er til rökstuðnings í tölulið 7 hér að ofan.   12.    „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“                Stefnendur ítreki enn á ný að þeir hafi ekki nauðgað neinum. Þar af leiði að lögregla hafi ekki fundin nein tól og tæki heima hjá stefnandanum B notuð hafi verið við nauðganir. Enn á ný ásaki stefnda stefnendur um refsiverða háttsemi sem enginn fótur sé fyrir. Á heimili stefnandans B hafi verið keðjur af boxpúða og gömul reiðsvipa sem afi hans hafi átt. Stefnandanum B hafi verið fullfrjálst að hafa þessa muni í vörslum sínum án afskipta og aðdróttana misvitra blaðamanna.   13.    „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“   Vísað sé til rökstuðnings í tölulið 8 að ofan.   Bylgjan, 9. nóvember 2015, fréttir kl. 12:00, höfundur stefnda Nadine Guðrún Yaghi.   14.    „Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“   Vísað sé til rökstuðnings í töluliðum 5 og 9 að ofan.   15.    „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum ...“   Vísað sé til rökstuðnings í töluliðum 6 og 10 að ofan.   16.    „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“   Vísað sé til rökstuðnings í töluliðum 7 og 11 að ofan.   17.    „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“   Vísað sé til rökstuðnings í tölulið 12 hér að ofan.   18.    „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“   Vísað sé til rökstuðnings í töluliðum 8 og 13 hér að ofan.   Vísir, 9. nóvember 2015, kl. 06.00, höfundur stefnda Nadine Guðrún Yaghi.    19.    „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“   Vísað sé til umfjöllunar um tölulið 3 hér að ofan.   20.    „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“   Vísað sé til umfjöllunar um töluliði 5 og 9 hér að ofan.   21.    „Grunur um byrlun ólyfjan“   Vísað sé til umfjöllunar um töluliði 7 og 11 hér að ofan.   22.    „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum ...“   Vísað sé til umfjöllunar um töluliði 6 og10 hér að ofan.   23.    „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“   Vísað sé til umfjöllunar um töluliði 7, 11 og 21 hér að ofan.   24.    „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla í íbúðinni ýmis tól og tæki sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“   Vísað sé til umfjöllunar um töluliði 12 og 17 hér að ofan.   25.    „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“   Vísað sé til umfjöllunar um töluliði 8, 13 og 18 að ofan.   Fréttablaðið 11. nóvember 2015 (forsíða), höfundur stefnda Nadine Guðrún Yaghi.   26.    „Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að íbúðin væri búin tækjum og tólum til ofbeldisiðkunar.“   Að breyttu breytanda sé vísað til umfjöllunar um töluliði 5, 9 og 14 hér að framan.   27.    „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“   Vísað sé til umfjöllunar um töluliði 7, 11, 21 og 23 að framan.   Bylgjan, 5. nóvember 2015, fréttir kl. 12:00, flytjandi stefndi Heimir Már Pétursson.   28.    „Starfsmaður [...] sem grunaður er um aðild að hrottalegri nauðgun á konu í félagi við annan ...“                Stefnendur benda á að hér sé því haldið fram að þeir hafi nauðgað konu með hrottalegum hætti. Stefnendur hafi ekki haft samræði eða önnur kynferðismök við umrædda konu. Þegar af þeirri ástæðu hafi engin nauðgun verið framin, hvað þá heldur að hún hafi verið framin með samverknaði. Ummælin séu því úr lausu lofti gripin.   29.    ... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og beitt hana kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.“                Stefnendur hafi ekki byrlað neinum ólyfjan og alls ekki umræddri konu. Þá hafi þeir ekki beitt konuna ofbeldi af neinu tagi, ekki líkamlegu og þaðan af síður kynferðislegu ofbeldi. Ummælin séu því röng.   Fréttablaðið, 6. nóvember 2015, bls. 8, höfundar stefndu Heimir Már Pétursson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson.   30.    „... en í fyrra tilfellinu var annari þeirra nauðgað af bekkjarbróður hennar en seinni konunni var nauðgað af báðum mönnum í heimahúsi í Hlíðunum.“                Hér sé fullyrt án nokkurs fyrirvara að annar stefnenda, A, hafi nauðgað bekkjarsystur sinni. Með sama hætti sé fullyrt fyrirvaralaust að stefnendur hafi nauðgað annarri konu í félagi, en sem fyrr séu ummælin úr lausu lofti gripin.   Stöð 2 þann 9. nóvember 2015, fréttir kl. 18:30, flytjandi stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir.   31.    „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar sem lögregla gerði upptæk.“                Hér sé því enn haldið fram að stefnendur hafi gerst sekir um hrottalegar kynferðisárásir, en af samhenginu sé ljóst að hér sé verið að ásaka stefnendur um nauðganir. Sömuleiðis sé því haldið fram að íbúð stefnandans B hafi verið búin tækjum til ofbeldisiðkunar sem gerð hafi verið upptæk. Í fyrsta lagi hafi ekki verið nein tæki til ofbeldisiðkunar í íbúðinni. Í öðru lagi hafi lögreglan ekki gert nein tæki eða tól upptæk hjá stefnandanum B. Stefnda fari því með staðlausa stafi í fréttinni.   32.    „Ég er stödd hérna í stigagangi hússins í Hlíðunum þar sem tvær hrottafengnar nauðganir eiga að hafa átt sér stað í október síðastliðnum.“                Að mati stefnenda sé með ólíkindum að stefnda hafi leyft sér að fara heim til stefnandans B og flytja fréttina þaðan. Það sé óþarfi að fara mörgum orðum um að sú háttsemi stefndu feli í sér brot á réttarreglum sem ætlað sé að vernda friðhelgi heimilis, einkalífs og fjölskyldu stefnandans B, sbr. 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sem fyrr ítreki stefnendur að þeir hafi ekki nauðgað neinum heima hjá stefnandanum B eða annars staðar. Af því leiði að ummæli stefndu um hrottafengnar nauðganir stefnenda séu tilhæfulaus.              Það séu grundvallarmannréttindi í réttarríki að hver sá sem borinn sé sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus uns sekt hans sé sönnuð að lögum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskri réttarskipan, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það séu handhafar opinbers valds, sem til þess séu bærir, sem annist rannsókn og saksókn í sakamálum. Það sé síðan hlutverk dómstóla að dæma um sekt eða sakleysi manna sem ákærðir hafi verið fyrir refsiverða háttsemi. Einhverra hluta vegna hafi stefndu kosið að svipta stefnendur þessum grundvallarmannréttindum og úthrópa þá sem nauðgara og ofbeldismenn án þess að stefnendur hafi verið ákærðir fyrir slíka háttsemi, hvað þá heldur dæmdir.              Öll hin umstefndu ummæli, í töluliðum 1-32 í dómkröfukafla í stefnu, feli í sér ásökun um refsiverða og siðferðislega ámælisverða háttsemi. Öll ummæli stefndu séu ærumeiðandi aðdróttanir og feli í sér brot gegn 235. gr. og 1. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja þau með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Hin umstefndu ummæli séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnendur. Hagsmunir þeirra af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir.              Hvað kröfur um miskabætur snerti byggi stefnendur á því að stefndu hafi vegið með alvarlegum hætti að æru þeirra. Með því hafi þau framið ólögmæta meingerð gagnvart stefnendum sem stefndu beri skaðabótaábyrgð á, enda um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða sem séu bæði rangar og bornar út og birtar opinberlega gegn betri vitund. Það sé ljóst að virðing stefnenda hafi beðið hnekki, sem og æra þeirra og persóna. Réttur stefnenda til æruverndar og friðhelgi einkalífs njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.              Það sé hlutverk handhafa opinbers valds, en ekki fjölmiðla, að rannsaka, ákæra og dæma menn fyrir refsiverða háttsemi. Með umfjöllun sinni hafi stefndu haldið því fram að stefnendur hafi gerst sekir um margvísleg hegningarlagabrot sem enginn fótur sé fyrir. Slagkraftur umfjöllunar stefndu hafi verið slíkur að stefnendur hafi óttast um líf sitt vegna múgæsingsins sem umfjöllun stefndu hafi skapað. Þeir hafi hrökklast úr landi þar sem þeir hafi dvalið meira og minna næstu níu mánuði. Stefnandinn B hafi misst vinnuna í kjölfar umfjöllunar stefndu og stefnandanum A hafi verið gert að hætta námi við Háskólann í Reykjavík. Hvorugur hafi átt afturkvæmt í fyrra starf og nám. Þeir hafi báðir glímt við langvarandi kvíða og þunglyndi vegna umfjöllunar stefndu. Umfjöllunin hafi leitt til þess að nöfnum og myndum af þeim hafi verið dreift mörg þúsund sinnum á samfélagsmiðlunum þar sem þeir hafi verið úthrópaðir sem nauðgarar og þeim hótað líkamsmeiðingum og lífláti. Í beinu framhaldi af forsíðufrétt Fréttablaðsins, 9. nóvember 2015, hafi verið boðað til mótmæla við lögreglustöðina á Hverfisgötu þangað sem hundruð mættu og hafi ástandið verið mjög eldfimt.              Af öllu framansögðu sé ljóst að umfjöllun stefndu um stefnendur hafi verið afdrifarík. Stefnendur eigi því rétt á háum miskabótum úr hendi stefndu. Stefnendur telja að miski hvors þeirra um sig vegna umfjöllunar stefndu sé hæfilega metinn 12.500.000 krónur. Stefndu beri mismikla ábyrgð á miskatjóni stefnenda með hliðsjón af fjölda og alvarleika ummæla. Þá sé ljóst að stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir, hafi jafnframt brotið alvarlega gegn friðhelgi einkalífs stefnandans B með því að birta myndir af heimili hans.              Með hliðsjón af framangreindu sé miskabótakrafa hvors stefnanda um sig á hendur hverjum stefnda um sig eftirfarandi:              A) Stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, verði dæmd til þess að greiða hvorum stefnanda um sig miskabætur að fjárhæð 10.000.000 króna.              B) Stefndi, Heimir Már Pétursson, verði dæmdur til þess að greiða hvorum stefnanda um sig miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna.              C) Stefndi, Stefán Rafn Sigurbjörnsson, verði dæmdur til þess að greiða hvorum stefnanda um sig miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur.              D) Stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir, verði dæmd til þess að greiða hvorum stefnanda um sig miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna.              Kröfur um miskabætur byggist á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda séu fyrir hendi skýr og ótvíræð brot á réttarreglum, sem ætlað sé að vernda æru stefnenda og friðhelgi einkalífs stefnandans B, sbr. 229. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Stefnendur bendi sérstaklega á að birting og dreifing ærumeiðandi ummæla sé sjálfstætt brot samkvæmt 2. mgr. 236. gr. laga nr. 19/1940.              Um aðild og ábyrgðargrundvöll í málinu taki stefnendur fram að stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, beri refsi- og fébótaábyrgð á hinum umstefndu ummælum í töluliðum 1-27 í dómkröfukafla í stefnu. Annars vegar á ummælunum í töluliðum 1-2, 9-13 og 14-18, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 50. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla, en stefnda hafi samið og flutt fréttirnar sem hafi haft að geyma hin umstefndu ummæli og beri því á þeim ábyrgð. Hins vegar á ummælunum í töluliðum 3-8, 19-25 og 26-27 á grundvelli 1. málsliðar a-liðar 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011, en stefnda sé nafngreindur höfundur fréttanna og beri því ábyrgð á efni þeirra og framsetningu. Kröfum stefnenda vegna ofangreindra ummæla sé því réttilega beint að stefndu.              Stefndi, Heimir Már Pétursson, beri refsi- og fébótaábyrgð á umstefndum ummælum í töluliðum 28-30 í dómkröfukafla í stefnu. Annars vegar á ummælunum í töluliðum 28 og 29, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 50. gr. laga nr. 38/2011, en stefndi hafi flutt fréttina sem hafi haft að geyma hin umstefndu ummæli og beri því á þeim ábyrgð. Hins vegar á ummælunum í tölulið 30 á grundvelli 1. málsliðar a-liðar 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011, en stefndi sé nafngreindur höfundur fréttarinnar, ásamt stefnda, Stefáni Rafni Sigurbjörnssyni, og beri því ábyrgð á efni hennar. Kröfum stefnenda vegna ofangreindra ummæla sé því réttilega beint að stefnda.              Stefndi, Stefán Rafn Sigurbjörnsson, beri refsi- og fébótaábyrgð á hinum umstefndu ummælum í tölulið 30 í dómkröfukafla í stefnu á grundvelli 1. málsliðar a-liðar 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011, en stefndi sé nafngreindur höfundur fréttarinnar ásamt stefnda Heimi Má Péturssyni og beri því ábyrgð á efni hennar. Kröfum stefnenda vegna ofangreindra ummæla sé því réttilega beint að stefndu.              Stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir, beri refsi- og fébótaábyrgð á umstefndum ummælum í töluliðum 31-32 í dómkröfukafla í stefnu á grundvelli a-liðar 1. mgr. 50. gr. laga nr. 38/2011, en hún hafi flutt fréttina sem geymt hafi hin umstefndu ummæli og beri því á þeim ábyrgð sem og friðarbroti gagnvart stefnandanum B. Kröfum stefnenda vegna ofangreindra ummæla sé því réttilega beint að stefndu.              Réttargæslustefndi, 365 miðlar ehf., eigi og reki fjölmiðlana þar sem hin umstefndu ummæli hafi birst, nánar tiltekið Stöð 2, Bylgjuna, Fréttablaðið og Vísi. Réttargæslustefndi sé jafnframt vinnuveitandi stefndu. Þá beri réttargæslustefndi ábyrgð á greiðslu fésekta, skaðabóta o.fl. samkvæmt 3. mgr. 50. gr. og 3. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011, sem stefndu kunni að vera gert að greiða í málinu. Með sama hætti sé kveðið á um skyldu réttargæslustefnda til að birta dóm að viðlögðum dagsektum í 59. gr. laga nr. 38/2011. Þar sem framangreindar skyldur hvíli á réttargæslustefnda samkvæmt skýrum og ótvíræðum lagareglum og dómvenju sé ekki nauðsynlegt að stefna réttargæslustefnda til þess að þola dóm í málinu. Engu að síður sé rétt að gefa honum kost á því að gæta hagsmuna sinna í málinu og því sé honum stefnt til réttargæslu.              Stefnendur hafi með sér samlagsaðild í málinu sóknarmegin enda eigi kröfur þeirra rætur sínar að rekja til sömu atvika og aðstöðu, sbr. 1. málslið 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Með sama hætti séu skilyrði fyrir samlagsaðild stefndu varnarmegin uppfyllt sbr. 2. málslið 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.              Vegna kröfu um birtingu dóms geri stefnendur hvor um sig þá kröfu að forsendur og niðurstaða dóms í málinu verði birtar á forsíðu Fréttablaðsins, í hádegisfréttum Bylgjunnar, í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 og á vefsvæðinu www.visir.is, eigi síðar en sjö dögum eftir dómsuppsögu, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 50.000 krónur fyrir hvern dag sem líði umfram áðurgreindan frest án þess að birting fari fram. Um lagastoð fyrir kröfu um birtingu er vísað til 59. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla.              Hvað varði kröfu um vexti og dráttarvexti á dómkröfur vísi stefnendur til IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en krafa um vexti byggist á 1. málslið 4. gr. laganna, sbr. 8. gr. sömu laga, þar sem segi að skaðabótakröfur beri vexti frá þeim degi sem hið bótaskylda atvik átti sér stað. Krafa um dráttarvexti byggist á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr., þar sem segi að skaðabótakröfur beri dráttarvexti þegar liðinn sé mánuður frá þeim degi sem kröfuhafi hafi lagt fram upplýsingar til að meta tjón og fjárhæð bóta. Í þessu tilviki sé miðað við dagsetningu kröfubréfa í málinu, þann 27. apríl 2016, og því sé krafist dráttarvaxta frá 27. maí 2016 til greiðsludags.                                                                                               III              Stefndu byggja á því að þau hafi ekki brotið neinn rétt á stefnendum. Þau hafi verið að sinna störfum sínum sem blaðamenn í samfélaginu en hlutverk þeirra sé að miðla og flytja fréttir af því sem gerist hverju sinni. Þau hafni því alfarið að hafa gerst sek um brot á nefndum ákvæðum hegningarlaga þannig að skilyrði séu til að dæma ummælin dauð og ómerk eða taka aðrar kröfur stefnenda til greina.              Stefndu hafni því að stefnendum hafi verið gefin að sök refsiverð háttsemi með hinum umstefndu ummælum, enda hafi einungis verið fluttar fréttir af kærum sem sannanlega hafi verið lagðar fram gegn þeim. Í þeim kærum hafi kærendur borið stefnendur sökum um refsiverða háttsemi, sem fréttastofa 365 miðla ehf., hafi síðan flutt fréttir af eins og almennt tíðkist með slík mál. Allur fréttaflutningurinn hafi verið settur fram í góðri trú stefndu, enda byggi hann á trúverðugum heimildum, sem meðal annars hafi komið frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem hafi borið ábyrgð á rannsókn málsins. Stefndu geti hins vegar ekki upplýst um nöfn heimildarmanna sinna eða leitt þá fyrir dóm vegna ákvæðis 25. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla.              Stefndu hafni því að með hinum umstefndu ummælum hafi verið dróttað að stefnendum með ólögmætum hætti og að í þeim hafi falist ólögmæt meingerð gegn æru þeirra. Ummælin hafi verið sönn á þeim tíma sem þau hafi fallið. Yrðu kröfur stefnenda teknar til greina fælist í því að dómstólar væru í raun að leggja bann við flutningi frétta af sakamálum sem til rannsóknar séu hjá lögreglu, sérstaklega af kærumálum sem varði kynferðisbrot en hátt í 90% þeirra séu felld niður hjá ríkissaksóknara eða lögreglu og ákæra því ekki gefin út. Þá séu ótalin öll þau brot sem aldrei séu kærð. Hafa þurfi í huga að þótt mál sé fellt niður á rannsóknarstigi segi það ekkert til um það hvort verknaður hafi átt sér stað eða ekki, einungis að það sem fram sé komið við rannsókn máls sé ekki líklegt eða nægjanlegt til sakfellis í refsimáli.              Stefndu reisi sýknukröfur sínar á grundvallarreglunni um tjáningarfrelsi sem lögvarið sé af 73. gr. stjórnarskrárinnar. Tjáningarfrelsið sé einnig varið af 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá árinu 1966, sbr. lög nr. 10/1979.              Stefndu hafni því alfarið að með ummælunum sem krafist sé ómerkingar á hafi þau brotið gegn æru og mannorði stefnenda þannig að skilyrði 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar séu uppfyllt og að takmarka megi tjáningarfrelsi þeirra, auk þess sem ummælin séu sönn. Verði kröfur stefnenda teknar til greina að hluta eða að öllu leyti felist í því alvarleg aðför að frjálsri fjölmiðlun í lýðfrjálsu landi. Fréttaflutningurinn hafi ekki að neinu leyti verið óhefðbundinn í svona málum. Sagt hafi verið frá því sem heimildir hafi staðfest að hefði átt sér stað og það hafi verið sett fram með hefðbundnum fyrirvörum. Ítrekað hafi verið að „grunur léki á“, um „meintan“ verknað væri að ræða o.s.frv., allt eins og almennt tíðkist um fréttaflutning af slíkum málum. Stefnendur hafi ekki verið nafngreindir, öfugt við það sem skilja megi af stefnu. Það samfélagslega rót sem hafi orðið vegna málsins sé því ekki að neinu leyti runnið undan rótum stefndu í málinu en ábyrgð á dreifingu mynda af stefnendum og nöfnum þeirra á samfélagsmiðlum sé stefndu með öllu óviðkomandi. Það hafi hins vegar þótt eðlilegt að birta fréttir af mótmælum gegn kynferðisbrotum og rannsóknum þeirra, en mótmælin hafi átt sér stað við lögreglustöðina við Hverfisgötu 9. nóvember og skýrst af uppsafnaðri reiði í samfélaginu gegn slíkum afbrotum.              Í stefnu sé gerð sérstök grein fyrir aðild og ábyrgðargrundvelli. Stefnendur byggi á a-liðum 1. mgr. 50. og 51. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011, sem sé sama efnislega reglan en vísi annars vegar til hljóð- og myndefnis og hins vegar til ábyrgðar á prentefni. A-liðurinn byggist á því að einstaklingur sem tjái sig í eigin nafni, flytji eða miðli efni sem hann hafi sjálfur samið eða flytji efni samið af öðrum samkvæmt eigin ákvörðun beri á því ábyrgð, sé hann heimilisfastur hér á landi eða lúti íslenskri lögsögu á öðrum grundvelli. Samkvæmt c-lið beri ábyrgðarmaður fjölmiðils í öðrum tilvikum ábyrgð á efni sem miðlað sé. Ábyrgðarmaður 365 miðla ehf. sé Kristín Þorsteinsdóttir, sem ekki sé stefnt í málinu.              Það að ekki hafi verið skilyrði til útgáfu ákæru, sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, geri fréttaflutninginn ekki rangan. Þótt fjallað sé í fjölmiðlum um kærur og lögreglurannsóknir í samfélaginu leiði það ekki til þess að kærðir einstaklingar, eigi rétt til að fá allan fréttaflutning dæmdan dauðan og ómerktan þegar í ljós komi síðar að þeir sem fari með saksóknarvald telji ekki skilyrði til útgáfu ákæru. Stefna málsins virðist byggð á einhverri slíkri hugsun, sem að mati stefndu sé vitaskuld af og frá og standist ekki. Sannindi ummæla leiði til sýknu á grundvelli almennra reglna um ærumeiðingar og meiðyrði. Nú verði vikið að hverjum og einum hinna umstefndu ummæla og rök færð fyrir því af hverju þau hafi verið innan marka leyfilegrar tjáningar.   I.                    Einstök ummæli. I.                    Bylgjan 5. nóvember, fréttir kl 08:00, höfundur Nadine Guðrún Yaghi. „Leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og eiturlyfjum.“                Stefndu byggi á því að þetta hafi verið þær upplýsingar sem fyrir hafi legið á sínum tíma. Í kæru sem lögð hafi verið fram á hendur stefnendum hafi verið byggt á því að meintu fórnarlambi hefði verið byrlað sljóvgandi lyf. Því hafi verið sagt að „grunur“ léki á því. Miðað við þær upplýsingar sem fyrir hafi legið á þeim tíma sem fréttin hafi verið flutt sé ekkert í henni rangt eða sett fram með þeim hætti að skilyrði séu fyrir ómerkingu ummælanna. Stefndu mótmæli því, sem haldið sé fram í stefnu, að því sé haldið fram að stefnendur hafi byrlað konunni ólyfjan og eiturlyf. Einungs sé sagt að grunur leiki á því.   „Þá munu þeir hafa beitt konuna kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.“                Hér sé ekkert fullyrt af hálfu stefndu, heldur einungis sagt að eitthvað muni mögulega hafa átt sér stað. Fréttin sé sett fram með hefðbundnum fyrirvörum, sem undirstriki að um kæru sé að ræða og að enginn hafi enn verið dæmdur fyrir meintan verknað. Það skipti því engu máli hvað hafi gerst, eins og stefnan virðist byggjast á, heldur til hvers framlögð kæra hafi vísað og hverjar sakargiftirnar samkvæmt henni hafi verið.   II.                  Fréttablaðið 9. nóvember 2015 (forsíða), höfundur Nadine Guðrún Yaghi. „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“                Framangreind fyrirsögn sé fyrirsögn Fréttablaðsins. Hlíðarnar séu stórt svæði í Reykjavík og ekki hafi verið vísað til [...], eins og halda mætti af stefnu eða sérstaklega til heimilis stefnandans B. Eins og um önnur ummæli málsins liggi fyrir að heimildir blaðsins hafi byggst á því að um hrottafengnar nauðganir væri að ræða og hafi málið verið rannsakað hjá lögreglu með tilliti til þess og að tólum og/eða tækjum hefði verið beitt við verknaðina. Fyrirsögnin hafi því verið í samræmi við þann raunveruleika sem hafi legið fyrir í málinu í upphafi. Telji virðulegur dómur hins vegar að með fyrirsögninni hafi verið farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar, sé byggt á því að réttum aðila sé ekki stefnt í málinu og því ekki skilyrði til að dæma ummælin dauð og ómerk.              Greinin sé merkt stefndu Nadine, en hún hafi ekki komið nálægt fyrirsögninni, enda séu fyrirsagnir á ábyrgð ritstjóra. Stefnda Nadine vísi til a-liðar 1. mgr. 51. gr. fjölmiðlalaga, þar sem fram komi að einstaklingur beri ábyrgð á því efni sem hann riti í eigin nafni eða merki sér með augljósum hætti, sé hann heimilisfastur hér á landi eða lúti íslenskri lögsögu á öðrum grundvelli. Greinin á forsíðu hafi verið merkt stefndu Nadine og gangist hún við henni en ekki fyrirsögninni. Höfundur fyrirsagnarinnar hafi verið Óli Kr. Ármannsson, sem ekki sé stefnt í málinu, en hann hafi verið vaktstjóri Fréttablaðsins þann dag. Ábyrgðarmaður Fréttablaðsins sé Kristín Þorsteinsdóttir en væri talið að þessi fyrirsögn hafi farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar hefði átt að stefna henni vegna ummælanna á grundvelli c-liðar 1. mgr. 51. gr. fjölmiðlalaga. Það hafi ekki verið gert og beri stefnendur hallann af því. Af þeim sökum beri að sýkna stefndu Nadine í þessum lið.   „Tveir karlar grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, ganga lausir“                Stefndu benda á að fyrir liggi að stefnendur hafi verið kærðir fyrir nauðgun og þar með grunaðir. Þeir hafi ekki verið hnepptir í gæsluvarðahald vegna rannsóknar málsins og því gengið lausir. Ummælin séu því rétt og með öllu óskiljanlegt hvað stefnendum gangi til með að krefjast ómerkingar þeirra. Stefndu ítreki að samkvæmt heimildum þeirra og ritstjórnar 365 miðla ehf. á þessum tíma hafi meint brot átt að vera hrottaleg.   „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka.“                Hér ítreki stefndu að samkvæmt heimildum blaðsins og miðað við framlagðar kærur hafi þetta verið veruleikinn. Hér sé því enginn skáldskapur fyrir hendi heldur fréttaflutningur af máli, sem lögregla hafi rannsakað sem kynferðisglæp á sínum tíma. Tækin sem vísað hafi verið til hafi samkvæmt heimildum fréttastofu meðal annars verið reipi, keðja og svipur eða tæki sem notuð séu til iðkunar á svokölluðu BDSM-kynlífi. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafi tæki og tól sem hafi átt að vera notuð við meintan verknað verið gerð upptæk við rannsókn lögreglu.   „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað, í sömu íbúð, af báðum mönnunum ...“                Stefndu bendi á að hér hafi frásögnin aftur verið sett fram með fyrirvörum um það hvort atvik hafi átt sér stað, sbr. orðalagið „á ... að hafa verið“. Hvað raunverulega hafi gerst skipti engu máli í þessu samhengi. Það eina sem skipti máli séu þær sakir sem á stefnendur hafi verið bornar og hvernig fjölmiðlar réttargæslustefnda og þar með stefndu hafi unnið úr því. Fráleitt sé að halda því fram að um tilhæfulausar ásakanir stefndu hafi verið að ræða um að stefnendur hafi brotið gegn 194. gr. almennra hegningarlaga þegar fyrir liggi í skjölum málsins að kærurnar hafi verið rannsakaðar með hliðsjón af 1. og 2. mgr. þess ákvæðis.   „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“                Stefndu vísi aftur til þess að í kærunum hafi verið byggt á því að stefnendur hefðu að minnsta kosti í öðru tilvikinu byrlað meintum fórnarlömbum sínum sljóvgandi lyf. Þess vegna hafi verið flutt frétt um að „grunur“ léki á því, en þetta virðist vera í samræmi við skjöl málsins þar sem fram komi að málið hafi verið rannsakað meðal annars með hliðsjón af 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.   „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“                Það eina sem sé fullyrt í þessari framsetningu sé að hankar hafi verið í loftinu. Stefnendur krefjist ekki ómerkingar á þeirri fullyrðingu, heldur einungis því að þeir hafi ekki hengt neinn upp. Í fréttinni hafi það ekki verið fullyrt, heldur einungis að „grunur“ léki á að hankarnir hafi verið notaðir til upphengingar, þ.e. að stúlkan hefði verið bundin í þá. Engin skilyrði séu því til þess að dæma ummælin dauð og ómerk.   „Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“   Stefndu vísi til rökstuðnings í tölulið 5 hér að framan.   „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum ...“   Stefndu vísi til rökstuðnings í tölulið 6 hér að framan.   „... leikur grunur á að að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“   Stefndu vísi til rökstuðnings í tölulið 7 hér að framan.   „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“                Stefndu vísi á ný til þess hvernig kæran hafi verið sett fram og þess hvaða brot hafi verið rannsökuð. Því hafi hvergi verið haldið fram að þessir hlutir væru ólögmætir. Það eigi hins vegar við um svipur, reipi, keðjur og fleiri hluti að þeir séu ekki ólögmætir sem slíkir en geti verið nýttir í ólögmætum tilgangi. Á rannsóknarstigi málsins hafi staðan verið sú, en samkvæmt heimildum blaðsins hafi lögregla lagt hald á nokkra slíka hluti við rannsókn þess.   „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“   Stefndu vísi til rökstuðnings í tölulið 8 hér að framan.   „Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“   Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 5 og 9 að framan.   „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum ...“   Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 6 og 10 hér að framan.   „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“   Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 7 og 11 hér að framan.   „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“   Stefndu vísi til rökstuðnings í tölulið 12 hér að framan.   „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“   Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 8 og 13 hér að framan.   III.               Vísir 9. nóvember 2015, kl. 06:00, höfundur stefnda Nadine Guðrún Yaghi.   „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“   Stefndu vísi til rökstuðnings í tölulið 3 að framan.   „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“   Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 5 og 9 hér að framan.   „Grunur um byrlun ólyfjan“   Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 7 og 11 hér að framan.   „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum.“   Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 6 og 10 hér að framan.   „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“   Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 7, 11 og 21 að framan.   „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögreglan í íbúðinni ýmis tól og tæki sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“   Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 12 og 17 hér að framan.   „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“   Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 8, 13 og 18 hér að framan.   IV.                Fréttablaðið 11. nóvember 2015 (forsíða), höfundur stefnda Nadine Guðrún Yaghi.   „Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að íbúðin væri búin tækjum og tólum til ofbeldisiðkunar.“   Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 5, 9 og 14.   „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“   Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 7, 11 og 23 hér að framan.   V.                  Bylgjan, 5. nóvember 2015, fréttir kl 12:00, flytjandi stefndi Heimir Már Pétursson.   „Starfsmaður [...] sem grunaður er um aðild að hrottalegri nauðgun á konu í félagi við annan ...“                Stefndu vísi enn á ný til þess að málið hafi verið rannsakað sem meint brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga um nauðgun. Í fréttinni hafi ekkert verið fullyrt um að nauðgun hefði átt sér stað, heldur einungis að grunur léki á nauðgun. Eins og gefi að skilja sé þar um alls óskylda hluti að ræða. Annar hinna grunuðu hafi verið starfsmaður [...], en stefndi Heimir Már hafi fengið staðfest í samtölum við starfsmann [...] að starfsmaður þess hefði látið af störfum tímabundið vegna málsins. Það hafi verið fréttnæmt og ekki rangt að neinu leyti.   „... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og beitt hana kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.“                Þetta hafi verið staðreynd málsins og hafi kæra kvennanna tveggja lotið að þessu. Málið hafi verið rannsakað út frá þessum sakargiftum og um fullkomlega eðlilega fréttamennsku hafi því verið að ræða.   VI.                Fréttablaðið 6. nóvember 2015, bls. 8, höfundar stefndu Heimir Már Pétursson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson.   „... en í fyrra tilfellinu var annarri þeirra nauðgað af bekkjabróður hennar en seinni konunni var nauðgað af báðum mönnunum í heimahúsi í Hlíðunum.“                Fyrir mistök hafi fyrirvarar við þessa setningu í fréttinni fallið niður og harmi stefndu það. Aftur á móti sé um að ræða ónákvæmni sökum mistaka sem að mati stefndu geti ekki leitt til þess að ummælin verði dæmd dauð og ómerk, eins og krafist sé. Þá byggi stefndu á því að stefndi Heimir Már hafi ekki verið höfundur fréttarinnar, heldur einungis stefndi, Stefán Rafn. Ástæðan fyrir því að fangamark stefnda Heimis sé við fréttina sé að vinnulag innan 365 miðla ehf. sé með þeim hætti að þegar fréttamenn vinni smáfrétt í Fréttablaðið, sem að hluta til byggi á annarri frétt, í þessu tilfelli frétt sem stefndi, Heimir Már, hafi flutt í útvarpi, sé hún merkt bæði þeim sem skrifi fréttina og þeim sem hafi skrifað þá frétt sem hluti hennar sé fenginn úr. Stefndi Stefán Rafn, hafi alfarið skrifað þessa frétt í Fréttablaðinu, fyrir utan að hann vísi í setningu í frétt á Bylgjunni daginn áður, þar sem þess sé getið að annar stefnenda hafi samkvæmt heimildum verið látinn hætta tímabundið störfum á [...]. Það skýri af hverju stafir beggja stefndu, Stefáns Rafns og Heimis Más, séu undir henni.              Eins og fram komi í fréttinni hafi verið settir fyrirvarar á öllum stöðum í henni, þar með talið í fyrirsögn, að framangreindri setningu undanskilinni, en það skýrist af mistökum sem beðist sé velvirðingar á. Sé litið til annarra fyrirvara í greininni sé ljóst að enginn ásetningur hafi staðið til þess að smána mannorð stefnenda en skoða verði greinina heildstætt hvað þetta varði.   VII.             Stöð 2, 9. nóvember 2015, fréttir kl. 18:30, flytjandi Þórhildur Þorkelsdóttir.   „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar sem lögregla gerði upptæk.“                Enn og aftur ítreki stefndu að þær upplýsingar sem legið hafi fyrir, hafi falið í sér að um hrottalegar kynferðislegar árásir væri að ræða og meðal annars hafi tæki og tól verið notuð. Því sé mótmælt að stefndu hafi sakað stefnendur um nauðganir. Staðreyndin sé hins vegar sú að stefnendur hafi verið kærðir fyrir nauðgun og af því verið fluttar fréttir, rétt eins og um slíkt tíðkist.   „Ég er stödd hérna í stigangi hússins í Hlíðunum þar sem tvær hrottafengnar nauðganir eiga að hafa átt sér stað í október síðastliðnum.“                Stefndu halda því fram að ekkert í þessum ummælum sé rangt. Stefnda, Þórhildur, hafi verið stödd í stigaganginum á heimili stefnandans B, en þar hafi meintar nauðganir átt að hafa gerst, eins og meðal annars sé viðurkennt í stefnu. Hins vegar hafi hvorki heimilisfang né nafn stefnanda verið tilgreint eða húsið verið auðkennanlegt út frá stigaganginum. Fréttir hafi verið fluttar af meintum vettvangi, rétt eins og almennt tíðkist um slíkan fréttaflutning og tekið fram að nauðganirnar hafi átt að eiga sér stað á þessum stað. Engin sakfelling hafi þannig falist í þeim orðum af hálfu stefndu, eins og ranglega sé haldið fram í stefnu. Meðal gagna málsins séu fréttir, sem staðfesti að lögmaður annars stefnenda hafi deilt myndupptöku úr íbúðinni á samfélagsmiðlum. Í því ljósi verði ekki séð hvað sé athugavert við að hafa flutt frétt úr þessum stigangi, sem ekki hafi einu sinni verið staðsettur í fréttaflutningnum.              Þá hafi stefnda, Þórhildur, ekki staðsett húsið við [...] heldur í Hlíðunum. Aðrir fjölmiðlar hafi hins vegar staðsett það við [...]. Það hafi því ekkert verið nýtt í þessum fréttaflutningi. Fréttin sem hafi verið flutt úr stigaganginum hafi í raun ekki verið annað en endursögn á frétt Fréttablaðsins og vísað í hana, sbr. þessi ummæli: „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar sem lögregla gerði upptæk.“              Í stefnu sé vikið að því að um hafi verið að ræða brot á réttarreglum sem ætlað sé að vernda friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, sbr. 229. gr. almennra hegningarlaga, 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Stefnda, Þórhildur, hafni því að um friðhelgisbrot hafi verið að ræða, en veki samt athygli á því að engin krafa sé gerð af því tilefni. Í stefnu sé einungis gerð krafa um að þessi ummæli verði dæmd dauð og ómerk en engin forsenda sé fyrir því þar sem þau séu rétt. Verði talið að brot á friðhelgi hafi verið framið geti það ekki haft neinar afleiðingar fyrir þetta dómsmál, eins og stefnendur byggi það upp, enda engin krafa gerð þar um.              Stefndu hafni því öll sem einn að þau hafi farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar í fréttaflutningi sínum. Þau hafi ekki sakfellt stefnendur opinberlega fyrir þá háttsemi sem rannsóknin gegn þeim hafi beinst að. Fyrirvari hafi verið gerður við allar fréttirnar þótt mistök hafi verið gerð eða ónákvæmni gætt vegna ummælanna í kröfulið nr. 30. Dómafordæmi leiði hins vegar til þess að smávegis ónákvæmni eigi ekki að leiða til ómerkingar ummæla.              Þá byggist öll ummælin á staðreyndum frá þeim tíma sem atvik hafi gerst. Þótt rannsókn lögreglu hafi ekki leitt til útgáfu ákæru sé ekkert sem banni fjölmiðlum að flytja fréttir af rannsóknum sakamála. Stefndu hafni því að ummælin hafi verið höfð gegn betri vitund þeirra. Þvert á móti hafi þau verið sett fram í góðri trú, en dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu hnígi í þá átt að ekki séu skilyrði til að dæma ummæli ómerk, hafi svo verið. Ekki hafi því verið um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða sem hafi falið í sér brot gegn 235. gr. og 1. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga, þannig að skilyrði séu til að ómerkja þau með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Með vísan til þess mótmæli stefndu því að greind ummæli hafi falið í sér brot á ákvæðum 234. eða 235. gr. almennra hegningarlaga þar sem þau séu sönn. Réttargæslustefndi hafi ekki látið málið sérstaklega til sín taka að öðru leyti en því að hann taki undir öll sjónarmið stefndu sem haldið sé fram í málinu.              Þá byggi stefndu sýknukröfur sínar af miskabótakröfum stefnenda á þeim röksemdum sem að framan hafi verið raktar. Krafist sé sýknu af ómerkingarkröfunum en gangi sú krafa eftir leiði hún til þess að skilyrði miskabóta séu ekki fyrir hendi.              Verði ómerkingarkröfurnar teknar til greina, þvert gegn væntingum stefndu, hvort sem sé í heild eða að hluta sé kröfum um miskabætur mótmælt sem allt of háum og án nokkurra tengsla við dæmdar miskabætur í sambærilegum málum hér á landi. Þá mótmæli stefndu því að brotin hafi verið framin af ásetningi þótt niðurstaða dómsins yrði sú að taka ómerkingarkröfu til greina. Stefndu krefjast þess að miskabætur verði ekki dæmdar, en til vara að þær verði lækkaðar verulega frá dómkröfum. Í þessu efni verði að hafa í huga að æra stefnenda og virðing hafi ekki beðið hnekki vegna fréttaflutnings stefndu, heldur vegna þess að kæra hafi verið lögð fram gagnvart þeim fyrir alvarlegan glæp, hvort sem fótur hafi verið fyrir henni eða ekki. Stefndu hafi ekki birt nöfn stefnenda og geti því ekki með nokkru móti borið ábyrgð á því að einhverjir einstaklingar á samfélagsmiðlum hafi ákveðið að birta nöfn þeirra, hvorki með beinum né óbeinum hætti.              Stefndu mótmæli vaxtakröfu og byggi á því að ekki sé tilefni til að dæma vexti fyrr en í fyrsta lagi frá dómsuppsögu.              Hvað kröfu stefnenda um birtingu dómsins varði geri stefndu ekki athugasemd við að niðurstaða dómsins verði birt í miðlum réttargæslustefnda. Ekki verði hins vegar séð að lagaskilyrði séu til þess að dæma hvar í fjölmiðlunum umfjöllunin eigi að birtast, eins og krafist sé í stefnu. Dómstólar geti ekki tekið að sér ritstjórnarvald yfir fjölmiðli.                                                                                               IV              Mál þetta snýst um ummæli sem fram komu í fréttaflutningi ýmissa ljósvakamiðla á vegum réttargæslustefnda, 365 miðla ehf., dagana 4.-11. nóvember 2015 af tveimur málum, sem kærð höfðu verið til lögreglu sem nauðgun fyrr um haustið og sögð voru hafa átt sér stað í Hlíðahverfi í Reykjavík. Eins og rakið hefur verið krefjast stefnendur ómerkingar 32 nánar tilgreindra ummæla sem látin voru falla bæði munnlega og skriflega í fréttum sem stefndu fluttu af lögreglurannsókn málanna en hin umstefndu ummæli komu nánar tiltekið fram í Fréttablaðinu, á vefmiðlinum visir.is, á útvarpsstöðinni Bylgjunni og í kvöldfréttum Stöðvar 2. Í dómkröfukafla í stefnu er ítrekað krafist ómerkingar sömu ummæla sem höfð eru eftir stefndu ýmist í ræðu eða riti á fyrrgreindum miðlum. Að endurtekningum slepptum er krafist ómerkingar á eftirfarandi 16 ummælum:              Ummæli á Bylgjunni, þann 5. nóvember 2015 í fréttum kl. 08:00, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi. 1.       „... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og eiturlyfjum.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 1 í stefnu. 2.       „Þá munu þeir hafa beitt konuna kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 2 í stefnu.              Ummæli á forsíðu Fréttablaðsins þann 9. nóvember 2015, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi. 3.       „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“. Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfuliðum 3 og 19 í stefnu. 4.       „Tveir karlar, grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, ganga lausir.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 4 í stefnu. 5.       „Samkvæmt heimildum [Frétta]blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfuliðum 5, 9, 14 og 20 í stefnu. 6.       „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað, í sömu íbúð, af báðum mönnunum ...“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfuliðum 6, 10, 15 og 22 í stefnu. 7.       „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfuliðum 7, 11, 16, 23 og 27 í stefnu. 8.       „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfuliðum 8, 13, 18 og 25 í stefnu.              Ummæli á Bylgjunni, 9. nóvember 2015 í fréttum kl. 08:00, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi. 9.       „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfuliðum 12, 17 og 24 í stefnu.              Ummæli í Vísi, 9. nóvember 2015, kl. 06.00, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi. 10.    „Grunur um byrlun ólyfjan.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 21 í stefnu.              Ummæli á forsíðu Fréttablaðsins 11. nóvember 2015, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi. 11.    „Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að íbúðin væri búin tækjum og tólum til ofbeldisiðkunar.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 26 í stefnu.              Ummæli á Bylgjunni, 5. nóvember 2015, fréttir kl. 12:00, flytjandi stefndi, Heimir Már Pétursson. 12.    „Starfsmaður [...] sem grunaður er um aðild að hrottalegri nauðgun á konu í félagi við annan ...“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 28 í stefnu. 13.    „... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og beitt hana kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 29 í stefnu.              Ummæli í Fréttablaðinu, 6. nóvember 2015, bls. 8, höfundar stefndu, Heimir Már Pétursson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson. 14.    „... en í fyrra tilfellinu var annari þeirra nauðgað af bekkjarbróður hennar en seinni konunni var nauðgað af báðum mönnum í heimahúsi í Hlíðunum.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 30 í stefnu.              Ummæli á Stöð 2, þann 9. nóvember 2015 í fréttum kl. 18:30, flytjandi stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir. 15.    „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar sem lögregla gerði upptæk.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 31 í stefnu. 16.    „Ég er stödd hérna í stigagangi hússins í Hlíðunum þar sem tvær hrottafengnar nauðganir eiga að hafa átt sér stað í október síðastliðnum.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 32 í stefnu.                Krafa stefnenda um ómerkingu er reist á 235. og 236. gr., sbr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá krefjast stefnendur einnig miskabóta vegna þess tjóns sem hin umstefndu ummæli hafi valdið þeim á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 26/1993. Enn fremur er byggt á því að með hluta hinna umstefndu ummæla hafi verið brotið gegn friðhelgi einkalífs annars stefnandans samkvæmt 229. gr. almennra hegningarlaga, 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Loks byggja stefnendur á því að stefndu beri ábyrgð á hinum umstefndu ummælum með vísan til 50.-51. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla. Af hálfu stefndu er krafist sýknu með vísan til tjáningarfrelsisákvæðis 73. gr. stjórnarskrárinnar, 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá árinu 1966, sbr. lög nr. 10/1979.              Í 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er kveðið á um að drótti maður að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða beri slíka aðdróttun út, þá varði það sektum eða fangelsi allt að einu ári. Í 1. mgr. 236. gr. sömu laga er mælt fyrir um að sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá varði það fangelsi allt að tveimur árum. Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að sé aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varði það sektum eða fangelsi allt að einu ári. Þá kemur fram í 1. mgr. 241. gr. laganna að óviðurkvæmileg ummæli megi dæma ómerk í meiðyrðamáli, krefjist sá sem misgert var við þess. Í b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 26/1993 er mælt fyrir um að heimilt sé að láta þann sem ábyrgð beri á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við.              Í 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Þá er mælt fyrir um það í 2. gr. að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en hann verði að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins má aðeins setja tjáningarfrelsi skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Þannig er ljóst að tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar verndar einhver mikilvægustu réttindi manna og brýnt að allar takmarkanir á því eigi sér skýra stoð í settum lögum og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur gengist undir. Verður XXV. kafli almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs skýrður með hliðsjón af þessu.              Fjölmiðlar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í lýðræðissamfélagi og ber skylda til að sinna upplýsingarétti gagnvart almenningi í þágu hinnar þjóðfélagslegu umræðu. Af þeim sökum verður að játa þeim ríkt svigrúm til tjáningar svo þeim sé kleift að gegna þessu hlutverki. Dómurinn tekur undir það sjónarmið stefndu að mikilvægt sé að flytja fréttir af rannsókn lögreglu í kynferðisbrotamálum eins og af rannsóknum annarra sakamála. Hins vegar er einnig til þess að líta að þrátt fyrir að óumdeilt megi telja að 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar um, að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar, sé ætlað að veita hinni þjóðfélagslegu umræðu hámarksvernd, ber einnig að líta til 3. mgr. sömu greinar um þær takmarkanir sem lög mega setja tjáningarfrelsinu og eiga sér meðal annars stoð í 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Þar sem andstæðir hagsmunir tjáningarfrelsis og einkalífsverndar mætast er mikilvægt að fjölmiðlar gæti hófs og ábyrgðar í fréttaflutningi sínum og gangi ekki lengra en nauðsyn ber til hverju sinni í því skyni að þjóna upplýsingahlutverki sínu gagnvart almenningi. Um þetta er vísað til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla þar sem mælt er fyrir um að fjölmiðlaveita skuli í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi. Hún skuli virða mannréttindi og jafnrétti og einnig friðhelgi einkalífs nema lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu og upplýsingaréttur almennings krefjist annars.              Í málinu liggur fyrir og er óumdeilt að tvær konur lögðu fram kærur til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á hendur stefnendum málsins haustið 2015 fyrir nauðgun. Jafnframt liggur fyrir að málin voru felld niður í febrúar árið eftir hjá embætti héraðssaksóknara með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem rannsóknargögn þóttu ekki sýna fram á að það sem fram væri komið í málunum væri nægilegt eða líklegt til sakfellis. Eins og að framan greinir var mikið fjallað um málið í ljósvakamiðlum réttargæslustefnda fyrri hluta nóvembermánaðar 2015. Í kjölfar umfjöllunarinnar var boðað til mótmæla fyrir framan lögreglustöðina á Hverfisgötu þann 9. nóvember sama ár, meðal annars til að mótmæla því að ekki hefði verið farið fram á gæsluvarðhald yfir stefnendum vegna ætlaðra brota þeirra.              Stefnendur gáfu aðilaskýrslur fyrir dómi við aðalmeðferð málsins og kváðust báðir hafa átt erfitt með að fóta sig eftir þá umfjöllun sem mál þeirra hlaut í fjölmiðlum. Stefnandinn B bar fyrir dómi að til hefði staðið að hann og stefnandinn A færu til Noregs í nóvember 2015 til að heimsækja móður hins síðarnefnda sem þar er búsett. Þeir hefðu flýtt för þangað að ráðleggingu lögreglumanns og farið út mánudaginn 9. nóvember. Stefnandinn kveðst fyrst hafa snúið aftur hingað til lands fyrir tæpu ári þar sem hann hefði ekki talið sér vært hér á landi. Það geri hann ekki enn, enda ætlaði hann aftur út hið fyrsta. Hann hafi verið í vinnu sem innkaupastjóri fyrir [...] á þeim tíma er málið komst í hámæli en hafi ekki verið í vinnu síðan þá. Stefnandinn hafi sjálfur látið [...] vita af því að málið væri í fjölmiðlum og fengið leyfi frá störfum í kjölfar þess. Hann hafi verið í sjúkraleyfi síðan og treysti sér ekki til að sækja um vinnu þar sem nafn hans sé spyrt við málið sé því flett upp á netinu. Þá kvaðst stefnandinn hafa einangrað sig, sætt hótunum og vilji helst ekki hafa samskipti við fólk í kjölfar málsins. Hann hafi enn ekki komið í íbúðina að [...] sökum ónæðis sem hann varð fyrir þar, eftir að hann fór til Noregs. Spurður um þá muni sem haldlagðir voru á heimili hans kvað stefnandinn að meðal þeirra hefðu verið hestasvipa sem hann erfði frá afa sínum, keðjur af boxpúða, síminn hans og tölva.              Stefnandinn A bar fyrir dómi að rétt væri að rannsókn hefði staðið yfir hjá lögreglu vegna málanna en hún hefði alls ekki verið með þeim hætti sem fjölmiðlar greindu frá. Hann hefði hætt í skólanum þegar málið komst í fjölmiðla og verið í nokkrum störfum hér á landi síðan en þurft að hætta í þeim, þar sem hann ætti erfitt með að umgangast Íslendinga. Hann hefði búið hjá ættingjum á þessum tíma og ekki komist í sitt eigið húsnæði. Stefnandinn kvaðst hafa flutt til Noregs fyrir nokkrum vikum í því skyni að vinna, enda væri hann skuldugur eftir þessa atburði, þar sem hann hefði þurft að lifa á lánum frá fjölskyldu sinni síðan þeir áttu sér stað. Stefnandinn kvaðst nú vera kominn með vinnu úti í [...]. Ástæðu þess að stefnandi hefði farið út í nóvember 2015 kvað hann vera þá að hann hefði verið búinn að ákveða að fara út til að hitta móður sína og bróður um það leyti sem hann ætti afmæli sem væri [...] nóvember. Hann hefði boðið stefnandanum B að koma með og þeir ætlað í helgarferð. Þeir hefðu hins vegar flýtt ferðinni og stefnandi ekki komið aftur heim fyrr en um jólin. Ástæðu þess að hann hefði komið aftur hingað til lands kvað stefnandi meðal annars hafa verið þá að hann ætti hér ungt barn sem hann hefði ekki viljað yfirgefa. Eftir fjölmiðlaumfjöllun um málið hefði hann ekki treyst sér til að sækja barn sitt á leikskólann og þurft að láta sækja það fyrir sig. Aðspurður hvers vegna stefnendur hefðu flýtt för sinni til Noregs kvað stefnandi ástæðuna hafa verið þá að fregnir af málinu hefðu verið byrjaðar að birtast og þeir þá haft samband við lögregluna. Stefnendur hefðu spurt hvort þeim væri heimilt að fara af landi brott og beðið um það leyfi, enda væru mál á hendur þeim til rannsóknar hjá lögreglu. Stefnandinn bar að lögreglan hefði heimilað það og hvatt þá til að flýta för sinni. Þá bar stefnandinn að hann hefði átt erfitt uppdráttar persónulega í kjölfar málanna og verið til meðferðar hjá sálfræðingi.              Stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, kvaðst, í skýrslu fyrir dóminum, vera höfundur allra þeirra ummæla sem krafist væri ómerkingar á í kröfuliðum 1-27 í stefnu fyrir utan að hún hefði ekki samið fyrirsögnina „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“ sem birtist í Fréttablaðinu 9. nóvember 2015 og krafist er ómerkingar á í kröfulið 3 og 19 í dómkröfukafla. Í framburði stefndu kom meðal annars fram að hún hefði haft áreiðanlegar heimildir fyrir málsatvikum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hún hefði ekki haft lögregluskýrslur í málunum undir höndum en hefði þó komist í tæri við hluta lögregluskýrslu. Stefnda kvaðst ekki geta útskýrt nánar hvernig það bar að garði án þess að ljóstra upp um heimildarmann sinn í leiðinni. Þá kom fram í máli stefndu að hún hefði reynt að hafa samband við stefnendur símleiðis til að fá fram þeirra sjónarmið en ekki náð sambandi.              Við úrlausn á því hvort stefndu hafi með ummælum sínum vegið að mannorði stefnenda með ólögmætum hætti með því að birta og dreifa ærumeiðandi ummælum verður að líta til þess á hvaða hátt hin umdeildu ummæli voru sett fram, hvað fyrir liggur um sannleiksgildi þeirra og hvaða gildi þau höfðu fyrir opinbera umræðu. Þá þykir ljóst að öll hin umstefndu ummæli fólu í sér staðhæfingar um staðreyndir en ekki gildisdóma. Verður nú fjallað sérstaklega um hver hinna umstefndu ummæla, sbr. liði 1-16 eins og þeir eru tilgreindir hér að framan.              Ummæli í lið 1 „... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og eiturlyfjum“, lið 2 „Þá munu þeir hafa beitt konuna kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi“, lið 6 „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað, í sömu íbúð, af báðum mönnunum“, lið 7 „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana“ og lið 10 „Grunur um byrlun ólyfjan“ eru öll eignuð stefndu, Nadine Guðrúnu Yaghi, og hefur hún gengist við því að vera höfundur þeirra. Ummæli í lið 13 „... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og beitt hana kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi“ eru eignuð stefnda, Heimi Má Péturssyni, en hann lét þau falla í hádegisfréttum Bylgjunnar þann 5. nóvember 2015. Þau ummæli eru nokkurn veginn samhljóða ummælum í liðum 1 og 2 og eru eins konar samsetning úr þeim.              Að mati dómsins er með öllum framangreindum ummælum í liðum 1, 2, 6, 7, 10 og 13 ekki farið út fyrir það svigrúm sem 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar veitir til tjáningar, enda eru fyrirvarar hafðir á í öllum tilvikum með því að vísa til gruns, meintra gerenda o.s.frv. Í málinu liggur einnig fyrir og er óumdeilt að stefnendur voru kærðir til lögreglu fyrir ætluð brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um nauðgun, en samkvæmt verknaðarlýsingu ákvæðisins gerist hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung sekur um nauðgun. Rannsókn málanna var síðar hætt og málin felld niður hjá lögreglu eins og rakið hefur verið. Fyrir dómi kom fram hjá stefnendum að í kærum kvennanna tveggja til lögreglu hefði þeim jafnframt verið gefið að sök að hafa byrlað þeim eiturlyf og ólyfjan. Ágreiningslaust er því í málinu að það var hluti af kæruefni til lögreglu. Þar sem nægilega þykir sýnt fram á að mati dómsins að framangreind ummæli í fréttum stefndu hafi átt við rök að styðjast verður ekki fallist á ómerkingarkröfu stefnenda hvað þau varðar. Hvað lið 6 varðar sérstaklega þá liggur fyrir í gögnum málsins að um tvær kærur var að ræða vegna tveggja atvika sem áttu sér stað með u.þ.b. mánaðar millibili. Þrátt fyrir að þannig sé ekki rétt með farið að níu dagar hafi liðið á milli atvikanna þykir sú ónákvæmni ekki leiða ein og sér til þess að ómerkja beri ummælin.              Hvað varðar svohljóðandi lið 3: „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“, sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins 9. nóvember 2015, og eignuð eru stefndu, Nadine Guðrúnu Yaghi, vísa stefndu til þess að málið hafi verið rannsakað hjá lögreglu með hliðsjón af því að um hrottafengnar nauðganir væri að ræða þar sem tækjum og tólum hefði verið beitt. Fyrirsögnin hefði því verið í samræmi við þann raunveruleika sem hafi legið fyrir í málinu. Á þetta getur dómurinn ekki fallist. Í málinu liggur fyrir að þáverandi aðallögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu lýsti því í viðtali að það væri rangt að íbúðin hefði verið „sérútbúin“ til nauðgana, eins og hún komst að orði. Þykir í þessu samhengi ekki vera ástæða til þess að gera sérstakan greinarmun á orðunum „sérútbúin“ og „útbúin“.              Stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, hefur jafnframt mótmælt því að vera höfundur hinnar umstefndu fyrirsagnar heldur hafi annar starfsmaður Fréttablaðsins samið hana. Að öðru leyti gengst stefnda við texta þeirrar fréttar sem fyrirsögninni fylgdi. Óli Kr. Ármannsson sem var vaktstjóri eða svokallaður „lokari“ í umrætt skipti greindi frá því fyrir dóminum að hann hafi samið fyrirsögnina sem lið í lokafrágangi blaðsins. Þegar fréttin er lesin í heild sinni þykir fyrirsögnin vera í það nánum tengslum við efni hennar að óhjákvæmilegt sé að líta á hana sem órjúfanlegan hluta fréttarinnar. Þar sem fréttin er merkt stefndu, Nadine Guðrúnu Yaghi, ber hún því ábyrgð á fyrirsögninni samkvæmt a-lið 1. mgr. 51. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011, jafnvel þótt annar starfsmaður blaðsins hafi samið hana. Málsástæðu stefndu um að henni sé ekki réttilega stefnt vegna þeirra ummæla sem fyrirsögnin fól í sér er því hafnað.              Þá þykir efni fyrirsagnarinnar jafnframt fela í sér fullyrðingu um að stefnendur hafi gerst sekir um alvarlegt refsivert athæfi sem brjóti í bága við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, jafnvel ítrekað, þrátt fyrir að málið hefði ekki verið fullrannsakað hjá lögreglu þegar fréttin birtist og þannig ekkert legið fyrir með vissu um þær alvarlegu sakir sem stefnendum voru bornar á brýn. Enn fremur þykir fyrirsögnin að mati dómsins hafa verið sett fram með ósmekklegum hætti í því skyni að ná fram sem sterkustum viðbrögðum hjá lesendum blaðsins. Var sú framsetning ekki nauðsynlegur þáttur í fréttaflutningi af málinu. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið þykja ummælin sem fyrirsögnin innihélt fela í sér aðdróttun gagnvart stefnendum samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga. Ber því að ómerkja hana, sbr. 241. gr. sömu laga.              Hvað varðar ummælin í lið 4 „Tveir karlar, grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, ganga lausir“ sem stefnda, Nadine Guðrún Yaghi er höfundur að, þá liggur fyrir í málinu að lögregla fór ekki fram á gæsluvarðhald yfir stefnendum og gengu þeir þar af leiðandi lausir. Þrátt fyrir að sterkt sé tekið til orða um að ætluð brot stefnenda hafi verið hrottaleg þykir stefnda ekki hafa farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar með þessum ummælum, enda fyrirvari sleginn um að stefnendur hafi framið þau. Verður því ekki fallist á kröfu um ómerkingu þeirra.              Verður þá næst vikið að ummælum í lið 5 „Samkvæmt heimildum [Frétta]blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka“ sem stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, er höfundur að og birtust í Fréttablaðinu 9. nóvember 2015 og ummælum í lið 15 „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka, sem lögregla gerði upptæk“ sem stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttur, lét falla í sjónvarpsfréttatíma um kvöldið sama dag. Með ummælum þessum, sem eru nánast samhljóða, þykir að mati dómsins hafa verið farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar með því að fullyrða án nokkurra fyrirvara að árásirnar hafi verið hrottalegar og sterklega gefið í skyn að þeir munir, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málanna, hafi verið notaðir eða séu vel til þess fallnir að fremja ofbeldisverk. Stefnda, Nadine Guðrún, bar fyrir dómi að hún hefði þær upplýsingar sem hún byggði fréttirnar á frá fleiri en einum mjög áreiðanlegum heimildarmanni. Þá hefði hún einnig komist í tæri við hluta lögregluskýrslu í málinu og byggt fréttirnar á henni. Að öðru leyti liggja ekki fyrir í málinu nein gögn sem styðja framangreindar fullyrðingar stefndu. Fyrir liggur að við rannsókn lögreglu var lagt hald á svipu og keðjur af boxpúða í eigu stefnandans B. Engin tæki voru gerð upptæk. Líta verður til þess að þegar stefndu annars vegar rituðu og hins vegar fluttu fréttir sem innihalda hin umstefndu ummæli stóð rannsókn lögreglu á ætluðum brotum stefnenda enn yfir. Var því ótímabært og óvarlegt að setja ummælin fram með þeim hætti sem gert var. Þrátt fyrir að ekki sé sagt berum orðum að stefnendur hafi notað þá muni sem lögregla haldlagði til að fremja ofbeldisverk þá þykir með hinum umstefndu ummælum nægilega gefið í skyn að þeir hafi notað þá í því skyni. Þykja framangreind ummæli af þeim sökum fela í sér ærumeiðandi aðdróttun um refsiverða háttsemi stefnenda samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og verður því fallist á ómerkingu þeirra, sbr. 241. gr. sömu laga.              Með sömu rökum verður fallist á ómerkingu ummæla í lið 11 „Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að íbúðin væri búin tækjum og tólum til ofbeldisiðkunar“ sem stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, skrifaði í Fréttablaðið þann 11. nóvember 2015 þar sem vitnað er beint í hin umstefndu ummæli í lið 5 sem hún skrifaði í frétt blaðsins tveimur dögum fyrr.              Verður þá næst vikið að ummælum í lið 8 „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana“ sem stefnda Nadine Guðrún Yaghi lét falla í skrifum sínum í Fréttablaðið þann 9. nóvember 2015. Hvað sannleiksgildi þeirrar fullyrðingar varðar um að hankar hafi verið í lofti íbúðar stefnandans B þykir það að mati dómsins ekki liggja ljóst fyrir hvort svo hafi verið í reynd. Sú fullyrðing stefndu að hankar hafi verið í loftinu telst því ósönnuð. Þrátt fyrir að stefnda slái ákveðinn fyrirvara með ummælunum þykir að mati dómsins með þeim vegið að æru stefnenda á ólögmætan hátt með því að gefa sterklega til kynna að þeir hafi gerst sekir um mjög gróft ofbeldi og þar með refsiverða háttsemi, sem ekkert liggur fyrir um að hafi átt sér stað og hvað þá með þeim hætti sem lýst er í hinum umstefndu ummælum. Eins og fyrr greinir voru ætluð brot stefnenda hjá lögreglu ekki fullrannsökuð þegar fréttin var skrifuð og þannig óvarlegt að setja þau fram með þessum hætti. Í ljósi þessa þykir stefnda þannig hafa farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar með framangreindum ummælum og verða þau því dæmd ómerk samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 241. gr. sömu laga.              Verða þá næst tekin til skoðunar ummælin í lið 9 „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur“. Í málinu liggur fyrir og er ágreiningslaust að lögregla lagði hald á ákveðna muni í eigu stefnandans B við húsleit sem gerð var á heimili hans við rannsókn málanna. Meðal þeirra muna voru reiðsvipa og keðjur af boxpúða. Ekkert liggur þó fyrir í málinu um að reipi hafi verið haldlagt. Þá staðfesta gögn málsins að stefnendur voru kærðir til lögreglu fyrir nauðgun. Í ljósi þess að með hinum umstefndu ummælum er lýst atriðum sem eru í meginatriðum óumdeild og fyrirvari sleginn um ætlaða notkun hinna haldlögðu muna af hálfu stefnenda, þykir stefnda ekki með þeim hafa farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki verður því fallist á kröfu ómerkingu þeirra.              Ummæli í lið 12 „Starfsmaður [...] sem grunaður er um aðild að hrottalegri nauðgun á konu í félagi við annan ...“ eru eignuð stefnda, Heimi Má Péturssyni, en hann lét þau falla í hádegisfréttum Bylgjunnar þann 5. nóvember 2015. Í málinu er ágreiningslaust að stefnandinn B starfaði hjá [...] á þessum tíma og að kæra fyrir nauðgun á hendur honum og stefnandanum A var lögð fram hjá lögreglu. Þrátt fyrir að fært sé í stílinn með því að fullyrða að nauðgunin hafi verið hrottaleg þykir með þessari fullyrðingu, sem að öðru leyti er sönn, ekki hafa verið farið út fyrir mörk heimillar tjáningar, sbr. 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Verður þannig ekki fallist á ómerkingu þeirra.              Vegna ummæla stefndu, Þórhildar Þorkelsdóttur, í lið 16, sem hún lét falla í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 þann 9. nóvember 2015 „Ég er stödd hérna í stigagangi hússins í Hlíðunum þar sem tvær hrottafengnar nauðganir eiga að hafa átt sér stað í október síðastliðnum“ þá verður jafnframt sýknað af ómerkingarkröfu vegna þeirra með sama rökstuðningi og á við um ummæli í lið 12. Stefnda var stödd á heimili stefnandans B, sem staðsett er í þessu tiltekna hverfi í Reykjavík þegar fréttin var flutt og fyrirvarar voru gerðir um hinn ætlaða verknað.              Hins vegar verður fallist á það með stefnendum að með því að fara inn á stigagang á heimili stefnandans B og flytja þaðan fréttir af ætluðum brotavettvangi, án þess að rannsókn málanna væri lokið hjá lögreglu og því ekkert ljóst á því stigi málsins hvort grundvöllur væri til útgáfu ákæru, hafi hún rofið friðhelgi einkalífs hans sem varið er með 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þrátt fyrir að játa verði fjölmiðlum ríkt svigrúm til að flytja fréttir og að þær séu iðulega fluttar af vettvangi sakamála þykir stefnda með þessu hátterni hafa gengið of nærri einkalífi hans og ekki gætt hófs í fréttaflutningi sínum. Þá verður ekki séð að slíkur fréttaflutningur hafi eins og sakir stóðu verið nauðsynlegur þáttur í því að sinna upplýsingaskyldu gagnvart almenningi og geti vart talist hefðbundinn þegar rannsókn kynferðisbrotamála er annars vegar.              Hvað ummæli í lið nr. 14 snertir „... en í fyrra tilfellinu var annarri þeirra nauðgað af bekkjarbróður hennar en seinni konunni var nauðgað af báðum mönnunum í heimahúsi í Hlíðunum“ þá eru stefndu, Stefáni Rafni Sigurbjörnssyni og Heimi Má Péturssyni, eignuð þau í sameiningu, þar sem frétt sem birtist í Fréttablaðinu 10. nóvember 2015 og innihélt hin umstefndu ummæli er merkt fangamarki þeirra beggja. Fyrir dómi bar stefndi, Heimir Már, að hann hefði ekki skrifað fréttina og bæri því ekki ábyrgð á henni. Eina ástæða þess að fréttin væri merkt honum væri sú að Fréttablaðið nýtti sér stundum fréttir sem fluttar hefðu verið áður á Vísi eða á Bylgjunni sem viðbót við fréttir sem skrifaðar væru í Fréttablaðið. Skýring þess að fangmark hans væri að finna við fréttina væri þannig tenging við frétt sem hann hefði flutt um málið í útvarpi daginn áður. Stefndi kvaðst þó aðspurður ekki hafa gert athugasemd við að fréttin væri merkt honum. Stefndi, Stefán Rafn, bar fyrir dómi að hann hefði skrifað fyrrgreinda frétt og enginn annar hefði komið að ritun hennar. Skýring þess að fréttin væri einnig merkt fangamarki stefnda, Heimis Más, væri sú að samkvæmt vinnureglum réttargæslustefnda, 365 miðla ehf. væru fréttir, sem alfarið byggðu á fréttaflutningi annarra, í til dæmis útvarpi eða sjónvarpi, einnig merktar viðkomandi eins og hér væri tilfellið. Hvað skort á fyrirvörum í fréttinni varðaði bar stefndi, Stefán Rafn, fyrir sig að hann teldi sig hafa sett næga fyrirvara við ritun fréttarinnar almennt.              Samkvæmt meginreglu a-liðar 1. mgr. 51. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011 ber einstaklingur ábyrgð á því efni sem hann ritar í eigin nafni eða merkir sér með augljósum hætti. Ljóst er því að stefndi, Stefán Rafn, sem skrifaði fréttina, ber á henni ábyrgð. Þá þykir stefndi, Heimir Már, jafnframt bera ábyrgð á fréttinni í samræmi við framangreinda meginreglu þar sem hún er einnig merkt honum en stefndi gerði ekki neinar athugasemdir við það. Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að fyrirvarar við hin umstefndu ummæli hafi fallið út vegna mistaka við vinnslu fréttarinnar og að nægir fyrirvarar hafi verið gerðir annars staðar í fréttinni. Líta yrði heildstætt á fréttina hvað það varðaði. Þrátt fyrir að mistök kunni að hafa verið gerð við vinnslu fréttarinnar þykja framangreind ummæli í lið 14 að mati dómsins fela í sér aðdróttun gagnvart stefnendum, en með þeim er fullyrt að þeir hafi gerst sekir um alvarlega refsiverða háttsemi, án þess að tekið sé tillit til þess að rannsókn málsins stóð enn yfir hjá lögreglu og var ekki til lykta leidd. Í ljósi málaloka hjá lögreglu þykir því ekki vera efni til annars en að verða við ómerkingarkröfu stefnenda hvað þessi ummæli varðar, sbr. 235. gr. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.          Að mati dómsins þykja stefnendur eiga rétt á miskabótum samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 úr hendi allra stefndu vegna hinna ærumeiðandi aðdróttana sem í hinum ómerktu ummælum felast. Þá þykir stefnandi B jafnframt eiga rétt til miskabóta úr hendi stefndu Þórhildar vegna brots gegn friðhelgi einkalífs hans. Við ákvörðun fjárhæðar bótanna er óhjákvæmilegt að líta til þess þunga sem var í fjölmiðlaumfjöllun réttargæslustefnda þar sem stefnendur voru ítrekað bornir þungum sökum, en yfir 30 fréttir voru fluttar af málinu á rúmlega viku. Þá þykir jafnframt sýnt fram á að umfjöllun stefndu hefur haft víðtæk áhrif á stefnendur en í framburði þeirra fyrir dómi kom fram að þeir hefðu hrökklast af landi brott í kjölfarið og flosnað bæði upp úr vinnu og námi. Þrátt fyrir að stefnendur hafi aldrei verið nafngreindir í framangreindri umfjöllun þykja stefndu með framsetningu þeirra ummæla, sem fallist hefur verið á að ómerkja, hvorki hafa sýnt nægjanlega hófsemi né þá ábyrgð sem þeim var skylt og þannig ekki uppfyllt þær kröfur sem gera má til þeirra um vandaðan og hlutlausan fréttaflutning. Þá verður ekki séð að lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu eða upplýsingaréttur almennings hafi krafist þessarar framsetningar þrátt fyrir mikilvægi þess að fjalla almennt um rannsókn sakamála, þ.m.t. kynferðisafbrota, í fjölmiðlum. Að mati dómsins gengu stefndu því með umfjöllun sinni of nærri stefnendum og virtu þannig ekki friðhelgi einkalífs þeirra eins og áskilið er í 26. gr. laga nr. 38/2001 um fjölmiðla, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Með hliðsjón af öllu framangreindu þykja miskabætur til stefnenda hæfilega ákveðnar þannig að stefnda, Nadine Guðrún, greiði hvorum stefnanda um sig, 700.000 krónur, stefndi, Heimir Már, greiði hvorum stefnanda um sig, 50.000 krónur, stefndi, Stefán Rafn, greiði hvorum stefnanda um sig, 50.000 krónur, og stefnda, Þórhildur, greiði stefnanda A, 100.000 krónur, en stefnanda B 200.000 krónur, allt með nánar tilgreindum vöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði.              Stefnendur krefjast þess að lokum að dómur þessi verður birtur samkvæmt 59. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011 í viðkomandi fjölmiðlum. Stefndu mótmæla kröfunni ekki sérstaklega en telja ekki lagaskilyrði til þess að kveða á um hvar í viðkomandi fjölmiðlum umfjöllunin eigi að birtast. Samkvæmt framangreindu ákvæði fjölmiðlalaga má ákveða, að viðlögðum dagsektum, eftir kröfu þess sem misgert er við, að forsendur og dómsorð skuli birt þegar um ritmiðil er að ræða eða grein gerð fyrir þeim í dagskrá þegar um hljóð- eða myndmiðil er að ræða. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal, þegar um ritmiðil er að ræða birta dómshlutann með sama hætti og annað efni viðkomandi miðils og á þeim stað að eftir verði tekið og þegar um hljóð- eða myndmiðil er að ræða skal grein gerð fyrir honum á þeim tíma þegar hlustun eða áhorf er mest. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu stefnenda um birtingu að því undanskildu að ekki verður kveðið sérstaklega á um hvernig birtingunni skuli háttað, heldur fer um hana samkvæmt lögum.              Stefndu greiði stefnanda óskipt málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 900.000 krónur.              Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.                                                                               D Ó M S O R Ð :          Eftirfarandi ummæli skulu vera dauð og ómerk:          Ummæli í kröfuliðum 3 og 19 í stefnu „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“.               Ummæli í kröfuliðum 5, 9, 14 og 20 í stefnu „Samkvæmt heimildum [Frétta]blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka“.          Ummæli í kröfuliðum 8, 13, 18 og 25 í stefnu „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana“.          Ummæli í kröfulið 26 í stefnu „Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að íbúðin væri búin tækjum og tólum til ofbeldisiðkunar“.          Ummæli í kröfulið 30 í stefnu „... en í fyrra tilfellinu var annarri þeirra nauðgað af bekkjarbróður hennar en seinni konunni var nauðgað af báðum mönnum í heimahúsi í Hlíðunum“.          Ummæli í kröfulið 31 í stefnu „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar, sem lögregla gerði upptæk“.          Að öðru leyti eru stefndu sýknuð af ómerkingarkröfum stefnenda.          Stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, greiði hvorum stefnanda um sig, A og B, 700.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. nóvember 2015 til 27. maí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.          Stefndi, Heimir Már Pétursson, greiði hvorum stefnanda um sig, 50.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. nóvember 2015 til 27. maí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.          Stefndi, Stefán Rafn Sigurbjörnsson, greiði hvorum stefnanda um sig, 50.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. nóvember 2015 til 27. maí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.          Stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir, greiði stefnanda, A, 100.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. nóvember 2015 til 27. maí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.          Stefnda, Þórhildur, greiði stefnanda, B, 200.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. nóvember 2015 til 27. maí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.          Birta skal forsendur og dómsorð dóms þessa eigi síðar en sjö dögum eftir dómsuppsögu í Fréttablaðinu og á vefsvæðinu www.visir.is og gera grein fyrir þeim í útvarpsfréttum Bylgjunnar og sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 að viðlögðum 50.000 króna dagsektum. Stefndu greiði óskipt stefnendum 900.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 792/2017
Kjarasamningur Túlkun samnings Laun
Ágreiningur aðila snérist um tengsl á milli kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Samtaka rafverktaka annars vegar og Rafiðnarsambands Íslands hins vegar og svonefnds fyrirtækjasamnings sem gerður var á grundvelli kjarasamningsins. R krafðist þess að eftir gildistöku kjarasamningsins ætti hann að fá greidd laun í samræmi við launataxta þess samnings. Í dómi Hæstaréttar kom fram að á því tímabili sem dómkrafa R tæki til hefði hann fengið greidd laun frá R ohf. eftir fyrirtækjasamningnum. Hefðu þau laun verið hærri en hæsti launataxti rafiðnaðarmanna án sveinsprófs samkvæmt kjarasamningi en R hefði borið þau laun eftir þeim samningi. Var því ekki fallist á það með R að laun hans hefðu verið lægri en lágmarkskjör eftir kjarasamningi þannig að fyrirtækjasamningurinn hefði farið í bága við 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var kröfu R hafnað.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.   Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. desember 2017 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 216.120 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. febrúar 2016 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður. Á því tímabili sem dómkrafa áfrýjanda tekur til fékk hann greidd laun frá stefnda eftir svonefndum fyrirtækjasamningi 1. apríl 2015 milli stefnda og þeirra starfsmanna hans sem áttu aðild að Rafiðnaðarsambandi Íslands, en sá samningur var gerður á grunni gildandi kjarasamnings. Þessi laun voru hærri en hæsti launataxti rafiðnaðarmanna án sveinsprófs samkvæmt kjarasamningi, en áfrýjanda hefði borið þau laun eftir þeim samningi. Verður því ekki fallist á það með áfrýjanda að laun hans hafi verið lægri en lágmarkskjör eftir kjarasamningi þannig að fyrirtækjasamningurinn hafi farið í bága við 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Rétt er að hvor málsaðili beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.    Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.       Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2017 Mál þetta, sem dómtekið var 2. október sl., er höfðað 9. mars sl. af Ragnari Guðmundi Gunnarssyni, Hnjúkaseli 15, Reykjavík gegn Ríkisútvarpinu ohf., Efstaleiti 1, Reykjavík. Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 216.120 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 15.437 krónum frá 1. febrúar 2016 til 1. mars 2016, af 30.874 krónum frá 1. mars 2016 til 1. apríl 2016, af 46.311 krónum frá 1. apríl 2016 til 1. maí 2016, af 61.749 krónum frá 1. maí 2016 til 1. júní 2016, af 77.186 krónum frá 1. júní 2016 til 1. júlí 2016, af 92.623 krónum frá 1. júlí 2016 til 1. ágúst 2016, af 108.060 krónum frá 1. ágúst 2016 til 1. september 2016, af 123.497 krónum frá 1. september 2016 til 1. október 2016, af 138.934 krónum frá 1. október 2016 til 1. nóvember 2016, af 154.371 krónu frá 1. nóvember 2016 til 1. desember 2016, af 169.809 krónum frá 1. desember 2016 til 1. janúar 2017, af 185.246 krónum frá 1. janúar 2017 til 1. febrúar 2017, af 200.683 krónum frá 1. febrúar 2017 til 1. mars 2017 og af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar. Stefndi krefst sýknu og greiðslu málskostnaðar.  I.                      Rafiðnaðarsamband Íslands hafði um skeið haft uppi kröfu um að gerður yrði sérkjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins f.h. Ríkisútvarpsins ohf. og Rafiðnaðarsambandsins vegna félagsmanna sambandsins sem starfa hjá stefnda. Samtök atvinnulífsins höfðu hafnað þessari kröfu. Þann 20. janúar 2015 vísaði Rafiðnaðarsambandið deilu félagsins við Samtök atvinnulífsins og stefnda um sérkjarasamning til ríkissáttasemjara. Haldnir voru 13 fundir um málið hjá ríkissáttasemjara. Á endanum var ákveðið að félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins, sem störfuðu hjá stefnda, og stefndi gengju frá 5. kafla samnings, eða svokölluðum fyrirtækjasamningi, þar sem tekið var á ýmsum þeim kröfum sem komið höfðu fram í viðræðum Rafiðnaðarsambandsins og Samtaka atvinnulífsins við samningaborð ríkis-sáttasemjara. Samningurinn var unninn af fulltrúum starfsmanna og stjórnendum stefnda og var undirritaður 15. apríl 2015, með gildistíma frá 1. sama mánaðar. Aðalkjarasamningur á milli Samtaka atvinnulífsins og Samtaka rafverktaka annars vegar og Rafiðnaðarsambands Íslands vegna aðildarfélaga hins vegar, var síðan undirritaður 22. júní 2015. Stefnandi er starfsmaður stefnda og félagi í Rafiðnaðarsambandi Íslands. Í málinu er ágreiningur um tengsl á milli ofangreinds aðalkjarasamnings og fyrirtækjasamningsins. Í fyrirtækjasamningi voru búnar til launatöflur fyrir starfsmenn. Til viðbótar áttu laun að hækka í samræmi við almennar launahækkanir samkvæmt aðalkjarasamningi. Stefnandi telur að reikna eigi laun stefnanda eftir launatöflum aðalkjarasamnings eftir að hann tók gildi. Því er stefndi ósammála. Telur hann að reikna eigi stefnanda laun eftir launatöflum í fyrirtækjasamningnum. Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu fyrir dóminum. Þá gáfu skýrslur vitni sem voru í samninganefndum um framangreindan fyrirtækjaþátt kjarasamningsins. II. Stefnandi byggir á því að við gerð fyrirtækjasamnings í apríl 2015 hafi verið búin til tenging á milli launataxta fyrirtækjasamnings og almenna kjarasamnings Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins/Samtaka rafverktaka og að sú tenging eigi að halda til framtíðar. Þó hafi launhækkun verið takmörkuð við 9,3% vorið 2015 í samræmi við bókun þess efnis. Stefnandi byggi á því að kjarasamningar kveði á um lágmarkskjör, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Krafa rafiðnarmanna hjá stefnda, áður en fyrirtækjasamningur hafi verið gerður, hafi verið sú að gerður yrði sérkjarasamningur milli Rafiðnaðarsambands Íslands og stefnda en deilur um þessi mál hafi staðið allt frá því að stefndi hafi verið gert að opinberu hlutafélagi árið 2007. Starfsmenn hafi áður verið á kjarasamningi Rafiðnaðarsambandsins og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs en eftir að stefndi færðist yfir á almennan markað hafi Samtök atvinnulífsins og stefndi talið að rafiðnaðarmenn hjá stefnda féllu undir almenna kjarasamninginn en starfsmenn talið þann kjarasamning ekki ná vel utan um störf sín. Fyrst og fremst hafi það verið vegna þess að störf tæknimanna hafi ekki verið skilgreind í almenna samningnum og lítið verið fjallað um vaktavinnu. Almenni samningurinn miði við að menn hafi sveinspróf, en tæknimenn hjá stefnda séu með fjölbreytta menntun og reynslu sem falli ekki endilega undir iðnnám sem ljúki með sveinsprófi. Í bókun við kjarasamningagerð árið 2013 hafi verið fjallað um að viðræður um sérstakan kjarasamning milli Rafiðnaðarsambandsins og stefnda færu fram. Í kröfugerð með almennum kjarasamningi árið 2015 hafi verið gerð krafa um að gerður yrði sérstakur kjarasamningur við starfsmenn stefnda. Eins og áður segi hafi ekki verið orðið við þeirri kröfu, en lagt upp með að gera fyrirtækjasamning byggðan á 5. kafla almenna kjarasamningsins í staðinn. Þegar þær viðræður hafi farið af stað hafi starfsmenn í samninganefnd lagt áherslu á þrjú atriði; að skilgreina vaktavinnu, að afmarka og skilgreina störf tæknimanna og að búa til tengingu í aðalkjarasamningi um launataxta. Viðræður hafi farið af stað og samningur verið undirritaður 15. apríl 2015. Fyrirtækjasamningurinn sé nokkuð viðamikill af fyrirtækjasamningi að vera og taki á ýmsum atriðum. Í fylgiskjali I séu störf tæknimanna og lágmarkslaun skilgreind. Þar segi: ,,Launatafla fyrir „Tæknimann I“ tekur mið af launaflokki í aðalkjarasamningi sem heitir „Rafiðnaðarmaður að loknu þriggja ára starfsnámi“, fyrir „Tæknimann II“ er tekið mið af launaflokki í aðalkjarasamningi sem heitir „Rafiðnaðarsveinn byrjunarlaun“ og fyrir „Tæknimann III“ er tekið mið af launaflokki sem heitir „Rafiðnaðarsveinn byrjunarlaun“ með 8,03% álagi.“ Launatölurnar sem séu í fyrirtækjasamningnum séu teknar úr kjarasamningi Rafiðnaðarsambandsins og Samtaka atvinnulífsins/Samtaka rafverktaka frá 2014. Síðan sé kveðið á um starfsaldurshækkanir tæknimanna II og III. Fyrirtækjasamningurinn hafi eins og áður segi verið undirritaður áður en almennur kjarasamningur hafi verið undirritaður. Stjórnendur stefnda hafi haft töluverðar áhyggjur af því að umtalsverðar launahækkanir yrðu í almennum kjarasamningi og myndu því tæknimenn hjá stefnda hækka umtalsvert í launum tvisvar það ár, fyrst vegna fyrirtækjasamningsins og svo vegna almennra launahækkana. Þess vegna hafi verið undirrituð bókun, sem sé á fylgiskjali II. Á þeim tíma þegar fyrirtækjasamningur hafi verið gerður hafi verið útlit fyrir að kjarasamningur yrði gerður til skamms tíma, eins og komi fram í kröfugerð Rafiðnaðarsambandsins vegna almenna kjarasamningsins frá apríl 2014. Bókunin hljóði svo: ,,RÚV tryggir að félagsmenn RSÍ sem starfa hjá RÚV fái þá almennu hækkun sem umsemst í kjarasamningi RSÍ og SA/SART til viðbótar við þá launatöflu sem nú er til grundvallar. Verði hækkun sem umsemst í aðalkjarasamningi á byrjunarlaunum rafiðnaðarsveins hærri en almenn hækkun mun RÚV tryggja heildarhækkun upp á 9,3% hækkun að hámarki.“ Þegar laun hafi hækkað 1. maí 2015 hafi stefnandi þannig fengið 9,3% hækkun á launum en ekki fylgt töxtum kjarasamnings eða almennum launahækkunum, svokallaðri launaþróunartryggingu sem fjallað sé um í grein 1.2.1 a. í kjarasamningi og í fylgiskjali með kjarasamningi. Stefnandi fylgi taxta tæknimanna III eftir 7 ár. Laun hans hafi, eftir gerð fyrirtækjasamnings 2015, verið 318.401 krónur. Eftir að almennur kjarasamningur hafi verið gerður hafi laun hans hækkað um 9,3% og verið eftir það 348.012 krónur. Eftir launahækkun 1. janúar 2016 hafi laun hans numið 369.589 krónum. Laun hans hafi átt að vera 362.548 krónur frá 1. maí 2015 og 385.026 krónur frá 1. janúar 2016. Krafan sé gerð fyrir tímabilið 1. janúar 2016 til 1. febrúar 2017 og sé það vegna þess að launahækkun 1. maí 2015 hafi takmarkast af bókun í fyrirtækjasamningi þótt taxtar samkvæmt kjarasamningi hafi hækkað umfram 9,3% á þeim tímapunkti. Stefnandi byggi á því að samið hafi verið um að laun tæknimanna I og II skyldu fylgja töxtum aðalkjarasamnings og laun tæknimanna III fylgja launum sveina í kjarasamningi með 8,03% álagi. Launin skyldu taka starfsaldurshækkunum eftir því sem nánar greini í fyrirtækjasamningi, eða 2% hækkun eftir 3 ár og 1,5% hækkun eftir 5 ár og 7 ár. Stefnandi telji að það leiði af orðalagi fylgiskjals I, þar sem segi að laun tilgreindra tæknimanna taki mið af tilteknum launaflokkum í aðalkjarasamningi. Stefnandi telji það einnig styrkja sinn málflutning að kröfur félagsmanna hans hafi verið að gera tengingu á milli fyrirtækjasamnings og aðalkjarasamnings. Þá veki athygli að laun hafi hækkað um 9,3% þann 1. maí 2015, en ef laun hefðu aðeins átt að taka almennum hækkunum hefðu þau átt að hækka samkvæmt launaþróunartryggingu, eða á bilinu 3,2-7,2%. Því telji stefnandi augljóst að taxtar tæknimanna hafi átt að fylgja töxtum aðalkjarasamnings. Orðalag í fylgiskjali I með fyrirtækjasamningi og Bókun I í fylgiskjali II bendi til þess. Krafa stefnanda sundurliðist á þann hátt að gerð sé krafa um 15.437 krónur vegna launamunar í janúar 2016 til febrúar 2017 eða í 14 mánuði, sem nemi samtals 216.120 krónum. Stefnandi byggir á meginreglu um skuldbindingagildi samninga og skuldbindingagildi kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins og að kjarasamningar kveði á um lágmarkskjör, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 og 7. gr. laga nr. 80/1938. Stefnandi kveðst byggja mál sitt á lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, einkum 1. gr. og 1. mgr. 5. gr. Jafnframt á lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, einkum 1. gr. Dráttavaxtakrafa byggir á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfu sína um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. II.                                    Stefndi kveðst krefjast sýknu þar sem stefndi hafi að fullu uppfyllt skyldur sínar samkvæmt kjarasamningi og laun stefnanda hafi hækkað eins og kjarasamningur kveði á um. Í máli þessu sé deilt um túlkun á fylgiskjali I og fylgiskjali II með fyrirtækjaþætti kjarasamnings sem gerður hafi verið á milli stefnda og félagsmanna Rafiðnaðarsambands Íslands sem starfi hjá stefnda. Fyrirtækjaþátturinn sé gerður samkvæmt heimild í 5. kafla kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins um fyrirtækjaþátt kjarasamninga en þar segi m.a. í grein 5.1 um markmið fyrirtækjaþáttar: ,,Markmið fyrirtækjaþáttar kjarasamnings er að efla samstarf starfsfólks og stjórnenda á vinnustað með það fyrir augum að skapa forsendur fyrir bættum kjörum starfsfólks með aukinni framleiðni.“  Í fyrirtækjaþætti starfsmanna og stefnda hafi verið samið um sérstaka launatöflu tæknimanna. Eins og fram komi í stefnu þá hafi félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins hjá stefnda talið að almennur kjarasamningur Rafiðnaðarsambandsins og Samtaka atvinnulífsins næði ekki nægilega vel utan um störf og vinnufyrirkomulag tæknimanna. Til skýringar á þessu megi þess geta að ekki sé gerð krafa um hefðbundna iðnmenntun í þau störf sem hér um ræði enda sé menntun starfsmannanna fjölbreytt og falli ekki vel að þeim viðmiðum sem gerð séu í hefðbundnu iðnnámi sem ljúki með sveinsprófi og/eða meistaraprófi í iðngrein. Til að koma til móts við sjónarmið starfsmanna hafi stefndi fallist á að gera sérstakan fyrirtækjaþátt í kjarasamninginn þar sem tekið yrði á þessum þáttum sem og öðrum sem varði t.a.m. vinnufyrirkomulag og vinnutíma. Við gerð launatöflu fyrir tæknimenn hjá stefnda hafi verið horft til upphæða í almenna kjarasamningnum og þær hafðar til viðmiðunar að því er varði launaupphæðir. Að öðru leyti hafi verið búin til alveg ný launatafla fyrir störf tæknimanna hjá stefnda. Bil milli starfsaldursþrepa séu þar frábrugðin því sem samið sé um í aðalkjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins og auk þess séu starfsaldursþrepin frábrugðin þar sem í fyrirtækjaþætti sé samið um 3, 5 og 7 ára þrep fyrir tæknimann III en ekkert 7 ára þrep sé í aðalkjarasamningi. Eins og áður hafi komið fram hafi fyrirtækjaþátturinn, sem hér um ræðir, verið að því leyti óvenjulegur að gengið hafi verið frá honum áður en samningar hafi náðst, milli Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins, um aðalkjarasamning. Í viðræðum Rafiðnaðarsambandsins við Samtök atvinnulífsins um aðalkjarasamning hafi sú krafa Rafiðnaðarsambandsins verið áberandi að færa ætti taxta nær greiddum launum með því móti að hækka taxta í kjarasamningum meira en væntanleg almenn hækkun yrði. Í ljósi þess hafi verið settur ákveðinn fyrirvari um hækkun á töxtum tæknimanna hjá stefnda í fyrirtækjaþættinum sem kæmi til framkvæmda eftir að samningar næðust á almennum markaði. Þannig hafi verið sett ákvæði í fylgiskjal með samningnum þess efnis að ef taxtar rafiðnaðarmanna hækkuðu meira en almennar launahækkanir kvæðu á um þá væru tæknimönnum tryggð hækkun umfram almenna launahækkun, en þó að hámarki 9,3%. Þetta sé orðað svo í fylgiskjalinu: ,,RÚV tryggir að félagsmenn RSÍ sem starfa hjá RÚV fái þá almennu hækkun sem umsemst í kjarasamningi RSÍ og SA/SART til viðbótar við þá launatöflu sem nú er til grundvallar. Verði hækkun sem umsemst í aðalkjarasamningi á byrjunarlaunum rafiðnaðarsveins hærri en almenn hækkun mun RÚV tryggja heildarhækkun upp á 9,3% hækkun að hámarki.“ Þetta ákvæði hafi verið sett inn í ljósi þeirrar stöðu sem áður sé lýst, þ.e. fyrir hafi legið að ákveðinn vilji hafi verið til þess í samningum 2015 að hækka taxta rafiðnaðarmanna umfram þá almennu hækkun sem um semdist í aðalkjarasamningi með það að markmiði að færa taxta nær greiddum launum. Útfærslan á þessu hafi verið með sérstökum hætti sem skýrð sé í 3. gr. undirritaðs kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins sem og í bókun á bls. 9 í sama kjarasamningi aðila frá 22. júní 2015. Jafnframt hafi verið ljóst að til framtíðar skyldi við það miðað að launataxtar tæknimanna hjá stefnda tækju þeim almennu hækkunum sem samið yrði um á vettvangi Rafiðnaðarsambandsins og Samtaka atvinnulífsins. Taxtar í fyrirtækjasamningi hafi því hækkað um 6,2% frá 1. janúar sl. eins og um hafi verið samið milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins 21. janúar 2016. Það hafi verið frá upphafi ljóst að bókun 1 á fylgiskjali II með fyrirtækjaþættinum hafi verið sett til að tryggja starfsmönnum viðbótarhækkun sem fyrirsjáanlegt hafi verið að samið yrði um milli Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins. Til framtíðar hafi síðan verið horft til þess að launataxtar tækju almennum hækkunum. Sú staðhæfing í stefnu að laun stefnanda hefðu átt að vera 362.548 krónur frá 1. maí 2015, en hækkunin þann 1. maí hafi takmarkast af bókun í fyrirtækjaþættinum, sé villandi. Í samningi stefnda og starfsmanna sem gegni störfum tæknimanna sé samið um sérstaka launatöflu fyrir þau störf sem um ræði. Þar séu þau laun sem stefnandi hefði átt að fá og hafi fengið. Um þetta sé samningurinn alveg skýr. Á það skuli bent að taxtar í aðalkjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins miði við ákveðnar forsendur, sem séu menntun á sviði rafiðnaðar. Sá launaflokkur sem stefnandi telji að miða skuli laun sín við í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins sé launaflokkur fyrir þá sem hafi tekið sveinspróf í iðninni og vinni starf þar sem þeirrar menntunar sé krafist. Launataxtar fyrirtækjaþáttarins hafi verið búnir til með það fyrir augum að koma til móts við þá staðreynd að ekki sé gerð krafa um að tæknimenn hjá stefnda hafi lokið sveinsprófi enda sé starfið annars eðlis en hefðbundið starf rafiðnaðarmanns. Af þessum sökum sé það alveg ljóst að ekki sé farið á svig við ákvæði laga og kjarasamninga um lágmarkskjör og sé þeirri málsástæðu í stefnu mótmælt. Krafa stefnanda sé sú að launataxti hans sé hærri en taxti fyrir rafiðnaðarmann með 5 ára sveinspróf og meistararéttindi í starfi sem krefjist ekki sveinsprófs og enn síður meistararéttinda í rafiðnum. Samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins séu tveir launataxtar sem eigi við um þá sem ekki hafi lokið sveinsprófi í iðn sinni. 1. Rafiðnaðarmaður með viðurkennd starfsréttindi en uppfyllir ekki skilyrði um sveinspróf, skv. íslenskum reglum, eða að loknu þriggja ára starfsnámi. 2. Rafiðnaðarmaður að loknu tveggja ára fagnámi og getur unnið sjálfstætt. Launataxtar tæknimanna hjá stefnda sem sinni störfum sem geri kröfu um fagmenntun af einhverju tagi séu í öllum tilfellum hærri í launatöflu fyrirtækjaþáttarins heldur en launataxtar í kjarasamningnum fyrir þá sem ekki hafi lokið sveinsprófi. Launaflokkur fyrir tæknimenn I hjá stefnda liggi á milli þessara ofangreindu taxta í aðalkjarasamningi en eins og skýrt komi fram í fyrirtækjaþætti þá eigi sá taxti einvörðungu við aðstoðar- og afleysingastörf og engin krafa sé um fagmenntun eða reynslu. Þó krafa stefnanda lúti að launasetningu fyrir Tæknimann III þá sé rétt að fram komi að launaflokkur fyrir Tæknimann I sé eingöngu notaður fyrir afleysingastarfsmenn sem ekki hafi neina reynslu eða fagmenntun. Í dag taki einn tímavinnustarfsmaður laun samkvæmt þeim flokki. Engin leið sé að skilja ákvæði fyrirtækjaþáttarins þannig  að 1. janúar 2016 ættu taxtar að breytast með þeim hætti að launataxtar fyrir tæknimenn hjá stefnda yrðu þá annarsvegar jafnir töxtum rafiðnaðarmanna í aðalkjarasamningi og hinsvegar 8,03% hærri en taxti rafiðnaðarsveins (að því er varðar taxta fyrir tæknimann III) þó svo að tölur í launataxta aðalkjarasamnings hafi verið nýttir til viðmiðunar þegar launataxtar í fyrirtækjaþætti voru ákvarðaðir um vorið 2015. Ekki sé heldur ljóst með hvaða hætti þessi breyting hafi átt að verða og sé krafan því óljós og vanreifuð að þessu leyti. Þannig sé allsendis óljóst hvort launabil milli starfsaldursflokka eigi þá einnig að breytast og verða það sama og í aðalkjarasamningi eða hvort að fella hafi átt út 7 ára þrep fyrir tæknimann III til samræmingar við aðalkjarasamning og bæta 1 árs starfsaldursþrepi við launatöflu fyrir tæknimann I. Launatöflur aðalkjarasamnings og fyrirtækjaþáttar séu ekki samræmanlegar þannig að hægt sé að stökkva á milli þeirra með þessum hætti. Eins og fram komi í stefnu sé bil milli starfsaldursþrepa í launaflokki stefnanda í fyrirtækjaþætti 2% eftir 3ja ára starfsaldur en 1,5% eftir 5 og 7 ára starfsaldur. Í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins sé bil milli starfsaldursþrepa í launaflokki rafiðnaðarsveins 1,6% milli byrjunarlauna og 1 árs starfsaldurs og milli 1 árs og 3ja ára starfsaldursþreps sé 1,7% bil. Milli 3ja og 5 ára þreps sé 3,2% bil milli flokka. Ekki sé 7 ára starfsaldursþrep í kjarasamningnum. Ef fallist yrði á kröfu stefnanda í þessu máli væri því um það að ræða að lágmarkstaxti hans væri samkvæmt 5 ára þrepi í kjarasamningi sem myndi leiða til lækkunar á launataxta stefnanda. Laun samkvæmt 5 ára þrepi séu, frá 1. janúar 2016, 362.109 krónur en taxti stefnanda samkvæmt launataxta fyrirtækjaþáttar sé frá sama tíma 369.589 krónur fyrir tæknimann III. Kröfu stefnanda sé samkvæmt framansögðu alfarið hafnað. Stefndi byggir á lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Einnig er byggt á  kjarasamningi Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 22. júní 2015 og kjarasamningi Alþýðusambands Íslands og félaga við Samtök atvinnulífsins frá 21. janúar 2016. Ennfremur er til grundvallar fyrirtækjaþáttur kjarasamnings Rafiðnaðarsambandsins og Samtaka atvinnulífsins milli Ríkisútvarpsins ohf. og starfsmanna Rafiðnaðarsambandsins sem starfa hjá fyrirtækinu. Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 130. og 131. gr.                                                                        IV. Aðilar málsins deila um tengsl á milli aðalkjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Samtaka rafverktaka annars vegar og Rafiðnaðarsambands Íslands hins vegar, sem undirritaður var 22. júní 2015, og fyrirtækjasamnings sem gerður var á grundvelli aðalkjarasamningsins, sem stefndi og Rafiðnaðarsambandið undirrituðu 15. apríl 2015 og gildir frá 1. sama mánaðar. Stefnandi reisir mál sitt á því að eftir að aðalkjarasamningurinn tók gildi eigi stefnandi að fá greidd laun í samræmi við launataxta samkvæmt þeim samningi, á meðan stefndi byggir á því að um laun stefnanda fari eftir launatöxtum í fyrirtækjasamningnum, að viðbættum almennum launahækkunum samkvæmt aðalkjarasamningi. Snýst ágreiningur einkum um túlkun á fylgiskjölum I og II í fyrirtækjasamningnum, sem ætlað er að tengja saman aðalkjarasamning og fyrirtækjasamninginn. Samkvæmt fylgiskjali I með fyrirtækjasamningnum er tæknimönnum úr hópi Rafiðnaðarsambandsins, sem sinna störfum hjá stefnda þar sem ekki er krafist iðnmenntunar, raðað í þrjá flokka. Um er að ræða tæknimann I, tæknimann II og tæknimann III. Er tekið fram að flokkunin sé unnin með hliðsjón af núverandi starfsemi stefnda. Fram kemur að launatafla fyrir tæknimann I taki mið af launaflokki í aðalkjarasamningi sem heiti ,,Rafiðnaðarmaður að loknu þriggja ára starfsnámi“. Fyrir tæknimann II sé tekið mið af launaflokki í aðalkjarasamningi sem heiti ,,Rafiðnaðarsveinn byrjunarlaun“. Fyrir tæknimann III sé tekið mið af launaflokki sem heiti ,,Rafiðnaðarsveinn byrjunarlaun“.  Að því er tæknimann I varðar, sem skilgreindur er sem byrjandi í tæknistörfum, er um að ræða ein byrjunarlaun. Hvað tæknimann II varðar þá gildir sá flokkur um þá sem lokið hafa að lágmarki tveggja ára sérhæfðu fagnámi, að teknu tilliti til þekkingar og reynslu í faginu. Felur samningurinn í sér tilgreind byrjunarlaun, sem hækka eftir 1 ár, 3 ár og síðan 5 ár. Að því er tæknimann III varðar gildir sá flokkur um þá sem lokið hafa að lágmarki þriggja ára sérhærðu fagnámi sem nýtist í starfi, að teknu tilliti til þekkingar og reynslu í faginu. Til viðbótar er gerð krafa um sjálfstæði í starfi og fleiri þætti varðandi störf. Fyrir tæknimann III felur samningurinn í sér tilgreind byrjunarlaun, sem hækka eftir 3 ár, 5 ár og síðan 7 ár. Í bókun I á fylgiskjali II er tekið fram að stefndi tryggi að félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins, sem starfi hjá stefnda, fái þá almennu hækkun sem um semjist í kjarasamningi Rafiðnaðarsambandsins og Samtaka atvinnulífsins til viðbótar við þá launatöflu sem nú sé til grundvallar. Verði hækkun sem um semjist í aðalkjarasamningi á byrjunarlaunum rafiðnaðarsveins hærri en almenn hækkun muni stefndi tryggja heildarhækkun upp á 9,3% að hámarki. Fyrirtækjasamningurinn er gerður á grundvelli 5. kafla áðurgreinds aðalkjarasamnings. Samkvæmt ákvæði 5.1. í aðalkjarasamningi er markmið fyrirtækjaþáttar kjarasamnings að efla samstarf starfsfólks og stjórnenda á vinnustað með það fyrir augum að skapa forsendur fyrir bættum kjörum starfsfólks með aukinni framleiðni. Jafnframt er markmiðið að þróa kjarasamninga þannig að þeir nýtist báðum aðilum til aukins ávinnings. Um heimil frávik frá aðalkjarasamningi er kveðið á um í ákvæði 5.5. Þar er meðal annars kveðið á um heimilt sé að færa hluta af yfirvinnuálagi í dagvinnugrunn. Einnig er heimilt að þróa afkastahvetjandi launakerfi án formlegra vinnurannsókna þar sem það þyki henta.  Af ákvæðum 5. kafla aðalkjarasamnings, sem gildir um fyrirtækjasamninginn, verður ráðið að vinnuveitanda og launþegum á vinnustað er heimilt að semja með nákvæmum hætti um kjör á vinnustað, sem mið taka af sérstöðu vinnustaðarins. Fyrirtækjasamningur á milli stefnda og starfsmanna Rafiðnaðarsambandsins sem starfa hjá stefnda er ítarlegur, en hann er í 13. liðum og telur alls 19 blaðsíður. Eru þá ekki taldir þeir viðaukar er áður greinir. Af samningi þessum og viðaukum við hann verður ráðið að ætlun stefnda og fulltrúa starfsmanna Rafiðnaðarsambandsins hafi meðal annars verið að semja um sérstaka launatöflu er tók til starfsmanna stefnda, með gildistíma frá 1. apríl 2015. Við hana áttu síðan, samkvæmt fylgiskjölum, að bætast þær almennu hækkanir sem um semdist í aðalkjarasamningi. Er enginn fyrirvari í fyrirtækjasamningnum eða fylgiskjölum með honum í þá veruna að launatöflur samkvæmt samningnum falli úr gildi við gildistöku aðalkjarasamnings. Fer það gegn ákvæðum þessa samnings og tilgangi með honum, að víkja frá honum með þeim hætti er stefnandi krefst. Hefur stefndi við útreikning launa stefnanda bætt stefnanda þær almennu hækkanir sem aðalkjarasamningur kveður á um. Með vísan til þessa verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.       Mál þetta er rekið sem prófmál um gildi fyrirtækjasamningsins sem ágreiningur er um. Í því ljósi þykir rétt að hvor aðili beri kostnað af sínum þætti málsins.  Mál þetta flutti af hálfu stefnanda Ólafur Karl Eyjólfsson héraðsdómslögmaður en af hálfu stefnda Kristín Þóra Harðardóttir héraðsdómslögmaður. Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari. Dómsorð: Stefndi, Ríkisútvarpið ohf., er sýkn af kröfum stefnanda, Ragnars Guðmundar Gunnarssonar.  Málskostnaður fellur niður.    
Mál nr. 647/2017
Samningur Ábúð Ógilding samnings
E og dánarbú HS kröfðust þess að felldir yrðu úr gildi tveir samningar milli E annars vegar og H og B hins vegar um leigu hinna síðarnefndu á hluta úr jörðinni Kálfaströnd 1 í Skútustaðahreppi. Meðal þess sem kom fram í samningunum var að H og B yrðu ábúendur á jörðinni og þótti ljóst af málatilbúnaði þeirra að þau miðuðu við að þau hefðu réttarstöðu ábúenda í skilningi ábúðarlaga nr. 80/2004. Héraðsdómur taldi að það væri ósanngjarnt í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 að bera framangreind ákvæði samninganna fyrir sig gagnvart E og var krafa um niðurfellingu þeirra tekin til greina. Vísaði héraðsdómur meðal annars til þess að ákvæði samninganna um að H og B yrðu ábúendur á Kálfaströnd væru þeim mjög hagfelld en skertu verulega möguleika E til að ráðstafa eign sinni sem og þess að ákveðinn aðstöðumunur hefði verið á milli aðila. Þá var jafnframt fallist á að breyta skyldi ákvæði síðari leigusamningsins, sem kom í stað ákvæðis fyrra samningsins, um leigugjald þannig að leiga skyldi miðuð við niðurstöðu matsmanns sem lá fyrir í málinu. Að öðru leyti sýknaði héraðsdómur H og B af kröfu E og dánarbús HS. H og B áfrýjuðu niðurstöðu héraðsdóms hvað framangreind atriði varðaði til Hæstaréttar sem staðfesti dóminn með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Sigurður Tómas Magnússon landsréttardómari. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 10. október 2017. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfu stefndu en til vara að leigusamningi milli stefndu Elínar og áfrýjenda „frá 16. mars 2012, um Kálfaströnd 1, ... , og lóðarleigusamningi milli sömu aðila, frá 25. janúar 2013, um Kálfaströnd 1, ... , verði, ýmist öðrum eða báðum, einungis vikið til hliðar að hluta eða breytt á þann hátt að þeir teljist ekki, samkvæmt mati Hæstaréttar, ósanngjarnir eða andstæðir góðri viðskiptavenju í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.“ Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjendum verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjendur, Björg Jónasdóttir og Halldór Þorlákur Sigurðsson, greiði stefndu, dánarbúi Hólmfríðar G. Stefánsdóttur og Elínu Einarsdóttur, óskipt 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. júlí 2017. Mál þetta, sem dómtekið var eftir endurtekinn málflutning föstudaginn 19. maí, er höfðað 18. marz 2015 af Hólmfríði Stefánsdóttur og Elínu Einarsdóttur, báðum þá til heimilis á Kjarnagötu 12, Akureyri, á hendur Halldóri Þorláki Sigurðssyni og Björgu Jónasdóttur, Kálfaströnd, Skútustaðahreppi. Undir rekstri málsins lézt stefnandi Hólmfríður og hefur dánarbú hennar tekið við aðild málsins. Dómkröfur Stefnendur krefjast þess að „felldir verði úr gildi með dómi eftirtaldir samningar milli stefnanda Elínar og stefndu: 1. Leigusamningur, dags. 16. mars 2012, um Kálfaströnd 1, landnr. 153582 með þinglýsingarnr. [...] 2. Lóðarleigusamningur, dags. 25. janúar 2013, um Kálfaströnd 1, fnr. 233-9069 með þinglýsingarnr. [...]“ Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefndu. Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnenda. Til vara krefjast þau þess að leigusamningi milli stefnanda Elínar og stefndu, frá 16. marz 2012, um Kálfaströnd 1, landnr. 153582 með þinglýsinganúmerinu [...], og lóðarleigusamningi milli sömu aðila, frá 25. janúar 2013, um Kálfaströnd 1, fastanr. 233-9069, með þinglýsinganúmerinu [...] verði, ýmist öðrum eða báðum, einungis vikið til hliðar að hluta eða breytt á þann hátt að þeir teljist ekki, samkvæmt mati dómsins, ósanngjarnir eða andstæðir góðir viðskiptavenju í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnenda auk virðisaukaskatts. Málavextir Stefnendur voru mæðgur. Stefndu eru hjón. Í máli þessu deila aðilar um gildi tveggja samninga sem óumdeilt er að stefnandi Elín og stefndu hafi undirritað. Fyrri samningurinn er dags. 16. marz 2012 og er nefndur „Leigusamningur Kálfastrandar I Lnr 153582“ en síðari samningurinn er dags. 25. janúar 2013 og er nefndur „Lóðarleigusamningur Kálfastrandar 1, fnr. 233-9069“. Samningunum hefur báðum verið þinglýst. Hinn fyrri var móttekinn til þinglýsingar 20. marz 2012 og innfærður að því er virðist af óskýrum stimpli degi síðar, en síðari samningurinn var móttekinn til þinglýsingar 4. febrúar 2013 og innfærður degi síðar. Þá deila aðilar um hvort Kálfaströnd I sé sjálfstæð jörð sem hafi, er samningarnir voru gerðir, verið í einkaeigu stefnanda Elínar. Stefndu byggja á að svo sé, en stefnendur byggja á að stefnandi Elín og Hólmfríður heitin hafi, þegar samningarnir voru gerðir, átt allt land Kálfastrandar í óskiptri sameign. Samkvæmt landamerkjabréfi „fyrir jörðinni Kálfaströnd við Mývatn“, sem lesið var á manntalsþingi „á Skútustöðum 20. maí 1886 og ritað í landamerkjabók Þingeyjarsýslu No. 93“ eru mörk jarðarinnar þessi: „Að norðan móti Geiteyjarströnd skilur merki gamalt merkigarðsbrot, er liggur til austurs frá Mývatni sunnan við svonefndan Vesturdrátt, og utan við nýlegan vörzlugarð, sem byggður hefir verið á seinni árum. Úr nefndu garðbroti ræður bein stefna austur utanvert Markhraun í svonefnda Vogaborg, er liggur á Ludentarborgum. Að austan móti Vogum ráða Lúdentarborgir suður í svonefnda Merkiborg í Fjallaskarð, og svo sama stefna í Syðri-Klappenda og í vörðu þá, er stendur við Stekkjarvog. Kálfaströnd á allar eyjar, hólma og sker í Mývatni, fyrir sínu landi, og eru þeirra merkust Hrútey og Hrúteyjarnes.“ Hinn 31. maí 1902 var þinglesin á Skútustöðum viðbót við landamerkjabréfið þess efnis að auk þess sem segir um merki að sunnan ráði þar Mývatn að öðru leyti merkjum og að Kálfaströnd eigi allan veiðirétt að lögum. Í málinu liggur veðbandayfirlit um Kálfaströnd 1, fnr. 153582, dags. 19. marz 2015. Segir þar að eigandi sé stefnandi Elín samkvæmt afsali. Samkvæmt þinglýsingarvottorði fyrir Kálfaströnd 2, fnr. 153583, prentuðu 29. júlí 2013, eru eigendur Hólmfríður G. Stefánsdóttir með 66,6666% eignarhlut og stefnandi Elín. Leigusamningur, 16. marz 2012 Í samningi, dags. 16. marz 2012, segir að stefndu og stefnandi Elín geri „með sér leigusamning vegna endurbyggingar á íbúðarhúsi á grunni gamla bæjarins að Kálfaströnd I Mývatnssveit.“ Í samningnum eru sex greinar, svo látandi: „1. [Stefndu] verða ábúendur á Kálfaströnd I og leigjendur á helmingi hlutar (50%) Kálfastrandar I. Rekið [sic] búskap, aðra þjónustu ásamt nytjum. 2. [Stefndu] hafa leyfi til þess að endurbyggja húsin á Kálfaströnd I. Jarðareigandi ber engan kostnað af endurbyggingu Kálfastrandar I, eða framkvæmdum þeim viðkomandi. 3. Lóð undir íbúðarhús og geymslu, markast af gamla bæjarstæðinu ásamt afmörkuðum garði suður af byggingunum. Leiga greiðist árlega og verður gerður sér samningur um upphæð og kjör. 4. Verði jörðin Kálfaströnd I boðin til sölu á leigutímanum skal samningur þessi halda gildi sínu. Samningi þessum má segja upp af beggja hálfu með tveggja ára fyrirvara miðað við 14. maí, verði um verulegar vanefndir [sic] varðandi samning þennan. 5. Samningur þessi gildir til 40 ára frá undirritun og að þeim tíma liðnum geta eigandi/-eigendur jarðarinnar keypt húsið á matsverði af eigendum þess [stefndu], þ.e. húsið verði metið af tveimur viðurkenndum fasteignasölum. 6. Samningi þessum skal þinglýst hjá Sýslumanninum á Húsavík.“ Á samninginn rita sem vottar að réttri dagsetningu, undirskrift og yfirlýsingu aðila um fjárræði hjónin Arnfríður Anna Jónsdóttir og sr. Örnólfur Jóhannes Ólafsson. Arnfríður Anna og stefndi Halldór Þorlákur eru systkinabörn. Lóðarleigusamningur, 25. janúar 2013 Í samningi, dags. 25. janúar 2013, segir að stefndu og stefnandi Elín geri með sér „lóðarleigusamning um eignina Kálfaströnd 1, lóð, Skútustaðahreppi. Fastanúmer eignarinnar [sé] 233-9069 og landnúmer 221044. Um [sé] að ræða íbúðarhúsalóð samkvæmt fasteignaskránni, sem [sé] ætluð til endurbyggingar á íbúðarhúsi leigutaka.“ Í samningnum eru sex greinar, svo látandi: „1. [Stefndu] verða ábúendur á Kálfaströnd I og leigjendur að ofangreindri eign, þar sem ætlunin [er að] reka búskap og aðra þjónustu, ásamt nytjum. 2. [Stefndu] og hafa leyfi til þess að endurbyggja húsin á Kálfaströnd I og jarðareigandi ber engan kostnað af endurbyggingu Kálfastrandar I, eða framkvæmdum þeim viðkomandi. 3. Lóð undir íbúðarhús og geymslu, er 1575 m2, landsnúmer 221044 og fastanúmer 233-9069. Leiga greiðist árlega og verður kr. 5.000. 4. Verði jörðin Kálfaströnd I boðin til sölu á leigutímanum, skal samningur þessi halda gildi sínu. Samningi þessum má segja upp af beggja hálfu með tveggja ára fyrirvara miðað við 14. maí, verði um verulegar vanefndir [sic] verðandi samning þennan. 5. Samningur þessi gildi til 40 ára frá og með 16. [mars] 2012, að þeim tíma liðnum geta eigandi/-eigendur jarðarinnar keypt húsið á matsverði, þ.e. húsið verði metið af tveimur viðurkenndum fasteignasölum. 6. Samningi þessum skal þinglýst hjá Sýslumanninum á Húsavík.“ Á samninginn rita sem vottar að réttri dagsetningu, undirskrift og yfirlýsingu aðila um fjárræði Arnfríður Anna Jónsdóttir og sr. Örnólfur Jóhannes Ólafsson. Í málinu liggur skjal, nefnt yfirlýsing, dags. 2. ágúst 2011. Í því veitir stefnandi Elín, „eigandi jarðarinnar Kálfaströnd I, Lnr. 153582“, stefndu „leyfi til þess að endurbyggja íbúðarhúsin ásamt geymslu á Kálfaströnd I. [Stefndu hafi] fulla heimild til að rífa og eða farga eftir þörfum þeim byggingum sem eftir standa.“ Á yfirlýsinguna rita sem vottar að réttri dagsetningu, undirskrift og yfirlýsingu aðila um fjárræði hjónin Arnfríður Anna Jónsdóttir og sr. Örnólfur Jóhannes Ólafsson. Í málinu liggja óundirrituð drög að samningi, að hluta handskrifuð en að hluta prentuð. Í inngangi draganna segir að stefnandi sem leigusali og stefndu sem leigutakar geri með sér greiðslusamning jarðarafgjalds/lóðarleigu. Í 1. gr. draganna segir að árleg leiga fyrir lóð og helmingshluta Kálfastrandar I, samkvæmt leigusamningi 16. marz 2012 og lóðarleigusamningi 25. janúar 2013, 191.300 krónur bundin vísitölu byggingarkostnaðar. Tvær landspildur, sem merktar séu á uppdrætti, fylgi leigunni. Afmarkist önnur „af girðingu frá hinni leigðu lóð að gömlu fjár­húsunum“ hin „frá gamla hesthúsinu vestur í Mývatn við Húsavík“. Þá segir í drögunum að gömlu fjárhúsin ásamt reykhúsi, hesthúsi og súrheysgryfju fylgi án endurgjalds. Í drögunum er að lokum tímasetningin „ágúst 2014“. Undir rekstri málsins var að kröfu stefndu dómkvaddur matsmaður, Stefán Skaftason ráðunautur, Straumnesi, Aðaldal, til að meta annars vegar hver væri sanngjörn og hæfileg leigufjárhæð eða jarðarafgjald á ári samkvæmt leigusamningi frá 16. marz 2012 og hver gjalddagi skyldi vera, og hins vegar hvert væri sanngjarnt og hæfilegt árlegt lóðarleigugjald fyrir leigu á 1575 fm lóð undir íbúðarhús og geymslu samkvæmt lóðarleigusamningi 25. janúar 2013 og hver árlegur gjalddagi skyldi vera. Niðurstaða hins dómkvadda matsmanns var að hæfileg „árleg leiga fyrir helmingshluta Kálfa­strandar 1“ væri 100.000 krónur en sanngjörn lóðarleiga á ári fyrir 1575fm lóð undir íbúðarhús væri 210.000 krónur. Gjalddagi skyldi vera 15. marz ár hvert bundinn byggingarvísitölu 642,4 stig, auk þess sem leigutaki skyldi greiða alla skatta og skyldur er hvíldu á hinu leigða og kynnu að verða lagðar á leigulandið sem gjaldstofn. Með erindi til sveitarstjórnar Skútustaðahrepps, dags. 2. ágúst 2011, óskuðu stefndu eftir leyfi sveitarfélagsins til að „endurbyggja íbúðarhúsin ásamt geymslu á Kálfaströnd I Lnr. 153582.“ Um væri að ræða „jarðarhús með búsetu og lögheimili að Kálfaströnd I.“ Þessu erindi svaraði sveitarstjórnin með bréfi dags. 31. ágúst 2011 þar sem fram kom að ekki væri unnt að samþykkja erindið fyrr en fyrir lægi samþykki umhverfisstofnunar, umsögn minjavarðar á Akureyri og fullnægjandi teikningar. Með bréfi til húsafriðunarnefndar ríkisins, dags. 5. september 2011, óskuðu stefndu eftir umsögn/samþykki nefndarinnar fyrir „niðurrifi íbúðarhússins á Kálfaströnd 1 (153582) í Mývatnssveit.“ Kemur fram í erindinu að um sé að ræða „jarðarhús sem byggt var árið 1915“. Nýtt íbúðarhús verði byggt á byggingarreit gamla hússins. Með bréfi til minjavarðar Norðurlands eystra, dags. 5. september 2011, óskuðu stefndu eftir umsögn minjavarðarins vegna endurbyggingar „íbúðarhússins ásamt geymslu á byggingarreit Kálfastrandar I (153582) í Mývatnssveit.“ Með bréfi til umhverfisstofnunar, dags. 5. september 2011, óskuðu stefndu eftir samþykki stofnunarinnar fyrir endurbyggingu „íbúðarhússins ásamt geymslu á byggingarreit Kálfastrandar 1 (153582) í Mývatnssveit.“ Hinn 19. september 2011 veitti umhverfisstofnun samþykki sitt með skilyrðum. Hinn 17. október 2011 heimilaði húsafriðunarnefnd niðurrif hússins fyrir sitt leyti. Hinn 1. nóvember 2011 veitti byggingarfulltrúi Þingeyinga stefndu leyfi „til að rífa íbúðarhúsið að Kálfaströnd 1, Mývatnssveit“, með því skilyrði að niðurrif hæfist ekki fyrr en húsið hefði verið mælt upp, teiknað og ljósmyndað og greinargerð gerð um sögu þess og tilurð. Með bréfi, dags. 31. maí 2012, tilkynnti fornleifavernd ríkisins að hún gerði ekki athugasemdir við byggingu nýs húss, en tilkynna bæri um framkvæmdina með góðum fyrirvara svo tóm gæfist að senda fornleifafræðing á vettvang til eftirlits. Með umsókn, dags. 13. júní 2012, sótti stefnandi Elín um stofnun nýrrar lóðar, Kálfastrandar I lóð 221044. Upprunaeign var sögð Kálfaströnd I. Greiðandi samkvæmt umsókninni var stefndi Halldór Þorlákur. Fyrir dómi sagði stefndi Halldór Þorlákur að framkvæmdir hafi hafizt í maí 2012 og stefndu hefðu svo flutt í húsið, nær fullbúið, í júní 2013. Málsástæður og lagarök stefnenda Stefnendur krefjast þess að leigusamningur frá 16. marz 2012 og lóðarleigusamningur frá 25. janúar 2013 verði ógiltir með dómi. Í fyrsta lagi sé á því byggt að land Kálfastrandar hafi verið í óskiptri sameign stefnanda og Hólmfríðar heitinnar Stefánsdóttur móður hennar. Séu samningarnir því ógildanlegir þar sem annar sameigandinn, Hólmfríður, hafi enga aðild átt að gerð þeirra og hefði hún aldrei samþykkt efni þeirra. Í öðru lagi sé á því byggt að samningana megi ógilda eða víkja til hliðar á grundvelli ógildingarreglna laga nr. 7/1936. Stefnendur segja að samkvæmt meginreglu eignaréttar um sérstaka sameign þurfi samþykki allra eigenda fyrir öllum meiriháttar ráðstöfunum. Allt land Kálfastrandar sé óskipt sameign. Stofnað hafi verið til tvíbýlis á jörðinni í upphafi 20. aldar og kunni það að vera skýring þess að jörðin hafi skráð tvö landnúmer. Breyti það ekki hinu að aldrei hafi farið fram landskipti á jörðinni, sbr. ákvæði landskiptalaga nr. 46/1941. Í leigusamningnum frá 16. marz 2012 komi fram að stefndu verði „ábúendur“ að Kálfaströnd I og „leigjendur“ helmings Kálfastrandar I og geti rekið þar „búskap og aðra þjónustu“. Í leigusamningnum frá 25. janúar 2013 segi svo að stefndu verði ábúendur að Kálfaströnd I og að ætlun þeirra sé að reka þar búskap. Í samningnum felist þannig ráðstöfun lands undir búskap sem stefndu hafi í hyggju að hefja að Kálfaströnd. Um sé að ræða meiriháttar ráðstöfun sameignar og þá sérstaklega í því ljósi að samningarnir séu til 40 ára án þess að nokkuð raunhæft endurgjald komi fyrir. Stefnendur segjast byggja á því að Hólmfríður heitin Stefánsdóttir hafi aldrei veitt samþykki sitt fyrir þessari ráðstöfun landsins. Þegar af þeirri ástæðu beri að fella leigusamningana úr gildi með dómi. Vísist þar til skýrra fordæma Hæstaréttar Íslands þar sem fram komi að einn sameigandi að landi sé ekki bær til að ráðstafa sameign með leigusamningi að hluta eða öllu leyti nema fyrir liggi samþykki sameigenda. Kveðst stefnandi þar vísa meðal annars til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 460/2010. Segir stefnandi að í þessu ljósi hafi þinglýsing samninganna aldrei átt að geta farið fram sbr. 6. og 22. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Stefnendur segjast jafnframt byggja á því að samningunum megi víkja til hliðar á grundvelli ógildingarreglna laga nr. 7/1936. Að því er varði samninginn frá 16. marz 2012, felist í kröfu stefnenda að honum verði vikið til hliðar í heild sinni, að hann verði ógiltur með dómi. Í því sambandi sé byggt á 31. og 36. gr. laga nr. 7/1936. Sé samningurinn óljós og ósanngjarn að efni, auk þess sem stefnandi Elín telji sig ekki hafa skilið efni hans að fullu né hversu mjög væri hallað á þær mæðgur í samningnum. Segjast stefnendur telja stefndu hafi nýtt sér fákunnáttu hennar og reynsluleysi í viðskiptum sjálfum sér til hagsbóta. Stefnendur segja að í 1. mgr. 36. gr. samningalaga sé kveðið á um heimild til þess að víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta ef það yrði talið ósanngjarnt að bera hann fyrir sig. Í 2. mgr. segi að við mat skv. 1. mgr. skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komi til. Stefnendur segjast aðallega telja efni samningsins ósanngjarnt auk þess sem atvik við samningsgerð og staða samningsaðila eigi að leiða til þess að samningnum í heild verði vikið til hliðar. Stefnendur segjast árétta að stefndu hafi samið samninginn og hafi stefndi Halldór óskað eftir því á vinnustað stefnanda Elínar að hún undirritaði hann. Í inngangi hans komi fram að hann sé eingöngu vegna endurbyggingar íbúðarhúss á grunni gamla bæjarins. Í 1. gr. hans sé hinsvegar búið að koma fyrir ákvæði þess efnis að stefndu verði ábúendur á Kálfaströnd I og leigjendur að helmingi Kálfastrandar I og megi reka þar búskap og aðra þjónustu ásamt nytjum. Stefnendur segjast byggja á að engu máli skipti samkvæmt samningnum hvort stefndu titli sig ábúendur jarðarinnar, ábúendur séu þau ekki. Stefndu hafi hins vegar með þessu reynt að villa um fyrir stefnanda Elínu með því að koma inn ábúðarákvæði í leigusamning um lóð vegna íbúðarhúss. Þannig segi beinlínis í 2. og 3. gr. samningsins að veitt sé heimild til þess að endurbyggja húsin að Kálfaströnd I og að lóðin skuli markast af gamla bæjarstæðinu ásamt afmörkuðum garði suður af byggingunni. Stefnendur segja að í síðari málslið 3. gr. sé kveðið á um að leiga skuli greiðast árlega og verði gerður sér samningur um upphæð og kjör. Stefnendur segjast benda á að slíkur samningur hafi ekki verið gerður þrátt fyrir þann tíma sem nú sé liðinn frá undirritun samnings. Allar tilraunir nú til að semja um leigu að fjárhæð 191.300 krónur, eins og fram komi í bréfi lögmanns stefndu, séu eftirá skýringar og tilraun til þess að réttlæta samninginn. Þá segjast stefnendur gera alvarlegar athugasemdir við 5. gr. samningsins. Gildistími hans sé samkvæmt honum sjálfum 40 ár og að leigutíma loknum sé eiganda veitt heimild til að kaupa íbúðarhúsið að matsvirði tveggja fasteignasala. Stefnandi Elín sé sextug, stefndi Halldór 67 ára og stefnda Björg 62 ára. Líklegt verði að telja að leigusamningur aðila nái út yfir gröf og dauða þeirra allra. Engin ákvæði séu um hvort leigusamningurinn erfist við lát stefndu. Að auki verði að teljast óeðlileg sú heimild að eigendur jarðarinnar geti keypt húsið af eigendum þess, stefndu, verði þau lífs eftir 40 ár, sér í lagi þar sem engin leiga sé tilgreind í samningnum. Að mati stefnanda hafi stefndu hér gætt eigin hagsmuna án þess að skeyta nokkuð um viðsemjanda. Með því hafi þau brugðizt trúnaðarskyldu sinni samkvæmt meginreglu samningaréttar. Stefnendur segjast jafnframt gera kröfu um að „lóðarleigusamningi Kálfastrandar I, fnr. 273-9069“ frá 25. janúar 2013 verði vikið til hliðar í heild sinni, að hann verði ógiltur með dómi. Segjast stefnendur byggja á 31. og 36. gr. samningalaga. Samningurinn sé óljós og ósanngjarn. Þá hafi stefnanda Elínu ekki gefizt tími til að lesa hann og hún ekki skilið efni hans að fullu en í honum halli mjög á stefnendur. Hafi stefndu þannig nýtt sér fákunnáttu og reynsluleysi stefnanda Elínar í viðskiptunum, sjálfum sér til hagsbóta. Stefnendur segja lóðarleigusamninginn enn óskýrari í efni sínu og misvísandi en fyrri samning. Í inngangi samningsins segi að um sé að ræða lóðarleigusamning um eignina Kálfaströnd I, lóð, Skútustaðahreppi. Um sé að ræða íbúðarhúsalóð samkvæmt fasteignaskrá, sem ætluð sé til endurbyggingar íbúðarhúss leigutaka. Stefnendur segjast í fyrsta lagi gera athugasemdir við að vísað sé til þess að um endurbyggingu sé að ræða, en raunin hafi verið sú að stefndu hafi byggt sér nýtt einbýlishús á lóðinni sem ekkert hafi svipað til eldra húss. Þá sé einnig sagt að um sé að ræða endurbyggingu á íbúðarhúsi leigutaka. Óumdeilt sé að stefndu, sem leigutakar, hafi aldrei átt hús þar áður og því sé ekki um að ræða endurbyggingu slíks húss. Inngangur samningsins sé því óljós að efni til. Stefnendur segja að í 1. gr. samningsins sé ákvæði þess efnis að stefndu verði ábúendur að Kálfaströnd I og leigjendur á eigninni Kálfaströnd I. Hér sé gengið lengra en áður og mælt fyrir um að ábúðarréttur nái til jarðarinnar í heild sinni og að ætlunin sé að reka búskap og aðra þjónustu. Í 3. gr. samningsins sé ákveðið að lóð undir íbúðarhús og geymslu sé 1575 fm. Þá komi fram að leiga skuli greiðast árlega og vera 5.000 krónur. Stefnendur segja þetta ákvæði vera ósanngjarnt í meira lagi. Ekki sé tekið fram að um sé að ræða leigufjárhæð til bráðabirgða og stefnendur séu bundnir af þessari fjárhæð verði samningnum ekki vikið til hliðar, enda hafi samningnum verið þinglýst. Skýringar stefndu að ákvæðið hafi verið til bráðabirgða séu að mati stefnenda eftirá skýringar, enda hafi verið einfalt að finna út leiguverð á sama tíma og samningurinn hafi verið gerður, miðað við alla þá fyrirhöfn sem stefndu hafi lagt á sig til þess að afla tilskilinna leyfa vegna framkvæmdanna. Stefnendur segja að í 5. gr. samningsins hafi enn á ný verið kveðið á um að gildistími hans skuli vera 40 ár frá og með 16. marz 2012. Segjast stefnendur vísa til framangreindra röksemda og málsástæðna vegna gildistíma samningsins og hvernig hallað sé á stefnendur í þessu ákvæði. Stefnendur segja að engir sérfróðir menn, svo sem lögmenn og löggiltir fasteignasalar, hafi verið kallaðir til við samningsgerðina stefnanda Elínu til ráðuneytis, en að hún hafi borið fullt traust til stefndu. Stefnandi Elín hafi undirritað samningana að beiðni stefnda Halldórs, nánast ólesna og án þess að gera sér grein fyrir eðli og umfangi viðskiptanna. Stefnendur segjast hafna því að yfirlestur Ingólfs Jónassonar bónda á Helluvaði, frænda stefnanda Elínar, á samningnum frá 16. marz 2012 teljist slík ráðgjöf, sem einstæð kona um sextugt þurfi, þegar hún standi frammi fyrir því að ráðstafa föðurleifð sinni með samningi til 40 ára. Þá hafi Ingólfur aldrei séð samninginn frá 25. janúar 2013. Stefnandi Elín kveðst leggja áherzlu á að viðmót stefndu gagnvart henni hafi frá árunum 2011 verið mjög gott og hún aldrei grunað stefnda um græsku. Það hafi ekki verið fyrr en með framboðnum skiptasamningi, þar sem stefndu hafi nefnt sig ábúendur jarðarinnar og sett fram kröfu um hlut í jörðinni sem hafi verið miklu víðtækari sem og kröfur um réttindi, meðal annars um veiðihlunnindi og atkvæðisrétt í veiðifélagi, sem stefnandi Elín hafi tekið að efast um heilindi þeirra. Þannig hafi í lóðarleigusamningi verið kveðið á um 1575 fm en í nýjum skiptasamningi hafi hlutur ábúenda verið orðinn 23 hektarar eða 230.000 fm. Engin ákvæði séu í skiptasamningi um jarðarafgjald eða leigu á þessu landsvæði, né önnur ákvæði stefnanda til hagsbóta. Stefnendur segja framangreindan skiptasamning sýna vel hve stefndu hafi fært sig upp á skaftið, þvert á vilja og rétt stefnenda, frá því stefnandi Elín hafi undirritað yfirlýsingu 2. ágúst 2011 um að stefndu hefðu leyfi til þess að endurbyggja gamalt íbúðarhús og geymslu á Kálfaströnd I. Stefnandi Elín hafi hinsvegar ekki skrifað undir skiptasamninginn. Þá sé einnig auðséð af gögnum hvernig stefndu virðist bæði líta svo á að þau séu að rífa gamla íbúðarhúsið og reisa sér nýtt einbýlishús en ekki að endurbyggja gamla fasteign. Þá líti þau á sig sem ábúendur jarðarinnar sem gefi þeim miklu meiri rétt heldur en ef þau væru aðeins leigutakar að henni. Jafnvel þótt ásetningur stefndu hafi verið frístundaræktun á búfénaði þá hafi aldrei staðið til að þau yrðu ábúendur á jörðinni með þeim réttindum og skyldum sem leiða megi af lögum nr. 80/2004. Upphaflegur skilningur stefnanda Elínar hafi verið sá að stefndu fengju að endurbyggja bæjarhúsin að Kálfaströnd I og möguleika á að stunda einhvern búskap í frístundum sínum. Nú krefjist lögmaður stefndu þess að viðurkenndur verði réttur þeirra sem ábúenda á eigninni. Þessi síðar tilkomnu atvik, verði ekki af ógildingu samninganna, sýni vel hvað búi í brjósti stefndu, þar sem samningarnir séu bæði óskýrir og þar halli verulega á stefnendur, auk þess sem stefndu hafi haft yfirburða­stöðu við gerð samninganna og fengið stefnanda Elínu til þess að undirrita þá á vinnu­stað hennar í talsverðum flýti. Stefnendur segjast telja lagarök skýr um að ógilda skuli báða samningana samkvæmt 1. sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Stefnendur segjast hafa boðið stefndu lóðarleigusamning undir hið nýja íbúðarhús stefndu þar sem ekki sé byggt á því að stefndu séu ábúendur. Stefndu hafi hafnað því boði og staðið fast á meintum rétti sínum samkvæmt hinum umþrættu samningum. Stefnendur segja að í 31. gr. samningalaga segi að hafi maður notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða léttúð, eða það að hann hafi verið honum háður, til að afla sér hagsmuna eða áskilja sér þá þannig að bersýnilegur mismunur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því er fyrir það skuli koma eða hagsmunir þessir skuli veittir án endurgjalds, skuli gerningur sá, er þannig sé tilkominn, ógildur gagnvart þeim aðilum er á hafi verið hallað með honum. Stefnendur segjast byggja á því að ógilda megi báða samningana með vísan til þessa lagaákvæðis. Sé það í fyrsta lagi vegna þess hvernig þeir hafi orðið til, þar sem annars vegar sé stefnandi Elín, einstæð sveitakona, reynslu- og þekkingarlaus í viðskiptum og hinsvegar stefndu sem séu lífsreynd með reynslu í fasteignaviðskiptum. Í öðru lagi vegna þess hve mikill munur sé á þeim hagsmunum og verðmætum sem samningarnir taki til og því endurgjaldi er fyrir þá hagsmuni skuli koma. Í samningnum felist að stefndu fái umráðarétt í 40 ár yfir jörð við Mývatn, sem sé þekkt vegna náttúrufegurðar og vegna legu hennar við vatnið og sé örugglega markaðstæk fyrir milljónatugi hið minnsta. Stefnandi fái að endurgjaldi 5.000 krónur á ári í fjörutíu ár, án verðtryggingar. Loks segjast stefnendur ítreka þá málsástæðu sína að hinir umdeildu samningar séu ógildir af þeirri ástæðu að með þeim hafi verið ráðstafað eignarhlut Hólmfríðar heitinnar í óskiptri sameign jarðanna án þess að leitað hafi verið eftir samþykki hennar. Stefnendur segja að krafa um málskostnað sé studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Málsástæður og lagarök stefndu Stefndu segja stefnendur byggja á því að þeir eigi óskipta aðild að málinu í skilningi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Þessu mótmæli stefndu og byggi á því að dánarbú Hólmfríðar Stefánsdóttur eigi ekki aðild að málinu í skilningi 16. gr. laganna og ekki lögvarða hagsmuni af niðurstöðu þess. Segjast stefndu vísa til þess að í máli þessu sé gerð krafa um ógildingu tveggja samninga um jörðina Kálfaströnd 1. Sé þar annars vegar um að ræða leigusamning frá 16. marz 2012 um helming jarðarinnar Kálfaströnd 1, lnr. 153582, með þinglýsingarnúmeri [...], en hins vegar lóðarleigusamning frá 25. janúar 2013 um lóð undir íbúðarhús í landi jarðarinnar Kálfaströnd 1, fastanúmer 233-9069, með þinglýsingarnúmeri [...]. Báðum þessum samningum hafi verið þinglýst athugasemdalaust hjá sýslumanninum á Húsavík enda hafi hvorugur verið haldinn neinum annmarka svo sem samkvæmt 6. og 22. gr. þinglýsingalaga eins og stefnendur virðist halda fram. Stefndu segja að þinglýstur eigandi Kálfastrandar 1 sé stefnandi Elín Einarsdóttir. Sé jörðin að öllu leyti í hennar eigu. Á veðbandayfirliti sé jörðinni lýst sem „jörð í byggð“.  Dánarbú Hólmfríðar Stefánsdóttur telji hinsvegar ekki til neinna eignarréttinda yfir jörðinni hvorki beinna né óbeinna og sé ekki eigandi hennar. Jörðin Kálfaströnd 2 sé hinsvegar í sameign stefnenda. Samkvæmt þinglýsingavottorði þeirrar jarðar hafi Hólmfríður verið eigandi að 66,67% jarðarinnar en stefnandi Elín að 33,33%. Samkvæmt þinglýsingarvottorðinu sé þessari jörð einnig lýst sem „jörð í byggð“. Stefndu segja að samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá þjóðskrár hafi hvor jarðanna sitt fasteignamat og byggi stefndu á því að það feli í sér sönnun þess að skipti hafi farið fram svo sem samkvæmt ákvæðum landskiptalaga nr. 46/1941.  Með vísan til þess byggi stefndu á því að sannað teljist að jörðin Kálfaströnd 1 sé sjálfstæð jörð enda sé hún skilgreind sem slík í þinglýsingarbókum og fasteignaskrá. Jörðin beri sérstakt landnúmer og sé að öllu leyti í eigu stefnanda Elínar. Hin þinglýsta skiptayfirlýsing frá 3. janúar 2017, sem undirrituð sé af stefnanda Elínu, beri þess glöggt merki að sjálf telji hún svo vera enda sé jörðunum Kálfaströnd 1 og Kálfaströnd 2 þar lýst sem tveimur aðskildum jörðum. Af þessum ástæðum sé mótmælt sem rangri og ósannaðri þeirri staðhæfingu stefnenda að allt land Kálfa­strandar sé óskipt sameign stefnenda. Samkvæmt meginreglum einkamála­réttarfars hvíli sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu á stefnendum. Í því sambandi vísi stefndu til þess að þau skjöl sem stefnendur vísi til, til stuðnings þeim málsástæðum sem dómkröfur þeirra séu byggðar á, geti vart talizt traust. Þannig sé gjafaafsal Valdimars Halldórssonar frá 1. febrúar 1966 ekki undirritað og móttekið til færslu í veðmálabók með þeirri athugasemd að eignarheimild hans að Kálfaströnd sé ekki þinglesin. Sömu athugasemd megi sjá í afsals- og veðmálabók Kálfastrandar 1. Segja stefndu almenna vísun stefnenda til landskiptalaga nr. 41/1946 ekki fela í sér neina sönnun fyrir staðhæfingum þeirra. Engin gögn málsins sanni að jörðin Kálfaströnd sé í rauninni ein jörð með tveimur landnúmerum eins og stefnendur haldi fram, hvað þá að allt land þeirrar jarðar sé í óskiptri sameign stefnenda. Þvert á móti sanni þinglýstar heimildir að svo sé ekki. Stefndu segja að um þennan skilning þeirra hafi aldrei neinn ágreiningur verið. Að minnsta kosti beri gögn málsins ekki með sér að því hafi áður verið haldið fram, hvort sem væri af hálfu stefnenda né annarra, að allt land Kálfastrandar sé í óskiptri sameign. Sú afstaða hafi fyrst komið fram í stefnu þessa máls. Þeim réttindum, sem stefnendur haldi fram að dánarbú Hólmfríðar eigi í Kálfastönd 1, hafi aldrei verið þinglýst svo sem skylt hefði verið samkvæmt 1. mgr. 29. gr. þinglýsingarlaga væru þau fyrir hendi og alls ekki innan þeirra fresta sem mælt sé fyrir um í 5. mgr. 7. gr. laganna. Verði slíkum réttindum því ekki haldið fram gagnvart stefndu. Stefndu segjast byggja á því að niðurstaða máls þessa ráðist að þessu leyti ekki sízt af túlkun réttarreglna sem gildi um áreiðanleika þinglýsingabóka, veðbókar­vottorða og þinglýstra heimilda. Í áreiðanleika slíkra heimilda felist annars vegar að hægt sé að treysta því að það, sem fram kemur í þinglýsingabók, veðbókarvottorði og öðrum þinglýstum heimildum, sé að efni til rétt. Samkvæmt því hafi stefndu átt að vera óhætt að ganga til samninga við stefanda Elínu og ráðast í framkvæmdir við byggingu íbúðarhússins að Kálfaströnd 1 á þeim grundvelli sem þinglýsingarbók og veðbókarvottorð jarðarinnar hafi greint frá. Hinsvegar felist áreiðanleiki þinglýsinga­bóka í því að þær greini frá tilvist allra réttinda yfir eignum, þannig að stefndu hafi mátt treysta því að hugsanleg réttindi, sem þinglýsingabækur greini ekki frá, gildi ekki og að slík réttindi þurfi ekki að virða. Segjast stefndu vísa til þess og byggja sýknukröfu sína að þessu leyti á því að þessar meginreglur um áreiðanleika þinglýstra heimilda sæki lagastoð til 1. mgr. 33. gr. og 1. mgr. 34. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Hafi þær meginreglur verið í gildi samkvæmt íslenzkum rétti allt frá útgáfu tilskipunar um afsalsbrjef og pantsetningar á Íslandi 24. apríl 1833, sbr. 6. gr. tilskipunarinnar.  Stefndu segjast byggja á því að þau hafi mátt treysta því að stefnandi Elín hefði sem þinglýstur eigandi Kálfastrandar 1 haft ótakmarkaðar heimildir að lögum, í ljósi þinglýstrar eignarheimildar sinnar, til að gera þá samninga sem nú sé krafizt ógildingar á, hvort sem þær ráðstafanir, sem í þeim felist, teljist mikilsverðar eða ekki. Þá samninga hafi stefndu gert í góðri trú. Segjast stefndu byggja á því að hvorki þau né stefnandi Elín hafi haft nokkurt tilefni til að afla samþykkis Hólmfríðar heitinnar í þeim lögskiptum. Hafi Hólmfríður þó, í samskiptum sínum við stefndu í aðdraganda samningsgerðar og á meðan á framkvæmd við húsbygginguna hafi staðið, ítrekað lýst sig samþykka þeim ráðstöfunum sem í þeim hafi falizt. Segjast stefndu byggja á því að samningar þeirra og stefnanda Elínar verði ekki ógiltir á grundvelli þess að Hólmfríður hafi ekki átt aðild að þeim eða samþykkt efni þeirra, enda sé bæði rangt og ósannað að jörðin Kálfaströnd sé í óskiptri sameign líkt og haldið sé fram í stefnu. Sannað sé að Hólmfríður Stefánsdóttir hafi ekki verið eigandi jarðarinnar Kálfastrandar 1 og ekki talið til neinna eignarréttinda yfir þeirri jörð. Til aðildar hennar að þeim samningum sem krafizt sé ógildingar á, hafi því aldrei getað komið og afstaða hennar til efnis þeirra samninga sé því þýðingarlaus. Eigi dánarbú hennar hvorki aðild að málinu né lögvarða hagsmuni af niðurstöðu þess. Þá eigi stefnendur ekki óskipt réttindi í skilningi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Af því leiði að sýkna beri stefndu af kröfum stefnenda. Að minnsta kosti leiði aðildarskortur dánarbús Hólmfríðar að málinu til þess að sýkna beri af öllum dómkröfum þess með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 19/1991. Stefndu segjast byggja á því að hvorki sé fullnægt skilyrðum 31. né 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, til að ógilda eða víkja til hliðar í heild sinni samningum stefndu og stefnanda Elínar.  Byggi kröfur stefnenda að því leyti á atvikalýsingum sem stefndu mótmæli og staðhæfingum sem ýmist séu rangar eða ósannaðar. Beri því að sýkna af kröfum sem reistar séu á þeim grundvelli. Sýknukröfu sinni til stuðning vísi stefndu til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir þeirra. Þá vísi stefndu til þess að samningafrelsi manna sé ein af grundvallarreglum réttarskipunarinnar. Allar takmarkanir á því, svo sem þær sem heimili dómstólum að ógilda þegar gerða samninga eða víki þeim til hliðar, í heild eða hluta, beri að skýra þröngt. Stefndu segja stefnendur krefjast þess að leigusamningur stefndu og stefnanda Elínar frá 16. marz 2012 um helming jarðarinnar Kálfastrandar 1, verði ógiltur í heild sinni þar sem efni hans sé óljóst og ósanngjarnt, stefnandi Elín hafi ekki skilið efni hans að fullu og að stefndu hafi þannig nýtt sér fákunnáttu hennar og reynsluleysi sér til hagsbóta. Vísi stefnendur til 31. og 36. gr. samningalaga kröfu sinni til stuðnings. Stefndu mótmæli þessu og krefjist sýknu. Rangt sé og ósannað að stefnandi Elín hafi ekki skilið efni samningsins, þvert á móti hafi henni verið fullkunnugt um efni hans enda hafi það verið í samræmi við munnlegt samkomulag hennar við stefndu í aðdraganda samningsgerðarinnar. Á grundvelli þess munnlega samkomulags, og áður en frá formlegum leigusamningi hafi verið gengið, hafi stefnandi Elín veitt stefndu formlegt leyfi til þess að byggja íbúðarhús sitt á jörðinni og auk þess að rífa og farga þeim byggingum sem fyrir hafi verið. Þá hafi stefnandi Elín sjálf átt frumkvæði að gerð leigusamnings um jörðina og sjálf lagt til í upphafi að hann næði til jarðarinnar allrar og yrði til mun lengri tíma en um hafi verið samið á endanum. Að hennar eigin sögn hafi hún notið ráðgjafar frænda síns, Ingólfs, sem fyrir hennar hönd hafi lagt til breytingar á fyrri áformum um efni samningsins. Stefnandi Elín hafi síðan ritað undir leigusamninginn í viðurvist tveggja votta og hvorki gert athugasemdir né fyrirvara við efni hans. Sé þetta, ásamt atvikum málsins að öðru leyti og samskiptum stefndu við Elínu í aðdraganda samningsgerðarinnar, til sönnunar um að henni hafi verið fullkunnugt um efni leigusamningsins sem hún hafi notið ráðgjafar við. Staðhæfingar um annað sé ósannaðar. Að sama skapi sé því hafnað sem röngu og ósönnuðu að stefndu hafi við gerð leigusamningsins beitt stefnanda Elínu misneytingu. Það hafi stefndu aldrei gert, hvorki í skilningi 31. gr. samningalaga né með öðrum hætti. Því fari fjarri að þau hafi fengið stefnanda Elínu til að undirrita samningana á vinnustað hennar í talsverðum flýti eða nýtt sér meinta fákunnáttu hennar og reynsluleysi sjálfum sér til hagsbóta eða haft ásetning til slíkra misneytingar. Staðhæfingar í stefnu um fákunnáttu og reynsluleysi stefnanda Elínar standist ekki og séu með öllu ósannaðar. Engin gögn, hvorki matsgerðir lækna, sálfræðinga né annarra sérfræðinga, liggi fyrir í málinu sem sanni að stefnandi Elín hafi verið haldin þeim andlegu annmörkum sem dómkrafa stefnanda sé byggð á. Sé með öllu ósannað að hún hafi ekki skilið efni þeirra. Því sé mótmælt sem ósönnuðu að stefnandi Elín hafi ekki lesið samningana fyrir undirritun. Teljist það hins vegar sannað, eigi stefndu ekki að bera hallann af slíku aðgæzluleysi hennar. Undirritunarstaður samningsins hafi ekki þýðingu í málinu. Stefndu segjast benda á að þau hafi ekki notið sérfræðiaðstoðar við samningsgerðina. Hvorugt þeirra hafi sérþekkingu eða menntun á sviði samningagerðar sem þessarar. Stefndi sé fyrrverandi flugstjóri en stefnda sé flugfreyja. Því sé ljóst að ekki hafi verið slíkur aðstöðumunur milli stefndu og stefnanda Elínar að leitt geti til ógildis samningsins. Þá segja stefndu aðfinnslur um það með hvaða hætti hafi verið staðið að vottun samninganna haldlausar. Stefndu segja meginefni leigusamningsins vera það að stefndu skuli vera ábúendur á helmingi jarðarinnar Kálfaströnd 1, hefja þar búskap og nytja hina leigðu jörð. Þá hafi stefndu verið heimilað að reisa sér íbúðarhús á grunni gamla bæjarins í samræmi við yfirlýsingu stefnanda Elínar. Samkvæmt samningnum skyldi lóð undir íbúðarhúsið og geymslu við það markast af gamla bæjarstæðinu ásamt afmörkuðum garði suður af byggingunum. Samningstími hafi verið umsaminn fjörutíu ár og hafi eigendum jarðarinnar verið tryggður réttur til að kaupa húsið að þeim tíma liðnum. Í leigusamningnum komi fram að leiga skuli greiðast árlega. Þar sem stefnandi hafi ekki gert upp við sig hver leigufjárhæðin skyldi vera, þrátt fyrir tillögu stefndu þar um, hafi svo verið um samið að sérstakur samningur skyldi gerður um upphæð og kjör eða þar til afstaða stefnanda lægi fyrir. Stefndu segjast mótmæla því að efni leigusamningsins sé þess eðlis að ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, í skilningi 36. gr. samningalaga. Efni samningsins, staða samningsaðila, atvik við samningsgerðinni eða atvik sem síðar hafi komið til, geti ekki leitt til ógildingar samningsins í skilningi ákvæðisins hvorki í heild eða hluta. Þvert á móti séu þau hefðbundin að því undanskildu að við samningsgerðina hafi ekki verið gengið frá samningnum um leigufjárhæð og greiðslukjör. Ástæður þess varði hins vegar stefnanda Elínu en ekki stefndu. Stefndu segjast byggja á því að það teljist hvorki ósanngjarnt né í andstöðu við venjur að samningsaðilar hafi samið um að stefndu yrðu ábúendur samkvæmt ábúðarlögum nr. 80/2004 að helmingi jarðarinnar. Í aðdraganda samningsins hafi stefnanda Elínu verið fullkunnugt um að það væri grundvallarforsenda fyrir samningsgerðinni af hálfu stefndu að þau væru að hefja búskap á jörðinni sem ábúendur. Þá forsendu hafi stefnandi Elín samþykkt fyrirvaralaust enda hafi stefndu hafið búskap á jörðinni sem ábúendur. Segjast stefndu byggja á að hefðbundið og alþekkt að bændur sem stundi búskap leigi sér jarðnæði og semji um tímabundna ábúð, sbr. 2. [sic] mgr. 5. gr. ábúðarlaga. Sú staðreynd að um ábúð stefndu hafi verið samið geti ekki leitt til ógildingar leigusamningsins í heild eða hluta samkvæmt 36. gr. samningalaga. Stefndu segjast mótmæla því að sú heimild, sem stefnandi Elín hafi veitt þeim til að reisa íbúðarhús, ásamt geymslu, á grunni gamla bæjarins sem fyrir hafi verið, hafi einskorðazt við að endurbyggja gamla bæinn sem fyrir hafi verið eða endurbæta hann með einhverjum hætti. Þvert á móti hafi það verið sameiginlegur skilningur samningsaðila að gamli bærinn yrði rifinn og nýtt hús reist á grunni hans enda hafi gamli bærinn verið svo gott sem ónýtur að mati húsafriðunarnefndar. Stefnandi Elín hafi veitt þá heimild með því skilyrði að þær framkvæmdir væru henni að kostnaðarlausu. Þá hafi hún, af ástæðum sem stefndu séu ekki kunnar, jafnframt sett það skilyrði að hið nýja íbúðarhús líktist ekki með neinum hætti gamla bænum sem fyrir hafi verið. Stefndu hafi kynnt stefnanda Elínu byggingaráform sín og borið undir hana teikningar af íbúðarhúsinu. Framkvæmdir við bygginguna hafi auk þess farið fram steinsnar frá heimili stefnanda Elínar og Hólmfríðar í samræmi við ákvæði samninga. Hvorug þeirra hafi gert athugasemdir við þær framkvæmdir á framkvæmdatímanum. Stefndu segjast byggja á því að leigusamningurinn verði hvorki dæmdur ógildur í heild né að hluta af þeirri ástæðu að ekki hafi verið samið um leigufjárhæð og greiðslukjör. Beri stefnandi Elín alfarið ábyrgð á þeim drætti sem orðið hafi á þeirri samningsgerð. Allt frá því að leigusamningurinn hafi verið undirritaður hafi stefndu ítrekað óskað eftir því við stefnanda Elínu að hún efndi skuldbindingar sínar samkvæmt 3. gr. leigusamningsins með því að ljúka samningum við stefndu um fjárhæðir og greiðslukjör. Hafi stefndu borið þær óskir fram óformlega en einnig með formlegum og ítrekuðum áskorunum um efndir af hennar hálfu samkvæmt 3. gr. samningsins. Í því skyni að ljúka samningsgerðinni hafi stefndu boðizt til að greiða stefnanda Elínu 191.300 krónur árlega í leigu eða jarðarafgjald og afturvirkt frá því að leigusamningurinn hafi verið gerður hinn 16. marz 2012. Sé framboðin fjárhæð hæfileg og sanngjörn og umtalsvert hærri en almennt sé greidd vegna leigu nálægra jarða í Mývatnssveit og samkvæmt gildandi reglum um fjárhæð jarðarafgjalda fyrir ábúð, leigu og lóðarleigu á ríkisjörðum og landi á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Hafi stefnandi Elín hafnað öllum framangreindum tillögum stefndu og auk þess ekki sýnt neinn vilja til að ljúka samningsgerð um fjárhæð og greiðslukjör. Þar við bætist að ekki liggi fyrir neinar hugmyndir eða kröfur af hálfu hennar um fjárhæð leigugjalds og greiðslufyrirkomulag þess. Stefndu segjast byggja á því að þau hafi án árangurs leitað allra leiða til þess að ljúka samningum við stefnanda Elínu um upphæð og greiðslukjör leigufjárhæðar sam­kvæmt 3. gr. leigusamningsins. Hafi stefndu raunar staðið ráðþrota gagnvart háttsemi stefnanda Elínar í þessum efnum. Segjast stefndu mótmæla því að tilraunir sínar feli í sér eftirá skýringu og tilraun til að réttlæta samninginn eins og haldið sé fram í stefnu. Þvert á móti beri gögn málsins með sér að samningsvilji stefndu hafi að þessu leyti frá upphafi verið skýr. Að þessu virtu liggi fyrir að sá dráttur sem orðið hafi á því að frá samningum um upphæð og kjör samkvæmt 3. gr. leigusamningsins yrði gengið, sé alfarið á ábyrgð stefnanda Elínar. Stefndu segjast byggja á því að engin lagastoð sé fyrir því, hvorki samkvæmt 36. gr. samningalaga né öðrum réttareglum, að þau þurfi að þola ógildingu leigusamningsins á þeim grundvelli að stefnandi Elín hafni því að efna samnings­skuldbindingu sína um að semja við stefndu um fjárhæð og greiðslukjör leigufjárhæðar og neiti jafnframt að taka við framboðinni leigufjárhæð úr hendi stefndu með þeim hætti sem þau hafi boðið. Skilyrði 36. gr. samningalaga fyrir ógildingu leigusamningsins, í heild eða hluta, séu því ekki uppfyllt. Stefndu segjast byggja á því að leigusamningurinn verði ekki ógiltur með dómi með vísan til gildistíma hans. Umsaminn leigutími til fjörutíu ára sé eðlilegur og í samræmi við leigutíma hefðbundinna samninga um sambærileg réttindi, svo sem ábúðarsamninga og lóðaleigusamninga. Vísi stefndu í því sambandi meðal annars til ákvæða 5. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 sem heimili að ábúðarsamningar séu gerðir til lífstíðar og gangi jafnframt í erfðir. Þá vísi stefndu til þess að í kjölfar þess að leigusamningurinn hafi verið gerður hafi stefndu ráðizt í kostnaðarsamar framkvæmdir við byggingu íbúðarhúss á jörðinni. Eðli málsins samkvæmt hefðu stefndu aldrei ráðizt í svo umfangsmiklar fjárfestingar á grundvelli leigusamnings til skamms tíma. Segjast stefndu byggja á því að um þetta hafi stefnanda Elínu verið fullkunnugt enda hafi hún samþykkt umsaminn leigutíma án fyrirvara og hafi raunar sjálf, í aðdraganda samningsgerðarinnar, boðið stefndu jörðina alla til leigu til 99 ára. Verði því hvorki talið að gildistími leigusamningsins sé ósanngjarn né óeðlilegur né að stefnandi Elín hafi litið svo á í aðdraganda samningsgerðarinnar. Í ljósi þessa byggi stefndu á því að skilyrði 36. gr. samningalaga fyrir ógildingu leigusamningsins af þessari ástæðu sé ekki uppfyllt. Loks byggi stefndu á því að önnur ákvæði leigusamningsins geti ekki leitt til ógildingar hans, hvorki á grundvelli 31. né 36. gr. samningalaga. Stefndu segja stefnendur krefjast þess að lóðarleigusamningur stefndu og stefnanda Elínar, frá 25. janúar 2013, verði ógiltur eða honum vikið til hliðar í heild sinni. Krafa þeirra um ógildingu samningsins sé í meginatriðum byggð á sömu málsástæðum og krafa um ógildingu fyrri samningsins. Kröfunni til stuðnings sé jafnframt vísað til 31. og 36. gr. samningalaga. Stefndu segjast mótmæla þessum hluta dómkrafna stefnenda og krefjast sýknu. Stefndu segjast byggja á því að við úrlausn málsins verði að skýra ákvæði þessa samnings til samræmis við ákvæði hins fyrra. Helgist það af tilurð hans. Svo sem fram komi í 3. gr. leigusamningsins fyrri hafi svo verið umsamið að hluti hins leigða samkvæmt þeim samningi væri lóð undir íbúðarhús stefndu ásamt geymslu sem markast skyldi af eldra bæjarstæði ásamt afmörkuðum garði suður af byggingunni. Eftir að framkvæmdir við byggingu íbúðarhúss stefndu hafi verið hafnar, í júnímánuði 2012, hafi borizt tilkynning frá Þjóðskrá þess efnis að stofna þyrfti nýja lóð undir íbúðarhúsið þar sem gamla íbúðarhúsið hefði verið afskráð. Af þeirri ástæðu hafi verið lögð fram hjá Þjóðskrá Íslands umsókn um stofnun nýrrar lóðar á jörðinni Kálfaströnd 1. Undir þá umsókn hafi stefnandi Elín ritað. Teljist hún því vera umsækjandinn um stofnun lóðarinnar á jörð sinni. Að sama skapi teljist sannað að lóðin hafi verið stofnuð bæði með samþykki og fyrir tilverknað stefnanda Elínar. Í kjölfar þessa hafi stefndu óskað eftir því við sveitarstjórn Skútustaðahrepps að stofnuð yrði ný lóð í landi jarðarinnar Kálfastrandar 1. Þá hafi samþykki eigenda jarðarinnar legið fyrir. Í kjölfar þessara atvika og eftir stofnun hinnar nýju lóðar á jörðinni hafi stefndu og stefnandi Elín gert með sér samning um leigu stefndu á hinni nýju lóð. Efni þess samnings sé í meginatriðum sambærilegt efnisatriðum fyrri leigusamnings að því undanskildu annars vegar að leiguandlagið sé einungis lóðin á hinu leigða landi. Vísi stefnendur meðal annars til þess að samkvæmt 5. gr. lóðarleigusamningsins komi fram að hann gildi frá 16. marz 2012 en þann dag hafi fyrri samningur verið gerður. Hins vegar sé síðari lóðarleigusamningurinn frábrugðinn fyrri samningi að því leyti að í 3. gr. þess yngri komi fram að leiga samkvæmt honum greiðist árlega og nemi 5.000 krónum. Stefndu segjast byggja á því að þessi fjárhæð, 5.000 krónur, hafi einungis verið tilgreind til bráðabirgða eins og fjárhæðin beri augljóslega með sér. Segjast stefndu vísa til þess, að þegar síðari samningurinn hafi verið gerður, hafi stefndu og stefnandi Elín ekki verið búin að ganga frá samningum um upphæð og kjör, samkvæmt fyrri leigusamningi. Samkvæmt upplýsingum frá fulltrúa sýslumannsins á Húsavík hafi framangreind upphæð verið lágmarksfjárhæð sem tilgreina þyrfti í lóðarleigu­samningum til þess að þeir teldust tækir til þinglýsingar. Af þeirri ástæðu einni hafi sú fjárhæð verið tilgreind í samningum. Um það hafi stefnanda Elínu verið fullkunnugt og að samkomulag hafi verið milli aðila um að haga samningsgerðinni með þessum hætti til bráðabrigða þar til endanlegur samningur um fjárhæð og kjör hefði verið gerður. Segjast stefndu byggja á því að eftir sem áður hafi vilji beggja aðila staðið til þess á þeim tíma að semja sérstaklega um fjárhæð og kjör, sbr. 3. gr. eldri samnings, og tæki þar bæði til leigufjárhæðar samkvæmt fyrri leigusamningi og lóðarleigu samkvæmt síðari leigusamningi, enda hafi ráð verið fyrir því gert við gerð fyrri samnings að lóð undir íbúðarhús stefndu, ásamt geymslu, væri hluti af þeim samningi. Segja stefndu að aldrei hafi staðið til af sinni hálfu að halda þessari fjárhæð upp á stefnanda Elínu. Stefndu hafi, allt frá því að samningarnir hafi verið gerðir, leitað allra leiða til að ná samkomulagi við stefnenda um fjárhæð og kjör, lagt fram tillögur um greiðslu margfalt hærri fjárhæðar henni til handa, og lagt fram áskoranir. Hafi þær tilraunir stefndu engum árangri skilað, af ástæðum sem stefnandi Elín beri ábyrgð á. Með vísan til þessa segjast stefndu telja að ekki séu lagaskilyrði, samkvæmt ákvæðum 36. gr. samningalaga, fyrir því að ógilda síðari lóðarleigusamninginn, hvort sem væri í heild eða að hluta, á þeim grundvelli að sú fjárhæð, sem þar sé tilgreind, sé ósanngjörn í skilningi ákvæðisins. Sú málamyndafjárhæð hafi einungis verið tilgreind í samningnum til bráðabirgða og í því skyni að hann teldist tækur til þinglýsingar. Það hafi báðir aðilar samþykkt. Það standi alfarið upp á stefnanda Elínu að ganga til samkomulags við stefndu um upphæð og kjör. Svo lengi sem hún hafni því að ganga til þess samkomulags sé stefndu ókleift að greiða henni eða semja við hana um hærra endurgjald sem stefndu sannarlega vilji greiða. Segjast stefndu byggja á því að sá ómöguleiki, sem afstaða stefnanda Elínar hafi skapað að þessu leyti, geti ekki leitt til ógildingar lóðarleigusamningsins í heild í skilningi 36. gr. samningalaga. Í ljósi atvika málsins væri slík niðurstaða bersýnilega ósanngjörn gagnvart stefndu. Þá segjast stefndu byggja á því að önnur ákvæði lóðarleigusamningsins geti samkvæmt efni sínu ekki leitt til ógildingar hans á grundvelli 36. gr. samningalaga. Auk þess sem áður hafi verið sagt um efni hans og tilurð segjast stefndu vísa til þess sem þau hafi sagt um efnisákvæði fyrri samnings og þeirra málsástæðna sem þar komi fram. Sé krafa stefndu um sýknu um kröfu um ógildingu þessa samnings jafnframt á þeim byggð. Með vísan til þessa beri að sýkna stefndu af kröfum stefnenda um ógildingu samningsins. Stefndu segja að niðurstaða málsins verði ekki byggð á drögum að skipta­samningi enda hafi þau samningsdrög aldrei verið undirrituð. Stefndu segjast mótmæla umfjöllun í stefnu um samningsdrögin og jafnframt þeim ályktunum sem af þeim séu dregnar af hálfu stefnenda. Stefndu segja að til viðbótar þeim málsástæðum sem hér hafa verið raktar byggi þau á því að sýkna beri þau af öllum dómkröfum sökum tómlætis stefnenda. Krafa stefnanda Elínar um ógildingu leigusamningsins og lóðarleigusamningsins hafi fyrst komið fram hinn 10. september 2014. Þá hafi tæplega þrjú ár verið liðin frá því framkvæmdir vegna byggingar íbúðarhúss stefndu hafi hafizt og tvö og hálft ár frá því að leigusamningurinn um jörðina Kálfaströnd 1 hafi verið undirritaður. Fram að því hafi stefnandi Elín aldrei komið þeirri afstöðu sinni á framfæri gagnvart stefndu að ógilda bæri samningana. Hvorki af þeirri ástæðu að hún teldi að með þeim væri á sig hallað né að samþykki Hólmfríðar fyrir samningsgerðinni hefði skort þar sem allt land Kálfastrandar væri í óskiptri sameign þeirra beggja, né af öðrum ástæðum. Krafa Hólmfríðar Stefánsdóttur heitinnar um ógildingu samninganna hafi fyrst komið fram við birtingu stefnu hinn 18. marz 2015. Af þessu leiði að kröfur stefnenda um ógildingu samninganna hafi ekki komið fram fyrr en eftir að framkvæmdum við íbúðarhús stefndu á jörðinni hafi verið löngu lokið og eftir að stefndu hafi hafið þar bústörf á grundvelli samninga sem stefndu hafi gert í góðri trú. Segjast stefndu byggja á því að stefnanda Elínu og Hólmfríði hafi báðum verið í lófa lagið að koma kröfum sínum um ógildingu samninganna, eða breytingar á þeim, á framfæri við stefndu á fyrri stigum og löngu áður en framkvæmdum hafi verið lokið og stefndu hafi flutzt norður á Kálfaströnd 1 og hafið þar búskap. Segjast stefndu vísa til þess að samskipti aðila málsins bæði í aðdraganda samningsgerðarinnar og eftir hana hafi verið mikil og regluleg. Framkvæmdir stefndu við byggingu íbúðarhússins hafi átt sér stað í mikilli nálægð við heimili stefnenda, þær hafi staðið lengi yfir og blasað við stefnendum á hverjum degi. Stefnendur hafi aldrei hreyft neinum athugasemdum vegna þeirra. Í ljósi þess séu kröfur stefnenda um ógildingu samninganna allt of seint fram komnar. Segjast stefndu byggja á því að stórfellt aðgerðaleysi og tómlæti stefnenda verði að meta stefndu í hag. Beri því að sýkna stefndu. Stefndu segjast til vara gera þá kröfu að leigusamningnum og lóðarleigusamningnum verði, ýmist öðrum eða báðum, einungis vikið til hliðar að hluta eða breytt á þann hátt að þeir teljist ekki að mati dómsins ósanngjarnir eða andstæðir góðri viðskiptavenju í skilningi 36. gr. samningalaga. Í varakröfunni felist að dómurinn víki til hliðar eða breyti þeim ákvæðum samninganna sem hann telji ekki samrýmast ákvæðum 36. gr. samningalaga, en að önnur ákvæði samninganna haldi gildi sínu. Stefndu segjast vísa til þess að samkvæmt 1. mgr. 36. gr. samningalaga sé dómstólum heimilt að víkja samningi til hliðar að hluta eða breyta að uppfylltum öðrum skilyrðum ákvæðisins. Stefndu segjast byggja á því að efnisákvæði samninganna séu í meginatriðum hefðbundin og að skilyrði 36. gr. samningalaga séu ekki uppfyllt þannig að heimilt sé að víkja þeim til hliðar í heild sinni. Telji dómstólar hins vegar efni til þess að fallast með einhverjum hætti á dómkröfur stefnenda byggi stefndu á því að nægilegt sé að víkja einungis til hliðar eða breyta ákvæðum 2. ml. 3. gr. lóðarleigusamningsins og/eða ákvæðum 2. ml. 3. gr. leigusamningsins til þess að þeir hagsmunir, sem ákvæðum 36. gr. samningalaga sé ætlað að vernda, teljist tryggðir. Segjast stefndu í því sambandi vísa annars vegar til þess að í umfjöllun um aðalkröfu stefndu komi fram að leigufjárhæð samkvæmt 2. ml. 3. gr. lóðarleigusamningsins hafi einungis verið tilgreind til bráðabirgða og í því skyni að samningurinn teldist tækur til þinglýsingar og um þá tilhögun hafi samningsaðilar verið sammála. Segjast stefndu byggja á því að nægilegt verði að teljast að því ákvæði samnings verði vikið til hliðar eða því breytt á þann hátt að dómurinn leggi mat á hvert sanngjarnt og hæfilegt lóðarleigugjald teljist vera. Þá segjast stefndu vísa til þess að í umfjöllun þeirra um aðalkröfu komi fram að ekki hafi tekizt samningar milli stefndu og stefnanda Elínar um fjárhæð og kjör samkvæmt 3. gr. leigusamningsins þrátt fyrir tillögur og áskoranir stefndu þar um. Til þess að tryggja að efni leigusamningsins teljist ekki ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju í skilningi 36. gr. samningalaga telji stefndu nægilegt að því ákvæði verði vikið til hliðar eða því breytt á þann hátt að dómurinn leggi mat á hvert sanngjarnt og eðlilegt leigugjald skuli vera. Varakröfum sínum til stuðnings segjast stefndu vísa til þess að sú niðurstaða að víkja samningi til hliðar í heild sinni væri stefndu afar þungbær. Hún væri bersýnilega ósanngjörn í þeirra garð og myndi fyrirsjáanlega hafa verulegt tjón í för með sér fyrir þau. Segjast stefndu byggja á því að við mat á heimildum sínum til að beita þeim úrræðum sem ákvæði 36. gr. samningalaga mæli fyrir um beri dómstólnum að gæta meðalhófs og ganga ekki lengra við beitingu þeirra en nauðsynlegt sé. Að öðru leyti sé það lagt í mat dómsins hvort og þá með hvaða hætti framangreindum úrræðum 36. gr. samningalaga skuli beitt við úrlausn máls þessa. Stefndu segjast byggja málskostnaðarkröfu sína á ákvæðum 130. gr. laga nr. 91/1991 og krefjist þau virðisaukaskatts á dæmdan málskostnað en þau séu ekki virðisaukaskattsskyld. Stefndu segjast vísa til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir þeirra. Þá vísi þau til 2. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Þá vísa þau til þinglýsingalaga nr. 39/1978, svo sem 5. mgr. 7. gr., 1. mgr. 29. gr., 1. mgr. 33. gr. og 1.mgr. 34. gr. laganna. Jafnframt vísi þau til laga nr. 7/1936, einkum 31. og 36. gr. laganna en og til landskiptalaga nr. 41/1946 og ábúðarlaga nr. 80/2004. Þá vísi stefndu til reglna um fjárhæð jarðarafgjalds fyrir ábúð, leigu og lóðarleigu á ríkisjörðum og landi á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins frá 13. júlí 2011. Um sönnun og sönnunarbyrði vísi stefndu til meginreglna einkamálaréttarfars og ákvæða 2. þáttar laga nr. 91/1991. Niðurstaða Aðilar deila um hvort mæðgurnar stefnandi Elín og Hólmfríður heitin hafi átt Kálfaströnd alla í óskiptri sameign þegar hinir umdeildu samningar voru gerðir eða hvort þá hafi Kálfaströnd I verið sjálfstæð jörð í einkaeign stefnanda Elínar. Rakið hefur verið landamerkjabréf „fyrir jörðinni Kálfaströnd við Mývatn“, sem lesið var á manntalsþingi á Skútustöðum 20. maí 1886 og fært til bókar. Hefur jörðin Kálfaströnd þá verið ein og óskipt og þannig stendur enn, hafi lögfest skipti ekki farið fram. Til vitnis um slík skipti eru fyrst og fremst skráð merkjagerð samkvæmt eldri eða núgildandi landamerkjalögum og skiptagerð á grundvelli landskiptalaga. Sé því haldið fram, að skiptum hafi verið ráðið til lykta með öðrum hætti, svo sem samningum, verður að færa óyggjandi sönnur á slíka staðhæfingu. Í málinu liggur ekki fyrir nein landskiptagerð um Kálfaströnd. Hafa að mati dómsins engar sönnur verið færðar á það að landskipti hafi farið fram og að Kálfaströnd sé ekki lengur ein sjálfstæð jörð. Breytir þar engu þótt Kálfaströnd I og II hafi hvor sitt fasteignamatið og ræður hér ekki úrslitum heldur hvaða skilning stefnandi Elín kann að hafa haft á þessu atriði áður. Ekki breyta heldur þinglýstar heimildir til Kálfastrandar I og II. Verður því að líta svo á, að þegar hinir umdeildu samningar voru gerðir, hafi Kálfaströnd verið í óskiptri sameign mæðgnanna Hólmfríðar og stefnanda Elínar. Var því ekkert athugavert við aðild Hólmfríðar að málinu. Samkvæmt almennum reglum eignaréttar gildir sú meginregla um sérstaka sameign að samþykki allra sameigenda þarf til óvenjulegra ráðstafana og ráðstafana sem eru meiri háttar þótt venjulegar megi teljast. Hólmfríður heitin átti ekki aðild að þeim samningum sem deilt er um í málinu. Stefnandi Hólmfríður lézt hinn 21. maí 2016. Við munnlegan málflutning byggðu stefndu á því að öll réttindi hennar rynnu til stefnanda Elínar og ættu þá ekki lengur við sjónarmið um óskipta sameign. Fyrir dómi sagðist vitnið Axel Kristjánsson hrl. hafa samið erfðaskrár Hólmfríðar heitinnar og stefnanda Elínar og væri stefnandi Elín einkaerfingi móður sinnar. Við munnlegan málflutning kom einnig fram af hálfu stefnenda að ekki væri öðrum erfingjum til að dreifa. Að mati dómsins er með vísan til þessa óhætt að byggja á því að stefnandi Elín standi ein til arfs eftir móður sína. Ekkert hefur komið fram um að eigur búsins renni annað en til Elínar, svo sem til lánardrottna. Verður miðað við að öll yfirfæranleg réttindi Hólmfríðar muni við skiptalok renna til stefnanda Elínar. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að stefndu hafi verið kunnugt um eignarréttindi Hólmfríðar til jarðarinnar. Ef fallizt yrði á þá kröfu, að hinir umdeildu samningar yrðu ógiltir af þeim sökum að eigandinn Hólmfríður hefði ekki verið höfð með í gerðum þegar sameigandi hennar, stefnandi Elín, skrifaði undir samningana, fælist í þeirri niðurstöðu að stefnandi Elín, sem ein stendur til allra eignarréttinda yfir Kálfaströnd, þyrfti ekki að standa við samninga sína af þeirri ástæðu að hún sjálf hefði ekki gætt réttinda þáverandi meðeiganda síns. Þegar á framanritað er horft þykja, eins og á stendur, ekki efni til þess að fallast á kröfu um ógildingu samninganna á þeirri forsendu að skort hafi á samþykki Hólmfríðar þegar samningarnir voru gerðir. Stefnendur styðja kröfur sínar einnig við 31. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í stefnu er á því byggt að stefnandi Elín sé einstæð sveitakona, reynslu- og þekkingarlaus í viðskiptum en á hinn bóginn séu stefndu lífsreynd með reynslu í fasteignaviðskiptum. Stefndu segjast ekki hafa beitt stefnanda Elínu misneytingu. Allar staðhæfingar um fákunnáttu hennar og reynsluleysi standist ekki og séu ósannaðar. Stefndu skoruðu á stefnanda Elínu um að koma fyrir dóm við aðalmeðferð og gefa skýrslu en hún kaus að gera ekki svo. Fyrir dómi sagði vitnið sr. Örnólfur Jóhannes Ólafsson að stefnandi Elín hefði ekki mikið verið „í samskiptum svona út á við, sem sagt svona almennu félagslífi í sveitinni“. Vitnið sagðist halda að stefnandi Elín væri „ekkert einfaldari heldur en hver önnur manneskja, þurfa ekki allir að leita sér aðstoðar í samningagerð eitthvað?“. Þegar borið var undir vitnið að byggt væri á fákunnáttu og reynsluleysi stefnandans sagði það: „Ég held að hún hafi verið mjög ákveðin svona um það hún, þannig séð, hvað hún vildi“. Vitnið Arnfríður Anna Jónsdóttir, eiginkona sr. Örnólfs og frænka stefnda Halldórs, sagði þegar það var spurt um eiginleika stefnanda Elínar: „Já, það er mjög erfitt að segja það alveg, en sko ég mundi ekki kalla hana einfalda á neinn hátt, eða þá, ég legg þá merkingu í orðið einföld að hún sé með ja ekki svona alveg nógu mikið vit til daglegra þarfa eða svona, það myndi ég alls ekki segja. Hún er, ég mundi kannski segja svona fljótfær kannski, [...] já getur skipt um skoðanir held ég, hefur mér virzt alla vegana, [...] ég hugsa að hún hafi aldrei endilega viljað búa á Kálfaströnd mikið, eða vera þar, en vegna svona fjölskylduaðstæðna og svona þá var hún þar að mestu, en ég veit ekki hvað ég á að segja, trúgjörn? ekkert svona frekar heldur en bara gengur og gerist með fólk, svo ég viti.“ Vitnið sagðist ekki hafa neina sérstaka ástæðu til að ætla að auðvelt væri að nýta sér fákunnáttu stefnandans, hún gæti „verið ákveðin með það sem hún ætlar sér“. Vitnið Stefán Vignir Skaftason sagðist alltaf hafa kunnað vel við stefnanda Elínu og séð hana alast upp í föðurtúni. Væri hún „mjög skipulögð og ágæt stúlka að öllu leyti.“ Spurt um reynslu hennar af samningagerð og slíku svaraði vitnið: „Það hefur kannski ekki legið vel fyrir henni, en ég skal ekki segja um það en hún hefur haft örugglega einhverja hjálparmenn við það líka.“ Nánar spurt sagði vitnið að því hefði fundizt stefnandi Elín „vita alveg hvað hún er að gera svona yfirleitt, [...] en sjálfsagt er hún ekki veraldarvön“. Vitnið bætti við að það héldi að hún væri „nú enginn einfeldningur en sjálfsagt er hún saklaus, hún var nú lengi í föðurtúni og sjálfsagt hefur það nú eitthvað haft áhrif á hana. [...] Verið vernduð og verið í vernduðu umhverfi.“ Vitnið kvaðst ekki vilja úttala sig um þetta en „ég hefði haldið að hún væri bara sæmilega skynsöm stúlka.“ Vitnið Ingólfur Ísfeld Jónasson, frændi stefnanda Elínar, sagði að stefnandinn vildi allra vanda leysa. „Hún vill gera allt fyrir alla og hérna hefur alltaf verið þannig og er enn í dag og hérna og hún hefur mjög mikið traust á fólki, treystir því að allir séu eins og hún eða lítur þannig á það held ég [...] hrekklaust og allir séu að gera af beztu samvizku.“ Spurt um reynslu stefnandans af lífinu utan Kálfastrandar svaraði vitnið: „Hún vann um tíma á veturna á Húsavík, hérna inni á Akureyri aðeins, en að öðru leyti hefur hún verið þarna bara heima alla tíð. Hún fór ekki í neinn framhaldsskóla, hún er bara með grunnskólapróf og fór ekkert í skóla neitt meira, [...] Hennar reynsla svona í viðskiptum og öðru er afskaplega lítil af því að faðir hennar sá um alla hluti á meðan hans naut við sko, svo held ég að Auður föðursystir hennar hafi svona raunverulega tekið við sem stjórnandi eftir það, meðan hún lifði. Þannig að, að hérna það var mjög hérna, mjög litla reynslu af viðskiptum hjá [stefnanda] Elínu.“ Vitnið sagði að stefnandi hefði ekki treyst sér til að koma fyrir dóminn, „bara hreint og klárt [...] þetta hvílir mjög þungt á henni. Og hún bara hreint og klárt treystir sér ekki.“ Vitnið sagðist vita til þess að stefnandi Elín hefði gert erfðaskrá en ekki vita hverjir væru þar nefndir til arfs. Kvaðst vitnið ekki hafa neinna beinna hagsmuna að gæta, annarra en stefnanda Elínar, en hún vildi helzt selja jörðina, og „þá þarf að leysa þetta mál“. Vitnið sagði að stefnandi Elín hefði ekki skynjað til fulls hvað samningarnir þýddu til framtíðar, „hún skynjaði ekki það að þetta væri til að aftra því að hún gæti selt jörðina.“ Vitnið Axel Kristjánsson hrl., sem gætti hagsmuna stefnanda um hríð fyrir málshöfðun, sagði stefnanda einstaklega heiðarlega og velviljaða konu „en kannski ekki með mjög víðan sjóndeildarhring og náttúrlega algjörlega reynslulaus í svona löguðu eins og meðal annars kemur fram í þessu sem að hún segir við mig, þegar ég fer fyrst að ýja að því að hún verði að gera eitthvað til að ógilda þetta, þá segir hún nei nei nei þetta er allt í lagi, hann Dóri er að útbúa nýjan samning, og það var alveg sama þó að ég segði henni að þessi samningur [væri] þinglýstur, sem gilda og í höndum á þeim út af þessu, og nei nei það er engin hætta og það var allt í þessum dúr sko.“ Vitnið Íris Sigurðardóttir, vinkona stefndu Bjargar, sagðist hafa kynnzt stefnanda Elínu og Hólmfríði heitinni með stefndu á Kálfaströnd. Væri það ekki sín „upplifun af Ellu“ að hún væri einföld. Kvaðst vitnið telja stefnandann hafa skilið þýðingu samninganna. Vitnið Kristján Wathne Sævarsson smiður, sem vann að byggingu hússins fyrir stefndu, sagði að stefnandi Elín hefði komið sér fyrir sjónir sem heilsteypt manneskja, með ákveðnar skoðanir og verið „kát og glöð.“ Að öllu samanlögðu virðist ljóst að stefnandi Elín sé reynslulítil í viðskiptum, þar með talin fasteignaviðskipti, og hafi stutta skólagöngu að baki. Ekkert hefur hins vegar komið fram sem bendir til þess að stefndu séu reynsluminni á þeim sviðum en gerist og gengur. Stefndi Halldór Þorlákur var flugstjóri en stefnda Björg er flugfreyja. Fram kom hjá stefnda fyrir dómi að hann tók þátt í félagsmálum flugmanna og var meðal annars í forystu samninganefndar þeirra. Verður að leggja til grundvallar að talsverður munur sé að þessu leyti á stefnandanum og hinum stefndu. Á hinn bóginn hefur að mati dómsins ekki verið sýnt fram á að stefndu hafi, í skilningi 31. gr. laga nr. 7/1936, nýtt sér einfeldni stefnandans eða einhver önnur þau atriði sem talin eru upp í lagagreininni, til þess að afla sér hagsmuna á stefnandans kostnað. Verða samningarnir ekki ógiltir samkvæmt þeirri grein. Segja má að samkvæmt efni sínu veiti leigusamningurinn frá 16. marz 2012 og lóðarleigusamningurinn frá 25. janúar 2013 stefndu tvenn mikilvæg réttindi. Annars vegar segir í þeim að stefndu verði ábúendur á Kálfaströnd og hins vegar að stefndu sé heimilt að „endurbyggja húsin á Kálfaströnd I“. Í leigusamningnum frá 16. marz 2012 segir að stefndu verði „ábúendur á Kálfaströnd I og leigjendur á helmingi hlutar (50%) Kálfastrandar I“ en í lóðarleigusamningnum frá 25. janúar 2013 segir að þau verði „ábúendur á Kálfaströnd I og leigjendur að ofangreindri eign“. Fyrir dómi kvaðst stefndi Halldór Þorlákur hafa samið fyrri samninginn. Síðari samninginn hefði hann samið „að mestu leyti sjálfur“. Í inngangi leigusamningsins segir að aðilar hans geri „með sér leigusamning vegna endurbyggingar á íbúðarhúsi á grunni gamla bæjarins að Kálfaströnd I Mývatnssveit.“ Í innganginum er ekki vikið að því stefndu verði jafnframt ábúendur á Kálfaströnd, en það kemur fram í meginmáli samningsins svo sem rakið var. Fyrir dómi lýstu hjónin sr. Örnólfur Jóhannes og Arnfríður Anna, sem voru vottar að undirritun beggja samninga, hvernig yfirbragðið hefði þar verið. Sr. Örnólfur Jóhannes sagði að ríkt hefði „gleði og ánægja yfir því að það væri verið að ganga frá þessum samningum“. Nánar spurt sagði vitnið að það hefði verið „jákvæðni af hennar hálfu að það væri verið að ganga frá þessu og þau væru bara [að] byggja á Kálfaströnd og þetta yrði bara ánægjulegt sambýli. Það var öll okkar upplifun.“ Arnfríður Anna lýsti því að „allir [voru] glaðir og ánægðir með þetta alla vegana.“ Þegar vitnið var spurt yfir hverju stefnandi Elín hefði verið svo glöð svaraði það: „Ja, yfir því að því að þau væru að koma til þess að setjast að á Kálfaströnd og yfir því, já bara að það væri byggt þarna upp og rifið húsið, sem að var náttúrulega [...] að hruni komið alveg, já bara glöð yfir því að fá einhverja fleiri til þess að búa á staðnum.“ Vitnið var sérstaklega spurt hvort það hefði verið áherzluatriði stefnanda Elínar að íbúðarhúsið væri endurbyggt, og svaraði vitnið: „Já mér finnst að það hafi verið henni, ja alla vegana sérstaklega að húsið væri rifið, gamla, [...] og endurbygging, já alla vega að það væri rifið, það var pottþétt sko.“ Spurt hvort það niðurrif hefði glatt stefnanda Elínu sérstaklega svaraði vitnið: „Já, bara vegna þess að húsið væri hrunið, sko.“ Vitnið Íris Sigurðardóttir sagðist hafa hitt mæðgurnar Hólmfríði og stefnanda Elínu af og til. Vitnið sagði að „bæði Fríða og Elín virtust vera mjög ánægðar með að það væri að færast svona meira líf í þarna í kring um Kálfatjörn og að það færi að koma fólk. Og Ella var bara ánægð með þetta [...] að gamli bærinn væri að fara og það væri að reisa þarna, það yrði reist þarna nýtt hús. Ég gat aldrei skynjað neina óánægju eða neitt svona annað en að þeim væri þetta bara, þætti þetta bara góðar tillögur, eða hvernig maður orðar þetta.“ Nánar spurt sagði vitnið: „Ja, ég veit bara það að mér fannst Ella vilja þetta gamla hús í burtu. Og hún sagði sjálf að hérna hún vildi ekki að þetta nýja hús líktist gamla húsinu á neinn hátt. Og þetta gamla drasl skyldi bara allt hverfa þarna“. Hefði vitnið sjálft heyra stefnanda Elínu segja þetta. Vitnið Kristján Wathne Sævarsson smiður sagði að Hólmfríður og stefnandi Elín hefðu verið „hoppandi kátar [...] þegar við komum þarna.“ Stefnandi Elín hefði verið „mjög dugleg að koma alltaf út í hús til okkar og líta eftir framkvæmdum“, fylgjast með og ýta á eftir. Af þeim framburði vitna sem hér hefur verið rakinn fæst sú mynd að stefnandi Elín hafi verið mjög ánægð með þá framkvæmd stefndu að rífa íbúðarhúsið sem fyrir var og reisa nýtt. Færra hefur hins vegar verið sagt um skoðun hennar á því atriði að stefndu verði ábúendur á Kálfaströnd. Í samningunum báðum koma áðurnefnd meginréttindi stefndu skýrt fram, að þau megi endurbyggja hús og að þau verði ábúendur. Á þessum tveimur atriðum er hins vegar sá munur að enginn þarf að velkjast í vafa um merkingu og afleiðingar þess að stefndu fái að endurbyggja hús og að samningstíma loknum geti eigandi jarðarinnar keypt húsið á matsvirði, en þýðing þess í bráð og lengd að stefndu fái réttindi sem ábúendur liggur ekki í eins í augum uppi. Fyrir dómi sagði stefndi Halldór Þorlákur að „mjög miklar takmarkanir [væru] á því að byggja á Kálfaströnd eða nýta hana til landbúnaðar, vegna þess að hún ber ekki nema fimmtíu kindur [...] sem að enginn myndi detta í hug að setja upp fjárbúskap þegar talið er af bændasamtökum að það sé lágmark fjögur hundruð kindur á vetrarfóðrum til að það borgi sig“. Rakið hefur verið það sem segir í samningunum um leigugjald. Í fyrri samningnum segir að leiga greiðist árlega og að síðar verði samið um upphæð og kjör. Í hinum síðari segir á hinn bóginn að leiga greiðist árlega og verði hún fimm þúsund krónur á ári. Á þeirri fjárhæð hafa stefndu gefið þá skýringu að hún hafi verið sett í samninginn til málamynda, þar sem fulltrúi sýslumannsins á Húsavík hafi upplýst að án ákveðinnar leigufjárhæðar yrði samningnum ekki þinglýst. Byggja stefndu á því í greinargerð sinni að þau hafi boðið stefnanda Elínu 191.300 krónur á ári, frá 16. marz 2012, en hún ekki viljað semja um slíkt. Fyrir dómi sögðu stefndu bæði að þau yrðu sátt við að leigugjald yrði miðað við niðurstöður dómkvadds matsmanns, samtals 310.000 krónur á ári. Stefnandi Elín naut ekki sérfræðiráðgjafar, svo sem lögmanns, lögg. fasteignasala eða lögg. endurskoðanda, við samningagerðina. Frændi hennar, vitnið Ingólfur Ísfeld Jónasson mun hafa verið henni innan handar að einhverju leyti um skeið, en því verður ekki jafnað til slíkrar ráðgjafar. Fyrir dómi var vitnið Stefán Vignir Skaftason, dómkvaddur matsmaður, spurt hvort jörðin væri á einhvern hátt óvenjuleg miðað við aðrar jarðir í sveitinni. Svaraði vitnið því svo: „Ég held að hún sé afar sérstök já, af náttúrufegurð og einstökum hraunmyndum sem hafa runnið þarna í hrauni og runnið út í vatnið og myndað já svona hraunborgir og ýmislegt [...] þetta er náttúrulega mjög einstaklega falleg jörð, náttúrufegurð, það er leitun að því held ég bara á landinu að finna svona fallega jörð.“ Spurt um markaðsverð jarðarinnar sagði vitnið að „afar erfitt [yrði] að skjóta á það, þetta yrði mjög hátt örugglega“. Telja verður ljóst að samningsákvæði sem færa stefndu réttarstöðu ábúanda á Kálfaströnd setji ráðstöfunarrétti landeigandans verulegar skorður og séu þannig til þess fallnar að lækka umtalsvert það verð sem hann gæti vænzt að selja jörðina við, ef í það færi. Er ekki vikið að þessu í samningunum og verður ekki séð að sérstaklega hafi verið gert ráð fyrir að greiðslur til landeigenda yrðu ákveðnar með þetta í huga. Í samningunum segir að stefndu verði ábúendur á Kálfaströnd I. Af málatilbúnaði stefndu er ljóst að þau miða við réttarstöðu ábúenda í skilningi ábúðarlaga nr. 80/2004. Í samningunum eru þau lög hvergi nefnd, hvorki í heild né einstök ákvæði þeirra. Ekki kemur fram í samningunum hvort fyrir lá úttekt sbr. 2. mgr. 7. gr. ábúðarlaga og ekki er getið um ástand ræktunar á landinu. Er að mati dómsins verulegur vafi á því að stefnanda Elínu hafi verið ljóst að með samningunum fengju stefndu réttindi ábúenda samkvæmt lögum nr. 80/2004 og hvaða þýðingu slík gjörð hefði fyrir réttindi hennar sjálfrar á jörðinni. Eins og áður segir verður ráðið af framburði vitna að stefnandi Elín hafi verið áfram um að gamla húsið yrði rifið og nýtt reist. Þegar vottar að undirritun samninganna voru spurð hvað það var sem stefnandi Elín hafi verið ánægð með í samningunum nefndu vitnin þessi atriði. Virðist dóminum sem þetta hafi verið meginatriði samninganna í huga stefnanda Elínar. Ákvæði samninganna um að stefndu verði ábúendur á Kálfaströnd eru stefndu mjög hagfelld en skerða verulega möguleika stefnanda Elínar til að ráðstafa eign sinni. Önnur ákvæði samningsins vega þar ekki á móti. Þegar horft er á þetta, aðstöðumun aðila og allt framanritað, verður að líta svo á að ósanngjarnt væri í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 að bera fyrir sig gagnvart stefnanda Elínu það atriði samninganna að stefndu verði ábúendur á Kálfaströnd. Hefur rétturinn til að bera lagaákvæðið fyrir sig í málinu ekki fallið niður fyrir tómlæti. Verður krafa um niðurfellingu þessara samningsákvæða tekin til greina. Eins og áður segir eru samningsákvæði um leyfi stefndu til endurbyggingar blátt áfram. Ljóst þykir að stefnandi Elín hafi vitað, skilið og verið ánægð með það sem í þeim fólst. Þykir ekki ósanngjarnt af stefndu að bera þau fyrir sig. Við munnlegan flutning málsins var raunar tekið fram af hálfu stefnenda að þótt krafa um ógildingu ákvæðanna yrði tekin til greina yrði ekki farið fram á útburð. Stefndu verða sýknuð af kröfu um ógildingu ákvæðanna. Ekki hefur verið sýnt fram á að ákvæði um lóð undir íbúðarhús og geymslu séu ósanngjörn í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936, að öðru leyti en því sem segir um leigugjald í síðari samningnum. Er raunar ágreiningslaust í málinu að leigugjaldið 5.000 krónur komi ekki til álita. Á hitt er að líta að í síðari samningnum kemur ekkert fram um að það gjald sé til málamynda eða skuli endurskoðað. Að óbreyttu er gjaldið því bindandi fyrir aðila út samningstímann. Slík niðurstaða yrði að teljast ósanngjörn. Í málinu liggur fyrir matsgerð þar sem dómkvaddur matsmaður kemst að þeirri niðurstöðu að sanngjörn lóðarleiga á ári fyrir 1575 fm lóð undir íbúðarhús sé 210.000 krónur. Gjalddagi skuli vera 15. marz ár hvert, bundinn byggingarvísitölu 642,4 stig. Þessari niðurstöðu hefur ekki verið hnekkt og þykir óhætt að miða við hana. Verður ekki fallizt á ógildingu 3. gr. lóðarleigusamningsins frá 25. janúar 2013, sem telja verður að hafi komið í stað 3. gr. fyrri samnings, heldur verður varakrafa stefndu tekin til greina að því er þessa grein varðar og henni breytt þannig að leiga verði miðuð við niðurstöðu matsmanns svo sem nánar greinir í dómsorði. Ekki er óeðlilegt að lóðarleigusamningur er tekur til lóðar undir íbúðarhús eins og hér á í hlut sé til fjörutíu ára. Samningsákvæði um að landeigandi geti að þeim tíma liðnum keypt húsið á matsverði tveggja fasteignasala er ekki ósanngjarnt í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936. Ekkert er athugavert við 6. gr. samninganna um að þeim skuli þinglýst. Með vísan til alls framanritaðs verður 1. gr. beggja samninga felld úr gildi en 3. gr. síðari samnings breytt með þeim hætti sem rakið var. Að öðru leyti verða stefndu sýknuð af kröfum stefnenda. Með vísan til atvika allra, krafna og málsúrslita verður ákveðið að málskostnaður falli niður. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Af hálfu stefnenda flutti málið Guðjón Ármannsson hrl. Af hálfu stefndu flutti málið Sigurður Kári Kristjánsson hdl. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð 1. gr. samnings stefnanda Elínar Einarsdóttur annars vegar og stefndu Bjargar Jónasdóttur og Halldórs Þorláks Sigurðssonar hins vegar, „Leigusamnings Kálfastrandar I Lnr 153582“, dags. 16. marz 2012, er felld úr gildi. 1. gr. samnings stefnanda Elínar Einarsdóttur annars vegar og stefndu Bjargar Jónasdóttur og Halldórs Þorláks Sigurðssonar hins vegar, „Lóðarleigusamnings Kálfastrandar 1, fnr. 293-9069“, dags. 25. janúar 2013, er felld úr gildi. 2. málsliður 3. gr. samnings stefnanda Elínar Einarsdóttur annars vegar og stefndu Bjargar Jónasdóttur og Halldórs Þorláks Sigurðssonar hins vegar, „Lóðarleigusamnings Kálfastrandar 1, fnr. 293-9069“, dags. 25. janúar 2013, skal vera svo: „Leiga greiðist árlega frá 16. mars 2012, fyrst 210.000 krónur, en skal árlega hækka í samræmi við hækkun byggingarvísitölu.“ Að öðru leyti eru stefndu sýkn af kröfum stefnenda, Elínar Einarsdóttur og db. Hólmfríðar G. Stefánsdóttur. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 756/2017
Ráðningarsamningur Uppsögn Riftun
Aðilar deildu um rétt K til launa í uppsagnarfresti eftir starfslok hans hjá lífeyrissjóðnum S, en K hafði látið frá sér fara yfirlýsingu um starfslok sín sem framkvæmdastjóra S á heimasíðu sjóðsins vegna fyrirhugaðrar umfjöllunar fréttaskýringaþáttarins Kastljóss um hin svonefndu Panamaskjöl. Byggði K á því að hann hefði óskað eftir starfslokum hjá S með hagsmuni sjóðsins í huga og án þess að afsala sér neinum þeim réttindum sem hann hafi notið samkvæmt ráðningarsamningi. S byggði á hinn bóginn á því að K hefði að fyrra bragði og án fyrirvara óskað eftir að ljúka störfum hjá sjóðnum. Þá hefði K brotið gegn lögum nr. 129/1997 svo og trúnaðarskyldum sínum gagnvart S með því að upplýsa ekki um tilvist tveggja erlendra félaga sem óumdeilt var að K tengdist sem réttlætt hafi fyrirvaralausa brottvikningu hans úr starfi. Héraðsdómur taldi að K hefði mátt líta svo á að stjórn S væri ljóst að hann væri ekki að hverfa frá starfi sínu án þess að til vinnuframlags hans eða launagreiðslna í uppsagnarfresti kæmi. Þá yrði yfirlýsing K ekki skilin þannig að hann hefði talið sér skylt að láta af störfum án samningsbundins uppsagnarfrests. Taldi dómurinn ennfremur að ekki hefði verið sýnt fram á að K hefði brotið svo af sér í starfi að varðað gæti fyrirvaralausum brottrekstri og riftun ráðningarsamnings, sem telja yrði að S hefði í raun gert. Var krafa K um ógreidd laun í uppsagnarfresti því tekin til greina og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Arngrímur Ísberg héraðsdómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. desember 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda, en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Málsatvikum og málsástæðum aðila er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Fyrir Hæstarétti hefur stefndi lagt fram gögn um skráningu þeirra tveggja erlendu félaga sem tengdust stefnda, en þar kemur fram að öðru félaginu hafi verið slitið 15. janúar 2003 en hinu 30. apríl 2006. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Stapi lífeyrissjóður, greiði stefnda, Kára Arnóri Kárasyni, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. nóvember 2017. Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 13. september 2017 er höfðað 22. nóvember 2016 af Kára Arnóri Kárasyni, Dvergagili 32, Akureyri, á hendur Stapa lífeyrissjóði, Strandgötu 3, Akureyri. Fyrir hönd stefnda er stefnt Inga Björnssyni framkvæmdastjóra, Flatasíðu 7, Akureyri. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 26.518.139 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.924.203 krónum frá 1. júní 2016 til 1. júlí 2016, af 5.870.071 krónu frá þeim degi til 1. ágúst 2016, af 7.815.939 frá þeim degi til 1. september 2016, af 9.761.807 frá þeim degi til 1. október 2016, af 11.707.675 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2016, af 13.653.543 krónum frá þeim degi til 1. desember 2016, af 15.860105 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2017, af 17.805.973 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2017, af 19.751.841 krónu frá þeim degi til 1. marz 2017, af 21.697.709 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2017 en af 26.518.139 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara verulegrar lækkunar þeirra. Hvor aðili krefst málskostnaðar úr hendi hins. Málavextir Stefnandi hóf störf sem framkvæmdastjóri stefnda hinn 1. janúar 2007 er sjóðurinn varð til við samruna Lífeyrissjóðs Norðurlands og Lífeyrissjóðs Austurlands, en áður hafði stefnandi verið framkvæmdastjóri fyrr nefnda sjóðsins. Störfum stefnanda fyrir stefnda lauk í apríl 2016, svo sem síðar verður rakið. Deila aðilar um hvort stefnandi eigi rétt til greiðslu launa um tólf mánaða skeið eftir starfslok. Í málinu liggja tveir ráðningarsamningar aðila og taka til starfs stefnanda sem framkvæmdastjóra stefnda. Fyrri samningurinn er dagsettur 25. febrúar 2013 og undirritaður af stefnanda og Ágústi Torfa Haukssyni fyrir hönd stefnda. Í þeirri grein sem fjallar um lengd ráðningartíma og samningsslit segir að samningurinn taki við af samningi sömu aðila sem gerður hafi verið 9. apríl 2010. Svo segir: „Ráðning samkvæmt samningi þessum er ótímabundin. Samningi þessum geta samningsaðilar sagt upp með 6 mánaða uppsagnarfresti. Öll ákvæði samnings þessa geta þó verið til endurskoðunar án fyrirvara, séu báðir samningsaðilar því sammála. Uppsögn samnings þessa skal vera skrifleg.“ Samkvæmt 6. gr. samningsins skyldu laun framkvæmdastjóra vera 1.442.393 krónur á mánuði og breytast í samræmi við launabreytingar í nánar greindum kjarasamningum. Síðari samningurinn er dagsettur 14. marz 2016 og undirritaður af stefnanda og Þórarni Sverrissyni fyrir hönd stefnda. Í þeirri grein samningsins sem fjallar um lengd ráðningartíma og samningsslit er vísað til fyrri samnings frá 25. febrúar 2013 og skyldi hinn nýi samningur taka gildi 1. apríl 2016. Að öðru leyti er ákvæðið orðrétt eins og úr fyrri samningi með þeirri breytingu að uppsagnarfrestur er lengdur úr sex mánuðum í tólf. Ákvæði samningsins um launakjör er samhljóða samsvarandi ákvæði fyrra samnings. Í stefnu byggir stefnandi á að þar hafi fyrir mistök verið skráð óbreytt fjárhæð frá fyrri samningi en ekki litið til þeirra launabreytinga sem orðið hefðu á samningstímanum í samræmi við það ákvæði að launin skyldu breytast í samræmi við launabreytingar í tilteknum kjarasamningi. Stefnandi hafi síðast fengið almenn laun frá stefnda í apríl 2016, 1.625.103 krónur, og hafi sú fjárhæð átt að standa í yngri ráðningarsamningnum. Stefndi lýsti yfir við aðalmeðferð að hann vefengdi þetta ekki. Þá segir í samningnum, undir liðnum „Orlof og önnur kjör“, að stefnandi skuli fá greiddan bifreiðastyrk sem nemi 700 km akstri á mánuði og skuli hann miðaður við ákvörðun ferðakostnaðarnefndar um akstursgjald ríkisstarfsmanna, 110 krónur fyrir kílómetrann. Í sömu grein samningsins segir að stefndi skuli „greiða 15% mótframlag í viðbótarlífeyrissparnað fyrir [stefnanda]“. Sömu ákvæði um bifreiðastyrk og greiðslu mótframlags í viðbótarlífeyrissparnað voru í eldri samningi aðila. Óumdeilt er að stefnandi hafi um tíma verið tengdur tveimur erlendum félögum. Mun annað hafa verið stofnað árið 1999 en hitt árið 2004. Í yfirlýsingu sinni vegna starfsloka segir stefnandi eldra félagið hafa starfað í þrjú ár en þá hafi því verið „lokað“ en yngra félagið hafi aldrei verið „notað“. Í málavaxtalýsingu í stefnu lýsir stefnandi fyrirtækjunum með sambærilegum hætti og í yfirlýsingu sinni 23. apríl 2016. Yfirlýsing stefnanda 23. apríl 2016 Laugardaginn 23. apríl 2016 var svolátandi texti birtur á vefsíðu stefnda, undir fyrirsögninni „Framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs hættir störfum“, og var tekið fram að væri yfirlýsing stefnanda: „Ég hef gert stjórn lífeyrissjóðsins Stapa grein fyrir þeirri ákvörðun minni að hætta störfum hjá sjóðnum og mun í framhaldinu óska eftir að samráði við hana um fyrirkomulag starfsloka minna. Ástæðu uppsagnar minnar rek ég í meðfylgjandi yfirlýsingu og hef ég engu við hana að bæta. Fyrir skömmu fékk ég upphringingu frá Kastljósi þar sem mér var tjáð að nafn mitt sé í hinum svokölluðu Panamaskjölum og tengist þar tveimur félögum. Annars vegar er félag sem stofnað er í Lúxembúrg árið 1999 af Kaupþingi. Þar gaf ég starfsmönnum Kaupþings fullt og óskorað umboð til að eiga viðskipti fyrir hönd félagsins. Eftir því sem mér er tjáð virðist félagið hafa starfað í 3 ár en þá hafi því verið lokað. Sennilega hafa fjárfestingar þess ekki gengið vel. Raunar hef ég engin gögn um viðskipti þessa félags. Kastljós hefur einhver gögn um félagið en vill ekki veita mér aðgang að þeim. Þótt erfitt sé að fullyrða um atburði sem áttu sér stað fyrir 16-17 árum tel ég samt nokkuð víst að ég lagði aldrei neina fjármuni í þetta félag og fékk enga fjármuni greidda frá því. Hitt félagið var stofnað af MP banka fyrir mína hönd árið 2004. Ég sé í gögnum að ég mun hafa greitt 305.200 kr. fyrir stofnun þess félags. Félagið var aldrei notað. Það var talið fram á framtölum á verðmæti stofnkostnaðar og afskrifað þremur árum síðar, sem tapað fé. Ég hafði því engan ávinning af þessum félögum og þau tengjast engum skattaundanskotum. Eflaust bar mér að tilkynna um tilvist þessara félaga til minna yfirmanna. Um er að ræða löngu liðna atburði, sem erfitt er að fullyrða um, en ég tel þó víst að svo hafi ekki verið gert. Því má segja að ég hafi að því leyti ekki uppfyllt starfskyldur mínar. Ítarlegar reglur eru nú um hagsmunaskráningu og vel fylgst með að eftir þeim sé farið. Því var ekki til að dreifa fyrir 12-17 árum síðan. Það voru mörg gylliboð í gangi hér á Íslandi á áratugnum fyrir bankahrunið. Á þessu má sjá að ég hef ekki verið ónæmur fyrir slíku þótt í þessum tilfellum væru það ekki ferðir til fjár. Ég er ekki stoltur af því að hafa látið glepjast af slíkum boðum. Ég vil þó taka fram að með því er ég ekki afsaka sjálfan mig enda við engan annan að sakast í þessu efni. Ég ber sjálfur ábyrgð á mínum gjörðum. Þótt eflaust megi deila um hversu alvarlegir þeir hlutir eru sem ég hef hér lýst, þá met ég þá umræðu sem nú er í samfélaginu um aflandsfélög og skattaskjól þannig að ekki sé boðlegt að maður sem er í minni stöðu, þ.e. forstöðumaður aðila sem varslar lífeyrissparnað fyrir almenning, hafi tengst slíkum félögum. Skiptir þá engu máli þótt langt sé um liðið, hvort þetta var löglegt eða ólöglegt eða hvort viðkomandi hafi hagnast á slíkum viðskiptum eða ekki. Í ljósi þessa hef ég ákveðið að stíga til hliðar sem framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs. Það er að mínu mati eina leiðin sem mér er fær til að axla ábyrgð, enda tengist vinnuveitandi minn ekki á neinn hátt þessum málum. Ég er leiður yfir þessu máli öllu og vil ég biðja fjölskyldu mína, vini, samstarfsfólk og kollega afsökunar á þeim óþægindum sem þau munu eflaust verða fyrir vegna umræðu um þennan dómgreindarbrest minn. Að lokum vil ég þakka öllu því góða fólki sem ég hef starfað með í gegnum tíðina fyrir samstarfið og óska því góðs gengis í framtíðinni. Kári Arnór Kárason“. Í málinu liggur fundargerð stjórnar stefnda 27. apríl 2016. Undir liðnum „Starfslok framkvæmdastjóra“ er bókað: „Formaður fór yfir mál [stefnanda] – sem sl. föstudag tilkynnti formanni og varaformanni um aflandsfélög sem hann hefði verið skráður fyrir og aldrei upplýst um í skráningu hagsmunatengsla og að hann myndi koma fyrir í umfjöllun Kastljóss um „Panamaskjöl“. Formaður rakti samskipti við [stefnanda] síðan þá. Stjórnarmenn ræddu málið ýtarlega. Stjórn samþykkti síðan samhljóða: „Með vísan til yfirlýsingar [stefnanda] um uppsögn og starfslok og með tilliti til þess hversu alvarleg trúnaðarbrot hans eru samþykkir stjórn að starfslok [stefnanda] séu tafarlaust og að öllum aðgangi hans að upplýsingakerfum [stefnda] svo og bankareikningum og öðrum kerfum sjóðsins og húsnæði verði lokað. Stjórn telur að [stefnandi] hafi fyrirgert rétti sínum til frekari launagreiðslna en að honum verði greidd full laun fyrir apríl mánuð svo og að gert verði upp við hann ótekið orlof. Formanni og varaformanni er falið að eiga samskipti við [stefnanda] varðandi viðskilnað við sjóðinn að öðru leyti.“ – Þannig samþykkt samhljóða. Formanni sjóðsins var falið að að ræða við [stefnanda] um þessa niðurstöðu að loknum stjórnarfundi.“ Í fundargerðinni kemur jafnframt fram að stjórnin fæli Guðmundi Baldvin Guðmundssyni, sem hefði „starfað sem staðgengill framkvæmdastjóra frá og með sl. föstudegi“, að starfa sem framkvæmdastjóri þar til nýr framkvæmdastjóri tæki til starfa. Undir liðnum „Fréttatilkynning“ er í fundargerðinni bókað að stjórnin hafi ákveðið að hringja til nafngreinds fjölmiðlafulltrúa og „fela honum uppsetningu fréttatilkynningar. Skýrði stjórn honum frá niðurstöðu fundarins varðandi starfslok [stefnanda] og fól honum að gera tillögu að fréttatilkynningu frá stjórn sjóðsins.“ Síðar í fundargerðinni, undir liðnum „Fréttatilkynning – framhald“ er bókað að starfandi framkvæmdastjóri hefði lagt fram tillögu fjölmiðlafulltrúans að fréttatilkynningu. Stjórnin hafi stytt tilkynninguna og samþykkt að „hún yrði send fjölmiðlum eftir að stjórnarformaður hefði rætt við fráfarandi framkvæmdastjóra. Óskað var eftir að formaður greindi stjórn frá samtali við [stefnanda] þá um kvöldið.“ Fundargerðinni fylgir, í gögnum málsins, frásögn undir yfirskriftinni „Framhaldsfundur stjórnar í síma kl 21:00 miðvikudaginn 27. apríl 2016.“ Þar segir meðal annars: „Formaður fór yfir viðbrögð [stefnanda] við samþykkt stjórnarfundar þess efnis að starfslok yrðu tafarlaus og ekki yrði um að ræða launagreiðslur frá lokum apríl mánaðar fyrir utan uppgjör orlofsréttar. Viðbrögð [stefnanda] voru á þá lund að hann sætti sig ekki við þessi málalok og myndi leita réttar síns fyrir dómstólum væri þess þörf. Komu þessi viðbrögð stjórn nokkuð á óvart þar sem skilningur sem lagður hafði verið í yfirlýsingu um starfslok var á þá lund að [stefnandi] væri sjálfur að segja upp og óska eftir tafarlausri lausn frá störfum. Nokkrar umræður sköpuðust um málið. Formaður stjórnar stakk upp á því að hann og varaformaður hefðu samband við lögfræðinga með sérhæfingu í réttindum á vinnumarkaði og óskuðu eftir minnisblöðum varðandi málið og hvaða skyldur stjórn hefur annarsvegar og hvaða rétt fráfarandi framkvæmdastjóri hefur hins vegar. Var það samþykkt. [...] Stjórn samþykkti að bíða með tilkynningu á vef sjóðsins þar til fyrir lægi minnisblað frá lögfræðingum svo stjórn hefði fyrir því vissu að farið væri að öllu eftir lögum og reglum á vinnumarkaði við úrlausn málsins.“ Hinn 2. maí 2016 sendi stefnandi stjórnarformanni stefnda tölvubréf og mun jafnframt hafa sent öðrum stjórnarmönnum stefnda afrit bréfsins. Í bréfinu segir: „Ég vísa til samtals okkar í gær þar sem fram kom af þinni hálfu að þú litir svo á að ég hafi hætt störfum og ætti ekki rétt til launa í uppsagnarfresti. Í framhaldi af því var öllum aðgangi mínum að starfsstöð og gögnum lokað. Þessari afstöðu er mótmælt. Eins og fram kom í yfirlýsingu minni frá 23. apríl sl., sem ég hafði samráð við þig og varaformann sjóðsins um, þá tók ég ákvörðun um að hætta störfum og óskaði samráðs um fyrirkomulag starfsloka, enda engar tímasetningar þar um hvenær mín starfslok yrðu. Tilgangur þessarar ákvörðunar var að sýna ábyrgð og lágmarka það tjón sem sjóðurinn yrði fyrir. Þar sem ég var að fara erlendis í einkaerindum var það að samkomulagi okkar þriggja að við myndum hittast þegar ég kæmi heim og ganga frá samkomulagi um starfslok. Í fjarveru minni áttum við nokkur símtöl/símafundi þar sem afstaðan var ýmist að stjórnin liti svo á að ég hefði hætt störfum, hún myndi ekki óska eftir frekara vinnuframlagi af minni hálfu og ekki yrði um neinar greiðslur að ræða á uppsagnarfresti, eða sú að menn vildu leysa starfslok mín í sátt þar sem samið væri um hvaða greiðslur ég fengi og hverjar mínar skyldur væru á uppsagnarfresti. Ég vil minna á að ég tók það fram bæði áður en ég fór út og ítrekað í samtölum sem við höfum átt að ég óskaði þess að við næðum samkomulagi um starfslokin enda vildi ég gera þau eins auðveld og mögulegt væri fyrir sjóðinn og starfsmenn hans – ekki síst vegna ýmissa verkefna sem eru á viðkvæmu stigi í vinnslu. Ég hef ekki sagt upp störfum, heldur óskaði ég eftir viðræðum um fyrirkomulag starfsloka og gerði mér grein fyrir skyldum mínum á uppsagnarfresti. Mér hefur heldur ekki verið sagt upp störfum með formlegum hætti. Engin skrifleg afstaða hefur frá ykkur komið, aðeins símtöl sem hafa verið ruglingsleg, svo ekki sé meira sagt. Mér er sagt að stjórn hafi tekið ákvörðun, en ég hef ekki fengið að sjá hana, né nokkrar upplýsingar um það á hverju hún er byggð, þrátt fyrir loforð þess efnis. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum og tel þau hvorki í samræmi við það samkomulag sem við gerðum, þegar gengið var frá yfirlýsingu minni, né skriflega samninga okkar á milli. En þrátt fyrir að ég hafi ekki sagt upp, eða verið sagt upp með formlegum hætti af sjóðsins hálfu, verður afstaða þín í samtali okkar í gær og lokun á aðgengi að starfsstöð og öllum gögnum ekki skilin með öðrum hætti en þeim að ráðningarsamningi mínum hafi verið rift einhliða, af ykkar hálfu eins og ég fór skilmerkilega yfir með þér í gær. Þessa afstöðu staðfestir þú raunar í Morgunblaðinu í dag. Í ljósi ofanritaðs áskil ég mér hér með allan rétt til að krefjast launa í uppsagnarfresti. Ég hef nú falið lögmanni að annast öll samskipti við ykkur í framhaldinu vegna þessa máls og mun hann setja sig í samband við ykkur. Þótt bréfið sé stílað til þín Þórarinn þá set ég aðra stjórnarmenn sem cc.“ Hinn 9. júní 2016 ritaði lögmaður stefnda lögmanni stefnanda bréf. Í bréfinu er rakin bókun stjórnarfundar stefnda 27. apríl um starfslok stefnanda en því næst segir að í framhaldi af bréfi stefnanda til stjórnar stefnda 2. maí hafi formaður og varaformaður stjórnarinnar haldið fund með lögmönnum aðila 11. maí. Þar hafi lögmanni stefnanda verið kynnt bókun stjórnarfundarins og málin rædd. Lögmaður stefnanda hafi óskað eftir að „gengið yrði til samkomulags um starfslok þar sem [stefnanda] yrðu greidd laun út uppsagnarfrest.“ Þessu hafi verið hafnað en jafnframt sagt að málið yrði rætt í stjórn. Því næst segir að á stjórnarfundi stefnda hinn 8. júní júní hafi málið verið rætt að nýju en niðurstaðan hafi orðið sú sama. Hinn 3. ágúst 2016 ritaði lögmaður stefnda lögmanni stefnanda að nýju. Í upphafi bréfsins segist lögmaðurinn hafa fengið bréf, dags. 18. júlí 2016, þar sem sett hafi verið fram krafa stefnanda um laun í uppsagnarfresti. Er því næst vísað til fyrra bréfs lögmannsins, dags. 9. júní, þar sem lýst hafi verið þeirri niðurstöðu stjórnar stefnda að stefnandi hefði fyrirgert rétti sínum til frekari launagreiðslna. Er svo vísað til þess að í yfirlýsingu „til fjölmiðla 23. apríl 2016 þegar fyrir lá að nafn hans tengdist tveimur félögum í svokölluðum Panamaskjölum lýsti [stefnandi] því sjálfur yfir að sér hefði borið að tilkynna um tilvist þessara félaga til yfirmanna sinna, en það hefði hann ekki gert. Ekki væri boðlegt að maður í hans stöðu, þ.e. forstöðumaður aðila sem varslar lífeyrissparnað fyrir almenning, hefði tengsl við slík félög.“ Hann myndi því hætta störfum hjá störfum hjá stefnda sem hann og hafi gert í kjölfarið. Er loks ítrekuð sú niðurstaða stefnda að ekki verði um frekari launagreiðslur að ræða og því bætt við að „starfsmaður sem ákveður einhliða að láta af störfum án þess að vinna út uppsagnarfrest [eigi] ekki kröfu til launa á uppsagnarfresti.“ Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi kveðst byggja á því að sér beri laun á uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningi sínum. Sá frestur sé 12 mánuðir og sé dómkrafa hans við það miðuð. Stefnandi segir að stefndi telji stefnanda hafa framið alvarleg trúnaðarbrot og að því sé stefnda heimilt að rifta ráðningarsamningum án fyrirvara. Þetta standist hinsvegar ekki. Um sé að ræða félög erlendis sem stefnandi hafi átt hlut í að stofna löngu áður en hann hafi verið ráðinn til starfa hjá stefnda. Aðild hans á sínum tíma í þessum félögum hafi að öllu leyti verið lögum samkvæmt og hann hafi aldrei notið nokkurs fjárhagslegs ávinnings af starfsemi þeirra. Hvorki á líftíma félaganna né síðar hafi verið ólöglegt hér á landi að eiga peninga erlendis. Stefnandi segir að svo virðist sem stjórn stefnda hafi orðið fyrir einhvers konar geðhrifum af því að um slíkt væri fjallað í innlendum fjölmiðli, áratugum eftir að þau atvik hafi orðið sem um hafi verið fjallað. Ástæða þess að stefnandi hafi óskað eftir starfslokum hjá stefnda hafi verið sú að honum hafi verið ljóst að í samfélaginu hefði orðið til andrúmsloft sem hafi gert óheppilegt að hann væri í forsvari fyrir stefnda, en stefndi stundi störf sem séu viðkvæm fyrir slíku. Hafi stefnandi viljað leggja sitt af mörkum til að minnka þann skaða sem stefndi kynni að telja sig verða fyrir vegna þessa hugarástands. Með þessu hafi hann ekki á neinn hátt afsalað sér þeim réttindum sem hann hafi notið samkvæmt ráðningarsamningi. Hann hafi ekki brotið gegn neinum starfskyldna sinna samkvæmt honum og hafi engar forsendur verið fyrir riftun samningsins af hálfu stefnda. Þess vegna beri að gera upp við stefnanda samkvæmt ákvæðum samningsins. Stefnandi segir aðalkröfu sína lúta að því að sér beri samkvæmt ráðningar¬samningi réttur til fullra launa í allt að 12 mánuði. Mánaðarlaun stefnanda hjá stefnda hafi numið 1.625.103 krónum en einnig hafi verið gert ráð fyrir bifreiðastyrk, mótframlagi í lífeyrissjóð, orlofsuppbót, desemberuppbót og uppsöfnuðu orlofi. Sé krafan miðuð við tímabilið frá maí 2016 til og með apríl 2017. Stefnandi sundurliðar kröfuna svo að samanlagðar mánaðarlaunagreiðslur nemi 19.501.236 krónum, bifreiðastyrkur 924.000 krónum, 15% mótframlag í lífeyrissjóð 2.925.180 krónum, orlofsuppbót 76.967 krónum, desemberuppbót 189.595 krónum og uppsafnað 33 daga orlof 2.640.467 krónum. Samanlagðar nemi fjárhæðir þessar stefnufjárhæð málsins. Í sundurliðun dómkrafna, sem hann lagði fram á sérstöku dómskjali við þingfestingu málsins, tiltekur stefnandi alls 450.289 króna kröfu vegna desemberuppbótar en í sundurliðun í stefnu hafði sem fyrr segir einungis verið tiltekin 189.595 króna krafa vegna desemberuppbótar. Ef miðað er við kröfu um 450.289 króna kröfu vegna desemberuppbótar nema samanlagðar fjárkröfur stefnanda stefnufjárhæð málsins. Stefnandi segir stjórn stefnda hafa lýst því yfir á fundi 27. apríl 2016 að hún liti svo á að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til frekari launagreiðslna en að honum yrðu greidd full laun fyrir aprílmánuð sem og ótekið orlof.  Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi segir sýknukröfu sína í fyrsta lagi byggða á því að stefnandi hafi sjálfur og að fyrra bragði óskað eftir að ljúka störfum hjá stefnda án fyrirvara vegna yfirvofandi sjónvarpsumfjöllunar um eignarhald hans á aflandsfélögum. Í yfirlýsingu stefnanda vegna starfsloka segi að stefnandi hafi tilkynnt stjórn stefnda um ákvörðun sína að hætta störfum og að hann muni í framhaldinu óska eftir samræðum við hana um fyrirkomulag starfsloka. Í yfirlýsingunni tali stefnandi jafnframt um uppsögn „sína“ en af því orðalagi megi ráða að hann hafi sjálfur litið svo á að með tilkynningu til stjórnar hafi hann sagt upp starfi sínu hjá stefnda. Aðilar hafi ekki náð samkomulagi um starfslok samkvæmt kröfu stefnanda enda hefði slíkt samkomulag meðal annars falið í sér að stefnanda yrðu greidd laun út uppsagnarfrest en það hafi stjórn stefnda ekki samþykkt. Yfirlýsing stefnanda, svo og málatilbúnaður hans sjálfs í stefnu, séu skýr um að stefnandi hafi sjálfur ákveðið að hætta störfum fyrir stefnda tafarlaust og vinna ekki fyrir stefnda á uppsagnarfresti. Krafa stefnanda hafi verið að sú hann legði niður störf þá þegar og sliti ráðningarsamningi sínum án nokkurs fyrirvara. Ráðningarsamningur sé tvíhliða samningur starfsmanns og vinnuveitanda sem leggi skyldur á beggja herðar, rétt eins og hann veiti þeim réttindi. Þegar aðili tvíhliða samnings segi honum upp, fyrirgeri hann rétti sínum samkvæmt samningnum, rétt eins og hann komi sér undan samningsskyldum. Starfsmaður sem ákveði einhliða að láta af störfum án þess að vinna út uppsagnarfrest geti ekki gert kröfu til að sér séu greidd laun á uppsagnarfresti. Þá skipti ekki máli þótt stefnandi lýsi því yfir síðar í stefnu að það hafi verið skilningur hans að sér hefði borið skylda til að vinna út frestinn hefði stjórn stefnda óskað eftir því. Vísist um þetta almennra reglna vinnuréttar. Stefndi segist byggja sýknukröfu sína í öðru lagi á því að jafnvel þótt ekki yrði miðað við að stefnandi hafi haft frumkvæði að því að segja upp ráðningarsamningi sínum, eins og gögn málsins bendi eindregið til, þá hafi stefnandi brotið gegn 31. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sbr. reglur nr. 180/2013 með því að upplýsa ekki um tilvist félaganna. Stefndi taki við skyldubundnum framlögum sjóðfélaga, samkvæmt 1. gr. laga nr. 129/1997. Hann varðveiti og ávaxti iðgjöld og greiði lífeyri samkvæmt 20. gr. sömu laga. Hann beri því mikla ábyrgð gagnvart sjóðsfélögum. Framkvæmdastjóri sé talsmaður sjóðsins út á við í samræmi við hefðir og eðli máls, samkvæmt ákvæði 6.1 í starfsreglum stjórnar stefnda. Samkvæmt ákvæði 4.5.1. í samþykktum stefnda annist framkvæmdastjóri daglegan rekstur stefnda í samræmi við mótaða stefnu og ákvarðanir stjórnar. Hann ráði starfsmenn til sjóðsins og fari með atkvæði hans á fundum hlutafélaga sem sjóðurinn eigi hluti í, nema stjórn ákveði annað í einstökum tilvikum. Framkvæmdastjóri beri ábyrgð á að bókhald sjóðsins sé fært í samræmi við lög og viðurkenndar venjur. Honum beri einnig að fylgja fjárfestingarstefnu og þeim útlánareglum sem stjórnin setji, sbr. ákvæði 4.6.1. í samþykktum stefnda. Framkvæmdastjóra sé óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Með vísan til hinnar miklu ábyrgðar sem stefndi beri gagnvart sjóðsfélögum og hinu umfangsmikla hlutverki sem framkvæmdastjóra sjóðsins sé falið sé tvímælalaust hagur allra sjóðsfélaga að ekki leiki minnsti vafi á hæfi framkvæmdastjóra. Stefndi segir að í 7. gr. reglna fjármálaeftirlitsins um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna lífeyrissjóða nr. 180/2013, sem tekið hafi gildi í febrúar 2013, segi að framkvæmdastjórar megi ekki hafa sýnt af sér háttsemi, athöfn eða athafnaleysi sem gefi efni til að draga megi í efa hæfni þeirra til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða líkur séu til að þeir muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða lífeyrissjóðinn. Við matið sé meðal annars litið til háttsemi aðila sem kunni að rýra trúverðugleika hans og skaða orðspor lífeyrissjóðsins. Jafnframt sé höfð hliðsjón af fyrri afskiptum fjármálaeftirlitsins vegna starfa aðila eða vegna starfshátta eftirlitsskylds aðila sem hann hafi verið í forsvari fyrir eða borið ábyrgð á. Samkvæmt 19. gr. sömu reglna skuli framkvæmdastjórar á hverjum tíma uppfylla hæfisskilyrði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og ákvæði reglnanna. Stefndi segir að eignarhald stefnanda „á félögum í skattaskjóli“ hafi valdið því að hann hafi ekki uppfyllt hæfisskilyrði til setu í stóli framkvæmdastjóra, þar sem slíkt feli í sér háttsemi sem gefi tilefni til að efa hæfni hans til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða gefi líkur til að viðkomandi muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða lífeyrissjóðinn. Um leið og eignarhald stefnanda á félögum hafi orðið ljóst, hafi blasað við að stefnandi gæti ekki gegnt stöðu framkvæmdastjóra. Stefndi segir að stefnandi hafi sjálfur, án nokkurs vafa, gert sér grein fyrir mögulegum áhrifum sem eignarhald hans í aflandsfélögum gæti haft á skoðun almennings á stefnda og rýrt trúverðugleika stefnda og skaðað orðspor hans. Þessi skilningur hafi augljóslega búið að baki þeirri ákvörðun stefnanda að láta af störfum hjá stefnda og senda út tilkynningu 23. apríl 2016. Stefndi vísar sérstaklega til þess hluta tilkynningar stefnanda, þar sem hann segist meta þá umræðu, sem þá sé í samfélaginu, þannig að ekki sé boðlegt að maður sem hafi verið tengdur slíkum félögum sé forstöðumaður lífeyrissjóðs. Stefndi segir að samkvæmt 29. gr. laga nr. 129/1997 beri stjórn stefnda ábyrgð á að starfsemi hans sé í samræmi við lög, reglugerðir samkvæmt þeim og samþykktir sjóðsins. Þegar í ljós hafi komið að stefnandi uppfyllti ekki hæfiskröfur sem til hans væru gerðar samkvæmt lögunum, reglum fjármálaeftirlitsins eða samþykktum stefnda, hafi stjórn stefnda borið lagalega ábyrgð á að sjá til þess að stefnandi starfaði ekki lengur fyrir stefnda. Hefði stefnandi haldið áfram störfum fyrir sjóðinn eftir að vanhæfi hans hafi verið orðið ljóst, hefðu stjórnarmenn stefnda getað skapað sér persónulega ábyrgð gagnvart stefnda, sbr. ákvæði fyrrgreindra laga. Stefndi segir sýknukröfu sína í þriðja lagi byggða á því að stefnandi hafi með háttsemi sinni brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart stefnda með alvarlegum hætti sem réttlæti að víkja honum úr starfi án frekari fyrirvara. Stefnandi hafi ekki verið almennur starfsmaður heldur framkvæmdastjóri hjá lífeyrissjóði sem beri gríðarmikla ábyrgð gagnvart sjóðsfélögum. Um það vitni ákvæði laga, reglna og samþykkta. Starfi framkvæmdastjóra fylgi sérstök trúnaðarskylda gagnvart sjóðnum, enda ráði stjórn framkvæmdastjóra til að fara með daglega starfsemi sjóðsins og megin verkefni framkvæmdastjóra sé að gæta hagsmuna stefnda. Öll kjör stefnanda hjá stefnda hafi verið miðuð við þessa ríku ábyrgð sem hann hafi borið. Með því að halda upplýsingum um eignarhald sitt á aflandsfélögum leyndum fyrir stjórn stefnda, hafi stefnandi brotið trúnaðarskyldur sínar með svo stórkostlegum hætti að hann hafi ekki lengur getað gegnt framkvæmdastjórastarfinu. Stefndi kveðst til vara krefjast þess að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð verulega. Kröfu um greiðslu til handa stefnanda sem nemi mótframlagi í lífeyrissjóð sé hafnað enda sé stefnandi ekki réttur eigandi kröfunnar. Að öðru leyti kveðst stefndi styðja varakröfu sína sömu málsástæðum og aðalkröfu. Stefndi kveðst byggja málskostnaðarkröfu sína á þeirri meginreglu einkamálaréttarfars að sá sem tapi máli í öllu verulegu skuli að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi segist vísa til laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sérstaklega 31. gr. laganna. Þá kveðst stefndi vísa til reglna um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna lífeyrissjóða nr. 180/2013, sérstaklega 7. gr. og 19. gr. reglnanna. Jafnframt sé vísað til almennra reglna vinnuréttar. Krafa um málskostnað sé byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991. Niðurstaða Við starfslok stefnanda hjá stefnda gilti ráðningarsamningur aðila, dags. 14. marz 2016. Í 3. gr. samningsins segir að uppsögn hans skuli vera skrifleg. Í málinu liggur ekki fyrir slík skrifleg tilkynning sem stefnandi hafi beint að stefnda. Á hinn bóginn liggur fyrir texti yfirlýsingar sem undirrituð er af stefnanda og birt var á heimasíðu stefnda laugardaginn 23. apríl. Yfirlýsingunni er ekki sérstaklega beint að stefnda. Í upphafi yfirlýsingarinnar segir stefnandi að hann hafi gert stjórn stefnda grein fyrir þeirri ákvörðun sinni að hætta störfum hjá stefnda og að hann muni óska eftir samráði við stjórnina um fyrirkomulag starfslokanna. Í lok yfirlýsingarinnar biður stefnandi fjölskyldu sína, vini og samstarfsfólk afsökunar á óþægindum sem þau muni eflaust verða fyrir vegna umræðu um „þennan dómgreindarbrest“ stefnanda. Fyrir dómi sagðist stefnandi hafa átt frumkvæðið að yfirlýsingunni og hefði hún „í sjálfu sér“ verið unnin af sér og almannatengslafyrirtæki en hann hefði haft „samráð um þetta við ja aðallega formanninn og reyndar einnig varaformanninn. Við fórum yfir þetta áður en að yfirlýsingin var birt og það var breytt ýmsu í henni, meðal annars að þeirra frumkvæði.“ Stefnandi hefði verið á leið úr landi í einkaerindum og þeir verið sammála um að þeir myndu „setjast niður yfir málið þegar [stefnandi] kæmi aftur og klára það að ganga frá, með hvaða hætti starfslokin yrðu, hverjar yrðu [skyldur stefnanda] í framhaldinu á uppsagnarfresti og bara ganga almennt frá málinu.“ Fyrir dómi sagði Þórarinn Guðni Sverrisson, sem á umræddum tíma var stjórnarformaður stefnda, að stefnandi hefði sent sér drög að yfirlýsingu sinni. Þórarinn Guðni sagðist hafa talið drögin það afdráttarlaus að mögulega yrðu þau túlkuð sem „fyrirvaralaust brotthvarf úr starfi og það gæti þýtt að menn túlkuðu það sem svo að hann væri búinn að fyrirgera rétti sínum til launa frá og með þessum tíma.“ Í framhaldi af þessu hefði stefnandi sett „þá yfirlýsingu í viðbót“ þess efnis að hann „mundi semja nánar um sín starfslok“. Hefði Þórarinn Guðni þá talið „að það væri mögulega hægt að byggja á einhverju svona við hann ef um einhverja samninga væri að ræða. Og ég lýsi því yfir á þessum tímapunkti að þá hefði ég haft vilja til þess, en auðvitað gat ég ekki lofað neinu.“ Þegar á framanritað er horft verður hvorki talið að með yfirlýsingu sinni, sem birt var á heimasíðu stefnda laugardaginn 23 apríl, né á annan hátt, hafi stefnandi lýst yfir gagnvart stefnda að hann hefði ákveðið að hverfa frá starfi sínu með þeim hætti að hvorki kæmi til vinnuframlags af sinni hálfu né launagreiðslna af hálfu stefnda á þeim tólf mánuðum sem í hönd færu. Af vitnisburði Þórarins Guðna verður þvert á móti ráðið að stefnandi hafi, eftir ábendingu stjórnarformannsins þáverandi, breytt yfirlýsingu sinni, fyrir birtingu hennar, til þess að hún yrði ekki skilin með þeim hætti. Í ljósi þessara samskipta stefnanda og stjórnarformanns stefnda mátti stefnandi líta svo á að stjórn stefnda yrði ljós þessi skilningur stefnanda. Stefnandi ákvað að láta af starfi sínu og óskaði viðræðna við stefnda um hvernig starfslokunum yrði háttað, svo sem hann greindi frá í yfirlýsingu sinni 23. apríl. Hinn 27. apríl 2016 gerði stjórn stefnda þá samþykkt, að með vísan til yfirlýsingar stefnanda „um uppsögn og starfslok og með tilliti til þess hversu alvarleg trúnaðarbrot hans“ væru, yrðu starfslok hans tafarlaus, öllum aðgangi hans að kerfi og húsnæði skyldi lokað og hefði hann fyrirgert rétti sínum til frekari launagreiðslna. Í ljósi framanritaðs verður að líta svo á, að það hafi verið ákvörðun stefnda en ekki stefnanda að stefnandi hvorki ynni fyrir stefnda á uppsagnarfresti né fengi þá launagreiðslur. Í greinargerð sinni byggir stefndi á því að stefnandi hafi brotið gegn 31. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. reglur nr. 180/2013 með því að upplýsa ekki um tilvist hinna erlendu félaga. Stefndi vísar til hlutverks framkvæmdastjóra samkvæmt starfsreglum stefnda, þar á meðal þeirri reglu að framkvæmdastjóri megi ekki taka þátt í atvinnurekstri án leyfis stjórnar, og segir að með vísan til hinnar miklu ábyrgðar sem stefndi beri gagnvart sjóðfélögum og hins umfangsmikla hlutverks framkvæmdastjóra sé tvímælalaust hagur allra sjóðsfélaga að ekki leiki minnsti vafi á hæfi framkvæmdastjóra. Þá vísar stefndi til 7. gr. reglna um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna lífeyrissjóða nr. 180/2013, sem tekið hafi gildi í febrúar 2013, en þar segir að framkvæmdastjóri megi ekki hafa sýnt af sér háttsemi, athöfn eða athafnaleysi, sem gefur tilefni til að draga megi í efa hæfni hans til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða að líkur séu til að hann muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða lífeyrissjóðinn. Við matið sé meðal annars litið til háttsemi aðila sem kynni að rýra trúverðugleika hans og skaða orðspor lífeyrissjóðsins. Jafnframt sé höfð hliðsjón af fyrri afskiptum Fjármálaeftirlitsins vegna starfa aðila eða vegna starfshátta eftirlitsskylds aðila sem hann hafi verið í forsvari fyrir eða borið ábyrgð á. Stefndi byggir á, í þessu sambandi, að eignarhald stefnanda „á félögum í skattaskjóli“ sé þess valdandi að hann uppfylli ekki hæfisskilyrði til setu í stóli framkvæmdastjóra, þar sem slíkt feli í sér háttsemi er gefi tilefni til að draga í efa hæfni hans til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða gefi líkur til að hann muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða lífeyrissjóðinn. Um leið og eignarhaldið hafi orðið bert hafi orðið ljóst að stefnanda væri ekki sætt í stöðu framkvæmdastjóra. Hafi stefnanda vafalaust verið ljós þau áhrif sem eignarhald hans í aflandsfélögum gæti haft á skoðun almennings á stefnda og rýrt trúverðugleika stefnda og skaðað orðspor hans. Vísar stefndi sérstaklega til orða stefnanda í yfirlýsingu þar sem hann meðal annars kveðst meta „þá umræðu sem [sé] í samfélaginu“ þannig að ekki sé boðlegt að forstöðumaður lífeyrissjóðs hafi verið tengdur slíkum félögum og skipti þá engu þótt langt sé um liðið eða hvort eignarhaldið hafi verið lögmætt og svo framvegis. Fyrir dómi sagði stefnandi megintilgang sinn með þeirri yfirlýsingu sem hann sendi frá sér 23. apríl hafa verið þann að verja hagsmuni stefnda, „gera yfirlýsinguna þannig úr garði að þetta mál myndi beinast að mér en ekki mínum vinnuveitanda sem átti enga aðild að þessu.“ Í því hefði ekki verið fólgið nokkurt „mat á einhverjum lagalegum atriðum varðandi hæfi eða eitthvað slíkt.“ Meginmarkmiðið hefði verið að kastljósið færi á stefnanda en ekki stefnda. Hann hefði verið „að bregðast við andrúmsloftinu í samfélaginu og reyna að gera þetta eins bærilegt og mögulegt væri fyrir [stefnda].“ Fram kom hjá Þórarni Guðna Sverrissyni fyrir dómi að hann hefði nefnt við stefnanda að sér fyndist betra að hann óskaði eftir launalausu leyfi „á meðan að þessi mál væru skoðuð“, en stefnandi hefði verið „alveg ákveðinn“. Stefnandi kvaðst fyrir dómi líta svo á að hann hefði farið eftir öllum reglum sjóðsins, svo sem um eftirlit og eftirlitsferla. Í yfirlýsingu sinni segir stefnandi meðal annars að hann meti „þá umræðu sem nú er í samfélaginu“ þannig að ekki sé boðlegt að maður sem gegni starfi eins og hann hafi verið tengdur aflandsfélögum. Í því ljósi hafi hann ákveðið að láta af starfi. Yfirlýsingin verður ekki skilin þannig að stefnandi telji sér skylt að láta af starfinu án samningsbundins uppsagnarfrests. Í yfirlýsingu sinni segir stefnandi að „eflaust“ hafi sér borið að tilkynna um tilvist umræddra félaga til yfirmanna sinna sinna. Kveðst hann telja víst að það hafi hann ekki gert og því megi segja að hann hafi að því leyti ekki uppfyllt starfsskyldur sínar. Hann tekur fram að deila megi um alvarleika þeirra hluta sem fjallað er um í yfirlýsingunni en hins vegar meti hann „þá umræðu sem nú er í samfélaginu“ þannig að „ekki sé boðlegt“ að maður sem tengdur hafi verið slíkum félögum sé forstöðumaður lífeyrissjóðs. Í þessum orðum hans felst ekki viðurkenning hans á því að hann hafi brotið svo af sér að réttlætt gæti fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi eða riftun einstakra ákvæða ráðningarsamnings hans. Við mat á alvarleika þess að hafa ekki tilkynnt um „tilvist umræddra félaga“ til yfirmanna, verður að hafa í huga að ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur til kynna að rangt sé að félögunum hafi báðum verið slitið áður en stefnandi hóf störf hjá stefnda. Ekkert handfast liggur fyrir í gögnum málsins um þá starfsemi sem kann að hafa farið fram í félögunum. Sjálfur segir stefnandi að síðara félagið hafi aldrei verið notað og hefur ekkert komið fram í málinu um að það sé rangt. Hefur ekki verið sýnt fram á í málinu að stefnandi hafi, með því að tilkynna ekki um félögin, brotið svo af sér að varðað gæti fyrirvaralausum brottrekstri og riftun ráðningarsamnings. Stefndi vísar ekki til sérstakra viðskipta sem félögin hafi stundað en byggir á því að eignarhald stefnanda á „félögum í skattaskjóli“ geri að verkum að hann uppfylli ekki hæfisskilyrði þar sem hann hafi sýnt af sér háttsemi sem gefi tilefni til að draga í efa hæfni hans til að standa fyrir heilbrigðum rekstri eða veiti líkur fyrir því að hann muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða stefnda. Við mat á þessu verður að hafa í huga, að þá sem nú var Íslendingum heimilt að eiga félög sem starfa utan landsteina, hvort sem er í svokölluðum lágskattaríkjum eða öðrum. Ekkert hefur komið fram í málinu um að stefnandi hafi haft nokkurn hagnað af félögunum. Hvorki hefur verið sýnt fram á að stefnandi hafi notað félögin til að koma verðmætum undan skattgreiðslum eða auðgast á annan ólöglegan hátt né að slíkt hafi vakað fyrir honum. Ekki er hægt að miða við í málinu að allir þeir sem átt hafa slíkt félag, hvort sem er um lengri eða skemmri tíma, verði um alla framtíð sjálfkrafa taldir óhæfir til starfa eins og þess sem stefnandi gegndi eða öðrum líklegri til að misnota aðstöðu sína eða skaða vinnuveitanda sinn á annan hátt. Að öllu samanlögðu hafa ekki verið færðar sönnur á það í málinu að háttsemi stefnanda hafi réttlætt riftun ráðningarsamnings hans, en telja verður að það hafi stefndi í raun gert með einhliða ákvörðun sinni um að ekki kæmi til neinna greiðslna til stefnanda eftir aprílmánuð 2016. Verður því að taka til greina kröfu stefnanda um ógreidd laun á því tólf mánaða tímabili sem tiltekið er í stefnu. Stefndi byggir á því að stefnandi sé ekki réttur eigandi kröfu um mótframlag í lífeyrissjóð. Mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð er lögbundið, sbr. lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Viðkomandi lífeyrissjóður fer með forræði slíkra krafna en ekki launþegi. Verða kröfur stefnanda sem varða framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð og nema alls 2.925.180 krónum ekki teknar til greina í þessu máli. Má hér hafa nokkura hliðsjón af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 472/2007.  Öðrum liðum endanlegrar fjárkröfu stefnanda hefur ekki verið mótmælt sérstaklega en undir rekstri málsins breytti stefnandi vaxtakröfu sinni sem stefndi hafði mótmælt í greinargerð. Með vísan til alls framanritaðs verður að taka til greina kröfur stefnanda, aðrar en þær sem lúta að framlagi í lífeyrissjóð. Ekki þykja efni til að lækka kröfur stefnanda að öðru leyti. Að fenginni þeirri niðurstöðu verður stefnda gert að greiða stefnanda tvær milljónir króna í málskostnað og hefur þá verið litið til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Af hálfu stefnanda fór Hlynur Jónsson hdl. með málið en af hálfu stefnda Lára V. Júlíusdóttir hrl. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Stefndi, Stapi lífeyrissjóður, greiði stefnanda, Kára Arnóri Kárasyni, 23.592.959 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.436.673 krónum frá 1. júní 2016 til 1. júlí 2016, af 5.138.776 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2016, af 6.840.879 krónum frá þeim degi til 1. september 2016, af 8.542.982 krónum frá þeim degi til 1. október 2016, af 10.245.085 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2016, af 11.947.188 krónum frá þeim degi til 1. desember 2016, af 13.909.985 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2017, af 15.612.088 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2017, af 17.314.191 krónu frá þeim degi til 1. marz 2017, af 19.016.294 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2017 en af 23.592.959 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda tvær milljónir króna í málskostnað.
Mál nr. 618/2017
Hlutafélag Hlutabréf Forkaupsréttur Útivist Kröfugerð
ÞI krafðist þess að viðurkennt yrði að hann ætti forkaupsrétt að tólf hlutum í Þ ehf., sem hann var meðal hluthafa í, vegna sölu EI, IMJ, SID, SIS og ÞJ á hlutunum 4. janúar 2016, sem ÞI taldi aðallega hafa verið til K ehf. en að öðrum kosti til S ehf. Í samþykktum Þ ehf. var kveðið á um að stjórn félagsins hefði forkaupsrétt fyrir hönd þess en að því frágengnu hefðu hluthafar forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Efndi ÞI til samstarfs við þrjá menn, sem áttu saman félagið K ehf., um fyrirhuguð kaup á hlutum EI, IMJ, SID, SIS og ÞJ í Þ ehf. Af því tilefni gerðu ÞI og K ehf. fyrir hönd óskráðs einkahlutafélags tilboð 4. júní 2015 um kaup á hlutum þeirra sem þau samþykktu sama dag. K ehf. innti hins vegar kaupverð hlutanna af hendi 4. janúar 2016 án þess að ÞI veitti til þess atbeina sinn eða gerðist stofnandi eða hluthafi félags, sem ætlað var að standa að kaupunum, en eigendur K ehf. stofnuðu síðar S ehf. í þeim tilgangi. Talið var að með samþykki EI, IMJ, SID, SIS og ÞJ á tilboðinu 4. júní 2015 hefði komist á samningur sem háður hefði verið tilteknum skilyrðum en að þeim uppfylltum skyldi hann efndur ekki síðar en 4. janúar 2016. Þegar samningurinn hefði komist á hefði einkahlutafélag, sem ætlað var að verða kaupandi hlutanna, ekki verið stofnað. Yrði því að leggja til grundvallar að ÞI og K ehf. hefðu einir og í sameiningu notið réttinda og borið skyldur kaupanda samkvæmt samningnum. Hefðu EI, IMJ, SID, SIS og ÞJ með samþykki tilboðsins gengist undir að hlíta því að ÞI og K ehf. gætu á síðari stigum ákveðið upp á sitt eindæmi að færa réttindi sín og skyldur samkvæmt samningnum til félags, sem þeir myndu stofna til eignarhalds á hlutum í Þ ehf. Hefði hvorki verið stofnað slíkt félag né hefði ÞI efnt í eigin nafni fyrir sitt leyti þær skuldbindingar sem hann tók á sig með tilboðinu. Ekkert hefði því orðið úr þeim kaupum sem komust á með samþykki tilboðsins. Á hinn bóginn hefði K ehf. 4. janúar 2016 innt af hendi til EI, IMJ, SID, SIS og ÞJ greiðslur sömu fjárhæðar og mælt var fyrir um í tilboðinu og þau framselt að endurgjaldi hluti sína í Þ ehf. Með því hefði komist á nýr kaupsamningur og yrði K ehf. að teljast hafa verið kaupandi samkvæmt honum. Þegar sá samningur komst á hefði orðið virkur forkaupsréttur sem ÞI naut sem hluthafi í Þ ehf. og hefði hann tilkynnt stjórn Þ ehf. að hann nýtti þann rétt innan tilskilins tíma. Var því viðurkenndur forkaupsréttur ÞI á hlutunum á nánar tilgreindu verði vegna sölu þeirra til K ehf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2017. Hann krefst þess að viðurkennt verði aðallega að hann eigi forkaupsrétt að tólf hlutum í stefnda Þingvallaleið ehf., en til vara þann rétt að þeim stefnda frágengnum, á verðinu 93.625.054 krónur vegna sölu stefndu Elínar Ingvarsdóttur, Ingvars Mars Jónssonar, Sigríðar Ingvarsdóttur, Sigurðar Ingvarssonar og Þórönnu Jónsdóttur á hlutunum 4. janúar 2016, sem áfrýjandi telur aðallega hafa verið til stefnda KÖS ehf. en að öðrum kosti til stefnda SPV 25 ehf. Áfrýjandi krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti aðallega úr hendi stefnda KÖS ehf., en til vara stefnda SPV 25 ehf. Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Að öðrum kosti krefjast stefndu Þingvallaleið ehf., KÖS ehf. og SPV 25 ehf. að kaupverð hlutanna í fyrstnefnda félaginu, sem dómkröfur áfrýjanda snúa að, verði ákveðið 93.060.000 krónur, sem taki breytingum eftir vísitölu neysluverðs frá grunntölunni 428,2 stig til greiðsludags og beri frá 4. janúar 2016 til þess tíma dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í öllum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Fyrir Hæstarétti hefur verið sótt þing af hálfu allra stefndu og haldið uppi í einu lagi vörnum í málinu með þeim dómkröfum, sem að framan greinir. Í héraði varð frá öndverðu útivist af hálfu stefndu Elínar, Ingvars og Þórönnu. Stefndu Sigríður og Sigurður sóttu sjálf þing á fyrstu stigum í héraði og gerðu í greinargerð „ekki aðrar kröfur í máli þessu en þær að málið verði dæmt á réttum forsendum“, svo og að áfrýjanda yrði gert að greiða þeim málskostnað, en frá næsta þinghaldi eftir að greinargerð þessi var lögð fram gætti lögmaður hagsmuna þeirra í málinu. Í héraði gerði þannig enginn þessara stefndu nokkra dómkröfu, að frátalinni kröfu tveggja þeirra um málskostnað, hvað þá að bera upp málsástæður, svo sem þau gera á hinn bóginn öll fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 29. gr. laga nr. 49/2016, verður þeim málatilbúnaði ekki komið að hér fyrir dómi og verður honum ekki gefinn frekari gaumur. II Í héraði neyttu stefndu Þingvallaleið ehf., KÖS ehf. og SPV 25 ehf. heimildar samkvæmt 6. málslið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 til að leggja fyrst í stað fram greinargerðir eingöngu um þær kröfur sínar að málinu yrði vísað frá dómi, ýmist í heild eða að hluta. Eftir að þeim kröfum hafði verið hafnað með úrskurði 21. nóvember 2016 lögðu þeir í sameiningu fram í þinghaldi 25. janúar 2017 greinargerð, sem aðeins hefði átt að snúa að efnisvörnum í málinu, sbr. 7. málslið sama lagaákvæðis. Í þeirri greinargerð kröfðust þessir stefndu allt að einu í annað sinn að málinu yrði vísað frá dómi og byggðu þar í meginatriðum á sömu rökum og héraðsdómur hafði þegar hafnað. Til þessara röksemda var síðan að nokkru leyti aftur tekin afstaða í hinum áfrýjaða dómi og hafnað að vísa málinu frá. Þessi málatilbúnaður var ósamrýmanlegur tilgangi framangreindra ákvæða 99. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu Þingvallaleið ehf., KÖS ehf. og SPV 25 ehf. hafa ekki gagnáfrýjað héraðsdómi og geta því rök þeirra fyrir aðalkröfum sínum fyrir Hæstarétti ekki komið til skoðunar nema þau gætu leitt til þess að vísa ætti málinu frá héraðsdómi án kröfu. Til röksemda, sem haldið hefur verið fram fyrir þessum kröfum hér fyrir dómi, þarf að þessu virtu ekki að taka að öðru leyti afstöðu í einstökum atriðum, en þær eru með öllu haldlausar. III Samkvæmt því, sem fram kemur í gögnum málsins, var Þingvallaleið ehf. stofnað á árinu 1969 af fimm mönnum, þar á meðal foreldrum áfrýjanda og stefndu Elínar, Sigríðar og Sigurðar, þeim Ingvari Sigurðssyni og Guðlaugu Þórarinsdóttur, en Ingvar mun hafa látist í júní 1990 og Guðlaug í október 2014. Áfrýjandi mun hafa starfað um árabil hjá félaginu og verið forráðamaður þess um tíma. Eftir samþykktum félagsins var tilgangur þess rekstur langferðabifreiða og annar skyldur atvinnurekstur. Þar kom fram að hlutafé í félaginu væri alls 141.000 krónur, sem skiptist í tuttugu hluti, og væri hver þeirra að nafnvirði 7.050 krónur. Um eigendaskipti að hlutum voru svofelld ákvæði í 7. grein samþykktanna: „Eigendaskipti að hlutum í félaginu öðlast ekki gildi gagnvart því fyrr en stjórn þess hefur verið tilkynnt um það skriflega. Stjórn félagsins hefur forkaupsrétt fyrir félagsins hönd að fölum hlutum. Að félaginu frágengnu hafa hluthafar forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Verði ágreiningur um verð hluta skal það ákveðið með mati tveggja óvilhallra manna, sem dómkvaddir skulu til þess starfa. Forkaupsréttarhafi hefur tveggja mánaða frest til að beita forkaupsrétti sínum og telst fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboð. Þá mega eigi líða fleiri en þrír mánuðir frá því að kaup voru ákveðin þar til kaupverð er greitt. Eigendaskipti vegna arfsals til erfingja við andlát hluthafa lúta ekki framangreindum forkaupsréttarreglum.“ Eftir andlát Guðlaugar Þórarinsdóttur munu erfingjar hafa fengið leyfi til einkaskipta á dánarbúi hennar 19. nóvember 2014. Fyrir liggur í málinu að dánarbúinu hafi tilheyrt átta hlutir í stefnda Þingvallaleið ehf., en á þeim tíma hafi hluthafar í félaginu að öðru leyti verið áfrýjandi með fjóra hluti, stefndu Elín og Sigurður hvort með tvo hluti og stefndu Ingvar og Þóranna hvort með einn. Tveir hlutir munu síðan hafa verið í eigu félagsins sjálfs. Við skipti á dánarbúi Guðlaugar, sem mun hafa lokið á árinu 2015, fengu áfrýjandi og stefndu Elín, Sigurður og Sigríður hvert um sig tvo hluti í félaginu að arfi. Samkvæmt gögnum málsins virðist áfrýjandi hafa um vorið 2015 efnt til samstarfs við Konráð Örn Skúlason, Karl Kristján Bjarnason og Bjarna Karlsson, sem munu saman hafa átt stefnda KÖS ehf., um fyrirhuguð kaup á hlutum annarra hluthafa í stefnda Þingvallaleið ehf. Af þessu tilefni gerðu áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. „f.h. óskráðs einkahlutafélags (eignarhaldsfélags)“ tilboð um kaup á hlutum þeirra 4. júní 2015, sem þau samþykktu sama dag. Í tilboðinu var kafli með fyrirsögninni: „Bakgrunnur“, þar sem meðal annars kom fram að það væri forsenda tilboðsgjafa að í gegnum hann myndu áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. eignast allt hlutafé í stefnda Þingvallaleið ehf., sem í tilboðinu var nefnt félagið, en þó þannig að það myndi áfram eiga eigin hluti. Þar sagði einnig eftirfarandi: „Þór Ingvarsson og KÖS ehf. hafa sammælst um að Þór verði eigandi að 51% hlutafé tilboðsgjafa og KÖS ehf. verði eigandi að 49% hlutafjár tilboðsgjafa í nýju eignarhaldsfélagi. Við stofnun eignarhaldsfélagsins skal Þór leggja til 6 hluti í félaginu og KÖS skal leggja til kr. 46.530.000 sem verður notað til að greiða fyrir hluti í félaginu samkvæmt kauptilboði þessu. ... Verði efndadagur samkvæmt kauptilboðinu mun eignarhaldsfélagið eiga 18 hluti í félaginu (og félagið mun eiga 2 eigin hluti). Aðilum er ljóst að helmingur kaupverðsins samkvæmt kauptilboðinu er ófjármagnaður en gert er ráð fyrir að eignarhaldsfélagið afli sér lánsfjár til að geta greitt kaupverð kauptilboðsins að fullu, en kauptilboðið er m.a. skilyrt um fjármögnun.“ Þá voru í þessum kafla tilboðsins ákvæði um að áfrýjandi, stefndu Ingvar, Sigríður og Þóranna og fyrrnefndur Bjarni myndu eiga sæti í stjórn stefnda Þingvallaleiðar ehf. þar til kaupverð yrði að fullu greitt, en í viðauka með tilboðinu var jafnframt kveðið á um að stjórnin skyldi ráða áðurnefndan Konráð til að starfa sem framkvæmdastjóri félagsins á sama tímabili. Í öðrum kafla í tilboðinu voru síðan ákvæði um kaupverð og afhendingu hinna seldu hluta, en þar kom fram að fyrir hvern þeirra yrðu greiddar 7.755.000 krónur og næmi því kaupverðið samtals 93.060.000 krónum, sem yrði bundið vísitölu neysluverðs með grunntölunni 428,2 stig. Tekið var fram hvernig fjárhæð þessi myndi skiptast milli stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu og átti að leggja hlutdeild hvers þeirra inn á tiltekinn bankareikning ekki síðar en 4. janúar 2016. Væri tilboðið háð þeim skilyrðum annars vegar að þessi stefndu staðfestu á síðari stigum skriflega við tilboðsgjafa að þau hefðu eignast hlutabréfin, sem tilheyrðu þá enn dánarbúi Guðlaugar, og hins vegar að tilboðsgjafa tækist að fjármagna tilboð sitt að fullu, en yrðu þessi skilyrði ekki uppfyllt 4. janúar 2016 eða tilboðsgjafi fallið frá þeim fyrir þann tíma myndi tilboðið falla úr gildi. Uppgjör samkvæmt tilboðinu átti að fara fram að liðnum tilteknum tíma frá því að skilyrðum þessum yrði fullnægt nema aðilarnir kæmu sér saman um annað, en við uppgjörið skyldu hlutirnir afhentir án kvaða eða veðbanda, kaupverðið greitt, seljendur láta af hendi hlutaskrá, sem bæri með sér að tilboðsgjafi væri eigandi hlutanna, og hluthafafundur haldinn til að kjósa nýja stjórn fyrir félagið. Tilboðið var áritað af meiri hluta stjórnar stefnda Þingvallaleiðar ehf. um að það hafi verið kynnt henni og félagið fallið frá forkaupsrétti vegna kaupanna. Af gögnum málsins verður ráðið að þær breytingar á stjórnun stefnda Þingvallaleiðar ehf., sem ráðgerðar voru í tilboðinu samkvæmt áðursögðu, hafi komið til framkvæmdar í beinu framhaldi af samþykki þess. Á hinn bóginn hafi orðið dráttur á aðgerðum til að útvega lánsfé vegna kaupanna og stofna eignarhaldsfélag til að standa að þeim, en ósamkomulag virðist hafa komið upp um þetta milli áfrýjanda og þeirra, sem stóðu að stefnda KÖS ehf. Vegna þessa ritaði lögmaður fyrir hönd þess stefnda bréf til áfrýjanda 30. desember 2015. Þar var áfrýjandi boðaður til fundar að morgni 4. janúar 2016 til að stofna einkahlutafélag, sem yrði eignarhaldsfélagið sem um ræddi í tilboðinu, en þess var getið að áfrýjandi hafi áður hafnað að nota í þessu skyni annað tiltekið félag, sem þegar væri til, sökum þess að hann „hafi ekki átt beina aðkomu að stofnun þess félags.“ Jafnframt var skorað á áfrýjanda að „leggja inn í“ nýja félagið við sama tækifæri hlutina sína í stefnda Þingvallaleið ehf., svo sem hann hafi skuldbundið sig til í tilboðinu, og tekið fram að um leið myndi stefndi KÖS ehf. inna af hendi til félagsins 46.530.000 krónur með verðbótum eins og hann hafi heitið. Einnig var tekið fram að „tilboðsgjafa stendur til boða lán sem notað verður til að greiða helming kaupverðsins samkvæmt kauptilboðinu ... Fyrir hönd tilboðsgjafa verður undirritað skjal um lánið á stofnfundinum.“ Þá var þess getið að stefndi KÖS ehf. hafi boðað seljendur hlutanna til annars fundar síðar um daginn 4. janúar 2016 til að ljúka uppgjöri kaupanna. Í lok bréfsins sagði síðan að ef áfrýjandi mætti ekki „á boðaðan stofnfund tilboðsgjafa“ áskildi stefndi KÖS ehf. sér rétt til að stofna félagið einn „og/eða efna kauptilboðið fyrir hönd tilboðsgjafa þannig að skuldbindandi sé fyrir aðila þess.“ Í tölvubréfi lögmanns áfrýjanda 4. janúar 2016 til lögmanns stefnda KÖS ehf. var vísað til þess að á fundi þeirra að morgni sama dags hafi komið fram að sá stefndi hafi gert ráðstafanir til að afla fjár til að standa við kauptilboðið frá 4. júní 2015, en það yrði gert með því að „hið óstofnaða félag“ gæfi út skuldabréf til tiltekins félags, sem lögmaður þessa stefnda stæði að ásamt nafngreindum bróður sínum. Skuldabréf þetta yrði að fjárhæð 46.812.527 krónur, sem yrðu endurgreiddar með verðbótum og 9,9% ársvöxtum með 48 mánaðarlegum afborgunum, en í drögum að bréfinu væru einnig ákvæði um að kröfuhafa væri „hvenær sem er heimilt að breyta kröfu sinni samkvæmt bréfinu í hlutafé“ í stefnda Þingvallaleið ehf., auk þess sem ráðgert væri að hlutabréf í því félagi, sem óstofnaða félagið myndi eignast, yrðu sett að veði fyrir kröfunni. Teldi áfrýjandi að þessi lántaka væri „afar óhentug fyrir félag sem þetta“, sem hefði ekki „tryggt greiðsluflæði til að standa undir afborgunum“, en einnig yrði skuldabréfið „með breytirétti, sem er virkur frá því að lánið er tekið“, þannig að staða áfrýjanda yrði óljós. Framangreindur ágreiningur var ekki látinn standa því í vegi að fundur var haldinn síðla dags 4. janúar 2016 til að gera upp kaup á hlutum stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu í stefnda Þingvallaleið ehf., en þar var undirrituð yfirlýsing, sem seljendurnir stóðu að ásamt áfrýjanda og „KÖS ehf. f.h. óskráðs einkahlutafélags, SPV 25 ehf. („SPV“)“. Í henni kom fram að ágreiningur væri risinn milli stefnda SPV 25 ehf. og áfrýjanda um hvort kaupin á hlutunum væru „til samræmis við“ kauptilboðið frá 4. júní 2015 eða um væri að ræða „önnur og óskyld viðskipti þar sem kauptilboðið sé úr gildi fallið“, en seljendurnir stæðu „ekki í ágreiningi við hvorki SPV né Þór Ingvarsson.“ Þá sagði eftirfarandi í yfirlýsingunni: „Bæði SPV og Þór Ingvarsson lýsa því yfir að engum kröfum verði beint að seljendum vegna viðskipta þessara, enda valdi það ekki réttarspjöllum, t.d. gagnvart forkaupsrétti sem Þór telur sig hafa. Af hálfu SPV er því sérstaklega haldið til haga að það telur sig vera að vinna á grundvelli ákvæða kauptilboðsins. Í því ljósi mun félagið beina því að Þór Ingvarssyni að leggja hluti sína í Þingvallaleið ehf. inni í SPV til samræmis við ákvæði kauptilboðsins og efna skuldbindingar samkvæmt því að öðru leyti. SPV áréttar að það telji forkaupsrétt Þórs ekki vera til staðar, hvort sem dómstólar telja kauptilboðið vera gilt eða ekki. Af hálfu Þórs Ingvarssonar er því sérstaklega haldið til haga að hann telur kauptilboðið vera úr gildi fallið þar sem skilyrði þess hafa ekki verið uppfyllt. Af hálfu Þórs er litið svo á að um nýjan samning milli SPV og seljenda sé að ræða. Þór lítur svo á að forkaupsréttur hans samkvæmt samþykktum félagsins sé virkur vegna þeirra kaupa. Af hálfu seljenda er óskað eftir að bókað verði að þeir telji að kauptilboðið hafi ekki fallið úr gildi vegna ástæðna er varði seljendur. Þar sem kauptilboðið hafi ekki verið formlega ógilt, telja seljendur sig skuldbundna til að uppfylla það.“ Á fundinum var kaupverð hlutanna innt af hendi án þess að áfrýjandi veitti til þess atbeina sinn eða gerðist stofnandi félags, sem ætlað var að standa að kaupunum, eða hluthafi í því. Í framhaldi af þessu var haldinn stjórnarfundur í stefnda Þingvallaleið ehf., þar sem fært var í fundargerð að félaginu hafi verið tilkynnt um efndir kaupanna, áfrýjandi hafi lýst yfir að hann teldi kaupin ekki vera í samræmi við samþykkt tilboð um þau með þeim afleiðingum að hann nyti forkaupsréttar að hlutunum og stjórnin hafi undirritað nýja hlutaskrá til að afhenda kaupanda þeirra. Þá var haldinn hluthafafundur í stefnda Þingvallaleið ehf. 8. janúar 2016 og mættu þar áfrýjandi ásamt fulltrúa stefnda KÖS ehf. og „óstofnaðs hlutafélags SPV25.“ Þar ítrekaði áfrýjandi að hann teldi sig eiga forkaupsrétt að hlutunum, sem sér hafi ekki enn verið boðið að nýta, en stefndi KÖS ehf. teldi á hinn bóginn stefnda SPV 25 ehf. hafa uppfyllt skilyrði og fyrirvara í tilboðinu frá 4. júní 2015 og hafi orðið eigendaskipti að hlutunum með réttum efndum þess félags á kaupunum. Á fundinum var síðan kjörin ný stjórn fyrir stefnda Þingvallaleið ehf., sem áfrýjandi tók sæti í ásamt fjórum öðrum. Samkvæmt gögnum málsins var áfrýjanda 25. janúar 2016 sagt upp störfum hjá stefnda Þingvallaleið ehf., þar sem hann mun hafa unnið orðið sem bifreiðastjóri. Sama dag var stefndi SPV 25 ehf. stofnað og áðurnefndir Bjarni Karlsson og Konráð Örn Skúlason kjörnir í stjórn félagsins. Í svonefndri stofngerð fyrir félagið var meðal annars tekið fram að ákveðið hafi verið á stofnfundi að „félagið tæki skuldabréfalán að fjárhæð kr. 46.812.527“ með nánar tilgreindum skilmálum, en af lýsingu þeirra að dæma virðist það hafa verið sama efnis og drög, sem lögmaður áfrýjanda fjallaði um í fyrrnefndu tölvubréfi 4. janúar 2016. Þá er þess að geta að í málinu liggur fyrir yfirlýsing „stjórnenda Þingvallaleiðar ehf., KÖS ehf. og SPV 25 ehf.“ um staðfestingu á því að 4. janúar 2016 hafi síðastnefnda félagið, sem þá hafi verið óskráð, orðið „löglegur eigandi 12 hluta (60%) í Þingvallaleið ehf. þegar kauptilboð 4. júní 2015 var efnt“, en stefndi KÖS ehf. hafi „aldrei verið eigandi hlutafjár í Þingvallaleið ehf.“ Með bréfi 28. janúar 2016 tilkynnti áfrýjandi öllum stefndu, öðrum en SPV 25 ehf., að hann teldi forkaupsrétt sinn að tólf hlutum í stefnda Þingvallaleið ehf. hafa orðið virkan við áðurnefnd kaup 4. sama mánaðar. Lýsti áfrýjandi því yfir að hann nýtti sér þennan rétt og skoraði á stefnda KÖS ehf. að veita sér innan viku upplýsingar „um endanlegt kaupverð hlutafjárins“, svo og inn á hvaða bankareikning greiða ætti þá fjárhæð. Þessu var andmælt í bréfi stefnda KÖS ehf. til áfrýjanda 12. febrúar 2016. Í framhaldi af því höfðaði áfrýjandi mál þetta með stefnu 22. mars sama ár. IV Með samþykki stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu á tilboðinu, sem áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. beindu til þeirra „f.h. óskráðs einkahlutafélags“ 4. júní 2015 um kaup á hlutum þeirra í stefnda Þingvallaleið ehf., komst á samningur, sem háður var tilteknum skilyrðum, en að þeim uppfylltum skyldi hann efndur ekki síðar en 4. janúar 2016. Þegar samningurinn komst á var einkahlutafélag, sem var ætlað að verða kaupandi hlutanna, ekki aðeins óskráð, heldur hafði það ekki verið stofnað. Ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög taka ekki eftir orðanna hljóðan til aðstæðna sem þessara, enda ná þau til skuldbindinga, sem myndaðar eru í nafni slíks félags sem hefur þegar verið stofnað eftir reglum 3. gr. til 8. gr. þeirra laga en ekki hefur enn verið skráð. Af framangreindum ástæðum verður að leggja til grundvallar að áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. hafi einir og í sameiningu notið réttinda og borið skyldur kaupanda samkvæmt samningnum. Að því verður þó einnig að gæta að sem fyrr segir var í tilboðinu lýst svonefndum bakgrunni þess, þar á meðal að það hafi verið gert á þeirri forsendu að áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. myndu „eignast“ hlutina í stefnda Þingvallaleið ehf. „í gegnum“ væntanlegt félag sitt, sem yrði í eigu áfrýjanda að 51% og stefnda KÖS ehf. að 49%. Verður þannig að líta svo á að með samþykki tilboðsins hafi stefndu Elín, Ingvar, Sigríður, Sigurður og Þóranna gengist undir að hlíta því að áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. gætu á síðari stigum ákveðið upp á sitt eindæmi að færa réttindi sín og skyldur samkvæmt samningnum til félags, sem þeir myndu stofna til eignarhalds á hlutunum í stefnda Þingvallaleið ehf. og yrði í eigu þeirra í fyrrgreindum hlutföllum. Eftir gögnum málsins var hvorki stofnað slíkt félag né efndi áfrýjandi í eigin nafni fyrir sitt leyti þær skuldbindingar, sem hann tók á sig með tilboðinu. Þegar af þeim ástæðum varð ekkert úr þeim kaupum, sem komust á með samþykki þess 4. júní 2015. Á hinn bóginn mun stefndi KÖS ehf. hafa á áðurnefndum fundi 4. janúar 2016 innt af hendi til stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu greiðslur sömu fjárhæðar og mælt hafði verið fyrir um í tilboðinu og þau framselt að endurgjaldi hluti sína í stefnda Þingvallaleið ehf. Líta verður svo á að með þessu hafi komist á nýr kaupsamningur, sem jafnframt var efndur þegar í stað en virðist aldrei hafa verið skjalfestur. Þegar atvik þessi gerðust hafði stefndi SPV 25 ehf. ekki enn verið stofnað og liggur ekkert fyrir í málinu um að kaup þessi hafi verið gerð með skilmála, hliðstæðum þeim sem fólst í samþykki tilboðsins 4. júní 2015, um að seljendur myndu hlíta því að það félag tæki við stöðu kaupanda eftir stofnun þess. Verður því kaupandi eftir þessum óskráða samningi að teljast hafa verið stefndi KÖS ehf. Þegar kaupsamningur þessi komst á 4. janúar 2016 milli stefnda KÖS ehf. og stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu varð virkur forkaupsréttur, sem áfrýjandi naut sem hluthafi í stefnda Þingvallaleið ehf. samkvæmt fyrrnefndri 7. grein samþykkta þess félags, að hlutunum sem kaupin tóku til. Í þeirri grein samþykktanna var kveðið á um að forkaupsréttarhafi hefði frest til að beita þeim rétti í tvo mánuði frá því að stjórn félagsins væri tilkynnt um kaup. Af fundargerð frá fundi stjórnar stefnda Þingvallaleiðar ehf. 4. janúar 2016 er ljóst að henni hafi þá samdægurs verið tilkynnt um þessi kaup, en áfrýjandi lýsti eins og áður segir bréflega yfir 28. sama mánaðar við alla, sem hlut áttu að máli, að hann nýtti forkaupsrétt sinn og var það þannig gert í tæka tíð. Stjórn félagsins lýsti á hinn bóginn engu slíku yfir fyrir hönd þess innan frestsins, sem hún naut í því skyni og lauk 4. mars 2016, en til annarra en félagsins og áfrýjanda gat forkaupsréttur ekki náð eins og atvikum var háttað. Áfrýjandi deildi þannig hvorki með öðrum forkaupsrétti né stóð hann í því efni öðrum að baki. Í bréfum sínum 28. janúar 2016 óskaði áfrýjandi svo sem fyrr greinir eftir upplýsingum um fjárhæð, sem sér bæri að inna af hendi vegna nýtingar forkaupsréttar síns, og hvert hann ætti að greiða hana, en við því fékk hann engin svör frá öðrum en stefnda KÖS ehf., sem ítrekaði í bréfi 12. febrúar sama ár mótmæli gegn því að forkaupsréttur áfrýjanda hafi orðið virkur. Má samkvæmt þessu líta svo á að áfrýjandi hafi innan tilskilins tíma samkvæmt samþykktum fyrir stefnda Þingvallaleið ehf. boðið fram greiðslu á kaupverði hlutanna, sem neitað hafi verið að taka við. Glataði áfrýjandi ekki forkaupsrétti sínum með því að aðhafast ekkert frekar í þessu sambandi fram að því að mál þetta var höfðað. Samkvæmt öllu framangreindu verður orðið við kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á því að hann eigi forkaupsrétt að tólf hlutum í stefnda Þingvallaleið ehf. vegna sölu stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu á þeim 4. janúar 2016 til stefnda KÖS ehf. Áfrýjandi hefur jafnframt krafist þess að viðurkennt verði að hann njóti þessa réttar á verðinu 93.625.054 krónur. Stefndu Þingvallaleið ehf., KÖS ehf. og SPV 25 ehf. hafa á hinn bóginn krafist þess sem áður segir til ítrustu vara að kaupverðið verði ákveðið 93.060.000 krónur, sem bundið sé vísitölu neysluverðs með grunntölunni 428,2 stig og beri að auki dráttarvexti frá 4. janúar 2016. Um þetta ágreiningsefni verður að gæta að því að með nýtingu forkaupsréttar gengur áfrýjandi inn í stöðu stefnda KÖS ehf. sem kaupanda eftir samningi hans við seljendurna, stefndu Elínu, Ingvar, Sigríði, Sigurð og Þórönnu, og ber áfrýjandi samkvæmt því skyldur við þau, meðal annars til greiðslu kaupverðs, en ekki við aðra stefndu. Ákvörðun kaupverðsins er af þessum sökum stefndu Þingvallaleið ehf., KÖS ehf. og SPV 25 ehf. óviðkomandi og verður þannig aðalkrafa áfrýjanda tekin til greina á þann hátt, sem segir í dómsorði. Í samræmi við kröfugerð áfrýjanda verður stefnda KÖS ehf. gert að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi svo sem í dómsorði greinir, en að öðru leyti fellur málskostnaður niður á báðum dómstigum. Dómsorð: Viðurkenndur er forkaupsréttur áfrýjanda, Þórs Ingvarssonar, að tólf hlutum í stefnda Þingvallaleið ehf. á verðinu 93.625.054 krónur vegna sölu stefndu Elínar Ingvarsdóttur, Ingvars Mars Jónssonar, Sigríðar Ingvarsdóttur, Sigurðar Ingvarssonar og Þórönnu Jónsdóttur á þeim hlutum til stefnda KÖS ehf. 4. janúar 2016. Stefndi KÖS ehf. greiði áfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en að öðru leyti fellur málskostnaður niður á báðum dómstigum.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2017. Mál þetta, sem dómtekið var 2. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu sem var þingfest 7. apríl 2016 af Þór Ingvarssyni, Stigahlíð 56, 105 Reykjavík, á hendur KÖS ehf., Vorsabæ 1, 110 Reykjavík, Þingvallaleið ehf., Skógarhlíð 10, 105 Reykjavík, Elínu Ingvarsdóttur, Rjúpnasölum 10, 201 Kópavogi, Ingvari Mar Jónssyni, Bjarmalandi 18, 108 Reykjavík, Sigríði Ingvarsdóttur, Kjarrvegi 4, 108 Reykjavík, Sigurði Ingvarssyni, Fannafold 126, 112 Reykjavík og Þórönnu Jónsdóttur, Kvistalandi 17, 108 Reykjavík. Til vara höfðar stefnandi málið á hendur SPV 25 ehf., Vorsabæ 1, 110 Reykjavík, Þingvallaleið ehf., Elínu Ingvarsdóttur, Ingvari Mar Jónssyni, Sigríði Ingvarsdóttur, Sigurði Ingvarssyni og Þórönnu Jónsdóttur. Í þinghaldi 3. maí 2016 lögðu aðalstefndu KÖS ehf. og Þingvallaleið ehf. og varastefndi SPV 25 ehf. fram greinargerðir um frávísunarkröfur með vísan til 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með úrskurði dómsins 21. nóvember 2016 var hafnað kröfu aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. um frávísun málsins, sem og kröfu aðalstefnda KÖS ehf. um frávísun á aðal- og varakröfu stefnanda og kröfu varastefnda SPV 25 ehf. um frávísun á þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu stefnanda. Í þinghaldi 25. janúar sl. var lögð fram greinargerð af hálfu aðalstefndu KÖS ehf. og Þingvallaleiðar ehf. og varastefnda SPV 25 ehf. I. Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi forkaupsrétt að 12 hlutum í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., eða 60% hlutafjár félagsins, samkvæmt 7. gr. samþykkta aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. á verðinu 93.625.054 krónur vegna sölu umræddra hluta frá stefndu Elínu Ingvarsdóttur, Ingvari Mar Jónssyni, Sigríði Ingvarsdóttur, Sigurði Ingvarssyni og Þórönnu Jónsdóttur til aðalstefnda KÖS ehf. þann 4. janúar 2016. Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi forkaupsrétt að 12 hlutum í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., eða 60% hlutafjár félagsins, að aðalstefnda Þingvallaleið ehf. frágengnum, samkvæmt 7. gr. samþykkta aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. á verðinu 93.625.054 krónur vegna sölu umræddra hluta frá stefndu Elínu Ingvarsdóttur, Ingvari Mar Jónssyni, Sigríði Ingvarsdóttur, Sigurði Ingvarssyni og Þórönnu Jónsdóttur til aðalstefnda KÖS ehf. þann 4. janúar 2016. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, úr hendi aðalstefnda KÖS ehf. samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.                 Til þrautavara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi forkaupsrétt að 12 hlutum í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., eða 60% hlutafjár félagsins, samkvæmt 7. gr. samþykkta aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. á verðinu 93.625.054 krónur vegna sölu umræddra hluta frá stefndu Elínu Ingvarsdóttur, Ingvari Mar Jónssyni, Sigríði Ingvarsdóttur, Sigurði Ingvarssyni og Þórönnu Jónsdóttur til varastefnda SPV 25 ehf. þann 4. janúar 2016.                 Til þrautaþrautavara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi forkaupsrétt að 12 hlutum í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., eða 60% hlutafjár félagsins, að aðalstefnda Þingvallaleið ehf. frágengnum, samkvæmt 7. gr. samþykkta aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. á verðinu 93.625.054 krónur vegna sölu umræddra hluta frá stefndu Elínu Ingvarsdóttur, Ingvari Mar Jónssyni, Sigríði Ingvarsdóttur, Sigurði Ingvarssyni og Þórönnu Jónsdóttur til varastefnda SPV 25 ehf. þann 4. janúar 2016.                 Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, úr hendi varastefnda SPV 25 ehf. samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi. Aðalstefndi Þingvallaleið ehf. krefst þess aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Komist dómurinn að niðurstöðu um að forkaupsréttur hafi virkjast 4. janúar 2016 og að rétturinn sé ekki fallinn niður, krefst aðalstefndi þess til þrautavara að kaupverð hinna 12 hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. sé 93.060.000 krónur og taki sú fjárhæð breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu í maí árið 2015 (428,2 stig) til greiðsludags, og að fjárhæðin þannig uppreiknuð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. janúar 2016 til greiðsludags. Aðalstefndi krefst þess í öllum tilvikum að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu. Aðalstefndi KÖS ehf. krefst þess aðallega að aðal- og varakröfu stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara krefst aðalstefndi sýknu af aðal- og varakröfu stefnanda. Komist dómurinn að niðurstöðu um að forkaupsréttur hafi virkjast 4. janúar 2016 og að rétturinn sé ekki fallinn niður, krefst aðalstefndi þess til þrautavara að kaupverð hinna 12 hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. sé 93.060.000 krónur og taki sú fjárhæð breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu í maí árið 2015 (428,2 stig) til greiðsludags, og að fjárhæðin þannig uppreiknuð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. janúar 2016 til greiðsludags. Aðalstefndi krefst þess í öllum tilvikum að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu. Varastefndi SPV 25 ehf. krefst þess aðallega að þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu af þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu stefnanda. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að forkaupsréttur hafi virkjast 4. janúar 2016 og að rétturinn sé ekki fallinn niður, krefst aðalstefndi þess til þrautavara að kaupverð hinna 12 hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. sé 93.060.000 krónur og taki sú fjárhæð breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu í maí árið 2015 (428,2 stig) til greiðsludags, og að fjárhæðin þannig uppreiknuð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 4. janúar 2016 til greiðsludags. Varastefndi krefst þess í öllum tilvikum að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu. Aðalstefndu og varastefndu Sigríður Ingvarsdóttir og Sigurður Ingvarsson krefjast þess að ,,málið verði dæmt á réttum forsendum“ og að þeim verði dæmdur hæfilegur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins. Aðalstefndu og varastefndu Elín Ingvarsdóttir, Ingvar Mar Jónsson og Þóranna Jónsdóttir hafa ekki látið málið til sín taka. II. Málsatvik Mál þetta er til komið vegna ágreinings um kaup á hlutabréfum í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. Þann 4. júní 2015 gerðu stefnandi og aðalstefndi KÖS ehf. kauptilboð fyrir hönd óskráðs einkahlutafélags í hluti aðal- og varastefndu Elínar Ingvarsdóttur, Ingvars Mars Jónssonar, Sigríðar Ingvarsdóttur, Sigurðar Ingvarssonar og Þórönnu Jónsdóttur. Hlutir í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. eru samtals 20 talsins og þar af á félagið tvo eigin hluti. Samkvæmt kauptilboðinu átti stefnandi fjóra hluti í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., aðal- og varastefndi Elín, Ingvar Mar, Sigríður, Sigurður og Þóranna áttu samtals sex hluti í félaginu og dánarbú Guðlaugar Þórarinsdóttur átti átta hluti. Við skipti dánarbúsins skyldu sex hlutir skiptast á milli aðal- og varastefndu Elínar, Sigurðar og Sigríðar. Í kauptilboðinu sagði meðal annars að forsenda tilboðsgjafa væri að stefnandi og aðalstefndi KÖS ehf. myndu í gegnum tilboðsgjafa, hið óstofnaða einkahlutafélag, eignast allt hlutafé aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf., aðra en eigin hluti. Þá var tekið fram að stefnandi yrði eigandi að 51% hlutafjár í tilboðsgjafa en aðalstefndi KÖS ehf. yrði eigandi að 49% hlutafjárins. Við stofnun eignarhaldsfélagsins skyldi stefnandi leggja til sex hluti í félaginu en aðalstefndi KÖS ehf. skyldi leggja til 46.530.000 krónur sem skyldi nota til að greiða fyrir hluti samkvæmt kauptilboðinu. Í stefnu er tekið fram að stefnandi hafi í lengri tíma átt 20% í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. en hafi við andlát móður stefnanda eignast 10% til viðbótar. Einnig var tekið fram í kauptilboðinu að aðilum væri ,,.ljóst að helmingur kaupverðsins samkvæmt kauptilboðinu er ófjármagnaður en gert er ráð fyrir að eignarhaldsfélagið afli sér lánsfjár …“. Kaupverðið, sem var 7.755.000 krónur á hlut, eða samtals 93.060.000 krónur fyrir samtals 12 hluti, tengt vísitölu neysluverðs miðað við maí 2015, skyldi greitt í peningum eigi síðar en 4. janúar 2016. Undir fyrirsögninni ,,4. Skilyrði“ sagði enn fremur að kauptilboðið væri bundið skilyrði um að viðeigandi tilboðshafar myndu undirrita staðfestingu sem var að finna í viðauka við kauptilboðið og afhenda tilboðsgjafa í kjölfar skipta á framangreindu dánarbúi, auk þess sem kauptilboðið væri bundið því skilyrði að tilboðsgjafa tækist að afla nægilegrar fjármögnunar vegna allra kaupanna fyrir 4. janúar 2016. Tekið var fram að hefðu skilyrðin ekki verið uppfyllt þann 4. janúar 2016 eða tilboðsgjafi ekki fallið frá þeim fyrir þann tíma, félli kauptilboðið úr gildi. Í 7. gr. samþykkta fyrir aðalstefnda Þingvallaleið ehf. kemur meðal annars fram að eigendaskipti að hlutum í félaginu öðlist ekki gildi gagnvart því fyrr en stjórn þess hafi verið tilkynnt um það skriflega. Stjórn félagsins hafi forkaupsrétt fyrir hönd félagsins að fölum hlutum. Að félaginu frágengnu hafi hluthafar forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutaeign sína. Forkaupsréttarhafi hafi tveggja mánaða frest til að beita forkaupsrétti sínum og teljist fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboð. Þá megi eigi líða fleiri en þrír mánuðir frá því kaup voru ákveðin þar til kaupverð sé greitt. Þann 19. september 2015 undirrituðu aðal- og varastefndu Elín, Sigríður og Sigurður staðfestingu á því að skipti á dánarbúi Guðlaugar Þórarinsdóttur hefðu farið fram og að fyrrgreint kauptilboð næði jafnframt til þeirra hluta sem undirrituð hefðu fengið úthlutað úr dánarbúinu, nánar tiltekið samtals sex hluti. Með bréfi, dags. 30. desember 2015, var stefnandi boðaður til stofnfundar tilboðsgjafa vegna fyrrgreinds kauptilboðs sem skyldi fara fram þann 4. janúar 2016 á tilteknum stað kl. 9:00. Tekið var fram í bréfinu að tilboðsgjafa stæði til boða lán sem notað yrði til að greiða helming kaupverðsins samkvæmt kauptilboðinu og fyrir hönd tilboðsgjafa yrði undirritað skjal um lánið á stofnfundinum. Með bréfinu var stefnandi einnig boðaður til efndadags en sá fundur skyldi fara fram síðar sama dag á tilteknum stað kl. 14:00. Með bréfi, dags. 30. desember 2015, til aðal- og varastefndu Þórönnu, voru tilboðshafar einnig boðaðir til fyrrnefnds efndadags og var meðal annars tekið fram í bréfinu að tilboðsgjafa hefði tekist að afla nægilegrar fjármögnunar vegna allra kaupanna. Á uppgjörsfundinum 4. janúar 2016 greiddi aðalstefndi KÖS ehf. kaupverðið gegn afhendingu 12 hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. Á fundinum kom upp ágreiningur milli aðila um hvort þessi viðskipti væru í samræmi við kauptilboðið frá 4. júní 2015, eða hvort um ný viðskipti væri að ræða. Taldi stefnandi að um ný viðskipti væri að ræða, enda væri kauptilboðið fallið niður, en aðrir málsaðilar töldu að viðskiptin væru í samræmi við fyrrgreint kauptilboð. Á stjórnarfundi í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., sem haldinn var 4. janúar 2016, samþykkti stjórn aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. umrædd kaup. Á stjórnarfundinum var bókuð sú afstaða stefnanda að hann teldi fyrrgreint kauptilboð ekki vera í gildi þar sem skilyrði þess hefðu ekki verið uppfyllt. Um nýjan samning væri að ræða milli SPV og seljenda og að forkaupsréttur stefnanda samkvæmt samþykktum aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. væri virkur vegna þeirra kaupa. Stefnandi myndi því ekki staðfesta nýja hlutaskrá. Á hluthafafundi í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., sem haldinn var 8. janúar 2016, var bókuð athugasemd stefnanda, þess efnis að hann liti svo á að forkaupsréttur hans hafi orðið virkur vegna eigendaskipta að 60% hlutafjár í félaginu 4. janúar 2016. Af hálfu aðalstefnda KÖS ehf., fyrir hönd óskráðs einkahlutafélags, var bókað að eigendaskiptin 4. janúar 2016 hefðu farið fram á grundvelli fyrrgreinds kauptilboðs og hefði forkaupsréttur stefnanda ekki orðið virkur. Með bréfi, dags. 28. janúar 2016, til aðalstefnda KÖS ehf., lýsti lögmaður stefnanda því yfir að stefnandi nýtti sér forkaupsrétt sinn og skoraði á félagið að upplýsa, eigi síðar en sjö dögum frá dagsetningu bréfsins, um endanlegt kaupverð hlutafjárins samkvæmt greiðslu þann 4. janúar 2016 og inn á hvaða reikning stefnandi ætti að greiða þá fjárhæð. Með bréfi, dags. 12. febrúar 2016, hafnaði aðalstefndi KÖS kröfum stefnanda. Þann 1. febrúar 2016 var tilkynning um stofnun varastefnda SPV 25 ehf. móttekin af Fyrirtækjaskrá. Tilkynningin er samþykkt sama dag og þar kemur fram að félagið sé stofnað af aðalstefnda KÖS ehf. Í meðfylgjandi stofnskrá félagsins, dags. 25. janúar 2016, kemur fram að hlutafé félagsins sé 46.812.527 krónur sem greinist í krónuhluti og aðalstefndi KÖS ehf. skrái sig fyrir öllu hlutafénu. Mál þetta höfðaði stefnandi eins og að framan er rakið með stefnu sem var þingfest 7. apríl 2016. III. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi rekur að veruleg óvissa sé um hvort aðalstefndi KÖS ehf. eða varastefndi SPV 25 ehf. sé hinn raunverulegi eigandi þess hlutafjár sem viðskiptin 4. janúar 2016 hafi snúist um. Þegar vísað sé til aðalstefnda KÖS ehf. sé eftir því sem við á einnig átt við varastefnda SPV 25 ehf., og öfugt, eftir því hvor verði talinn eigandi bréfanna. Stefnandi telur að kauptilboð, dags. 4. júní 2015, hafi verið viljayfirlýsing aðila um sölu að því gefnu að tiltekin skilyrði myndu ganga eftir. Samþykki allra aðila hafi þurft til að gera breytingar á tilboðinu. Samkvæmt kauptilboðinu hafi tilboðsgjafi, hið óstofnaða einkahlutafélag, átt að afla fjármagns. Stefnanda hafi fyrst þann 4. janúar 2016 verið gert kunnugt um hvernig aðalstefndi KÖS ehf. hafi einhliða staðið að fjármögnun fyrir félagið. Að mati stefnanda hafi slík fjármögnun aldrei getað skuldbundið hann samkvæmt ákvæðum tilboðsins. Þar að auki hafi skilmálar skuldabréfsins ekki verið ásættanlegir. Skilmálarnir hafi meðal annars kveðið á um að greiða skyldi háa vexti (9,9%) og verðtryggingu á höfuðstól lánsins, auk þess sem þar hafi verið sett ýmis skilyrði af hálfu lánveitanda um rekstur félagsins, þar á meðal hver yrði framkvæmdastjóri, bann við því að félagið gæti endurfjármagnað sig og að lánveitandi gæti breytt skuld sinni í hlutafé í félaginu hvenær sem hann kysi. Með skuldabréfinu hafi fylgt átta viðaukar, m.a. umboð, framsal hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. og vísir að breyttri hlutaskrá, en þessi skjöl hafi öll verið ódagsett. Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins hafi stefnanda borið að undirrita þau, sem hefði í raun falið í sér samþykkti stefnanda fyrir fram um að A81 ehf. gæti yfirtekið hlutafé hans í félaginu hvenær sem væri. Stefnandi hafi því ekki viljað skrifa undir veðskuldabréfið. Enn fremur hafi stefnandi ekki þekkt til lánveitandans, A81 ehf., að öðru leyti en því að félagið hafi verið í eigu þeirrar lögmannsstofu sem hafi komið fram fyrir hönd aðalstefnda KÖS ehf. Þá hafi verið óljóst hvernig það félag hafi fjármagnað umrædda lánveitingu þar sem félagið hafi verið nýstofnað og hlutafé þess einungis verið 500.000 krónur. Umrætt kauptilboð hafi verið með fyrirvara um fjármögnun og í forsendum þess hafi falist að stofna ætti einkahlutafélag í tilteknum eignarhlutföllum. Öll þessi atriði hafi þurft að ganga eftir til að unnt væri að efna tilboðið, þ.e. stofna félag s þar sem stefnandi ætti 51% hlutafjár og það félag myndi svo standa að fjármögnun sem félagið og þar með talið báðir aðilar, teldu ásættanlega. Samþykki beggja aðila, þ.e. bæði aðalstefnda KÖS ehf. og stefnanda, í gegnum eignarhaldsfélagið fyrir fjármögnun, hafi augljóslega verið forsenda samkvæmt tilboðinu. Þá sé ljóst út frá ákvæðum tilboðsins að væri fjármögnunar ekki aflað félli tilboðið úr gildi. Á svokölluðum uppgjörsfundi sem haldinn var 4. janúar 2016 hafi að mati stefnanda verið ljóst að kauptilboðið væri úr gildi fallið þar sem tilboðsgjafar hefðu ekki efnt tilboðið samkvæmt efni sínu. Þetta hafi komið skýrt fram af hálfu stefnanda á fundinum. Aðrir aðilar kauptilboðsins hafi talið það enn vera í gildi, meðal annars þar sem aðalstefndi KÖS ehf. hefði útvegað nægilegt fjármagn upp á sitt eindæmi, með vísun til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, og þar sem tilboðið hafi ekki verið formlega fellt úr gildi. Það breyti því ekki að kauptilboðið hafi fallið úr gildi 4. janúar 2016 gagnvart stefnanda. Mál þetta snúist ekki um hvort tilboðshafar hafi mögulega átt kröfu um efndir á stefnanda eða aðalstefnda KÖS ehf. á grundvelli 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994. Fallist dómurinn á að viðskipti aðalstefnda KÖS ehf. og tilboðshafa/seljenda hafi verið á grundvelli þeirrar reglu sé á því byggt að þau viðskipti hafi eftir sem áður virkjað forkaupsrétt stefnanda, enda eðli þeirra viðskipta annað en ákvæði tilboðsins frá 4. júní 2015 kváðu á um, stefnandi hafi ekki verið aðili að þeim og um nýjan samning hafi verið að ræða. Af þessu leiði að stefndu hafi verið skylt að fylgja ákvæðum 7. gr. samþykkta aðalstefnda Þingvallaleiða ehf. um forkaupsrétt annarra hluthafa vegna sölu hlutanna í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. Samkvæmt því ákvæði hafi stjórn Þingvallaleiða ehf. forkaupsrétt fyrir hönd félagsins að fölum hlutum. Að félaginu frágengnu hafi hver hluthafi forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Af þessum ákvæðum leiði að kjósi einstakir hluthafar að nýta ekki forkaupsrétt sinn njóti aðrir hluthafar aukins réttar en beri jafnframt auknar skyldur, því þeir geti ekki gengið inn í kaupin að hluta. Grundvallarforsenda stefnanda fyrir því að skrifa undir kauptilboð dags. 4. júní 2015 hafi verið að hann yrði aðili að kaupum á hlutafénu. Á þeim tímapunkti hafi ekki enn verið ljóst hvort af kaupunum yrði, enda hafi átt eftir að koma í ljós hvort skilyrði tilboðsins gengju eftir. Þar sem stefnandi hefði orðið, samkvæmt orðalagi tilboðsins, eigandi að 51% hlut í eignarhaldsfélagi, sem átti allt hlutafé í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., að undanskildu því hlutafé sem félagið átti í sjálfu sér, hafi ekki reynt á forkaupsrétt stefnanda við undirritun tilboðsins, heldur aðeins hvort stjórn félagsins hygðist nýta sér forkaupsrétt, sem fallið hafi verið frá. Í ljósi uppbyggingar fjármögnunar og eðlis skilmála fyrrnefnds veðskuldabréfs sé ljóst að þessi forsenda stefnanda hafi brostið. Af þeim sökum hafi forkaupsréttur stefnanda orðið virkur. Telji dómurinn, þrátt fyrir framangreint, að aðalstefndi KÖS ehf. hafi efnt umrætt kauptilboð með bindandi hætti gagnvart stefnanda þann 4. janúar 2016 sé á því byggt að víkja beri þeim gerningi til hliðar gagnvart stefnanda með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Skilmálar viðskiptanna hafi verið verulega ósanngjarnir í garð stefnanda og í raun andstæðir góðri viðskiptavenju. Stefnandi vísar einkum til þess hvernig staðið hafi verið að fjármögnun kauptilboðsins, til skilmála veðskuldabréfsins, þeirra ódagsettu skjala sem stefnanda hafi borið að undirrita vegna veðskuldabréfsins og til samskipta aðila fyrir og eftir samningsgerðina. Stefnandi sé því ekki bundinn við kauptilboðið og forkaupsréttur stefnanda hafi eftir sem áður orðið virkur. Aðalkrafa stefnanda byggi á því að í fyrsta lagi hafi meirihluti stjórnar aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. átt beina aðild að eigendaskiptunum þann 4. janúar 2016 með hluti í félaginu. Stjórnarfundur sem haldinn hafi verið strax í kjölfar uppgjörsfundar þann 4. janúar 2016 hafi samþykkt nýja hlutaskrá í félaginu þrátt fyrir andmæli stefnanda. Af því leiði að líta verði svo á að meirihluta stjórnar félagsins hafi verið kunnugt um eigendaskiptin, staðfest þau með útgáfu nýrrar hlutaskrár og kosið að neyta ekki forkaupsréttar. Aðrir hluthafar, að undanskildum stefnanda, hafi selt sína hluti þann 4. janúar 2016. Af þessu leiði að stefnandi eigi samkvæmt 7. gr. samþykkta félagsins forkaupsrétt að öllum hinum framseldu hlutum, 12 talsins, á því verði sem miðað hafi verið við í viðskiptunum eða 93.625.054 krónur í heild. Stefnandi hafi ítrekað þennan rétt sinn með bókun við eigendaskiptin, með bókun á stjórnarfundi sama dag, á hluthafafundi þann 8. janúar 2016 og með bréfi 28. janúar 2016 til allra aðila viðskiptanna þar sem tilkynnt hafi verið að stefnandi hygðist nýta sér forkaupsrétt sinn. Þá byggi aðalkrafa stefnanda á því að aðalstefndi KÖS ehf. sé núverandi eigandi umdeildra hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. Varakrafa stefnanda sé byggð á sömu sjónarmiðum og aðalkrafan, að því undanskildu að þessi krafa miðist við að bjóða verði stjórn aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. forkaupsrétt og að því frágengnu stefnanda, í samræmi við ákvæði 7. gr. samþykkta félagsins. Í því felist að stjórn félagsins ætti forkaupsrétt að hinu selda hlutafé, þrátt fyrir að hafa samþykkt kaupin á stjórnarfundi þann 4. janúar 2016. Vera megi að aðrir hluthafar njóti forkaupsréttar, en ekki sé nauðsynlegt að beina málsókn að þeim, þar sem forkaupsrétturinn sé sjálfstæður réttur hvers og eins hluthafa. Þrautavarakrafa stefnanda byggi á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa, að því undanskildu að ekki reyni á hana nema aðalstefndi KÖS ehf. verði sýknaður og dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að varastefndi SPV 25 ehf. sé núverandi eigandi hinna umdeildu hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. Þrautaþrautavarakrafa stefnanda sé byggð á sömu sjónarmiðum og aðal- og varakrafa, að því undanskildu að ekki reyni á hana nema aðalstefndi KÖS ehf. verði sýknaður og dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að varastefndi SPV 25 ehf. sé núverandi eigandi hinna umdeildu hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, einkum 2. mgr. 10. gr. og 14. gr. Þá vísar stefnandi til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, auk meginreglna samninga- og kröfuréttar. Krafa stefnanda um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 1. mgr. 130. gr. Varðandi aðild vísar stefnandi til 2. mgr. 19. gr. sömu laga.                           Málsástæður og lagarök aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf., aðalstefnda KÖS ehf. og varastefnda SPV 25 ehf.                 Stefndu byggja kröfu sína um frávísun málsins á því í fyrsta lagi að stefnanda skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn dómkrafna sinna þar sem hann hafi ekki leitt að því líkur að hann sé fær um að greiða kaupverð umræddra hlutabréfa. Þar sem stefnandi fari þá leið að krefjast viðurkenningar á rétti til að kaupa tiltekna eign á ákveðnu kaupverði sé það lágmarkskrafa að stefnandi leiði að því líkur að hann sé fær um að greiða a.m.k. 93.625.054 krónur. Stefnandi hafi ekki lagt fram neinar upplýsingar sem gefi það til kynna. Upplýsingar í stefnu gefi þvert á móti hið gagnstæða til kynna. Stefndu skori á stefnanda að leggja fram skjöl sem sanni greiðslugetu hans að því viðlögðu að dómurinn bregðist við neitun stefnanda með því að telja hann samþykkan staðhæfingum stefndu um að það sé sannað að stefnandi hafi ekki fjárhagslega burði til að greiða a.m.k. 93.625.054 krónur.                 Stefndu telja einnig í öðru lagi að sá réttur sem stefnandi krefjist viðurkenningar á sé ekki enn orðinn til, sbr. 1. mgr. 26. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Annars vegar taki hvorki aðal- né þrautavarakrafa stefnanda mið af því að aðalstefndi Þingvallaleið ehf. eigi forkaupsrétt sem gangi á undan forkaupsrétti stefnanda og annarra hluthafa, verði talið að forkaupsréttur hafi virkjast 4. janúar 2016, sbr. 7. gr. samþykkta félagsins. Aðal- og þrautavarakrafa stefnanda byggi á því sjónarmiði að stjórn félagsins hafi „... kosið að neyta ekki forkaupsréttar ...“, en á þetta sé ekki unnt að fallast. Engu máli skipti þó að meirihluti stjórnar aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi átt aðild að viðskiptunum 4. janúar 2016 og því verið kunnugt um þau enda sé stjórn einkahlutafélags lögbundin stjórnareining sjálfstæðs lögaðila sem taki ákvarðanir fyrir hönd félagsins á fundum í samræmi við lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög og samþykktir þess. Viðhorf, vitneskja eða aðgerðir eins eða fleiri stjórnarmanna verði því almennt ekki samsömuð ákvörðunum eða vitneskju stjórnar einkahlutafélags. Þá sé ekki unnt að fallast á að stjórn aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi með því að gefa út nýja hlutaskrá í félaginu 4. janúar 2016 kosið að neyta ekki forkaupsréttar. Allar athafnir stjórnarinnar á fundi 4. janúar 2016 hafi miðað við að verið væri að staðfesta viðskipti samkvæmt kauptilboði 4. júní 2015 en ekki að um væri að ræða „ný viðskipti“ 4. janúar 2016.                 Í þriðja lagi beri að vísa málinu frá dómi þar sem engin af kröfum stefnanda taki mið af því að aðrir hluthafar, þ. á m. stefndi Þingvallaleið, myndu njóta forkaupsréttar samhliða stefnanda, verði talið að forkaupsréttur hafi virkjast 4. janúar 2016. Í málatilbúnaði stefnanda sé ekki byggt á því að stefndi Þingvallaleið, sem hluthafi, hafi fallið frá forkaupsrétti sínum. Í málflutningi um frávísun 12. október 2016 hafi málsástæðu stefnanda þar að lútandi verið mótmælt sem of seint fram kominni og séu mótmælin ítrekuð.                 Í fjórða lagi byggi frávísunarkrafa stefndu á því að umræddar kröfur beinist ekki að kaupanda hlutanna, varastefnda SPV 25 ehf., heldur að stefnda KÖS ehf. Aftur á móti sé nauðsynlegt að beina kröfu um viðurkenningu forkaupsréttar að öllum aðilum samnings sem forkaupsréttarhafi telji að hafi gert forkaupsrétt sinn virkan. Þegar af þeirri ástæðu að kröfunum sé ekki hagað þannig beri að vísa þeim frá dómi. Stefnandi hafi einhverra hluta vegna gert sérstakan ágreining um það hvort varastefndi SPV 25 væri eigandi hlutanna eða stefndi KÖS. Hinn 4. janúar 2016 hafi óskráð einkahlutafélag, varastefndi SPV 25 ehf., orðið eigandi að 12 hlutum í stefnda Þingvallaleið ehf. og við skráningu varastefnda SPV 25 hafi félagið tekið við réttindum og skyldum sem fylgi hlutunum.                 Gögn málsins beri þess skýrt merki að 4. janúar 2016 og í kjölfarið hafi ávallt verið tilgreint að stefndi KÖS ehf. kæmi fram fyrir hönd óskráðs einkahlutafélags, sem kallað var SPV 25. Það sé rangt sem segi í stefnu, að stofngögn varastefnda SPV 25 ehf. séu eigi í samræmi við 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Í stofngerð og samþykktum varastefnda SPV 25 ehf. komi fram að félagið taki við skuldbindingum samkvæmt ítarlega tilgreindu skuldabréfaláni, sem hafi legið fyrir fundarmönnum á stofnfundi félagsins. Í svokölluðum bakgrunnskafla skuldabréfalánsins komi m.a. fram að lánið sé tekið fyrir hönd hins óskráða einkahlutafélags til að kaupa hluti í stefnda Þingvallaleið ehf. í samræmi við kauptilboð, dags. 4. júní 2015. Í því skyni að staðreyna framangreint enn frekar hafi stjórnendur stefndu Þingvallaleiðar ehf., KÖS ehf. og varastefnda SPV 25 ehf. lýst því yfir að síðastnefnda félagið sé réttmætur eigandi umræddra hluta og hafi verið það frá 4. janúar 2016.                 Krafa stefndu um sýknu byggir í fyrsta lagi á því að engin óvissa sé um eignarhald umþrættra hluta í stefnda Þingvallaleið ehf. Af þeim sökum eigi stefndi KÖS ehf. hvorki þau réttindi né skyldur sem aðal- og varakrafa stefnanda varði. Því beri að sýkna stefnda KÖS ehf. vegna aðildarskorts.                 Í öðru lagi telja stefndu að forkaupsréttur stefnanda hafi ekki orðið virkur 4. janúar 2016. Úrlausn um það ráðist af því hvort kauptilboðið 4. júní 2015 hafi þá verið fallið úr gildi. Stefndu mótmæli þeim málatilbúnaði stefnanda að skilyrði og „forsendur“ tilgreindar í kauptilboðinu hafi ekki gengið eftir, að forsendur þess hafi brostið og að kauptilboðinu eigi að víkja til hliðar. Útilokað sé að forkaupsréttur samkvæmt 7. gr. samþykkta stefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi virkjast 4. janúar 2016 enda hafi þá einungis farið fram efndir á bindandi samningi sem hafi komist á 4. júní 2015.                 Þann 4. júní 2015 hafi tilboðshafar samþykkt kauptilboð stefnda KÖS ehf. og stefnanda f.h. tilboðsgjafa í hlutafé stefnda Þingvallaleiðar ehf. Í samræmi við reglur samningaréttar hafi komist á bindandi samningur þess efnis sem í kauptilboðinu var skrásett. Það fái því ekki staðist að kauptilboðið 4. júní 2015 hafi verið „viljayfirlýsing“.                 Aðilar séu sammála um að kauptilboðið hafi verið bundið skilyrði um fjármögnun, sbr. kafla 4, og að „forsendur“ kauptilboðsins hafi verið annars vegar að stefnandi og stefndi KÖS ehf. myndu „í gegnum tilboðsgjafa eignast allt hlutafé [stefnda Þingvallaleiðar ehf.], þó þannig að félagið [myndi] áfram eiga eigin hluti“, sbr. C-lið bakgrunnskaflans, og hins vegar að stefnandi og stefndi KÖS ehf. sammæltust um að stefnandi yrði „eigandi að 51% hlutafé tilboðsgjafa og [stefndi KÖS ehf. yrði] eigandi að 49% hlutafjár tilboðsgjafa í nýju eignarhaldsfélagi“, sbr. D-lið. Niðurstaða um gildi „forsendnanna“ tveggja ráðist af því hvort skilyrðið um fjármögnun hafi gengið eftir eða ekki. Eigi hið fyrrnefnda við hafi stefnandi einfaldlega vanefnt „forsendurnar“ en eigi hið síðarnefnda við hafi „forsendurnar“ ekki verið skuldbindandi fyrir hann.                 Aðila greini á um hvort kauptilboðið hafi verið bundið frekari skilyrðum eða „forsendum“. Byggi stefnandi á því að kauptilboðið hafi fallið úr gildi annars vegar þar sem stefnandi og stefndi KÖS ehf. hafi ekki í „sameiningu“ stofnað nýtt eignarhaldsfélag og hins vegar þar sem „eignarhaldsfélagið“ hafi ekki verið stofnað áður en farið var í að afla fjármagns. Þessum skilyrðum eða „forsendum“ sjái hvergi stað í kauptilboðinu né í gögnum málsins og sé því mótmælt að aðilar hafi samið á þann veg.                 Í kauptilboðinu komi hvergi fram hvernig stofna hafi átt tilboðsgjafa. Ekki verði heldur séð hvaða tilgangi það ætti að þjóna, svo framarlega sem staðið var eðlilega að stofnun tilboðsgjafa, þannig að ekki væri gert á hlut annars hvors aðila. Stefnandi hafi ekki borið því við að svo hafi verið gert. Eigi síðar en 17. nóvember 2015 hafi stefnandi fengið upplýsingar um að félag, A80 ehf., kt. 441115-0670, hefði verið stofnað til að vera tilboðsgjafi samkvæmt kauptilboðinu. Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við þetta á sínum tíma né í tölvupóstsamskiptum 28. og 29. desember 2015 þrátt fyrir trúnaðarskyldu sína gagnvart stefnda KÖS ehf. Með aðgerðarleysi sínu hafi stefnandi því jafnframt sýnt af sér tómlæti. Það hafi ekki verið fyrr en eftir framangreind samskipti, þegar efndadagur nálgaðist óðfluga, sem hann hafi mótmælt þessari tilhögun. Þrátt fyrir að stefndi KÖS ehf. teldi um fyrirslátt að ræða af hálfu stefnanda hafi, umfram skyldu, verið ákveðið að koma til móts við „sjónarmið“ stefnanda og stofna nýtt félag á stofnfundi. Stefnandi hafi ekki þegið að taka þátt í því. Því hafi stefndi KÖS ehf. staðið eitt að stofnun félagsins.                 Þá komi hvergi fram í kauptilboðinu hvenær stofna hafi átt tilboðsgjafa. Ljóst sé að engin lagaleg rök standi til þess að nauðsynlegt hafi verið að stofna tilboðsgjafa áður en samið var um fjármögnun við lánveitanda eða áður en kauptilboðið var efnt, enda sé gert ráð fyrir því í 10. gr. laga nr. 138/1994 og dómaframkvæmd Hæstaréttar að unnt sé að gera samninga í nafni óstofnaðs félags. Þá standi engin rök til þess að nauðsynlegt hafi verið að stofna félagið áður en farið var í að afla fjármagns eða efna kauptilboðið. Þá sé málsástæða stefnanda, í þá veru að nauðsynlegt hafi verið að stofna tilboðsgjafa áður en farið var í fjármögnun, í ósamræmi við ráðningarsamning framkvæmdastjóra stefnda Þingvallaleiðar ehf., dags. 4. júní 2015, sem hafi verið hluti af viðskiptunum sem ákveðin voru með kauptilboði sama dag. Í ráðningarsamningnum kemur orðrétt fram um verkefni framkvæmdastjóra: „VI. Vinna að fjármögnun á kaupum nýrra eigenda að félaginu.“ Þá hafi stefnanda jafnframt verið fullkunnugt um að af hálfu stefnda KÖS ehf. hafi verið unnið að því að afla fjármagns án þess að hann gerði nokkurn tímann athugasemd við það. Stefnandi hafi því sýnt af sér verulegt tómlæti enda brýnt tilefni fyrir hann til að gera athugasemd ef hann taldi þá tilhögun ekki standast.                 Skilyrði um fjármögnun af hálfu tilboðsgjafa sé frestskilyrði sem hafi haft það að verkum að skyldu tilboðsgjafa til að greiða kaupverðið hafi verið slegið á frest þar til skilyrðið var uppfyllt. Í íslenskum samningarétti sé slíkt skilyrði ekki án skuldbindingar fyrir tilboðsgjafa. Einnig skipti miklu að við samningsgerð hafi komið fram tveir aðilar f.h. tilboðsgjafa, þ.e. stefnandi og stefndi KÖS ehf. Við framkvæmd kauptilboðsins hafi þeir því borið trúnaðarskyldu gagnvart hvor öðrum og tilboðshöfum.                 Óumdeilt sé að fjármagns hafi verið aflað fyrir tilboðsgjafa og að það var nýtt 4. janúar 2016 til að greiða kaupverðið. Þegar af þeirri ástæðu hafi skilyrði kauptilboðsins um fjármögnun verið uppfyllt. Stefnandi virðist á hinn bóginn byggja á því að skilyrði um fjármögnun hafi ekki verið uppfyllt þar sem hann hafi ekki talið hana „ásættanlega“. Vegna trúnaðarskyldu stefnanda gagnvart stefnda KÖS ehf. við framkvæmd kauptilboðsins hafi stefnandi ekki getað hafnað fjármögnun sem stóð til boða án þess að fyrir lægi að fjármögnunin væri óeðlileg og á einhvern hátt í andstöðu við það sem hann mátti vænta þegar kauptilboðið var samþykkt.                 Upphafspunktur við mat á því hljóti að vera fjárhagsstaða stefnda Þingvallaleiðar ehf., enda hafi verið ljóst frá upphafi að eina eign tilboðsgjafa yrði hlutafé í því félagi. Möguleikar eignarhaldsfélags, eins og tilboðsgjafa, til að afla fjármögnunar taki eðlilega mið af eignum þess. Fjárhagur stefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi verið slæmur um árabil. Umrædd viðskipti séu komin til vegna þess að nauðsynlegt hafi verið að fá frekara fjármagn og gera róttækar breytingar á rekstri félagsins til að koma stöðu þess til betri vegar.                 Stefnanda tefli fram fáeinum rökum því til stuðnings að fjármögnunin hafi ekki verið „ásættanleg“. Megi ráða að það sem fyrst og fremst valdi því að hann telji fjármögnunina ekki „ásættanlega“ sé að með veðskuldabréfinu hafi fylgt átta viðaukar sem stefnandi segir að hafi „í raun falið í sér að stefnandi samþykkti fyrirfram að A81 ehf. gæti yfirtekið hlutafé hans í félaginu hvenær sem er, aðeins þyrfti að dagsetja skjölin“. Umfjöllun þessi byggi á misskilningi. Umræddir viðaukar geri það að verkum að í tilviki vanefndar og m.a. að undangengnum fresti lántaka til að bæta úr vanefnd hafi lánveitandi heimild til að nýta sér viðaukana, m.a. með því að dagsetja þá, og taka þar með við réttindum sem hlutunum fylgi, sbr. greinar 5.2 og 5.3 í veðskuldabréfinu.                 Sé miðað við vaxtaprósentur verðtryggðra skuldabréfalána á markaði sé vaxtaprósentan, 9,90%, eðlileg fyrir lán af þessari tegund og í þessum geira. Það sé vel þekkt að skuldabréfalán með breytirétti séu tekin þegar ráða þurfi bót á slökum rekstri einkahlutafélags, eins og hafði verið um skeið hjá stefnda Þingvallaleið ehf. Lánveitandi taki þá áhættu að lána aðila sem sé um greiðslugetu háður fjárhag félags sem sé illa statt fjárhagslega. Lánveitandinn hafi þá val um hvort hann innheimti lánið eða felli niður skuldina gegn því að fá hlut í lántaka. Ekkert óeðlilegt sé við að lánveitandi setji skilyrði í lánssamning um rekstur félags sem standi láninu að veði.                 Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við fundaboðanir, þar sem m.a. hafi komið fram að fjármagns hefði verið aflað, á þeim rúmlega fjórum dögum sem liðu frá því að boðað var til efnda þar til þær fóru fram 4. janúar 2016. Einnig hafi verið skorað á stefnanda að gera tillögur um breytta tilhögun á skilmálum fjármögnunarinnar en stefnandi hafi ekki orðið við því. Með því framferði stefnanda hafi hann brotið í bága við trúnaðarskyldu sína gagnvart stefnda KÖS ehf.                 Óumdeilt sé að „forsendur“ sem tilgreindar eru í C- og D-lið bakgrunnskafla kauptilboðsins hafi hvorug gengið eftir. Þar sé við engan að sakast nema stefnanda sjálfan. Þar sem skilyrði kauptilboðsins um fjármögnun hafi gengið eftir hafi stefnandi verið skuldbundinn til að efna kauptilboðið 4. janúar 2016. Það hafi hann á hinn bóginn ekki gert og hafi hann því vanefnt samningsskyldur sínar. Eðli málsins samkvæmt geti vanefnd stefnanda á samningsskyldum sínum ekki leitt til þess að kauptilboðið hafi fallið úr gildi, hafi aðrir aðilar kauptilboðsins haldið sig við efni þess og hafi ekki beitt vanefndaúrræðum kröfuréttar til að fella það úr gildi.                 Málatilbúnaður stefnanda um að forsenda hans fyrir kauptilboðinu 4. júní 2015 hafi brostið og því hafi kauptilboðið fallið úr gildi og forkaupsréttur stefnanda virkjast 4. janúar 2016 sé ekki sannfærandi og beri að hafna honum þegar vegna meginreglunnar um skuldbindingargildi samninga. Því sé jafnframt mótmælt að reglan um brostnar forsendur geti átt við um þær ástæður sem stefnandi beri fyrir sig enda hafi verið tekin afstaða til þeirra í kauptilboðinu 4. júní 2015 og því ekki uppfyllt hugtaksskilyrðið um að ekki hafi verið mælt fyrir um ástæðurnar í samningi.                 Það leiði einnig af eðli og tilgangi reglunnar um brostnar forsendur að forsenda geti ekki talist hafa brostið, með þeim réttaráhrifum að samningur fellur úr gildi, ef viðkomandi aðili er valdur að því að forsendan gangi ekki eftir. Sé fallist á með stefndu að skilyrði kauptilboðsins um fjármögnun hafi verið uppfyllt, hafi stefnanda verið skylt að eiga aðild að viðskiptunum og leggja hluti sína í stefnda Þingvallaleið ehf. inn í tilboðsgjafa gegn því að eignast 51% í tilboðsgjafa. Með því að gera það ekki hafi hann vanefnt skyldur sínar. Geti hann þá ekki borið fyrir sig regluna um brostnar forsendur.                 Stefnandi byggi á því að víkja eigi kauptilboðinu frá 4. júní 2015 til hliðar „gagnvart [sér]“ með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Erfitt sé að henda reiður á hvað stefnandi telji ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju við að aðilar beri fyrir sig kauptilboðið. Einna helst virðist stefnandi telja skilmála fjármögnunarinnar haldna meinbugum. Með vísan til framangreinds sé því mótmælt að eitthvað sé óeðlilegt við skilmála hennar. Fram að 4. júní 2015 hafði stefnandi verið hluthafi í stefnda Þingvallaleið ehf. og framkvæmdastjóri félagsins um árabil. Sem slíkur hafi hann búið yfir reynslu af viðskiptum og verulegri þekkingu á félaginu. Hann hafi því haft forskot á aðra aðila kauptilboðsins og fráleitt að hann hafi staðið höllum fæti. Þá hafi hann, eins og aðrir aðilar kauptilboðsins, notið liðsinnis lögmanns við gerð kauptilboðsins.                 Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að forkaupsréttur stefnanda hafi orðið virkur 4. janúar 2016 byggja stefndu sýknukröfu sína í þriðja lagi á því að forkaupsrétturinn sé fallinn niður sökum þess að liðnir eru frestir 7. gr. samþykkta stefnda Þingvallaleiðar, sbr. 14. gr. laga um einkahlutafélög; annars vegar frestur til að greiða kaupverð og hins vegar frestur til að beita forkaupsrétti.                 Stefnandi hafi hvorki greitt kaupverðið né sett fram lögmætt greiðsluboð. Í samræmi við ákvæði 7. gr. samþykkta stefnda Þingvallaleiðar ehf., sem hafi vanlýsingaráhrif, „mega eigi líða fleiri en þrír mánuðir frá því að kaup voru ákveðin þar til kaupverð er greitt“. Verði fallist á málatilbúnað stefnanda, um að „ný viðskipti“ hafi farið fram 4. janúar 2016, hafi kaupin verið ákveðin þann dag. Ákvæði um forkaupsrétt horfi til takmörkunar á eignarrétti og samningsfrelsi. Því verði þau ekki túlkuð rýmra en samkvæmt orðanna hljóðan. Þriggja mánaða frestur stefnanda til að greiða kaupverðið hafi því byrjað að líða 4. janúar 2016 og hafi liðið undir lok eigi síðar en 3. apríl sama ár. Stefnandi hafi óumdeilanlega ekki greitt kaupverðið og sé forkaupsréttur hans þegar af þeirri ástæðu fallinn niður.                 Stefnandi hafi eigi síðar en 4. janúar 2016 haft allar upplýsingar um kaupverð, greiðslustað og aðra skilmála viðskiptanna sem farið hafi fram 4. janúar 2016. Hann hafi verið aðili að kauptilboðinu 4. júní 2015 og hafi undirritað yfirlýsingu 4. janúar 2016 þar sem aðilar hafi m.a. lýst því yfir að þeir væru „sammála um að seljendum sé greitt kaupverð sem nemur sömu fjárhæð og er fjárhæð kaupverðsins samkvæmt kauptilboðinu, þ.m.t. ákvæði um vísitölubindingu, við undirritun yfirlýsingar þessarar og seljendur afhendi hlutaskrá undirritaða af hálfu stjórnar félagsins“. Þá hafi stefnandi setið í stjórn stefnda Þingvallaleiðar ehf. 4. janúar 2016 og setið stjórnarfund þegar tilkynning um viðskiptin barst. Hafi stefnandi talið sig þurfa frekari upplýsingar um viðskiptin til að greiða kaupverðið hafi hann getað beitt sér fyrir því að stjórn stefnda Þingvallaleiðar ehf. hefðist að. Stefnandi geti ekki unnið rétt með því að halda sjálfur að sér höndum.                 Í bréfi stefnanda 28. janúar 2016 var skorað á stefnda KÖS að upplýsa „um endanlegt kaupverð“ og „inn á hvaða greiðslureikning [stefnandi] eigi að greiða þá fjárhæð“. Í bréfi 12. febrúar s.á. hafi þessari áskorun verið svarað. Stefnandi hafi haft allar upplýsingar um viðskiptin, þ. á m. um kaupverðið og greiðslustað, þ.e. bankareikningsnúmer seljenda sem voru tilgreind í kauptilboðinu 4. júní 2015. Því hafi ekkert staðið í vegi fyrir því að stefnandi greiddi kaupverðið.                 Verði ekki fallist á málatilbúnað stefndu um greiðslufrest stefnanda sé byggt á því til vara að reglan í niðurlagi c-liðar 1. mgr. 14. gr. laga nr. 138/1994 eigi við. Verði fallist á málatilbúnað stefnanda, um að „ný viðskipti“ hafi verið ákveðin 4. janúar 2016, sé ljóst að seljendur og kaupandi hafi ekki samið sérstaklega um gjalddaga. Því verði að beita meginreglum kröfuréttar til fyllingar. Sú regla gildi að hafi ekki verið samið á annan veg geti seljandi krafist greiðslu þegar eftir gerð samnings og beri seljanda að afhenda hið selda samtímis greiðslu kaupverðs. Greiðsla kaupverðs og afhending hins selda hafi farið fram 4. janúar 2016. Frestur stefnanda til að greiða kaupverðið hafi þá liðið undir lok sama dag.                 Fallist dómurinn ekki á að frestur stefnanda til að greiða kaupverðið sé liðinn og forkaupsréttur stefnanda niður fallinn af þeim sökum sé byggt á því að stefnandi hafi ekki tekið fullnægjandi ákvörðun um beita forkaupsrétti sínum innan frests. Samkvæmt 7. gr. samþykkta stefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi forkaupsréttarhafi „tveggja mánaða frest til að beita forkaupsrétti sínum og telst fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboðið“. Stjórn stefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi borist tilkynning um viðskiptin 4. janúar 2016 og stefnandi hafi haft allar upplýsingar um kaupverð, greiðslustað og aðra skilmála viðskiptanna. Stefnandi hafi borið því við að hafa tilkynnt um ákvörðun sína „að hann vildi nýta sér“ forkaupsrétt með bréfi 28. janúar 2016. Sú tilkynning hafi verið ófullnægjandi. Samkvæmt almennum reglum um forkaupsrétt verði ákvörðun forkaupsréttarhafa um að neyta forkaupsréttar að vera án skilyrða, skýr og afdráttarlaus. Í umræddu bréfi sé á hinn bóginn óskað upplýsinga sem bent hafi verið á að stefnandi byggi þegar yfir, sbr. bréf 12. febrúar 2016. Eftir að stefnanda var sent bréfið hafi ákvörðun hans aldrei borist. Því hafi liðið undir lok tveggja mánaða frestur hans til að neyta forkaupsréttar.                 Verði einhver af kröfum stefnanda tekin til greina sé farið fram á að kaupverð, sem forkaupsréttur stefnanda miðist við, sé ákvarðað með réttum hætti. Í forkaupsrétti felist enda að forkaupsréttarhafi sé bundinn af skilmálum í samningi seljanda og kaupanda. Kaupverð í samningi seljenda og kaupanda, hvort sem miðað sé við að viðskiptin hafi farið fram á grundvelli kauptilboðsins 4. júní 2015 eða „nýrra viðskipta“ 4. janúar 2016, hafi verið ákvarðað 93.060.000 krónur m.v. vísitölu neysluverðs eins og hún stóð í maí árið 2015, þ.e. 428,2 stig. Gjalddagi kaupverðsins hafi jafnframt verið 4. janúar 2016 og því beri kaupverðið dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags, sbr. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þegar kaupverðið var greitt í janúar 2016 hafi útreikningur kaupverðsins leitt af sér fjárhæð sem nam 93.625.054 krónum. Verði forkaupsréttur stefnanda viðurkenndur þurfi hann að greiða kaupverðið í samræmi við skilmála viðskiptanna að teknu tilliti til þróunar vísitölu neysluverðs og með dráttarvöxtum.                 Stefndu fari hver fyrir sig fram á að stefnandi greiði þeim málskostnað. Stefndi KÖS ehf. veki sérstaka athygli á því að aðild hans að málinu sé tilhæfulaus. Aðal- og varakrafa stefnanda eigi því engan rétt á sér. Allir stefndu veki athygli á því að málið hafi af þessum sökum orðið umfangsmeira en nauðsyn beri til en í því sambandi megi einnig nefna að málatilbúnaður stefnanda sé ruglingslegur og málsatvikalýsing hlaðin málsástæðum. Málskostnaðarkröfur stefndu byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129.-131. gr. Um lagarök byggi stefndu á meginreglum eignarréttar um forkaupsrétt, meginreglum samninga- og kröfuréttar og meginreglum einkamálaréttarfars. Þá sé byggt á lögum nr. 91/1991, þ. á m. 16. gr., 26. gr., X. kafla og XXI. kafla, lögum nr. 138/1994, þ. á m. 12. gr. og 14. gr., lögum nr. 7/1936, lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup og lögum nr. 9/1978 um geymslufé. IV. Málsástæður og lagarök aðalstefndu og varastefndu Sigríðar Ingvarsdóttur og Sigurðar Ingvarssonar                 Aðalstefndu og varastefndu Sigríður Ingvarsdóttir og Sigurður Ingvarsson telja rangt að kauptilboð frá 4. júní 2015 hafi í raun aldrei verið annað en yfirlýsing um vilja aðila til að ganga til viðskipta. Kauptilboðið hafi verið samþykkt af hálfu seljenda þann dag. Frá og með undirritun kauptilboðsins og fram að efndadegi hafi verið teknar skuldbindandi ákvarðanir um fyrirkomulag rekstrar aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. Þessar ákvarðanir hafi allar gengið eftir og verið uppfylltar af hálfu allra aðila eftir því sem aðalstefndu og varastefndu Sigríður og Sigurður viti best til. Því hafi skuldbindandi samkomulag um sölu 60% í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. komist á 4. júní 2015 og hafi efndir farið fram eftir því sem efni hafi staðið til. Yfirlýsingar stefnanda um að hann hygðist neyta forkaupsréttar hafi ekki komið fram fyrr en löngu síðar eða 4. janúar 2016. Í ljósi þessa sé útilokað að ákvæði í samþykktum aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. um forkaupsrétt geti átt við um þessi viðskipti. Hinn 4. janúar 2016 hafi viðskiptunum sem stofnað var til 4. júní 2015 lokið með uppgjöri en ekki farið fram ný viðskipti.                 Þær breytingar sem gerðar hafi verið á rekstri aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi tengst umræddri sölu á 60% hlut í því félagi. Salan hafi verið talin nauðsynleg til að unnt væri að gera brýnar breytingar á rekstri félagsins sem hafi ekki gengið vel, eða að minnsta kosti ekki eins vel og væntingar hafi staðið til af hálfu allra hluthafa fyrir söluna. Allir hluthafar hafi talið breytingar nauðsynlegar og brýnar og að nýir aðilar kæmu að rekstrinum. Aðalstefndu og varastefndu Sigríði og Sigurði hafi verið ókunnugt um að helstu fjármálastofnanir landsins hafi ekki viljað fjármagna umrædd kaup, enda hafi komið fram, meðal annars á stjórnarfundum aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf., að kaupandi væri að vinna að fjármögnun og ekki annars að vænta en að hún gengi eftir.                 Aðalstefndu og varastefndu Sigríður og Sigurður vísa til þess að yfirlýsing, dags. 4. janúar 2016, hafi verið útbúin að frumkvæði lögmanna til að halda seljendum utan við ágreining kaupenda. Með þessu hafi verið greitt fyrir því að fullar efndir gætu farið fram á samkomulaginu milli kaupenda og seljenda þrátt fyrir yfirlýsingu stefnanda um að hann teldi að salan á hlutafénu hefði farið fram á grundvelli nýs samnings og kauptilboðið fallið úr gildi gagnvart honum. Með þessari afstöðu stefnanda hafi rekstri aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. verið teflt í tvísýnu, enda hafi samkomulag um rekstur félagsins ekki gilt lengur en til 4. janúar 2016. Með yfirlýsingunni um að halda seljendum fyrir utan ágreininginn hafi verið komið í veg fyrir að daglegur rekstur aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. færi í uppnám.                 Í stefnu sé ekki útskýrt eða rökstutt nánar af hverju stefnandi telji nauðsynlegt að allir aðilar umræddra viðskipta eigi aðild að þessu máli. Það sé óljóst, sérstaklega í ljósi samkomulags um að halda seljendum fyrir utan ágreininginn í málinu. Röksemdir fyrir þessari nauðsyn hefðu þurft að koma fram í stefnu svo stefndu væri nægilega ljóst hvernig haga bæri vörnum í þessu máli.                 Mjög óljóst sé hvað átt sé við með þeirri málsástæðu stefnanda að hafi aðalstefndi KÖS ehf. efnt tilboðið frá 4. júní 2015 með bindandi hætti gagnvart stefnanda 4. janúar 2016 beri að víkja þeim gerningi til hliðar gagnvart stefnanda með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Verði þessi málsástæða stefnanda tekin til greina sé réttarstaða aðila málsins óljós. Með vísan til þessa sé ekki unnt að taka afstöðu til þessarar málsástæðu stefnanda og halda uppi vörnum varðandi hana.                 Aðalstefndu og varastefndu Sigríður og Sigurður geri engar athugasemdir við að stefnandi leiti úrlausnar fyrir dómstólum um hinn meinta forkaupsrétt sinn en telji að þau eigi að vera skaðlaus af þeim málaferlum. V. Niðurstaða                 Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóminn stefnandi, Bjarni Karlsson, fyrirsvarsmaður aðalstefndu KÖS ehf. og Þingvallaleiðar ehf. og varastefnda SPV 25 ehf., Þóranna Jónsdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir og Ingvar Mar Jónsson og gáfu aðilaskýrslu. Einnig komu fyrir dóminn vitnin Konráð Örn Skúlason, Ásgeir Erling Gunnarsson, Bogi Guðmundsson og Benedikt Egill Árnason. Verður vitnað til framburðar þeirra eftir því sem þurfa þykir. Með úrskurði dómsins 21. nóvember 2016 var hafnað frávísunarkröfum aðalstefndu KÖS ehf. og Þingvallaleiðar ehf. og varastefnda SPV 25 ehf. Til einföldunar verður rætt um aðalstefndu KÖS ehf. og Þingvallaleið ehf. og varastefnda SPV 25 ehf. sameiginlega sem stefndu. Stefndu gera enn kröfu um frávísun málsins.                 Frávísunarkrafa stefndu byggir í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi ekki leitt að því líkur að hann sé fær um að greiða kaupverð umræddra hlutabréfa og hafi því ekki lögvarða hagsmuni af höfðun málsins. Leyst var úr þessari málástæðu í úrskurði dómsins. Þar sagði m.a. að stefnandi hefði ,,ekki gert grein fyrir því hvernig hann hyggist greiða kaupverð þessara 12 hluta, að öðru leyti en með því að vísa til þess að hann eigi ótilgreinda fjármuni inni hjá aðalstefnda Þingvallaleið ehf. Fram hjá því verður þó ekki litið að aðilar máls hafa ekki enn lýst gagnaöflun lokinni. Stefnanda er því enn kleift að varpa ljósi á það með frekari gagnaöflun hvernig hann hyggist fjármagna kaup á hlutum í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. Verður málinu því þegar af þessari ástæðu ekki vísað frá dómi að svo stöddu.“ Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn um getu sína til að greiða kaupverð þeirra 12 hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. sem krafa hans tekur til. Þó kvaðst stefnandi í skýrslu sinni fyrir dóminum hafa fengið lánsloforð hjá Arion banka hf. Þó að dómari hafi hafnað beiðni lögmanns stefnanda um að leggja umrætt lánsloforð fram við upphaf aðalmeðferðar þykir stefnandi með staðhæfingu sinni um að slíks loforðs hafi verið aflað hafa leitt að því nægar líkur að hann geti greitt kaupverð hlutabréfanna til þess að hann hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn um dómkröfur sínar. Verður málinu af þessari ástæðu ekki vísað frá dómi.                 Stefndu byggja einnig á því að aðal- og varakröfu stefnanda beri að vísa frá dómi þar sem þær kröfur beinist ekki að kaupanda hlutanna. Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna byggja stefndu á því að sýkna beri aðalstefnda KÖS af þessum kröfum vegna aðildarskorts. Aðal- og varakrafa stefnanda byggist á því að aðalstefndi KÖS ehf. sé kaupandi þeirra hluta sem málið lýtur að, en þrautavara- og þrautaþrautavarakrafa stefnanda byggist á því að varastefndi SPV 25 ehf. sé kaupandinn. Stefndu byggja hins vegar á því að varastefndi SPV 25 ehf. sé kaupandinn. Samkvæmt þessu lýtur ágreiningur aðila að því hver sé kaupandi umræddra hluta. Verði niðurstaða dómsins sú að aðalstefndi KÖS ehf. sé ekki kaupandi hlutanna, heldur varastefndi SPV 25 ehf., leiðir það til sýknu þess fyrrnefnda af aðal- og varakröfu stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en ekki til frávísunar.                 Í kauptilboði, dags. 4. júní 2015, í hlutafé aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. kemur fram að tilboðsgjafi sé stefnandi og aðalstefndi KÖS ehf. fyrir hönd óskráðs einkahlutafélags. Í C-lið bakgrunns kauptilboðsins er tekið fram að forsenda tilboðsgjafa sé að stefnandi og aðalstefndi KÖS ehf. muni ,,í gegnum tilboðsgjafa eignast allt hlutafé“ aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf., þó þannig að félagið muni áfram eiga eigin hluti. Í D-lið bakgrunnsins er m.a. tekið fram að aðalstefndi KÖS ehf. skuli leggja til 46.530.000 krónur sem verði notaðar til að greiða fyrir hluti í félaginu samkvæmt kauptilboðinu. Aðilum væri ljóst að helmingur kaupverðsins samkvæmt tilboðinu væri ófjármagnaður en gert væri ,,ráð fyrir að eignarhaldsfélagið afli sér lánsfjár til að geta greitt kaupverð kauptilboðsins að fullu“. Samkvæmt 2. gr. samningsins skyldi tilboðsgjafi greiða tilboðshöfum 7.755.000 krónur fyrir hvern hlut, eða samtals 93.060.000 krónur, tengt við vísitölu neysluverðs miðað við maí 2015, 428,2 stig. Á efndadegi 4. janúar 2016 skyldu tilboðshafar hafa afhent tilboðsgjafa hið selda og tilboðsgjafi greiða tilboðshöfum kaupverðið. Í 4. gr. samningsins voru tiltekin tvö skilyrði, að viðeigandi tilboðshafar myndu undirrita staðfestingu sem var að finna í viðauka 2 og afhenda tilboðsgjafa í kjölfar skipta á dánarbúi Guðlaugar Þórarinsdóttur, sem á þeim tíma átti hluti í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., hins vegar var tilboðið bundið því skilyrði að ,,tilboðsgjafa takist að afla nægilegrar fjármögnunar vegna allra kaupanna fyrir 4. janúar 2016“. Tekið var fram í sömu grein að hefðu skilyrðin ekki verið uppfyllt þann 4. janúar 2016 eða tilboðsgjafi ekki fallið frá þeim fyrir þann tíma félli kauptilboðið úr gildi.                 Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er gert ráð fyrir því að löggerningur sé gerður fyrir hönd óskráðs einkahlutafélags en við þær aðstæður bera þeir sem tekið hafa þátt í gerningnum eða ákvörðunum um hann óskipta persónulega ábyrgð á efndum. Við skráningu tekur félagið við þeim skyldum sem leiðir af stofnsamningi eða félag hefur tekið á sig eftir stofnfund.                 Þetta kauptilboð var undirritað af stefnanda og fyrir hönd aðalstefnda KÖS ehf. vegna tilboðsgjafa og af tilboðshöfum, sem eru stefndu Elín Ingvarsdóttir, Ingvar Mar Jónsson, Sigríður Ingvarsdóttir, Sigurður Ingvarsson og Þóranna Jónsdóttir. Með undirritun kauptilboðsins komst á samningur milli þessara aðila þess efnis sem greinir í tilboðinu, sem var bundinn þeim tveimur skilyrðum sem áður eru rakin. Er þeirri málsástæðu stefnanda hafnað að í kauptilboðinu hafi einungis falist viljayfirlýsing aðila, enda ber tilboðið ekki með sér að það hafi ekki átt að vera skuldbindandi fyrir tilboðsgjafa, sbr. 9. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.                 Þar sem samningur var kominn á milli stefnanda og aðalstefnda KÖS ehf. sem tilboðsgjafa fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags annars vegar og tilboðshafa hins vegar var aðilum samningsins skylt, í samræmi við almennar reglur um trúnað í viðskiptum, að vinna í góðri trú að því að skilyrði samningsins gengju eftir. Hvað stefnanda og aðalstefnda KÖS ehf. varðar urðu þeir að stofna saman tilboðsgjafa og afla nægilegrar fjármögnunar vegna allra kaupanna eigi síðar en 4. janúar 2016. Hitt skilyrði tilboðsins, um undirritun staðfestingar í kjölfar skipta á dánarbúi Guðlaugar Þórarinsdóttur, gekk eftir og þarfnast ekki frekari umfjöllunar.                 Með bréfi, dags. 30. desember 2015, til stefnanda og þáverandi lögmanns hans, var stefnandi boðaður á stofnfund tilboðsgjafa sem fara skyldi fram þann 4. janúar 2016 á tilteknum stað og tíma. Í bréfinu kom fram að á fundinum yrði tilboðsgjafi stofnaður sem einkahlutafélag. Með bréfinu var stefnandi einnig boðaður til uppgjörsfundar síðar sama dag á tilteknum stað og tíma. Stefnandi byggir á því að hann hafi fyrst vitað um tilhögun fjármögnunar þann 4. janúar 2016. Stefnandi telur að slík fjármögnun, sem aðalstefndi KÖS ehf. hafi einhliða aflað, geti ekki skuldbundið hann, auk þess sem skilmálar skuldabréfsins hafi ekki verið aðgengilegir.                 Í kaupsamningi aðila var ekki með skýrum hætti útlistað hvernig eða hvenær stofna skyldi tilboðsgjafa, þótt í forsendu D virtist gert ráð fyrir að félagið skyldi stofnað áður en lánsfjár væri aflað. Vegna ákvæðis 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 gerðist þess þó ekki þörf að tilboðsgjafi væri stofnaður áður en fjármagns væri aflað og er því ekki hald í málsástæðu stefnanda um að tilboðsgjafa hafi borið að stofna áður. Í kaupsamningnum er ekki heldur útlistað með nákvæmum hætti hvernig vinna við fjármögnun skuli fara fram eða minnst á hverjir skuli annast þá vinnu. Í ráðningarsamningi aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. við Konráð Örn Skúlason sem framkvæmdastjóra félagsins var gert ráð fyrir að eitt af verkefnum hans væri að vinna að fjármögnun kaupanna og upplýsa um hvernig sú vinna gengi. Þá var Konráði Erni heimilað í ráðningarsamningnum að útdeila hluta af starfsskyldum sínum til Bjarna Karlssonar, stjórnarmanns í aðalstefnda KÖS ehf. Samkvæmt þessu virðist það hafa verið ætlun stefnanda og aðalstefnda KÖS ehf. að Konráð Örn og eftir atvikum Bjarni myndu vinna að því að afla nauðsynlegs fjármagns en eftir atvikum halda stefnanda og aðalstefnda KÖS ehf. upplýstum um það. Samkvæmt framlögðum fundargerðum stjórnarfunda aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf., sem stefnandi sat sem einn stjórnarmanna félagsins, og framburði Bjarna Karlssonar, Konráðs Arnar Skúlasonar, Þórönnu Jónsdóttur, Sigríðar Ingvarsdóttur var staða fjármögnunar rædd á stjórnarfundunum. Stefnandi gerir ekki grein fyrir því hvernig hann telji að standa hafi átt að standa að fjármögnuninni og hvaða hlutverki hann hafi átt að gegna í þeirri vinnu. Samkvæmt þessu er ekki unnt að fallast á það með stefnanda að hann sé ekki bundinn af því fjármagni sem aflað var af þeirri ástæðu að þess hafi verið aflað án hans þátttöku. Stefnandi færir fyrir því rök hvernig hann telur skilmála skuldabréfsins óaðgengilega en stefndu mótmæla því. Hvað varðar lánskjör skuldabréfsins vísa stefndu til þess að þau endurspegli slæma fjárhagsstöðu aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. og þá staðreynd að hlutafé í því félagi yrði eina eign tilboðsgjafa. Sú afstaða stefndu að fjárhagsleg staða aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi verið erfið fær stoð í ráðningarsamningi Konráðs Arnar, en þar er tekið fram að hann sé ,,sérstaklega ráðinn til að koma stöðu fyrirtækisins til betri vegar og vinna að aðkallandi málum sem hafa setið á hakanum“. Hið sama kom fram í framburði Bjarna Karlssonar, Konráðs Arnar Skúlasonar, Þórönnu Jónsdóttur, Sigríðar Ingvarsdóttur og, Ásgeirs Erlings Gunnarssonar. Stefnandi hefur ekki andmælt því að fjárhagsleg staða aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi verið erfið. Eðli málsins samkvæmt hljóta kjör á lánum, sem tekin eru til að kaupa hluti í fyrirtæki í rekstri, að fara eftir fjárhagslegri stöðu og rekstri þess fyrirtækis sem um ræðir, sem og þeim tryggingum sem lánveitanda eru áskildar fyrir efndum, en samkvæmt skuldabréfinu eru ekki aðrar tryggingar settar fyrir efndum en handveð í hlutabréfum aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. Gegn andmælum stefndu hefur stefnandi ekki gert sennilegt að önnur og hagstæðari fjármögnun hafi staðið til boða á sama tíma eða að endurgreiðsla skuldar samkvæmt skuldabréfinu væri á kjörum sem tilboðsgjafi gæti ekki staðið við. Hvað varðar athugasemdir stefnanda við breytirétt lánveitanda og viðauka við skuldabréfið er mælt fyrir um í grein 5.2 í skuldabréfinu að réttur skuldara til hlutanna eða réttinda sem þeim fylgi teljist sjálfkrafa fallinn niður eigi vanefnd sér stað eða skuldari brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt skuldabréfinu. Í kjölfar vanefndar eða brots skuldara á skyldum sem skuldari hafi ekki bætt úr innan viku frests frá tilkynningu kröfuhafa hafi kröfuhafi heimild til að fara með atkvæðisrétt og önnur réttindi sem fylgi hlutunum. Í grein 5.3 segir enn fremur að skuldari skuli því afhenda ódagsett en undirrituð skjöl sem fylgi með skuldabréfinu í viðaukum 4, 5 og 7. Við þær aðstæður sem fram komi í grein 5.2 sé kröfuhafa heimilt að dagsetja skjölin og hafi þá fulla heimild til að nýta sér rétt sinn samkvæmt efni þeirra. Samkvæmt þessu orðalagi er heimild kröfuhafa samkvæmt þessum greinum bundin við þau tilvik ef vanefnd verður eða skuldari brýtur gegn öðrum skyldum sínum og bætir ekki úr. Þessu til viðbótar hefur kröfuhafi breytirétt samkvæmt grein 13. Samkvæmt þeirri grein getur kröfuhafi, hvenær sem er á lánstímanum, breytt eftirstöðvum skuldarinnar í nýtt hlutafé í skuldara sem nemi þriðjungs eignarhlut í félaginu. Samkvæmt þessu veita tilvitnuð ákvæði skuldabréfsins ekki kröfuhafa heimild til þess að yfirtaka hlutafé stefnanda hvenær sem er með útfyllingu þar tilgreindra viðauka við skuldabréfið. Er málsástæðu stefnanda þar að lútandi því hafnað. Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómsins að skilyrði kaupsamnings aðila frá 4. júní 2015 um fjármögnun tilboðsins hafi gengið eftir. Þar sem skilyrði tilboðsins höfðu gengið eftir var stefnanda og aðalstefnda KÖS ehf. skylt að stofna tilboðsgjafa. Neitun stefnanda á að undirrita fyrrnefnt skuldabréf og stofna tilboðsgjafa á fundi 4. janúar 2016 fól því í sér vanefnd af hans hálfu. Kaupsamningurinn féll því ekki niður 4. janúar 2016 samkvæmt 4. gr. samningsins og var efndur gagnvart tilboðshöfum á uppgjörsfundi þann dag með greiðslu kaupverðsins. Aðilar munu hafa hist á fundi þann 20. janúar 2016 í því skyni að stofna tilboðsgjafa en vegna ágreinings aðila mun þeim fundi hafa verið slitið. Í kjölfarið stofnaði aðalstefndi KÖS ehf. einhliða varastefnda SPV 25 ehf. hinn 25. janúar 2016. Tilkynnt var um stofnun félagsins til fyrirtækjaskrár með tilkynningu sem var móttekin 1. febrúar 2016. Í stofngerð varastefnda SPV 25 ehf. var bókað að félagið tæki skuldabréfalán að fjárhæð 46.812.527 krónur sem veitti kröfuhafa þess rétt til að breyta kröfu sinni á hendur félaginu í hlut í því. Hið sama kemur fram í 4. gr. samþykkta félagsins. Í stofnsamningi er ekki vikið að því hvort varastefndi SPV 25 ehf. taki við skyldum tilboðsgjafa samkvæmt fyrrnefndum kaupsamningi, en í hluthafaskrá aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. kemur fram að varastefndi sé hluthafi í því félagi og eigi 12 hluti í félaginu, eða 60% hlutafjár. Samkvæmt þessu er varastefndi SPV 25 ehf. tilboðsgjafi samkvæmt kaupsamningnum og eigandi hlutafjár í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. Þegar af þeirri ástæðu verða aðalstefndu sýknuð af aðal- og varakröfu stefnanda. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um öflun fjármögnunar og skilmála veðskuldabréfsins og viðauka við það verður kaupsamningnum ekki vikið til hliðar gagnvart stefnanda á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Þar sem á fundi 4. janúar 2016 voru gerð upp viðskipti samkvæmt kaupsamningi aðila frá 4. júní 2015 stofnaðist ekki til þess forkaupsréttar sem stefnandi telur sig njóta, enda ekki um ný viðskipti að ræða. Vegna þessarar niðurstöðu gerist þess ekki þörf að taka afstöðu til málsástæðna stefndu um forkaupsrétt aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. sem njóti forgangs gagnvart forkaupsrétti hluthafa og um að dómkröfur stefnanda taki ekki mið af forkaupsrétti annarra hluthafa. Samkvæmt þessu verða varastefndu sýknuð af þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu stefnanda.                 Í samræmi við þessa niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða aðalstefndu KÖS ehf. og Þingvallaleið ehf. og varastefnda SPV 25 ehf. óskipt 1.000.000 krónur í málskostnað. Stefnandi verður einnig dæmdur til að greiða aðalstefndu og varastefndu Sigríði Ingvarsdóttur og Sigurði Ingvarssyni 200.000 krónur óskipt í málskostnað. Aðrir aðalstefndu og varastefndu létu málið ekki til sín taka og verður þeim því ekki dæmdur málskostnaður.          Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóm dregist umfram frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Aðilar eru sammála dómara um að ekki þörf á endurflutningi málsins.          Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn. D Ó M S O R Ð : Kröfu aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. um frávísun málsins er hafnað. Kröfu aðalstefnda KÖS ehf. um frávísun aðal- og varakröfu málsins er hafnað. Kröfu varastefnda SPV 25 ehf. um frávísun þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu málsins er hafnað. Aðalstefndu, KÖS ehf., Þingvallaleið ehf., Elín Ingvarsdóttir, Ingvar Mar Jónsson, Sigríður Ingvarsdóttir, Sigurður Ingvarsson og Þóranna Jónsdóttir, eru sýknuð af aðal- og varakröfu stefnanda, Þórs Ingvarssonar. Varastefndu, SPV 25 ehf., Þingvallaleið ehf., Elín Ingvarsdóttir, Ingvar Mar Jónsson, Sigríður Ingvarsdóttir, Sigurður Ingvarsson og Þóranna Jónsdóttir, eru sýknuð af þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu stefnanda. Stefnandi greiði aðalstefndu KÖS ehf. og Þingvallaleið ehf. og varastefnda SPV 25 ehf. óskipt 1.000.000 krónur í málskostnað. Stefnandi greiði aðalstefndu og varastefndu Sigríði Ingvarsdóttur og Sigurði Ingvarssyni 200.000 krónur í málskostnað. Málskostnaður fellur niður milli stefnanda og aðalstefndu og varastefndu Elínar Ingvarsdóttur, Ingvars Mars Jónssonar, og Þórönnu Jónsdóttur.
Mál nr. 651/2017
Skuldamál Yfirdráttarheimild Sjálfskuldarábyrgð Ógilding samnings
L hf. höfðaði mál á hendur Ö til heimtu skuldar sem til var komin vegna yfirdráttar á reikningi S ehf. en Ö átti helming hlutafjár í félaginu og var í stjórn þess. Höfðu Ö og fyrrverandi eiginkona hans gengist í sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarins. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að S, forveri L hf., hefði gert ráð fyrir að farið yrði eftir „Samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga“ í tilviki S ehf., þótt lántaki hefði verið félag, en ágreiningslaust var að greiðslumat hefði ekki verið gert á S ehf. Var vísað til þess að það leiddi þó ekki sjálfkrafa til þess að L hf. gæti ekki byggt á ábyrgðaryfirlýsingunni heldur yrði að beita heildstæðu mati á fyrirliggjandi atvikum með tilliti til atriða sem um ræðir í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Var vísað til þess að Ö hefði mátt vera fullkunnugt um fjárhagsstöðu S ehf. og að engum haldbærum gögnum hefði verið til að dreifa um að fjárhagur félagsins hefði á þeim tíma er Ö undirritaði ábyrgðaryfirlýsinguna, verið með þeim hætti að S ehf. hafi ekki getað greitt skuldir sínar. Að því virtu var talið að ekki væru efni til að víkja til hliðar ábyrgðaryfirlýsingu Ö á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Með sömu rökum var ekki fallist á að ógilda bæri yfirlýsingu L hf. á grundvelli 33. gr. sömu laga. Þá var talið að málsástæður Ö þess efnis að ábyrgðaryfirlýsingin væri fölsuð og hann hefði ekki verið upplýstur um aðilaskipi á kröfunni væru ekki studdar viðhlítandi gögnum og því haldlausar. Var krafa L hf. því tekin til greina.
                                                             Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Eggert Óskarsson fyrrverandi héraðsdómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. október 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.180.991 krónu með 13,45% yfirdráttarvöxtum frá 29. apríl 2016 til 27. júní sama ár en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Hinn 30. október 2008 sótti einkahlutafélagið Sólco um að opna reikning hjá Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis. Undir umsóknina ritaði stefndi ásamt þáverandi eiginkonu sinni en þau áttu hvort um sig helming hlutafjár og skipuðu stjórn félagsins. Þá ber umsóknin með sér að þau myndu bæði hafa prókúru á reikninginn sem var nr. 1129-26-06810. Með yfirlýsingu 15. apríl 2014 gengust þau í sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttar á reikningnum að fjárhæð 3.600.000 krónur. Við sameiningu Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, Sparisjóðs Svarfdæla 4. júlí 2013 og Sparisjóðs Bolungarvíkur 30. júní 2014 mun Sparisjóður Norðurlands ses. hafa orðið til. Með samþykki Fjármálaeftirlitsins 4. september 2015 var sá síðastnefndi sameinaður áfrýjanda á grundvelli 1. mgr. 106. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Við þá sameiningu tók áfrýjandi við öllum réttindum og skyldum Sparisjóðs Norðurlands og voru félögin sameinuð undir nafni áfrýjanda sem er því réttur aðili að máli þessu. Bú Sólco ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 24. júlí 2015 og lýsti áfrýjandi kröfu vegna yfirdráttarins að fjárhæð 2.499.798 krónur í búið og var sú krafa viðurkennd af skiptastjóra búsins. Skiptum mun hafa lokið 22. mars 2016 með því að til úthlutunar upp í kröfur komu 1.915.866 krónur, þar af greiddust 467.536 krónur upp í kröfu áfrýjanda. Þá mun meðábyrgðarmaður stefnda að skuldinni hafa greitt 1.131.000 krónur inn á hana 20. apríl 2016. Í máli þessu krefur áfrýjandi stefnda um eftirstöðvar skuldarinnar. II Af greinargerð stefnda fyrir Hæstarétti verður ráðið að hann reisi sýknukröfu sýna meðal annars á því að sparisjóðurinn hafi farið á svig við eigin lánareglur í þeim viðskiptum sem hér um ræðir. Ekki verður séð að í greinargerð stefnda eða undir rekstri málsins í héraði hafi verið á þessu byggt og standa því ekki til þess lagaskilyrði samkvæmt 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að sú málsástæða komist að hér fyrir dómi. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn er með ábyrgðarmanni átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Þar sem sjálfskuldarábyrgð stefnda var í þágu atvinnurekstrar félags sem hann átti helmingshlut í eiga lög þessi ekki við um sjálfskuldarábyrgð hans og koma málsástæður þær sem á þeim lögum eru reistar því ekki til skoðunar. Sýknukrafa stefnda er einkum á því reist að sparisjóðurinn hafi ekki látið meta greiðslugetu Sólco ehf., en það hafi verið forsenda þess að hann hafi undirgengist sjálfskuldarábyrðina. Af þeim sökum sé það óheiðarlegt, ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af áfrýjanda að bera fyrir sig og byggja rétt á henni, sbr. 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í umræddri yfirlýsingu stefnda um sjálfskuldarábyrgð er vísað til skilmála sem um hana gilda og kemur fram í 13. grein þeirra að um ábyrgðina gildi  samkomulag fjármálafyrirtækja, Neytendasamtakanna og stjórnvalda frá 1. nóvember 2001, sem ber yfirskriftina „Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga“. Samkvæmt 1. mgr. 3. greinar samkomulagsins ber fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda sé skuldaábyrgð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Í 3. mgr. 3. greinar segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé fjármálafyrirtæki skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi nemi meira en 1.000.000 krónum. Þótt samkomulag þetta eigi, eins og nafn þess bendir til, aðeins við um ábyrgð á skuldum einstaklinga verður ekki fram hjá því litið að til þess er vísað í ábyrgðaryfirlýsingunni auk þess sem fram kemur í meginmáli hennar að greiðslumat skuli ávallt fara fram ef ábyrgð sé hærri en 1.000.000 krónur. Samkvæmt þessu gerði sparisjóðurinn ráð fyrir að farið yrði eftir þessu samkomulagi í tilviki stefnda, þótt lántaki væri félag, en ágreiningslaust er að greiðslumat var ekki gert  á Sólco ehf. Þetta leiðir þó ekki sjálfkrafa til þess að áfrýjandi geti ekki byggt rétt á ábyrgðaryfirlýsingunni gagnvart stefnda heldur verður stefndi að sýna fram á að það sé óheiðarlegt, ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hana fyrir sig. Þegar tekin er afstaða til málsástæðna stefnda sem reistar eru á 36. gr. laga nr.7/1936 verður að beita heildstæðu mati á fyrirliggjandi atvikum með tilliti til þeirra atriða, sem um ræðir í 2. mgr. sömu lagagreinar og meginreglna fjármunaréttar um skuldbindingargildi samnings. Við það mat skiptir öðru fremur máli að stefnda, sem var helmingseigandi í Sólco ehf. og annar tveggja stjórnarmanna félagsins, mátti vera fullkunnugt um fjárhagsstöðu og þar með greiðsluhæfi félagsins á þeim tíma sem hann undirgekkst ábyrgðina auk þess sem fyrir liggur að rekstur félagsins var seldur 4. mars 2015 fyrir 7.500.000 krónur. Er engum haldbærum gögnum til að dreifa um að fjárhagur félagsins hafi, á þeim tíma er stefndi undirritaði ábyrgðaryfirlýsinguna, verið með þeim hætti að félagið hafi ekki getað greitt skuldir sínar. Að öllu framangreindu virtu eru ekki efni til að víkja til hliðar ábyrgðaryfirlýsingu stefnda á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Með sömu rökum verður ekki fallist á að ógilda beri yfirlýsingu stefnda á grundvelli 33. gr. sömu laga. Hvað snertir aðrar málsástæður stefnda fyrir sýknukröfu sinni þess efnis að umrædd ábyrgðaryfirlýsing hafi verið fölsuð og að hann hafi ekki verið upplýstur um aðilaskipti á kröfunni þá eru þær ekki studdar viðhlítandi rökum og því haldlausar. Þá hefur hann ekki sýnt fram á að áfrýjandi eða forveri hans Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis og síðar Sparisjóður Norðurlands hafi farið á svig við lög nr. 161/2002  í viðskiptum sínum við stefnda. Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður krafa áfrýjanda tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í dómsorði. Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Það athugist að í hinum áfrýjaða dómi er ekki yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því heldur látið við það sitja að vísa til málsatvika eins og þau horfa við aðilum máls. Er þetta ekki í samræmi við d. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Dómsorð: Stefndi, Örvar Sigþór Guðmundsson, greiði áfrýjanda, Landsbankanum hf., 1.180.991 krónu með 13,45% yfirdráttarvöxtum á ári frá 29. apríl 2016 til 27. júní sama ár en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.         Dómur Héraðsdóms Reykjaness 3. október 2017. Mál þetta var höfðað 24. ágúst 2016 og dómtekið 14. september 2017. Stefnandi er Landsbankinn hf., Fjarðarvegi 5, Þórshöfn. Stefndi er Örvar Sigþór Guðmundsson, Skipalóni 21, Hafnarfirði.                 Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.180.991 króna, ásamt 13,45% yfirdráttarvöxtum frá lokunardegi reiknings 29. apríl 2016 til 27. júní 2016 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.                 Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Einnig gerir stefndi kröfu um málskostnað. I.                 Í stefnu málsins segir að hinn 31. október 2008 hafi Sólco ehf. stofnað reikning nr. 6810 við Sparisjóð Norðurlands. Yfirdráttarheimild á reikningnum hafi runnið út án þess að uppsöfnuð skuld hans væri greidd og hafi reikningnum í kjölfarið verið lokað hinn 29. apríl 2016. Uppsöfnuð skuld hafi þá numið 1.180.991 krónu. Með sjálfskuldarábyrgð nr. 0179-63-114212, dags. 15. apríl 2014, hafi stefndi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð gagnvart stefnanda sem sjálfskuldarábyrgðaraðili, fyrir allt að 3.600.000 krónum, auk vaxta og annars kostnaðar við innheimtu skuldarinnar. Sólcó ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota 24. júlí 2015. Skiptum hafi lokið 22. mars 2016 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur og sé félaginu því ekki stefnt í málinu. Stefnda hafi verið sent innheimtubréf 27. maí 2016. Krafist sé dráttarvaxta frá lokun reiknings til þess dags þegar mánuður var liðinn frá dagsetningu innheimtubréfs, en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál þetta.                 Hvað varðar aðild stefnanda þá hafi Fjármálaeftirlitið samþykkt hinn 4. september 2015, með vísan til 106. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, samruna Sparisjóðs Norðurlands ses. við stefnanda og samruninn tekið gildi á þeim degi, en stefnandi hafi tekið við öllum réttindum og skyldum sjóðsins frá 1. janúar 2015.                 Um lagarök vísar stefnandi til reglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.                 Krafa stefnanda um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti úr hendi stefnda. II.                 Stefndi telur málið vanreifað af hálfu stefnanda og því hljóti að koma til skoðunar hvort vísa beri málinu frá dómi ex officio af þeim sökum.  Stefndi kveður að ranglega sé fullyrt í stefnu að yfirlýsing stefnda um sjálfskuldarábyrgð, dags. 15. apríl 2014, útgefin á Þórshöfn, sé númer 0179-63-114212.  Eins og skjalið beri með sér sé hið rétta númer 0179-63-006275, en þriðja og síðasta hluta númersins hafi verið breytt með því að strika yfir 006275 og handritað þess í stað 114212. Hafi sú breyting skjalsins, sem stefndi telur fölsun, ekki verið heimiluð af stefnda og verði ekkert um það ráðið af skjalinu hvenær eða hver hafi gert þessa óheimilu breytingu. Sama sé að segja um handritunina 8579-11 neðst á yfirlýsingunni. Stefndi bendir á að Sóley Indriðadóttir sé einnig sjálfskuldarábyrgðaraðili á yfirlýsingunni, en þess geti stefnandi ekki í málatilbúnaði sínum. Stefndi kveðst kannast við nafnritun sína undir yfirlýsinguna, en tekur fram að hann hafi ekki ritað nafn sitt á þeim stað og með þeirri dagsetningu sem í skjalinu greinir. Hann hafi fyrir löngu verið fluttur  frá Þórshöfn.                 Þá segir stefndi að hann hafi aldrei fengið sent yfirlit frá sparisjóðnum né heldur stefnanda um þessa sjálfskuldarábyrgð, eins og skylt sé samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Tilkynning sem lögð hafi verið fram í málinu, 8. janúar 2016, hafi ekki borist stefnanda. Hafi stefnandi ekki lýst kröfu þessari í þrotabúið krefst stefndi lækkunar á henni sem nemi þeirri fjárhæð sem ella hefði fengist úr þrotabúinu, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Stefndi bendir á að samkvæmt kaupsamningi og afsali, sem hann hefur lagt fram í málinu, dags. 4. mars 2015, hafi Sólco ehf. selt Feðginum ehf. rekstur sinn ásamt tækjum og tólum félagsins samkvæmt tækjalista, ásamt lagerbirgðum félagsins, fyrir 7.500.000. Söluverðið skyldi greiðast þannig: Við undirritun samningsins 4.720.000 krónur, með viðskiptakröfum 280.000 krónur og 2.500.000 krónur hinn 1. október 2015. Þá segi í samningnum: „Sem tryggt er með skuldabréfi gefið út af kaupanda og með samþykki Sparisjóðs Þórshafnar.“ Þar sé bersýnilega verið að vísa til greiðslunnar 1. október 2015. Annar vottanna á samningnum sé Ragnar Þorgeirsson, sem þá hafi verið sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Þórshafnar. Hann hafi komið að þessari samningsgerð sem slíkur og unnið í henni með Jóni Stefánssyni, lögregluvarðstjóra á Þórshöfn, sem hafi undirritað samninginn af hálfu Feðgina ehf. Þarna hafi verið um það samið að nefnd greiðsla með skuldabréfi, að upphæð 2.500.000 krónur, gengi til greiðslu skulda Sólco ehf. við sparisjóðinn vegna yfirdráttar á reikningi 0179-63-006275 og skyldi hann (Ragnar/sparisjóðurinn) annast gerð og frágang skuldabréfsins.  Af hálfu stefnanda sé engin grein gerð fyrir þessu né heldur umræddri innborgun á skuld Sólco ehf. við sparisjóðinn. Þá sé engin grein gerð fyrir mismun á vanskilafjárhæð, 2.658.897 krónum, og 1.180.991 krónu. Stefndi telur að sparisjóðurinn eða stefnandi hafi þegar fengið fullnaðargreiðslu á yfirdráttarskuldinni frá Sóleyju Indriðadóttur í byrjun árs 2016 er hún hafi selt fasteign sína að Langholti 8 á Þórshöfn. Þá hafi stefnandi neitað að aflétta veði sínu í þeirri húseign nema hún greiddi yfirdráttarskuldina sem hún hafi verið í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Af hálfu stefnanda hafi engin grein verið gerð fyrir þessu og hvers vegna Sóleyju hafi ekki einnig verið stefnt í máli þessu.  Stefndi byggir á því að í sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingunni sjálfri sé lýst yfir af hálfu lánveitanda, Sparisjóðs Norðurlands, að greiðslumat fari ávallt fram ef ábyrgð er hærri en 1.000.000 króna. Þá segi í skilmálum á baksíðu skjalsins, 13. tl.:  „Að öðru leyti en greinir í skilmálum þessum gildir Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem að standa Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, f.h. aðildarfélaga sinna, Samband íslenskra sparisjóða, f.h. sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda frá 1. nóvember 2001.“  Samkomulag þetta taki ótvírætt til sjálfskuldarábyrgðar stefnda. Stefndi heldur því fram að ekki hafi verið farið að reglum um mat á greiðslugetu o.fl. samkvæmt framangreindu samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Sparisjóðnum hafi borið að meta greiðslugetu Sólco ehf., enda hafi ábyrgðin verið langt umfram þá 1.000.000 króna sem slíkt greiðslumat skyldi ávallt fara fram um, en stefndi hafi vanrækt þessa skyldu sína. Ekkert slíkt greiðslumat hafi verið gert og hefði hann gert það hefði niðurstaða matsins óhjákvæmilega bent til þess að Sólco ehf. gæti ekki efnt skuldbindingar sínar. Það hljóti sparisjóðnum sem viðskiptabanka Sólco ehf. að hafa verið ljóst, án þess að gert væri formlegt greiðslumat, og blasað við honum vegna fjárhagserfiðleika félagsins og vangetu til að standa við skuldbindingar sínar, sem þá hafi verið í langvarandi vanskilum, og vegna kröfu sparisjóðsins um umrædda sjálfskuldarábyrgð til tryggingar skuldum félagsins við sparisjóðinn. Það megi einnig leiða af ársreikningi félagsins fyrir árið 2013, og þeirri staðreynd að ársreikningum og skattframtali hafi ekki verið skilað fyrir félagið eftir það, og sparisjóðnum hlaut að vera kunnugt, hefði hann rækt skyldur sínar og upplýsingaöflun til grundvallar mati á greiðslugetu félagsins. Byggir stefndi á því að sparisjóðnum hafi því borið að vara stefnda við að ganga í ábyrgðina. Engar upplýsingar hafi sparisjóðurinn veitt stefnda í samræmi við fyrirmæli 4. gr. samkomulagsins.                      Stefndi byggir einnig á því að hafi slíkt greiðslumat verið framkvæmt hafi það ekki verið kynnt honum eins og borið hafi að gera. Lánveitandinn hafi því á þessum tíma vanrækt að gæta að reglum samkomulagsins um mat á greiðslugetu og fleira beint og persónulega gagnvart stefnda.  Sjálfskuldarábyrgðina, dags. 15. apríl 2014, beri því að virða að vettugi. Hafi sparisjóðurinn aftur á móti framkvæmt greiðslumat hafi honum borið að varðveita það og gögn sem lágu því til grundvallar.  Hvorki greiðslumat né slík gögn hafi stefnandi lagt fram í málinu og slík gögn hefðu leitt til þeirrar niðurstöðu að Sólco ehf. gæti ekki efnt skuldbindingar sínar. Stefndi telur að félagið hefði ekki staðist greiðslumat hefðu fullnægjandi og réttar upplýsingar legið því til grundvallar. Stefndi byggir á því að stefnandi, sem réttartaki sparisjóðsins, verði að bera hallann af þeirri óvissu sem um þetta sé, svo og því hvort stefndi hefði gengist í ábyrgðina ef réttilega hefði verið staðið að gerð greiðslumats. Sparisjóðurinn hafi ekki heldur tryggt, svo sem honum hafi borið, að stefndi gæti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats, áður en hann gekkst í hina meintu ábyrgð. Þá hafi sparisjóðurinn og stefnandi algjörlega vanrækt upplýsingagjöf til stefnda eftir að til ábyrgðarinnar var stofnað og fyrirmæli séu um í 5. gr. samkomulagsins og lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Með vísan til framangreinds byggir stefndi á því að sjálfskuldarábyrgð hans sé ógild. Forveri stefnanda hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt samkomulaginu frá 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða og samkvæmt þeim ströngu kröfum sem gerðar séu í þeim efnum til banka og fjármálafyrirtækja um vandaða og faglega framkvæmd og tillitsskyldu gagnvart samningsaðilanum, sem séu einstaklingar, stefndi í þessu tilviki. Því hafi ekki við lánveitinguna og ábyrgðartökuna verið gætt að því meginmarkmiði samkomulagsins að ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga gerðu sér eftir atvikum ljósa grein fyrir þeirri áhættu sem þeir tækjust á herðar með því að gangast í slíka ábyrgð. Sönnunarbyrði um þetta hvíli á stefnanda og þá sönnunarbyrði verði hann að axla. Það sé á áhættu stefnanda að hafa látið hjá líða að meta greiðslugetu Sólco ehf. og eftir atvikum gera stefnda sem ábyrgðarmanni grein fyrir því ef niðurstaða mats benti til að félagið gæti ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Stefndi byggir einnig á því að hann sé ábyrgðarmaður í skilningi 2. og 3. mgr. 2. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og stefnandi og sparisjóðurinn, þ.e. sá sem stefnandi leiðir rétt sinn frá, lánveitandi í skilningi 1. mgr. 2. gr. þeirra. Þeir hafi ekki tilkynnt stefnda um framsal réttinda sem reist séu á ábyrgðinni eða láni því sem ábyrgðin stóð til tryggingar á, svo sem skylt hafi verið samkvæmt 3. gr. laganna.  Stefndi hafi ekki sem ábyrgðarmaður glatað mótbárurétti gagnvart framsalshafa sem stefnandi þessa máls kveður sig vera. Lögin um ábyrgðarmenn hafi tekið gildi 4. apríl 2009 og taki samkvæmt 12. gr. þeirra til þeirrar ábyrgðar sem hér um ræðir. Byggir stefndi á því að umrædd lánveiting sparisjóðsins og ábyrgðartaka sé andstæð markmiðum þeirra laga sem fram koma í 1. gr. þeirra og ábyrgð stefnda einnig ógild af þeirri ástæðu. Til stuðnings sýknukröfu stefnda byggir stefndi einnig á því að sparisjóðurinn hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt fyrirmælum þeirra laga um mat á greiðslugetu skv. 1. mgr. 4. gr. laganna, sbr. reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat nr. 920/2013, og annað framangreint, sbr. 4., 5. og 6. gr. laganna.  Stefndi heldur því fram að sparisjóðnum hafi verið óheimilt að veita Sólco ehf. yfirdráttarlánið þar sem mat á lánshæfi eða greiðslumat hefði leitt í ljós að félagið hafði ekki fjárhagslega burði til þess að standa í skilum með lánið, sbr. 3. mgr. 7. gr. nefndrar reglugerðar.  Stefndi byggir einnig sjálfstætt á því að hann hafi mátt treysta því að sparisjóðurinn sem fjármálafyrirtæki, með sérfræðinga og mikla þekkingu í lánsviðskiptum á sínu sviði, gætti að skyldum sínum um gerð vandaðs og trúverðugs greiðslumats hvað sem liði samkomulaginu og jafnframt að hagsmunir viðskiptavina almennt og lántaka, og þess sem veitti ábyrgð til tryggingar umræddu yfirdráttarláni, þ.e. stefnda í því tilviki sem hér um ræðir, væru þá sérstaklega hafðir að leiðarljósi, sbr. 4. gr. og 6. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti og reglur um góða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja og venjur, sbr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Þess hafi hér ekki verið gætt af hálfu sparisjóðsins sem fjármálafyrirtækis miðað við þær skyldur sem hafi hvílt á honum sem lánveitanda og samsamaðar verði stefnanda og hann beri ábyrgð á sem réttartaki. Af þeim ástæðum einnig beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Samkvæmt framangreindu og með vísan til 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga heldur stefndi því jafnframt fram að það sé óheiðarlegt, ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af stefnanda að bera fyrir sig og byggja rétt á fyrrgreindri sjálfskuldarábyrgð stefnda vegna framangreindra atvika. Samningsstaða aðila hafi verið mjög ójöfn við veitingu yfirdráttarlánsins og sjálfskuldarábyrgðartökuna, enda lánveitandinn stórt og sérhæft fjármálafyrirtæki sem hafi starfað á grundvelli opinbers leyfis og að til þess hafi mátt gera ríkar kröfur um sérfræðiþekkingu á sviði lánastarfsemi og vönduð vinnubrögð samkvæmt óskráðum reglum og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 og 4. og 6. gr. laga nr. 33/2003. Skyldur sparisjóðsins hafi því verið enn ríkari en ella að misnota ekki aðstöðu sína til þess að ná óeðlilega hagstæðum kjörum fyrir sig gagnvart stefnda.  Stefnanda hafi verið í lófa lagið að gæta að því að ekki væri brotið á rétti stefnda með ólögmætum samningsákvæðum eða samningsskilmálum. Það sé andstætt góðum viðskiptaháttum sparisjóðsins sem lánveitanda og auk þess ósanngjarnt og verulega íþyngjandi fyrir stefnda. Stefndi hafi aftur á móti ekki búið yfir neinni sérstakri menntun eða þekkingu á því sviði sem hér um ræðir. Samningurinn sem um sé deilt í þessu máli hafi verið liður í starfsemi annars aðilans, lánveitandans sem fjármálafyrirtækis, en ekki liður í starfsemi hins aðilans, stefnda í þessu máli, og honum algjörlega óviðkomandi. Þá áréttar stefndi að lánveitandinn hafi ekkert gert til þess að uppfylla skyldur sínar um upplýsingagjöf til stefnda sem ábyrgðarmanns og hafi hann undirritað sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsinguna utan starfsstöðvar hans og án þess að lánveitandinn veitti honum nokkrar upplýsingar sem ábyrgðarmanni, eins og honum hafi verið skylt. Atvik sem síðar komu til, svo sem gjaldþrot Sólco ehf. sem sparisjóðurinn hafi mátt sjá fyrir, geri einnig meinta ábyrgð stefnda meira íþyngjandi en ella. Það sé því einnig bersýnilega ósanngjarnt af hálfu stefnanda að bera ábyrgðina fyrir sig vegna atvika sem síðar hafi komið til og valdið því að verulega halli á stefnda hvað þetta varðar. Samkvæmt öllu framangreindu sé skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936 til að ógilda sjálfskuldarábyrgð stefnda fullnægt. Krefst stefndi sýknu á þeim grunni verði ekki á áðurgreindar sýknuástæður fallist. Sýknukröfu sína byggir stefndi einnig á óskráðum réttarreglum um brostnar forsendur þar sem ljóst sé að fullnægjandi og rétt mat á greiðslugetu skuldara hafi afgerandi og afdráttarlausa þýðingu fyrir upplýsta ákvörðum manns um að gangast í ábyrgð. Slíkt mat hafi ekki verið framkvæmt og stefndi því undirgengist ábyrgðina á röngum forsendum. Til ýtrasta öryggis mótmælir stefndi réttmæti stefnufjárhæðarinnar sem sé ósönnuð að öllu leyti. Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda í stefnu sem röngum og þýðingarlausum.  Dráttarvaxtakröfu stefnanda er sérstaklega mótmælt sem vanreifaðri og órökstuddri og dráttarvextir, ef til koma, verði ekki dæmdir frá fyrra tímamarki en uppkvaðningu héraðsdóms. Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. gr. og 1. og 2. mgr. 130. gr. III. Í máli þessu krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum 1.180.991 krónu vegna yfirdráttar á viðskiptareikningi Sólco ehf., en stefndi tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð með yfirlýsingu 15. apríl 2014 gagnvart Sparisjóði Norðurlands, nú stefnanda, á greiðslu yfirdráttarskuldar Sólco ehf. fyrir allt að 3.600.000 krónum, auk vaxta og annars kostnaðar. Í stefnu málsins kemur skýrt fram hvaða fjárhæðar er krafist og hvernig skuldin er tilkomin og eru engir annmarkar á málinu sem geta varðað frávísun. Stefndi átti helmingshlut í einkahlutafélaginu Sólco og átti fyrrverandi eiginkona hans, Sóley Indriðadóttir, helminginn á móti honum. Við aðalmeðferð málsins greindi stefndi frá því að hann og Sóley hefðu skilið á árinu 2012 og stefndi flutt suður. Eftir það hefði hann ekki komið að rekstri félagsins. Á árinu 2014 hefði Sóley haft samband við hann og beðið hann um að gangast í sjálfskuldarábyrgð vegna félagsins og hann hefði að lokum látið tilleiðast. Hann hefði fengið skjalið, yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð, sent í pósti frá Sóleyju og hann hefði ritað undir það og sent til baka. Vottar á skjalinu hefðu ekki verið viðstaddir þegar hann ritaði undir það. Þá kvaðst stefndi ekki vita hvernig greiðslumat gengi fyrir sig og hann hefði gert ráð fyrir því að það færi fram í framhaldinu. Í vitnaskýrslu Sóleyjar fyrir dómi kom fram að sparisjóðurinn hefði gert kröfu um að gefið yrði út skuldabréf til að sparisjóðurinn hefði betri tryggingar fyrir skuldum Sólco ehf., en á þessum tíma hafi fjárhagsstaða félagsins ekki verið góð og félagið verið í skuld við sparisjóðinn. Þá greindi vitnið frá því að það hefði séð um rekstur félagsins eftir skilnaðinn á árinu 2012. Umrædd sjálfskuldarábyrgð sem stefndi tókst á hendur var í þágu atvinnureksturs félags sem stefndi átti helmingshlut í og eiga ákvæði um greiðslumat í lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn því ekki við í máli þessu, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Í yfirlýsingunni um sjálfskuldarábyrgðina, sem var á stöðluðu eyðublaði sparisjóðsins, var hins vegar gert ráð fyrir því að greiðslumat færi fram. Í skjalinu eru eftirfarandi reitir: „Greiðslumat: (  ) Ábyrgðarmaður/menn hafa óskað eftir því að greiðslugeta greiðanda verði ekki metin (  ) Ábyrgðarmaður/menn hafa óskað eftir því að greiðslugeta greiðanda verði metin og hafa kynnt sér niðurstöðu greiðslumats.“ Síðan segir í skjalinu: „Greiðslumat fer ávallt fram ef ábyrgð er hærri en kr. 1.000.000.“  Einnig eru á skjalinu eftirfarandi reitir: „Niðurstaða greiðslumats: (  ) Niðurstaða greiðslumats bendir til þess að greiðandi geti efnt skuldbindingar sínar (  ) Niðurstaða greiðslumats bendir til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar.“ Í 13. tl. á bakhlið skjalsins segir svo að að öðru leyti en greinir í skilmálum skjalsins gildi Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, þótt sjálfskuldarábyrgð stefnda hafi tekið til skuldar einkahlutafélags. Samkvæmt téðu samkomulagi ber fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda, nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Fjármálafyrirtæki er þó alltaf skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð nemur meira en 1.000.000 kr. Í skjalinu sem stefndi undirritaði var hvergi merkt í framangreinda reiti um greiðslumat og er óumdeilt að sparisjóðurinn lét ekki greiðslumeta skuldarann, þrátt fyrir að í skjalinu kæmi skýrt fram að greiðslumat færi ávallt fram ef ábyrgð væri hærri en 1.000.000 kr. ásamt tilvísun til þess að samkomulagið frá 1. nóvember 2001 ætti að gilda um lögskipti aðila. Upplýst hefur verið að Sólco ehf. átti á þessum tíma í fjárhagserfiðleikum en stefnda var ekki kunnugt um það þar sem hann hafði ekki komið að rekstri félagsins frá árinu 2012. Sparisjóðnum sem viðskiptabanka félagsins hlaut hins vegar að vera kunnugt um stöðu félagsins og hefði greiðslumat farið fram og stefnda kynntar niðurstöður þess er óvíst hvort hann hefði tekist á hendur sjálfskuldarábyrgðina. Í málflutningsræðu lögmanns stefnanda kom fram að það hefði verið „óheppilegt“ hvaða eyðublað var notað. Stefnandi, sem var fjármálafyrirtæki, verður að bera hallann af því að hafa notað umrætt skjal og látið hjá líða að kanna greiðslugetu skuldara og gera stefnda grein fyrir niðurstöðu þeirrar könnunar. Eins og atvikum er háttað verður að telja ósanngjarnt af stefnanda að bera fyrir sig ábyrgðaryfirlýsingu stefnda. Með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, verður umræddri ábyrgðaryfirlýsingu því vikið til hliðar og stefndi sýknaður af kröfum stefnanda. Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem er hæfilega ákveðinn 900.000 krónur. Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari. D ó m s o r ð:                 Stefndi, Örvar Sigþór Guðmundsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Landsbankans hf.                 Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 351/2017
Skaðabótamál Fasteignasala Uppgjör
Þ, sem var löggiltur fasteignasali, tók að sér vinnu vegna fasteignaviðskipta G og eiginmanns hennar, sem slitið höfðu samvistum. Um var að ræða svokölluð makaskipti þar sem G og eiginmaður hennar keyptu íbúð að Skerjabraut á Seltjarnarnesi, sem koma skyldi í hlut G, og létu af hendi fasteign að Breiðahvarfi í Kópavogi. Á síðargreindu eigninni hvíldi meðal annars lán á 1. veðrétti frá Íbúðalánasjóði sem flytja skyldi á íbúðina að Skerjabraut. Samkvæmt áætlun um ráðstöfun á söluverði Breiðahvarfsins, sem Þ hafði samið, skyldi meðal annars greiða tiltekna fjárhæð inn á lánið á 1. veðrétti en Íbúðalánasjóður hafði veitt samþykki sitt fyrir veðflutningnum að því tilskildu að lánið yrði greitt niður sem svaraði til 80% af verðmæti íbúðarinnar. Samkvæmt samkomulagi milli G og maka hennar, sem Þ hafði einnig samið, skyldi svo að uppfylltum öllum nauðsynlegum greiðslum, ráðstafa tilgreindri fjárhæð af söluverðinu til G, en því sem eftir stæði til maka hennar. Í málinu lá fyrir að sú fjárhæð sem Þ ráðstafaði inn á lán Íbúðalánasjóðs dugði ekki til að greiða það niður í 80% af verðmæti íbúðarinnar. Munaði þar rúmum 6 milljónum króna sem Þ hafði þess í stað greitt til maka G. Höfðaði G í kjölfarið mál á hendur Þ og krafðist skaðabóta að nefndri fjárhæð, en hún taldi að Þ hefði mátt vita um fyrrgreint skilyrði Íbúðalánasjóðs og að honum hefði borið að greiða lánið niður í samræmi við það áður en hann innti greiðsluna af hendi til maka G. Hæstiréttur taldi að Þ yrði að bera hallann af því að hafa ekki sýnt fram á að greiðsla af láninu til Íbúðalánasjóðs í samræmi við áskilnað sjóðsins, hefði ekki fallið undir orðin „öllum nauðsynlegum greiðslum“ í samkomulaginu. Féllst rétturinn því á að með því að inna af hendi áðurgreinda fjárhæð til maka G, áður en greitt hafði verið í samræmi við áskilnað Íbúðalánasjóðs, hefði Þ sýnt af sér saknæma háttsemi sem bakað hefði G tjón sem næmi fyrrgreindri fjárhæð. Var því fallist á kröfu G.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Eggert Óskarsson fyrrverandi héraðsdómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júní 2017. Hún krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 6.083.149 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. ágúst 2013 til 7. september 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur af hálfu réttargæslustefnda. I Áfrýjandi og eiginmaður hennar áttu fasteignina Breiðahvarf 11 í Kópavogi sem var hjúskapareign áfrýjanda. Þau höfðu slitið samvistum og gerðu samning um makaskipti á fasteignum þannig að þau létu af hendi Breiðahvarf 11 en fengu í staðinn íbúð að Skerjabraut 9 á Seltjarnarnesi sem koma skyldi í hlut áfrýjanda. Á Breiðahvarfi 11 hvíldu umtalsverðar veðskuldir sem voru í vanskilum auk þess sem aðför hafði verið gerð í fasteigninni til tryggingar nokkrum skuldum. Meðal áhvílandi veðskulda var lán á 1. veðrétti frá Íbúðalánasjóði, sem ætlunin var að flytja af fasteigninni yfir á íbúðina að Skerjabraut 9. Áfrýjandi mun hafa sótt um flutning lánsins til Íbúðalánasjóðs og var niðurstaða sjóðsins sú 3. maí 2013, að fengnu verðmati á íbúðinni að fjárhæð 21.500.000 krónur, að heimila veðflutninginn gegn því að greitt væri af láninu, sem var þá uppreiknað 27.753.149 krónur, 10.553.149 krónur. Réðst þetta af því að sjóðurinn heimilaði einungis veðsetningu sem nam hæst 80% af verðmæti íbúðarinnar eða 17.200.000 krónur. Stefndi, sem annaðist eftir því sem fram er komið skjalagerð vegna makaskiptanna þar með talið skilyrt veðleyfi, samdi einnig áætlun um ráðstöfun söluverðs Breiðahvarfs 11 og samkomulag milli áfrýjanda og maka hennar en skjöl þessi eru öll dagsett 16. maí 2013. Í áætluninni kom fram að ráð var fyrir því gert að greiðslur vegna samnings um sölu á Breiðahvarfi 11 yrðu 34.400.000 krónur. Tilgreind útgjöld, sem flest tengdust vanskilum skulda sem hvíldu á eigninni, voru 20.387.195 krónur en þar af var greiðsla inn á lán á fyrsta veðrétti við Íbúðalánasjóð, sem áður hefur verið vikið að, 4.500.000 krónur og greiðsla inn á skuld samkvæmt tryggingarbréfi sem hvíldi á öðrum veðrétti 13.300.000 krónur. Samkvæmt áætluninni var ráðgert að eftir að hinar tilteknu greiðslur hefðu verið inntar af hendi yrðu eftirstöðvar 14.012.805 krónur. Í skilyrtu veðleyfi kom fram að kaupanda Breiðahvarfs 11 væri heimilt að veðsetja fasteignina fyrir tveimur lánum samtals að fjárhæð 31.000.000 krónur, gegn því að greiddar yrðu þær 4.500.000 krónur til Íbúðalánasjóðs, sem áður greinir, og 13.300.000 krónur inn á skuldina vegna tryggingarbréfsins sem hvíldi á öðrum veðrétti. Þá sagði: ,,Mismunurinn greiðist til Þórarins Jónssonar“. Eins og áður greinir útbjó stefndi 16. maí 2013 samkomulag milli áfrýjanda og eiginmanns hennar. Í upphafi þess var tekið fram að vísað væri til kaupsamnings um Breiðahvarf 11 og um íbúðina að Skerjabraut 9. Þá sagði: ,,Jafnframt er vísað til áætlunar um uppgjör vegna Breiðahvarfs 11 ... Samkvæmt tilvísaðri áætlun gæti mismunur til seljanda verið u.þ.b. kr. 14.000.000 ... Undirrituð ... samþykkjum hér með að fela Þórarni Jónssyni ... að taka við greiðslum vegna ofangreindra kaupsamninga og ráðstafa í samræmi við efni þeirra og greiðsluáætlun þessa. Mismun þeim sem eftir stendur að uppfylltum öllum nauðsynlegum greiðslum samþykkjum við að verði ráðstafað sem hér segir: Til Guðrúnar verði ráðstafað kr. 3.400.000“ en til maka hennar átti að ráðstafa ,,því sem eftir stendur“. Af yfirliti af fjárvörslureikningi stefnda vegna Breiðahvarfs 11 má sjá að þeim greiðslum, sem samkvæmt framangreindum skjölum skyldu renna til stefnda, var ráðstafað á þann veg sem í skjölunum greindi og rakið hefur verið. Til stefnda voru greiddar 14.559.305 krónur. Enginn ágreiningur er um að stefndi ráðstafaði réttilega þeim fjármunum, sem síðast greindi, að því frátöldu að áfrýjandi telur að ráðstöfun hans til maka hennar 8. ágúst 2013 á 7.800.000 krónum og viku síðar á 128.292 krónum til viðbótar hafi verið óheimil þar sem áður átti að greiða niður skuldina við Íbúðalánasjóð í samræmi við skilyrði sjóðsins er heimild var veitt til veðflutnings, en 6.053.149 krónur vantaði á að það hefði verið réttilega gert. Þannig hefði maki hennar fengið 7.928.292 krónur, sem hefði verið 6.053.149 krónum meira en honum bar. Það hefði gerst vegna saknæmra mistaka stefnda, sem hafi ekki gætt fyrirmæla samkomulagsins um að greiða fyrst allar nauðsynlegar greiðslur, þá 3.400.000 krónur til áfrýjanda og það sem eftir stæði til maka hennar. Áfrýjandi telur að hin saknæma háttsemi hafi átt sér stað 8. og 15. ágúst 2013, er stefndi innti greiðslurnar af hendi. II Stefndi kveðst einungis hafa sem löggiltur fasteignasali komið að sölu eignar áfrýjanda að Breiðahvarfi 11 en ekki tekið að sér sem lögmaður að gæta hagsmuna hennar. Hann kveðst aðeins hafa sett á blað það sem áfrýjandi og maki hennar hafi greint honum frá að þau væru sammála um ,,varðandi ráðstöfun á söluandvirðinu“. Þetta hafi verið nauðsynlegt þar sem hann hafi tekið að sér að taka á móti greiðslum og ráðstafa þeim í samræmi við samkomulagið og áætlunina frá 16. maí 2013. Eins og fram er komið tók stefndi að sér vinnu sem löggiltur fasteignasali við makaskipti þau sem um ræðir. Um starfsemi hans giltu þá lög nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Samkvæmt 9. gr. þeirra skyldi fasteignasali þegar óskað væri milligöngu hans um kaup eða sölu eignar eða aðra þjónustu samkvæmt lögunum, gera skriflegan samning við þann er til hans leitaði. Samningurinn skyldi gerður áður en fasteignasali tæki til við starfann. Í samningi skyldi tilgreina hvaða verkefnum fasteignasali ætti að sinna, hver þóknun hans fyrir starfann skyldi vera eða hvernig hún skyldi ákveðin og hvaða útlagða kostnað viðsemjandinn ætti greiða. Með slíkum samningi gat fasteignasali skilgreint verkefni sitt og var það brýnt ef hann taldi það takmarkaðra en hefðbundið hlutverk fasteignasala við milligöngu um fasteignaviðskipti. Ekkert liggur fyrir um að stefndi hafi gert slíkan samning um þjónustu sína, en hann hefur þó upplýst að hann hafi átt að taka við greiðslum á hluta kaupverðs Breiðahvarfs 11 og ráðstafa þeim í samræmi við áætlun og samkomulag sem áður er getið. Verður því lagt til grundvallar að á honum hafi hvílt allar skyldur sem  mælt var fyrir um í lögum nr. 99/2004, sbr. einkum reglur II. kafla laganna. Í því felst að samkvæmt 15. gr. þeirra bar honum að leysa af hendi störf sín svo sem góðar viðskiptavenjur buðu og liðsinna báðum, seljanda og kaupanda, og gæta réttmætra hagsmuna þeirra. Hann skyldi einnig gæta þess að aðila væru eigi settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir kostir í samningi. Engu breytir, miðað við framangreindar aðstæður, um lögbundnar skyldur stefnda og ábyrgð þótt þóknun hans kunni að hafa verið lægri en ella vegna þess að um vinargreiða hafi verið að ræða við áfrýjanda.   Samkvæmt samkomulagi áfrýjanda og maka hennar 16. maí 2013, sem stefndi samdi eins og áður greinir, var ráðgert að stefndi fengi í hendur um 14.000.000 krónur vegna uppgjörs í kjölfar sölu á Breiðahvarfi 11 og að hann skyldi ráðstafa þeim í samræmi við efni kaupsamninga um þá eign og Skerjabraut 9. Þegar allar nauðsynlegar greiðslur hefðu verið inntar af hendi skyldi hann greiða til áfrýjanda 3.400.000 krónur, en það sem þá væri eftir skyldi hann greiða til maka áfrýjanda. Málsaðila greinir á um það hvaða merkingu beri að leggja í orðin ,,að uppfylltum öllum nauðsynlegum greiðslum“ í samkomulagi áfrýjanda og maka hennar 16. maí 2013. Áfrýjandi telur að í því hafi falist að stefnda hafi borið að greiða niður lán til Íbúðalánasjóðs, sem flutt var af Breiðahvarfi 11 og á íbúðina að Skerjabraut 9, að því marki sem sjóðurinn gerði það að skilyrði fyrir veðflutningnum í samþykki hans frá 3. maí 2013. Áfrýjandi heldur því fram að það hafi verið forsenda samkomulagsins að þetta yrði gert og stefndi hafi vitað um samþykkið, enda útbúið skjölin um makaskiptin og önnur tengd skjöl. Hafi öllum verið ljóst það skilyrði Íbúðalánasjóðs að einungis mætti veðsetja íbúðina fyrir 80% af matsvirði hennar, sem var 21.500.000 krónur, og því hefði veðsetningin einungis geta verið 17.200.000 krónur. Samkvæmt þessu hefði stefnda borið að greiða til Íbúðalánasjóðs 6.053.149 krónur, sem hefði vantað upp á eftir að 4.500.000 krónur höfðu verið greiddar af láninu, sem samkvæmt heimildinni var uppreiknað 27.759.149 krónur. Ef stefndi hefði greitt 6.053.149 krónur af láninu hefði verið búið að greiða 10.553.149 krónur af því eins og sjóðurinn áskildi. Eins og fram er komið samdi stefndi skjalið með samkomulagi aðila, sem hér um ræðir. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 99/2004 hvíldi á honum sú skylda að vanda alla skjala- og samningsgerð og gera skjöl þannig úr garði að hagsmunir beggja væru tryggðir og réttarstaða hvors um sig væri glögg. Stefndi mótmælir því að sér hafi verið skylt að greiða af láninu til Íbúðalánasjóðs umfram þær 4.500.000 krónur sem áður höfðu verið greiddar. Hann verður að bera hallann af því að hafa ekki sýnt fram á að greiðsla af láninu til Íbúðalánasjóðs í samræmi við áskilnað sjóðsins um að greiða skyldi 10.553.149 krónur hafi ekki fallið undir orðin ,,öllum nauðsynlegum greiðslum“ í samkomulaginu. Samkvæmt öllu framansögðu hefur stefndi með því að inna af hendi greiðslur til maka áfrýjanda 8. og 15. ágúst 2013, áður en greitt væri í samræmi við áskilnað Íbúðalánasjóðs í heimild til veðflutnings, sýnt af sér saknæma háttsemi sem bakað hefur áfrýjanda tjón, sem nemur 6.053.149 krónum. Breyta þau mistök Íbúðalánasjóðs að framkvæma veðflutninginn án þess að greiðslan hafi farið fram engu í þessu sambandi, enda hvíldi á íbúðinni lán er var hærra sem síðastgreindri fjárhæð nemur og áfrýjandi bar ábyrgð á að greiða. Verður stefndi dæmdur til að bæta áfrýjanda þetta tjón, auk vaxta eins og í dómsorði greinir. Tekið er undir aðfinnslur héraðsdómara um að málatilbúnaður áfrýjanda í héraði hafi verið haldinn annmörkum. Skjöl vantaði og töluleg greinargerð um tjón áfrýjanda var ófullkomin. Málsástæðum, sem dómurinn er reistur á, var þó teflt fram í stefnu til héraðsdóms og við síðari meðferð málsins hefur verið bætt við skjölum þannig að málið telst nú nægilega upplýst. Er því ekki tilefni til að vísa málinu frá héraðsdómi. Stefndi greiði málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti á þann hátt sem í dómsorði greinir. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest. Dómsorð: Stefndi, Þórarinn Jónsson, greiði áfrýjanda, Guðrúnu Helgu Rúnarsdóttur, 6.053.149 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. ágúst 2013 til 7. september 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest. Stefndi greiði málskostnað í héraði, 850.000 krónur, sem renni í ríkissjóð og 800.000 krónur til áfrýjanda vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.                                                           Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 8. mars 2017 Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð þann 10. febrúar sl., er höfðað af Guðrúnu Helgu Rúnarsdóttur, Kristnibraut 73, 113 Reykjavík, með stefnu birtri 13. júní 2016 á hendur stefnda Þórarni Jónssyni, Grjótaseli 17, 109 Reykjavík og til réttargæslu Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, 103 Reykjavík. Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda, Þórarni Jónssyni, verði gert að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 7.800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 8. ágúst 2013 til 7. september 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda Þórarins að mati dómsins.  Ekki eru gerðar sérstakar kröfur á hendur réttargæslustefnda í málinu. Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda, og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður. Réttargæslustefndi gerir ekki sjálfstæðar kröfur en tekur undir kröfugerð stefnda. Ágreiningsefni og málsatvik Þann 16. maí 2013 var gerður kaupsamningur þar sem stefnandi, Guðrún Helga Rúnarsdóttir, seldi Þorvarði Kristjánssyni fasteign að Breiðahvarfi 11, 203 Kópavogi. Jafnframt var þá gerður kaupsamningur á milli sömu aðila, þar sem Þorvarður seldi stefnanda fasteign að Skerjabraut 9, 170 Seltjarnarnesi. Var því um svonefnda makaskiptasamninga að ræða en stefndi Þórarinn Jónsson (hér eftir stefndi), sem er lögmaður og löggiltur fasteignasali, kom a.m.k. óumdeilt sem fasteignasali að framangreindum makaskiptasamningum og söluferlinu fyrir stefnanda og þáverandi eiginmann hennar, Hlyn Arnar Gissurarson. Sama dag, 16. maí 2013, skráði stefndi enn fremur niður samkomulag það á milli stefnanda og fyrrum eiginmanns hennar, er liggur fyrir í málinu, og sem fjallar um innbyrðis uppgjör þeirra vegna framangreindra fasteignaviðskipta. Er þar vísað til fyrrgreindra kaupsamninga en efnislega kemur þar meðal annars fram að vísað sé til áætlunar um uppgjör vegna Breiðahvarfs 11 samkvæmt kaupsamningnum, en að samkvæmt tilvísaðri áætlun gæti mismunur orðið um 14.000.000 króna seljanda í hag þó að gera verði ráð fyrir að ýmsir kostnaðarliðir hafi tekið hækkunum. Þá kemur þar enn fremur fram, að aðilar samkomulagsins, sem hafi slitið samvistum, feli stefnda að taka við greiðslum vegna ofangreindra kaupsamninga og ráðstafa þeim í samræmi við efni þeirra og greiðsluáætlun þessa. Þá kemur einnig fram að aðilar samþykki að mismun þeim sem eftir standi, að uppfylltum öllum nauðsynlegum greiðslum, verði ráðstafað þannig að Guðrún fái 3.400.000 krónur en Hlynur það sem eftir standi. Þá kemur þar einnig fram að með þessu samkomulagi sé fjárskiptum viðkomandi aðila að fullu lokið og verði Guðrún þá ein eigandi Skerjabrautar 9. Hún beri því ein ábyrgð á því áhvílandi láni sem flutt verði af Breiðahvarfi 11. Uppgjörið fór síðan þannig fram að stefnandi fékk greiddar 3.400.000 krónur frá stefnda, en fyrrum eiginmaður hennar fékk eftirstöðvar söluandvirðis, 7.800.000 krónur, sem stefndi greiddi til hans þann 8. ágúst 2013 Ágreiningur málsaðila lýtur nú að því að stefnandi telur að stefndi hafi með ofangreindum greiðslum ráðstafað verulegum fjármunum til fyrrum eignmanns hennar umfram forsendur samkomulagsins. Tengist það því að við framkvæmd fasteignaviðskiptanna hafi átt sér stað afdrifarík mistök hjá lánveitanda, Íbúðalánasjóði, við veðlánaflutning á milli fasteignanna sem makaskipti voru höfð á. Sökum þessa hafi stefndi síðan fengið allt of háar fjárhæðir til ráðstöfunar á fjárvörslureikning sem hann hafi svo eftir sem áður ráðstafað eftir orðalagi þess samkomulags sem gert var. Þannig var að í undanfara viðskiptanna hvíldu á fasteign stefnanda, Breiðahvarfi 11, veðlán frá Íbúðalánasjóði sem voru þá í vanskilum, alls að upphæð 27.753.149 krónur, þann 2. maí 2013, en óumdeilt er að stefnandi sótti sjálf um veðflutning lánsins yfir á fasteignina að Skerjabraut 9, þann 11. apríl 2013. Samkvæmt reglum Íbúðalánasjóðs er þó aðeins heimilt að flytja lán á eign sem er 80% af verðmati hennar. Að beiðni Íbúðalánasjóðs hafði verðmat á Skerjabraut 9 verið framkvæmt 30. apríl 2013. Niðurstaða þess varð sú að matsverðið næmi 21.500.000 krónum og mátti lán Íbúðalánasjóðs, er flutt yrði á þá fasteign, því ekki vera hærra en 17.200.000 krónur, sbr. ákvörðun lánanefndar einstaklinga hjá Íbúðalánasjóði frá 2. maí 2013. Veðlánaflutningsskjal var síðan útbúið og lánið í kjölfarið fært yfir á Skerjabraut 9. Það var þó ekki greitt niður en nánar tiltekið var upphæð lánsins sem flutt var yfir á Skerjabraut 9 alls 27.753.149 krónur. Samkvæmt framansögðu braut veðlánaflutningurinn því gegn áðurnefndri reglu Íbúðalánasjóðs, en þau mistök að hafa heimilað þetta hafa verið viðurkennd af Íbúðalánsjóði, sbr. fyrirliggjandi bréf frá Íbúðalánasjóði frá 11. desember 2013. Íbúðalánasjóður ákvað þó að aðhafast ekki frekar í málinu þar sem stefnandi væri ein í þeirri aðstöðu að geta leiðrétt stöðu lánsins með greiðslu þess. Enn fremur liggur fyrir í málinu að eftir uppgreiðslu vanskila á veðláninu, alls um 4.500.000 krónur, sbr. bréf frá stefnda til stefnanda, dags 25. ágúst 2014, lækkaði lánið og stóð loks í 23.965.360 krónum miðað við 17. september 2013, sbr. fyrirliggjandi tölvubréf frá Íbúðalánasjóði til stefnda þann dag.   Bú fyrrum eiginmanns stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta í mars 2014, án þess að greiðslur fengjust upp í lýstar kröfur. Stefnandi sendir þá kröfubréf, 7. ágúst 2014, til stefnda Þórarins og krefst bóta. Þórarinn svaraði með bréfi 25. ágúst 2014, þar sem hann hafnar bótaskyldu. Stefnandi sendi einnig kröfubréf til réttargæslustefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf., 13. ágúst 2014, þar sem gerð var krafa vegna starfsábyrgðartryggingar stefnda, Þórarins. Sjóvá-Almennar tryggingar hf. höfnuðu þeirri kröfu með bréfi dags. 14. október 2014. Stefnandi skaut ákvörðun Sjóvár-Almennra trygginga hf. í kjölfarið til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem hafnaði því í úrskurði nr. 360/2015, dags 10. nóvember 2015, að stefnandi ætti rétt á skaðabótum úr starfsábyrgðartryggingu fasteignasala eða starfsábyrgðartryggingu lögmanna sem stefndi, Þórarinn, hefði haft hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Ágreiningur málsaðila snýst nú einkum um það að lánið sem flutt var yfir á Skerjabraut 9 hafi vegna mistaka reynst miklum mun hærra en þær 17.200.000 krónur er stefnandi telur að hafi verið grundvallarforsenda fyrrgreinds samkomulags frá 16. maí 2013 um uppgjör hennar og fyrrum eignmanns hennar. Enn fremur að þrátt fyrir framangreind mistök Íbúðalánasjóðs hafi stefndi ákveðið, án nokkurs samráðs við stefnanda, að greiða fyrrum eiginmanni hennar eftirstöðvar mismunarins á söluverði Breiðahvarfs 11 og Skerjabrautar 9, í heild, þ.e.a.s., 7.800.000 krónur. Lítur stefnandi svo á að stefndi hafi í framangreindum viðskiptum komið fram gagnvart henni bæði sem löggiltur fasteignasali og lögmaður hennar. Hafi stefnda því borið að greiða lánið niður í umræddar 17.200.000 krónur, sem hann hafi ekki gert og þannig hafi hann ekki gætt hagsmuna stefnanda eins og vera bar. Af hálfu stefnda er þessu hafnað og vísað til þess að stefndi hafi komið jafnt fram gagnvart aðilum sem fasteignasali, auk þess að hafa eingöngu framkvæmt nákvæmlega það ofangreinda samkomulag sem gert hafi verið af stefnanda og fyrrum eiginmanni hennar. Stefndi hafi af greiðasemi skráð umrætt tvíhliða samkomulag niður fyrir þau, án þess að hafa þekkt sérstaklega þær forsendur sem stefnandi leggi nú til grundvallar í máli þessu. Málsástæður og lagarök af hálfu stefnanda Byggt sé á því að stefndi hafi séð um gerð kaupsamninga og söluferlið í heild, fyrir stefnanda við makaskiptin á Breiðahvarfi 11 og Skerjabraut 9. Samhliða hafi stefndi útbúið samkomulag stefnanda og fyrrum eiginmanns hennar um skipti tengd viðskiptunum. Samkvæmt samkomulaginu um fjárskipti og þeim grundvallarforsendum sem það hafi byggt á, hafi stefnandi átt að fá 3.400.000 krónur auk íbúðarinnar á Skerjabraut 9. Þá hafi stefnandi átt að bera ábyrgð á láni frá Íbúðalánasjóði, nr. 1004-74-504530, að því marki sem það yrði flutt á Skerjabraut 9 í samræmi við lánareglur Íbúðalánasjóðs og ákvörðun lánanefndar einstaklinga, frá 2. maí 2013. Upphæð lánsins við veðflutning hafi átt að vera 17.200.000 krónur. Samkvæmt samkomulaginu hafi eiginmaður stefnanda svo átt að fá það er eftir stæði af mismun á söluverði Breiðahvarfs 11 og Skerjabrautar 9. Lánið sem flutt hafi verið á Skerjabraut 9 hafi reynst miklu hærra en 17.200.000 krónur, sem stefnandi telji að hafi verið forsenda samkomulagsins, en nánar tiltekið hafi upphæð lánsins verið 27.753.149 krónur. Mistökin hafi verið viðurkennd skriflega af Íbúðalánsjóði. Þrátt fyrir mistökin hafi stefndi ákveðið að greiða fyrrum eiginmanni stefnanda allar eftirstöðvar mismunar á söluverði Breiðahvarfs 11 og Skerjabrautar 9 í heild, eða 7.800.000 krónur. Stefnda hafi verið fyllilega ljóst að greiðslan á eftirstöðvunum í heild myndi leiða til þess að fyrrum maki stefnanda fengi talsvert meira í sinn hlut en stefnandi sem væri í andstöðu við upphaflegt samkomulag og þær grundvallarforsendur sem það hafi byggt á. Háttsemi stefnda sé saknæm, enda hafi honum mátt vera fullkunnugt að umrædd greiðsla hafi átt að renna til stefnanda, sbr. samkomulagið sem stefndi hafði samið. Stefndi hafi komið fram í málinu bæði sem löggiltur fasteignasali og lögmaður, sem hafi í för með sér strangara sakarmat með hliðsjón af reglum um sérfræðiábyrgð. Ekki hafi verið haft samráð við stefnanda áður en stefndi innti greiðsluna af hendi til fyrrum eiginmanns stefnanda. Tjónið hafi svo orðið endanlegt þegar gjaldþrotaskiptum hafi lokið á búi hans í mars 2014, án þess að nokkuð hafi fengist greitt upp í kröfur. Þá hafi orðið ljóst að stefnandi gæti ekki endurheimt þar þá fjármuni sem stefndi hafi ranglega ráðstafað. Stefndi hafi með framangreindu saknæmu hátterni bakað sér skaðabótaábyrgð, en tjón stefnanda nemi 7.800.000 krónum sem greiddar hafi verið fyrrum eiginmanni hennar, en hafi átt að nýtast til þess að greiða niður lán Íbúðalánasjóðs nr. 1004-74-504530, sem flutt var á Skerjabraut 9, í samræmi við forsendur samkomulags aðila. Sjóvá-Almennum tryggingum hf. sé hér stefnt til réttargæslu þar sem stefndi hafi verið með starfsábyrgðartryggingu hjá félaginu. Vísist til almennra reglna skaðabótaréttar og laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, en um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Málsástæður og lagarök af hálfu stefndu Stefndu hafni kröfum stefnanda en vísi til fyrirliggjandi úrskurðar úrskurðarnefndar í vátryggingamálum frá 10. nóvember 2015 í máli nr. 360/2015. Stefndu byggi sýknukröfu einkum á því að stefndi, Þórarinn, hafi ekki sýnt af sér saknæma eða gáleysislega hegðun við ráðstöfun greiðslnanna. Stefndi hafi ekki tekið að sér að gæta hagsmuna stefnanda sem lögmaður. Eina hlutverk stefnda samkvæmt samkomulaginu hafi verið að taka við greiðslum og ráðstafa söluandvirði til stefnanda og þáverandi eiginmanns hennar í samræmi við efni þess. Í samkomulaginu sé skýrt kveðið á um að 3.400.000 krónum skyldi ráðstafa til stefnanda en eftirstöðvum greiðsluandvirðis skyldi ráðstafa til fyrrum eiginmanns hennar. Aðkoma stefnda að samkomulaginu hafi einskorðast við að taka saman óskir stefnanda og þáverandi eiginmanns hennar um ráðstöfun söluandvirðis eignar að Breiðahvarfi 11, eins og þau hafi þá verið búin að sammælast um, og færa þær yfir á skriflegt form. Hvorki verksamningur né reikningur hafi verið gerður fyrir þessu. Sölureikningur að fjárhæð 237.195 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, beri með sér að um hafi verið að ræða greiða sölumanns fasteignar við stefnanda og þáverandi eiginmann hennar. Stefndi hafi ekki sinnt lögmannsstörfum fyrir stefnanda. Hann hafi einungis komið að málinu sem fasteignasali í tengslum við fasteignina að Breiðahvarfi 11 og hafi honum af þeim sökum ekki borið skylda til að gæta hagsmuna stefnanda umfram annarra, að því frátöldu að ráðstafa greiðslu eftir efni samkomulagsins. Ekki hafi legið fyrir að það væri grundvallarforsenda að umrætt lán myndi nema 17.200.000 krónum eftir veðflutninginn. Stefndi hafi enga vitneskju haft um það hvernig fjárfélagi stefnanda og fyrrum eiginmanns hennar hafi annars verið háttað og því ekki getað getið sér til um það hvernig þær forsendur hafi legið til grundvallar því samkomulagi sem hann hafi verið beðinn um að setja á blað fyrir þeirra hönd. Í samkomulaginu komi hvergi fram að eftirstöðvar lánsins hjá Íbúðalánasjóði ættu að nema framangreindri fjárhæð í kjölfar veðflutningsins. Bendi öll gögn málsins til þess að einungis hafi staðið til að greiða upp vanskil á viðkomandi láni, eins og venja sé til, sem hafi numið um 4.500.000 krónum. Í samkomulaginu komi fram að mismunur til seljanda geti numið 14.000.000 króna fyrir allar nauðsynlegar greiðslur. Greiðslur til stefnanda og eiginmanns hennar hafi verið í samræmi við þetta. Við samningsgerð hafi hvorki komið fram krafa frá stefnanda um greiðslu inn á lánið hjá Íbúðalánasjóði umfram greiðslu vanskila né verið gerður fyrirvari um fjárhæð lánsins í samkomulaginu. Því standist ekki sú meinta grundvallarforsenda að stefnda hafi átt að vera ljóst að lánið ætti að standa í 17.200.000 krónum, eftir veðflutning. Stefndi hafi ekki komið að því að flytja veðlánið yfir á Skerjabraut 9, heldur hafi stefnandi séð um það sjálf. Við beiðni stefnanda til Íbúðalánasjóðs um veðflutning hafi henni verið gert ljóst að lánanefnd einstaklinga gerði kröfu um greiðslu inn á lánið svo að af veðflutningi yrði, sbr. bréf frá Íbúðalánasjóði dags. 11. desember 2013. Stefnandi hafi sjálf starfað sem fasteignasali og hafi því átt að vera kunnugt um þau atriði sem um ræðir. Lánsupphæðin hafi verið henni ljós við gerð samkomulagsins á milli hennar og fyrrum eiginmanns hennar, en þá hafi lánið staðið í 27.753.149 krónum. Engin krafa hafi verið gerð um greiðslu á öðru en vanskilum láns eins og venjulegt sé. Stefnanda hafi því átt að vera ljóst hvernig veðflutningurinn færi fram og afleiðingar af honum eins og hann hafi legið fyrir á þeim tíma sem samkomulagið hafi verið gert. Ekki hafi verið sýnt fram á gáleysislega hegðun stefnda Þórarins. Ekki hafi legið fyrir sú grundvallarforsenda við samkomulagið að lánið myndi standa í 17.200.000 krónum, heldur bendi gögn málsins til hins gagnstæða. Stefnandi hafi sjálf séð um veðflutning og henni því verið fyllilega ljóst við gerð samkomulagsins hver upphæð lánsins hafi verið, ásamt því að það hafi verið undir henni og þáverandi eiginmanni hennar komið að greiða lánið niður áður en af veðflutningnum yrði. Ef svo ólíklega færi að ekki yrði fallist á sýknukröfu stefndu, þá sé þess krafist til vara að bætur beri að lækka verulega í ljósi þess að stefnandi yrði betur sett ef kröfur hennar yrðu teknar til greina en ef meintur tjónsatburður hefði ekki átt sér stað. Því sé haldið fram af hálfu stefnanda að lánsupphæð eftir veðflutning nemi 17.200.000 krónum eftir greiðslu vanskila en eftir greiðslu vanskila og veðflutning standi lánið í rúmum 23.000.000 króna. Ef nú kæmi til greiðslu á 7.800.000 krónum stæði lánið í rúmum 15.200.000 krónum, sem sé umtalsvert lægri fjárhæð en upphaflega hafi verið lagt upp með samkvæmt ætluðum forsendum stefnanda. Beri því a.m.k. að lækka kröfur stefnanda umtalsvert til samræmis við það. Stefndu vísi til almennra reglna skaðabótaréttar, þá einkum um sönnun tjóns, sönnunarbyrði og orsakatengsl, sem og til laga um vexti og verðtryggingu nr. 26/2001, en málskostnaðarkrafa sé byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Niðurstaða. Skaðabótakrafa stefnanda gagnvart stefnda í máli þessu grundvallast á því að stefndi hafi sem lögmaður stefnanda staðið að gerð fyrirliggjandi samkomulags hennar og fyrrum eiginmanns hennar, dags 16. maí 2013, um uppgjör vegna framangreindra fasteignaviðskipta hennar sama dag. Óumdeilt er að stefndi sá, sem fasteignasali, um sölu á Breiðahvarfi 11 í Kópavogi og kaup á Skerjabraut 9 á Seltjarnarnesi. Þá er byggt á því af hálfu stefnanda að stefnda hafi einnig verið kunnugt um, eða a.m.k. mátt vera ljósar, þær forsendur samkomulagsins frá 16. maí 2013 að ekki ætti að flytja hærri veðskuldir yfir á hina keyptu fasteign að Skerjabraut 9 en sem næmu 17.200.000 krónum. Það er sú upphæð sem lánanefnd einstaklinga hafði heimilað að hámarki með ákvörðun dags 2. maí 2013, eða um tveimur vikum fyrir gerð samkomulagsins, en fyrir liggur að vegna mistaka Íbúðalánasjóðs átti sér stað veðflutningur á láni að fjárhæð 27.753.149 króna sem, eftir greiðslu vanskila, stóð loks í 23.965.360 krónum. Hafi stefndi engu að síður, eftir að mistök við veðflutning lánsins lágu fyrir, og án samráðs við stefnanda, ráðstafað 7.800.000 krónum til fyrrum eiginmanns hennar og þannig að mati stefnanda valdið henni tjóni með saknæmum hætti, en skiptum á búi fyrrum eiginmanns hennar hafi lokið í mars 2014 án þess að nokkuð fengist upp í kröfur. Fallist er á með stefnanda að við sakarmat verði hér að miða við að hvílt hafi ríkar skyldur á stefnda gagnvart stefnanda, bæði sem löggiltum fasteignasala í tengslum við ofangreind fasteignaviðskipti og sem lögmanni sem annaðist um gerð samkomulags stefnanda og fyrrum eiginmanns hennar um uppgjör greiðslna vegna þeirra viðskipta, sbr. II. kafla og þá einkum 27. gr. þágildandi laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, sem nú hafa verið leyst af hólmi með lögum nr. 70/2015, og IV. kafla og þá einkum 25. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Enn fremur verður að fallast á með stefnanda að ekki geti haft hér þýðingu þær viðbárur stefndu, að stefndi geti að einhverju leyti firrt sig faglegri ábyrgð á þeim forsendum að hann hafi þegið lága söluþóknun vegna fasteignaviðskiptanna, eða að gerð samkomulagsins frá 16. maí 2013 hafi verið vinargreiði, enda liggur fyrir að umrætt samkomulag stefnanda og fyrrum eiginmanns hennar um uppgjör er skráð af stefnda sem lögmanni og löggiltum fasteignasala og vottað af honum sem slíkt. En þrátt fyrir framangreint verður að fallast á með stefndu að ekki þyki þó vera sýnt hér fram á annað en að hlutverk stefnda við gerð ofangreinds samkomulags um uppgjör dags. 16. maí 2013 hafi falist í öðru en formlegri skjalagerð og því að taka saman óskir stefnanda og fyrrum eiginmanns hennar um ráðstöfun þeirra fjármuna sem ætla mátti að kæmu í hlut þeirra hvors um sig við fasteignaviðskiptin sama dag. Þá verður ekki séð, sé litið til orðalags samkomulagsins um uppgjör frá 16. maí 2013 að í því felist, svo sem lýst hefur verið, nokkur skilyrði um að hámarksfjárhæð veðláns sem flytja átti yfir á Skerjabraut 9 yrði að vera 17.200.000 krónur, eða að slíkt hámark væri grundvallarforsenda af hálfu stefnanda fyrir gerð samkomulagsins. Ekki verður heldur ráðið af öðrum gögnum í málinu að stefndi hafi vitað eða mátt ætla að slík forsenda fyrir framkvæmd samkomulagsins samkvæmt efni þess væri fyrir hendi.  Verður þá einkum að líta til þess, að ætla verður að sú niðurstaða sem í reynd varð á framangreindum veðflutningi og sem óumdeilt er að lá í reynd fyrir nokkru fyrir gerð samkomulagsins 16. maí 2013, hafi þá eins og málum var háttað mátt vera stefnanda allt eins kunnug og stefnda. Fyrir liggur að stefnandi, sem hefur áður starfað við sölu fasteigna, annaðist í reynd sjálf um samskiptin í tengslum við umræddan veðflutning og sótti um flutning á öllu veðláninu, sbr. fyrirliggjandi bréf frá lögmanni Íbúðalánasjóðs frá 11. desember 2013. Ekkert liggur þó fyrir um að stefnandi hafi gert nokkra athugasemd við stefnda um sérstaka þýðingu þessa atriðis áður en hún og fyrrum eiginmaður hennar afréðu að ganga frá samkomulaginu 16. maí 2013. Enn fremur verður að líta til þess að stefnandi virðist nú af einhverjum ástæðum hafa afráðið að leggja ekki fram hér fyrir dómi þá áætlun sem ætla verður að vísað sé til í samkomulaginu frá 16. maí 2013, né heldur skilyrt veðleyfi sem gefið hafi verið út í tengslum við gerð samkomulagsins, til að varpa frekara ljósi á ætlaðar forsendur aðila. Skjöl þessi virðast þó hafa verið lögð fram fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum í máli stefnanda gagnvart réttargæslustefnda nr. 360/2015, en úrskurður nefndarinnar er lagður fram fyrir dómi. Kemur þar m.a. fram að fyrir liggi skilyrt veðleyfi, dags 16. maí 2013, sem gefi til kynna að einungis hafi átt að greiða upp vanskil af láninu, er numið hafi um 4.500.000 krónum. Að öðru leyti er óljóst hverjar máttu vera frekari forsendur eða vitneskja stefnda í þessu sambandi og verður stefnandi við svo búið að bera halla af því að þessi gögn varpi ekki frekara ljósi á það. Með hliðsjón af framangreindu verður því að líta svo á að ósannað sé að stefnda hafi mátt vera ljós sú forsenda stefnanda fyrir gerð og framkvæmd samkomulags hennar og fyrrum eiginmanns hennar, dags 16. maí 2013, sem stefndi skráði niður með aðilum samkomulagsins, að veðlán sem flutt var yfir á Skerjabraut 9 yrði að vera að hámarki 17.200.000 krónur, en ekki þeirrar fjárhæðar sem þá lá fyrir að það væri. Að framangreindu virtu verður því ekki fallist á þann bótagrundvöll af hálfu stefnanda að meta verði það stefnda til vanrækslu að hafa framkvæmt umrætt samkomulag eins og það lá fyrir samkvæmt efni þess, en engar athugasemdir virðast heldur hafa verið gerðar af hálfu stefnanda gagnvart stefnda áður en kom til greiðslu stefnda til eiginmanns hennar, svo seint sem 8. ágúst 2013, samkvæmt fyrirliggjandi yfirliti af fjárvörslureikningi vegna sölunnar á Breiðahvarfi 11. Þá verður heldur ekki séð að stefndi hafi á annan hátt sýnt af sér bótaskylda vanrækslu sem leitt hafi til þess að stefnandi hafi orðið af þeim fjármunum sem hún kveðst hafa haft væntingar um að kæmu í hennar hlut við ofangreind viðskipti.  Loks ber að geta þess að þótt þegar liggi fyrir að ekki teljist sannað að stefndi hafi í reynd sýnt af sér bótaskylda háttsemi gagnvart stefnanda í tengslum við framangreind viðskipti, þá ber enn fremur að geta þess að tölulegri framsetningu af hálfu stefnanda á ætluðu tjóni hennar í ljósi stefnukröfunnar er áfátt, og fer hún sem slík í bága við áskilnað e- og g-liðar 1. töluliðar, 80. gr. laga nr. 91/1991.  Með hliðsjón af öllu framangreindu ber því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda. Eins og mál þetta er vaxið þykir þó rétt að málskostnaður á milli aðila falli niður.       Stefnandi hefur lagt fram gjafsóknarleyfi samkvæmt bréfi innanríkisráðuneytisins dags. 11. febrúar 2016. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, sem ákvarðast 850.000 krónur, greiðist því úr ríkissjóði, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Málið flutti Magnús Davíð Norðdahl hdl., fyrir hönd stefnanda, en fyrir stefndu flutti málið Birgir Már Björnsson hdl., fyrir hönd Guðjóns Ármannssonar hrl. Pétur Dam Leifsson, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn. Dómarinn tók við meðferð málsins 23. janúar sl. en hafði fram til þess engin afskipti að meðferð þess. D ó m s o r ð Stefndi, Þórarinn Jónsson, er sýkn af kröfu stefnanda, Guðrúnar Helgu Rúnarsdóttur. Málskostnaður milli aðila fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 850.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 267/2017
Verksamningur Verklaun Matsgerð Sönnun
Aðilar deildu um sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu S ehf. við hönnun reiðhallar fyrir H. Hafði S ehf. gert tvo reikninga vegna vinnu sinnar og hafði H greitt fyrri reikninginn en hafnað þeim síðari. Eftir að máli sem S ehf. hafði höfðað til greiðslu síðari reikningsins hafði verið vísað frá dómi, aflaði félagið matsgerðar dómkvaddra manna um það hvað væri eðlilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir hönnunarvinnu sína. Þá aflaði H mats sömu matsmanna á því hve mörgum vinnustundum mætti ætla að S ehf. hefði varið í hönnunina. Að matsgerðinni fenginni höfðaði S ehf. að nýju mál á hendur H og krafðist aðallega greiðslu fjárhæðar í samræmi við niðurstöðu hennar, en til vara samkvæmt hinum ógreidda reikningi. Héraðsdómur féllst á með hinum dómkvöddu matsmönnum að S ehf. hefði unnið sem næmi 76% af heildarhönnun verksins. Þá var það niðurstaða dómsins að telja mætti að S ehf. hefði varið 800 vinnustundum í verkið og að eðlilegt tímagjald væri 15.500 krónur með virðisaukaskatti. Að teknu tilliti til reikningsins sem H hafði þegar greitt var hann því dæmdur til að greiða S ehf. 9.890.000 krónur. Í niðurstöðu sinni vísaði Hæstiréttur meðal annars til þess að með matsgerðinni hefði S ehf. freistað þess að leggja frekari grunn að kröfu sinni á hendur H. Að öllu virtu taldi rétturinn ekki unnt að vefengja mat héraðsdóms á því í hvaða mæli skyldi horft til matsgerðarinnar við úrlausn málsins. Yrði því lagt til grundvallar að S ehf. hefði ekki rennt fullnægjandi stoðum undir kröfur sínar. Hins vegar hefði H krafist staðfestingar héraðsdóms fyrir sitt leyti og með því viðurkennt að S ehf. ætti kröfu á hendur honum sem næmi að lágmarki þeirri fjárhæð sem þar var dæmd. Var hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
                                                        Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Eggert Óskarsson fyrrverandi héraðsdómari. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. apríl 2017. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, til vara að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 26.009.380 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. mars 2015 til greiðsludags, en að því frágengnu að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 14.432.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 1. apríl 2013 til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 12. júlí 2017. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað og að aðaláfrýjanda verði aðallega gert að greiða sér málskostnað í héraði, en til vara að hann verði felldur niður. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi virðist ágreiningslaust að aðaláfrýjandi hafi tekið að sér vinnu við hönnun reiðhallar fyrir gagnáfrýjanda að Kjóavöllum í Kópavogi. Sömuleiðis er óumdeilt að ekki var gerður skriflegur samningur milli málsaðila um þá vinnu. Aðilar deila á hinn bóginn um hvað sé sanngjarnt endurgjald fyrir vinnuframlag aðaláfrýjanda. Fyrir liggur að aðaláfrýjandi gerði gagnáfrýjanda reikning 1. september 2012 að fjárhæð 2.510.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Samkvæmt reikningnum var um að ræða innborgun vegna hönnunar reiðhallarinnar. Gagnáfrýjandi greiddi þann reikning 12. september sama ár. Þann 1. mars 2013 gerði aðaláfrýjandi annan reikning vegna vinnu sinnar við hönnun reiðhallarinnar. Nam fjárhæð þess reiknings 14.432.500 krónum eða sem svaraði 13.500.000 krónum auk virðisaukaskatts en að teknu tilliti til framangreindrar innborgunar gagnáfrýjanda. Samkvæmt framburði fyrirsvarsmanns aðaláfrýjanda fyrir héraðsdómi voru við gerð reikningsins lagðar til grundvallar reglur Arkitektafélags Íslands og hönnunarkostnaðurinn miðaður við íþróttahús af einföldustu gerð án áhorfendabekkja. Samkvæmt því væri heildarkostnaður hönnunar vegna reiðhallarinnar 36.227.300 krónur, en af þeirri fjárhæð skyldi gagnáfrýjanda veittur 40% afsláttur. Þeim útreikningi hafi gagnáfrýjandi hafnað. Hafi aðaláfrýjandi þá lýst yfir vilja sínum að veita 25% afslátt til viðbótar, en því hafi gagnáfrýjandi einnig hafnað. Hafi aðaláfrýjandi því loks sent gagnáfrýjanda áðurgreindan reikning að fjárhæð 14.432.500 krónur. Með bréfi 12. mars 2013 hafnaði gagnáfrýjandi efni reikningsins og krafðist þess að aðaláfrýjandi legði fram tímaskýrslur svo meta mætti sanngjarnt endurgjald vegna verksins. Hinn 19. júní 2013 höfðaði aðaláfrýjandi mál á hendur gagnáfrýjanda fyrir Héraðsdómi Reykjaness og gerði þá kröfu að honum yrði gert að greiða sér fjárhæð umrædds reiknings. Með úrskurði 13. febrúar 2014 var málinu vísað frá dómi sökum vanreifunar stefnukröfu en hvorki væri mögulegt að dæma aðaláfrýjanda hina umkröfðu fjárhæð í heild eða hluta. Með dómi 13. mars 2014 í máli nr. 157/2014 staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu. Í dóminum vísaði rétturinn til þess að á umræddum reikningi hefði sú eina skýring komið fram að hann væri um þóknun fyrir hönnun á reiðhöll og félagsaðstöðu við Kjóavelli. Hefði aðaláfrýjandi ekki skýrt frekar með viðhlítandi hætti grundvöll reikningsins, hvorki í tengslum við framvísun hans né undir rekstri málsins. Gæti slíkur reikningur því ekki einn út af fyrir sig varpað á gagnáfrýjanda sönnunarbyrði fyrir því að gangverð slíkrar þjónustu, sem aðaláfrýjandi veitti, hafi að réttu lagi verið annað en lagt væri til grundvallar í reikningnum, sbr. 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Málavöxtum er að öðru leyti lýst í hinum áfrýjaða dómi. II Hinn 29. ágúst 2014 voru dómkvaddir í Héraðsdómi Reykjaness tveir menn samkvæmt beiðni aðaláfrýjanda til þess að „skoða og meta sanngjarna þóknun matsbeiðanda fyrir hönnun og teikningu á reiðhöllinni að Kjóavöllum í Kópavogi“. Óskaði aðaláfrýjandi á annan bóginn svara við því hvert væri „eðlilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir heildararkitektahönnun matsbeiðanda á reiðhöllinni að Kjóavöllum“ og á hinn bóginn hvert væri „eðlilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir breytingar á áður samþykktum teikningum, frá 11. desember 2012, eftir óskum matsþola“. Var í báðum tilvikum óskað svara annars vegar miðað við verðlag í mars 2013 og hins vegar þegar matið færi fram. Hinn 27. nóvember 2014 var í Héraðsdómi Reykjaness tekin fyrir matsbeiðni gagnáfrýjanda, þar sem hann óskaði eftir því að dómkvaddir yrðu tveir menn til að meta, miðað við þrjú nánar tilgreind tímabil, þann stundafjölda „sem ætla má að matsbeiðandi ...  hafi verið í verkefni sínu við hönnun reiðhallar þeirrar, sem nú hefur risið að Kjóavöllum í Kópavogi“ og „hvert hefði verið hæfilegt tímagjald arkitekts fyrir vinnu af þeim toga sem um ræðir í málinu“. Til að sinna hinu umbeðna mati voru dómkvaddir sömu menn og höfðu verið dómkvaddir samkvæmt matsbeiðni aðaláfrýjanda, en aðilar sammæltust um að matsmenn myndu skila einni matsgerð. Hinir dómkvöddu menn skiluðu matsgerð 20. janúar 2015. Hvað varðaði matsbeiðni aðaláfrýjanda var það niðurstaða þeirra að aðaláfrýjandi hefði lokið sem næmi 76% af verkþáttum við hönnun reiðhallarinnar. Þá vísuðu matsmenn til leiðbeinandi reglna félags sjálfstætt starfandi arkitekta og töldu rétt að skoða hönnunarþóknun vegna reiðhallarinnar út frá flokki 3 í reglunum. Að teknu tilliti til stærðar hallarinnar töldu matsmenn rétt að miða við að arkitektahönnun næmi 0,6 tímum á hvern fermetra, þannig að heildarvinnuframlag arkitekts væri 2.421 tími. Lögðu matsmenn til grundvallar tímagjaldið 12.500 krónur og að heildarþóknun vegna verksins næmi 30.262.500 krónum. Miðað við að aðaláfrýjandi hefði unnið 76% af heildarhönnun reiðhallarinnar skyldi heildarþóknun hans, að frátöldum virðisaukaskatti, nema 22.999.500 krónum miðað við janúar 2015. Að teknu tilliti til virðisaukaskatts og fyrrgreindrar innborgunar gagnáfrýjanda að fjárhæð 2.510.000 krónum, næmi fjárhæðin 26.009.308 krónum. Var heildarþóknunin metin litlu lægri miðað við verðlag í mars 2013. Hvað varðaði matsspurningar gagnáfrýjanda þá svöruðu matsmenn þeim með vísan til sömu forsendna og þeir höfðu lagt til grundvallar í svörum sínum við matsspurningum aðaláfrýjanda. Varð það niðurstaða þeirra að sá stundafjöldi sem ætla mætti að aðaláfrýjandi hefði varið í hönnun reiðhallarinnar næmi 1.840 tímum, með hliðsjón af því að útreiknaður heildarhönnunartími hennar væri 2.421 tími og að aðaláfrýjandi hefði innt af hendi 76% af þeirri vinnu. Matsspurningum gagnáfrýjanda um hæfilegt tímagjald arkitekts fyrir vinnu af þeim toga sem um ræddi á nánar tilgreindum tímabilum var svarað með sama hætti. Var lagt til grundvallar að útseld vinna arkitekts með yfir 30 ára reynslu hefði numið 12.500 krónum í janúar 2015 þegar matið fór fram. Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi var annar matsmanna inntur eftir því hvort kannað hefði verið hve marga tíma fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda hefði unnið að verkefninu. Svaraði hann því til að það hefði ekki verið nokkur leið því „hann hélt aldrei neinar dagbækur yfir þennan tíma“. Aðspurður hvort kallað hefði verið eftir slíkum gögnum svaraði matsmaðurinn „já mig minnir það“ en að þau hefðu ekki fengist. Er þetta í samræmi við framburð fyrirsvarsmanns aðaláfrýjanda fyrir dómi, en aðspurður svaraði hann því neitandi hvort til væru gögn um tíma sem varið hefði verið til verkefnisins því um hafi verið að ræða „rúmmálsverkefni“ og menn sem ynnu eftir slíku viðmiði væru ekki í „tímavinnu“. Verður ennfremur ráðið af framburði hans að hvorki hafi verið gerður samningur um verkið né hefði tilboð legið því til grundvallar. III Líkt og áður greinir var því hafnað með dómi Hæstaréttar í máli nr. 157/2014 að aðaláfrýjandi gæti með reikningi þeim er hann gaf út vegna verksins varpað á gagnáfrýjanda sönnunarbyrði fyrir því að gangverð slíkrar þjónustu hafi að réttu lagi verið annað en þar var lagt til grundvallar. Með matsgerð þeirri sem áður er lýst freistaði aðaláfrýjandi þess að leggja frekari grunn að kröfu sinni á hendur gagnáfrýjanda. Miðar hann aðalkröfu sína við niðurstöðu matsgerðarinnar og krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 26.009.308 krónur ásamt tilgreindum dráttarvöxtum.  Í matsbeiðni aðaláfrýjanda var matsmönnum falið að meta hvað væri eðlilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir heildararkitektahönnun aðaláfrýjanda á nefndri reiðhöll. Við þann starfa lögðu þeir aftur á móti ekki mat á raunverulegt vinnuframlag aðaláfrýjanda heldur hvað væri almennt hæfileg hönnunarþóknun fyrir byggingu sem þeir mátu sambærilega og tóku í þeim efnum mið af leiðbeinandi reglum félags sjálfstætt starfandi arkitekta. Gagnáfrýjandi óskaði aftur á móti eftir mati á því hve mörgum stundum mætti ætla að aðaláfrýjandi hefði varið við hönnun reiðhallarinnar. Svör matsmanna við þeirri spurningu tóku á hinn bóginn mið af sömu forsendum og lagðar voru til grundvallar svörum þeirra við matsspurningum aðaláfrýjanda, en líkt og áður greinir staðfesti fyrirsvarsmaður hans fyrir dómi að engin tímaskrá hefði verið haldin um verkið. Við meðferð málsins í héraði voru matsmenn nánar spurðir um forsendur og niðurstöður sínar. Kom meðal annars fram hjá öðrum þeirra að sú aðferðarfræði að miða við rúmmetra, sem fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda kvaðst hafa miðað við er hann verðlagði störf sín, væri ekki rétt og tíðkaðist ekki lengur. Í hinum áfrýjaða dómi er niðurstaða matsgerðar rakin sem og nokkur af svörum matsmanna um hana. Í forsendum dómsins er því lýst að ekki verði byggt á framangreindum viðmiðunarreglum sem matsmenn lögðu til grundvallar mati sínu við spurningu aðaláfrýjanda um hvert sé eðlilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu aðaláfrýjanda. Þó reisir héraðsdómur niðurstöður sínar á matsgerðinni að hluta til, meðal annars um að 76% af heildarhönnun verksins hafi verið unnin af aðaláfrýjanda. Þá miðar héraðsdómur við sambærilegt tímagjald og matsmenn. Dómurinn hafnar því hins vegar með vísan til tilgreindra atriða að tímafjöldi sá sem miðað er við í matsgerð geti samræmst gögnum málsins. Eins og áður greinir er í forsendum héraðsdóms að nokkru rakið hvaða þættir við verkið hafi haft mesta þýðingu fyrir niðurstöðu um kröfur aðaláfrýjanda. Verður ekki annað ráðið en að við úrlausn héraðsdóms á sönnunargildi matsgerðar hafi hann litið til atriða sem með einum eða öðrum hætti komu til umfjöllunar í málatilbúnaði aðila við meðferð málsins. Verður því ekki fallist á með aðaláfrýjanda að hinn áfrýjaði dómur sé haldinn slíkum annmörkum að ómerkingu varði. Samkvæmt þeim atriðum sem rakin hafa verið um efni máls og meðferð þess verður ekki vefengt mat héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, um það í hvaða mæli skuli horft til matsgerðar við úrlausn málsins, sbr. 1. mgr. 44. gr. og 2. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður því lagt til grundvallar að aðaláfrýjandi hafi ekki rennt fullnægjandi stoðum undir kröfur sínar á hendur gagnáfrýjanda sem hins vegar hefur fyrir sitt leyti krafist staðfestingar héraðsdóms og með því viðurkennt að aðaláfrýjandi eigi kröfu á hendur honum sem nemi að lágmarki þeirri fjárhæð sem þar var dæmd. Verður hinn áfrýjaði dómur samkvæmt öllu þessu staðfestur. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal hvor aðila bera sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. febrúar 2017.                 Mál þetta var höfðað 12. janúar 2016 og dómtekið 31. janúar 2017. Stefnandi er Sveinn Ívarsson ehf., Grundarhvarfi 9, Kópavogi. Stefndi er Hestamannafélagið Sprettur, Kjóavöllum, Kópavogi. Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 26.009.380 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. mars 2015 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda 14.432.500 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2013 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað. Stefndi krafðist þess aðallega að máli þessu yrði vísað frá dómi og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda. Til vara krafðist stefndi þess að hann yrði sýknaður af kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda. Til þrautavara krafðist stefndi þess að kröfur stefnanda yrðu lækkaðar verulega, og að málskostnaður yrði í því tilviki felldur niður. Með úrskurði 16. júní 2016 var frávísunarkröfu stefnda hafnað. I. Mál þetta er að rekja til ársins 2006 þegar gerður var samningur á milli Hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi og bæjarstjórnar Kópavogs um að hestamannafélagið skyldi leggja félagssvæði og hesthúsalóðir félagsmanna til sveitarfélagsins, en í staðinn átti sveitarfélagið að útvega annað land fyrir hestamennina og félagið. Í 4. og 5. gr. samningsins var kveðið á um að sveitarfélagið annaðist skipulagsvinnu á hinu nýja hesthúsasvæði í samvinnu við Garðabæ og hestamannafélagið Andvara í Garðabæ. Sveitarfélagið tók að sér að byggja hið nýja svæði upp, m.a. með því að hafa forgöngu um sýningar- eða keppnishöll fyrir hestamannafélögin. Stefnandi segir að á árinu 2009 hafi Hermann Vilmundarson, formaður hestamannafélagsins Gusts, óskað eftir því við stefnanda að hann aðstoðaði við gerð þarfagreiningar og rýmisáætlunar ásamt því að vinna frumdrög að reiðhöll sem hestamannafélagið Gustur ætlaði að leggja inn til Kópavogsbæjar sem ósk félagsins varðandi byggingu reiðhallar á nýju félagssvæði að Kjóavöllum, og hafi stefnandi í framhaldinu skilað af sér umbeðnum gögnum. Sumarið 2011 hafi Hermann að nýju haft samband við stefnanda og beðið hann um að hanna tillögu að reiðhöll fyrir nýtt félagssvæði á Kjóavöllum þar sem fullreynt væri að fá Kópavogsbæ til að hlutast til um verkefnið. Í kjölfarið hafi stefnandi hafist handa við hönnun á reiðhöll sem hafi verið mun stærri og umfangsmeiri en sú sem stefnandi hefði upphaflega unnið drög að. Um hafi verið að ræða tillögu merkta 2011-2, um 2.619,5 fermetra reiðhöll, dagsetta í ágúst 2011. Í fundargerð Kópavogsbæjar með fulltrúum Gusts um uppbyggingu á Kjóavöllum, dags. 7. september 2011, kemur fram að lagðar hafi verið fram teikningar að reiðskemmu að grunnfleti um 2.600 m². Teikningar væru að mestu í samræmi við tillögur frá Sveini Ívarssyni arkitekt. Þá kemur fram í fundargerðinni að ekki yrði frekar unnið að útboði á reiðskemmu fyrr en afstaða félagsfunda hestamannafélaganna Gusts og Andvara lægi fyrir. Stefnandi kveður að á þessum tíma hafi vinna verið hafin við sameiningu hestamannafélaganna Gusts og Andvara og reiðskemmu sem yrði staðsett á Kjóavöllum. Stefnandi hafi í kjölfarið unnið að hönnun reiðhallarinnar með svokallaðri sameiningarnefnd sem hafi unnið að sameiningu félaganna og að verkefnisstjóri stefnda hafi óskað eftir því við stefnanda að hann gengi frá verkinu til útboðs í maí 2011. Stefnandi kveðst hafa unnið tillögur að reiðhöll í október og nóvember 2011 sem hafi verið farið yfir á rýnifundi 13. desember 2011 með fulltrúum beggja hestamannafélaganna, Gusts og Andvara. Tillaga nr. 2011-6 að 3.793 fermetra reiðhöll hafi verið tilbúin snemmsumars 2012, tillaga nr. 2011-7 að 3.932 fermetra reiðhöll sumarið 2012 og að lokum tillaga nr. 2011-8 að 4.005 fermetra reiðhöll sem boðin var út síðsumars 2012.                 Hinn 8. júní 2012 gerðu Kópavogsbær, hestamannafélagið Gustur og hestamanna­félagið Andvari samning um uppbyggingu og framkvæmdir á Kjóavöllum. Í samningnum kemur fram að deiliskipulag Kjóavalla væri sameiginlegt skipulag sveitarfélaga og að það væri skilyrði fyrir aðkomu sveitarfélaganna að uppbyggingu á Kjóavöllum að hestamannafélögin Andvari og Gustur myndu sameinast um stofnun nýs hestamannafélags sem tæki að sér að sjá um alla uppbyggingu á svæðinu og að bygging reiðskemmu yrði boðin út.                 Umsókn um skráningu hestamannafélagsins Kjóavöllum var móttekin hjá ríkisskattstjóra 18. júlí 2012. Nafninu var svo breytt í hestamannafélagið Sprett í byrjun árs 2013. Stefnandi heldur því fram að um sameiningu hestamannafélagsins Gusts og hestamannafélagsins Andvara hafi verið að ræða en stefndi segir að ekki hafi verið um að ræða sameiningu eldri félaga heldur hafi félagsmenn stofnað nýtt félag.                 Ágreiningslaust virðist að verkefnisstjóri stefnda óskaði eftir vinnu stefnanda við að ganga frá verkinu til útboðs. Í ágúst 2012 óskaði hestamannafélagið Kjóavöllum eftir tilboðum í verkið. Útboðsgögn voru afhent 24. ágúst og opnað fyrir tilboð 21. september. Um var að ræða lokað alútboð samkvæmt ÍST 30/2012 og meðal verkþátta var hönnun og undirbúningur. Í minnisblaði Guðna Eiríkssonar, verkefnis­stjóra verkkaupa, til væntanlegra bjóðenda í verkið, kemur fram að meðfylgjandi væru grunnmyndir og útlitsmyndir af reiðskemmunni sem Sveinn Ívarsson arkitekt hefði unnið fyrir verkkaupa og væru leiðbeinandi. Fyrir liggur að hinn 29. ágúst 2012 lagði Sveinn inn til byggingarfulltrúa Kópavogs til skoðunar teikningar ásamt skráningartöflu að reiðhöll og að þær hefðu uppfyllt skipulag og reglugerðir.                 Stefnandi gaf út reikning, dags. 1. september 2012, að fjárhæð 2.510.000 kr., sem stefndi greiddi. Á reikningnum kemur fram skýringin: Innborgun vegna hönnunar reiðhallar. Lægsta tilboð í útboðinu átti Jáverk ehf. og nam það 401.900.000 kr., þar af voru 9.800.000 kr. vegna hönnunar- og undirbúnings. Með tilboði Jáverks fylgdu teikningar að reiðhöll undir nafni ASK arkitekta. Stefnandi taldi að um væri að ræða sömu teikningar og hefðu fylgt útboðsgögnum, þ.e. teikningar stefnanda. Þannig hefði teikningunum verið skilað inn af Jáverki undir nafni ASK arkitekta sem hefðu tekið nafn stefnanda af teikningunum og sett sitt nafn í staðinn án heimildar stefnanda. Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 26. nóvember 2012, til ASK arkitekta, var þess krafist að teikningarnar yrðu leiðréttar og nafn ASK arkitekta fjarlægt af teikningunum. Í bréfi lögmanns stefnanda, dags. sama dag, til Jáverks sagði að kostnaðarliður í tilboði félagsins vegna hönnunar og undirbúnings væri mun lægri en hjá öðrum tilboðsgjöfum og dygði varla fyrir kostnaði vegna vinnu stefnanda sem tilboð félagsins væri grundvallað á og áskildi stefnandi sér allan rétt gagnvart stefnda.                  Stefnandi segir að hinn 10. desember 2012 hafi Sveinbjörn Sveinbjörnsson, fyrrverandi formaður stefnda, haft samband við stefnanda og gefið honum fyrirmæli um að senda byggingarnefndarteikningarnar inn til samþykktar byggingarfulltrúa þegar í stað. Stefnandi hefði skilað inn teikningum samdægurs og daginn eftir, 11. desember, hafi teikningarnar verið samþykktar og stimplaðar af byggingarfulltrúa. Umsóknin um byggingarleyfi hafi verið undirrituð af Sveinbirni og stefnandi þar tilgreindur sem hönnuður reiðskemmunnar.                 Hinn 12. desember 2012 undirrituðu stefnandi, Jáverk ehf. og hestamannafélagið Sprettur samkomulag um að stefnandi tæki að sér arkitektahönnun á reiðhöll á Kjóavöllum fyrir hestamannafélagið Kjóavöllum. Í samkomulaginu segir að Sveinn Ívarsson muni vinna með ráðgjöfum JÁVERKS ehf. að hönnun reiðhallar og muni fulltrúi verkkaupa (hestamannafélagið Kjóavöllum) sitja hönnunarfundi. Vegna samkomulags þessa lækki greiðslur frá verkkaupa til verktaka samkvæmt tilboði um 1.500.000 kr. Áður en framangreint samkomulag var undirritað 12. desember áttu sér stað tölvupóstsamskipti sama dag, með drögum að framangreindu samkomulagi, þar sem stefnandi kvaðst ekki gera athugasemdir við það en tók fram að uppgjör milli verktaka og hestamannafélagsins kæmi honum ekki við. Stefnandi kveðst hafa haldið áfram starfi sínu í samstarfi við verkefnisstjóra stefnda, Jáverk ehf. og þeirra ráðgjafa. Í janúar 2013 hafi stefnandi komið að máli við Sveinbjörn, fyrrverandi formann stefnda, og óskað eftir greiðslu og hafi Sveinbjörn beðið stefnanda að senda reikning til stefnda. Hinn 30. janúar 2013 hafi stefnandi sent stefnda yfirlit yfir hönnunarvinnu, samtals 24.769.157 kr., en Sveinbjörn hafi hafnað fjárhæðinni. Sáttaumleitanir áttu sér stað milli aðila og var stefnandi tilbúinn til að lækka þóknun sína fyrir verkið í 14.432.500 kr. og gaf út reikning að þeirri fjárhæð á hendur stefnda, dags. 1. mars 2013, en með bréfi stefnda sama dag var reikningnum mótmælt sem allt of háum og í engu samræmi við þá vinnu sem beðið hafi verið um. Stefnandi kveðst samt hafa haldið áfram að sinna skyldum sínum samkvæmt samningnum og klárað vinnu vegna hönnunar og teikningar Sprettshallarinnar. Hinn 19. júní 2013 höfðaði stefnandi mál á hendur stefnda þar sem hann krafðist greiðslu framangreinds reiknings, dags. 1. mars 2013. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 13. febrúar 2014 í máli nr. E-949/2013 var málinu vísað frá dómi ex officio. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar 13. mars 2014 í máli nr. 157/2014. Stefnandi óskaði í kjölfarið eftir því að dómkvaddir yrðu matsmenn til að skoða og meta sanngjarna þóknun fyrir hönnun og teikningu á umræddri reiðhöll, sbr. mál nr. M-24/2014, og voru arkitektarnir Ólafur Sigurðsson og Helga Benediktsdóttir dómkvödd sem matsmenn hinn 29. ágúst 2014. Stefndi lagði fram matsbeiðni, dags. 25. nóvember 2014, með tilteknum spurningum vegna álitaefna sem hefðu komið upp í tengslum við matsmálið nr. 24/2014. Í þinghaldi 27. nóvember 2014, í máli nr. M-37/2014, varð samkomulag með málsaðilum um að kostnaður samkvæmt matsbeiðni stefnda og því mati sem unnið væri vegna máls nr. M-24/2014 skiptist jafnt á milli málsaðila. Jafnframt að framangreindir matsmenn skiluðu af sér einni matsgerð vegna matsbeiðnanna tveggja og að matsgerðin yrði afhent báðum málsaðilum.  Matsgerð dómkvaddra matsmanna, Helgu Benediktsdóttur arkitekts og Ólafs Sigurðssonar arkitekts, er dagsett 20. janúar 2015. Stefnandi óskaði eftir greiðslu þóknunar í samræmi við niðurstöðu matsins ásamt greiðslu matskostnaðar, að frádreginni greiðslu stefnda hinn 1. september 2012. Þar sem stefndi greiddi ekki kröfu stefnanda hefur hann höfðað mál þetta. II.                 Stefnandi byggir kröfur sínar á samningssambandi sem sé milli stefnanda og stefnda. Það samningssamband sé grundvöllur þeirrar vinnu stefnanda sem stefndi hafi óskað eftir og stefnandi hafi unnið að fullu. Stefndi hafi margsinnis viðurkennt samningssambandið á milli aðila, t.d. með samkomulagi aðila frá desember 2012. Stefnandi hafi aldrei gert samkomulag við Kópavogsbæ, Garðabæ eða Jáverk ehf., heldur hafi hann starfað á vegum stefnda við umbeðið verkefni, áður hestamannafélaganna Gusts og Andvara, og eftir sameiningu félaganna fyrir hestamannafélagið Sprett. Þá hafi stefndi sérstaklega viðurkennt greiðsluskyldu sína og samningssambandið með innborgun sinni inn á verkið samkvæmt reikningi stefnda, dags. 1. september 2012, að fjárhæð 2.510.000 krónur. Þá bendir stefnandi á að þeir hafi staðið sameiginlega að mati í málum nr. M-24/2014 og M-37/2014.  Stefnandi kveðst hafa, á grundvelli framangreinds samningssambands, innt af hendi vinnu fyrir stefnda. Stefnandi eigi rétt á að fá greitt fyrir þá vinnu. Vegna ágreinings um fjárhæð þóknunar stefnanda fyrir téða vinnu hafi hann og stefndi sameiginlega aflað dómkvadds mats um réttláta og sanngjarna þóknun til handa stefnanda. Stefndi hafi hafnað greiðsluskyldu. Um greiðsluskyldu stefnda vísar stefnandi til meginreglunnar um skuldbindingargildi samninga og meginreglu kröfuréttar um fullar og réttar efndir kröfu. Það sé grundvallarregla að samningar skuli standa (pacta sunt servanda). Stefnda beri samkvæmt henni að efna samning sinn við stefnanda og greiða fyrir þá vinnu sem stefnandi hafi innt af hendi og stefndi hafi nýtt sér til fulls. Stefndi hafi látið vinna fyrir sig verk og stefnandi eigi rétt á greiðslum fyrir þá þjónustu. Stefndi hafi ekki sýnt fram á að krafa stefnanda sé ósanngjörn, heldur byggist hún þvert á móti á mati tveggja matsmanna um sanngjarna og réttláta þóknun fyrir verkið. Stefnandi kveðst vera sérfræðingur og vinna verkefni sem verktaki. Stefndi hafi enga ástæðu haft til að ætla að stefnandi ynni verkið á öðrum forsendum en almennt gengur og gerist á meðal sérfræðinga á sviði arkitektúrs. Stefnandi hafi enga ástæðu til að ætla annað en að stefndi væri verkbeiðandi og myndi greiða fyrir þá þjónustu og það verk sem stefnandi hafi innt af hendi að beiðni stefnda. Stefnandi telur því ljóst að stefnda beri að efna greiðsluskyldu sína samkvæmt samningssambandinu og til samræmis við niðurstöðu matsgerðar. Stefnandi kveður að stefndi hafi um langt skeið varist greiðsluskyldu sinni og borið því við að hann sé ekki réttur aðili að málinu að hluta, honum beri ekki að greiða fyrir þóknun vegna vinnu stefnanda sem unnin hafi verið fyrir maí 2012, og að krafa stefnanda vegna þóknunar sé of há og ósanngjörn. Um aðild stefnda segir stefnandi að stefndi hafi orðið til með sameiningu Gusts og Andvara þar sem stefndi hafi yfirtekið réttindi og skyldur Gusts og Andvara, m.a. vinnuna við Sprettshöllina og í kjölfarið eignina sjálfa. Hermann Vilmundarson, fyrrverandi formaður Gusts, hafi haft frumkvæði að vinnu stefnanda. Þá hafi Ingibjörg Guðrún Geirsdóttir, fyrrverandi formaður Andvara, verið í samskiptum um teikningar stefnanda 1. nóvember 2011, þ.e. fyrir formlega stofnun stefnda, og hafi afrit þeirra verið sent á sameiningarnefnd. Stefnandi telur því ljóst að hann hafi hafið vinnu sína fyrir hestamannafélögin Gust og Andvara en haldið henni áfram fyrir stefnda, sem hafi orðið til við sameiningu fyrrnefndra félaga. Þá vísar stefnandi til þess að í minnisblaði um útboð á byggingu Sprettshallarinnar, dags. 20. ágúst 2012, komi fram hvernig stefndi ætli, sem verkkaupi, að bjóða út byggingu reiðskemmu á svæði félagsmanna. Neðar í minnisblaðinu komi fram að meðfylgjandi því séu „grunnmyndir og útlitsmyndir af reiðskemmunni sem Sveinn Ívarsson arkitekt hefur unnið fyrir verkkaupa ...“ Þá komi fram í minnisblaðinu að Hestamannafélagið Kjóavöllum sé sameinað félag Hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi og Hestamannafélagsins Andvara í Garðabæ og hafi tekið yfir allar skuldbindingar og umsjón þeirra varðandi uppbyggingu félagssvæðis hestamanna á Kjóavöllum. Stefnandi telur því alveg ljóst að verkkaupinn að vinnu stefnanda hafi verið stefndi. Þá kveður stefnandi að hinn 11. desember 2012 hafi fyrrverandi formaður stefnda sótt um byggingarleyfi fyrir Sprettshöllina og ritað þar sjálfur að stefnandi væri hönnuður Sprettshallarinnar. Þetta sé einnig staðfest í samkomulagi milli Jáverks ehf., stefnanda og stefnda, dags. 12. desember 2012. Stefnandi hafi þó ítrekað með tölvupósti sínum sama dag að uppgjör milli Jáverks ehf. og stefnda kæmi sér ekki við og að hann ætlaði sér að fá greitt fyrir verkið úr hendi stefnda. Þetta hafi engum andmælum sætt af hálfu stefnda. Stefnandi byggir jafnframt á því að í fundargerð af aðalfundi stefnda, dags. 19. febrúar 2013, komi fram að félögin Andvari og Gustur hafi afhent eigur sínar til nýs sameinaðs félags. Þar komi einnig fram að starfsemi félagsins hafi frá stofnun nánast verið sem byggingarfélag vegna framkvæmdanna á félagssvæðinu. Að lokum komi fram í fundargerðinni að stefndi sé framkvæmdaraðili vegna þess að ekki hafi náðst sátt um annað við sveitarfélögin. Í fundargerðinni komi fram hvernig Hermann Vilmundarson hafi verið kjörinn sem stjórnarmaður stefnda, þ.e. sá einstaklingur sem hafi átt frumkvæði að vinnu stefnanda, fyrst árið 2009. Stefnandi kveðst ekki mótmæla því að mikil vinna hafi væntanlega farið fram innan sveitarfélaganna Kópavogs og Garðabæjar vegna flutnings á hesthúsahverfi Gustsmanna, svo sem skipulagsvinna. Stefnandi hafi hins vegar aldrei unnið fyrir sveitarfélögin vegna hönnunar á Sprettshöllinni, heldur hafi vinna stefnanda hafist  að beiðni Hermanns Vilmundarsonar, formanns Gusts, sameiningarnefndarmanns og síðar stjórnarmanns stefnda. Þessari vinnu hafi verið framhaldið í samstarfi við sameiningarnefnd Gusts og Andvara, síðar hestamannafélagið á Kjóavöllum, sem síðan hlaut nafnið Sprettur. Þetta sé m.a. staðfest í samkomulagi stefnda og Kópavogsbæjar, dags. 8. júní 2012, þar sem skýrt komi fram að skilyrði fyrir samkomulaginu sé sameining Gusts og Andvara ásamt því að nýtt sameinað hestamannafélag taki að sér að sjá um alla uppbyggingu mannvirkja á Kjóavöllum. Telji stefndi að sveitarfélögin Kópavogur og Garðabær hafi að einhverju leyti vanefnt skyldur sínar gagnvart stefnda sé ljóst að þær vanefndir komi stefnanda ekki við að nokkru leyti. Þannig sé þýðingarlaust fyrir stefnda að reyna að brjóta vinnu stefnanda upp í tímabil og komast þannig hjá greiðsluskyldu sinni. Stefnandi telur engu máli skipta hvenær hann innti hvaða hönnunarvinnu af hendi. Stefnandi átti að hanna og teikna reiðhöll fyrir nýtt hestamannasvæði á Kjóavöllum, sem hann hafi og gert. Niðurstaðan hafi verið hugverk sem stefndi hafi hagnýtt sér með byggingu Sprettshallarinnar og fyrir það hugverk hafi stefnda borið að greiða í heild sinni í samræmi við niðurstöður matsmanna. Að lokum byggir stefnandi á því að stefndi hafi viðurkennt rétta aðild sína að málinu með því að afla matsgerðar í matsmálum nr. M-24/2014 og 37/2014 í sameiningu með stefnanda. Með þessu hafi stefndi viðurkennt greiðsluskyldu sína. Stefnandi vísar til þess að samkvæmt skráningu fasteignaskrár hafi stefndi verið skráður eigandi Sprettshallarinnar. Sprettshöllin hafi verið skráð í eigu Spretts  fasteignafélags ehf. 29. nóvember 2013, en eini hluthafi þess félags sé Sprettur rekstrarfélag ehf. sem aftur sé í 100% eigu stefnda. Stefnandi telur þetta engin áhrif hafa á aðild þessa máls enda ljóst að Sprettur fasteignafélag hafi verið stofnað í byrjun maí 2013 og Sprettur rekstrarfélag um miðjan júlí 2013, löngu eftir að stofnað hafi verið til samningssambands milli stefnanda og stefnda. Stefnandi telur að það gengi auðsýnilega ekki upp í réttarríki ef hægt væri að komast hjá greiðsluskyldu sinni vegna verka sem félag léti vinna fyrir sig með því að ráðstafa einhliða eignum með þessum hætti. Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi sönnunarbyrðina fyrir því að krafa stefnanda vegna þóknunar fyrir vinnu sína sé ósanngjörn eða of há. Stefndi hafi ekki sýnt fram á að krafa stefnanda í máli þessu sé ósanngjörn eða of há. Þvert á móti hafi það nú verið sannreynt að krafa stefnanda sé réttlát og sanngjörn enda byggist hún samkvæmt aðalkröfu á mati tveggja dómkvaddra matsmanna sem stefnandi og stefndi hafi óskað eftir í sameiningu. Mati hinna dómkvöddu manna hafi stefndi ekki hnekkt. Varakrafa stefnanda sé lægri og rúmist því vel innan þeirrar fjárhæðar sem hinir dómkvöddu matsmenn telji réttláta og sanngjarna þóknun fyrir hönnun Sprettshallarinnar. Stefndi hafi enga réttmæta ástæðu haft til að ætla að stefnandi ynni umþrætt verk á lægri kjörum en almennt tíðkist. Það sé ljóst að almennar reglur og venjur gildi við útreikning þóknunar og stefndi verði að bera hallann af því að hafa ekki gert því skóna að semja á annan veg við stefnanda. Um fjárhæð þóknunarinnar vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttar, sbr. til hliðsjónar 45. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, enda sé krafa stefnanda bæði sanngjörn og til samræmis við gangverð sams konar verkefna. Stefnandi byggir fjárhæð aðalkröfu sinnar á niðurstöðu matsmanna í matsmálinu nr. M-24/2014. Stefnandi hafi óskað eftir því að metið yrði hvað teldist eðlilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir heildararkitektahönnun stefnanda á reiðhöllinni að Kjóavöllum (Sprettshöllinni) miðað við verðlag þegar matið fór fram. Stefnandi telur nærtækara að miða við verðlag er matið fór fram, heldur en þegar reikningur stefnanda hafi verið sendur í mars 2013. Byggist sú niðurstaða stefnanda á þeim rökum að hann hafi innt af hendi áframhaldandi vinnu fyrir stefnda vegna verksins eftir að reikningurinn hafi verið gerður í mars 2013. Telur stefnandi þá aðferðina réttari en að miða við verðlag í mars 2013 og krefjast dráttarvaxta á kröfu sína frá þeim tíma. Að sama skapi telur stefnandi einfaldara og greiðara að byggja á mati vegna heildarhönnunar, í stað þess að kljúfa tímabil hönnunar upp í hluta. Komi það til vegna þeirrar staðreyndar að stefnandi hafi unnið verkið í samfellu sem hafi leitt til ákveðins hugverks stefnanda sem stefndi hafi nú nýtt sér til byggingar á Sprettshöllinni. Samkvæmt niðurstöðu matsmanna taki vinna stefnanda til 76% heildarhönnunar. Komi það hlutfall til vegna þeirrar vinnu sem unnin hafi verið á vegum Límtrés ehf. Þessi 76% af heildarhönnun stefnanda telji matsmenn nema 22.999.500 krónum án vsk. Það geri 28.519.380 krónur með 24% vsk. Frá þessari fjárhæð dragi stefnandi innborgun sem stefndi hafi innt af hendi 1. september 2012 að fjárhæð 2.510.000 krónur. Aðalkrafa stefnanda sé því sundurliðuð á eftirfarandi leið: 28.519.380 krónur (heildarhönnun á 76% verksins m. vsk.) – 2.510.000 krónur (innborgun stefnda) = 26.009.380 krónur. Stefnandi krefst dráttarvaxta á kröfu sína frá 11. mars 2015, þ.e. frá því að mánuður hafi verið liðinn frá því að stefnandi sendi stefnda kröfubréf. Stefnandi telur að fallast beri á aðalkröfu stefnanda fremur en varakröfu í fyrsta lagi á þeim grundvelli að hinn gamli reikningur, dags. 1. mars 2013, að fjárhæð 14.432.500 krónur, hafi verið dæmdur ótækur. Í öðru lagi þar sem dómkvadds mats hafi ekki verið aflað undir rekstri þess máls, heldur hafi mats verið aflað í öðru máli, alfarið óháð hinu fyrra máli, á þeim grundvelli að gera mætti sér grein fyrir sanngjarnri og réttlátri þóknun fyrir vinnu stefnanda. Í þriðja lagi hafi stefnandi innt af hendi umtalsverða vinnu eftir að reikningurinn var sendur stefnda. Í fjórða lagi hafi krafa stefnanda samkvæmt reikningnum verið sett fram eftir umtalsverðar sáttaviðræður og í því skyni að ljúka málinu, en stefnandi hefði aldrei sett fram boð um greiðslu svo lágrar fjárhæðar hefði hann vitað að hann þyrfti að sækja málið fyrir dómstólum, afla matsgerðar eða standa í innheimtuaðgerðum á hendur stefnda í nú tæp þrjú ár. Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda krefst hann þess til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kröfu samkvæmt reikningi, dags. 1. mars 2013, að fjárhæð 14.432.500 kr. Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 1. apríl 2013, þ.e. mánuði eftir að krafist hafi verið greiðslu reikningsins. Í báðum tilfellum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda. Stefnandi telur að sjónarmið um álag ættu að koma til skoðunar þegar ákveðin er fjárhæð málskostnaðar. Stefnandi leggur áherslu á að tekið verði tillit til þess hluta matskostnaðar sem stefnandi hafi innt af hendi, að fjárhæð 500.000 kr., við ákvörðun málskostnaðar til handa stefnanda. Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttar. Þá vísar stefnandi til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum 45. gr. Stefnandi vísar jafnframt til höfundalaga nr. 73/1972. Að lokum vísar stefnandi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu vegna dráttarvaxtakrafna. Málskostnaðarkrafa stefnanda styðst við 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. III.                 Stefndi byggir á því að stefnandi geti ekki gert kröfu á hendur stefnda fyrir þeirri fjárhæð sem aðalkrafan miði við. Stefnandi hafi á fyrri stigum þessa máls gefið bindandi og fyrirvaralausar yfirlýsingar um verðlagningu vinnu sinnar, sbr. t.d. bréf, dags. 18. febrúar 2013, og reikning, dags. 1. mars 2013, að fjárhæð 14.432.500 kr. Hann hafi leitað matsgerðar til að skjóta stoðum undir reikningsgerðina og það sé fráleitt að hann geti í ljósi matsgerðarinnar breytt fyrri verðlagningu. Við þetta bætist að matsgerðin sé ónothæf sem sönnunargagn um hæfilegt endurgjald. Stefndi segir að matsmennirnir virðist álíta, í matsgerð II, að á tímabilinu frá 12. desember 2012 og þar til vinnu lauk hafi stefnandi varið 1.356 tímum til verksins, eða öllum meginþorra þess vinnustundafjölda sem matsmenn töldu viðmiðunarreglurnar miða við (1356 af 1840). Sú vinna sem þarna um ræði hafi staðið yfir í hæsta lagi í um tvo mánuði enda hafi stefnandi gert kröfu um greiðslu þóknunar hinn 18. febrúar 2013 og reikningur verið gefinn út 1. mars 2013. Í hverjum mánuði falli ekki til nema 720 klukkustundir alls og að jafnaði 160 vinnustundir.  Enn sérkennilegra verði þetta þó þegar skoðað sé svar matsmanna við spurningu 2 í matsgerð I, þar sem þeir telji að breytingar eftir 11. desember 2012 hafi ekki haft í för með sér þörf á neinu sérstöku endurgjaldi. Það sé svo beinlínis tekið fram í lið 9 á bls. 4 í matsgerðinni að matsmenn hafi áttað sig á því að stefnandi hafi lýst því yfir að 65% af hönnun hafi verið lokið „fyrir alútboð“, sem hafi farið fram í desember 2012. Einnig hafi stefnandi lýst því yfir í bréfi sínu 18. febrúar 2013 að í „maí 2012 [sé] hönnun langt komin“. Í þessu ljósi verði niðurstaða matsmanna með öllu óskiljanleg. Í henni sé algjört innbyrðis ósamræmi. Skipting tímafjölda milli tímabila sé í andstöðu við staðreyndir sem þó megi segja að liggi fyrir. Þar við bætist að matsmenn virðast lítið sjálfstætt mat hafa lagt á vinnuframlag stefnanda heldur vísi þeir í „leiðbeinandi reglur FSSA“ um mat á heildarendurgjaldi. Vinnustundir reikni þeir út frá flatarmáli hússins, sem sé að mestu skemma, en það sé algjörlega ófullnægjandi grunnur að mati á sanngjörnu endurgjaldi fyrir vinnuframlag. Framangreindar leiðbeiningarreglur hafi enga þýðingu og geti aldrei myndað grunn að mati. Heimfærsla matsmanna undir flokka þar undir orki einnig tvímælis. Engin vitneskja sé um rannsóknir eða grunngögn sem hún gæti hafa byggst á. Matsmenn hefðu að sjálfsögðu átt að beita eigin mati og eftir atvikum athuga kostnað við hönnun á sambærilegum húsum. Stefndi kveður að þær athugasemdir sem hér greinir um matsgerð hinna dómkvöddu manna eigi einnig við um þrautavarakröfu stefnanda. Stefndi mótmælir því að hestamannafélagið Sprettur hafi orðið til við samruna hestamannafélagsins Gusts og hestamannafélagsins Andvara. Bæði hestamannafélögin séu enn starfandi hvort í sínu lagi. Félögin hafi einfaldlega ákveðið að sameina krafta sína sem félög í einu stóru hestamannafélagi. Í raun megi segja að hestamannafélagið Gustur og hestamannafélagið Andvari séu félagar í hestamannafélaginu Sprettur. Eins og fram komi í stefnu hafi stefnandi í byrjun haft samskipti við Hermann Vilmundarson, formann hestamannafélagsins Gusts. Enginn skriflegur samningur liggi til grundvallar þessari vinnu stefnanda. Ekki sé þörf á að leysa frekar úr því enda sé sú úrlausn þessu máli óviðkomandi. Kröfunni sé nú beint að stefnda sem hafi ekki verið stofnaður þegar óskað hafi verið eftir vinnunni. Forræði á hönnunarvinnu hafi til ársins 2011 verið á hendi Kópavogsbæjar. Allar skuldbindingar allt fram að því að hestamannafélagið Sprettur gerði samkomulag við Garðabæ og Kópavogsbæ, um að félagið sæi um uppbyggingu á svæðinu, séu á milli stefnanda og hestamannafélagsins Gusts. Það hafi ekki verið fyrr en í framhaldi af samkomulaginu við Garðabæ og Kópavog sem verkefnisstjóri stefnda hafi óskað eftir vinnu stefnanda með beiðni um að gengið yrði frá verkinu til útboðs. Þótt félög stofni sérstakt félag í kringum samvinnu sína leiði það ekki sjálfkrafa til þess að hið nýstofnaða félag taki við öllum réttindum og skyldum stofnfélaganna. Greiðslur vegna vinnu stefnanda fyrir maí 2012 séu því ekki á ábyrgð stefnda. Kröfur um greiðslu fyrir þá vinnu séu þar að auki fyrndar, sbr. það sem segir hér á eftir um þrautavarakröfu. Stefndi mótmælir því að hann hafi viðurkennt aðild sína að öllu leyti með því að leggja fram spurningar til matsmanna. Stefndi hafi aldrei mótmælt aðild sinni vegna þeirrar vinnu sem fór fram eftir júní 2012. Þátttaka stefnda í matsferlinu sé eðlileg í ljósi þess og segi ekkert til um afstöðu hans til þeirrar vinnu er stefnandi vann fyrir framangreinda samningsgerð. Stefndi telur sér ekki skylt að greiða fyrir þá vinnu sem áður hafi verið innt af hendi vegna þessara uppdrátta, enda hafi ekki verið um það samið þegar stefndi tók að sér uppbygginguna. Þar sem röngum aðila hafi verið stefnt í þessu máli, að því er varðar vinnu fyrir maí/júní 2012, sé krafist sýknu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Endurgjald fyrir vinnu eftir það tímamark hafi að fullu verið gert upp. Þá krefst stefndi jafnframt sýknu á grundvelli þess að krafan og útreikningur sem liggi til grundvallar henni sé sett þannig fram að ekki verði séð hvaða hluti kröfunnar sé fyrir vinnu stefnanda sem unnin hafi verið fyrir maí 2012. Þá byggir stefndi á því að krafa fyrir vinnu á tímabilinu 2009-2011 sé fyrnd. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 reiknist fyrningarfrestur kröfu frá þeim degi er kröfuhafi hafi átt fyrst rétt til efnda. Krafa stefnanda um greiðslu fyrir vinnu sína á árunum 2009-2011 sé fyrnd enda liðin meira en fjögur ár frá því að stefnandi hafi fyrst átt rétt til greiðslu fyrir vinnu sína, sbr. 3. gr. sömu laga, að frádreginni þeirri fjárhæð sem stefndi hafi greitt samkvæmt reikningi, dags. 1. september 2012. Um margar afmarkaðar verkbeiðnir hafi verið að ræða og engin rök því staðið til þess að fresta útgáfu reikninga svo lengi sem raun beri vitni. Það sé ekki í höndum stefnanda að ráða upphafi fyrningarfrests og verði hann að bera allan halla af vanreifun á málatilbúnaði sínum í þessu tilliti. Fyrri málshöfðun stefnanda geti engu breytt um fyrningu á kröfum um greiðslu fyrir vinnu á framangreindu tímabili enda hafi nýtt mál ekki verið höfðað innan sex mánaða frá því að málinu var vísað frá, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Þá byggir stefndi á því að fjárhæðir krafna stefnanda séu of háar. Stefndi telur niðurstöðu fyrirliggjandi matsgerðar um fjárhæð þóknunar allt of háa. Stefndi telur að dómur um þóknun til handa stefnanda verði ekki byggður á matsgerð þessari. Niðurstaða matsgerðarinnar sé ekki í samræmi við hlutverk stefnanda við hönnunina. Matsmenn taki ekki tillit til þess við útreikninga í matsgerð sinni að stefnandi hafi ekki verið aðalverktaki við verkið svo sem allar tölur og gröf hinna leiðbeinandi reglna sem þeir styðjist við geri ráð fyrir. Stefndi telur reikning stefnanda frá 1. mars 2013 of háan. Heildarfjárhæð þóknunarinnar sem krafist sé samræmist ekki með nokkru móti því  sem hafi mátt búast við þegar lagður hafi verið fram reikningur 1. september 2012 að fjárhæð 2.510.000 krónur, en þá hafi legið fyrir útboðsteikningar sem hafi verið ígildi byggingarnefndateikninga. Stefnandi hefði á því stigi átt að gefa út fullnaðarreikning fyrir vinnu sína enda hafi ekkert legið fyrir um frekari aðkomu hans á því stigi. Stefndi hafi því verið í góðri trú um að uppgjöri væri lokið og enginn áskilnaður hafi verið hafður uppi um frekari kröfur vegna þeirrar vinnu sem hafi verið innt af hendi þá um sumarið. Þá telur stefndi að fjárhæðin sé ekki í samræmi við seinna samkomulag um arkitektahönnun reiðhallar Kjóavöllum, dags. 12. desember 2012. Af því samkomulagi hafi mátt draga þá ályktun að endurgjald fyrir vinnu stefnanda í þágu verktaka mannvirkisins væri metið á um 1,5 milljónir króna, en með samkomulaginu hafi greiðslur frá verkkaupa til verktaka samkvæmt tilboði verið lækkaðar um þá fjárhæð. Undir það skjal hafi stefnandi skrifað. Greiðslurnar til JÁVERK ehf. hafi verið lækkaðar þar sem stefnandi skyldi yfirtaka þann verkþátt fyrir stefnda sem myndi greiða honum fyrir verkið en ekki JÁVERK ehf. Lækkun greiðslna til JÁVERK hafi tengst mati á kostnaði við hönnun og stefndi verið í þeirri trú að stefnandi væri sama sinnis, enda hafi hann verið viðstaddur gerð samkomulagsins og skrifað undir það til staðfestingar.  Verði framangreint ekki talin óræk sönnun fyrir hæfilegu endurgjaldi til stefnanda bendir stefndi á að það eina sem sé ljóst í málinu um vinnuframlag stefnanda sé að stefnandi virðist í tveimur lotum hafa unnið að tilteknum þáttum hönnunar reiðhallarinnar: fyrst í tvo mánuði sumarið 2012 við undirbúning útboðsgagna og síðan um áramótin 2012-2013 við gerð verkteikninga eftir að verksamningur hafi verið gerður. Fyrir þessa vinnu hafi stefndi fengið greiddar 2 milljónir króna en hann krefjist nú rétt um 26 milljóna til viðbótar, eða 28 milljóna alls.  Sú upphæð sé algjörlega úr hófi fram og einkum þegar ekki sé látið svo lítið að upplýsa nokkurn skapaðan hlut um vinnuframlag, vinnustundir, útlagðan kostnað eða annað sem nauðsynlegt sé að greina frá svo að leggja megi mat á eðlileg verklaun. Sönnunarbyrði fyrir kröfunni hvíli að sjálfsögðu á stefnanda. Kröfum stefnanda um dráttarvexti er mótmælt, sérstaklega dráttarvaxtakröfu í varakröfu stefnanda. Stefndi telur að stefnandi geti ekki átt kröfu um dráttarvexti frá því að mánuður var liðinn frá útgáfu reiknings sem Hæstiréttur hafi síðan dæmt að hafi ekki verið skýrður nægjanlega, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 157/2014. Dráttarvextir verði í fyrsta lagi dæmdir frá gjalddaga eða mánuði frá því að reikningur með fullnægjandi skýringum verði settur fram, sbr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Stefndi telur að þeirri skyldu hafi ekki enn verið fullnægt. Enn fremur byggir stefndi á tómlæti. Stefndi kveður að ekki hafi verið gerður milli aðila heildstæður samningur um verkið. Stefnandi hafi alltaf verið beðinn um að vinna tiltekið afmarkað verkefni hvert sinn sem óskað hafi verið eftir vinnu hans. Þannig hafi ekki verið um að ræða viðvarandi gagnkvæman samning milli aðila. Í stefnu sé gerð krafa um greiðslu fyrir vinnu sem hafi farið fram á rúmlega fjögurra ára tímabili. Almennt sé litið svo á að ríkari skylda hvíli á kröfuhafa til að ganga á eftir skuld sinni heldur en skuldara til að bjóða fram greiðslu hennar ef ekki hafi verið á eftir henni gengið. Stefnanda hefði verið rétt, og í lófa lagið, að krefjast greiðslu fyrir vinnu sína í hvert skipti sem hann hafi skilað af sér því verki sem hann hafi verið beðinn um að vinna í hverju tilviki. Það geti ekki talist eðlileg vinnubrögð né sanngjörn gagnvart verkkaupa að safna upp í greiðslukröfu í fjögur ár og setja svo fram gífurlega háa kröfu sem sé miklu hærri en stefndi hefði nokkurn tímann getað séð fyrir. Enda hafi félagasamtök eins og stefndi mikla hagsmuni af því að geta séð fyrir hver útgjöld verða á hverju ári og geta dreift greiðslubyrðinni sé um dýrari verkefni að ræða. Ljóst sé að stefnandi hafi gerst sekur um verulegt tómlæti enda hafi hann ekkert aðhafst í rúm fjögur ár frá því að tilefni gafst til að innheimta fyrir vinnu hans. Stefnandi hafi því glatað hluta kröfu sinnar vegna tómlætis. Stefndi vísar til þess að í ákvæði 3.3 í siðareglum Arkitektafélags Íslands segi eftirfarandi: „Arkitekt er skylt að veita verkkaupa sem gleggstar upplýsingar um framkvæmd og áætlaðan kostnað fyrirhugaðs verkefnis og sjá til þess að gerður sé skilmerkilegur samningur um verkefnið.“ Gera verði þá kröfu til arkitekts sem verktaka og sérfræðings að hann geri verkkaupa grein fyrir áætluðum kostnaði verksins. Ekki sé hægt að gera ráð fyrir að verkkaupi (stefndi) þekki þær leiðbeinandi reglur sem vísað sé til í matsgerð þeirri sem stefnandi byggi kröfugerð sína á enda virðist SAMARK ekki hafa heimild til að setja þær, enda sé slík reglusetning ólögleg samkvæmt 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Þær séu þar af leiðandi ekki aðgengilegar fyrir verkkaupa. Þær sé t.d. ekki að finna á internetinu. Því sé ljóst að stefndi hafi ekki með nokkru móti getað kynnt sér útreikningsaðferð stefnanda fyrir fram og því ekki átt möguleika á að átta sig á endanlegum kostnaði. Stefndi hafi einungis haft aðgang að þeim tveim blaðsíðum úr reglunum sem matsmenn hafi lagt fram sem fylgiskjöl með matsgerð sinni og því ekki getað kynnt sér reglurnar til hlítar, t.d. liggi ekkert fyrir um aðdraganda setningar hinna leiðbeinandi reglna eða tilgang þeirra og markmið. Þegar ekki liggi fyrir nein viðmið um útreikning lokaverðs vegna verks við gerð samnings sé eðlilegt að verkkaupi geri ráð fyrir að miðað verði við tímakaup. Þegar samið hafi verið um verkið á fundi í lok maí 2012 hafi ekkert annað komið fram en að verkið ætti að vinna í tímavinnu. Ef greiða hafi átti fyrir verkið með öðrum hætti hefði verktaki með réttu átt að taka það sérstaklega fram. Það hafi ekki verið gert. Stefndi kveðst hafa margoft skorað á stefnanda að afhenda tímaskýrslur til að meta megi hvort um sanngjarnt endurgjald sem hæfi úrlausn verkefnisins sé að ræða. Það hljóti að teljast eðlileg krafa að verkkaupi fái tímaskýrslur til að geta áttað sig á þeirri vinnu sem hafi verið varið í verkið og þar með hve mikil vinna sé undirliggjandi við útreikning þóknunar þeirrar sem hann á að greiða. Stefndi mótmælir öllum kröfum um dráttarvexti og innheimtukostnað enda ljóst að honum hafi ekki borið að greiða of háan reikning og hann hafi ekki fengið fullnægjandi skýringar til að geta greitt hluta reikningsins. Þá mótmælir stefndi sérstaklega kröfu stefnanda um að stefnda verði gert að greiða álag á málskostnað. Stefndi hafi ekki viðhaft neina háttsemi sem gefi tilefni til að honum verði gert að greiða álag. Um lagarök vísar stefndi að öðru leyti til meginreglna samninga- og kröfuréttar, samkeppnislaga nr. 44/2005, laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. IV.                 Fyrir liggur matsgerð dómkvaddra matsmanna, Helgu Benediktsdóttur arkitekts og Ólafs Sigurðssonar arkitekts, dags. 20. janúar 2015, þar sem stefnandi óskaði eftir áliti matsmanna á því hvað væri eðlilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir heildararkitektahönnun stefnanda á Sprettshöllinni miðað við verðlag þegar matið fór fram. Í svari matsmanna við spurningunni segir að sérteikningum arkitekts hafi verið lokið en miðað við stærð og einfaldleika hússins væru þær ekki margar og frekar fábrotnar. Aðalástæðan væri sú að byggingin væri stöðluð bygging frá Límtré ehf. Auk þess krefjist reiðhöllin ekki eins flókinnar útfærslu á húsi. Innréttingateikningar væru aðeins fyrirkomulagsteikningar þar sem valdar væru staðlaðar innréttingar. Verklýsingar væru ekki fullbúnar. Lokið væri 32% af 55% af verkteikningum. Áætla mætti að í tilfelli reiðhallarinnar væri vinna við verkteikningar um 58% af venjulegu vinnuframlagi í sambærilega stóru húsi af þessari gerð. Langstærsti hluti af verkteikningum væru unnar hjá Límtré hf. og fylgdu með útboðsgögnum. Aðalumsjón fælist í samræmingu, athugunum á byggingarstað, hönnunarfundi og lokaúttekt. Þessari vinnu væri að mestu lokið, en lokaúttekt hefði ekki farið fram. Samtals væri því lokið 76% af verkþáttum sem tilheyri hefðbundinni þóknun.                 Þá vísa matsmenn til þess að samkvæmt leiðbeinandi reglum Félags sjálfstætt starfandi arkitekta (FSSA), nú SAMARK, væru íþróttahús flokkuð í byggingarflokk 4 en einnig eigi lýsing á flokki 3 við í þessu sambandi. Reiðhöll Spretts væri íþróttamannvirki en töluvert einfaldara hús en hús annarra íþrótta. Töldu matsmenn rétt að skoða hönnunarþóknun út frá flokki 3. Reiðhöllin væri 4.035 m². Miðað við flokk 3 væri „normal“ flatarmál 5000 m² húss. Þá væri í arkitektahönnun áætlaður 0,5-0,7 tími á hvern fermetra í húsinu. Þar sem húsið væri 4.035 m² töldu matsmenn rétt að miða við 0,6 tíma á hvern fermetra. Heildartími sem vinnuframlag arkitekts væri því 2.421. Í janúar 2015 hafi vísitala byggingarkostnaðar verið 120,9 stig og mætti reikna með að tímagjald arkitekta væri 12.500 kr. Heildarþóknun arkitekts væri þá 30.262.500 kr. Miðað við að stefnandi hafi unnið 76% af verkþáttum sem tilheyri hefðbundinni vinnu væri heildarþóknun til stefnanda 22.999.500 kr. án virðisaukaskatts. Tekið var fram í matsgerðinni að hönnunartími á húsinu hafi spannað óeðlilega langan tíma og einnig hafi orðið breytingar á verkkaupa á tímabilinu. Það væri arkitektum í óhag þegar rof yrði á hönnunarfasanum, verkið sett á bið og verkefnið væri ekki lengur samhangandi heild. Ef leggja þyrfti verkefni til hliðar um óákveðinn tíma krefðist það alltaf meiri vinnu. Matsmenn hefðu tekið tillit til þess í mati sínu á heildarhönnunarkostnaði.                  Matsmenn voru einnig beðnir álits á því hvert væri eðlilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir breytingar á áður samþykktum teikningum frá 11. desember 2011 og töldu matsmenn að þær væru eðlilegar betrumbætur arkitekts og hluti af venjulegri hönnunarvinnu. Það væri því ekki þörf á sérstöku endurgjaldi.                    Að beiðni stefnda voru matsmenn beðnir álits á því hver væri sá stundafjöldi sem ætla mætti að stefnandi hefði varið í verkefni sín við hönnun umræddrar reiðhallar og vísuðu matsmenn í svar sitt við framangreindri spurningu stefnanda, um hvað væri eðlilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir heildararkitektahönnun stefnanda á Sprettshöllinni, þ.e. að útreiknaður heildarhönnunartími reiðhallarinnar væri 2.421 tími fyrir 100% hönnun. Miðað við 76% vinnuskil af heild væri tímafjöldinn 1.840. V.                 Í máli þessu er ágreiningur um þóknun stefnanda fyrir hönnun og teikningu á reiðhöll á Kjóavöllum í Kópavogi, svokallaðri Sprettshöll. Stefndi heldur því fram í greinargerð sinni að greiðslur fyrir vinnu sem stefnandi hafi unnið fyrir maí 2012 séu ekki á ábyrgð stefnda. Þær séu auk þess fyrndar, en um margar afmarkaðar verkbeiðnir hafi verið að ræða.                 Eins og rakið hefur verið kom stefnandi fyrst að áformum um byggingu reiðhallar á árinu 2009 og aftur á árinu 2011, en þá hannaði stefnandi tillögur að reiðhöll fyrir nýtt félagssvæði á Kjóavöllum. Var það að beiðni þáverandi formanns hestamannafélagsins Gusts. Í maí 2012 var stefnandi beðinn um að ganga frá verkinu til aðalútboðs og voru útboðsgögn afhent í ágúst 2012 og tilboð opnuð í október s.á. Fyrir liggur að stefnandi vann að verkefninu eftir aðalútboð og þar til húsið reis. Stefnandi hefur gefið út tvo reikninga vegna verkefnisins. Annar er dagsettur 1. september 2012, að fjárhæð 2.510.000 krónur, og hinn 1. mars 2013, að fjárhæð 14.432.500 krónur.  Með samkomulagi sem Kópavogsbær, hestamannafélagið Gustur og hestamannafélagið Andvari gerðu 8. júní 2012, um uppbyggingu og framkvæmdir á Kjóavöllum, var það gert að skilyrði að hestamannafélögin Gustur og Andvari myndu sameinast um stofnun nýs hestamannafélags sem tæki að sér alla uppbyggingu á svæðinu og að bygging reiðskemmu yrði boðin út. Hið nýja félag var hestamannafélagið Kjóavöllum sem nú heitir hestamannafélagið Sprettur, stefndi í máli þessu. Stefnandi hefur því réttilega beint  kröfum sínum að stefnda. Með vísan til þess að stefndi greiddi reikning stefnanda, dags. 1. september 2012, að fjárhæð 2.510.000 kr., sem var fyrir „innborgun vegna hönnunar reiðhallar“, er krafa stefnanda ófyrnd. Þar sem fram kom á reikningnum að um væri að ræða innborgun mátti stefnda vera ljóst að uppgjöri væri ekki lokið. Málsástæðu stefnda um tómlæti stefnanda er hafnað enda hefur stefnandi gert ítrekaðar innheimtutilraunir á hendur stefnda. Stefnandi á rétt til endurgjalds fyrir þá vinnu sem hann hefur unnið í þágu stefnda. Ber að líta til þeirrar grunnreglu sem meðal annars kemur fram í 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og felur í sér að greiða skuli það verð sem seljandi setur upp, enda sé verðið ekki ósanngjarnt. Sama regla kemur fram í 28. gr. laga um þjónustukaup. Þá segir í ákvæði 3.4 í siðareglum Arkitektafélags Íslands að arkitekt skuli áskilja sér „sanngjarnt endurgjald“ sem hæfir faglegri úrlausn verkefnisins. Ekki liggur fyrir skriflegur samningur um vinnu stefnanda, annar en samkomulag sem gert var 12. desember 2012, um að stefnandi tæki að sér arkitektahönnun á reiðhöll Kjóavöllum fyrir hestamannafélagið Kjóavöllum, sem síðar fékk nafnið hestamannafélagið Sprettur. Samkomulag þetta var gert í kjölfar ágreinings sem kom upp milli stefnanda og ASK ehf. og JÁVERK ehf. um notkun á teikningum stefnanda. Þar er ekkert kveðið á um þóknun stefnanda og verður ekki dregin sú ályktun af samkomulaginu að endurgjald fyrir vinnu stefnanda væri metin á 1,5 milljónir króna, eins og stefndi hefur haldið fram. Stefnandi hefur ekki gert stefnda grein fyrir því með vinnuskýrslum hvað hann hafi unnið margar stundir að verkefninu þrátt fyrir áskorun stefnda þar um. Er aðalkrafa stefnanda, að fjárhæð 26.009.380 krónur, reist á matsgerð dómkvaddra matsmanna. Aðalkrafa stefnanda er nánar tiltekið byggð á því að matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að heildarþóknun til stefnanda ætti að vera 28.519.380 krónur með virðisaukaskatti (heildarhönnun á 76% verksins) að frádregnum 2.510.000 krónum vegna innborgunar stefnda, samtals 26.009.380 krónur. Varakrafa stefnanda er að fjárhæð 14.432.500 krónur, sem er sama fjárhæð og reikningur stefnanda frá 1. mars 2013. Stefndi heldur því fram að stefnandi sé bundinn af reikningi sínum frá 1. mars 2013. Þeirri málsástæðu stefnda er hafnað enda er ekki viðhlítandi grundvöllur fyrir þeim reikningi, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 157/2014. Stefndi byggir enn fremur á því að ekki sé unnt að byggja á matsgerðinni þar sem matsmenn hafi ekki lagt sjálfstætt mat á vinnuframlag stefnanda heldur vísi í leiðbeinandi reglur, en slíkar reglur geti ekki verið grunnur að mati á því hvað sé sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu stefnanda. Þá gerir stefndi athugasemdir við flokkun matsmanna í byggingarflokk.  Niðurstaða matsmanna er byggð á leiðbeiningum um samningsgerð útgefnum af Félagi sjálfstætt starfandi arkitekta (FSSA, nú SAMARK), kafla 10.1. Um er að ræða tímatöflur sem NPA (félag norskra arkitekta) hefur sett saman og byggjast á fenginni reynslu yfir hve mikinn tíma arkitektar nota hvað varðar mismunandi tegundir bygginga. Í þessum leiðbeiningum eru mannvirki flokkuð eftir byggingartegundum í sex flokka. Allar tölur eru miðaðar við aðalverktöku, annars verði að leiðrétta þau um +/˗ 10-15%. Tímanotkunin á aðeins við um sjálfa hönnunarvinnuna en önnur verk, s.s. umsóknir, PGL o.s.frv., eru ekki tekin með. Tölurnar eru miðaðar við „normalflatarmál“ í viðkomandi flokki en frávik frá því verður að leiðrétta. Í 1. flokki eru einföld vörugeymsla, einfalt framleiðslurými og bílageymsla (2.500 m²), 0,3-04 klst/m². Í 2. flokki eru vörugeymsla (2.500 m²), iðnaðarbygging (5.000 m²), kæli-/frystigeymsla (1.000 m²), flutningamannvirki (2.500 m²) og verkstæði (1.000 m²), 0,4-05 klst/m². Í 3. flokki er háþróaður iðnaður (5.000 m²), íbúðarhúsnæði (2.500 m²), matvælaframleiðsla (5.000 m²) og vöruhús/verslunarmiðstöð (5.000 m²), 0,5-07 klst/m². Í 4. flokki eru íþróttamannvirki, skrifstofuhúsnæði, þjónustuíbúðir, raðhús, gistiheimili og flugeldhús/veisluþjónusta (5.000 m² nema raðhús 1.000 m²), 0,7-1,0 klst/m². Í fimmta flokki eru m.a. skólar, 1,0-1,4 klst/m² og í sjötta flokki sjúkrahús, 1,4-2,0 klst/m². Matsmenn telja að umrædd reiðhöll falli undir flokk 3. Vitnið Guðni Eiríksson, verkstjóri stefnda, var fyrir dómi innt eftir áliti á þessari röðun og taldi vitnið að reiðhöllin félli frekar undir flokk 1. Fallist er á með matsmönnum að stefnandi hafi unnið 76% af heildarhönnun verksins.Við mat á því hvað er sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu stefnanda er ekki unnt að líta til framangreindra viðmiðunarreglna, enda eru þær leiðbeinandi og flokkunin á byggingartegundum er of almenn til að geta verið grundvöllur að niðurstöðu í máli þessu. Við mat á því hvert er sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu stefnanda verður að líta til eftirfarandi þátta: Teikningar stefnanda sem fyrir liggja í málinu, einfaldleiki hússins, verkteikningar voru að miklu leyti unnar hjá Límtré hf., tími sem má ætla í samræmingu, athuganir á byggingarstað og hönnunarfundir, aðstæður á byggingarlóð (aðlögun í landslagi), skipulagsskilmálar, skilakröfur verkkaupa hvað varðar ytri og innri frágang og teiknigögn eru frekar rýr. Að öllu þessu virtu, og atvikum í málinu, er það mat dómsins að 800 vinnustundir hafi farið í verkefni stefnanda. Eðlilegt tímagjald er 15.500 krónur með virðisaukaskatti. Endurgjald fyrir vinnu stefnanda nemur því 12.400.000 krónum, en frá því dregst innborgun stefnda að fjárhæð 2.510.000 krónur. Þannig ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 9.890.000 krónur. Dráttarvextir skulu reiknast frá þeim degi sem mál þetta var höfðað, hinn 12. janúar 2016, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um dráttarvexti. Eftir þessum úrslitum ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn, með hliðsjón af umfangi málsins auk útlagðs kostnaðar stefnanda vegna matsgerðar, 2.500.000 krónur. Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómendunum Jóhannesi Þórðarsyni arkitekt og Steinþóri Kára Kárasyni arkitekt. D ó m s o r ð:                 Stefndi, hestamannafélagið Sprettur, greiði stefnanda, Sveini Ívarssyni ehf., 9.890.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. janúar 2016 til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 2.500.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 560/2017
Sjómaður Líkamstjón Slys Slysatrygging
A höfðaði mál á hendur S hf. og krafðist aðallega viðurkenningar á bótaskyldu S hf. úr slysatryggingu sjómanna, en til vara úr frjálsri ábyrgðartryggingu E ehf. hjá S hf., vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir um borð í skipi í eigu E ehf. er hann missteig sig og sneri sig illa á hægri ökkla. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að einungis S hf. hefði verið stefnt í málinu. Þrátt fyrir það hefðu S hf. og E ehf. skilað sameiginlegri greinargerð í héraði þar sem miðað hefði verið við að E ehf. væri til varnar um varakröfu A. Þá hefði héraðsdómur ekki lagt dóm á varakröfu A á hendur S hf., heldur hefðu forsendur og dómsorð annars vegar kveðið á um sýknu S hf. af aðalkröfu A en hins vegar um sýknu E ehf. af varakröfu hans. Hefði meðferð málsins samkvæmt því farið úr böndum og gæti varakrafa A því ekki komið til álita fyrir Hæstarétti. Hvað aðalkröfu A varðaði var óumdeilt að hann hefði slasast við vinnu sína umrætt sinn. Aðilar deildu hins vegar um hvort slysið hefði orðið vegna skyndilegs utanaðkomandi atburðar og félli þar með undir hugtakið „slys“ samkvæmt skilmálum slysatryggingarinnar, en A hélt því fram að hann hefði snúið sig við að stíga á járnbrík sem soðin var á þilfar skipsins. Í niðurstöðu sinni vísaði Hæstiréttur meðal annars til framlagðra yfirlýsinga skipstjóra, stýrimanna og þáverandi öryggisfulltrúa skipsins sem staðfestu að A hefði upplýst þá um með hvaða hætti slysið hefði orðið. Taldi Hæstiréttur að með því hefði A leitt nægilega í ljós hvernig slysið hefði atvikast og að um skyndilegan utanaðkomandi atburð í skilningi skilmála slysatryggingarinnar hefði verið að ræða. Var því fallist á aðalkröfu A.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Símon Sigvaldason dómstjóri. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. september 2017. Hann krefst þess að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda, aðallega úr slysatryggingu sjómanna en til vara frjálsri ábyrgðartryggingu […] ehf., vegna líkamstjóns þess er áfrýjandi hlaut í vinnuslysi 17. apríl 2012 um borð í […]. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Óumdeilt er að áfrýjandi slasaðist við vinnu sína sem háseti um borð í […], einu af kaupskipum […] ehf., 17. apríl 2012. Var verið að hífa gáma um borð í skipið í höfninni við Grundartanga í Hvalfirði og áfrýjandi að stýra 40 feta gámi í sellu frá lúgukarmi, er hann steig niður á þilfarið og missteig sig illa á hægri fæti við lúgukarm milli 4. og 5. lestar skipsins. Áfrýjandi var þegar fluttur til læknis á spítala á Akranesi þar sem gert var að meiðslum hans. Áfrýjandi reyndist hafa tognað illa á ökkla. Liggur fyrir í málinu matsgerð um 5 stiga varanlegan miska og 5% varanlega örorku vegna þessa og var áfrýjandi frá vinnu í þrjá mánuði í kjölfar atviksins. Krefst hann í máli þessu viðurkenningar á bótaskyldu stefnda úr slysatryggingu sjómanna sem í gildi var umræddan dag en því hefur stefndi hafnað. II Samkvæmt stefnu í héraði höfðaði áfrýjandi mál þetta „á hendur Sjóvá Almennum tryggingum hf. ... aðallega til viðurkenningar á bótaskyldu úr slysatryggingu sjómanna o.fl., vegna afleiðinga vinnuslyss 17. apríl 2012, en til vara vegna sama slyss til viðurkenningar á skaðabótaskyldu […] ehf., úr frjálsri ábyrgðartryggingu, sem félagið hafði hjá stefnda á slysdegi.“ Síðar í stefnu var dómkröfum nánar lýst á sama veg. Á hinn bóginn skiluðu stefndi og […] ehf. sameiginlega greinargerð í héraði þar sem miðað var við að hið síðarnefnda félag væri til varnar um varakröfu áfrýjanda. Í hinum áfrýjaða dómi var kröfum áfrýjanda lýst svo: „aðallega að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda úr slysatryggingu sjómanna, vegna líkamstjóns þess er stefnandi hlaut í vinnuslysi 17. apríl 2012, um borð í […]“ en til vara „að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda […] ehf. ... vegna líkamstjóns þess er stefnandi hlaut“ umrætt sinn. Í dóminum var tilgreint að „aðalstefndi“ krefðist sýknu af aðalkröfu, en ekkert var getið um dómkröfur […] ehf. Félagið var þó í dóminum nefnt „varastefndi“ og raktar röksemdir þess fyrir því að það skyldi ekki bera skaðabótaskyldu gagnvart áfrýjanda. Á hinn bóginn var ekki um það getið að stefndi væri aðili varnarmegin um varakröfu áfrýjanda. Héraðsdómur lagði ekki dóm á varakröfu áfrýjanda á hendur stefnda heldur kváðu forsendur og dómsorð annars vegar á um sýknu stefnda af aðalkröfu áfrýjanda en hins vegar um sýknu […] ehf. af varakröfu hans, jafnframt því sem málskostnaður var felldur niður. Í skjölum málsins fyrir Hæstarétti er þó látið svo af hálfu aðila að héraðsdómur hafi veitt með fullnægjandi hætti efnisdóm um varakröfu áfrýjanda á hendur stefnda og krafist er úrlausnar um hana hér fyrir dómi. Meðferð málsins hefur samkvæmt þessu farið úr böndum og kemur varakrafa áfrýjanda ekki til álita fyrir Hæstarétti. III Aðilar eru sammála um að áfrýjandi hafi við vinnu sína umrætt sinn meiðst við það að misstíga sig á hægri ökkla. Þeir deila á hinn bóginn um hvort áfrýjandi hafi sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir slysi í skilningi skilmála slysatryggingar sjómanna hjá stefnda. Í skilmálum tryggingarinnar segir: „Félagið greiðir bætur vegna slyss, er sá, sem tryggður er, verður fyrir, eins og segir í skírteininu. Með orðinu „slys“ er hér átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð, sem veldur meiðslum á líkama þess, sem tryggður er, og gerist sannanlega án vilja hans.“ Í leiðarbók […] er að finna svofellda skráningu 17. apríl 2012: „13 55 Misstígur A sig við lestun í lest. Þegar hann er að stýra 40 feta gámi af lúgu karmi milli 4-5 lestar. Á hægri fæti á ökkla.“ Í slysaskýrslu stefnda, sem undirrituð var af skipstjóra skipsins, var atvikið skráð með sama hætti. Auk þess sagði: „17.04.12 A fer til læknis á spítala á Akranesi. Fóturinn myndaður og síðan settur í gips. Samkv. lækni telur hann að um brot sé að ræða og mikla tognun.“ Í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, sem undirrituð var af fyrirsvarsmanni útgerðar skipsins 23. apríl 2012, en af áfrýjanda 29. maí sama ár, sagði: „Um kl. 13:55 þegar A háseti var að stýra 40 feta gám í sellu frá lúgukarmi missteig hann sig illa við lúgukarm milli 4 og 5 lesta.“ Jafnframt var tiltekið að enginn sjónarvottur hefði verið að atvikinu.             Í læknabréfi Friðriks Elvars Yngvasonar læknis 23. apríl 2012 sagði: „A meiddi sig á fæti er hann hoppaði ofan af vörubílspalli á flatjárn. Gerðist á Akranesi þann 17. apríl sl. Hefur síðan verið í L-spelku með mikla bólgu á fætinum en röntgen greindi ekki brot.“ Í áverkavottorði Þóris Bergmundssonar læknis 8. nóvember 2012 sagði svo um atvikið: „Var að störfum við undirbúning fyrir brottför þar sem skipið var statt í höfn á Grundartanga í Hvalfirði. Sté ofan af palli og kom illa niður á hæ. fæti þannig að hann snerist í ökklanum. Heyrði smell og bólgnaði strax upp. Kom strax eftir óhappið hingað til skoðunar á slysastofu.“             Í málinu liggur einnig fyrir skýrsla Rannsóknarnefndar sjóslysa þar sem sagði: „Skipverji var að vinna við lestun og hafði verið að stýra 40 feta gám í sellu en þegar hann steig niður af palli niður á lúgukarm lenti hann með hægri fótinn á járnbrík með þeim afleiðingum að hann missteig sig illa. Farið var með hann til læknis og var hann talin brotinn í fyrstu en í ljós kom að um mjög slæma tognun var að ræða.“ Sagði þar enn fremur að við rannsókn hafi komið fram „að járnbríkin var u.þ.b. 5 sm há og var til að varna því að slor frá gámum rynni yfir ganga í síðunum; að bríkin var ryðguð eins og karmurinn sem gerði þetta samlitt; að eftir atvikið var ætlunin að mála bríkina gula til auðkenningar; að skipverjinn var í öryggisskóm.“ Loks var tekið fram að nefndin myndi ekki álykta í málinu.             Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt yfirlýsingar skipstjóra og tveggja stýrimanna á […] 10. júlí 2017 þar sem fram kemur að af gefnu tilefni skuli það tekið fram að það sem fært hafi verið í leiðarbók skipsins um atvik hafi ekki verið eftir áfrýjanda haft. Skömmu síðar hafi þeir á hinn bóginn fengið þær upplýsingar frá honum sjálfum að hann hefði misstigið sig við að stíga hægri fæti niður á járnbrík, sem soðin hafi verið föst í þilfar skipsins. Þá hefur áfrýjandi lagt fram yfirlýsingu þáverandi öryggisfulltrúa útgerðar skipsins 16. ágúst 2017 um að áfrýjandi hefði haft samband við sig skömmu eftir atvik og upplýst um að hann hefði slasast við að stíga á umrædda járnbrík sem verið hafi samlit þilfari skipsins og borið fram ósk um að það yrði lagað. Þegar áfrýjandi hafi snúið til vinnu á ný hefði verið farið yfir slysahættur um borð í skipinu og meðal annars gerðar þær ráðstafanir að mála umrædda járnbrík gula til aðgreiningar frá þilfari skipsins. IV             Samkvæmt því sem að framan er rakið greina samtímagögn frá því að áfrýjandi hafi misstigið sig illa á hægri fæti við vinnu um borð í […] 17. apríl 2012 og er fram komið að hann var þegar fluttur á spítala. Af framangreindum yfirlýsingum skipverja er nægilega leitt í ljós að færslur í bækur skipsins um atvikið grundvölluðust ekki á frásögn áfrýjanda.  Við úrlausn málsins verða yfirlýsingar þessar lagðar til grundvallar um að áfrýjandi hafi þegar látið vita um hvað gerst hafði og á grundvelli lýsinga áfrýjanda hafi útgerð skipsins gripið til viðeigandi ráðstafana með því að gera umrædda járnbrík sýnilegri. Þá er frásögn áfrýjanda um málavexti í samræmi við niðurstöðu Rannsóknarnefndar sjóslysa um að hann hafi misstigið sig er hann lenti með hægri fótinn á járnbríkinni. Hefur áfrýjandi með þessu nægilega leitt í ljós hvernig atvik að slysi hans voru. Verður talið að það hafi verið utanaðkomandi atburður er hann lenti með hægri fót á járnbrík þegar hann hugðist stíga niður á þilfarið og að um hafi verið að ræða skyndilegan atburð í skilningi skilmála slysatryggingarinnar sem skapar áfrýjanda rétt til bóta úr hendi stefnda.             Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað vegna reksturs málsins á báðum dómstigum, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Viðurkenndur er réttur áfrýjanda, A, til bóta úr slysatryggingu sjómanna, sem […] ehf. tók hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., vegna líkamstjóns er áfrýjandi hlaut í slysi 17. apríl 2012.             Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.   D Ó M U R Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2017 í málinu nr. E-2474/2016:                                                                                               Mál þetta var höfðað 2. september 2016 af A, […] aðallega gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, 103 Reykjavík, en til vara […] hf., Korngörðum 2, 104 Reykjavík. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð sem fram fór 16. maí sl. Krafa stefnanda er aðallega að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda úr slysatryggingu sjómanna, vegna líkamstjóns þess er stefnandi hlaut í vinnuslysi 17. apríl 2012, um borð í […]. Til vara að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda […] hf., vegna líkamstjóns þess er stefnandi hlaut í vinnuslysi 17. apríl 2012, um borð í […]. Krafist er í báðum tilvikum málskostnaðar að skaðlausu, að mati dómsins, í samræmi við þá hagsmuni sem í húfi eru og vinnu málflytjanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. I. Stefnandi starfaði alla sína starfsævi sem sjómaður og hefur um árabil verið háseti á kaupskipum […], nú […] hf. Þann 17. apríl 2012 slasaðist stefnandi þegar hann var við vinnu sína um borð í […]. Skipið var þá við bryggju á Grundartanga og var verið að lesta gáma ofan í eina af lestum skipsins. Var stefnandi að stýra verkinu og segja kranamanni til. Við þessa vinnu kveðst stefnandi verða að vera hreyfanlegur til að geta gefið kranamanni fyrirmæli og komið gámunum á réttan stað og skorðað ofan í lest skipsins, sem og til þess að varast gámana þegar verið er að hífa þá frá bryggju. Til að geta fylgst með verkinu og leiðbeint kranamanninum þurfti stefnandi að stíga upp á vinnupalla sem standa ofar en þilfarið á milli lestanna. Hann þurfti svo að koma sér aftur af vinnupallinum niður á þilfarið á milli lestanna, horfa ofan í þær og segja kranamanninum til við að koma gámunum þar rétt fyrir. Um þetta vinnulag hefur ekki verið gerður ágreiningur. Þegar slysið varð kveðst stefnandi hafa, sbr. framangreint, staðið uppi á vinnupallinum til þess að geta leiðbeint kranamanninum. Er hann ætlaði að koma sér niður af pallinum vildi ekki betur til en að hann að eigin sögn steig með hægri fæti á járnbrík sem er á þilfarinu og við það tognaði hann illa á ökkla og varð strax óvinnufær og þurfti að leita sér læknisaðstoðar. Enginn sjónarvottur varð að slysinu. Ágreiningslaust er að stefnandi missté sig umrætt sinn. Stefndi hefur hins vegar hafnað því að það hafi gerst vegna þess að stefnandi steig á umrædda járnbrík. Því finni ekki stað í slysaskýrslu skipstjóra sem undirrituð var af honum á slysdegi né í skipsdagbók. Þá sé þessa ekki getið í tilkynningu um slys á sjómanni til Tryggingastofnunar ríkisins sem dagsett er 23. apríl 2012 og undirrituð þá af fulltrúa útgerðarinnar en undirrituð 29. maí 2012 af stefnanda. Í skýrslu Rannsóknarnefndar sjóslysa, mál nefndarinnar nr. 050/12, er greint frá tildrögum slyssins. Þar segir að stefnandi hafi verið að „vinna við lestun og hafði verið að stýra 40 feta gám í sellu en þegar hann steig niður af palli niður á lúgukarm lenti hann með hægri fótinn á járnbrík með þeim afleiðingum að hann missteig sig illa. Farið var með hann til læknis og var hann talinn brotinn í fyrstu en í ljós kom að um mjög slæma tognun var að ræða“. Í skýrslu nefndarinnar kemur jafnframt fram að járnbríkin hafi verið u.þ.b. 5 cm há og verið til að varna því að slor frá gámum rynni yfir ganga í síðunum. Bríkin hafi verið ryðguð eins og karmurinn sem gerði þetta samlitt og að eftir atvikið hafi verið ætlunin að mála bríkina gula til auðkenningar, sem var svo gert. Loks var tekið fram að stefnandi hafi verið í öryggisskóm. Vegna höfnunar stefnda á greiðsluskyldu var málinu skotið til úrskurðarnefndar vátryggingamála 3. september 2014. Með áliti úrskurðarnefndarinnar […]2014 var greiðsluskyldu stefnda hafnað, með vísan til þess, að „Þegar litið er til fyrstu skýrslna [stefnanda] um aðdraganda líkamstjónsins verður að leggja til grundvallar að það verði ekki rakið til annars en misstigs og þar af leiðandi ekki til utanaðkomandi atburðar í skilningi slysahugtaks vátryggingaréttarins heldur til innra ástands í líkama [stefnanda]“. Framangreind skýrsla rannsóknarnefndarinnar lá einhverra hluta vegna ekki fyrir, eða var a.m.k ekki tiltæk aðilum, fyrr en skömmu fyrir 1. júní 2016 að því er virðist þótt erindi hafi borist nefndinni strax í júní 2012 og svo virðist sem samantekt nefndarinnar hafi legið fyrir í september það ár. Með tölvuskeyti 1. júní 2016 óskaði lögmaður stefnanda þannig eftir því við stefnda, að hann tæki málið upp aftur vegna slysatryggingar sjómanna enda hefðu málsatvik fyrst legið skýrt fyrir eftir að skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom í leitirnar. Stefndi hafnaði þessari málaleitan sem og því að vanbúnaður hefði leitt til slyssins. II. Stefnandi krefst í málinu aðallega viðurkenningar á bótaskyldu stefnda úr slysatryggingu sjómanna, sem í gildi var hjá stefnda á slysdegi, vegna afleiðinga vinnuslyss hans 17. apríl 2012. Samkvæmt skilmálum slysatryggingarinnar sé með hugtakinu slys átt við skyndilegan og utanaðkomandi atburð, sem veldur meiðslum á líkama þess sem vátryggður er, og gerist án vilja hans. Stefnandi kveðst viðurkenna að fordæmi séu fyrir því að sé um það eitt að ræða að einstaklingur misstígi sig þá hafi það ekki verið talið slys í framangreindum skilningi. Hann byggir hins vegar á því að í þessu máli sé hinn skyndilegi utanaðkomandi atburður sá að stefnandi hafi stigið á járnbríkina. Samkvæmt gögnum málsins megi teljast sannað að stefnandi hafi slasast er hann steig af vinnupallinum niður á járnbríkina með þeim afleiðingum að hann tognaði illa á ökkla. Að mati stefnanda sé því bersýnilega um að ræða slys í skilningi skilmála slysatryggingar sjómanna og slysahugtaks vátryggingaréttar. Stefnandi tekur sem dæmi dóma Hæstaréttar í málunum nr. 47/2006 og nr. 412/2011, enda verði meiðsli stefnanda ekki rakin til innri atburðar, álagsmeiðsla eða sjúkdóms hans. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar, þar sem tildrögum slyssins sé lýst með skýrum og skilmerkilegum hætti, hafi ekki legið fyrir þegar málið var til úrlausnar hjá úrskurðarnefnd vátryggingarmála. Skráning skipstjórnarmanns á […] í skipsdagbók, sem stefnandi hafi ekki komið nálægt og tekin var orðrétt upp í slysatilkynningu útgerðar til Sjúkratrygginga Íslands og stefndi byggir höfnun sína á, falli saman við lýsingu rannsóknarnefndarinnar á tildrögum slyssins, þó svo að þær séu ekki nákvæmlega eins. Einhliða skráning í skipsdagbók geti ekki ein og sér verið grundvöllur fyrir höfnun stefnda á greiðsluskyldu. Ef talið verður að um misræmi sé að ræða í gögnum málsins, sem frá vátryggingartaka stafa um tildrög slyssins, slysatilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands og skýrslu rannsóknarnefndarinnar, verður stefndi en ekki stefnandi að bera halla af slíku, enda hvíli á honum lögbundin skylda til að senda þessar tilkynningar. Til vara krefst stefnandi viðurkenningar á bótaskyldu útgerðar […], […] hf., úr frjálsri ábyrgðartryggingu útgerðarinnar hjá stefnda, vegna afleiðinga vinnuslyss stefnanda. Byggir stefnandi á því að það hafi verið óforsvaranlegt að umrædd járnbrík, sem sé 5 cm há, á vinnusvæði skipverja, hafi verið samlit þilfarinu, en þetta hafi haft í för með sér óþarfa slysahættu fyrir skipverja skipsins, en vegna þessa hafi stefnandi ekki með góðu móti getað greint bríkina frá þilfari, þar sem vinnan við lestun gámanna fór fram. Lestun og losun 40 feta gáma sé vandasamt og hættulegt verk. Ekki verði séð að stefnanda hafi verið mögulegt að vinna verkið með öðrum hætti en hann gerði. Horfa verði hér sérstaklega til þess við sakarmat, að eftir slysið hafi járnbríkin verið máluð með gulu lakki, til að koma í veg fyrir að slys eins og stefnanda myndu endurtaka sig, en þessar öryggisráðstafanir hafi í senn verið einfaldar og haft lítinn kostnað í för með sér. Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, segi að skip skuli smíðað og búið út á þann hátt að öryggi mannslífa sé tryggt eins og kostur er og með tilliti til þeirra verkefna sem því er ætlað á hverjum tíma. Í 3. mgr. sömu greinar segi að vinnusvæði og vistarverur skipverja skuli hanna og búa með hliðsjón af öryggi og velferð skipverja. Stefnandi telur því að slys hans megi rekja til ófullnægjandi vinnuaðstæðna á vinnusvæði á þilfari skipsins. Hafi vinnusvæðið ekki verið til samræmis við framangreind öryggisfyrirmæli laga nr. 47/2003. Verði stefndi því, á grundvelli sakar- og húsbóndaábyrgðarreglu skaðabótaréttar, að bera skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda, að hafa látið hjá líða að grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar voru til að tryggja öryggi stefnanda og annarra skipverja. Um afleiðingar slyssins fyrir stefnanda vísist til matsgerðar Atla Þórs Ólasonar, læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, frá 26. september 2013, þar sem stefnanda var metinn varanlegur miski og varanleg örorka vegna afleiðinga slyssins. Stefnandi uppfylli því í málinu áskilnað 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um lögvarða hagsmuni. Stefnandi byggir á almennum reglum vátryggingaréttar og þágildandi vátryggingaskilmálum. Jafnframt lögum um vátryggingasamninga nr. 30/2004 og meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingagildi samninga og efndir fjárskuldbindinga. Þá byggir stefnandi á meginreglum skaðabótaréttar um skaðabætur utan samninga, sakarreglunni og reglum skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitenda á saknæmum verkum/aðgæsluleysi starfsmanna sinna. Einnig vísist til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993 og siglingalaga nr. 34/1985, einkum 171. og 172. gr. laganna. Varðandi viðurkenningarkröfuna vísist til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um aðild stefnda í varakröfu vísist til 44. gr. laga nr. 30/2004. Um málskostnað vísast til laga nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr. Um virðisaukaskatt vísist til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. III. Aðalstefndi krefst sýknu á þeim grundvelli að ósannað sé að óhapp stefnanda 17. apríl 2012 geti fallið undir hugtakið „skyndilegur utanaðkomandi atburður“ en slíkt sé grunnforsenda þess að sá sem fyrir meiðslum verður eigi bótarétt úr slysatryggingu þeirri sem um ræði, enda gerist atburðurinn án vilja tjónþola. Ágreiningslaust sé að engin vitni voru að atvikinu. En í fyrstu tilkynningum vegna slyssins komi fram að stefnandi hafi misstigið sig án þess að það sé útskýrt nánar. Samtímagögn séu samstíga um þetta. Það hafi ekki verið fyrr en síðar sem rætt var um að stefnandi hefði misstigið sig við að stíga á 5 cm járnbrík á þilfari skipsins. Það sé með öllu ósannað og engar upplýsingar um hvernig Rannsóknarnefnd sjóslysa hafi fengið upplýsingar í þá veru. Þá beri að líta til þess að stefnandi hafi verið mjög reyndur sjómaður og ekkert hafi verið óvenjulegt við útbúnað […] né umrædda járnbrík. Bríkin hafi þjónað nauðsynlegu hlutverki og það að einhver misstígi sig á henni geti ekki talist utanaðkomandi atburður. Varastefndi byggir á því að ósannað sé að […] hafi verið vanbúið í skilningi laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum. Hvorki fyrr né síðar hafi komið fram athugasemdir við aðbúnað skipsins. Hann tekur undir sjónarmið aðalstefnda um að ósannað sé að slysið verið rakið til umræddrar járnbríkur. Ekkert óeðlilegt hafi verið við staðsetningu hennar en hún eigi að varna því að slor frá gámum renni yfir ganga í síðum skipsins. Ekkert óeðlilegt sé við það að slík brík ryðgi og verði samlit öðru járni í gólfi. Þá vísar varastefndi til víðtækrar reynslu stefnanda á sjó, og bendir á þá staðreynd að stefnandi hafi lent í fjölmörgum vinnuslysum og búi við fjölþætt einkenni vegna þeirra. Því hafi stefnanda borið að sýna sérstaka aðgæslu við störf sín. Varastefndi telur því að óhappið megi fyrst og fremst rekja til óhappatilviljunar og/eða gáleysis stefnanda sjálfs. IV. Dómurinn telur að ekki verði gerður ágreiningur um að enginn sjónarvottur hafi verið að slysinu. Gengið er út frá því í öllum málatilbúnaði aðila og eina vísbendingin um vitni að atvikinu er þegar fullyrt er í málsskoti til úrskurðarnefndar vátryggingamála að stjórnandi krana skipsins umrætt sinn hafi orðið vitni að slysinu og þegar stefnandi hafi stigið á járnbríkina. Verður ekki betur séð en að þessi staðhæfing líti fyrst dagsins ljós um það bil tveimur árum eftir atvikið og hún birtist ekki í stefnu málsins. Umrætt vitni sem var nafngreint var ekki kallað fyrir dóminn þrátt fyrir áskilnað í stefnu málsins og verður það metið stefnanda í óhag. Ekkert annað bendir til þess að einhver hafi séð atvikið. Gegn eindregnum andmælum stefnanda telur dómurinn að ekki sé hægt að fallast á annað en að með hliðsjón af framangreindu verði lýsing á slysinu á slysdegi og í framhaldi eðli máls samkvæmt rakin til stefnanda sjálfs. Því hljóti lýsing í slysaskýrslu útgerðar sem undirrituð var á slysdegi af skipstjóra […] að styðjast við lýsingu stefnanda. Hið sama gildir um færslu í skipsdagbók sem er á sama veg, en athygli vekur að sú færsla virðist framkvæmd af öðrum skipverja en skipstjóranum miðað við rithönd. Í tilkynningu um slys á sjómanni til útgerðar og Sjúkratrygginga Íslands, sem undirrituð er af fulltrúa útgerðarinnar 23. apríl 2012 og undirrituð af stefnanda 29. maí það ár, er nákvæmlega sama upp á teningnum. Í þeirri tilkynningu var slysinu lýst með nákvæmlega sama hætti og í slysaskýrslu útgerðar, eða með eftirfarandi hætti: „Um kl. 13:55 þegar A háseti var að stýra 40 feta gám í sellu frá lúgukarmi missteig hann sig illa við lúgukarm milli 4 og 5 lesta.“ Efnislega er lýsingin hin sama í skipsdagbókinni. Í þessum skjölum er hvergi minnst á að stefnandi hafi misstigið sig vegna þess að hann hafi stigið á járnbrík. Það er fyrst með athugun Rannsóknarnefndar sjóslysa á atvikinu þar sem því er lýst að stefnandi hafi stigið á umrædda járnbrík og það hafi verið orsök þess að hann missteig sig. Ekki hafa verið lögð fram gögn í málinu sem staðfesta hvenær skýrslan var unnin en málið er merkt sem nr. 050/12. Sérstaklega er tekið fram í skýrslunni að atvikið hefði ekki kallað á ályktun nefndarinnar. Eftir þetta hefur stefnandi byggt á því að þetta hafi valdið tjóninu. Stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir því hvað gerðist á þilfari […] 17. apríl 2012 og olli áverkum á hægri ökkla hans. Dómurinn telur óhjákvæmilegt að líta til þess að þær tilkynningar sem fyrst voru sendar vegna slyssins og skráningar sem voru gerðar láta ekki getið um að slysið megi rekja til margnefndrar járnbríkur. Þá verður ekki við annað miðað en að þær upplýsingar sem varpa ljósi á atvik málsins verði raktar til stefnanda sjálfs enda engir sjónarvottar að slysinu. Einnig verður ekki litið fram hjá því að stefnandi sjálfur ritaði undir og staðfesti þannig tilkynningu til útgerðar og Sjúkratrygginga Íslands tæpum einum og hálfum mánuði eftir slysið en þar er járnbríkur hvergi getið. Aðilar málsins voru sammála um það við aðalmeðferð málsins að það eitt að misstíga sig geti ekki talist vera „skyndilegur utanaðkomandi atburður“ í skilningi skilmála tryggingarinnar. Vísaði lögmaður stefnanda þessu til stuðnings til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 47/2006; að það yrði að koma til einhvers meira. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar verður komist að þeirri niðurstöðu að þessi sé einmitt raunin í málinu og ósannað verði því að telja að stefnandi hafi stigið á járnbríkina og hún valdið því að stefnandi missteig sig. Er því ekki ástæða til að fjalla um hvort sú atburðarás, ef talin sönnuð, hefði leitt til bótaskyldu á þeim grundvelli, að þá hefði verið fullnægt skilyrði um skyndilegan utanaðkomandi atburð. Hið sama á við kröfu stefnanda á hendur varastefnda. Ósannað er þannig að járnbríkin hafi stuðlað að slysinu eða verið helsta örsök þess. Jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að bríkina hefði átt að mála skærum lit eða að um einhvers konar vanbúnað hafi verið að ræða verður ekki séð að orsakatengsl á milli meints vanbúnaðar og slyssins væru þá sönnuð. Með vísan til framangreinds verða því bæði aðalstefndi og varastefndi sýknaðir af kröfum stefnanda. Með hliðsjón af málsatvikum þykir þó rétt að málskostnaður falli niður.            Af hálfu stefnanda flutti málið Jónas Þór Jónasson hæstaréttarlögmaður og af hálfu stefndu flutti málið Guðjón Ármannsson hæstaréttarlögmaður.  Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Aðalstefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., og varastefndi, […] hf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda, A.                                                              Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 594/2017
Ráðningarsamningur Kjarasamningur Laun
Ágreiningur J og H hf. snérist um það hvort J hefði fengið laun sín greidd að fullu í samræmi við ráðningarsamning þeirra og kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands vegna starfa hans í hvalstöðinni í Hvalfirði á árinu 2015. J höfðaði mál og krafði H hf. um sérstaka greiðslu í samræmi við ráðningarsamning aðila, bónusgreiðslu í samræmi við samkomulag SA og SGS um kjaramál fiskvinnslufólks og frítökurétt og vikulegan frídag í samræmi við fyrrefndan kjarasamning. Var fallist á með J að uppsetning og orðalag ákvæðisins um hina sérstöku greiðslu í ráðningarsamningnum hafi verið með þeim hætti að J hafi mátt ætla að um hefði verið að ræða greiðslu sem innt yrði af hendi til viðbótar föstu vaktagreiðslunni. Þá kom fram í dómi Hæstaréttar að hvíldartími J hefði verið skertur um fimm daga og þó ekki væri gert ráð fyrir að umræddir frídagar væru launaðir hefði verið ljóst að H hf. hefði borið ábyrgð á að J fengi þá lágmarkshvíld sem í kjarasamningi greindi. Þar sem H hf. hafði ekki gert það var honum gert að greiða J dagvinnulaun vegna þeirra daga. Var krafa J því tekin til greina að hluta.
                                                        Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. september 2017 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 7. nóvember 2017. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 1.062.847 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. janúar 2016 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að viðurkennd verði skylda aðaláfrýjanda til að greiða sér eftirfarandi greiðslur vegna vinnu fyrir hann á árinu 2015: „(i) sérstaka greiðslu í samræmi við 3. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings aðila ... (ii) bónusígildi-lágmarksbónus í samræmi við samkomulag SA og SGS um kjaramál fiskvinnslufólks 28. maí 2015. (iii) frítökurétt í samræmi við grein 2.4. í aðalkjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem tók gildi 1. febrúar 2014, að teknu tilliti til breytinga og viðbóta 28. maí 2015. (iv) vikulegan frídag í samræmi við grein 2.4. í aðalkjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem tók gildi 1. febrúar 2014, að teknu tilliti til breytinga og viðbóta 28. maí 2015.“ Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi snýst ágreiningur aðila um það hvort gagnáfrýjandi hafi fengið laun sín greidd að fullu í samræmi við ráðningarsamning aðila og kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands vegna starfa hans í hvalstöðinni í Hvalfirði á árinu 2015. Krafa gagnáfrýjanda er sett fram í fjórum liðum. Fjórði liður kröfunnar varðar greiðslu vegna vikulegs frídags sem gagnáfrýjandi reisir á grein 2.4.3. fyrrnefnds kjarasamnings. Þar segir að á hverju sjö daga tímabili skuli starfsmaður hafa að minnsta kosti einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma og skuli við það miðað að vikan hefjist á mánudegi. Verður ákvæði þetta ekki skilið á þann veg að launþegi ávinni sér sér slíkan frídag á launum heldur að haga beri skipulagningu vinnunnar með þeim hætti að gætt sé að þessum vikulega hvíldartíma en vinnuveitandi ber ábyrgð á að svo sé. Verður fallist á það með aðaláfrýjanda að þegar gagnáfrýjandi fékk frí að minnsta kosti einn dag í viku hverri ýmist vegna eigin óska eða svokallaðra brælufría hafi framangreindu ákvæði kjarasamningsins verið fullnægt. Frídagur vegna veikinda telst hins vegar ekki frídagur í skilningi ákvæðisins. Í málinu liggja fyrir gögn, sem stafa frá aðaláfrýjanda, um fjölda vakta sem gagnáfrýjandi vann á þeim tíma sem hér um ræðir, fjarvistir hans vegna fría að eigin ósk, fjölda veikindadaga og brælufrí. Þegar tekið hefur verið tillit til þeirra vikulegu tímabila þegar gagnáfrýjandi fékk frí að eigin ósk og þegar hann fékk frí vegna brælu, sem reyndar voru launuð, samræmast gögn þessi því að hvíldartími gagnáfrýjanda var skertur um fimm daga á öllu tímabilinu, um þrjá daga á tímabilinu 6. júlí til 26. sama mánaðar, um einn dag á tímabilinu 3. ágúst til 9. sama mánaðar og um einn dag á tímabilinu 14. september til 20. sama mánaðar. Enda þótt ekki sé gert ráð fyrir að umræddir frídagar séu launaðir er ljóst að aðaláfrýjandi bar ábyrgð á að gagnáfrýjandi fengi þá lágmarkshvíld sem í kjarasamningi greinir. Þar sem hann fór ekki að kjarasamningi að þessu leyti verður honum gert að greiða gagnáfrýjanda dagvinnulaun vegna þessara daga, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. maí 2018 í máli nr. 387/2017. Gagnáfrýjandi reiknar tímagjald dagvinnu með því að deila með dagafjölda í þá fjárhæð sem hann fékk greitt fyrir hverja vakt á virkum degi, en þá greiðslu fékk hann án tillits til þess hvenær sólarhringsins hann vann og bera gögn málsins með sér að inn í þeirri fjárhæð hafi verið vaktaálag. Verður því ekki unnt að styðjast við þá útreikninga en fyrir liggur að gagnáfrýjandi tók laun samkvæmt launaflokki 13 í kjarasamningi og voru dagvinnulaun á þessum tíma 1.447,27 krónur á tímann. Verður því tekin til greina krafa gagnáfrýjanda að þessu leyti að fjárhæð 57.891 króna. Um hina þrjá liði í kröfu gagnáfrýjanda verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans. Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Aðaláfrýjandi, Hvalur hf., greiði gagnáfrýjanda, Jökli Þór Jónssyni, 512.947 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. janúar 2016 til greiðsludags. Málskostnaðarákvæði hins áfrýjaða dóms skal vera óraskað. Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.       Dómur Héraðsdóms Vesturlands 28. júní 2017. I. Mál þetta, sem dómtekið var 10. maí sl., er höfðað af Jökli Þór Jónssyni, Stillholti 5, Akranesi, á hendur Hval hf., Miðsandi, 301 Akranesi, með stefnu birtri 5. janúar 2016. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndi greiði honum 1.062.847 krónur, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 19. janúar 2016 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að viðurkennd verði skylda stefnda til að greiða stefnanda eftirfarandi greiðslur vegna vinnu fyrir stefnda á árinu 2015: 1)       Sérstaka greiðslu í samræmi við 3. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings aðila, Jökuls og Hvals hf., 29. júní 2015. 2)       Bónusígildi-lágmarksbónus í samræmi við samkomulag SA og SGS um kjaramál fiskvinnslufólks 28. maí 2015. 3)       Frítökurétt í samræmi við grein 2.4 í aðalkjarasamningi Starfsgreina­sambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, sem tók gildi 1. febrúar 2014, að teknu tilliti til breytinga og viðbóta 28. maí 2015. 4)       Vikulegan frídag í samræmi við grein 2.4 í aðalkjarasamningi Starfsgreina­sambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, sem tók gildi 1. febrúar 2014, að teknu tilliti til breytinga og viðbóta 28. maí 2015. Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum málskostnað.   Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu, en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega. Stefndi krefst þess og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu. II. Stefnandi starfaði hjá Hval hf. á hvalvertíð árin 2014 og 2015. Fyrir vertíðina árið 2015 undirritaði hann ráðningarsamning við stefnda 29. júní 2015. Samkvæmt 2. gr. samningsins var stefnandi ráðinn til starfa í hvalstöðinni í Hvalfirði frá 29. júní 2015 til loka hvalvertíðar það ár. Miðað var við að vertíð lyki þegar vinnslu afurða úr síðasta hvalnum væri lokið og skyldi ráðningu þá ljúka án uppsagnar. Samkvæmt launaseðlum lauk vertíðinni 4. október 2015. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. ráðningarsamningsins var almennt vinnufyrirkomulag 12 tíma vaktir nema yfirmaður samþykkti sérstakar óskir starfsmanns eða meirihluta starfsmanna um annað vinnufyrirkomulag. Fyrir liggur í málinu að stefnandi, ásamt fjölmörgum öðrum starfsmönnum stefnda, ritaði hinn 29. júní 2015 undir yfirlýsingu þar sem fram kemur eftirfarandi: „Undirritaðir starfsmenn Hvals hf. í starfsstöð Hvals hf. í Hvalfirði sem munu í sumar ganga tvískiptar vaktir telja að átta klst. vaktir séu mun hagfelldari kostur með tilliti til hvíldartíma en tólf stunda vaktir. Við óskum eftir því að það vaktafyrirkomulag verði notað í sumar eins og gert hefur verið frá 1950 í Hvalfirði.“ Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. samningsins skyldi stefndi greiða stefnanda 33.142 krónur fyrir hverja 12 tíma í vaktavinnu, mánudaga til föstudaga, en 36.997 krónur fyrir hverja 12 tíma í vaktavinnu um helgar og á samningsbundnum frídögum. Þá var í 3. mgr. 3. gr. samningsins kveðið á um það að stefndi skyldi greiða stefnanda sérstaka greiðslu að fjárhæð 5.736 krónur fyrir hverja 12 tíma í vaktavinnu, en í henni væru innifaldar greiðslur fyrir ferðir til og frá vinnustað og greiðsla fyrir frítökurétt í þeim tilvikum þar sem hvíld væri styttri en 11 klukkustundir á sólarhring. Í greininni sagði svo að ef stefnandi yrði beðinn um að vinna þannig að hann næði ekki átta tíma hvíld milli vakta skyldi stefndi greiða honum aukalega 1,5 tíma í dagvinnu fyrir hvern unninn tíma. Stefnandi leitaði til Verkalýðsfélags Akraness vegna þess að hann taldi að stefndi hefði brotið gegn samningsbundnum rétti sínum til launagreiðslna. Verkalýðsfélagið sendi stefnda bréf 15. september 2015 þar sem þess var krafist að laun yrðu leiðrétt afturvirkt. Bréfinu var svarað af Samtökum atvinnulífsins, f.h. stefnda, 22. október 2015 og kom þar m.a. fram að launagreiðslur stefnda væru í samræmi við ráðningar- og kjarasamning. Þar sem frekari bréfaskipti milli aðila högguðu ekki framangreindri afstöðu stefnda höfðaði stefnandi mál þetta á hendur stefnda með birtingu stefnu hinn 5. janúar 2016, eins og fyrr segir. Við aðalmeðferð málsins voru skýrslur teknar af stefnanda, forsvarsmanni stefnda, Kristjáni Loftssyni, og vitnunum Vilhjálmi Birgissyni, Arnari Sigurmundssyni, Friðriki Friðrikssyni, Jökli Harðarsyni og Guðmundi Steinbach. III. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi vísar til þess að laun hans eigi að vera í samræmi við ráðningarsamning hans við stefnda og þau lágmarksréttindi sem stefndi hafi skuldbundið sig til að hlíta samkvæmt kjarasamningi. Stefndi hafi hins vegar ekki greitt stefnanda svonefnda sérstaka greiðslu sem þó sé kveðið sérstaklega á um í ráðningarsamningi. Auk þess hafi stefndi hlunnfarið stefnanda um rétt til greiðslu bónusígildis-lágmarksbónuss, frítökuréttar og vikulegs frídags í samræmi við kjarasamning. Stefnda sé óheimilt að skerða samningsbundin réttindi stefnanda. Ákvæði ráðningarsamnings séu ógild að svo miklu leyti sem þau fari í bága við kjarasamning, sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Jafnvel þótt stefndi greiði meira en lágmark samkvæmt kjarasamningi í einum lið geti hann ekki skert aðra liði niður fyrir lágmarksréttindi. Þannig geti stefndi t.d. ekki skert frítöku- og bónusrétt stefnanda með vísan til þess að tímagjald sé almennt hærra en kjarasamningur geri ráð fyrir. Stefnandi kveðst aðallega gera fjárkröfu sem nemi þeim vangoldnu launum sem hann eigi inni hjá stefnda. Ef dómstólar telji af einhverjum ástæðum ómögulegt að fallast á fjárkröfuna sé til vara gerð krafa um að viðurkennd verði skylda stefnda til að greiða tilteknar tegundir launatekna. Á grundvelli slíks dóms sé svo hægt að reikna út réttar greiðslur. Stefnandi hafi því beina og lögvarða hagsmuni af því að sækja viðurkenningarkröfur sínar fyrir dómi. Vinnu stefnanda á hvalvertíðinni 2015 hafi verið þannig háttað að stefnandi hafi að meginreglu til unnið allan sólarhringinn á 8 klst. vöktum með 8 klst. hléum á milli vakta. Í samræmi við 2. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings hafi stefnda borið að greiða stefnanda 33.142 krónur fyrir hverjar 12 klst. í vaktavinnu, mánudaga til föstudaga, en 36.997 krónur fyrir hverjar 12 klst. í vaktavinnu um helgar og á samningsbundnum frídögum. Miðað við 8 klst. í vaktavinnu, í stað 12 klst., hafi stefnda borið að greiða stefnanda 22.095 krónur fyrir hverja 8 klst. vakt, mánudaga til föstudaga (8/12 x 33.142 kr.), en 24.665 krónur fyrir hverja 8 klst. vakt um helgar og á samningsbundnum frídögum (8/12 x 36.997 kr.). Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings hafi stefnda jafnframt borið að greiða stefnanda sérstaka greiðslu að fjárhæð 5.736 krónur fyrir hverja 12 klst. vakt í vaktavinnu, en fyrir 8 klst. vakt nemi hún samtals 3.824 krónum (8/12 x 5.736 kr.). Stefndi hafi ekki greitt sérstakar greiðslur fyrir unnar vaktir. Ekki standist sú fullyrðing stefnda að hin sérstaka greiðsla skuli vera innifalin í þeirri fjárhæð sem tilgreind sé í 2. mgr. 3. gr. ráðningarsamningsins fyrir vaktavinnu, enda hafi launakjörin verið kynnt fyrir stefnanda á þann veg að sérstaka greiðslan væri, eins og heitið beri með sér, sérstök og bættist við greiðslur fyrir hverja vakt. Í ráðningarsamningi séu þessi tvö atriði greinilega aðgreind. Stefnandi hafi með réttu mátt gera ráð fyrir að um væri að ræða tvo aðskilda launaliði, en ekki að annar liðurinn væri innifalinn í hinum. Í 2. mgr. 3. gr. samningsins sé gerð grein fyrir því hvað skuli greiða fyrir vaktavinnu en í 3. mgr. 3. gr. samningsins sé síðan gerð grein fyrir sérstakri greiðslu. Ákvæði 3. gr. ráðningarsamningsins verði því ekki skilið öðruvísi en svo að stefnandi eigi rétt á hvoru tveggja, greiðslu fyrir vaktavinnu og auk þess sérstakri greiðslu. Ekkert tilefni sé til að túlka ákvæði 3. gr. á þann veg að sérstök greiðsla skv. 2. mgr. sé hluti af greiðslu fyrir vaktavinnu skv. 3. mgr. Við túlkun 3. gr. ráðningarsamningsins verði enn fremur að líta til þess að stefndi hafi einhliða samið umrætt ákvæði og samkvæmt andskýringarreglunni verði hann því að bera hallann af því ef orðalag ráðningarsamningsins taki ekki af tvímæli um tilætlan hans. Stefnda hafi borið að gera stefnanda sérstaklega grein fyrir því, væri það vilji hans að sérstök greiðsla væri innifalin í greiðslu fyrir vaktavinnu. Þar sem það hafi ekki verið gert verði að túlka ákvæði samningsins stefnanda í hag. Það hvíli á stefnda að sýna fram á að samið hafi verið um annað en orðalag samningsins beri með sér. Stefnandi eigi því rétt á sérstakri greiðslu úr hendi stefnda, sem bætist við hverja unna vakt stefnanda á hvalvertíð 2015.   Samkvæmt framangreindu ákvæði ráðningarsamningsins hafi sérstöku greiðslunni verið ætlað að greiða fyrir ferðir til og frá vinnustað og fyrir frítökurétt. Í ákvæðinu hafi þannig falist skuldbinding af hálfu stefnda um að greiða stefnanda fyrir frítökurétt og fyrir ferðir til og frá vinnustað. Slíkar greiðslur eigi raunar einnig stoð í kjarasamningi. Stefndi hafi ekki greitt þessar greiðslur og jafnvel þótt sérstakar greiðslur hefðu verið greiddar dugi þær ekki til að ná lágmarki samkvæmt kjarasamningi. Á launaseðlum stefnanda sé vísað til þess að laun greiðist samkvæmt launataxta fyrir sérhæft fiskvinnslufólk. Einnig komi fram í tölvupósti frá stefnda til stefnanda 28. ágúst 2015 að stefndi greiði stefnanda laun samkvæmt launaflokki 13 og miðað sé við eins árs starfsreynslu. Sá launataxti sé í samræmi við sérstakt samkomulag, sem gert hafi verið 28. maí 2015 um kjaramál fiskvinnslufólks, og samkomulag um launaflokk fisktæknis, undirritað sama dag. Launakjör stefnanda skuli því að lágmarki vera í samræmi við launakjör samkvæmt framangreindu. Þrátt fyrir að stefndi hafi neitað að afhenda stefnanda nákvæmar og sundurliðaðar tímaskýrslur þá liggi fyrir unnar vinnustundir samkvæmt launaseðlum. Samkvæmt því hafi stefnandi unnið samtals 119 vaktir á hvalvertíðinni 2015. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings eigi hann rétt á sérstakri greiðslu fyrir hverja vakt að fjárhæð 3.824 krónur. Samtals eigi stefnandi því rétt á sérstökum greiðslum  á hvalvertíðinni 2015 sem nemi alls 455.056 krónum (119 x 3.824 kr.).   Samkvæmt samkomulagi Samtaka atvinnulífsins (SA) og Starfsgreinasambands Íslands (SGS) 28. maí 2015 um kjaramál fiskvinnslufólks eigi stefnandi rétt á bónusígildi-lágmarksbónus, sem nemi 220 krónum fyrir hverja unna klukkustund, enda hafi stefndi ekki tekið upp afkastatengdar álagsgreiðslur. Þrátt fyrir að ekki hafi verið mælt fyrir um sérstaka bónusgreiðslu í ráðningarsamningi þá eigi stefnandi rétt á greiðslunni á grundvelli 7. gr. laga nr. 80/1938 og 1. gr. laga nr. 55/1980. Kjarasamningsbundin réttindi verði ekki skert með ákvæðum ráðningarsamnings. Þar sem stefnandi hafi unnið 119 vaktir á hvalvertíðinni 2015 og hver vakt hafi verið 8 klst. þá hafi stefnandi samtals unnið 952 klst. (8 x 119). Af því leiði að fyrir hvalvertíðina 2015 eigi stefnandi rétt á greiðslu bónusígildis-lágmarksbónuss, sem nemi samtals 209.440 krónum (952 x 220 kr.). Samkvæmt gr. 2.4.1 í áðurnefndum kjarasamningi eigi stefnandi rétt á að minnsta kosti 11 klst. hvíld á milli vakta. Þrátt fyrir að í ráðningarsamningi sé gert ráð fyrir styttri hvíldartíma en samkvæmt kjarasamningi verði frítökuréttur stefnanda að vera í samræmi við kjarasamning. Stefndi hafi ekki gert lögmæta samninga sem víki fyrrgreindum ákvæðum gr. 2.4.1 í kjarasamningi, um hvíldartíma og frítökurétt, til hliðar. Þar sem stefnandi hafi að meginreglu til unnið allan sólarhringinn á 8 klst. vöktum með 8 klst. hvíld á milli vakta þá hafi verið gengið á framangreindan hvíldartíma stefnanda sem nemi 3 klst. á milli vakta. Vegna þessarar skerðingar á hvíldartíma eigi stefnandi rétt á greiðslu 1,5 klst. í dagvinnu fyrir hverja klst. sem hvíldartími hans hafi verið skertur. Stefndi hafi neitað að veita upplýsingar um vinnu stefnanda á hvalvertíðinni 2015 og verði hann því að bera hallann af því. Stefnanda hafi því verið nauðugur einn kostur að áætla hvernig vinnutíminn skiptist samkvæmt launaseðlum. Frítökuréttur stefnanda sé ákveðinn þannig að gert sé ráð fyrir því að frá því að stefnandi hóf störf þá hafi hann unnið í 8 klst., eftir það tekið sér 8 klst. hlé og því næst hafið aftur vinnu og unnið í 8 klst. og svo koll af kolli þar til fjölda vakta samkvæmt launaseðli fyrir sérhvert launatímabil hafi verið náð. Þegar stefnandi hefji störf eftir einungis 8 klst. hvíld þá hafi réttur hans til hvíldar skerst um 3 klst. þann sólarhringinn. Miðað við framangreint vinnufyrirkomulag stefnanda hafi hvíld hans að jafnaði skerst um 3 klst. á sólarhring. Fjöldi skertra hvíldartíma stefnanda sé því næst lagður saman og sá tími margfaldaður með 1,5, sbr. gr. 2.4.1 í kjarasamningi. Samkvæmt endanlegum útreikningum stefnanda, á dskj. nr. 34, nemi frítökuréttur stefnanda samtals 261 klst. Samkvæmt gr. 2.4.1 í kjarasamningi skuli miða greiðslu frítökuréttar við dagvinnukaup. Í ráðningarsamningi stefnanda sé launagreiðslum hans skipt í laun fyrir vaktir á virkum dögum og laun fyrir vaktir um helgar. Gera verði ráð fyrir því að laun fyrir vaktir á virkum dögum feli í sér samningsbundið dagvinnukaup stefnanda. Dagvinnukaup stefnanda fyrir hverja klst. reiknist því 2.762 krónur (1/12 x 33.142 kr.). Fyrir hvalvertíðina 2015 eigi stefnandi rétt á greiðslu frítökuréttar sem nemi samtals 720.839 krónum (261 x 2.762 kr.). Samkvæmt gr. 2.4.3 í kjarasamningi eigi stefnandi rétt á að minnsta kosti einum vikulegum frídegi á hverju sjö daga tímabili. Samkvæmt fyrrgreindu vinnufyrirkomulagi stefnanda hafi hann að jafnaði ekki átt neinn vikulegan frídag. Stefnandi eigi rétt á greiðslu fyrir vikulega frídaga, sem nemi samtals 48 klst., eða samtals 132.568 krónum. Sérstakri greiðslu sé samkvæmt ráðningarsamningi ætlað að greiða fyrir frítökurétt og ferðir til og frá vinnu. Ekki sé þó gerð sérstök krafa um akstur. Þá sé ekki gerð krafa um að greitt verði tvisvar fyrir frítökurétt. Í eftirfarandi sundurliðun sé gerð krafa um sérstöku greiðsluna að fullu þannig að hún leggist við hverja vakt. Sérstöku greiðslurnar dugi þó ekki til þess að greiða fyrir frítökurétt. Þannig standi eftir krafa fyrir frítökurétt að fjárhæð 265.783 krónur (720.839 kr. - 455.056 kr.). Sérstök greiðsla skv. ráðningarsamningi                       455.056 krónur. Bónusgreiðsla skv. kjarasamningi                                 209.440 krónur. Greiðsla frítökuréttar umfram sérst. greiðslu                               265.783 krónur. Greiðsla fyrir vikulegan frídag                                        132.568 krónur. Samtals                                                                               1.062.847 krónur. IV. Helstu málsástæður og lagarök stefnda Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefndi hafi staðið í fullum skilum með allar greiðslur samkvæmt ráðningarkjörum og skuldi stefnanda ekki neitt. Stefnandi hafi þegar fengið greidd laun í samræmi við störf sín hjá stefnda samkvæmt ráðningarsamningi aðila og 20. kafla kjarasamnings SA og SGS um iðnverkafólk, sem gildi í matvælaiðnaði. Kröfugerð stefnanda byggist á röngum forsendum og útreikningum. Útreikningar stefnanda í greinargerð séu augljóslega rangir, enda hafi hann gefið sér að allar greiddar vaktir hans samkvæmt launaseðlum hafi verið raunverulegar vinnuvaktir þótt hluti vaktanna hafi verið greiddar veikindavaktir og bræluvaktir. Á dskj. nr. 21 sé að finna útreikning vaktalauna miðað við raunverulegan vinnutíma stefnanda og hann borinn saman við launaseðla, en stefnandi hafi fengið laun greidd hálfsmánaðarlega. Fullyrðingar í stefnu um að sérstök greiðsla samkvæmt ráðningarsamningi sé ógreidd sé einfaldlega röng. Hún hafi verið reiknuð inn í vaktakaupið. Auðvelt sé að sjá þetta þegar fjárhæð vaktagreiðslna sé brotin niður. Ekki sé ágreiningur með aðilum um að stefndi hafi miðað laun starfsmanna við 13. launaflokk kjarasamnings SA og SGS fyrir tækjamenn/lyftaramenn, en stefndi hafi yfirborgað starfsmenn sína með því að nota þann launaflokk. Á dskj. nr. 22 sjáist að sérstakri greiðslu hafi verið bætt við tímakaup dagvinnu og yfirvinnu við útreikning á vaktakaupi fyrir 8 klst. vaktir. Þetta sjáist enn betur á dskj. nr. 26, yfirliti yfir vaktir, fjölda unninna tíma og fjölda greiddra tíma. Stefndi hafði þannig bætt sérstöku greiðslunni við fjárhæðir, sem birtist í ráðningasamningnum. Tilvísun í þá greiðslu í ráðningarsamningnum sé einvörðungu til að undirstrika að til hennar hafi verið tekið tillit í tölulegum útreikningi vaktagreiðslna. Ef taka eigi kröfu stefnanda um þetta til greina leiði það til þess að sú greiðsla sé tvígreidd. Um það hafi ekki verið samið í samningnum og því eigi stefnandi ekki rétt til þess. Stefnandi hafi ekki unnið við fiskvinnslustörf, eins og haldið sé fram í stefnu, heldur hafi hann unnið í matvælaiðnaði, það er í kjötvinnslu, við hvalskurð. Vinnsla hvalafurða falli undir ákvæði 20. kafla kjarasamnings SA og SGS sem gildi almennt í matvælaiðnaði skv. grein 20.1, en undanþegnir séu starfsmenn sem starfi skv. 18. kafla um kauptryggingu fiskvinnslufólks. Langreyður, sem sé sú hvalategund sem stefndi veiði, sé næststærsta spendýr jarðar, en hvorki hún né hvalir almennt sé fiskur. Stefnandi hafi því ekki unnið við fiskvinnslustörf og því eigi ákvæði 18. kafla kjarasamnings SA og SGS um fiskvinnslufólk og samkomulag um kjaramál fiskvinnslufólks ekki við um störf hans. Aldrei hafi verið unnið eftir bónuskerfi hjá stefnda í hvalstöðinni í Hvalfirði, eins og tíðkast hafi hjá fiskvinnslufólki við bolfiskvinnslu um áratugaskeið. Stefnandi hafi  ekki verið ráðinn hjá stefnda sem fisktæknir eða til fiskvinnslu og falli hann því ekki undir kjör fiskvinnslufólks. Undir 13. launaflokk SA og SGS falli tækjamenn og lyftaramenn, svo dæmi sé tekið, en samkvæmt upplýsingum stefnanda sé hann með slík réttindi. Launaseðlar sem stefnandi hafi fengið í heimabanka hafi ekki verið með réttu starfsheiti vegna mistaka sem gerð hafi verið í forritun NAVISION-kerfis stefnda árið 2009 og ekki orðið stefnda ljós fyrr en nú. Framsetning launaseðla sem birtist í heimabanka stefnanda gerist sjálfvirkt í launakerfi NAVISION og starfsmenn á skrifstofu stefnda sjái þá ekki, eins og þeir birtist í heimabanka stefnanda. Þess vegna hafi réttir launaseðlar, eins og þeir komi fram í launakerfi stefnda, einnig verið lagðir fram í málinu. Atvinnurekandi hafi túlkunarréttinn um það hvaða kjarasamningsákvæði/kafli skuli gilda. Það sé á hans ábyrgð að framkvæma kjarasamninga. Ljóst sé að stefnandi hafi  alltaf haldið fullum launum, óskertu vaktakaupi, í brælufríum, bæði á virkum dögum og um helgar, þegar ekkert hafi verið að gera vegna þess að hvalur hafi ekki borist á land. Laun sem stefndi hafi greitt hafi verið umfram lágmarkslaunaákvæði 20. kafla, þar sem kveðið sé á um rétt stefnanda til 6. launaflokks fyrir sérhæft iðnverkafólk. Stefndi hafi þess í stað miðað launaútreikninga sína við 13. launaflokk og auk þess greitt stefnanda umfram lögbundið vaktaálag. Stefnandi hafi engan rétt átt til vikulegs frídags eða frítökuréttar samkvæmt  kjarasamningum eða lögum. Þrátt fyrir þetta hafi stefndi greitt starfsmönnum sínum sérstaka greiðslu vegna ferðakostnaðar þeirra við að komast til og frá vinnu og einnig vegna hugsanlegs frítökuréttar. Það hafi hvorki verið óhjákvæmilegt eða nauðsynlegt að hafa vaktakerfið eins og starfsmenn hafi beðið um, þ.e.a.s. 8 klst. vaktir í stað 12 klst. Vegna þeirrar ákvörðunar að hafa 8 klst. vaktir og 8 klst. vaktarfrí milli vakta þá hafi frítökuréttarákvæði alls ekki átt við um vinnu þeirra. Samkvæmt gr. 2.4.2 í kjarasamningnum megi ekki skipuleggja vaktir þannig að brotinn sé hvíldartími. Frítökuréttarákvæðin eigi alls ekki við þegar vaktakerfið samræmist ekki ákvæðum um 11 klst. hvíld.   Starfsmenn hafi ekki verið beðnir um að víkja frá 11 klst. reglunni. Þeir hafi ákveðið það sjálfir með því að óska eftir 8 klst. vöktum og staðfest það með undirskrift sinni. Réttur launþega hljóti að vera sá að þeir geti sjálfir tekið ákvarðanir um það hvernig þeir kjósi að vinna. Eitt sé að eiga réttinn og annað að nýta hann. Eins og yfirlitið um vinnu stefnanda á dskj. 20 beri með sér hafi allra reglna um frítöku verið gætt og vinna verið í fullu samráði við stefnanda. Samanlagður frítími á vinnutíma hans hjá stefnda hafi verið ríflegur og innan þeirra marka sem kjarasamningur geri ráð fyrir á tímabilinu. Raunar komi einnig skýrt fram í 4. mgr. gr. 2.4.2 að kjarasamningsákvæði um frítökurétt eigi ekki við á skipulögðum vaktaskiptum, en þá sé heimilt að stytta hvíldartíma í allt að 8 klst. í stað 11 klst. Starfsmenn stefnda hafi færst á milli vakta þannig að þeir hafi aldrei verið á sömu vaktinni á sama sólarhring. Hafi frítökuréttur hins vegar stofnast þá hafi hann að fullu verið greiddur með sérstöku greiðslunni. Loks sé vakin athygli á því að útreikningur stefnanda á frítökurétti sé augljóslega rangur, sem ætti að leiða til frávísunar málsins vegna vanreifunar.  Stefndi byggir og á því að krafa stefnanda um greiðslu svokallaðs vikulegs frídags verði hvorki reist á ákvæði kjarasamnings né lagaákvæðum. Vikulegur hvíldardagur skv. gr. 2.4.3 sé ekki launaður frídagur, launaður orlofsdagur né heldur safnist vikulegir frídagar, sem hafi ekki verið teknir vikulega, saman og skapi sjálfstæðan rétt til launagreiðslu eftir starfslok, eins og felist í kröfugerð stefnanda. Stefnandi eigi því ekki rétt til launaðra frídaga, eins og hann krefjist í málinu. Í lögum og kjarasamningum hafa um áratugaskeið verið ákvæði um lágmarkshvíld, m.a. ákvæði um vikulegan hvíldardag. Núgildandi lagaákvæði um vikulegan frídag sé að finna í 54. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þar komi m.a. fram að á hverju sjö daga tímabili skuli starfsmaður fá að minnsta kosti einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma skv. 53. gr. Ef sérstök þörf sé á vegna eðlis hlutaðeigandi starfa sé heimilt með samningum samtaka aðila vinnumarkaðarins að fresta vikulegum frídegi þannig að starfsmaður fái samsvarandi hvíldartíma síðar og ávallt innan 14 daga. Þar sem sérstakar ástæður geri slík frávik nauðsynleg megi þó ákveða með samkomulagi á vinnustað að fresta vikulegum hvíldartíma þannig að í stað vikulegs frídags komi tveir samfelldir frídagar á hverjum tveimur vikum. Í lögunum sé hins vegar ekki að finna ákvæði um það að vikulegur frídagur skuli vera launaður né heldur heimili lögin að viðbótarlaunagreiðslur megi koma í stað töku vikulegra frídaga eftir 14 daga. Viðurlög við broti á lögunum geti hins vegar varðað refsingu skv. 99. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 54. gr. megi aðilar vinnumarkaðarins semja um nánari framkvæmd og útfærslu á vikulegum frídegi, þó þannig að starfsmaður fái samsvarandi hvíld síðar og ávallt innan 14 daga. Í kjarasamningum einstakra stéttarfélaga innan ASÍ sé síðan að finna nánari ákvæði um hvíldartíma starfsmanna, sbr. gr. 2.4 um lágmarkshvíld í kjarasamningi SA og SGS. Samkvæmt gr. 2.4.3 í þeim kjarasamningi eigi starfsmaður rétt á a.m.k. einum vikulegum frídegi, en þessi vikulegi frídagur sé ekki launaður samkvæmt samningsákvæðinu. Uppsöfnun ólaunaðra frídaga og umbreyting þeirra í launaða frídaga eigi sér því enga stoð í samningsákvæðinu eða lögum og sé raunar í beinni andstöðu við tilgang lagaákvæðisins. Loks sé á það bent að starfsmenn hafi fengið launuð frí í brælum þegar engin veiði hafi verið og lokið hafi verið vinnslu þess afla sem síðast kom á land. Starfsmenn stefnda hafi farið heim til sín í brælum á fullu vaktakaupi. Þetta hafi í tilfelli stefnanda verið 18 greiddar frívaktir, sem samsvari 12 dögum á hvalvertíðinni 2015. Varðandi viðurkenningarkröfur stefnanda kveðst stefndi telja að þær séu efnislega ódómtækar. Því til stuðnings, og til stuðnings varakröfu sinni um lækkun stefnukröfunnar, vísar stefndi til sömu málsástæðna og að framan greinir. Auk þess mótmælir hann öllum kröfum um vexti eða dráttarvexti skv. lögum nr. 38/2001. V. Niðurstaða Ágreiningur aðila lýtur að því hvort stefnandi hafi fengið fullt uppgjör í samræmi við þann ráðningarsamning sem aðilarnir gerðu með sér hinn 29. júní 2015 og þann kjarasamning sem um laun stefnanda gilti vegna starfa stefnanda hjá stefnda í hvalstöðinni í Hvalfirði til loka hvalvertíðar það ár. Í 4. gr. ráðningarsamningsins er tiltekið að stéttarfélag sé Verkalýðsfélag Akraness og að þegar vitnað sé til kjarasamnings sé átt við kjarasamning Samtaka atvinnulífsins (SA) við Starfsgreinasamband Íslands (SGS). Segir og í 8. gr. að réttindi og skyldur starfsmanns og fyrirtækis fari að öðru leyti skv. lögum og/eða gildandi kjarasamningi. Ekkert er þar þó tiltekið nánar um það eftir hvaða kafla kjarasamningsins stefnandi taki laun. Heldur stefnandi því fram að um laun hans hafi átt að fara í samræmi við launataxta fyrir sérhæft fiskvinnslufólk á grundvelli 18. kafla kjarasamningsins, en það sé í samræmi við það sem tilgreint sé á launaseðlum, sem hann hafi haft aðgang að í heimabanka sínum. Þá komi fram í tölvupósti stefnda til stefnanda að hann hafi greitt stefnanda laun samkvæmt launaflokki 13 og að miðað hafi verið við eins árs starfsreynslu. Vísar stefnandi til samkomulags SA og SGS, dags. 28. maí 2015, um launaflokk fisktæknis, þar sem fram kemur að fisktæknar sem lokið hafi námi frá Fisktækniskóla Íslands skuli raðast í 13. launaflokk samnings þessara aðila, en nám í fisktækni sé nám á framhaldsskólastigi, tvær annir í bóklegu námi og tvær annir vinnustaðatengt nám.  Laun hans eigi að vera í samræmi við kjarasamning SA og SGS fyrir fiskvinnslufólk, nánar tiltekið samkvæmt launaflokki fisktæknis. Stefndi hefur hins vegar alfarið neitað því að laun stefnanda eða annarra starfsmanna hans hafi grundvallast á þeim ákvæðum framangreinds kjarasamnings sem gildi um fiskvinnslufólk, enda hafi engin fiskvinnsla farið fram á hans vegum. Þá tilgreiningu á starfsheiti sem fram komi á þeim launaseðlum sem stefnandi hafi prentað út úr heimabanka sínum og lagt fram í málinu megi rekja til mistaka í forritun launaseðilsins, sem einungis hafi sést í heimabanka launþegans, en starfsmenn við útborgun launanna hafi ekki orðið hans varir fyrr en til málareksturs þessa kom. Hið rétta sé að stefnandi hafi starfað hjá stefnda við hvalkjötsvinnslu og þegið laun samkvæmt 20. kafla kjarasamningsins um iðnverkafólk, sem gildi almennt um laun þeirra sem starfi í matvælaiðnaði. Hann hafi þegið laun samkvæmt 13. launaflokki þess kafla samningsins er gildi fyrir tækjamenn/lyftaramenn, en stefndi hafi yfirborgað starfsmenn sína samkvæmt þeim flokki. Í gr. 20.1, í 20. kafla samningsins sem gildir um iðnverkafólk, kemur fram að hann gildi um iðnverka- og verksmiðjufólk sem starfi í iðnaði, s.s. efna-, plast-, prent-, matvæla-, fata-, skinna-, hreinlætis-, lyfja-, málm- og drykkjarvöruiðnaði, en undanþegnir séu þó starfsmenn sem starfi skv. 18. kafla samningsins um kauptryggingu fiskvinnslufólks og gildandi samningum um sláturhús. Fyrir liggur að hvergi er í ráðningarsamningi stefnanda vikið að kauptryggingu eða tilgreint með öðrum hætti að um laun hans fari eftir umræddum 18. kafla samningsins. Þá verður ekki talið að áðurgreind tilgreining á launaseðli þeim sem stefnandi hafði aðgang að í heimabanka sínum, um að stefnandi fengi greitt sem „sérhæfður fiskvinnslumaður“, hafi afgerandi þýðingu í þessu tilliti, þótt óheppileg sé, enda fær hún engan stuðning að öðru leyti í gögnum málsins. Á sama hátt verður ekki talið að framangreind svör stefnda í tölvupósti, um að stefnandi hafi fengið greitt eftir 13. launaflokki, hafi neina sérstaka þýðingu í þessu tilliti, enda kveðst stefndi hafa skilgreint stefnanda sem tækja- eða lyftaramann, tækjastjórnanda II, skv. launaflokki 13. Að öllu framangreindu virtu, og þar sem stefnandi hefur ekki á neinn hátt sýnt fram á að umrætt starf hans eða menntun eigi með einhverjum hætti að leiða til þeirrar niðurstöðu að hann eigi kröfu til launa sem fisktæknir samkvæmt framangreindum launaflokki í 18. kafla kjarasamnings SA og SGS, verður að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að um laun hans fari eftir þeim kafla kjarasamningsins. Kröfuliður 1 Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum 455.056 krónur vegna svokallaðrar sérstakrar greiðslu sem stefnda hafi borið að greiða honum á grundvelli 3. mgr. 3. gr. í ráðningarsamningi aðilanna. Í 2. mgr. 3. gr. ráðningarsamningsins kemur fram að fyrir hverja 12 tíma vakt, frá mánudegi til föstudags, séu greiddar 33.142 krónur, en 36.997 krónur fyrir hverja vakt um helgar eða á samningsbundnum frídögum. Þá segir svo í 3. mgr. 3. gr.: „Í sérstakri greiðslu kr. 5.736 fyrir hverja 12 tíma í vaktavinnu eru innifaldar greiðslur fyrir ferðir til og frá vinnustað og greiðsla fyrir frítökurétt í þeim tilvikum að hvíld er styttri en 11 klst. á sólarhring. Ef starfsmaður er beðinn um að vinna þannig að hann nái ekki 8 stunda hvíld milli vakta skal greiða aukalega 1 ½  tíma í dagvinnu fyrir hvern unnin tíma.“ Þar sem fyrir liggur að stefnandi gekk átta tíma vaktir en ekki 12 tíma vaktir nemur framangreind fjárhæð 8/12 x 5.736 krónum, eða 3.824 krónum. Greinir aðilana á um það hvort stefnandi eigi, eins og stefnandi byggir á, rétt til hinnar sérstöku greiðslu skv. 3. mgr. 3. gr. til viðbótar við umsamdar vaktagreiðslur skv. 2. mgr. eða hvort hún hafi verið innifalin í hinum föstu greiðslum fyrir vaktavinnu, svo sem stefndi staðhæfir. Lögmaður stefnda hélt því fram í málflutningsræðu sinni við aðalmeðferð málsins að stefnandi hefði firrt sig rétti til að hafa uppi framangreinda kröfu, um hina sérstöku greiðslu til viðbótar hinni föstu vaktagreiðslu, vegna þess hversu seint hann hefði gert athugasemdir vegna vangreiðslu hennar. Lögmaður stefnanda mótmælti þessari málsástæðu hins vegar sem of seint fram kominni. Með því að ekki verður séð að þessari málsástæðu stefnda hafi verið hreyft á fyrra stigi málsins verður henni hafnað, þegar af þeirri ástæðu, sem of seint fram kominni, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Stefndi hefur lagt fram yfirlit yfir það hvernig hin fasta greiðsla fyrir unnar vaktir skv. 2. mgr. 3. gr. ráðningarsamningsins sé reiknuð út miðað við þær forsendur sem hann kveðst hafa gengið út frá, að laun stefnanda miðuðust við 13. launaflokk framangreinds kjarasamnings. Sýnist mega af því ráða að stefndi hafi reiknað með hinni sérstöku greiðslu inn í hina tilgreindu föstu vaktagreiðslu við útreikning og útgreiðslu launa til stefnanda. Eigi að síður verður á það fallist með stefnanda að uppsetning og orðalag ákvæðisins um hina sérstöku greiðslu í ráðningarsamningnum sé með þeim hætti að stefnandi hafi mátt ætla að um væri að ræða greiðslu sem innt yrði af hendi til viðbótar föstu vaktagreiðslunni. Með hliðsjón af eðli þess samnings sem hér um ræðir, sem saminn hefur verið einhliða af stefnda, og því að stefndi hefur ekki sýnt fram á að stefnanda hafi mátt vera kunnugt um að sérstaka greiðslan ætti að vera innifalin í hinni föstu vaktagreiðslu, verður lagt til grundvallar niðurstöðu í málinu að stefnda hafi borið að greiða sérstöku greiðsluna til viðbótar við vaktagreiðsluna skv. 2. mgr. 3. tl. ráðningarsamningsins. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum um vaktir stefnanda verður fallist á kröfu hans vegna þessa kröfuliðar, eins og hún er sett fram. Kröfuliður 2 Stefnandi krefst þess í 2. lið kröfugerðar sinnar að stefndi greiði honum vangreidda bónusgreiðslu að fjárhæð 209.440 krónur, í samræmi við samkomulag um kjaramál fiskvinnslufólks, sem SA og SGS gerðu með sér hinn 28. maí 2015, til nánari útfærslu og viðbótar við 18. kafla kjarasamnings aðilanna um kjaramál fiskvinnslufólks. Með því að áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að fyrrgreindur 18. kafli hafi ekki gilt um kjör stefnanda, heldur 20. kaflinn, verður stefndi sýknaður af þessum kröfulið stefnanda. Kröfuliður 3 Í 3. kröfulið gerir stefnandi kröfu um það að hann fái greiddar 209.440 krónur vegna ógreidds frítökuréttar skv. gr. 2.4.1 og gr. 2.4.2 í umræddum kjarasamningi SA og SGS, en hann eigi rétt á 1,5 klst. frítökurétti fyrir hverja klst. sem 11 klst. hvíld skerðist. Í nefndri gr. 2.4.1, sem hefur yfirskriftina „Daglegur hvíldartími“, er kveðið á um það í 1. mgr. að vinnutíma skuli haga þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld, og í gr. 2.4.2, sem ber yfirskriftina „Frávik og frítökuréttur“, er m.a. fjallað um framangreindan frítökurétt vegna skerðingar á hvíldartíma. Á hinn bóginn er svo eftirfarandi tiltekið í 5. mgr. gr. 2.4.2: „Framangreind ákvæði eiga þó ekki við á skipulegum vaktaskiptum en þá er heimilt að stytta hvíldartíma í allt að átta klst.“ Í 2. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings aðilanna kemur fram að almennt vinnufyrirkomulag skuli vera 12 tíma vaktir nema yfirmaður samþykki sérstakar óskir starfsmanns eða meirihluta starfsmanna um annað vinnufyrirkomulag. Í málinu liggur fyrir yfirlýsing, dags. 29. júní 2015, sem ýmsir starfsmenn stefnda, þar á meða stefnandi, rituðu undir, sem er svohljóðandi: „Undirritaðir starfsmenn Hvals hf. í starfsstöð Hvals hf. í Hvalfirði sem munu í sumar ganga tvískiptar vaktir telja að átta klst. vaktir séu mun hagfelldari kostur með tilliti til hvíldartíma en tólf stunda vaktir. Við óskum eftir því að það vaktafyrirkomulag verði notað í sumar eins og gert hefur verið frá 1950 í Hvalfirði.“ Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að umsamið vinnufyrirkomulag stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi aðilanna miðaðist við 12 klst. vaktir, en var stytt niður í 8 klst. vaktir á grundvelli fyrrgreindrar óskar hans og ýmissa annarra starfsmanna stefnda. Með hliðsjón af því, og þar sem ekki verður annað séð en að framangreind stytting hverrar vaktar, og þar með hvíldartíma milli þeirra, hafi með samþykki stefnanda verið stefnda heimil skv. 1. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings aðilanna, verður að hafna því, með vísan til tilvitnaðs ákv. 4. mgr. í gr. 2.4.2 í kjarasamningi, að stefnandi hafi öðlast rétt til frítökugreiðslu vegna skerðingar á hvíldartíma. Verður stefndi því sýknaður af þessum kröfulið stefnanda. Kröfuliður 4 Stefnandi krefst þess loks að stefndi greiði honum 132.568 krónur vegna vikulegra frídaga sem hann hafi átt rétt á að fá en ekki fengið í vinnu sinni hjá stefnda, sbr. gr. 2.4.3 í kjarasamningi. Í því ákvæði kemur fram að starfsmaður eigi rétt á a.m.k. einum vikulegum frídegi á hverju sjö daga tímabili. Byggist ákvæði þetta á því ákvæði, sem fram kemur í 54. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, að á hverju sjö daga tímabili skuli starfsmaður fá að minnsta kosti einn vikulegan frídag, en ef sérstök þörf sé á vegna eðlis hlutaðeigandi starfa sé heimilt með samningum samtaka aðila vinnumarkaðarins að fresta vikulegum frídegi þannig að starfsmaður fái samsvarandi hvíldartíma síðar og ávallt innan 14 daga. Hvorki í lögunum né kjarasamningnum er þó tiltekið að hinn vikulegi frídagur skuli launaður á einhvern hátt ef ekki er eftir þessu farið af hálfu vinnuveitandans. Með hliðsjón af því verður þegar af þeirri ástæðu ekki unnt að fallast á kröfu stefnanda. Verður stefndi því sýknaður af þessum kröfulið stefnanda. Samkvæmt framangreindu verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 455.056 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi máls þessa hinn 19. janúar 2016 til greiðsludags. Með hliðsjón af þessum málsúrslitum verður stefndi og dæmdur til að greiða stefnanda 500.000 krónur í málskostnað, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Uppkvaðning dóms hefur dregist fram yfir frest skv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en dómari og lögmenn töldu ekki þörf á endurflutningi. Dóm þennan kveður upp Ásgeir Magnússon dómstjóri. Dómsorð: Stefndi, Hvalur hf., greiði stefnanda, Jökli Þór Jónssyni, 455.056 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi máls þessa hinn 19. janúar 2016 til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 582/2017
Veitingaleyfi Skipulag Stjórnsýsla Aðild
J krafðist þess að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík (S) um að veita G ehf. leyfi til reksturs veitingastaðar í tilteknum hverfiskjarna í Reykjavík og jafnframt úrskurður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þar sem sú ákvörðun var staðfest. Reisti J kröfu sína á því annars vegar að G ehf. hefði sótt of seint um endurnýjun rekstrarleyfisins og hins vegar á því að þar sem breyting á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010 til 2030 hefði verið háð verulegum annmarka með því að ekki hefði verið um óverulega breytingu að ræða og því ekki heimilt að fara með hana eftir 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki var fallist á með J að G ehf. hefði sótt of seint um leyfið. Að því er varðaði málsástæðu J um breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar vísaði Hæstiréttur til þess að breytingin hefði verið almenns eðlis og tekið til ótiltekins fjölda manna og lögaðila. Hefði G ehf. ekki sótt um breytingu á aðalskipulaginu, heldur framlengingu á rekstrarleyfi, og var samrýmanleiki starfseminnar við aðalskipulag aðeins eitt af skilyrðum fyrir því að verða mætti við umsókn hans. Ekki væri á færi G ehf. að taka til andsvara gegn málatilbúnaði J um atriði, sem vörðuðu undirbúning breytingarinnar á aðalskipulaginu og meðferð stjórnvalda um tillögu um hana, en henni hefði ekki verið hrundið með málsókn gegn borginni. Þegar af þeirri ástæðu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu G ehf. og S af kröfu J.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Ása Ólafsdóttir dósent. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2017. Hann krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun stefnda sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 27. febrúar 2015 um að veita stefnda Gullöldinni ehf. leyfi til reksturs „veitingastaðar í flokki III/krá“ að Hverafold 5 í Reykjavík og jafnframt úrskurður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 25. febrúar 2016 þar sem sú ákvörðun var staðfest. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast hvor fyrir sig staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Svo sem fram kemur í héraðsdómi reisir áfrýjandi kröfu sína á tveimur málsástæðum, sem báðar lúta að því að veiting fyrrnefnds rekstrarleyfis, sem í reynd var gefið út 12. mars en ekki 27. febrúar 2015, hafi verið ólögmæt. Annars vegar heldur áfrýjandi því fram að stefndi Gullöldin ehf. hafi sótt of seint um endurnýjun rekstrarleyfisins, sem hafi átt að renna út 30. apríl 2014. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um þessa málsástæðu. Síðari málsástæða áfrýjanda lýtur að því að þegar stefndi Gullöldin ehf. sótti um endurnýjun rekstrarleyfisins 23. apríl 2014 hafi nýlega tekið gildi aðalskipulag Reykjavíkurborgar 2010 til 2030, sem Skipulagsstofnun hafi staðfest 24. febrúar 2014. Vegna ákvæða, sem þar hafi verið að finna, hefði verið óheimilt að verða við þessari umsókn. Á meðan stefndi sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi haft umsóknina til meðferðar hafi á hinn bóginn verið gerð breyting á aðalskipulaginu, sem samþykkt hafi verið í borgarráði Reykjavíkur 18. september 2014 og staðfest af Skipulagsstofnun 17. október sama ár, en í auglýsingu um þá staðfestingu hafi meðal annars sagt eftirfarandi: „Breytingin felst í að skýra túlkun ákvæða um starfsemi spilasala, veitingahúsa, gististaða og matvöruverslana ... Bætt er við greinargerð að ákvæðin séu ekki afturvirk og því mögulegt að endurnýja leyfi um starfsemi sem var til staðar fyrir gildistöku aðalskipulagsins, enda sé um óbreytta starfsemi að ræða í sama húsnæði og áður.“ Farið hafi verið með tillögu Reykjavíkurborgar um þessa breytingu eftir sérstökum reglum í 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem geti aðeins tekið til óverulegra breytinga á aðalskipulagi, en því skilyrði telur áfrýjandi ekki hafa verið fullnægt. Rekstrarleyfi stefnda Gullaldarinnar ehf. hafi verið endurnýjað á grundvelli þessarar breytingar á aðalskipulaginu, sem samkvæmt þessu hafi verið háð verulegum annmarka, og verði því að fella úr gildi ákvörðun um veitingu leyfisins. Um þessa málsástæðu er þess að gæta að breytingin á aðalskipulaginu fól ekki í sér stjórnvaldsákvörðun, sem laut gagngert að réttarstöðu stefnda Gullaldarinnar ehf., heldur var breytingin almenns eðlis og tók til ótiltekins fjölda manna og lögaðila, sem ýmist gátu haft hag af henni eins og þessi stefndi eða óhag eins og áfrýjandi telur sig hafa haft. Stefndi Gullöldin ehf. sótti ekki um þessa breytingu, heldur framlengingu á rekstrarleyfi, og var samrýmanleiki starfsemi hans við aðalskipulag aðeins eitt af fjölmörgum skilyrðum fyrir því að verða mætti við umsókn hans. Ekki er á færi þessa stefnda að taka eins og erindreki Reykjavíkurborgar til andsvara gegn málatilbúnaði áfrýjanda um atriði, sem varða undirbúning þessarar breytingar á aðalskipulaginu og meðferð stjórnvalda á tillögu um hana, en hvorki virðist áfrýjandi né nokkur annar hafa fengið henni hrundið með málsókn gegn borginni. Þegar af þessum ástæðum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu hvorum um sig málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Það athugast að með öllu var ástæðulaust að beina máli þessu að stefnda sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Jón Ingvar Garðarsson, greiði stefndu, Gullöldinni ehf. og sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, hvorum um sig 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júlí 2017. Þetta mál, sem var tekið til dóms 7. júní 2017, er höfðað af Jóni Ingvari Garð­ars­syni, kt. [...], Háaleitisbraut 43, Reykjavík, með stefnu birtri 7. september 2016 á hendur Gull­öld­inni ehf., kt. [...], Hverafold 5, Reykjavík, og birtri 31. ágúst 2016 á hendur Sýslu­mann­inum á höfuð­borg­ar­svæðinu, kt. [...], Skóg­ar­hlíð 6, Reykjavík, til ógildingar á stjórn­valds­ákvörð­unum. Stefnandi krefst þess að felld verði úr gildi sú ákvörðun stefnda, Sýslu­manns­ins á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 27. febrúar 2015, að veita stefnda, Gullöldinni ehf., leyfi til reksturs veitingastaðar í flokki III/krá að Hverafold 5, Reykjavík, og að felldur verði úr gildi sá úrskurður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dagsettur 25. febrúar 2016, að staðfesta þessa ákvörðun sýslumanns. Stefnandi krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefndu óskipt (in solidum) að skað­lausu. Stefndi, Gullöldin ehf., krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda svo og máls­kostn­aðar úr hendi hans. Stefndi, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, krefst sýknu af öllum kröfum stefn­anda og málskostnaðar úr hendi hans. Málavextir Stefndi, Gullöldin ehf., er einkahlutafélag, sem hefur þann megin­til­gang að reka veitingahús. Félagið kveðst reka hverfis­krá á jarð­hæð hússins að Hvera­fold 5 í Graf­ar­vogi, Reykjavík. Á staðnum mun boðið upp á við­burða­ríka dagskrá, bolt­ann í beinni og frá­bæran mat. Stefndi leigir húsnæðið að Hverafold 5, samkvæmt leigusamningi um atvinnu­hús­næði sem rennur út 1. september 2025. Í 4. gr. samn­ings­ins segir að í hinu leigða rými sé leigutaka heimilt að reka veitinga­starf­semi en slík starf­semi hafi verið rekin í umræddu rými undanfarin ár. Í rýminu hefur verið vín­veit­inga­staður í flokki III/krá frá árinu 1999. Stefnandi á íbúð á 3. hæð í fjöleignarhúsinu að Hverafold 5 í Reykjavík. Félag sem hann á keypti húsnæðið, sem þá hýsti sólbaðsstofu, 23. desember 2011. Félagið afsal­aði stefnanda húsnæðinu á árinu 2013. Í skipulagsskilmálum fyrir lóðina að Hvera­fold 1-5 segir að heim­ilt sé að gera ráð fyrir íbúðum á 2. og 3. hæð í húsinu sem fékk núm­erið 5. Þetta var þó ekki gert heldur var allt húsnæðið, 1.040 fm, skipulagt sem atvinnu­hús­næði og þar er rekin atvinnustarfsemi. Strax eftir kaupin, 4. janúar 2012, sótti stefnandi um heim­ild til að breyta sól­baðs­stof­unni í íbúð. Leyfi til þess var stað­fest í borgarráði 15. nóvember 2012 og bygg­ing­ar­leyfi veitt, 21. febrúar 2013, „til að inn­rétta íbúð á 3. hæð í hverfis­mið­stöð í húsi nr. 5 á lóð 1-5 við Hvera­fold“. Þrír aðrir eiga fasteignir í húsinu. Eign stefn­anda er sýnu minnst, 18,8% af heild­ar­eigninni. Við aðalmeðferð kom fram að Gull­öldin hafi með kæru reynt að koma í veg fyrir að rýminu á þriðju hæð hússins yrði breytt í íbúðir. Kærunefnd húsa­mála úrskurð­aði 23. október 2012 að stefnanda væri heim­ilt að breyta atvinnuhúsnæði í íbúð­ar­húsnæði án sam­þykkis annarra meðeigenda að húsinu. Stefnandi segir veit­inga­rekstur stefnda hafa valdið sér veru­legu ónæði í gegnum tíð­ina. Vegna nábýl­is­ins, hávaðans frá starfseminni og ónæð­is­ins telur hann sig hafa lög­varða hags­muni af úrlausn krafna sinna. Stefnandi mun hafa breytt rýminu í tvær íbúðir. Hann bjó ekki í húsinu í um það bil ár, á árunum 2014 og 2015, en leigði íbúðirnar út. Hann flutti inn aftur og leigði eftir það aðra íbúðina út. Fram til 1. janúar 2015 sá lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu um að veita veit­inga­húsum rekstrarleyfi. Hann veitti stefnda Gullöldinni leyfi 23. janúar 2013 til rekst­urs veit­inga­staðar í flokki III/krá. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007, um veit­inga­staði, gististaði og skemmtanahald, falla í flokk III umfangsmiklir áfengis­veit­inga­staðir, þar sem leikin er hávær tónlist og/eða afgreiðslutími er lengri en til kl. 23.00 og kalla á meira eftirlit og/eða löggæslu. Samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 585/2007, sem gilti á þeim tíma, eru sjö teg­undir veitingastaða. Í staflið f sagði að krá væri veitingastaður með takmarkaða þjón­ustu og einfaldar eða engar mat­ar­veitingar, þar sem aðaláhersla er lögð á áfengis­veit­ingar og langan afgreiðslu­tíma. Gullöldinni var samkvæmt rekstarleyfi, sem gilti til 30. apríl 2014, heim­ilt að hafa staðinn opinn alla virka daga til kl. 01.00 og til kl. 03.00 um helgar. Á sama tíma­bili hafði stefndi einnig leyfi til útiveitinga til kl. 22.00. Þetta leyfi er sambærilegt þeim sem veitingastaðurinn hefur haft frá því á tíunda áratug síðustu aldar. Leyfið var bundið ýmsum skilyrðum frá Reykja­víkur­borg, heil­brigðiseftirlitinu og lögreglu. Stefndi átti meðal annars að tryggja að umgengni væri góð og hrein­leg og jafnframt átti hann að koma í veg fyrir ónæði. Í leyfinu var einnig tekið fram að kæmi til þess að borgarráð takmarkaði heim­il­aðan veit­inga­tíma áfengis á tilteknum svæðum takmarkaðist veitingatími áfengis sam­kvæmt leyfinu sem því næmi. Áður en gild­is­tími þessa rekstrarleyfis Gullaldarinnar rann út tók gildi nýtt aðal­skipu­lag fyrir Reykja­vík­ur­borg 2010-2030, sem var aug­lýst í B-deild Stjórn­ar­tíð­inda 26. febrúar 2014. Kráin er í hverf­is­kjarn­anum VÞ1 (Verslun og þjónusta) Hvera­fold-Fjall­konu­vegur. Samkvæmt nýja skipulaginu máttu aðeins vera í hverfis­kjörnum veit­inga­staðir í flokki I (veit­inga­staður án áfengisveitinga) og flokki II (veitingastaður sem má veita áfengi en þar má ekki flytja háværa tónlist) en ekki flokki III (áfengis­veit­ingastaður þar sem leika má háværa tónlist). Staðir í flokki I og II mega ekki hafa opið lengur en til kl. 23.00. Samkvæmt þessu nýja aðalskipulagi mátti stefndi, Gull­öldin ehf., einungis hafa krána opna til kl. 23.00, í stað kl. 01.00 á virkum dögum og kl. 03.00 um helgar, eins og áður hafði verið heimilt. Að sögn stefnda, Gullaldarinnar, kom það honum í opna skjöldu að veitinga- og skemmti­staðir í flokki III væru ekki heimilir á svæðinu samkvæmt nýja aðal­skipu­lag­inu, því allar hans fram­tíðar­spár og rekstrar­forsendur hafi mið­ast við það leyfi sem hann hafði enda hafi hann haft sam­bæri­legan rekstur á þessum stað í ríflega 13 ár, þegar aðalskipulaginu var breytt í febrúar 2014. Stefnandi tekur fram að þrátt fyrir þessa breytingu á skipulagi hafi stefndi áfram haft krána opna eftir kl. 23.00, en að mati stefnanda mátti hann það ekki frá og með 26. febrúar 2014, þegar nýja skipulagið tók gildi. Viku áður en rekstrarleyfið rann út, 23. apríl 2014, sótti stefndi, Gullöldin ehf., um endurnýjun þess fyrir veitingastað í flokki III/krá. Þáverandi leyfisveitandi, lög­reglu­stjór­inn á höfuð­borgar­svæð­inu, sendi umsóknina sama dag til umsagnar hjá heil­brigð­is­eftir­liti, bygg­ing­ar­fulltrúa, slökkvi­liði, vinnueftirliti og Reykjavíkurborg, með vísan til 10. gr. laga nr. 58/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Bygg­ingar­full­trúi sagði í umsögn, dagsettri 25. apríl 2014, að ekki yrði séð af gögnum embættisins að breyting hefði orðið á húsnæði stað­ar­ins frá síð­ustu umsagn­ar­beiðni sem fékk jákvæða afgreiðslu 4. mars 2010. Vinnu­eftir­litið gerði engar athuga­semdir í umsögn dags. 30. apríl 2014. Heil­brigð­is­full­trúi Reykja­vík­ur­borgar veitti jákvæða umsögn 13. maí 2014. Með bréfi Reykja­vík­ur­borgar til leyfisveitanda, dags. 18. júní 2014, fylgdi umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 9. maí 2014. Þar sagði að samkvæmt nýju aðal­skipu­lagi Reykjavíkur 2010-2030 mætti aðeins leyfa veit­inga­staði í flokki I og II með opn­un­ar­tíma til kl. 23.00 og útiveitingar til kl. 22.00 á því svæði sem lóð nr. 5 við Hvera­fold tilheyrði. Enn fremur barst nei­kvæð umsögn frá slökkviliði, dags. 8. júlí 2014. Þáverandi lögmaður stefnda, Gullaldarinnar ehf., og félagsins K-2 fasteignir ehf., sem á hús­næðið sem veit­inga­staðurinn er rekinn í, sendi Reykja­víkur­borg bréf 2. júlí 2014. Þar sagði að þær breytingar sem urðu með hinu nýja aðalskipulagi þýddu að rekstr­ar­forsendur staðarins væru brostnar. Staðurinn hafi verið rek­inn þarna í fjölda ára án teljandi vandkvæða, í sam­ræmi við þann opnunartíma sem til­greindur var í umsókn. Lögmaðurinn óskaði eftir því að staðnum yrði „veitt undanþága frá [...] ákvæðum skipu­lags Reykja­víkur 2010-2030 um opnunartíma og að veitt [yrði] ný umsögn þess efnis vegna umsóknar um rekstarleyfi sem [væri] í samræmi við óskir um opnunartíma í leyfis­um­sókn“. Að öðrum kosti áskildu stefndi og eigandi fast­eign­ar­innar sér rétt til skaða­bóta úr hendi borgarinnar með vísan til 51. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010. Í umsögn skipulagsfulltrúa, 14. júlí 2014, um þetta bréf lög­manns stefnda var ítrekuð sú afstaða borgarinnar að ekki mætti veita umrætt leyfi að óbreyttu skipu­lagi. Stefnandi telur bréf lögmanns stefnda hafa valdið því að Reykjavíkurborg hófst handa við að breyta aðalskipulaginu. Í það minnsta lagði umhverfis- og skipu­lags­ráð til að í sér­ákvæði í aðalskipulaginu um spilasali, veitingastaði, gististaði og mat­vöru­versl­anir yrði bætt svofelldri setningu: Ofangreind ákvæði eru ekki afturvirk. Mögulegt er að endurnýja leyfi um starf­semi sem var til staðar fyrir staðfestingu aðalskipulagsins, enda sé um óbreytta starf­semi að ræða í sama húsnæði og áður. Þetta á þó ekki við á svæðum þar sem tekið er skýrt fram í almennri skilgreiningu landnotkunar að viðkomandi starf­semi skuli vera víkj­andi. Borgarráð Reykjavíkur samþykkti þessa breytingu á aðalskipulagi 18. sept­em­ber 2014. Í forsendum breytingarinnar segir: Stefnumörkun aðalskipulags horfir til framtíðar. Það er því eðlilegt að álykta að ofan­greind sérákvæði séu almennt ekki afturvirk um starfsleyfi sem var til staðar þegar aðal­skipu­lagið var staðfest. Við túlkun þessara ákvæða verður því að horfa til þess að endur­nýjun eldri leyfa sé möguleg, enda um sömu starfsemi að ræða sem bundin er við sama stað og húsnæði, og ekki er tekið sérstaklega fram í skil­grein­ingu land­notkunar fyrir viðkomandi svæði að hin tiltekna starfsemi skuli vera víkj­andi. Þessi breyting á aðalskipulaginu er álitin óveruleg, enda eingöngu gerð til að árétta og skerpa túlkun umræddra lagaákvæða aðalskipulagsins og til að fyrirbyggja að stefnu­mörkun í þessum málaflokkum verði íþyngjandi fyrir einstaka rekstraraðila sem höfðu rétt­mætar heimildir um starfsemi fyrir staðfestingu aðalskipulagsins. Breyt­ingin hefur því ekki veruleg áhrif á landnotkun í för með sér, er ekki líkleg til að hafa mikil áhrif á ein­staka aðila (önnur en jákvæð áhrif á einstaka rekstraraðila) eða áhrif á stór svæði (sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga og grein 4.8.3. í skipu­lags­reglu­gerð). Fyrst og fremst mun breytingin tryggja að viðkomandi ákvæði hafi ekki íþyngj­andi áhrif á einstaka rekstr­ar­aðila. Mikilvægt er einnig að hafa í huga að við­kom­andi starfsemi er háð ákveðnu mati við endurnýjun leyfis, t.a.m. eru grenndar­áhrif vínveitingastaða á nær­liggj­andi byggð metin. M.ö.o. að ákvæði um mögulega end­ur­nýjun leyfis samkvæmt aðal­skipulagi tryggir ekki eitt og sér að leyfi verði end­ur­nýjað. Með þessa breytingu aðalskipulags var farið eftir undan­tekn­ing­ar­leið 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, í stað þess að fara eftir þeirri leið sem mælt er fyrir um í meginreglu 1. mgr. sama ákvæðis. Það er hin ítarlega málsmeðferð sem skal beita þegar sett er nýtt aðalskipulag og lýst er í 30.-32. gr. laganna. Skipu­lags­stofnun afgreiddi breyt­ing­una 17. okt­ó­ber 2014. Hún var birt í B-deild Stjórn­ar­tíð­inda 31. okt­ó­ber 2014 og tók þá gildi. Leyfisveitandinn, sem þá var lögreglustjóri, leitaði 31. desember 2014 eftir afstöðu Reykjavíkurborgar til útgáfu bráða­birgðaleyfis á meðan umsókn um endur­nýjun rekstrarleyfis væri til með­ferðar hjá borginni. Í tölvu­pósti sama dag kom fram að Reykjavíkur­borg legð­ist ekki gegn útgáfu bráða­birgðaleyfis enda væri unnið að því að skapa grundvöll fyrir jákvæðri umsögn. Sama dag gaf lögreglustjóri Gull­öld­inni ehf. rekstrarleyfi til bráða­birgða, til 14. janúar 2015, á meðan málið væri til með­ferðar hjá Reykjavíkurborg. Með lögum nr. 51/2014, um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, sem jafn­framt breyttu lögum nr. 85/2007, voru ýmis verk­efni færð frá lögreglustjórum til sýslu­manna. Frá og með 1. janúar 2015 tók Sýslu­mað­ur­inn á höfuðborgarsvæðinu við hlut­verki leyfisveitanda. Til að ganga úr skugga um að tafir á meðferð málsins mætti ekki rekja til umsækj­anda, óskaði sýslumaður aftur eftir afstöðu borgaryfirvalda til endurnýjunar bráða­birgðaleyfis fyrir stefnda með tölvupósti 23. janúar 2015. Með tölvu­pósti sama dag lýsti Reykjavíkurborg því yfir að hún gerði ekki athuga­semdir við útgáfu bráða­birgða­leyfis á meðan málið væri í endurnýjuðu umsagnarferli. Sama dag endurnýjaði sýslu­maður bráða­birgðaleyfi staðarins til 23. febrúar 2015, á meðan málið væri til umsagnar hjá borg­ar­yfirvöldum. Til að koma hreyfingu á málið óskaði leyfisveitandi eftir endurnýjun umsagna frá umsagnaraðilum 29. janúar 2015, í samræmi við áðurnefnda breytingu á aðal­skipu­lagi. Umsögn slökkviliðs barst reyndar þremur dögum áður, eða 26. janúar 2015, og þá með vísan til umsagnar­beiðni fyrri leyfis­veit­anda, lög­reglu­stjór­ans á höfuð­borgar­svæð­inu, dags. 23. apríl 2014. Lögregla sendi sýslumanni umsögn vegna málsins 2. febrúar 2015. Í henni kom fram að vegna tíðra útkalla, m.a. vegna ágreinings íbúa og rekstraraðila, hygð­ist lög­regla óska eftir úttekt upplýsinga- og áætlanadeildar embættisins á fjölda útkalla og sund­ur­liðun útkalla á staðnum næstliðin tvö til þrjú ár. Talið var mikil­vægt að þetta lægi fyrir vegna fyrirhugaðrar leyfisveitingar stað­ar­ins. Lög­reglan sendi sýslu­manni þessa úttekt 11. febrúar 2015. Þar kom fram að að með­al­tali hefðu 37 verkefni á ári tengst staðnum, eða húsnúmerinu Hverafold 5, á árunum 2010 til 2014. Flest brot hefðu átt sér stað um helgar eða um 56%. Þá sagði að algengt virtist að staðurinn væri opinn eftir leyfi­legan opn­un­ar­tíma (í það minnsta 16 sinnum). Pókerklúbbur væri rek­inn við hlið Gull­ald­ar­innar og rennihurð á milli, og eitthvað um að áfengi væri selt á milli staða eftir lokun. Reykjavíkurborg sendi sýslumanni umsögn 25. febrúar 2015 og voru, vegna áður­nefndrar breytingar á aðalskipulagi, ekki gerðar athugasemdir við leyfis­veit­ing­una. Gullöldin ehf. fékk aftur bráðabirgðaleyfi frá 27. febrúar 2015 til 13. mars á meðan málið væri til meðferðar. Staðfesting heilbrigðiseftirlitsins á áður veittri jákvæðri umsögn dags. 13. maí 2014 barst 4. febrúar 2015. Jákvæð umsögn barst frá skipu­lags­full­trúa 25. febrúar 2015 og frá byggingarfulltrúa 2. mars 2015, svo og frá lög­reglu­stjóranum á höfuð­borg­ar­svæð­inu 12. mars 2015. Vinnu­eftir­litið gerði ekki athugasemdir við jákvæða umsögn sína, dags. 30. apríl 2014.    Sama dag og umsögn lögreglustjóra lá fyrir, 12. mars 2015, gaf sýslumaður út og undirritaði leyfi fyrir Gull­öld­ina til reksturs veitingastaðar í flokki III/krá að Hvera­fold 5, Reykjavík. Sama dag var leyfið skráð í mið­lægt leyfis­kerfi lög­reglu. Af vangá var röng dagsetning, 27. febrúar 2015, skráð í leyfis­bréf­ið. Sam­kvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2007 skulu rekstrarleyfi gefin út til fjög­urra ára í senn. Sam­kvæmt texta leyfisbréfsins gildir það í fjögur ár frá raun­veru­legum útgáfu­degi, til 12. mars 2019. Það er hið var­an­lega rekstr­ar­leyfi sem krafist er ógild­ingar á í þessu máli. Stefnandi telur rekstur Gullaldarinnar ehf. frá 30. apríl 2014, er fyrra rekstr­ar­leyfi rann út, og til 31. desember 2014 alfarið hafa verið leyfislausan og hann því óheim­ilan, og einnig á tímabilunum 15. til 22. janúar 2015 og 24. til 26. febrúar 2015. Frá 26. febrúar 2014 hafi staðurinn ekki mátt hafa opið lengur en til kl. 23.00, en hafi gert það engu að síður. Stefnandi kærði, 25. mars 2015, til atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðu­neyt­is­ins þá ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík að veita stefnda, Gullöldinni ehf., rekstr­ar­leyfi og krafð­ist þess að hún yrði felld úr gildi. Í tilefni af kærunni sendi Reykjavíkur­borg sýslu­mann­inum bréf með sjónar­miðum sínum vegna málsins. Þar segir: Reykjavíkurborg tekur ekki undir þau sjónarmið sem þar koma fram að breyting sú sem gerð var á Aðalskipulagi Reykjavíkur þann 17. október 2015 hafi verið ólög­mæt. Í breyt­ing­unni, sem tók til túlkunar sérstakra ákvæða um starfsemi innan land­notk­un­ar­svæða, fólst að mögulegt væri að endurnýja leyfi um starfsemi sem var til staðar fyrir stað­festingu Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, enda væri um óbreytta starf­semi að ræða í sama húsnæði og áður. Öll málsmeðferð breyt­ing­ar­innar var í sam­ræmi við skipu­lagslög og hefur breytingunni ekki verið hnekkt. Veit­inga­staðurinn Gull­öldin hefur verið með rekstrarleyfi fyrir veitingastað í flokki III allt frá árinu 1999 og hafa leyfin verið reglu­lega endurnýjuð frá þeim tíma. Hið kærða leyfi er því í samræmi við núgildandi aðal­skipu­lag. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sendi atvinnuvega- og nýsköp­un­ar­ráðu­neyt­inu bréf 1. september 2015 þar sem fram kom að embættið teldi umsókn stefn­anda upp­fylla lagaskilyrði og ekki efni til annars en að gefa leyfið út. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið staðfesti ákvörðun sýslumannsins með úrskurði 25. febrúar 2016. Þar segir meðal ann­ars að Reykja­víkurborg hafi sent breyt­ingu á aðalskipulaginu til Skipulags­stofn­unar. Stofnunin hafi því metið hvort breyt­ingin gæti talist óveru­leg í sam­ræmi við 2. mgr. 36. gr. skipu­lags­laga. Af þeim sökum gerði ráðuneytið ekki athuga­semdir við afgreiðslu Skipulagsstofnunar á til­lögu Reykja­vík­ur­borgar um óveru­lega breytingu á aðal­skipulagi. Ráðuneytið tók jafn­framt fram að við­kom­andi starf­semi veitinga­stað­ar­ins, sem er óbreytt frá því fyrir gild­is­töku skipu­lags, sé háð ákveðnu mati við endur­nýjun rekstrarleyfis. Stefnandi getur ekki unað við þessar ákvarðanir. Hann telur leyfisveitinguna ólög­mæta og þar af leiðandi einnig þann úrskurð ráðuneytisins að staðfesta hana. Því beri að fella þessar ákvarðanir úr gildi og dæma stefndu til að greiða stefnanda máls­kostnað að skaðlausu. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að stefndi, Sýslumaðurinn á höfuð­borgar­svæð­inu, hafi ekki mátt veita stefnda, Gullöldinni ehf., umrætt leyfi, dagsett 27. febrúar 2015, en í reynd gefið út 12. mars 2015, þar eð umsókn um leyfið barst leyfis­veit­anda of seint. Fyrir liggi að stefndi, Gull­öldin ehf., hafði rekstrarleyfi, sem rann út 30. apríl 2014. Félagið hafi sótt um endur­nýjun þess leyfis 23. apríl 2014. Sú umsókn hafi hins vegar borist of seint þar eð sam­kvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2007, eins og það ákvæði var þá orðað, hafi stefnda borið að sækja um þessa endurnýjun a.m.k. tveimur mán­uðum áður en þágildandi leyfi rann út, þ.e. eigi síðar en 28. febrúar 2014. Það hafi stefndi ekki gert og því hafi sýslu­maður ekki mátt veita stefnda leyfi á grund­velli umræddrar umsóknar. Veiting leyf­is­ins, 27. febrúar 2015, sé því þegar af þeirri ástæðu ólög­mæt og beri að fella hana úr gildi ásamt þeim úrskurði ráðuneytisins að stað­festa hana. Stefnandi byggir í öðru lagi á því að útgáfa leyfisins hafi verið ólögmæt þar eð aðal­skipu­lagsbreytingin, sem var ætlað að heimila hana, og áður er rakin, hafi verið ólög­mæt. Það byggist á því að ótækt hafi verið að líta svo að breytingin teldist „óveru­leg“. Af þeim sökum hafi ekki mátt fara með breytinguna eftir skemmri máls­með­ferð­ar­leið 2. mgr. 36. gr. skipu­lags­laga, nr. 123/2010, eins og gert var. Það sem einkum valdi því sé að sam­kvæmt texta laga­ákvæð­is­ins skuli, við mat á því hvort breyting á aðal­skipu­lagi geti tal­ist óveruleg, meðal annars að taka mið af því hvort líklegt sé að hún hafi mikil áhrif á einstaka aðila. Við blasi að þessi breyting hafi haft veruleg áhrif á stefn­anda og fasteign hans enda liggi fyrir að hefði þágildandi aðal­skipu­lag staðið óhaggað mætti stefndi Gullöldin ehf. ekki hafa opið lengur en til kl. 23.00 á kvöldin. Aðal­skipu­lags­breytingin hafi gert staðnum fært að hafa opið til kl. 01.00 á virkum dögum og til kl. 03.00 um helgar með miklum afleiðingum fyrir lífs­gæði þeirra sem búa í fasteign stefn­anda. Í gögnum, meðal annars frá lög­reglu og í tölvu­skeytum, komi fram að af starf­semi stefnda stafi mikill hávaði og ónæði, fjöldi lög­reglu­útkalla þar ár hvert, staður­inn oftsinnis opinn eftir leyfi­legan opnun­ar­tíma, og áfengi selt eftir lokun. Jafn­framt hafi verið ónæði af gestum utan dyra sem hafi farið út að reykja. Með vísan til þessa geti þessi breyting á aðalskipulaginu ekki talist hafa verið óveru­leg. Það leiði til þess að ekki hafi mátt fara með hana eftir ákvæðum 2. mgr. 36. gr. skipu­lagslaga. Það valdi því að breytingin var ólögmæt sem aftur valdi því að ekki hafi mátt gefa út umrætt rekstrarleyfi, dagsett 27. febrúar 2015. Af þessum sökum beri að fella úr gildi þá ákvörðun stefnda, Sýslu­manns­ins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 27. febrúar 2015, að veita stefnda, Gullöldinni ehf., leyfi til reksturs veitingastaðar í flokki III/krá að Hverafold 5, Reykjavík, svo og þann úrskurð atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðu­neytisins, dags. 25. febrúar 2016, að stað­festa þessa ákvörðun sýslumanns. Rakið hafi verið að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kröfunnar, einkum vegna nábýlis, háv­aða og ónæðis af þeirri starfsemi stefnda Gullaldarinnar ehf. sem fer fram á grund­velli leyfisins. Hann stefni Gullöldinni ehf. sem þeim aðila sem þola þurfi leyfis­svipt­ing­una og Sýslu­mann­inum í Reykjavík því það stjórnvald hafi tekið ákvörðunina á lægra stjórn­sýslustigi. Með vísan til ítrekaðrar dómvenju, sbr. fyrst Hrd. 1997, bls. 643, og fjölda dóma eftir það, sé ráðuneytinu ekki stefnt í þessu máli, enda sé það aðeins úrskurð­ar­aðili á mál­skots­stigi innan stjórnsýslunnar og hafi ekki sjálfstæða hagsmuni af úrlausn málsins. Ekki sé heldur nein réttarfarsnauðsyn á að gefa ráðuneytinu kost á að láta þetta mál til sín taka, svo notað sé orðfæri í dómum í Hæsta­réttar. Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu óskipt (in solidum) að skað­lausu. Kröfu sinni til stuðnings vísar stefnandi til laga um veitingastaði, gisti­staði og skemmt­ana­hald, nr. 85/2007, og skipulagslaga, nr. 123/2010. Hann vísar til ógilding­ar­reglna stjórnsýsluréttar. Málskostnaðarkrafa hans styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Málsástæður og lagarök stefnda, Gullaldarinnar ehf.  Stefndi, Gullöldin ehf., mótmælir því að ákvörðun Sýslumannsins á höfuð­borg­ar­svæð­inu frá 27. febrúar 2015 hafi verið ólögmæt. Stefnandi byggi kröfu sína í fyrsta lagi á því að þar eð umsókn stefnda barst leyf­is­veit­anda 23. apríl 2014, sjö dögum áður en rekstr­ar­leyfið rann út, hafi hún borist of seint því hún hafi átt að berast tveimur mán­uðum áður, samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmt­ana­hald. Stefndi mót­mælir skiln­ingi stefn­anda á ákvæðinu og bendir á 2. mgr. 13. gr. laganna sem hljóðaði þannig á þeim tíma þegar leyfið var veitt: Meðan umsókn um endurnýjun er til meðferðar er leyfisveitanda heimilt að gefa út rekstr­ar­leyfi til bráðabirgða með sömu skilmálum og giltu um hið fyrra rekstrarleyfi, til allt að þriggja mánaða. Gildistími bráðabirgðaleyfis verður þó aldrei lengri en þrír mán­uðir frá því að rekstrarleyfi rann út. Að þeim tíma liðnum verður bráðabirgðaleyfi ekki fram­lengt nema tafir á afgreiðslu endurnýjunar sé ekki að rekja til umsækjanda. Óheimilt er að gefa út bráðabirgðarekstrarleyfi hafi umsókn um endurnýjun borist eftir að fyrra rekstrarleyfi rann út. Samkvæmt þessu hafi meðferð málsins verið í eðlilegum ferli, enda hafi stefndi haft rekstrarleyfi til bráða­birgða og tafir á afgreiðslunni verði ekki raktar til hans. Þegar af þeirri ástæðu eigi sú málsástæða stefnanda sem byggist á 1. mgr. ákvæð­is­ins ekki við. Stefndi byggir einnig á því að jafnvel þótt talið yrði að umsókn um endurnýjun rekstr­ar­leyfis hafi borist of seint, í skilningi 1. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2007, leiði það ekki til ógildis stjórn­valds­ákvörðunar sýslumannsins. Stefndi bendir á að í íslenskum stjórn­sýslu­rétti sé talið að jafnvel þótt stjórnvald fari á svig við málsmeðferðarreglur leiði það eitt og sér ekki til ógildis stjórnvaldsákvörðunar. Stefndi bendir á í þessu sam­bandi að máls­með­ferð­ar­reglum megi skipta í tvo flokka, öryggisreglur og verk­lags­reglur. Brot á verk­lags­reglu leiði almennt ekki til ógildis ákvörðunar. Stefndi telur ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2007 verklagsreglu. Það geti því ekki valdið ógildi stjórn­valds­ákvörðunar þótt því verklagi hafi ekki verið fylgt í hvívetna. Vegna síðari málsástæðu stefnanda að breyting aðalskipulagsins hafi verið veru­leg vísar stefndi til ákvæðis 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, þar sem segir: Nú telur sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á gildandi aðalskipulagi sem séu það óveru­legar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 30.–32. gr. og skal þá sveitar­stjórn senda rökstudda tillögu um breytinguna til Skipulagsstofnunar. Niðurstaða sveit­ar­stjórnar skal auglýst. Við mat á því hvort breyting á aðalskipulagi geti talist óveru­leg skal taka mið af því hvort hún hafi verulegar breytingar á landnotkun í för með sér eða sé líkleg til að hafa mikil áhrif á einstaka aðila eða hafa áhrif á stór svæði. Fall­ist Skipu­lags­stofnun á tillögu sveitarstjórnar skal hún staðfesta tillöguna innan fjög­urra vikna frá því að tillagan barst henni og auglýsa hana í B-deild Stjórn­ar­tíðinda. Fall­ist Skipu­lags­stofnun ekki á að um óverulega breytingu sé að ræða skal hún til­kynna sveitarstjórn um það og fer þá um málsmeðferð eins og um gerð aðal­skipulags sé að ræða. Stefndi bendir á að skipulagsstofnun hafi þegar metið breytinguna óveru­lega. Það hafi Reykjavíkurborg og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið einnig gert. Að mati stefnda getur dómstóll tæplega tekið það upp hjá sjálfum sér að meta breytingu veru­lega sem sérfróð stjórnvöld hafa metið óverulega. Í þessu sam­bandi sé rétt að benda á sönnunarreglur laga um meðferð einkamála og meginreglna einka­mála­réttar­fars þar sem efnislegt mat stjórnvalds hafi gríðarlega ríkt sönn­un­ar­gildi í máli þar til annað sannast. Það þýði að sönnunarbyrðin um hið efnislega mat hvíli nú á stefn­anda. Þar eð stefnandi hafi ekki lagt fram sönnunargögn af neinu tagi, sem geti hrakið þau sönn­un­ar­gögn sem liggja fyrir, hafi dómstóllinn enga aðra leið en að fall­ast á efnis­legt mat framangreindra stjórnvalda. Þá byggir stefndi á því að líta verði til takmarkana dómstóla við endurmat efn­is­legs mats stjórnvalda. Hafi ekki verið verulegir annmarkar á málsmeðferð og hafi ákvörðun verið byggð á málefnalegum ástæðum sé almennt ekki talið rétt að dóm­stólar felli hana úr gildi. Enn fremur bendir stefndi á að hann hafi mun meiri hagsmuni af því að halda rekstr­ar­leyfi sínu en stefnandi hafi af því að fá það ógilt. Stefndi bendir á í þessu sam­bandi að húsið að Hverafold 5 sé reist sem atvinnuhúsnæði og þar hafi lengi verið rek­inn veit­inga­staður. Aftur á móti hafi stefnandi nýlega keypt sér rými í húsinu og breytt því í íbúðir. Hafa verði hliðsjón af þessu við úrlausn málsins. Þessu til viðbótar bendir stefndi á að hugsanlega hefði stefnandi einnig átt að stefna Reykjavíkurborg, enda hafi borgin mikla hagsmuni af því að breyt­ingin á aðal­skipu­lagi verði ekki felld úr gildi. Þá kunni að hafa verið nauðsynlegt að stefna eig­anda húsnæðisins þar sem stefnandi reki starfsemi sína, enda hafi hann ekki síður hags­muni af málinu en stefndi. Stefndi, Gullöldin ehf., styður kröfu sína við lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991, stjórn­sýslu­lög, nr. 37/1993, lög um veitingastaði, gististaði og skemmtana­hald, nr. 85/2007, skipu­lags­lög, nr. 123/2010, reglugerð nr. 941/2002, um hollustu­hætti, reglugerð nr. 724/2008, um hávaða, og reglugerð nr. 585/2007, um veitinga­staði, gisti­staði og skemmt­ana­hald. Auk þess byggir stefndi á meginreglum stjórn­sýslu- og stjórn­skip­un­ar­réttar og meginreglum einkamálaréttarfars. Málsástæður og lagarök stefnda, Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu Stefndi, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, mótmælir þeirri málsástæðu stefn­anda að umsókn stefnda, Gull­ald­ar­innar ehf., hafi borist of seint. Félagið hafi sótt um end­ur­nýjun 23. apríl 2014, viku áður en rekstr­ar­leyfi staðarins rann út, 30. apríl sama ár. Því hafi verið sótt um end­ur­nýjun innan gildistíma leyfisins. Þar með hafi verið uppfyllt skil­yrði fyrir veitingu bráða­birgða­leyfis á meðan umsókn um endur­nýjun rekstrar­leyfis hafi verið til með­ferðar í sam­ræmi við ákvæði laga nr. 85/2007. Líta beri svo á að þar til bráða­birgða­leyfi var gefið út hafi end­ur­nýjun­ar­umsókn verið til meðferðar hjá leyfisveitanda. Í athugasemdum við 13. gr. frumvarpsins, sem varð að lögum nr. 85/2007, segi að alltaf megi gera ráð fyrir því að ekki sé sótt um endurnýjun innan tveggja mánaða tíma­frests heldur jafn­vel á síðasta degi. Því þyki rétt að kveða á um það í frumvarpinu að gefa megi út bráða­birgða­leyfi sem sé í öllum atriðum samhljóða rekstrarleyfinu, til allt að þriggja mán­aða, á meðan endurnýjunarumsóknin er til meðferðar. Með þessu sé komið í veg fyrir að til úrræða verði að grípa skv. 23. gr. frumvarpsins. Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2007 segi að á meðan umsókn um endurnýjun rekstr­ar­leyfis sé til meðferðar sé leyfisveitanda heimilt að veita bráðabirgðaleyfi með sömu skilmálum og giltu um hið eldra leyfi til allt að þriggja mánaða. Að þeim tíma liðnum verði bráðabirgðaleyfi ekki framlengt nema tafir á afgreiðslu endurnýjunar verði ekki raktar til umsækjanda. Það er mat stefnda að skilyrði fyrir útgáfu bráða­birgða­leyfis hafi verið uppfyllt, enda verði þær tafir sem urðu á afgreiðslu máls­ins hjá borg­ar­yfirvöldum ekki raktar til umsækjanda. Í þessu samhengi hafi sýslu­maður sér­stak­lega leitað álits Reykjavíkurborgar áður en umrædd bráða­birgða­leyfi voru end­ur­nýjuð í hvert sinn. Stefndi mótmælir öllum sjónarmiðum stefnanda svo og gagnrýni hans á máls­með­ferð sýslumanns og veitingu leyfa og úrskurð ráðuneytisins. Stefnandi byggi í öðru lagi á því að útgáfa leyfisins hafi verið ólög­mæt því breyt­ingin á aðalskipulaginu, sem var ætlað að heimila hana, hafi verið ólög­mæt. Stefndi vísar til úrskurðar ráðuneytisins um breytingu á aðal­skipu­lagi Reykja­vík­ur­borgar 2010-2013 og stjórnsýslulega meðferð slíkrar breyt­ingar, og tekur undir þau rök sem þar eru færð fram. Þar sé áréttað að aðal­skipu­lag sé, sam­kvæmt 2. gr. skipu­lags­laga, nr. 123/2010, skipulags­áætlun fyrir til­tekið sveit­ar­félag þar sem fram kemur stefna sveitarstjórnar um landnotkun, byggða­þróun, byggða­mynstur, sam­göngu- og þjón­ustu­kerfi og umhverfismál í sveitar­félag­inu. Nánar sé fjallað um aðal­skipu­lagsgerð í VII. kafla laganna. Þar segi í 36. gr. að þegar breyta eigi gildandi aðalskipulagi gildi sama máls­með­ferð og um gerð aðal­skipu­lags. Í 2. mgr. sama ákvæðis sé heimilað að gera óverulegar breyt­ingar á gild­andi aðal­skipu­lagi og þá sé ekki talin ástæða til með­ferðar skv. 30.-32. gr. laganna. Senda skuli Skipu­lags­stofnun rök­studda tillögu um breyt­ing­una og aug­lýsa niður­stöð­una. Enn fremur segi að við mat á því hvort breyt­ing á aðal­skipu­lagi geti talist óveru­leg skuli taka mið af því hvort hún hafi í för með sér veru­legar breytingar á land­notkun eða sé líkleg til að hafa mikil áhrif á ein­staka aðila eða hafa áhrif á stór svæði. Breyting Reykjavíkurborgar á texta aðalskipulags hafi falist í því að skýra túlkun ákvæða um starfsemi spilasala, veitingahúsa, gististaða og matvöruverslana innan land­notkunarsvæða eins og sjáist af töflum í greinargerð borgarinnar til Skipu­lags­stofnunar. Við greinar­gerð­ina bætt­ist að ákvæði skipulagsins væru ekki afturvirk og því mögulegt að endurnýja leyfi um starf­semi sem var til staðar fyrir gildistöku aðal­skipulagsins, enda væri um óbreytta starf­semi að ræða í sama hús­næði og áður. Þetta eigi þó ekki við á svæðum þar sem skýrt sé tekið fram í almennri skil­grein­ingu land­notkunar að viðkomandi starf­semi skuli vera víkjandi. Í samræmi við ákvæði skipulagslaga hafi Reykjavíkurborg sent breytinguna til stað­fest­ingar hjá Skipulagsstofnun. Þannig hafi farið fram ákveðið mat Skipu­lags­stofn­unar á því hvort að þessi breyting gæti talist veruleg í skilningi 2. mgr. 36. gr. skipu­lags­laga. Í 52. gr. skipulagslaga segi enn fremur að stjórnvaldsákvarðanir á grund­velli lag­anna sæti almennt kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála. Hins vegar segi í 2. málslið að ákvarðanir, sem Skipulagsstofnun og ráð­herra ber að lögum að staðfesta, sæti ekki kæru til nefndarinnar. Staðfesting á breyt­ingu aðal­skipu­lags, hvort sem breytingin sé veruleg eða óveruleg, falli undir ákvarð­anir Skipu­lags­stofn­unar sem sæti ekki kæru til úrskurðar­nefnd­ar­innar. Því sé ekki gert ráð fyrir að æðra sett stjórn­vald endurskoði viðkomandi ákvörðun. Á þeim grundvelli og í ljósi fram lagðra gagna hafi ráðuneytið ekki talið sig bært til að endurskoða afstöðu Skipulagsstofnunar til til­lögu Reykja­víkurborgar. Þegar sýslumaður veiti rekstrarleyfi sé hann bundinn af þeim umsögnum sem honum berist. Í þessu tilfelli hafi sýslumaður litið til jákvæðrar umsagnar Reykja­vík­ur­borgar sem aftur byggði á breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem Skipu­lags­stofnun hafi þegar staðfest. Það hafi því verið mat Skipulagsstofnunar að orðalag þessara breytinga og skýr­inga væri almennt. Það taki ekki til sérstakra aðila eða til sérstakra svæða. Það hafi einnig verið mat Skipulagsstofnunar að þessar breyt­ingar á skipulagi kölluðu ekki á veru­legar breyt­ingar á landnotkun. Í úrskurði sínum hafi ráðuneytið ekki gert athugasemdir við afgreiðslu Skipu­lags­stofn­unar á tillögu Reykjavíkurborgar um óverulega breytingu á aðal­skipulagi né heldur við afgreiðslu sýslumanns á umsókn um endurnýjun rekstrar­leyfis fyrir veit­inga­staðinn Gullöldina í Grafarvogi. Ráðuneytið hafi staðfest hina kærðu ákvörðun sýslu­manns. Stefndi vekur einnig athygli á því að veitingastaðurinn Gullöldin hafi haft rekstr­ar­leyfi fyrir veitingastað í flokki III allt frá árinu 1999 og hafi leyfin verið endur­nýjuð reglu­lega frá þeim tíma. Hið umdeilda leyfi sé í samræmi við núgild­andi ákvæði aðal­skipulagsins. Einnig sé vert að nefna að félag stefnanda, Jón I. Garðarsson ehf., kt. 420497-2109, hafi eignast fasteign að Hverafold 5, íbúð 303, með fastanúmerið 221-8173, tólf árum eftir að stefndi fékk upphaflegt rekstrarleyfi, eða með kaup­samn­ingi dags. 23. des­em­ber 2011. Stefnandi hafi á árinu 2013 fengið leyfi til að breyta atvinnu­húsnæði á 3. hæð í íbúð. Á þeim tíma hafi honum vænt­an­lega verið full­kunn­ugt um þá starfsemi sem rekin er í húsinu. Þegar endanlegar og jákvæðar umsagnir lög­bund­inna umsagn­ar­aðila, sbr. 10. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, lágu fyrir 12. mars 2015 hafi umsækj­andi upp­fyllt almenn skilyrði 8. gr. sömu laga. Umsagn­irnar séu bindandi fyrir leyfis­veit­anda, sbr. 2. mgr. 23. gr. reglu­gerðar nr. 585/2007, um veit­inga­staði, gististaði og skemmtana­hald. Af þeim sökum er það mat stefnda, Sýslu­manns­ins á höfuð­borgar­svæð­inu, að lagaskilyrði hafi verið uppfyllt við útgáfu umrædds rekstrarleyfis.  Stefnandi byggi á því að útgáfa leyfisins hafi verið ólögmæt því aðal­skipu­lags­breyt­ingin, sem var ætlað að heimila hana og áður er rakin, hafi verið ólög­mæt. Stefn­andi byggi á því að breyting á aðalskipulagi geti ekki talist hafa verið óveru­leg. Stefndi mótmælir þessum málsástæðum stefnanda. Ekki séu nein skil­yrði til að taka kröfu stefnanda til greina og hin umdeilda ákvörðun sýslumanns og hinn umdeildi úrskurður ráðuneytisins séu löglegir að formi og efni til. Vegna málskostnaðarkröfu vísast til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Niðurstaða Stefnandi krefst þess að felld verði úr gildi sú ákvörðun stefnda, Sýslu­manns­ins á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 27. febrúar 2015, en í reynd gefin út 12. mars 2015, að veita stefnda, Gullöldinni ehf., leyfi til reksturs veitingastaðar í flokki III/krá að Hvera­fold 5, Reykjavík, og að felldur verði úr gildi sá úrskurður atvinnuvega- og nýsköp­unar­ráðu­neytisins, dagsettur 25. febrúar 2016, að staðfesta þessa ákvörðun sýslu­manns. Fyrir kröfu sinni færir hann í fyrsta lagi þau rök að stefndi, Gullöldin ehf., hafi sótt of seint um endurnýjun rekstrarleyfis síns. Gildistími leyfisins hafi runnið út 30. apríl 2014. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2007, eins og það ákvæði var þá orðað, hafi stefnda borið að sækja um endurnýjun leyfisins í það minnsta tveimur mán­uðum áður en leyfið rynni út, eigi síðar en 28. febrúar 2014. Ákvæðið sé for­taks­laust og veiti ekkert svigrúm. Í greinargerð með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 85/2007, segir í athuga­semdum við 13. gr. að tveggja mánaða fyrirvarinn eigi að nægja leyfisveitanda til þess að taka afstöðu til þess hvort endurnýja skuli leyfi. Í athugasemdunum er jafn­framt tekið fram að í þeim tilvikum þegar sótt er um endurnýjun síðar, en þó ekki svo seint að leyfið sé runnið út, sé leyfisveitanda heimilt að gefa út rekstrarleyfi til bráða­birgða sem gildi í allt að þrjá mánuði á meðan umsókn um endurnýjun sé til meðferðar hjá leyf­is­veit­anda. Með vísan til þessa vilja löggjafans telur dómurinn að leyfisveitanda hafi verið heim­ilt að taka umsókn stefnda, Gullaldarinnar ehf., um endurnýjun rekstrarleyfis til efn­is­legrar meðferðar. Í þessu tilviki var Gullöldinni ekki veitt rekstrarleyfi til bráðabirgða fyrr en í lok árs 2014, níu mánuðum eftir að stefndi sótti um endurnýjun rekstrarleyfis síns. Á þeim töfum ber leyfis­veit­and­inn, Lögreglustjórinn á höfuð­borgar­svæð­inu, ábyrgð en ekki umsækjandinn. Telja verður að þar til bráða­birgða­leyfi var gefið út hafi end­ur­nýjun­ar­umsókn verið til meðferðar hjá leyfisveitanda. Þegar sýslumaður hafði tekið við því verkefni að veita rekstrarleyfin var bráða­birgða­leyfið endurnýjað reglulega á meðan málið var í vinnslu. Þau göt sem voru í gild­is­tíma bráðabirgðaleyfisins 15.-22. janúar og 24.-26. febrúar 2015 eru á ábyrgð leyf­is­veit­anda en ekki umsækjandans. Það hefði vissulega verið vandaðri stjórn­sýsla hjá lögreglustjóra að draga ekki svo lengi að gefa út leyfi til bráðabirgða og hjá sýslu­manni að gefa bráðabirgðaleyfin út í óslitinni röð. Handvömm þeirra getur þó ekki haft þau réttaráhrif að rekstrarleyfi stefnda Gullaldar­innar hafi runnið út. Stjórn­valds­ákvarð­anirnar verða því ekki felldar úr gildi, hvorki með þeim rökum að stefndi Gull­öldin ehf. hafi sótt of seint um endurnýjun rekstrarleyfis síns né fyrir þá sök að leyf­is­veit­endur sáu ekki til þess að rekstr­ar­leyfi staðarins til bráðabirgða væri gefið út í óslit­inni röð og því hafi ekki mátt endurnýja eldra leyfi. Fyrir kröfu sinni færir stefnandi í öðru lagi þau rök að útgáfa rekstrarleyfisins hafi verið ólögmæt þar eð aðal­skipu­lagsbreytingin, sem var ætlað að heimila hana, hafi verið ólög­mæt. Ótækt hafi verið að líta svo á að breytingin teld­ist „óveru­leg“. Af þeim sökum hafi ekki mátt fara með breytinguna eftir skemmri máls­með­ferð­ar­leið 2. mgr. 36. gr. skipu­lags­laga, nr. 123/2010, eins og gert var. Við mat á því hvort breyt­ing á aðal­skipu­lagi geti tal­ist óveru­leg skuli meðal annars taka mið af því hvort lík­legt sé að hún hafi mikil áhrif á einstaka aðila. Hún hafi haft grund­vall­ar­áhrif á stefn­anda og fast­eign hans. Hún geti því ekki talist hafa verið óveru­leg. Því hafi ekki mátt fara með hana eftir ákvæðum 2. mgr. 36. gr. skipu­lagslaga. Breytingin hafi því verið ólög­mæt og því hafi ekki mátt gefa út umrætt rekstrarleyfi, dags. 27. febrúar 2015. Þess vegna verði að fella það úr gildi sem og úrskurð ráðuneytisins sem stað­festi leyfið. Í A-hluta aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 er kafli um landnotkun. Þar er land­notkun á tilteknum svæðum innan borgarmarkanna skilgreind. Flokkar land­notk­unar eru nærri 40, svo sem íbúð­ar­byggð, hverfiskjarnar, athafnasvæði, hafnar­svæði og íþrótta­svæði. Í þessum kafla eru einnig sérstök ákvæði (stuttir kaflar) um til­tekna starf­semi, þeirra á meðal um spila­sali, veitingahús, hótel- og gisti­rými, og að lokum um matvöruverslanir svo og í hvaða landnotkunarsvæði hvaða tegund þessa rekst­urs má og má ekki vera. Í kafl­anum um spila­sali er sérstaklega tekið fram að skipu­lags­ákvæðin séu ekki aft­ur­virk, þannig að aðalskipulagið, sem var staðfest í febrúar 2014, hafi ekki áhrif á þá sem höfðu rekstrarleyfi fyrir spilasali í samræmi við ákvæði eldra aðal­skipu­lags. Sam­bæri­leg fyrir­mæli voru hvorki í köfl­unum um veit­inga­hús, hótel- og gisti­rými né mat­vöru­versl­anir. Með breytingunni, sem hér er deilt um, var sambærilegu ákvæði bætt inn í þá kafla. Í rökum Reykjavíkurborgar með breytingunni segir að með henni sé verið að halda því til haga, sem tekið var fram í kafl­anum um spilasali, að nýja aðal­skipu­laginu hafi ekki verið ætlað að hrófla við nokkurri starf­semi innan þessara fjög­urra flokka sem hafði fullgild rekstrarleyfi sam­kvæmt eldra aðal­skipulagi nema tekið sé fram að þessi tiltekna starfsemi eigi að vera víkjandi á viðkomandi svæði. Ekki liggur fyrir hversu mörgum rekstrarleyfum, sem voru veitt í tíð eldra skipu­lags, voru settar takmarkanir með aðal­skipu­laginu 2010-2030. Því er ekki vitað hversu margir veit­inga­staðir, hversu margir gististaðir og hversu margar matvöru­versl­anir sem höfðu rekstr­ar­leyfi sam­kvæmt eldra skipulagi fengu rekstrarleyfi færð til fyrra horfs með aðalskipulags­breyt­ing­unni sem er tilefni þessa máls eða hvort það var ein­ungis stefndi, Gullöldin ehf., sem naut góðs af breytingunni, eins og stefnandi telur mögulegt. Í 3. málslið 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2007 eru sett þrjú viðmið við mat á því hvort breyting á aðal­skipu­lagi teljist óveruleg. Horfa skal til þess hvort a) veru­legar breytingar á land­notkun hljót­ist af henni, b) líklegt sé að hún hafi mikil áhrif á einstaka aðila eða c) lík­legt sé að hún hafi áhrif á stór svæði. Stefnandi telur breyt­ing­una hafa afgerandi áhrif á lífsgæði þeirra sem búa í íbúðunum sem hann á í hús­inu svo og áhrif á verð fasteignar sinnar. Af greinargerð með frumvarpi til skipulagslaga verður ekki greint hvaða merk­ingu löggjafinn leggur í orðin „einstaka aðila“, hvort hann sá fyrir sér skóla, sjúkra­hús, við­kvæma hópa svo sem fólk með sjúkdóma í öndunarfærum eða fólk í hjólastólum, við­kvæma starfsemi af einhverju tagi eða hreint og klárt eina manneskju, eina fjöl­skyldu eða eigendur eða leigjendur einnar eða tveggja íbúða. Gögn um þann hávaða sem berst frá veitingastaðnum Gullhöllinni inn í íbúð stefn­anda eru ekki mörg. Stefnandi greindi dóminum frá því að það væri einkum þegar hljóð­nemi væri not­aður svo sem þegar hljómsveitir eða söngvaskáld héldu tónleika, og við aðrar skemmtanir til dæmis bingó, sem hávaðinn væri ekki mönnum bjóðandi. Þá heyrð­ist hvert orð upp í íbúðina, ekki væri hægt að ræða saman, horfa á sjónvarpið og svefn vitaskuld útilokaður. Á venjulegu kvöldi, þegar ekki væri „lifandi tón­list“ væri yfir­leitt ekki undan neinu að kvarta. Fyrstu sannanlegu kvörtunina ritaði stefnandi, 20. júní 2014, einum eiganda Gull­aldarinnar og kom á framfæri óánægju leigj­enda sinna vegna hávaða frá staðnum. Hann vísaði í fyrri sam­skipti við eigandann þess efnis að myndi stefn­andi kvarta yrði lækkað. Hins vegar nenntu leigjendur hans ekki að standa í því að fara niður og kvarta þegar háv­að­inn færi yfir þolmörk þeirra. Hann nenni ekki heldur að standa í því að hringja í lög­reglu eða skrifa borginni póst og því verði þeir tveir að finna aðra lausn í góðri sam­vinnu. Eigandinn tók vel í þetta erindi en áréttaði að leigjendurnir ættu alltaf að hringja í hann um leið og ónæðið hæfist því hann gæti ekki verið á staðnum öll kvöld og vaktað hversu hátt starfs­menn­irnir stilltu tækin. Hann vildi því fá kvartanir „beint í æð“ svo bregðast mætti strax við en ekki eftir að allt væri yfirstaðið. Í tölvuskeytum í júní og júlí 2014 reyndi stefnandi að fá forsvarsmenn Gull­ald­ar­innar til þess að koma upp í íbúðina svo hægt væri að finna út í sameiningu hversu hátt mætti stilla tækin á kránni þannig að hávaðinn yrði ekki óbærilegur fyrir þá sem byggju á þriðju hæðinni, t.d. þannig að þangað heyrðist ekki hvert orð sem sagt væri í hljóð­nem­ann á jarð­hæð­inni. Áfram var vel tekið í tilmæli hans, lagt til að tækin yrðu stillt þannig að ekki væri hægt að hækka upp fyrir tiltekin mörk og hljóðneminn stilltur sérstaklega. Áfram var ítrekað að eig­endur vildu fá kvartanirnar um leið og háv­að­inn yrði of mikill en ekki síðar. Í tölvupóstum milli stefnanda og eiganda staðarins í febrúar 2015 er aftur rætt um hávaða frá staðnum en eigendur hans virðast ekki hafa þegið boð stefnanda um að koma upp í íbúðina til þess að heyra hversu vel hávaðinn berst þangað. Meðal gagna málsins eru einnig bréfaskipti stefnanda við lögreglu og heil­brigð­is­eft­ir­lit borgarinnar. Í bréfi í des­em­ber 2015 segir stefnandi lögregluna hafa beðið hann að láta vita þegar óbæri­legur háv­aði væri frá Gullöldinni. Það hafi hann gert næstliðnar helgar en nú hafi lög­reglan beðið hann að hætta að hringja í sig. Söngva­skáldið sé að vísu hætt að syngja, kl. 03.30, en þá hafi tekið við lýsing á bar­daga í hnefaleikum sem hann geti fylgst með eins og hann sæti niðri. Síðar í desember kvart­aði stefnandi aftur við lögregluna og heilbrigðiseftirlit skrif­lega undan háv­aða frá tón­leikum söngva­skálds­ins niðri á veitingastaðnum. Strax 1. janúar 2016 kvartaði stefnandi undan hávaða frá bingói 30. desember 2015 og sagði að 31. desember hefði allur dagurinn verið undirlagður af hljóðprufum Skíta­mórals sem hélt fólkinu á 3. hæð vakandi fram á morgun 1. janúar með tón­leikum. Í bréfinu veltir stefnandi því fyrir sér hvort staðurinn sé rekinn eins og hann hafi starfs­leyfi sem skemmtistaður þótt starfsleyfið taki til kráar og stefndi hafi með því brotið gegn starfsleyfi sínu. Í svari 5. janúar 2016 taldi lögreglan ekki óheimilt að hafa tón­list­ar­flutning á krám en benti á að heilbrigðiseftirlitið og byggingarfulltrúi gætu sett slíkum stöðum mörk. Auk þess var bent á sýslumann, sem leyfisveitanda. Stefnandi áréttaði að staðurinn væri rekinn sem skemmtistaður en stefndi hefði leyfi fyrir krá. Lögreglan vísaði til fyrra svars að staður í flokki III væri staður þar sem leikin væri hávær tónlist og opið lengur en til kl. 23.00. Hins vegar myndi lögreglan bregð­ast við ábendingum um brot á skilyrðum veitingastaða. Um miðjan febrúar 2016 og kl. 02.00 um nótt kvartaði stefnandi skriflega bæði við lög­reglu og heilbrigðiseftirlit undan hávaða frá tónleikum söngvaskáldsins. Um miðjan mars, eftir miðnætti, sendi stefnandi kvörtun vegna rapptónleika. Í lok mars 2016 sendi stefn­andi kvörtun, fyrst vegna miðvikudagskvöldsins 23. mars en þá var í upp­hafi garg­andi bingó en síðan stóð Skíta­mórall fyrir látum til kl. 03.00 um nótt­ina. Fimmtu­daginn 24. mars var hávær skemmtun til miðnættis og laugardaginn 26. mars var dagskrá Veðurguðsins til kl. 03.00 bara fín en tónlist hans hélt engu að síður vöku fyrir fjölskyldunni á 3. hæðinni, sem hafði ekki ætlað sér að vera á þessum tónleikum. Ekki liggur fyrir hvort Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur brást við þessum kvört­unum en lögreglan kvaðst bóka þær hjá sér. Í janúar 2016 reyndi stefnandi ítrekað að fá fund með starfsmanni sýslumanns, sem leyfisveitanda, til þess að ræða það hver væru mörkin á milli þeirra skemmtana sem hafa mætti á krám annars vegar og skemmtistöðum hins vegar því hann taldi stefnda Gullöldina ehf. reka staðinn sem skemmtistað en slíkt leyfi hefði sýslumaður ekki veitt. Starfsmaður sýslumanns gaf ekki kost á fundi, vitnaði ítrekað í ákvæði laga og reglu­gerða en vísaði stefnanda að öðru leyti á lögregluna sem sæi um eftirlit með veit­inga­stöðum. Þótt ekki liggi fyrir samfelld saga kvartana stefnanda og árangurslítilla tilrauna hans til að fá eigendur staðarins til samvinnu við sig telur dómurinn nægilega fram komið að þeir sem búa í íbúðinni verða fyrir gríðarlegu ónæði frá veitingastaðnum og að það sé svo mikið að það skerði lífsgæði þeirra. Dóminum er til efs að sá hávaði sem stefnandi hefur lýst og greint er frá í fram lögðum gögnum samrýmist viðmiðum í töflu III í reglugerð nr. 724/2008, um hávaða. Heil­brigðiseftirlitið virðist þó ekki hafa athugað hvort hávaðinn, sem berst frá veit­inga­staðnum og upp í íbúðina, fari yfir lögboðin mörk. Jafnframt virðast borgar­yfir­völd og sýslumaður ekki gera skýran grein­ar­mun á skemmtunum sem mega fara fram á krá annars vegar og skemmti­stöðum hins vegar, sem eru þó tvær mismunandi teg­undir veitingastaða, sbr. b- og f-liði 18. gr. reglugerðar nr. 1277/2016, um veit­inga­staði, gisti­staði og skemmtanahald. Þrátt fyrir það ónæði sem hér hefur verið lýst telur dómurinn að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að orðalagið „einstaka aðila“ tæki til svo þröngs hóps sem eig­anda eða eigenda einnar íbúðar eða tveggja. Dómurinn telur því að ekki sé uppfyllt það skilyrði 2. mgr. 36. gr. skipu­lags­laga nr. 123/2007 að breyting á aðalskipulaginu hafi verið veruleg. Þótt dómurinn telji þannig að heimilt hafi verið að breyta aðalskipulaginu með ein­faldari aðferð 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga og starfsleyfi stefnanda verði af þeim sökum ekki fellt úr gildi þýðir það hvorki að stefnda, Gullöldinni ehf., beri ekki að fylgja þeim lögum sem gilda um starfsemi hans né að heilbrigðiseftirliti, lögreglu og öðrum eftir­lits­aðilum beri ekki að gæta eftirlitsskyldna sinna og tryggja að stefndi, Gullöldin ehf., fari að þessum lögum, gæti hann ekki skyldna sinna sjálfur. Dómurinn hefur því hafnað báðum málsástæðum stefnanda fyrir því að fella eigi úr gildi þá ákvörðun stefnda, Sýslu­manns­ins á höfuðborgarsvæðinu, dagsetta 27. febrúar 2015, að veita stefnda, Gullöldinni ehf., leyfi til reksturs veitingastaðar í flokki III/krá að Hverafold 5, Reykjavík, og þann úrskurð atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðu­neytis­ins, dagsettan 25. febrúar 2016, að staðfesta þessa ákvörðun sýslumanns. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt, eins og atvikum málsins er háttað, að máls­kostn­aður milli aðila falli niður. Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm. D Ó M S O R Ð: Stefndu, Gull­öld­in ehf. og Sýslu­maðurinn á höfuð­borg­ar­svæðinu, eru sýkn af kröfum stefnanda, Jóns Ingvars Garð­ars­sonar, um ógildingu stjórnvaldsákvarðana. Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Mál nr. 660/2017
Ráðningarsamningur Uppsögn Riftun Skaðabætur
K krafði G ehf. um greiðslu skaðabóta sem svöruðu til launa í uppsagnarfresti. Hafði K starfað við afgreiðslu í bílaleigu G ehf. í Keflavík. Eftir að K hafði gengt störfum í um hálfs árs skeið ákvað G ehf. að færa hana til starfstöðvar félagsins í Kópavogi. Var henni síðar tilkynnt að óskað væri eftir að hún mætti aftur á vakt í Keflavík. Gerði K það en greindi G ehf. frá því næsta dag að hún treysti sér ekki til frekari starfa þar. Var henni síðar sagt upp störfum án uppsagnarfrests vegna brots á starfsskyldum. Í kjarasamningi sem tók til starfa K hjá G ehf. var áskilið að gerður væri skriflegur ráðningarsamningur. Meðal annars bar í honum að greina frá vinnustað en væri hann ekki fastur skyldi koma fram að starfsmaður væri ráðinn á mismunandi vinnustöðum. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur um störf K en á G ehf. hvíldi skylda til að eiga frumkvæðið að slíku. Var því talið að G ehf. yrði að bera halla af óvissu um inntak munnlegs ráðningarsamnings síns við K. Af framburði K fyrir héraðsdómi yrði ekki annað séð en að hún hefði fellt sig við einhliða ákvörðun G ehf. um að flytja hana til í störfum frá Keflavík til Kópavogs án þess að fá nokkra skýringu á þeirri ráðstöfun eða borið væri undir hana hvort hún væri því samþykk. Með þeirri afstöðu hefði K staðfest í verki að hún gengi út frá því að í munnlegum ráðningarsamningi sínum við G ehf. hefði meðal annars falist að hún yrði hverju sinni að hlíta ákvörðun hans um það á hvorri starfstöð hans hún leysti störf sín af hendi. Þann þátt í ráðningarsamningnum hefði K vanefnt með neitun um að sinna aftur vinnu í Keflavík og hefði G ehf. því af þeim sökum verið heimilt að víkja henni frá störfum. Var G ehf. því sýknaður af kröfu K.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Eyvindur G. Gunnarsson prófessor. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. október 2017. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 957.845 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 497.374 krónum frá 1. desember 2015 til 1. janúar 2016, en af 957.845 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms hefur heiti stefnda verið breytt úr Grundum ehf. í Green Motion Iceland ehf. I Samkvæmt gögnum málsins réði áfrýjandi sig til starfa hjá stefnda í mars 2015 við afgreiðslu á bílaleigu hans í Keflavík, en ekki var gerður um þetta skriflegur ráðningarsamningur. Ágreiningslaust er að samið hafi verið um að áfrýjandi fengi 1.750 krónur í laun fyrir hverja vinnustund og verður ráðið af framlögðum launaseðlum hennar að þar hafi verið um að ræða jafnaðarkaup án tillits til vinnutíma, en störfin munu hafa verið leyst af hendi á vöktum. Fyrir liggur að áfrýjandi hafi frá því í apríl 2015 fengið greiddan ásamt tímavinnulaunum sínum mánaðarlegan kaupauka, sem mun hafa ráðist af tekjum af starfsemi stefnda. Eftir að áfrýjandi hafði gegnt störfum sínum í um hálfs árs skeið ákvað stefndi að færa hana til og mun hún hafa byrjað 9. september 2015 að vinna á starfstöð hans í Kópavogi, en stefndi heldur því fram að hann hafi verið knúinn til að grípa til þessa ráðs vegna vandamála, sem hafi komið upp í samskiptum áfrýjanda við samstarfsmenn sína. Stefndi kveður áfrýjanda hafa verið nokkuð frá vinnu vegna veikinda síðari hluta september, en frá 1. til 26. október 2015 hafi hún síðan verið í ólaunuðu orlofi. Áfrýjandi hafi svo komið aftur til vinnu í Kópavogi. Óumdeilt er að þegar áfrýjandi var þar við störf 2. nóvember 2015 hafi henni verið tilkynnt að óskað væri eftir að hún mætti á vakt að kvöldi þess dags á starfstöð stefnda í Keflavík. Það mun hún hafa gert, en greint síðan stefnda frá því næsta dag að hún treysti sér ekki til frekari starfa þar. Framkvæmdastjóri stefnda mun þá hafa verið erlendis og samkomulag orðið um að áfrýjandi yrði í veikindaleyfi þar til hann kæmi aftur. Í framhaldi af því áttu þau fund 9. nóvember 2015 og var áfrýjanda þá afhent uppsagnarbréf, þar sem sagði meðal annars: „Þér ... er hér með sagt upp störfum hjá Grundum ehf. vegna brots á starfsskyldum sem fólust í að neita að mæta til vinnu og vegna samstarfsörðugleika á starfsstöð Grunda ehf. í Keflavík. Uppsögnin tekur gildi og er án uppsagnarfrests vegna brots á starfsskyldum. Grundir hafa fallist á að greiða þér laun út nóvember mánuð og er síðasti dagur á launaskrá því 30. nóvember n.k. Vinnuskyldu þinni líkur nú þegar.“ Áfrýjandi telur þessa uppsögn ólögmæta, þar sem fastur vinnustaður hennar hafi verið á starfstöð stefnda í Kópavogi þegar hann hafi einhliða tekið ákvörðun um að færa hana til starfa í Keflavík. Henni hafi af þessum sökum verið heimilt að neita að virða þá ákvörðun og hafi sú neitun ekki gefið stefnda réttmætt tilefni til að víkja henni úr starfi. Í málinu krefst áfrýjandi á þeim grunni bóta sem svari launum í uppsagnarfresti. Vísar hún til þess að samkvæmt kjarasamningi hafi uppsagnarfrestur, sem hér hafi verið einn mánuður, átt að miðast við mánaðamót og eigi hún því tilkall til launa, þar með töldum kaupauka, til loka desember 2015. II Í framlögðum kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Eflingar stéttarfélags ásamt öðrum verkalýðsfélögum, sem óumdeilt er að tekið hafi til starfa áfrýjanda hjá stefnda, var áskilið að gerður yrði skriflegur ráðningarsamningur eða staðfesting á ráðningu í ráðningarbréfi ef vinnusambandi væri ætlað að standa lengur en einn mánuð. Meðal annars bar í samningi eða bréfi að greina frá vinnustað, en væri hann ekki fastur skyldi „koma fram að starfsmaður sé ráðinn á mismunandi vinnustöðum.“ Þá var tekið fram að breytingar á ráðningarkjörum skyldi staðfesta á sama hátt ekki síðar en mánuði eftir að þær kæmu til framkvæmda. Sem fyrr segir var ekki gerður skriflegur ráðningarsamningur um störf áfrýjanda hjá stefnda og heldur ekki ráðningarbréf, en á honum hvíldi skylda til að eiga frumkvæði að slíku. Verður stefndi þannig að bera halla af óvissu um inntak munnlegs ráðningarsamnings síns við áfrýjanda. Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst áfrýjandi hafa unnið á starfstöð stefnda í Keflavík frá því í mars og fram í byrjun september 2015, en þá hafi hún verið „færð“ í Kópavog. Ekki minntist hún þess hver hafi tilkynnt sér þetta eða „nákvæmlega hvernig þetta fór fram“ og hafi ekkert verið „talað neitt beint við“ sig um ástæðuna fyrir þessari breytingu. Aðspurð um hverju hún hafi búist við í framhaldinu sagði áfrýjandi eftirfarandi: „Bara að ég væri komin þangað til að vera og það var ekkert rætt um að þetta sé í einhvern tíma, neinn ákveðinn tíma, eða að þetta sé í eina viku eða neitt.“ Af þessum framburði áfrýjanda verður ekki annað séð en að hún hafi fellt sig við einhliða ákvörðun stefnda um að flytja hana til í störfum frá Keflavík til Kópavogs án þess að fá nokkra skýringu á þeirri ráðstöfun eða borið væri undir hana hvort hún væri því samþykk. Með þeirri afstöðu verður áfrýjandi að teljast hafa staðfest í verki að hún hafi gengið út frá því að í munnlegum ráðningarsamningi sínum við stefnda hafi meðal annars falist að hún yrði hverju sinni að hlíta ákvörðun hans um það á hvorri starfstöð hans hún leysti störf sín af hendi. Þennan þátt í ráðningarsamningnum vanefndi áfrýjandi með neitun um að verða við tilmælum stefnda um að sinna aftur vinnu á starfstöð hans í Keflavík og var honum af þeim sökum heimilt að víkja henni frá störfum. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms verður því staðfest um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda. Hefði stefndi gætt að skyldu sinni samkvæmt áðurnefndum kjarasamningi til að gera skriflegan ráðningarsamning við áfrýjanda eða ráðningarbréf um störf hennar hefði engin óvissa þurft að vera uppi um það atriði, sem mál þetta varðar. Að því virtu er rétt að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 10. október 2017 I. Mál þetta sem var höfðað með stefnu birtri 25. maí 2016, var dómtekið 25. september 2017. Stefnandi er Klaudia Wirkus, til heimilis að Ástúni 4, Kópavogi, en stefndi er Grundir ehf., Þverholti 6, Mosfellsbæ.                 Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni skuld að fjárhæð 957.845 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 497.374 krónum frá 1. desember 2015 til 1. janúar 2016, en af 957.845 krónum frá þeim tíma til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.                 Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk greiðslu málskostnaðar, en til vara að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður. II. Stefndi í máli þessu rekur bílaleigu með starfsstöð í Keflavík og í Kópavogi. Stefnandi var fastráðin í fullt starf á starfsstöð bílaleigunnar í Keflavík í marsmánuði árið 2015. Fólst starf stefnanda í afgreiðslustörfum, afhendingu og móttöku á bílaleigubílum, og vann stefnandi á vöktum. Í apríl 2015 var stefnandi færð í svonefndan sölutengdan bónushóp hjá stefnda, með auknum starfsskyldum m.a. varðandi útleigu og skil bifreiða, og með því að annast meðferð tjónamála.                 Eftir fimm mánuði í starfi hjá stefnda í Keflavík var stefnandi færð á starfsstöð stefnda í Kópavogi í lok ágúst. Málsaðilum ber ekki saman um hvers vegna stefnandi var færð á starfsstöðina í Kópavogi, en stefndi heldur því fram að ástæða þess hafi verið samstarfsörðugleikar stefnanda og annarra starfsmanna.                 Þann 9. september 2015 var fyrsta vakt stefnanda á starfsstöðinni í Kópavogi. Mætti stefnandi þar til vinnu til 18. september, en á tímabilinu 19. september til 28. september 2015, gat stefnandi ekki mætt sökum veikinda. Stefnandi mætti síðan til vinnu þann 29. september en hinn 1. október 2015 hóf hún töku sumarleyfis.                 Þegar stefnandi kom til baka úr sumarleyfi að morgni hins 2. nóvember 2015 á starfsstöð stefnda í Kópavogi, var óskað eftir því við hana að hún tæki aftur til starfa á starfsstöð stefnda í Keflavík. Var henni falið að mæta á kvöldvakt í Keflavík þann sama dag. Varð stefnandi við þeirri beiðni stefnda og mætti þar til vinnu. Stefnanda leist mjög illa á að vera kvödd til vinnu í Keflavík á nýjan leik og hafði sú ákvörðun slæm áhrif á andlega líðan hennar. Staðfest var fyrir dóminum af starfsmönnum stefnda að líðan stefnanda hefði ekki verið góð þegar hún mætti þar til vinnu. Hefði niðurstaðan orðið sú að stefnandi yrði heima vegna veikinda þar til forstjóri stefnda kæmi til baka frá útlöndum.                 Hinn 9. nóvember 2015 var stefnda kölluð til viðtals á skrifstofu fyrirsvarsmanns stefnda þar sem henni var sagt upp störfum og afhent uppsagnarbréf. Í uppsagnarbréfinu, sem dagsett er sama dag, er ástæða tilgreind brot á starfsskyldum með því að neita að mæta til vinnu og vegna samstarfsörðugleika á starfsstöð Grunda ehf. í Keflavík. Í uppsagnarbréfinu er fallist á að stefnanda verði greidd laun fyrir nóvembermánuð 2015 og að vinnuskyldu hennar ljúki þegar í stað. Stefnandi skrifaði ekki undir uppsagnarbréfið.                 Stefnandi leitaði í kjölfar uppsagnarinnar til Eflingar-stéttarfélags. Með bréfi félagsins, dags. sama dag, hinn 9. nóvember 2015, til stefnda, segir að þar sem stefnandi sé í vinnu í Reykjavík á dagvöktum þurfi hún ekki að hlíta því að fara án fyrirvara á næturvaktir í öðru bæjarfélagi. Segir einnig í bréfinu að fyrirvaralaus uppsögn stefnanda sé óheimil, nema starfsmaður hafi brotið alvarlega af sér í starfi.                 Stefnandi bar fyrir dóminum að hún hefði ekki gert ráð fyrir að flutningur hennar á starfsstöðina í Kópavogi í lok ágúst 2015, væri tímabundinn. Kvaðst hún hafa reiknað með að þessar breytingar væru til frambúðar. Þá kvaðst hún ekki hafa treyst sér til að gegna starfi sínu áfram á starfsstöð stefnda í Keflavík, vegna andlegra veikinda sem hafi hrjáð hana. Hún hafi tilkynnt það yfirmanni í Keflavík þegar hún mætti þar til vinnu að kvöldi 2. nóvember 2015. Þá hafi hún ekki mætt til vinnu eftir 2. nóvember 2015 vegna veikinda. Hún kvaðst hafa verið boðuð á fund með fyrirsvarsmanni stefnda hinn 9. nóvember 2015, þar sem henni hafi verið afhent uppsagnarbréf. Stefnandi tók fram að mikið vinnuálag hefði verið á starfsstöðinni í Keflavík. Fólkið hafi verið mjög þreytt. Stefnandi kvaðst ekki muna hvernig flutning hennar til Kópavogs  bar að og henni hafi ekki verið sagt að hún færi tímabundið til Kópavogs. Það hafi verið hennar mat að hún færi alveg til Kópavogs.                 Rúnar Ólafsson, framkvæmdastjóri stefnda, lýsti samstarfsörðugleikum stefnanda við annað starfsfólk í Keflavík og að um það vandamál hefði verið rætt við stefnanda. Af þeim sökum hafi hún verið flutt tímabundið á starfsstöð stefnda í Kópavogi en um leið hafi annar starfsmaður verið færður þaðan á starfsstöðina í Keflavík. Kvað hann ástæðu fyrir uppsögninni aðallega vera þá að stefnandi vildi ekki vinna í Keflavík. Eftir sumarið hefðu orðið breytingar, sumarstarfsfólk hefði farið og því verið möguleiki fyrir stefnanda að byrja upp á nýtt.                 Helgi Hákonarson bað stefnanda um að fara á vaktina í Keflavík hinn 2. nóvember 2015. Kvað hann stefnanda ekki hafa gert neinar athugasemdir við það. Hann hafi síðar fengið símtal frá starfsmanni í Keflavík þar sem fram kom að illa hafi gengið á vakt stefnanda. Stefnandi hafi daginn eftir vaktina tjáð honum að hún treysti sér ekki til að vinna í Keflavík vegna kvíða. Hann hafi þá sagt henni að taka hlé frá störfum þar til Rúnar Ólafsson kæmi aftur. Kvað vitnið að stefnandi hefði á þessum tíma aldrei minnst á það að ráðningarkjörum hennar hafi verið breytt.                 Einnig gáfu skýrslur fyrir dóminum Camilla Rut Rúnarsdóttir og Valdís Jóna Valgarðsdóttir. III. 1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi telur að sú ákvörðun stefnda að færa hana fyrirvaralaust úr dagvinnustarfi sínu í Reykjavík til Keflavíkur hafi stefndi einhliða og með ólögmætum hætti gert meiri háttar breytingar á ráðningarkjörum stefnanda. Af þeim sökum hafi stefnanda verið heimilt að neita að inna af hendi frekara vinnuframlag fyrir stefnda.                 Stefnandi vísar til þeirrar meginreglu vinnuréttar að hafi vinnuveitandi í hyggju að breyta ráðningarkjörum starfsmanna sinna beri honum að tilkynna starfsmanni slíkar breytingar með sama hætti og sama fyrirvara og ef um uppsögn væri að ræða. Telur stefnandi að einhliða breytingar á starfssviði starfsmanna jafngildi fyrirvaralausri uppsögn.                 Stefnandi telur uppsagnarfrest sinn vera einn mánuð og miðast við mánaðamót. Hún hafi því átt rétt á að vinna út desembermánuð og því sé gerð krafa um greiðslu skaðabóta sem ígildi launa í uppsagnarfresti út desember 2015. Vísar stefnandi til 12. kafla aðalkjarasamnings Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins og 1. gr. laga nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum o.fl.                 Stefnandi kveðst hafa litið svo á að hún hafi verið flutt á starfsstöð stefnda í Kópavogi til frambúðar og að störfum hennar í Keflavík væri því lokið. Aldrei hafi verið rætt við stefnanda að um tímabundna tilfærslu hafi verið að ræða. Hefði stefndi átt að sjá til þess með gerð skriflegs ráðningarsamnings við stefnanda ef aðeins var um tímabundna ráðstöfun að ræða.                 Stefnandi miðar útreikning dómkröfunnar við vinnutíma sinn eins og hann var eftir að hún hóf störf í Kópavogi. Daglegur vinnutími hennar hafi verið frá kl. 9 til 18 á daginn, auk þess sem hún átti að vinna þrjár helgar í mánuði. Þá átti stefnandi að eiga frí einn virkan dag í viku. Miðað er við að stefnandi hafi átt að vinna 207 klst. á mánuði (23 dagar x 9 klst.). Sá tímafjöldi margfaldast með umsömdu tímakaupi stefnanda skv. síðasta launaseðli hennar eða 1.750 kr.                 Stefnandi krefst einnig greiðslu bónuss, þar á meðal fyrir þann tíma sem hún vann í Kópavogi. Miðar stefnandi kröfugerð sína við allan starfstíma hennar þ.e. frá mars til október 2015 og er þannig gerð krafa um greiðslu 297.654 kr. fyrir hvorn mánuð í uppsagnarfresti. Til frádráttar kröfunni um vangreidd laun koma greidd laun skv. launaseðli fyrir nóvember.                 Stefnandi hafi fengið launaseðil fyrir desembermánuð, en laun samkvæmt honum séu ógreidd. Þá hafi stefnandi takmarkað tjón sitt með því að ráða sig í nýja vinnu í uppsagnarfrestinum. Tekjur frá þriðja aðila hafi numið samtals 383.311 krónum og komi þær til frádráttar kröfunni.                 Krafa stefnanda sundurliðast með eftirfarandi hætti:   Skaðabætur – ígildi launa á uppsagnarfresti: Nóvember 2015 Mánaðarlaun 207 klst. * 1.750 kr.                                kr.           362.250,- Bónus meðaltal                                                                 kr.           297.654,- Samtals                                                                               kr.           659.904,- Áður greitt skv. nóvemberlaunaseðli                                            kr.           92.488,- Áður greitt frá 3ja aðila                                                  kr.           70.042,- Samtals                                                                                               kr.           497.374,   Desember 2015 Mánaðarlaun 207 klst. * 1.750 kr.                                kr.           362.250,- Bónus meðaltal                                                                                 kr.           297.654,- Samtals                                                                                               kr.           659.904,- Áður greitt frá 3ja aðila                                                  kr.           313.269,- Samtals                                                                                               kr.           346.635,- Samtals                                                                                               kr.           844.009,-   Orlof Heildarlaun    844.009 kr. * 10,17%                                            kr.           85.836,- Orlofsuppbót 42.000 kr. / 45 vikur * 30 vikur                                      kr.           28.000,-                            Samtals                                                                      kr.           957.845,-                   Stefnandi mótmælir því að hún hafi verið áminnt í starfi sínu hjá stefnda. Engin gögn liggi fyrir sem staðfesti slíkt.                 Stefnandi krefst greiðslu orlofs, eða sem nemur 10,17% á skaðabætur sem ígildi launa í uppsagnarfresti. Byggir krafan á 4. kafla aðalkjarasamnings Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins og ákvæðum laga nr. 30/1987, um orlof.                 Þá krefst stefnandi greiðslu orlofsuppbótar að fjárhæð 42.000 krónur á orlofsárinu sem hófst 1. maí 2015 miðað við fullt starf., sbr. 1.4.2 í aðalkjarasamningi Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins. Fullt ársstarf teljist í þessu sambandi 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Uppbótin greiðist þann 1. júní miðað við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum m.v. 30. apríl eða eru í starfi fyrstu viku í maí. Áunna orlofsuppbót skuli gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar. Miðað er við að stefnandi hafi unnið 30 vikur á orlofsárinu. 2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda Stefndi tekur fram að ráðningarsamningur við stefnanda hafi verið munnlegur og að hún hafi verið ráðin á starfsstöð stefnda í Keflavík, þar sem aðalstarfsemi stefnda fari fram. Stefndi tekur fram að starf stefnanda í Kópavogi hafi verið tímabundið og starfsdagarnir þar hafi aðeins verið 16 dagar að teknu tilliti til veikinda og sumarleyfis sem hún tók í október 2015. Er því mótmælt að gerðar hafi verið einhliða og með ólögmætum hætti meiri háttar breytingar á ráðningarkjörum stefnanda.                 Stefndi telur að uppsögn stefnanda hafi verið lögmæt en ekki breyting á ráðningarkjörum. Stefnandi hafi hafnað fyrirmælum og vinnuskyldu og fyrirgert rétti til launa í uppsagnarfresti.                 Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ítrekað fengið munnlegar viðvaranir og áminningar frá yfirmönnum og framkvæmdastjóra stefnda.                 Vegna alvarlegra vanefnda á ráðningarsamningi og starfsskyldum hafi stefnanda verið sagt upp störfum án uppsagnarfrests með bréfi, dags. 9. nóvember 2015. Ástæða uppsagnarinnar hafi veri sú að stefnandi hafi neitað að mæta á skrifstofu félagsins eins og starfsskyldur hennar kváðu á um. Hún hafi þannig brotið gegn fyrirmælum.                 Stefndi telur að ekki hafi verið um neina breytingu á ráðningarkjörum stefnanda að ræða, heldur hafi stefnandi neitað að mæta til vinnu á skrifstofuna í Keflavík þar sem hún var ráðin til að starfa. Stefnandi hafi með þessu brotið gegn grundvallarstarfsskyldum sínum. Með því hafi hún fyrirgert rétti sínum til uppsagnarfrests eða launa í uppsagnarfresti.                 Stefnanda hafi verið gert ljóst að ef hún mætti ekki til vinnu á skrifstofuna yrði henni sagt upp störfum án uppsagnarfrests. Mótmæli af einhverju tagi við uppsögninni hafi fyrst komið frá stefnanda með bréfi stéttarfélagsins en fyrir þann tíma hafi stefnandi ekki gert athugasemd við röksemdir uppsagnarinnar. Þrátt fyrir ítrekaðar áminningar og viðvaranir og brot gegn hlýðniskyldu og grundvallarstarfsskyldum sínum hafi stefnandi ekki bætt ráð sitt og því hafi verið óhjákvæmilegt að segja henni tafarlaust upp án uppsagnarfrests.                 Um varakröfu sína tekur stefndi fram að mótmælt sé útreikningum á fjárkröfu stefnanda. Viðmiðun stefnanda um 207 klst. vinnuframlag sé rangt. Stefnandi hafi fengið greitt fyrir unna tíma og vaktavinnu. Vísar stefndi til launseðla stefnanda. Um sé að ræða árstíðabundna vinnu, þar sem á sumrin sé mikil vinna en lítil á veturna, svo sem launaseðlar stefnanda beri með sér.                 Stefndi byggir einnig á því að fullt starf geti aldrei falið í sér bónusgreiðslur, nema sérstaklega hafi verið samið um slíkar fastar greiðslur án vinnuskyldu. Bónusgreiðslur samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda og annarra starfsmanna séu einungis greiddar fyrir aukna vinnu, þ.e.a.s. sölutengda vinnu. Því er mótmælt kröfu um bónusgreiðslur, enda geti slíkar greiðslur ekki verið fastur hluti launa auk þess sem bónusgreiðslur séu mjög ársíðabundnar og háðar árangri starfsmanna og félagsins hverju sinni. Þær verði að skoðast með tilliti til heildarfjárhæðar á ársgrundvelli en ekki einangrað yfir besta tímabil ársins í rekstrinum. IV. Niðurstaða Í máli þessu deila aðilar um rétt stefnanda til launa í uppsagnarfresti í kjölfar þess að henni var sagt upp störfum hinn 9. nóvember 2015. Krefst stefnandi greiðslu launa fyrir nóvember og desember 2015, auk bónusgreiðslna, greiðslu orlofs og orlofsuppbótar.                 Stefnandi telur að hún eigi rétt á eins mánaðar uppsagnafresti sem miðist við mánaðamót, sbr. 12. kafli aðalkjarasamnings Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins og 1. gr. laga nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnafrests. Telur stefnandi að ráðningarkjörum hennar hafi verið breytt einhliða og verulega þegar stefndi ákvað að hún skyldi mæta til vinnu á starfsstöð stefnda í Keflavík hinn 2. nóvember 2015, en stefnandi telur að breyting á starfsstöð hennar í ágústlok 2015 hafi verið til frambúðar og því hafi henni verið heimilt að neita að inna af hendi frekari vinnu fyrir stefnda á starfsstöð hans í Keflavík. Telur stefnandi að sú ákvörðun stefnda að krefjast þess að hún hæfi aftur störf á starfsstöð stefnda í Keflavík jafngildi fyrirvaralausri uppsögn hennar.                 Stefndi telur að uppsögn stefnanda hafi verið lögmæt og að starf hennar á starfsstöð stefnda í Kópavogi hafi verið tímabundin. Engar breytingar hafi verið gerðar á ráðningarkjörum hennar. Stefnandi hafi hafnað fyrirmælum um vinnuskyldu og því eigi hún ekki rétt á launum í uppsagnarfresti. Þá telur stefndi að stefnandi hafi ítrekað fengið munnlega áminningu frá yfirmönnum og framkvæmdastjóra stefnda vegna samskiptaörðugleika á starfsstöð stefnda í Keflavík. Vegna vanefnda á vinnusamningi hafi stefnanda því verið sagt upp störfum hinn 9. nóvember 2015.                 Stefnandi var fastráðin á starfsstöð stefnda í Keflavík í mars 2015. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur á milli hennar og stefnda. Í lok ágúst s.á. var stefnandi færð á starfsstöð stefnda í Kópavogi, þar sem hún starfaði í tvo mánuði þar af einn mánuð í sumarleyfi. Þegar stefnandi kom aftur til starfa að loknu sumarleyfi í byrjun nóvember 2015 fór stefndi fram á að hún mætti aftur til vinnu á starfsstöð hans í Keflavík. Er óumdeilt að því hafi stefnandi hafnað.                  Dómurinn telur að virtu öllu framangreindu að ekki verði talið að stefnandi hafi fært sönnur á þá staðhæfingu sína að flutningur hennar frá starfsstöð stefnda í Keflavík og í Kópavog í lok ágústmánaðar 2015, sem fór fram með hennar samþykki, hafi falið í sér breytingu á ráðningarsamningi hennar. Því verður ekki unnt að líta svo á að sú ákvörðun stefnda að krefjast þess að stefnandi mætti til vinnu á starfsstöð stefnda í Keflavík hinn 2. nóvember 2015, hafi falið í sér meiri háttar breytingu á ráðningarkjörum stefnanda sem borið hafi að tilkynna henni sérstaklega.                 Ástæða uppsagnar stefnanda kemur fram í uppsagnarbréfi stefnda til hennar, dags. 9. nóvember 2015, en þar segir, m.a. að hún sé sú að stefnandi hafi neitað að mæta til frekari vinnu á starfsstöð stefnda í Keflavík. Um það atriði virðist ekki vera ágreiningur í málinu. Slík neitun án réttmætra skýringa fól í sér verulega vanefnd á ráðningarsamningi stefnanda gagnvart stefnda. Er því fallist á með stefnda að með þessu hafi stefnandi fyrirgert rétti sínum til uppsagnarfrests og launa á því tímabili. Verður því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.                       Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber stefnanda að greiða stefnda 750.000 krónur í málskostnað.                 Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómi kveður upp dóm þennan.  DÓMSORÐ: Stefndi, Grundir ehf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Klaudiu Wirkus, í máli þessu.                 Stefnanda ber að greiða stefnda 750.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 15/2018
Kærumál Frávísun frá héraðsdómi Kæruheimild Frávísun frá Hæstarétti
Kærður var úrskurður Landsréttar sem staðfesti dóm héraðsdóms þar sem máli K hf. gegn A hf., B hf., Í hf., L hf. og V hf. var vísað frá dómi. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að skýra yrði kæruheimild í a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á þann hátt að úrskurður Landsréttar gæti sætt kæru til Hæstaréttar ef þar hefði verið tekin ákvörðun um að vísa máli frá héraðsdómi, sem ekki hefði fyrr verið gert, en ekki ef þar hefði verið staðfestur úrskurður héraðsdóms um frávísun. Brast því heimild til að kæra úrskurð Landsréttar í málinu og var því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2018, en kærumálsgögn bárust réttinum 4. júní sama ár. Kærður er úrskurður Landsréttar 9. maí 2018, þar sem staðfestur var úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars sama ár, en með honum var máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum vísað frá dómi. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til a. liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Jafnframt krefst hann þess að ákvæði í úrskurði Landsréttar um málskostnað verði fellt úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti. Varnaraðilar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar. Samkvæmt a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar ef þar hefur verið mælt fyrir um „frávísun frá héraðsdómi eða Landsrétti eða niðurfellingu máls að hluta eða að öllu leyti fyrir héraðsdómi eða Landsrétti“. Eins og rakið er í dómi Hæstaréttar 5. júní 2018 í máli nr. 8/2018 verður að skoða þessar heimildir í ljósi þeirrar meginreglu að baki ákvæðum 6. þáttar laga nr. 91/1991 að úrlausnaratriði, hvort sem það varðar efni máls eða form, geti ekki komið til meðferðar á þremur dómstigum nema í því tilviki að Hæstiréttur hafi veitt leyfi til slíkrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 167. gr. og 175. gr. sömu laga. Að þessu gættu verður að skýra áðurnefndan a. lið 1. mgr. 167. gr. laganna eftir orðanna hljóðan og þá á þann hátt að úrskurður Landsréttar geti sætt kæru til Hæstaréttar ef þar hefur verið tekin ákvörðun um að vísa máli frá héraðsdómi, sem ekki hefur fyrr verið gert, en á hinn bóginn ekki ef þar hefur verið staðfestur úrskurður héraðsdóms um frávísun, svo sem hér er um að ræða. Samkvæmt þessu brestur heimild til að kæra úrskurð Landsréttar í máli þessu og verður því vísað frá Hæstarétti. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Sóknaraðili, Kortaþjónustan hf., greiði varnaraðilum, Arion banka hf., Borgun hf., Íslandsbanka hf., Landsbankanum hf. og Valitor hf., hverjum um sig 500.000 krónur í kærumálskostnað.      Úrskurður Landsréttar 9. maí 2018. Landsréttardómararnir Kristbjörg Stephensen, Ragnheiður Bragadóttir og Sigurður Tómas Magnússon kveða upp úrskurð í máli þessu. Málsmeðferð og dómkröfur aðila Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 14. mars 2018, sem barst héraðsdómi næsta dag en kærumálsgögn bárust Landsrétti 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2018 í málinu nr. E-3081/2017, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j-lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi og að málinu verði vísað heim í hérað til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu, óskipt úr hendi varnaraðila, í héraði og fyrir Landsrétti, vegna þessa þáttar málsins. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Málsatvik Samkeppniseftirlitið hóf á árinu 2006 rannsókn á samkeppnislagabrotum Greiðslumiðlunar hf. (nú Valitor hf.), Kreditkorts hf. (nú Borgun hf.) og Fjölgreiðslumiðlunar hf. (síðar Greiðsluveitan hf.) í greiðslukortaviðskiptum, einkum á árunum 2002 til 2006. Með sáttum við Samkeppniseftirlitið viðurkenndu þessi fyrirtæki ýmis brot gegn 10., 11. og 12. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og gengust undir sektargreiðslur. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008 frá 10. janúar 2008 var greint frá niðurstöðu málsins en þar sagði meðal annars að þessir aðilar hefðu haft með sér ólögmætt samráð um afmarkaðar aðgerðir í því skyni að vinna gegn innkomu sóknaraðila og hins erlenda samstarfsaðila hans á markað fyrir færsluhirðingu og tengda starfsemi og síðan að hrekja þá út af markaðnum. Umrædd samkeppnislagabrot voru talin mjög alvarleg og umfangsmikil og fólu meðal annars í sér tæknilegar og viðskiptalegar hindranir.  Sóknaraðili höfðaði mál gegn framangreindum þremur fyrirtækjum með stefnu 16. desember 2014 og krafðist skaðabóta vegna þeirra samkeppnislagabrota sem fjallað var um í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008. Málinu lauk með dómsátt við sóknaraðila 3. mars 2015 en samkvæmt henni skyldu stefndu greiða honum samtals 250.250.000 krónur. Í kjölfar erindis sóknaraðila 3. apríl 2009 hóf Samkeppniseftirlitið rannsókn á meintum samkeppnislagabrotum varnaraðila á greiðslukortamarkaði, meðal annars ætluðu ólögmætu samráði útgefenda í tengslum við ákvörðun milligjalda og meintri samtvinnun á færsluhirðingu og vildarkjörum VISA-korthafa. Rannsókn þessari lauk með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015 frá 30. apríl 2015 sem byggði á sáttum sem varnaraðilar gerðu við Samkeppniseftirlitið vegna málsins 9. júlí, 20. ágúst og 15. desember 2014. Í ákvörðuninni kom meðal annars fram að fyrirkomulag um ákvörðun milligjalda hafi falið í sér óbeina samvinnu um verð milli útgefenda á greiðslukortum á því tímabili sem rannsóknin beindist að en um var að ræða tímabilið frá 1. janúar 2007 til 31. desember 2009. Þetta óbeina samstarf hafi falist í því að útgefendur, sem voru stóru bankarnir þrír, hafi með samningum falið annars vegar Borgun hf. og hins vegar Valitor hf. að ákvarða í verðskrám milligjöld vegna notkunar VISA- og MasterCard-greiðslukorta. Í framkvæmd hafi umrædd milligjöld verið ákvörðuð með samræmdum hætti. Jafnframt hafi þetta fyrirkomulag falið í sér að á vettvangi samtaka fyrirtækjanna tveggja, Borgunar hf. og Valitor hf., hafi átt sér stað samvinna og framkvæmd sem ekki hafi verið í samræmi við 12. gr. samkeppnislaga. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðilum með stefnu 13. janúar 2015 til greiðslu skaðabóta á svipuðum grundvelli og hann krefst bóta í þessu máli. Í því máli var byggt á sömu matsgerð dómkvaddra matsmanna og gert er í þessu máli. Með dómi Hæstaréttar 1. júní 2017 í máli 239/2017 var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins staðfestur með þeim rökum að verulega skorti á að fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir um aðkomu og hlutdeild Teller A/S í viðskiptum sóknaraðila á því tímabili sem um ræddi, ekki síst hvað varðaði eðli og inntak samstarfs um færsluhirðingu og greiðslu milligjalda. Lægi ekkert fyrir um það hvort sóknaraðili eða hið danska félag hefði greitt milligjöldin sem væri grundvöllur þess tjóns sem sóknaraðili freistaði að fá staðfest með matsgerð og þar með hvort sóknaraðili væri bær til þess að standa einn að málsókn sinni á hendur varnaraðilum í þeim farvegi sem hann hefði sjálfur markað henni. Var málatilbúnaður sóknaraðila að þessu leyti talinn svo óljós og vanreifaður að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi. Varnaraðilar telja að sóknaraðili hafi ekki bætt úr framangreindum ágöllum í máli þessu og var málinu vísað frá héraðsdómi meðal annars á þeirri forsendu. Niðurstaða Sóknaraðili telur sig eiga rétt til skaðabóta, óskipt úr hendi varnaraðila, einkum vegna ólögmæts samstarfs þeirra í tengslum við ákvarðanir um fyrirkomulag milligjalda í debetkortaviðskiptum á árunum 2002 til 2013. Sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn einkum á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015 frá 30. apríl 2015, sáttum varnaraðila við Samkeppniseftirlitið sem ákvörðunin byggði á, andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins 8. mars 2013 í sama máli og matsgerð dómkvaddra matsmanna 30. júní 2016. Sóknaraðili hefur í máli þessu lagt fram samstarfssamning sinn við danska fyrirtækið PBS International A/S, undirritaðan í ágúst og september 2002, varðandi færsluhirðingu greiðslukorta en hann kveður fyrirtækið Teller A/S hafa tekið yfir hlutverk fyrrnefnda félagsins varðandi færsluhirðingu hér á landi eftir samruna 8. september 2010. Sóknaraðili byggir á því að hinir erlendu samstarfsaðilar hans hafi verið færsluhirðar debetkorta og séð um greiðslu milligjalda til útgefenda kortanna. Sóknaraðili hafi hins vegar séð um alla samninga um færsluhirðingu við söluaðila hér á landi, sinnt markaðssetningu og veitt þjónustu í tengslum við fjárhagslegt uppgjör á kortaveltu viðskiptavina sinna. Þá hafi sóknaraðili veitt innlendum söluaðilum alla viðskiptaþjónustu, stýrt tæknilegu skipulagi, metið lánshæfi söluaðila og átt öll samskipti við þá vegna bakfærslna og annarrar skjalavinnu. Sóknaraðili hafi samið sjálfstætt við söluaðila hér á landi um þóknun fyrir þjónustu sína sem hafi numið að lágmarki 0,1% af fjárhæð debetkortafærslna. Sóknaraðili kveður skaðabótakröfu sína við það miðaða að þóknunin hafi verið 0,1% af veltu debetkortafærslna. Sóknaraðili kveðst aðeins krefjast bóta fyrir það tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna þóknunartekna sem hann hafi orðið af. Í ljós hefur verið leitt að sóknaraðili var ekki í stöðu færsluhirðis og greiddi þar af leiðandi ekki milligjöld til kortaútgefenda. Málatilbúnaður hans þykir engu að síður skýr um það að hann hafi átt sjálfstætt tilkall til þóknunar fyrir þjónustu sína við söluaðila sem voru í færsluhirðingu hjá hinum erlenda samstarfsaðila hans og að sóknaraðili hafi orðið fyrir sjálfstæðu tjóni sem felist í því að þóknunartekjur hans hafi í reynd verið minni en þær hefðu orðið ef ekki hefðu komið til samkeppnislagabrot varnaraðila í tengslum við ákvörðun milligjaldanna. Ákvæði 18. gr. laga nr. 91/1991 kemur því ekki í veg fyrir að sóknaraðili geti haft uppi skaðabótakröfu og aðrar þær kröfur sem hann gerir, óháð mögulegri bótakröfu Teller A/S. Málinu verður því ekki vísað frá dómi vegna annmarka á aðild málsins sóknarmegin eða vanreifunar á þeirri aðild. Í hinum kærða úrskurði er frávísun málsins frá héraðsdómi jafnframt studd þeim rökum að forsendur sameiginlegrar aðildar varnaraðila séu vanreifaðar í stefnu. Af hálfu sóknaraðila er byggt á því að kröfur hans á hendur öllum varnaraðilum megi rekja til brota þeirra á ákvæðum samkeppnislaga sem leitt hafi til samkeppnishamlandi aðstæðna og viðvarandi ástands sem valdið hafi tjóni. Kröfurnar eigi því sama uppruna. Varnaraðilar beri sameiginlega ábyrgð á tjóninu og sóknaraðili geti því höfðað eitt mál á hendur þeim öllum og krafið hvern þeirra um alla fjárhæð tjónsins óháð því hversu mikil hlutdeild viðkomandi tjónvalds hafi verið í brotinu. Varnaraðilar byggja frávísunarkröfur sínar meðal annars á því að sóknaraðili hafi ekki gert viðhlítandi grein fyrir sameiginlegri aðild málsins til varnar og sameiginlegri ábyrgð allra varnaraðila á þeim bótakröfum sem sóknaraðili hafi uppi í málinu. Varnaraðili Borgun hf. geti ekki borið ábyrgð á tjóni sem talið yrði leiða af meintri samræmingu milligjalda af hálfu varnaraðilans Valitors hf. og viðskiptabankanna þriggja vegna greiðslukortafærslna sem Valitor hf. hirti og öfugt. Milligjöldin hafi ekki verið samræmd milli varnaraðila Borgunar hf. og Valitors hf. og ekki hafi í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verið rætt um innbyrðis samráð á milli þessara aðila. Sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn meðal annars á því að í sáttum sem varnaraðilar gerðu við Samkeppniseftirlitið felist viðurkenning á því að Valitor hf. og Borgun hf. hafi verið samtök fyrirtækja í skilningi 12. gr. samkeppnislaga. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015 komi fram að fyrirkomulag um ákvörðun milligjalda hafi falið í sér óbeint samstarf sem falist hafi í því að útgefendur hafi falið varnaraðilunum Borgun hf. og Valitor hf. að ákvarða í verðskrám þau milligjöld sem greidd hafi verið vegna notkunar VISA- og MasterCard-greiðslukorta. Þetta fyrirkomulag hafi falið í sér að á vettvangi umræddra samtaka fyrirtækjanna tveggja hafi átt sér stað samvinna og framkvæmd sem ekki hafi verið í samræmi við 12. gr. samkeppnislaga. Sóknaraðili telur hvern varnaraðila bera ábyrgð á öllu tjóni hans vegna hlutdeildar þeirra í hinni ólögmætu samvinnu um ákvörðun milligjalda í debetkortaviðskiptum og eru aðalkrafa hans og fyrsta varakrafa á því byggðar. Önnur varakrafa sóknaraðila miðar hins vegar að því að hver varnaraðila greiði honum skaðabætur að mati dómsins en þriðja varakrafan er þrískipt krafa um viðurkenningu á bótaskyldu varnaraðila. Með skírskotun til þess verður að líta á málatilbúnað sóknaraðila á hendur hverjum stefnda sem sjálfstætt sakarefni og fellur það undir efnishlið málsins að fjalla um hvort hver varnaraðili um sig beri bótaábyrgð gagnvart sóknaraðila og eftir atvikum um fjárhæð bóta sem sóknaraðili á rétt á úr hendi hvers varnaraðila. Ekki verður því fallist á með varnaraðilum að málatilbúnaður sóknaraðila hvað varðar aðild þeirra sé vanreifaður. Af hálfu varnaraðila hefur krafa um frávísun meðal annars verið studd þeim rökum að tengsl kröfugerðar sóknaraðila og málatilbúnaðar hans að öðru leyti hafi ekki verið skýrð með fullnægjandi hætti. Ekki hafi verið sýnt fram á orsakatengsl milli ákvarðana um framkvæmd milligjalda í debetkortaviðskiptum sem fjallað var um í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og kröfugerðar sóknaraðila. Jafnframt sé matsgerð, sem kröfugerð sóknaraðila grundvallist á, byggð á allt öðrum forsendum en málatilbúnaður sóknaraðila og forsendur matsgerðarinnar auk þess rangar. Þá hafi sóknaraðili ekki skýrt með fullnægjandi hætti í hverju tjón hans sé fólgið, að hvaða leyti um sé að ræða annað fjártjón en varnaraðilar hafi þegar bætt og af hverju kröfur hans taki til mun lengra tímabils og að hluta til annarrar háttsemi en sáttir varnaraðila við Samkeppniseftirlitið tóku til. Í hinum kærða úrskurði var talið að sóknaraðili hefði ekki skýrt með fullnægjandi hætti tengsl kröfugerðar sinnar við þær meginstoðir sem hún væri reist á og það eitt og sér talið nægja til frávísunar málsins. Í stefnu kveður sóknaraðili málið sprottið af samkeppnislagabrotum varnaraðila á tímabilinu 2002 til 2015. Samkvæmt stefnu er tölulegur grundvöllur skaðabótakröfu sóknaraðila sá að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna tapaðra þóknunartekna á árunum 2003 til 2013 þar sem ólögmæt háttsemi varnaraðila hafi valdið því að markaðshlutdeild hans og erlendra samstarfsaðila hans á sviði færsluhirðingar í debetkortaviðskiptum hafi orðið minni á þessu tímabili og framlegð hans þar af leiðandi minni en ella hefði orðið. Ekki verður ráðið með skýrum hætti af stefnu til hvaða tímabils hið meinta tjón sóknaraðila tekur. Aðalkrafa sóknaraðila um skaðabætur virðist miða við tímabilið 21. júní 2003 og til framtíðar, eins og það er orðað í stefnu og matsgerð dómkvaddra matsmanna. Þriðja varakrafa sóknaraðila lýtur hins vegar að viðurkenningu á bótaskyldu varnaraðila vegna tímabilsins 2003 til 2015. Enda þótt eðli starfsemi sóknaraðila á sviði færsluhirðingar hafi samkvæmt gögnum málsins breyst verulega í október 2012, þegar sóknaraðili sleit samstarfinu við Teller A/S og hóf færsluhirðingu á eigin spýtur, er engin grein gerð fyrir því hvort og þá hvaða áhrif þessi breyting hafði á forsendur tjónsútreikninga. Í stefnu er byggt á því að skaðabótakrafa sóknaraðila og matsgerð dómkvaddra matsmanna miðist við að þóknun hans hafi verið 0,1% af veltu í debetkortaviðskiptum. Sóknaraðili hafi gert ráð fyrir því að fá að lágmarki 0,1% af veltu debetkortafærslna í sinn hlut og hafi áskilið sér að lágmarki það þóknunarhlutfall í samningum við söluaðila. Eina gagnið sem sóknaraðili hefur lagt fram um fyrrnefnt þóknunarhlutfall er skjal sem hann kveður vera áætlun um rekstrartekjur af debetkortafærslum fyrir árin 2003 til 2013. Skjalið ber það hins vegar með sér að vera einhvers konar samanburður annars vegar á væntingum um veltu í debetkortaviðskiptum og þóknun sóknaraðila og hins vegar raunverulegum þóknunartekjum. Ekki verður ráðið af matsbeiðni sóknaraðila eða framlagðri matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem aðalkrafa hans byggist á, að miðað sé við þetta þóknunarhlutfall við útreikninga á tjóni sóknaraðila. Enda þótt varnaraðilar hafi haldið því fram og stutt haldgóðum rökum að í matsgerðinni hafi verið miðað við allt annað og hærra þóknunarhlutfall hefur sóknaraðili ekki gert reka að því að gera nánari grein fyrir tölulegum grundvelli matsgerðarinnar og þar með aðalkröfu sinnar. Tölulegur grundvöllur aðalkröfu sóknaraðila er þannig í mikilvægum atriðum vanreifaður og samhengi kröfugerðar og málatilbúnaðar sóknaraðila að þessu leyti óskýrt. Í stefnu kemur fram að sóknaraðili hafi óskað eftir því að dómkvaddir matsmenn einskorðuðu mat sitt við það tjón sem ólögleg framkvæmd við ákvörðun milligjalda olli sóknaraðila á markaði með færsluhirðingu debetkorta og að bótakrafa hans í málinu einskorðist jafnframt við það tjón. Af lýsingu á hinni bótaskyldu háttsemi í stefnu má þó ráða að grundvöllur bótakröfunnar sé mun víðtækari. Þar er til að mynda vikið að því að sóknaraðila hafi verið meinaður aðgangur að innlendu greiðslumiðlunarkerfi og að hann hafi orðið fyrir öðrum aðgangshindrunum á þessum markaði. Þá er í málatilbúnaði sóknaraðila lítill sem enginn munur gerður á afleiðingum af hinni ólögmætu ákvörðun milligjalda á færsluhirðinn sjálfan sem annaðist greiðslu milligjaldanna og á sóknaraðila sem hafði með höndum afmörkuð verkefni sem tengdust færsluhirðingunni. Sama óskýrleika gætir í matsbeiðni og matsgerð dómkvaddra matsmanna hvað þetta varðar. Varnaraðilarnir Valitor hf. og Borgun hf., ásamt Greiðsluveitunni hf., gerðu sem fyrr segir dómsátt við sóknaraðila 3. mars 2015 í máli sem hann höfðaði til heimtu skaðabóta vegna samkeppnislagabrota sem rakin voru í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008. Samkvæmt dómsáttinni skyldu stefndu greiða stefnanda samtals 250.250.000 krónur. Í stefnu í umræddu máli kom fram að fjárhæð bótakröfu byggði á framlegðarmissi sem dómkvaddir matsmenn hefðu talið að sóknaraðili hefði orðið fyrir frá 1. nóvember 2002 og til framtíðar vegna þess að samkeppnislagabrot stefndu í málinu hefðu valdið því að markaðshlutdeild stefnanda varð minni en ella hefði orðið. Í dómsáttinni kom meðal annars fram að hún takmarkaði „þó ekki rétt stefnanda til að hafa uppi skaðabótakröfu vegna annarra meintra brota en þeirra sem rakin eru í ákvörðun nr. 4/2008 og/eða krafist er bóta fyrir í stefnu málsins, þ. á m. vegna meintrar samræmingar milligjalda, sem rakin er í andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins frá 8. mars 2013, og annarrar meintrar háttsemi sem þar er rakin, að því gættu“ að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Stefnandi gæti þannig ekki krafist frekari bóta vegna þess tjóns sem þar félli undir, meðal annars alls tjóns sem metið hefði verið í matsgerð 29. október 2013 og teldist uppgert með dómsáttinni. Þegar litið er til málatilbúnaðar sóknaraðila í máli þessu virðist sem bótakrafa hans sé að hluta til byggð á því að varnaraðilar hafi hindrað aðgengi hans að færsluhirðingarmarkaði á árunum 2002 til 2015 og að það hafi leitt til minni markaðshlutdeildar en ella hefði orðið og samsvarandi tjóns vegna tapaðrar framlegðar. Jafnframt verður ráðið af málatilbúnaði sóknaraðila að tjón hans vegna framlegðartaps hafi að stærstum hluta orðið til á sama tímabili og það tjón vegna framlegðartaps sem hann fékk bætt með framangreindri dómsátt. Samkvæmt framansögðu eru dómkröfur í þessu máli og því máli sem lauk með dómsátt 3. mars 2015 byggðar á því að sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að markaðshlutdeild hans og þar með framlegð hafi orðið minni en ef ekki hefðu komið til samkeppnislagabrot varnaraðila. Af fyrrgreindri dómsátt verður ráðið að sóknaraðili getur aðeins átt rétt til bóta fyrir tjón sem er umfram það tjón sem leiddi af háttsemi sem lýst var í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008 og taldist uppgert með sáttinni. Í ljósi framangreinds var afar mikilvægt að í stefnu í máli þessu og matsgerð dómkvaddra matsmanna sem kröfugerð í málinu grundvallast á væri greint með skýrum hætti á milli afleiðinga þeirra samkeppnislagabrota sem bætt voru með fyrrnefndri dómsátt og afleiðinga ólögmætrar framkvæmdar á ákvörðun milligjalda á markaðshlutdeild og framlegð. Slíka greiningu er hins vegar ekki að finna í málatilbúnaði sóknaraðila. Þar af leiðandi verður ekki ráðið hvort og þá að hvaða leyti sóknaraðili hefur þegar fengið bætt það framlegðartap sem hann krefst að verði bætt í þessu máli. Af framangreindu leiðir jafnframt að sóknaraðili hefur ekki með fullnægjandi hætti sýnt fram á orsakasamhengi milli þeirra samkeppnislagabrota sem hann reisir málatilbúnað sinn á og þess tjóns sem hann krefur varnaraðila nú um bætur fyrir. Samkvæmt d- og e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 ber að greina í stefnu svo glöggt sem verða má dómkröfur og málsástæður sem málsókn er byggð á, svo og önnur atvik sem þarf að geta til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Í þessum áskilnaði hefur verið talið felast að ljóst verði að vera hvaða samhengi sé milli kröfugerðar, lýsingar á málsástæðum og málatilbúnaðar að öðru leyti. Samkvæmt framansögðu uppfyllir málatilbúnaður sóknaraðila ekki þessar kröfur og eru svo verulegir annmarkar á honum að ekki verður hjá því komist að vísa aðalkröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilum frá héraðsdómi. Með vísan til framangreinds þykir sóknaraðili heldur ekki hafa með málatilbúnaði sínum lagt þann grundvöll að kröfu sinni um skaðabætur að unnt sé að ákvarða fjárhæð þeirra að mati dómsins og verður fyrstu og annarri varakröfu sóknaraðila því jafnframt vísað frá héraðsdómi. Þriðja varakrafa sóknaraðila er þrískipt en kröfuliðirnir lúta allir að viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila vegna sömu brota gegn samkeppnislögum og aðrar kröfur hans eru reistar á en taka þó til lengra tímabils eða áranna 2003 til 2015. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í fjölda dóma Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá er höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk. Með vísan til þeirra vankanta á málatilbúnaði sóknaraðila sem áður hefur verið lýst hefur hann ekki leitt að því nægar líkur að hann hafi orðið fyrir tjóni og ekki gert nægilega skýra grein fyrir því hver séu tengsl þess við ætlað skaðaverk. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa öllum kröfuliðum þriðju varakröfu sóknaraðila frá héraðsdómi. Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Sóknaraðili verður úrskurðaður til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Úrskurðarorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Kortaþjónustan hf., greiði varnaraðilum, Arion banka hf., Borgun hf., Íslandsbanka hf., Landsbankanum hf. og Valitor hf., hverjum fyrir sig 500.000 krónur í kærumálskostnað.     Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2018. Mál þetta var höfðað 28. september 2017 og tekið til úrskurðar 23. febrúar 2018. Stefnandi er Kortaþjónustan hf., Rafstöðvarvegi 7 í Reykjavík. Stefndu eru Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík, Borgun hf., Ármúla 30, Reykjavík, Íslands­banki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykja­vík, og Valitor hf., Dalshrauni 3, Hafnarfirði.   Stefndu krefjast frávísunar málsins auk máls­kostnaðar. Stefnandi krefst þess að kröfu stefndu um frávísun og málskostnað verði synjað. Efniskröfur stefn­anda eru: Að stefndu greiði stefnanda óskipt 922.921.239 kr. með drátt­ar­vöxt­um, sam­kvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 30. júní 2016 til greiðslu­dags. Stefn­andi gerir þrjár varakröfur. Fyrsta varakrafa er að stefndu greiði stefn­anda óskipt skaða­bætur auk vaxta og dráttarvaxta að mati dómsins. Önnur varakrafa er að hver hinna stefndu greiði stefnanda skaða­bætur auk vaxta og dráttarvaxta að mati dómsins. Þriðja varakrafa er þrískipt. – Að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefndu Borgunar hf. og Valitors hf. gagnvart stefnanda vegna brota á 12. gr., sbr. 10. gr., samkeppnislaga nr. 8/1993, lög nr. 44/2005 og 53. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, með verð­samráði sem fólst í ein­hliða ákvörðun stefndu Borgunar hf. og Valitors hf. um samræmd milli­gjöld fyrir greiðslukort á tímabilinu 2003–2015, eða skemmra tímabili að mati dóms­ins. – Að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefndu Arion banka hf., Íslands­banka hf. og Landsbankans hf. gagnvart stefn­anda vegna brota gegn 10. gr. samkeppnis­laga nr. 8/1993, lögum nr. 44/2005 og 53. gr. samningsins um Evrópska efna­hags­svæð­ið, sbr. lög nr. 2/1993, með verð­sam­ráði sem fólst í samningum um ein­hliða ákvörð­un stefndu Borgunar hf. og Valitors hf. um samræmd milli­gjöld­ fyrir greiðslu­kort á tímabilinu 2003–2015, eða skemmra tímabili að mati dómsins. – Að viður­kennd verði skaða­bóta­ábyrgð stefndu Arion banka hf., Íslands­banka hf. og Lands­bankans hf. gagn­vart stefnanda vegna brota á 11. gr. sam­keppnis­laga nr. 8/1993, lögum nr. 44/2005 og 54. gr. samningsins um Evrópska efna­hags­svæð­ið, sbr. lög nr. 2/1993, sem fól­ust í því að gera aðrar kröfur til stefn­anda en til stefndu Borg­unar hf. og Vali­tors hf., og hafa þannig mismunað stefnanda við samn­inga­um­leit­an­ir um milligjöld fyrir greiðslu­kort á tímabilinu 2003–2015, eða skemmra tímabili að mati dóms­ins. Stefndu hafa allir kosið að leggja einungis fram greinargerð kröfu um að málinu verði vísað frá dómi samkvæmt 2. mgr. 99. gr. einka­mála­laga.   Í máli þessu leitar stefnandi atbeina dómstóla til að fá hlut sinn réttan vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna ólögmæts samráðs stefndu um að halda honum frá greiðslukortamarkaði á Íslandi og koma þannig í veg fyrir að hann næði fótfestu og hlutdeild á greiðslukortamarkaði á árunum 2002 til 2015. Stefn­andi kvart­aði til Samkeppniseftirlitsins árið 2009 yfir því sem hann taldi vera víð­tækt ólög­mætt samráð um aðgerðir stefndu og fleiri gegn sér og stöðu sinni á greiðslu­korta­markaði. Á árinu 2015 gengust stefndu undir stjórn­sýslu­viðurlög, sektar­greiðslur, vegna brota sem þeir viður­kenndu að hafa framið gagnvart ákvæð­um samkeppnislaga og upp­lýst höfðu verið með rannsókn Sam­keppnis­eftirlitsins í kjölfar kvörtunar stefnanda. Brotin fólust meðal annars í því að stefndu höfðu samræmt svokölluð milli­gjöld, sem eru greiðslur sem færslu­hirðar (greiðslu­korta­fyrir­tækin) greiða útgefendum greiðslukorta (við­skipta­bönk­unum) fyrir þjónustu þeirra við söluaðila (kaupmenn) í greiðslukortaviðskiptum. Mark­aðs­sókn stefnanda á greiðslu­kortamarkað á Íslandi fór frá öndverðu og allt fram á árið 2012 fram í samstarfi stefnanda og danska fyrirtækisins PBS Inter­national og síðar, í kjölfar breytinga á eignarhaldi þess félags, norska fyrirtækisins Teller. Stefn­andi sjálf­ur tók ekki við hlutverki eiginlegs færsluhirðis fyrr en á árinu 2012. Fram að þeim tíma var stefnandi umboðsaðili hinna erlendu aðila og bauð sölu­aðilum uppá færsluhirðingu um kerfi hinna erlendu fyrirtækja. Stefnandi byggir á því að í samningum hans við hina erlendu aðila hafi verið umsamið að honum bæri þóknun fyrir hlutverk sitt sem að lágmarki skyldi nema 0,1% af þeirri greiðslu­kortaveltu sem kæmist í kring fyrir hans atbeina. Árið 2013 höfðaði stefn­andi mál á hendur stefndu sem í verulegum atriðum fjallar um sama sakar­efni og deilt er um í þessu máli. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2017 var málinu vísað frá dómi með þeim rökum að málatilbúnaður stefnanda að því er varðaði samaðild eða samlagsaðild stefndu væri svo van­reifaður að færi í bága við d-, e- og g-liði 80. gr. einkamálalaga. Í dómi Hæsta­réttar í málinu nr. 239/2017, sem kveðinn var upp 1. júní 2017, var hinn kærði úrskurður stað­festur en á því byggt að svo mjög skorti á málatilbúnað stefn­anda að því er varð­aði upplýsingar um aðkomu og hlutdeild hinna erlendu sam­starfsaðila að óljóst væri hvort stefn­andi væri bær til að standa einn að mál­ssókn á hendur stefndu á þeim grunni sem hann hefði sjálfur lagt. Var mála­tilbúnaður stefnanda að því er þetta varðaði talinn vera svo óljós og vanreifaður að óhjákvæmilegt hefði verið að vísa málinu sjálf­krafa frá héraðs­dómi.   Stefndu reisa kröfu sína um frávísun á því að málatilbúnaður stefnanda sé í and­stöðu við ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þeir telja skýringar stefnanda á kröfum sínum og tengsl þeirra við málsgrundvöllinn óljósan. Þá telja þeir samhengi krafna stefnanda og málsástæðna vera óljóst og ófull­nægjandi og að krafa stefnanda sé því vanreifuð. Þá telja stefndu allsendis óljóst á hvaða grunni stefnandi telji sig geta haldið uppi kröfu um óskipta ábyrgð stefndu sem þó byggi á mismunandi samningssamböndum þeirra innbyrðis. Stefndu telja raunar að málsaðild, bæði til sóknar og varnar, sé óljós með því að enn séu ekki fram komnar fullnægjandi upplýsingar eða gögn um aðild stefnanda. Þá vísa stefndu til þess að kröfugerð stefnanda að því er varðar viður­kenn­ing­ar­kröf­ur hans sam­kvæmt varakröfum sé þannig fram sett að fari í bága við ákvæði 2. mgr. 25. gr. einkamálalaga svo að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úr­lausn hennar. Þá telja stefndu að reifun málsins í stefnu sé verulegum annmörkum háð að því er varðar skýrleika þeirra málsástæðna sem kröfur á hendur stefndu eru reistar á, auk þess sem á skorti að viðhlítandi sönnunargögn hafi verið lögð fram til stuðn­ings málatilbúnaði stefnanda. Þessir annmarkar séu svo verulegir að stefndu verði ekki gert að una því að stefnanda gefist kostur á að ráða bót á þeim undir rekstri málsins.   Stefnandi vísar til þess að sameiginleg aðild stefndu byggi á reglu samkeppnis­réttar um samfellda brotastarfsemi þannig að reglubundið samstarf stefndu til að ná sameiginlegu markmiði um að raska samkeppni leiði til þess að líta beri á hátt­semi þeirra sem samfellt samráð í skilningi 10. gr. samkeppnislaga. Vísar stefn­andi til þess að á slíkri reglu hafi íslenskir dómstólar byggt, t.d. í dómi Hæsta­rétt­ar nr. 142/2007. Þá vísar stefnandi til þess að hann hafi bætt úr þeim annmörk­um sem talið var að væru til staðar í dómi Hæsta­réttar nr. 239/2017 að því er varð­aði greinargerð hans um aðild hans að málinu. Þetta telur stefnandi sig hafa gert annars vegar með sérstakri greinargerð í stefnu í kafla III.3.3 og með því að leggja fram sem dskj. nr. 20 samstarfssamning sinn við PBS Inter­national frá 2002.   Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2017 í hinu fyrra máli stefnanda á hendur stefndu varð niðurstaðan sú að ekki yrði fram hjá því litið að lýsing stefn­anda á samkeppnislagabrotum stefndu byggði á því að annars vegar væri talið um að ræða samráðsbrot sem leitt hefði af samvinnu stefndu við­skipta­bank­anna þriggja og Valitors hf. sem samtaka. Hins vegar væri brot sem leitt hefði af sam­vinnu bank­anna þriggja og Borgunar hf. sem samtaka. Því virtust gögn þau sem byggt hefði verið á af hálfu stefnanda gefa til kynna að umrædd brot Borgunar hf. og Valitors hf. með bönkunum þremur, hefðu verið aðgreind og um sumt mis­mun­andi að eðli og umfangi. Gögn málsins hefðu þannig ekki gefið til kynna að um eitt samfellt brot allra stefndu væri að ræða, eins og stefnandi virtist byggja á kröfur sínar óskipt gagnvart stefndu. Því skorti það inn­byrðis samræmi í kröfu­gerð, framsetningu málsástæðna og framlagningu og inn­taki gagna af hálfu stefn­anda sem nauðsynlegt væri. Þess vegna yrði að líta svo á að málatilbúnaður stefn­anda væri vanreifaður og svo misvísandi að ekki yrði úr bætt undir rekstri máls og því væri óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi gagnvart öllum stefndu, sbr. d-, e- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.   Í því máli sem hér er til úrlausnar eru enn til staðar allir sömu annmarkar á mála­til­búnaði stefnanda varðandi sam­eigin­lega aðild stefndu. Stefnandi reisir máls­sókn sína að drýgstum hluta á niðurstöðum and­mæla­skjals Samkeppniseftirlitsins frá því í mars 2013. Þá hefur stefnandi aflað ítarlegrar matsgerðar sem ætlað er að sanna tjón hans af ólög­mæt­um samkeppnisbrotum stefndu. Matsspurningar reisir stefnandi á niður­stöð­um nefnds andmælaskjals. Sá annmarki er á þessum máls­grundvelli að athug­un Sam­keppniseftirlitsins og svo í framhaldinu niðurstöður þess fjalla alls ekki um tjón stefn­anda. Grundvöllur kröfugerðar hans verður því ekki á þeim reistur nema með óbeinum hætti. Þessi vandi veldur því að samhengi kröfugerðar stefnanda við þær meginstoðir sem hún er reist á, and­mæla­skjal Sam­keppniseftirlitsins og mats­gerð hinna dómkvöddu matsmanna, er afar viðkvæmt. Ágallar á mála­til­búnaði stefnanda, hinar vanreifuðu forsendur sam­eigin­legrar aðildar stefndu og sú vanreifun sem fólgin er í því að stefnandi skýrir ekki með full­nægjandi hætti tengsl kröfugerðar sinnar við þær meginstoðir sem hún er reist á, myndu hvor um sig, að mati dómsins, nægja til frávísunar að kröfu stefndu. Fleira kemur þó til.   Í 1. mgr. 18. gr. einkamálalaga er kveðið á um skyldu til samaðildar að dómsmáli ef fleiri en einn eiga saman óskipt réttindi eða bera saman óskipta skyldu þar sem dómur um réttarstöðuna getur haft bein eða óbein áhrif á hagsmuni allra sem njóta réttindanna, eða allra sem bera skylduna. Ef játa á þeim sem að formi til eiga óskipt réttindi heimild til að sækja rétt sinn hver í sínu lagi verður að leggja á þá skyldu til að sýna fram á að unnt sé að skilja svo milli réttinda þeirra að hver þeirra geti sótt rétt sinn í dómsmáli án atbeina hins, sbr. reglu 2. mgr. 18. gr. einka­málalaga. Stefnandi hefur gert ráðstafanir til að bæta úr þeim ágöllum sem samkvæmt dómi Hæstaréttar í málinu nr. 239/2017 voru á reifun hans um aðild málsins sóknarmegin með nánari útlistun í stefnu á sambandi sínu við erlenda sam­starfsaðila sína og með því að leggja fram á dskj. nr. 20 samstarfssamning þeirra frá árinu 2002. Stefnandi hefur ekki kosið að stefna hinum erlendu sam­starfs­aðilum til aðildar að málinu eða til að þola dóm í þá veru sem hann gerir kröfur um. Stefnandi byggir á því að honum sé heimilt að sækja rétt sinn án atbeina hinna erlendu samstarfsaðila sinna með því að unnt sé að skilja milli réttinda þeirra, þannig að undir öllum kringumstæðum hafi honum samkvæmt samningi þeirra borið þóknun sem að lágmarki skyldi nema 0,1% af þeirri greiðslu­kortaveltu sem kæmist í kring fyrir atbeina hans. Í sóknar­gögnum málsins er þó ekkert að finna sem staðfestir þennan skilning stefnanda. Verður því ekki séð að stefnandi hafi sýnt fram á að hann sé einn bær til að standa að mál­ssókn á hendur stefndu á þeim grunni sem hann hefur kosið. Samkvæmt þessu, og með vísan til annarra galla á málatilbúnaði stefnanda, sem að framan er getið, er óhjá­kvæmilegt að vísa máli þessu sjálfkrafa frá héraðsdómi.   Af hálfu stefndu fluttu málið lögmennirnir Dóra Sif Tynes, Stefán A. Svensson, Hörður Felix Harðarson, Gunnar Viðar og Halldór Brynjar Halldórsson. Af hálfu stefnanda flutti málið Grétar Dór Sigurðsson lögmaður. Ástráður Haraldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.   Úrskurðarorð:   Máli þessu er sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi. Stefnandi greiði hverjum stefndu 1.000.000 króna í málskostnað.
Mál nr. 815/2017
Vinnuslys Líkamstjón Skaðabætur Kjarasamningur
A krafði Í um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir þegar hann féll á svelli á bílastæði við heimili sitt. Starfaði A sem lögreglumaður og var hann á vakt þegar slysið varð. Hafði erindi A heim verið að matast svo sem hann átti rétt á en engin aðstaða var til þess á starfsstöðinni sjálfri og var sú tilhögun viðhöfð með samþykki yfirmanna A. Deildu aðilar um hvort Í bæri hlutlæga bótaábyrgð á tjóni A eftir 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og ákvæðum kjarasamnings. Talið var að Í hefði ekki sýnt fram á að A hefði verið í öðrum erindagjörðum en að sinna áfram vinnuskyldu sinni á yfirstandi vakt þegar slysið varð og hefði það því orðið við rækslu lögreglustarfs hans. Var krafa A því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson og Eyvindur G. Gunnarsson prófessor. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2017. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Svo sem rakið er nánar í hinum áfrýjaða dómi er óumdeilt að stefndi var á vakt í starfi sínu sem lögreglumaður 19. janúar 2015 þegar hann féll á svelli á bílastæði við heimili sitt og slasaðist. Þá er því ómótmælt að erindi hans heim hafi verið að matast svo sem hann átti rétt á en engin aðstaða var til slíks á starfsstöðinni sjálfri og þessi tilhögun því viðhöfð með samþykki yfirmanna stefnda. Af hálfu áfrýjanda hefur ekki verið sýnt fram á að stefndi hafi þá hann slasaðist verið í öðrum erindagjörðum en að sinna áfram vinnuskyldu sinni á yfirstandandi vakt og skiptir þá ekki máli hvort sérstakt útkall hafði þá átt sér stað. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna en krafa stefnda um bætur vegna ferðakostnaðar sem vísað var frá héraðsdómi er ekki til endurskoðunar hér fyrir dómi. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, A, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2017. I Mál þetta, sem dómtekið var 26. september 2017, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 9. janúar 2017. Stefnandi er A, […], en stefndi er íslenska ríkið.  Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða honum 18.580.649 krónur með 4,5% ársvöxtum af  7.463.089 krónum frá 19. janúar 2015 til 29. febrúar 2016, af 18.580.649 krónum frá þeim degi til 29. ágúst 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 18.580.649 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.348.452 krónum, sem greiddar voru þann 9. ágúst 2016 og 1.163.986 krónum sem greiddar voru þann 30. september 2016. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi. Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins en til vara að málskostnaður verði látinn falla niður.  II Helstu málsatvik eru ágreiningslaus. Stefnandi er lögreglumaður og starfar hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra með starfsstöð á […]. Þann 19. janúar var stefnandi á vakt frá kl. 12.00 til 22.00. Stefnandi lýsti því í skýrslu sinni fyrir dóminum að hann hefði verið á „skylduvakt“ á hefðbundnum vinnutíma á lögreglusvæði sínu og hefði farið heim til sín í mat á lögreglubifreið sem hann hefði haft til afnota. Hann hefði nýlega verið kominn heim til sín þegar vaktsíminn hafi hringt og óskað hefði verið eftir aðstoð hans vegna umferðaróhapps á […]. Stefnandi lýsti því að hann hefði því farið út og gengið rösklega eftir gangstíg við húsið að bílastæðinu heima hjá sér. Svo sem sjá má á framlagðri mynd, er lágur kantur milli gangstígsins og bílastæðisins. Stefnandi hoppaði af kantinum niður á bílastæðið en lenti á svellbunka með þeim afleiðingum að hann rann út af svellbunkanum og lenti þá á auðum bletti. Við það kom talsvert högg á vinstri fót hans og fann stefnandi þá mikið til og fannst eins og fóturinn færi í yfirsveigju. Stefnandi lýsti því í skýrslu sinni að hann hefði legið á bílastæðinu í dágóðan tíma þar sem hann hefði ekki getað staðið á fætur vegna verkja. Í matsgerð Magnúsar Páls Albertssonar, sérfræðings í bæklunar- og handarskurðlækningum, dagsettri 13. júlí 2016, kemur fram að stefnandi hafi daginn eftir slysið leitað til heilsugæslunnar á Siglufirði og hafi hann þá ekki getað rétt að fullu úr hnénu. Honum var í kjölfarið vísað til Akureyrar og þar sýndi segulómskoðun skemmdir á innri liðþófa og rof í fremra krossbandi. Einnig sáust brjóskskemmdir á miðlægum hnjákolli lærleggs. Stefnandi mun í kjölfarið hafa farið í meðferð hjá bæklunarlæknum Orkuhússins í Reykjavík og undirgengist liðspeglun í mars 2015. Þar var staðfest rof í fremra krossbandi og fleiri áverkar. Í maí 2015 þurfti að gera aðgerð á stefnanda þar sem gert var við hið slitna krossband. Í matsgerð Magnúsar Páls Albertssonar er því einnig lýst að eftir aðgerðina hafi stefnandi verið í meðferð hjá sjúkraþjálfara fram í febrúar 2016. Í matsgerðinni voru metnar afleiðingar líkamstjóns stefnanda vegna umrædds slyss. Samkvæmt matsgerðinni var tímabil tímabundins atvinnutjóns stefnanda frá 19. janúar 2015 til 29. febrúar 2016. Tímabil þjáningabóta var það sama og þar af taldist stefnandi hafa verið veikur og rúmfastur í tvo daga og í 405 daga án rúmlegu. Varanlegur miski stefnanda vegna slyssins var metinn 17 stig og varanleg örorka 10%. Heilsufar stefnanda taldist stöðugt frá 29. febrúar 2016. Með bréfi, dagsettu 29. júlí 2016, krafðist lögmaður stefnanda bóta úr hendi stefnda á grundvelli matsgerðar Magnúsar Páls Albertssonar. Kröfunni til stuðnings er þar vísað til 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og gerð skaðabótakrafa samtals að fjárhæð 21.138.854 krónur samkvæmt nánari sundurliðun. Með bréfi ríkislögmanns, dagsettu 31. ágúst 2016, var bótaskyldu hafnað með vísan til þess að um óhappatilviljun hefði verið að ræða sem tæplega tengdist lögreglustarfi, auk þess sem það væri álitamál, hvort eigin sök stefnanda væri slík að hann bæri ætlað tjón sitt sjálfur. Stefnandi undi ekki afstöðu stefnda og höfðaði mál þetta 9. janúar sl., svo sem áður er getið. III Stefnandi byggir á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á afleiðingum slyss hans þann 19. júní 2016 á grundvelli 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og kjarasamnings Landsambands lögreglumanna og fjármálaráðherra f.h. stefnda. Stefnandi vísar í fyrsta lagi til þess að í 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 sé kveðið á um að ríkissjóður skuli bæta lögreglumönnum líkamstjón og munatjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Stefnandi byggir á því að ákvæðið feli í sér hlutlæga bótaábyrgð stefnda á líkams- og munatjóni lögreglumanna sem þeir verða fyrir á vinnutíma og við öll störf sín. Stefndi bendir á að þessi skýring ákvæðisins hafi verið staðfest í dómi Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 365/2000. Stefnandi kveður hina hlutlægu ábyrgð ákvæðisins fela það í sér að stefndi sé skaðabótaskyldur vegna alls líkamstjóns sem lögreglumenn verða fyrir í vinnutíma. Samkvæmt ólögfestum meginreglum skaðabótaréttar feli hlutlæg ábyrgð í sér skilyrðislausa bótaábyrgð, án tillits til sakar. Með hliðsjón af orðalagi 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 telur stefnandi að skýra verði ákvæðið þannig að með orðalaginu „vegna starfs síns“ sé átt við öll tjónstilvik sem eigi sér stað á meðan lögreglumaður er við störf, óháð tegund tjóns eða orsök. Stefnandi bendir á að hann hafi verið vakt þegar að hann slasaðist og að slysið hafi átt sér stað á vinnutíma. Stefnandi hafi verið að ganga að lögreglubifreið sinni þegar hann slasaðist og hugðist keyra af stað til að sinna lögreglustörfum. Þegar af þeirri ástæðu teljist stefnandi hafa verið við störf og líkamstjón hans sé því vegna starfs hans í skilningi 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 sem stefndi beri hlutlæga ábyrgð á. Í öðru lagi byggir stefnandi á því, að í gildandi kjarasamningi Landsambands lögreglumanna og ríkissjóðs, dagsettum 30. apríl 2005, með síðari breytingum og framlengingum með kjarasamningum og gerðardómum, sé kveðið á um að lögreglumenn eigi rétt til bóta fyrir meiðsli og tjón sem þeir verði fyrir vegna starfs síns. Nánar tiltekið segi í grein 7.5 í kjarasamningnum: „7.5.1           Lögreglumenn eiga rétt á bótum fyrir meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns.  7.5.2            Lögreglumenn skulu teljast að störfum, auk venjulegrar vinnuskyldu, þegar þeir eru á leið í eða úr vinnu, sitja lögregluskóla og lögreglunámskeið eða stunda lögregluæfingar, íþróttir og kappleiki á vegum félaga lögreglumanna. Hið sama gildir ef þeir ráðast í lögregluaðgerðir að eigin frumkvæði sem lögreglumenn.“ Stefnandi telur að stefndi sé bundinn af umræddum kjarasamningi og skylt að efna hann samkvæmt orðanna hljóðan á grundvelli meginreglna samninga- og vinnuréttar, m.a. reglunni um efndir in natura. Umrætt kjarasamningsákvæði sé ítrekun á hlutlægri ábyrgð stefnda samkvæmt 30. gr. lögreglulaga á líkams- og munatjóni lögreglumanna vegna starfs þeirra. Það hafi m.a. verið tilgangur umrædds ákvæðis þegar það hafi verið tekið upp í kjarasamninginn, að skilgreina með ítarlegri hætti gildissvið hinnar hlutlægu ábyrgðar 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Í því sambandi hafi verið litið til dómaframkvæmdar og venju sem skapast hafi um skýringu ákvæðisins við uppgjör slysabóta vegna slysa lögreglumanna. Stefnandi byggir á því að þar sem hann hafi verið á vakt þegar slysið átti sér stað, teljist hann hafa verið að störfum í skilningi greinar 7.5.1 í kjarasamningum. Þá bendir stefnandi á að samkvæmt kjarasamningnum eigi hann einnig rétt á bótum vegna slysa á leið til eða frá vinnu og gildi því einu að stefnandi hafi slasast fyrir utan heimili sitt. Telur stefnandi því að hann eigi ótvírætt rétt til bóta úr hendi stefnda vegna líkamstjóns síns á grundvelli greinar 7.5.1 í kjarasamningnum. Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að gögn málsins og yfirlýsingar af hálfu embættis lögreglustjórans á Norðurlandi eystra beri það með sér að embættið líti svo á að stefnandi hafi slasast við störf sín sem lögreglumaður í skilningi 30. gr. lögreglulaga og kjarasamnings lögreglumanna. Í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, dagsettri 29. janúar 2015, sem undirrituð sé af yfirlögregluþjóni embættis lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, komi fram að stefnandi hafi slasast við vinnu. Sama gildi um tilkynningu til Vátryggingafélags Íslands, dagsetta 6. febrúar 2015, sem undirrituð sé af sama aðila. Í síðarnefndri tilkynningu komi fram að slysið hafi orðið í vinnutíma og sé bifreiðastæðið við […] tilgreint sem slysstaður. Að lokum sé í tilkynningu lögreglustjórans til Vinnueftirlits ríkisins, dagsettri 20. janúar 2015, hakað við að slysið hafi orðið í vaktavinnu (3. tölul.), stefnandi hafi slasast þegar hann gekk um vinnusvæði (5. tölul.) og að orskavaldur slyssins hafi verið vinnusvæðið (4. tölul.). Með hliðsjón af þessum yfirlýsingum vinnuveitanda stefnanda, sem starfi í umboði stefnda, telur stefnandi ótvírætt að stefnandi hafi verið við vinnu þegar slysið varð. Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að stefndi hafi um árabil viðurkennt bótaskyldu á grundvelli 30. gr. lögreglulaga og greinar 7.5. í kjarasamningi lögreglumanna vegna slysa sem lögreglumenn hafi orðið fyrir á meðan þeir hafi verið á vakt. Gildi þá einu hvort um hálkuslys, slys við æfingar eða önnur óhöpp hafi verið að ræða. Telur stefnandi að þar með hafi stofnast venja um skýringu á ákvæðinu og túlkun aðila á gildissviði ákvæðanna. Stefndi geti ekki vikið frá slíkri venjuhelgaðri framkvæmd við uppgjör bótamála lögreglumanna, án skýrrar lagaheimildar eða breytingar á ákvæðum kjarasamninga. Stefndi sé því bundinn af fyrri framkvæmd sinni og skýringu hinna umdeildu ákvæða sem leiði til bótaskyldu stefnda á tjóni stefnanda. Í fimmta lagi mótmælir stefnandi því, sem fram kemur í bréfi ríkislögmanns, dagsettu 31. ágúst 2016, um að stefndi vefengi tildrög slyssins þar sem engin vitni hafi verið að slysinu. Stefnandi telur tildrög slyssins fullsönnuð, enda hafi þau verið rannsökuð af lögreglu, svo sem sjá megi af lögregluskýrslu, dagsettri 3. febrúar 2016. Auk þess sé tildrögum og orsökum slyssins lýst í tilkynningum til Vátryggingafélags Íslands og Sjúkratrygginga Íslands, dagsettum 29. janúar 2016 og 6. febrúar 2015. Í sjötta lagi hafnar stefnandi þeirri málsástæðu stefnda að bótaábyrgð samkvæmt 30. gr. lögreglulaga og grein 7.5 í kjarasamningi aðila sé bundin við „framkvæmd lögreglustarfa“. Afmörkun þessarar mótbáru stefnda sé hvorki ljós né liggi fyrir hvað hún feli í sér. Stefnandi hafnar þeim skilningi, sem stefndi virðist leggja í fyrrnefnt hugtak, og vísar til fyrri umfjöllunar um að slys stefnanda átti sér stað við starf hans sem lögreglumaður eins og það sé skilgreint í lögum og kjarasamningi. Þá bendir stefnandi á að hugtakið „framkvæmd lögreglustarfa“ sé hvergi skilgreint í lögum eða kjarasamningi og því óljóst til hvers stefndi vísi. Óljós afstaða stefnanda til þess, hvað teljist vera lögreglustörf og hvað ekki, sé því haldlaus og feli í sér verulega þrengingu á gildissviði 30. gr. lögreglulaga, sem fái hvorki stoð í orðalagi lagaákvæðisins né kjarasamningi. Þá sé engan stuðning fyrir slíkri þrengingu að finna í stofnannasamningum eða dómaframkvæmd. Í sjöunda lagi mótmælir stefnandi öðrum mótbárum stefnda í framangreindu bréfi ríkislögmanns. Fyrir liggi að bótaábyrgð samkvæmt 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og kjarasamningi lögreglumanna teljist vera hlutlæg bótaábyrgð. Ábyrgðin byggist því ekki byggð á sök og geti slys stefnda því ekki talist óhappatilvik. Sama eigi við um ætlaða eigin sök stefnanda en hún hafi engin áhrif á bótaskyldu nema sök teljist stórkostlegt gáleysi sem telja verði útilokað í þessu máli. Sömuleiðis útloki ákvæði 23. gr. a. í skaðabótalögum nr. 50/1993 ábyrgð stefnanda á grundvelli eigin sakar. Að öllu framangreindu virtu telur stefnandi ótvírætt og fullsannað að hann hafi verið að störfum í skilningi 30. gr. lögreglulaga og greinar 7.5 í kjarasamningi Landsambands lögreglumanna og stefnda þegar hann slasaðist. Því beri stefndi hlutlæga bótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda. Stefnukrafa stefnanda grundvallast á niðurstöðum matsgerðar Magnúsar Páls Albertssonar læknis, dagsettri 13. júlí 2016. Stefnandi vísar til þess að hefð hafi verið fyrir því, með fullu samþykki stefnda, að afla mats eins læknis á afleiðingum slysa lögreglumanna og hafi uppgjör á slysabótum á grundvelli lögreglulaga iðulega byggst á slíkum mötum.  Þá byggir stefnandi kröfur sínar um skaðabætur á ákvæðum 1.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. 1) Tímabundið atvinnutjón. Stefnandi byggir kröfu sína um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns á 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í stefnu er því lýst að stefnandi hafi klárað veikindarétt sinn hjá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra þann 19. október 2015. Fram að þeim tíma hafi hann fengið greidd veikindalaun en ekki hafi verið greidd yfirvinna. Meðaltal launa tekjuársins 2014 hafi numið 879.171 krónu á mánuði og sé yfirvinna þar með talin. Stefnandi hafi verið óvinnufær í samtals 13,5 mánuði á árunum 2015 og 2016. Þau laun, sem stefnandi hafi orðið af á þessu tímabili, hafi því numið 11.868.809 krónum (13,5x879.171).  Fyrir liggi að stefnandi slasaðist 19. janúar 2015 en þá hafi launatímabil janúarmánaðar 2015 verið búið og falli laun fyrir janúar 2015, sem greidd hafi verið 1. febrúar 2015, ekki undir laun í veikindaforföllum. Laun, sem stefndi hafi greitt stefnanda í veikindaforföllum séu því laun stefnanda á árinu 2015, að frádregnum launum fyrir janúar 2015 séu því 7.444.128 krónur (8.279.331-835.203). Stefnandi kveður tímabundið atvinnutjón fundið út þannig, að frá þeim tekjum sem hann hafi orðið af á óvinnufærnitímabilinu, 11.868.809 krónum, dragist þau laun sem hann hafi fengið greidd frá stefnda að fjárhæð 7.444.128 krónur og því nemi tjón hans 4.424.681 krónu. Að meðtöldu framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð sé fjárhæð tímabundins atvinnutjóns stefnanda samtals 4.933.519 krónur (4.424.681x11,5%). 2) Þjáningabætur Stefnandi styður kröfu sína um þjáningabætur við 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi hafi verið veikur í skilningi ákvæðisins frá 19. janúar 2015 til 29. febrúar 2016 og þar af í samtals 2 daga rúmliggjandi og 405 daga án rúmlegu. Þjáningabætur stefnanda reiknist því 747.970 krónur (2x3.410 og 405x1.830) 3) Varanlegur miski Kröfu um bætur vegna varanlegs miska styður stefnandi við 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð sé varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga metinn 17 stig. Miskabótafjárhæð, með vísan til 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og aldurs stefnanda á slysdegi, nemi því 10.480.000 krónum. Vegna þessa þáttar sé því krafist samtals 1.781.600 króna (10.480.000 x 17 stig).   4) Varanleg örorka. Kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku reisir stefnandi á 5.-7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð sé varanleg örorka stefnanda vegna slyssins, samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga metin 10%. Með vísan til aldurs stefnanda á þeim degi, þegar heilsufar stefnanda í kjölfar slyssins teljist stöðugt, sé margfeldisstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga 9,256. Varðandi tekjuviðmið sé byggt á 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og miðað við launatekjur stefnanda þrjú ár fyrir slysið uppreiknaðar miðað við launavísitölu að viðbættu 11,5 % framlagi í lífeyrirssjóð, sbr. 1. mgr. 7. gr. Uppreiknaðar viðmiðunartekjur stefnanda séu yfir hámarkstekjuviðmiði laganna og því sé miðað við hámarkstekjur sem nemi 11.662.500 krónum. Bætur fyrir varanlega örorku reiknist því 10.794.810 krónur (11.662.500 x 9,256 x 10%). 5) Ferða- og útlagður kostnaður. Krafa um ferða- og útlagðan kostnað styðst við 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi kveðst hafa farið sjö sinnum til Reykjavíkur til að hitta Andra K. Karlsson bæklunarlækni vegna skoðana og aðgerða, auk aksturs innan Reykjavíkur, samtals 1.148  km. Stefnandi kveðst einnig hafa farið átta sinnum til Akureyrar í sjúkraþjálfun og sneiðmyndatöku, samtals 1.152 km. Þá sé akstur innan Fjallabyggðar samtals 100 km. Samtals akstur stefnanda vegna slyssins sé því 2.400 km og í samræmi við akstursgjald ríkisstarfsmanna, sbr. auglýsingu nr. 3/2015, sé gerð krafa um greiðslu 110 króna fyrir hvern ekinn kílómetra. Bætur vegna ferðakostnaðar reiknist því 264.000 krónur (2.400 km x110 kr/km). Útlagður kostnaður vegna málsins nemi annars vegar 72.000 krónum vegna matsgerðar Magnúsar Páls Albertssonar læknis, dagsettrar 13. júlí 2016, en helmingur kostnaðar vegna matsgerðarinnar hafi verið greiddur af Vátryggingafélagi Íslands hf. Þá hafi stefnanda verið nauðsynlegt að afla skattframtala til stuðnings kröfu sinni en kostnaður vegna þess hafi numið 1.750 krónum. Samtals sé útlagður kostnaður því 73.750 krónur (72.000 + 1.750). Með vísan til framangreinds nemur stefnufjárhæð því samtals 18.580.649 krónum (4.933.5190 + 747.970 + 1.781.600 + 10.794.810 + 337.750). Stefnandi styður vaxtakröfu sína við 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt ákvæðinu beri bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáninga og varanlegs miska 4,5% ársvexti frá slysdegi 19. janúar 2015. Bætur vegna varanlegrar örorku beri 4,5% ársvexti frá þeim degi þegar heilsufar stefnanda í kjölfar slyssins telst stöðugt eða frá 29. febrúar 2016. Um dráttarvexti vísast til 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Upphafstími dráttarvaxta miðist við þann dag þegar mánuður var liðinn frá því kröfubréf hafi verið sent stefnda þann 29. ágúst 2016, sbr. 9. gr. vaxtalaga. Krafist sé dráttarvaxta af útlögðum kostnaði frá þeim degi einnig. Stefnandi vísar til þess að hann hafi fengið greiddar bætur úr slysatryggingu launþega hjá Vátryggingafélag Íslands hf. samtals að fjárhæð 3.348.452 krónur þann 9. ágúst 2016. Þá hafi hann fengið greiddar 1.163.986 krónur frá Sjúkratryggingum Íslands vegna slyssins þann 30. september 2016. Þær fjárhæðir komi til frádráttar kröfu stefnanda í samræmi við ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Um lagarök vísar stefnandi fyrst og fremst til ákvæða lögreglulaga nr. 90/1996, einkum 30. gr. Þá er vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 1.-7. gr., 16. gr. og 23. gr. a., sem og reglna skaðabótaréttar um hlutlæga ábyrgð. Stefnandi vísar einnig til ákvæða kjarasamninga Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og meginreglna samninga- og vinnuréttar. Um varnarþing vísar stefnandi til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála og um málskostnaðarkröfu til 129. og 130. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði er reist á ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Um dráttarvexti vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 6. og 9. gr. IV Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að slys stefnanda verði rakið til aðstæðna sem stefnandi hafi sjálfur borið ábyrgð á og að um óhappatilvik hafi verið að ræða. Stefndi kveður engan ágreining vera milli aðila um að í máli þessu reyni á hlutlæga bótaskyldu íslenska ríkisins samkvæmt 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Í frumvarpi til laganna komi fram að vegna eðlis starfa lögreglumanna þyki eðlilegt að hafa í lögum sérstakt ákvæði sem skyldar ríkissjóð til að greiða þeim bætur vegna tjóns sem þeir verði fyrir vegna starfs síns. Þá sé vísað til þess hversu torvelt þeim kunni að reynast að sækja mál á hendur þeim sem tjóni hafi valdið. Stefndi vísar til þess að fræðimenn hafi bent á að reglan um hlutlæga ábyrgð sé undantekningarregla og verði ekki beitt nema sýnt sé fram á gild rök fyrir því að hún eigi við. Ef vafi leiki á því, hvort lagaákvæði teljist mæla fyrir um hlutlæga ábyrgð, verði svo ekki talið vera nema sá skýringarkostur sé ótvíræður. Þá sé það eitt af meginatriðum við beitingu reglunnar um hlutlæga ábyrgð að sanna orsakatengsl milli þeirrar háttsemi, sem hin hlutlæga ábyrgðarregla taki til, og tjóns. Þá vísar stefndi einnig til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. júní 2016 í máli nr. E-4045/2015. Í greinargerð stefnda kemur fram að stefndi sé sammála stefnanda um að ákvæði 7.5 í hlutaðeigandi kjarasamningi feli í sér ítrekun og nánari útfærslu á hlutlægri ábyrgð stefnda. Það feli jafnframt í sér að skýra verði kjarasamningsákvæðið með hliðsjón af þeim undirstöðurökum sem búi að baki lagagreininni. Þær röksemdir lúti öðru fremur að því eðli lögreglustarfsins að halda uppi lögum og reglu og afstýra brotum, sbr. 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga, en ljóst sé að við framkvæmd þeirra starfa getur komið til líkamlegra átaka eins og lagt sé til grundvallar í mati Magnúsar Páls Albertssonar frá 13. júlí 2016 á afleiðingum líkamstjóns stefnanda. Stefndi telur að kjarasamningsákvæðið eigi ekki við um þá aðstöðu, sem uppi sé í málinu, þar sem óljóst sé í hvaða erindagjörðum stefnandi hafi komið við á heimili sínu í umrætt sinn og að hvaða marki sú viðkoma hafi tengst reglubundnum störfum hans sem lögreglumanns. Stefnandi hafi, að eigin sögn, verið hálfnaður með vakt sína þegar slysið hafi orðið og því virðist viðkoma hans á heimilinu ekki hafa verið liður í að komast á milli dvalarstaðar og vinnustaðar með þeim hætti sem almennt sé gert ráð fyrir í kjarasamningsákvæðinu, þ.e. fyrir upphaf eða eftir lok vaktar. Þá sé því ekki haldið fram í stefnu að stefnandi hafi verið á bakvakt og verið á leið í útkall. Samkvæmt þessu verði að leggja til grundvallar að stefnandi hafi sjálfur ákveðið að koma við á heimili sínu í umrætt sinn, óháð starfi sínu. Eins og atvikum sé háttað, kveðst stefndi ekki fallast á að hann beri hlutlæga ábyrgð á þeim atvikum, sem urðu stefnanda til tjóns. Í fyrsta lagi hafi tjónið ekki stafað af þeirri hættu á líkamstjóni sem lögreglustarfinu fylgi og þá hafi það staðið stefnanda næst að tryggja öryggi sitt á leið frá heimili sínu að bílastæðinu. Sem umráðamaður fasteignarinnar hafi stefnandi þekkt vel til aðstæðna fyrir utan heimili sitt og hafi sjálfum borið að gæta að öryggi sínu. Atvik málsins séu því ósambærileg þeim fordæmum sem stefnandi vísi til og leggi fram gögn um í málinu. Því sé ekki um það að ræða, að höfnun á hlutlægri bótaskyldu í þessu máli víki frá venjubundinni framkvæmd við uppgjör bótamála lögreglumanna. Þá hafi það engin áhrif við úrlausn málsins þótt tjónið hafi verið fellt undir slysatryggingu launþega sem vinnuslys, enda séu bætur úr slíkri tryggingu reistar á öðrum og ósambærilegum grunni en hin hlutlæga skaðabótaskylda. Verði ekki fallist á sýknukröfu, krefst stefndi þessað kröfur stefnanda sæti verulegri lækkun með vísan til þess að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, enda verði ekki annað ráðið en að hann hafi verið kunnugur öllum aðstæðum við heimili sitt og hefði getað valið að ganga gætilega að bifreiðinni, án þess að hoppa og stíga á hálkubletti. Í greinargerð áskilur stefndi sér rétt til að gera við meðferð málsins athugasemdir við og afla gagna um forsendur, sem búa að baki útreikningi stefnanda á einstökum tjónsliðum, svo sem útreikningi á tímabundnu atvinnutjóni og varanlegri örorku, eftir atvikum með öflun dómkvadds mats. Þá vísar stefndi varakröfu sinni til stuðnings til framlagðrar umsagnar Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra þar sem m.a. komi fram að stefnandi hafi fengið greidda í níu mánuði meðaltalsyfirvinnu síðastliðna 12 mánuði áður en veikindi hans hófust, alls 2.137.970 krónur. Kröfu um bætur vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns, sbr. 1. gr. skaðabótalaga, sé sérstaklega mótmælt sem órökstuddum. Jafnframt skorar stefndi á stefnanda að leggja fram allar upplýsingar um þær greiðslur sem hann hefur móttekið eða hefur átt rétt til og dragast eiga frá bótum, sbr. einkum 2. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Loks mótmælir stefndi kröfum stefnanda um dráttarvexti af dómkröfunni, auk þess sem stefndi telur að bætur úr sjúkratryggingu launþega og örorkubætur almannatrygginga eigi að dragast beint frá höfuðstól áður en vextir séu reiknaðir af fjárhæðinni. Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísast í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. V Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi gáfu skýrslur stefnandi málsins og Guðbrandur Jóhann Ólafsson, aðalvarðstjóri við embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra. Verður efni skýrslna þeirra rakið eins og þurfa þykir. Eins og áður er getið eru helstu málsatvik ágreiningslaus og hafa þau verið rakin í kafla II hér að framan. Þá er ágreiningslaust að í máli þessu reynir á hlutlæga bótaskyldu íslenska ríkisins samkvæmt 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og ákvæði greinar 7.5 í gildandi kjarasamningi Landsambands lögreglumanna og ríkissjóðs þar sem kveðið er á um að lögreglumenn eigi rétt til bóta fyrir meiðsli og tjón sem þeir verði fyrir vegna starfs síns.  Stefnandi byggir bótakröfu sína á því að samkvæmt hinni hlutlægu ábyrgð 30. gr. lögreglulaga sé stefndi skaðabótaskyldur vegna alls líkamstjóns sem lögreglumenn verða fyrir í vinnutíma, án tillits til sakar. Skýra verði ákvæðið þannig að öll tjónsatvik, sem eigi sér stað meðan lögreglumaður er við störf, eigi hér undir, óháð tegund tjóns eða orsök. Þá hafi stefnandi verið á vakt þegar slysið varð og teljist því hafa verið að störfum í skilningi greinar 7.5 í kjarasamningum. Af hálfu stefnanda er öllum málsástæðum stefnda í greinargerð mótmælt. Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að slys stefnanda verði rakið til aðstæðna sem stefnandi hafi sjálfur borið ábyrgð á og að um óhappatilvik hafi verið að ræða. Stefndi vísar til þess að regla 30. gr. lögreglulaga um hlutlæga ábyrgð sé undantekningarregla og verði ekki beitt nema sýnt sé fram á gild rök fyrir því að hún eigi við. Það hafi ekki verið gert í máli þessu, auk þess sem ekki liggi fyrir sönnun orsakatengsla milli háttsemi stefnanda umrætt sinn og tjóns hans. Þá eigi ákvæði greinar 7.5 í kjarasamningnum ekki við í málinu þar sem óljóst sé í hvaða erindagjörðum stefnandi hafi komið við á heimili sínu í umrætt sinn og að hvaða marki sú háttsemi hafi tengst reglubundnum störfum hans sem lögreglumanns. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skal ríkissjóður bæta lögreglumönnum líkams- og munatjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Að baki þessari lagareglu búa sjónarmið um að lögreglumönnum sé tryggð greiðsla skaðabóta svo þeir þurfi ekki að sækja bætur á hendur þeim sem hafi valdið þeim tjóni. Hefur þá verið litið til þess að slík mál gætu tekið langan tíma og að engin trygging sé fyrir því að tjónvaldur reynist borgunarmaður. Eðlilegt hefur þótt að hafa í lögum sérstakt ákvæði sem skyldar ríkissjóð til að greiða bætur í slíkum tilvikum. Við mat á því hvort 30. gr. lögreglulaga eigi við í tilviki stefnanda verður að leggja mat á það, hvort hann teljist hafa orðið fyrir lýstu líkamstjóni vegna starfs síns. Hér verður því í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort stefnandi hafi umrætt sinn verið við störf í skilningi 30. gr. laganna þegar hann slasaðist. Óumdeilt er í málinu að stefnandi var á venjubundinni vakt frá kl. 12.00 til 22.00 hinn. 19. janúar 2015. Svo sem fram kemur í lögregluskýrslu, sem gerð var vegna málsins, átti slysið sér stað kl. 18.05 þann dag. Þá er einnig óumdeilt að stefnandi hafði farið heim til sín í mat skömmu fyrr, svo sem vitnið, Guðbrandur Jóhann Ólafsson aðalvarðstjóri, bar um að tíðkaðist og gert væri ráð fyrir meðal lögreglumanna við embættið og stefnandi hefði því haft fullt leyfi til að gera. Stefnandi lýsti því fyrir dóminum að hann hefði verið kominn heim þegar hringt hefði verið í hann í vaktsíma lögreglunnar og óskað eftir aðstoð lögreglu vegna umferðaróhapps á […]. Hann hefði því haldið af stað af heimili sínu til að sinna þessu útkalli en slasast á leiðinni út í lögreglubifreiðina með þeim hætti sem áður hefur verið lýst. Í tilkynningu lögreglustjórans á Norðurlandi eystra til Vátryggingafélags Íslands hf. um tjón stefnanda, dagsettri 5. febrúar 2015, er slysinu lýst og síðan tekið fram: „Hann varð að hætta vinnu“. Þá er í tilkynningu um slysið til Sjúkratrygginga Íslands, sem undirrituð er fyrir hönd lögreglustjórans á Norðurlandi eystra 29. janúar 2015, svarað játandi að stefnandi hafi strax hætt vinnu og jafnframt hakað í reitinn „Á leið til/frá vinnu, hvar?“ og slysstaður sagður vera bifreiðastæði við […].  Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að leggja verði til grundvallar frásögn stefnanda um að hann hafi verið á leið í útkall eða til lögreglustarfa þegar hann var á reglubundinni vakt í starfi sínu sem lögreglumaður. Af hálfu stefnda hefur enda ekkert komið fram sem leiðir líkur að því að stefnandi hafi verið í öðrum erindagjörðum þegar skipulagðri vinnuvakt hans var enn ólokið. Slys stefnanda telst því hafa orðið við rækslu stefnanda á lögreglustarfi sínu og því var hann að störfum í skilningi 30. gr. lögreglulaga. Samkvæmt ákvæði greinar 7.5 í kjarasamningi Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs eiga lögreglumenn rétt á skaðabótum úr hendi ríkisins fyrir meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Í grein 7.5.2 er gerð grein fyrir tilvikum sem samkvæmt ákvæðinu ber að líta til við mat á því hvenær lögreglumenn skuli teljast að störfum í skilningi greinarinnar, auk venjulegrar vinnuskyldu. Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi verið að sinna venjulegri vinnuskyldu sinni í skilningi ákvæða greinar 7.5 í kjarasamningnum þegar hann slasaðist á leið í útkall. Því telur dómurinn, með vísan til framangreindra raka, að bæði ákvæði 30. gr. lögreglulaga og grein 7.5 í framangreindum kjarasamningi veiti stefnanda rétt til skaðabóta úr hendi stefnda. Með sömu rökum verður jafnframt fallist á það með stefnanda að þar sem hann var að störfum þegar slysið varð, hafi verið sýnt fram á orsakatengsl milli tjóns hans og þess að hann rann í hálku á leið sinni út í lögreglubifreiðina umrætt sinn, svo sem lýst er hér að framan. Stefndi hefur enda ekki haldið því fram í málinu að tjón stefnanda, sem sýnt hefur verið fram á með matsgerð og öðrum framlögðum gögnum, verði rakið til annarra atvika. Í ljósi alls þess sem rakið hefur verið og þegar litið er til orðalags og gildissviðs framangreindra ákvæða laga og kjarasamnings, þykir hér engu breyta þótt tjón stefnanda verði ekki rakið til þeirrar sérstöku hættu sem lögreglustarfi fylgir, svo sem stefndi heldur fram í greinargerð sinni. Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hann hoppaði ofan af gangstéttarkanti niður á bifreiðastæðið við heimili sitt umrætt sinn. Ekki verður á þetta fallist, enda verður ekki annað séð af framlagðri ljósmynd af bifreiðastæðinu en að kanturinn sé mjög lágur og umbúnaður hans venjulegur. Þessari málsástæðu stefnda er því hafnað. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda, sem framlögð matsgerð ber með sér, og er ágreiningslaust. Í sókn stefnanda er gerð grein fyrir endanlegum kröfum hans og er bótakrafa hans sundurliðuð hér að framan. Við endurflutning málsins 3. nóvember sl. kom fram að ekki væri ágreiningur milli aðila um tölulegan útreikning stefnanda á endanlegri bótakröfu hans að öðru leyti en því að stefndi mótmælir sem órökstuddum þeim lið dómkröfu stefnanda sem lýtur að ferðakostnaði að fjárhæð 264.000 krónur. Framangreindum kröfuliður vegna ferðakostnaðar stefnanda byggist á ætluðum aksturskostnaði hans vegna ferða í tengslum við læknisheimsóknir, sjúkraþjálfun og sneiðmyndatöku í kjölfar slyssins, bæði til Reykjavíkur og Akureyrar, auk aksturskostnaðar innan sveitarfélaga, svo sem nánar er rakið í stefnu. Þessi kröfuliður styðst ekki við framlögð gögn en af hálfu stefnanda hefur verið vísað til þess að kröfuliðurinn fái stoð í framlagðri matsgerð Magnúsar Páls Albertssonar læknis. Gegn mótmælum stefnda telur dómurinn að þessum kröfulið til grundvallar liggi hvorki nægilegur rökstuðningur né sönnunargögn og telst hann því svo vanreifaður að honum verður að vísa frá dómi.   Samkvæmt framansögðu ber stefnda að greiða stefnanda 18.316.649 krónur (18.580.649-264.000) með vöxtum og dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði, allt að frádregnum 3.348.452 krónum, sem greiddar voru þann 9. ágúst 2016 og 1.163.986 krónum sem greiddar voru þann 30. september 2016. Eftir þessari niðurstöðu verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 1.240.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. D ó m s o r ð: Vísað er frá dómi kröfu stefnanda um bætur vegna ferðakostnaðar að fjárhæð 264.000 krónur. Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, A, 18.316.649 krónur með 4,5% ársvöxtum af  7.463.089 krónum frá 19. janúar 2015 til 29. febrúar 2016, af 18.316.649 krónum frá þeim degi til 29. ágúst 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 18.316.649 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.348.452 krónum, sem greiddar voru þann 9. ágúst 2016 og 1.163.986 krónum sem greiddar voru þann 30. september 2016. Stefndi greiði stefnanda 1.475.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.
Mál nr. 631/2017
Bifreið Líkamstjón Skaðabætur Endurupptaka Fyrning Umferðarlög Matsgerð Fyrirvari
A varð fyrir líkamstjóni í umferðarslysi 8. desember 1999. Þann 2. maí 2001 greiddi V hf. honum bætur á grundvelli matsgerðar sem þá lá fyrir og tók A við bótunum með fyrirvara. A höfðaði síðan mál gegn V hf., B og C til heimtu frekari bóta vegna slyssins. Byggði A kröfu sína á matsgerð dómkvaddra matsmanna sem hann hafði aflað af því tilefni. Í héraði var sakarefni málsins skipt með heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 þannig að fyrst var fjallað um hvort bótakrafa A væri fyrnd og hvort áðurnefnt bótauppgjör teldist fullnaðaruppgjör. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að í matsgerð þeirri sem A hafði aflað vegna málsins, kæmi fram að heilsufar hans hefði verið orðið stöðugt í skilningi skaðabótalaga 4. febrúar 2004. Þótt upphaf fyrningarfrests réðist ekki almennt séð af því hvenær heilsufar tjónþola telst orðið stöðugt, þá hefði A ekki leitað sérstaklega mats á því hvenær hefði verið tímabært að meta afleiðingar slyssins. Eins og atvikum væri háttað væru því ekki efni til annars en að líta svo á að A hefði átt að geta hafist handa við að leita fullnustu kröfu sinnar á árinu 2004. Hefði krafa A því verið fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga þegar hann höfðaði fyrst dómsmál til heimtu hennar 7. desember 2009. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu V, B og C því staðfest.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. október 2017. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að viðurkennt verði með dómi „að skaðabótakrafa áfrýjanda á stefndu, vegna þess líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi þann 8. 12. 1999, sé ekki fyrnd.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Svo sem þar greinir nánar lýtur mál þetta að afleiðingum umferðarslyss sem áfrýjandi lenti í 8. desember 1999. Reisir hann dómkröfu sína í málinu á matsgerð þriggja manna 8. júní 2016, sem hann fékk dómkvadda til þess að meta afleiðingar slyssins. Við fyrirtöku málsins í héraði 15. maí 2017 var ákveðið að skipta sakarefni þess með heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þannig að í þessum þætti málsins yrði aðeins um það fjallað hvort bótakrafa áfrýjanda væri fyrnd og hvort bótauppgjör 2. maí 2001 teldist fullnaðaruppgjör, hvað sem liði fyrirvara áfrýjanda við það. I Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi gert þá kröfu aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Hvað þá kröfu varðar verður að líta til þess að í forsendum hins áfrýjaða dóms er nægileg afstaða tekin til málatilbúnaðar áfrýjanda um þýðingu matsgerðar dómkvaddra manna 8. júní 2016 og þýðingu 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um skilyrði endurupptöku. Þá var engin þörf á því, með hliðsjón af skiptingu sakarefnisins, að í dómi sætu sérfróðir meðdómendur auk embættisdómara. Er kröfu áfrýjanda um ómerkingu því hafnað. II Með bréfi þáverandi lögmanns áfrýjanda 16. ágúst 2004 til stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. var af hans hálfu farið fram á „endurupptöku málsins“ og þá þess bótauppgjörs sem fram hafði farið 2. maí 2001 vegna afleiðinga umferðarslyssins 8. desember 1999. Kemur auk þess fram í bréfinu að farið sé fram á að „afleiðingar slyssins verði metnar að nýju þar sem ekki var vitað um og því ekki tekið tillit til þessara afleiðinga við fyrra örorkumat.“   Í áðurgreindri matsgerð frá 8. júní 2016 kom fram að heilsufar áfrýjanda í kjölfar slyssins hafi verið orðið stöðugt, í skilningi skaðabótalaga, 4. febrúar 2004. Þó svo upphaf fyrningarfrests ráðist ekki af því almennt séð hvenær heilsufar tjónþola er orðið stöðugt, enda um afturvirkt læknisfræðilegt mat að ræða, þá er þess að gæta að áfrýjandi leitaði ekki jafnframt sérstaklega mats á því hvenær tímabært hefði verið að meta afleiðingar slyssins 8. desember 1999. Eins og atvikum er háttað eru því ekki efni til annars en að líta svo á að áfrýjandi hafi átt að geta hafist handa við að leita fullnustu kröfu sinnar á árinu 2004, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 18. mars 2008 í máli nr. 449/2007.   Með hliðsjón af því að krafa áfrýjanda á hendur stefnda laut fyrningu á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem hann fékk vitneskju um hana og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, sbr. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, hófst fyrningartími kröfunnar 31. desember 2004. Hún var því fyrnd þegar áfrýjandi höfðaði dómsmál á hendur stefndu til heimtu hennar 7. desember 2009 en með þeirri málsókn gat fyrst komið til þess að rofin yrði fyrning kröfunnar. Þegar af þessari ástæðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu stefndu af kröfu áfrýjanda.  Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2017.                 Mál þetta höfðaði A, [...] með stefnu birtri 20. febrúar 2017 á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, B, [...] og dánarbúi C, sem lést [...].  Málið var dómtekið 19. júní sl.                  Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt 4.227.200 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum af 2.856.400 frá 8. desember 1999 til 4. febrúar 2002, en af 4.227.200 krónum frá þeim degi til 2. mars 2017, en með dráttar­vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni 260.808 króna innborgun 2. maí 2001.  Þá krefst stefnandi máls­kostnaðar að skaðlausu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.                  Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar úr hendi stefnda.  Til vara krefjast stefndu lækkunar á dómkröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda.                  Við fyrirtöku málsins þann 15. maí sl. var ákveðið, samkvæmt heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991, að skipta sakarefninu þannig að fyrst yrði aðeins fjallað um hvort skaðabótakrafa stefnanda sé fyrnd og hvort bótauppgjör við stefnanda 2. maí 2001 teljist fullnaðaruppgjör, hvað sem líði fyrirvara stefnanda þar að lútandi.                  Stefnandi slasaðist í umferðarslysi [...] 1993 og hlaut við það [...].  Hann gekkst undir [...]og síðar [...]. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna [...] 1999 hlaut stefnandi 45% varanlegan miska og 75% varanlega örorku af völdum slyssins [...] 1993.  Samkvæmt matsgerðinni hafði stefnandi viðvarandi verki í [...] og [...] en stöðugleika­punktur var fundinn [...] 1998, þegar liðnir voru sex mánuðir frá lokum læknis­meðferðar eftir síðari [...] á stefnanda.                  Mál þetta hverfist um afleiðingar umferðarslyss sem stefnandi lenti í 8. desember 1999.  Óumdeilt er í málinu að stefndi B olli slysinu, en hann ók þá bifreið eiginkonu sinnar, C heitinnar, sem tryggð var ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf.  Stefnandi var fluttur á slysa- og bráðamóttöku Landspítala og voru teknar röntgenmyndir af hálsi og lendahrygg hans.  Engin ný áverkamerki greindust og engir áverkar á beini hægra hnés. Samkvæmt vottorði tognaði stefnandi á hné.                  Samkvæmt vottorði heimilislæknis [...] 2000 þótti stefnanda verkur í [...] hafa versnað til muna eftir umferðarslysið 8. desember 1999. Var honum því vísað til D bæklunarskurðlæknis, sem hafði gert tvær aðgerðir eftir slysið [...] 1993.  Í vottorði hans [...] 2000 kemur fram að röntgen­myndir sýni vel [...] í [...] stefnanda og í [...] hans, en stefnandi hafi eftir síðara umferðaróhappið haft viðvarandi verki í [...] og [...]. Saga stefnanda og einkenni bendi til endurtekinnar tognunar á bæði [...] og [...].                 Samkvæmt vottorði sjúkraþjálfara, dags. [...] 2000, sem hafði komið að endurhæfingu stefnanda eftir slysið 1993, fékk stefnandi orðið slæm verkjaköst og virtist ekki þola álag.  Hann hefði stífnað allur upp eftir síðara slysið, sérstaklega í [...].  Þá kvartaði stefnandi um verki í hægri hlið líkamans, bæði út í hendur og niður í fót.  Fyrir síðara slysið hefði hægri hliðin verið mun betri en hefði versnað til muna eftir slysið.                  Að beiðni stefnanda voru dómkvaddir þrír matsmenn til að meta afleiðingar slyssins 8. desember 1999 og lá matsgerð þeirra fyrir 20. mars 2001.  Síðara slysið var þar fyrst og fremst talið hafa ýft upp fyrri einkenni stefnanda vegna fyrra slyssins 1993.  Hafði stefnandi þá viðvarandi verki í [...],[...],[...] og [...] og niður í [...].  Töldu matsmenn að meta mætti aukningu einkenna frá stoð­kerfi og einkenni frá [...] stefnanda til 5% aukningar á varanlegum miska.  Hins vegar væri engin breyting á þeirri 75% varanlegu örorku sem hefði þegar verið ákvörðuð, meðal annars með hliðsjón af því að stefnandi hefði ekkert getað unnið frá fyrra slysinu, hann gerði ekki ráð fyrir því að fara aftur út á vinnumarkaðinn og að helsta markmið hans væri að lifa lífinu án þess að taka lyf.                  Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. bætti stefnanda líkamstjón af völdum slyssins 8. desember 1999 með vísan til matsgerðarinnar 20. mars 2001. Stefnandi tók við bótagreiðslunni 2. maí 2001 „með fyrirvara um alla þætti örorkumatsins sem lagt [væri] til grundvallar uppgjöri“.  Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. tók fram á tjóns­kvittun að það hefði greitt „fullar og endanlegar bætur“ vegna slyssins.                  Stefnandi leitaði að nýju til D bæklunarskurðlæknis 3. september 2003 vegna [...].  Að rannsókn lokinni ákvað læknirinn að framkvæmd skyldi aðgerð, en [...] hans voru laus.  Stefnandi undirgekkst aðgerð 4. nóvember 2003 þar sem innri [...] voru fjarlægð.  Í vottorði D 13. maí 2004 kemur fram að nauðsyn aðgerðarinnar hafi stafað af miklum verkjum sem rekja mætti til [...], en einnig hefði verið grunur um [...]. Taldi læknirinn allt benda til þess að [...] mætti rekja til slyssins 8. desember 1999, en það hefði síðan aukist á eðlilegan hátt með tilheyrandi óþægindum.                  Stefnandi fór fram á það með bréfi 16. ágúst 2004 að mál hans yrði tekið upp að nýju hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. og að afleiðingar slyssins 8. desember 1999 yrðu metnar að nýju.  Með samþykki þáverandi lögmanns stefnanda var óskað eftir mati E bæklunarskurðlæknis, á því hvort [...] stefnanda mætti rekja til slyssins.  Mat hans um að svo væri ekki lá fyrir 14. júní 2005.  Á röntgenmyndum teknum á slysdegi hefði mátt mæla [...], sem væru sér klár merki um [...] á festiskrúfunum.  Slíkt [...] mætti merkja á myndum teknum 21. apríl 1998 og jafnvel fyrr.  [...], sem bætt var úr með aðgerðinni 4. nóvember 2003, hafi því hafist fyrir slysið 8. desember 1999.  Líklegasta skýringin á [...] væri síendurtekið daglegt álag með hægfara [...].  Stefnandi dró í efa réttmæti mats E, sem hefði ruglað saman árekstursbifreiðum og því gert ranglega ráð fyrir því að um lágorkuáverka væri að ræða.  Auk þess hefði hann farið í leyfisleysi í sjúkraskrá stefnanda og verið vanhæfur til verksins, enda hefði hann þar sinnt hlutverki verktaka hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf.  Með bréfi 11. október 2005 leiðrétti E tilgreiningu sína á stefnanda sem ökumanns rangrar bifreiðar en tók fram að breytingin hefði engin áhrif á niðurstöðu álitsins.                  Úr varð að stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. óskaði eftir dómkvaðningu matsmanna til að meta hvort rekja mætti [...] stefnanda til slyssins 8. desember 1999 og þá hvaða afleiðingar hefðu hlotist af slysinu.  Niður­staða matsgerðar, dags. 21. janúar 2006, var sú að [...] stefnanda væri ekki að rekja til þess slyss.  Líklegast mætti rekja það til hægfara [...] í kjölfar aðgerðarinnar 1997, en sýni úr stefnanda, sem hefðu verið ræktuð í kjölfar aðgerðarinnar 2003, hafi staðreynt að [...] hefði verið [...].  Tiltölulega algengt væri að [...] eftir [...] vegna [...] eða álags meðan á gróanda stæði.  Greina mætti út frá röntgenmyndum á árunum 1997-2003 [...] við [...], allt aftur til 6 vikum eftir upphaflegu aðgerðina.  Hálfu ári eftir aðgerðina mætti greina [...] við bæði [...] í [...] stefnanda.  Hafi [...] því verið [...] fyrir umferðarslysið 8. desember 1999.  Hins vegar hafi matsmenn engin haldbær vísindaleg rök fyrir því að slysið hefði haft áhrif á [...].  Matsmenn bentu og á að frá síðustu mötum vegna slyssins 1993 sem fram fóru 1999 og 2001 hafi stefnandi farið í endur­aðgerð vegna [...] og virtist sem ástand hans væri lakara en við fyrri möt.                  Stefnandi gat ekki sætt sig við niðurstöðu matsins frá 21. janúar 2006 og fékk tekna dómskýrslu af einum matsmanna, F bæklunarskurðlækni, 13. mars 2006.  Þar kom fram að ekki hefði verið metið sérstaklega hverju líkamlegri versnun stefnanda frá fyrri mötum sætti.  Sjálfur teldi hann líklegt að versnunina mætti rekja aftur til slyssins 1993 þar eð stefnandi hefði verið með [...] í sér fyrir slysið 1999.  Hefði síðara slysið haft tiltölulega lítil áhrif á ástand stefnanda og að það ætti jafnt við um miska og varanlega örorku.  Læknirinn gerði eins grein fyrir því að hann teldi að virkni stefnanda hefði verið metin of há í matsgerðum frá 1999 og 2001, hann hefði þá stefnt út á vinnumarkaðinn á nýjan leik en það ekki gengið eftir.                  Stefnandi gat eftir sem áður ekki sætt sig við útkomuna úr matinu frá 21. janúar 2006 og leitaðist við að fá því hnekkt fyrir dómstólum.  Byggði hann á því í málinu að matsmennirnir hefðu verið vanhæfir til starfans og að þeim hafi verið ólögmætt að byggja matið á niðurstöðu E.  Málinu var vísað af sjálfs­dáðum frá Hæstarétti með dómi 4. janúar 2007.                  Að svo búnu krafðist stefnandi í tvígang dómkvaðningar matsmanna til að framkvæma yfirmat á matinu 21. ágúst 2006, fyrst 22. júní 2007 og aftur 28. mars 2008.  Stefnandi óskaði samhliða málunum eftir gjafsókn en var synjað í bæði skiptin.  Stefnandi kveður það ástæðu þess að hann hafi fallið frá kröfum sínum um yfirmat.                  Með stefnu birtri 7. desember 2009 höfðaði stefnandi skaðabótamál á hendur stefndu vegna slyssins 8. desember 1999 og krafðist 6.900.000 króna skaðabóta til viðbótar þegar uppgerðum bótum.  Málið var fellt niður 27. nóvember 2011.  Stefnandi höfðaði sams konar mál í tvígang fyrir dómi, annars vegar með stefnu birtri 26. apríl 2012, en það mál var fellt niður 25. janúar 2013, hins vegar með stefnu birtri 19. júlí 2013.  Málsástæður að baki kröfum stefnanda í þessum málum voru þær að slysið 8. desember 1999 hefði haft í för með sér mun meiri afleiðingar en gert hafi verið ráð fyrir í upphaflegu mati þar að lútandi frá 20. mars 2001.  Varanlegur miski sem hlotist hefði væri hæfilega metinn 20 miskastig og varanleg örorka 25%.  Þá ætti hann rétt á bótum vegna annars fjártjóns, sjúkrakostnaðar og einnig á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga, enda hefði stefndi B sýnt af sér stórfellt gáleysi er hann olli árekstrinum.                  Stefnandi fékk gjafsókn vegna málsins frá 19. júlí 2013 þann 3. mars 2015 og óskaði 30. mars 2015 eftir mati þriggja dómkvaddra matsmanna til þess að fá metið á nýjan leik hverjar afleiðingar umferðarslyssins 8. desember 1999 væru. Niðurstaða matsgerðar þeirra frá 8. júní 2016 var sú að stefnandi hefði hlotið 10% varanlega örorku og 15 stig í viðbótarmiska í slysinu.  Í samantektarkafla matsgerðarinnar ítreka matsmenn að þeir séu ósammála umfangsmikilli röksemdafærslu í vottorðum og dóm­skjölum um að [...] hafi [...] við slysið og það sé orsök aukins miska og örorku.  Í matsgerðinni eru færðar þær röksemdir að það sé mun líklegra að [...] „vegna áverkans í slysinu, einkum rétt fyrir ofan [...], hafi orsakað viðbótarskaðann í [...] og í raun í öllum [...]“.  Í lokaorðum matsgerðarinnar segir svo:  „Þar að auki vaknar grunur um að þrenging í [...], geti átt þátt í einkennamynd stefnanda í dag.  Myndun þessarar [...] er væntanlega í bæði beinu og óbeinu orsakasambandi við [...] sem voru settar inn vegna fyrra umferðarslyssins, vegna [...] í [...].  Þó er mun erfiðara að meta með vissu hvaða einkenni orsakast af [...] og hvenær einkenni af þeim toga voru áberandi, þar sem einkenna­myndin líkist í mörgu afleiðingum af [...] í tvígang, sem varð í bíl­slysunum í [...] 1993 og þann 8. desember 1999.“                  Hinn 14. september 2016 var dómsmálið frá 19. júlí 2013 fellt niður að kröfu stefnanda, með hliðsjón af afstöðu Hæstaréttar um öflun matsgerða eftir þingfestingu máls.                  Mál þetta höfðaði stefnandi eins og áður segir 21. febrúar 2017, nú til heimtu bóta að fjárhæð 4.227.200 króna vegna slyssins 8. desember 1999, með vísan til niður­stöðu matsgerðarinnar frá 8. júní 2016.  Sem fyrr segir var sakarefni málsins skipt og er nú tekist á um það hvort krafa stefnanda sé fyrnd en ella hvort hún komist að með hliðsjón af því bótauppgjöri sem fram fór 2. maí 2001 á milli málsaðila.                  Málsástæður og lagarök stefnanda                  Stefnandi byggir dómkröfu sína í málinu á niðurstöðu matsgerðarinnar 8. júní 2016 og með vísan til 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 91. gr. sbr. 93., 95. og 97. gr. laganna. Krafa stefnanda sundurliðast svo:                  Miskabætur:                                                                                                          1.656.400 krónur                 Bætur fyrir varanlega örorku:                                                                            1.370.800 krónur                 Bætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993                                  1.200.000 krónur                 Samtals:                                                                                                                 4.227.200 krónur                        Samandregið byggir stefnandi miskabótakröfu sína á 4. gr. skaðabótalaga, en bætur fyrir varanlega örorku styður stefnandi við 1. og 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og niðurstöðu matsgerðarinnar 8. júní 2016.  Fyrir kröfu um bætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga færir stefnandi þau rök að stefndi B hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi er hann olli slysinu 8. desember 1999, sbr. einnig 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga.                  Um þann þátt málsins sem hér er til úrlausnar byggir stefnandi á því að mats­gerðin frá 8. júní 2016 hafi fært honum nýja og raunhæfa vitneskju um afleiðingar slyssins 8. desember 1999. Geri það stefnanda loks kleift að leita fullnustu kröfu sinnar vegna þess líkamstjóns sem hann hafi orðið fyrir í slysinu. Sé krafa hans því ekki fyrnd í skilningi 99. gr. umferðarlaga.                  Þá sé krafa stefnanda ekki fyrnd enda hafi hann gætt þess að stefna henni ætíð fyrir dómstólum í því skyni að rjúfa fyrningu, fyrst 7. desember 2009 en það mál hafi verið fellt niður 25. janúar 2013.  Nýtt mál hafi svo verið höfðað, 19. júlí 2013 og hafi það verið fellt niður 14. september 2016.  Kröfunni hafi svo verið haldið við með málshöfðun þessari 20. febrúar 2017.  Þannig hafi stefnandi viðhaldið kröfu sinni í samræmi við 15. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, sbr. 22. gr. sömu laga.                  Að því er varðar uppgjörið við stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. 2. maí 2001, þá hafi það byggt á mati 20. mars 2001, en niðurstaða þess hafi miðað við að slysið 8. desember 1999 hafi einkum ýft upp fyrri einkenni vegna slyssins sem stefnandi lenti í 1993.  Stefnandi hafi verið ósammála niðurstöðu matsins og þar af leiðandi tekið við bótunum með fyrirvara um grundvöll uppgjörsins.  Þá vísar stefnandi til þess stefndi Vátryggingafélag Íslands hafi fallist á að taka mál hans fyrir að nýju þann 2. maí 2005 í samræmi við beiðni hans þar að lútandi 16. ágúst 2004.  Sú beiðni hafi verið gerð með vísan til nýrra einkenna sem tengdust [...], einkum í [...] stefnanda, sem bæklunarskurðlæknir hans hafi talið að mætti að öllum líkindum rekja til hnykkáverka sem hann hafi hlotið í slysinu 8. desember 1999.  Við hafi tekið matsferli sem hafist hafi að frumkvæði hins stefnda félags sem ekki hafi lokið fyrr en með dómi Hæstaréttar 4. janúar 2007.  Frá þeim tíma og til 7. desember 2009, þegar stefnandi hafi fyrst rofið fyrningarfrest kröfunnar, hafi ekki liðið 4 ár í skilningi 99. grein umferðarlaga.  Hið sama eigi við um lok matsgerðar dómkvaddra matsmanna frá janúar 2006.                  Þá vísar stefnandi til 11. gr. skaðabótalaga enda hafi heilsu hans samkvæmt matsgerðinni 8. júní 2016 hrakað á síðustu árum vegna afleiðinga umferðaslyssins 8. desember 1999 sem sanni að veruleg versnun hafi orðið á heilsu stefnanda frá fyrra uppgjöri í maí 2001.                  Auk þeirra lagareglna sem getið hefur verið vísar stefnandi til skaðabótalaga, einkum 1.-8. gr. og a-liðar 1. mgr. 26. gr. sem og bótakafla umferðarlaga.  Stefnandi vísar einnig til meginreglna vátryggingaréttarins um upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu vátryggingafélaga og um að félögin geti ekki takmarkað ábyrgð sína nema samkvæmt skýrum lagaheimildum.                  Málsástæður og lagarök stefnda                 Stefndu byggja á því að ekki séu lagaskilyrði til greiðslu frekari bóta vegna slyssins 8. desember 1999 en greiddar hafi verið með bótauppgjörinu 2. maí 2001, á grundvelli matsgerðarinnar 20. mars 2001.  Bótauppgjörið hafi verið endanlegt uppgjör vegna slyssins og skapi fyrirvari stefnanda við bótauppgjörið honum ekki rétt til frekari bóta án þess að skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé fullnægt.  Skilyrði ákvæðisins séu tvö, annars vegar að um sé að ræða ófyrirséða heilsufarslega versnun af völdum slyss og hins vegar að versnun sé veruleg eða þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Stefnanda hafi ekki tekist sönnun um að þeim skilyrðum sé fullnægt í málinu.  Ekkert sé að finna í fyrirliggjandi læknis­fræðilegum gögnum eða matsgerðum sem sýni fram á það.  Matið frá 8. júní 2016 hafi tekið til sömu einkenna og áður fyrr, auk þess sem það sé haldið verulegum annmörkum og verði því ekki lagt til grundvallar niðurstöðu í málinu.                  Fyrirvari stefnanda við grundvöll uppgjörsins hafi enga þýðingu hér, enda hafi hann verið of almennur.  Hæstiréttur hafi túlkað slíka almenna fyrirvara við bótauppgjör þannig að þeir feli ekki annað í sér en áskilnað um rétt til bóta kæmi síðar til ófyrirsjáanlegra breytinga á heilsufari tjónþola sem ylli frekari varanlegum miska eða örorku en samkvæmt matinu sem lagt hafi verið til grundvallar bótauppgjörs.                  Stefndu byggja jafnframt á því að dómkröfur stefnanda séu fyrndar samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, um að allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu þeirra.  Dómkröfurnar hafi verið fyrndar áður en mál vegna þeirra hafi fyrst verið höfðað með birtingu stefnu 7. desember 2009.  Beita verði hlutlægum mælikvarða á það, hvenær stefnandi hafi mátt vita um tilvist kröfunnar og fyrst getað hafist handa um að leita fullnustu hennar.                  Byggt sé á því í stefnu að afleiðingar slyssins 8. desember 1999 hafi versnað jafnt og þétt.  Þegar 12. október 2000 hafi stefnandi leitað til læknis vegna aukinna verkja í [...].  Þá sé rætt um breytingar á líkamlegu ástandi stefnanda til hins verra frá því sem áður var í vottorði sjúkraþjálfara 17. október 2000.  Í vottorði D bæklunarskurðlæknis, 23. október 2000, komi fram að saga stefnanda og einkenni bendi til endurtekinnar [...] á bæði [...].                  Þá liggi fyrir að 19. janúar 2001 hafi að beiðni stefnanda verið dómkvaddir matsmenn til að meta afleiðingar slyssins 8. desember 1999 og hafi mat þeirra legið fyrir 20. mars 2001.  Niðurstaða þeirra hafi verið sú að slysið hafi fyrst og fremst ýft upp fyrri einkenni stefnanda eftir slysið 1993.  Þeir hafi metið aukningu einkenna stefnanda eftir slysið 8. desember 1999 til 5% aukningar á varanlegum miska ásamt þjáningartíma í rúma 6 mánuði.  Afleiðingar slyssins myndu hins vegar ekki koma til með að breyta þeirri varanlegu örorku sem þegar hefði verið ákvörðuð eftir fyrra slysið 1993.  Þá hafi matsmenn talið að ekki hafi verið að vænta frekari bata, er liðnir hafi verið sex mánuðir og þrjár vikur frá því slysið varð 8. desember 1999.  Þá komi fram í matinu að stefnandi hafi m.a. greint matsmönnum frá því að hann hafi ekkert getað unnið frá slysinu [...] 1993 og að líkamsástand sitt væri með þeim hætti að hann hugsaði nú ekki um að fara aftur út á vinnumarkaðinn.                  Þá vísa stefndu til þess að stefnandi hafi tekið við bótum úr hendi stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. 2. maí 2001, með fyrirvara um réttmæti örorkumatsins 20. mars 2001.                  Allt framangreint beri með sér að stefnandi hafi vitað um tilvist dómkröfunnar og getað hafist handa við heimtu bóta úr hendi stefnda, þegar á árunum 2000 og 2001, er hann leitaði til sérfræðinga með einkenni sín eftir slysið og sætti örorkumati.  Hafi þá hafist 4 ára fyrningarfrestur 99. gr. umferðarlaga á kröfu stefnanda við árslok 2000 eða við árslok 2001.  Hafi það í för með sér að krafa hans hafi fyrnst í árslok 2004 eða í árslok  2005.                  Þá benda stefndu einnig á það að í vottorði D bæklunar­skurðlæknis 13. maí 2004 segi að í kjölfar slyssins 8. desember 1999 hafi óþægindi frá [...] stefnanda komið til að nýju, versnað og leitt til aðgerðarinnar á stefnanda 4. nóvember 2003.  Á þeim grunni hafi lögmaður stefnanda krafist endurupptöku málsins hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. 16. ágúst 2004 með vísan til nýrra einkenna og vandamála stefnanda sem rekja mætti til hnykkáverkans í téðu slysi.  Hafi þar verið rakin sjúkrasaga stefnanda, m.a. um aðgerðina 4. nóvember 2003, og þess krafist að afleiðingar slyssins yrðu metnar að nýju.  Þá breyti gagnaöflun á árinu 2005, engu um upphaf fyrningarfrestsins.                  Megi því ráða að í öllu falli sé óumdeilanlegt, að stefnandi hafi áfram verið vel vitandi um  kröfu sína og getað hafist handa um heimtu hennar eigi síðar en um mitt ár 2004, svo sem hann hafi gert.  Samkvæmt þessu hafi 4 ára fyrningarfrestur 99. gr. umferðarlaga byrjað að líða í síðasta lagi í árslok 2004 og verið úti í árslok 2008.                  Allt framangreint leiði til þess að krafa hafi verið fallin niður fyrir fyrningu við málshöfðun stefnanda 7. desember 2009.                 Niðurstaða                 Í máli þessu greinir aðila á um hvort bótakrafa stefnanda á hendur stefndu vegna umferðarslyss, sem átti sér stað 8. desember 1999, sé fallin niður fyrir fyrningu.  Um fyrningu kröfu stefnanda gildir sérákvæði 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Þar segir að allar bótakröfur skv. XIII. kafla umferðarlaga fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.  Slíkar kröfur fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði.  Líta verður svo á að fjögurra ára fyrningarfresturinn hefjist frá lokum þess almanaksárs þegar nægar upplýsingar liggja fyrir um heilsufar tjónþola er gera honum fyrst kleift að leita fullnustu kröfu sinnar.  Um þá túlkun má meðal annars vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 604/2012.                  Í málinu liggja fyrir ýmis gögn er sýna að stefnandi hafi allt frá því á fyrri hluta ársins 2000 leitað til lækna í því skyni að varpa ljósi á afleiðingar umferðarslyssins 8. desember 1999.  Þannig greinir í vottorði D bæklunarskurðlæknis, frá 23. október 2000, að stefnandi hafi komið til skoðunar og eftirlits, samkvæmt tilvísun G, læknis á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, þann 1. febrúar 2000.  Vottorð lækna og önnur gögn málsins styðja sömuleiðis að stefnandi hafði leitað aðstoðar lögmanns vegna téðra umleitana sinna í október 2000.                  Í nefndu vottorði D bæklunarskurðlæknis, 23. október 2000, greinir frá því að einkenni stefnanda og saga hans, m.a. um umferðaróhappið, bendi til endurtekinnar tognunar á bæði hálshryggjar- og lendahryggjarsvæði.  Hafði læknirinn þá skoðað stefnanda, meðal annars framkvæmt röntgenrannsókn, í því skyni að varpa ljósi á afleiðingar tjónsatburðarins 8. desember 1999.                  Samkvæmt matsgerð þriggja dómkvaddra matsmanna, H taugalæknis, I bæklunarskurðlæknis og J prófessors, frá 20. mars 2001, sem aflað var af stefnanda, var heilsufar hans orðið stöðugt sex mánuðum eftir slysið 8. desember 1999.  Stefnandi leitaði hins vegar ekki jafnframt sérstaklega mats á því hvenær tímabært hefði verið að meta afleiðingar slyssins.  Þá aflaði stefnandi hvorki yfirmats né eftirmats á umræddri matsgerð og hefur sönnunargildi hennar um ástand stefnanda á umræddu tímabili því ekki verið hnekkt.  Getur almennur fyrirvari stefnanda við niðurstöðu matsgerðarinnar í bótauppgjöri 2. maí 2001 engu breytt þar um.  Eins og atvikum er hér háttað eru ekki efni til annars en að líta svo á að stefnanda hafi átt að vera kunnugt um kröfu sína á því ári og getað hafist handa við að leita fullnustu hennar með málshöfðun í kjölfarið.  Yrði samkvæmt þessu að miða við að fyrningartími kröfu stefnanda í skilningi 99. gr. umferðarlaga hafi byrjað að líða í árs­byrjun 2002.                  Á árinu 2003 leitaði stefnandi aðstoðar lækna að nýju vegna verkja frá [...].  Úr varð að stefnandi undirgekkst aðgerð 4. nóvember 2003 þar sem [...] voru fjar­lægð.  Þá liggur fyrir vottorð D bæklunarskurðlæknis, 13. maí 2004, þar sem fram kemur að hann telji að allar líkur bendi til þess að [...] hafi byrjað við umrætt óhapp.  Í síðasta lagi þá verður litið svo á að nægar upplýsingar hafi legið fyrir um afleiðingar slyssins á heilsufar stefnanda er gerðu honum fyrst kleift að leita fullnustu kröfu sinnar á hendur stefnda.  Engu breytir í því efni þó að stefnanda hafi reynst torvelt að færa sönnur á frekara tjón sitt í kjölfar þess.  Er þá til þess að líta að þetta atriði er aðeins einn þáttur af fleirum sem þýðingu geta haft við sönnun á því hvort einkenni tjón­þola megi rekja til tjónsatburðarins 8. desember 1999.                  Samandregið er það mat dómsins að þau sönnunarvandkvæði sem stefnandi lýsir í stefnu hindruðu hann ekki í því að leita fullnustu kröfu sinnar um skaðabætur með málshöfðun á hendur stefnda í síðasta lagi í ársbyrjun 2005.                  Þá verður sú upplýsingaöflun sem stefndi Vátryggingarfélag Íslands hf. stóð að, í kjölfar kröfu lögmanns stefnanda um endurupptöku málsins í bréfi 16. ágúst 2004, ekki talin fela í sér viðurkenningu sem hafi rofið fyrningu kröfunnar lögum samkvæmt.  Vísast um það til dóms Hæstaréttar í máli nr. 77/2008.                  Af öllu framangreindu leiðir, jafnvel þótt fallist yrði á síðarnefndan upphafstíma fyrningarfrests, þannig að miðað yrði við að fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga hafi byrjað að líða um áramótin 2004-2005, að krafa stefnanda var fallin úr gildi fyrir fyrningu áður en kom til málshöfðunar til heimtu hennar, upphaflega 7. desember 2009.  Þetta á við um alla þætti kröfunnar, líka þann sem hann vill byggja á 26. gr. skaðabótalaga.  Ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.                  Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður falli niður.  Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutnings­þóknun lögmanns hans, sem er ákveðin 1.500.000 krónur að teknu tilliti til virðisauka­skatts.                  Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  Dómsorð                 Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf., B og dánarbú C, eru sýkn af kröfum stefnanda, A.                  Málskostnaður fellur niður.                  Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.500.000 krónur.
Mál nr. 713/2017
Niðurfelling máls Málskostnaður
Eftir kröfu A ehf. var mál hans á hendur M fellt niður fyrir Hæstarétti. Var A ehf. dæmt til greiðslu málskostnaðar fyrir réttinum að kröfu M.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Valtýr Sigurðsson fyrrverandi ríkissaksóknari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. nóvember 2017. Með bréfi til réttarins 1. júní 2018 tilkynnti áfrýjandi að hann félli frá áfrýjun málsins fyrir Hæstarétti. Af hálfu stefnda er gerð krafa um málskostnað fyrir Hæstarétti.  Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr., sbr. 190. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málið fellt niður fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr., sbr. 190. gr. laga nr. 91/1991 verður áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.  Dómsorð: Mál þetta er fellt niður. Áfrýjandi, ACE Handling ehf., greiði stefnda, Má Jóhanni Löve, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Mál nr. 789/2017
Börn Forsjársvipting Gjafsókn
H krafðist þess að A yrði svipt forsjá tveggja sona sinna einkum með vísan til a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í málinu lá annars vegar fyrir álitsgerð sálfræðings um forsjárhæfni A sem taldi A ekki hafa nægjanlega eða nauðsynlega hæfni til að fara með forsjá sona sinna og hins vegar matsgerð dómkvadds manns sem taldi A hæfa til að fara með forsjá drengjanna. Héraðsdómur féllst á kröfu H að því er varðaði yngri son A en hafnaði kröfunni að því er laut að forsjá eldri drengsins. Var niðurstaðan einkum reist á álitsgerðinni um forsjárhæfni A og gögnum sem lágu fyrir frá fagaðilum fram til þess tíma er eldri sonur hennar var vistaður í fóstri með samþykki hennar. Taldi héraðsdómur matsgerð hins dómkvadda manns á hinn bóginn haldna slíkum göllum að hún hefði takmarkað vægi við matið. Í niðurstöðu Hæstaréttar var vísað til þess að mat dómkvadds manns sem aflað væri samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefði ríkt sönnunargildi. Fyrirliggjandi matsgerð væri ítarleg og vel rökstudd og hefði henni ekki verið hnekkt með yfirmatsgerð eða öðrum haldbærum gögnum. Yrði matsgerðin því lögð til grundvallar um forsjárhæfni A. Þá var litið til þess að A hefði aflað sér aukinnar menntunar og væri í föstu starfi sem og gagna um óboðað eftirlit á heimili A er drengirnir komu til hennar í umgengni og þess að eldri drengurinn hefði lýst eindregnum vilja til að búa hjá móður sinni. Var því ekki fallist á með með H að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum A og sona hennar væri alvarlega ábótavant, eða að líkamlegri og andlegri heilsu þeirra væri hætta búin vegna vanhæfni hennar til að fara með forsjá þeirra. Var A því sýknuð af kröfu H.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Stefán Már Stefánsson prófessor. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. desember 2017. Hún krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms með þeirri breytingu að hún verði jafnframt sýknuð af kröfu gagnáfrýjanda um að verða svipt forsjá sonar síns B. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 21. desember 2017. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verið svipt forsjá sona sinna, C fæddum [...] 2004 og B fæddum [...] 2014. Þá krefst hann þess að málskostnaður verði felldur niður. I Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi leitaði aðaláfrýjandi eftir aðstoð barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar vegna erfiðleika sem vörðuðu eldri son hennar, C. Hinn 5. janúar 2016 undirritaði hún svokallaða áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og fór drengurinn í tímabundið fóstur í eitt ár með samþykki aðaláfrýjanda. Á grundvelli áætlunarinnar aflaði barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar sálfræðilegs mats á forsjárhæfni aðaláfrýjanda. Matið vann D, sérfræðingur í klínískri sálfræði, og lá það fyrir í lok maí 2016. Í kjölfar þess tók barnaverndarnefndin þá ákvörðun á fundi sínum 19. júlí 2016 að báðir synir aðaláfrýjanda yrðu vistaðir utan heimilis til 18 ára aldurs. Þar sem móðir samþykkti ekki að B yrði vistaður utan heimilis kvað nefndin upp úrskurð 29. sama mánaðar um að taka hann af heimili móður í tvo mánuði, en fósturvistun C var ekki lokið og því einungis tekin ákvörðun um fósturvistun B. Í framhaldinu var hann vistaður af hálfu barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar hjá föður sínum, E. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 20. september 2016 var úrskurður barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar staðfestur. Eldri drengurinn var síðan af hálfu nefndarinnar vistaður í febrúar 2017 hjá föður sínum, F. Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms fór drengurinn til aðaláfrýjanda þar sem hann býr nú. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort fullnægt sé skilyrðum 1. og 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga til að aðaláfrýjandi verði svipt forsjá sona sinna. Reisir gagnáfrýjandi  kröfur sínar einkum á a. og d. liðum 1. mgr. 29. gr. laganna en þar segir að barnaverndarnefnd sé heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annar þeirra eða báðir, skuli sviptir forsjá ef daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns er alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska eða að fullvíst sé að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar séu augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að aðeins skuli gera kröfu um sviptingu forsjár að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. II Eins og að framan er rakið aflaði barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar sálfræðilegs mats D á forsjárhæfni aðaláfrýjanda í tengslum við meðferð málsins hjá nefndinni. Er mat hans dagsett 30. maí 2016. Þar kemur fram að tengsl aðaláfrýjanda og drengjanna séu verulega skert, sérstaklega tengsl hennar við eldri drenginn. Hún hafi lítið innsæi í þarfir þeirra og geti ekki sett sig í spor þeirra út frá þroska þeirra og aldri. Hafi hún og eldri drengurinn ákveðin tengsl en þau séu neikvæð og byggist á togstreitu. Var það niðurstaða hans að þroska og velferð beggja sona aðaláfrýjanda væri ógnað með því að alast upp í umsjá hennar. Töluverður stuðningur í lengri tíma hafi verið reyndur án árangurs. Lítil breyting hafi verið á móður varðandi tengslamyndun, innsæi, skipulag, vanrækslu á almennum aðbúnaði og ástand á heimili. Hún hafi í gegnum tíðina verið hafnandi og neikvæð í garð drengjanna, sérstaklega C. Hefði móðir ekki nægjanlega eða nauðsynlega hæfni til að fara með forsjá sona sinna. Mælti D með lengri fósturvistun fyrir C og að hugað yrði að undirbúningi fósturvistunar varðandi B. Hinn 11. október 2016 var G, sálfræðingur, dómkvödd sem matsmaður í málinu. Matsgerð hennar er dagsett 12. desember 2016 og í niðurstöðum kemur fram að aðaláfrýjandi sé hæf til að fara með forsjá sona sinna og að hún geti boðið þeim upp á fullnægjandi heimilisaðstæður. Hún sé eðlilega greind, stríði ekki við geðræn vandkvæði af neinum toga og lifi reglusömu lífi. Þá kemur þar fram að aðaláfrýjandi sýni sonum sínum ástríki í orðum og athöfnum og tengist þeim nánum böndum og hún hafi verið megin umönnunaraðili þeirra beggja. Hvað varði eldri drenginn hafi henni verið umhugað um að hvetja hann til þátttöku í tómstundum og sé ekki annað að sjá en að hún hafi sinnt heilsuvernd sona sinna vel. Þótt gögn málsins gefi til kynna að fundið hafi verið að líkamlegri umhirðu eldra drengsins telur matsmaður það ekki vera af þeirri stærðargráðu að hægt sé að tala um líkamlega vanrækslu af hálfu aðaláfrýjanda heldur verði þroskafráviki hans að hluta til kennt um. Hafi komið tímabil þar sem aðaláfrýjandi hafi ekki getað framfylgt forsjárskyldum sínum gagnvart eldri drengnum þar sem hún hafi verið eins og í matsgerðinni segir „þrotin af kröftum og hafði þá frumkvæði að því að leita að viðeigandi úrræðum fyrir son sinn. Það sem gerði útslagið að mati matsmanns voru samtvinnaðir þættir. Hegðunarvandi drengsins var gríðarlega mikill á þeim tíma og hvorki foreldrar, skólayfirvöld eða tilsjón á heimili réðu við vanda drengsins. Móðir var tiltölulega nýkomin úr erfiðri sambúð, með ungt barn sem var oft veikt á umræddu tímabili. Móðir bar að mestu ein ábyrgð á báðum drengjunum og lítil stoð virðist hafa verið í feðrum beggja drengjanna.“ Í matsgerðinni kemur fram að tvö viðamikil persónuleikapróf hafi verið lögð fyrir aðaláfrýjanda og nokkuð gott samræmi verið í niðurstöðum þeirra. Samkvæmt þeim glími hún ekki við geðræn vandkvæði, hún sé tilfinningalega stöðug og takist á við daglegt líf án óþarfa áhyggja. Þá sé sjálfsmynd hennar jákvæð og stöðug, hún sé bjartsýn og hafi skýr markmið og viðhorf. Þessi jákvæðu viðhorf auki þrautseigju hennar og aðlögunarhæfni. Sé ekkert í þessum prófum sem styðji það sem haldið hafi verið fram í gögnum málsins að aðaláfrýjanda skorti innsæi og sé sjálfhverf. Innsæi sé einn af hornsteinum góðrar forsjárhæfni og álíti matsmaður hana búa yfir nægilegu innsæi til að geta mætt þörfum drengja sinna. Um tengsl aðaláfrýjanda við syni sína segir matsmaður að athugun og niðurstaða á tengslaprófi hafi leitt í ljós að C sé í öruggum, góðum og kærleiksríkum tengslum við móður sína og komi skýrt fram hjá honum að það sé til hennar sem hann sæki öryggi og skjól og hjá henni vilji hann eiga heima. Er það mat matsmanns að tengsl hans við aðaláfrýjanda séu í grunninn náin og góð en engu að síður hafi komið tímabil í lífi þeirra þar sem erfiðleikar hafi haft neikvæð áhrif á tengsl þeirra. Mótþrói, pirringur og óþolinmæði hafi sett svip sinn á tengsl þeirra um skeið og markaleysi hafi fylgt í kjölfarið. Tímabundinn aðskilnaður þeirra virðist hafa haft jákvæð áhrif og rofið neikvætt mynstur sem komið hafi verið í samskipti þeirra, þau hafi bæði náð betra jafnvægi og fullvissu um að vilja búa saman. Hvað snertir B hafi tengsl hans við aðaláfrýjanda verið metin með athugun á samskiptum þeirra á heimili, með viðtölum við móður og skoðun á fyrirliggjandi gögnum í málinu. Er það niðurstaða matsmanns að móðir sýni drengnum athygli og ástríki og hann leiti eðlilega til hennar III Með hinum áfrýjaða dómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, var aðaláfrýjandi svipt forsjá yngri sonar síns en sýknuð af kröfu gagnáfrýjanda um að hún yrði svipt forsjá eldri drengsins. Var niðurstaða dómsins einkum reist á álitsgerð D og gögnum sem lágu fyrir frá ýmsum fagaðilum sem komið höfðu að málefnum aðaláfrýjanda og sona hennar fram að því að eldri drengurinn var vistaður í fóstri með samþykki aðaláfrýjanda í byrjun árs 2016. Var í hinum áfrýjaða dómi talið að slíkir gallar væru á matsgerð hins dómkvadda manns að hún hefði takmarkað vægi við mat á forsjárhæfni aðaláfrýjanda. Í því sambandi vísaði dómurinn til þess að í matinu hafi hvorki verið litið til þeirrar miklu og langvarandi vanrækslu sem átt hefði sér stað við uppeldi drengjanna né þeirrar viðamiklu aðstoðar sem aðaláfrýjandi hafi notið á vegum barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar án þess að þau úrræði hafi skilað árangri. Eins og að framan er rakið var það mat hins dómkvadda manns að á tímabili hafi aðaláfrýjandi ekki getað framfylgt forsjárskyldum sínum gagnvart eldri drengnum. Við þær aðstæður hafi hún leitað aðstoðar og hafi tímabundinn aðskilnaður þeirra haft jákvæð áhrif og rofið neikvætt mynstur sem komið var í samskipti þeirra. Þau hafi bæði náð betra jafnvægi og fullvissu um að vilja búa saman.  Af gögnum málsins verður ráðið að þær erfiðu aðstæður sem uppi voru á þeim tíma þegar aðaláfrýjandi samþykkti að eldri sonur hennar yrði vistaður utan heimilis séu ekki lengur fyrir hendi og býr drengurinn nú hjá henni og engin gögn liggja fyrir um annað en að það gangi vel. Hvað varðar yngri drenginn þá eru hvorki gögn í málinu né haldbær rök færð fyrir því í hinum áfrýjaða dómi að aðaláfrýjandi hafi vanrækt forsjárskyldur sínar gagnvart honum eða hvaða aðstoðar hún hafi notið við umönnun hans sem ekki hafi skilað árangri. Í hinum áfrýjaða dómi var talið að niðurstaða dómkvadds manns, um að aðaláfrýjandi væri tilfinningalega stöðug, tækist á við daglegt líf án óþarfa áhyggja, væri jákvæð og bjartsýn, væri í hróplegu ósamræmi við önnur gögn málsins þar sem meðal annars lægi fyrir að aðaláfrýjandi hafi um nokkurt skeið tekið þunglyndislyf. Þótt fyrir liggi að aðaláfrýjandi taki þunglyndislyf eru í dóminum ekki færð fyrir því viðhlítandi rök að víkja beri af þeim eða öðrum sökum til hliðar framangreindri niðurstöðu matsins um aðaláfrýjanda. Héraðsdómur taldi það enn fremur vera galla á matsgerð hins dómkvadda manns að hún samræmdist ekki öðrum gögnum um persónulega eiginleika aðaláfrýjanda. Er í þeim efnum meðal annars vísað til vottorðs geðlæknis um að líðan aðaláfrýjanda væri mun verri en sjálfsmatskvarðar gæfu til kynna og góð útkoma á prófum skýrðist af því að aðaláfrýjandi hafi takmarkað innsæi í eigin líðan. Sérstök rök voru þó ekki færð fyrir þeirri niðurstöðu. Við mat á sönnunargildi þeirra gagna sem héraðsdómur lagði til grundvallar niðurstöðu sinni er þess að gæta að mat dómkvadds manns sem aflað er samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefur ríkt sönnunargildi. Fyrirliggjandi matsgerð G er ítarleg og vel rökstudd og hefur henni ekki verið hnekkt með yfirmatsgerð eða öðrum haldbærum gögnum og verður því lögð grundvallar niðurstöðu málsins um forsjárhæfni aðaláfrýjanda. Þá er til þess að líta að aðaláfrýjandi hefur, frá því að mál þetta var höfðað, aflað sér aukinnar menntunar og er í föstu starfi. Einnig er þess að gæta að aðilar á vegum barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar fóru ítrekað í óboðað eftirlit á heimili aðaláfrýjanda þegar drengirnir komu til hennar í umgengni eftir að þeir fóru af heimili hennar og bera gögn málsins vegna þess eftirlits með sér að umgengni hafi gengið vel og heimilið verið snyrtilegt. Loks verður ekki fram hjá því litið að C, sem var tæpra 14 ára er dómendur í héraði gáfu honum kost á að tjá sig um málið, lýsti eindregnum vilja til að búa hjá móður sinni. Að öllu framanrituðu virtu er ekki fallist á með gagnáfrýjanda að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum aðaláfrýjanda og sona hennar sé alvarlega ábótavant, eða líkamlegri og andlegri heilsu þeirra sé hætta búin vegna vanhæfni  hennar til að fara með forsjá þeirra. Er því ekki fullnægt skilyrðum a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga til þess að svipta aðaláfrýjanda forsjá sona sinna. Verður hún því sýknuð af kröfum gagnáfrýjanda. Af því leiðir að dómkröfur hennar í aðalsök eru teknar til greina. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður en um gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Aðaláfrýjandi, A, skal vera sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, Hafnarfjarðarkaupstaðar. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda skulu vera óröskuð. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.000.000 krónur.   Dómur Héraðsdóms Reykjaness  6. desember 2017. Mál þetta, sem tekið var til dóms 6. nóvember sl., er höfðað með þingfestingu stefnu 27. september 2016. Stefnandi er Hafnarfjarðarkaupstaður vegna barnaverndarnefndar, kt. [...], Strandgötu 6, Hafnarfirði. Stefnda er A, kt. [...], [...], [...]. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði svipt forsjá sona sinna, þeirra C, kt. [...], og B, kt. [...], sem báðir séu vistaðir utan heimilis á vegum barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar. Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og eigi væri um gjafsóknarmál að ræða. I Málið varðar tvo drengi stefndu, þá C, sem er tæplega fjórtán ára, og B, sem er þriggja ára frá því í [...] síðastliðnum. Stefnda deilir forsjá C með föður hans, F, en fer með óskipta forsjá B. Eldri drengur stefndu hefur um árabil átt við erfiðleika að stríða, en hann hefur glímt við mikla vanlíðan og hegðunarerfiðleika. Þá hefur hann átt erfitt uppdráttar í skóla vegna athyglisbrests og samskiptavanda og átt erfitt með að fylgja fyrirmælum og glímt við erfiðleika í námi. Hafa erfiðleikar hans ágerst með aldrinum. H barnageðlæknir tilkynnti stefnanda um aðstæður drengsins í nóvember 2014 og í samráði við stefndu var óskað eftir stuðningi stefnanda til að tryggja drengnum öruggt athvarf á heimili stefndu. H hafði áður vísað málefnum drengsins til barna- og unglingageðdeildar vegna vaxandi hegðunar- og tilfinningavanda hans. Fram kom að C færi ekki eftir fyrirmælum heima fyrir og missti þvag og hægðir í buxur. Samkvæmt greiningarmati barna- og unglingageðdeildar, dagsettu [...] 2015, var C greindur með [...]röskun, [...]röskun, [...] og [...]röskun og sértæka námserfiðleika. Jafnframt fékk C greininguna „fjandsamlegt viðmót við barnið eða barnið gert að blóraböggli“. Fram kemur í gögnum málsins að drengurinn hefur verið á lyfjunum [...] frá árinu 2011. Frá því að stefnandi fékk málefni stefndu til meðferðar í nóvember 2014 hafa margvísleg úrræði verið reynd til þess að styðja við stefndu í uppeldishlutverki sínu til að stuðla að því að hún væri betur í stakk búin til að takast á við hegðunarvanda sonar síns. Tvær áætlanir um meðferð máls voru gerðar og undirritaðar og giltu fyrir tímabilið 23. mars til 26. október 2015. Tilsjón var höfð með heimili stefndu frá því í byrjun árs 2015, en þar áður þáði hún aðstoð á vegum fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar vegna vanda í tengslum við óreglu á heimilishaldi og umhirðu barnanna. Auk tilsjónar sem fólst í aðstoð við heimilishald fékk stefnda aðstoð við að vekja C á morgnana og við að koma reglu á matar- og svefnvenjur beggja barnanna. Auk tilsjónar fékk stefnda aðstoð frá stefnanda vegna samskipta á teymisfundum í skóla og á barna- og unglingageðdeild. Þá var stefndu útveguð foreldraráðgjöf og sálfræðiþjónusta. C var úthlutuð vist í [...], sumardvöl í sveit, fjárstyrk til tómstundaiðkunar og sálfræðiviðtöl. Stefnda hefur frá því hún varð barnshafandi að yngra syni sínum sótt stuðning til [...]-teymis hjá Landspítala [...]. Þrátt fyrir þau úrræði sem nefnd hafa verið fór vandi C vaxandi á tímabilinu. Ítrekaðar tilkynningar bárust stefnanda frá lögreglu er vörðuðu átök á milli stefndu og C og handalögmál á heimilinu. Yngri sonur stefndu, B, var viðstaddur í öll skiptin, sem einkenndust af slagsmálum mæðginanna, háreysti og miklu uppnámi með aðkomu lögreglu og barnaverndaryfirvalda. Fram kemur í gögnum málsins að tilsjónaraðilar höfðu á þessu tímabili áhyggjur af vangetu stefndu til að setja C mörk varðandi hegðun og við að halda reglu varðandi tölvunotkun, sem og svefn- og matarvenjur drengjanna beggja. Að sögn tilsjónaraðila einkenndi mikil óreiða og óregla allt heimilishald, og tilsjón til langs tíma hafði ekki tilætluð áhrif í því efni. Sömuleiðis lýstu tilsjónaraðilar áhyggjum af því að stefndu skorti innsæi í aðstæður C, hún sæi ekki eigin þátt í deilum þeirra heldur kenndi C alfarið um slæm samskipti þeirra á milli. Stefnda hafi ásakað drenginn um að beita sig ofbeldi, en hafi sjálf látið hendur skipta og þannig beitt C ítrekað harðræði þannig að hann hafi hlotið áverka af. Fram kemur í gögnum málsins að á tímabilinu frá nóvember 2014 til janúar 2016 bárust stefnanda níu tilkynningar vegna heimilis stefndu, oftast frá lögreglu eftir að stefnda hafði óskað eftir aðstoð lögreglu eða nágrannar hennar vegna hávaða og átaka á heimilinu. Þá barst ein tilkynning undir nafnleynd og ein frá bakvakt barnaverndarnefndar. Þegar nágranni stefndu kallaði eftir aðstoð lögreglu á heimili stefndu 15. júní 2015 hafði nágranninn heyrt öskur og hávaða frá íbúð stefndu. Þegar lögregla kom á staðinn hafði nágranninn tekið C inn til sín og hlúð að honum þar sem drengurinn hafði verið lokaður úti í rennandi blautum fötum og berfættur. Hafði komið upp ágreiningur á milli stefndu og drengsins þar sem hann vildi ekki hætta í tölvunni og fara í sturtu. Hafði stefnda þá þvingað drenginn í sturtu í fötunum, sem leiddi til handalögmála þeirra á milli. Í ágúst 2015 óskaði stefnda tvisvar eftir aðstoð lögreglu á heimilið, í annað skiptið vegna þess að drengurinn hafði brjálast þegar hún reyndi að ná af honum símanum og í síðara skiptið vegna þess að hann hlýddi henni ekki. Hafði stefnda verið ósátt við það að drengurinn vildi sofa uppi í hjá henni, en ekki í sínu rúmi. Í tilkynningu lögreglu sagði að þegar lögregla kom á heimilið hefði drengurinn verið rólegur og kurteis og að svo virtist sem hann þyrfti aðeins á því að halda að talað væri við hann og að honum væri sýnd hlýja. Tilkynning sem barst undir nafnleynd 2. september 2015 var á þá leið að mikil háreisti, öskur og grátur hefðu heyrst frá íbúð stefndu og að stefnda hefði hent syni sínum út á svalir. Kvaðst tilkynnandi hafa miklar áhyggjur af líðan barnanna og stefndu. Í nóvember 2015 óskaði stefnda tvívegis eftir aðstoð lögreglu á heimilið. Í fyrra skiptið hafði stefnda lent í átökum við C vegna tölvunotkunar og kvaðst hafa orðið að leggjast ofan á hann. Var drengurinn með áverka eftir átök við móður sína. Í tilkynningu lögreglu kom fram að stefnda hefði sagt fyrir framan drenginn að hann væri með geðhvarfasýki og að hann væri ofbeldismaður. Hefði lögregla ítrekað þurft að biðja stefndu um að gæta orða sinna. Í síðara skiptið hafði aftur komið til átaka á milli stefndu og C vegna tölvunotkunar og hafði drengurinn ráðist á stefndu. Í gögnum málsins kemur fram að eftir ítrekaðar uppákomur af því tagi sem lýst er hér að framan hafi stefnda ekki treyst sér til að hafa C á heimilinu lengur. Á meðferðarfundi í desember árið 2015 hafi verið ákveðið að drengurinn yrði vistaður á fósturheimili í eitt ár. Hinn 5. janúar 2016 hafi stefnda undirritað samþykki fyrir vistun drengsins utan heimilis í 12 mánuði frá þeim degi að telja. Samhliða var gerð áætlun um meðferð máls hjá barnavernd. Af hálfu stefnanda hafi stefndu verið veittur stuðningur til þess að stunda endurhæfingu hjá [...] og B útveguð vist á leikskóla svo að stefnda gæti sinnt endurhæfingu. Stefndu hafi verið falið að taka á móti tilsjón á heimili, sinna fjölskylduviðtölum og að undirgangast sálfræðimat. Í gögnum málsins kemur fram að mikil breyting varð á líðan C og hegðun eftir að hann fluttist á fósturheimilið. Vandi tengdur óreglu vegna svefns og matar lagaðist til muna og drengnum gekk betur að fara eftir fyrirmælum og ná tökum á tölvufíkn sem háði honum á heimili stefndu. Sömuleiðis reyndist ekki vandkvæðum bundið að fá drenginn til þess að fara í bað eða að fara að sofa á kvöldin og vakna á morgnana. Lyfjagjöf var endurskoðuð og dregið var verulega úr lyfjanotkun. B, yngri sonur stefndu, byrjaði á leikskóla 18 mánaða gamall. Samkvæmt upplýsingum frá leikskóla hans var aðbúnaði hans ábótavant og vísbendingar komu fram um óreglu á svefn- og matartíma. Var B mikið frá vegna veikinda og sömuleiðis kom stefnda í fleiri skipti með barnið veikt á leikskólann. Leikskólakennarar höfðu áhyggjur af málþroska barnsins og að hann tengdist ekki sem skyldi öðrum börnum. Í samræmi við áætlun um meðferð máls vann D sálfræðingur sálfræðilegt mat á forsjárhæfni stefndu, sem dagsett er 30. maí 2016. Niðurstaða matsins var afgerandi um að stefnda hefði ekki nægjanlega eða nauðsynlega hæfni til að fara með forsjá barna sinna. Í matinu kom fram að stefnda byggi yfir þeim styrkleikum að vilja sækja sér aðstoð í erfiðleikum sínum og væri til samvinnu um að fá áframhaldandi þjónustu og stuðning vegna þeirra. Helstu veikleikar stefndu sem forsjáraðila felast samkvæmt matinu í því að hún hafi verulega skert innsæi í þarfir barna sinna og eigi erfitt með að setja sig í spor þeirra út frá þroska þeirra og aldri. Viðamikill og langvarandi stuðningur hafi engan árangur borið og slæmt ástand á heimili hennar hafi ekki lagast. Í matinu komu fram alvarlegar áhyggjur af B í umsjá stefndu. Þrátt fyrir að röskun á tengslum þeirra á milli hafi ekki þótt jafn afgerandi og alvarleg og á milli stefndu og eldri drengsins, væru tengsl stefndu og B neikvæð og líkur væru fyrir því að þau þróuðust með sama hætti og hjá eldri drengnum. Niðurstaða matsins var á þá leið að þroska og velferð sona stefndu væri ógnað með því að þeir ælust upp í umsjá hennar og mælt var með því að varnaraðili hugaði að undirbúningi fósturvistunar B. Stefnandi tilkynnti stefndu um niðurstöður forsjármatsins og að meðferð máls myndi taka mið af því. Stefnda hafi verið ósátt við matsgerðina og gert margvíslegar athugasemdir við vinnslu hennar. Sama dag hafi stefnda haft samband símleiðis við C á fósturheimilinu og upplýst hann um niðurstöðu matsins. Símtalið hafi haft mikil áhrif á C og mikil afturför hafi orðið á líðan og hegðun hans í kjölfarið. Hafði C áður lýst því yfir að honum liði vel í fóstri og að hann vildi vera þar áfram. Fram hefur komið að fósturforeldrar C treystu sér ekki til að framlengja fóstursamninginn, sem rann út í byrjun febrúar 2017, og frá þeim tíma hefur drengurinn verið vistaður hjá föður sínum á vegum barnaverndarnefndar. Á grundvelli áðurgreinds forsjárhæfnismats D sálfræðings kvað barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar upp þann úrskurð 29. júlí 2016 að yngri sonur stefndu, B, skyldi tekinn af heimili móður og vistaður hjá föður sínum á vegum barnaverndar. Hefur drengurinn dvalið hjá föður sínum frá þeim tíma. Hinn 27. september 2016 höfðaði stefnandi mál þetta á hendur stefndu þar sem þess er krafist að hún verði svipt forsjá sona sinna. Undir rekstri málsins óskaði stefnda eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta forsjárhæfni stefndu. Matsgerð hins dómkvadda matsmanns, G sálfræðings, lá fyrir 12. desember 2016. Niðurstaða matsgerðarinnar var á þann veg að stefnda væri fær um að fara með forsjá sona sinna. Í matsgerðinni taldi hinn dómkvaddi matsmaður að vandamál fjölskyldunnar mætti að mestu leyti rekja til hegðunarvandamála og raskana eldri drengsins og þess að stefnda hafi verið að þrotum komin vegna þeirra þegar hún leitaði sér aðstoðar. Stefnda kveðst hafa tekið leiðbeiningum frá tilsjónaraðilum, styrkt sig líkamlega og andlega með hjálp sálfræðings og með endurhæfingu hjá [...] ásamt því að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði með bættri menntun. Fram kemur í gögnum málsins að stefnda var í starfsendurhæfingu hjá [...] frá 9. júlí 2015. Þá hefur stefnda lagt fram staðfestingu frá [...] í Reykjavík, dagsetta 6. desember 2016, um að hún hafi lokið námskeiðinu, [...]. Einnig hefur stefnda lagt fram tvö prófskírteini frá sama fyrirtæki, bæði dagsett 3. mars 2017, um að hún hafi annars vegar lokið [...] og hins vegar námi sem [...]. Jafnframt hefur stefnda lagt fram ráðningarsamning, dagsettan 14. júní 2017, þar sem fram kemur að hún hafi ráðið sig í fullt starf sem [...] hjá fyrirtækinu I ehf. í Reykjavík. Loks hefur stefnda lagt fram yfirlýsingu J, framkvæmdastjóra I ehf., dagsetta 25. september 2017, þar sem staðfest er að stefnda hafi starfað hjá fyrirtækinu frá 1. apríl 2017 og að hún hafi unnið við [...]. Tekið er fram að stefnda hafi sinnt störfum sínum með miklum ágætum, verið traust og áreiðanleg í öllum sínum verkefnum. Síðustu tvo mánuði hafi hún gegnt starfi [...] fyrirtækisins þar sem fyrrverandi starfsmaður hafi farið á eftirlaun. Hún hafi reynst duglegur og áreiðanlegur starfskraftur, verið reglusöm og mætt vel og þá hafi hún verið fljót að átta sig á verkefnum og verklagi fyrirtækisins. Stefnda kom fyrir dóminn og gaf aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni G, sálfræðingur og dómkvaddur matsmaður, D sálfræðingur, K sálfræðingur, L, fósturforeldri C, og barnsfeður stefndu, þeir F og E. II Stefnandi kveður það vera mat barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar að synir stefndu hafi til langs tíma búið við alvarlega vanrækslu í umsjá sóknaraðila og að líkamlegri og andlegri heilsu þeirra sé hætta búin við óbreyttar aðstæður. Niðurstaða forsjárhæfnismats D sálfræðings sé í samræmi við mat nefndarinnar og annarra fagaðila sem til þekki, þ.e. að stefndu skorti algerlega innsæi í þarfir barnanna og að persónulegir eiginleikar hennar séu þess eðlis að þeir komi í veg fyrir að hún geti tekið ábyrgð á velferð þeirra og þroska. Þannig sé það lýsandi dæmi um vanhæfni stefndu í þessu efni að hafa upplýst C um niðurstöðu sálfræðimats þannig að drengurinn upplifi nú að hann beri ábyrgð á þeirri stöðu sem upp sé komin. Að mati stefnanda lýsi gögn málsins mikilli vanlíðan og erfiðleikum C á heimili stefndu og endurspegli hegðunarerfiðleikar hans þá vanlíðan, sem megi rekja til félagslegs umhverfis, heimilisaðstæðna og samskipta hans við stefndu. Til stuðnings því nægi að horfa á velgengni hans á fósturheimilinu og í skólanum sem hann hafi sótt þar, en þar beri aðilum saman um að hann hafi náð framförum á öllum sviðum. Stefnandi taki undir niðurstöðu D sálfræðings um að málefni B muni þróast með sama hætti og málefni C hafi gert og því sé mikilvægt að gripið verði í taumana áður en það gerist með hagsmuni hans í huga. Ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af innsæisleysi stefndu, tengslaröskun og skapsveiflum. Að mati stefnanda sýni gögn málsins að óæskileg samskipti stefndu við syni hennar séu ekki til hagsbóta fyrir þá og því sé staða þeirra, sérstaklega C, með þeim hætti sem hún er í dag. Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um forsjársviptingu á því að ákvæði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í máli þessu. Það sé mat stefnanda með hliðsjón af gögnum málsins og forsögu, að fullvíst sé að líkamlegri og andlegri heilsu drengjanna sé hætta búin fari stefnda með forsjá þeirra. Þá telji stefnandi að gögn málsins sýni, svo ekki verði um villst, að daglegri umönnum, uppeldi og samskiptum stefndu og drengjanna sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þeirra og þroska. Stefnda sé óhæf til að fara með forsjá drengjanna og veita þeim það öryggi, skjól og umhyggju sem ætlast er til að foreldri veiti börnum sínum og ætla verði að þeim sé nauðsynlegt til að ná að þroskast og dafna með eðlilegum hætti. Ítrekað hafi verið reynt að aðstoða stefndu á víðtækan hátt og afskipti stefnanda hafi staðið yfir samfellt í tæp tvö ár. Þá telji stefnandi að stuðningsaðgerðir séu fullreyndar í því skyni að bæta forsjárhæfni stefndu og brýna nauðsyn beri til að skapa drengjunum til frambúðar það öryggi og þá umönnun sem þeir eigi rétt á að búa við lögum samkvæmt. Geti þau stuðningsúrræði sem stefnandi hefur yfir að ráða ekki megnað að skapa drengjunum þau uppeldisskilyrði sem þeir eigi skýlausan rétt til hjá stefndu. Að mati stefnanda hafi vægustu ráðstöfunum ávallt verið beitt til að ná þeim markmiðum sem að hafi verið stefnt og sé krafa stefnanda sett fram samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Meðalhófsreglu hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki hafi verið gripið til viðurhlutameiri úrræða en nauðsyn hafi verið á. Það séu frumréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Það sé almenn skylda foreldra, sem lögfest sé í 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, að sýna börnum virðingu og umhyggju, auk þess sem óheimilt sé með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldris og barns vegist á séu hagsmunir barnsins, þ.e. hvað því sé fyrir bestu, þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd, svo sem fyrir sé mælt í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1994, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þá eigi reglan sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og í Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979. Um lagarök að öðru leyti kveðst stefnandi vísa til barnaverndarlaga nr. 80/2002, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18/1992 og lög um meðferð einkamála nr. 91/1991. III Stefnda kveðst byggja sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í máli þessu. Þvert á móti sýni niðurstaða matsgerðar hins dómkvadda matsmanns að stefnda sé hæf til að fara með forsjá sona sinna. Í matsgerðinni komi fram að stefnda glími ekki við nein geðræn vandamál og að hún sé reglusöm og eðlilega greind. Þá komi einnig fram í matsgerðinni að stefnda sýni drengjunum ástríki í orðum og athöfnum og tengist þeim nánum böndum. Einnig segir að drengirnir upplifi mikla væntumþykju frá stefndu, hún sé þeim góð, sýni þeim áhuga og skilning og þeir geti alltaf treyst henni. Hinn dómkvaddi matsmaður árétti í mati sínu að innsæi sé einn af hornsteinum góðrar forsjárhæfni og álíti matsmaður stefndu búa yfir nægilegu innsæi til að geta mætt þörfum C og B, auk þess sem hún sé aðaltilfinningagjafi þeirra. Þá segi ennfremur í matsgerðinni að stefnda glími ekki við geðræn vandkvæði, hún sé tilfinningalega stöðug og takist á við daglegt líf án óþarfa áhyggna. Matsmaður bendi einnig á að stefnda sé jákvæð og bjartsýn, með skýr markmið og viðhorf, en þessir persónueiginleikar auki þrautseigju hennar og aðlögunarhæfni. Auk þess bendi matsmaður á að ekkert í þeim prófum, sem lögð hafi verið fyrir stefndu, bendi til þess að hana skorti innsæi eða að hún sé sjálfhverf. Stefnda kveðst því telja ljóst að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum stefnanda og sona hennar sé ekki stórlega ábótavant, sbr. áðurgreindan a-lið 29. gr. Þaðan af síður kveðst stefnda geta fallist á að líkamlegri eða andlegri heilsu sona hennar, sbr. d-lið sömu greinar, sé hætta búin sökum vanhæfni stefndu, enda sé staðfest í matsgerð hins dómkvadda matsmanns að hún sé hæf til að fara með forsjá sona sinna. Með vísan til alls framangreinds kveðst stefnda telja að skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu ekki uppfyllt og því krefjist hún sýknu af kröfum stefnanda. Stefnda kveðst einnig byggja sýknukröfu sína á 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en þar segi að kröfu um sviptingu forsjár skuli aðeins gera ef aðrar og vægari aðgerðir hafa verið reyndar án viðunandi árangurs. Samkvæmt þessari grein sé ekki nóg að vægari aðgerðir hafi verið reyndar, heldur sé það gert að skilyrði að þessar aðgerðir hafi ekki skilað viðunandi árangri. Stefnda kveðst hafa nýtt sér margvísleg úrræði sem hafa skilað góðum árangri. Hún kveðst sjálf hafa haft frumkvæði að því að sækja endurhæfingarnámskeið á vegum [...] með góðum árangri, en einn liður í þeirri endurhæfingu sé að stefnda hafi bætt við sig menntun og unnið samhliða í starfi tengdu því námi, auk þess sem hún hafi fengið sálrænan stuðning og henni hafi verið kennt að setja mörk og virða mörk annarra í samskiptum. Kveðst stefnda hafa tekið miklum framförum í kjölfar þessa úrræðis. Stefnda kveðst hafa samþykkt að sæta óboðuðu og boðuðu eftirliti á meðan á umgengni hennar við drengina stóð í júlí og ágúst 2016. Umsagnir eftirlitsaðila barnaverndar, í kjölfar eftirlitsheimsókna þeirra, séu allar á sama veg, þ.e. að undantekningarlaust hafi heimilið verið snyrtilegt og fínt, drengirnir kátir og í jafnvægi og samskipti móður og barna ánægjuleg. Stefnda kveðst telja að umsagnir eftirlitsaðila í óboðuðu eftirliti á vegum barnaverndar sem vísað hafi verið til, sem og umsagnir frá meðferðaraðilum [...] og sálfræðingi, feli í sér staðfestingu á því að aðgerðir og úrræði sem stefnda hafi tekið þátt í hafi skilað viðunandi árangri í þeirri viðleitni að bæta fjölskylduaðstæður stefndu og sona hennar. Í því sambandi kveðst stefnda benda á að heimilisaðstæður, eins og þeim sé lýst í því forsjárhæfnimati sem fram hafi farið í apríl 2016 og sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á, séu ekki í neinu samræmi við lýsingu á heimilisaðstæðum í skýrslum eftirlitsaðila frá barnavernd við óboðað eftirlit í júlí og ágúst. Samkvæmt því sem hér hafi verið rakið kveðst stefnda telja ljóst að krafa um forsjársviptingu geti ekki náð fram að ganga þar sem viðunandi árangur hafi náðst með þeim úrræðum sem stefnda hafi sjálf haft frumkvæði að að sækja og sinna, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Verði ekki fallist á þessi sjónarmið kveðst stefnda telja ljóst að stefnandi hafi ekki kynnt sér nægjanlega vel hvort og þá hver árangur stefndu af þeim úrræðum sem reynd hafi verið hafi orðið. Stefnda telji því ljóst að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst af hálfu stefnanda líkt og 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kveði á um. Þar af leiðandi geti forsjársvipting ekki náð fram að ganga. Stefnda bendir á að stefnandi byggi kröfu sína um forsjársviptingu á niðurstöðum forsjárhæfnismats sem stefnandi hafi aflað einhliða. Í því mati segi að líkamlegri og andlegri heilsu sona stefndu sé hætta búin þar sem stefndu skorti algerlega innsæi í þarfir þeirra og að persónulegir eiginleikar hennar séu þess eðlis að þeir komi í veg fyrir að hún geti tekið ábyrgð á velferð þeirra og þroska. Þessu kveðst stefnda mótmæla og benda á að þessi niðurstaða sé í algjöru ósamræmi við niðurstöðu í matsgerð hins dómkvadda matsmanns, þar sem fram komi að stefnda sé hæf til að fara með forsjá sona sinna og búi yfir nægjanlegu innsæi til að geta mætt þörfum sona sinna. Stefnda kveðst benda á þá þversögn sem felist í niðurstöðu þess mats sem stefnandi byggi mál sitt á, þ.e. að annars vegar skorti stefndu nægjanlegt innsæi í þarfir barna sinna og eigi erfitt með að setja sig í spor þeirra út frá þroska þeirra og aldri, en hins vegar á sama tíma sé hún þeim styrkleika gædd að vilja sækja sér aðstoð vegna fjölskylduerfiðleika sinna og hafi verið til samvinnu um að fá áframhaldandi þjónustu og stuðning vegna þeirra. Kveðst stefnda einnig benda á að hún hafi haft frumkvæði að því að leita til stefnanda eftir aðstoð vegna þeirra vandamála sem hún og eldri sonur hennar hafi glímt við. Enn fremur kveðst stefnda benda á að hún hafi sýnt gott innsæi og góða eftirfylgni þegar þurft hafi að styðja við þroska yngri drengsins, B, hjá sjúkraþjálfara, en á þetta hafi hinn dómkvaddi matsmaður bent í matsgerð sinni. Ljóst sé að forsjárhæfnismat D, sem stefnandi hafi aflað einhliða, sé í verulegu ósamræmi við niðurstöður hins dómkvadda matsmanns. Auk þess sé niðurstaða forsjárhæfnismatsins ekki í samræmi við eftirlitsskýrslur barnaverndar vegna óboðaðs eftirlits með heimilisaðstæðum hjá stefndu, skýrslur meðferðaraðila [...] og skýrslu sálfræðings stefndu. Stefnda kveðst telja að við úrlausn þessa máls skuli leggja niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns til grundvallar, en ekki það mat sem stefnandi hafi aflað einhliða og lagt fram í máli þessu, sbr. meginreglu réttarfars um sönnunargildi matsgerða, enda sé matsgerð hins dómkvadda matsmanns í betra samræmi við önnur gögn málsins. Stefnda kveðst mótmæla forsjárhæfnimati D þar sem það sé haldið slíkum ágöllum að ekki verði á því byggt, samanber það sem fyrr hafi verið rakið, auk þess sem þess hafi verið aflað einhliða af stefnanda. Ekki hafi verið haft samband við þann sálfræðing sem haft hafi stefndu til meðferðar, K. Þá hafi ekki verið haft samband við nokkurn frá [...], sem stefnda hafi sótt eða þá nokkurn annan sem þekkti stefndu persónulega. Forsjárhæfnimat D hafi að mestu leyti verið unnið úr viðtölum við starfsmenn stefnanda, auk þess sem matsmaður hafi framkvæmt einfalt geðgreiningarviðtal á stefndu. Þó sé alveg ljóst að niðurstaða matsmanns um vanhæfni stefndu til að fara með forsjá sona sinna byggist ekki á umræddu greiningarviðtali heldur á viðtölum við starfsmenn stefnanda, sem ekki hafi nægjanlega færni eða menntun til þess að taka faglega afstöðu til sálfræðilegra hugtaka, eins og skorts á innsæi, sjálfhverfu og tengslaleysis. Á hinn bóginn byggist matsgerð hins dómkvadda matsmanns meðal annars á fjórum ítarlegum persónuleikaprófum sem lögð hafi verið fyrir stefndu og niðurstaða þess mats hafi verið ótvíræð, þ.e. að stefnda sé hæf til þess að fara með forsjá sona sinna. Stefnda kveðst telja að stefnanda hafi mátt vera það ljóst þegar matsgerð hins dómkvadda matsmanns lá fyrir að ekki væri tilefni til þess að halda forsjársviptingarkröfu stefnanda til streitu fyrir dómi. Stefnda kveðst telja að stefnandi hafi höfðað mál þetta sýnilega að þarflausu eða án neins tilefnis af hendi stefndu. Þessi háttsemi stefnanda sé verulega ámælisverð og ekki í samræmi við meginreglur barnaverndarstarfs, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem og óskráða meginreglu stjórnsýsluréttarins um meðalhóf. Stefnda kveðst telja sig hæfa til að fara með forsjá barna sinna og að öll gögn og upplýsingar sem stefnandi hafi lagt fram til stuðnings kröfum sínum um forsjársviptingu séu úrelt og til þess fallin að varpa rýrð á hæfni hennar og aðbúnað drengjanna. Það sé óumdeilt í málinu að stefnda sé reglusöm, neyti ekki vímuefna og hafi ekki gerst sek um vanrækslu eða ofbeldi í garð barna sinna. Þá kveðst stefnda telja að ekki hafi verið sýnt fram á með hliðsjón af matsgerð hins dómkvadda matsmanns að hún sé vanhæf til að fara með forsjá barnanna. Þvert á móti komi fram í matsgerðinni að stefnda hafi á tímabili ekki getað framfylgt forsjárskyldum sínum gagnvart eldri drengnum þar sem hún hafi verið þrotin að kröftum, en hún hafi þá haft frumkvæði að því að leita að viðeigandi úrræðum fyrir son sinn. Það sem gert hafi útslagið hafi verið gríðarlega mikill hegðunarvandi eldri drengsins á þeim tíma, sem hvorki foreldrar, skólayfirvöld né tilsjónaraðilar á heimilinu hafi ráðið við. Stefnda hafi verið nýkomin úr erfiðri sambúð, með ungt barn sem hafi oft verið veikt á umræddu tímabili. Þá hafi stefnda að mestu ein borið ábyrgð á báðum drengjunum með sáralítilli aðstoð frá feðrum þeirra. Í dag sé staðan önnur, en breytt lyfjagjöf eldri drengsins hafi skilað góðum árangri og hann sé nú í betra andlegu jafnvægi. Þá megi ráða af gögnum málsins að starfsendurhæfing stefndu hafi skilað góðum árangri, bæði líkamlega og andlega. Stefnda kveðst telja ljóst að í kjölfar ákvörðunar hennar um að leita aðstoðar fyrir sig og drengi sína hafi henni tekist með góðri hjálp að breyta til batnaðar þeim erfiðu aðstæðum sem þau hafi verið komin í. Þessi ákvörðun og sú vinna sem stefnda hafi innt af hendi beri vott um ást hennar og umhyggju fyrir hag drengja sinna og enn fremur vott um nauðsynlegt innsæi í þarfir drengjanna og aðstæður þeirra. Að lokum kveðst stefnda taka fram að hún beri hagsmuni drengjanna sinna fyrir brjósti í hvívetna. Hún sé reglusöm, dugleg og njóti góðs stuðnings fjölskyldu sinnar. Aðstæður hennar hafi farið batnandi síðastliðna mánuði og þurfi vart annað en að skoða niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns frá desember 2016 til að sjá breytingu til batnaðar. Þá beri skýrslur eftirlitsaðila barnaverndar og meðferðaraðila [...] augljós merki þess að stefnda hafi náð fyrri kröftum eftir erfitt tímabil. Aðila sem sé í framför í foreldrahlutverkinu eigi ekki að svipta forsjá barna sinna. Stefnda kveður málskostnaðarkröfuna byggjast á 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en stefndu hafi verið veitt gjafsókn í málinu með bréfi innanríkisráðuneytisins 5. október 2016. Málskostnaðarkrafan sé einnig byggð á a-lið 1. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sem heimili að dæma aðila til að greiða gagnaðila málskostnað óháð úrslitum máls, ef hann hefur höfðað mál að þarflausu eða án neins tilefnis af hendi gagnaðila. Að öðru leyti kveðst stefnda vísa til barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum 4. gr., 2. mgr. 29. gr., 1. mgr. 41. gr. og 60. gr. Þá vísi stefnda til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10. og 12. gr., auk óskráðrar meginreglu stjórnsýsluréttarins um meðalhóf. IV Í máli þessu krefst stefnandi þess að stefnda verði svipt forsjá tveggja barna sinna, þeirra C, sem verður 14 ára í [...] næstkomandi, og B, sem varð þriggja ára í [...] síðastliðnum. Byggir stefnandi kröfu sína á mati D sálfræðings, sem fenginn var af hálfu stefnanda til að leggja mat á forsjárhæfni stefndu, og gögnum frá fagaðilum sem komið hafa að málefnum stefndu og barna hennar í gegnum tíðina. Kveður stefnandi þessi gögn vera í samræmi við mat stefnanda um að stefndu skorti innsæi í þarfir barnanna og að persónulegir eiginleikar hennar séu þess eðlis að þeir komi í veg fyrir að hún geti tekið ábyrgð á velferð þeirra og þroska. Af gögnum málsins sé ljóst að synir stefndu hafi til langs tíma búið við alvarlega vanrækslu í umsjá stefndu og að líkamlegri og andlegri heilsu þeirra sé stefnt í hættu fari stefnda áfram með forsjá þeirra. Stefnda byggir sýknukröfu sína á matsgerð G sálfræðings, sem var dómkvödd sem matsmaður í málinu, en niðurstaða matsgerðarinnar sé sú að stefnda búi yfir nægilegu innsæi til að geta mætt þörfum sona sinna, auk þess sem hún sé aðaltilfinningagjafi þeirra. Fram komi í matsgerðinni að stefnda glími ekki við geðræn vandkvæði, sé tilfinningalega stöðug og takist á við daglegt líf án óþarfa áhyggna. Þá bendi matsmaður á að hún sé jákvæð og bjartsýn og með skýr markmið og viðhorf. Ekkert í þeim prófum sem lögð hafi verið fyrir stefndu bendi til þess að hana skorti innsæi eða að hún sé sjálfhverf. Með hliðsjón af framgreindu hafi stefnandi ekki sýnt fram á að skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í málinu. Þá byggir stefnda sýknukröfu sína á því að gögn málsins sýni að viðunandi árangur hafi náðst í málefnum hennar og barnanna með öðrum og vægari úrræðum sem stefnda hafi sjálf haft frumkvæði að að sækja og sinna, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002. Stefnda viðurkennir að hún hafi á tímabili ekki getað sinnt forsjárskyldum sínum gagnvart eldri drengnum vegna gríðarlegs hegðunarvanda hans. Um hafi verið að ræða tímabundin vandræði, vítahring sem nú hafi verið höggvið á, og hafi henni tekist með góðri hjálp að breyta til batnaðar þeim erfiðu aðstæðum sem hún og eldri drengurinn voru komin í. Í niðurstöðukafla matsgerðar hins dómkvadda matsmanns kemur fram í kafla um forsjárhæfni móður að á tímabili hafi stefnda ekki getað framfylgt forsjárskyldum sínum gagnvart eldri drengnum þar sem hún hafi verið þrotin að kröftum. Í fyrsta lagi hafi það verið vegna gríðarlegs hegðunarvanda drengins, sem hvorki foreldrar, skólayfirvöld né tilsjón á heimili hafi ráðið við. Þá hafi móðir verið nýkomin úr erfiðri sambúð með ungt barn sem oft hafi verið veikt og þá virtist sem lítil stoð hafi verið í feðrum beggja drengjanna. Í niðurstöðukaflanum segir einnig að stefnda hafi sýnt þrautseigju við umönnun eldri drengsins. Í ljósi þess flókna og og margvíslega vanda sem drengurinn hafi glímt við sé skiljanlegt að þrek móður hafi þorrið og hún gripið til örþrifaráða eins og fram komi í gögnum málsins. Einnig kemur fram að aðskilnaður móður og drengsins virtist hafa haft jákvæði áhrif og rofið neikvætt munstur sem komið hafi verið á samskipti þeirra. Þau hafi bæði náð betra jafnvægi og fullvissu um að vilja búa saman. Fram kemur í gögnum málsins að vandamál tengd vanlíðan og hegðun eldri sonar stefnanda komu fram talsvert áður en afskipti stefnanda af málefnum fjölskyldunnar hófust. Í læknabréfi H geðlæknis til stefnanda 14. nóvember 2014 kemur fram að C hafi verið skjólstæðingur hennar lengi. Hann sé með [...] og alvarlegan hegðunarvanda sem verði síst minni með árunum. Í vottorðinu segir að eftir því sem drengurinn verði eldri verði hegðunarvandinn alvarlegri og nú sé svo komið að foreldrar séu úrræðalausir varðandi það hvernig þau taki á vanda hans. Í greinargerð M, umsjónarkennara C, dagsettri 27. janúar 2016, kemur fram að drengurinn hafi átt erfitt uppdráttar í skólanum frá upphafi skólagöngu og hafi það ástand farið versnandi. Í greinargerðinni segir að umhirðu heima sé ábótavant og að drengurinn mæti oft með óboðlegan mat og sé illa hirtur. Hann fari sjaldan í bað og sé því illa lyktandi og í rifnum fötum. Einnig segir að drengurinn fái ekki heimanám þar sem því sé ekki sinnt. Hann komi oft seint í skólann og hafi misst talsvert úr skóla vegna veikinda og leyfa. Samskipti við heimili drengsins séu lítil, en þar sé ekkert gert til að hjálpa honum við hlutina. Samkvæmt vottorði N, sálfræðings á Heilsugæslunni [...], frá 13. október 2016 var hún með C í sálfræðiviðtölum á tímabilinu maí 2014 til ágúst 2015, en þangað hafi honum verið vísað af lækni vegna hegðunarvanda hans, þ. á m. vegna vanda sem tengdist því að drengurinn átti það til að missa hægðir í buxur. Í vottorðinu kemur fram að móðir drengsins hafi verið boðuð í viðtöl án drengsins til að vinna með hagnýta atferlisgreiningu vegna áðurnefnds vandamáls, en til að ná árangri með slíkri aðferð sé samvinna við foreldra afar mikilvæg. Móðir hafi hins vegar ekki fylgt eftir þeirri heimavinnu sem sálfræðingurinn lagði til milli viðtala. Þá kemur fram í vottorðinu að sálfræðingurinn hafi haft áhyggjur af uppeldisaðferðum móður, en í viðtali við drenginn hafi m.a. komið fram að móðir læsti drenginn inni í herbergi. Einnig hafi komið fram upplýsingar frá drengnum um samtöl hans við móður sem hafi á þeim tíma haft áhrif á líðan hans. Í vottorði O, félagsráðgjafa og verkefnisstjóra PMTO og SMT, frá 31. ágúst 2016 segir að stefnda hafi sótt PMTO/PTC-hópmeðferð hjá henni, og sálfræðingunum P og Q haustið 2014. Alls hafi verið um að ræða 14 skipti, tvær klukkustundir í senn með heimavinnu og handleiðslu á milli tíma. Stefnda hafi mætt í 10 skipti af 14 og tekið þátt í hópnum, en átt erfitt með að yfirfæra þau foreldraverkfæri sem unnið hafi verið með hverju sinni yfir á heimili sitt. Á sama tíma hafi hún fengið úrræðið „fjölskyldustuðninginn heim“ á vegum Fjölskylduþjónustunnar. Með þeim hætti hafi verið reynt að auka líkur á því að árangur næðist og að móðir fengi enn frekari stuðning til að innleiða PMTO-verkfærin á heimili sínu og mæta þannig þörfum drengsins enn frekar. Þrátt fyrir aukastuðning hafi hún ekki virst geta nýtt sér verkfærin sem skyldi. Í lok vottorðsins segir að stundum hafi stefnda átt erfitt með að taka þátt í hópnum þar sem hún hafði ekki náð tökum á verkfærum PMTO heima og því hafi hún ekki verið á sama stað í ferlinu og hinir foreldrarnir. Í vottorði R, sérfræðilæknis á göngudeild geðsviðs vegna [...]-teymis, dagsettu 8. júní 2016, kemur fram að stefnda og barnsfaðir hennar, E, hafi verið í viðtölum hjá S frá [...] til [...] 2014 á meðgöngu yngri drengs stefndu, en einnig hafi stefnda verið í lyfjameðferð og eftirliti hjá áðurgreindum lækni. Í vottorðinu kemur fram að stefnda hafi aðeins mætt í þriðjung skipulagðra viðtala og mætt stopult í lyfjaeftirlit. Hún hafi síðan hætt lyfjatöku án samráðs við lækninn. Um líðan stefndu segir í vottorðinu að stefnda hafi glímt við töluverðar sveiflur í líðan og óstöðugt geðslag. Hún hafi takmarkað innsæi gagnvart eigin líðan og annarra. Á sjálfsmatskvörðum hafi hún hins vegar mælst með góða líðan. Öll þunglyndis-, kvíða- og streitupróf hafi verið innan marka. Það sé hins vegar klínískt mat læknisins að líðan stefndu sé mun verri en sjálfsmatskvarðar gefi til kynna og að góð útkoma á prófum skýrist af því að stefnda hafi takmarkað innsæi í eigin líðan. Í vottorði S, félagsráðgjafa og fjölskyldumeðferðarfræðings, dagsettu 8. júní 2016, segir um áðurgreinda viðtalsmeðferð að stefnda hafi átt mjög erfitt með að setja sig í spor annarra og haft lítið innsæi í ástand drengsins og hvaða áhrif hinir miklu árekstrar á heimilinu hefðu á líðan allra. Lýsir S yfir áhyggjum sínum af aðstæðum yngri sonar stefndu, en mikil hætta sé á því að sagan endurtaki sig hvað hann varði, sérstaklega þegar hann verði meira krefjandi fyrir móður sína með auknum þroska og aldri. Stefnda sé með takmarkað innsæi í þarfir annarra og eigi mjög erfitt með að stjórna skapi sínu, en um sé að ræða persónuleikaþætti sem séu ekki heppilegir fyrir lítið barn. Í vottorði T sérfræðilæknis og U, sálfræðings á göngudeild barna- og unglingadeildar Landspítalans, dagsettu 12. september 2016, segir að móðir hafi verið dugleg að sækja hjálp fyrir C, en hún hafi átt í erfiðleikum með að sjá sinn þátt í erfiðleikum drengsins. Móðir upplifi líkamlegan sársauka vegna þess hversu miklar kröfur C geri til hennar. Þá séu vísbendingar um veikleika í tengslamyndun móður og C. Það er sammerkt umsögnum framangreindra fagaðila, sem allir hafa komið að málefnum stefndu og barna hennar á liðnum árum, að stefnda hafi takmarkað innsæi í eigin líðan og annarra, þ. á m. barna sinna. Hún eigi erfitt með að setja sig í spor annarra og stjórna skapi sínu og eigi í erfiðleikum með að sjá sinn þátt í erfiðleikum eldri drengsins. Þá setji hún börnin ekki í forgang og hafi ekki innsýn í þarfir þeirra. Einnig kemur skýrlega fram í gögnum málsins að stefnda hafi ekki getað tileinkað sér þær aðferðir og þau ráð sem henni hafi verið veitt við heimilishald og uppeldi barnanna. Hvað yngri drenginn varðar kemur fram í gögnum málsins að hann varð iðulega vitni að ágreiningi og líkamlegum átökum móður sinnar og bróður á heimilinu, sem lauk nokkrum sinnum með afskiptum lögreglu. Þá kemur fram í matsgerð D sálfræðings frá 30. maí 2016 að samkvæmt upplýsingum frá leikskóla drengsins, [...], hafi hann oft verið rauður á bleyjusvæði og hafi starfsmenn haft grun um að hann væri enn með næturbleyjuna þegar stefnda komi með hann á leikskólann á morgnana. Þá hafi aðbúnaður drengsins ekki verið nógu góður, en hann hafi verið í of stórum fötum og skóm, sem hafi hamlað hreyfiþroska hans. Jafnframt hafi stefnda sent drenginn veikan í leikskólann í nokkra daga og í kjölfarið hafi hann orðið mjög veikur, en þrátt fyrir það hafi stefnda komið með drenginn í leikskólann. Þá hafi starfsmenn leikskólans velt fyrir sér svefnmynstri drengsins, en hann hafi sofið allt upp í þrjár klukkustundir á daginn, en þrátt fyrir það hafi móðir tjáð þeim að hann sofnaði aftur þegar hann kæmi heim. Þá hafi hún nefnt að þau færu bæði að sofa um miðnætti. Loks er haft eftir starfsfólki leikskólans að B tengdist ekki öðrum börnum, en hann héldi sig til hlés og væri einrænn. Sömuleiðis virkaði hann hálf tómur og dofinn. Málþroski væri slakur miðað við aldur. Þá væru áhyggjur að aukast af drengnum því að hann næði ekki að fylgja hinum krökkunum. Í ljósi framangreindra gagna getur dómurinn ekki tekið undir með hinum dómkvadda matsmanni að vanræksla stefnanda við uppeldi og umönnun á börnunum hafi verið tímabundin vegna gríðarlegs álags sem hlotist hafi af hegðunarvanda eldri drengsins og erfiðum sambúðarslitum við barnsföður yngri drengsins, en ráða má af gögnum málsins að þau hafi átt sér stað í byrjun árs 2015. Þykja gögnin þvert á móti benda til þess að úrræðaleysi og vanræksla stefndu við uppeldi drengjanna, að undanskilinni sjúkraþjálfun yngri drengsins, hafi verið viðvarandi og til langs tíma að því er eldri drenginn varðar. Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu hefur stefnda réttlætt vanrækslu sína og átök við eldri drenginn með því að benda á hegðunarvanda hans og erfiðleika honum tengda, en hefur ekki séð sinn þátt í erfiðleikum hans. Hefur stefnda þannig gert barnið ábyrgt fyrir vanlíðan sinni og erfiðleikum fjölskyldunnar. Þessi viðhorf stefndu komu ekki einungis fram þegar eldri drengurinn bjó hjá henni, heldur einnig eftir að hann var kominn í fóstur. Í því sambandi má nefna það atvik er stefnda hringdi í drenginn í miklu tilfinningauppnámi á meðan hann var í fósturvistuninni og tjáði honum að barnavernd ætlaði að taka þá bræður af henni, en símtalið hafði mjög neikvæð áhrif á drenginn og í kjölfarið varð alger viðsnúningur á líðan hans og hegðun á fósturheimilinu, sem og frammistöðu hans í skóla, en áður hafði drengurinn á tiltölulega skömmum tíma sýnt miklar framfarir á öllum sviðum. Samkvæmt framlögðum gögnum snerti vanræksla stefndu alla grunnþætti í umönnun og uppeldi barnanna, þ.e. hvað varðar matar-, svefn- og þrifavenjur, en einnig að því er varðaði aðstoð við heimanám, að setja eldri drengnum mörk og halda uppi aga. Samkvæmt gögnum málsins hafa einnig komið fram vísbendingar um veikleika í tengslamyndun móður og eldri drengsins og að hann hafi verið tilfinningalega sveltur. Þá kemur fram í matsgerð D að tengsl stefndu og yngri drengsins virðist vera neikvæð að mörgu leyti, en hún sýni honum litla umhyggju og hann sé óöruggur og kvíðinn á heimili þegar móðir er ekki nálæg, en þó ekki á leikskólanum. Þá er ljóst af gögnum málsins að stefnda fékk mikla ráðgjöf og kennslu frá fagaðilum, sem og mikla aðstoð við heimilishald og uppeldi barnanna í langan tíma án þess að hún virðist hafa getað tileinkað sér þær aðferðir og ráð sem henni voru gefin. Samkvæmt framangreindu telur dómurinn að í mati hins dómkvadda matsmanns hafi ekki verið litið til þeirrar miklu og langvarandi vanrækslu sem átt hafði sér stað við uppeldi og umönnun barna stefndu og hversu viðamikillar og margvíslegrar aðstoðar og kennslu stefnda naut á vegum stefnanda án þess að þau úrræði hafi skilað árangri. Þá þykir umfjöllun hins dómkvadda matsmanns um persónulega eiginleika stefndu ekki samrýmast öðrum framlögðum gögnum, t.d. áðurgreindu vottorði R geðlæknis þar sem fram kemur að þrátt fyrir að á sjálfsmatskvörðum hafi stefnda mælst með góða líðan og öll þunglyndis- kvíða- og streitupróf hafi verið innan marka hafi það verið klínískt mat læknisins að líðan stefndu væri mun verri en sjálfsmatskvarðar gæfu til kynna. Góð útkoma á prófum skýrðist af því að stefnda hefði takmarkað innsæi í eigin líðan. Er þetta í samræmi við framburð D sálfræðings fyrir dóminum, en þar kom fram að mat á persónuleikavanda fólks væri byggt á skoðun og mati á hegðun viðkomandi og því sem fram kæmi í klínískum viðtölum, en ekki væri endilega litið til þess sem fram kæmi á sjálfsmatskvörðum þar sem þeir gætu hæglega gefið villandi svörun. Þá tiltekur hinn dómkvaddi matsmaður í matsgerð sinni að stefnda sé tilfinningalega stöðug og takist á við daglegt líf án óþarfa áhyggna. Enn fremur að hún sé jákvæð og bjartsýn. Þykir þetta vera í hróplegu ósamræmi við önnur gögn málsins, sem og framburð stefndu sjálfrar, en í skýrslu hennar fyrir dóminum kom fram að hún er á þunglyndislyfinu fluoxetine. Í gögnum málsins kemur og fram að stefnda hefur um nokkurt skeið tekið þunglyndislyf. Með hliðsjón af þeim ágöllum sem þykja vera á matsgerð hins dómkvadda matsmanns og raktir hafa verið hér að framan þykir matsgerðin hafa takmarkað vægi við mat á forsjárhæfni stefndu, , sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í málinu hefur verið lagt fram vottorð K sálfræðings, en [...], vísaði stefndu til hennar í sálfræðiviðtöl með beiðni um að unnið yrði með streitueinkenni, eflingu jákvæðrar/félagslegrar virkni og markasetningu. Í vottorðinu segir að stefnda hafi komið í 10 viðtöl á tímabilinu 10. febrúar til 11. maí 2016 og aftur 8. júlí til 11. ágúst 2016. Í vottorðinu segir að í viðtölunum hafi ekki annað komið fram en að stefndu væri umhugað um að leggja sig fram í foreldrahlutverkinu. Hún hafi rætt vanmátt sinn gagnvart tölvufíkn sonar síns og ýmsum uppsöfnuðum vanda á heimilinu, sem hún hafi tekist á við með aðstoð tilsjónarkonu frá barnavernd eftir að drengurinn var vistaður tímabundið utan heimilis. K kom fyrir dóminn og staðfesti framangreint vottorð sitt. Ljóst er að umsögn K byggist að mestu leyti á viðtölum við stefndu sjálfa og viðhorfum hennar til málsins, en ekki á sjálfstæðri könnun á málsatvikum. Þykir því ekki unnt að leggja umsögn K til grundvallar við mat á forsjárhæfni stefndu. Eins og fram hefur komið gerði D sálfræðingur sálfræðilegt mat á forsjárhæfni stefndu og við mat sitt leit hann m.a. til umsagna þeirra fagaðila sem komið hafa að málefnum stefndu í gegnum tíðina, þess mikla stuðnings sem stefnda hefur notið í langan tíma og þeirra miklu breytinga sem urðu á líðan og hegðun C eftir að honum var komið í fóstur. Var það niðurstaða hans að vegna innsæisleysis stefndu í þarfir barnanna og vanda sem sé að rekja til persónuleika hennar sé þroska og velferð beggja drengjanna ógnað með því að þeir alist upp í umsjá hennar. Er þetta mat á persónuleikavanda stefndu í samræmi við mat áðurgreindra fagaðila sem komið hafa að málefnum stefndu og barna hennar í gegnum tíðina. Fram kom í skýrslu D fyrir dóminum að þegar rætt væri um persónuleikavanda væri átt við langvarandi vanda, sem hamlaði fólki í daglegu lífi, og erfitt væri að hafa áhrif á eða breyta. Eins og áður hefur komið fram treystu fósturforeldrar C sér ekki til að framlengja samning um vistun hans í byrjun þessa árs vegna þeirra breytinga sem urðu á hegðun og líðan drengsins eftir áðurgreint símtal frá móður hans. Hefur drengurinn dvalið á heimili föður síns og fjölskyldu hans í [...] frá byrjun febrúar síðastliðins og gengið í [...]skóla. Í málinu hefur verið lagt fram svokallað útskriftarbréf barna- og unglingageðdeildar Landspítalans vegna C, dagsett 28. apríl 2017. Þar segir að staða drengsins sé góð með tilliti til andlegrar líðunar og hegðunar. Hann hafi þroskast mikið og sé glaðlyndur, orkumikill drengur. Ekki sé lengur talin þörf á aðkomu deildarinnar og teljist meðferð af hálfu deildarinnar lokið. Þá hefur verið lagt fram vottorð [...]skóla, dagsett 3. nóvember 2017. Þar segir að staða C í námi sé ekki góð. Hann eigi í erfiðleikum með lestur og að það hafi áhrif á annað nám. Heimavinnu sé ábótavant og vanti hann gjarnan námsgögn. Hann eigi erfitt með að einbeita sér, tali mikið og trufli gjarnan kennslustundir. Mæting í skólann sé góð og almenn umhirða í lagi. Samskipti við forsjáraðila hafi verið ágæt. Faðir C hafi komið í foreldraviðtal og hafi skólinn átt samskipti bæði við móður og föður varðandi hegðun, námsskipulag, utanumhald um námið og þegar hann komi ekki með bækur í skólann. Þessi samskipti hafi ekki skilað árangri að því leyti að C sé gjarnan bókalaus og án heimavinnu. Þá segir í vottorðinu að C sé ekki félagslega sterkur. Hann eigi fáa vini, en sé þó í einhverjum samskiptum við nokkra stráka í skólanum. Tilfinningalega virtist honum líða illa. Hann eigi erfitt með að halda utan um það sem hann er að gera og það pirri hann. Það sé stuttur í honum þráðurinn og hann sé viðkvæmur fyrir gagnrýni. Dómarar ræddu við C mánudaginn 6. nóvember síðastliðinn og gáfu honum kost á að tjá sig um málið, sbr. fyrirmæli í 2. mgr. 55. gr. barnverndarlaga nr. 80/2002. Í viðtalinu lýsti drengurinn einlægum vilja til að búa á heimili móður sinnar í [...] og ganga í [...]skóla, sem hann gekk í áður en hann var vistaður utan heimilis. Þá sagðist hann hafa hug á að taka aftur upp íþróttaiðkun í sínu gamla hverfi flytti hann aftur til móður sinnar, en hann kvaðst vera hættur að mæta á æfingar hjá [...] í [...]. Hann sagðist sakna móður sinnar og vina í [...] og helst vilja að hann og B bróðir hans byggju báðir hjá móður sinni. Hann sagði að það gengi sæmilega á heimili föður og stjúpmóður, en lýsti þó uppákomum varðandi heimanám og ásökunum um að hann stæði sig ekki í skólanum. Einnig greindi hann frá ákveðinni togstreitu á milli föður og stjúpmóður vegna veru hans á heimilinu. Hann lét nokkuð vel af sér í [...]skóla og kvaðst eiga þar vini. Fram hefur komið að á meðan synir stefndu voru vistaðir utan heimilis hefur stefnda byggt sig upp, lokið námi og er komin með fasta vinnu. Þá hefur að mestu tekist að greiða úr óreiðu á heimili hennar. Í ljósi þess hversu stálpaður C er orðinn og mótaður tilfinningalega, en hann verður 14 ára í [...], og með hliðsjón af eindregnum vilja hans til að flytja aftur til móður sinnar og í sitt gamla umhverfi í [...] þykir hagsmunum hans best borgið með því að lúta þeim vilja hans. Er þá sérstaklega horft til þess að sterkar vísbendingar hafi komið fram um að drengnum líði illa tilfinningalega. Með vísan til framangreindra breytinga á högum stefndu og þess sem að framan greinir um líðan drengsins telur dómurinn rétt að láta á það reyna að drengurinn lúti forsjá og umönnun móður sinar. Ljóst er að uppeldi drengsins er mjög krefjandi þar sem hann er illa staddur bæði náms- og félagslega, en einnig tilfinningalega. Telur dómurinn að stefnda kunni með miklum stuðningi, sbr. úrræði í 24. gr. barnaverndarlaga, að geta tekið ábyrgð á uppeldi hans og umönnun, en sýnt þykir að drengurinn þarfnast mikils aga og utanumhalds, hvort heldur er heima fyrir, í skólanum eða í íþrótta- og tómstundastarfi. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki hjá því komist að sýkna stefndu af þeirri kröfu stefnanda að hún verði svipt forsjá sonar síns C. Hvað varðar yngri drenginn, B, benda gögn málsins eindregið til þess að mikil og jákvæð breyting hafi orðið á líðan hans og þroska eftir að hann var vistaður hjá föður sínum. Í samantekt V, starfsmanns stefnanda, um fund hennar með starfsfólki á leikskóla B og föður hans hinn 8. september 2016 kemur fram að starfsfólk leikskólans hafi lýst því að á drengnum hefði orðið jákvæð breyting eftir að hann var vistaður hjá föður, en hann væri ekki eins flatur tilfinningalega og hann var áður. Þá kemur fram í vottorði X, tilsjónarkonu á heimili föður B og áður á heimili móður, dagsettu 9. september 2016, að B virtist rólegri eftir að hann var vistaður hjá föður og virtist una sér betur í leik og við það sem hann hefði fyrir stafni þá stundina. Drengurinn væri alltaf kátur og glaður og sækti mikið í föður sinn. Faðirinn virtist sinna honum vel og gæfi sér tíma til þess og sýndi honum þolinmæði. Heimilið væri hreint og snyrtilegt og B væri alltaf hreinn og vel til hafður. Samstarf við föður hefði verið til fyrirmyndar og hann hefði þegið aðstoð og leiðsögn. Loks hefur verið lagt fram vottorð frá leikskóla B, [...], dagsett 26. október 2017. Þar segir að B mæti á hverjum degi glaður og ánægður og virtist líða mjög vel. Hann væri að eflast félagslega og tengjast ákveðnum drengjum á deildinni. B væri orðinn mun opnari í samskiptum en áður, og tæki betur eftir því sem gerðist í umhverfinu og tæki einnig þátt í því sem þar ætti sér stað. Þar væri um miklar framfarir að ræða. Frábært væri hversu góðar framfarir væru í þroska B og honum færi óðum fram. Óskað hafi verið eftir aðstoð frá talmeinafræðingi, en drengurinn væri óskýr í tali, en hefði þó tekið hægum framförum. Í leikskólanum væri lögð áhersla á að vinna með málþroska hans, auka orðaforða og styrkja félagsþroskann. Hann væri með vinnumöppu, fengi einstaklingsþjálfun og faðir vinni verkefni með honum heima. Faðir hans taki virkan þátt, biðji um leiðsögn, ráð og verkefni heim. Einnig hafi komið fram hjá föður að hann lesi fyrir drenginn á kvöldin og að þeir syngi mikið saman. Öll samvinna við föður hafi verið til fyrirmyndar og síðastliðið skólaár hafi hann og starfsmenn fundað reglulega saman og verði því haldið áfram. Loks segir í vottorðinu að allur aðbúnaður hjá drengnum sé í lagi. Hann sé með þann fatnað sem hann þurfi á að halda og sé hreinn til fara. Hann hafi nokkrum sinnum verið lasinn, en hann fái af og til ljótan hósta og noti þá púst. Faðir hans hafi gefið honum góðan tíma til að jafna sig og sinni heilsufari hans vel. Samkvæmt gögnum málsins sýndi stefnda vanrækslu við umönnun sonar síns B og mætti ekki tilfinningalegum og líkamlegum þörfum hans. Ljóst þykir að drengurinn þarf á miklum stöðugleika og sértækum úrræðum að halda í framtíðinni. Í ljósi þess og af því sem að framan er rakið um persónulega eiginleika stefndu og í ljósi fyrri reynslu þykir sýnt að hún sé ekki fær um að sinna krefjandi forsjárskyldum gagnvart yngri syni sínum og bera ábyrgð á velferð hans og þroska samhliða því að veita eldri drengnum gríðarlegt aðhald og aðstoð á flestum sviðum. Brýna nauðsyn þykir bera til þess að skapa yngri syni stefndu til frambúðar það öryggi og þá umönnun sem hann þarf á að halda og á rétt á lögum samkvæmt, sbr. 1. og 2. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Eins og áður greinir er drengurinn nú vistaður hjá föður sínum þar sem honum líður vel og hefur tekið miklum framförum í þroska. Hefur faðir hans lýst því yfir að hann sé reiðubúinn til að taka ábyrgð á uppeldi sonar síns. Samkvæmt gögnum málsins hefur hann lagt sig fram við umönnun hans og sinnt drengnum af natni og þolinmæði. Ekki er ástæða til að draga í efa að bræðurnir tengjast tilfinningaböndum, en þó verður að hafa í huga að á þeim er 10 ára aldursmunur og munu þeir því eiga takmarkaða samleið á næstu árum. Af gögnum málsins er ljóst að önnur og vægari úrræði barnaverndarlaga höfðu verið reynd allt frá því að stefnandi hóf afskipti af málefnum stefndu og barna hennar á árinu 2014 án þess að þau hefðu skilað viðunandi árangri á meðan börnin voru í umsjón stefndu, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt því sem að framan er rakið og með hagsmuni barnsins B að leiðarljósi verður að fallast á það með stefnanda að uppfyllt séu skilyrði a- og d-liðar 29. gr. barnaverndarlaga til að svipta stefndu forsjá yngri drengsins. Verða dómkröfur stefnanda því teknar til greina að því er hann varðar. Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Stefndu var veitt gjafsókn til að taka til varna í málinu með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 5. október 2016. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Páls Bergþórssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 750.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Guðfinnu Eydal sálfræðingi og Helga Viborg sálfræðingi. Við uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Dómsorð: Stefnda, A, er svipt forsjá sonar síns B, kt. [...], en sýknuð af kröfum stefnanda, Hafnarfjarðarkaupstaðar, um að hún verði svipt forsjá sonar síns C, kt. [...]. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Páls Bergþórssonar hdl., 750.000 krónur.
Mál nr. 494/2017
Ráðningarsamningur Riftun Miski Vitni
K ehf. rifti ráðningarsamningi sínum við Ó, en hann starfaði sem bústjóri á hrossaræktarbúi K ehf. Hélt félagið því fram að Ó hefði brotið gegn samningnum með því að hafa haft milligöngu um og fjárhagslegan ávinning af sölu nánar tilgreindrar hryssu til eiganda K ehf. Höfðaði Ó í kjölfarið mál gegn K ehf. og krafðist bóta vegna vangoldinna launa, launatengdra réttinda og hlunninda. Þá krafðist hann einnig miskabóta vegna ávirðinga sem hann taldi að félagið hefði haft uppi í sinn garð. Með vísan til framburðar vitna fyrir dómnum, og þá einkum framburðar fyrri eiganda hryssunnar, taldi héraðsdómur sannað að Ó hefði brotið gróflega gegn samningsskyldum sínum gagnvart K ehf. og að fyrirvaralaus riftun ráðningarsamningsins hefði því verið réttlætanleg. Þá taldi dómurinn ósannað að K ehf. hefði valdið Ó miska með þeim hætti sem hann hélt fram. Var K ehf. því sýknað af kröfum Ó. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms með þeirri áréttingu að Ó hefði ekki leitt í ljós að umræddar ávirðingar hefðu verið settar fram gegn betri vitund eða að þær teldust ólögmæt meingerð í skilningi b. liðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir landsréttardómari.   Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. ágúst 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 7.643.543 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. janúar 2016 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður. Fyrir Hæstarétti reisir áfrýjandi málatilbúnað sinn á því að uppgjör við hann eftir ráðningarsamningi frá júní 2014 eigi að miða við uppsögn samningsins 19. október 2015. Samkvæmt því hafi sex mánaða uppsagnarfrestur miðað við mánaðamót runnið út í lok apríl 2016. Í samræmi við þetta hefur áfrýjandi fallið frá aðalkröfu sinni í héraði þar sem uppgjörið var miðað við riftun samningsins sem lýst var yfir með bréfi 9. desember 2015. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að stefnda hafi verið heimilt að rifta fyrrgreindum ráðningarsamningi við áfrýjanda. Af því leiðir að sýkna ber stefnda af kröfum áfrýjanda um bætur vegna launa, launatengdra gjalda, hlunninda og miska vegna riftunar á samningnum. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi krefst áfrýjandi miskabóta vegna ávirðinga í sinn garð í bréfi stefnda 29. apríl 2016. Í bréfinu var fundið að störfum áfrýjanda og framgöngu hans þegar hann gegndi starfi sínu sem bústjóri hrossaræktarbús stefnda að Kvistum í Rangárþingi ytra. Til þess er að líta að þessar ávirðingar voru settar fram eftir að stefndi hafði rift ráðningarsamningi sínum við áfrýjanda, en játa verður honum nokkurt svigrúm við að gæta hagsmuna sinna vegna þessara lögskipta í samskiptum aðila fyrir milligöngu lögmanna þeirra. Hefur áfrýjandi ekki leitt í ljós að þessar ávirðingar í sinn garð hafi verið settar fram gegn betri vitund eða teljist ólögmæt meingerð þannig að stefndi hafi fellt á sig skyldu til greiðslu miskabóta eftir b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt þessu og með vísan til forsendna héraðsdóms um þennan kröfulið verður einnig fallist á þá niðurstöðu að hafna honum. Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Eftir þessari niðurstöðu verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Ólafur Brynjar Ásgeirsson, greiði stefnda, Kvistum ehf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Suðurlands þriðjudaginn 9. maí 2017             Mál þetta, sem höfðað er með stefnu birtri 2. september 2016, en þingfest 7. sama mánaðar, var dómtekið 11. apríl sl.             Stefnandi er Ólafur Brynjar Ásgeirsson, kt. [...], til heimilis að Laugalandi, Rangárþingi ytra.             Stefndi er Kvistir ehf., kennitala [...], Kvistum, Rangárþingi ytra.             Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að stefnda verði gert að greiða stefnanda bætur vegna vangoldinna launa, vangoldinna launatengdra réttinda og hlunninda, auk miskabóta, samtals að fjárhæð 9.748.000 krónur ásamt dráttvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af kr. 433.440 frá 1. janúar 2016 til 1. febrúar 2016 og frá þeim degi af kr. 1.300.994 til 1. mars 2016 og frá þeim degi af kr. 3.779.005 til 1. apríl 2016 og frá þeim degi af kr. 4.757.016 til 1. maí 2016 og frá þeim degi af kr. 5.735.027 til 1. júní 2016 og frá þeim degi af kr. 6.713.038 til 1. júlí 2016 og frá þeim degi af kr. 9.688.866 til 1. ágúst 2016 og frá þeim degi af kr. 9.748.000 til greiðsludags.             Til vara gerir stefnandi þær dómkröfur að stefnda verið gert að greiða stefnanda bætur vegna vangoldinna launa, vangoldinna launatengdra réttinda og hlunninda, auk miskabóta, samtals að fjárhæð kr. 7.643.543 ásamt dráttvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af kr. 433.440 frá 1. janúar 2016 til 1. febrúar 2016 og frá þeim degi af kr. 1.300.994 til 1. mars 2016 og frá þeim degi af kr. 3.779.005 til 1. apríl 2016 og frá þeim degi af kr. 4.757.016 til 1. maí 2016 og frá þeim degi af kr. 5.735.027 til 1. júní 2016 og frá þeim degi af kr. 5.794.161 til 1. júlí 2016 og frá þeim degi af kr. 7.643.543 til greiðsludags. Þá er þess krafist að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól aðal- og varakröfu á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 1. janúar 2017, en síðan árlega.             Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins, sem beri vexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags. Einnig er krafist virðisaukaskatts á málskostnað.             Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi lækkunar stefnukrafna. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins eða eftir málskostnaðarreikningi.  Málavextir Helstu málavextir eru þeir að stefnandi réði sig sem bústjóra á hrossaræktarbú stefnda á bænum Kvistum í Rangárþingi ytra. Ráðningarsamningur aðila er ódagsettur en í viðauka við hann, dags. 2. maí 2015, kemur fram að ráðningarsamningur hafi verið gerður 6. júní 2014. Með áðurnefndum viðauka var þriðju grein samningsins um launakjör breytt. Ráðningarsamningurinn, sem er í níu greinum, fjallar um eftirfarandi þætti: Starfs- og ábyrgðarsvið bústjóra, ráðningartíma og uppsagnarfrest, launakjör, önnur starfskjör, orlof og fæðingarorlof, greiðslur launa í slysa- og veikindatilfellum, trúnað, önnur atriði og ágreining og varnarþing. Í 2. gr. kemur að samningurinn sé ótímabundinn með gildistíma frá og með 1. júní 2014. Í 1. gr. ráðningarsamningsins segir að bústjóri, þ.e. stefnandi, beri ábyrgð á daglegum rekstri búsins. Í 2. mgr. 1. gr. er kveðið á um að bústjóri skuli í starfi sínu fylgja stefnu og fyrirmælum Günther Weber, eiganda stefnda, varðandi rekstrarstefnu búsins.  Fyrir liggur að með bréfi stefnda til stefnanda, dags. 19. október 2015, sem móttekið var sama dag, sagði stefndi upp áðurnefndum ráðningarsamningi aðila ásamt viðauka. Í uppsagnarbréfi til stefnanda kemur fram að uppsögn miðist við 1. nóvember 2015 og samkvæmt sex mánaða uppsagnarfresti í ráðningarsamningi verði starfslok stefnanda 30. apríl 2016.  Í ráðningarsamningnum er ákvæði um að ef bústjóri þykir hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu í starfi eða hann brjóti að öðru leyti gegn ákvæðum samningsins geti stefndi rift ráðningarsamningnum fyrirvaralaust og án bóta. Undir rekstri málsins kom fram að stefnandi mætti á skrifstofu lögmanns stefnda þann 9. desember 2015 og var honum þá tilkynnt um riftun ráðningarsamningsins. Í bréfi stefnda til stefnanda, dags. 9. desember 2015, eru ástæður riftunar ráðningarsamningsins raktar og gerð grein fyrir þeim ákvæðum ráðningarsamningsins sem stefndi taldi að stefnandi hefði brotið gegn. Kemur fram í riftunarbréfinu að stefndi hafi fengið upplýsingar frá Eyrúnu Ýr Pálsdóttur, eiganda hryssunnar Dömu frá Pulu, um að stefnandi hafi haft milligöngu um og fjárhagslegan ávinning af viðskiptum tengdum kaupum eiganda stefnda, Günther Weber, á hryssunni í september 2015. Segir í riftunarbréfinu að um þetta hafi stefnandi ekki upplýst nefndan Günther og með því hafi stefnandi brotið gróflega gegn starfsskyldum sínum samkvæmt nánar tilgreindum ákvæðum ráðningarsamningsins.  Varðandi atvik að baki viðskiptum með hryssuna Dömu frá Pulu vísar stefndi til upplýsinga frá Eyrúnu, heimildarmanni sínum, þ.e. um sölu Eyrúnar á Dömu til Kvíarhóls ehf., á 6.000.000 króna auk virðisaukaskatts, og sölu Kvíarhóls ehf., á Dömu til eiganda stefnda, Günther Weber, á 9.000.000 króna. Samkvæmt heimildum stefnda hafi stefnandi og forsvarsmaður Kvíarhóls ehf., Viðar Ingólfsson, skipt með sér mismun þess kaupverðs sem Kvíarhóll ehf., greiddi fyrir hryssuna og söluverði hryssunnar til eiganda stefnda, Günther Weber, þannig að 1.500.000 krónur hafi komið í hlut stefnanda og sama fjárhæð í hlut forsvarsmanns Kvíarhóls, Viðars Ingólfssonar.  Þessu hafnaði stefnandi og vísaði til yfirlýsingar Viðars Ingólfssonar um að stefnandi hafi ekki átt fjárhagslegra hagsmuna að gæta í framangreindum viðskiptum. Í málavaxtalýsingu í stefnu kemur fram að stefnandi hafi á engan hátt komið að viðskiptum með hryssuna Dömu nema sem fulltrúi Günther Weber, sem hafi óskað eftir því að stefnandi myndi leita eftir góðum keppnishrossum fyrir hönd Günther. Gögn málsins bera með sér að stefnandi hafi árangurslaust leitað sátta við stefnda varðandi uppgjör og starfslok í kjölfar riftunarinnar. Málsástæður og lagarök stefnanda Aðalkrafa                 Stefnandi byggir á því að stefndi hafi með ólöglegum, saknæmum og tilefnislausum hætti rift ráðningar- og viðaukasamningi við stefnanda og beri því að bæta stefnanda það tjón sem hann hafi orðið fyrir við að njóta ekki þeirra launakjara og hlunninda í sex mánaða uppsagnarfresti eins og fyrir hafi verið mælt um við lögmæta uppsögn ráðningarsamnings aðila.  Byggir stefnandi á því að með hinni ólögmætu og tilefnislausu riftun hafi stefndi fallið frá fyrri uppsögn á ráðningarsamningi aðila, þ.e. uppsögn þar sem miðað hafi verið við starfslok þann 30. apríl 2016, og beri stefnda því samkvæmt aðalkröfu stefnanda að bæta honum missi launa, launatengdra greiðslna og hlunninda frá 9. desember 2015 til 30. júní 2016. Vísar stefnandi til þess að lagt sé til grundvallar að stefnandi hafi átt rétt til sex mánaða uppsagnarfrests samkvæmt 2. gr. ráðningarsamningsins miðað við að uppsögn skyldi vera bundin við mánaðarmót, 1. janúar 2016.                 Stefnandi sundurliðar höfuðstól aðalkröfu sinnar í 15 töluliðum. Töluliðir 1-7 taki til vangoldinna launa, lífeyrissjóðsframlags, sjóðagjalda og gjalda til stéttarfélags. Töluliður 8 til vangoldinnar desemberuppbótar og orlofsuppbótar og töluliður 9 til vangreidds orlofs á laun. Töluliðir 10-13 taka til vangoldinna hlunninda og töluliðir 14-15 til bóta vegna miska. Kröfugerð stefnanda, kröfuliðir 1-7. 1.       Krafa um vangreidd laun vegna tímabilsins 9. til 31. desember 2015, kr. 433.440, krafa um lífeyrarsjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun í desember 2015, kr. 34.675, krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 6.718, eða samtals kr. 474.833. 2.       Krafa um vangreidd laun vegna janúar 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun í janúar 2016, kr. 49.536, og krafa um 1,55% sjóðagjöld af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334. 3.       Krafa um vangreidd laun í febrúar 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun vegna febrúar 2016, kr. 49.536, og krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334. 4.       Krafa um vangreidd laun í mars 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun vegna mars 2016, kr. 49.536, og krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334. 5.       Krafa um vangreidd laun í apríl 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun vegna apríl 2016, kr. 49.536, og krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334. 6.       Krafa um vangreidd laun í maí 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun vegna maí 2016, kr. 49.536, og krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334. 7.       Krafa um vangreidd laun í júní 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun vegna júní 2016, kr. 49.536, og krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334. Stefnandi kveður aðalkröfu sína taka mið af því að mánaðarlaun hans hjá stefnda samkvæmt ráðningarsamningnum hafi verið 619.200 krónur. Þá hafi honum borið réttur til orlofs sem nemur 24 virkum orlofsdögum á hverju heilu orlofsári. Stefnda hafi borið samkvæmt 3. grein ráðningarsamnings að greiða 8% í mótframlag af vangoldnum launum í lífeyrissjóð, þ.e. Lífeyrissjóð verslunarmanna. Einnig hafi stefnda borið að greiða af vangoldnum heildarlaunum til Verslunarmannafélags Reykjavíkur 1% í sjúkrasjóð, 0,25 % í orlofsheimilasjóð og 0,30% í starfsmenntasjóðs. Í aðalkröfu sé miðað við að laun hafi fallið í gjalddaga fyrsta dag næsta mánaðar eftir þann mánuð sem laun skuli greidd og sé krafist dráttarvaxta á vangoldin laun frá þeim tíma. Greiðslur í lífeyrissjóði og sjóði stéttarfélags hafi fallið í gjalddaga fyrsta dag þess mánaðar sem sé einum mánuði eftir þann mánuð sem sjóðagjald skuli greitt og sé dráttarvaxta krafist frá þeim tíma. Þá sé krafist dráttarvaxta á orlof frá 1. júlí 2016. Kröfugerð stefnanda, kröfuliðir 8-9. 8.       Krafa um desemberuppbót á vangreidd laun frá 9. desember 2015 til 30. júní 2016, kr. 49.200, og krafa um orlofsuppbót á vangreidd laun vegna sama tímabils kr. 26.700, eða samtals 75.900. 9.       Krafa um orlof á vangreidd laun frá 9. desember 2015 til 30. júní 2016, kr. 421.917.  Stefnandi vísar til þess að samkvæmt ráðningarsamningi beri honum réttur til orlofsuppbótar sem hafi numið kr. 44.500 fyrir árið 2016 miðað við fullt starf og skyldi það greitt 1. júní 2016. Einnig beri stefnanda réttur til desemberuppbótar sem samkvæmt kjarasamningi VR sé kr. 82.000 fyrir árið 2016, en áunna desemberuppbót skuli gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrr. Þá sé krafist dráttvaxta á orlofs- og desemberuppbót frá og með 1. júlí 2016 til greiðsludags. Kröfugerð stefnanda, kröfuliðir 10-13. 10.    Krafa um vangoldin húsnæðishlunnindi og vangoldin hlunnindi vegna vatns- og rafmagnsnotkunar í íbúðarhúsi frá 18. janúar 2016 til 30. júní 2016, kr. 52.284 vegna janúar 2016, en kr. 124.677 fyrir hvern mánuð á tímabilinu 1. febrúar til 30. júní 2016, eða samtals kr. 675.669. 11.    Krafa um vangoldin bifreiðahlunnindi fyrir tímabilið 1. janúar 2016 til 30. júní 2016, kr. 40.000 fyrir hvern mánuð, eða samtals kr. 240.000. 12.    Krafa um vangoldin hlunnindi vegna tölvutengingar í íbúðarhúsi og vegna síma kr. 35.000 á mánuði frá og með 18. janúar 2016 kr. 14.677, vegna janúar en kr. 35.000 fyrir mánuðina febrúar til júní eða samtals kr. 189.677 13.    Krafa um vangoldin hlunnindi vegna aðstöðu og fóðrun fimm hrossa í eigu stefnanda og fjölskyldu hans kr. 100.000 á mánuði frá 1. janúar til 30. júní 2016, eða samtals kr. 600.000. Stefnandi kveður hluta af starfskjörum sínum samkvæmt ráðningarsamningnum hafa lotið að endurgjaldslausum afnotum hans og fjölskyldunnar af um 133,7 fermetra íbúðarhúsi á jörðinni Kvistum. Þó svo þess sé ekki getið í hinum skriflega ráðningarsamningi hafi eigandi stefnda, Günther Weber, afhent stefnanda húsnæðið í upphafi ráðningatímans. Umrætt húsnæði hafi stefnandi rýmt þann 18. janúar 2016 eftir að hafa gert leigusamning um húsnæði á Laugalandi. Í þeim samningi hafi leiga á mánuði verið 124.677 krónur, þ.e. greiðsla fyrir leiguafnot 117.677 krónur, en krónur 7.000 greiðslur vegna notkunar á heitu vatni, rafmagni og hússjóði. Stefnandi byggi á að hann hafi átt rétt á að nýta íbúðarhúsnæðið, þ.m.t. rekstrarkostnaðar vegna hita og rafmagns, á Kvistum endurgjaldslaust til 30. júní 2016.   Stefnandi vísar til ráðningarsamnings og sérstaks samnings við Günther Weber um rétt stefnanda til einkanota utan vinnutíma af bifreiðinni UL-Y66, en bifreiðina hafi stefndi tekið úr vörslu stefnanda 9. desember 2015. Því sé krafist bifreiðahlunninda frá þeim degi til loka júní 2016. Um sé að ræða bifreið af gerðinni Toyota Land Cruiser 2000 árgerð 2008. Einkanot stefnanda hafi verið 364 km á mánuði og að andvirði 40.000 króna á mánuði í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra.  Stefndi hafi látið stefnanda í té farsíma til endurgjaldslausra afnota og staðið straum af aðgangi að tölvunettengingu á heimili stefnanda. Þessum hlunnindum hafi stefndi svipt stefnanda með ólögmætum og tilefnislausum hætti. Vegna missis þeirra sé gerð krafa um greiðslu 35.000 króna fyrir hvern mánuð frá 18. janúar til 30. júní 2016.                   Varðandi vangoldin hlunnindi vegna aðstöðu og fóðrun fimm hrossa í eigu stefnanda og fjölskyldu hans vísar stefnandi til 1. gr. ráðningarsamningsins, og þess að stefnandi hafi verið sviptur framangreindu með ólögmætum hætti í desember 2015. Gerð sé krafa um 100.000 krónur á mánuði vegna þessara hlunninda frá 1. desember 2015 til 30. júní 2016, en stefnandi hafi flutt hrossin frá Kvistum fyrir janúarmánuð 2016.                  Gjalddagi framangreindra hlunninda sé miðaður við fyrsta dag þess mánaðar á eftir þeim mánuði sem hlunnindin séu reiknuð vegna og krafist dráttarvaxta frá þeim tíma til greiðsludags. Kröfugerð stefnanda, kröfuliðir 14-15. 14.    Krafa um miskabætur vegna meiðandi og tilhæfulausra ummæla stefnda í riftunarbréfi að fjárhæð 1.500.000 krónur. 15.    Krafa um miskabætur vegna meiðandi og tilhæfulausra ávirðinga stefnda í bréfi hans, dags. 29. apríl 2016,  1.500.000 krónur.                    Varðandi kröfu um miskabætur vegna meiðandi ummæla í riftunarbréfi vísar stefnandi, sem kveðst hafa getið sér gott orð sem ábyrgur og reglusamur bústjóri á hrossaræktarbúum, til þess að með ósönnum hætti og tilhæfulausum fullyrðingum hafi hann verið sakaður um hafa haft milligöngu og fjárhagslegan ávinning af sölu á hryssunni Dömu. Hafi uppsagnarbréfið spurst út og verið umtalað meðal hestamanna og hafi uppsögnin út á við borið þess merki að stefnandi hafi gerst sekur um slíkt alvarlegt brot á ráðningarsamningi að það hafi réttlætt fyrirvaralausa brottvikningu af vinnustað. Með því hafi rýrð verið kastað á starfsheiður stefnanda og dregið úr starfsmöguleikum hans í framtíðinni. Varðandi kröfu um miskabætur vegna ólögmætra, saknæmra og tilhæfulausra fullyrðinga stefnda í bréfi hans til stefnanda, dags. 29. apríl 2016, vísar stefnandi til þess að þar hafi stefndi haldið því ranglega fram að stefnandi hafi sýnt af sér aðgæsluleysi og vanrækslu við umhirðu og eftirlit með stóðhryssum, sem hafi m.a. leitt til hvarfs tiltekins folalds haustið 2014. Þá hafi stefnandi þjálfað hross á búinu án heimildar auk fleiri tilvika sem fram koma í framangreindu bréfi stefnda. Umræddar ávirðingar, sem hafi verið settar fram fimm mánuðum eftir hina ólögmætu uppsögn, hafi ekki áður komið fram. Þessar alvarlegu og tilhæfulausu ávirðingar hafi einnig spurst út, verið umtalaðar meðal hestamanna og hafi þær einnig verið til þess fallnar að kasta rýrð á starfsheiður stefnanda og draga úr starfsmöguleikum hans í framtíðinni.                 Vísar stefnandi til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 miskabótakröfum sínum til stuðnings. Varðandi miskabótakröfu í 14. tölulið kröfugerðar er krafist dráttarvaxta frá 1. mars 2016 til greiðsludags og vísað til þess að miskabóta hafi verið krafist í bréfi til stefnda í febrúar 2016. Varðandi miskabótakröfu í 15. tölulið kröfugerðar er krafist dráttarvaxta frá 1. júlí 2016.                 Stefnandi vísar til þess að hann hafi ekki unnið hjá öðrum atvinnurekanda né reiknað sér laun í sjálfstæðum rekstri frá 9. desember 2015 til 30. júní 2016 og því verið án launa á framangreindum tíma. Þá hafi hann hvorki þegið atvinnuleysisbætur né aðrar bætur á umræddum tímabili sem eðlilegt geti talist að draga ætti frá fjárkröfum hans á hendur stefnda. Varakrafa                 Stefnandi byggir varakröfu sína á sömu málsástæðum og lagarökum og varðandi aðalkröfu að öðru leyti en því að ef dómurinn telji að uppsögn stefnda á ráðningarsamningnum með sex mánaða fyrirvara, m.v. starfslok 30. apríl 2016, haldi gildi sínu þrátt fyrir hina ólögmætu riftun frá 9. desember 2015, séu gerðar kröfur um að stefndi bæti stefnanda vangoldin laun, launatengd réttindi og vangoldin hlunnindi vegna tímabilsins 9. desember 2015 til 30. apríl 2016 og greiði stefnanda miskabætur með sama hætti og krafist sé í aðalkröfu.                 Varakröfu sína sundurliðar stefnandi þannig: Krafa um vangreidd laun vegna tímabilsins 9. til 31. desember 2015, kr. 433.440, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun í desember 2015, kr. 34.675, krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 6.718, eða samtals kr. 474.833. Krafa um vangreidd laun vegna janúar 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun í janúar 2016, kr. 49.536, og krafa um 1,55% sjóðagjöld af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334. Krafa um vangreidd laun í febrúar 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun vegna febrúar 2016, kr. 49.536, og krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334. Krafa um vangreidd laun í mars 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun vegna mars 2016, kr. 49.536, og krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334. Krafa um vangreidd laun í apríl 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun vegna apríl 2016, kr. 49.536, og krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334. Krafa um desemberuppbót á vangreidd laun frá 9. desember 2015 til 30. apríl 2016, kr. 34.622, og krafa um orlofsuppbót á vangreidd laun vegna sama tímabils kr. 18.789, eða samtals kr. 53.411. Krafa um orlof á vangreidd laun frá 9. desember 2015 til 30. apríl 2016, kr. 295.971. Krafa um vangoldin húsnæðishlunnindi og vangoldin hlunnindi vegna vatns- og rafmagnsnotkunar í íbúðarhúsi frá 18. janúar 2016 til 30. apríl 2016, kr. 52.284 vegna janúar 2016, en kr. 124.677 fyrir hvern mánuð á tímabilinu 1. febrúar til 30. apríl 2016, eða samtals kr. 426.315. Krafa um vangoldin bifreiðahlunnindi fyrir tímabilið 1. janúar til 30. apríl 2016, kr. 40.000 fyrir hvern mánuð, eða samtals kr. 160.000. Krafa um vangoldin hlunnindi vegna tölvutengingar í íbúðarhúsi og vegna síma kr. 35.000 á mánuði frá og með 18. janúar 2016 kr. 14.677, vegna janúar en kr. 35.000 fyrir mánuðina febrúar til apríl eða samtals kr. 119.677. Krafa um vangoldin hlunnindi vegna aðstöðu og fóðrun fimm hrossa í eigu stefnanda og fjölskyldu hans kr. 100.000 á mánuði frá 1. janúar 2016 til 30. apríl 2016, eða samtals kr. 400.000. Krafa um miskabætur vegna meiðandi og tilhæfulausra ummæla stefndu í riftunarbréfi að fjárhæð 1.500.000 krónur. Krafa um miskabætur vegna meiðandi og tilhæfulausra ávirðinga stefndu í bréfi hans, dags. 29. apríl 2016, 1.500.000 krónur. Í varakröfu er krafist dráttarvaxta með sama hætti og í aðalkröfu í öllum kröfuliðum. Eins og í aðalkröfu vísar stefnandi til þess að hann hafi hvorki þegið laun hjá öðrum atvinnurekanda eða vegna eigin rekstrar né bóta á tímabilinu 9. desember 2015 til 30. júní 2016. Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttar-, vinnuréttar- og samningaréttar um greiðslu skuldbindinga og um skuldbindingagildi samninga. Vísað er til laga um orlof nr. 30/1987, laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfssemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 og skaðabótalaga nr. 50/1993. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við ákvæði II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og kröfur um málskostnað er vísað til 129. og 130 gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá er krafist greiðslu virðisaukaskatts á málskostnað.  Málsástæður og lagarök stefnda Aðalkrafa stefnda um sýknu. Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum skaðabótakröfum stefnanda í máli þessu, þ.m.t. miskabótakröfum. Byggir stefndi sýknukröfu sína á 7. mgr. 1. gr. ráðningarsamnings aðila þar sem kveðið sé á um að bústjóra sé óheimilt að starfa hjá öðrum vinnuveitanda eða að öðrum launuðum verkefnum nema með skriflegu samþykki eiganda. Jafnframt sé í áðurnefndum ákvæðum samningsins kveðið á um að stefnanda sé óheimilt að vera beint eða óbeint þátttakandi í annarri starfsemi, eða hafa fjárhagslegra hagsmuna að gæta gagnvart aðilum sem séu í samkeppni við búið nema með sérstöku skriflegu samþykki eiganda. Þá vísar stefndi til 3. mgr. 2. gr. ráðningarsamningsins þar sem kveðið sé á um að ef bústjóri þykir hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu í starfi hvað varðar starfsskyldur sínar og ábyrgðarsvið eða hann brjóti að öðru leyti gegn ákvæðum samningsins, geti búið, þ.e. stefndi, rift ráðningarsamningnum fyrirvaralaust og án bóta.                 Vísar stefndi til þess að með því að stefnandi hafi haft milligöngu um sölu á hrossi til eiganda stefnda, Günther Weber, og haft fjárhagslegan ávinning eða hagsmuni af þeirri sölu hafi stefnandi brotið þannig gegn ákvæðum ráðningarsamnings hans við stefnda að réttlæti fyrirvaralausa riftun samningsins án bóta. Ráðningarsamningur stefnda við stefnanda hafi verið skýr og afdráttarlaus hvað varðar brot á samningsskyldum stefnanda sem bústjóra. Í því sambandi skipti ekki máli þó greiðslur milli stefnanda og viðskiptafélaga hans, Viðars Ingólfssonar, hafi hugsanlega ekki verið inntar af hendi í kjölfar riftunar stefnda á ráðningarsamningnum.                 Vísar stefndi til þess að Eyrún Ýr Pálsdóttir, eigandi hryssunnar Dömu, hafi fengið fréttir af réttu söluverði hryssunnar og aðkomu stefnanda að sölunni áður en hún hafi farið á fund með áðurnefndum Viðari. Sé því ljóst að síðari staðhæfingar Viðars um að hann hafi logið að Eyrúnu til að „fela“ álagningu Kvíarhóls ehf., á kaupverði hryssunnar standist ekki. Breyting og síðari tíma skýringar Viðars á þeim upplýsingum sem hann hafi veitt Eyrúnu séu ótrúverðugar og beri að skoða í ljósi vinskapar Viðars við stefnanda og þeirra afleiðinga sem framganga þeirra hafði haft fyrir stefnanda. Samkvæmt þessu beri að leggja til grundvallar að stefnandi hafi brotið gegn ákvæðum ráðningarsamnings við stefnda á þann hátt að það hafi réttlætt fyrirvaralausa riftun samningsins. Með vísan til alls þessa beri að sýkna stefnda af öllum skaðabótakröfum stefnanda í málinum er byggja á meintri ólögmætri riftun ráðningarsamnings við hann, þ.m.t. miskabótakröfu vegna hinnar meintu ólögmætu riftunar.                 Varðandi kröfu stefnanda um miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta vegna ólögmætra, saknæmra og tilhæfulausra fullyrðinga í bréfi stefnda til stefnanda, dags. 29. apríl 2016, sem stefnandi telji fela í sér brot gegn 26. gr. laga nr. 50/1993, vísar stefndi til þess að í bréfinu hafi hann gert athugasemdir við verklag stefnanda við framkvæmd starfa í þágu stefnda á grundvelli samningssambands aðila. Stefndi hafi ekki gert efni bréfsins opinbert né þau efnisatriði sem komið hafi fram í bréfinu. Staðhæfingar stefnanda um að efni bréfsins hafi spurst út og þar með kastað rýrð á starfsheiður stefnanda verði alfarið rakið til stefnanda sjálfs. Beri gögn málsins með sér að stefnandi hafi farið víða um sveitir og safnað saman vitnisburði einstaklinga til að hrekja það sem fjallað hafi verið um í bréfi stefnda. Framganga stefnanda sjálfs geti ekki verið grundvöllur miskabótakröfu á hendur stefnda vegna framangreindra athugasemda sem settar hafi verið fram í bréfi milli aðila. Engu breyti þó svo umrætt bréf hafi verið sent lögmanni stefnanda og vísar stefndi í því sambandi til hlutverks og skyldna lögmanna skv. lögum um lögmenn nr. 77/1998. Varakrafa stefnda um lækkun stefnukrafna. Kröfugerð stefnanda, kröfuliðir nr. 1-7.                 Stefndi vísar í fyrsta lagi til þess að deila um heimild til riftunar ráðningarsamnings aðila breyti á engan hátt því réttarástandi sem legið hafi fyrir eftir uppsögn stefnda á umræddum samningi með bréfi dags. 19. október 2015. Stefnandi öðlist ekki víðtækari rétt gagnvart stefnda en hann hafi átt fyrir riftun samnings, komi til þess að margnefnd riftun verði metin ólögmæt og bótaskyld. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda um bætur vegna missi launa og annarra greiðslna fyrir mánuðina maí til júní 2016, samtals að fjárhæð 1.356.668 krónur samkvæmt 6. og 7. kröfulið í stefnu.                 Í öðru lagi vísar stefndi til þess að greiðslur stefnda í sjúkrasjóð, orlofsheimilasjóð og starfsmenntasjóð Verslunarmannafélags Reykjavíkur hafi ekki verið hluti ráðningarkjara stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi, en greiðslur stefnda í tilgreinda sjóði hafi fyrir riftun samningsins verið inntar af hendi fyrir mistök og umfram skyldu, enda sé í 3. gr. samnings aðila beinlínis tekið fram að ekki sé um önnur laun eða fríðindi að ræða en þau sem sérstaklega hafi verið samið um. Þá hafi kjarasamningur VR ekki gilt um ráðningarsamband aðila né sé stefndi aðili að samtökum atvinnurekenda. Einnig vísar stefndi til þess að greiðslur vinnuveitenda í umrædda sjóði séu ekki lagaskylda heldur háð samningi milli vinnuveitenda og launþega hverju sinni, mismunandi eftir starfsstéttum, sbr. 6. gr. laga nr. 55/1980. Loks vísar stefnandi til þess að stefnandi eigi ekki aðild að kröfum um greiðslur í umrædda eða hliðstæða sjóði heldur sjóðirnir sjálfir og leiði því aðildarskortur til sýknu. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda um bætur vegna greiðslna í áðurnefnda sjóði er samsvari 1,55% af launum hverju sinni, samtals að fjárhæð 64.306 krónur, sbr. 1. til 7. kröfulið í stefnu. Kröfugerð stefnanda, kröfuliðir nr. 8-9.                 Varðandi kröfu stefnanda um bætur vegna orlofs- og desemberuppbótar samkvæmt kjarasamningi VR byggir stefndi á sömu málsástæðum og að framan eru raktar varðandi greiðslur í sjóði VR. Beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda að þessu leyti, þ.e. að fjárhæð 75.900 krónur samkvæmt 8. tölulið kröfugerðar í stefnu.                  Varðandi bætur vegna orlofs á vangreidd laun frá 9. desember 2015 til 20. júní 2016, vísar stefndi til þess að krafan taki mið af fjárhæð skaðabóta vegna meintra vangreiddra launa. Lækka beri kröfu þessa samkvæmt 9. kröfulið í stefnu til samræmis við dæmdar bætur vegna launa. Kröfugerð stefnanda, kröfuliðir 10-13.                 Varðandi kröfu um bætur vegna meintra endurgjaldslausra afnota stefnanda og fjölskyldu hans af íbúðarhúsi vísar stefndi í fyrsta lagi til þess að stefndi hafi ekki samið við stefnanda um þau, enda sé stefndi hvorki eigandi húsnæðisins né hafi yfirráð þess. Þá sé umræddra afnota hvorki getið í ráðningarsamningi aðila né viðauka við hann. Í öðru lagi sé krafan ekki studd viðhlítandi gögnum. Leigusamningur um stærra húsnæði á öðrum stað fullnægi ekki kröfum um sönnun fyrir fjárhæð hins meinta tjóns. Því beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda að fjárhæð 675.669 krónur samkvæmt 10. tölulið kröfugerðar í stefnu.                 Varðandi bætur vegna meintra endurgjaldslausra einkanota stefnanda af bifreiðinni UL-Y66 vísar stefndi í fyrsta lagi til þess framangreind afnot hafi ekki verið hluti ráðningarkjara stefnanda hjá stefnda. Þá sé umræddra afnota hvorki getið í ráðningarsamningi aðila né viðauka við hann. Umrædd bifreið sé vinnutæki við búrekstur og til afnota fyrir bústjóra stefnda í starfi. Í öðru lagi vísar stefndi til þess að stefnandi hafi ekki greitt hlunnindaskatt af hinum meintu einkanotum af bifreið stefnda. Í þriðja lagi sé fjárhæð kröfunnar hvorki studd gögnum né rökstudd sú staðhæfing að einkanot stefnanda hafi verið 364 km á mánuði. Í fjórða lagi geti stefnandi ekki byggt skaðabótakröfu gegn stefnda að þessu leyti á meintum sérstökum samningi við þriðja aðila. Loks liggi fyrir að á ráðningartímanum hafi stefnandi sjálfur átt bifreið sem hafi verið á staðnum til einkanota. Samkvæmt þessu beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda að fjárhæð 240.000 krónur samkvæmt 11. tölulið kröfugerðar í stefnu. Auk þessir byggir stefndi á því að framangreind krafa stefnanda geti ekki tekið til maí og júní 2016 þar sem ráðningartíma hans hjá stefnda hefði ávallt lokið 30. apríl 2016 á grundvelli uppsagnar og deilna um réttmæti riftunar samnings aðila veiti stefnanda ekki víðtækari rétt til hlunninda en hann ætti hefði ekki komið til riftunar samningsins. Krafa um bætur vegna umræddra bifreiðarhlunninda fyrir maí og júní, 80.000 krónur, teljist því ekki lögvarin krafa. Varðandi bætur vegna farsíma og tölvunettengingar vísar stefndi í fyrsta lagi til þess að hún sé ekki studd gögnum eða rökstudd af hálfu stefnanda. Í öðru lagi sé krafan margfalt hærri en símafélög bjóða fyrir slíka þjónustu. Beri því að sýkna stefnda af kröfu um bætur að fjárhæð 189.677 samkvæmt 12. tölulið í kröfugerðar í stefnu. Vegna kröfu stefnanda um bætur vegna missis hagabeitar og fóðurs fyrir fimm hross á tímabilinu frá 1. desember 2015 til 30. júní 2016 vísar stefndi í fyrsta lagi til þess að krafan sé engum gögnum studd né rökstudd á annan hátt. Í öðru lagi liggi fyrir að heimild stefnanda til að hafa fimm hross í hagabeit og á fóðrum hjá stefnda hafi verið með þeim ófrávíkjanlega fyrirvara að slíkt raskaði ekki starfi og ábyrgð bústjóra. Þá hafi stefnanda ekki verið heimilt að stunda eigin hrossarækt á búinu nema með skriflegu samþykki eiganda, sem ekki hafi legið fyrir. Umrædd skilyrði hafi því takmarkað verulega heimild stefnanda til hrossahalds. Þá verði að ætla að mat fyrirsvarsmanna stefnda ráði að þessu leyti. Því hafi aldrei verið um fastákveðin hlunnindi að ræða og geti því ekki verið um að ræða grundvöll skaðabóta úr hendi stefnda. Beri því að sýkna stefnda af kröfu um bætur að fjárhæð 600.000 krónur samkvæmt 13. tölulið í kröfugerðar í stefnu, ellegar lækka bótafjárhæð verulega. Kröfugerð stefnanda, kröfuliður 14. Varðandi kröfu stefnanda um miskabætur vegna fyrirvaralausrar, ólögmætrar og saknæmrar uppsagnar á ráðningarsamningi vísar stefndi í fyrsta lagi til þess að uppsögn stefnda á samningi aðila hafi byggst á áreiðanlegum upplýsingum frá einstaklingum sem átt hafi beina aðild að þeim viðskiptum með hross sem legið hafi að baki riftun ráðningarsamningsins. Einnig sé vísað til upplýsinga frá stefnanda sjálfum í stefnu um þær upplýsingar sem Viðar Ingólfsson hafi veitt um milligöngu og fjárhagslegan ávinning stefnanda af viðskiptunum. Hafi því meint brot stefnda gegn stefnanda hvorki verið unnið af ásetningi né gáleysi, né réttlæti það greiðslu miskabóta til stefnda. Í öðru lagi hafi stefnandi ekki sýnt fram á, eða gert líklegt, að riftun ráðningarsamningsins hafi valdið honum miska. Með öllu sé ósannað að riftun samningsins hafi haft áhrif á orðspor stefnanda eða kastað rýrð á starfsheiður hans. Þá sé til þess að líta að stefndi hafi þá þegar sagt stefnanda upp störfum og þá sé þeirri röksemd stefnanda að riftun hafi dregið úr starfsmöguleikum hans sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda. Skertir starfsmöguleikar, teljist þeir sannaðir, falli undir beint fjártjón en ekki miska. Í þriðja lagi sé fjárhæð kröfunnar langt umfram þær fjárhæðir sem dæmdar hafi verið í hliðstæðum tilvikum þar sem miski telst sannaður. Því beri að sýkna stefnda af framangreindri kröfu samkvæmt 14. tölulið kröfugerðar í stefnu, ellegar lækka bótafjárhæð verulega. Kröfugerð stefnanda, kröfuliður 15. Varðandi kröfu um miskabætur vegna meintra ólögmætra, saknæmra og tilhæfulausra fullyrðinga í bréfi stefnda dags. 29. apríl 2016, vísar stefndi í fyrsta lagi til allra sömu röksemda og færðar eru fram til stuðnings sýknukröfu stefnda. Í öðru lagi beri að taka mið af þeirri staðreynd að fullyrðingar stefnda séu ekki settar fram á opinberum vettvangi heldur aðeins gagnvart stefnanda. Beri því að lækka verulega kröfu um miskabætur samkvæmt 15. tölulið kröfugerðar í stefnu. Þá vísar stefndi til þeirrar meginreglu skaðabótaréttar að tjónþola beri að draga úr tjóni sínu eins og hægt sé. Ekki verði séð að stefnandi hafi leitað sér annars starfs á umræddu tímabili. Komi til þess að riftun samnings aðila verði dæmd ólögmæt beri að taka tillit til þess að stefnandi hefur ekki, eftir því sem fyrir liggur, leitast við að afla sér starfs annars staðar eða afla sér tekna á því starfssviði sem ráðning hans hjá stefnda hafi lotið að. Því beri að taka mið af framansögðu. Varakrafa stefnanda.                 Stefnandi fjallar ekki sérstaklega um varakröfu stefnanda og vísar til þess að hún rúmist að fullu innan aðalkröfunnar, þannig að í varakröfu sé sleppt kröfum um bætur vegna launa o.fl., fyrir tvo mánuði, þ.e. maí og júní 2016. Vísar stefndi því til rökstuðnings gegn aðalkröfu stefnanda. Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar og almennu skaðabótareglunnar. Vísað er til laga um meðferð einkamála nr. 91/1919 varðandi meðferð málsins fyrir dómi og til 129. gr. og 130. gr. lagaanna varðandi málskostnað.   Niðurstaða. Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslur stefnandi, Ólafur Brynjar Ásgeirsson, og Guðbjörn Árnason, sem sæti á í varastjórn hins stefnda félags og er jafnframt framkvæmdastjóri. Einnig gáfu skýrslu vitnin Eyrún Ýr Pálsdóttir, Viðar Ingólfsson, Eva Dyröy, fyrrverandi starfsmaður stefnda, og Kristjón Laxdal Kristjánsson, fyrrverandi bústjóri stefnda.              Stefnandi starfaði sem bústjóri á hrossaræktarbúi stefnda. Ráðningarsamningi hans við stefnda var sagt upp með bréfi dags. 19. október 2015, mótteknu sama dag. Óumdeilt er í málinu að áður en stefnanda var sagt upp bústjórastarfinu, var hryssan Dama frá Pulu í þjálfun hjá Viðari Ingólfssyni, fyrirsvarsmanni Kvíarhóls ehf., en félagið keypti hryssuna af Eyrúnu Ýr Pálsdóttur á 6.000.000 króna auk virðisaukaskatts í byrjun september 2015. Þá er einnig óumdeilt að á framangreindum tíma keypti eigandi hins stefnda félags, Günther Weber, áðurnefnda hryssu til útflutnings af Kvíarhóli ehf., fyrir 9.000.000 króna án virðisaukaskatts. Stefnandi lýsti aðkomu sinni að framangreindum viðskiptum í skýrslutöku fyrir dómi á þann veg að Günther hafi óskað eftir því að stefnandi færi með hryssuna í læknisskoðun og útflutning, sem og að tilkynna Viðari Ingólfssyni að Günther væri tilbúinn til að kaupa hryssuna á níu milljónir króna, en stefnanda minnti að sett hefði verið hærra verð á hryssuna. Vitnið Viðar Ingólfsson staðfesti fyrir dómi að stefnandi hafi tilkynnt sér að Günther væri tilbúinn að greiða níu milljónir fyrir hryssuna, en vitnið minnti að ásett verð hryssunnar hafi verið tíu milljónir króna.              Samkvæmt gögnum málsins barst forsvarsmanni stefnda, Guðbirni Árnasyni, tölvupóstur frá vitninu Eyrúnu Ýr Pálsdóttur þann 8. desember 2015. Þar kemur m.a. fram að áðurnefnd hryssa, Dama frá Pulu, hafi í ágúst 2015 verið í þjálfun hjá Viðari Ingólfssyni. Örfáum dögum eftir að hryssan kom til Viðars hafi hann greint Eyrúnu frá því að hann hefði kaupanda að hryssunni en mikil leynd hafi ríkt um hver það væri. Hafi Eyrún gert kröfu um að allt væri uppi á borðinu og þá verið upplýst um að Günther Weber, væri kaupandi og milligöngumenn með sölunni væru Viðar og stefnandi. Hafi Viðar greint Eyrúnu frá því að þeir hafi lagt milljón ofan á það verð sem hún hafi fengið fyrir hryssuna, þ.e. eins og áður greinir, sex milljónir króna. Rúmum tveimur mánuðum síðar, þann 28. nóvember 2015, hafi Eyrún frétt að Viðar og stefnandi, hafi verið að „gera einhverja svakalega sölu á einhverri meri og tekið 1.500.000 á mann í sölulaun.“ Segir í tölvupóstinum að þá hafi Eyrún áttað sig á því að um hafi verið að ræða söluna á Dömu og hafi hún strax kallað Viðar á sinn fund. Þá segir í tölvupóstinum: „Hann viðurkenndi þá að þeir hafi ekki verið að segja mér satt og að þeir hafi lagt 3.000.000 ofan á það sem ég fékk fyrir hana og skipt því á milli sín.“ Sama dag, þ.e. 8. desember 2015, sendi forsvarsmaður stefnda Eyrúnu tölvupóst og spurði hvort hún gæti staðfest að Viðar hefði óskað eftir því að hún nefndi ekki nafn stefnanda þegar þau hittust. Í svari sama dag staðfesti Eyrún að svo hafi verið. Vitnið Eyrún staðfesti framangreinda tölvupósta fyrir dómi.             Fyrir liggur að fengnum þessum upplýsingum rifti stefndi ráðningarsamningi við stefnanda og mun stefndi hafa tilkynnt stefnanda um riftunina á skrifstofu lögmanns stefnda þann 9. desember 2015 að viðstöddum lögmanni stefnanda. Í framburði forsvarsmanns stefnda, Guðbjörns Árnasonar, fyrir dómi kom fram að eftir að vitnið Eyrún, sem forsvarsmenn stefnda hefðu borið traust til, hafi komið að máli við vitnið, hafi ekki verið hægt annað en að rifta ráðningarsamningnum. Riftunarbréfið er dagsett 9. desember 2015. Í bréfinu lýsir stefndi yfir riftun á ráðningarsamningi aðila, dags. 6. júní 2014 með viðauka dags. 2. maí 2015, og vísað er til þess að riftun samningsins byggi á 3. mgr. 2. gr. og 7. mgr. 1. gr. ráðningarsamningsins. Í riftunarbréfinu er gerð grein fyrir tiltekinni háttsemi stefnanda, sem að mati stefnda hafi verið gróft brot gegn starfsskyldu stefnanda samkvæmt áður tilgreindum ákvæðum ráðningarsamningsins, og jafnframt ástæða hinnar fyrirvaralausu riftunar. Er háttseminni lýst þannig að stefnandi hafi haft milligöngu og fjárhagslegan ávinning af sölu hryssunnar Dömu frá Pulu, í eigu Eyrúnar Ýrar Pálsdóttur, til Kvíarhóls ehf., í september 2015 fyrir sex milljónir króna auk virðisaukaskatts og í framhaldinu sölu sömu hryssu til eiganda stefnda, Günther Weber, fyrir níu milljónir króna, án þess að stefnandi hafi upplýst Günther um aðkomu sína og ávinning af sölunni.     Í ódagsettu bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, sem gögn málsins bera með sér að hafi verið afhent á skrifstofu lögmanns stefnda eftir að riftun var tilkynnt, er riftun ráðningarsamningsins mótmælt og því hafnað að stefnandi hafi haft með ákvörðun á verðlagningu hryssunnar að gera sem og að hann hafi haft fjárhagslegan ávinning af viðskiptunum. Með áðurnefndu bréfi fylgdu annars vegar tölvupóstsamskipti lögmanns stefnanda og vitnisins Eyrúnar Ýrar Pálsdóttur og hins vegar yfirlýsing vitnisins Viðars Halldórssonar.   Rétt þykir að rekja efni framangreindra tölvupósta. Í tölvupósti lögmanns stefnanda til vitnisins Eyrúnar 10. desember 2015 segir m.a: „Getur þú staðfest við mig, sem lögmanns [sic] Ólafs, að þær upplýsingar sem þú lést Kvistum ehf. í hendur um aðkomu Ólafs að framangreindri sölu á hryssunni Dömu hafi verið byggðar á samtali þínu við Viðar Ingólfsson og sögusögnum eftir sölu hryssunnar. Getur þú einnig staðfest við mig að Viðar Ingólfsson hafi nú tjáð þér að hann hafi farið með rangt mál við þig að því er varðar aðkomu Ólafs að sölunni og sagst veita þér rangar upplýsingar varðandi málið m.a. til þess að fela fyrir þér álagningu Kvíarhóls ehf. á það kaupverð sem ákvarðað var gagnvart þér.“ Framangreindum tölvupósti svaraði Eyrún þannig 12. desember 2015: „Ég staðfesti hér með að þær upplýsingar sem ég fékk voru frá Viðari Ingólfssyni og ónefndum aðila sem vill ekki láta nafn sitt getið. Einnig get ég staðfest að þær upplýsingar sem ég fékk frá Viðari hefur hann dregið til baka.“ Vitnið Eyrún staðfesti framangreind samskipti fyrir dómi. Yfirlýsing vitnisins Viðars Ingólfssonar, dags. 10. desember 2015, liggur frammi í málinu og staðfesti vitnið fyrir dómi að allt væri rétt sem þar stæði. Þar kemur m.a. fram að stefnandi hafi, fyrir hönd Günther Weber, lýst yfir áhuga á kaupum á góðum keppnishrossum og því hafi Viðar sýnt stefnanda og Günther nokkur efnileg hross, m.a. hryssuna Dömu. Í framhaldinu hafi Günther  sent sérstaka fulltrúa sína til Íslands sem hafi ákveðið, fyrir hönd Günther, að kaupa hryssuna Dömu. Þá segir í yfirlýsingunni: „Með yfirlýsingu þessari staðfesti ég persónulega og f.h. Kvíarhóls ehf. að í viðskiptum Kvíarhóls ehf. við Eyrúnu Ýr Pálsdóttur um hryssuna Dömu og í viðskiptum Kvíarhóls ehf. við Gunter [sic] Weber um sömu hryssu hafi Ólafur Brynjar Ásgeirsson engar greiðslur fengið persónulega og engar greiðslur hafa farið til aðila honum tengdum. Samkvæmt framangreindu hafði Ólafur engar fjárhagslegra hagsmuna að gæta vegna viðskiptanna um merin [sic] Dömu frá Pulu. Ég lýsi mig reiðubúinn til þess að leggja fram bókhaldsgögn framangreindu til staðfestu.“             Vitnið Eyrún Ýr Pálsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi og lýsti þætti sínum í viðskiptum með hryssuna Dömu frá Pulu. Við upphaf skýrslutöku lýsti vitnið því yfir að það væri hvorki skylt aðilum þessa máls né tengt. Vitnið kvað Viðar Ingólfsson hafa greint sér frá því að hann hefði áhugasama kaupendur af hryssunni Dömu skömmu eftir að hryssan kom til hans í þjálfun. Kvaðst vitnið hafa óskað eftir því við Viðar að fá upplýsingar um hverjir það væru sem sýnt hefðu hryssunni áhuga og hverjir myndu hafa milligöngu um söluna. Hafi Viðar greint henni frá að stefndi eða Günther Weber vildi kaupa hryssuna og að hann, þ.e. Viðar, og stefnandi væru milligöngumenn með sölunni. Vitnið Eyrún kvað Viðar hafa óskað eftir því að reikningur fyrir kaupverði hryssunnar, 6.000.000 krónur, yrði gefin út á fyrirtæki Viðars, þ.e. Kvíarhól ehf., sem vitnið kvaðst hafa gert. Vitnið Eyrún kvaðst hafa viljað hafa allt uppi á borðinu í þessum viðskiptum og því spurt Viðar, þegar hann tilkynnti henni að Günther vildi kaupa hryssuna, hvað þeir, þ.e. Viðar og stefnandi, ætluðu að taka. Hafi Viðar svarað því til að þeir ætluðu að leggja eina milljón króna ofan á það verð sem hún fékk fyrir hryssuna og taka hvor um sig fimmhundruð þúsund krónur. Kvaðst vitnið hafa samþykkt þetta fyrirkomulag.              Í skýrslu vitnisins Eyrúnar kom einnig fram að eftir söluna hafi maður henni nákominn, sem hún hafi borið traust til, sagt sér að Viðar og stefnandi hafi verið „gera svakalega sölu“. Fram kom í skýrslu vitnisins, sem á umræddum tíma kvaðst hafa verið í miklum samskiptum og vinskap við Viðar, að hún hafi vitað hvað væri í gangi hjá Viðari, eins og vitnið orðað það. Því kvaðst vitnið hafa beðið Viðar um að hitta sig og kvaðst hún hafa spurt hann hvort þessi „svakalega sala“ hafi verið salan á Dömu frá Pulu. Hafi Viðar játað því og sagt sér að þeir, þ.e. Viðar og stefnandi, hafi lagt töluvert meira ofan á söluverð hryssunnar til Kvíarhóls ehf., en þeir hefðu greint henni frá. Í framhaldinu hafi Viðar greint henni frá því að Günther hafi greitt í kringum níu milljónir króna fyrir hryssuna og að hann og stefnandi hafi tekið mismun á kaupverði  Kvíarhóls ehf., og söluverði til Günther. Í skýrslu vitnisins Eyrúnar kom einnig fram að einum til tveimur dögum síðar hafi Viðar óskað eftir að hitta vitnið. Hafi þau farið í langan bíltúr þar sem Viðar hafi greint frá því að hann hafi nefnt nafn stefnanda til að fría sig, það hafi verið hann, þ.e. Viðar, sem tekið hafi allan mismuninn til sín. Hafi Viðar dregið til baka að stefnandi hafi verið með í þessari sölu. Hafi Viðar sagst hafa verið eini milligöngumaður með sölunni og tekið hagnaðinn, þ.e. þrjár milljónir króna. Sérstaklega aðspurð kvaðst vitnið Eyrún aldrei hafa verið í samskiptum við stefnanda í tengslum við framangreind viðskipti með hryssuna Dömu frá Pulu.             Vitnið Viðar Ingólfsson gaf skýrslu fyrir dómi og lýsti atvikum að baki viðskipunum með hryssuna Dömu frá Pulu á nokkuð annan veg en vitnið Eyrún. Aðspurður um lýsingar Eyrúnar á viðskiptunum kvað vitnið greinilegt að um væri ræða einhvern misskilning. Auðvitað hefði stefnandi komið að kaupum Günther á hryssunni enda hafi stefnandi komið í tvígang til vitnisins til að skoða hesta, í fyrra skiptið með Günther og í það síðara með tveimur starfsmönnum hans. Kvaðst vitnið hvorki hafa greitt stefnanda eina einustu krónu né hafi það staðið til. Sérstaklega aðspurður um þann framburð Eyrúnar að hann, þ.e. Viðar, hafi greint Eyrúnu frá því að hann og stefnandi hafi ætlað að leggja ofan á kaupverðið og skipta hagnaðinum á milli sín, kvað vitnið það alrangt. Eina sem hann hafi sagt Eyrúnu, og það hafi hún vitað frá upphafi, að hann hafi ætlað að selja hryssuna með hagnaði. Eyrún hafi hins vegar ekki spurt um söluverð fyrr, að því er vitnið minnti nokkrum dögum eftir að vitnið greiddi Eyrúnu fyrir hryssuna. Kvaðst vitnið þá hafa sagt Eyrúnu aðeins ósatt, eins og vitnið orðaði það, þar sem honum hafi ekki fundist það skipta máli, Eyrún hafi fengið það verð sem hún hefði beðið um, enda kvaðst vitnið ekki vita til þess að fólk sendi reikning nema það væri ánægt með söluverð. Nánar aðspurt kvaðst vitnið bara ekki muna það verð sem hann hafi tilgreint, hvort það hafi verið sjö eða átta miljónir, „man ekki töluna sem ég sagði.“ Vitnið Viðar staðfesti að Eyrún hafi ekki verið ánægð og hafi þau átt fund saman í nóvember. Aðspurt hvort það neitaði því að hafa sagt Eyrúnu að stefnandi hefði átt aðkomu að sölunni og fengi sölulaun, svaraði vitnið: „Ég, ég í raun sagði henni bara að hún ætti ekki að vera blanda honum í það því hann hefði ekki haft neitt út úr þessu.“             Stefnandi vísar til þess að riftun ráðningarsamningsins hafi verið ólögmæt, saknæm og tilefnislaus og því beri stefnda að bæta honum það tjón sem hann hafi orðið fyrir, þ.e. annars vegar vangreidd laun, launatengd gjöld og hlunnindi og hins vegar miskabætur vegna sérlega meiðandi ummæla í riftunarbréfinu.              Þessu hafnar stefndi og vísar til þess að með því að hafa haft milligöngu um sölu á hryssu til eiganda stefnda og með því að hafa haft af því fjárhagslegan ávinning eða hagsmuni, hafi stefnandi brotið gegn ákvæðum ráðningarsamningsins þannig að réttlætt hafi fyrirvarlausa riftun samningsins án bóta. Tekur stefndi fram að í því sambandi skipti ekki máli þó greiðslur hafi hugsanlega ekki verið inntar af hendi milli stefnanda og viðskiptafélaga stefnanda, Viðars Ingólfssonar, í kjölfar riftunar ráðningarsamningsins.             Á stefnda hvílir sönnunarbyrði fyrir því að stefnandi hafi brotið gegn starfsskyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningi aðila með þeim hætti að réttlætt hafi fyrirvaralausa riftun ráðningarsambandsins sem enn var í gildi þegar riftun fór fram. Hér að framan hafa ítarlega verið rakin samskipti forsvarsmanns stefnda við vitnið Eyrúnu Ýr Pálsdóttur, sem fyrir liggur að átti beina aðild að viðskiptum með hryssuna Dömu frá Pulu áður en til riftunar ráðningarsamnings stefnanda kom, sem og framburður vitnisins fyrir dómi. Einnig hafa verið rakin viðbrögð stefnanda við riftun ráðningarsamningsins, þ.e. yfirlýsing vitnisins Viðars Ingólfssonar, sem einnig liggur fyrir að átti beina aðild að framangreindum viðskiptum, sem og framburður vitnisins fyrir dómi.             Eins og áður er rakið liggur fyrir að umrædd viðskipti með Dömu frá Pulu fóru fram fyrri hluta septembermánaðar 2015, þ.e. áður en stefndi sagði uppi ráðningarsamningi við stefnanda.  Þá liggur einnig fyrir að áður en til riftunar kom aflaði stefndi skriflegrar staðfestingar vitnisins Eyrúnar á aðkomu stefnanda að þeim viðskiptum, en á grundvelli þeirra upplýsinga rifti stefndi ráðningarsamningnum. Í framburði vitnisins Viðars kom fram að hann og Eyrún hafi margoft átt í viðskiptum af þessu tagi með hross, bæði þegar þau hafi selt hross saman eða þegar þau hafi selt hvort öðru hross. Þá kom það skýrt fram hjá vitninu Eyrúnu að henni var kunnugt um að eftir kaup félags í eigu Viðars á Dömu frá Pulu stæði til að leggja eina milljón ofan á verð hryssunnar við sölu til eiganda stefnda. Að þessu frátöldu ber vitnunum Eyrúnu og Viðari ekki saman um hvað þeim fór í milli í viðskiptunum með hryssuna Dömu frá Pulu.             Að mati dómsins var framburður vitnisins Eyrúnar fyrir dómi skýr og í öllum meginatriðum í samræmi við framlögð gögn sem frá vitninu stafa. Vitnið svaraði af öryggi spurningum sem til hennar var beint fyrir dómi. Lýsingar hennar á samskiptum við vitnið Viðar, sem á þeim tíma var vinur hennar og náinn samstarfsmaður í hrossaviðskiptum, var að mati dómsins trúverðugur og verður ekki séð að vitnið hafi átt nokkra hagsmuna að gæta hvorki gagnvart stefnanda né stefnda í máli þessu. Framburður vitnisins Viðars fyrir dómi var hins vegar um margt óskýr og skorti verulega á skýrleika og öryggi í svörum vitnisins við spurningum sem til hans var beint. Þá verður ekki fram hjá því litið við mat á því hvort stefndi hafi nægjanlega axlað sönnunarbyrði í máli þessu, að í tölvupósti lögmanns stefnanda til vitnisins Eyrúnar 10. desember 2015 var gengið út frá því að vitnið Viðar hafi upphaflega greint vitninu Eyrúnu frá aðkomu stefnanda að sölunni hryssunnar Dömu. Er það ekki í samræmi við framburð vitnisins Viðars fyrir dómi sem svaraði spurningu lögmanns stefnanda hvort hann hafi í einhverju bríaríi til að réttlæta álagningu sína sagt Eyrúnu að stefnandi hefði átt þátt í viðskiptunum en síðan leiðrétt það gagnvart Eyrúnu, á eftirfarandi hátt: „Sko, nei ég held að ég hafi ekki gert það sko, en það má vel vera að ég hafi orðað það einhvern veginn þannig að, að, að við höfum komið að þessu máli, skilurðu, stefnandi var í þessu máli að því að hann var þá starfsmaður stefnda og kom fyrir hönd Günther, en að ég hafi ætlað að greiða honum einhver laun fyrir það eða hann hafi haft einhvern fjárhagslegan ávinning, hann hefur ekki haft þann fjárhagslega ávinning frá mér.“ Að öllu framangreindu virtu er það mat  dómsins að talsvert hafi skorti á trúverðugleika framburðar vitnisins Viðars fyrir dómi og bar framburður hans þess merki að hann væri að vernda stefnanda, en stefnandi kvað þá Viðar vera kunningja. Aðspurt um tengsl við stefnanda kvað vitnið Viðar stefnanda vera vin sinn og kunningja.                 Riftun ráðningarsamningsins sem aðilar þessa máls gerðu sín á milli í júní 2014 byggði samkvæmt riftunarbréfi annars vegar á 3. mgr. 2. gr. samningsins en þar segir:   „Ef bústjóri þykir hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu í starfi hvað varðar starfsskyldur hans og ábyrgðarsvið eða hann brýtur að öðru leyti gegn ákvæðum samnings þess getur búið [stefndi, innskot dómara] rift ráðningarsamningnum fyrirvaralaust og án bóta. Hins vegar var í riftunarbréfinu vísað til 7. mgr. 1. gr. ráðningarsamningsins, en þar segir: „Bústjóra er óheimilt að starfa hjá öðrum vinnuveitanda eða að öðrum launuðum verkefnum nema með skriflegu samþykki eiganda. Jafnframt er honum óheimilt að vera beint eða óbeint þátttakandi í annarri starfsemi, eða hafa fjárhagslegra hagsmuni að gæta gagnvart aðilum sem eru í samkeppni við búið nema með sérstöku skriflegu samþykki eiganda.“             Með vísan til framburðar vitnisins Eyrúnar Ýrar Pálsdóttur og alls þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að stefndi hafi axlað með fullnægjandi hætti sönnunarbyrði í máli þessu og sýnt fram á að stefnandi hafi í starfi sem bústjóri brotið gróflega gegn samningsskyldum sínum. Hafi því riftun ráðningarsamnings aðila verið reist á nægilega efnislegum forsendum og verið réttlætanleg án fyrirvara eða aðvörunar. Þá er það mat dómsins að í 1. mgr. 7. gr. ráðningarsamningsins hafi verið kveðið með skýrum hætti á um starfsskyldur stefnanda, en alþekkt er að samkeppni ríkir milli hrossaræktarbúa hér á landi og að í viðskiptum með hross fara manna á milli háar fjárhæðir, eins og ráða má af máli þessu. Að mati dómsins eru þau ákvæði ráðningarsamningsins sem vísað er til í riftunarbréfinu frá 9. desember 2015, skýrt orðuð og hefði stefnanda átt að vera ljósar afleiðingar viðskipta af því tagi sem dómur telur liggja fyrir að hann hafi komið að í tengslum við kaup eiganda stefnda á hryssunni Dömu frá Pulu, þ.e. riftun ráðningarsambands án bóta. Verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda um bætur vegna launa, launatengdra gjalda, hlunninda og miska vegna riftunar ráðningarsamnings.              Stefnandi krefur stefnda einnig um miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur  vegna meiðandi og tilhæfulausra ávirðinga stefnda í bréfi dags. 29. apríl 2016, og vísar stefnandi kröfu sinni til stuðnings til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.              Í framangreindu bréfi, sem lögmaður stefnda sendi lögmanni stefnanda eftir riftun ráðningarsamningsins, nánar tiltekið 29. apríl 2016, eru í tólf liðum tilgreind tilvik sem stefndi taldi hafa falið í sér alvarlega vanrækslu stefnanda í starfi umfram það sem legið hafi að baki riftun ráðningarsamningsins. Er í bréfinu af hálfu stefnda áskilinn réttur til skaðabóta og endurgreiðslu kostnaðar úr hendi stefnanda. Stefnandi vísar til þess að hinar alvarlegu og tilhæfulausu ásakanir í bréfinu, sem hafi spurst út og séu umtalaðar meðal hestamanna, hafi verið til þess fallnar að kasta rýrð á starfsheiður hans og draga úr starfsmöguleikum hans í framtíðinni.             Sönnunarbyrði í þessum þætti málsins hvílir á stefnanda. Þarf hann í fyrsta lagi að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni og hvert tjón hans er. Í öðru lagi að um hafi verið að ræða saknæma háttsemi af hálfu stefnda og í þriðja lagi að tjón stefnanda verði rakið til háttsemi stefnda, þ.e. orsakatengsl.              Fyrir liggur að bréf það sem stefnandi heldur fram að hafi valdið honum miska fór ekki í almenna birtingu eða umferð heldur var því beint til stefnanda persónulega í gegnum lögmann hans. Í máli þessu liggur fyrir að stefnandi sendi, fyrir milligöngu lögmanns síns, sex nafngreindum mönnum, sem allir tengdust hestamennsku með einum eða öðrum hætti, tölvupóst þar sem efni umrædds bréfs var lýst og í ákveðnum tilvikum rakið nokkuð ítarlega, þ.e. ýmis tilvik sem snertu rækslu starfa stefnanda sem bústjóra á Kvistum. Með vísan til þess að framangreindar meintar aðfinnslur við störf stefnanda voru settar fram í bréfi milli aðila málsins og ekkert er komið fram um að stefndi hafi upplýst aðra um efni bréfsins, hefur stefnandi að mati dómsins ekki fært fram sönnur þess að stefndi hafi valdið honum miska með þeim hætti sem stefnandi vísar til. Verður því stefndi sýknaður af framangreindri miskabótakröfu.             Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 950.000 krónur.   D Ó M S O R Ð: Stefndi, Kvistir ehf., er sýknaður af öllum kröfu stefnanda, Ólafs Brynjars Ásgeirssonar, í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda 950.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 325/2017
Skaðabætur Einkahlutafélag Framlagning skjals Stefna Málsástæða Réttaráhrif dóms
Þrotabú M ehf. krafði K, S, G og I um greiðslu á 5.195.721.859 krónur vegna greiðslna M ehf. til I á árunum 2006 og 2007. Í héraði var K, S og G gert að greiða þrotabúinu þá fjárhæð óskipt en I var sýknuð af kröfunni. G áfrýjaði ekki málinu af sinni hálfu. Var fjárkrafa þrotabús M ehf. reist á tveimur málsástæðum. Önnur þeirra laut að því að I hefði þegið lán frá M ehf. sem brotið hefði í bága við 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og bæri I því að endurgreiða þrotabúi M ehf. lánið með dráttarvöxtum samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar. Hin málsástæða þrotabús M ehf. var að K, S, G og I bæru skaðabótaábyrgð gagnvart sér á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar og 108. gr. laga nr. 138/1994. Í dómi Hæstaréttar var með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest sú niðurstaða að K og S hefðu borið á grundvelli þeirrar lagagreinar skaðabótaábyrgð á tjóni M ehf. vegna tjóns félagsins þegar því var gert að fjármagna kaup K og S á hlutafé í félaginu og tveimur öðrum félögum af I án þess að gætt væri nægilega að hagsmunum M ehf. Þá var vísað til þess að þrotabú M ehf. væri bundið af málatilbúnaði sínum í stefnu og yrði því við úrlausn málsins ekki horft til þeirrar síðbúnu málsástæðu að K og S skyldu endurgreiða hluta fjárins með dráttarvöxtum samkvæmt 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Einnig kom fram að ekki yrði annað ráðið en að fjárhagsstaða félaganna þriggja hefði verið traust meðan I sat í stjórn M ehf. framan af árinu 2006 og söluverð á hlutum hennar í félögunum verið eðlilegt þegar um það hefði verið samið á sínum tíma enda hefði þrotabú M ehf. ekki leitast við að sanna hið gagnstæða. Með vísan til þess og forsendna héraðsdóms var talið að þrotabú M ehf. hefði ekki fært sönnur á að I bæri skaðabótaábyrgð á tjóni M ehf. vegna viðskiptanna og var I því sýknuð af kröfu þrotabúsins.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Eiríkur Tómasson fyrrverandi hæstaréttardómari. Karl Emil Wernersson skaut málinu til Hæstaréttar 23. maí 2017, en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta 16. apríl 2018. Hefur þrotabúið tekið við aðild að málinu sem aðaláfrýjandi og krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, þrotabús Milestone ehf., og málskostnaðar úr hendi hans í héraði og fyrir Hæstarétti. Steingrímur Wernersson skaut málinu til Hæstaréttar 23. maí 2017, en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta 1. nóvember sama ár. Hefur þrotabúið tekið við aðild að málinu sem aðaláfrýjandi og krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst aðaláfrýjandinn málskostnaðar úr hendi gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 7. júní og 31. júlí 2017. Hann krefst þess að aðaláfrýjendum og gagnstefndu, Ingunni Gyðu Wernersdóttur, verði gert að greiða sér óskipt 5.195.721.859 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar greindum fjárhæðum frá 6. janúar 2009 til greiðsludags. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar úr hendi gagnstefndu í héraði og að henni og aðaláfrýjendum verði gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti. Gagnstefnda krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur að því er sig varðar og gagnáfrýjanda gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti. I Fyrir Hæstarétti heldur aðaláfrýjandinn þrotabú Karls Emils Wernerssonar því fram að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm sökum þess að héraðsdómari hafi ekki farið að lögum þegar hann ákvað í þinghaldi 8. mars 2017 eftir að málið hafði verið dómtekið að gefa gagnáfrýjanda kost á að leggja fram í því eftirrit af dómi Hæstaréttar 28. apríl 2016 í máli nr. 74/2015, en í þinghaldi 17. nóvember 2016 hafi Karli verið synjað um að leggja fram gögn í málinu af sinni hálfu þar sem gagnaöflun hafi verið lýst lokið. Það að synja Karli sem málsaðila um að leggja fram gögn, en heimila síðan gagnaðila hans að gera það „að frumkvæði dómara, mörgum mánuðum síðar“ fái ekki samrýmst réttlátri málsmeðferð samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mál þetta var höfðað með birtingu héraðsdómsstefnu 8., 9. og 12. nóvember 2010 og þingfest 13. janúar 2011. Eins og gerð er grein fyrir í héraðsdómi var málinu frestað í þinghaldi 22. september 2014 uns dómur félli í sakamáli sem höfðað hafði verið gegn Karli, Steingrími Wernerssyni, Guðmundi Ólasyni og þremur öðrum. Í málinu voru Karl, Steingrímur og Guðmundur auk annars bornir sökum um umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í störfum sínum hjá Milestone ehf. misnotað aðstöðu sína og valdið félaginu verulegri fjártjónshættu þegar þeir hefðu látið það fjármagna efndir á samningum sem þeir tveir fyrstnefndu höfðu gert við gagnstefndu 4. desember 2005 um sölu hennar á hlutafé í Milestone ehf. og tveimur öðrum félögum. Endanlegur dómur í málinu var sem fyrr segir kveðinn upp í Hæstarétti 28. apríl 2016 þar sem Karl og Guðmundur voru meðal annars sakfelldir og dæmdir til refsingar fyrir umboðssvik og Steingrímur fyrir hlutdeild í því broti vegna þeirrar háttsemi sem að framan er lýst og mál þetta er sprottið af. Sökum þess að umræddur dómur hefur samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, fullt sönnunargildi um þau málsatvik, sem í honum greinir, þar til það gagnstæða er sannað og þar sem aðila máls þessa greinir á um sum þeirra, þar á meðal hvers eðlis greiðslurnar frá Milestone ehf. til gagnstefndu voru, var héraðsdómara rétt að hlutast til um að eftirrit af dóminum yrði lagt fram í málinu, sbr. 2. mgr. 46. gr. og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Úr því að það var ekki gert áður en málið var dómtekið var eðlilegt að dómari neytti heimildar 104. gr. laganna og beindi því til gagnáfrýjanda sem stefnanda í héraði að leggja eftirritið fram áður en dómur yrði lagður á málið. Í þinghaldi 31. ágúst 2016, þegar meira en fimm og hálft ár var liðið frá þingfestingu málsins, var því lýst yfir af hálfu allra aðila þess að öflun sýnilegra sönnunargagna væri lokið. Í næsta þinghaldi, 17. nóvember sama ár, óskaði Karl eftir því að fá að leggja fram af sinni hendi þrjú ný skjöl, en því mótmælti gagnáfrýjandi, meðal annars með vísan til þess að þau fælu í sér nýjar málsástæður. Í kjölfarið ákvað héraðsdómari að skjölin yrðu ekki lögð fram í málinu þar sem gagnaöflun hefði verið lýst lokið, sbr. 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Eftir þeirri málsgrein er aðilum að jafnaði óheimilt að leggja fram skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn þegar þeir hafa lýst gagnaöflun lokið, en frá því getur dómari þó vikið, svo sem ef það veldur ekki töfum á máli eða ekki hefur áður verið unnt að afla tiltekinna gagna. Með skírskotun til þessa var dómara rétt að synja um framlagningu umræddra skjala, enda hafði þá þegar gefist nægur tími til að afla þeirra og leggja þau fram auk þess sem hætta var á að með því drægist meðferð málsins enn frekar á langinn. Þótt skjölin hafi samkvæmt þessu ekki verið meðal málsgagna í héraði hafa þau verið lögð fram við meðferð málsins hér fyrir dómi. Að teknu tilliti til alls þess, sem rakið hefur verið, standa engin rök til að ómerkja héraðsdóm af þeim ástæðum sem að framan greinir. II Með hinum áfrýjaða dómi voru Karl Emil Wernersson, Steingrímur Wernersson og Guðmundur Ólason dæmdir til að greiða gagnáfrýjanda óskipt 5.195.721.859 krónur með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 13. febrúar 2011 til greiðsludags, en gagnstefnda sýknuð af kröfu gagnáfrýjanda. Guðmundur hefur ekki áfrýjað málinu af sinni hálfu og unir því dóminum en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta 14. september 2017. 1 Fjárkrafa gagnáfrýjanda var reist á þremur meginmálsástæðum í héraðsdómsstefnu, en fallið var frá einni þeirra undir rekstri málsins í héraði. Önnur  málsástæðan, sem eftir stóð, laut að því að gagnstefnda hefði þegið lán frá Milestone ehf., sem brotið hefði í bága við 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, og bæri henni að endurgreiða gagnáfrýjanda lánið með dráttarvöxtum samkvæmt 4. mgr. þeirrar lagagreinar. Í umfjöllun um málsástæðuna í stefnu var tekið fram að „hafi greiðslurnar verið hluti af uppgjöri kaupsamninga um hluti í Milestone ehf. og fleiri félögum“ á milli gagnstefndu annars vegar og Karls og Steingríms hins vegar hafi greiðslurnar verið „jafnólögmætar“ þar sem „þá var Milestone ehf. ... látið fjármagna kaup á hlutum í sjálfu sér og móðurfélagi sínu“ sem væri ólögmætt eftir 2. mgr. sömu lagagreinar. Í lok umfjöllunarinnar sagði að endurgreiðslukrafan á hendur gagnstefndu ætti stoð í 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, en samkvæmt 5. mgr. hennar bæru Karl, Steingrímur og Guðmundur einnig ábyrgð á endurgreiðslunni gagnvart gagnáfrýjanda. Hin málsástæðan, sem gagnáfrýjandi byggði á, var að öll stefndu í héraði bæru skaðabótaábyrgð gagnvart sér á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunni, og 108. gr. laga nr. 138/1994. Í umfjöllun um þá málsástæðu í héraðsdómsstefnunni kom meðal annars fram að hafi greiðslur Milestone ehf. til gagnstefndu „í raun verið greiðsla til hennar vegna kaupa“ Karls og Steingríms á hlutum hennar í félaginu og fleiri félögum væri „háttsemin augljóslega skaðabótaskyld og jafnvel refsiverð.“ Hafi þeim tveimur verið „óheimilt að láta Milestone ehf. greiða fyrir hluti í sjálfu sér“. Til stuðnings því að háttsemin væri skaðabótaskyld var auk annars vísað til 2. mgr. 43. gr., 48. gr. og 2. mgr. 51. gr. laga nr. 138/1994. Bæri stefndu í héraði að greiða gagnáfrýjanda skaðabætur, sem svöruðu til endurgreiðslu alls þess er gagnstefndu hefði verið greitt á árunum 2006 og 2007, í samræmi við 4. og 5. mgr. 79. gr. laganna. Samkvæmt e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má málsástæður, sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, en þessi lýsing skal vera svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er. Í héraðsdómsstefnu í máli þessu var hvorki tekið fram berum orðum að Milestone ehf. hefði lánað Karli og Steingrími kaupverð hlutafjárins í félaginu né kom það nægilega skýrt fram að þeim væri skylt að endurgreiða gagnáfrýjanda hluta þess fjár, sem félagið hafði innt af hendi til gagnstefndu, á grundvelli 4. mgr., sbr. 1. eða 2. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, heldur sagði einungis að þeim bæri að greiða honum skaðabætur sem svöruðu til endurgreiðslu á öllu því fé. Þar sem gagnáfrýjandi er bundinn af málatilbúnaði sínum í stefnu verður ekki við úrlausn málsins, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, horft til þeirrar síðbúnu málsástæðu hans, gegn mótmælum aðaláfrýjandans þrotabús Karls Emils Wernerssonar, að aðaláfrýjendur, sem komið hafa í stað Karls og Steingríms, skuli endurgreiða hluta fjárins með dráttarvöxtum samkvæmt 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða að Karl og Steingrímur hafi borið á grundvelli 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 skaðabótaábyrgð á því tjóni Milestone ehf. sem hlaust af því að félaginu var gert að fjármagna kaup þeirra á hlutafé í því og tveimur öðrum félögum, Milestone Import Export Ltd. og Leiftra Ltd., án þess að gætt væri nægilega að hagsmunum fyrstnefnda félagsins. Sú háttsemi var jafnframt refsiverð eins og slegið er föstu í dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2015 þar sem Karl og Steingrímur voru meðal annars sakfelldir fyrir þær sakargiftir, sem vísað er til í kafla I hér að framan, þannig að ákvæði 1. mgr. 110. gr. laga nr. 138/1994, sem afnumin voru með 28. gr. laga nr. 68/2010, standa því ekki í vegi að þeir verði dæmdir til að greiða gagnáfrýjanda skaðabætur. 2 Eins og lýst er í hinum áfrýjaða dómi voru 4. desember 2005 gerðir samningar milli Karls og Steingríms annars vegar og gagnstefndu hins vegar um sölu á hlutafé hennar í Milestone ehf., Milestone Import Export Ltd. og Leiftra Ltd. Í einum samninganna, sem laut að sölu gagnstefndu á 10,306% hlut í Milestone ehf., var kveðið á um að hún hyrfi úr stjórn félagsins í byrjun janúar 2006 og bæri viðsemjendum hennar að tilkynna það til hlutafélagaskrár. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2015 er greint frá aðalfundi Milestone ehf. sem haldinn var 31. mars 2006. Þar var lagt til að samþykktum félagsins yrði breytt þannig að stjórnarmenn yrðu tveir í stað þriggja. Ekkert sagði í fundargerð um hvort tillagan hefði verið samþykkt, en í kjölfarið voru þó kjörnir tveir stjórnarmenn, Karl og Steingrímur. Tilkynning þessa efnis var þó fyrst send fyrirtækjaskrá 15. október sama ár. Svo sem greinir í héraðsdómi, gerðu samningarnir 4. desember 2005 ráð fyrir að Milestone ehf. gæti orðið kaupandi að hlutafénu án atbeina gagnstefndu. Meðal annars af þeirri ástæðu gátu verið eðlilegar skýringar á því, frá sjónarhóli hennar séð, að félagið innti af hendi greiðslur samkvæmt samningunum til hennar.  Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar er þess getið að samkvæmt ársreikningi Milestone ehf. fyrir árið 2005 hafi eigið fé félagsins numið í lok þess árs 25.871.817.000 krónum. Þá var eigið fé Milestone Import Export Ltd. sagt vera 8.730.218.000 krónur í drögum að efnahagsreikningi félagsins 31. desember 2005 og á sama tíma nam eigið fé Leiftra Ltd. 41.190.000 evrum eftir því sem fram kom í óendurskoðuðum ársreikningi þess félags fyrir árið 2005. Af þessu verður ekki annað ráðið en að fjárhagsstaða félaganna þriggja hafi verið traust meðan gagnstefnda sat í stjórn Milestone ehf. og söluverð á hlutum hennar í félögunum eðlilegt þegar um það var samið á sínum tíma, enda hefur gagnáfrýjandi ekki leitast við að sanna hið gagnstæða. Að þessu virtu, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms hefur gagnáfrýjanda ekki tekist að færa sönnur á að gagnstefnda beri skaðabótaábyrgð á tjóni Milestone ehf. vegna þeirra viðskipta sem hér um ræðir. 3 Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að aðaláfrýjendur, sem koma í stað Karls og Steingríms, skuli greiða gagnáfrýjanda stefnufjárhæð málsins. Þar sem einvörðungu er um að ræða skaðabætur verður ekki hróflað við þeirri niðurstöðu að greiða beri dráttarvexti af fjárhæðinni frá 13. febrúar 2011. Samkvæmt öllu framansögðu verður héraðsdómur staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir. Eftir málsúrslitum verða aðaláfrýjendur dæmdir til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, en honum gert að greiða gagnstefndu málskostnað hér fyrir dómi, svo sem nánar segir í dómsorði.  Dómsorð: Aðaláfrýjendur, þrotabú Karls Emils Wernerssonar og þrotabú Steingríms Wernerssonar, greiði gagnáfrýjanda, þrotabúi Milestone ehf., óskipt ásamt þrotabúi Guðmundar Ólasonar 5.195.721.859 krónur með dráttarvöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Ákvæði héraðsdóms skulu að öðru leyti vera óröskuð. Aðaláfrýjendur greiði gagnáfrýjanda óskipt 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi greiði gagnstefndu, Ingunni Gyðu Wernersdóttur, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.                                                                                 Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2017 I          Mál þetta, sem var dómtekið 13. janúar sl. og að nýju í dag á grundvelli 104. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er höfðað af þrotabúi Milestone ehf., Borgartúni 26 í Reykjavík, 8. janúar 2011 á hendur Karli Emil Wernerssyni, Blikanesi 9 í Garðabæ, en áður að Efri-Rauðalæk í Rangárþingi, og sama dag á hendur Guðmundi Ólasyni, Asparhvarfi 20 í Kópavogi, 9. janúar 2011 á hendur Steingrími Wernerssyni, Bretlandi, og 13. janúar 2011 á hendur Ingunni Gyðu Wernersdóttur, Huldubraut 44 í Kópavogi, en áður að Bjarmalandi 7 í Reykjavík.          Endanleg kröfugerð stefnanda er að stefndu greiði þrotabúinu óskipt 5.195.721.859 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 155.898.731 krónu frá 6. janúar 2006 til 9. febrúar 2006, af 312.298.543 krónum frá þeim degi til 3. mars 2006, af 468.573.085 krónum frá þeim degi til 5. apríl 2006, af 626.601.409 krónum frá þeim degi til 5. maí 2006, af 786.446.150 krónum frá þeim degi til 6. júní 2006, af 948.608.390 krónum frá þeim degi til 5. júlí 2007, af 1.243.156.095 krónum frá þeim degi til 11. ágúst 2006, af 1.539.053.388 krónum frá þeim degi til 5. september 2006, af 1.685.962.873 krónum frá þeim degi til 3. október 2006, af 1.834.671.809 krónum frá þeim degi til 6. nóvember 2006, af 1.984.055.539 krónum frá þeim degi til 1. desember 2006, af 2.584.055.539 krónum frá þeim degi til frá 6. desember 2006, af 2.733.326.804 krónum frá þeim degi til 8. janúar 2007, af 3.032.710.534 krónum frá þeim degi til 6. febrúar 2007, af 3.332.881.524 krónum frá þeim degi til 6. mars 2007, af 3.634.289.637 krónum frá þeim degi til 10. apríl 2007, af 3.934.685.559 krónum frá þeim degi til 4. maí 2007, af 4.236.880.932 krónum frá þeim degi til 6. júní 2007, af 4.371.921.932 krónum frá þeim degi til 3. júlí 2007, af 4.507.660.560 krónum frá þeim degi til 3. ágúst 2007, af 4.643.698.172 krónum frá þeim degi til 6. september 2007, af 4.779.785.615 krónum frá þeim degi til 3. október 2007, af 4.917.666.960 krónum frá þeim degi til 5. nóvember 2007, af 5.056.245.934 krónum frá þeim degi til 6. desember 2007 en af allri fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.          Af hálfu stefndu Ingunnar er aðallega krafist sýknu en til vara að krafa stefnanda verði felld niður eða lækkuð verulega. Þá krefst stefnda Ingunn málskostnaðar auk virðisaukaskatts.          Stefndi Karl gerir aðallega þá kröfu að hann verði sýknaður en til vara að dómkröfur stefnanda verið lækkaðar verulega. Þá krefst hann málskostnaðar auk virðisaukaskatts.          Af hálfu stefnda Steingríms er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður en til vara að kröfur á hendur honum verði felldar niður eða lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar auk virðisaukaskatts.          Stefndi Guðmundur krefst aðallega sýknu en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega, auk málskostnaðar.          Í öndverðu kröfðust allir stefndu að málinu yrði vísað frá dómi. Í fyrirtöku 20. desember 2011 féllu allir stefndu frá frávísunarkröfum sínum nema stefnda Ingunn. Hinn 7. febrúar 2012 var frávísunarkröfu hennar hafnað. Af hálfu stefndu var á ný krafist frávísunar málsins í kjölfar þess að óskað var dómkvaðningar matsmanna til að meta ógjaldfærni Milestone ehf. Með úrskurði 5. júní 2012 var þessari kröfu hafnað. Í þinghaldi 26. október 2012 voru matsmenn dómkvaddir til þess að framkvæma umbeðið mat. Matsgerð var lögð fram í málinu 23. maí 2014. Í þinghaldi 22. september 2014 var málinu frestað uns dómur félli í máli nr. E-116/2011. Í því máli voru riftunarkröfur stefnanda á hendur stefnda Karli til umfjöllunar þar sem sama matsgerð hafði verið lögð fram. Dómur héraðsdóms í því máli féll 5. júní 2015. Honum var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og féll dómur réttarins 28. apríl 2016. Í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands var mál þetta tekið fyrir 26. maí 2016 þar sem málinu var frestað til sáttaumleitana. Í þinghaldi 23. júní sama ár voru lögð fram frekari gögn. Að því loknu vék þáverandi dómari í málinu sæti með úrskurði. Undirritaður dómari tók við málinu í kjölfarið. II          Milestone ehf. var stofnað í mars 1988. Félagið hét áður öðru nafni en árið 2004 var heiti þess breytt þegar það sameinaðist Apóteki Austurbæjar ehf., Vesturbæjarapóteki ehf. og einkahlutafélaginu Ísrann. Umsvif Milestone ehf. jukust mikið á árunum 2005 til 2008. Í upphafi þess tíma voru stefndu, systkinin Ingunn, Karl og Steingrímur Wernersbörn, eigendur allra hluta í Milestone ehf., með beinum og óbeinum hætti, og sátu í stjórn þess. Síðar áttu eftir að verða breytingar á eignarhaldi félagsins og setu systkinanna í stjórn þess þegar stefnda Ingunn vék úr henni og hvarf úr eigendahópi félagsins.          Í desember 2004 var stefndi Guðmundur ráðinn framkvæmdastjóri Milestone ehf. Ráðning hans í það starf var samþykkt á aðalfundi félagsins 20. maí 2005. Nýr ráðningarsamningur var gerður við stefnda Guðmund 1. september 2006 þar sem starfsheiti hans var breytt í forstjóra.          Eignir Milestone ehf. rýrnuðu verulega í kjölfar hrunsins haustið 2008. Fór svo að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2009. Frestdagur var 22. júní 2009. Af hálfu skiptastjóra þrotabúsins fór fram rannsókn á bókhaldi og rekstri Milestone ehf. síðustu tvö árin fyrir frestdag. Annaðist endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young rannsóknina. Í stefnu greinir svo frá að í henni hafi komið í ljós að verulegar fjárhæðir hefðu verið greiddar út af reikningi Milestone ehf. til stefndu Ingunnar með fjölda greiðslna á árunum 2006 og 2007. Ágreiningslaust er að þessar greiðslur voru inntar af hendi eins og þeim er lýst í svohljóðandi töflu í stefnu: Dags. Fskj. Skýring í bókhaldi Fjárhæð Uppsöfnuð staða 6.1.2006 6005 Ingunn Wernersd. 155.898.731 155.898.731 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 9.2.2006 6040 Ingunn Wernersd. 156.399.812 312.298.543 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 3.3.2006 6162 Ingunn Wernersd. 156.274.542 468.573.085 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 5.4.2006 6281 Ingunn Wernersd. 158.028.324 626.601.409 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 5.5.2006 6358 IW 159.844.741 786.446.150 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 6.6.2006 6518 IW 162.162.240 948.608.390 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 5.7.2006 6663 IW 294.547.705 1.243.156.095 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 11.8.2006 6767 IW 295.897.293 1.539.053.388 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 5.9.2006 6890 IW 146.909.485 1.685.962.873 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 3.10.2006 7042 IW 148.708.936 1.834.671.809 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 6.11.2006 7173 IW 149.383.730 1.984.055.539 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 1.12.2006 7488 IW 600.000.000 2.584.055.539 Fært á móti sem skammtímalán Milestone við Sjóvá, Taka lán hjá Sjóvá til að greiða IW 6.12.2006 7280 IW 149.271.265 2.733.326.804 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 31.12.2006 7536 IW -2.733.326.804 0 Flutt á Milestone Ltd. 8.1.2007 7661 IW 299.383.730 299.383.730 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 6.2.2007 7823 IW 300.170.990 599.554.720 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 6.3.2007 7911 IW 301.408.113 900.962.833 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 10.4.2007 8183 IW 90.395.922 991.358.755 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 10.4.2007 8184 IW 50.000.000 1.041.358.755 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 10.4.2007 8185 IW 160.000.000 1.201.358.755 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 4.5.2007 8168 IW 302.195.373 1.503.554.128 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 6.6.2007 8648 IW 135.041.000 1.638.595.128 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 3.7.2007 8851 IW 135.738.628 1.774.333.756 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 3.8.2007 9193 IW 136.037.612 1.910.371.368 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 6.9.2007 9236 IW 136.087.443 2.046.458.811 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 3.10.2007 9468 IW 137.881.345 2.184.340.156 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 5.11.2007 9677 IW 138.578.974 2.322.919.130 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 6.12.2007 9908 IW 139.475.925 2.462.395.055 Greitt útaf reikningi Milestone nr. 735 í Ísb 31.12.2007 10194 IW -2.462.395.055 0 Flutt á Milestone Ltd.            Í stefnu er aðallega út frá því gengið að greiðslurnar hafi verið lán til stefndu Ingunnar. Hafi uppsöfnuð skuld hennar í lok árs 2006 verið aflétt með færslu í bókhaldi félagsins með því að krafa sömu fjárhæðar var mynduð í bókhaldinu á félagið Milestone Import Export Ltd. Nam sú fjárhæð 2.733.326.804 krónum í árslok 2006. Sama hafi verið gert í árslok 2007, en þá kveður stefnandi að skuld stefndu Ingunnar hafi numið 2.462.395.055 krónum. Samtals hafi umræddar greiðslur numið 5.195.721.859 krónum sem aflétt hafi verið af stefndu Ingunni með framangreindum hætti.          Þó að stefnandi hafi aðallega gengið út frá því í stefnu að fjárgreiðslurnar fælu í sér lán til stefndu Ingunnar er þar jafnframt tekið fram að svo virtist sem greiðslurnar gætu mögulega verið liður í kaupum stefndu Karls og Steingríms á hlutum stefndu Ingunnar í Mileston ehf. og tengdum félögum. Í þessu sambandi lagði stefnandi fram fjóra samninga frá 4. desember 2005 milli stefndu Ingunnar sem sölurétthafa og stefndu Karls og Steingríms, sem sameiginlega voru nefndir kaupréttarhafi. Í þessum samningum lýstu samningsaðilar því yfir að á tilgreindum tímabilum gætu bæði sölurétthafi og kaupréttarhafi krafist þess að kaupréttarhafi keypti og sölurétthafi seldi ákveðið hlutfall af hlutabréfum í Milestone ehf., Milestone Ltd. og Leiftra Ltd. Í samningunum voru nánari fyrirmæli um tilkynningu um einstök viðskipti, kaupverð og greiðslu þess. Sérstaklega var tekið fram að kaupréttarhafi gæti tilgreint aðra aðila sem kaupendur, þ.m.t. Milestone ehf., Leiftra Ltd. eða önnur félög sem kaupréttarhafi kynni að eiga eða stofna.          Með bréfi 30. september 2010 krafði stefnandi stefndu Ingunni um endurgreiðslu á fjármunum þeim sem stefnandi taldi að hún hefði fengið að láni hjá Milestone ehf., samtals að fjárhæð 5.195.721.859 krónur. Jafnframt lýsti stefnandi yfir riftun á þeirri gjöf sem fólst í eftirgjöf Milestone ehf. á kröfu á hendur stefndu 31. desember 2007. Í bréfinu segir einnig að hafi greiðslurnar verið vegna kaupa stefndu Karls og Steingríms á hlutum í Milestone ehf., og raunverulegur viðsemjandi stefndu Ingunnar hafi þá ekki verið Milestone ehf., hafi henni verið óheimilt að taka við greiðslum frá félaginu. Yrði niðurstaðan sú sama, þ.e. að greiðslur Milestone ehf. án gagngjalds væru lán félagsins til stefndu Ingunnar.          Með tölvuskeyti lögmanns stefndu Ingunnar 7. október 2010 var því mótmælt að stefnda væri í skuld við stefnanda. Mál þetta var síðan höfðað í byrjun árs 2011 þar sem í fyrsta lagi var gerð krafa um að rift yrði gjöf Milestone ehf. til stefndu Ingunnar 31. desember 2007 að fjárhæð 2.462.395.055 krónur og að stefndu yrði gert að greiða stefnanda óskipt 5.195.721.859 krónur.          Eins og mál þetta horfir við er rétt að víkja nokkrum orðum að atvikum eftir að málið var höfðað. Málatilbúnaður stefnanda í stefnu var á þá leið að eftirgjöf kröfu Milestone ehf. á hendur stefndu Ingunni 31. desember 2007 hefði verið gjafagerningur sem væri riftanlegur á grundvelli 2. málsliðar 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Einnig var á því byggt að ráðstöfun þessi væri riftanleg á grundvelli 141. gr. sömu laga. Fjárkrafa stefnanda á hendur stefndu var í fyrsta lagi reist á því að stefnda Ingunn bæri samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991 að endurgreiða auðgun sína vegna hinnar riftanlegu ráðstöfunar. Í öðru lagi var á því byggt  að stefnda Ingunn hefði fengið ólöglegt lán frá Milestone ehf. sem henni bæri að endurgreiða samkvæmt 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Telur stefnandi að aðrir stefndu beri einnig ábyrgð á endurgreiðslu þessa láns. Í þriðja lagi hefur stefnandi byggt á því að stefndu beri öll skaðabótaábyrgð á því tjóni sem Milestone ehf. hafi orðið fyrir vegna þessara ráðstafana.          Eftir dóm Hæstaréttar Íslands 28. apríl 2016  í málinu nr. 578/2015 féll stefnandi frá kröfu um riftun á eftirgjöf skuldar á grundvelli laga nr. 21/1991 og endurgreiðslukröfu á hendur stefndu Ingunni á grunni sömu laga. Áfram var hins vegar á því byggt af hálfu stefnanda að lánveiting til stefndu Ingunnar hafi verið ólögmæt samkvæmt 79. gr. laga nr. 138/1994 og að endurgreiðsluskylda hvíli á stefndu af þeim sökum. Jafnframt segir í bókun stefnanda, sem lögð var fram í þinghaldi 17. nóvember sl., að á því sé byggt að greiðslur félagsins til stefndu Ingunnar, sem hluti af uppgjöri kaupsamninga um hluti í Milestone ehf. og fleiri félögum milli stefndu Ingunnar og stefndu Karls og Steingríms, hafi farið í bága við 2. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Af þeim sökum hvíli endurgreiðsluskylda á stefndu. Að lokum kemur þar fram að á því sé byggt að stefndu beri að greiða stefnanda skaðabætur vegna þeirra gerninga sem málið lýtur að á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar og 108. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.          Sérstakur saksóknari gaf út ákæru 5. júlí 2013 meðal annars á hendur stefndu Karli, Steingrími og Guðmundi. Í I. kafla ákærunnar voru þeim gefin að sök umboðssvik með því að hafa í sameiningu í störfum sínum hjá Milestone ehf. misnotað aðstöðu sína og valdið félaginu verulegri fjártjónshættu „er þeir létu Milestone ehf. fjármagna efndir á samningum sem voru félaginu óviðkomandi en sem ákærðu Karl og Steingrímur höfðu gert við [Ingunni] í árslok 2005 um sölu hennar á hlutafé í Milestone ehf. og aflandsfélögunum Leiftra Ltd. og Milestone Import Export Ltd.“. Í ákærunni er háttseminni lýst nánar þannig að Milestone ehf. hafi greitt stefndu Ingunni „samtals 2.133.326.804 krónur á árinu 2006 með 12 mánaðarlegum greiðslum og samtals 2.462.395.055 krónur á árinu 2007 með 12 mánaðarlegum greiðslum og var jafnframt skuldbundið á árinu 2006 til að greiða Sjóvá-Almennum tryggingum hf., dótturfélagi Milestone ehf., 600.000.000 króna vegna þátttöku þess félags í efndum samninganna við [Ingunni]“. Er staðhæft í ákæru að allar þessar greiðslur hafi verið inntar af hendi „í fullkominni óvissu um hvort, hvernig, hvenær eða hver myndi endurgreiða Milestone ehf. fjármunina og án þess að endurheimt fjárins, samtals 5.195.721.859 krónur, væri tryggð með veðum eða öðrum tryggingarráðstöfunum“.          Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í ofangreindu sakamáli, er lýtur að sömu greiðslum og þær sem eru til umfjöllunar í fyrirliggjandi máli, féll 17. desember 2014. Þar voru ákærðu, þ. á m. stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins. Málinu var skotið til Hæstaréttar Íslands 13. janúar 2015 og fékk það hæstaréttarnúmerið 74/2015. Dómur réttarins var kveðinn upp 28. apríl 2016. Með honum voru stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur sakfelldir fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga vegna framangreindrar háttsemi sem lýst var í I. kafla ákærunnar. Ítarlega er fjallað um þessar ráðstafanir í dómi réttarins. Verður vikið að þeirri umfjöllun og ályktun réttarins síðar í dómi þessum eftir því sem efni er til.                                                                                           III 1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda          Af hálfu stefnanda er á það bent í stefnu að lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög, (hér eftir einnig vísað til sem „ehfl.“) setji ströng skilyrði fyrir því hvernig félag megi úthluta fjármunum til hluthafa og stjórnenda félagsins og tengdra aðila. Megintilgangurinn með þessum ströngu skilyrðum sé að auka vernd kröfuhafa og annarra hluthafa. Úthlutun fjármuna til hluthafa sé þannig eingöngu heimil þegar hún er framkvæmd með arðsúthlutun, við lækkun hlutafjár, með greiðslu úr varasjóði og við félagsslit, sbr. 73. gr. laganna.          Stefnandi vísar enn fremur til þess að samkvæmt 79. gr. ehfl. sé einkahlutafélagi ekki heimilt að veita hluthöfum eða stjórnar­mönnum lán. Sama gildi um þá sem séu skyldir hluthöfum eða stjórnarmönnum að feðgatali eða niðja. Við túlkun á 79. gr. ehfl. verði að hafa framangreindan tilgang laganna í huga. Allar úthlutanir fjármuna til eigenda, stjórnenda og nátengdra aðila séu þannig ólögmætar og falli undir 79. gr. ehfl. nema úthlutunin sé á grundvelli framangreindra heimilda í lögum um einkahlutafélög.          Stefnandi tekur fram að sé einhver vafi uppi um grundvöll fjárúthlutunar félags til tengdra aðila verði að skýra úthlutunina sem svo að hún teljist lán í skilningi 79. gr. ehfl. þangað til sýnt sé fram á annað. Viðtakandi lánsins beri sönnunarbyrðina fyrir því að úthlutun fjármuna til hans sé lögmæt.          Með vísan til megintilgangs laganna byggir stefnandi einnig á því að gera verði mjög strangar kröfur til þess að úthlutun fjármuna til stjórnenda, hluthafa og tengdra aðila sé forsvaranleg og að fullnægjandi gögn liggi fyrir um heimild til fjár­úthlutunarinnar. Ákvörðun um úthlutunina og ástæður hennar þurfi að koma greinilega fram í skjölum og fundargerðum stjórnar, sbr. 8. mgr. 79. gr. ehfl. Allt sem sé óljóst verði að túlka viðtakanda fjármunanna í óhag enda sé reglunni ætlað að vernda félagið sjálft (o.þ.m. aðra hluthafa og kröfuhafa þess) fyrir því að tilteknir aðilar geti nýtt sér félagið í eigin þágu. Bendir stefnandi á að reglan eigi að vernda félagið gagnvart hluthöfum, stjórnendum þess og aðilum nákomnum þeim enda hafi þessir aðilar greiðan aðgang að félaginu og séu í bestu aðstöðunni til að nýta félagið í eigin þágu. Slíkar reglur væru til lítils ef þessir aðilar gætu tekið fé út úr félaginu, án nokkurra útskýringa og án þess að gera um það samninga, en vísað síðan sönnunarbyrðinni á þá sem síðar vilji endur­heimta féð.          Í stefnu kveður stefnandi greiðslur Milestone ehf. til stefndu Ingunnar nema 5.195.721.859 krónum á árunum 2006 og 2007. Ekkert gagngjald hafi komið frá stefndu Ingunni á móti og hafi þessar greiðslur því verið lán Milestone ehf. til hennar. Enginn samningur hafi verið gerður milli Milestone ehf. og stefndu Ingunnar um lánveitinguna og ekki verði séð að nein önnur gögn séu til um greiðslur félagsins til stefndu Ingunnar.          Af hálfu stefnanda er á því byggt að undantekning í lokamálslið 1. mgr. 79. gr. ehfl., sem tekur til venjulegra viðskiptalána, eigi ekki við um lán Milestone ehf. til stefndu Ingunnar enda hafi engar viðskiptalegar forsendur verið fyrir þeim lánum. Ekkert eiginlegt viðskipta­samband hafi verið milli hennar og Milestone ehf. Byggir stefnandi á því að stefnda Ingunn beri sönnunarbyrðina fyrir því að lán til hennar hafi verið venjuleg viðskiptalán. Þangað til sýnt sé fram á annað teljist lánin ólögmæt.          Stefnandi vísar enn fremur til þess í stefnu að lánin hafi ekki verið Milestone ehf. til framdráttar enda virðist félagið ekki hafa haft neinn hag af lánveitingunni og félagið ekki haft neina tryggingu fyrir því að lánin yrðu greidd til baka. Þá séu önnur skilyrði og kjör lánanna ekki sambærileg þeim sem viðgangist á almennum lánamarkaði enda verði t.d. ekki séð að lánið hafi borið vexti eða annan kostnað fyrir stefndu Ingunni. Lán sem þessi séu ekki hluti af starfsemi Milestone ehf. og telur stefnandi að félagið hefði aldrei veitt slíkt lán til venjulegra, ótengdra viðskiptamanna. Forsendur lánsins hafi þannig ekki verið af viðskiptalegum toga og hafi hagsmunir Milestone ehf. ekki ráðið för heldur hagsmunir stefndu Ingunnar.          Til stuðnings framangreindri málsástæðu vísar stefnandi til þess að á árunum 2006 og 2007 hafi stefnda Ingunn verið hluthafi og stjórnarmaður í Milestone ehf. Þá hafi hún verið systir aðaleigenda félagsins, stefndu Karls og Steingríms. Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, hafi félaginu þar með verið óheimilt að veita stefndu Ingunni lán og hafi henni einnig verið óheimilt að taka við greiðslunum. Lán félagsins til stefndu Ingunnar hafi þannig verið ólögmæt og því beri henni að greiða lánin til baka með dráttarvöxtum samkvæmt 4. mgr. 79. gr. laganna.          Í stefnu kemur fram að hafi greiðslurnar verið hluti af uppgjöri kaupsamninga um hluti í Milestone ehf. og fleiri félögum milli stefndu Ingunnar annars vegar og stefndu Karls og Steingríms hins vegar séu þær jafnólögmætar. Hafi svo verið þá hafi Milestone ehf., auk þess sem áður er getið, látið fjármagna kaup á hlutum í sjálfu sér og móðurfélagi sínu en það sé óheimilt skv. 2. mgr. 79. gr. ehfl.          Í stefnu kemur fram að skylda til endurgreiðslu ólögmætra lána komi skýrlega fram í lögum um einkahlutafélög. Eftir standi þá hvort stefnda Ingunn hafi verið leyst undan skuldinni með lögmætum og bindandi hætti í árslok 2006 og 2007. Í því sambandi er á það bent að bann við lánveitingum einkahlutafélags til hluthafa og tengdra aðila sé sett til þess að tryggja skil á milli fjármuna félagsins og fjármuna hluthafa þess. Hluthafar og aðrir tengdir aðilar eigi ekki að fara með fjármuni félagsins sem sína eigin. Slíkt skapi hættu á því að lántakinn hagnist með óréttmætum hætti á kostnað félagsins o.þ.m. annarra hluthafa þess og kröfuhafa. Þar sem 79. gr. ehfl. sé ætlað að vernda félagið gagnvart hluthöfum og stjórnendum þess verði að túlka reglurnar með þeim hætti að lántakinn beri ríka skyldu til að greiða ólögmæt lán til baka. Hafa beri í huga að ólöglegt lán til hluthafa sé í raun fjárdráttur hluthafans enda liggi refsing við því að þiggja slíkt lán, sbr. 127. gr. ehfl.          Til þess að framangreint ákvæði nái tilgangi sínum telur stefnandi að hluthafar megi ekki gera skuld sína við félagið upp með skuldajöfnuði eða öðrum hætti en með greiðslu peninga. Aðilar sem fái ólögmæt lán skv. 79. gr. ehfl. séu í aðstöðu til að misnota félagið og því virki reglurnar ekki ef aðilarnir geti komið sér undan endurgreiðsluskyldu sinni með því einu að nota áhrif sín til að láta félagið fella niður kröfuna á hendur þeim með ýmsum ráðstöfunum. Með því væru félögin misnotuð enn frekar til hagsbóta lántaka en á kostnað kröfuhafa félagsins. Því verði að túlka 79. gr. ehfl. með þeim hætti að ólögleg lán til hluthafa beri að greiða til baka í beinhörðum peningum.          Stefnandi kveður eftirgjafir krafna Milestone ehf. á hendur stefndu Ingunni og stofnun kröfu á hendur Milestone Import Export Ltd. augljóslega hafa verið mála­mynda­gerninga sem séu óskuldbindandi fyrir félagið, sbr. m.a. 33., 34. og 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefnandi telur þannig að líta beri fram hjá eftirgjöfum krafna á hendur stefndu Ingunni sem fóru fram 31. desember 2006 og 2007.          Stefnandi bendir á að krafa um endurgreiðslu ólögmæts láns sé ekki riftun samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., enda sé ekki verið að hnekkja ráðstöfun sem við venjulegar kringumstæður væri lögleg. Með endurgreiðslukröfu þessari sé stefnandi að hnekkja ráðstöfun sem sé beinlínis ólögleg og ógild. Skipti gjaldþrot Milestone ehf. engu máli hvað það varði.          Stefnandi vísar einnig til þess að engir tímafrestir séu fyrir endurheimtu félagsins í 79. gr. ehfl. heldur sé þar aðeins kveðið á um að endurgreiða skuli ólögmæt lán með dráttarvöxtum. Milestone ehf. hafi eignast kröfu um endurgreiðslu lánanna um leið og þau hafi verið veitt og þrotabú Milestone ehf. hafi tekið við þeirri kröfu við úrskurð um gjaldþrot, sbr. 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991.          Á því er byggt af hálfu stefnanda að þar sem lánveitingar Milestone ehf. til stefndu Ingunnar hafi verið ólögmætar og valdið félaginu tjóni beri henni skylda til að leiðrétta hinar ólögmætu ráðstafanir með endurgreiðslu peninga. Þannig verði að líta fram hjá öllum löggerningum félagsins sem miði að því að aflétta endurgreiðsluskyldu stefndu Ingunnar vegna ólögmætra lána hennar frá félaginu.          Í stefnu kemur fram að með vísan til framangreindra atriða eigi stefnandi kröfu um að stefnda Ingunn endurgreiði stefnanda öll lánin, samtals að fjárhæð 5.195.721.859 krónur, með dráttarvöxtum af hverju láni fyrir sig frá og með þeim degi er það hafi verið veitt, eins og tilgreint sé nánar í dómkröfum. Eigi endurgreiðslukrafan stoð í 4. mgr. 79. gr. ehfl. en samkvæmt 5. mgr. 79. gr. ehfl. bera stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur einnig ábyrgð á endurgreiðslunni gagnvart stefnanda.          Eins og áður segir byggir stefnandi kröfur sínar einnig á almennum reglum skaðabótaréttar og 108. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Við gjaldþrotaskiptin kveðst stefnandi hafa eignast skaðabótakröfur Milestone hf. á hendur stjórnarmönnum félagsins, sbr. XII. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.          Stefnandi byggir á því að stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur hafi, sem stjórnarmenn og framkvæmda­stjóri Milestone ehf., vitað eða mátt vita um alla þá gerninga sem mál þetta lúti að. Þar sé bæði átt við ólögmætar greiðslur Milestone ehf. til stefndu Ingunnar og eftirgjöf krafna á hendur henni í lok áranna 2006 og 2007.          Stefnandi ætlar að stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur hafi tekið ákvörðun um greiðslurnar til stefndu Ingunnar. Þá hafi þeir sömuleiðis tekið ákvörðun um, og borið ábyrgð á því, að aflétta skuldum hennar. Þessar ráðstafanir hafi verið ólögmætar og valdið Milestone ehf. tjóni. Stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur brutu þannig gegn starfsskyldum sínum og trúnaði gagnvart félaginu. Í ljósi stöðu, þekkingar og ábyrgðar stjórnenda í félögum telur stefnandi að það skuli beita ströngu sakarmati við mat á háttsemi fyrrverandi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra Milestone ehf.          Stefnandi bendir einnig á að stefnda Ingunn hafi verið svo nátengd félaginu og stjórnendum þess að hún hafi vitað eða mátt vita að reglulegar greiðslur félagsins til hennar voru ólögmætar. Þá leiðir það einnig af eðli máls að stefnda Ingunn hafi vitað eða mátt vita að hún hafi ekki átt rétt á reglulegum greiðslum frá félaginu, án nokkurs endurgjalds.          Í stefnu kemur fram að hafi greiðslur Milestone ehf. til stefndu Ingunnar í raun verið greiðsla til hennar vegna kaupa stefndu Karls og Steingríms á hlutum hennar í Milestone ehf. og fleiri félögum sé háttsemin augljóslega skaðabótaskyld og jafnvel refsiverð. Stefndu Karli og Steingrími hafi verið óheimilt að láta Milestone ehf. greiða fyrir hluti í sjálfu sér og stefndu Ingunni hafi verið óheimilt að taka við greiðslu frá félaginu. Þá hafi stefnda Guðmundi, sem framkvæmdastjóra Milestone ehf., verið óheimilt að ljá atbeina sinn til slíkra greiðslna eða láta þær óátaldar.          Í stefnu kemur fram að lítið sé til af gögnum um þær ráðstafanir sem málið fjalli um. Stefnandi telji þó ljóst að stefndu hafi brotið gegn skyldum sínum sem stjórnendur og hluthafar Milestone ehf. Hafi stefndu brotið gegn skyldum sínum sem fram komi í lögum um einkahlutafélög, einkum í IX., X og XI. kafla laganna, en einnig hafi stefndu brotið gegn óskráðum reglum félagaréttar og skaðabótaréttar.          Stefnandi bendir m.a. á að samkvæmt 2. mgr. 43. gr. ehfl. megi stjórnarmenn og framkvæmda­stjórar ekki misnota aðstöðu sína í viðskiptum með hluti í félaginu. Samkvæmt 48. gr. laganna megi stjórnarmaður ekki taka þátt í meðferð máls um samningsgerð milli félagsins og hans og heldur ekki um samningsgerð milli félagsins og þriðja manns ef hann hefur þar verulegra hagsmuna að gæta sem kunni að fara í bága við hagsmuni félagsins. Samkvæmt 2. mgr. 51. gr. megi félagsstjórn og framkvæmdastjóri ekki framfylgja ákvörðunum hluthafafundar eða annarra stjórnaraðila félagsins ef ákvarðanirnar eru ógildar vegna þess að þær brjóta í bága við lög eða félagssamþykktir.          Í stefnu er byggt á því að skilyrði fyrir skaðabótaábyrgð stefndu, sem lúti að huglægri afstöðu þeirra, séu uppfyllt, en telja verði háttsemi þeirra í það minnsta fela í sér stórkostlegt gáleysi, ef ekki ásetning. Stefndu hafi þannig sýnt af sér saknæma háttsemi og einnig ólögmæta enda hafi þeir valdið félaginu tjóni með ólöglegri og skaðlegri háttsemi. Þeir beri samkvæmt framangreindu skaðabótaábyrgð vegna þess tjóns sem þrotabúinu og kröfuhöfum þess hafi verið bakað með gerningunum. Enn fremur séu orsakatengsl milli tjóns Milestone ehf. og ólögmætra athafna allra stefndu. Tjón félagsins sé einnig sennileg afleiðing háttseminnar.          Með vísan til þess sem að framan greinir telur stefnandi að stefndu beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem Milestone ehf. hafi orðið fyrir með framangreindum gerningum. Beri stefndu að greiða stefnanda skaðabætur sem svari til endurgreiðslu allra greiðslna til stefndu Ingunnar á árunum 2006 og 2007 í samræmi við 4. og 5. mgr. 79. gr. ehfl. og einnig, eftir atvikum, vegna þeirrar gjafar og ótilhlýðilegu ráðstöfunar sem fólst í eftirgjöf kröfunnar á hendur stefndu Ingunni hinn 31. desember 2007.          Stefnandi krefst dráttarvaxta á grundvelli 4. mgr. 79. gr. ehfl. af hverju og einu láni, frá þeim degi sem hver greiðsla var innt af hendi til stefndu Ingunnar frá félaginu. Verði ekki fallist á að fjárkrafan skuli bera dráttarvexti sem krafa um endurgreiðslu ólögmætra lána samkvæmt 79. gr. ehfl. er fjárkrafan á hendur stefndu byggð á því að stefndu beri að greiða tjón búsins á grundvelli 142. gr. gþl. Auðgun stefndu Ingunnar samsvari tjóni stefnanda og nemi því sömu fjárhæð. Auk þess er byggt á almennum skaðabótareglum. Í því tilviki er krafist dráttarvaxta af 5.195.721.859 kr. frá og með mánuði eftir þing­festingu stefnu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.          Auk þess að vísa til framangreindra laga til stuðnings málatilbúnaði stefnanda kveður hann kröfusamlag eiga stoð í 27. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og samlagsaðild í 19. gr. sömu laga. Þá eigi málskostnaðarkrafa stefnanda sér stoð í 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Um varnarþing vísar stefnandi til 32. gr., 1. mgr. 35. gr., 41. gr. og 1. mgr. 42. gr. sömu laga.          Við aðalmeðferð málsins var á því byggt af hálfu stefnanda að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar Íslands frá 24. apríl 2016 í málinu nr. 74/2015 hefði fullt sönnunargildi um þau atvik sem þar voru lögð til grundvallar sakfellingu stefndu Karls, Steingríms og Guðmundar, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. 2. Helstu málsástæður og lagarök stefndu Ingunnar Wernersdóttur          Stefnda Ingunn mótmælir þeirri málavaxtalýsingu sem fram kemur í stefnu. Telur hún lýsingu stefnanda á atvikum að stórum hluta vera ranga og ekki í samræmi við þau sönnunargögn sem stefnandi hafi sjálfur lagt fram.          Stefnda kveður málavexti vera í meginatriðum á þá leið að síðla árs 2005 hafi hún og meðstefndi, Steingrímur Wernersson, ákveðið að selja alla hluti sína í stefnanda ásamt öllum öðrum hlutum, sem þau ættu í öðrum félögum hér á landi og erlendis með meðstefnda, Karli Emil Wernerssyni. Kveðst stefnda hafa á þessum tíma átt 28% í stefnanda og Steingrímur 32%. Þau hafi því ráðið yfir meirihluta alls hlutafjár í félaginu sem hafi verið skráð 2.857.000 krónur hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Hlutafjármál stefnanda hafi þó ekki reynst svona einföld þegar kom að samningum um sölu þeirra.          Í framhaldi af þessu kveðst stefnda og meðstefndi Steingrímur hafa samið við Sigurð G. Guðjónsson hrl. og Sigurð Jónsson, endurskoðanda hjá KPMG Endurskoðun hf., og veitt þeim fullt og ótakmarkað umboð til viðræðna um sölu hluta í stefnanda og öðrum félögum honum tengdum, sbr. samning þar um frá 14. nóvember 2005.          Stefnda kveður meðstefnda Karl ekki hafa viljað missa tangarhald sitt á stefnanda og því fengið meðstefnda Steingrím til þess að hætta við sölu sinna hluta og standa með sér að kaupum á hlutum stefndu. Karl Emil hafi heldur ekki viljað ræða sölumál stefndu við Sigurð G. Guðjónsson hrl. Hafi farið svo að Sigurður Jónsson endurskoðandi hafi séð um allar viðræður við Karl Emil og fulltrúa hans, þá Guðmund Ólason og Jóhannes Sigurðsson hrl. Samkomulag hafi náðst um kaupverð hluta stefndu, 5.778.567.000 krónur.          Stefnda lýsir atvikum á þann veg að þegar samkomulag hafi náðst um söluverð, og fyrir hafi legið hvaða fjármagnstekjuskattur myndi falla á hana vegna sölunnar, hafi meðstefndi Karl og samverkamenn hans hjá stefnanda, þ. á m. meðstefndi, Guðmundur Ólason, viljað að gengið yrði frá samningum með þeim hætti að sölunni yrði, með kaup-/ og söluréttarsamningum, dreift yfir ákveðinn tíma. Ástæðan hafi verið sú að meðstefndi Karl hafi ekki viljað að stefnda kæmi fram á skrám um þá sem greiddu mestu skatta. Meðstefndu Karl og Guðmundur hafi þá leitað til Bernhards Bogasonar á skattasviði KPMG Endurskoðunar hf. Bernhard hafi ritað meðstefndu Karli og Guðmundi bréf 1. desember 2005, þar sem gerð hafi verið grein fyrir mögulegum leiðum til lækkunar eða frestunar skattgreiðslna.          Stefnda greinir svo frá að 4. desember 2005 hafi verið gengið frá viðskiptunum þannig að greiða skyldi 905.585.556 krónur fyrir áramót 2005/2006. Hafi átt að skipta eftirstöðvum kaupverðsins, 4.872.981.444 krónum, niður á fjóra samninga milli stefndu annars vegar og meðstefndu Karls og Steingríms hins vegar. Hafi þessir samningar verið kallaðir samningar um kaup-/sölurétt að hlutabréfum og liggi þeir frammi í málinu.          Samkvæmt þessum samningum hafi stefnda getað selt hluti sína til meðstefndu Karls og Steingríms, stefnanda eða annarra félaga sem meðstefndu hafi átt, með því að tilkynna þeim um söluna fyrir kl. 12.00 á hádegi 6. janúar 2006, fyrir kl. 12.00 á hádegi 1. júlí 2006 og fyrir kl. 12.00 á hádegi 6. janúar 2007.          Stefnda kveðst hafa virkjað sölurétt fyrsta samningsins fyrir kl. 12.00 föstudaginn 6. janúar 2006. Samkvæmt samningnum hafi stefnda átt að fá greiddar að höfuðstól 1.867.026.667 krónur fyrir 10,306% í stefnanda. Í samræmi við greiðsluskilmála 3. gr. kaupsamningsins hafi kaupverðið ásamt verðbótum verið greitt stefndu á tímabilinu janúar til desember 2006.          Stefnda kveðst hafa virkjaði söluréttinn samkvæmt öðrum samningi fyrir kl. 12.00 á hádegi 1. júlí 2006. Samkvæmt honum hafi stefnda átt að fá greiddar að höfuðstól 742.675.667 krónur fyrir 9,33% hlutafjár í Milestone Ldt., og 9,33% hlutafjár í Leiftra Ldt. Í samræmi við greiðsluskilmála 3. gr. kaupsamningsins hafi kaupverðið ásamt verðbótum verið greitt stefndu á tímabilinu júlí til desember 2006.          Stefnda kveðst hafa virkjað sölurétt tveggja annarra samninga fyrir kl. 12.00 á hádegi 6. janúar 2007. Samkvæmt þeim hafi stefnda átt að fá greiddar að höfuðstól 2.263.279.111 krónur fyrir 18,67% hlutafjár í Milestone Ldt., og 18,67% hlutafjár í Leiftra Ldt., og 4,294% í stefnanda. Í samræmi við greiðsluskilmála 3. gr. kaupsamningsins hafi kaupverðið ásamt verðbótum verið innt af hendi til stefndu á tímabilinu janúar til desember 2007.          Stefnda kveðst hafa haft hina seldu hluti að handveði til tryggingar á efndum söluréttarsamninganna þar til helmingur kaupverðsins samkvæmt hverjum og einum samningi hafði verið greiddur. Öll réttindi og skyldur sem fylgt hafi hinum seldu hlutum hafi hins vegar horfið til kaupanda frá þeim tíma er kaupin gerðust. Söluréttarhafa hafi borið að tilkynna fyrirtækjaskrá um úrsögn stefndu úr stjórn stefnanda frá sama tíma. Stefnda kveðst hafa horfið úr stjórn stefnanda 15. október 2006.          Af hálfu stefndu er því staðhæft að greiðslur til hennar samkvæmt samningum frá 4. desember 2005 á árinu 2006 og 2007 hafi því ekki verið lán, heldur hafi þær falið í sér efndir á samningum um kaup á hlutum í stefnanda, á samningum þar sem kröfuhafi, stefnda Ingunn, hafði m.a. samþykkt fyrir fram skuldskeytingu, sbr. 6. mgr. 1. gr. samninganna. Greiðslurnar hafi því ekki rýrt hag stefnanda, þar sem hann hafi fengið í hendur verðmæti sem hafi svarað til kaupverðsins. Stefnda hafi aldrei fengið í hendur nein gögn um að hún teldist í skuld við stefnanda vegna þessara viðskipta, enda vandséð hvernig það hafi mátt vera. Stefnda hafi heldur aldrei fengið í hendur nein gögn um það að stefnandi hafi gefið eftir einhverja skuld á hendur henni, eins og byggt sé á í stefnu. Stefnandi hafi aðeins lagt fram útskrift svokallaðs biðreiknings, þar sem sjá megi að stjórnendur stefnanda hafi fært ýmsar greiðslur sem ekki hafði verið tekin endanleg ákvörðunum um færslu á í bókhaldi félagsins þegar greiðslan hafi verið innt af hendi. Greiðslur sem færðar hafi verið á biðreikning 2006, og hafi átt rót sína að rekja til kaupsamninga við stefndu, hafi að lokum verið gerðar upp með lánssamningi milli stefnanda og Milestone Import Export Ldt. sem stefnandi hafi lagt fram. Stefnda beri enga ábyrgð á skuldum Milestone Import Export Ldt., hvorki beint né óbeint.          Stefnda kveður stefnanda ekki hafa sannað eða gert sennilegt með neinum hætti að kaupverðið, sem samið hafi verið um 4. desember 2005, hafi verið of hátt, ósanngjarnt eða óeðlilegt. Kaupsamningum um hlutabréf eða hluti í félögum með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna verði almennt ekki rift, þó að verðmæti hins selda falli í verði eftir kaupin, nema þá að kaupandinn sanni að brögð hafi verið í tafli eða að 36. gr. samningalaga eigi við. Stefnandi byggi ekki á almennum ógildingar- eða riftunarreglum samninga- og kröfuréttar í máli þessu.          Samkvæmt framansögðu hafnar stefnda því að greiðslur, sem henni bárust frá stefnanda á árunum 2006 til 2007, hafi verið lán, eins og byggt sé á í stefnu. Greiðslur þessar hafi byggst á samningum sem stefnandi hafi sjálfur lagt fram. Samkvæmt þeim hafi hún selt meðstefndu, Karli og Steingrími, alla hluti sína í stefnanda, Milestone Ldt. og Leiftra Ldt. Kaupendurnir hafi átt rétt til skuldskeytingar samkvæmt samningnum. Stefnandi hafi því getað án nokkurrar aðkomu stefndu orðið kaupandi allra þeirra hluta, sem hún samdi um sölu á þann 4. desember 2005 við meðstefndu Karl Emil og Steingrím. Stefnandi hafi samkvæmt 38. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 mátt kaupa hlutina með þeim skilmálum að hann ætti þó aldrei meira en 10% eftir sex mánuði og að kaupin væru fjármögnuð með frjálsum sjóðum.          Eftir að stefnda hafi horfið úr stjórn félagsins 15. október 2006 kveðst hún ekki hafa verið í neinni aðstöðu umfram hlutahafa almennt til þess að ganga úr skugga um hvort stjórnendur þess og aðrir hluthafar stefnanda færu að lögum. Stefnda geti því ekki borið „solidaríska“ skaðabótaábyrgð á 5.195.721.859 króna greiðslu með meðstefndu. Hafi viðsemjendur hennar, meðstefndu Karl og Steingrímur, tekið fé þetta að láni hjá stefnanda til þess að efna kaupsamninga sína við stefndu, beri þeir einir ábyrgð á þeirri lántöku gagnvart stefnanda. Af gögnum máls þessa megi og ráða að Milestone Import Export Ldt. hafi tekið 2.733.326.804 krónur að láni hjá stefnanda 30. desember 2006 sem greiða hafi átt þann 15. desember 2007. Stefnda beri enga persónulega ábyrgð á lánum Milestone Import Export Ldt.          Verði stefnda ekki alfarið sýknuð gerir hún þá kröfu að allar fjárkröfur á hendur henni verði felldar niður eða lækkaðar verulega með heimild í 3. mgr. 108. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Í því sambandi verði að horfa til þess að stefnda hafi afhent stefnanda og stjórnendum hans verðmæti, sem búið geti ekki skilað og séu nú verðlaus vegna gjaldþrots stefnanda. Stefnda hafi einnig lánað einu af dótturfélögum stefnanda fé sem sé að mestu farið forgörðum. Í ljósi þessara atvika verði að telja ósanngjarnt að krefja stefndu um endurgreiðslu þess fjár sem hún hafi tekið við í góðri trú frá eigendum stefnanda til efnda á samningum sem hún hafi gert við þá um kaup á hlutum hennar í stefnanda og dótturfélögum hans. Einnig hafi stefnda hvergi komið nærri rekstri stefnanda eftir 15. október 2006 og því ekki átt neina aðild að meintum ólögmætum lánveitingum og ekki verið lánþegi í neinni merkingu þess orðs.          Stefnda Ingunn krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda á grundvelli 129. gr., 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991. Til stuðnings kröfum sínum um málskostnað vísar stefnda til þess að stefnanda hafi ávallt verið fullkunnugt um tilefni þeirra greiðslna sem um er að tefla. Telur stefnda að stefnandi hafi uppi kröfur á hendur sér sem hann viti að séu reistar á þeirri röngu forsendu að félagið hafi lánað stefndu fjármuni. Hafi skiptastjóri stefnanda vitað eða mátt vita að greiðslurnar væru þvert á móti kaupverð fyrir hluti hennar í Milestone ehf. og Leiftra Ldt. Málshöfðunin gegn henni sé því með öllu þarflaus.          Stefnda mótmælir upphafstíma dráttarvaxtakröfu af bótakröfu að fjárhæð 5.195.721.859 krónur. Fari svo að bótakrafa þessi verði tekin til greina að einhverju eða öllu leyti er farið fram á að dæmdar bætur beri dráttarvexti frá dómsuppsögu, sbr. lokamálslið 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. 3. Helstu málsástæður og lagarök stefnda, Karls Emils Wernerssonar           Í greinargerð stefnda Karls er ítarlega fjallað um fjármögnun og rekstur Milestone ehf. allt þar til yfir lauk. Þar er einnig vikið að sölu stefndu Ingunnar á eignarhlutum sínum í félögunum Milestone ehf., Milestone Import Export Ltd. og Leiftra Ltd. Tekið er fram að Milestone Import Export Ltd. hafi verið öflugt félag sem hafi haldið utan um nokkurn fjölda eigna. Eigið fé þess þann 30. september 2005 hafi verið rúmir 8 milljarðar króna og í lok árs 2007 rúmur 7½ milljarður króna. Hann kveður Leiftra Ltd. hafa að sama skapi verið öflugt félag, en stærsta eign þess hafi í lok árs 2005 verið 31,6% eignahlutur í Milestone ehf. Hafi eigið fé þess félags verið undir lok árs 2007 yfir 300 milljónir evra.          Stefndi Karl lýsir enn fremur þeim samningum 4. desember 2005 sem áður er getið og fullyrðir að stefnda Ingunn hafi nýtt sölurétt sinn í umræddum hlutum með tölvuskeytum. Stefndi Karl leggur áherslu á það að í 6. mgr. 1. gr. samninganna hafi tiltekin félög eða önnur félög í eigu kaupréttarhafa getað keypt bréfin á grundvelli samninganna. Hafi farið svo að félagið Leiftri Ltd. hafi keypt bréfin, en kaupin hafi verið fjármögnuð af félaginu Milestone Import Export Ltd. Því hafi Leiftri Ltd. þannig m.a. orðið eigandi bréfanna í Milestone ehf. í kjölfar nýtingar Ingunnar á kaupréttinum.          Stefndi Karl lýsir atvikum á þann veg að samþykkt hafi verið að Milestone ehf. veitti Milestone Import Export Ltd. lán í tengslum við framangreinda fjármögnun þess. Hafi lánveitingin numið allri fjármögnuninni þrátt fyrir að formlegur lánssamningur hafi aðeins verið gerður fyrir rúmum helmingi hennar. Síðarnefnda félagið hafi sem fyrr segir á þeim tíma verið afar öflugt og eignastaða þess góð. Það hafi ekki átt nein hlutabréf í Milestone ehf. en meðal eigna þess hafi meðal annars verið hlutabréf í Actavis, Íslandsbanka og bresku verslunarkeðjunni Iceland. Því hafi verið talið að lánveiting til félagsins væri góð og örugg fjárfesting. Að ósk lántaka hafi lánið verið greitt út beint til Ingunnar Wenersdóttur með þeim mánaðarlegu greiðslum sem séu grundvöllur máls þessa.          Á þessum tíma kveðst stefndi Karl hafa verið stjórnarmaður í Milestone ehf. Hafi hann ávallt borið hag félagsins fyrir brjósti og meðal annars átt þátt í því að ráða til þess forstjóra og aðstoðarforstjóra. Sá síðarnefndi hafi raunar verið einn helsti sérfræðingur landsins í skaðabóta- og félagarétti. Þess utan hafi félagið keypt sérfræðiráðgjöf utanaðkomandi ráðgjafa fyrir tugi milljóna króna á ári hverju. Telur stefndi að hann hafi, meðal annars með þessu, gert allt það sem af honum sem stjórnarmanni verði krafist til að sinnum skyldum sínum, tryggja hag félagsins og lögmæti þeirra gerninga sem það hafi ráðist í. Stefndi Karl tekur fram að hvorki á þeim tíma sem ákvörðun var tekin um lánveitingu til Milestone Import Export Ltd. né síðar hafi hann verið upplýstur um það af ráðgjöfum félagsins, stjórnendum þess eða öðrum að lánveitingin kynni að vera ólögmæt.          Stefndi tekur fram að ákvörðun um lánveitingu Milestone til Milestone Import Export Ltd. hafi ekki verið tekin í stjórn félagsins. Þrátt fyrir það telur stefndi ljóst að hún hafi á þeim tíma verið fyllilega réttlætanleg og þjónað hagsmunum félagsins. Þannig hafi góðir vextir fengist á lánveitingu, sérstaklega ef tekið er mið af því hversu öflug staða lántaka var. Nefnir stefndi Karl sem dæmi að á  lánstímanum hafi eiginfjárhlutfall þess verið 69,0% í lok árs 2005, 48% í lok árs 2006 og 36% í lok árs 2007. Telur stefndi Karl að þess hafi mátt vænta að ef ekki hefði orðið allsherjarbankahrun í október 2008, hefði lánið til Milestone Import Export Ltd. fengist að fullu greitt. Hafi stefndi, ekki frekar en forsvarsmenn Milestone ehf., séð slíkt hrun fyrir í lok árs 2005.          Stefndi Karl kveður kröfu stefnanda reista á því að hann beri skaðabótaábyrgð á ætluðu tjóni Milestone ehf. vegna greiðslna til Ingunnar Wernersdóttur. Mótmælir hann öllum kröfum og málsástæðum stefnanda. Í öndverðu krafðist hann þess að málinu yrði vísað frá dómi. Var sú krafa m.a. á því reist að málshöfðunarfrestur 110. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, væri liðinn. Að öðru leyti taldi hann að ákvörðun um að hafa uppi skaðabótakröfuna uppfyllti ekki áskilnað 109. gr. sömu laga og að stefnukrafan væri verulega vanreifuð. Eins og rakið hefur verið var fallið frá frávísunarkröfu sem byggðist á þessum röksemdum.          Stefndi Karl kveður sýknukröfu sína vera reista á margþættum rökum og málsástæðum. Lúti þær meðal annars að því að stefndi Karl telur hvorki að umrætt lán hafi verið í andstöðu við 79. gr. laga um einkahlutafélög né að skilyrði fyrir ætlaðri bótaábyrgð hans séu til staðar.          Stefndi Karl byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að ekki hafi verið um að ræða nein lán frá Milestone ehf. til Ingunnar Wernersdóttur líkt og málsókn stefnanda grundvallist á. Eins og rakið hefur verið hafi þvert á móti verið um að ræða lánveitingu til félagsins Milestone Import Export Ltd. sem hafi verið greidd út með þeim hætti sem lántaki óskaði. Allar málsástæður stefnanda byggi því á rangri forsendu, en stefnanda sé í sjálfsvald sett með hvaða hætti hann afmarki grundvöll málshöfðunarinnar. Af þessum sökum telur stefndi Karl að það verði að sýkna hann af kröfum stefnanda.          Í öðru lagi byggir stefndi á því í greinargerð að lánveiting Milestone ehf. til félagsins Milestone Import Export Ltd. hafi verið fyllilega lögmæt og ekki brotið gegn 79. gr. þágildandi laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Bann greinarinnar hafi ekki tekið til starfsemi Milestone ehf., enda verði því ekki beitt um innlánsstofnanir eða aðrar fjármálastofnanir, sbr. 7. mgr. greinarinnar. Hugtakið fjármálastofnun sé ekki sérstaklega skilgreint í lögunum. Milestone ehf. hafi verið eignarhaldsfélag sem hafi að langstærstum hluta átt eignir í fjármálafyrirtækjum. Meðal eigna þess hafi verið Askar Capital, Sjóvá-Almennar, Invik & Co og eignarhlutur í Glitni banka. Fyrir liggi að Invik & Co hafi verið skilgreint sem fjármálasamsteypa í Svíþjóð í skilningi tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2002/87/EC. Þá hafi staðið til að skilgreina Milestone ehf. sem fjármálasamsteypu um leið og tilskipunin yrði innleidd hér á landi. Því verði að telja að Milestone ehf. hafi verið fjármálastofnun í skilningi 7. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994.          Verði talið að beita megi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 um Milestone byggir stefndi á því að félagið Milestone Import Export Ltd. falli ekki undir bannákvæði greinarinnar. Félagið hafi hvorki verið hluthafi í Milestone ehf. né falli það undir önnur þau tilvik sem talin séu upp í greininni. Verði ekki fallist á framangreint byggir stefndi á því að lánveiting til Milestone Import Export Ltd. hafi verið lögmæt á grundvelli greinarinnar. Lánið hafi verið veitt sterku og öflugu félagi á eðlilegum kjörum í eðlilegum tilgangi. Því hafi verið um venjulegt viðskiptalán í skilningi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 að ræða.          Stefndi Karl kveður málshöfðun stefnanda ekki reista á 2. mgr. 79 gr. laganna. Allt að einu hafnar hann því alfarið að hún geti átt við. Þannig hafi Milestone ehf. ekki fjármagnað kaup á hlutabréfum í sjálfu sér eða móðurfélagi sínu, enda lántaki ekki keypt bréfin. Þess utan sé byggt á öllum þeim sömu málsástæðum sem raktar voru hér að framan.          Stefndi Karl hafnar því enn fremur alfarið að byggt verði á 5. mgr. 79. gr. laga um einkahlutafélög gagnvart honum. Lánveitingin hafi ekki verið í andstöðu við 1. eða 2. mgr. greinarinnar. Þá hafi hann ekki framkvæmt þær ráðstafanir sem hér um ræðir, en greiðsluskylda 5. mgr. greinarinnar taki aðeins til þeirra sem það hafi gert. Að lokum verði greiðsluskylda samkvæmt greininni ekki virk fyrr en ljóst sé að ekki sé unnt að endurgreiða féð. Ekkert liggi fyrir um það í málinu og verði krafa ekki byggð á 5. mgr. greinarinnar fyrr en útséð sé um að greiðsla fáist. Því beri að sýkna stefnda af kröfunni á þeim grunni eða í öllu falli að sýkna hann að svo stöddu.          Stefndi Karl hafnar því enn fremur alfarið að hann hafi á nokkurn hátt brotið gegn 48. gr. eða 51. gr. laga nr. 138/1994 eða öðrum skyldum sínum sem stjórnarmaður í félaginu. Telur stefndi raunar að það sé með öllu vanreifað í stefnu hvernig stefnandi telur umrædd lagaákvæði hafi verið brotin og hvernig lánveiting til Milestone Import Export Ltd. hafi valdið stefnanda tjóni.          Af hálfu stefnda Karls er lögð áhersla á að ákvörðun stjórnarmanns, sem reist sé á mati hans í góðri trú um réttmæti ákvörðunar og með hagsmuni hluthafa og félags að leiðarljósi, hafi ekki í för með sér skaðabótaskyldu, þrátt fyrir að síðar komi í ljós að matið hafi verið rangt. Í þessu tilviki hafi hvorki stjórn né stefndi Karl tekið ákvörðun sem hafi skuldbundið félagið til umræddrar lánveitingar til Milestone Import Export Ltd. Þótt hann hefði gert það telur hann að ákvörðunin, og mat það sem legið hafi henni til grundvallar, hafi verið rétt á þeim tíma. Hafi ákvörðunin verið tekin með hagsmuni hluthafa í huga. Fjárhagsleg staða lántaka hafi verið mjög góð og hafi hún eingöngu átt eftir að batna. Því sé ómögulegt að gera sér grein fyrir því tjóni sem stefnandi kveður sig hafa orðið fyrir.          Stefndi Karl kveður öll störf sín fyrir Milestone hafa verið unnin með hagsmuni félagsins og hluthafa þess í huga. Allar ákvarðanir hans hafi verið reistar á viðskiptalegum forsendum en ekki með annarlega hagsmuni í huga. Þá bendir stefndi Karl á að hann hafi starfað sem formaður í þriggja manna stjórn þar sem samþykki a.m.k. tveggja stjórnarmanna hafi þurft. Stefndi hafi því ekki upp á sitt eindæmi getað tekið ákvörðun innan stjórnarinnar.          Hvað þá lánveitingu varðar sem stefna máls þessa lúti að þá bendir stefndi Karl á að hann hafi hvorki haft heimild til firmaritunar fyrir hönd félagsins né prókúruumboð. Honum hafi því verið ómögulegt að taka ákvarðanir upp á sitt einsdæmi um ráðstöfun fjármuna félagsins og það hafi hann ekki gert. Mál er tengdist lánveitingunni hafi aldrei verið tekið fyrir í stjórn félagsins með formlegum hætti.          Stefndi telur það ósannað að ákvörðun um lánveitingu hafi valdið Milestone ehf. tjóni. Hafi Milestone ehf. orðið fyrir tjóni vegna umrædds láns þá geti slíkt tjón eingöngu tengst því að ekki hafi verið gengið nægilega fast eftir því að innheimta lánið. Innheimta á skuldum sé ekki hluti af starfsskyldum stjórnar og því ekki á ábyrgð stjórnarmanna hafi slíkt ekki verið gert. Þó beri að hafa í huga að mál þetta byggist ekki á því að skuldin hafi ekki verið innheimt, heldur því að lán hafi verið veitt. Því geti ekki komið til skoðunar í máli þessu hvort það kunni að hafa verið saknæmt að fara ekki í innheimtuaðgerðir á hendur Milestone Import Export Ltd. Það sé þó deginum ljósara að lánveitingin hafi ekki verið saknæm og að það hafi ekki verið sennileg afleiðing af henni að Milestone ehf. yrði fyrir tjóni.          Þá byggir stefndi á því að ekki verði séð að stefnandi hafi gert neina tilraun til þess að innheimta það lán sem hafi verið veitt Milestone Import Export Ltd. Því liggi ekkert fyrir um það hvort greiðslufall verði af félagsins hálfu. Meðan innheimta sé ekki reynd sé ekki hægt að láta stefnda bera ábyrgð á ætluðu tjóni stefnanda sem óvissa ríki um og stefnandi hafi ekki gert neina tilraun til að takmarka. Stefndi bendir sérstaklega á að þar sem ekki verði séð að greiðslukröfu hafi enn verið beint að skuldara lánsins sé mögulegt að krafa stefnanda á grundvelli samningsins hafi fyrnst eða sé að fyrnast í meðförum stefnanda. Ætlað tjón sem af því kunni að leiða sé þá alfarið sökum eigin sakar stefnanda og verði stefndi ekki gerður ábyrgur fyrir því. Sú staðreynd að stefnandi virðist hafa brunnið inni á riftunarfresti hvað varði ætlaða kröfu á hendur Ingunni Wernersdóttur, sbr. þágildandi 148. gr. gjaldþrotaskiptalaga, leiði til sömu niðurstöðu. Í öllu falli verði að sýkna stefnda Karl að svo stöddu þar til eitthvað liggi fyrir um stöðu og greiðslugetu skuldara lánsins, Milestone Import Export Ltd.          Af hálfu stefnda Karls er lögð áhersla á að rekstrar- og efnahagslegt umhverfi fyrirtækja hafi breyst gríðarlega síðastliðin ár. Aðstæður í þjóðfélaginu, og raunar í heiminum öllum, séu allt aðrar en þær voru þegar ákvörðun um lánveitingu var tekin. Mat á því hvort ákvörðun sé skaðabótaskyld eða ekki verði að miðast við aðstæður á þeim tíma sem ákvörðun var tekin en ekki á þeim tíma þegar mál er höfðað eða síðar.          Verði ekki fallist á að sýkna stefnda að öllu leyti er á því byggt til vara að lækka beri kröfur stefnanda verulega. Sú krafa sé annars vegar á því byggð að aðeins hluti þeirra fjármuna sem Ingunn Wernersdóttir hafi tekið við sem gagngjaldi fyrir eignarhluti sína, hafi verið vegna eignarhluta í Milestone ehf., eða 2.644.954.445 krónur. Verði talið að um hafi verið að ræða lánveitingar í andstöðu við 79. gr. laga um einkahlutafélög takmarkist ólögmætið við þann hluta. Hins vegar sé krafan á því reist að rekja megi að minnsta kosti stærstan hluta ætlaðs tjóns til eigin sakar stefnanda. Þannig hafi stefnandi látið hjá líða að innheimta það lán sem um ræðir auk þess sem hann hafi ekki höfðað riftunarmál á hendur Ingunni Wernersdóttur innan málshöfðunarfrests þágildandi 148. gr. gjaldþrotaskiptalaga.          Stefndi Karl mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega. Þannig sé upphafsdögum dráttarvaxtakröfu hafnað sem röngum auk þess sem á því er byggt að hluti umkrafinna vaxta sé fyrndur.  4. Helstu málsástæður stefnda, Steingríms Wernerssonar          Af hálfu stefnda Steingríms er í fyrstu á það bent að fyrir gjaldþrot Milestone ehf. hafi hann verið skráður fyrir um 40% hlut í félaginu á móti bróður sínum Karli Wernerssyni, sem hafi átt um 60% hlut í því á því tímabili sem hér um ræðir, persónulega og í gegnum félög á þeirra vegum. Steingrímur hafi verið skráður í stjórn félagsins sem varamaður. Hann hafi hvorki haft á hendi framkvæmdastjórn Milestone ehf. né hafi haft prókúru fyrir félagið eða komið að bókhaldi þess. Hann kveðst hins hafa verið starfsmaður félagsins og hafa haft með höndum afmarkaða þætti í starfsemi þess er lutu m.a. að rekstri Lyfjum og heilsu, s.s. innflutning lyfja, en hann sé menntaður lyfjafræðingur.          Stefndi Steingrímur kveðst þannig hafa verið svonefndur „silent partner“ í Milestone ehf., þar sem bróðir hans, stefndi Karl og starfsmenn félagsins, einkum þeir Guðmundur Ólason og Jóhannes Sigurðsson, hafi alfarið séð um rekstur félagsins og borið ábyrgð á rekstri þess gagnvart stjórn og eigendum. Hafi stefndi Steingrímur því hvergi komið að raunverulegri stjórn Milestone ehf. Kveðst hann hafa undirritað öll skjöl sem bróðir hans hafi beðið hann um að undirrita og nauðsynlegt hafi verið að hann undirritaði sem stjórnarmaður í Milestone ehf., án þess að hann hafi gert sér fullkomna grein fyrir því hvaða skjöl var um að ræða hverju sinni.          Stefndi Steingrímur tekur undir það með öðrum stefndu að umræddar greiðslur Milestone ehf. hafi ekki verið lán til stefndu Ingunnar og vísar þar til málatilbúnaðar stefndu Ingunnar og Karls. Í greinargerð sinni tekur stefndi Steingrímur enn fremur undir röksemdir stefnda Karls fyrir því að málshöfðunarfrestur 110. gr. laga nr. 138/1994 hafi verið liðinn þegar mál þetta var höfðað. Enn fremur tók hann undir önnur sjónarmið stefnda Karls um að vísa bæri málinu frá dómi.          Í greinargerð stefnda Steingríms er því einnig haldið fram að ekki sé unnt að hafa uppi kröfu á grundvelli 79. gr. laga nr. 138/1994 á sama tíma og gerð sé krafa á grundvelli 108. gr. sömu laga. Ekki sé því unnt að hafa uppi kröfu á hendur stefndu Ingunni á þeim grunni að um ólögmætt lán sé að tefla á sama tíma og skaðabótakröfu sé beint að öðrum stefndu. Í því sambandi bendir stefndi á að í 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 sé gert ráð fyrir því að sá sem hafi fengið ólögmætt lán verði krafinn um endurgreiðslu þess. Sé ekki unnt að endurgreiða lánið séu þeir „sem gerðu eða framkvæmdu síðar ráðstafanir skv. 1. mgr. ábyrgir fyrir tapi félagsins“ sbr. 5. mgr. sömu laga.          Í þessu sambandi telur stefndi Steingrímur rétt að hafa í huga að skiptastjóri stefnanda hafi ekki gert tilraun til þess að innheimta lánin hjá stefndu Ingunni (fyrr en nú) jafnframt því sem stefndi Steingrímur hafi hvergi komið nærri „lánveitingum“ þessum f.h. Milestone ehf. Hann hafi hvorki vitað né mátt vita af „lánveitingum“ til stefndu Ingunnar, enda ekkert í gögnum málsins sem renni stoðum undir það að stefndi Steingrímur hafi komið að ákvörðun um lánveitingar til hennar eða haft milligöngu um lánveitingarnar („gerðu eða framkvæmdu“). Þegar af þessari ástæðu verði hann ekki gerður ábyrgur fyrir meintu tjóni stefnanda vegna þess.          Sýknukröfu sína reisir stefndi Steingrímur á sömu forsendum og komi fram hjá öðrum stefndu þess efnis að ekki hafi verið um nein lán að ræða til stefndu Ingunnar. Þvert á móti telur hann að Milestone ehf. hafi lánað Milestone Import Export Ltd. fjármuni. Þær ráðstafanir hafi verið eðlilegar og fullkomlega löglegar vegna viðskipta með hluti í Milestone ehf. Þá áréttar stefndi að hann hafi hvergi komið að töku ákvarðana um þessa fjármálagjörninga, útfærslu þeirra eða framkvæmd. Útilokað sé að stefndi Steingrímur geti með einum eða öðrum hætti orðið ábyrgur fyrir meintu tjóni stefnanda vegna þessara gjörninga.          Stefndi mótmælir því enn fremur að hann geti orðið ábyrgur á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar og 108. gr. laga nr. 138/1994. Áréttar stefndi Steingrímur í því sambandi að hann hvorki vitað né hafi mátt vita um hina umdeildu fjármálagjörninga sem mál þetta lúti að. Hafi hann ekki vitað um þá fyrr en við lestur á stefnu þessa máls. Útilokað sé að stefndi geti með einum eða öðrum hætti orðið ábyrgur fyrir meintu tjóni stefnanda vegna fjármálagjörninga þessara.          Svo sem áður er rakið kveður stefndi Steingrímur að stefnanda hafi borið að reyna innheimtu hjá stefndu Ingunni, sbr. 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, þ.e. að endurkrefja Ingunni um hið meinta ólögmæta lán. Það virðist skiptastjóri ekki hafa gert fyrr en með máli þessu. Komi í ljós að stefnda Ingunn geti ekki endurgreitt lánin sé skiptastjóra fyrst kleift að ganga að þeim aðilum persónulega sem hafi haft milligöngu um lán Milestone ehf. til stefndu Ingunnar, þ.e. ganga að þeim „sem gerðu eða framkvæmdu síðar ráðstafanir skv. 1. og 2. mgr.“ og báru persónulega ábyrgð á tapi félagsins, sbr. 5. mgr. 79. gr. laganna. Svo sem áður er lýst hafi stefndi Steingrímur hvergi komið þar nærri og verði þar af leiðandi aldrei gerður ábyrgur fyrir lánum þessum.          Á því er byggt af hálfu stefnda Steingríms að skilyrði fyrir skaðabótaábyrgð hans séu ekki fyrir hendi eins og málið liggi fyrir. Eigi það jafnt við um huglæga afstöðu hans, jafnframt sem stefnanda hafi hvorki tekist að sýna fram á né færa lögfulla sönnun fyrir staðhæfingum sínum um að orsakatengsl séu milli ætlaðrar háttsemi stefnda Steingríms og/eða athafnaleysis hans eða að meint tjón félagsins verði talið sennileg afleiðing háttseminnar.          Stefndi Steingrímur kveður stefnanda verða tíðrætt um að hann hafi brotið gegn starfsskyldum sínum sem stjórnarmaður í Milestone ehf., og trúnaðarskyldum sínum gagnvart félaginu. Af hans hálfu er lögð áhersla á að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir öllum staðhæfingum sínum í þessu efni. Hafi stefnanda ekki tekist slík sönnun.          Stefndi mótmælir enn fremur upphafstíma vaxta af bótakröfu stefnanda og gerir þá kröfu, fari svo að bótakrafa þessi verði tekin til greina að öllu leyti eða einhverju, að dæmdar bætur beri dráttarvexti frá dómsuppsögu, sbr. lokamálslið 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.          Stefndi Steingrímur krefst málskostnaðar með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá sé krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda. 5. Helstu málsástæður og lagarök stefnda, Guðmundar Ólasonar          Stefndi Guðmundur tekur undir lýsingu í greinargerð stefnda Karls á tilefni og ástæðum þeirra greiðslna sem málið lýtur að. Hann gerir þó athugasemd við að ákvörðun um lánveitingu Milestone ehf. hafi ekki verið tekin í stjórn félagsins. Bendir stefndi Guðmundur á að viðskiptin snúi að uppgjöri á samningum milli stefndu Karls, Steingríms og Ingunnar. Ákvörðun um að greiða Ingunni fjármuni, og síðar lána þá fjármuni eða samþykkja yfirtöku Milestone Import Export Ltd. á þeirri skuld, hafi verið tekin af eigendum Milestone ehf. og stjórnarmönnum Milestone Import Export Ltd. Stjórn félagsins og hluthafafundur hafi samþykkt ársreikninga Milestone ehf. fyrir árin 2006 og 2007 en í þeim reikningum hafi skuldbindingar vegna lánsins til Milestone Import Export Ltd. verið færðar. Ákvarðanir um lánveitinguna hafi því verið teknar af stjórn og staðfestar af stjórn og hluthöfum Milestone ehf. í tengslum við ársuppgjör félagsins og í nánu samráði við endurskoðanda þess. Kveður stefndi Guðmundur að áritun endurskoðanda Milestone ehf. á ársreikninga félagsins fyrir árin 2006 og 2007 hafi verið án athugasemda.          Í öndverðu krafðist stefndi Guðmundur, líkt og aðrir stefndu, frávísunar málsins á þeim grundvelli að málshöfðunarfrestur 110. gr. laga nr. 138/1994 hefði verið liðinn þegar málið var höfðað óháð síðari lagabreytingu. Eins og rakið hefur verið var fallið frá kröfu um frávísun málsins á þessum grunni.          Sýknukrafa stefnda Guðmundar byggist einkum á því að ekki hafi verið um nein lán að ræða frá Milestone ehf. til Ingunnar Wernersdóttur eins og málssókn stefnanda grundvallist á. Þvert á móti hafi félagið lánað Milestone Import Export Ltd. fjármuni sem hafi verið greiddir út með þeim hætti sem lántaki hafi óskað eftir. Málshöfðunin sé því byggð á efnislega rangri forsendu og því beri að sýkna stefnda af kröfunni, enda ekki um nein slík lán að ræða.          Stefndi Guðmundur byggir og á því að lánveiting Milestone ehf. til félagsins Milestone Import Export Ltd. hafi verið fyllilega lögmæt og ekki brotið gegn 79. gr. þágildandi laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Byggir stefndi á því að ákvæðið taki ekki til starfsemi Milestone ehf. þar sem því verði ekki beitt um innlánsstofnanir eða aðrar fjármálastofnanir. Milestone ehf. hafi verið eignarhaldsfélag sem hafi að langstærstum hluta átt eignir í fjármálafyrirtækjum og hafi stærsta eignin, Invik, verið skilgreind sem fjármálasamsteypa (e. financial conglomerate) í skilningi tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2002/87/EC. Hafi staðið til að skilgreina Milestone ehf. með sama hætti um leið og tilskipunin yrði innleidd hér á landi.          Verði talið að beita skuli ákvæðum 1. mgr. 79 gr. laganna byggir stefndi á því að félagið Milestone Import Export Ltd. falli ekki undir bannákvæði greinarinnar. Félagið hafi hvorki verið hluthafi í Milestone ehf. né falli það undir önnur tilvik sem talin séu upp í greininni. Þá vísar stefndi til þess að lánið hafi verið veitt á sterku og öflugu félagi á eðlilegum kjörum í eðlilegum tilgangi. Því hafi verið um venjulegt viðskiptalán að ræða í skilningi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994.          Stefndi Guðmundur hafnar því að ákvæði 2. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 geti átt við enda sé ekki byggt á því ákvæði í málatilbúnaði stefnanda. Milestone ehf. hafi auk þess ekki fjármagnað kaup á hlutabréfum í sjálfu sér eða móðurfélagi sínu, enda hafi lántaki ekki keypt bréfin.          Stefndi Guðmundur mótmælir því að endurgreiðslukrafa geti byggst á 5. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 því að lánveitingin hafi ekki verið í andstöðu við 1. og 2. mgr. greinarinnar. Þá hafi það verið ákvörðun eigenda Milestone ehf., sem jafnframt hafi verið stjórnarmenn í félaginu, að veita umrætt lán. Stefndi hafi ekki setið í stjórn félagsins og ekki haft heimild til firmaritunar. Honum hafi því verið ómögulegt að taka ákvörðun um að ráðstafa fjármunum félagsins með þessum hætti. Ákvarðanir um innheimtu lánsins og greiðslufresti hafi verið í höndum stjórnarmanna og hluthafa félagsins. Engin fyrirmæli hafi komið frá stjórn eða hluthöfum um að innheimta lánið þannig að stefndi Guðmundur hafi ekki haft neinar heimildir til þess. Engar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu endurskoðenda varðandi umrædda útborgun. Stjórn félagsins og hluthafar hafi staðfest lánveitinguna í tengslum við og með samþykki ársreikninga félagsins.          Stefndi Guðmundur hafnar því enn fremur að hann hafi á nokkurn hátt brotið gegn 48. gr. eða 51. gr. laga nr. 138/1994 eða öðrum skyldum sínum sem framkvæmdastjóri félagsins. Áréttar stefndi að hann hafi ekki tekið þá ákvörðun sem hafi skuldbundið félagið til þeirrar lánveitingar sem málatilbúnaðar stefnanda byggi á. Þá vísar stefndi til þess að umrædd lánveiting hafi verið eðlileg á þeim tíma sem hún hafi farið fram, enda fjárhagsleg staða lántaka góð og ómögulegt á þeim tíma að sjá fyrir það tjón sem stefnandi telur sig síðar hafa orðið fyrir. Stefndi Guðmundur vísar til þess að aðstæður í þjóðfélaginu, og raunar í heiminum öllum, hafi gerbreyst og ekki sé hægt að meta skaðabótaskyldu út frá þeim forsendum sem nú liggi fyrir, en hafi ekki verið fyrirsjáanlegar á þeim tíma sem ákvörðun hafi verið tekin.          Stefndi Guðmundur kveðst hafa unnið af heilindum fyrir félagið og byggt ákvarðanir sínar á viðskiptalegum forsendum. Stefndi hafi ekki setið í stjórn félagsins og ekki haft heimild til firmaritunar. Hann hafi því hvorki haft möguleika á því að taka ákvörðun um slíkar lánveitingar, né yfirhöfuð nokkurn áhuga á því. Þá vísar stefndi til þess að endurskoðendur félagsins hafi ekki gert athugasemdir um að færa þyrfti kröfu á hendur Milestone Import Export Ltd. niður vegna óvissu um innheimtu hennar í ársreikningum félagsins fyrir árin 2006 og 2007 eða í endurskoðuðu sex mánaða uppgjöri 2008. Krafan hafi því alltaf verið færð í bækur félagsins á uppreiknuðu virði.          Þá byggir stefndi á því að það sé algerlega ósannað að ákvörðun um lánveitingu hafa valdið Milestone ehf. tjóni. Ekkert liggi fyrir um hvort reynt hafi verið að innheimta lánið hjá félaginu af hálfu stefnanda. Þá bendir stefndi á að riftunarfrestir á hendur Ingunni Wernersdóttur, sbr. þágildandi 148. gr. gjaldþrotaskipta, virðast hafa liðið án þess að reynt hafi verið að höfða mál á hendur henni á þeim grundvelli.          Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda er á því byggt að lækka beri fjárkröfur stefnanda verulega. Er sú krafa byggð á því að einungis hluti þeirra fjármuna sem Ingunn Wernersdóttir hafi móttekið sem gagngjald fyrir eignarhluti sína, hafi verið vegna eignarhluta í Milestone ehf. eða 2.644.954.445 krónur. Verði talið að um hafi verið að ræða lánveitingar í andstöðu við 79. gr. laga nr. 138/1994 takmarkist ólögmætið við þann hluta. Hins vegar er krafan byggð á því að stærsta hluta tjónsins megi rekja til vanrækslu stefnanda sjálfs við að innheimta kröfuna bæði gagnvart lántaka og stefndu Ingunni Wernersdóttur.          Stefndi Guðmundur mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega. Þannig sé upphafsdögum dráttarvaxtakröfu hafnað sem röngum auk þess sem á því er byggt að hluti umkrafinna vaxta sé fyrndur.          Um málskostnað vísar stefndi Guðmundur til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda. IV          Mál þetta var í öndverðu aðallega höfðað af stefnanda á þeim grunni að greiðslur þær, sem ágreiningslaust er að Milestone ehf. greiddi stefndu Ingunni á tímabilinu frá janúar 2006 til desember 2007, hafi verið ólögmætt lán samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, sem henni bæri að endurgreiða á grundvelli 4. mgr. sömu greinar. Fjárkröfunni var beint að öðrum stefndu á grundvelli 5. mgr. 79. gr. sömu laga. Enn fremur reisti stefnandi fjárkröfu sína á hendur öllum stefndu á þeirri forsendu að þeir hefðu, með því að ráðstafa fjármunum Milestone ehf. á þennan hátt, valdið félaginu tjóni sem þeim sé skylt að bæta stefnanda. Var þá annars vegar vísað til hinnar almennu skaðabótareglu og hins vegar til 108. gr. laga nr. 138/1994.                         Þrátt fyrir þessa afmörkun í stefnu kemur þar þó fram að yrðu greiðslurnar raktar til uppgjörs á kaupsamningum um hlutabréf í Milestone ehf. og fleiri félögum milli stefndu Ingunnar annars vegar og stefndu Karls og Steingríms hins vegar þá væru þær einnig ólögmætar. Þar segir að hafi svo verið verði að líta svo á að Milestone ehf. hafi verið „látið fjármagna kaup á hlutum í sjálfu sér og móðurfélagi sínu en það er óheimilt skv. 2. mgr. 79. gr.“ laga nr. 138/1994. Þessi þráður er síðan tekinn upp síðar í stefnunni, þar sem færð eru rök fyrir skaðabótaábyrgð allra stefndu. Þar segir að hafi greiðslur Milestone ehf. til Ingunnar „í raun verið greiðsla“ vegna framangreindra kaupa stefndu Karls og Steingríms á hlutum í Milestone ehf. og fleiri félögum sé „háttsemin augljóslega skaðabótaskyld og jafnvel refsiverð“. Hafi stefndu Karli og Steingrími verið „óheimilt að láta Milestone ehf. greiða fyrir hluti í sjálfu sér og stefndu Ingunni óheimilt að taka við greiðslu frá félaginu“. Jafnframt hafi stefnda Guðmundi sem framkvæmdastjóra Milestone ehf. verið óheimilt „að ljá atbeina sinn til slíkra greiðslna eða láta þær óátaldar“.          Samkvæmt framansögðu er í stefnu ekki talið útilokað að Milestone ehf. hafi látið fjármunina af hendi í því skyni að efna kaupsamninga við stefndu Ingunni í þágu stefndu Karls og Steingríms en ekki til að veita henni peningalán. Að mati stefnanda breytir það hins vegar ekki því að greiðslurnar hafi verið ólögmætar og skaðabótaskyldar á grundvelli 108. gr. laga nr. 138/1994 með þeim rökum sem að framan greinir og fjallað er um í stefnu. Að þessu leyti er af hálfu stefnanda teflt fram málsgrundvelli til vara fyrir fjárkröfu þrotabúsins. Fyrirmæli laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, hindra ekki að stefnandi hagi málatilbúnaði sínum með þessum hætti. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið ber einnig að hafna þeirri málsvörn stefndu að málatilbúnaður stefnanda sé alfarið reistur á þeirri röngu forsendu að um ólögmæta lánveitingu til stefndu Ingunnar sé að ræða. Kemur því ekki til álita, líkt og stefndu byggja á, að sýkna stefndu á þeim grunni að fyrir liggi að greiðslurnar hafi verið inntar af hendi samkvæmt kaupsamningi en að ekki hafi verið um lán til stefndu Ingunnar að ræða, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 28. apríl 2016 í málinu nr. 74/2015.          Með vísan til 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, verður að líta svo á að úrlausn Hæstaréttar Íslands frá 28. apríl 2016 í framangreindum dómi um þau atvik sem reynir á í þessu máli hafi fullt sönnunargildi og að leggja beri hana til grundvallar nema að annað sannist. Í framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands er ítarlega fjallað um samninga þá sem stefnda Ingunn gerði við bræður sína, stefndu Karl og Steingrím, 4. desember 2005. Þar kemur fram að hver þeirra fjögurra samninga sem þar eru til umfjöllunar hafi átt að skoðast sem kaupsamningur frá þeim tíma sem tilkynnt yrði um að neytt væri kaupréttar eða söluréttar samkvæmt þeim. Ágreiningslaust er í máli þessu að stefnda tilkynnti ávallt í tæka tíð um að hún neytti söluréttar síns, enda fóru greiðslur fram eftir því sem ákveðið var í samningunum frá 6. janúar 2006. Í dóminum er því slegið föstu að allir þessir samningar hafi þannig orðið sjálfkrafa kaupsamningar um hlutabréfin sem um ræddi. Samkvæmt hljóðan sinni hafi þeir ekki lagt neinar skuldbindingar á Milestone ehf., heldur eingöngu á stefndu Karl og Steingrím. Á það er bent að bræðurnir hafi þó eftir ákvæðum samninganna getað tilgreint „aðra aðila sem kaupendur, þ.m.t. Milestone ehf., Leiftra Ltd., eða önnur félög“ sem þeir kynnu að eiga eða myndu stofna.          Í dóminum er því næst vikið að því hvort stefndu Karl og Steingrímur hafi neytt framangreindrar heimildar til að tilgreina annan aðila sem kaupanda hlutabréfanna. Er á það bent að ekkert skjalfest liggi fyrir um að slík aðilaskipti hafi verið gerð. Enn fremur er vísað til þess að samkvæmt almennum reglum fjármunaréttar sé ekki unnt að líta svo á að þessi heimild hafi staðið lengur en til þess tíma er kaupsamningur taldist kominn á. Hafi stefndu Karli og Steingrími síðan verið frjálst hvenær sem var eftir þann tíma að framselja hlutabréfin sem keypt voru.          Í dómi Hæstaréttar Íslands er vikið að ýmsum gögnum er tengjast áætlunum um skiptingu hlutabréfanna og kaupverðsins eftir að kaupsamningar komust á. Þar virðist í fyrstu hafa verið við það miðað að kaupverðið skiptist milli „félaganna“ annars vegar og stefndu Karls og Steingríms hins vegar með nánar tilgreindum hætti. Með félögunum var þá vísað til Milestone ehf., Milestone Import Export Ltd. og Leiftra Ltd. Jafnframt er þar vikið að fleiri gögnum, þar á meðal hlutaskrá félaganna og öðrum upplýsingum um eignarhald á þeim eftir viðskiptin. Rétturinn dregur síðan eftirfarandi ályktun: Að virtu því, sem hér var greint frá, var á öllum stigum eftir gerð samninganna 4. desember 2005 mjög á reiki hver ætti að teljast hafa keypt hlutabréf [Ingunnar] í Milestone ehf., Leiftra Ltd. og Milestone Import Export Ltd., hvenær það hafi gerst og fyrir hvaða verð. Ýmist virðist hafa verið lagt til grundvallar að ákærðu Karl og Steingrímur hafi einir keypt bréfin, þeir tveir ásamt félögunum einhverjum eða öllum eða eingöngu Leiftri Ltd. Síðastnefndi kosturinn virðist þó ekki hafa komið upp að ráði fyrr en í tölvubréfum 23. og 24. október 2007 eftir að skylda til greiðslu kaupverðs hafði þegar verið efnd að nær öllu leyti. Útilokað er að líta svo á að ákærðu Karl og Steingrímur hafi á einhverju stigi í orði eða verki neytt heimildar samkvæmt samningnum frá 4. desember 2005 til að flytja réttindi sín og skyldur vegna kaupanna yfir á eitthvert tiltekið félag á sínum vegum. Verður þannig að leggja til grundvallar að ákærðu Karl og Steingrímur hafi að lögum í raun verið kaupendur hlutabréfanna, svo sem leiddi einnig af meginefni þessara samninga eftir orða þeirra hljóðan. Skuldbinding ákærðu Karls og Steingríms til að greiða kaupverðið, sem mælt var fyrir um í samningnum, hvíldi aldrei á Milestone ehf.          Í máli þessu hafa ekki verið færðar sönnur á að atvik hafi verið með öðrum hætti en hér er lýst. Samkvæmt framansögðu ber að leggja til grundvallar að með tilkynningum stefndu Ingunnar í samræmi við þá fjóra samninga sem gerðir voru 4. desember 2005, og lýst er í dómi Hæstaréttar, hafi stefndu Karl og Steingrímur keypt af stefndu Ingunni í fyrsta lagi 10,306% hlut í Milestone ehf. 6. janúar 2006 fyrir 1.867.026.667 krónur, í öðru lagi 9,33% hlut í Leiftra Ltd. og 9,33% hlut í Milestone Import Export Ltd. 1. júlí 2006 fyrir 742.675.667 krónur, í þriðja lagi 18,67% hlut í Leiftra Ltd. og 18,67% hlut í Milestone Import Export Ltd. fyrir 1.485.351.333 krónur 6. janúar 2007 og í fjórða lagi 4,294% hlut í Milestone ehf. fyrir 777.927.778 krónur 6. janúar 2007. Kaupverðið var bundið vísitölu neysluverðs miðað við nóvember 2005. Aldrei á nokkru stigi málsins hvíldi á Milestone ehf. að inna af hendi umsamið kaupverð. Félagið var eftir sem áður látið greiða kaupverðið með þeim hætti sem lýst hefur verið í kafla II. Fullyrðing sumra stefndu um að félagið Leiftri Ltd. hafi í raun keypt umrædd hlutabréf, en að félagið Milestone Import Export Ltd. hafi fjármagnað kaupin, fær samkvæmt framansögðu ekki staðist.          Þar sem ekki var um peningalán til stefndu Ingunnar, heldur endurgjald fyrir hlutabréf í framangreindum félögum sem hún afhenti í samræmi við samningsskyldur sínar, kemur ekki til álita að henni verði með dómi gert að endurgreiða stefnanda fjármunina á grundvelli 1. og 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.          Í stefnu er jafnframt á því byggt, eins og áður segir, að Milestone ehf. hafi verið látið fjármagna kaup stefndu Karls og Steingríms á hlutabréfum í félaginu í andstöðu við 2. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Í fyrsta málslið þess ákvæðis er lagt bann við því að einkahlutafélag veiti lán til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu eða móðurfélagi þess. Með framangreindri tilvísun í stefnu má vera ljóst að á því er byggt af hálfu stefnanda að með greiðslunum hafi Milestone ehf. lánað stefndu Karli og Steingrími kaupverð bréfanna í Milestone ehf., andstætt framangreindu ákvæði, með því að efna skyldu þeirra við kaupin. Hins vegar er í stefnu ekki á því byggt að Milestone ehf. hafi með þessu lánað stefndu Karli og Steingrími fjármuni sem hluthöfum í félaginu í andstöðu við 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Kemur sú málsástæða því ekki til álita við úrlausn málsins, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, enda var ekkert því til fyrirstöðu að byggja á henni þegar í öndverðu.          Að því marki sem greiðslurnar áttu rætur að rekja til kaupa bræðranna á hlutabréfum í Milestone ehf. ber að fallast á að með þeim hafi félagið veitt þeim lán til að fjármagna kaup þeirra á hlutum í félaginu. Fór það í bága við framangreinda 2. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi var Milestone ehf. eignarhaldsfélag, en hvorki innlánsstofnun né fjármálafyrirtæki í skilningi laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Undantekning 7. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 verður ekki túlkuð svo rúmt að hún hafi getað tekið til Milestone ehf. Áform um breytingar í þá veru að félagið fengi stöðu svonefndrar fjármálasamsteypu breytir engu í þessu efni.          Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið hvílir sú skylda á stefndu Karli og Steingrími að endurgreiða þetta lán samkvæmt 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Endurgreiðslukrafa þessi var ófyrnd þegar mál þetta var höfðað, sbr. 2. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sem hér á við. Krafa á hendur bræðrunum, sem á rætur að rekja til greiðslna vegna kaupa þeirra á hlutabréfum í Leiftra Ltd. og Milestone Import Export Ltd., fær hins vegar ekki stoð í framangreindri málsástæðu. Því verður að taka sérstaklega afstöðu til þess hvort þeir kunni að hafa bakað sér skaðabótaábyrgð með þeim ráðstöfunum sem um er deilt auk þess sem úrlausn þeirrar málsástæðu ræður því hvort fallast megi á kröfugerð á hendur öðrum stefndu.           Ágreiningslaust er í máli þessu hvernig greiðsla kaupverðsins var færð til bókar í reikningsskilum Milestone ehf. Eins og því er lýst í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands 28. apríl 2016 var fjárhæð greiðslnanna, sem Milestone ehf. innti af hendi á árinu 2006, sem og skuldbindingar sem félagið gekkst undir við Sjóvá-Almennar tryggingar hf. vegna láns stefndu Ingunnar til þess félags, færð jafnharðan á biðreikning í bókhaldi Milestone ehf. Heildarfjárhæð þessara greiðslna mun hafa staðið þannig óhreyfð fram á árið 2007. Með árslokafærslu, sem er dagsett 31. desember 2006, var heildarfjárhæð þessara greiðslna á árinu, samtals 2.733.326.804 krónur, færð í einu lagi af biðreikningnum og inn á viðskiptareikning Milestone Import Export Ltd. Það félag var þá alfarið í eigu stefndu Karls og Steingríms og skráð á Bresku Jómfrúaeyjum. Farið var eins með greiðslurnar sem inntar voru af hendi til Ingunnar á árinu 2007. Þær voru í fyrstu færðar á biðreikning í bókhaldinu, en með lokafærslu 31. desember 2007 var heildarfjárhæð þessara greiðslna, 2.462.395.055 krónur, færð sem krafa á viðskiptareikning Milestone Import Export Ltd.          Í dómi Hæstaréttar Íslands 28. apríl 2016 er jafnframt gerð grein fyrir samskiptum starfsmanns endurskoðunarfyrirtækis og starfsmanna Milestone ehf. á árinu 2007, þar sem rætt var um hvernig færa mætti kröfu félagsins yfir á Milestone Import Export Ltd. Þeirri umræðu lauk með því að gerður var lánssamningur 23. maí 2007 milli framangreindra félaga, sem dagsettur var 30. desember 2006, þar sem fram kom að Milestone Import Export Ltd. tæki 2.733.326.804 krónur, þ.e. heildarfjárhæð greiðslnanna á árinu 2006, að láni hjá Milestone ehf. Skyldi lánið endurgreitt 15. desember 2007. Í dóminum er rakið að stefndi Guðmundur hafi undirritað samninginn fyrir hönd Milestone ehf. en nafngreindur starfsmaður Milestone ehf. hafi undirritað fyrir hönd Milestone Import Export Ltd. Ekkert liggi hins vegar fyrir um að viðkomandi starfsmaður félagsins hafi haft umboð til þess að skuldbinda Milestone Import Export Ltd. á þennan hátt. Þá liggi einungis fyrir drög að samningi 31. desember 2007, sem ekki sé undirritaður af hálfu lántakans Milestone Import Export Ltd., um þær greiðslur sem inntar hafi verið af hendi til stefndu Ingunnar á árinu 2007, samtals 2.4462.395.055 krónur. Af þessum sökum hafi ríkt mikil óvissa um það hvort Milestone ehf. eða lánardrottnum þess félags væri yfirhöfuð unnt að innheimta ætlaða kröfu á hendur Milestone Import Export Ltd.          Eftir sem áður er í dómi Hæstaréttar hugað nánar að því hvers virði krafa Milestone ehf. á hendur Milestone Import Export Ltd. gæti hafa verið eftir að skilríki fyrir 2.733.326.804 krónum af henni lágu fyrir 23. maí 2007. Þar er fjallað nánar um það sem fyrir liggur úr fábreyttu bókhaldi þessa félags og um fjárhag þess. Er meðal annars á það bent að eina eign félagsins á þessum tíma hafi verið krafa á hendur Leiftra Ltd. á grundvelli láns að fjárhæð rúmlega sjö og hálfur milljarður króna samkvæmt samningum 22. júní og 3. nóvember 2005. Leiftri ehf. mun 23. maí 2007 hafa alfarið verið í eigu stefndu Karls og Steingríms. Því er lýst í dóminum að lán þetta hafi í fyrstu komið fram í reikningsskilum Leiftra Ltd., en samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2006 hafi þess ekki verið lengur getið. Þar hafi aftur á móti verið færð tiltekin fjárhæð í evrum til tekna vegna afskriftar á ótilgreindum kröfum á hendur Leiftra Ltd. Enn fremur eru í dómi Hæstaréttar raktar upplýsingar frá árinu 2007 um áform þess efnis að flytja kröfu Milestone Import Export Ltd. á óútskýrðan hátt yfir í nýtt félag og sameina það Leiftra Ltd. til að losna við kröfuna án þess að greiða hana. Þó að þessar ráðagerðir hafi ekki náð fram að ganga er í dómi réttarins talið að ráða megi eitthvað af þessu um með hvaða hug krafa Milestone Import Export Ltd. á hendur Leiftra Ltd. hafi verið bókfærð. Þessu næst segir í dómi Hæstaréttar Íslands: Þegar framangreind atriði eru virt í heild er óhjákvæmilegt að líta svo á að í raun hafi kröfuréttindi Milestone ehf. á hendur Milestone Import Export Ltd. samkvæmt ætluðum lánssamningum dagsettum 30. desember 2006 og 31. desember 2007 verið orðin tóm og því einskis virði. Með því að búið var á þennan hátt um réttindi Milestone ehf. vegna greiðslna félagsins til [Ingunnar] og skuldbindinga þess í hennar þágu á tímabilinu frá 6. janúar 2006 til 6. desember 2007 var ekki aðeins sköpuð augljós og stórfelld hætta á fjártjóni félagsins, heldur varð sú hætta að auki að veruleika með því að Milestone Import Export Ltd. var tekið til gjaldþrotaskipta 11. apríl 2011, en ekkert í málinu bendir til að þrotabú félagsins hafi getað eða muni nokkuð geta greitt upp í kröfu þrotabús Milestone ehf. af þessu tilefni.          Aðilar máls þessa hafa ekki fært sönnur á að atvik hafi verið önnur en hér er lýst. Í þessu ljósi verður að leggja til grundvallar að Milestone ehf. hafi með framangreindum ráðstöfunum verið látið greiða kaupverð hlutabréfanna samkvæmt samningunum 4. desember 2005, sem hafi við kaupin orðið eign stefndu Karls og Steingríms, án þess að leitast væri við að tryggja þá augljósu hagsmuni félagsins að það fengi fjármunina greidda til baka eða að öðrum kosti eitthvert endurgjald er svaraði kaupverðinu. Breytir engu í því sambandi þó að reynt hafi verið að láta Milestone Import Export Ltd., er laut yfirráðum stefndu Karls og Steingríms, taka á sig skyldu til að greiða Milestone ehf. þessa fjármuni til baka, enda gat krafa Milestone ehf. á hendur því félagi í raun ekki verið neins virði. Þessar ráðstafanir voru bersýnilega til þess fallnar að afla hluthöfum Milestone ehf., stefndu Karli og Steingrími, ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað félagsins, auk þess að fela í sér misnotkun á aðstöðu innan félagsins í viðskiptum með hluti í því og öðrum félögum innan sömu samstæðu.          Samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 er stofnendum, stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum skylt að bæta einkahlutafélagi það tjón sem þeir hafa valdið því í störfum sínum hvort sem það er af ásetningi eða gáleysi. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar gildir hliðstæð bótaregla um hluthafa gagnvart félaginu nema að þar er gerð krafa um að viðkomandi hafi sýnt að minnsta kosti af sér stórfellt gáleysi og að tjóninu sé valdið með broti á lögum nr. 138/1994 eða samþykktum félagsins.          Eins og rakið hefur verið voru greiðslurnar til stefndu Ingunnar ekki lán heldur var með þeim verið að efna kaupsamninga um hlutabréf í Milestone ehf., Leiftra Ltd. og Milestone Import Export Ltd. Stefnanda var því ófært að takmarka tjón sitt af framangreindum ráðstöfunum með því að innheimta kröfu á hendur stefndu Ingunni á grunni 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, eins og stefndu hafa vísað til. Eins og rakið hefur verið var ætluð krafa Milestone ehf. á hendur Milestone Import Export Ltd. reist á óljósum grunni. Samkvæmt framlagðri skýrslu skiptastjóra Milestone Import Export Ltd. krafðist stefnandi þess, 3. desember 2009, að Milestone Import Export Ltd. greiddi lán samkvæmt lánssamningi 30. desember 2006. Þar sem ekki bárust viðbrögð við þeirri kröfu var 11. apríl 2011 farið fram á að skipaður yrði skiptastjóri á grundvelli gjaldþrotalaga Bresku Jómfrúaeyja. Skiptastjóri var skipaður og skipun hans auglýst í samræmi við lögin 28. apríl og 15. maí 2011. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 74/2015 kemur fram að ekkert í málinu bendi til þess að nokkuð fáist greitt upp í kröfu stefnanda. Stefndu hafa ekki hnekkt þessari ályktun við meðferð málsins. Þá áréttar dómurinn að Milestone ehf. fékk ekkert endurgjald fyrir þá fjármuni sem félagið var látið inna af hendi, auk þess sem ekkert er fram komið um að Milestone ehf. hafi fengið arð eða aðrar greiðslur er tengjast þessum fjárútlátum. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur dómurinn nægjanlega fram komið að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna fjármögnunar Milestone ehf. á kaupum stefndu Karls og Steingríms á umræddum hlutabréfum og að tjónið nemi heildarfjárhæð greiðslnanna, 5.195.721.859 krónum.          Eins og rakið hefur verið voru stefndu Karl og Steingrímur hluthafar í Milestone ehf. og sátu í stjórn félagsins auk þess sem þeir nutu góðs af framangreindum ráðstöfunum. Eftir því sem fram kemur í dómi Hæstaréttar Íslands 28. apríl 2016 var stefndi Karl að auki með prókúru fyrir Milestone ehf. Stefndi Guðmundur var framkvæmdastjóri Milestone ehf. á þeim tíma sem greiðslurnar voru inntar af hendi og færðar í bókhald félagsins á þann veg sem raun ber vitni auk þess að vera með prókúru fyrir félagið. Allir þessir stefndu gátu samkvæmt stöðum sínum hjá félaginu bakað sér bótaábyrgð á grundvelli 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994. Þá hafa þeir verið sakfelldir með dómi Hæstaréttar Íslands 26. apríl 2016 fyrir þá háttsemi sem þeim var gefin að sök með ákæru 5. júlí 2013. Þar kemur fram að þeim hafi ekki á nokkurn hátt getað dulist að með framangreindum ráðstöfunum hafi félaginu verið sköpuð augljós og stórfelld hætta á fjártjóni sem jafnframt hafi orðið að veruleika. Þess ber þó að geta að stefndi Steingrímur var ekki í aðstöðu til að gera ráðstafanir sem Milestone ehf. yrði bundið af, þótt hann hafi sem stjórnarmaður getað tekið ákvarðanir um þær. Því var hann sakfelldur sem hlutdeildarmaður í brotum annarra gegn 249. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna.          Gögn málsins gefa ekki skýra mynd af því með hvaða hætti ákveðið var að Milestone ehf. legði til fjármagn til að kaupa hlutabréfin af stefndu Ingunni. Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi virðist ákvörðun þess efnis ekki hafa verið tekin á stjórnarfundi. Stefndu Karl og Steingrímur báru sem stjórnarmenn hins vegar ábyrgð á því að starfsemi félagsins væri í réttu og góðu horfi og að nægjanlegt eftirlit væri haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Þá skyldu báru þeir þótt vanhöld hafi verið á því að mál væru tekin fyrir á stjórnarfundum. Í ljósi fyrrgreindrar stöðu stefndu Karls og Steingríms hjá Milestone ehf., þeirra hagsmuna sem þeir áttu af kaupum hlutabréfanna og vitneskju þeirra um efni samninganna 4. desember 2005 og þau viðskipti sem fylgdu í kjölfarið, verður að fallast á með stefnanda að þeir beri, á grundvelli 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994, skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hlaust af því að félaginu var gert að fjármagna kaup þeirra á hlutabréfunum án þess að gæta nægjanlega að hagsmunum félagsins. Telur dómurinn að röksemdir stefnda Steingríms, er lúta að því að hann geti ekki borið ábyrgð á tjóninu, þar sem hann hafi ekki verið virkur hluthafi í félaginu, hann hafi gegnt þar takmörkuðu hlutverki og einungis skrifað undir þá gerninga sem fyrir hann voru lagðir án þess að kynna sér efni þeirra, séu haldlausar.                 Sem framkvæmdastjóri Milestone ehf. bar stefndi Guðmundur ábyrgð á daglegum rekstri og reikningsskilum félagsins. Á honum hvíldi trúnaðarskylda gagnvart félaginu sem gekk framar skyldum gagnvart eigendum hlutafjár í félaginu. Bar honum því að gæta þess að fjármunum félagsins væri ekki stefnt í voða í þágu hagsmuna eigenda eftir því sem honum var frekast unnt. Ganga verður út frá því að stefnda Guðmundi hafi verið kunnugt um greiðslurnar til stefndu Ingunnar og að þær ættu rætur að rekja til samninganna frá 4. desember 2005. Hann sendi m.a. áætlun um greiðslur kaupverðsins til fjármálastjóra félagsins 30. desember 2005, eins og lýst er í dómi Hæstaréttar Íslands 28. apríl 2016. Þar er einnig lýst samskiptum hans við starfsmenn félagsins sem og við stefnda Karl í lok árs 2006 og í byrjun árs 2007 vegna óvissu um hvað gera ætti vegna hagsmuna félagsins af þeim fjárútlátum sem það hafði verið látið bera frá janúar 2006 til janúar 2007. Ekkert liggur fyrir um að hann hafi mælt gegn því að fjármunir Milestone ehf. væru notaðir á þann hátt sem fyrir liggur án þess að hagsmunir félagsins væru tryggðir.          Með þessu brást stefndi Guðmundur framangreindum skyldum sínum gagnvart Milestone ehf. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður stefndi Guðmundur, ásamt stefndu Karli og Steingrími, talinn hafa valdið félaginu tjóni sem hlaust af framangreindum greiðslum á árinu 2006 og 2007, sbr. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994, þannig að leiði til skaðabótaábyrgðar. Með vísan til undanþágu 1. mgr. 110. gr. laga nr. 138/1994, sem í gildi var uns ákvæðið var afnumið með lögum nr. 68/2010, kemur málshöfðunarfrestur ákvæðisins ekki í veg fyrir að þessir stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda skaðabætur, enda byggist skaðabótakrafan á refsiverðum verknaði.          Kemur þá til skoðunar hvort stefnda Ingunn verði talin hafa valdið stefnanda tjóni með framangreindum ráðstöfunum þannig að hún hafi fellt á sig bótaskyldu. Í því efni verður að hafa í huga að ekki liggur annað fyrir en að hún hafi afhent hlutabréfin sem voru andlag þeirra kaupa sem greiðslurnar áttu rætur að rekja til og því efnt fyrir sitt leyti skyldur sínar samkvæmt samningunum 5. desember 2005.          Samkvæmt því sem segir í greinargerð stefndu Ingunnar sat hún í stjórn Milestone ehf. allt til 15. október 2006. Þess ber þó að geta að í samningi um sölu- og kauprétt á 10,306% hlutafjár í Milestone ehf. var við það miðað að öll réttindi yfir hlutabréfunum skyldu færast til kaupanda þegar kaupin gerðust í janúar 2006. Átti seljandi einungis veðrétt í hlutabréfunum til tryggingar greiðslu kaupverðsins uns tiltekið hlutfall þess hafði verið greitt. Eins og rakið hefur verið áttu kaupin á þessum hlutabréfum sér stað 6. janúar 2006. Eftir það virðist stefnda Ingunn einungis hafa átt 4,294% hlut í Milestone ehf., en kaup- og söluréttur á þeim hluta varð virkur 2. janúar 2007. Í fyrrgreindum samningi um sölu- og kauprétt á 10,306% hlut í Milestone ehf. var eftir sem áður kveðið á um að frá og með kaupunum í janúar 2006 myndi stefnda Ingunn hverfa úr stjórn Milestone ehf. Hvíldi á stefndu Karli og Steingrími að tilkynna það til hlutafélagaskrár Ríkisskattstjóra. Af ókunnum ástæðum virðist það hafa dregist. Óhjákvæmilegt er að meta skyldur stefndu Ingunnar og ábyrgð gagnvart félaginu í þessu ljósi.          Eins og áður segir virðist ákvörðun þess efnis að Milestone ehf. skyldi fjármagna kaupin ekki hafa verið tekin í stjórn félagsins. Ekkert bendir heldur til þess að málefni tengd efndum kaupsamninga um hlutabréfin hafi borið þar á góma. Gögn málsins gefa þó til kynna að stefndu Ingunni hafi verið kunnugt um að greiðslurnar bærust frá Milestone ehf. Í því efni verður þó að taka tillit til þess að samningarnir frá 5. desember 2005 gerðu beinlínis ráð fyrir því að félagið gæti orðið kaupandi hlutabréfanna án atbeina stefndu Ingunnar þó að sú hafi ekki orðið raunin, eins og rakið hefur verið. Frá sjónarhóli stefndu Ingunnar gátu því verið eðlilegar skýringar á því að greiðslurnar bærust frá Milestone ehf. Í ljósi stöðu hennar sem seljanda bréfanna, og að teknu tilliti til þess að ætlunin var að hún hyrfi úr stjórn félagsins samkvæmt fyrrgreindum samningum þegar við söluna á 10,306% hlut í félaginu, var einnig skiljanlegt að hún kynnti sér ekki í þaula, með tilliti til hagsmuna Milestone ehf., hvernig samkomulagi milli kaupenda hlutabréfanna og félagsins um fjármögnun viðskiptanna væri háttað. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið þykja ekki standa rök til þess að stefnda Ingunn verði látin bera skaðabótaábyrgð í málinu á grundvelli 1. eða 2. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 eða á grundvelli almenns skaðabótaréttar með því að hafast ekkert að til að koma í veg fyrir tjón Milestone ehf. af viðskiptunum. Af þessum sökum verður stefnda Ingunn sýknuð af kröfum stefnanda.          Samkvæmt framansögðu er á það fallist að stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem Milestone ehf. varð fyrir þegar félagið var látið efna samninga við stefndu Ingunni um kaup stefndu Karls og Steingríms á hlutabréfum í því og öðrum félögum, án þess að tryggja hagsmuni félagsins eins og rakið hefur verið. Eins og áður hefur verið komist að niðurstöðu um nemur tjón félagsins stefnufjárhæðinni. Ekki verður ráðið af því sem fram hefur komið fyrir dómi að stefnandi hafi vanrækt að takmarka tjón sitt með því að innheimta ekki kröfur á hendur Milestone Import Export Ltd., en um það er vísað til þess sem að framan er rakið um árangurslausar innheimtutilraunir stefnanda gagnvart því félagi. Við munnlegan málflutning vísaði stefndi Karl einnig til þess að stefnandi hafi vanrækt að fá tjónið bætt úr ábyrgðartryggingu stjórnar og framkvæmdastjóra. Þessari málsástæðu var ekki hreyft í greinargerð og kemur hún ekki til álita við úrlausn málsins gegn andmælum stefnanda, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Hafa stefndu að öðru leyti ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að færa beri niður bótafjárhæðina. Verður því á það fallist að stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur beri óskipta skyldu til þess að greiða stefnanda 5.195.721.859 krónur í skaðabætur.          Kröfugerð stefnanda tekur mið af því að stefnandi eigi tilkall til dráttarvaxta af hverri og einni greiðslu sem innt var af hendi til stefndu Ingunnar samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma sem þær fóru fram. Í stefnu var um þetta vísað til fyrrgreinds ákvæðis 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Eins og áður segir hvílir sú skylda á stefndu Karli og Steingrími að endurgreiða þann hluta ofangreindrar fjárhæðar, sem á rætur að rekja til fjármögnunar Milestone ehf. á hlutafé í sjálfu sér, með vísan til 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Samkvæmt ákvæðinu ber að endurgreiða lán sem stangast á við 2. mgr. 79. gr. laganna með dráttarvöxtum. Af þessu leiðir að dráttarvextir verða gjaldkræfir, ásamt höfuðstól hins ólögmæta láns, þegar það var innt af hendi.          Allar kaupverðsgreiðslurnar sem Milestone ehf. var gert að inna af hendi til stefndu Ingunnar áttu sér stað fyrir gildistöku laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Því fer um fyrningu vaxta á endurgreiðslu þeirra eftir lögum nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Samkvæmt 2. tölulið 3. gr. þeirra laga fyrnast gjaldkræfir vextir á fjórum árum. Mál þetta var höfðað 8. janúar 2011, en ekkert liggur fyrir um að fyrningu vaxta hafi verið slitið fyrr en þá. Af þessu leiðir að allar kröfur stefnanda um dráttarvexti fyrir 8. janúar 2007 eru fyrndar og verður þeim því þegar af þeirri ástæðu hafnað.          Stefnandi byggir á því í stefnu að dæma eigi dráttarvexti af skaðabótum í málinu frá og með mánuði eftir þingfestingu málsins, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, og er hann við þá afstöðu bundinn. Málatilbúnaður stefnanda er því marki brenndur að óljóst er að hvaða leyti greiðslur, sem Milestone ehf. innti af hendi 8. janúar 2007 og síðar, eigi rætur að rekja til efnda á kaupum á hlutabréfum í félaginu sjálfu, og beri því að endurgreiða samkvæmt 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Ætla verður að umtalsverðan hluta þeirra megi rekja til efnda á kaupum í hlutabréfum í Leiftra Ltd. og Milestone Import Export Ltd., sem falla utan greiðsluskyldu samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, en hafa valdið stefnanda tjóni sem stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur bera sameiginlega bótaábyrgð á. Verður stefnandi að bera hallann af því að ekki er unnt að greina hér á milli. Af þessum sökum verða dráttarvextir ekki dæmdir fyrr en mánuður var liðinn frá þingfestingu málsins, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, í samræmi við málatilbúnað stefnanda til stuðnings dráttarvöxtum af skaðabótakröfum í málinu. Aftur á móti er ekki efni til þess að fallast á með stefndu að dráttarvexti skuli ekki dæma í málinu fyrr en frá dómsuppsögu á grundvelli 7. eða 9. gr. laga nr. 38/2001.          Eins og rakið hefur verið er fallist á kröfu stefndu Ingunnar um sýknu í málinu. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu Ingunni málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur. Er þá m.a. tekið tillit til þess að kröfum stefndu Ingunnar um að vísa málinu frá dómi var hrundið tvívegis undir rekstri málsins, en stefnandi hafði kostnað af því að verjast þeim kröfum.          Aftur á móti er fallist á kröfu stefnanda um að stefndu, Karl, Steingrímur og Guðmundur, greiði stefnanda stefnufjárhæðina með þeim dráttarvöxtum sem í dómsorði greinir. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber þeim því að greiða stefnanda óskipt málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 2.000.000 króna.          Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð:          Stefndu, Karl Emil Wernersson, Steingrímur Wernersson og Guðmundur Ólason, greiði stefnanda, þrotabúi Milestone ehf., óskipt 5.195.721.859 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af sömu fjárhæð frá 13. febrúar 2011 til greiðsludags.          Stefnda, Ingunn Wernersdóttir, er sýkn af kröfum stefnanda.          Stefndu Karl, Steingrímur og Guðmundur greiði stefnanda óskipt 2.000.000 króna í málskostnað.          Stefnandi greiði stefndu Ingunni 1.500.000 krónur í málskostnað.      
Mál nr. 752/2017
Hæfi dómara Ómerking héraðsdóms Heimvísun
L hf. höfðaði mál á hendur J til heimtu skuldar samkvæmt tveimur lánssamningum sem J hafði gert við Landsbanka Íslands hf., en kröfum samkvæmt samningunum hafði verið ráðstafað til L hf. Fyrir Hæstarétti krafðist J ómerkingar héraðsdóms á þeim grundvelli að dómarinn sem fór með málið í héraði hefði verið vanhæfur til meðferðar þess vegna setu sinnar í skilanefnd Landsbanka Íslands hf. og bankaráði L hf. Féllst Hæstiréttur á að vegna tilurðar og meðferðar þeirra krafna sem aðilar hefðu uppi, og með hliðsjón af störfum héraðsdómarans á þeim tíma er um ræddi, mætti með réttu draga í efa óhlutdrægni hans við úrlausn málsins, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar dómsálagningar á ný.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Jón Finnbjörnsson landsréttardómari.   Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. desember 2017. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms reisir áfrýjandi á því að dómari málsins hafi verið vanhæfur til að fara með og dæma það vegna setu sinnar í skilanefnd Landsbanka Íslands hf. og bankaráði stefnda. Til stuðnings þessu vísar áfrýjandi til g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi höfðaði mál þetta til heimtu skuldar samkvæmt tveimur lánssamningum sem áfrýjandi hafði gert við Landsbanka Íslands hf. á árunum 2007 og 2008. Kröfum samkvæmt þeim var ráðstafað til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Við slit Landsbanka Íslands hf. lýsti áfrýjandi kröfu 30. október 2009 meðal annars um skuldajöfnuð við þær kröfur sem mál þetta lýtur að vegna skaðabótakröfu sem hann taldi sig eiga á hendur bankanum vegna ófullnægjandi ráðgjafar starfsmanna hans. Skilanefnd bankans hafnaði kröfum áfrýjanda og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2014 var öllum kröfum hans vísað frá dómi. Í þessu máli teflir áfrýjandi fram sömu málsástæðum gegn kröfum stefnda og í því máli. Héraðsdómari sat í bankaráði stefnda á árunum 2010 til 2011, en hafði fyrir þann tíma verið varamaður í ráðinu um skeið. Þá var hann í skilanefnd Landsbanka Íslands hf. frá því í október 2008 til ársloka 2011 og formaður nefndarinnar frá júní 2009. Vegna þeirra atriða sem hér hafa verið rakin um tilurð og meðferð þeirra krafna sem aðilar hafa uppi og með hliðsjón af þeim störfum sem héraðsdómari gegndi á þeim tíma sem um ræðir verður talið að draga megi með réttu í efa óhlutdrægni hans við úrlausn málsins. Var hann því vanhæfur til að fara með og dæma það, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Verður því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.       Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2017. Mál þetta var höfðað 18. ágúst 2016 af Landsbankanum hf., Austurstræti 11, 155 Reykjavík. Stefndi er Jónas Rúnar Sigfússon, Torfufelli 26, 111 Reykjavík. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 7. september sl. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 128.439.804 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 113.713.361 krónu frá 9. janúar 2014 til 19. júní 2014 og af 128.439.804 krónum frá 19. júní 2014 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun hinn 1. mars 2017 að fjárhæð 72.129.786 krónur, sem dregst frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Þá er krafist málskostnaðar. Stefndi krefst sýknu en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda. I Stefndi var viðskiptavinur Landsbanka Íslands hf. til margra ára. Hann er menntaður grunn- og framhaldsskólakennari og starfaði sem slíkur. Kona hans sem nú er látin var óvinnufær og byggðu þau afkomu sína á tekjum stefnda. Voru fjármunir hans að sögn að mestu bundnir í fasteigninni sem þau bjuggu í, sem var stórt einbýlishús við Sólvallagötu í Vesturbæ Reykjavíkur. Árið 2006 kveður stefndi að sú staða hafi komið upp vegna veikinda eiginkonu hans að honum hafi verið nauðugur sá kostur að finna sér og konu sinni heppilegri eign og minni. Fasteignin við Sólvallagötu hafi hins vegar verið þung í sölu og kveðst stefndi þá hafa leitað ráða hjá starfsmanni Landsbanka Íslands hf., sem hafi ráðlagt stefnda að taka brúarlán í erlendri mynt á lágum vöxtum. Út á fyrirheit bankans um brúarlán í erlendri mynt og á lágum vöxtum kveðst stefndi hafa keypt tvær fasteignir. Aðra fyrir sig og konu sína og hina fyrir dóttur sína, sem bjó áður í kjallaraíbúð hússins við Sólvallagötu. Þegar á reyndi hafi bankinn ekki getað staðið við loforð sitt um lán í erlendri mynt. Fjármögnunin hafi því endað með skammtímaláni, á mun hærri vöxtum, að fjárhæð 55.000.000 króna, 21. ágúst 2006. Töluverð bið varð á að húsið seldist og var vaxtabyrðin á skammtímaláninu afar íþyngjandi fyrir stefnda. Þegar aðstæður bötnuðu á markaði gat bankinn í maí 2007 gengið frá lánssamningi í erlendum myntum til tveggja ára eins og áður hafði verið lofað. Lánssamningurinn var undirritaður 23. maí 2007 og er númer 8020. Ráðstafa átti láninu til að greiða upp skammtímalánið, að upphaflegri fjárhæð 55.000.000 króna, og önnur smærri lán þannig að eftir stæði aðeins lánssamningurinn þangað til fasteignin við Sólvallagötu yrði seld. Með kaupsamningi, 21. ágúst 2007, seldi stefndi fasteign sína við Sólvallagötu. Kaupverðið, 72.500.000 krónur, var greitt inn á reikning stefnda hjá Landsbanka Íslands hf. 5. september 2007. Lánssamningur stefnda var til tveggja ára og var hugsaður til þess að brúa bilið þar til fasteign hans yrði seld. Stefndi kveður að þegar ljóst hafi verið að fasteignin myndi seljast hafi starfsmaður Landsbanka Íslands hf., Jón Þór Helgason, sem var tengiliður stefnda hjá bankanum og átti tillöguna að fjármögnunarferlinu, haft frumkvæði að því að hvetja stefnda til að gera vaxtaskiptasamning við bankann. Stefnda var að sögn kynnt að slíkur samningur byggðist á því að í stað þess að greiða upp brúarlánið skyldi það sem fengist fyrir fasteignina notað til að kaupa Peningabréf Landsbankans. Lánið myndi þá standa áfram sem hluti af vaxtaskiptasamningi en stefndi kveðst alltaf hafa gert ráð fyrir að gera upp fyrirgreiðslu Landsbanka Íslands hf. þegar fasteign hans seldist. Umræddur fjárfestingasjóður hafi verið kynntur sem áhættulaus fjárfestingarleið af starfsmönnum Landsbanka Íslands hf. Viðkomandi starfsmaður Landsbanka Íslands hf., Jón Þór Helgason, hafi einnig séð um fjármögnun fyrir kaupanda fasteignarinnar við Sólvallagötu og hafi því þekkt vel til fjárstreymis hjá stefnda. Hann hafi því mátt vita, að mati stefnda, að þeir fjármunir sem hafi verið undir hafi verið nánast aleiga stefnda og hugsaðir sem lífeyrir hans og konu hans í fyllingu tímans. Í stað þess að gera upp lánssamninginn var því, að sögn stefnda og vitnisins Jóns Þórs, ákveðið að gera umræddan vaxtaskiptasamning og að stefndi keypti fyrrgreind Peningabréf Landsbankans. Stefnandi hefur alfarið mótmælt því að gerður hafi verið slíkur vaxtaskiptasamningur. Stefndi hafi einfaldlega nýtt andvirði eignar sinnar til að kaupa peningabréf. Jón Þór hafi þó tilkynnt, með sérstakri yfirlýsingu frá maí 2008, að hann hafi kynnt vaxtaskiptasamninginn þannig að stefndi gæti þá nýtt sér vaxtamun á milli erlendrar myntar, sem lánssamningurinn byggðist á, og íslensku krónunnar til að standa undir vaxtakostnaði af lánssamningnum og rúmlega það. Stefndi fullyrðir að honum hafi verið kynnt þetta sem nánast áhættulaus gjörningur sem hann gæti nýtt til að greiða upp lánið án annars fjármagns en þess sem vaxtaskiptasamningurinn gæfi af sér. Vitnið Jón Þór staðfesti fyrir dómi að bankinn hefði enda kynnt þetta sem áhættulaus viðskipti. Áhættan hafi í mesta lagi átt að vera sú að þessi viðskipti gætu staðið á núlli. Ágreiningslaust er að stefndi skrifaði ekki undir neitt samþykki eða önnur skjöl í tengslum við þessi viðskipti. Sama dag og kaupverð fasteignarinnar að Sólvallagötu var greitt út keypti stefndi Peningabréf Landsbankans fyrir sömu upphæð, þ.e. 72.500.000 krónur, og sá Landsbanki Íslands hf., að sögn stefnda, alfarið um það. Allar hreyfingar fjármuna hafi verið framkvæmdar án undirskriftar stefnda og án beinnar aðkomu hans. Stefndi fullyrðir að honum hefði aldrei komið til hugar að eiga frumkvæði að eða óska eftir viðskiptum eins og að framan er lýst og að hann hafi ekki þurft þessi viðskipti, þar sem hann hefði án þeirra, átt skuldlausar fasteignir þegar eign hans við Sólvallagötu hafi verið seld. Samtals námu innlausnir á Peningabréfum Landsbankans, á tímabilinu frá 28. september 2007 til 5. september 2008, 7.920.000 krónum sem fóru til greiðslu vaxta og kostnaðar. Stefndi hafði samband við fulltrúa sinn hjá bankanum um hver mánaðamót, þegar kom að vaxtagreiðslu, til að upplýsa um þá upphæð sem standa þyrfti skil á. Var það eina aðkoma hans að vaxtaskiptasamningnum. Stefndi kveðst ekki hafa getað selt peningabréfin sjálfur, þar sem bankinn hafi haldið þeim að handveði. Stefnandi hefur þó bent á að ekki hafi verið gengið frá handveðssetningunni fyrr en í febrúar 2008. Önnur þeirra eigna sem stefndi keypti var íbúð við Dunhaga í Vesturbæ Reykjavíkur, fyrir dóttur hans sem var í háskólanámi. Aðstæður hjá dóttur stefnda breyttust og stefndi vildi kaupa aðra eign sem hentaði henni betur en til þess þurfti ekki viðbótarfjármagn. Stefndi leitaði þá til Landsbanka Íslands hf. eftir ráðgjöf, ef lagt yrði í að kaupa dýrari eign. Stefndi kveður að fulltrúi bankans hafi þá lagt til að hann tæki kúlulán, sambærilegt láni nr. 8020. Lánssamningurinn myndi ganga inn í vaxtaskiptasamning aðila sem að framan er lýst og myndi stefndi greiða niður lánið með innlausnum af inneign sinni og ávöxtun hjá Peningabréfum Landsbankans. Aukin greiðslubyrði stefnda yrði því engin. Út á fyrirheit Landsbanka Íslands hf., kveðst stefndi hafa selt eignina við Dunhaga og keypt aðra fasteign 16. janúar 2008. Auk handveðs í Peningabréfum Landsbanka Íslands hf., gerði bankinn kröfu um frekari tryggingar. Því voru útbúin tryggingarbréf með veði í fasteignum stefnda. Lokað var fyrir innlausnir á umræddum peningabréfum 6. október 2008. Í kjölfarið voru peningasjóðir Landsbankans leystir upp og inneignir greiddar út. Útgreiðsluhlutfall nam 68,8% og var greiðsla til stefnda innt af hendi inn á bankareikning hjá stefnanda. Innstæðunni var ráðstafað upp í kröfu stefnanda 1. mars 2017. Stefndi kveðst hafa gert ítrekaðar tilraunir til að ná tali af starfsmönnum Landsbanka Íslands hf. til þess að ræða umrædd vaxtaskiptaviðskipti en án árangurs. Stefnukröfur málsins byggja því samkvæmt framangreindu á tveimur lánssamningum milli forvera stefnanda, Landsbanka Íslands hf., og stefnda. Annar lánssamningurinn var undirritaður 14. mars 2008 og er auðkenndur með númerinu 11605. Samningurinn er um fjölmyntalán til fimm ára, upphaflega að jafnvirði 10.000.000 króna í eftirtöldum myntum og hlutföllum: JPY 17%, EUR 35%, CHF 22% og CAD 26%. Lánstími skyldi vera fimm ár. Lánið bar að greiða að fullu á næstu fimm árum með 60 afborgunum á eins mánaðar fresti, þannig að á fyrstu 59 gjalddögunum, hverjum um sig, skyldi greiddur 1/300 hluti lánsupphæðarinnar og á lokagjalddaga þann 1. apríl 2013, 241/300 hluti lánsupphæðarinnar. Fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta var 1. maí 2008. Vextir voru breytilegir, jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,75% vaxtaálags. Vextir skyldu reiknast frá útborgunardegi lánsins og greiðast eftir á á gjalddögum. Stæði lántaki ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar á gjalddaga bar honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags. Bankinn hafði um það val, hvort krafist væri dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt, eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur. Skilyrði fyrir útborgun lánsins var m.a. að bankanum myndi berast beiðni um útborgun. Bankanum barst slík beiðni þann 14. mars 2008 þar sem stefndi, óskaði eftir að lánið yrði greitt út þann 18. mars 2008. Í kjölfarið voru greiddar út 9.990.001 króna. Í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands um ólögmæti gengistryggðra lána hóf bankinn endurútreikning á lánum viðskiptavina sinna í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2010, þar á meðal lán stefnda sem bankinn skilgreindi sem ólögmætt. Eftirstöðvar lánsins fyrir endurútreikning voru 18.773.347 krónur en eftir endurútreikning 13.363.351 króna, miðað við 1. september 2011. Í kjölfar dóma réttarins í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012, um gildi fullnaðarkvittana, var endurútreikningurinn leiðréttur. Staða lánsins fyrir þann endurútreikning var 16.974.010 krónur en eftir endurútreikning 14.726.443 krónur. Hinn lánssamningurinn var undirritaður 23. maí 2007 og er auðkenndur með númerinu 8020. Samningurinn er um fjölmyntalán til tveggja ára að jafnvirði 75.000.000 króna í CHF 52%, JPY 38% og SEK 10%. Lánið bar að greiða að fullu með einni afborgun í lok lánstímans, 4. maí 2009. Vexti skyldi þó greiða á eins mánaðar fresti út lánstímann, í fyrsta sinn 4. júní 2007. Af láninu skyldi greiða breytilega vexti jafnháa LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 1,90% vaxtaálags. Vextir reiknuðust frá útborgunardegi lánsins og greiddust eftir á á gjalddögum. Við vanskil bar stefnda að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags. Beiðni um útborgun lánsins 25. maí 2007 barst bankanum 23. maí 2007. Bankinn taldi þennan samning einnig kveða á um ólögmætt gengistryggt lán og var það því endurreiknað. Eftirstöðvar lánsins fyrir endurútreikning voru 233.075.403 krónur en eftir endurútreikning 115.286.872 krónur, miðað við 9. september 2011. Eftir að fyrrgreindir dómar Hæstaréttar Íslands gengu um gildi fullnaðarkvittana var endurútreikningur lánsins leiðréttur. Lánið fór þá úr 150.555.551 krónu í 113.713.361 krónu. Eftirstöðvar lánssamninganna beggja, samkvæmt framansögðu, mynda stefnufjárhæð málsins. Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun 9. október 2008, með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbankans hf. II Stefnandi byggir kröfur sínar á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þá byggir stefnandi kröfu um málskostnað á 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi kveður málið ofur einfalt. Ágreiningslaust sé að stefndi hafi skrifað undir umrædda lánssamninga og að hann hafi fengið andvirði lánanna að frádregnum kostnað greitt inn á reikning sinn og því getað ráðstafað fénu að vild í kjölfarið. Stefnandi kveðst munu ráðstafa innborgunum fyrst til greiðslu áfallins kostnaðar af vanskilum, þá til greiðslu vaxta og að lokum til lækkunar höfuðstóls.   III Stefndi telur umþrætta lánssamninga vera hluta af vaxtaskiptaviðskiptum sínum og forvera stefnanda, Landsbanka Íslands hf. Stefnandi geti ekki einhliða skilið hluta viðskiptanna frá heldur verði að skoða viðskiptin í heild. Stefndi hafi við yfirfærslu þessara gerninga til nýja Landsbankans, með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, ekki misst neinn mótbárurétt gagnvart stefnanda. Aðalkrafa stefnda um sýknu er í fyrsta lagi byggð á því að lánssamningarnir séu óskuldbindandi fyrir stefnda. Umræddir lánssamningar séu hluti af óundirrituðum vaxtaskiptasamningi milli sömu aðila. Landsbanki Íslands hf. hafi hvorki sinnt upplýsingaskyldu sinni við samningsgerðina né gætt að hlutleysi sínu og með því ekki uppfyllt nánar tiltekin ákvæði þágildandi laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, ákvæði laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og reglugerð sem sett er með stoð í framangreindum lögum, sem og ákvæði laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Um þetta vísar stefndi til þess að á Landsbanka Íslands hf. hafi hvílt skylda til að gera sérstakan skriflegan samning um þau vaxtaskiptaviðskipti sem áttu sér stað, sbr. 2. mgr. 7. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Sérstaklega sé vísað til umfangs viðskiptanna og þeirrar áhættu, sem þeim hafi verið samfara. Starfsmaður bankans, sem komið hafi viðskiptunum á, hafi verið fullmeðvitaður um að aleiga stefnda væri undir. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði hafi fjármálafyrirtæki, sem hafi verið í viðvarandi viðskiptasambandi við viðskiptavin, verið skylt að gera um þau skriflegan samning. Stefnda hafi hvorki verið gert að skrifa undir samning um fjárfestingarráðgjöf við bankann né almenna skilmála vegna markaðsviðskipta þrátt fyrir lagaskyldu til þess. Eins og fram komi í skýrslutöku í dómsmáli númer X-648/2012, Jónas Rúnar Sigfússon gegn LBI hf., hafi fyrrverandi starfsmaður Landsbanka Íslands hf., sem var tengiliður stefnda við bankann, staðfest að lánssamningar og kaup í peningamarkaðsbréfum Landsbanka Íslands hafi verið undirstaða vaxtaskiptasamninga eins og þess sem stefndi hafi gert við Landsbanka Íslands hf. Hann hafi jafnframt staðfest að bankinn hefði átt að gera skriflegan samning um þessi viðskipti. Stefndi vísar einnig til 1. mgr. 9. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sem tóku gildi í nóvember 2007, rétt eftir að gengið hafi verið frá framangreindum vaxtaskiptaviðskiptum. Ákvæði þetta skyldi fjármálafyrirtæki til að gera skriflegan samning við almennan fjárfesti ef fjármálafyrirtækið tekur að sér þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Ekki hafi verið brugðist við þessari skyldu við gildistöku laganna. Þá liggi fyrir í málinu að stefndi hafi ekki fengið viðeigandi upplýsingar í tengslum við skyldu fjármálafyrirtækja til þess að flokka viðskiptavini, sbr. 21. gr. laga nr. 108/2007. Í öðru lagi byggir stefndi á því að bankinn hafi hvorki veitt ráðgjöf um eðli gerningsins né áhættuna sem í honum hafi falist. Viðskiptin hafi falið í sér áhættu sem stefndi hafi hvorki haft vitneskju um né þekkingu á. Samkvæmt 5. gr. þágildandi laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, og 14. og 15. gr. núgildandi laga nr. 108/2007, hafi bankanum borið að afla sér upplýsinga hjá stefnda um þekkingu og reynslu hans af verðbréfaviðskiptum. Í ljósi þessa hafi bankanum borið að veita stefnda greinargóðar upplýsingar m.a. um þá fjárfestingarkosti sem honum hafi staðið til boða. Slíkar upplýsingar eigi samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði að vera skýrar, nægjanlegar og ekki villandi þannig að viðskiptavinur geti tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun. Aðkoma bankans að umræddum viðskiptum sé ekki í samræmi við almenna venju í bankaviðskiptum. Þá geti viðskiptin ekki talist tilhlýðileg fjárfesting fyrir almennan viðskiptavin með enga reynslu og fjármálaþekkingu, sbr. 4. gr. þágildandi laga nr. 33/2003.   Umrædd viðskipti hafi falið í sér verulega gengisáhættu fyrir stefnda sem hann hafi aldrei verið upplýstur um. Starfsmaður bankans hafi fullyrt að um væri að ræða áhættulaus viðskipti. Þetta fái einnig stoð í yfirlýsingum sem bankinn sjálfur hafi látið frá sér í tengslum við viðskipti með Peningabréf Landsbankans. Engin gögn séu til um að bankinn hafi upplýst stefnda, sem almennan viðskiptavin, um eðli og áhættu samfara vaxtaskiptaviðskiptunum. Stefndi byggir í þriðja lagi á því að hvatning starfsmanna Landsbanka Íslands hf. til stefnda, sem einstaklings og almenns viðskiptavinar, um að taka þátt í áhættusömum viðskiptum, sé andstæð góðri viðskiptavenju, sbr. 4. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003. Stefndi hafi augljóslega ekki haft burði til að taka slíka áhættu sem falist hafi í þeim viðskiptum sem bankinn hafi kynnt honum. Hann hafi verið á einföldum kennaralaunum og leitað til bankans í þeim tilgangi að fjármagna tímabundið fasteignakaup. Þá sé nú alþekkt að á árunum 2007 og 2008 hafi forsvarsmenn Landsbanka Íslands hf. unnið að því með ólögmætum hætti að hindra að hlutabréf í bankanum lækkuðu í verði, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 842/2014 og 456/2014. Þá sé búið að sýna fram á að helstu fjárfestingar Peningabréfa Landsbankans hafi verið í bankanum sjálfum og tengdum félögum, sem hafi verið andstætt þeirri stefnu sem sjóðurinn hafi kynnt. Það að hvetja viðskiptamenn til að fjárfesta í Peningabréfum Landsbankans, sem búið sé að sýna fram á að hafi verið notuð m.a. til þess að halda uppi verðinu á bankanum og fyrirtækjum tengdum honum, hafi því fallið að þessum fyrirætlunum Landsbanka Íslands hf. Í fjórða lagi byggir stefndi á því að kynning og ráðgjöf Landsbanka Íslands hf. hafi ekki verið í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum, með trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi, sbr. 4. gr. þágildandi laga nr. 33/2003, 5. gr. laga nr. 108/2007 og 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Ákvæði 5. gr. laga nr. 108/2007 feli í sér almenna hegðunarreglu. Þá séu sérstakar hegðunarreglur í II. kafla laga nr. 108/2007 og reglugerð nr. 995/2007, um fjárfestingarvernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, sem séu nánari útfærsla á hinni almennu reglu. Hinar sérstöku hegðunarreglur feli ekki í sér tæmandi talningu á því hvernig fjármálafyrirtæki beri að haga sér í öllum tilvikum. Fjármálafyrirtæki beri þannig að meta hvert og einstakt tilvik með hliðsjón af hagsmunum viðskiptavinarins. Við það mat verði að horfa til þess hvernig hlutrænt megi telja að gegn og skynsamur starfsmaður hefði hagað sér undir tilteknum kringumstæðum og þá eftir atvikum hvort bankinn hefði átt að vita að um óeðlilega og óheilbrigða viðskiptahætti væri að ræða, sem væru til þess fallnir að skaða trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina. Háttsemi Landsbanka Íslands hf. hafi stórlega skaðað hagsmuni stefnda og skilið hann eftir í fjárhagslegu tómarúmi því hann hafi ekki getað fengið fyrirgreiðslu í bönkum eða sparisjóðum vegna skráðrar skuldastöðu hjá Landsbanka Íslands hf. Með vísan til alls framangreinds telur stefndi ljóst að stefnandi geti ekki byggt rétt á lánssamningum nr. 11605 og 8020. Samningarnir séu órjúfanlegur hluti af vaxtaskiptaviðskiptum stefnda og Landsbanka Íslands hf. sem síðan hafi flust yfir til stefnanda. Umrædd viðskipti, og þar með lánssamningarnir tveir, verði að teljast ólögmæt þar sem bankinn hafi í aðdraganda þeirra virt að vettugi og beinlínis brotið gegn ákvæðum 4., 5., 6. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 33/2003, ákvæði 5., 9., 14. og 15. gr. laga nr. 108/2007, sem og 19. gr. laga nr. 161/2002.   Verði ekki fallist á framangreint byggir stefndi sýknukröfu sína á ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndi byggir á því að það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að stefnandi beri fyrir sig umrædda lánssamninga og að þeim skuli vikið til hliðar í heild sinni með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936. Stefndi byggir á því að öll skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins séu fyrir hendi. Í fyrsta lagi beri að líta til efnis þess samnings, sem málið snúist um. Í því máli sem hér sé til úrlausnar sé um að ræða tvo lánssamninga sem séu hluti af órjúfanlegri heild. Lánssamningarnir séu annar helmingur vaxtaskiptasamnings sem hafi verið milli stefnda og forvera stefnanda, Landsbanka Íslands hf. Ekki sé hægt að krefjast greiðslu samkvæmt lánssamningunum án þess að vaxtaskiptasamningurinn komi til skoðunar. Stefndi vísar til þess sem að framan er rakið um tilurð og umgjörð viðskiptanna þar sem lög og reglur hafi verið þverbrotin. Í öðru lagi beri að líta til atvika við samningsgerð. Stefndi byggir á því að ekki hafi verið rétt staðið að gerð samningsins þar sem hvorki hafi verið gengið frá skriflegum samningi né veittar viðeigandi upplýsingar við lánveitinguna og áhættutökuna. Framangreindum skyldum hafi bankinn í engu sinnt. Með þessari háttsemi hafi bankinn brotið gegn ákvæðum 4., 5., 6. og 2. mgr. 7. gr. þágildandi laga nr. 33/2003, ákvæðum 5., 9., 14. og 15. gr. laga nr. 108/2007 og 19. gr. laga nr. 161/2002. Í þriðja og fjórða lagi byggir stefndi á því að staða samningsaðila og atvik sem síðar hafi komið til, þar á meðal markaðsmisnotkun og meðferð á Peningamarkaðssjóðum Landsbanka Íslands hf., styðji enn frekar að uppfyllt séu skilyrði til þess að víkja lánssamningunum frá í heild. Að öðru leyti vísar stefndi til fyrri málsástæðna. Verði ekki fallist á að víkja beri framangreindum lánssamningum til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936, þá byggir stefndi á því að það sé óheiðarlegt af stefnanda að bera þessa skuldbindingu stefnda fyrir sig. Þegar horft sé til þeirra ráðlegginga sem stefnda hafi verið veittar um lántöku, sem falið hafi í sér verulega áhættu fyrir hann, og vanrækslu bankans á að kynna fyrir honum áhættuna sem hafi falist í viðskiptunum, ásamt vanrækslu á að flokka hann sem almennan viðskiptavin í samræmi við ákvæði laga nr. 108/2007, verði að telja að umræddir lánssamningar séu ógildir samkvæmt 33. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 3. gr. laga nr. 11/1986. Geti stefnandi því ekki krafist endurgreiðslu lánsfjárhæðarinnar og beri að aflétta veðum sem sett hafa verið til tryggingar skuldbindingunum og sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Bankinn hafi átt að vita betur um forsendur ráðgjafarinnar og tryggja að starfsmenn hans héldu að viðskiptavinum réttum upplýsingum í ráðgjöf sinni þannig að viðskiptavinir gætu treyst því að ráðgjöfin væri hlutlaus og á henni byggjandi. Hefði bankinn ekki hvatt til þessara viðskipta og stefndi gert upp allar sínar kröfur, í stað þess að fallast á vaxtaskiptasamninginn, hefði þessi staða ekki verið fyrir hendi. Jafnframt verði að hafa í huga, sé tekið mið af þeim upplýsingum sem nú liggi fyrir, að stjórnendum Landsbanka Íslands hf. hafi mátt vera ljóst hver staða bankans hafi verið og hvert hafi stefnt á þeim tíma sem samningarnir hafi verið gerðir. Þar sem stefndi hafi ekki haft sérþekkingu, sérmenntun eða reynslu af viðskiptum með fjármálagerninga, verði að gera enn ríkari kröfur en ella til Landsbanka Íslands hf. um að hann starfaði í samræmi við góða og eðlilega viðskiptahætti í viðskiptum sínum við stefnda. Þá hafi bankinn virt að vettugi upplýsingaskyldu sína, skyldur um góða viðskiptahætti, leiðbeiningarskyldu og reglur um fjárfestavernd. Bæði Landsbanki Íslands hf. og stefnandi séu fjármálafyrirtæki með mikla þekkingu á viðskiptum með fjármálagjörninga og beri sem slíkir mikla ábyrgð gagnvart skjólstæðingum sínum. Með vísan til framangreinds telur stefndi að það sé óheiðarlegt af stefnanda að bera þessa skuldbindingu fyrir sig og að umræddir lánssamningar séu ógildir með vísan til 33. gr. laga nr. 7/1936. Ef ekki verður fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði allverulega lækkaðar. Stefndi krefst þess að skuld hans samkvæmt lánssamningum nr. 8020 og 11605 takmarkist við uppgjör úr Peningabréfum Landsbanka Íslands hf., þ.e. innstæðu á handveðsettum bankareikningi. Stefndi byggir þessa kröfu á sömu málsástæðum og aðalkrafa hans byggist á auk þess sem hann byggir á óskráðum meginreglum samningaréttar um réttmætar væntingar og að samninga skuldi halda. Þá byggir stefndi enn fremur á að lánssamningarnir séu ekki skuldbindandi fyrir hann vegna rangra forsendna, sbr. 1 mgr. 32. gr. laga nr. 7/1936. Það hafi verið forsenda og ákvörðunarástæða stefnda að fjármálafyrirtækið gerði við hann samning sem fæli ekki í sér neina áhættu fyrir hann. Síðar hafi komið í ljós að sú forsenda og ákvörðunarástæða hafi verið röng. Stefndi byggir á því að Landsbanki Íslands hf. hafi mátt vita að hann gæti ekki staðið við loforð sín við samningsgerðina og að stefndi hefði aldrei gengið til samninga hefði hann verið upplýstur á réttan hátt um eðli gerningsins. Stefnandi vísar til laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003 og 108/2007, laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, til réttarfarsreglna og meginreglna kröfuréttar og samningaréttar, reglunnar um vinnuveitendaábyrgð og sérfræðiábyrgð. Stefndi byggir málskostnaðarkröfu sína á 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. IV. Stefndi gaf skýrslu fyrir dómi. Þá gáfu skýrslur Jón Þór Helgason, fyrrverandi starfsmaður Landsbanka Íslands hf., og Fannar Ólafsson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, báðir persónulegir ráðgjafar stefnda. Í málinu liggur fyrir yfirlýsing Jóns Þórs frá 9. maí 2008 þar sem hann lýsir því hvernig hann hafi gert samning við stefnda um að nýta vaxtamun á milli erlendrar og innlendrar myntar. Í yfirlýsingunni segir Jón Þór jafnframt að hann hafi gert stefnda grein fyrir áhættunni af þessu en bent honum á að til lengri tíma ætti vaxtamunurinn að geta gefið honum umframtekjur. Til lengri tíma ætti staða viðskiptanna þannig að vera í versta falli nálægt núlli eða með lítilli áhættu. Lánið skyldi vera undir eftirliti sérfræðinga í skuldastýringu. Þá segir að vegna frétta um misnotkun bankanna á krónunni til að bæta afkomu sína hefði verið kominn upp forsendubrestur í þessum viðskiptum sem væru orðin allt annars eðlis en það „viðskiptamódel“ sem hann hefði kynnt stefnda. Jón Þór var tengiliður bankans við stefnda þegar fyrra lánið var veitt. Að hans sögn hafði stefndi farið að velta fyrir sér eftir sölu á fasteign sinni í september 2007 hvað væri skynsamlegt í stöðunni en á þessum tíma hafi endalaust verið hægt að verða ríkur í gegnum bankakerfið eins og vitnið orðaði það. Jón Þór benti m.a. á þá hugmynd að stefndi gerði vaxtaskiptasamning. Til að gera slíkan samning hefði stefndi þurft að fara inn á fyrirtækjasvið og á gjaldeyrisborðið þar. Þar hefði mál hans farið í gegnum gjaldeyrismiðlara, og stefndi verið látinn gangast undir stöðupróf, þar sem sérfræðingar bankans myndu kanna hversu mikið vit viðskiptamaðurinn hefði á slíkum viðskiptum, þ.e. hvort hann gerði sér grein fyrir því hvað þarna væri á ferðinni. Þetta hefði falið í sér viðtöl sérfræðinga við viðskiptamanninn og próf sem lögð yrðu fyrir hann og hann þurft að standast. Jón Þór kvaðst hins vegar hafa gert þau mistök að senda stefnda ekki í gegnum þetta ferli, heldur hafi hann lagt mál stefnda einfaldlega fyrir lánanefnd bankans sem samþykkti lánveitingu til stefnda. Vitnið taldi sig hafa átt að stöðva þessi viðskipti en jafnframt hafi lánanefndin átt að gera það. Þetta hafi verið óvenjuleg leið og vitnið muni bara eftir þessu máli og öðru til en önnur sambærileg mál hafi farið í gegnum hið hefðbundna ferli. Vitnið kveðst hafa kynnt fyrir stefnda að í þessum viðskiptum gæti falist áhætta og kynnt stefnda fyrir Kjartani Haukssyni, sérfræðingi í gjaldeyrismálum. Stefndi hafi getað hringt í hann og fengið allar upplýsingar. Vitnið taldi þó að hann hefði ekki átt að skilja stefnda eftir með að meta áhættuna. Aðspurður um áhættuna taldi vitnið að til langs tíma gætu viðskiptin þýtt í versta falli óbreytta stöðu, það væri ekki, ef til lengri tíma væri litið, hægt að tapa á þessu. Hins vegar gætu slík viðskipti í stuttan tíma, verið áhættusöm og skilað tapi en einnig miklum gróða. Á heildina litið hafi verið hægt að líta svo á að þetta væri lítil áhætta. Vitnið taldi ljóst að vaxtamunasamningur hefði farið fyrir lánanefnd og að þar hefði allt verið skjalfest og farið yfir málið. Á slíkum fundum hafi verið framkvæmdastjórar á fyrirtækjasviði sem hefðu skrifað ásamt vitninu undir ákvörðunarblað. Viðstaddur þessa fundi hafi einnig verið lögfræðingur bankans. Yfirlýsingin sem að framan er getið var gerð eftir páska 2008. Vitnið sem þá starfaði við ráðgjöf hafði frétt að lögmenn bankans væru farnir að undirbúa gjaldþrot bankans. Gaf hann þessa yfirlýsingu út fyrir stefnda samkvæmt beiðni hans, en vitnið kvaðst þarna hafa séð að bankinn gætti ekki hagsmuna viðskiptavina sinna. Vitnið kvaðst ekki sjálfur hafa getað gert vaxtaskiptasamning eins og þann sem um ræðir en að hann hafi vitað af honum, enda hafi það verið forsenda fyrir lánssamningnum að slíkur samningur væri í gildi og stefnandi gæti nýtt sér vaxtamun. Síðar hafi komið í ljós að lánin væru ólögmæt og að peningamarkaðslán hafi verið kynnt af bankanum sem áhættulaus, en þar hafi bankinn logið að starfsmönnum bankans og viðskiptavinum. Allir bæklingar sem legið hafi frammi hafi sagt peningabréf vera áhættulaus. Vitnið tók samt fram að það hafi verið stefndi sem hafi tekið ákvörðun um að eiga þessi viðskipti en ekki hann. Vitnið kvaðst þó hafa brugðist í því að stýra stefnanda rétta leið og/eða lánanefnd. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað betur en að þetta væri 100% öruggt. Vitnið sagði það lykilatriði að hefði reglum bankans verið fylgt þá hefði þetta aldrei gerst, þ.e. ekki hefði verið ráðist í þessi viðskipti og ekkert vandamál skapast. Bankinn hafi ekki farið eftir þeim ferlum sem hann hafi átt að fara eftir, mistök hafi verið gerð og bankinn hefði átt að stöðva þessi viðskipti. Vitnið taldi það mjög alvarlegan hlut að lánanefndin skyldi ekki stöðva þetta. Vitnið Fannar Ólafsson, sem tók við málum stefnda þegar Jón Þór hætti, sá ekki samning við stefnda en kveðst hafa gengið út frá því að vaxtaskiptasamningur væri milli aðila. Hans skilningur hafi verið sá að þetta væri vaxtaskiptasamningur. Vitnið kannaðist við að Jón Þór hefði komið á nokkrum svona viðskiptum, ekki mörgum en þau hefðu verið svipaðs eðlis. V. Ágreiningur máls þessa lýtur að greiðsluskyldu stefnda samkvæmt tveimur lánssamningum milli aðila, annars vegar samningi nr. 8020, undirrituðum 23. maí 2007, og hins vegar samningi nr. 11605, undirrituðum 14. mars 2008. Lán samkvæmt báðum samningum hafa verið endurútreiknuð á grundvelli laga nr. 151/2010, um breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands um ólögmæta gengistryggingu lána og gildi fullnaðarkvittana við endurútreikning þeirra. Ákvæðum samninganna er í grófum dráttum lýst hér að framan. Í málinu er óumdeilt að stefndi fékk lánsfjárhæðir greiddar út til ráðstöfunar samkvæmt samningunum. Þá er ekki deilt um endurútreikning lánanna eða fjárhæð eftirstöðva þeirra að öðru leyti. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að skuldbindingar hans samkvæmt umþrættum lánssamningum séu óskuldbindandi, ógildar eða að þeim verði vikið til hliðar eftir nánar tilgreindum reglum III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Málatilbúnað sinn byggir stefndi á því að lánssamningarnir séu hlutar af viðskiptum hans við forvera stefnda, Landsbanka Íslands hf., um vaxtaskipti og að meta verði gildi samninganna í því samhengi. Fyrri lánssamningurinn, nr. 8020, var undirritaður 23. maí 2007, áður en stefndi keypti Peningabréf Landsbankans, að andvirði 72.500.000 krónur, 5. september sama ár. Kveður stefndi að samkvæmt munnlegum samningi við starfsmann stefnanda hafi samkomulag verið um að í stað þess að fjárhæðin yrði notuð til þess að greiða upp m.a. lán samkvæmt samningi nr. 8020, skyldu innlausnir af peningabréfunum vera notaðar til þess að greiða vexti og kostnað af láninu. Síðari lánssamningurinn, nr. 11605, var undirritaður eftir að stefndi keypti Peningabréf Landsbankans. Það lán kveðst stefndi hafa tekið í tengslum við fasteignaviðskipti sín og að samkvæmt samkomulagi við starfsmann bankans skyldi lánssamningurinn „ganga inn í vaxtaskiptasamning aðila“. Þetta síðara lán skyldi því einnig greiða niður með innlausnum hans af peningabréfunum og kveður stefndi að greiðslubyrði hans hafi því ekki átt að aukast. Stefndi byggir á því að framangreind viðskipti hafi falið í sér munnlegan vaxtaskiptasamning. Vegna þess að eigendur í Peningabréfum Landsbankans fengu aðeins 68,8% af inneignum sínum greidd út hafi stefndi tapað fjármunum sem hann hefði notað til þess að greiða upp eldra lánið hefði ekki komið til ráðlegginga frá starfsmanni bankans. Með sama hætti hefði hann ekki tekið síðara lánið hefði hann selt inneign sína í peningabréfunum í stað þess að fara eftir ráðgjöf starfsmanns bankans. Af hálfu bankans hafi ekki verið farið að lögum og reglum í þessari ráðgjöf eða við gerð hins munnlega vaxtaskiptasamnings. Með hliðsjón af framangreindu telur stefndi að lánssamningarnir séu óskuldbindandi fyrir hann, þeir séu ógildir eða að þeim beri að víkja til hliðar í heild eða að hluta. Að mati dómsins þykir hafa verið leitt í ljós að samkvæmt ráðleggingum frá starfsmanni forvera stefnanda, Landsbanka Íslands hf., hafi stefndi gert samkomulag um að innlausnir af inneign hans í Peningabréfum Landsbankans skyldu notaðar til þess að greiða vexti og kostnað af lánum samkvæmt hinum umþrættu samningum. Hins vegar liggur ekki fyrir að bindandi samningur hafi verið um það milli aðila að stefndi hafi verið skuldbundinn til að nota innlausnir sínar af inneignum hans í Peningabréfum Landsbankans með þeim hætti sem að framan er lýst heldur hafi samkomulagið fyrst og fremst snúið að því hvernig minnka mætti greiðslubyrði stefnda af lánum hans hjá bankanum. Þá verður að líta til þess að samningur nr. 8020 var undirritaður áður en stefndi keypti peningabréfin og að þrátt fyrir að samningur nr. 11605 hafi verið undirritaður eftir kaupin er þar í engu vikið að því fyrirkomulagi sem að framan greinir. Segir til að mynda í grein 2.2 í síðari lánssamningnum, nr. 11605, að lántaki, þ.e. stefndi, óski eftir því að tékkareikningur hans hjá bankanum verði skuldfærður fyrir afborgunum og/eða vöxtum. Þá liggur fyrir í málinu að stefndi hafði samband við fulltrúa sinn hjá bankanum um hver mánaðamót, þegar að vaxtagreiðslum kom, til að upplýsa um þá fjárhæð sem hann þyrfti að standa skil á. Umþrættir lánssamningar, sem báðir eru skriflegir og undirritaðir af hálfu beggja aðila, bera því hvorugur með sér að vera skilyrtir eða að öðru leyti háðir fyrrgreindu samkomulagi aðila um nýtingu innlausna stefnda af Peningabréfum Landsbankans. Verður þar af leiðandi að meta gildi samninganna sjálfstætt, þótt við það mat geti komið til skoðunar atvik og staða aðila við samningsgerðina. Af málatilbúnaði stefnda má ráða að hann telji að starfsmenn forvera stefnanda, Landsbanka Íslands hf., hafi með saknæmum hætti valdið honum tjóni með því að hvetja hann til að kaupa inneign í peningabréfunum fyrir söluandvirði fasteignarinnar að Sólvallagötu í stað þess að greiða niður lán samkvæmt fyrri lánssamningnum, nr. 8020, og með því að hvetja hann til að taka nýtt lán samkvæmt síðari lánssamningnum, nr. 11605, í stað þess að selja inneign í peningabréfunum. Stefndi gerir hins vegar ekki gagnkröfu í málinu á þeim grundvelli enda kemur ekki fram hvað stefndi telur sig hafa tapað miklu, sé litið til viðskiptanna í heild og að teknu tilliti til endurútreiknings lánanna. Ber þá einnig að hafa í huga að fyrra lán stefnda, samkvæmt samningi nr. 8020, var að fjárhæð 75.000.000 króna en 72.500.000 krónur fengust fyrir fasteignina að Sólvallagötu. Hefði stefndi því ekki getað greitt lánið upp að fullu með söluandvirði fasteignarinnar eða komist hjá því að taka síðara lánið, samkvæmt samningi nr. 11605, hefði hann ekki keypt inneign í Peningabréfum Landsbankans. Að mati dómsins getur stefndi ekki komið sér hjá því að sýna fram á tjón sitt og umfang þess með því að krefjast þess að hinir umþrættu lánssamningar verði dæmdir óskuldbindandi fyrir hann. Þrátt fyrir að fallist sé á það með stefnda að hagsmunir hans hafi ekki verið hafðir að leiðarljósi þegar honum var ráðlagt að kaupa inneign í Peningabréfum Landsbankans og að við þau kaup hafi bankinn ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt 5. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, eða 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, getur það ekki leitt til þess að stefndi þurfi ekki að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt hinum umþrættu lánssamningum. Þá getur niðurstaða sakamála á hendur æðstu stjórnendum bankans ekki leitt til þess að stefndi þurfi ekki að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir málsástæðum sínum. Stefndi byggir á því að lánssamningarnir séu óskuldbindandi fyrir hann með vísan til þess að af hálfu bankans hafi ekki verið gætt að ákvæðum 7. gr. laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, við gerð fyrrgreinds vaxtaskiptasamnings. Í athugasemdum við 7. gr. frumvarps að lögum nr. 33/2003 kemur fram að með orðalaginu „viðvarandi viðskiptasamband“ sé átt við að ekki sé ætlast til sérstakrar samningsgerðar um einstök tilfallandi samskipti fyrirtækis og viðskiptavina. Þá segir að þó sé ráðlegast að einhver samningur sé fyrir hendi um réttarstöðu viðskiptavinar þannig að hann geti í upphafi samningssambands gert sér grein fyrir réttindum sínum og skyldum. Ekki er byggt á því að starfsmenn bankans hafi ráðstafað eignum stefnda án vitundar hans og vilja eða tekið fyrir það óumsamið gjald, sbr. skilgreiningu eignastýringar í 3. tölulið 1. gr. laganna. Ef svo hefði verið og í óþökk stefnda verður ekki betur séð en að hann hafi allt til febrúar 2008 getað þá selt bréfin. Þá verður ekki séð að kaup stefnda á inneign í Peningabréfum Landsbankans feli í sér eignastýringu af hálfu bankans samkvæmt orðalagi 7. gr. laga nr. 33/2003 þar sem samkomulag aðila fól ekki í sér að af hálfu bankans hafi verið heimilt að selja inneign stefnda í Peningabréfum Landsbankans eða ráðstafa fjármunum hans að öðru leyti, að honum forspurðum. Þótt fallast megi á það að af hálfu bankans hefði verið réttast að gera skriflegan samning um viðskiptin verður, að framangreindu virtu, ekki fallist á það að vankantar þar á valdi því að umþrættir lánssamningar séu óskuldbindandi fyrir stefnda.   Stefndi vísar einnig um kröfur sínar til 1. mgr. 9. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Í athugasemdum við 9. gr. frumvarps að lögunum segir að ákvæðið taki aðeins til nýrra viðskipta sem stofnað sé til eftir gildistöku laganna, 1. nóvember 2007. Ákvæðið gildir því ekki um kaup stefnda á inneign í Peningabréfum Landsbankans 5. september 2007. Stefndi vísar jafnframt til 21. gr. laga nr. 108/2007. Að mati dómsins getur vanræksla bankans á að flokka stefnda í samræmi við 21. gr. laganna ekki leitt til þess að stefndi komist hjá því að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt hinum umþrættu lánssamningum enda hefur stefndi ekki sýnt fram á hvernig sú vanræksla hafi haft áhrif, ef einhver, á ákvörðun hans um að taka þau lán sem um er deilt. Er þá sérstaklega horft til þess að þegar stefndi tók fyrra lánið hafði hann ekki keypt inneign í Peningabréfum Landsbankans. Þá hefði söluandvirði fasteignarinnar að Sólvallagötu, 72.500.000 krónur, ekki dugað eitt og sér til þess að greiða upp fyrra lánið, sem var að fjárhæð 75.000.000 króna, og þar með ekki sýnt fram á að stefndi hefði ekki tekið síðara lánið, að fjárhæð 10.000.000 króna, hefði hann ekki keypt inneign í peningabréfunum. Þá byggir stefndi á því að af hálfu forvera stefnanda, Landsbanka Íslands hf., hafi ekki verið veitt ráðgjöf um eðli gerningsins eða áhættuna sem í honum hafi falist. Samkvæmt framlagðri yfirlýsingu Jóns Þórs Helgasonar og framburði hans fyrir dómi má ráða að stefnda hafi verið gerð grein fyrir áhættunni af því að kaupa Peningabréf Landsbankans samhliða því að vera með gengistryggð lán hjá bankanum. Telja verður að stefndi hafi gert sér grein fyrir eðli gerningsins og að stefnda hafi ekki getað dulist að honum fylgdi ákveðin áhætta, í öllu falli meiri áhætta en í því að nota söluandvirði fasteignarinnar að Sólvallagötu til þess að greiða niður fyrra lánið. Þá verður ekki litið fram hjá því að með lánum bundnum við gengi erlendra gjaldmiðla og lágum LIBOR-vöxtum fékk stefndi góð vaxtakjör en tók á sig gengisáhættu. Hins vegar hafa lánin nú verið endurútreiknuð og lækkuð, stefnda til hagsbóta, og þarf hann því ekki að bera áhættuna af gengistryggingu lánanna. Að framangreindu virtu verður ekki talið að upplýsingaskyldu bankans hafi verið svo ábótavant að það geti leitt til þess að lánssamningarnir séu óskuldbindandi fyrir stefnda. Stefndi byggir sýknukröfu sína enn fremur á því að það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að stefnandi beri fyrir sig umþrætta lánssamninga og að þeim beri að víkja til hliðar í heild sinni á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Við mat á því hvort ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig umþrætta samninga skal líta til efnis þeirra, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Eins og fram hefur komið fékk stefndi greidd út lán samkvæmt hinum umþrættu samningum. Að mati bankans fólu báðir samningar í sér ákvæði um gengistryggingu lána, sem dæmd hefur verið ólögmæt, og endurreiknaði bankinn þar af leiðandi eftirstöðvar lánanna sem lækkuðu við það talsvert. Það getur því ekki talist ósanngjarnt fyrir stefnanda að bera fyrir sig samninganna á grundvelli efnis þeirra. Þótt aðstöðumunur hafi verið milli Landsbanka Íslands hf. og stefnda, þegar hann skuldbatt sig gagnvart bankanum, getur það eitt ekki ráðið úrslitum. Þegar litið er til annarra atriða sem skipta máli við þetta heildarmat verður ekki talið ósanngjarnt af stefnanda eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig hina umþrættu lánssamninga. Ber þá að líta til þess að ekki hallaði á stefnda við samningsgerðina, svo einhverju nemi, þótt lagðar séu til grundvallar fullyrðingar hans um þá ráðgjöf sem hann fékk við kaup á Peningabréfum Landsbankans. Hvað sem öðru líður gat honum ekki dulist að meiri áhætta fólst í því fyrirkomulagi að nota innlausnir af peningabréfunum til þess að greiða af lánunum heldur en að greiða niður fyrra lánið með söluandvirði fasteignarinnar að Sólvallagötu og taka ekki síðara lánið. Vísast til þess sem að framan er rakið um að stefndi fékk góð vaxtakjör með lánunum og að hann þurfi nú ekki að bera gengisáhættuna af lánunum vegna endurútreiknings bankans. Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að stefndi hafi uppi nokkrar mótbárur við því að honum beri að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt samningunum, eins og þær hafa verið endur­útreiknaðar. Það getur ekki talist ósanngjarnt samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 að stefndi greiði til baka það sem hann hefur fengið lánað. Þá gat stefndi við samningsgerðina ekki haft réttmætar væntingar til þess að ætla að hann þyrfti ekki að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt lánssamningunum myndu fjárfestingar hans í Peningabréfum Landsbankans ekki standast væntingar. Loks verður að líta til þess að samkomulag stefnda við bankann um hvernig hann hygðist greiða af hinum umþrættu lánum var með fullri vitund hans og vilja og gildir þá einu þótt það hafi ekki verið að hans frumkvæði. Hefur stefnda því ekki tekist að sýna fram á að aðstæður eða staða samningsaðila við samningsgerð hinna umþrættu lánssamninga hafi verið með þeim hætti að víkja beri þeim til hliðar í heild eða að hluta samkvæmt ákvæðum 36. gr. laga nr. 7/1936. Með sömu rökum og að framan greinir er ekki fallist á að ógilda beri lánssamningana á grundvelli 33. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og aflétta veðum sem sett hafa verið til tryggingar skuldbindingunum, eða að lánssamningarnir séu ekki skuldbindandi fyrir stefnda vegna rangra forsendna með vísan til 32. gr. laga nr. 7/1936. Líkt og komið hefur fram er það mat dómsins að stefndi gat við samningsgerðina ekki haft réttmætar væntingar til þess að ætla að hann þyrfti ekki að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt lánssamningunum myndu fjárfestingar hans í Peningabréfum Landsbankans ekki standast væntingar. Að öllu framangreindu virtu er kröfu stefnda um lækkun á dómkröfum stefnanda einnig hafnað enda liggur ekki fyrir hvað stefndi telur sig hafa tapað miklu, sé litið til viðskiptanna í heild og að teknu tilliti til endurútreiknings lánanna. Verða dómkröfur stefnanda því teknar til greina ásamt dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Eftir þessa niðurstöðu og í samræmi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en aðilar og dómari voru sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins. Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð: Stefndi, Jónas Rúnar Sigfússon, greiði stefnanda, Landsbankanum hf., 128.439.804 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 113.713.361 krónu frá 9. janúar 2014 til 19. júní 2014 og af 128.439.804 krónum frá 19. júní 2014 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun hinn 1. mars 2017 að fjárhæð 72.129.786 krónur, sem dregst frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 488/2017
Líkamstjón Bifreið Skaðabætur Matsgerð Sönnunarmat Gjafsókn
A varð fyrir líkamstjóni í umferðarslysi á árinu 2013. Óumdeilt var að líkamstjón A væri bótaskylt en aðila greindi á um eðli þeirra áverka sem A hlaut á hægri öxl í slysinu og hver væri miski hans og örorka á þeim grundvelli. Reisti A kröfu sína um greiðslu skaðabóta á matsgerð örorkunefndar sem taldi að varanlegur miski A vegna hægri axlar væri 5% og varanleg örorka hans 10%. T hf. byggði á hinn bóginn á matsgerð sem aðilar öfluðu sameiginlega og taldi sig hafa greitt skaðabætur að fullu samkvæmt því, en samkvæmt henni voru ekki talin tengsl á milli ástands hægri axlar A og umferðarslyssins á árinu 2013. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að A hefði verið heimilt að leita álits örorkunefndar án þess að aðilar stæðu sameiginlega að slíkri beiðni. Að því er varðaði ólíkar niðurstöður matsgerðanna vísaði Hæstiréttur til þess að í slíkum tilvikum kæmi það í hlut dómstóla að skera úr um sönnunargildi slíkra gagna, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Meðal annars að virtu áliti örorkunefndar, framburði lækna fyrir héraðsdómi og upplýsingum úr sjúkraskrá A taldi Hæstiréttur sannað að A hefði hlotið áverka á öxl í umferðarslysinu. Þar sem örorkunefnd hefði í álitsgerð sinni tekið bæði tillit til áverka sem A hafði hlotið á öxlinni fyrir umferðarslysið og þess að hann væri með insúlínháða sykursýki var lagt til grundvallar að tjón hans væri hvað miskastig og örorku varðaði rétt metið í álitsgerð nefndarinnar. Var krafa A á hendur T hf. því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Valtýr Sigurðsson fyrrverandi ríkissaksóknari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. júlí 2017. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 4.609.648 krónur með 4,5% ársvöxtum af 385.807 krónum frá 27. júní 2013 til 1. apríl 2014 og af 4.609.648 krónum frá þeim degi til 27. júní 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Í málinu leitar áfrýjandi eftir skaðabótum úr hendi stefnda vegna tjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi 27. júní 2013. Með aðilum er ágreiningslaust að í slysinu varð áfrýjandi fyrir bótaskyldu líkamstjóni en deila stendur um eðli þeirra áverka sem hann hlaut í slysinu og í því sambandi hver sé miski hans og örorka. Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi liggja fyrir tvær matsgerðir þar sem afleiðingar slyssins hafa verið metnar samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Er þar annars vegar um að ræða matsgerð B sérfræðings í heimilislækningum og C sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, dagsett 27. ágúst 2014, sem aflað var sameiginlega af málsaðilum, og hins vegar álitsgerð örorkunefndar dagsett 20. maí 2015 sem áfrýjandi aflaði einhliða. Hún var unnin af D og E endurhæfingarlæknum og F hæstaréttarlögmanni. Áfrýjandi reisir kröfu sína í málinu á álitsgerð örorkunefndar en stefndi sýknukröfuna á matsgerð B og C. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu. II Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir framangreindum matsgerðum og að hvaða marki þar var komist að mismunandi niðurstöðum um eðli þeirra áverka sem áfrýjandi hlaut í umferðarslysinu 27. júní 2013 og um afleiðingar þeirra. Í matsgerð B og C var talið að engin leið væri að tengja ástand hægri axlar áfrýjanda við afleiðingar umferðarslyssins 27. júní 2013 og kæmi þar aðallega til að ekki hafi verið getið um neina skoðun vegna axlareinkenna fyrr en tæpum þremur mánuðum eftir slysið. Við það bættist að áfrýjandi ætti fyrri sögu um áverka á hægri öxl sem þó virtist ekki hafa valdið einkennum hjá honum á síðari árum. Einnig væri horft til þess að umrætt axlarástand áfrýjanda væri engan veginn sértækt fyrir afleiðingar áverka og væri það reyndar mun algengara án þess að nokkur áverki kæmi til. Þá var tekið fram að svokölluð frosin öxl væri um það bil fjórfalt algengari hjá sykursjúkum en öðrum og væri þar ekki um tengingar við áverka að ræða. Var það niðurstaða matsgerðarinnar að varanlegur miski áfrýjanda samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga væri tvö stig en varanleg örorka samkvæmt 5. gr. laganna engin. Í álitsgerð örorkunefndar var vísað til þess að áfrýjandi hafi orðið fyrir áverka á hægri öxl á árinu 2007 en jafnað sig vel af einkennum sem hann hlaut þá. Eftir slysið í júní 2013 hafi axlareinkennin smám saman orðið meira og meira áberandi, þau leitt til rannsókna haustið 2013 og aðgerðar í lok janúar 2014. Þrátt fyrir það hafi áfrýjandi haft viðvarandi einkenni frá öxlinni. Bæði hafi verið um að ræða hreyfiskerðingu og verki með minnkaðan styrk í hægri hendi og hafi áfrýjandi af þessum sökum fyrst og fremst ekki treyst sér til að snúa aftur til síns fyrra starfs. Þá sagði í álitsgerðinni að auk stoðkerfiseinkenna hafi borið á vaxandi kvíða og depurðareinkennum hjá áfrýjanda eftir slysið 2013 og tekið var fram að hann væri með insúlínháða sykursýki. Skoðun leiddi meðal annars í ljós hreyfiskerðingu í baki en einkum þó hægri öxl og einnig væru eymsli frá bæði ofan- og neðankambsvöðva í hægri öxl svo og frá hægri axlarhyrnulið. Örorkunefnd taldi að áfrýjandi byggi við ívið meiri einkenni frá baki en hann gerði fyrir umferðarslysið í júní 2013 og væri það rétt metið til tveggja miskastiga í matsgerð B og C. Örorkunefnd féllst á að einkenni um svokallaða frosna öxl eða axlarhylkisheilkenni væru algengari hjá sykursjúkum en það útilokaði ekki að tjónþoli hafi hlotið áverka á öxlina í umferðarslysinu í lok júní 2013. Það væri þegar komið fram að tjónþoli „hafði forskaða í öxlinni ... Hann var þó einkennalítill eða einkennalaus frá öxlinni fyrir umrætt slys og hefur þurft að leita sér meðferðar og aðgerðar vegna viðvarandi einkenna í kjölfar slyssins. Að öllum gögnum virtum og teknu tilliti til þess forskaða sem fyrir hendi er telur nefndin varanlegan miska tjónþola vegna hægri axlar einvörðungu og afleiðingar slyssins í júní 2013 hæfilega metin 5%. Þegar tekið er tillit til þess að tjónþoli hefur áður verið metinn til samanlagt 20% miska er það niðurstaða örorkunefndar að varanlegur miski tjónþola vegna afleiðinga umferðarslyssins 27. júní 2013 sé hæfilega metinn í heild 6% ... Þá telur nefndin af afleiðingar slyssins hafi dregið úr möguleikum tjónþola til að afla sér atvinnutekna og er varanleg örorka hans vegna þess 10%“. Í forsendum hins áfrýjaða dóms sem skipaður var sérfróðum meðdómendum var meðal annars vísað til upplýsinga í sjúkraskrá áfrýjanda vegna heimsóknar hans á heilsugæsluna 5. júlí 2013, skýrslu læknis sem framkvæmdi aðgerð á hægri öxl áfrýjanda í janúar 2014, þess tíma sem leið frá umferðarslysinu í lok júní 2013 þar til áfrýjandi kvartaði sannanlega yfir óþægindum í hægri öxl og að axlarvandamál það sem áfrýjandi glímdi við væri algengt ástand án þess að viðkomandi hefði orðið fyrir áverka. Samkvæmt þessu og að því gættu að sönnunarbyrði hvíldi á áfrýjanda um orsakasamband milli slyssins 27. júní 2013 og ástands axlarinnar lægi ekki fyrir nægileg sönnun þess að axlarvandamál áfrýjanda í dag væri að rekja til umferðarslyssins 27. júní 2013. Þá væri rétt að líta til eldri áverka á hægri öxl áfrýjanda vegna slyss á árinu 2007 og sykursýki hans. Einnig segir í forsendum dómsins að rétt sé að líta til þess að sú lýsing áfrýjanda að hann hafi við slysið kastast með hægri upphandlegg á viðarklæðningu milli framsæta bifreiðarinnar hafi fyrst komið fram í skýrslu hans við aðalmeðferð málsins og væri hún í ósamræmi við lýsingu hans á slysinu við komu á heilsugæsluna 5. júlí 2013 þar sem hann hafi sagt að hann hafi kastast fram á við í árekstrinum og fengið slink á lendhrygg. Loks var þess getið að fyrir lægi í gögnum málsins að höggið sem hafi komið á bifreið áfrýjanda við áreksturinn hafi komið á vinstri hlið hennar og hefði stefndi því átt að kastast í þá átt en ekki til hægri. Í ljósi alls þessa var það niðurstaða dómsins að tjón áfrýjanda væri hvað miskastig og örorku varðar rétt metið í matsgerð B og C. III Aðilar leituðu 7. júlí 2014 sameiginlega eftir því við læknana B og C að þeir mætu afleiðingar umferðarslyssins 27. júní 2013 fyrir áfrýjanda og er matsgerð þeirra dagsett 27. ágúst 2014. Með matsbeiðni 21. janúar 2015 óskaði áfrýjandi eftir því að örorkunefnd léti í té álit á varanlegum afleiðingum umferðarslyssins á heilsufar hans og er álitsgerð nefndarinnar dagsett 20. maí 2015. Í bréfi til örorkunefndar 2. mars 2015 kom stefndi á framfæri við nefndina athugasemdum um örorku og miska áfrýjanda vegna umferðarslyssins. Sagði í niðurlagi bréfsins að stefndi óskaði eftir því að nefndin hefði athugasemdirnar í huga „við endurmatið en að auki vísast til ítarlegra gagna sem liggja fyrir í málinu.“ Er í álitsgerð örorkunefndar tekið fram að með matsbeiðni áfrýjanda hafi fylgt matsgerð B og C. Þá hafi nefndinni auk þess borist greinargerð frá stefnda dagsett 2. mars 2015 og bréf stefnda til matsmannanna B og C dagsett 7. júlí 2014. Að þessu gættu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að áfrýjanda hafi verið heimilt að leita álits örorkunefndar á miska sínum og örorku vegna umferðarslyssins í júní 2013 án þess að aðilar stæðu sameiginlega að slíkri beiðni, sbr. 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga. Eins og áður getur var komist að ólíkum niðurstöðum um miska áfrýjanda og örorku í annars vegar matsgerð B og C og hins vegar álitsgerð örorkunefndar sem auk löglærðs formanns nefndarinnar var unnin af endurhæfingarlæknunum D og E. Við þær aðstæður kemur í hlut dómstóla að skera úr um sönnunargildi slíkra gagna, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda leiða réttarreglur ekki til þess að annað þessara gagna hafi ríkara sönnunargildi en hitt. Verða álits- og matsgerðir þar sem niðurstöður eru mismunandi því metnar að verðleikum hverju sinni fyrir dómstólum. Í héraðsdómi sátu auk embættisdómara tveir sérfróðir meðdómsmenn, embættis- og gigtarlæknir og bæklunarlæknir. Með þeim röksemdum sem áður er gerð grein fyrir taldi héraðsdómur að tjón áfrýjanda væri rétt metið í matsgerð B og C. Hvað þá niðurstöðu varðar er þess að geta að samkvæmt vottorði G heilsugæslulæknis 8. september 2013 leitaði áfrýjandi til hans á stofu 5. júlí 2013 og segir í vottorðinu að samkvæmt dagbókarfærslu „kastaðist fram á við og fékk slink á hrygginn, þ.e. lendhrygg.“ Í vottorði sama læknis 15. nóvember 2013 segir að honum hafi láðst í vottorðinu 8. september sama ár að geta um óþægindi áfrýjanda frá öxlum, enda hafi önnur einkenni þá verið meira áberandi hjá áfrýjanda, sem hafi fengið talsverðan slink á hægri öxlina í umferðarslysinu. Áfrýjandi hafi ekki verið slæmur í byrjun en honum hafi smám saman versnað og hann því leitað aftur til læknisins 15. október 2013 vegna verkja yfir liðnum og hafi hreyfigeta hans þá verið nokkuð skert og talsverð eymsli yfir liðnum. Framburður læknisins í símaskýrslu fyrir héraðsdómi var á sama veg.   Í læknisvottorði H sérfræðings í bæklunar- og handarskurðlækningum 8. mars 2014 segir að áfrýjandi hafi leitað til læknisins 11. nóvember 2013 vegna bílslyssins 27. júní sama ár. Áfrýjandi hafi lýst því svo að hann hafi haldið fast í stýri bifreiðar sinnar með hægri hendi og rétt úr olnboga og spennt sig í hægri öxlinni til að taka á móti högginu. Áfrýjandi hafi fundið hvernig höggið kom í gegnum handlegginn og upp í öxlina og hann fundið fyrir því að komið hafi slinkur á öxlina. Áfrýjandi hafi byrjað að finna fyrir verk í hægri öxlinni og hún verið aum viðkomu eftir slysið. Í matsgerð B og C kemur fram að á matsfundi 14. ágúst 2014 hafi áfrýjandi skýrt svo frá að um talsvert högg hafi verið að ræða í árekstrinum 27. júní 2013 og áfrýjandi slengst fram og aftur í bifreiðinni og strax fundið til en þó ekki leitað á slysadeild. Þegar áfrýjandi kom til viðtals hjá læknunum D og E á matsfundi örorkunefndar 9. apríl 2015 kvaðst hann hafa fengið á sig slink en hann hafi verið með þiljur í bifreiðinni milli sætanna og kastast í þær með hægri öxlina. Við aðalmeðferð málsins skýrði áfrýjandi svo frá að töluvert högg hafi komið á bifreiðina og hann sjálfan við áreksturinn. Við höggið hafi áfrýjandi allur stífnað upp og henst í viðarklæðningu milli sætanna og hann eiginlega kastast á stæðuna áður en bifreiðin nam staðar. Þegar framangreint er virt fær ekki staðist að það hafi fyrst verið við aðalmeðferð málsins sem áfrýjandi lýsti því að við áreksturinn hafi hann kastast með hægri upphandlegg á viðarklæðningu milli framsæta bifreiðar sinnar. Af gögnum málsins er ljóst að við áreksturinn umrætt sinn lenti vinstra framhorn bifreiðar áfrýjanda í hægri hlið bifreiðarinnar [...]. Fær samkvæmt því heldur ekki staðist sem fram kemur í forsendum héraðsdóms að við áreksturinn hafi höggið sem kom á bifreið áfrýjanda komið á vinstri hlið bifreiðar hans. Örorkunefnd komst að þeirri niðurstöðu eins og áður greinir að ekki væri útilokað að áfrýjandi hafi hlotið áverka á hægri öxl í umferðarslysinu 27. júní 2013. G heilsugæslulæknir taldi óþægindi áfrýjanda í hægri öxl vera afleiðingu umferðarslyssins og læknarnir H og B báru fyrir dómi að það væri ekki útilokað. Í málinu liggja fyrir sjúkraskýrslur áfrýjanda á tímabilinu frá 2007 og fram að slysdegi. Samkvæmt því sem þar kemur fram átti áfrýjandi um 70 símtöl og komur á heilsugæsluna á þessu tímabili og kvartaði þá aldrei undan eymslum í hægri öxl. Þá liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að tekjur áfrýjanda hafa minnkað verulega eftir slys. Samkvæmt þessu og að gættu öðru því sem að framan er rakið telst sannað að í umferðarslysinu 27. júní 2013 hafi áfrýjandi hlotið áverka á hægri öxl og skal þá ósagt látið hvort heldur áfrýjandi hafi átt að kastast til vinstri eða hægri við höggið sem kom á bifreið hans umrætt sinn. Þar sem örorkunefnd tók í álitsgerð sinni bæði tillit til þeirra áverka sem áfrýjandi hafði hlotið á hægri öxl fyrir umferðarslysið 27. júní 2013 og þess að hann væri með insúlínháða sykursýki verður lagt til grundvallar að tjón áfrýjanda sé hvað miskastig og örorku varðar rétt metið í álitsgerð örorkumatsnefndar. Samkvæmt því og þar sem ekki er tölulegur ágreiningur í málinu verður krafa áfrýjanda á hendur stefnda tekin til greina með vöxtum eins og krafist er. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði áfrýjanda, A, 4.609.648 krónur með 4,5% ársvöxtum af 385.807 krónum frá 27. júní 2013 til 1. apríl 2014 og af 4.609.648 krónum frá þeim degi til 27. júní 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.000.000 krónur.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2017 Mál þetta sem dómtekið var 24. apríl 2017 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 18. janúar 2016, af A, [...], [...], á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 4, Reykjavík. Kröfur aðila Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 4.609.648 krónur, með 4,5% vöxtum af 385.807 krónum frá 27. júní 2013 til 1. apríl 2014 en frá þeim degi af 4.609.648 krónum til 27. júní 2015, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda að mati dómsins, ásamt virðisaukaskatti, líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál. Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Þá krefst stefndi þess að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins. Atvik máls Þann 27. júní 2013 lenti stefnandi í umferðarslysi. Hann var í umrætt sinn ökumaður bifreiðarinnar [...] sem ekið var vestur Fossháls í Reykjavík. Bifreiðinni [...] var ekið norður frá bílaplani við prentsmiðjuna Odda og beygt til vinstri inn á Fosshálsinn í veg fyrir bifreið stefnanda. Þegar áreksturinn varð voru bifreiðarnar báðar á hægri ferð en samkvæmt útreikningi A&Ö er áætlað að ökuhraði bifreiðarinnar [...] hafi verið 31 km/klst. en ökuhraði bifreiðarinnar [...], 10 km/klst. Þegar slysið varð var bifreiðin [...] tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf. Stefnandi tilkynnti stefnda um slysið með tjónstilkynningu dagsettri 20. ágúst 2013. Í tilkynningunni eru afleiðingar slyssins sagðar tognun í hálsi og að meðferð við henni sé hafin hjá G heilsugæslulækni á heilsugæslustöðinni [...]. Þá kemur fram í tilkynningunni að stefnandi hafi átt við meiðsli að stríða fyrir slysið. Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði G heilsugæslulæknis frá 8. september 2013 leitaði stefnandi fyrst til hans á heilsugæslustöðina, 5. júlí 2013, vegna afleiðinga umferðarslyssins. Samkvæmt dagbókarfærslu er haft eftir stefnanda að hann hafi við slysið kastast fram á við og fengið slink á lendarhrygg. Hann hafi strax farið að finna til en ekki leitað á slysadeild. Hafi honum versnað „pínulítið“ fyrstu dagana og haft leiðni niður í vinstri fót. Honum hafi hins vegar „hætt að versna“ en væri með verki og stirðleika. Í vottorðinu segir: „Leitaði til mín aftur í dag og þá kemur í ljós að honum hefur versnað talsvert í bakinu og kominn með leiðniverk niður í báða fætur og þarf á meiri verkjalyfjum að halda en áður og sendur í nákvæma röntgenrannsókn. Vinnur uppistandandi en þarf að beita fætinum til að stýra tækjunum og á orðið erfitt með það vegna leiðniverkja niður í fótinn. Því allt of snemmt að meta hverjar afleiðingarnar verða. Varðandi fyrra heilsufar þá hefur A átt við vandamál að stríða í baki og var í ýmsum rannsóknum á því fyrir nokkrum árum. Ástandið verið þokkalegt, vissulega þurft á verkjalyfjum að halda af og til en verið algerlega vinnufær.“  Með tölvupósti, 26. september 2013, hafnaði stefndi því að taka afstöðu til bótaskyldu þar sem félagið teldi að um fremur orkulítinn árekstur hefði verið að ræða. Þá teldi stefndi ljóst að stefnandi hefði glímt við umtalsverð stoðkerfiseinkenni áður en slysið varð. Teldi stefndi því að ekki hefði verið sýnt  fram á að þau einkenni, sem hann kvartaði nú undan, væru í tengslum við  umferðarslysið, 27. júní 2013. G, heimilislæknir stefnanda, gaf út nýtt læknisvottorð, 15. nóvember 2013. Í því segir m.a.: „Í fyrra vottorði frá 8. september síðastliðnum láðist mér að geta um óþægindi frá öxlum enda var kannski annað meira áberandi. A fékk talsverðan slynk á hægri öxlina í umferðarslysinu. Var ekkert slæmur í byrjun en smám saman farið að versna og hann leitar til mín 15. október síðastliðinn vegna verkja og þá nokkuð skert hreyfigeta og talsverð eymsli yfir liðnum. Ákveðið var að fá myndatöku sem gerð var 25.10. það er að segja bæði röntgen og ómskoðun. Engin ummerki beináverka en í ljós koma kalkyrjur og stór kölkun í festu ofankambsvöðvans (supraspinatus sinafestunni) auk þess sem það er vægur þroti í bursunni. Þetta eitthvað sem gæti hafa komið við áverkann. Í framhaldinu sendur til axlarsérfræðingsins H í [...]. Hann vill að A komi til aðgerðar sem fyrst en það mun þó dragast fram yfir áramót vegna anna hjá A.“ 28. janúar 2014 undirgekkst stefnandi aðgerð á hægri öxl hjá H. Við aðgerðina var kalkúrfelling hreinsuð úr sin og fræsað af axlarhyrnu. Var stefnanda vísað til sjúkraþjálfara í framhaldi aðgerðarinnar. Með tölvupósti, 18. mars 2014, tilkynnti stefndi lögmanni stefnanda að félagið treysti sér ekki til að viðurkenna bótaskyldu vegna slyssins 27. júní 2013 en væri reiðubúið, með öllum fyrirvörum, að standa að mati. Aðilar sammæltust um að fela þeim B, sérfræðingi í heimilslækningum, og C bæklunarlækni að meta afleiðingar slyssins, sbr. sameiginlega matsbeiðni aðila frá 7. júlí 2014. Í skriflegum athugasemdum stefnda til matsmanna, sama dag, var á það lögð áhersla að matsmenn tækju afstöðu til orsakasambands milli árekstursins 27. júní 2013 og einkenna stefnanda annars vegar frá hægri öxl og hins vegar bakeinkenna hans og skoðað yrði hvort einkenni stefnanda væru sértæk fyrir áverka eða hvort einkenni af þessu tagi gætu komið fram án áverka. Matsmenn skiluðu matsgerð 27. ágúst 2014. Í henni segir m.a.: „Matsmenn sjá enga leið til að tengja ástand hægri axlar við afleiðingar umferðarslyss 270613. Aðallega kemur þar til að ekki er getið um neina skoðun vegna axlareinkenna fyrr en tæpum 3 mánuðum síðar. Við það bætist að A hefur fyrri sögu um áverka á hægri öxl sem reyndar virðist ekki hafa valdið einkennum á síðari árum. Loks horfa matsmenn til þess að umrætt axlarástand A er engan veginn sértækt fyrir afleiðingar áverka, er raunar mun algengara án þess að nokkur áverki komi. Þá skal að auki tekið fram að frosin öxl er um það bil fjórfalt algengari hjá sykursjúklingum en öðru fólki. Ekki er þar um tengingar við áverka að ræða.“ Var niðurstaða matsmanna að stefnandi hefði ekki orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni, ekki hefði verið frekari bata að vænta eftir 27. september 2013, þjáningabætur ættu að miðast við eina viku, varanlegur miski væri 2 stig en varanleg örorka engin. Tjón stefnanda var gert upp á grundvelli framangreindrar matsgerðar, 29. desember 2014. Við uppgjörið gerði lögmaður stefnanda fyrirvara hvað varðaði mat á  tímabundinni og varanlegri örorku en stefnandi hygðist fara í endurmat hvað örorkuna varðaði. Þá gerði hann fyrirvara vegna útlagðs kostnaður. Með matsbeiðni, 21. janúar 2015, fór lögmaður stefnanda þess á leit við örorkunefnd að hún léti, með vísan til 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, í ljós álit sitt á varanlegum afleiðingum umrædds umferðarslyss á heilsufar stefnanda. Með bréfi nefndarinnar, 27. janúar 2015, var stefnda gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sinum og gögnum. Með bréfi, 2. mars 2015, tjáði stefndi nefndinni það álit sitt að tjón stefnanda hefði þegar verið metið að fullu í matsgerð þeirra B og C frá 27. ágúst 2014 og væri að mati stefnda ekki mögulegt að ganga lengra en þar hefði verið gert. Örorkunefnd skilaði matsgerð, 20. maí 2015, og var það m.a. niðurstaða nefndarinnar að varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins væri 6 stig og varanleg örorka hans 10%. Með bréfi, 27. maí 2015, krafðist lögmaður stefnanda uppgjörs úr hendi stefnda á grundvelli framangreindrar matsgerðar örorkunefndar. Stefndi hafnaði kröfunni með tölvubréfi,  3. september 2015, með þeim rökstuðningi m.a. að félagið teldi ósannað að einkenni stefnanda frá hægri öxl væri að rekja til slyssins, 27. júní 2013. Þá segir í bréfinu: „Samkvæmt mati þeirra C og B sáu þeir enga leið til að tengja ástand hægri axlar umbj. ykkar við afleiðingar umferðarslyssins 27.6.2013. Þeirra aðalröksemd fyrir því var að ekki væri getið um neina skoðun vegna axlareinkenna fyrr en tæpum 3 mánuðum síðar (að vísu var það tæpum 4 mánuðum síðar í raun). Í álitsgerð örorkunefndar er ekkert tekið á þessari röksemd. Við samanburð fyrirliggjandi matsgerða telur félagið því ljóst að sú matsgerð sem aðilar öfluðu sameiginlega sé vandaðri og betur rökstudd en álitsgerð örorkunefndar og verði sú síðarnefnda þess vegna ekki lögð til grundvallar nýju uppgjöri. Þá telur félagið verulegan vafa leika á því hvort mat örorkunefndar sé í samræmi við hlutverk nefndarinnar skv. 10. gr. skaðabótalaga, enda felst ekki í álitsgerðinni endurskoðun á aðalröksemd matsmanna í fyrri matsgerð. Er það því afstaða félagsins að álitsgerð örorkunefndar hnekki ekki niðurstöðum matsgerðar C og B. Með vísan til þessa er kröfu um frekari bætur vegna slyssins hafnað.“ Eins og áður er rakið er bótaskylda stefnda vegna slyssins, 27. júní 2013, viðurkennd. Hins vegar deila aðilar um afleiðingar slyssins og í því sambandi hvort leggja beri matsgerð örorkunefndar eða matsgerð þeirra B og C til grundvallar uppgjöri. Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda Stefnandi byggir dómkröfu sína á því að styðjast eigi við álitsgerð örorkunefndar við mat á afleiðingum slyss stefnanda, 27. júní 2013, í ljósi þess að álitsgerðin varpi skýru ljósi á afleiðingar slyssins, hún sé ítarlega rökstudd og feli í sér sterka sönnun um afleiðingar slyssins. Stefndi telji ósannað að einkenni stefnanda frá hægri öxl séu afleiðing slyssins,  27. júní 2013, og hafi hann því til stuðnings vísað til matsgerðar læknanna C og B, dags. 27. ágúst 2014. Stefnandi mótmæli þessu áliti stefnda enda megi telja einsýnt að fyrirliggjandi gögn staðfesti að einkennin megi rekja til slyssins. Stefnandi hafi leitað til G heimilislæknis, örfáum dögum eftir slysið og aftur 8. september 2013, rétt rúmum tveimur mánuðum eftir slysið, vegna versnunar á einkennum í kjölfar slyssins. Lækninum hafi láðst að geta um óþægindi frá öxlum sem stefnandi hafi kvartað undan við komuna í september. Þetta hafi G staðfest með vottorði, dags. 15. nóvember 2013, en þar segi m.a.: „Í fyrra vottorði frá 8. september síðastliðnum láðist mér að geta um óþægindi frá öxlum enda var kannski annað meira áberandi. A fékk talsverðan slynk á hægri öxlina í umferðarslysinu. Var ekkert slæmur í byrjun en smám saman farið að versna og hann leitar til mín 15. október síðastliðins vegna verkja og þá nokkuð skert hreyfigeta og talsverð eymsli yfir liðnum. Ákveðið var að fá myndatöku sem gerð var 25.10. það er að segja bæði röntgen og ómskoðun. Engin ummerki beináverka en ljós koma kalkyrjur og stór kölkun í supraspinatus sinafestunni auk þess sem það er vægur þroti í bursunni. Þetta eitthvað sem gæti hafa komið við áverkann.“ Stefnandi hafi því kvartað yfir óþægindum frá öxlinni í annarri komu til læknis, rétt rúmum tveimur mánuðum eftir slysið. Það sé því ljóst að misskilnings gæti í matsgerð þeirra B og C frá 27. ágúst 2014, þar sem hvergi sé minnst á vottorð G frá 15. nóvember 2013 og það að honum hafi láðst að geta um óþægindi frá öxlum í annarri komu stefnanda, eða rétt rúmum tveimur mánuðum eftir slysið. I sjúkraþjálfari stefnanda hafi einnig staðfest framangreint í fyrirliggjandi vottorði sínu en þar segi að „það er greinilegt að [stefnandi] hefur fengið slynk á öxlina í bílslysinu 27. júní 2013 og hefur mjúkvefur í öxlinni tognað, sem leiðir til versnandi einkenni eftir slysið“. Því skuli jafnframt haldið til haga að þrátt fyrir fyrri sögu um áverka á hægri öxl sé ekkert í gögnum málsins sem bendi til þess að stefnandi hafi kvartað undan því á síðari árum. Til að mynda sé ekki minnst á það í sjúkraskrá stefnanda að hann hafi verið með verki í öxl á árunum 2007 til ársins 2013 þegar slysið hafi átt sér stað. Örorkunefnd hafi staðfest í matsgerð sinni, 20. maí 2015, að „einkenni um frosna öxl, eða axlarhylkisheilkenni séu algengari hjá sykursýkissjúklingum, en það útiloki það ekki hjá tjónþola að hann hafi hlotið áverka á öxlina í umferðarslysinu í lok júní 2013“. Í álitsgerð nefndarinnar segi ennfremur: „Það er þegar fram komið að tjónþoli hafði forskaða í öxlinni og staðfestar kalkanir 5-6 árum fyrir umferðarslys það sem hér [er] til umfjöllunar. Hann var þó einkennalítill eða einkennalaus frá öxlinni fyrir umrætt slys og hefur þurft að leita sér meðferðar og aðgerðar vegna viðvarandi einkenna í kjölfar slyssins. Að öllum gögnum virtum og teknu tilliti til þess forskaða sem fyrir hendi er telur nefndin varanlegan miska tjónþola vegna hægri axlar einvörðungu og afleiðingar slyssins í júní 2013 hæfilega metinn 5%.“ Með hliðsjón af framangreindu telji stefnandi það einsýnt að áverkar hans á hægri öxl séu afleiðingar slyssins þann 27. júní 2013 og ljóst að stefnda beri að greiða stefnanda bætur í samræmi við álitsgerð örorkunefndar frá 20. maí 2015. Stefndi hafi einnig hafnað greiðslu bóta á þeim grundvelli að „matsgerðin sem aðilar öfluðu sameiginlega sé vandaðri og betur rökstudd en álitsgerð örorkunefndar og verði sú síðarnefnda þess vegna ekki lögð til grundvallar nýju uppgjöri.“ Varðandi beitingu 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vísist til athugasemda með 9. gr. í frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 37/1999. Fram komi í athugasemdunum að tjónþola, eða þeim sem krafinn sé bóta, gefist kostur á að afla álits hjá örorkunefnd þegar fyrir liggi sérfræðilegt álit um örorku- og/eða miskastig tjónþola. Sé nefndinni, sem skipuð sé tveimur læknum og einum lögfræðingi, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 50/1993, þannig ætlað það hlutverk að endurskoða matsgerðir um afleiðingar líkamstjóns og einnig stuðla að ákveðnu samræmi á þessu sviði. Reglur um skipun örorkunefndar og málsmeðferð fyrir henni sé í öllum meginatriðum jafnað til reglna IX. kafla laga nr. 91/1991 varðandi matsgerðir dómkvaddra matsmanna. Af því leiði meðal annars að matsgerð örorkunefndar samkvæmt 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga hafi almennt ríkara sönnunargildi en álit um afleiðingar líkamstjóns sem aflað hafi verið án dómkvaðningar samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991. Í athugasemdum með breytingarlögum nr. 37/1999 sé skýrt kveðið á um það að ef annar málsaðili sætti „sig ekki við niðurstöðu örorkunefndar getur hann freistað þess að fá henni breytt eða hrundið með því að leita til dómstóla“. Það sé síðan hlutverk dómstóla að skera úr um sönnunargildi fyrirliggjandi gagna eftir almennum reglum, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Því skuli haldið til haga að við málsmeðferðina hjá örorkunefnd hafi báðir aðilar átt þess kost að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og gögnum til matsmanna. Í álitsgerð örorkunefndar segi m.a.: „Örorkunefnd hefur borist greinargerð frá Tryggingamiðstöðinni, sem dagsett er 2. mars 2015 og undirrituð af J, hdl. Fylgir henni bréf félagsins til matsmannanna og læknanna C og B, sem dagsett er 7. júlí 2014 og undirritað af K og einnig tjónskvittun svo og myndir af skemmdum á bifreið þeirri sem tjónþoli ók.“ Með hliðsjón af framangreindu verði álitsgerð örorkunefndar, frá 20. maí 2015, að teljast sterkara sönnunargagn og að auki sé hún ítarlegri og betur rökstudd heldur en matsgerðin frá 27. ágúst 2014, sem aflað hafi verið utan réttar. Hvað sem öllu öðru líði þá hafi stefndi ekki hlutast til um dómkvaðningu matsmanna, eða aflað annarra sérfræðilegra gagna, í þeim tilgangi að hnekkja efnislegri niðurstöðu örorkunefndar þó svo að honum hafi verið það í lófa lagið. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 101/2009 hafi niðurstöðu örorkunefndar verið mótmælt sem of hárri en þó ekki leitast við að hnekkja niðurstöðunni með dómkvaðningu matsmanna eða á annan hátt. Með aðgerðarleysi sínu hafi rétturinn talið að stefndi hefði fallist á niðurstöðu matsgerðarinnar og hún þ.a.l. verið lögð til grundvallar. Með hliðsjón af framangreindu verði að telja að stefnda sé óheimilt að virða að vettugi niðurstöðu nefndarinnar, sem sé lögbundið úrræði til þess ætlað að hnekkja matsgerð sérfræðinga sem fyrir liggi, og beri því að leggja álitsgerð örorkunefndar til grundvallar í máli þessu. Slys það sem stefnandi hafi orðið fyrir hafi haft afgerandi áhrif á heilsu hans og byggi dómkrafa stefnanda á álitsgerð örorkunefndar og sundurliðist með eftirfarandi hætti:   1.            Bætur skv. 4. gr. skbl.:                 3.772.000 x (8419/3282) x 4%                                                      kr.     385.807,-        2.            Bætur skv. 5. - 7. gr. skbl.: 2010: (4.696.121 x 1,08) x (478,4/375,8) = 6.456.504                 2011: (5.092.947 x 1,08) x (478,4/401,3) = 6.557.147                 2012: (5.310.495 x 1,08) x (478,4/432,5) = 6.344.009                                                                                                        19.357.660                                                                                        (19.357.660/3) x 6,546 x 10%                                                       kr. 4.223.841,-                                                                                                 SAMTALS.....      kr. 4.609.648,-   Krafa stefnanda um miskabætur byggi á 4. gr. skaðabótalaga og framangreindu mati um 6 stiga varanlegan miska. Áður hafi verið gerð krafa um 2. stiga miska á grundvelli matsgerðar B læknis og C læknis, dags. 27. ágúst 2014, og hafi uppgjör verið undirritað, 7. janúar 2015. Af þeirri ástæðu krefjist stefnandi greiðslu sem nemi mismuninum á títtnefndum matsgerðum eða 4 stiga miska. Fjárhæð bótanna taki mið af fjárhæðinni 3.772.500 krónur uppfærðri miðað við lánskjaravísitölu í maí 2015, sbr. 15. gr. skaðabótalaga. Krafa um bætur vegna varanlegrar örorku taki einnig mið af álitsgerð örorkunefndar og 5.-7. gr. skbl. Við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku sé tekið mið af 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Stefnandi hafi verið [...] ára og [...] daga gamall á stöðugleikatímapunkti og stuðull hans því 6,546 skv. 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga. Krafist sé 4,5% vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga vegna varanlegs miska frá 27. júní 2015 (tjónsdegi) til 1. apríl 2014 (stöðugleikatímapunkti) en vegna varanlegrar örorku frá 1. apríl 2014 (stöðugleikatímapunkti) til 27. júní 2015 (mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs), en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Kröfur stefnanda styðjist við skaðabótalög nr. 50/1993, með síðari breytingum. Um vaxtakröfuna vísi stefnandi sérstaklega til 16. gr. skaðabótalaga og um dráttarvaxtakröfuna til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili skv. lögum nr. 50/1988 og beri því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar. Málástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda Af hálfu stefnda er viðurkennt að stefnandi hafi, þegar hann hafi orðið fyrir slysi, 27. júní 2013, verið tryggður lögboðinni slysatryggingu samkvæmt 88. gr., sbr. 91. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Sýknukrafa stefnda sé á því byggð að tjón stefnanda sé að fullu uppgert og eigi hann engar frekari kröfur á stefnda vegna umferðarslyssins 27. júní 2013. Ágreiningur máls þessa snúist fyrst og fremst um hvaða matsgerð beri að leggja til grundvallar þ.e. matsgerð læknanna B og C, sem aðilar hafi staðið sameiginlega að því að afla, eða álits örorkunefndar sem stefnandi hafi aflað einhliða. Samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 geti matsbeiðnir til örorkunefndar borið að með tvennum hætti. Í fyrsta lagi geti hvor um sig, tjónþoli eða sá sem krafinn sé bóta, borið sérfræðilegt álit, sem þegar liggi fyrir, undir örorkunefndina. Í öðru lagi sé heimilt að óska álits örorkunefndar án þess að fyrir liggi sérfræðiálit, ef málsaðilar standi sameiginlega að slíkri beiðni. Fyrirliggjandi matsbeiðni til örorkunefndar beri ekki með sér að verið sé að bera fyrra sérfræðiálit undir nefndina heldur virðist verið að óska eftir nýju mati en til þess að það mætti verða hefðu báðir aðilar þurft að standa að matsbeiðni en svo sé ekki í þessu máli. Álitsgerð örorkunefndar beri heldur ekki með sér að nefndin sé að yfirfara það sérfræðiálit sem þegar hafi legið fyrir. Það sem einkum greini matsgerð B og C frá áliti örorkunefndar sé fyrst og fremst verkir í hægri öxl. Stefnda þyki rétt að benda á eftirfarandi í því sambandi. Í læknisvottorði H, frá 8. mars 2014, segi meðal annars: „A hitti sérfræðing í [...] 2007 vegna einkenna frá hægri öxl. Hann hafði þá dottið í vinnu, dottið á [...] og sló í bak og hægri öxl. Lýst er af lækni sem hitti hann 30.10.2007, að við skoðun var hann með fulla hreyfigetu og góðan kraft í hægri öxl. Hann var með við skoðun vægan verk við supraspinatus test og bicepts test, auk einkenna um impingement. A var sendur í myndrannsóknir sem sýndu kalk útfellingar í sinum bæði supra- og infraspinatus.“ Þá segir í vottorðinu: „Þann 25.10.2013 var tekin RTG mynd og gerð ómskoðun á hægri öxl. RTG rannsókn sýndi engin merki um breytingar á humeroscapular lið og engin merki um beináverka. Kalkanir í mjúkvefjum ofan við tuberculum majus höfðu aukist talsvert frá fyrri rannsókn 2007, með kölkun þar sem nú mældist 12 mm að lengd.“ Þá segir í vottorðinu: „Vegna stórrar kölkunar í supraspinatus sininni, impingement einkenna auk viðvarandi og versnandi einkenna þá var tekin ákvörðun um að gera aðgerð með speglunartækni á hægri öxl. Gerð var aðgerð þann 28.01.2014, þar sem kalkútfelling í supraspinatus sininni var hreinsuð úr sininni og gerð decompression á acromion.“ Ennfremur: „Horfur eru almennt góðar en þó getur kalk safnast aftur fyrir á fyrri stöðum útfellingar og gefið sömu einkenni.“ Í fyrirliggjandi sjúkraskrá stefnanda megi sjá að G heimilislæknir hafi haft hann til skoðunar, 11. október 2007. Þar komi eftirfarandi fram: „Datt í vor aftur fyrir sig og fékk högg á hægri handlegg eða öxl. Gerði ekki svo mikið úr þessu en nú vaxandi verkur í öxlinni og upphandleggnum alveg fram í fingur. Þolir mjög illa vissar stellingar og fær seyðingsbrunaverk. Við skoðun er talsverð hreyfihindrun í öxlinni meiri en A hafði sjálfur gert sér grein fyrir. Greining. Frozen shoulder.“ Í matsgerð læknanna B og C segi meðal annars: „Matsmenn sjá enga leið til að tengja ástand hægri axlar við afleiðingar umferðarslyss 270613. Aðallega kemur þar til að ekki er getið um neina skoðun vegna axlareinkenna fyrr en tæpum 3 mánuðum síðar. Við það bætist að A hefur fyrri sögu um áverka á hægri öxl sem reyndar virðist ekki hafa valdið einkennum á síðari árum. Loks horfa matsmenn til þess að umrætt axlarástand A er engan veginn sértækt fyrir afleiðingar áverka, er raunar mun algengara án þess að nokkur áverki komi. Þá skal að auki tekið fram að frosin öxl er um það bil fjórfalt algengari hjá sykursjúklingum en öðru fólki. Ekki er þar um tengingar við áverka að ræða.“ Rétt sé að fram komi að fyrsta skoðun vegna axlareinkenna eftir umferðarslysið 27. júní 2013 sé staðfest af G lækni með vottorði 15. nóvember 2013, þess efnis að stefnandi hafi komið til hans 25. október vegna eymsla í hægri öxl en þá hafi fjórir mánuðir verið liðnir frá umferðarslysinu. Um axlarmein stefnanda sé fjallað í eldri örorkumötum sem fyrir liggi í málinu. Í niðurstöðu örorkunefndar komi fram að varanlegur miski hafi verið metinn 6 stig og þar af 5 stig vegna verkja í hægri öxl. Ekkert verði af álitinu ráðið að hvaða marki 10% varanleg örorka verði rakin til eymsla í hægri öxl eða að hvaða marki til annarra eymsla s.s. bakverkja sem upphaflega hafi verið sjúkdómsgreiningin í kjölfar umferðarslyssins. Í álitsgerð örorkunefndar sé ekkert tekið á rökstuðningi matsmannanna B og C. Álitsgerð örorkunefndar hnekki í engu matsgerð þeirra, sem auk þess sé vandaðri og betur rökstudd. Álitsgerð örorkunefndar feli því ekki í sér endurskoðun á sérfræðilegu mati eins og kveðið sé á um í 10. gr. skaðabótalaga. Það sé mat stefnda að axlarverkir stefnanda verði fyrst og fremst raktir til eldri atvika, enda upplýst að myndgreiningar árið 2007 hafi sýnt kalkútfellingar í sinum bæði supra- og infraspinatus. Þá sé það mat stefnda að matsgerð sú sem stefnandi hafi aflað einhliða verði hvorki lögð að jöfnu við matsgerð matsmanna, sem aðilar hafi staðið saman að, né geti hin fyrrnefnda gengið þeirri síðarnefndu framar, enda sé hún engum annmörkum háð, sem áhrif geti haft á sönnunargildi hennar, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 20/2013. Það sé mat stefnda að niðurstaða dómsmáls þessa eigi að byggja á matsgerð læknanna B og C. Tjón stefnanda sé að fullu bætt á grundvelli þeirrar matsgerðar. Með vísan til alls framanritaðs beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Stefndi vísi máli sínu til stuðnings til skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2007. Ennfremur vísi stefndi til meginreglna skaðabótaréttarins sem og almennra reglna kröfuréttar. Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Forsendur og niðurstaða Eins og áður hefur verið rakið er skaðabótaskylda stefndu í máli þessu óumdeild. Hins vegar er deilt um innbyrðis vægi þeirra tveggja matsgerða sem fyrir liggja í málinu og varða slys stefnanda, 27. júní 2013. Þeirrar fyrri, sem dagsett er 27. ágúst 2014, var aflað sameiginlega af aðilum málsins og var hún samin af B, sérfræðingi í heimilislækningum og C bæklunarlækni. Þá liggur fyrir í málinu álit örorkunefndar, sem stefnandi aflaði einhliða, dagsett 20. maí 2015, unnið af D endurhæfingarlækni, E endurhæfingarlækni og F hæstaréttarlögmanni. Eins og rakið hefur verið var niðurstaða fyrri álitsgerðarinnar að miski stefnanda vegna slyssins, 27. júní 2013, væri 2 stig en örorka engin. Örorkunefnd komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að meta bæri miska stefnanda 6 stig en örorku 10%. Eins og áður er rakið byggir stefnandi kröfur sínar í máli þessu á niðurstöðu matsgerðar örorkunefndar. Af hálfu stefnda er hins vegar byggt á niðurstöðum matsgerðar þeirra B og C. Af hálfu stefnda er á því byggt að fyrirliggjandi matsbeiðni stefnanda til örorkunefndar beri ekki með sér að verið sé að bera fyrra sérfræðiálit þeirra B og C undir nefndina heldur sé verið að óska eftir nýju mati en til þess að það mætti verða hefðu báðir aðilar þurft að standa að matsbeiðni en svo sé ekki í þessu máli, sbr. 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá beri álitsgerð örorkunefndar ekki með sér að nefndin sé að yfirfara það sérfræðiálit, sem þegar hafi legið fyrir. Af hálfu stefnanda er, hvað þessa málstæðu stefnda varðar, á því byggt að augljóst sé bæði af fyrirliggjandi matsbeiðni frá 7. júlí 2014 og matsgerð örorkunefndar að verið sé að bera matsgerð þeirra B og C undir álit nefndarinnar samkvæmt heimild í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 50/1993. Í fyrirliggjandi matsbeiðni stefnanda til örorkunefndar, 21. janúar 2015, kemur fram að stefnandi telji niðurstöður matsgerðar þeirra B og C ekki vera í neinu samræmi við umfang meiðsla stefnanda vegna  slyssins 27. júní 2013 og afleiðingar þess. Þá hafi matsmennirnir ekki tekið tillit til axlarmeina matsbeiðanda við ákvörðun miska og örorku og hafni matsbeiðandi því alfarið að ekki séu tengsl milli axlareinkenna hans og umferðarslyssins. Samkvæmt matsgerð örorkunefndar frá 20. maí 2015 var matsgerð þeirra B og C meðal þeirra gagna sem lágu fyrir nefndinni. Þá ber matsgerðin samkvæmt efni sínu með sér að í henni er tekin efnisleg afstaða til matsgerðar þeirra B og C. Var stefnanda því heimilt að leita álits nefndarinnar m.a. á  miska og örorku stefnanda vegna slyssins 27. júní 2013 án þess að aðilar stæðu sameiginlega að slíkri beiðni, sbr. 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Það fellur í hlut dómsins að skera úr um sönnunargildi framangreindra matsgerða, eftir almennum reglum, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Á stefnanda hvílir sönnunarbyrði fyrir því að þau óþægindi, sem hann hefur á undanförnum árum átt við að stríða í og frá hægri öxl, sé að rekja til umferðarslyssins, 27. júní 2013. Stefnandinn, A, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurður kvaðst hann hafa ekið á um 50 km. hraða, þegar slysið varð. Þegar höggið hafi komið á bifreiðina hafi hann allur stirðnað upp og henst á viðarklæðningu, sem verið hafi á milli framsætanna í bifreiðinni. Hafi hægri upphandleggur hans kastast utan í klæðninguna. Hann hafi leitað á heilsugæsluna í byrjun júlí og þá lýst einkennum eftir slysið fyrir G heilsugæslulækni þ.e. verk í efri hluta baksins. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa lýst verkjum í öxl heldur leiðniverkjum frá baki upp í háls og herðar. Hann hafi síðan leitað aftur til G heilsugæslulæknis í október en hann hafi þá verið orðinn mjög slæmur í hægri öxl og hafi G ákveðið að senda hann í myndatöku í [...]. Þegar niðurstaða hafi komið úr myndatökunum hafi G ákveðið að senda hann til H bæklunarlæknis, sem ákveðið hafi að gera aðgerð á öxlinni. Hún hafi farið fram í janúar 2014. Aðspurður kvaðst hann vera óvinnufær í dag og ekkert hafa unnið eftir aðgerðina. Aðspurður um meiðsl, sem hann hefði orðið fyrir m.a. á hægri öxl við vinnuslys á árinu 2007, svaraði hann því til að hann hefði verið myndaður vegna þeirra meiðsla en ekki verið talin þörf á meðferð. Aðspurður kvaðst hann ekki kannast við óþægindi frá öxlinni síðan 2007, fyrr en eftir slysið í júní 2013. G, heimilislæknir stefnanda, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Spurður að því hvers vegna ekki hafi í vottorði hans frá 8. september 2013 verið minnst á óþægindi frá öxl svaraði hann því til að annað hafi verið meira áberandi við skoðunina þann dag þ.e. bakið og líklegt að verkur frá baki hafi skyggt á axlarverk. Stefnandi hafi hins vegar verið orðinn ansi slæmur í hægri öxl, 15. október. Því hafi honum verið vísað til H bæklunarlæknis. Aðspurður kvaðst hann telja að óþægindin í öxlinni hafi verið afleiðing umferðarslyssins. Aðspurður kvað hann stefnanda hafa leitað til sín í framhaldi af slysi 2007 og hann þá verið greindur með „frosen shoulder“, tognun í öxl og tímabundinn stirðleika. Þessi einkenni hafi gengið til baka og öxlin ekki verið til vandræða í mörg ár. Eingöngu hafi verið um tímabundna greiningu að ræða en ekki varanlega. Aðspurt staðfesti vitnið að stefnandi hefði verið greindur með sykursýki II á árinu 2008 en hún hefði ekkert með öxlina að gera. Við skoðunina, 5. júlí 2013, hefði verið talið að eingöngu bakið hefði orðið fyrir áverka og skaddast en stefnandi hefði við skoðunina verið með leiðni niður í fætur. Bakið hafi þannig verið aðalvandamálið til að byrja með en síðan fari öxlin að verða meira áberandi. Aðspurt kvaðst vitnið tengja ástand axlarinnar við slysið 2013. H bæklunarlæknir, sem framkvæmdi aðgerð á hægri öxl stefnanda, 28. janúar 2014, eftir tilvísun frá heimilislækni hans, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurt svaraði vitnið því til að einkenni eins og þau sem stefnandi hefði haft við aðgerðina gætu orsakast af slysi en þau gætu líka komið til án slyss og gæti hann ekki dæmt um hvort aðgerðin í janúar 2014 hafi verið nauðsynleg vegna slyssins 2013 eða af öðrum ástæðum. Samkvæmt myndum hafi minniháttar kalkyrjur verið til staðar 2007, þegar heimilislæknir stefnandi hafi greint hann vera með „frozen shoulder“. Kalkútfellingarnar hafi aukist milli 2007 og 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi færslum úr sjúkraskrá heilsugæslunar [...] í [...], leitaði stefnandi þangað, 5. júlí 2013, vegna tognunar á lendarhrygg. Í lýsingu G heimilislæknis stefnanda, sem skoðaði hann í umrætt sinn, segir: „Lenti í umferðaróhappi 27/6 sl. Bíll ók í veg fyrir hans bíl og lentu þeir í árekstri. A fékk slink á lendarhrygginn og fann strax til. Versnað fyrst á eftir. Aðeins leiðni niður í vi fót.“ Þá segir ennfremur: „A var í bíl sínum þann 27.06 á Fosshálsi þegar keyrt var í veg fyrir hann. Bílarnir skullu saman og A í rétti, kastaðist fram á við og fékk slink á hrygginn þ.e. lendhrygg. Fór strax að finna til en leitaði ekki á slysadeild. Var að versna pínulítið fyrstu dagana og leiðni niður í vinstri fót. Hætti að versna, er með verki og stirðleika. Þarf að komast í sjúkraþjálfun og meira verkjastillandi lyf.“ Fyrirliggjandi tjónstilkynning stefnanda til stefnda, 20. ágúst 2013, vegna slyssins 27. júní, er í samræmi við framangreindar upplýsingar úr sjúkraskrá heilsugæslunnar en í tilkynningunni eru afleiðingar slyssins tilgreinar: „tognun í baki“.    Í skýrslu H bæklunarlæknis, við aðalmeðferð málsins, kom fram það álit hans, eins og áður er rakið, að þau einkenni sem stefnandi hefði haft, þegar framkvæmd var aðgerð á hægri öxl hans, 28. janúar 2014, hefði mátt rekja til slyss eða annarra ástæðna. Þá liggur fyrir í málinu, samkvæmt vottorði G heimilislæknis stefnanda og skýrslu hans við aðalmeðferð málsins, að stefnandi leitaði ekki til hans vegna óþæginda í hægri öxl fyrr en 8. september 2013 eða rúmum 10 vikum eftir slysið. Þá eru engar kvartanir skráðar í sjúkraskrá stefnanda fyrr en við komu hans á heilsugæsluna, 15. október 2013.    Það er mat dómsins, með hliðsjón af því sem nú hefur verið rakið varðandi upplýsingar í sjúkraskrá stefnanda vegna heimsóknar á heilsugæsluna, 5. júlí 2013, efni tjónstilkynningar stefnanda, 20. ágúst 2013, skýrslu læknisins sem framkvæmdi aðgerð á hægri öxl stefnanda, 28. janúar 2014, hversu langt leið frá slysinu þar til stefnandi kvartaði sannanlega yfir óþægindum í hægri öxl, að það axlarvandamál, sem stefnandi glímir við í dag, er algengt ástand án þess að viðkomandi hafi orðið fyrir áverka og þá sönnunarbyrði sem hvílir á stefnanda um orsakasamband milli slyssins, 27. júní 2013, og ástands  axlarinnar, að ekki liggi fyrir í málinu nægileg sönnun fyrir því að þau axlarvandamál sem málatilbúnaður stefnanda byggir á sé að rekja til umferðarslyssins, 27. júní 2013. Er þá einnig rétt að líta til þess að stefnandi hefur sögu um eldri áverka á hægri öxl vegna slyss sem hann varð fyrir á árinu 2007 og að stefnandi þjáist af sykursýki II, sem aukið getur líkur á frosinni öxl (frozen shoulder). Þá er einnig rétt að líta til þess að sú lýsing stefnanda að hann hafi við slysið kastast með hægri upphandlegg á viðarklæðningu, sem verið hafi á milli framsæta í bifreiðinni, kom fyrst fram í skýrslu hans við aðalmeðferð málsins. Er hún í ósamræmi við lýsingu hans á slysinu við komu á heilsugæsluna, 5. júlí 2013, þar sem hann segist hafa kastast fram á við við áreksturinn og fengið slink á lendhrygg. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að höggið sem kom á bifreið stefnanda, við áreksturinn, kom á vinstri hlið bifreiðarinnar. Hefði stefnandi því við höggið átt að kastast í þátt átt en ekki til hægri.   Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að tjón stefnanda hafi verið rétt metið, hvað miskastig og örorku varðar, í matsgerð þeirra B og C frá 27. ágúst 2014 og verður stefnda því sýknuð af kröfum stefnanda í máli þessu. Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður. Stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi frá 8. desember 2015. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 800.000 krónur, án virðisaukaskatts. Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Júlíusi Valssyni embættis- og gigtarlækni og Ríkarði Sigfússyni  bæklunarlækni. Dómsorð Stefnda, Tryggingamiðstöðin hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu. Málskostnaður milli aðila fellur niður. Allur gjafsóknar-kostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 800.000 krónur.
Mál nr. 511/2017
Skuldabréf Ábyrgð Sjálfskuldarábyrgð Útivist
L höfðaði mál gegn HS, K, M og HJ til heimtu skuldar samkvæmt skuldabréfi fyrir námslánum sem HS gaf út árið 2006. Með áritun á skuldabréfið gekkst S í sjálfskuldarábyrgð fyrir kröfu L á grundvelli þess. S lést á árinu 2007 og var ekkju hans, HJ, veitt leyfi til setu í óskiptu búi. Við það féll á hana skuldbinding S við L en hámark ábyrgðarinnar var þá fært niður í fjárhæð hennar á dánardegi S. Hinn 27. febrúar 2008 gekkst M í sjálfskuldarábyrgð fyrir tiltekinni fjárhæð vegna námslána HS til viðbótar fyrri sjálfskuldarábyrgð og gerði K slíkt hið sama 16. júlí sama ár. Talið var að ekki væru skilyrði til annars en að taka til greina kröfu L um skyldu HS til að greiða skuldina ásamt dráttarvöxtum að frádregnum innborgunum inn á hana. Þá var talið að þar sem HJ hafði sótt þing í héraði en engar kröfur gert yrði að meta þá þögn hennar sem samþykki á kröfu L, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og fella dóm á kröfuna því til samræmis, sbr. 1. mgr. 98. gr. sömu laga. Var HJ því gert að greiða L óskipt með HS samanlagða fjárhæð námslána sem HS hafði fengið fyrir andlát S og hann hafði staðið í ábyrgð fyrir. L hélt því fram í málinu að yfirlýsing M um sjálfskuldarábyrgð fæli í sér ábyrgð á allri skuld HS samkvæmt skuldabréfinu. Talið var að skilja yrði texta yfirlýsingar M á þann veg að sjálfskuldarábyrgðinni hefði aðeins verið ætlað að taka við þar sem sleppti eldri ábyrgð, sem þá var komin á herðar HJ, og ná þannig til skulda sem HS stofnaði til við L með nýjum námslánum eftir þann tíma. Var M því gert að greiða L óskipt með HS fjárhæð námsláns sem HS fékk greitt út eftir að ábyrgðin var veitt en til frádráttar kom innborgun M inn á skuldina. Loks kom fram að í yfirlýsingu K um sjálfskuldarábyrgð hefði verið tekið fram að hún væri gerð af því tilefni að ábyrgð hefði vantað vegna væntanlegra lána. Þar sem fyrir lá að HS stofnaði ekki til skuldar við L vegna nýrra námslána eftir að ábyrgðin var veitt var K sýknaður af kröfu L.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Þorgeir Ingi Njálsson landsréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. ágúst 2017. Hann krefst þess að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um skyldu stefndu Höllu Sigrúnar Sveinbjörnsdóttur til að greiða sér 4.277.497 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. mars 2013 til greiðsludags, svo og um skyldu stefndu Halldóru Jónu Sölvadóttur til að greiða sér óskipt með stefndu Höllu 3.689.159 krónur með vöxtum á sama hátt og að framan greinir. Áfrýjandi krefst þess á hinn bóginn að héraðsdómi verði breytt á þann veg að stefnda María Guðrún Guðjónsdóttir verði dæmd til að greiða óskipt með stefndu Höllu 4.277.497 krónur og stefndi Kristmundur Magnússon óskipt með öllum öðrum stefndu 1.559.410 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum af nánar greindum fjárhæðum frá 1. mars 2013 til greiðsludags. Til frádráttar kröfum komi innborganir á 10.000 krónum 2. apríl 2014 og 635.242 krónum 25. ágúst 2017. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu Halla og Kristmundur hafa ekki látið málið til sín taka. Stefnda María krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en þó þannig að til frádráttar kröfu áfrýjanda, sem þar var tekin til greina á hendur henni, komi innborgun hennar 25. ágúst 2017 að fjárhæð 635.242 krónur. Til vara krefst hún þess að fjárhæð kröfu áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Stefnda Halldóra krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Samkvæmt gögnum málsins gaf stefnda Halla út skuldabréf til áfrýjanda 3. febrúar 2006 vegna námslána. Í skuldabréfinu var meðal annars kveðið á um heimild áfrýjanda til að fylla inn í eyðu í texta þess fjárhæð heildarskuldar lántakans við námslok, en fjárhæðin yrði framreiknuð eftir vísitölu neysluverðs við útfyllingu bréfsins. Upp frá því yrði skuldin verðtryggð með sömu vísitölu og bæri tiltekna ársvexti. Endurgreiðsla á skuldinni átti að hefjast að liðnum tilgreindum tíma eftir að lántakinn lyki námi og yrðu þá greiddar tvær afborganir á ári, annars vegar föst greiðsla 1. mars og hins vegar svonefnd viðbótargreiðsla 1. september, en í skuldabréfinu voru nánari ákvæði um hvernig þær yrðu ákveðnar. Ráðstafa átti hverri greiðslu fyrst til uppgjörs á áföllnum vöxtum og síðan inn á höfuðstól með verðbótum, en lánstími skyldi vera ótilgreindur þar til skuldin yrði að fullu greidd. Tekið var fram að gjaldfallnar afborganir og vextir bæru dráttarvexti frá gjalddaga, en áfrýjanda væri heimilt að gjaldfella skuldina alla án fyrirvara eða uppsagnar vegna verulegra vanskila, sem teldust fyrir hendi ef greiðsla drægist fimmtán daga eða lengur. Þá kom fram í fyrirsögn skuldabréfsins að það væri „með sjálfskuldarábyrgð“, en um hana sagði eftirfarandi í meginmáli þess: „Neðangreind sjálfskuldarábyrgð gildir jafnt þótt greiðslufrestur verði veittur á láninu einu sinni eða oftar uns skuldin er að fullu greidd. Látist ábyrgðarmaður eða hann fullnægir ekki lengur þeim skilyrðum sem sjóðurinn setur, getur LÍN krafist þess að lántakandi fái nýjan ábyrgðarmann í hans stað. Verði lántakandi ekki við því getur LÍN stöðvað allar frekari lánveitingar til lántakanda og gjaldfellt lánið.“ Með ódagsettri áritun á skuldabréfið gekkst faðir stefndu Höllu, Sveinbjörn G. Guðjónsson, í sjálfskuldarábyrgð fyrir kröfu áfrýjanda á grundvelli þess, en þó með hámarksfjárhæðinni 6.500.000 krónur, sem tæki breytingum eftir vísitölu neysluverðs miðað við grunntöluna 240,7 stig. Fyrir liggur að stefnda Halla fékk greidd út námslán frá áfrýjanda, sem féllu undir skuldabréfið, í fimm skipti á tímabilinu 6. febrúar 2006 til 17. júlí 2007 og var fjárhæð þeirra, samtals 2.311.157 krónur, bundin vísitölu frá útborgunardegi hverju sinni. Ábyrgðarmaðurinn Sveinbjörn lést 20. júlí 2007 og var ekkju hans, stefndu Halldóru, veitt leyfi til setu í óskiptu búi 16. ágúst sama ár. Við það féll á hana skuldbinding Sveinbjörns við áfrýjanda, sbr. 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Í málatilbúnaði áfrýjanda segir að á dánardegi Sveinbjörns hafi ábyrgð hans náð til námslána stefndu Höllu að fjárhæð samtals 2.101.232 krónur og hafi „hámark ábyrgðar hans“ verið „fært niður í þá fjárhæð“. Stefnda María undirritaði 27. febrúar 2008 skjal á eyðublaði frá áfrýjanda með fyrirsögninni: „Sjálfskuldarábyrgð vegna námsláns til viðbótar fyrri sjálfskuldarábyrgð“. Neðan við þessa fyrirsögn var vísað til þess að lántakinn væri stefnda Halla, tilgreint var númer láns, sem var það sama og fram kom á áðurnefndu skuldabréfi, og væri fjárhæð lánsins 2.460.021 króna með áföllnum verðbótum. Um „tilefni viðbótarábyrgðar“ sagði eftirfarandi: „Ábyrgð vantar þar sem fjárhæð eldri ábyrgðar hefur verið takmörkuð eða felld niður. Neðangreind ábyrgðarfjárhæð er tilgreind með hliðsjón af upplýsingum sjóðsins. Ef lántakandi vill breyta henni eða tilgreina fleiri en einn ábyrgðarmann verður að tilkynna það til LÍN og útbúa nýtt ábyrgðareyðublað. Ekki er hægt að tilgreina ábyrgðarmann með hærri fjárhæð en 7.000.000 kr.“ Í framhaldi af þessu kom fram að „staða ábyrgðar m.v. vísitöluna 281,8“ væri 2.460.022 krónur, en þetta væri „takmörkuð ábyrgðarfjárhæð“, sem Sveinbjörn G. Guðjónsson hafi tekið á sig. Um ábyrgðina, sem stefnda María gekkst undir, var þess getið að fjárhæð hennar, 3.000.000 krónur, yrði bundin vísitölu neysluverðs með grunntölunni 271,0 stig og sagði jafnframt eftirfarandi: „Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól að framangreindri fjárhæð ásamt vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði ef vanskil verða, tekst ég á hendur sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu framangreinds námsláns in solidum með undirskrift minni.“ Daginn eftir að þetta skjal var undirritað eða 28. febrúar 2008 fékk stefnda Halla greitt út frá áfrýjanda námslán að fjárhæð 413.364 krónur. Stefndi Kristmundur, eiginmaður stefndu Höllu, skrifaði 16. júlí 2008 undir skjal á eyðublaði frá áfrýjanda, sem einnig bar fyrirsögnina: „Sjálfskuldarábyrgð vegna námsláns til viðbótar fyrri sjálfskuldarábyrgð“, og var á sama hátt og áður greinir vísað til þess að skjalið varðaði námslán stefndu Höllu, sem næmu 2.876.924 krónum með áföllnum verðbótum. Um tilefni þessarar viðbótarábyrgðar sagði: „Ábyrgð vantar vegna væntanlegra lána, sbr. lánsáætlun. Neðangreind ábyrgðarfjárhæð er tilgreind með hliðsjón af upplýsingum sjóðsins. Ef lántakandi vill breyta henni eða tilgreina fleiri en einn ábyrgðarmann verður að tilkynna það til LÍN og útbúa nýtt ábyrgðareyðublað. Ekki er hægt að tilgreina ábyrgðarmann með hærri fjárhæð en 7.000.000 kr.“ Undir yfirskriftinni: „Staða ábyrgðar m.v. vísitöluna 282,3“ var greint frá nafni annars vegar Sveinbjörns G. Guðjónssonar og tekið fram að „takmörkuð ábyrgðarfjárhæð“, sem hann hafi gengist undir, væri 2.464.386 krónur og hins vegar stefndu Maríu, en fjárhæð ábyrgðar hennar væri 3.125.092 krónur. Tekið var fram að ábyrgð stefnda Kristmundar yrði bundin við fjárhæðina 1.000.000 krónur, sem háð yrði breytingum á vísitölu neysluverðs með grunntölunni 271,0 stig. Ofan við undirskrift stefnda Kristmundar var sami texti og fram kom samkvæmt áðursögðu í yfirlýsingunni, sem stefnda María undirritaði 27. febrúar 2008. Eftir gögnum málsins tók stefnda Halla ekki frekari námslán hjá áfrýjanda. Í bréfi til hennar 26. október 2010 vísaði áfrýjandi til þess að á árinu 2011 yrðu liðin tvö ár frá því að hún hafi síðast fengið námslán eða skilað upplýsingum um „lánshæfan námsárangur“. Bæri því áfrýjanda að „loka skuldabréfi“ og yrði í því sambandi miðað samkvæmt úthlutunarreglum hans við lok skólaárs 29. júní 2009. Í tilkynningu „um frágang skuldabréfs“, sem áfrýjandi sendi síðan stefndu Höllu 1. febrúar 2011, var greint frá því að fjárhæð námslána hennar, sem féllu undir áðurgreint skuldabréf, væri samtals 3.724.817 krónur miðað við vísitölu neysluverðs 365,5 stig. Stæði stefnda María í sjálfskuldarábyrgð fyrir þeirri fjárhæð allri, en stefndi Kristmundur fyrir 1.348.708 krónum og Sveinbjörn G. Guðjónsson fyrir 3.190.695 krónum af henni. Væri „lokunardagur skuldabréfs“ 29. júní 2009 og bæri skuldin vexti frá 30. sama mánaðar, en gjalddagi fyrstu afborgunar yrði 30. júní 2011. Þessu til samræmis fyllti áfrýjandi inn í eyðu á skuldabréfinu, sem stefnda Halla gaf út 3. febrúar 2006, fjárhæðina 3.424.182 krónur og grunnvísitölu 336,0 stig. Sú fjárhæð er í raun sú sama og fram kom í fyrrgreindri tilkynningu áfrýjanda til stefndu Höllu 1. febrúar 2011 að teknu tilliti til vísitölustiga. Samkvæmt gögnum málsins var fyrsta afborgun af skuldabréfinu, sem var á gjalddaga 30. júní 2011 og nema átti 108.330 krónum, greidd með dráttarvöxtum 19. október sama ár. Eins var næsta afborgun greidd 19. júlí 2012, en gjalddagi var 1. mars sama ár og fjárhæð hennar 113.991 króna að frátöldum dráttarvöxtum. Á hinn bóginn var hvorki greidd þriðja afborgun af skuldabréfinu að fjárhæð 119.554 krónur, sem var á gjalddaga 1. mars 2013, né sú fjórða að fjárhæð 123.505 krónur með gjalddaga 1. mars 2014. Fyrir liggur að áfrýjandi tilkynnti stefndu öllum um þessi vanskil, en í bréfum hans til þeirra 4. nóvember 2014 var síðan greint frá því að eftirstöðvar skuldarinnar, 4.034.438 krónur, hefðu verið gjaldfelldar vegna vanskilanna og voru stefndu krafin um greiðslu á þeirri fjárhæð auk áðurgreindra gjaldfallinna afborgana frá árunum 2013 og 2014, sem væru alls 243.059 krónur. Áfrýjandi höfðaði mál þetta með stefnu 20. apríl 2016. Í endanlegri kröfugerð fyrir héraðsdómi krafði hann stefndu Höllu sem aðalskuldara samkvæmt skuldabréfinu um greiðslu á 4.277.497 krónum eða samanlagða fjárhæð afborgananna frá 2013 og 2014 og gjaldfelldra eftirstöðva skuldarinnar. Þá krafðist áfrýjandi þess að stefndu Maríu yrði aðallega gert að greiða sér sömu fjárhæð á þeim grunni að ábyrgð hennar frá 27. febrúar 2008 tæki til allra námslána stefndu Höllu, en til vara 618.801 krónu, sem væri fjárhæð námslánsins, sem stefnda Halla fékk samkvæmt áðursögðu 28. febrúar 2008, uppfærð með vísitölu neysluverðs í nóvember 2014 þegar skuldin hafi verið gjaldfelld. Áfrýjandi krafðist þess jafnframt að stefnda Halldóra yrði dæmd til að greiða sér 3.689.159 krónur, en það væri samanlögð fjárhæð námslánanna, sem stefnda Halla hafi fengið fyrir andlát Sveinbjörns G. Guðjónssonar 20. júlí 2007 og hann hafi staðið í ábyrgð fyrir, fyrrgreindar 2.101.232 krónur, færð upp með vísitölu neysluverðs í nóvember 2014. Loks krafðist áfrýjandi þess að stefnda Kristmundi yrði gert að greiða sér 1.559.410 krónur, en það væri fjárhæð ábyrgðarinnar, sem hann gekkst undir 16. júlí 2008, 1.000.000 krónur, uppfærð með vísitölu neysluverðs við höfðun málsins í apríl 2016. Í öllum tilvikum krafðist áfrýjandi þess að stefndu yrði gert að greiða framangreindar fjárhæðir óskipt að því marki, sem þær féllu saman, ásamt dráttarvöxtum en að frádreginni innborgun 2. apríl 2014 að fjárhæð 10.000 krónur. Voru þetta efnislega sömu kröfur og áfrýjandi gerir fyrir Hæstarétti að gættri frekari innborgun, sem getið er hér á eftir. Stefndu Halla og Kristmundur sóttu ekki þing í héraði. Í greinargerð, sem lögð var fram í héraði sameiginlega í þágu stefndu Maríu og Halldóru, krafðist sú fyrrnefnda þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, til vara að hún yrði sýknuð af kröfu áfrýjanda, en að því frágengnu að fjárhæð kröfunnar yrði lækkuð. Þá krafðist stefnda María málskostnaðar úr hendi áfrýjanda. Stefnda Halldóra krafðist á hinn bóginn þess eins að málinu yrði vísað frá dómi. Þessar stefndu féllu frá kröfum sínum um frávísun málsins í þinghaldi í héraði 16. janúar 2017. Að því gerðu hafði stefnda Halldóra engar kröfur uppi í málinu, en þingsókn hennar féll þó ekki niður. Með hinum áfrýjaða dómi voru framangreindar kröfur áfrýjanda á hendur stefndu Höllu og Halldóru teknar að fullu til greina, svo og varakrafa hans á hendur stefndu Maríu, en stefndi Kristmundur var á hinn bóginn sýknaður af kröfu áfrýjanda. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms barst áfrýjanda samkvæmt kvittun, sem hann hefur lagt fram fyrir Hæstarétti, greiðsla 25. ágúst 2017 að fjárhæð 635.242 krónur. Óumdeilt er að stefnda María hafi innt þessa greiðslu af hendi og telur hún sig hafa þannig að fullu staðið skil á kröfunni, sem henni var gert að greiða áfrýjanda með hinum áfrýjaða dómi að meðtöldum dráttarvöxtum. II 1 Stefnda Halla hefur sem áður segir ekki sótt þing í málinu. Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber því að dæma málið að því er hana varðar eftir kröfu áfrýjanda og málatilbúnaði hans að því leyti sem er samrýmanlegt lögum og framkomnum gögnum. Stefnda Halla gaf út skuldabréfið frá 3. febrúar 2006 til áfrýjanda og er höfuðstóll kröfu hans á hendur henni, svo og krafa hans um dráttarvexti, í samræmi við skuldabréfið og önnur gögn málsins. Eru því ekki skilyrði til annars en að taka til greina kröfu áfrýjanda um skyldu stefndu Höllu til að greiða skuld þessa ásamt dráttarvöxtum, allt að frádregnum áðurnefndum innborgunum 2. apríl 2014 og 25. ágúst 2017. Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 voru ekki efni til að fella niður í héraði málskostnað milli stefndu Höllu og áfrýjanda, svo sem gert var í hinum áfrýjaða dómi. Verður hún dæmd til að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir. 2 Stefnda Halldóra hefur sótt þing í málinu í héraði og fyrir Hæstarétti, en eftir að hún féll samkvæmt áðursögðu frá kröfu um frávísun þess í þinghaldi í héraði 16. janúar 2017 hefur hún einskis krafist annars en málskostnaðar hér fyrir dómi. Meta ber þessa þögn stefndu Halldóru gagnvart kröfu áfrýjanda sem samþykki, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991, og fella dóm á kröfuna því til samræmis, sbr. 1. mgr. 98. gr. sömu laga. Um annað en málskostnað verður héraðsdómur þannig staðfestur um skyldu stefndu Halldóru við áfrýjanda, en að því er hana varðar kemur áðurnefnd innborgun 25. ágúst 2017 ekki til frádráttar af ástæðum, sem nánar greinir hér á eftir. Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 voru ekki efni til að fella niður málskostnað í héraði milli stefndu Halldóru og áfrýjanda eins og gert var í hinum áfrýjaða dómi. Hún verður dæmd til að greiða honum málskostnað á báðum dómstigum, sem ákveðinn er í einu lagi eins og segir í dómsorði. 3 Áfrýjandi reisir kröfu sína á hendur stefndu Maríu á fyrrgreindri yfirlýsingu hennar um sjálfskuldarábyrgð frá 27. febrúar 2008. Telur hann yfirlýsinguna fela í sér ábyrgð á allri skuld stefndu Höllu samkvæmt skuldabréfinu frá 3. febrúar 2006, jafnt vegna námslána, sem veitt voru fyrir undirritun yfirlýsingarinnar, og láns, sem greitt var út eftir þann tíma, en hámarksfjárhæð ábyrgðarinnar uppfærð með vísitölu neysluverðs hrökkvi fyrir skuldinni allri. Fyrir Hæstarétti hefur stefnda María fallið frá málsástæðum, sem hún hafði uppi í héraði til stuðnings kröfu um sýknu af kröfu áfrýjanda á hendur sér. Hún byggir á hinn bóginn sem fyrr á því að sjálfskuldarábyrgð sín geti aðeins náð til námsláns, sem stefnda Halla tók eftir að yfirlýsingin frá 27. febrúar 2008 var undirrituð. Þegar afstaða er tekin til umfangs sjálfskuldarábyrgðar stefndu Maríu er til þess að líta að svo sem 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna hljóðaði fyrir breytingu, sem gerð var með 1. gr. laga nr. 78/2009, bar námsmanni, sem fékk lán frá áfrýjanda, að leggja fram yfirlýsingu að minnsta kosti eins manns um að hann tæki á sig sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt vöxtum og verðtryggingu allt að tiltekinni hámarksfjárhæð. Um þetta var nánar mælt svo fyrir í 5. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sem var í gildi við undirritun yfirlýsingar stefndu Maríu 27. febrúar 2008, að námsmaður skyldi láta áfrýjanda í té viðurkenningu eins til tíu manna, sem tækju að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu höfuðstóls skuldabréfs fyrir námsláni, vöxtum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði vegna þess. Gæti hver ábyrgðarmaður takmarkað ábyrgð sína við ákveðna fjárhæð, en miða skyldi við „að samtala sjálfskuldarábyrgða sé sem næst þeirri upphæð sem námsmaður hyggst taka að láni til þess að ljúka námi sínu.“ Að auki er þess að gæta að á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992 setti stjórn áfrýjanda á því tímabili, sem málið varðar, úthlutunarreglur fyrir einstök skólaár, sem menntamálaráðherra staðfesti og birtar voru í B-deild Stjórnartíðinda í auglýsingum nr. 483/2005, 443/2006, 467/2007 og 511/2008. Ákvæði þessara reglna voru í öllum tilvikum samhljóða um að útborgun námsláns væri háð því að lántaki hafi undirritað skuldabréf til áfrýjanda og tryggt lánið með sjálfskuldarábyrgð eða veði. Sjálfskuldarábyrgð skyldi bundin við ákveðna hámarksfjárhæð, sem tæki breytingum eftir vísitölu neysluverðs, auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar. Ætti einn maður að lágmarki að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir lántaka og yrði hann að jafnaði að vera íslenskur ríkisborgari með lögheimili hér á landi, en óheimilt væri að samþykkja ábyrgð manns, sem væri á vanskilaskrá eða stjórn áfrýjanda teldi af öðrum ástæðum bersýnilega ótryggan ábyrgðarmann. Breyttist staða ábyrgðarmanns þannig að hann teldist ekki lengur uppfylla þessi skilyrði bar lántaka að fá nýjan ábyrgðarmann fyrir námsláni sínu áður en hann fengi frekara lán og ábyrgðist þá sá nýi lán, sem lántakinn kynni að fá til viðbótar. Þá var tekið fram að við andlát ábyrgðarmanns gæti lántaki fengið nýjan ábyrgðarmann, en að öðrum kosti félli skuldbinding á erfingja ábyrgðarmanns, enda ábyrgðust þeir skuldir dánarbús hans. Af framangreindum ákvæðum laga og stjórnvaldsfyrirmæla verður ekki annað ráðið en að á þeim tíma, sem stefnda Halla tók námslánin sem málið varðar, hafi verið gengið út frá því að sjálfskuldarábyrgðarmaður fyrir slíkri skuld við áfrýjanda skyldi almennt vera einn ef lán næmi ekki hærri fjárhæð en annaðhvort hámarki samkvæmt úthlutunarreglum áfrýjanda eða því takmarki, sem ábyrgðarmaður kynni að hafa sett ábyrgð sinni í einstöku tilviki. Færi fjárhæð láns á hinn bóginn á annan hvorn veg fram úr þeim mörkum yrðu ábyrgðarmenn að vera tveir eða fleiri, en þó hver þeirra fyrir tiltekinni fjárhæð þannig að til samans nægðu ábyrgðir þeirra allra fyrir heildarfjárhæð skuldar, sbr. fyrrnefnda 5. gr. reglugerðar nr. 602/1997. Við andlát ábyrgðarmanns væri um þá tvo kosti að velja að annaðhvort yrði fenginn nýr ábyrgðarmaður fyrir allri skuldinni eða ábyrgðin félli á erfingja þess látna. Að öðru leyti var hvergi ráðgert að nýr ábyrgðarmaður yrði fenginn fyrir láni, sem þegar hefði verið veitt, nema fyrri ábyrgðarmaður uppfyllti ekki lengur áðurgreind skilyrði um ríkisfang, búsetu hér á landi og greiðslugetu, en þegar svo væri ástatt yrði ný ábyrgð að taka jöfnum höndum til eldra láns og yngra. Eftir gögnum málsins voru þessar síðastgreindu aðstæður ekki fyrir hendi hér. Þegar áðurgreindur texti í yfirlýsingunni, sem stefnda María undirritaði 27. febrúar 2008, er virtur í þessu ljósi verður að skilja hann á þann veg að sjálfskuldarábyrgðinni, sem hún gekkst þar undir, hafi aðeins verið ætlað að taka við þar sem sleppti eldri ábyrgð, sem þá var komin á herðar stefndu Halldóru, og ná þannig til skulda, sem stefnda Halla stofnaði til við áfrýjanda með nýjum námslánum eftir þann tíma. Óumdeilt er að höfuðstóll skuldar stefndu Höllu við áfrýjanda vegna námsláns, sem hún fékk eftir 27. febrúar 2008, hafi með verðbótum numið 618.801 krónu, en í héraði krafðist áfrýjandi þess til vara að stefndu Maríu yrði gert að greiða sér þá fjárhæð með dráttarvöxtum frá uppsögu dóms. Sú krafa var sem fyrr segir tekin til greina. Stefnda María innti af hendi áðurnefnda greiðslu til áfrýjanda 25. ágúst 2017 á 635.242 krónum og getur sú fjárhæð ekki komið til frádráttar skuld annarra en hennar og aðalskuldarans, stefndu Höllu, enda ber stefnda María að þessu frágengnu ekki óskipta ábyrgð með öðrum stefndu. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest að því er stefndu Maríu varðar, þar á meðal um málskostnað, en þó að teknu tilliti til fyrrnefndrar innborgunar hennar til áfrýjanda. Verður honum gert að greiða henni málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. 4 Stefndi Kristmundur hefur eins og fyrr segir ekki sótt þing í málinu og ber því samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 að dæma málið eftir kröfu áfrýjanda og málatilbúnaði hans að því leyti sem er samrýmanlegt lögum og framkomnum gögnum. Krafa áfrýjanda á hendur stefnda Kristmundi er reist á yfirlýsingu hans um sjálfskuldarábyrgð frá 16. júlí 2008, en áfrýjandi telur þá ábyrgð taka til kröfu sinnar á hendur stefndu Höllu án tillits til þess hvenær stofnað var til einstakra hluta skuldarinnar, allt að tilgreindri hámarksfjárhæð ábyrgðarinnar, sem hann kveður nema 1.559.410 krónum. Svo sem áður hefur verið lýst var tekið fram í yfirlýsingu þessari að hún hafi verið gerð í tilefni af því að ábyrgð hafi vantað „vegna væntanlegra lána“. Fyrir liggur að stefnda Halla stofnaði ekki til skuldar við áfrýjanda vegna nýrra námslána eftir að ábyrgð þessi var veitt. Að gættu þessu ásamt því, sem áður var rakið um réttarheimildir um ábyrgðarskuldbindingar við áfrýjanda, á krafa hans á hendur stefnda Kristmundi ekki stoð í lögum og gögnum málsins. Verður því þrátt fyrir útivist stefnda Kristmundar í málinu að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sýknu hans af kröfu áfrýjanda. Málskostnaður milli áfrýjanda og stefnda Kristmundar verður ekki dæmdur. Dómsorð: Stefnda Halla Sigrún Sveinbjörnsdóttir greiði áfrýjanda, Lánasjóði íslenskra námsmanna, 4.277.497 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 119.554 krónum frá 1. mars 2013 til 1. mars 2014, af 243.059 krónum frá þeim degi til 4. desember 2014, en af 4.277.497 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 2. apríl 2014 að fjárhæð 10.000 krónur og 25. ágúst 2017 að fjárhæð 635.242 krónur. Stefnda Halldóra Jóna Sölvadóttir greiði áfrýjanda óskipt með stefndu Höllu 3.689.159 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 119.554 krónum frá 1. mars 2013 til 1. mars 2014, af 243.059 krónum frá þeim degi til 4. desember 2014, en af 3.689.159 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 2. apríl 2014 að fjarhæð 10.000 krónur. Stefnda María Guðrún Guðjónsdóttir greiði áfrýjanda óskipt með stefndu Höllu 618.801 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. júní 2017 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 25. ágúst sama ár að fjárhæð 635.242 krónur. Héraðsdómur skal vera óraskaður um sýknu stefnda Kristmundar Magnússonar af kröfu áfrýjanda. Stefndu Halla og Halldóra greiði óskipt áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað eru að öðru leyti staðfest. Áfrýjandi greiði stefndu Maríu 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2017 Mál þetta, sem dómtekið var 17. maí 2017, var höfðað með stefnum birtum dagana 4. maí 2016, 18. maí s.á. og 20. maí s.á. af hálfu Lánasjóðs íslenskra námsmanna, Borgartúni 21, Reykjavík, á hendur Höllu Sigrúnu Sveinbjörnsdóttur, Norðurtúni 27, Egilsstöðum, Kristmundi Magnússyni, til heimilis að sama stað, Maríu Guðrúnu Guðjónsdóttur, Laugarnesvegi 40, Reykjavík og Halldóru Jónu Sölvadóttur, Hlíðarhjalla 73, Kópavogi. Stefnandi gerir þessar endanlegu dómkröfur, aðallega; að stefnda Halla Sigrún og stefnda María Guðrún verði dæmdar til að greiða stefnanda óskipt 4.277.497 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 119.554 krónum frá 1. mars 2013 til 1. mars 2014, af 243.059 krónum frá 1. mars 2014 til 4. desember 2014, en af 4.277.497 krónum frá 4. desember 2014 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun þann 2. apríl 2014 að fjárhæð 10.000 krónur, sem dragast skal frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi; að stefnda Halldóra Jóna verði dæmd til að greiða stefnanda 3.689.159 krónur af heildarskuldinni óskipt með stefndu Höllu Sigrúnu og stefndu Maríu Guðrúnu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 119.554 krónum frá 1. mars 2013 til 1. mars 2014, af 243.059 krónum frá 1. mars 2014 til 4. desember 2014, en af  3.689.159 krónum frá 4. desember 2014 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun þann 2. apríl 2014 að fjárhæð 10.000 krónur, sem dragast skal frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi; að stefndi Kristmundur verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.559.410 krónur af heildarskuldinni óskipt með stefndu Höllu Sigrúnu, stefndu Maríu Guðrúnu og stefndu Halldóru Jónu, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 119.554 krónum frá 1. mars 2013 til 1. mars 2014, af 243.059 krónum frá 1. mars 2014 til 4. desember 2014, en af 1.559.410 krónum frá 4. desember 2014 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun þann 2. apríl 2014 að fjárhæð 10.000 krónur, sem dragast skal frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Til vara krefst stefnandi þess að stefndu Maríu Guðrúnu verði gert að greiða stefnanda 618.801 krónu af skuldinni óskipt með Höllu Sigrúnu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags. Að auki krefst stefnandi málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, að mati réttarins. Af hálfu stefndu Höllu Sigrúnar Sveinbjörnsdóttur og stefnda Kristmundar Magnússonar var þing ekki sótt við þingfestingu og tóku þau ekki til varna í málinu.  Af hálfu stefndu Maríu Guðrúnar Guðjónsdóttur og stefndu Halldóru Jónu Sölvadóttur var tekið til varna. Í greinargerð kröfðust þær þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en fallið var frá þeirri kröfu í þinghaldi 16. janúar 2017. Stefnda Halldóra Jóna krafðist í greinargerð auk þess málskostnaðar, en hún féll frá þeirri kröfu við aðalmeðferð málsins og gerir engar kröfur í málinu. Endanlegar dómkröfur stefndu Maríu Guðrúnar eru aðallega krafa um að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Til vara gerir stefnda María Guðrún þá kröfu að krafa stefnanda á hendur henni verði lækkuð verulega. Þá krefst hún málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda að mati dómsins. Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna Mál þetta snýst um innheimtu námsláns sem stefnandi veitti stefndu Höllu Sigrúnu Sveinbjörnsdóttur samkvæmt lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Stefnda Halla Sigrún gaf út skuldabréf vegna námsláns, nr. G-065350, 3. febrúar 2006 og var fjárhæð heildarskuldar, sem færð var inn á skuldabréfið við námslok, 3.424.182 krónur miðað við grunnvísitöluna 336,0. Lokunardagur skuldabréfsins var 29. júní 2009 og skyldu afborganir hefjast tveimur árum síðar, eða 30. júní 2011. Afborganir af láninu hafa verið í vanskilum frá 1. mars 2013 og kveður stefnandi gjaldfallin vanskil afborgana samtals vera að fjárhæð 243.059 krónur. Lánið var allt gjaldfellt 4. nóvember 2014 og voru eftirstöðvar þess þá 4.034.438 krónur miðað við vísitölu 422,6 og 1% vexti. Dómkröfur stefnanda á hendur stefndu Höllu Sigrúnu eru um greiðslu á heildarskuldinni, samtals að höfuðstól 4.277.497 krónur. Sveinbjörn G. Guðjónsson, faðir lántakans stefndu Höllu Sigrúnar, tók með áritun sinni á skuldabréfið á sig sjálfskuldarábyrgð á láninu fyrir allt að 6.500.000 krónum, miðað við vísitölu 240,7. Hann lést 20. júlí 2007 og fékk eftirlifandi eiginkona hans, stefnda Halldóra Jóna Sölvadóttir, í kjölfarið leyfi til setu í óskiptu búi. Með því tók stefnda Halldóra Jóna á sig umrædda skuldbindingu Sveinbjörns gagnvart stefnanda, en hámark ábyrgðar hans var jafnframt fært niður í þá fjárhæð sem námslánið stóð í um það leyti sem hann féll frá. Endanlegar dómkröfur stefnanda á hendur stefndu Halldóru Jónu taka mið af þeirri skuldbindingu uppreiknaðri miðað við gjaldfellingardag lánsins, sem þá nam 3.689.159 krónum. Í kjölfar andláts Sveinbjörns var stefnda Halla Sigrún upplýst um að ekki yrði um frekari greiðslur að ræða til hennar frá stefnanda nema nýr aðili gengist í ábyrgð. Óskaði stefnda Halla Sigrún eftir því við föðursystur sína, stefndu Maríu Guðrúnu Guðjónsdóttur, að hún gerði það og undirritaði stefnda María Guðrún 27. febrúar 2008 „yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna námsláns til viðbótar við fyrri sjálfskuldarábyrgð“. Í yfirlýsingunni kemur fram að tilefni ábyrgðar sé að ábyrgð vanti þar sem fjárhæð eldri ábyrgðar hafi verið takmörkuð eða felld niður. Þar segir að staða takmarkaðrar ábyrgðarfjárhæðar Sveinbjörns sé 2.460.022 krónur miðað við vísitöluna 281,8 og þar segir að unnt sé að veita viðbótarábyrgð m.a. með undirskrift ábyrgðarmanns. Höfuðstóll sjálfskuldarábyrgðar miðist við vísitölu neysluverðs og var fjárhæð þeirrar ábyrgðar sem stefnda María Guðrún undirritaði þrjár milljónir króna miðað við vísitöluna 271,0. Daginn eftir, 28. febrúar 2008, greiddi stefnandi stefndu Höllu Sigrúnu síðustu útborgun námsláns hennar, að fjárhæð 413.264 krónur, sem uppreiknuð miðað við vísitölu við gjaldfellingu lánsins nemur 618.801 krónu. Aðalkrafa stefnanda á hendur stefndu Maríu Guðrúnu miðast við að hún beri óskipta ábyrgð með lántaka á greiðslu heildarskuldarinnar, sem rúmist innan uppreiknaðrar tilgreindrar ábyrgðarfjárhæðar. Stefnda María Guðrún heldur því fram að sjálfskuldarábyrgð hennar geti ekki tekið til annarra hluta námslánsins en þess sem greitt var út eftir að hún tókst hana á hendur. Ágreiningur hennar og stefnanda snýst að mestu um þetta. Varakrafa stefnanda tekur mið af þessari málsástæðu stefndu, en hún krefst aðallega sýknu, en lækkunar til vara. Þó að ekki hafi orðið af frekari töku námsláns stefndu Höllu Sigrúnar eftir 28. febrúar 2008 stóð hugur hennar til frekara náms. Með nýrri „yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna námsláns til viðbótar við fyrri sjálfskuldarábyrgð“, dags. 16. júlí 2008, tókst eiginmaður stefndu Höllu Sigrúnar, stefndi Kristmundur Magnússon, á hendur sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð ein milljón króna miðað við vísitölu 271,0. Í skjalinu er staða ábyrgða Sveinbjörns heitins og stefndu Maríu Guðrúnar tilgreind og þar kemur fram að tilefni viðbótarábyrgðar sé að ábyrgð vanti vegna væntanlegra lána, sbr. lánsáætlun. Dómkröfur stefnanda á hendur stefnda Kristmundi miðast við að hann beri óskipta ábyrgð á greiðslu skuldarinnar með lántaka og öðrum ábyrgðarmönnum að því marki sem ábyrgð hans nægi til, sem uppreiknuð var 1.559.410 krónur að höfuðstól við gjaldfellingu lánsins. Við aðalmeðferð málsins gáfu hjónin stefnda Halla Sigrún og stefndi Kristmundur, sem búsett eru á Egilsstöðum, aðilaskýrslur í síma. Kom þá fram í máli stefnda Kristmundar að hann teldi sig ekki standa í skuld við stefnanda. Málsástæður og lagarök stefnanda Í samræmi við lög nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, hafi stefnda Halla Sigrún gefið út skuldabréf 3. febrúar 2006 þar sem hún viðurkenni að skulda stefnanda 3.424.182 krónur, m.v. grunnvísitölu 336,0. Sveinbjörn G. Guðjónsson hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins fyrir fjárhæð allt að 6.500.000 krónum, m.v. vísitölu 240,7,0. Sveinbjörn hafi látist 20. júlí 2007. Samkvæmt yfirliti um framvindu skipta á dánarbúi Sveinbjörns, hafi sýslumaðurinn í Kópavogi veitt Halldóru Jónu Sölvadóttur leyfi til setu í óskiptu búi 16. ágúst 2007. Samkvæmt 12. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, beri hún ábyrgð á skuldum hins látna sem um hennar eigin skuldir væri að ræða. Henni sé því stefnt í máli þessu. Stefnda María Guðrún hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins fyrir fjárhæð allt að 3.000.000 króna, m.v. vísitölu 271,0. Stefndi Kristmundur hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins fyrir fjárhæð allt að 1.000.000 króna, m.v. vísitölu 271,0. Þá hafi ábyrgðirnar tekið til greiðslu vaxta, verðbóta, dráttarvaxta og alls kostnaðar ef vanskil skyldu verða. Skuldabréfið sé verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs en verðtrygging lánsins reiknist frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að lánið sé tekið eða einstakir hlutar þess greiddir út til fyrsta dags þess mánaðar eftir að greiðsla fari fram. Lánið beri breytilega vexti sem séu 1% samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 478/2011 og reiknist frá námslokum.  Um endurgreiðslu á láninu fari samkvæmt lögum nr. 21/1992, ásamt síðari breytingum. Endurgreiðslan hefjist tveimur árum eftir námslok lántakanda. Árleg endurgreiðsla skuldabréfsins ákvarðist í tvennu lagi, þ.e. annars vegar sé föst ársgreiðsla með gjalddaga 1. mars ár hvert, sem taki breytingum í hlutfalli við neysluvísitölu og hins vegar sé tekjutengd ársgreiðsla með gjalddaga 1. september ár hvert, sem sé ákveðið hlutfall af tekjustofni lánþega árið á undan, að frádreginni föstu greiðslunni. Afborganir lánsins hafi verið í vanskilum frá 1. mars 2013 og séu gjaldfallin vanskil samtals að fjárhæð 243.059 krónur. Samkvæmt heimild í skuldabréfinu sjálfu hafi lánið verið gjaldfellt miðað við 4. nóvember 2014 vegna verulegra vanskila skuldara en þá hafi eftirstöðvar skuldarinnar verið 4.034.438 krónur, m.v. vísitölu 422,6 og 1% vexti. Nánari sundurliðun stefnukröfunnar sé þessi: Gjaldfallin afborgun             pr. 30.06.2013                                    kr.             119.148,-                                   pr. 01.03.2014                                    kr.             123.505,- Samtals                                                                                  kr.             243.059.- Eftirstöðvar                            pr. 04.11.2014                                    kr.           4.034.438,- Samtals                                                                                  kr.         4.277.497,- Inn á skuldina hafi verið greiddar 10.000 krónur, sem tekið hafi verið tillit til í dómkröfum. Sveinbjörn G. Guðjónsson hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir fjárhæð allt að 6.500.000 krónum miðað við grunnvísitölu 240,7. Í kjölfar andláts hans, eða þann 2. ágúst 2007, hafi hámark ábyrgðar hans verið fært niður í þá fjárhæð sem ábyrgð hans hafi numið þann dag eða 2.101.232 krónur. Við gjaldfellingu lánsins 4. nóvember 2014 hafi umrædd sjálfskuldarábyrgð numið 3.689.159 krónum, uppreiknað miðað við vísitölu neysluverðs í nóvember 2014, 422,6. Stefndu Halldóru Jónu sé því stefnt til greiðslu skuldarinnar að sínum hluta óskipt með stefndu Höllu Sigrúnu og Maríu Guðrúnu. Stefnda María Guðrún hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir samtals allt að 4.773.432 krónum, uppreiknað m.v. vísitölu neysluverðs í apríl 2016, 431,2. Stefndu Maríu Guðrúnu sé því stefnt til greiðslu skuldarinnar óskipt með stefndu Höllu Sigrúnu. Stefndi Kristmundur hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir samtals allt að 1.591.144 krónum, uppreiknað m.v. vísitölu neysluverðs í apríl 2016, 431,2. Stefnda Kristmundi sé því stefnt til greiðslu skuldarinnar að sínum hluta óskipt með stefndu Höllu Sigrúnu, Halldóru Jónu og Maríu Guðrúnu. Ábyrgð hans hafi numið 1.559.410 krónum, þegar lánið hafi verið gjaldfellt uppreiknað m.v. vísitölu neysluverðs í nóvember 2014, 422,6. Stefnandi vísi til laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum, sem og til reglugerðar nr. 478/2011 og til úthlutunarreglna Lánasjóðs íslenskra námsmanna, sem í gildi séu á hverjum tíma. Þá sé enn fremur vísað til almennra reglna kröfu- og samningaréttarins, um greiðslu fjárskuldbindinga. Um dráttarvaxtakröfu sé vísað til III. og V. kafla laga nr. 38/2001. Jafnframt sé vísað til erfðalaga nr. 8/1962, einkum til 12. gr. laganna. Varðandi varnarþing sé vísað til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en málið sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt sérstöku ákvæði í skuldabréfinu sjálfu. Varðandi kröfu um málskostnað sé vísað til 129. og 130. gr. laga 91/1991, um meðferð einkamála, og sé krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Stefnda María Guðrún skoraði í greinargerð á stefnanda að hann legði fram gögn um það hvernig greiðslum til lántaka hafi verið háttað og vakti athygli á því að ekki hafi verið sýnt fram á að stefnda Halla Sigrún hefði fengið greiðslur frá stefnanda eftir að stefnda María Guðrún undirritaði yfirlýsingu sína um sjálfskuldarábyrgð. Við meðferð málsins lagði stefnandi af þessu tilefni fram gögn um síðustu útborgun námslánsins til stefndu Höllu Sigrúnar þann 28. febrúar 2008. Fjárhæð varakröfu stefnanda, sem fram kom við aðalmeðferð málsins, miðast við þá útborgun. Málsástæður og lagarök stefndu Maríu Guðrúnar Guðjónsdóttur Stefnda María Guðrún tókst ekki á hendur sjálfskuldaábyrgð vegna alls námslánsins Stefnda María Guðrún byggi sýknukröfu sína í fyrsta lagi á þeirri málsástæðu að hún hafi ekki tekið á sig sjálfsskuldarábyrgð á umræddu námsláni óskipt með stefndu Halldóru Jónu líkt og málatilbúnaður stefnanda beri með sér. Ljóst sé að stefnandi hafi veitt henni rangar og villandi upplýsingar um þá skuldbindingu sem hún hafi gengist undir er hún hafi samþykkt ábyrgðina. Henni hafi verið kynnt að hún væri að gangast í svokallaða viðbótarábyrgð eða viðbót við þá ábyrgð sem fyrir hafi verið. Hún hafi vitað að upphaflegur ábyrgðarmaður hafi verið látinn og að eiginkona hans, stefnda Halldóra Jóna, hefði erft ábyrgðina að fjárhæð sem ábyrgðin hafi numið þegar ábyrgðarmaðurinn hafi fallið frá. Stefnda María Guðrún hafi talið að hin takmarkaða ábyrgð stæði í 2.464.386 krónum, enda hafi sú fjárhæð verið tilgreind sem „takmörkuð ábyrgðarfjárhæð“ í ábyrgðaryfirlýsingu þeirri er hún hafi undirritað. Þar komi jafnframt fram að viðbótarábyrgð sé veitt af því tilefni að ábyrgð hafi vantað þar sem fjárhæð eldri ábyrgðar hefði verið takmörkuð. Stefnda María Guðrún hefði aldrei samþykkt að gangast í ábyrgð fyrir allt 3.000.0000 króna, samhliða upphaflegum ábyrgðarmanni, enda hafi hún haldið að hún væri aðeins að gangast í ábyrgð fyrir lítilli viðbót sem vantað hafi upp á. Viðbótin kæmi að öllum líkindum aldrei til með að ná upp í 3.000.000 króna, sem sé sú ábyrgðarfjárhæð sem tilgreind hafi verið á pappírum. Ábyrgðaryfirlýsing hennar hafi borið yfirskriftina Sjálfskuldarábyrgð vegna námsláns - til viðbótar við fyrri sjálfskuldarábyrgð sem sé ómögulegt að skilja á annan hátt en stefnda hafi gert. Með vísan til framangreinds og þess að gögn málsins og ákvæði útlánareglna stefnanda beri öll með sér að ábyrgð stefndu Maríu Guðrúnar hafi aðeins tekið til þeirra námslána sem stefnda Halla Sigrún hafi átt eftir að fá þegar ábyrgðaryfirlýsing hafi verið undirrituð í febrúar 2008 beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda. Stefnandi fór gegn eigin úthlutunarreglum Kröfu sína um sýknu byggi stefnda María Guðrún í öðru lagi á því að verði talið að ábyrgðaryfirlýsing hennar taki að efni sínu til alls námsláns stefndu Höllu Sigrúnar brjóti öflun ábyrgða í bága við útlánareglur þær sem stefnandi hafi sjálfur sett sér. Í úthlutunarreglum stefnanda fyrir árin 2007-2008 og 2008-2009, sé í ákvæði 5.3.2. fjallað um þau skilyrði sem ábyrgðarmenn þurfi að uppfylla. Þar komi m.a. fram að einn ábyrgðarmaður skuli að lágmarki takast á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir lántakanda, ábyrgðarmenn skuli að jafnaði vera íslenskir ríkisborgarar með lögheimili á Íslandi, ekki á vanskilaskrá eða í vanskilum við sjóðinn eða bú þeirra í, eða verið tekið til gjaldþrotameðferðar. Fram komi að breytist staða ábyrgðarmanns þannig að hann teljist ekki lengur uppfylla framangreind skilyrði skuli lántakandi útvega nýjan ábyrgðarmann fyrir námsláni sínu áður en hann fái frekari lán afgreidd hjá sjóðnum. Þá segi í ákvæðinu að hinn nýi ábyrgðarmaður ábyrgist allt það lán sem lántakandi kunni að fá til viðbótar og að eldri ábyrgð falli ekki úr gildi nema henni sé sagt upp og ný sett í staðinn. Ábyrgð Sveinbjarnar hafi ekki verið felld úr gildi heldur takmörkuð. Eðli málsins samkvæmt hafi það því verið skilningur stefndu Maríu Guðrúnar allt frá upphafi að stefnda Halldóra Jóna bæri ábyrgð á greiðslu lánsins upp að 2.454.386 krónum og að hún sjálf bæri ábyrgð á allt að 3.000.000 króna, umfram þá ábyrgð. Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 478/2011, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, geti ábyrgðarmenn takmarkað ábyrgð sína við ákveðna fjárhæð. Í þessum tilvikum skuli miða við að samtala sjálfskuldarábyrgða sé sem næst þeirri upphæð sem námsmaður hyggist taka að láni til þess að ljúka námi sínu. Því sé ljóst að reglugerðin geri ráð fyrir að séu ábyrgðarmenn fleiri en einn ábyrgist þeir hver sinn hluta heildarfjárhæðar lánsins en ekki allt lánið óskipt. Stefnandi hafi því krafist ábyrgða frá stefndu langt umfram þá fjárhæð sem nauðsynleg hafi verið. Í grein 5.3.3 útlánareglna stefnanda sé sérstaklega fjallað um hvernig skuli haldið á málum við þær aðstæður er ábyrgðarmaður láti lífið. Þar segi orðrétt: „Látist ábyrgðarmaður getur lántakandi útvegað nýjan ábyrgðarmann sem uppfyllir ofangreind skilyrði en að öðrum kosti taka erfingjar hins látna við ábyrgðinni eftir almennum reglum ef erfingjar hafa á annað borð tekið á sig ábyrgð á skuldum dánarbúsins.“ Ljóst sé því að útlánareglur stefnanda geri ráð fyrir því að láti ábyrgðarmaður lífið hafi stefnandi þá tvo valkosti í stöðunni að erfingjar taki við ábyrgðinni eftir almennum reglum eða að nýr ábyrgðarmaður sé fenginn í stað hins látna. Þessari reglu hafi ekki verið fylgt. Stefndu hafi verið veittar rangar upplýsingar þegar gerð sé krafa um viðbótarábyrgð, samhliða því sem stefnandi kjósi að halda uppi kröfu á hendur erfingja hins látna ábyrgðarmanns á grundvelli setu hennar í óskiptu búi. Ljóst sé að stefnandi hafi ekki fylgt þeim úthlutunarreglum sem hann hafi sjálfur sett sér og vísað sé til í stefnu málsins. Þvert á móti hafi þær verið brotnar. Stefndu öllum hafi verið veittar misvísandi og rangar upplýsingar um þær kröfur sem stefnandi geri varðandi útvegun ábyrgða, þær reglur sem gildi er ábyrgðarmaður láti lífið og umfang ábyrgða sem viðbótarábyrgðarmönnum beri að takast á hendur. Stefnda María Guðrún byggi því á því, með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, að víkja beri til hliðar ábyrgðarskuldbindingu hennar í heild enda ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju fyrir stefnanda að bera hana fyrir sig. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skuli við mat samkvæmt 1. mgr. líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Stefnandi sé í yfirburðastöðu gagnvart henni sem lánastofnun sem sinni lögbundnu hlutverki við veitingu námslána og beri skylda til að starfa í samræmi við lög, reglur og þær úthlutunarreglur sem gildi á hverjum tíma. Atvik hafi verið með þeim hætti að tilefni hafi verið til fyrir stefnanda með hliðsjón af úthlutunarreglum að útskýra stöðu stefndu vandlega. Það hafi ekki verið gert við samningsgerðina heldur þvert á móti hafi stefnda fengið misvísandi og rangar upplýsingar, auk þess sem skjöl þau sem hún hafi undirritað og útbúin hafi verið einhliða af stefnanda séu ófullnægjandi, villandi og ekki í samræmi við úthlutunarreglur. Loks hafi öflun enn nýs ábyrgðarmanns aðeins sex mánuðum eftir að stefnda María Guðrún hafi tekist á hendur ábyrgð gjörbreytt þeim forsendum sem hún hafi haft fyrir ábyrgð þeirri sem hún hafi verið reiðubúin að veita. Hún fari því fram á að hún verði sýknuð í máli þessu á þeim grundvelli að ábyrgðaryfirlýsing hennar frá 27. febrúar 2008 sé ógild með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Til vara krefjist stefnda María Guðrún þess að dómkrafa stefnanda verði lækkuð umtalsvert. Vísað sé til allra sömu málsástæðna og raktar hafi verið varðandi kröfu um sýknu að breyttu breytanda. Þess sé krafist að henni verði aðeins gert að bera ábyrgð á greiðslu umræddrar skuldar umfram þá fjárhæð sem þegar hafi verið tryggð þegar stefnda María Guðrún hafi undirritað ábyrgðaryfirlýsingu sína. Byggt sé á sömu málsástæðum og í aðalkröfu varðandi ógildingu á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Með vísan til sinnuleysis stefnanda á að viðhafa þá vönduðu viðskiptahætti sem mælt sé fyrir um í úthlutunarreglum, og skyldu til að upplýsa stefndu vandlega um innihald ábyrgðaryfirlýsingar sinnar, telji stefnda að lækka beri dómkröfur stefnanda verulega með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Slíka heimild sé að finna í lagaákvæðinu. Enda yrði talið verulega ósanngjarnt með vísan til málsatvika að stefnandi beri samning þennan fyrir sig að öllu leyti. Í ljósi alls framangreinds, og með vísan til þess að stefnda hafi aldrei verið krafin um þá fjárhæð sem hún sannanlega hafi gengist í ábyrgð fyrir, sé þess krafist að dráttarvextir verði fyrst dæmdir frá dómsuppsögudegi. Þá séu kröfur stefnanda bæði óljósar og háðar verulegum vafa sem gert hafi stefndu nauðsynlegt að taka til varna. Ósanngjarnt væri ef stefnandi nyti þess í formi dráttarvaxta. Um lagarök vísi stefnda til laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr. laganna. Þá vísi stefnda til meginreglna samninga-, kröfu- og neytendaréttar, sbr. og meginreglna fjármálaréttar um upplýsingaskyldu og leiðbeiningarskyldu fjármálastofnana. Vegna málskostnaðarkröfu vísi stefnda til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Gerð sé krafa um að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefndu til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns. Niðurstaða Málsatvikum er lýst í sérstökum kafla hér að framan og vísast til þess sem þar kemur fram. Í málinu er óumdeilt að lántaki, stefnda Halla Sigrún, hefur ekki staðið skil á endurgreiðslu námsláns síns hjá stefnanda og ekki er deilt um heimild stefnanda til gjaldfellingar lánsins og innheimtu hjá henni. Stefnda Halla Sigrún tók ekki til varna í málinu og verður fallist á kröfur stefnanda á hendur henni, sem samrýmanlegar eru gögnum málsins, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, svo sem nánar greinir í dómsorði. Stefnda Halldóra Jóna hefur ekki mótmælt því að hún beri óskipta ábyrgð með lántaka á endurgreiðslu lánsins að þeirri fjárhæð sem stefnandi krefst endanlega. Sú ábyrgð byggist á sjálfskuldarábyrgð látins eiginmanns hennar, sem hún situr í óskiptu búi eftir. Verður með vísun til 3. mgr. 96. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, fallist á kröfur stefnanda á hendur stefndu Halldóru Jónu, svo sem í dómsorði greinir. Í málinu er um það deilt að hvaða marki ábyrgðarmenn skuli bera óskipta ábyrgð á endurgreiðslu námsláns með lántaka og hver með öðrum. Í kröfugerð stefnanda felst að þeir ábyrgðarmenn sem ábyrgst hafi lántöku stefndu Höllu Sigrúnar hjá stefnanda hafi ekki aðeins ábyrgst endurgreiðslu óskipt með henni heldur einnig hver með öðrum á allri lánsfjárhæðinni að hámarki ábyrgðar sinnar. Við málflutning var um þetta af hálfu stefnanda vísað til greinar 5.3.3 í úthlutunarreglum stefnanda frá árunum 2007 til 2009 þar sem segir að ábyrgðarmenn beri óskipta sameiginlega ábyrgð gagnvart sjóðnum, en þeir beri jafna ábyrgð sín á milli allt að tilteknu hámarki hvers og eins. Í 5. gr. þágildandi reglugerðar um stefnanda, nr. 602/1997, sbr. nú reglugerð nr. 478/2011, kemur fram að séu ábyrgðarmenn fleiri en einn geti sjálfskuldarábyrgð hvers þeirra takmarkast við tiltekna fjárhæð. Þar segir jafnframt að miða skuli við að samtala sjálfskuldarábyrgða sé sem næst þeirri upphæð sem námsmaður hyggist taka að láni til að ljúka námi sínu. Í fyrrnefndum úthlutunarreglum stefnanda segir í grein 5.3.2 að ef staða ábyrgðarmanns breytist þannig að hann teljist ekki lengur uppfylla skilyrði þá skuli lántakandi útvega nýjan ábyrgðarmann fyrir námsláni sínu áður en hann fái frekari lán afgreidd hjá sjóðnum. Þá ábyrgist hinn nýi ábyrgðarmaður allt það lán sem lántakandi kunni að fá til viðbótar. Þær aðstæður voru fyrir hendi í máli þessu að einn ábyrgðarmaður undirritaði skuldabréfið með lántaka og ábyrgðist hann lántökur hennar allt að 6.500.000 krónum. Sú ábyrgð var takmörkuð við þá fjárhæð sem lánið stóð í þegar ábyrgðarmaðurinn féll frá og tók ekkja hans að sér þá sjálfskuldarábyrgð, sem þá var rúmar tvær milljónir króna. Með þeim viðbótarábyrgðum sem stefnandi krafðist fyrir frekari greiðslum, fyrir allt að þremur milljónum króna frá stefndu Maríu Guðrúnu og allt að einni milljón frá stefnda Kristmundi, var samtala ábyrgða á ný orðin sem næst upphaflegri áætlun um lántöku, sbr. fyrrnefnt reglugerðarákvæði. Verður ekki annað ráðið en að í samræmi við gildandi reglur hafi stefnandi þá verið tilbúinn til að greiða lántaka alla þá fjárhæð á grundvelli fyrirliggjandi ábyrgða. Upphafleg áætlun um lántöku gekk ekki eftir en stefnandi freistar þess með kröfugerð sinni að nýta fyrirliggjandi viðbótarábyrgðir, sem tóku mið af þeirri áætlun, til þess að tví- og þrítryggja sjálfskuldarábyrgð fyrir endurgreiðslu þess námsláns sem veitt var. Þessari kröfugerð hafnar stefnda María Guðrún. Stefnda Halla Sigrún gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Í máli hennar kom m.a. fram að eftir andlát föður hennar hefði greiðslum stefnanda til hennar verið hætt. Hún hafi fengið þær upplýsingar frá stefnanda að ábyrgð dánarbús hans hefði verið takmörkuð við þau námslán sem hún hefði þegar fengið og að hún yrði að fá nýjan ábyrgðarmann til að ábyrgjast frekari lántökur. Að fengnum upplýsingum hjá starfsmönnum stefnanda og eftir að hafa kynnt sér úthlutunarreglur sjóðsins hafi hún leitað til föðursystur sinnar, stefndu Maríu Guðrúnar, með ósk um að hún ábyrgðist þær lántökur hennar sem eftir kæmu hjá stefnanda. Hún hafi fallist á það og undirritað það skjal um sjálfskuldarábyrgð, til viðbótar við fyrri sjálfskuldarábyrgð, sem fyrir liggur í málinu og afhent var stefnanda. Daginn eftir hafi hún fengið sína síðustu greiðslu frá stefnanda. Stefnda Halla Sigrún kvaðst í tvígang hafa fengið það staðfest hjá starfsmönnum stefnanda að viðbótarábyrgð stefndu Maríu Guðrúnar tæki aðeins til ókominna lánveitinga. Hún hefði aldrei beðið frænku sína, sem verið hefði verkakona, um að ábyrgjast endurgreiðslu á því láni sem hún hafði þá þegar fengið og efaðist hún um að frænka hennar hefði fallist á slíka beiðni. Stefnda María Guðrún kom ekki fyrir dóminn, en lögmaður hennar upplýsti að hún, sem nú er 85 ára gömul, þjáist af alzheimersjúkdómi og sé ófær um að gefa skýrslu. Um ástand hennar að þessu leyti þegar hún undirritaði umrædda skuldbindingu, 27. febrúar 2008, liggja engar upplýsingar fyrir. Af framburði stefndu Höllu Sigrúnar verður ekki annað ráðið en að hún hafi talið að stefnda María Guðrún hafi þá gert sér grein fyrir því hvað fælist í samþykki við beiðni hennar, eins og hún var fram sett, um ábyrgð á endurgreiðslu nýrra lánveitinga. Ekki verður fallist á að skilyrði séu til að víkja því samþykki til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 og verður sýknukröfu stefndu Maríu Guðrúnar á þeim grundvelli hafnað. Í skjalinu sem stefnda María Guðrún undirritaði 27. febrúar 2008 kemur fram að tilefni viðbótarábyrgðar sé að ábyrgð vanti þar sem fjárhæð eldri ábyrgðar hafi verið takmörkuð eða ábyrgð felld niður. Að virtu því sem fram kemur í skjalinu sem stefnda María Guðrún undirritaði verður ekki fallist á það með stefnanda að hún hafi samþykkt með undirritun sinni að taka óskipta ábyrgð með lántaka og stefndu Halldóru Jónu á endurgreiðslum námslána sem stefnda Halla Sigrún hafði áður fengið hjá stefnanda. Útborgunin, sem lántaki beið eftir þegar umbeðin viðbótarábyrgð var veitt, var að fjárhæð 413.364 krónur. Viðbótarábyrgðin var gerð að skilyrði fyrir þeirri útborgun, sem reyndist verða sú síðasta sem lántaki fékk hjá stefnanda. Stefnda María Guðrún ber óskipt með lántaka ábyrgð á endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar. Verður því fallist á varakröfu stefnanda á hendur stefndu Maríu Guðrúnu, svo sem nánar greinir í dómsorði. Í framburði stefnda Kristmundar fyrir dóminum kom fram að hann teldi sig ekki standa í skuld við stefnanda. Hann hefði undirritað yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð til viðbótar, vegna væntanlegra námslána Höllu Sigrúnar, enda hugði hún þá á frekara nám. Kröfur stefnanda á hendur stefnda Kristmundi eru á því byggðar að hann hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á námsláni stefndu Höllu Sigrúnar með undirritun sinni 16. júlí 2008, óskipt með lántaka og öðrum ábyrgðarmönnum. Í skjalinu sem stefndi Kristmundur undirritaði þann dag segir að það sé sjálfskuldarábyrgð vegna námsláns til viðbótar fyrri sjálfskuldarábyrgð. Þar segir jafnframt að tilefni viðbótarábyrgðar sé að ábyrgð vanti vegna væntanlegra lána, sbr. lánsáætlun. Síðasta útborgun námsláns til stefndu Höllu Sigrúnar fór fram 28. febrúar sama ár. Kom því aldrei til þess að hún fengi þau væntanlegu námslán hjá stefnanda sem stefndi Kristmundur hafði samþykkt að bera sjálfskuldarábyrgð á. Sjálfskuldarábyrgð hans samkvæmt skjalinu varð því aldrei virk og verður hann því ekki talinn bera ábyrgð á endurgreiðslu námsláns stefndu Höllu Sigrúnar hjá stefnanda óskipt með henni og/eða öðrum ábyrgðarmönnum. Stefndi Kristmundur tók ekki til formlegra varna í málinu og hefur stefnandi krafist dóms um kröfur sínar á hendur honum á grundvelli 1. mgr. 96. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Samkvæmt því ákvæði verður málið dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem er samrýmanlegt framkomnum gögnum nema gallar séu á málinu sem varða frávísun þess án kröfu. Í ljósi niðurstöðu dómsins um sjálfskuldarábyrgð stefnda Kristmundar verður ekki fallist á að kröfur stefnanda á hendur honum séu samrýmanlegar framkomnum gögnum. Verður hann því sýknaður af kröfum stefnanda. Stefnda María Guðrún krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda. Þótt ekki hafi verið fallist á sýknukröfu hennar þá hefur meginatriðið í málatilbúnaði hennar verið tekið til greina, en upplýsingar um tilhögun útborgunar námslánsins veitti stefnandi ekki fyrr en að fram kominni áskorun í greinargerð. Að þessu virtu, og með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður stefnanda gert að greiða stefndu Maríu Guðrúnu málskostnað, sem ákveðinn er 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Að öðru leyti þykir, eftir atvikum, kröfugerð og málsúrslitum, rétt að aðilar beri hver sinn kostnað af málinu og verður málskostnaður felldur niður milli annarra aðila. Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari. D Ó M S O R Ð Stefnda, Halla Sigrún Sveinbjörnsdóttir, greiði stefnanda, Lánasjóði íslenskra námsmanna, 4.277.497 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 119.554 krónum frá 1. mars 2013 til 1. mars 2014, af 243.059 krónum frá 1. mars 2014 til 4. desember 2014, en af 4.277.497 krónum frá 4. desember 2014 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun þann 2. apríl 2014 að fjárhæð 10.000 krónur, sem dragast skal frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Stefnda, Halldóra Jóna Sölvadóttir, greiði stefnanda óskipt með stefndu, Höllu Sigrúnu, 3.689.159 krónur af framangreindri skuld ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 119.554 krónum frá 1. mars 2013 til 1. mars 2014, af 243.059 krónum frá 1. mars 2014 til 4. desember 2014, en af  3.689.159 krónum frá 4. desember 2014 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun þann 2. apríl 2014 að fjárhæð 10.000 krónur, sem dragast skal frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Stefnda, María Guðrún Guðjónsdóttir, greiði stefnanda óskipt með stefndu Höllu Sigrúnu 618.801 krónu af framangreindri skuld ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags. Stefndi Kristmundur Magnússon er sýkn af kröfum stefnanda. Stefnandi greiði stefndu Maríu Guðrúnu 600.000 krónur í málskostnað. Málskostnaður milli annarra aðila fellur niður.  
Mál nr. 440/2017
Ráðningarsamningur Brottrekstur úr starfi Uppsögn Trúnaðarskylda Sönnunarbyrði
J krafði S ehf. um vangoldin laun í uppsagnarfresti og vegna yfirvinnu, orlof og desemberuppbót sem hann taldi sér bera þar sem S ehf. hefði verið óheimilt að segja fyrirvaralaust upp ráðningarsamningi þeirra á milli. Byggði S ehf. á því að J hefði brotið trúnaðarskyldur gagnvart sér sem heimilaði félaginu að rifta ráðningarsamningnum. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að ráðið yrði af framburði annars fyrirsvarsmanns S ehf. að J hefði gert kröfu um greiðslu yfirvinnu og að til hafi staðið að ganga frá einhverskonar samkomulagi þar að lútandi, en það hafi ekki verið gert. Lá fyrir að J fékk ekki greitt fyrir yfirvinnu á ráðningartímanum og gögn málsins báru ekki með sér að J hefði gert kröfu að nýju þar að lútandi fyrr en þremur og hálfum mánuði eftir að ráðningarsamningnum var rift. Yrði J að bera hallan af sönnunarskorti um að náðst hefði samkomulag milli aðila um greiðslu launa fyrir yfirvinnu og var S ehf. því sýknaður af kröfu J þess efnis. Á hinn bóginn var ekki fallist á með S ehf. að fyrir lægi sönnun um að J hefði brotið gegn trúnaðar- og starfsskyldum sínum hjá S ehf. með þeim hætti að réttlætt hefði fyrirvaralausa riftun á ráðningarsamningi hans. Var því tekin til greina krafa J um greiðslu launa í uppsagnarfresti ásamt desemberuppbót, orlofi og orlofsuppbót.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Aðalsteinn E. Jónasson landsréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júlí 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda en til vara að kröfur stefnda verði lækkaðar og upphafstími dráttarvaxta miðaður við dómsuppsögu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Áfrýjandi er einkahlutafélag sem hóf síðari hluta árs 2015 rekstur fataverslunar í Smáralind undir heitinu Superdry. Mun verslunin hafa verið rekin á grundvelli sérleyfissamnings við erlendan eiganda samnefnds vörumerkis, SuperGroup Nordic & Baltics A/S, Danmörku. Stefndi var ráðinn til starfa sem verslunarstjóri hjá áfrýjanda í lok júlí 2015 og hóf formlega störf fyrri hluta ágúst sama ár. Stefnda var sagt upp störfum með tölvupósti 31. janúar 2016 sem ágreiningslaust er að hann móttók þann dag. Í póstinum var vísað til 2. gr. ráðningarsamnings aðila 31. júlí 2015 þar sem fram kom meðal annars að uppsagnarfestur að loknum reynslutíma væri þrír mánuðir. Af hálfu áfrýjanda var óskað eftir að stefndi ynni út uppsagnarfrestinn til og með 30. apríl 2016 og samþykkti stefndi það. Með bréfi fyrirsvarsmanns áfrýjanda 29. febrúar 2016 var stefnda „sagt upp“ störfum ,,án fyrirvara vegna ítrekaðra trúnaðarbrota“ og féllu launagreiðslur til hans niður frá sama tíma. Fyrirvaralausri uppsögn var mótmælt af hálfu stefnda 17. mars 2016. Með bréfi 14. júní 2016 krafðist stefndi greiðslu launa fyrir mars og apríl 2016, auk nánar tilgreindra orlofsgreiðslna. Í síðastnefndu bréfi krafðist stefndi auk þess greiðslu launa fyrir yfirvinnu á ráðningartímanum. Ágreiningur máls snýr annars vegar að því hvort stefndi eigi rétt á greiðslu fyrir yfirvinnu og hins vegar hvort áfrýjanda hafi verið heimilt að rifta ráðningarsamningnum fyrirvaralaust í lok febrúar 2016. Stefndi reisir dómkröfu sína á því að hann hafi sinnt starfsskyldum sínum gagnvart áfrýjanda sem beri þar með að greiða honum laun í uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningi. Byggir hann jafnframt á því að við gerð ráðningarsamnings hafi verið samið sérstaklega um að hann fengi greitt fyrir yfirvinnu umfram nánar tilgreinda dagvinnutíma. Áfrýjandi reisir dómkröfu sína einkum á því að sannað sé að stefndi hafi brotið trúnaðarskyldur gagnvart sér og að brotin hafi verið þess eðlis að heimilt hafi verið að rifta ráðningarsamningnum. Að því er varðar kröfu stefnda um greiðslu fyrir yfirvinnu byggir áfrýjandi á því að í fyrirliggjandi ráðningarsamningi hafi verið samið sérstaklega um að ekki yrði greitt fyrir yfirvinnu og að ekkert samkomulag hafi náðst um slíkar greiðslur við frágang samningsins eða síðar. II Meðal gagna málsins er afrit af óundirrituðum ráðningarsamningi milli áfrýjanda og stefnda. Þótt samningurinn sé óundirritaður er í málatilbúnaði stefnda gengið út frá því að hann hafi í reynd verið undirritaður. Þetta má ráða af héraðsdómsstefnu þar sem vísað er athugasemdalaust hvað þetta varðar til ráðningarsamningsins en auk þess liggja fyrir í málinu bréfa- og tölvupóstsamskipti þar sem út frá þessu er gengið af hans hálfu. Í samræmi við þetta kom fram í aðilaskýrslu stefnda í héraði að hann hefði undirritað ráðningarsamninginn á fundi sem hann átti með fyrirsvarsmönnum áfrýjanda, Erni Valdimarssyni og Lárentsínusi Kristjánssyni. Samkvæmt því verður að leggja til grundvallar að samningurinn hafi verið undirritaður af hálfu stefnda. Stefndi byggir á því að jafnvel þótt hann hafi undirritað ráðningarsamninginn hafi hann ekki samþykkt að öllu leyti þau kjör sem þar var samið um. Hann hafi ekki verið sáttur við ákvæði 7. gr. samningsins sem gerði ráð fyrir að mánaðarlaun hans að fjárhæð 450.000 krónur væru heildarlaun og að engar greiðslur yrðu inntar af hendi fyrir yfirvinnu. Í bréfi hans til áfrýjanda 14. júní 2016 kemur fram að við gerð samningsins hafi hann strax gert ,,athugasemdir við launakjör eins og þeim var lýst í samningi“. Kemur þar fram að samkomulag hafi náðst milli hans og Lárentsínusar Kristjánssonar, sem þá hafi verið stjórnarmaður og eigandi að helmingshlut í áfrýjanda, um ,,að öll yfirvinna umfram dagvinnu (100% vinna) yrði greidd með yfirvinnukaupi skv. kjarasamningi.“ Hafi hann undirritað ráðningarsamninginn á þeim grundvelli. Lárentsínus Kristjánsson staðfesti í vitnaskýrslu í héraði að stefndi hefði gert kröfu um greiðslu fyrir yfirvinnu á fundi sem hann átti með honum og fyrirsvarsmanni áfrýjanda, Erni Valdimarssyni. Ganga hefði átt frá ,,einhvers konar samkomulagi í framhaldi um hvernig staðið yrði að greiðslu yfirvinnu“ og að þeir hafi bundist ,,fastmælum“ um það. Örn Valdimarsson bar á hinn bóginn fyrir dómi að ekkert slíkt samkomulag hafi verið gert við stefnda og að aldrei hafi komið til umræðu að greitt yrði fyrir yfirvinnu. Af framangreindri skýrslu Lárentsínusar Kristjánssonar verður aðeins ráðið að stefndi hafi gert kröfu um greiðslu yfirvinnu og að til hafi staðið í framhaldinu að ganga frá einhvers konar samkomulagi þar að lútandi. Gögn málsins bera hvorki með sér að það hafi verið gert né að stefndi hafi sett fram kröfu um það á gildistíma ráðningarsamningsins. Þá liggur fyrir að stefndi fékk á ráðningartímanum ekki greitt fyrir yfirvinnu og ekki hafa verið lögð fram gögn um að hann hafi eftir fyrrgreindan fund með fyrirsvarsmönnum áfrýjanda gert kröfu um slíka greiðslu. Krafa þess efnis var fyrst sett fram með fyrrgreindu bréfi 14. júní 2016 en þá voru liðnir tæplega sex mánuðir frá því hann hóf störf hjá áfrýjanda og þrír og hálfur mánuður frá því ráðningarsamningnum var rift. Samkvæmt þessu verður stefndi að bera hallann af sönnunarskorti um að náðst hafi samkomulag milli hans og áfrýjanda um greiðslu launa fyrir yfirvinnu. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda um greiðslu launa fyrir yfirvinnu. Áfrýjandi byggir á því að honum hafi verið heimilt að rifta ráðningarsamningnum við stefnda vegna brota hans á trúnaðarskyldum. Fram er komið í málinu að stefndi setti sig í samband við fyrirsvarsmann SuperGroup Nordic & Baltics A/S í janúar 2016 og mun hafa haft uppi efasemdir um getu eiganda og fyrirsvarsmanns áfrýjanda til reksturs á versluninni. Á hinn bóginn liggur fyrir að sá síðarnefndi fékk í beinu framhaldi vitneskju um samskiptin en gerði engu að síður ráð fyrir að stefndi starfaði áfram hjá félaginu og sýndi með því í verki að hann taldi sjálfur þessa háttsemi stefnda ekki eina og sér geta réttlætt brottvikningu úr starfi án fyrirvara. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu að ekki liggi fyrir sönnun um að stefndi hafi brotið gegn trúnaðar- og starfsskyldum sínum hjá áfrýjanda með þeim hætti að réttlætt hafi fyrirvaralausa riftun á ráðningarsamningi hans. Samkvæmt þessu er tekin til greina krafa stefnda um greiðslu launa í uppsagnarfresti ásamt kröfum um greiðslu desemberuppbótar, orlofs og orlofsuppbótar en fjárhæð þessara kröfuliða er óumdeild og nemur samtals 1.125.983 krónum. Óumdeilt er að 47.593 krónur voru greiddar inn á kröfuna 7. febrúar 2017 vegna desember- og orlofsuppbóta. Eftir framangreindum málsúrslitum skal hvor málsaðili bera sinn kostnað af rekstri málsins á báðum dómstigum. Dómsorð: Áfrýjandi, SDR ehf., greiði stefnda, Jóni Helga Sigurðssyni, 1.125.983 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 477.900 krónum frá 1. apríl 2016 til 1. maí sama ár en af 1.125.983 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 7. febrúar 2017 að fjárhæð 47.593 krónur. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 2017                 Mál þetta var höfðað 13. október 2016 og dómtekið 15. mars 2017. Stefnandi er Jón Helgi Sigurðsson, Hólmgarði 31, Reykjavík. Stefndi er SDR ehf., Mávanesi 18, Garðabæ.                 Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði stefnanda vangoldin laun, orlof og desemberuppbót að fjárhæð 1.980.246 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 477.900 krónum frá 1. apríl 2016 til 1. maí 2016 og frá þeim degi af 1.980.246 krónum til greiðsludags. Þess er krafist að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. maí 2017 en síðan árlega þann dag. Þá er gerð krafa um málskostnað.                 Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar. I.                 Málsatvik eru þau að stefnandi réð sig í júlí 2015 til starfa sem verslunarstjóri í verslun stefnda í Smáralind í Kópavogi, sem var rekin undir heitinu Superdry á grundvelli sérleyfissamnings (e. franchise agreement), og hóf stefnandi störf 6. ágúst sama ár. Ráðningarfyrirtækið Capacent hafði milligöngu um ráðninguna.                 Fyrir liggur óundirritaður ráðningarsamningur, dags. 31. júlí 2015. Í 2. gr. samningsins sagði að reynslutími stefnanda væri þrír mánuðir og að honum loknum skyldi gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera þrír mánuðir. Í 3. gr. kom fram að yfirmaður stefnanda væri framkvæmdastjóri og eftir atvikum stjórn stefnda, en stefnandi tæki þó ekki við beinum fyrirmælum frá stjórn heldur þá eingöngu í gegnum framkvæmdastjóra. Vinnutími stefnanda skyldi að jafnaði vera a.m.k. frá kl. 10 til kl. 19 alla virka daga auk vinnu á kvöldin og/eða um helgar þegar þess væri þörf að mati hans sjálfs, sbr. 4. gr. samningsins. Sérstakt ákvæði var um trúnaðar- og þagnarskyldu í 6. gr. samningsins. Þar sagði að stefnandi lofaði að rækja starf sitt með ástundun og samviskusemi og heita því að viðlögðum drengskap að gæta fyllstu þagmælsku um öll atriði sem hann fengi vitneskju um í starfi sínu, þ.m.t. um viðskiptakjör og viðskiptavini fyrirtækisins og samskipti við viðsemjanda stefnda, Superdry. Þagnarskyldan gilti burtséð frá fyrirspyrjanda, nema hann þyrfti sannarlega á upplýsingum þessum að halda vegna starfa sinna í þágu vinnuveitanda. Í henni fælist m.a. að utan starfstíma væri undantekningarlaust óheimilt að veita nokkrar þær upplýsingar sem leynt skyldu fara, s.s. upplýsingar um einstök mál og/eða sölu- og veltutölur, samninga sem og annað og gilti það einnig þótt nafnleynd vinnuveitanda, viðskiptavinar og/eða starfsmanns væri viðhöfð. Þá sagði í ákvæðinu að innihald ráðningarsamningsins væri algjört trúnaðarmál milli málsaðila og stefnanda væri það ljóst að það kostaði stöðumissi ef uppvíst yrði að þagnar- og trúnaðarheit samkvæmt þessari grein væri rofið. Þagnarskylda héldist þótt stefnandi léti af störfum. Í 7. gr. samningsins sagði að laun stefnanda væru 450.000 krónur á mánuði miðað við vinnu sem tilgreindur væri í 4. gr. samningsins og greiðast mánaðarlega eftirá. Þá sagði í ákvæðinu: „Engar aukagreiðslur hverju nafni sem nefnast koma þannig til vegna yfirvinnu sem starfsmaðurinn telur sig þurfa að vinna til að rækja starfann með fullnægjandi hætti eða vinnuveitandi gerir kröfu um af því tilefni. Launagreiðslur eru fastar og taka ekki breytingum til samræmis við verðlagshækkanir eða þróun launa á almennum vinnumarkaði heldur eru breytingar ætíð háðar samþykki stjórnenda vinnuveitanda.“ Í 7. gr. sagði einnig að stefndi hefði kynnt fyrir stefnanda áform um að greiða bónus ofan á föst laun er tæki mið af annars vegar rýrnun í versluninni og hins vegar á afkomu fyrirtækisins. Aðilar myndu semja sérstaklega um þennan þátt launa og ganga frá samningi í þá veru eigi síðar en 30. september 2015. Launakjör skyldu endurskoðuðu eftir sex mánuði frá því að stefnandi hæfi störf. Samningur um kaup og kjör meðhöndlaðist ætíð af framkvæmdastjóra og stjórnarmanni stefnda. Stefnandi kveðst hafa við gerð framangreinds ráðningarsamnings aðila, dags. 31. júlí 2015, strax gert athugasemdir við launakjör eins og þeim var lýst í ráðningarsamningi. Samkomulag hafi þá orðið á milli fyrirsvarsmanna stefndu, Arnar Valdimarssonar og Lárentsínusar Kristjánssonar, að öll yfirvinna umfram dagvinnu yrði greidd með yfirvinnukaupi. Þessu mótmælir stefndi og heldur því fram að ekki hafi verið samið um greiðslu yfirvinnu.  Stefndi segir að í lok árs 2015 og byrjun árs 2016 hafi stefnda borist fregnir af ýmsum trúnaðarbrotum stefnanda í starfi sem hafi miðað af því að rýra orðspor félagsins og eigenda þess. Stefnandi hafi sett út á stjórnhætti framkvæmdastjóra stefnda og kvartað undan launakjörum og vinnu við Kim Knudsen, yfirmann útstillinga hjá SuperGroup. Kim hafi komið til landsins í lok nóvember 2015 og stefnandi átt nokkra fundi með honum. Kim hafi upplýst fyrirsvarsmenn stefnda um þetta og að ummæli stefnanda hafi ekki verið forsvaranleg og að slíkum ummælum ætti að beina að framkvæmdastjóra stefnda. Í kjölfarið hafi stefndi áminnt stefnanda munnlega og stefnandi lofað að bæta úr háttsemi sinni.  Stefndi segir að hinn 19. janúar 2016 hafi stefnandi óskað eftir einkafundi við Lars Thygesen, forstjóra Supergroup á Norðurlöndum og á Eystrasaltinu. Stefnandi hafi ekki upplýst stefnda um fundinn og hafi hann því farið fram með leynd af hans hálfu. Á fundi þeirra tveggja hafi stefnandi gagnrýnt starfshætti Arnar Valdimarssonar, eiganda stefnda, auk þess að lýsa því yfir að Örn væri óhæfur til að reka verslunina á grundvelli sérleyfisins. Daginn eftir hafi Lars tilkynnt fyrirsvarsmönnum stefnda um fundinn og hvað þar hafi farið fram enda hafi honum verið ljóst að tilgangur stefnanda væri að sverta orðstír stefnda og fyrirsvarsmanna stefnda. Eftir að Örn hafi fengið fregnir af framangreindu trúnaðarbroti hafi hann krafist útskýringa af hendi stefnanda. Jafnframt hafi Örn upplýst stefnanda um að kvartanir sem þessar ættu að bera undir framkvæmdastjóra og beðið stefnanda um að hugleiða trúnaðarbrot sín. Stefnandi hafi lofað að frekari trúnaðarbrot myndu ekki eiga sér stað. Daginn eftir hafi stefnandi sent tölvupóst til Lars Thygsen og óskað eftir upplýsingum vegna gallaðrar vöru. Lars hafi strax haft samband við Örn vegna tölvupóstsins, enda hafi það ekki falist í starfssviði stefnanda að eiga í beinum samskiptum við Lars, og stefnanda verið það fullkunnugt. Stefndi kveður að á þessum tíma hafi verið ljóst að grundvöllur ráðningarsambandsins væri brostinn vegna trúnaðarbrota stefnanda og þau væru þess eðlis að ekki yrði ráðið bót á enda þeim. Á þessum tíma hafi verið frágengið að stefnandi og Örn færu í innkaupaferð 25. janúar 2016 og vegna reynsluleysis fyrirsvarsmanna stefnda á slíkum ferðum hafi verið nauðsynlegt að sú ferð yrði farin svo hægt yrði að panta vörur fyrir verslunina.  Í þeirri innkaupaferð hafi stefnandi sýnt af sér ósæmilega hegðun við annan starfsmann verslunarinnar í samtali á samskiptaforritinu Skype, er hann hafi gagnrýnt hana með hæðni er hún hafi gefið upp skoðanir sínar á tilteknum vörum. Með tölvupósti Arnar Valdimarssonar 31. janúar 2016 var stefnanda sagt upp störfum hjá stefnda og um uppsagnarfrest vísað til kjarasamnings VR og Samtaka atvinnulífsins og 2. gr. ráðningarsamnings frá 31. júlí 2015. Stefndi segir að þar sem verslunin hafi nýlega tekið til starfa hafi stefndi farið fram á að stefnandi myndi vinna upp uppsagnarfrestinn, svo ekki yrði röskun á starfsemi verslunarinnar. Hafi stefndi hugsað sér í millitíðinni að finna nýjan verslunarstjóra, eins fljótt og mögulegt væri enda ljóst að trúnaður væri að öllu leyti brostinn fyrir áframhaldandi samstarfi aðila. Stefndi kveðst hafa frétt 9. febrúar 2016 af frekari trúnaðarbrotum stefnanda, en stefnandi hefði gagnrýnt einn fyrirsvarsmann stefnda í samtali við aðstoðarverslunarstjóra verslunarinnar og lýst yfir vantrausti á störfum hans. Örn Valdimarsson sendi stefnanda tölvupóst sama dag, 9. febrúar, þar sem fram kom að slík hegðun væri ekki liðin og væri trúnaðarbrot. Stefndi kveður að hinn 15. febrúar 2016 hafi stefnandi skyndilega farið úr vinnu klukkan 16:00 án þess að tilkynna sérstaklega um ástæðu fjarvistanna, líkt og honum hafi borið skylda til samkvæmt samningi aðila. Framkvæmdastjóra stefnda hafi borist atvikið til fregna frá öðrum starfsmanni, sem hafi sagt að stefnandi hafi ætlað að fara beint á Læknavaktina vegna veikinda. Morguninn eftir hafi stefnandi tilkynnt sig veikan í vinnu. Fyrir liggi læknisvottorð, dags. 19. febrúar 2016, frá heilsugæslunni í Efra-Breiðholti, og því sé ljóst að stefnandi hafi ekki leitað strax til læknis vegna veikinda líkt og hann hafi fullyrt. Síðar í mánuðinum hafi stefndi frétt að stefnandi hafi þann 19. febrúar borið upp kvartanir við verslunarstjóra annarrar verslunar í Smáralind, s.s. um vangoldna yfirvinnu auk þess að gagnrýna frekar fyrirsvarsmenn stefnda. Með bréfi stefnda, dags. 29. febrúar 2016, var stefnanda sagt upp störfum án fyrirvara vegna þess að hann hefði ítrekað brotið trúnaðarskyldur sínar. Með bréfi Verslunarmannafélags Íslands (VR) fyrir hönd stefnanda, dags. 17. mars 2016, var fyrirvaralausri uppsögn mótmælt. Með bréfi 14. júní 2016 voru mótmæli stefnanda áréttuð auk þess að stefnandi krafðist greiðslu bóta, en stefndi hefur hafnað kröfum stefnanda. Stefnandi hefur því höfðað mál þetta. Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu, framkvæmdastjóri stefnda, Örn Valdimarsson, Guðbjörg María Sigtryggsdóttir stjórnarformaður stefnda og vitnin Kim Martin Knudsen, Margrét Ýr Sigurjónsdóttir og Lárentsínus Kristjánsson. II.                 Stefnandi byggir á því að við gerð ráðningarsamnings aðila, dags. 31. júlí 2015, hafi hann strax gert athugasemdir við launakjör eins og þeim var lýst í ráðningarsamningi. Samkomulag hafi þá orðið á milli forsvarsmanna stefndu, Arnar Valdimarssonar og Lárentsínusar Kristjánssonar, að öll yfirvinna umfram dagvinnu yrði greidd með yfirvinnukaupi samkvæmt kjarasamningi VR og SA. Samkvæmt tímaskráningu hafi unnir yfirvinnutímar á starfstímanum verið 155,78. Tímakaup í yfirvinnu samkvæmt kjarasamningi nemi 1,0385% af mánaðarlaunum og hafi verið 4.963 krónur á tímann. Stefnandi hafnar því alfarið að hafa brotið af sér í starfi og telur hann ásakanir stefnda rangar. Stefnanda hafi meðal annars verið gefið að sök að hafa rætt við sænskan aðila sem hafi komið nokkrum sinnum hingað til lands á vegum stefnda til að aðstoða við framsetningu búðarinnar. Stefnandi hafi verið samskipti við umræddan aðila enda hingað kominn til að aðstoða stefnda. Að slík samskipti feli í sér trúnaðarbrot eigi ekki við nokkur rök að styðjast og eigi það sama við um aðrar ávirðingar á hendur stefnanda. Þá hafi stefnandi aldrei fengið áminningu um brot í starfi en það sé forsenda þess að unnt sé að reka starfsmenn fyrirvaralaust. Stefnandi gerir kröfu um vangoldin laun í uppsagnarfresti sem sé mars og apríl, vangoldna yfirvinnu, auk orlofs og desemberuppbótar 30.978 krónur en full uppbót sé 82.000 krónur og miðist við 45 unnar vikur, og orlofsuppbót 42.000 krónur sem sé full uppbót m.v. maí 2015 til lok apríl 2016. Samkvæmt 1.9. gr. í kjarasamningi VR og SA eigi laun að greiðast fyrsta dag eftir að mánuði þeim lýkur sem laun eru greidd fyrir. Að auki skuli vinnuveitandi greiða áunnið orlof til launþega við lok ráðningarsambands skv. 8.gr. orlofslaga nr. 30/1987, og áunnið hlutfall launþega af orlofs-og desemberuppbót skv. köflum 1.3.1 og 1.3.2 í kjarasamningi VR og SA.  Krafan sundurliðist þannig: Vangoldin laun vegna mars 2016                                                                 477.900,00 Vangoldin laun vegna apríl 2016                                                                  477.900,00 Vangoldið orlof 10.17% (2x477.900,00x0.1017)                                      97.205,00 Vangoldin desemberuppbót 2016                                                                 30.978,00 Vangoldin orlofsuppbót 2015/16                                                                  42.000,00 Yfirvinna (155,78 yfirvinnutímar * kr. 4.963,00)                                      773.135,00 Höfuðstóll                                                                                                          1.980.246,00                       Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, lög  um orlof nr. 30/1987, meginreglur kröfuréttar, meginreglur vinnuréttar, kjarasamninga VR og vinnuveitenda og bókanir sem teljast hluti kjarasamninga. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 129. gr. 4. tl. um vexti af málskostnaði. Einnig er krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur. III. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi efnt að fullu skyldur sínar við stefnanda og eigi stefnandi því engar frekari kröfur á hendur stefnda. Stefndi mótmælir því að hann skuldi stefnanda laun vegna ógreiddrar yfirvinnu auk launa á uppsagnarfresti ásamt orlofi og desemberuppbót, enda hafi aðilar ekki samið um greiðslu yfirvinnu auk þess að stefnanda hafi verið sagt upp fyrirvaralaust vegna alvarlegra brota á ráðningarsamningi og skyldum sínum gagnvart stefnda, sem réttlætt hafi stöðvun frekari launagreiðslna til stefnanda á uppsagnarfresti. Stefndi segir að engin sönnun liggi fyrir um meintan rétt stefnanda til greiðslu yfirvinnukaups. Þá liggi engin staðfesting fyrir um fjölda tíma eða sundurliðun. Krafa stefnanda sé verulega vanreifuð að þessu leyti. Jafnvel þó svo að fallist yrði á að stefnandi hafi unnið yfirvinnutíma þá sé ljóst að heildarlaun hans hafi verið langt ofan þau laun sem kjarasamningur kveði á um sem lágmarkskjör í starfi.  Samkvæmt ráðningarsamningi skyldu laun stefnanda vera 450.000 krónur á mánuði, í samræmi við vinnutíma skv. 4. gr. samningsins. Í 7. gr. samningsins sé skýrt tekið fram að stefnanda yrði ekki greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Laun samningsins hafi verið miðuð við það að mæta hugsanlegri tilfallandi yfirvinnu. Samkvæmt kjarasamningi SA og VR hafi byrjunarlaun sérþjálfaðra starfsmanna sem fela megi verkefnaumsjón verið 239.506 krónur fram að 1. janúar 2016 eða 210.494 krónum minna en samningsbundin laun stefnanda hafi kveðið á um.  Samningar, þar sem kveðið sé á um að yfirvinna skuli vera innifalin í föstum mánaðarlaunum, séu ekki óheimilir, nema kjarasamningar eða lög mæli svo fyrir. Í fyrirliggjandi kjarasamningi, sem gildi um ráðningarsamband aðila, séu slíkir samningar ekki bannaðir. Þá mótmælir stefndi því að stefnandi hafi gert athugasemdir eða kröfu um greiðslu á yfirvinnustundum á ráðningartíma sínum. Í málinu hafi ekki verið lögð fram gögn sem styðji þessa staðhæfingu stefnanda.  Einnig bendir stefndi á að í ráðningarsamningi sé kveðið á um að framkvæmdastjóri sé næsti yfirmaður stefnanda og að um kaup og kjör skyldi samið við hann. Stefnandi haldi því fram í stefnu að hann hafi komist að munnlegu samkomulagi við þáverandi meðeiganda stefnda um greiðslu yfirvinnukaups. Staðhæfingu þessari sé mótmælt sem ósannaðri og skjóti það skökku við að því sé haldið fram að um yfirvinnu hafi verið samið þvert á það sem komi fram í 7. gr. ráðningarsamningsins. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að tryggja sér sönnun um slíkt hafi sú verið raunin. Í ráðningarsamningi hafi jafnframt verið kveðið á um að laun skyldu endurskoðuð eftir sex mánuði frá því að starfsmaður hóf störf. Ljóst sé að ekki hafi komið til slíkrar endurskoðunar vegna uppsagnar stefnda á ráðningarsambandinu. Ennfremur bendi fyrirætlanir aðila um bónuskerfi sem kveðið hafi verið á um í 7. gr. ráðningarsamningsins til þess að engin áform hafi verið um greiðslu sérstaks yfirvinnukaup. Umrætt bónuskerfi skyldi taka mið af annars vegar rýrnun í versluninni og hins vegar afkomu fyrirtækisins. Báðir aðilar hafi vitað og mátt vita að skilyrði bónuskerfis hafi ekki verið til staðar fyrstu mánuði í rekstri stefnda enda óraunhæft að ætla nýrri fataverslun að skila hagnaði fyrst um sinn. Téð ákvæði hafi verið til þess hugsað að stefnandi fengi að njóta ávinnings af góðum rekstrarskilyrðum stefnda þegar að því kæmi. Þá bendir stefndi á að í ráðningarsamningi skyldi vinnutími stefnanda vera frá kl 10-19 virka daga. Í reynd hafi stefnandi ætíð hafið störf kl. 11, en það sé óumdeilt í málinu. Þá hafi stefnandi unnið á fimmtudögum frá kl. 11-17.  Einnig byggir stefndi á því að stefnandi hafi glatað kröfu sinni um greiðslu yfirvinnukaups sökum tómlætis en ekki liggi fyrir að stefnandi hafi gert sérstaka kröfu um greiðslu slíks kaups á ráðningartíma. Að ofangreindu virtu beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um laun vegna ógreiddrar yfirvinnu. Enn fremur byggir stefndi á því að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til frekari launa á uppsagnafresti. Nánar tiltekið hafi vanefndir stefnanda á starfsskyldum sínum réttlætt fyrirvaralausa uppsögn sem hafi heimilað stöðvun frekari launa á uppsagnarfresti. Vanefnd þessi hafi fyrst og fremst falist í ítrekuðum alvarlegum trúnaðarbrotum stefnanda gagnvart stefnda og forsvarsmönnum félagsins, m.a. í því skyni að rýra orðstír stjórnenda félagsins og þar með skaða ímynd þess. Stefndi kveður að samkvæmt almennum reglum vinnuréttar hafi launþegi m.a. þeirri trúnaðarskyldu að gegna gagnvart vinnuveitanda sínum að hann hagi störfum sínum á þann hátt að hagsmunir vinnuveitanda verði ekki fyrir skaða. Enn ríkari skyldur hafi þeir starfsmenn sem séu yfirmenn og beri faglega ábyrgð á rekstri fyrirtækis og jafnvel mannaforráð, eins og í tilfelli stefnanda. Brot á heiðarleika- og trúnaðarskyldu sé alvarlegt brot á ráðningarsambandi og geti það varðað riftun án áminningar. Viðhafi starfsmaður svo alvarlegt trúnaðarbrot að það vegi gegn rekstrargrundvelli vinnuveitanda hans réttlæti slíkt fyrirvaralausa uppsögn, en svo hafi háttað í tilviki stefnanda, sbr. og niðurlag gr. 12.1 í gildandi kjarasamningi vegna starfans. Á grundvelli ráðningarsamnings aðila sé ennfremur ljóst að stefnandi hafi borið ríka trúnaðar- og þagnarskyldu í starfi, sbr. 6. gr. samningsins auk óskráðra reglna um trúnaðarskyldur starfsmanna gagnvart vinnuveitanda. Í niðurlagi 6. gr. ráðningarsamningsins sé ennfremur sérstaklega áréttað að starfsmanni sé það ljóst að það kosti stöðumissi ef uppvíst verði að þagnar- og trúnaðarheit skv. 6. gr. verði rofið. Byggir stefnandi á að stefndi hafi gerst sekur í upphafi um alvarleg trúnaðarbrot sem hafi leitt til uppsagnar hans 31. janúar 2016. Trúnaðarbrot þessi hafi falist í því að skaða vinnuveitanda sinn og orðstír hans gagnvart yfirmönnum hjá sérleyfisgjafa stefnda með því að kasta rýrð á hæfni þeirra og fagmennsku í rekstrinum. Stefnda hafi hins vegar verið sá nauðugur kostur búinn í ljósi þess að verslunin hafði nýlega tekið til starfa, að fara fram á að stefnandi ynni upp uppsagnarfrest á meðan að leitað væri nýs verslunarstjóra svo ekki yrði röskun á starfsemi stefnda á jafn viðkvæmum tíma og fyrstu mánuðir í rekstri verslunar eru almennt. Trúnaðarbrot þessi og alvarleiki þeirra verði að skoða í því ljósi að stefndi reki verslanir sínar á grundvelli sérleyfissamnings (e. franchise agreement) við eiganda vörumerkisins Superdry á alþjóðavísu. Við þess háttar aðstöðu sé gott viðskiptasamband milli sérleyfistaka og sérleyfisgjafa enn mikilvægara en ella enda sé allur rekstur sérleyfishafa grundvallaður á þessum samningi. Verði viðskiptasamband þetta fyrir skaða af völdum þriðja aðila sé því reksturinn allur undir ólíkt því þegar átt sé við einstaka birgja vörumerkja.  Stefnandi, sem hafi starfað sem verslunarstjóri hjá stefnda og hafi m.a. haft á starfssviði sínu að móta verslunina í samræmi við viðskiptahugmyndir sérleyfisgjafans, hafi verið fyllilega meðvitaður um umrætt fyrirkomulag og mikilvægi viðskiptasambandsins fyrir stefnda. Byggir stefndi í því samhengi á því, að þrátt fyrir að stefnanda hafi verið sagt upp þann 31. janúar, vegna brota sem réttlætt hefðu fyrirvaralausa uppsögn, hafi trúnaðarskylda vinnusambandsins áfram verið í fullu gildi. Í tilviki stefnanda hafi verið um alvarlega framgöngu að ræða, sem hafi falist í áframhaldandi vanefnd á samningi aðila og trúnaðraskyldum. Þá hafi stefndi fengið ítarlegri lýsingar á trúnaðarbrotum stefnanda eftir uppsögnina í janúar 2016. Um miðjan og í lok febrúar 2016 hafi framkvæmdastjóra stefnda borist til fregna frekari trúnaðarbrot stefnanda. Þar sem stefnandi hafi gerst sekur um ítrekuð trúnaðarbrot, og í raun viðhaldið vanefndum sínum með því að vinna gegn hagsmunum stefnda eftir uppsögnina í lok janúar 2016, hafi verið ákveðið að segja stefnanda upp fyrirvaralaust og stöðva greiðslur launa eftir febrúarmánuð. Það hafi verið ljóst að stefnandi hafi unnið áfram af ásetningi gegn hagsmunum stefnda á þessu tímamarki. Trúnaðarbrot þessi, sem hafi m.a. falist í brotthvarfi úr vinnu án tilkynningar til stefnda og broti á þagnar- og trúnaðarskyldum stefnanda í samtölum við þriðja aðila og samstarfsfólk, hafi falið í sér veigamiklar vanefndir að ráðningarsambandi aðila. Stefndi telur að með hliðsjón af fyrri atvikum og alvarlegum vanefndum stefnanda sem hafi leitt til uppsagnar hans í janúar hafi ekki verið þörf á sérstakri áminningu enda hafi stefnandi mátt vita að frekari trúnaðarbrot heimiluðu fyrirvaralausa uppsögn. Sérstök áminning í aðdraganda hinnar fyrirvaralausu uppsagnar í febrúar hafi því verið óþörf með hliðsjón af atvikum málsins og alvarleika brotanna.  Stefndi heldur því fram að í raun hafi uppsögnin í janúar og áminningar til stefnanda fyrir það tímamark falið í sér ígildi áminningar enda verði áminning vart skýrari en með uppsögn starfsmanns á grundvelli brota hans. Stefnanda hafi verið gefinn kostur á að bæta ráð sitt gegn því að hann fengi að halda launum út uppsagnarfrest og vinnu, sem stefnda hafi ekki verið nauðsynlegt að gera í ljósi atvika. Alvarleika síðari trúnaðarbrot og vanefnda á starfsskyldum verði auk þess að túlka með hliðsjón af þeim trúnaðarbrotum sem stefnandi hafi orðið uppvís að í janúar 2016, þ.e. tæpum mánuði fyrir hina fyrirvaralausu uppsögn. Uppsögnin hafi falið í sér alvarlega áminningu í garð stefnanda og hafi stefndi mátt fara fram á að stefnandi stæði við ákvæði ráðningarsamnings jafnt á uppsagnarfresti sem endranær. Með áframhaldandi vanefndum stefnanda á uppsagnarfresti hafi stefnandi gefið stefnda fullt tilefni og rétt til að segja stefnanda upp störfum með þeim hætti sem gert var og þar með stöðva frekari launagreiðslur til hans. Að teknu tilliti til eðlis vanefndar stefnanda og rekstrarfyrirkomulags stefnda hafi verið ómögulegt fyrir stefnda að gefa stefnanda færi á að bæta fyrir vanefnd sína enda hafi um óafturkræfanlegan skaða að ræða og gróft trúnaðarbrot.  Með hliðsjón af ofangreindu hafi hin fyrirvaralausa uppsögn án frekari greiðslna verið lögmæt. Beri því að sýkna stefnda af kröfu um laun á uppsagnarfresti vegna mars og apríl 2016 auk vangoldins orlofs vegna ofangreindra tveggja mánaða. Stefndi hafnar því að réttur stefnanda til greiðslu bóta vegna ógreiddrar orlofs- og desemberuppbótar hafi verið fyrir hendi enda hafi heildarlaun stefnanda verið með þeim hætti að allar slíkar greiðslur rúmuðust innan þeirra kjara sem kveðið var á um í ráðningarsamningi aðila. Skýrlega sé tekið fram í ráðningarsamningi að launagreiðslur væru fastar og tækju ekki breytingum til samræmis við verðlagshækkanir eða þróun launa á almennum vinnumarkaði heldur væru breytingar ætíð háðar samþykkir stjórnenda vinnuveitanda. Að auki sé útreikningi vegna ofangreindra tveggja kröfuliða mótmælt. Verði fallist á að stefnandi eigi rétt til greiðslu yfirvinnu í samræmi við kröfu stefnanda byggir stefndi á að greiða skuli eftir taxta VR en ekki reikna yfirvinnu út frá heildarlaunum. Í 7. gr. ráðningarsamningsins komi skýrt fram að ekki sé greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Þar að leiðandi standist það enga skoðun að reikna yfirvinnutaxta út frá heildarlaunum stefnanda. Ljóst sé að umsamin laun hafi ekki verið eingöngu dagvinnulaun, heldur hafi falist í þeim laun fyrir eftir- og yfirvinnu eftir atvikum, þótt ekki væri greint milli þessa tvenns í ráðningarsamningnum. Leiði af því að stefnandi eigi ekki rétt á að yfirvinna hans sé miðuð við hin umsömdu heildarlaun heldur verði að miða dagvinnulaun samkvæmt gildandi kjarasamningi. Beri að miða yfirvinnukaup við taxta kjarasamnings fyrir dagvinnulaun sérþjálfaðra starfsmanna verslana, sem geti unnið sjálfstætt, sýna frumkvæði og fela megi verkefnaumsjón. Þá byggir stefndi jafnframt á að tímafjöldi yfirvinnutíma sé vanreifaður og ótækt sé að byggja á fullyrðingum stefnanda um fjölda þeirra, en stefndi hafi mótmælt þeim. Jafnframt sé ljóst að stefnandi hafi aldrei unnið á ráðningartímanum í samræmi við skyldur sínar samkvæmt ráðningarsamningi, þ.e. frá 10-17, heldur hafi hann ávallt mætt til vinnu kl 11:00. Með hliðsjón af því verði að lækka kröfu stefnanda um greiðslu yfirvinnukaup sem því nemi, en samtals sé um að ræða 137 klukkustundir á ráðningartímabilinu. Verði fallist á kröfu stefnanda um skaðabætur vegna mánaðarlauna í mars og apríl gerir stefndi kröfu um lækkun þeirrar fjárhæðar verði leitt í ljós að stefnandi hafi fengið greiðslur frá þriðja aðila á umræddu viðmiðunartímabili. Að auki er upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt. Um lagarök vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar, meginreglna vinnuréttar, kjarasamninga VR og vinnuveitanda. Þá byggir stefndi á skráðum sem óskráðum reglum um trúnaðarskyldu starfsmann gagnvart vinnuveitanda auk reglna um tómlæti í vinnurétti. Um málskostnað vísast til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. IV. Stefnandi reisir kröfur sínar á því að hann eigi inni ógreidd yfirvinnulaun hjá stefnda og laun í uppsagnarfresti auk ógreiddrar orlofs- og desemberuppbótar. Stefnandi hefur mótmælt því að hafa aðhafst nokkuð sem réttlætt geti synjun á launum í uppsagnar­fresti. Svo sem áður segir liggur í málinu fyrir óundirritaður ráðningarsamningur, dagsettur 31. júlí 2015. Þá liggur fyrir tölvupóstur Lárentsínusar Kristjánssonar, þáverandi eiganda að helmingshlut í stefnda og stjórnarmanns, til stefnanda og Arnar Valdimarssonar sama dag, þar sem stefnanda voru send drög að ráðningarsamningi, og tekið fram að stefnandi skyldi gera athugasemdir við samninginn ef einhverjar væru en „annars klárum við þetta á eftir þegar við hittumst“. Í aðilaskýrslu Arnar Valdimarssonar fyrir dómi kom fram að enginn ráðningarsamningur hafi verið undirritaður er þeir hittust, né síðar. Í framburði vitnisins Lárentsínusar Kristjánssonar fyrir dómi kom fram að stefnandi hafi strax gert athugasemdir við að ráðningarsamningurinn gerði ekki ráð fyrir að vinna, umfram 171,15 tíma vinnuskyldu, yrði greidd sérstaklega. Kvaðst hann hafa hitt stefnanda og Arnar í búð stefnda þar sem þetta hafi verið rætt og hafi aðilar bundist fastmæli um að yfirvinna skyldi greidd. Hafi Örn átt að sjá um að ganga frá þessum málum í framhaldinu. Í ljósi þessa verður talið ósannað að samið hafi verið um að stefnandi skyldi ekki fá greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Er þá meðal annars litið til þess að stefnda var í lófa lagið að tryggja sér sönnun um að yfirvinna skyldi vera innifalin í föstum mánaðarlaunum stefnanda með því að gera skriflegan ráðningarsamning við stefnanda eða staðfesta ráðningu hans með skriflegum hætti svo sem honum bar skylda til samkvæmt grein 1.11.1 í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins. Stefnandi krefst launa fyrir samtals 155,78 vinnustundir sem hann hafi skilað umfram 171,15 klukkustunda vinnuskyldu á mánuði. Fram er komið að stefnandi hélt utan um eigin tímaskráningu og staðfesti Arnar Valdimarssonar fyrir dómi að stefnandi hefði látið honum skráninguna í té mánaðarlega. Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins rakti stefnandi tíma sem hann vann í yfirvinnu á starfstímanum, dag fyrir dag. Samkvæmt því vann stefnandi 19,85 yfirvinnutíma á tímabilinu frá 25. júlí 2015 til 24. ágúst sama ár, 34,68 yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til 24. september sama ár, 23,35 yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til 24. október sama ár, 23,35 yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til 24. nóvember sama ár, 24,10 yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til 24. desember sama ár, 5,10 yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til 24. janúar 2016 og 25,35 yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til 24. febrúar sama ár eða samtals 155,78 klukkustundir. Tímafjöldi að baki kröfu stefnanda byggi á samtímaskráningu. Stefndi hefur ekki lagt fram gögn né með öðrum hætti hrakið staðhæfingar stefnanda um fjölda yfirvinnutíma og verður stefndi að bera hallann af því. Samkvæmt ákvæði 1.7.1 í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins skal vinna afgreiðslufólks umfram 171,15 klukkustundir greiðast með tímakaupi sem nemur 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Áður er komist að þeirri niðurstöðu að mánaðarlaun stefnanda voru greidd fyrir 171,15 klukkustunda mánaðarlega vinnuskyldu stefnanda. Krafa stefnanda um yfirvinnugreiðslur tekur því réttilega mið af umsömdum mánaðarlaunum. Samkvæmt því verður krafa stefnanda um greiðslu á 773.153 krónum vegna ógreiddrar yfirvinnu tekin til greina. Eins og atvikum máls þessa er háttað verður ekki talið að sá tími sem leið þar til stefnandi krafði stefnda sannanlega um greiðslur vegna yfirvinnu í janúar 2016 leiði til þess að réttur hans til launanna sé að nokkru eða öllu niður fallinn. Svo sem áður segir var stefnanda sagt upp störfum með tölvupósti 31. janúar 2016. Var stefnanda í upphafi gert að vinna þriggja mánaða uppsagnarfrest samkvæmt 2. gr. hins óundirritaða ráðningarsamnings. Með bréfi 29. febrúar sama ár var stefnanda vikið fyrirvaralaust úr starfi hjá stefnda og sviptur frekari launagreiðslum vegna ítrekaðra trúnaðarbrota í starfi. Í málatilbúnaði sínum byggir stefndi á því að honum hafi verið riftun ráðningarsamningsins heimil án sérstakrar áminningar með hliðsjón af atvikum málsins og alvarleika brota stefnanda. Þá byggir stefndi á því að uppsögn stefnanda í janúar og ávirðingar fyrir það tímamark hafi falið í sér ígildi áminningar.  Í áðurgreindu bréfi stefnda 29. febrúar 2016 eru þau trúnaðarbrot sem stefndi taldi stefnanda sekan um tíunduð. Í bréfinu er í fyrsta lagi vísað til atvika sem sögð eru hafa átt sér stað 18. nóvember 2015 og 19. janúar 2016 þar sem stefnandi hafi sett út á það hvernig fyrirsvarsmaður stefnda, Örn Valdimarsson, ræki verslunina hér á landi, í fyrra skiptið við Kim Knudsen, yfirmann Superdry verslana á Norðurlöndum, og hið síðara við Lars Thygesen, forstjóra Superdry í Danmörku. Hafi síðara atvikið verið rætt við stefnanda 20. janúar 2016 og að hálfu stefnda talið að fullur skilningur væri milli aðila um „að þvílíkt myndi ekki endurtaka sig“. Í öðru lagi er greint frá því að 29. sama mánaðar hafi stefnandi, eftir að hafa ráðfært sig við kjaramálafulltrúa VR, farið fram á að meint yfirvinna skyldi greidd og tilkynnt um að þau mál myndi hann eftirleiðis aðeins ræða í gegnum tölvupóst og með fulltingi kjaramálafulltrúa VR. Eru fyrrgreind atvik, sem stefndi taldi trúnaðarbrot, sögð hafa verið ástæða uppsagnar stefnanda 31. janúar 2016. Því næst er í bréfinu greint frá atvikum sem eru sögð hafa átt sér stað eftir uppsögnina. Þann 2. febrúar 2016 hafi stefnandi rætt við meðeiganda Arnar Valdimarssonar um atvik í innkaupaferð þeirra erlendis 25. janúar sama ár og 15. febrúar sama ár hafi stefnandi farið úr vinnu klukkan 16:00, að sögn vegna veikinda, án þess að tilkynna það sérstaklega til Arnar og 19. sama mánaðar hafi stefnandi sagt við verslunarstjóra Vila í Smáralind að stefndi neitaði að greiða honum yfirvinnu. Riftun ráðningarsamnings er viðurhluta mikið vanefndaúrræði og eru ríkar kröfur gerðar til vinnuveitanda um sönnun á þeim atvikum sem liggja að baki beitingu þess. Að meginreglu er það skilyrði fyrir riftun ráðningasamnings að starfsmanni hafi áður verið gerð áminning vegna þeirrar háttsemi sem er tilefni riftunarinnar. Áminning getur hvort tveggja verið munnleg eða skrifleg en þá kröfu verður að gera að starfsmanni sé gert grein fyrir því með skýrum hætti að verði hann aftur uppvís af háttseminni kunni það að varða brottrekstri úr starfi. Þá verður starfsmaður að hafa haft raunhæfan kost á að bæta ráð sitt áður en riftun er beitt á grundvelli áminningar. Að mati dómsins verða þær sakir sem á stefnanda hafa verið bornar samkvæmt framansögðu ekki taldar þess eðlis að heimilað hafi stefnda að rifta ráðningarsamningi við hann án undanfarinnar áminningar. Kemur þá til skoðunar hvort stefndi hafi með uppsögn stefnanda 31. janúar 2016 eða fyrri aðgerðum sínum áminnt stefnanda í skilningi vinnuréttar. Í tölvupósti stefnda 31. janúar 2016 þar sem stefnanda var sagt upp störfum er ekki getið um ástæður uppsagnarinnar. Þá hefur stefndi í máli þessu ekki fært fram nein gögn eða með öðrum hætti sýnt fram á að við uppsögnina hafi stefnandi verið aðvaraður vegna tiltekinnar háttsemi og honum gert ljóst hvaða afleiðingar það kynni að hafa yrði hann uppvís að háttseminni aftur. Á það sama við um meintar fyrri áminningar. Gegn eindreginn neitun stefnanda þykir því ósannað að stefnandi hafi verið áminntur í skilningi vinnuréttar fyrir riftunina. Verður samkvæmt þessu fallist á það með stefnanda að hann eigi rétt til greiðslu úr hendi stefnda er nemur vangoldnum launum í uppsagnarfresti en útreikningur kröfunnar sætir ekki tölulegum andmælum. Stefnandi var ekki með önnur laun í mars og apríl 2016 og eru því engar slíkar greiðslur sem koma til frádráttar kröfu stefnanda. Við aðalmeðferð málsins var upplýst að eftir höfðun málsins hefði stefndi greitt stefnanda áunna desemberuppbót 2016, vegna vinnu í janúar og febrúar sama ár, og áunna orlofsuppbót vegna orlofsársins 2015 til 2016, fram til 1. febrúar 2016. Er óumdeilt að stefndi hafi fullnægt greiðsluskyldu að þessu leyti með innborgun að fjárhæð 47.593 krónur 7. febrúar 2017. Að því er varðar orlofs- og desemberuppbót er því aðeins deilt um réttindin vegna mars og apríl 2016. Í ljósi fyrrgreindrar niðurstöðu verður krafa stefnanda að þessu leyti tekin til greina, enda verða starfskjör stefnanda ekki rýrð að þessu leyti á uppsagnarfresti.  Að öllu þessu virtu verður krafa stefnanda tekin að öllu leyti til greina, að virtri innborgun stefnda 17. febrúar 2017. Fallist er á dráttarvaxtakröfu stefnanda. Þá leiðir réttur til höfuðstólsfærslu dráttarvaxta á tólf mánaða fresti beint af ákvæðum 12. gr. sömu laga og því óþarft að kveða á um slíka höfuðstólsfærslu dráttarvaxta í dómsorði. Verða dráttarvextir dæmdir svo sem nánar greinir í dómsorði. Eftir þessum úrslitum og með vísan í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal stefndi greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur. Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari. D ó m s o r ð: Stefndi, SDR ehf., greiði stefnanda, Jóni Helga Sigurðssyni, 1.980.246 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 477.900 krónum frá 1. apríl 2016 til 1. maí sama ár en af 1.980.246 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 47.593 krónur hinn 7. febrúar 2017. Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 312/2017
Veðleyfi Ógilding samnings Skuldabréf Framsal Viðskiptabréf
G og Á höfðuðu mál á hendur Í og kröfðust þess að felld yrði úr gildi veðsetning sem þau veittu í fasteign sinni til tryggingar láni sem dóttir þeirra tók í ágúst 2006 hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með vísan til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál og 7. gr. reglugerðar nr. 1081/2008 yrði að leggja til grundvallar að Í hefði ekki öðlast sjálfstæðan rétt á hendur útgefendum skuldabréfa og veðþolum við framsal skuldabréfa til hans. Samkvæmt því gátu G og Á samkvæmt almennum reglum kröfuréttar borið fyrir sig gegn Í mótbáru sem laut að gildi veðsetningarinnar. Þá var lagt til grundvallar að við lánveitinguna hefði ekki verið gætt að þeirri fortakslausu skyldu samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 að meta greiðslugetu lántaka og að Í yrði að bera hallann af því að lánið hefði verið veitt án þess að viðhöfð hefðu verið þau vönduðu vinnubrögð af lánveitanda sem samkomulagið gerði ráð fyrir. Var talið að atvik við samningsgerðina og staða samningsaðila hefði valdið því að ósanngjarnt hefði verið fyrir Í að bera veðsetninguna fyrir sig, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Var hún því felld úr gildi og Í gert að aflýsa veðskuldabréfinu.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Símon Sigvaldason dómstjóri. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. maí 2017. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi tók dóttir stefndu lán hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og gaf út skuldabréf fyrir því 9. ágúst 2006. Um var að ræða jafngreiðslulán að fjárhæð 2.800.000 krónur bundið vísitölu neysluverðs með föstum vöxtum til 25 ára með mánaðarlegum afborgunum. Lánið mun hafa verið tekið til að fjármagna kaup dóttur stefndu og maka hennar á fasteign. Til tryggingar láninu veittu stefndu veð í fasteign sinni að Bjarkarási 12 í Garðabæ og samþykktu þá ráðstöfun með áritun á bréfið. Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun 21. mars 2009 um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. á grundvelli heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Í þeirri ákvörðun fólst meðal annars að stofnað yrði sérstakt hlutafélag í eigu sparisjóðsins sem tæki við öllum eignum félagsins og tryggingaréttindum, þar með talið veðréttindum. Í samræmi við þetta var hlutafélagið Drómi stofnað og tók það við eignum sjóðsins. Með kaupsamningi 4. mars 2010 seldi Drómi hf. skuldabréfasafn til áfrýjanda, þar með talin skuldabréf útgefin af einstaklingum með veði í íbúðarhúsnæði. Í samningnum var tekið fram að áfrýjandi tæki við öllum réttindum og skyldum samkvæmt seldum skuldabréfum frá afhendingardegi. Fyrrgreint skuldabréf með veði í eign stefndu féll undir kaupsamninginn og í samræmi við það var bréfið áritað 1. maí 2010 um framsal frá sparisjóðnum til áfrýjanda. Lántaki mun hafa staðið í skilum með greiðslu afborgana af skuldabréfinu til ársloka 2014, en í ársbyrjun 2015 sótti hún um greiðsluaðlögun eftir lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga og hefur upp frá því ekkert greitt af bréfinu. Stefndu fóru þess á leit við áfrýjanda með bréfi 2. júní 2015 að skuldabréfinu yrði létt af fasteign þeirra þar sem ekki hefði við lánveitinguna verið gætt að samkomulagi frá 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Bréfaskiptum aðila í kjölfarið er lýst í hinum áfrýjaða dómi. II Með aðilum er í fyrsta lagi ágreiningur um hvort stefndu geti haft uppi við áfrýjanda sem framsalshafa skuldabréfs mótbáru gegn gildi veðsetningarinnar sem þau samþykktu með áritun sinni á bréfið. Verði talið að sú mótbára hafi ekki glatast gagnvart áfrýjanda deila aðilar í öðru lagi um hvort veðsetningin verði felld úr gildi eftir ógildingarreglum samningaréttar. Loks er í þriðja lagi ágreiningur með aðilum um hvort stefndu hafi fyrir tómlæti glatað rétti til að bera brigður á veðsetninguna. Kaup áfrýjanda á skuldabréfasafni af Dróma hf., með fyrrgreindum samningi 4. mars 2010, voru reist á 2. mgr. 15. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál, svo sem þeim var breytt með 11. gr. laga nr. 125/2008. Samkvæmt ákvæðinu var áfrýjanda veitt heimild til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð væru með veði í íbúðarhúsnæði. Fram kom í skýringum við greinina í frumvarpi til síðargreindu laganna að slík ráðstöfun gæti verið þáttur í nauðsynlegum aðgerðum við endurskipulagningu á rekstri fjármálafyrirtækja og til þess fallin að liðka fyrir fjármögnun. Í niðurlagi 2. mgr. 15. gr. laga nr. 44/1998 var lögfest heimild fyrir ráðherra til að mæla nánar í reglugerð fyrir um kaup áfrýjanda á veðskuldabréfum af fjármálafyrirtækjum. Á þeim grunni setti félags- og tryggingamálaráðherra reglugerð nr. 1081/2008 um heimild Íbúðalánasjóðs til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði. Í 7. gr. reglugerðarinnar var fjallað um stöðu lántaka, en þar sagði í 1. mgr. að við yfirtöku skuldabréfalána fjármálafyrirtækja fengi Íbúðalánasjóður stöðu lánveitanda gagnvart lántakendum viðkomandi skuldabréfalána og hefðu lántakendur eftir það sömu réttindi og skyldur gagnvart Íbúðalánasjóði og aðrir lántakendur hjá sjóðnum. Í 2. mgr. ákvæðisins sagði að kjör og skilmálar skuldabréfalána gagnvart lántakendum sem Íbúðalánasjóður yfirtæki skyldu vera óbreytt frá því sem var fyrir yfirtöku Íbúðalánasjóðs á láninu eftir því sem við gæti átt. Reglugerðin var í gildi þegar skuldabréfið með veði í fasteign stefndu var framselt áfrýjanda 1. maí 2010, en hún var felld úr gildi með reglugerð nr. 818/2011.   Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 1081/2008 fékk áfrýjandi „stöðu lánveitanda“ gagnvart lántakendum þeirra skuldabréfa sem hann leysti til sín eftir heimild í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 44/1998 og áttu kjör og skilmálar bréfanna að vera „óbreytt“ frá því sem var fyrir yfirtöku hans á lánum. Að þessu gættu verður að leggja til grundvallar að áfrýjandi hafi ekki öðlast sjálfstæðan rétt á hendur útgefendum skuldabréfa og veðþolum við framsal skuldabréfa til hans. Verður því ekki talið að viðskiptabréfsreglur eigi við um aðilaskiptin heldur gildi um þau almennar reglur kröfuréttar. Eftir þeim öðlast framsalshafi ekki rýmri rétt á hendur skuldara en framseljandi naut og því glatar skuldari engum rétti til að bera fyrir sig mótbárur gagnvart framsalshafa sem hann gat haft uppi gegn framseljanda. Það sama á við um heimild veðþola til að bera fyrir sig mótbárur. Samkvæmt þessu geta stefndu borið fyrir sig gegn áfrýjanda mótbáru sem lýtur að gildi veðsetningarinnar sem þau samþykktu með áritun sinni á skuldabréfið. Stefndu reisa málatilbúnað sinn á því að ekki hafi farið fram greiðslumat á lántaka í aðdraganda þess að henni var veitt lán gegn útgáfu skuldabréfsins 9. ágúst 2006 með veði í eign stefndu. Af hálfu áfrýjanda hefur ekki verið leitt í ljós að slíkt mat hafi farið fram en fyrir því ber hann sönnunarbyrðina. Verður því lagt til grundvallar í málinu að við lánveitinguna hafi ekki verið gætt að þeirri fortakslausu skyldu eftir 3. málsgrein 3. greinar fyrrgreinds samkomulags 1. nóvember 2001 að meta greiðslugetu lántaka. Það var því á áhættu lánveitanda að látið var hjá líða að meta greiðslugetu hennar og eftir atvikum gera stefndu grein fyrir því ef niðurstaða matsins benti til að hún gæti ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Í samræmi við það sem áður sagði um rétt stefndu til að hafa uppi mótbárur gegn áfrýjanda verður hann að bera hallann af því að lánið var veitt án þess að viðhöfð væru þau vönduðu vinnubrögð af lánveitanda sem samkomulagið 1. nóvember 2001 gerði ráð fyrir. Að öðrum kosti verður ekki náð því markmiði samkomulagsins að þriðji maður sem veitti tryggingu með því að setja eign sína að veði eða gangast í ábyrgð gerði sér ljósa grein fyrir þeirri áhættu sem hann tækist á herðar með þeirri skuldbindingu sinni. Þessi atvik við samningsgerðina og staða samningsaðila valda því að ósanngjarnt er fyrir áfrýjanda að bera veðsetninguna fyrir sig, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. og 2. mgr. sömu greinar. Þótt langt hafi liðið frá því stefndu samþykktu veðsetninguna á árinu 2006 verður ekki talið að þau hafi haft tilefni til að bregðast við fyrr en skuldabréfið fór í vanskil í upphafi árs 2015, en þau kröfðust þess með bréfi 2. júní það ár að veðinu yrði létt af fasteign þeirra. Að þessu gættu verða þau ekki talin hafa sýnt tómlæti við gæslu réttar síns þannig að réttarspjöllum varði. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Jafnframt verður áfrýjanda gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.     Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Íbúðalánasjóður, greiði stefndu, Ágústu Hjartar Laufeyjardóttur og Grétari Steindóri Sveinssyni, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2017. Mál þetta, sem dómtekið var þann 16. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri 31. maí 2016 af Grétari Steindóri Sveinssyni og Ágústu Hjartar Laufeyjardóttur, Bjarkarási 12, 210 Garðabæ, á hendur Íbúðalánasjóði, Borgartúni 21, 105 Reykjavík. I. Stefnendur krefjast þess að felld verði úr gildi veðsetning sú, sem stefnendur veittu í fasteign sinni að Bjarkarási 12, 210 Garðabæ, fastanúmer 224-4585, með undirritun sinni á veðskuldabréf nr. 1154-74-200371 (224757), útgefnu af Erlu M. Hjartar Grétarsdóttur, kt. 081282-4559, til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, upphaflega að fjárhæð 2.800.000 kr., dags. 9. ágúst 2006.         Einnig er þess krafist að stefnda verði gert að aflýsa veðskuldabréfi nr. 1154-74-200371 (224757) af fasteigninni Bjarkarási 12, 210 Garðabæ, fastanúmer 224-4585.         Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram í málinu eða að mati réttarins.         Stefndi krefst þess að vera sýkn af öllum kröfum stefnenda og að stefnendum verði sameiginlega (in solidum) gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins. II. Málsatvik          Þann 9. ágúst 2006 gaf Erla M. Hjartar Grétarsdóttir út skuldabréf til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON), upphaflega að fjárhæð 2,8 m.kr., nr. 1154-74-2200371 (224757). Til tryggingar láninu var veitt veð í fasteign stefnenda að Bjarkarási 12, Garðabæ, fnr. 224-4585. Þann 1. maí 2010 var skuldabréfið framselt Íbúðalánasjóði. Erla hafði stuttu áður, eða þann 12. júní 2006, fengið samþykkt kauptilboð í íbúð í Þykkvabæ, Rangárþingi ytra, ásamt maka sínum og þann 15. júní 2006 hafði Erla ásamt maka sínum tekið lán að fjárhæð 12.600.000 kr. hjá Íbúðalánasjóði vegna fasteignakaupanna. Veðskuldabréfið var framselt stefnda frá SPRON þann 1. maí 2010 sem hluti af kaupum stefnda á lánasafni frá SPRON. Framangreint veðskuldabréf var í skilum til ársloka 2014 en frá þeim tíma hefur ekki verið greitt af því. Skuldari fór í greiðsluskjól á grundvelli 11. gr. laga nr. 101/2010 í ársbyrjun 2015.         Þann 1. mars 2009 hafði Fjármálaeftirlitið (FME) tekið ákvörðun skv. heimild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um ráðstöfun eigna og skulda SPRON. Í 4. gr. ákvörðunarinnar kom fram að stofnað yrði sérstakt hlutafélag í eigu SPRON, sem tæki við öllum eignum félagsins og jafnframt við öllum tryggingaréttindum. Sama dag var skipuð skilanefnd yfir SPRON. Í kjölfarið var stofnað félagið Drómi hf. Þann 23. júní 2009 skipaði héraðsdómur slitastjórn yfir SPRON. Þann 1. maí 2010 var framangreint skuldabréf nr. 1154-74-200371 (224757), útgefið 9. ágúst 2006, framselt stefnda, skv. áritun á bréfinu en sama dag voru fjölmörg önnur skuldabréf framseld stefnda frá Dróma hf. Með lögum nr. 125 frá 7. október 2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., hafði verið gerð breyting á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, og við 15. gr. laganna bættist ný málsgrein, sem heimilaði stefnda, Íbúðalánasjóði, að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja, sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði. Tekið var fram að ekki þyrfti að leita samþykkis skuldara fyrir slíkri færslu og nánar væri mælt fyrir um þetta í reglugerð.         Stefnendur sendu bréf til stefnda, dags. 2. júní 2015, þar sem þess var óskað að stefndi myndi aflétta veði vegna skuldabréfs 1006-74-224757 af eign þeirra að Bjarkarási 12. Beiðninni var hafnað með bréfi, dags. 4. júní s.á. Með bréfi stefnenda, dags. 7. júní 2015, til stefnanda var sett fram rökstudd beiðni um afléttingu. Þeirri beiðni var hafnað af stefnda með bréfi, dags. 16. júní s.á. Stefnendur sendu stefnda síðan annað bréf, dags. 7. júlí 2015, ásamt fylgigögnum. Því bréfi var ekki svarað en aðilar málsins áttu í tölvupóstsamskiptum um sama efni. Endanleg niðurstaða stefnda var send stefnendum með tölvupósti, dags. 3. nóvember 2015, og var þar beiðni stefnenda synjað enn á ný. Stefnendur leituðu til lögmanns sem sendi erindi til stefnda með bréfi, dags. 1. desember 2015, þar sem krafist var ógildingar og þess krafist að veð stefnda í eign stefnenda að Bjarkarási 12 yrði afmáð. Þeirri kröfu var hafnað með bréfi, dags. 25. febrúar 2016. Í kjölfarið höfðuðu stefnendur mál þetta og var stefna þingfest þann 31. maí sl. III. Málsástæður og lagarök stefnenda         Af hálfu stefnenda er byggt á því að veðleyfi það, sem stefnendur veittu með undirritun sinni á veðskuldabréf útgefnu af Erlu M. Hjartar Grétarsdóttur til SPRON, dags. 9. ágúst 2006, sé ógilt. SPRON hafi brotið gegn reglum Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, dagsettu 1. nóvember 2001, en það leysti af hólmi eldra samkomulag sama efnis frá árinu 1998. Einnig er byggt á því að SPRON hafi brotið gegn þágildandi 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og 4. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti. Jafnframt er byggt á því að SPRON hafi brotið gegn óskráðum meginreglum kröfu- og samningaréttar. Ógildingarkrafa stefnenda er byggð á 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkomulagið um notkun ábyrgða tók gildi þann 1. nóvember 2001 en aðilar að því voru viðskiptaráðherra, Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, Samband íslenskra sparisjóða og Neytendasamtökin.         Samkvæmt 1. gr. samkomulagsins kom fram að aðilar að samkomulaginu væru sammála um gildi þeirrar stefnu að draga úr vægi ábyrgða en birtingarmynd þess er m.a. sú að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. kemur fram sú regla að sé skuldaábyrgð eða veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu, þá beri fjármálafyrirtæki að greiðslumeta greiðanda nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Þar að auki komi fram í 3. mgr. 3. gr. að ef ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemur meira en 1.000.000 kr., þá sé skilyrðislaus skylda til greiðslumats á skuldara.          Í 2. mgr. 3. gr. samkomulagsins komi fram að við greiðslumat skuli taka tillit til neyslu og annarra fastra útgjalda áður en ráðstöfunarfé til greiðslu skuldbindinga væri reiknað út. Við áætlun á útgjöldum til neyslu skyldi að lágmarki nota viðmiðun Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna eða Íbúðalánasjóðs.         Í 4. gr. samkomulagsins hafi verið mælt fyrir um upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækis. Þar komi fram að fjármálafyrirtæki beri að gefa út upplýsingabæklinga um skuldaábyrgðir og veðsetningar og dreifa með skjölum, sem afhent eru ábyrgðarmönnum til undirritunar. Í bæklingunum komi m.a. fram hvaða skyldur felist í ábyrgðinni, heimild ábyrgðarmanns til að segja henni upp o.s.frv.         Þá komi fram í 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgð, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Einnig að ef niðurstaða greiðslumats bendir til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en ábyrgðarmaður óski eftir að lán verði engu að síður veitt, skuli hann staðfesta það skriflega.         Í fjölmörgum dómum Hæstaréttar hafi ábyrgð verið felld úr gildi ef brotið hefur verið gegn skyldum samkomulagins eða almennum óskráðum og skráðum reglum. Stefnendur vekja athygli á dómi Hæstaréttar í máli nr. 376/2013, 4/2013, 611/2013 og 655/2014.          Óumdeilt sé að ekki fór fram greiðslumat á lántakanum Erlu. Í framangreindri háttsemi SPRON, sem fólst í því að láta ekki fara fram greiðslumat á lántakanum Erlu og sinna ekki upplýsingaskyldu sinni gagnvart stefnendum, hafi einnig falist brot gegn óskráðum og skráðum reglum, þ. á m. þágildandi 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. Hrd. nr. 630/2013. Jafnframt hafi falist í háttseminni brot gegn 4. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti. Einnig hafi falist í þessu brot gegn meginreglu samningaréttar um tillitsskyldu við samningsgerð, trúnaðarskyldunni, sem og brot gegn óskráðum meginreglum kröfuréttar um kröfuábyrgðir.         Þá sé jafnframt þá skyldu að finna í 2. mgr. 4. gr. samkomulagsins að með undirritun lánsumsóknar eða annarra gagna, sem fyllt séu út í tengslum við afgreiðsluna, skuli ábyrgðarmaður staðfesta að hann hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings um ábyrgðir. Stefnendur hafi aldrei verið beðin um að skrifa undir slíkt og því hafi SPRON einnig brotið gegn 2. mgr. 4. gr. samkomulagsins. Því til viðbótar sé fjármálafyrirtækjum skylt í samningi um skuldaábyrgð eða veðsetningu að vísa í samkomulagið, skv. 1. mgr. 9. gr. þess, en fyrir liggi að SPRON sinnti heldur ekki þeirri skyldu sinni. Þá benda stefnendur á að þau hafi ekki fengið áramótatilkynningar um það hvaða kröfum þau væru í ábyrgðum fyrir, hverjar eftirstöðvar væru og hver vanskil væru, eins og skylda beri til skv. 3. mgr. 5. gr. samkomulagsins.         Þrátt fyrir að dómstólar hafi talið nægilegt að skortur á greiðslumati leiði til ógildingar á ábyrgð eða veðleyfi, þá er jafnframt byggt á því að Erla hefði ekki staðist greiðslumat ef slíkt mat hefði farið fram. Því hefði lánveitanda, SPRON, borið skv. 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins að fá það sérstaklega staðfest frá stefnendum hvort þau hygðust veita veð í fasteign sinni þrátt fyrir að greiðslumatið væri neikvætt en það hafi ekki verið gert. Hefðu stefnendur fengið þær upplýsingar að lántakinn, Erla hefði ekki staðist greiðslumat þá hefðu þau aldrei veitt veðleyfi í fasteign sinni. Þannig sé veðleyfi stefnenda einnig ógilt skv. ógildingarreglu samningaréttar um brostnar forsendur.            Varðandi aðild þá hafi stefndi fengið umrætt veðskuldabréf framselt til sín þann 1. maí 2010 skv. áritun á bréfinu og tók sem slíkur við réttindum og skyldum Dróma gagnvart stefnendum og skuldara skuldabréfsins. Ógildingarkröfunni sé því réttilega beint að stefnda í máli þessu.         Í bréfi stefnda komi fram að „Viðskiptabréfareglur leiði til þess að sjóðnum mátti ekki vera kunnugt um neitt annað en að veð stæði til tryggingar skuldabréfinu þegar það var keypt“. Þessu sé alfarið hafnað og réttur áskilinn til frekari andsvara við þessari málsástæðu verði henni borið við í greinargerð stefnda. Í fyrsta lagi eigi viðskiptabréfareglur aðeins við um skuldara en ekki um utanaðkomandi veðsala, svo sem stefnendur séu.         Í öðru lagi er bent á þá staðreynd að bréfið beri það með sér að ekki hafi verið fylgt reglum samkomulagins frá 1. nóvember 2001, þar sem það skorti alfarið að vísað sé til þess samkomulags eins og skylt sé skv. 9. gr. þeirra reglna. Stefndi geti því ekki undir neinum kringumstæðum haldið því fram að hann hafi verið grandlaus um brot SPRON á reglum samkomulagsins, sér í lagi þar sem stefndi er umfangsmikil lánastofnun með sérþekkingu á reglum varðandi útlán og fjármálastarfsemi, með fjölda sérfræðinga í sínum störfum, þ. á m. lögfræðinga, sem megi vita af þeim reglum, sem gilda á lánamarkaði sem og þeirri dómaframkvæmd sem þá var komin varðandi réttaráhrif þess að brotið sé gegn reglum framangreinds samkomulags. Á þessum tíma hafi verið liðin fimm ár frá því að dómur var kveðinn upp í Hæstarétti í máli nr. 163/2005.         Í þriðja lagi geti stefndi ekki haldið því fram að hann hafi verið grandlaus um að SPRON hafi ekki látið fara fram greiðslumat á lántakanum út af ofangreindu láni vegna þess að stefndi var í samstarfi við SPRON, sem fól í sér að stefndi rak vefinn Íbúðalán.is ásamt SPRON og fleiri sparisjóðum. Á heimasíðu stefnda hafi birst frétt þann 5. desember 2004 þar sem fram kom að „Á vefsíðunni Íbúðalán.is geta viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs nú unnið eigið, rafrænt greiðslumat og sótt um lán sjóðsins. [...] Íbúðalán.is er samstarfsverkefni Íbúðalánasjóðs, Félags fasteignasala, Spron og Samband íslenskra sparisjóða.“         Á heimasíðunni Íbúðalán.is hafi komið fram að „Til þess að fá íbúðalán þarf þú að gera greiðslumat“ og að „Áreiðanleiki greiðslumats byggist á því hversu raunhæft mat þú leggur á fjárhagsstöðu þína“. Enn fremur komi fram á síðunni að „Umsókn um lán Íbúðalánasjóðs og sparisjóða hefur verið einfölduð“. Þar kom fram undir yfirskriftinni „Skrefin.“ hvernig ætti að bera sig að; „Gerðu greiðslumat og fáðu staðfestingu á andartaki. Finndu íbúð. Undirritaðu kauptilboð. Sæktu um lán strax hjá fasteignasalanum.“ Þar að auki kom fram undir yfirskriftinni „Pappírslaust. Fljótlegt“ að „Umsókn er fyllt út rafrænt hér fyrir neðan pappírslaust. Staðfest kauptilboð sent með rafrænt. Umsóknin afgreidd hjá okkur á nokkrum dögum.“ Á síðunni Íbúðalán.is hafi enn fremur verið flipi með yfirskriftinni „Greiðslumat“ þar sem eftirfarandi kom fram: „Til þess að fá íbúðalán þarft þú að gera greiðslumat. Hér á síðunni getur þú gert greiðslumat sem gildir í 2 mánuði.“ Í umfjölluninni um greiðslumat sagði enn fremur: „Hafðu í huga að: Áreiðanleiki greiðslumats byggist á því hversu raunhæft mat þú leggur á fjárhagsstöðu þína.“ Af þessu megi ráða að stefndi og SPRON hafi verið í samstarfi sem fól í sér að lántökum var heimilað að gera greiðslumat á sjálfum sér á netinu án þess að slíkar upplýsingar væru staðreyndar. Hæstiréttur hafi tekið af allan vafa um að greiðslumat gegni mikilvægu hlutverki og fjármálafyrirtæki hafi „sjálfstæðar skyldur gagnvart ábyrgðarmanni [...] til þess að tilgreina réttar upplýsingar í greiðslumati sé þess nokkur kostur og afla nauðsynlegra gagna til þess að matið gefi sem besta mynd af ætlaðri greiðslugetu lántakans“. Í þessu felist að SPRON hafi verið beinlínis óheimilt að treysta alfarið á upplýsingar frá lántaka sjálfum. Með því að stefndi stóð í samstarfi við SPRON, sem fól í sér að ef greiðslumat fór fram þá gat það ekki undir neinum kringumstæðum verið löglegt, verði að leggja enn frekar til grundvallar að stefndi gat ekki verið í góðri trú um að ábyrgðin, sem stefnendur gengust í með því að veðsetja fasteign sína, hafi verið lögleg.         Í fjórða lagi hefði framsalið á skuldabréfinu frá Dróma hf. til stefnda ekki verið hefðbundin kaup á bréfum heldur hafi þar verið um að ræða fullnustuaðgerð utan réttar, sem megi jafna til aðfarar, frá Dróma hf. sem var í slitameðferð, þar sem stefndi var með veð í fjölmörgum skuldabréfum SPRON til tryggingar láni stefnda til SPRON. Einnig megi flokka þessa fullnustu til útlagningar við skipti, þar sem um samkomulag var að ræða á milli félags í slitameðferð og stefnda en ef ekki hefði orðið af því framsali hefði stefndi annaðhvort fengið bréfin afhent sem útlagningu við skiptin eða greiðslu peninga og Drómi hf. færi enn með bréfin. Stefndi hafi því fengið umrætt skuldabréf sem hluta af slíkri fullnustuaðgerð eða útlagningu við skipti en í því felst að ekki sé um að ræða framsal í lifanda lífi, eins og skilyrði er til þess að viðskiptabréfareglur eigi við. Viðskiptabréfareglur geti því aldrei komið til skoðunar þótt aðeins sé til þessa litið.         Í fimmta lagi hefði verið sérstaklega mælt fyrir um það í þágildandi lögum nr. 30/1993 um neytendalán, 17. gr. þeirra laga, að ef lánveitandi framseldi  þriðja aðila kröfu gæti neytandi haldið uppi sömu mótbárum við hann og upphaflegan eiganda kröfunnar. Í samræmi við almennar reglur um aðilaskipti glati skuldarar ekki rétti til að hafa uppi mótbárur við síðari kröfuhafa sem þeir gátu beint til fyrri kröfuhafa, sbr. Hrd. 348/2013 og Hrd. 617/2015. Með viðskiptabréfakröfum geti framsal hins vegar leitt til mótbárutaps skuldara. Af því að sérstaklega var mælt fyrir um framangreinda reglu í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 30/1993 hefði verið tekinn af allur vafi um að framsal lánveitanda á viðskiptabréfi til þriðja aðila hefði ekki áhrif á mótbárur neytanda. Þær haldist. Regla þessi var áréttuð í lögum nr. 33/2013 um neytendalán, nánar tiltekið 19. gr. þeirra laga, þar sem fram kemur að ef lánveitandi framselur þriðja aðila kröfurétt sinn samkvæmt lánssamningi, eða samninginn sjálfan, eigi neytandi rétt á því að halda uppi sömu mótbárum gegn framsalshafa sem hann gat nýtt sér gagnvart upphaflegum lánveitanda. Í athugasemdum í greinargerð við ákvæðið kom fram að um væri að ræða hliðstætt ákvæði og í 17. gr. laga nr. 30/1993. Regla 19. gr. laga nr. 33/2013 var sett skv. 17. gr. tilskipunar 2008/48/EB frá 23. apríl 2008.         Í sjötta lagi sé brot á lögum um neytendalán sterk mótbára, sem varði efni kröfunnar. Í 4. mgr. 18. gr. þágildandi laga nr. 30/1993 komi fram að hafi seljandi ekki gilda tryggingu samkvæmt greininni þá geti kaupandi borið fram mótbárur svo sem bréfið væri ekki viðskiptabréf. Framsalshafi verði því að ganga úr skugga um að framseljandi viðskiptabréfs, sem falli undir lög um neytendalán, hafi tryggingu skv. 18. gr. laganna. Ella þurfi hann að sæta mótbárum, sem neytandi gæti haft uppi við framseljanda vegna lögskiptanna að baki. Stefnandi hafi því skorað á stefnda að sanna að hann hafi kannað hvort SPRON hafi haft viðeigandi tryggingu, sem að framan greinir, áður en framsalið átti sér stað. Ef stefndi skorast undan áskorun þessari verði að leggja til grundvallar að stefndi hafi ekki kannað hvort SPRON hafi haft viðeigandi tryggingu og þar af leiðandi verði hann að sæta mótbárum stefnenda í máli þessu.         Í sjöunda lagi hafi framsalið átt sér stað eftir að lög nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, tóku gildi en þar komi fram í 3. gr. að lánveitandi skuli tilkynna ábyrgðarmanni um framsal réttinda sem reist séu á ábyrgðinni eða láni því sem ábyrgðin stendur til tryggingar á. Lögin gildi um framsalshafa eftir því sem við eigi. Þetta ákvæði hafi verið sett skv. athugasemdum í greinargerð til að „fyrirbyggja að ábyrgðarmaður glati mótbárurétti gagnvart framsalshafa beri lánveitanda að tilkynna ábyrgðarmanni um framsal ábyrgðar eða láns sem ábyrgð stendur fyrir. Ákvæði frumvarpsins taka til framsalshafa eftir því sem við á“. Þar sem stefnendum hafi ekki verið kynnt slíkt hafi þeir ekki tapað mótbárurétti gagnvart stefnda í máli þessu.         Í svarbréfi stefnda, dags. 25. febrúar 2016, segi að „Sjóðurinn telur að umbj. þínir hafi glatað hugsanlegum rétti sakir tómlætis“. Þessu hafnar stefnandi. Jafnframt segi í bréfi stefnda að „Jafnframt telur sjóðurinn það algerlega ósannað í málinu að það sé ósanngjarnt í skilningi 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 fyrir sjóðinn að bera fyrir sig veðsetninguna en Íbúðalánasjóður átti enga aðkomu að samkomulagi því sem umbj. þínir telja að hafi verið brotið í aðdraganda lánveitingarinnar heldur leiðir sjóðurinn rétt sinn af skuldabréfinu sjálfu“. Í fyrsta lagi upplýsi stefndi á engan hátt hvaða upplýsingar það séu sem hann óski frekar eftir sem hann telji að skipti máli varðandi sanngirnismat 36. gr. smnl. Dómstólar hafi talið það nægilegt eitt og sér að ábyrgð sé ógild ef greiðslumat hefur ekki farið fram. Það eina sem dómstólar hafi horft til sem hafi getað komið í veg fyrir ógildingu sé ef lánið hefur verið notað til uppgreiðslu eldri skulda sem einnig voru tryggðar með veði í fasteign ábyrgðarmanns, sbr. Hrd. 376/2013. Lánið hafi verið notað vegna fasteignakaupa lántakans. Þá hafi dómstólar einnig litið svo á að þegar greiðslumat skorti þá hvíli sönnunarbyrðin á lánveitanda um hvort ábyrgðin sé ógild eða ekki. Það sé því stefnda að sýna fram á það ef hann telur að ábyrgðin eigi að vera gild, þrátt fyrir að skort hafi á það grundvallarskilyrði að greiðslumeta lántakann. Þá er því alfarið hafnað að það hafi nokkra þýðingu að stefndi hafi ekki átt „aðkomu að“ samkomulaginu, enda leiði stefndi rétt sinn og skyldur vegna framsals bréfsins frá SPRON, sem átti aðkomu og aðild að samkomulaginu.         Með hliðsjón af framangreindu sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af stefnda að bera fyrir sig samþykki stefnenda við því að veðsetja fasteign sína til tryggingar skuld Erlu M. Hjartar Grétarsdóttur, skv. skuldabréfi nr. 1154-74-200371 (224757), þannig að telja verði veðleyfið ógilt skv. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.         Dómstólar hafi ekki farið sérstaklega ofan í kjölinn á þeim atriðum, sem tiltekin séu í 2. mgr. 36. gr. smnl. í málum þar sem um svo verulegt brot gegn ákvæðum samkomulagsins er um að ræða að greiðslumat skorti með öllu, sbr. Hrd. 4/2013, Hrd. 163/2005, Hrd. 630/2013, Hrd. 611/2013 og Hrd. 569/2013 en í öllum tilvikum hafi skort á að greiðslumat hafi farið fram. Í öllum tilvikum hafi Hæstiréttur ekki talið sérstakt tilefni til að gaumgæfa sérstaklega þau atriði, sem nefnd séu í 2. mgr. 36. gr. smnl. Engu að síður telji stefnandi rétt að nefna nokkur atriði sem styðja ógildingarkröfu stefnenda út frá 2. mgr. 36. gr. smnl., þrátt fyrir að sú staðreynd ein að greiðslumat hafi ekki farið fram eigi að nægja til að ábyrgðin sé fallin úr gildi. Hvað varðar efni samnings þá sé um að ræða að stefnendur veittu SPRON veð í fasteign sinni til tryggingar skuld þriðja aðila. SPRON hafi ekki verið í neinum samskiptum við stefnendur vegna þessa og stefnendur höfðu því enga aðkomu að efni samningsins, sem þar að auki var einhliða saminn af SPRON. Staða aðila sé með þeim hætti að stefnendur séu einstaklingar með enga sérstaka þekkingu á lánaviðskiptum en forveri stefnda hafi starfað sem fjármálafyrirtæki skv. lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Hvað varðar þau atvik, sem síðar komu til þá hafi Erla ekki getað staðið við skuldbindingar sínar, sem hafi leitt til þess að hún stendur nú í mikilli skuld við stefnda, sem líklegast muni leiða til þess að Erla verði gerð gjaldþrota. Þá hefði stefnendum ekki verið tilkynnt um framsal skuldabréfsins til stefnda.         Stefnendur byggja kröfur sínar á ákvæðum Samkomulags um notkun sjálfskuldarábyrgða frá 27. janúar 1998, einkum 1., 2., 3., 4. og 8. gr., samkomulagi frá 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, einkum 1., 2., 3., 4. og 9. gr., lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, einkum þágildandi 19. gr., þágildandi lögum nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, einkum 4. gr. og 6. gr., þágildandi lögum nr. 30/1993, um neytendalán, lögum nr. 33/2013, um neytendalán, tilskipun 2008/48/EB frá 23. apríl 2008, lögum nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, lögum nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum  30., 33. gr., 36. gr. og 38. gr., sem og lögfestum og ólögfestum meginreglum samningaréttar og kröfuréttar, þ. á m. meginreglunni um tillitsskyldu í samningssambandi sem og meginreglum um kröfuábyrgðir. Þá er byggt á dómafordæmum Hæstaréttar, sér í lagi Hrd. 655/2014, Hrd. 630/2013, Hrd. 4/2013, Hrd. 611/2013, Hrd. 169/2012, Hrd. 376/2013.         Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Að auki er vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað. Um varnarþing er vísað til 33. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Málsástæður og lagarök stefnda          Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnenda sem röngum og ósönnuðum. Stefndi hafnar því að ógilda beri veðsetninguna líkt og krafist sé í stefnu. Stefnendur hafi hvorki sýnt fram á að ógildingarreglur laga nr. 7/1936 eigi við í málinu né aðrar ólögfestar ógildingarreglur samningaréttar. Stefndi áréttar að það sé stefnenda að sanna að ógildingarreglurnar eigi við í málinu. Það hafi ekki verið gert heldur láti stefnendur nægja að fullyrða að þær eigi við án frekari rökstuðnings eða sannana. Stefndi minnir á að undantekningar frá meginreglunni um að samninga beri að halda beri að túlka þröngt. Þegar af þessum sökum telur stefndi að sýkna eigi hann af kröfum stefnenda.        Auk framangreindra málsástæðna byggir stefndi jafnframt á því að stefnendur hafi glatað rétti til að krefjast ógildingar á veðsetningunni sakir tómlætis auk þess sem viðskiptabréfareglur leiði til mótbárumissis þeirra.         Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sé frá 1. nóvember 2001 og hafi leyst eldra samkomulag sama efnis frá 1998 af hólmi. Samkomulagið taki bæði til sjálfskuldarábyrgða og þegar veitt er lánsveð. Tilgangur samkomulagsins hefði verið að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga á skuldum annarra einstaklinga og að lánveitingar yrðu miðaðar við greiðslugetu og tryggingar aðalskuldara. Í þessu samhengi sé vert að benda á að ljóst sé af dskj. nr. 21 að stefndi hefur aldrei verið aðili að samkomulaginu, enda hafi stefndi ekki veitt lán tryggð með veði í eign þriðja manns. Í ljósi þess, að stefndi hefur aldrei verið aðili að samkomulaginu, verði að gjalda varhug við málflutningi stefnenda þess efnis að þegar af þeim sökum að ekki hafi verið gert greiðslumat á skuldara hins umdeilda láns beri að ógilda veðsetninguna. Hið sama gildi um tilvísun stefnenda til dómafordæma þar sem allir þeir dómar, sem vísað sé til í stefnu, varði fjármálafyrirtæki sem áttu aðild að samkomulaginu. Þá sé ávallt um sama aðila að ræða og var upprunalegur lánveitandi, þ.e. í engu máli hafi átt sér stað framsal skuldabréfs. Í máli þessu sé stefndi framsalshafi en ekki eiginlegur lánveitandi og hafi að auki aldrei átt aðkomu að samkomulaginu um notkun ábyrgða.          Í 36. gr. sml. segi að samningi megi víkja til hliðar ef talið er „ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig“. Þá segi í 2. mgr. að við mat á þessu eigi að líta til efnis samnings, atvika við samningsgerð og loks atvika sem síðar komu til. Svo sem áður er rakið hafi stefndi ekki átt aðild að samkomulaginu. Stefnendur þurfi því að sýna fram á og sanna að það sé ósanngjarnt af stefnda sem grandlausum framsalshafa að bera fyrir sig veðsetninguna. Hér hljóti því frekari sjónarmið að koma til skoðunar en þegar um er að ræða mál, er varða upprunalegan lánveitanda, sem aðild á að samkomulaginu. Umfjöllun í stefnu um brot SPRON á hinum ýmsu lögum og reglum við veðsetninguna skipti engu máli við úrlausn málsins. Því sé hvergi haldið fram að stefndi hafi með nokkru móti brotið á stefnendum. Það geti því ekki talist ósanngjarnt af hálfu stefnda að bera fyrir sig skýr og skilmerkileg ákvæði skuldabréfsins, sem kveði á um veðsetningu fasteignarinnar að Bjarkarási 12. Lánveitandinn, SPRON, kunni að hafa brotið á skyldum sínum gagnvart stefnendum og jafnvel valdið þeim tjóni. Stefnendur kunni því að eiga rétt á skaðabótum hjá hverjum þeim aðila sem hafi yfirtekið skyldur SPRON skv. dskj. nr. 20 en það sé stefnda algerlega óviðkomandi. Þá hafnar stefndi því sérstaklega að hann sé bundinn af skyldum samkomulags, sem hann sé ekki aðili að og hafi raunar aldrei átt aðild að.         Lánið, sem deilt er um í málinu, sé í vanskilum í dag og hafi verið í nokkurn tíma. Lánið hafi þó ekki verið í vanskilum þegar stefndi fékk það framselt til sín og greitt hafi verið af því í tæp fimm ár áður en það fór í vanskil. Það hafi raunar fyrst farið í vanskil þegar að skuldari lánsins fékk samþykkta umsókn um greiðsluaðlögun. Í þessu samhengi sé vert að hafa í huga að alkunna sé að margir lentu í greiðsluvanda um og eftir bankahrunið svokallaða. Þá beri einnig að hafa í huga að meginþorri vanskila lánsins sé tilkominn á tíma greiðsluskjóls skuldara þess en því hafi lokið þann 20. apríl 2016 og var tilkynnt um það 12. maí s.á. Í þessu ljósi verði að telja að upphafleg lánveiting hafi verið í samræmi við greiðslugetu skuldara en jákvætt greiðslumat feli ekki í sér að lánveitandi ábyrgist að greitt verði af láninu um ókomna framtíð. Það stangist því á við gögn málsins, sem haldið er fram í stefnu, að greiðandi hefði ekki staðist greiðslumat. Þá sé einnig vert að hafa í huga að skuldari lánsins hljóti að hafa farið í greiðslumat hjá stefnda vegna bréfsins, sem finna má á dskj. 3, enda sé það skilyrði fyrir lánveitingum hjá sjóðnum, sbr. 18. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998. Telja verði líklegt, hafi ekkert greiðslumat verið framkvæmt af SPRON, að greiðslumati frá stefnda hafi verið framvísað í sparisjóðnum við veitingu hins umdeilda láns og því ekki verið talin þörf á sérstöku greiðslumati.         Umfjöllun stefnenda í D-lið stefnu um afstöðu stefnda í bréfi á dskj. nr. 13 er sérstaklega mótmælt. Ekki sé nægjanlegt að leggja fram gögn við mat á því hvort skilyrði 36. gr. sml. fyrir ógildingu séu fyrir hendi heldur þurfi að heimfæra þau gögn og málavexti upp á ákvæðið. Af þessum sökum fallist stefndi ekki á kröfu stefnenda um ógildingu veðsetningarinnar. Það sé því rangt, sem stefnendur haldi fram, að það sé stefnda að sanna að veðið sé gilt enda gangi það þvert á allar sönnunarreglur íslensks réttar. Stefnendur haldi því fram að það sé ósanngjarnt af hálfu stefnda að bera fyrir sig veðsetninguna og það sé þeirra að sýna og sanna að svo sé. Stefndi hafnar því einnig sérstaklega að hann leiði rétt sinn og skyldur frá SPRON og verði því að sæta því að þar sem sparisjóðurinn hafi átti aðild að samkomulaginu þá sé stefndi óbeint orðinn aðili að því. Stefndi hafnar því þessari málsástæðu sem rangri og ósannaðri. Þá leiði stefndi ekki rétt sinn og skyldur frá SPRON heldur leiðir hann rétt sinn frá efni skuldabréfsins sjálfs í samræmi við viðskiptabréfareglur. Röksemdarfærsla og málsástæður stefnenda að þessu leyti standist ekki.         Í niðurlagi stefnu sé farið frjálslega með túlkun á 36. gr. sml. og því haldið fram að dómstólar hafi ekki sérstaklega metið hvort skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt þegar talið hefur verið að lánveitandi hafi ekki fylgt ákvæðum samkomulagsins. Stefndi ítrekar fyrri umfjöllun þess efnis að í tilvitnuðum dómum í stefnu hafi aldrei farið fram hefðbundið framsal og því oftast um sama aðila að ræða og veitti upphaflegt lán eða banka sem stofnaður var á rústum hinna föllnu banka í kjölfar bankahrunsins. Staðan í máli þessu sé allt önnur. Stefndi verði ekki samsamaður með sama hætti upphaflegum lánveitanda, enda engin sérstök tengsl milli Íbúðalánasjóðs og SPRON. Tilvísanir stefnenda til þess að SPRON teljist forveri stefnda standast því ekki enda sé fyrrnefndi aðilinn ekki forveri stefnda, nema þá sem kröfuhafi að hinu umdeilda skuldabréfi. Stefndi hafi enga aðkomu átt að lánveitingunni sjálfri eða aðdraganda hennar og því standist ekki að vísa til þess að það halli á stefnendur gagnvart stefnda við lánveitinguna. Þá skipti það engu máli við mat á því hvort skilyrði 36. gr. séu uppfyllt að veruleg vanskil séu á skuldabréfinu svo löngu eftir útgáfu þess. Stefnendur hafi ekki með nokkru móti getað haft réttmætar væntingar til þess eða gert það að forsendu fyrir veitingu veðsins að bréfið færi aldrei í vanskil. Þá sé það algerlega órökstutt að „hin mikla skuld“ muni líklegast leiða til gjaldþrots skuldara bréfsins. Stefndi hafi engar áætlanir uppi um að setja hana í þrot og ekki séu færð nein rök fyrir því að aðrir kröfuhafar hyggi á slíkt. Það hafi að auki enga þýðingu við úrlausn málsins.         Stefnendur byggi einnig á því að forsendur fyrir veðsetningunni séu brostnar og sú málsástæða sé lítt rökstudd í stefnu. Skilyrði þess að ógilda megi samning á grundvelli brostinna forsendna séu þrenns konar. Í fyrsta lagi þurfi forsendan að vera ákvörðunarástæða loforðsgjafa, þ.e. veruleg forsenda. Í öðru lagi þurfi forsendan að hafa verið ljós eða mátt vera ljós gagnaðila við samningsgerð. Í þriðja lagi þurfi ástæðan að vera mikilvæg og hér þurfi að líta til hagsmuna beggja aðila þannig að reglan leiði ekki til óréttlátrar réttarskerðingar fyrir annan aðilann. Öll skilyrðin þurfi að vera uppfyllt en telja verði að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að neitt þessara skilyrða sé uppfyllt í málinu. Aðeins sé gerð tilraun til að fjalla lítillega um fyrsta skilyrðið án þess að sannað sé að það sé uppfyllt. Þá sé engin umfjöllun um það hvernig seinni tvö skilyrðin séu uppfyllt, auk þess sem tæplega sé hægt að ógilda veðsetningu á grundvelli brostinna forsendna gagnvart framsalshafa, enda um veika mótbáru að ræða sem glatist við framsal. Stefndi telur jafnframt að vilji stefnenda hafi verið að aðstoða dóttur sína, skuldara lánsins, og maka hennar við fasteignakaup með því að veita veðleyfi. Önnur niðurstaða eigi sér enga stoð í gögnum málsins. Ekki sé því hægt að fallast á þessa málsástæðu stefnenda.         Stefndi byggir á því að viðskiptabréfareglur gildi um framsal bréfsins frá lánveitanda til stefnda, enda standi rök ekki til annars, sjá dóm Hæstaréttar frá 1999, bls. 3582 í dómasafni réttarins (mál nr. 87/1999). Skuldabréfið sé sannarlega viðskiptabréf og ekki nein rök til annars en að viðskiptabréfareglur gildi um framsalið, enda sé skuldabréfið áritað um framsalið og í kjölfar þess greitt af bréfinu hjá stefnda. Þó svo að ógildingarkröfu á veðsetningunni kunni að vera réttilega beint að stefnda þýðir það ekki sjálfkrafa að stefnendur hafi ekki glatað mótbárurétti sínum gagnvart framsalshafa. Stefndi telur að það eigi við í málinu og bendir á að mótbárur er lúta að stofnun kröfunnar og því að hún kunni að vera ógildanleg á grundvelli 36. gr. sml. séu veikar mótbárur, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar frá 1999, bls. 3582.         Stefndi hafnar því alfarið sem órökstuddu og ósönnuðu að viðskiptabréfareglur gildi ekki gagnvart stefnendum, enda myndi slíkt vinna gegn meginmarkmiðum viðskiptabréfareglna. Tilgangur þeirra sé að stuðla að því að framsalshafi fái þann rétt, sem hið framselda bréf beri með sér, og gera þannig viðskipti með viðskiptabréf einföld og örugg. Ef reglurnar giltu ekki gagnvart ábyrgðarmönnum eða veðsölum skuldabréfa með sama hætti og gagnvart skuldurum væri hagræðið af viðskiptabréfareglunum lítið sem ekkert. Þá sé í reynd lítill eðlismunur á því að vera skuldari og ábyrgðarmaður eða veðsali, enda megi segja að ábyrgðarmaður eða veðsali sé skuldari til vara og því engar rökréttar ástæður til að telja að viðskiptabréfareglur gildi ekki gagnvart stefnendum.           Stefndi telur að hann hafi öðlast þann rétt, sem bréfið ber með sér. Bréfið sjálft beri það með sér að þar sé lán með tilteknum skilmálum, sem tryggt sé með 4. veðrétti í fasteigninni að Bjarkarási 12, fnr. 224-4585. Það sé sá réttur sem stefnda sem framsalshafa mátti vera ljós við framsal kröfunnar. Tilvísanir stefnenda til samkomulagsins og skorts á vísun í það snúi að lögskiptunum að baki lánveitingunni og hafi þ.a.l. engin áhrif á rétt framsalshafa. Það sé í algerri andstöðu við viðskiptabréfareglur að ætla framsalshafa að kanna slíkt og því beri að hafna þessari málsástæðu stefnenda. Stefndi ítrekar að hann veiti ekki og hafi aldrei veitt lán með veði í eign þriðja aðila. Stefndi verði því ekki talinn sérfræðingur í reglum um lánveitingar sem hann hefur aldrei stundað. Stefndi bendir á að um lán Íbúðalánasjóðs gildi sérstakar reglur, er grundvallist á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, og reglugerðum settum á grundvelli þeirra laga.         Stefndi hafnar alfarið málsástæðu stefnenda þess efnis að stefnda hafi verið kunnugt um hvaða greiðslumat fór fram hjá SPRON vegna samstarfs um vefinn íbúðalán.is. Stefndi hafi aldrei haft heimildir til að fylgjast með greiðslumati hjá öðrum lánastofnunum, enda stæðist slíkt ekki lög, sjá t.d. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Auk þess sé það mjög vafasamt frá samkeppnissjónarmiðum. Umfjöllun stefnenda um grandsemi stefnda sé því alfarið hafnað sem rangri og ósannaðri, sérstaklega í þessu samhengi.         Stefndi hafnar málsástæðu stefnenda þess efnis að ekki hafi verið um „hefðbundin kaup á bréfum að ræða“ heldur „fullnustugerð utan réttar sem jafna má til aðfarar“. Þessi fullyrðing eigi sér enga stoð í gögnum málsins og sé alfarið röng, enda sé áritað á bréfið sjálft f.h. SPRON að það sé framselt til stefnda. Ekkert í gögnum málsins styðji fullyrðingar stefnenda og þeim sé hafnað sem röngum og ósönnuðum með öllu. Gegn mótmælum stefnda verður því ekki miðað við annað en að bréfið hafi verið framselt í lifanda lífi og því eigi viðskiptabréfareglur við í málinu.         Stefndi telur að hvorki tilvísanir stefnenda til laga nr. 30/1993, um neytendalán, né áskoranir um að stefndi sýni fram á tilteknar tryggingar hafi verið til staðar. Ljóst sé að ákvæði 17. gr. fyrrgreindra laga eiga ekki við um viðskiptabréf þegar trygging er til staðar skv. 18. gr., en sú grein skyldi lánveitendur til að vera með tilteknar tryggingar. Telja verður að SPRON hafi verið með slíkar tryggingar við veitingu lánsins, enda hafi sparisjóðurinn veitt fjöldamörg neytendalán í formi skuldabréfa. Stefndi ítrekar jafnframt að ógildingarástæða stefnenda byggi einkum á 36. gr. sml. sem er veik mótbára er glatist við framsal.          Umfjöllun stefnenda um lög um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, breyti engu um gildi viðskiptabréfareglna. Hvort sem stefnendum var kynnt sérstaklega framsal skuldabréfsins eða ekki breyti það engu í þessu efni, enda ekki kveðið á um það í lögum um ábyrgðarmenn hvaða afleiðingu það hafi að tilkynningu sem þessari sé ekki sinnt. Stefndi hafnar því að um úrslitaatriði við úrlausn málsins sé að ræða.          Stefndi telur að stefnendur hafi glatað rétti til að bera fyrir sig að ranglega hafi verið staðið að veðsetningu fasteignar þeirra sakir tómlætis. Bréfið sé gefið út í ágúst 2006 en ekkert heyrist frá stefnendum fyrr en tæpum níu árum síðar eða sumarið 2015. Stefndi bendir á að í stefnu komi fram að fyrstu dómarnir um ógildingu veða á grundvelli samkomulagsins hafi fallið árið 2005. Þá hafi mál ábyrgðarmanna og veðsala komist í fréttir og almenna umræðu af og til síðustu ár. Þá bendi stefnendur sjálfir á nokkurra ára gamla dóma þar sem reynt hafi á gildi ábyrgða og lánsveða. Þrátt fyrir þetta heyrist ekkert í stefnendum fyrr en mörgum árum síðar.         Hvergi sé að finna í íslenskum rétti almenna lögfesta reglu um tómlæti en þó séu nokkur lagaákvæði sem byggi á grundvallarsjónarmiðum þar að lútandi, t.d. 32. gr. lausafjárkaupalaga, nr. 50/2000, og 48. gr. fasteignakaupalaga, nr. 40/2002. Bæði ákvæði gera ráð fyrir að aðilar geti glatað rétti mun fyrr en sem nemur þessum níu árum, sem liðu frá því að stefnendur veittu veðið og þar til stefnendur gerðu athugasemdir við gildi veðsetningarinnar. Raunar komi fyrst fram athugasemdir við veðsetninguna þegar ljóst var að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara bréfsins voru felldar niður og ljóst var að skuldabréfið var komið í nokkur vanskil. Stefnendum hafi verið í lófa lagið að fara miklu fyrr af stað og var raunar tilefni til þess áður en til framsals kom af þeirra hálfu að skoða þessi mál. Þau verði því að bera hallann af því að svo hafi ekki verið og það sé ósanngjörn og óeðlileg niðurstaða að láta stefnda, framsalshafa bréfsins, er ekki kom að upphaflegri lánveitingu, bera tjónið af tómlæti þeirra.          Varðandi þá málsástæðu að stefnendum hafi ekki verið tilkynnt um framsal bréfsins frá SPRON til stefnda þá sé það meginregla að kröfuhafaskipti séu heimil án þess að skuldarar eða ábyrgðarmenn/veðsalar hafi nokkuð um þau að segja. Í öðru lagi hafi skuldabréfinu var haldið í skilum í fjögur og hálft ár frá framsali og ekkert á þeim tíma hafi bent sérstaklega til þess að reyna myndi á ábyrgð stefnda sem veðsala           Um lagarök vísar stefndi einkum til meginreglna fjármuna- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir fjárskuldbindinga. Þá vísar stefndi til 36. gr. samningalaga, nr. 7/1936, auk meginreglna íslensks réttar um tómlæti. Loks er vísað til ólögfestra meginreglna um viðskiptabréf og framsal þeirra. Þá er sérstaklega vísað til dóms Hæstaréttar frá 1999, bls. 3582 (nr. 87/1999).         Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. IV. Niðurstaða         Í máli þessu liggur ekki fyrir að af hálfu upphaflegs lánveitanda, SPRON, hafi verið sinnt fortakslausri skyldu hans samkvæmt 3. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Þannig hafi ekki verið staðið rétt að lánveitingu þegar framangreind veðskuld stofnaðist. Ekki hefur verið sýnt fram á að við lánveitinguna hafi farið fram greiðslumat á skuldara. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að stefnendum hafi verið kynnt staða sín sem ábyrgðarmanna eða að þau hafi fengið í hendur upplýsingabækling í samræmi við 4. gr. samkomulagsins.         Krafa samkvæmt skuldabréfinu, sem lántaki gaf út til SPRON, færðist til Dróma hf. með stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins skv. heimild í 100. gr. laga nr. 125/2008, um ráðstöfun eigna og skulda SPRON hf. Í samræmi við almennar reglur um aðilaskipti, sem hér eiga við, glötuðu stefnendur sem veðþolar ekki rétti til að hafa uppi við síðari kröfuhafa þær mótbárur sem þau hefðu getað beint að þeim fyrri. Þannig verður samkvæmt almennum reglum um aðilaskipti að kröfuréttindum talið að Dómi hf. hafi ekki öðlast rýmri rétt á hendur stefnendum með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins en forveri hans hafði. Með sama hætti verður ekki fallist á að stefnendur hafi glatað þessum mótbárurétti sínum þó að stefndi Íbúðalánasjóður hafi með kaupsamningi, dags. 4. mars 2010, á grundvelli 15. gr. laga nr. 44/1998, sbr. 11. gr. laga nr. 125/2008 og reglugerðar nr. 108/2008 gert samning um kaup stefnda á tilteknu skuldabréfasafni Dróma hf., þar með töldu framangreindu veðskuldabréfi með veði í fasteign stefnenda. Tekið er fram í gr. 4.1 í kaupsamningi að kaupandi taki við öllum réttindum og skyldum samkvæmt hinum seldu skuldabréfum frá afhendingardegi. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á að viðskiptabréfareglur gildi um framsal bréfsins frá lánveitanda til stefnda eins og byggt er á að hálfu stefnda. Ekki verður fallist á að þýðingu hafi í þessu sambandi að stefndi hafi ekki verið aðili að umræddu samkomulagi fjármálafyrirtækja.          Ekki er fallist á að þýðingu hafi varðandi úrlausn máls þessa að stefndi sé ekki og hafi ekki verið aðili að umræddu samkomulagi frá 1. nóvember 2001.           Varðandi þá málsástæðu stefnda að stefnendur hafi tapað rétti til að bera fyrir sig að ranglega hafi verið staðið að veðsetningu fasteignar þeirra sakir tómlætis þá var framangreint veðskuldabréf í skilum til ársloka 2014 en frá þeim tíma var ekki greitt af því þar sem skuldari fór í greiðsluskjól á grundvelli 11. gr. laga nr. 101/2010 í ársbyrjun 2015. Í framhaldi af því hófu stefnendur að leita eftir því við stefnda að umræddri veðsetningu yrði aflétt þar sem ekki hefði verið staðið rétt að henni af hálfu lánveitanda og liggja fyrir í málinu gögn um samskipti stefnenda og stefnda vegna þessa. Telja verður að þá fyrst hafi verið tilefni fyrir stefnendur til að bregðast við. Það var síðan þann 20. apríl 2016 að Embætti umboðsmanns skuldara tók ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir í máli lántaka. Samkvæmt því sem rakið hefur verið verða stefnendur ekki talin hafi fyrirgert rétti sínum til að hafa uppi fyrrgreinda ógildingarkröfu gagnvart stefnda með tómlæti af sinni hálfu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 762/2016.         Samkvæmt því sem rakið hefur verið braut lánveitandi fortakslausa reglu 3. mgr. 3. gr. samkomulagsins frá 1. nóvember 2001 og viðhafði ekki vönduð vinnubrögð sem fjármálastofnun í lögskiptum sínum við stefnendur. Eins og rakið hefur verið verður ekki litið svo á að stefnendur hafi sem veðþolar glatað rétti til að hafa uppi við síðari kröfuhafa þær mótbárur sem þau hefðu getað beint að þeim fyrri. Samkvæmt þessu og með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga er fallist á með stefnendum að ósanngjarnt sé af stefnda að byggja rétt sinn á veðsetningunni og bera hana fyrir sig.          Með vísan til þessa er fallist á að felld verði úr gildi veðsetning sú, sem stefnendur veittu í fasteign sinni að Bjarkarási 12, 210 Garðabæ, fastanúmer 224-4585, með undirritun sinni á veðskuldabréf nr. 1154-74-200371 (224757), útgefnu af Erlu M. Hjartar Grétarsdóttur, til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, upphaflega að fjárhæð 2.800.000 kr., dags. 9. ágúst 2006.         Að fenginni þessari niðurstöðu verður stefnda jafnframt gert að aflýsa veðskuldabréfi nr. 1154-74-200371 (224757) af fasteigninni Bjarkarási 12, 210 Garðabæ, fastanúmer 224-4585.         Að fengnum þessum málsúrslitum og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmur til að greiða stefnendum málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.800.000 kr.         Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn. Dómsorð: Felld úr gildi veðsetning, sem Grétar Steindór Sveinson og Ágústa Hjartar Laufeyjardóttir veittu í fasteign sinni að Bjarkarási 12, 210 Garðabæ, fastanúmer 224-4585, með undirritun sinni á veðskuldabréf nr. 1154-74-200371 (224757), útgefnu af Erlu M. Hjartar Grétarsdóttur, til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, upphaflega að fjárhæð 2.800.000 kr., dags. 9. ágúst 2006.         Stefnda, Íbúðalánssjóði, ber að aflýsa veðskuldabréfi nr. 1154-74-200371 (224757) af fasteigninni Bjarkarási 12, 210 Garðabæ, fastanúmer 224-4585.         Stefndi greiði stefnendum 1.800.000 kr. í málskostnað.
Mál nr. 311/2017
Fasteignakaup Galli Skipulag Upplýsingaskylda Afsláttur Matsgerð
AS og AP kröfðu G og H um eftirstöðvar kaupverðs samkvæmt kaupsamningi þeirra um fasteign. G og H töldu sig eiga rétt á afslætti þar sem fasteignin hefði verið gölluð sökum þess að AS og AP hefðu ekki upplýst þau við söluna um fyrirhugaða byggð við húsið sem hefði í för með sér skerðingu á útsýni. Í dómi Hæstaréttar kom fram að AS og AP og fasteignasalanum hefði verið kunnugt um að í gildandi deiliskipulagi væri gert ráð fyrir umræddri byggð og bar fasteignasalanum að geta þess í söluyfirliti. Hefðu AS og AP hins vegar ekki sýnt fram á að það hefði verið gert eða að G og H hefði á annan hátt verið veittar þessar upplýsingar áður en kaupin fóru fram en um það bæru AS og AP sönnunarbyrði. Var því talið að AS og AP hefðu brotið gegn 26. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup og væri það galli á fasteigninni. Hefðu G og H því mátt samkvæmt 37. gr., sbr. 41. og 44. gr. laganna, krefjast afsláttar að tiltölu og halda eftir greiðslu sem því nam en það gerðu þau með því að halda eftir 10% af umsömdu kaupverði. Undir rekstri málsins í héraði var aflað matsgerðar þar sem verðrýrnun fasteignarinnar vegna byggðarinnar var metin 7% og yfirmatsgerðar þar sem hún var metin 10%. Talið var að yfirmatsgerðin væri haldin slíkum annmörkum að á henni yrði ekki byggt og var undirmatið því lagt til grundvallar. Fyrir lá að G og H höfðu fengið greiddar bætur úr starfsábyrgðartryggingu fasteignasalans sem þau í beinu framhaldi greiddu AS og AP. Var sú innborgun hærri en nam þeirri fjárhæð sem H og P áttu eftir að standa skil á til rétts uppgjörs á kaupunum. Voru G og H því sýknuð af kröfu AS og AP.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Jóhannes Sigurðsson landsréttardómari. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 19. maí 2017. Þau krefjast þess að stefndu verði gert að greiða sér 6.441.209 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.535.000 krónum frá 15. september 2015 til 1. október sama ár, af 5.353.700 krónum frá þeim degi til 15. sama mánaðar og af 6.441.209 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 7. mars 2016 að fjárhæð 4.233.333 krónur. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi gerðu aðilar með sér kaupsamning 3. júlí 2015 um fasteignina Súluhöfða 28 í Mosfellsbæ og seldu þar áfrýjendur stefndu einbýlishús sitt. Í samningnum sagði meðal annars: „Aðilar kaupsamnings þessa hafa kynnt sér og áritað söluyfirlit fasteignasölunnar og skoðast það sem hluti af kaupsamningi um eignina.“ Áfrýjendur höfðu fengið nafngreindri fasteignasölu eignina til sölumeðferðar og bar fasteignasala samkvæmt 10. gr. þágildandi laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa að gera rækilegt yfirlit yfir öll þau atriði sem máli gætu skipt við söluna. Í 11. gr. laganna voru ákvæði um efni söluyfirlits og samkvæmt c. lið 2. mgr. þeirrar lagagreinar skyldu vera upplýsingar um ástand eignar, þar á meðal um galla sem seljanda eða fasteignasala væri kunnugt um. Bæði áfrýjendum og fasteignasala var kunnugt um að í gildandi deiliskipulagi fyrir vestursvæði Mosfellsbæjar, Höfðahverfi, væri gert ráð fyrir að á sex lóðum fyrir norðan húsið að Súluhöfða 28 risu allt að 5 metra há einbýlishús og myndi þá skerðast að mun óhindrað útsýni frá því húsi til sjávar og fjalla í norðri og norðvestri. Fasteignasalanum bar því að geta þessara upplýsinga í söluyfirlitinu. Áfrýjendur hafa ekki sýnt fram á að það hafi verið gert eða að stefndu hafi á annan hátt verið veittar upplýsingar um þetta áður en kaupin voru gerð en um það bera þau sönnunarbyrði. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður að leggja til grundvallar að áfrýjendur hafi brotið gegn ákvæði 26. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup með því að upplýsa stefndu ekki um fyrirhugaða byggð og telst það galli á fasteigninni, en áfrýjendur stoðar ekki í þessu sambandi að bera fyrir sig aðgæsluskyldu kaupanda samkvæmt 3. mgr. 29. gr. sömu laga. Vegna þessa galla máttu stefndu samkvæmt 37. gr., sbr. 41. gr. og 44. gr. laganna, krefjast afsláttar að tiltölu og halda eftir greiðslu sem því nam. Það gerðu stefndu með því að halda eftir 10% af umsömdu kaupverði að fengnu verðmati sem þau öfluðu einhliða og reistu mál sitt á samkvæmt greinargerð þeirra í héraði. II Undir rekstri málsins í héraði öfluðu stefndu tveggja matsgerða dómkvaddra manna um hlutfallslega verðrýrnun fasteignarinnar að Súluhöfða 28 vegna fyrirhugaðrar byggðar, sem rísa ætti í nágrenni hennar og skerða myndi útsýni þaðan, til þess að leiða í ljós heimild sína til afsláttar. Löggiltur fasteignasali var dómkvaddur til þessa 4. mars 2016 og mat hann verðrýrnunina 7%. Stefndu sættu sig ekki við þá niðurstöðu og kröfðust yfirmats 27. apríl sama ár. Dómkvaddir voru hæstaréttarlögmaður og löggiltur fasteignasali og luku þeir mati 5. ágúst 2016 þar sem verðrýrnunin var metin 10%. Í héraðsdómi var yfirmatið lagt til grundvallar. Áfrýjendur halda því fram að svo miklir annmarkar séu á yfirmatinu að á því verði ekki byggt. Þau benda meðal annars á að þar sé talið að næði muni minnka við það að æfingasvæði golfvallar, bifreiðastæði og göngustígur hverfi norðan lóðarmarka Súluhöfða 28 og þess í stað komi lóðir einbýlishúsa. Ný húsaröð komi mjög nálægt húsinu og nýir nágrannar stefndu muni eiga suðurlóð að lóð þeirra. Notkun aðliggjandi nýrra lóða verði í miklu meira návígi heldur en núverandi gangstígur og athafnasvæði á golfvelli. Byggi yfirmatsmenn það mat á því meðal annars að nýju húsin muni rísa í 10 metra fjarlægð frá norðurvegg Súluhöfða 28 og sé sú fjarlægð miðuð út frá yfirlitsteikningu sem sýni byggingarreiti lóðanna en ekki raunverulega staðsetningu húsanna. Í fyrsta lagi sé ljóst að norðurveggur hússins að Súluhöfða 28 sé ekki í 5 metra fjarlægð frá lóðarmörkum eins og byggingarreitur leyfi heldur að minnsta kosti 8 metra frá lóðarmörkum eins og sjá megi af grunnmynd hússins í málsgögnum. Af því leiði einnig að það álit yfirmatsmanna að áfrýjendur hafi markað sér stærri lóð til norðurs sem nemi 4 metrum sé rangt með öllu. Hið rétta sé að lóðarmörkin séu innan við einum metra sunnar en mörkun áfrýjenda, þar sem munurinn sé mestur austast á lóðinni en mörkin séu rétt að vestan. Verði að telja í ljós leitt að yfirmatsmenn hafi reist matið á þessum röngu forsendum en samkvæmt framburði þeirra fyrir héraðsdómi hafi þeir báðir talið að húsið stæði að minnsta kosti 3 metrum norðar en raunin er. Þá sé ennfremur ljóst að suðurmörk byggingarreits nýrra húsa að norðanverðu sé ekki bindandi byggingarlína eins og yfirmatsmenn hafi ranglega talið í matsgerð og borið nánar um fyrir dómi. Megi í raun telja líklegast að þeir sem þar komi til með að byggja muni fremur gera það norðar á lóðunum til að hafa rúmbetri suðurlóð að baki húsunum þar sem sólar nýtur. Megi þannig reikna með að fjarlægð milli húsanna verði að minnsta kosti 15 til 20 metrar en ekki 10 metrar eins og yfirmatið sé reist á og álykta megi að næði muni fremur aukast en minnka eins og matið geri ráð fyrir. Við skýrslugjöf yfirmatsmanna fyrir héraðsdómi kom fram að þeir hafi reist ályktanir sínar um skerðingu útsýnis frá húsinu að Súluhöfða 28 vegna nýrrar byggðar norðan við það á þeim forsendum um fjarlægð milli húsa sem að framan getur. Verður að leggja til grundvallar að þær forsendur séu rangar. Þótt yfirmatsmenn hafi svarað því til fyrir héraðsdómi að þetta hefði ekki áhrif á niðurstöður þeirra verður að gæta að því að ekki verður séð að þetta hafi verið borið upp við þá fyrr en við aðalmeðferð málsins eða að þeir hafi haft tök á að yfirfara nægilega yfirmatsgerð sína með tilliti til þessa og komast sameiginlega að niðurstöðu. Að því virtu er ekki unnt að byggja á niðurstöðu yfirmatsgerðarinnar við úrlausn málsins. Eftir stendur þá óhögguð undirmatsgerð þar sem komist var eins og áður segir að þeirri niðurstöðu að verðgildi fasteignarinnar rýrni um 7% vegna nýrrar byggðar norðan við hana. Verður það lagt til grundvallar. Samkvæmt framansögðu eiga stefndu tilkall til 7% afsláttar af kaupverði fasteignarinnar, 63.500.000 krónum, og máttu þau halda þannig eftir 4.445.000 krónum af greiðslu kaupverðs. Þau héldu á hinn bóginn eftir 6.350.000 krónum af kaupverðinu vegna þessa og höfðuðu áfrýjendur mál þetta til heimtu á þeirri fjárhæð að viðbættum 91.209 krónum vegna uppgjörs á gjöldum og kostnaði í tengslum við kaupin. Við höfðun málsins áttu því stefndu eftir að standa skil á 1.996.209 krónum til rétts uppgjörs á kaupunum. Eins og getið er um í hinum áfrýjaða dómi kröfðu stefndu vátryggingafélag, þar sem fasteignasalinn sem hafði milligöngu um kaupin á Súluhöfða 28 hafði aflað sér starfsábyrgðartryggingar, um greiðslu bóta vegna þeirra mistaka hans að hafa ekki upplýst þau í aðdraganda kaupanna um fyrirhugaða byggð. Svo fór að félagið greiddi stefndu 4.233.333 krónur í bætur úr vátryggingunni 4. mars 2016 og er óumdeilt að þau hafi í beinu framhaldi af því greitt áfrýjendum þá fjárhæð. Er þar um að ræða þá innborgun sem áfrýjendur telja til frádráttar í fyrrgreindri dómkröfu sinni. Innborgun þessi var hærri en nemur þeim 1.996.209 krónum sem áfrýjendur áttu samkvæmt áðursögðu tilkall til þó svo að við þá fjárhæð leggist dráttarvextir til greiðsludagsins 7. mars 2016. Að þessu virtu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefndu af kröfu áfrýjenda. Eftir niðurstöðu málsins er rétt að dæma áfrýjendur til að greiða að hluta málskostnað stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði greinir, en við ákvörðun á fjárhæð hans er ekki unnt að líta til kostnaðar stefndu af öflun yfirmatsgerðar sem ekki er byggt á við úrlausn málsins. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað. Áfrýjendur, Anna Sigríður Vernharðsdóttir og Auðunn Páll Sigurðsson, greiði óskipt stefndu, Guðbjarti Ólafssyni og Hugrúnu Hörn Guðbergsdóttur, samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2017. I Mál þetta var höfðað 9. desember 2015 og tekið til dóms 11. janúar sl. Stefnendur eru Auðunn Páll Sigurðarson og Anna Sigríður Vernharðsdóttir, bæði til heimilis að Reykjahvoli 37, Mosfellsbæ. Stefndu eru Guðbjartur Ólafsson og Hugrún Hörn Guðbergsdóttir, bæði til heimils að Súluhöfða 28, Mosfellsbæ. Dómkröfur Stefnendur krefjast þess að stefndu verði dæmd til að greiða þeim 6.441.209 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 1.535.000 krónum frá 15. september 2015 til 1. október 2015, af 5.353.700 krónum frá þeim degi til 15. október 2015 og af 6.441.209 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun hinn 7. apríl 2016 að fjárhæð 4.233.333 krónur. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt málskostnaðarreikningi og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til virðisaukaskatts. Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnenda en til vara að kröfur stefnenda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnendur verði sameiginlega dæmd til að greiða þeim málskostnað að við bættum virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi. II Atvik máls Í lok maímánaðar 2015 gerði stefndi Guðbjartur stefnendum, í gegnum Borg fasteignasölu, kauptilboð í fasteign stefnenda nr. 28 við Súluhöfða í Mosfellsbæ. Sama dag gerðu stefnendur honum gagntilboð að fjárhæð 63.500.000 króna sem stefndi samþykkti. Hinn 3. júlí 2015 var gengið frá kaupsamningi í samræmi við hið samþykkta gagntilboð, þó þannig að stefnda Hugrún var nú kaupandi að eigninni með stefnda Guðbjarti auk breytinga á greiðslum stefndu til stefnenda. Skömmu eftir afhendingu eignarinnar höfðu stefndu samband við stefnendur og Borg fasteignasölu þar sem þau töldu eignina gallaða þar sem gert var ráð fyrir byggð neðan við fasteignina en bygging húsa á þessum stað myndi skerða útsýni frá eign þeirra verulega. Stefnendur hafi ekki upplýst þau um fyrirhugaða byggð og því ætluðu þau að halda eftir af greiðslum sínum til stefnenda 6.700.000 krónum sem þau áætluðu tjón sitt vera. Stefnendur andmæltu þessari fyrirætlan stefndu en samþykktu að 3.650.000 krónur yrðu lagðar á fjárvörslureikning nefndrar fasteignasölu. Stefndu öfluðu sér mats hjá Ólafi Finnbogasyni, löggiltum fasteignasala, um það hversu mikið eign þeirra lækkaði í verði við það að útsýni frá eigninni skertist og komst hann að þeirri niðurstöðu að ætla mætti að tjón stefndu næmi 10% af andvirði eignarinnar eða 6.350.000 krónum. Í framhaldi af þessu reyndu lögmenn aðila árangurslaust að jafna ágreininginn og var mál þetta höfðað í lok árs 2015 til innheimtu á eftirstöðvum af kaupverði eignarinnar sem stefndu héldu eftir vegna galla sem þau töldu vera á henni. Tryggingafélag Borgar fasteignasölu aflaði álitsgerðar um hugsanlega verðrýrnun Súluhöfða 18 í Mosfellsbæ vegna skipulagsmála og fékk til verksins Dan Valgarð S. Wiium héraðsdómslögmann og löggiltan fasteignasala. Með álitsgerð dagsettri 24. febrúar 2016 komst hann að þeirri niðurstöðu að líkleg lágmarksverðrýrnun vegna fyrirhugaðra íbúðahúsa-bygginga norðanmegin við eignina næmi 10% af verðmæti eignarinnar. Í þinghaldi hinn 25. febrúar 2016 lögðu stefndu fram matsbeiðni þar sem þau óskuðu eftir því að matsmaður yrði dómkvaddur til að meta hlutfallsega verðrýrnun fasteignarinnar, er leiðir af því að á sex lóðum norðan við húsið rísi allt að 5 metra há einbýlishús sem að mati stefndu skerði núverandi útsýni frá eigninni. Pétur Pétursson, löggiltur fasteignasali, var fenginn til að framkvæma matið og komst hann að þeirri niðurstöðu að augljóst væri að útsýni myndi skerðast frá því sem nú er. Hann ætlaði þó að þetta myndi ekki hafa veruleg áhrif á verðmæti hússins en væri neikvætt og hefði áhrif á verðmæti þess til lækkunar. Að teknu tilliti til allra aðstæðna mat hann verðrýrnun eignarinnar á 7%. Við fyrirtöku málsins hinn 29. mars 2016 gerðu stefnendur breytingu á kröfugerð sinni í þá veru að frá stefnufjárhæð bæri að draga innborgun að fjárhæð 4.233.333 krónur sem innt var af hendi 7. apríl 2016. Breyting þessi var tilkomin vegna þess að stefnendur höfðu fengið þessa fjárhæð greidda frá tryggingafélagi fasteignasölunnar sem hafði milligöngu um kaupin. Í þinghaldi hinn 29. apríl 2016 lögðu stefndu fram beiðni um yfirmat. Til að framkvæma það voru dómkvaddir þeir Björgvin Guðjónsson, löggiltur fasteignasali, og Valgeir Kristinsson, hæstaréttarlögmaður og löggiltur fasteignasali. Niðurstaða matsgerðar þeirra, sem dagsett er 5. ágúst 2016, er sú að hlutfallsleg verðrýrnun fasteignarinnar að Súluhöfða 28, er leiðir af því að byggð rísi norðanmegin við húsið samkvæmt núgildandi skipulagi Mosfellsbæjar frá 7. september 2002, sé 10% og þá sé miðað við óbreytta aðstöðu til framtíðar á móti uppbyggingu nýrra húsa fyrir norðan húsið. III Málsástæður og lagarök Stefnendur byggja kröfur sínar á reglum samningaréttar um skuldbindingargildi samninga sem fái stoð í ákvæðum laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, og almennum reglum kröfuréttar. Stefndu hafi undirritað kauptilboð og kaupsamning um fasteignina nr. 28 við Súluhöfða í Mosfellsbæ sem var í eigu stefnenda. Stefnendur hafi afhent stefndu eignina eins og samið var um og í því ástandi sem söluyfirlit og kaupsamningur gerðu ráð fyrir. Stefndu hafi án réttmætrar ástæðu neitað að greiða umsamið kaupverð og haldið eftir 6.353.700 krónum. Helst verði ráðið að stefndu telji eignina hafa verið gallaða og byggt það mat sitt á áliti Ólafs Finnbogasonar, löggilts fasteignasala, sem gert var án aðkomu stefnenda. Í mati fasteignasalans sé ekki lagt mat á það hvers konar byggð rísi á þeim lóðum sem ákveðið var að byggja á árið 2001 og ekkert tillit tekið til þess að fasteignin er ekki í útjaðri byggðar og þess að landið norðan við húsið er ekki ósnortið enda standi þar í dag golfskáli, vinnuskúrar og gámar auk þess sem þar sé stórt bílastæði. Stefnendur halda því fram að þegar byggt verður á hinum skipulögðu lóðum komi það til með að hafa jákvæð áhrif á fasteign stefndu. Golfskálinn verði fjarlægður svo og gámar og vinnuskúrar og bílaplanið. Þetta leiði til þess að umhverfið verði barnvænna enda sé í dag talsverð bílaumferð á svæðinu í tengslum við golfskálann. Stefnendur hafna því alfarið að hafa leynt stefndu nokkrum þeim upplýsingum sem þeim hafi borið að koma á framfæri við stefndu vegna sölu eignarinnar. Stefnendur telja fráleitt að þeim hafi borið að upplýsa sérstaklega um gildandi skipulag á svæðinu enda það auglýst opinberlega og því geti allir án vandkvæða kynnt sér það. Hafi kaupendur fasteigna almennt einhverjar sérstakar áherslur eða kröfur er varða skipulag til framtíðar þá beri þeim sjálfum að kynna sér það. Stefnendur hafi þrátt fyrir þetta rætt sérstaklega við fasteignasalann sem annaðist sölu eignarinnar um skipulagið í hverfinu, sem verið hafði í gildi í 13 ár, þegar eignin var fengin honum til sölumeðferðar. Þannig hafi stefnendur sannanlega gefið meiri upplýsingar en þeim bar og þau hafi mátt treysta því, ef stefndu gerðu það að forsendu fyrir kaupunum að ekki yrði byggt norðan hússins, að þau þá kynntu sér gildandi opinbert skipulag eða ræddu það sérstaklega við fasteignasalann sem annaðist söluna. Stefnendur halda því fram að þau hafi fyrst hitt stefndu við undirritun kaupsamnings, hinn 3. júlí 2015, eða rúmum fimm vikum eftir að kauptilboð var undirritað. Þau hafi því ekki haft nein tök á að koma frekari upplýsingum á framfæri við stefndu en þau höfðu gefið fasteignasalanum. Fasteignasalinn hafi upplýst stefnendur um að ef til vill myndi skipulagið koma til tals við væntanlega kaupendur. Stefnendur halda því fram að þeim hafi ekki verið ljóst meðan á söluferlinu stóð að það hafi verið sérstök ákvörðunarástæða hjá stefndu fyrir kaupum eignarinnar að aldrei yrði byggt á svæðinu norðan við húsið. Þeim hafi fyrst orðið þetta ljóst þegar stefndu héldu eftir 6.350.000 krónum af kaupverðinu. Af hálfu stefnenda er vísað til þess að á fyrsta fundi aðila hafi verið rætt um skjólvegg sem stefndu ætluðu að reisa við verönd hússins en í því samtali hafi skipulag ekki verið rætt. Stefnendur halda því fram að þau hafi í reynd gert meira en þeim almennt bar við að koma á framfæri upplýsingum til stefndu og því geti þau ekki þurft að þola afsláttar- eða skaðabótakröfur af hálfu stefndu. Stefndu hafi á eigin áhættu og án réttmætra ástæðna haldið eftir umtalsverðum hluta kaupverðs fasteignarinnar sem þeim beri að greiða. Af hálfu stefnenda var því haldið fram við aðalmeðferð málsins að tjón stefndu væri óverulegt. Töldu stefnendur að leggja bæri til grundvallar undirmatsgerð Péturs Péturssonar fasteignasala enda þekkti hann mjög vel svæðið þar sem fasteignin stendur. Hann hafi, að teknu tilliti til þess hagræði sem fylgir breytingum í nágrenni fasteignarinnar, metið tjónið á 7% af verði eignarinnar og það tjón hafi stefndu fengið bætt. Að mati stefnenda eru svo miklir vankantar á yfirmatsgerð að ómögulegt sé að leggja hana til grundvallar. Í því sambandi benda stefnendur á að í yfirmati sé því ranglega haldið fram að svæðið norðan við húsið sé óbyggt og þar sé ósnortin náttúra. Fjarlægð frá Súluhöfða 28 í golfskálann sé rangt mæld. Í matsgerðinni sé ákveðin þversögn varðandi umferð áður og eftir að golfskálinn verður fjarlægður. Þá telja stefnendur augljóst að næði í eigninni muni aukast við að á þeim stað sem nú er bílastæði fyrir golfskálann rísi íbúðarhús. Auk þess halda stefnendur því fram að yfirmatsmenn meti skipulagsgögn rangt. Þeir miði við að hús muni rísa fimm metra norðan við húsvegg stefndu. Hið rétta sé að fimm metrar séu frá jaðri byggingarreits á lóð stefndu og teikningar sýni að hús þeirra sé 3,2 metra inn á reitnum. Það hafi verið ein af grunnforsendum yfirmatsmanna að byggðin sem er fyrirhuguð norðan við eign stefndu verði svo nálægt húsinu að næði muni minnka og miða þeir við að ný hús verði í 10 m fjarlægð. Þetta sé beinlínis rangt þar sem hús stefndu standi 3,2 m inn á byggingarreitnum sem því var afmarkaður og síðan megi gera ráð fyrir að húsið sem rísi að norðanverðu muni ekki standa út í byggingarreit sinn til suðurs þar sem ætla megi að eigendur þess muni vilja hafa suðurlóð eins stóra og kostur er. Stefnendur telja þessu til við bótar að teikning sú sem gerð var af Sigurþóri Aðalsteinssyni arkitekt að ósk yfirmatsmanna, sem ætlað sé að sýna áhrif byggðar norðan við hús stefndu, sé beinlínis röng. Af teikningunni verði ekki annað ráðið en að til standi að reisa húsin innan lóðarmarka Súluhöfða 28. Loks er það mat stefndu að sú ákvörðun yfirmatsmanna að framselja verkefni sitt til nefnds arkitekts án samþykkis aðila leiði til þess að yfirmatsgerðin verði ekki lögð til grundvallar í málinu. Ekkert hafi verið um þessa fyrirætlan yfirmatsmanna bókað á matsfundum og aðilum ekki gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna gagnvart arkitektinum eða tjá sig um þau gögn sem frá honum stafa og yfirmatsmenn nota við að komast að niðurstöðu í mati sínu. Auk þess hafi yfirmatsmenn aflað gagna í matsferlinu sem þeir kynntu ekki fyrir aðilum og þar af leiðandi gafst aðilum ekki kostur á að tjá sig um þau á matsfundi. Stefnendur byggja kröfur sínar einnig á því að stefndu hafi fengið tjón sitt bætt frá tryggingafélagi fasteignasölunnar sem annaðist kaupin. Stefndu hafi krafið tryggingafélagið um bætur vegna þess að fasteignasalinn bæri sök á því að í söluferlinu var ekki upplýst um gildandi skipulag á svæðinu. Tryggingafélagið hafi fallist á að greiða bætur en vegna eigin sakar stefndu hafi félagið eingöngu bætt tjónið að tveimur þriðju hlutum þar sem félagið hafi metið það svo að stefndu ættu að bera þriðjung tjónsins vegna eigin sakar. Stefndu hafi síðan, án nokkurs fyrirvara, tekið við bótunum úr hendi tryggingafélagsins og þar með samið um og fallist á að þau bæru þriðjung sakar. Að mati stefnenda verður þeirri sök ekki velt yfir á þau en þau hafi ekki átt nokkra aðkomu að samningaviðræðum við tryggingafélagið. Stefndu byggja kröfur sínar á því að fasteignin hafi verið gölluð í skilningi III. kafla laga um fasteignakaup nr. 40/2002 og þá sérstaklega á 26. gr. laganna. Samkvæmt þeirri grein þurfi fimm skilyrði að vera til staðar svo fasteign teljist gölluð. Í fyrsta lagi er gerð krafa um að seljanda hafi verið kunnugt um fyrirliggjandi upplýsingar. Í þessu máli sé óumdeilt að fyrirhugað er að byggja sex hús fyrir norðan fasteign stefndu sem muni takmarka útsýni frá eigninni sem þá verður ekki lengur í neðsta botnlanga. Óumdeilt sé að stefnendum var kunnugt um deiliskipulag svæðisins og að byggð væri fyrirhuguð á því. Telja stefndu þetta skilyrði greinarinnar því uppfyllt. Í öðru lagi þarf að liggja fyrir að kaupandi hafi ekki fengið upplýsingarnar. Stefndu halda því fram að hvorki stefnendur né fasteignasalinn sem annaðist kaupin hafi veitt upplýsingar um fyrirhugaða byggð. Í stefnu sé viðurkennt að stefnendur hafi ekki upplýst um þetta atriði. Því sé hins vegar slegið föstu að fasteignasalinn hafi sagt stefndu að ef til vill myndi þetta koma til tals við væntanlega kaupendur. Þetta bendir til þess að stefnendur hafi mátt gera sér grein fyrir því að mögulega myndu upplýsingar um óreista byggð ekki skila sér til væntanlegra kaupenda og sú hafi orðið raunin. Það skipti raunar ekki máli hvort fasteignasalinn hafi ekki komið upplýsingunum til stefndu enda liggi ábyrgðin á því að koma upplýsingum á framfæri hjá seljanda. Um þetta segi í greinargerð með 26. gr. laga um fasteignakaup að seljandi beri ábyrgð á því að þeir sem komi fram fyrir hans hönd við kaupin sinni upplýsingaskyldu fyrir hann ef hann geri það ekki sjálfur. Hér skipti því ekki máli að stefnendur hafi upplýst fasteignasalann um fyrirhugaða byggð ef hann kom þeim upplýsingum ekki á framfæri við stefndu. Stefndu halda því fram í þessu sambandi að fasteignasalinn hafi aldrei nefnt að útsýni frá eigninni myndi skerðast vegna fyrirhugaðrar byggðar. Raunar hafi hann þagað þunnu hljóði við skoðun á eigninni þegar útsýni frá henni kom til tals. Sérstakt vitnamál hafi verið rekið til að taka skýrslu af fasteignasalanum sem þá hafi ekki svarað einföldum spurningum varðandi það hvort hann upplýsti um fyrirhugaða byggð eða ekki en hann hafi þó talið að hann hafi gert það. Stefnendur byggja á því að það sé fasteignasalinn og stefnendur sem beri sönnunarbyrði fyrir því að fasteignasalinn hafi komið þessum upplýsingum til stefndu. Honum hafi borið að útbúa söluyfirlit um eignina, sbr. 10. gr. laga um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015, og í því yfirliti hafi þær upplýsingar sem um er deilt í máli þessu augljóslega átt að koma fram, sbr. 1. mgr. 11. gr. og c-lið 2. mgr. laganna. Sama skylda hafi verið í eldri lögum um sama efni nr. 99/2004. Þegar fasteignasali kemur upplýsingum ekki skriflega á framfæri í söluyfirliti eða með öðrum hætti sé litið svo á að hann beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi gefið þær munnlega. Sambærileg sönnunarregla hafi verið látin gilda um seljendur fasteigna, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 223/2002. Stefndu telja augljóst að við úrlausn málsins verði að líta svo á að fasteignasalanum og stefnendum hafi ekki tekist að sanna að fasteignasalinn hafi komið hinum umdeildu upplýsingum á framfæri við stefndu. Í þriðja lagi þurfi að liggja fyrir að seljandi hafi vitað eða mátt vita að kaupandi hefði réttmæta ástæðu til að ætla að hann fengi upplýsingarnar. Að mati stefnenda er augljóst að upplýsingar um fyrirhugaða íbúðabyggð falla hér undir. Það sé augljóst að við þessar byggingar rýrni verðmæti eignar stefndu umtalsvert eða 10% samkvæmt yfirmati. Þessi mikla verðrýrnun leiðir ein og sér til þess að stefndu höfðu réttmæta ástæðu til að ætla að þau fengju þessar upplýsingar. Aukinheldur sé það viðurkennt viðhorf í fasteignakaupum að það sé betra fyrir seljanda að segja frá of miklu en of litlu jafnvel þó að í því felist orðræða um sjálfsagða hluti. Undir þetta falli t.d. skylda seljanda til að greina frá verulegum breytingum á skipulagi varðandi autt land í nágrenninu ef hann veit af því að breytingar eru fyrirhugaðar. Þá hafna stefndu fullyrðingum stefnenda í þá veru að fyrirhugaður flutningur golfskálans og því sem honum fylgir muni hafa jákvæð áhrif á eign þeirra. Golfskálinn sé ekki fyrir framan Súluhöfða 28 heldur fjarri eigninni til austurs. Hins vegar sé púttvöllur fyrir framan húsið og staðsetning hans sé kostur en ekki galli. Í þessu máli skipti það sköpum að útsýni frá eigninni sé í dag óhindrað. Benda þau á í þessu sambandi að þegar eignin var seld á árinu 2002 hafi lögmaður stefnenda, þá sem fasteignasali, auglýst eignina sem einbýli á einni hæð á góðum útsýnisstað við golfvöllinn í Mosfellsbæ. Af hálfu stefndu er jafnframt vísað til þess að stefnendur hafi sjálf talið þessar upplýsingar mikilvægar en það megi ráða af stefnu þeirra þar sem fram kemur að þau hafi komið þessum upplýsingum á framfæri við fasteignasalann sem hafi upplýst þau um að hann myndi ef til vill koma þessum upplýsingum til væntanlegra kaupenda. Af hálfu stefndu er því haldið fram að ekki skipti máli þó að upplýsingar þær sem þau ekki fengu hafi verið opinberar. Vísa þau í því sambandi til greinargerðar sem fylgdi frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 40/2002 en í umfjöllun um 26. gr. komi fram að seljanda beri að eigin frumkvæði að veita þær upplýsingar sem hann veit eða má vita um. Af þessu leiði að seljandi sem hefur viðurkennt að hafa vitneskju eða upplýsingar, hvort sem þær eru opinberar eða ekki, geti ekki ákveðið að sleppa því að veita kaupanda þær þó svo að kaupandi geti mögulega komist sjálfur að þeim, t.d. með því að skoða opinber gögn. Loks benda þau á undir þessum lið að þau eigi tvö ung börn og þegar eignin var keypt hafi þau ekki gert ráð fyrir öllu því raski sem húsbyggingum fyrir framan hús þeirra muni fylgja og um leið leiða til þess að umhverfið verður ekki barnvænt eins og það var við kaupin. Í fjórða lagi sé það skilyrði að upplýsingar sem ekki voru veittar hafi haft áhrif á gerð eða efni kaupsamnings. Að mati stefndu er þetta atriði nefndrar 26. gr. þegar uppfyllt með því að verðmæti eignar þeirra hafi rýrnað um 10%. Þar fyrir utan hafi það verið stór þáttur í ákvörðun stefndu um að kaupa eignina að hún hafði mikla sérstöðu sem fólst í útsýninu frá henni og þar fyrir utan hafi púttvöllur verið rétt við húsið. Því sé augljóst bæði frá almennu og sértæku sjónarmiði, að upplýsingarnar hefðu haft áhrif á gerð eða efni kaupsamnings í þessu tilviki. Stefndu halda því fram, og byggja kröfur sínar á því, að þeim hafi tekist að sýna fram á að fasteignin sem þau keyptu af stefnendum hafi verið gölluð í skilningi III. kafla fasteignakaupalaga, sbr. 26. gr., sbr. 18. gr. laganna. Þeim sér því heimilt að krefjast aflsláttar af kaupverðinu á grundvelli 41. gr. laganna enda hafi stefnendur sýnt af sér saknæmt athafnaleysi með því að upplýsa ekki um fyrirhugaða byggð en það sé í andstöðu við ákvæði 26. gr. laganna. Af þessum sökum hafi þeim, á grundvelli 44. gr. laganna, verið heimilt að halda eftir greiðslu til stefnenda enda hafi sú fjárhæð verið í samræmi við þá afsláttarkröfu sem af gallanum leiðir. Loks halda stefndu því fram, verði ekki fallist á að skilyrði séu til þess að þau krefjist afsláttar af kaupverði, að þau eigi rétt á bótum úr hendi seljenda með vísan til 43. gr. laga um fasteignakaup enda sé eignin gölluð líkt og áður er rakið. IV Niðurstaða Í máli þessu er um það deilt hvort skortur á upplýsingum frá stefnendum til stefndu um fyrirhugaða byggð norðan við Súluhöfða 28 í Mosfellsbæ hafi valdið stefndu tjóni sem þau eigi rétt á að fá bætt úr hendi stefnenda. Hafi tjón hlotist af þessum upplýsingaskorti er um það deilt hversu mikið tjónið var. Þá deila aðilar um það hvort stefndu hafi mögulega fyrirgert rétti sínum til bóta úr hendi stefnenda með því að taka við greiðslum frá tryggingafélagi fasteignasölunnar sem annaðist sölu á eigninni. Stefndu byggja kröfu sína um sýknu á því að fasteignin hafi verið gölluð í skilningi laga um fasteignakaup nr. 40/2002 einkum ákvæðum 26. gr. laganna eins og að framan er rakið en sú grein fjallar um upplýsingaskyldu seljanda. Líkt og stefndu vísa til eru nokkur skilyrði sem þarf að uppfylla samkvæmt nefndri 26. gr. til þess að fasteign teljist gölluð í skilningi greinarinnar. Í máli þessu liggur fyrir að stefnendum var kunnugt um að deiliskipulag svæðisins gerði ráð fyrir að norðan fasteignarinnar myndu rísa íbúðarhús. Óumdeilt er að stefnendur upplýstu stefndu ekki um þetta en ganga má út frá því að þau hafi rætt við fasteignasalann, sem annaðist sölu eignarinnar fyrir þeirra hönd, um tilvist deiliskipulagsins. Til að fasteign teljist gölluð í skilningi 26. gr. þarf enn fremur að liggja fyrir að seljandi hafi vitað eða mátt vita að kaupandi hefði réttmæta ástæðu til að ætla að hann fengi viðkomandi upplýsingar, í þessu tilfelli upplýsingar um fyrirhugaða byggð. Við mat á því hvort stefnendur hafi vitað eða mátt vita að stefndu hefðu réttmæta ástæðu til að ætla að stefndu fengju upplýsingar um væntanlega byggð verður að horfa til þess hvaða áhrif byggðin mun hafa á fasteign stefndu. Við vettvangsgöngu kom glögglega í ljós að útsýni frá eigninni til norðurs er gott og augljóst að það mun skerðast verulega með tilkomu væntanlegra íbúðarhúsa. Þá er og ljóst að opið svæði norðan hússins verður ekki lengur til staðar. Máttu stefnendur því gera ráð fyrir að þetta væru upplýsingar sem þeim var rétt að koma á framæri við væntanlega kaupendur. Í fasteignakaupum hefur verið litið svo á að seljendum sé skylt að koma á framfæri við kaupendur upplýsingum sem ekki snúa beint að eigninni sjálfri heldur einnig upplýsingum um annað sem máli getur skipt, t.d. fyrirætlan um verulegar breytingar á auðu landi í námunda við fasteignina. Er það því mat dómsins að stefnendum hafi borið að koma þessum upplýsingum á framfæri við stefndu áður en kaup um fasteignina áttu sér stað, þrátt fyrir að upplýsingar um væntanlega byggð séu opinberar. Hvað þetta varðar má einnig horfa til ákvæða 3. mgr. 29. gr. laga um fasteignakaup en þar er tekið fram að aðgæsluskylda kaupanda víki fyrir skyldu seljanda til að veita upplýsingar samkvæmt 26. gr. Loks er það skilyrði samkvæmt títtnefndri 26. gr. að skortur á upplýsingum sé til þess fallinn að hafa áhrif á gerð eða efni kaupsamnings. Í þessu máli er augljóst að þetta skilyrði er uppfyllt enda liggja fyrir dóminum matsgerðir sem sýna fram á að fasteignin muni lækka allnokkuð í verði við byggingu húsa norðan hennar. Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að stefndu hafi brotið gegn ákvæðum 26. gr. laga um fasteignakaup með því að upplýsa stefndu ekki um fyrirhugaða byggð og þar með bakað sér bótaskyldu gagnvart þeim. Stefndu byggja á því að yfirmatsgerð sé haldin svo miklum göllum að víkja verði henni til hliðar sem sönnunargagni í málinu. Fyrir liggur að yfirmatsmenn öfluðu allnokkurra gagna sem þeir kynntu ekki fyrir aðilum málsins og þá liggur og fyrir að þeir fengu arkitekt til að vinna ákveðin verk, m.a. að draga inn á ljósmynd útlínur óbyggðra húsa og sýna þannig hvernig útsýni frá fasteign stefndu muni skerðast. Fallast má á með stefnendum að matsmönnum hafi borið að kynna aðilum gögn þau sem þeir öfluðu að loknum fyrsta og eina matsfundinum sem haldinn var. Að mati dómsins hafa gögnin sem matsmenn öfluðu og kynntu ekki fyrir aðilum ekki slíkt vægi í matsgerð þeirra að skortur á kynningu þeirra fyrir aðilum rýri niðurstöðu matsins. Í þessu sambandi er rétt að benda á að það skiptir augljóslega litlu máli varðandi útsýnið frá húsinu hvort væntanleg íbúðarhús eru nokkrum metrum fjær húsinu en matsmenn gerðu ráð fyrir en þetta var eitt þeirra atriða sem stefnendur gerðu athugasemdir við. Þá skiptir vinna arkitektsins líka litlu máli í heildarmyndinni. Við skýrslutökur af yfirmatsmönnum kom fram að þeir tóku tillit til þess að golfskálinn sem stendur skammt frá húsinu mun hverfa og umferð sem honum tengist þar með og mátu þeir það sem kost fyrir stefndu. Ella hefði verðrýrnun eignarinnar orðið meiri. Það er því niðurstaða dómsins að leggja niðurstöðu yfirmatsgerðarinnar til grundvallar varðandi verðrýrnun fasteignarinnar og að tjón stefndu hafi numið 10% af kaupverði eignarinnar. Stefnendur byggðu sýknukröfu sína einnig á því að stefndu hafi, með samkomulagi við tryggingafélag fasteignasölunnar sem hafði milligöngu um kaupin, fallist á eigin sök sem næmi þriðjungi tjónsins. Hér háttar svo til að stefndu sömdu við tryggingafélag fasteignasölunnar sem bætti þeim tjónið að tveimur þriðju hlutum og þeirri greiðslu var síðan ráðstafað til stefnenda. Stefndu var í sjálfsvald sett hvort þau yfirhöfðuð krefðust bóta úr hendi fasteignasalans og þeim alls ekki skylt að krefja hann um fullar bætur. Samkomulag tókst með stefndu og tryggingafélagi fasteignasalans um að það bætti tjónið að tveimur þriðju hlutum en kvittun vegna tjónsins ber ekki með sér að stefndu taki á sig einhverja sök. Verður því ekki fallist á með stefnendum að stefndu hafi þegar fengið tjón sitt bætt að fullu. Með vísan til þess sem að framan er rakið eru stefndu sýknuð af kröfum stefnenda í máli þessu. Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma stefnendur til að greiða stefndu óskipt málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 3.000.000 króna og hefur þá verið tekið tillit til kostnaðar við öflun matsgerða og virðisaukaskatts. Halldór Halldórsson héraðsdómari, sem fékk mál þetta til meðferðar 4. október 2016, kveður upp dóm þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Dómsorð: Stefndu, Hugrún Hörn Guðbergsdóttir og Guðbjartur Ólafsson, eru sýkn af kröfum stefnenda, Auðuns Páls Sigurðssonar og Önnu Sigríðar Vernharðsdóttur. Stefnendur greiði stefndu óskipt 3.000.000 króna í málskostað að meðtöldum virðisaukaskatti.
Mál nr. 424/2017
Lausafjárkaup Galli Afsláttur Söluyfirlit Fasteign Kaupsamningur Tryggingarbréf Byggingarréttur
H o.fl. kröfðu F ehf. um eftirstöðvar kaupverðs samkvæmt kaupsamningi um S ehf. og staðfestingar þess að tiltekið tryggingarbréf sem S ehf. gaf út stæði til tryggingar þeirri kröfu. F ehf. taldi á hinn bóginn að hann ætti rétt á afslætti af kaupverðinu þar sem að fasteign í eigu S ehf. hefði verið gölluð sökum þess að í söluyfirliti hefði komið fram að henni fylgdi að sögn eigenda byggingarréttur. Slíkur réttur reyndist hins vegar ekki vera fyrir hendi. Talið var að kaupsamningurinn tæki samkvæmt efni sínu til viðskipta með hlutafé í einkahlutafélagi en ekki fasteignakaupa. Var því ekki fallist á með F ehf. að lög nr. 40/2002 um fasteignakaup ættu við um viðskiptin. Tilgreining byggingarréttarins í söluyfirlitinu hefði gefið fyrirsvarsmönnum F ehf. sérstakt tilefni til að ganga úr skugga um það áður en af kaupum varð hvort slíkur réttur væri fyrir hendi og hvað í honum fælist. Jafnframt hefði það gefið þeim tilefni til að taka upp áskilnað þar að lútandi í kaupsamningi, ekki síst ef um ákvörðunarástæðu fyrir kaupunum var að ræða líkt og F ehf. hafði haldið fram. Þá hefði hvílt sú skylda á fyrirsvarsmönnum F ehf. að rannsaka hið selda jafnskjótt og tækifæri gafst til, sbr. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 50/2000, og tilkynna H o.fl. án ástæðulauss dráttar um ætlaðan galla, sbr. 1. mgr. 32. gr. sömu laga. Sú hefði ekki verið raunin en af hálfu F ehf. var því fyrst haldið fram um 19 mánuðum eftir að kaupin áttu sér stað að hið selda væri gallað af þessum sökum. Var því ekki talið að hlutaféð hefði verið gallað í skilningi 1. mgr. 30. gr. laga nr. 50/2000. Voru kröfur H o.fl. því teknar til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Guðmundur Sigurðsson prófessor. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 30. júní 2017. Þeir krefjast sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi deila aðilar um efndir kaupsamnings 16. janúar 2014 um einkahlutafélagið Súðarvog 9. Í málinu leitast stefndu við að heimta lokagreiðslu að fjárhæð 28.000.000 krónur, samkvæmt kaupsamningnum úr hendi áfrýjandans Fylkis ehf. og staðfestingar þess að tryggingarbréf sem áfrýjandinn Súðarvogur 9 ehf. gaf út 17. janúar 2014 og hvílir á fasteigninni Súðarvogi 9 í Reykjavík standi til tryggingar þeirri kröfu. Áfrýjendur telja á hinn bóginn að þeir eigi rétt á afslætti af kaupverði félagsins og byggja kröfuna á því að umrædd fasteign, sem var helsta eign félagsins, hafi verið gölluð vegna þess að í söluyfirliti Fasteignasölu Kópavogs, sem boðið hafði fasteignina til sölu, kom fram „að sögn eigenda er byggingarréttur á lóðinni, fyrir stækkun upp á 4-5 þúsund fm.“ Sá réttur hafi hinsvegar ekki reynst vera fyrir hendi og rökstyðja áfrýjendur afsláttarkröfuna við niðurstöður matsgerðar sem þeir öfluðu undir rekstri málsins. Þá byggja áfrýjendur á því að stefndu fái ekki reist umkrafinn rétt á tryggingarbréfinu af nánar tilgreindum ástæðum. II Af hálfu áfrýjenda er á því byggt að slík tengsl hafi verið á milli sjálfstæðrar sölumeðferðar fasteignarinnar að Súðarvogi 9 í aðdraganda kaupsamningsins, sem gerður var um áfrýjandann Súðarvog 9 ehf. 16. janúar 2014, að viðskiptin beri að fella undir lög nr. 40/2002 um fasteignakaup. Um þetta vísa áfrýjendur meðal annars til kynningar fasteignasölunnar á fasteigninni, kauptilboðs í fasteignina 17. desember 2013 og fleiri atriða sem nánar eru rakin í hinum áfrýjaða dómi. Þá benda áfrýjendur á að umrædd fasteign hafi verið langstærsta eign félagsins en óumdeilt er að auk hennar átti félagið innstæðu á bankareikningi að fjárhæð 7.687.435 krónur.   Kaupsamningurinn 16. janúar 2014, sem um er deilt í málinu, tekur samkvæmt efni sínu til viðskipta með hlutafé í einkahlutafélagi en ekki fasteignakaupa, sbr. 1. gr. laga nr. 40/2002. Verður ekki fallist á með áfrýjendum að lögin taki til viðskiptanna, hvorki samkvæmt efni sínu né fyrir lögjöfnun. Áfrýjendur hafa byggt á því í málinu að verði ekki fallist á það að lög nr. 40/2002 eigi við, sé krafa þeirra um afslátt vegna galla reist á reglum samninga- og kröfuréttar. Kom fram við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að undir þeim kringumstæðum greinir aðila ekki á um að kaupin falli undir gildissvið laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. III Við mat á því hvort hið selda hlutafé í áfrýjandanum Súðarvogi 9 ehf. hafi verið gallað, í skilningi 1. mgr. 30. gr. laga nr. 50/2000, verður eftir sem áður að líta til þess hvort að fyrrgreindar upplýsingar í söluyfirliti fasteignasölunnar um byggingarrétt hafi verið þess eðlis að áfrýjandinn Fylkir ehf. hafi getað á því byggt, án þess að frekari gögn kæmu til, að slíkur réttur væri fyrir hendi. Þá ber jafnframt að taka afstöðu til þeirrar málsástæðu áfrýjenda að tilvist byggingarréttarins hafi verið ákvörðunarástæða áfrýjandans Fylkis ehf. fyrir kaupunum. Í kauptilboði áfrýjandans Fylkis ehf. 17. desember 2013, sem aðeins tók til fasteignarinnar Súðarvogs 9, er ekki vikið að umræddum byggingarrétti, þó að þar sé að finna almenna tilvísun til upplýsinga um eignina sem fram hafi komið í söluyfirliti fasteignasölunnar. Tilboðsfjárhæð nam 120.000.000 krónum. Í kaupsamningnum um hlutaféð 16. janúar 2014 er ekki vikið að byggingarrétti en í 5. grein samningsins segir að eignir einkahlutafélagsins séu „fasteignin að Súðarvogi 9, Rvk., fastanúmer 202-3208 og handbært fé að fjárhæð kr. 7.687.435.“ Þá kemur fram í 6. grein að kaupandinn, áfrýjandinn Fylkir ehf., yfirtaki þrjá leigusamninga „sem eru í gangi“ með þeim réttindum og skyldum sem þeim fylgi. Í málinu liggja engar frekari samtíma upplýsingar fyrir þess efnis hvaða vægi  ætlaður byggingarréttur hafði í viðskiptum aðila. Undir rekstri málsins í héraði var að ósk áfrýjenda dómkvaddur maður til að meta ætlað verðmæti byggingarréttarins við kaupsamningsgerðina. Var það niðurstaða hans að verðmæti byggingarréttar á sambærilegu atvinnuhúsnæði hefði um áramótin 2013 til 2014 verið 10.000 krónur á hvern fermetra. Hefði verðmæti byggingarréttar sem fæli í sér heimild til að stækka fasteignina að Súðarvogi 9 um 4.000 fermetra því verið 40.000.000 krónur og um 5.000 fermetra 50.000.000 krónur. Þá kom fram í matgerðinni að markaðsvirði atvinnuhúsnæðis að Súðarvogi 9 hefði á umræddum tíma verið 95.000.000 krónur. Þar sem kaupverð áfrýjandans Súðarvogs 9 ehf. var 118.000.000 krónur hefðu verið greiddar 23.000.000 krónur fyrir 4.000 til 5.000 fermetra byggingarrétt við sölu félagsins. Sýnist þá ekki tekið tillit til þess að í félaginu voru, svo sem fyrr segir, frekari eignir en fasteignin. Eins og niðurstöðum matsgerðarinnar er háttað er hún því ekki til þess fallin að upplýsa nægilega um hvert mögulegt vægi ætlaðs byggingarréttar var við ákvörðun kaupverðs hlutafjár í áfrýjandanum Súðarvogi 9 ehf. Staðfest er sú niðurstaða héraðsdóms að upplýsingar í söluyfirliti Fasteignasölu Kópavogs hafi verið gefnar að tilhlutan stefndu. Til þess ber þá að líta að þar sem viðskipti aðila féllu samkvæmt samningi þeirra undir lausafjárkaup þá verður þýðing upplýsinganna í söluyfirlitinu ekki metin á grundvelli 1. mgr. 27. gr. laga nr. 40/2002. Í skýrslu fyrirsvarsmanns áfrýjandans Fylkis ehf., Eiríks Óla Árnasonar, fyrir héraðsdómi kom fram að forsvarsmenn félagsins höfðu reynslu af kaupum og sölu fasteigna enda voru slík viðskipti auk annars tilgangur félagsins samkvæmt skráningu í hlutafélagaskrá. Tilgreining byggingarréttarins í umræddu söluyfirliti „að sögn eigenda“ gaf fyrirsvarsmönnum áfrýjandans Fylkis ehf. sérstakt tilefni til þess að ganga úr skugga um það áður en af kaupum varð hvort slíkur réttur væri fyrir hendi og hvað í honum fælist. Jafnframt gaf það þeim tilefni til þess að taka upp áskilnað þar að lútandi í kaupsamning aðila, ekki síst ef um ákvörðunarástæðu fyrir kaupunum var að ræða svo sem haldið hefur verið fram af þeirra hálfu undir rekstri málsins, meðal annars í skýrslugjöf fyrrnefnds fyrirsvarsmanns.  Loks hvíldi sú skylda á fyrirsvarsmönnum áfrýjandans Fylkis ehf. að rannsaka hið selda jafnskjótt og tækifæri gafst til, sbr. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 50/2000 og tilkynna stefndu án ástæðulauss dráttar um ætlaðan galla, sbr. 1. mgr. 32. gr. sömu laga. Sú varð ekki raunin en af hálfu áfrýjandans Fylkis ehf. var því fyrst haldið fram í ágúst 2015, um 19 mánuðum eftir að kaupin áttu sér stað, að hið selda væri gallað vegna þess að byggingarrétturinn væri ekki fyrir hendi. Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið að hlutafé það sem stefndu seldu áfrýjandanum Fylki ehf. með kaupsamningi 16. janúar 2014 hafi verið haldið galla í skilningi 1. mgr. 30. gr. laga nr. 50/2000 sem áfrýjendur geti reist afsláttarkröfu á samkvæmt 38. gr. sömu laga.  Í samræmi við það er fallist á kröfu stefndu um greiðslu eftirstöðva kaupverðs samkvæmt 3. lið 2. greinar í tilvitnuðum kaupsamningi. Þá verður með skírskotun til forsendna héraðsdóms staðfest niðurstaða hans um upphafstíma og álagningu vaxta, sem og sú niðurstaða að tryggingarbréfið 17. janúar 2014 standi til tryggingar dæmdri fjárhæð. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur, þar með talið um málskostnað. Áfrýjendum verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjendur, Fylkir ehf. og Súðarvogur 9 ehf., greiði óskipt stefndu, Halldóri Gíslasyni, Oddnýju Magneu Einarsdóttur, Rannveigu G. Lund og Sigþóri Haraldssyni, sameiginlega 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2017 Mál þetta, sem telst höfðað við þingfestingu 15. mars 2016, af Halldóri Gíslasyni, Rannveigu G. Lund, Sigþóri Haraldssyni og Oddnýju Magneu Einarsdóttur á hendur Fylki ehf. og Súðarvogi 9 ehf., var dómtekið að loknum endurflutningi málsins 29. mars 2016. Stefnendur gera aðallega þá kröfu að hinu stefnda félagi, Fylki ehf., verði gert að greiða stefnendum 28.000.000 króna með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 16. október 2014 til greiðsludags. Stefnendur krefjast þess til vara að hinu stefnda félagi, Fylki ehf., verði gert að greiða stefnendum hina umkröfðu fjárhæð með 10% ársvöxtum frá 16. október 2014 til 1. ágúst 2015 en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. ágúst 2015 til greiðsludags. Stefnendur, Sigþór Haraldsson og Halldór Gíslason, krefjast þess aðallega að staðfest verði með dómi að tryggingarbréf nr. 000519 í eigu þeirra að fjárhæð 28.000.000 króna miðað við grunnvísitölu janúarmánaðar 2014, sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs, útgefið 17. janúar 2014, er hvílir á fasteigninni Súðarvogi 9, Reykjavík, fastanúmer 202-3208, standi til tryggingar skuldum stefnda Fylkis ehf. samkvæmt dómsorði, en til vara að tryggingabréfið standi til tryggingar skaðlausri greiðslu stefnda Fylkis ehf. á skuld þess við stefnendur samkvæmt 3. gr. kaupsamnings frá 16. janúar 2014. Stefnendur, Sigþór Haraldsson og Halldór Gíslason, krefjast þess að viðurkenndur verði með dómi réttur þeirra til að láta fara fram nauðungarsölu á fasteigninni Súðarvogi 9, Reykjavík, fastanúmer 202-3208, á grundvelli tryggingarbréfs nr. 000519, sem útgefið var 17. janúar 2014, er hvílir á fasteigninni Súðarvogi 9, Reykjavík, fastanúmer 202-3208. Í öllum tilvikum krefjast stefnendur þess að stefndu verði dæmdir óskipt til að greiða þeim málskostnað að skaðlausu. Stefndi, Fylkir ehf., gerir aðallega þá kröfu að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda, en til vara að kröfur stefnenda verði lækkaðar og að hann verði sýknaður af dómkröfum stefnenda Halldórs Gíslasonar og Sigþórs Haraldssonar er lúta að tryggingarréttindum í fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík. Stefndi, Súðarvogur 9 ehf., krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda. Þá gera stefndu þá kröfu í öllum tilvikum að stefnendur verði dæmdir óskipt til að greiða þeim sameiginlegan málskostnað að skaðlausu. I. Með kaupsamningi 16. janúar 2014 seldu stefnendur stefnda, Fylki ehf., allt hlutafé sitt í stefnda Súðarvogi 9 ehf., kt. 470610-0930, Súðarvogi 9, Reykjavík. Um var að ræða kaup á öllu hlutafé félagsins. Eignir félagsins voru 7.687.435 króna innstæða á bankareikningi og fasteignin að Súðarvogi 9 í Reykjavík, með fastanúmer 202-3208. Kaupverð hins selda var samkvæmt kaupsamningi 118.000.000 króna og skyldi greiðast í samræmi við fyrirmæli 2. gr. kaupsamningsins frá 16. janúar 2014. Nánar tiltekið skyldi greiða 20.000.000 króna við undirritun kaupsamningsins og innan 60 daga frá undirritun kaupsamnings skyldi greiða 70.000.000 króna með láni frá lánastofnun gegn veði á 1. veðrétti í fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík. Lokagreiðsla að fjárhæð 28.000.000 króna skyldi að endingu innt af hendi í formi reiðufjár, í síðasta lagi 16. október 2014. Samhliða undirritun kaupsamningsins var gefið út tryggingarbréf samkvæmt 3. gr. kaupsamningsins. Tryggingarbréfið, sem var gefið út af Súðarvogi 9 ehf. til stefnenda, Halldórs og Sigþórs, hvílir á 2. veðrétti í fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík, og skyldi það samkvæmt orðalagi sínu standa til tryggingar á lokagreiðslu kaupsamningsins. Stefndi Fylkir ehf. greiddi við undirritun kaupsamnings 20.000.000 króna og fékk hið selda afhent. Stefndi Fylkir ehf. greiddi jafnframt 70.000.000 króna í samræmi við 2. tölul. 2. gr. kaupsamnings aðila. Þegar kom að því að greiða lokagreiðsluna skv. 3. tölul. 2. gr. samningsins, óskaði stefndi Fylkir ehf. eftir greiðslufresti. Stefnendur féllust á ósk stefnda og af því tilefni var undirritaður viðauki við kaupsamning aðila 4. nóvember 2014. Var sú breyting þar með gerð á upphaflegum kaupsamningi að lokagreiðslan, 28.000.000 króna, skyldi greidd eigi síðar en 1. ágúst 2015 og bera 10% ársvexti frá og með 16. október 2014 til greiðsludags. Stefndi Fylkir ehf. hefur ekki innt þessa greiðslu af hendi. Með bréfi 9. september 2015 kröfðust stefnendur þess að stefndi Fylkir ehf. innti af hendi lokagreiðslu ásamt samningsvöxtum af lokagreiðslu og dráttarvöxtum frá 1. ágúst 2015 í samræmi við samningsviðauka aðila. Engin viðbrögð bárust af hálfu stefnda. Þann 30. október 2015 sendu stefnendur greiðsluáskorun þar sem krafist var greiðslu umræddrar skuldar, en ella yrði farið fram á nauðungarsölu á fasteigninni á grundvelli tryggingarbréfsins sem er á 2. veðrétti á fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík. Stefndi Fylkir ehf. hafnaði kröfu stefnenda um greiðslu með bréfi 11. nóvember 2015. Þar kemur fram að stefndi Fylkir ehf. teldi að fasteignin væri haldin galla þar sem ekki hafi fylgt með henni heimild til stækkunar á byggingarmagni á lóðinni um „4-5 þúsund [fermetra]“. Stefndi bauð stefnendum að samið yrði um greiðslu að fjárhæð 20.000.000 króna auk 10% vaxta, frá 16. október 2014 til greiðsludags. Stefnendur féllust ekki á það og hafa sáttaumleitanir á milli aðila engum árangri skilað. Höfða stefnendur því mál þetta til innheimtu á ógreiddum eftirstöðvum kaupverðs á Súðarvogi 9 ehf. samkvæmt kaupsamningi aðila og til viðurkenningar á tryggingarréttindum sínum í fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík. Stefndi Fylkir ehf. hefur í málinu teflt fram matsgerð dómkvadds matsmanns til stuðnings umræddri sýknukröfu sinni. Matsmaðurinn kom fyrir dóminn og staðfesti niðurstöður matsgerðarinnar. Meðal þess sem óskað var mats á var markaðsvirði 4.000 fermetra byggingarréttar annars vegar og 5.000 fermetra byggingarréttar hins vegar á fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík, á matstímabilinu í kringum áramótin 2013-2014. Niðurstaða matsmanns um verðmæti 4.000 fermetra voru 40.000.000 króna, en um verðmæti 5.000 fermetra 50.000.000 króna. II. Stefnendur byggja á því að bindandi kaupsamningur milli stefnenda og stefnda Fylkis ehf. hafi komist á 16. janúar 2014. Stefndi Fylkir ehf. hafi ekki staðið skil á lokagreiðslu kaupverðs samkvæmt skilmálum kaupsamningsins, sem hafi verið á gjalddaga 16. október 2014. Þeirrar greiðslu, að fjárhæð 28.000.000 króna, sé aðallega krafist í málinu auk dráttarvaxta. Stefndi Fylkir ehf. hafi vanefnt efndaskyldur sínar og ekkert hafi komið fram sem réttlætt gæti þann drátt sem hafi orðið á greiðslunni. Greiðslufrestur sem stefnendur hafi að beiðni stefnda Fylkis ehf. samþykkt í viðauka 4. nóvember 2014, sé óskuldbindandi í ljósi þess að stefndi hafi ekki uppfyllt skyldu sína samkvæmt honum. Yrði ekki fallist á framangreint væri til vara, með vísan til viðaukans, krafist 10% ársvaxta á höfuðstól kröfunnar, frá 16. október 2014 til 1. ágúst 2015, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. ágúst 2015 til greiðsludags. Stefnendur, Halldór og Sigþór, vísa til 3. gr. kaupsamningsins um útgáfu tryggingarbréfsins til stuðnings þeirri aðalkröfu sinni að staðfest verði að tryggingarbréfið á 2. veðrétti í fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík skuli standa til tryggingar þeirri fjárhæð sem stefnda Fylki ehf. verði gert að greiða stefnendum í dómsorði. Af skilmálum tryggingarbréfsins megi ótvírætt ráða að það standi einnig til tryggingar dráttarvöxtum af þeirri kröfu sem tryggingarbréfinu sé ætlað að tryggja auk innheimtukostnaðar. Varakrafan um að staðfest verði með dómi að umrætt tryggingarbréf standi til tryggingar skaðlausri greiðslu stefnda á skuld hans við stefnendur samkvæmt 3. gr. kaupsamningsins er studd með vísan til sömu röksemda. Krafa stefnenda, Halldórs og Sigþórs, um að viðurkenndur verði með dómi réttur þeirra til að láta fara fram nauðungarsölu á fasteigninni, er byggð á því að tryggingarbréfið sé þinglýstur samningur aðila um veðrétt í fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík fyrir tiltekinni peningakröfu. Fram komi í tryggingarbréfinu að falli skuld samkvæmt því í gjalddaga, vegna verulegra vanefnda á skyldum veðsala gagnvart veðhafa, sé heimilt að láta selja veðið við opinbert uppboð til lúkningar skuldinni, án dóms, sáttar eða aðfarar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Um aðild að málinu vísa stefnendur til þess að fjárkröfu stefnenda sé eingöngu beint að stefnda Fylki ehf. enda sé hann kaupandi samkvæmt kaupsamningi aðila. Kröfum stefnenda, Halldórs og Sigþórs, viðvíkjandi tryggingarbréfi áhvílandi á fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík sé beint að báðum stefndu enda sé stefndi Fylkir ehf. skuldari fjárkröfunnar en stefndi Súðarvogur 9 ehf. eigandi fasteignarinnar. Því varði viðurkenningarkröfur stefnenda réttindi beggja stefndu og þyrftu þeir þeir báðir að þola dóm í samræmi við dómkröfurnar. Eigi þeir því báðir aðild að málinu, sbr. 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um lagarök vísa stefnendur til meginreglna kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga og skuldbindingargildi samninga, laga nr. 7/1936 og laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, einkum VI. og VII. kafla laganna. Þá vísa stefnendur til ákvæða laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, aðallega 6. gr. laganna og ákvæða laga nr. 75/1997, um samningsveð. Vegna dráttarvaxtakröfu er vísað til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnaðarkröfu er vísað XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Um aðild að málinu er vísað til 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. III. Stefndi Fylkir ehf. byggir sýknukröfu sína aðallega á því að hin selda fasteign að Súðarvogi 9 í Reykjavík, hafi verið haldin galla í skilningi laga nr. 40/2002, um fasteignakaup, enda hafi byggingarréttur, sem stefnendur hafi haldið fram að fylgdi eigninni ekki verið fyrir hendi. Beita skuli lögum um fasteignakaup með lögjöfnun um viðskipti aðila, enda hafi þau í eðli sínu verið fasteignaviðskipti, þrátt fyrir að andlag kaupsamnings hafi verið félagið Súðarvogur 9 ehf.   Stefndi Fylkir ehf. vísar til þess að upphaflega hafi fasteignin verið auglýst til sölu hjá Fasteignasölu Kópavogs og í framhaldi af því hafi hún verið seld stefnda Fylki ehf. Það megi sjá af söluyfirliti frá fasteignasölunni og kauptilboði sem stefndi Fylkir ehf. hafi gert í eignina og hafi verið samþykkt 17. desember 2013. Í söluyfirlitinu hafi verið vísað til „4-5 þúsund [fermetra]“ byggingarréttar sem hafi átt að fylgja með í kaupunum. Sá byggingarréttur hafi verið forsenda fyrir því að stefndi Fylkir ehf. hafi gert tilboð í fasteignina. Stefndi Fylkir ehf. byggir á því að honum hafi verið stætt á að treysta því sem fram hefði komið um að umræddur byggingarréttur fylgdi með í kaupunum, enda hafi fasteignin verið í eigu tengdra aðila um áratugaskeið. Eignin sé gölluð enda hafi byggingarrétturinn ekki reynst vera fyrir hendi og eigi hann því kröfu á  hendur stefnendum um afslátt af fasteignakaupunum vegna gallans. Stefndi Fylkir ehf. byggir á því að gallinn hafi verið á fasteigninni við afhendingu hennar en hafi ekki komið í ljós fyrr en stefndi Fylkir ehf. hafi orðið þess áskynja árið 2015 að vinna hefði hafist hjá Reykjavíkurborg við fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á hverfinu Vogabyggð. Gallinn sé umtalsverður enda standi Súðarvogur 9 ehf., sem sé nú dótturfélag stefnda Fylkis ehf., frammi fyrir því að þurfa að greiða Reykjavíkurborg tugi milljóna fyrir byggingarrétt á lóðinni með minni fermetrafjölda en þeim sem stefnendur hafi lofað að myndu fylgja með í kaupunum. Eina eign félagsins Súðarvogs 9 ehf. á söludegi þess, utan innstæðu á bankareikningi, hafi verið fasteignin við Súðarvog 9 í Reykjavík, sem stefnendur hafi kynnt fyrir stefnda með framangreindum hætti. Stefnendur hafi verið meðvitaðir um að byggingarrétturinn hafi haft veruleg áhrif á ákvörðun fyrirsvarsmanna stefnda Fylkis ehf. um að gera tilboð í fasteignina. Vanefnd stefnenda á efndum kaupsamningsins skapi stefnda Fylki ehf. rétt til afsláttar af kaupverði í samræmi við verðrýrnun á dótturfélaginu Súðarvogi 9 ehf. sem vanefnd stefnenda hafi valdið. Um fjárhæð afsláttarins vísar stefndi Fylkir ehf. til niðurstöðu matsgerðar dómkvadds matsmanns. Til vara byggir stefndi Fylkir ehf. sýknukröfu sína á því, yrði ekki fallist á að lög nr. 40/2002 hafi gilt um viðskipti aðila, að samkvæmt meginreglum kröfuréttar feli galli á greiðslu í sér vanefnd skuldara sem heimili kröfuhafa beitingu vanefndaúrræða. Stefnendur hafi ekki efnt kaupsamninginn þar sem hið selda hafi verið haldið galla sem rýri verðmæti þess umtalsvert og jafngildi það vanefnd í framangreindum skilningi. Vanefndaúrræði stefnda Fylkis ehf. af þessu tilefni sé að krefjast afsláttar af kaupverði, í samræmi við niðurstöðu matsgerðar dómkvadds matsmanns. Í samningaviðræðum á milli málsaðila í aðdraganda viðskiptanna hafi stefnendur haldið því fram að með fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík myndi fylgja „4-5 þúsund [fermetra]“ byggingarréttur. Stefndi Fylkir ehf. hafi ekki haft ástæðu til að ætla annað en að stefnendur hefðu réttar upplýsingar um tilvist byggingarréttarins, enda hafi ásetningur og vilji stefnenda við söluna verið skýr. Þá sé vísað til kauptilboðsins um fasteignina í kaupsamningnum 16. janúar 2014 um Súðarvog 9 ehf. og þannig sé tilboðið og þær upplýsingar sem fram hafi komið við gerð þess hluti af kaupunum. Varakröfu sína um lækkun af fjárkröfu stefnenda byggir stefndi Fylkir ehf. á því að útreikningur vaxta á höfuðstól dómkröfu stefnenda skuli miðast við skilmála viðaukans við kaupsamning aðila frá 4. nóvember 2014. Enginn fyrirvari hafi verið gerður við skuldbindingargildi viðaukans af hálfu stefnenda. Þar hafi skilmálum kaupsamningsins frá 16. janúar 2014 verið breytt með samningi aðila á þá leið að lokagreiðslan skyldi fara fram í síðasta lagi 1. ágúst 2015 gegn greiðslu 10% ársvaxta á fjárhæð lokagreiðslunnar frá og með 16. október 2014 til greiðsludags. Stefndu krefjast með vísan til framangreinds einnig sýknu af kröfum stefnenda viðvíkjandi tryggingarréttindum í fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík, enda standi þær kröfur að baki fjárkröfum stefnenda á hendur stefnda Fylki ehf. Í tryggingarbréfinu á 2. veðrétti fasteignarinnar að Súðarvogi 9 í Reykjavík segi orðrétt: „Til tryggingar á því að fullar efndir verði á skyldum veðsala á framangreindu þá setur veðsali neðangreinda eign til tryggingar [...].“ Veðsali samkvæmt skjalinu og lögum nr. 75/1997, um samningsveð, sé útgefandi þess, stefndi Súðarvogur 9 ehf. Stefndi Súðarvogur 9 ehf. hafi hins ekkert vanefnt gagnvart stefnendum. Þá beri stefndi Fylkir ehf. engar skyldur gagnvart stefnendum samkvæmt tryggingarbréfinu. Stefndu vísa til þess að stefnendur Halldór og Sigþór hafi sjálfir undirritað tryggingarbréfið og hafi það verið samið að undirlagi þeirra og af sérfræðingi á þeirra vegum. Þurfi stefnendur því sjálfir að bera hallann af óskýrleika í skilmálum tryggingarbréfsins, ekki stefndu. Stefndu vísa jafnframt til þess að tryggingarbréfið standi til tryggingar á 28.000.000 króna, sem séu verðtryggðar, ásamt vanskilavöxtum og tilfallandi kostnaði. Tryggingarbréfið tryggi því ekki samningsvexti samkvæmt skilmálum viðaukans við kaupsamning aðila frá 4. nóvember 2014 líkt og stefnendur Halldór og Sigþór krefjist að staðfestingar á. Stefndu krefjast sýknu af kröfu stefnenda Halldórs og Sigþórs um viðurkenningu á rétti til að láta fara fram nauðungarsölu á fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík á grundvelli tryggingarbréfsins með vísan til alls þess sem að framan greinir. Stefndu byggja á því að tryggingarbréfið tryggi sem fyrr segir ekki efndir stefnda Fylkis ehf. við stefnendur, enda sé hann ekki aðili að tryggingarbréfinu, hvorki sem veðsali né sem skuldari hinnar tryggðu skuldar. Ríkar kröfur séu gerðar til skýrleika tryggingaskjala sem uppboðsheimilda og séu þær ekki uppfylltar í tryggingarbréfi stefnenda. Stefndu vísa til laga nr. 40/2002, um fasteignakaup, einkum 20. og 27. gr. laganna. Þá vísast jafnframt til almennra skráðra og óskráðra reglna samninga- og kröfuréttar, sérstaklega hvað varðar efndir samninga, eiginleika greiðslu og rétt til afsláttar. Þá vísast til meginreglna kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga. Að öðru leyti vísa stefndu til 6. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Vegna málskostnaðar er sérstaklega vísað til 1. mgr. 131. gr. laga 91/1991. IV. Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi Halldór Gíslason og fyrirsvarsmaður stefnda Fylkis ehf., Eiríkur Óli Árnason, aðilaskýrslu. Dómkvaddur matsmaður, Guðmundur H. Steinþórsson, löggiltur fasteignasali, kom einnig fyrir dóminn og staðfesti niðurstöður sínar í fyrirliggjandi matsgerð. Verður vitnað til framburðar þeirra eftir því sem þörf þykir. Stefnendur höfða mál þetta til innheimtu eftirstöðva kaupverðs samkvæmt kaupsamningi á milli aðila málsins frá 16. janúar 2014, þar sem stefndi Fylkir ehf. keypti af stefnendum einkahlutafélagið Súðarvog 9 ehf. Helsta eign Súðarvogs 9 ehf. er fasteignin að Súðarvogi 9 í Reykjavík, en auk hennar fylgdi með í kaupunum handbært fé félagsins að fjárhæð 7.687.435 krónur. Hlutir í hinu selda félagi voru afhentir þannig að 15% hlutafjár voru afhent við undirritun kaupsamnings gegn afhendingu fyrstu kaupsamningsgreiðslu að fjárhæð 20.000.000 króna. Þá er óumdeilt í málinu að önnur kaupsamningsgreiðsla að fjárhæð 70.000.000 króna, sem inna skyldi af hendi innan 60 daga frá undirritun kaupsamnings, hefur farið fram gegn afhendingu alls hlutafjár í Súðarvogi 9 ehf. Lokagreiðsla samkvæmt kaupsamningnum, að fjárhæð 28.000.000 króna, er sú fjárhæð sem stefnendur gera kröfu um í máli þessu á hendur stefnda Fylki ehf. auk vanskilavaxta og kostnaðar. Þá er í málinu gerð krafa um viðurkenningu tengdra tryggingarréttinda á hendur báðum stefndu, Fylki ehf. og Súðarvogi 9 ehf. Stefndi Fylkir ehf. krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnenda en til vara lækkunar á fjárkröfu málsins. Sýknukröfu sína styður stefndi Fylkir ehf., með vísan til þess að fasteignin að Súðarvogi 9 í Reykjavík sé gölluð í skilningi laga nr. 40/2002, um fasteignakaup, og eigi hann því rétt á afslætti af kaupverði fasteignarinnar. Stefnendur hafna því hins vegar að lög nr. 40/2002 geti átt við um viðskipti aðila málsins, sem kaupsamningurinn 16. janúar 2014 nái til, enda hafi þau fjallað um sölu stefnenda á öllu hlutafé í Súðarvogi 9 ehf. en ekki sölu á fasteign. Þar af leiðandi eigi lög nr. 50/2000, um lausafjárkaup, við um lögskipti aðila og meðal annars þess vegna haldi ekki varnir stefnda til stuðnings sýknukröfu hans. Fyrir dóminn kom stefnandi Halldór Gíslason og gerði grein fyrir því að aldrei hafi staðið til að selja fasteignina að Súðarvogi 9 í Reykjavík nema með félaginu Súðarvogi 9 ehf., sem hann átti þá hlutdeild í og fór með forsvar fyrir. Af framburði fyrirsvarsmanns stefnda Fylkis ehf., má hins vegar ráða að hann hafi fyrst fengið veður af sölu fasteignarinnar að Súðarvogi 9 í Reykjavík. Síðar hafi eðli viðskiptanna verið breytt og fyrirtækið Súðarvogur 9 ehf., eigandi fasteignarinnar, orðið andlag kaupanna. Gögn málsins styðja framburð fyrirsvarsmanns stefnda Fylkis ehf. að þessu leytinu til. Í málinu liggur fyrir tölvubréf 11. desember 2013, frá Fasteignasölu Kópavogs til þriðja aðila ásamt söluyfirliti fasteignarinnar að Súðarvogi 9 í Reykjavík, með vísan til þess að tilteknir leigusamningar fylgi með eigninni. Fyrirsvarsmaður stefnda Fylkis ehf. fékk umrætt tölvubréf áframsent síðar sama dag. Hvergi er þar vísað til Súðarvogs 9 ehf. Á meðal gagna málsins er einnig kauptilboð í fasteignina að Súðarvogi 9 í Reykjavík frá 17. desember 2013. Tilboðsgjafi er stefndi Fylkir ehf. og kauptilboðið var samþykkt af stefnanda Halldóri Gíslasyni vegna tilboðshafa Súðarvogs 9 ehf. sem hann var þá í forsvari fyrir. Í kauptilboðinu er kaupverð fasteignarinnar tilgreint 120.000.000 króna. Stefndi Fylkir ehf. gerði í kauptilboðinu fyrirvara um frekari skoðun á félaginu, Súðarvogi 9 ehf., og skyldi sú skoðun liggja fyrir innan þriggja daga frá samþykki kauptilboðsins. Af þessu má ráða að á þeim tíma er kauptilboðið um fasteignina var undirritað hafi verið ráðgert að stefndi Fylkir ehf. keypti fasteignina samhliða félaginu Súðarvogi 9 ehf., sem kaupsamningurinn frá 16. janúar 2014 fjallar um. Kaupverð í kaupsamningnum 16. janúar 2014 um Súðarvog 9 ehf. nemur 118.000.000 króna. Í framburði fyrirsvarsmanns stefnda Fylkis ehf. fyrir dómi kom fram að kaupverðið hefði verið lækkað frá því sem var ákveðið í desember 2013 úr 120.000.000 króna vegna loforðs stefnda Fylkis ehf. um að standa skil á áætlaðri 2.000.000 króna skuld Súðarvogs 9 ehf. vegna opinberra gjalda. Nemur sú fjárhæð mismuninum á kaupverði annars vegar í kaupsamningnum 16. janúar 2014 um Súðarvog 9 ehf. og hins vegar í kauptilboðinu á milli sömu aðila um fasteignina að Súðarvogi 9 í Reykjavík frá 17. desember 2013. Af framangreindu er að mati dómsins augljós tenging á milli kaupsamningsins 16. janúar 2014 og nefndra skjala um sölu fasteignarinnar frá miðbiki desember 2013. Dómurinn telur þar af leiðandi ljóst að viðskipti aðila málsins lutu einkum að fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík, sem er í eigu hins samnefnda einkahlutafélags. Þar af leiðandi, að því marki sem ágreiningur aðila hverfist um það hvort fasteignin hafi verið í samræmi við þær væntingar sem stefndi Fylkir ehf. hafði um hana sem kaupandi, eigi hér við reglur laga nr. 40/2002, um fasteignakaup. Að því sögðu byggir stefndi Fylkir ehf. sýknukröfu sína af fjárkröfu stefnenda á því að hin selda fasteign að Súðarvogi 9 í Reykjavík sé haldin galla, nánar tiltekið í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 40/2002. Ástæða þess sé sú að fasteignin sé ekki í samræmi við yfirlýsingar, sem hafi stafað frá seljanda, um eiginleika eignarinnar. Um það vísar stefndi Fylkir ehf. til söluyfirlits um fasteignina frá 11. desember 2013 sem áður hefur verið vikið að og var sent frá Fasteignasölu Kópavogs sama dag. Í söluyfirlitinu er því nánar tiltekið lýst að til sölu sé 972 fermetra atvinnuhúsnæði við Súðarvog á 2.120 fermetra lóð með góðu athafnasvæði. Í söluyfirlitinu greinir svo eftirfarandi: „Að sögn eigenda er byggingarréttur á lóðinni, fyrir stækkun upp á 4-5 þúsund [fermetra].“ Stefndi Fylkir ehf. byggir á því að honum hafi verið stætt á því að byggja á framangreindum upplýsingum um byggingarrétt við kaupin, auk þess sem það hafi verið ákvörðunarástæða hans fyrir kaupum á fasteigninni að téður byggingarréttur fylgdi með henni, sem ekki hafi staðist. Eigi hann því rétt á afslætti af kaupverði fasteignarinnar. Stefnendur hafna því hins vegar alfarið að stefndi Fylkir ehf. eigi rétt á afslætti af kaupverði fasteignarinnar. Um það vísa stefnendur í fyrsta lagi til þess að þeir geti ekki borið ábyrgð á því sem fram komi í söluyfirlitinu frá 11. desember 2013, enda sé ósannað að það stafi frá þeim. Í öllu falli geti þeir ekki borið ábyrgð á söluyfirlitinu í ljósi þess að það hafi aldrei verið borið undir þá til samþykkis. Þá greindi stefnandinn Halldór Gíslason, í skýrslu sinni fyrir dómi, frá því að fyrirsvarsmaður stefnda Fylkis ehf. hefði sjálfur leitað til fasteignasölunnar og haft frumkvæði að kaupunum. Aðspurður svaraði Halldór því einnig til að stefnendur hefðu aldrei gert samning við fasteignasöluna um sölu fasteignarinnar. Gögn málsins bera hins vegar vott um að fasteignin hafi verið til sölumeðferðar hjá Fasteignasölu Kópavogs. Til að mynda áðurgreind tölvubréfasamskipti 11. desember 2013 þar sem söluyfirliti fasteignarinnar var komið á framfæri við stefnda Fylki ehf., fyrir tilstuðlan Fasteignasölu Kópavogs, ásamt tilgreiningu á því að stefnendur Halldór og Sigþór kæmu fram fyrir hönd seljenda. Þá svaraði stefnandinn Halldór Gíslason því til að hann hefði greint frá því á Fasteignasölu Kópavogs að áhugasamir kaupendur á fasteigninni í aðdraganda hrunsins, á árunum 2007 eða 2008, hefðu kannað möguleika á því að stækka byggingarhlutfall á lóðinni, en að ekkert hefði orðið úr því. Eins kom fram í skýrslugjöf stefnanda Halldórs Gíslasonar að seljendur hefðu greitt fasteignasölunni sölulaun að loknum viðskiptum á milli stefnenda og stefnda Fylkis ehf. Dómurinn telur, með hliðsjón af framangreindu, einsýnt að Fasteignasala Kópavogs hafi komið fram fyrir hönd stefnenda í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 40/2002, sem stefndi Fylkir ehf. byggir afsláttarkröfu sína á, vegna þess söluferlis sem lauk með undirritun kaupsamningsins 16. janúar 2014. Í þeim skilningi báru stefnendur, sem seljendur fasteignarinnar að Súðarvogi 9 í Reykjavík, ábyrgð á öllum þeim upplýsingum um fasteignina sem Fasteignasala Kópavogs veitti stefnda Fylki ehf. í söluyfirliti um hana. Gildir þetta hvað sem líður atvikum eða ástæðum að baki því að þær voru tilgreindar þar, þar með talið upplýsingum um meðfylgjandi „4-5 þúsund [fermetra]“ byggingarrétt, án þess að stoð hafi verið fyrir þeim. Stefnendur byggja á því að stefndi Fylkir ehf. eigi ekki rétt á afslætti af kaupverðinu, þar sem hann hafi vanrækt skoðunarskyldu sína sem kaupandi fasteignarinnar að Súðarvogi 9 í Reykjavík í skilningi 29. gr. laga nr. 40/2002. Stefnendur benda á að 1. mgr. 27. gr. laga nr. 40/2002 taki aðeins til sértækra upplýsinga um fasteign sem kaupandi megi með réttu reiða sig á. Ákvæðið verði þar af leiðandi að meta með sanngjörnu tilliti til skoðunarskyldu kaupanda fasteignar sem tíunduð sé í 29. gr. sömu laga. Nánar tiltekið þurfi að meta hvort stefndi Fylkir ehf. hafi mátt treysta því, án frekari skoðunar, að upplýsingar í söluyfirlitinu um byggingarrétt á fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík væru réttar. Stefnendur vísa til þess að óljós tilvitnun til meintrar frásagnar þáverandi eigenda af meðfylgjandi „4-5 þúsund [fermetra]“ byggingarrétti í söluyfirliti, sem hvorki hafi verið getið í undirrituðu kauptilboði stefnda Fylkis ehf. um fasteignina 17. desember 2013, né í kaupsamningi 16. janúar 2014, hafi gefið stefnda ríkt tilefni til að rannsaka hvort sá byggingarréttur fylgdi í raun með fasteigninni. Allt framangreint eigi sér í lagi við með hliðsjón af lágu kaupverði fasteignarinnar. Í þessu samhengi ber að líta til þess að stefndi Fylkir ehf. hefur í málinu teflt fram matsgerð dómkvadds matsmanns til stuðnings umræddri sýknukröfu sinni. Sem fyrr segir kom matsmaðurinn fyrir dóminn og staðfesti niðurstöður matsgerðarinnar. Meðal þess sem óskað var mats á var markaðsvirði 4.000 fermetra byggingarréttar annars vegar og 5.000 fermetra byggingarréttar hins vegar á fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík, á matstímabilinu í kringum áramótin 2013-2014. Niðurstaða matsmanns um verðmæti 4.000 fermetra voru 40.000.000 króna, en um verðmæti 5.000 fermetra 50.000.0000 króna. Mismunurinn er samkvæmt þessu umtalsverður á milli verðmætis neðri og efri marka byggingarréttarins sem vísað er til í söluyfirlitinu frá 11. desember 2013, eða 10.000.000 króna. Þessi munur mátti gefa fyrirsvarsmanni stefnda Fylkis ehf. ástæðu til að grennslast betur fyrir um hvort og þá hversu mikill byggingarréttur fylgdi eigninni, en fyrirsvarsmaðurinn bar fyrir dómi að hann hefði um margra ára skeið stundað fasteignaviðskipti. Eftir sem áður er staðfest í framburði fyrirsvarsmanns stefnda Fylkis, að hann hefði ekki séð ástæðu til að skoða fasteignina sjálfa í aðdraganda kaupanna, sem honum var þó rétt að gera með hliðsjón af efni 29. gr. laga nr. 40/2002, þá svaraði hann því til að hann hefði ekki rannsakað sérstaklega hvort byggingarrétturinn, sem vísað var til í söluyfirlitinu, fylgdi með fasteigninni, í skjóli þess að það sem þar kæmi fram væri rétt. Að öllu framangreindu virtu verður hins vegar að fallast á það með stefnendum að stefnda hefði verið rétt að kanna hvort stoð væri fyrir því sem fram kom í söluyfirlitinu frá 11. desember 2013. Líkt og fram hefur komið var þess ekki getið þar með nákvæmum hætti hversu mikil byggingarréttindi ættu að fylgja með fasteigninni, auk þess sem þar var aðeins vísað til óstaðfestrar frásagnar seljenda fasteignarinnar þar að lútandi. Skýringar fyrirsvarsmanns stefnda í skýrslugjöf fyrir dómi eru að þessu leyti ósannfærandi með hliðsjón af þeim mikla verðmætamun sem stefndi sjálfur hefur fært sönnur á að hafi verið við kaupin á milli annars vegar 4.000 og hins vegar 5.000 fermetra byggingarréttar á lóð fasteignarinnar. Þrátt fyrir að söluyfirlitið hafi að þessu leyti ekki gefið rétta mynd af eiginleikum fasteignarinnar er niðurstaða dómsins sú að upplýsingarnar sem þar birtust um meðfylgjandi byggingarrétt hafi ekki verið nægilega sérgreinanlegar í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 40/2002. Hafi stefnda Fylki ehf. því ekki verið stætt á því að treysta umræddum upplýsingum án nánari skoðunar, sér í lagi með hliðsjón af skyldum hans sem fasteignakaupanda samkvæmt 29. gr. sömu laga. Stefnendur byggja í þriðja lagi á því að ósannað sé í málinu að títtnefndur byggingarréttur sem vísað var til í söluyfirlitinu 11. desember 2013 hafi verið ákvörðunarástæða stefnda Fylkis ehf. fyrir fasteignakaupunum, líkt og áskilið sé í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 40/2002. Hafi hins vegar svo verið, hafi stefndi Fylkir ehf. bæði vanrækt skoðunarskyldu sína í aðdraganda kaupanna, svo sem áður hefur verið lýst, sem og í kjölfar áhættuskipta, sbr. 38. gr. laga nr. 40/2002. Eigi hann því enn síður rétt á afslætti af kaupverði fasteignarinnar. Í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 40/2002, sem stefnendur vísa til, er gerður sá fyrirvari við 1. mgr. ákvæðisins, að röng upplýsingagjöf hafi ekki þar til greind réttaráhrif nema sýnt sé fram á orsakasamband milli rangrar upplýsingagjafar og ákvörðunar kaupanda um að ganga til kaupsamnings. Við úrlausn máls þessa verður því að meta heildstætt hvort stefnda hafi tekist sönnun um að hinar röngu upplýsingar um byggingarrétt í söluyfirlitinu frá 11. desember 2013, hafi verið ákvörðunarástæða þess að hann gerði tilboð í fasteignina 17. desember 2013 og, á grundvelli þess, gekk til kaupsamningsins við stefnendur 16. janúar 2014. Í framburði sínum fyrir dómi greindi fyrirsvarsmaður stefnda Fylkis ehf. frá því, sem fyrr segir, að hann hefði ekki skoðað fasteignina í aðdraganda kaupanna. Hann hefði komið auga á tækifæri til að fjármagna kaupin vegna leigutekna af húsnæðinu. Í tölvubréfum sem áður hefur verið vísað til frá 11. desember 2013, greinir fasteignasali hjá Fasteignasölu Kópavogs frá því að þrír leigusamningar séu í gildi um fasteignina að Súðarvogi 9 í Reykjavík, sem skili 947.133 krónum í tekjur mánaðarlega. Þriðji aðili, tengdur fyrirsvarsmanni stefnda Fylkis ehf., áframsendi tölvubréfið frá fasteignasölunni til fyrirsvarsmanns stefnda samdægurs með svofelldum skilaboðum: „Ááhuuuugavert“. Í tölvubréfunum sjálfum, þar sem söluyfirlit fasteignarinnar er meðfylgjandi, er hvergi vikið að umþrættum byggingarrétti sem stefndi byggir sýknukröfu sína á. Þá ber til þess að líta að 20 mánuðir liðu frá áhættuskiptum vegna fasteignarinnar að Súðarvogi 9, í skilningi 38. gr. laga nr. 40/2002, uns stefnendum var gert viðvart um að stefndi teldi fasteignina gallaða. Um þá töf voru skýringar fyrirsvarsmannsins á þá leið að hann hefði ekki komist að raun um að byggingarrétturinn fylgdi ekki lóðinni fyrr en á árinu 2015. Þá hafi hann komist að því að hann ætti ekki möguleika á jafn mikilli stækkun og getið hafði verið í söluyfirliti, en samkvæmt deiliskipulagi sem væri í undirbúningi hjá Reykjavíkurborg yrði heildarbyggingarmagn á lóðinni mest 2.500 fermetrar. Framanlýstu andvaraleysi stefnda um það hvort nefndur byggingarréttur hafi fylgt með fasteigninni ber þess merki að mati dómsins að hann hafi látið sér í léttu rúmi liggja hvort nefndur byggingarréttur myndi fylgja með fasteigninni. Þá ber og til þess að líta að fyrir dómi svaraði fyrirsvarsmaður stefnda Fylkis ehf. því til að hann hefði ekki upplýst stefnendur sjálfa um þá forsendu fyrir kaupum sínum á fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík að byggingarréttur upp á „4-5 þúsund [fermetra]“ fylgdi með henni. Þá svaraði hann því einnig aðspurður að hann hefði hvorki óskað eftir að tilgreina hana í kauptilboði sem frá honum stafaði og var undirritað 17. desember 2013 né í kaupsamningnum á milli stefnenda og stefnda Fylkis ehf. frá 16. janúar 2014. Verður stefndi sjálfur að bera áhættuna af því. Að öllu framangreindu virtu er ósannað að það hafi verið ákvörðunarástæða fyrir kaupum stefnda Fylkis ehf. á fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík að sá byggingarréttur sem vísað var til í söluyfirliti ætti að fylgja með fasteigninni. Stoðar stefnda Fylki ehf. þar af leiðandi ekki að bera fyrir sig greinda málsástæðu. Með hliðsjón af því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að fasteignin við Súðarvog 9 í Reykjavík hafi ekki verið haldin göllum í skilningi 1. mgr. sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 40/2002, um fasteignakaup, sem kynni að veita stefnda Fylki ehf. afslátt af kaupverði fasteignarinnar í skilningi 41. gr. sömu laga. Stefnendur krefjast þess aðallega að stefnda Fylki ehf. verði gert að greiða stefnendum lokagreiðslu kaupsamningsins, 28.000.000 kr., ásamt dráttarvöxtum frá 16. október 2014, en til vara ásamt 10% ársvöxtum frá 16. október 2014 til 1. ágúst 2015 en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Í viðauka við kaupsamninginn frá 4. nóvember 2014 var sú breyting gerð á kaupsamningnum frá 16. janúar 2014 að gjalddaga umkrafinnar lokagreiðslu, sem hafi upphaflega átt að greiðast 16. október 2014, hafi verið frestað. Samkvæmt viðaukanum skyldi fjárhæðin greiðast í síðasta lagi 1. ágúst 2015 og bera 10% samningsvexti frá 16. október 2014 til greiðsludags. Stefnendur byggja aðalkröfu sína á því að miða skuli upphaf dráttarvaxtaútreikninga á lokagreiðsluna við 16. október 2014, enda hafi greiðslufrestur í viðaukanum ekki verið virtur. Varakrafan miðar við skilmála viðaukans um vaxtaútreikninga. Í viðaukanum frá 4. nóvember 2014 var enginn fyrirvari gerður við gildi hans vegna hugsanlegra vanefnda stefnda Fylkis ehf. Í framburði stefnanda Halldórs Gíslasonar kom fram að hann hefði litið á greiðslufrestinn sem álitlegan fjárfestingarkost, enda bæri lokagreiðsla kaupsamningsins samkvæmt viðaukanum framangreinda samningsvexti sem væru hærri en almennir innlánsvextir hérlendis. Skoða verður viðaukann þannig að með því að hann breytti upphaflegum skilmálum kaupsamningsins frá 16. janúar 2014 um gjalddaga umkrafinnar lokagreiðslu eigi meginreglan um skuldbindingargildi samninga við um það sem í viðaukanum var ákveðið með sama hætti og aðra skilmála kaupsamningsins. Verður því fallist á varakröfu stefnenda, þannig að stefnda Fylki ehf. verði gert að greiða stefnendum 28.000.000 króna með 10% samningsvöxtum frá 16. október 2014 til 1. ágúst 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Samkvæmt áðurlýstu tryggingarbréfi var fasteignin að Súðarvogi 9 í Reykjavík sett að veði á öðrum veðrétti til tryggingar á skaðlausri greiðslu 28.000.000 króna skuld vegna lokagreiðslu samkvæmt 3. tölul. 2. gr. kaupsamningsins frá 16. janúar 2014, sem var breytt með samningsviðauka á milli aðila frá 4. nóvember 2014 líkt og fyrr segir. Með skýringu á fullum efndum er í tryggingarbréfinu vísað til þess að tryggingarfjárhæðin sé bundin vísitölu neysluverðs til verðtryggingar með grunnvísitölu janúarmánaðar 2015 auk vanskilavaxta og kostnaðar sem til geti fallið. Er þetta orðalag fortakslaust og ekki getur farið á milli mála hvaða efndir bréfinu er ætlað að tryggja. Verður því ekki á það fallist með stefndu að bréfið standi ekki til tryggingar á efndum lokagreiðslu kaupsamningsins, sem beinlínis er þar vísað til, hvað sem líður tilvísun til skyldu veðsala í bréfinu, sem er augljós misritun. Þá er það ekki skilyrði að stefndi Fylkir ehf. sé aðili að tryggingarbréfinu líkt og stefndu halda fram. Stefndi Súðarvogur 9 ehf. er veðsali sem eigandi fasteignarinnar sem sett er að veði til tryggingar á skaðlausum efndum umkrafinnar lokagreiðslu kaupsamningsins frá 16. janúar 2014. Verða því teknar til greina kröfur stefnenda um staðfestingu þess að téð bréf standi til tryggingar dæmdum skuldum stefnda Fylkis ehf. við stefnendur samkvæmt dómsorði. Stefnendur krefjast þess einnig að staðfestur verði með dómi réttur þeirra til að láta fara fram nauðungarsölu á fasteigninni að Súðarvogi 9 í Reykjavík á grundvelli tryggingarbréfsins. Úrlausn um kröfu þessa hefur enga þýðingu fyrir réttarstöðu aðila að máli þessu nú þegar staðfest hefur verið að tryggingarbréfið standi til tryggingar fyrir kröfum stefnenda á hendur stefnda Fylki ehf. samkvæmt dómsorðinu. Enda myndi umkrafin viðurkenning ekki leiða sjálfkrafa til þess að nauðungarsala á fasteigninni færi fram. Um framkvæmd nauðungarsölu fasteigna í tilvikum af þessum toga gilda lög nr. 90/1991 um nauðungarsölu o.fl. og er hún á valdi sýslumannsembætta í umdæmi hlutaðeigandi fasteigna, eftir atvikum á grundvelli dómsúrlausna. Krafa stefnenda að þessu leyti felur því ekki annað í sér en lögspurningu til dómsins, sem fer í bága við meginreglur einkamálaréttarfars, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Stefnendur hafa því ekki lögvarða hagsmuni af kröfugerð sinni að þessu leyti í skilningi 2. mgr. síðastgreinds lagaákvæðis og ber því að vísa kröfunni sjálfkrafa frá dómi. Samkvæmt þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 er óhjákvæmilegt að dæma stefndu óskipt (in solidum) til að greiða stefnendum málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 900.000 krónur. Af hálfu stefnenda flutti málið Haukur Örn Birgisson hrl. og af hálfu stefndu flutti málið Ómar Karl Jóhannesson hdl. Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Kröfu stefnenda um að viðurkenndur verði með dómi réttur þeirra til að láta fara fram nauðungarsölu á fasteigninni Súðarvogi 9, Reykjavík, fastanúmer 202-3208, á grundvelli tryggingarbréfs nr. 000519, sem útgefið var 17. janúar 2014, er hvílir á fasteigninni Súðarvogi 9, Reykjavík, fastanúmer 202-3208, er vísað frá dómi. Stefndi Fylkir ehf. greiði stefnendum Halldóri Gíslasyni, Oddnýju Magneu Einarsdóttur, Rannveigu G. Lund og Sigþóri Haraldssyni 28.000.000 króna með 10% ársvöxtum frá 16. október 2014 til 1. ágúst 2015 en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. ágúst 2015 til greiðsludags. Staðfest er að tryggingarbréf nr. 000519 í eigu stefnenda Halldórs Gíslasonar og Sigþórs Haraldssonar, útgefið 17. janúar 2014, er hvílir á fasteigninni Súðarvogi 9, Reykjavík, standi til tryggingar á tildæmdum skuldum stefnda Fylkis ehf. við stefnendur ásamt málskostnaði. Stefndu, Fylkir ehf. og Súðarvogur 9 ehf., greiði óskipt stefnendum, Halldóri Gíslasyni, Oddnýju Magneu Einarsdóttur, Rannveigu G. Lund og Sigþóri Haraldssyni, sameiginlega 900.000 krónur í málskostnað.  
Mál nr. 543/2017
Fasteignakaup Galli Riftun Sprangkrafa
S og A kröfðust þess að staðfest yrði riftun þeirra á tveimur kaupsamningum um lóðir í Ásborgum í Ásgarðslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi og að G yrði gert að greiða þeim fjárhæð er svaraði til kaupverðs lóðanna auk gatnagerðagjalds, gegn útgáfu afsals fyrir lóðunum. G hafði verið upphaflegur eigandi þeirra lóða sem um ræddi í málinu, en ekki var fyrir hendi samningssamband milli aðila að því er varðaði kaup á lóðunum. Byggðu S og A kröfu sína annars vegar á því að þeim væri á grundvelli 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup heimilt að ganga inn kröfu sem þeir sem þau leiddu rétt sinn frá kynnu að hafa átt á hendur G vegna vanefnda þess síðarnefnda gagnvart þeim. Hins vegar byggðu þau á því að þeim væri heimilt að hafa uppi beina kröfu á hendur G á grundvelli almennra reglna kröfuréttar þar sem G hefði ekki með réttum hætti efnt samningsskyldur sínar. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að við úrlausn málsins hefðu dómar Hæstaréttar í málum nr. 222/2012 og 82/2014 fordæmisgildi um það að tilteknar athafnir G á árunum 2009, 2010 og 2011 hefðu falið í sér eftirfarandi vanefndir af hans hálfu við sölu lóða í Ásborgum. Að því er varðaði það álitaefni hvort S og A sem síðari framasalshafar lóðanna gætu vegna þessa krafist riftunar á kaupsamningunum tveimur vísaði Hæstiréttur til þess að í 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/2002 fælist heimild kaupanda fasteignar til að beina kröfu vegna galla á fasteign að öðrum en þeim sem seldi honum og þá í sama mæli og sá gæti haft uppi slíka kröfur á hendur fyrri eiganda eða öðrum samningsaðila. Gengi kaupandinn við þær aðstæður inn í réttarstöðu seljandans og væri þá eðli máls samkvæmt óhjákvæmilegt skilyrði að seljandi hefði öðlast kröfu á hendur fyrri eiganda eða öðrum fyrri samningsaðila. Af þessu leiddi að hefði galli fyrst komið til sögunnar eftir að kaupandi hefði orðið eigandi umræddrar eignar gæti hann ekki neytt heimildar ákvæðisins. Því næst vísaði Hæstiréttur til þess að þær athafnir G sem hefðu falið í sér eftirfarandi vanheimild af hans hálfu hefðu að stærstum hluta átt sér stað eftir að S eignaðist lóðirnar en að óverulegu leyti meðan H ehf., sem S og A leiddu rétt sinn frá, hefði verið eigandi þeirra. Lægi þannig ekki fyrir að H ehf. hefði öðlast rétt til riftunar vegna vanefnda G og því ekki sú staða uppi að S og A gætu gengið inn í réttarstöðu sem H ehf. hefði öðlast. Samkvæmt þessu gætu S og A ekki reist riftunarkröfu sína á hendur G á ákvæði 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/2002. Þá væri það almenn regla kröfuréttar að aðilar samnings hefðu einir forræði á túlkun hans og framkvæmd og gætu einir haft uppi kröfu í tilefni af ætlaðri vanefnd hans. Gætu S og A því ekki reist riftunarkröfu sína á því að þeim væri heimilt að hafa uppi beina kröfu á hendur G á grundvelli almennra regla kröfuréttar. Með þessu væri þó ekki tekin afstaða til þess hvort S og A kynnu á öðrum lagagrundvelli að hafa öðlast kröfu á hendur G vegna þeirra athafna sem um var deilt í málinu. Með vísan til þessa var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu G.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Sigurður Tómas Magnússon landsréttardómari. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 30. ágúst 2017. Þau krefjast staðfestingar á riftun tveggja kaupsamninga um lóðir í Ásborgum í Ásgarðslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi, annars vegar kaupsamnings 12. apríl 2006 um lóðina nr. 18, og hins vegar kaupsamnings 31. mars 2006 um lóðina nr. 24.  Þá krefjast þau þess að stefndi greiði þeim 11.730.875 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, aðallega frá 20. janúar 2014 til greiðsludags en til vara frá 16. nóvember 2016 til greiðsludags, í báðum tilvikum gegn útgáfu afsals fyrir lóðunum. Þá krefjast þau aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að málskostnaður á báðum dómstigum verði felldur niður. Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara staðfestingar hins áfrýjaða dóms en að því frágengnu að kröfur áfrýjenda verði lækkaðar. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Stefndi hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi til að fá endurskoðun á frávísunarkröfu sinni sem hafnað var með úrskurði héraðsdóms 20. mars 2017 og getur krafa hans um frávísun málsins frá héraðsdómi því ekki komið til úrlausnar fyrir Hæstarétti. I Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi var stefndi upphaflegur eigandi lóða þeirra sem um ræðir í málinu. Lóðina nr. 18 í Ásborgum seldi hann einkahlutafélaginu S.Ö.S. með kaupsamningi 12. apríl 2006 og lóðina nr. 24 Byggingafélaginu Geysi ehf. með kaupsamningi 31. mars sama ár en áfrýjandinn Sigurður Örn var fyrirsvarsmaður og meðal eigenda beggja félaganna. Báðum lóðunum afsalaði stefndi til framangreindra kaupenda 27. október 2008.   Með afsali 4. desember 2008 seldi S.Ö.S. ehf. lóðina nr. 18 Hornási ehf. og með afsali sama dag seldi Byggingafélagið Geysir ehf. Hornási ehf. lóðina nr. 24. en áfrýjandinn Sigurður Örn var annar tveggja stofnenda þess félags ásamt því að vera prókúruhafi, framkvæmdastjóri og varamaður í stjórn félagsins. Hornás ehf. seldi Sigurði Erni báðar lóðirnar með kaupsamningi 30. október 2009.  Með yfirlýsingu 7. maí 2012 voru lóðirnar nr. 18 og 24 gerðar að óskiptri sameign beggja áfrýjenda í helmings eigu hvors um sig. Hornási ehf. var slitið á árinu 2012. Lögmaður áfrýjenda tilkynnti stefnda með bréfi 20. desember 2013 að „þau hafi ákveðið að rifta kaupsamningum við sveitarfélagið um lóðirnar nr. 24 og 18 í Ásborgum í Grímsnesi, Grafningshreppi ... Verði ekki samið við umbj.m. eða fallist á riftun er umbj.m. ... nauðugur einn kostur að höfða mál gegn sveitarfélaginu til riftunar á umræddum kaupsamningum og krefjast jafnframt skaðabóta úr hendi sveitarfélagsins.“ Með bréfi 6. janúar 2014 hafnaði stefndi kröfu áfrýjenda. Mál þetta höfðuðu áfrýjendur 6. nóvember 2016 með þeim dómkröfum sem í hinum áfrýjaða dómi greinir. II Krafa áfrýjenda um riftun framangreindra kaupsamninga, sem stefndi gerði við S.Ö.S. ehf. og Byggingafélagið Geysi ehf. 12. apríl og 31. mars 2006 og um endurgreiðslu kaupverðsins ásamt fasteignagjöldum, er reist á tvíþættum grunni. Annars vegar er krafan reist á því að áfrýjendum sé samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup „heimilt að ganga inn í kröfur sem fyrri viðsemjendur hans kunni að hafa átt á hendur stefnda vegna vanefnda stefnda gagnvart þeim ... Beri stefnda að þola riftun og endurgreiða söluverð lóðanna og um leið gatnagerðargjöld.“ Hins vegar er riftunar- og endurgreiðslukrafan reist á því að áfrýjendum sé „heimilt að hafa uppi beina kröfu á hendur stefnda á grundvelli almennra reglna kröfuréttarins þar sem stefndi hafi ekki með réttum hætti efnt samningsskyldur sínar. Í málinu liggi fyrir að viðsemjandi áfrýjenda og þeir sem leiði rétt sinn frá honum hafi byggt á ákvæðum kaupsamninga sem stefndi hafi verið aðili að ... Með háttsemi sinni hafi stefndi brotið gegn samningsskyldum sínum, fasteignin sé haldin galla vegna eftirfarandi vanefndar af hálfu stefnda. Beri stefnda að þola riftun og endurgreiða söluverð lóðanna og um leið gagnagerðargjöld.“ III Áfrýjendur vísa til þess í málatilbúnaði sínum að Hæstiréttur Íslands hafi kveðið upp dóma í sambærilegum málum þar sem til úrlausnar hafi verið ágreiningur vegna lóðakaupa tiltekinna aðila í Ásborgum af stefnda. Um sé að ræða dóm Hæstaréttar 19. desember 2012 í máli nr. 222/2012 og dóm réttarins 6. nóvember 2014 í máli nr. 82/2014. Segir í málatilbúnaði áfrýjenda að í umræddum dómum „hafi verið fallist á aðalkröfu lóðarhafa um riftun kaupsamnings við Grímsnes- og Grafningshrepp og endurgreiðslu kaupverðs og gatnagerðargjalda. Athafnir Grímsnes- og Grafningshrepps  hafi verið virtar sveitarfélaginu til sakar og talið að gerðir þess hafi falið í sér eftirfarandi vanefnd á kaupsamningsskyldum. Áfrýjendur telja að sama eigi við í þessu máli.“ Fram kemur í framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 222/2012 að stefndi hafi selt tveimur einkahlutafélögum, Grímsborgum og Hótel Geysi, margar lóðir í Ásborgum þegar á árinu 2006. Með þessu hafi stefnda mátt vera fyllilega ljóst að stigin væru fyrstu skrefin í þá átt að breyta íbúðabyggð í svæði fyrir atvinnurekstur eða blöndu af hvoru tveggja. Engu að síður hafi hann selt áfrýjendum málsins lóð næstum einu og hálfu ári síðar þar sem í kaupsamningi hafi sérstaklega verið skírskotað til skilmála deiliskipulags fyrir íbúðabyggð. Tilteknir kostir hins selda hafi þar með verið áskildir og ekkert fram komið í málinu sem benti til þess að stefndi hafi vakið athygli viðsemjenda sinna á því að skipulagið hlyti að breytast vegna kaupa umræddra félaga á nærri þriðjungi lóða í hverfinu. Það var niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. 222/2012 að nánar tilgreindar athafnir stefnda á árinu 2009 og 2010 í tengslum við veitingu rekstrarleyfa til Grímsborga ehf. og breytingu á skipulagi í Ásborgum á árinu 2011 hafi falið í sér vanefnd á skyldum hans samkvæmt kaupsamningum um tilteknar lóðir í Ásborgum. Um var að ræða í fyrsta lagi svar stefnda 20. ágúst 2009 við fyrirspurn sýslumanns vegna umsóknar Grímsborga ehf. um leyfi til reksturs gististaðar í Ásborgum. Í öðru lagi svar stefnda 25. janúar 2010 við fyrirspurn sýslumanns vegna umsóknar Grímsborga ehf. um heimild til að reka veitingastað í Ásborgum. Í þriðja lagi umsögn byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 28. maí 2010 vegna hins sama og í fjórða lagi athafnir í tengslum við breytingar á aðalskipulagi stefnda sem auglýstar voru á árinu 2011. Þá er þess einnig getið í dóminum að samhliða breytingu á aðalskipulagi hafi verið auglýst breyting á deiliskipulagi „íbúðarsvæðisins Ásborgir“ á þann veg að heimilt yrði að nýta hús þar „sem íbúðarhús og sem gisti- og/eða veitingahús“ til samræmis við tillögu um breytingu á aðalskipulagi. Þá væri gert ráð fyrir því að byggingarreitur á lóð nr. 48 yrði stækkaður en sú lóð væri í eigu Grímsborga ehf. Í dóminum í máli nr. 222/2012 segir að stefndi hafi gefið „jákvæða umsögn með báðum umsóknum Grímsborga ehf. Þær gerðir hans fóru í bága við fyrirmæli 1. töluliðar 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 um að sveitarstjórn skuli staðfesta að staðsetning sé innan marka, sem reglur og skipulag segi til um, en deiliskipulag gerði ráð fyrir íbúðabyggð í Ásborgum. Umsóknir Grímsborga ehf. fólu jafnframt í sér að breytt yrði notkun húsa, sem þegar höfðu verið reist í Ásborgum, og var því þörf á byggingarleyfi til slíks samkvæmt 1. mgr. 43. gr. þágildandi laga nr. 73/1997, sbr. einnig áðurnefnda umsögn byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 28. maí 2010. Jákvæð umsögn stefnda var því einnig andstæð því lagaákvæði.“ Væri fallist  á með kaupendunum „að virða beri þessar athafnir stefnda í tengslum við samningsskyldur hans honum til sakar, sbr. 2. málslið 18. gr. laga nr. 40/2002 og að gerðir hans hafi falið í sér eftirfarandi vanefnd á kaupsamningi þeirra í skilningi 2. mgr. 20. gr. sömu laga. Reynir þá ekki sérstaklega á hvort hún yrði almennt talin veruleg eða óveruleg. Krafa áfrýjenda um riftun kaupsamnings verður samkvæmt því tekin til greina.“ IV Fallist er á með héraðsdómi að við úrlausn málsins hafi dómur Hæstaréttar í máli nr. 222/2012, sbr. og dómur réttarins í máli nr. 82/2014, fordæmisgildi um það að áðurgreindar athafnir stefnda á árunum 2009, 2010 og 2011 hafi falið í sér eftirfarandi vanefndir af hans hálfu við sölu lóða í Ásborgum. Með þeim breytti stefndi einhliða nýtingu og skipulagi svæðisins úr því að vera íbúðarsvæði í að vera svæði þar sem heimilaður var að auki rekstur veitinga- og gististaða. Kemur þá til úrlausnar hvort heimildir standi til þess að lögum að áfrýjendur sem síðari framsalshafar lóðanna geti vegna umræddra vanefnda krafist riftunar kaupsamninganna 31. mars og 12. apríl 2006 á þeim grundvelli sem þau hafa gert. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/2002 getur kaupandi fasteignar beint kröfu vegna galla að fyrri eiganda hennar eða öðrum fyrri samningsaðila í sama mæli og seljandi gæti haft uppi slíka kröfu. Er hér um að ræða það sem nefnt er sprangkrafa í lögskýringargögnum. Felst í ákvæði 1. mgr. 45. gr. heimild kaupanda fasteignar (C) til þess að beina kröfu vegna galla á fasteigninni að öðrum en þeim sem seldi honum og þá í sama mæli og sá (B) gæti haft uppi slíka kröfu á hendur fyrri eiganda eða öðrum samningsaðila (A). Gengur kaupandinn (C) við þær aðstæður inn í réttarstöðu seljandans (B) og er þá eðli máls samkvæmt óhjákvæmilegt skilyrði að (B) hafi öðlast kröfu vegna galla á hendur fyrri eiganda (A) eða öðrum fyrri samningsaðila.  Af þessari afmörkun á gildissviði 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/2002 leiðir að hafi galli fyrst komið til sögunnar eftir að kaupandinn (C) varð eigandi umræddrar eignar getur hann ekki neytt heimildar 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/2002. Áfrýjandinn Sigurður Örn varð sem fyrr segir eigandi lóðanna nr. 18 og 24 í Ásborgum með kaupsamningi við Hornás ehf. 30. október 2009 en það félag hafði eignast lóðirnar 4. desember 2008. Þær athafnir stefnda sem um ræðir í málinu og fólu í sér eftirfarandi vanefnd af hans hálfu áttu sér stað á tímabilinu frá 20. ágúst 2009 og fram á árið 2011 og þannig að stærstum hluta eftir að áfrýjandinn Sigurður Örn eignaðist lóðirnar en að óverulegu leyti meðan Hornás ehf. var eigandi þeirra. Liggur þannig ekki fyrir að Hornás ehf. hafi meðan það var eigandi lóðanna öðlast rétt til riftunar vegna umræddra vanefnda og því ekki sú staða uppi að áfrýjendur geti gengið inn í réttarstöðu sem Hornás ehf. hafði öðlast. Samkvæmt þessu og að því gættu sem áður segir um afmörkun á gildissviði 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/2002 geta áfrýjendur ekki reist riftunarkröfu sína á hendur stefnda á því ákvæði. Þess er áður getið að samningssambandi er ekki til að dreifa milli áfrýjenda og stefnda um kaup og sölu lóðanna nr. 18 og 24 í Ásborgum. Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 7. desember 2000 í máli nr. 153/2000 er það almenn regla kröfuréttar að aðilar samnings hafa einir forræði á túlkun hans og framkvæmd og geta einir haft uppi kröfu í tilefni af ætlaðri vanefnd hans. Að gættri þessari almennu reglu geta áfrýjendur eins og atvikum háttar ekki reist riftunarkröfu sína á hendur stefnda á því að þeim sé „heimilt að hafa uppi beina kröfu á hendur stefnda á grundvelli almennra reglna kröfuréttarins þar sem stefndi hafi ekki með réttum hætti efnt samningsskyldur sínar.“ Með þessu er á hinn bóginn ekki tekin afstaða til þess hvort áfrýjendur kunni á öðrum lagagrundvelli að hafa öðlast kröfu á hendur stefnda vegna þeirra athafna hans sem um er deilt í málinu. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu stefnda af kröfu áfrýjenda og um skyldu þeirra til að greiða stefnda málskostnað vegna reksturs málsins í héraði. Eftir atvikum er rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Suðurlands fimmtudaginn 1. júní 2017 Mál þetta sem höfðað var með stefnu útgefinni 6. nóvember 2016, áritað um staðfestingu birtingar án þess að dagsetningar sé getið, var þingfest 16. sama mánaðar en dómtekið 5. maí sl. Stefnendur eru Sigurður Örn Sigurðsson, kt. [...] og Aðalheiður Jacobsen, kt. [...], bæði til heimilis að Byggðarhorni 40, 801 Selfossi. Stefndi er Grímsnes- og Grafningshreppur, kt. [...], Borg í Grímsnesi, en fyrirsvarsmaður stefnda er Ingibjörg Harðardóttir, kt. [...], Björk 2, 801 Selfossi, sveitarstjóri. Dómkröfur stefnenda í þessum þætti málsins eru aðallega að stefnda verði gert að þola riftun kaupsamnings dags. 12.04.2006 vegna lóðarinnar nr. 18, sem er 4.813 m2, land nr. 199024 í Ásgarðslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi og að stefnda verði gert að þola riftun kaupsamnings dags. 31.03.2006 vegna lóðarinnar nr. 24, sem er 4.984 m2, land nr. 199050, í Ásborgum í Ásgarðslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum 11.730.875 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. l. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20.01.2014 til greiðsludags. Til vara krefjast stefnendur þess að stefnda verði gert að þola riftun kaupsamnings dags. 12.04.2006 vegna lóðarinnar nr. 18, sem er 4.813 m2, land nr. 199024 og að stefnda verði gert að þola riftun kaupsamnings dags. 31.03.2006 vegna lóðarinnar nr. 24, sem er 4.984 m2, land nr. 199050, í Ásborgum í Ásgarðslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum 11.730.875 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. l. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 04.04.2015 til greiðsludags. Verði fallist á aðal- eða varakröfu stefnenda munu stefnendur gefa út afsal til stefnda fyrir lóðunum nr. 18 og 24 í Ásborgum í Ásgarðslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi. Þá er þess krafist að stefndi verði í öllum tilvikum dæmdur til þess að greiða stefnendum málskostnað að skaðlausu að mati réttarins. Í þessum þætti málsins krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnenda. Til vara er þess krafist að kröfur stefnenda verði stórlega lækkaðar. Krafist er málskostnaðar úr hendi stefnanda in solidum samkvæmt málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Með úrskurði dómsins 20. mars sl., var kröfu stefnda um frávísun á aðal- og varakröfum stefnenda hafnað, en vísað var frá dómi þrautavarakröfu stefnenda um skaðabætur að álitum.  Þá er rétt að geta þess að máli milli sömu aðila, sem höfðað var 27. mars 2015, var vísað frá dómi með úrskurði uppkveðnum 6. nóvember 2015. Úrskurðurinn var staðfestur í Hæstarétti 2. desember sama ár, sbr. mál Hæstaréttar nr. 776/2015. Málavextir Samkvæmt gögnum málsins eru helstu málavextir þessir. Mál þetta varðar tvær lóðir í  Ásgarðslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi, annars vegar lóð nr. 18 og hins vegar lóð nr. 24, en upphaflega voru lóðirnar í eigu stefnda og hluti af skipulagðri íbúðabyggð á áðurnefndu svæði. Stefnendur eru hjónin Sigurður Örn Sigurðsson og Aðalheiður Jacobsen og beina þau kröfum sínum að stefnda, upphaflegum eiganda lóðanna. Atvik að baki eignarhaldi lóðarinnar nr. 18 eru helst þessi. Með kaupsamningi, dags. 12. apríl 2006, seldi stefndi SÖS ehf., lóðina nr. 18 í Ásborgum, ásamt lóð nr. 20. Samkvæmt kaupsamningi var kaupverð lóðanna samtals 8.152.265 krónur og gatnagerðargjöld samtals 2.844.800 krónur. Í málavaxtalýsingu í stefnu er gerð grein fyrir kaupverði lóðarinnar nr. 18 samkvæmt framangreindum kaupsamningi. Þar segir að samkvæmt verðskrá hafi verð lóðarinnar nr. 18 verið 5.294.300 krónur, en veittur hafi verið 15% afsláttur af því verði við kaupin og umsamið kaupverð hafi því verið 4.500.155 krónur. Þá hafi gatnagerðargjald numið 1.422.000 krónum. Samtals hafi því verið greiddar 5.922.555 krónur vegna kaupa á lóð nr. 18.  Þann 27. október 2008 gaf stefndi út afsal til SÖS ehf., vegna lóðarinnar nr. 18, en þar var kaupverðs lóðarinnar ekki getið. Með afsali, dags. 4. desember 2008, afsalaði SÖS ehf., lóðinni nr. 18 ásamt lóðinni nr. 20 til Hornáss ehf., en kaupverð lóðanna og gatnagerðargjalda er þar hvorki getið né er það sundurgreint eftir lóðum. Með kaupsamningi, dags. 30. október 2009, seldi Hornás ehf., Sigurði Erni Sigurðssyni, öðrum stefnenda þessa máls, lóðirnar nr. 18, 24 og 48 í Ásborgum. Í kaupsamningi kemur fram að kaupverð lóðarinnar nr. 18 hafi verið 4.500.155 krónur og gatnagerðargjald 1.422.400 krónur. Afsal til handa stefnanda Sigurðar var gefið út sama dag, þ.e. 30. október 2009. Atvik að baki eignarhaldi lóðarinnar nr. 24 eru helst þessi. Með kaupsamningi, dags. 31. mars 2006, seldi stefndi Byggingafélaginu Geysi ehf., framangreinda lóð nr. 24 í Ásborgun, ásamt lóðum nr. 2, 4, 28 og 48. Samkvæmt kaupsamningi var kaupverð lóðanna samtals 14.059.265 krónur og gatnagerðargjöld samtals 7.112.000 krónur. Í málavaxtalýsingu í stefnu er gerð grein fyrir kaupverði lóðarinnar nr. 24 samkvæmt framangreindum kaupsamningi. Þar segir að samkvæmt verðskrá hafi verð lóðarinnar nr. 24 verið 5.482.400 krónur, en veittur hafi verið 20% afsláttur af því við kaupin og umsamið kaupverð hafi því verið 4.385.920 krónur. Þá hafi gatnagerðargjald numið 1.422.000 krónum. Samtals hafi því verið greiddar 5.808.320 krónur vegna kaupa á lóð nr. 18.  Þann 27. október 2008 gaf stefndi út afsal til Byggingarfélagsins Geysis ehf., vegna lóðarinnar nr. 24, en kaupverðs var þar ekki getið. Með afsali, dags. 4. desember 2008, seldi og afsalaði Byggingarfélagið Geysir ehf., lóðinni nr. 24, ásamt lóðunum nr. 2, 4, 28 og 48 til Hornáss ehf., en kaupverðs lóðanna og gatnagerðargjalda var þar hvorki getið né var það sundurgreint eftir lóðum. Eins og áður greinir seldi Hornás ehf., Sigurði Erni Sigurðssyni, öðrum stefnenda þessa máls, með kaupsamningi, dags. 30. október 2009, framangreinda lóð nr. 24, ásamt lóðunum nr. 18 og 48. Í kaupsamningi kemur fram að kaupverð lóðarinnar nr. 24 hafi verið 4.385.920 krónur og gatnagerðargjald 1.422.000 krónur. Afsal til handa stefnanda Sigurðar var gefið út sama dag, þ.e. 30. október 2009. Með yfirlýsingu, dagsettri 7. maí 2012, voru framangreindar lóðir nr. 24 og 18, ásamt fleiri eignum, gerðar að óskiptri sameign stefnenda þannig að hvort um sig ætti 50%. Framangreind félög, Byggingarfélagið Geysir ehf., og SÖS ehf., sem munu hafa verið í eigu stefnenda, munu ýmist vera gjaldþrota eða rekstri þeirra verið hætt. Samkvæmt skipulagi Ásgarðslands í Grímsnes- og Grafningshreppi, sem samþykkt var í sveitarstjórn stefnda 17. september 2003, var gert ráð fyrir 36 einbýlishúsalóðum og útivistarsvæði umhverfis þær. Byggðin var skipulögð hringlaga, ellefu lóðir í innri hring og tuttugu og fjórar lóðir í ytri hring og voru lóðirnar misstórar. Eins og fyrr segir keyptu félög í eigu Sigurðar Arnar, annars stefnanda þess máls, þ.e. Byggingarfélagið Geysir ehf., og SÖS ehf., m.a. umræddar lóðir í mars og apríl árið 2006 af stefnda, en í dag eru báðir stefnendur málsins eigendur lóðanna eins og áður er rakið.   Fyrir liggur að 16. júlí 2009 sóttu Grímsborgir ehf., um rekstrarleyfi fyrir sölu á gistingu og veitingum í Ásgarðslandi, en félagið átti á þeim tíma nokkrar lóðir í svæðinu. Stefndi hafi samþykkt erindið fyrir sitt leyti 20. ágúst sama ár. Óumdeilt er að félagið fékk umbeðin leyfi og hóf rekstur gisti- og veitingasölu á svæðinu. Einnig liggur fyrir að stefndi vann að breytingum á skipulagi Ásgarðslandsins og samþykkti breytingar á aðalskipulagi svæðisins á þann veg að landnotkun svæðisins breyttist í blandaða byggð íbúða og verslunar og þjónustu í þeim tilgangi að nýta þegar byggð og fyrirhuguð íbúðarhús sem gisti- og/eða veitingahús, eins og segir í auglýsingu um skipulagsmál sem birt var í Lögbirtingablaðinu 28. apríl 2011. Kemur fram í auglýsingunni að kynning á tillögunni standi til 3. maí það sama ár. Í málinu liggja frammi tvö bréf frá stefnendum til stefnda þar sem tillögu um breytingu á skipulagi svæðisins er mótmælt. Er fyrra bréfið stílað á hið stefnda sveitarfélag, dags. 17. maí 2010. Auk þess að mótmæla fyrirhugðum breytingum á skipulagi svæðisins hafi stefnendur krafist þess að gengið yrði til samninga um skil á lóðunum nr. 18 og 24. Segir í málavaxtalýsingu í greinargerð að með því bréfi hafi stefnendur sett fram athugasemdir við upphaflega kynningu stefnda á breytingu á aðalskipulagi Ásborga. Síðara bréfið er stílað á skipulags- og byggingarfulltrúa stefnda, dags. 2. maí 2011. Í málavaxtalýsingu í greinargerð er því andmælt að framangreint bréf hafi borist stefnda. Fyrir liggur að breytt aðalskipulag svæðisins var síðan auglýst í Stjórnartíðindum 21. janúar 2013. Fólst í breytingunni að ellefu lóðum af fjörutíu og átta var breytt úr íbúðarhúsalóðum í lóðir fyrir verslun og þjónustu.  Málsástæður og lagarök stefnenda Stefnendur vísa til þess að af hálfu stefnda hafi lóðir á svæðinu verið kynntar með ákveðnum kostum, m.a. að um væri að ræða rólegt íbúðahverfi. Stefndi hafi einhliða breytt nýtingu og skipulagi svæðisins þegar hann hafi heimilað að leggja lóðir á svæðinu undir rekstur veitinga- og gististaða auk skemmtanahalds. Stefndi hafi veitt jákvæða umsögn vegna umsóknar Grímsborga ehf., um rekstrarleyfi, sem hafi verið í andstöðu við fyrirmæli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og þágildandi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, sem kveði á um að að sveitarstjórn skuli staðfesta að staðsetning sé innan marka sem reglur og skipulag segi til um. Vísa stefnendur til þess að það hafi verið ákvörðunarástæða þeirra fyrir lóðarkaupum að um friðsælt íbúðahverfi væri að ræða. Breytingar á skipulagi hafi leitt til stóraukinnar umferðar ferðamanna og vegfarenda, oft stórra langferðabifreiða sem ekið sé hring um svæðið. Hafi framangreindur atvinnurekstur gjörbreytt svæðinu. Með þessu hafi stefndi brotið gegn samningsskyldum sínum við lóðarhafa, sem virða beri stefnda til sakar, sbr. 18. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Hafi gerðir stefnda falið í sér eftirfarandi vanefnd á kaupsamningsskyldum í skilningi 2. mgr. 20. gr. laga nr. 40/2002 og þar með hafi verið til staðar skilyrði til að rifta kaupsamningunum, sbr. 1. mgr. 42. gr. laganna. Þannig hafi gerðir stefnda falið í sér eftirfarandi vanefnd. Því séu lóðirnar gallaðar í skilningi fasteignakauparéttar og skilyrði riftunar uppfyllt. Þá sé stefndi enn í dag að knýja fram breytingar á skipulagi í þá átt að heimila frekari uppbyggingu á reit sem átt hafi upphaflega að vera friðsæll sumarhúsareitur. Vísar stefnendur í því sambandi til skipulagsbreytinga sem m.a. feli í sér uppbyggingu 100 bílastæða með hótelbyggingum og kapellu á svæðinu. Máli sínu til stuðnings vísa stefnendur til þess að Hæstiréttur Íslands hafi kveðið upp dóma í sambærilegum málum, þar sem til úrlausnar hafi verið ágreiningur vegna lóðakaupa af stefnda í Ásgarðslandi í Grímsnesi. Í málunum hafi verið fallist á aðalkröfu lóðarhafa um riftun kaupsamnings við Grímsnes- og Grafningshrepp og endurgreiðslu kaupverðs og gatnagerðargjalda. Athafnir Grímsnes- og Grafningshrepps hafi verið virtar sveitarfélaginu til sakar og talið að gerðir þess hafi falið í sér eftirfarandi vanefnd á kaupsamningsskyldum. Stefnendur byggja aðal- og varakröfu annars vegar á því að stefnendum sé heimilt á grundvelli heimildarákvæðis 45. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup að ganga inn í kröfur sem fyrri viðsemjendur stefnda kunni að eiga á hendur stefnda vegna vanefnda gagnvart þeim. Þá byggja stefnendur á því að fasteignin teljist gölluð í skilningi fasteignakaupalaga vegna eftirfarandi vanefndar stefnda. Sökum háttsemi stefnda sé fasteignin haldin eftirfarandi vanefnd og um leið galla. Beri stefnda að þola riftun og endurgreiða söluverð lóðanna og um leið gatnagerðargjöld. Af þessum sökum beri stefnda að greiða stefnendum fjárhæð sem nemi kaupverði lóðanna auk gatnagerðargjalda, samtals 11.730.875 krónur. Jafnframt verði stefnda gert að þola riftun á kaupsamningi um lóðirnar nr. 18 og nr. 24 í Ásborgum í Ásgarðslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi. Hins vegar byggja stefnendur aðal- og varakröfu á því að þeim sé heimilt að hafa uppi beina kröfu á hendur stefnda á grundvelli almennra reglna kröfuréttarins þar sem stefndu hafi ekki efnt samningsskyldur sínar með réttum hætti. Viðsemjendur stefnenda og þeir sem leiði rétt sinn frá honum hafi byggt á ákvæðum kaupsamninga sem stefndi hafi verið aðili að, þ.e. kaupsamninga frá 31. mars 2006 varðandi lóðina nr. 24 og 12. apríl sama ár varðandi lóðina nr. 18, þar sem stefndi hafi lýst yfir tiltekinni notkun á lóðunum. Stefndi hafi brotið gegn samningsskyldum sínum með háttsemi sinni, fasteignin sé haldin galla vegna eftirfarandi vanefndar stefnda. Af þessum sökum beri stefnda að greiða stefnendum fjárhæð sem nemi kaupverði lóðanna auk gatnagerðargjalda, samtals 11.730.875 krónur. Jafnframt verði stefnda gert að þola riftun á kaupsamningi um lóðirnar nr. 18 og nr. 24 í Ásborgum í Ásgarðslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi. Upphafsdagur dráttarvaxta í aðalkröfu sé 20. janúar 2014 og byggi á því að með bréfi lögmanns stefnenda, dags. 20. desember 2013, hafi verið lýst yfir riftun. Því sé gerð krafa til þess að stefndi verði dæmdur til að greiða dráttarvexti af kaupverði lóðanna og gatnagerðargjöldum frá þeim degi þegar mánuður var liðinn frá því stefnendur hafi rift kaupunum. Kaupverð og gatnagerðargjöld séu ágreiningslaus og því ástæðulaust að tilgreina þau með sérstökum hætti. Tölulega fjárkröfu í aðal- og varakröfu sundurliða stefnendur þannig: Kaupverð lóðar nr. 18                                                      4.500.155 Kaupverð lóðar nr. 24                                                      4.385.920 Samtals kaupverð lóða                                                    8.886.075                 Gatnagerðargjöld lóðar nr. 18                                         1.422.400 Gatnagerðargjöld lóðar nr. 24                                         1.422.400 Samtals gatnagerðargjöld                                                2.844.800                 Samtals kaupverð og gatnagerðargjöld       11.730.875 Varakrafa sé efnislega eins og  aðalkrafa að því undanskildu að verði ekki fallist á að miða beri upphafsdag dráttarvaxta 30 dögum eftir dagsetningu riftunaryfirlýsingar verði upphafsdagur dráttarvaxta miðaður við 4. apríl 2015, sem sé þingfestingardagur máls nr. E-59/2015, milli sömu aðila. Þá segir í stefnu að verði fallist á aðal- eða varakröfu stefnenda muni stefnendur gefa út afsal til stefnda fyrir lóðunum nr. 18 og 24 í Ásborgum í Ásgarðslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi. Af hálfu stefnenda er vísað til almennra reglna kröfu- og samningaréttarins og laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, einkum 12. gr., 18. gr., 20. gr., 42. gr. og 45. gr. laganna. Þá vísa stefnendur til þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, einkum 43. gr. Varðandi málskostnað er vísað til 1. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991. Málsástæður og lagarök stefnda    Kröfu um sýknu byggir stefndi í fyrsta lagi á því að eingöngu sé krafist riftunar á tveimur kaupsamningum vegna sölu stefnda á lóðum nr. 18 og 24 til tveggja einkahlutafélaga. Umræddir samningar taki hins vegar til viðskipta fleiri lóða, auk þess sem hvorki sé krafist riftunar afsala lóðanna, sem muni þá standa áfram verði fallist á kröfur stefnenda, né annarra eftirfarandi kaupsamninga og afsala. Þegar af þessum ástæðum eigi að sýkna stefnda. Varðandi málsgrundvöll stefnenda vísar stefndi til þess í öðru lagi til eftirfarandi. Stefnendur byggi ekki á að breyting sem gerð hafi verið á aðalskipulagi svæðisins, og tekið hafi gildi 21. janúar 2013, hafi falið í sér vanefnd á samningsskyldum stefnda gagnvart kaupendum lóða á svæðinu. Vísar stefndi í því sambandi til 45. gr., e-lið 80.gr. og 4. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá vísi stefnendur eingöngu til 1. mgr. 18. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup varðandi ætlaða háttsemi stefnda gagnvart Byggingarfélaginu Geysi ehf., og S.Ö.S. ehf., án þess tekin sé afstaða til þess hvort hin meinta saknæma háttsemi teljist sjálfstæður galli í skilningi 26. og 27. gr. laga nr. 40/2002. Stefndi vísar til þess að stefnendur byggi á því að hin ætlaða vanefnd stefnda hafi átt sér stað 20. ágúst 2009 og 25. janúar 2010, en hafa verði framangreint í huga þegar virt eru fyrirmæli 48. gr. laga nr. 40/2002, ákvæði fyrningarlaga nr. 150/2007, og grandsemi stefnenda við kaup lóða á svæðinu. Þá byggir stefndi á því að riftun vegna umræddra lóða verði ekki beitt með sprangkröfu. Í því sambandi vísar stefndi til þess að umræddir samningar hafi verið um fleiri lóðir en stefnendur tilgreina, viðsemjendur stefnda hafi verið fasteignafélög og því geti síðari kaupandi ekki beitt sjónarmiðum neytendakaupa þó hann hafi verið einstaklingur og hið upprunalega samningssamband hafi verið efnt að fullu og því eigi hinn upprunalegi viðsemjandi stefnda enga kröfu á hendur stefnda, enda verði reglun 45. gr. laganna ekki beitt nema sú vanefnd samnings, sem byggt sé á, hafi verið til staðar í hinu upprunalega réttarsambandi. Einnig vísar stefndi til þess að telja verði vegna grandsemi viðtakenda lóðanna um starfsemi Grímsborga ehf., á svæðinu frá öndverðu og breytta notkun fasteigna þar, sem og þeirrar staðreyndar að viðtakendum hafi mátt verið það kunnugt frá árinu 2009 að skipulag á svæðinu kynni að breytast, verði ekki talið að lóðirnar hafi við kaup stefnenda verið gallaðar í skilningi 18. gr. laga nr. 40/2002, enda stefnendur eigendur þeirra félaga sem keyptu lóðirnar í öndverðu. Því verði hvorki talið að lóðirnar hafi verið haldnar leyndum galla né að starfsemi Grímsborga ehf., geti talist til meintrar eftirfarandi vanefndar gagnvart þeim. Þá vísar stefndi til þess að samningssamband stefnda og Byggingarfélagsins Geysis ehf., og S.Ö.S. ehf., hafi liðið undir lok 27. október 2008 við útgáfu afsala vegna lóðanna. Hafnar stefndi því að síðari kaupendur geti beitt riftun gagnvart upprunalegum seljanda heldur eingöngu fjárkröfu vegna skaðabóta eða afsláttar af kaupverði. Vísar stefndi til þess að eðli riftunar leiði til þess að ekki sé hægt að spranga fram hjá fyrri samningsaðilum. Efndaskyldur allra aðila í keðjunni þurfi því að fella niður samhliða en út á það gangi kröfugerð stefnenda ekki. Þá vísar stefndi til þess að það fari ekki saman að stunda viðskipti með lóðir við félag í atvinnurekstri á svæðinu, sbr. sölu stefnenda á lóð til Grímsborga ehf., á árinu 2011, og telja á sama tíma að félagið brjóti á lögvernduðum réttindum varðandi eiginleika lóðanna nr. 18 og 24. Verði ekki fallist á framangreint byggir stefndi á því að möguleiki stefnenda til að bera fyrir sig riftun hafi fallið niður sakir tómlætis stefnenda. Riftun sé viðamikið vanefndaúrræði sem aðeins sé talið heimilt að beita vegna umfangsmikilla vanefnda og því beri aðila að tilkynna svo fljótt sem verða má ef hann hyggst bera slíkt vanefndaúrræði fyrir sig. Að mati stefnda sé það hafið yfir allan vafa að réttur stefnenda til að bera fyrir sig riftun kaupasamninganna sé fallinn niður. Stefndi hafnar því alfarið að hafa vanefnt skyldur samkvæmt umræddum kaupsamningum. Auk þess hafi stefndi ekki ábyrgst neinar skyldur umfram það sem kveðið hafi verið á um í samningunum. Með útgáfu afsals hafi samningssambandi stefnda við viðsemjendur lokið og meint saknæm háttsemi stefnda, sem stefnendur byggi á, hafi aldrei komið til fyrr en eftir að hinu upprunalega samningssambandi lauk. Þá hafi fyrirsvarsmönnum þeirra félaga sem upphaflega keyptu lóðirnar, þ.e. stefnendum, verið full kunnugt um gisti- og veitingasölu á svæðinu þegar stefnandi Sigurður Örn fékk lóðunum afsalað til sín, án athugasemda eða yfirlýsinga af hans hálfu. Þá hafi stefnendur ekki gert reka að málsókn af hálfu Byggingarfélagsins Geysis ehf., og S.Ö.S. ehf. Stefndi mótmælir harðlega sem röngu og ósönnuð að stefndi hafi með einhverjum hætti beitt sér fyrir því að hagsmunum áðurnefndra félaga hafi verið raskað. Bendir stefndi á í því sambandi að jafnvel þótt litið verði svo á að stefndi hafi hlutast til um að atvinnurekstur yrði leyfður á svæðinu, eins og stefnendur halda fram, verði slíkar athafnir aldrei taldar fela í sér brot á samningsskyldum stefnda gagnvart viðkomandi aðilum, sbr. ákvæði 4.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Þá hafi stefnendur ekki axlað sönnunarbyrði varðandi staðhæfingar um meinta rýrnun á virði lóðanna, þvert á móti séu lóðir á svæðinu eftirsóknarverðar. Þá hafnar stefndi því að  fyrirtæki í eigu stefnda hafi ætlað lóðirnar eigendum sínum, þ.e. í því skyni að setjast að á svæðinu. Því standist ekki sú málsástæða stefnenda að breytt notkun húsa á svæðinu hafi kippt fótunum undan áformum þeirra og vísar stefndi í því sambandi til þess að umrædd félög hafi verið umfangsmiklir kaupendur lóða á svæðinu, fyrst og fremst í fjárfestingar- og hagnaðarskyni. Þá vísar stefndi til þess að stefnendur hafi ekki gert athugasemdir á kynningartíma aðalskipulagsins sem tekið hafi gildi 21. janúar 2013, og teljist það því samþykkt. Þá hafi þau ekki heldur gert athugasemdir við lýsingu á skipulagsverkefninu sem sent hafi verið með vísan til 1. mgr. 30. gr. skiplagslaga nr. 123/2010, og því geti þau ekki borið við meintum göllum innan samninga samkvæmt lögum nr. 40/2002. Stefndi hafnar því að aðal- og varakrafa stefnenda geti byggst á því að stefnendur eigi beina kröfu á hendur stefnda samkvæmt meginreglum kröfuréttar enda ekki um það að ræða að kröfuhafi hafi fengið framselt til sín hugsanlegri kröfu eða samþykki fyrir því að hann hefði heimild til að spranga fram hjá viðkomandi. Þá liggi fyrir að beint samningssamband sé ekki milli aðila þessa máls og meintar kröfur hafi ekki verið framseldar. Beri því að sýkna stefnda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Loks ítrekar stefndi að stefnendum hafi mátt vera ljóst þegar þau keyptu lóðirnar að Grímsborgir ehf., rækju ferðaþjónustu á svæðinu og að sú þjónusta yrði starfrækt þar áfram. Því geti athafnir stefnda ekki talist til eftirfarandi vanefnda, enda hafi meint saknæm háttsemi, sem stefndi hafnar þó með öllu, átt sér stað fyrir kaupin. Í þriðja lagi vísar stefndi til þess að ef dómurinn teldi mögulegt að fallast á kröfu stefnenda um riftun á grundvelli sprangkröfu eða beinnar kröfu sé ljóst að bæði riftunarkrafa sem og endurgreiðslukrafa sé fyrnd. Um réttarsambandið gildi 1. og 2. mgr. 42. gr. laga nr. 40/2002, sem og 48. gr. laganna. Samkvæmt 4. mgr. 48. gr. laga nr. 40/2002, fyrnist kröfur samkvæmt lögum nr. 40/2002 eftir lögum um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Byggir stefndi á því að allir tilkynningarfrestir samkvæmt lögum nr. 40/2002 séu liðnir. Verði talið að unnt sé að rifta kaupsamningi við upprunalegan viðsemjenda stefnda með sprangkröfu sé ljóst að allir lögbundnir tilkynningarfrestir séu löngu liðnir. Upphaflegir kaupendur, Byggingarfélagið Geysir ehf., og S.Ö.S. ehf., hafi fengið umráð lóðanna við undirritun kaupsamninga, þ.e. 31. mars og 12. apríl 2006, og því ljóst að tilkynningarfestur til að bera fyrir sig vanefnd hafi verið löngu liðinn þegar stefnendur sendu frá sér yfirlýsingu um riftun með bréfi dags. 20. desember 2013, sem síðan hafi ekki verið fylgt eftir fyrr en með stefnu í máli þessu sem hafi verið þingfest 16. nóvember 2016. Þá sé ekki hægt að horfa til fyrri málshöfðunar stefnenda, sem hafi verið vísað frá dómi, þar sem mál þetta hafi ekki verið höfðað að nýju innan sex mánaða Þá vísar stefndi til þess að í 3. gr. laga 150/2007 sé kveðið á um fjögurra ára fyrningarfrest kröfuréttinda, og varðandi fyrningarfrest til 1. mgr. 2. gr. laganna, og þess að miða eigi við afhendingu lóðanna. Með vísan til kaupsamninga upprunalegu eigendanna til Hornáss ehf., þann 4. desember 2008 og afhending umræddan dag, hafi kröfur vegna meintra vanefnda liðið undir lok fyrir fyrningu þann 4. desember 2012, sbr. 1. mgr. 2. gr. og 3. gr. laga nr. 150/2007. Innan þessa tíma hefðu stefnendur því þurft að rjúfa fyrningu meintrar sprangkröfu eða beinnar kröfu gegn stefnda. Þá komi sérregla 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 ekki að gagni fyrir stefnendur enda eigi reglan ekki við um gallakröfur í fasteignaviðskiptum auk þess sem viðbótarfrestur ákvæðisins hafi verið liðinn án þess að stefnendur hafi rofið fyrningu hinnar meintu kröfu sinnar eins og lögin kveði á um. Því séu allar hugsanlegar kröfur stefnenda fyrndar. Breyti engu um að þessu leyti þó miðað sé við lög um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905, enda hafi mál þetta ekki verið höfðað innan sex mánaða frá því fyrra máli stefnenda hafi verið vísað frá dómi, sbr. 11. gr. laganna og 1. mgr. 22. gr. laga nr. 150/2007. Loks vísar stefndi til þess að endurgreiðslukrafa stefnenda sé einnig fyrnd, sbr. 3. gr. laganna. Varðandi varakröfu stefnda í þessum þætti málsins, þ.e um lækkun dómkrafna  vísar stefndi til þess sem að áður er rakið. Þá er kröfu um dráttarvexti sérstaklega mótmælt. Engin efni séu til þess að ákveða annan upphafstíma dráttarvaxta, með vísan til þess sem að framan er rakið, en dómsuppsögu. Varðandi lagarök vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar, laga 40/2002, einkum 18., 19., 42. og 48. gr. laganna, skipulagslaga nr. 123/2010 og byggingarreglugerðar nr. 400/1998, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007, einkum 1. mgr. 2. gr., 3. gr. og 1. mgr. 22. gr. laganna. Einnig vísar stefndi til laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Krafa um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129., 130. og 131. gr. og til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Niðurstaða Þann 17. september 2003 samþykkti stefndi deiliskipulag fyrir íbúðabyggð í Ásborgum í landi Ásgarðs í Grímsnes- og Grafningshreppi. Var gert ráð fyrir 36 einbýlishúsalóðum og útivistarsvæði umhverfis þær. Umrætt svæði var í eigu stefnda, þ.m.t. lóðirnar nr. 18 og 24, sem eru í eigu stefnenda. Upphaflegir kaupendur lóðanna voru hins vegar  Byggingarfélagið Geysir ehf., samkvæmt kaupsamningi dags. 31. mars 2006, og  S.Ö.S ehf., samkvæmt kaupsamningi dags. 12. apríl 2006. Í áðurnefndum kaupsamningum var vísað til þess að kaupendur hefðu kynnt sér skipulags- og byggingarskilmála svæðisins og að lóðirnar væru hluti af skipulagðri heilsársbyggð í landi Ásgarðs. Afsöl vegna umræddra lóða gaf stefndi út til áðurnefndra upphaflegra kaupenda þann 27. október 2008.               Í máli þessu gera stefnendur kröfu um að upphaflegum kaupsamningum um lóðirnar nr. 18 og 24 verði rift og kaupverð endurgreitt. Byggja stefnendur kröfur sínar aðallega á heimild í 45. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002, og beina riftunarkröfu vegna eftirfarandi galla á lóðunum á hendur upphaflegum seljanda, stefnda í máli þessu. Eins og rakið er í málavaxtalýsingu var annar stefnenda málsins, Sigurður Arnar Sigurðsson, eigandi og forsvarsmaður beggja félaganna sem upphaflega keyptu lóðirnar nr. 18 og 24 af stefnda og samkvæmt gögnum málsins áttu stefnendur bæði sæti í stjórn S.Ö.S ehf., síðari hluta árs 2009. Þá liggur fyrir að Hornás ehf., sem einnig var í eigu og forsvari Sigurðar, keypti lóðirnar nr. 18 og 24 af upphaflegum kaupendum 4. desember 2008. Það var síðan 30. október 2009 sem áðurnefndur Sigurður keypti báðar lóðirnar af Hornási ehf. Óumdeilt er í málinu að hús hafa ekki verið reist á lóðunum og að stefnendur málsins eru hjón og meðal gagna málsins er yfirlýsing þeirra um að framangreindar lóðir séu í óskiptri sameign þeirra. Einnig er óumdeilt í málinu að Byggingarfélagið Geysir ehf., S.Ö.S. ehf., og Hornás ehf., eru annað hvort gjaldþrota eða hætt rekstri. Stefnendur vísa til þess að atvik í máli þessu séu sambærileg og í málum Hæstaréttar nr. 222/2012 frá 19. desember 2012 og nr. 82/2014 frá 6. nóvember 2014, en þar var fallist annars vegar á kröfu einstaklings og hins vegar einkahlutafélags um riftun kaupsamninga og endurgreiðslu kaupverðs vegna kaupa á lóðum í Ásborgum af stefnda. Stefnendur vísa til þess að Byggingarfélagið Geysir ehf., og S.Ö.S ehf., hafi keypt lóðir á svæði sem stefndi hafi kynnt með ákveðnum kostum, þ.e. í kyrrlátu umhverfi í skiplagðri íbúðabyggð. Þeim eiginleikum hafi lóðirnar verið sviptar eftir kaupin fyrir tilstuðlan stefnda sem hafi látið innleiða þar atvinnurekstur. Niðurstaða Hæstaréttar í framangreindum málum var að nánar tilgreindar athafnir stefnda við þá innleiðingu hafi falið í sér brot á samningsskyldum hans við kaupendur lóðanna sem virða bæri stefnda til sakar, sbr. 2. málslið 18. gr. laga nr. 40/2002, og að gerðir stefnda hafi falið í sér eftirfarandi vanefnd kaupsamninga í merkingu 2. mgr. 20. gr. laganna og viðurkenndi Hæstiréttur rétt kaupenda til riftunar kaupsamninga lóða á svæðinu og endurgreiðslu kaupverðs. Dómurinn fellst á það með stefnendum að framangreindir Hæstaréttardómar hafi að þessu leyti fordæmisgildi í máli þessu, þ.e. að eftir kaup Byggingarfélagsins Geysis ehf., og S.Ö.S ehf., hafi stefndi brotið gegn samningsskyldum sínum gagnvart kaupendum með því að breyta einhliða nýtingu og skipulagi svæðisins með því að heimila rekstur veitinga- og gististaða á svæðinu,  Með setningu laga um fasteignakaup nr. 40/2002 kom inn nýmæli í fasteignakaupum, þ.e. ákvæði 45. gr. laganna. Í 1. mgr. greinarinnar segir. Kaupandi getur beint kröfu vegna galla að fyrri eiganda eða öðrum fyrri samningsaðila í sama mæli og seljandi gæti haft uppi slíka kröfu. Í ákvæðinu fellst í reynd að kaupandi geti að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum haft uppi kröfu vegna galla á fasteign á hendur fyrri eiganda eða öðrum samningsaðilum. Nánar tiltekið er viðurkenndur réttur fyrir kaupanda til að krefjast úrbóta á galla með því að ganga inn í samning milli þess aðila sem vanefnd er rakin til þó svo milli hans og kaupanda sé ekki samningssamband. Þó svo þetta feli í sér viðurkenningu á rétti kaupanda til að beita vanefndaúrræðum laga nr. 40/2002 að tilteknum skilyrðum uppfylltum, felst í lagagreininni að umfang kröfunnar takmarkist af því hvaða kröfur fyrri kaupandi hefði getað haft uppi á hendur seljanda. Þá er það skilyrði fyrir beitingu greinarinnar að um sé að ræða kröfu sem rekja megi til galla. Ákvæðið felur í sér mikilvægan rétt fyrir kaupanda fasteignar til að leita efnda kröfu sinnar hjá öðrum en viðsemjenda sínum í þeim tilvikum þegar þannig háttar til að ekki sé hægt að hafa uppi kröfu á hendur honum. Stefndi hafnar því að heimild 45. gr. laga nr. 40/2002, verði beitt í máli þessu. Meðal vanefndaúrræða kaupanda vegna galla er riftun samkvæmt 42. gr. laganna, en þar segir að kaupandi geti rift kaupsamningi ef galli telst veruleg vanefnd. Fyrir liggur að greiðslur samkvæmt kaupsamningum þeim sem stefnendur krefjast riftunar á vegna lóðanna 18 og 24 hafa að fullu verið efndar og gaf stefndi, eins og áður greinir, út afsal til handa upphaflegum kaupendum þann 27. október 2008. Samkvæmt þessu og með vísan til þess sem að framan er rakið um fordæmisgildi dóma Hæstaréttar í málinum nr. 222/2012 og 82/2014, felst dómurinn á að riftunarkrafa stefnenda í máli þessu geti, með vísan til 45. gr. laga nr. 40/2002, byggst á samningi milli seljanda og kaupanda í fyrri samningssamböndum, þ.e. annars vegar kaupsamningi milli stefnda og Byggingarfélagsins Geysis ehf., um lóðina nr. 24 og hins vegar milli stefnda og S.Ö.S ehf., um lóðina nr. 18, en umræddir kaupsamningar voru gerðir fyrri hluta árs 2006. Þykir þar engu um breyta þó svo umræddir kaupsamningar hafi tekið til fleiri lóða en þeirra sem mál þetta fjallar um, enda stefnendur þinglýstir eigendur umræddra lóða og því bærir til að gefa út afsal til handa stefnda verði fallist á kröfur þeirra í málinu.   Kemur þá til skoðunar hvort tímafrestir sem tilgreindir eru í 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/2002, hafi verið uppfylltir í máli þessu. Í greininni er kveðið á um tvenns konar tímafresti vegna tilkynningarskyldu kaupanda um kröfu á hendur fyrri eigenda eða öðrum fyrri samningsaðilum. Annars vegar þarf kaupandi að tilkynna um kröfu sína innan þess frests sem gildir um sömu kröfu á hendur seljanda. Hins vegar verður kaupandi að tilkynna um kröfu sína í síðasta lagi innan þess frests sem gildir í réttarsambandi seljanda og fyrri samningsaðila. Þá ræðst lengd fresta samkvæmt ákvæðinu af þeim tilkynningarreglum sem gilda um viðkomandi vanefnd milli seljanda og fyrri eigenda eða samningsaðila. Tilgangur reglunnar í 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/2002 er að tryggja að skyldur fyrri eiganda eða annarra samningsaðila aukist ekki frá því sem verið hefði. Um lengd framangreindra fresta 45. gr. laga nr. 40/2002, fer samkvæmt 48. gr. laga laganna. Þá segir í 4. mgr. greinarinnar að kröfur samkvæmt lögunum fyrnast eftir reglum laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Í 1. mgr. 48. gr. laga 40/2002 segir. Kaupandi glatar rétti til að bera fyrir sig vanefnd ef hann tilkynnir seljanda ekki innan sanngjarns frests, eftir að hann varð eða mátti verða hennar var, um eðli og umfang hennar og að hann ætli að bera hana fyrir sig. Í 48. gr. eru tilgreindar tvær undantekningar frá framangreindri meginreglu, þ.e. annars vegar ef seljandi ábyrgist til tekið ástand eða eiginleika fasteignar í ákveðin tíma, en óumdeilt er að framangreint ákvæði á ekki við í máli þessu. Hins vegar segir í 3. mgr. 48. gr. að seljandi geti þó ekki borið fyrir sig að tilkynning hafi verið send of seint ef hann hefur sýnt af sér stórkostlegt gáleysi eða framferði hans stríðir með öðrum hætti gegn heiðarleika og góðri trú. Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að 16. júlí 2009 sóttu Grímsborgir ehf., um leyfi til gisti- og veitingasölu í Ásborgum til sýslumanns. Fór umsókn þeirra í lögbundið umsagnarferli og samþykkti sveitarstjórn stefnda umsóknina á fundi sínum 20. ágúst sama ár. Var leyfisbréf til Grímsborga ehf., til reksturs gististaða í flokki II gefið út af sýslumanni 30. október 2009, þ.e. sama dag og Hornás ehf., seldi og afsalaði Sigurði Erni, öðrum stefnenda þess máls, lóðirnar nr. 18 og 24. Einnig liggja frammi bréf umsagnaraðila vegna umsóknar Grímsborga ehf., um rekstrar- og veitingaleyfi í Ásborgum í byrjun árs 2010, m.a. samþykkt sveitarstjórnar stefnda á fundi 21. janúar 2010, þar sem stefndi samþykkir fyrirhugaðan afgreiðslutíma samkvæmt umsókn og staðfestir að staðsetning íbúðarhússins í Ásborgum sé samkvæmt reglum sveitarfélagsins. Í framhaldinu gaf sýslumaður út leyfisbréf til handa Grímsborgum vegna útleigu íbúða í Ásborgum og veitingaleyfi fyrir Ásborgir 30 þann 2. júní 2010. Í máli þessu, eins og í málum Hæstaréttar nr. 222/2012 og nr. 82/2014, hagaði þannig til að vanefnd stefnda kom til eftir gerð þeirra kaupsamninga sem stefnendur gera kröfu um að ganga inn í með vísan til 45. gr. laga nr. 40/2002. Í málsatvikalýsingu í stefnu kemur fram að með bréfi stefnenda til stefnda, dags. 17. maí 2010, sem samkvæmt titli fjallar um breytingu á aðalskipulagi, hafi stefnendur andmælt fyrirhugðum breytingum á aðalskipulagi svæðisins og jafnframt gert kröfu til þess að gengið yrði til samninga við þau um að fá að skila lóðunum nr. 18 og 24, en stefndi hafi ekki svarað erindinu. Í bréfinu er rakið að með auglýstum breytingum á aðalskipulagi íbúðarsvæðis Ásborga felist að svæðið breytist í blandaða landnotkun íbúðarsvæðis og svæðis fyrir verslun og þjónustu í þeim tilgani að nýta þegar byggð og fyrirhugð íbúðarhús sem gisti-/og eða veitingahús. Í málavaxtalýsingu í greinargerð stefnda segir um framangreint bréf stefnenda, að „með bréfi stefnenda dagsettu 17. maí 2010, sbr. dskj. nr. 29, voru settar fram athugasemdir við upphaflega kynningu á breytingu á aðalskipulagi Ásborga.“ Verður málatilbúnaður stefnda því ekki skilinn á annan veg en þann að í honum felist viðurkenning þess að stefnda hafa borist áðurnefnt bréf stefnenda.    Í áðurnefndu bréf stefnenda frá 17. maí 2010 segir m.a: „Með tillögu þessari er sveitarfélagið í raun að reyna að festa í sessi og setja lagagrundvöll fyrir þeirri starfsemi sem starfrækt hefur verið á svæðinu í algerri óþökk annarra lóðaeigenda að Ásborgum, Ásgarðslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi.“ Með vísan til þessa og gagna málsins má ætla að stefnendur hafi orðið varir við framkvæmdir Grímsborga ehf., á svæðinu einhverju áður en bréfið var ritað. Hins vegar verður að mati dómsins að miða tímamark tilkynningar stefnenda til stefnda við dagsetningu bréfsins enda engum öðrum gögnum til að dreifa um hina upphaflegu kynningu sem stefndi segir að farið hafi fram á fyrirhugðum skipulagsbreytingum og var tilefni bréfs stefnenda. Þá segir í niðurlagi bréfsins: „Með vísan til framanritaðs mótmæla undirrituð auglýstum breytingum á aðalskipulagi íbúðarsvæðisins Ásborgir, merkt ÍB 11. Jafnframt krefjast undirrituð þess að gengið verði til samninga um skil á umræddum lóðum, vegna vanefnda sveitarfélagsins á skyldum sínum við að framfylgja samþykktu skipulagi svæðisins.“ Með vísan til þess sem að framan er rakið mátti stefnda vera ljós afstaða stefnenda til fyrirhugaðra skipulagsbreytinga og einnig að stefnendur hygðust beita úrræðum vegna vanefnda stefnda sem seljanda.   Óumdeilt er að starfsmaður stefnda, nánar tiltekið skipulags- og byggingarfulltrúi  Árnessýslu og Flóahrepps, sendi stefnanda Sigurði, með vísan til 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, til kynningar lýsingu á breytingum á aðalskipulagi Ásborga með bréfi dags. 29. mars 2011. Er í bréfinu gerð grein fyrir fyrirhuguðum breytingu á aðalskipulagi svæðisins á þann veg að íbúðarsvæðið breytist í blandaða starfsemi íbúðarsvæðis og verslunar– og þjónustusvæðis. Einnig er óumdeilt að auglýsing um fyrirhugaða breytingum á skipulagi svæðisins birtist í Lögbirtingablaðinu 28. apríl 2011. Þar kemur fram að áður en tillagan verði tekin til formlegrar afgreiðslu í sveitarstjórn stefnda liggi tillagan frammi til kynningar á skrifstofu sveitarfélagsins og skipulagsfulltrúa frá 28. apríl til 3. maí, auk þess sem tillöguna sé að finna á þar tilgreindri vefslóð. Í stefnu er hvergi vikið að bréfi stefnenda til byggingar- og skipulagsfulltrúa stefnda, dags. 2. maí 2011, en við þingfestingu málsins var umrætt bréf, undirritað af stefnendum, lagt fram. Í bréfinu er fyrirhuguðum breytingum á aðalskipulagi svæðisins mótmælt og vísað til þess að umrædd breyting feli í sér algjöran forsendubrest á kaupum stefnenda á mjög verðmætum íbúðarhúsalóðum á sínum tíma. Þá er í bréfinu vísað til greinargerðar með aðalskiplagi svæðisins, m.a. að svæðið sé hugsað fyrir þá sem kjósa heilsárs búsetu í sveitarfélaginu en sækist jafnframt eftir sömu friðsæld og kyrrð og er í hefðbundnum sumarhúsahverfum. Í niðurlagi bréfsins segir: „Að öllu ofangreindu virtu má ljóslega sjá að forsendur mínar fyrir kaupum á umræddum lóðum eru brostnar og óskar undirritaður því eftir viðræðum við sveitarfélagið um skil eða endurkaup á tilgreindum lóðum.“ Stefndi vísar hins vegar til þess í málavaxtalýsingu í greinargerð að athugasemdir hafi ekki borist frá stefnendum við áðurnefndu bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa stefnda dags. 29. mars 2011. Í málavaxtalýsingu í greinargerð stefnda segir. „Bréf það sem stefnendur leggja fram sem dskj. nr. 40 barst aldrei skipulags- og byggingarfulltrúa og er því andmælt að öllu leyti.“ Fallist er á það með stefnda að sönnunarbyrði fyrir því að framangreint bréf hafi verið sent stefnda hvíli á stefnendum og að þá sönnunarbyrgði hafi stefnendur ekki axlað. Þá styður það fullyrðingu stefnda um að bréfið hafi ekki borist skipulags- og byggingarfulltrúa að engin bréf eða önnur gögn um viðbrögð stefnda við bréfinu hafa verið lögð fram í máli þessu. Samkvæmt öllu framansögðu verður á því byggt að stefnendur hafi með bréfi til stefnda, dags. 17. maí 2010, tilkynnt stefnda að þeir ætli að bera fyrir sig vanefnd vegna umræddra lóða. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að það er ekki fyrr en rúmum þremur og hálfu ári síðar, eða með bréfi 20. desember 2013 sem stefnendur setja fram formlega riftunarkröfu. Þá liggur ekkert fyrir um það í máli þessu að stefnendur hafi með einum eða öðrum hætti fylgt eftir tilkynningu sinni frá 17. maí 2010 eða að aðilar hafi átt í samskiptum um þá fyrirætlan stefnenda að beita úrræðum vegna vanefnda stefnda sem seljanda umræddra lóða. Einnig liggur fyrir að frá dagsetningu yfirlýsingar stefnenda um riftun liðu rúmir fimmtán mánuðir þar til stefnendur fylgdu kröfu sinni eftir með höfðun dómsmáls á hendur stefnda, þ.e. með birtingu stefnu 27. mars 2015. Í því málið voru gerðar efnislega sömu kröfur af hálfu stefnenda og í máli þessu. Eins og áður var rakið var áðurnefndu máli vísað frá dómi með dómi Hæstaréttar 3. desember 2015 í málinu nr. 776/2015. Þá var það ekki fyrr en tæpum ellefu mánuðum síðar sem mál þetta var þingfest, eða þann 16. nóvember 2016. Að öllu þessu virtu og með vísan til 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/2002, sbr. 2. mgr. 42. gr. og 48. gr. sömu laga, er það mat dómsins að stefnendur hafi með tómlæti glatað rétti sínum til að bera fyrir sig vanefnd í máli þessu, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/2002. Að mati dómsins verður ekki fallist á það með stefnendum að þannig hátti til að undantekningarákvæði 3. mgr. 48. gr. laga nr. 40/2002, eigi við máli þessu.             Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af öllum kröfu stefnenda í máli þessu. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verða stefnendur dæmdir til að greiða stefnda málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 1.100.000 krónur.   D Ó M S O R Ð: Stefndi, Grímsnes- og Grafningshreppur, er sýknaður af öllum kröfum stefnenda, Sigurðar Arnar Sigurðsson og Aðalheiðar Jacobsen, í máli þessu. Stefnendur greiði stefnda 1.100.000 krónur í málskostnað. 
Mál nr. 445/2017
Vátryggingarsamningur Slysatrygging Endurgreiðslukrafa Upplýsingagjöf
V hf. höfðaði mál á hendur G og krafðist endurgreiðslu dagpeninga sem G hafði fengið greidda úr slysatryggingu sinni hjá félaginu í kjölfar slyss sem hún varð fyrir á árinu 2013. Byggði V hf. á því að G hefði gefið rangar upplýsingar um persónulega hagi sína og þar á meðal heilsufar sitt, þegar hún fyllti út beiðni um slysatrygginguna. Héraðsdómur féllst á það með V hf. að G hefði gefið rangar upplýsingar um heilsufar sitt í svörum við tilteknum spurningum og að spurningarnar hefðu lotið að atriðum sem hefðu haft þýðingu fyrir mat V hf. á tryggingaráhættu. Þá féllst dómurinn á að vanræksla G á að veita réttar upplýsingar um heilsufar sitt hefði ekki verið óveruleg í skilningi laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og að G hefði verið eða mátt vera það ljóst. Var krafa V hf. því tekin til greina og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Ragnheiður Harðardóttir landsréttardómari.   Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2017. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjandi verður dæmd til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Guðmunda Björk Hjaltested, greiði stefnda, Verði tryggingum hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2017 I Mál þetta, sem dómtekið var 23. mars 2017, var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 12. september 2016, af Verði tryggingum hf., Borgartúni 25, Reykjavík, á hendur Guðmundu Björk Hjaltested, Langholtsvegi 92, Reykjavík. Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að stefnda verði dæmd til að endurgreiða stefnanda 4.727.778 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. október 2015 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins. Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og mál þetta sé ekki gjafsóknarmál. Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 20. mars 2017, var stefndu veitt gjafsókn til að taka til varna í máli þessu. Gjafsóknin var takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, sbr. þó 4. og 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. II Stefnda féll af hestbaki 19. ágúst 2013 og braut þá rifbein og úlnlið hægri handar, auk þess sem hún kvartaði yfir verkjum frá baki. Stefnda hefur verið óvinnufær frá slysdegi. Stefnda var slysatryggð hjá stefnanda, sem greiddi stefndu dagpeninga úr tryggingunni frá ágúst 2013 til og með júlí 2014, samtals 4.757.141 króna. Ágreiningur lýtur að því, hvort stefndu beri að endurgreiða stefnanda stefnufjárhæðina þar sem henni hafi verið ranglega greitt úr slysatryggingunni.  Stefnda sótti um slysatryggingu hjá stefnanda og fyllti út beiðni um slíka tryggingu 16. janúar 2013. Í IV. kafla beiðninnar er að finna spurningar um heilsufar umsækjenda.  Stefnda svaraði játandi spurningum um að hún hefði undanfarin þrjú ár verið fullkomlega heilsuhraust og vinnufær og að hún neytti áfengis en öðrum spurningum svaraði stefnda neitandi. Stefnda svaraði þannig neitandi spurningum sem lutu að því að fá upplýst hvort hún hefði haft einhverja sjúkdóma, einkenni eða orðið fyrir líkamlegum meiðslum, slysum eða eitrunum sem hefðu krafist rannsókna, aðgerða eða meðferða. Þá svaraði stefnda spurningu um hvort hún hefði þá eða áður haft slæma verki eða önnur vandamál frá stoðkerfi, svo sem bakvandamál, og jafnframt spurningum um það, hvort hún hefði leitað til læknis á undanförnum þremur árum vegna annars en umgangspesta og hvort hún væri eða hefði verið á lyfjum. Upplýsingar úr sjúkraskrá stefndu liggja frammi í málinu. Þar kemur fram að stefnda hafi glímt við bakverki frá árinu 2000 í kjölfar þess að hún hefði dottið af hestbaki. Þá leitaði stefnda til læknis í júlí og ágúst 2012 vegna eymsla í baki eftir annað fall af hestbaki. Hún var þá greind með brjósklos í baki og var skorin upp við því síðar sama ár. Þá fékk stefnda læknisvottorð fyrir óvinnufærni vegna bakvandamála á árunum 2011 og 2012 sem og í ársbyrjun 2013. Þess var getið í beiðni stefndu um slysatryggingu að hún starfaði sem flugfreyja. Fyrir liggur að stefnda er lærð flugfreyja en virðist ekki hafa starfað við fagið um árabil. Af gögnum málsins verður ráðið að stefnda hafi áður starfað við þrif og jafnframt hjá Lyfjum og heilsu hf. og fasteignamiðluninni Koti ehf. á árinu 2012. Árstekjur hennar 2012 námu 2.017.267 krónum. Samkvæmt framlögðu skattframtali stefndu fyrir árið 2013 hafði hún engar launatekjur á því ári. Óumdeilt er að á vormánuðum 2013 sótti stefnda námskeið á vegum flugfélagsins Emirates í Abu Dhabi og hugðist hefja störf hjá félaginu um haustið 2013 en af því varð ekki vegna slyssins 19. ágúst sama ár. Stefnandi sendi stefndu bréf 23. júní 2015 þar sem því var lýst að í skilmálum slysatryggingar stefndu væri upplýsingaskylda vátryggingartaka skilgreind. Þar kæmi fram að ef vátryggingartaki skýrði sviksamlega frá eða leyndi atvikum, sem skipta máli við áhættu stefnanda, eða gæfi að öðru leyti rangar upplýsingar félagsins gæti það haft í för með sér að bótaábyrgð félagsins takmarkaðist eða félli niður samkvæmt ákvæðum laga nr 30/2004, um vátryggingarsamninga. Stefnandi lýsti því yfir að stefnda hefði ekki fengið umrædda slysatryggingu hjá stefnanda ef réttar upplýsingar um sjúkrasögu stefndu hefðu legið fyrir þegar beiðni stefndu var afgreidd. Því væri bótaskyldu hafnað og stefndu gerð grein fyrir því að þess yrði krafist að hún endurgreiddi stefnanda þá fjárhæð sem hún hefði fengið greidda. Sú krafa stefnanda nemur fjárhæð dómkröfu stefnanda í máli þessu. Stefnandi höfðar mál þetta í þeim tilgangi að innheimta þá endurgreiðslukröfu sem hann telur sig eiga á hendur stefndu. Stefnda krefst sýknu af kröfu stefnanda. Eins og áður er getið var mál þetta dómtekið 23. mars 2017 að lokinni aðalmeðferð málsins. III Stefnandi byggir dómkröfu sínar á því að stefnda hafi ekki svarað spurningum um persónulega hagi sína sannleikanum samkvæmt, þ.m.t. um heilsufar sitt, í beiðni sinni um almenna slysatryggingu hjá stefnanda 16. janúar 2013. Ef réttar upplýsingar hefði legið fyrir, hefði það haft áhrif á ákvörðun stefnanda um að veita stefndu þá tryggingu sem hún hefði fengið umþrættar greiðslur úr í kjölfar slyssins 19. ágúst 2013. Stefnda hafi í beiðninni svarað því játandi að hún hefði undanfarin þrjú ár verið fullkomlega heilsuhraust og vinnufær. Þá hafi stefnda svarað neitandi spurningu um það, hvort hún hefði haft einhverja sjúkdóma, einkenni eða orðið fyrir líkamlegum meiðslum, slysum eða eitrunum sem hefðu krafist rannsókna aðgerða eða meðferða. Eins hafi hún svarað neitandi spurningu um hvort hún hefði þá eða áður haft slæma verki eða önnur vandamál frá stoðkerfi, svo sem bakvandamál. Þá hefði hún svarað neitandi spurningu um, hvort hún hefði leitað læknis á undanförnum þremur árum vegna annars en umgangspesta sem og spurningu um það, hvort hún væri eða hefði verið á lyfjum. Stefnandi byggir á því að sjúkraskrá stefndu beri hins vegar með sér að framangreind svör hennar hafi ekki verið sannleikanum samkvæm. Þannig sé ljóst að frá árinu 2000, þegar stefnda hafi dottið af hestbaki, hafi hún glímt við bakverki. Þá liggi fyrir að bæði í júlí og ágúst 2012, ári áður en hún hafi sótt um trygginguna, hafi hún dottið af hestbaki og leitað til læknis. Þá hafi hún verið greind með brjósklos í baki. Einnig mætti sjá að bæði það ár og 2011 hafi hún fengið vottorð frá lækni um óvinnufærni vegna verkja í baki. Eins hafi hún 11. janúar 2013, fimm dögum áður en hún svaraði spurningum í beiðni um sjúkratryggingu, hringt á Heilsugæsluna í Mjódd og beðið um vottorð um óvinnufærni í febrúar og mars sama ár vegna brjósklossuppskurðar. Um sömu aðgerð væri fjallað um í læknabréfi frá 20. ágúst 2012. Þá hafi komið fram í beiðni stefndu að hún ynni sem flugfreyja en hið rétta sé að á árinu 2012 hafi stefnda unnið hjá Lyfjum og heilsu hf. og Fasteignamiðluninni Koti ehf. Launatekjur hennar það ár hafi numið 2.017.267 krónum. Þá bendir stefnandi á að stefnda hafi ekki notið launatekna á slysárinu 2013. Í umsókn um slysatryggingu sé hins vegar sérstaklega tekið fram að dagpeningar megi ekki nema hærri fjárhæð en sem nemi 75% af launum. Stefnandi byggir á því að þar sem stefnda hafi verið launalaus þegar hún sótti um slysatrygginguna, hafi hún ekki uppfyllt skilyrði til að sækja um tryggingu með dagpeningagreiðslum. Stefnandi byggir á því að það sé yfir allan vafa hafið að stefnda hafi svarað rangt til í umsókn sinni um slysatryggingu. Stefnda hljóti þar að auki að hafa verð meðvituð um að svör hennar hafi verið röng, enda hafi sjúkrasaga hennar verið umtalsverð síðustu misserin í aðdraganda þess að hún sótti um slysatryggingu hjá stefnanda. Stefnandi vísar til þess að í grein 4.2 í 2. kafla skilmála vátryggingarinnar komi fram að skýri vátryggingartaki sviksamlega frá eða leyni atvikum, sem máli skipti um áhættu tryggingafélagsins, eða gefi að öðru leyti rangar upplýsingar til félagsins, geti það haft í för með sér að bótaábyrgð félagsins takmarkist eða falli niður, sbr. 83. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Stefnandi byggir á því, með vísan til tilvitnaðrar lagagreinar, að stefnandi hafi ekki borið greiðsluskyldu til stefndu úr tryggingunni. Að sama skapi eigi félagið heimtingu á endurgreiðslu þeirra greiðslna úr tryggingunni sem stefnda hafi fengið á tímabilinu ágúst 2013 til og með júlí 2014. Í bréfi stefnanda til stefndu 23. júní 2015 hafi m.a. komið fram að hefði stefnandi haft upplýsingar um sjúkrasögu stefndu, hefði hún ekki fengið umrædda tryggingu hjá stefnanda. Bótaskyldu væri þar af leiðandi hafnað með vísan til tryggingarskilmálanna og laga um vátryggingarsamninga. Þá hefði stefnda verið upplýst um að stefnandi myndi krefjast þess að stefnda endurgreiddi þá fjárhæð sem hún hefði fengið greidda úr tryggingunni sem næmi 4.757.141 krónu. Frá þeirri fjárhæð dragist innborgun 2. október 2015 að fjárhæð 18.420 krónur og kreditreikningur 8. mars 2016 að fjárhæð 10.943 krónur. Endanleg krafa stefnanda á hendur stefndu nemi því 4.727.778 krónum, sem sé stefnufjárhæðin í málinu, en auk þess er krafist dráttarvaxta og tilheyrandi kostnaðar. Gjalddagi endurgreiðslukröfu stefnanda hafi verið 2. október 2015 og sé stefnufjárhæð og dráttarvextir miðaðir við það tímamark. Innheimtutilraunir stefnanda hjá stefndu hafi ekki borið árangur og höfði stefnandi því mál þetta. Þess sé krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostnaðar við lögheimtu. Stefnandi byggir kröfur sínar á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga og um endurheimtu ofgreidds fjár, skilmálum almennrar slysatryggingar hjá stefnanda og lögum um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991, um meðferð einkamála.  Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum númer 50/1988. Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991. IV Stefnda krefst sýknu af dómkröfum stefnanda og bendir á að ekki verði ráðið af stefnu hvort stefnandi byggi á 1. eða 2. mgr. 83. gr. laga nr. 30/2004. Á þessum ákvæðum sé hins vegar grundvallarmunur að því er varðar eðli þeirra og réttaráhrif. Stefnandi vísi til skilmála slysatryggingarinnar um að skýri vátryggingartaki sviksamlega frá eða leyni atvikum, sem skipta máli um áhættu stefnanda, eða gefi að öðru leyti rangar upplýsingar til stefnanda, geti það haft í för með sér að bótaábyrgð stefnanda takmarkist eða falli niður samkvæmt fyrirmælum 83. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Í tilvitnaðri grein skilmála stefnanda sé blandað saman 1. og 2. mgr. 83. gr. laga nr. 30/2004 þannig að úr verði ákvæði í skilmálunum sem eigi lítið skylt við upphaflega merkingu lagaákvæðisins. Í skilmálum stefnanda sé til dæmis hvergi að finna orðalag sem sé sambærilegt orðalagi 2. mgr. 83. gr. laganna um óverulega vanrækslu vátryggingartaka á upplýsingaskyldu sinni. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á það í stefnu eða framlögðum gögnum að þetta orðalag ákvæðisins eigi við um málið og þar með að réttaráhrif þess eigi við um stefndu. Stefnda byggir á því að hún hafi ekki með sviksamlegum hætti vanrækt upplýsingaskyldu sína í skilningi 1. mgr. 83. gr. laga nr. 30/2004. Þegar stefnda hafi sótt um trygginguna hjá stefnanda hafi hún fyllt beiðnina út eftir bestu samvisku. Til þess að enginn vafi léki á því að um rétt svör væri að ræða, hafi stefnanda verið heimilað að leita upplýsinga um heilsufar stefndu hjá heilbrigðisyfirvöldum. Stefnanda hafi sjálfum borið að leita eftir þessum upplýsingum. Stefnda vísar til þess að í VI. hluta beiðni um sjúkratryggingu frá 16. janúar 2013 komi fram að upplýsingar geti leitt til þess að iðgjald hækki, frestun verði á gildistöku tryggingar, tilteknar áhættur verði undanskildar eða að vátryggingu sé hafnað. Nokkrir möguleikar hafi komið til greina, yrði raunin sú að upplýsingar væru rangar. Því sé ósannað að breyttar upplýsingar hefðu leitt til þess að vátryggingu hefði verið hafnað. Ábyrgð stefnanda falli ekki sjálfkrafa niður vegna rangrar upplýsingagjafar, líkt og stefnandi byggi á. Stefnda bendir á að í 2. mgr. 83. gr. laga nr. 30/2004 sé að finna heimild til þess að fella niður ábyrgð tryggingarfélags ef vátryggingartaki vanrækir upplýsingaskyldu sína þannig að ekki sé óverulegt. Í skýringum með ákvæðinu í frumvapi til laga nr. 30/2004 sé að finna svokallaðar viðmiðunarreglur um sakarstig. Samkvæmt þeim skuli í fyrsta lagi byggja á hlutfallsreglu við útreikning bóta ef vanræksla hefði leitt til hærra iðgjalds af tryggingu. Hefði vanrækslan ekki skipt neinu máli, ætti það að leiða til þess að tryggingafélagið bæri fulla ábyrgð. Í öðru lagi væri miðað við sök vátryggingartakans og í þriðja lagi við það, hvernig vátryggingaratburður hafi orðið. Jafnframt segi þar að skipti veittar upplýsingar engu um það að vátryggingaratburður varð, eigi þær ekki að hafa áhrif á ábyrgð tryggingafélagsins. Í fjórða lagi beri að líta til atvika að öðru leyti. Þegar þessi atriði séu skoðuð saman verði ekki séð hvernig sú upplýsingagjöf, sem stefnandi telji ranga, hafi átt að hafa áhrif á trygginguna og ekki sé gerð tilraun til þess að gera grein fyrir því í stefnu. Í raun kæmi fyrst og fremst til skoðunar að iðgjald yrði hærra eða að tryggingin yrði ekki gefin út. Í fljótu bragði verði ekki séð að slys stefndu eða afleiðingar þess hafi nein áhrif á slysatryggingu. Í dómi Héraðsdóms Suðurlands í máli E-111/2015 hafi hestaleiga verið talin bera ábyrgð á slysi stefndu og því verulega vandséð hvernig fyrra heilsufar stefndu hafi getað haft áhrif á slysið. Þá byggir stefnda á því að lögð sé megináhersla á sjúkdóma í spurningum í IV. hluta beiðninnar frá 16. janúar 2013 sem stefnandi telji að stefnda hafi svarað rangt. Stefnda hafi litið svo á að spurningar um heilsufar beindust eingöngu að sjúkdómum. Verði stefnandi að bera hallann af því að leggja spurningar fram með svo ruglandi hætti, enda hafi stefnda svarað þeim eftir bestu getu og samvisku. Þannig vísi stefnandi sérstaklega til fjögurra spurninga þar sem vísað sé í fyrsta lagi til sjúkdóma, í öðru lagi til gigtar eða bakvandmála, en stefnda hefði litið svo á að þar væri spurt væri um bakvandamál vegna sjúkdóma, í þriðja lagi hvort umsækjandi hefði leitað læknis vegna annars en umgangspesta, en stefnda hefði litið svo á að spurt væri um sjúkdóma, og að lokum spurningu sem stefnda hefði litið svo að að lytu að lyfjum sem gefin væru vegna sjúkdóma. Stefnandi leggi einnig út af því að stefnda hafi greint rangt frá starfi sínu og launatekjum með vísan til þess að hún hefði ekki notið launa í janúar 2013 þegar hún sótti um trygginguna og hefði starfað hjá Lyfjum og heilsu hf. og Fasteignasölunni Koti ehf. á árinu 2012 en ekki verið í starfi sem flugfreyja. Stefnda bendir hins vegar á að í upphafi árs 2013 hafi hún farið til Abu Dhabi til þjálfunar sem flugfreyja hjá flugfélaginu Emirates en auk þess hefði hún lokið námi sem flugfreyja hér á landi. Stefnda hafi dvalið í Abu Dhabi fram á sumar 2013 þegar hún hafi komið heim í stutt frí og farið í hina örlagaríku hestaferð. Afleiðingar þess að stefnda kastaðist af baki hafi leitt til þess að draumur hennar um að verða flugfreyja hjá einu öflugusta flugfélagi heims hafi orðið að engu. Það sé því ekki rangt að stefnda sé flugfreyja. Þá átti stefnda sig ekki á því hvers vegna stefnandi haldi því fram að stefnda hafi ekki haft nægar launatekjur til þess að ná 75 % viðmiði stefnanda. Vísi stefnandi bæði til tekna á árinu 2012 og á árinu 2013 og til þess að stefnda hafi verið launalaus þegar hún hafi sótt um trygginguna og eigi þá væntanlega við janúar 2013. Þar sem hvergi komi fram í beiðni um slysatryggingu við hvaða tímabil eigi að miða launatekjur, verði stefnandi að bera hallann af óskýrleika að þessu leyti. Stefnda byggir á því að hefðu áætlanir hennar orðið að veruleika, hefðu laun hennar náð þeim viðmiðum sem stefnandi haldi fram að hafi verið sett. Þá vísar stefnda til þess að hvorki í lögum nr. 30/2004 né í skilmálum stefnanda sé vísað til réttar stefnanda til að krefja vátryggingartaka um endurgreiðslu bóta. Einungis sé þar að finna ákvæði um að heimilt sé að fella niður bótaábyrgð. Á þessu sé grundvallarmunur, enda hafi stefnda tekið við greiðslum frá stefnanda í góðri trú. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að kanna betur heilsufarsupplýsingar stefndu áður en greiðslur dagpeninga hófust og hefði þá getað hafnað bótaábyrgð. Almennur fyrirvari stefnanda á tjónskvittunum breyti engu þar um, enda verði ekki séð að stefnda hafi samþykkt fyrirvarann. Stefnda byggir á því að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti, sem fari gegn ákvæðum laga nr. 30/2004, enda hafi stefnandi ekki gert grein fyrir afstöðu sinni til tryggingarréttinda stefndu fyrr en 23. júní 2015, nærri tveimur árum eftir að stefnda lenti í slysinu. Um lagarök vísar stefnda til laga um laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, og meginreglna kröfuréttar og samningaréttar og til laga um meðferð einkamála, m.a. vegna kröfu um málskostnað. V Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur vitnin Unnur Ósk Björnsdóttir, starfsmaður í áhættumati persónutrygginga hjá stefnanda, og Óskar Mikaelsson, vinur stefndu. Verða skýrslur þeirra raktar eins og þurfa þykir.  Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að stefnda verði dæmd til endurgreiðslu 4.727.778 króna, auk dráttarvaxta og kostnaðar. Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefnda hafi fengið greidda dagpeninga úr slysatryggingu hjá stefnanda sem hún hafi ekki átt rétt á. Stefnandi vísar til þess að stefnda hafi svarað rangt til í beiðni sinni um slysatryggingu hjá stefnanda. Þau röngu svör hafi orðið til þess að stefnandi hafi samþykkt að veita stefndu trygginguna sem hann hefði ella ekki samþykkt. Stefnandi hafi af sömu ástæðu ekki borið greiðsluskyldu samkvæmt tryggingunni. Því eigi stefnandi heimtingu á endurgreiðslu greiðslna samkvæmt tryggingunni á tímabilinu 1. október 2013 til 1. júlí 2014. Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda með vísan til þess í fyrsta lagi að af stefnu verði ekki ráðið hvort stefnandi byggi á 1. eða 2. mgr. 83. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Þá byggir stefnda á því að ekki verði séð hvernig sú upplýsingagjöf, sem stefnandi telur ranga, hefði átt að hafa áhrif á tryggingu stefndu hjá stefnanda, auk þess sem stefnandi beri hallann af óskýrleika spurninga og annarra atriða í beiðni um slysatryggingu, sem stefnda hafi svarað af bestu samvisku. Jafnframt vísar stefnda til þess að hvorki sé í lögum nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, né í skilmálum tryggingarinnar  minnst á rétt stefnanda til að krefja vátryggingartaka um endurgreiðslu. Stefnda bendir einnig á að stefnanda hafi verið í lófa lagið að kanna betur heilsufarsupplýsingar um stefndu, áður en greiðslur samkvæmt tryggingunni hafi hafist og hefði þá getað hafnað bótaábyrgð. Loks byggir stefnda á því að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti með því að afstaða hans lá ekki fyrir fyrr en 23. júní 2015, þ.e. tæpum tveimur árum eftir slysdag.  Eins og rakið hefur verið var m.a. eftirfarandi spurningum um heilsufar í framangreindri beiðni stefndu um slysatryggingu hinn 16. janúar 2013 svarað neitandi: 4. Hefur þú haft einhverja sjúkdóm, einkenni eða orðið fyrir líkamlegum meiðslum, slysum eða eitrunum sem hafa krafist eða geta krafist rannsóknar, aðgerða eða meðferða? 8. Hefur þú nú eða áður haft slæma verki eða önnur vandamál frá stoðkerfi (s.s. gigt, bakvandamál o.fl.)? 10. Hefur þú leitað læknis eða sjúkrastofnunar á undanförnum þremur árum vegna annars en umgangspesta (t.d. meðferðir, rannsóknir eða myndrannsóknir)? 11. Ert þú eða hefur þú verið á lyfjum? Þá liggur fyrir að stefnda svaraði játandi spurningu nr. 9 þar sem spurt var hvort umsækjandi hefði undanfarin þrjú ár verið fullkomlega heilsuhraust/ur og vinnufær. Af beiðninni verður ráðið að stefnda hafði upphaflega svarað þessari spurningu neitandi en leiðrétt svarið þannig að svarið varð játandi og ritaði stefnda upphafsstafi sína við leiðrétt svar.  Af framlagðri sjúkraskrá stefndu verður ráðið að hún lenti í hestaslysi 1. ágúst 2012 og leitaði í kjölfarið læknisaðstoðar 3. og 4. sama mánaðar vegna verkja í mjóbaki. Þá kemur fram að stefnda leitaði á bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss 19. ágúst 2012 vegna bakverkja en ekki tókst þá að stilla verkina. Vegna þessa var stefnda lögð inn á heila- og taugaskurðlækningadeild sjúkrahússins þar sem hún undirgekkst samdægurs skurðaðgerð við brjósklosi milli 4. og 5. lendarliðar vinstra megin í baki. Í málinu liggur einnig frammi örorkumat frá 22. maí 2015 sem samið var af Ragnari Jónssyni bæklunarskurðlækni til að meta afleiðingar umrædd slyss 19. ágúst 2013. Í upphafi matsins er heilsufarssaga stefndu ítarlega rakin með hliðsjón af sjúkrasrká hennar, læknisvottorðum og öðrum gögnum. Kemur þar fram að stefnda gekkst í september 1995 undir skurðaðgerð vegna brjóskloss milli 4. og 5. lendarliðar hægra megin og að stefnda hafi í kjölfarið losnað við verki sem leitt hafi niður í ganglimi. Í sjúkraskrá stefndu er getið um fimm læknanótur frá tímabilinu 9. september 2009 til 1. nóvember 2010 vegna bráðra mjóbaksverkja og endurnýjunar á tilvísunum á lyfseðilsskyldum verkjalyfjum vegna bakverkja. Í læknanótu frá 15. desember 2010 segir að hún sé slæm í miðju mjóbaki og að verkur leiði sig upp eftir bakinu og í hnakkafestur. Þá er þess getið að stefnda greini frá því að hún sé gjörn á vöðvabólgur, hafi dottið af hestbaki árið 2000 og verið viðkvæm í bakinu síðan, sé ómöguleg í bakinu eftir vinnudaginn og sé í nuddi. Einnig er þess getið að stefnda hafi óskað eftir vottorði vegna atvinnuleysisbóta. Þá eru þrjár læknanótur um mjóbaksverki stefndu á tímabilinu 11. mars 2011 til 7. júní 2011 og þrjár skráningar í sjúkraskrá um læknavitjanir vegna bakverkja á tímabilinu 26. janúar 2012 til 17. ágúst 2012. Hinn 20. ágúst 2012 hafi stefnda leitað á bráðamóttöku vegna bakverkja og hafi í kjölfarið verið send í aðgerð við brjósklosi. Alls er hér um að ræða 13 vitjanir stefndu til læknis vegna bakvandamála á rúmum þremur árum, þar af fékk stefnda í níu skipti ávísað lyfseðilsskyldum verkjalyfjum vegna verkja í baki. Í fyrirliggjandi gögnum úr sjúkraskrá stefndu kemur einnig fram að hún hafi í þremur tilvikum óskað eftir og fengið læknisvottorð vegna óvinnufærni tengdri bakvandamálum sínum á rétt rúmum tveimur árum í aðdraganda þess að stefnda fyllti út beiðni um slysatryggingu hjá stefnanda. Síðast hafi hún óskað eftir slíku vottorði 11. janúar 2013, vegna febrúar og mars það ár, nokkrum dögum áður en stefnda fyllti út umsókn sína og svaraði játandi spurningu um að hún hefði verið heilsuhraust og vinnufær undanfarin þrjú ár í aðdraganda umsóknarinnar. Með hliðsjón af framangreindum upplýsingum um heilsufar stefndu og sögu um óvinnufærni vegna stoðkerfisvandamála hennar, verður að fallast á það með stefnanda að stefnda hafi gefið rangar upplýsingar um heilsufar sitt í umræddri beiðni um slysatryggingu. Það á einkum við um svör hennar við þeim spurningum sem raktar eru fyrr í þessum kafla, þ.e. spurningar nr. 4, 8, 9, 10 og 11. Þá er það mat dómsins að spurningarnar séu einfaldar, skýrar og afmarkaðar og að ekki leiki vafi á því við hvað er þar átt eða um spurt. Ekki er heldur unnt að fallast á það með stefndu að henni hafi verið eðlilegt að líta svo á að spurningarnar lytu einvörðungu að vandamálum sem tengdust sjúkdómum. Loks er það mat dómsins að spurningarnar hafi lotið að atriðum sem höfðu þýðingu fyrir mat stefnanda á tryggingaráhættu. Stefnandi byggir kröfur sínar á ákvæðum gr. 4.2 í 2. kafla skilmála slysatryggingarinnar þar sem segir að skýri vátryggingartaki sviksamlega frá eða leyni atviku, er skipta máli um áhættu félagsins, eða gefur að öðru leyti rangar upplýsingar til félagsins, geti það haft í för með sér að bótaábyrgð félagsins takmarkist eða falli niður, sbr. 83. gr. laga nr. 30/2004. Í 1. mgr. 83. gr. er mælt fyrir um að tryggingafélag beri ekki ábyrgð hafi vátryggingaratburður orðið og vátryggingartaki sviksamlega vanrækt upplýsingaskyldu sína samkvæmt 1. mgr. 82. gr. laganna. Í 2. mgr. lagagreinarinnar segir síðan að hafi vátryggingartaki ella vanrækt upplýsingaskyldu sína í þeim mæli að ekki teljist óverulegt, megi fella ábyrgð félagsins niður í heild eða að hluta. Þá segir jafnframt í 3. mgr. ákvæðisins að við mat á ábyrgð félagsins samkvæmt 2. mgr. skuli litið til þess hvaða þýðingu vanrækslan hefur haft fyrir mat þess á áhættu, til þess hve sökin var mikil, með hvaða hætti vátryggingaratburður hefur orðið og til atvika að öðru leyti. Þá er í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 30/2004 tekið fram að við mat á því, hvort vátryggingartaki hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína í óverulegum mæli beri að líta til huglægrar afstöðu hans þegar hinar röngu eða ófullnægjandi upplýsingar voru gefnar, hvaða þýðingu vanrækslan hafi haft fyrir mat tryggingafélagsins á áhættu og atvika að öðru leyti. Jafnframt kemur fram í athugasemdunum að upplýsingagjöf vátryggingartaka hljóti að hafa mikla þýðingu í persónutryggingum, enda sé það vátryggingartakinn, eða hinn vátryggði, sem að jafnaði búi yfir þeim upplýsingum sem félagið þurfi á að halda. Megi vátryggingartakinn líta svo á að með spurningum vátryggingafélags sé spurt um þau atriði, sem þýðingu hafi, og að skylda hans standi til þess að gera réttilega grein fyrir þeim. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að sú meginregla gildi að vátryggingartaki þurfi ekki að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf, heldur þurfi aðeins að svara því sem hann er spurður um. Að öllu framangreindu virtu, einkum því sem fram kemur í sjúkraskrá og öðrum gögnum um heilsufarsvandamál stefndu, einkum í tengslum við bakvandamál, sem hún virðist hafa átt við að stríða áður en hún sótti um slysatryggingu hjá stefnanda, og hins vegar hversu spurningar stefnanda í eyðublaði vegna beiðni um sjúkratryggingu voru skýrar, verður að fallast á það með stefnanda að vanræksla stefndu á að veita réttar upplýsingar um heilsufar sitt hafi ekki verið óveruleg í skilningi 2. mgr. 83. gr. laga nr. 30/2004 og að stefndu hafi verið það ljóst eða mátt vera það ljóst. Í vætti vitnisins, Unnar Óskar Björnsdóttur starfsmanns í áhættumati persónutrygginga hjá stefnanda, kom fram að sé spurningum nr. 4, 8, 10 og 11 í IV. kafla í beiðni um slysatryggingu svarað játandi, sé óskað eftir frekari upplýsingum frá vátryggingartaka, svo sem gert er ráð fyrir í texta beiðninnar. Það sama myndi eiga við ef spurningu nr. 9 sé svarað játandi. Hefðu rétt svör við spurningunum leitt til þess að umsókn stefndu um slysatryggingu hefði verið synjað. Þá kom jafnframt fram hjá vitninu að ef upplýst hefði verið um tekjuleysi viðkomandi vegna óvinnufærni, hefði greiðslu dagpeninga verið hafnað. Að þessu virtu og með vísan til þess, sem áður er rakið um að upplýsingagjöf vátryggingartaka hljóti að hafa sérstaklega mikla þýðingu í persónutryggingum, og jafnframt með hliðsjón af því sem fram er komið um fyrra heilsufar stefndu, verður að telja nægilega í ljós leitt að stefnandi hefði mátt fella ábyrgð sína samkvæmt tryggingunni niður ef réttar upplýsingar um heilsufar stefndu hefðu legið fyrri í beiðni hennar 16. janúar 2013. Þykir það ekki breyta þeirri niðurstöðu, þótt fram hafi komið í vætti framangreinds vitnis að verklagsreglur stefnanda um öflun frekari upplýsinga væru enn í mótun, enda gáfu upplýsingar stefndu í beiðni um slysatryggingu stefnanda enga ástæðu til að fara fram á þær. Þeirri málsástæðu stefndu er því hafnað sem og þeirri málsástæðu hennar að á stefnda hafi hvílt skylda til að afla af sjálfur upplýsinga úr sjúkraskrá hennar svo sem hann hefði haft samþykki stefndu fyrir. Stefnda hefur vísað til þess að þar sem dagpeningar séu samkvæmt eðli sínu ætlaðir til framfærslu þess, sem þeirra nýtur, sé ekki unnt að skerða rétt hennar til þeirra. Á þetta verður ekki fallist, enda byggist réttur til dagpeninga á slysatryggingunni eins og önnur réttindi sem reist eru á henni. Það er meginregla í íslenskum rétti að þeir, sem fá fyrir mistök greidda peninga sem þeir eiga ekki rétt á, skuli endurgreiða þá. Ekki er unnt að fallast á það með stefndu að ákvæði 63. gr. laga nr. 30/2004 um að ekki megi víkja frá ákvæðum laganna um persónutryggingar með samningi ef það leiðir til lakari stöðu þess, sem öðlast kröfu á hendur félaginu samkvæmt vátryggingarsamningi, leiði til þess að líta beri fram hjá framangreindri meginreglu. Með sömu rökum verður ekki fallist á það með stefndu að það skipti sköpum að þessu leyti þótt í skilmálum stefnanda sé ekki vísað sérstaklega til réttar stefnanda til að krefja vátryggingartaka um endurgreiðslu bóta. Eins og atvikum máls þessa er háttað, er ekki hald í þeim sjónarmiðum stefndu sem lúta að því að hún hafi móttekið umræddar greiðslur frá stefnanda í góðri trú. Er þessum málsástæðum stefndu því hafnað. Stefnda byggir sýknukröfu sína jafnframt á því að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti þar sem hann hafi ekki gert grein fyrir afstöðu sinni til tryggingarréttinda stefndu fyrr en 23. júní 2015 þegar nærri því tvö ár voru liðin frá umræddu slysi stefndu. Af framlögðum gögnum verður ráðið að stefnandi sendi stefndu fyrrgreint bréf mánuði eftir að örorkumatsgerð Ragnars Jónssonar bæklunarskurðlæknis lá fyrir 22. maí 2015. Þá er óumdeilt að stefnandi greiddi stefndu dagpeninga fram á árið 2014. Ekkert liggur fyrir í málinu um að stefnandi hafi haft upplýsingar um fyrra heilsufar stefndu fyrr en eftir að framangreint örorkumat lá fyrir. Að þessu virtu verður ekki fallist á það með stefndu að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti sem geti haft áhrif á niðurstöðu málsins. Stefnandi byggir endurgreiðslukröfu sína á framlögðum tjónskvittunum. Ekki er uppi í málinu tölulegur ágreiningur um fjárhæð dómkröfunnar og þá hefur stefnda ekki mótmælt því að hafa móttekið greiðslurnar svo sem tjónskvittanirnar bera með sér. Að öllu framangreindu virtu er það því niðurstaða dómsins að þegar af þeim ástæðum, sem hér að framan hafa verið raktar, beri að fallast á kröfu stefnanda svo sem hún er sett fram í stefnu.  Þrátt fyrir þessi úrslit málsins er það mat dómsins að rétt sé að málskostnaður milli aðila falli niður. Stefnda nýtur gjafsóknar vegna reksturs máls þessa fyrir héraðsdómi. Allur gjafsóknarkostnaður hennar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Eiríks Gunnsteinssonar hrl., sem telst hæfilega ákveðin 1.153.200 krónur. Við ákvörðun málflutningsþóknunar hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.  Af hálfu stefnanda flutti málið Hannes Júlíus Hafstein hdl. Af hálfu stefnda flutti málið Eiríkur Gunnsteinsson hrl. Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D ó m s o r ð: Stefnda, Guðmunda Björk Hjaltested, greiði stefnanda, Verði tryggingum hf., 4.727.778 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um  vexti og verðtryggingu, frá 2. október 2015 til greiðsludags. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Eiríks Gunnsteinssonar hrl., 1.153.200 krónur.
Mál nr. 455/2017
Þjónustukaup Galli Riftun Afsláttur Sératkvæði
H og Þ gerðu munnlegan samning við B ehf. um að félagið smíðaði fyrir þau smáhýsi undir 15 fermetrum að stærð sem ekki þurfti byggingarleyfi fyrir. Var húsið ætlað sem gestahús á sumarbústaðarlóð H og Þ. H og Þ töldu að frágangi smáhýsisins hefði verið ábótavant og að þjónustan sem B ehf. veitti hefði þannig verið gölluð þar sem hún fullnægði ekki kröfum 4. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Kröfðust þau aðallega staðfestingar á riftun þeirra á samningnum, en til vara afsláttar af reikningi B ehf. vegna smíðinnar eða þess að reikningurinn yrði lækkaður. B ehf. krafði H og Þ á hinn bóginn um greiðslu samkvæmt reikningi sínum. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að H og Þ hefðu vitað eða mátt vita að starfsmaður B ehf., sem annaðist smíðina, hefði ekki verið menntaður húsasmiður. Að teknu tilliti til þess og að því gættu að samningur þeirra á milli gekk út á smíði smáhýsis sem samkvæmt byggingarreglugerð hefði verið undanþegið byggingarleyfi gætu H og Þ ekki gert sömu kröfur varðandi gæði og eiginleika hússins og gerðar væru til byggingar heilsárshúss. Féllst Hæstiréttur á með héraðsdómi að smáhýsið hefði ekki verið gallað í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 42/2000 og væru því hvorki skilyrði til að fallast á kröfu H og Þ um staðfestingu riftunar né kröfu þeirra um afslátt. Þar sem ekki hefði verið samið um fast verð fyrir smíði hússins var jafnframt staðfest niðurstaða héraðsdóms um skyldu H og Þ til greiðslu reiknings B ehf. fyrir verkið.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Jón Finnbjörnsson landsréttardómari. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 11. júlí 2017. Þau krefjast þess aðallega að staðfest verði riftun 22. janúar 2016 á samningi aðila um smíði á gestahúsi og stefnda gert að endurgreiða þeim 970.000 krónur sem þau hafi þegar greitt á grundvelli samningsins. Til vara krefjast þau afsláttar að fjárhæð 2.104.580 krónur af reikningi sem stefndi gaf út 2. ágúst 2015 og „dóms um skyldu stefnda til að endurgreiða þeim það sem þau hafa ofgreitt með tilliti til dæmds afsláttar.“ Að því frágengnu krefjast þau lækkunar á framangreindum reikningi stefnda. Að því er varðar gagnsök sem höfð var uppi í héraði krefjast áfrýjendur sýknu af kröfu stefnda. Í öllum tilvikum krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.   Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Atvikum málsins er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar er nánar rakið sömdu aðilar munnlega um að stefndi smíðaði fyrir áfrýjendur smáhýsi undir 15 fermetrum að stærð sem ekki þyrfti byggingarleyfi fyrir. Af gögnum málsins verður ráðið að svo hafi samist um með aðilum að Guðmundur Bjarni Daníelsson, starfsmaður stefnda og kunningi áfrýjenda, byggði húsið á sumarbústaðarlóð sinni í Borgarfirði, þar skyldi það afhent áfrýjendum, þau annast flutning þess þaðan á sumarbústaðarlóð sína í Dalabyggð og sjá sjálf um uppsetningu þess á lóðinni og endanlegan frágang. Lagði stefndi til vinnu við smíðina og efni að hluta. Samkvæmt þessu giltu lög nr. 42/2000 um þjónustukaup um samning aðila, sbr. 1. gr. laganna.  Samkvæmt 4. gr. fyrrgreindra laga skal útseld þjónusta sem veitt er í atvinnuskyni ávallt vera byggð á fagþekkingu og í samræmi við góða viðskiptahætti sem tíðkast hverju sinni. Í lögskýringargögnum kemur fram að með þessu sé ekki átt við að óheimilt sé að gera samning um að verk sé unnið þar sem gerðar eru minni gæða- og/eða verðkröfur. Það hvað sé fagþekking miðist við aðstæður hverju sinni en hafi mikla almenna þýðingu við mat á því hvernig til hafi tekist við framkvæmd verks og hvort seld þjónusta sé gölluð eða ekki. Fallist er á með héraðsdómi að áfrýjendur hafi vitað eða mátt vita að sá starfsmaður stefnda, sem annaðist smíðina, væri ekki menntaður húsasmiður og að hann hafi ekki villt á sér heimildir í þeim efnum. Að teknu tilliti til þessa og að því gættu að samningur aðila gekk út á smíði smáhýsis, sem samkvæmt þágildandi grein 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 var undanþegið byggingarleyfi, gátu áfrýjendur ekki gert sömu kröfur varðandi gæði og eiginleika smáhýsisins og gerðar eru til byggingar heilsárshúss, en á því eru dómkröfur þeirra reistar. Með þessum athugasemdum verður með vísan til forsendna staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að smáhýsi það sem stefndi smíðaði fyrir áfrýjendur hafi ekki verið gallað í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 42/2000. Eru hvorki skilyrði samkvæmt 14. grein sömu laga til að fallast á aðalkröfu áfrýjenda um staðfestingu riftunar né varakröfu þeirra um afslátt samkvæmt 13. gr. laganna. Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að ekki var samið um fast verð fyrir smíði hússins og verður niðurstaða héraðsdóms, um skyldu áfrýjenda til greiðslu reiknings stefnda 2. ágúst 2015, staðfest með vísan til forsendna hans. Áfrýjendur greiði óskipt stefnda málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað. Áfrýjendur, Haraldur Guðjónsson og Þórunn M. Ólafsdóttir, greiði óskipt stefnda, Borg 13 ehf., samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.     Sératkvæði Jóns Finnbjörnssonar   Stefndi tók að sér að smíða hús fyrir áfrýjendur. Aðilar virðast hafa verið sammála um að kalla húsið gestahús. Óumdeilt er að það áttu að vera svefnstæði í húsinu. En það skyldi vera minna en 15 fermetrar að stærð svo ekki þyrfti að afla byggingarleyfis samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum. Að sönnu er ósamrýmanlegt að ætla sér að byggja mannabústað án þess að afla byggingarleyfis, en önnur ályktun verður ekki dregin af atvikum. Ég er ekki sammála þeirri fyllingu meirihluta dómenda á samningi aðila að í honum hafi falist að byggt skyldi „smáhýsi“ í skilningi þágildandi greinar 2.3.5 í byggingarreglugerð. Ekkert bendir til þess að ætlunin hafi verið að byggja smáhýsi „til geymslu garðáhalda o.þ.h.“ eins og segir í ákvæðinu. Þótt aðilar hafi ekki viljað afla byggingarleyfis verður ekki af því dregin ályktun um hvernig þeir vildu að húsið yrði gert.   Vegna þessa er ég einnig ósammála því áliti meirihlutans að áfrýjendur hafi ekki getað gert kröfur til byggingar hússins eins og um heilsárshús væri að ræða. Byggt skyldi hús sem yrði fullboðlegt sem svefnstaður. Um skyldur stefnda við byggingu hússins gildir 4. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Þótt aðilar hafi vísvitandi viljað sniðganga reglur byggingarreglugerðar um leyfi til húsbyggingar, verður eins og áður segir ekki af því dregin ályktun um hvaða kröfur þeir vildu gera til hússins. Þá getur ekki haft sérstaka þýðingu að áfrýjendur máttu reikna með að smíðin yrði að mestu unnin af manni, sem ekki er faglærður. Báðir aðilar byggja á því að stefndi, sem er einkahlutafélag, hafi tekið að sér að vinna verkið.   Undir rekstri málsins í héraði var dómkvaddur matsmaður til að meta galla sem áfrýjendur telja vera á smíði hússins. Meginatriði matsgerðar eru rakin í hinum áfrýjaða dómi. Er þar lýst annars vegar ágöllum á smíðinni eins og stefndi lauk við hana, hins vegar hverju var ólokið. Tel ég að ekki sé sýnt fram á svo verulega galla á verki því sem lokið var að riftun samkvæmt 14. gr. laga nr. 42/2000 hafi verið heimil.   Ég er sammála meirihluta dómsins um réttmæti reiknings stefnda. Hins vegar tel ég að með matsgerðinni hafi verið sýnt fram á galla á verki stefnda. Vegna þessara galla tel ég að viðurkenna beri rétt áfrýjenda til afsláttar samkvæmt 13. gr. laga nr. 42/2000. Miða yrði afsláttinn við galla á því verki sem var lokið og krafið um greiðslu fyrir. Þar sem meirihluti dómsins er á öðru máli þarf ekki að fjalla nánar um útreikning afsláttar.   Dómur Héraðsdóms Reykjaness 4. maí 2017. Mál þetta var þingfest 23. mars 2016 og tekið til dóms 23. mars 2017. Aðalstefnendur eru Haraldur Guðjónsson og Þórunn M. Ólafsdóttir, Langholtsvegi 34, Reykjavík, en aðalstefndi er Borg ehf., Tjarnarbakka 1, Reykjanesbæ. Gagnstefna Borgar ehf. á hendur gagnstefndu Haraldi og Þórunni var þingfest 4. maí 2016. Aðalstefnendur gera þær dómkröfur að staðfest verði með dómi riftun 22. janúar 2016 á samningi aðila um smíði á gestahúsi og að aðalstefndi verði dæmdur til að endurgreiða aðalstefnendum 900.000 krónur sem þau hafa greitt vegna verksins og 70.000 krónur sem þau hafa greitt vegna glugga og parkets. Til vara krefjast aðalstefnendur afsláttar að fjárhæð 2.104.580 krónur af reikningi sem aðalstefndi gaf út 2. ágúst 2015. Krafist er dóms um skyldu aðalstefnda til að endurgreiða aðalstefnendum það sem þau hafa ofgreitt með tilliti til dæmds afsláttar. Til þrautavara er krafist lækkunar á framangreindum reikningi aðalstefnda. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi aðalstefnda. Gagnstefnandi krefst þess að gagnstefndu verði dæmd in solidum til að greiða gagnstefnanda skuld að fjárhæð 1.204.580 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. ágúst 2015 til greiðsludags. Þá krefst gagnstefnandi málskostnaðar úr hendi gagnstefndu. Gagnstefndu krefjast aðallega sýknu í gagnsök og til vara lækkunar á kröfum gagnstefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi gagnstefndu.                                                              Málavextir Málavextir eru þeir að aðalstefnendur fengu kunningja sinn, Guðmund Bjarna Daníelsson, sem jafnframt er annar eigandi gagnstefnanda, til að byggja fyrir sig gestahús sem sett yrði upp við sumarbústað aðalstefnenda að Neðra-Brekkulandi í Dalabyggð. Ákveðið var að húsið yrði byggt á sumarbústaðarlóð Guðmundar Bjarna í Borgarfirði. Þegar smíði hússins lauk 26. júní 2015 var húsið flutt vestur í Dalabyggð. Aðalstefnendur segja að þau hafi strax lýst yfir miklum vonbrigðum með húsið. Húsið flokkast undir svokallað smáhýsi, sbr. g-lið greinar 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem þá gilti með áorðnum breytingum. Húsið er um 15 fm og telst minniháttar framkvæmd sem er undanþegin byggingarleyfi. Samkvæmt reglugerðinni er slíkum smáhýsum ætlað að uppfylla ákveðin skilyrði, m.a. að vera án vatnslagna, raflagna og hitunar og vera notuð fyrir garðáhöld o.þ.h. Húsinu var einnig ætlað að vera gestahús og var því skipt í tvo hluta, annars vegar undir gestahús og hins vegar undir geymslu. Gestahúsið var þiljað að innan með viðarpanel á veggjum og loftplötum en gólf var lagt með parketi. Geymslan er í minna rými með spónaplötum á gólfi en veggir og loft ekki þiljað. Aðalstefnendur töldu að húsið uppfyllti ekki lágmarkskröfur um gæði og leituðu til skipulags- og byggingarfulltrúa sem gerði athugasemdir við ástand og frágang hússins. Aðalstefnandi Haraldur sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að á þessum tíma hafi Guðmundur Bjarni sagt honum að hann væri að fara að byggja gestahús á sinni sumarbústaðarlóð í Borgarfirði. Guðmundur Bjarni hafi boðist til að byggja fyrir hann eitt slíkt í leiðinni og gæti verið hagræði af því við kaup á efni. Aðalstefnandi Haraldur sagði að ekki hafi verið rætt um ákvæði byggingarreglugerðar í þessu sambandi en fyrir hafi legið hver yrði stærð hússins og það yrði nýtt sem gestahús. Haraldi var kunnugt um að ekki þyrfti að afla byggingarleyfis fyrir hús sem voru undir 15 fm að stærð. Hann kvaðst hafa treyst Guðmundi Bjarna alfarið fyrir verkinu. Rætt hafi verið um að kostnaður við húsið yrði um 1.200.000-1.300.000 krónur. Gagnstefnandi segir að bygging hússins hafi að öllu leyti farið fram að óskum aðalstefnenda hvað útlit, efnisval og innréttingar varðar. Aldrei hafi verið rætt um hvað húsið myndi kosta. Aðalstefnendur hafi átt frumkvæði að því að biðja gagnstefnanda um að byggja fyrir sig gestahús til að nota við sumarbústað sinn. Til hagræðis fyrir aðalstefnendur hafi verið ákveðið að byggja húsið í Borgarfirði. Þannig hafi verið einfaldara að flytja húsið á endanlegan áfangastað og auðvelt fyrir aðalstefnendur að fylgjast með framgangi mála við byggingu hússins þegar þau áttu leið um á leið sinni í sumarhús sitt í Dalabyggð. Þau hafi oft komið við og þannig fylgst með framkvæmdunum. Guðmundur Bjarni kvaðst hafa unnið mest við húsið en einnig hafi synir hans komið að verkinu. Enginn af þeim sé húsasmiður en hann hafi unnið við smíðar um 15 ára skeið. Engar teikningar hafi legið fyrir við smíðina, enda um að ræða ,,smáhýsi á lóð“ samkvæmt grein 2.3.5, g-lið, í byggingarreglugerð frá 24. janúar 2012, sem teljist vera minni háttar framkvæmd sem sé undanþegin byggingarleyfi. Alþekkt sé þó að hús sem þessi séu nýtt sem gestahús við sumarbústaði. Þar sem ekki þurfi byggingarleyfi fyrir slíkum húsum þurfi ekki að skila inn teikningum af þeim til byggingarfulltrúa, né láta hann gera á þeim úttekt. Aðilar hafi í upphafi rætt um að húsið yrði innan við 15 fm að stærð til þess að falla undir skilgreiningu reglugerðarinnar um smáhýsi. Aðalstefnendur hafi tekið við húsinu í Borgarfirði og flutt það í Dalabyggð. Þá hafi byggingu þess ekki verið að öllu leyti lokið. Eðli máls samkvæmt, þar sem húsið hafi verið híft á vörubílspall, hafi verið beðið með ýmsan frágang, svo sem á þakkanti, rennum og áfellum. Efniviður hafi verið kominn sem nota hafi átt til þess að smíða kojur í húsið en aðalstefnendur hafi ákveðið að það yrði látið bíða þar sem þau vildu flytja húsið þá þegar vestur. Guðmundur Bjarni kvaðst ekki hafa séð um frágang hússins þegar það var komið á áfangastað og því erfitt að ætla honum skyldur við frágang þess eins og t.d. hvernig því var komið fyrir eða það fest niður á lóð aðalstefnenda. Aðalstefnendur hafi aldrei á byggingartíma hússins gert athugasemd við nokkuð sem tengdist byggingu þess, þrátt fyrir að hafa margsinnis komið og tekið út verkið. Við móttöku hússins hafi þau heldur engar athugasemdir gert, heldur þvert á móti lýst ánægju með hvernig til hefði tekist. Engar athugasemdir hafi komið fram af hálfu aðalstefnenda varðandi byggingu hússins, ekki fyrr en gagnstefnandi hafi viljað fá greitt fyrir vinnu sína. Málsástæður aðalstefnenda í aðalsök Aðalstefnendur telja að þjónusta gagnstefnanda hafi verið gölluð þar sem hún standist ekki kröfur 4. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Þjónusta gagnstefnanda hafi ekki verið byggð á fagþekkingu og ekki í samræmi við góða viðskiptahætti. Með hliðsjón af úttekt byggingarfulltrúa sé ljóst að húsið hafi ekki verið byggt í samræmi við fagþekkingu. Engin öndun sé í húsinu og loftleysi slíkt að ekki sé hægt að sofa í því. Þar fyrir utan sé ekki hægt að setja upp kojur. Þá geti húsið fokið þar sem ekki sé nægilega gengið frá undirstöðum. Riftunarkröfu sína byggja aðalstefnendur á 14. gr. laga um þjónustukaup og kröfu sína um endurgreiðslu á 900.000 krónum byggja þau á 22. gr. laganna. Þá krefjast þau jafnframt endurgreiðslu á 70.000 krónum sem þau hafi greitt vegna parkets og glugga í gestahúsið. Afsláttarkrafa aðalstefnenda sé byggð á 13. gr. laga um þjónustukaup en verði ekki fallist á framangreindar kröfur aðalstefnenda er þess krafist að kröfur gagnstefnanda verði lækkaðar þar sem vinnustundafjöldi í reikningi sé bersýnilega of mikill. Verði talið að smíði gagnstefnanda verði ekki talin falla undir þjónustukaup er byggt á almennum reglum kröfuréttarins. Málsástæður gagnstefnanda í aðalsök og gagnsök Gagnstefnandi kveður skuld aðalstefnenda við sig vera vegna viðskipta aðalstefnenda við gagnstefnanda um smíði á gestahúsi. Krafan byggist á reikningi að fjárhæð 2.104.580 krónur. Að teknu tilliti til innborgana aðalstefnenda að fjárhæð 900.000 krónur nemi skuld þeirra 1.204.580 krónum sem sé stefnufjárhæðin í máli þessu auk dráttarvaxta og kostnaðar. Kröfu sína um riftun byggi aðalstefnendur á riftunaryfirlýsingu sem send hafi verið gagnstefnanda 22. janúar 2016, rúmum sjö mánuðum eftir afhendingu hússins. Riftunina hafi aðalstefnendur byggt á 32. gr. laga um neytendakaup, þrátt fyrir að sérstaklega sé tilgreint í b-lið 2. mgr. 2. gr. laganna að þau gildi ekki um samninga um að reisa byggingar eða önnur mannvirki á fasteign. Samkvæmt reikningnum sé ljóst að báðir þessir liðir 2. mgr. 2. gr. laga um neytendakaup eigi við í þessu máli og því ekki hægt að taka mark á riftunaryfirlýsingunni eða byggja á henni frekari rétt. Gagnstefnandi lítur svo á að formleg krafa um riftun hafi fyrst komið fram með stefnu aðalstefnenda. Þar sé því haldið fram í stefnu að þjónusta gagnstefnanda hafi verið haldin slíkum göllum að aðalstefnendur geti samkvæmt 14. gr. laga um þjónustukaup rift samningi aðila. Þá sé krafist endurgreiðslu þess fjár sem þau hafi greitt fyrir vinnu gagnstefnanda, auk endurgreiðslu á útlögðu fé vegna kaupa þeirra á parketi og glugga. Einu rökin sem vitnað sé til fyrir kröfum aðalstefnenda sé einhvers konar skoðun sem aðalstefnendur virðast hafa fengið skipulags- og byggingarfulltrúa Dala, A-Barðastrandasýslu, Árnes- og Kaldrananeshrepps til að gera á gestahúsinu. Til vara við aðalkröfu sína setji aðalstefnendur fram þá kröfu að þeim verði veittur afsláttur af reikningi gagnstefnanda að fjárhæð 2.104.580 krónur. Ekki verði annað ráðið af þessari kröfu en að hún gangi lengra en riftunarkrafan en engin tilraun hafi verið gerð af hálfu aðalstefnenda að láta meta hinn ætlaða galla á vinnu gagnstefnanda. Þrátt fyrir það haldi aðalstefnendur því blákalt fram að gallinn á vinnu gagnstefnanda sé svo mikill að ekki sé ,,óvarlegt að ætla að afsláttur nemi kaupum á nýju gestahúsi“. Af þessu megi ljóst vera að aðalstefnendum sé þó ljóst að kostnaður við byggingu á nýju gesthúsi nemi a.m.k. 2.104.580 krónum. Til þrautavara geri aðalstefnendur þá kröfu að reikningur gagnstefnanda verði lækkaður þar sem vinnustundir séu oftaldar og tímagjaldið mun hærra en stefndi hafði notað gagnvart þeim hingað til. Ekkert komi fram í stefnunni um hvert tímagjaldið hafði verið „hingað til“ né hvaða vinnu gagnstefnandi hafði unnið fyrir aðalstefnendur. Hvað tímagjaldið áhrærir hafi ekki verið samið um það sérstaklega milli aðila. Í samræmi við 28. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000 hafi tímagjaldið verið ákveðið með hliðsjón af því sem gengur og gerist á markaði fyrir vinnu við trésmíðar. Ekki hafi sérstaklega verið horft til þess að vinnan hafi farið fram á stað sem hafi verið hentugur fyrir aðalstefnendur, né til þess að gagnstefnandi hafi útvegað öll tæki og tól til smíðanna auk þess að sjá að mestu um efniskaup og flutning á efni á byggingarstað. Vísað er til laga um þjónustukaup nr. 42/2000 og meginreglna samninga- og kröfuréttarins um loforð og efndir fjárskuldbindinga en reglur þessar fá m.a. lagastoð í 45., 46. og 47. gr. laga nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 48. og 49. gr. sömu laga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum númer 50/1988. Varðandi varnarþing vísast til 42. gr. laga nr. 91/1991. Málsástæður aðalstefnenda í gagnsök Aðalstefnendur byggja sýknukröfu sína einkum á því að samningi aðila hafi formlega verið rift þann 22. janúar 2016 með yfirlýsingu þar um en allt frá afhendingu hússins til þess dags hafi átt sér stað viðræður á milli aðila þar sem gagnstefnandi hafi ítrekað lofað að taka húsið til baka en hætt svo ávallt við. Þar sem samningi hafi verið rift beri þeim ekki að greiða eftirstöðvar útgefins reiknings en séu tilbúin til að skila húsinu og þiggja endurgreiðslu á þeirri fjárhæð sem þau þegar hafa greitt gagnstefnanda. Gagnstefnandi byggi á því að riftunaryfirlýsing aðalstefnenda þann 22. janúar 2016 hafi ekkert gildi og ekki sé mark á henni takandi þar sem vísað sé til neytendakaupalaga í yfirlýsingunni en ekki til þjónustukaupalaga. Gagnstefnanda hafi hins vegar ekki getað dulist hvers verið var að krefjast riftunar á og af hvaða ástæðu. Með engu móti sé hægt að fallast á að lagatilvísun ein geti gert yfirlýsinguna að markleysu. Í því sambandi megi benda á að ekki séu gerðar neinar sérstakar form- eða efniskröfur til yfirlýsingar sem þessarar þótt gera megi væntanlega þá kröfu að viðtakanda sé ljóst að um riftun sé að ræða og hverju sé verið að rifta. Byggt sé á því að riftunaryfirlýsing grundvallist á 14. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000. Bent er á að óskað hafi verið eftir áliti byggingarfulltrúa á eigninni. Á vottorði hans séu listaðar upp athugasemdir og gallar sem hann taldi vera á húsinu. Sú fullyrðing aðalstefnenda um að húsið sé ekki byggt í samræmi við fagþekkingu byggist einfaldlega á athugasemdum byggingarfulltrúa. Það að húsið sé beinlínis slysagildra byggist á því að festingar séu ófullnægjandi þannig að húsið gæti einfaldlega fokið. Til vara krefjast aðalstefnendur sýknu eða lækkunar á dómkröfu með vísan til þess að þau eigi rétt til afsláttar vegna galla á téðu húsi. Til þrautavara sé krafist lækkunar á dómkröfum gagnstefnanda. Gagnstefnandi hafi aldrei gefið út nótu fyrir þeim verkefnum sem hann hafi unnið fyrir aðalstefnendur og því erfitt fyrir þau að sýna fram á þá fjárhæð sem hann hafi innheimt hingað til.    Matsgerð    Undir rekstri málsins öfluðu aðalstefnendur matsgerðar. Í matsgerð Hjalta Sigmundssonar, byggingartæknifræðings og húsasmíðameistara, dagsettri í október 2016, segir í niðurstöðum: „Niðurstaða matsmanns 1. Hönnun og smíði hússins er á ýmsan hátt ófullnægjandi og ófagleg. Reglum og stöðlum virðist almennt ekki hafa verið fylgt við hönnun sem kemur fram í því að burðarviðir og tengingar eru ekki nægilega stífir og sterkir til að uppfylla kröfur og mæta álagi í samræmi við byggingarreglugerð og staðla. Heildarhæð hússins er meiri en fram kemur í gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð. Ekki liggja fyrir teikningar af húsinu sem fylgt var við smíði þess. Smíði hússins er á ýmsan hátt ófagleg sem sjá má við skoðun. Neðri brún klæðningar er ójöfn og skrúfuraðir ekki beinar. Skrúfum er sökkt í viðinn en haus ekki slétt við yfirborð eða lítið eitt innar, ekki er loftbil undir klæðninguna og ekki net til að hindra nagdýr að komast þar á bakvið. Klæðning á suðurhlið hallar og veggir halla. Ekki er loftræst fyrir ofan einangrun í þaki. Panell á veggjum inni er settur of þétt á veggi miðað við að húsið sé óupphitað og hefur bólgnað út. Hefti í panel eru þvert á viðartrefjar en faglegt og eðlilegt er að þau séu samhliða þeim. Þá hefur ekki verið lokið við frágang hússins á ýmsan hátt eins og nánar er rakið hér á eftir. a. Ekki er loftað bil á bak við útveggjaklæðningu eins og kveðið er á um í byggingar-reglugerð. b. Ekki er net fyrir bili bak við útveggjaklæðninguna sem hindrað getur meindýr að komast þar á bakvið. c. Útveggjaklæðning á suðurhlið hallar sem kemur fram í því að borð á suðurhlið næst suðaustur horni er fleyglaga. d. Skrúfur í útveggjaklæðningu eru ekki í beinni línu og frávik umfram það sem eðlilegt og faglegt getur talist. Þá er skrúfuhausum sökkt í viðinn umfram það sem faglegt er. e. Nokkur borð á suðurhlið og austurhlið eru dekkri en önnur á útveggjum hússins. Það stafar af því að notuð hafa verið veðruð borð í klæðninguna. f. Frágangur rakavarnar í útveggjum og þaki virðist vera eðlilegur miðað við að húsið verði að jafnaði upphitað. Ekki hefur verið lokið við frágang hennar við glugga og hurð í notarými. Ekki er einangrun og rakavörn í geymslu. Ef geymsla á að vera óupphituð er það eðlilegt en ef hún á að vera upphituð þarf að einangra veggi og loft og koma fyrir rakavörn og þilja yfir. g. Ekki hafa verið settar áfellur á þakbrúnir á stöfnum hússins. h. Ekki er loftrás ofan við einangrun í þaki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Líkur eru þó til að loftun sé næg miðað við að húsið sé gestahús sem er ekki í samfelldri notkun. Faglegt og eðlilegt er hins vegar að gera loftrás í samræmi við byggingarreglugerð. i. Festing á sperrum við veggsyllur er ekki næg. j. Spónaplötur á gólfi hússins eru ekki rakavarðar og ætlaðar til notkunar þar sem er þurrt að jafnaði. Slíkar aðstæður eru í upphituðu rými og plöturnar þá í lagi. Plöturnar hæfa ekki til notkunar í óupphituðu rými. k. Langbitar undir húsinu eru reikningslega ekki nægilega stífir og sterkir. Festingar á þeim við undirstöður og hússins við þá eru reikningslega ekki nægilega sterkar. l. Lofthæð er ekki nægt til að hægt sé að hafa kojur í húsinu með fullnægjandi athafnarými. Húsið er hins vegar hærra en fram kemur í gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð. m. Ekki hefur verið lokið við frágang hússins eins og nánar er rakið að framan. n. Miðað við að húsið er reikningslega ekki nægilega stíft og sterkt og hætta er á veltu verður að ætla að hætta geti verið af, einkum ef húsið er notað sem íverurými. Þá getur stafað hætta af ef hlutar úr húsinu losna og fjúka. 2. Ef húsið á að vera notarými þarf að styrkja það. Það má gera með því að koma fyrir nýjum langbitum undir langhliðum hússins og nýjum undirstöðum undir þeim. Þær sem fyrir eru verði látnar vera eins og þær eru. Festa þarf langbita tryggilega á undirstöður og hús við langbita. Með þessu er álag fært beint í undirstöður en ekki í gólfbita. Áður en hægt er að fara í endurbætur þarf að gera nauðsynlega útreikninga og útfærslur og gera a.m.k. skýringateikningar. Þá þarf að liggja fyrir hvort að húsið er smáhýsi í samræmi við byggingarreglugerð eða íverurými þar sem að það hefur áhrif á þær kröfur sem gilda um hús. Einnig hvort húsið á að vera upphitað eða ekki. Bæta þarf tengingar á þakviðum, í mæni og við veggsyllur. Til að hægt sé að koma fyrir kojum í húsinu þarf að hækka útveggi og umfram það sem kveðið er á um í byggingarreglugerð. Þá þarf að taka niður útveggjaklæðningu og panel inni ásamt rakavörn og einangrun. Einnig úr lofti. Losa þarf þak frá veggsyllu og lyfta því. Heppilegt getur verið að lyfta því af húsinu meðan veggjum er breytt. Taka þarf veggsyllu af og setja nýjar hærri stoðir við hlið þeirra sem fyrir eru. Setja síðan veggsyllu aftur á stoðir, bæta við krossviði að utan og skeyta á lausholti við þann sem fyrir er. Setja þak aftur á húsið og festa. Bæta þá samhliða tengingar. Einangra veggi aftur, setja rakavörn og þilja inni. Klæða aftur að utan. Klæðning á útveggjum og panill á veggjum inni fer forgörðum. Gera þarf hæfileg göt á veggi til að lofta yfir einangrun í þaki. Hæfilega metinn kostnaður við endurbætur er eins og fram kemur í samantekt aftar í matsgerð. Metinn er kostnaður við að hækka hús þannig að koma megi fyrir kojum annars vegar og hins vegar að það verði ekki hækkað. Þá er metinn kostnaður við að ljúka því sem talið er ólokið. 3. Á reikningi á dskj. 3 segir að hann sé vegna vinnu við smíði á gestahúsi á tímabilinu 28/4 til 28/6, samtals 301 tími á 4.500 kr fyrir utan virðisaukaskatt. Samtals sé þóknun vegna vinnu 1.679.580 kr með virðisaukaskatti. Ekki fylgir með vinnuskýrsla. Efniskostnaður skv. nótu sé kr. 425.000 með virðisaukaskatt. Fram kom á matsfundi að matsbeiðendur hafi lagt til hluta af efni. Almennt má gera ráð fyrir því að vinna við venjulega trésmíði sé um 60-65% af heildar-kostnaði og efni með álagningu verktaka um 35-40%. Í litlum verkum getur vinnuliður vegið þyngra en í stærri verkum. Ætla má að vinnuliður samsvari því að heildarkostnaður við smíði hússins sé um 2,6-2,8 milljónir.“ Matsmaður áætlar kostnað vegna vinnu við smíði hússins samtals að fjárhæð 1.750.000 krónur með virðisaukaskatti. Matsmaður telur að einingarverð sem fram kemur á reikningi sé lægra en almennt gerist fyrir faglærða menn. Hæfilegt sé að miða við að faglærðir menn geti lokið við smíði hússins eins og það er gert á um 250 klst. Hversu margar vinnustundir fari í verk sé háð ýmsum þáttum, s.s. afköstum þess sem vinnur verkið, reynslu og færni, líkamlegu atgervi o.fl. Að teknu tilliti til þess verks sem unnið var og tímagjalds sem krafist er fyrir það telur matsmaður að tímafjöldi á reikningi sé eðlilegur. Matsmaður metur kostnað miðað við að húsið verði hækkað þannig að koma megi fyrir kojum í gestahúsi að fjárhæð 2.758.000 krónur og kostnað við að húsið verði ekki hækkað að fjárhæð 1.738.000 krónur. Loks metur matsmaður að það kosti 241.000 krónur að ljúka við ólokna verkþætti. Niðurstaða Eins og rakið er hér að framan fengu aðalstefnendur kunningja sinn, Guðmund Bjarna Daníelsson, fyrirsvarsmann gagnstefnanda, til þess að byggja fyrir sig gestahús til þess að setja niður við sumarbústað aðalstefnenda í Dalabyggð. Smíðin fór fram á sumarbústaðarlóð gagnstefnanda í Borgarfirði og var húsið afhent 26. júní 2015. Aðalstefnendur gerðu athugasemdir við frágang hússins og reikning gagnstefnanda með bréfi 23. júlí 2015 en samkvæmt gögnum málsins voru sættir reyndar bæði fyrir og eftir þann tíma. Riftunaryfirlýsing aðalstefnenda var send gagnstefnanda 22. janúar 2016. Aðilar deila um hvort samið hafi verið um byggingu hússins eftir ákvæðum greinar 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með áorðnum breytingum en með reglugerðinni er kveðið á um minni háttar framkvæmdir sem eru undanþegnar byggingarleyfi. Segir þar að svokallað „smáhýsi á lóð“ sé til geymslu garðáhalda o.þ.h. og megi vera að hámarki 15 fm og að slík hús séu án vatnslagna, hita og rafmagns. Af framburði aðila fyrir dómi þykir sannað að aðilar sömdu um byggingu slíks húss, þ.e. sem væri ekki háð byggingarleyfi og því undir 15 fm, en að það væri samt byggt í þeim tilgangi að gestir gætu sofið í því, enda var gert ráð fyrir kojum í húsinu. Þá var gert ráð fyrir lítilli geymslu í húsinu. Ekki stóð hins vegar til að í húsinu væri hiti, rafmagn eða vatnslagnir. Engar teikningar voru gerðar af húsinu og engin verklýsing er til um hvernig smíða átti húsið. Aðalstefnendur virðast ekki hafa sett fram neinar óskir þar um, aðrar en þær að smíða skyldi gestahús sem ekki þyrfti að sækja um byggingarleyfi fyrir og þar af leiðandi þyrfti ekki að skila inn til byggingarfulltrúa teikningum af húsinu. Aðalstefnandi Haraldur sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi treyst Guðmundi Bjarna alfarið fyrir verkinu. Fyrir liggur að aðalstefnendur komu oft á byggingarstað og fylgdust því að einhverju leyti með verkinu. Gegn neitun gagnstefnanda telst ósannað að samið hafi verið um ákveðið verð fyrir verkið. Verður því að líta svo á að það hafi verið unnið í tímavinnu. Vegna kunningsskapar aðalstefnenda og Guðmundar Bjarna máttu aðalstefnendur vita að Guðmundur Bjarni er ekki húsasmiður að mennt og ekkert liggur fyrir í málinu um að hann hafi reynt að villa á sér heimildir hvað það varðar. Hann kveðst hins vegar hafa unnið við smíðar í um 15 ár. Allt framangreint verður að hafa í huga þegar metið er hverjar væntingar aðalstefnendur máttu hafa til smáhýsis sem þau fólu ófaglærðum manni að byggja án þess að teikningar, hönnun eða önnur fyrirmæli lægju fyrir. Verður að leggja til grundvallar að það hafi verið ætlun aðila að byggja smáhýsi samkvæmt ákvæðum framangreindra ákvæða byggingarreglugerðarinnar, smáhýsi sem væri undanþegið byggingarleyfi og afskiptum byggingaryfirvalda en þó með svefnaðstöðu. Í ljósi þessa er að mati dómsins ekki unnt að fallast á með aðalstefnendum að ákvæði byggingarreglugerðar um heilsárshús gildi um smáhýsi af þessari gerð, enda skilgreining slíks húss í byggingarreglugerð verkfæraskúr án hita, rafmagns og vatns. Þá er einnig til þess að líta að aðalstefnendur fylgdust með smíði hússins án þess að gera athugasemdir við byggingu þess, þ.á.m. varðandi hæð þess og hvort koma mætti fyrir kojum með góðu móti. Af málavöxtum verður ekki annað ráðið en að húsið hafi verið afhent aðalstefnendum í Borgarfirði og að aðalstefnendur hafi annast flutning þess og niðursetningu í Dalabyggð. Þegar allt framangreint er virt er ekki unnt að fallast á með aðalstefnendum að galli hafi verið á hinni seldu þjónustu og ber því að sýkna gagnstefnanda af kröfum aðalstefnenda í aðalsök. Matsmaður hefur fallist á að reikningur gagnstefnanda sé sanngjarn með hliðsjón af vinnu hans og ber því eftir 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup að fallast að öllu leyti á kröfu gagnstefnanda í gagnsök. Eftir þessari niðurstöðu ber samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að dæma aðalstefnendur til að greiða gagnstefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur í báðum sökum og hefur þá ekki verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt. Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Kristni Eiríkssyni og Stanley Pálssyni byggingarverkfræðingum. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómsorð Gagnstefnandi, Borg ehf., er sýkn af kröfum aðalstefnenda, Haraldar Guðjónssonar og Þórunnar M. Ólafsdóttur, í aðalsök. Í gagnsök greiði aðalstefnendur gagnstefnanda in solidum 1.204.580 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. ágúst 2015 til greiðsludags. Aðalstefnendur greiði gagnstefnanda 500.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 387/2017
Ráðningarsamningur Kjarasamningur Stéttarfélag Laun Viðbótarkrafa Tómlæti
G, sem var verkfræðingur að mennt, starfaði hjá N ehf. frá september 2012 til júlí 2015. Við starfslok kom upp ágreiningur milli aðila um tiltekna þætti í starfskjörum G á ráðningartímanum en aðilar deildu m.a. um hvaða kjarasamningur skyldi gilda um þau. Höfðaði G mál og krafði N ehf. um greiðslu vegna vangoldinnar desember- og orlofsuppbótar, viðbótargreiðslu fyrir svonefndar bakvaktir og greiðslu vegna réttar til vikulegs frídags og kjarasamningsbundins frítökuréttar. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins og Stéttarfélags verkfræðinga og fleiri hafi gilt um starfskjör G að því marki sem ekki hefði verið réttilega frá honum vikið í ráðningarsamningi. Þá var jafnframt staðfest niðurstaða héraðsdóms um að G ætti rétt til greiðslu desemberuppbótar vegna ársins 2015 og orlofsuppbótar sem og vegna vangoldinna frídaga og brota gegn frítökurétti. Að því er varðaði svonefndar bakvaktir sem G stóð ásamt fleirum frá síðla árs 2012 til mars 2014 er þær voru aflagðar, sagði Hæstiréttur að G hefði athugasemdalaust tekið við greiðslum fyrir vaktirnar. Lægi ekkert fyrir um að hann hefði síðar á starfstímanum látið að því liggja að hann hygðist hafa uppi viðbótarkröfu vegna þessa. Honum hefði verið kunnugt um að framkvæmdastjóri N ehf. leit ekki svo á að um eiginlegar bakvaktir væri að ræða og að engum starfsmanni hefði verið skylt að sinna þeim. Þá hefði G ekki getið þess á fundi með framkvæmdastjóranum við starfslok að hann teldi sig ekki hafa fengið að fullu greitt fyrir vaktirnar. Hefði G mátt vera það ljóst að miðað við þann kjarasamning sem hann taldi að gilti um starfskjör sín, svo sem staðfest var í Hæstarétti, gæti hann átt kröfu um viðbótargreiðslu, auk þess sem hann hlyti að hafa vitað að N ehf. taldi sig hafa greitt að fullu fyrir þessa vinnu. Var krafa G hvað þetta varðaði því talin niður fallin fyrir tómlætis sakir og N ehf. sýknað af henni.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Viðar Már Matthíasson og Arngrímur Ísberg héraðsdómari. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. júní 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda en til vara að krafan verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.   Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi upphaflega fyrir sitt leyti 22. ágúst 2017. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu gagnsakar 20. september sama ár og gagnáfrýjaði hann öðru sinni 28. sama mánaðar. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 3.550.844 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 31. október 2012 til 31. júlí 2015, en af framangreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. I Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi réðst gagnáfrýjandi, sem er verkfræðingur að mennt, til starfa hjá áfrýjanda í september 2012. Skriflegur ráðningarsamningur var fyrst gerður 15. janúar 2013. Þar sagði um starfssvið gagnáfrýjanda: ,,Aðal verkefnin verða: Verkefnastjórn, hönnun, forritun, prófanir og startup ásamt öðrum tengdum verkefnum í tæknideild fyrirtækisins.“ Í 4. grein samningsins var fjallað um laun og launabreytingar og kom þar fram að mánaðarlaun gagnáfrýjanda skyldu frá 31. desember 2012 vera 501.975 krónur og þau skyldu taka sömu breytingum og um væri samið í ,,gildandi kjarasamningi VFÍ og viðsemjanda á hverjum tíma.“ Í niðurlagi samningsins sagði að um starfskjör gagnáfrýjanda gilti að öðru leyti en tilgreint væri í samningnum ,,kjarasamningur VFÍ og viðsemjenda“. Í skýrslu gagnáfrýjanda fyrir dómi lýsti hann því að um tveimur mánuðum eftir ráðningu hafi hann byrjað að taka svonefndar bakvaktir sem falist hafi í því að hann hafi ásamt sex eða sjö öðrum starfsmönnum skipt með sér að hafa símavakt utan vinnutíma í eina viku í senn. Hafi sá, sem vaktina stóð hverju sinni, fengið farsíma sem viðskiptavinir gátu hringt í til þess að fá nauðsynlega aðstoð sem ekki gat beðið. Í sumum tilvikum hafi verið unnt að leysa vanda viðskiptamanns í símtalinu, en í öðrum hafi þurft að sinna aðstoðinni frá skrifstofu aðaláfrýjanda eða jafnvel fara í útkall hér á landi eða í útlöndum. Í síðarnefndu tilvikunum mun öll vinna hafa verið greidd sérstaklega. Spurður um hve mikil vinna hafi fylgt þessum vöktum svaraði gagnáfrýjandi að það hefði verið misjafnt, allt frá því að aldrei hafi verið hringt í þeirri viku, sem um ræddi, upp í það að vera nokkur símtöl. Í skýrslu framkvæmdastjóra aðaláfrýjanda fyrir dómi kom fram að upphaflega hafi þessu verið hagað þannig að viðskiptamenn hafi getað hringt í hvaða starfsmann tæknideildar sem var og hafi það ekki verið greitt sérstaklega þótt starfsmennirnir hafi verið ónáðaðir utan vinnutíma. Að ósk starfsmanna hafi þeirri skipan verið komið á, sem lýst hefur verið og ákveðin greiðsla fyrir. Hafi það verið til hagsbóta fyrir starfsmenn miðað við það sem áður hafði tíðkast. Engum hefði verið skylt að taka þessar vaktir og með þeim hafi einungis verið ætlunin að auka þjónustu við viðskiptamenn. Aðaláfrýjandi hefði ekki haft af þessu neinar tekjur, eins og önnur tilgreind fyrirtæki sem komið hafi upp bakvaktakerfi. Þetta hafi verið símavaktir, sem ekki hafi verið íþyngjandi fyrir starfsmenn. Gagnáfrýjandi kvað þetta fyrirkomulag hafa verið aflagt í byrjun árs 2014 og hafi ástæða þess verið óánægja í röðum starfsmanna um fyrirkomulag og greiðslur fyrir þessar vaktir. Samkvæmt framlögðum gögnum mun gagnáfrýjandi hafa síðast fengið greitt fyrir þessa vinnu 31. mars 2014. Á því ári tók gagnáfrýjandi við starfi þjónustustjóra hjá aðaláfrýjanda. Hann mun hafa sagt upp störfum í byrjun júlí 2015 og er ágreiningslaust að samkomulag hafi orðið um að síðasti vinnudagur hans yrði 3. sama mánaðar, en hann fengi greidd laun út þann mánuð. Við starfslok kvaðst gagnáfrýjandi hafa átt fund með framkvæmdastjóra aðaláfrýjanda þar sem hann hafi upplýst að sér sýndist ,,vanta orlofsuppbót og jafnvel aftur í tímann“. Framkvæmdastjórinn hafi ekki samsinnt því þar sem kjarasamningur Félags ráðgjafaverkfræðinga, er gilt hafi um starfskjör gagnáfrýjanda, gerði ekki ráð fyrir slíkum greiðslum. Gagnáfrýjandi kvað þetta hafa verið í fyrsta sinn sem hann heyrði á þetta félag minnst. Niðurstaðan hafi orðið sú að hann myndi leita réttar síns og hafi hann í framhaldinu snúið sér ,,til VFÍ“. Kröfubréf gagnáfrýjanda var dagsett 30. maí 2016. II Aðaláfrýjandi samdi ráðningarsamning þann sem gagnáfrýjandi starfaði eftir. Tilvísun í þeim samningi um það hvaða kjarasamningur skyldi gilda um starfskjörin, að öðru leyti en því sem mælt var fyrir um í ráðningarsamningnum, var ekki fyllilega skýr og verður aðaláfrýjandi að bera hallann af því. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða að kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins, annars vegar og Stéttarfélags verkfræðinga og fleiri, hins vegar, hafi gilt um starfskjörin að því marki sem ekki var réttilega frá honum vikið í ráðningarsamningnum. Krafa gagnáfrýjanda er í þremur liðum. Í fyrsta lagi krefst hann greiðslu á vangoldinni desember- og orlofsuppbót á ráðningartímanum. Í öðru lagi eigi hann rétt á viðbótargreiðslu fyrir svonefndar bakvaktir og í þriðja lagi hafi hann ekki fengið greitt vegna réttar til vikulegs frídags, auk þess sem aðaláfrýjandi hafi brotið gegn kjarasamningsbundnum frítökurétti hans. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að gagnáfrýjandi eigi rétt til greiðslu desemberuppbótar vegna ársins 2015, 52.338 krónur, og orlofsuppbótar, 101.493 krónur, en ómótmælt er að hann hafi við starfslok vakið athygli á því að þær greiðslur hefðu ekki verið inntar réttilega af hendi. Að framan er lýst vinnu gagnáfrýjanda við það sem nefnt hefur verið bakvaktir eða símavaktir. Vegna óánægju í hópi starfsmanna sem sinntu vöktunum var þessi skipan felld niður í ársbyrjun 2014 og kvaðst framkvæmdastjóri aðaláfrýjanda eftir það hafa sinnt þessu einn. Gagnáfrýjandi tók athugasemdalaust við greiðslum fyrir vaktirnar. Ekkert liggur fyrir um að hann hafi síðar á starfstíma sínum hjá aðaláfrýjanda látið að því liggja að hann hygðist hafa uppi viðbótarkröfu vegna þessarar vinnu. Honum var þó kunnugt um að framkvæmdastjóri aðaláfrýjanda leit svo á að ekki væri um eiginlegar bakvaktir að ræða og að engum starfsmanni hafi verið skylt að sinna vöktunum. Gagnáfrýjandi gat þess heldur ekki á fundi með framkvæmdastjóranum við starfslok í byrjun júlí 2015 að hann teldi sig ekki hafa fengið að fullu greitt fyrir vaktirnar. Það var fyrst með bréfi 30. maí 2016, um ellefu mánuðum eftir starfslok og tuttugu og sex mánuðum eftir að hann og aðrir starfsmenn hættu að ganga þessar vaktir, sem hann hafði uppi viðbótarkröfu. Ekkert liggur fyrir um að hann, sem sjálfur er verkfræðingur að mennt og gegndi frá árinu 2014 yfirmannsstarfi hjá aðaláfrýjanda, hafi ekki átt þess kost að hafa kröfuna fyrr uppi. Eins og fram er komið hefur verið fallist á afstöðu gagnáfrýjanda til þess hvaða kjarasamningur gilti um starfskjör hans. Honum mátti því vera ljóst frá upphafi að miðað við þann kjarasamning gæti hann átt kröfu um viðbótargreiðslu, auk þess sem hann hlaut að vita að aðaláfrýjandi taldi sig hafa greitt að fullu fyrir þessa vinnu. Þegar gagnáfrýjandi hafði uppi kröfu um viðbótargreiðslu 30. maí 2016 var hún samkvæmt framansögðu niður fallin fyrir tómlætis sakir og verður aðaláfrýjandi sýknaður af henni. Krafa gagnáfrýjanda um vangoldna frídaga tekur til alls starfstíma hans hjá aðaláfrýjanda og krafa um greiðslu vegna brota á frítökurétti tekur til tímabilsins frá nóvember 2013 til maí 2015. Hann gerði á starfstíma sínum hjá aðaláfrýjanda ekki athugasemdir við að hann ætti rétt til viðbótargreiðslu vegna þessara atriða og gat heldur ekki um það á fundi með framkvæmdastjóra aðaláfrýjanda við starfslok heldur setti kröfuna fyrst fram með bréfi 30. maí 2016. Þótt rétt hefði verið af gagnáfrýjanda að hafa strax uppi kröfu til að halda til haga kjarasamningsbundnum rétti sínum til þessara greiðslna leiðir það aðgerðarleysi hans þó ekki til þess að krafan að þessu leyti teljist niður fallin. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms um þessa kröfuliði, verður niðurstaðan um þá staðfest. Samkvæmt öllu framansögðu verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 971.072 krónur. Vegna tómlætis gagnáfrýjanda um að tefla fram kröfu sinni verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um upphafstíma dráttarvaxta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Málskostnaðarákvæði héraðsdóms verður staðfest, en rétt er að hvor málsaðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Aðaláfrýjandi, Naust Marine ehf., greiði gagnáfrýjanda, Gunnari Hrafni Hall, 971.072 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. september 2016 til greiðsludags. Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 20. mars 2017 Mál þetta, sem dómtekið var 20. febrúar f.m. var höfðað 9. september 2016.  Stefnandi er Gunnar Hrafn Hall, Furuási 5, Hafnarfirði. Stefndi er Naust Marine ehf., Miðhellu 4, Hafnarfirði. Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum 3.550.844 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 145.306 krónum frá 31. október 2012 til 30. nóvember 2012, af 190.076 krónum frá þeim degi til 15. desember sama ár, af 208.032 krónum frá þeim degi til 31. sama mánaðar, af 230.417 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2013, af 526.999 krónum frá þeim degi til 28. febrúar sama ár, af 705.193 krónum frá þeim degi til 30. apríl sama ár, af 932.299 krónum frá þeim degi til 30. júní sama ár, af 992.105 krónum frá þeim degi til 31. júlí sama ár, af 1.170.299 krónum frá þeim degi til 31. ágúst sama ár, af 1.308.622 krónum frá þeim degi til 30. september sama ár, af 1.486.816 frá þeim degi til 31. október sama ár, af 1.626.362 krónum frá þeim degi til 30. nóvember sama ár, af 1.727.650 krónum frá þeim degi til 15. desember sama ár, af 1.779.750 krónum frá þeim degi til 31. sama mánaðar, af 2.016.527 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2014, af 2.385.611 krónum frá þeim degi til 28. febrúar sama ár, af 2.619.220 krónum frá þeim degi til 31. mars sama ár, af 2.870.703 krónum frá þeim degi til 30. apríl sama ár, af 2.899.403 krónum frá þeim degi til 30. júní sama ár, af 2.925.914 krónum frá þeim degi til 31. júlí sama ár, af 2.975.813 krónum frá þeim degi til 31. ágúst sama ár, af 2.979.661 krónu frá þeim degi til 31. október sama ár, af 3.004.611 krónum frá þeim degi til 30. nóvember sama ár, af 3.059.733 krónum frá þeim degi til 15. desember sama ár, af 3.133.333 krónum frá þeim degi til 31. sama mánaðar, af 3.183.232 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2015, af 3.267.561 krónum frá þeim degi til 28. febrúar sama ár, af 3.343.644 krónum frá þeim degi til 31. mars sama ár, af 3.394.366 krónum frá þeim degi til 30. apríl sama ár, af 3.484.588 krónum frá þeim degi til 31. maí sama ár, af 3.486.217 krónum frá þeim degi til 31. júlí sama ár, en af 3.550.844 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar. Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar. I Stefndi rekur starfsemi á sviði framleiðslu á sérhæfðum búnaði fyrir fiskiskip. Stefnandi hóf störf sem verkfræðingur hjá stefnda í september 2012 og var skriflegur ráðningarsamningur gerður 15. janúar 2013. Í ráðningarsamningnum kom fram að stefnandi væri ráðinn til að sinna verkefnastjórn, hönnun, forritun, prófunum og „startup“, ásamt öðrum tengdum verkefnum í tæknideild fyrirtækisins. Samkvæmt ráðningar­samningnum var vikulegur vinnutími stefnanda 40 klukkustundir og daglegur vinnutími frá klukkan 8:00 til 16:00. Yfirvinnu skyldi stefnandi eingöngu vinna með samþykki yfirmanns. Í samningnum var samið um að mánaðarlaun stefnanda næmu 501.975 krónum. Tækju þau breytingum í samræmi við „gildandi kjarasamning VFÍ og viðsemjanda á hverjum tíma.“ Orlofstaka færi samkvæmt lögum um orlof. Í samningnum kom fram að um kjör stefnanda skyldi að öðru leyti en í samningnum greindi, gilda „kjarasamningur VFÍ og viðsemjenda“. Fyrir liggur að stefnandi tók á árinu 2014 við starfi þjónustustjóra hjá stefnda. Óumdeilt er að um tveimur mánuðum eftir að stefnandi hóf störf hjá stefnda gekk hann inn í „bakvaktarfyrirkomulag“ í tæknideild stefnda sem fólst því að hafa meðferðis síma í eigu stefnda í viku í senn og svara símtölum viðskiptavina utan hefðbundins vinnutíma. Fyrir vikutímabil voru greiddar 30.000 krónur og aukalega 5.000 krónur fyrir helgi- og frídaga umfram venjulegar helgar. Símavaktin var lögð af á árinu 2014. Stefnandi sagði starfinu upp í júlí 2015 og var síðasti vinnudagur hans 3. þess mánaðar. Við starfslok átti stefnandi fund með framkvæmdastjóra stefnda þar sem hann spurði meðal annars um uppgjör desember- og orlofsuppbóta. Var óuppgerðum kröfum hafnað og í því sambandi vísað til kjarasamnings Félags ráðgjafar-verkfræðinga. Í kjölfarið leitað stefnandi til Verkfræðingafélags Íslands. Með bréfi lögmanns stefnanda 30. maí 2016 var þess krafist að stefndi greiddi stefnanda vangoldnar greiðslur vegna desember- og orlofsuppbóta, bakvaktargreiðslna, viðbótarfrítökuréttar stefnanda vegna sjö daga vinnuviku og frítökuréttar. Byggði krafan á því að ekki hefði verið gætt lágamarksréttinda stefnanda samkvæmt kjarasamningi Verkfræðingafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Erindinu var svarað fyrir hönd stefnda með bréfi lögmanns hans 20. júní 2016 þar sem öllum framkomnum kröfum var hafnað og var sú afstaða stefnda áréttuð með bréfi 2. ágúst sama ár.  II Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að í ráðningarsamningi aðila hafi verið vísað til kjarasamnings „VFÍ og viðsemjanda á hverjum tíma“. Byggir stefnandi á því að framangreint verði að túlka sem svo að um sé að ræða kjarasamninga Verkfræðingafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, enda sé stefndi félagi í Samtökum iðnaðarins, aðila að Samtökum atvinnulífsins. Samkvæmt 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 skuli samningar um lakari kjör en koma fram í almennum kjarasamningum vera ógildir. Í þeim tilvikum sem stefnandi hafi sætt lakari kjörum hjá stefnda en mælt sé fyrir um í viðhlítandi kjarasamningi sé gerð krafa um bætur sem nemi því að kjarasamningsbundinna lágmarksréttinda hefði verið gætt. Hærri dagvinnulaun í ráðningarsamningi en lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningi skerði ekki rétt stefnanda til annarra greiðslna og réttinda sem kveðið sé á um í lögum og tilvísuðum kjarasamningi, enda séu þau lágmarksréttindi starfsmanns. Kröfur stefnanda í málinu byggja í fyrsta lagi á því að stefnanda hafi samkvæmt launaseðlum hvorki verið greidd sérstök desember- né orlofsuppbót á ráðningartímanum. Þetta sé andstætt kjarasamningi Verkfræðingafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, sem vísað hafi verið til í ráðningarsamningi, en samkvæmt ákvæði 1.5 í samningnum skuli starfsmenn fá desember- og orlofsuppbót greidda í samræmi við heildarkjarasamninga Samtaka atvinnulífsins á almennum vinnumarkaði. Samkvæmt heildarkjarasamningum Samtaka atvinnulífsins hafi desemberuppbót numið 50.500 krónum árið 2012, 52.100 krónum árið 2013, 73.600 krónum árið 2014 og 73.600 krónum árið 2015. Að teknu tilliti til starfshlutfalls stefnanda á fyrsta og síðasta starfsári hjá vinnuveitanda, sem skerðir réttinn til desemberuppbótar með gjalddaga í desember 2012 og 2015, hafi stefnandi átt rétt til desemberuppbótar, samtals að fjárhæð 195.993 krónur, úr hendi stefnda á starfstímanum. Vangreidd desemberuppbót sundurliðist þannig: Gjalddagi Fjárhæð 15. des. 2012 17.956 krónur 15. des. 2013 52.100 krónur 15. des. 2014 73.600 krónur 15. des. 2015 52.338 krónur Samkvæmt heildarkjarasamningum Samtaka atvinnulífsins skyldi orlofsuppbót fyrir tímabilið maí 2012 til apríl 2013 nema samtals 27.800 krónum, 28.700 krónum fyrir tímabilið maí 2013 til apríl 2014, 39.500 krónum fyrir tímabilið maí 2014 til apríl 2015 og sömu upphæð fyrir tímabilið maí 2015 til apríl 2016. Að teknu tilliti til starfshlutfalls stefnanda á fyrsta og síðasta starfsári hjá vinnuveitanda, sem skerðir hlutfallslega réttinn til orlofsuppbótar með gjalddaga í apríl 2013 og 2016, séu enn ógreiddar samtals 101.493 krónur vegna vangoldinnar orlofsuppbótar. Vangreidd orlofsuppbót sundurliðist þannig: Gjalddagi Fjárhæð 30. apr. 2013 21.004 krónur 30. apr. 2014 28.700 krónur 30. apr. 2015 39.500 krónur 30. apr. 2016 12.289 krónur Í öðru lagi byggja kröfur stefnanda í málinu á því að samkvæmt kafla 2.5 í kjarasamningum Verkfræðingafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins komi fram að með bakvakt sé átt við að starfsmaður sé ekki við störf en reiðubúinn til að sinna útkalli. Fyrir hverja klukkustund á bakvakt þar sem vakthafandi starfsmaður sé bundinn heima eigi hann að fá greitt sem svari til 33% dagvinnustundar. Á almennum frídögum og stórhátíðum skal hlutfallið nema 50%. Fyrir bakvakt þar sem ekki sé krafist tafarlausra viðbragða af hálfu starfsmanns en hann sé tilbúinn til vinnu strax og til hans næst skuli greiða 16,5% af dagvinnukaupi fyrir hverja klukkustund á bakvakt, en 25% fyrir almenna frídaga eða stórhátíðardaga. Er á því byggt að stefnandi hafi sinnt bakvöktum hjá stefnda frá því fljótlega eftir að hann hóf þar störf og fram til þess að stefndi hafi lagt bakvaktafyrirkomulag niður á árinu 2014. Stefnandi lýsir bakvöktum sem svo að hann hafi verið bundinn við vinnusímann og tilbúinn að svara símtölum og leysa þau vandamál sem upp kæmu strax. Fyrir vikið hafi hann til dæmis ekki getað leyft sér að fara í kvikmyndahús, styttri ferðalög innanlands seinnipart dags og um helgar eða annað sem tafið gæti viðbragð þegar hann hefði verið á bakvakt. Hafi honum því borið að fá greiðslu sem næmi 33% dagvinnustundar fyrir hvern tíma á bakvakt. Í staðinn hafi honum verið greiddir dagpeningar fyrir bakvaktir samkvæmt ákvörðun vinnuveitanda, að fjárhæð 4.286 krónur, hvort sem bakvakt hafi verið staðin um helgi eða á virkum degi. Þá hafi stefnandi staðið bakvakt yfir jól og áramót 2013 án þess að hátíðarálag hafi verið lagt á bakvaktargreiðslur. Stefnandi gerir ekki athugasemdir við útreikninga vinnuveitanda á fjölda bakvakta stefnanda, fyrir utan tvær bakvaktir í október 2012 sem stefnandi hafi aldrei fengið greiddar. Samanlagt hafi stefnandi fengið greiddar 471.460 krónur frá stefnda fyrir unnar bakvaktir fyrir stefnda. Samkvæmt því sem boðið sé í kafla 2.5 í kjarasamningi hafi hann á hinn bóginn átt að fá greiddar 2.907.576 krónur.  Mismunurinn nemi því 2.436.116 krónum. Vangreiddar bakvaktargreiðslur sundurliðist þannig: Gjalddagi Fjárhæð 31.10.2012 100.536 krónur 31.1.2013 296.582 krónur 28.2.2013 178.194 krónur 30.4.2013 158.259 krónur 30.6.2013 59.805 krónur 31.7.2013 178.194 krónur 31.8.2013 138.324 krónur 30.9.2013 178.194 krónur 31.10.2013 139.546 krónur 30.11.2013 98.453 krónur 31.12.2013 236.777 krónur 31.1.2014 287.958 krónur 28.2.2014 183.709 krónur 31.3.2014 201.585 krónur Kröfur stefnanda byggjast í þriðja lagi á því að samkvæmt ákvæði 2.4.3 í kjarasamningi skuli starfsmaður hafa að minnsta kosti einn vikulegan frídag á hverju sjö daga tímabili sem tengist beint daglegum hvíldartíma. Almennt skuli miðað við að vikulegi frídagurinn sé á sunnudegi. Þó sé heimilt með samkomulagi við starfsmann að fresta vikulegum frídegi þannig að í hans stað komi tveir samfelldir frídagar á 14 daga tímabili. Stefnandi kveðst byggja á því að samkvæmt upplýsingum úr tímaskráningarkerfi á tímabilinu september 2012 til júlí 2015 hafi stefnandi unnið samtals 32 vikur án þess að njóta vikulegs frídags um helgi, þar af fimm vikur árið 2012, tvær vikur árið 2013, fimmtán vikur árið 2014 en tíu vikur árið 2015. Ekki hafi verið gert sérstakt samkomulag við stefnanda um frestun vikulegra frídaga svo sem heimild sé til í kjarasamningi. Að teknu tilliti til umreiknaðs dagvinnukaups stefnanda á hverju tímabili hafi stefnandi vanefnt að greiða stefnanda sem nemi 111.925 krónum fyrir árið 2012, 47.843 krónum fyrir árið 2013, 374.244 krónum fyrir árið 2014 og 253.610 krónum fyrir árið 2015. Alls nemi vangoldnar greiðslur vegna helgarvinnu á tímabilinu því 787.622 krónum. Vangreiddir frídagar sundurliðist þannig: Gjalddagi Fjárhæð 31.10.2012 44.770 krónur 30.11.2012 44.770 krónur 31.12.2012 22.385 krónur 30.4.2013 47.843 krónur 31.1.2014 74.849 krónur 28.2.2014 49.899 krónur 31.3.2014 49.899 krónur 30.6.2014 24.950 krónur 31.7.2014 49.899 krónur 31.10.2014 24.950 krónur 30.11.2014 49.899 krónur 31.12.2014 49.899 krónur 31.1.2015 76.083 krónur 28.2.2015 76.083 krónur 31.3.2015 50.722 krónur 30.4.2015 50.722 krónur Þá hafi það komið upp í að minnsta kosti níu skipti á starfstíma stefnanda að brotið hafi verið gegn frítökurétti stefnanda samkvæmt ákvæði 2.4.2 í kjarasamningi, þegar honum hafi verið gert að vinna lengri vaktir en svo að hann gæti náð 11 klukkustunda samfelldri hvíld á sólarhring og án þess að frítökuréttur safnaðist. Hafi stefnanda aldrei verið greitt dagvinnukaup af frítökurétti svo sem heimild sé til í kjarasamningi. Nemi vangoldin laun stefnanda á tímabilinu samtals 29.619 krónum vegna þessa. Vangoldinn frítökuréttur sundurliðist þannig: Gjalddagi Fjárhæð 30.11.2013 2.835 krónur 31.1.2014 6.277 krónur 30.6.2014 1.561 krónur 30.8.2014 3.848 krónur 30.11.2014 5.223 krónur 31.1.2015 8.246 krónur 30.5.2015 1.629 krónur Stefnandi kveðst byggja á því að hann hafi verið verið hlunnfarinn um greiðslu á samtals 3.550.844 krónum, sem sé dómkrafa stefnanda. Krafan sundurliðist þannig: Orlofsuppbót                                                                     101.493 krónur Desemberuppbót                                                               195.993 krónur Bakvaktargreiðslur                                                        2.436.116 krónur Frídagar                                                                            787.622 krónur Frítökuréttur                                                                       29.619 krónur Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna vinnu-, kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga og að gerða samninga skuli halda, sérstaklega um skyldu vinnuveitanda til að greiða umsamin laun og aðrar greiðslur, samkvæmt gildandi lögum og kjarasamningum. Þá vísar stefnandi til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks, sérstaklega 1. gr., laga nr. 30/1987 um orlof, aðallega 1., 7. og 8. gr. og laga nr. 88/1971 um 40 stunda vinnuviku. Þá vísar stefnandi til kjarasamnings Verkfræðingafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 1. apríl 2011 með síðari breytingum. Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.   III Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi að fullu gert upp við stefnanda öll laun og tengdar greiðslur vegna ráðningarsambands aðila sem slitið hafi verið í júlí 2015. Stefndi kveðst byggja á því að viðmiðunarkjarasamningur, sem gilt hafi um ráðningarsambandið, hafi verið kjarasamningur milli annars vegar Félags ráðgjafarverkfræðinga og hins vegar Kjaradeildar Verkfræðingafélags Íslands og Kjarafélags Tæknifræðingafélags Íslands. Byggir stefndi á því að aðilar hafi haft fulla heimild til að miða við þann kjarasamning um ráðningarsambandið. Stefndi byggir á því að sannað sé að báðir aðilar hafi miðað við kjarasamning Félags ráðgjafarverkfræðinga allan þann tíma sem ráðningarsambandið hafi varað og vísar stefndi í því sambandi til hækkana á launatöxtum og skráningar stefnanda sjálfs á frídögum. Stefndi byggir jafnframt á því að það hafi verið hagstæðara fyrir starfsmenn stefnda að miða við kjarasamning Félags ráðgjafarverkfræðinga heldur en þann samning sem stefnandi byggi kröfur sínar í málinu á. Þá byggir stefndi á því að skráðar vinnureglur o.fl. sem aðgengilegar hafi verið starfsmönnum á innra neti stefnda, í svonefndri símavaktarmöppu, starfsmanna­handbók og með öðrum hætti hafi verið hluti ráðningarkjara aðila. Stefndi byggir sérstaklega á því að þegar litið sé til stöðu stefnanda og aðstöðu hans í starfi hjá stefnda sé ósanngjarnt með öllu að stefnandi setji fram kröfur um ýmsar launatengdar greiðslur langt aftur í tímann umfram þau ráðningarkjör sem hafi tíðkast hjá stefnda og sambærilegum fyrirtækjum. Vísað er sérstaklega til tómlætis stefnanda og þess að hann hafi aldrei haft uppi mótmæli eða athugasemdir við launagreiðslur eða efni launaseðla á meðan á ráðningarsambandi aðila hafi staðið. Stefnandi kveðst byggja á því að samkvæmt kjarasamningi Félags ráðgjafar­verkfræðinga hafi ekki verið skylt að greiða orlofs- og desemberuppbót. Til vara byggir stefndi á því að orlofs- og desemberuppbót hafi verið felld inn í mánaðarlaun stefnanda en jafnframt á því að stefnanda hafi engu að síður verið greidd sérstök desemberuppbót á árunum 2012 til 2014.  Varðandi kröfu stefnanda um bakvaktargreiðslur byggir stefndi á því að kröfur stefnanda séu ekki grundvallaðar á kjarasamningi Félags ráðgjafarverkfræðinga. Jafnframt er byggt á því að ekki hafi verið um að ræða eiginlegar bakvaktir í skilningi kjarasamninga, meðal annars þess kjarasamnings sem stefnandi miði við. Þannig hafi ekki verið um það að ræða að starfsmaður hafi verið reiðubúinn til að sinna útkalli, það er að mæta á starfsstöð, heldur hafi starfsmaður átt að vera reiðubúinn til að sinna símtali í farsíma þar sem hann hafi þá verið staddur. Starfsmaður hafi þannig getað sinnt símavaktinni á ferðalagi eða í bæjarferð. Stefndi byggir á því að samið hafi verið sérstaklega við stefnanda, og aðra starfsmenn stefnda sem sinnt hafi símavaktinni, um greiðslur fyrir starfann. Sá samningur hafi komið skýrt fram á einblöðungi um símavaktina og hafi það samkomulag og greiðslutilhögun verið hluti af ráðningarkjörum stefnda og stefnanda. Stefnandi hafi gengið inn í fyrirliggjandi tilhögun og samkomulag við upphaf starfs síns. Stefndi vísar sérstaklega til þess að kröfur stefnanda um bakvaktargreiðslur byggi á ákvæði kjarasamnings um greiðslur fyrir bakvaktir sem gildi einungis hafi ekki verið samið um annað milli aðila. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi þekkt ákvæði kjarasamninga um greiðslur fyrir útkallsbakvaktir en þrátt fyrir það ekki gert kröfu um greiðslu fyrir símavaktina á þeim grundvelli fyrr en eftir starfslok hjá stefnda, þegar liðin hafi verið um tvö ár frá því að símavöktunum hafi verið hætt. Hafi báðir aðilar litið svo á að samið hefði verið um tilhögun greiðslna fyrir símavaktina. Varðandi vikulega frídaga er sem áður á því byggt að um ráðningarsamband aðila hafi gilt kjarasamningur Félags ráðgjafarverkfræðinga og þær reglur um vikulega frídaga og frítökurétt sem stefnandi vísar til eiga því ekki við. Kveður stefndi stefnanda sjálfan hafa miðað við kjarasamning Félags ráðgjafarverkfræðinga varðandi frídaga en sem dæmi hafi stefnandi skráð frí á gamlársdag, sem ekki sé frídagur samkvæmt þeim kjarasamningi sem stefnandi miði nú við. Þá er á því byggt að stefnandi hafi sjálfur borið ábyrgð á því að hann fengi vikulegan frídag eða að fresta vikulegum frídegi þannig að í stað vikulegs frídags kæmu tveir samfelldir frídagar á 14 daga tímabili enda hafi hann gegnt þeirri stöðu hjá stefnda að honum hafi sjálfum borið að gæta að þessu. Leiði önnur niðurstaða til þess að stefnandi hafi í raun haft sjálftöku þegar litið sé til eðlis starfs stefnanda og stöðu hans hjá stefnda. Hafi helgarvinna stefnanda öll farið fram í vinnuferðum erlendis, án samþykkis yfirmanns, á grundvelli ákvörðunar stefnda sjálfs. Um varakröfu sína vísar stefndi til framangreindra málsástæðna og jafnframt til 5. mgr. greinar 2.5, um bakvaktir þar sem ekki er krafist tafarlausra viðbragða af hálfu starfsmanns, í kjarasamningi þeim sem stefnandi miði kröfur sínar við. Um lagarök vísar stefndi til meginreglna vinnuréttar og samningaréttar. Þá styðst málskostnaðarkrafa stefnda við 129. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. IV Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, skulu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til og skulu samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða vera ógildir. Stefnandi, sem er verkfræðingur að mennt, byggir málatilbúnað sinn á því að starfskjör hans í starfi fyrir stefnda, frá september 2012 til starfsloka í júlí 2015, hafi ekki svarað til lágmarkskjara samkvæmt kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Stéttarfélags verkfræðinga o.fl. Kjarasamningurinn gildir fyrir verkfræðinga, tölvunarfræðinga og byggingarfræðinga sem starfa á almennum markaði. Stefndi byggir á því að heimilt hafi verið að miða starfskjör stefnanda við kjarasamning milli Félags ráðgjafarverkfræðinga og Kjaradeildar Verkfræðingafélags Íslands o.fl. Hefur stefndi vísað til þess að val hafi staðið á milli kjarasamninganna tveggja og að starfsmenn hafi notið betri kjara samkvæmt þeim síðarnefnda. Fyrir liggur samkvæmt kafla 1.1 í kjarasamning Félags ráðgjafarverkfræðinga og Kjaradeildar Verkfræðingafélags Íslands o.fl. að samningurinn gildir fyrir verkfræðinga og tæknifræðinga í þjónustu þeirra vinnuveitenda sem aðild eiga að Félagi ráðgjafarverkfræðinga. Samkvæmt því er um sérkjarasamning að ræða sem aðeins tekur til starfa verkfræðinga á almennum vinnumarkaði sem starfa í þágu tiltekinna vinnuveitenda. Í skýrslu Bjarna Þórs Gunnlaugssonar framkvæmdastjóra stefnda fyrir dómi kom fram að stefndi væri ekki aðili að Félagi ráðgjafarverkfræðinga. Á hinn bóginn liggur fyrir að stefndi er aðili að Samtökum iðnaðarins, sem er aðildarfélag Samtaka atvinnulífsins. Samkvæmt framansögðu verður í málinu byggt á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Stéttarfélags verkfræðing o.fl. hins vegar. Breytir þá engu þó að stefndi hafi haft kjarasamning Félags ráðgjafarverkfræðinga í huga með tilvísun í „kjarasamning VFÍ og viðsemjenda“ í ráðningarsamningi við stefnanda, enda gildir sá samningur þá einungis að því leyti sem hann veitir starfsmanni ríkari rétt en sá kjarasamningur sem um starfið gildir. Stefndi hefur hvað sem framangreindu líður hafnað greiðsluskyldu á einstökum kröfuliðum stefnanda svo sem áður er rakið. Í öllum tilvikum byggir stefndi á því að stefnandi hafi með tómlæti af sinni hálfu glatað rétti til að hafa uppi kröfu á hendur honum vegna launatengdra greiðslna. Stefnandi starfaði hjá stefnda frá september 2012 uns hann lét af störfum rúmum tveimur og hálfu ári síðar, í júlí 2015. Fyrir liggur að stefnandi hafði fyrst uppi kröfu vegna vangoldinnar desember- og orlofsuppbótar, bakvaktargreiðslna, frídaga og frítökuréttar með bréfi lögmanns hans 30. maí 2016. Jafnvel þó nokkur tíma hafi því liðið áður en stefnandi aðhafðist nokkuð verður ekki talið að hann hafi með því fyrirgert kröfum til launa og launatengdra greiðslna á hendur stefnda í samræmi við kjarasamning. Verður nú vikið nánar að einstökum kröfuliðum. Í málinu gerir stefnandi kröfu um vangoldna desember- og orlofsuppbót á starfstímanum. Samkvæmt ákvæði 1.5 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Verkfræðingafélags Íslands o.fl. skulu starfsmenn fá desember- og orlofsuppbót greidda í samræmi við heildarkjarasamninga Samtaka atvinnulífsins á almennum vinnumarkaði. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt í ráðningarsamningi að fella uppbót inn í mánaðarlaun starfsmanns eða semja um annan greiðsluhátt. Stefndi hefur mótmælt kröfum stefnanda á þeim grundvelli að desember- og orlofsuppbót hafi verið felld inn í mánaðarlaun stefnanda en að því gengnu að stefnandi hafi fengið desemberuppbót greidda árin 2012, 2013 og 2014.   Stefndi hefur ekki fært sönnur fyrir því að desember- og orlofsuppbót hafi verið innifalin í mánaðarlaunum stefnanda og verður hann að bera hallan af þeim sönnunarskorti. Í málinu liggur fyrir launaseðill stefnanda í desember 2012 þar sem fram kemur að hann fékk greiddar 106.700 krónur í viðbótargreiðslu vegna 13. mánaðar, í hlutfalli við starfstíma hans á árinu, en desemberuppbót var ekki sérstaklega tilgreind. Gerði stefnandi þrátt fyrir það ekki athugasemd um ógreidda desemberuppbót er hann ritaði undir ráðningarsamning við stefnda 15. janúar 2013. Þá hefur stefnandi ekki mótmælt að hafa móttekið frá stefnda 150.000 krónur í desember árið 2013 og 200.000 krónur í desember 2014, í formi fégjafar, án athugasemda. Þar sem stefnandi lét átölulaust þennan greiðsluhátt uppbótar í desember verður talið að hann hafi samþykkt hann, en greiðslurnar eru ótvírætt umfram lágmarksréttindi hans samkvæmt kjarasamningi. Verður því hafnað kröfu stefnanda um vangreidda desemberuppbót, að öðru leyti en sem nemur greiðslu fyrir árið 2015, 52.338 krónum, sem ekki sætir tölulegum athugasemdum.   Að mati dómsins hefur stefndi ekki fært sönnur á það að stefnandi hafi fengið greidda kjarasamningsbundna orlofsuppbót 1. maí ár hvert á starfstímanum og verður hann því dæmdur til að greiða stefnanda vangreidda orlofsuppbót, samtals 101.493 krónur, en krafan sætir ekki tölulegum athugasemdum.  Ágreiningur aðila um ógreiddar bakvaktargreiðslur lýtur einkum að því hvort um hafi verið að ræða eiginlegar bakvaktir sem greiða skyldi fyrir eftir kjarasamningi. Þá byggja mótmæli stefnda við kröfu stefnanda jafnframt á því að samið hafi verið sérstaklega um greiðslur fyrir vaktina og hafi það samkomulag verið hluti af ráðningarkjörum stefnanda. Óumdeilt er að áður en stefnandi hóf störf hjá stefnda var tekin upp sú tilhögun af hálfu stefnda að símtölum viðskiptavina til tæknideildar stefnda eftir klukkan 16:00 á daginn og um helgar var beint í einn og sama símann, sem gekk á milli starfsmanna deildarinnar, að jafnaði í viku í senn. Fyrir liggur að símavaktinni fylgdi „bakvaktarmappa“ þar sem á fremstu síðu var að finna upplýsingar um hlutverk vakthafandi starfsmanns og tilhögun á greiðslum. Þá liggja frammi í málinu skráningarblöð bakvaktar á tímabilinu þar sem skráð var hvenær síminn gekk á milli starfsmanna, hvaða símtölum var svarað og aðrar aðgerðir. Af aðila- og vitnaskýrslum fyrir dómi verður ráðið að starfsmenn hafi haft val um þátttöku í símavörslu og að fyrirspurnir og erindi sem bárust hafi gjarnan verið leyst með einföldum hætti í símtalinu. Til þess gat þó komið að vakthafandi starfsmaður leysti verkefni í gegnum tölvu eða færi á skrifstofu stefnda, eða í skip sem stödd voru innanlands, og var þá greitt sérstaklega fyrir þá vinnu samkvæmt tímaskýrslu. Samkvæmt því sem fram kom fyrir dómi verður lagt til grundvallar að sjaldnast hafi þurft að sinna erindum sem bárust í símann án tafar. Jafnframt átti vakthafandi starfsmaður kost á að leita til annarra starfsmanna vegna verkefna ef svo bar undir. Þá er komið fram að símtöl gátu verið allt frá því að vera ekkert á vaktaviku yfir í nokkur símtöl. Samkvæmt ákvæði 2.5.1 í í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Verkfræðingafélags Íslands o.fl. er heimilt að semja við starfsmann „um að hann sé á bakvakt, þ.e. reiðubúinn að sinna útkalli eða annarri vinnuskyldu.“ Kemur fram að með bakvakt sé átt við að starfsmaður sé ekki við störf en sé „reiðubúinn til að sinna útkalli“ og er í ákvæðinu gerð grein fyrir tvenns konar fyrirkomulagi bakvakta, annars vegar „þar sem vakthafandi starfsmaður er bundinn heima“ og hins vegar „bakvakt þar sem ekki er krafist tafarlausra viðbragða af hálfu starfsmanns en hann er tilbúinn til vinnu strax og til hans næst“. Er mælt fyrir um hvað greitt skuli fyrir bakvaktirnar „[s]é ekki um annað samið í ráðningarsamningi“. Meðal málsgagna er skráning stefnanda á vöktum allt frá 24. október 2012. Á launaseðlum stefnanda frá sama tíma er skýrt hvað greitt var fyrir hverja bakvakt, en samkvæmt því voru greiddar 4.286 krónur fyrir hvern dag, eða sem svarar einum sjöunda af 30.000 krónum. Með vísan til þessa, og upplýsinga í áðurnefndri bakvaktamöppu, mátti stefnanda vera kunnugt um greiðslur fyrir símavörsluna áður en hann ritaði undir ráðningarsamning við stefnanda 15. janúar 2013. Fyrirkomulagið var lagt af á fyrri hluta ársins 2014, eftir því sem fram kom við meðferð málsins, vegna kröfu starfsmanna stefnda um að greiðslur yrðu hækkaðar og að framkvæmdastjóri stefnda hafi eftir það einn staðið símavaktina. Ekkert er fram komið um að stefnandi hafi gert athugasemdir við þær greiðslur sem greiddar voru fyrir símavörslu fyrr en eftir að hann lét af störfum í júlí 2015. Eins og málið liggur fyrir verður lagt til grundvallar að samþykki stefnanda hafi legið fyrir frá upphafi um fjárhæð sem greidd yrði fyrir símavörslu. Svigrúm einstakra vinnuveitenda og launþega til að semja um laun og önnur starfskjör takmarkast, hvað sem því líður, við að þau séu hinum síðarnefnda jafn hagstæð eða betri en kveðið er á um í kjarasamningi sem tekur til starfsins. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefnanda hafi verið skylt að vera heima þann tíma sem hann var á áðurgreindum bakvöktum auk þess sem ganga verður út frá því, með hliðsjón af framburði aðila- og vitna fyrir dómi og yfirlitum yfir símsvörun í símann, að ekki hafi verið krafist tafarlausra viðbragða af hans hálfu við erindum sem í símann bárust. Á hinn bóginn fólst í bakvaktinni, þó ekki hafi oft eða mikið á það reynt, að stefnanda bar á vakt að vera reiðubúinn að sinna útkalli eða annarri vinnuskyldu ef svo bar undir. Með vísan til þessa verður að telja í ljós leitt að aðstæður hafi verið slíkar að fyrrgreint ákvæði kjarasamningsins hafi átt við og hafi stefnda því borið að greiða stefnanda sem svarar 16,5% af dagvinnulaunum fyrir hverja klukkustund á bakvakt virka daga en 25% af sömu launum á almennum frídögum og stórhátíðum, en um er að ræða lágmarkskjör launþega samkvæmt kjarasamningi fyrir slíka bakvakt. Að virtu því sem að framan greinir, er krafa stefnanda um vangreiddar greiðslur fyrir bakvaktir tekin til greina, þó þannig að þær skulu reiknast sem 16,5% af dagvinnulaunum stefnanda fyrir hverja klukkustund virka daga en 25% af sömu launum á almennum frídögum og stórhátíðum. Stefndi hefur öðru leyti ekki mótmælt samantekt stefnanda yfir vangreiddar bakvaktagreiðslur og verður honum því gert að greiða stefnanda 982.328 krónur vegna þessa kröfuliðar. Stefnandi byggir að auki á því að hann eigi óuppgerða frídaga vegna vinnu um helgar á tímabilinu frá september 2012 til starfsloka í júlí 2015. Stefndi byggir kröfu um sýknu af þessum þætti málsins á því að stefnandi hafi, í ljósi stöðu sinnar hjá stefnda, sjálfur borið ábyrgð á því að hann fengi vikulegan frídag eða að fresta vikulegum frídegi þannig að í stað hans kæmu tveir samfelldir frídagar á 14 daga tímabili. Þá hafi helgarvinna stefnanda öll farið fram í vinnuferðum erlendis, án samþykkis yfirmanns, á grundvelli ákvörðunar stefnda sjálfs. Stefndi hefur vísað til starfsmannahandbókar á innra neti stefnda um að starfsmenn skuli ekki vinna á sunnudögum í „startup“ ferðum erlendis nema að beiðni verkkaupa og/eða framkvæmdastjóra. Í ákvæði 2.4 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Verkfræðingafélags Íslands o.fl. er fjallað um lágmarkshvíld. Þar er meðal annars kveðið á um að vinnutíma skuli haga þannig á hverjum sólarhring að starfsmaður fái að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld. Þá kemur fram í ákvæði 2.4.3 að á hverju sjö daga tímabili skuli starfsmaður að minnsta kosti fá einn vikulegan frídag og skuli almennt miða við að sá frídagur sé á sunnudegi. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt, með samkomulagi við starfsmann, að fresta vikulegum frídegi þannig að í stað hans komi tveir samfelldir frídagar á tveim vikum. Í málsgögnum liggja fyrir tímaskráningarskýrslur og yfirvinnuskýrslur vegna vinnu stefnanda erlendis. Stefnda mátti samkvæmt því vera kunnugt um að stefnandi hefði ítrekað innt af hendi vinnu á sunnudögum í þessum ferðum og jafnframt að stefnandi nýtti ekki rétt til frídaga sem af því leiddi. Samkvæmt því sem fram er komið í málinu gerði stefndi engar athugasemdir við framangreint og getur því ekki borið fyrir sig að stefnandi hafi með þessu tekið sér sjálftöku um frídaga eða að ónýttir frídagar skuli vera niður fallnir. Með því að stefndi hefur ekki haldið því fram, að frídagafjöldi vegna helgarvinnu stefnanda sé rangt reiknaður, verður þessi kröfuliður tekinn til greina að fullu, samtals 787.622 krónur.  Að lokum byggir stefnandi á því að á starfstímanum hafi honum í níu skipti verið gert að vinna lengri vaktir en svo að hann næði 11 klukku­stunda lágmarkshvíld fyrir upphaf næsta vinnudags. Af þeim sökum eigi hann uppsafnaðan en óuppgerðan frítökurétt. Stefndi hefur ekki mótmælt kröfunni að öðru leiti en með vísan til þess að um ráðningarsamband aðila hafi gilt kjarasamningur Félags ráðgjafarverkfræðinga en þeirri málsvörn stefnda hefur þegar verið hafnað. Verður krafa stefnanda í þessum þætti málsins því tekin til greina, enda um lágmarksrétt stefnanda að ræða samkvæmt ákvæði 2.4.2 í þeim kjarasamningi sem um starfið gilti, en krafan hefur ekki sætt tölulegum athugasemdum. Samkvæmt því ber stefnda að greiða stefnanda samtals 29.619 krónur vegna vangoldins frítökuréttar. Samkvæmt því sem að framan er rakið verður stefnda gert að greiða stefnanda 1.953.400 krónur (52.338 + 101.493 + 982.328 + 787.622 + 29.619) með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir. Rétt þykir að miða upphafstíma dráttarvaxta við málshöfðun, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Með hliðsjón af þessum málsúrlitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  D ó m s o r ð: Stefndi, Naust Marine ehf., greiði stefnanda, Gunnari Hrafni Hall, 1.953.400 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. september 2016 til greiðsludags og 800.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 527/2017
Líkamstjón Vinnuslys Frávísunarkröfu hafnað Skaðabætur Eigin sök
A krafðist viðurkenningar á rétti til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu B ehf. hjá S hf. vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í vinnuslysi hjá B ehf. á Keflavíkurflugvelli í ágúst 2010. Var A að vinna í farmrými vöruflutningaflugvélar við hleðslu og tók þar við fiskpökkum af færibandi og raðaði í farmrýmið. Hönd A klemmdist milli færibands og járnkeflis þegar hann hefði verið að reyna að ná taki á fiskpakka sem dottið hafði af færibandinu og til að losa sig hafði hann fengið samstarfsmanns sinn til að breyta um snúningsátt á færibandinu. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að ósannað væri að A hefði sótt öryggisnámskeið vegna starfa á flughlaði en í skýrslu fyrir dómi hefði fyrirsvarsmaður B ehf. kveðið engan eiga að starfa þar án þess að hafa lokið slíku námskeiði. Þá hefði A ekki fengið neina kennslu eða þjálfun til þeirra verka sem hann var að sinna á slysdegi en á B ehf. hefði hvílt skylda til að annast það, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og 8. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja. Þá var talið að þótt viðbrögð A hefðu ef til vill ekki verið rétt yrði hann ekki með hliðsjón af aldri hans og öðrum atvikum látinn bera hluta af tjóni sínu sjálfur, sbr. 1. mgr. 23. gr. a skaðabótalaga nr. 50/1993. Var krafa A því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ásmundur Helgason landsréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2017. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Krafa áfrýjanda um frávísun málsins er á því reist að lýsing í stefnu til héraðsdóms á málsástæðum og öðrum atvikum, sem gera þurfi grein fyrir til að samhengi málsástæðna verði ljóst, sé svo óskýr og villandi að hún fullnægi ekki fyrirmælum e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Nánar tiltekið hafi því verið lýst í stefnunni að stefndi hafi fest hægri hönd sína í færibandi, slasast við það, en fengið svo samstarfsmann sinn til þess að breyta um snúningsátt á færibandinu svo það gengi í öfuga átt. Áfrýjandi kveður þessa lýsingu ekki bera með sér að um mikilvægt atriði í málinu hafi verið að ræða. Síðar hafi þó komið í ljós að við það að láta færibandið ganga í öfuga átt hafi hönd stefnda orðið fyrir mestum skaða. Í hinum áfrýjaða dómi sé og á því byggt að slysið hafi orðið er færibandinu var snúið til baka. Þótt stefndi hafi búið yfir vitneskju um þetta, þegar málið var höfðað, hafi ekkert verið vikið að þessu í stefnu og skorti þar því umfjöllun um mikilvægasta þátt málsins, sjálfan tjónsatburðinn. Það hafi ekki verið fyrr en við skýrslutökur að upplýsingar um þetta hafi komið fram. Áfrýjandi telur að sá grundvöllur sem stefndi hafi byggt mál sitt á frá upphafi hafi verið ,,í verulegu ósamræmi við það sem lagt var upp síðar í málinu.“ Þar sem stefnda hafi verið um þessi atriði kunnugt sé ekki unnt að miða við annað en að hann hafi höfðað málið á grundvelli forsendna sem hann vissi að væru rangar. Málið hafi því frá upphafi verið reist á óskýrum og röngum grundvelli og það verið í andstöðu við meginreglu réttarfars um glöggan og skýran málatilbúnað. Stefndi höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi 1. nóvember 2016 og krafðist viðurkenningar á rétti til skaðabóta úr ,,ábyrgðartryggingu APA ehf.“ hjá áfrýjanda vegna líkamstjóns sem hann hafi orðið fyrir í vinnuslysi hjá því fyrirtæki á Keflavíkurflugvelli 3. ágúst 2010. Í stefnu var lýst atvikum að slysinu og aðstæðum á vinnustað stefnda. Þar kom meðal annars fram að stefndi hafi við störf sín í farmrými flugvélar flækst með höndina í færibandi, sem hafi fært honum fiskpakka til hleðslu inni í rýminu. Hönd hans hafi klemmst milli færibands og járnkeflis sem tilheyrði búnaði þess. Til þess að losa sig hafi hann þurft að fá ,,samstarfsmann sinn til að breyta um snúningsátt á færibandinu svo það snerist í öfuga átt. Við breytingu á snúningsátt losnaði hönd“ stefnda. Í framhaldinu var svo gerð grein fyrir líkamstjóni stefnda og í því sambandi vitnað í læknisvottorð og lýst niðurstöðu annars læknis í álitsgerð hans um það hver hafi verið tímabundin og varanleg læknisfræðileg örorka stefnda vegna slyssins. Loks var leitast við að rökstyðja hvers vegna talið væri að áfrýjandi ætti að bera ábyrgð á greiðslu bóta vegna líkamstjónsins. Þótt lýsing á atvikum, og málsástæðum á þeim reistum, í stefnu til héraðsdóms hefði mátt vera gleggri um hvenær og hvernig líklegt hafi verið að líkamstjónið hefði einkum orðið er þess að gæta að atvikum var þar lýst í heild og tíundaðar þær málsástæður sem leiða ættu til skaðabótaábyrgðar. Auk stefnu og skrár um framlögð gögn lagði stefndi fram 17 skjöl við þingfestingu málsins. Meðal þeirra var skýrsla Vinnueftirlits ríkisins 3. ágúst 2010 og skýrsla lögreglu 6. sama mánaðar, ásamt fjölda ljósmynda. Í báðum þessum skjölum er leitt að því getum hvenær líkamstjón stefnda hafi einkum orðið. Þá voru jafnframt lögð fram læknisfræðileg gögn um áverka og afleiðingar líkamstjónsins. Ágallar þeir á málatilbúnaði stefnda, sem áður greinir, komu með engum hætti í veg fyrir að áfrýjandi gæti frá upphafi haldið uppi þeim vörnum sem þurfti. Loks er þess að geta að við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af stefnda, samstarfsmanni hans þegar slysið varð og fyrirsvarsmanni APA ehf., vinnuveitanda stefnda á slysdegi. Að því búnu var málið nægilega upplýst og héraðsdómara ekkert að vanbúnaði að dæma málið svo sem gert var. Er ekki tilefni til að fallast á að slíkir annmarkar hafi verið á málatilbúnaði stefnda að frávísun gæti varðað samkvæmt e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. II Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var stefndi 19 ára á slysdegi. Hann var ráðinn tímabundið til starfa hjá APA ehf. frá 25. maí til 31. ágúst 2010 og vann í vöruskemmu félagsins á Keflavíkurflugvelli. Vegna manneklu var hann beðinn um að vinna við hleðslu vöruflutningaflugvélar. Við þá vinnu var hann í farmrými vélarinnar þar sem þrengsli voru og tók þar við fiskkössum af færibandi og raðaði í farmrýmið. Samstarfsmaður stefnda stjórnaði færibandinu og verður að telja að hann hafi stýrt framkvæmd vinnunnar á staðnum. Ósannað er að stefndi hafi sótt öryggisnámskeið vegna starfa á flughlaði en í skýrslu fyrir dómi kvað fyrirsvarsmaður APA ehf. engan eiga að starfa á flughlaði án þess að hafa lokið slíku námskeiði. Stefndi hafði heldur ekki fengið kennslu eða þjálfun til þeirra verka sem hann var sendur til að sinna 3. ágúst 2010, en á vinnuveitanda hans hvíldi skylda til að annast það, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og 8. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja. Þegar stefndi hafði fest hönd sína í færibandinu og búið var að stoppa það var því snúið til baka til að losa hönd stefnda. Voru engin verkfæri tiltæk til að losa höndina með öðrum hætti. Ákvörðun um að snúa færibandinu til baka var ekki, þrátt fyrir beiðni stefnda, á hans ábyrgð eins og aðstæður voru. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um saknæma háttsemi sem APA ehf. ber ábyrgð á samkvæmt reglunni um vinnuveitandaábyrgð og leiðir til greiðsluskyldu áfrýjanda sem ábyrgðartryggjanda félagsins. Slys stefnda var með þeim hætti að hann flæktist í færibandi og klemmdist þegar hann var að sinna starfi sínu hjá APA ehf. Leggja verður til grundvallar við úrlausn málsins frásögn hans um að hann hafi verið að reyna að ná taki á fiskpakka, sem dottið hafði af færibandinu, til þess að forða honum frá skemmdum. Þótt viðbrögð stefnda hafi ef til vill ekki verið rétt verður hann ekki með hliðsjón af aldri hans og öðrum atvikum látinn bera hluta af tjóni sínu sjálfur, sbr. 1. mgr. 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993. Verður því einnig staðfest niðurstaða héraðsdóms um það efni. Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms verður staðfest. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnda, A, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.       Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2017                 Mál þetta höfðaði A, […] með stefnu birtri 1. nóvember 2016 á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík.  Málið var dómtekið 9. maí sl.                  Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu APA ehf. hjá stefnda vegna líkamstjóns sem stefnandi hlaut í vinnuslysi á Keflavíkurflugvelli þann 3. ágúst 2010.  Stefnandi krefst einnig máls­kostnaðar.                  Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar.                  Stefnandi vann hjá APA ehf. á Keflavíkurflugvelli sumarið 2010, þá 19 ára gamall.  Var hann í vöruskemmu félagsins.  Þann 3. ágúst var hann vegna manneklu settur í að vinna við hleðslu vöruflutningavélar Bláfugls.  Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst hann ekki áður hafa verið látinn vinna úti á flughlaði.  Hann hafi annars verið í vöruskemmu, tekið við fiski og sett á bretti.                  Stefnandi sagði að umræddur dagur hefði verið mjög annasamur.  Hann hefði verið inni í flugvélinni að taka við fiskikössum af færibandi og handraða í vélina, en Haraldur Magnússon hefði sett á bandið.  Kassarnir hefðu komið of ört og hann hefði ekki ráðið við þetta.  Einn kassinn hefði dottið af bandinu og hann gripið hann og þrýst upp undir bandið svo hann færi ekki.  Við þetta hafi hægri höndin fest í bandinu.  Hann hafi þá ýtt á stöðvunarrofann.  Haraldur hefði reynt að losa hann.  Síðan hefðu þeir spólað bandið til baka.  Læknar hefðu sagt sér að mesti skaðinn hefði orðið þegar spólað var til baka.  Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði beðið Harald að spóla til baka.                  Stefnandi sagði að það hefði alltaf verið tönnlast á því að kassarnir mættu ekki skemmast.                  Stefnandi kvaðst hafa farið á námskeið um flugöryggi, en hann hefði misst af námskeiði um öryggi á flughlaði.  Hann sagði að aðstæður í vélinni hefðu verið erfiðar og hann hefði ekki fengið hnépúða, svo hann gæti verið á hnjánum.  Hann hafi verið alveg í keng við þessa vinnu.                  Vitnið Haraldur Magnússon kom fyrir dóm og gaf skýrslu.  Hann kvaðst hafa verið almennur starfsmaður í fraktskemmu, en hafa unnið talsvert lengur en stefnandi.  Þeir hafi verið að hlaða aftari lest í vélinni.  Hann kvaðst ekki vita af hverju stefnandi hafi verið í þessu, en hann hafi yfirleitt ekki verið úti á flughlaði.  Stefnandi hafi verið að ná í kassa sem var að falla niður af bandinu og kvaðst Haraldur hafa heyrt að bandið fór að hökta og þá hafi hann séð að höndin á stefnanda var föst á milli bandsins og tveggja kefla, sem halda því strekktu.  Stefnandi hafi ekki getað hreyft sig.  Þeir hafi ekki haft nein verkfæri til að klippa á bandið.  Hann kvaðst hafa spurt stefnanda hvort hann gæti beðið á meðan hann sækti verkfæri, en stefnandi hafi sagt að hann gæti það ekki.  Þá hafi þeir snúið bandinu til baka.  Haraldur kvaðst ekki muna hvort stefnandi hefði beðið um að bandinu yrði snúið til baka.  Hann hafi heyrt brothljóð þegar bandið sneri til baka.                  Haraldur sagði að sá sem væri inni í vélinni stjórnaði hraðanum á bandinu, hann stöðvaði það þegar hann þyrfti, stýrði álaginu.                  Haraldur sagði að stefnandi hefði verið sumarstarfsmaður í vöruhúsi, hann hefði ekki áður verið úti á flughlaði.                  Í skýrslu Sigþórs Kristins Skúlasonar, framkvæmdastjóra APA, kom fram að engin gögn væru lengur til um námskeið sem stefnandi sótti, svo langt væri síðan þessi atvik gerðust.  Sérstakt námskeið væri haldið fyrir starfsmenn á flughlaði.  Hann kvaðst ekki muna eftir því að Vinnueftirlitið hefði gert einhverjar athugasemdir.                  Vinnuveitandi stefnanda, APA ehf., hafði ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum.                  Vinnueftirlitnu var tilkynnt um slysið og fór starfsmaður þess þegar á vettvang.  Eftirlitið gerði engar sérstakar athugasemdir, en rannsókn þess var sýnilega ekki ítarleg.                  Málsástæður og lagarök stefnanda                 Í stefnu er byggt á því að slysið verði rakið til vanbúnaðar og saknæmrar og ólögmætrar háttsemi sem vinnuveitandi stefnanda, APA ehf. beri ábyrgð á.  APA hafi haft ábyrgðartryggingu hjá stefnda.                  Stefnandi bendir á að hann hafi einungis verið 19 ára gamall og ekki áður unnið í farmrými flugvélar.  Þá hafi hann ekki lokið námskeiði um öryggi á flughlaði.  Vinnuveitandi stefnanda hafi brotið gegn eigin vinnureglum með því að senda hann til vinnu á flughlaði, án þess að hafa lokið öryggisnámskeiði.                  Stefnandi telur að verulega hafi skort á leiðbeiningar til hans og þjálfun.  Vísar stefnandi hér til skyldu vinnuveitanda samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 46/1980.                  Stefnandi vísar til þess að fram komi í skýrslu lögreglu að engar hlífar hafi verið á færibandinu til að koma í veg fyrir að einhver festist á milli færibandsins og járnstangarinnar undir því.  Þetta telur stefnandi að hafi verið óforsvaranlegt.                  Stefnandi byggir einnig á því að nauðsynlegt hefði verið að verkstjóri væri nærstaddur, vegna ungs aldurs síns og reynsluleysis.  Telur stefnandi að verkstjóri hafi brugðist öllum skyldum sínum.                  Stefnandi mótmælir því að hann hafi sjálfur átt sök á slysinu.  Bendir hann á að vinnuveitandi beri höfuðábyrgð á því vinnuumhverfi sem hann búi starfsmönnum sínum.  Þá vísar stefnandi til 23. gr. a skaðabótalaga, en bætur vegna vinnuslysa skerðist ekki vegna eigin sakar nema hinn slasaði hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.                  Málsástæður og lagarök stefnda                 Stefndi byggir á því að vinnuveitandi stefnanda beri ekki hlutlæga ábyrgð á slysinu og að hann eigi ekki sök á því.                  Stefndi byggir á því að slysið verði rakið til óhappatilviljunar eða athafna stefnanda sjálfs.  Ekki hafi verið sýnt fram á að öryggiskröfum hafi ekki verið fullnægt.                  Stefndi segir að ekki hafi verið neitt að færibandi því sem notað var.  Vinnu­eftirlitið hafi ekki gert neinar athugasemdir við ástand þess.  Þá hafi verk stefnanda verið einfalt og ekki kallað á sérstakar leiðbeiningar.  Á flugvellinum gildi strangar öryggiskröfur sem öllum, sem hafi aðgangsheimild að vellinum, beri að kynna sér.  Stefnandi hafi haft slíka aðgangsheimild.                  Stefndi bendir á þá niðurstöðu Vinnueftirlitsins að orsök slyssins hafi verið sú að stefnandi fór með höndina inn á sjálft klemmusvæðið meðan færibandið var í gangi.  Orsök slyssins hafi því verið athafnir stefnanda sjálfs.  Þá byggir stefndi á því að sönnunarbyrðin hvíli alfarið á stefnanda.                  Stefndi ber fyrir sig reglu 51. og 124. gr. laga nr. 30/2004.  Stefndi segir að stefnanda hafi verið synjað um bætur þann 7. janúar 2011.  Frestur til að höfða mál eða leggja málið fyrir Úrskurðarnefnd hafi verið 12 mánuðir frá þeim degi.  Stefnandi hafi borið málið undir nefndina og hún skilað áliti 21. mars 2011.  Stefndi byggir á því að lög nr. 14/1905 gildi um slit á frestum samkvæmt 124. gr. laga nr. 30/2004.  Því hafi nýr 12 mánaða frestur byrjað að líða 21. mars 2011.  Stefnandi hafi ekkert aðhafst innan frestsins.                 Þá byggir stefndi á því að samkvæmt gögnum hafi stöðugleikapunktur verið fjórum mánuðum eftir slysið, þ.e. þann 3. desember 2010.  Samkvæmt vottorði dags. 12. desember 2011 hafi óþægindi verið horfin.  Því hafi meira en fjögur ár liðið frá því að stefnanda hafi orðið ljós hugsanleg krafa án þess að hann leitaði viðurkenningar hennar.                  Vegna síðastgreinds atriðis telur stefndi jafnframt að stefnandi hafi glatað kröfu sinni fyrir tómlæti.  Þá skipti þessi dráttur máli við mat á sönnun, en á þessum langa tíma hafi möguleikar á sönnunarfærslu glatast vegna þess að gögnum hafi verið eytt.                  Verði fallist á að vinnuveitandi stefnanda hafi átt einhverja sök á slysinu byggir stefndi á því að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að stinga hönd sinni undir keflið á færibandinu.  Því geti hann ekki átt rétt á bótum.                  Loks er mótmælt vöxtum af kröfu stefnanda, en ekki þarf að gera grein fyrir mótmælum þar sem stefnandi krefst ekki dóms fyrir vöxtum.                  Niðurstaða                 Atvik að slysi stefnanda eru að mestu óumdeild.  Hönd stefnanda festist undir kefli á færibandi.  Brugðist var við með því að snúa bandinu til baka og sennilega hefur sú aðgerð gert afleiðingar óhappsins alvarlegri.                  Leggja verður til grundvallar að stefnandi hafi ekki áður unnið úti á flughlaði eða inni í flugvél við hleðslu.  Það stoðar ekki fyrir stefnda að bera fyrir sig að gögn um námskeiðahald séu ekki lengur til staðar.  Verður byggt á þeirri frásögn stefnanda að hann hafi ekki sótt neitt námskeið um öryggi á flughlaði.                  Fram kom í skýrslum fyrir dómi að sá starfsmaður sem er inni í flugvélinni geti stýrt hraða bandsins og stöðvað það þegar kassar berast of ört inn í vélina.  Fram kom í skýrslu stefnanda að kassarnir hefðu borist ört eftir bandinu og hann ekki ráðið almennilega við hraðann.  Bendir þetta til þess að honum hafi ekki verið leiðbeint nægilega áður en verkið hófst eða að verkstjórn hafi verið ábótavant.                  Þegar stefnandi hafði fest höndina undir bandinu kunnu hann og samstarfs­maður hans engin ráð til að losa hana án þess að spóla til baka.  Verður talið að hér hafi skort á þjálfun þeirra og verkstjórn á vettvangi, sem hefði getað tryggt eðlileg og skjót viðbrögð við óhappinu.  Ekki er að fullu upplýst hvort stefnandi eða samstarfs­maður hans ákvað að spóla til baka, en eins og hér stendur á þykir það ekki hafa úrslitaáhrif um niðurstöðu málsins.                  Stefnandi hefur ekki valdið slysinu af stórfelldu gáleysi.  Þótt talið yrði að hann hafi hvatt samstarfsmann sinn til að spóla færibandinu til baka væri það ekki stórkostlega gálaust af hans hálfu.                  Vegna þess sem hér hefur verið rakið verður talið að slys stefnanda hafi orðið vegna atvika sem vinnuveitandi hans ber ábyrgð á.                  Krafa stefnanda er um viðurkenningu bótaskyldu og er höfð uppi á hendur stefnda sem ábyrgðartryggjanda hins bótaskylda, sbr. 44. gr. laga nr. 30/2004.  Regla 51. gr. sömu laga mælir fyrir um frest sem vátryggður í skaðatryggingum hefur til tiltekinna aðgerða að viðlögðum missi bótaréttar, en stefnandi hefur ekki stöðu vá­tryggðs gagnvart stefnda.  Ákvæði 124. gr. sömu laga gildir aðeins í slysa-, sjúkra- og heilsutryggingum og verður henni því ekki beitt hér.  Krafa stefnanda fyrnist á 10 árum samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007.  Þá hefur ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti um að gæta réttar síns eða hafa kröfu sína uppi.  Þótt langur tími líði án þess að mál sé höfðað felur það eitt ekki í sér tóm­læti.                  Vaxtakrafa verður ekki dæmd hér og verður því ekki leyst úr mótmælum við slíkri kröfu.                  Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu stefnanda um viðurkenningu réttar hans til greiðslu skaðabóta, án lækkunar vegna sakarskiptingar.  Í samræmi við þá niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.000.000 króna í máls­kostnað.  Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.                  Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en lögmenn og dómari voru sammála um að endurflutningur væri óþarfur.  Dómsorð                   Viðurkenndur er réttur stefnanda, A, til óskertra skaðabóta úr hendi stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., vegna líkamstjóns er hann varð fyrir í vinnuslysi á Keflavíkurflugvelli 3. ágúst 2010.                  Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað. 
Mál nr. 10/2018
Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna Akstur sviptur ökurétti Reynslulausn Skilorðsrof Stjórnarskrá Mannréttindasáttmáli Evrópu Dómari Stjórnsýsla Réttlát málsmeðferð Dómstóll
X var sakfelldur í héraði og fyrir Landsrétti fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Fyrir Hæstarétti krafðist X aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms en til vara sýknu af kröfum ákæruvaldsins á þeim grundvelli að skipun eins dómara sem sat í dómi í málinu fyrir Landsrétti hefði ekki verið í samræmi við lög, svo sem áskilið væri í 59. gr. stjórnarskrárinnar og 2. málslið 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hefði þetta leitt til þess að fyrir Landsrétti hefði X ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, eins og honum væri tryggður réttur til í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. málslið 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í niðurstöðu Hæstaréttar var m.a. rakið að við skipun dómara við Landsrétt hefði verið fylgt formreglum III. kafla lag nr. 50/2016 um dómstóla, svo og ákvæðis IV til bráðabirgða við þau lög, en þó að því frátöldu að við meðferð Alþingis á tillögum dómsmálaráðherra hefðu ekki verið greidd atkvæði um skipun hvers dómara fyrir sig. Hefði það þó ekki verið annmarki sem vægi hefði. Því næst var rakið að rétturinn hefði í dómum í málum nr. 591/2017 og 592/2017 slegið því föstu að slíkir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar dómara við Landsrétt að skaðabótaskyldu hefði varðað úr hendi íslenska ríkisins. Þegar afstaða væri tekin til afleiðinga þessara annmarka yrði á hinn bóginn að líta til þess að ótímabundin skipun allra dómaranna fimmtán við Landsrétt hefði orðið að veruleika við undirritun skipunarbréfa þeirra 8. júní 2017. Þau hefðu öll fullnægt skilyrðum 2. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2016 til að hljóta skipun í embætti og hefðu frá þeim tíma notið þeirrar stöðu samkvæmt 61. gr. stjórnarskrárinnar að þeim yrði ekki vikið úr embætti nema með dómi. Frá því skipun þeirra hefði tekið gildi hefðu þau samkvæmt sama ákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. og 1 mgr. 43. gr. laga nr. 50/2016, jafnframt borið þá höfuðskyldu að fara í embættisverkum sínum einungis eftir lögum. Þeim hefði einnig verið áskilið með síðastnefndu lagaákvæði sjálfstæði í dómstörfum en jafnframt lagt þar á herðar að leysa þau á eigin ábyrgð og lúta í þeim efnum aldrei boðvaldi annarra. Að þessu virtu taldi Hæstiréttur að ekki væri næg ástæða til að draga á réttmætan hátt í efa að X hefði, þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra, fengið notið í Landsrétti réttlátrar meðferðar máls síns fyrir óháðum og óhlutdrægum dómendum. Var aðalkröfu og varakröfu X því hafnað. Þá var dómur Landsréttar staðfestur um sakfellingu X og ákvörðun refsingar hans.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari. Að fengnu áfrýjunarleyfi 17. apríl 2018 skaut ríkissaksóknari málinu til Hæstaréttar 20. sama mánaðar í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur Landsréttar verði staðfestur. Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð. I Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðaði mál þetta með ákæru 31. janúar 2017, þar sem ákærða var gefið að sök að hafa 24. október 2016 ekið tiltekinni bifreið sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna eftir nánar tilgreindri leið í Kópavogi og að endingu í veg fyrir aðra bifreið þannig að árekstur hafi orðið. Í ákærunni var vísað til þess að í blóðsýni úr ákærða hafi mælst 65 ng af kókaíni í millilítra blóðs og var háttsemi hans talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þess var krafist að ákærða yrði gerð refsing og hann sviptur ökurétti, sbr. 101. og 102. gr. sömu laga, svo og að hann yrði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar. Við þingfestingu málsins fyrir Héraðsdómi Reykjaness 2. mars 2017 fékk ákærði frest til að taka afstöðu til sakargifta, en í þinghaldi 10. sama mánaðar viðurkenndi hann „skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru“, svo sem fært var í þingbók. Af þessum sökum var farið með málið upp frá því eftir 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og það dómtekið 16. mars 2017. Með dómi 23. sama mánaðar var ákærði, sem er fæddur 1985, sakfelldur samkvæmt ákæru. Í dóminum voru í einstaka atriðum rakin margítrekuð brot ákærða gegn umferðarlögum, sem ná allt aftur til ársins 2005 og hafa falist í ölvunarakstri, akstri undir áhrifum fíkniefna og akstri án ökuréttinda, svo og að hann hafi með brotunum, sem um ræddi í ákæru, rofið skilyrði reynslulausnar, sem honum var veitt 14. mars 2016 í tvö ár á 270 daga samanlögðum eftirstöðvum fangelsisrefsingar sem hann hafði áður hlotið með fimm tilteknum dómum. Á þessum grunni var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í sautján mánuði og sviptingu ökuréttar ævilangt ásamt því að greiða allan sakarkostnað, samtals 275.808 krónur. Ákærði lýsti 6. apríl 2017 yfir áfrýjun framangreinds dóms til Hæstaréttar og gaf ríkissaksóknari út því til samræmis áfrýjunarstefnu sama dag. Í greinargerð ákærða til réttarins 31. maí 2017 var þess krafist að refsing hans yrði milduð, en í greinargerð ákæruvaldsins sama dag var krafist staðfestingar héraðsdóms. Að fram komnum þessum greinargerðum var málið tilbúið til munnlegs flutnings fyrir Hæstarétti, en með því að það var ekki flutt fyrir réttinum fyrir lok ársins 2017 færðist frekari meðferð þess til Landsréttar, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga nr. 49/2016, svo sem þeim var breytt með 4. gr. laga nr. 53/2017. Landsréttur tilkynnti ríkissaksóknara og verjanda ákærða 29. janúar 2018 að ákveðið hafi verið að málið yrði munnlega flutt þar fyrir dómi 6. febrúar sama ár og myndu sitja í dómi landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson og Þorgeir Ingi Njálsson. Í bréfi til Landsréttar 2. febrúar 2018 lýsti verjandi ákærða þeirri skoðun að nánar tilgreindir annmarkar hafi verið á málsmeðferð við skipun fjögurra af fimmtán dómurum við þann dómstól og væri því unnt að líta svo á að þeir dómarar hafi ekki verið skipaðir í samræmi við lög, en meðal þeirra væri Arnfríður Einarsdóttir. Krefðist því ákærði þess að hún viki sæti í málinu. Að undangengnum munnlegum málflutningi um þessa kröfu 6. febrúar 2018 gekk úrskurður Landsréttar 22. sama mánaðar, þar sem henni var hafnað. Ákærði kærði þann úrskurð til Hæstaréttar, en með dómi 8. mars 2018 í máli nr. 5/2018 var því vísað frá réttinum. Í framhaldi af því, sem að framan greinir, var málið munnlega flutt að efni til fyrir Landsrétti 13. mars 2018. Með hinum áfrýjaða dómi 23. sama mánaðar var héraðsdómur staðfestur og ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað að fjárhæð samtals 509.625 krónur. II 1 Aðalkrafa ákærða fyrir Hæstarétti um að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur ásamt varakröfu hans um sýknu er reist á því að málsmeðferð við skipun Arnfríðar Einarsdóttur, sem eins og fyrr segir sat í dómi í máli þessu fyrir Landsrétti, í embætti dómara við þann dómstól hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 50/2016 um dómstóla og stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem tillaga dómsmálaráðherra um skipun dómarans, sem forseti Íslands varð við, hafi verið andstæð þeirri óskráðu meginreglu að stjórnvaldi beri að skipa hæfasta umsækjandann í stöðu eða embætti. Því hafi þessi skipun ekki verið í samræmi við lög, svo sem gert sé að fortakslausu skilyrði um dómara í 59. gr. stjórnarskrárinnar og 2. málslið 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Að auki hafi þetta leitt til þess að fyrir Landsrétti hafi ákærði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, eins og honum sé tryggður réttur til í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. málslið 1. mgr. 6. gr. fyrrnefnds samnings. 2 Atvikum þeim varðandi skipun dómara við Landsrétt, sem ákærði vísar til samkvæmt framansögðu, er ítarlega lýst í dómum Hæstaréttar 19. desember 2017 í málum nr. 591/2017 og 592/2017. Í meginatriðum snúa þau að því að með lögum nr. 50/2016 var mælt fyrir um stofnun nýs áfrýjunardómstóls á millidómstigi, Landsréttar, sem taka skyldi til starfa við gildistöku laganna 1. janúar 2018 að teknu tilliti meðal annars til sérstakra reglna í ákvæði IV til bráðabirgða við þau. Í 1. mgr. þess bráðabirgðaákvæðis var nánar tiltekið mælt svo fyrir að ljúka skyldi skipun allra fimmtán dómara við Landsrétt ekki síðar en 1. júlí 2017, en lagt var í hendur dómnefndar samkvæmt 4. gr. a. þágildandi laga nr. 15/1998 um dómstóla að meta hæfni umsækjenda um þau embætti og láta ráðherra í té umsögn um þá. Tekið var fram í sömu málsgrein bráðabirgðaákvæðisins að ráðherra væri óheimilt að skipa í embætti mann, sem nefndin hefði ekki metið hæfastan meðal umsækjenda, nema því aðeins að Alþingi samþykkti tillögu ráðherra um skipun annars nafngreinds umsækjanda, sem fullnægði öllum skilyrðum samkvæmt 2. og 3. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2016. Þá var að auki mælt svo fyrir í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins að þegar ráðherra gerði tillögur um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skyldu þær lagðar fyrir Alþingi til samþykkis. Ef Alþingi samþykkti tillögur ráðherra bæri honum að leggja þær fyrir forseta Íslands til skipunar í embættin, en í gagnstæðu tilviki skyldi ráðherra leggja nýjar tillögur fyrir Alþingi. Í samræmi við framangreint var birt auglýsing 10. febrúar 2017 eftir umsækjendum um laus embætti fimmtán dómara við Landsrétt og skyldi umsóknarfresti ljúka 28. sama mánaðar. Áðurnefnd Arnfríður Einarsdóttir var meðal umsækjenda um þessi embætti. Dómnefndin lauk mati á 33 umsækjendum með umsögn 19. maí 2017, sem hafði meðal annars að geyma ítarlegar upplýsingar um hvert þeirra og samanburð á þeim með tilliti til hæfni til að gegna embætti dómara við Landsrétt, en um þetta viðfangsefni nefndarinnar voru nánari fyrirmæli í áðurnefndri 4. gr. a. laga nr. 15/1998 og reglum nr. 620/2010 um störf dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti. Í niðurstöðum nefndarinnar, sem fram komu í ályktarorði umsagnarinnar, voru talin upp fimmtán af umsækjendunum og þau sögð vera hæfust úr hópi þeirra. Arnfríður Einarsdóttir var ekki meðal þeirra. Hvorki var í ályktarorði né annars staðar í umsögninni vikið að stöðu þessara fimmtán umsækjenda innbyrðis í þeirra hópi eða stöðu hinna átján í hæfnisröð, en fram kom að öll hafi þau verið talin hæf til að gegna embætti dómara við Landsrétt. Fyrir liggur á hinn bóginn að dómnefndin hafi í störfum sínum beitt sérstakri stigatöflu, þar sem tólf nánar tilteknir matsþættir, sem fjallað var um í umsögn nefndarinnar, hafi hver um sig fengið fyrir fram ákveðinn hundraðshluta heildarstiga og hverjum umsækjanda síðan verið metin stig innan ramma hvers þáttar. Samanlagður fjöldi stiga hvers umsækjanda hafi svo ráðið niðurstöðu um röðun þeirra. Að loknu þessu verki dómnefndarinnar mun dómsmálaráðherra hafa fengið frá henni sundurliðaðar upplýsingar um stigafjölda hvers umsækjanda. Í samræmi við áðurnefnt ákvæði IV til bráðabirgða við lög nr. 50/2016 sendi dómsmálaráðherra forseta Alþingis bréf 29. maí 2017 með tillögum um skipun fimmtán dómara við Landsrétt. Ellefu af þeim voru í hópi þeirra fimmtán umsækjenda, sem dómnefnd hafði metið hæfust, en fjórir úr þeim hópi voru á hinn bóginn ekki teknir upp í tillögur ráðherra. Voru þetta nánar tiltekið fjórir karlar og gegndi einn þeirra starfi prófessors í lögum, annar var héraðsdómari og hinir tveir hæstaréttarlögmenn, en dómnefnd hafði í stigatöflu sinni skipað þessum umsækjendum í 7., 11., 12. og 14. sæti. Í stað þessara fjögurra gerði ráðherra tillögur um að jafn margir héraðsdómarar, tvær konur og tveir karlar, yrðu skipuð í embætti landsréttardómara, en í stigatöflu dómnefndarinnar höfðu þau hafnað í 17., 18., 23. og 30. sæti meðal umsækjenda. Mun Arnfríður Einarsdóttir hafa verið sá umsækjandi, sem var í 18. sæti. Í bréfi ráðherrans var vikið að ástæðum þess að tillögurnar væru ekki í öllum atriðum í samræmi við niðurstöður dómnefndarinnar og sagði meðal annars í því sambandi: „Í umsögn dómnefndar er reynsla af dómarastörfum lögð að jöfnu við reynslu af lögmannsstörfum og reynslu af störfum í stjórnsýslunni. Ef lögð er saman reynsla af fræðistörfum og kennslu ásamt menntun þá vegur það jafn þungt og þrír fyrrgreindu þættirnir. Þrír matsþættir, sem sérstaklega er vikið að í reglum nr. 620/2010, eru hins vegar látnir liggja milli hluta með því að gera ekki upp á milli umsækjenda hvað þá þætti varðar. Um er að ræða matsþætti er lúta að stjórn þinghalda, samningu og ritun dóma og almenna starfshæfni. Með því að gera ekki tilraun til þess að leggja tvo fyrrnefndu þættina til grundvallar heildarmati verður ekki annað ráðið en að reynsla dómara fái ekki það vægi sem tilefni er til og gert er ráð fyrir í reglum nr. 620/2010 ... Eftir að hafa farið yfir öll gögn málsins, þ.m.t. umsóknir, umsögn dómnefndar, andmæli umsækjenda og vinnugögn nefndarinnar, sem ráðherra kallaði sérstaklega eftir, er það niðurstaða ráðherra að fleiri umsækjendur hafi komið til greina heldur en tilteknir hafi verið í ályktarorðum dómnefndar. Þannig hafi þeir fimmtán umsækjendur sem nefndin tiltók allir komið til greina sem og aðrir sem búa yfir áralangri dómarareynslu, alls 24 umsækjendur.“ Farið var á Alþingi með framangreindar tillögur dómsmálaráðherra eftir ákvæðum 5. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis með því að á þingfundi 29. maí 2017 greindi þingforseti frá því að erindi þetta hafi borist, svo og að því væri vísað til meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Dómsmálaráðherra beindi til þeirrar þingnefndar minnisblaði 30. maí 2017, þar sem að nokkru var fjallað nánar um tillögur ráðherrans, en í minnisblaðinu sagði meðal annars: „Fyrir liggur að skipa þarf 15 nýja dómara í einu vetfangi. Brýnt er að tryggja skilvirkni dómstólsins frá fyrsta degi svo og eðlilegan málsmeðferðartíma fyrir réttinum. Er það mat ráðherra að nauðsynlegt sé að gera reynslu af dómarastörfum hærra undir höfði en gert var í mati dómnefndar þannig að tryggt sé að meirihluti dómenda við Landsrétt hafi haldgóða reynslu af dómarastörfum. Var vægi þessa matsþáttar því aukið frá því sem var í heildarmati dómnefndar. Það að veita dómarareynslu aukið vægi gerði það að verkum að neðangreindir umsækjendur, sem ráðherra gerir tillögu til Alþingis um að skipaðir verði í embætti landsréttardómara voru að mati ráðherra einnig hæfastir til viðbótar við þá sem dómnefnd hafði áður metið hæfasta ... Slík sjónarmið eru bæði málefnaleg og lögmæt. Þá liggur fyrir að lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gilda um tillögu ráðherra ... Ráðherra er í mati sínu bundinn af því að velja þá sem hæfastir eru til að gegna embætti landsréttardómara. Í fyrirliggjandi máli eru að mati ráðherra ofangreindir fjórir umsækjendur að auki hæfastir til að gegna embætti dómara við Landsrétt. Byggist það mat ráðherra á ítarlegri yfirferð á gögnum málsins, þ.m.t. umsókna, umsagnar dómnefndar, andmæla umsækjenda, vinnugagna nefndarinnar og með þau málefnalegu sjónarmið að leiðarljósi sem áður hafa verið rakin. Ráðherra hefur ekki gert athugasemd við undirbúning málsins af hálfu dómnefndar. Ráðherra telur dómnefnd hafa upplýst málið nægilega og fullnægjandi rannsókn farið fram á þeim matsþáttum sem eru til grundvallar niðurstöðu. Ráðherra telur rétt að vægi dómsstarfa sé þyngra en dómnefnd gerði ráð fyrir. Nefndin hefur nú þegar lagt mat á þennan matsþátt og allar upplýsingar um dómarareynslu umsækjenda liggja fyrir í gögnum málsins. Engar nýjar upplýsingar eða gögn hafa legið til grundvallar tillögu ráðherra.“ Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis klofnaði í afstöðu sinni til tillagna ráðherra. Í áliti meiri hluta nefndarinnar 31. maí 2017 var lagt til að Alþingi ályktaði að samþykkja tillögur dómsmálaráðherra um að fimmtán nafngreindir menn yrðu skipaðir dómarar við Landsrétt, en í áliti minni hlutans sama dag var á hinn bóginn lagt til að málinu yrði vísað frá. Á þingfundi 1. júní 2017 voru fyrst greidd atkvæði um tillögu minni hluta þingnefndarinnar, sem felld var með 31 atkvæði gegn 30, en síðan um tillögu meiri hlutans, sem var samþykkt með 31 atkvæði gegn 22. Voru þannig í raun greidd í einu lagi atkvæði um tillögur dómsmálaráðherra um skipun allra dómaranna fimmtán. Samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra ritaði forseti Íslands 8. júní 2017 undir skipunarbréf þeirra fimmtán dómara við Landsrétt, sem ráðherra hafði gert tillögur um og Alþingi samþykkt. Meðal þeirra dómara var Arnfríður Einarsdóttir. Tveir umsækjendanna, sem voru meðal þeirra fimmtán sem dómnefnd hafði metið hæfasta en hlutu samkvæmt tillögum dómsmálaráðherra ekki embætti dómara við Landsrétt, höfðuðu í júní 2017 mál gegn íslenska ríkinu. Þeir kröfðust hvor fyrir sitt leyti að ógilt yrði ákvörðun dómsmálaráðherra 29. maí 2017 um að leggja ekki til að þeir yrðu skipaðir í stöðu dómara við Landsrétt „og jafnframt eða til vara“ að ógilt yrði sú ákvörðun að leggja til við forseta Íslands að þeir yrðu ekki meðal þeirra fimmtán, sem skipaðir yrðu. Einnig kröfðust þeir þess að viðurkenndur yrði réttur þeirra til skaðabóta vegna fjártjóns, sem leitt hafi af þessum ákvörðunum ráðherra, svo og að þeim yrðu hvorum dæmdar 1.000.000 krónur í miskabætur „vegna þeirrar ólögmætu meingerðar gegn æru ... sem fólst í framangreindum ákvörðunum.“ Með dómum Hæstaréttar 31. júlí 2017 í málum nr. 451/2017 og 452/2017 var fyrstnefndri dómkröfu beggja umsækjendanna vísað frá héraðsdómi. Til hinna krafnanna tveggja var á hinn bóginn tekin efnisleg afstaða í áðurnefndum dómum réttarins 19. desember 2017 í málum nr. 591/2017 og 592/2017. Í báðum tilvikum var íslenska ríkið sýknað af kröfum umsækjendanna um viðurkenningu á rétti til skaðabóta fyrir fjártjón, en dæmt til að greiða hvorum þeirra 700.000 krónur í miskabætur ásamt málskostnaði á báðum dómstigum. 3 Í málatilbúnaði ákærða er því meðal annars borið við til stuðnings fyrrgreindri aðalkröfu hans fyrir Hæstarétti og varakröfu að það leiði af 59. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að skipun manns í embætti dómara þurfi í hvívetna að fara að lögum. Sé á því misbrestur og skipunin þar með ólögmæt „sé viðkomandi dómari ekki með réttu handhafi dómsvalds og dómsúrlausnir dóms sem hann skipar teljist þar með dauður bókstafur“, svo sem segir í greinargerð ákærða fyrir Hæstarétti. Ályktun sú, sem dregin er í tilvitnuðum orðum, fengi ekki staðist nema litið yrði svo á að skipun manns í embætti dómara við aðstæður sem þessar væri markleysa að lögum, en ekki aðeins að annmarkar á skipuninni gætu valdið ógildingu hennar. Til þess verður að líta að í fyrrgreindri umsögn dómnefndar 19. maí 2017 var komist að þeirri niðurstöðu að umsækjendurnir þrjátíu og þrír fullnægðu öll skilyrðum laga til að gegna embætti dómara við Landsrétt og hafa ekki verið bornar brigður á það. Við skipun dómaranna var fylgt formreglum III. kafla laga nr. 50/2016, svo og ákvæðis IV til bráðabirgða við þau lög, en þó að því frátöldu að við meðferð Alþingis á tillögum dómsmálaráðherra um skipun dómaranna var ekki farið að fyrirmælum 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins að því leyti að greiða bar atkvæði um skipun hvers dómara fyrir sig en ekki þá alla í senn, svo sem gert var. Um þetta atriði hefur á hinn bóginn þegar verið fjallað í áðurnefndum dómum Hæstaréttar í málum nr. 591/2017 og 592/2017 og komist þar að þeirri niðurstöðu að ekki væri um að ræða annmarka á málsmeðferð sem vægi hefði. Að virtu þessu ásamt því að allir dómararnir fimmtán voru skipaðir í embætti með bréfum forseta Íslands 8. júní 2017, sem dómsmálaráðherra undirritaði ásamt honum, er ekki unnt að líta svo á að skipun Arnfríðar Einarsdóttur hafi verið markleysa og úrlausnir Landsréttar, sem hún stendur að ásamt öðrum, af þeim sökum „dauður bókstafur.“ Þegar metið er hvort ákærði hafi vegna setu Arnfríðar Einarsdóttur í dómi fyrir Landsrétti ekki notið réttlátrar meðferðar þessa máls síns fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli í samræmi við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, verður að gæta að því að í fyrrnefndum dómum Hæstaréttar í málum nr. 591/2017 og 592/2017 hefur þegar verið slegið föstu að slíkir annmarkar hafi verið á málsmeðferð dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar landsréttardómaranna fimmtán að skaðabótaskyldu hafi varðað úr hendi íslenska ríkisins. Í máli þessu hefur því í engu verið hnekkt og hafa þeir dómar þannig í þessu efni sönnunargildi hér samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um þetta verður jafnframt sérstaklega að árétta að ekki gat það staðist, sem byggt var á í fyrrnefndu minnisblaði dómsmálaráðherra 30. maí 2017, að með því einu að auka vægi dómarareynslu frá því, sem dómnefnd hafði lagt til grundvallar í stigatöflu að baki umsögn sinni 19. sama mánaðar, en byggja að öðru leyti á „fullnægjandi rannsókn“ nefndarinnar á einstökum matsþáttum, gæti fengist sú niðurstaða að fjórir tilteknir umsækjendur um embætti dómara við Landsrétt féllu allir, en aðrir ekki, brott úr hópi þeirra fimmtán hæfustu og í stað þeirra færðust upp í þann hóp fjórir tilteknir umsækjendur öll með tölu öðrum fremur. Þegar afstaða er tekin til afleiðinga þessara annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra verður á hinn bóginn að líta til þess að ótímabundin skipun allra dómaranna fimmtán við Landsrétt, sem í engu hefur verið ógilt með dómi, varð að veruleika við undirritun skipunarbréfa þeirra 8. júní 2017. Þau fullnægðu öll sem áður segir skilyrðum 2. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2016 til að hljóta skipun í þessi embætti, þar á meðal því skilyrði 8. töluliðar þeirrar málsgreinar að teljast hæf til að gegna þeim í ljósi starfsferils og lögfræðilegrar þekkingar. Frá þeim tíma hafa þessir dómarar notið þeirrar stöðu samkvæmt 61. gr. stjórnarskrárinnar að þeim verður ekki vikið úr embætti nema með dómi. Frá því að skipun þessara dómara tók gildi hafa þau samkvæmt sama ákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. mgr. 43. gr. laga nr. 50/2016, jafnframt borið þá höfuðskyldu að fara í embættisverkum sínum einungis eftir lögum. Þeim hefur einnig verið áskilið með síðastnefndu lagaákvæði sjálfstæði í dómstörfum en jafnframt lagt þar á herðar að leysa þau á eigin ábyrgð og lúta í þeim efnum aldrei boðvaldi annarra. Er að þessu öllu virtu ekki næg ástæða til að draga á réttmætan hátt í efa að ákærði hafi, þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra, fengið notið í Landsrétti réttlátrar meðferðar máls síns fyrir óháðum og óhlutdrægum dómendum. Verður því aðalkröfu ákærða og varakröfu hafnað. III Með vísan til forsendna dóms Landsréttar, svo og forsendna dóms Héraðsdóms Reykjaness í máli þessu frá 23. mars 2017, verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Með tilliti til þess að ákvörðun Hæstaréttar um að verða við umsókn ákærða um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar í málinu var í öllu verulegu reist á því að nauðsyn bæri til að eyða óvissu um áðurgreind atriði, sem bjuggu að baki aðalkröfu hans um ómerkingu dómsins og varakröfu um sýknu, verður að fella kostnað af áfrýjun þessari á ríkissjóð. Skal því allur sakarkostnaður hér fyrir dómi greiðast á þann hátt, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Dómur Landsréttar skal vera óraskaður. Allur kostnaður af áfrýjun dómsins til Hæstaréttar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar lögmanns, 1.240.000 krónur.   Dómur Landsréttar 23. mars 2018. Mál þetta dæma landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson og Þorgeir Ingi Njálsson. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar Íslands 6. apríl 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Gögn málsins bárust Landsrétti 2. janúar 2018 en samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 49/2016, sbr. 76. gr. laga nr. 117/2016 og 4. gr. laga nr. 53/2017, hefur málið verið rekið fyrir Landsrétti frá þeim tíma. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjaness 23. mars 2017 í málinu nr. S-49/2017. 2        Í greinargerð sinni til Hæstaréttar 31. maí 2017 krafðist ákærði þess að refsing hans yrði milduð, auk þess sem hann krafðist málsvarnarlauna úr ríkissjóði. Í upphafi aðalmeðferðar 13. mars 2018 lagði ákærði fram bókun þar sem kemur fram breytt kröfugerð hans. Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst ákærði málsvarnarlauna fyrir Landsrétti úr ríkissjóði. 3        Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.       Niðurstaða 4        Í framangreindri bókun kemur fram að þar sem ákærði telji að við skipun dómara í Landsrétt hafi verið brotið gegn 59. gr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. málslið 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, hafi hann ákveðið að breyta kröfugerð sinni frá því sem greinir í áfrýjunaryfirlýsingu og greinargerð hans til Hæstaréttar og krefjast aðallega sýknu í málinu.   5        Fyrir liggur að við meðferð málsins fyrir héraðsdómi játaði ákærði þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og hann var dæmdur fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Sú afstaða ákærða var áréttuð af verjanda hans við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti. Að þessu gættu hefur ákærði ekki fært fram haldbær rök fyrir sýknukröfu sinni. 6        Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. 7        Dæma ber ákærða til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Landsrétti, sem verða ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði. Dómsorð:       Héraðsdómur skal vera óraskaður.       Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 509.625 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar lögmanns, 496.000 krónur.   Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. mars 2017. Mál þetta, sem var dómtekið 16. þessa mánaðar, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 31. janúar síðastliðinn, á hendur X, kt. [...], […], „fyrir brot á umferðarlögum með því að hafa mánudaginn 24. október 2016 í Kópavogi ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist kókaín 65 ng/ml) austur Hlíðarhjalla og inn á gatnamót Hlíðarhjalla og Dalvegar og í veg fyrir bifreiðina [...], þannig að árekstur varð“ og að hafa þannig brotið gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og 3. gr. laga nr. 24/2007. Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Um málsatvik er skírskotað til ákæru. Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök og var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð saka­mála nr. 88/2008 og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í sam­ræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök og eru þau rétt heimfærð til refsiákvæðis. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar. Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og gerir verjandi hans kröfu um þóknun vegna starfa sinna á rannsóknarstigi og fyrir dómi. Af hálfu ákærða hafa færð fyrir dóminn gögn um að hann sé í fastri vinnu, í sambúð og með börn á framfæri. Fyrir liggur að ákærði á að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2004, en þar af hafa eftir­greind brot hans áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu, sbr. 5. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940. Með sátt hjá lögreglustjóra [...] það ár, samþykkti ákærði greiðslu sektar og tímabundna sviptingu öku­réttar fyrir ölvunar­akstur. Með dómi […] 2005 var hann dæmdur til sektargreiðslu og tímabundinnar sviptingar ökuréttar fyrir sams konar brot. Með dómi […] sama ár var hann dæmdur í þrjátíu daga fangelsi, til sektargreiðslu og sviptur ökurétti ævi­langt, fyrir ölvunar- og hraðakstur. Með sátt hjá lögreglustjóra […] 2006 sam­þykkti hann sektargreiðslu fyrir sviptingar- og hraðakstur. Með dómi […] 2006 var hann dæmdur í 65 daga fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans áréttuð, vegna ölvunar- og sviptingaraksturs. Með dómi […] 2006 var hann dæmdur í þrjátíu daga fang­elsi fyrir sams konar brot, sem hann framdi […] 2006, en um var að ræða hegningar­auka við fyrr­greindan dóm frá […] sama ár. Með dómi […] 2010 var hann dæmdur í 45 daga fangelsi og ævilöng ökuréttar­svipting hans áréttuð, vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkni­efni, aksturs undir áhrifum slíkra efna og aksturs sviptur ökurétti. Með dómi […] 2011 var hann dæmdur í sextíu daga fangelsi fyrir að aka sviptur ökurétti. Með dómi […] 2012 var hann dæmdur í fimm mánaða fang­elsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans áréttuð, vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni, akstur undir áhrifum þess háttar efna og akstur sviptur ökurétti. Með dómi […] 2013 var hann dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og ævilöng ökuréttar­svipting hans áréttuð, vegna hraðaksturs, aksturs undir áhrifum ávana- og fíkni­efna og aksturs sviptur ökurétti, en um var að ræða hegningarauka við fyrrgreindan dóm frá […] 2012. Með dómi […] 2013 var hann dæmdur í sjö mánaða fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans áréttuð, vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna og sviptur ökurétti. Með dómi […] 2014 var hann dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og ævilöng ökuréttar­svipting hans áréttuð, fyrir sams konar brot, en um var að ræða hegningarauka við fyrrgreindan dóm frá […] 2013. Þann 14. mars á síðasta ári var ákærða veitt reynslulausn í tvö ár af eftir­stöðvum 270 daga refsingar samkvæmt framan­greindum dómum frá […] 2011, […] 2012, […] 2013, […] sama ár og […] 2014. Með brotum þeim sem hann er sakfelldur fyrir í máli þessu, hefur hann rofið ­skil­yrði þeirrar reynslulausnar og er hún því tekin upp og dæmd með í máli þessu með vísan til 1. mgr. 82. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016, sbr. 60. gr. almennra hegningar­laga. Samkvæmt því, að framan­greindu virtu og eftir 77. gr. sömu laga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sautján mánuði. Ekki eru efni til að skil­orðsbinda refsinguna. Með vísan til 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga, er ævilöng ökuréttar­svipting ákærða áréttuð. Á grundvelli 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, er ákærði dæmdur til að greiða sakar­kostnað málsins, sem samkvæmt yfirliti um slíkan kostnað og með stoð í öðrum framlögðum gögnum, nemur 105.928 krónum vegna rannsóknar málsins, og þóknun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttar­lögmanns, á rannsóknarstigi og fyrir dómi, sem þykir hæfilega ákveðin 169.880 krónur, að meðtöldum virðisauka­skatti. Hákon Þorsteinsson, aðstoðarmaður dómara, dæmir mál þetta. D ó m s o r ð: Ákærði, X, sæti fangelsi í sautján mánuði.  Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt. Ákærði greiði 275.808 krónur í sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns fyrir dómi og á rannsóknarstigi, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttar­lögmanns, 169.880 krónur.
Mál nr. 524/2017
Hjón Fjárskipti Skilnaðarsamningur Málamyndagerningur Ógilding samnings
M og K sóttu um leyfi til lögskilnaðar í janúar 2015 og gengust af því tilefni undir samkomulag um fjárskipti sín á milli þar sem tiltekin fasteign kom meðal annars í hlut K. Höfðaði K í kjölfarið mál á hendur M og krafðist þess að honum yrði gert að gefa út afsal sér til handa vegna 50% eignarhluta hans í fasteigninni. M krafðist sýknu á þeim grundvelli að hjúskapnum hefði einungis verið slitið til málamynda og því væri fjárskiptum milli aðila enn ólokið. Þá byggði M einnig á því að víkja bæri samkomulagi aðila til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Hæstiréttur taldi að M hefði hvorki sýnt fram á að skilnaður aðila og fjárskipti hefðu verið til málamynda, né að talið yrði ósanngjarnt af hálfu K að bera samninginn fyrir sig í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936. Var niðurstaða héraðsdóms um skyldu M til útgáfu afsalsins því staðfest.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Jóhannes Sigurðsson landsréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. ágúst 2017. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms en málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefnda hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og kemur krafa hennar um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti. I Áfrýjandi og stefnda gengu í hjúskap 31. desember 2011. Þau sóttu um lögskilnað 29. janúar 2015 og gerðu af því tilefni fjárskiptasamning sem tekinn var upp í hjónaskilnaðarbók embættis sýslumannsins á Norðurlandi eystra. Leyfi til lögskilnaðar var gefið út af sama embætti 30. sama mánaðar. Í málinu krefst stefnda þess að fá afsalað til sín skráðum eignarhluta áfrýjanda í fasteigninni [...] en samkvæmt fjárskiptum þeim sem tekin voru upp í hjónaskilnaðarbókina skyldi sú eign koma í hlut stefndu við lögskilnaðinn. Áfrýjandi krefst sýknu af þeirri kröfu og byggir á því að lögskilnaðurinn hafi verið til málamynda og fyrrgreindu samkomulagi um fjárskipti ekki ætlað gildi samkvæmt efni sínu. Tilefni skilnaðarins hafi verið að freista þess að sækja hærri bætur til handa stefndu, eftir að skilnaður væri gengin í gegn, en hún var öryrki. Aðilar hefðu eftir sem áður „haldið áfram sambandi sínu og sambúð, líkt og áður“. Þau hafi svo af öðrum ástæðum slitið samvistum í júlí 2016. Þá byggir áfrýjandi á því að samningurinn sem slíkur uppfylli ekki lágmarkskröfur um frágang og form, svo og að honum beri að víkja til hliðar á grundvelli ógildingarreglu 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga enda halli verulega á áfrýjanda í skiptum aðila. Með úrskurði 6. mars 2017 frestaði héraðsdómari málinu af sjálfsdáðum með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en hann áformaði að kynna lögreglu staðhæfingar áfrýjanda um tilgang skilnaðar hans og stefndu með tilliti til þess hvort um væri að ræða refsiverða háttsemi og fresta málinu meðan það væri til rannsóknar. Með dómi Hæstaréttar 27. mars 2017 í málinu nr. 174/2017 var sá úrskurður felldur úr gildi og málið í framhaldi af því tekið til aðalmeðferðar og efnisdóms. Undir áfrýjun málsins hefur stefnda lagt fram bréf Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra þess efnis að rannsókn á meintum fjársvikum málsaðila á þessum grundvelli hafi verið felld niður þar sem gögn málsins væru ekki talin nægileg eða líkleg til sakfellis. II Hvað sem líður upplýsingum um samskipti og samvistir málsaðila, sem og peningagreiðslur þeirra í millum, eftir að lögskilnaður þeirra öðlaðist gildi 30. janúar 2015, þá hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að skilnaður þeirra og fjárskipti í tilefni af honum hafi aðeins verið til málamynda. Þá er til þess að líta að þótt vanda hefði mátt betur til gerðar samnings aðila um fjárskipti uppfyllti hann formskilyrði 1. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, þar á meðal var hann staðfestur á þann hátt sem þar er áskilið. Stendur þá eftir að taka afstöðu til þeirrar málsástæðu áfrýjanda að víkja beri umræddu samkomulagi aðila til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Hefur áfrýjandi sérstaklega vísað til þess að ósanngjarnt sé af hálfu stefndu að bera samninginn fyrir sig þar sem með honum hafi verið vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga stefndu í hag. Sé samningur ógiltur með stoð í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 er vikið frá þeirri grundvallarreglu íslensks réttar að samninga beri að efna. Af því leiðir að sá sem krefst þess að það skuli gert vegna efnis samningsins, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina eða atvika, sem síðar komu til, sbr. 2. mgr. greinarinnar, ber sönnunarbyrði fyrir því að þessi atriði eigi að valda því að talið verði ósanngjarnt að viðsemjandi hans beri samninginn fyrir sig. Við mat á skilyrðinu um ósanngirni í skilningi 1. mgr. 36. gr. verður í máli þessu fyrst og fremst litið til efnis samningsins og atvika við samningsgerðina, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar, enda hvorki sýnt fram á ójafnræði með aðilum við samningsgerðina né að síðar tilkomin atvik hafi þýðingu við matið. Í málinu liggja ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar um verðmæti eigna aðila sem komu til skipta á því tímamarki sem um ræðir eða fjárhagsstöðu þeirra að öðru leyti. Áfrýjandi þykir þó hafa sýnt fram á, með upplýsingum um verðmæti þeirra fasteigna sem voru í þeirra eigu á umræddum tíma, að líkur séu fyrir því að ekki hafi verið um helmingaskipti að ræða. Til þess ber á hinn bóginn að líta að hjúskapur aðila stóð aðeins í rúm þrjú ár og litlar upplýsingar liggja fyrir um eignastöðu þeirra við upphaf hans en stefnda var þá [...] og áfrýjandi [...] ára. Bendir framburður aðila fyrir dómi raunar jafnframt til þess að þau hafi þrátt fyrir hjúskaparstöðu sína litið svo á að þau færu hvort um sig með eignarhald ákveðinna fasteigna, sbr. eftirfarandi fullyrðingu áfrýjanda: „Ég átti [...] einn“ sem og að stefnda hefði ein átt fasteignina í [...]. Þau höfðu bæði verið í hjúskap áður og því gengið í gegnum skilnað og þykir því sá framburður áfrýjanda ótrúverðugur að hann hafi hvorki gert sér grein fyrir þýðingu samkomulagsins né reglum hjúskaparlaga þar um. Í framangreindu endurriti úr hjónaskilnaðarbók er sérstaklega bókað af fulltrúa sýslumanns og undirritað fyrirvaralaust af málsaðilum „Gætt er leiðbeiningarskyldu samkvæmt hjúskaparlögum“. Að þessu virtu telst áfrýjandi ekki hafa axlað sönnunarbyrðina fyrir því að ætlaður munur á þeim verðmætum sem komu í hlut hvors málsaðila um sig samkvæmt fjárskiptasamningi þeim sem gerður var við lögskilnað þeirra, eigi að valda því að talið verði ósanngjarnt af hálfu stefndu að bera samninginn fyrir sig. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur. Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra þriðjudaginn 30. maí 2017 Mál þetta var höfðað 15. desember 2016 og dómtekið 8. maí. Stefnandi er K, [...].  Stefndi er M, [...]. Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert skylt með dómi að gefa út afsal til stefnanda fyrir 50% eignarhlut í fasteigninni [...]. Stefndi krefst sýknu.  Hvort um sig krefst málskostnaðar úr hendi hins. Meðferð málsins var frestað með úrskurði 6. mars, eftir að aðalmeðferð var hafin. Úrskurðurinn var ógiltur með dómi Hæstaréttar 27. mars. I Aðilar, sem höfðu verið í hjúskap frá 31. desember 2011, komu fyrir fulltrúa sýslumannsins á Norðurlandi eystra 29. janúar 2015 og sóttu um leyfi til lögskilnaðar.  Ekki var lagður fram sérstakur samningur um fjárskipti.  Fulltrúi sýslumanns færði til bókar að samningur væri um þau og síðan að stefnandi fengi í sinn hlut fasteign að [...],[...], verbúð og ökutækin [...] og [...]. Stefnandi fengi fasteign að [...] og ökutækin [...]og [...].  Neðanmáls er að finna ákvæði um að hvor aðili um sig taki við skuldum sem hvíli á viðkomandi eign.  Þar fyrir neðan er rituð dagsetningin 30/1 ´15 og ógreinilegt letur neðan við.  Leyfi til lögskilnaðar var gefið út 30. janúar 2015 og vísað til samkomulags um fjárskipti eins og það hefði verið bókað í hjónaskilnaðarbók. Krafa stefnanda er byggð á þessu samkomulagi.  Samkvæmt veðbandayfirliti eiga aðilar framangreinda fasteign að jöfnu.  Stefnandi tekur fram að frestur stefnda samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 31/1993 sé liðinn.  Leyfi til lögskilnaðar verði ekki hnekkt. II Stefndi segir að hjúskapnum hafi verið slitið að nafninu til og þau stefnandi hafi búið saman áfram í hálft annað ár frá því að þau fengu lögskilnaðinn. Stefndi hafi flutt lögheimili sitt til að fá skilnaðarleyfi. Eignaskipti hafi verið til málamynda. Skilnaðinum hafi einungis verið ætlað að hafa þau áhrif í raun að stefnandi fengi hærri bætur. Stefndi hafi því undirritað bókun sýslumanns án þess að velta henni fyrir sér. Sumarið 2016 hafi slitnað upp úr sambandi aðila. Hafi stefndi gengið út frá því að gerður yrði fjárskiptasamningur í kjölfar þess. Stefndi kveðst byggja á því að samkomulagið hafi verið málamyndagerningur og fjárskiptum aðila sé ekki lokið.  Af yfirliti um færslur á bankareikning stefnda megi sjá að hann hafi greitt stefnanda minnst 2.586.511 krónur frá því að skilnaðarleyfi var gefið út fram á sumar 2016.  Hafi stefnandi aðallega séð um fjármál og því hafi verið millifært á reikning hennar. Þau hafi greinilega verið með sameiginlegan fjárhag á þessum tíma. Þá segir stefndi að stefnandi geti ekki byggt rétt á samkomulagi sem hún hafi vitað að væri til málamynda. Til vara byggir stefndi á því að samkomulagið sé ósanngjarnt og beri að ógilda það með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Ósanngjarnt sé að bera það fyrir sig, sbr. 34. gr. laga nr. 7/1936. Segir hann að stefnandi hafi fengið tvær fasteignir í sinn hlut, báðar með töluverðri ,,eign í“. Stefndi hafi fengið fasteign sem hann hafi átt áður en stofnað var til hjúskapar. Hana hafi hann selt áður en aðilar slitu samvistum.  Hún hafi verið svo veðsett að minna en 100.000 krónur hafi komið í hlut stefnda.  Hafi hann varið þeim krónum til sameiginlegs heimilishalds aðila. Þá tekur stefndi fram að hann hafi ekki fengið nægilegar leiðbeiningar frá fulltrúa sýslumanns og sér hafi verið ókunnugt um reglur hjúskaparlaga um fjárskipti. III Aðilar gáfu skýrslur fyrir dómi. Þá gáfu skýrslur vitnin A systir stefnda og B stjúpmóðir stefnda. Styður framburður beggja vitnanna staðhæfingu stefnda um að aðilar hafi verið samvistum eftir skilnaðinn. Þrátt fyrir mótmæli stefnanda bendir það, að aðilar virðast hafa verið saman eftir skilnaðinn sem hjón væru og það að fjárhagur þeirra var að einhverju leyti samtvinnaður, til þess að skilnaðurinn hafi verið til málamynda.  Hvort sem svo var eða ekki verður þó að horfa til þess að aðilar eru sammála um að þau hafi nú slitið samvistum. Verður að miða við að samningurinn hafi þá orðið virkur þeirra á milli, enda gerðu þau ekki samkomulag um breytta skipan. Miðað við fullyrðingar stefnda um verðmæti fasteigna var vikið frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga. Stefndi hefur þó ekki skotið nægilegum stoðum undir þessa fullyrðingu með því að leggja fram tæmandi talningu hjúskapareigna hvors aðila um sig og yfirlit um verðmæti þeirra og fjárhæðir skulda. Verður því ekki fallist á að víkja samningnum til hliðar og ekki heldur á það að óheiðarlegt sé að bera hann fyrir sig. Samkvæmt þessu verður dómkrafa stefnanda tekin til greina. Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila. Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp dóminn. DÓMSORÐ Stefndi, M, skal gefa út afsal til stefnanda, K, fyrir 50% eignarhlutdeild sinni í fasteigninni [...]. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 601/2017
Ráðningarsamningur Vinnulaun
G höfðaði mál gegn F ehf. til heimtu launa sem hann taldi sig eiga inni hjá félaginu. Í ráðningarsamningi milli G og F ehf. var kveðið á um tiltekið tímakaup og var útreikningur kröfu G byggður á tímaskráningum hans sjálfs. F ehf. hélt því fram í málinu að skráningin væri röng og vinnuframlag G samkvæmt henni ósannað. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var af Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að tímaskráningar G væru handskráðar samtímaheimildir. Hefði F ehf. ekki lagt fram neina aðra tímaskráningu en honum hefði verið í lófa lagið að tryggja sér sönnun um vinnuframlag G með því að skrá vinnu hans með stimpilklukku eða yfirfara tímaskráningu hans jafnóðum. Yrði því að leggja tímaskráningu G til grundvallar við úrlausn málsins enda ekki við annað að styðjast og ekkert fram komið sem rýrði trúverðugleika þeirrar skráningar. Var F ehf. því gert að greiða G umkrafða fjárhæð.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Ingimundur Einarsson héraðsdómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. september 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að mál þetta hefur verið rekið samhliða öðru samkynja máli. Dómsorð:  Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Ferðaþjónusta og sumarhús ehf., greiði stefnda, György Evetovics, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Héraðsdóms Suðurlands fimmtudaginn 22. júní 2017             Mál þetta, sem tekið var til dóms 14. júní sl. er höfðað með stefnu birtri 14. júní 2016.             Stefnandi er Gyorgy Evetovics, kt. [...], Ungverjalandi.             Stefndi er Ferðaþjónusta og sumarhús ehf., kt. 711001-2630, Hörgslandi 1, Kirkjubæjarklaustri. Fyrirsvarsmaður stefnda er Ragnar B. Johansen, kt. [...], stjórnarmaður, Hörgslandi 1, Kirkjubæjarklaustri.             Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar samtals að fjárhæð 1.955.996 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 41.354 kr. frá 1. mars 2015 til 1. apríl 2015, þá af 228.028 kr. frá þeim degi til 1. maí 2015, af 518.426 kr. frá þeim degi til 1. júní 2015, af 1.325.974 kr. frá þeim degi til 1. júlí 2015, af 1.921.925 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og loks af 1.955.996 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk álags er nemi virðisaukaskatti af honum úr hendi stefnda.             Endanlegar dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en þær ella lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda. Upphaflega gerði stefndi kröfu um skuldajöfnuð skv. 28. gr. laga nr. 91/1991 en frá því var fallið við aðalmeðferð. Við endurflutning vildi stefndi endurvekja þá kröfu.               Við aðalmeðferð gaf stefnandi skýrslu, sem og áður greindur fyrirsvarsmaður stefnda. Þá gáfu vitnaskýrslur Zsuzsanna Aleksic fyrrverandi starfsmaður stefnda og stefnandi í sambærilegu máli gegn stefnda, Guðrún Elín Pálsdóttir formaður Verkalýðsfélags Suðurlands,  Þorvaldur Kári Þorsteinsson endurskoðandi stefnda, Sveinbjörn Sveinsson fyrrum starfsmaður stefnda, og Tamita Loise Olayvar fósturdóttir fyrirsvarsmanns stefnda.             Aðalmeðferð málsins fór fram 24. mars 2017 en varð ekki dæmt innan tímamarka 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 og var munnlegur málflutningur endurtekinn 14. júní sl. og málið þá dómtekið á ný.             Málavextir             Stefndi rekur ferðaþjónustu og var stefnandi, sem er ungverskur ríkisborgari, starfsmaður hjá honum hluta ársins 2015. Aðilar eru sammála um að starfið hafi byrjað í febrúarmánuði og lokið í júlí sama ár.             Fram hefur verið lagt afrit af ráðningarsamningi milli aðila, gerður á eyðublaði frá Vinnumálastofnun. Segir þar að stefnandi sé ráðinn til starfa hjá stefnda með starfsheitið verkamaður, í fullt 100% starf og dagvinnu. Skuli laun fara samkvæmt kjarasamningi og greiðist 1.380 kr. á tímann. Laun skuli greidd mánaðarlega. Segir jafnframt að ráðningartími sé tímabundinn, en ekkert segir þó um hvenær ráðningu skuli ljúka. Þá segir um áunnin réttindi skv. kjarasamningi að þau miðist við fyrri ráðningu 24. febrúar 2015. Greiða skuli í Lífeyrissjóð Rangæinga og er Verkalýðsfélag Suðurlands tilgreint sem stéttarfélag. Ráðningarsamningurinn er dagsettur 20. júní 2015.             Þá hefur líka verið lagður fram ráðningarsamningur milli aðila, bæði á íslensku og ensku. Eru báðar útgáfurnar ódagsettar og virðast heimatilbúnar, en ekki gerðar á sérstöku eyðublaði. Í ensku útgáfunni, sem er undirrituð af báðum aðilum, segir að mánaðarlaun séu 376.614 kr. og 1.380 kr. á dagvinnutímann, en 2.484 kr. fyrir eftirvinnutíma. Fullt dagsverk sé reiknað áður en komi til þess að eftirvinna sé reiknuð. Starfsmaðurinn taki á sig að kaupa mat fyrir 25.000 kr. á mánuði og teljist það til launa. Ef starfsmaðurinn kaupi meira en fyrir 25.000 kr. á mánuði þá greiði hann það sjálfur. Dagvinnutími sé frá kl. 07.00 til 18:00 en ekki meira en 8 stundir á dag og sé ein stund til hádegisverðar. Starfsmaðurinn hafi fría gistingu, rafmagn, morgunmat og kvöldmat ef hann vinni og aðstoði í veitingastað. Starfsmaðurinn hafi óskað eftir að hætta starfinu 24. júlí 2015 og skipti ekki máli hvort hann hafi unnið uppsagnarfrest. Í íslensku útgáfunni segir ámóta auk þess að frítt húsnæði og rafmagn teljist til launa. Er þessi útgáfa aðeins undirrituð af stefnda, en undir er samkomulag um starfslok þar sem segir að stefnandi hafi ákveðið að hætta störfum 24. júlí 2015 og hafi unnið uppsagnarfrest skv. samkomulagi og er það undirritað af stefnanda. Er í samningi þessum hvorki vísað til kjarasamnings né verkalýðsfélags og ekkert segir um hvert starfið er.             Fyrir liggur að eftir starfslok leitaði stefnandi til Verkalýðsfélags Suðurlands og hafði uppi athugasemdir um launagreiðslur til sín. Í framhaldi af því krafði verkalýðsfélagið stefnda um ógreidd laun stefnanda með bréfi 22. september 2015 og var krafan 1.938.729 kr.             Stefndi hefur hafnað greiðsluskyldu.             Í málinu hefur verið lagt fram í frumriti handskrifað yfirlit stefnanda sjálfs yfir unnar stundir sínar á hverjum degi frá 24. febrúar 2015 til 24. júlí 2015 þegar hann lauk störfum. Eru kröfur stefnanda og útreikningur þeirra byggðar á skjali þessu. Ekki liggur fyrir í málinu önnur skráning á vinnu stefnanda.             Málsástæður og lagarök stefnanda             Stefnandi kveðst byggja á kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands vegna Vlf. Suðurlands m.a. og Samtaka atvinnulífsins vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi sem hann kveður marka grundvöll ráðningarsambands aðila og réttar stefnanda til endurgjalds fyrir vinnu sína í þágu stefnda.             Kveður stefnandi að nefndur kjarasamningur eigi við um þau störf sem stefnandi hafi innt af hendi og hafi því að geyma þau lágmarkskjör sem um þau gildi, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og 7. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.             Þá byggir stefnandi og á því að allan óskýrleika á inntaki ráðningarsamnings aðila beri að túlka stefnanda í hag sbr. gr. 1.15 í kjarasamningi, sbr. auglýsingu nr. 503 frá 1997 um gildistöku tilskipunar Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE um skyldu vinnuveitanda til að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi, en láti atvinnurekandi það undir höfuð leggjast beri hann hallann af skorti á sönnun í því efni.             Jafnframt kveðst stefnandi reisa kröfu sína á meginreglu samningaréttar um skyldu til efnda gerðra samninga. Gerður hafi verið skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda í lok júní 2015 og hafi samningurinn verið gerður á eyðublað Vinnumálastofnunar. Þar hafi verið samið um að kaup og kjör stefnanda skyldu vera í samræmi við nefndan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands vegna Vlf. Suðurlands enda hafi stefnandi verið ráðinn í starf verkamanns og með félagsaðild í Vlf. Suðurlands og sé stefndi bundinn af þeim kjörum sem þar hafi verið samið um. Í því samhengi byggir stefnandi sérstaklega á því að sá samningur sem stefndi hafi útbúið sjálfur og gert stefnanda að undirrita við starfslok, þann 24. júlí 2017, sé ógildur og að engu hafandi. Þar sé um að ræða eftirágerning sem stefndi hafi knúið stefnanda til að rita undir en ella fengi hann ekki uppgjör launa við starfslok. Þannig hafi stefnanda verið þröngvað til að rita undir samning um lakari kjör en upphaflegur samningur hafi gert ráð fyrir og sem hafi verið forsenda ráðningar stefnanda, sem hafi komið hingað gagngert til að sinna vinnu hjá stefnda. Eðli máls samkvæmt hafi stefnanda ekki verið unnt að starfa í samræmi við hinn síðari samning þar sem hann hafi þá þegar innt af hendi þá vinnuskyldu sem honum hafi verið ætlað og raunar langt umfram það. Því verði ekki breytt fyrir liðinn tíma. Síðari samningurinn milli aðila sem gerður hafi verið í tilefni starfsloka stefnanda verði því ekki lagður til grundvallar samningssambandi aðila og beri því að víkja honum í heild, eða að því marki sem hann sé óhagstæður stefnanda, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga enda bersýnlega ósanngjarnt að halda honum upp á stefnanda.             Þá byggir stefnandi auk þess á því að sá samningur sé ógildur með vísan til 31. gr. laga nr. 7/1936, stefnandi hafi verið háður stefnda með þeim hætti að honum hafi verið allar bjargir bannaðar nema fá laun sín greidd úr hendi hans við starfslok, stefnandi hafi haft húsnæði á vegum stefnda og staðið því veglaus í raun í framandi landi. Stefndi hafi þannig haft öll ráð stefnanda í hendi sér, auk þess sem stefnandi hafi ekki þekkt til þeirra reglna vinnuréttar sem gildi hérlendis.             Stefnandi hafi unnið í fullu starfi og vel það. Samkvæmt ráðningarsamningi hafi honum borið að vinna reglulegan vinnudag og beri því að reikna honum laun samkvæmt því. Í því felist að honum hafi borið að fá mánaðarlaun en ekki tímakaupsvinnu þar sem stefnda sé tækt að haga málum svo hann leggi mat á talningu vinnustunda og hagnýti útreikningsviðmið fyrir full laun, 172 stundir, sbr. gr. 1.7 í kjarasamningi áður en til álita komi greiðsla yfirvinnulauna. Slík framsetning sé röng og í ósamræmi við ákvæði kjarasamnings og feli auk þess í sér mikla hættu á misnotkun. Stefnanda beri með réttu dagvinnulaun fyrir vinnuframlag á dagvinnutíma og yfirvinnulaun fyrir vinnu sem unnin sé utan þess tímabils, sbr. 2. kafla kjarasamnings. Samkvæmt gr. 2.1.1 sé dagvinnutímabil frá kl. 8-17 mánudaga til föstudaga, en upphaf dagvinnu skuli greina í ráðningarsamningi. Það hafi ekki verið gert í tilviki stefnanda en við útreikninga stéttarfélagsins hafi verið við það miðað að dagvinna hæfist við upphaf tímaskráningar stefnanda og lyki kl. 17:00 en þá tæki við yfirvinnutímabil á degi hverjum. Taki útreikningar stéttarfélagsins á kröfu stefnanda mið af þessu. Stefnandi hafi sjálfur haldið utan um tíma sína, sbr. framlögð handskrifuð yfirlit, en engin stimpilklukka hafi verið á staðnum. Stefndi hafi hvorki mótmælt tímaskráningum stefnanda þrátt fyrir áskoranir þar um né lagt fram aðra tímaskráningu og beri því að miða við skáningu stefnanda í þessu efni.             Um launakröfu vegna febrúarmánaðar 2015.             Stefnandi kveðst hafa unnið 46 stundir í febrúar 2015. Þar af hafi 32 stundir fallið á tímabil dagvinnu en 14 stundir á yfirvinnutímabil og miðist útreikningur stéttarfélagsins við það. Stefnandi hafi fengið greiddar 1.380 kr. í tímann í dagvinnu og 2.484 kr. í yfirvinnu úr hendi stefnda sbr. ráðningarsamning og launaseðil og séu það þær fjárhæðir launa sem útreikningurinn byggi á enda hafi stefndi viðurkennt í verki að það skyldi vera kaupgjald stefnanda.             Í samræmi við ofangreint eigi rétt laun stefnanda fyrir dagvinnu í febrúar að vera 44.160 kr. en 34.776 fyrir vinnu unna á yfirvinnutímabili. Laun stefnanda fyrir febrúar skv. framansögðu hefðu því átt að nema 78.936 kr. Á þá fjárhæð hafi borið að reikna orlof 10,17% skv. gr. 5.1 í kjarasamningi eða 8.028 kr. Að því virtu hafi stefnda borið að greiða stefnanda alls 86.934 kr. fyrir vinnu í febrúar en hann hafi hins vegar aðeins greitt 45.610 kr. Vanti því alls 41.354 kr. upp á rétt laun stefnanda fyrir febrúar og sé krafist leiðréttingar á því. Um launakröfu vegna marsmánaðar 2015.             Stefnandi kveðst hafa unnið alla daga marsmánaðar 2015 án þess að fá nokkurn frídag. Stefnandi kveðst hafa unnið alls 278,5 vinnustundir í mars. Þar af 171 stund á tímabili dagvinnu en 107,5 stundir á yfirvinnutímabili og miðist útreikningur stéttarfélagsins við það. Í samræmi við það hafi rétt laun stefnanda fyrir dagvinnu í mars átt að vera 235.980 kr. og 267.030 fyrir vinnu unna á yfirvinnutímabili. Þá skyldi stefnandi hafa 8.280 kr. vegna skerðingar á lágmarkshvíld sbr. gr. 2.4 í kjarasamningi sbr. og 53. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum. Skv. gr. 2.4 kjarasamningsins skuli haga vinnutíma þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld. Verði því við komið skuli dagleg hvíld ná til tímabilsins milli kl. 23:00 til kl. 06:00. Séu starfsmenn beðnir um að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð sé heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, 1 ½ klst (dagvinna) safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Í öllum tilvikum sé óheimilt að skerða átta klst. hvíld. Í mars 2015 hafi stefnandi ekki náð 11 stunda hvíldartíma aðfaranótt föstudagsins 6. mars og heldur ekki aðfararnótt föstudagsins 13. og 27. mars. Samtals hafi vantað 4 stundir upp á lögboðna lágmarkshvíld sem margfaldað með 1,5 geri 6 tíma í frítökurétt á dagvinnukaupi sem stefnda hafi borið að gera upp við stefnanda. Þar sem misbrestur hafi orðið á því sé krafist leiðréttingar á því.             Kveður stefnandi að laun hans fyrir marsmánuð hefðu skv. framansögðu átt að nema 511.290 kr. Á þá fjárhæð hafi borið að reikna orlof 10, 17% skv. gr. 5.1 í kjarasamningi eða 51.988 kr. Að því virtu hafi stefnda borið að greiða stefnanda alls 536.288 kr. fyrir mars en hann hafi hins vegar aðeins greitt 376.614 kr. Vanti því alls 186.674 kr. upp á rétt laun stefnanda fyrir marsmánuð og sé krafist leiðréttingar á því.             Kveður stefnandi að kröfur hans um leiðréttingar á launum fyrir aðra mánuði byggi á sömu ákvæðum kjarasamningsins og hér hafi verið gerð grein fyrir eftir atvikum og vísar stefnandi til þeirra í öllum tilvikum.             Um launakröfu vegna aprílmánaðar 2015.             Stefnandi kveðst hafa unnið alla daga aprílmánaðar 2015. Þar af 169,5 stundir í dagvinnu. Í aprílmánuði hafi stefnandi unnið á skírdag, fimmtudaginn 2. apríl, föstudaginn langa, 3. apríl, páskadag, 5. apríl, annan í páskum, mánudaginn 6. apríl og sumardaginn fyrsta fimmtudaginn 23. apríl. Samkvæmt gr. 2.3 í kjarasamningi skuli allir þessir dagar vera frídagar launafólks. Beri því að greiða dagvinnulaun fyrir þessa daga falli frídagur á virkan dag, sbr. gr. 1.10 kjarasamnings. Sé unnið á frídegi beri að auki að greiða yfirvinnukaup fyrir unninn tíma, nema skírdag og páskadag en þá daga beri að greiða sérstakt stórhátíðarkaup ofan á dagvinnulaun fyrir vinnu þessa daga, sbr. gr. 1.8.2. Við útreikning á kröfu stefnanda hafi verið tekið tillit til þessa eftir atvikum þannig að auk dagvinnulauna dagana 2., 6. og 23. apríl séu stefnanda reiknaðar samtals 25,5 stundir í yfirvinnu vegna vinnu þá daga. Þá sé stefnanda reiknuð laun fyrir 8 dagvinnustundir auk 7,5 stunda á stórhátíðarkaupi vegna vinnu föstudaginn langa og 6,5 stundir á stórhátíðarkaupi vegna vinnu á páskadag.             Þá kveðst stefnandi ekki hafa náð lágmarkshvíld í 7 skipti í aprílmánuði. Samtals hafi vantað samanlagt 7 stundir upp á lágmarkshvíld stefnanda þann mánuð. Því hafi borið að reikna stefnanda frítökurétt 7 x 1,5 eða sem nemi 10,5 stundum vegna þessa. Það hafi ekki verið gert og sé því gerð krafa um greiðslu frítökuréttar vegna apríl sem nemi 18.630 kr.             Í samræmi við ofangreint hafi rétt laun stefnanda fyrir apríl átt að vera 233.910 kr. fyrir vinnu unna á dagvinnutímabili en 316.710 kr. fyrir yfirvinnu og 40.329 kr. í stórhátíðarkaup. Þá hafi stefnandi átt að fá greiddar 14.329 kr. vegna skerðingar á lágmarkshvíld (frítökuréttur). Samtals hafi laun stefnanda fyrir apríl því átt að nema 605.439 kr. og á þá fjárhæð hafi borið að reikna orlof 10,17% eða 61.573 kr. Alls hafi því stefnda borið að greiða stefnanda 667.012 kr. fyrir vinnu í apríl en hafi aðeins greitt honum 376.614 kr. Vanti því alls 290.398 kr. upp á rétt laun stefnanda þann mánuð og sé krafist leiðréttingar á því.             Um launakröfu vegna maímánaðar 2015.             Stefnandi kveðst hafa fengið frí þann 1. maí en hafa unnið alla aðra daga mánaðarins. Fyrir það vinnuframlag hafi borið að greiða stefnanda sem nemur 155,5 stundum í dagvinnu, 257,5 stundir á yfirvinnulaunum og 14,5 stundir á stórhátíðarkaupi vegna vinnu í þann tíma á hvítasunnudag, sbr. gr. 2.3 í kjarasamningi.             Vinnutími stefnanda í maí hafi orðið til þess að lágmarkshvíld hafi ítrekað verið skert, en stefnandi hafi ekki notið lágmarkshvíldar einn einasta dag í þeim mánuði. Hafi vantað alls 77,5 stundir uppá í þeim efnum í maí og það x 1,5 veiti stefnanda rétt til frítökuréttar sem nemi 160.425 stundum á dagvinnukaupi.             Í samræmi við ofangreint hafi rétt laun stefnanda fyrir maí átt að vera 227.700 kr. fyrir vinnu unna á dagvinnutímabili en 639.630 fyrir yfirvinnu og 47.095 í stórhátíðarkaup. Þá hafi stefnandi átt að hafa 160.425 kr. vegna skerðingar á lágmarkshvíld. Laun stefnanda fyrir maí skv. framansögðu hefðu því átt að nema 1.074.850 kr. Á þá fjárhæð hafi borið að reikna orlof 10,17%, 109.312 kr. Að því virtu hafi stefnda borið að greiða stefnanda alls 1.184.162 kr. fyrir vinnu í maí en hafi aðeins greitt 376.614 kr. Vanti því 807.548 kr. upp á rétt laun stefnanda þann mánuð og sé krafist leiðréttingar á því.             Um launakröfu vegna júnímánaðar 2015.             Stefnandi kveðst hafa fengið frí þann 17. júní 2015, en hafa unnið alla aðra daga mánaðarins. Fyrir það vinnuframlag hefði átt að greiða honum sem nemur 155 stundum í dagvinnu og 224 stundir á yfirvinnulaunum.             Lágmarkshvíld stefnanda í júní hafi sætt skerðingu á hverjum degi, en samtals hafi vantað 61 stund uppá í þeim efnum í júní sem x 1,5 veiti stefnanda rétt til frítökuréttar sem nemi 91,5 stundum á dagvinnukaupi.             Í samræmi við ofangreint hefðu rétt laun stefnanda fyrir júní átt að vera 200.100 kr. fyrir vinnu unna á dagvinnutímabili en 556.416 kr. fyrir yfirvinnu. Þá hefði stefnandi átt að hafa 126.270 kr. vegna skerðingar á lágmarkshvíld. Laun stefnanda fyrir júní skv. framansögðu hefðu því átt að nema 882.786 kr. Á þá fjárhæð hafi borið  að reikna orlof 10,17%, 89.779 kr. Að því virtu hafi stefnda borið að greiða stefnanda alls 972.565 kr. fyrir vinnu í júní en hafi greitt aðeins 376.614 kr. Vanti því 595.951 kr. upp á rétt laun stefnanda þann mánuð og sé krafist leiðréttingar á því.             Um launakröfu vegna júlímánaðar 2015.             Stefnandi kveðst hafa unnið frá 1. til 21. júlí í þágu stefnda en þá hafi orðið samkomulag um starfslok hans. Stefnandi hafi fengið frí dagana 14. og 15. júlí en unnið aðra daga á fyrrgreindu tímabili. Vinnuframlag stefnanda þann tíma hafi verið þannig að fyrir það hafi borið að greiða 91 stund í dagvinnu og 67 stundir á yfirvinnulaunum. Lágmarkshvíld stefnanda í júlí hafi sætt skerðingu þannig að upp á hana hafi vantað á tímabilinu frá 1. til 5. júlí samtals 13 stundir sem x 1,5 veiti stefnanda rétt til frítökuréttar sem nemi 19,5 stundum á dagvinnukaupi.             Í samræmi við ofangreint hafi rétt laun stefnanda fyrir júlí átt að vera 125.580 kr. fyrir vinnu unna á dagvinnutímabili en 166.428 kr. fyrir yfirvinnu. Þá hafi stefnandi átt að hafa 26.910 kr. vegna skerðingar á lágmarkshvíld. Laun stefnanda fyrir júlí skv. framansögðu hafi því átt að nema 318.918 kr. Á þá fjárhæð hafi borið að reikna orlof 10,17%,  32.434 kr.             Þá hafi stefnda ennfremur borið, skv. gr. 1.5 í kjarasamningi, að gera upp við stefnanda áunninn rétt til orlofs- og desemberuppbótar við starfslok. Full desemberuppbót með gjalddaga endranær 2015 hafi átt að nema 78.000 kr. Fullt starf í því sambandi teljist vera 45 vikur en áunna desemberuppbót beri að gera upp við starfslok verði þau fyrir gjalddaga, sbr. gr. 1.4.1 í kjarasamningi. Stefnandi hafi unnið 22 vikur hjá stefnda er starfslok hafi orðið og því hafi borið að greiða 22/45 uppbótarinnar eða 38.133 kr. og sé krafist leiðréttingar á því.             Á sama hátt hafi stefnda borið að greiða stefnanda orlofsuppbót við starfslok, sbr. gr. 1.4.2 í kjarasamningi. Við útreikning hennar hafi verið við það miðað að full orlofsuppbót með gjalddaga endranær 1. júní 2015 hefði numið 42.000 kr. og reiknist því stefnanda 10/45 þeirrar fjárhæðar í orlofsuppbót fyrir tímabilið frá 20. mars til 30. apríl, eða 9.333 kr. og því til viðbótar 12/45 orlofsuppbótar með gjalddaga árið 2016 sem þá hafi átt að nema 44.500 kr. Af þeirri fjárhæð hafi stefnandi við starfslok unnið sér rétt til greiðslu 11.867 kr. Samtals hafi stefnda því borið að greiða stefnanda 21.200 kr. í uppgjör orlofsuppbótar við starfslok, sem ekki hafi verið gert og sé krafist leiðréttingar á því.             Í samræmi við ofangreint hafi heildarlaun stefnanda fyrir júlí átt að vera 410.685 kr. en numið aðeins 376.614 kr. Vanti því 34.071 kr. uppá réttar efndir í því efni og sé krafist leiðréttingar á því.             Stefnandi kveðst mótmæla sem röngum og ósönnuðum fullyrðingum stefnda um að stefnandi hafi fengið greidd margföld verkamannalaun fyrir vinnu sína og notið hlunninda í starfi. Þvert á móti hafi vantað verulega upp á laun stefnanda sé litið til lágmarkskjara samkvæmt gildandi kjarasamningum og lögum, m.a. hvað varði lágmarkshvíldartíma. Þannig hafi stefnandi t.d. aldrei notið vikulegs frídags, sbr. gr. 2.4.3 í kjarasamningi. Í þessu efni beri sérstaklega að vekja athygli á því að stefndi hafi reiknað stefnanda til tekna 25.000 kr. vegna fæðis sem hann hafi einnig dregið af launum hans. Hafi verið litið til þeirra greiðslna sem launa við kröfugerð þessa þrátt fyrir að stefnda hafi borið að sjá stefnanda fyrir endurgjaldslausu fæði í vinnutíma, sbr. gr. 4.5.1 í kjarasamningi. Það að stefndi hafi látið stefnanda í té húsnæði hafi ekki stafað af öðru en þörf stefnda fyrir nærveru stefnanda allan sólarhringinn, að hann væri til taks. Að auki hafi aldrei verið um það samið að stefnandi hefði kostnað sem næmi launum hans til frádráttar af því að gista í húsnæði á vegum stefnda. Hefði það legið fyrir fyrirfram hefði stefnanda verið tækt að taka afstöðu til þess hvort hann sætti sig við slík kjör en jafnframt gefið honum tækifæri til að kanna möguleika á öðru húsnæði í hentugri fjarlægð svo stefnanda væri tækt að hafa næði í þeim mæli að lögboðinni lágmarkshvíld yrði mögulega náð. Kröfugerð stefnanda sé því í öllum atriðum hógvær og aðeins í samræmi við lágmarkskjör og sé í  því sambandi vísað til 1. mgr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.              Um lagarök kveðst stefnandi vísa til meginreglna samningaréttar um skyldu til efnda samninga og vinnuréttar um réttar efndir ráðningarsamninga. Þá er og vísað til laga nr. 55/1980, laga nr. 28/1938 um greiðslu verkkaups, laga nr. 30/1987 um orlof og laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sem og laga nr. 46/1980 um aðbúnað öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum. Kröfur um vexti og vaxtavexti styður stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Krafa stefnanda um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.             Málsástæður og lagarök stefnda             Af greinargerð stefnda verður ráðið að hann telji kröfur stefnanda rangar og ósannaðar. Kröfum hafi verið beint að honum af hálfu Verkalýðsfélags Suðurlands vegna stefnanda á fyrri stigum, án þess að þeim fylgdu gögn og útreikningar. Engin tilraun hafi verið gerð til að upplýsa stefnda um rök fyrir hinum miklu kröfum sem fram hafi verið settar á hendur honum heldur greiðslu krafist.             Stefndi mótmælir sem órökstuddum, ósönnuðum og röngum framlögðum tímaskriftum stefnanda sem hafi verið settar fram löngu eftir starfslok hans. Séu þær  staðlausir stafir, ósannaðir og að engu hafandi.             Vegna þessa vísar stefndi til samantektar endurskoðanda síns, sem jafnframt hafi annast bókhald félagsins, launauppgjör ofl. Samantektin feli í sér upplýsingar úr bókhaldi um starfsemina og mönnun á þeim tíma sem stefnandi hafi verið við störf hjá stefnda. Stefndi kveður þessa samantekt skýra vel þann óraunveruleika sem í kröfum stefnanda felist.             Illa og ólæsilegar tímaskriftir stefnanda, fyrst kynntar stefnda með framlagningu stefnu, gangi algjörlega á skjön við þessar upplýsingar sem  teknar séu  að mestu  úr bókhaldi stefnda um umfang og eðli rekstursins á þeim tíma sem um ræði sem og  starfsumhverfi og starfsskiptingu starfsmanna og skýri í leiðinni hvers vegna stefnandi hafi valið þau starfskjör sem um hafi samist.             Horft á starfslýsingu endurskoðandans og umfang verka og starfssamninga sé ljóst að stefnandi hafi ekki verið illa haldinn með mánaðarlaun og vinnuskylda og vinnutími augljóslega alltaf verið undir umsömdum tímafjölda eins og stefndi hafi ætlað. Með auknum umsvifum þegar hafi vorað, sem raunar hafi verið minni en oft áður hjá stefnda það árið, hafi komið fleira fólk til starfa þannig að álag á starfsfólk sem fyrir var hafi ekki vaxið svo neinu næmi. Að halda öðru fram sé ekki rétt og  framkomnar tímaskriftir séu út úr öllu korti, rangar og algjörlega ósannaðar enda sé framsetning þeirra, fyrirvaralaust og seint og um síðir, afar ótrúverðug.             Stefndi kveðst telja uppgjör sitt við stefnanda fullkomlega löglegt og tæmandi enda hafi aðilar samið með þessum hætti og gert upp sín á milli án athugasemda eða fyrirvara alla mánuðina sem starfssamningarnir hafi varað, en svo hafi stefnandi birst með milligöngu Verkalýðsfélags  Suðurlands og lögmannstofu þess félags, til að hafa uppi fáránlegar kröfur án þess að reyna í neinu að afla sér upplýsinga og skýringa frá forsvarsmanni stefnda.             Ráðningarsamningur aðila sé í málinu bæði á íslensku og ensku og vísar þá stefndi til þess ráðningarsamnings sem gerður var fyrir starfslok stefnanda. Upphaflega hafi samningur aðila miðast við unnar vinnustundir þannig að laun væru kr. 1.380.- á dagvinnustund, en kr. 2.484.- á yfirvinnustund. Tímakaup sem hafi verið töluvert yfir ákvæðum lámarkslauna kjarasamnings Verkalýðsfélags Suðurlands eða Starfsgreinasambands Íslands og mánaðarlaun þannig kr. 376. 614.-             Í ráðningarsamningnum komi þessar tímakaupsviðmiðanir fram. Þar sé jafnframt tiltekið að atvinnuveitandi taki að sér að kaupa fæði fyrir launþegann að upphæð kr. 25.000.- á mánuði, sem reiknist til launa. Jafnframt segi þar; „Ef atvinnurekandi borgar meira en þetta í fæði skal farið með það á sama hátt“.  Þá segi efnislega í hinni ensku útgáfu að launþegar séu undanþegnir greiðslu fyrir húsnæði, rafmagn, morgunverð og kvöldverð ef þeir vinni og hjálpi til á matsölustaðnum.             Fram sé komið að matsölustaðurinn hafi ekki verið ekki í rekstri fyrr en í lok maí utan morgunverðar og það muni starfsmenn hafa nýtt sér, þ.m.t. stefnandi, ásamt með aðgengi til næringar á vegum stefnda  á öðrum tímum, þannig að í raun muni stefnandi að mestu hafa fengið bæði fæði og húsnæði úr hendi stefnda auk  launauppbótarinnar, 25.000.- kr á mánuði, sem hafi gengið til stefnanda og hún að mestu eða öllu farið í tóbakskaup og aðrar sérþarfir fyrir stefnanda sem stefndi hafi annast, eitthvað sem ekki hafi verið stefnda að leggja stefnanda til.             Með þessum ráðningarsamningi aðila, sem stefndi telji á allan máta löglegan, hafi stefnanda verið tryggðar fastar launageiðslur, að mestu með fullu fæði og húsnæði allt eins og stefnandi hafi óskað eftir og sætt sig við og umsamdar vinnustundir þar á bak við hafi stefndi talið rúmast vel á móti þeim verkefnum sem stefnanda hafi verið ætlað að sinna og sinnt, auk þess sem frítt húsnæði ofl. hafi tekið mið af íhlaupavinnu í veitingahúsi sem lengst af hafi þó ekki reynt á og síðan hlutfallslega lítið, enda ekki opnað fyrr en í lok maí. Með vísan til þessa telur stefndi, fari svo að honum verði að einhverju leyti  gert að greiða kröfur stefnanda, að launaígildi þessi séu með því niður fallin og áskilur hann sér þá, sbr. dómkröfu að reikna þessi fríðindi  stefnanda til verðs og skuldajafna andviðri þeirra á móti slíkum kröfum stefnanda.             Um ráðningarsamning á eyðublaði Vinnumálastofnunar, sem dagsettur er 20. júní 2015, kveður stefndi að hann hafi verið gerður þegar langt hafi verið liðið á starfstíma stefnanda hjá stefnda. Væntanlega sé orsök þessa seinagangi um að kenna en ekkert í þeim samningi breyti því sem aðilar hafi áður um samið. Alveg frá fyrsta launaseðli fyrir febrúar 2015 hafi stefnandi verið kominn með íslenska kennitölu og öll laun og launatengd gjöld hans hafi jafnóðum verið gerð upp með tilskildum hætti.             Kveðst stefndi gera kröfu um að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að dæmdar kröfur stefnanda  á hendur stefnda verði lækkaðar verulega enda eigi a.m.k. stærsti hluti þeirra ekki við rök að styðjast, kröfurnar séu of seint fram komnar, illa unnar og ósannaðar.             Hvernig sem málalok verði kveðst stefndi árétta kröfu sína um málskostnað sér til handa enda séu kröfur stefnanda og málaferli þessi með eindæmum og borin uppi, með nokkru offorsi, af Verkalýðsfélagi starfssvæðisins sem einhverskonar prófmál  um hversu langt verði komist í kröfugerð. Stefnandi kveðst telja að auðvelt hefði verið fyrir verkalýsfélagið, fyrst það hafi tekið að sér málið með þessum hætti, að afla þeirra  upplýsinga sem til hafi þurft svo línur í ágreiningsefninu skýrðust og óbreytt niðurstaða eða einhver leiðrétting, ef rétt teldist, fengi komist að án mikils kostnaðar.  Óásættanlegt sé að aðilar með hálfgildings sjálftökurétt eins og verkalýðsfélög komist upp með að setja mál á spil með þessum hætti og bera ekki ábyrgð á þeim kostnaði sem af hljótist sér í lagi þegar í hlut eiga óþekktir erlendir aðilar svo sem hér sé.             Stefndi vísar máli sínu til stuðnings til meginreglna samningsréttar sem og vinnuréttar auk annarra þeirra laga og ákvæða sem  um starfssamninga  og starfskjör fjalla. Þá vísar stefndi til ákvæða laga nr. 91/1991 og um málskostnað til 130. gr. laganna.                  Forsendur og niðurstaða             Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um ógreidd laun sem hann kveðst eiga inni hjá stefnda. Hefur stefndi mótmælt þessu og kveður ekkert ógreitt af launum stefnanda.             Hefur stefnandi gert rækilega grein fyrir útreikningi kröfu sinnar og tímaskráningum sínum, sem útreikningurinn byggir á, en ekki er fyrir að fara öðrum tímaskráningum um vinnu stefnanda hjá stefnda.             Er óumdeilt tímagjaldið 1.380 kr. á tímann í dagvinnu og 2.484 í eftirvinnu.             Kjör stefnanda koma fram á ráðningarsamningi á eyðublaði frá Vinnumálastofnun, en undir þann ráðningarsamning var ritað af hálfu beggja samningsaðila. Segir þar að um sé að ræða fullt 100% starf verkamanns og vísað um kjör til kjarasamnings og tekið fram að stéttarfélag sé Verkalýðsfélag Suðurlands. Seinni ráðningarsamningurinn, sem að ofan greinir, var útbúinn við starfslok stefnanda og var ekki með honum unnt að breyta ráðningargjörum stefnanda afturvirkt. Verður alfarið byggt á fyrri ráðningarsamningnum við úrlausn málsins að því leyti sem ráðningarsamningarnir eru ekki samhljóða.             Í greinargerð sinni byggir stefndi á því að eftir starfslok stefnanda hafi stefndi ekki heyrt frekar frá stefnanda fyrr en með bréfi Verkalýðsfélags Suðurlands, þar sem hafðar hafi verið uppi órökstuddar kröfur, en á seinni stigum hafi verið vísað til tímaskrár stefnanda sjálfs. Ekki getur það orðið til þess að fría stefnda af kröfum stefnanda hvernig bréfaskriftir þessar voru milli Verkalýðsfélags Suðurlands og stefnda, enda getur réttur stefnanda til ógreiddra launa ekki ráðist af efni bréfaskriftanna.             Stefndi hefur mótmælt tímaskráningum stefnanda sem röngum og ósönnuðum. Að mati dómsins er þó ekki við annað að styðjast í þeim efnum. Tímaskráningar stefnanda eru handfærðar samtímaheimildir, en stefndi hefur ekki lagt fram neina aðra tímaskráningu en hann hafði þó öll færi á því að skrá vinnu stefnanda s.s. með stimpilklukku og eða með því að fá hjá stefnanda tímaskráningu jafnóðum. Yfirlit endurskoðanda stefnda, sem unnið er upp úr frásögnum stefnda sjálfs, getur ekki breytt þessu en ekki hafði endurskoðandinn sjálfstæða vitneskju um vinnutíma stefnanda. Þá hefur tímaskráningum stefnanda ekki verið hnekkt með framlögðum gögnum eða skýrslum sem gefnar voru við aðalmeðferð, en þar er annars vegar um að ræða óljósar frásagnir fósturdóttur fyrirsvarsmanns stefnda og hins vegar fyrrverandi starfsmanns stefnda, en hvorugt þeirra hafði tímaskráningu starfsmanna með höndum. Verður við úrlausn málsins byggt á tímaskráningum stefnanda sjálfs enda ekki við annað að styðjast og ekkert sérstakt fram komið í málinu sem rýri trúverðugleika þeirrar skráningar. Ber hér að geta þess að fjarri fer því að hinar handskrifuðu tímaskráningar séu ólæsilegar.             Í greinargerð stefnda er ekki byggt á því að rangur kjarasamningur hafi verið notaður við útreikning krafna stefnanda eða að tölulegur útreikningur sé rangur miðað við gefnar forsendur.             Í greinargerð stefnda er vísað til þess að stefndi hafi greitt eða tekið að sér að kaupa fæði fyrir stefnda fyrir 25.000 kr. á mánuði. Engu getur þetta breytt um niðurstöðu málsins en fram hefur komið, m.a. í framburði vitnisins Guðrúnar Elínar Pálsdóttur formanns Verkalýðsfélags Suðurlands sem sá um útreikninginn, að tekið er tillit til þessa við kröfugerð stefnanda.             Þá hefur stefndi vísað til þess að stefnandi hafi tekið athugasemdalaust við launum sínum og ekki haft athugasemdir við uppgjör við starfslok. Fram hefur hins vegar komið að nokkur ágreiningur hafi verið milli stefnanda og stefnda, en einkum hafi það þó verið vegna frídaga sem stefnanda hafi þótt á skorta. Að mati dómsins er ekki hald í þessum vörnum, en fyrir liggur að stefnandi er erlendur maður sem hefur ekki rækilega þekkingu á reglum íslensks vinnuréttar og var mikill aðstöðumunur á aðilum að þessu leyti, en fram hefur komið að strax eftir starfslok óskaði stefnandi liðsinnis við að rétta sinn hlut gagnvart stefnda.             Ekki hefur stefndi fært fram aðrar málsástæður sem geti orðið til þess að sýkna hann af kröfum stefnanda. Eins og að framan greinir vildi stefndi við endurflutning málsins endurvekja kröfu sína um skuldajöfnuð, en hann hafði við aðalmeðferð fallið frá því að hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar skv. 28. gr. laga nr. 91/1991. Vil endurflutninginn afhenti lögmaður stefnda dóminum til hliðsjónar handskrifað blað til nánari tölulegrar útskýringar á skuldajafnaðarkröfu sinni. Af hálfu stefnanda var því hafnað að krafa þessi kæmist að í málinu. Með hliðsjón af því að stefndi féll við aðalmeðferð frá skuldajafnaðarkröfu sinni verður henni ekki sinnt frekar, en rétt er þó að geta þess að telja verður að hvort heldur sem er þá hafi ekki verið gerð nein grein fyrir henni fyrr en allt of seint og getur hún því alls ekki komið til álita.             Verður því stefndi dæmdur til að greiða stefnanda hina umkröfu fjárhæð með dráttarvöxtum eins og krafist er, en engin sérstök mótmæli eða málsástæður eru hafðar uppi af hálfu stefnda gegn dráttarvaxtakröfum stefnanda.             Rétt er að stefndi greiði stefnanda málskostnað og er hann hæfilega ákveðinn kr. 1.136.538 og hefur þá verið litið til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts.             Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan. DÓMSORÐ:                 Stefndi, Ferðaþjónusta og sumarhús ehf., greiði stefnanda, Gyorgy Evetovics, 1.955.996 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 41.354 kr. frá 1. mars 2015 til 1. apríl 2015, þá af 228.028 kr. frá þeim degi til 1. maí 2015, af 518.426 kr. frá þeim degi til 1. júní 2015, af 1.325.974 kr. frá þeim degi til 1. júlí 2015, af 1.921.925 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og loks af 1.955.996 kr. frá þeim degi til greiðsludags.  Stefndi greiði stefnanda 1.136.538 kr. í málskostnað.
Mál nr. 600/2017
Ráðningarsamningur Vinnulaun
Z höfðaði mál gegn F ehf. til heimtu launa sem hún taldi sig eiga inni hjá félaginu. Í ráðningarsamningi milli Z og F ehf. var kveðið á um tiltekið tímakaup og var útreikningur kröfu Z byggður á tímaskráningum hennar sjálfrar. F ehf. hélt því fram í málinu að skráningin væri röng og vinnuframlag Z samkvæmt skráningunni ósannað. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var af Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að tímaskráningar Z væru handskráðar samtímaheimildir. Hefði F ehf. ekki lagt fram neina aðra tímaskráningu en honum hefði verið í lófa lagið að tryggja sér sönnun um vinnuframlag Z með því að skrá vinnu hennar með stimpilklukku eða yfirfara tímaskráningu hennar jafnóðum. Yrði því að leggja tímaskráningu Z til grundvallar við úrlausn málsins enda ekki við annað að styðjast og ekkert fram komið sem rýrði trúverðugleika þeirrar skráningar. Var F ehf. því gert að greiða Z umkrafða fjárhæð.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Ingimundur Einarsson héraðsdómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. september 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu, en til vara að fjárhæð kröfunnar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að mál þetta hefur verið rekið samhliða öðru samkynja máli. Dómsorð:  Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Ferðaþjónusta og sumarhús ehf., greiði stefndu, Zsuzsanna Aleksic, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Héraðsdóms Suðurlands fimmtudaginn 22. júní 2017             Mál þetta, sem tekið var til dóms 14. júní 2017 er höfðað með stefnu birtri 14. júní 2016.             Stefnandi er Zsuzsanna Alekisic, kt. [...], Ungverjalandi.             Stefndi er Ferðaþjónusta og sumarhús ehf., kt. 711001-2630, Hörgslandi 1, Kirkjubæjarklaustri. Fyrirsvarsmaður stefnda er Ragnar B. Johansen, kt. [...], stjórnarmaður, Hörgslandi 1, Kirkjubæjarklaustri.             Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar samtals að fjárhæð 1.849.809 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 167.988 kr. frá 1. apríl 2015 til 1. maí 2015, af 416.272 kr. frá þeim degi til 1. júní 2015, af 1.122.331 kr. frá þeim degi til 1. júlí 2015, af 1.763.093 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og loks af 1.849.809 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk álags er nemi virðisaukaskatti af honum úr hendi stefnda.             Endanlegar dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en þær ella lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda. Upphaflega gerði stefndi kröfu um skuldajöfnuð skv. 28. gr. laga nr. 91/1991 en frá því var fallið við aðalmeðferð. Við endurflutning vildi stefndi endurvekja þá kröfu.                   Við aðalmeðferð gaf stefnandi skýrslu, sem og áður greindur fyrirsvarsmaður stefnda. Þá gáfu vitnaskýrslur Gyorgy Evetovics fyrrverandi starfsmaður stefnda og stefnandi í sambærilegu máli gegn stefnda, Guðrún Elín Pálsdóttir formaður Verkalýðsfélags Suðurlands,  Þorvaldur Kári Þorsteinsson endurskoðandi stefnda, Sveinbjörn Sveinsson fyrrum starfsmaður stefnda, og Tamita Loise Olayvar fósturdóttir fyrirsvarsmanns stefnda.             Fyrir uppkvaðningu dóms var gætt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.             Málavextir             Stefndi rekur ferðaþjónustu og var stefnandi, sem er ungverskur ríkisborgari, starfsmaður hjá honum hluta ársins 2015. Aðilar eru sammála um að starfið hafi byrjað í lok mars eða seinni hluta þess mánaðar og lokið í júlí sama ár.             Fram hefur verið lagt afrit af ráðningarsamningi milli aðila, gerður á eyðublaði frá Vinnumálastofnun. Segir þar að stefnandi sé ráðinn til starfa hjá stefnda með starfsheitið verkamaður, í fullt 100% starf og dagvinnu. Skuli laun fara samkvæmt kjarasamningi og greiðist 1.380 kr. á tímann. Laun skuli greidd mánaðarlega. Segir jafnframt að ráðningartími sé tímabundinn, en ekkert segir þó um hvenær ráðningu skuli ljúka. Þá segir um áunnin réttindi skv. kjarasamningi að þau miðist við fyrri ráðningu 20. mars 2015. Greiða skuli í Lífeyrissjóð Rangæinga og er Verkalýðsfélag Suðurlands tilgreint sem stéttarfélag. Ráðningarsamningurinn er dagsettur 20. júní 2015.             Þá hefur líka verið lagður fram ráðningarsamningur milli aðila, bæði á íslensku og ensku. Eru báðar útgáfurnar ódagsettar og virðast heimatilbúnar, en ekki gerðar á sérstöku eyðublaði. Í ensku útgáfunni, sem er undirrituð af báðum aðilum, segir að mánaðarlaun séu 376.614 kr. og 1.380 kr. á dagvinnutímann, en 2.484 kr. fyrir eftirvinnutíma. Fullt dagsverk sé reiknað áður en komi til þess að eftirvinna sé reiknuð. Starfsmaðurinn taki á sig að kaupa mat fyrir 25.000 kr. á mánuði og teljist það til launa. Ef starfsmaðurinn kaupi meira en fyrir 25.000 kr. á mánuði þá greiði hann það sjálfur. Dagvinnutími sé frá kl. 07.00 til 18:00 en ekki meira en 8 stundir á dag og sé ein stund til hádegisverðar. Starfsmaðurinn hafi fría gistingu, rafmagn, morgunmat og kvöldmat ef hann vinni og aðstoði í veitingastað. Starfsmaðurinn hafi óskað eftir að hætta starfinu 24. júlí 2015 og skipti ekki máli hvort hann hafi unnið uppsagnarfrest. Í íslensku útgáfunni segir ámóta auk þess að frítt húsnæði og rafmagn teljist til launa. Er þessi útgáfa aðeins undirrituð af stefnda, en undir er samkomulag um starfslok þar sem segir að samstarfsmaður hennar hafi ákveðið að hætta störfum 24. júlí 2015 og hafi unnið uppsagnarfrest skv. samkomulagi og er það undirritað af stefnanda. Er í samningi þessum hvorki vísað til kjarasamnings né verkalýðsfélags og ekkert segir um hvert starfið er.             Fyrir liggur að eftir starfslok leitaði stefnandi til Verkalýðsfélags Suðurlands og hafði uppi athugasemdir um launagreiðslur til sín. Í framhaldi af því krafði verkalýðsfélagið stefnda um ógreidd laun stefnanda með bréfi 22. september 2015 og var krafan 1.830.504 kr.             Stefndi hefur hafnað greiðsluskyldu.             Í málinu hefur verið lagt fram í frumriti handskrifað yfirlit stefnanda sjálfrar yfir unnar stundir sínar á hverjum degi frá 20. mars 2015 til 24. júlí 2015 þegar hún lauk störfum. Eru kröfur stefnanda og útreikningur þeirra byggðar á skjali þessu. Ekki liggur fyrir í málinu önnur skráning á vinnu stefnanda.             Málsástæður og lagarök stefnanda             Stefnandi kveðst byggja á kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands vegna Vlf. Suðurlands m.a. og Samtaka atvinnulífsins vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi sem hún kveður marka grundvöll ráðningarsambands aðila og réttar stefnanda til endurgjalds fyrir vinnu sína í þágu stefnda.             Kveður stefnandi að nefndur kjarasamningur eigi við um þau störf sem stefnandi hafi innt af hendi og hafi því að geyma þau lágmarkskjör sem um þau gildi, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og 7. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.             Þá byggir stefnandi og á því að allan óskýrleika á inntaki ráðningarsamnings aðila beri að túlka stefnanda í hag sbr. gr. 1.15 í kjarasamningi, sbr. auglýsingu nr. 503 frá 1997 um gildistöku tilskipunar Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE um skyldu vinnuveitanda til að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi, en láti atvinnurekandi það undir höfuð leggjast beri hann hallann af skorti á sönnun í því efni.             Jafnframt kveðst stefnandi reisa kröfu sína á meginreglu samningaréttar um skyldu til efnda gerðra samninga. Gerður hafi verið skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda í lok júní 2015 og hafi samningurinn verið gerður á eyðublað Vinnumálastofnunar. Þar hafi verið samið um að kaup og kjör stefnanda skyldu vera í samræmi við nefndan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands vegna Vlf. Suðurlands enda hafi stefnandi verið ráðinn í starf verkamanns og með félagsaðild í Vlf. Suðurlands og sé stefndi bundinn af þeim kjörum sem þar hafi verið samið um. Í því samhengi byggir stefnandi sérstaklega á því að sá samningur sem stefndi hafi útbúið sjálfur og gert stefnanda að undirrita við starfslok, þann 24. júlí 2017, sé ógildur og að engu hafandi. Þar sé um að ræða eftirágerning sem stefndi hafi knúið stefnanda til að rita undir en ella fengi hann ekki uppgjör launa við starfslok. Þannig hafi stefnanda verið þröngvað til að rita undir samning um lakari kjör en upphaflegur samningur hafi gert ráð fyrir og sem hafi verið forsenda ráðningar stefnanda, sem hafi komið hingað gagngert til að sinna vinnu hjá stefnda. Eðli máls samkvæmt hafi stefnanda ekki verið unnt að starfa í samræmi við hinn síðari samning þar sem hún hafi þá þegar innt af hendi þá vinnuskyldu sem henni hafi verið ætlað og raunar langt umfram það. Því verði ekki breytt fyrir liðinn tíma. Síðari samningurinn milli aðila sem gerður hafi verið í tilefni starfsloka stefnanda verði því ekki lagður til grundvallar samningssambandi aðila og beri því að víkja honum í heild, eða að því marki sem hann sé óhagstæður stefnanda, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga enda bersýnlega ósanngjarnt að halda honum upp á stefnanda.             Þá byggir stefnandi auk þess á því að sá samningur sé ógildur með vísan til 31. gr. laga nr. 7/1936, stefnandi hafi verið háður stefnda með þeim hætti að henni hafi verið allar bjargir bannaðar nema fá laun sín greidd úr hendi hans við starfslok, stefnandi hafi haft húsnæði á vegum stefnda og staðið því veglaus í raun í framandi landi. Stefndi hafi þannig haft öll ráð stefnanda í hendi sér, auk þess sem stefnandi hafi ekki þekkt til þeirra reglna vinnuréttar sem gildi hérlendis.             Stefnandi hafi unnið í fullu starfi og vel það. Samkvæmt ráðningarsamningi hafi henni borið að vinna reglulegan vinnudag og beri því að reikna henni laun samkvæmt því. Í því felist að henni hafi borið að fá mánaðarlaun en ekki tímakaupsvinnu þar sem stefnda sé tækt að haga málum svo hann leggi mat á talningu vinnustunda og hagnýti útreikningsviðmið fyrir full laun, 172 stundir, sbr. gr. 1.7 í kjarasamningi áður en til álita komi greiðsla yfirvinnulauna. Slík framsetning sé röng og í ósamræmi við ákvæði kjarasamnings og feli auk þess í sér mikla hættu á misnotkun. Stefnanda beri með réttu dagvinnulaun fyrir vinnuframlag á dagvinnutíma og yfirvinnulaun fyrir vinnu sem unnin sé utan þess tímabils, sbr. 2. kafla kjarasamnings. Samkvæmt gr. 2.1.1 sé dagvinnutímabil frá kl. 8-17 mánudaga til föstudaga, en upphaf dagvinnu skuli greina í ráðningarsamningi. Það hafi ekki verið gert í tilviki stefnanda en við útreikninga stéttarfélagsins hafi verið við það miðað að dagvinna hæfist við upphaf tímaskráningar stefnanda og lyki kl. 17:00 en þá tæki við yfirvinnutímabil á degi hverjum. Taki útreikningar stéttarfélagsins á kröfu stefnanda mið af þessu. Stefnandi hafi sjálf haldið utan um tíma sína, sbr. framlögð handskrifuð yfirlit, en engin stimpilklukka hafi verið á staðnum. Stefndi hafi hvorki mótmælt tímaskráningum stefnanda þrátt fyrir áskoranir þar um né lagt fram aðra tímaskráningu og beri því að miða við skáningu stefnanda í þessu efni.             Um launkröfu vegna marsmánaðar 2015.             Í mars 2015 hafi stefnandi unnið frá 20.-31. mánaðarins án þess að fá frídag. Stefnandi hafi sjálf haldið utan um vinnutíma sinn og samkvæmt því hafi hún unnið alls 110 vinnustundir á þessum 12 dögum. Þar af hafi 59,5 stundir fallið á tímabil dagvinnu en 51 stund á yfirvinnutímabili og miðist útreikningur stéttarfélagsins við það. Stefnandi hafi fengið greiddar 1.380 kr. á tímann í dagvinnu og 2.484 kr. í yfirvinnu úr hendi stefnda sbr. ráðningarsamning þar um og launaseðil og séu það þær fjárhæðir launa sem útreikningurinn byggi á enda hafi stefndi viðurkennt í verki að það skyldi vera kaupgjald stefnanda.             Í samræmi við ofangreint skyldu rétt laun stefnanda fyrir dagvinnu í mars vera 82.110 kr. en 126.684 fyrir vinnu unna á yfirvinnutímabili. Þá skyldi stefnandi hafa 4.140 kr. vegna skerðingar á lágmarkshvíld sbr. gr. 2.4 í kjarasamningi sbr. og 53. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum. Skv. gr. 2.4 kjarasamnings skuli haga vinnutíma þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld. Verði því við komið skuli dagleg hvíld ná til tímabilsins milli kl. 23:00 til kl. 06:00. Séu starfsmenn beðnir um að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð sé heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, 1 ½ klst (dagvinna) safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Í öllum tilvikum sé óheimilt að skerða átta klst. hvíld. Í mars 2015 hafi stefnandi ekki náð 11 stunda hvíldartíma aðfaranótt föstudagsins 27. mars og heldur ekki aðfararnótt mánudagsins 30. mars. Annars vegar hafi 0,5 stundir upp á hvíldina og hins vegar 1,5 tíma, eða samtals 2 tíma sem margfaldað með 1,5 geri 3 tíma í frítökurétt á dagvinnukaupi sem stefnda hafi borið að gera upp við stefnanda. Þar sem misbrestur hafi verið á því sé krafist leiðréttingar á því.             Kveður stefnandi að laun fyrir mars skv. framansögðu hefðu því átt að nema 212.934 kr. Á þá fjárhæð hafi borið að reikna orlof 10, 17% skv. gr. 5.1 í kjarasamningi eða 21.655 kr. Að því virtu hafi stefnda borið að greiða stefnanda alls 234.589 kr. fyrir mars en hann hafi hins vegar aðeins greitt 66.591 kr. Vanti því alls 167.998 kr. upp á rétt launa stefnanda fyrir marsmánuð og sé krafist leiðréttingar á því.             Kröfur stefnanda um leiðréttingar á launum fyrir aðra mánuði byggi á sömu ákvæðum kjarasamningsins og hér hafi verið gerð grein fyrir eftir atvikum og sé til þeirra vísað í öllum tilvikum. Um launakröfu vegna aprílmánaðar 2015.             Stefnandi kveðst hafa unnið alla daga aprílmánaðar 2015, en þar af 173 stundir í dagvinnu og skyldi fyrir þá vinnu hafa 238.740 kr.             Í aprílmánuði hafi stefnandi unnið á skírdag, fimmtudaginn 2. apríl, föstudaginn langa, 3. apríl, páskadag, 5. apríl, annan í páskum, mánudaginn 6. apríl og sumardaginn fyrsta fimmtudaginn 23. apríl. Samkvæmt gr. 2.3 í kjarasamningi skuli allir þessir dagar vera frídagar launafólks. Beri því að greiða dagvinnulaun fyrir þessa daga falli frídagur á virkan dag, sbr. gr. 1.10 kjarasamnings. Sé unnið á frídegi beri að auki að greiða yfirvinnukaup fyrir unninn tíma, nema skírdag og páskadag en þá daga beri að greiða sérstakt stórhátíðarkaup ofan á dagvinnulaun fyrir vinnu þessa daga, sbr. gr. 1.8.2. Við útreikning á kröfu stefnanda hafi verið tekið tillit til þessa eftir atvikum þannig að auk dagvinnulauna dagana 2., 6. og 23. apríl séu stefnanda reiknaðar samtals 25,5 stundir í yfirvinnu vegna vinnu þá daga. Þá séu stefnanda reiknuð laun fyrir 8 dagvinnustundir auk 7 stunda á stórhátíðarkaupi vegna vinnu föstudaginn langa og 7 stundir á stórhátíðarkaupi vegna vinnu á páskadag.             Þá hafi stefnandi ekki náð lágmarkshvíld í sex skipti í aprílmánuði. Hafi vantað samanlagt 9 stundir upp á lágmarkshvíld stefnanda þann mánuð. Því hafi borið að reikna stefnanda frítökurétt 9x1,5 eða sem nemi 13,5 stundum vegna þessa. Það hafi ekki verið gert og sé því gerð krafa um greiðslu frítökuréttar vegna apríl sem nemi 18.630 kr.             Í samræmi við ofangreint skyldu rétt laun stefnanda fyrir apríl vera 238.740 kr. fyrir vinnu unna á dagvinnutímabili en 269.514 fyrir yfirvinnu og 40.329 kr. í stórhátíðarkaup. Þá hafi stefnandi átt að fá greiddar 18.630 kr. vegna skerðingar á lágmarkshvíld (frítökuréttur). Samtals hafi laun stefnanda fyrir apríl því átt að nema 567.213 kr. og á þá fjárhæð hafi borið að reikna orlof 10,17% eða 57.686 kr. Alls hafi því stefnda borið að greiða stefnanda 624.898 kr. fyrir vinnu í apríl en hann hafi aðeins greitt 376.614 kr. Vanti því alls 248.284 kr. upp á rétt laun stefnanda þann mánuð og sé krafist leiðréttingar á því.             Um launakröfu vegna maímánaðar 2015.             Stefnandi kveðst hafa fengið frí þann 1. maí en unnið alla aðra daga mánaðarins. Fyrir það vinnuframlag skyldi greiða henni sem nemi 155,5 stundum í dagvinnu, 242 stundir á yfirvinnulaunum og 13,5 stundir á stórhátíðarkaupi vegna vinnu í þann tíma á hvítasunnudag, sbr. gr. 2.3 í kjarasamningi.             Vinnutími stefnanda í maí hafi orðið til þess að lágmarkshvíld hennar hafi ítrekað verið skert, en stefnandi hafi ekki notið lágmarkshvíldar einn einasta dag í þeim mánuði. Hafi vantaði alls 59,5 stundir uppá í þeim efnum í maí og það x 1,5 veiti stefnanda rétt til frítökuréttar sem nemi 89,25 stundum á dagvinnukaupi.             Í samræmi við ofangreint skyldu rétt laun stefnanda fyrir maí vera 214.590 kr. fyrir vinnu unna á dagvinnutímabili en 601.128 fyrir yfirvinnu og 43.847 í stórhátíðarkaup. Þá skyldi stefnandi hafa 123.165 kr. vegna skerðingar á lágmarkshvíld. Laun stefnanda fyrir maí skv. framansögðu hefðu því átt að nema 982.730 kr. Á þá fjárhæð hafi borið að reikna orlof 10,17%, 99.944 kr. Að því virtu hafi stefnda borið að greiða stefnanda alls 1.082.673 kr. fyrir vinnu í maí en hafi aðeins greitt 376.614 kr. Vanti því 706.059 kr. upp á rétt laun stefnanda þann mánuð og sé krafist leiðréttingar á því.             Um launakröfu vegna júnímánaðar 2015.             Stefnandi kveðst hafa fengið frí þann 17. júní en unnið alla aðra daga mánaðarins. Fyrir það vinnuframlag skyldi greiða henni sem nemi 145 stundum í dagvinnu og 224 stundir á yfirvinnulaunum.              Lágmarkshvíld stefnanda í júní hafi sætt skerðingu á hverjum degi, en samtals hafi vantað 81 stund uppá í þeim efnum í júní sem x 1,5 veiti stefnanda rétt til frítökuréttar sem nemi 121,5 stundum á dagvinnukaupi.             Í samræmi við ofangreint skyldu rétt laun stefnanda fyrir júní vera 200.100 kr. fyrir vinnu unna á dagvinnutímabili en 556.416 fyrir yfirvinnu. Þá skyldi stefnandi hafa 167.670 kr. vegna skerðingar á lágmarkshvíld. Laun stefnanda fyrir júní skv. framansögðu hefðu því átt að nema 924.186 kr. Á þá fjárhæð hafi borið að reikna orlof 10,17%, 93.990 kr. Að því virtu hafi stefnda borið að greiða stefnanda alls 1.018.176 kr. fyrir vinnu í júní en hafi aðeins greitt 376.614 kr. Vanti því 641.562 kr. upp á rétt laun stefnanda þann mánuð og sé krafist leiðréttingar á því.             Um launakröfu vegna júlímánaðar 2015.             Stefnandi kveðst hafa unnið frá 1. til 21. júlí í þágu stefnda en þá hafi orðið samkomulag um starfslok hennar. Stefnandi hafi fengið frí dagana 14. og 15. júlí en unnið aðra daga á fyrrgreindu tímabili. Vinnuframlag hennar þann tíma hafi verið þannig að fyrir það beri að greiða 89,5 stundir í dagvinnu og 95 stundir á yfirvinnulaunum. Lágmarkshvíld stefnanda í júlí hafi sætt skerðingu þannig að upp á hana hafi vantað á tímabilinu frá 1. til 4. júlí samtals 9 stundir sem x 1,5 veiti stefnanda rétt til frítökuréttar sem nemi 13,5 stundum á dagvinnukaupi.             Í samræmi við ofangreint skyldu rétt laun stefnanda fyrir júlí vera 123.510 kr. fyrir vinnu unna á dagvinnutímabili en 235.980 fyrir yfirvinnu. Þá skyldi stefnandi hafa 18.630 kr. vegna skerðingar á lágmarkshvíld. Laun stefnanda fyrir júlí skv. framansögðu hefðu því átt að nema 378.120 kr. Á þá fjárhæð hafi borið að reikna orlof 10,17%, 38.455 kr.             Þá hafi stefnda ennfremur borið, skv. gr. 1.5 í kjarasamningi að gera upp við stefnanda áunninn rétt til orlofs- og desemberuppbótar við starfslok. Full desemberuppbót með gjalddaga endranær 2015 skyldi nema 78.000 kr. Fullt starf í því sambandi teljist vera 45 vikur en áunna desemberuppbót beri að gera upp við starfslok verði þau fyrir gjalddaga, sbr. gr. 1.4.1 í kjarasamningi. Stefnandi hafi unnið 17 vikur hjá stefnda er starfslok hafi orðið og hafi því borið að greiða 17/45 uppbótarinnar eða 29.467 kr. og sé krafist leiðréttingar á því.             Á sama hátt hafi stefnda borið að greiða stefnanda orlofsuppbót við starfslok, sbr. gr. 1.4.2 í kjarasamningi. Við útreikning hennar hafi verið við það miðað að full orlofsuppbót með gjalddaga endranær 1. júní 2015 hefði numið 42.000 kr. og reiknist því stefnanda 6/45 þeirrar fjárhæðar í orlofsuppbót fyrir tímabilið frá 20. mars til 30. apríl, eða 5.598 kr. og því til viðbótar 11/45 orlofsuppbótar með gjalddaga árið 2016 sem þá skyldi nema 44.500 kr. Af þeirri fjárhæð hafi stefnandi við starfslok unnið sér rétt til greiðslu 10.879 kr. Samtals hafi stefnda því borið að greiða stefnanda 16.477 kr. í uppgjör orlofsuppbótar við starfslok, sem ekki hafi verið gert og sé krafist leiðréttingar á því.              Að ofansögðu virtu megi ljóst vera að stefnda hafi borið að greiða stefnanda alls 462.519 kr. fyrir vinnu í júlí en hafi aðeins greitt 376.614 kr. Vanti því 85.905 kr. upp á rétt laun stefnanda fyrir júlí og sé krafist leiðréttingar á því.             Kveðst stefnandi mótmæla fullyrðingum stefnda um að stefnandi hafi fengið greidd margföld verkamannalaun fyrir vinnu sína og notið hlunninda í starfi, sem röngum og ósönnuðum. Þvert á móti hafi vantað verulega upp á laun stefnanda sé litið til lágmarkskjara samkvæmt gildandi kjarasamningum og lögum, m.a. hvað varðar lágmarkshvíldartíma. Í þessu efni beri sérstaklega að vekja athygli á því að stefndi hafi reiknað stefnanda til tekna 25.000 kr. vegna fæðis sem hann hafi einnig dregið af launum hennar. Hafi verið litið til þeirra greiðslna sem launa við kröfugerð þessa þrátt fyrir að stefnda bæri að sjá stefnanda fyrir endurgjaldslausu fæði í vinnutíma, sbr. gr. 4.5.1 í kjarasamningi. Það að stefndi hafi látið stefnanda húsnæði í té hafi ekki stafað af öðru en þörf stefnda fyrir nærveru stefnanda allan sólarhringinn, að hún væri til taks. Að auki hafi aldrei verið um það samið milli aðila að stefnandi hefði kostnað sem kæmi launum hennar til frádráttar af því að gista í húsnæði á vegum stefnda. Hefði það legið fyrir fyrirfram hefði stefnanda verði tækt að taka afstöðu til þess hvort hún sætti sig við slík kjör en jafnframt gefið henni tækifæri til þess kanna möguleika á öðru húsnæði í hentugri fjarlægð svo stefnanda væri tækt að hafa næði í þeim mæli að lögboðinni lágmarkshvíld yrði mögulega náð. Kröfugerð stefnanda sé því í öllum atriðum hógvær og aðeins í samræmi við lágmarkskjör og sé í  því sambandi vísað til 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.              Um lagarök kveðst stefnandi vísa til meginreglna samningaréttar um skyldu til efnda samninga og vinnuréttar um réttar efndir ráðningarsamninga. Þá sé og vísað til laga nr. 55/1980, laga nr. 28/1938 um greiðslu verkkaups, laga nr. 30/1987 um orlof og laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Ennfremur laga nr. 46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styðjast við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Krafa stefnanda um málskostnað styðst við 130. gr. l. nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.             Málsástæður og lagarök stefnda             Af greinargerð stefnda verður ráðið að hann telji kröfur stefnanda rangar og ósannaðar. Kröfum hafi verið beint að honum af hálfu Verkalýðsfélags Suðurlands vegna stefnanda á fyrri stigum, án þess að þeim fylgdu gögn og útreikningar. Engin tilraun hafi verið gerð til að upplýsa stefnda um rök fyrir hinum miklu kröfum sem fram hafi verið settar á hendur honum heldur greiðslu krafist.             Stefndi mótmælir sem órökstuddum, ósönnuðum og röngum framlögðum tímaskriftum stefnanda sem hafi verið settar fram löngu eftir starfslok hans. Séu þær  staðlausir stafir, ósannaðir og að engu hafandi.             Vegna þessa vísar stefndi til samantektar endurskoðanda síns, sem jafnframt hafi annast bókhald félagsins, launauppgjör ofl. Samantektin feli í sér upplýsingar úr bókhaldi um starfsemina og mönnun á þeim tíma sem stefnandi hafi verið við störf hjá stefnda. Stefndi kveður þessa samantekt skýra vel þann óraunveruleika sem í kröfum stefnanda felist.             Illa og ólæsilegar tímaskriftir stefnanda, fyrst kynntar stefnda með framlagningu stefnu, gangi algjörlega á skjön við þessar upplýsingar sem  teknar séu  að mestu  úr bókhaldi stefnda um umfang og eðli rekstursins á þeim tíma sem um ræði sem og  starfsumhverfi og starfsskiptingu starfsmanna og skýri í leiðinni hvers vegna stefnandi hafi valið þau starfskjör sem um hafi samist.             Horft á starfslýsingu endurskoðandans og umfang verka og starfssamninga sé ljóst að stefnandi hafi ekki verið illa haldinn með mánaðarlaun og vinnuskylda og vinnutími augljóslega alltaf verið undir umsömdum tímafjölda eins og stefndi hafi ætlað. Með auknum umsvifum þegar hafi vorað, sem raunar hafi verið minni en oft áður hjá stefnda það árið, hafi komið fleira fólk til starfa þannig að álag á starfsfólk sem fyrir var hafi ekki vaxið svo neinu næmi. Að halda öðru fram sé ekki rétt og  framkomnar tímaskriftir séu út úr öllu korti, rangar og algjörlega ósannaðar enda sé framsetning þeirra, fyrirvaralaust og seint og um síðir, afar ótrúverðug.             Stefndi kveðst telja uppgjör sitt við stefnanda fullkomlega löglegt og tæmandi enda hafi aðilar samið með þessum hætti og gert upp sín á milli án athugasemda eða fyrirvara alla mánuðina sem starfssamningarnir hafi varað, en svo hafi stefnandi birst með milligöngu Verkalýðsfélags Suðurlands og lögmannstofu þess félags, til að hafa uppi fáránlegar kröfur án þess að reyna í neinu að afla sér upplýsinga og skýringa frá forsvarsmanni stefnda.             Ráðningarsamningur aðila sé í málinu bæði á íslensku og ensku og vísar þá stefndi til þess ráðningarsamnings sem gerður var fyrir starfslok stefnanda. Upphaflega hafi samningur aðila miðast við unnar vinnustundir þannig að laun væru kr. 1.380.- á dagvinnustund, en kr. 2.484.- á yfirvinnustund. Tímakaup sem hafi verið töluvert yfir ákvæðum lámarkslauna kjarasamnings Verkalýðsfélags Suðurlands eða Starfsgreinasambands Íslands og mánaðarlaun þannig kr. 376. 614.-             Í ráðningarsamningnum komi þessar tímakaupsviðmiðanir fram. Þar sé jafnframt tiltekið að atvinnuveitandi taki að sér að kaupa fæði fyrir launþegann að upphæð kr. 25.000.- á mánuði, sem reiknist til launa. Jafnframt segi þar; „Ef atvinnurekandi borgar meira en þetta í fæði skal farið með það á sama hátt“.  Þá segi efnislega í hinni ensku útgáfu að launþegar séu undanþegnir greiðslu fyrir húsnæði, rafmagn, morgunverð og kvöldverð ef þeir vinni og hjálpi til á matsölustaðnum.             Fram sé komið að matsölustaðurinn hafi ekki verið ekki í rekstri fyrr en í lok maí utan morgunverðar og það muni starfsmenn hafa nýtt sér, þ.m.t. stefnandi, ásamt með aðgengi til næringar á vegum stefnda  á öðrum tímum, þannig að í raun muni stefnandi að mestu hafa fengið bæði fæði og húsnæði úr hendi stefnda auk  launauppbótarinnar, 25.000.- kr á mánuði, sem hafi gengið til stefnanda og hún að mestu eða öllu farið í tóbakskaup og aðrar sérþarfir fyrir stefnanda sem stefndi hafi annast, eitthvað sem ekki hafi verið stefnda að leggja stefnanda til.             Með þessum ráðningarsamningi aðila, sem stefndi telji á allan máta löglegan, hafi stefnanda verið tryggðar fastar launageiðslur, að mestu með fullu fæði og húsnæði allt eins og stefnandi hafi óskað eftir og sætt sig við og umsamdar vinnustundir þar á bak við hafi stefndi talið rúmast vel á móti þeim verkefnum sem stefnanda hafi verið ætlað að sinna og sinnt, auk þess sem frítt húsnæði ofl. hafi tekið mið af íhlaupavinnu í veitingahúsi sem lengst af hafi þó ekki reynt á og síðan hlutfallslega lítið, enda ekki opnað fyrr en í lok maí. Með vísan til þessa telur stefndi, fari svo að honum verði að einhverju leyti  gert að greiða kröfur stefnanda, að launaígildi þessi séu með því niður fallin og áskilur hann sér þá, sbr. dómkröfu að reikna þessi fríðindi  stefnanda til verðs og skuldajafna andvirði þeirra á móti slíkum kröfum stefnanda.             Um ráðningarsamning á eyðublaði Vinnumálastofnunar, sem dagsettur er 20. júní 2015, kveður stefndi að hann hafi verið gerður þegar langt hafi verið liðið á starfstíma stefnanda hjá stefnda. Væntanlega sé orsök þessa seinagangi um að kenna en ekkert í þeim samningi breyti því sem aðilar hafi áður um samið. Alveg frá fyrsta launaseðli fyrir febrúar 2015 hafi stefnandi verið kominn með íslenska kennitölu og öll laun og launatengd gjöld hennar hafi jafnóðum verið gerð upp með tilskildum hætti.             Kveðst stefndi gera kröfu um að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að dæmdar kröfur stefnanda  á hendur stefnda verði lækkaðar verulega enda eigi a.m.k. stærsti hluti þeirra ekki við rök að styðjast, kröfurnar séu of seint fram komnar, illa unnar og ósannaðar.             Hvernig sem málalok verði kveðst stefndi árétta kröfu sína um málskostnað sér til handa enda séu kröfur stefnanda og málaferli þessi með eindæmum og borin uppi, með nokkru offorsi, af Verkalýðsfélagi starfssvæðisins sem einhverskonar prófmál  um hversu langt verði komist í kröfugerð. Stefnandi kveðst telja að auðvelt hefði verið fyrir verkalýsfélagið, fyrst það hafi tekið að sér málið með þessum hætti, að afla þeirra  upplýsinga sem til hafi þurft svo línur í ágreiningsefninu skýrðust og óbreytt niðurstaða eða einhver leiðrétting, ef rétt teldist, fengi komist að án mikils kostnaðar.  Óásættanlegt sé að aðilar með hálfgildings sjálftökurétt eins og verkalýðsfélög komist upp með að setja mál á spil með þessum hætti og bera ekki ábyrgð á þeim kostnaði sem af hljótist sér í lagi þegar í hlut eiga óþekktir erlendir aðilar svo sem hér sé.             Stefndi vísar máli sínu til stuðnings til meginreglna samningsréttar sem og vinnuréttar auk annarra þeirra laga og ákvæða sem  um starfssamninga  og starfskjör fjalla. Þá vísar stefndi til ákvæða laga nr. 91/1991 og um málskostnað til 130. gr. laganna.                  Forsendur og niðurstaða             Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um ógreidd laun sem hann kveðst eiga inni hjá stefnda. Hefur stefndi mótmælt þessu og kveður ekkert ógreitt af launum stefnanda.             Hefur stefnandi gert rækilega grein fyrir útreikningi kröfu sinnar og tímaskráningum sínum, sem útreikningurinn byggir á, en ekki er fyrir að fara öðrum tímaskráningum um vinnu stefnanda hjá stefnda.             Er óumdeilt tímagjaldið 1.380 kr. á tímann í dagvinnu og 2.484 í eftirvinnu.             Kjör stefnanda koma fram á ráðningarsamningi á eyðublaði frá Vinnumálastofnun, en undir þann ráðningarsamning var ritað af hálfu beggja samningsaðila. Segir þar að um sé að ræða fullt 100% starf verkamanns og vísað um kjör til kjarasamnings og tekið fram að stéttarfélag sé Verkalýðsfélag Suðurlands. Seinni ráðningarsamningurinn, sem að ofan greinir, var útbúinn við starfslok stefnanda og var ekki með honum unnt að breyta ráðningargjörum stefnanda afturvirkt. Verður alfarið byggt á fyrri ráðningarsamningnum við úrlausn málsins að því leyti sem ráðningarsamningarnir eru ekki samhljóða.             Í greinargerð sinni byggir stefndi á því að eftir starfslok stefnanda hafi stefndi ekki heyrt frekar frá stefnanda fyrr en með bréfi Verkalýðsfélags Suðurlands, þar sem hafðar hafi verið uppi órökstuddar kröfur, en á seinni stigum hafi verið vísað til tímaskrár stefnanda sjálfs. Ekki getur það orðið til þess að fría stefnda af kröfum stefnanda hvernig bréfaskriftir þessar voru milli Verkalýðsfélags Suðurlands og stefnda, enda getur réttur stefnanda til ógreiddra launa ekki ráðist af efni bréfaskriftanna.             Stefndi hefur mótmælt tímaskráningum stefnanda sem röngum og ósönnuðum. Að mati dómsins er þó ekki við annað að styðjast í þeim efnum. Tímaskráningar stefnanda eru handfærðar samtímaheimildir, en stefndi hefur ekki lagt fram neina aðra tímaskráningu en hann hafði þó öll færi á því að skrá vinnu stefnanda s.s. með stimpilklukku og eða með því að fá hjá stefnanda tímaskráningu jafnóðum. Yfirlit endurskoðanda stefnda, sem unnið er upp úr frásögnum stefnda sjálfs, getur ekki breytt þessu en ekki hafði endurskoðandinn sjálfstæða vitneskju um vinnutíma stefnanda. Þá hefur tímaskráningum stefnanda ekki verið hnekkt með framlögðum gögnum eða skýrslum sem gefnar voru við aðalmeðferð, en þar er annars vegar um að ræða óljósar frásagnir fósturdóttur fyrirsvarsmanns stefnda og hins vegar fyrrverandi starfsmanns stefnda, en hvorugt þeirra hafði tímaskráningu starfsmanna með höndum. Verður við úrlausn málsins byggt á tímaskráningum stefnanda sjálfs enda ekki við annað að styðjast og ekkert sérstakt fram komið í málinu sem rýri trúverðugleika þeirrar skráningar. Rétt er að nefna að hinar handfærðu tímaskráningar eru fjarri því að vera ólæsilegar.             Í greinargerð stefnda er ekki byggt á því að rangur kjarasamningur hafi verið notaður við útreikning krafna stefnanda eða að tölulegur útreikningur sé rangur miðað við gefnar forsendur.             Í greinargerð stefnda er vísað til þess að stefndi hafi greitt eða tekið að sér að kaupa fæði fyrir stefnda fyrir 25.000 kr. á mánuði. Engu getur þetta breytt um niðurstöðu málsins en fram hefur komið, m.a. í framburði vitnisins Guðrúnar Elínar Pálsdóttur formanns Verkalýðsfélags Suðurlands, sem annaðist útreikning á kröfu stefnanda, að tekið er tillit til þessa við kröfugerð stefnanda.             Þá hefur stefndi vísað til þess að stefnandi hafi tekið athugasemdalaust við launum sínum og ekki haft athugasemdir við uppgjör við starfslok. Fram hefur hins vegar komið að nokkur ágreiningur hafi verið milli stefnanda og stefnda, en einkum hafi það þó verið vegna frídaga sem stefnanda hafi þótt á skorta. Að mati dómsins er ekki hald í þessum vörnum, en fyrir liggur að stefnandi er erlendur maður sem hefur ekki rækilega þekkingu á reglum íslensks vinnuréttar og var mikill aðstöðumunur á aðilum að þessu leyti, en fram hefur komið að strax eftir starfslok óskaði stefnandi liðsinnis við að rétta sinn hlut gagnvart stefnda.             Ekki hefur stefndi fært fram aðrar málsástæður sem geti orðið til þess að sýkna hann af kröfum stefnanda. Eins og að framan greinir vildi stefndi við endurflutning málsins endurvekja kröfu sína um skuldajöfnuð, en hann hafði við aðalmeðferð fallið frá því að hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar skv. 28. gr. laga nr. 91/1991. Við endurflutninginn afhenti lögmaður stefnda dóminum til hliðsjónar handskrifað blað til nánari tölulegrar útskýringar á skuldajafnaðarkröfu sinni. Af hálfu stefnanda var því hafnað að krafa þessi kæmist að í málinu. Með hliðsjón af því að stefndi féll við aðalmeðferð frá skuldajafnaðarkröfu sinni verður henni ekki sinnt frekar, en rétt er þó að geta þess að telja verður að hvort heldur sem er þá hafi ekki verið gerð nein grein fyrir henni fyrr en allt of seint og getur hún því alls ekki komið til álita.             Verður því stefndi dæmdur til að greiða stefnanda hina umkröfu fjárhæð með dráttarvöxtum eins og krafist er, en engin sérstök mótmæli eða málsástæður eru hafðar uppi af hálfu stefnda gegn dráttarvaxtakröfum stefnanda.             Rétt er að stefndi greiði stefnanda málskostnað og er hann hæfilega ákveðinn kr. 1.136.538 og hefur þá verið litið til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts.             Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan. DÓMSORÐ:                 Stefndi, Ferðaþjónusta og sumarhús ehf., greiði stefnanda, Zsuzsanna Aleksic, 1.849.809 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 167.988 kr. frá 1. apríl 2015 til 1. maí 2015, af 416.272 kr. frá þeim degi til 1. júní 2015, af 1.122.331 kr. frá þeim degi til 1. júlí 2015, af 1.763.093 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og loks af 1.849.809 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 1.136.538 kr. í málskostnað.
Mál nr. 187/2017
Frávísun frá héraðsdómi Vanreifun Kröfugerð
H ehf. krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu Í vegna tjóns sem félagið taldi sig hafa orðið fyrir vegna tiltekinna ákvarðana Ríkiskaupa og úrskurða kærunefndar útboðsmála í tengslum við nánar tilgreind útboð vegna lyfjakaupa. Hafði kröfum H ehf. á hendur Í vegna sömu atvika tvívegis verið vísað frá dómi með dómum Hæstaréttar í málum nr. 435/2013 og 86/2015. Í niðurstöðu sinni vísaði Hæstiréttur til þess að dómkröfur H ehf. væru bæði óskýrar og framsetning þeirra ómarkviss og í andstöðu við meginreglu einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð. Þá hefði H ehf. með umfjöllun sinni og eigin útreikningum ekki leitt nægar líkur að því að það hefði orðið fyrir tjóni vegna umræddra útboða og þeirra ákvarðana Ríkiskaupa og úrskurða kærunefndar útboðsmála sem félagið vísaði til. Taldi Hæstiréttur jafnframt að þeir sömu annmarkar væru á málatilbúnaði H ehf. og áður að félagið hefði ekki gert nægilega skýra grein fyrir því á hvaða lagagrundvelli það reisti kröfur sínar. Væri málatilbúnaður H ehf. því í heild sinni svo óskýr og ruglingslegur að í bága færi við d.-f. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Var málinu því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ragnheiður Bragadóttir landsréttardómari. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. mars 2017. Hann krefst þess aðallega að viðurkenndur verði réttur sinn til skaðabóta úr hendi gagnáfrýjanda vegna ákvarðana kærunefndar útboðsmála og Ríkiskaupa „er leiddu til þess að hann missti af hagnaði sem hann hefði annars fengið af viðskiptum á grundvelli tilboða ... í rammasamningsútboði Ríkiskaupa nr. 13128 ... og ... nr. 13174 ... en til vara ... nr. 13249“. Til vara krefst aðaláfrýjandi þess að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda gagnáfrýjanda „vegna tjóns, en til vara missis hagnaðar, sem aðaláfrýjandi varð fyrir vegna ákvarðana Ríkiskaupa við útboðsframkvæmd, en til vara ákvarðana kærunefndar útboðsmála 29. nóvember 2002, en til vara 13. febrúar 2003 og ákvörðunar sömu nefndar 13. febrúar 2003 og urðu til þess að hann varð af sölu á lyfjum sem boðin voru út með, rammasamningsútboði Ríkiskaupa nr. 13128 ... og ... nr. 13174 ... og til vara ... nr. 13249 ... vegna ákvörðunar Ríkiskaupa 8. júlí 2003.“ Að því frágengnu krefst aðaláfrýjandi þess að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda gagnáfrýjanda „vegna tjóns, en til vara missis hagnaðar, sem aðaláfrýjandi varð fyrir vegna ákvarðana Ríkiskaupa ... og til vara ákvarðana kærunefndar útboðsmála 29. nóvember 2002 að stöðva, en til vara 13. febrúar 2003 að fella úr gildi, rammasamningsútboð Ríkiskaupa nr. 13128 ... og ... nr. 13174 ... og til vara ... vegna ákvörðunar Ríkiskaupa 8. júlí 2003 að hafna öllum tilboðum aðaláfrýjanda í rammasamningsútboði ... nr. 13249“. Að öðrum kosti krefst aðaláfrýjandi þess að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda gagnáfrýjanda „vegna ákvarðana Ríkiskaupa ... að endurtaka ekki útboðið nr. 13128 og ... nr. 13249, með sömu útboðsskilmálum, hvað varðar umbeðna vöru, vörumagn, samningstíma og framlengingu samningstíma og áður giltu“. Ella krefst aðaláfrýjandi þess að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda gagnáfrýjanda „vegna ólögmætra útboðsframkvæmda Ríkiskaupa og leiddu til hins sama og greinir í aðalkröfu“. Að öllu þessu frágengnu krefst aðaláfrýjandi viðurkenningar á rétti sínum til skaðabóta úr hendi gagnáfrýjanda „vegna kostnaðar hans af þátttöku í rammasamningsútboðum Ríkiskaupa, nr. 13128, nr. 13174, nr. 13249 og ... í samningskaupaútboði nr. 13356.“ Verði ekki á það fallist krefst aðaláfrýjandi staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Í gagnsök krefst aðaláfrýjandi frávísunar gagnsakar. Þá krefst aðaláfrýjandi aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að hann verði látinn niður falla. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 13. júní 2017. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að gagnáfrýjandi verði sýknaður af öllum kröfum aðaláfrýjanda. Í báðum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Að því frágengnu krefst gagnáfrýjandi staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt um formhlið þess 2. maí 2018, sbr. 2. mgr. 185. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. I Með dómum Hæstaréttar 9. september 2013 í máli nr. 435/2013 og 11. febrúar 2015 í máli nr. 86/2015 voru staðfestir úrskurðir héraðsdóms um að vísa frá dómi kröfugerð aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda sem áttu rætur að rekja til sömu málsatvika og í máli þessu. Í málinu leitar aðaláfrýjandi, sem er einkahlutafélag, í þriðja sinn dóms um viðurkenningu á bótaskyldu gagnáfrýjanda vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna þess að kærunefnd útboðsmála hafi með úrskurðum sínum 13. febrúar 2003 í málum nr. 32/2002 og 36/2002 fellt niður tvö rammasamningsútboð sem Ríkiskaup efndu til vegna lyfjakaupa, en einnig vegna þess að kærunefndin hafi með úrskurði 19. september 2003 í máli nr. 21/2003 ógilt þá ákvörðun Ríkiskaupa að viðhafa samningskaup á grundvelli þriðja rammasamningsútboðsins og lagt fyrir stofnunina að bjóða innkaupin út að nýju. Þá telur aðaláfrýjandi tjón sitt einnig stafa af því að Ríkiskaup hafi ekki farið að áðurgreindum úrskurði og boðið út að nýju fyrrgreind lyf með sömu uppboðsskilmálum og áður. Í greinargerð sinni til Hæstaréttar rekur aðaláfrýjandi tjón sitt einnig til ólögmætra útboðsframkvæmda Ríkiskaupa. Til vara krefst aðaláfrýjandi viðurkenningar á bótaskyldu gagnáfrýjanda vegna kostnaðar aðaláfrýjanda af þátttöku í fyrrgreindum útboðum en að því frágengnu krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms. II Aðaláfrýjandi hefur engin haldbær rök fært fram fyrir kröfu sinni um frávísun gagnsakar frá Hæstarétti og er henni því hafnað. Í áðurgreindum dómum Hæstaréttar í málum nr. 435/2013 og 86/2015 var komist að þeirri niðurstöðu að hvorki hefði komið nægilega skýrt fram í héraðsdómsstefnu á hvaða lagagrundvelli kröfur aðaláfrýjanda um bætur sér til handa væru reistar né væri þar gerð grein fyrir því tjóni sem hann teldi sig hafa orðið fyrir. Kröfur aðaláfrýjanda nú virðast að meginstefnu til samhljóða þeim kröfum sem hann gerði í fyrri málum á hendur gagnáfrýjanda. Samkvæmt d. og e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má dómkröfur stefnanda og þær málsástæður sem hann byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að geta til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Skal þessi lýsing gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er. Dómkröfur aðaláfrýjanda eru óskýrar og framsetning þeirra ómarkviss og í andstöðu við meginreglu einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð. Aðaláfrýjandi breytti kröfugerð sinni undir rekstri málsins í héraði og þá tók kröfugerðin nokkrum breytingum við áfrýjun þess. Fyrir flutning málsins í Hæstarétti lagði aðaláfrýjandi á ný fram breytta kröfugerð sem eykur enn á óskýrleika málatilbúnaðar hans. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að leita dóms um viðurkenningu á skaðabótaskyldu án tillits til þess hvort unnt sé að leita dóms sem fullnægja mætti með aðför. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið lagt til grundvallar að beiting þessarar heimildar sé háð þeim skilyrðum að sá sem mál höfðar leiði nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni af nánar tilteknu tilefni og geri grein fyrir því í hverju tjónið felist og hver tengsl þess séu við atvik máls. Eins og áður leitast aðaláfrýjandi við með eigin útreikningum í stefnu og gögnum málsins að gera grein fyrir því fjárhagslega tjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna þess að tilgreind útboð voru felld úr gildi. Verður ekki talið að hann hafi með þeirri umfjöllun sinni og útreikningum leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þessara útboða og þeirra ákvarðana Ríkiskaupa og úrskurða kærunefndar útboðsmála í tengslum við þau sem vísað er til í dómkröfum. Þá eru þeir sömu annmarkar á málatilbúnaði aðaláfrýjanda og áður að hann hefur ekki gert nægilega skýra grein fyrir því á hvaða lagagrundvelli hann reisir kröfur sínar en í héraðsdómsstefnu er vísað til ýmissa laga og óskráðra réttarreglna án frekari skýringa. Er málatilbúnaður aðaláfrýjanda í heild sinni svo óskýr og ruglingslegur að í bága fer við d., e. og f. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Verður því fallist á kröfu gagnáfrýjanda um frávísun málsins frá héraðsdómi. Eftir þessum úrslitum verður aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Aðaláfrýjandi, Hýsir ehf., greiði gagnáfrýjanda, íslenska ríkinu, 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2016.                 Mál þetta höfðaði Hýsir ehf., Barónsstíg 3, Reykjavík, með stefnu birtri 10. ágúst 2015 á hendur íslenska ríkinu.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 25. nóvember sl.                  Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þessar:                 1.  Að viðurkenndur verði réttur stefnanda til skaðabóta úr hendi íslenska ríkisins vegna missis hagnaðar sem hann varð fyrir, vegna ákvarðana kærunefndar útboðsmála og Ríkiskaupa er leiddu til þess að tilboðum frá stefnanda var ekki tekið í lyf sem boðin voru út með rammasamningsútboðum Ríkiskaupa nr. 13128 ,,Lyf fyrir sjúkrahús“ og nr. 13174 ,,Lyf fyrir sjúkrahús – Blóð-storkuþáttur VIII“ og nr. 13249 ,,Lyf fyrir sjúkrahús – Blóð-storkuþáttur VIII“ og nánar felst í ákvöðunum og af­greiðslu kærunefndar útboðsmála við úrlausn í kærumálum nr. 32/2002 og nr. 36/2002, er lauk með úrskurðum dags. 13. febrúar 2003 ,,ásamt að felast í ákvörðun Ríkiskaupa 8. júlí 2003, að hafna tilboðum stefnanda í útboðinu nr. 13249 og þar í framhaldi í afgreiðslu kærunefndar útboðsmála í kærumáli nr. 21/2003 milli sömu aðila og lauk með úrskurðum dags. 19. september 2003.“                  Og til vara:  Vegna ákvarðana Ríkiskaupa að endurtaka ekki útboðið nr. 13128 og útboðið nr. 13249, með sömu útboðsskilmálum, hvað varðar umbeðna vöru, vöru­magn, samningstíma og framlengingu samningstíma og áður giltu í þeim útboðum,                  2.  Til vara er þess krafist að viðurkenndur verði réttur stefnanda til skaðabóta úr hendi íslenska ríkisins vegna kostnaðar hans af þátttöku í rammasamningsútboðum Ríkiskaupa, nr. 13128, nr. 13174, nr. 13249 ... og vegna þátttöku stefnanda í samningskaupaútboði nr. 13356 sem öll fóru fram á vegum Ríkiskaupa.                  Stefnandi krefst í öllum tilvikum málskostnaðar.                  Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar.                  Stefnandi höfðar nú mál í þriðja sinn vegna þeirra útboða á lyfjum og úrskurða kærunefndar útboðsmála sem rakin eru í kröfugerð hans.  Hann höfðaði fyrst mál með stefnu birtri 6. febrúar 2013.  Því máli var vísað frá dómi með úrskurði uppkveðnum 7. júní 2013, sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 9. september 2013.  Öðru sinni höfðaði stefnandi mál með stefnu birtri 5. mars 2014.  Því máli var vísað frá dómi með úrskurði uppkveðnum 7. janúar 2015, sem var staðfestur í Hæstarétti 11. febrúar 2015.                  Með úrskurði 27. maí 2016 var hluta af kröfum stefnanda vísað frá dómi.  Þá var kröfum á hendur öðrum aðilum en stefnda íslenska ríkinu vísað frá dómi.                  Ríkiskaup efndu í október 2002 til rammasamningsútboðs nr. 13128, fyrir hönd Sjúkrahúsapóteksins ehf., þar sem óskað var eftir tilboðum í nánar tilgreind lyf.  Í útboðslýsingu var meðal annars tekið fram að samið yrði við einn eða fleiri bjóðendur.  Stefnandi var einn bjóðenda. Hinn 21. nóvember 2002 kærði hann útboðið til kærunefndar útboðsmála og krafðist þess að „útboðinu verði komið í eðlilegt horf og jafnræði ríki milli bjóðenda“.  Kærunefndin stöðvaði framkvæmd útboðsins um stundarsakir þar til leyst hefði verið úr kærunni.  Kvaðst nefndin gera þetta að kröfu stefnanda.  Í úrskurði nefndarinnar 13. febrúar 2003 komst hún að þeirri niðurstöðu að útboðsgögn væru andstæð þágildandi lögum nr. 94/2001 um opinber innkaup að því leyti sem þau áskildu Ríkiskaupum rétt til að taka tilboði fleiri en eins aðila vegna sama lyfs eða lyfja með sömu eiginleika.  Væri því óhjákvæmilegt að fella hið kærða útboð úr gildi í heild sinni.                  Í nóvember 2002 efndu Ríkiskaup til annars rammasamningsútboðs, nr. 13174, þar sem óskað var eftir tilboðum í lyf í ákveðnum flokki.  Stefnandi var meðal bjóðenda og kærði útboðið til kærunefndar útboðsmála 19. desember 2002 og var kröfugerð hans sú sama og í áðurnefndu tilviki.  Ríkiskaup ákváðu að fresta framkvæmd útboðsins þar til endanlega hefði verið skorið úr kærunni.  Í úrskurði kærunefndarinnar 13. febrúar 2003 var litið svo á að sú aðferð Ríkiskaupa að láta hjá líða að lesa upp verð við opnun tilboða í hinu kærða útboði bryti gegn b-lið 1. mgr. 47. gr. laga nr. 94/2001.  Væri því óhjákvæmilegt að fella útboðið úr gildi í heild sinni.  Tók kærunefndin fram að þessi niðurstaða væri í samræmi við kröfugerð sóknaraðila.                  Í mars 2003 efndu Ríkiskaup til rammasamningsútboðs að nýju í framhaldi af síðarnefnda útboðinu númer 13174.  Hið nýja útboð var auðkennt númer 13249 „Lyf fyrir sjúkrahús – Blóðstorkuþáttur VIII“.  Með bréfi til bjóðenda 8. júlí 2003 tilkynntu Ríkiskaup að ákveðið hefði verið að hafna öllum tilboðum þar sem verð væri of hátt í þeim öllum.  Var bjóðendum boðið að taka þátt í samningskaupum með vísan til 19. gr. laga nr. 94/2001 og var samningskaupaútboðið auðkennt númer 13356.  Stefnandi sem var meðal bjóðenda í þessu útboði kærði bæði útboðin til kærunefndar útboðs­mála 10. júlí 2003.  Að kröfu hans ákvað nefndin að stöðva útboðin þar til skorið hefði verið úr kærunni.  Krafðist stefnandi þess aðallega fyrir nefndinni að samningskaupa­útboðið yrði ógilt, ásamt því að ógilt yrði sú ákvörðun Ríkiskaupa að hafna öllum tilboðum í rammasamningsútboðinu auk þess sem lagt yrði fyrir stofnunina að hefja að nýju úrvinnslu tilboða í því útboði.  Með úrskurði kærunefndarinnar 19. september 2003 var sú ákvörðun Ríkiskaupa að viðhafa samningskaupaútboð felld úr gildi.  Jafnframt var lagt fyrir stofnunina að bjóða út að nýju þau innkaup sem boðin höfðu verið út í rammasamningsútboðinu.  Í kjölfarið efndu Ríkiskaup til útboða, þar sem óskað var eftir sömu lyfjum og gert hafði verið í fyrri útboðum.                  Stefnandi segir að hann hafi í febrúar 2003 afhent Ríkiskaupum yfirlýsingu Sparisjóðsins í Keflavík.  Yfirlýsingin var lögð fram í þessu máli.  Þar segir að stefnandi og forsvarsmaður hans, Jakob Traustason, hafi átt viðskipti við sjóðinn og að þau hafi verið til fyrirmyndar.  Sjóðurinn telji að stefnandi hafi burði til að standa við áætlanir um lyfjainnflutning.                  Stefnandi lagði fram yfirlýsingu Árna Þórs Árnasonar, fyrrverandi forstjóra Austurbakka hf.  Þar segir að fyrirtækið hafi boðist til að annast umsetningu, geymslu og afgreiðslu lyfja, allt frá tollafgreiðslu til kaupanda lyfjanna, auk þess að sinna mörgum öðrum verkefnum við lyfjainnflutninginn.  Árni Þór staðfesti þessa yfir­lýsingu fyrir dómi.                  Málsástæður og lagarök stefnanda                 Stefnandi segist hafa sent Ríkiskaupum, stefnda fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra nokkur bréf og greinargerðir á árunum 2003-2004.  Hafi hann þar áskilið sér rétt til skaðabóta.  Stefnandi sendi kröfubréf, dags. 27. desember 2007, og lýsti skaðabótakröfu.  Þessu bréfi hafi ráðuneytið svarað með bréfi dags. 9. júlí 2008. Í því bréfi hafi því verið haldið fram að útboðið hafi að öllu leyti verið samkvæmt lögum.  Í greinargerð stefndu í máli nr. E-528/2013 hafi því hins vegar verið lýst yfir að upplýsingar ráðuneytisins hafi verið rangar hvað þetta varðar og byggt á því að útboðsferlið hafi verið ólöglegt.                  Stefnandi kveðst enn hafa ítrekað bótakröfur með bréfi dags. 29. desember 2009.                  Stefnandi kveðst í stefnu sinni í áðurgreindu máli nr. E-528/2013 hafa skorað á stefnda að upplýsa hvort hann hafi í einhverjum hluta útboðsins átt lægsta tilboð.  Þessari áskorun hafi stefndi ekki sinnt.  Ríkiskaup hafi sent honum óstaðfest ljósrit af nokkrum tilboðum í febrúar 2014.  Fullyrðir hann að þau sýni að hann hafi í öllum til­vikum átt lægsta boð.                  Stefnandi byggir á því að fullvíst sé að samið hefði verið við hann, ef afskipti kærunefndar og Ríkiskaupa hefðu ekki komið til.  Honum hafi verið valdið tjóni á saknæman hátt.  Til vara byggir stefnandi á því að hann hefði að lágmarki getað selt þá lyfjaflokka og lyfjaform í útboði nr. 13128, þar sem hann var einn með boð svo og allt lyfjamagnið í útboði nr. 13249/13170.                  Þá byggir stefnandi á því varðandi útboð nr. 13128 að þar sem það hafi ekki verið endurtekið hafi hann á saknæman hátt verið útilokaður frá því að senda inn á ný sömu eða svipuð tilboð og því orðið af hagnaði.                  Stefnandi byggir á því að hann hafi átt lægstu tilboð í útboði um blóðstorku­þátt.  Því hafi hann misst af hagnaði sem hann hefði ella fengið.  Í fyrsta lagi hafi þetta orðið vegna þess að kærunefndin felldi útboðið ólöglega úr gildi, til vara vegna þess að Ríkiskaup felldi útboð nr. 13174 ólöglega úr gildi, en hafnaði ólöglega öllum til­boðum í útboði nr. 13249.                  Til vara er hér byggt á því að kærunefndin hafi ólöglega ákveðið að ekki væri hægt að halda áfram útboði nr. 13249.  Þá hafi útboðið ekki verið endurtekið með sömu skilmálum.  Ríkiskaup hafi heldur ekki farið að þeim fyrirmælum úrskurðar­nefndarinnar að bjóða út að nýju.  Þar sem innkaupin hafi ekki verið boðin út að nýju beri stefndi hallann af sönnun um að tilboð stefnanda hefðu aftur orðið lægst.                  Stefnandi kveðst byggja á því að það sé andstætt lögum og reglum og velsæmi að þátttakendur í opinberum útboðum skaðist og verði fyrir tjóni vegna þess að kærur hafi verið rangt túlkaðar org látnar leiða ranglega til þess að útboð væru felld niður, þótt það hafi ekki verið í samræmi við kröfur aðila til nefndarinnar.  Kærunefndin hafi ekki getað túlkað kröfugerð stefnanda eins og hún gerði.  Nefndin hafi sagt í niðurlagi úrskurðar síns um útboð nr. 13128 að niðurstaða hennar væri í samræmi við kröfur stefnanda og þetta hafi hún gert í þeim ólögmæta tilgangi að réttlæta ranga ákvörðun um að fella útboðið úr gildi.  Þá telur stefnandi að nefndin hafi heldur ekki mátt stöðva þetta útboð eftir að tilboð höfðu verið opnuð.  Sú ákvörðun hafi verið í andstöðu við kröfugerð í kæru.  Enn fremur segir stefnandi að nefndin hafi ekki mátt verja ákvörðun sína með því að breyta kröfugerð hans eins og hún hafi gert í inngangi úrskurða.                  Stefnandi telur að nefndinni hafi borið að vísa frá kæru hans á útboði nr. 13128, hafi hún talið kröfur of seint fram komnar.                  Stefnandi byggir á því að nefndin hafi brotið gegn lögum nr. 94/2001, m.a. XIII. kafla, og gegn lögum nr. 65/1993 og algildum útboðsvenjum og reglum.  Nefndinni hafi verið óheimilt að fella útboðið niður eða ógilda það, svo og að stöðva útboð nr. 13128.  Með þessu hafi honum verið valdið tjóni, missi hagnaðar, á sak­næman hátt.  Íslenska ríkið beri skaðabótaábyrgð á þessu.  Skilyrðum 1. og 2. mgr. 84. gr. laga nr. 94/2001 fyrir bótaskyldu sé fullnægt.                  Stefnandi mótmælir því að forsendur fyrir útboði nr. 13249 hafi brostið eins og Ríkiskaup héldu fram í bréfi til bjóðenda dags. 8. júlí 2003.  Þá hafi kærunefndin einnig komist að þeirri afdráttarlausu niðurstöðu að höfnun tilboðanna hafi verið ólög­mæt.  Telur stefnandi að kærunefndinni hafi borið, í samræmi við kröfugerð hans, að ógilda ákvörðun Ríkiskaupa og mæla fyrir um að vinnsla tilboða skyldi hafin að nýju.                  Stefndi segir að með tilliti til jafnræðissjónarmiða hljóti heimild til að hætta við útboð að vera mun takmarkaðri eftir að tilboð hafi verið opnuð.  Tryggt eigi að vera að upplýsingar sem fram komi verði ekki notaðar til að draga taum ákveðinna bjóðenda eða í endurteknu útboði.                  Stefnandi telur að samkvæmt 2. mgr. 78. gr. og 4. mgr. 79. gr. laga nr. 94/2001 hafi kæruefndin verið bundin af kröfugerð í úrskurði sínum.  Hefði nefndin haldið sig innan þessa ramma hefði stefnandi fengið samning samkvæmt tilboði sínu.                  Stefnandi bendir á að kæra sé úrræði sem bjóðendur hafi til að verja sína hags­muni.  Þetta leiði einnig til þess að skylt hafi verið að endurtaka útboðin á sama hátt.                  Stefnandi kveðst telja að rétt hefði verið að ógilda þau atriði sem fram komu í bréfi Ríkiskaupa, dags. 30. október 2002.  Ekki hafi verið nauðsynlegt að fella útboðið niður.                  Stefnandi segir tjón sitt felast í missi hagnaðar af sölusamningum samkvæmt útboðunum.  Þá felist tjónið einnig í tapaðri aðstöðu, lyfjaheildsölu og öðrum verslunarrekstri sem hann hafi ætlað sér að byggja upp samhliða afgreiðslu lyfjanna.                  Varakröfu sína um bætur vegna vinnu og kostnaðar við gerð tilboðs byggir stefnandi á sömu málsástæðum og kröfu um efndabætur samkvæmt aðalkröfu.                  Stefnandi vísar til fjölmargra réttarheimilda í stefnu.  Má þar nefna sett lög eins og lög nr. 91/1991, eldri lög nr. 94/2001 um opinber innkaup, lög nr. 65/1993, skaðabótalög nr. 50/1993 og stjórnsýslulög nr. 37/1993.  Þá vísar hann til ýmissa ólögfestra meginreglna.                  Málsástæður og lagarök stefnda                 Stefndi byggir á því að málatilbúnaður stefnanda sé bæði rangur og ósannaður.  Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrði almennu skaðabótareglunnar, sem hann byggi á, séu uppfyllt.  Hann hafi ekki sýnt fram á sök neins sem stefndi beri ábyrgð á og ekkert liggi fyrir um ólögmæti, orsakatengsl eða sennilega afleiðingu.  Þá sé tjón hans ekki reifað skýrt og bendir stefndi á að stefnandi hafi hvorki haft leyfi né aðstöðu til að þess að standa við samning, hefði hann verið valinn til samningsgerðar.  Hann hafi ekki haft markaðsleyfi, sbr. 7. gr. laga nr. 93/1994, en slíkt leyfi sé skilyrði þess að menn geti flutt inn, selt eða afhent fullgerð lyf.                  Stefndi vísar til þess að kærunefnd útboðsmála hafi í úrskurði sínum í málinu nr. 36/2002 talið að það væri málefnalegt að gera það skilyrði í lyfjaútboði að bjóðendur hefðu leyfi til innflutnings og heildsöludreifingar lyfja.                  Stefndi hafi ekki sýnt af sér saknæma háttsemi                 Stefndi segir að stefnandi geri enga tilraun til að sanna að þeir sem fjölluðu um útboðið hafi sýnt af sér ólögmæta háttsemi.                  Stefndi byggir á því að í úrskurðum kærunefndar hafi ekki falist skylda til að bjóða lyfjakaupin út að nýju með nákvæmlega sama hætti.  Stefnandi hafi ekki getað krafist þess.  Kaupandi í opinberum innkaupum hafi svigrúm til að ákveða fjölda útboða og efni þeirra og skilmála, enda sé byggt á lögmætum og málefnalegum forsendum.  Ríkiskaup hafi einungis verið umsýsluaðili samkvæmt 70. gr. þágildandi laga nr. 94/2001.  Geti Ríkiskaup því ekki borið ábyrgð á þeim atriðum sem stefnandi geri helst athugasemdir við í málflutningi sínum.  Kaupandanum, Sjúkrahúsa­apótekinu ehf., sé ekki stefnt í málinu.  Verði því að sýkna stefnda af öllum kröfum sem beinist að háttsemi Ríkiskaupa vegna aðildarskorts.                  Stefndi bendir á að það sé í sjálfu sér ekki ólögmætt af hálfu kærunefndarinnar að fallast ekki á kröfur stefnanda.  Úrskurðirnir séu í samræmi við lög og málatilbúnað stefnanda sjálfs fyrir nefndinni.  Stefnandi hafi sjálfur skotið málunum til nefndarinnar.  Nefndin sé ekki bundin af málsforræðisreglu.  Stefnandi hafi krafist þess að útboðinu yrði komið í eðlilegt horf.  Kærunefndin hafi talið að annmarkar væru á útboðunum og því hafi þau verið felld úr gildi.  Hún hafi ekki verið bundin af kröfugerð aðila.                  Stefnandi haldi því ekki fram að röksemdafærsla nefndarinnar sé röng, hann byggi einungis á því hún hafi farið út fyrir kröfugerð hans.  Þar sem nefndin hafi haft heimild til að fara út fyrir kröfugerð geti það ekki leitt til bótaskyldu.  Jafnvel þótt það hefði verið óheimilt geti skaðabótaskylda ekki stofnast vegna þess að stefnandi hafi misst af tækifæri til að gera samning á grundvelli ólögmæts útboðs.                  Stefndi bendir á að kröfugerð stefnanda í kærumáli nr. 21/2003 hafi verið sam­hljóða niðurstöðu nefndarinnar.  Fallist hafi verið á kröfu hans um að útboð nr. 13356 yrði fellt úr gildi.  Annmarkar á útboði nr. 13249 hafi komið í veg fyrir að fallist yrði á kröfu hans um að því yrði fram haldið.  Þá hafi öll tilboð verið fallin úr gildi og því hafi framhald verið útilokað.                  Stefndi byggir á því að þar sem innkaupin hafi verið ólögmæt geti stefnandi ekki átt kröfu um bætur vegna missis hagnaðar.  Eins og áður segir hafi stefnandi ekki reynt að hnekkja áliti nefndarinnar og viðurkenni hana í raun rétta.                  Meint tjón stefnanda                 Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni.  Fullyrðingar hans sjálfs og útreikningar dugi ekki.  Haldbær gögn hafi hann ekki lagt fram.                  Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi verið sviptur því, með saknæmum og ólögmætum hætti, að vera hlutskarpastur í útboðunum.  Ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi átt hagstæðustu tilboðin.  Þá hafi hann ekki sýnt fram á að hann hafi uppfyllt öll skilyrði útboðsins, enda hafi hann ekki haft tilskilin leyfi eins og áður segir.  Loks liggi ekkert fyrir um að stefnandi hefði getað hagnast á viðskiptunum ef samið hefði verið við hann.                  Stefndi byggir á því að kröfur stefnanda um efnda- og vangildisbætur séu ósamrýmanlegar.  Sýkna verði í það minnsta af annarri kröfunni.  Þá sé ekki hægt að dæma bætur vegna tapaðrar aðstöðu sem stefnandi hefði getað komið sér upp og vegna annars rekstrar sem hann hefði ætlað að byggja upp samhliða lyfjasölu samkvæmt útboðunum.                  Þá sé óljóst hvaða háttsemi eigi að hafa valdið stefnanda tjóni.                  Fyrning og tómlæti                 Stefndi byggir á því að krafa stefnanda sé fyrnd.  Krafan byggist á atvikum sem gerðust á árunum 2002 og 2003, fyrir meira en 10 árum.  Hugsanleg krafa sé því fyrnd samkvæmt 1. mgr. 1. gr., sbr. 2. tl. 4. gr. þágildandi laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.                  Verði ekki fallist á að krafan sé fyrnd byggir stefndi á tómlæti.  Byggt sá á atvikum frá árunum 2002 og 2003.  Krafa hafi fyrst verið gerð með bréfi í desember 2007.  Annað bréf hafi verið sent í desember 2009 og mál loks höfðað rúmum þremur árum síðar.                  Niðurstaða                 Stefnandi krefst viðurkenningar skaðabótaskyldu.  Aðallega til greiðslu efnda­bóta, til vara vangildisbóta.  Tjónið sem hann vill fá bætt er almennt fjártjón, hagnaðarmissir aðallega, til vara endurgreiðsla kostnaðar.  Hann krefst ekki bóta vegna tjóns á munum eða líkamstjóns, tjón hans er almennt fjártjón.                  Stefnandi höfðar málið á hendur íslenska ríkinu.  Það voru Ríkiskaup sem önnuðust útboðin sem deilt er um og skiptir þá ekki máli þótt kaupandi í útboðunum hafi verið annar aðili.  Ríkið ber ábyrgð á hugsanlegum misgjörðum Ríkiskaupa í starfsemi þeirra.                  Stefndi byggir á því að heimilt sé að gera það að skilyrði til þáttöku í útboði lyfjakaupa að bjóðendur hafi leyfi til innflutnings og dreifingar á lyfja.  Á það má fallast, en það var ekki gert að skilyrði í þeim útboðum sem hér er deilt um.  Skiptir því ekki máli hér þótt stefndi hafi ekki haft slíkt leyfi þegar hann sendi inn tilboð sín.                  Útboð nr. 13128                 Útboð nr. 13128 gekk eðlilega fyrir sig þar til stefnandi kærði það til kæru­nefndar útboðsmála þann 21. nóvember 2002.  Kærunefndin ákvað að fresta framkvæmd útboðsins um stundarsakir, að kröfu stefnanda, þann 29. nóvember.  Með úrskurði 13. febrúar 2003 felldi nefndin útboðið úr gildi.  Taldi nefndin að áskilnaður í útboðinu um að skipta við fleiri en einn bjóðanda um sömu lyfin bryti í bága við þá­gildandi lög nr. 94/2001 um opinber innkaup.  Í úrskurðinum segir:  „Það er álit nefndarinnar að við val á tilboði í útboði um gerð rammasamnings beri kaupanda, eins og endranær, skylda til að taka því tilboði sem er hagkvæmast, sbr. nánar 50. gr. laga nr. 94/2001. Kemur því ekki til greina að semja við tvo eða fleiri bjóðendur um inn­kaup nema um sé að ræða innkaup sem skipt er upp í fleiri sjálfstæða hluta, sbr. 3. mgr. 50. gr. laganna...  Samkvæmt þessu verður talið að útboðsgögn séu andstæð lögum nr. 94/2001 að því leyti sem þau áskilja kærða rétt til að taka tilboði fleiri en eins aðila vegna sama lyfs eða lyfja með sömu eiginleika. Er óhjákvæmilegt að fella hið kærða útboð úr gildi í heild sinni, enda verður að telja þá niðurstöðu í samræmi við kröfugerð kæranda.“                  Stefndi heldur sig við að þetta sé réttmæt niðurstaða og telur sig því ekki hafa verið skuldbundinn til að semja við lægstbjóðanda í útboðinu.                  Stefnandi mótmælir ekki þessari niðurstöðu kærunefndarinnar nema með því að hún hafi hér farið út fyrir kröfugerð aðila sem henni hafi ekki verið heimilt.  Dómurinn getur ekki fallist á það.  Kröfugerð stefnanda fyrir kærunefndinni var ekki skýrt afmörkuð en þess krafist að útboðinu yrði komið í eðlilegt horf.  Innan þessa ramma var kærunefndinni rétt og skylt að kanna grundvöll útboðsins og meginatriði skilmála þess.  Dómurinn er sammála nefndinni um að fyrirvari um að semja við fleiri en einn aðila hafi verið óheimill og að hann hafi í raun ónýtt útboðið.  Var kæru­nefndinni nauðugur sá kostur að fella útboðið í heild úr gildi.                  Þar sem svo verulegir ágallar voru á útboðinu getur stefnandi ekki krafist skaðabóta eins og hann hafi ranglega verið útilokaður frá samningum.  Útboðið hefði ekki með réttu getað orðið grundvöllur að samningagerð og verður stefnandi að una því.                  Þessir ágallar á útboðinu leiddu hins vegar til þess að stefnandi lagði í kostnað við að gera tilboð, í góðri trú um að útboðið væri löglegt.  Verður að fallast á að hann eigi rétt á bótum vegna þess kostnaðar sem hann hafði af tilboðsgerðinni, svonefndum vangildisbótum.                  Þótt viðurkennt yrði að Ríkiskaupum hafi verið skylt að endurtaka útboðið á nákvæmlega sama hátt getur stefnandi ekki átt kröfu um einhvers konar efndabætur ef það er ekki gert.                  Útboð nr. 13174                 Í nóvember 2002 efndu Ríkiskaup til rammasamningsútboðs nr. 13174 þar sem óskað var eftir tilboðum í lyf í ákveðnum flokki.  Stefnandi gerði tilboð og kærði út­boðið til kærunefndar útboðsmála 19. desember 2002 og var kröfugerð hans sú sama og í kærunni frá 21. nóvember 2002.  Ríkiskaup ákváðu að fresta framkvæmd út­boðsins þar til endanlega hefði verið skorið úr kærunni.  Í úrskurði kærunefndarinnar 13. febrúar 2003 var litið svo á að sú aðferð Ríkiskaupa að láta hjá líða að lesa upp verð við opnun tilboða í hinu kærða útboði bryti gegn b-lið 1. mgr. 47. gr. laga nr. 94/2001.  Væri því óhjákvæmilegt að fella útboðið úr gildi í heild sinni.  Tók kæru­nefndin fram að þessi niðurstaða væri í samræmi við kröfugerð sóknaraðila.                  Fram kemur í úrskurði kærunefndarinnar að útboð þetta var haldið sama ágalla og útboð nr. 13128, þ.e. að áskilið var að semja við fleiri aðila en lægstbjóðanda.  Verður því að hafna kröfu stefnanda um efndabætur á sama hátt og vegna fyrrgreinds útboðs.  Á sama hátt og áður greinir verður að fallast á varakröfu stefnanda um vangildisbætur.                  Um þetta útboð á einnig við sú athugasemd sem gerð er hér að framan um skyldu til að endurtaka það.                  Útboð nr. 13249 og 13356                  Útboð þessi voru felld úr gildi af kærunefnd útboðsmála eins og tvö hin fyrri.  Ríkiskaup höfðu tilkynnt að öllum tilboðum í útboði nr. 13249 væri hafnað þar sem verð væri of hátt.  Stefnandi byggir á því að þetta hafi verið óréttmæt ákvörðun, en á það verður ekki fallist  Í skilmálum útboðsins var skýr fyrirvari um heimild til að hafna öllum tilboðum.  Ekki er sýnt fram á að þessi ákvörðun hafi verið ómálefnaleg .  Verður því að hafna bótakröfu stefnanda vegna þessa útboðs.                  Hér á einnig við margnefnd athugasemd um skyldu til að endurtaka útboð og afleiðingar vanrækslu í því efni.  Ríkiskaup efndu til samningskaupaútboðs nr. 13356 í kjölfar höfnunar á öllum tilboðum í útboði nr. 13249.  Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi lagt í sérstakan kostnað vegna þessa samningskaupaútboðs og verður því einnig að hafna kröfu hans vegna þess.                  Önnur atriði                 Stefndi byggir á því að krafa stefnanda sé fyrnd.  Krafa hans vegna útboðs nr. 13128 stofnaðist 13. febrúar 2003 þegar kærunefndin felldi útboðið úr gildi.  Aðrar kröfur stofnuðust síðar.  Um fyrningu krafna stefnanda gilda lög nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007.  Skaðabóta­krafan fyrnist á 10 árum.  Stefnandi rauf fyrningu með málshöfðun 6. febrúar 2013, áður en fyrningartíminn var liðinn.  Því máli var vísað frá dómi 9. september 2013.  Innan sex mánaða frá þeim degi, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905, höfðaði stefnandi nýtt mál.  Því var vísað frá dómi 11. febrúar 2015.  Þetta mál var síðan höfðað 10. ágúst 2015, degi áður en sex mánuðir voru liðnir.  Krafa stefnanda er því ekki fallin niður fyrir fyrningu.                  Stefndi hefur ekki rökstutt málsástæðu sína um tómlæti með öðru en þeim langa tíma sem leið þar til mál var höfðað.  Hann hefur ekki bent á nein sérstök atvik þar sem sérstakt tilefni hafi verið fyrir stefnanda að halda kröfu sinni á lofti.  Er ósannað að krafan hafi glatast fyrir tómlæti.                  Samkvæmt framansögðu verður viðurkennd skylda stefnda til að greiða stefnanda vangildisbætur vegna beins kostnaðar hans af þáttöku í útboðum nr. 13128 og 13174.  Stefndi verður sýknaður af öðrum kröfum stefnanda.                  Forsvarsmaður stefnanda flutti málið sjálfur, en réð ekki lögmann til verksins.  Samt sem áður verður að ákveða honum nokkurn málskostnað.  Líta ber til þess að hluta af kröfugerð hans var vísað frá dómi, en frávísunarkröfu hafnað um veigamestu atriði málsins.  Þá er ekki fallist á aðalkröfu hans og hluta af varakröfu.  Verður stefnda gert að greiða 800.000 krónur í málskostnað.                  Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  D ó m s o r ð                 Stefndi, íslenska ríkið, er skylt að bæta stefnanda, Hýsi ehf., kostnað af þáttöku í útboðum nr. 13128 og 13174.  Að öðru leyti er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.                  Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað. 
Mál nr. 578/2017
Ríkisstarfsmenn Stöðuveiting Stjórnsýsla
Ó höfðaði mál gegn Í í kjölfar þess að hann hlaut ekki skipun í embætti formanns og forstöðumanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ó byggði á því að gengið hefði verið fram hjá sér með ólögmætum hætti við skipun í embættið og að hann hafi verið hæfari eða a.m.k. jafn hæfur og N. Í dómi Hæstaréttar kom fram að Ó hefði hvorki sýnt fram á að hæfiskröfur, sem tilgreindar hefðu verið í auglýsingu um starfið hefðu verið ómálefnalegar né að honum hefði verið mismunað við meðferð umsókna eða málsmeðferðina að öðru leyti. Var því talið að Ó hefði ekki sannað að hann hefði verið jafn hæfur eða hæfari en sá umsækjandi sem embættið hlaut. Var Í því sýknað af kröfum Ó.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Viðar Már Matthíasson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. september 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 11.849.900 krónur en til vara 6.956.771 krónu, í báðum tilvikum með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.000.000 krónum frá 10. desember 2013 til 7. nóvember 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af allri fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Að því frágengnu krefst áfrýjandi þess að viðurkennt verði að með skipan Nönnu Magnadóttur í embætti formanns og forstöðumanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá og með 1. janúar 2014 hafi stefndi brotið gegn rétti hans með ólögmætum hætti. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Áfrýjandi sótti um embætti formanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem auglýst var laust til umsóknar 7. september 2013. Að loknum umsóknarfresti 23. sama mánaðar voru umsóknir metnar og umsækjendur boðaðir í viðtöl, auk þess sem lögð voru fyrir þá próf eins og grein er gerð fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi hefur hvorki sýnt fram á að hæfiskröfur, sem tilgreindar voru í auglýsingu um starfið hafi verið ómálefnalegar né að honum hafi verið mismunað við meðferð umsókna og málsmeðferðina að öðru leyti. Hann hefur því ekki sannað að hann hafi verið jafn hæfur eða hæfari en sá umsækjandi sem embættið hlaut. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur. Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.       Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2017. Mál þetta er höfðað 7. október 2016 og dómtekið 30. maí sl. Stefnandi er Ómar Stefánsson, Öldugranda 3, Reykjavík en stefndi íslenska ríkið.                 Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði dæmt til að greiða honum 8.849.900 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu         af kr. 120.297,- frá 1.feb.14 til 1.mar.14 af kr. 244.266,- frá þeim degi til 1.apr.14 af kr. 368.235,- frá þeim degi til 1.maí.14 af kr. 492.204,- frá þeim degi til 1.jún.14 af kr. 616.173,- frá þeim degi til 1.júl.14 af kr. 740.142,- frá þeim degi til 1.ágú.14 af kr. 864.111,- frá þeim degi til 1.sep.14 af kr. 988.080,- frá þeim degi til 1.okt.14 af kr. 1.112.049,- frá þeim degi til 1.nóv.14 af kr. 1.236.018,- frá þeim degi til 1.des.14 af kr. 1.359.987,- frá þeim degi til 1.jan.15 af kr. 1.483.956,- frá þeim degi til 1.feb.15 af kr. 1.607.925,- frá þeim degi til 1.mar.15 af kr. 1.701.318,- frá þeim degi til 1.apr.15 af kr. 1.803.404,- frá þeim degi til 1.maí.15 af kr. 1.905.490,- frá þeim degi til 1.jún.15 af kr. 2.007.576,- frá þeim degi til 1.júl.15 af kr. 2.109.662,- frá þeim degi til 1.ágú.15 af kr. 2.211.748,- frá þeim degi til 1.sep.15 af kr. 2.313.834,- frá þeim degi til 1.okt.15 af kr. 2.415.920,- frá þeim degi til 1.nóv.15 af kr. 2.518.006,- frá þeim degi til 1.des.15 af kr. 2.620.092,- frá þeim degi til 1.jan.16 af kr. 2.732.302,- frá þeim degi til 1.feb.16 af kr. 2.844.512,- frá þeim degi til 1.mar.16 af kr. 2.956.722,- frá þeim degi til 1.apr.16 af kr. 3.068.932,- frá þeim degi til 1.maí.16 af kr. 3.181.142,- frá þeim degi til 1.jún.16 af af af kr. kr. kr. 3.293.352,- 3.413.090,- 3.594.317,- frá frá frá þeim degi þeim degi þeim degi til til til 1.júl.16 1.ágú.16 1.sept.16 af kr. 3.775.544,- frá þeim degi til 1.okt.16 af                kr.      3.956.771,-                  frá          þeim degi         til     þingfest.dags. en af       kr.      8.849.900,-                  frá          þeim degi         til    greiðsludags. Þá gerir stefnandi kröfu um að honum verði dæmdar 3.000.000 króna í miskabætur með vöxtum, skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 10. desember 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.956.771 krónu, auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu           af   kr. 120.297,- frá 1.feb.14 til 1.mar.14 af   kr. 244.266,- frá þeim degi til 1.apr.14 af   kr. 368.235,- frá þeim degi til 1.maí.14 af   kr. 492.204,- frá þeim degi til 1.jún.14 af   kr. 616.173,- frá þeim degi til 1.júl.14 af   kr. 740.142,- frá þeim degi til 1.ágú.14 af   kr. 864.111,- frá þeim degi til 1.sep.14 af   kr. 988.080,- frá þeim degi til 1.okt.14 af   kr. 1.112.049,- frá þeim degi til 1.nóv.14 af   kr. 1.236.018,- frá þeim degi til 1.des.14 af   kr. 1.359.987,- frá þeim degi til 1.jan.15 af   kr. 1.483.956,- frá þeim degi til 1.feb.15 af   kr. 1.607.925,- frá þeim degi til 1.mar.15 af   kr. 1.701.318,- frá þeim degi til 1.apr.15 af   kr. 1.803.404,- frá þeim degi til 1.maí.15 af   kr. 1.905.490,- frá þeim degi til 1.jún.15 af   kr. 2.007.576,- frá þeim degi til 1.júl.15 af   kr. 2.109.662,- frá þeim degi til 1.ágú.15 af   kr. 2.211.748,- frá þeim degi til 1.sep.15 af   kr. 2.313.834,- frá þeim degi til 1.okt.15 af   kr. 2.415.920,- frá þeim degi til 1.nóv.15 af   kr. 2.518.006,- frá þeim degi til 1.des.15 af   kr. 2.620.092,- frá þeim degi til 1.jan.16 af   kr. 2.732.302,- frá þeim degi til 1.feb.16 af   kr. 2.844.512,- frá þeim degi til 1.mar.16 af   kr. 2.956.722,- frá þeim degi til 1.apr.16 af   kr. 3.068.932,- frá þeim degi til 1.maí.16 af   kr. 3.181.142,- frá þeim degi til 1.jún.16 af af af   kr. kr. kr. 3.293.352,- 3.413.090,- 3.594.317,- frá frá frá þeim degi þeim degi þeim degi til til til 1.júl.16 1.ágú.16 1.sept.16 af   kr. 3.775.544,- frá þeim degi til 1.okt.16. en af       kr.       3.956.771 ,-                frá          þeim degi         til         greiðslud. Þá gerir stefnandi kröfu um að honum verði dæmdar 3.000.000 króna í miskabætur með vöxtum, skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 10. desember 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara gerir stefnandi þá kröfu að viðurkennt verði með dómi að með skipun Nönnu Magnadóttur í stöðu formanns og forstöðumanns úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, frá og með 1. janúar 2014, hafi ráðherra brotið gegn rétti stefnanda með ólögmætum hætti og að stefnanda verði dæmdar 3.000.000 króna í miskabætur úr hendi stefnda með vöxtum, skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. desember 2013, þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnda.                 Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar.  I Stefnandi var ráðinn í starf lögfræðings hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála 1. mars 2002. Í október 2005 var hann gerður að yfirlögfræðingi nefndarinnar og staðfengill forstöðumanns. Stefnandi hóf síðan störf hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála við stofnun nefndarinnar 1. janúar 2012, en nefndin tók m.a. yfir hlutverk úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Með bréfi 23. ágúst 2013 var stefnandi settur til að gegna stöðu forstöðumanns nefndarinnar frá 1. júlí 2013 til og með 31. desember 2013, á  meðan á leyfi forstöðumanns nefndarinnar stóð.   Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsti 7. september 2013 lausa til umsóknar stöðu forstöðumanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Stefnandi sótti um stöðu forstöðumannsins. Í auglýsingunni kom fram að umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði í stöðuna til fimm ára frá 1. janúar 2014 að telja. Skyldi forstöðumaður stýra starfi úrskurðarnefndarinnar og bera ábyrgð á fjárhag hennar og daglegum rekstri. Forstöðumaðurinn skyldi jafnframt vera formaður úrskurðarnefndarinnar. Væri hann í forsvari fyrir nefndina út á við, ákvarðaði hvernig nefndin væri skipuð í hverju máli og réði annað starfsfólk til nefndarinnar. Í auglýsingunni voru gerðar þær menntunar- og hæfniskröfur að viðkomandi hefði lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið yrði því jafngilt, starfsgengisskilyrði héraðsdómara, sbr. 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, hefði stjórnunarreynslu, leiðtogahæfileika og færni í mannlegum samskiptum, öguð og skilvirk vinnubrögð, hæfni til að vinna undir álagi og mjög gott vald á íslensku í ræðu og riti. Ráðgjafafyrirtækið Capacent Ráðningar var fengið til þess að aðstoða við ráðningarferlið. Áður en starfið var auglýst fór fram greining á starfi og lykilhæfnisþáttum. Var útbúinn matsrammi, þar sem tilteknir hæfnisþættir voru ákveðnir. Umsækjendur voru síðan metnir út frá þessum tilgreindu þáttum og hlutu þeir stig fyrir hvern þátt. Umsækjendur voru fyrst metnir á grundvelli umsókna þeirra miðað við menntunar- og hæfniskröfur sem gerðar voru í auglýsingu. Vægi grunnmatsins var 33% af heildarmati. Embættis- eða meistarapróf í lögfræði eða jafngildri grein hafði 5% vægi, reynsla sem nýttist í starfi 5%, starfgengisskilyrði héraðsdómara 8%, stjórnunarreynsla 10% og tungumálakunnátta 5%. Við stigagjöf var mest hægt að hljóta 5 stig fyrir hvern hæfnisþátt.  Fjórir sóttu um stöðuna og voru stefnandi og Nanna Magnadóttir þar á meðal. Þegar kom að úrvinnslu umsókna hlaut einn umsækjenda flest stig eftir grunnmatið. Nanna Magnadóttir var í öðru sæti úr grunnmati og stefnandi í því þriðja. Þótti Nanna Magnadóttir standa stefnanda framar hvað varðaði tungumálakunnáttu. Bæði fengu þau 3 stig fyrir reynslu sem nýttist í starfi forstöðumanns en 3 stig fengust ef viðkomandi hafði verið ábyrgur fyrir daglegum rekstri í 1 til 3 ár. Bæði hlutu þau síðan 3 stig fyrir stjórnunarreynslu. Allir umsækjendur voru teknir í forviðtöl en auk þess voru þrír umsækjendur, sem metnir voru hæfastir, boðaðir í tvö önnur starfsviðtöl. Vægi forviðtalsins var 4% af heildarmati, annars viðtals 10% og þriðja viðtals 10%. Stefnandi hlaut 4 stig af 5 mögulegum í forviðtali og lenti þar í þriðja sæti af umsækjendum. Í öðru og þriðja viðtali hlaut hann 3,5 stig og var þar síðastur af þremur umsækjendum. Nanna Magnadóttir hlaut hins vegar flest stig af umsækjendum í öllum þremur starfsviðtölunum. Í viðtölum var notast við fyrirfram ákveðnar spurningar sem byggðu á menntunar- og hæfniskröfum og lýsingu á starfssviði sem fram kom í auglýsingu um starfið. Tekin var sú ákvörðun að leggja fyrir umsækjendur hæfnisprófið ,,Inductive Reasoning“ til að mæla hugræna hæfni þeirra. Einnig var ákveðið að leggja á sama tíma fyrir persónuleikamat OPQ32, eða ,,Occupational Personality Questionnaire 32“ sem er sjálfsmat umsækjenda sem metur 32 starfstengda eiginleika. Starf forstöðumanns nefndarinnar var hæfnisgreint og þóttu eftirtaldir hæfnisþættir nauðsynlegir til að ná árangri í starfi forstöðumanns: 1) ákvörðunartaka og frumkvæði, 2) samvinna, 3) skipulag og áætlanir, 4) álags- og streituþol, 5) lærdómur og rannsóknir, 6) mætir þörfum og væntingum viðskiptavina. Niðurstöður úr persónuleikamati stefnanda þóttu gefa til kynna að af sex hæfnisþáttum væru tveir líklegir til að vera styrkleikar, það er ákvarðanataka og frumkvæði og álags- og streituþol. Hinir fjórir þóttu líklegir til að vera veikleikar. Niðurstöður mats Nönnu Magnadóttur þóttu gefa til kynna að fjórir hæfnisþættir væru líklegir til að vera styrkleikar, það er skipulag og áætlanir, mætir þörfum og væntingum viðskiptavina, ákvarðanataka og frumkvæði og álags- og streituþol. Hinir hæfnisþættirnir voru þó ekki taldir ólíklegir til að vera styrkleikar. Stefnandi hlaut 2,8 stig úr persónuleikamati en Nanna Magnadóttir 4 stig. Niðurstöður úr hæfnisprófinu voru þær að Nanna Magnadóttir hlaut flest stig, það er 2,35 stig og stefnandi 2,3 stig. Niðurstöður þeirra beggja voru í meðaltali samanburðarhóps. Að lokum var stjórnsýsluverkefni lagt fyrir þrjá hæfustu umsækjendurna. Nanna Magnadóttir hlaut næstflest stig fyrir úrlausn verkefnisins, það er 3,25 stig og var stefnandi þriðji með 2,5 stig af 5 mögulegum.  Að loknu ráðningarferli var Nanna Magnadóttir ráðin í starfið, en hún hlaut flest stig og var skipuð forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 1. janúar 2014. Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu fyrir dóminum. Auk þess kom fyrir dóminn sem vitni Hjalti Steinþórsson, fyrrverandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. II Stefnandi byggir á því að gengið hafi verið framhjá sér, með ólögmætum hætti, við skipun í embætti forstöðumanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þegar staða forstöðumanns úrskurðarnefndar hafi verið auglýst til skipunar hafi stefnandi verið með tólf ára reynslu af störfum fyrir nefndina og meðal annars verið settur forstöðumaður nefndarinnar frá 1. júlí 2013 til og með 31. desember 2013. Hins vegar hafi Nanna Magnúsdóttir verið skipuð forstöðumaður án þess að hafa nokkra reynslu af störfum fyrir nefndina. Stefnandi byggi á því að stefndi hafi ekki byggt ákvörðun sína um skipun formanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með fullnægjandi hætti á reglum stjórnsýsluréttarins og hafi ekki valið hæfasta umsækjandann, svo sem honum hafi verið skylt að gera samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar.  Stefnandi telji þau rök sem talin séu upp í rökstuðningi fyrir ákvörðuninni, sem ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála hafi látið stefnanda í té 10. janúar 2014, ekki geta vegið þyngra en áralöng starfsreynsla hans fyrir nefndina. Af rökstuðningi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins frá 10. janúar 2014  megi sjá að fyrst og fremst hafi verið litið til persónulegra eiginleika Nönnu Magnadóttur við töku ákvörðunar um að skipa hana í stöðu, þ.e. niðurstaðna ,,Inductive Reasoning“ hæfnisprófs, lausnar á raunhæfu verkefni á sviði stjórnsýsluréttar, því að hún hafi kynnt sér starfsemi nefndarinnar og sýnt mikinn áhuga, eldmóð og metnað til að efla starfsemi nefndarinnar, að hún væri markmiðs- og árangursdrifin, lausnamiðuð, hefði stefnumótandi hugsun, væri skýr og kæmi málum á framfæri á skipulagðan og hnitmiðaðan hátt. Forsendur þess að samanburður geti farið fram, á milli umsækjenda um stöðu hjá hinu opinbera, séu þær að umsækjendur séu nægilega upplýstir um þau atriði sem eigi að hafa þýðingu við matið. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri handhafa veitingarvalds að sjá til þess að nægar upplýsingar liggi fyrir um þau atriði. Í auglýsingu um stöðu formanns úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál hafi sérstaklega verið áskilið að umsækjendur skyldu hafa embættis- eða meistarapróf í lögfræði eða háskólapróf í þeirri grein sem metið yrði því jafngilt, uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara, hafa stjórnunarreynslu, leiðtogahæfileika og færni í mannlegum samskiptum, öguð og skilvirk vinnubrögð, hafa hæfni til að vinna undir álagi og mjög gott vald á íslensku í ræðu og riti. Af rökstuðningi ráðuneytisins frá 10. janúar 2014 verði ekki séð að umsækjendur hafi verið bornir saman með tilliti til þessara þátta. Þar sem stefnandi standi þeirri er skipuð hafi verið ótvírætt framar varðandi þá hlutlægu þætti sem raktir séu að framan, sérstaklega hvað varði reynslu hans, verði að gera ríkar kröfur til þess að raunverulegt mat og samanburður hafi farið fram á þeim þáttum sem lögð hafi verið áhersla á í rökstuðningi ráðuneytisins fyrir skipun Nönnu Magnadóttur. Þar sem gögn um samanburð og mat á persónulegum eiginleikum umsækjenda séu afar takmörkuð geti stefndi ekki byggt val á umsækjanda á þeim þáttum.  Þá verði að gera sérstaka athugasemd við það að við samanburð á umsækjendum hafi verið notast við ,,Inductive Reasoning“ hæfnispróf sem byggi á því að þátttakendur leysi myndrænar þrautir. Hvergi hafi komið fram í auglýsingu um starfið að umsækjendur yrðu látnir þreyta slíkt próf. Stefnandi sé með 10% sjón. Það hafi honum því með öllu verið ómögulegt að þreyta prófið. Hann hafi gert prófendum grein fyrir þessu við töku prófsins. Í rökstuðningi fyrir skipun hafi hins vegar verið sagt að m.a. hafi verið litið til niðurstaðna úr prófinu við samanburð á umsækjendum. Með þessu hafi möguleikar stefnanda á að hljóta skipun í embættið verið stórum takmarkaðir, með hætti sem gangi gegn jafnréttisreglu stjórnarskrár og án þess að málefnaleg rök lægju til. Áralöng reynsla stefnanda af störfum fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sem enginn hinna umsækjendanna þriggja hafi haft, hafi gert að verkum að hann hafi staðið öllum öðrum umsækjendum um stöðuna langt um framar. Hefði stefndi fylgt sjónarmiðum stjórnsýsluréttarins við samanburð á umsækjendum, og ekki byggt ákvörðun á niðurstöðum prófana sem hafi mismunað umsækjendum eftir fötlun þeirra, hefði honum borið að skipa stefnanda í stöðuna. Jafnvel þótt ekki yrði fallist á að stefnandi væri hæfari en sú umsækjenda sem skipuð hafi verið í stöðu forstöðumanns, hefði allt að einu borið að skipa stefnanda í stöðuna á grundvelli forgangsreglu laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Við ákvörðun um skipun í stöðu verði m.a. að líta til 1. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008, þar sem segi að við skipun í nefndir á vegum ríkis skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast. Hjá skrifstofu úrskurðarnefndar að Skuggasundi 3 starfi, auk stefnanda og forstöðumanns, þrír lögfræðingar og einn ritari. Frá og með 1. júní 2016 hafi stefnandi verið eini karlkyns starfsmaðurinn á skrifstofunni. Þá kveði ákvæði laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, á um að fatlað fólk skuli eiga forgang að atvinnu hjá ríki og sveitarfélagi ef hæfni þess til starfsins sé meiri eða jöfn hæfni annarra umsækjenda, sbr. 32. gr. laganna. Stefnandi telji að stefndi hafi brotið gegn ákvæðinu þegar hann hafi ákveðið að líta framhjá stefnda við skipunina. Fjárkröfur stefnanda sem komi fram í aðal- og varakröfu miðist við að krefjast bóta vegna fjártjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir við að njóta ekki starfskjara forstöðumanns frá þeim tíma sem nýr forstöðumaður úrskurðarnefndar var skipaður. Aðalkrafa stefnanda miðist við að honum sé bætt rauntjón frá skipun 1. janúar 2014 og út skipunartímann, þ.e. til 31. desember 2019, ásamt vöxtum af gjaldföllnum kröfum svo sem fyrr sé greint. Varakrafa stefnanda miðist við að honum sé aðeins bætt það tjón sem hann hafi orðið fyrir við launamissi samkvæmt fyrrgreindum forsendum fram til þingfestingardags ásamt vöxtum af gjaldföllnum kröfum. Stefnandi hafi tekið laun sem varaformaður og staðgengill forstöðumanns frá 1. janúar 2014 samkvæmt launaflokki 19-6 í kjarasamningi og fengið 20 tíma greidda í fastri yfirvinnu. Frá og með 1. febrúar 2015 hafi stefnandi þegið laun skv. launaflokki 133 í launatöflu kjararáðs númer 502 ásamt 30 einingum á mánuði fyrir yfirvinnu. Á sama tíma hafi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þegið laun samkvæmt launaflokki 134 í sömu launatöflu auk 30 eininga á mánuði fyrir yfirvinnu. Þá taki fjárkrafa stefnanda jafnframt mið af fjártjóni sem hann hafi orðið fyrir við að tapa af lífeyrisréttindum vegna launamunar á stöðum forstöðumanns og varaformanns nefndarinnar, sem nemi 11,5% framlagi vinnuveitanda af launum og 2% mótframlagi í lífeyrissjóð. Með ákvörðun kjararáðs frá 15. maí 2017 hafi síðan verið ákveðið að laun þeirra sem ákvörðunarvald kjararáðs nái til skyldu hækka frá og með 1. júlí 2016.  Ekki verði litið framhjá því að stefnandi hafi orðið fyrir miska þegar umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi gengið framhjá honum við skipun í stöðu forstöðumanns. Stefnandi hafi upplifað það sem áfellisdóm yfir störfum sínum fyrir nefndina, starfheiðri, reynslu og hæfni, þegar annar umsækjandi, sem enga fyrri reynslu hafi haft af þeim störfum, hafi verið skipaður í stöðuna umfram hann. Hann telji vegið að orðspori sínu og æru með ákvörðun ráðuneytisins um skipan í stöðuna. Stefnandi hafi unað sér vel hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og sinnt störfum sínum með prýði síðan hann hafi hafið þar störf. Hann telji ákvörðun ráðuneytisins, um að skipa óreyndan umsækjanda umfram hann, fela í sér aðfinnslur við störf hans, án þess að hann hafi sjálfur gefið nokkuð tilefni til. Stefnandi telji hæfilegt að stefndi verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að upphæð 3.000.000 króna vegna þessa. Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar stefnandi til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sérstaklega 10. gr. laganna. Þá er vísað til meginreglu stjórnsýsluréttar um að ávallt skuli velja þann umsækjanda sem hæfastur sé til að gegna starfi. Einnig er vísað til forgangsreglu jafnréttislaga, sbr. einnig ákvæði laga nr. 10/2008, sérstaklega 15. gr. þeirra. Jafnframt er vísað til ákvæða laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992, sérstaklega 1. gr. laganna. Um miskabótakröfu vísar stefnandi til b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafa um dráttarvexti styðst við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnandi reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi, sbr. lög nr. 50/1988, og sé óskað eftir að tillit verði tekið til þess við ákvörðun málskostnaðar.  Um varnarþing stefnda vísast til 1. málsl. 3. mgr. 33 gr. laga nr. 91/1991. III Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi verið hæfasti umsækjandinn og að gengið hafi verið framhjá honum við skipun í embætti forstöðumanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Stefndi byggi á því að ráðningarferlið hafi verið vandað og vel hafi verið staðið að öllu ferlinu. Ákvörðun um skipun í embættið hafi verið byggð á meginreglum stjórnsýsluréttarins þar sem hæfasti umsækjandinn hafi verið valinn. Sé því krafist sýknu af kröfum stefnanda og því hafnað að hann eigi rétt á bótum úr hendi stefnda vegna fjártjóns eða rétt á greiðslu miskabóta. Málatilbúnaður stefnanda byggist á því hann hafi verið hæfastur umsækjenda. Vísi hann til starfsreynslu sinnar hjá fyrrum úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og núverandi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá staðhæfi hann að af rökstuðningi umhverfis- og auðlindaráðuneytis vegna ráðningarinnar megi sjá að við töku ákvörðunar hafi fyrst og fremst verið litið til persónulegra eiginleika Nönnu Magnadóttur, það er niðurstaðna ,,Inductive Reasoning“ hæfnisprófsins, lausnar á raunhæfu verkefni á sviði stjórnsýsluréttar, því að hún hafi kynnt sér starfsemi nefndarinnar og sýnt mikinn áhuga, eldmóð og metnað til að efla starfsemi nefndarinnar, að hún væri markmiðs- og árangursdrifin, lausnamiðuð, hefði stefnumótandi hugsun, væri skýr og kæmi málum á framfæri á skipulagðan og hnitmiðaðan hátt. Stefndi leggi áherslu á að allir umsækjendur hafi verið metnir eftir hlutlægum fyrirfram ákveðnum matsþáttum. Líkt og rakið hafi verið hafi Nanna Magnadóttir hlotið flest stig. Næstur hafi komið annar umsækjandi og síðan stefnandi. Stefnda sé ljóst að stefnandi búi yfir langri starfsreynslu sem starfsmaður hjá fyrrum úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála og núverandi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hins vegar beri að líta til þess að í auglýsingu um starfið hafi þær hæfniskröfur sem þar voru tilgreindar, auk menntunarkrafna, sérstaklega tekið mið af starfssviði forstöðumanns. Hafi þess vegna verið gerð krafa um stjórnunarreynslu, leiðtogahæfileika, færni í mannlegum samskiptum og öguð og skilvirk vinnubrögð. Ekki hafi á hinn bóginn verið gerð krafa um sérstaka kunnáttu í þeim málefnum sem heyri undir úrskurðarvald nefndarinnar eða að viðkomandi hefði reynslu á því sviði eða hefði jafnvel starfað fyrir sjálfa úrskurðarnefndina. Í ljósi þess að slík krafa hafi ekki komið fram í auglýsingu um starfið telji stefndi að stefnandi geti ekki byggt þá staðhæfingu að hann hafi verið hæfastur umsækjenda á því að hann hafi unnið um árabil hjá fyrrgreindum úrskurðarnefndum. Stefnandi og Nanna Magnadóttir hafi í ráðningarferlinu hlotið jafnmörg stig fyrir starfsreynslu og stjórnunarreynslu, það er 3 stig fyrir hvorn þátt. Stigagjöf vegna starfsreynslu stefnanda hafi byggt á reynslu hans af daglegum rekstri sem framkvæmdastjóri Blindravinnustofunnar ehf. á árunum 1999 til 2001 og hálfs árs starfsreynslu hans sem setts forstöðumanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá júlí 2013 til áramóta 2013. Þar að auki hafi stefnandi haft langa reynslu af úrlausn lögfræðilegra álitaefna sem lögfræðingur hjá framangreindum úrskurðarnefndum frá árinu 2002. Stefndi mótmæli því að eingöngu hafi verið litið til persónulegra eiginleika viðkomandi. Af þeim upplýsingum sem fram hafi komið um starfsreynslu í rökstuðningi stefnda til stefnanda hafi honum mátt vera ljóst að byggt væri á starfsreynslu viðkomandi sem nýttist í starfi forstöðumanns. Nanna Magnadóttir hafi meðal annars haft reynslu sem yfirmaður með ábyrgð á daglegum rekstri í starfi sem forstöðumaður svæðisáætlunar UNIFEM á árunum 2006 til 2007 og forstöðumaður Evrópuráðsins í Kósóvó á árunum 2008 til 2009. Þá hafi hún verið skrifstofustjóri Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2002. Einnig hafi verið litið til þess að reynsla Nönnu Magnadóttur sem lögfræðings hjá umboðsmanni Alþingis og aðstoðarmaður dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur myndi nýtast við úrlausn lögfræðilegra álitaefna auk reynslu hennar við önnur lögfræðileg störf hjá Evrópuráðinu. Hún hafi því haft stjórnunarreynslu sem skrifstofustjóri og forstöðumaður en auk þess sem aðalráðgjafi hjá Eystrasaltsráðinu og sem verkefnastjóri fjölþjóðlegs samvinnuverkefnis á sviði almannavarna. Hún hafi hlotið 3 stig fyrir stjórnunarreynslu sem samkvæmt stigatöflu hafi þýtt 3ja til 5 ára nýlega reynslu. Í skýrslu Capacent Ráðninga um ráðningu forstöðumanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála komi fram að stefnandi hafi komið sæmilega fyrir í starfsviðtali. Hann hafi ekki komið máli sínu á framfæri á nægilega skýran og skipulagðan hátt og ekki með sannfærandi hætti getað sýnt fram á nægilega styrkleika til að sinna starfi forstöðumanns, til dæmis hvað varðaði stjórnunar- og leiðtogahæfni. Nanna Magnadóttir hafi á hinn bóginn þótt koma mjög vel fyrir í viðtali. Hún hafi kynnt sér starfsemi nefndarinnar og sýnt mikinn áhuga og metnað til að efla starfsemi hennar. Í viðtali hafi komið fram að hún væri markmiðs- og árangursdrifin, lausnamiðuð, hefði stefnumótandi hugsun, væri skýr og kæmi máli sínu frá sér á mjög skipulagðan og hnitmiðaðan máta. Að mati stefnda hafi hún getað sýnt fram á með sannfærandi hætti að hún hefði fullnægjandi stjórnunarreynslu, leiðtogahæfileika, færni í mannlegum samskiptum, að hún byggi yfir aga og viðhefði skilvirk vinnubrögð og hefði hæfni til að vinna undi rálagi. Hún hafi því í viðtölum getað sýnt fram á næga styrkleika til að sinna starfi forstöðumanns umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt þessu hafi Nanna Magnadóttir hlotið flest stig umsækjenda í ráðningarferlinu miðað við samanlagt grunnmat og starfsviðtöl. Stefndi bendi því á að niðurstöður úr þeim þremur prófum og verkefnum sem einnig hafi verið lögð fyrir umsækjendur hafi ekki haft úrslitaáhrif við endanlega ákvörðun um ráðningu. Af hálfu stefnda hafi metnaður verið lagður í það að meta umsækjendur á sem bestan hátt þar sem hæfustu umsækjendurnir hafi farið í þrjú starfsviðtöl og tekið þrjú verkefni og próf. Ráðningarferlið hafi allt miðað að því að ráða þann umsækjanda sem hæfastur væri til að gegna stöðunni. Stefndi byggi á því að ráðningarferlið hafi verið í fullu samræmi við 10. gr. laga nr. 37/1993, ólíkt því sem stefnandi haldi fram. Í stefnu sé á því byggt að forsendur þess að samanburður geti farið fram á milli umsækjenda um stöðu sé að þeir séu nægilega upplýstir um þau atriði sem eigi að hafa þýðingu við matið. Samkvæmt 10. gr. laga nr. 37/1993 beri handhafa veitingarvalds að sjá til þess að nægar upplýsingar liggi fyrir um þau atriði. Stefndi bendi á að líkt og rakið hafi verið hafi komið fram upplýsingar um starfssvið forstöðumanns í auglýsingu um starfið. Hafi sú lýsing verið nægjanleg til að væntanlegur umsækjandi gæti gert sér glögga grein fyrir því í hverju starfið fælist. Einnig hafi komið fram með skýrum hætti þær menntunar- og hæfniskröfur sem gerðar væru til forstöðumanns. Stefndi telji því ljóst að umsækjendur um stöðuna hafi verið vel upplýstir um þau atriði sem hefðu þýðingu við mat á umsækjendum. Stefndi bendi auk þess á að auglýsingin um stöðuna hafi verið í fullu samræmi við þær kröfur sem almennt séu gerðar til auglýsinga um opinber störf, sbr. 7. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og reglur nr. 464/1996 um auglýsingar á lausum störfum. Tekið skuli fram að reglur nr. 464/1996 gildi ekki um auglýsingar á lausum stöðum embættismanna en gera verði ráð fyrir að þau meginsjónarmið sem þar komi fram gildi einnig um auglýsingar á stöðum embættismanna. Stefndi mótmæli staðhæfingum stefnanda um að ekki verði séð að umsækjendur hafi verið bornir saman með tilliti til þeirra þátta sem fram komu í auglýsingu. Í stefnu sé gagnrýnt að ekki hafi verið upplýst hver umsækjenda hafi skorað hæst í raunhæfu verkefni eða komið best út úr persónuleikaprófi. Þá er gerð athugasemd við að ekki hafi verið haft samband við þá umsagnaraðila sem stefnandi hafi bent á í umsókn sinni. Að mati stefnanda séu gögn um samanburð og mat á persónulegum eiginleikum umsækjenda afar takmörkuð og geti stefndi því ekki byggt val á umsækjendum á þeim þáttum. Þessu mótmæli stefndi. Fram hafi komið að umsækjendur hafi eingöngu verið metnir út frá þeim þáttum sem fram hafi komið í auglýsingu um starfið, það er út frá starfs- og stjórnunarreynslu og menntunar- og hæfniskröfum. Þá byggi stefndi á því að rökstuðningur umhverfis- og auðlindaráðuneytis í bréfi til stefnanda, 10. janúar 2014, hafi verið fullnægjandi og í samræmi við 22. gr. laga nr. 37/1993. Í bréfinu hafi verið greint frá þeim meginsjónarmiðum sem voru ráðandi við matið. Stefndi bendi á að ekki sé gert ráð fyrir að gögn úr ráðningarferlinu fylgi með rökstuðningi fyrir ráðningu og því sé vandséð hvað átt sé við með því að gögn um samanburð og mat á umsækjendum hafi verið afar takmörkuð. Hefði stefnandi hins vegar leitað eftir því við ráðuneytið hefði honum verið afhent afrit þeirra gagna úr ráðningarferlinu sem hann eigi rétt á samkvæmt lögum nr. 37/1993. Stefndi leggi áherslu á að rökstuðningur fyrir ráðningu snúi að þeim aðila sem ráðinn sé í starf og sé ekki gerð krafa um samanburð við þann sem óski eftir rökstuðningi. Ekki hafi verið talin þörf á að upplýsa hver umsækjenda hefði hlotið hæstu einkunn í raunhæfu verkefni, þar sem hvorki Nanna Magnadóttir né stefnandi hafi hlotið þar flest stig. Eins og rökstuðningur til stefnanda beri með sér hafi hins vegar komið fram að Nanna Magnadóttir hefði hlotið flest stig úr persónuleikaprófi. Því sé staðhæfing stefnanda um annað röng. Stefndi bendi á að ekki sé alltaf notast við umsagnir og meðmæli í ráðningarferli enda þótt meðmæli geti komið að gagni þegar endanleg ákvörðun um ráðningu er tekin. Í ljósi þess að stefnandi hafi að loknu framangreindu mati þótt síst hæfur af umsækjendunum þremur sem eftir stóðu hafi ekki verið talin þörf á að afla umsagna um hann. Rétt hafi þótt að afla umsagna með þeim tveimur umsækjendum sem efstir voru til að endanleg ákvörðun yrði sem réttust. Að mati stefnda geti slík málsmeðferð ekki farið í bága við rannsóknarreglu 10. gr. laga nr. 37/1993. Sé hún þvert á móti í fullu samræmi við ákvæðið. Stefnandi geri sérstaka athugasemd við það að notast hafi verið við hæfnisprófið ,,Inductive Reasoning“ sem byggi á því að þátttakendur leysi myndrænar þrautir. Hvergi hafi komið fram í auglýsingu að umsækjendur yrðu látnir þreyta slíkt próf. Stefnandi hafi verulega skerta sjón og hafi því ekki haft sömu möguleika og aðrir til að leysa prófið. Hann hafi gert prófendum grein fyrir þessu við töku prófsins. Með þessu hafi möguleikar hans til að hljóta starfið verið stórum takmarkaðir sem gangi gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár og án þess að málefnaleg rök búi þar að baki. Stefndi byggi á því að vinnuveitanda sé frjálst að ákveða hvaða aðferð hann viðhafi við mat á atvinnuumsóknum svo fremi sem reglur stjórnsýsluréttar séu virtar. Algengt sé að notast sé við hæfnispróf til að meta umsækjendur um opinbera stöðu. Hvergi í lögum eða reglum sé gerð krafa um að slíkt komi fram í atvinnuauglýsingunni. Engu að síður bendi stefndi á að afar lítill munur hafi verið á milli stefnanda og Nönnu Magnadóttur í umræddu prófi. Nanna Magnadóttir hafi hlotið 2,35 stig og stefnandi 2,3 stig. Prófið hafi því ekki haft úrslitaáhrif við endanlega ákvörðun um ráðningu. Að mati stefnda sýni niðurstaðan að stefnandi hafi verið vel fær um að leysa umrætt próf og hafi hann ekki sýnt fram á annað. Stefndi telji vert að benda á að í starfi forstöðumanns úrskurðarnefndarinnar felist tölvuvinna og lestur og úrvinnsla gagna. Því hafi verið rétt að gera þá kröfu til stefnanda að hann gæti leyst af hendi það hæfnispróf sem um ræði. Prófið spái fyrir um hæfileika fólks til að setja sig hratt inn í nýjar aðstæður og til þess að draga réttar ályktanir hratt af ófullkomnum upplýsingum. Því sé mikilvægt að jafnræðis sé gætt þegar slíkt próf sé lagt fyrir umsækjendur. Stefndi mótmæli því að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun Nönnu Magnadóttur í embætti forstöðumanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í stefnu sé fullyrt að líta verði til 1. mgr. 15. gr. laganna við skipan í nefndir á vegum ríkisins og tilgreint að frá 1. janúar 2014 hafi stefnandi verið eini karlkyns starfsmaðurinn hjá skrifstofu úrskurðarnefndarinnar. Stefndi bendi á að 15. gr. laga nr. 10/2008 fjalli um skipan í nefndir á vegum ríkisins en stefnandi vísi máli sínu til stuðnings til kynjahlutfalla hjá starfsmönnum úrskurðarnefndarinnar. Á skrifstofu nefndarinnar starfi hins vegar einungis tveir úr úrskurðarnefndinni sjálfri, það er forstöðumaður nefndarinnar sem jafnframt sé formaður hennar og varaformaður nefndarinnar. Í stefnu sé hins vegar ekki nefnd samsetning úrskurðarnefndarinnar sjálfrar hvað kynjahlutföll varði. Stefndi leggi áherslu á að í 15. gr. laganna sé eingöngu fjallað um þá skyldu, í tengslum við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitafélaga, að þess sé gætt að hafa hlutfall kynjanna sem jafnast. Í ákvæðinu sé hins vegar ekki fjallað um bann við mismunun við ráðningu. Að mati stefnda geti 15. gr. laga nr. 10/2008 ekki átt við í málinu og þar með sú málsástæða stefnanda að hann hafi átt rétt á umræddri stöðu forstöðumanns á grundvelli lagaákvæðisins. Stefndi telji rétt að geta þess að undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti heyri fjórtán stofnanir. Við skipun í embætti forstöðumanns úrskurðarnefndarinnar hafi einungis tveir forstöðumenn þessara stofnana verið konur en karlarnir ellefu. Við skipunina bættist því við ein kona, sem bætti lítillega kynjahlutföllin, en karlarnir séu hins vegar áfram í verulegum meirihluta. Stefndi mótmæli því að stefnandi geti byggt rétt á öðrum ákvæðum laga nr. 10/2008, svo sem 26. gr. laganna sem fjalli um ráðningar. Stefndi telji stefnanda ekki hafa sýnt fram á að hann hafi verið hæfastur umsækjenda og eigi hann því ekki lögvarinn rétt til stöðunnar. Þvert á móti hafi líkt og rakið hafi verið umfangsmikið ráðningarferli leitt í ljós að Nanna Magnadóttir væri ótvírætt hæfasti umsækjandinn. Sé málsástæðu stefnanda á þessum grundvelli því hafnað. Stefnandi vísi til 32. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks og telji að á grundvelli ákvæðisins hafi hann átt að njóta forgangs í embætti forstöðumanns úrskurðarnefndarinnar sökum þess að hann hafi verið hæfari en sá umsækjandi sem var ráðinn eða jafn hæfur. Af framangreindu sé ljóst að stefnandi hafi hvorki verið hæfari né jafn hæfur þeim umsækjanda sem fengið hafi embættið. Stefnandi hafi þvert á móti verið metinn þriðji hæfasti umsækjandinn um stöðuna. Að mati stefnda geti stefnandi þegar af þeirri ástæðu ekki byggt rétt sinn á 32. gr. laga nr. 59/1992. Sé þessari málsástæðu hans því mótmælt. Stefndi mótmæli fjárkröfu stefnanda og krefjist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Aðal- og varakrafa stefnanda sé byggð á mismun launa og lífeyrisréttinda forstöðumanns og formanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og varaformanns nefndarinnar auk vaxta. Sé einnig gerð krafa um miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna. Í aðalkröfu geri stefnandi auk þess kröfu um sama mismun fyrir tímabilið 1. október 2016 fram til ársloka 2019, það er að segja út skipunartímann. Að aðal- og varakröfum frágengnum geri stefnandi kröfu um greiðslu miskabóta einnig að fjárhæð 3.000.000 króna. Ljóst sé að stefnandi hafi ekki verið hæfasti umsækjandinn. Hann hafi hvorki sýnt fram á að hann hafi átt lögvarinn rétt á að vera ráðinn í stöðu forstöðumanns úrskurðarnefndarinnar né að hann hafi verið hæfasti umsækjandinn og því staðið nær en hinir tveir umsækjendurnir, sem í reynd voru metnir hæfari en stefnandi, til að hljóta stöðuna. Af þeirri ástæðu sé ekki unnt að fallast á skaðabótakröfu stefnanda um greiðslu launamismunar á stöðu forstöðumanns og formanns nefndarinnar og varaformanns. Sé kröfunni því hafnað. Þá verði ennfremur að gera athugasemdir við fjárhæð kröfunnar. Sé sérstaklega mótmælt kröfu stefnanda um greiðslu mismunar fyrir tímabilið 1. október 2016 til ársloka 2019. Stefnandi geti að mati stefnda ekki gert ráð fyrir að halda starfi sínu út tímabilið og þar með krafist mismunar á launum fyrir allt tímabilið. Stefndi mótmæli miskabótakröfu stefnanda og telji engar forsendur til þess að fallast á slíka kröfu. Forsenda miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé ólögmæt meingerð gegn æru eða persónu annars manns. Stefndi mótmæli því að ákvörðun sem byggð hafi verið á málefnalegum sjónarmiðum geti orðið forsenda miskabóta á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Ákvörðun stefnda um að skipa Nönnu Magnadóttur í embætti forstöðumanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hafi verið byggð á málefnalegum forsendum. Því verði að mótmæla fullyrðingu stefnanda um að óreyndur umsækjandi hafi verið metinn hæfari en stefnandi sem rangri og ósannaðri. Í stefnu sé fullyrt að ákvörðun ráðherra hafi þrengt kosti hans til að leita annars starfs og gert honum nánast ómögulegt að keppa um sambærilegt starf á öðrum vettvangi. Sé þessari staðhæfingu mótmælt, enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á það með nokkrum hætti. Samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993 sé heimilt að láta þann sem ábyrgð beri á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skaðabótalögum hafi sagt að í skilyrðinu um ólögmæta meingerð fælist að um saknæma hegðun væri að ræða. Gáleysi myndi þó þurfa að vera verulegt til þess að tjónsatvik yrði talið ólögmæt meingerð. Af dómafordæmum Hæstaréttar verði ráðið að lægsta stig gáleysis uppfylli ekki kröfu þessa ákvæðis um ólögmæta meingerð. Stefndi vísi því á bug að stefnandi geti átt rétt til miskabóta úr hendi stefnda enda hafi stefndi ekki valdið stefnanda meingerð af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Hvorki hafi við ráðningu í embætti forstöðumanns úrskurðarnefndarinnar né skýringum sem stefndi hafi á síðari stigum gefið fyrir ákvörðun sinni verið vikið orðum að stefnanda sem horft gætu honum til álitshnekkis. Ekki verði séð að stefnandi hafi af þeim sökum sætt meingerð af hendi stefnda sem beinist gegn æru hans eða persónu þannig að varðað geti miskabótum samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði. Í ljósi alls þessa sé það mat stefnda að hafna beri kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta á grundvelli b. liðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993. Stefnandi mótmæli einnig fjárhæð miskabótakröfu stefnda sem of hárri og í engu samræmi við dómaframkvæmd. Verði talið að stefnandi eigi rétt til miskabóta sé því til vara krafist verulegrar lækkunar á henni. Stefndi telji einnig að líta beri til þess að stefnandi hafi hvorki gert athugasemdir við skipun Nönnu Magnadóttur né ráðningarferlið sem slíkt fyrr en að tæpum tveimur árum liðnum er stefnandi hafi höfðað mál þetta. Hann hafi einungis óskað eftir rökstuðningi strax í kjölfar ákvörðunar ráðherra og látið þar við sitja í lengri tíma. Að mati stefnda hafi stefnandi sýnt af sér töluvert tómlæti við að koma athugasemdum sínum á framfæri og verði hann að bera hallann af því. Af hálfu stefnda sé kröfum um vexti og dráttarvexti af dómkröfum mótmælt, einkum upphafstíma þeirra. Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísist til XXI. kafla laga nr. 91/1991. IV Ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála auglýsti 7. september 2013 stöðu forstöðumanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Úrskurðarnefndin hefði það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna ákvarðana stjórnvalda og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, svo sem á sviði skipulags- og byggingarmála, mengunar- og hollustumála og mats á umhverfisáhrifum. Væri nefndin sjálfstæð í störfum sínum. Forstöðumaðurinn stýrði starfi úrskurðarnefndarinnar og bæri ábyrgð á fjárhag hennar og daglegum rekstri. Hann væri jafnframt formaður nefndarinnar. Hann væri í forsvari fyrir nefndina út á við, ákvarðaði hvernig nefndin væri skipuð í hverju máli og réði annað starfsfólk nefndarinnar. Voru konur jafnt sem karlar hvattir til að sækja um stöðuna. Að því er menntunar- og hæfniskröfur varðaði var gerð krafa um að viðkomandi hefði lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið yrði jafngilt því. Þá var gert að skilyrði starfsgengisskilyrði héraðsdómara samkvæmt 12. gr. laga nr. 15/1998. Að auki var gerð krafa um stjórnunarreynslu, leiðtogahæfileika og færni í mannlegum samskiptum, öguð og skilvirk vinnubrögð, hæfni til að vinna undir álagi og mjög gott vald á íslensku í ræðu og riti. Umsækjendur voru beðnir um að sækja um starfið á heimasíðu Capacent Ráðninga. Fram er komið að ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála leitaði til ráðgjafafyrirtækisins Capacent Ráðninga til að hafa umsjón með ráðningarferlinu. Fjórir sóttu um starf forstöðumannsins, og voru stefnandi og Nanna Magnadóttir þar á meðal. Allir voru umsækjendur boðaðir í svokallað forviðtal til ráðgjafafyrirtækisins. Í viðtölunum var notaður samræmdur spurningalisti sem lagður var fyrir alla umsækjendur. Spurningra tóku mið af þeim forsendum sem fram komu í auglýsingu um starfið. Að loknum þessum viðtölum fóru ráðgjafi Capacent Ráðninga og ráðuneytisstjóri ráðuneytis umhverfis- og auðlindamála yfir niðurstöður úr forviðtölum.  Þeir þrír umsækjendur, sem þóttu hafa víðtækasta reynslu og standa sig best, voru boðaðir til framhaldsviðtals. Stefnandi og Nanna Magnadóttir voru þar á meðal. Í framhaldsviðtali tóku þátt ráðuneytisstjóri ráðuneytis umhverfis- og auðlindamála, skrifstofustjóri skrifstofu umhverfis- og skipulagsmála og ráðgjafi Capacent Ráðninga. Að loknum framhaldsviðtölum voru lögð fyrir umsækjendur hæfnispróf. Eitt prófanna var ætlað til mælinga á hugrænni hæfni með forspárgildi um hæfileika til að setja sig hratt inn í nýjar aðstæður og hæfileika til að draga hratt réttar ályktanir af ófullkomnum upplýsingum. Þá var lagt fyrir umsækjendur persónuleikamat með sjálfsmati umsækjenda. Var matinu ætlað að meta forspárgildi um frammistöðu í starfi, en viðkomandi starf hafði verið hæfnisgreint af ráðuneytinu. Þættir sem þar þóttu skipta máli vörðuðu ákvarðanatöku og frumkvæði, samvinnu, skipulag og áætlanir, álags- og streituþol, lærdóm og rannsóknir og það að mæta þörfum og væntingum viðskiptavina. Að lokum var lagt fyrir umsækjendur raunhæft verkefni til að kanna þekkingu þeirra á grunnreglum stjórnsýsluréttar, framsetningu í rituðum texta og skilvirkni við að skrifa texta. Að þessu loknu var umræddum þremur umsækjendum boðið í viðtal hjá ráðherra, ráðuneytisstjóra og ráðgjafa Capacent Ráðninga. Í þeim viðtölum voru lagðar fyrir umsækjendur fyrirfram ákveðnar spurningar sem vörðuðu umrætt starf forstöðumanns úrskurðarnefndarinnar. Í kjölfar þessa var Nönnu Magnadóttur boðið umrætt starf, en hún hafði fengið flest stig úr prófunum og spurningum er lagðar höfðu verið fyrir umsækjendur. Í rökstuðningi ráðuneytisins fyrir stöðuveitingunni kemur að auki fram að Nanna Magnadóttir hafi komið mjög vel fyrir í viðtali. Hún hefði kynnt sér starfsemi úrskurðarnefndarinnar og sýnt mikinn áhuga, eldmóð og metnað til að efla starfsemi nefndarinnar. Hún hafi verið markmiðs- og árangursdrifin, lausnamiðuð, með stefnmótandi hugsun, skýr og kæmi málum á framfæri á skipulagðan og hnitmiðaðan hátt. Þá hafi umsagnir um hana verið góðar.  Dómstólar og umboðsmaður Alþingis hafa á liðnum árum í málum er varða stöðuveitingar hins opinbera lagt til grundvallar að veitingarvaldshafi hafi ákveðið svigrúm við ráðningu og skipun í opinber störf. Þannig sé ákveðið svigrúm til staðar er kemur að því að meta hæfisskilyrði umfram hin almennu hæfisskilyrði, þegar gera þurfi upp á milli hæfra umsækjenda um starf. Þau sjónarmið sem að baki ráðningum búi þurfi að vera málefnaleg og í eðlilegum tengslum við viðkomandi starf. Þá þurfi forsvaranlegar ályktanir að vera dregnar af fyrirliggjandi upplýsingum, en ávallt sé til staðar ákveðið efnislegt mat þegar kemur að samanburði á hæfni umsækjenda. Hafi stjórnvald aflað sér fullnægjandi upplýsinga til þess að geta lagt mat á hvernig einstakir umsækjendur falli að þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ákvörðun byggist á og sýnt fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram í ljósi þeirra, njóti stjórnvöld töluverðs svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur til að gegna starfi.  Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir menntunar- og hæfniskröfum er fram komu í auglýsingu um stöðu forstöðumanns úrskurðarnefndarinnar. Eins og fyrr greinir ákvað ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála að haga ráðningarferlinu þannig að í fyrstu færi fram svokallað forviðtal við umsækjendur, því næst framhaldsviðtal og loks viðtal hjá ráðherra. Hæfnisprófum þeim er hér að framan er lýst og voru hluti af framhaldsviðtali hefur beinlínis verið ætlað að kanna þætti eins og stjórnunarreynslu, leiðtogahæfileika, öguð og skilvirk vinnubrögð, hæfni undir álagi og valdi á íslensku. Þá hefur viðtölum m.a. verið ætlað að kanna færni í mannlegum samskiptum. Er hér um að ræða þá þætti sem sérstaklega voru tilgreindir sem hæfniskröfur samkvæmt auglýsingu. Er um að ræða kröfur sem standa í rökréttum og eðlilegum tengslum við stöðu forstöðumanns opinberrar stofnunar. Hefur veitingavaldhafi ríkulegt sjálfdæmi um þær aðferðir er hann kýs að nota til að sannreyna þessa þætti, svo lengi sem þær eru málefnalegar. Lausn á myndrænum þrautum er eðlileg og málefnaleg aðferð við að kanna færni við að setja sig hratt inn í nýjar aðstæður og hæfileika til að draga hratt ályktanir af upplýsingum. Var óþarft að tilgreina fyrirfram að slík aðferð yrði notuð við könnun á færni umsækjenda.   Þá er til þess að líta að starfsreynsla á sviði úrskurðarnefndarinnar var ekki sérstaklega tilgreind sem sérstök hæfniskrafa. Þó svo stefnandi hafi haft yfir að ráða viðamikilli starfsreynslu á sviði úrskurðarnefndarinnar hafði sá þáttur ekki það vægi í ráðningunni er stefnandi miðar við.     Þegar til þessa er litið hefur stefnanda ekki tekist að leiða í ljós þá staðhæfingu sína að hann hafi a.m.k. verið jafnhæfur til starfa forstöðumannsins eins og Nanna Magnadóttir, sem best þótti standa sig í viðtölum og prófum. Í því kom samanburður hennar við stefnanda fram. Koma þá ekki til álita málsástæður stefnanda byggðar á lögum nr. 10/21008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Þegar til þess er litið er hér að framan greinir verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.                 Rétt þykir að málskostnaður falli niður.                 Af hálfu stefnanda flutti málið Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður, en af hálfu stefnda Fanney Rós Þorsteinsdóttir hæstaréttarlögmaður.                 Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp þennan dóm. Dómsorð: Stefnda, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Ómars Stefánssonar. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 585/2017
Lánssamningur Gengistrygging
Ú ehf. krafðist þess að viðurkennt yrði að lánssamningur milli hans og LÍ hf., forvera L hf., hafi verið bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Var um að ræða fjölmyntalán „að jafnvirði“ 104.000.000 krónur í fjórum erlendum gjaldmiðlum sem skiptust í tilteknum hlutföllum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að slík tilgreining á fjárhæð lánsins nægði ekki ein og sér til að komast að niðurstöðu um hvort hann tæki til láns í erlendum gjaldmiðli eða í íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar heldur yrði að líta til þess hvernig aðilar efndu aðalskyldur sínar samkvæmt samningnum. Var tekið fram að andvirði lánsins hefði verið ráðstafað að ósk Ú ehf. inn á gjaldeyrisreikninga, en með því móti hefði stofnast samsvarandi krafa í erlendum myntum á hendur bankanum vegna reikninganna. Talið var að þegar lánveitandi efni aðalskyldu sína með því móti hefði fé í erlendum gjaldmiðlum í reynd skipt um hendur. Var því fallist á það með héraðsdómi að um hafi verið að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum og L hf. því sýknað af kröfu Ú ehf.
                                                        Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Símon Sigvaldason dómstjóri. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2017. Hann krefst þess að viðurkennt verði að lánssamningur milli áfrýjanda og Landsbanka Íslands hf. 17. febrúar 2004 sé bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Málsatvikum og málsástæðum aðila er lýst í héraðsdómi. Við úrlausn um hvort samningur sé um lán í erlendum gjaldmiðli eða í íslenskum krónum bundið gengi erlendra mynta hefur í fjölmörgum dómum Hæstiréttar verið lagt til grundvallar að fyrst og fremst verði byggt á skýringu á texta viðkomandi samnings þar sem lýst er skuldbindingunni sem lántaki gengst undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um efni lánssamningsins hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hann hefur verið efndur og framkvæmdur að öðru leyti. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi sagði í fyrrgreindum lánssamningi að um væri að ræða fjölmyntalán „að jafnvirði“ 104.000.000 krónur í fjórum erlendum gjaldmiðlum sem skiptust í tilteknum hlutföllum. Hæstiréttur hefur ítrekað slegið því föstu að slík tilgreining á fjárhæð láns í texta samnings nægi ekki ein og sér til að komast að niðurstöðu um hvort hann taki til láns í erlendum gjaldmiðli eða í íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 15. júní 2012 í máli nr. 3/2012. Verður því að líta til þess hvernig lánveitandinn og lántakinn efndu aðalskyldur sínar samkvæmt samningnum. Svo sem rakið er í héraðsdómi var andvirði lánsins ráðstafað að ósk áfrýjanda inn á gjaldeyrisreikninga, en með því móti stofnaðist samsvarandi krafa í erlendum myntum á hendur bankanum vegna reikninganna. Þegar lánveitandi efnir aðalskyldu sína með því móti hefur verið talið að fé í erlendum gjaldmiðlum skipti í reynd um hendur, sbr. meðal annars dóma réttarins 11. september 2014 í máli nr. 90/2014 og 15. janúar 2015 í máli nr. 409/2014. Samkvæmt þessu verður fallist á það með héraðsdómi að um hafi verið að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum. Verður dómurinn því staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, en fjárhæð hans tekur mið af því að samhliða er rekið annað mál um samkynja sakarefni. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Útgerðarfélagið Haukur ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.                                                                                 Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, 27. júní 2017, í máli nr. E-2160/2015: Mál þetta, sem dómtekið var 17. maí sl., var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 12. júní 2015, af Útgerðarfélaginu Hauki hf., Ennisbraut 8, Ólafsvík, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík. Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf., nr. 455, frá 17. febrúar 2004, að fjárhæð 104.000.000 króna, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. II Stefnandi, sem er útgerðarfyrirtæki, gerði samning við Útgerðarfélagið Tjald, 17. febrúar 2004, um kaup stefnanda á aflahlutdeild skipsins Tjalds SH-270.  Kaupverðið var ákveðið 108.000.000 króna og bar stefnanda að leggja fjárhæðina inn á fjárvörslureikning Magnúsar Helga Árnasonar hdl., nr. 0101-26-27175, en honum bar svo að flytja fjárhæðina inn á reikning Útgerðarfélagsins Tjalds, nr. 190-26-200058, þegar Fiskistofa hefði staðfest að flutningur aflahlutdeildanna og aflamarksins hefði farið fram. Stefnandi kveður að vegna framangreindra kaupa hafi hann óskað eftir því að Landsbanki Íslands hf. lánaði honum íslenskar krónur, sem bundnar væru gengi erlendra gjaldmiðla. Sama dag, 17. febrúar 2004, gerðu stefnandi og Landsbanki Íslands hf. með sér lánssamning nr. 445 að fjárhæð 104.000.000 króna.  Umdeilt lán er á forsíðu lánssamningsins tilgreint í íslenskum krónum en í upphafsorðum samningsins segir að aðilar geri með sér lánssamning um „fjölmyntalán að jafnvirði“ 104.000.000 króna „í neðanskráðum myntum og hlutföllum: EUR 44%, CHF 10%, JPY 16%, USD 30%“.  Síðan segir:  „Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum.  Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“ Í grein 1.1 segir meðal annars að lántaki, þ.e. stefnandi, lofi að taka að láni og Landsbanki Íslands hf. að lána umsamda lánsfjárhæð.  Í grein 1.2 segir að lántaki sendi bankanum beiðni um útborgun með að minnsta kosti tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn sé sá reikningur sem leggja skuli lánshlutann inn á.  Form að útborgunarbeiðni sé viðauki 1 við samninginn. Í útborgunarbeiðni óskar stefnandi eftir því að lánið verði greitt út 19. febrúar 2004, „í þeim myntum sem lánið er tekið í beint til Útgerðarfélagsins Tjalds ehf.“, inn á reikning sem félagið tilgreini.  Þá segir að stefnandi heimili Landsbanka Íslands hf. að skuldfæra greiðslu afborgana, vaxta og annarra gjalda samkvæmt lánssamningnum af reikningi hans nr. 190-26-30039. Samkvæmt framlögðu tölvuskeyti fór Útgerðarfélagið Tjaldur ehf. fram á að andvirði kvótasölu félagsins til Útgerðarfélaganna Hauks og Dvergs yrði „að eins miklu leyti og hægt er“ greitt í erlendum myntum inn á gjaldeyrisreikninga félagsins í bandaríkjadölum, evrum, sterlingspundum, japönskum jenum og svissneskum frönkum.  Eftirstöðvar skyldu greiðast inn á tékkareikning félagsins í íslenskum krónum. Í grein 2.1 í lánssamningnum segir að lánið skuli greiða með tíu afborgunum á sex mánaða fresti, fyrst 2. júní 2004.  Skyldu þá greiðast 2/31 hlutar lánsins, síðan 1/31 hluti á hverjum gjalddaga en á lokagjalddaga, 2. desember 2008, skyldu 21/31 hluti lánsins greiddir.  Í grein 2.2 kemur fram að lántaki óski eftir því að reikningur hans nr. 190-26-30039 hjá bankanum verði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum. Í grein 2.3 segir meðal annars að lántaka sé heimilt að greiða lánið hraðar eða að fullu áður en að lokagjalddaga komi en það sé þó háð samþykki bankans.  Sé þessi heimild nýtt skuli „lágmarksgreiðsla nema a.m.k. jafnvirði 10 milljóna íslenskra króna hverju sinni“. Í grein 2.5 er kveðið á um að komi til vanefnda af hálfu lántaka skuldbindi hann sig til þess að greiða bankanum, auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, allan kostnað sem bankinn leggi út vegna vanefndanna. Í grein 3.1 segir að lántaki lofi að greiða bankanum vexti sem skuli vera breytilegir vextir jafnháir sex mánaða LIBOR-vöxtum, auk 2,75% vaxtaálags. Í grein 4.1 er kveðið á um að sé skuldin í skilum geti lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að myntsamsetningu lánsins verði breytt, þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið.  Síðan segir: „Við myntbreytingu skal við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt gengisskráning Landsbanka Íslands hf. á íslensku krónunni, tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna nema um annað sé sérstaklega samið.“ Í grein 7.1 er kveðið á um að standi lántaki ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar beri honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001.  Bankinn hafi um það val, hvort hann krefjist dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt, eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur. Í grein 10.1 kemur fram að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra skuldbindinga samkvæmt samningnum hafi lántaki afhent bankanum tryggingarbréf með veði í skipinu Gunnari Bjarnasyni SH-122, skipaskrárnr. 1244, að fjárhæð 115.000.000 króna. Í grein 11.2 er kveðið á um að sé samningurinn gjaldfelldur á grundvelli ákvæða í grein 11.1 í samningnum, sé bankanum heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur á gjalddaga eða uppsagnardegi miðað við skráð sölugengi bankans á þeim myntum sem hver lánshluti sé í og krefja lántaka um greiðslu hans í samræmi við ákvæði samningsins.  Samkvæmt grein 11.3 bera allar skuldir í tilvikum gjaldfellingar dráttarvexti í samræmi við III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð. Samkvæmt framlögðum kaupnótum millifærði forveri stefnda inn á reikninga Útgerðar­félagsins Tjalds ehf., 18. febrúar 2004, 528.712 evrur inn á reikning nr. 190-38-710006, 189.298 svissneska franka inn á reikning nr. 190-38-600558, 25.866.626 japönsk jen inn á reikning nr. 190-38-670058 og 459.635 bandaríkjadali inn á reikning nr. 190-38-100058. Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd.  Í framhaldi af því var stofnaður Nýi Landsbanki Íslands hf., nú Landsbankinn hf., stefndi þessa máls.  Tók stefndi við ýmsum réttindum og skyldum eldri bankans og er óumdeilt að hann hafi þar á meðal tekið yfir kröfu á hendur stefnanda samkvæmt lánssamningnum frá 17. febrúar 2004. Af hálfu stefnanda og stefnda var undirritaður viðauki við umþrættan lánssamning 31. desember 2008.  Í viðaukanum segir að samningurinn hafi verið um fjölmyntalán að jafnvirði 104.000.000 króna, „í eftirtöldum myntum og hlutföllum: EUR 44%, USD 30%, CHF 10% og JPY 16%“.  Eftirstöðvar lánsins, 2. júní 2008, eru tilgreindar 23.122.247 japönsk jen, 202.802,90 svissneskir frankar, 225.463,58 evrur, 194.960,14 bandaríkjadalir og 336.495,01 kanadadalur.  Lánstímanum var breytt þannig að lokagjalddaginn færðist aftur til 2. desember 2013 og vaxtaálag á LIBOR-vexti var hækkað í 3,50%. Af hálfu aðila var undirrituð skilmálabreyting við lánssamninginn 17. febrúar 2010.  Í skilmálabreytingunni er vísað til lánssamnings aðila sem samkomulag um langtímalán að fjárhæð 104.000.000 króna, „í eftirtöldum myntum og hlutföllum: EUR 44%, USD 30%, CHF 10% og JPY 16%“.  Fól skilmálabreytingin í sér að á tímabilinu frá 2. júní 2009 til og með 2. desember 2010 skyldi lántaki greiða bankanum fasta greiðslu að fjárhæð 6.143.277 krónur á sex mánaða fresti.  Sérstaklega er tekið fram að lántaki skuli inna greiðslur af hendi í íslenskum krónum.  Fjárhæðinni skyldi fyrst ráðstafað til greiðslu áfallinna vaxta og síðan til greiðslu höfuðstóls lánsins.  Sá hluti af greiðslum sem frestaðist samkvæmt þessu, frá upphaflegum skilmálum, skyldi leggjast við höfuðstól lánsins.  Lánstíminn skyldi haldast óbreyttur og frá og með 2. júní 2010 skyldi lántaki greiða afborganir og vextir í samræmi við upphaflega skilmála lánssamningsins.  Þá var vaxtaálag á LIBOR-vexti hækkað í 3,75%. Í framlagðri tilkynningu um gjalddaga frá stefnda, dagsettri 25. maí 2007, eru fjárhæðir afborgana og vaxta tilgreindar í kanadadölum, svissneskum frönkum, bandaríkjadölum, norskum krónum, japönskum jenum og evrum.  Í annarri tilkynningu um gjalddaga, dagsettri 22. maí 2008, eru fjárhæðir afborgana og vaxta tilgreindar í evrum, svissneskum frönkum, kanadadölum, sænskum krónum og japönskum jenum.  Samkvæmt framlögðum kvittunum, útgefnum 1. september 2015, greiddi stefnandi af láninu 4. júní 2007 í evrum, japönskum jenum, norskum krónum, bandaríkjadölum, svissneskum frönkum og kanadadölum og 2. júní 2008 í evrum, svissneskum frönkum, kanadadölum, sænskum krónum og japönskum jenum. Stefnandi kveður stefnda ekki hafa samþykkt ítrekuð erindi hans þess efnis að lán hans verði leiðrétt í samræmi við niðurstöður dóma Hæstaréttar Íslands sem kveða á um ólögmæti lána í íslenskum krónum, sem bundin séu við gengi erlendra gjaldmiðla, líkt og ágreiningur aðila stendur nú um. III Stefnandi byggir kröfur sínar á því að lánssamningurinn frá 17. febrúar 2004, nr. 445, sé um lán sem verðtryggt hafi verið við gengi erlendra mynta og að slík verðtrygging fari í bága við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 13. og 14. gr. laganna, eins og dómstólar hafi margsinnis staðfest.  Stefnandi heldur því fram að samningur þessi sé sams konar og fjallað var um í dómi Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011, þar sem staðfest hafi verið að samhljóða samningur væri um lán í íslenskum krónum, bundinn með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla. Stefnandi vísar til forsíðu lánssamningsins og að hvergi sé þar að finna tilgreiningu á láninu í erlendum myntum.  Hafi það verið ætlun stefnda að veita lán í erlendri mynt hefði slíkt vitaskuld verið tekið fram á forsíðu samningsins.  Í upphafsorðum samningsins sé lánsfjárhæðin jafnframt aðeins tilgreind í íslenskum krónum.  Hvorki þar né annars staðar í lánssamningnum sé að finna ákvæði um hversu há lánsfjárhæðin sé í erlendum myntum en slíkt er, að mati stefnanda, forsenda þess að skuldbinding geti talist vera í erlendum myntum.  Aðeins hlutföll hinna erlendu mynta séu tilgreind.  Að mati stefnanda gefi þetta bersýnilega til kynna að lánið sé í raun og veru í íslenskum krónum og bundið við gengi umræddra gjaldmiðla í tilgreindum hlutföllum.  Þá komi fram í aðfaraorðum samningsins að fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðist ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Með öðrum orðum ákvarðist „viðmiðunargengið“ ekki fyrr en tveimur bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Þetta ákvæði þjóni vart öðrum tilgangi en að binda skuld­bindinguna, sem sé í íslenskum krónum, við gengi gjaldmiðlanna á þeim tiltekna degi.  Vísar stefnandi um þetta til dóma Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011, frá 14. febrúar 2011, í máli nr. 603/2010, og frá 8. mars 2011, í máli nr. 30/2011.  Í ljósi þess að skuldbinding aðila sé eingöngu tilgreind í íslenskum krónum geti lánið ekki hafa verið í erlendum myntum.  Af þeim sökum blasi við að umþrætt lán hafi verið gengistryggt lán. Stefnandi vísar jafnframt í grein 4.1 í lánssamningnum um heimild lántaka til þess að óska eftir því að myntsamsetningu lánsins verði breytt þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða hluta við aðrar erlendar myntir en upphaflega hafi verið samið um.  Ákvæðið gefi það bersýnilega til kynna að verið sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum enda komi það beinlínis fram í ákvæðinu að hægt sé að greiða eftirstöðvar skuldarinnar þannig að þær „miðist“ við aðrar myntir.  Stefnandi fái ekki séð hvers vegna erlent lán ætti að miðast við aðrar myntir, hafi það í raun verið í erlendum myntum.  Lántaka hafi verið veitt heimild til þess að breyta „vísitölu“ lánsins meðan á lánstíma stæði og sýni það glöggt að lánið hafi aldrei verið í erlendum myntum heldur í íslenskum krónum með tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla.  Hefði lánið í reynd verið í erlendum myntum hefði heimildarákvæði um breytingu á andlagi lánsfjárhæðar ekki kveðið á um breytingu á viðmiðum heldur beinlínis um sölu eins gjaldmiðils og kaup annars.  Í grein 4.1 sé jafnframt útfært með hvaða hætti skuli staðið að myntbreytingu.  Þar segi að við umreikning skuli nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt sé að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skuli miða við, samkvæmt gengisskráningu bankans á íslensku krónunni.  Að mati stefnanda staðfesti framangreint ákvæði enn betur að verið sé að miða lánið við erlendar myntir, þ.e. gengistryggja það.  Þá staðfesti ákvæðið einnig, að við slíka breytingu á „myntvísitölu“ eða gengistryggingu, sé höfuðstóll lánsins ávallt reiknaður í íslenskum krónum.  Þýðingarlaust hefði verið að vísa til gengisskráningar íslensku krónunnar, hefði höfuðstóllinn ekki verið í íslenskum krónum, t.d. ef umbreyta ætti láni sem í raun væri í evrum í japönsk jen.  Vísar stefnandi um þetta til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011.  Samkvæmt dóminum hafi ákvæði 4. gr. samningsins verulegt vægi við mat á því hvort lán sé gengistryggt eða í erlendum myntum. Í grein 2.2 í lánssamningi aðila komi sérstaklega fram að lántaki óski eftir því að íslenskur reikningur hans nr. 190-26-30039 verði skuldfærður fyrir afborgunum og/eða vöxtum.  Þá liggi fyrir í málinu beiðni um útborgun, dagsett 17. febrúar 2004, þar sem vísað sé til lánssamningsins og, með vísan til greinar 1.2 í lánssamningi aðila, óskað eftir því að lánið verði greitt út 18. febrúar 2004.  Þess sé óskað að útborgunarfjárhæð lánsins verði greidd Útgerðarfélaginu Tjaldi ehf. beint, inn á reikninga sem félagið tilgreini, í þeim myntum sem lánið sé tekið í.  Í útborgunarbeiðninni sé einnig tiltekið að stefnandi heimili bankanum að skuldfæra greiðslu afborgana, vaxta og annarra gjalda samkvæmt lánssamningnum af reikningi stefnanda nr. 190-26-30039. Samkvæmt framlögðum tölvupósti hafi, af hálfu Útgerðarfélagsins Tjalds ehf., verið óskað eftir því að andvirði kvótasölu félagsins yrði greitt að eins miklu leyti og hægt væri í erlendum myntum inn á tilgreinda reikninga félagsins í bandaríkjadölum, evrum, sterlingspundum, japönskum jenum og svissneskum frönkum, og að eftirstöðvar yrðu greiddar inn á tékkareikning félagsins nr. 0106-26-1055.  Á grundvelli þeirrar beiðni hafi verið ákveðið að nýta lánsfjárhæðina, sem stefnandi hafi tryggt sér í íslenskum krónum, til þess að kaupa erlendan gjaldeyri.  Kaupnótur þar að lútandi, dagsettar 18. febrúar 2004, hafi verið útbúnar og stílaðar á stefnanda.  Í kaupnótunum segi: „Við höfum keypt af yður erlent lán.“  Stefnandi hafi hins vegar aldrei átt erlendir myntir eða erlendan gjaldeyrisreikning og erlendur gjaldeyrir hafi ekki verið færður milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf.  Stefnandi skilji því ekki hvernig ætluð gjaldeyrisviðskipti eigi að hafa farið fram eða hvernig bankinn geti hafa „keypt“ lán af stefnanda. Tilefni lánveitingarinnar hafi verið kaup stefnanda á aflahlutdeild af Útgerðarfélaginu Tjaldi ehf.  Í kaupsamningi vegna þeirra viðskipta hafi kaupverðið eingöngu verið tilgreint í íslenskum krónum og í raun hafi átt að leggja það inn á íslenskan tékkareikning, þ.e. fjárvörslureikning í eigu Magnúsar Helga Árnasonar hdl.  Það hafi hins vegar ekki verið gert vegna óska Útgerðarfélagsins Tjalds um að fá kaupverðið greitt í erlendri mynt.  Bankinn hafi orðið við þeirri beiðni og því hafi erlendur gjaldeyrir verið lagður inn á gjaldeyrisreikninga Útgerðarfélagsins Tjalds.  Að mati stefnanda geti krafa þriðja aðila um útborgun, og þaðan af síður útborgunarbeiðni eða kaupnótur, ekki breytt eðli lánssamningsins sem kveði á um skuldbindingu í íslenskum krónum.  Stefnandi leggi áherslu á að túlka verði ákvæði samningsins eins og þau komi fram í samningnum sjálfum og að beita beri hefðbundinni textaskýringu þeirra ákvæða.  Sú leið hafi enda verið farin í dómum Hæstaréttar Íslands og vísar stefnandi í því samhengi til dóms réttarins frá 17. janúar 2013, í máli nr. 386/2012.  Í málinu hafi verið deilt um hvort lánssamningur væri gengistryggður eða í erlendi mynt.  Líkt og í þessu máli hafi lánssamningur aðila aðeins kveðið á um skuldbindingu í íslenskum krónum.  Í útborgunarbeiðni, eða lánsumsókn, hafi hins vegar verið tilgreind tiltekin fjárhæð erlendrar myntar.  Lánveitandi hafi talið að slík umsókn væri hluti af samningi aðila en því hafi Hæstiréttur Íslands hafnað og talið að einungis bæri að líta til orðalags lánssamningsins sjálfs.  Að virtri niðurstöðu framangreinds dóms sé ljóst að útborgunarbeiðni geti aldrei breytt efni samningsins, sem sé um lán í íslenskum krónum með verðtryggingu í erlendri mynt. Hafa beri í huga að lánssamningur aðila hafi verið saminn einhliða af forvera stefnda.  Af þeim sökum beri að beita andskýringarreglu við túlkun ákvæða samningsins.  Samkvæmt þeirri túlkunarreglu skuli óljós samningsákvæði, sem ágreiningi valda, skýrð þeim aðila í óhag sem hafi samið þau einhliða eða ráðið þeim atriðum til lykta.  Löggerninga skuli, í samræmi við þetta, túlka þeim aðila í óhag sem hefði átt að hlutast til um skýrara form samningsins eða tjá sig skýrar um viðkomandi ágreiningsatriði.  Stefndi beri þar af leiðandi hallann af óljósum ákvæðum samningsins. Stefnandi hafi greitt allar afborganir lánsins með íslenskum krónum, í samræmi við skýr ákvæði í grein 2.2 í lánssamningnum, sem kveði á um að tékkareikningur stefnanda skuli skuldfærður fyrir afborgunum.  Það sýni, svo ekki verði um villst, að lánið hafi verið gengistryggt. Í ljósi alls framangreinds sé þess krafist að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur aðila nr. 445 kveði á um lán bundið ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Til grundvallar viðurkenningakröfu stefnanda liggi fyrir útreikningar Deloitte sem sýni að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið byggir stefnandi á því að umþrætt lán hafi verið greitt út í íslenskum krónum en fært í þann búning að það hafi verið millifært inn á innlenda gjaldeyrisreikninga Útgerðarfélagsins Tjalds.  Frá árinu 1960 hafi almennt verið óheimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla.  Þessi almenna regla hafi verið tekin upp í lög nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl.  Með setningu reglugerðar um gengisbundin inn- og útlán í bönkum og sparisjóðum, sem sett hafi verið með heimild í 3. mgr. 65. gr., sbr. b-lið 4. töluliðar 1. mgr. 39. gr. laganna, hafi bönkum og sparisjóðum verið heimilað að taka við innlánum sem tengd hafi verið við ECU, sem sé evrópsk reiknieining, og SDR, sem sé reiknieining Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.  Eftir setningu reglugerðarinnar hafi innstæða í bönkum og sparisjóðum því getað breyst eftir gengi íslensku krónunnar gagnvart ECU og SDR.  Með setningu laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, hafi þessi heimild fjármálastofnanna verið felld úr gildi.  Í sérstökum athugasemdum við 13. og 14. gr. í frumvarpi til laganna segir orðrétt:  „Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.“ Eins og alkunna sé hafi Hæstiréttur Íslands margstaðfest að óheimilt sé að gengistryggja lánssamninga og vísast um það m.a. til dóma réttarins frá 16. júní 2010, í málum nr. 92/2010 og 153/2010.  Lög nr. 38/2001 banni hins vegar ekki einungis gengistryggingu lánssamninga heldur einnig sparifjár og innlánsreikninga.  Að mati stefnanda sé einsýnt að þeir reikningar sem forveri stefnda hafi lagt lánsféð inn á, á grundvelli umþrætts lánssamnings, hafi verið ólögmætir gengistryggðir reikningar samkvæmt lögum nr. 38/2001 og því óhjákvæmilegt að líta svo á að umþrætt lán hafi verið ólögmætt gengistryggt lán. Stefnandi byggir á því að þegar lán sé lagt inn á reikning með höfuðbók 38 felist ekki í því afhending á erlendum gjaldeyri heldur íslenskum krónum með gengistryggingu, þ.e. tengingu við erlenda gjaldmiðla.  Innlendir viðskiptabankar hafi til marga ára boðið upp á sparireikninga í erlendum myntum, svokallaða IG-reikninga.  Höfuðbók IG-reikninga sé einkennd með númerinu 38.  Um það sé ekki deilt.  Hins vegar sé nákvæmlega sami texti í umþrættum lánssamningi og í þeim samningi sem Hæstiréttur Íslands hafi þegar dæmt um að feli í sér ólögmæta gengistryggingu, sbr. dóm réttarins frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011.  Það liggi því fyrir að lánssamningurinn sjálfur kveði á um ólögmæta gengisviðmiðun. Að mati stefnanda sé það útbreiddur misskilningur að með því að fá millifærslu inn á slíka gjaldeyrisreikninga, sem að framan greini, flytjist gjaldeyrir til Íslands.  Gjaldeyrir þjóðarinnar sé aldrei geymdur á Íslandi heldur sé hann í því landi eða löndum sem gefi út viðkomandi gjaldmiðil.  Til dæmis séu öll japönsk jen ávallt geymd í Japan og svissneskir frankar í Sviss.  Stefnandi byggir á því að afhending á gjaldeyri felist ekki í því að „leggja inn“ gjaldeyri á reikninga nr. 38 hér á landi, heldur sé þar einungis um færslu á blaði að ræða.  Eina leiðin til þess að afhenda gjaldeyri í raun sé að leggja hann inn á reikning í eigu lántakans í banka í því landi sem gefi út viðkomandi gjaldeyri, eða að afhenda gjaldeyrinn í seðlum hjá gjaldkera.  Hvorugt eigi við í tilviki þessu og þar sem viðskiptin hafi farið fram innan sömu bankastofnunar, Landsbanka Íslands hf., forvera stefnda þessa máls, hafi ekki farið fram neinar færslur af „nostro“ reikningum Landsbanka Íslands hf. hjá erlendum bankastofnunum. Stefnandi kveður reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisjöfnuð taka af öll tvímæli í þessum efnum.  Í reglum um gjaldeyrisjöfnuð og um flokkunarlykla Seðlabanka Íslands komi fram að það sé afstaða Seðlabanka Íslands að íslenskar krónur með gengisviðmiðun séu innstæður á innlendum gjaldeyrisreikningum, IG-reikningum, eins og höfuðbók 38.  Millifærsla stefnda inn á IG-reikninga feli því ekki í sér að erlendur gjaldeyrir skipti um hendur heldur séu það íslenskar krónur sem miðist við gengi erlendra gjaldmiðla, sem stefnda sé ekki heimilt að lána viðskiptamönnum.  Lög séu því brotin þegar lán sé greitt út með millifærslu inn á reikning þar sem innstæðan sé í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla. Innstæður á innlendum gjaldeyrisreikningum, IG-reikningum, eins og höfuðbók 38, teljist samkvæmt reglum um gjaldeyrisjöfnuð til eignaliða og skuldaliða, þegar nústaða gjaldmiðla í eignaliðum og skuldaliðum sé metin í gjaldeyrisjöfnuði, samanber reglur Seðlabanka nr. 387 frá 22. maí 2002, sem í gildi hafi verið við undirritun umþrætts lánssamnings.  Reglur um gjaldeyrisjöfnuð, hafi að mestu haldist óbreyttar allt til ársins 2010.  Reglur um gjaldeyrisjöfnuð frá árinu 2010 tilgreini í fyrsta sinn „nostro“ reikninga bindisskyldra lánastofna, við mat á opinni gjaldeyrisstöðu til gjaldeyrisjöfnunar.  Innstæður “nostro“ reikninga stefnda séu erlendar myntir enda séu þeir reikningar í banka í því landi sem gefi út þá mynt sem sé innstæða slíkra reikninga.  Hlutverki íslenskra króna, sem bundnar séu við gengi erlendra gjaldmiðla, sem eignir og skuldir í gjaldeyrisjöfnuði þjóðarinnar, hafi lokið með setningu Seðlabankans á reglum nr. 950 frá 6. desember 2010 um gjaldeyrisjöfnuð. Stefnandi byggir kröfur sínar á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum á 13. og 14. gr. laganna, reglum Seðlabanka Íslands frá 22. maí 2002, nr. 387/2002, um gjaldeyrisjöfnuð, og á almennum reglum kröfu- og samningaréttarins.  Um heimild til að höfða viðurkenningarmál vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um málskostnaðarkröfu til XXI. kafla sömu laga, einkum 1. mgr. 130. gr. laganna. IV Stefndi mótmælir öllum málsástæðum, lagarökum og dómatilvísunum stefnanda og telur að engin þeirra eigi að leiða til þess að dómkröfur hans verði teknar til greina.  Sýknukrafa stefnda sé byggð á því að með undirritun lánssamnings nr. 445 hafi stefnandi skuldbundið sig til þess að taka lán í erlendum gjaldmiðlum.  Stefnanda beri að efna gerða samninga og virða skuldbindingar sínar.  Stefndi telur að krafa hans á hendur stefnanda samkvæmt umþrættum lánssamningi sé skuldbinding í erlendri mynt og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. sömu laga.  Stefndi byggir á því að láns­samningurinn og framkvæmd lánveitingarinnar, m.a. útgreiðsla lánsins, beri það með sér að skuldbindingin sé í erlendri mynt og vísar um það m.a. til dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands. Áður en stefnandi hafi tekið lán nr. 445 hjá Landsbanka Íslands hf. hafi hann tekið nokkur lán hjá bankanum í erlendri mynt.  Stefnandi hafi, 16. júlí 1998, gefið út veðskuldabréf, fjölmyntakörfulán, til Landsbanka Íslands hf. og 19. febrúar 1998 gefið út fjögur skuldabréf í erlendum myntum, eins og framlögð skjöl beri með sér.  Þá hafi stefnandi jafnframt tekið erlend lán hjá Landsbanka Íslands hf. eftir að hann hafi tekið lán nr. 445, sbr. framlögð skjöl þar um. Í stefnu málsins sé á því byggt að lán samkvæmt lánssamningi aðila nr. 445 sé í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, þar sem lánsfjárhæðin sé tilgreind í íslenskum krónum og aðeins getið um hlutfall hinna erlendu mynta.  Lögð sé áhersla á að í fyrirsögn lánssamningsins segi „lánssamningur um fjölmyntalán“ og vísað til þess að talað sé um „jafnvirði“ íslenskra króna, sem ekki geti talist vera tilgreining á skuldbindingu í íslenskum krónum.  Stefndi vísar hins vegar til þess að skuldbindingin sé, í öðrum skjölum sem tengd séu lánssamningnum órjúfanlegum böndum, tilgreind í hinum erlendu myntum.  Í báðum skilmálabreytingum lánsins hafi skuldbindingar stefnanda einungis verið tilgreindar í hinum erlendu myntum og sama eigi við um tilkynningu um gjalddaga og kvittanir fyrir greiðslu hvers gjalddaga.  Stefnandi hafi fengið öll framangreind skjöl send til sín og aldrei gert athugasemd við efni þeirra.  Það liggi því fyrir að skuldbinding stefnanda hafi í öllum skjölum, frá og með útgreiðslu lánsins, verið tilgreind í þeim erlendu gjaldmiðlum sem hún hafi verið tilgreind í, en ekki í íslenskum krónum. Í dómum Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010, í málum nr. 92/2010 og 153/2010, hafi því verið slegið föstu að ófrávíkjanleg ákvæði 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, stæðu því í vegi að lántaki væri skuldbundinn af ákvæði í samningi um að fjárhæð láns í íslenskum krónum tæki breytingum eftir gengi erlends gjaldmiðils.  Frá þeim tíma hafi rétturinn kveðið upp marga dóma, þar sem á það hafi reynt hvort skuldbinding samkvæmt lánssamningi teljist vera um fjárhæð í íslenskum krónum, sem á þennan óheimila hátt hafi verið gengistryggð, eða fjárhæð í erlendum gjaldmiðlum, einum eða fleiri, sem fyrrnefnt lagaákvæði taki ekki til.  Af þeim meiði séu meðal annarra dómar Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011, frá 15. júní 2012, í máli nr. 3/2012, frá 1. nóvember 2012, í máli nr. 66/2012, og frá 14. nóvember 2013, í máli nr. 337/2013.  Í þeim öllum hafi verið deilt um samninga um lán, sem tilgreind hafi verið sem jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum í tilteknum gjaldmiðlum, og hafi þess þá einnig verið getið hvert hlutfall hvers erlends gjaldmiðils ætti að vera af fjárhæð lánsins.  Í þessum tilvikum hefi verið litið svo á að orðalag í samningi um skuldbindingu í þessari mynt dygði ekki eitt og sér til að komast að niðurstöðu heldur yrði jafnframt að líta til þess hvernig aðilar samnings hefðu í raun efnt hann, hvor fyrir sitt leyti.  Að framangreindu virtu, hafi í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011, verið litið svo á að samningur hafi verið um lán í íslenskum krónum, bundið með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla.  Í hinum dómunum, sem að framan greini, hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að samningar væru um lán í erlendum gjaldmiðlum, sem væru skuldbindandi fyrir lántaka. Í dómum Hæstaréttar Íslands, í málum nr. 3/2012, 66/2012 og 337/2013, hafi orðalag þeirra lánssamninga, sem til umfjöllunar hafi verið, í öllum meginatriðum verið það sama og í umþrættum samningi.  Í málum nr. 3/2012 og 66/2012 hafi lánin verið greidd út með því að bankinn hafi lagt tilteknar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum inn á gjaldeyrisreikninga lántaka í þeim sömu gjaldmiðlum en í máli nr. 337/2013 hafi verið lagt til grundvallar að lánsfjárhæðin hafi verið greidd út í evrum.  Fé í erlendum gjaldmiðlum hafi því í reynd skipt um hendur þegar lánveitandi hafi efnt aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum.  Í máli nr. 3/2012 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að samningsaðilar hefðu báðir efnt skyldur sínar með því að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum hafi skipt um hendur.  Í máli nr. 66/2012 hafi hins vegar sérstaklega verið vísað til þess að að það breytti ekki niðurstöðunni þótt lántaki hafi ekki greitt afborganir af skuld sinni, þ.e. efnt aðalskyldu sína, með fé í sömu erlendu gjaldmiðlum, enda hafi borið að endurgreiða lánið eftir hljóðan samningsins „í þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur af“.  Í samningnum hafi því verið kveðið á um að „fé í erlendum gjaldmiðlum myndi einnig skipta um hendur við efndir [lántaka] á aðalskyldu sinni, þótt svo hafi ekki verið í raun“.  Þá hafi það ekki verið látið ráða úrslitum í máli nr. 337/2013 að lántaka hafi verið heimilt samkvæmt samningi að inna af hendi afborganir í íslenskum krónum og sé vísað til dóms í máli nr. 66/2012 til stuðnings þeirri niðurstöðu.  Þvert á móti sé í niðurstöðu réttarins sérstaklega vísað til þess að efndir á aðalskyldu lánveitanda hafi farið fram í hinum umsömdu erlendu gjaldmiðlum.  Stefndi vísar einnig til dóma Hæstaréttar Íslands frá 6. mars 2014, í máli nr. 602/2013, og frá 11. september 2014, í máli nr. 90/2014.  Í þeim málum hafi orðalag lánssamninga í öllum meginatriðum verið það sama og í umþrættum samningi og hafi þá verið litið til þess hvernig aðilar hefðu efnt samninginn.  Komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að efndir samningsaðila á aðalskyldum sínum samkvæmt hinum umdeildu samningum hefðu að verulegu en ekki öllu leyti falið í sér að erlendir gjaldmiðlar hafi skipt um hendur.  Hafi því verið talið að um gild erlend lán væri að ræða. Eins og í þeim dómum sem að framan greini telji stefndi að leggja verði til grundvallar að umþrættur lánssamningur sé um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum.  Óumdeilt sé í málinu að lánið hafi verið greitt út í erlendum gjaldmiðlum.  Í útborgunarbeiðni, sem sé hluti af lánssamningnum, hafi stefnandi farið fram á að lánið yrði greitt út í þeim myntum sem það hafi verið tekið í og að Útgerðarfélaginu Tjaldi ehf. yrði greitt beint, inn á reikninga sem félagið skyldi tilgreina.  Útgerðarfélagið Tjaldur ehf. hafi tilgreint gjaldeyrisreikninga sína í þeim myntum sem lánið hafi verið tekið í og hafi lánið verið greitt út í þeim myntum inn á reikninga, eins og framlagðar kaupnótur beri með sér.  Það sé ekki rétt sem fram komi í stefnu að lánið hafi verið greitt út í þeim myntum af því að Útgerðarfélagið Tjaldur ehf. hafi farið fram á greiðslu í erlendum myntum.  Stefnandi sjálfur hafi farið fram á að lánið yrði greitt út í erlendum myntum inn á reikninga sem Útgerðarfélagið Tjaldur ehf. myndi tilgreina.  Stefnandi vísi til framlagðs kaupsamnings sem kveði á um það hvernig stefnandi skyldi greiða Útgerðarfélaginu Tjaldi ehf. fyrir aflahlutdeild í þorski.  Stefndi hafi ekki verið aðili að þessum samningi og sé því ekki bundinn af efni hans.  Hvorugur samningsaðila hafi farið eftir ákvæði samningsins um greiðslu kaupverðsins þegar þeir hafi óskað eftir því að lán nr. 445 yrði greitt út í erlendum myntum þess. Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda um að hann hafi, þegar hann hafi tekið lánið í febrúar 2004, talið að heimilt væri að tengja lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og talið gengistryggð lán lögleg.  Á árinu 2004 hafi engin umræða verið um að þessi lán væru gengistryggð.  Sú umræða hafi ekki komið fram fyrr en í júní 2010 þegar fyrstu dómarnir þar um hafi verið kveðnir upp í Hæstarétti Íslands.  Þá hafi stefnandi þegar tekið fimm erlend lán hjá Landsbanka Íslands hf., árið 1998, og greitt af þeim og hafi hann ekki greint á um lögmæti þeirra lána við stefnda.  Stefnandi hafi því verið vanur erlendum lánum, enda hafi hann sótt um erlent lán hjá Landsbanka Íslands hf. í febrúar 2004 og skrifaði undir lán nr. 455 og óskað eftir því að lánið yrði greitt út í erlendum myntum.  Stefndi leyfi sér að benda á að ársreikningar stefnanda bendi ótvírætt til þess að hann hafi talið skuldbindingarnar í erlendum gjaldmiðlum, sbr. framlagða ársreikninga fyrir árin 2004-2007.  Þá hafi stefnandi gert nokkra lánssamninga við Landsbanka Íslands hf. árin 2005-2007, sem séu sambærilegir umþrættum lánssamningi nr. 455.  Þar af leiðandi sé ljóst að vilji stefnanda hafi staðið til þess að taka erlend lán. Greiðsla afborgana og vaxta af láni nr. 455 hafi verið í samræmi við beiðni stefnanda um að íslenskur tékkareikningur hans skyldi skuldfærður.  Erlendar myntir lánsins hafi verið keyptar fyrir íslensku krónurnar og erlendu myntirnar greiddar inn á lánið.  Í meginatriðum hafi samningsaðilar því efnt aðalskyldur sínar samkvæmt lánssamningnum með því að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum hafi skipt um hendur, eins og skýrlega hafi verið gengið út frá í lánssamningnum. Því sé ranglega haldið fram í stefnu að stefnandi hafi tryggt sér lánsfjárhæðina í íslenskum krónum og því hafi íslenskar krónur verið notaðar til að kaupa hinar erlendu myntir lánsins og þær millifærðar inn á gjaldeyrisreikninga Útgerðarfélagsins Tjalds ehf.  Landsbanki Íslands hf. hafi átt gjaldeyrisreikninga í framangreindum myntum lánsins og hafi millifært af þeim inn á gjaldeyrisreikninga Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. af því að stefnandi hafi óskað eftir því að sá háttur yrði hafður á varðandi útgreiðslu lánsins en ekki að erlendu myntirnar yrðu færðar inn á hans eigin gjaldeyrisreikninga.  Því hafi erlendar myntir ekki verið keyptar, eins og stefnandi haldi fram, heldur hafi Landsbanki Íslands hf. millifært af eigin gjaldeyrisreikningum.  Framlagðar kaupnóturnar staðfesti þessa framkvæmd.  Í kaupnótunum staðfesti bankinn að hann hafi keypt lánssamninginn, erlent lán, af stefnanda og greitt lánið út í erlendri mynt.  Með vísan til framangreinds telji stefndi ljóst að form og meginefni lánssamningsins bendi eindregið til þess að skuldbindingin hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.  Því sé ekki tilefni til að líta svo á að samningsskilmálar séu svo óskýrir eða óljósir að beita eigi einhvers konar „andskýringarreglu“, svo sem stefnandi vísi til.  Einnig sé til þess að líta að umþrættur samningur sé í eðli sínu gagnkvæmur.  Við skýringu hans beri að hafa í huga meginreglu íslensks réttar um frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum við aðra þannig að samningar teljist gildir nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum.  Þá verði að telja, hvað sem öðru líði, að stefnandi hafi með athafnaleysi sínu viðurkennt að umþrættar skuldbindingar séu að sönnu í erlendum gjaldmiðlum og í öllu falli að hann hafi fyrirgert rétti til að bera öðru við. Samkvæmt ákvæði 3.1 í lánssamningnum hafi stefnandi átt að greiða stefnda breytilega vexti, jafnháa sex mánaða LIBOR-vöxtum, auk 2,75% vaxtaálags.  Stefnandi hafi því ekki átt að greiða vexti á íslenskar krónur.  Ef svo hefði verið hefði skuldbinding stefnanda að grunni til byggst á svokölluðum REIBOR-vöxtum og vextirnir orðið umtalsvert hærri en þeir hafi í raun verið enda séu LIBOR-vextir ekki ákvarðaðir á íslenskar krónur.  Skuldbinding stefnanda hafi því án alls vafa verið í erlendum myntum. Samkvæmt ákvæðum samningsins hafi stefnanda verið heimilt að greiða afborganir, vexti og dráttarvexti, eða aðrar greiðslur, í íslenskum krónum en þá skyldi hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.  Því sé ljóst að aðalskylda stefnanda hafi verið að greiða í viðeigandi mynt en honum hafi verið heimilt að greiða í íslenskum krónum samkvæmt samningnum.  Engin þörf hefði verið á að kveða á um slíkan rétt hefði lánið verið að öllu leyti í íslenskum krónum. Stefnandi byggi á því að orðalag myntbreytingarheimildar í ákvæði 4.1 bendi ótvírætt til þess að verið sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum.  Þessu sé mótmælt af hálfu stefnda.  Myntbreytingarákvæðið sé ákvæði sem veiti skuldara heimild til að breyta hinni erlendu mynt sem lánið hafi upphaflega verið tekið í, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.  Beiðni um breytingu mynta skyldi setja fram með ákveðnum fyrirvara til þess að gera bankanum kleift að kaupa viðkomandi myntir eða eftir atvikum gera skiptasamning við annan aðila um viðkomandi myntir, til að geta veitt skuldara þau vaxtakjör sem umræddar myntir bjóði upp á.  Skýrlega megi ráða af ákvæðinu að við hugsanlega myntbreytingu á láni fari fram viðskipti með viðkomandi myntir.  Orðrétt segi:  „[g]eti bankinn ekki útvegað lántaka einhverja tiltekna mynt eða útvegun hennar myndi hafa í för með sér verulegan kostnað fyrir bankann er honum heimilt að nota USD í stað þeirrar myntar.“  Hefði ætlunin verið að miða íslenska fjárhæð við gengi myntar væri framangreint orðalag óþarft enda ljóst að þá þyrfti ekki að útvega neina mynt.  Í orðalaginu felist að gert sé ráð fyrir því að við hugsanlega myntbreytingu sé raunveruleg umsýsla með þær myntir sem lántaki kunni að óska eftir að umbreyta láninu í. Stefnandi hafi áður tekið erlend lán hjá stefnda.  Á því tímabili hafi hann séð að greiðslubyrði þeirra lána hafi verið mun lægri en hefði stefnandi tekið lán í íslenskum krónum.  Í því samhengi vísi stefndi til þess að LIBOR-vextir hafi verið umtalsvert hagstæðari fyrir stefnanda en REIBOR-vextir á íslenskar krónur á því tímabili sem hann hafi innt vaxtagreiðslur af hendi, frá árinu 1998 til ársins 2004. Málatilbúnaður stefnanda virðist byggður á því að þrátt fyrir að stefndi hafi millifært hinar erlendu myntir lánsins af eigin gjaldeyrisreikningum inn á gjaldeyrisreikninga Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. breyti það engu um lögmæti samningsins þar sem erlendur gjaldeyrir hafi ekki í reynd skipt um hendur.  Að mati stefnanda hafi allar greiðslur, jafnt útgreiðsla lánsins sem og endurgreiðslur, verið í íslenskum krónum.  Um þennan málatilbúnað stefnanda, sem stefndi mótmæli, vísast til allrar framangreindrar og jafnframt eftirfarandi umfjöllunar. Málatilbúnaður stefnanda um að „IG reikningar séu í raun ekki annað en gengistryggðir innlánsreikningar í íslenskum krónum“, sé ekki studdur neinum haldbærum rökum eða gögnum.  Fráleitt sé, m.a. í ljósi tilvísaðrar dómaframkvæmdar, að halda því fram að á IG-reikningum hvíli ekki raunverulegur gjaldeyrir.  Við úrlausn þessa ágreinings geti ekki skipt máli hverjir flokkunarlyklar Seðlabanka Íslands séu eða hvernig hann líti á skuldbindingar á innlendum gjaldeyrisreikningum.  Því sé jafnframt mótmælt að Seðlabanki Íslands líti á þær sem skuldbindingar í íslenskum krónum með gengisviðmiðun.  Þá sé því hafnað að „greiðslur inn og út af IG reikningum geti ekki falið í sér yfirfærslu erlends gjaldeyris milli aðila í reynd“.  Árétta beri í þessu sambandi að andvirði lánsins í erlendum gjaldmiðlum hafi verið ráðstafað inn á gjaldeyrisreikninga þriðja aðila, Útgerðarfélagsins Tjalds ehf., í samræmi við beiðni stefnanda. Samkvæmt afdráttarlausri dómaframkvæmd hér á landi teljist innlendir gjaldeyrisreikningar, með höfuðbók 38, fela í sér innstæðu í erlendum gjaldmiðlum, með sama hætti og innstæður á reikningum í íslenskum krónum teljast í íslenskum krónum.  Stefndi vísar um þetta m.a. til dóms Hæstaréttar Íslands frá 1. nóvember 2012, í máli nr. 66/2012, þar sem sérstaklega hafi verið tekið fram að lánveitandi í því tilviki hefði lagt tilteknar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum „inn á fjóra gjaldeyrisreikninga [lántaka] í þeim gjaldmiðlum“ og að „[f]é í erlendum gjaldmiðlum skipti því í reynd um hendur þegar [lánveitandi] efndi aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum“.  Stefndi vísar um þetta einnig til dóms Hæstaréttar Íslands frá 11. september 2014, í máli nr. 90/2014. Í öllu falli sé langsótt að halda því fram, í ljósi fyrirliggjandi dóma­framkvæmdar sem að framan sé vísað til, að erlendur gjaldeyrir geti aðeins „talist hafa skipt um hendur“ ef framkvæmdin sé með þeim hætti sem stefnandi lýsi, þ.e. með afhendingu erlends gjaldeyris í „seðlum og mynt“ og endurgreiðslu með sama hætti eða með því að tilgreina lánið í erlendri mynt í samningi og greiða það svo út í sömu mynt eða myntum „inn á bankareikninga í fjármálafyrirtækjum í þeim löndum þar sem viðeigandi myntir væru gefnar út (svonefnda „nostro“ reikninga)“. Stefndi byggir kröfur sínar á meginreglum samninga- og kröfuréttar, um skuldbindingargildi samninga og efndir kröfuréttinda, og á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr. laganna.  Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn á að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda. V Við aðalmeðferð komu og gáfu skýrslu vitnin Ásgeir Brynjar Torfason og Halldór Hildimundarson. Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort skuldbinding stefnanda samkvæmt umþrættum lánssamningi sé um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum eða lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna, dagsett 31. október 2016. Í máli þessu er krafist viðurkenningar á því að lánssamningur aðila nr. 445 sé um lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Byggir stefnandi á því að lán samkvæmt lánssamningnum sé í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og þar af leiðandi ekki skuldbindandi fyrir stefnanda.  Um lögvarða hagsmuni af viðurkenningarkröfunni vísar stefnandi til minnisblaðs frá Deloitte, dagsett 7. maí 2015, sem lagt er fram í málinu. Samkvæmt framangreindu minnisblaði var lán samkvæmt umþrættum samningi gert upp 6. mars 2012.  Af útreikningum á minnisblaðinu, sem og af málatilbúnaði aðila að öðru leyti, er ekki skýrt hvað stefnandi hafði samtals greitt stefnda í raun við uppgjör lánsins 6. mars 2012 og hvað hann hefði þá átt að hafa greitt stefnda miðað við að lánið hefði verið endurútreiknað í samræmi við 18. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og niðurstöður dóma Hæstaréttar Íslands þar um.  Hins vegar má ráða af útreikningum minnisblaðsins að miðað við að endurreikna beri lán samkvæmt samningi nr. 445 hafi stefnandi ofgreitt af láninu sem nemi 89.036.288 krónum.  Að því gefnu, og þar sem því hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefnda, verður fallist á að stefnandi hafi af því lögvarða hagsmuni að fá greitt úr viðurkenningarkröfu sinni. Ákvæðum samningsins er lýst hér að framan.  Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands, meðal annars í máli nr. 602/2013, gefa ákvæði sambærilegra samninga ekki skýrt til kynna hvort skuldbinding aðila sé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum og þarf þá að meta heildstætt, meðal annars eftir efndum aðila, hvort samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Þegar litið er til efnda aðila á skyldum sínum samkvæmt umdeildum lánssamningi nr. 445, er óumdeilt að útborgunarfjárhæð lánsins var ráðstafað inn á reikninga Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. í samræmi við beiðni um útborgun lánsins, sem er hluti af lánssamningnum, samkvæmt grein 1.2 í samningnum.  Hvergi í lánssamningi nr. 445 eða í útborgunarbeiðninni er vísað í kaupsamning stefnanda og Útgerðarfélagsins Tjalds ehf., dagsettan 17. febrúar 2004, en óumdeilt er að lán samkvæmt lánssamningi nr. 445 var notað til að greiða Útgerðarfélaginu Tjaldi ehf. kaupverð samkvæmt kaupsamningnum.  Í framangreindri útborgunarbeiðni segir eingöngu að óskað sé eftir því að útborgunarfjárhæð lánsins verði greidd Útgerðar­félaginu Tjaldi ehf. „í þeim myntum sem lánið er tekið í“ inn á reikninga sem félagið tilgreini. Í framlögðu tölvuskeyti frá 18. febrúar 2004 er, af hálfu Útgerðarfélagsins Tjalds ehf., óskað eftir því að kaupverðið verði greitt að eins miklu leyti og hægt sé í erlendum myntum inn á meðfylgjandi gjaldeyrisreikninga félagsins, sem tilgreindir eru í bandaríkjadölum, evrum, japönskum jenum, svissneskum frönkum og sterlingspundum.  Samkvæmt framlögðum kaupnótum voru eftirfarandi fjárhæðir lagðar inn á reikninga Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. þann sama dag, 18. febrúar 2004:  528.712 evrur, 189.298 svissneskir frankar, 25.866.626 japönsk jen og 459.635 bandaríkjadalir.  Sé miðað við skráð gengi Seðlabanka Íslands þann dag voru hlutföll framangreindra gjaldmiðla af heildarlánsfjárhæðinni, 104.000.000 króna, þannig að evrur voru um 44%, svissneskir frankar um 10%, japönsk jen um 16% og bandaríkjadalir um 30%.  Er það í fullu samræmi við tilgreind hlutföll í lánssamningi aðila nr. 445 og eru efndir bankans, forvera stefnda, á aðalskyldu sinni samkvæmt samningnum því að fullu leyti í hinum erlendu gjaldmiðlum og í þeim hlutföllum sem í samningnum eru tilgreind.  Að mati dómsins og í samræmi við það sem að framan er rakið verður ekki talið að framangreint tölvuskeyti hafi breytt einhverju um efndir aðila á samningnum heldur hafi skeytið, samkvæmt efni sínu, aðeins verið til upplýsinga um þau reikningsnúmer Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. sem óskað var eftir að kaupverðið, þ.e. lánsfjárhæðin, yrði lagt inn á. Í málinu eru ekki lögð fram ítarleg gögn um greiðslur stefnanda á afborgunum og vöxtum af láni samkvæmt lánssamningi nr. 445.  Stefnandi kveðst hafa greitt af láninu í íslenskum krónum og er því ekki mótmælt af stefnda að tékkareikningur stefnanda í íslenskum krónum hafi verið skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum af láninu.  Kveður stefndi hins vegar að erlendir gjaldmiðlar hafi verið keyptir fyrir íslensku krónurnar og notaðir til uppgreiðslu lánsins.  Samkvæmt tveimur kvittunum fyrir greiðslum, útgefnum 1. september 2015, sem lagðar eru fram í málinu, greiddi stefnandi af láninu 4. júní 2007 í evrum, japönskum jenum, norskum krónum, bandaríkjadölum, svissneskum frönkum og kanadadölum og 2. júní 2008 í evrum, svissneskum frönkum, kanadadölum, sænskum krónum og japönskum jenum.  Þau takmörkuðu gögn sem liggja fyrir um uppgreiðslu lánsins bera því með sér að lánið hafi verið gert upp í erlendum gjaldmiðlum þannig að stefndi skuldfærði tékkareikning stefnanda fyrir afborgunum og vöxtum og notaði svo íslensku krónurnar til þess að kaupa erlendan gjaldmiðil til uppgjörs á láninu. Af dómum Hæstaréttar Íslands, meðal annars í máli nr. 66/2012, má ráða að rétturinn gerir ekki fortakslausa kröfu til þess að skuldbindingar aðila á grundvelli samninga, eins og þeirrar sem deilt er um í þessu máli, séu að öllu leyti efndar með greiðslum í erlendum gjaldmiðlum til þess að lán verði talin í þeim gjaldmiðlum.  Þegar efndir á hinum umdeilda samningi eru virtar í heild verður að telja að þær hafi að svo verulegu marki falist í því að erlendir gjaldmiðlar skiptu um hendur, að leggja verði til grundvallar að samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum. Það styður framangreinda niðurstöðu að í viðauka við lánssamning nr. 445, dagsettum 31. desember 2008, og undirrituðum af hálfu beggja aðila, eru eftirstöðvar lánsins aðeins tilgreindar í erlendum gjaldmiðlum.  Gefur það vísbendingu um að aðilar hafi litið svo á að lán samkvæmt samningnum væri í hinum erlendu gjaldmiðlum.  Með síðari viðauka, dagsettum 17. febrúar 2010, sömdu aðilar um tímabundna breytingu á endurgreiðslum, frá 2. júní 2009 til 2. desember 2010, og var þá sérstaklega tekið fram að greiðslur á þeim tíma skyldi inna af hendi í íslenskum krónum.  Frá og með 2. júní 2010 skyldi stefnandi greiða afborganir og vexti í samræmi við upphaflega skilmála lánssamningsins. Loks verður, með hliðsjón af niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 602/2013, ekki litið fram hjá því að stefnandi færði hið umdeilda lán sem skuldir í erlendum gjaldmiðlum í framlögðum ársreikningum félagsins.  Í ársreikningi félagsins frá 2004 er lánið fært inn sem ný lántaka og er sundurliðuð í samræmi við samninginn, í evrur, bandaríkjadali, svissneska franka og japönsk jen.  Í ársreikningi félagsins frá 2005 er vísað til skulda í erlendum gjaldmiðlum og í ársreikningum félagsins frá 2006 og 2007 eru skuldir í erlendum gjaldmiðlum sundurliðaðar eftir hverjum og einum gjaldmiðli.  Gefur það einnig vísbendingu um að samningsvilji stefnanda hafi staðið til þess að umdeilt lán væri í erlendum gjaldmiðlum. Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands ræðst niðurstaða um það hvort lán séu í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum af ákveðnu heildarmati, sér í lagi séu ákvæði lánssamninga ekki skýr hvað það varðar.  Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að slíkt heildarmat leiði til þess að umdeilt lán teljist hafa verið í erlendum gjaldmiðlum. Þá byggir stefnandi mál sitt á því að þeir reikningar sem stefndi lagði lánsféð inn á séu reikningar með ólögmætri gengistryggingu samkvæmt lögum nr. 38/2001 og því óhjákvæmilegt að líta svo á að umþrætt lán hafi verið ólögmætt gengistryggt lán.  Byggir stefnandi jafnframt á því að millifærsla á innlenda gjaldeyrisreikninga geti ekki falið í sér færslu á erlendum gjaldmiðli og vísar um það m.a. til reglna Seðlabanka Íslands. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, dagsettri 31. október 2016, kemur fram að niðurstaða matsins sé að „líta verði svo á að lánveiting [stefnda] til [stefnanda] hafi í raun verið skuldbindingar í formi innistæðna í íslenskum krónum sem bundnar voru gengi erlendra gjaldmiðla“.  Jafnframt segir í samantekt matsins: Þessi niðurstaða byggir á því að banki getur með lánveitingu sinni aukið peningamagn í umferð, en aðeins í eigin gjaldmiðli, eða nánar tiltekið í gjaldmiðli þess lands sem bankinn starfar í, banki getur ekki aukið peningamagn í umferð í öðrum gjaldmiðli en þeim sem seðlabanki sá sem yfir honum vakir ræður yfir.  Þó að lánveiting geti verið skráð í eða bundin erlendri mynt, þá verður sú lánveiting ávallt að hafa að baki sér erlenda gjaldeyrisstöðu bankans. Loks segir að það sé samdóma álit matsmanna „að greiðslukerfi íslenskra banka hafi ekki getað í raun millifært erlendan gjaldeyri inn á bankareikninga á Íslandi og að við útgreiðslu [stefnda] á lánsfjárhæð inn á reikning [stefnanda] þá hafi engin fjárhæð færst af öðrum reikningi í eigu [stefnda] heldur hafi innistæðan orðið til við lánveitinguna og því ekki verið um aðrar færslur að ræða“. Í dómum Hæstaréttar Íslands hefur ítrekað verið komist að þeirri niðurstöðu að hér á landi hafi lán verið veitt í erlendum gjaldmiðlum, m.a. með millifærslu banka inn á gjaldeyrisreikninga, eins og atvik voru til að mynda í dómum réttarins frá 1. nóvember 2012, í máli nr. 66/2012, og frá 11. september 2014, í máli nr. 90/2014.  Með hliðsjón af dómum Hæstaréttar Íslands í málum sem varða lán í erlendum gjaldmiðlum getur niðurstaða matsmanna því ekki breytt framangreindri niðurstöðu um að umdeilt lán teljist vera lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum. Að öllu framangreindu virtu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 800.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð : Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Útgerðarfélagsins Hauks hf. Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.      
Mál nr. 7/2018
Kærumál Nauðungarsala Úthlutun söluverðs Kröfugerð Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli E ehf. og H ehf. gegn Í hf., sem risið hafði vegna nauðungarsölu fasteignar sem verið hafði í eigu E ehf., var að hluta vísað frá héraðsdómi. Laut ágreiningur aðila að kröfu sem Í hf. hafði lýst við nauðungarsöluna. Tilurð kröfunnar mátti rekja til láns sem tiltekinn sparisjóður hafði veitt H ehf. á grundvelli fjármögnunarsamnings og naut veðréttar fyrir í fasteigninni samkvæmt tryggingarbréfum. Þeim samningi hafði sparisjóðurinn síðar rift og hafði H ehf. fengið skaðabótaskyldu sparisjóðsins vegna riftunarinnar viðurkennda fyrir dómi. Taldi H ehf. sig því eiga skaðabótakröfu til skuldajafnaðar við kröfu Í hf., sem tekið hafði við réttindum sparisjóðsins vegna lánsins. Á milli Í hf. og H ehf. var rekið annað mál þar sem Í hf. krafði H ehf. um greiðslu samkvæmt lánssamningnum, en því máli hafði verið frestað þar til niðurstaða í þriðja málinu, varðandi viðurkenningu á skaðabótakröfu H ehf. við slit sparisjóðsins, lægi fyrir. E ehf. og H ehf. kröfðust þess annars vegar að sýslumanni yrði gert að fresta ákvörðun um úthlutun af söluverði fasteignarinnar til Í hf. þar til niðurstaða í ágreiningsmálinu lægi fyrir og hins vegar að frumvarpi sýslumanns yrði breytt þannig að tilteknum hlutum af kröfu Í hf., vegna vaxta, dráttarvaxta og málskostnaðar, yrði hafnað. Landsréttur tók til greina kröfu E ehf. og H ehf. um að fresta endanlegri ákvörðun um úthlutun á söluverði fasteignarinnar upp í kröfu Í hf., en taldi á hinn bóginn að úrlausn um breytingar á frumvarpinu hefði ekki raunhæft gildi fyrir réttarstöðu þeirra og vísaði kröfu þeirra að því leyti frá héraðsdómi með vísan til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Í dómi sínum vísaði Hæstiréttur til þess að krafa Í hf. væri umdeild að því leyti að niðurstaða hefði ekki enn fengist um hvort hún kynni að vera fallin niður í heild eða hluta vegna skuldajafnaðar við kröfu H ehf. Þegar svo væri ástatt bæri sýslumanni samkvæmt 7. mgr. 50. gr. laga nr. 90/1991 að gera ráð fyrir hinni umdeildu kröfu í frumvarpi til úthlutunar með þeirri fjárhæð sem hún gæti hæst numið og varðveita síðan þá fjárhæð þar til ráðið yrði um tilkall hennar. Ætti sýslumaður því ekki við slíkar aðstæður að fresta ákvörðun um úthlutun, svo sem ranglega hefði verið lagt til grundvallar í úrskurði Landsréttar, heldur þvert á móti að komast að niðurstöðu um þá hámarksfjárhæð sem hlutaðeigandi kröfuhafi gæti átt rétt til þegar deila um tilvist kröfunnar væri til lykta leidd. Væri þannig óhjákvæmilegt að leysa úr ágreiningi aðila um rétt Í hf. til að fá greidda af söluverðinu vexti og dráttarvexti af hugsanlegri kröfu sinni svo og málskostnað. Væru dómkröfur E ehf. og H ehf. að því leyti síður en svo andstæðar 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Var ákvæði hins kærða úrskurðar um frávísun málsins að hluta frá héraðsdómi samkvæmt því fellt úr gildi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 15. mars 2018, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var að hluta vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málinu vísað til Landsréttar til uppkvaðningar úrskurðar að nýju. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. I Á árunum 2006 og 2007 mun sóknaraðilinn Héðinsreitur ehf. hafa eignast lóðir í Reykjavík, sem síðar fengu auðkennið Vesturgata 64, og haft í hyggju að ráðast þar í byggingu húss. Af því tilefni gerði sóknaraðilinn samning 9. október 2007 við Byr sparisjóð um fjármögnun á verkefni sínu. Í tengslum við þann samning gaf sóknaraðilinn út til sparisjóðsins 36 tryggingarbréf 27. nóvember 2007, hvert að fjárhæð 20.000.000 krónur, og hvíldu þau samhliða á 1. veðrétti í fasteigninni Vesturgötu 64. Sama dag veitti sparisjóðurinn sóknaraðilanum lán á grundvelli samningsins og var það sagt vera í erlendum gjaldmiðlum að jafnvirði 600.000.000 krónur. Tafir urðu á því að framkvæmdir hæfust á lóðunum og fór svo að sparisjóðurinn tilkynnti sóknaraðilanum 12. júní 2008 að hann teldi samning þeirra fallinn niður vegna brostinna forsendna. Sóknaraðilinn höfðaði af þeim sökum mál á hendur sparisjóðnum í febrúar 2009 og krafðist viðurkenningar á því að samningur þeirra frá 9. október 2007 væri í fullu gildi, en jafnframt að viðurkennd yrði skaðabótaskylda sparisjóðsins við sig vegna fjártjóns af frestun framkvæmda við húsbyggingu að Vesturgötu 64, sem rætur ætti að rekja til þess að sparisjóðurinn hafi neitað að efna samninginn. Í dómi Hæstaréttar 17. nóvember 2011 í því máli, sem var nr. 87/2011, var viðurkennd skaðabótaskylda sparisjóðsins gagnvart sóknaraðilanum vegna riftunar þess fyrrnefnda á samningi þeirra. Á meðan áðurnefnt mál var rekið fyrir dómi neytti Fjármálaeftirlitið 22. apríl 2010 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009, til að setja bráðabirgðastjórn yfir Byr sparisjóð, sem var síðan tekinn til slita 2. júlí 2010. Um leið ráðstafaði Fjármálaeftirlitið eignum sparisjóðsins til Byrs hf., sem sameinaðist varnaraðila á árinu 2011, en óumdeilt er að á þann hátt hafi varnaraðili tekið við réttindum sparisjóðsins samkvæmt áðurnefndum tryggingarbréfum og vegna lánsins 27. nóvember 2007 til sóknaraðilans Héðinsreits ehf. Við slit sparisjóðsins lýsti sóknaraðilinn kröfu um skaðabætur að fjárhæð 3.060.000.000 krónur vegna riftunar sparisjóðsins á fjármögnunarsamningi þeirra og krafðist jafnframt skuldajafnaðar á þeirri kröfu við skuld sína vegna lánsins. Ágreiningur reis um viðurkenningu á þessum kröfum sóknaraðilans og var honum beint til héraðsdóms, þar sem ekki mun enn hafa verið leyst úr því máli. Þá höfðaði varnaraðili mál gegn sóknaraðilanum 10. maí 2012 og krafðist þess að honum yrði gert að greiða sér 928.055.319 krónur með dráttarvöxtum frá 15. janúar sama ár til greiðsludags, svo og að staðfestur yrði veðréttur fyrir þeirri kröfu í fasteigninni Vesturgötu 64 á grundvelli tryggingarbréfanna frá 27. nóvember 2007. Krafan, sem varnaraðili gerði í því máli, var um endurgreiðslu á láninu, sem sparisjóðurinn veitti sóknaraðilanum 27. nóvember 2007, en við höfuðstól skuldarinnar, 600.000.000 krónur, lagði varnaraðili 328.055.319 krónur vegna vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sem hann taldi hafa verið áfallna 5. janúar 2012. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 7. maí 2013, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 7. júní sama ár í máli nr. 365/2013, var því máli frestað um ótiltekinn tíma þar til endanleg niðurstaða fengist í málinu um viðurkenningu kröfu sóknaraðilans við slit Byrs sparisjóðs. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði leitaði Reykjavíkurborg nauðungarsölu á fasteigninni Vesturgötu 64, þar sem sóknaraðilinn Héðinsreitur ehf. var gerðarþoli, og var hún seld við uppboð 1. febrúar 2016 fyrir 1.297.000.000 krónur. Sama dag lýsti varnaraðili kröfu í söluverð eignarinnar vegna áðurnefnds láns Byrs sparisjóðs til sóknaraðilans 27. nóvember 2007, sem varnaraðili taldi falla undir veðrétt samkvæmt tryggingarbréfum sínum á 1. veðrétti í henni. Í kröfulýsingunni kvað varnaraðili höfuðstól kröfunnar vera 600.000.000 krónur, en við hana bættust 328.055.319 krónur vegna vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 til 5. janúar 2012, 587.197.749 krónur vegna dráttarvaxta frá þeim degi til 1. febrúar 2016, 46.248.591 króna vegna málskostnaðar og 11.433.727 krónur vegna annars kostnaðar. Var krafan því alls að fjárhæð 1.572.935.386 krónur. Sýslumaður gerði 8. júlí 2016 frumvarp til úthlutunar á söluverði eignarinnar og var þar ráðgert að fyrst yrðu greidd af því sölulaun í ríkissjóð, 12.970.000 krónur, og því næst lögveðkrafa Reykjavíkurborgar vegna fasteignagjalda, 1.932.565 krónur, en þar á eftir krafa varnaraðila með 1.095.798.562 krónum og að endingu 186.298.873 krónur upp í kröfu sóknaraðilans Erils ehf. í skjóli tryggingarbréfs á 2. veðrétti í fasteigninni. Ekki verður ráðið af gögnum málsins hvernig fundin hafi verið sú fjárhæð, sem ætluð var varnaraðila í frumvarpinu, en úthlutun til hans af söluverðinu sætti andmælum beggja sóknaraðila. Töldu þeir að annars vegar ætti að fresta ákvörðun um þá úthlutun þar til fyrir lægi niðurstaða í fyrrnefndu máli um viðurkenningu á kröfu sóknaraðilans Héðinsreits ehf. við slit Byrs sparisjóðs og hins vegar að lækka bæri fjárhæð kröfu varnaraðila í söluverðið að því er varðaði málskostnað, svo og vexti og dráttarvexti sem fallið hafi til meira en einu ári áður en hann lýsti kröfu sinni við nauðungarsöluna, sbr. b. lið 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Sýslumaður hafnaði þessum kröfum sóknaraðila 2. desember 2016 og leituðu þeir í framhaldi af því úrlausnar héraðsdóms um þá ákvörðun hans, en af því tilefni var mál þetta þingfest í héraði 15. febrúar 2017. Kröfðust sóknaraðilar þess að sýslumanni yrði gert að breyta frumvarpinu á þann veg að ekki yrðu teknir til greina liðir í kröfu varnaraðila vegna vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 til 5. janúar 2012, dráttarvaxta fyrir lengri tíma en eitt ár og málskostnaðar. Að auki kröfðust sóknaraðilar þess að sýslumanni yrði gert að fresta endanlegri ákvörðun um úthlutun til varnaraðila þar til niðurstaða í áðurnefndu ágreiningsmáli lægi fyrir. Í hinum kærða úrskurði var síðastnefnd krafa sóknaraðila tekin til greina, en kröfum þeirra varðandi efnislegar breytingar á frumvarpi sýslumanns var á hinn bóginn vísað frá héraðsdómi. II Þrátt fyrir áðurgreint orðalag dómkrafna sóknaraðila fyrir Hæstarétti verður að skilja kröfugerð þeirra svo að þeir leiti aðeins eftir því að felld verði úr gildi ákvæði í hinum kærða úrskurði Landsréttar um frávísun málsins að hluta frá héraðsdómi, enda stendur ekki kæruheimild í 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991, sbr. 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til þess að niðurstaða úrskurðarins um önnur atriði komi hér til endurskoðunar. Eins og fyrr greinir er enn rekið fyrir héraðsdómi mál vegna ágreinings um viðurkenningu kröfu, sem sóknaraðilinn Héðinsreitur ehf. lýsti við slit Byrs sparisjóðs, en þar er til úrlausnar deila um fjárhæð skaðabótakröfu sóknaraðilans vegna riftunar sparisjóðsins á samningi þeirra frá 9. október 2007 og jafnframt um heimild sóknaraðilans til að skuldajafna þeirri kröfu við kröfu, sem rætur á að rekja til lánsins sem sparisjóðurinn veitti honum 27. nóvember sama ár. Krafan vegna lánsins tilheyrir nú varnaraðila, sem sæta yrði slíkum skuldajöfnuði eftir niðurstöðu þess dómsmáls. Er þar um að ræða kröfuna, sem hann leitar eftir að fá greidda með úthlutun af söluverði fasteignarinnar Vesturgötu 64. Réttur varnaraðila til þeirrar úthlutunar er þannig háður endanlegri niðurstöðu málsins um viðurkenningu kröfu sóknaraðilans við slit Byrs sparisjóðs. Við úthlutun söluverðs fasteignarinnar er krafa varnaraðila af þessum sökum umdeild að því leyti að niðurstaða hefur ekki enn fengist um hvort hún kunni að vera fallin niður í heild vegna skuldajafnaðar eða eftir atvikum að hluta og þá hversu miklum. Þegar svo er ástatt við úthlutun söluverðs við nauðungarsölu ber sýslumanni samkvæmt 7. mgr. 50. gr. laga nr. 90/1991 að gera ráð fyrir umdeildu kröfunni í frumvarpi til úthlutunar með þeirri fjárhæð, sem hún gæti hæst numið, og varðveita síðan þá fjárhæð á bankareikningi þar til ráðið verði um tilkall til hennar, sbr. 2. mgr. 54. gr. sömu laga. Á því sýslumaður lögum samkvæmt ekki að fresta við þessar aðstæður ákvörðun um úthlutun, svo sem ranglega var lagt til grundvallar í úrskurði Landsréttar, heldur þvert á móti að komast að niðurstöðu, eða eftir atvikum fá hana með dómsúrlausn, um hámarksfjárhæðina, sem hlutaðeigandi kröfuhafi gæti átt rétt til þegar deila um tilvist kröfunnar væri til lykta leidd. Til að komast að slíkri niðurstöðu er óhjákvæmilegt að leysa úr ágreiningi aðilanna um rétt varnaraðila til að fá greidda af söluverði fasteignarinnar Vesturgötu 64 vexti og dráttarvexti af hugsanlegri kröfu sinni og málskostnað. Eru því dómkröfur sóknaraðila að þessu leyti síður en svo andstæðar 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og standa ekki efni til annars en að taka þær til efnismeðferðar. Samkvæmt framansögðu verður fellt úr gildi ákvæði hins kærða úrskurðar um frávísun málsins að hluta frá héraðsdómi og lagt fyrir Landsrétt að leysa að því leyti úr kröfum sóknaraðila. Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Fellt er úr gildi ákvæði hins kærða úrskurðar um frávísun málsins að hluta frá héraðsdómi og lagt fyrir Landsrétt að taka að því leyti efnislega afstöðu til dómkrafna sóknaraðila, Héðinsreits ehf. og Erils ehf. Varnaraðili, Íslandsbanki hf., greiði sóknaraðilum hvorum um sig 500.000 krónur í kærumálskostnað.   Úrskurður Landsréttar 15. mars 2018. Landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Ásmundur Helgason og Ragnheiður Harðardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Sóknaraðilar skutu málinu til Landsréttar með kæru 22. janúar 2018. Kærumálsgögn bárust réttinum 5. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2018 í málinu nr. Z-1/2017 þar sem sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu var gert að fresta ákvörðun um úthlutun á kröfu varnaraðila í uppboðsandvirði fasteignarinnar Vesturgötu 64 í Reykjavík þar til endanleg niðurstaða í máli, sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem mál nr. X-90/2012, eða eftir atvikum æðri réttar, lægi fyrir um þann ágreining hvort krafa varnaraðila hefði verið greidd með skuldajöfnuði. Varnaraðili kærði framangreindan úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir sitt leyti 23. janúar 2018. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu. 2        Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þá leið að fallist verði á aðalkröfu hans í héraði, þ.e. að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 22. desember 2016, þess efnis að hafna kröfum sóknaraðila um að fresta ákvörðun um úthlutun uppboðsandvirðis fasteignarinnar Vesturgötu 64 samkvæmt þriðja tölulið frumvarps og ákveða jafnramt að ákvörðun um úthlutun söluverðs áður nefndrar eignar til varnaraðila á 1. veðrétti skuli standa óbreytt. Enn fremur krefst sóknaraðili þess að sýslumanninum verði gert að breyta frumvarpinu á þann veg að hafnað verði kröfu varnaraðila um greiðslu samningsvaxta að fjárhæð 328.055.319 krónur, að dráttarvaxtakröfu varnaraðila verði hafnað að því marki sem hún er yfir árs dráttarvöxtum af samþykktum höfuðstól kröfu varnaraðila og að málskostnaðarkröfu varnaraðila verði hafnað. Samhliða krefst sóknaraðili þess að sýslumanni verði gert að fresta endanlegri ákvörðun um úthlutun höfuðstóls kröfu varnaraðila auk dráttarvaxta þar til endanleg niðurstaða dómsmáls þess sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem mál nr. X-90/2012, eða eftir atvikum æðri dóms, liggur fyrir varðandi ágreining um það hvort krafa varnaraðila hafi verið greidd með skuldajöfnuði. Til vara er gerð sú krafa að sýslumanni verði gert að fresta töku framangreindrar ákvörðunar. Þá krefjast sóknaraðilar þess að varnaraðila verði gert að greiða þeim málskostnað. 3        Varnaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að þess í stað verði teknar til greina kröfur hans um að frumvarp sýslumanns að úthlutunargerð uppboðsandvirðis fasteignarinnar Vesturgötu 64 verði staðfest og að úthlutun samkvæmt þeirri úthlutunargerð fari fram þegar í stað. Jafnframt krefst varnaraðili kærumálskostnaðar. Málsatvik 4        Sóknaraðili, Héðinsreitur ehf., var þinglýstur eigandi fasteignarinnar Vesturgötu 64 í Reykjavík. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði hugðist félagið ráðast þar í umfangsmiklar byggingarframkvæmdir. Í því skyni gerði félagið fjármögnunarsamning við Byr sparisjóð 9. október 2007. Þeim samningi var rift af hálfu Byrs sparisjóðs með bréfi 12. júní 2008. Með dómi Hæstaréttar Íslands 17. nóvember 2011 í málinu nr. 87/2011 var viðurkennd skaðabótaskylda sparisjóðsins á tjóni sóknaraðila, Héðinsreits ehf., er leiddi af riftuninni. 5        Áður en fjármögnunarsamningnum var rift lánaði sparisjóðurinn sóknaraðila, Héðinsreit ehf., 600 milljónir króna með lánssamningi 27. nóvember 2007. Helmingur höfuðstóls lánsfjárhæðarinnar skyldi miðast við nánar tilgreinda erlenda gjaldmiðla í ákveðnum hlutföllum. Gjalddagi höfuðstóls og vaxta var 5. janúar 2012 og skyldi endurgreiðsla vera „óskert, þ.e. án lækkunar hvort sem er vegna skattgreiðslna eða annarra greiðslna sem lánveitanda ber að greiða vegna lánsins, skuldajafnaðar- eða gagnkrafna“. 6        Sama dag og lánssamningurinn var undirritaður gaf sóknaraðili, Héðinsreitur ehf., út 36 samhljóða tryggingarbréf til tryggingar á öllum skuldum félagsins við Byr sparisjóð, samtals að fjárhæð 720.000.000 króna auk vísitöluálags, dráttarvaxta og alls kostnaðar sem af vanskilum leiddi. Tryggingarbréfin hvíldu á 1. veðrétti fasteignarinnar sem að framan greinir, sem þá hét Ánanaust 1 og 3, en fékk síðar heitið Vesturgata 64. 7        Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 tók stofnunin yfir vald stofnfjáreigendafundar Byrs sparisjóðs og var öllum eignum og tryggingarréttindum sparisjóðsins ráðstafað til Byrs hf. nema nánar tilgreindum eignum. Sérstaklega var tekið fram í 13. tölulið ákvörðunarinnar að framsal kröfuréttinda svipti skuldara ekki rétti til skuldajöfnunar sem hann hafi átt gagnvart fyrri kröfuhafa eða þrotabúi hans. Ágreiningslaust er að með þessu yfirtók Byr hf. réttindi kröfuhafa samkvæmt lánssamningnum 27. nóvember 2007 sem og réttindi veðhafa samkvæmt framangreindum tryggingarbréfum. 8        Slitastjórn Byrs sparisjóðs birti innköllun í Lögbirtingablaði 13. júlí 2010 vegna krafna í slitabú sparisjóðsins. Sóknaraðili, Héðinsreitur ehf., lýsti kröfu að fjárhæð 3.060.000.000 króna í búið sem reist var á skaðabótaskyldu sparisjóðsins vegna ólögmætrar riftunar á fjármögnunarsamningnum 9. október 2007. Fram kom að kröfunni væri lýst sem kröfu til skuldajafnaðar sem nyti tryggingarréttinda á grundvelli 111. gr., sbr. 100. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., að því marki sem Byr sparisjóður ætti kröfu á hendur sóknaraðila. Að öðru leyti var kröfunni lýst sem almennri kröfu í búið. 9        Slitastjórn sparisjóðsins hafnaði framangreindum kröfum í fyrstu. Eftir að dómur Hæstaréttar í málinu nr. 87/2011 féll munu viðræður hafa átt sér stað milli slitastjórnarinnar og sóknaraðila, Héðinsreits ehf., um skaðabótakröfuna án þess að samkomulag næðist milli aðila. Þeim ágreiningi var vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur og mun ágreiningsmálið enn vera þar til meðferðar í máli nr. X-90/2012. Í málinu hefur verið lagt fram yfirmat þriggja dómkvaddra matsmanna 21. september 2016 þar sem lagt er mat á tjón sóknaraðila, Héðinsreits ehf., sem hlaust af riftun fjármögnunarsamningsins. 10      Hinn 29. nóvember 2011 mun varnaraðili, Íslandsbanki hf., hafa yfirtekið allar skyldur og öll réttindi Byrs hf., þar á meðal réttindi samkvæmt framangreindum lánssamningi 27. nóvember 2007 og þeim 36 tryggingarbréfum sem hvíldu á fasteigninni Vesturgötu 64. Varnaraðili höfðaði mál gegn sóknaraðila, Héðinsreit ehf., 10. maí 2012 fyrir Héraðsdómi Reykjaness, mál nr. E-746/2012, til greiðslu skuldar samkvæmt lánssamningnum og nam stefnufjárhæðin 928.055.319 krónum. Enn fremur krafðist varnaraðili staðfestingar á veðrétti hans samkvæmt tryggingarbréfunum í fasteigninni að Vesturgötu 64. Sóknaraðili krafðist aðallega sýknu í málinu en til vara lækkunar á kröfunni með vísan til yfirlýsingar um skuldajöfnuð gagnvart slitastjórn Byrs sparisjóðs. Enn fremur fór sóknaraðili fram á viðurkenningu á rétti sínum til þess að skuldajafna bótakröfu hans að fjárhæð 3.060.000.000 króna á móti kröfu varnaraðila. 11      Sóknaraðili, Héðinsreitur ehf., fór fram á að frekari meðferð á framangreindu dómsmáli yrði frestað uns niðurstaða lægi fyrir í máli nr. X-90/2012. Krafan var rökstudd með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 7. maí 2013 var fallist á kröfuna. Með dómi Hæstaréttar 7. júní 2013 í málinu nr. 365/2013 var úrskurðurinn staðfestur með vísan til forsendna hans. 12      Að beiðni Reykjavíkurborgar var krafist nauðungarsölu á fasteigninni Vesturgötu 64 og var beiðnin fyrst tekin fyrir af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 15. janúar 2015. Varnaraðili lýsti kröfu í söluandvirði fasteignarinnar annars vegar á grundvelli tryggingarbréfanna og hins vegar á grundvelli lánssamningsins 27. nóvember 2007. Kröfulýsing á grundvelli tryggingarbréfanna nam samtals 1.290.871.247 krónum, þar af 373.333.278 krónum vegna vísitöluhækkunar og 139.855.651 krónu í dráttarvexti til 1. febrúar 2016. Kröfulýsing á grundvelli lánssamningsins nam samtals 1.572.935.386 krónum. Auk höfuðstóls að fjárhæð 600.000.000 króna var þar krafist vaxta samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands til 5. janúar 2012 að fjárhæð 328.055.319 krónur, dráttarvaxta til 1. febrúar 2016 að fjárhæð 587.197.749 krónur og 46.248.591 krónu í „málskostnað“, auk ýmiss annars kostnaðar og virðisaukaskatts. 13      Fasteignin að Vesturgötu 64 var seld nauðungarsölu 1. febrúar 2016. Veðhafi á öðrum veðrétti, Hróður ehf., átti hæsta boð í fasteignina, 1.297.000.000 króna. Hróður ehf. framseldi 2. maí 2016 sóknaraðila, Erli ehf., kröfu þá sem félagið hafði lýst í söluandvirði eignarinnar ásamt tryggingarbréfi. Samkvæmt kröfulýsingu nam sú krafa samtals 3.494.484.463 krónum. 14      Hinn 8. júlí 2016 lagði sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu fram frumvarp til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar. Samkvæmt þriðja lið frumvarpsins skyldi greiða varnaraðila 1.095.798.562 krónur á grundvelli tryggingarbréfanna sem hvíldu á 1. veðrétti fasteignarinnar, en sóknaraðila, Erli ehf., 186.298.873 krónur á grundvelli tryggingarbréfs á 2. veðrétti, sbr. fjórða lið frumvarpsins. 15      Sóknaraðili, Erill ehf., andmælti frumvarpinu með bréfi 28. júlí 2016. Þar var þess krafist að varnaraðili fengi ekkert greitt upp í kröfu sína þar sem krafan væri að fullu greidd með skuldajöfnuði samkvæmt yfirlýsingu sóknaraðila, Héðinsreits ehf., gagnvart Byr sparisjóði. Farið var fram á að sýslumaður frestaði ákvörðunum um breytingu frumvarpsins þar til niðurstaða lægi fyrir í málinu nr. X-90/2012 og eftir atvikum dómur Hæstaréttar í því máli. Jafnframt var kröfulýsingu varnaraðila mótmælt að því leyti að vextir og dráttarvextir tækju ekki mið af þeim takmörkunum sem fælust í 5. gr. laga nr. 75/1997, um samningsvexti. Að lokum var málskostnaðarkröfu varnaraðila mótmælt sem of hárri. 16      Sóknaraðili, Héðinsreitur ehf., andmælti einnig frumvarpinu sem gerðarþoli með bréfi 28. júlí 2016. Lutu athugasemdir félagsins að sömu atriðum og mótmæli sóknaraðila, Erils ehf. 17      Mótmæli sóknaraðila voru tekin fyrir á fundi 1. nóvember 2016. Þar reifuðu aðilar sjónarmið sín um ágreiningsatriðin. Við fyrirtöku málsins hjá sýslumanni 22. desember 2016 hafnaði hann því að verða við kröfum sóknaraðila um að fresta úthlutun söluandvirðis fasteignarinnar. Sýslumaðurinn ákvað enn fremur að úthlutun til varnaraðila samkvæmt frumvarpinu skyldi standa óbreytt. Sóknaraðilar lýstu því yfir við fyrirtökuna að þeir myndu leita úrlausnar héraðsdóms um þessar ákvarðanir sýslumanns. 18      Sem fyrr segir var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur fallist á kröfu sóknaraðila um að sýslumanni væri rétt að fresta úthlutun uppboðsandvirðis fasteignarinnar að Vesturgötu 64. Öðrum kröfum sóknaraðila, er lutu að forgangsrétti vaxta, dráttarvaxta og málskostnaðar varnaraðila, var hafnað með þeim rökum að með þeim freistuðu sóknaraðilar þess að fá úrlausn dómsins um það hvort krafa varnaraðila væri greidd með skuldajöfnuði, en ágreiningur um það væri til úrlausnar dómstóla. Málsástæður aðila Málsástæður sóknaraðila 19      Sóknaraðilar byggja á því að hinn kærði úrskurður gangi ranglega út frá því að sóknaraðilar séu með aðalkröfu sinni að leita úrlausnar um það hvort krafa varnaraðila, sem deilt sé um í frumvarpi til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar, hafi verið greidd með skuldajöfnuði. Þeir vísa til þess að aðalkrafa þeirra lúti þvert á móti að því að fá úrlausn um það hvort tilteknir þættir í kröfu varnaraðila njóti veðréttar í hinni seldu eign. Lækkunarkröfur þeirra varði því á engan hátt skaðabótakröfu sóknaraðila, Héðinsreits ehf. 20      Sóknaraðilar telja að fallast beri á þann hluta aðalkröfunnar sem varði vexti og málskostnað. Krafan sé á því reist að samningsvextir, sem fallið hafi í gjalddaga 5. janúar 2012, njóti ekki veðtryggingar með aðalkröfu, sbr. b-lið 5. gr. laga nr. 75/1997, um samningsvexti. Þá hafi með skírskotun til sömu greinar borið að hafna dráttarvaxtakröfu varnaraðila í söluandvirði fasteignarinnar að því leyti sem vextirnir séu eldri en frá 1. febrúar 2015, enda hafi varnaraðili lagt fram kröfulýsingu sína 1. febrúar 2016. Þá telja sóknaraðilar að málskostnaðarkrafa eða innheimtuþóknun að fjárhæð u.þ.b. 58 milljónir króna með virðisaukaskatti sé allt of há og úr öllu samhengi við atvik og þá vinnu sem lögð hafi verið í innheimtuna. Um það atriði vísa sóknaraðilar til þess að krafan sé í andstöðu við 24. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn, og auglýsingu nr. 450/2013, sem sett hafi verið á grundvelli 3. mgr. ákvæðisins. 21      Sóknaraðilar telja að sýslumanni hafi enn fremur borið að fresta þeim hluta úthlutunar söluandvirðis fasteignarinnar sem ráðist getur af því hvort krafa varnaraðila teljist greidd með skuldajöfnuði uns skorið verði úr því ágreiningsefni í málum sem rekin séu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. X-90/2012 og í Héraðsdómi Reykjaness í máli nr. E-746/2012. Vísað er til þess að sakarefni síðar greinda málsins varði sömu kröfu og sama skuldajöfnuð og deilt sé um í þessu máli. Þessu til stuðnings vísa sóknaraðilar einkum til litis pendens áhrifa við þingfestingu málanna sem hafi þau áhrif að ekki verði leyst úr sama ágreiningi í öðrum málum fyrir dómi, sbr. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991. Sóknaraðilar vísa einnig til þess að frestunin sé jafnframt í samræmi við 1. mgr. 53. gr. laga nr. 90/1991. 22      Verði fallist á með varnaraðila að leysa beri í máli þessu úr ágreiningi aðila um skuldajafnaðarrétt sóknaraðila, Héðinsreits ehf., er á því byggt að yfirlýsing um skuldajöfnuð 13. október 2010 hafi verið sett fram með lögmætum hætti og að hún hafi bundið móttakanda þegar hún hafi verið komin til hans. Öllum skilyrðum skuldajafnaðar sé fullnægt. Þá mótmæla sóknaraðilar því að grein 2.4 í lánssamningi sóknaraðila, Héðinsreits ehf., við Byr sparisjóð komi í veg fyrir að krafan sé greidd með skuldajöfnuði, m.a. með vísan til þess að um samrættar kröfur sé að ræða. Málsástæður varnaraðila 23      Varnaraðili byggir á því að skilyrðum 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/991, 4. mgr. 94. gr. sömu laga og 53. gr. laga nr. 90/1991 sé ekki fullnægt svo fresta megi endanlegri ákvörðun um úthlutun á kröfu varnaraðila meðan beðið sé niðurstöðu í ágreiningsmáli milli sóknaraðila, Héðinsreits ehf., og slitastjórnar Byrs sparisjóðs. Virðist honum sem niðurstaða héraðsdóms byggi á misskilningi um aðild að málum nr. X-90/2012 í Héraðsdómi Reykjavíkur og nr. E-746/2012 í Héraðsdómi Reykjaness. Bendir varnaraðili á að hann eigi enga aðild að fyrrgreinda málinu og verði því ekki bundinn af niðurstöðu í því. Fjallað verði í málinu nr. E-746/2012 um það að hvaða leyti varnaraðila, Héðinsreit ehf., kunni að verða heimilt að nýta bótakröfu sína á hendur Byr sparisjóði til skuldajöfnuðar á móti kröfu varnaraðila. Það mál sé í ótilteknum fresti. 24      Varnaraðili vísar til þess að veðandlagið hafi hins vegar verið selt nauðungarsölu. Ágreiningur sé um það hvort sýslumanni sé heimilt að úthluta varnaraðlila  stærstum hluta söluandvirðis þess. Sóknaraðilar hafi mótmælt því þar sem krafan sé greidd með skuldajöfnuði. Varnaraðili hafi byggt á því að ekki séu skilyrði til þess að skuldajafna og að óheimilt sé að greiða lánssamninginn með þeim hætti. 25      Varnaraðili byggir á því að þessi ágreiningur hafi fyrst komið til úrlausnar dómstóla í þessu máli. Því sé ekkert því til fyrirstöðu að skera úr um hvort sóknaraðila sé heimilt að greiða kröfuna með skuldajöfnuði og að skilyrði séu til þess að láta kröfurnar mætast. Telur hann að ákvæði 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 standi því ekki í vegi, enda eigi ákvæðið ekki við. Því til stuðnings vísar varnaraðili til þess að málsástæða um skuldajöfnuð sé aðeins höfð uppi til varnar í máli nr. E-746/2012. 26      Varnaraðili mótmælir því alfarið að sóknaraðili, Héðinsreitur ehf., eigi lögvarða kröfu sem tæk sé til skuldajöfnuðar við kröfu varnaraðila. Telur hann ekkert liggja fyrir um að sóknaraðilinn eigi þá kröfu á hendur slitabúi Byrs sparisjóðs sem hann telur sig eiga. Kröfunni hafi verið hafnað af slitabúinu og hún sé ódæmd. Ætlað tjón sóknaraðilans sé ósannað og í raun ekki gert líklegt að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna riftunar fjármögnunarsamningsins. 27      Fjárkrafa varnaraðila sé aftur á móti óumdeild og gjalddagi hennar löngu liðinn. Í grein 2.4 í samningnum sé kveðið á um hvernig eigi að greiða kröfuna. Þar komi skýrt fram að óheimilt sé að greiða hana með skuldajöfnuði. Byggir varnaraðili á því að samningsákvæðið komi í veg fyrir að krafan verði greidd með skuldajöfnuði. 28      Varnaraðili mótmælir þeim skilningi sem sóknaraðilar leggi í 5. gr. laga nr. 75/1997. Niðurstaða sýslumanns hafi verið að kröfur varnaraðila rúmuðust innan höfuðstóls tryggingarbréfanna 36 sem tekið hafi breytingum í samræmi við vísitölu, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1997. Engir vextir hafi verið lagðir á þá fjárhæð utan dráttarvaxta í eitt ár. Fjárkrafa varnaraðila á grundvelli lánssamningsins sé hins vegar ekki veðkrafa og falli ekki undir lög nr. 75/1997. 29      Varnaraðili kveður innheimtuþóknunina vera í samræmi við gjaldskrá lögmannsstofunnar sem annist innheimtuna. Hún taki mið af fjárhæð kröfunnar í samræmi við áratuga hefð við úthlutun uppboðsandvirðis fasteigna. Samkvæmt a-lið 5. gr. laga nr. 75/1997 sé kostnaður sá sem veðhafi verði fyrir við innheimtu veðkröfu tryggður með aðalkröfu. Krafan sé því tryggð á grundvelli tryggingarbréfanna enda rúmist hún innan uppreiknaðs höfuðstóls þeirra. Þá vísar varnaraðili til þess að í lánssamningnum séu ítarleg ákvæði um skyldu lántaka til að greiða allan kostnað sem hljótist af vanskilum. Þá eigi innheimtulög nr. 95/2008 ekki við um kostnað af þessari innheimtu enda sé um löginnheimtu að ræða. Niðurstaða Landsréttar 30      Sóknaraðilar skutu ágreiningsmáli þessu til héraðsdóms á grundvelli heimildar í niðurlagi 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, eftir að sýslumaður hafði hafnað kröfu þeirra um að fresta því að taka ákvörðun um breytingu á frumvarpi til úthlutunar söluverðs fasteignarinnar að Vesturgötu 64 og ákveðið að úthlutunin færi fram eins og kveðið væri á um í þriðja tölulið frumvarpsins. Leggja verður til grundvallar að með ákvörðun sýslumanns hafi röksemdum sóknaraðila verið hafnað um að krafan sem varnaraðili hafði lýst í uppboðsandvirðið væri greidd með skuldajöfnuði. 31      Í ágreiningsmálinu krefjast sóknaraðilar þess aðallega að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi og að sýslumanni verði gert að gera nánar tilgreindar breytingar á þriðja tölulið frumvarpsins. Sú krafa er á því reist að krafa varnaraðila um samningsvexti og málskostnað njóti ekki veðréttar í fasteigninni þannig að lækka beri þennan lið í frumvarpinu sem nemur þeim kröfum auk þess sem farið er fram á að dráttarvaxtakrafan verði lækkuð að teknu tilliti til b-liðar 5. gr. laga nr. 75/1997, um samningsvexti. Samhliða krefjast sóknaraðilar þess að endanleg ákvörðun um úthlutun söluandvirðis upp í kröfu varnaraðila verði frestað þar til leyst hefur verið úr ágreiningi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu nr. X-90/2012 um skaðabótakröfu sóknaraðila, Héðinsreits ehf., í slitabú Byrs sparisjóðs. 32      Eins og rakið hefur verið er krafa varnaraðila, um að fá innta af hendi tiltekna hlutdeild af söluandvirði fasteignarinnar í samræmi við þriðja tölulið frumvarps sýslumanns, reist á lánssamningi sóknaraðila, Héðinsreits ehf., og Byrs sparisjóðs 27. nóvember 2007. Sú krafa er til úrlausnar í máli nr. E-746/2012 auk varna sóknaraðilans um að krafan hafi þegar verið greidd með yfirlýsingu um skuldajöfnuð. Því máli var frestað á grundvelli heimildar í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, uns niðurstaða lægi fyrir í fyrrgreindu ágreiningsmáli nr. X-90/2012. 33      Verði á það fallist að framangreindur sóknaraðili eigi skaðabótakröfu sem hann geti notað til fullra efnda á skuldbindingum sínum samkvæmt lánssamningnum, og að kröfur samkvæmt honum hafi þar með fallið niður, eins og sóknaraðilar byggja á, er ljóst að hafna beri í heild sinni kröfu varnaraðila um greiðslu samkvæmt þriðja tölulið frumvarps til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar að Vesturgötu 64. 34      Með því að bera gildi ákvörðunar sýslumanns undir dómstóla, þar sem ákveðið var að þriðji töluliður frumvarpsins stæði óbreyttur, hefur sama krafa og þegar er til úrlausnar í Héraðsdómi Reykjaness í fyrrgreindu máli nr. E-746/2012 verið borin að nýju undir dómstóla þar sem sömu vörnum er haldið uppi. Með vísan til meginreglu 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991, sem hér á við samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991, verður ekki skorið úr því sakarefni í þessu máli, heldur bíður það úrlausnar í þeim málum sem þegar hafa verið þingfest. Sýslumaður var enn fremur við það bundinn er hann tók afstöðu til mótmæla sóknaraðila við þriðja tölulið frumvarpsins. Í því ljósi verður í samræmi við 1. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991 að ómerkja hina umdeildu ákvörðun sýslumanns þess efnis að þriðji töluliður frumvarps til úthlutunar söluverðs fasteignarinnar Vesturgötu 64 í Reykjavík skuli standa óbreyttur. Þá ber að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um að fresta endanlegri ákvörðun um úthlutun söluandvirðis fasteignarinnar í samræmi við kröfugerð sóknaraðila, en dómstólar eru við hana bundnir. 35      Að svo komnu máli liggur ekki fyrir að úrlausn kröfu sóknaraðila um breytingu á þriðja tölulið frumvarpsins hafi raunhæft gildi fyrir réttarstöðu aðila. Að því leyti felur aðalkrafan í sér lögspurningu í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sem telja verður að hér eigi við samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991. Ber því sjálfkrafa að vísa þeim hluta aðalkröfunnar frá héraðsdómi. 36      Staðfest er ákvæði úrskurðar héraðsdóms um að málskostnaður falli niður í héraði. Rétt þykir að kærumálskostnaður falli einnig niður.                                                                                   Úrskurðarorð: Ómerkt er ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 22. desember 2016 um að þriðji töluliður frumvarps til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar Vesturgötu 64 í Reykjavík, fastanúmer 200-0272, skuli standa óbreyttur. Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu er gert að fresta endanlegri ákvörðun um úthlutun á söluverði fasteignarinnar upp í kröfu varnaraðila, Íslandsbanka hf., þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir í dómsmáli, sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem mál nr. X-90/2012, eftir atvikum með úrlausn æðri réttar. Að öðru leyti er aðalkröfu sóknaraðila, Erils ehf. og Héðinsreits ehf., vísað frá héraðsdómi. Staðfest er atkvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað. Kærumálskostnaður fellur niður.     Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2018.                 Ár 2018, miðvikudaginn 10. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í húsnæði Héraðsdóms Suðurlands, Austurvegi 4, Selfossi af Hirti O. Aðalsteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.                 Mál þetta, sem barst dóminum þann 13. janúar 2017, var þingfest þann 15. febrúar 2017 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 13. desember sl. Dómarinn fékk mál þetta til meðferðar þann 1. júní sl. og hafði engin afskipti haft af því fyrir þann tíma, en með bréfi dómstólaráðs dags. þann 30. maí sl. var dómaranum falið mál þetta til meðferðar.                  Sóknaraðilar eru Erill ehf., kt. 590416-0530, Gagnheiði 28, Selfossi og Héðinsreitur ehf., kt. 560905-0330, Suðurlandsbraut 6, Reykjavík.                 Varnaraðili er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi, Reykjavík.                 Dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 22. desember 2016, um að hafna kröfum sóknaraðila um að fresta ákvörðun um úthlutun uppboðsandvirðis fasteignarinnar Vesturgötu 64, Reykjavík, fnr. 200-0272, hvað varðar kröfu varnaraðila skv. 3. tl. frumvarps og ákveða jafnframt að 3. tl. frumvarps dags. 8. júlí 2016 til úthlutunar söluverðs áðurnefndrar eignar, til varnaraðila, á 1. veðrétti skuli standa óbreytt, verði felld úr gildi og sýslumanni verði gert að breyta frumvarpinu á þann veg að hafnað verði kröfu varnaraðila um greiðslu samningsvaxta að fjárhæð 328.055.319 krónur, að dráttarvaxtakröfu verði hafnað að því marki sem hún er yfir árs dráttarvöxtum af samþykktum höfuðstól kröfu varnaraðila og að málskostnaðarkröfu verði hafnað. Jafnframt er þess krafist að sýslumanni verði gert að fresta endanlegri ákvörðun um úthlutun höfuðstóls  kröfu varnaraðila auk dráttarvaxta þar til endanleg niðurstaða dómsmáls þess sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem mál nr. X-90/2012 eða eftir atvikum Hæstaréttar liggur fyrir varðandi ágreining um það hvort krafa varnaraðila hafi verið greidd með skuldajöfnuði. Til vara er sú krafa gerð að ef ekki er fallist á lækkun á samningsvaxta-, dráttarvaxta- og málskostnaðarkröfum þá verði sýslumanni gert að fresta endanlegri ákvörðun um úthlutun á kröfu varnaraðila þar til að endanleg niðurstaða dómsmáls þess sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem mál nr. X-90/2012 eða eftir atvikum Hæstaréttar liggur fyrir varðandi ágreining um það hvort krafa varnaraðila hafi verið greidd með skuldajöfnuði. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.                 Dómkröfur varnaraðila eru þær að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og frumvarp sýslumanns að úthlutunargerð uppboðsandvirðis fasteignarinnar Vesturgata 64, Reykjavík, fastanúmer 200-0272, verði staðfest og úthlutun samkvæmt þeirri úthlutunargerð fari fram þegar í stað.  Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að mati dómsins.   Málavextir.                        Sóknaraðilinn Héðinsreitur ehf. mun hafa haft í hyggju að reisa 170-190 þjónustuíbúðir og 220 bílastæði á lóðinni Vesturgötu 64 í Reykjavík og mun hann hafa gert verksamning við verktakafyrirtækið JÁVERK ehf. þann 21. ágúst 2007 um að byggja á reitnum. Umsamin verklaun hafi verið 4.712.000.000 krónur. Þann 9. október 2007 hafi sóknaraðili og Byr sparisjóður gert með sér fjármögnunarsamning þar sem sparisjóðurinn hafi  samþykkt að lána sóknaraðila fé til þess að fullfjármagna byggingarframkvæmdir á Héðinsreit samkvæmt framangreindum verksamningi við Jáverk ehf. og skyldi sparisjóðurinn fá tryggingu í fasteignunum. Skyldi lánið vera að helmingi í íslenskum krónum (vaxtakjör REIBOR + 3,5%) og að helmingi í myntkörfunni EUR 60% /CHF 30%/YEP 10% (vaxtakjör LIBOR+3,90%) og skyldi það tryggt með 1. veðrétti í Vesturgötu 64 með veðleyfi fram fyrir lán VBS fjárfestingabanka hf. Jafnframt hafi verið samið um að Byr skyldi lána sóknaraðila 500.000.000 króna til þess að endurfjármagna að hluta lán sóknaraðila hjá VBS fjárfestingabanka gegn því að bankinn veitti sóknaraðila lán til kaupa á lóðum af Reykjavíkurborg og hafi verið hluti af heildarbyggingarreitnum. Í fjármögnunarsamningnum við Byr hafi skýrt verið kveðið á um að verksamningurinn við JÁVERK ehf. og undirgögn hans væru hluti fjármögnunarsamningsins. Hinn 7. nóvember 2007 hafi VBS fjárfestingarbanki hf. veitt stefnda skilyrt veðleyfi á 1. veðrétti fasteignarinnar  gegn því að Byr greiddi beint til VBS 500.000.000 krónur af fyrsta hluta lánsins. Á grundvelli fjármögnunarsamningsins hafi aðilar gert með sér fyrsta lánssamninginn 27. nóvember 2007 þar sem Byr hafi veitt sóknaraðila lán að fjárhæð 600.000.000 krónur og af þessari fjárhæð hafi 500.000.000 krónur verið greiddar til VBS fjárfestingarbanka í samræmi við ákvæði fjármögnunarsamnings aðila  og veðleyfisins frá VBS sem tryggt hafi Byr 1. veðrétt í lóðinni. Hafi 100.000.000 króna verið ætlaðar til fjármögnunar verksins, vegna hönnunarvinnu, leyfisgjalda o.fl. Hafi helmingur lánsins verið veittur í íslenskum krónum en helmingur í erlendum myntum. Hafi eftir þetta lán sem sóknaraðili hefði tekið numið um 2.1 milljarði króna og lán vegna framkvæmda hafi numið 100 milljónum. Þann 12. júní 2008 hafi Byr sent sóknaraðilanum Héðinsreit bréf þar sem framangreindum fjármögnunarsamningi hafi verið rift. Hafi sóknaraðili mótmælt riftuninni harðlega með bréfi dagsettu 18. júní sama ár og krafist fullra efnda. Hafi Byr haldið fast við riftun sína með bréfi dagsettu 22. júlí sama ár og hafnað öllum kröfum um efndir og skaðabætur.                 Þann 4. september 2008 hafi sóknaraðili sent Byr bréf og tilkynnt að samþykki um byggingarleyfi lægi fyrir og væri ekkert því til fyrirstöðu að fá byggingarleyfi gefið út og hefja framkvæmdir um leið og búið væri að greiða gatnagerðargjöld. Hafi verið skorað á Byr að veita án tafa umsamið lán og var tekið fram að ef ekki yrði orðið við þessari áskorun innan 7 daga yrði litið svo á að lánssamningur aðila hefði verið vanefndur. Hafi þessum kröfum sóknaraðila verið hafnað með bréfi dagsettu 15. september sama ár og hafi sóknaraðili þá höfðað mál á hendur Byr vegna ólögmætrar riftunar á fjármögnunarsamningi aðila. Þann 22. apríl 2010 mun Fjármálaeftirlitið hafa tekið yfir rekstur Byrs og skipað slitastjórn til þess að stýra slitum hans. Þann 13. október sama ár hafi sóknaraðili lýst yfir kröfu að fjárhæð 3.060.000.000 krónur í slitabú Byrs og jafnframt hafi verið lýst yfir skuldajöfnuði gagnvart kröfum Byrs á hendur sóknaraðila. Þann 15. nóvember 2010 hafi Byr verið sýknaður af kröfum sóknaraðila en málinu hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Hafi kröfugerð þar verið breytt þannig að aðeins hafi verið krafist viðurkenningar á bótaskyldu Byrs, enda hafi fyrri krafa um viðurkenningu á gildi samningsins enga þýðingu haft fyrir sóknaraðila eftir að Byr hafi verið tekinn til slitameðferðar. Með dómi Hæstaréttar þann 17. nóvember 2011 í máli nr. 87/2011 hafi dómi héraðsdóms verið snúið við og skaðabótaskylda Byrs gagnvart sóknaraðila viðurkennd vegna tjóns sem leitt hafi af hinni ólögmætu riftun á fjármögnunarsamningi aðila. Hafi sóknaraðili með bréfi dagsettu 22. nóvember 2011 ítrekað fyrri skuldajafnaðaryfirlýsingar og hafi verið skorað á Byr að ganga til samninga um fullnaðaruppgjör á grundvelli dóms Hæstaréttar. Hafi viðræður við slitastjórn Byrs ekki skilað árangri og hafi málinu því verið vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur á grundvelli 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og sé það mál enn rekið fyrir dómi sem mál nr. X-90/2012.                 Varnaraðilinn Íslandsbanki hafi þingfest mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness þann 23. maí 2012 án nokkurs fyrirvara og án nokkurra innheimtutilrauna á hendur sóknaraðilanum Héðinsreit þar sem krafist hafi verið greiðslu á 600.000.000 króna auk vaxta og kostnaðar og staðfestingar á 1. veðrétti í fasteigninni að Vesturgötu 64 í Reykjavík. Sóknaraðili hafi krafist sýknu og þess að málinu yrði frestað meðan beðið væri eftir niðurstöðu í máli nr. X-90/2012, þar sem niðurstaða þess máls hefði grundvallarþýðingu við úrlausn málsins. Hafi héraðsdómur fallist á þá kröfu og hafi Hæstiréttur staðfest þann úrskurð með dómi þann 7. júní 2013 í máli nr. 365/2013. Það mál bíði enn úrlausnar héraðsdóms.                 Þann 1. febrúar 2016 mun hin veðsetta eign, Vesturgata 64, Reykjavík, hafa verið seld á uppboði af að kröfu Reykjavíkurborgar vegna ógreiddra fasteignagjalda. Hafi hæstbjóðandi verið Hróður ehf., sem boðið hafi 1.297.000.000 krónur. Þann 8. júlí sama ár hafi sýslumaðurinn í Reykjavík gert frumvarp að úthlutunargerð þar sem gert hafi verið ráð fyrir því að greiddar yrðu 1.095.798.562 krónur til varnaraðilans Íslandsbanka hf. á grundvelli veðréttar sem byggst hafi á 36 samhliða tryggingarbréfum sem hvíli á 1. veðrétti. Hafi sóknaraðilar, Héðinsreitur ehf. og Erill ehf., sem sé kröfuhafi í uppboðsandvirði fasteignarinnar skv. 4. tl. frumvarps um úthlutun á söluverði hennar á grundvelli tryggingarbréfs, upphaflega gefið út til VBS til tryggingar á lánsssamningi, mótmælt úthlutuninni á þeim grundvelli að krafa varnaraðila hefði verið greidd að fullu með skuldajöfnuði. Auk þess hafi þess verið krafist að úthlutun til varnaraðila yrði frestað  þar til niðurstaða lægi fyrir í máli nr. X-90/2012 eða eftir atvikum Hæstaréttar. Hafi sýslumaður hafnað þessu og hafi málinu verið skotið til héraðsdóms í kjölfarið. Málsástæður og lagarök sóknaraðila.                 Sóknaraðilar mótmæla því að greitt verði af söluandvirði hinnar seldu eignar upp í kröfu varnaraðila þar sem krafan hafi verið að fullu greidd  með skuldajöfnuði þar sem skaðabótakröfu sóknaraðilans Héðinsreits á hendur Byr sparisjóði hafi verið skuldajafnað á móti kröfu varnaraðila, sbr. yfirlýsingu um skuldajöfnuð þann 13. október 2010 í slitabú Byrs sparisjóðs. Hafi yfirlýsing um skuldajöfnuð og viðurkenningu hans síðan verið ítrekuð, m.a. í málum sem rekin hafi verið milli sóknaraðilans Héðinsreits og varnaraðila og slitabús Byrs sparisjóðs hins vegar. Sé réttur sóknaraðila til að skuldajafna með kröfu sinni á hendur Byr sparisjóði gagnvart kröfu varnaraðila ótvíræður. Hafi varnaraðili eignast kröfuna þegar Fjármálaeftirlitið hafi með ákvörðun sinni ráðstafað öllum eignum Byrs sparisjóðs til Byrs hf. sem varnaraðili hafi síðar eignast. Í 13. lið ákvörðunarinnar sé skýrt tekið fram að framsal og yfirfærsla eignanna hafi engin áhrif á rétt skuldara samkvæmt umræddum kröfum til skuldajafnaðar sem hann hafi átt gagnvart Byr sparisjóði. Um hafi verið að ræða samkynja og gagnkvæmar kröfur sem hæfar hafi verið til að mætast og af sömu rót runnar. Hafi því réttur til skuldajafnaðar verið ótvíræður. Hafi skaðabótakrafan verið tilkomin vegna ólögmætrar riftunar Byrs sparisjóðs á framangreindum samningi aðila um fjármögnun á umræddum verkframkvæmdum. Hafi Hæstiréttur viðurkennt skaðabótaskyldu Byrs á tjóni stefnanda sem leitt hafi af ólögmætri riftun fjármögnunarsamningsins.                 Sóknaraðilar byggja kröfu sína um að sýslumanni verði gert að fresta endanlegri ákvörðun um úthlutun söluandvirðis þar til leyst hefur verið úr ágreiningi aðila í máli nr. X-90/2012 á því að alger óvissa ríki um það hvort krafa varnaraðila hafi verið greidd að fullu eða að hluta þar til dæmt hafi verið í því máli um skaðabótakröfuna og lýstan skuldajöfnuð. Fyrir liggi dómur Hæstaréttar í máli nr. 365/2013 þar sem komist hefði verið að þeirri niðurstöðu að fresta bæri máli sem varnaraðili hafi höfðað á hendur sóknaraðila á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 þar til niðurstaða lægi fyrir í máli nr. X-90/2012 eftir atvikum Hæstaréttar. Um sé að ræða nákvæmlega sömu kröfu og deilt sé um í þessu máli og byggt sé á í kröfulýsingu varnaraðila. Verði að ætla að þar sem Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að héraðsdómur skuli fresta því að dæma í dómsmáli um sömu kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila, sem lýst hafi verið í uppboðsandvirði hinnar seldu eignar og skuldajöfnuð gagnvart henni, hljóti hið sama að gilda í þessu máli og enn frekar um úrlausn sýslumanns varðandi meðferð  hans á sömu kröfu og sama úrlausnarefni sem varði það hvort umrædd krafa hafi verið greidd að hluta eða öllu leyti. Styðjist þetta við dóm Hæstaréttar, eðli máls og 1. mgr. 53. gr. laga nr. 90/1991 þar sem mælt sé fyrir um það að sýslumaður skuli ekki taka ákvörðun um greiðslu skv. úthlutunargerð fyrr en niðurstöður dómsmála varðandi ágreininginn um nauðungarsöluna liggi fyrir. Sóknaraðilar byggja einnig á litis pendens ákvæði 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 þar sem mælt sé fyrir um að þegar mál hafi verið þingfest þá verði dóms ekki krafist um þær sömu kröfur í öðru máli og skuli vísa slíkum kröfum frá dómi. Ef leysa eigi efnislega úr ágreiningi aðila um úthlutun söluverðsins megi ljóst vera að það verði ekki gert án þess að leysa um leið úr ágreiningi sem fyrir hendi sé um fjárhæð skaðabóta og skuldajöfnuð sem deilt sé um í máli nr. X-90/2012. Hafi sýslumanni borið að fallast á kröfur sóknaraðila og fresta öllum ákvörðunum varðandi breytingu á frumvarpinu hvað varði þá þætti þar sem umræddur skuldajöfnuður hafi áhrif þar til niðurstaða í máli nr. X-90/2012 eða eftir atvikum Hæstaréttar liggur fyrir.                 Sóknaraðilar byggja á því að hluti þeirra mótmæla sem fram hafi komið gegn frumvarpi sýslumanns varði atriði þar sem framangreindur skuldajöfnuður hafi engin áhrif á ágreining í máli þessu. Snúi sá hluti að vöxtum, dráttarvöxtum og málskostnaði sem sýslumaður hafi úthlutað varnaraðila samkvæmt frumvarpi sínu. Þau mótmæli byggi ekki á skaðabótakröfu og skuldajöfnuði sóknaraðila heldur á öðrum grundvelli. Beri því að úrskurða um þau ágreiningsatriði þar sem framangreind sjónarmið um frestun eigi ekki við. Sóknaraðilar byggja á því að samkvæmt 5. gr. laga nr. 75/1997 njóti einungis þeir vextir verðtryggingar með aðalkröfunni sem gjaldfallið hafi á einu ári áður en beiðni um nauðungarsölu hafi verið sett fram eða eftir atvikum kröfu hafi verið lýst. Samkvæmt kröfulýsingu varnaraðila geri hann kröfu um vexti Seðlabanka Íslands til 5. janúar 2012 að fjárhæð 328.055.319 krónur sem sé í samræmi við ákvæði lánasamnings þess sem krafan byggi á en þar sé gjalddagi höfuðstóls og vaxta 5. janúar 2012. Sé því augljóslega um að ræða vexti sem gjaldfallið hafi  löngu áður en tímamörk 5. gr. laga nr. 75/1997 kveði á um eða u.þ.b. fjórum árum fyrir uppboðið þar sem kröfulýsing hafi verið lögð fram. Beri því þegar af þessari ástæðu að breyta frumvarpi sýslumanns og lækka úthlutun til varnaraðila um þessa fjárhæð. Með sama hætti mótmælir sóknaraðili dráttarvöxtum þar sem þeir geti að hámarki numið dráttarvöxtum sem gjaldfallið hafi á einu ári reiknað af þeim hluta kröfunnar sem komi til úthlutunar, þ.e. höfuðstól kröfunnar án samningsvaxta. Þá mótmælir sóknaraðili málskostnaðarkröfu sérstaklega sem fráleitri og allt of hárri, eða tæplega 58 milljónir króna með virðisaukaskatti, útlögðum kostnaði og vöxtum af  kostnaði. Málskostnaðarkrafan sé vanreifuð og órökstudd, henni fylgi ekki tímaskýrslur eða aðrar eðlilegar skýringar, auk þess sem hún sé í algeru ósamræmi við þann málskostnað sem Hæstiréttur hafi dæmt í málum sem varði sambærilegar fjárhæðir. Sóknaraðili krefst þess að henni verði alfarið hafnað en til vara að hún verði lækkuð verulega.                 Verði ekki fallist á framangreindar lækkunarkröfur byggir varakrafan um frestun á ákvörðun sýslumanns á því að fresta beri endanlegri ákvörðun um úthlutun vegna þessara aukakrafna á þeim grundvelli sem áður er rakinn varðandi frestun á úrlausn málsins, enda byggi sóknaraðilar jafnframt á því að öll krafa varnaraðila, bæði höfuðstóll, vextir, dráttarvextir og kostnaður, hafi verið greidd að fullu með skuldajöfnuði við skaðabótakröfu sóknaraðila og því hafi niðurstaða í máli nr. X-90/2012 veruleg áhrif á niðurstöðu þessa máls og úthlutun söluandvirðis.                 Verði ekki fallist á kröfu sóknaraðila um frestun gera sóknaraðilar þá kröfu að tekið verði tillit til skaðabótakröfu sóknaraðila á hendur slitabúi Byrs sparisjóðs og þess skuldajafnaðar sem lýst hafi verið gagnvart kröfu varnaraðila.                 Sóknaraðilar vísa um heimild til málskots til 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991 og einnig er vísað til VIII. og XIII. kafla laganna og þá er vísað til laga nr. 91/1991 að því marki sem við á, sbr. 77. gr. laga nr. 90/1991. Jafnframt er vísað til laga nr. 75/1997 og meginreglna kröfu- og veðréttar. Sóknaraðilar styðja kröfu um málskostnað við XXI. kafla laga nr. 91/1991.          Málsástæður og lagarök varnaraðila.                 Varnaraðili mótmælir þeim málsástæðum sóknaraðila að varnaraðili eigi enga kröfu til greiðslu af uppboðsandvirðinu þar sem krafa hans hafi verið greidd með skuldajöfnuði og jafnframt að um heimild hans til að greiða skuldina með þessum hætti verði skorið í máli nr. X-90/2012. Varnaraðili kveðst vera eigandi umræddra tryggingarbréfa og þeirrar fjárkröfu á hendur sóknaraðila sem tryggð sé með þessum bréfum. Um rétt hans til fullnustu á kröfum hans með greiðslu verði ekki fjallað í dómi nema hann eigi aðild að því dómsmáli. Geti afstaða slitastjórnar Byrs sparisjóðs til krafna sóknaraðila ekki raskað þinglýstum réttindum varnaraðila og ekki heldur dómur um það hvort krafa sóknaraðila í bú Byrs sparisjóðs skuli viðurkennd eða ekki. Varnaraðili byggir á því að fjárkrafa hans á hendur sóknaraðila sé óumdeild. Um heimild sóknaraðila til að greiða hana með öðrum hætti verði að fjalla í máli á milli aðila þessa máls. Hafi veðandlagið nú verið selt nauðungarsölu og krafa sóknaraðila sé sú að engu af andvirðinu verði varið til að greiða kröfu varnaraðila, eða í það minnsta að greiðslu til hans verði frestað. Verði því að taka afstöðu til þess í þessu máli hvort skilyrðum skuldajafnaðar sé fullnægt. Ef því sé hafnað séu engin skilyrði til að fresta úthlutun uppboðsandvirðisins. Dómur Hæstaréttar í máli nr. 365/2013 skeri ekki á nokkurn hátt úr þessum ágreiningi enda ekkert um það fjallað í málinu hvort sóknaraðila sé heimilt að skuldajafna ætlaðri bótakröfu sinni á hendur Byr sparisjóði við kröfu varnaraðila. Í forsendum réttarins felist að úrskurður í máli nr. X-90/2012 muni ekki skera úr um hugsanlegan skuldajafnaðarrétt sóknaraðila og þurfi að fjalla um skilyrði skuldajafnaðar sérstaklega í máli milli aðila þessa máls. Ekkert sé því til fyrirstöðu að leyst sé úr þeim ágreiningi í þessu máli og í raun nauðsynlegt að það sé gert svo unnt sé að ljúka úthlutun uppboðsandvirðisins. Þá verði einnig að gera það til að geta tekið afstöðu til þeirra krafna sem sóknaraðili hefur uppi.                 Varnaraðili kveður ákvæði 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 ekki eiga hér við, enda hafi ekkert mál verið höfðað á milli þessara aðila þar sem gerð sé krafa um viðurkenningu á rétti til skuldajafnaðar. Í þessu máli sé eingöngu fjallað um úthlutun uppboðsandvirðis til greiðslu óumdeildrar fjárkröfu varnaraðila sem tryggð sé með þinglýstum og óumdeildum veðtryggingarbréfum í hinni seldu eign.                 Varnaraðili byggir á því að skilyrði til skuldajafnaðar séu ekki uppfyllt af margvíslegum ástæðum. Sé meginástæðan sú að lánssamningur aðila heimili ekki greiðslu með öðrum hætti en í peningum. Í gr. 2.4 í lánssamningnum segi að endurgreiðsla skuli vera óskert og að ekki sé heimilt að greiða hana að hluta eða öllu leyti með skuldajafnaði eða gagnkröfu. Fræðimenn séu sammála um að slíkir skilmálar séu bindandi bæði fyrir skuldarann sjálfan og þrotabú hans. Ekkert sé óeðlilegt eða ósanngjarnt við þetta ákvæði, enda hafi það iðulega verið að finna í sambærilegum samningum Byrs við viðskiptavini sína. Þá eigi sóknaraðili enga kröfu sem fullnægi skilyrðum kröfuréttarins til að nýta megi hana til skuldajafnaðar. Krafa sóknaraðila í slitabú Byrs sparisjóðs sé bótakrafa vegna ætlaðs tjóns sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir vegna ólögmætrar riftunar fjármögnunarsamnings. Hafi kröfunni verið hafnað af slitastjórn og standi deilur aðila um það hvort taka eigi hana á kröfuskrá eins og henni hafi verið lýst. Ágreiningur þessara aðila sé enn til meðferðar fyrir héraðsdómi og sjái ekki fyrir endann á því máli. Sóknaraðili eigi því hvorki viðurkennda né dæmda kröfu á hendur slitabúi Byrs sparisjóðs og sé alveg óvíst hvort hann hafi orðið fyrir nokkru tjóni.                 Varnaraðili byggir á því að það sé skilyrði skuldajafnaðar að gagnkrafan sé lögvarin en ætluð krafa sóknaraðila fullnægi ekki þeirri kröfu. Ekki sé vitað hvort hann eigi einhverja kröfu yfir höfuð og því augljóst að ekki sé unnt að knýja fram greiðslu hennar. Þá þurfi kröfurnar að vera hæfar til að mætast og þurfi gjalddagi gagnkröfunnar að vera kominn svo hægt sé að lýsa yfir skuldajöfnuði. Þessum skilyrðum sé ekki fullnægt og ekkert vitað hvort gagnkrafan muni stofnast eða hver gjalddagi hennar verður svo knýja megi fram greiðslu hennar. Þá sé meginsjónarmið að réttmæti kröfunnar þurfi að vera tiltölulega ótvírætt og augljóst. Kröfuhafi verði ekki knúinn til að samþykkja greiðslu með skuldajöfnuði þegar hann geti ekki með góðu móti gert sér grein fyrir réttmæti gagnkröfunnar, fjárhæð hennar eða gjalddaga. Hann geti því við þessar aðstæður hafnað skuldajöfnuði enda sé krafa sóknaraðila á hendur slitabúi Byrs sparisjóðs mjög óljós og engin leið fyrir varnaraðila að gera sér grein fyrir því hvort hún sé til staðar eða hvers efnis hún sé. Úrskurður í máli nr. X-90/2012 geti aldrei svipt varnaraðila ótvíræðum rétti sínum samkvæmt samningi aðila. Varnaraðili eigi 1. veðrétt í umræddri fasteign og sé réttur hans óumdeildur. Þá sé óumdeilt að krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila  samkvæmt lánssamningi dagsettum 27. nóvember 2007 sé tryggð með þessum réttindum í eigninni. Eignin hafi verið seld nauðungarsölu og ekkert heimili sýslumanni að draga það eða fresta að úthluta uppboðsandvirðinu í samræmi við þinglýstar heimildir. Aðeins þurfi að skera úr um hversu miklum hluta söluandvirðisins eigi að úthluta til varnaraðila en um aðra liði frumvarpsins sé ekki deilt. Hafi sýslumaður tekið afstöðu til þessa og fellst varnaraðili á afstöðu hans. Þegar salan á fasteigninni hafi farið fram hafi uppfærður höfuðstól tryggingabréfanna 36 numið 993.333.278 krónum. Hafi lýst krafa varnaraðila numið höfuðstólnum, 600.000.000 króna auk vaxta að fjárhæð 328.055.319 krónum eða samtals 928.055.319 krónur. Hafi því krafan á gjalddaga þann 5. janúar 2012 rúmast á söludegi innan þeirrar fjárhæðar sem tryggingabréfin hafi hljóðað á. Ekki hafi reynt á hvort einhver hluti fjárkröfu varnaraðila væri ótryggður samkvæmt tryggingabréfunum og því hafi sýslumaður fallist á kröfu varnaraðila að þessu leyti. Samkvæmt ákvæðum b-liðar 5. gr. laga nr. 75/1997 séu vextir af skuld sem gjaldfallið hafa á síðasta ári fyrir nauðungarsölu einnig tryggðir með aðalkröfunni. Ljóst hafi verið að varnaraðili hafi aðeins átt rétt á dráttarvöxtum á fjárkröfu sína í eitt ár. Hafi sýslumanni reiknast svo til að dráttarvextir af 928.055.319 krónum hafi numið 118.713.743 krónum. Fallist varnaraðili á að þessi útreikningur vaxta sé réttur og í samræmi við lög.                 Varnaraðili telur kröfu sóknaraðila um að samningsvextir verði felldir brott af kröfu varnaraðila á misskilningi byggða. Varnaraðili telur 5. gr. laga um samningsveð ekki eiga við um þessa kröfu því eins og fram komi í 1. gr. laganna nái hún til veðsamninga, þ.e. samninga sem veita kröfuhafa forgangsrétt til að leita fullnustu fyrir kröfu sinni. Að mati varnaraðila veiti lánssamningurinn varnaraðila engan slíkan rétt. Tryggingabréfin falli undir lög um samningsveð, þau séu veðsamningar sem veiti varnaraðila allherjarveð til tryggingar öllum hugsanlegum kröfum hans á hendur útgefanda bréfanna eða öðrum sem hann hafi veitt lánsveð. Lögin um samningsveð og ákvæði tryggingabréfanna geti aðeins sagt fyrir um hámark þeirrar fjárhæðar sem bréfin geti tryggt.                 Varnaraðili telur að krafa sú sem lýst sé í uppboðsandvirðið undir heitinu málskostnaður sé rangnefnd og hafi enginn dómur gengið um þessa kröfu. Um sé að ræða kröfu um innheimtuþóknun sem byggist á gjaldskrá lögmanns varnaraðila eins og hún hafi verið á þeim degi er sala eignarinnar hafi farið fram. Ráðist fjárhæð innheimtuþóknunar af fjárhæð þeirrar kröfu sem lýst sé í söluandvirðið. Hún byggist ekki á tímagjaldi heldur þeim hagsmunum sem um sé fjallað og eigi lög nr. 95/2008 ekki við um kostnað af þessari innheimtu, enda um löginnheimtu að ræða. Samkvæmt a-lið 5. gr. laga nr. 75/1997 sé sá kostnaður sem veðhafi hafi af innheimtu veðkröfu tryggður með aðalkröfunni. Sé krafa varnaraðila um greiðslu innheimtukostnaðar því tryggð á grundvelli umræddra tryggingabréfa.                 Varnaraðili vísar til ákvæða VIII. og XIII. kafla laga nr. 90/1991 og 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Þá vísar varnaraðili til 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. sömu laga, sbr. 2. mgr. 131. gr. skiptalaga nr. 20/1991. Niðurstaða. Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort varnaraðili eigi rétt á greiðslu af uppboðsandvirði fasteignarinnar Vesturgötu 64 í Reykjavík, en hún var seld nauðungarsölu þann 1. febrúar 2016. Samkvæmt úthlutunargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 8. júlí sama ár var gert ráð fyrir að varnaraðili fengi greiddar 1.095.798.562 krónur af uppboðsandvirðinu sem var 1.297.000.000 krónur.  Sóknaraðili mun hafa gert lánssamning við Byr sparisjóð þann 27. nóvember 2007 vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda á lóðinni Vesturgötu 64 í Reykjavík. Fjármálaeftirlitið mun þann 22. apríl 2010 hafa ráðstafað öllum eignum Byrs sparisjóðs til Byrs hf. og mun varnaraðili síðar hafa eignast það fyrirtæki. Með dómi Hæstaréttar Íslands þann 17. nóvember 2011 í máli nr. 87/2011 var viðurkennd skaðabótaskylda Byrs sparisjóðs á tjóni sóknaraðila er leiddi af ólögmætri riftun þann 12. júní 2008 á fjármögnunarsamningi aðila þann 9. október 2007. Sóknaraðili hefur lýst áætlaðri bótakröfu í slitastjórn Byrs sparisjóðs og lýst yfir skuldajöfnuði gagnvart kröfum á hendur sóknaraðila. Slitastjórn Byrs sparisjóðs hafnaði kröfunni og var málinu þá skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem rekið er ágreiningsmál nr. X-90/2012. Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili eigi enga kröfu til greiðslu af uppboðsandvirðinu þar sem krafa hans hafi verið greidd með skuldajöfnuði. Varnaraðili höfðaði mál á hendur sóknaraðila þann 10. maí 2012 og krafðist þess að sóknaraðila yrði gert að greiða honum 928.055.319 krónur auk dráttarvaxta. Þá var krafist staðfestingar veðréttar samkvæmt 36 samhljóða veðtryggingarbréfum. Sóknaraðili krafðist aðallega sýknu en til vara verulegrar lækkunar á dómkröfum. Þá krafðist sóknaraðili þess að viðurkenndur yrði réttur hans til að skuldajafna gagnvart kröfu varnaraðila með bótakröfu að fjárhæð 3.060.000.000 á hendur Byr sparisjóði. Með úrskurði héraðsdóms þann 7. maí 2013 var málinu frestað þar til niðurstaða liggur fyrir í máli nr. X-90/2012, en það er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur eins og áður greinir. Með dómi Hæstaréttar Íslands þann 7. júní 2013 í máli nr. 365/2013 var þessi niðurstaða héraðsdóms staðfest og í  úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna, segir að telja verði ágreiningslaust að verði sóknaraðila ákvarðaðar skaðabætur í ágreiningsmálinu, sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur milli sóknaraðila og slitastjórnar Byrs sparisjóðs, þá geti hann nýtt þær bætur til skuldajafnaðar gagnvart kröfum varnaraðila á hendur honum, en ganga verður út frá því að kröfur Byrs sparisjóðs á hendur sóknaraðila vegna framangreinds lánasamnings hafi verið færðar yfir til Byrs hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010. Eftir samruna Byrs hf. og Íslandsbanka hf. 1. desember (svo) sé krafan því eign Íslandsbanka hf., varnaraðila í máli þessu. Var talið að ekki væri hægt að horfa framhjá því að niðurstaða þess dómsmáls kynni að hafa áhrif á niðurstöðuna á þann hátt að sóknaraðili kynni á grundvelli hennar að verða sýknaður eða verða dæmdur til að greiða lægri fjárhæð en krafist sé vegna skuldajafnaðarkröfu sinnar. Var því talið að niðurstaða ágreiningsmálsins í Héraðsdómi Reykjavíkur kynni að hafa veruleg áhrif á úrslit málsins að þessu leyti. Samkvæmt 53. laga nr. 90/1991 verður ekki greitt samkvæmt úthlutunargerð fyrr en frestur til að bera gildi nauðungarsölunnar undir héraðsdóm skv. 1. mgr. 80. gr. er liðinn. Þegar sá frestur er liðinn má heldur ekki greiða eftir úthlutunargerð ef dómsmál vegna nauðungarsölunnar skv. XIII. eða XIV. kafla hefur ekki enn verið leitt til lykta, nema að því leyti sem er sýnt að niðurstaða þess geti ekki breytt réttindum til greiðslna.  Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 má fresta máli ef annað einkamál hefur verið höfðað út af efni sem varðar úrslit þess verulega. Þá ber að líta til ákvæða 4. mgr. 94. gr. sömu laga þar sem segir að þegar mál hafi verið þingfest verði dóms ekki krafist um þær kröfur sem gerðar eru í því í öðru máli. Ef dóms er krafist þannig um kröfu í öðru máli skal vísa henni frá dómi. Samkvæmt framansögðu freistar sóknaraðili þess í máli þessu að fá úrlausn dómsins um það hvort umrædd krafa varnaraðila hafi verið greidd með skuldajöfnuði en samkvæmt gögnum málsins er hér um sömu kröfu að ræða og fjallað er um í máli nr. X-90/2012 og rekið er milli sömu aðila og í þessu máli og enn mun óútkljáð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Með hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem hér að framan hafa verið rakin og dómi Hæstaréttar í máli nr. 365/2013 verður ekki leyst úr ágreiningi aðila í þessu máli. Verður því þegar af þessari ástæðu að fallast á varakröfu sóknaraðila og leggja fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að fresta endanlegri ákvörðun um úthlutun á kröfu varnaraðila þar til endanleg niðurstaða í máli nr. X-90/2012 eða eftir atvikum æðri réttar liggur fyrir varðandi ágreining um það hvort krafa varnaraðila hafi verið greidd með skuldajöfnuði. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Ú R S K U R Ð A R O R Ð:                               Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu er gert að fresta endanlegri ákvörðun um úthlutun á kröfu varnaraðila þar til endanleg niðurstaða dómsmáls þess sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem mál nr. X-90/2012 eða eftir atvikum æðri réttar liggur fyrir varðandi ágreining um það hvort krafa varnaraðila hafi verið greidd með skuldajöfnuði.                 Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 8/2018
Kærumál Frávísun frá héraðsdómi Kæruheimild Frávísun frá Hæstarétti
Kærður var úrskurður Landsréttar sem staðfesti ákvæði í dómi héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi tilteknum aðal- og varakröfum G ehf. um að Ú ehf. og R ehf. yrði gert að afhenda G ehf. nánar tilgreind gögn. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að skýra yrði kæruheimild í a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á þann hátt að úrskurður Landsréttar gæti sætt kæru til Hæstaréttar ef þar hefði verið tekin ákvörðun um að vísa máli frá héraðsdómi, sem ekki hefði fyrr verið gert, en ekki ef þar hefðu verið staðfest ákvæði í dómi héraðsdóms um frávísun. Brast því heimild til að kæra úrskurð Landsréttar í málinu og var því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómarar. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. mars 2018 en kærumálsgögn bárust réttinum 10. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Landsréttar 16. mars 2018 sem staðfesti ákvæði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2018 þar sem vísað var frá dómi tilteknum aðal- og varakröfum sóknaraðila um að varnaraðilum yrði gert að afhenda sóknaraðila nánar tilgreind gögn. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til a. liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði héraðsdóms sem staðfest voru í Landsrétti um að vísa fyrrgreindum kröfum hans frá dómi verði felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfurnar til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Samkvæmt a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 sæta kæru til Hæstaréttar úrskurðir Landsréttar ef þar hefur verið mælt fyrir um „frávísun frá héraðsdómi eða Landsrétti eða niðurfellingu máls að hluta eða að öllu leyti fyrir héraðsdómi eða Landsrétti“. Heimildir þessar verður að skoða í ljósi þeirrar meginreglu að baki ákvæðum 6. þáttar laga nr. 91/1991 að úrlausnaratriði, hvort sem það varðar efni máls eða form, geti ekki komið til meðferðar á þremur dómstigum nema í því tilviki að Hæstiréttur hafi veitt leyfi til slíkrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 167. gr. og 175. gr. sömu laga. Að þessu gættu verður að skýra a. lið 1. mgr. 167. gr. laganna eftir orðanna hljóðan og þá þannig að úrskurður Landsréttar geti sætt kæru til Hæstaréttar ef þar hefur verið tekin ákvörðun um að vísa máli frá héraðsdómi, sem ekki hefur fyrr verið gert. Á hinn bóginn geti úrskurðir Landsréttar ekki sætt kæru til Hæstaréttar ef í úrskurði Landsréttar hafa verið staðfest ákvæði í dómi héraðsdóms um frávísun, svo sem hér er um að ræða, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 30. maí 2018 í máli nr. 14/2018. Samkvæmt þessu brestur heimild til að kæra úrskurð Landsréttar í máli þessu og verður því þannig af sjálfsdáðum vísað frá Hæstarétti. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Sóknaraðili, Glitnir HoldCo ehf., greiði varnaraðilum, Útgáfufélaginu Stundinni ehf. og Reykjavik Media ehf., óskipt 600.000 krónur í kærumálskostnað.   Úrskurður Landsréttar 16. mars 2018 Landsréttardómararnir Ásmundur Helgason, Ragnheiður Bragadóttir og Þorgeir Ingi Njálsson kveða upp úrskurð í máli þessu. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 15. febrúar 2018 en kærumálsgögn bárust réttinum 1. mars sama ár. Kærð eru ákvæði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2018 þar sem vísað var frá dómi nánar tilgreindum aðalkröfum og varakröfum sóknaraðila á hendur hvorum varnaraðila. Þar er annars vegar um að ræða kröfur sóknaraðila um að varnaraðilum verði hvorum um sig gert að afhenda sóknaraðila öll gögn og afrit af þeim sem varnaraðilar hafa í fórum sínum, hvort sem þau eru á rafrænu formi eða öðru formi, og koma úr fórum eða kerfum sóknaraðila. Hins vegar er um að ræða varakröfur sóknaraðila um að varnaraðilum verði hvorum um sig gert að afhenda alls 1.013 skjöl og afrit af þeim sem varnaraðilar hafa í fórum sínum, hvort sem þau eru á rafrænu formi eða öðru formi, og tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir héraðsdóm 18. desember 2017. Kæruheimild er í c-lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. 2        Sóknaraðili krefst þess að framangreind ákvæði í dóminum verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka kröfurnar til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. 3        Varnaraðilar krefjast staðfestingar á ákvæðum héraðsdóms um frávísun krafnanna og að sóknaraðila verði gert að greiða sér kærumálskostnað. Niðurstaða Landsréttar 4        Með þeim kröfum sem héraðsdómur vísaði frá dómi er farið fram á dómsúrlausn um skyldu varnaraðila til að afhenda tilgreind gögn sem fullnægja megi með aðför samkvæmt 73. gr. laga nr. 90/1989, um aðför. Þess háttar kröfur verður samkvæmt d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að gera þannig úr garði að skýrt sé hvað beri að afhenda. Yrði fallist á aðalkröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilum um að afhenda öll gögn og afrit þeirra sem varnaraðilar hafa í vörslum sínum, sem komið hafi „úr fórum eða kerfum“ sóknaraðila, væri engan veginn nægilega úr því skorið hvað varnaraðilum bæri að afhenda. Kröfugerðin fullnægir að þessu leyti ekki framangreindum áskilnaði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. 5        Með varakröfum sínum hefur sóknaraðili afmarkað kröfur sínar um afhendingu gagnanna við nánar tilgreind 1.013 gögn sem sóknaraðili telur að varnaraðilar hafi undir höndum en eigi uppruna sinn hjá sóknaraðila. Í breyttri kröfugerð, sem lögð var fram með bókun við fyrirtöku málsins í héraði 18. desember 2017, eru þessi gögn talin upp með stafrænum skráarheitum. Hefst sú lýsing á skjali sem ber heitið „1 engeyingar.pdf“ en lýkur með orðunum „1013 Samantekt um fjárfestingar og hæfi dómara – nefnd um dómarastörf.docx“. 6        Eins og nánar er rakið í bókuninni mun sakamálarannsókn hafa beinst að umræddum 1.013 gögnum sem héraðssaksóknari telur upplýst að eigi uppruna sinn í kerfum sóknaraðila. Eins og fram kemur í bréfi hans 1. mars 2018, sem lagt hefur verið fyrir Landsrétt, var minnislykill, sem innihélt „gögn sem talið er að hafi verið miðlað með ólögmætum hætti m.a. til fjölmiðla“, rannsakaður sérstaklega. Þar segir að skjölin á lyklinum hafi verið rúmlega 1.000 og verður að ætla að þar sé vísað til sömu gagna og talin eru upp í varakröfum sóknaraðila. 7        Ekki liggur fyrir að þau 1.013 gögn sem sóknaraðili krefst til vara að varnaraðilar afhendi sér séu sömu gögnin og fram hefur komið í fréttaflutningi varnaraðila, Útgáfufélagsins Stundarinnar ehf., að félagið hafi undir höndum og hafi unnið með í samvinnu við varnaraðila, Reykjavik Media ehf., og breska blaðið The Guardian. Enn síður er upplýst að þau gögn séu varðveitt með sömu skráarheitum og varakröfurnar vísa til. Þær eru því háðar sömu annmörkum og aðalkröfurnar sem áður hefur verið fjallað um og fara því einnig í bága við áskilnað d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýra og afdráttarlausa kröfugerð. 8        Fyrirmæli d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 eru ófrávíkjanleg. Skiptir þá ekki máli þótt vandasamt kunni að vera að setja fram kröfu sem er nægilega skýr og afdráttarlaus og stefnandi hafi leitað þeirra leiða sem lög nr. 91/1991 bjóða til að ljá kröfugerð sinni eins skýrt inntak og unnt er. Sá annmarki sem er á kröfugerð sóknaraðila leiðir til frávísunar á þeim kröfum sem um ræðir. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið ber að staðfesta ákvæði héraðsdóms þar sem kröfunum er vísað frá héraðsdómi. 9        Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í úrskurðarorði greinir. 10      Eftir að frestur sóknaraðila samkvæmt 3. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991 var liðinn lagði hann fram yfirlit með tilvísunum til dóma og fræðirita. Þar er að finna umfjöllun með viðbótarröksemdum fyrir málatilbúnaði sóknaraðila. Er það í andstöðu við framangreint lagaákvæði. Úrskurðarorð: Hin kærðu ákvæði héraðsdóms um að vísa frá dómi aðalkröfum og varakröfum sóknaraðila, Glitnis HoldCo ehf., á hendur varnaraðilum, Útgáfufélaginu Stundinni ehf. og Reykjavik Media ehf., um afhendingu gagna, eru staðfest.  Sóknaraðili greiði varnaraðilum hvorum fyrir sig 250.000 krónur í kærumálskostnað.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2018. I. Mál þetta var þingfest 31. október 2017 og dómtekið 5. janúar 2018. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru aðallega: 1.                       Að staðfest verði lögbann það sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 16. október 2017 við því að stefndi Útgáfufélagið Stundin ehf. birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum stefnanda, sem undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. 2.                       Að staðfest verði lögbann það sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 16. október 2017 við því að stefndi Reykjavik Media ehf. birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda, sem undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. 3.                       Að viðurkennt verði að stefnda, Útgáfufélaginu Stundinni ehf., sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda og undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. 4.                       Að viðurkennt verði að stefnda, Reykjavik Media ehf., sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda og undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. 5.                       Að stefnda, Útgáfufélaginu Stundinni ehf., verði gert að afhenda stefnanda öll gögn og afrit af þeim sem hann hefur í fórum sínum, hvort sem þau eru á rafrænu eða öðru formi, sem koma úr fórum eða kerfum stefnanda. 6.                       Að stefnda, Reykjavik Media ehf., verði gert að afhenda stefnanda öll gögn og afrit af þeim sem hann hefur í fórum sínum, hvort sem þau eru á rafrænu eða öðru formi, sem koma úr fórum eða kerfum stefnanda. Til vara krefst stefnandi: 7.                       Að staðfest verði lögbann það sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 16. október 2017 við því að stefndi Útgáfufélagið Stundin ehf. birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum stefnanda, sem undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, að því er varðar alls 1013 skjöl sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017. 8.                       Að staðfest verði lögbann það sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 16. október 2017 við því að stefndi Reykjavik Media ehf. birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda, sem undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, að því er varðar alls 1013 skjöl sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017. 9.                       Að viðurkennt verði að stefnda, Útgáfufélaginu Stundinni ehf., sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr alls 1013 skjölum úr fórum eða kerfum stefnanda sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017. 10.                   Að viðurkennt verði að stefnda, Reykjavik Media ehf., sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr alls 1013 skjölum úr fórum eða kerfum stefnanda sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017. 11.                   Að stefnda, Útgáfufélaginu Stundinni ehf., verði gert að afhenda stefnanda alls 1013 skjöl úr fórum eða kerfum stefnanda sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017, hvort sem þau eru á rafrænu eða öðru formi. 12.                   Að stefnda, Reykjavik Media ehf., verði gert að afhenda stefnanda alls 1013 skjöl úr fórum eða kerfum stefnanda sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017, hvort sem þau eru á rafrænu eða öðru formi. 13.                   Í öllum tilvikum krefst stefnandi að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins. Stefndi, Útgáfufélagið Stundin ehf., krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu, auk álags á málskostnað. Stefndi, Reykjavik Media ehf., krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu, auk álags á málskostnað. II. Málavextir Stefnandi, sem áður hét Glitnir banki hf., hélt úti almennri bankastarfsemi, þ.m.t. innlána- og fjárfestingarbankastarfsemi á grundvelli laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar bankans 7. október 2008 á grundvelli 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, og skipaði bankanum skilanefnd. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 voru tilteknar eignir og skuldir bankans færðar til nýs banka, Nýja Glitnis hf. Stefnandi átti þó áfram öll gögn sem höfðu tilheyrt starfsemi hans. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði stefnanda slitastjórn 11. maí 2009, á grundvelli 101. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 44/2009, til þess að annast slitameðferðina, sem síðar var staðfest með úrskurði héraðsdóms 22. nóv­em­ber 2010. Nauðasamningur komst á með stefnanda og kröfuhöfum hans 14. desember 2015. Á hluthafafundi stefnanda, sem haldinn var 23. desember 2015, var ákveðið að breyta félagaformi stefnanda í einkahlutafélag og breyta nafni hans í Glitni HoldCo ehf. Stefndi, Útgáfufélagið Stundin ehf., er fjölmiðlafyrirtæki, sem gefur út dagblaðið Stundina og heldur úti vefsíðunni www.stundin.is. Stefndi er fjölmiðill samkvæmt 13. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla. Stefndi, Reykjavik Media ehf., sem heldur úti vefsíðunni www.rme.is, er einnig fjölmiðill samkvæmt 13. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 38/2011. Í desember 2016 var í fjölmiðlum fjallað um viðskipti dómara við Hæstarétt Íslands sem tengdust stefnanda. Umfjöllunin hófst með frétt um hlutafjáreign Markúsar Sigurbjörnssonar, þáverandi forseta réttarins, sem birt var á heimasíðu Ríkisútvarpsins 5. desember 2016. Þeirri umfjöllun var fylgt eftir með umfjöllun í Kastljósi Ríkisútvarpsins og í kvöldfréttum Stöðvar 2 að kvöldi þess sama dags. Í kjölfarið fylgdi frekari umfjöllun um fjárhagsleg málefni dómara við Hæstarétt og Sigríðar Logadóttur, aðallögfræðings Seðlabanka Íslands. Í október 2017 voru birtar fréttir á vef og í dagblaði stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., sem sagðar voru afrakstur samvinnu blaðamanna stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., stefnda, Reykjavik Media ehf., og breska fjölmiðilsins Guardian. Samkvæmt fréttaumfjölluninni sjálfri byggði hún á gögnum „innan úr Glitni banka“. Í fréttunum var fjallað ítarlega um viðskipti nafngreindra viðskiptamanna stefnanda og tölvupóstsamskipti þeirra við bankann, sem og innbyrðis tölvupóstsamskipti fyrrverandi starfsmanna stefnanda um viðskiptamenn hans. Fyrsta umfjöllunin birtist 6. október 2017 í prentaðri útgáfu Stundarinnar en þar var fjallað um viðskipti Bjarna Benediktssonar, föður hans og föðurbróður, dagana fyrir hrun bankakerfisins. Í fréttinni sagði að Bjarni hefði selt fyrir rúmlega 50 milljónir króna í Sjóði 9 hjá Glitni banka á tímabilinu 2. til 6. október árið 2008 og þannig bjargað sjálfum sér frá því að tapa peningum í bankahruninu dagana á eftir. Í kjölfarið birti stefndi, Útgáfufélag Stundarinnar ehf., reglulega fréttir um fjárhagsleg málefni þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar. Í þeirri umfjöllun var einnig fjallað um fjárhagsleg málefni annarra einstaklinga, sem ýmist tengjast fyrrverandi forsætisráðherra fjölskylduböndum eða hafa starfað með honum á vettvangi viðskiptalífsins. Meðal þeirra eru Benedikt Sveinsson, Einar Sveinsson, Benedikt Einarsson, Guðrún Sveinsdóttir, Ingimundur Sveinsson, Jón Benediktsson, Sveinn Benediktsson, Hermann Guðmundsson, Hjalti Geir Kristjánsson, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir og Ásta Sigríður Einarsdóttir. Í fréttunum var einnig fjallað um fjárhagsleg málefni lögaðila sem höfðu verið viðskiptamenn stefnanda, til að mynda N1 hf., Hrómund ehf., Hafsilfur ehf., BNT hf., Hæng ehf. og Hólm ehf. Voru þar birtar viðskiptakvittanir úr kerfum stefnanda og skjáskot úr kerfum stefnanda sem sýndu persónuupplýsingar, upplýsingar um fjármál og upplýsingar um viðskipti viðskiptamanna hans. Auk þess voru birt tölvuskeyti og endurrit tölvuskeyta, bæði innbyrðis milli starfsmanna stefnanda og milli starfsmanna stefnanda og viðskipta­manna hans. Jafnframt voru birt vinnugögn úr fórum stefnanda, þ.m.t. minnisblöð og drög að bréfum sem aldrei voru send út. Stefnandi kveður að sér hafi þá orðið ljóst að þær upplýsingar sem stefndu hefðu undir höndum væru ekki aðgengilegar almenningi. Umfjöllunin væri byggð á gögnum sem stöfuðu frá stefnanda og væru undirorpnar trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndu hafi birt hluta af þeim gögnum sem þeir hafi sagst hafa undir höndum í umfjöllun sinni en í öðrum tilvikum hafi stefndu vísað til og fjallað um efni gagnanna án þess að birta gögnin sjálf. Stefnandi vísar til þess að frá 6. október 2017 til 13. október sama ár, þegar stefnandi lagði fram beiðni um lögbann hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, hafi verið birtar um tíu fréttir á vefnum stundin.is sem byggðar hafi verið á trúnaðargögnum í eigu stefnanda. Auk þess hafi fjórar opnur í dagblaðinu Stundinni, sem gefið var út 6. október 2017, verið unnar upp úr gögnunum. Aðrir miðlar hafi unnið fréttir úr framangreindri umfjöllun, svo sem Morgunblaðið (mbl.is), Fréttablaðið (visir.is), DV (dv.is), Ríkissjónvarpið (ruv.is) og erlendir fjölmiðlar. Stefnandi vísar einnig til þess að 6. október 2017 birti breski fjölmiðillinn Guardian frétt sem sögð var byggja á sömu gögnum. Fyrir liggur að engar frekari fréttir voru birtar upp úr gögnunum af hálfu Guardian. Eftir að stefnandi lagði fram lögbannsbeiðni hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu birtust tvær fréttir til viðbótar á vefnum www.stundin.is, 14. og 16. október 2017. Stefnandi kveður því að alls hafi birst a.m.k. tólf fréttir á vefnum www.stundin.is og fjórar opnur í dagblaðinu Stundinni, sem byggi á gögnum í eigu stefnanda og undirorpnar séu trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Stefnandi tilkynnti um gagnaleka til Fjármálaeftirlitsins að morgni 13. október 2017. Kveðst stefnandi hafa fengið það staðfest að upplýsingarnar einskorðuðust ekki við þá einstaklinga sem þegar hefði verið fjallað um heldur væru þetta upplýsingar um þúsundir fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna stefnanda, þar með talið upplýsingar um viðskipti aðila í einkabankaþjónustu, viðskipti aðila með hlutabréf í Glitni á árunum 2003 til 2008 og upplýsingar um viðskipti einstaklinga og lögaðila í sjóðum sem stefnandi hafi rekið. Stefnandi kveður upplýsingarnar ná yfir nokkurra ára tímabil og að þær séu verulega ítarlegar. Þetta séu meðal annars hreyfingalistar, útprentanir, vinnuskjöl, viðskiptayfirlit og tölvuskeyti fjölda starfsmanna. Vegna þessa hafi stefnandi talið nauðsynlegt að grípa strax til aðgerða. Rétt fyrir lok vinnudags 13. október 2017 krafðist stefnandi þess lögbanns sem nú er krafist staðfestingar á. Fulltrúi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og lögmaður stefnanda komu á ritstjórnarskrifstofu stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., 16. október 2017, til þess að taka fyrir lögbannsbeiðni stefnanda, dagsetta 13. október 2017. Af hálfu beggja stefndu er því haldið fram að fyrirtökur lögbannsbeiðninnar hafi verið fyrirvaralausar og gerðar í miklum flýti. Stefndu hafi þannig ekki verið tilkynnt um fyrirtökur lögbannsbeiðninnar, með vísan til 3. töluliðar 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989, um aðför, sbr. 3. mgr. 26. gr. og 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Samkvæmt endurriti úr gerðarbók sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu var beiðni stefnanda um lögbann á hendur stefnda Útgáfufélaginu Stundinni ehf. tekin fyrir kl. 16:15. Kemur þar fram að fyrirsvarsmaður stefnda, Jón Trausti Reynisson, hafi hist fyrir á skrifstofum stefnda og hann hafi lagt fram eftirfarandi skrifleg mótmæli: „Ákvörðun sýslumanns um lögbann á umfjöllun um viðskipti þingmanns, sem nú er forsætisráðherra, er gríðarlegt inngrip inn í opinbera umræðu í lýðræðisríki. Hún er einnig óréttlætanleg valdbeiting gegn stjórnarskrárbundnu tjáningarfrelsi. Fordæmi eru fyrir því að umfjöllun byggð á gögnum úr bankakerfinu, svokölluðum Panama-skjölum, hafi haft afgerandi áhrif á stjórnmálaumræðu í landinu. Upplýsingar um viðskipti kjörinna fulltrúa samhliða trúnaðarstörfum þeirra fyrir almenning eiga erindi til almennings. Hagsmunir almennings og opinberrar umræðu eru ríkari en hagsmunir fjármálafyrirtækja af því að halda leynd yfir viðskiptum í aðdraganda [hruns] bankakerfisins á Íslandi. Fulltrúar sýslumanns og lögmaður Glitnis mættu fyrirvaralaust á skrifstofu ritstjórnar Stundarinnar til þess að takmarka tjáningarfrelsi og upplýsingafrelsi. Mikið ójafnræði er á milli málsaðila í málinu. Annars vegar er fjármálafyrirtæki með gríðarlega fjármuni að baki sér. Hins vegar er lítið fjölmiðlafyrirtæki sem býr við erfitt rekstrarumhverfi. Fjölmiðillinn hefur ekki fengið tækifæri til að undirbúa málsvörn sína, líkt og fjármálafyrirtækið. Þá hefur Glitnir þegar sent út fréttatilkynningu um málið án þess að ritstjórnin eða fjölmiðlafyrirtækið hafi fengið tækifæri til að koma á framfæri sínu sjónarmiði í opinberri umræðu.“ Í gerðabók sýslumannsins er ekki tekin afstaða til þessara mótmæla heldur einungis bókað að sýslumaður leggi að kröfu stefnanda lögbann við því að stefndu „birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum gerðarbeiðanda, sem undirorpin eru trúnaði skv. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki“. Í framhaldinu kemur fram að stefnda hafi verið leiðbeint um þýðingu lögbannsins og mættu kynnt efni bókunarinnar.  Sama dag komu fulltrúi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og lögmaður stefnanda á ritstjórnarskrifstofu stefnda, Reykjavik Media ehf., sem einnig er heimili fyrirsvarsmanns félagsins og tóku fyrir lögbannsbeiðni stefnanda, dagsetta 13. október 2017. Samkvæmt gerðabók sýslumanns mótmæli fyrirsvarsmaður félagsins kröfu stefnanda. Þá mótmælti hann eigin aðild og aðild stefnanda að málinu. Vísaði hann þá til þess að það væri Stundin sem hefði birt þær fréttir sem lögbannið beindist gegn en ekki Reykjavík Media ehf. Stefnandi hefði því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá lögbann á hendur Reykjavík Media. Þá var kröfu stefnanda mótmælt efnislega. Í framhaldinu kemur fram að stefnda hafi verið leiðbeint um þýðingu lögbannsins og mættu kynnt efni bókunarinnar. Í gerðabók sýslumannsins var ekki tekin afstaða til þessara mótmæla heldur lögbannið staðfest með sama hætti og gagnvart stefnda Útgáfufélaginu Stundinni ehf. og tekið fram að stefnda hefði verið leiðbeint um þýðingu lögbannsins. Mál þetta er höfðað til staðfestingar dómstóla á framangreindu lögbanni. III. Málsástæður aðila   Málsástæður stefnanda Stefnandi byggir kröfu sína um lögbann á því að umfjöllunin byggi á gögnum sem samkvæmt stefndu sjálfum stafi frá stefnanda og varði fjármuni og viðskipti nafngreindra viðskiptamanna hans. Stefnandi telur ljóst að umræddum gögnum hafi verið stolið frá honum. Það sjáist meðal annars á því að í fréttaflutningi stefndu hafi verið vísað til draga að riftunarbréfi til eins viðskiptamanna stefnanda sem stefnandi hafði undirbúið en ekki sent frá sér. Stefnandi telur að gögn um framangreind drög að riftunarbréfi geti ekki stafað frá neinum öðrum en honum. Sama eigi við um skjáskot og skjöl úr kerfum stefnanda og tölvuskeyti milli fyrrverandi starfsmanna stefnanda, sem stefndu hafi birt með umfjöllun sinni. Mörg þessara gagna hafi ekki verið send til aðila sem staðið hafi utan stefnanda og gögnin hafi því ekki verið aðgengileg almenningi. Stefnandi viti ekki hver hafi staðið að því að koma umræddum gögnum í hendur stefndu, í trássi við þagnarskyldu laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en það sé til rannsóknar hjá embætti héraðs­saksóknara. Stefnandi kveður að fyrirhuguð hafi verið frekari umfjöllun sem byggi á umræddum gögnum og vísar um það til þess að í umfjöllun Guardian hafi komið fram að umfjöllunin sé unnin úr gríðarlega miklu magni af gögnum sem blaðamenn allra miðlanna þriggja hafi aðgang að. Ritstjóri og framkvæmdastjóri stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., Jón Trausti Reynisson, hafi með innleggi á Facebook-vegg sinn, 11. október 2017, skrifað: „Umfjöllun Stundarinnar um gögn sem fengin eru með samstarfi við The Guardian og Reykjavik media heldur áfram. [...]“ Stefnandi vísar einnig til þess að blaðamaður Stundarinnar, Jóhann Páll Jóhannsson, hafi með innleggi á Facebook-vegg sinn, 13. október 2017, skrifað: „Stundin heldur áfram fréttaflutningi af viðskiptum [...]. Gögnin sem Stundin og The Guardian hafa unnið upp úr varpa ljósi á [...].“ Stefnandi telur að þetta hafi gefið skýrt til kynna að umfjöllun stefndu hafi ekki verið lokið heldur hafi þeir enn verið að vinna úr hinum stolnu gögnum og að frekari frétta byggðum á þeim hafi verið að vænta. Það hafi verið staðfest með innleggi Jóhanns Páls á Facebook-vegg hans, eftir samþykkt lögbannsins 16. október 2017, þar sem hann skrifaði: „Við getum því miður ekki birt fleiri fréttir upp úr Glitnisgögnunum að sinni. [...]“ Þessi fyrirætlun stefndu hafi einnig verið staðfest með ummælum Jóns Trausta Reynissonar, meðal annars í frétt á www.visir.is 17. október 2017. Í fréttinni hafi verið haft eftir Jóni Trausta að umfjöllun stefndu um gögn frá stefnanda hafi ekki verið lokið. Stefnandi telur að ljóst sé af fréttaflutningi stefndu að þeir hafi undir höndum umtalsvert magn gagna um viðskipta- og einkamálefni fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna stefnanda. Stefndu hafi í umfjöllun sinni birt slík gögn og/eða upplýsingar sem unnar hafi verið upp úr gögnunum. Þá hafi verið ljóst að slíkri umfjöllun yrði fram haldið. Hafi stefnanda því verið nauðsynlegt að krefjast lögbanns við háttsemi stefndu 13. október 2017. Um aðild stefndu Stefnandi byggir á því að báðum stefndu sé réttilega stefnt í málinu. Í umfjöllun Stundarinnar hafi komið fram að fréttir hafi verið unnar upp úr gögnum innan úr stefnanda í samstarfi við stefnda, Reykjavik Media ehf., og breska blaðið Guardian. Því sé ljóst að báðir stefndu hafi gögn stefnanda undir höndum og að báðir hafi unnið að fréttaflutningi byggðum á þeim. Stefnandi kveður aðild stefndu til varnar byggja á 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Ljóst sé að skilyrði ákvæðisins séu fyrir hendi enda eigi kröfur hans rætur að rekja til sömu atvika og aðstöðu, þ.e. haldi stefndu á gögnum sem frá stefnanda stafa og vinnslu og birtingu upplýsinga úr þeim. Um staðfestingu lögbanns Stefnandi byggir kröfur sínar um staðfestingu lögbanns á því að öllum lagaskilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., fyrir álagningu lögbanns hafi verið fullnægt og því hafi sýslumaðurinn á höfuðborgar­svæðinu réttilega lagt lögbann við athöfnum stefndu í samræmi við 1. og 2. tölulið dómkrafna stefnanda. Hvað varði fyrsta skilyrðið um yfirvofandi eða byrjaða athöfn, þá leiki ekki vafi á að stefndu hafi þegar hafið þá athöfn sem lögbannsbeiðnin nái til og að frekari athafnir hafi verið yfirvofandi. Þannig hafi stefndu þegar verið búnir að birta fjölmargar fréttir sem byggðar hafi verið á gögnum í eigu stefnanda, sem bundin séu bankaleynd samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Í þeim fréttum hafi verið fjallað um og birt gögn um viðskipta- og einkamálefni fyrrverandi og núverandi viðskiptamenn stefnanda. Stefndu hafi því komið á ákveðnu ástandi sem einungis hafi verið hægt að stöðva með lögbanni, samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Stefnandi vísar einnig til þess að stefndu og starfsmenn þeirra hafi auk þess lýst því yfir að von væri á frekari fréttaumfjöllun sem byggði á gögnunum. Stefndu hafi síðan staðfest þetta eftir að lögbann hafi verið lagt á með yfirlýsingum um að þeir hafi ekki verið búnir að birta allt það sem þeir hafi viljað úr umræddum gögnum. Frekari athafnir, sem brotið hefðu gegn réttindum stefnanda, hafi því verið yfirvofandi í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Stefnandi byggir á því að birting stefndu á fréttum og annarri umfjöllun, sem byggð hafi verið á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum stefnanda, sé í andstöðu við 58. gr. laga nr. 161/2002 og ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í því sambandi vísar stefnandi til þess að þær upplýsingar sem stefndu hafi yfir að búa um stefnanda og fyrrverandi og núverandi viðskiptamenn hans njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, um friðhelgi einkalífs. Birting stefndu á upplýsingum úr gögnunum brjóti því gegn stjórnarskrárvörðum réttindum stefnanda og fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna hans. Að mati stefnanda geti áframhaldandi birting upplýsinga úr gögnum sem stafi frá stefnanda mögulega leitt til skaðabótaskyldu hans. Hafi sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu því verið rétt að leggja lögbann við athöfnum stefndu til að tryggja að ekki yrði frekar brotið gegn rétti stefnanda. Um frekari málsástæður og lagarök um lögvarinn rétt stefnanda sé vísað í heild til þeirrar umfjöllunar sem hér á eftir kemur. Þá byggir stefnandi á því að réttarreglur um refsingu og skaðabætur tryggi ekki nægilega rétt stefnanda og að réttindi hans fari forgörðum yrði beðið dóms. Einnig byggir stefnandi á því að ekki sé stórfelldur munur á hagsmunum stefnanda og stefndu. Stefnandi kveður það útilokað að hann hefði getað tryggt hagsmuni sína og fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna sinna með öðrum hætti en lögbanni og að réttindi þeirra allra hefðu farið forgörðum eða orðið fyrir teljandi spjöllum hefði ekki verið fallist á lögbannsbeiðni stefnanda. Skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 séu uppfyllt hvað þetta varðar. Vísar stefnandi til þess að tvær fréttir hafi verið birtar sem byggt hafi á umræddum gögnum frá því að stefnandi hafi krafist lögbannsins 13. október 2017 þar til að fallist hafi verið á kröfur hans 16. s.m. Með lögbanninu hafi stefnandi, sem eigandi og ábyrgðarmaður þeirra gagna sem frá honum stafi, leitast við að koma í veg fyrir frekari brot gegn 58. gr. laga nr. 161/2001, ákvæðum laga nr. 77/2000 og réttindum stefnanda og fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna hans samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Stefndi, Útgáfufélag Stundarinnar ehf., hafi áður en lögbannið var sett birt nær daglega fréttir sem unnar hafi verið úr gögnunum, í samstarfi við stefnda, Reykjavik Media ehf. Legið hafi fyrir að umfjöllun á grundvelli gagnanna yrði haldið áfram. Stefnandi vísar til þess að umrædd gögn séu ekki aðgengileg almenningi enda hafi þau að geyma upplýsingar sem undiropnar séu þagnarskyldu. Birting þeirra á almennum vettvangi hefði fyrirgert þeim trúnaði sem þeim sé tryggður með lögum. Reglur um refsingu eða skaðabætur hefðu því ekki getað tryggt rétt stefnanda. Eina úrræðið sem hafi komið til greina til að tryggja trúnað um upplýsingarnar hafi verið að koma í veg fyrir birtingu þeirra. Stefnandi byggir einnig á því að sú vernd sem reglur skaðabótaréttar veiti sé ekki til þess fallin að tryggja hagsmuni hans nægilega. Til dæmis liggi ekki fyrir hver beri ábyrgð á því að gögnin hafi komist í hendur stefndu. Þá verði jafnframt að telja verulegum annmörkum háð fyrir stefnanda að sýna fram á að skilyrðum skaðabótaskyldu stefndu sé fullnægt. Auk þessa verði að telja verulegan vafa leika á því hvort stefndu hefðu bolmagn til að bæta það tjón sem kunni að verða vegna birtingu gagnanna og upplýsinga úr þeim. Í því sambandi vísar stefnandi til þess að samkvæmt ársreikningum stefndu fyrir árið 2016 sé eiginfjárstaða þeirra veik. Eigið fé stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., hafi verið jákvætt um 2.887.804 krónur í lok árs 2016 og eigið fé stefnda, Reykjavik Media ehf., jákvætt um 5.609.116 krónur. Einnig verði að líta til þess að þótt ljóst megi vera að um fjárhagslegt tjón sé að ræða þá sé illmögulegt að segja til um hvert tjón af birtingu efnisins kunni að verða. Til að mynda er erfitt að áætla um hversu marga viðskiptamenn stefnanda upplýsingar hefðu verið birtar án lögbanns. Vísar stefnandi til þess að í nýlegri frétt stefndu hafi verið að finna upplýsingar um lánveitingar til svokallaða „Engeyinga“ og viðskiptafélaga þeirra. Þar hafi verið að finna upplýsingar um lánveitingar til einstaklinga, kennitölur þeirra og reikningsnúmer. Þá sé erfitt að mæla það tjón á ímynd og orðspori stefnanda sem af háttsemi stefndu hlýst. Af þeim sökum leiði ólögmæt háttsemi stefndu til skerðingar á réttindum stefnanda og fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna stefnanda þannig að ekki verði bætt úr síðar. Stefnandi vísar til þess að almennar reglur skaðabótaréttarins leggi þær skyldur á tjónþola að hann takmarki tjón sitt eftir föngum. Það hafi því verið nauðsynlegt fyrir stefnanda að grípa til þeirra úrræða sem honum voru tæk, þar á meðal að óska eftir lögbanni til að stöðva yfirvofandi athafnir sem leitt hafi getað til frekara tjóns af völdum gagnalekans. Að öllu framansögðu virtu kveðst stefnandi hafa sýnt fram á að uppfyllt séu skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 og því beri að taka til greina 1. og 2. lið dómkrafna hans um staðfestingu lögbannsins. Um kröfur stefnanda um að viðurkennt verði að stefndu sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda. Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, séu stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins, bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varði viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar sé sá sem veiti viðtöku upplýsingum af því tagi sem í 1. mgr. greini bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greini. Stefnandi byggir á því að orðalag ákvæðisins sé fortakslaust og það taki til allra sem veiti slíkum upplýsingum viðtöku. Engin takmörk séu sett við tiltekinn flokk viðtakenda og eigi ákvæðið því einnig við um blaðamenn. Þá sé ekkert að finna í lögskýringagögnum sem gefi til kynna að gildissvið ákvæðisins sé takmarkað hvað varði viðtakendur upplýsinganna. Því verði að túlka ákvæðið eftir orðanna hljóðan þannig að það taki til fjölmiðla líkt og annarra. Stefnandi byggir á því að ekki sé nægjanlegt fyrir hann að fara fram á að stefndu sjálfum sé óheimilt að birta fréttir sem byggi á umræddum gögnum, heldur hafi hann einnig lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkennt með dómi að stefndu sé óheimilt að fá birtar eða láta birta, á öðrum miðlum, fréttir sem byggi á gögnunum. Vísar stefnandi til þess að stefndi, Reykjavik Media ehf., hafi í umfjöllun um annað mál unnið með Kastljósi Ríkisútvarpsins að flutningi frétta og afrakstur þeirrar vinnu hafi verið birtur á vettvangi Kastljóss. Því sé það einnig nauðsynlegt að viðurkennt verði með dómi að stefndu sé ekki aðeins óheimilt að birta umfjöllun byggða á gögnunum á sínum eigin vettvangi, hvort heldur sé í prent- eða vefútgáfum, heldur einnig að þeim sé óheimilt að birta slíka umfjöllun í samstarfi við aðra miðla á vettvangi þeirra. Stefnandi kveður að þau gögn sem málið varði innihaldi upplýsingar um viðskipta- og einkamálaefni viðskiptamanna stefnanda sem starfað hafi sem fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002 þegar upplýsingarnar hafi orðið til. Gögnin innihaldi upplýsingar um viðskipti þúsunda fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna stefnanda, þar með talið um viðskipti aðila í einkabankaþjónustu, viðskipti aðila með hlutabréf í Glitni á árunum 2003 til 2008 og um viðskipti einstaklinga og lögaðila í sjóðum sem stefnandi hafi rekið. Nái upplýsingarnar yfir nokkurra ára tímabil. Nánar tiltekið sé um að ræða hreyfingalista, útprentanir, vinnuskjöl, viðskiptayfirlit, tölvupósta o.fl. Það sé því ljóst að afhending gagnanna til stefndu hafi brotið gegn 58. gr. laga nr. 161/2002 enda sé afhending upplýsinganna sem þar greini óheimil nema að skylt sé að veita þær samkvæmt lögum. Jafnframt sé ljóst að birting stefndu á umræddum gögnum, ásamt fréttum og annarra umfjöllun byggða á gögnunum, sé í andstöðu við ákvæði 1. og 2. mgr. 58. gr. laganna. Sá sem móttaki upplýsingar sem þar greini sé enda bundinn af trúnaði með sama hætti og starfsmenn fjármálafyrirtækis. Í athugasemdum við ákvæði 58. gr. í frumvarpi að lögum nr. 161/2002 komi fram að miðlun trúnaðarupplýsinga leiði ekki til þess að trúnaðinum sé aflétt gagnvart öðrum en móttakanda upplýsinganna. Þá telur stefnandi að gögnin hafi borið með sér að stafa frá fjármálafyrirtæki og að þau væru undirorpin trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Því geti stefndu ekki talist hafa verið í góðri trú um að þeim væri heimilt að greina frá þeim. Stefnandi kveður þær upplýsingar sem stefndu hafi yfir að búa um starfsemi hans og fyrrverandi og núverandi viðskiptamenn hans njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, til friðhelgi einkalífs. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hafi verið staðfest að á aðildarríkjum hvíli ekki aðeins skylda til þess að forðast að brjóta gegn friðhelgi einkalífsins heldur og jafnframt almenn skylda til þess að tryggja raunhæf réttindi samkvæmt sáttmálanum. Þótt fjölmiðlar njóti almennt verndar tjáningar­frelsisákvæðis 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, geti þau réttindi ekki ein og sér heimilað stefndu að birta upplýsingar úr ólöglega fengnum gögnum um einkamálefni annarra aðila sem jafnframt njóti ríkrar verndar. Af 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 2. mgr. 10. gr. mannréttinda­sáttmála Evrópu, leiði jafnframt að heimilt sé að takmarka tjáningarfrelsi að því gefnu að slík takmörkun uppfylli þrjú tiltekin skilyrði. Kveðst stefnandi byggja á því að þau skilyrði séu fyrir hendi. Stefnandi kveður fyrsta skilyrðið vera að um slíka takmörkun sé mælt í lögum. Þetta skilyrði byggi fyrst og fremst á þeim forsendum að borgurunum þurfi að vera ljósar þær skorður sem þeim séu settar og að þeir geti hagað sér í samræmi við það. Þá megi hin lögmælta takmörkun ekki vera of almenn heldur verði hún að vera bundin við ákveðnar aðstæður eða tilvik, þannig að ekki leiki vafi til hvaða aðstæðna hún nær. Ljóst sé að þetta skilyrði sé fyrir hendi. Þannig sé sérstaklega kveðið á um það í 1. og 2. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 að þeir sem fái upplýsingar um viðskipta- og einkamálaefni viðskiptamanna fjármálafyrirtækja séu bundnir þagnarskyldu. Þessi lögmælta takmörkun á tjáningarfrelsi sé skýr og afmarkað sé við hvaða aðstæður hún gildi. Stefnandi kveður annað skilyrðið vera að slík takmörkun byggi á lögmætum markmiðum. Í þessu skilyrði felist að takmörkunin verði að vera studd við eitthvert þeirra markmiða sem talin séu í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, þ.m.t. réttindi og mannorð annarra. Það sé ekki nauðsynlegt að markmiðið sé orðað nákvæmlega í lagaheimildinni sjálfri en það þurfi hins vegar að vera unnt að sýna fram á tengsl þess við 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Ljóst sé að þetta skilyrði sé uppfyllt, enda sé ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 ætlað að vernda réttinn til friðhelgi einkalífs. Sérstaklega sé kveðið á um að þagnarskyldan gildi um allt það sem varði viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna og önnur atriði sem leynt skuli fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hafi verið staðfest að verndun upplýsinga sem undirorpnar séu trúnaði, þ.m.t. viðskipta- og fjárhagsupplýsinga, sé lögmætt markmið. Tilgangur 58. gr. laga nr. 161/2002 sé að vernda réttindi annarra og af því leiði að ákvæðið byggi á lögmætum markmiðum samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi kveður þriðja skilyrðið vera að takmörkun á tjáningarfrelsi þurfi að vera nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi. Af dómum Mannréttindadómstóls Evrópu leiði að tjáningarfrelsið sé hvorki algjört né án takmarkana þegar það rekst á önnur réttindi sáttmálans heldur beri ríkinu skylda til þess að meta það hvort slík réttindi réttlæti takmörkun á tjáningarfrelsinu. Ríkið hafi rúmt svigrúm til mats við að finna jafnvægi milli réttinda sem takist á. Stefnandi telji ljóst að þetta skilyrði sé uppfyllt enda hafi löggjafinn talið sérstaka ástæðu til þess að vernda upplýsingar sem safnist hjá fjármálafyrirtækjum um viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna. Í þeirri lagasetningu felist að farið hafi fram mat á hinum gagnstæðu hagsmunum, annars vegar friðhelgi einkalífs og hins vegar tjáningarfrelsi. Það liggi fyrir að stefndu hafi nú þegar með ólögmætum hætti fengið afhentar margs konar og viðkvæmar fjárhags­upplýsingar og upplýsingar um einkamálefni, sem og um eignir og skuldir einstaklinga og lögaðila og um tölvupóstsamskipti einstaklinga við stefnanda. Löggjafinn hafi talið nauðsynlegt að vernda einstaklinga og lögaðila fyrir birtingu slíkra gagna og hafi viðskiptamenn stefnanda því rétt á því lögum samkvæmt að um slík gögn sé ekki fjallað opinberlega eða þau rædd í fjölmiðlum. Stefnandi undirstriki í þessu sambandi að því fari fjarri að allir þeir viðskiptamenn stefnanda sem fjallað hafi verið um í fréttaflutningi stefndu teljist til opinberra persóna. Þvert á móti hafi þar verið að finna persónuupplýsingar og fjárhagsupplýsingar um einstaklinga sem ekki séu opinberar persónur eða gegni opinberum stöðum og eigi ekkert erindi við almenning. Að auki sé að minnsta kosti hluti þeirra upplýsinga sem birtar hafi verið um opinbera persónu ekki þess eðlis að þær falli undir almannahagsmuni og eigi erindi til almennings. Stefnandi kveður stefndu hafa tekið á móti upplýsingum um þúsundir slíkra einstaklinga og hafi þegar birt upplýsingar um suma þeirra. Undir slíkum kringumstæð­um sé ótækt að telja stefndu heimilt að móttaka og sitja á slíku magni gagna sem undirorpin séu trúnaði og eiga ekkert erindi við almenning og sigta í gegnum þau í leit að fréttaefni. Þótt hluti gagnanna varði opinberar persónur þá sé ljóst að yfirgnæfandi hluti þeirra varði þær ekki. Verði, þegar um jafn umfangsmikinn gagnastuld sé að ræða, að vega hagsmuni hins yfirgnæfandi meirihluta, það er þeirra einstaklinga og lögaðila sem ekki teljist opinberar persónur, þyngra og ekki heimila stefndu umráð gagnanna og leit í þeim að einhverju til birtingar, í andstöðu við lögverndaðan rétt einstaklinga og lögaðila. Stefnandi vísar til þess að öðrum kosti myndu stefndu hafa, um ófyrirséða framtíð, yfir að ráða gríðarlega stórum gagnabanka sem hafi að geyma upplýsingar um viðskipta- og einkamálefni þúsunda einstaklinga og lögaðila. Stefnandi byggir á því, með vísan til alls framangreinds, að takmörkun 1. og 2. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 á tjáningarfrelsi stefndu uppfylli öll skilyrði 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi byggir einnig á því að varðveisla stefndu á gögnum og umfjöllun þeirra um viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna stefnanda feli í sér brot gegn lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Vinnsla persónuupplýsinga, þar með talin varðveisla þeirra og birting, sé óheimil nema að eitthvert skilyrða 8. gr., og eftir atvikum 9. gr., laga nr. 77/2000 sé fyrir hendi. Ekki sé ástæða til að víkja frá ákvæðum laganna til að samræma rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar, sbr. 5. gr. laga nr. 77/2000, eins og nánar hefur verið rakið hér að framan. Auk framangreinds telur stefnandi að birting upplýsinganna geti mögulega leitt til skaðabótaskyldu stefnanda. Fyrir liggi að umtalsverðu magni gagna hafi verið stolið úr vörslu stefnanda. Þar á meðal séu persónu- og fjárhagsupplýsingar sem varði núverandi og fyrrverandi viðskiptamenn stefnanda, svo sem um eignir þeirra og skuldir, viðskipti og samskipti við stefnanda. Ljóst sé að birting slíkra upplýsinga geti rýrt orðspor einstaklinga, valdið þeim verulegum óþægindum, vanlíðan og andlegum þjáningum. Verði talið að varðveisla stefnanda á upplýsingunum hafi ekki verið fullnægjandi geti það leitt til þess að stefnanda verði gert að bæta það tjón sem viðskiptamenn hans verði fyrir vegna birtingu upplýsinganna. Áframhaldandi birting upplýsinganna geti því valdið verulegu tjóni fyrir stefnanda. Um kröfur stefnanda um að stefndu verði gert að afhenda öll gögn, úr fórum eða kerfum stefnanda, og afrit af þeim. Stefnandi krefst þess að stefndu verði, hvorum um sig, gert að afhenda stefnanda öll gögn, sem komi úr fórum eða kerfum stefnanda, og afrit af þeim, sem þeir hafa undir höndum, hvort sem þau séu á stafrænu eða öðru formi. Stefnandi byggir þessa kröfu á því að gögnin séu hans eign. Stefndu beri þar af leiðandi að skila gögnunum og afritum af þeim aftur til stefnanda, sem sé réttur eigandi þeirra. Eins og áður hafi komið fram hafi gögnunum verið stolið úr fórum og kerfum stefnanda og séu þau nú, samkvæmt yfirlýsingum stefndu, í höndum þeirra. Stefnandi vísar til þess að hald stefndu á gögnunum sé í andstöðu við 58. gr. laga nr. 161/2002, ákvæði laga nr. 77/2000, 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Verði umrædd gögn ekki afhent sé verið að viðhalda ólögmætu haldi stefndu á gögnunum í andstöðu við nefnd ákvæði og eignarétt stefnanda. Jafnvel þótt talið yrði að stefndu væri þrátt fyrir þetta heimilt að fjalla um afmarkaðan hluta þessara gagna, á grundvelli 73. gr. stjórnarskrárinnar, og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, myndi það ekki leiða til þess að stefndu væri heimilt að halda gögnunum í heild sinni. Um þetta vísi stefnandi til þess sem að framan sé rakið um að upplýsingarnar varði viðskipti þúsunda fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna stefnanda. Ljóst sé að stefndu geti ekki réttlætt hald sitt á upplýsingum um viðskipta- og einkamálefni þessara aðila á sjónarmiðum um vernd tjáningarfrelsis. Stefnandi kveðst, með vísan til 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, skora á stefndu að leggja fram þau gögn sem þeir hafa undir höndum og koma „innan úr“ stefnanda, eins og þeim hafi verið lýst í fréttaumfjöllun stefndu. Nánar tiltekið skori stefnandi á stefndu að leggja fram öll gögn sem þeir hafi undir höndum og komi úr fórum eða kerfum stefnanda. Þar sem gögnin falli undir þagnarskylduákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 telji stefnandi rétt að gögnin verði lögð fyrir dómara í trúnaði og gegn þagnarskyldu, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi byggir á því að verði stefndu ekki við áskorun hans verði að leggja frásögn hans um efni gagnanna til grundvallar í málinu. Stefnandi kveður gögnin innihalda upplýsingar um viðskipti þúsunda fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna stefnanda, þar með talið upplýsingar um viðskipti aðila í einkabankaþjónustu, viðskipti aðila með hlutabréf í Glitni á árunum 2003 til 2008 og upplýsingar um viðskipti einstaklinga og lögaðila í sjóðum sem stefnandi hafi rekið, eins og að framan greini. Stefnandi byggir kröfu um staðfestingu lögbannsins á 1. mgr. 24. gr. og VI. kafla laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Stefnandi byggir einnig á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, einkum 58. gr. laganna, lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, einkum 8. gr. laganna, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkum 71. og 73. gr. hennar, mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, einkum 8. og 10. gr. sáttmálans, og á almennum reglum skaðabótaréttar. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá byggir stefnandi á því að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostnaðar við rekstur lögbannsmálsins fyrir sýslumanni. Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991. Þá byggir stefnandi málshöfðun þessa á 36. gr. laga nr. 31/1990. Málsástæður stefndu Málatilbúnaður stefndu er að mestu leyti samhljóða og var mál þeirra flutt sameiginlega við aðalmeðferð málsins. Verða málsástæður stefndu því reifaðar í einu lagi hér. Um meðferð málsins hjá sýslumanni Stefndu byggja á því að þeir hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð við meðferð málsins hjá sýslumanni, samkvæmt 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 70. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki hafi verið jafnræði með aðilum (e. equality of arms) enda stefnandi í yfirburðarstöðu í ýmsu tilliti. Stefnandi hafi í fyrsta lagi yfirburðarstöðu fjárhagslega. Stefnandi sé eignarhaldsfélag sem haldi utan um eignir kröfuhafa fallins banka. Stefndu séu hins vegar báðir sjálfstæðir, litlir fjölmiðlar. Í krafti fjárhagslegrar yfirburðarstöðu sinnar hafi stefnandi farið fram á lögbann við umfjöllun stefndu. Stefnandi hafi haft nægan tíma og fjárhagslega burði til þess að undirbúa slíka beiðni, með aðstoð lögmanna. Í beiðninni hafi verið farið fram á að stefndu yrði ekki tilkynnt um gerðirnar fyrirfram með vísan til 3. töluliðar 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989, um aðför, sbr. 3. mgr. 26. gr. og 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., þvert á almennan rétt gerðarþola. Þrátt fyrir að stefnandi hafi ekki rökstutt í lögbannsbeiðni hvernig skilyrði séu fyrir beitingu þessa undantekningarákvæðis, hafi fulltrúi sýslumanns fallist á þessa kröfu, einnig án rökstuðnings. Stefndu telji þetta augljóst merki þess að yfirvaldið hafi dregið taum stefnanda í málinu enda hafi með þessu verið komið á algjöru ójafnræði milli aðila án þess að rök byggju að baki. Með ofangreindum hætti hafi verið brotið gegn 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um rétt á rökstuddum ákvörðunum (e. reasoned judgment). Skilyrði 3. töluliðar 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989, séu enn fremur ekki uppfyllt. Stefndu kveða að þegar komið hafi verið á ritstjórnarskrifstofur þeirra til þess að leggja á umþrætt lögbann, hefðu fréttir verið fluttar um efnið í marga mánuði. Fréttirnar hefðu borið með sér að ritstjórn hefði farið gaumgæfilega yfir hvað ætti erindi til almennings og unnið fréttir í einhvern tíma. Stefnandi hafi ekki óskað eftir lögbanni strax og fréttir hafi farið að birtast heldur mörgum mánuðum síðar og hafi hann með aðgerðum sínum sýnt að ekki séu skilyrði fyrir beitingu undanþágureglu 3. töluliðar 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989. Í lögbannsbeiðni stefnanda sé varakrafa, sbr. 2. mgr. 29. gr. l. nr. 31/1990, en í málinu sé ekki fjallað um hvaða mat hafi farið fram á aðal- og varakröfum stefnanda, hvorri gagnvart annarri. Sýslumaður hafi því gengið lengra en nauðsyn hafi krafið, án rökstuðnings og á kostnað þess að stefndu gætu notið réttlátrar málsmeðferðar. Þá kveðst stefndi, Reykjavik Media ehf., ekki hafa birt fréttirnar heldur hafi það verið stefndi, Útgáfufélag Stundarinnar ehf., unnið upp úr gögnunum í samstarfi við Reykjavik Media ehf. Því hafi ekki verið skilyrði til að víkja frá þeirri meginreglu og grundvallarrétti stefnda, Reykjavik Media ehf., að boða hann til fyrirtöku gerðarinnar enda engir hagsmunir í húfi sem gætu réttlætt slíkt, að teknu tilliti til aðstæðna. Að mati stefndu hafi málsmeðferð sýslumanns, boðunarleysi og skortur á rökstuðningi, styrkt yfirburðarstöðu stefnanda enn frekar. Lögmaður stefnanda hafi gætt hagsmuna hans við gerðina en stefndu hafi ekki fengið að njóta slíkrar aðstoðar nema að takmörkuðu leyti í gegnum síma og án nægilegs undirbúnings. Stefndu kveða að mikill asi hafi verið við fyrirtöku lögbannsbeiðni stefnanda. Stefndi, Útgáfufélag Stundarinnar ehf., kveður að sér hafi aðeins verið gefnar um 10-15 mínútur til að kynna sér framkomna beiðni og gerðinni svo fram haldið án þess að lögmaður hans gæti verið viðstaddur. Fyrirsvarsmanni stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., hafi verið gefnar nokkrar mínútur til að rita bókun en áður en hann hafi klárað bókunina hafi honum verið tilkynnt að ekki væri hægt að bíða lengur, ljúka þyrfti gerðinni. Þá hafi fulltrúi sýslumanns tilkynnt fyrirsvarsmanni stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., frá öndverðu að til stæði að fallast á lögbannsbeiðnina og að hann vildi því hraða fyrirtökunni eins og kostur væri. Fyrirsvarsmaður stefnda hafi þó náð að gera lögmanni stefnanda grein fyrir því að krafa í lögbannsbeiðni um að stefnda yrði gert að fjarlægja allar fréttir á vefsíðu sinni stæðist ekki og hafi sú krafa verið dregin til baka. Þá hafi sýslumaður fallist á andmæli stefnda um að krafa stefnanda um afhendingu sýslumanns á afritum gagna frá heimildarmönnum bryti gegn 25. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla. Aðrar mótbárur stefnda hafi ekki verið teknar til greina, þ.m.t. andmæli við lögbannið, og hafi fulltrúi sýslumanns fallist á beiðni stefnanda um að „lögbann verði lagt þá þegar við birtingu gerðarþola, Útgáfufélagsins Stundarinnar ehf. (...) á fréttum eða annarri umfjöllun byggðri á eða unna upp úr fórum eða kerfum gerðarbeiðanda, sem undiropin eru trúnaði skv. 58. gr. l. nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Óskað er eftir því að lögbannið taki bæði til birtingar gagnanna í heild eða hluta og/eða upplýsinga úr gögnunum eða efnislegrar umfjöllunar um þær“. Stefndi, Reykjavik Media ehf., kveður með sama hætti að fulltrúi sýslumanns hafi tilkynnt fyrirsvarsmanni hans frá öndverðu að til stæði að fallast á lögbannsbeiðnina enda hefði þegar verið lagt lögbann á meðstefnda, Útgáfufélag Stundarinnar ehf. Fulltrúi sýslumanns hefði því viljað hraða fyrirtökunni eins og kostur væri. Ekki hafi verið gert hlé til þess að stefndi gæti notið lögmannsaðstoðar á staðnum en þar sem fyrirsvarsmaður hans hefði fengið fregnir, m.a. úr fjölmiðlum, af því að lögbann hefði verið lagt á meðstefnda hefði hann náð að hringja í lögmann sem hafi verið í símanum meðan lögbannsgerðin hafi farið fram. Með sama hætti og gagnvart meðstefnda hefði krafa stefnanda um að stefnda yrði gert að fjarlægja allar fréttir á vefsíðu sinni verið dregin til baka. Einnig hafi sýslumaður fallist á andmæli stefnda um að krafa um afhendingu sýslumanns á afritum gagna frá heimildarmönnum bryti gegn 25. gr. laga nr. 38/2011. Ekki hafi verið fallist á aðrar mótbárur stefnda og hafi fulltrúi sýslumanns fallist á beiðni stefnanda um að „lögbann verði lagt þá þegar við birtingu gerðarþola, Reykjavik Media ehf. (...) á fréttum eða annarri umfjöllun byggðri á eða unna upp úr fórum eða kerfum gerðarbeiðanda, sem undiropin eru trúnaði skv. 58. gr. l. nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Óskað er eftir því að lögbannið taki bæði til birtingar gagnanna í heild eða hluta og/eða upplýsinga úr gögnunum eða efnislegrar umfjöllunar um þær“. Með þessu hafi jafnræði aðila verið raskað verulega, í andstöðu við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 70. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndu álíta að þeir hafi því ekki fengið nægan tíma til undirbúnings málsvarnar í máli sem varði tjáningarfrelsi fjölmiðla og flókin lagatæknileg atriði. Stefndu telja vítavert að fulltrúi sýslumanns hafi látið gerðirnar fram ganga við þessar aðstæður, án þess að leiðbeina stefndu um réttindi þeirra og stöðu, sbr. 27. gr. laga nr. 31/1990, og veita þeim raunhæfan kost á að undirbúa vörn sína og njóta aðstoðar lögmanns. Þetta hafi verið til þess að auka á upplifun stefndu af valdníðslu. Stefndu byggja á því að sýslumaður hafi, við gerðirnar, brotið gegn lagaákvæðum um leiðbeiningaskyldu, gengið lengra en nauðsyn hafi krafið og þar með brotið gegn meðalhófsreglunni og misfarið með vald. Stefndi, Útgáfufélag Stundarinnar ehf., vísar til þess að fyrirsvarsmaður félagsins hafi ekki fengið nægilegan tíma til að ljúka við ritun bókunar við gerðina og verði að telja að brotið hafi verið gegn grundvallarrétti stefnda til réttlátrar málsmeðferðar með því offorsi sem var við gerðina. Brotið hafi verið gegn jafnræði aðila og gengið mun lengra en nauðsyn hafi krafið. Stefndi, Reykjavik Media ehf., telur einnig að brotið hafi verið gegn grundvallarrétti hans til réttlátrar málsmeðferðar með því offorsi sem var við gerðina og að brotið hafi verið gegn jafnræði aðila og gengið mun lengra en nauðsyn hafi krafið. Stefndu kveða að þeim hafi verið tilkynnt að fyrir lægi að lögbannið yrði samþykkt. Telja verði að þessi fyrirfram mótaða afstaða fulltrúa sýslumanns til ágreiningsefnisins, áður en stefndu hafi fengið færi á að færa rök fyrir máli sínu, sanni að yfirvaldið hafi dregið taum stefnanda. Þessu til stuðnings vísa stefndu til þess að stefnandi hafi lagt fram tryggingu áður en komið hafi verið á ritstjórnarskrifstofur stefndu en engin efnisleg umfjöllun hafi farið fram um þá fjárhæð sem stefnandi hafi lagt fram eða hvort hún væri nægileg í ljósi aðstæðna. Stefndu telji trygginguna allt of lága og úr samhengi við tryggingar í sambærilegum málum. Hún taki ekki mið að því að fjölmiðlaumfjöllun sé atvinnurekstur stefndu og að með lögbanninu hafi stefnandi valdið stefndu gríðarlegu tjóni. Um yfirburðarstöðu stefnanda vísa stefndu einnig til tengsla málsins við þáverandi forsætisráðherra. Umfjöllun Stundarinnar hafi varðað tengsl þáverandi forsætisráðherra og Glitnis, fyrirrennara stefnanda, og samtvinnun fjárhagslegra hagsmuna þeirra. Einnig sé fjallað um þessi tengsl í þekktri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í lok síðasta árs hafi ýmsir fjölmiðlar fjallað um fjárhagsleg málefni dómara við Hæstarétt Íslands innan Glitnis, þ. á m. Stundin. Svo virðist sem stefnandi hafi einhverra hluta vegna ekki haft áhuga á að krefjast lögbanns á þá umfjöllun, sem í eðli sínu hafi verið eins og sú umfjöllun sem nú sé krafist lögbanns á. Eins verði ekki litið framhjá umfjöllun Ríkisútvarpsins um sömu málefni og sem virðist vera á grundvelli sömu gagna og hér um ræði. Stefnandi hafi ekki talið ástæðu til að krefjast lögbanns á umfjöllun Ríkisútvarpsins eða á umfjöllun breska blaðsins Guardian, sem einnig hafi fjallað um gögnin. Umfjöllun Guardian sé enn í gangi, þvert á það sem stefnandi byggi á í stefnu málsins en hann hafi ekki farið fram á lögbann á þá umfjöllun. Stefndu vísa til þess að það hafi ekki verið fyrr en 13. október 2017, eftir að stefndi, Útgáfufélag Stundarinnar ehf., hafi farið að fjalla um málefni þáverandi forsætisráðherra og fjölskyldu hans, sem stefnandi hafi farið fram á lögbann vegna umfjöllunar um Glitni banka. Sú tímasetning og val stefnanda á umfjöllun sem hann telji ekki þola dagsljósið veki athygli. Þegar stefnandi hafi krafist lögbannsins hafi tvær vikur verið í kosningar og þáverandi forsætisráðherra hafi verið í framboði. Vísa stefndu um þetta til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 58493/13. Einnig veki athygli að stefnandi hafi beðið fram á síðasta dag með að birta stefnu í málinu og kosið að þingfesta málið átta dögum síðar, þ.e. eftir kosningar til Alþingis 28. október 2017. Af því leiði að stefndu hafi ekki getað fjallað frekar um gögnin fyrir kosningarnar. Stefnandi hafi því náð að þagga niður stjórnmálaumræðu í fjölmiðlum í aðdraganda kosninga. Í því felist alvarleg aðför að tjáningarfrelsinu. Ekki verði fram hjá því litið hvaða þýðingu það hafi að lögbann sé lagt við stjórnmálaumfjöllun í aðdraganda alþingiskosninga og skuli það hafa áhrif m.a. við ákvörðun málskostnaðar enda sé ótækt að aðilar í fjárhagslegri yfirburðarstöðu geti þaggað niður í fjölmiðlum í andstöðu við lög og hagsmuni almennings. Stefnandi leiti nú staðfestingu dómstóla á lögbanninu en útilokað sé að fallast á þá kröfu. Stefndu telja brýnt að málinu verði hraðað eins og kostur sé því á meðan lögbannið sé í gildi sæti þeir ólögmætum takmörkunum á stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi og upplýsingum, sem eigi erindi til almennings, sé haldið frá honum. Um umfjöllun um aðra einstaklinga en þáverandi forsætisráðherra sé vísað til allra sömu sjónarmiða og rakin séu í greinargerð þessari. Stefndu kveða alla þá einstaklinga vera áberandi í viðskiptalífinu. Umfjöllunin hafi átt erindi til almennings og sé þegar um garð gengin. Stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni um úrlausn álitaefna sem varði friðhelgi einkalífs þeirra og með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 541/2005 verði umfjöllun um þá ekki aðskilin frá umfjöllun um þáverandi forsætisráðherra. Þá hafi meðalhófs verið gætt í umfjölluninni og allra sjónarmiða um ábyrga ritstjórn. Stefndu telja einsýnt að hafna hefði átt lögbanninu frá upphafi enda sé það í senn of víðtækt sem og brot gegn fjölmiðlafrelsi, sem varið sé í stjórnarskrá, mannréttindasáttmála Evrópu og lögum um fjölmiðla. Stefndu taki að þessu leyti undir alvarlegar athugasemdir Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, sem gegni m.a. eftirlitshlutverki með lýðræði í Evrópu, um lögbannið. Um aðild stefnanda og lögvarða hagsmuni Stefndu telja stefnanda ekki vera réttan aðila að málinu og krefjast sýknu með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefndu byggja á því að stefnandi uppfylli ekki skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Hann hafi enda ekki sannað að afhöfnin „muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans“. Stefnandi byggi á því að gögnin sem hann segi stefndu hafa undir höndum hafi að geyma upplýsingar um fyrrum viðskiptavini Glitnis banka en alvarlegir vankantar séu á slíkri aðild stefnanda. Þá sé ósannað með öllu hvaða viðskiptavinir Glitnis, ef aðrir, kunni að vera í gögnum sem stefndu sem fjölmiðlar hafi fengið aðgang að eða afhent. Í fyrsta lagi byggi stefnandi á því að viðskiptavinir Glitnis banka séu viðskiptavinir hans og að hann kunni að bera skaðabótaábyrgð vegna fyrrnefndra gagna. Stefndu mótmæla lýsingu stefnanda á ætluðum gagnaleka sem ósannaðri. Stefndu hafi ekkert staðfest um téð gögn. Þá sé lýsingu stefnanda á umfangi gagnanna sérstaklega mótmælt og vísa stefndu til 25. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla. Stefndu mótmæli því einnig að stefnandi eigi umrædd gögn. Réttindi og skyldur hins fallna Glitnis banka, sem varðað hafi innlán og útlán, hafi að mestu leyti færst til Nýja Glitnis hf., nú Íslandsbanka hf. Stefnandi byggi á því að stefndu hafi upplýsingar um ótilgreindan fjölda viðskiptamanna sinna og fjárhagsupplýsingar þeirra en ekkert liggi fyrir um hvort upplýsingarnar séu frá Glitni komnar. Þá liggi ekkert fyrir um hvort ætlaðar fjárhagsupplýsingar, hafi þær borist úr Glitni, tilheyri þeim hluta bankans sem farið hafi í gegnum slitameðferð og síðar í eignarhaldsfélagið Glitnir HoldCo eða hvort þær varði t.d. útlán sem færst hafi til Nýja Glitnis hf., nú Íslandsbanka hf. Þvert á móti megi ráða af gögnum sem stefnandi hafi lagt fram, þ. á m. tölvuskeyti, að þau hafi færst til Íslandsbanka en ekki slitastjórnar Glitnis og síðar stefnanda. Stefndu vísa til þess að stefnandi hafi enda þurft aðstoð Íslandsbanka hf. til þess að fletta upp í þeim. Þá liggi ekkert fyrir um að öll skjölin hafi komið frá sömu heimild. Er aðild stefnanda í besta falli vanreifuð og fái stefndu ekki séð að sýslumaður hafi átt að fallast á lögbann við svo óljósar aðstæður um lögvarða hagsmuni og aðild. Sé það mat dómsins að þetta varði ekki sýknu eigi að vísa málinu frá án kröfu. Í öðru lagi telji stefndu ljóst að jafnvel ef fyrir lægi að gögnin væru frá þeim hluta bankans sem flust hafi til stefnanda, þá hafi hann ekki framvísað umboði eða lagaheimild sem heimili honum að fara í dómsmál fyrir ótilgreindan fjölda viðskiptavina. Stefnandi vísi m.a. til 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem ætlað sé að vernda viðskiptamenn banka en ekki bankastofnunina sjálfa. Ákvæðinu sé ætlað að vernda stjórnarskrárvarinn rétt til friðhelgi einkalífs, sem eðli málsins samkvæmt tilheyri einstaklingum en ekki einkahlutafélögum. Stefndu vísa til þess að viðskiptavinir hins fallna banka hafi lögvarða hagsmuni af slíku máli en ekki eignarhaldsfélag kröfuhafa um hluta eigna hins fallna banka. Umfjöllun síðustu vikna hafi varðað þáverandi forsætisráðherra en hann hafi lýst því yfir að hann hafi ekki farið fram á lögbann og að hann telji umfjöllunina lið í lýðræðislegri umræðu. Stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að úrskurðað sé um friðhelgi einkalífs þeirra ótilgreindu aðila sem hann vísi til í lögbannsbeiðni, allra síst þeirra sem hafi lýst því yfir að þeir séu mótfallnir málinu. Með aðild sinni og raunar einnig með of víðtækum dómkröfum sé stefnandi því að bera fyrir dóm lögspurningu um mörk tjáningarfrelsis fjölmiðla og 58. gr. laga nr. 161/2002. Það sé ótækt, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi byggi á því að um sé að ræða „gögn í eigu gerðarbeiðanda sem hefur verið stolið“. Stefnandi viti hins vegar ekki hvaða gögn þetta séu og geti því ekkert fullyrt um það. Fyrir liggi að gögn úr hinum föllnu bönkum liggi víðar og megi nefna sem dæmi að umfjöllun um þáverandi forsætisráðherra sé einnig í skýrslu rannsóknar­nefndar Alþingis. Gögnin gætu því t.d. hafa komið úr fórum rannsóknarnefndar Alþingis en gögn sem nefndin hafi stuðst við hafi síðar verið afhent Þjóðskjalasafni. Þjóðskjalasafn veiti aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga og því kunni að vera að einhver hafi fengið gögnin afhent þaðan. Þá liggi gögn hinna föllnu banka á ýmsum lögmannsstofum, hjá kröfuhöfum bæði hérlendis og erlendis og svona mætti áfram telja. Jafnframt sé ekkert sem sanni að gögnin séu stolin en það hafi þar að auki engin áhrif á dómsniðurstöðuna, svo sem Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ítrekað staðfest, sbr. t.d. dóma í málum nr. 29183/95, 49085/07, 73469/10, 26419/10, 39315/06, 15054/07, 15066/07 og 69698/01. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir þessari fullyrðingu og verði að sanna að gögnin hafi komið frá honum. Með því að vanrækja þetta séu lögvarðir hagsmunir hans alfarið ósannaðir. Stefnandi byggi aðild sína á því að hann kunni að geta orðið skaðabótaskyldur vegna ætlaðs gagnaleka. Fram hafi komið í fjölmiðlum að lögbannsbeiðnin hafi verið að ráðum tryggingafélags. Ósannað sé að gögnin hafi komið frá stefnanda og sé meint skaðabótaskylda hans einnig ósönnuð. Allt að einu myndi slíkt ekki réttlæta aðild að lögbannsmáli. Sé tjón stefnanda af umfjöllun stefnda hugsanleg skaðabótaskylda hans gagnvart ótilgreindum og ætluðum viðskiptavinum, þá sé unnt að bæta ætlað tjón með greiðslu skaðabóta. Þar af leiðandi séu skilyrði fyrir lögbanni ekki fyrir hendi, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Fjárhagsstaða stefndu breyti engu þar um. Stefnanda bresti því lagaheimild til lögbannsins. Loks vísi stefnandi til meints tjóns á orðspori vegna leka um viðskiptavini. Slíkt eigi varla við þar sem stefnandi sé ekki banki í rekstri heldur eignarhaldsfélag kröfuhafa utan um eignir, sem eigi enga viðskiptavini. Ómögulegt sé að greina hvert ætlað tjón stefnanda geti verið við þær aðstæður og viðurkenni hann það raunar sjálfur í gerðarbeiðninni. Stefnandi sé sjálfur að valda sér orðsporstjóni með málatilbúnaði sínum, sem hafi verið gagnrýndur harðlega bæði hérlendis og erlendis, þ.m.t. af alþjóðlegum eftirlitsstofnunum. Hvað sem framangreindu líði byggja stefndu á því að mat á því, hvort stefnandi eigi lögvarðan rétt, samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990, á lögbanni á fjölmiðlaumfjöllun, skuli fara fram á grundvelli 73. gr. stjórnarskrárinnar. Í því felist m.a. mat á því hvort brýn samfélagsleg þörf sé fyrir þögguninni (e. pressing social need), sbr. ótal dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu. Engar kröfur séu hins vegar gerðar að lögum til þess að stefndu sýni fram á brýna samfélagslega þörf fyrir tjáningunni. Með aðild og málatilbúnaði stefnanda fari matið ekki fram á því hvort tjáningin brjóti gegn friðhelgi heldur hvort hún brjóti gegn 58. gr. laga nr. 161/2002, sem séu almenn lög gagnvart stjórnarskrárákvæði um tjáningarfrelsi. Mat á því hvort þörf sé á þöggun og þar með hvort stjórnarskrárvarinn réttur stefndu til tjáningar eigi að víkja fyrir ætluðum réttindum stefnanda eigi ekki heima hjá framkvæmdavaldinu heldur á ritstjórnarskrifstofum og verði aðeins endurskoðað af dómstólum, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 39315/06. Framkvæmda­valdið hafi tekið sér vald sem það hafi ekki þegar það hafi fallist á lögbannið enda hafi stefnandi ekki lögvarða hagsmuni af lögbanni við þessar aðstæður. Þegar af þeirri ástæðu verði að fella lögbannið úr gildi. Um aðild stefnda, Reykjavik Media ehf. Stefndi, Reykjavik Media ehf., byggir á því að aðild hans að lögbanninu og máli þessu sé órökstudd með öllu. Hann hafi ekki birt greinar á heimasíðu sinni eða annars staðar upp úr þeim gögnum sem deilt sé um og ekkert bendi til þess að það standi til. Þá liggi ekkert fyrir um að gögnin sem deilt sé um séu í fórum stefnda, Reykjavik Media ehf., og því sé ljóst að ekki hafi verið skilyrði fyrir lögbanni á hann. Verði þegar af þeirri ástæðu að aflétta lögbanni á stefnda, Reykjavik Media ehf. Það styðji ekki kröfur stefnanda að stefndi, Útgáfufélag Stundarinnar ehf., hafi unnið úr gögnunum í samstarfi við stefnda, Reykjavik Media ehf., sem hafi engar fréttir birt. Stefndi, Reykjavik Media ehf., verði ekki gerður ábyrgur fyrir umfjöllun meðstefnda og ætluðum kröfum gegn meðstefnda verði ekki beint gegn stefnda, Reykjavik Media ehf., vegna þess eins að fram hafi komið að þeir hafi unnið fréttir í samstarfi hvor við annan. Stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af kröfunum, sem feli í sér lögspurningar samkvæmt 25. gr. laga nr. 91/1991. Verði því ekki séð að stefndi, Reykjavik Media ehf., sé réttur aðili að kröfum stefnanda og beri að sýkna hann á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Um skilyrði lögbanns samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990 Stefndu byggja á því að stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Stefndu telji einnig að önnur skilyrði 24. gr. séu ekki fyrir hendi og vísi um það til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 541/2005. Þegar gerðin hafi verið tekin fyrir hefði umþrætt umfjöllun verið í gangi um margra mánaða skeið. Um þetta vísa stefndu til frétta frá desember 2016, sem stefnandi leggi fram í málinu. Stefnandi hafi hins vegar ekki farið fram á lögbann fyrr en 13. október 2017 og hafi ekkert aðhafst í millitíðinni. Stefnandi hafi því sjálfur gert ljóst að ætluð krafa hans þyldi bið og geti skilyrði lögbanns því ekki verið fyrir hendi. Þá hafi stefnandi beðið í tæpar tvær vikur frá því að umfjöllun um þáverandi forsætisráðherra hafi byrjað, áður en hann hafi farið fram á lögbannið. Stefnandi hafi þá farið fram á lögbann á alla umfjöllun upp úr tilteknum gögnum vegna þess að hann telji þau varða ótilgreinda einkahagsmuni ótilgreinds fjölda viðskiptavina hins fallna Glitnis banka. Sú krafa eigi sér enga stoð í lögum, gögnum málsins eða umfjöllun stefnda. Ritstjórn stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., hafi farið vandlega yfir þau gögn sem hún hafi undir höndum og hafi valið og unnið efni sem hún hafi talið eiga erindi til almennings. Það sem ekki eigi erindi til almennings sé ekki birt af stefnda, Útgáfufélagi Stundarinnar ehf., sem axli ritstjórnarlega ábyrgð sína og skyldur að lögum og samkvæmt stjórnarskrá. Stefndi, Reykjavik Media ehf., kveður einnig að aðkoma hans hafi verið í samræmi við skyldur hans. Stefndu hafi ekki fjallað um ótilgreindan fjölda viðskiptavina Glitnis banka fyrir hrun eða einkamálefni einstaklinga sem ekki eigi erindi til almennings. Kröfugerð stefnanda sé því allt of víðtæk og yrði fallist á hana fæli það í sér sjálfstætt brot gegn tjáningarfrelsinu, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 26419/10. Lögbannsbeiðni stefnanda varði ekki tiltekið málefni sem ekki megi birta heldur leggi stefnandi öll hugsanleg gögn til grundvallar lögbanni, jafnvel óumdeilda tjáningu sem vinna mætti upp úr gögnunum. Slík kröfugerð sé ekki aðeins úr hófi heldur beinlínis ólögmæt. Stefnandi geri tilraun til þess að rökstyðja kröfugerð sína í stefnu málsins með því að tilgreina tiltekna einstaklinga sem umfjöllunin hafi varðar. Stefndu vísa til þess að sú málsástæða sé of seint fram komin, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, enda hafi stefnandi eingöngu tilgreint þáverandi forsætisráðherra í lögbannsbeiðninni. Hafi stefnandi ætlað að byggja á því að umfjöllun um umrædda aðila ætti ekki erindi til almennings hefði slíkt þurft að koma fram í lögbannsbeiðni, áður en fallist hafi verið á lögbannið. Hvað sem því líði þá varði umfjöllunin aðila sem tekið hafi virkan þátt í íslensku viðskiptalífi og njóti því verndar tjáningarfrelsis. Einnig sé ljóst, af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 541/2005, að jafnvel þótt fjallað sé um einstakling sem ekki eigi erindi til almennings, þá sé nægilegt að umfjöllunin um viðkomandi sé liður í umfjöllun um atriði sem erindi eigi til almennings til þess að hún njóti verndar. Í slíkum tilvikum heimili umfjöllunin jafnvel að gengið sé á rétt einstaklings til friðhelgi einkalífs. Þetta þýði að jafnvel þótt fallist yrði á það að aðrir einstaklingar í gögnunum séu ekki opinberar persónur, þvert á andmæli stefndu, og að umfjöllun um þá varði friðhelgi þeirra, þá sé umfjöllunin allt að einu heimil, m.a. með vísan til framangreinds dóms, vegna tengsla við umfjöllun um þáverandi forsætisráðherra. Af framangreindu leiði að skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990, um að lögbann skuli beinast að athöfn sem sé byrjuð eða yfirvofandi, séu ekki fyrir hendi. Ekkert bendi til þess að til hafi staðið að fjalla um handahófsvalda viðskiptavini Glitnis banka eða einkamálefni sem ekki eigi erindi til almennings. Þær fréttir sem þegar hafi verið birtar, um þáverandi forsætisráðherra og tengda aðila, sem hafi verið virkir í viðskiptalífinu, eigi allar erindi til almennings og eru yfirstaðnar samkvæmt lögum nr. 31/1990. Stefndu vísa til þess að stefnandi hafi breytt kröfugerð sinni í stefnu málsins með því að skipta kröfu sinni upp og breyta orðalagi frá endurriti sýslumanns. Stefndu byggja á því að sýkna verði þá af kröfum stefnanda vegna þess að stefnandi sé ekki að krefjast staðfestingar á lögbanni heldur hafi hann í reynd uppi nýja kröfu. Óhjákvæmilega verði að skoða frávísun án kröfu við þær aðstæður og vegna annarra atriða sem talin séu upp í greinargerð þessari. Að auki sé kröfugerð stefnanda valkvæð og gangi viðurkenningarkrafan mun lengra en lögbannið. Um 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki Stefndu byggja á því að 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eigi ekki við um fjölmiðla og að ef að svo væri þá bryti það gegn ákvæðum stjórnarskrár. Stefndu byggja á því að 58. gr. takmarki ekki tjáningarfrelsi fjölmiðla til að fjalla um mál sem eigi erindi til almennings. Stefndu vísa til þess að lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, séu almenn lög eins og lög nr. 38/2011, um fjölmiðla. Hin síðarnefndu séu þó bæði yngri og sérlög. Sé misræmi á milli laganna þá séu lög um fjölmiðla því rétthærri. Í lögum nr. 38/2011 sé áréttuð vernd heimildarmanna, sbr. 25. gr. laganna, sem einnig leiði af 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 73. gr. stjórnarskrárinnar. Af heimildarverndinni leiði að fjölmiðlar geti tekið við gögnum, sem heimildarmanni hafi verið óheimilt að afhenda fjölmiðlum, og eigi gögnin erindi til almennings sé fjölmiðlum rétt og skylt að miðla því sem þar komi fram á grundvelli 73. gr. stjórnarskrárinnar, hvað sem líði þagnarskylduákvæðum laga. Með hliðsjón af því að hin yngri lög fjalli um heimildarvernd, sem dregin sé beint af 73. gr. stjórnarskrárinnar, sem sannarlega sé rétthærri en lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, verði ávallt að túlka 58. gr. laga nr. 161/2002 með þeim hætti að ákvæðið nái ekki til blaðamanna. Stefndu telja ljóst af ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 að „viðtakandi“ vísi til þeirra sem taki við gögnum í tengslum við hefðbundna starfsemi bankans, t.d. í starfi sínu í tengslum við þinglýsingar. Annað verði heldur ekki lesið út úr lögskýringargögnum ákvæðisins. Hefði ætlunin verið að láta „viðtakendur“ eiga við um blaðamenn myndi slíkt hafa komið fram í ákvæðinu eða a.m.k. í greinargerð frumvarps að lögunum. Þá hefði einnig verið óþarfi að sundurliða ákvæðið eða að tengja það við bankastarfsmenn líkt og gert sé í 1. mgr. ákvæðisins, ætti ákvæðið að eiga við um alla. Síðasta setningin í lokamálsgreininni útiloki samkvæmt orðanna hljóðan að hún eigi við um blaðamenn því enginn afhendi blaðamanni slík gögn og uppfylli síðan þá lagaskyldu að brýna þagnarskylduna fyrir blaðamanninum, hvað gögnin varðar. Stefndu vísa til þess að bæði Hæstiréttur Íslands og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi fjallað um gögn sem þessi og hafi fellt þau undir heimildaverndina, sbr. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 29183/95, 69698/01, 62202/00, 15054/07, 15066/07, 39315/06 og 73469/10 og dóm Hæstaréttar Íslands frá 1996, bls. 40, og dóma réttarins í málum nr. 272/2000 og 541/2005. Eigi umfjöllun erindi til almennings sé fjölmiðlamönnum heimilt að fjalla um slík gögn. Af því leiði að væru ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 talin eiga við um blaðamenn fæli það í sér brot gegn tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Sama ætti við þótt skýrt væri kveðið á um í 58. gr. að hún tæki til blaðamanna enda sé óheimilt að takmarka tjáningu með þessum hætti. Sé það mat dómsins að 58. gr. eigi einnig við um fjölmiðla verði þar af leiðandi að víkja lögunum til hliðar á þeim grundvelli að umfjöllunin eigi erindi til almennings. Ella yrði brotið gegn 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Um tjáningarfrelsi stefndu Hvað sem öllu framangreindu líði byggja stefndu á því að umfjöllunin njóti verndar ákvæða stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi. Lögbannið brjóti í bága við þessi grundvallarréttindi stefndu og almennings, sem eigi rétt á þessum upplýsingum. Engin skilyrði séu til þess að takmarka tjáningarfrelsi stefndu. Mannréttindadómstóll Evrópu skilgreini fjölmiðla sem varðhunda almennings (e. public watchdog) og fyrir liggi skýr dómaframkvæmd um það hvenær megi takmarka tjáningu þeirra, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 17488/90. Fjölmiðlar þurfi aldrei að sýna fram á þörf fyrir umfjöllun, heldur þurfi sá sem vilji takmarka tjáningu fjölmiðla að sýna fram á knýjandi samfélagslega þörf fyrir þöggun. Alfarið hafi verið litið fram hjá þessari sönnunarstöðu við lögbannsgerðina. Stefndu telja að vart þurfi að deila um að tengsl stjórnmálamanna og viðskiptalífsins eigi erindi til almennings. Alþingi hafi sett á laggirnar sérstaka rannsóknarnefnd sem skilað hafi af sér níu binda skýrslu um fjármálakerfið fyrir efnahagshrunið 2008. Þar sé sérstök umfjöllun um tengsl stjórnmálamanna við fjármálastofnanir, m.a. vegna hárra útlána og mikilla tengsla þarna á milli. Fjallað hafi verið um Bjarna Benediktsson í skýrslunni, þ. á m. um sömu upplýsingar og stefndi, Útgáfufélag Stundarinnar ehf., hafi fjallað um í október 2017. Nánar tiltekið segi í skýrslunni:  „Helstu lán Bjarna Benediktssonar voru í Glitni banka hf. Annars vegar var um bein lán að ræða og hins vegar um lán í gegnum framvirka samninga. Fyrir utan einn um 45 milljóna króna framvirkan samning um hlutabréf Glitnis í upphafi árs 2006 voru þeir framvirku samningar allir um hlutabréf erlendra banka, Deutsche Bank, Morgan Stanley og Lehman Brothers.“ Þessi umræða hafi verið svo áberandi að nafni Bjarna Benediktssonar og fjárhæð skulda hans hjá Glitni fyrir hrun sé varpað upp á skjá í leiksýningunni Guð blessi Ísland í Borgarleikhúsinu. Umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., varði þetta álitamál og tiltekið hafi verið að hún væri „hluti af ítarlegri umfjöllun Stundarinnar um viðskipti Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu hans fyrir hrun og samband hans við Glitni“. Stjórnmálaumræða (e. political speech) sé sú tjáning sem njóti hvað ríkustu verndar og ganga megi lengra í slíkri umfjöllun en ella. Það eigi ekki síst við í málum sem varði framþróun lýðræðis, sbr. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 29032/95, 7942/05 og 24838/05. Umræða um aðdraganda, orsakir og afleiðingar hrunsins, þ.m.t. óeðlileg samtvinnun stjórnmála og viðskipta og óeðlilegt aðgengi stjórnmálamanna að lánsfé í hinum föllnu bönkum fyrir hrun, verði að vera óheft. Stefndu vísa um þetta til sjónarmiða um tilgang umfjöllunar, sbr. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 13778/88, 19983/92, 64520/10, 4678/07 og 50591/12 og dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 274/1997. Tilgangurinn sé að upplýsa almenning um orsakir og afleiðingar hrunsins. Það sé einnig útgangspunktur skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og nauðsynleg umræða til framþróunar lýðræðis og til þess að koma í veg fyrir að atburðir eins og hrunið endurtaki sig. Aukin vernd slíkrar tjáningar um hrunið hafi þegar verið staðfest af íslenskum dómstólum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 100/2011. Umræðan eigi því bersýnilega erindi í þjóðfélagsumræðu. Málefni Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu hans hafi verið mikið til umfjöllunar síðastliðin tíu ár, eins og hann hafi sjálfur haft orð á. Að takmarka slíka umfjöllun sé augljóst og alvarlegt brot gegn tjáningarfrelsi sem varið sé af stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. Kröfugerð stefnanda og umfjöllunin sem um ræði skuli metin í samhengi við þessa þjóðfélagsumræðu, sbr. aðferðafræði Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá hafi umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., verið í aðdraganda kosninga, sem veiti henni aukna vernd. Við slíkar aðstæður sé tjáningarfrelsi í stjórnmálaumræðu afar rúmt, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 321/2008 og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 5709/09. Eignarhaldsfélag kröfuhafa fallins banka eigi enga kröfu til takmörkunar á tjáningu um málefni forsætisráðherra í aðdraganda kosninga. Enn óeðlilegra sé að slík krafa sé gerð án samþykkis forsætisráðherrans, sem sjálfur hafi fordæmt lögbannið. Stefndu byggja á því að fjölmiðlum sé heimilt og skylt að fjalla um og birta gögn, óháð því hvernig þau hafi orðið til eða verið aflað. Þetta leiði m.a. af heimildarverndinni sem dregin sé af 73. gr. stjórnarskrárinnar og lögfest í 25. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 1996, bls. 40. Stefndu telja að grundvallarmisskilnings gæti í málatilbúnaði stefnanda og afgreiðslu sýslumanns því þótt bankastarfsmenn og aðrir sem fái gögn afhent í tengslum við bankastarfsemi séu bundnir trúnaði þá fari annað mat fram við það hvort fjölmiðli sé heimilt að fjalla um sömu gögn. Mat á því hvort fjölmiðlum sé heimilt að fjalla um gögn, t.d. gögn sem heimildarmaður hafi með ólögmætum hætti afhent fjölmiðli, velti ekki á því hvort heimildarmaðurinn hafi verið bundinn trúnaði um gögnin heldur hvort upplýsingar í gögnunum eigi erindi til almennings og hvort fjölmiðillinn gæti að ritstjórnarlegum skyldum sínum í umfjölluninni. Um þetta hafi verið fjallað af dómstólum, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 541/2005 og til hliðsjónar dóm réttarins í máli nr. 272/2000 og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 29183/95. Mannréttinda­dómstóll Evrópu hafi með beinum hætti tekið á því mati sem fram fari um birtingu gagna sem fjölmiðill komist yfir vegna brots á lögbundinni þagnarskyldu, í máli nr. 69698/01. Stefndu telja að sömu sjónarmið eigi við hér, þ.e. um hvort umfjöllunin eigi erindi til almennings og tjáningin sé þar með vernduð. Stefndu vísa einnig til þess að samkvæmt lögum nr. 161/2002 sé móttaka á gögnum sem lúti að bankaleynd ekki óheimil. Um ofangreint vísa stefndu einnig til sjónarmiða um vernd uppljóstrara. Þá mótmæla stefndu því að lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, hafi áhrif á tjáningarfrelsi fjölmiðla með þeim hætti sem stefnandi byggi á. Lögin takmarki ekki tjáningu sem þessa. Tilvísun stefnanda til 8. og 9. gr. laganna eigi ekki við því efnið sé eingöngu unnið í þágu fréttamennsku, sbr. 5. gr. laganna. Stefndu kveða að þeir hafi gætt að öllum ritstjórnarlegum skyldum og ábyrgð í umfjölluninni, af samviskusemi og í samræmi við lög. Umfjöllunin hafi verið faglega unnin og sett fram í góðri trú. Stefndu hafi hvorugur birt handahófskennd gögn úr gamla Glitni banka heldur þvert á móti hafi ritstjórn valið úr þau atriði sem eigi erindi til almennings. Þá hafi þeim aðilum, sem fjallað hafi verið um, verið veittur kostur á að tjá sig um umfjöllunina en þeir hafi kosið að gera það ekki. Takmörkun tjáningarinnar sé þar með ólögmæt, sér í lagi með jafn íþyngjandi hætti og leiði af jafn víðtæku lögbanni. Stefnandi byggi á því að gögnin varði mál sem njóti friðhelgi einkalífs en eins og að framan sé rakið eigi hann enga aðild að slíkri kröfu. Stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni sem lúta að friðhelgi einkalífs þriðju aðila, án umboðs frá þeim. Þess utan eigi málsástæður um friðhelgi einkalífs ekki við enda hafi umfjöllunin varðað þáverandi forsætisráðherra landsins, sem sé opinber persóna og hafi verið kosinn til þess að gegna trúnaðarstörfum í þágu almennings. Vísa stefndu um þetta til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 103/2014. Þáverandi forsætisráðherra hafi sjálfur opnað á umræðuna, tekið þátt í henni og reynt að villa um fyrir henni og þar með kallað á andsvör, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 26118/10. Þá varði umfjöllunin einnig hæfi slíks aðila, m.a. á siðferðilegum mælikvarða, með vísan til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, til að gegna opinberu embætti, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 346/04, 39779/04, 37986/09 og 64520/10. Við þær aðstæður séu heimildir til umfjöllunar rýmkaðar. Að auki hafi Bjarni Benediktsson sjálfur talað um nauðsyn þess að slíta sig frá viðskiptalífinu til þess að geta einbeitt sér að stjórnmálum. Forsætisráðherra landsins njóti afar takmarkaðs réttar til friðhelgi einkalífs við þessar aðstæður og í öllu falli ljóst að tjáningarfrelsi fjölmiðla og réttur almennings til upplýsinga vegi þyngra. Málsástæður stefnanda um aðra aðila í gögnunum séu sem fyrr segi of seint fram komnar en þess fyrir utan eigi umfjöllun um þá einnig erindi til almennings vegna efnisins, þátttöku umræddra aðila í íslensku viðskiptalífi og tengsla þeirra við umfjöllunina. Um þetta vísa stefndu til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 44081/13 og dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 100/2011. Þá liggi ekkert fyrir um stefndu hafi ætlað að fjalla um einkamálefni almennra borgara sem ekki eigi erindi til almennings. Stefndu kveða að slíkt standi ekki til og að þeir ræki ritstjórnarlegar skyldur sínar af kostgæfni. Fullyrðingar um annað séu rangar og ósannaðar. Stefndu vísa til þess að umfjöllunin feli m.a. í sér gildisdóma og endursögn, bæði úr fjölmiðlum og því sem fram komi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Tjáningin njóti þar með aukinnar verndar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 103/2014 og dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 13778/88, 65518/01, 29032/95 og 14234/88. Raunar hafi Hæstiréttur Íslands þegar dæmt mál sem varðað hafi endursögn úr fjölmiðlum og nauðsyn þess að fjalla um glæfralega fjármálahegðun einstaklinga fyrir hrun, í dómi réttarins í máli nr. 100/2011. Stefndu geri athugasemd við það að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi fallist á að skerða stjórnarskrárvarinn rétt stefndu til tjáningar með þessum hætti, ekki síst í ljósi þess hve mörg vafaatriði séu í málinu, þ.á m. um aðild stefnanda og stefnda, Reykjavik Media ehf. Mat á því hvort skilyrði 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar séu fyrir hendi heyri undir dómstóla. Mat á því hvort upplýsingar eigi erindi til almennings tilheyri ritstjórn og geti síðan komið til endurskoðunar hjá dómstólum. Það sé hins vegar ekki í samræmi við vernd tjáningarfrelsis að láta fulltrúa framkvæmdavaldsins, hér sýslumanns, taka þessar ákvarðanir. Stefndu byggja á því að slík framkvæmt brjóti gegn stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, sér í lagi með jafn víðtæku lögbanni og hér um ræði, sem varði ekki tiltekið efni umfjöllunar heldur heildarnotkun gagna. Um viðurkenningarkröfu stefnanda Stefndu byggja kröfu sýna um að verða sýknaðir af viðurkenningarkröfum stefnanda um að stefndu sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð sé á eða unnin upp úr gögnum eða úr fórum stefnanda, á öllu því sem að framan greinir. Telja stefndu að viðurkenningarkröfur stefnanda brjóti í bága við tjáningarfrelsi stefndu enda eigi umfjöllunin erindi til almennings, eins og að framan sé rakið. Að mati stefndu fela viðurkenningarkröfur stefnanda í sér lögspurningu samkvæmt 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, því stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af kröfu sem varði ætluð réttindi viðskiptavina fallins banka. Stefndu sjái heldur ekki hvernig stefnandi geti átt kröfu sem þess á hendur stefnda, Reykjavik Media ehf., sem ósannað sé að hafi gögnin undir höndum og hafi ekki birt neitt upp úr þeim. Að mati stefndu felist í kröfugerð stefnanda sjálfstætt brot gegn stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi stefndu. Kröfugerðin sé svo víðtæk að útilokað sé að fallast á hana. Þetta eigi við um bæði efni hennar og aðild. Um þetta vísa stefndu til þeirrar vísireglu sem fram komi í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 43380/10 um að ónákvæm tjáning njóti einnig verndar. Stefndu vísa til þess að kröfugerð stefnanda lúti ekki aðeins að ritstjórnarvaldi stefndu heldur sé þess krafist að stefndu sé óheimilt að „fá birtar“ fréttir upp úr umþrættum gögnum. Stefndu hafi ekki ritstjórnarvald yfir öðrum birtingaraðilum á Íslandi og sé þessi krafa því svo óljóst að athuga verði hvort henni beri að vísa frá dómi án kröfu. Þá vísa stefndu til þess að krafan sé valkvæð, sbr. orðalagið „og/eða“. Stefndu geti ekki ákveðið hvort fréttir birtist í öðrum fjölmiðlum og byggja því á aðildarskorti hvað þennan lið kröfugerðar stefnanda varðar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu vísa einnig til þess að krafan sé mjög víðtæk og mun víðtækari en lögbannskrafa stefnanda. Hún sé reyndar svo víðtæk að hún eigi ekkert skylt við þá kröfu. Með viðurkenningarkröfunni sé krafist takmörkunar á allri umfjöllun til framtíðar á grundvelli 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Yrði fallist á þá kröfu myndi það leiða til ritskoðunar og sé það andstætt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar sem kveði á um að aldrei megi leiða í lög ritskoðun. Stefndu mótmæli því í öllu falli að krafa stefnanda sé um sjálfstæð réttindi sem lögbanni sé ætlað að vernda, samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 541/2005. Um kröfu stefnanda um upptöku gagna Stefndu byggja á því að krafa stefnanda um upptöku gagna sé bæði andstæð lögbannslögum, fjölmiðlalögum, stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. Í fyrsta lagi þá sé unnt að hafa uppi slíka kröfu við lögbannsgerð en ekki sem sjálfstæða kröfu í dómsmáli, sbr. VI. kafla laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., og dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 541/2005. Krafan geti því ekki komið til álita í málinu og sé ekki sjálfstæð krafa, samkvæmt 2. mgr. 36. gr. l. nr. 31/1990. Í öðru lagi brjóti krafan gegn 25. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, um heimildavernd, sem eins og fram hafi komið, leiði einnig af tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Stefndu geti því ekki orðið við áskorun stefnanda, enda myndi hann með því brjóta lög. Stefndu byggja á því að stefnandi geti ekki byggt þennan lið kröfugerðarinnar á dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 218/2002. Í málinu hafi verið deilt um kvikmynd en ekki umfjöllun blaðamanna um gögn sem óheimilt sé að afhenda samkvæmt 25. gr. laga nr. 38/2011, þ. á m. dómara. Þá hafi lögbannskrafa í framangreindu máli varðað ákveðið efni sem fjalla hafi átt um opinberlega. Málatilbúnaður stefnanda í þessu máli lúti ekki að slíku heldur að notkun gagna, án tillits til þess efnis sem vinna megi upp úr þeim. Vísa stefndu til þess sem að framan greini um heimildarvernd og til dóms Hæstaréttar Íslands frá 1996, bls. 40. Stefndu kveða að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ítrekað tekið á aðgerðum yfirvalda sem hafi haft áhrif á heimildarverndina og gagnaöflun yfirvalda sem brjóti gegn heimildarvernd. Vísa stefndu um þetta til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 73469/10. Í þeim dómi hafi sérstaklega verið fjallað um ógnina (e. chilling effect) sem leiði af því, komist yfirvöld í gögn sem blaðamenn hafi frá heimildarmönnum. Stefndu vísi einnig til dóma Mannréttinda­dómstóls Evrópu í málum nr. 26419/10 og 39315/06. Stefndu byggja á því að stefnandi hafi ekki sannað að hann eigi gögnin sem um ræði. Hann hafi ekki sýnt fram á að upphaflegu gögnin hafi stafað frá þeim hluta Glitnis banka sem síðar hafi flust til stefnanda eða að gögnin sem stefndu hafi undir höndum hafi komið frá stefnanda sjálfum. Stefndu vísa til þess að tölvuskeyti sem vísað hafi verið til í tengslum við Falson, frá Ægi Birgissyni, séu frá þeim tíma þegar hann hafi starfað hjá Straumi og VBS en ekki Glitni. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að tilgreind tölvuskeyti milli Ægis og Bjarna hafi aldrei verið í kerfum eða gögnum Glitnis banka. Þar af leiðandi sé alls ósannað að gögnin séu þaðan komin þannig að stefnandi eigi aðild að þessu máli. Stefndu telja að jafnvel þótt gögnin komi frá stefnanda þá sé ekki hægt að fallast á að hann eigi eignarrétt yfir afriti af þeim gögnum. Slíkt leiði ekki af eignarrétti. Þá séu önnur úrræði tiltæk að lögum, telji aðili annan aðila hafa eign sína. Kæra megi slíkt til lögreglu sem hafi milligöngu um að nálgast eignina og unnt sé að fara fram á innsetningu hjá sýslumanni. Stefnandi hafi ekki vísað í neina lagaheimild fyrir þessari kröfu og rökstyðji ekki hvers vegna hann telji sig eiga tilkall til þess að fá afhent ljósrit af ætlaðri eign hans. Stefndu telja ástæðuna fyrir því vera að enginn lagalegur grundvöllur sé fyrir þessari kröfu. Stefndu byggja á því að framangreind krafa stefnanda sé því andstæð lögum og þar að auki allt of víðtæk. Stefnandi hafi ekki rökstutt hvers vegna afhenda eigi öll gögn í stað þess að krefjast t.d. afhendingu þeirra gagna sem þegar hafi verið birt upp úr eða þeirra sem ekki hafi verið birt upp úr. Stefndu sjái enn fremur ekki hvernig stefnandi geti átt lögvarða hagsmuni af því að hin síðarnefndu gögn verði afhent dómnum í þessu máli. Stefndu vísa til þess að móttaka gagna, sem lúti bankaleynd, eða að hafa slík gögn undir höndum feli ekki í sér brot á 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þá telja stefndu að stefnandi hafi ekki útskýrt hvaða tilgangi það þjóni að afhenda gögnin sem þegar hafi verið birt. Stefndu hafi þegar framkvæmt ritstjórnar­athugun á því hvað eigi erindi til almennings og hvað ekki. Það nægi að fara yfir þær fréttir sem lagðar hafi verið fram til þess að meta hvort þær hafi átt erindi til almennings. Stefndu sjái ekki hvaða tilgangi það þjóni að afhenda gögn frá heimildarmanni og telja að slík aðgerð feli í sér brot gegn 25. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, og 73. gr. stjórnarskrárinnar, sem nái til verndar heimildarmanna. Slíkar kröfur hafi ítrekað verið taldar ámælisverðar og brjóta gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 15054/07, 15066/07, 39315/06, 26419/10, 73469/10, 49085/07, 73571/10, 39293/98 og 20436/02. Að öllu framangreindu virti telja stefndu ljóst að lögbannskrafa stefnanda og kröfur hans í máli þessu séu í senn of víðtækar og brjóta í bága við tjáningarfrelsisrétt stefndu. Stefnandi hafi, með framsetningu krafna sinna og fráleitum kröfum um afhendingu gagna frá heimildarmönnum, gerst sekur um að misnota þau úrræði sem honum séu tiltæk að lögum í því skyni að gera tilraun til þess að þagga niður umræðu sem stefndu eigi stjórnarskrárvarinn rétt til að tjá og almenningur á Íslandi eigi rétt á að heyra. Stefndu byggja málatilbúnað sinn á 70. og 73. gr. stjórnarskrár, 6. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsing í C-deild stjórnartíðinda nr. 10/1979. Stefndu byggja einnig á 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., lögum nr. 90/1989, um aðför, lögum nr. 38/2011, um fjölmiðla, einkum 25. gr. laganna, og lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, einkum 58. gr. laganna. Stefndu byggja kröfu um málskostnað á 1. mgr. 130. gr. og 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefndu krefjast þess að þeim verði bættur málskostnaður að fullu og krefjast auk þess álags á málskostnað á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Málatilbúnaður stefnanda feli í sér brot gegn tjáningarfrelsi stefndu og hafi frá upphafi verið tilefnislaus. Stefndu telja dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 541/2005 hafa fordæmisgildi í málinu og hafi stefnanda mátt vera það ljóst. Stefndu telja að stefnandi geti, í krafti aðstöðumunar, nýtt yfirburðarstöðu sína til kælingaráhrifa á frjálsa fjölmiðlun og það verði að líta alvarlegum augum. Stefndu séu báðir sjálfstæðir fjölmiðlar og vinni eftir metnaðarfullum ritstjórnarstöðlum, ólíkt t.d. miðlum sem hafi birt öll gögn án skoðunar á því hvað eigi erindi til almennings. Ótækt sé að refsa sjálfstæðum fjölmiðlum sem sinni skyldum sínum með tilefnislausum málssóknum og tilheyrandi málskostnaði sem alkunna sé að standi frjálsri fjölmiðlum fyrir þrifum hér á landi. Starfsumhverfi sjálfstæðra fjölmiðla sé ógnað með málssókn stefnanda sem fyrirsjáanlega eigi sér ekki stoð. Stefndu telja að í þessu máli sé svo langt gengið, af hálfu stefnanda, að honum geti ekki dulist að hann eigi ekki þær kröfur sem hann geri á hendur stefndu. Stefnandi hafi höfðað þetta mál að þarflausu sem og án tilefnis. Þar að auki megi stefnandi vita að staðhæfingar hans og kröfur séu rangar og haldlausar. Stefndu telji að framsetning dómkrafna stefnanda og málshöfðun þessa verði að virða honum til sakar á þann máta að honum verði gert skýrt að hann eigi engar slíkar kröfur á hendur stefndu. Stefndu telja að dómstólar verði að standa vörð um tjáningarfrelsi frjálsra og óháðra fjölmiðla, bæði beint og óbeint. Það verði aðeins gert með því að bæta fjölmiðlum málskostnað í málum sem þessum, að fullu. Ekki megi líta fram hjá því að þegar dómstólar dæma fjölmiðlum í hag, í málum sem varði tjáningarfrelsið, þá hafi verið gerð tilraun til þöggunar. Í þessu máli séu staðreyndirnar mun alvarlegri því þegar hafi verið lagt á lögbann samkvæmt allt of víðtækri kröfu stefnanda. Þöggunin hafi því þegar orðið og sé viðvarandi á meðan málið sé rekið fyrir dómstólum. Stefnanda hafi í raun tekist, með málsókninni, að þagga niður í lýðræðislegri umræðu sem varði framþróun lýðræðisins, og það í aðdraganda alþingiskosninga. Umræðan hafi því verið kæld, a.m.k. varðandi stefndu, sem báðum hafi með lögbanninu verið bannað að taka þátt í slíkri umræðu. Að því virtu telji stefndu rétt að fjárhæð málskostnaðar, með álagi, endurspegli alvarleika máls þessa, sbr. 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. IV. Niðurstaða 1.  Helstu ágreiningsefni aðila Ágreiningurinn sem fjallað er um í þessu máli lýtur í grundvallaratriðum að hvaða marki fjölmiðlar njóta tjáningarfrelsis í lýðræðissamfélagi og hvenær réttur einstaklinga til að njóta friðhelgi um einkamálefni sín og að spornað sé gegn því að fjallað sé um þau í fjölmiðlum kann að vera tjáningarfrelsinu yfirsterkari. Í því sambandi reynir jafnframt á hvort slík réttindi vegi nægilega þungt til að heimilt sé að stöðva umfjöllun fjölmiðils í krafti lögbanns. Þá verður jafnframt að taka afstöðu til þess hvort aðili borð við stefnanda geti að réttu lagi gert kröfu um lögbann vegna réttinda einstaklinga sem voru eitt sinn viðskiptamenn hans. Stefnandi, Glitnir Holdco ehf., gerir í fyrstu tveimur liðum dómkrafna sinna kröfu um að staðfest verði lögbann sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 16. október 2017 við því að stefndu birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum stefnanda og undirorpin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Stefndu, Útgáfufélagið Stundin ehf. og Reykjavík Media ehf., krefjast báðir sýknu af þessum kröfum. Í því sambandi hafa stefndu í fyrsta lagi vísað til þess að meðferð málsins hjá sýslumanni hafi verið áfátt og að stefnanda skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Í öðru lagi hafa stefndu vísað til þess að lögbannið fari í bága við ákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi og því sé ekki fullnægt þeim áskilnaði 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., að stefnandi hafi sannað eða gert sennilegt að athöfn, byrjuð eða yfirvofandi, hafi brotið eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans. 2. Meðferð málsins hjá sýslumanni. Stefndu byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að þeir hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar hjá sýslumanni. Vísa stefndu þá til þess að fulltrúi sýslumanns hafi fallist á kröfu um lögbann án rökstuðnings þrátt fyrir að stefnandi hafi ekki rökstutt í beiðni sinni hvernig skilyrði undantekningarákvæðis 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989 væru uppfyllt. Af málatilbúnaði stefndu verður jafnframt ráðið að gerðar séu athugasemdir við þá efnislegu ákvörðun sýslumanns að fallast á lögbannsbeiðnina án þess að rökstyðja niðurstöðu sína að því leyti. Auk þess telja stefndu að málsmeðferð sýslumanns hafi verið áfátt að því leyti að þeim var ekki leiðbeint um réttindi þeirra og stöðu, sbr. 27. gr. laga nr. 31/1990, og veittur raunhæfur kostur á að undirbúa vörn sína og njóta aðstoðar lögmanns. Ágreiningslaust er að stefndu var ekki tilkynnt um lögbannsgerðirnar fyrirfram. Fyrir liggur að í lögbannsbeiðni stefnanda var þess krafist að gerðin yrði tekin fyrir tafarlaust og án þess að stefndu væri tilkynnt um að beiðnin væri fram komin, samkvæmt 3. tölulið 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989, um aðför, sbr. 3. mgr. 26. gr. og 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Var sú krafa rökstudd með vísan til þess að athafnirnar sem lögbanns var beiðst við hafi þá þegar verið hafnar og að nauðsynlegt væri að bregðast skjótt við. Ljóst er að það leiðir af fyrrnefndum ákvæðum 3. mgr. 26. gr. og 4. mgr. 8. gr. laga 31/1990 að við meðferð sýslumanns á beiðni um lögbann gildir sú almenna regla, sem sett er fram í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989, að tilkynna skuli gerðarþola með hæfilegum fyrirvara að beiðni sé fram komin og um meginefni hennar. Í sama ákvæði segir að gerðarþola skuli um leið tilkynnt hvar gerðin muni byrja og á hvaða tíma tiltekins dags. Ekki eru gerðar ákveðnar kröfur um þann fyrirvara sem ber að hafa á tilkynningum samkvæmt 1. mgr. 21. gr. heldur er sýslumanni falið að meta hvaða fresti sé viðeigandi að veita. Í athugasemdum við 21. gr. frumvarps að lögum nr. 90/1989 kemur fram að jafnan ætti ekki að vera þörf á lengri fresti en svo, að gerðarþoli geti átt þess kost að hliðra til t.d. vinnu til að vera staddur við gerð og eftir atvikum að leita upplýsinga um réttarstöðu sína. Í 3. tölulið 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989 er síðan kveðið á um heimild til þess að víkja frá tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. ef hætt þykir að gerðarbeiðandi verði fyrir sérstökum réttarspjöllum af drætti vegna tilkynningar. Í fyrrgreindum athugasemdum frumvarps að lögum nr. 90/1989 kemur fram að þessa undantekningarheimild verði að skýra þröngt, þannig að hún eigi aðeins við ef mjög brýnum hagsmunum gerðarbeiðanda yrði stefnt í hættu með frekari bið. Að mati dómsins verður að telja að hagsmunir gerðarbeiðanda af því að koma í veg fyrir uppljóstrun trúnaðarupplýsinga hafi ákveðna sérstöðu við mat á því hvort undantekningarheimild 3. tölul. 3. mgr. 21. laga nr. 90/1989 eigi við um lögbannsbeiðni, enda er ljóst að gerðarþola kann í slíkum tilvikum að vera auðvelt að koma í veg fyrir að lögbannið nái tilgangi sínum með því að miðla upplýsingunum annað. Að sama skapi verður ekki litið framhjá því að með því að tilkynna stefndu ekki fyrirfram um lögbannsbeiðnina var dregið úr möguleikum stefndu til að leita sér leiðbeininga um réttarstöðu sína og taka til efnislegra varna gagnvart beiðninni. Þegar litið er til atvika málsins, og einkum þess að fyrsta umfjöllun stefndu hafði birst 7 dögum áður en stefnandi setti fram lögbannsbeiðni sína, telur dómurinn verulegan vafa leika á því hvort skilyrði ákvæðisins hafi verið uppfyllt. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 31/1990 færir sýslumaður gerðabók um þær gerðir sem lögin taka til en um form hennar fer eftir reglum sem ráðherra setur. Þá segir í 2. mgr. 4. gr. sama ákvæðis að um framlagningu gagna við gerðina og varðveislu þeirra, efni bókunar sýslumanns um hana í gerðabók og undirritun og viðurvist votts við hana skuli farið eftir fyrirmælum 32. gr., 2. og 3. mgr. 33. gr., 34. gr. og 1. mgr. 51. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Það leiðir af framangreindu ákvæði 2. mgr. 4. gr., sbr. einnig 2. mgr. 33. gr. laga nr. 89/1990, að sýslumanni ber skylda að greina frá því í gerðabók hvar og hvenær aðfarargerð fer fram, nöfn aðila og umboðsmanna eða málsvara þeirra, hver gögn hafa verið lögð fram við gerðina og ,,hvernig hún hefur að öðru leyti farið fram“.  Að því er varðar síðastnefnda atriðið þá er sérstaklega vakin athygli á því í athugasemdum við ákvæði 2. mgr. 33. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 90/1989 að ætlast sé til að í bókun komi fram um ,,allar ákvarðanir, sem sýslumaður hefur beinlínis orðið að taka vegna sérstakra krafna, mótmæla eða athugasemda málsaðila.“  Í ljósi orðalags 2. mgr. 33. gr. laga nr. 90/1989 og tilvitnaðra ummæla í lögskýringargögnum verður túlka ákvæði 2. mgr. 33. gr. laga nr. 90/1989 með þeim hætti að sýslumanni beri að færa upplýsingar um þau atriði í gerðabók ef brugðið er á einhvern hátt út frá þeim almennu reglum sem gilda um framkvæmd lögbannsgerðar. Verður að leggja til grundvallar að slík skylda eigi við þegar vikið er frá þeirri meginreglu að tilkynna gerðarbeiðanda um framkomna lögbannsbeiðni og eins þegar lögbannsbeiðninni er mótmælt sem slíkri. Við þær aðstæður verður þá að taka fram í gerðabók hver hafi orðið niðurstaðan um mótmælin og hvernig sú niðurstaða hafi fengist. Með vísan til þess sem hér að framan er rakið verður að telja að sýslumanni hafi verið rétt að gera frekari grein fyrir því í gerðabók hvers vegna fallist var á kröfu stefnanda um að taka fyrir lögbannsbeiðni stefnanda tafarlaust og án þess að stefndu væri tilkynnt um að beiðnin væri fram komin. Þá verður jafnframt að telja að sýslumanni hafi borið að gera grein fyrir því í gerðabók hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu sinni að hafna mótmælum stefndu, þar sem vísað var m.a. til sjónarmiða um tjáningarfrelsi, þegar beiðni stefnanda um lögbann var tekin fyrir. Þegar tekin er afstaða til þess hvaða áhrif það hefur fyrir úrlausn þessa máls að sýslumaður gerði ekki grein fyrir því hvers vegna væri vikið frá meginreglu laganna um tilkynningu lögbannsins verður þó að líta til þess að fyrirsvarsmenn stefndu voru báðir viðstaddir lögbannsgerðirnar og að þeim var báðum gefið færi á að ráðfæra sig við lögmenn og færa til bókar mótmæli sín við gerðirnar. Af þeim sökum verður ekki séð að skortur á því að stefndu væru tilkynnt um lögbannið og því að tekin væri afstaða til fráviks frá tilkynningarskyldu í gerðabók hafi leitt til réttarspjalla við gerðirnar. Að mati dómsins hafa stefndu ekki sýnt fram á með hvaða hætti leiðbeiningaskyldu hafi ekki verið sinnt við gerðina eða hvernig það hafi haft áhrif á framgang mála. Verður í því sambandi að horfa til þess að í gerðarbók um fyrirtöku lögbannsbeiðninnar á hendur stefnda Útgáfufélaginu Stundinni ehf., sem fyrirsvarsmaður félagsins undirritaði, kemur fram að fyrirsvarsmanninum hafi verið leiðbeint um réttarstöðu sína við fyrirtöku lögbannsbeiðninnar 16. október 2017 og að hann hafi ekki gert athugasemdir við efni bókunarinnar. Þótt fyrirsvarsmaður stefnda Reykjavík Media ehf. hafi neitað að undirrita bókun um fyrirtöku síðar sama dag verður um það atriði að horfa til þess að efni bókunarinnar er sérstaklega vottað. Þá hefur ekkert komið fram í málinu um að ákvörðun tryggingar hafi verið í andstöðu við ákvæði 3. mgr. 8. gr. og 30. gr. laga nr. 31/1990. Hvað varðar þær fullyrðingar í málatilbúnaði stefndu að þeim hafi verið tilkynnt af hálfu fulltrúa sýslumanns að fyrir lægi að lögbannið yrði samþykkt áður en sú varð reyndin og fulltrúi sýslumanns hafi dregið taum stefnanda við meðferð málsins þá fær dómurinn ekki séð að þær fullyrðingar eigi stoð í gögnum málsins. Verður af þeim sökum að hafna málatilbúnaði stefndu að þessu leyti. Þá verður ekki séð að sú aðstaða að stefnandi hafi meiri fjárhagslegan styrk en stefndu geti leitt til þess að slíks ójafnræðis hafi gætt með aðilum að það gangi í berhögg við ákvæði 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Málsástæðum stefndu um þetta atriði er því hafnað.  Eftir stendur hins vegar að sýslumanni bar eftir sem áður gera grein fyrir því í gerðabók hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu sinni að hafna mótmælum stefndu þegar lögbannsbeiðnirnar voru teknar fyrir. Að mati dómsins getur það atriði ekki eitt og sér valdið því að lögbannið verði talið ólögmætt, enda verður í því sambandi að taka afstöðu til þess hver efnisleg réttindi stefnanda eru í málinu. Um það er fjallað í kafla IV.4. 3. Aðild Glitnis Holdco ehf. að málinu og lögvarðir hagsmunir félagsins Stefndu byggja sýknukröfu sína í öðru lagi á því að stefnandi sé ekki réttur aðili málsins og að hann hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þess. Stefnandi hefur hins vegar vísað til þess að samkvæmt fjölmiðlaumfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., hafi hún verið unnin í samvinnu við stefnda, Reykjavik Media ehf., og byggt á gögnum „innan úr Glitni banka“. Telur stefnandi að umrædd tilvitnun frá október 2017 gefi það eindregið til kynna að stefndu hafi unnið umfjöllunina upp úr gögnum sem koma frá stefnanda. Þegar tekin er afstaða til þeirra sjónarmiða stefndu að stefnanda skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins verður að hafa í huga að samkvæmt ákvæði 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Af þessu leiðir að almennt verður að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að stefnendur skorti lögvarða hagsmuni. Þannig ber að jafnaði ekki að vísa frá málum á slíkum forsendum nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni stefnanda að fá leyst úr sakarefninu Stefnandi hefur til stuðnings kröfu sinni einkum vísað til ákvæðis 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, um þagnar­skyldu starfsmanna þeirra og annarra sem vinna verk í þeirra þágu. Dómurinn telur ljóst að umræddu ákvæði er fyrst og fremst ætlað að vernda viðskiptahagsmuni viðskiptavina fjármálafyrirtækis en ekki hagsmuni fyrirtækisins sjálfs. Hvað sem því líður verður þó ekki horft fram hjá því að stefnandi ber ábyrgð á því að trúnaðar sé gætt um þær upplýsingar sem í ákvæðinu greinir, bæði í samræmi við ákvæðið sjálft, sem og ákvæði 11. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, um skyldur ábyrgðaraðila samkvæmt síðarnefndu lögunum. Verður þá enn fremur að líta til þess hafi stefnandi sem ábyrgðaraðili unnið með persónuupplýsingar í andstöðu við ákvæði laga nr. 77/2000 kann hann að bera skaðabótaábyrgð samkvæmt 43. gr. laganna.                 Í ljósi þessa verður að telja að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að trúnaðar sé gætt um upplýsingar sem frá honum stafa og undirorpnar eru trúnaði samkvæmt ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002. Verður þá jafnframt að horfa til þess að þær upplýsingar sem ákvæðið tekur til kunna jafnframt, eins og dómafordæmi Hæstaréttar bera með sér, að falla undir ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs. Að mati dómsins verður enn fremur að gæta þess sjónarmið um lögvarða hagsmuni og aðild af úrlausn álitaefna um friðhelgi einkalífs verði ekki afmörkuð of þröngt, enda kann slíkt að draga úr því að slík réttindi verði vernduð með raunhæfum og virkum hætti fyrir dómstólum. Með vísan til þess sem að framan er rakið telst stefnandi því vera réttur aðili að málinu og hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn dómkrafna sinna. Hvað varðar aðild stefnda, Reykjavik Media ehf., þá er í umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., vísað sérstaklega til þess að umfjöllunin sé unnin í samvinnu þeirra tveggja og breska fjölmiðilsins Guardian. Stefnandi má því með réttu ætla að umfjöllun, sem er afrakstur samvinnu stefndu, geti birst hvort heldur sem er í fjölmiðlum stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., eða annars staðar fyrir tilstuðlan stefnda, Reykjavik Media ehf. Stefnandi hefur því einnig lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum á hendur stefnda, Reykjavik Media ehf. og það félag telst því með réttu aðili málsins. 4. Skilyrði lögbanns og heimild stefndu til að birta og fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun byggða á gögnum frá stefnanda Stefnandi hefur sem áður segir krafist þess að lögbannið sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 16. október 2017 við því að stefndi Útgáfufélagið Stundin ehf. birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum stefnanda, sem undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, verði staðfest. Telur stefnandi að hann hafi þegar sannað eða gert sennilegt að athafnir stefndu, byrjaðar eða yfirvofandi, hafi brotið eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans og þar með fullnægt áskilnaði 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Varnir stefndu byggja hins vegar á því að þeir hafi fullan rétt á að birta fréttir úr sömu gögnum eða kerfum með vísan til 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 62/1994. Samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmálans eiga allir rétt á að láta í ljós hugsanir sínar og skoðanir, svo og að taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Þá er þar jafnframt kveðið á um að eingöngu megi gera takmarkanir á þessum rétti að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans. Í því felst að takmarkanirnar verða að byggjast á lögum, stefna að lögmætum markmiðum og ekki ganga lengra samrýmist lýðræðishefðum eða er nauðsynlegt í lýðræðisþjóðfélagi. Enda þótt samkvæmt framangreindu sé gengið út frá því að tjáningarfrelsið geti sætt takmörkunum er engu að síður mælt fyrir um það í síðari málslið 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að takmarkanir á tjáningarfrelsi megi ekki vera með þeim hætti að þær feli í sér ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi. Ljóst er að ef horft væri einungis til orðalags 2. mgr. 73. gr. væri nærtækt að álykta að það fæli í sér skýlaust bann við hvers kyns tálmunum sem koma í veg fyrir að tjáning geti farið fram og upplýsingum sé miðlað. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að stjórnskipunarlögum nr. 97/1995, en með þeim lögum var ákvæðið innleitt í stjórnarskrána, verður hins vegar ekki dregin sú ályktun að gert hafi verið ráð fyrir svo afgerandi banni. Þannig segir í athugasemdunum: ,,Með banni við ritskoðun og öðrum sambærilegum tálmunum er hér nánar tiltekið átt við að ekki megi lögfesta reglur sem feli í sér að maður verði knúinn til að leita opinbers leyfis fyrir fram til að mega tjá skoðun sína við aðra. Er þannig gengið út frá að almennt verði þær takmarkanir á tjáningarfrelsi sem geti talist heimilar eftir 11. gr. frumvarpsins að koma fram á þann hátt að þeim verði fyrst og fremst beitt eftir að tjáning hefur átt sér stað, líkt og gerist við málsókn til að koma fram viðurlögum vegna meiðyrða sem felist í þegar föllnum ummælum. Eftir atvikum eiga þær þó við áður en tjáningin á sér stað ef komið er fram að hún vofi yfir eins og getur t.d. gerst þegar leitað er lög­banns til að koma í veg fyrir útgáfu rits sem geymir ærumeiðandi ummæli um mann. “ Af framangreindu er ljóst að þegar núgildandi ákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar var sett með tilkomu stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 var ekki uppi ráðagerð um að taka fyrir að lögbann yrði notað sem réttarúrræði til að koma í veg fyrir að tiltekin tjáning færi fram. Í innlendri dómaframkvæmd sem og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur einnig verið gengið út frá því að ákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar og sem ákvæði 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu standi því ekki í vegi að lögbanni verði beitt til að hindra tjáningu. Í 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans kemur reyndar beinlínis fram að takmörkunum megi beita til þess að koma í veg fyrir uppljóstran trúnaðarmála. Eftir sem áður eru takmörkunum af þessu tagi settar þær skorður í stjórnarskránni og mannréttindasáttmálanum að þær verða eiga sér stoð í lögum, stefna að lögmætu markmiði og ekki ganga lengra en nauðsynlegt er í lýðræðissamfélagi. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur hins vegar verið talið að þær hættur sem felast í fyrirfram tálmunum á tjáningarfrelsi geri kröfu um að dómstóllinn taki þess háttar skerðingar og forsendur þeirra til rækilegrar athugunar. Á það einkum við þegar slíkum tálmunum er beitt gegn fjölmiðlum, enda séu fréttir í eðli sínu þannig að þær hafi lítið geymsluþol og hvers kyns töf á birtingu þeirra, jafnvel þótt skammvinn sé, geti svipt þær gildi sínu og valdið því að áhuginn fyrir þeim hverfi (sjá hér til hliðsjónar m.a. dóm Mannréttindadómstólsins frá 26. nóvember 1991 í máli nr. 13585/88 Observer og Guardian gegn Bretlandi, 60. málsgrein og þá dóma sem þar er vitnað til). Í því felst m.a. að gerðar eru auknar kröfur til rökstuðnings fyrir slíkum íhlutunum, þess að lagalegur grundvöllur þeirra sé skýr og að íhlutanirnar séu fyrirsjáanlegar (sjá hér m.a. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstólsins frá 14. mars 2002 í máli nr. 26229/95 Gaweda gegn Pólandi, 32. málsgrein). Það leiðir af 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum. Þegar litið er til athugasemda við frumvarp það sem varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 og dómaframkvæmdar Hæstaréttar verður að ganga út frá því að með lögum í þessum skilningi sé að meginstefnu átt við sett lög frá Alþingi. Stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum einkum vísað til ákvæðis 58. gr. laga nr. 161/2002 til stuðnings kröfu sinni um lögbann sem og ákvæða 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmálans um friðhelgi einkalífs. Fallist er á að með þessum ákvæðum sé fullnægt þeirri kröfu sem sett er í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar um að skerðing eigi sér stoð í lögum. Á það bæði við um ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002, en einnig verður að telja að ákvæði 71. gr. feli í sér sjálfstæða heimild til takmörkunar á tjáningarfrelsi, sbr. dóm Hæstaréttar frá 21. mars 2000 í máli nr. 306/2001. Dómurinn fellst hins vegar engan veginn á þau sjónarmið stefnanda að ákvæði 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, geti orðið grundvöllur þess að takmarka tjáningarfrelsi stefndu, enda gilda þau ákvæði laganna ekki þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku, sbr. 5. gr. sömu laga. Er þá rétt að taka fram að í gögnum málsins er ekkert komið fram sem bendir til þess að stefndu hafi unnið með þær upplýsingar sem mál þetta lýtur að í öðrum tilgangi. Að mati dómsins verður að telja sýnt að sú skerðing á tjáningarfrelsi stefndu sem fólst í lögbanninu sem sett var á stefndu 16. október 2017 hafi miðað að því lögmæta markmiði að vernda réttindi annarra og koma í veg fyrir uppljóstrun trúnaðarmála, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.  Eftir stendur þá að taka afstöðu til þess hvort lögbannið hafi verið nauðsynlegt og samrýmst lýðræðishefðum, eins og gerð er krafa um í fyrrnefndum ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálans. Við það mat verður að taka afstöðu til þess hvaða vægi þeir hagsmunir sem stefnandi hefur vísað til, þ.e. að leynd skuli ríkja um fjárhagsmálefni einstaklinga, hafi gagnvart megingildum tjáningarfrelsisins um nauðsyn frjálsrar hugsunar og skoðanaskipta fyrir lýðræðislegt samfélag. Verður þá meðal annars að horfa til þess hvernig sú skerðing sem gripið er til kann að raska þessum gildum. Í því sambandi verður þá einnig að taka afstöðu til þess að hvaða marki skerðingin sé til þess fallin að ná því markmiði sem stefnt er að með henni og hvort hún gangi í því skyni lengra en nauðsynlegt er. Við þetta mat verður jafnframt að hafa í huga að almennt þurfa sérstaklega ríkar ástæður að liggja að baki fyrirfram tálmun á tjáningarfrelsi. Ljóst er að lögbannið sem lagt var á stefndu 16. október sl. fól í sér algert bann við þeir birtu fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð væri á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum stefnanda. Lögbannið beindist þannig að rétti stefndu til að fjalla um málefni sem lutu að viðskiptum ákveðinna einstaklinga sem tengdust Glitni hf. áður en Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar bankans 7. október 2008. Með lögbanninu var einnig komið í veg fyrir að almenningur fengi frekari upplýsingar um þau mál sem fjallað var um af hálfu stefndu og þannig raskað grundvallargildum tjáningarfrelsisins um frjáls skoðanaskipti og rétti einstaklinga til að taka við upplýsingum og mynda sér skoðun á samfélagslegum málefnum. Lögbannið fól sem fyrr segir einnig í sér fyrirfram tálmun sem almennt þarf ríkar ástæður til að réttlæta. Í þessu sambandi verður jafnframt að hafa í huga að þegar lögbannið var lagt á voru einungis 12 dagar til þess að Alþingiskosningar færu fram 28. október. Ljóst er að rétturinn til frjálsra kosninga og frelsið til að tjá sig um stjórnmál eru ein af undirstöðum lýðræðislegs stjórnarfars. Þessi réttindi eru nátengd, enda er tjáningarfrelsi ein af nauðsynlegum forsendum þess að kjósendur í lýðræðissamfélagi geti tjáð hug sinn með því hvernig þeir beita atkvæðisrétti sínum. Af þeim sökum hefur verið talið sérstaklega brýnt að fólk hafi frelsi til að tjá skoðanir sínar og miðla upplýsingum í aðdraganda kosninga (sjá hér til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstólsins frá 19. febrúar 1998 í máli Bowman gegn Bretlandi, Reports 1998‑I, 42. málsgrein, og þá dóma sem þar er vitnað til). Gagnstætt tjáningarfrelsi stefndu stendur hins vegar réttur viðskiptamanna stefnanda til friðhelgi einkalífs. Sá réttur er varinn af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, en samkvæmt 3. mgr. sömu greinar verður sá réttur því aðeins takmarkaður með lögum að brýna nauðsyn beri til þess vegna réttinda annarra. Friðhelgi einkalífsins er einnig varin af 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, þar sem hún stendur jafnfætis rétti stefndu til tjáningar og nýtur sömu lagaverndar, sbr. og ákvæði 17. gr. sáttmálans. Eins og atvikum málsins er háttað verður að taka afstöðu til þess hvort eigi að ganga hér framar, frelsi stefndu samkvæmt 2. mgr., sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar til að fjalla um þau málefni sem urðu tilefni lögbannsins eða réttur viðskiptamanna stefnanda samkvæmt 1. mgr., sbr. 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar til friðhelgi einkalífs. Við þetta mat verður að taka mið af efni þeirrar umfjöllunar stefnda Útgáfufélags Stundarinnar ehf., frá 6. til 16. október 2017 sem varð tilefni lögbannsbeiðni stefnanda. Óumdeilt er að þungamiðja þeirrar umfjöllunar voru þátttaka þáverandi forsætisráðherra í ýmsum viðskiptum sem og einstaklinga og lögaðila sem tengdust honum. Lutu upplýsingarnar sem greint var frá í umfjölluninni fyrst og fremst að fjárhagsmálefnum þeirra og innbyrðis samskiptum sem og samskiptum við bankann, Glitni hf. Þegar tekin er afstaða til þess hvort sjónarmið um friðhelgi einkalífs geti réttlætt lögbannið sem mál þetta snýr að verður ekki litið fram hjá því að umfjöllun stefnda beindist í öllum aðalatriðum að viðskiptalegum umsvifum þáverandi forsætisráðherra, þ.e. einstaklings sem hefur sem stjórnmálamaður sjálfur gefið kost á sér til opinberra trúnaðarstarfa. Stjórnmálamenn geta almennt ekki vænst þess að njóta sömu verndar og aðrir einstaklingar gagnvart opinberri umfjöllun á grundvelli 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmálans eða annarra lagareglna sem tryggja eiga leynd upplýsinga. Þvert á móti verður að telja að almenningur eigi við ákveðnar aðstæður tilkall til þess að fá upplýsingar um stjórnmálamenn sem að öllu jöfnu myndu teljast til einkamálefna (sjá hér m.a. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstólsins frá 16. nóvember 2004 í máli nr. 53678/00 Karhuvaara og Iltalehti gegn Finnlandi, 45. málsgrein), einkum þegar upplýsingarnar sem um ræðir tengjast því hvernig þeir hafi rækt hlutverk sitt sem stjórnmálamenn. Við mat á því hvort lögbannið sem hér um ræðir hafi verið í eðlilegu samræmi við þá hagsmuni sem stefnandi hefur vísað til verður ekki litið fram hjá því að umfjöllunin um umsvif þáverandi forsætisráðherra og aðila sem tengdust honum lutu að viðskiptasambandi þeirra við einn hinna föllnu banka, Glitni hf., á sama tíma og hann var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem þá sat í ríkisstjórn. Umfjöllunin tengdist þannig viðskiptaháttum í einum stóru viðskiptabankanna fyrir fall þeirra 2008 en eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar Íslands frá 24. nóvember 2011 í máli nr. 100/2011 hafði hrunið sem varð í íslensku efnahagslífi við fall viðskiptabankanna þriggja haustið 2008 mikil og almenn áhrif á alla starfsemi í landinu og kjör almennings. Opinber umræða og umfjöllun fjölmiðla hafi frá þeim tíma snúist mikið um að greina aðdraganda og orsakir þess hvernig fór og hafi umfjöllun um fjárhagsleg málefni einstakra manna oft verið nærgöngul. Ljóst er að umfjöllun um viðskiptaleg umsvif þáverandi forsætisráðherra og annarra, þar sem meðal annars var vikið að áhættusömum fjárfestingum sem ekki skiluðu tilætluðum árangri eru þáttur í umfjöllun fjölmiðla um afleiðingar útlánastefnu íslenskra viðskiptabanka og áhættusækni íslenskra fjárfesta, sem kann að hafa átt þátt í því hvernig fór. Eins og vikið er að í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar getur skerðing á frelsi fjölmiðla til að fjalla um slík málefni ekki talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Gildir þá einu þótt umfjöllunin byggi á gögnum sem undirorpin eru trúnaði og að birtar hafi verið upplýsingar sem gangi nærri friðhelgi einkalífs tilgreindra einstaklinga. Hvað varðar umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., um málefni annarra einstaklinga en þáverandi forsætisráðherra, þá eru umræddir einstaklingar ýmist tengdir þáverandi forsætisráðherra fjölskylduböndum eða gegnum viðskipti, auk þess sem þeir höfðu á þeim tíma sem umfjöllunin tók til tengsl við Glitni hf. Er það mat dómsins að umfjöllun um málefni þeirra hafi verið svo samofin fréttaefninu í held að ekki verði greint á milli, sjá hér til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 1. júní 2006 í máli nr. 541/2005. Þá verða ekki dregnar þær ályktanir af umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., að ætlunin sé að fjalla um málefni handahófskenndra einstaklinga sem ekki eigi erindi til almennings. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., hafi ekki gengið nær einkalífi þeirra einstaklinga sem um ræði en óhjákvæmilegt hafi verið í opinberri umræðu í lýðræðissamfélagi um málefni sem varðar almenning og að nægar ástæður hafi þar af leiðandi verið fyrir hendi sem réttlættu birtingu þessara skrifa. Breytir það ekki framangreindri niðurstöðu hvernig umþrætt gögn komust í hendur stefndu né heldur að í þeim séu upplýsingar sem undirorpnar séu bankaleynd samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að ekki sé fullnægt áskilnaði 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., að stefnandi hafi sannað eða gert sennilegt að athöfn, byrjuð eða yfirvofandi, hafi brotið eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans. Ber því að synja kröfu stefnanda á hendur stefndu um að staðfest verði lögbann það sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði 16. október 2017 við því að stefndu birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum stefnanda, sem undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu sem að framan greinir eru stefndu einnig sýknaðir af kröfum stefnanda í lið 3 og 4 í dómkröfum, um að viðurkennt verði að stefndu sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda og undirorpin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Hefur dómurinn þá litið til þess að umræddar kröfur byggja í reynd á sömu málsástæðum og fyrsta og önnur krafa stefnanda. 5. Kröfur stefnanda um afhendingu gagna og afrita af þeim Í liðum 5 og 6 í dómkröfum stefnanda gerir hann kröfu um að stefndu verði gert að afhenda honum öll gögn og afrit af þeim sem stefndu hafi í fórum sínum, hvort sem þau séu á rafrænu eða öðru formi, sem komi úr fórum eða kerfum stefnanda. Stefnandi byggir þessa kröfu á eignarrétti sínum á gögnunum og afritum af þeim, sem og á því að stefndu sé óheimilt að hafa þær upplýsingar undir höndum sem finna megi í gögnunum, sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og persónuupplýsinga, 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mann­réttindasáttmála Evrópu. Kröfur samkvæmt liðum 5 og 6 í dómkröfum stefnanda miða að því að honum verði afhent „öll gögn og afrit“ „hvort sem þau eru á rafrænu eða öðru formi, sem koma úr fórum eða kerfum stefnanda“. Gögnin eru þó ekki frekar tilgreind. Ekkert hefur fram komið í málinu um að einhver frumeintök gagna séu horfin úr fórum stefnanda og er því við það miðað að stefnandi krefjist þess að fá afhent afrit gagnanna á rafrænu eða öðru formi. Þá liggur ekki fyrir í málinu af hvaða gögnum stefnandi telur stefndu hafa afrit, annað en yfirlit yfir rafræn skjöl úr kerfum stefnanda samkvæmt bókun stefnanda í þinghaldi málsins 18. desember 2017. Vísar stefnandi að öðru leyti til þess sem fram kom í fréttaflutningi Stundarinnar um að umfjöllunin byggði á gögnum „innan úr Glitni banka“. Í því skyni að eyða óvissu um hvaða gögn stefndu hafi afrit af og á hvaða formi þau eru, er í stefnu málsins og með bókun stefnanda í þinghaldi 7. nóvember 2017 skorað á stefndu að upplýsa hvaða gögn þeir hefðu undir höndum, með vísan til 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefndu urðu ekki við þeirri áskorun og vísuðu til 25. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla. Í framangreindri bókun í þinghaldi málsins 18. desember 2017 tilgreindi stefnandi 1013 rafræn skjöl sem hann telur stefndu hafa undir höndum. Fram kemur í bókuninni að hjá embætti héraðssaksóknara sé til rannsóknar mál sem varði gagnastuld frá stefnanda og birtingu upplýsinga úr þeim. Kveður stefnandi að tilgreining skjalanna í bókuninni sé í samræmi við yfirlit sem hann hafi fengið frá embætti héraðssaksóknara 14. desember 2017, yfir gögn sem embættið hafi undir höndum og eigi uppruna sinn í kerfum stefnanda. Ekkert liggur hins vegar fyrir um efni þessara skjala þannig að unnt sé að leiða líkur að því að þau séu í fórum stefndu. Líkt og að framan greinir bera flest hinna tilgreindu skjala heiti sem gefa ekkert til kynna um hvert efni þeirra er. Þá er ekki minnst á stefndu í bréfi embættis héraðssaksóknara frá 14. desember sl. og því ekkert sem gefur til kynna að þeir hafi þau skjöl, sem þar eru tilgreind, undir höndum. Í framangreindri bókun er jafnframt ítrekuð áskorun stefnanda að stefndu leggi fram þau gögn sem þeir hafi undir höndum og komi „innan úr“ stefnanda. Í þinghaldi málsins 22. desember 2017 var af hálfu stefndu áréttað að þau gögn sem þau hefðu undir höndum bæru með sér að þau komið frá heimildarmanni og að þeim væri því óheimilt að lögum að verða við áskorun stefnanda um framlagningu þeirra. Af hálfu stefnanda var leitast við að upplýsa við aðalmeðferð málsins hvaða gögn stefndu hefðu undir höndum með spurningum sem beint var til fyrirsvarsmanna stefndu og vitna. Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri og ritstjóri Stundarinnar, og Jóhannes Kr. Kristjánsson, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Reykjavik Media ehf., gáfu aðilaskýrslur. Þeir neituðu að svara spurningum lögmanns stefnanda um þau gögn sem stefndu hefðu undir höndum, með vísan til 25. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri og blaðamaður Stundarinnar, Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður og Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður gáfu öll vitnaskýrslu fyrir dómi en neituðu að svara spurningum lögmanns stefnanda um þau gögn sem stefndu hefðu undir höndum, með vísan til 25. gr. laga nr. 38/2011. Spurningarnar lutu að því hvaða gögn þau hefðu undir höndum, í hvaða formi gögnin væru, hvort þau kæmu úr kerfum Glitnis, umfangi gagnanna og hvers konar upplýsingar væru í þeim. Þá voru vitnin spurð hvort stefndu hefðu undir höndum þau gögn sem greini í framlögðu yfirliti frá embætti héraðssaksóknara. Stefnandi krafðist úrskurðar dómara um að framangreindum vitnum yrði gert skylt að svara þeim spurningum sem þau höfðu neitað að svara. Úrskurður var kveðinn upp um kröfuna í sama þinghaldi og var kröfum stefnanda um að vitnunum yrði gert skylt að svara spurningum lögmannsins hafnað. Í úrskurðinum er rakið að samkvæmt a-lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er vitni óheimilt án leyfis þess sem á í hlut að svara spurningum um hver sé höfundur eða heimildarmaður að riti, grein, frásögn eða tilkynningu sem hefur birst án þess að hann væri nafngreindur, ef vitnið ber ábyrgð að lögum á efni prentaðs rits eða öðru efni sem birtist opinberlega eða það hefur öðlast vitneskju um höfund eða heimildarmann í starfi hjá ábyrgðarmanni. Eins er í 25. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, kveðið á um að starfsmönnum fjölmiðlaveitu sem hlotið hafa leyfi eða skráningu hjá fjölmiðlanefnd sé óheimilt að upplýsa hver sé heimildarmaður að grein, riti, frásögn, tilkynningu eða öðru efni, hvort sem það hefur birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höfundur óskað nafnleyndar. Starfsmönnum fjölmiðlaveitu er jafnframt óheimilt að láta af hendi gögn sem hafa að geyma upplýsingar um heimildarmann eða höfund í slíkum tilvikum. Þá segir í 2. mgr. 25. gr. að bann 1. mgr. gildi einnig um þá sem vegna tengsla við fjölmiðlaveitu eða framleiðslu efnis hefur orðið kunnugt um hver heimildarmaður eða höfundur er eða hefur undir höndum gögn þar að lútandi. Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. verður heimildarvernd, samkvæmt 1. og 2. mgr., einungis aflétt með samþykki viðkomandi heimildarmanns eða höfundar eða á grundvelli 119. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Í úrskurðinum er einnig rakið að þrátt fyrir að spurningar stefnanda lúti að því hvaða gögn stefndu hafi undir höndum en ekki hver sé heimildarmaður þeirra þá verði ekki horft framhjá því að heimildarvernd blaðamanna njóti sjálfstæðrar verndar samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Játa verði blaðamönnum víðtækt frelsi til tjáningar og einn þáttur í því sé að fjölmiðlar verði að geta tekið við upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir því hvaðan eða frá hverjum þær stafi. Verði blaðamönnum því ekki gert skylt að veita upplýsingar sem leitt geti til þess að kennsl verði borin á heimildarmenn hans, þar á meðal upplýsingar um gögn sem blaðamanni hafi verið látin í té. Eðli málsins samkvæmt verði að játa blaðamönnum ákveðið svigrúm til mats á því hvort hann telji uppljóstrun um þau gögn sem hann hafi undir höndum eða starfsaðferðir sínar að öðru leyti vera til þess fallnar að varpa ljósi á það hverjir séu heimildarmenn hans. Að framangreindu virtu hefur stefnanda ekki tekist að eyða óvissu um það hvaða gögn stefndu hafa afrit af eða á hvaða formi. Af hálfu stefnanda var ekki leitast við að leiða önnur vitni en að framan greinir, t.d. starfsmenn eða fyrrverandi starfsmenn stefnanda, um hvaða gögn þetta kunni að vera. Þá hefur stefnandi ekki lagt fram endurrit þeirra skjala sem hann telur stefndu hafa undir höndum til þess að leitast við að sýna fram á að grundvöllur sé fyrir málatilbúnaði hans. Með vísan til þessa og þeirra sjónarmiða sem rakin eru í úrskurði dómsins frá 5. janúar sl. um vernd heimildarmanna eru enn fremur ekki forsendur til þess að samþykkja frásögn stefnanda um efni þeirra gagna sem stefndu kunna að hafa undir höndum, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, enda er stefndu ekki skylt að bera vitni efni þeirra, sbr. 2. mgr. 67. gr. sömu laga. Þá hefur stefnandi ekki gert sérstaka grein fyrir því hvert hann telur efni gagnanna vera heldur vísað til þess almennt að í þeim séu upplýsingar um ótilgreinda einstaklinga sem undirorpnar séu trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Kröfur stefnanda um afhendingu allra gagna og afrita af þeim uppfylla samkvæmt framansögðu ekki skilyrði um skýrleika sem gera verður, jafnvel þótt litið sé til framlagðs yfirlits yfir 1013 rafræn skjöl. Á kröfunum er einnig sá galli að þær byggja á eignarrétti stefnanda en stefnandi vísar að öðru leyti til lagaákvæða sem varða meðferð upplýsinga. Grundvöllur krafnanna er því einnig óljós. Hvað sem því líður hefur stefnandi, að mati dómsins, ekki sýnt fram á með málatilbúnaði sínum eða framlögðum gögnum að þau gögn sem stefndu hafa undir höndum og koma „innan úr“ stefnanda séu einkagögn stefnanda. Að því virtu er það niðurstaða dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að færa sönnur fyrir því hvaða skjöl það eru sem eru í vörslum stefndu og hvaða rétt hann eigi til þeirra. Er kröfugerð stefnanda hvað varðar afhendingu gagna og afrita af þeim, og málatilbúnaður þar að lútandi, af þeim sökum það óljós að vísa verður kröfunum frá dómi án kröfu. Með bókun í þinghaldi 18. desember 2017 bætti stefnandi varakröfum við kröfugerð sína í málinu. Eru varakröfurnar samhljóða aðalkröfunum nema að því leyti að stefnandi bætir við tilgreiningu alls 1013 rafrænna skjala í stað þess að vísa almennt til gagna úr fórum eða kerfum stefnanda. Fram kemur í bókuninni að stefnandi telji varakröfurnar allar rúmast innan stefnukrafna og að þær séu reistar á sömu málsástæðum og aðalkröfur stefnanda. Einnig kemur fram í bókuninni, sem og í framlögðu bréfi frá embætti héraðssaksóknara, dagsettu 14. desember 2017, að öll tilgreind skjöl séu úr kerfum stefnanda. Í ljósi þess að umræddar kröfur byggja á sömu málsástæðum og aðalkröfur stefnanda verður þegar með vísan til þess sem að framan er rakið að sýkna stefndu af liðum 7 til 10 í varakröfu stefnanda en vísa frá liðum 11 til 12 í varakröfu stefnanda, enda eru þær sömu annmörkum háðar og liðir 5 til 6 í aðalkröfu sem dómurinn hefur vísað frá dómi. Dómurinn telur ekki vera nægilegar forsendur fyrir því í málinu að fallast á sjónarmið stefndu að stefnandi hafi höfðað mál þetta af tilefnislausu og því beri að gera honum að sæta álagi á málskostnað, sbr. 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Með tilliti til umfangs málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda, Útgáfufélagi Stundarinnar ehf., málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur og stefnda, Reykjavik Media ehf., málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur. Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð: Synjað er kröfu stefnanda, Glitnis HoldCo ehf., um að staðfest verði með dómi lögbann sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði á 16. október 2017 við því að stefndu, Útgáfufélagið Stundin ehf. og Reykjavik Media ehf., birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin er upp úr gögnum stefnanda, gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda, sem undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Stefndu, Útgáfufélag Stundarinnar ehf. og Reykjavik Media ehf. eru sýknaðir af kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að þeim sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin er upp úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda og undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Kröfum stefnanda um að stefndu verði gert að afhenda stefnanda öll gögn og afrit af þeim, sem stefndu hafa í fórum sínum, hvort sem þau eru á rafrænu eða öðru formi, sem koma úr fórum eða kerfum stefnanda, er vísað frá dómi án kröfu. Stefndu Útgáfufélag Stundarinnar ehf. og Reykjavik Media ehf. eru sýknaðir af varakröfum stefnanda um að staðfest verði lögbann það sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 16. október 2017 við því að stefndu birtu fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum stefnanda, úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda, sem undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, að því er varðar alls 1013 skjöl sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017. Stefndu Útgáfufélag Stundarinnar ehf. og Reykjavik Media ehf. eru sýknaðir af varakröfum stefnanda um að viðurkennt verði að þeim sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin er upp úr 1013 skjölum úr fórum eða kerfum stefnanda sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017. Varakröfum stefnanda um að stefndu verði gert að afhenda alls 1013 skjöl úr fórum eða kerfum stefnanda sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017, hvort sem þau eru á rafrænu eða öðru formi, er vísað frá dómi án kröfu. Stefnandi greiði stefnda, Útgáfufélagi Stundarinnar ehf., 1.200.000 krónur í málskostnað og stefnda, Reykjavik Media ehf., einnig 1.200.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 817/2017
Vinnuslys Líkamstjón Skaðabætur Kjarasamningur
A slasaðist á baki þegar hann var við lyftingaræfingar í líkamsræktarstöð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann starfaði sem lögreglumaður. Hafði A verið á næturvakt umrætt sinn og fengið leyfi yfirmanns síns til að fara í líkamsræktarstöðina. Deildu aðilar um hvort Í bæri hlutlæga bótaábyrgð á tjóni A í skilningi lögreglulaga og kjarasamnings. Dæmt var að Í bæri skaðabótaábyrgð á þeim grundvelli og voru kröfur A teknar til greina. Til grundvallar niðurstöðu í málinu var lögð álitsgerð sérfræðings, en tekið var fram í dómi Hæstaréttar að Í hefði ekki freistað þess að fá álitinu hnekkt.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Eyvindur G. Gunnarsson prófessor. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2017. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi aflaði stefndi álitsgerðar 22. júní 2015 um líkamstjón sitt í samræmi við samkomulag Landsambands lögreglumanna og ríkislögmanns. Í álitinu var komist að þeirri niðurstöðu að tjónið yrði rakið til líkamsæfinga stefnda 23. nóvember 2011. Þar sem áfrýjandi hefur hvorki nýtt sér heimild til að bera álitið undir örorkunefnd, sbr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, né aflað matsgerðar eftir almennum reglum til að hnekkja því verður það lagt til grundvallar niðurstöðu í málinu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. janúar 2013 í máli nr. 542/2012. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsenda héraðsdóms verður hann staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, A, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2017 Mál þetta, sem dómtekið var 20. október 2017, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 9. janúar 2017. Stefnandi er A, […], en stefndi er íslenska ríkið. Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 2.832.508 krónur með 4,5% ársvöxtum af 411.395 krónum frá 23. nóvember 2011 til 23. febrúar 2012 og af  2.832.508 krónum frá þeim degi til 10. júlí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af  2.835.758 krónum frá 10. júlí 2016 til greiðsludags, allt að frádregnum 583.294 krónum sem greiddar voru þann 9. júlí 2016. Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað, auk virðisaukaskatts. Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda en til vara lækkunar. Þá er einnig krafist málskostnaðar að mati dómsins en til vara að hann verði látinn niður falla. II Helstu málsatvik eru óumdeild. Stefnandi er lögreglumaður og starfar sem slíkur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Stefnandi var á næturvakt á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík sem hófst kl. 23.00 þann 22. nóvember 2011 og lauk kl. 07.50 daginn eftir. Á vaktinni, skömmu eftir miðnætti, óskaði stefnandi eftir því við yfirmann sinn, Guðmund Inga Rúnarsson, að fá að fara í líkamsræktaraðstöðuna á lögreglustöðinni og fékk leyfi yfirmannsins til þess. Í málinu liggur frammi upplýsingaskýrsla Guðmundar Inga þar sem þetta er staðfest. Stefnandi lýsti því fyrir dóminum að hann hefði hafið lyftingaræfingar og hafi verið að gera réttstöðulyftu þegar hann fann skyndilega fyrir miklum verk í baki. Hann varð að hætta æfingum þegar í stað og fann strax fyrir miklum dofa og verkjum í baki sem leiddu niður í vinstri fót og ökkla. Stefnandi fann áfram fyrir verkjum næstu daga en leitaði þó ekki strax til læknis þar sem hann taldi að verkirnir myndu lagast. Það hafi þó ekki gerst og er komið fram í gögnum málsins að stefnandi fór í segulómskoðun á Landspítalanum þann 15. desember 2011. Í ljós kom brjósklos á milli V. mjóhryggjaliðar og spjaldhryggjar. Stefnandi aflaði vottorðs Nönnu Kristinsdóttur heimilislæknis, dagsett 16. desember 2011, vegna fjarvista frá vinnu þar sem fram kemur að stefnandi hafi verið óvinnufær með öllu frá slysdegi um óvissan tíma. Þá liggur frammi í málinu vottorð Leifs N. Dungal heimilislæknis, dagsett 17. janúar 2012, um að stefnandi hafi verið óvinnufær með öllu vegna vinnuslyss frá slysdegi. Stefnandi mun hafa hafið störf að nýju í janúar 2012 en hann kveðst þó áfram hafa verið með verki. Tjón stefnanda var metið með örorkumatsgerð dr. Atla Þórs Ólasonar, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, dagsettu 22. júní 2015. Mun matsgerðarinnar hafa verið aflað í samræmi við samkomulag Landsambands lögreglumanna og ríkislögmanns um að afla örorkumats eins læknis í málum sem þessu. Samkvæmt matsgerðinni var stefnandi 100% óvinnufær vegna slyssins frá slysdegi til 16. janúar 2012. Tímabil þjáningabóta án rúmlegu var talið það sama og óvinnufærni og varanlegur miski metinn 3%. Varanleg örorka vegna slyssins var einnig talin 3%. Heilsufar stefnanda var talið stöðugt þann 23. febrúar 2012. Fyrir liggur að Vátryggingafélag Íslands hf. greiddi stefnanda slysabætur úr launþegatryggingu þann 9. júlí 2016 að fjárhæð 583.294 krónur. Með bréfi, dagsettu 10. júní 2016, krafðist stefnandi bóta úr hendi stefnda með vísan til 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og kjarasamnings Landsambands lögreglumanna og stefnda, samtals að fjárhæð 3.020.349 samkvæmt eftirfarandi sundurliðun:   Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl.                                                                        kr.     100.100,- Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl. (10.376.500 x 3 stig)                             kr.     311.295,- Varanleg örorka skv. 5.-8. gr. skbl. (6.139.990 x 12,701 x 3%)               kr.   2.339.520,- Frádráttur vegna greiðslu úr slysatryggingu                                                 kr.      583.294,- Vextir skv. 16. gr. skaðabótalaga                                                                   kr.       579.251,- Innheimtuþóknun                                                                                                             kr.       220.546,- VSK                                                                                                                                     kr.         52.531,- Samtals:                                                                                                              kr.   3.020.349,-   Til viðbótar krafðist stefnandi greiðslu útlagðs kostnaðar að fjárhæð 3.250 krónur. Með bréfi til lögmanns stefnanda, dagsettu 31. ágúst 2016, hafnaði stefndi bótaskyldu með þeim rökum að stefnandi hefði ekki slasast við framkvæmd lögreglustarfa. Stefnandi höfðaði því mál þetta 9. janúar 2017, svo sem áður er getið. III Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á afleiðingum slyss hans þann 23. nóvember 2011 á grundvelli 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og kjarasamnings Landsambands lögreglumanna og fjármálaráðherra fyrir hönd stefnda. Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að í 30. gr. lögreglulaga sé kveðið á um að ríkissjóður skuli bæta lögreglumönnum líkamstjón og munatjón sem þeir verði fyrir vegna starfs síns. Ákvæðið feli í sér hlutlæga bótaábyrgð stefnda á líkams- og munatjóni lögreglumanna sem þeir verða fyrir á vinnutíma og við öll störf sín. Stefnandi vísar til þess að þessi skýring á ákvæðinu hafi verið staðfest í dómi Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 365/2000. Stefnandi telur hina hlutlægu ábyrgð ákvæðisins fela í sér að stefndi sé skaðabótaskyldur vegna alls líkamstjóns sem lögreglumenn verða fyrir í vinnutíma. Samkvæmt ólögfestum meginreglum skaðabótaréttar feli hlutlæg ábyrgð í sér skilyrðislausa bótaábyrgð, án tillits til sakar. Með hliðsjón af orðalagi 30. gr. lögreglulaga telur stefnandi að skýra verði ákvæðið þannig að með orðalaginu „vegna starfs síns“ sé átt við öll tjónstilvik sem eigi sér stað á meðan lögreglumaður er við störf, óháð tegund tjóns eða orsök. Þá bendir stefnandi á að samkvæmt c. lið 2. mgr. 28. gr. lögreglulaga skuli lögreglumaður vera svo líkamlega á sig kominn að hann geti sinnt embættinu. Vegna eðlis starfs lögreglumanna, sbr. fyrrnefnda 28. gr., sé lögreglumönnum nauðsynlegt að stunda líkamsrækt og því sjái lögregluembættin þeim fyrir íþróttaaðstöðu. Jafnframt fari líkamsræktin iðulega fram á vinnutíma. Einnig séu laun lögreglumanna m.a. ákveðin með tilliti til líkamlegrar getu sem mæld sé með þrekprófum. Fyrir liggi að stefnandi hafi slasast á vinnutíma við lyftingaæfingar í sérútbúinni lyftingaaðstöðu á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík. Þegar af þeirri ástæðu að stefnandi hafi slasast í vinnutíma, telur stefnandi stefnda bera hlutlæga ábyrgð á tjóni hans. Þar að auki, í ljósi skyldu lögreglumanna til að halda sér í góðu líkamlegu formi, gefi augaleið að líkamstjón sem verði við æfingar á lögreglustöðinni við Hverfisgötu á vinnutíma teljist líkamstjón vegna starfs lögreglumanna í skilningi 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Því sé stefndi skaðabótaskyldur vegna tjóns stefnanda. Í öðru lagi byggir stefnandi á því, að í gildandi kjarasamningi Landsambands lögreglumanna og ríkissjóðs, dagsettum 30. apríl 2005,  með síðari breytingum og framlengingum með kjarasamningum og gerðardómum, sé kveðið á um að lögreglumenn eigi rétt til bóta fyrir meiðsli og tjón sem þeir verði fyrir vegna starfs síns. Nánar tiltekið segi í grein 7.5 í kjarasamningnum: „7.5.1           Lögreglumenn eiga rétt á bótum fyrir meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. 7.5.2             Lögreglumenn skulu teljast að störfum, auk venjulegrar vinnuskyldu, þegar þeir eru á leið í eða úr vinnu, sitja lögregluskóla og lögreglunámskeið eða stunda lögregluæfingar, íþróttir og kappleiki á vegum félaga lögreglumanna. Hið sama gildir ef þeir ráðast í lögregluaðgerðir að eigin frumkvæði sem lögreglumenn.“ Stefnandi telur að stefndi sé bundinn af umræddum kjarasamningi og skylt að efna hann samkvæmt orðanna hljóðan á grundvelli meginreglna samninga- og vinnuréttar, m.a. reglunnar um efndir in natura. Framangreint kjarasamningsákvæði sé ítrekun á hlutlægri ábyrgð stefnda samkvæmt 30. gr. lögreglulaga á líkams- og munatjóni lögreglumanna vegna starfs þeirra. Hafi það m.a. verið tilgangur umrædds ákvæðis að skilgreina með ítarlegri hætti gildissvið hinnar hlutlægu ábyrgðar samkvæmt 30. gr. lögreglulaga. Í því sambandi hafi verið litið til dómaframkvæmdar og venju sem skapast hafi um skýringu ákvæðisins við uppgjör slysabóta vegna slysa lögreglumanna. Stefnandi telur engan vafa leika á að tjón hans falli undir skilgreiningu á bótaskyldu tjóni í grein 7.5.2 í kjarasamningum og vísar sérstaklega til þess, að stefnandi hafi slasast í vinnu og á vinnustað sínum. Hann hafi því verið að sinna vinnuskyldum sínum í skilningi ákvæðisins. Þá liggi fyrir að þegar stefnandi slasaðist, hafi hann verið að stunda íþróttir, nánar tiltekið réttstöðulyftu, en íþróttir á vegum lögreglunnar séu sérstaklega tilgreindar sem hluti af störfum lögreglumanna í grein 7.5.2. Því eigi stefnandi rétt á bótum samkvæmt grein 7.5.1. í kjarasamningnum. Stefnandi vísar einnig til þess að til frekari fyllingar ákvæðum fyrrnefnds kjarasamnings lögreglumanna hafi verið gerðir stofnanasamningar milli einstakra lögregluembætta og stéttarfélaga lögreglumanna. Meðal þeirra samninga sé stofnanasamningur lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og Lögreglufélags Reykjavíkur, dagsettur 14. febrúar 2011, um vinnutíma á sólarhringsvöktum. Í 9. gr. samningsins sé vísað til yfirlýsingar lögreglustjórans um líkamsrækt og þjálfun lögreglumanna í vinnutíma. Í umræddri yfirlýsingu í viðauka V við samninginn segi eftirfarandi: „LRH leggur áherslu á að lögreglumenn séu á hverjum tíma færir um að sinna öllum þeim verkefnum sem upp koma í starfi. Embættið hvetur því til líkamsþjálfunar en einnig til annarra æfinga eins og skotæfinga, handtöku- og sjálfsvarnaræfinga svo dæmi séu nefnd. Lögreglumönnum skal því gefast kostur á að stunda slíkar æfingar í vinnutíma eftir því em verkefnastaða leyfir og samkvæmt heimild frá stjórnanda hverju sinni.“ Stefnandi telur ljóst af tilvitnuðu samkomulagi að beinlínis sé ætlast til þess af hálfu stefnda og embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lögreglumenn stundi líkamsrækt og að slík líkamsrækt fari fram á vinnutíma og sé þar með hluti af störfum lögreglumanna. Þegar ákvæði greinar 7.5.1 í kjarasamningi lögreglumanna og viðauki V í stofnannasamningum séu skýrð saman, sé ljóst að lögreglumenn eigi rétt á bótum  vegna líkamstjóns og slysa sem þeir verða fyrir við slíkar æfingar á vinnutíma. Þá byggir stefnandi á því að skýra verði ákvæði kjarasamnings lögreglumanna með hliðsjón af bókunum, sem gerðar hafi verið samhliða gerð kjarasamninga, og samningum um framlengingu á kjarasamningum. Í bókun 2 með samkomulagi ríkissjóðs og Landsambands lögreglumanna um framlengingu á kjarasamningi frá 22. október 2008, sem enn fylgi núgildandi kjarasamningi, sé kveðið á um að vegna eðlis lögreglustarfa sé lögreglumönnum nauðsynlegt að vera í góðu líkamlegu formi og hafa tækifæri til að viðhalda því. Þá segir að það sé sameignlegt markmið aðila, þ.e. stefnda og Landsambands lögreglumanna, að lögreglumenn stundi reglubundna líkamsþjálfun og uppfylli tilteknar samræmdar kröfur sem taki mið af því við hvaða aðstæður þeir starfa. Samkvæmt bókuninni hafi lögregluembættunum, í samráði við lögreglumenn, verið falið að útfæra með hvaða hætti lögreglumönnum yrði auðveldað að sinna þessari þjálfun. Í fylgiskjali 2 með samkomulaginu sé að finna nánari útfærslu á bókun 2 og þar sé kveðið á um að lögreglumenn eigi rétt á sérstakri launagreiðslu, svokölluðu þrekálagi, standist þeir þrekpróf. Í reglum Lögregluskóla ríkisins frá 2009 sé kveðið á um útfærslu á þrekprófi lögreglumanna en það sé í fimm hlutum sem reyni á styrk og þol lögreglumanna. Nánar tiltekið sé prófað í bekkpressu, hnébeygju, niðurtogi, uppsetum, hlaupi og sundi. Stefnandi byggir á því að lyftingaæfingar lögreglumanna á vinnutíma séu hluti af líkamsþjálfun samkvæmt kjarasamningi og undirbúningi lögreglumanna undir þrekpróf og teljist þar af leiðandi hluti af störfum þeirra. Fyrir liggi að þegar stefnandi slasaðist hafi hann verið í lyftingaaðstöðu á vinnustað sínum á vinnutíma að uppfylla fyrrnefndar kröfur sem til hans séu gerðar um að viðhalda góðu líkamlegu ástandi. Þá hafi stefnandi verið að undirbúa sig undir kjarasamningsbundið þrekpróf sem hafi verið komið á fót af lögregluembættunum og stefnda gagngert til að stuðla að bættu líkamlegu ástandi lögreglumanna. Stefnandi telur því ótvírætt að hann teljist hafa verið við störf umrætt sinn í skilningi grein 7.5.1 í kjarasamningnum þegar hann slasaðist. Með vísan til framangreinds telur stefnandi að tjón hans sé bótaskylt úr hendi stefnda á grundvelli kjarasamningsins. Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að gögn málsins og yfirlýsingar af hálfu embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu beri með sér að embættið hafi litið svo á að stefnandi hafi verið við vinnu sem lögreglumaður í skilningi 30. gr. lögreglulaga og kjarasamnings lögreglumanna þegar hann slasaðist. Í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, dagsettri 8. janúar 2013, sem undirrituð sé af fulltrúa starfsmannahalds lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, komi fram að stefnandi hafi slasast „við vinnu“ og hafi slysstaður verið tilgreindur á vinnustað hans að Hverfisgötu 115 í Reykjavík. Sama gildi um tilkynningu embættisins til Vinnueftirlits ríkisins en þar sé slys stefnanda sagt hafa átt sér stað í vaktavinnu. Með hliðsjón af þessum yfirlýsingum vinnuveitanda stefnanda sé ótvírætt að stefnandi hafi verið við vinnu sem lögreglumaður þegar slysið varð. Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að stefndi hafi um árabil viðurkennt bótaskyldu á grundvelli 30. gr. lögreglulaga og greinar 7.5 í kjarasamningi lögreglumanna vegna slysa sem lögreglumenn hafa orðið fyrir á íþróttaæfingum. Í þeim tilvikum hafi einu gilt hvort um slys við lyftingaæfingar, knattspyrnu eða aðra íþróttaiðkun hafi verið að ræða. Með því hafi stofnast venja um skýringu á ákvæðinu og túlkun aðila á gildissviði þeirra og geti stefndi ekki vikið frá slíkri venjuhelgaðri framkvæmd við uppgjör bótamála lögreglumanna, án skýrrar lagaheimildar eða breytingar á ákvæðum kjarasamninga. Stefndi sé því bundinn af fyrri framkvæmd sinni og skýringu á hinum umdeildu ákvæðum en það leiði til bótaskyldu stefnda á tjóni stefnanda. Í fimmta lagi hafnar stefnandi þeirri málsástæðu stefnda að bótaábyrgð samkvæmt 30. gr. lögreglulaga og grein 7.5 í kjarasamningi lögreglumanna sé bundin við „framkvæmd lögreglustarfa“. Slys stefnanda hafi átt sér stað þegar hann teljist hafa verið við störf sem lögreglumaður, svo sem þau séu skilgreind í lögum og kjarasamningi. Þá bendir stefnandi á að hugtakið „framkvæmd lögreglustarfa“ sé hvergi skilgreint í lögum eða kjarasamningi og því sé óljóst til hvers stefndi vísi með því. Óljós afstaða stefnanda um það hvað teljist lögreglustörf og hvað ekki, sé því haldlaus og feli í sér verulega þrengingu á gildissviði 30. gr. lögreglulaga, án stoðar í orðalagi ákvæðisins eða kjarasamningi. Þá sé engan stuðning fyrir slíkri þrengingu að finna í stofnannasamningum eða dómaframkvæmd. Stefnandi byggir í sjötta lagi á því að þar sem 30. gr. lögreglulaga feli í sér lögboðna hlutlæga bótaábyrgð, eigi reglur vátryggingaréttar ekki við um slys stefnanda. Þetta taki m.a. til slysahugtaksins og reglna um óhappatilvik. Þá eigi reglur um eigin sök ekki við í málinu, sbr. einnig reglu 23 gr. a. í skaðabótalögum nr. 50/1993. Því telur stefnandi að allt tjón, sem sannanlega megi rekja til starfs stefnanda, falli undir ákvæðið, þ.m.t. líkamstjón eins og álagsmeiðsli og brjósklos  sem talin séu afleiðing líkamlegs álags í starfi. Loks telur stefnandi að orsakatengsl milli slyssins og þess líkamstjóns, sem krafist sé bóta fyrir, séu sönnuð með matsgerð matsmanns og læknisvottorði Leifs Dungal, dagsettu 23. janúar 2012,  þar sem fram komi að brjósklos stefnanda verði rakið til tognunar í baki í líkamsrækt. Að öllu framangreindu virtu telur stefnandi ótvírætt og fullsannað að hann hafi verið við vinnu í skilningi 30. gr. lögreglulaga og greinar 7.5 í kjarasamningi Landsambands lögreglumanna og stefnda og því beri stefndi hlutlæga bótaskyldu á líkamstjóni hans. Stefnukrafan byggist á niðurstöðu örorkumatsgerðar dr. Atla Þórs Ólasonar, dagsettri 22. júní 2015. Stefnandi vísar til þess að hefð hafi verið fyrir því, með fullu samþykki stefnda, að afla mats eins læknis á afleiðingum slysa lögreglumanna og hafi uppgjör á slysabótum á grundvelli lögreglulaga iðulega byggst á slíkum mötum. Þá byggir stefnandi kröfur sínar um skaðabætur og fjárhæð bóta á ákvæðum 1.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. 1) Þjáningabætur Stefnandi styður kröfu sína um þjáningabætur við 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt matsgerð hafi stefnandi veikur, án rúmlegu, frá 23. nóvember 2011 til 16. janúar 2012 eða í 55 daga. Þjáningabætur nemi því 100.100 krónum (55x1.820). 2) Varanlegur miski Kröfu um bætur vegna varanlegs miska styður stefnandi við 4. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð sé varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins metinn 3 stig. Miskabótafjárhæð, með vísan til 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og aldurs stefnanda á slysdegi, nemi 10.376.500 krónum. Vegna þessa þáttar krefjist stefnandi því greiðslu á samtals 311.295 krónum (10.376.500 x 3 stig). 3) Varanleg örorka. Kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku reisir stefnandi á 5.-7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð sé varanleg örorka stefnanda vegna slyssins, samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga, metin 3%. Með vísan til aldurs stefnanda á þeim degi þegar heilsufar hans í kjölfar slyssins teljist stöðugt, sé margfeldisstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga 12,701. Um tekjuviðmið sé byggt á 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og miðað við launatekjur stefnanda í þrjú ár fyrir slysið, uppreiknaðar miðað við launavísitölu að viðbættu 11,5% framlagi í lífeyrissjóð, sbr. 1. mgr. 7. gr. Tekjur stefnanda árin fyrir slys hafi verið 6.038.937 krónur 2009, 6.531.220 krónur 2010 og 5.849.815 krónur 2010. Uppreiknaðar viðmiðunartekjur stefnanda, miðað við framagreindar forsendur, nemi 6.354.127 krónum. Bætur fyrir varanlega örorku reiknist því 2.421.113 krónur (6.354.127x12,701x3%). 4) Útlagður kostnaður. Kröfu vegna útlagðs kostnaðar reisir stefnandi á 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Útlagður kostnaður sé til kominn vegna öflunar skattframtala frá Ríkisskattstjóra en þau hafi verið stefnanda nauðsynleg til sönnunar tjóns síns og til rökstuðnings krafna sinna. Útlagður kostnaður stefnanda nemi samtals 3.250 krónum. Samtals nemi stefnufjárhæð því 2.832.508 krónum (100.100+311.295+2.421.113 +3.250). Stefnandi byggir vaxtakröfu sína á 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga. Hann vísar til þess að samkvæmt ákvæðinu beri bætur vegna þjáninga og varanlegs miska 4,5% ársvexti frá slysdegi 23. október 2011 en bætur vegna varanlegrar örorku beri 4,5% ársvexti frá þeim degi þegar heilsufar stefnanda í kjölfar slyssins teljist stöðugt, eða frá 23. febrúar 2015. Um dráttarvexti vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Upphafstími dráttarvaxta miðist við þann dag þegar mánuður hafi verið liðinn frá því að kröfubréf var sent stefnda, eða við þann 10. júlí 2016, sbr. 9. gr. vaxtalaga. Stefnandi kveðst hafa fengið greiddar bætur frá Vátryggingafélagi Íslands hf. að fjárhæð 583.294 krónur þann 9. júlí 2015 vegna slysatryggingar lögreglumanna. Sú fjárhæð komi til frádráttar kröfu stefnanda samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi hins vegar ekki átt rétt á greiðslu örorkubóta frá Sjúkratryggingum Íslands þar sem metin örorka sé undir 10%, sbr. 6. mgr. 34. gr. þágildandi laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og sé því enginn frádráttur vegna slíkra bóta. Til viðbótar framangreindum lagaákvæðum og ákvæðum kjarasamninga og annarra samninga byggir stefnandi kröfur sínar á meginreglum samninga- og vinnuréttar og skaðabótaréttar. Um varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um málskostnaðarkröfu til 129. og 130. gr. sömu laga. Um virðisaukaskatt af málskostnaði er vísað til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. IV                 Stefndi reisir sýknukröfur sína á því að slys stefnanda verði rakið til aðstæðna sem stefnandi bar ábyrgð á og að um óhappatilvik hafi verið að ræða.                 Stefndi kveður ágreiningslaust að í máli þessu reyni á hlutlæga bótaskyldu íslenska ríkisins samkvæmt 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Hann vísar til þess að í frumvarpi til laganna komi fram að vegna eðlis starfa lögreglumanna þyki eðlilegt að hafa í lögum sérstakt ákvæði sem skyldar ríkissjóð til að greiða þeim bætur vegna tjóns sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Þá sé vísað til þess hversu torvelt þeim kunni að reynast að sækja mál á hendur þeim sem tjóni hafi valdið. Reglan um hlutlæga ábyrgð sé undantekningarregla og verði ekki beitt nema sýnt sé fram á gild rök fyrir því að hún eigi við. Ef vafi leiki á hvort lagaákvæði teljist mæla fyrir um hlutlæga ábyrgð, verði svo ekki talið vera nema sá skýringarkostur sé ótvíræður. Þá sé það eitt af meginatriðum við beitingu reglunnar um hlutlæga ábyrgð að sanna orsakatengsl milli þeirrar háttsemi sem hin hlutlæga ábyrgðarregla tekur til og tjóns.                 Stefndi er sammála stefnanda um að ákvæði 7.5 hlutaðeigandi kjarasamnings feli í sér ítrekun og nánari útfærslu á hlutlægri ábyrgð stefnda. Það feli jafnframt í sér að skýra verði kjarasamningsákvæðið með hliðsjón af þeim undirstöðurökum sem búi að baki lagagreininni. Þær röksemdir lúti öðru fremur að því eðli lögreglustarfsins að halda uppi lögum og reglu og afstýra brotum, sbr. 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga, en ljóst sé að við framkvæmd þeirra starfa geti komið til líkamlegra átaka.                 Stefndi vísar enn fremur til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. júní 2016 í máli nr. E-4045/2015 þar sem litið hafi verið svo á að ákvæði 30. gr. lögreglulaga væri undantekningarregla og að ákvæðið sem slíkt yrði að túlka nokkuð þröngt eða a.m.k. eftir orðanna hljóðan. Samkvæmt orðanna hljóðan ætti ákvæðið einkum við þau tilvik þegar lögreglumaður væri við reglubundin störf og lyti boðvaldi yfirboðara sinna og einnig þegar lögreglumaður á bakvakt færi í útkall, eða undir öðrum kringumstæðum, þannig að hann sinnti löggæslustörfum. Með tilliti til þess hafi héraðsdómur talið að æfing sem hver og einn lögreglumaður skipulegði upp á sitt eindæmi og fyrir sjálfan sig félli ekki undir ákvæði 7.5.2 í hlutaðeigandi kjarasamningi þannig að bótaskylda yrði lögð á íslenska ríkið á hlutlægum grunni.                 Að mati stefnda sé aðstaðan í máli þessu sambærileg við þá sem á reyndi í nefndri dómsúrlausn héraðsdóms. Stefndi vísar til þess að í dómnum hafi því verið hafnað að ríkissjóður bæri hlutlæga skaðabótaábyrgð á tjóni sem lögreglukona á bakvakt hafi orðið fyrir þegar hún slasaðist á hlaupabretti. Dómurinn hafi ekki fallist á að það, að halda sér í góðu formi, teldist til athafna sem lögreglumönnum væri skylt að sinna vegna starfa sinna, þótt þeir væru hvattir til að stunda líkamsþjálfun, m.a. með greiðslu sérstaks þrekálags. Lögreglumaðurinn hefði sjálfur ákveðið að fara á æfingu umrætt sinn og ekki hefði verið um skipulagða æfingu að ræða.                 Stefndi telur að sambærileg sjónarmið eigi við í máli stefnanda þessa máls þar sem stefnandi hafi, að eigin sögn, sjálfur óskað eftir að fara á æfingu og fengið til þess leyfi yfirmanns. Enda þótt æfingin hafi átt sér stað á vinnutíma, sé hvorki hægt að líta svo á að stefnanda hafi verið skylt að fara á æfinguna né að um skipulagða æfingu hafi verið að ræða. Þá verði ekki litið svo á að æfing, sem hver og einn lögreglumaður skipuleggi upp á eindæmi sitt og fyrir sjálfan sig, falli undir hlutaðeigandi kjarasamningsákvæði þannig að stefndi verði bótaskyldur á hlutlægum grunni. Ekkert liggi fyrir um að æfingin hafi farið fram í umsjá eða undir eftirliti lögregluembættisins eða, eftir atvikum, félags lögreglumanna. Ekki fái nokkru breytt í því efni yfirlýsingar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem vísað sé til í stefnu, um að slysið hafi orðið í vinnutíma.                 Stefndi kveðst ekki víkja frá venjuhelgaðri framkvæmd við uppgjör bótamála lögreglumanna með höfnun á bótaskyldu í þessu máli. Ekki sé óþekkt að starfsmenn, sem tilheyra öðrum starfsstéttum, stundi hreyfingu á vinnutíma, án þess að það verði beinlínis talið hluti af starfsskyldum þeirra. Með því að gefa lögreglumönnum kost á að stunda líkamsæfingar í vinnutíma að því leyti sem verkefnastaða lögreglunnar leyfi, sé verið að greiða götu þeirra til að halda sér í formi og til að fá greitt þrekálag.                 Þá vísar stefndi til þess að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni við lyftingaæfingar en engin vitni hafi verið að atvikinu. Í upplýsingaskýrslu Guðmundar Inga Rúnarssonar lögregluvarðstjóra komi ekkert fram um að stefnandi hafi slasast á þeirri líkamsræktaræfingu sem hann hafi fengið heimild til að fara á, auk þess sem fram komi í stefnu að stefnandi hafi ekki leitað læknis dagana eftir atvikið. Samkvæmt örorkumatsgerð dr. Atla Þórs Ólasonar frá 22. júní 2015 hafi stefnandi verið kominn með brjósklos þegar atvikið átti sér stað og hefði leitað á heilsugæslu 8. september 2011 vegna bakóþæginda sem hann tengdi við umferðarslys. Þá hafi segulómmynd af mjóbaki frá 15. desember 2011 sýnt sama útlit og rannsókn frá 15. ágúst 2011 sem leitt hefði í ljós brjósklos. Að mati stefnda valdi þessi atvik verulegri óvissu um orsakir tjónsins, auk þess sem þau gefi tilefni til að ætla að stefnandi hefði vegna bakvandamála sinna átt að gæta tilhlýðilegrar varúðar, svo sem með því að stunda lyftingar undir eftirliti viðeigandi fagaðila. Það að stefnandi hafi ekki gert það, geti enginn annar borið ábyrgð á en hann sjálfur.                 Verði ekki fallist á kröfu um sýknu krefst stefndi þess að kröfur stefnanda sæti verulegri lækkun með tilliti til eigin sakar stefnanda og óvissu um orsakatengsl. Í greinargerð sinni áskildi stefndi sér jafnframt rétt til að gera við meðferð málsins athugasemdir við og afla gagna um forsendur, sem búa að baki útreikningi stefnanda á einstökum tjónsliðum, svo sem útreikningi á varanlegri örorku, eftir atvikum með dómkvaðningu. Þá var í greinargerð skorað á stefnanda að leggja fram allar upplýsingar um þær greiðslur, sem hann hefði móttekið eða hafi átt rétt á og dragast eigi frá bótum, sbr. einkum 2. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.                 Loks mótmælir stefndi kröfum stefnanda um dráttarvexti af kröfunni, auk þess sem stefndi telur að bætur úr sjúkratryggingu launþega eigi að dragast beint frá höfuðstól áður en vextir séu reiknaðir af fjárhæðinni.                 Til stuðnings kröfu um málskostnað vísar stefndi í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. V Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi gáfu skýrslur stefnandi málsins og Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn. Verður efni skýrslna þeirra rakið eins og þurfa þykir. Eins og áður er getið eru helstu málsatvik ágreiningslaus og hafa þau verið rakin í kafla II hér að framan. Þá er ágreiningslaust að í máli þessu reynir á hlutlæga bótaskyldu íslenska ríkisins samkvæmt 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og ákvæði greinar 7.5 í gildandi kjarasamningi Landsambands lögreglumanna og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs þar sem kveðið er á um að lögreglumenn eigi rétt til bóta fyrir meiðsli og tjón sem þeir verði fyrir vegna starfs síns. Þá lýstu lögmenn beggja aðila því yfir í munnlegum málflutningi við aðalmeðferð að ekki væri tölulegur ágreiningur í málinu.  Stefnandi byggir bótakröfu sína á því að samkvæmt hinni hlutlægu ábyrgð 30. gr. lögreglulaga sé stefndi skaðabótaskyldur vegna alls líkamstjóns sem lögreglumenn verða fyrir í vinnutíma, án tillits til sakar. Skýra verði ákvæðið þannig að öll tjónsatvik, sem eigi sér stað meðan lögreglumaður er því störf, eigi hér undir, óháð tegund tjóns eða orsök. Þá hafi stefnandi verið á vakt þegar slysið varð og teljist því hafa verið að störfum í skilningi greinar 7.5 í kjarasamningum. Þá vísar stefnandi til ákvæða c. liðar 2. mgr. 28. gr. lögreglulaga, sem mælir fyrir um að lögreglumenn skuli vera svo líkamlega á sig komnir að þeir geti sinnt embættinu, og því sé lögreglumönnum nauðsynlegt að stunda líkamsrækt. Af þeim sökum sjái lögregluembætti lögreglumönnum fyrir íþróttaaðstöðu og líkamsræktin fari iðulega fram á vinnutíma. Jafnframt séu laun þeirra m.a. ákveðin með tilliti til líkamlegrar getu sem mæld sé með þrekprófum. Af hálfu stefnanda er öllum málsástæðum stefnda í greinargerð mótmælt. Stefndi reisir kröfur sínar á því að slys stefnanda verði rakið til aðstæðna sem stefnandi hafi sjálfur borið ábyrgð á og að um óhappatilvik hafi verið að ræða. Stefndi vísar til þess að regla 30. gr. lögreglulaga um hlutlæga ábyrgð sé undantekningarregla og verði ekki beitt nema sýnt sé fram á gild rök fyrir því að hún eigi við. Það hafi ekki verið gert í máli þessu, auk þess sem ekki liggi fyrir sönnun orsakatengsla milli háttsemi stefnanda umrætt sinn og tjóns hans. Þá beri að skýra ákvæði greinar 7.5 í kjarasamningnum með hliðsjón af þeim undirstöðurökum sem búi að baki lagaákvæðinu. Máli sínu til stuðnings vísar stefndi jafnframt til niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4045/2015 sem kveðinn var upp 24. júní 2016. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skal ríkissjóður bæta lögreglumönnum líkams- og munatjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Að baki þessari lagareglu búa sjónarmið um að lögreglumönnum sé tryggð greiðsla svo þeir þurfi ekki að sækja bætur á hendur þeim sem hafa valdið þeim tjóni. Hefur þá verið litið til þess að slík mál geti tekið langan tíma og að engin trygging sé fyrir því að tjónvaldur reynist borgunarmaður. Eðlilegt hefur þótt að hafa í lögum sérstakt ákvæði sem skyldar ríkissjóð til að greiða bætur í slíkum tilvikum. Ábyrgð ríkissjóðs samkvæmt ákvæðinu er hlutlæg, að uppfylltum öðrum bótaskilyrðum. Við mat á því hvort 30. gr. lögreglulaga eigi við í tilviki stefnanda verður að leggja mat á það, hvort hann teljist hafa orðið fyrir líkamstjóni sínu vegna starfs síns. Hér verður því í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort stefnandi hafi umrætt sinn verið við störf í skilningi 30. gr. laganna þegar hann slasaðist. Litið hefur verið svo á að ákvæði 30. gr. lögreglulaga eigi samkvæmt orðanna hljóðan einkum við um þau tilvik þegar lögreglumaður er við reglubundin störf og lýtur boðvaldi yfirboðara sinna, þegar það á við. Einnig hefur verið talið að hún eigi við þegar lögreglumaður er kallaður til starfa þegar hann er á bakvakt eða undir öðrum kringumstæðum þannig að hann sinni löggæslustörfum. Hér verður að líta til þess sem óumdeilt er í málinu og ljóst af gögnum að stefnandi var á reglubundinni næturvakt frá kl. 23.00 hinn 22. nóvember 2011 til kl. 07.50 hinn 23. sama mánaðar. Framlögð gögn bera með sér að stefnandi telst hafa orðið fyrir slysi eða slasast á vinnutíma. Þannig er því lýst í lögregluskýrslu, sem gerð var vegna slyss stefnanda, að stefnandi hafi tilkynnt um að hann hefði lent í slysi við æfingu á vinnutíma og er þar skráð að slysið hafi orðið 23. nóvember 2011 kl. 02.00. Þá kemur fram í tilkynningu um slysið til Sjúkratrygginga Íslands, sem undirrituð er fyrir hönd lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 8. janúar 2013, að stefnandi hafi verið við vinnu þegar slysið varð og að slysið hafi orðið á vinnustað á lögreglustöðinni við Hverfisgötu, auk þess sem sérstaklega er þar tekið fram að það hafi verið í æfingasal í kjallara. Í tilkynningu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til Vátryggingafélags Íslands hf. um tjón stefnanda, dagsettri 8. janúar 2013, er spurningu um hvar slysið hafi orðið svarað með því að haka í reitinn: „Í vinnutíma/á beinni leið í/úr vinnu“. Samkvæmt ódagsettri tilkynningu um vinnuslys til Vinnueftirlitsins er stefnandi tilgreindur sem hinn slasaði og slysið sagt hafa orðið kl. 02.00 hinn 23. nóvember 2011. Jafnframt er því lýst að stefnandi hafi verið við æfingar í vinnutíma í líkamsræktaraðstöðu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í kjallara Hverfisgötu 113-115 þegar hann hafi skyndilega fundið fyrir verk og dofa í baki og niður í vinstri fót. Að þessu gættu verður að líta svo á að stefnandi hafi orðið fyrir slysi í vinnutíma á skipulagðri lögregluvakt. Í málinu liggur frammi hluti kjarasamnings Landsambands lögreglumanna og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Þar er í kafla 7.5 fjallað um skaðabótaskyldu ríkissjóðs. Ekki verður annað ráðið af ákvæðum greina 7.5.1 og 7.5.2 en að með þeim hafi réttarstaða lögreglumanna verið bætt enn frekar og gildissvið hinnar hlutlægu reglu 30. gr. lögreglulaga víkkað með frjálsum samningum lögreglumanna við vinnuveitanda sinn. Samkvæmt grein 7.5.1 eiga lögreglumenn rétt á bótum fyrir meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Í grein 7.5.2 segir síðan að lögreglumenn skuli teljast að störfum, auk venjulegrar vinnuskyldu, þegar þeir eru á leið í eða úr vinnu, sitja lögregluskóla og lögreglunámskeið eða stunda lögregluæfingar, íþróttir og kappleiki á vegum félaga lögreglumanna. Hið sama gildir ef þeir ráðast í lögregluaðgerðir að eigin frumkvæði sem lögreglumenn. Í bókun 2 með kjarasamningi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna, dagsettri 30. júní 2011, segir að vegna eðlis lögreglustarfa sé lögreglumönnum nauðsynlegt að vera í góðu líkamlegu formi og hafa tækifæri til að viðhalda því. Þetta sé áréttað bæði með greiðslu þrekálags samkvæmt fylgiskjali 2 með kjarasamningi aðila frá 22. október 2008 í starfsmannastefnu lögreglunnar, áherslum Landssambands lögreglumanna og sé rökrétt framhald af inntökuskilyrðum Lögregluskólans. Síðan segir í bókuninni að aðilar séu sammála um að vísa því til lögregluembætta að útfæra, í samráði við Landssamband lögreglumanna, með hvaða hætti þeim verði auðveldað að sinna líkamsþjálfun í starfstíma sínum eftir því sem við verði komið. Í yfirlýsingu Geirs Jóns Þórissonar, fyrrverandi yfirlögregluþjóns hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og fyrrverandi formanns Félags yfirlögregluþjóna, dagsettri 16. október 2017, er lýst skilningi aðila að framangreindum kjarasamningi á kjarasamningnum og samkomulagi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og Lögreglufélags Reykjavíkur um vinnutíma lögreglumanna á sólarhringsvöktum. Þar kemur fram að við gerð framangreinds samkomulags hafi það verið skilningur aðila að líkamsrækt á vinnutíma, m.a. til undirbúnings fyrir þrekpróf og til að stuðla að almennri hreysti lögreglumanna vegna starfa þeirra, væri hluti af starfsskyldum þeirra. Sömuleiðis hafi þeir talið að við slíkar æfingar teldust lögreglumennirnir við störf í skilningi 30. gr. lögreglulaga og greinar 7.5 í kjarasamningnum. Líkamsræktaraðstöðu á lögreglustöðinni við Hverfisgötu hafi verið komið upp í þeim tilgangi að lögreglumenn gætu stundað líkamsrækt á vinnutíma í þessu skyni. Fram er komið í málinu að vitnið, Geir Jón, undirritaði framangreint samkomulag fyrir hönd Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þegar litið er til alls framangreinds er það mat dómsins að þær líkamsæfingar, sem stefnandi lagði stund á þegar hann slasaðist umrætt sinn, verði felldar undir ástundun lögregluæfinga í skilningi greinar 7.5.2 í margnefndum kjarasamningi og telst stefnandi því, eftir orðalagi ákvæðisins, hafa verið að störfum þegar slysið varð. Í ljósi alls ofangreinds þykir ekki ráða hér úrslitum þótt þessi tiltekna lögregluæfing hafi ekki verið skipulögð eða sérstaklega til hennar mælst af yfirboðara eða öðrum aðilum. Liggur enda fyrir að til hennar fékkst leyfi stjórnanda næturvaktar stefnanda umrætt sinn, svo sem stefnandi lýsti í skýrslu sinni hér fyrir dóminum og hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefnda. Að þessu virtu verður því að líta svo á að uppfyllt sé það skilyrði fyrir hlutlægri bótaskyldu samkvæmt 30. gr. lögreglulaga að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni vegna starfs síns. Í ljósi alls þess sem rakið hefur verið og þegar litið er til orðalags og gildissviðs framangreindra ákvæða laga og kjarasamnings þykir hér engu breyta þótt tjón stefnanda verði ekki rakið til þeirrar sérstöku hættu sem framkvæmd lögreglustarfa fylgir. Um orsakatengsl milli tjóns síns og umrædds slyss vísar stefnandi til örorkumats dr. Atla Þórs Ólasonar, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, dagsetts 22. júní 2015, sem aflað var samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Í matsgerðinni er rakið efni læknisfræðilegra gagna, m.a. úr sjúkraskrá stefnanda vegna bakverkja sem stefnandi lýsti 8. september áður en umrætt slys varð, og tengdi umferðslysi frá því fyrr á sama ári. Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar er farið ítarlega yfir framangreind gögn. Þá er tekið fram að við mat á varanlegu líkamstjóni af völdum vinnuslyss 23. nóvember 2011 sé fyrst litið til þess að stefnandi hefði verið með mjóbaksóþægindi fjórum mánuðum fyrir slysið og gerð hafi verið segulómskoðun af lendhrygg sem hafi leitt í ljós brjósklos í neðsta mjóhryggjarliðbili. Jafnframt er litið til þess að á árinu 2008 hafi stefnandi hlotið væga mjóbakstognun í umferðarslysi og hafi þá verið metinn til 3% varanlegs miska. Matsmaðurinn telur að við líkamsræktaræfinguna 23. nóvember 2011 hafi stefnandi hlotið viðbótaráverka á mjóbak sem hafi leitt til skyndilegs verkjar í mjóbaki með útleiðslu niður í vinstri ganglim. Núverandi einkenni megi að hluta til rekja til slyssins í nóvember 2011, einkum verkjaaukningu en síður til einkenna um brjósklosið. Matsmaðurinn kemst því að þeirri niðurstöðu að slasaði hafi við slysið 23. nóvember 2011 orðið fyrir skaða þar sem hann hafi hlotið viðbótaróþægindi í mjóbak sem litið verði á sem tognungaráverka með viðbótareinkennum sem metin verði til 3% varanlegs miska og 3% varanlegrar örorku. Fjárhæð skaðabótakröfu stefnanda er jafnframt byggð á þessari niðurstöðu. Að þessu virtu og þegar jafnframt er litið til annarra gagna málsins sem bera með sér að stefnandi leitaði til læknis vegna bakverkja sem hann rakti til slyssins, er það mat dómsins að stefnanda hafi tekist að sanna orsakatengsl milli umrædds slyss og tjóns hans. Þá hefur stefnandi gefið haldbæra skýringu á því af hverju fyrsta læknisheimsókn hans átti sér ekki stað fyrr en 16. desember 2011, svo sem gögn málsins bera með sér. Hann kvaðst í fyrstu hafa vonast til að bakverkirnir myndu lagast en síðan pantað sér tíma hjá heimilislækni nokkrum dögum síðar sem ekki hefði fengist fyrr. Þykja þessi atvik því ekki ráða úrslitum um sönnun orsakatengsla, auk þess sem ekkert er fram komið í málinu sem leiðir líkur að því að umræddar líkamsæfingar stefnanda hafi ekki orsakað það viðbótartjón sem stefnandi krefst bóta fyrir. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni stefnanda sem framlögð örorkumatsgerð ber með sér. Ekkert er fram komið í málinu sem rennir stoðum undir þá málsástæðu stefnda að stefnandi hafi við framkvæmd lyftingaæfinga umrætt sinn af ásetningi eða stórfelldu gáleysi átt sök á tjóni sínu að hluta. Verður þeirri málsástæðu stefnda því hafnað sem og kröfu hans um að bætur til stefnanda verði lækkaðar á grundvelli eigin sakar stefnanda. Eins og áður er getið er fjárhæð skaðabótakröfu stefnanda byggð á niðurstöðum framlagðrar örorkumatsgerðar. Fyrir liggur að enginn ágreiningur er milli aðila um tölulegan útreikning bótakröfunnar. Krafa stefnanda um vexti og dráttarvexti er í samræmi við ákvæði 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 6. og 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Verður krafa stefnanda því tekin til greina eins og hún er sett fram í stefnu og nánar greinir í dómsorði.  Eftir þessari niðurstöðu verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 1.475.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D ó m s o r ð: Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, A, 2.832.508 krónur með 4,5% ársvöxtum af 411.395 krónum frá 23. nóvember 2011 til 23. febrúar 2012 og af  2.832.508 krónum frá þeim degi til 10. júlí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.835.758 krónum frá 10. júlí 2016 til greiðsludags, allt að frádregnum 583.294 krónum sem greiddar voru þann 9. júlí 2016. Stefndi greiði stefnanda 1.475.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.
Mál nr. 344/2017
Lánssamningur Kröfugerð Lögvarðir hagsmunir Viðurkenningarmál Frávísun frá héraðsdómi
Þrotabú N ehf., ásamt E ehf. o.fl. sem höfðu verið hluthafar í N ehf., höfðuðu mál á hendur L hf. til viðurkenningar á skaðabótaskyldu bankans gagnvart sér. Hafði N ehf. gert samning við Landsbanka Íslands hf. þar sem bankinn skuldbatt sig til að hafa svokallaða reikningslánalínu til reiðu fyrir félagið, að fjárhæð 1.130.000.000 krónur, vegna framkvæmda á þess vegum við byggingu fjöleignarhúss að Mýrargötu 26 í Reykjavík. Töldu þrotabú N ehf. o.fl. að Landsbanki Íslands hf. hefði með ólögmætum og saknæmum hætti synjað um frekari lánafyrirgreiðslu samkvæmt samningnum og að L hf. hefði viðhaldið vanefndunum eftir að hafa yfirtekið réttindi og skyldur Landsbanka Íslands hf. Hefði N ehf. þar af leiðandi ekki getað haldið áfram byggingarframkvæmdum og þar með misst af þeim hagnaði sem ella hefði orðið. Héraðsdómur féllst ekki á málatilbúnað þrotabús N ehf. o.fl. og sýknaði L hf. af kröfum þeirra. Í niðurstöðu sinni vísaði Hæstiréttur meðal annars til þess að af hálfu þrotabús N ehf. o.fl. hefði ekki verið gerður nægilegur reki að því með matsgerð eða öðrum hætti að renna stoðum undir fullyrðingar um tjón félagsins vegna missis hagnaðar sem rekja mætti til vanefnda L hf. á samningnum. Þá yrði, að virtum málatilbúnaði L hf., ekki metið af þeim gögnum sem þrotabú N ehf. o.fl. vísuðu til hvort háttsemi L hf. gæti hafa falið í sér tjón fyrir félagið á þeim tíma er máli skipti. Enn síður sýndu umrædd gögn fram á að hluthafar félagsins hefðu orðið fyrir tjóni af völdum L hf. Samkvæmt því hefðu þrotabú N ehf. o.fl. ekki leitt nægilega í ljós að þeir hefðu orðið fyrir tjóni í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 þannig að þeir hefðu lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum fyrir dómi á grundvelli ákvæðisins. Var málinu því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Ásgeir Magnússon dómstjóri.   Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 2. júní 2015. Þeir krefjast þess aðallega að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni áfrýjandans þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. sem leiddi af vanefndum stefnda á fjármögnunarsamningi 24. maí 2005, upphaflega á milli Nýju Jórvíkur ehf. og Landsbanka Íslands hf. en frá 9. október 2008 milli Nýju Jórvíkur ehf. og stefnda. Til vara krefjast áfrýjendur þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda gagnvart áfrýjendunum EP fjármálum ehf., þrotabúi Ísleifs Leifssonar, þrotabúi Magnúsar Inga Erlingssonar og Upsum ehf. vegna fjártjóns þeirra sem hlaust af gjaldþroti Nýju Jórvíkur ehf. Í báðum tilvikum krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Málsatvik eru rakin í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir nánar gerðu Nýja Jórvík ehf. og Landsbanki Íslands hf., síðar LBI hf., með sér samning 24. maí 2005 þar sem bankinn sem lánveitandi skuldbatt sig til að hafa til reiðu fyrir félagið sem lántaka „reikningslánalínu“ að fjárhæð 1.130.000.000 krónur vegna framkvæmda á þess vegum við byggingu fjöleignarhúss að Mýrargötu 26 í Reykjavík. Skyldi hver lánshluti sem lántaki tæki innan hennar vera sjálfstætt lán. Þá var gerður viðauki við samninginn 29. desember 2006 um framlengingu gildistíma hans til 28. febrúar 2009 auk þess sem meðal annars var bætt við samninginn grein þar sem kveðið var á um kjör á lántöku í erlendum gjaldmiðlum. Svo sem lýst er í héraðsdómi er málatilbúnaður áfrýjenda á því reistur að Landsbanki Íslands hf. hafi í lok júní 2008 fyrirvaralaust með saknæmum og ólögmætum hætti synjað Nýju Jórvík ehf. um frekari lánafyrirgreiðslu vegna framkvæmda við Mýrargötu 26, en þá hafi verið búið að steypa upp tvær hæðir af fimm. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 hafi stefndi síðan yfirtekið réttindi og skyldur samkvæmt framangreindum samningi en ekki gætt að skyldum sínum samkvæmt samningnum heldur viðhaldið vanefndum með því að greiða ekki út af lánalínunni og gera ólögmætar kröfur til eiginfjárframlags hluthafa í Nýju Jórvík ehf. sem skilyrði fyrir frekari útgreiðslu, en loks 7. nóvember 2008 tekið endanlega ákvörðun um að stöðva lánafyrirgreiðslu. Háttsemi stefnda hafi leitt til þess að Nýju Jórvík ehf. hafi ekki reynst unnt að greiða verktakanum Atafli ehf. útistandandi reikninga að fjárhæð 132.222.000 krónur og að beiðni þess félags hafi bú Nýju Jórvíkur ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta 25. janúar 2010. Vegna þessa hafi Nýja Jórvík ehf. ekki getað haldið áfram byggingarframkvæmdum að Mýrargötu 26 og þar með misst af þeim hagnaði sem ella hefði orðið. Sé aðalkrafa um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda gagnvart áfrýjandanum þrotabúi Nýju Jórvíkur ehf. grundvölluð á reglum um skaðabætur innan samninga, en um varakröfu gildi sjónarmið um bótaskyldu utan samninga sökum þess að hlutafé annarra áfrýjenda hafi orðið verðlaust við gjaldþrot Nýju Jórvíkur ehf. II Í héraðsdómi er meðal annars rakinn ágreiningur aðila um það í hvaða mæli Nýja Jórvík ehf. hafi í raun dregið á lánalínu þá sem kveðið var á um í framangreindum samningi. Reisa áfrýjendur útreikninga sína um þetta á því að samningurinn hafi verið bundinn ólögmætri gengistryggingu, auk þess sem ekki hafi átt að reikna vexti og annan kostnað við lántöku þegar metið væri hámark lánsheimildar samkvæmt samningnum. Nýja Jórvík ehf. hafi því einungis fengið að nýta 868.000.000 krónur af heimild sinni áður en synjað var um frekari greiðslur. Stefndi kveður á hinn bóginn að Nýja Jórvík ehf. hafi að fullu nýtt lánsheimildir sínar samkvæmt samningnum enda beri gögn málsins með sér að báðir aðilar samningsins hafi gengið út frá því að svo hafi verið. Þannig hafi þreifingar um aukna fyrirgreiðslu til félagsins einungis lotið að því að fá nýtt lán hjá stefnda vegna slæmrar stöðu verkframkvæmda og aðstæðna á markaði, en ekki grundvallast á efni hins umþrætta samnings. Athugasemdir í þá veru hafi ekki komið fram fyrr en í október 2010. Þá bendir stefndi á að fjárkrafa hans samkvæmt samningnum, að fjárhæð 1.971.683.978 krónur, hafi verið samþykkt við skiptameðferð þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. III Stefndi gerir aðallega kröfu um frávísun máls frá héraði. Fyrir því færir hann fram meðal annars þær röksemdir að áfrýjendur hafi ekki sýnt fram á að þeir hafi orðið fyrir tjóni í lögskiptum sínum við hann. Þannig sé með öllu óljóst hvort og hversu lengi fasteignin að Mýrargötu 26 hefði getað haldist í eigu Nýju Jórvíkur ehf. Skipti þá litlu þótt fallist yrði á útreikninga áfrýjenda um skuldastöðu félagsins á árinu 2009, en útreikninga sem áfrýjendur hafi lagt fram í héraði um þetta sé ekki að finna í gögnum málsins fyrir Hæstarétti. Er stefndi tók kröfuna yfir 9. október 2008 hafi staða lánsins samkvæmt viðurkenndum aðferðum við endurútreikning lána hjá stefnda verið 1.026.988.126 krónur ef miðað væri við lán í íslenskum krónum frá upphafi töku þess, en 1.168.500.000 krónur miðað við að um lán í erlendum myntum hafi verið að ræða. Hafi áfrýjendur ekki sýnt fram á að það hefði dugað til að halda framkvæmdum áfram og koma í veg fyrir gjaldþrot Nýju Jórvíkur ehf., enda hafi hvorki félagið né hluthafar þess átt lausafé eða eignir til tryggingar frekari lánum og Mýrargata 26 verið eina eign félagsins. Þá beri gögn málsins með sér að heildarkostnaður við verkið hafi á þeim tíma verið metinn 4.100.000.000 krónur, en virði fasteignarinnar einungis 3.800.000.000 krónur, væri tekið mið af verðmati frá árslokum 2007. Ekki verði um það deilt að vegna hruns á fjármálamörkuðum 2008 hafi ástandið á fasteignamarkaði versnað til muna á þeim tíma sem liðinn var frá því að það verðmat fór fram. Hafi fasteignaverð farið verulega lækkandi á tímabilinu jafnframt því sem byggingarkostnaður hafi hækkað mjög, sem og vaxtakostnaður af lánsfé. Þannig hefði vísitala byggingarverðs lækkað úr 357,3 stigum frá 1. janúar 2008 í 303,3 stig í janúar 2010. Einnig liggi fyrir að fasteignin hafi verið metin í tilefni kyrrsetningar eigna Nýju Jórvíkur ehf. í september 2009 á 475.000.000 krónur, auk þess sem hún hafi síðar selst í opnu útboði fyrir um 600.000.000 krónur. Málatilbúnaður áfrýjenda er á hinn bóginn á því reistur að tekjur af sölu íbúða að Mýrargötu 26 hefðu tryggt að Nýja Jórvík ehf. hefði getað staðið við skuldbindingar sínar gagnvart lánardrottnum. „Að minnsta kosti hefði félagið átt eignir sem hefðu auðveldað fjármögnun á skuldum þess ef því var að skipta, sbr. til dæmis ýmis skuldaleiðréttingarúrræði sem félögum stóðu til boða eftir fall bankanna.“ Vísa áfrýjendur sérstaklega til samnings frá 14. nóvember 2012 um kaup einkahlutafélagsins Mýrinvest á 31 íbúð í húsinu fyrir samtals 1.468.161.711 krónur, en húsið hafi þá verið á byggingarstigi 2. Hefði slíkt fjármagn nægt Nýju Jórvík ehf. til að ljúka byggingu hússins. Um þetta vísa áfrýjendur einnig til fréttar í Viðskiptablaðinu 5. ágúst 2013 þar sem fram kom að byggingarframkvæmdir stæðu enn yfir en fermetraverð íbúða væri á bilinu 400.000 krónur til 590.000 krónur og seldar hafi verið 16 af 68 íbúðum hússins. Jafnframt árétta áfrýjendur að mál þetta sé rekið sem viðurkenningarmál og verði því endanleg afstaða til tjónsins ekki tekin á þessu stigi. Við meðferð málsins í héraði var kröfu stefnda, sem reist var á framangreindum sjónarmiðum, um frávísun máls hafnað með úrskurði 15. október 2015. Í úrskurðinum kom meðal annars fram að þótt málatilbúnaður áfrýjenda væri ekki með öllu svo glöggur sem æskilegast væri, kæmi stefndi fram vörnum sínum og þótt áfrýjendur hefðu ekki aflað mats um tjón sitt áður en til höfðunar máls kom yrði ekki talið að lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála stæðu því í vegi að þeir gætu undir rekstri málsins aflað frekari sönnunargagna um tjón sitt. IV Heimilt er eftir 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 að leita dóms um viðurkenningu á skaðabótaskyldu án tillits til þess hvort unnt sé að leita dóms sem fullnægja mætti með aðför. Sú heimild er þó háð þeim skilyrðum að sá sem höfðar mál leiði nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni af nánar tilteknu tilefni og geri grein fyrir því í hverju tjónið felst og hver tengsl þess séu við atvik máls. Eins og að framan er rakið hefur stefndi lagt fram við meðferð málsins útreikninga og gögn til stuðnings fullyrðingum sínum um stöðu mála á þeim tíma er um ræðir. Af hálfu áfrýjenda hefur á hinn bóginn ekki verið gerður nægilegur reki að því með matsgerð eða öðrum hætti að renna stoðum undir fullyrðingar um tjón Nýju Jórvíkur ehf. vegna missis hagnaðar sem rekja megi til vanefnda stefnda á umþrættum samningi. Hafa áfrýjendur um þetta vísað til upplýsinga um sölu á hluta fasteignarinnar nokkrum árum eftir þann tíma er atvik urðu. Að virtum málatilbúnaði stefnda verður af þeim gögnum sem áfrýjendur vísa til ekki metið hvort háttsemi stefnda geti hafa falið í sér tjón fyrir þrotabú Nýju Jórvíkur ehf. á þeim tíma er máli skiptir. Eðli málsins samkvæmt sýna þessi gögn enn síður fram á að aðrir áfrýjendur hafi orðið fyrir tjóni af völdum stefnda. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins hafa áfrýjendur ekki leitt nægilega í ljós að þeir hafi orðið fyrir tjóni í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 þannig að þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum fyrir dómi á grundvelli ákvæðisins. Þegar af þeirri ástæðu verður fallist á kröfu stefnda um frávísun málsins frá héraði. Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður áfrýjendum gert að greiða stefnda málskostnað á báðum dómstigum, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Áfrýjendur, EP fjármál ehf., þrotabú Ísleifs Leifssonar, þrotabú Magnúsar Inga Erlingssonar, Upsir ehf. og þrotabú Nýju Jórvíkur ehf., greiði óskipt stefnda, Landsbankanum hf., samtals 1.400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2017 I Mál þetta, sem dómtekið var 14. febrúar 2017, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 19. janúar 2015. Stefnendur eru EP fjármál ehf., þrotabú Ísleifs Leifssonar, Magnús Ingi Erlingsson, Upsir ehf. og þrotabú Nýju Jórvíkur ehf. Stefndi er Landsbankinn hf. Stefnandi, þrotabú Nýju Jórvíkur hf., krefst þess að viðurkennd verði skaðabótskylda stefnda, Landsbankans hf., á tjóni þrotabúsins sem leitt hafi af vanefndum stefnda á  lánssamningi 24. maí 2005, upphaflega á milli Nýju Jórvíkur ehf. og Landsbanka Íslands hf. Stefnendur, EP fjármál ehf., þrotabú Ísleifs Leifssonar, Magnús Erlingsson og Upsir ehf., krefjast þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda, Landsbankans hf., á tjóni þeirra vegna fjártjóns sem hlotist hafi af gjaldþroti Nýju Jórvíkur ehf. Stefnendur krefjast málskostnaðar að mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda og málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts.  Með úrskurði dómsins 15. október 2015 var frávísunarkröfu stefnda hafnað. II Forsaga málsins er sú að á árinu 2002 keypti félagið Nýja Jórvík ehf. lóð við Mýrargötu 26 í Reykjavík á 285.000.000 króna og var ætlunin að reisa þar fjölbýlishús. Hinn 24. maí 2005 gerðu Nýja Jórvík ehf. og Landsbanki Íslands hf. með sér lánssamning. Með samningnum skuldbatt bankinn sig sem lánveitandi til að hafa til reiðu fyrir Nýju Jórvík ehf. sem lántaka svokallaða reikningslánalínu að hámarksfjárhæð 1.130.000.000 króna til að standa straum af kostnaði við byggingarframkvæmdir við Mýrargötu 26. Þó gæti lánsfjárhæð aldrei verið hærri en sem næmi 88% af heildarkostnaði vegna framkvæmda við fasteignina við Mýrargötu 26. Bankinn veitti Nýju Jórvík ehf. lán á grundvelli reikningslánalínunnar í fyrsta sinn þann 15. júní 2005. Nánari skilmálar lánssamningsins frá 24. maí 2005, að því leyti sem skiptir máli við úrlausn þessa máls, voru á þá leið að hver lánshluti, sem Nýja Jórvík ehf. tók innan lánsheimildar reikningslánalínunnar, var sjálfstætt lán. Samkvæmt 4. gr. lánssamningsins var gert ráð fyrir að útgreiðslur hvers lánshluta færu fram í formi reikningsláns og að heildargreiðslur gætu ekki orðið hærri en 1.130.000.000 króna svo sem fyrr greinir. Útborgun lánshluta skyldi miðast við verkframkvæmdir og áskildi bankinn sér rétt til að meta framkvæmdir með aðstoð sjálfstæðra úttektaraðila og stöðva lánveitingu ef samband milli útborgunar lánsins og verkframkvæmda teldist ekki eðlilegt. Áður en bankinn kynni að stöðva lánveitingu í samræmi við framangreint, skyldi lántaka gefinn kostur á því að koma að athugasemdum. Ef verkið drægist umfram staðfesta framkvæmdaáætlun, væri bankanum heimilt að fresta útgreiðslum þar til þeim verkþáttum væri lokið sem átti að ljúka fyrir útborgunardag. Þá var bankanum heimilt að framlengja einstaka lánshluta með sama hætti. Í 6. gr. lánssamningsins var fjallað um vexti og vaxtatímabil. Samkvæmt 1. málsl. í grein 6.1 skyldi miða vaxtakjör hvers lánhluta við REIBOR-vexti, eins og þeir voru skráðir að morgni þess dags sem lánið var greitt út, að viðbættu 2,5% álagi. Samkvæmt grein 6.2 var lántaka heimilt, hvenær sem var á gildistíma lánssamningsins, að óska eftir breytingu á vaxtakjörum og var slík breyting háð samþykki bankans. Upphaflegur gildistími lánssamningsins var til 1. maí 2007 en með viðauka við hann 29. desember 2006 var gildistíminn framlengdur til 28. febrúar 2009. Í sama viðauka var bætt við samninginn grein þar sem kveðið var á um kjör á lántöku í erlendum gjaldmiðlum. Breytt deiliskipulag á lóðinni við Mýrargötu 26 var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 12. júlí 2005. Þar kom fram að hafnarsvæði væri breytt í íbúðasvæði. Með breyttu deiliskipulagi jókst umfang byggingaréttarins á lóðinni, en heimilað var að byggja 9.350 fermetra íbúðarhúsnæði á skipulögðu íbúðarsvæði, auk 4.500 fermetra bílakjallara. Nýja Jórvík ehf. undirritaði verksamning við Atafl ehf. 14. september 2006 um uppsteypu hússins við Mýrargötu 26 og frágang að utan, en heildarbyggingarkostnaður skyldi nema 379.000.000 krónum. Í kjölfarið hófust framkvæmdir á lóðinni. Framkvæmdir við byggingu hússins við Mýrargötu 26 töfðust þegar deiliskipulag fyrir lóðina frá 12. júlí 2005 var ógilt með úrskurði úrskurðarnefndar bygginga- og skipulagsmála 28. júlí 2006. Nýtt deiliskipulag fyrir lóðina var samþykkt með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðanda 11. júní 2007 og hófust byggingaframkvæmdir að nýju í kjölfar þess. Í lok júní 2008 stöðvaði Landsbanki Íslands hf. frekari lánafyrirgreiðslu til Nýju Jórvíkur ehf. en þá var búið að steypa upp tvær hæðir af fimm í húsinu. Afstaða bankans var þá sú að félagið væri búið að draga að fullu á lánalínuna og rúmlega það, eða samtals fyrir 1.168.500.000 króna. Fyrirsvarsmönnum Nýju Jórvíkur ehf. var á sama tíma tilkynnt af lánastjóra Landsbanka Íslands hf. að styrkja þyrfti eigið fé félagsins eða leggja fram sjálfskuldarábyrgðir hluthafa þess til að gera félaginu kleift að fá frekari lánafyrirgreiðslur frá bankanum. Samkvæmt framlögðu minnisblaði stefnda frá 16. mars 2009 nam raunverulegur ádráttur af láninu um 868.000.000 króna á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 30. júní 2008 Væri það sú fjárhæð sem raunverulega hefði farið í framkvæmdir á fasteigninni, en heildarskuld á grundvelli skilmála lánssamningsins næmi 1.168.500.000 krónum. Mismunur þessara tveggja fjárhæða, eða um 300.000.000 króna skýrðist af gengislækkun krónunnar á móti þeim myntum sem væru í myntkörfu lánsins. Fjallað var um málefni Nýju Jórvíkur ehf. á lánanefndarfundi bankans hinn 23. júlí 2008. Þar sem fram kom að auka þyrfti eigið fé félagsins um allt að 500.000.000 króna „ef bankinn [ætti] að lána frekar í verkefni“. Í kjölfarið kom til bréfaskipta milli starfsmanna Nýju Jórvíkur ehf. og Landsbanka Íslands hf. Nýja Jórvík ehf. lagði fram tillögur um hvernig mætti gera félaginu kleift að fá frekari lánveitingar frá bankanum til að geta haldið áfram uppbyggingu við Mýrargötu 26. Hinn 25. ágúst 2008 bárust félaginu þau svör frá lánastjóra bankans að krafist væri sjálfskuldarábyrgðar fyrir lánveitingum bankans að fjárhæð 200.000.000 króna og að auki þyrfti að leggja 100.000.000 króna í reiðufé inn í félagið ef koma ætti til frekari lánveitinga af hálfu bankans. Með bréfum Nýju Jórvíkur ehf. til Landsbanka Íslands hf. 26. ágúst 2008 og 2. september 2008 var þess óskað að bankinn stæði við lánssamninginn og yrði við tilboði hluthafa um 200.000.000 króna sjálfskuldarábyrgð sem greidd yrði niður með nýju hlutafé á næstu sex mánuðum þar á eftir. Jafnframt að gengið yrði frá samningi um heildarfjármögnun á verkinu um leið. Engin svör bárust frá bankanum við framangreindum erindum Nýju Jórvíkur ehf. Málefni Nýju Jórvíkur ehf. voru tekin fyrir hjá lánanefnd Landsbanka Íslands hf. þann 24. september 2008. Enn var þar gerð krafa um 300.000.000 króna fjárframlag inn í félagið sem skilyrði fyrir frekari lánveitingum. Á fundi lánanefndar Landsbanka Íslands hf. 2. október 2008 var fjallað um málefni Nýju Jórvíkur ehf. Var ákveðið að stöðva málið í 12 mánuði. Lánalína framlengdist til 30. október 2009 og hækkaði í 1.500.000 krónur vegna gengisbreytinga. Í niðurlagi bréfsins kemur fram að „[v]ið almenna skoðun á málinu þá virðist bankinn vera jákvæður að auka lánveitingu til verkefnisins þó veruleg kostnaðarhækkun hafi átt sér stað en hann vill að eigendur komi með viðbótar áhættufjármagn í félagið á sama hátt og bankinn.“ Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun, á grundvelli 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., og víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum. Fjármálaeftirlitið skipaði bankanum skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995 í samræmi við 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var Nýi Landsbanki Íslands hf. stofnaður, nú Landsbankinn hf., stefndi í máli þessu. Hinn 7. nóvember 2008 tilkynnti stefndi Nýju Jórvík ehf. að fyrri umleitanir félagins fengju ekki frekari meðferð. Fram kemur að þá hafi staða lánsins verið 1,8 milljarður króna og ljóst að eftir var að framkvæma fyrir 2,3 milljarða króna. Þá var heildarkostnaður kominn í 4,1 milljarð króna en fasteignin fullbúin hafði verið metin á 3,4-3,8 milljarða króna í árslok 2007 að því er fram kemur í bréfinu. Frekari umleitanir Nýju Jórvíkur ehf. um fjárveitingar frá stefnda í formi láns á því sem eftir lifði árs 2008 og á fyrri hluta árs 2009 skiluðu engum árangri. Samkvæmt gögnum málsins voru stefnendur EP Fjármál ehf., þrotabú Ísleifs Leifssonar, Magnús Ingi Erlingsson og Upsir ehf. einu eigendur hlutafjár í Nýju Jórvík ehf. í árslok 2009. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2010 var Nýja Jórvík ehf. úrskurðað gjaldþrota að beiðni Atafls ehf. Fyrir liggur skrá yfir lýstar kröfur í þrotabúið og kemur þar fram að skiptastjóri þrotabúsins hafi samþykkt kröfu stefnda, sem þá hét NBI hf., á hendur búinu á grundvelli lánssamningsins frá 24. maí 2005, að fjárhæð 1.971.683.978 krónur. Ennfremur sagði þar að kröfuskráin yrði lögð fram á skiptafundi sem haldinn yrði 8. júní 2010. Í málinu liggur einnig fyrir samkomulag 23. nóvember 2010, á milli skiptastjóra þrotabús Nýju Jórvíkur ehf., stefnda og Regins ÞR1 ehf., um útlagningu á fasteigninni Mýrargötu 26 í Reykjavík til Regins ÞR1 ehf., sem er dótturfélag stefnda, svo og afsal skiptastjóra á eigninni til þess félags. Umsamið kaupverð fyrir fasteignina var í samkomulaginu 510.000.000 króna. Í bréfi 6. mars 2012 gerðu stefnendur EP fjármál ehf., þrotabú Ísleifs Leifssonar, Magnús Erlingsson og Upsir ehf., eigendur hlutafjár í þrotabúi Nýju Jórvíkur ehf., þá kröfu að stefndi greiddi þeim skaðabætur vegna tjóns sem þeir töldu sig hafa orðið fyrir, m.a. vegna „saknæmrar og ólögmætrar háttsemi“ stefnda. Stefndi hafnaði bótaskyldu með bréfi 14. maí 2012. Hinn 4. desember 2012 höfðuðu stefnendur, EP fjármál ehf., þrotabú Ísleifs Leifssonar, Magnús Erlingsson og Upsir ehf., mál gegn stefnda þar sem krafist var skaðabóta úr hendi stefnda eftir reglum um skaðabætur innan samninga. Í dómi Hæstaréttar 13. febrúar 2014 í máli nr. 608/2013 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að stefnendur, sem hluthafar í viðsemjanda stefnda, gætu ekki krafist skaðabóta innan samninga af hálfu stefnda og var því sýknað af kröfunni vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt var komist að þeirri niðurstöðu að krafa stefnanda um skaðabótaábyrgð utan samninga væri of seint fram komin og komst því ekki að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991. Stefnendur eru þrotabú Nýju Jórvíkur ehf. og fyrrum hluthafar félagsins. Skiptum þrotabúsins var upphaflega lokið 11. mars 2011, án þess að heimtur hafi fengist upp í almennar kröfur á hendur búinu. Samkvæmt gögnum málsins tók skiptastjóri þrotabú Nýju Jórvíkur ehf. skiptin upp að nýju 10. september 2014, með vísan til 1. mgr. 164. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. III Stefnendur byggja kröfugerð vegna þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. á reglum skaðabótaréttar innan samninga. Þeir krefjast þess að stefndi verði dæmdur skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem stefnandi, þrotabú Nýju Jórvíkur ehf., hafi orðið fyrir vegna vanefndar stefnda og forvera stefnda, Landsbanka Íslands hf., á lánssamningi við Nýju Jórvík ehf. Tjónið verði rakið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi sem hafi falist í því að stefnanda, þrotabúi Nýju Jórvíkur ehf., hafi fyrirvaralaust verið synjað um frekari lánafyrirgreiðslu frá Landsbanka Íslands hf. þrátt fyrir skýra skuldbindingu þar um samkvæmt lánssamingi frá 24. maí 2005. Stefnendur byggja á því að stefndi hafi yfirtekið öll réttindi og allar skyldur forvera síns, Landsbanka Íslands hf., þegar stefndi hafi yfirtekið lánssamninginginn við stofnun stefnda 9. október 2008. Auk þess hafi stefndi orðið skaðabótaskyldur vegna háttsemi sinnar eftir yfirtöku lánssamningsins, sem falist hafi í áframhaldandi vanefnd á  lánssamningnum, en ekki hafi verið greitt út lánalínunni sem samningurinn gerði ráð fyrir, þrátt fyrir hækkun á þaki lánalínunnar í tvígang. Þá hafi saknæm háttsemi falist í því að gera ólögmætar kröfur til eiginfjárframlags hluthafa stefnanda, þrotabús Nýju Jórvíkur ehf., sem skilyrði fyrir frekari útgreiðslu af lánalínunni. Það megi greina af fundargerð af fundi lánanefndar Landsbanka Íslands hf., forvera stefnda, þann 24. september 2008, sem er á meðal gagna málsins. Hátterni stefnda hafi haft það í för með sér að bú Nýju Jórvíkur ehf., hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og í kjölfarið misst einu eign sína við Mýrargötu 26 og ­hafi þar með orðið af þeim hagnaði sem verkið hefði skilað. Hafi stefndi, með athöfnum sínum og athafnaleysi, bakað stefnanda, þrotabúi Nýju Jórvíkur ehf., samsvarandi tjón, sem stefndi beri ábyrgð á samkvæmt almennum reglum um skaðabætur innan samninga. Skaðabótakrafa stefnanda, þ.b. Nýju Jórvíkur ehf., sé byggð á sakarreglunni og byggi á því að tjónið sé sennileg afleiðing af saknæmri og ólögmætri háttsemi stefnda og forvera hans. Um aðild til varnar í máli þessu vísa stefnendur til þess að Fjármálaeftirlitið hafi tekið ákvörðun 9. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbankans hf., nú stefnda, með vísan til heimildar í 100 gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Samkvæmt 1. tölul. í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi allar eignir og kröfuréttindi hverju nafni sem þau nefndust verið framseld til stefnda, nema þau væru sérstaklega undanþegin. Stefnendur byggja á því að skaðabótakröfur séu þar ekki undanskildar. Lánssamningur 24. maí 2005, á milli Nýju Jórvíkur ehf. og Landsbanka Íslands hf., hafi fallið undir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008, auk þess sem gögn málsins staðfesti að stefndi hafi eignast kröfuna og að lokum fullnustað eignina að Mýrargötu 26 á grundvelli  lánssamningsins. Stefnendur byggja á því að í samræmi við meginreglur kröfuréttarins þá geti skuldari við kröfuhafaskipti viðhaft allar þær mótbárur við framsalshafa sem hann hefði getað haft við framseljenda, hvort sem þær lytu að því að krafan hafi aldrei verið til, efni hennar hafi breyst og svo framvegis. Þennan rétt hafi skuldari þrátt fyrir að framsalshafa hafi verið ókunnugt um mótbáruna. Með öðrum orðum séu órjúfanleg tengsl á milli kröfunnar sem hafi verið framseld til stefnda og þeirra réttinda sem fylgdu vegna vanefnda aðila, þ. á m. skaðabótakröfu vegna vanefndar á lánssamningi. Önnur niðurstaða hefði í för með sér að vanefndir  lánssamningsins hefðu engin réttaráhrif. Stefndi gæti ekki losnað undan samningsskyldum sínum að þessu leyti við framsal nema samningurinn hafi beinlínis kveðið á um slíka niðurstöðu. Stefnendur vísa til þess að þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að skaðabótakrafa þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. á hendur Landsbanka Íslands hf. hafi ekki færst yfir til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 telja stefnendur að þeim sé engu síður heimilt að beina kröfunni að stefnda. Hin skaðabótaskylda háttsemi, sem krafist sé bóta fyrir, hafi bæði verið viðhöfð af stefnda og Landsbanka Íslands hf., þar sem báðir aðilar hafi vanefnt lánssamninginn með sama hætti. Þegar tjónvaldar séu fleiri en einn beri þeir óskipta ábyrgð á skaðabótakröfunni og ­tjónþola sé í sjálfsvald sett að ákveða að hvorum hann beini skaðabótakröfu og sé endanlegt innbyrðis uppgjör milli tjónvalda honum óviðkomandi. Stefnendur vísa um aðild þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. til heimildar skiptastjóra þrotabúsins. Stefnendur hafi fengið framselda til sín kröfu VSB verkfræðistofu ehf., sem hafi verið lýst á hendur þrotabúinu og séu þeir því jafnframt kröfuhafar í búinu. Stefnendur hafi, sem kröfuhafar, farið fram á það við skiptastjóra þrotabúsins að fá að halda uppi þeim hagsmunum sem þrotabúið kynni að njóta í máli þessu. Í bréfi skiptastjóra 10. september 2014 hafi sú heimild verið veitt með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og þeim skilyrðum að stefnendur málsins, aðrir en þrotabú Nýju Jórvíkur ehf., yrðu sjálfir að bera kostnað og áhættu af aðgerðum sínum. Stefnendur byggja á því að Landsbanki Íslands hf. hafi, með fyrirvaralausri stöðvun á lánveitingum til Nýju Jórvíkur ehf., brotið samningsskyldur sínar samkvæmt skuldbindandi lánssamningi við Nýju Jórvík ehf. Stefndi hafi sömuleiðis vanefnt samninginn með því að greiða ekki út eftirstöðvar lánsloforðs til Nýju Jórvíkur ehf. í kjölfar framsalsins 9. október 2008. Þetta hafi stefndi gert þrátt fyrir að hafa hækkað þakið á lánalínunni. Eins hafi hann haldið uppi kröfum um eiginfjárframlag og styrkingu hlutafjár félagsins sem enga stoð hafi haft í  lánssamningnum. Sú háttsemi stefnda sé skaðabótaskyld og hafi leitt til þess að Nýja Jórvík ehf. hafi ekki getað efnt greiðsluskyldu sína samkvæmt verksamningi við Atafl ehf. sem hafi að endingu leitt til gjaldþrots félagsins. Að auki byggja stefnendur á því að starfsmenn stefnda hafi sammælst við Atafl ehf. um að knýja Nýju Jórvík ehf. í þrot. Nýja Jórvík ehf. hafi þannig orðið fyrir fjárhagslegu tjóni sem rekja mætti til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi Landsbanka Íslands hf. og stefnda. Við mat á saknæmi og ólögmætri háttsemi stefnda beri að líta til lánssamningsins á milli stefnda og Nýju Jórvíkur ehf. Stefnendur byggja á því að brot stefnda á lánssamningnum hafi falið í sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem leitt hafi til tjóns Nýju Jórvíkur ehf. Stefnda hafi borið að hegða sér í samræmi við þær kröfur, sem lánssamningurinn hafi lagt honum á herðar, en samningurinn hafi falið í sér skráðar hátternisreglur sem taka þurti mið af við sakarmatið. Þegar Landsbanki Íslands hf., og síðar stefndi, hafi gerst aðilar að samningnum við Nýju Jórvík ehf. hafi þeir undirgengist þá skuldbindingu að haga sér í samræmi við það sem mælt hafi verið fyrir um í samningnum. Stefnendur byggja á því að við mat á því, hvort stefndi hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi, beri að líta til samningsins milli stefnda og Nýju Jórvíkur ehf. en ljóst sé að stefndi hafi brotið gegn samningsskyldum sínum og hafi þar af leiðandi bakað sér skaðabótaábyrgð. Stefnendur byggja á því að skuldbindandi lánssamningur í íslenskum krónum hafi komist á 24. maí 2005 milli Landsbanka Íslands hf. og Nýju Jórvíkur ehf., sem síðar hafi verið yfirtekinn af stefnda. Samningurinn hafi verið vanefndur af hálfu Landsbanka Íslands hf. þegar bankinn hafi fyrirvaralaust stöðvað frekari lánveitingar til Nýju Jórvíkur ehf. á grundvelli samningsins. Fyrir liggi að Landsbanki Íslands hf. og síðar stefndi hafi einhliða ákveðið að hækka skuld Nýju Jórvíkur ehf. með því að reikna höfuðstól lánsins með hliðsjón af gengisvísitölu tiltekinna erlendra mynta andstætt ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Sú aðgerð hafi verið ólögleg og byggja stefnendur á því að Hæstirettur hafi staðfest það. Afleiðingar þessara vanefnda hafi verið þær að Nýja Jórvík ehf. hafi ekki getað greitt aðalverktaka sínum, Atafli ehf., uppsafnaða skuld sem hafi numið samtals 132.222.164 krónum. Reikningarnir, sem hafi myndað skuldina, hefðu þegar verið samþykktir af eftirlitsmanni í samræmi við skilyrði 3. gr. lánssamningsins. Hafi þetta leitt til þess að Atafl ehf. hafi krafist gjaldþrotaskipta á búi Nýju Jórvíkur ehf. Í kjölfarið hafi félagið misst einu eign sína, fasteignina við Mýrargötu 26, til stefnda, sem hafi síðar fullnustað eignina til sín á grundvelli lánssamningsins frá 24. maí 2005. Stefndi hafi síðan ákveðið að ráðstafa eigninni til verktakans Atafls ehf. Stefnendur byggja á því að stefndi og verktakinn hafi sammælst um að ná fasteigninni af Nýju Jórvík ehf. og koma eignarhaldi hennar til Atafls ehf. og tryggja með því aðra hagsmuni stefnda. Stefnendur telja að Landsbanki Íslands hf. og síðar stefndi hafi með saknæmri og ólögmætri háttsemi vanefnt samningsskyldur sínar. Vanefnd Landsbankans og síðar stefnda á samningskyldum gagnvart Nýju Jórvík ehf. hafi leitt til sannanlegs tjóns vegna gjaldþrots félagsins. Tjónið samsvari missi hagnaðar sem komið hefði til vegna ágóða af sölu fullbúinna fasteigna við Mýragötu 26. Beint orsakasamband sé milli vanefndar Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda og tjóns Nýju Jórvíkur ehf. Landsbanka Íslands hf. og stefnda hafi einnig mátt vera ljóst með sanngirnisröum að tjón Nýju Jórvíkur ehf. yrði sennileg afleiðing vanefndarinnar, enda hafi þeir verið grandsamir um að framkvæmdir myndu stöðvast þegar í stað vegna stöðvunar á lánafyrirgreiðslu, enda hafi þeir vitað að áframhaldandi lánafyrirgreiðsla væri Nýju Jórvík ehf. nauðsynleg, einkum með hliðsjón af tengslum lánastjóra stefnda og Atafls ehf., sem hafi jafnframt verið í viðskiptum við stefnda. Gögn málsins styðji staðhæfingar um að lánastjóri stefnda hafi verið grandsamur um að stöðvun lánafyrirgreiðslunnar myndi hafa þær afleiðingar að Nýja Jórvík ehf. gæti ekki greitt reikninga frá Atafli ehf. og færi því í þrot. Í inngangi lánssamningsins frá 24. maí 2005 komi fram að Landsbanki Íslands hf. hafi skuldbundið sig til að lána Nýju Jórvík ehf. rekstrarfjármögnun í formi reikningslánalínu að fjárhæð allt að 1.130.000.000 króna, með þeim skilyrðum sem fram komi í samningnum. Í 2. gr. samningsins sé áréttað að Landsbanki Íslands hf. skuli hafa til reiðu fyrir lántaka reikningslánalínu að fjárhæð 1.130.000.000 króna og að innan þeirra marka sé lántaka heimilt að taka lán hjá bankanum í íslenskum krónum. Í 4. gr. samningsins sé fyrirkomulagi útgreiðslna lánsins lýst en þar komi fram að útgreiðslur hvers lánshluta fari fram í formi reikningsláns og gætu heildargreiðslur ekki numið hærri fjárhæð en fram komi í 2. gr. samningsins. Útborgun lánsins hafi miðast við verkframkvæmdir þar sem bankinn hafi áskilið sér rétt til þess að meta framkvæmdir með aðstoð sjálfstæðra úttektaraðila og stöðva lánveitinguna, væri ekki eðlilegt samband á milli útborgunar lánsins og verkframkvæmda. Fyrirkomulagið hafi verið með þeim hætti að við lok hvers verkþáttar hafi óháður aðili á vegum Landsbanka Íslands hf. tekið verkþáttinn út og í kjölfarið hefði bankinn samþykkt útgreiðslu lánsins til Nýju Jórvíkur ehf. í íslenskum krónum. Stefndi hafi yfirtekið allar skyldur Landsbanka Íslands hf. við framsal lánssamningsins 9. október 2008. Með viðauka við lánssamninginn 29. desember 2006 hafi gildistími samningsins verið framlengdur til 28. febrúar 2009 vegna þeirra tafa sem orðið hefðu á verkinu. Jafnframt hafi nýju ákvæði verið bætt við 6. gr. samningsins, grein 6.6 sem hafi verið svohljóðandi: „[V]axtakjör hvers lánshluta sem lántaki tekur í erlendum gjaldmiðlum er LIBOR - eins og vextir þeir sem ákvarðast fyrir viðkomandi gjaldmiðil og hvert vaxtatímabil hverju sinni, tveimur bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils að viðbættu 3,5% álagi“. Í framhaldinu hafi hins vegar ekki verið gerður nýr lánssamningur um lán í erlendum myntum, eins og hefði verið nauðsynlegt hafi ætlunin verið að lána Nýju Jórvík ehf. í erlendum gjaldmiðlum. Hins vegar hafi félaginu verið lánað áfram í íslenskum krónum á grundvelli íslenska lánssamningsins frá 24. maí 2005. Ný grein hafi komið inn í lánssamning í íslenskum krónum um heimild til að miða vaxtaákvörðun við gengi erlendra mynta hafi verið andstæð ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Það hafi ekki breytt þeirri staðreynd að um lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða sem borið hafi að endurgreiða í íslenskum krónum. Hver og ein útgreiðsla lánsins hafi verið í íslenskum krónum, án tillits til þess að þann 23. mars 2007 hafi Landsbanki Íslands, í samræmi við viðaukann, hafið að tengja höfuðstól lánanna við gengi erlendra gjaldmiðla. Enda hafi komið skýrt fram í lánsbeiðni að lánið yrði í íslenskum krónum. Stefnendur byggja á því að með dómi Hæstaréttar Íslands frá 26. júní 2011 í máli réttarins nr. 155/2011, Landsbankinn hf. gegn þrotabúi Motormax ehf., hafi verið staðfest að lánssamningar bankans við fyrirtæki, sem hafi verið tengdir við gengisvísitölu erlendra mynta, væru ólögmætir. Með þeim dómi hafi bótagrundvöllur og tjón þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. orðið ljóst. Stefnendur vísa til þess að dómurinn byggi á því að við þær aðstæður að lánsfjárhæð hafi verið ákveðin í íslenskum krónum, hún greidd út í íslenskum krónum og gert ráð fyrir að lánsfjárhæðin yrði endurgreidd í íslenskum krónum, væri um að ræða lán í íslenskum krónum. Tenging höfuðstóls slíkra lána við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla væri ólögmæt þar sem hún stríddi gegn 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Í lánssamningnum frá 24. maí 2005, sem stefndi hafi yfirtekið við stofnun stefnda, sé tilgreining lánsfjárhæðarinnar í íslenskum krónum. Hvergi sé þar getið um fjárhæð láns í erlendum gjaldmiðli, heldur aðeins hlutföll þeirra og viðmiðun við virði íslensku krónunnar á tilteknum degi við útborgun lána. Lánssamningurinn í heild hafi auk þess á sér yfirbragð íslensks lánssamnings. Til viðbótar megi benda á að í þeim útborgunarbeiðnum, sem vísi til tengingar höfuðstóls við gengi erlendra mynta, sé lánsfjárhæð ákveðin í íslenskum krónum. Auk þess árétta stefnendur að lánsbeiðni hafi ekki komið í stað gilds lánssamnings sem gildi í lögskiptum aðila. Jafnframt byggja stefnendur á því að í lánssamningum hafi hvergi verið heimildarákvæði fyrir Landsbanka Íslands hf. eða stefnda til að stöðva útgreiðslu lánsins vegna hækkunar sem orsakist af vöxtum og/eða gengisbreytingum. Nýja Jórvík ehf. hafi átt rétt á láni að fjárhæð 1.130.000.000 króna og hafi lánveitanda verið skylt að greiða það út. Fyrir þessari lánsfjárhæð hafi stefndi haft nægjanlegar tryggingar, eða tryggingarbréf að fjárhæð 1.594.000.000 króna, sem þinglýst hafi verið á eignina að Mýrargötu 26. Af þeim sökum sé óforsvaranleg sú háttsemi Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda að stöðva lánafyrirgreiðslur til Nýju Jórvíkur ehf. eftir að hafa einungis lánað félaginu 868.000.000 króna og án þess að félagið hefði á nokkurn hátt vanefnt samninginn. Þá byggja stefnendur á því að burtséð frá lögmæti gengistryggingar lánsins hafi Landsbanka Íslands hf. verið óheimilt að stöðva lánafyrirgreiðslu með vísan til þess að höfuðstóll lánveitinga hefði hækkað. Lánssamningurinn frá 24. maí 2005 sé afdráttarlaus um að Landsbanki Íslands hf. og síðar stefndi hafi verið skuldbundnir til þess að lána Nýju Jórvík ehf. 1.130.000.000 króna. Óumdeilt sé hins vegar að Landsbanki Íslands og síðar stefndi hafi einungis lánað Nýju Jórvík ehf. 868.000.000 króna. Jafnvel þótt miðað yrði við uppreiknaðan höfuðstól lánsins samkvæmt ólögmætri tengingu við gengi erlendra mynta hinn 6. júní 2008, hefðu lánveitingar einungis numið 950.435.652 krónum. Því liggi fyrir að Nýja Jórvík hefði ekki fullnýtt lánalínuna. Það sem eftir hafi staðið hefði nægt til þess að greiða gjaldfallna reikninga verktakans Atafls hf. Auk þess sem hámarksfjárhæð lánalínunnar hefði þá verið hækkuð í 1.500.000.000 króna og hefði það nægt til að greiða upp allar skuldir Nýju Jórvíkur ehf. og gert félaginu kleyft að halda áfram með verkið og hefja að endingu sölu íbúða. Af þeim sökum hafi Landsbanki Íslands hf. og síðar stefndi vanefnt lánssamninginn samkvæmt skýrum ákvæðum hans. Með vísan til alls ofangreinds telja stefnendur að Landsbanki Íslands hf. og stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti brotið gegn ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001 með því að tengja íslenskt lán Nýju Jórvíkur ehf. við gengi erlendra gjaldmiðla og á þeirri forsendu stöðvað lánafyrirgreiðslu og hafnað áframhaldandi fjármögnun til félagsins. Landsbanki Íslands hf. og stefndi verði að bera hallann af því að hafa gert þau mistök sem fjármálafyrirtæki að tengja höfuðstól íslensks láns við gengi erlendra mynta sem hafi verið dæmt ólögmætt af Hæstarétti Íslands. Í öllu falli verði stefndi að bera ábyrgð á ólögmætri stöðvun lánafyrirgreiðslunnar. Fyrir liggi því að Landsbanki Íslands hf. og síðar stefndi hafi vanefnt umræddan lánssamning en samkvæmt honum hafi Landsbanki Íslands hf. og stefndi verið skuldbundnir til þess að lána Nýju Jórvík ehf. 1.130.000.000 króna og síðar 1.500.000.000 króna með ákvörðun um hækkun hinn 2. október 2008. Nýja Jórvík ehf. hafi hins vegar einungis fengið lánaðar 868.000.000 króna. Staðhæfing stefnda í svarbréfi hans til stefnenda vegna skaðabótakröfu þeirra 3. desember 2010 um að áðurnefnt lán til Nýju Jórvíkur ehf. hafi verið greitt út að fullu um sumarið 2008 sé röng. Í minnisblaði lánastjóra stefnda, dagsettu 4. september 2009, til umboðsmanns skuldara stefnda, í tilefni af kvörtun stefnenda yfir þeirri málsmeðferð sem málið hefði hlotið innan bankans, staðfesti lánastjórinn framangreindar staðhæfingar stefnenda. Í minnisblaðinu segi orðrétt: „Á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 30. júní 2008 hækkar gengisvísitala krónunnar (sem merkir að hún er að veikjast) hins vegar úr 119,9954 í 160,4153. Þetta þýddi ríflega 33% lækkun krónunnar sem skilaði sér beint í hækkun á framkvæmdaláninu á hverjum tíma og minnkaði jafnframt þann hluta sem hægt er að draga á á hverjum tíma. Til að útskýra það nánar þá var staða framkvæmdalánsins 693,3 millj. króna í upphafi árs 2008. Eins og taflan hér að ofan sýnir var dregið fimm sinnum á lánið á árinu 2008, og námu ádrættir samtals 174.700.000 krónur. Í júní 2008 nam því raunverulegur ádráttur á lánið um 868.000.000 krónum (þ.e sú fjárhæð sem raunverulega hafði farið í framkvæmdir á fasteigninni) en heildarskuld á grundvelli skilmála  lánssamningsins nam 1.168.500.000 krónum. Mismunur þessara tveggja fjárhæða, eða um 300.000.000 krónur skýrist af gengislækkun krónunnar á móti þeim myntum sem eru í myntkörfu lánsins.“ Af þessu verði ráðið að raunverulegur ádráttur á lán Nýju Jórvíkur ehf. hafi einungis numið 868.000.000 króna sem sé í samræmi við bókhald Nýju Jórvíkur ehf. Landsbanki Íslands hf. og síðar stefndi hafi því ekki efnt lánssamninginn samkvæmt efni hans. Í 2. gr.  lánssamningsins komi skýrt fram að stefndi hafi skuldbundið sig til þess að lána Nýju Jórvík ehf. 1.130.000.000 króna. Við gerð lánssamningsins hafi legið fyrir fullbúin kostnaðaráætlun sem fylgt hafi verið eftir. Mismunurinn, eða 262.000.000 króna, hefðu nægt Nýju Jórvík ehf. til þess að greiða skuld sína við Atafl ehf. og gera félaginu kleift að halda áfram framkvæmdum. Í því sambandi benda stefnendur á að það hefði kostað Atafl ehf. 397.046.346 krónur að klára uppsteypu hússins við Mýrargötu 26 samkvæmt fyrirliggjandi tilboði. Atafli ehf. hefðu þegar verið greiddar 249.016.074 krónur af heildarkostnaðinum. Það sem á hafi vantað, hafi verið 148.030.272 krónur sem sé rúmlega helmingur þeirrar fjárhæðar sem Nýja Jórvík ehf. hafi átt rétt á að fá lánaðar samkvæmt lánssamningnum. Þær ríflega 100.000.000 króna, sem hafi verið eftir, hefðu nægt fyrir ófyrirséðum kostnaði og framhaldi framkvæmdanna. Við þær aðstæður hefði verið hægt að byrja sölu á íbúðum, eins og hefði tíðkast í framkvæmd, sem hefði tryggt áframhaldandi fjármögnun verksins, svo sem Atafl ehf. hafi síðar gert. Vanefndir Landsbanka Íslands hf. og stefnda á  lánssamningum hafi orðið til þess að Nýja Jórvík ehf. hafi ekki getað staðið skil á greiðslu vegna útgefinna reikninga frá verktakanum Atafli ehf., sem hafi verið á gjalddaga í júní 2008 vegna vinnu í apríl og maí sama ár. Það hafi á endanum leitt til þess að Nýja Jórvík ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota og möguleikar til þess að fullgera fasteignina hafi verið eyðilagðir. Stefnendur, fyrir hönd þrotabús Nýju Jórvíkur ehf., árétta að umræddir vinnureikningar frá Atafli ehf. hafi verið vegna vinnu sem hafi verið unnin með vitund og vilja Landsbanka Íslands hf. Teljist það sérstaklega ámælisvert af hálfu Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda að hafa ekki a.m.k. lánað Nýju Jórvík ehf. fyrir þessari greiðslu í því skyni að forða félaginu frá gjaldþroti. Enda hafi þar verið um að ræða kostnað, sem hafi komið til áður en Landsbanki Íslands hf. hafi hafnað frekari lánafyrirgreiðslu til Nýju Jórvíkur ehf. Auk þess hafi lánssamningurinn verið afdráttarlaus um skyldu Landsbanka Íslands hf. og stefnda um að gera hið gagnstæða. Slík afgreiðsla bankans hefði forðað verulegu tjóni sem hafi óhjákvæmilega hlotist af fyrirvaralausri stöðvun framkvæmda. Auk vanefnda á lánsamningnum hafi stefndi brotið gegn ýmsum lögfestum hátternisreglum sem gildi um fjármálafyrirtæki, sbr. einkum 19. gr. laga nr. 161/2002, 5. og 8. gr. laga nr. 108/2007, og 19.-21. gr. reglugerðar nr. 995/2007. Hafi brotin valdið Nýju Jórvík ehf. tjóni. Brot stefnda hafi m.a. falist í því að gæta ekki að hagsmunaárekstrum á milli Nýju Jórvíkur ehf. og Atafls ehf., sbr. 2. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 108/2007. Fyrir liggi að stefndi hafi verið viðskiptabanki beggja aðila en eins og gögn málsins sýni fram á, hafi stefndi gengið óeðlilega langt í að gæta hagsmuna Atafls ehf. Feli það í sér brot gegn 1. mgr. 8. gr. laga nr. 108/2007. Í þessu samhengi benda stefnendur á tölvupóst frá Þorsteini Hjaltasyni, lánastjóra hjá stefnda, 7. nóvember 2008 þar sem hann geri grein fyrir því að samþykkt hafi verið að gjaldfella ekki lánið á Nýju Jórvík ehf. gegn því að reikningar Atafls ehf. yrðu greiddir. Þá sé ljóst af tölvupósti 11. nóvember 2008 að Þorsteinn hafi gengið erinda Bjarna, starfsmanns Atafls ehf., og biðji Albert Sveinsson um að ræða við Bjarna. Gögn málsins sýni einnig að Atafl ehf. hafi hagnast verulega á gjaldþroti Nýju Jórvíkur ehf., enda hafi fyrrnefnt félag fengið fasteignina að Mýrargötu 26 á mjög hagstæðu verði og hafi auglýst hana til sölu. Í niðurstöðu umboðsmanns skuldara hjá stefnda viðurkenni bankinn að staða lánastjórans feli í sér hagsmunaárekstra og leggi til að annar viðskiptastjóri annist samskipti við Nýju Jórvík ehf. Óhjákvæmilegt sé að líta á það sem sönnun á broti stefnda á hátternisreglum. Stefnendur kveða miklar og breytilegar kröfur stefnda fyrir útgreiðslu lánsins til Nýju Jórvíkur ehf. fela í sér brot gegn 19. gr. laga um nr. 161/2002 og 5. gr. laga nr. 108/2007. Fyrst hafi verið gerð krafa um eiginfjárframlag frá hluthöfum í formi sjálfskuldarábyrgða í tölvupósti 20. júní 2008. Síðar hafi hins vegar verið krafist 500.000.000 króna í reiðufé sem svo að endingu virðist hafa orðið að 300.000.000 króna. Nýja Jórvík ehf. hafi orðið við þessum kröfum og forsvarsmenn félagsins hafi lagt fram tillögu í tölvupósti til Landsbanka Íslands hf. 16. júlí 2008, sem hefði falið í sér að hlutafé yrði hækkað um 125.000.000 króna með afhendingu aukinna sjálfskuldarábyrgða. Þessi tillaga hefði þýtt að nafnvirði hlutafjár Nýju Jórvíkur ehf. hefði verið tvöfaldað. Þetta hafi verið gert til þess að tryggja áframhaldandi fjármögnun verksins svo hægt væri að gera upp við Atafl ehf. Á fundi lánanefndar Landsbankans 23. júlí 2008 hafi tillögunni verið hafnað og gerð krafa um að eigið fé Nýju Jórvíkur ehf. yrði aukið um tæplega fimmfalt nafnverð hlutafjár félagsins eða 500.000.000 króna. Kröfur stefnanda hafi verið ósanngjarnar og algerlega úr samhengi við það sem áður hefði tíðkast í viðskiptum Nýju Jórvíkur ehf. við Landsbankann. Jafnframt hefði þetta verið í andstöðu við ákvæði lánssamningsins þar sem eiginfjárkröfur hafi verið um 11% af áætlaðri lánsfjárhæð. Stefndi hafi aldrei rökstutt eiginfjárkröfur sínar með vísan til lánssamningsins eða aukinnar áhættu í framkvæmdinni. Slíkar skýringar hefðu fyrst komið fram af hálfu stefnda eftir að málið hafi verið höfðað á hendur honum. Á sama tíma hafi verðmæti veðandlagsins aukist verulega, enda hafi framkvæmdir verið hafnar við Mýrargötu 26 og töluverð verðmætasköpun því orðið. Samkvæmt upplýsingum frá stefnda hafi eignin verið seld á 510.000.000 króna til Atafls ehf. eftir að stefndi hefði leyst Mýrargötu 26 til sín í kjölfar gjaldþrots Nýju Jórvíkur ehf. Auk þess sem stefndi hefði haft í fórum sínum verðmat um áætlað söluverðmæti Mýrargötu 26 að fjárhæð 3.800.000.000 króna og kostnaðaráætlun að fjárhæð 2.122.064.026 krónur hefði legið fyrir. Því til viðbótar vísa stefnendur á að Nýja Jórvík ehf. hefði einungis þurft 262.000.000 króna lán sem hefðu verið eftirstöðvar lánsloforðsins samkvæmt lánssamningnum. Stefnendur vísa til þess að gera verði þær kröfur til stefnda að slíkar forsendubreytingar á mati á eiginfjárhlutfalli liggi fyrir við upphaf lántökunnar svo unnt sé að gera áætlanir sem taki mið af því. Ekki sé rétt að skella þeim fyrirvaralaust fram samhliða stöðvun útgreiðslu framkvæmdakostnaðar á miðju framkvæmdatímabili, án rökstuðnings. Kröfur til Nýju Jórvíkur ehf. um nýtt hlutafé eigi sér ekki stoð í  lánssamningnum og séu því brot og vanefnd á honum. Þessi háttsemi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda hafi verið ámælisverð og á skjön við fyrri framkvæmd við afgreiðslu lána til Nýju Jórvíkur ehf. Hafa beri í huga að skuld Nýju Jórvíkur ehf. á þessum tíma við Atafl ehf. hafi einungis numið 132.222.164 krónum en hún hafi þá ekki í raun verið gjaldfallin í heild sinni. Krafa stefnda um 500.000.000 króna eiginfjárframlag sé óforsvaranleg og á skjön við það sem almennt hafi tíðkast við sambærileg lánaviðskipti, þegar fyrir hafi legið að fjárþörf félagsins hefði verið lægri, eða numið um 150.000.000 til 300.000.000 króna. Stefnda hafi verið fullkunnugt um ólögmæti krafnanna og hafi verið í lófa lagið, eftir að hann fékk kröfuna samkvæmt lánssamningnum framselda, að lána Nýju Jórvík ehf. í samræmi við rétt félagsins samkvæmt samningnum. Þannig hefði mátt forða því tjóni sem hafi hlotist af gjaldþroti Nýju Jórvíkur ehf. Hefði Nýja Jórvík ehf. eða stefnendur haft 500.000.000 króna handbærar hefði krafa verktakans verið greidd og haldið áfram með verkið, án þess að leita eftir viðbótarlánsfjármögnun. Af bókun lánanefndar Landsbanka Íslands í fundargerð 23. júlí 2008 megi ráða að við afgreiðslu umræddrar beiðni Nýju Jórvíkur ehf. um lánsfjármögnun hafi lánanefndin ákveðið að leitast við að tryggja veðstöðu sína samkvæmt lánssamningnum. Nýja Jórvík ehf. hafi lagt fram minnisblað 11. ágúst 2008 þar sem lagt hafi verið mat á virði eiginfjár verkefnisins miðað við stöðu framkvæmda, áætlaðan verkkostnað og söluverð íbúða. Niðurstaða þess hefði verið sú að eigið fé félagsins hafi verið metið á ríflega 495.000.000 króna. Eftir fundarhöld hafi bankinn, hinn 18. ágúst 2008, farið fram á 100.000.000 króna í peningum, auk 250.000.000 króna í formi sjálfskuldarábyrgða. Stefnendur hafi gengið eftir því að fá formlegt samþykki frá bankanum um þessa breytingu en hafi ekki haft erindi sem erfiði. Í kjölfarið hafi engin formleg svör borist frá lánastjóranum sem hafi orðið til þess að forsvarsmenn Nýju Jórvíkur ehf. hafi sent bankanum bréf 26. ágúst 2008 þar sem þess hafi verið krafist að áframhaldandi fjármögnum yrði tryggð gegn því að leggja fram 200.000.000 króna sjálfskuldarárbyrgð svo hægt væri að halda áfram með verkið. Lánastjórinn hafi svarað erindinu efnislega í tölvupósti og ítrekað fyrri kröfu bankans. Forsvarsmenn Nýju Jórvíkur ehf. hafi komið til móts við kröfurnar og óskað eftir áframhaldandi fjármögnun í bréfi 2. september 2008 og lagt til ráðstafanir sem hefðu leitt til þess að eigið fé Nýju Jórvíkur ehf. hefði styrkst um 200.000.000 króna með ábyrgðum og afhendingu eigna til félagsins, auk þess sem verktakinn Atafl ehf. myndi lána Nýju Jórvík ehf. 100.000.000 króna með gjalddaga einu ári eftir að verkframkvæmdum lyki. Það hefði jafngilt því að Nýja Jórvík ehf. hefði greitt Atafli ehf. 100.000.000 króna eftir að eigið fé Nýju Jórvíkur ehf. hefði verið aukið um sömu fjárhæð. Stefnendur telja það ámælisvert af lánastjóra Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda, sem fengið hefði samþykki lánanefndar 24. september 2008 til þess að lækka kröfu um eiginfjáreign Nýju Jórvíkur ehf. niður í 300.000.000 króna og fengið heimild til að lána allt að 2.200.000.000 króna, að gefa Nýju Jórvík ehf. ekki svigrúm til þess að færa fram fjármuni og halda áfram með málið, sem hafi verið á ábyrgð fyrirtækjasviðs bankans. Ljóst mætti vera að lánastjórinn hafi með saknæmum hætti valdið Nýju Jórvík ehf. skaðabótaskyldu tjóni. Atburðarásin sé staðfest í tölvupóstsamskiptum milli málsaðila 7. nóvember 2008. Lánastjórinn hafi hafnað samkomulagi við Atafl ehf. sem hefði þýtt að skuldin við verktakann hefði þá verið greidd. Þau samskipti sýni svo ekki yrði um villst að lánastjórinn hafi ekki unnið með hagsmuni Nýju Jórvíkur ehf. að leiðarljósi, eins og honum hafi borið samkvæmt 19. gr. laga nr. 161/2002. Staðreyndir málsins tali sínu máli, enda hafi Atafl ehf. fengið fasteignina við Mýrargötu 26 afhenta síðar á niðursettu verði, eins og að hefði verið stefnt. Ásetningur stefnda hafi verið einbeittur, enda hafi upplýsingum um fund lánanefndar 24. september 2008 verið leynt í ítarlegu svari umboðsmanns skuldara stefnda til Nýju Jórvíkur ehf. hinn 25. mars 2009. Þar sé hins vegar að finna yfirlit yfir alla aðra fundi lánanefnarinnar. Þetta hafi valdið Nýju Jórvík ehf. og öðrum stefnendum miklu tjóni. Stefnendur telja það einnig ámælisvert af hálfu stefnda og forvera hans að hafa ekki nýtt hækkun lánalínunar í tvígang, þ.e. hinn 24. september 2008 í 2.200.000.000 króna og hinn 2. október 2008 í 1.500.000.000 króna til þess að lána Nýju Jórvík ehf. fjármuni til að gera félaginu kleift að forða tjóni með greiðslu reikninga Atafls ehf. og halda áfram með framkvæmdir við Mýrargötu 26. Þess í stað hafi bankinn ráðstafað lánsfjárhæðinni til tryggingar á stöðu lánsins sem hafi byggst á ólögmætum gengisútreikningum. Stefnendur byggja á því, fyrir hönd Nýju Jórvíkur ehf., að umrædd brot, ein sér og samhliða vanefndum stefnda, leiði til þess að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni Nýju Jórvíkur ehf. Ef stefndi hefði hegðað sér í samræmi við ofangreindar hátternisreglur og góða venju á fjármálamarkaði hefði ekki komið til gjaldþrots Nýju Jórvíkur ehf. og félagið því ekki orðið fyrir tjóni. Stefnendur aðrir, sem hafi verið hluthafar í Nýju Jórvík ehf., þ.e. EP fjármál ehf., þrotabú Ísleifs Leifssonar, Magnús Ingi Erlingsson og Upsir ehf., vísa um kröfugerð sína til reglna skaðabótaréttar utan samninga. Krefjast þeir þess að stefndi verði dæmdur skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem stefnendur hafi orðið fyrir vegna gjaldþrots Nýju Jórvíkur ehf. Tjónið verði eingöngu rakið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda þegar félaginu hafi fyrirvaralaust verið synjað um frekari lánafyrirgreiðslu frá bankanum þrátt fyrir skýra skuldbindingu bankans þar um samkvæmt lánssamingnum frá 24. maí 2005. Stefnendur vísa til áðurgreinds um að stefndi hafi yfirtekið öll réttindi og allar skyldur gamla Landsbankans þegar bankinn hafi yfirtekið lánssamninginn við stofnun stefnda, auk þess sem stefndi hafi orðið skaðabótaskyldur vegna háttsemi sinnar eftir yfirtöku lánssamningsins. Hlutafé stefnenda í Nýju Jórvík ehf. hafi verið eign þeirra, sem m.a. hafi notið verndar 72. gr. stjórnarskrár, sbr. og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í ljósi þess að hlutafé sé verndarandlag eignarréttarins, eigi hluthafar rétt á því að vera ekki sviptir hlutafé eða þurfa að þola virðisrýrnun þess, án þess að slík skerðing sé réttlætanleg með vísan til almannahagsmuna, eigi stoð í ákvæðum landsréttar og sé auk þess samrýmanleg reglum þjóðarréttar. Ekkert af ofangreindum skilyrðum eigi við í máli þessu, þvert á móti hafi hluthafar Nýju Jórvíkur ehf. tapað öllu hlutafé sínu vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda og forvera hans. Geti stefnendur ekki borið þá skerðingu á lögvörðum hagsmunum sínum undir dómstóla sé það brot gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans. Um málsástæður að öðru leyti vísa stefnendur til allra fyrri málsástæðna stefnenda vegna þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. að breyttu breytanda. Sérstaklega sé vísað til skráðra hátternisreglna og að við sakarmatið verði að horfa til vanefnda stefnda á  lánssamningnum við Nýju Jórvík ehf. Stefnendur hafi verið einu hluthafar í Nýju Jórvík ehf. þegar félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota. Stefnendur byggja á því að stefndi hafi með aðgerðum sínum og athafnaleysi valdið stefnendum tjóni sem hann beri ábyrgð á. Um samlagsaðild málsins vísa stefnendur til 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnendur vísa til þess að kröfugerð þeirra miðist við hlutfallslega eign hvers stefnenda um sig þegar tjón þeirra hafi orðið. SK3 ehf. hafi áður verið hluthafi í Nýju Jórvík ehf. en þann 22. maí 2009 var gert samkomulag milli SK3 ehf. annars vegar og stefnendanna Ísleifs Leifssonar og Magnúsar Inga Erlingssonar hins vegar. Samkomulagið hafi falið í sér að eignarhlutur SK3 ehf. í Nýju Jórvík ehf. skyldi ganga til stefnenda Ísleifs og Magnúsar með innlausn þeirra á veðum í bréfum félagsins. Hafi SK3 ehf. því ekki verið hluthafi í Nýju Jórvík ehf. er tjónið hafi orðið og sé því ekki aðili að máli þessu. Stefnendum hafi orðið kunnugt um ólögmæti gengistryggingar lánssamningsins frá 24. maí 2005 þegar Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm hinn 26. júní 2011 í máli réttarins nr. 155/2011, Landsbankinn hf. gegn þrotabúi Mótormax ehf. Um leið hafi þeir fengið upplýsingar um það á hvaða grunni bótaskylda og tjón þeirra byggðist á. Með því að félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota 25. janúar 2010 hafi stefnendur sem fyrrum hluthafar orðið fyrir fjártjóni sem þeir telji að stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Hlutabréf stefnenda í Nýju Jórvík ehf. hafi orðið verðlaus og útilokað hafi verið að bjarga þeirri fjárfestingu sem lögð hafi verið í félagið. Um bótagrundvöllinn vísist að öðru leyti til allra framangreindra málsástæðna sem stefnendur byggja á vegna þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. Við mat á saknæmi og ólögmæti stefnda beri að líta til lánssamningsins frá 24. maí 2005, sem og annarra skráðra hátternisreglna sem þýðingu hafi, svo sem hátternisreglna II. kafla laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, svo og ákvæði laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Að því er varðar kröfur allra stefnenda, byggja þeir á því að háttsemi stefnda hafi verið fólgin í störfum starfsmanna stefnda. Með því að hafa vanefnt samningskyldur sínar og hafnað áframhaldandi fjármögnun hafi Landsbanki Íslands hf. og stefndi, með saknæmum og ólögmætum hætti, bakað sér bótaskyldu samkvæmt almennu sakarreglunni bæði utan og innan samninga. Kröfur vegna háttsemi Landsbanka Íslands hf. fyrir stofnun stefnda séu órjúfanlegar framsali lánssamningsins samkvæmt meginreglum kröfuréttar um kröfuhafaskipti. Lánastjórinn og aðrir starfsmenn Landsbanka Íslands hf. og stefnda, sem m.a hafi setið í lánanefndum á þessum tíma, hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem leitt hafi til tjóns Nýju Jórvíkur ehf. og stefnenda sem Landsbanki Íslands hf. og stefndi beri ábyrgð á samkvæmt almennum reglum skaðabótarréttar um húsbóndaábyrgð vinnuveitenda, sbr. 25. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Telja verði vanefnd Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda verknað sem í skilningi sakarreglunnar teljist saknæmur og ólögmætur þar sem það teljist ámælisvert að vanefna samningskyldur og að starfsmenn Landsbankans og síðar stefnda hafi hagað sér öðruvísi en ætlast hafi mátt til af þeim við framkvæmd viðskipta Nýju Jórvíkur ehf. Sami lánastjóri hafi annast framkvæmd lánssamningsins frá 24. maí 2005 fyrir hönd Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda. Starfsmenn Landsbanka Íslands hf. og stefnda hafi sýnt af sér háttsemi sem vafalaust hafi uppfyllt áskilnað sakareglunnar um gáleysi ef ekki ásetning. Telja verði að starfsmenn Landsbanka Íslands hf. og stefnda hafi ekki gætt þeirrar varkárni við efndir lánssamningsins sem af þeim hafi mátt ætlast og almennt sé skylt við sömu aðstæður. Um þetta vísist til þess sem áður hafi komið fram um fyrirvarlausa stöðvun lánafyrirgreiðslu til Nýju Jórvíkur ehf. og neitun á áframhaldandi lánafyrirgreiðslu til þess að forða tjóni. Höfnun Landsbanka Íslands hf. og svo stefnda á nýrri fyrirgreiðslu til þess að forða frekara tjóni hafi verið ámælisverð og óforsvaranleg miðað við þau gögn sem hafi legið fyrir á þeim tíma. Þessi háttsemi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda hafi verið þáttur í störfum þeirra og því sé áskilnaði um nægjanleg tengsl á milli háttsemi og verkefna þeirra í þágu vinnuveitenda uppfylltur. Þá byggja stefnendur á því að stefndi þurfi að sýna fram á að einhver atvik eða eðli framangreindrar háttsemi afsaki hann og leysi hann undan ábyrgð. Stefnendur byggja á því að beint orsakasamband sé milli saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda og tjóns stefnenda og þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. Með því að vanefna samningsskyldur sínar samkvæmt lánssamningnum og hafna síðar frekari lánafyrirgreiðslu sem að endingu hafi leitt til gjaldþrots félagsins, hafi bæði Landsbanki Íslands hf. og stefndi valdið stefnendum fjárhagslegu tjóni sem nemi útlögðum kostnaði vegna kaupa stefnenda á hlutafé í Nýju Jórvík ehf. og þrotabúi Nýju Jórvíkur ehf. vegna missis hagnaðar af á sölu fasteignanna að Mýrargötu 26. Af gögnum málsins megi sjá að háttsemi Landsbanka Íslands hf. og stefnda, sem lýst hafi verið, sé meginorsök gjaldþrots Nýju Jórvíkur ehf. Tjón stefnenda og Nýju Jórvíkur ehf. sé skerðing á þeim lögvörðu hagsmunum þeirra sem falist hafi í eignarhaldi þeirra á Nýju Jórvík ehf. annars vegar og eignarhaldi þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. á Mýrargötu 26 hins vegar. Tjónið orsakist bæði af vanefndum lánsamningsins í tíð Landsbanka Íslands hf. og í tíð stefnda sem falist hafi í því að stöðva útgreiðslu lána án heimildar í lánssamningnum og krafna um hlutafjárframlag sem skilyrði fyrir áframhaldandi lánafyrirgreiðslu sem enga stoð hafi í lánssamningnum. Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda hafi verið fullkunnugt um eða a.m.k. mátt vera ljóst að stöðvun frekari fyrirgreiðslu myndi hafa í för með sér tjón fyrir Nýju Jórvík ehf., einkum þegar litið væri til þess að lánastjóri stefnda hafi í raun verið beggja vegna borðsins við afgreiðslu málsins sem lánastjóri bæði Nýju Jórvíkur ehf. og Atafls ehf. Með því að efna samningskyldur sínar samkvæmt gildandi lánssamningi eða með nýrri lánafyrirgreiðslu á grundvelli nýrra tilboða forsvarsmanna Nýju Jórvíkur ehf. hefði Landsbanka Íslands hf. og stefnda verið í lófa lagið að forða áðurnefndu tjóni, enda hefði lánastjóri stefnda með sanngirni mátt sjá fyrir að orsök stöðvunar lánafyrirgreiðslu til Nýju Jórvíkur ehf. myndi hafa í för með sér fjárhagslegt tjón fyrir stefnendur vegna missis útlagðs hlutafjár og fyrir Nýju Jórvík ehf. vegna missis hagnaðar af sölu fasteigna við Mýrargötu 26. Vegna stöðu sinnar sem lánastjóri beggja aðila hafi honum ekki geta dulist að Nýja Jórvík ehf. hafi ekki getað greitt vanskil sín við Atafl ehf. og að Atafl ehf. myndi í framhaldinu krefjast gjaldþrota yfir Nýju Jórvík ehf., sem síðar hafi verið reyndin. Megi leiða líkur að því að það hafi verið ásetningur lánastjórans að vinna að því keyra Nýju Jórvík ehf. í gjaldþrot og vinna að því að koma byggingarframkvæmdunum í hendur Atafls ehf. með tilheyrandi tjóni fyrir hluthafa félagsins og félagið. Þrotabú Nýju Jórvíkur ehf. hafi orðið fyrir tjóni vegna missis hagnaðar af verkframkvæmdum Nýju Jórvíkur ehf. vegna vanefnda stefnda á lánssamningnum. Tjónið samsvari væntanlegum hagnaði af sölu fullbúinna fasteigna við Mýrargötu 26. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi áætlað söluverð Mýrargötu 26 verið 3.800.000.000 króna. Á lánanefndarfundi Landsbanka Íslands hf. 24. september 2008 hafi bankinn áætlað að heildarkostnaður við að klára Mýrargötu 26 með áföllnum kostnaði vegna gengisbreytinga væri 3.157.000.000 króna. Mismunurinn nemi 643.000.000 króna. Sé dreginn frá sá kostnaður sem hafi stafað af ólögmætri gengistryggingu eins og hún hafi verið áætluð af lánastjóra stefnda í minnisblaði 16. mars 2009, hækki áætlaður hagnaður af framkvæmdunum við Mýrargötu 26 í 943.000.000 króna. Kostnaðaráætlun Nýju Jórvíkur ehf. hafi gert ráð fyrir töluvert lægri byggingarkostnaði og þar af leiðandi meiri hagnaði. Tjón annarra stefnenda sé til komið vegna gjaldþrots Nýju Jórvíkur ehf. en þá hafi þeir tapa öllu hlutafé sínu. Nýja Jórvík ehf. hafi keypt húseignina við Mýrargötu 26 á 285.000.000 króna. Í framhaldi af skipulagsvinnu hafi byggingarréttur á lóðinni verið aukinn úr 7000 m² í 13.500 m² sem hefði haft í för með sér töluvert mikla verðmætaaukningu fyrir Nýju Jórvík ehf. og hlutahafa þess. Óumdeilt sé að framlagt eigið fé stefnenda til Nýju Jórvíkur ehf. hafi numið 45.000.000 króna. Jafnframt sé óumdeilt að stefnendur hafi, til viðbótar við hlutafjáreign sína, keypt samtals 27,02% af heildarhlutafé Nýju Jórvíkur af Hanza ehf. hinn 26. nóvember 2010 á genginu 5 eða fyrir samtals 166.666.667 krónur. Auk þess hafi þeir sama dag keypt 24,32% hlut af Jóhannesi Einarssyni á genginu 5 eða fyrir samtals 149.973.331 krónu og 12,61% hlut af Ólafi Hauki Ólafssyni á genginu 5 fyrir samtals 77.777.780 krónur. Fjártjón stefnenda hafi því samtals numið 434.417.778 krónum. Með vísan til framgreinds sé ljóst að beint fjártjón stefnenda, sem séu fyrrum hluthafar Nýju Jórvíkur ehf., nemi samtals 434.417.778 krónum vegna tapaðs hlutafé við gjaldþrot félagsins. Um lagarök vísa stefnendur til laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, einkum 19. gr. laganna, og laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Um skaðabætur er vísað til meginreglna skaðabótaréttarins innan og utan samninga. Jafnframt vísa stefnendur til meginreglna kröfuréttar. Málkostnaðarkrafa er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991, um meðferð einkamála, og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988. Um varnarþing vísast til 33 gr. laga nr.  91/1991. IV Stefndi krefst sýknu með vísan til aðildarskorts til varnar þar sem kröfum stefnenda sé beint að röngum aðila í skilningi 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í stefnu sé gerð krafa um skaðabætur vegna lánssamnings sem stofnað hafi verið til á árinu 2005 á milli Nýju Jórvíkur ehf. og forvera stefnda, Landsbanka Íslands hf. Samningurinn hafi flust yfir til stefnda hinn 9. október 2008 með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá sama degi á grundvelli laga nr. 125/2008. Sú ákvörðun Fjármálaeftirlitsins sé mjög ítarleg og tilgreini nákvæmlega hvaða réttindi og skyldur hafi flust frá Landsbanka Íslands hf. til stefnda. Samkvæmt 1. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins hafi kröfuréttindi flust frá Landsbanka Íslands hf. til stefnda og samkvæmt 2. tölul. hafi stefndi tekið við öllum tryggingarréttindum Landsbanka Íslands hf. sem tengst hafi kröfum bankans. Fram komi í 5. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins að stefndi hefði, frá og með 9. október 2008, tekið við þeirri starfsemi sem Landsbanka Íslands hefði haft með höndum og tengst hinum framseldu eignum. Aðrar kröfur hefðu ekki færst yfir til stefnda eins og Hæstiréttur Íslands hafi ítrekað í dómum sínum, þar á meðal afleiddar kröfur. Stefndi telur að túlka verði ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 þröngt, á þann máta að hún hafi ekki haft í för með sér að skaðabótaskylda vegna meintra athafna eða athafnaleysis starfsmanna Landsbanka Íslands hf. hafi færst yfir til stefnda. Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnenda sem rangri að órjúfanleg tengsl séu milli kröfu stefnda samkvæmt lánssamningnum og réttinda, sem stefnendur telji að hafi fylgt meintum vanefndum Landsbanka Íslands hf. á samningnum. Hæstiréttur Íslands hafi áður dæmt um þetta efni, sbr. t.d. dóm í máli réttarins nr. 750/2012, María Jónsdóttir gegn Landsbankanum. Skaðabótakröfu megi samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar beina að þeim sem hafi valdið tjóni, enda séu önnur skilyrði bótaábyrgðar fyrir hendi. Stefnendur hafi ekki sýnt fram á með hvaða hætti bótakrafa þeirra, sem snúi að athöfnum og athafnaleysi Landsbanka Íslands hf., hafi færst yfir til stefnda. Slík yfirfærsla bótaskyldu frá einum lögaðila til annars verði ekki leidd af almennum reglum skaðabótaréttar, auk þess sem hún eigi sér hvorki stoð í framangreindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 né í ákvæðum laga. Stefndi hafi hvergi viðurkennt yfirtöku ábyrgðar að þessu leyti eða komið þannig fram að stefnendur hafi getað byggt á því réttmætar væntingar um að stefndi hefði axlað skaðabótaábyrgð á tjóni, sem forveri hans, Landsbanki Íslands hf., kynni að hafa valdið. Í stefnu megi víða sjá að stefnendur geri ekki greinarmun á skyldum Landsbanka Íslands hf. og skyldum stefnda gagnvart Nýju Jórvík ehf. Telji stefnendur að starfsmenn Landsbanka Íslands hf. hafi í störfum sínum valdið sér persónulega tjóni, sé rétt að sækja bætur vegna þeirra til Landsbanka Íslands hf. Í stefnu komi fram að hið ætlaða tjón hafi orðið við gjaldþrot Nýju Jórvíkur ehf. en jafnframt að hin ætlaða saknæma og ólögmæta háttsemi hafi verið viðhöfð af starfsmönnum Landsbanka Íslands hf. þegar Nýju Jórvík ehf. hafi verið synjað um frekari lánveitingar. Ef ákvæði í samningnum frá 24. maí 2005 eða ákvörðun starfsmanna Landsbanka Íslands hf. um að synja Nýju Jórvík ehf. um frekari lán hafi valdið því tjóni, sem stefnendur halda fram, verði að líta til þess að tímamark tjónsatburðarins hafi verið í tíð Landsbanka Íslands hf. og því áður en stefndi var stofnaður. Hefðu stefnendur því átt að beina kröfu sinni að Landsbanka Íslands hf. en ekki stefnda. Þá sé ítrekað að stefndi hafi ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi Nýju Jórvíkur ehf., heldur Atafl hf. sem hafi verið verktaki á vegum Nýju Jórvíkur ehf. Jafnframt vísar stefndi því á bug að í þessu tilviki eigi sjónarmið um mótbárur gagnvart framsalshafa við, enda sé krafa stefnenda byggð á reglum skaðabótaréttar en ekki kröfuréttar og geti reglur kröfuréttar um mótbárutap skuldara ekki átt við um kröfu stefnenda. Sé enda ekki um að ræða mótbárur um að greitt hafi verið eða að samið hafi verið um afslátt eða eða önnur slík úrræði. Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnenda að þeir geti krafið stefnda um greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem leiða megi af meintri háttsemi Landsbanka Íslands hf. á grundvelli reglna um óskipta ábyrgð tjónvalda, séu þeir fleiri en einn. Hafi stefnendur ætlað að fá dóm um meinta skaðabótaskyldu Landsbanka Íslands hf., hafi þeim borið að gæta þess að Landsbanki Íslands hf. ætti aðild að dómsmáli þessu, enda sé það grundvallarréttur aðila að eiga kost á að taka til varna um kröfur sem að þeim er beint. Þar sem Landsbanki Íslands hf. sé ekki aðili að málinu, hafi niðurstaða þess ekki bindandi áhrif um meinta skaðabótaskyldu Landsbanka Íslands hf., hvorki gagnvart Landsbanka Íslands hf. né aðilum dómsmálsins. Beri því að hafna þessari málsástæðu stefnenda. Kröfum stefnenda sé þannig beint að röngum aðila og geri stefndi því kröfu um sýknu á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi grundvallar kröfu sína um sýknu vegna aðildarskorts til sóknar á 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 þar sem stefnendur séu ekki réttir aðilar að dómsmáli þessu. Stefnendur hafi lögmætt umboð til að höfða dómsmál þetta fyrir hönd þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. Skiptastjóri hafi ekki starfað í umboði þrotabúsins þegar hann hafi veitt stefnendum heimild til höfðunar málsins. Skiptastjóra hafi borið að snúa sér til Héraðsdóms Reykjavíkur með beiðni um að skipti á þrotabúinu yrðu tekin upp og að hann yrði skipaður skiptastjóri félagsins á nýjan leik, áður en tekin var ákvörðun um endurupptöku búsins og stefnendum, sem kröfuhöfum, heimilað að höfða dómsmál í nafni þess. Þá hafi skiptastjóri hvorki boðað til skiptafundar né tilkynnt kröfuhöfum um ráðstafanir sínar fyrirfram, líkt og honum hafi borið að gera samkvæmt 2. og 3. mgr. 124. gr., sbr. einnig 3. mgr. 164. gr. laga nr. 21/1991. Skilyrði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr., séu því ekki fyrir hendi. Þessu til viðbótar hafi skiptastjóri ekki tekið afstöðu til kröfu VSB verkfræðistofu ehf. á skiptafundi fyrir lok gjaldþrotaskipta félagsins, þar sem kröfunni hafi verið lýst sem almennri kröfu, og eigi stefnendur því ekki lögvarða kröfu á hendur þrotabúinu, sbr. 130. gr. laga nr. 21/1991. Ákvæði 130. gr. laga nr. 21/1991 sé fortakslaust og séu stefnendur bundnir af fyrri afstöðu skiptastjóra til kröfunnar. Því geti stefnendur ekki höfðað mál þetta fyrir hönd þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. Stefnendur haldi því fram að þeir hafi orðið fyrir fjártjóni vegna meintra vanefnda Landsbanka Íslands hf. og seinna stefnda á samningsskuldbindingum sínum gagnvart Nýju Jórvík ehf. og að stefnda beri að bæta það tjón á grundvelli reglna um skaðabætur utan samninga. Stefnendur hafi hins vegar ekki verið aðilar að lánssamningi milli Landsbanka Íslands hf. og Nýju Jórvíkur ehf. og eigi því ekki aðild að ágreiningi um efndir hans, jafnvel þótt þeir telji sig hafa orðið fyrir afleiddu fjártjóni. Stefnendur hafi ekki mótmælt kröfu stefnda í þrotabú Nýju Jórvíkur ehf. og hafi ekki gert kröfu um endurútreikning á lánssamningnum á meðan á skiptum á þrotabúi Nýju Jórvíkur ehf. hafi staðið. Því sé sú aðstaða ekki fyrir hendi að stefnendum sé heimilt að krefjast viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda vegna samningsins og beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnenda. Þessu til stuðnings vísar stefndi til dóms Hæstaréttar nr. 608/2013 um ágreining stefnenda og stefnda vegna sama lánssamnings. Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á útilokunarreglu 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, enda geti stefnendur ekki höfðað nýtt mál á hendur stefnda með því að bera fyrir sig aðrar málsástæður sem þeir hefðu getað haft uppi í fyrra málinu. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að krafa stefnenda fyrir hönd þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. sé fyrnd. Háttsemi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda, sem stefnendur telji að hafi leitt til tjóns þrotabús Nýju Jórvíkur ehf., hafi átt sér stað á tímabilinu frá júní 2008, þegar lánalínan á grundvelli samningsins frá 24. maí 2005 hafi verið að fullu ádregin, til janúar 2010, þegar félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Krafa um skaðabætur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann, sem ábyrgð hafi borið á því, eða borið að afla sér slíkra upplýsinga samkvæmt 9. gr. laga nr. 150/2007. Hvorki stefnendur né skiptastjóri hafi haft uppi mótmæli við kröfu stefnda við skipti þrotabúsins vegna lánssamningsins og hafi krafan fyrst komið fram rúmum fimm árum eftir að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Krafa þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. vegna meintrar háttsemi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og stefnda sé þar af leiðandi fyrnd. Krafa stefnenda um skaðabætur utan samninga sé einnig fyrnd þar sem stefnendur hafi ekki haldið henni fram fyrr en í máli þessu þegar rúm fimm ár voru liðin frá lokum á skiptum á þrotabúi Nýju Jórvíkur ehf. Krafan byggi á sömu málsástæðum og krafa þrotabús Nýju Jórvíkur ehf., sem rekja megi til háttsemi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og seinna stefnda á árunum 2008 til 2009, sem hafi leitt til töku bús félagsins til gjaldþrotaskipta 25. janúar 2010. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda. Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að krafan, sem stefnendur hafi fengið framselda til sín frá VSB verkfræðistofu ehf., sé fyrnd. Skiptastjóri hafi veitt stefnendum heimild til að höfða mál þetta í nafni þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. á þeim grundvelli að stefnendur væru kröfuhafar í þrotabú félagsins. VSB verkfræðistofa hafi lýst kröfu í þrotabú félagsins hinn 16. febrúar 2010 að fjárhæð 1.633.484 krónur en skiptastjóri hafi ekki tekið afstöðu til hennar á skiptafundi. Skiptum á búinu hafi lokið 1. mars 2011. Hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskiptin en ekki fengist greidd við skiptin, sé fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrji þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi þegar skiptunum lauk, sbr. 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Lýstar kröfur á hendur þrotabúinu hafi því fyrnst 1. mars 2013. Eftir 3. mgr. 165. gr. verði fyrningu krafna einungis slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Stefnendur hafi keypt kröfu VSB verkfræðistofu ehf. með samningi 2. september 2014 þegar krafan var fyrnd og þar af leiðandi ekki lögvarin. Stefna í máli þessu geti ekki slitið fyrningu. Stefnendur eigi því ekki gilda kröfu í þrotabú Nýju Jórvíkur ehf. Á grundvelli þessa beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda. Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að hvorki sé ágreiningur um lögmæti lánssamningsins né fullnustu hans. Því geti stefnendur ekki farið fram á greiðslu skaðabóta vegna vanefnda á samningnum. Krafa stefnenda fyrir hönd þrotabú Nýju Jórvíkur ehf. byggi á reglum skaðabótaréttar en stefnendur telji félagið hafa orðið fyrir tjóni vegna vanefnda Landsbanka Íslands hf. og seinna stefnda á lánssamningnum. Krafa stefnenda um skaðabætur vegna tjóns utan samninga byggi á sömu málsástæðum. Bú Nýju Jórvíkur ehf. hafi verið var tekið til gjaldþrotaskipta 25. janúar 2010. Með kröfulýsingu 30. mars 2010 hafi stefndi lýst kröfu vegna vanefnda Nýju Jórvíkur ehf. á lánssamningnum að fjárhæð 2.070.709.015 krónur. Hafi kröfunni verið lýst sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Kröfunni hafi fyrst verið hafnað þar sem gögn hafi verið talin ófullnægjandi en á skiptafundi 8. og 11. júní 2010 hafi verið lögð fram viðbótarskjöl, fallið frá dráttarvöxtum og ágreiningur um kröfuna jafnaður. Samkvæmt yfirliti yfir lýstar kröfur í þrotabúið hafi skiptastjóri samþykkt kröfu stefnda að fjárhæð 1.971.683.978 krónur. Engar athugasemdir hafi komið fram á skiptafundi félagsins og séu stefnendur því bundnir af afstöðu skiptastjóra til hinnar lýstu kröfu, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Það hafi fyrst verið rúmum fjórum árum eftir skiptafundinn, hinn 10. september 2014, sem skiptastjóri virðist hafa breytt afstöðu sinni og veitt stefnendum heimild til að höfða mál þetta um skaðabætur vegna vanefnda Landsbanka Íslands hf. og seinna stefnda á lánssamningnum. Hin breytta afstaða til kröfunnar fái ekki stoð í lögum, enda séu réttaráhrif samþykkis kröfunnar þau að skiptastjóri sé bundinn af afstöðu sinni. Með því að samþykkja lýsta kröfu stefnda, án þess að mótmæla henni á skiptafundi, hafi skiptastjóri og kröfuhafar þrotabúsins viðurkennt að krafa stefnda var bæði rétt og lögmæt. Stefnendur geti ekki borið því við núna að krafan hafi verið röng og hafi með einhverjum hætti leitt til tjóns þrotabúsins og stefnenda sem fyrrverandi hluthafa. Frá þessu fortakslausa ákvæði 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 séu engar undantekningar gerðar í lögunum og telur stefndi að stefnendur hafi ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að heimilt sé að krefjast skaðabóta vegna vanefnda lánssamningsins. Framangreindu til stuðnings vísar stefndi til niðurstöðu Hæstaréttar í fyrrgreindum dómi í máli réttarins nr. 116/2013. Stefndi byggir sýknukröfu sína jafnframt á þeirri málsástæðu að engin skaðabótaskylda sé til staðar, hvorki Landsbanka Íslands hf. né stefnda. Stefndi hafi í hvívetna farið eftir ákvæðum lánssamningsins frá 24. maí 2005 og viðaukum við hann og telji þvert á móti að stefnendur hafi gert ósanngjarnar kröfur til hans um að fara út fyrir skýrar reglur bankans og veita stefnendum rýmri rétt en samið hefði verið um. Stefndi hafnar málsástæðum stefnenda um að stefndi hafi með saknæmri og ólögmætri háttsemi samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar brotið skráðar hátternisreglur samkvæmt lánssamningnum. Krafa stefnenda sé í fyrsta lagi byggð á röngum grundvelli en ágreiningur um lánssamninginn fari eftir almennum reglum samninga- og kröfuréttar um efndir samningskrafna en ekki reglum skaðabótaréttar. Í öðru lagi beri ekki að túlka ákvæði lánssamningsins sem skráðar háttsemisreglur í skilningi skaðabótaréttar. Skráðar hátternisreglur séu reglur í settum lögum og reglugerðum og feli það í sér ólögmæta háttsemi samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar að brjóta gegn slíkum reglum. Í þriðja lagi hafni stefndi því að starfsmenn Landsbanka Íslands hf. eða stefnda hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Sönnunarbyrði um að tjón hafi orðið og að því hafi verið valdið með skaðabótaskyldum hætti beri stefnendur og þeir hafi ekki lagt fram nein gögn eða sýnt fram á það með öðrum hætti. Stefndi hafnar því að sönnunarbyrðin að þessu leyti hvíli á stefnda í ljósi þess að stefndi sé fjármálafyrirtæki. Hvorki eigi hér við rýmkuð regla skaðabótaréttar né sakarlíkindaregla, enda sé krafa stefnenda hvorki byggð á ákvæðum í lögum né réttarframkvæmd. Stefnendur byggja skaðabótakröfu þrotabús Nýju Jórvíkur ehf., m.a. á þeirri málsástæðu að samningurinn hafi verið um íslenskt lán bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Stefndi mótmælir þessari málsástæðu stefnenda, enda sé ekki gerð krafa um viðurkenningu á ólögmæti lánssamningsins í máli þessu. Því til stuðnings vísar stefndi til stuðnings d. liðar 1. mgr. 80. gr. og 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefndi bendir einnig á að ágreiningslaust hafi verið að lánalína lánssamningsins hafi verið ádregin að fullu, enda hafi félagið óskað eftir nýrri lánveitingu sem Landsbanka Íslands hf. og seinna stefndi hafi hafnað þar sem félagið hafi ekki getað lagt fram fullnægjandi tryggingar. Stefndi geti ekki borið skaðabótaábyrgð gagnvart þrotabúi Nýju Jórvíkur ehf. vegna lánssamningsins þar sem stefndi hafi ekki komið að samningsgerðinni. Eina aðkoma stefnda að samningnum hafi verið framsal kröfu Landsbanka Íslands hf. samkvæmt samningnum til stefnda Stefndi bendir á að stefnendur hafi samþykkt framkvæmd samningsins með því að mótmæla ekki afstöðu skiptastjóra til kröfu stefnda sem lýst hafi verið í þrotabú Nýju Jórvíkur ehf. Stefnendur séu bundnir af afstöðu skiptastjóra og því sé enginn ágreiningur um lögmæti framkvæmdar samningsins og kröfu Landsbanka Íslands hf. sem hafi flust yfir til stefnda. Stefnendur byggja á því að óhagstæðar gengissveiflur á árunum 2008 til 2009 hafi verið meginorsök gjaldþrots Nýju Jórvíkur ehf. Stefndi mótmælir þessari málsástæðu stefnenda sem ósannaðri. Sé litið til þess hver endurreiknuð staða lánssamningsins með öllum ádráttum miðað við ákvæði samningsins um REIBOR-vexti, auk 2,5% álags, hefði verið 9. október 2008 þegar samningurinn fluttist frá Landsbanka Íslands hf. til stefnda, hefði endurreiknuð staða hans verið 1.026.899.126 krónur. Með vísan til skilmála samningsins hefði félagið haft heimild til að draga 103.100.874 krónur á lánalínuna til að fullnýta hana, sem hefði ekki dugað fyrir greiðslu skuldar félagsins við Atafl ehf. Hækkun lánalínunnar í 1.500.000.000 króna hafi eingöngu verið heimiluð vegna hækkunar lánsins í ljósi gengislækkunar íslensku krónunnar og því hafi ekki verið unnt að gera ráð fyrir að stefnendur fengju slíka heimild ef lánið hefði verið með REIBOR-vöxtum. Stefnendur hafi ekki sýnt fram á það með haldbærum gögnum, að félagið hefði engu að síður verið gjaldfært. Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnenda að hann hafi einhliða ákveðið að hækka skuld Nýju Jórvíkur ehf. með því að reikna höfuðstól lánsins miðað við gengisvísitölu tiltekinna erlenda mynta. Á grundvelli greinar 6.2 í lánssamningnum hafi verið heimilt að endurskoða vaxtakjör samningsins með samþykki Landsbanka Íslands hf. sem hafi verið gert með viðauka við samninginn 29. desember 2006 að beiðni Nýju Jórvíkur ehf. Félagið hafi haft frumkvæði að því að breyta samningsskilmálum lánsins úr íslenskum krónum í erlenda mynt, fyrst 4. janúar 2007 og aftur 7. júní 2007. Lánsbeiðnir Nýju Jórvíkur ehf. hafi verið í samræmi við grein 5 í lánssamningnum og séu því óaðskiljanlegur hluti samningsins. Stefndi hafnar því að framangreindar skilmálabreytingar samningsins hafi skapað stefnda skaðabótaskyldu. Stefndi mótmælir því sem röngu að stefndi hafi með ólögmætum og saknæmum hætti stöðvað eða synjað Nýju Jórvík ehf. um lánafyrirgreiðslu, án nokkurs fyrirvara, þvert á ákvæði lánssamningsins. Í fyrsta lagi hafi stefndi ekki brotið skráðar hátternisreglur og hafi háttsemi starfsmanna stefnda ekki verið ólögmæt. Í öðru lagi hafi ekki verið um fyrirvaralausa stöðvun lánafyrirgreiðslu að ræða þar sem Nýja Jórvík ehf. hefði fullnýtt lánalínu samkvæmt samningnum. Fyrirsvarsmenn félagsins hafi verið grandsamir um þetta og hafi þeir haft samband við Landsbanka Íslands hf. og óskað eftir frekari lánum, enda hafi félagið haft rafrænan aðgang að yfirliti og stöðu lánsins í fyrirtækjabanka Nýju Jórvíkur ehf. allan lánstímann. Fyrirsvarsmenn félagsins hafi því verið meðvitaðir um að lánalínan hefði verið fullnýtt. Starfsmenn stefnda hafi því framfylgt ákvæðum samningsins um hámarks ádrátt á lánalínu félagsins í góðri trú, sbr. grein 2 í samningnum. Ósannað sé að starfsmenn Landsbanka Íslands hf. og seinna stefnda hafi sýnt af sér gáleysislega hegðun eða ásetning til að valda skaðabótaskyldu tjóni þegar ákvörðun hafi verið tekin um að neita Nýju Jórvík ehf. um aukin lán. Í þriðja lagi hafi stefnda hvorki borið lagaleg skylda né skylda á grundvelli samninga við félagið til þess að veita félaginu aukið fjármagn. Ákvörðun stefnda um að ganga ekki til samninga um aukið fjármagn umfram það, sem áður hafði verið samið um, geti því hvorki talist ólögmæt né saknæm háttsemi, enda sé ekki unnt að knýja stefnda til nýrra samninga samkvæmt meginreglu samningaréttar um samningsfrelsi. Að mati stefnda hafi það verið óeðlileg krafa af hálfu Nýju Jórvíkur ehf. að fara fram á að stefndi yki fjárveitingu til verkefnisins um rúman milljarð, án þess að félagið veitti auknar tryggingar fyrir endurgreiðslu lánsins. Geti ákvörðun um að synja um slíkt ekki skapað bótaskyldu af hálfu stefnda. Hefði Landsbanki Íslands hf. eða seinna stefndi fallist á slíka beiðni, hefði það farið gegn starfsreglum bankans um að fullnægjandi tryggingar verði að liggja að baki lánveitingum. Auk þess hefði það ekki samræmst meginreglum laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Í fjórða lagi hafi það verið skýrt í lánssamningnum að þrátt fyrir að litið yrði svo á að hámarks lánsfjárhæð samkvæmt lánssamningnum hafi ekki verið að fullu nýtt, hafi borið að reikna hana út frá tilteknum forsendum, sérstaklega með hliðsjón af heildarkostnaði verkframkvæmdanna. Ljóst hafi verið að heildarkostnaður var kominn umfram áætlaðan kostnað og langt umfram verðmat verkefnisins, en söluáætlun, sem hafi verið unnin af starfsmönnum Nýju Jórvíkur ehf. í júní 2008 og hafi gert ráð fyrir því að meðalfermetraverð í húsinu væri komið í 513.000 krónur, hafi ekki verið í neinu samræmi við aðstæður á fasteignamarkaði á þeim tíma og því verið ómarktæk með öllu. Verði litið svo á að hámarksfjárhæð lánssamningsins hafi ekki verið að fullu nýtt, verði að hafa í huga að framangreind óvissa vegna aðstæðna á fasteignamarkaði og hækkun heildarkostnaðar við verkframkvæmdir, hefði verið næg ástæða til að stöðva frekari lánafyrirgreiðslur samkvæmt lánssamningnum. Stefndi mótmælir því að starfsmaður Landsbanka Íslands hf. og seinna stefnda, Þorsteinn Hjaltason, hafi með saknæmum og ólögmætum hætti látið framkvæmdir við Mýrargötu 26 halda áfram þrátt fyrir „fyrirhugaða stöðvun á útgreiðslu skv. lánssamningnum“. Í júní 2008 hafi verið ljóst að lánalínan hafi verði ádregin að fullu og hafi ekki verið ágreiningur um það milli aðila. Í kjölfarið hafi töluverð samskipti hafist milli Nýju Jórvíkur ehf. og Landsbanka Íslands hf. þar sem ítrekað hafi verið reynt af hálfu Landsbanka Íslands hf. að leita leiða til að veita félaginu viðbótarfjármögnun til verkefnisins. Landsbanki Íslands hf. hafi boðið félaginu nýtt lán gegn ákveðnum skilyrðum sem félagið hafi hafnað. Ástæða þess hafi meðal annars verið sú að Nýja Jórvík ehf. gat ekki eða vildi ekki leggja fram eigið fé í verkið sem hafi verið forsenda fyrir auknum lánveitingum. Stefndi fullyrðir að starfsmenn Landsbanka Íslands hf. og seinna starfsmenn stefnda hafi sýnt í verki að faglega hafi verið staðið að ákvörðunum og ráðleggingum í tengslum við málefni Nýju Jórvíkur ehf. Þessu til stuðnings bendir stefndi á að starfsmönnum stefnda hafi borið að leggja mat á það hvort stefndi hefði burði til að bera aukið tjón af verkefninu umfram það sem þá þegar hafi orðið, með tilliti til stöðu lánasafns stefnda á þessum tíma, heildarmati á vanskilum viðskiptavina og því, hvaða áhrif aukin áhætta hefði á heildaráhættu stefnda. Skyldi það liggja til grundvallar ákvörðun um viðbótarfjárveitingar, þá sérstaklega í ljósi þess að Nýja Jórvík ehf. hefði þurft viðbótarfjárveitingu sem numið hafi í það minnsta milljarði króna til að klára verkframkvæmdir. Í ljósi alls framangreinds og sérstakra aðstæðna á fasteigna- og fjármálamarkaði á þessum tíma hafi verið eðlilegt að starfsmenn stefnda tækju varkára ákvörðun sem hafi miðað að því að lágmarka tjón stefnda af verkefninu. Ljóst hafi verið að forsendur verkefnisins, sem legið hafi að baki við gerð lánssamningsins, væru brostnar vegna alvarlegrar stöðu á fasteignamarkaði, þróun gengis og hækkunar á byggingarverði. Hafi því verið fyrirsjáanlegt að heildarkostnaður verksins hafi verið orðinn mun hærri en virði fasteignarinnar. Vegna þessa hafi Landsbanki Íslands hf. ekki viljað veita viðbótarlán í verkefnið, nema gegn fullnægjandi tryggingum sem komið gætu í veg fyrir verulegt tjón bankans af verkinu. Afstaða starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og seinna stefnda hafi verið með þeim hætti að gera allt, sem í valdi þeirra stóð, til að koma til móts við óskir og þarfir félagsins. Stefndi hafnar því að fyrir hafi legið ásetningur af hálfu stefnda eða Landsbanka Íslands hf. til að keyra félagið í gjaldþrot, enda hefði það leitt til þess að stefndi hafi tapað nánast öllum þeim fjármunum sem hann hefði lánað í verkefnið. Þá hafi stefndi þurft að afskrifa 1.761.399.703 krónur vegna Nýju Jórvíkur ehf. í kjölfar gjaldþrotsins. Verði fallist á málsástæður stefnenda um að stefndi hafi með ólögmætri og/eða saknæmri háttsemi brotið gegn skráðum hátternisreglum samkvæmt lánssamningnum frá 24. maí 2005, vísar stefndi til 15. greinar samningsins um óviðráðanleg ytri atvik. Samkvæmt greininni hafi bankinn ekki borið ábyrgð á tjóni, sem kynni að hljótast af m.a. ákvörðunum stjórnvalda eða atburðum á erlendum gjaldeyris- og fjármagnsmörkuðum eða öðrum óviðráðanlegum orsökum sem hindri, torveldi eða valdi töfum á því að bankinn geti staðið við skyldur sínar samkvæmt samningnum. Atburðir á erlendum gjaldeyris- og fjármagnsmörkuðum hafi leitt til hruns fjármálamarkaðarins á Íslandi og falls íslensku krónunnar sem skýri óeðlilega hækkun á höfuðstól lánssamningsins. Vegna þessa hafi dregist af allri heimild á lánalínu Nýju Jórvíkur ehf. sem hafi leitt til þess að lánalínan hafi verið fullnýtt og því hafi ekkert orðið af frekari lánafyrirgreiðslum samkvæmt samningnum. Telur stefndi að samningurinn girði fyrir það að stefndi beri ábyrgð á beinu eða óbeinu tjóni Nýju Jórvíkur ehf. vegna slíkra atburða. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda. Stefndi mótmælir sem röngum öllum málsástæðum stefnenda um að stefndi hafi brotið gegn lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Hvorki lög um verðbréfaviðskipti né reglur um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja eigi við um umþrættan samning Nýju Jórvíkur ehf. og Landsbanka Íslands hf. Í fyrsta lagi hafi samningurinn verið undirritaður fyrir gildistöku laganna 1. nóvember 2007. Í öðru lagi teljist umrætt lánsform vera lánssamningur en ekki skuldabréf og því eigi lögin ekki við, svo sem fram komi í skilgreiningu á verðbréfaviðskiptum, sbr. 1. gr. laga nr. 108/2007. Stefndi mótmælir jafnframt öllum málsástæðum stefnenda, sem lúta að því að stefndi hafi gerst brotlegur við ákvæði 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem ósönnuðum. Beiðni Nýju Jórvíkur ehf. um aukna lánsheimild hafi verið sett fram á óvissutíma þegar óvíst hafi verið um afdrif krónunnar, sem hafi endað með hruni fasteignamarkaðarins og fjármálamarkaðarins og að lokum slitameðferð Landsbanka Íslands hf. Í ljósi framangreinds sé ekki óeðlilegt að forsendur fyrir viðræðum lánastjórans og Nýju Jórvíkur hafi breyst frá því samningar tókust 2005 í takt við efnahagslegar breytingar, svo sem gengi krónunnar og horfur á fasteignamarkaði. Þá hafi stefnendur verið meðvitaðir um að allar viðræður milli Nýju Jórvíkur ehf. og lánastjórans um mögulegar forsendur fyrir nýju láni hafi verið háðar endanlegu samþykki lánanefndar bankans. Stefndi hafnar því að starfsmaður Landsbanka Íslands hf.  hafi með tölvupósti 20. júní 2008 gefið skýr fyrirmæli um kröfu Landsbanka Íslands hf. fyrir veitingu hærri lánsheimildar. Fullyrðing stefnenda um að Nýja Jórvík ehf. hafi orðið „við þessum kröfum“ stefnda þegar félagið hafi boðið Landsbanka Íslands hf. að auka hlutafé félagsins um 125.000.000 króna, auk aukinna ábyrgða, og að stefnda hafi þar af leiðandi borið að veita félaginu nýtt lán, samræmist ekki verklagi bankans. Um gríðarlega háar fjárhæðir hafi verið að ræða, hækkun á lánalínu sem þá þegar hafi verið yfir milljarð króna og átti að færa upp um 370.000.000 króna til viðbótar. Slíkar ákvarðanir séu háðar endanlegu samþykki lánanefndar bankans, eins og fyrirsvarsmenn Nýju Jórvíkur ehf. hafi verið meðvitaðir um, enda hafi  tillaga félagsins verið lögð fyrir lánanefnd sem hafi hafnað henni og lagt til nýja lausn sem félagið hafi ekki orðið ekki við. Stefndi mótmælir því sömuleiðis sem ósönnuðu, að verðmat Nýju Jórvíkur ehf. hafi hækkað töluvert á þeim tíma þegar viðræðurnar áttu  sér stað. Stefndi bendir á að matið hafi verið unnið af starfsmönnum Nýju Jórvíkur ehf. og hafi ekki verið í takt við markaðsaðstæður og spár Seðlabankans á þessum tíma. Stefnendur telja það ósanngjarnt af hálfu Landsbanka Íslands hf. að hafa gert það að forsendu fyrir nýju láni, að hluthafar ykju við eigið fé Nýju Jórvíkur ehf., þótt samningurinn frá 24. maí 2005 hafi borið með sér að aðeins hafi verið gerð krafa um 11% hlutfall eiginfjárkrafna af áætlaðri lánsfjárhæð. Stefndi hafnar þessu og ítrekar að lánalínan samkvæmt samningnum hafi að fullu verið nýtt og hefði því verið um nýtt lán að ræða. Krafa Landsbanka Íslands hf. um hlutfall eiginfjárkrafna af lánsfjárhæð í takt við aukna áhættu bankans af lánveitingunni hafi verið eðlileg, enda hafi forsendur verið breyttar og áhætta Landsbanka Íslands hf. af verkefninu orðin langt umfram það sem lagt hafi verið upp með við gerð samningsins 2005. Beri því að hafna framangreindum málsástæðum stefnenda. Stefndi hafnar því sem röngu að lánalína Nýju Jórvíkur ehf. samkvæmt lánssamningnum frá 24. maí 2005 hafi verið hækkuð úr 1.130.000.000 króna í 2.200.000.000 króna með ákvörðun lánanefndar 24. september 2008. Við einfaldan lestur ákvörðunarinnar komi skýrt fram að fyrri beiðni frá 18. júlí 2008 um hækkun lánalínunnar í 2.200.000.000 króna hafi ekki gengið eftir og því hafi hún verið lögð fyrir lánanefnd á nýjan leik. Lánanefnd hafi ákveðið að setja viðbótarskilyrði þannig að 300.000.000 króna myndu greiðast inn á lán félagsins hjá Landsbanka Íslands hf. og að aðferðin yrði nánar útfærð af fyrirtækjasviði, sbr. eftirfarandi: „Ákveðið að vinna málið áfram. Skilyrði að [300.000.000 króna] greiðist inn á núverandi lán í [Landsbanka Íslands hf.]. Verði útfært nánar á fyrirtækjasviði og afgreitt milli funda.“ Ákvörðun lánanefndar Landsbanka Íslands hf. hafi ekki lotið að samþykki hækkunarinnar, heldur að mótun skilyrða fyrir nýrri lánveitingu sem skyldi nánar útfærð hjá fyrirtækjasviði. Starfsmaður Landsbanka Íslands hf., Þorsteinn Hjaltason, hafi því farið með rétt mál í tölvupósti 25. september 2008 þegar hann hafi fullyrt að ekki hafi verið komið á samþykki lánanefndar um heimild til að hækka lánalínu Nýju Jórvíkur ehf. Eins og fram hafi komið í tölvupóstinum, hafi a.m.k. verið gerð krafa um 300.000.000 króna greiðslu inn á lán félagsins hjá Landsbanka Íslands hf. til samræmis við ákvörðun lánanefndar og skyldu nánari útfærslur mótaðar síðar. Hafi það verið í samræmi við framangreinda ákvörðun lánanefndar. Stefnendur haldi því fram að lánalína samningsins hafi verið hækkuð úr 1.130.000.000 króna í 1.500.000.000 króna með ákvörðun lánanefndar Landsbanka Íslands hf. 2. október 2008. Í bókun lánanefndar segi eftirfarandi: „Málið verði stöðvað í 12 mánuði. Lánalína framlengist til [30. október 2009] og hækki í [1.500.000.000 króna] vegna gengisbreytinga. Kjör verði Libor + 4,0%. Greiði félagið vexti á eins mánaðar fresti verði kjör áfram Libor + 3,1%. Tryggingar: Tryggingabréf að upphæð [1.594.000.000 króna] á 1. [veðrétt] á Mýrargötu 26.“ Í ákvörðun nefndarinnar hafi verið tekið skýrt fram að það ætti að stöðva málið næstu 12 mánuði og að lánalínan framlengdist til samræmis við það um ár. Þar sem stöðva átti framkvæmdir og frekari lánveitingar, hafi þurft að hækka lánalínuna í takt við gengishækkun lánsins. Framangreind hækkun lánalínunnar hafi því ekki breytt því að hún hafi verið að fullu ádregin. Á fundi lánanefndar stefnda 7. nóvember 2008 hafi verið tekin ákvörðun um eftirfarandi: „Ákveðið var að stöðva framkvæmdir um sinn. Greiðslur verði frystar í 6 [mánuði], lán verði ekki gjaldfellt nú. Í millitíðinni verði heildarfjármögnun verksins endurskoðuð. Athugað verði með nýja hluthafa og viðbótartryggingar.“ Eftir stofnun stefnda hafi því fljótlega verið tekin ákvörðun um að veita ekki frekari lán til Nýju Jórvíkur ehf. vegna verkefnisins og endurskoða heildarfjármögnun verksins. Ljóst sé af bókun fundarins að stefndi hafði ekki misst alla trú á verkefninu, enda hefði besta mögulega niðurstaða verið sú að Nýja Jórvík ehf. næði að klára verkefnið og bæri arð svo félagið gæti staðið skil á skuldbindingum sínum við stefnda. Stefndi mótmælir sem ósannaðri þeirri málsástæðu stefnenda að Nýja Jórvík ehf. hafi orðið fyrir tjóni sem rekja megi til saknæmrar eða ólögmætrar háttsemi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og stefnda, enda bendi ekkert til þess að þeir hafi sýnt af sér slíka háttsemi varðandi fyrirgreiðslu til félagsins og síðar við vinnu við að halda framkvæmdum verkefnisins áfram. Stefnendur telji að tjón þrotabúsins megi rekja til missis hagnaðar af verkframkvæmdum Nýju Jórvíkur ehf. vegna vanefnda stefnda á lánssamningnum. Stefndi mótmælir þessu og bendir á að félagið hafi verið í rekstri þar sem öll áhætta hafi verið lögð í eitt fasteignaverkefni og hafi frá upphafi getað brugðið til beggja vona í hverjum þætti verkefnisins, einkum með tilliti til þróunar á markaði fyrir þá tegund fasteigna sem félagið hafi í upphafi ætlað að byggja. Ljóst sé að byggingarverð og þróun á gengi hafi tekið svo óhagstæðum breytingum á samningstímanum að forsendur verkefnisins hafi gjörbreyst. Stefndi mótmælir því jafnframt sem ósönnuðu að nokkurs hagnaður hafi mátt vænta af sölu fasteignarinnar í ljósi aðstæðna á mörkuðum. Verkefnið hefði tafist verulega vegna atvika, sem hafi verið Landsbanka Íslands hf. og stefnda með öllu óviðkomandi, og hafi verið fyrirsjáanlegt að kostnaður við að klára fasteignina yrði mun meiri en lagt hefði verið upp með. Hafi verið útilokað að söluverð yrði hærra en heildarkostnaður verksins. Tilvísun stefnenda til áætlaðs söluverðs, 3,8 milljarða króna, varði mat, sem unnið hafi verið á árinu 2007 þegar verð íbúða hafi verið í hámarki, og sé því mótmælt að það hefði staðið í stað, þrátt fyrir efnahagshrun og sviptingar á fasteignamörkuðum. Hinn 25. janúar 2010, þegar Nýja Jórvík ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota, hafi verið ljóst að félagið væri ógjaldfært og hafi skuldir félagsins, sem lýst hafi verið í þrotabúið með vísan til 111. gr. laga nr. 21/1991, samkvæmt kröfuskrá numið samtals 1.978.584.213 krónum. Eina eign félagsins, sem hafi að fullu verið veðsett stefnda, hafi verið mun verðminni en áhvílandi skuldir. Stefndi hafi orðið fyrir verulegu tjóni í ljósi þess að einungis lítill hluti hafi fengist upp í lánsfjárhæðina við sölu eignarinnar. Í raun hafi Nýja Jórvík ehf. verið verðlaust miðað við stöðu eigna og skulda og hafi stefndi orðið fyrir miklu tapi vegna gjaldþrotsins, enda hefði hann þurft að afskrifa tæplega 1,8 milljarð króna vegna félagsins eftir sölu fasteignarinnar við Mýrargötu 26. Í ljósi kostnaðar við verkframkvæmdir hefði það verið eina leið Nýju Jórvíkur ehf. til að halda sér frá gjaldþroti að selja eignir á sama verði og verðmöt fyrir hrun hefðu gert ráð fyrir. Stefndi mótmælir því sem ósönnuðu að viðbótarlán hefði dugað fyrir greiðslu skuldbindinga Nýju Jórvíkur við Atafl hf., ófyrirséðs kostnaðar og framhalds verkframkvæmdanna. Áætlaður kostnaður við verkið hafi hlaupið á milljörðum og hafi hækkað úr 1.280.000.000 króna í 3.159.000.000 króna og hafi áætlaður heildarkostnaður við verkið verið metinn 4,1 milljarður króna. Á sama tíma hafi litlar sem engar hreyfingar verið á fasteignamarkaði og skuld félagsins við stefnda samkvæmt lánssamningnum verið komin langt yfir lánsheimild. Spá Seðlabanka Íslands hafi gert ráð fyrir 30% samdrætti í sölu fasteigna á árinu 2009. Sé því ljóst að samverkan ólíkra þátta í rekstrarumhverfi félagsins og á fjármálamarkaði hafi leitt til tjóns Nýju Jórvíkur ehf. Ekkert bendir hins vegar til þess að starfsmenn Landsbanka Íslands hf.  eða stefnda hafi sýnt af sér slíka háttsemi sem leitt gæti til skaðabótaskylds tjóns félagsins. Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnenda um meint tjón þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. vegna háttsemi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og stefnda. Stefndi bendir á að hann hafi ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi Nýju Jórvíkur ehf., þrátt fyrir að hann hafi haft heimild til þess á grundvelli lánssamningsins. Auk þess hafi athafnir eða athafnaleysi fyrirsvarsmanna Nýju Jórvíkur ehf. við að semja við kröfuhafa sinn, Atafl hf., um greiðslufrest eða um að breyta skuldinni í hlutafé, verið óviðkomandi stefnda og Landsbanka Íslands hf. Stefndi hafi veitt Nýju Jórvík ehf. frest til þess að finna lausnir á vanda sínum og fallist á að gjaldfella ekki lánið á gjalddaga þess. Stefndi krefst þess að vera sýknaður af öllum kröfum stefnenda á grundvelli þess að engin skaðabótaskylda sé til staðar, hvorki af hálfu Landsbanka Íslands hf. né stefnda. Sönnunarbyrði um að tjón hafi orðið og að því hafi verið valdið með skaðabótaskyldum hætti beri stefnendur og hafi þeir ekkert fært fram í málinu til sönnunar á því. Stefnendur haldi því fram að „tjón annarra stefnenda [hafi verið] vegna gjaldþrots Nýju Jórvíkur“. Í fyrsta lagi telur stefndi að stefnendur hafi ekki sýnt fram á saknæma eða ólögmæta háttsemi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og seinna stefnda sem hafi leitt til þess að stefnendur hafi glatað hlutafé sínu í félaginu og þar af leiðandi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna háttsemi Landsbanka Íslands hf. og seinna stefnda. Stefndi telur starfsmenn Landsbanka Íslands hf. og seinna stefnda hafa staðið faglega að málefnum félagsins, einkum í ljósi aðstæðna á óvissutímum í kjölfar hruns fjármála- og fasteignamarkaðarins. Starfsmenn Landsbanka Íslands hf. og seinna stefnda hafi unnið samkvæmt skilmálum lánssamningsins frá 24. maí 2005 og hafi ávallt lagt ákvarðanir um auknar lánveitingar fyrir fund lánanefndar bankans þar sem endanleg ákvörðun hafi verið tekin. Samskipti Nýju Jórvíkur ehf. og Landsbanka Íslands hf. og seinna stefnda hafi að mati stefnda verið góð og hafi það verið sameiginlegur vilji beggja aðila að reyna í lengstu löð að finna farsæla lausn á málum félagsins. Stefndi fái því ekki séð hvers vegna stefnendur beini skaðabótakröfu sinni að stefnda vegna gjaldþrots félagsins en ekki að Atafli hf. sem hafi krafist gjalþrotaskipta á búi Nýju Jórvíkur ehf. Í öðru lagi hafi stefnendur ekki sýnt fram á að þeir hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna gjaldþrots Nýju Jórvíkur ehf. sem rekja megi til háttsemi Landsbanka Íslands hf. og seinna stefnda. Nýja Jórvík ehf. hafi að hluta verið í eigu stefnenda en sú staðreynd breyti því ekki að félagið hafi verið sjálfstæður lögaðili og borið réttindi og skyldur samkvæmt lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994. Hafi það því verið aðskilið frá hluthöfum sínum, eins og tilgangur og markmið hlutafélagaformsins geri ráð fyrir. Stefnendur hafi þar af leiðandi ekki átt beint tilkall til eigna félagsins eða reksturs þess. Stefnendur hafi ekki sýnt fram á að ákvörðun Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda um að synja félaginu um viðbótarlán hafi leitt til verðlækkunar hlutabréfa Nýju Jórvíkur ehf. og þar af leiðandi bakað stefnendum fjárhagslegt tjón. Stefndi bendir jafnframt á að það sé í eðli viðskipta með hlutafé að hluthafar beri áhættu af tapi hlutafjár ef halli undan fæti í rekstri félags. Endurspeglist það í stöðu slíkra krafna við gjaldþrotaskipti en hluthöfum sé ekki greitt út hlutafé, nema allar aðrar kröfur hafi verið greiddar upp að fullu við skiptin. Inngreitt hlutafé sé trygging fyrir kröfuhafa félagsins ef félag fari í gjaldþrot en ekkert af þeim fjármunum, sem stefnendur haldi fram að hafi runnið inn í félagið, hafi verið til staðar þegar á hafi reynt við gjaldþrotaskiptameðferð félagsins. Af framangreindu leiði að stefndi geti ekki borið ábyrgð á tapi stefnenda vegna missis hlutafjár. Stefndi mótmælir útreikningum stefnenda á meintu tjóni þeirra vegna gjaldþrots Nýju Jórvíkur ehf. sem röngum og ósönnuðum. Stefnendur hafi ekki allir átt jafnan hlut í félaginu og auk þess hafi félagið SK3 ehf., sem ekki eigi aðili að dómsmáli þessu, verið í hópi hluthafa þegar félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota. Fjárhæðin virðist í stefnu í fyrsta lagi byggð á greiddu hlutafé stefnenda en þar sé vísað til framlagðs skjals sem sé afrit af „kaupsamningi“ 10. mars 2002 milli SK3 ehf. sem seljanda og Nýju Jórvík ehf. sem kaupanda. Þar komi fram að Nýja Jórvík ehf. kaupi stálgrindarhús við Grandagarð 8 í Reykjavík fyrir 285.000.000 króna og Guðjón Bjarnason og Magnús Ingi Erlingsson undirriti það bæði fyrir hönd kaupanda og seljanda. Annað skjal í málinu, sem einnig beri heitið „kaupsamningur“ og einnig dagsett 10. mars 2002, beri með sér að SK3 ehf. selji Nýju Jórvík ehf. Mýrargötu 26 og þar sé vísað til kaupsamnings SK3 ehf. við Sparisjóðinn í Keflavík. Á „kaupsamningnum“ komi fram að mismunur á kaupverði séu 35.000.000 króna og það teljist vera greitt hlutafé í Nýju Jórvík ehf. af SK3 ehf. Stefndi bendir á að SK3 ehf. sé ekki aðili að þessu dómsmáli og hafnar því að með framlagningu framangreindra kaupsamninga hafi verið færðar sönnur fyrir því að stefnendur í máli þessu hafi orðið fyrir tjóni vegna greidds hlutafjár í félaginu. Stefnendur vísa ennfremur til skjala frá 25. og 26. október 2007 með fyrirsöginni „afsal“ til sönnunar á tjóni sínu. Stefndi hafni því hins vegar að skjölin sanni tjón stefnenda þar sem ekki komi þar fram, hver sé kaupandi hlutanna í félaginu, en vitað sé að stefnendur hafi ekki verið einu hluthafarnir í Nýju Jórvík ehf. á þessum tíma. Í skjölum málsins komi fram að kaupendur séu stefnendur Magnús og Ísleifur en einnig SK3 ehf. Stefnendur EP fjármál ehf. og Upsir ehf. hafi hins vegar ekki verið kaupendur að þessum hlutum. Rökstuðningur að baki kröfugerð stefnenda sé því vanreifaður að þessu leyti og telur stefndi engu síður að hann hafi sýnt fram á það með ótvíræðum hætti að kröfur stefnenda séu í grunninn rangar. Jafnframt telji stefndi að kaupverðið sé ekki í samræmi við verðmæti félagsins á þessum tíma og mótmælir því að huglægt mat stefnenda og annarra kaupenda að þessum hlutum geti orðið grundvöllur kröfu um skaðabætur. Stefnendur hafi í engu sýnt fram á annað, hvorki með gögnum né með öðrum hætti. Þá beri að hafa í huga að ekki sé unnt að bera saman virði hluta félagsins fyrir hrun fjármálamarkaðarins og eftir hrun þegar fasteignamarkaðurinn hafi sömuleiðis verið hruninn en eina starfsemi Nýju Jórvíkur ehf. hafi verið bygging og sala fasteigna. Stefndi byggir sýknukröfu sína jafnframt á því að stefnendur hafi ekki hagsmuni af úrlausn málsins en stefnendur byggi á sömu málsástæðum um kröfu hluthafa og kröfu þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. Niðurstaða um kröfu þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. hafi áhrif á niðurstöðu um kröfu stefnenda þar sem kröfurnar byggi á sömu málsástæðum. Stefndi bendir einnig á reglu skaðabótaréttar um að tjón verði ekki tvíbætt en fyrir liggi að verði fallist á kröfu stefnenda fyrir hönd þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. geti stefnendur ekki jafnframt átt rétt á skaðabótum vegna missis hlutafjár við gjaldþrot félagsins. Stefndi hafnar þeirri málsástæðu stefnenda að 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu styðji kröfu stefnenda. Ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar fjalli um eignarnámsbætur til þess sem verður fyrir tjóni vegna eignarnáms. Stefndi hafi ekki tekið hlutafé stefnenda eignarnámi við gjaldþrot Nýju Jórvíkur ehf. Fyrrverandi hluthafar Nýju Jórvíkur ehf. hafi ekki fengið hlutafé greitt út þar sem skuldir félagsins hafi verið umfram eignir. Samræmist það almennum reglum kröfu- og samningaréttar og reglum gjaldþrotaréttar, sbr. 4. þátt laga nr. 21/1991, sbr. og 155. gr. laganna, sbr. einnig reglur laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Beri því að hafna þessum málsástæðum stefnenda. Stefndi byggir á því að stefnendum hafi hvorki tekist að sanna að þeir hafi orðið fyrir tjóni né hvert raunverulegt tjón þeirra hafi verið og vísar til þess að stefnendum hafi verið í lófa lagið að afla matsgerðar dómkvaddra matsmanna um ætlað tjón sitt áður en dómsmál þetta var höfðað. Sá sem haldi fram skaðabótaábyrgð beri sönnunarbyrði fyrir því að öll skilyrði skaðabóta séu fyrir hendi, þ.e. um fjárhæð tjóns, orsakatengsl og sennilega afleiðingu. Stefnendum hafi því ekki tekist að sanna að skaðabótaskilyrðum sé fullnægt. Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnenda. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að skaðabótaskylda hafi skapast á grundvelli ákvæða í lánssamningnum eða vegna athafna Landsbanka Íslands hf.,  mótmæli stefndi því að slík skaðabótaskylda hafi færst yfir til stefnda eftir stofnun hans. Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 séu tilgreindar þær skyldur sem hafi verið færðar frá Landsbanka Íslands hf. til stefnda. Ekki komi fram að skaðabótaskylda starfsmanna Landsbanka Íslands hf. hafi verið færð yfir í stefnda. Stefndi hafi hvorki komið að gerð lánssamningsins né skilmálabreytingum hans. Lánið hafi verið flutt yfir til stefnda 9. október 2008 og hafi þá að fullu verið dregið á lánalínuna miðað höfuðstól heildarlánveitinga. Eina ákvörðun starfsmanna stefnda hafi verið sú, að beita ekki vanefndarúrræðum gagnvart Nýju Jórvík ehf. og gefa félaginu rúman frest til að finna lausnir, ásamt því að ítreka ráðleggingu Landsbanka Íslands hf. um að leitast við að ná sáttum við kröfuhafann Atafl hf. Stefnda hafi ekki borið að semja við Nýju Jórvík ehf. eða lána félaginu á þessum tíma eða öðrum vegna sjónarmiða um samningsfrelsi. Því sé ekki um að ræða orsakasamband milli ákvarðana stefnda og ætlaðs tjóns stefnenda. Þá hafi krafa Atafls hf. um gjaldþrotaskipti á Nýju Jórvík ehf. verið án atbeina eða afskipta stefnda. Stefndi vísar jafnframt til dóma Hæstaréttar Íslands þar sem ekki hafi verið fallist á að skaðabótakröfur hafi hafi flust milli gömlu og nýju bankanna, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 750/2012. Þá bendir stefndi á að ef ákvörðun starfsmanna Landsbanka Íslands hf. um að synja félaginu um nýtt lán verði talið hafa valdið stefnendum tjóni, verði að líta til þess að tímamark tjónsatburðarins sé í tíð Landsbanka Íslands hf. fyrir 9. október 2008 og því áður en stefndi hafi verið stofnaður. Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., laga um hlutafélög nr. 2/1995, laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, laga um gjaldþrotaskipti og fl. nr. 21/1991, vaxtalaga nr. 38/2001, laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 151/2010, laga um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, laga um umboðsmann skuldara nr. 151/2012 og meginreglna samninga-, kröfu- og veðréttar. Um málskostnaðarkröfu vísar stefndi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun reisir stefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því sé honum nauðsynlegt að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnenda. V Við aðalmeðferð málsins gaf aðilaskýrslu stefnandi Magnús Ingi Erlingsson, lögfræðingur, hluthafi og fyrrum framkvæmdastjóri Nýju Jórvíkur ehf. Auk þess gáfu skýrslur vitnin Albert Sveinsson, ráðgjafi í rekstri og stjórnun fyrirtækja, Þorsteinn Hjaltason, starfsmaður á fyrirtækjasviði stefnda, Davíð Björnsson, starfsmaður á fyrirtækjasviði stefnda, og Örvar Kjærnested, stjórnarformaður MýrInvest ehf. Stefnendur höfða mál þetta sem skaðabótamál og lýtur ágreiningur aðila að því hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð vegna fjártjóns, sem stefnendur telja sig hafa orðið fyrir vegna gjaldþrots Nýju Jórvíkur ehf. hinn 25. janúar 2010, og sem hafi komið til vegna ætlaðra vanefnda stefnda og forvera hans, Landsbanka Íslands hf., á lánssamningi við Nýju Jórvík ehf., dagsettum 24. maí 2005. Stefnendur krefjast viðurkenningar á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því fjártjóni, sem Nýja Jórvík ehf. hafi orðið fyrir vegna missis þess hagnaðar sem verkframkvæmdir að Mýrargötu 26 hefðu skilað félaginu, hefði starfsemi þess ekki stöðvast vegna atvika sem rekja megi til stefnda og hafi að endingu leitt til gjaldþrots félagsins. Aðrir stefnendur, sem gögn málsins bera með sér að hafi verið einu hluthafar Nýju Jórvíkur ehf. í árslok 2009, krefjast viðurkenningar á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á afleiddu tjóni sem þeir, sem hluthafar í hinu gjaldþrota félagi, hafi orðið fyrir vegna sömu atvika. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda með þeim rökum í fyrsta lagi að hann sé ekki réttur aðili að málinu. Hér verður að líta til þess að Fjármálaeftirlitið tók hinn 9. október 2008 ákvörðun um ráðstöfun eigna og skuldbindinga Landsbanka Íslands hf. til stefnda. Í 1. tölulið ákvörðunarinnar segir að stefndi yfirtaki kröfuréttindi Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt 2. tölulið ákvörðunarinnar skyldu öll tryggingaréttindi Landsbanka Íslands hf. flytjast yfir til stefnda, þar með talin öll veðréttindi sem tengdust kröfum bankans. Samkvæmt þessu fluttist lánssamningurinn frá 24. maí 2005, upphaflega milli Landsbanka Íslands hf. og Nýju Jórvíkur ehf., yfir til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Að því leyti sem framkvæmd starfsmanna Landsbanka íslands hf. á efndum lánssamningsins frá 24. maí 2005 kann að hafa farið í bága við samningsskyldur Landsbanka Íslands hf. kann hún að hafa bakað þeim banka skaðabótaskyldu vegna tjóns sem af því hefur leitt fyrir stefnendur. Sú skaðabótaskylda var hins vegar ekki meðal þeirra skuldbindinga sem fluttust yfir til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, sbr. og dóma Hæstaréttar Íslands 27. mars 2014 í máli réttarins nr. 546/2013 og  9. október 2014 í málinu nr. 124/2014. Stefnendur geta því ekki, á þeim grunni, beint kröfum sínum í máli þessu á hendur stefnda. Í málinu byggja stefnendur einnig á því að skaðabótaskylda hafi flust frá Landsbanka Íslands hf. til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2009, enda valdi framsalið ekki mótbárutapi fyrir stefnendur sem kröfuhafa bankans. Meginreglur þær, sem stefnendur vísa til að þessu leyti, varða framsal innheimtukrafna og þá í tengslum við tilurð kröfu, gildi hennar eða breytingu á efni hennar. Í máli þessu tengjast kröfur stefnenda ekki uppgjöri skulda, heldur því hvort stefndi beri skaðabótaskyldu vegna ætlaðs tjóns stefnenda. Verður því ekki fallist á það með stefnendum að meginreglur kröfuréttar um mótbárutap við framsal krafna geti átt við um kröfur af þeim toga sem gerðar eru í máli þessu. Stefnendur byggja á því að þeim sé heimilt að krefja stefnda um greiðslu skaðabóta vegna ætlaðs tjóns síns, sem rekja megi jafnt til háttsemi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og stefnda, á grundvelli reglna um sameiginlega eða óskipta ábyrgð, án þess að stefna einnig Landsbanka Íslands hf. Í samræmi við þá meginreglu réttarfars, að beina þurfi kröfum að öllum þeim aðilum, sem úrslit dómsmáls kunna að varða, verður ekki fallist á það með stefnanda að honum sé heimilt að stefna stefnda í máli um skaðabótaskyldu vegna atvika sem starfsmenn Landsbanka Íslands hf. kunna að bera ábyrgð á. Það er enda grundvallarréttur aðila að eiga þess kost að taka til varna um kröfur, sem að þeim er beint, eigi úrslit dómsmáls að varða hlutaðeigandi. Kröfum stefnanda er ekki beint að slitabúi Landsbanka Íslands hf. og verður því ekki kveðinn upp bindandi dómur sem varðar athafnir starfsmanna þess banka í máli þessu. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður stefndi ekki talinn eiga aðild að málinu að því er varðar þann hluta krafna stefnenda, sem lýtur að ætlaðri saknæmri og ólögmætri háttsemi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og hugsanlegu tjóni henni tengdu. Verður stefndi því þegar af þeirri ástæðu sýknaður af þeim kröfum stefnenda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Í málinu byggja stefnendur einnig á því að starfsmenn stefnda hafi viðhaldið því ætlaða ólögmæta ástandi, sem komið hafi verið á af hálfu starfsmanna Landsbanka Íslands hf., eftir að stefndi tók við samningsskuldbindingum samkvæmt lánssamningnum frá 24. maí 2005 með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008. Stefnandi hafi þannig bakað sér skaðabótaskyldu með því að viðhalda synjun á frekari lánveitingum til þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. á grundvelli lánssamningsins sem og með kröfum um aukið eigið fé í félaginu. Jafnframt hafi það verið gert með því að reikna fjárhæð lánveitinga í íslenskum krónum, á grundvelli lánssamningsins frá 24. maí 2005, í samræmi við erlendar myntir. Stefnendur vísa í þessu samhengi til þess að ólögmætir útreikningar á höfuðstóli lánveitinganna hafi valdið því stefndi hafi litið svo á að hámarksfjárhæð þeirri, sem Nýju Jórvík ehf. hafi verið heimilt að draga á lánalínuna og sem lánssamningurinn hafi kveðið á um, væri náð þá þegar stefndi tók við lánssamningnum. Stefnandi vísar til þess að raunverulegur ádráttur á lánalínuna hafi þá aðeins numið 868.000.000 króna en ekki 1.168.500.000 krónum, líkt og bankinn hafi haldið fram þegar lokað hafi verið fyrir frekari lánveitingar á grundvelli lánssamningsins. Á sama tíma hafi hámarksfjárhæð samkvæmt lánssamningnum verið 1.130.000.000 króna og síðar 1.500.000.000 króna. Allt hafi þetta orðið til þess að Nýja Jórvík ehf. varð ógjaldfært og tækt til gjaldþrotaskipta svo sem orðið hafi reyndin á fyrri hluta árs 2010. Málsástæður stefnanda að þessu leyti varða tilhögun á efndum lánssamningsins frá 24. maí 2005 milli Nýju Jórvíkur ehf. og  Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda. Með hliðsjón af því ber að líta til þess að ekki er á því byggt af hálfu stefnenda að þeir hafi gert kröfu um endurútreikning skuldbindinga á grundvelli lánssamningsins frá 24. maí 2005. Þá er það almenn regla kröfuréttar að aðilar samnings geta einir haft uppi kröfur vegna ætlaðra vanefnda eða ólögmætis hans. Eiga aðrir, svo sem hluthafar í einkahlutafélagi sem er aðili að samningnum, almennt ekki aðild að slíkum málum, enda þótt þeir kunni að hafa hagsmuni af því hvernig samningur er skýrður eða framkvæmdur. Með sama hætti gildir sú regla um skaðabætur samkvæmt sakarreglunni, að almennt geta þeir einir krafist skaðabóta vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi tjónvalds sem bótaskyld háttsemi beinist gegn. Með hliðsjón af þessu verður að líta svo á að aðeins stefnandi, þrotabú Nýju Jórvíkur ehf., geti á þeim grundvelli eignast skaðabótakröfu á hendur stefnda, að öðrum bótaskilyrðum uppfylltum, en ekki aðrir stefnendur sem hluthafar í hinu gjaldþrota félagi sem byggja á því að þeir hafi orðið fyrir afleiddu tjón. Er þetta í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar Íslands frá 26. mars 2015 í máli nr. 618/2014, frá 13. febrúar 2014 í máli nr. 608/2013 og frá 7. desember 2000 í máli nr. 153/2000, sem birtur er á blaðsíðu 4122 í dómasafni réttarins það ár. Þá verður einnig að líta til þess að skaðabótakröfur stefnenda, hluthafa í þrotabúi Nýju Jórvíkur ehf., eru reistar á því að þeir hafi, vegna háttsemi sem rekja megi til stefnda, glatað öllu hlutafé sínu í Nýju Jórvík ehf. Hlutafé er í eðli sínu áhættufé og þeir, sem inna það af hendi, hætta því, með óafturkræfum hætti, í rekstur hlutafélags, m.a. í von um hagnað af rekstri þess og arðsúthlutanir, séu skilyrði slíks fyrir hendi. Ekki verður litið svo á að hluthafar í félagi hafi beðið einstaklingsbundið tjón vegna halla í rekstri einkahlutafélags, heldur félagið sjálft, jafnvel þótt hlutir þeirra kunni að hafa orðið verðlausir í kjölfarið. Með hliðsjón af því, sem hér að framan greinir, verður ekki fallist á það að stefnendur, sem eru fyrrum hluthafar í þrotabúi Nýju Jórvíkur ehf., eigi aðild að máli vegna ætlaðra vanefnda á lánssamningnum frá 24. maí 2005 sem beindust gegn hinu gjaldþrota félagi eftir yfirtöku stefnda á samningnum hinn 9. október 2008. Þegar af þeirri ástæðu verður samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 að sýkna stefnda af kröfum stefnendanna, EP fjármála ehf., þrotabús Ísleifs Leifssonar, Magnúsar Erlingssonar og Upsa ehf. Í málinu gerir stefnandi, þrotabú Nýju Jórvíkur ehf., sem fyrr segir kröfu um skaðabætur úr hendi stefnda vegna framkvæmdar á lánssamningnum 24. maí 2005 og útreiknings höfuðstóls kröfunnar, m.a. miðað við gengi erlendra mynta. Fyrir liggur að skiptastjóri þrotabúsins fór með forræði þrotabúsins í kjölfar úrskurðar um gjaldþrotaskipti hinn 25. janúar 2010, sbr. 1. mgr. 122. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Skiptastjóri birti skrá yfir lýstar kröfur í þrotabúið í samræmi við fyrirmæli 119. gr. laga nr. 21/1991. Kröfulýsingarskráin liggur frammi í málinu og þar kemur fram að krafa stefnda, sem þá hét NBI hf., á hendur búinu á grundvelli lánssamningsins frá 24. maí 2005, var samþykkt sem forgangskrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Ennfremur samþykkti skiptastjóri fjárhæð kröfunnar, 1.971.683.978 krónur, án athugasemda eða fyrirvara um aðferðir sem notaðar voru við útreikning á höfuðstóli kröfunnar. Þá kemur fram í gögnum málsins að kröfuskráin var kynnt á skiptafundi í þrotabúi Nýju Jórvíkur ehf. hinn 8. júní 2010. Hins vegar er ekki á því byggt af hálfu stefnenda að mótmæli hafi komið fram við fjárhæð kröfunnar eða útreikninga að baki henni á þeim kröfuhafafundi, líkt og 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 mælir fyrir um. Verður ákvörðun skiptastjóra stefnanda, þrotabús Nýju Jórvíkur ehf., um að samþykkja kröfu stefnda, og þar með aðferðir við útreikning á fjárhæð hennar, því talin endanleg og bindandi fyrir stefnanda í skilningi 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Frá því fortakslausa ákvæði eru engar undantekningar gerðar í lögum. Að mati dómsins verður þegar af þeirri ástæðu ekki litið svo á að stefnandi, þrotabú Nýju Jórvíkur ehf., hafi fært viðhlítandi rök fyrir því að orsakasamhengi sé milli ætlaðs tjóns þrotabúsins og athafna eða athafnaleysis starfsmanna stefndu. Með hliðsjón af framangreindum rökum er það niðurstaða dómsins að þegar af þeim ástæðum beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda. Því er óþarft að taka afstöðu til þess hvort starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér saknæma eða ólögmæta háttsemi við framkvæmd lánssamningsins 24. maí 2005 sem og annarra málsástæðna í málinu sem varða gildi krafna stefnenda. Eftir úrslitum málsins og með vísan til meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verða stefnendur dæmdir til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 850.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Af hálfu stefnenda flutti málið Eiríkur Guðlaugsson hdl. Af hálfu stefnda flutti málið Helga Björk Helgadóttir Valberg hdl. Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð: Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda EP fjármála ehf., þrotabús Ísleifs Leifssonar, Magnúsar Inga Erlingssonar, Upsir ehf. og þrotabús Nýju Jórvíkur ehf. Stefnendur, EP fjármál ehf., þrotabú Ísleifs Leifssonar, Magnús Ingi Erlingssson, Upsir ehf. og þrotabú Nýju Jórvíkur ehf. greiði stefnda, Landsbankanum hf., 850.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Mál nr. 491/2017
Fjármálafyrirtæki Slit Riftun Greiðsla Skuldabréf Kröfuréttur Vextir Endurgreiðslukrafa
K ehf. höfðaði mál á hendur B og krafðist riftunar á greiðslu skuldar á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem K ehf. taldi að hefði falist í þremur nánar tilgreindum kaupum sínum á hlutdeildum í víkjandi skuldabréfum sem K ehf. gaf út á árinu 2004. Krafðist K ehf. jafnframt endurgreiðslu á því fé sem hann lét af hendi í þeim viðskiptum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki virtist ágreiningur um það milli aðila að umrædd viðskipti hefðu farið fram með þeim hætti sem leiddi af gögnum málsins og að leggja yrði til grundvallar að hlutdeildirnar hefðu enn verið í umráðum K ehf. þegar slitameðferð hans hófst á árinu 2008. Greiðslur K ehf. til B fóru fram innan sex mánaða fyrir frestdag við slit K ehf. og voru að öllu leyti inntar af hendi fyrir umsaminn gjalddaga og þar með fyrr en eðlilegt var í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Var jafnframt talið að K ehf. hefði innt greiðslur vegna hlutdeildanna af hendi til B og því yrði að miða við að B hefði fengið efndir kröfu sinnar og K ehf. þar með greitt skuld við hann í skilningi ákvæðisins. Þá vísaði Hæstiréttur til þess að umrædd viðskipti hefðu tekið til hlutdeilda í víkjandi skuldabréfum sem myndað hefðu hluta af eiginfjárgrunni K ehf. Samkvæmt 84. gr. laga nr. 161/2002 hefði því þurft að afla samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir viðskiptunum. Það hefði á hinn bóginn ekki verið gert og því ekkert mat farið fram af þess hálfu hvort viðskiptin gætu haft í för með sér óviðunandi áhrif á eiginfjárstöðu K ehf. Hefðu viðskiptin haft í för með sér að kröfur B á grundvelli skuldabréfanna hefðu ekki lengur verið víkjandi í skilningi 84. gr. laga nr. 161/2002 og í raun leitt til þess að þær aðstæður sköpuðust sem ákvæði 8. mgr. greinarinnar væri ætlað að koma í veg fyrir. Væri því ekki unnt að líta svo á að greiðslur K ehf. hefðu virst venjulegar eftir atvikum í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Loks hafnaði Hæstiréttur því að um lögskipti aðila hefði átt að fara að enskum lögum svo og að lög nr. 90/1999 um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum tækju til lögskipta aðila hvað þetta varðaði. Að öllu þessu virtu var fallist á kröfu K ehf. um riftun á nefndum greiðslum hans til B. Hvað endurgreiðslukröfu K ehf. varðaði, taldi Hæstiréttur að B hefði haft hag af þeim greiðslum sem K ehf. hefði innt af hendi vegna hlutdeildanna í skilningi 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Enda hefði hann annars orðið að sæta því að glata andvirði þeirra við slit K ehf. Þá lægi ekki annað fyrir en að greiðslurnar hefðu orðið B að notum í skilningi ákvæðisins og að tjón K ehf. hefði numið fjárhæð greiðslnanna. Var fjárkrafa K ehf. því tekin til greina og jafnframt fallist á að hún skyldi bera dráttarvexti samkvæmt lögum nr. 38/2001.
                                                        Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Aðalsteinn E. Jónasson og Ragnheiður Harðardóttir landsréttardómarar. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. ágúst 2017. Hann krefst þess að rift verði þremur nánar tilgreindum greiðslum sínum til stefnda á tímabilinu frá 15. ágúst til 15. september 2008, vegna viðskipta á tímabilinu frá 12. ágúst til 10. september sama ár, samtals að fjárhæð 25.614.921,84 evrur og að stefnda verði gert að greiða sér þá upphæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. maí 2012 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Þann 28. apríl 2004 gaf áfrýjandi, sem þá bar heitið Kaupþing banki hf., út svokallaða útgáfulýsingu á ensku vegna evrópsks skuldabréfaramma með meðallöngum lánstíma að fjárhæð samtals 4.000.000.000 evrur. Í fyrirsögn útgáfulýsingarinnar var tekið fram að samkvæmt skuldabréfarammanum gæti áfrýjandi gefið út skuldabréf í hvaða gjaldmiðli sem útgefandi þeirra og viðkomandi miðlari kæmu sér saman um. Var og tekið fram að upplýsingar um heildarnafnvirði skuldabréfanna, vexti sem greiða þyrfti af skuldabréfunum, útgáfuverð þeirra og aðra skilmála og skilyrði sem ekki væri að finna í útgáfulýsingunni og vörðuðu sérhvern skuldabréfahluta, yrðu settar fram í svonefndum verðviðauka sem afhentur yrði í kauphöllinni í Lúxemborg á útgáfudegi skuldabréfa í þeim hluta, eða fyrr vegna skuldabréfa sem skráð yrðu í kauphöllinni. Í samantekt yfir skuldabréfarammann sem finna mátti í útgáfulýsingunni kom fram að umsjónaraðili (e. Arranger) væri Credit Suisse First Boston (Europe) Limited, en að umsjónaraðili útgáfu og aðalumsjónaraðili greiðslna (e. Issuing and Principal Paying Agent) væri Deutsche Bank AG. Undir kafla útgáfulýsingarinnar, sem bar heitið form skuldabréfanna, kom svo fram að sérhver hluti skuldabréfa yrði gefinn út á handhafaformi og upphaflega í formi tímabundins allsherjarskuldabréfs eða, ef svo væri mælt fyrir um í viðeigandi verðviðauka, varanlegs allsherjarskuldabréfs. Í báðum tilvikum yrðu skuldabréfin afhent sameiginlegum vörsluaðila, Euroclear Bank S.A./N.V., sem rekstraraðila Euroclear kerfisins, og Clearstream Banking á upphaflegum útgáfudegi skuldabréfahlutans eða fyrr. Var ennfremur tekið fram að afborganir höfuðstóls, vaxta og annarra fjárhæða sem þyrfti að greiða samkvæmt varanlegu allsherjarskuldabréfi, yrðu framkvæmdar í gegnum Euroclear og/eða Clearstream í Lúxemborg gegn framvísun eða afhendingu varanlega allsherjarskuldabréfsins án þess að frekari staðfesting væri nauðsynleg. Þá yrði í viðeigandi verðviðauka mælt fyrir um að mögulegt væri að skipta varanlegu allsherjarskuldabréfi í heild fyrir endanlegt skuldabréf með höfuðstólsmiðum, vaxtamiðum og skiptimiðum, þar sem það ætti við, að því tilskildu að gefinn væri 60 daga skriflegur fyrirvari af hálfu áðurnefndra vörsluaðila, eða við svokallaðan skiptiatburð eins og hann var nánar skilgreindur í kaflanum. Var jafnframt tekið fram að skuldabréf sem heyrðu undir allsherjarskuldabréfið yrðu aðeins framseld í samræmi við gildandi reglur og ferli Euroclear og Clearstream eftir því sem við ætti. Samkvæmt 1. lið skilmála útgáfulýsingarinnar skyldu skuldabréfin vera á handhafaformi. Þegar um endanleg skuldabréf væri að ræða skyldu þau vera raðnúmeruð í tilgreindum gjaldmiðli og tilgreindri nafnverðseiningu. Var þar og tekið fram um tegund og eðli þeirra skuldabréfa sem um gæti verið að ræða, en meðal þeirra bréfa sem þar voru tilgreind voru skuldabréf með breytilegum vöxtum, vaxtalaus skuldabréf, vísitölutengd skuldabréf, forgangsskuldabréf og víkjandi skuldabréf. Tekið var fram að yfirfærsla eignarréttar yrði við afhendingu bréfanna. Sá fyrirvari var þó gerður, að á meðan einhver skuldabréf heyrðu undir allsherjarskuldabréf sem varðveitt væri fyrir hönd Euroclear eða Clearstream, skyldu útgefandi og umsjónaraðilar greiðslna líta á sérhvern aðila, sem á hverjum tíma væri skráður eigandi tilgreindrar nafnverðsfjárhæðar slíkra skuldabréfa, sem eiganda þeirrar nafnverðsfjárhæðar í öllu tilliti nema að því er varðaði greiðslur höfuðstóls eða vaxta, en í því sambandi skyldu útgefandi og umsjónaraðilar greiðslna líta á handhafa viðkomandi allsherjarskuldabréfs sem eiganda umræddrar nafnverðsfjárhæðar í samræmi við og með fyrirvara um skilmála viðkomandi allsherjarskuldabréfs. Í 6. lið skilmálanna var að finna ákvæði sem lutu að greiðslum og greiðsluaðferð. Kom þar fram, með fyrirvara um önnur ákvæði kaflans, að þegar um væri að ræða evrur, færu greiðslur fram með innborgun eða millifærslu á reikning í evrum, eða annan reikning sem heimilt væri að millifæra eða greiða evrur inn á, og móttakandi greiðslunnar tilgreindi. Varð jafnframt ráðið að þegar um væri að ræða skuldabréf sem heyrði undir allsherjarskuldabréf, færu greiðslur höfuðstóls og vaxta fram með framangreindum hætti, gegn framvísun og afhendingu skuldabréfsins þegar um greiðslu höfuðstóls væri að ræða, afhendingu vaxtamiða væri um greiðslur vaxta að ræða, en afhendingu höfuðstólsmiða væri um afborganir af höfuðstól að ræða. Var gert ráð fyrir að slík afhending færi fram á skrifstofu umsjónaraðila greiðslna og að haldin yrði skrá fyrir viðkomandi allsherjarskuldabréf yfir allar greiðslur sem inntar væru af hendi með þessum hætti, sem myndi þá teljast sönnun þess að umrædd greiðsla hefði farið fram, kæmi ekki annað í ljós. Samkvæmt lið 6(d) skilmálanna skyldi eigandi allsherjarskuldabréfs einn eiga rétt á að taka við greiðslum vegna skuldabréfa sem heyrðu undir viðkomandi allsherjarskuldabréf. Þá skyldi greiðsla sem útgefandi innti af hendi til eða í þágu eiganda slíks allsherjarskuldabréfs, leysa útgefandann undan skuld að þeirri fjárhæð. Var einnig tekið fram að sérhver aðili sem skráður væri hjá Euroclear eða Clearstream í Lúxemborg sem raunverulegur eigandi (e. beneficial holder) tiltekinnar nafnverðsfjárhæðar skuldabréfa sem heyrðu undir slíkt allsherjarskuldabréf, gæti einungis krafið nefnda aðila um sína hlutdeild í greiðslu sem þannig væri innt af hendi af hálfu útgefanda í þágu eiganda allsherjarskuldabréfsins. Í 7. lið skilmálanna, sem fjallaði um innlausn og kaup, var tekið fram að öll skuldabréf yrðu innleyst af útgefanda á lokainnlausnarverði, eins og það væri tilgreint eða ákvarðað í viðeigandi verðviðauka viðkomandi myntar á lokagjalddaga, nema því aðeins að skuldabréfið hefði áður verið innleyst, keypt eða fellt niður í samræmi við það sem nánar greindi í nokkrum stafliðum kaflans. Var þar meðal annars tekið fram í h-lið að útgefandi, eða dótturfélag hans, gæti hvenær sem er keypt skuldabréf á hvaða verði sem væri á frjálsum markaði eða með öðrum hætti. Enda væri þá áskilið að allir ógjaldfallnir höfuðstólsmiðar, vaxtamiðar og skiptimiðar yrðu jafnframt keyptir ef um væri að ræða endanleg skuldabréf. Jafnframt sagði að ef kaup færu fram á grundvelli tilboðs, yrði slíkt tilboð að standa öllum skuldabréfaeigendum til boða. Loks var tekið fram að útgefanda væri heimilt að eiga, endurútgefa eða endurselja hin keyptu skuldabréf, eða afhenda þau umsjónaraðila greiðslna að eigin vali til niðurfellingar. Í 2. lið skilmálanna var fjallað um stöðu forgangsskuldabréfa og víkjandi skuldabréfa. Kom þar fram í lið 2(b) að víkjandi skuldabréf fælu í sér ótryggðar og óskilyrtar skuldbindingar útgefanda, sem væru víkjandi í samræmi við og í skilningi 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og jafn réttháar án nokkurs innbyrðis forgangs sín á milli. Ef útgefandi yrði ógjaldfær eða hann tekinn til gjaldþrotaskipta kæmu víkjandi skuldabréf aðeins til greiðslu að greiddum öllum öðrum skuldbindingum útgefanda sem ekki væru skilgreindar sem víkjandi samkvæmt áðurnefndri 84. gr. laga nr. 161/2002. Að því frágengnu yrðu víkjandi skuldabréf að minnsta kosti greidd á sama tíma og allar aðrar skuldbindingar útgefanda sem væru skilgreindar sem víkjandi samkvæmt ákvæðinu, en ellegar áður en hlutafé, stofnfé eða annað sambærilegt eigið fé útgefanda yrði endurgreitt. Var og tekið fram að útgefandi skuldbindi sig til að stofna ekki til annarra víkjandi skuldbindinga en heimilt væri samkvæmt 84. gr. laga nr. 161/2002, á meðan einhver víkjandi skuldabréf, höfuðstólsmiðar eða vaxtamiðar væru útistandandi. Loks sagði að ákvæði greinar 2(b) skyldu heyra undir og túlkuð í samræmi við íslensk lög. Samkvæmt lið 18(a) skilmálanna skyldu umsýslusamningurinn, skuldabréfin, skuldbindingarskjalið og höfuðstóls- og vaxtamiðar heyra undir og túlkuð í samræmi við ensk lög. Þó var tekið fram að sá hluti 2. liðar skilmálanna, sem fjallaði um stöðu víkjandi skuldabréfa, skyldi heyra undir og túlka í samræmi við íslensk lög. Á grundvelli ofangreindrar útgáfulýsingar gaf áfrýjandi út svonefndan verðviðauka 28. júní 2004 vegna víkjandi skuldabréfa að nafnverði 300.000.000 evrur, með breytilegum stighækkandi vöxtum á gjalddaga í júní 2014. Í viðaukanum kom fram að hann hefði að geyma lokaskilmála skuldabréfanna. Þá kom fram að lesa bæri viðaukann í samhengi við útgáfulýsingu skuldabréfarammans. Viðmiðunarvextir samkvæmt viðaukanum voru þriggja mánaða EURIBOR vextir með 0,65% álagi á ársgrundvelli sem hækka skyldi uppí 1,65% frá og með gjalddaga vaxta í júní 2009, en gjalddagar vaxta skyldu vera 30. mars, 30. júní, 30. september og 30. desember ár hvert. Voru skuldabréfin sem gefa átti út samkvæmt viðaukanum auðkennd með ISIN-númerinu XS 0194805429. II Í greinargerð stefnda fyrir Hæstarétti segir að hann sé alþjóðlegt fjármálafyrirtæki með höfuðstöðvar í Frakklandi, en að þau viðskipti sem deilt sé um hafi farið í gegnum útibú hans í London. Af gögnum málsins verður ráðið að 12. ágúst 2008 hafi starfsmaður áfrýjanda haft samband við starfsmann stefnda í gegnum tiltekið samskiptaforrit. Af samskiptum þeirra virðist mega ráða að stefndi hafi boðið áfrýjanda til kaups hlutdeild í framangreindri skuldabréfaútgáfu og að kaup hafi tekist þeirra í millum á hlutdeild að nafnverði 20.000.000 evra sem áfrýjandi hafi greitt 86% af nafnverði fyrir eða sem svarar 17.200.000 evrum. Í málinu liggur jafnframt fyrir kvittun, dagsett sama dag, sem virðist hafa verið gefin út vegna viðskiptanna, svo og kaupnóta frá áfrýjanda, gefin út á nafn stefnda, þar sem staðfest voru kaup á 20.000.000 evra hlutdeild í hinni víkjandi skuldabréfaútgáfu fyrir 17.200.000 evrur, að viðbættum 143.238,89 evrum vegna áfallinna vaxta, eða samtals 17.343.238,89 evrur. Er uppgjörsdagur viðskiptanna þar sagður 15. ágúst 2008. Þann 18. ágúst 2008 hafði sami starfsmaður áfrýjanda aftur samband við starfsmann stefnda. Af þeim samskiptum virðist mega ráða að áfrýjandi hafi enn verið að leita eftir kaupum á eigin skuldabréfum. Var umleitan starfsmanns áfrýjanda svarað svo af hálfu starfsmanns stefnda að hann hefði „4.250M“ til kaups og að þar væri um að ræða hlutdeild í áðurgreindri skuldabréfaútgáfu áfrýjanda. Ekki verður séð að fyrir liggi kvittun vegna þessara viðskipta, sambærileg þeirri sem gefin var út vegna fyrri viðskipta aðila. Hins vegar liggur fyrir í málinu kaupnóta áfrýjanda, gefin út á nafn stefnda, þar sem staðfest voru kaup á 4.250.000 evra hlutdeild fyrir 88,25% af nafnverði, eða sem svarar 3.750.625 evrum. Við þá upphæð hafi svo bæst 50.951,01 evra vegna áfallinna vaxta og heildarupphæðin því numið 3.801.576,01 evru. Samkvæmt kaupnótunni fóru viðskiptin fram 10. september 2008 og þau gerð upp 15. sama mánaðar. Í málinu liggur fyrir þriðja kaupnótan frá áfrýjanda sem gefin var út á nafn stefnda. Eru þar staðfest kaup á 5.000.000 evra hlutdeild fyrir 88,25% af nafnverði eða sem svarar 4.412.500 evrum. Við þá upphæð hafi svo bæst 57.606,94 evrur vegna áfallinna vaxta og heildarupphæðin því numið 4.470.106,94 evrum. Samkvæmt kaupnótunni fóru viðskiptin fram 9. september 2008 og þau gerð upp 12. sama mánaðar. Ekki virðist ágreiningur milli aðila um að framangreind viðskipti hafi farið fram með þeim hætti sem áður er lýst. Undir rekstri málsins í héraði skoraði stefndi meðal annars á áfrýjanda að upplýsa um og leggja fram viðeigandi gögn um hvort, og þá til hvaða aðgerða, hann hefði gripið í kjölfar viðskiptanna, þar á meðal hvort umrædd skuldabréf hefðu verið endurseld, afskráð eða ráðstafað með öðrum hætti. Áfrýjandi brást við áskorun stefnda með bókun sem hann lagði fram í þinghaldi 19. desember 2013. Vísaði áfrýjandi þar til 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kvað áskorun stefnda að þessu leyti ekki lúta að afhendingu skjals sem áfrýjandi hefði í sínum vörslum. Áfrýjandi lagði hins vegar fram yfirlýsingu löggilts endurskoðanda sem hann kvað lúta að bókhaldslegri meðferð þeirra krafna sem hann hefði greitt með viðskiptum sínum við stefnda. Samkvæmt þeirri yfirlýsingu voru skuldir áfrýjanda færðar niður um sem svaraði 29.250.000 evrum í kjölfar framangreindra viðskipta. Þá lagði áfrýjandi einnig fram yfirlit úr viðskiptakerfi sínu um öll viðskipti með eigin skuldabréf. Af því yfirliti verður ráðið að áfrýjandi hafi fest kaup á þeim hlutdeildum sem um ræðir. Hins vegar verður ekki séð af yfirlitinu að áfrýjandi hafi selt þær aftur. Verður því lagt til grundvallar að þær hafi enn verið í umráðum áfrýjanda er Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í áfrýjanda, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Slitameðferð áfrýjanda, sem fór síðan í hönd með frestdegi 15. nóvember 2008, var lokið með nauðasamningi 23. desember 2015. Með bréfi lögmanns áfrýjanda til stefnda 8. desember 2011 var óskað upplýsinga um fyrrgreind viðskipti, þar á meðal hvort stefndi hefði verið „aðalrétthafi og/eða rétthafi í tengslum við endurkaupaviðskiptin“ eins og það er orðað í framlagðri þýðingu. Með bréfi 6. janúar 2012 staðfesti stefndi að hann hefði verið mótaðili áfrýjanda í umræddum viðskiptum. Þann 23. apríl 2012 lýsti áfrýjandi yfir riftun á viðskiptunum og krafði stefnda jafnframt um greiðslu 25.614.921,84 evra, eða sem svarar samtölu þeirra greiðslna sem hann innti af hendi fyrir hlutdeildirnar. Höfðaði áfrýjandi í kjölfarið mál þetta með stefnu birtri 21. júní 2012, en með málssókn sinni leitar áfrýjandi á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, riftunar á greiðslu skuldar við stefnda, sem áfrýjandi telur hafa falist í kaupum á hlutdeildum í áðurlýstum skuldabréfum, svo og endurgreiðslu á þeim fjármunum sem hann lét af hendi í þeim viðskiptum.  III Samkvæmt því sem áður er rakið keypti áfrýjandi í þrígang hlutdeild í víkjandi skuldabréfum sem gefin voru út 30. júní 2004 af stefnda í samræmi við fyrrnefndan verðviðauka frá 28. sama mánaðar. Fyrir þá hlutdeild greiddi áfrýjandi samtals 25.614.921,84 evrur í þremur greiðslum 15. ágúst, 12. september og 15. september 2008. Samkvæmt því fóru þessar greiðslur fram innan sex mánaða fyrir frestdag við slit áfrýjanda, sem eins og áður sagði var 15. nóvember 2008. Er skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun greiðslu samkvæmt ákvæðinu því fullnægt að þessu leyti. Með viðskiptunum sem um ræðir, keypti áfrýjandi hlutdeildir í víkjandi skuldabréfum, sem greiða átti upp í einu lagi á umsömdum lokagjalddaga 30. júní 2014 að því er höfuðstól varðar. Um leið greiddi áfrýjandi vexti, sem fallið höfðu á þessar hlutdeildir í skuldabréfunum á tímabilinu frá síðasta gjalddaga vaxta 30. júní 2008 fram til uppgjörs viðskiptanna, sem fóru fram 15. ágúst, 12. september og 15. september sama ár. Gjalddagi þeirra vaxta hefði ella verið 30. september 2008. Greiðslur þessar voru þannig að öllu leyti inntar af hendi fyrir gjalddaga og þar með fyrr en eðlilegt var í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Er því einnig að þessu leyti fullnægt skilyrðum ákvæðisins fyrir riftun greiðslu. Víkjandi skuldabréfin sem um ræðir voru gefin út á grundvelli evrópsks skuldabréfaramma áfrýjanda frá 28. júní 2004 eins og áður er lýst. Af útgáfulýsingu skuldabréfarammans verður ekki annað ráðið en að skuldabréf útgefin á grundvelli útgáfulýsingarinnar yrðu afhent sameiginlegum vörsluaðila, Euroclear Bank S.A./N.V., sem rekstraraðila Euroclear kerfisins, og Clearstream Banking. Verður einnig ráðið af útgáfulýsingunni að afborganir höfuðstóls, vaxta og annarra greiðslna skyldi inna af hendi við nefnda vörsluaðila. Ekki verður glögglega ráðið af gögnum málsins hvort þær greiðslur sem áfrýjandi innti af hendi fyrir umræddar hlutdeildir í víkjandi skuldabréfunum hafi að öllu leyti farið fram í samræmi við fyrirmæli skilmálanna að þessu leyti. Á hinn bóginn liggja fyrir þær kvittanir og kaupnótur sem áður hefur verið lýst, en þær bera með sér að áfrýjandi hafi innt kaupverðið af hendi til stefnda, hvort heldur sem það var fyrir milligöngu vörsluaðila eða ekki. Þá virðist sem áður segir ekki ágreiningur með aðilum um að viðskiptin hafi farið fram með þessum hætti, auk þess sem stefndi staðfesti við áfrýjanda í aðdraganda málshöfðunarinnar að hann hefði verið mótaðili áfrýjanda í viðskiptunum. Verður því við það miðað að með viðskiptunum hafi stefndi fengið efndir á kröfu sinni, sem hann felldi sig jafnframt við að gefa eftir að verulegum hluta, enda var ekki greitt fullt nafnverð hennar. Að öllu þessu virtu, og að gættu því að samkvæmt 6. lið skilmála útgáfulýsingarinnar skyldi greiðsla sem útgefandi innti af hendi til eða í þágu eiganda allsherjarskuldabréfs, leysa útgefandann undan skuld að þeirri fjárhæð, verður litið svo á að með kaupunum hafi áfrýjandi greitt skuld við stefnda í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 11. maí 2017 í málum nr. 189/2016 og 621/2016 og 18. janúar 2018 í máli nr. 677/2016.             Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 verður riftun á greiðslu skuldar á grundvelli ákvæðisins ekki komið við ef greiðslan hefur virst venjuleg eftir atvikum. Viðskiptin sem um ræðir náðu til hlutdeilda í víkjandi skuldabréfum sem mynduðu hluta af eiginfjárgrunni áfrýjanda samkvæmt 6. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002. Samkvæmt 8. mgr. sömu lagagreinar, eins og hún var er atvik máls þessa áttu sér stað, var heimilt að flýta endurgreiðslu víkjandi lána að ósk lántaka, enda lægi fyrir samþykki Fjármálaeftirlitsins og slík endurgreiðsla hefði að þess mati ekki óviðunandi áhrif á eiginfjárstöðu lántaka. Af frumvarpi sem varð að lögum nr. 161/2002 er ljóst að síðastnefnt ákvæði byggði á b. lið 3. mgr. 4. gr. tilskipunar Ráðsins 89/299/EEC um eigið fé lánastofnana sem aðildarríki Evrópusambandsins áttu samkvæmt 9. gr. tilskipunarinnar að innleiða fyrir 1. janúar 1993. Samkvæmt því verður að leggja til grundvallar að ákvæðið hafi verið í samræmi við reglur sem lánastofnunum aðildarríkja Evrópusambandsins átti að vera kunnugt um, en eins og fyrr greinir er stefndi alþjóðlegt fjármálafyrirtæki með höfuðstöðvar í Frakklandi sem er eitt af aðildarríkjum Evrópusambandsins. Í ljósi fyrrgreindrar niðurstöðu um að viðskiptin hafi falið í sér greiðslu skuldar í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 verður jafnframt að leggja til grundvallar að skylt hafi verið að afla samþykkis Fjármálaeftirlitsins samkvæmt 8. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 til þeirra. Fær það ekki breytt þessari niðurstöðu þótt ekki hafi verið fjallað sérstaklega um slíkt samþykki í þeim samningsskilmálum sem giltu um skuldabréfin, enda kom skýrlega fram í lið 2(b) skilmála útgáfulýsingar skuldabréfarammans að um víkjandi stöðu slíkra skuldabréfa gilti 84. gr. laga nr. 161/2002. Með sömu rökum verður að leggja til grundvallar að heimild til viðskipta með bréfin á grundvelli liðar 7(h) útgáfulýsingarinnar hafi ávallt verið háð þeirri forsendu að áður væri búið að afla samþykkis Fjármálaeftirlitsins. Upplýst er að samþykkis Fjármálaeftirlitsins var ekki aflað og er því jafnframt ljóst að ekki fór fram neitt mat af hálfu þess á því hvort viðskiptin gætu haft í för með sér óviðunandi áhrif á eiginfjárstöðu áfrýjanda. Viðskiptin höfðu í reynd för með sér lækkun á eiginfjárgrunni hans á tímamarki þegar fjármálafyrirtækjum var óhægt um vik við öflun lánsfjár. Gat því ekki virst nærtækt að hagstætt væri fyrir áfrýjanda að eiga viðskipti sem þessi. Viðskiptin höfðu í för með sér að kröfur stefnda á grundvelli skuldabréfanna voru ekki lengur víkjandi í skilningi 84. gr. laga nr. 161/2002 og leiddu í raun til þess að þær aðstæður sköpuðust sem ákvæði 8. mgr. 84. gr. laganna var ætlað að koma í veg fyrir. Er að öllu þessu virtu ekki unnt að líta svo á að greiðsla áfrýjanda hafi virst venjuleg eftir atvikum í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Af hálfu stefnda hefur því verið borið við að ensk lög eigi að gilda um viðskipti hans við áfrýjanda. Bendir stefndi í því sambandi á að aðilar hafi samið svo um sín á milli að ensk lög skyldu gilda um skuldabréfin og vísar þar um til 18. liðar skilmála útgáfulýsingar skuldabréfarammans. Þá vísar hann jafnframt til n. liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, en samkvæmt efni sínu felur ákvæðið í sér frávik frá því að íslensk lög skuli gilda um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar um slit á lánastofnun með höfuðstöðvar á Íslandi, sbr. 1. mgr. 104. gr. laganna. Forsenda þess að síðastnefnt ákvæði geti átt við er að fyrir liggi fullnægjandi sönnun um að lög annars ríkis eigi að gilda um viðkomandi löggerning. Svo sem áður segir var skýrlega tekið fram í lið 2(b) og 18(a) skilmála útgáfulýsingar skuldabréfarammans að um stöðu víkjandi skuldabréfa og rétthæð, skyldu gilda íslensk lög. Ágreiningur máls þessa varðar í reynd stöðu og rétthæð skuldabréfanna og fellur samkvæmt því undir síðastnefnt ákvæði. Þegar af þeirri ástæðu kemur ekki frekar til álita hvort ákvæði n. liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 hafi þýðingu í málinu. Af sömu ástæðu koma ekki heldur til skoðunar ákvæði laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar, sem stefndi hefur einnig vísað í til stuðnings þeirri málsástæðu sinni að um lögskipti aðila hafi átt að fara eftir enskum lögum, sbr. 1. mgr. 3. gr. nefndra laga. Stefndi hefur einnig borið því við að þær greiðslur sem áfrýjandi innti af hendi vegna kaupanna hafi farið í gegnum viðurkennt uppgjörskerfi og séu af þeim sökum ekki riftanlegar. Eru málsástæður stefnda um þetta reifaðar í héraðsdómi. Eins og þar greinir nánar kveður stefndi að uppgjör á viðskiptum aðila hafi farið fram í gegnum hið alþjóðlega uppgjörskerfi Euroclear, sem sé viðurkennt greiðslu- og uppgjörskerfi samkvæmt 10. gr. Evróputilskipunar um endanlegt uppgjör 98/26/EB, sem innleidd hafi verið í íslenskan rétt með lögum nr. 90/1999 um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum. Samkvæmt athugasemdum þeim sem fylgdu frumvarpi að nefndum lögum sé það eitt af markmiðum þeirra að tryggja að uppgjör sem fram fari í greiðslukerfum fyrir fjármagnsmarkaðinn, falli utan riftunarreglna laga nr. 21/1991. Í samræmi við það kveði 4. gr. laga nr. 90/1999 á um að öll greiðslufyrirmæli, svo og greiðslujöfnun, skuli vera að öllu leyti bindandi gagnvart þriðja aðila, jafnvel þótt bú þátttakanda sem fyrirmælin gaf, sé tekið til gjaldþrotaskipta, enda séu fyrirmælin komin til greiðslukerfisins áður en úrskurður um gjaldþrot er kveðinn upp. Af þessu leiði svo aftur að uppgjör sem fram hafi farið í greiðslukerfi, svo sem við eigi um viðskipti málsaðila, sé ekki riftanlegt. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/1999 er markmið þeirra að tryggja öryggi í uppgjöri viðskipta í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum. Til þess er á hinn bóginn að líta að stefndi hefur hvorki sýnt fram á að umrætt greiðslukerfi hafi verið rekið hér á landi í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1999 og tilkynnt í samræmi við ákvæði 3. gr. laganna, né að um það hafi gilt íslensk lög svo sem áskilið er í c. lið 1. töluliðar 1. mgr. 2. gr. laganna. Af athugasemdum sem fylgdu frumvarpi að lögunum má jafnframt ráða að meginmarkmið þeirra sé að vernda fyrirmæli sem send hafa verið inn í kerfin, meðal annars þannig að riftunarreglum laga nr. 21/1991 verði ekki beitt í þeim tilvikum þegar greiðslufyrirmæli hafa borist í greiðslukerfi áður en úrskurður um gjaldþrot er kveðinn upp. Ákvæðum laganna er hins vegar ekki ætlað að taka til lögskipta sem búa að baki slíkum greiðslufyrirmælum, eins og kemur jafnframt skýrt fram í inngangsorðum framangreindrar Evróputilskipunar. Eins og mál þetta liggur fyrir verður þessari málsástæðu því hafnað. Samkvæmt öllu framangreindu verður fallist á kröfu áfrýjanda um riftun á umræddum greiðslum hans til stefnda á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. IV Endurgreiðslukröfu sína byggir áfrýjandi á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, sem á hér við að breyttu breytanda samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002. Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði skal sá sem hefur haft hag af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, en þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni búsins. Fyrir liggur samkvæmt framansögðu að áfrýjandi keypti umræddar hlutdeildir í skuldabréfunum af stefnda með þremur aðskildum greiðslum. Telst stefndi því hafa haft hag af þeim greiðslum enda hefði hann annars orðið að sæta því vegna ákvæða 3. mgr. 28. gr. og 4. töluliðar 114. gr. laga nr. 21/1991 að glata andvirði hlutdeildanna við slit áfrýjanda, sem líkt og áður greinir var lokið með nauðasamningi. Þá liggur ekki annað fyrir en að greiðslur áfrýjanda hafi orðið stefnda að notum í skilningi 1. mgr. 142. gr. sömu laga. Eins og áður greinir er lagt til grundvallar að hlutdeildirnar hafi ekki verið seldar er slitameðferð áfrýjanda hófst. Því telst tjón áfrýjanda hafa numið þeim greiðslum sem hann innti af hendi til stefnda. Samkvæmt því verður fallist á fjárkröfu áfrýjanda eins og hún er sett fram. Með því að leggja verður til grundvallar í máli þessu að um ágreining aðila fari að íslenskum lögum, verður fallist á með áfrýjanda að krafa hans skuli bera dráttarvexti samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 12. maí 2014 í máli nr. 276/2014 og 2. október sama ár í máli nr. 79/2014. Eins og háttar til í máli þessu fer um upphafstíma dráttarvaxta eins og í dómsorði greinir. Eftir þessum úrslitum og samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað vegna reksturs málsins á báðum dómstigum eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Rift er greiðslu áfrýjanda, Kaupþings ehf., til stefnda, BNP Paribas S.A., 15. ágúst 2008, að fjárhæð 17.343.238,89 evrur, vegna viðskipta 12. ágúst 2008, greiðslu 12. september 2008, að fjárhæð 4.470.106,94 evrur, vegna viðskipta 9. september 2008 og greiðslu 15. september 2008, að fjárhæð 3.801.576,01 evru, vegna viðskipta 10. september 2008. Stefndi greiði áfrýjanda 25.614.921,84 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. maí 2017 til greiðsludags. Stefndi greiði áfrýjanda samtals 10.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2017 I          Mál þetta, sem var dómtekið 28. mars 2017, er höfðað 21. júní 2012 af Kaupþingi hf., Borgartúni 26 í Reykjavík, á hendur BNP Paribas SA, 16 boulevard des Italiens 75009, París, Frakklandi.          Dómkröfur stefnanda eru þær að rift verði eftirfarandi ráðstöfunum stefnanda til stefnda: Greiðslu hinn 15. ágúst 2008, að fjárhæð 17.343.238,89 evrur, vegna viðskipta dags. 12. ágúst 2008. Greiðslu hinn 12. september 2008, að fjárhæð 4.470.106,94 evrur, vegna viðskipta dags 9. september 2008. Greiðslu hinn 15. september 2008, að fjárhæð 3.801.576,01 evru, vegna viðskipta dags 10. september 2008.          Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði stefnanda 25.614.921,84 evrur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. maí 2012 til greiðsludags.          Að lokum krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.          Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfufjárhæð stefnanda verði lækkuð verulega. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts.          Í upphafi fór stefndi fram á að málinu yrði vísað frá dómi, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði héraðsdóms 24. júní 2013. Að því loknu fór fram umfangsmikil gagnaöflun. Þorri skjala er á erlendri tungu sem hefur kallað á mikla vinnu við þýðingar. II          Málsatvik eru þau að 28. apríl 2004 birti stefnandi útboðslýsingu (e. Offering Circular) fyrir fjögurra milljarða evra skuldabréfaútgáfu til meðallangs tíma sem bar yfirskriftina Euro Medium Term Note Programme. Á forsíðu útboðslýsingarinnar kemur fram að stefnandi hafi heimild til þess að gefa út, á grunni útboðslýsingarinnar eða „skuldabréfarammans“, eins og segir í þýðingu löggilts skjalaþýðanda, skuldabréf í hvaða gjaldmiðli sem er. Þar segir einnig að heildarnafnvirði allra skuldabréfa sem á hverjum tíma væru útistandandi samkvæmt skuldabréfarammanum mætti ekki verða hærra en 4 milljarðar evra með ákveðnum fyrirvara. Átti að gefa skuldabréfin út til nánar tiltekinna miðlara. Við það yrði miðað að skuldabréfin yrðu skráð í kauphöllina í Lúxemborg á næstu tólf mánuðum eftir dagsetningu útgáfulýsingarinnar. Þá segir á forsíðunni að upplýsingar um heildarnafnverð skuldabréfanna, vexti, útgáfuverð o.fl., sem ekki væri fjallað um í útgáfulýsingunni, kæmu fram í sérstökum verðviðaukum (e. Pricing Supplement). Síðar í útgáfulýsingunni kemur fram að í verðviðauka geti verið skilmálar sem gangi framar ákvæðum útgáfulýsingar.          Í útgáfulýsingunni kemur fram að skuldabréfin yrðu gefin út í handhafaformi og upphaflega í formi tímabundins allsherjarskuldabréfs (e. Temporary Global Note) eða varanlegs allsherjarskuldabréfs (e. Permanent Global Note). Í báðum tilvikum var við það miðað að skuldabréfin yrðu afhent sameiginlegum vörsluaðila, Euroclear Bank, sem rekstraraðila Euroclear-kerfisins, og Clearstream Banking í Lúxemborg. Þar segir enn fremur að hægt verði að skipta tímabundna allsherjarskuldabréfinu fyrir endanlegt skuldabréf eða varanlegt allsherjarskuldabréf auk þess sem unnt verði að skipta varanlegu allsherjarskuldabréfi fyrir endanlegt skuldabréf við svonefndan skiptiatburð (e. Exchange Event). Átti það einungis við ef vanefnd yrði af hálfu útgefanda eða að Euroclear og Clearstream hættu starfsemi.          Í útgáfulýsingunni er gert ráð fyrir því að skuldabréfin verði gefin út af stefnanda samkvæmt svonefndum umsýslusamningum (e. Agency Agreement) sem útgefandinn komi til með að gera við Deutsche Bank AG, London Branch, sem umsjónaraðila útgáfu, aðalumsjónaraðila greiðslna (e. Paying Agent) og umsýslubanka. Þar og í öðrum gögnum málsins er Deutsche Bank AG kallaður umsýsluaðili (e. Agent). Í þessu sambandi var sérstaklega vísað til umsýslusamnings frá 28. apríl 2004. Ekki verður séð að þessi samningur hafi verið lagður fram í málinu. Hins vegar liggur frammi einn samningar sem dagsettur eru 28. apríl 2004 og ber yfirskriftina „Amended and restated Programme Agreement“ milli stefnanda sem útgefanda og tólf miðlara (e. Dealers), þar á meðal Deutsche Bank AG og stefnanda sjálfs, en hann tengist framangreindri útgáfulýsingu frá sama degi. Jafnframt hefur verið lagt fram skjal sem ber yfirskriftina „Deed of Covenant“, dags. sama dag, sem var gefið út „í þágu“ (e. in favor of) einstakra reikningseigenda í Clearstream og Euroclear. Þetta skjal liggur fyrir í þýðingu löggilts skjalaþýðanda og ber þá yfirskriftina „Skuldbindingarskjal“. Þar er fjallað um vörslu allsherjarskuldabréfa og útgáfu svonefndra undirliggjandi skuldabréfa (e. Underlying Notes) sem reikningseigendur í framangreindum greiðslukerfum (e. Clearing System) geti verið skráðir fyrir. Í greinargerð stefnda eru undirliggjandi skuldabréf af þessum toga almennt kölluð hagsmunaeign og er þá vísað til þess að um sé að ræða hagsmunaeign í allsherjarskuldabréfi. Í dóminum er þó víða notað hugtakið hlutdeild í þessu samhengi. Þeir aðilar sem eru skráðir í greiðslukerfum fyrir hagsmunaeign eða hlutdeild í viðkomandi allsherjarskuldabréfi eru hins vegar almennt nefndir hagsmuna- eða hlutdeildareigendur bæði í gögnum málsins og víða í dóminum. Þess er getið í skuldbindingarskjalinu að allsherjarskuldabréf geti fallið úr gildi við tilteknar aðstæður sem gerð væri grein fyrir í útgáfulýsingu, en við það öðluðust reikningseigendur tiltekin réttindi gagnvart útgefanda.          Meðal skuldabréfa sem heimilt var að gefa út á grundvelli útgáfulýsingarinnar voru víkjandi skuldabréf (e. Subordinated Notes) samkvæmt nánari ákvæðum í verðviðauka. Í útgáfulýsingunni er fjallað sérstaklega um víkjandi stöðu samkvæmt slíkum skuldabréfum. Þar segir í íslenskri þýðingu að þess háttar skuldabréf feli í sér „ótryggðar og óskilyrtar skuldbindingar útgefanda, sem eru í víkjandi stöðu í samræmi við og í skilningi 84. gr. X. kafla (Laust fé og eigið fé) laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 („lögin“) og njóta jafnrar rétthæðar án nokkurs innbyrðis forgangs sín á milli“. Í ákvæðinu er því næst gerð grein fyrir því með hvaða hætti víkjandi skuldabréf komi til greiðslu ef útgefandi verður tekinn til skipta. Segir þar að víkjandi skuldabréf komi þá til greiðslu á eftir öðrum kröfum sem ekki eru víkjandi, a.m.k. á sama tíma og víkjandi skuldbindingar í skilningi 84. gr. laga nr. 161/2002, en áður en hlutafé eða sambærilegt eigið fé útgefanda er greitt. Þá skuldbatt útgefandi sig til þess að stofna ekki til víkjandi skuldbindinga „með öðrum hætti en í samræmi við og í skilningi“ 84. gr. laga nr. 161/2002. Að lokum segir í ákvæðinu orðrétt: „Ákvæði þessarar greinar 2(b) heyra undir og skulu túlkuð í samræmi við íslensk lög.“          Í útgáfulýsingunni kemur fram að útgefandinn og umsýsluaðili hafi átt að líta á þá sem skráðir væru hjá Euroclear eða Clearstream sem eigendur (e. holder) tiltekinna nafnverðsfjárhæðar skuldabréfa, sem eigendur þeirra í öllu tilliti. Þetta átti þó ekki við um greiðslu höfuðstóls eða vaxta, en í því tilviki skyldi útgefandi og umsjónaraðili greiðslna líta á handhafa allsherjarskuldabréfsins (e. bearer) sem eiganda. Samkvæmt d-lið 6. gr. útgáfulýsingarinnar var handhafi allsherjarskuldabréfsins eini aðilinn sem átti rétt á því að taka við greiðslum af skuldabréfum sem heyrðu undir viðkomandi allsherjarskuldabréf. Skráðir hlutdeildareigendur gátu aftur á móti einungis krafið Euroclear eða Clearstream um sína hlutdeild í greiðslum útgefanda til handhafa allsherjarskuldabréfsins.          Í 18. gr. útgáfulýsingarinnar kemur fram að túlka skuli umsýslusamninginn, skuldbindingarskjalið, skuldabréfin að undanskildum skilmálum greinar 2(b), höfuðstólsmiða og vaxtamiða, í samræmi við ensk lög. Sérstaklega var tekið fram að skilmáli 2(b) heyrði undir og bæri að túlka í samræmi við íslensk lög. Í skuldbindingarskjalinu frá 28. apríl 2004 var einnig kveðið á um að efni þess lyti enskum lögum og að það skyldi túlkað í samræmi við ensk lög.          Á grundvelli framangreindra gagna gaf stefnandi út verðviðauka 28. júní 2004 vegna samtals 300 milljóna evra víkjandi skuldabréfa með breytilegum stighækkandi vöxtum (e. Floating Rate Subordinated Step-Up Notes). Lokagjalddagi átti að vera 30. júní 2014. Vextir voru ákveðnir þriggja mánaða EURIBOR með 0,65% álagi, sem skyldi hækka í 1,65% álag frá og með júní 2009. Gjalddagar vaxta voru fjórum sinnum á ári, 30. mars, 30. júní, 30. september og 30. desember ár hvert. Samkvæmt verðviðaukanum gat útgefandi innleyst skuldabréfin á nafnverði á gjalddaga vaxta í júní 2009 og á öðrum vaxtagjalddögum eftir það. Eins og áður segir var nafnverð skuldabréfanna 300 milljónir evra en útgáfuverðið nam 99,764% samanlagðs nafnverðs eða 298.242.000 evrum. Skuldabréfin sem gefa átti út samkvæmt verðviðaukanum báru ISIN-númerið XS 0194805429.          Skuldabréf, þ.e. hlutdeild í allsherjarskuldabréfi, gátu gengið kaupum og sölum á markaði. Í h-lið 7. gr. útgáfulýsingarinnar var kveðið á um að útgefandi eða dótturfélag útgefanda gæti hvenær sem er „keypt skuldabréf á hvaða verði sem er á frjálsum markaði eða á annan hátt“. Þá segir þar að útgefanda væri heimilt að eiga keypt skuldabréf, endurútgefa þau, endurselja eða, „að vali útgefanda, afhenda hvaða umsjónaraðila greiðslna sem er til niðurfellingar“. Um niðurfellingu (e. Cancellation) segir í i-lið sömu greinar að öll innleyst skuldabréf yrðu án tafar felld úr gildi. Síðan segir orðrétt: „Öll skuldabréf sem þannig eru felld niður og öll skuldabréf sem eru keypt og niðurfelld samkvæmt málsgrein (h) að ofan ... skulu framsend umsýsluaðila og verða hvorki endurútgefin né endurseld.“          Mál þetta lýtur að kaupum stefnanda á þremur hlutdeildum í skuldabréfaflokki með framangreindu ISIN-númeri XS 0194805429. Stefnandi hefur lagt fram skjal um fyrstu viðskiptin, sem hann nefnir kaupnótu. Telur hann kaupnótuna vera til marks um sölu stefnda á hlutdeild að nafnvirði 20 milljónir evra í þessum skuldabréfaflokki, en heiti stefnda er efst á nótunni. Á skjalinu kemur fram að stefnandi staðfesti sölu stefnda á framangreindri eign 12. ágúst 2008 fyrir 86% af nafnverði eða sem nemur 17.200.000 evrum. Við þá fjárhæð bættust áfallnir vextir að fjárhæð 143.238,89 evrur. Samtals nam umsamin greiðsla því 17.343.238,89 evrum. Fram kemur á kaupnótunni að uppgjörsdagur (e. Settlement date) væri 15. ágúst 2008. Þá segir þar að viðskiptatími (e. Trade Time) hafi verið kl. 16.32.          Stefndi hefur lagt fram í málinu frekari gögn um samskipti starfsmanna aðila 12. ágúst 2008 á Bloomberg samskiptakerfinu sem luku með því að samið var um sölu viðkomandi hlutdeildar í allsherjarskuldabréfinu. Af þeim gögnum virðist mega ráða að starfsmaður stefnanda hafi átt frumkvæði að viðskiptunum. Hófust samskiptin með því að starfsmaður stefnanda leitaði upplýsinga um þá fjárhæð sem stefndi væri reiðubúinn að selja. Kvaðst starfsmaður stefnda þá tilbúinn til þess að selja fyrir 10 milljónir evra eða meira. Starfsmaður stefnanda óskaði þá upplýsinga um hvað stefndi væri reiðubúinn að selja mikið, því hann vildi gera „viðskiptavini sínum“ grein fyrir því. Kvaðst starfsmaður stefnda þá hafa 20 milljónir evra til sölu. Nokkrum mínútum síðar upplýsir starfsmaður stefnanda að hann bjóði 86% í þessar 20 milljónir evra. Starfsmaður stefnda samþykkti það með skeyti kl. 13.07 sama dag. Í kjölfarið kveðst stefndi hafa gefið út svonefndan viðskiptamiða þar sem í meginatriðum koma fram sömu upplýsingar og á kaupnótunni.          Stefndi hefur einnig lagt fram samskipti á Bloomberg samskiptakerfinu frá 18. ágúst 2008 þar sem sami starfsmaður stefnanda spyr starfsmann stefnda hvort stefndi viti um fleiri „KAUP paper“ til sölu. Starfsmaður stefnda kveðst vera með „4.250M“ í framangreindri skuldabréfaútgáfu.          Stefnandi hefur einnig lagt fram kaupnótu sem hann telur að sé til marks um sölu stefnda á hlutdeild að nafnvirði 5 milljónir evra í sama skuldabréfaflokki, en heiti stefnda er efst á nótunni. Eins og á fyrri kaupnótunni staðfestir stefnandi þar sölu stefnda á framangreindri eign 9. september 2008 fyrir 88,25% af nafnverði eða sem nemur 4.412.500 evrum. Við þá fjárhæð bættust áfallnir vextir að fjárhæð 57.606,94 evrur. Samtals nam umsamin greiðsla því 4.470.106,94 evrum. Fram kemur á kaupnótunni að uppgjörsdagur (e. Settlement date) væri 12. september 2008. Þá segir þar að viðskiptatími (e. Trade Time) hafi verið kl. 16.17. Ekki liggja fyrir frekari gögn um samskipti aðila er tengjast þessum viðskiptum. Hins vegar er ágreiningslaust að þau fóru fram milli aðila eins og kaupnótan ber með sér.          Til marks um þriðju viðskiptin í málinu hefur stefnandi lagt fram kaupnótu sem aðilar deila ekki um að sé til marks um sölu stefnda á hlutdeild að nafnvirði 4.250.000 evrur í sama skuldabréfaflokki og fyrri viðskiptin lutu að. Eins og á fyrri kaupnótum staðfestir stefnandi þar sölu stefnda á framangreindri eign sem fram fór 10. september 2008 fyrir 88,25% af nafnverði eða sem nemur 3.750.625 evrum. Við þá fjárhæð bættust áfallnir vextir að fjárhæð 50.951,01 evra. Samtals nam umsamin greiðsla því 3.801.576,01 evru. Fram kemur á kaupnótunni að uppgjörsdagur (e. Settlement date) sé 15. september 2008. Þá segir þar að viðskiptatími (e. Trade Time) hafi verið kl. 11.36. Ekki liggja fyrir frekari gögn um samskipti aðila um þessi viðskipti.          Í máli þessu er ágreiningslaust að löggerningar þeir sem málið lýtur að hafi verið efndir í gegnum Euroclear greiðslumiðlunarkerfi á tilgreindum uppgjörsdögum, þar sem umræddar fjárhæðir voru færðar milli reikninga aðila sem og skráð eignarhald á viðkomandi hlutdeildum í allsherjarskuldabréfi. Fram kemur í stefnu og í yfirlýsingu endurskoðanda stefnanda að í kjölfar þessara þriggja viðskipta hafi skuldir stefnanda verið færðar niður um sem nam 29.250.000 evrum í reikningum bankans.          Eins og rakið er í stefnu sagði stjórn stefnanda af sér 8. október 2008. Daginn eftir neytti Fjármálaeftirlitið heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í stefnanda og setja yfir hann skilanefnd. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2008 var stefnanda veitt heimild til greiðslustöðvunar sem var framlengd með úrskurði 13. nóvember 2009. Lögum nr. 161/2002 var breytt með lögum nr. 44/2009, sem tóku gildi 22. apríl 2009. Stefnanda var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 á grundvelli ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa 6. júlí 2009 og er frestdagur við slitameðferð stefnanda 15. nóvember 2008. Fram kemur í stefnu að við það sé miðað að upphafsdagur slitameðferðarinnar sé gildisdagur laga nr. 44/2009. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010 lá fyrir dómsúrskurður um slitameðferð stefnanda.          Umboðsmaður stefnanda í Lundúnum ritaði útibúi stefnda þar í borg bréf, dags. 8. desember 2011, þar sem óskað var upplýsinga um framangreind viðskipti, þ. á m. hvort stefndi teldi sig réttan aðila að þeim. Með bréfi útibúsins 6. janúar og 14. febrúar 2012 voru þau svör veitt að stefndi hefði verið gagnaðili í umræddum viðskiptum. Með bréfi 23. apríl 2012 lýsti stefnandi því yfir að greiðslunum væri rift og var stefndi krafinn um greiðslu 25.614.921,84 evra.   III 1. Málsástæður og lagarök stefnanda          Stefnandi rökstyður aðild sína að málinu með vísan til þess að hann sé fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Bendir hann á að samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, megi við slitameðferð stefnanda krefjast riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Öll ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., gildi við slitameðferðina með sama hætti og við hefðbundin gjaldþrotaskipti.          Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á því að greiðslur sem hann innti af hendi til stefnda hafi verið greiddar fyrr en eðlilegt var, en slíkar greiðslur séu riftanlegar skv. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Telur stefnandi að þau þrjú skilyrði sem tilgreind eru í ákvæðinu séu fyrir hendi.          Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að greiðslurnar hafi átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Frestdagur við slitameðferð stefnanda sé 15. nóvember 2008. Stefnandi hafi greitt skuld sína við stefnda 15. ágúst, 12. september og 15. september 2008 og þannig hafi greiðslurnar átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Leggur stefnandi áherslu á að það tímamark sem miða beri við samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 sé þegar afhending fjármuna fari fram.          Í öðru lagi byggir stefnandi á því að greiðslurnar hafi verið inntar af hendi fyrr en eðlilegt var. Stefnandi tekur fram að stefndi hafi verið rétthafi skuldabréfs í útgáfu stefnanda nr. XS194805429, en skuldabréfið hafi verið á gjalddaga 30. júní 2014. Stefnandi hafi greitt stefnda skuld sína með þremur greiðslum í ágúst og september 2008. Stefndi hafi þannig fengið kröfu sína samkvæmt skuldabréfinu greidda tæplega sex árum fyrir gjalddaga. Stefnandi byggir á því að skuld sem greidd sé fyrir gjalddaga teljist almennt hafa verið greidd fyrr en eðlilegt var í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991.          Stefnandi ítrekar enn fremur að 8. október 2008 hafi stjórn hans sagt af sér og að 9. sama mánaðar hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafafundar í stefnanda og sett yfir hann skilanefnd. Hafi stefnandi verið tekinn til slitameðferðar í kjölfarið. Stefnandi heldur því fram að ef ekki hefði komið til hinnar riftanlegu greiðslna hefði stefndi aldrei fengið kröfu sína greidda á gjalddaga, hvorki í heild né að hluta. Stefndi hefði þess í stað eignast kröfu við slitameðferð stefnanda. Ljóst sé að við slitameðferð stefnanda muni almennar kröfur ekki greiðast að fullu og ekki fyrr en löngu eftir gjalddaga. Bendir stefnandi á að það raski jafnræði kröfuhafa við slitameðferð stefnanda ef sumir þeirra, sem með réttu hefðu átt að eiga kröfu við slitameðferðina, fá kröfur sínar greiddar að fullu. Með því hafi stefnandi mismunað kröfuhöfum. Þannig hafi greiðsla stefnanda verið til hagsbóta með ótilhlýðilegum hætti fyrir stefnda á kostnað annarra kröfuhafa. Með því að rifta greiðslunum leitist stefnandi þannig við að skapa jafnræði milli kröfuhafa. Gangi kröfur stefnanda eftir muni stefndi njóta jafns réttar á við sambærilega kröfuhafa.          Í þriðja lagi telur stefnandi ekki liggja fyrir að greiðslan hafi verið eðlileg eftir atvikum, sbr. niðurlag 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Telur stefnandi að þessi liður greinarinnar feli í sér undantekningu sem beri að skýra þröngt, auk þess sem hann leggur áherslu á að stefndi beri sönnunarbyrðina um að hún eigi við.          Stefnandi tekur fram að til þess að undantekningin í 134. gr. laganna um að greiðsla „hafi virst venjuleg eftir atvikum“ geti mögulega átt við hafi greiðsla sem þessi, þar sem skuld er greidd löngu fyrir gjalddaga, m.a. þurft að vera venjuleg í viðskiptum milli aðila. Uppgreiðsla skuldabréfa fyrir gjalddaga hafi ekki verið venjuleg í viðskiptum milli stefnanda og stefnda.          Af hálfu stefnanda er á það bent að jafnvel þótt hann hafi haft heimild til þess að kaupa skuldabréf samkvæmt hefðbundnum skilmálum þess þá breyti það því ekki að greiðslurnar séu riftanlegar. Ákvæði sem heimili skuldara að kaupa eigin skuld hafi sömu réttaráhrif og uppgreiðsluheimild. Ekki sé hægt að fallast á að ákvæði í skuldabréfi, um að þrátt fyrir tilgreindan gjalddaga megi eða beri ávallt að greiða upp skuldina fyrr, gangi framar riftunarreglu 134. gr. gjaldþrotalaga. Ef sú væri raunin væri ávallt hægt að semja sig undan riftunarreglunum.          Stefnandi tekur fram að með þessu sé því ekki haldið fram að innlausnar- og endurkauparéttur sé almennt ólögmætur í skuldabréfum. Að sjálfsögðu sé lögmætt að áskilja slíkan rétt, bæði fyrir skuldara og kröfuhafa. Slík samningsákvæði víki þó fyrir riftunar­reglum gjaldþrotalaganna. Þá skipti ekki máli gagnvart riftunarreglum gjaldþrotalaganna þó að greiðsla á skuld myndi almennt teljast lögmæt að öllu leyti. Ráðstöfun geti verið riftanleg á þeim grundvelli jafnvel þó að hún hafi ekki verið ólögmæt, sviksamleg eða saknæm af hálfu þeirra sem stóðu að henni.          Stefnandi bendir jafnframt á að riftun á greiðslu skuldar sé ekki ætlað að ógilda skuldabréfin eða aðra löggerninga sem hafi verið grundvöllur að því að skuld stefnanda við stefnda var greidd fyrir gjalddaga. Riftunin beinist eingöngu að því að hnekkja greiðslunum sjálfum og endurheimta í peningum hagnað eins kröfuhafa sem sé á kostnað annarra og raski hún þannig að óbreyttu jafnræði kröfuhafa.          Stefnandi getur þess einnig að riftunarregla 134. gr. gjaldþrotalaga sé hlutlæg regla sem leiði til riftunar þrátt fyrir að löggerningar að baki greiðslu skuldar hafi verið lögmætir og allir aðilar hafi verið í góðri trú. Meginreglan sé sú að huglæg afstaða skuldara eða kröfuhafa skipti engu máli fyrir riftun greiðslunnar.          Stefnandi telur að ráða megi af öllu framangreindu að uppgreiðsla skuldanna tæplega sex árum fyrir gjalddaga hafi ekki verið „eðlileg eftir atvikum“. Ekkert í viðskiptasambandi aðila hafi gefið tilefni til að ætla að slík venja væri í gildi og þess háttar uppgjör skulda hafi ekki tíðkast áður milli stefnanda og stefnda. Þá hafi engin skylda hvílt á stefnanda, hvorki samkvæmt lögum né samningum, til að greiða bréfin fyrir gjalddaga þeirra. Það sé stefnda að sýna fram á að greiðslur skuldanna, sem óumdeilanlega hafi verið inntar af hendi fyrir gjalddaga, séu þrátt fyrir allt venjulegar eftir atvikum.          Stefnandi kveður kröfu sína um endurgreiðslu byggjast á 142., sbr. 143. gr. gjaldþrotalaga. Stefnandi telur að greiðslurnar 15. ágúst, 12. september og 15. september 2008 hafi orðið til þess að stefndi hafi auðgast um sem nam 25.614.921,84 evrum. Stefndi hefði ekki fengið kröfurnar greidda á gjalddaga, en þess í stað eignast kröfu við slitameðferð stefnanda. Tjón stefnanda nemi sömu fjárhæð og auðgun stefnda. Skilyrði fyrir endurgreiðslu á grundvelli 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga séu því fyrir hendi.          Stefnandi krefst dráttarvaxta af allri fjárhæðinni frá og með mánuði eftir að stefnda hafi verið sent kröfubréf 23. apríl 2012. Dráttarvaxtakrafan eigi sér stoð í III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.   2. Málsástæður og lagarök stefnda          Af hálfu stefnda er gerð athugasemd við lýsingu stefnanda í stefnu á uppbyggingu þeirra skuldabréfa sem um ræðir. Leggur stefndi áherslu á að samkvæmt skilmálum útgáfulýsingarinnar og verðviðaukans hafi stefnandi ekki gefið út skuldabréf til hvers og eins fjárfestis í bréfunum. Þess í stað hafi stefnandi gefið út eitt allsherjarskuldabréf (e. Global Note) að nafnvirði 300 milljónir evra á grundvelli verðviðaukans 28. júní 2004. Þetta allsherjarskuldabréf hafi verið gefið út til sameiginlegs vörsluaðila (e. Common Depositary) sem hafi verið tilnefndur af uppgjörskerfinu, en honum sé jafnan lýst sem „handhafa“ (e. bearer) allsherjarskuldabréfsins. Í þessu máli hafi allsherjarskuldabréfið verið í vörslu hjá uppgjörskerfunum Euroclear og Clearstream í Lúxemborg. Kveðst stefndi aðeins hafa átt í viðskiptum með hagsmunaeign í þessu allsherjarskuldabréfi. Þegar viðskipti eigi sér stað með slíka hagsmunaeign í gegnum uppgjörskerfi á alþjóðlegum verðbréfamarkaði skipti hið eiginlega skuldabréf, þ.e. allsherjarskuldabréfið, aldrei um hendur, heldur sé það ávallt í eigu „tilnefnds aðila“ eða „handhafa“.          Stefndi kveður ljóst af útgáfulýsingunni að handhafi allsherjarskuldabréfsins hafi átt að taka við greiðslum útgefanda á höfuðstól og vöxtum, en ekki þeir sem hafi verið skráðir eigendur hagsmuna í allsherjarskuldabréfinu. Sú skylda hafi síðan hvílt á handhafa allsherjarskuldabréfsins að greiða hagsmunaeigendum í gegnum uppgjörskerfi. Hafi hagsmunaeigendur einungis getað leitað til Euroclear eða Clearstream í Lúxemborg til að fá sína hlutdeild í hverri greiðslu af þessum toga. Hagsmunaeigendur hafi hins vegar aldrei átt kröfu á hendur útgefanda. Af þessu dregur stefndi þá ályktun að útgefandi og hagsmunaeigandi í skuldabréfinu hafi ekki verið í beinu skuldarsambandi.          Stefndi kveður tilganginn með þessari uppbyggingu skuldabréfaútgáfunnar hafa verið að einfalda útgáfu, viðskipti og endurgreiðslur á alþjóðlegum verðbréfamarkaði. Stefnandi hafi ekki þurft að láta sig varða hverjir væru hagsmunaeigendur í allsherjarskuldabréfinu, heldur einfaldlega getað innt greiðslur af hendi til Euroclear og Clearstream í Lúxemborg. Hafi stefnandi ætlað sér að endurgreiða heildarskuldina samkvæmt allsherjarskuldabréfinu (þ.e. innleysa skuldabréfið (e. Redemption) eins og sú aðgerð sé skilgreind í útgáfulýsingunni) hefðu stefnandi og umboðsmaður greiðslna (e. Paying Agent) ekki greitt neina fjárhæð til stefnda eða annarra hagsmunaeigenda í allsherjarskuldabréfinu, heldur aðeins eina greiðslu til handhafa allsherjarskuldabréfsins. Þessi fjárhæð hefði síðan verið millifærð áfram í gegnum Euroclear eða Clearstream og á endanum til hagsmunaeigenda í allsherjarskuldabréfinu.          Af hálfu stefnda er því mótmælt að viðskiptin sem um ræðir og greiðslurnar sem fylgdu í kjölfarið hafi falið í sér endurgreiðslu eða innlausn skuldabréfanna. Ekki hafi verið um að ræða innlausn samkvæmt skilmálum útgáfulýsingarinnar heldur kaup. Vísar stefndi þar til greinar 7(h) í útgáfulýsingunni, en aðrir stafliðir geti ekki átt við, eins og nánar er fjallað um í greinargerð stefnda. Þannig hafi viðskiptin, sem voru undanfari greiðslnanna, falið í sér að stefnandi hafi keypt hagsmuni í allsherjarskuldabréfi á markaðsvirði. Samkvæmt grein 7(h) í útgáfulýsingunni hafi stefnandi mátt halda eftir, endurútgefa, endurselja eða afhenda hagsmunaeignina í allsherjarskuldabréfinu í kjölfar kaupanna. Samsvarandi skuld hafi því ekki sjálfkrafa fallið niður eða hún verið afskráð með því að stefnandi eignaðist hagsmunaeignina í kjölfar viðskiptanna. Af i-lið sömu greinar megi einnig ráða að afskráning hafi verið aðskilin athöfn. Þannig hefði stefnandi þurft að afskrá bréfin í samvinnu við umboðsmann greiðslna og Euroclear eða Clearstream til þess að fella niður hina undirliggjandi skuld samkvæmt allsherjarskuldabréfinu. Byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki gert það, heldur kosið að eiga hagsmunaeignina eftir kaupin. Skuldin hafi þannig enn þá verið útistandandi.          Stefndi reisir sýknukröfu sína í meginatriðum á því að skilyrðum sé ekki fullnægt til þess að verða við kröfum stefnanda um riftun greiðslnanna. Tekur stefnandi fram að umrædd viðskipti hafi farið fram í samræmi við armslengdarsjónarmið, sameiginlega viðskiptahagsmuni stefnanda og gagnaðila hans, venjubundna markaðshegðun og viðeigandi samningsskilmála. Að öðru leyti hafi sameiginlegir hagsmunir ekki verið til staðar og engin persónuleg tengsl verið milli stefnda og eigenda stefnanda eða starfsfólks hans.          Af hálfu stefnda er sýknukrafan í fyrsta lagi reist á því að viðskiptin hafi, eins og lýst hefur verið, ekki falið í sér snemmbúna endurgreiðslu skuldabréfanna líkt og stefnandi haldi fram, heldur hafi þar verið um að ræða einföld viðskipti með hagsmuni í allsherjarskuldabréfi á almennum markaði. Stefndi telur mikilvægt í því sambandi að gera greinarmun á samningsákvæðum um innlausn (e. redemption), þar sem fjallað sé um einhliða heimild Kaupþings til þess að innkalla og endurgreiða skuldabréf, og ákvæðum um kaup (e. purchase), þar sem tvíhliða samningar séu gerðir á markaði um sölu hagsmuna í allsherjarskuldabréfi, eins og raunin hafi verið í því máli sem hér um ræði.          Stefndi vísar í þessu sambandi til fyrrgreindrar greinar 7(h) í útgáfulýsingunni. Sé ákvæðið lesið í samræmi við önnur ákvæði útgáfulýsingarinnar telur stefndi ljóst að kaup stefnanda á hagsmunaeign stefnda í allsherjarskuldabréfinu geti ekki talist innlausn bréfanna. Í þessu tilliti tekur stefndi sérstaklega fram að hefðu kaup stefnanda á hagsmunaeigninni haft þær afleiðingar að skuld samkvæmt allsherjarskuldabréfinu hefði sjálfkrafa fallið niður, þá hefði það þýtt að stefnandi hefði aldrei getað „endurútgefið“ eða „áframselt“ bréfin eins og gert sé ráð fyrir í fyrrgreindu ákvæði í útgáfulýsingunni. Þetta myndi leiða til þess að samningsákvæðið væri algerlega merkingarlaust. Slíkri túlkun verði að hafna.          Stefndi bendir einnig á að kaup stefnanda á skuldabréfunum hefðu aldrei getað leitt sjálfkrafa til þess að felld yrði niður samsvarandi skuld samkvæmt skuldabréfunum, enda hafi hvorki umboðsmaður greiðslna (e. Paying Agent), sameiginlegur vörsluaðili né viðkomandi uppgjörskerfi (Euroclear eða Clearstream) haft nokkra vitneskju um að kaupin hafi farið fram eða að þau ættu að leiða til „sjálfvirkrar afskráningar“. Skilmálar útboðslýsingarinnar kveði með ítarlegum hætti á um ferli afskráningar (e. cancellation) sem ganga þurfi í gegnum ef fella á niður samsvarandi skuld samkvæmt allsherjarskuldabréfinu. Þetta ferli gangi m.a. út á að allir þeir aðilar sem hafi skyldum að gegna varðandi greiðslur samkvæmt bréfunum séu upplýstir um það ef hluti skuldarinnar er felldur niður, enda þurfi að taka tillit til slíkrar niðurfellingar á næsta gjalddaga bréfanna.          Stefndi tekur einnig fram að framkvæmd hvers konar innlausnar eða endurgreiðslu allsherjarskuldabréfsins hefði verið verulega frábrugðin því sem átt hafi sér stað í hinum umþrættu viðskiptum. Til dæmis hefði innlausn alltaf farið fram í samræmi við reikniregluna í ákvæði 7(e) í útgáfulýsingunni, en hin umþrættu viðskipti hafi farið fram á allt öðru verði sem hafi verið sérstaklega umsamið og hafi verið í samræmi við markaðsvirði á eftirmarkaði. Ef um innlausn hefði verið að ræða hefði stefnandi heldur ekki greitt stefnda líkt og raunin var, heldur umboðsmanni greiðslna (e. Paying Agent, Deutche Bank S.A. Lúxemborg í þessu tilviki) sem hefði í kjölfarið millifært greiðsluna áfram til sameiginlega vörsluaðilans sem handhafa allsherjarskuldabréfsins. Á endanum hefði greiðslan síðan farið í gegnum viðkomandi uppgjörskerfi til hagsmunaeigenda í allsherjarskuldabréfinu.          Jafnframt bendir stefndi á að engin gögn gefi til kynna að stefnandi hafi keypt hagsmuni í allsherjarskuldabréfinu í því skyni að halda þeim fyrir eigin reikning og síðar afskrá (e. cancel) þau í samræmi við ákvæði 7(i) í útgáfulýsingunni. Þvert á móti bendi gögn, sem stefndi hafi lagt fram, til þess að stefnandi hafi í viðskiptunum komið fram fyrir hönd þriðja aðila og hafi samtímis ætlað að selja viðskiptavini sínum áfram hagsmunaeignina. Hlutverk stefnanda í viðskiptunum virðist því hafa verið hlutverk viðskiptavaka. Þá bendir stefndi á að enginn hluti af skuldabréfinu hafi verið afskráður af stefnanda.          Stefndi tekur fram að á alþjóðlegum verðbréfamarkaði hafi flestir útgefendur skuldabréfa hag af virkum eftirmarkaði með bréfin. Svokölluð auðseljanleg (e. liquid) bréf séu almennt seld á hærra verði og fjárfestar telji nýjar skuldabréfaútgáfur slíkra útgefenda góðan fjárfestingarkost. Því sé alvanalegt að fjármálafyrirtæki bjóði í og kaupi bréf sem þau hafi sjálf gefið út. Slík viðskipti fari fram á skuldabréfamarkaði/eftirmarkaði (e. secondary market) og séu aðskilin frá sjálfri skuldabréfaútgáfunni og afborgunum af skuldabréfunum.          Til viðbótar við framangreint telur stefndi að hafa verði í huga að skuldabréfin hafi verið eftirstæð, sem styrki þá málsástæðu að viðskiptin hafi ekki verið fólgin í innlausn eða endurgreiðslu skuldabréfanna. Eftirstæð skuldabréf af þessum toga hafi verið hluti af eigin fé Kaupþings. Ákvæði 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem beri yfirskriftina „Skilgreining eigin fjár“, taki m.a. til bréfanna. Samkvæmt 6. mgr. ákvæðisins séu ákveðin víkjandi lán (þ.e. til lengri tíma en 5 ára) hluti af eiginfjárþætti B. Enn fremur segi í 8. mgr. 84. gr. laganna að heimilt sé að „flýta endurgreiðslu víkjandi lána æski lántaki þess, enda liggi fyrir samþykki Fjármálaeftirlitsins og slík endurgreiðsla hafi ekki óviðunandi áhrif á eiginfjárstöðu að mati þess“. Þetta skilyrði íslenskra laga endurspeglist í skilyrði um fyrir fram samþykki Fjármálaeftirlitsins í tengslum við skilmála útgáfulýsingarinnar um innlausn, sbr. ákvæði 6. Stefnandi hafi ekki haldið því fram eða lagt fram gögn þess efnis að hann hafi óskað eftir heimild frá Fjármálaeftirlitinu í tengslum við viðskiptin eða um að það hafi verið skylt. Hefðbundin markaðsviðskipti með slík eftirstæð bréf séu aftur á móti ekki á nokkurn hátt takmörkuð, jafnvel þegar útgefandinn er kaupandi. Þetta styrki enn frekar rök þess efnis að hvorki stefnandi, stefndi né Fjármálaeftirlitið hafi litið á viðskiptin sem endurgreiðslur fyrir gjalddaga.          Stefndi reisir sýknukröfu sína einnig á því að uppgjör viðskipta aðila hafi farið fram í gegnum hið alþjóðlega viðskipta/uppgjörskerfi Euroclear. Euroclear sé viðurkennt greiðslu- og verðbréfauppgjörskerfi (e. Designated Payment and Security Settlement Systems) samkvæmt 10. gr. Evróputilskipunar um endanlegt uppgjör nr. 98/26/EB. Með lögum nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum, hafi framangreind EB tilskipun verið innleidd í íslensk lög. Eitt af markmiðum laganna samkvæmt athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu, hafi verið að tryggja að uppgjör, sem fram færi í greiðslukerfum fyrir fjármagnsmarkaðinn, væri einangrað frá t.d. riftunarreglum laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti.          Í samræmi við þetta markmið laganna, kveði 4. gr. þeirra, sem innleitt hafi 3. gr. tilskipunarinnar, á um að öll greiðslufyrirmæli, svo og greiðslujöfnun, skuli vera að öllu leyti bindandi gagnvart þriðja aðila, jafnvel þó að bú þátttakanda sem fyrirmælin hafi gefið sé tekið til gjaldþrotaskipta, enda séu fyrirmælin komin til greiðslukerfisins áður en úrskurður um gjaldþrot sé kveðinn upp. Byggir stefndi á því að af þessu leiði að uppgjör sem hafi farið fram í greiðslukerfi sé ekki riftanlegt. Í máli þessu hafi viðskiptin farið fram í slíku greiðslukerfi. Þegar af þeirri ástæðu séu viðskiptin ekki riftanleg.          Stefndi byggir enn fremur sýknukröfu sína á því að skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt. Um það vísar hann m.a. til þess að það sé grunnskilyrði riftunar á grundvelli ákvæðisins að um sé að ræða greiðslu skuldar af hálfu þrotamanns áður en til gjaldþrots hafi komið. Því sé óhjákvæmilegt að um skuldarsamband hafi verið að ræða milli þrotabúsins og aðilans sem talinn er hafa notið góðs af umræddri ráðstöfun og jafnframt að ráðstöfunin hafi orðið til þess að hin undirliggjandi skuld hafi fallið niður.          Stefndi kveður stefnanda bera sönnunarbyrðina um þessi atriði en hann hafi ekki fullnægt þeirri skyldu sinni. Hafi stefnandi í engu reynt að útskýra samningssambandið milli þeirra aðila sem komi við sögu í tengslum við verðviðaukann og útgáfulýsinguna. Þar skipti mestu máli útgefandinn, handhafi allsherjarskuldabréfsins, umboðsmaður greiðslna og að sjálfsögðu hagsmunaeigendur í skuldabréfinu. Stefndi bendir á að réttarstaða þessara aðila ráðist af lögum Englands, sbr. ákvæði 18(a) í útgáfulýsingunni. Kveður hann stefnanda ekki leitast við að sýna fram á hver réttarstaðan sé að enskum lögum. Hann beri sönnunarbyrðina um efni þeirra réttarreglna, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem stefnandi hafi ekki rakið neinar málsástæður eða lagt fram nein sönnunargögn um ensk lög telur stefndi að stefnanda hafi ekki tekist að færa sönnur á hvort skuldarsamband hafi verið til staðar milli stefnanda og stefnda.          Stefndi heldur því fram ekki sé uppfyllt skilyrði 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga um að skuldarsamband sé milli aðila. Það ráðist af uppbyggingu skuldabréfanna samkvæmt verðviðaukanum og útgáfulýsingunni. Þar vísar stefndi til ákvæðis 1 í útgáfulýsingunni sem kveði á um að hagsmunaeigandi sé ekki handhafi allsherjarskuldabréfsins. Þá vísar stefndi sérstaklega til greinar 6(d) í útgáfulýsingunni, en þar segi að hagsmunaeigandi í skrám Euroclear eða Clearstream geti einungis leitað til Euroclear eða Clearstream hvað varðar sína hlutdeild í hverri greiðslu sem útgefandi inni sjálfur af hendi til, eða fyrir kröfu, handhafa allsherjarskuldabréfsins.          Stefndi byggir á því að þar sem bréfin hafi ekki stofnað til skuldar stefnanda við stefnda geti viðskiptin ekki talist greiðsla slíkrar skuldar. Af sömu ástæðu hafi viðskiptin ekki falið í sér samruna réttar og skyldu á grundvelli skuldabréfs og geti því ekki hafa falið í sér niðurfellingu skuldar. Stefndi bendir einnig á að stefnandi hafi ekki haldið því fram að slíkur samruni hafi orðið og verði slíku haldið fram af hálfu stefnanda sé sú málsástæða of seint fram komin.          Þar að auki geti viðskiptin sem um ræðir ekki hafa verið greiðsla á skuld þar sem í útgáfulýsingunni sé sérstaklega mælt fyrir um hvernig inna skuli af hendi greiðslur vegna skuldabréfanna eins og þegar hafi verið lýst. Nánar tiltekið hafi borið að greiða handhafa allsherjarskuldabréfsins en ekki einstökum hagsmunaeigendum. Viðskiptin og hinar umþrættu greiðslur sem komi í kjölfarið hafi ekki verið af þeim toga sem lýst sé í útgáfulýsingunni heldur hefðbundin „kaup“ sem útgáfulýsingin kveði skýrlega á um að séu heimiluð. Slík kaup leiði ekki sjálfkrafa til þess að skuld samkvæmt skuldabréfunum falli niður eða sé afskráð.          Stefndi kveður þessar málsástæður eiga sér jafnframt stoð í lögum Englands og vísar í því sambandi til framlagðrar álitsgerðar Ian Fletcher, prófessors við University Collage í London, sem og matsgerðar dómkvadds matsmanns, David Chivers QC, sem aflað var undir rekstri málsins. Við aðalmeðferð málsins áréttaði stefndi m.a. það sem áður segir að stefnandi hafi hvorki innleist né afskráð hluta allsherjarskuldabréfsins á móti fjárhæð hagsmunaeignar sem hann hafi keypt, heldur kosið að eiga hana áfram. Skuldin hafi því verið útistandandi. Engu breyti þó að stefnandi hafi talið sér heimilt að færa niður skuldir í kjölfar viðskiptanna í eigin kerfum og bókhaldi. Um þýðingu þessa vísaði stefndi til matsgerðar hins dómkvadda matsmanns, David Chivers QC. Þar sé tekið fram að þegar hagsmunaeign sé ekki nýtt til afskráningar á hluta skuldabréfsins sé útgefandi áfram ábyrgur fyrir greiðslu heildarfjárhæðarinnar. Bókhaldsleg meðferð hans skipti engu máli við mat á því hvort skuldin teljist niður fallin að enskum rétti. Þá hafi enginn samruni átt sér stað samkvæmt almennum reglum kröfuréttar, auk þess sem bindandi samningsákvæði samkvæmt enskum samningarétti hafi verið til staðar sem hafi kveðið á um að skuld falli ekki niður nema samkvæmt formbundnu ferli.          Stefndi mótmælir því einnig að greiðslurnar hafi farið fram fyrr en eðlilegt var. Ljóst sé að viðskiptin hafi verið almenn viðskipti á verðbréfamarkaði um sölu á hagsmunaeign í allsherjarskuldabréfi sem stefnandi hafi gefið út í samræmi við skilmála. Eins og áður segir hafi viðskiptin ekki falið í sér innlausn skuldabréfanna. Ákvæði 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga verði ekki beitt í málinu þar sem hin umþrættu viðskipti hafi falið í sér staðgreiðslukaup. Uppgjör viðskiptanna hafi farið fram þannig að hagsmunaeignir hafi verið afhentar gegn greiðslu í viðkomandi uppgjörskerfi. Hafi stefnandi einungis komið fram sem fjárfestir í viðskiptunum en ekki sem skuldari og hafi samið sérstaklega um kaupverðið.          Þá telur stefndi að kaupverðið hafi ekki verið greitt of snemma í ljósi kringumstæðna við viðskiptin 12. ágúst 2008, 9. september 2008 og 10. september 2008. Þvert á móti hafi greiðslur verið mótteknar á umsömdum uppgjörsdögum 15. ágúst 2008, 12. september 2008 og 15. september 2008. Uppgjör þremur virkum dögum síðar hafi verið í samræmi við venju á alþjóðlega skuldabréfamarkaðinum. Þegar samið hafi verið um viðskiptin hafi sérstaklega verið tekið fram að uppgjörsdagar væru framangreinda daga. Þessir uppgjörsdagar á kaupverðinu hafi verið óháðir skilmálum bréfanna í verðviðaukanum og útgáfulýsingunni. Greiðslurnar hafi þar af leiðandi ekki verið inntar af hendi fyrir gjalddaga heldur einmitt í samræmi við umsamda og hefðbundna framkvæmd og viðskiptalega hagsmuni.          Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að hinar umþrættu greiðslur hafi verið inntar af hendi fyrr en eðlilegt var í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991 byggir stefndi á því að greiðslurnar hafi verið venjulegar eftir atvikum, sbr. lokamálslið 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og því geti ekki komið til riftunar. Stefndi færir ítarleg rök fyrir þessari málsástæðu í greinargerð sinni. Þar er í meginatriðum á því byggt að við mat á þessu verði að líta til þess hvort greiðsla hafi í reynd verið óvenjuleg og hvort viðtakandi greiðslu hafi haft vitneskju um ógjaldfærni skuldara.          Hvað fyrra atriðið varðar kveður stefndi alvanalegt á alþjóðlegum skuldabréfamarkaði að útgefandi allsherjarskuldabréfs kaupi hagsmunaeign í skuldabréfi sem hann hafi gefið út, eins og fjölmörg gögn málsins gefi til kynna. Þá hafi þetta verið algengt í starfi stefnanda og yfirlýst stefna hans að kaupa eigin skuldabréf. Aðilar hafi átt í sambærilegum viðskiptum áður og þetta því alvanalegt í viðskiptum þeirra á milli. Viðskiptin hafi einnig farið fram á frjálsum markaði og í samræmi við útgáfulýsinguna. Kaupverðið hafi enn fremur verið eðlilegt og ákveðið á frjálsum markaði. Um hafi verið að ræða venjuleg staðgreiðsluviðskipti með fjármálagerning. Ekkert hafi gefið til kynna að stefnandi hygðist greiða með þeim skuld fyrr en eðlilegt var eða raska jafnræði kröfuhafa. Þvert á móti hafi samskipti aðila gefið til kynna að kaupin væru framkvæmd fyrir hönd viðskiptavinar stefnanda. Telur stefndi að viðskiptalegar forsendur hafi alfarið legið að baki viðskiptunum.          Varðandi síðara atriðið bendir stefndi á að ekkert hafi bent til þess, á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað, að stefnandi ætti í fjárhagserfiðleikum, hafi svo verið raunin. Um það atriði bendir stefndi m.a. til lánshæfismats matsfyrirtækja, sem liggi fyrir í málinu. Í greinargerð er til að mynda lagt upp úr matsskýrslum Moody‘s um stefnanda þar sem bankinn hafi verið með matseinkunnina A1 með stöðugum framtíðarhorfum á þessum tíma gagnvart almennum, óverðtryggðum skuldum. Það hafi ekki verið fyrr en 30. september 2008 sem matsfyrirtækið hafi merkt stefnanda sem „possible downgrade“, þ.e. að hugsanlega yrði einkunnin lækkuð úr A1 gagnvart almennum óverðtryggðum skuldum og úr A2 gagnvart eftirstæðum kröfum. Hafi mat Fitch á stefnanda verið svipað og hjá Moody‘s.          Auk þessara gagna um líkur á greiðslufalli vísar stefndi m.a. til þess að viðskipti með skuldabréf stefnanda hafi verið virk allt til loka september 2008. Stefnandi hafi og tekið önnur lán um það leyti sem hin umdeilda greiðsla fór fram. Það sýni að bankinn hafi verið í fullum rekstri sem alþjóðlegur banki og markaðsaðilar hafi haldið áfram að fjárfesta í stefnanda. Ekkert bendi því til þess að markaðurinn hafi talið líkur á falli bankans. Uppgjör bankans á fyrsta og öðrum ársfjórðungi 2008 hafi heldur ekki gefið annað til kynna en að fjárhagsstaða bankans væri sterk. Stefndi vísar því til stuðnings til ýmissa kennitalna m.a. í árshlutauppgjöri bankans frá 30. júní 2008. Þá vísar stefndi til ýmissa yfirlýsinga íslenskra yfirvalda sem hafi miðað að því að skapa traust á íslensku bönkunum, sem og álagsprófa Fjármálaeftirlitsins, m.a. frá 14. ágúst 2008. Að auki hafi markaðurinn tekið mikið mið af 500 milljóna evra skiptasamningi milli Seðlabanka Íslands, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar um miðjan maí 2008.          Stefndi byggir einnig á því að viðskiptin 12. ágúst, 9. september og 10. september 2008 og greiðslurnar sem fylgdu í kjölfarið, séu ekki riftanlegar að íslenskum rétti. Hvað sem því líður telur stefndi ljóst að um greiðslurnar gildi ensk lög og að í þeim lögum sé ekki að finna ógildingarreglu sem taki til greiðslnanna, sbr. n-lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Lög nr. 161/2002 séu sérlög að þessu leyti gagnvart lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og gangi því framar. Byggir stefndi á því að sú takmörkun, sem leiði af n-lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, eigi við með vísan til 104. gr. sömu laga sem hafi innleitt 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2001/24/EB. Þá vísar stefndi til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000 til stuðnings því að ensk lög gildi um viðskiptin. Þar komi fram komi að beita skuli lögum þess lands sem samningurinn hafi sterkust tengsl við. Bendir stefndi m.a. á að skilmálar skuldabréfanna hafi lotið enskum lögum. Samningar um verðbréfaviðskiptin hafi jafnframt verið gerðir við útibú stefnda í London sem hafi átt að efna aðalskylduna í viðskiptunum. Að lokum vísar stefndi til 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB því til stuðnings að ensk lög eigi við, en n-lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 beri að túlka til samræmis við umrætt ákvæði tilskipunarinnar.          Stefndi rökstyður þá ályktun sína að ensk lög heimili ekki riftun greiðslna einkum með tilvísun til matsgerðar dómkvadds matsmanns, David Chivers QC, sem aflað hafi verið undir rekstri málsins. Þar sé farið yfir þær reglur enskra gjaldþrotalaga frá 1986 sem mögulega geti átt við. Matsmaðurinn hafi útilokað að 224. gr. og 245. gr. laganna komi til álita. Þá verði í ljósi niðurstöðu matsmannsins að draga þá ályktun að skilyrði 239. gr. laganna um ívilnun séu ekki fyrir hendi m.a. vegna þess að stefnandi hafi ekki sýnt neinn vilja til þess að ívilna stefnda ef til gjaldþrots kæmi. Stefndi vísar og til matsgerðarinnar því til stuðnings að skilyrði 423. gr. sömu laga séu ekki fyrir hendi, enda hafi greiðslurnar ekki verið inntar af hendi á undirverði auk þess sem stefnandi hafi ekki verið að reyna að koma eignum undan öðrum kröfuhöfum. Stefndi byggir einnig á því að skilyrði 238. gr. ensku gjaldþrotalaganna séu ekki fyrir hendi þar sem hagsmunaeignirnar í allsherjarskuldabréfinu hafi verið seldar á markaðsvirði og að stefnandi hefði getað framselt eignirnar næsta dag á markaði. Jafnframt sé á því byggt að ákvæði 238. gr., 239. gr. og 423. gr. ensku gjaldþrotalaganna leiði ekki til riftunar þegar greiðsla hafi verið innt af hendi í góðri trú og í þeim tilgangi að viðhalda starfsemi greiðanda þegar hann hefur haft réttmætar ástæður til þess að ætla að hann hefði hag af viðskiptunum. Í því sambandi bendir stefndi á að viðskiptin hafi verið í samræmi við yfirlýsta stefndu stefnanda þar sem þau væru honum hagfelld. Þá tekur stefndi fram að ensk lög áskilji ógjaldfærni á þeim degi er viðskiptin hafi átt sér stað, sbr. 123. gr. laganna, en ekkert í gögnum málsins bendi til þess að stefnandi hafi verið ógjaldfær á þeim tíma.          Komist dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að greiðslurnar séu riftanlegar og að stefnandi geti beint kröfu að stefnda, byggir stefndi á því að enginn grundvöllur sé fyrir endurgreiðslukröfu stefnanda og/eða að hana eigi að lækka verulega. Til stuðnings þessari málsástæðu vísar stefndi til 142. gr. gjaldþrotaskiptalaga og telur hann stefnanda ekki hafa sýnt fram á að hann hafi beðið tjón af viðskiptunum. Þvert á móti hafi stefnandi lagt fram gögn sem gefi til kynna að hann hafi átt frumkvæði að viðskiptunum, a.m.k. í eitt skipti, að því er virðist til þess að selja skuldabréfin áfram þriðja aðila. Stefndi byggir á því að gögn málsins bendi einmitt til þess að stefnandi hafi hagnast á viðskiptunum og því sé ekki um tjón að ræða. Hafi stefnandi á hinn bóginn haldið einhverju af nafnvirði skuldabréfanna þar til stefnandi féll og orðið fyrir tjóni af þeim sökum, þá telur stefndi að engin orsakatengsl séu milli slíks ætlaðs tjóns og viðskiptanna við stefnda hinn 12. ágúst 2008, 9. september 2008 og 10. september 2008. Vísar stefndi þar til þess að stefnandi hafi haft tækifæri til að selja áfram eða endurútgefa hagsmunaeignina.          Til viðbótar við allt ofangreint vísar stefndi til 145. gr. gjaldþrotaskiptalaga til stuðnings því að lækka beri fjárkröfu stefnanda enda væri ósanngjarnt að dæma stefnda til greiðslu umræddrar fjárhæðar í ljósi alls ofangreinds.          Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfunni. Mótmælir hann sérstaklega því að dráttarvextir geti reiknast á þá fjárhæð sem krafa sé gerð um í evrum og jafnframt upphafsdegi dráttarvaxta samkvæmt kröfu stefnanda. Ensk lög, sem gildi um skuldabréfin, nái einnig til vaxta og því eigi dráttarvextir samkvæmt íslenskum lögum ekki við, sbr. lög nr. 43/2000.          Um lagarök vísar stefndi m.a. til XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki sem og laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar. Þá kveður hann kröfu sína um málskostnað styðjast við 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kveður hann kröfuna jafnframt fela í sér kröfu um virðisaukaskatt á grundvelli laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem stefndi stundi ekki virðisaukaskattsskylda starfsemi hér á landi.   IV          Eins og rakið hefur verið greiddi stefnandi stefnda samtals 25.614.921,84 evrur með þremur greiðslum 15. ágúst, 12. september og 15. september 2008. Stefnandi hefur lagt fram svonefndar kaupnótur um þau viðskipti sem lágu að baki þessum þremur greiðslum. Jafnframt liggja fyrir tölvuskeyti þar sem samið var um fyrstu viðskiptin 12. ágúst 2008. Af þessum gögnum má ráða að starfsmaður stefnda hafi selt stefnanda hlutdeild eða hagsmunaeign í allsherjarskuldabréfi með auðkennisnúmerið ISIN nr. XS0194895429 að nafnverði samtals 29.250.000 evrur. Eins og rakið hefur verið nam kaupverðið í fyrstu viðskiptunum 17.200.000 evrum, en með áföllnum vöxtum er falla skyldu í hlut viðkomandi hlutdeildareiganda, samtals 143.238,89 evrur, nam fjárhæð kaupanna 17.343.238,89 evrum. Í öðrum viðskiptunum nam kaupverðið 4.412.500 evrum, en með áföllnum vöxtum, 57.606,94 evrur, nam heildarfjárhæð kaupanna 4.470.160,94 evrum. Í þriðju viðskiptunum nam kaupverðið 3.750.625 evrum, en að viðbættum áföllnum vöxtum að fjárhæð 50.951,01 evra, nam umsamin greiðsla 3.801.576,01 evru.          Stefnandi krefst riftunar á framangreindum greiðslum á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Ákvæði þetta gildir almennt við slit fjármálafyrirtækis samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, þegar ekki er sýnt að eignir þess muni nægja til þess að efna skuldbindingar þess að fullu. Fyrirmæli 134. gr. laga nr. 21/1991 eru í XX. kafla laganna sem fjallar um riftun ráðastafana þrotamanns. Þar segir að krefjast megi riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Stefnandi byggir á því að greiðslurnar sem krafist er riftunar á hafi falið í sér greiðslu á skuld sem innt hafi verið af hendi fyrr en eðlilegt var.          Ágreiningslaust er að stefndi er réttur aðili til varnar í máli þessu. Stefnandi reisir málatilbúnað sinn alfarið á því að íslensk gjaldþrotalög gildi um riftun gerninga stefnanda sem áttu sér stað áður en slitameðferð hófst. Þessu er stefndi ósammála og telur að leggja beri ensk gjaldþrotalög til grundvallar. Vísar hann m.a. til n-liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 þessu til stuðnings.          Ákvæði 99. gr. laga nr. 161/2002 ber yfirskriftina „Fjárhagsleg endurskipulagning lánastofnana með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru EES-ríki“. Með fjárhagslegri endurskipulagningu er vísað til úrræða sem dómstólar hafa til að heimila greiðslustöðvun eða til að leita nauðasamninga. Þegar slíkar ráðstafanir eru heimilaðar ná þær sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnun starfrækir í öðru aðildarríki EES-samningsins, eins og segir í 1. mgr. 99. gr. laganna. Um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar gilda einnig íslensk lög með nánar tilgreindum frávikum, sem rakin eru í stafliðum a til n í 2. mgr. 99. gr. laganna. Í n-lið málsgreinarinnar sagði á þessum tíma að þrátt fyrir d- og e-liði sé heimilt að beita III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga, nr. 7/1936, um ógilda löggerninga, nema lög gistiríkis heimili ekki slíkt. Með lögum nr. 78/2011, er tóku gildi 29. júní 2011, var bætt við ákvæðið svohljóðandi setningu: „Löggerningur verður þó ekki ógiltur ef sá sem hag hefur af því að slíkur löggerningur haldi gildi sínu leggur fram fullnægjandi sönnun um að um löggerninginn eigi að gilda lög annars ríkis og að þar sé ekki að finna ógildingarreglu sem tekur til þess tilviks sem um ræðir.“          Stefnandi sætir ekki fjárhagslegri endurskipulagningu, heldur er félagið í slitameðferð, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002. Því á ákvæði 99. gr. laganna ekki við um stefnanda samkvæmt orðum greinarinnar. Á hinn bóginn segir í 1. mgr. 104. gr. laganna að taki dómstóll hér á landi ákvörðun um slit lánastofnunar sem hefur staðfestu og starfsleyfi hér á landi skuli heimildin ná sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir í öðrum aðildarríkjum. Í síðari málslið hennar kemur síðan fram að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar skuli fara að íslenskum lögum „með þeim takmörkunum sem greinir í 2. mgr. 99. gr.“.          Með síðari málslið 1. mgr. 104. gr. laganna er tekin afstaða til lagavals um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd við slit á lánastofnun með staðfestu og starfsleyfi hér á landi þegar áhrif slitanna ná til annarra aðildarríkja EES-samningsins. Meginreglan er að íslensk lög gildi í því tilviki en með sömu undantekningum og komi fram í 2. mgr. 99. gr. laganna sem áður er getið. Í þessu ljósi gildir sú takmörkun sem kemur fram n-lið 2. mgr. 99. gr. laganna um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd við slitameðferð lánastofnunar með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru EES-ríki.          Framangreint ákvæði 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 á rætur að rekja til tilskipunar nr. 2001/24/EB, sem íslenska ríkið skuldbatt sig til að innleiða í íslenskan rétt með aðild sinni að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt þeirri tilskipun gildir sú meginregla að lög heimaaðildarríkis, í þessu tilviki íslensk lög, eigi við um slit fjármálafyrirtækis, þ. á m. um það hvort „löggerningar, sem eru öllum lánardrottnum skaðlegir, séu ógildir eða skorti réttarvernd“, sbr. l-lið 2. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar. Frá þessu er vikið í 30. gr. tilskipunarinnar, en ákvæðið er svohljóðandi: „Ákvæði 10. gr. skal ekki gilda um reglur er varða það hvort löggerningar, sem eru öllum lánardrottnum skaðlegir, séu ógildir, ógildanlegir eða skorti réttarvernd, í þeim tilfellum þegar sá sem hefur hag af þessum löggerningum leggur fram sannanir um að / ˗ gerningurinn, sem er skaðlegur öllum lánardrottnum, fellur undir lög aðildarríkis annars en heimaaðildarríkis, og / ˗ lögin bjóða engin úrræði til að vefengja gerninginn sem um ræðir.“          Með vísan til 3. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, og að teknu tilliti til dóms EFTA dómstólsins frá 17. október 2014 í máli LBI hf. gegn Merril Lynch International Ltd., verður að túlka n-lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 þannig að með orðalaginu „ógiltur“ sé ekki aðeins vísað til ógildingarreglna samningaréttar heldur einnig til reglna XX. kafla laga nr. 21/1991, um riftun gerninga, að því marki sem þeir eru skaðlegir öllum lánardrottnum. Eins og ákvæðið hljóðar og með hliðsjón af meginreglu tilskipunarinnar um lagaval við slit fjármálafyrirtækis, sem endurspeglast í 1. mgr. 104. gr. laga nr. 161/2002, kemur málsvörn, sem byggir á lögum þess ríkis sem gildir um gerninginn, einungis til skoðunar ef færðar eru sönnur á að skilyrðum riftunar samkvæmt ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991 er fullnægt.          Eins og rakið hefur verið er unnt að krefjast riftunar á greiðslu skuldar sex mánuðum fyrir frestdag á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991, meðal annars ef hún er innt af hendi fyrr en eðlilegt var. Frestdagur við slitin er eins og áður segir 15. nóvember 2008. Greiðslurnar sem krafist er að verði rift voru, eins og áður segir, inntar af hendi 15. ágúst, 12. september og 15. september 2008 og fóru því fram innan þess tímabils sem ákvæðið mælir fyrir um fyrir frestdag.          Aðila greinir fyrst og fremst á um hvort unnt sé að líta svo á að með greiðslunni hafi stefnandi greitt skuld fyrr en eðlilegt var og ef svo er hvort hún hafi virst venjuleg eftir atvikum.          Stefnandi var skuldari samkvæmt því allsherjarskuldabréfi sem hlutdeildir, er stefnandi keypti í umræddum þremur tilvikum, tilheyrði. Ekki verður annað ráðið af útgáfulýsingu sem og skuldbindingarskjalinu, sem lýst er í kafla II, en að eigandi hlutdeildar í allsherjarskuldabréfinu öðlist ekki beinan kröfurétt á hendur útgefanda nema við ógildingu allsherjarskuldabréfsins eða þegar því er skipt fyrir endanlegt skuldabréf við svonefndan skiptaatburð. Það er ágreiningslaust að hvorugt átti við þegar greiðslan sem um er deilt í máli þessu var innt af hendi. Eigendur hlutdeilda í allsherjarskuldabréfinu virðast á því stigi ekki hafa átt beina kröfu á hendur stefnanda um greiðslu höfuðstóls og vaxta samkvæmt allsherjarskuldabréfinu heldur verður að líta svo á að handhafi allsherjarskuldabréfsins hafi verið eiginlegur kröfuhafi stefnanda. Hlutdeildareigendur áttu á þessu stigi því aðeins kröfu á hendur Clearstream eða Euroclear sem handhafa allsherjarskuldabréfsins.          Ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 tekur einungis til þess þegar skuld er greidd. Þegar litið er til þess sem rakið hefur verið þykir ljóst að stefnandi var í skuld á grundvelli allsherjarskuldabréfsins þegar hin umdeilda greiðsla var innt af hendi. Jafnframt verður að leggja til grundvallar að eigendur hlutdeilda í því hafi hver fyrir sig átt hlutfallsleg kröfuréttindi um peningagreiðslu á hendur handhafa allsherjarskuldabréfsins að fenginni greiðslu útgefanda. Ekki er í 134. gr. laga nr. 21/1991 beinlínis áskilið að greiðsla á skuld sé innt af hendi til þess sem er samningsbundinn handhafi kröfunnar ef hún gengur í raun til lækkunar eða fullrar greiðslu á skuldinni. Skiptir þá ekki máli þó að samið hafi verið á þann veg að annar aðili en endanlegur hagsmunaeigandi eigi einn rétt á því að hafa uppi kröfu á grunni skuldabréfs á hendur útgefanda. Fær dómurinn ekki séð að niðurstaða Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 398/2011 breyti þessu.          Af dómafordæmum verður ráðið að ekki beri að skýra ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 svo þröngt að endurkaup útgefanda skuldabréfs á kröfu á hendur sér á grundvelli skuldabréfsins geti ekki falið í sér greiðslu skuldar, enda leiði kaupin til þess að skuld hans gagnvart kröfuhafa lækki eða falli niður. Þannig hefur í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 162/2010 og 163/2010, sem og í dómum réttarins í málum nr. 702/2011 og nr. 545/2013, verið komist að þeirri niðurstöðu að greiðsla í tilefni af því að útgefandi kaupir kröfu samkvæmt skuldabréfi eða öðrum skuldaskjölum sé greiðsla á skuld í þessari merkingu, enda falli krafan þá niður þar sem réttindi og skyldur eru þá á sömu hendi. Á það jafnvel við þó að greiðslan sem slík sé annarrar og lægri fjárhæðar en sem nemur lækkun á skuldbindingu útgefandans.          Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið ræður það fyrst og fremst úrslitum um niðurstöðu málsins hvort greiðslurnar sem deilt er um hafi í raun gengið til lækkunar á skuld stefnanda samkvæmt allsherjarskuldabréfi því sem áður er getið. Við úrlausn á því verður að taka mið af réttarstöðu útgefanda gagnvart handhafa skuldabréfsins sem og stöðu raunverulegra eigenda hagsmuna í allsherjarskuldabréfinu samkvæmt fyrirmælum í fyrirliggjandi útgáfulýsingu og skuldbindingarskjali. Með því er verið að heimfæra raunverulegar aðstæður undir þau atriði sem þýðingu eiga að hafa samkvæmt fyrirmælum 134. gr. laga nr. 21/1991, en ekki að játa aðilum heimild til að semja sig frá riftunarreglum gjaldþrotalaga.          Í þessu sambandi verður ekki fram hjá því litið að sú greiðsla sem stefnandi innti af hendi var endurgjald fyrir hagsmunaeign í allsherjarskuldabréfi sem Clearstream eða Euroclear var skráður handhafi að, eins og rakið er í útgáfulýsingu. Fól greiðslan því ekki í sér efndir á skuldbindingu útgefanda allsherjarskuldabréfsins gagnvart handhafa þess. Í útgáfulýsingunni er í h-lið 7. gr. fjallað um endurkaup útgefanda á skuldabréfum sem heyra undir allsherjarskuldabréf. Þar er vikið að réttaráhrifum slíkra viðskipta og því lýst að keypt skuldabréf sé heimilt að eiga, endurútgefa, endurselja eða „að vali útgefanda, afhenda hvaða umsjónaraðila greiðslna sem er til niðurfellingar“. Í síðari málslið i-liðar 7. gr. útgáfulýsingarinnar kemur fram að öll skuldabréf sem eru keypt „og niðurfelld samkvæmt málsgrein (h) að ofan“ skuli framsend „umsýsluaðila og verða hvorki endurútgefin né endurseld“.          Samkvæmt útgáfulýsingunni giltu ensk lög almennt um túlkun útgáfulýsingarinnar og tengdra skjala. Frá þessu var vikið í b-lið 2. gr. útgáfulýsingarinnar. Gerð er grein fyrir efni hennar í kafla II. Við aðalmeðferð málsins taldi stefnandi að af þeirri undantekningu leiddi að íslensk lög ættu að gilda um réttaráhrif endurkaupa útgefanda á víkjandi skuldabréfum eins og því sem stefnandi keypti í ágúst og september 2008 og málið lýtur að. Í fyrrgreindum b-lið 2. gr. útgáfulýsingarinnar kemur fram að víkjandi skuldabréf feli í sér ótryggðar og óskilyrtar skuldbindingar útgefanda sem séu í víkjandi stöðu í samræmi við og í skilningi 84. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þar er jafnframt tekið fram að ákvæði þessarar greinar útgáfulýsingarinnar skuli túlkuð í samræmi við íslensk lög. Í tilvitnaðri grein laga nr. 161/2002 var á þessum tíma fjallað um hvernig eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis væri skilgreindur sem og hlutfall hans af áhættugrunni. Töldust víkjandi lán sem uppfylltu tiltekin skilyrði hluti af svonefndum eiginfjárgrunni B, sbr. 6. mgr. 84. gr. laganna. Meðal þeirra skilyrða var að endurgreiðslutími lánsins væri ekki skemmri en fimm ár auk þess sem við gjaldþrot eða slit fengist aðeins greitt af því á eftir öllum öðrum kröfum á hendur fjármálafyrirtækinu en áður en kæmi að endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár. Víkjandi lán með endurgreiðslutíma frá tveimur til fimm ára tilheyrðu aftur á móti eiginfjárgrunni C, sbr. 7. mgr. ákvæðisins. Um slík víkjandi lán skyldi jafnframt kveðið á um það að óheimilt væri að greiða af láninu eða greiða af því vexti ef eiginfjárkrafa viðkomandi fjármálafyrirtækis færi undir tiltekið lágmark. Í 8. mgr. greinarinnar kom fram að heimilt væri „að flýta endurgreiðslu víkjandi lána æski lántaki þess, enda liggi fyrir samþykki Fjármálaeftirlitsins og slík endurgreiðsla hafi ekki óviðunandi áhrif á eiginfjárstöðu að mati þess“. Telur stefnandi að af þessu leiði að honum hafi í raun verið óheimilt að kaupa umrætt víkjandi skuldabréf, enda teljist það hafa verið endurgreitt vegna þess að réttindi og skyldur samkvæmt því hafi við kaupin komist í hendur útgefanda og því fallið niður í samræmi við meginreglur íslensks kröfuréttar.          Málatilbúnaður þessi felur í sér andsvör við málsvörn stefndu og er því ekki of seint fram kominn. Á hinn bóginn telur dómurinn að stefnandi dragi of víðtækar ályktanir af þeirri undantekningu sem fólst í b-lið 2. gr. útgáfulýsingarinnar. Þar er einungis kveðið á um að íslensk lög eigi að gilda um stöðu víkjandi skuldabréfa í réttindaröð við slit sem og að stefnandi myndi fylgja fyrirmælum 84. gr. laga nr. 161/2002 um stofnun víkjandi skuldbindinga. Bæri að túlka ákvæði um þetta efni í samræmi við íslensk lög. Í ljósi þeirra takmarkana sem fólust í 8. mgr. 84. gr. laganna á þessum tíma mátti líta svo á að stefnanda væri ekki unnt að fella niður kröfur samkvæmt víkjandi skuldabréfum sem stefnandi hafði keypt á grundvelli h-liðar 7. gr. útgáfuskilmálanna nema með samþykki Fjármálaeftirlitsins. Miðað við orðalag ákvæðisins á þessum tíma virðist stefnanda hins vegar hafa verið heimilt á grundvelli sama samningsákvæðis að kaupa víkjandi skuldabréf sem heyrði undir allsherjarskuldabréf og eiga það áfram eða selja að nýju, enda haggaði það ekki greiðsluskyldu stefnanda sem útgefanda gagnvart handhafa allsherjarskuldabréfsins. Að mati dómsins fær það ekki stoð í b-lið 2. gr. útgáfulýsingarinnar eða 84. gr. laga nr. 161/2002 að almennar reglur íslensks kröfuréttar, um að kröfuréttindi falli sjálfkrafa niður við samruna réttinda og skyldna samkvæmt skuldabréfi, gangi framar ótvíræðum áskilnaði í samningi um að útgefandinn verði að tilkynna umsjónaraðila greiðslu um niðurfellingu kröfuréttindanna. Í því sambandi verður jafnframt að hafa í huga að ekkert er því til fyrirstöðu að aðili skuldbindi sig á þann veg með samningi að vikið sé frá fyrrgreindri meginreglu íslensks kröfuréttar.          Í þessu ljósi og með vísan til framangreindra skilmála verður að leggja til grundvallar að með kaupum stefnanda á umræddu skuldabréfi sem heyrði undir allsherjarskuldabréf hafi stefnandi eignast kröfu á hendur handhafa allsherjarskuldabréfsins um greiðslu höfuðstóls og vaxta. Sú krafa fól í sér eign sem stefnandi gat ákveðið að eiga áfram eða selja hana öðrum, allt eftir eigin mati á því hvað honum þótti hagfellt. Samkvæmt skilmálunum gat greiðsla vegna endurkaupa á slíkri hlutdeild hins vegar ekki gengið til lækkunar á skuld útgefanda nema hann færi sérstaklega fram á það við umsjónaraðila greiðslu. Var stefnanda raunar óheimilt samkvæmt 84. gr. laga nr. 161/2002 að fara fram á slíkt nema með samþykki Fjármálaeftirlitsins. Ekkert liggur fyrir um að hann hafi borið sig eftir því að skuld hans samkvæmt allsherjarskuldabréfinu yrði lækkuð í kjölfar endurkaupanna í ágúst og september 2008 í andstöðu við framangreinda lagareglu. Ágreiningslaust er að allur höfuðstóll þess var ógreiddur þegar mál þetta var höfðað.          Fyrirmæli 134. gr. laga nr. 21/1991 er lúta að greiðslu á skuld verður að skýra samkvæmt orðanna hljóðan. Heimild sem skuldari kýs að nota ekki til lækkunar á skuld í kjölfar endurkaupa á skuldabréfi sem heyrir undir allsherjarskuldabréf getur samkvæmt ákvæðinu ekki falið í sér greiðslu skuldar. Af framansögðu leiðir að skuld samkvæmt umræddu allsherjarskuldabréfi var ekki greidd á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Því getur ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 ekki átt við í máli þessu. Þegar af þessari ástæðu verður að sýkna stefnda.          Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar ber að líta til þess að frávísunarkröfum stefnda var hrundið með úrskurði 24. júní 2013 en ákvörðun málskostnaðar um þann þátt málsins var látinn bíða lokaniðurstöðu málsins. Rekstur máls þessa var umfangsmikill fyrir alla aðila og aflaði stefndi m.a. matsgerðar dómkvadds matsmanns um enskan rétt. Þegar litið er til þess sem rakið hefur verið þykir rétt að stefnanda verið gert að greiða stefnda 5.000.000 króna í málskostnað.          Dregist hefur fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 að kveða upp dóm í máli þessu. Aðilar og dómari töldu ekki efni til þess að endurflytja málið.          Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð:          Stefndi, BNP Paribas S.A., er sýkn af kröfum stefnanda, Kaupþings hf., í máli þessu.                 Stefnandi greiði stefnda 5.000.000 króna í málskostnað.
Mál nr. 503/2017
Verksamningur
A ehf. krafði H um greiðslu reiknings vegna vinnu G, starfsmanns A ehf., við uppsetningu húseininga fyrir H. Höfðu G ehf. og V ehf. annars vegar og H hins vegar gert með sér samning um kaup H á húseiningum af félögunum en í samningnum var einnig mælt fyrir um að þau skyldu sjá um uppsetningu eininganna og frágang. Undirritaði G samninginn fyrir hönd G ehf. og V ehf. sem fyrirsvarsmaður þeirra. Með samkomulagi um uppgjör tók H yfir að stærstum hluta skuldbindingar G ehf. og V ehf. samkvæmt samningnum. Í samkomulaginu var þó mælt fyrir um að G ehf. og V ehf. skyldu útvega H iðnarmenn til að ljúka við þá verkþætti sem upphaflega hafði verið samið um. Fengu G ehf. og V ehf. í samræmi við það iðnarmenn til að vinna að uppsetningu hússins og greiddi H fyrir þá vinnu. Talið var að með því hefði lögskiptum aðila samkomulagsins um uppgjör verið lokið. Enginn skriflegur samningur hefði verið gerður milli A ehf. og H um þá vinnu sem A ehf. krafðist greiðslu fyrir og engin gögn lægju fyrir um að H hefði óskað eftir vinnu A ehf. Hefði sönnunarbyrði um að samningur hefði komist á með A ehf. og H um vinnuframlag G hvílt á A ehf. en gegn andmælum H var ekki talið að sú sönnun hefði tekist. Var H því sýknaður af kröfu A ehf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Símon Sigvaldason dómstjóri. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. ágúst 2017. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 1.364.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. október 2015 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 13. október 2017. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði og fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað. Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.  Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað. Aðaláfrýjandi, AK-gler ehf., greiði gagnáfrýjanda, Harald Ragnari Óskarssyni, samtals 1.250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.       Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2017.  I.                 Mál þetta var höfðað þann 19. maí 2016 og dómtekið 19. apríl 2017.                 Stefnandi er AK-gler ehf., Hjallahrauni 9, Hafnarfirði, en stefndi er Harald Ragnar Óskarsson, til heimilis að Fannafold 54a, Reykjavík.                 Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða skuld að fjárhæð 1.364.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. október 2015 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.                 Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að dómkröfur verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar. II. i) Í máli þessu er deilt um greiðslu reiknings sem stefnandi, AK-gler ehf. gaf út á hendur stefnda, 28. september 2015 með gjalddaga 28. október 2015, að fjárhæð 1.364.000 krónur vegna vinnu Gunnars Svanbergs Jónssonar við uppsetningu einingahúss fyrir stefnda á Hellissandi á tímabilinu 3.-25. september 2015.                 Samkvæmt reikningnum voru vinnustundir taldar nema 220 klst. og í tímaskýrslu sem fylgdi reikningnum kemur fram að um hafi verið að ræða vinnu við flutning á húsgögnum, undirbúning fyrir verk á Hellissandi, frágang fyrir uppsetningu KLH-eininga, slípun steypu, uppsetningu KLH-eininga, undirbúning fyrir klæðningu o.fl.                 Með tölvuskeyti lögmanns stefnda til Gunnars Svanbergs 16. október 2015, var greiðsluskyldu hafnað með vísan til þess að ekki hafi verið gerður samningur um þá vinnu sem krafist væri greiðslu á. Segir jafnframt í tölvuskeytinu að stefndi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að sú vinna sem innt hafi verið af hendi „væri hluti af þeirri viðleitni GSJ fjárfestinga ehf. og Visthúsa ehf. að virða uppgjörssamkomulag“ sem umrædd félög gerðu við stefnda 31. ágúst 2015. Segir einnig í tölvuskeytinu að stefndi hafi aldrei samið um greiðslu fyrir þá þjónustu sem krafist væri greiðslu fyrir, umfang hennar og tímagjald.                 Í tölvuskeyti lögmanns stefnda 4. nóvember 2015 til Gunnars Svanbergs eru fyrrgreind sjónarmið ítrekuð, en fallist á að greiða reikning AK-glers ehf., sem væri frá 30. október 2015, að fjárhæð 68.169 krónur, vegna kostnaðar við flutning á húsgögnum og fyrir akstur til Hellissands á sömu forsendum og stefndi hafi „fallist á að greiða húsaleigu og fæði fyrir ykkur Ríkharð á meðan á dvöl ykkar á Hellissandi stóð“. Segir jafnframt að stefndi líti á greiðslu þessa reiknings sem fullnaðaruppgjör við Gunnar og Ríkharð og fyrirtæki á þeirra vegum vegna viðveru þeirra á Hellissandi. ii) Aðdraganda að umræddri vinnu Gunnars Svanbergs, sem krafist er greiðslu fyrir, má rekja til þess að Gunnar var í fyrirsvari fyrir Visthús-KLH ehf. og GSJ Fjárfestingar ehf. sem seldu stefnda umræddar KLH-húseiningar sem framleiddar voru í Austurríki. Gerðu fyrrgreind félög og stefndi með sér samning með yfirskriftinni „Kaupsamningur/Verksamningur“, dags. 9. júní 2015 um kaup og uppsetningu á KLH-einingum og verksamning um fullnaðarfrágang á húsi að utan. Undir samninginn rituðu Gunnar Svanberg Jónsson, f.h. seljenda, þ.e. GSJ Fjárfestinga ehf. og Visthúsa-KLH ehf., og stefndi.                 Samkvæmt samningnum áttu húseiningarnar að afhendast stefnda uppsettar á verkstað af hálfu seljanda, að Hellisbraut 6, Hellissandi. Var gert ráð fyrir að húseiningarnar kæmu til Íslands eigi síðar en 11. ágúst 2015 og átti uppsetningu þeirra að vera lokið eigi síðar en 1. september 2015.                 Samningurinn var tvíþættur. Í fyrri hluta hans var mælt fyrir um afhendingu KLH-eininganna og uppsetningu þeirra og nam kaupverðið 14.796.283 krónum sem skyldi greiðast með eftirfarandi hætti:                 Við undirritun kaupsamnings (40%) 5.918.513 krónur,                 við afhendingu á verkstað (20%) 2.959.257 krónur og                 við verklok uppsetningar KLH-eininga 5.918.513 krónur.                 Í síðari hluta samningsins var mælt fyrir um frágang hússins að utan og nam samningsupphæðin vegna þess þáttar 7.254.000 krónum.                 Þegar húseiningarnar komu til landsins frá Austurríki var staðan þannig að seljendur, Visthús-KLH ehf. og GSJ Fjárfestingar ehf. gátu ekki greitt flutnings- og aðflutningsgjöld vegna sendingarinnar. Þeir gátu því ekki leyst út einingarnar og afhent stefnda þær. Gerðu seljandi, GSJ fjárfestingar ehf., f.h. Visthúsa ehf., og kaupandi, þ.e. stefndi í máli þessu, því með sér „Samkomulag um uppgjör“ sem er í 12 töluliðum og dagsett er 31. ágúst 2015. Er samkomulagið undirritað af Gunnari Svanberg Jónssyni f.h. seljenda, GJS fjárfestinga ehf. og Visthúsa ehf., og stefnda, Harald Óskarssyni.                 Samkvæmt samkomulagi þessu var stefndi leystur undan stærstum hluta kaup- og verksamningsins þar sem seljendur töldu sig ekki geta efnt alla þætti samningsins.                 Í 4. tölulið samkomulagsins sagði að seljandi hefði þegar greitt framleiðanda KLH-eininganna í Austurríki fyrir þær og óskaði hann eftir því við kaupanda að hann leysti seljanda að stærstum hluta undan samningsskuldbindingum sínum, en seljandi myndi ekki geta staðið við eftirfarandi þætti samningsins:                 Greiðslu aðflutningsgjalda (skv. uppl. frá Eimskip) 2.135.058 krónur.                 Greiðslu flutningskostnaðar (skv., upplýsingum frá seljanda) 1.698.600 krónur.                 Að reisa KLH-hús á Hellissandi (áætlun seljanda) 2.000.000 krónur.                 Setja upp raflagnaloft 1.500.000 krónur (áætlun byggð á byggingarlykli).                 Annan hluta samnings í heild sinni 7.254.000 krónur.                 Samtals ekki efnt 14.587.658 krónur                 Samkvæmt 5. tölulið samkomulagsins féllst seljandi á að til viðbótar við að tryggja að kaupandi fengi KLH-einingarnar afhentar og tollafgreiddar myndi hann greiða kaupanda mismun þeirra greiðslna sem kaupandi hefði þegar innt af hendi og verðmæti KLH-eininganna, samtals 755.888 krónur auk lögfræðikostnaðar 100.000 krónur eða samtals 855.888 krónur.                 Í 6. tölulið samkomulagsins var samið um að stefndi félli frá fyrrgreindri kröfu á hendur stefnanda samkvæmt 5. lið samkomulagsins, með því skilyrði að „seljandi, GSJ Fjárfestingar ehf., útveguðu stefnda iðnaðarmenn þannig að kaupanda yrði unnt að ljúka við alla þá verkþætti sem upphaflega hafði verið samið um fyrir sama heildarverð og upphaflegur samningur gerði ráð fyrir og innan þeirra tímamarka sem gert hefði verið ráð fyrir í þeim samningi, þ.e. fyrir 1. október 2015“. iii) Samkvæmt gögnum málsins og skýrslum málsaðila og vitna fyrir dóminum sá Gunnar Svanberg um að útvega stefnda iðnaðarmenn til þess að reisa húseiningarnar á Hellissandi, eins og mælt var fyrir um í fyrrgreindu samkomulag um uppgjör, dags. 31. ágúst 2015. Einnig útvegaði Gunnar húsnæði og fæði fyrir iðnaðarmennina. Greiddi stefndi þennan kostnað. Einnig greiddi stefndi fyrir húsnæði og fæði Gunnars á meðan hann dvaldi á Hellissandi, sbr. fyrrgreint tölvuskeyti lögmanns stefnda til Gunnars, 4. nóvember 2015.  iv) Stefnandi, AK-gler ehf. var stofnað 22. júlí 2015. Í árslok 2015 var hlutafé félagsins í eigu Ægis Jónssonar, bróður Gunnars Svanbergs, og Eignamálunar ehf. Var tilgangur félagsins heildverslun og smásala. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2015, starfaði einn starfsmaður hjá félaginu á því ári og námu launagreiðslur 296.380 krónum. Í ársreikningum kemur fram að seld vara og þjónusta hafi verið 2.595.905 krónur á rekstrarárinu 2015, vörunotkun 1.936.196 krónur, laun og launatengd gjöld 296.380 krónur og skammtímakröfur 1.623.740 krónur.                 Vitnið Ægir Jónsson bar fyrir dóminum að félagið hefði upphaflega verið stofnað til að setja upp svalalokanir. Markmiðið hefði verið að Gunnar Svanberg keypti sig síðar inn í fyrirtækið. Gunnar hefði verið með reynslu og hefði áður rekið fyrirtækið Gler og brautir ehf. Kvað vitnið að AK-gler ehf. hefði lagt Gunnari Svanbergssyni til bíl, verkfæri og stiga fyrir verkið á Hellissandi.           v) Skýrslur fyrir dóminum gáfu Harald Ragnar Óskarsson, Mariana Candi, Gunnar Svanberg Jónsson, Stefán Hrafn Ólafsson, Ólafur Ragnarsson, Eiður Björnsson og fyrrnefndur Ægir Jónsson. III. 1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi reisir kröfu sína á hendur stefnda á reikningi útgefnum 28. september 2015 að fjárhæð 1.364.000 krónur vegnu vinnu starfsmanns stefnda, Gunnars Svanbergs Jónssonar, við uppsetningu og annað vegna húsbyggingar stefnda að Hellisbraut 6, Hellissandi.                 Stefnandi byggir á því að Gunnar Svanberg hafi unnið við flutning og uppsetningu húss stefnda sem starfsmaður stefnanda.                 Stefnandi tekur fram að félögin Visthús KLH ehf. og GSJ ráðgjöf ehf. séu honum óviðkomandi svo og fyrri samningar þessara félaga við stefnda.                 Stefndi hafi ekki bent á neina galla á þeirri þjónustu sem stefnandi hafi veitt honum, heldur hafi þjónusta stefnanda verið til þess fallin að forða stefnda frá tjóni. Verðið fyrir þjónustuna hafi verið eðlilegt tímagjald. 2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda Stefndi tekur fram að samkvæmt „Samkomulagi um uppgjör“ frá 31. ágúst 2015, hafi það komið í hlut GSJ fjárfestinga ehf. að útvega stefnda iðnaðarmenn til þess að stefnda væri unnt að ljúka við alla þá verkþætti sem upphaflega hafi verið samið um fyrir sama heildarverð og innan þeirra tímamarka sem upphaflegur samningur hafi gert ráð fyrir, sbr. 6. gr. samkomulags um uppgjör á milli GSJ fjárfestinga ehf., f.h. Visthúsa ehf., og stefnda í máli þessu. Að öðrum kosti ætti stefndi rétt á greiðslu að fjárhæð 855.888 krónur úr hendi GSJ fjárfestinga ehf.                 Stefndi byggir á því að ekkert samningssamband hafi stofnast á milli hans og stefnanda. Stefndi hafi aldrei óskað eftir þjónustu eða vinnu stefnanda. Stefnandi sé því ekki rétthafi þeirra hagsmuna sem krafist sé. Um sé að ræða aðildarskort til sóknar sem leiði til sýknu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.                 Stefndi telur að raunverulegur viðsemjandi hans hafi verið GSJ fjárfestingar ehf., sbr. fyrirliggjandi samninga á milli þeirra, dags. 9. júní, 29. júlí og 31. ágúst 2015. Auk þess hafi Gunnar Svanberg Jónsson ekki haft heimild frá stefnda til að semja við aðra aðila fyrir hans hönd.                 Verði ekki fallist á málatilbúnað stefnda um aðildarskort til sóknar, telur stefndi að um aðildarskort til varnar sé að ræða. Kröfunni sé ranglega beint að honum. Öll vinnan samkvæmt reikningi þeim sem krafist er greiðslu á, hafi verið liður í viðleitni GSJ fjárfestinga ehf., viðsemjanda stefnda, til að bæta fyrir vanefndir á samningum aðila. Ef ætlunin er að fá greitt fyrir vinnu sem stefnandi hafi ef til vill innt af hendi í því samhengi verði stefnandi að beina kröfu sinni að GSJ fjárfestingum ehf.                 Stefndi mótmælir því að samningssamband milli hans og þriðja aðila geti réttlætt kröfu stefnanda á hendur honum. Enginn samningur, verkbeiðni eða bindandi yfirlýsing liggi fyrir. Hvort Gunnar Svanberg Jónsson hafi verið starfsmaður stefnanda sé stefnda óviðkomandi. Engin gögn liggi fyrir um að Gunnar hafi verið starfsmaður stefnanda, auk þess sem hann hafi hvorki verið stjórnarmaður né framkvæmdastjóri stefnanda.                 Stefndi telur að stefnandi hafi verið fenginn til að gefa út hinn umdeilda reikning til þess eins að GSJ fjárfestingar ehf., Visthús ehf. og eftir atvikum Gunnar Svanberg persónulega geti vikið sér undan kröfum stefnda vegna verulegra vanefnda fyrrgreindra aðila á samningum sínum við stefnda.                 Verði fallist á að kröfu sé réttilega beint að stefnda, telur stefndi að allar kröfur hafi verið greiddar að fullu sem leiði til sýknu, en að öðrum kosti verði að lækka kröfu stefnanda verulega. Vísar stefndi til samkomulags aðila 31. ágúst 2015, þar sem gert var ráð fyrir að kostnaður við uppsetningu hússins næmi 2.000.000 króna, en stefndi hafi þegar greitt tæplega 3.600.000 krónur fyrir uppsetningu hússins.                 Stefndi telur að með tilliti til þeirra forsendna sem hann hafi lagt upp sé ljóst að endurgjald sem stefnandi krefji stefnda nú um sé fjarri því sem talist geti eðlilegt og sanngjarnt í skilningi 28. gr. laga nr. 42/2000.                 Stefndi telur að stefnandi hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni, hann hefði átt að upplýsa stefnda um fyrirhugaða vinnu og leita samþykkis fyrir endurgjaldinu, sbr. 6. gr. laga nr. 42/2000.                 Stefndi vísar til 6. tölul. uppgjörssamkomulagsins frá 31. ágúst 2015, þar sem áréttað sé að stefnda verði unnt að ljúka við alla verkþætti sem upphaflega hafi verið samið um fyrir sama heildarverð. Gunnari Svanberg hafi því mátt vera ljóst að krafa hans samrýmdist ekki fyrirliggjandi samningi.                 Telur stefndi að krafa stefnanda á hendur honum sé ósönnuð og órökstudd með vísan til framangreinds og leiði til sýknu, að minnsta kosti verði að lækka hana verulega þannig að stefnda verði ekki gert að greiða meira en 2.000.000 króna.                 Verði fallist á að stefnandi geti sett fram kröfu vegna vinnu Gunnars í stað viðsemjenda stefnda, GSJ fjárfestinga ehf. og Visthúsa ehf., er krafist skuldajöfnunar að fjárhæð 855.888 krónur, sbr. 5. tölul. fyrrgreinds samkomulags.                 Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda, eru ítrekuð sjónarmið stefnda um frávísun málsins vegna vanreifunar stefnanda. Stefnandi hafi ekki leitt nægar líkur að því að hann eigi kröfu á stefnda með vísan til fyrrgreindra lögskipta stefnda við Gunnar Svanberg og félögin GSJ fjárfestingar ehf. og Visthús ehf.                 Stefndi telur að sönnunarbyrði hvíli á stefnanda, þar sem stefnandi sé félag í byggingariðnaði. Þá er mótmælt upphafstíma dráttarvaxta, sem miða beri við dómsuppsögu, en að öðrum kosti mánuði frá þingfestingu. IV. Niðurstaða Í máli þessu er deilt um skyldu til greiðslu reiknings vegna vinnu starfsmanns stefnanda, Gunnars Svanbergs Jónssonar við uppsetningu húseininga fyrir stefnda á Hellissandi á tímabilinu 3.-25. september 2015.                 Stefndi hafnar greiðslu reikningsins þar sem hann hafi ekki óskað eftir vinnu starfsmanns stefnanda en hann telji að viðvera Gunnars Svanbergs á verkstað á umræddu tímabili hafa verið hluta af viðleitni Gunnars til að efna skuldbindingar seljenda húseininganna, GSJ fjárfestinga ehf. og Visthúsa ehf., gagnvart stefnda.                 Með „Samkomulagi um uppgjör“, dags. 31. ágúst 2015, tók stefndi yfir samningsskuldbindingar seljanda m.a. vegna afhendingar húseininganna og uppsetningar þeirra á Hellissandi og voru GSJ fjárfestingar ehf. og Visthús ehf. leyst undan skuldbindingum sínum eins og nánar er gerð grein fyrir í II. kafla dómsins. Það þýddi að stefndi tók sjálfur að sér að leysa úr þeim verkþáttum sem seljendur gátu ekki staðið við.                 Í samkomulaginu var þó samið um að seljandi húseininganna útvegaði stefnda iðnaðarmenn til að ljúka við þá verkþætti sem upphaflega hafði verið samið um. Að öðru leyti var ekki mælt frekar fyrir um vinnuframlag seljenda húseininganna í þágu stefnda. GSJ fjárfestingar ehf. og Visthús ehf. útveguðu stefnda umrædda iðnaðarmenn til þess að vinna að uppsetningu hússins á Hellissandi og verður að telja að með því hafi lögskiptum aðila samningsins á grundvelli samkomulagsins um uppgjör verið lokið.                  Samkvæmt tímaskýrslu sem fylgdi með hinum umdeilda reikningi stefnanda til stefnda var stefndi krafinn um greiðslu fyrir akstur með húsgögn frá Hvolsvelli til Hellissands, undirbúning verksins á Hellissandi, slípun steypu og frágang fyrir uppsetningu KLH-eininga og undirbúning fyrir klæðningu, fyrir að fullskrúfa einingar og leggja tjörupappa á sökkul og klæðningu, fyrir að klæða og taka á móti gluggum og setja lektur, fyrir klæðningu og frágang að innan, fyrir að skrúfa gólfvinkla, fyrir frágang á þaki, torflögn o.fl.                 Enginn skriflegur samningur var gerður á milli stefnanda og stefnda um fyrrgreinda vinnu stefnanda sem stefnandi krefur stefnda um greiðslu á. Engin gögn liggja fyrir um að stefndi hafi óskað eftir umræddri vinnu stefnanda sem tilgreind er í tímaskýrslunni. Á stefnanda hvílir sönnunarbyrði um að samningur hafi tekist með honum og stefnda um umrætt vinnuframlag. Gegn andmælum stefnda verður ekki talið að sú sönnun hafi tekist. Verður stefndi því þegar af þeirri ástæðu, sýknaður af kröfu stefnanda um greiðslu reiknings að fjárhæð 1.364.000 krónur.                 Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að hvor aðili beri sinn hluta af þeim kostnaði sem hlotist hefur af rekstri málsins og hefur þá verið tekið tillit til frávísunarþáttar málsins.                 Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. DÓMSORÐ: Stefndi, Harald Ragnar Óskarsson er sýknaður af kröfum stefnanda, AK-glers ehf. í máli þessu.                 Málskostnaður milli aðila fellur niður. 
Mál nr. 472/2017
Gjaldþrotaskipti Riftun Óvenjulegur greiðslueyrir Endurgreiðslukrafa
Fallist var á kröfu þrotabús L ehf. um riftun á greiðslu félagsins til N ehf. að tiltekinni fjárhæð sem fram fór á grundvelli tiltekins löggernings og með eftirfarandi útgáfu á skuldabréfi. Var talið að greiðslan hefði verið innt af hendi með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og að N ehf. hefði ekki sýnt fram á að greiðslan hefði mátt virðast venjuleg eftir atvikum. Þá var einnig fallist á kröfu þrotabús L ehf. um að N ehf. yrði gert að endurgreiða fjárhæðina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Sigurður Tómas Magnússon landsréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júlí 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda en til vara lækkunar endurgreiðslukröfu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I  Leiguvélar ehf. og Lýsing hf. gerðu með sér fimm fjármögnunarleigusamninga 3. október 2005 um jafn margar nýjar DAF-vörubifreiðir með fastanúmerunum LR-719, TY-608, SF-286, SM-606 og YT-487 og voru Leiguvélar ehf. leigutaki samkvæmt samningunum. Leiguvélar ehf. leigðu áfrýjanda, sem þá bar heitið Úri ehf., vörubifreiðirnar LR-719, TY-608 og YT-487 með þremur samningum 6. júní 2012 og var samið um kauprétt áfrýjanda í lok leigutímans. Með samningsviðauka 5. október sama ár var ákveðið að allar leigugreiðslur gengju upp í kaupverð vörubifreiðanna ef áfrýjandi sæi sér hag í að kaupa þær að leigutíma liðnum. Leiguvélar ehf. leigðu áfrýjanda vörubifreiðirnar SF-286 og SM-606 með tveimur samningum 28. febrúar 2013 með sömu skilmálum og að framan greinir um kauprétt áfrýjanda í lok leigutíma og ráðstöfun leigugreiðslna upp í kaupverð. Samningarnir báru allir yfirskriftina „Samningur um útleigu á vinnuvél frá Leiguvélum ehf.“ Leigusali var tilgreindur sem „Leiguvélar ehf. … í samstarfi við VB Vörumeðhöndlun ehf. …“. Þá kom fram í öllum samningunum að vörubifreiðirnar væru eign Leiguvéla ehf., að framleiga á þeim væri óheimil án samþykkis hans, að leigugjald færi eftir gjaldskrá sem lægi frammi hjá Leiguvélum ehf. eða samkvæmt tilboði frá leigutaka og að Leiguvélar ehf. gætu sagt upp samningunum og sótt vörubifreiðirnar við tilteknar aðstæður. Þá sagði í samningunum að leigutaki greiddi fyrir olíunotkun vegna vörubifreiðanna samkvæmt áætlun „VB Vörumeðhöndlunar við skil“ og að leigutaki skyldi að leigutíma loknum skila þeim til „VB Vörumeðhöndlunar ehf.“ Áfrýjandi stóð við samningsskyldur sínar gagnvart Leiguvélum ehf. Félaginu var hins vegar ekki fært að efna þá samningsskyldu sína gagnvart áfrýjanda að yfirfæra eignarrétt að vörubifreiðunum til hans í lok samningstímans þar sem Lýsing hf. var enn þinglýstur eigandi þeirra. Félagið Vélaborg Vörumeðhöndlun ehf., er ýmist nefnt því nafni eða VB Vörumeðhöndlun ehf. í gögnum málsins en fékk síðar nafnið V62 ehf. Ágreiningur kom upp milli Leiguvéla ehf. og Lýsingar hf. um hvort framangreindir samningar teldust hafa verið leigu- eða lánssamningar og hvort tenging þeirra við gengi erlendra gjaldmiðla hefði verið ólögmæt. Í dómi Hæstaréttar 4. mars 2015 í máli nr. 121/2015 var meðal annars fjallað um fjármögnunarleigusamninga Leiguvéla ehf. og Lýsingar hf. um fyrrnefndar vörubifreiðir. Með dóminum var með vísan til forsendna héraðsdóms fallist á kröfu Lýsingar hf. um að vörubifreiðirnar, ásamt fleiri vélum og tækjum, yrðu teknar úr vörslum Leiguvéla ehf. með beinni aðfarargerð og fengnar Lýsingu hf. Í forsendum héraðsdóms sagði að ekki hafi verið samið svo um milli Leiguvéla ehf. og Lýsingar hf. að hið fyrrnefnda yrði, gegn greiðslu við lok grunnleigutíma, eigandi þeirra véla og tækja sem fjármögnunarleigusamningarnir tækju til. Leiguvélar ehf. hafi verið í slíkum vanskilum við Lýsingu hf. að heimilt hafi verið að rifta samningunum 7. maí 2013 eftir skilmálum þeirra. Í kjölfarið gerði áfrýjandi kaupleigusamning við Lýsingu hf. 29. apríl 2015 um fjórar af fyrrnefndum fimm vörubifreiðum og var leigugrunnur samkvæmt samningnum 10.400.000 krónur auk virðisaukaskatts. Í kaupleigusamningnum fólst að þegar áfrýjandi hefði innt af hendi allar greiðslur og uppfyllt önnur skilyrði samningsins færðist eignarrétturinn yfir til hans. Fimmtu vörubifreiðinni skilaði áfrýjandi til Lýsingar hf. II Hinn 26. júní 2015 undirritaði Gunnar Viðar Bjarnason fyrirsvarsmaður Leiguvéla ehf. og Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. tvo löggerninga á sama skjali fyrir hönd félaganna en Jón Hinrik Garðarsson fyrirsvarsmaður áfrýjanda ritaði samþykki sitt á skjalið. Annar löggerningurinn bar yfirskriftina „Skuldaviðurkenning“ og fól í sér að Leiguvélar ehf. viðurkenndu að skulda áfrýjanda 12.123.125 krónur vegna uppgjörs á fyrrnefndum fimm vörubifreiðum. Í skuldaviðurkenningunni segir: „Þar sem Leiguvélar gátu ekki leyst þessi tæki út hjá Lýsingu vegna ágreinings um skuldir og uppgjör þá var farin sú leið að Norðnorðvestur keypti 4 bíla aftur beint frá Lýsingu og samið var um matsverð á fimmta bílnum og því skulda Leiguvélar ehf. Norðnorðvestur ehf. andvirði þessara kaupa með kostnaði.“ Fjárhæðin var sundurliðuð þannig að um væri að ræða andvirði fjögurra bifreiða 10.400.000 krónur, 1.600.000 króna matsverð fimmtu bifreiðarinnar og 123.125 króna kostnað Lýsingar hf. Hinn löggerningurinn bar yfirskriftina „Yfirtaka skuldar“ og fól í sér yfirlýsingu Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. um að félagið samþykkti að „yfirtaka neðangreinda skuld Leiguvéla ehf. og að Norðnorðvestur ehf. sé heimilað að skuldajafna reikningum Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. upp á þjónustureikninga og aðra reikninga sem Vélaborg Vörumeðhöndlun ehf. gefur út á Norðnorðvestur ehf. … Samkomulag er um að gert sé skuldabréf til 24 mánaða sem uppgjör á þessari skuld. Öll vörukaup og þjónustukaup dragast þó frá afborgunum á þessu skuldabréfi.“ Sama dag og fyrrnefnt skjal var undirritað var skuld Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. við Leiguvélar ehf. á viðskiptamannareikningi í bókhaldi Leiguvéla ehf. færð niður um 12.123.125 krónur, eða um sömu fjárhæð og skuld Leiguvéla ehf. við áfrýjanda sem Vélaborg Vörumeðhöndlun ehf. yfirtók. Færslutexti með bókhaldsfærslunni var „Yfirtaka VBV v. NorðNorðVestur“.  Í samræmi við fyrrnefnda yfirtöku Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. á skuld Leiguvéla ehf. við áfrýjanda gaf fyrrnefnda félagið út skuldabréf til áfrýjanda 14. júlí 2015 en samkvæmt því skuldbatt það sig til að greiða áfrýjanda 12.123.125 krónur með 24 afborgunum á mánaðarfresti. Fyrsti gjalddagi skuldabréfsins var 24. júlí 2015 en vextir voru reiknaðir frá 29. apríl sama ár. Skuldabréfið var sent Íslandsbanka hf. til innheimtu og greiddust sex fyrstu afborganirnar, sú fyrsta 7. ágúst 2015 en fimmta og sjötta afborgunin 10. febrúar 2017. Nafnverð greiddra innborgana var samtals 3.030.780 krónur en með vöxtum og kostnaði greiddust alls 3.877.505 krónur. Bú Leiguvéla ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 7. janúar 2016. Stefndi beindi riftunaryfirlýsingu að áfrýjanda 24. ágúst 2016 og krafði hann um greiðslu á 12.123.125 krónum. Bú Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 19. apríl 2017 en árangurslaus fjárnám höfðu verið gerð hjá félaginu 12. ágúst 2014 og 3. ágúst 2016. III Stefndi byggir riftunarkröfu sína aðallega á reglu 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en samkvæmt ákvæðinu má krefjast rifturnar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Stefndi byggir á því að öll þrjú skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt og að greiðslan hafi ekki verið venjuleg eftir atvikum. Til vara byggir stefndi á riftunarreglu 141. gr. sömu laga. Til þess að greiðslu verði rift á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 nægir að sá sem krefst riftunar sýni fram á að eitt af þremur skilyrðum ákvæðisins sé uppfyllt að því gefnu að sá sem riftunarkröfu er beint að geti ekki leitt að því nægilegum líkum að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Fyrir liggur að Leiguvélar ehf. gátu ekki staðið við þá skuldbindingu sína gagnvart áfrýjanda að yfirfæra eignarréttindi að vörubifreiðunum til hans í lok samningstímans. Eftir að Hæstiréttur staðfesti með dómi 4. mars 2015 í máli nr. 121/2015 rétt Lýsingar hf. til að fá umræddar vörubifreiðir afhentar átti áfrýjandi ekki annarra kosta völ en að semja við Lýsingu hf. um greiðslu fyrir þær eða að skila þeim til Lýsingar hf. Frá uppgjöri áfrýjanda við Lýsingu hf. var sem fyrr segir gengið 29. apríl 2015. Í skuldaviðurkenningu Leiguvéla ehf. gagnvart áfrýjanda 26. júní 2015 fólst þannig viðurkenning félagsins á skuld sem þegar hafði stofnast vegna vanefnda þess en þær leiddu til samtals 12.123.125 króna fjártjóns eins og nánar er lýst í skuldaviðurkenningunni. Upphafsdagur vaxta samkvæmt skuldabréfi því sem áfrýjandi fékk afhent var sem fyrr segir 29. apríl 2015 og rennir það frekari stoðum undir þá niðurstöðu að áfrýjandi og Leiguvélar ehf. hafi litið svo á að til skuldarinnar hafi stofnast ekki síðar en við uppgjör áfrýjanda gagnvart Lýsingu hf. Breytir engu þar um þótt skuld Leiguvéla ehf. við áfrýjanda hafi ekki komið fram í bókhaldi félagsins. Samkvæmt yfirskrift fyrrnefndra leigusamninga áfrýjanda um vörubifreiðirnar fimm tók hann þær á leigu frá Leiguvélum ehf. Í samningunum kom fram að Leiguvélar ehf. væri eigandi vörubifreiðanna. Allar meginskyldur áfrýjanda samkvæmt samningunum voru við Leiguvélar ehf. og leigugreiðslur runnu til þess félags. Áfrýjandi átti þannig kröfu á Leiguvélar ehf. um útgáfu afsala og gat beint kröfu að félaginu um bætur fyrir tjón sem orsakaðist af því að það var ófært um að standa við skyldu sína um að yfirfæra eignarréttindi að bifreiðunum til áfrýjanda. Þennan skilning staðfesti fyrirsvarsmaður áfrýjanda með ritun samþykkis á skjal sem hafði að geyma yfirlýsingu Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. um yfirtöku á skuld Leiguvéla ehf. við áfrýjanda. Verður því ekki fallist á með áfrýjanda að það félag teljist hafa verið samskuldari eða borið samábyrgð með Leiguvélum ehf. þannig að líta beri svo á að skuldin hafi verið greidd af þriðja manni en ekki Leiguvélum ehf.. Ekki liggur fyrir í málinu að áfrýjandi hafi verið með í ráðum um að færa niður skuld Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. í bókhalda Leiguvéla ehf. Þegar litið er til þess tölulega og tímalega samhengis sem var milli yfirlýsingar Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf., um yfirtöku skuldar Leiguvéla ehf. við áfrýjanda, útgáfu skuldabréfs til áfrýjanda og niðurfærslu á skuld Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. við Leiguvélar ehf. í bókhaldi þess félags, verður að leggja til grundvallar að Leiguvélar ehf. hafi greitt skuld sína gagnvart áfrýjanda með hluta af kröfu sinni á hendur Vélaborg Vörumeðhöndlun ehf. Um þá greiðslutilhögun höfðu áfrýjandi og Leiguvélar ehf. ekki samið þegar til skuldarinnar stofnaðist og ekki er að sjá að greiðslan hafi átt hliðstæðu á fyrri stigum. Með skírskotun til framangreinds er fallist á með stefnda að greiðslan hafi verið innt af hendi með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, sbr. til hliðsjónar dóma réttarins í málum nr. 410/1994 í dómasafni réttarins 1996, bls. 892 og nr. 91/1995 í dómasafni réttarins 1996, bls. 1511 svo og dóm réttarins 20. janúar 2011 í máli nr. 277/2010. Samkvæmt framansögðu hafði áfrýjandi orðið fyrir tjóni í viðskiptum sínum við Leiguvélar ehf. og átti eftir uppgjör við Lýsingu hf. 29. apríl 2015 kröfu á hendur hinu fyrrnefnda félagi. Þessa kröfu freistaði áfrýjandi að fá greidda með framangreindum hætti 26. júní 2015, innan sex mánaða fyrir frestdag sem var 21. október 2015 þegar beiðni um töku bús Leiguvéla ehf. til gjaldþrotaskipta var móttekin í Héraðsdómi Reykjavíkur. Með greiðslu kröfunnar var raskað því jafnræði milli kröfuhafa við gjaldþrotaskipti Leiguvéla ehf. sem lögum nr. 21/1991 er ætlað að tryggja. Þegar framangreint er virt verður ekki talið að áfrýjandi hafi sýnt fram á að greiðsla Leiguvéla ehf. hafi mátt virðast venjuleg eftir atvikum. Er því fullnægt skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun greiðslunnar. Áfrýjandi andmælir því að skilyrði 142. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt svo að taka megi til greina kröfu stefnda um endurgreiðslu. Samkvæmt gögnum málsins var skuldabréf það sem VB Vörumeðhöndlun ehf. gaf út til áfrýjanda til innheimtu hjá Íslandsbanka hf. Samkvæmt yfirliti frá bankanum voru sex af 24 afborgunum af skuldabréfinu greiddar á tímabilinu 7. ágúst 2015 til 10. febrúar 2017. Samtals námu innborganirnar 3.877.505 krónum, að meðtöldum dráttarvöxtum og kostnaði. Í fyrrnefndri yfirlýsingu Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. 26. júní 2015 var sérstaklega tilgreint að öll vörukaup og þjónustukaup myndu dragast frá afborgunum á skuldabréfinu. Áfrýjandi hefur ekki gert reka að því með framlagningu gagna eða munnlegri sönnunarfærslu að sýna fram á að skuld samkvæmt skuldabréfinu hafi einungis verið greidd með greiðslu afborgana fyrir milligöngu Íslandsbanka hf. þótt málatilbúnaður hans hafi gefið fullt tilefni til þess. Enda þótt árangurslaus fjárnám hafi verið gerð hjá Vélaborg Vörumeðhöndlun ehf. 12. ágúst 2014 og 3. ágúst 2016 greiddi félagið sex afborganir af skuldabréfinu, þar af tvær afborganir tæpum fimm mánuðum eftir síðara árangurslausa fjárnámið. Tæplega 21 mánuður leið frá útgáfu skuldabréfsins þar til bú Vélaborgar Vörumeðhöndlunar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 19. apríl 2017. Ekki verður séð að áfrýjandi hafi gert reka að því að fá skuldina greidda með öðrum hætti en að fela banka innheimtu skuldabréfsins. Með skírskotun til framangreinds verður að telja að það standi áfrýjanda nær að sanna að krafa sú sem hann fékk sem greiðslu frá Leiguvélum ehf. hafi ekki nýst honum með þeirri fjárhæð sem hún kvað á um og að hann hafi gert það sem í hans valdi stóð til að knýja á um greiðslu þess hluta kröfunnar sem kann að hafa verið ógreiddur. Samkvæmt framansögðu telst ósannað að greiðsla Leiguvéla ehf. hafi ekki orðið áfrýjanda að notum. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að Vélaborg Vörumeðhöndlun ehf. hafi verið ógjaldfær þegar félagið tók yfir skuld Leiguvéla ehf. gagnvart áfrýjanda og skuld félagsins við Leiguvélar ehf. var færð niður í bókhaldi þess félags. Verður því að líta svo á að stefndi hafi orðið fyrir tjóni sem samsvarar hinni greiddu skuld. Af öllu framangreindu leiðir að ekki eru skilyrði til að fallast á varakröfu áfrýjanda um lækkun á endurgreiðslukröfu stefnda. Samkvæmt framansögðu er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 134. gr., sbr. 1. mgr. 142. gr., laga nr. 21/1991 til að taka til greina kröfur stefnda um riftun og endurgreiðslu úr hendi áfrýjanda og verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest. Með því að verulegur vafi þykir hafa verið um ýmsa þætti málsins verður málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur  26. apríl 2017 Mál þetta, sem dómtekið var 3. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri 4. október 2016 af þrotabúi Leiguvéla ehf., Borgartúni 26, 105 Reykjavík, á hendur NORÐNORÐVESTUR ehf., Urriðakvísl 7, 110 Reykjavík. I.         Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur: i)      Að rift verði með dómi greiðslum hins gjaldþrota félags, Leiguvéla ehf., til stefnda, að fjárhæð 12.123.125 kr. sem fram fóru á grundvelli samkomulags frá 26. júní 2015 og með eftirfarandi útgáfu á skuldabréfi að fjárhæð 12.123.125 kr. sem undirritað var þann 14. júlí 2015. ii)     Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 12.123.125 kr. ásamt skaðabótavöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 12.123.125 kr. frá 14. júlí 2015 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá gerir stefnandi þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað. Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Til vara krefst stefnandi þess að stefnufjárhæð verði lækkuð verulega að mati dómsins. Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað. II. Málsatvik Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 7. janúar 2016 var bú Leiguvéla ehf. tekið til gjaldþrotaskipta en skiptabeiðandi var Lýsing hf. Lilja Jónasdóttir hrl. var sama dag skipuð skiptastjóri í búinu. Innköllun birtist í fyrsta sinn í Lögbirtingablaðinu þann 14. janúar 2016 og kröfulýsingafrestur rann út 14. mars 2016. Fyrsti skiptafundur var haldinn þann 1. apríl 2016. Frestdagur við skiptin er 21. október 2015 en þann dag var gjaldþrotaskiptabeiðni móttekin hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. og tilkynningu um frestdag sem birtist í Lögbirtingablaðinu. Samkvæmt kröfuskrá, dags. 23. mars 2016, nema lýstar kröfur í búið samtals 775.655.275 kr.  Leiguvélar ehf. var félag sem starfaði við útleigu og sölu á vinnuvélum til fyrirtækja hér á landi og erlendis. Tilgangur félagsins, samkvæmt samþykktum dags. 20. desember 2012, var leiga og sala á tækjum, smásala og heildsala, ráðgjafarstarfsemi, leiga og rekstur fasteigna, lánastarfsemi og tengd starfsemi. Framkvæmdastjóri og prókúruhafi Leiguvéla var Gunnar Viðar Bjarnason. Hann sat jafnframt í stjórn félagsins og var einn aðaleigandi þess í gegnum móðurfélagið Tá ehf., en það félag átti 92,46% eignarhlut í Leiguvélum. Tá ehf. átti einnig 75,49% eignarhlut í fyrirtækinu VB Vörumeðhöndlun ehf., en öll framangreind félög voru nátengd með þeim hætti að eignarhald og fyrirsvar var að mestu leyti í höndum Gunnars Viðars. Leiguvélar ehf. áttu í umfangsmiklum viðskiptum við Lýsingu og Ergo fjármögnunarþjónustu Íslandsbanka hf. á árunum 2002-2010 vegna fjármögnunar á vinnuvélum sem félagið leigði eða seldi  í rekstri sínum. Samtals voru um 200 fjármögnunarleigusamningar gerðir við Lýsingu á umræddu tímabili og um 100 fjármögnunarleigusamningar við Ergo. Árið 2011 kom upp ágreiningur um efni þessara samninga sem var í grundvallaratriðum tvíþættur. Í fyrsta lagi laut ágreiningur aðila að því hvort Leiguvélar yrði, gegn greiðslu við lok grunnleigutíma, eigandi þeirra véla og tækja sem fjármögnunarleigusamningarnir tóku til. Í öðru lagi var tekist á um það hvort umræddir samningar væru lánssamningar, sem hefðu að geyma ólögmæta gengistryggingu, sem Leiguvélar ehf. ættu rétt á að yrðu endurútreiknaðir, eða hvort um væri að ræða leigusamninga þar sem aðilum hefði verið heimilt að semja um að leigugjald tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Á árunum 2014-2016 voru rekin þrjú dómsmál milli Leiguvéla og Lýsingar, sem áttu öll rót að rekja til framangreinds ágreinings, sbr. Hrd. 4. mars 2015 í máli nr. 121/2015, Hrd. 4. febrúar 2016 í máli nr. 757/2015 og Hrd. 25. febrúar 2016 í máli nr. 563/2015. Lýsing vann öll dómsmálin. Þeir fjármögnunarleigusamningar sem þessi mál lutu að voru sambærilegir þeim samningum sem fjallað hafði verið um í dómum Hæstaréttar 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011 (Smákranar), Hrd. 13. mars 2014 í máli nr. 638/2013 (Suðurverk) og Hrd. 3. apríl 2014 í máli nr. 717/2013 (Ölgerðin). Með framangreindum dómum hafði verið skorið úr um það að fjármögnunarleigusamningar Leiguvéla ehf. við Lýsingu væru gengistryggðir leigusamningar, sem og að ekki hefði verið samið um það að leigutaki eignaðist tækin við samningslok, sbr. dóm Hæstaréttar 4. mars 2015 í máli nr. 121/2015, sem varðaði kröfu Lýsingar um innsetningu í 42 tæki í eigu félagsins, þar sem úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðinn 23. janúar 2015, var staðfestur með vísan til forsendna. Í forsendum héraðsdómsins er farið ítarlega yfir málsástæður Leiguvéla ehf. m.t.t. þeirra dómafordæma sem þá lágu fyrir. Af fyrrnefndum dómi má ráða að búið hafi verið að eyða réttaróvissu varðandi þessa samninga þegar í apríl 2014.      Jafnframt var uppi ágreiningur milli Leiguvéla ehf. og Ergo vegna fjármögnunarleigusamninga. Leyst var úr þeim ágreiningi með þeim hætti að samningarnir voru endurreiknaðir í tvígang, þ.e. 3. október 2012 og 14. apríl 2015. Við endurútreikning var þessum samningum breytt í kaupleigu. Þrátt fyrir framangreint voru Leiguvélar í verulegum vanskilum við Ergo um margra ára skeið, enda hætti félagið að greiða af samningunum á fyrstu mánuðum ársins 2011 og bárust síðustu greiðslurnar 6. maí 2011. Greiðslur sem bárust eftir þetta voru ekki beint frá Leiguvélum heldur var um að ræða inneignir vegna endurútreiknings sem var ráðstafað til lækkunar á skuld Leiguvéla. Eftir að seinni endurútreikningur fór fram, 14. apríl 2015, nam skuld Leiguvéla við Ergo samtals 171.850.499 kr. og var hún öll í vanskilum, sbr. viðskiptayfirlit Ergo dags. 30. apríl 2015. Af þeim sökum var krafist innsetningar í tæki sem voru í eigu Ergo með aðfararbeiðnum sem beint var til Héraðsdóms Reykjavíkur dags. 6. ágúst 2015. Á meðan framangreindum ágreiningi stóð greiddu Leiguvélar ehf. ekki af umþrættum samningum, eða allt frá ágúst 2011 í tilviki Lýsingar og maí 2011 í tilviki Ergo. Á sama tíma höfðu Leiguvélar ehf. allnokkrar tekjur af útleigu og sölu á tækjum, án þess að þeim tekjum hafi verið ráðstafað til greiðslu skulda við þessa aðila um margra ára skeið. Lýstar kröfur Lýsingar í þrotabúið nema 543.575.126 kr. og lýstar kröfur Íslandsbanka hf. vegna Ergo nema 183.166.190 kr. Ekki var tekin afstaða til almennra krafna í búinu þar sem búið var eignalaust.       Við athugun skiptastjóra á bókhaldi Leiguvéla komu í ljós fjölmargar færslur og ráðstafanir sem þóttu óvenjulegar. Í þessu sambandi var annars vegar um að ræða viðskipti Leiguvéla við nákomna aðila, þ.e. VB Vörumeðhöndlun ehf. og Tá ehf. Hins vegar var um að ræða uppgjörssamkomulag við aðila, sem höfðu áður greitt Leiguvélum fyrir vélar og tæki sem voru í eigu þriðja aðila, þ.e. Ergo og Lýsingar. Skiptastjóri lét af þessum sökum framkvæma bókhaldsrannsókn á tilteknum atriðum í bókhaldi þrotabús Leiguvéla frá 1. janúar 2012 til úrskurðardags 7. janúar 2016, sem m.a. fól í sér athugun á viðskiptum félagsins á umræddu tímabili, sbr. skýrslu Ernst & Young ehf. dags. 23. ágúst 2016.   Í skýrslu Ernst & Young er m.a. gerð grein fyrir samkomulagi við stefnda, NORÐNORÐVESTUR ehf., (hér eftir „NNV“) sem undirritað var þann 26. júní 2015. Í samkomulaginu kemur fram að: Leiguvélar ehf., kt. 640194-3089, viðurkenna að skulda NorðNorðVestur ehf. kt. 491209-0970 krónur 12.123.125.- vegna uppgjörs á fimm Daf vörubílum (LR-719, TY-608, SF-286, SM-606 og YT-487) sem fyrirtækið seldi NorðNorðVestur ehf. á sínum tíma en gat ekki fært eignarréttinn yfir vegna ágreinings við fjármögnunarfyrirtækið Lýsingu. Þar sem Leiguvélar gátu ekki leyst þessi tæki út hjá Lýsingu vegna ágreinings um skuldir og uppgjör þá var farin sú leið að NorðNorðVestur keypti 4 bíla aftur beint frá Lýsingu og samið var um matsverð á fimmta bílnum og því skuldar Leiguvélar ehf. NorðNorðVestur ehf. andvirði þessara kaupa með kostnaði. Fyrir liggur staðfesting Lýsingar að NorðNorðVestur hafi verið heimilt að kaupa fjóra bíla beint af Lýsingu með greiðslu kr. 10.400.000.- plús mat á fimmta bílnum upp á kr. 1.600.000.- eða samtals kr. 12.000.000- Við þetta leggst síðan kostnaður frá Lýsingu upp á kr. 123.125 Í sama samkomulagi var samið um að skuldin skyldi gerð upp með skuldabréfi að fjárhæð 12.123.125 kr. og var skuldabréfið gefið út af VB Vörumeðhöndlun ehf. þann 14. júlí 2015. Framangreindir pappírar voru undirritaðir af fyrirsvarsmönnum stefnda sem og fyrirsvarsmanni Leiguvéla og VB Vörumeðhöndlunar ehf. Samhliða þessu var skuld VB Vörumeðhöndlunar ehf. við Leiguvélar lækkuð um 12.123.125 kr. III. Málsástæður og lagarök stefnanda Í samkomulagi (skuldaviðurkenningu) því sem stefnandi og stefndi voru aðilar að og var undirritað þann 26. júní 2015 kom fram að vanefndir stefnanda gagnvart stefnda væru 12.123.125 kr. og gekk samkomulagið út á að gera þau vanskil stefnanda upp við stefnda. Riftunarkrafa stefnanda byggir á því að honum sé heimil riftun á greiðslum til stefnda sem fram fóru á grundvelli samkomulagsins. Stefnandi vísar til þess að í bókhaldsskýrslu Ernst & Young ehf., sem unnin var fyrir þrotabúið, sé farið nákvæmlega yfir viðskiptareikning VB í bókhaldi Leiguvéla. Á bls. 23 í skýrslunni sé að finna kreditfærslu að fjárhæð 12.123.125 kr.vegna samkomulagsins sem bókuð er þann 26. júní 2015. Þessi kreditfærsla gerir það að verkum að krafa þb. Leiguvéla ehf. á VB Vörumeðhöndlun ehf. lækkar úr 47.806.184 kr. í 35.683.059 kr. Tjón búsins af framangreindu samkomulagi sé 12.123.125 kr. Stefnandi tekur fram að engu máli skipti þótt búið hafi verið svo um hnútana að skuldin væri gerð upp með skuldabréfi sem útgefið væri af VB Vörumeðhöndlun ehf. þar sem krafa þb. Leiguvéla ehf. á það félag hafi samhliða verið lækkuð og því sé tjón búsins 12.123.125 kr.  Riftunarkröfuna byggir stefnandi á því að umræddar greiðslur séu einkum riftanlegar með vísan til 134. gr. laga nr. 21/1991. Ef ekki verður fallist á að 134. gr. gþl. eigi við, byggir stefnandi kröfurnar á 141. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi byggir endurgreiðslukröfu sína á 142. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi byggir á því að þessi ráðstöfun sé riftanleg með vísan til 134. gr. laga nr. 21/1991. Hann byggir aðallega á því að greiðsla á skuld Leiguvéla ehf. við stefnda með samkomulagi, dags. 26. júní 2015, samtals að fjárhæð 12.123.125 kr. hafi falið í sér riftanlega ráðstöfun samkvæmt 1. mgr. 134. gr. gþl., þar sem greiðslan fór fram með óvenjulegum greiðslueyri, var greidd fyrr en eðlilegt var, auk þess sem hún skerti greiðslugetu þrotamannsins verulega. Skilyrðin þrjú skv. 134. gr. séu sjálfstæð og hlutlæg og nægi að einu skilyrðanna sé fullnægt svo riftun megi ná fram að ganga Einnig byggir stefnandi á því að greiðslan hafi ekki verið venjuleg eftir atvikum. Stefnandi byggir á því að ef framangreint samkomulag hefði ekki verið gert hefði stefndi orðið að lýsa almennri kröfu í búið að fjárhæð 12.123.125 kr. og hefði lítið sem ekkert fengið upp í þá kröfu þar sem engar eignir eru í búinu. Með greiðslunni hafi kröfuhöfum búsins verið mismunað að þessu leyti. Skv. 134. gr. gþl. megi krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Frestdagur í slitameðferð stefnanda hafi verið 21. október 2015 þegar gjaldþrotaskiptabeiðnin var móttekin hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Ofangreind greiðsla skv. samkomulaginu hafi átt sér stað á grundvelli samkomulags sem undirritað var þann 26. júní 2015, sem var síðan fylgt eftir með útgáfu skuldabréfs þann 14. júlí 2015. Greiðslan átti sér þannig stað rétt rúmum þremur mánuðum fyrir frestdag og hafi því verið vel innan tímamarka ákvæðisins. Þá hafi greiðslan farið fram með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. gþl. Sem rök fyrir því bendir stefnandi á að greiðslan fór fram með afhendingu á skuldabréfi sem gefið var út af þriðja aðila en slík skuldaskjöl séu talin vera óvenjulegur greiðslueyrir, sjá í því sambandi t.d. Hrd. 1990, bls. 748 og Hrd. 1992, bls. 1033. Stefnandi byggir jafnframt á því að greiðslan, sem krafist er riftunar á, hafi verið greidd fyrr en eðlilegt var í skilningi 1. mgr. 134. gr. gþl. Greiðslan hafi átt sér stað með útgáfu skuldabréfsins þann 14. júlí 2015. Á þeim tíma hafi langstærstu kröfuhafar félagsins, Lýsing og Ergo, verið með kröfur upp á mörg hundruð milljónir króna sem voru að verulegu leyti í vanskilum. Stefnandi hafði hætt að greiða Ergo inn á skuldbindingar þess félags í maí 2011 og stefnandi hafði ekki heldur greitt Lýsingu af fjármögnunarleigusamningum félagsins frá því í ágúst 2011. Því var óeðlilegt að stefnandi skyldi greiða stefnda upp allar vanefndir sínar við hann vegna vanefnda sem komu síðar til. Með þessu hafi verið brotið gróflega á jafnræði kröfuhafa.  Stefnandi byggir enn fremur á því að umrædd greiðsla Leiguvéla á skuldum við stefnda hafi skert greiðslugetu Leiguvéla verulega. Stefnandi telur að við mat á þessu atriði verði að líta til fjárhagsstöðu Leiguvéla á þessu tímabili í víðu samhengi, m.a. hvaða eignir hafi verið til ráðstöfunar, skuldastöðu félagsins, tekjur og umfang rekstrarins o.fl. Þá þurfi að meta fjárhæð hinnar riftanlegu greiðslu samanborið við aðrar greiðslur sem inntar voru af hendi á tímabilinu. Stefnandi byggir í þessu sambandi á eftirfarandi málsástæðum máli sínu til stuðnings:        i.          Stefnandi vísar til umfjöllunar um 141. gr. gþl. í kafla 3 hér á eftir í umfjöllun um fjárhagslega stöðu félagsins á þessu tímabili. Stefnandi telur ljóst að Leiguvélar hafi verið ógreiðslufært og búið við talsverðan eignahalla allt frá 2012. Vænkaðist sú staða aldrei, heldur þvert á móti þar sem gjaldfallnar skuldir, sem ekki hafði verið greitt af um árabil, söfnuðu dráttarvöxtum og kostnaði. Það verður því að telja að Leiguvélar hafi verið ógjaldfærar a.m.k. í apríl 2014, þó sennilega fyrr eins og áður greinir.          ii.          Stefnandi byggir á því að við mat á því hvort greiðslur hafi skert greiðslugetu verulega verði einnig að líta til greiðslugetu Leiguvéla með því að bera saman greiðslur sem inntar voru af hendi í rekstrinum og þær tekjur sem félagið hafði á þessum tíma. Tekjur Leiguvéla af útleigu tækja fyrir allt árið 2014 voru um 39.000.000 kr. og engar tekjur voru af útleigu tækja árið 2015. Stefnandi telur einsýnt að greiðslur til stefnda hafi verið mjög háar miðað við aðrar kröfur og tekjur í rekstrinum, sem smám saman fjaraði út og var í raun að engu orðinn árið 2015. Sem dæmi má nefna að á tímabilinu frá 3. apríl 2014 24. ágúst 2015 voru mjög óverulegar fjárhæðir greiddar stærstu kröfuhöfum félagsins, þannig voru aðeins 406.844 kr. greiddar Lýsingu og 613.073 kr. Ergo, en skuldir við þessa aðila námu á þessum tíma mörg hundruð milljónum króna, líkt og áður greinir.     iii.          Stefnandi byggir á því að á sama tíma og greiðslurnar hafi farið fram hafi félagið átt óverulegar eignir til ráðstöfunar. Helsta eign félagsins á þessum tíma var krafa á hendur VB en meðalstaða á viðskiptamannareikningi VB var 30.000.000 kr. árið 2015. Stefnandi leggur áherslu á að við mat á þeim eignum sem hafi verið til ráðstöfunar á þessum tíma sé aðeins hægt að horfa til óveðsettra eigna, en af því leiðir að handveðsett bankainnstæða, sem samkvæmt drögum að ársreikningi 2014 nam 156.045.321 kr. í lok þess árs, hefur ekki þýðingu við þetta mat, enda tilheyrði hún réttilega Lýsingu.  Stefnandi byggir á því að umrædd ráðstöfun sé riftanleg skv. 134. gr. gþl. séu einhver af hlutlægum skilyrðum greinarinnar uppfyllt og ef greiðsla getur ekki talist venjuleg eftir atvikum, sbr. 1. mgr. 134. gr. i.f. Stefnandi vill benda á að ef skilyrði 134. gr. gþl. eru almennt uppfyllt hvíli það á stefnda að sýna fram á að umræddar ráðstafanir hafi verið venjulegar eftir atvikum. Stefnandi byggir á því að greiðsla skv. hinu margnefnda samkomulagi geti á engan hátt talist eðlileg eftir atvikum, enda hafi verið um uppgreiðslu á skuld við einn kröfuhafa að ræða, á kostnað allra annarra kröfuhafa félagsins, skömmu fyrir gjaldþrot. Greiðslan hafi verið innt af hendi með óvenjulegum greiðslueyri og skerti hún greiðslugetu stefnanda verulega. Með tilliti til ofangreinds telur stefnandi að hin umþrættu viðskipti geti ekki talist venjuleg eftir atvikum, sbr. 1. mgr. 134. gr. gþl. Verði ekki fallist á að greiðslan sé riftanleg á grundvelli 134. gr. gþl. byggir stefnandi á því að greiðsla Leiguvéla ehf. til stefnda að fjárhæð 12.123.125 kr. þann 14. júlí 2015, sé riftanleg ráðstöfun á grund­velli 141. gr. gþl. Stefnandi telur að greiðslan hafi á ótilhlýðilegan hátt verið stefnda til hags­bóta á kostnað annarra kröfuhafa og leitt til þess að eignir Leiguvéla voru ekki til reiðu til fullnustu öðrum kröfuhöfum. Stefnandi telur þannig einsýnt að þessi ráðstöfun hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu skuldaskilaréttar og orðið öðrum kröfuhöfum til tjóns.  Stefnandi bendir á að með greiðslunni hafi stórum hluta eigna Leiguvéla verið ráðstafað til stefnda. Þá hafi augljóslega verið um að ræða verulega fjárhæð samanborið við aðrar eignir sem voru til ráðstöfunar og tekjur í rekstrinum á þessum tíma, sem voru engar. Á sama tíma hafi ekki verið greitt af skuldum við stærstu kröfuhafa félagsins. Stefnandi telur því að svo há greiðsla til stefnda hafi verið ótilhlýðileg miðað við stöðu Leiguvéla á þessum tíma. Stefnandi byggir á því að Leiguvélar hafi verið ógjaldfært félag er umrædd greiðsla fór fram og stefndi hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni Leiguvéla ehf., sem og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg. Í hugtakinu ógjaldfærni í þessari merkingu felist annars vegar að fjárhag viðkomandi er þannig háttað að eignir eru minni en skuldir (eignahalli) og hins vegar að viðkomandi geti ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verði talið sennilegt að greiðsluerfiðleikar muni líða hjá innan skamms tíma (ógreiðslufærni). Stefnandi telur að gögn málsins sýni með óyggjandi hætti að Leiguvélar hafi verið ógjaldfært félag er hin riftanlega ráðstöfun fór fram. Í þessu sambandi bendir stefnandi sérstaklega á eftirfarandi atriði máli sínu til stuðnings:        i.          Samkvæmt ársreikningi Leiguvéla vegna ársins 2013 var bókfært eigið fé neikvætt um  40.972.250 kr. Í raun var staðan mun verri og má í því sambandi m.a. nefna að í ársreikningnum var bókfærð krafa á Vélaborg ehf. (síðar V67 ehf.) að fjárhæð um 130.000.000 kr. Í ársreikningnum kemur fram að óvissa ríki um það hvort Vélaborg ehf. sé rekstrarhæft og þar með væri óvissa um verðmæti kröfunnar, sbr. 11. tl. í skýringum með ársreikningum. Vélaborg ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 4. febrúar 2015, eftir að hafa áður leitað nauðasamninga við lánardrottna sína. Í ársreikningum er einnig að finna umfjöllun um óvissu um stöðu skulda og eigna félagsins vegna endurútreikninga lána í erlendri mynt, en svo virðist sem stjórn félagsins hafi á þessum tíma gengið út frá því að félagið myndi fá umtalsverðar skuldir leiðréttar, þrátt fyrir dóm Hæstaréttar 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011 (Smákranar), sbr. 9. og 12. tl. í skýringum með ársreikningnum. Þá kemur fram að rekstrarhæfi félagsins sé háð því að félagið fái umtalsverðar leiðréttingar á skuldum sínum og félagið nái að styrkja fjárhag þess með þeim hætti.    Stefnandi byggir á því að bókfærðar eignir Leiguvéla hafi, miðað við framangreint, verið stórlega ofmetnar við gerð ársreikningsins, a.m.k. sé óhætt að segja að veruleg óvissa hafi ríkt um verðmæti eigna félagsins og mögulegar skuldaleiðréttingar. Þrátt fyrir það hafi eigið fé Leiguvéla verið neikvætt um 40.972.250 kr. Af öllu framangreindu leiðir að Leiguvélar bjó við talsverðan eignahalla a.m.k. frá árslokum 2013 og vænkaðist sú staða aldrei, heldur þvert á móti, þar sem gjaldfallnar skuldir söfnuðu dráttarvöxtum og kostnaði. Það verður því að telja að Leiguvélar hafi verið ógjaldfært félag a.m.k. í lok árs 2013, þó sennilega strax árið 2012.        ii.          Samkvæmt drögum að ársreikningi Leiguvéla vegna ársins 2014, sem afhent voru af GVB við skýrslutöku hjá skiptastjóra 15. janúar 2016, var bókfært eigið fé neikvætt um  295.130.595 kr. Bókfærðar eignir félagsins námu samtals 408.237.433 kr. og skuldir námu 703.368.023 kr. Fjárfestingaeignir í útleigu voru bókfærðar á 0 kr. en helstu eignir félagsins voru 24,51% eignarhlutur í VB bókfærður á 25.000.000 kr., kröfur á hendur tengdum aðilum að fjárhæð 212.689.355 kr. og handveðsett bankainnstæða að fjárhæð um 156.000.000 kr. Stefnandi telur að í apríl árið 2014 hafi verið búið að eyða þeirri réttaróvissu sem hafði verið uppi varðandi fjármögnunarleigusamninga Lýsingar, sbr. umfjöllun í málavaxtalýsingu hér að framan Stefnandi telur því einsýnt að Leiguvélar hafi verið ógjaldfært á þessum tíma og aðeins tímaspursmál hvenær félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.     iii.          Samkvæmt viðskiptayfirliti Lýsingar dags. 30. apríl 2015, námu skuldir Leiguvéla vegna fjármögnunarleigusamninga við félagið 792.864.466 kr. með vsk., þar af námu gjaldfallnar skuldir vegna útgefinna reikninga 378.040.824 kr. Þá var fyrir hendi skuld vegna jafngreiðsluláns í íslenskum krónum (án veðs) 43.089.859 kr. sem var gjaldfallið. Samtals námu skuldir Leiguvéla við Lýsingu á þessum tímapunkti því samtals 835.954.325 kr.  Um svipað leyti var fyrir hendi innstæða á handveðsettum bankareikningi í Kviku að fjárhæð 156.045.321 kr. miðað árslok 2014, sbr. drög að ársreikningi vegna 2014 og Hrd. 25. febrúar 2016 í máli nr. 563/2015.   Samkvæmt viðskiptayfirlitum Ergo námu skuldir Leiguvéla vegna fjármögnunar- og kaupleigusamninga við félagið 171.876.021 kr. miðað við 30. apríl 2015, þ.e.a.s. eftir seinni endurútreikning Íslandsbanka hf. sem miðaðist við 14. apríl 2015, og var öll fjárhæðin í vanskilum 30. apríl 2015. Rétt er að geta þess að hefðbundnar greiðslur af samningum hættu að berast Ergo í maí 2011. Þá greiddi Ergo samtals 3.950.309 kr. frá 7. mars 2011 til 7. janúar 2016 vegna vinnuvélaskoðunar, bifreiðagjalda, þungaskatts og trygginga, sem Leiguvélar sinnti ekki um að greiða. Stefnandi vísar í þessu sambandi að öðru leyti til málavaxtalýsingar eftir því sem við á varðandi samskipti og ágreiningsefni Leiguvéla við Lýsingu og Ergo. Af framangreindu leiðir að árið 2015 voru skuldir Leiguvéla langt umfram eignir, auk þess sem á þeim tíma hafði ekki verið greitt af gjaldföllnum skuldum um margra ára skeið. Enn fremur liggi fyrir að tekjur Leiguvéla af útleigu tækja fóru sífellt minnkandi, en þær námu um 73.300.000 kr. árið 2013, 39.000.000 kr. árið 2014 og voru engar árið 2015. Lýstar kröfur Lýsingar í þrotabúið nemi 543.575.126 kr. og lýstar kröfur Íslandsbanka hf. vegna Ergo nemi 183.166.190 kr.       Með vísan til framangreinds byggir stefnandi á því að það sé engum vafa undirorpið að Leiguvélar hafi verið ógjaldfært félag er hin riftanlega ráðstöfun fór fram. Fjárkrafa stefnanda vegna þeirrar ráðstöfunar sem lýst er hér að framan og krafist er riftunar á á grundvelli 134. gr. gþl. byggir á 1. mgr. 142. gr. gþl. Telji dómurinn að krafan sé ekki riftanleg á grundvelli 134. gr. gþl., heldur þess í stað á grundvelli 141. gr. gþl. þá er endurgreiðslukrafan grundvölluð á 3. mgr. 142. gr. gþl. sem og almennum bótareglum. Stefnandi telur ljóst að stefndi hafi haft hag af hinni riftanlegu ráðstöfun sem nam samtals 12.123.125 kr. Sú fjárhæð svari einnig til þess tjóns sem þrotabúið varð fyrir vegna þessarar ráðstöfunar, þar sem samsvarandi eignir eru ekki til reiðu í búinu til fullnustu kröfuhöfum. Af framangreindum sökum beri að dæma stefnda til greiðslu skaðabóta, en verði ekki á það fallist ber að dæma stefnda til endurgreiðslu auðgunar. Á grundvelli 1. mgr. 142. gr. gþl. krefst stefnandi skaðabótavaxta á kröfu sína sbr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, allt þar til krafan ber dráttarvexti vegna riftunar þrotabúsins. Að öðrum kosti auðgast stefndi með óréttmætum hætti um sem nemur þeim vöxtum sem falla til á því tímabili. Ef riftunarþoli þyrfti ekki að greiða vexti af slíkri endurgreiðslukröfu myndi hreinlega borga sig fyrir aðila í viðskiptum að taka við riftanlegum greiðslum og geyma inni á bankabók. Slík túlkun væri ekki í samræmi við megintilgang laganna eða orðalag ákvæðisins í 142. gr. gþl. Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 134., 141. og 142. gr. laganna. Krafa um skaðabóta- og dráttarvexti er studd við ákvæði III. og IV. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 8. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna. Um upphafsdag dráttarvaxta vísast til 4. mgr. 5. gr. laganna. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um málshöfðunarfrest vísast til 148. gr. laga nr. 21/1991. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi vísar til þess að hann hafi átt í viðskiptum við stefnanda og fyrirtækið VB Vörumeðhöndlun ehf. með leigu á vörubifreiðum frá 6. júní 2012. Stefndi hafi gert þrjá samninga þann dag um leigu á vinnuvélum frá Leiguvélum ehf. þar sem tiltekið var að leigusali væri Leiguvélar ehf. í samstarfi við VB Vörumeðhöndlun ehf. Samningarnir þrír voru gerðir fyrir vörubifreiðar með fastanúmerin LR-719, TY-608, og YT-487. Á leigusamningunum hafi verið tiltekið að vörubifreiðarnar væru eign Leiguvéla ehf. Þá var tiltekið, annars vegar á leigusamningunum og hins vegar í sérstökum viðauka við leigusamningana, að leigutaki skyldi eiga „kauprétt út úr leigu“ og skyldu þá allar leigugreiðslur ganga upp í nánar tilgreint kaupverð bifreiðanna. Samtals var kaupverð bifreiðanna samkvæmt leigusamningunum og viðaukanum 11.700.000 kr. auk virðisaukaskatts. Þann 28. febrúar 2013 hafi verið gerðir tveir samningar til viðbótar, sem hafi í öllum meginatriðum verið eins og hinir þrír fyrrnefndu. Þessir samningar voru um bifreiðarnar SM-606 og SF-286. Kaupverð hvorrar um sig skyldi vera 4.000.000 kr. auk virðisaukaskatts, þannig að samtals gerði stefndi leigu/kaupsamninga við stefnanda og VB Vörumeðhöndlun upp á 19.700.000 kr.   Þegar stefndi hafði staðið að fullu skil á kaupverði bifreiðanna með leigugreiðslum til stefnanda gat stefnandi ekki staðið við þá meginskyldu sína að færa eignarhaldið yfir á stefnda. Ástæða þess var sú að bifreiðarnar voru í raun eign Lýsingar, en ekki stefnanda eins og haldið hafði verið fram á leigusamningum milli stefnda og stefnanda/VB Vörumeðhöndlunar. Stefnandi hafði hins vegar gert fjármögnunarleigusamninga við Lýsingu um bifreiðarnar. Stefnandi hafði þannig vísvitandi gert sölusamninga við stefnda á bifreiðum sem hann hafði enga eignarheimild yfir.  Í júní 2015 hafi Libra lögmenn, f.h. Lýsingar, gert kröfu um að stefndi afhenti Lýsingu framangreindar bifreiðar en félagið hafði þá rift samningum sínum við stefnanda. Krafa Lýsingar hafi komið stefnda í opna skjöldu þar sem hann taldi sig hafa staðið full skil á samningum sínum við stefnanda/VB Vörumeðhöndlun. Þar sem stefndi þurfti nauðsynlega á bifreiðunum að halda í rekstri sínum og til að leysa málið gagnvart Lýsingu hafi stefndi gert samkomulag við Lýsingu um að kaupa fjórar hinna tilteknu bifreiða og afhenda þá fimmtu. Matsverð Lýsingar á bifreiðunum var samtals 12.123.125 kr. og var það jafnframt sú upphæð sem félagið krafðist sem endurgjalds fyrir bifreiðarnar. Þannig hafi stefndi verið búinn að greiða kaupverð bifreiðanna tvisvar sinnum, annars vegar stefnanda og hins vegar Lýsingu, samtals 31.823.125 kr. Forsvarsmaður stefnda hafi krafið forsvarsmann stefnanda, Gunnar Viðar Bjarnason, um endurgreiðslu á kaupverðinu sem hann þurfti að greiða Lýsingu. Gunnar hafi sýnt stöðunni skilning en gat ekki staðið skil á endurgreiðslu til stefnda og þess í stað boðið að VB Vörumeðhöndlun myndi gefa út skuldabréf til tveggja ára til að endurgreiða stefnda skaðann sem hann hafði orðið fyrir. Stefndi hafi ekki átt um aðra kosti að velja en að samþykkja þessa málaleitan Gunnars sem útbjó í framhaldinu yfirlýsingu og skuldabréf. Forsvarsmaður stefnda hafi ritað samþykki sitt á yfirlýsinguna og tekið við skuldabréfinu. Skuldabréfið hefur frá fyrstu tíð verið í vanskilum og lítið fengist greitt af því. Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að um grundvallarmisskilning sé að ræða í stefnu stefnanda. Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á bókhaldsskýrslu Ernst og Young ehf. Hluti skýrslunnar sé lagður fram í málinu og á bls. 17 sé fjallað um málefni stefnda. Þar sé tekið fram að samkvæmt bókhaldi stefnanda sé engin skuld færð gagnvart stefnda. Engu að síður sé augljóst skv. dómskjali 11, að forsvarsmaður félagsins, Gunnar Viðar, viðurkenni að félagið skuldi stefnda 12.123.125 kr., sem hann þurfti að greiða Lýsingu vegna vanefnda stefnanda. Þá sé jafnframt ljóst af umfjölluninni í dómskjali 12 að forsvarsmaður stefnanda á þeim tíma hafi lagst í töluverðar bókhaldsæfingar og m.a. nýtt sér yfirlýsinguna til stefnda til að lækka skuld síns eigin félags, VB Vörumeðhöndlunar ehf., gagnvart stefnanda og fært á móti niður skuld stefnanda við Lýsingu. Hann láti þannig líta út eins og VB Vörumeðhöndlun ehf. hafi greitt skuld stefnanda við Lýsingu. Það sé hins vegar fjarri öllum staðreyndum málsins að svo hafi verið og því einfaldlega um rangfærslu á í bókhaldi að ræða af hálfu forsvarsmanns stefnanda. Af umfjölluninni í bókhaldsskýrslunni sé ljóst að engin færsla eigi sér stað gagnvart stefnda í bókhaldi félagsins því þar sé enga skuld að finna. Því sé ljóst að ekkert uppgjör hefur átt sér stað af hálfu stefnanda gagnvart stefnda, sem skaðar aðra kröfueigendur í félaginu, og engin greiðsla hafi átt sér stað út úr félaginu til stefnda. Það séu einungis bókhaldsæfingar forsvarsmanns stefnanda sem láti líta út fyrir að annað félag í eigu hans hafi greitt kröfu til Lýsingar, sem stefndi hins vegar greiddi. Stefndi getur ekki með nokkru móti borið ábyrgð á því hvernig stefnandi og eftir atvikum forsvarsmaður hans hagi bókhaldi félagsins, en í öllu falli sé ljóst að stefndi hefur ekki fengið neinar greiðslur frá stefnanda, sem hafa orðið öðrum kröfuhöfum til tjóns. Þvert á móti hafi stefndi greitt aðalkröfuhafa stefnanda, Lýsingu, beint það sem Lýsing krafðist vegna skuldar stefnanda við félagið vegna viðskipta með fimm tilteknar vörubifreiðar. Stefndi byggir á því að stefnandi geti ekki rift greiðslu sem VB Vörumiðlun ehf. ákveði að greiða honum sem skaðabætur vegna viðskipta stefnda, stefnanda og VB Vörumeðhöndlunar ehf. Um sé að ræða samkomulag milli stefnda annars vegar og stefnanda og VB Vörumeðhöndlunar hins vegar, þar sem stefnandi viðurkennir að skulda stefnda vegna viðskiptanna með vörubifreiðarnar og VB Vörumeðhöndlun ehf. tekur að sér að greiða stefnda skuldina . Það félag hafi jafnframt verið aðili að leigu/kaupsamningum þeim sem aðilar höfðu gert með sér og ekkert sé óeðlilegt við að það félag endurgreiði stefnda. Stefndi hafi enga stjórn haft á því með hvaða hætti forsvarsmaður stefnanda nýtti sér samkomulag þeirra um endurgreiðslu á kröfu hans á hendur stefnanda. Þau viðskipti eða bókhaldsfærslur séu á milli félaga í eigu forsvarsmanns stefnanda og komi stefnda ekkert við. Þar að auki hafi ekki verið um beina greiðslu að ræða til stefnda, heldur var gefið út skuldabréf sem útgefandi hafi ekki staðið skil á nema að örlitlu leyti. Stefndi hefur þannig ekki endurheimt þann skaða sem hann varð fyrir með viðskiptunum við stefnanda og VB Vörumiðlun ehf. nema að litlu leyti og sitji því enn uppi með tjón sitt. Stefndi telur enn fremur augljóst af málavöxtum að langstærsti kröfuhafi stefnanda og sá aðili sem krafðist gjaldþrotaskipta yfir honum, Lýsing, hafi þegar fengið fullnustu þess hluta kröfu sinnar á hendur stefnanda sem laut að viðskiptum með þær vörubifreiðar sem stefndi keypti af stefnanda. Með því að stefndi greiddi Lýsingu fyrir þessar tilteknu bifreiðar gerði hann upp kröfu Lýsingar á hendur stefnanda vegna þeirra. Lýsing eigi því ekki kröfu á hendur stefnanda vegna þessara tilteknu bifreiða. Ef stefndi ætti að greiða stefnanda aftur fyrir vörubifreiðarnar, væri hann með fyrirvara (de facto) að greiða Lýsingu, sem langstærsta kröfuhafa stefnanda, aftur fyrir bifreiðar sem hann hefur þegar keypt af félaginu. Augljóst má heita að slík niðurstaða sé með engu móti sanngjörn né eðlileg á nokkurn hátt með vísan til 32. og 36. gr. samningalaga. Stefndi telur á hinn bóginn ljóst að Lýsing kunni að eiga kröfu á VB Vörumiðlun ehf. sem nemur þeirri upphæð sem forsvarsmaður félaganna færði ranglega á milli reikninga VB Vörumiðlunar ehf. og Lýsingar í bókhaldi stefnanda. Stefndi hafi verið sá aðili sem innti þessar greiðslur af hendi en ekki VB Vörumiðlun ehf. Ef orðið verður við kröfum stefnanda sé ljóst að stefndi þurfi í besta falli að greiða tvisvar fyrir þær bifreiðar sem hann samdi um kaup á við stefnanda/VB Vörumeðhöndlun, en í versta falli þrisvar sinnum ef skuldabréf það sem hann fékk afhent innheimtist ekki, eins og flest bendir til. Sá sem stæði uppi með hagnaðinn af þeirri niðurstöðu væri stærsti kröfuhafi stefnanda, Lýsing. Það veki sérstaka athygli að lögmenn félagsins hafi þegar innheimt greiðslu frá stefnda fyrir þeim bifreiðum sem riftunarmál þetta snýst um. Sömu aðilar sjái sig jafnframt hæfa til að fara fram með kröfur þessar gegn stefnda, í umboði Lýsingar sem stærsta kröfuhafa stefnanda. Telur stefndi að málatilbúnaður þessi sé bersýnilega ósanngjarn og til þess fallinn að Lýsing geti auðgast á ólögmætan hátt á hans kostnað. Stefnandi byggi málatilbúnað sinn á því að um riftanlega greiðslu sé að ræða með vísan til 134. gr. gjaldþrotalaga. Augljóst er af greininni að hún á við ef þrotamaður sjálfur innir af hendi greiðslu til eins aðila öðrum kröfuhöfum til skaða. Með vísan til þess sem hér að framan greinir er augljóst að það var ekki stefnandi sem innti af hendi greiðslu til stefnda, heldur þriðji aðili, VB Vörumiðlun ehf., sem jafnframt var aðili að þríhliða samkomulagi aðila um leigu/kaup á tilteknum fimm vörubifreiðum. Þá sé jafnframt ljóst að það var VB Vörumiðlun ehf., eða eftir atvikum, forsvarsmaður félagsins sem sem ranglega færði bókhald stefnanda og lét líta út fyrir að félagið hefði greitt Lýsingu kröfu og lækkaði þannig skuld VB Vörumiðlunar ehf. við stefnanda á kostnað Lýsingar. Þá komi fram í bókhaldsrannsókn Ernst og Young að engar kröfur hafi verið í bókhaldi félagsins frá stefnda. Engar greiðslur eða millifærslur hafi því átt sér stað á milli þrotamanns og stefnda. Ekkert af skilyrðum greinarinnar eigi því við um viðskipti stefnanda og stefnda. Stefnandi byggi málatilbúnað sinn jafnframt á því að um riftanlega greiðslu sé að ræða á grundvelli 141. gr. gjaldþrotalaga. Greinin  taki til þeirra ráðstafana sem gerðar eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra. Eins og fram kemur í fyrrgreindri bókhaldsrannsókn, var stefndi ekki kröfuhafi samkvæmt bókhaldi stefnanda og engin færsla átti sér stað á reikning hans hjá stefnanda. Á hinn bóginn nýtti annar aðili, VB Vörumiðlun ehf., félag með sömu eignaraðild og stefnandi, sér einhliða samkomulag sitt við stefnda til þess að lækka kröfu stefnanda á hendur sér og færa á móti til lækkunar kröfu Lýsingar á stefnanda. Hér sé augljóslega um ógildan gjörning að ræða, en riftunarkrafan geti eingöngu beinst að þeim sem nýtur gjörningsins en það sé VB Vörumiðlun ehf. Riftunarkrafa byggð á 141. gr. geti því eingöngu beinst að VB Vörumiðlun ehf. en ekki að stefnda. Af framangreindu sé ljóst að sýkna beri stefnda af kröfu stefnanda vegna aðildarskorts. Bókhaldsrannsóknin sanni það að röngum aðila sé stefnt til riftunar. Stefndi styður kröfu sína um sýknu aðallega við meginreglur kröfu og samningaréttar um að halda beri gerða samninga, og reglum um vanheimild. Stefndi hafi staðið við samninga við stefnanda/VB Vörumeðhöndlun að fullu en mótaðilar hans hafi brotið allar meginskyldur sínar. Þá styðst stefndi við 32. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Þá styður stefndi kröfu sína við reglur Jónsbókar um kaupfox. Stefndi keypti af stefnanda/VB Vörumiðlun bifreiðar sem hann átti ekki og hafði ekki heimild til að selja. Honum hafi því borið réttur til að heimta fé sitt til baka frá þeim sem seldi. Stefndi styður kröfu sína einnig við lög um bókhald, nr. 145 frá 1994, aðallega 8. gr., enda hefur stefnandi augljóslega, að mati stefnda, farið á sveig við lögin. Loks styður stefndi kröfu sína um sýknu við lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Kröfuna um málskostnað byggir stefndi á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. IV. Niðurstaða Við aðalmeðferð gaf fyrirsvarsmaður stefnda, Jón Hinrik Garðarsson, skýrslu. Jón Hinrik kvað að í umræddum leigusamningum hafi verið tekið fram að bifreiðarnar væru eign Leiguvéla ehf. og greidd leiga ætti að ganga upp í kaup á umræddum bifreiðum. Leiguvélar ehf. hafi síðan ekki getað afhent afsöl fyrir bifreiðarnar vegna deilu við Lýsingu. Þegar honum hafi síðan verið tilkynnt að krafa væri um að bílarnir yrðu teknir af stefnda hafi hann ekki átt annan kost en að kaupa allar bifreiðarnar utan eina þar sem stefndi hafi verið með þær í fullri vinnu. Hann kvaðst síðan hafi atast í Leiguvélum ehf. og krafist endurgreiðslu á sömu fjárhæð og bifreiðarnar hefðu verið keyptar á af Lýsingu. Skuldabréfið á dómskjali nr. 11 hafi átt að ganga upp í það sem hann hefði greitt. Jafnframt gaf vitnaskýrslu Gunnar Viðar Bjarnason, framkvæmdastjóri VB Vörumeðhöndlunar ehf. Vitnið kvaðst um tíma hafa verið í fyrirsvari fyrir Leiguvélar ehf. og hafa verið eigandi að hluta í gegnum tengda aðila. Vitnið kvað Leiguvélar ehf. hafa verið í góðri trú um að félagið væri eigandi þeirra bifreiða sem samningar við stefnda Norðnorðvestur ehf. tóku til en Lýsing hf. hafi neitað að gera upp málið við félagið. Af hálfu Leiguvéla ehf. hafi verið gert ráð fyrir að félagið fengi dóm fyrir því að vera eigandi bílanna, en það hafi ekki gengið eftir. Vitnið kvaðst síðan hafa haft milligöngu við Lýsingu um að stefndi gæti keypt bílana af Lýsingu þar sem stefndi hafi verið búinn að greiða bílana að fullu og jafnframt Leiguvélar ehf. Þær greiðslur hins gjaldþrota félags, Leiguvéla ehf. til stefnda, sem krafist er riftunar á með vísan til 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti ofl., eru vegna uppgjörs á fimm Daf vörubílum, sem félagið seldi stefnda á sínum tíma og gat ekki fært eignarréttinn til stefnda vegna ágreinings við fjármögnunarfyrirtækið Lýsingu. Af þessum sökum var farin sú leið að stefndi keypti fjóra bíla aftur beint frá Lýsingu og samið var um matsverð á fimmta bílunum. Samkvæmt samkomulaginu, sem undirritað var 26.6.2015 viðurkenndu Leiguvélar ehf. að skulda stefnda samtals 12.000.000 kr. að viðbættum kostnaði frá Lýsingu að fjárhæð 123.125 kr., eða samtals 12.123.125 kr. Leiguvélar greiddu skuldina með skuldabréfi að fjárhæð 12.123.125 kr. Skuldabréfið var síðan gefið út af VB Vörumeðhöndlun ehf. þann 14. júlí 2015. Samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt er með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd fjárhæð hefur skert greiðslugetu þrotamanns, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum, en frestdagur í slitameðferð stefnanda var 21. október 2015. Umrædd greiðsla, sem fór fram 14. júlí 2015, var innt af hendi á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Greiðslan fór fram með afhendingu á skuldabréfi sem gefið var út af þriðja aðila. Slík skjöl hafa verið talinn óvenjulegur greiðslueyrir. Í málinu liggur fyrir bókhaldsskýrsla Ernst & Young ehf. þar sem farið var yfir viðskiptareikning VB Vörumeðhöndlunar ehf. og Leiguvéla ehf. Þar kemur fram að þann 26. júní 2015 er færð kreditfærsla að fjárhæð 12.123.125 kr. vegna samkomulagsins. Við þessa færslu lækkaði krafa Leiguvéla ehf. á félagið úr 47.806.184 kr. í 35.683.059 kr. Við aðalmeðferð byggði stefndi á því að VB Vörumeðhöndlun, sem gaf út skuldabréfið, hafi verið leigusali umræddra bifreiða ásamt Leiguvélum ehf. og vísaði í því sambandi til þess að í umræddum samningum um útleigu á vinnuvélum frá Leiguvélum efh. ehf. kæmi fram að Leiguvélar ehf. væri leigusali í samstarfi við VB Vörumiðlun ehf. og með útgáfu skuldabréfsins væri VB Vörumiðlun ehf. að greiða stefnda skaðabætur vegna þess tjóns sem stefndi hefði orðið fyrir vegna vanefnda leigusala á því að afhenda umræddar biðreiðar stefnda til eignar. Í þessu sambandi vísast til þess sem segir í umræddum samningum að hinar útleigðu vörubifreiðar séu eign Leiguvéla ehf. Á þessa málsástæðu stefnda verður ekki fallist enda skýrt í  samkomulaginu, sem undirritað var 26.6.2015, að um væri að ræða skuld Leiguvéla ehf. við stefnda. Umræddar bifreiðar voru í samningnum sagðar eign Leiguvéla ehf. og leigusali þar af leiðandi eigandi þeirra. Ekki verður talið að máli skipti að málum hafi verið hagað þannig að skuldin væri greidd upp með skuldabréfi útgefnu af VB Vörumeðhöndlun ehf. þar sem krafa Leiguvéla ehf. á það félag var lækkuð samhliða. Þessari málsástæðu stefnda var mótmælt af hálfu stefnanda sem of seint fram kominni. Þá er til þess að líta að þegar umrædd greiðsla átti sér stað voru Leiguvélar ehf. í verulegum vanskilum og höfðu ekki greitt af skuldbindingum sínum við stærstu kröfuhafana Lýsingu og Ergo frá því á árinu 2011. Það var því óeðlilegt að félagið greiddi upp allar vanefndir sínar við stefnda með þessum hætti og bryti með því á jafnræði kröfuhafa. Skilyrðin þrjú til riftunar skv. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, eru sjálfstæð og hlutlæg og nægir að einu skilyrðanna sé fullnægt.   Fallist er á það með stefnanda að umrædd greiðsla hafi farið fram með óvenjulegum greiðslueyri og stefndi hefur heldur ekki fært sönnur á að greiðslan verði talin hafa verið venjuleg eftir atvikum. Tjón stefnanda af þessum sökum var því 12.123.125 kr. Ekki verður fallist á  rök fyrir þeirri málsástæðu stefnda að stefnanda hafi borið að beina riftunarkröfu að VB Vörumiðlun ehf. Samkvæmt því sem rakið hefur verið er fallist á kröfu stefnanda um að rift verði umræddri greiðslu sem fram fór á grundvelli samkomulags frá 26. júní 2015 og með eftirfarandi útgáfu á skuldabréfi af fjárhæð 11.123.125 kr. undirrituðu 14. júlí 2015. Samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. skal sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Stefnandi hafði hag af hinni riftanlegu ráðstöfun sem nam 12.123.125 kr. sem svarar til þess tjóns sem þrotabúið varð fyrir vegna þessarar ráðstöfunar. Fyrirsvarsmaður stefnanda bar að eitthvað hefði verið greitt af umræddu veðskuldabréfi og hefur ekki fært sönnur á að það muni ekki fást greitt. Því ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda skaðabætur sem nema framangreindri fjárhæð, 12.123.125 kr., ásamt skaðabótavöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 14. júlí 201 til þingfestingardags þann 4. október 2016, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Að fenginni þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn eins og nánar er kveðið á um í dómsorði. Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn. Dómsorð:  Rift er greiðslum hins gjaldþrota félags, Leiguvéla ehf., til stefnda, Norðnorðvestur, að fjárhæð 12.123.125 kr. sem fram fór á grundvelli samkomulags frá 26. júní 2015 og með eftirfarandi útgáfu á skuldabréfi að fjárhæð 12.123.125 kr. sem undirritað var þann 14. júlí 2015. Stefndi greiði stefnanda, þrotabúi Leiguvéla ehf., 12.123.125 kr. ásamt skaðabótavöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 12.123.125 kr. frá 14. júlí 2015 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 kr. í málskostnað.
Mál nr. 583/2017
Líkamstjón Vinnuslys Skaðabótamál
A krafðist þess að B hf. og S hf. yrði óskipt gert að greiða henni skaðabætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í vinnuslysi í Bláa lóninu hjá B hf. Tildrög slyssins voru þau að A hélt á körfu með drykkjarföngum og matvælum þegar hún fór um útidyr áleiðis að bar utanhúss við lónið. Eftir að hún hafði stigið á pall fyrir utan dyrnar missti hún jafnvægið og datt aftur fyrir sig á bakið. Þegar slysið varð hafði rignt og var pallurinn blautur. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar viðarpallur blotni í rigningu gæti myndast hálka og var lagt til grundvallar að A hefði dottið af þeim sökum. Þá var tekið fram að B hf. hefði látið fræsa rákir í pallinn og að hann hefði verið þveginn reglulega en það tvennt drægi úr hálkumyndun. Var því talið að B hf. hefði gripið til viðeigandi aðgerða til að tryggja öruggara umhverfi og því ekki talið að slysið yrði rakið til vanbúnaðar fasteignarinnar eða annarra atvika sem B hf. eða S hf. bæru ábyrgð á. Voru þau því sýknuð af kröfu A.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2017. Hún krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér óskipt 7.852.113 krónur með 4,5% ársvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 31. maí 2013 til 10. mars 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Dómendur fóru á vettvang 22. maí 2018. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi eru málavextir þeir að áfrýjandi hafði unnið um skamma hríð við þjónustustörf hjá stefnda Bláa lóninu hf. þegar hún varð fyrir slysi 31. maí 2013. Tildrögin voru þau að hún hélt á körfu með drykkjarföngum og matvælum þegar hún fór um útidyr áleiðis að bar utanhúss við lónið. Hefur hún skýrt svo frá að hún hafi opnað dyrnar með því að beita öxlum og baki og því hafi hún gengið aftur á bak eða á hlið þegar hún gekk út á pall við útidyrnar. Eftir að hún hafi stigið á pallinn og snúið sér hafi hún misst jafnvægið og dottið aftur fyrir sig á bakið. Innandyra voru flísar á gólfum og næst dyrunum að innanverðu járngrind en fyrir utan var viðarpallur með fræsuðum raufum. Þegar slysið varð hafði rignt og var pallurinn blautur. Við slysið hlaut áfrýjandi líkamstjón, sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Þar eru einnig raktar málsástæður aðila. Þegar viðarpallur blotnar í rigningu getur myndast hálka og verður að leggja til grundvallar í málinu að áfrýjandi hafi dottið í umrætt sinn af þeim sökum. Þess er þó að gæta að stefndi Bláa lónið hf. hafði látið fræsa rákir í pallinn, en það dregur úr því að hann verði sleipur þegar hann blotnar. Þá hefur komið fram að pallurinn hafi verið þveginn reglulega en það dregur jafnframt úr hálkumyndun. Með þessu móti hafði stefndi gripið til viðeigandi aðgerða til að tryggja öruggara umhverfi. Eru atvik máls að þessu leyti nægjanlega upplýst og verður því fallist á það með héraðsdómi að ekki skipti máli fyrir sönnunarfærsluna þótt slysið hafi ekki verið tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins tímanlega í samræmi við áskilnað 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að slysið verði rakið til vanbúnaðar fasteignarinnar eða annarra atvika sem stefndu bera ábyrgð á. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur. Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.   Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.       Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. júní 2017.           Mál þetta var höfðað 31. maí 2016 og tekið til dóms 23. maí sl. Stefnandi er A, […], en stefndu eru Bláa lónið hf., Norðurljósavegi 9, Grindavík, og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda 7.852.113 krónur með 4,5% ársvöxtum af 518.350 krónum frá 31. maí 2013 til 31. ágúst 2013, af 7.852.113 krónum frá þeim degi til 10. mars 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda 6.239.498 krónur með 4,5% ársvöxtum af 518.350 krónum frá 31. maí 2013 til 31. ágúst 2013, af 6.239.498 krónum frá þeim degi til 10. mars 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Í annarri varakröfu er þess krafist að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 5.745.310 krónur með 4,5% ársvöxtum af 518.350 krónum frá 31. maí 2013 til 31. ágúst 2013, af 5.745.310 krónum frá þeim degi til 10. mars 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Í þriðju varakröfu er þess krafist að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 5.272.638 krónur með 4,5% ársvöxtum af 518.350 krónum frá 31. maí 2013 til 31. ágúst 2013, af 5.272.638 krónum frá þeim degi til 10. mars 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Í fjórðu varakröfu er þess krafist að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 5.166.140 krónur með 4,5% ársvöxtum af 518.350 krónum frá 31. maí 2013 til 31. ágúst 2013, af 5.166.140 krónum frá þeim degi til 10. mars 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Í fimmtu varakröfu er þess krafist að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 2.958.250 krónur með 4,5% ársvöxtum af 518.350 krónum frá 31. maí 2013 til 31. ágúst 2013, af 2.958.250 krónum frá þeim degi til 10. mars 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að hún verði dæmd til að greiða stefndu málskostnað. Til vara krefjast stefndu þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og í því tilviki verði málskostnaður látinn niður fall.  I Málavextir Stefnandi féll á útitrépalli 31. maí 2013 við vinnu sína hjá stefnda Bláa lóninu hf. en þar starfaði hún sem þjónustustúlka í sumarvinnu. Atvik eru nánar þau að stefnandi, sem þá var 22 ára gömul, var á leið frá bar, sem staðsettur er innanhúss, og hélt á bakka með drykkjarföngum og veitingum fyrir viðskiptavini. Veitingarnar átti hún að flytja á annan bar sem staðsettur var utanhúss við lónið. Til að komast þangað þurfti hún að ganga í gegnum útidyr sem aðallega eru ætlaðar starfsfólki. Gólfefnið innandyra er annað en úti á pallinum. Innanhúss eru flísar á gólfi og járngrind við hurðina að innaverðu en fyrir utan dyrnar tekur við viðarpallur með fræsuðum raufum. Þegar stefnandi gekk út um dyrnar og steig á viðarpallinn hinum megin þröskuldsins kveðst hún hafa tekið tvö til þrjú skref en þá skyndilega runnið, misst jafnvægið og dottið aftur fyrir sig á bakið með bakkann í fanginu. Hún sagði að rignt hafi þennan dag og pallurinn verið blautur og háll. Stefnandi taldi í skýrslu sinni fyrir dómi að hún hefði aðeins verið búin að vinna nokkra daga hjá stefnda Bláa lóninu hf. er slysið varð. Stefnandi reyndi að halda áfram að vinna en varð frá að hverfa um hálftíma síðar vegna slæmra verkja í baki. Hún leitaði samdægurs á slysadeild Landspítalans í Fossvogi þar sem hún var greind með tognun í baki og henni ávísuð verkjalyf og ráðlögð sjúkraþjálfun. Vinnuveitandi stefnanda tilkynnti slysið ekki til Vinnueftirlitsins fyrr en 4. febrúar 2015. Með tilkynningu 31. janúar 2014 tilkynnti stefnandi slys sitt til Sjúkratrygginga Íslands. Stefnandi leitaði til heimilislæknis þann 26. febrúar 2014 og kvaðst hún þá finna fyrir verkjum í baki milli herðablaða auk þess fyndi hún fyrir verkjum við ákveðnar stellingar og við vissar æfingar í „crossfit“. Heimilislæknir vísaði stefnanda til sjúkraþjálfara og ráðlagði henni með æfingar. Stefnandi virðist í framhaldinu hafa leitað til sjúkraþjálfara í fimm meðferðartíma, þann fyrsta 14. mars 2014. Þann 5. mars 2014 óskaði stefnandi eftir því að fá svör frá stefnda við tilteknum spurningum vegna óhapps stefnanda. Með tilkynningu 7. mars 2014 var slysið tilkynnt stefnda Sjóvá. Stefnandi leitaði því næst til Júlíusar Valssonar gigtarlæknis þann 12. maí 2014. Í skoðun hjá Júlíusi kvartaði stefnandi yfir þrálátum verkjum í brjósthryggnum á milli herðablaðanna sem kæmi fram við álag og versnuðu þegar liði fram á daginn. Þá sagðist stefnandi oft sofa illa og eiga erfitt með langar setur eða að vera lengi kyrr í sömu stellingu. Starfsmenn stefnda Bláa lónsins hf. voru slysatryggðir hjá stefnda Sjóvá- Almennum tryggingum hf. sem jafnframt ábyrgðartryggði starfsemi félagsins. Með bréfi 12. júní 2014 var þess krafist að vátryggingarfélagið viðurkenndi greiðsluskyldu sína úr ábyrgðartryggingu Bláa lónsins hf. Með bréfi 19. nóvember s.á. hafnaði félagið kröfu stefnanda. Stefnandi undi ekki þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum sem komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið sýnt fram á greiðsluskyldu úr tryggingunni. Matsmennirnir Björn Pétur Sigurðsson bæklunarskurðlæknir og Sigurður B. Halldórsson hrl. mátu varanlegar afleiðingar slyssins með matsgerð sem dagsett er 4. febrúar 2016. Helstu niðurstöður þeirra eru þær að varanlegur miski stefnanda teljist hæfilega metinn 5 stig og varanleg örorka hennar 5%. Að fenginni matsgerð matsmanna krafði stefnandi stefndu Sjóvá-Almennar tryggingar hf. á nýjan leik um viðurkenningu á greiðsluskyldu vegna afleiðinga slyssins. Var þess jafnframt krafist að vátryggingarfélagið greiddi stefnanda 7.852.113 krónur í skaðabætur vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku, auk útlagðs kostnaðar, vaxta og lögmannsþóknunar. Með tölvupósti þann 17. febrúar 2016 hafnaði félagið öllum kröfum stefnanda með sömu rökum og áður. II Málsástæður stefnanda  Stefnandi byggir á hinni almennu sakarreglu skaðabótaréttar, reglunni um vinnuveitendaábyrgð, reglum um skaðabótaábyrgð fasteignareigenda vegna slysa sem hljótast af aðbúnaði og ástandi fasteigna, ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þá byggir stefnandi á skaðabótalögum og meginreglu skaðabótaréttar um fullar bætur til tjónþola. Stefnandi telur Bláa lónið hf. bera ábyrgð á líkamstjóni sínu. Slysið og líkamstjónið, sem af því leiddi, sé afleiðing af óforsvaranlegum vinnuaðstæðum og vanrækslu fyrirsvarsmanna stefnda Bláa lónsins hf. á að halda gönguleiðum fasteignar félagsins greiðum, öruggum, hálku- og hættulausum og jafnframt tryggja með því öryggi starfsmanna og gesta sinna á matsölustaðnum. Stefnda reki eftirsóttan og fjölsóttan veitingastað við Bláa lónið. Gestir séu bæði utan- og innandyra á staðnum og þeim sé þjónað til borðs. Mikil umferð gangandi fólks sé því um dyr staðarins og brýnt að þar sé fyllsta öryggis gætt og leiðum haldið hálkulausum en vatn og gufa sé á öllum útisvæðum. Í þeim efnum megi gera miklar kröfur til stefnda Bláa lónsins hf. sem fasteignareiganda og rekstraraðila veitingastaðarins. Ríkar kröfur hvíli á atvinnurekanda um að tryggja öryggi starfsmanna sinna eins og kostur sé og að þeir séu ekki settir í hættu við vinnu sína. Þannig skuli atvinnurekandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað, sbr. 13. gr. laga nr. 46/1980. Stefnandi telur að ýmsu hafi verið ábótavant á vinnustað hennar á slysdegi að því er varðar vinnuaðstæður, verkstjórn og skort á upplýsingum til hennar. Í fyrsta lagi er byggt á því að vinnuaðstæðum hafi verið áfátt og hafi það leitt til þess að stefnandi varð fyrir því slysi sem hér um ræðir. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 46/1980 skuli vinnustaður vera þannig úr garði gerður að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Til nánari skýringar sé vísað til 1. mgr. 3. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða þar sem greint sé frá því að húsnæði skuli innrétta þannig að þar sé sem öruggast og heilsusamlegast starfsumhverfi. Stefnandi vísar til þess að á slysdegi hafi rignt og gönguleið stefnanda af þeirri ástæðu verið blaut. Undir þeim kringumstæðum verði viðarpallurinn, sem sé úti undir beru lofti, sérlega háll. Stefnandi hafi þurft að ganga innandyra með þunga bakka í báðum höndum að dyrunum, opna hurðina út og stíga út á timburpallinn fyrir utan. Þessar aðstæður hafi í raun verið hrein slysagildra þegar pallurinn var blautur. Sé þetta í reynd viðurkennt í tjónstilkynningu stefnda Bláa lónsins hf. til vátryggjanda síns, stefndu Sjóvár-Almennra trygginga hf. Tilkynningin sé unnin af öryggisstjóra félagsins, Magnúsi Má Jakobssyni, þann 7. mars 2014. Í svari öryggisstjórans við spurningunni um orsök slyssins segir orðrétt: „Pallurinn var sleipur og hún var í erfiðum aðstæðum og gat ekki stutt sig þar sem hún var að bera bakka fulla af veitingum.“ Sé afstaða félagsins ítrekuð í bréfi mannauðsstjóra Bláa lónsins hf. sem hafi borist stefnanda 3. júní 2014. Í sama bréfi sé jafnframt að finna eftirfarandi svar við þeirri spurningu hvort undirlag viðarpallsins hafi verið í ásættanlegu horfi: „Allt timbur er sleipt þegar það blotnar þess vegna er aldrei of varlega farið. En timbrið í þessum palli er sérstaklega fræsað til að minnka hættuna sem mest.“ Líkt og gögn fyrirsvarsmanna stefnda Bláa lónsins hf. beri með sér sé engum vafa undirorpið að viðarpallurinn hafi sannarlega verið háll í bleytu. Að mati stefnanda brjóti aðbúnaður fasteignarinnar gegn reglum sem kveði á um öruggan og hættulausan vinnustað og greiðar gönguleiðir fasteignar. Til viðbótar áðurnefndum ákvæðum laga vísar stefnandi til d-liðar 3. mgr. 41. gr. reglna nr. 581/1995 varðandi aðbúnað vinnustaða utanhúss. Þar segi að þegar starfsmenn vinni utanhúss skuli vinnustaður eins og kostur sé skipulagður á þann hátt að þeir renni ekki til eða detti. Samkvæmt 5. mgr. 6. gr. sömu reglna sé vinnuveitanda gert skylt að gera ráðstafanir til að draga úr hálku á gólfum þar sem þess gerist þörf. Til viðbótar framansögðu byggir stefnandi á því að fyrirsvarsmenn stefnda Bláa lónsins hf. hafi vitað um hættueiginleika viðarpallsins þegar hann var blautur, enda sé fullyrt í tilkynningu og svarbréfinu 3. júní 2014 að viðargólfið hafi verið hált og að það hafi sérstaklega verið fræsað í það til að minnka slysahættuna eins og kostur væri. Yfirlýsingin sanni að forsvarsmönnum stefnda Bláa lónsins hf. hafi verið kunnugt um að pallurinn væri háll í bleytu. Líkt og slys stefnanda sýni hafi vitneskja starfsmanna stefndu ekki verið nóg til að koma í veg fyrir slysið. Aðgerðir hafi skort. Pallurinn hafi verið mjög háll og hættulegur þeim sem um hann fóru. Koma hefði mátt í veg fyrir slys stefnanda með fyrirhafnarlitlum, ódýrum og skjótum hætti, t.d. með því að leggja útidyramottu úr gúmmíi fyrir framan þröskuldinn útidyramegin og festa hana vel. Slíkt hafi í reynd verið bráðnauðsynlegt. Í fyrsta lagi vegna vitneskju atvinnurekanda um hálkueiginleika viðargólfsins, í annan stað sökum þess að yfirborð gangleiðar innandyra sé allt annað en það sem er utandyra og síðast en ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að starfsfólk eigi oft leið um dyrnar með bakka í höndum. Þetta rúmist vel innan þeirra krafna sem gera megi til atvinnurekenda um að tryggja öryggi starfsmanna sinna. Til frekari stuðnings málatilbúnaði sínum vísar stefnandi til þess að vinnuveitandi stefnanda hafi ekki fylgt þeirri skyldu að tilkynna slysið til Vinnueftirlitsins án ástæðulausrar tafar, sbr. 79. gr. laga nr. 46/1980. Hafi það ekki verið gert fyrr en 4. febrúar 2015 þegar eftirlitinu barst skrifleg tilkynning félagsins. Hafi þá verið liðnir 20 mánuðir síðan slysið varð. Stefnandi byggir á því að ef slysið hefði verið tilkynnt með lögbundnum hætti hefðu tildrög og orsök þess verið rannsökuð af Vinnueftirlitinu. Með slíkri rannsókn hefði t.a.m. mátt leiða í ljós hvort viðargólfið hefði sannarlega verið hálkuvarið eða hvort önnur atvik ollu slysinu, s.s. sápa eða kísill úr lóninu sem kunni að hafa borist á viðarpallinn. Sé stefnanda nú, tæpum þremur árum síðar, ókleift að sýna fram á raunverulegt ástand pallsins á slysdegi. Sé því óhjákvæmilegt að stefndu beri hallann af því að ekki var gerð viðhlítandi rannsókn á orsökum slyssins. Í þessu sambandi bendir stefnandi á að í tjónstilkynningu stefnda Bláa lónsins hf. til vátryggjanda komir jafnframt fram að stefnandi eigi ekki sök á slysinu. Hún hafi verið í „erfiðum aðstæðum“ og ekki getað stutt sig. Eftiráskýringar stefndu í þá átt að stefnandi hefði átt að vara sig eigi því ekki við rök að styðjast og séu í ósamræmi við upphaflega frásögn frá því skömmu eftir að slysið atvikaðist. Í annan stað er byggt á því að vinnuveitandi stefnanda hafi ekki fylgt reglum nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar séu handleiknar. Líkt og komi fram í tjónstilkynningu og svari mannauðsstjóra stefnda Bláa lónsins hf. frá 3. júní sl. hélt stefnandi á bakka sem á voru drykkjarföng og veitingar. Hafi stefnandi verið í „erfiðum aðstæðum og gat ekki stutt sig við neitt“, líkt og fram komi. Hún hafi þurft að opna dyrnar til að komast út því að hurðin hafi ekki verið með sjálfvirka hurðaopnum. Hafi öryggi á vinnustaðnum verið áfátt að þessu leyti. Í 2. mgr. 3. gr. framangreindra reglna nr. 499/1994 segi að þegar ekki sé unnt að komast hjá því að starfsmenn handleiki byrðar skuli atvinnurekandi skipuleggja vinnuaðstæður, nota viðeigandi búnað eða sjá starfsmönnum sínum fyrir hjálpartækjum til að draga úr þeirri áhættu sem felst í starfinu. Skuli atvinnurekandi jafnframt skipuleggja vinnusvæði á þann hátt að öryggi og hollusta sé sem allra mest þegar byrðar eru handleiknar, sbr. 4. gr. reglnanna. Þá greini í 6. gr. að vinnuaðstæður skuli vera eins góðar og kostur sé þegar byrgðir séu handleiknar og umferðarleiðir greiðfærar til að koma í veg fyrir hættu á að starfsmenn renni til, hrasi o.s.frv. Að mati stefnanda hafi vinnuaðstæður hennar ekki verið í samræmi við fyrirmæli títtnefndra reglna nr. 499/1994, enda teljist sleipt viðargólf til aðstæðna sem auki hættu á heilsutjóni. Í þriðja lagi vísar stefnandi til þess að atvinnurekandi hennar hafi ekki upplýst hana um þá slysahættu sem fylgdi starfi hennar. Vísist til 14. gr. fyrrnefndra laga nr. 46/1980 vegna þessa. Stefnandi hafi verið grandlaus um hálkueiginleika pallsins og hafi það verið í verkahring yfirmanna hennar að upplýsa hana um þá. Fyrirsvarsmennirnir hafi í það minnsta átt að sjá hættuna fyrir, vitandi að „allt timbur verði sleipt þegar það blotnar,“ sbr. það sem fram komi í svörum mannauðsstjóra stefnda Bláa lónsins hf. Að síðustu bendir stefnandi á að atvinnurekandi hennar hafi útvegað henni skóbúnað til vinnu sinnar. Þeir skór hafi aftur á móti ekki verið hinir sömu og fastráðnir starfsmenn Bláa lónsins hf. hafi fengið en stefnandi hafi verið sumarstarfsmaður. Fastráðnir starfsmenn hafi fengið vandaða Ecco-skó en sumarstarfsmenn ekki. Þeir hafi fengið „nokkurs konar íþróttasandala“ sem hafi „þokkalega grófan botn“, líkt og komi fram í svari mannauðsstjóra stefnda Bláa lónsins hf. Þeir skór hafi síðar verið teknir úr notkun vegna kvartana notenda þeirra. Að mati stefnanda sé ekki útilokað að vandaðri skóbúnaður hefði komið í veg fyrir slysið. Útilokað sé hins vegar fyrir stefnanda að færa sönnur á þetta atriði úr því sem komið er þar sem slysið hafi ekki verið tilkynnt Vinnueftirliti. Stefndu verði að bera hallann af því. Með vísan til alls framangreinds telur stefnandi fullljóst að stefnda Bláa lónið hf. hafi ekki tryggt öryggi og góðan aðbúnað starfsfólks síns á vinnustað eins og lög og reglur mæli fyrir um. Ef það hefði verið gert hefði mátt koma í veg fyrir slys stefnanda eða draga verulega úr líkum á því. Við úrlausn málsins, þ. á m. mat á sök vinnuveitandans, verði ekki litið fram hjá því að Bláa lónið sé vinsælasti ferðamannastaður landsins og gríðarlega fjölsóttur. Með hliðsjón af dómaframkvæmd verði að gera ríkar kröfur til stefnda Bláa lónsins hf. sem fasteignareiganda að sinna vel viðhaldi og umhirðu á fasteign sinni til að koma í veg fyrir að þeir sem eigi erindi um hana, gestir og starfsfólk, verði fyrir tjóni.        Tjón stefnanda                                     Í matsgerð matsmanna sé greint frá afleiðingum vinnuslyssins samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga. Matsmenn telji afleiðingarnar vera tognun á brjósthrygg sem verði eingöngu rakin til slyssins 31. maí 2013. Útreikningur stefnufjárhæðar taki mið af ákvæðum skaðabótalaga og fyrirliggjandi matsgerð matsmanna.                          A. Varanlegur miski samkvæmt. 4. gr. skaðabótalaga                          Samkvæmt matsgerð matsmanna sé varanlegur miski stefnanda vegna slyssins metinn 5 stig. Krafa stefnanda vegna þessa þáttar nemi 518.350 krónum (10.367.000 (uppreiknað m.v. lánskjaravísitölu í febrúar 2016, sbr. kröfubréf 10. febrúar 2016) x 5%).                          B. Varanleg örorka samkvæmt 5.-7. gr. skaðabótalaga Samkvæmt matsgerð matsmanna sé varanleg örorka stefnanda vegna afleiðinga slyssins metin 5%. Tekjur hennar síðustu þrjú ár fyrir slysið gefi ekki rétta mynd af líklegum framtíðartekjum hennar. Ástæðan sé sú að hún nýtti starfsgetu sína til að stunda nám í sálfræði við Háskólann í Reykjavík á þessum árum. Hún hafi útskrifast úr náminu vorið 2014. Vegna þessa sé stuðst við ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt ákvæðinu skulu árslaun „metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.“ Á slysdegi hafði stefnandi lokið meirihluta námsins, eða 66,7% þess. Námslok hennar hafi því verið fyrirsjáanleg á slysdegi. Við mat á árslaunum til ákvörðunar bóta vegna varanlegrar örorku sé miðað við heildarlaun í „öðrum sérfræðistörfum“ samkvæmt launakönnun Hagstofunnar á slysárinu 2013 en sálfræðingar falli í þann flokk skv. ÍSTARF95 starfaflokkun. Árslaunin telji 8.308.989 krónur (690.000 x 12), auk 8% mótframlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð, samtals 8.973.708 krónur. Stöðugleikapunktur sé 31. ágúst 2013. Þá hafi stefnandi verið 22 ára og 207 daga gömul. Margfeldisstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga sé því 207/365 af mismuninum á margföldunarstuðli 22 ára og 23 ára konu. Stuðullinn sé því 16,345 (16,626 – 16,130 = 0,496 x 207/365 = 0,281. 16,626 – 0,281 = 16,345). Aðallega sé krafist greiðslu á 7.333.763 krónum (8.973.708 x 16,345 x 5%) í bætur fyrir varanlega örorku. Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda sé til vara gerð krafa um skaðabætur fyrir varanlega örorku þar sem stuðst sé við meðaltekjur háskólamanna á slysárinu 2013 samkvæmt úttekt Bandalags háskólamenntaðra (BHM) sem birt sé á heimasíðu fjármálaráðuneytisins. Námslok stefnanda hafi verið fyrirsjáanleg þegar slysið atvikaðist og beri því að meta árslaun hennar sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Í ljósi þessa sé ekki ástæða til að styðjast við lægra tekjuviðmið en meðaltekjur háskólamanna. Árslaunin samkvæmt úttekt BHM árið 2013 séu 6.481.932 krónur (540.161 x 12), auk 8% mótframlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð, samtals 7.000.487 krónur. Varakrafa stefnanda vegna varanlegrar örorku sé því 5.721.148 krónur (7.000.487 x 16,345 x 5%). Verði heldur ekki fallist á varakröfu stefnanda sé í annarri varakröfu gerð krafa um skaðabætur fyrir varanlega örorku þar sem stuðst sé við tekjur stefnanda á slysárinu 2013, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Á slysári hafi stefnandi starfað bæði hjá Reykjavíkurborg og Bláa lóninu hf. Starfið hjá Bláa lóninu hf. hafi verið sumarstarf. Til einföldunar sé við útreikning skaðabóta tekið mið af launum stefnanda hjá Reykjavíkurborg alla mánuði ársins að undanskildum júlí og ágúst en þá mánuði sé litið til tekna hennar hjá Bláa lóninu hf. Launin hjá Reykjavíkurborg séu uppreiknuð m.v. 100% vinnuframlag. Ár Tekjur Vísitala árs Vísitala á st.l.p. Samtals 2013     5.901.367     457 458,6        5.922.028     Að viðbættu 8% mótframlagi vv        6.395.791     Önnur varakrafa stefnanda vegna varanlegrar örorku sé því 5.226.960 krónur (6.395.791 x 16,345 x 5%). Þriðja varakrafa taki mið af meðaltekjum stefnanda þrjú síðastliðin ár fyrir slysdag, 2010-2012, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, þó þannig að launin séu uppreiknuð m.v. 100% starfshlutfall. Ár Tekjur Vísitala árs Vísitala á st.l.p. Samtals 2010     4.827.855     375,8 458,6        5.891.576     2011     4.417.636     401,3 458,6        5.048.412     2012     4.922.463     432,5 458,6        5.219.518     Meðaltal        5.386.502     Að viðbættu 8% mótframlagi vv        5.817.422     Þriðja varakrafa stefnanda vegna varanlegrar örorku sé því 4.754.288 krónur (5.817.422 x 16,345 x 5%). Fallist dómur ekki á þriðju varakröfu sé í fjórðu varakröfu gerð krafa um bætur fyrir varanlega örorku sem miðist við árslaun stefnanda árið 2014. Sé stuðst við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Ár Tekjur Vísitala árs Vísitala á st.l.p. Samtals 2014     5.551.754     483,5 458,6        5.265.842     Að viðbættu 8% mótframlagi vv        5.687.109      Fjórða varakrafa stefnanda vegna varanlegrar örorku er því 4.647.790 krónur (5.687.109 x 16,345 x 5%). Fimmta varakrafa stefnanda byggist á lágmarkslaunaviðmiði 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga: Stöðugleikap. Launaviðmið Vísitölugrunnur Vísitala á st.l.p. Samtals 31.8.2013     1.200.000     3282 8165        2.985.500                              Fimmta varakrafa stefnanda vegna varanlegrar örorku er því 2.439.900 krónur (2.985.500 x 16,345 x 5%). Málskostnaðarkrafa stefnanda er byggð á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og því er nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar. Um varnarþing vísast til 33. gr. og 42. gr. laga nr. 91/1991 og um aðild vísast til 16. og 17. gr. sömu laga. Vaxtakrafa stefnanda er byggð á 16. gr. skaðabótalaga og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Vaxta af miskabótum er krafist frá tjónsdegi en allri stefnu fjárhæðinni frá stöðugleikapunkti, 31. ágúst 2013. Dráttarvaxta er krafist frá 10. mars 2016 en þá var liðinn mánuður frá því að stefnandi krafði stefnda Sjóvá-Almennar tryggingar hf. um greiðslu skaðabóta. III                 Málsástæður stefndu Sýknukröfu sína byggja stefndu á því að það sé ósannað að óhapp stefnanda sé að rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda Blá lónsins hf. eða starfsmanna þess eins og stefnandi haldi fram. Í fyrsta lagi er byggt á því að vinnuaðstæður hjá stefnda Bláa lóninu hf. hafi verið forsvaranlegar og því hafnað að óhapp stefnanda sé afleiðing af óforsvaranlegum vinnuaðstæðum eins og stefnandi haldi fram. Í öðru lagi er því hafnað að stefnda Bláa lónið hf. og starfsmenn þess hafi á nokkurn hátt gerst brotleg við ákvæði laga eða reglna í umrætt sinn, s.s. um ráðstafanir til að draga úr hálku á vinnustað stefnda. Það sé því ósannað að óhapp stefnanda sé að rekja til meints athafnaleysis stefnda Bláa lónsins hf. eða starfsmanna hans. Í þriðja lagi mótmælir stefnda Bláa lónið hf. því að dráttur á því að tilkynna um óhapp stefnanda til Vinnueftirlitsins skuli leiða til þess að stefndu skuli bera hallann af meintum sönnunarskorti um orsök óhappsins og aðstæður á slysstað. Í fjórða lagi byggja stefndu á því að stefnanda hafi ekki tekist að sanna umfang meintra einkenna sinna eða að orsakatengsl séu milli þeirra og umrædds óhapps. Í fimmta lagi er byggt á því að stefnandi skuli bera allt tjón sitt sjálf vegna eigin sakar ellegar óhappatilviljunar. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns og sé því mótmælt að hún hafi sannað að tjónið megi rekja til atvika sem stefnda Bláa lónið hf. skuli bera skaðabótaábyrgð á að lögum og verði felld undir frjálsa ábyrgðartryggingu hans hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Um slíka ábyrgð fari samkvæmt sakarreglu skaðabótaréttar ásamt reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Stefndu byggja á því að það sé ósannað að slys stefnanda sé að rekja til atvika sem stefnda Bláa lónið hf. eða starfsmenn þess beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Þannig telur stefnda ósannað að slys stefnanda verði rakið til vanrækslu á skyldum sem á vinnuveitanda hvíli samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum sem settar eru með stoð í þeim lögum. Í fyrsta lagi telja stefndu að vinnuaðstæður á vinnustað stefnda Bláa lónsins hf. hafi verið forsvaranlegar og það sé því rangt og ósannað að meint tjón stefnanda sé að rekja til óforsvaranlegra vinnuaðstæðna hjá stefnda. Stefnda Bláa lónið hf. mótmælir því að það hafi ekki fullnægt þeim skyldum sem ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum leggi á það. Þvert á móti telur stefnda að það hafi uppfyllt allar skyldur sem lög og reglugerðir setja og verði því ekki talið bera ábyrgð á slysi stefnanda. Stefnda Bláa lónið hf. hafi í hvívetna uppfyllt þær lagakröfur sem á því hvíli sem vinnuveitanda, s.s. samkvæmt ákvæðum 13. og 42. gr. laga nr. 46/1980. Að sama skapi hafi starfsemi stefnda uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu í 1. mgr. 3. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða. Í þessu sambandi taka stefndu fram að stefnda hafi gert ráðstafanir til að draga úr hálkumyndun á þeim viðarpalli þar sem óhapp stefnanda varð með því að rákir hafi verið fræstar í hann. Fyrir vikið sé pallurinn mun stamari en ef engar rákir væru. Að mati stefndu sé umræddur viðarpallur með fræstum rákum af forsvaranlegri gerð með hliðsjón af þeirri starfsemi sem stefnda rekur. Þá sé ljóst að Vinnueftirlitið hafi ekki séð ástæðu til að gera athugasemdir við umræddan viðarpall í þeirri úttekt sem framkvæmd var þann 31. mars 2015, s.s. í tengslum við hönnun, gerð eða frágang. Stefndu benda á að viðarpallurinn sé í dag nákvæmlega sömu gerðar og þegar óhapp stefnanda varð þann 31. maí 2013. Stefndu mótmæla þeim fullyrðingum í stefnu að umræddur viðarpallur verði sérlega háll í rigningu eða að hann teljist hrein slysagildra. Að mati stefndu verði umræddur viðarpallur ekki meira háll en sambærilegir viðarpallar þegar regnvatn liggi yfir þeim. Umræddur timburpallur sé þannig ekkert hálli en almennt gengur og gerist með slíka timburpalla þegar þeir bloti. Hafi viðarpallurinn enda ekki skapað sérstaka hættu í starfsemi stefnda Bláa lónsins hf. eða á honum orðið sambærilegt óhapp og það sem stefnandi varð fyrir. Að sama skapi mótmæla stefndu því að tilkynning stefnda Bláa lónsins hf. til stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. feli í sér einhvers konar viðurkenningu á því að umræddur viðarpallur sé sérlega háll eða að í honum felist hrein slysagildra eins og stefnandi haldi fram. Tjónstilkynningin feli ekki í sér neinar slíkar lýsingar á eðli viðarpallsins. Þá mótmæla stefndu því að aðbúnaður fasteignar stefnda Bláa lónsins hf. hafi brotið gegn reglum sem kveði á um öruggan og hættulausan vinnustað og greiðar gönguleiðir fasteignar. Að mati stefndu sé vinnustaður stefnda Bláa lónsins hf. eins og kostur sé skipulagður á þann hátt að starfsmenn, sem sinni vinnu utanhúss, renni ekki til eða detti, sbr. d-lið 3. mgr. 41. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða. Hafi stefnandi ekki bent á neitt sem telja verði ófullnægjandi skipulag á vinnustað stefnda eða að slíkt hafi átt þátt í því að óhapp stefnanda varð. Vinnueftirlitið hafi auk þess ekki gert neinar athugasemdir við skipulag vinnustaðarins að þessu leyti. Stefndu mótmæla því að reglur nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar séu handleiknar verði taldar eiga við um starf stefnanda sem þjónustustúlku á veitingastað stefnda. Með vísan til þess hvernig gildissvið reglnanna sé afmarkað verði þær ekki taldar eiga við um það starf sem stefnandi sinnti hjá stefnda Bláa lóninu hf. á þeim tíma sem óhappið varð. Ef slíkar reglur verði hins vegar taldar eiga við um starf stefnanda í umrætt sinn telja stefndu að vinnuaðstæður eða skipulag á vinnusvæði stefnda Bláa lónsins hf. hafi ekki farið í bága við ákvæði reglnanna, s.s. ákvæði 3., 4. og 6. gr. þeirra. Í því tilliti mótmæla stefndu því að öryggi á vinnustað stefnda Bláa lónsins hf. hafi verið áfátt þar sem ekki hafi verið sjálfvirk hurðaropnun á þeirri hurð sem stefnandi þurfti að opna til að komast leiðar sinnar í umrætt sinn. Þá sé ljóst að skýrsla Vinnueftirlitsins feli á engan hátt í sér að öryggi hafi verið áfátt að þessu leyti eins og stefnandi haldi fram. Í skýrslunni sé vísað til þess að stefnda Bláa lónið hf. skuli uppfæra áhættumat og m.a. meta þörfina á sjálfvirkum hurðaropnara. Stefnda Bláa lónið hf. hafi upplýst að það hafi framkvæmt slíkt mat við hönnun á nýjum bar utandyra. Stefndu benda einnig á að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að orsök óhapps stefnanda hafi verið að rekja til skorts á sjálfvirkri hurðaropnun eða hvernig slíkt hafi verið meðvirkandi þáttur í óhappi stefnanda. Í öðru lagi byggja stefndu á því að stefnda Bláa lónið hf. hafi uppfyllt þær kröfur sem lög geri ráð fyrir, s.s. í tengslum við ráðstafanir til að draga úr hálku á vinnustað stefnda. Stefndu telja ósannað að óhapp stefnanda megi rekja til meints athafnaleysis stefnda Bláa lónsins hf. eða starfsmanna þess. Hér beri að athuga að stefnda hafi gert ráðstafanir til að draga úr hálku á umræddum viðarpalli. Í því sambandi sé pallurinn háþrýstiþveginn á hverri nóttu, auk þess sem salt og sandur sé borinn á hann á veturna. Stefnda hafi þannig uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu í ákvæðum laga nr. 46/1980 og reglugerðum settum á grundvelli þeirra, s.s. ákvæði 5. mgr. 6. gr. reglna nr. 581/1995. Það sé rangt, sem haldið sé fram í stefnu, að aðgerðir til að varna hálku á pallinum hafi skort. Þvert á móti hafi stefnda Bláa lónið hf. gert nauðsynlegar ráðstafanir í samræmi við þær lagakröfur sem á því hvíli. Stefndu mótmæla því að koma hefði mátt í veg fyrir óhapp stefnanda með því að leggja útidyramottu úr gúmmíi á viðarpallinn fyrir framan þá hurð sem stefnandi fór um. Að mati stefndu sé ósannað að slík motta hefði varnað því að óhapp stefnanda varð. Einnig hvíli ekki nein lagaskylda á stefnda Bláa lóninu hf. að koma fyrir slíkri gúmmímottu fyrir framan þá hurð sem stefnandi fór um. Stefndu telja þvert á móti að slík gúmmímotta væri frekar til þess fallin að skapa slysahættu, s.s. með því að starfsmenn kynnu að hrasa um hana. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að blaut gúmmímotta skapi meira öryggi en blautur viðarpallur sem í hafi verið fræstar rákir. Stefndu mótmæla því að stefnda Bláa lónið hf. hafi ekki upplýst stefnanda um meinta slysahættu sem bundin hafi verið við starf hennar, ellegar að slíkt hafi átt þátt í því óhappi sem stefnandi varð fyrir. Að sama skapi er því mótmælt að stefnandi sjálf hafi verið grandlaus um meinta hálkueiginleika viðarpallsins eins og haldið sé fram í stefnu. Hér beri að athuga að stefnandi hafði starfað hjá stefnda Bláa lóninu hf. um mánaðarskeið áður en óhappið varð. Stefnandi hafi þannig sinnt sama starfi margoft áður hjá stefnda og þekkt því hvernig hún átti að bera sig að og hvað bæri að varast. Þá verði ekki lagðar þær skyldur á stefnda Bláa lónið hf. að vara stefnanda við aðstæðum sem hún þekkti og sem blöstu við henni umrætt sinn, s.s. þá staðreynd að rigning var umræddan dag og viðarpallurinn því blautur. Stefndu mótmæla því að skóbúnaður sem stefnanda voru útvegaðir til að sinna starfi sínu hafi verið ófullnægjandi eða að orsök óhapps stefnanda megi rekja til þeirra. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að óhapp hennar hafi mátt rekja til þess skóbúnaðar sem henni var úthlutað eða að vandaðri skóbúnaður hefði komið í veg fyrir slysið. Við val á skóbúnaði fyrir sumarstarfsfólk hafi öryggi sérstaklega verið haft í huga og starfsmaður í búningsklefa fenginn til að prófa skóna áður en þeir voru teknir í notkun, s.s. með tilliti til viðnáms á blautu undirlagi. Í tilefni af ummælum í stefnu um að einhvers konar ríkari skylda hvíli á stefnda Bláa lóninu hf. að sinna viðhaldi og umhirðu fasteigna sinna vegna þess að stefnda reki einn vinsælasta ferðamannastað landsins vilja stefndu benda á að þær kröfur, sem stefnda þurfi að uppfylla um viðhald og umhirðu fasteigna, séu þær sömu og gildi um aðra sambærilega aðila og raktar séu í ákvæðum laga, meðal annars ákvæðum laga nr. 46/1980. Vinsældir Bláa lónsins sem ferðamannastaðar verði þannig ekki taldar leggja  ríkari kröfur á stefnda en alla aðra þá vinnustaði þar sem þau sömu lög gildi. Stefnda Bláa lónið hf. hafi ávallt kappkostað að tryggja að aðbúnaður og öryggi, bæði starfsmanna og baðgesta í Bláa lóninu, uppfylli sem best þær lagakröfur sem á því hvíli hverju sinni. Í þriðja lagi mótmæla stefndu því að skortur á því að tilkynna um óhapp stefnanda til Vinnueftirlitsins skuli leiða til þess að stefnda Bláa lónið hf. skuli bera hallann af sönnunarskorti um atvik málsins og aðstæður á slysstað. Í þessu sambandi þurfi að hafa í huga að atvik við óhapp stefnanda umrætt sinn virðast ljós og óumdeild. Stefndu benda einnig á að aðstæður hjá stefnda Bláa lónið hf. séu óbreyttar og því auðvelt að afla sönnunar um hvort gerð viðarpalls hjá stefnda hafi verið forsvaranlegur. Stefndu vísa til þess að Vinnueftirlitið hafi komið á vettvang og framkvæmdi úttekt á vinnuaðstæðum hjá stefnda þann 31. mars 2015. Af niðurstöðum þeirrar úttektar verði ekki ráðið að athugasemdir hafi verið gerðar við gerð viðarpallsins þar sem óhapp stefnanda varð. Þá er því mótmælt að einhver önnur atvik kunni að hafa valdið óhappi stefnanda, s.s. sápa eða kísill. Ekkert liggi fyrir um að sápa eða kísill hafi verið á þeim stað sem óhapp stefnanda varð. Þá hafi hvorki stefnandi né sá starfsmaður, sem hafi orðið vitni að atburðinum, haldið því fram að sápa eða kísill hafi orsakað óhappið. Hér beri einnig að athuga að stefnda Bláa lónið hf. hafi upplýst að umræddur viðarpallur sé háþrýstiþveginn á hverri nóttu. Umrædd gönguleið sé að mestu notuð af starfsmönnum stefnda Bláa lónsins hf. og því ekkert sem bendi til þess að þar hafi verið sápa eða kísill eða að slíkt hafi orsakað óhapp stefnanda. Með hliðsjón af framangreindu sé því mótmælt að sönnunarbyrði um atvik við óhapp stefnanda og aðstæður á starfsstöð stefnda skuli falla á stefnda. Í samræmi við almennar reglur beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir orsök tjóns síns, þar á meðal að hana sé að rekja til athafna ellegar athafnaleysis stefnda. Í fjórða lagi byggja stefndu á því að stefnanda hafi ekki tekist að sanna umfang meintra einkenna sinna eða að orsakatengsl séu milli þeirra og umrædds óhapps. Stefnandi styðji kröfu sína við niðurstöður þeirra Björns Péturs Sigurðssonar bæklunarskurðlæknis og Sigurðar B. Halldórssonar hrl. um að afleiðingar af óhappinu verði metnar til annars vegar 5 stiga varanlegs miska og hins vegar 5% varanlegrar örorku. Stefndu telja aftur á móti að niðurstöður þeirra Björns og Sigurðar standist ekki og þær byggist á ófullnægjandi rökstuðningi. Í þessu sambandi er bent á að stefnandi virðist aðeins hafa leitað í tvígang til læknis eftir óhappið að frátaldri heimsókn á slysadeild á þeim degi sem óhappið varð. Þá hafi liðið langur tími frá því stefnandi leitaði á slysadeild í kjölfar óhappsins þar til hún leitaði til læknis þar sem minnst sé á meintar afleiðingar af óhappinu. Annars vegar hafi stefnandi leitað til Guðmundar Björgvinssonar heimilislæknis þann 26. febrúar 2014 eða um níu mánuðum eftir óhappið. Þar sé meðal annars vísað til þess að stefnandi stundi „crossfit“ og finni fyrir verkjum við ákveðnar æfingar. Í hitt skiptið hafi stefnandi leitað til Júlíusar Valssonar gigtarlæknis 22. maí 2014 eða um 11 mánuðum eftir óhappið án þess að upplýst sé hver hafi verið ástæða þeirrar heimsóknar eða hvernig slík heimsókn til gigtarlæknisins hafi tengst meintum afleiðingum af óhappi stefnanda. Báðar framangreindar heimsóknir komi til eftir að stefnandi leitaði til lögmanns til að kanna með mögulegan bótarétt. Stefndu telja einnig að ekki sé samfella í þeim einkennum sem lýst sé fyrir framangreindum læknum þannig að það skjóti stoðum undir að orsakir meintra verkja stefnanda megi rekja til óhappsins frá 31. maí 2013. Þá sé ekki samfella í umkvörtunum stefnanda sjálfrar í viðtali hjá Birni og Sigurði. Ekki sé að sjá að stefnandi hafi haft sambærilegar umkvartanir í heimsókn sinni til heimilislæknis ríflega níu mánuðum eftir óhappið. Stefnandi nefni síðan sjálf á matsfundi að hún hafi leitað í eitt eða tvö skipti til lækna á Læknavaktinni vegna óhappsins. Ekki sé hins vegar að sjá að þeir Björn og Sigurður vísi til slíkra heimsókna í niðurstöðum sínum eða fari yfir færslur í sjúkraskrá þar sem slíkar heimsóknir megi finna eða hvernig einkennum stefnanda sé þar lýst. Sé álit þeirra Björns og Sigurðar því gallað að þessu leyti. Þá verði ekki ráðið að stefnandi hafi sýnt fram á að hún hafi sinnt skyldu sinni til að takmarka meint tjón sitt, s.s. með því að leita meðferðar hjá sjúkraþjálfara. Í áliti þeirra Björns og Sigurðar sé aðeins vísað til þess að stefnandi segist hafa gefist upp á sjúkraþjálfun og talið meira gagn að því að mæta í ræktina. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi ekki leitað til sjúkraþjálfara fyrr en tæplega einu ári eftir að óhappið varð. Að öllu framanrituðu virtu mótmæla stefndu öllum kröfum og málsástæðum stefnanda sem röngum og ósönnuðum. Stefnandi hafi ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að meint líkamstjón hennar megi rekja til atvika sem séu á ábyrgð stefnda eða starfsmanna hans. Skuli því þegar af þessari ástæðu sýkna stefndu. Í fimmta lagi byggir stefnd Bláa lónið hf. á því að stefnandi verði að bera fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna óhappatilviljunar eða vegna eigin sakar. Stefnandi hafi sinnt þjónustustarfi fyrir stefnda og hafi borið vegna eðlis starfs síns að gæta sérstaklega að sér þegar drykkir eða veitingar voru bornar fram eða fluttar yfir á barsvæði utandyra. Starf hennar hafi kallað á að hún sýndi sérstaka aðgæslu þegar farið var um vinnusvæðið, einkum og sér í lagi þegar hún hélt á drykkjum og veitingum. Af gögnum málsins megi ráða að stefnandi hafi haldið á fullum bakka af drykkjum í umrætt sinn og hafi stefnanda því eðli málsins samkvæmt borið að sýna sérstaka varkárni en ella fara fleiri ferðir með drykkina. Stefnandi hafi verið í starfi hjá stefnda Bláa lóninu hf. í um einn mánuð áður en óhappið varð. Starfið sjálft sé hvorki flókið né þarfnist sérstakrar verkstjórnar. Stefnandi hafi því vitað í hverju starfið fólst auk þess sem hún hafði á starfstíma sínum oft sinnt því að fara með veitingar yfir á bar sem staðsettur sé utandyra. Í þeim tilvikum hafi stefnandi farið um umræddan viðarpall, með veitingar og í mismunandi veðrum. Stefnandi hafi því átt að gera sér fulla grein fyrir því hvernig hún hafi átt að bera sig að og að hún yrði að gæta sérstakrar varúðar þegar blautt var utandyra. Aðstæður á vinnustað stefnda Bláa lónins hf. umrætt sinn hafi verið augljósar og stefnanda mátt vera ljóst hvernig aðstæður voru utandyra. Þá hafi enn frekara tilefni gefist til að fara varlega þegar tekið sé mið af því að stefnandi hafi haldið á fullum bakka af drykkjum auk þess sem hún hafi þurft að fara um útidyr. Er stefnandi rann á viðarpalli í starfi sínu fyrir stefnda virðist það aðeins hafa verið óhappatilviljun ellegar eigin gáleysi hennar sjálfrar um að kenna. Stefnandi hafi þekkt til aðstæðna og verið ljóst að viðarpallurinn var blautur. Stefnandi þurfi því að bera tjón sitt að fullu, enda verði stefnda Bláa lóninu hf. eða starfsmönnum þess ekki um það kennt. Ef ekki verður fallist á aðalkröfu stefnda Bláa lónsins hf. byggir það til vara á því að tjón stefnanda sé að mestu leyti að rekja til óhappatilviljunar eða eigin gáleysis hennar. Á stefnanda, líkt og öðrum starfsmönnum Bláa lónsins hf., hafi hvílt að sýna tilhýðilega aðgæslu og gæta ítrustu varúðar þegar farið var um vinnustað stefnda. Stefnandi hafi sinnt þjónustustörfum á veitingastað stefnda og í því hafi meðal annars falist að fara með veitingar á bar sem staðsettur sé utandyra. Þá liggi fyrir að stefnandi hafði unnið  um mánaðarskeið hjá stefnda og oft sinnt því starfi að fara með veitingar á bar utandyra. Stefnandi hafi verið að bera fullan bakka með drykkjum og sem eitt og sér hafi átt að gefa henni tilefni til að gæta sín og fara um með sérstrakri aðgát. Stefnanda hafi einnig mátt vera ljóst að rigning var og að viðarpallurinn var blautur, sem hefði átt að gefa henni enn ríkara tilefni til að gæta sérstakrar varúðar. Vísa stefndu að öðru leyti eftir atvikum til umfjöllunar um aðalkröfu til stuðnings því að varakrafa stefndu skuli ná fram að ganga. Stefndu mótmæla þeim útreikningum og árslaunaviðmiði sem stefnandi notar í aðalkröfu og fyrstu til fjórðu varakröfu. Varðandi fjárhæðir í aðalkröfu stefnanda er því mótmælt að miða skuli við árslaun annarra sérfræðinga eins og gert sé í stefnu. Stefndu vekja athygli á því að nám það, sem stefnandi stundaði á slysdegi, var ekki nám til starfsréttinda og ljóst að stefnandi var ekki komin að námslokum í slíku námi. Vísa stefndu til 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 1130/2012 í þessu sambandi en samkvæmt ákvæðunum geti stefnandi ekki kallað sig sálfræðing nema með leyfi landlæknis og slíkt leyfi fáist ekki nema viðkomandi hafi, auk BSc-prófs í sálfræði frá viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, lokið tveggja ára framhaldsnámi (cand.psych. námi) frá sálfræðideild heilbirgðisvísindasviðs Háskóla Íslands ásamt tólf mánaða verklegri þjálfun. Það sé því rangt að námslok stefnanda hafi verið fyrirsjáanleg þann 31. maí 2013. Þvert á móti hafi stefnandi aðeins verið komin skammt á veg í námi sínu á þeim tíma, sé tekið mið af framangreindu, eða rétt lokið tveimur árum af sex ára heildarnámi. Að mati stefndu hafi stefnandi ekki sýnt fram á að viðmið um árslaun í „öðrum sérfræðistörfum“ samkvæmt launakönnun Hagstofunnar á árinu 2013 sé réttara hvað varðar líklegar framtíðartekjur stefnanda, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefndu mótmæla þeim launaviðmiðum sem stefnandi styðst við í varakröfu og annarri til og með fjórðu varakröfu, enda verði þau viðmið ekki talinn réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur stefnanda. Í varakröfu krefjist stefnandi þess að miða skuli við meðaltekjur háskólamanna og vísi í því sambandi til úttektar BHM. Stefndu telji hins vegar að líklegar framtíðartekjur stefnanda verði ekki miðaðar við slíkar meðaltekjur með vísan til þess sem rakið hafi verið hér að framan um að stefnandi hafi ekki verið komin að námslokum í námi sínu auk þess sem BSc-próf í sálfræði frá viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík veiti ekki rétt fyrir viðkomandi til að starfa sem sálfræðingur og þar með ekki aðild að aðildarfélagi BHM á því sviði. Í annarri og þriðju varakröfu stefnanda sé miðað við launatekjur stefnanda í hlutastörfum, sem hún hafi unnið með námi, uppreiknaðar miðað við fullt vinnuframlag. Stefndu telja af og frá að miða skuli við slíka útreikninga, enda verði slíkt ekki talið réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur stefnanda. Um sé að ræða störf sem stefnandi hafi unnið tímabundið í hlutastarfi í 30-50% starfshlutfalli og annars vegar ljóst að stefnandi hafi með slíku ekki skapað sér neinn vettvang til framtíðar í slíkum störfum og hins vegar séu engar forsendur til að uppreikna slík hlutastörf upp í 100% starfshlutfall til að finna út líklegar framtíðartekjur stefnanda. Að því er varðar launaviðmið í fjórðu varakröfu mótmæla stefndu því að miðað sé við árslaun stefnanda á árinu 2014 eða ári eftir að óhapp stefnanda varð. Engin rök standi til þess að heimilt sé að nota mælikvarða sem komi til ári eftir að óhapp stefnanda varð. Slíkur mælikvarði verði ekki talinn réttara viðmið á líklegar framtíðartekjur stefnanda í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að stuðst skuli við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við mat á árslaunum. Í því tilliti þurfi stefnandi að sýna fram á að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og að annar mælikvarði sé réttari varðandi líklegar framtíðartekjur stefnanda. Sú sönnun hafi hins vegar ekki tekist. Stefndu telja að verði fallist á kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta vegna varanlegrar örorku sem sé afleiðing af óhappi hennar þann 31. maí 2013 sé óhjákvæmilegt annað en að miða við lágmarkslaunaviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í samræmi við fimmtu varakröfu stefnanda. Að lokum mótmæla stefndu dráttarvaxtakröfu stefnanda í aðal- og varakröfum frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. Um lagarök vísa stefndu einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, til gáleysi, óhappatilviljunar og eigin sakar tjónþola, auk skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Einnig er vísað til ákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og til þeirra reglna og reglugerða sem settar hafa verið með stoð í þeim. Þá vísa stefndu til ákvæða laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafa stefndu er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. IV                                                                                                          Niðurstöður                 Stefnandi slasaðist við vinnu sína hjá stefnda Bláa lóninu hf. 31. maí 2013 þar sem hún starfaði í sumarvinnu sem þjónustustúlka. Ekki er ágreiningur með aðilum um hvernig slysið vildi til. Stefnandi var að bera bakka með drykkjarföngum frá bar, sem staðsettur er innanhúss, og á annan bar, sem er utandyra við lónið. Milli húss og lóns, þar sem leið hennar lá, er gengið á viðarpalli. Gekk hún frá innibarnum með bakkann um dyr þar sem hún þurfti að opna hurð, sem var tiltölulega stíf, og kvaðst hún hafa opnað hurðina með því að ýta á hana með öxlinni. Síðan gekk hún út á pallinn og kvaðst hafa tekið tvö til þrjú skref er hún rann til og féll aftur fyrir sig á bakið. Fyrir liggur að rignt hafði þenna dag og að pallurinn var blautur og hálli en ella. Svo var einnig þegar gengið var á vettvang. Stefnandi byggir á hinni almennu sakarreglu skaðabótaréttar, reglunni um vinnuveitendaábyrgð, reglum um skaðabótaábyrgð fasteignareigenda vegna slysa sem hljótast af aðbúnaði og ástandi fasteigna, ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þá byggir stefnandi á skaðabótalögum og meginreglu skaðabótaréttar um fullar bætur til tjónþola. Stefnandi telur Bláa lónið hf. bera ábyrgð á líkamstjóni sínu. Slysið og líkamstjónið, sem af því leiddi, sé afleiðing af óforsvaranlegum vinnuaðstæðum og vanrækslu fyrirsvarsmanna stefnda Bláa lónsins hf. á að halda gönguleiðum fasteignar félagsins greiðum, öruggum, hálku- og hættulausum. Stefnda reki eftirsóttan og fjölsóttan veitingastað við Bláa lónið. Gestir séu bæði utan- og innandyra á staðnum og þeim sé þjónað til borðs. Mikil umferð gangandi fólks sé því um dyr staðarins og brýnt að þar sé fyllsta öryggis gætt og leiðum haldið hálkulausum en vatn og gufa sé á öllum útisvæðum. Í þeim efnum megi gera miklar kröfur til stefnda Bláa lónsins hf. sem fasteignareiganda og rekstraraðila veitingastaðarins.                 Viðarpallurinn, sem er óbreyttur frá því er slysið varð, er hefðbundinn sólpallur eins og almennt er notaður utan dyra, að öðru leyti en því að fræstar eru raufar í hann í þeim tilgangi að gera hann stamari. Á þeim tíma er slysið varð var pallurinn þveginn á hverju köldi með því að sprautað var á hann vatni með slöngu. Hann hafði auk þess verið háþrýstiþveginn nokkrum dögum áður.                   Vinnueftirlitinu var ekki tilkynnt um slysið án ástæðulausrar tafar, sbr. 79. gr. laga nr. 46/1980, heldur var það tilkynnt 4. febrúar 2015. Vinnueftirlitið skoðaði pallinn 31. mars 2015 og gerði þær athugasemdir að stefnda Bláa lónið hf. skyldi sýna fram á að pallurinn væri sannanlega hálkuvarinn. Uppfæra skyldi áhættumat með hliðsjón af slysinu og m.a. meta þörfina á sjálfvirkum huraðaropnara og/eða léttitækjum við fluting á veitingum milli bara. Stefnda Bláa lónið hf. brást við þessum athugasemdum með því að háþrýstiþvo pallinn daglega og færa útibarinn á annan og öruggari stað. Framangreindar athugasemdir Vinnuefirlitsins verða ekki skildar á þann veg að öryggi hafi verið áfátt hjá stefnda að þessu leyti þá er slysið varð. Í málinu er ekki ágreiningur um aðdraganda slyssins og málsatvik eru upplýst um hvernig það bar til að stefnandi féll við vinnu sína á blautum og hálum pallinum. Skiptir því ekki máli fyrir sönnunarfærslu hvenær slysið var tilkynnt Vinnueftirlitinu.                 Óljóst er hve lengi stefnandi hafði unnið hjá stefnda Bláa lóninu hf. áður en slysið varð. Sagði stefnandi í skýrslu sinni fyrir dómi að hún hefði aðeins unnið í nokkra daga fyrir slys, e.t.v. í allt að tíu daga. Samkvæmt gögnum málsins var starfstími stefnanda hjá stefnda frá 24. apríl 2013 til 20. maí 2013 í 25,01% starfshlutfalli en frá þeim tíma til slysdags 31. maí 2013 í 32,53% starfshlutfalli. Samkvæmt þessu verður að líta svo á að stefnanda hafi á slysdegi verið kunnugt um aðstæður á vinnustað, enda hafði hún áður farið með veitingar á bakka á útibarinn. Hún þekkti því aðstæður og mátti vita að pallurinn kynni að vera háll í rigningu. Enda þótt stefnandi hafi ekki haft mikla starfsreynslu var verk það, sem henni var falið að vinna, einfalt og krafðist ekki mikillar reynslu eða verksjórnar.                 Stefnandi þurfti að fara um dyr á leið sinni út á pallinn. Fram hefur komið að hurð dyranna var frekar stíf og hún opnaði hana með því að ýta henni upp með annarri öxlinni þar sem hún hélt á bakka með veitingum. Síðan tók hún tvö til þrjú skref áður en henni skrikaði fótur. Stefnandi var því komin út á pallinn þegar hún féll og verður því ekki talið að ástand hurðarinnar hafi verið orsakavaldur að slysi stefnanda.                 Að mati dómsins fór aðbúnaður á vinnustað ekki í bága við 1. mgr. 42. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þá verður ekki fallist á með stefnanda að ákvæði reglna nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar taki til starfs þjóns við að halda á léttum bakka með veitingum. Ekki hefur  verið af hálfu stefnanda sýnt fram á að stefnda Bláa lónið hf. hafi útvegað stefnanda óheppilegan skóbúnað við vinnu hennar en því er haldið fram af hálfu stefnanda. Loks hefur ekki af hálfu stefnanda verið sýnt fram á að mottur eða dreglar kynnu að hafa komið í veg fyrir slysið.                 Þegar allt framangreint er virt verður að líta svo á að orsökin fyrir slysi stefnanda hafi verið bleyta á pallinum vegna rigningar sem gerði hann sleipan. Ekki er unnt að fallast á með stefnanda að rekja megi slysið til vanrækslu stefnda Bláa lónsins hf. við að halda gönguleið greiðri og öruggri. Stefnandi hafði unnið um tíma hjá stefnda og mátti því gera sér grein fyrir þeirri hættu sem skapast  þegar viðarpallurinn verður háll vegna rigningar eða gufu frá lóninu. Aðstæður á vinnustað verða því ekki metnar stefnda Bláa lóninu hf. til sakar.                 Samkvæmt öllu framansögðu verða stefndu sýknuð af kröfum stefnanda í málinu. Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.                 Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð Stefndu, Bláa lónið hf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., eru sýkn af kröfum stefnanda, A, í málinu. Málskostnaður fellur niður.