Search is not available for this dataset
url
stringlengths
21
288
text
stringlengths
1
1.35M
https://www.akureyri.is/is/frettir/afadagar-a-idnadarsafninu
Afadagar á Iðnaðarsafninu Á Iðnaðarsafninu hefur það alltaf verið sérstakt ánægjuefni að taka á móti eldra fólki og flestir hafa lifað þá tíma þegar að safnkostur Iðnaðarsafnsins var hluti af daglegu lífi og störfum. Einnig höfum við tekið eftir því hve mikla ánægju eldri borgarar þessa lands hafa af því að miðla af reynslu sinni og þekkingu til þeirra sem yngri eru. Til þess að skapa umgjörð utan um þessi skemmtilegu og nauðsynlegu samskipti kynslóðanna og ýta undir að þekking og sögur berist mann fram af manni mun Iðnaðarsafnið á Akureyri efna til afadaga 25. til 28. júní. Þá eru allir krakkar hvattir til að koma með afa sínum í fræðslu og skemmtiferð á safnið en afar eru hafsjór af fróðleik og skemmtilegum sögum og flestir afar þekkja betur en margur annar þá gripi sem er að finna á Iðnaðarsafninu, sumir hafa jafnvel unnið á verksmiðjunum. Frítt verður á safnið fyrir afa. Ömmur er að sjálfsögðu hjartanlega velkomnar líka enda ekki minni fróðleik að finna þar. Iðnaðarsafnið á Akureyri geymir muni sem tengjast iðnaði og iðnframleiðslu liðinna tíma. Allt frá smjörlíkisgerðarvélum, prentvélum prjónavélum, ölgerðarvélum og rennibekkjum til saumavéla og áhöldum til úrsmíða. Fjöldi tækja og véla úr verksmiðjunum sem notaðar voru til framleiðslu á vörum auk allskyns nytjahluta og iðnvarnings sem flestir þekkja. Iðnaðarsafnið á Akureyri- fyrir alla fjölskylduna er opið alla daga frá 13-17. (enginn aðgangseyrir fyrir börn yngri en 16 ára) Smelltu hér til að skoða heimasíðu Iðnaðarsafnsins
https://www.akureyri.is/is/frettir/hotel-akureyri-tekur-a-sig-nyja-mynd
Hótel Akureyri tekur á sig nýja mynd Hafnarstræti 98 sem í daglegu tali er nefnt Gamla Hótel Akureyri tekur á sig nýja og skemmtilega mynd í dag en þá verða gluggar hússins myndskreyttir með gömlum Akureyrarmyndum og er tilgangurinn að bæta ásýnd hússins og fegra götumyndina. Hlutafélagið H98 ehf. sem er í eigu KEA og SagaCapital, keypti húsið í mars árið 2008 en framkvæmdir við það eru í biðstöðu vegna aðstæðna á markaði og óvíst er hvenær hafist verður handa að nýju. Myndirnar sem skreyta húsið sýna m.a. Sundlaug Akureyrar um miðjan 4. áratug 20. aldar, skíðaferð á fyrsta áratug 20. aldar, Ráðhústorg upp úr 1940 þegar rútan var nýkomin í bæinn og síðast en ekki síst myndin sem sýnir garðveislu á góðviðrisdegi hjá góðborgurunum Oddi og Ölmu Thorarensen. Myndin var tekin á fyrsta áratug 20. aldar og skrýðir hún m.a. sýningu Minjasafnsins "Akureyri, bærinn við Pollinn". Þetta er samstarfsverkefni Stíls, KEA, Akureyrarstofu, Saga Capital, Markaðsskrifstofu Norðurlands og Minjasafnsins á Akureyri. Dugnaðarforkar frá Fjölsmiðjunni voru fengnir til að hreinsa gluggana og gera þá klára, Stíll sá um alla vinnu við hönnun, frágang og að koma myndunum á sinn stað en þær koma úr stóru myndasafni Minjasafnsins á Akureyri sem geymir marga gamla gullmola. Meðfylgjandi eru myndir frá því morgun þegar starfsmenn Stíls unnu að uppsetningu á filmunum. Myndirnar tók Hrafnhildur Reykjalín.
https://www.akureyri.is/is/frettir/god-stada-haskolans-a-akureyri
Góð staða Háskólans á Akureyri Vegna frétta um slæma rekstrarstöðu margra ríkisstofnana í fréttum fjölmiðla í gær þ. 25. júní óskar Háskólinn á Akureyri að koma eftirfarandi á framfæri: Á árunum 2000 til 2005 tæplega þrefaldaðist fjöldi nemenda við háskólann. Á þessum sömu árum drógust hlutfallslegar fjárveitingar til skólans saman og voru á árunum 2003 og 2004 u.þ.b. 67% af fjárframlögunum á árinu 2000 þegar litið er á fjárframlög á hvern nemenda við háskólann. Þessi skerðing varð til þess að á árunum 2000-2005 myndaðist mikill uppsafnaður rekstrarhalli við háskólann, eða rúmar 330 milljónir króna. Á árunum 2005 og 2006 hófst markviss hagræðing í rekstri háskólans og á árinu 2006 var rekstrarhallinn um 15 milljónir króna, eða um 1% af tekjum háskólans. Á undanförnum tveimur árum, 2007 og 2008, hefur háskólinn verið rekinn innan fjárlaga þ.e. með rekstrarafgangi. Á árinu 2008 greiddi háskólinn einnig niður rúmar 200 milljónir króna af uppsöfnuðum rekstrarhalla fyrri ára. Þrátt fyrir að háskólanum sé gert, eins og öðrum ríkisstofnunum, að draga enn frekar úr rekstrarútgjöldum á þessu ári, bendir ekkert til annars en að háskólinn muni standa við gerðar rekstraráætlanir og skila rekstrarafgangi í lok ársins.
https://www.akureyri.is/is/frettir/arctic-open
Arctic Open Arctic Open er alþjóðlegt golfmót sem hefur verið haldið frá árinu 1986 og hafa á fjórða þúsund innlendir og erlendir gestir látið drauminn rætast og tekið þátt í mótinu. Um 140 þátttakendur eru skráðir til leiks í ár og eru keppendur fyrr og nú sammála um, að það sé einstök upplifun að spila golf í blóðrauðu sólarlagi um miðnæturbil svo nærri heimskautsbaugi. Mótið hófst í gær, fimmtudag, með glæsilegri setningarathöfn þar sem boðið var upp á hlaðborð með norðlenskum veitingum. Sérstök áhersla var lögð á að kynna afurðir frá Eyjafjarðarsvæðinu í samstarfi við samtökin Matur úr héraði. Lokahóf Arctic Open á laugardagskvöld er sannkölluð stórveisla þar sem verðlaun verða afhent og boðið upp á skemmtiatriði. Í lokahófinu mun Friðrik V. matreiðslumeistari bjóða veislumat unninn úr hráefnum frá sjávarútvegs- og matvæla-fyrirtækjum á Eyjafjarðarsvæðinu. Eins og undanfarin ár verður efnt til fjáröflunarleiks á 18. holu vallarins og er tilgangurinn að safna fé til styrktar góðu málefni. Að þessu sinni rennur féð til styrktar barna- og unglingastarfi Golfklúbbs Akureyrar. Arctic Open golfmótið er haldið á Jaðarsvelli á Akureyri dagana 25. - 27. júní. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/skapandi-sumarstorf
Skapandi sumarstörf Tveir hópar skapandi sumarstarfa eru starfræktir í sumar, en starfið gengur út að það að hleypa nýju lífi í bæinn. Annar hópurinn samanstendur af 14-15 ára gömlum unglingum sem starfa í vinnuskólanum. Þeir eru með ýmsar uppákomur á vinnutíma vinnuskólans og eru nú þegar farnir að lífga upp á miðbæinn. Hinn hópurinn hefur starfsaðstöðu í Ungmenna-Húsinu og er fyrir 17 ára og eldri. Sá hópur tók til starfa 19. júní og eru ungmennin þessa dagana á leiklistarnámskeiði til að þjálfa sig og leggja drögin að uppákomum í sumar. Sá hópur starfar að hluta til sjálfstætt. Hópur vinnuskólans bauð gestum og gangandi upp á nýkreistann límónaðisafa í göngugötunni.
https://www.akureyri.is/is/frettir/nyskopun-a-akureyri
Nýsköpun á Akureyri Eftir efnahagshrunið sl. haust, fór hópur fólks, sem gengur undir nafninu "Bylting Fíflanna" að hittast á Akureyri. Hópurinn stóð fyrir mótmælum vegna ástandsins og leitaði einnig lausna í grasrótinni. Í framhaldi af þessu var ákveðið að stofna nýtt félag, sem kallast "Grasrót" og er félag áhugafólks um nýsköpunarmiðstöð & Iðngarða. Markmið þess er að koma á fót fjölþættri grasrótar- & þróunarmiðstöð fyrir atvinnusköpun og menningartengd verkefni, með áherslu á sjálfbæra þróun. Telur hópurinn að samtök að þessu tagi hafi jákvæð áhrif á fólk sem og samfélagið í heild sinni. Vilja þau setja á fót fjölbreytta starfsemi sem er tengd ýmiss konar iðnaði, þjónustustörfum og menningarstarfi og setja þá starfsemi undir eitt þak, en sú aðferð auki bæði hugmyndaflug og stuðli að krossfrjóvgun milli greina. Iðngarðar af þessum toga séu líka vel til þess fallnir til þess að vera í farabroddi í vistvænni hönnun og nýsköpun, ekki síst nýsköpun sem snýr að endurnýtingu og gjörnýtingu afurða og úrgangs. Félagið hefur fengið aðstöðu í gamla Slippnum, en gömul iðnaðarhúsnæði bjóða upp á hráa og óþvingaða umgjörð sem þarf til að móta síbreytilegt umhverfi fyrir starfsemi af þessum toga. Hér sé því um að ræða miðstöð fyrir skapandi og virka þátttöku í samfélagi með nær endalausa möguleika. Næstkomandi miðvikudagskvöld, þann 1. júlí, kl 20.00, verður haldinn stofnfundur í gömlu slippstöðinni á Akureyri.
https://www.akureyri.is/is/frettir/lyklaskipti-i-haskolanum-a-akureyri
Lyklaskipti í Háskólanum á Akureyri Þriðjudaginn 30. júní framkvæmdi Þorsteinn Gunnarsson, fráfarandi rektor HA, sitt síðasta embættisverk þegar hann hengdi upp minningarskjöld um Þorbjörgu Finnbogadóttur. Þorbjörg ánafnaði háskólanum andvirði íbúðar sinnar þegar hún féll frá í fyrra og var fjármununum varið í að bæta aðstöðu til fjarkennslu. Ættingjar Þorbjargar og vinkonur voru viðstaddar athöfnina og það var Guðrún Sigurðardóttir bróðurdóttir hennar sem afhenti Þorsteini skjöldinn til að hengja upp til minningar um frænku sína. Einnig voru viðstaddar þær Sigrún Höskuldsdóttir og Ingunn Björnsdóttir gamlir samstarfsfélagar og vinkonur Þorbjargar. Að þessu loknu afhenti Þorsteinn nýjum rektor, Stefáni B. Sigurðssyni lyklavöldin að Háskólanum á Akureyri. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra skipaði Stefán í starf rektors til fimm ára, að fenginni tilnefningu háskólaráðs HA. Stefán hefur störf á morgun, 1. júlí, en hann hefur verið forseti læknadeildar Háskóla Íslands frá árinu 2003. Erlendur Steinar Friðriksson, verkefnastjóri fjarkennslu- og samskiptatækni greindi í lokin frá þeim tækjabúnaði sem er í stofunni þar sem minningarskjöldurinn hangir en sú stofa er best tækjum búin til fjarkennslu í Háskólanum á Akureyri. Þorsteinn Gunnarsson ásamt ættingjum og vinkonum Þorbjargar Stefán B. Sigurðsson, nýr rektor Háskólans á Akureyri tekur við lyklavöldunum af Þorsteini Gunnarssyni .
https://www.akureyri.is/is/frettir/kjalarsida-1-breyting-a-deiliskipulagi
Kjalarsíða 1. Breyting á deiliskipulagi Bæjarstjórn Akureyrar auglýsir hér með skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.b. tillögu að breytingu á deiliskipulagi á svæði sem afmarkast af Bugðusíðu í austri, lóð leikskólans Síðusels í vestri og Kjalarsíðu í norðri. Aðalskipulag Í gildandi aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 er lóðin skilgreind sem verslunar- og þjónustulóð, sem blanda af íbúðum, verslun og þjónustu. Í skipulagsákvæðum ASAK05 er gert ráð fyrir allt að 40 íbúðum á reitnum. Deiliskipulag Breytingartillagan felur m.a. í sér að heimilt verði að vera með allt að 60 einstaklingsherbergi fyrir stúdenta í stað 56 og eða allt að 40 almennar íbúðir í stað 38 ásamt byggingarreit fyrir reiðhjólaskýli. Lýsing á deiliskipulagsbreytingu og skilmálum 1. Heimilt er að vera með allt að 60 einstaklingsherbergi fyrir stúdenta í stað 56 og eða allt að 40 almennar íbúðir í stað 38. 2. Bílastæðum fjölgar úr 58 í 60 stk. 3. Heimilt er að byggja reiðhjólaskýli á lóðinni fyrir allt að 40 reiðhjól. Hámarkshæð skýlis er 3.0m, þakform og lokun útveggja er frjáls. 4. Húsnúmerum er breytt til samræmis við samþykkt bæjarstjórnar þ. 16.september 2008. 5. Önnur af tveimur innkeyrslum inná lóð fellur út. Tillöguuppdrættir munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, næstu 6 vikur frá birtingu þessarar auglýsingar, þ.e. frá 1. júlí til 12. ágúst 2009, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillöguna og gert við hana athugasemdir. Tillagan er einnig birt á heimasíðu Akureyrarbæjar: http://www.akureyri.is undir: Auglýsingar og umsóknir/Skipulagstillögur. Kjalarsíða 1 - deiliskipulagsuppdráttur Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna rennur út kl. 16:00 miðvikudaginn 12. ágúst 2009 og skal athugasemdum skilað til Skipulagsdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillöguna innan þessa frests telst vera henni samþykkur. 1. júlí 2009 Skipulagsstjóri Akureyrarbæjar
https://www.akureyri.is/is/frettir/radhustorgid-tekur-a-sig-mykri-mynd
Ráðhústorgið tekur á sig mýkri mynd Ráðhústorgið á Akureyri mun taka stakkaskiptum þegar kemur að lit og mýkt á morgun fimmtudag, en þá verður torgið tyrft og skreytt með fallegum blómum í öllum regnbogans litum. Framkvæmdir hefjast í fyrramálið um áttaleytið og standa fram eftir degi. Bæjarbúum er velkomið að taka þátt með því að leggja fram hjálparhönd. Verkstjórinn á svæðinu verður hjálpfúsum bæjarbúum innan handar með úthlutun verkefna. Það verða hátt í 400 fermetrar af gæðaþökum lagðar á torgið og verður undirlagið þannig úr garði gert að grasið mun halda sínum græna lit út sumarið með reglulegri vökvun. Ef veðurguðirnir leyfa er stefnan tekin á að grilla pylsur á Ráðhústorgi í hádeginu á föstudaginn og er fólk hvatt til að mæta með sumarleg teppi og þiggja pylsur frá Kjarnafæði og pylsubrauð frá Kristjánsbakarí eða mæta með eigin hádegisverðarpakka. Útvarpsstöðin Voice ætlar að sjá um notalega tónlist sem hæfir stemningunni. Samleikur, hópur fólks í skapandi sumarstörfum, verður á svæðinu og mun án efa gleðja gesti torgsins með skemmtilegum uppákomum og upplifunum. Ráðhústorg var tyrft síðastliðið sumar og var afar mikil ánægja meðal bæjarbúa og gesta að geta notið lífsins á litla grasblettinum. Þær ánægjustundir verða án efa endurteknar í sumar á fallega grænu Ráðhústorgi. Myndin var tekin á Ráðhústorgi í fyrra.
https://www.akureyri.is/is/frettir/eyfirski-soguhringurinn
Eyfirski söguhringurinn Skipulögðu ferðirnar sem hafa verið í boði með bátnum Húna II yfir sumartímann, njóta mikilla vinsælda, og bætist nú ný ferð í hópinn. Kallast hún “Eyfirski söguhringurinn” og er um fjögurra tíma ferð sem farin verður á fimmtudögum. Húni II mun sigla með farþega til Hjalteyrar þar sem tekið verður á móti þeim með leiðsögn heimamanns. Eftir um klukkustundar stopp þar, er lagt er af stað með “sögu” rútu um athygliverða sögustaði á leiðinni til Akureyrar. 30 mínútna stopp verður á Möðruvöllum þar sem heimamenn taka á móti hópnum, sýna gestum kirkjuna og fleira, ásamt því að fræða þá um sögu staðarins. Aðstandendur ferðarinnar eru Hollvinir Húna II, Sportrútan ehf., ásamt Verksmiðjunni á Hjalteyri, Kaffi-Lísu og Amtmannsetrinu á Möðruvöllum. Lagt verður af stað frá Torfunefsbryggju á Akureyri kl. 16.30 í dag, fimmtudag. Sex ferðir verða í boði í sumar, 2. júlí, 9. júlí, 16. júlí, 30. júlí, 6. ágúst og 13. ágúst. Að auki býður Húni II enn uppá hina vinsælu Sögusiglingarferð á föstudagskvöldum kl. 20.00 í sumar. Áhugaverð ferð með leiðsögumanni fyrir þá sem hafa gaman af að fræðast um þróun bæjarins, staðhætti og veiðiaðferðir fyrr og nú. Fræðslu og fróðleiksferð þar sem siglt er um innanverðan fjörðinn.
https://www.akureyri.is/is/frettir/fotspor-i-midbaenum
Fótspor í miðbænum Glöggir bæjarbúar og ferðalangar í miðbæ Akureyrar urðu þess varir að gul fótspor birtust hér og þar á ganstéttum í blíðviðrinu í dag. Fótspor þessi eiga að vísa áhugasömu fólki leiðina inn í Innbæ, elsta hluta Akureyrar, þar sem Minjasafnið á Akureyri er staðsett. Þetta er tilraunaverkefni sem Minjasafnið stendur fyrir með góðfúslegu leyfi Akureyrarbæjar. Vonir standa til þess að fótspor barnabókarithöfundarins Nonna ,mætra kvenna og karla bætist í hópinn næsta sumar, ef ekki fyrr, til þess að vísa leiðina frá vegvísinum úr miðbænum inní söfn bæjarins. Forvitnir ferðalangar munu vonandi með þessu móti verða enn meira varir við þá ríku safnaflóru sem hér er að finna, ekki eingöngu í Innbænum, heldur um allan bæ. Myndirnar voru teknar í gær – þegar verið var að mála fótsporin á gangstéttina við vegvísinn í miðbæ Akureyrar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/grillstemning-a-graenu-radhustorgi
Grillstemning á grænu Ráðhústorgi Veðurguðirnir léku við mannfjöldann sem safnaðist saman í dag á hinu fagurgræna Ráðhústorgi, þar sem pylsur voru grillaðar og ljúfir tónar leiknir. Bæjarbúar voru hvattir til að mæta með sumarleg teppi til þess að leggja á nýtyrft torgið, þiggja pylsur frá Kjarnafæði og pylsubrauð frá Kristjánsbakarí eða mæta með eigin hádegisverðarpakka. Útvarpsstöðin Voice sá um notalega tónlist sem hæfði stemningunni. Samleikur, hópur fólks í skapandi sumarstörfum, var á svæðinu og gladdi gesti torgsins með skemmtilegum uppákomum og upplifunum. Mikið líf og fjör hefur verið á Ráðhústorginu síðustu daga. Í gær var torgið tyrft, og voru hátt í 400 fermetrum af gæðaþökum lagðar á torgið. Danskur danshópur steig léttan dans í veðurblíðunni í gær, við undirspil lifandi tónlistar, og vakti uppákoman mikla hrifningu áhorfenda. Myndirnar hér að neðan voru teknar á Ráðhústorgi í dag og í gær. Grillstemning á torginu í dag.
https://www.akureyri.is/is/frettir/gonguvika-i-eyjafirdi-og-a-akureyri
Gönguvika í Eyjafirði og á Akureyri Þann 6. - 12. júlí er Gönguvika í Eyjafirði og á Akureyri. Ferðirnar eru eins ólíkar og þær eru margar og ættu allir að geta fundið sér ferð við hæfi. Hvort sem ferðin er löng, stutt, erfið eða létt, verða fararstjórar með í för og leiða hópinn. Gönguvikan er samstarfsverkefni Akureyrarstofu við Ferðafélag Akureyrar(FFA), Ferðafélagið Hörgur(FFH), Glerárdalshringurinn 24x24, og Minjasafnið á Akureyri. 6. júlí mánudagur Möðruvallafjall: Gengið upp Staðarskarð fyrir ofan Möðruvelli, upp í nær 1000 metra hæð, og síðan suður fjallið og niður við Fornhagaöxl og þaðan meðfram Ytra-Tungugili að Fornhaga. Um 10 kílómetrar, göngutími 4-5 tímar. Gönguferð á vegum ferðafélagsins Hörgs. Fararstjóri: Bjarni E. Guðleifsson. Lagt af stað frá Möðruvöllum 3 klukkan 10.00. 7. júlí þriðjudagur Ystuvíkurfjall: Gengið frá bílastæðinu efst á Víkurskarði, um Gæsadal á fjallið. Komið niður við Miðvík þar sem gangan endar. Þægileg 2-3 klst. ganga við hæfi flestra. Fararstjóri: Roar Kvam. Frítt í ferðina. Brottför frá skrifstofu FFA kl. 19. 8. júlí miðvikudagur Kerling í Eyjafirði, (24x24) brottför frá bílastæðinu við Glerárskóla kl. 8.00. Gönguferð á vegum 24x24. Gengið frá Finnastöðum, um 15 mín. akstur frá Akureyri. Áætlaður göngutími 6-8 tímar í heild. Göngulengd um 5 km á toppinn og farin sama leið til baka. Brottför frá bílastæðinu við Glerárskóla kl. 8:00. Verð kr. 9000. Skráning og leiðarlýsing á vefslóðinni: http://www.24x24.is/readarticle.php?article_id=25 9. júlí fimmtudagur Hlíðafjall-Mannshryggur: Ekið að Skíðastöðum og gengið upp með skíðalyftunni eftir ruddri braut upp á fjallið. Þetta er 2-3 klst. ganga við hæfi flestra. Fararstjóri: Frímann Guðmundsson. Frítt í ferðina. Brottför frá skrifstofu FFA kl. 19.00. 10. júlí föstudagur Vaðlaheiði – Skólavarða: Ekið að uppgöngunni í Veigastaðalandi og eftir merktri leið upp á heiðina að vörðunni. Þetta er 2-3 klst. ganga við hæfi flestra. Fararstjóri: Grétar Grímsson. Frítt í ferðina. Brottför frá skrifstofu FFA kl. 19.00. 11. júlí laugardagur Glerárdalshringurinn 24x24, (24x24) brottför frá Skíðastöðum kl. 8.00. Glerárdalshringurinn 24 tindar á 24 tímum er stór og umfangsmikill fjallgönguviðburður sem genginn er árlega í byrjun júlí. Tímasetningin er valin miðað við bestu aðstæður á svæðinu. Glerárdalur er stór dalur girtur háum fjöllum, þeim hæstu á Tröllaskaga, þar af eru 10 þeirra hærri en 1400 m. Kerling hæst um 1540 m. Verð kr. 10.000 kr. Skráning þarf að fara fram fyrir 1. júlí. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Glerárdalshringsins 24x24 www.24x24.is . 11. júlí laugardagur Krossastaðir-Stórihnjúkur-Skíðastaðir: Gengið frá Krossastöðum á Þelamörk, upp í gegnum skógræktarreitinn á Vöglum og upp sunnan Krossastaðagils. Ofarlega við gilið er farið norður yfir það upp á Stórahnjúk. Þaðan gengið suður háfjallið að Mannshrygg og niður að Skíðastöðum. Fararstjóri: Ingvar Teitsson. Verð: 1.000 / kr. 1.500. Brottför frá FFA kl. 8.00. 12. júlí sunnudagur Meðfram Glerá (FFA): Gengið meðfram Glerá, frá Heimari-Hlífá, við réttina, til ósa. Þetta er frábær og áhugaverð gönguferð í okkar nánasta umhverfi þar sem vaxa sjaldséðar jurtir. Fararstjóri: Ingimar Eydal. Verð: kr. 1.000 / kr. 1.500. Brottför frá FFA kl. 10.00. 12. júlí sunnudagur Hús úr húsi - byggingarlist Innbæjarins: Gengið frá Laxdalshúsi kl 14.00. (Gangan tekur 2 tíma með viðkomu í nokkrum húsum) Ekkert þátttökugjald. Leiðsögumaður er Hanna Rósa Sveinsdóttir, sérfræðingur á Minjasafninu.
https://www.akureyri.is/is/frettir/fjolmenn-fotboltahelgi
Fjölmenn fótboltahelgi Talið er að ríflega sjö þúsund gestir hafi sótt Akureyri heim nú um helgina en ástæðuna má rekja til tveggja stórra knattspyrnumóta þar sem N1-mótið og Pollamótið voru haldin í blíðskaparveðri. N1-mótið er eitt stærsta knattspyrnumót landsins og er ætlað strákum í fimmta flokki. Liðin koma frá öllu landinu og var leikið á 10 völlum á KA-svæðinu frá miðvikudegi til laugardags. Á Pollamótinu keppa öldungalið karla og kvenna í knattspyrnu á hinum nýja og glæsilega velli Þórs og í Boganum. Að sögn Vikudags, voru um 1.400 ungir knattspyrnumenn í baráttunni á KA-svæðinu og þeim stóra hópi fylgdu fjölmargir þjálfarar, liðstjórar, aðstoðarmenn, foreldrar og systkini. Alls voru liðin 144 og komu frá 33 félögum. Um 60 lið tóku þátt í Pollamóti Þórs, eða um 600 knattspyrnumenn og þar af komu tvö lið erlendis frá. Þessum stóra hópi fylgdu svo makar og börn. Mótinu var skipt upp í deildir; Polladeild fyrir 30 ára og eldri, Lávarðadeild fyrir 40 ára og eldri og Öðlingadeild fyrir 50 ára og eldri. Einnig var Skvísudeild fyrir konur 25 ára og eldri og Ljónynjudeild fyrir konur 35 ára og eldri. Veðurguðirnir léku svo sannarlega við keppendur og gesti, en hitinn fór varla undir 20 stig. Einnig voru mótshaldarar mjög ánægðir með afraksturinn sem og prúðmannlega framkomu gestanna. Það skorti hvergi tilþrifin á N1-mótinu. Pollarnir hafa heldur engu gleymt.
https://www.akureyri.is/is/frettir/kvoldtonar-a-akureyri
Kvöldtónar á Akureyri Mánudagskvöldið 6. júlí klukkan 20.30 verða haldnir tónleikar í Lögmannshlíðarkirkju og eru þeir fyrstu af þremur í tónleikaröð sem nefnist Kvöldtónar á Akureyri. Á efnisskránni eru: flautukvartett í C-dúr eftir W.A. Mozart, A touch of Armadillo eftir Árna Egilsson, Ótta eftir Skúla Halldórsson og þrú smáverk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Flytjendur eru Petrea Óskarsdóttir sem spilar á flautu, Lára Sóley Jóhannsdóttir spilar á fiðlu, Eydís Úlfarsdóttir spilar á víólu og Ásdís Arnardóttir spilar á selló. Aðgangseyrir er 1000 krónur. Tónleikar númer tvö í röðinni verða mánudaginn 10. ágúst í Minjasafnskirkju og flutt verður íslensk tónlist m.a. eftir Snorra Sigfús Birgisson og Þorstein Hauksson. Flytjendur verða Eydís Úlfarsdóttir sópran og Helga Björg Ágústsdóttir selló. Aðgangseyrir verður kr. 1000. Þriðju tónleikarnir verða svo á Akureyrarvöku þar sem félagar úr Kammerkór Norðurlands flytja íslensk lög. Nánari upplýsingar um þá tónleika þegar nær dregur.
https://www.akureyri.is/is/frettir/fridarhlaupid-kemur-til-akureyrar
Friðarhlaupið kemur til Akureyrar Friðarhlaupið er nú hálfnað í kyndilboðhlaupi sínu hringinn í kringum Ísland og kemur til Akureyrar í dag, þriðjudaginn 7. júlí. Komið verður að Leirunum kl.15.30 í dag og þar munu krakkar úr UFA og UMSE slást í hóp með Friðarhlaupurunum. Leið Friðarhlaupsins liggur beint yfir Drottningarbraut og að Fjórðungssjúkrahúsinu, en upp úr kl.16 munu starfsmenn sjúkrahússins safnast saman fyrir framan aðalinnganginn til að láta Friðarkyndilinn ganga á milli sín. Að því loknu verður hlaupið að Akureyrarkirkju, en Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri mun taka þar á móti hópnum kl.17. Friðarhlaupið mun veita Hermanni og Sigrúnu Björku Jakobsdóttur, forseta bæjarstjórnar, medalíu hlaupsins, “Kyndilberi friðar”, en fyrsti viðtakandi þessara verðlauna var nífaldur Ólympíugullverðlaunahafi og talsmaður Friðarhlaupsins, Carl Lewis. Friðarhlaupið vill leggja áherslu á að medalíurnar sem það veitir Hermanni og Sigrúnu tilheyra jafnframt öllum bæjarbúum Akureyrar, en þar hefur Friðarhlaupið jafnan átt góðan stuðning og hvatningu vísa í gegnum 22 ára sögu sína sem hófst árið 1987. Í kjölfarið gefst öllum kostur á að halda á Friðarkyndlinum og senda þar með sínar óskir um betri heim í þetta tákn friðar sem ferðast með hlaupinu um ríflega 100 lönd. Á morgun, miðvikudaginn 8. júlí, heldur Friðarhlaupið svo út úr Akureyri, en mun fyrst kveðja leikskólakrakka bæjarins. Kl. 09.00 um morguninn mun hópurinn safnast saman á Akureyrarvelli ásamt leikskólabörnum til að sameinast í hinum fallega boðskap hlaupsins. Það var menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sem setti Friðarhlaupið, miðvikudaginn 1. júlí síðastliðinn. Við það lagði Friðarhlaupið upp í ferð sína um Ísland og mun heimsækja 46 bæi á leiðinni. Hlaupinu lýkur fimmtudaginn 16. júlí við Tjörnina í Reykjavík. Friðarhlaupið samanstendur af 25 sjálfboðaliðum frá 15 þjóðlöndum sem gefa tíma sinn og vinnu til að kyndillinn geti ferðast um Ísland. Friðarhlaupið safnar ekki fé og leitar ekki eftir stuðningi við pólitískan málstað. Markmið hlaupsins er einfaldlega að auka meðvitund um að friður, vinátta og skilningur hefst í hjarta hvers og eins.
https://www.akureyri.is/is/frettir/landsmot-umfi-hefst-a-morgun
Landsmót UMFÍ hefst á morgun Mikill fjöldi fólks leggur nú leið sína til Akureyrar en Landsmót UMFÍ hefst á fimmtudag og stendur yfir til 12. júlí. Að sögn Óskars Þórs Halldórssonar, verkefnastjóra Landsmótsins, er undirbúningur fyrir mótið á lokastigi. Á mbl.is í gær segir frá því að fyrsta Landsmótið UMFÍ fór fram á Akureyri fyrir 100 árum - 17. júní 1909 á Oddeyrartúni í blíðskaparveðri þar sem keppt var í glímu, stangarstökki, langstökki, hástökki, 100 m hlaupi fullorðinna, göngu, sundi og knattspyrnu. Mótið er nú haldið á Akureyri í fjórða skipti. Landsmót eru afskaplega skemmtilegar samkomur; áhorfendum býðst þar að fylgjast með keppni í mörgum hefðbundnum íþróttagreinum en einnig ýmsum óvenjulegum, svo ekki sé meira sagt. En samkoman er ekki bara íþróttamót, jafnvel mætti kalla það risastórt ættarmót þar sem ungmennafélagsfjölskyldan kemur saman og margumtalaður andi sem við félagið er kenndur svífur yfir vötnum. Hinn nýi völlur Þórsmanna er glæsilegur í alla staði en endanlegum frágangi við hann lauk í gær. Keppnin fer fram víða um bæinn en miðpunktur mótsins verður á leikvanginum nýja. Þar verður öll frjálsíþróttakeppnin og allar helstu kempur landsins verða þar á ferðinni. Á leikvanginum fer fram hið óviðjafnanlega starfshlaup þar sem keppendur hlaupa ákveðna vegalengd á vellinum og þurfa á leiðinni að leysa ýmsar þrautir. Þessi grein hefur ætíð vakið mikla athygli og vert er að geta þess að meðal keppenda nú verða Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, fyrir HSH, og Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður og formaður Landsmótsnefndar. Af ófhefðbundnum keppnisgreinum má einnig nefna jurtagreiningu, pönnukökubakstur, dráttarvélaakstur, hestadóma, gróðursetningu og stafsetningu. Þá er rétt að benda á að í tengslum við mótið fer fram kirkjutröppuhlaup á föstudaginn. Það er ekki keppnisgrein á Landsmótinu heldur opið öllum. Vert er að vekja athygli á 100 ára sögusýningu Landsmótanna á Amtsbókasafninu, en hún stendur fram yfir verslunarmannahelgi. Þá verður Vésteinn Hafsteinsson með fyrirlestur í tengslum við mótið á fimmtudagskvöldið, þar sem hann ræðir um afreksþjálfun og leiðina að ólympíugullinu. Vésteinn, sem sjálfur keppti á fernum Ólympíuleikum, þjálfar nú heimsmethafann og ólympíumeistarann í kringlukasti, Eistann Gerd Kanters. Keppni hefst á fimmtudag og lýkur um miðjan sunnudag. Formleg setningarathöfn og hátíðarsamkoma verður á föstudagskvöldið á nýja leikvanginum og hvetja mótshaldarar alla sem vettlingi geta valdið til að mæta á svæðið. Hér má fá allar nánari upplýsingar um mótið: http://www.landsmotumfi.is/
https://www.akureyri.is/is/frettir/hlaupid-til-fridar
Hlaupið til friðar Íslenskur hluti Friðarhlaupsins, World Harmony Run, kom til Akureyrar í gær. Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri og Séra Jóna Lísa Þorsteinsdóttir tóku á móti hlaupurunum við Akureyrarkirkju og kveiktu á kerti inni í kirkjunni, með loga frá kyndlinum. Friðarhlaupið er alþjóðlegur grasrótarviðburður sem snertir líf miljóna manna. Hlaupararnir heimsækja skóla, hlaupahópa, ungmennafélög og sveitarstjórnir vítt og breitt um landið. Í öllum þessum heimsóknum er takmarkið um frið á jörð í hávegum haft, en auk þess votta hlaupararnir virðingu sína þeim sem vinna að sátt og samlyndi í sínu eigin samfélagi. Í dag hlupu leikskólabörn frá Lundaseli og Kiðagili með friðarkyndilinn, ásamt erlendu og íslensku gestunum á Akureyrarvelli. Börnin fengu öll að halda á kyndlinum og bera fram ósk í hljóði, öðrum til handa, en tilgangur hlaupsins er að stuðla að náungakærleik milli fólks af öllu þjóðerni og hjálpa til við að styrkja bönd alþjóðlegrar vináttu. Friðarhlaupið hófst þann 1. júlí í Reykjavík. Hlaupnir verða alls 2200 km, hringinn í kringum landið á tveimur vikum. www.worldharmonyrun.org Friðarhlaupið við Akureyrarkirkju. Leikskólabörnin sýndu einlægan áhuga fyrir boðskapi hlaupsins á Akureyrarvelli í dag.
https://www.akureyri.is/is/frettir/ny-ferd-huna-ii
Ný ferð Húna II “Eyfirski söguhringurinn” er ný, fjögurra tíma ferð með Húna II, sem farin verður á fimmtudögum í sumar. Húni II siglir með farþega til Hjalteyrar þar sem tekið er á móti þeim með leiðsögn heimamanns. Eftir um klukkustundar stopp þar, er lagt er af stað með “sögu” rútu um athygliverða sögustaði á leiðinni til Akureyrar. 30 mínútna stopp er á Möðruvöllum þar sem heimamenn taka á móti hópnum, sýna gestum kirkjuna og fleira, ásamt því að fræða þá um sögu staðarins. Myndir segja meira en þúsund orð. Þessi andartök festi Tiffany Sigurdson á filmu í fyrstu ferð Húna II í síðustu viku.
https://www.akureyri.is/is/frettir/kreppumalarar-og-hlaturkvold
Kreppumálarar og hláturkvöld Mikið er um að vera í listalífinu á Akureyri nú um helgina og býður Listasafnið okkur upp á að kitla hláturtaugarnar og líta kreppulist augum. Laugardaginn 11. júlí kl. 15 verður sýningin „Kreppumálararnir" opnuð í Listasafninu á Akureyri, en þar verður dregin upp mynd af lífi og listum þjóðarinnar á fjórða áratug síðustu aldar. Kreppumálararnir sem hér eru kynntir, þeir Snorri Arinbjarnar (1901-1958), Gunnlaugur Scheving (1904-1972), Þorvaldur Skúlason (1906-1984) og Jón Engilberts ( 1908-1972), beindu sjónum sínum að hinum vinnandi manni og sögusviðið er oft þorpið eða bærinn sem einnig verða rithöfundum og skáldum að yrkisefni á þessum áratug. Minjasafnið á Akureyri hefur lagt til menningarsögulega muni ásamt ljósmyndum sem ætlað er að ríma við myndlistarverkin og beina sjónum sýningargesta að umhverfi og kjörum norðlenskrar alþýðu á þessum tíma. Auk einstaklinga lánuðu einnig Listasafn Íslands, Listasafn ASÍ, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Menntaskólinn á Akureyri, NBI h.f., Efling stéttarfélag, Stúdíó Stafn ehf, Borgarskjalasafn Reykjavíkur, Síldarminjasafnið á Siglufirði, verk og muni til sýningarinnar. Listasafnið á Akureyri er kolkrabbi með þúsund augu sem unir sér einna best við að busla í hinum sögulegum höfum. Eftir hressilega köfun ofan í kreppuna miklu á fjórða áratugnum rís hann úr djúpinu til að anda að sér fersku hruni, á hjartaslaginu kl. 21 í Ketilhúsi laugardaginn 11. júlí. Uppistandararnir – Bergur Ebbi, Dóri DNA, Árni Vill, Jóhann Alfreð og Ari Eldjárn – bruna norður yfir heiðar með fagnaðarboðskap sinn. Ekkert er þeim heilagt, ekki einu sinni Listasafnið á Akureyri, hvað þá Norðlendingar enda munu þeir framkvæma sérstakt álagspróf á „norðlenskt skopskyn“. Meðal þess sem fjallað verður um í uppistandinu eru fjölmiðlar, listalíf, kexruglað kynlíf, Bubbi Morthens, íþróttir og uppeldismál, að ógleymdum útrásarvíkingum og efnahagsmálum. Saman við þetta allt blandast svo persónuleg reynsla og lífssýn hinna ungu sveina.
https://www.akureyri.is/is/frettir/minnisvardar-afhjupadir
Minnisvarðar afhjúpaðir Í dag voru fjórir minnisvarðar afhjúpaðir við stúku nýja íþróttaleikvangsins við Hamar. Minnisvarðarnir eru tákn um þau fjögur landsmót sem haldin hafa verið á Akureyri og þakklætisvottur frá Ungmennafélagi Íslands sem fagnar nú 100 ára afmæli sínu. Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri, og Helga G. Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, sáu um að afhjúpa þessa tignarlegu minnisvarða að viðstöddu fjölmenni. Í þakkarræðu Hermanns, benti hann góðlátlega á að enn væri pláss fyrir fleiri slíka og vildu Akureyringar gjarnan hýsa Landsmótin sem oftast. Að athöfn lokinni var gestum boðið á opnunarsýningu í Amtsbókasafninu, en þar er haldin sögusýning í tilefni af 100 ára afmæli Landsmóta Ungmennafélags Íslands. Á sýningunni, sem Björn G. Björnsson, sýningarhönnuður, hefur hannað og sett upp, er sögu UMFÍ gerð skil og einnig fjallað sérstaklega um Landsmótin á Akureyri 1909, 1955 og 1981. Þessar myndir voru teknar við tilefnið.
https://www.akureyri.is/is/frettir/liflegir-dagar-a-akureyri
Líflegir dagar á Akureyri Það er margt um manninn á Akureyri þessa dagana og má rekja fjölgunina að stórum hluta til Landsmóts UMFÍ sem verður sett í kvöld en einnig fylla bæinn gestir sem tengjast mótinu ekki á neinn hátt en vilja gjarnan njóta þess sem Akureyri hefur upp á að bjóða. Fyrir þá sem vilja gjarnan hreyfa sig í sumarfríinu þá stendur yfir til 12. júlí gönguvika á Akureyri og í Eyjafirði þar sem í boði eru göngur fyrir "meðal-jóninn" og einnig þá sem hafa krafta í lengri og erfiðari göngur. Sjá nánar á www.visitakureyri.is Fyrir þá sem vilja njóta menningar af ýmsu tagi er rétt að benda rölt um Listagilið en á laugardaginn opna sýningar í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsinu, GalleríBOX, Stólnum gallerí og DaLí Gallerí, auk þess sem sýningar standa yfir i Jónas Viðar Gallery, Café Karólínu og fl. Í tengslum við opnun sýningarinnar Kreppumálararnir í Listasafninu mun safnið bjóða upp á Hláturkvöld í Ketilhúsinu þar sem uppistandararnir Bergur Ebbi, Dóri DNA, Árni Vill og Ari Eldjárn koma fram og verður opnað á ótakmarkaðar lánalínur á hláturgas! Sjá nánar á http://listasumar.akureyri.is/ Tónlistin skipar líka stórt hlutverk sbr. Tónlistarhlaðborð í föstudagshádeginu í Ketilhúsinu, Sumartónleika í Akureyrarkirkju á sunnudaginn og einnig að hægt að treysta á að Græni hatturinn stendur fyrir sínu þegar kemur að framboði á fjölbreyttum tónleikum. Viðburðir sem haldnir eru í tengslum við Landsmótið eru af öllum stærðum og gerðum. Hvað varðar þátttöku almennings í viðburðum má benda á Kirkjutröppuhlaupið sem er seinnipart föstudags, ratleikur, skrúðganga og að lokum skemmtidagskrá á Ráðhústorgi á laugardagskvöld. Hægt er að nálgast upplýsingar um dagskrá mótsins á slóðinni http://umfi.is/landsmot/ Hér að neðan má sjá yfirlit yfir nokkra af þeim viðburðum sem gestir og bæjarbúar hafa úr að velja um helgin. Föstudagur 12. júlí Tónleikar á Listasumri: Dúó Gríms og Hrannar verða á Tónlistarhlaðborði í Föstudagshádegi í Ketilhúsinu klukkan 12. Grímur Helgason klarínettuleikari og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari flytja verk eftir Debussy, Arnold Bax, Francis Poulenc og Jean Fransaix. Kirkjutröppuhlaupið (Landsmót): Hlaupið klukkan 16, allir velkomnir! Bara að mæta við Hótel KEA. Penninn - Eymundsson: Langi seli og skuggarnir spila klukkan 16 - kynnia diskinn sinnb "Drullukalt". Ganga: Gengið um Gleráreyrar klukkan 17 - Leiðsögumaður Þorsteinn Arnórsson. Gengið frá íþróttahúsi Glerárskóla. Verksmiðjan á Hjalteyri: Gjörningahelgi klukkan 21. Helgi Svavar Helgason og Davíð Þór Jónsson framkvæma tónlistarspuna með mynd- og leiklist. Yfirstandandi sýning. Ilmur Stefánsdóttir og Pétur Örn Friðriksson. Opið um helgar kl 14.00-17.00 Opnun sýningar á Glerártorgi: Sýning á gömlu hljóðfærum og ýmsum munum sem tengjast tónlist og tónlistarlífi á Norðurlandi opnar á Glerártorgi klukkan 16. Sýningin stendur til ágústloka. Gönguvika á Akureyri og í Eyjafirði: Vaðlaheiði-Skólavarða: Ekið að uppgöngunni í Veigastaðalandi og eftir merktri leið upp á heiðina að vörðunni. Þetta er 2-3 klst. gangavið hæfi flestra. Fararstjóri: Grétar Grímsson. Frítt í ferðina. Brottför frá skrifstofu FFA kl. 19. Sigling: Sögusigling á Húna II meðfram ströndinni klukkan 20. Tónleikar: Græni hatturinn - Langi seli og skuggarnir kl 22, husið opnar kl 21. Laugardagur 11. júlí Gönguvika á Akureyri og í Eyjafirði: Glerárdalshringurinn: Glerárdalshringurinn 24 tindar á 24 tímum er stór og umfangsmikill fjallgönguviðburður sem genginn er árlega í byrjun júlí. Verð kr. 10.000 Skráning þarf að fara fram fyrir 1. júlí. Brottför frá Skíðastöðum kl. 08. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Glerárdalshringsins www.24x24.is Gönguvika á Akureyri og í Eyjafirði: Krossastaðir-Stórihnjúkur-Skíðastaðir: Gengið frá Krossastöðum á Þelamörk, upp í gegnum skógræktarreitinn á Vöglum og upp sunnan Krossastaðagils. Ofarlega við gilið er farið norður yfir það upp á Stórahnjúk. Þaðan gengið suður háfjallið að Mannshrygg og niður að Skíðastöðum. Fararstjóri: Ingvar Teitsson. Verð: 1.000 / kr. 1.500. Brottför frá FFA kl. 8. Ganga: Innbæjarganga - Minjasafnið með Jóni Hjaltasyni - Klukkan 14 og gengið frá Laxdalshúsi. Ketilhúsið á Listasumri: Opnun á sýningunni "39 Norður", samsýningu myndlistarmanna frá Hafnarfirði í Ketilhúsinu klukkan 14. Myndlistarsýning: Opnun sýningar Þóru Sigþórsdóttur klukkan 14. Myndlistarsýning: Opnun sýningar Dagrúnar Matthíasdóttur í DaLí Gallerý. Opið 14-17 á lau og sun. Myndlistarsýning: Opnun í Listasafninu á Akureyri á sýningunni "Kreppumálarnar". Opnar klukkan 15. Hrafnhildur Schram sýningarstjóri leiðir gestu um sýninguna klukkan 16. Opnun sýningar: Stóllinn gallerí opnun sýningar Hönnu Pálsdóttur. Penninn - Eymundsson: Ingó og veðurguðirnir syngja og spila klukkan 16 á sviðinu á 2. hæð. Klukkan 17 mætir hljómsveitin Árstíðirnar og syngur og spilar. Verksmiðjan Hjalteyri: Gjörningahelgi, Joris Rademaker og fl. fremja görninga klukkan 17 Ratleikur, skrúðfylking og skemmtidagskrá (Landsmótið): Ratleikurin hefst kl 19.30 á Torfunefsbryggju - skrúðfylking í kjölfarið klukkan 20.55 þar sem gengið er frá Torfnunefsbryggju inn á Ráðhústorg þar sem skemmtidagskrá hefst klukkan 21. Tónleikar: Græni hatturinn Árstíðirnar, Svavar Knútur og Helgi Valur. Klukkan 22, húsið opnar 21. Ketilhúsið: Hláturkvöld í boði Listasafnsins á Akureyri klukkan 21. Sunnudagur 12. júlí Gönguvika á Akureyri og í Eyjafirði: Meðfram Glerá (FFA): Gengið meðfram Glerá, frá Heimari-Hlífá, við réttina, til ósa. Þetta er frábær og áhugaverð gönguferð í okkar nánasta umhverfi þar sem vaxa sjaldséðar jurtir. Fararstjóri: Ingimar Eydal. Gönguvika á Akureyri og í Eyjafirði: Hús úr húsi - byggingarlist Innbæjarins: Gengið frá Laxdalshúsi klukkan 14. (Gangan tekur 2 tíma með viðkomu í nokkrum húsum). Ekkert þátttökugjald. Leiðsögumaður er Hanna Rósa Sveinsdóttir, sérfræðingur á Minjasafninu. Íslenski safnadagurinn: Fræðsluganga í Hrísey. Þorsteinn Þorsteinsson, Hríseyingur og fuglaáhugamaður, leiðir gönguna og segir frá Hrísey fyrr og nú og gróður- og fulgalífi eyjunnar. Gangan hefst á bryggjunni í Hrísey og tekur um tvo tíma. Ferjan fer frá Árskógsandi kl 13:30 og tilbaka á heila tímanum frá Hrísey. Allir eru velkomnir og ekkert þátttökugjald. Sjá nánar á www.akmus.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/setningarathofn-landsmotsins
Setningarathöfn Landsmótsins Setningarathöfn Landsmóts UMFÍ var haldin í gærkvöld á íþróttasvæðinu við Hamar að viðstöddu miklu fjölmenni. Upphitun hófst kl. 19.30 með því að keppendur ólíkra íþróttagreina sýndu listir sínar á leikvanginum og Pálmi Gunnarsson söng við undirspil Kristjáns Edelstein. Hátíðardagskráin var þétt setin og fluttu Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, Katrín Jakobsdóttir, Menntamálaráðherra, Helga G. Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ og Hermann Jón Tómasson, bæjarstóri Akureyrar, ávörp. Það var tilkomumikil sjón þegar rúmlega tvö þúsund manns, á öllum aldri frá íþróttafélögum víðs vegar af landinu, gengu inn á leikvanginn. Alfreð Gíslason hljóp inn á svæðið við mikinn fögnuð gesta og kveikti á landsmótseldinum. Einnig hljóp garpurinn Gunnlaugur Júlíusson inn á leikvanginn, en hann var þar með að ljúka hlaupi sínu frá Reykjavík, til styrktar Grensásdeildinni. Áður en dagskránni lauk, var keppt í 800 metra hlaupi karla og kvenna og stór hópur ungra stúlkna steig dans. Þegar formlegri athöfn lauk, tók hljómsveitin Stjórnin nokkra gamla og góða slagara við góðar undirtektir áhorfenda. Landsmótið hér á Akureyri hefur farið frábærlega af stað og mikil ánægja ríkir meðal keppenda og gesta, sem hafa fjölmargir fylgst með hinum ýmsu keppnisgreinum sem eru stanslaust í gangi víðsvegar um bæinn. Ekki skemmir það fyrir að veðurguðirnir hafa lagt blessun sína yfir bæinn og njóta bæjarbúar og gestir þeirra veðurblíðunnar til hins ítrasta en hitinn hefur verið um 20 stig síðan mótið hófst. Stemningin leynir sér ekki á þessum myndum sem teknar voru á setningarathöfninni í gærkvöldi.
https://www.akureyri.is/is/frettir/mikil-stemning-a-akureyri
Mikil stemning á Akureyri Mikil stemning var á Akureyri um helgina, en mikill fjöldi gesta sótti bæinn heim vegna Landsmóts UMFÍ. Mótið tókst í alla staði vel og ekki skemmdi veðurblíðan fyrir. Á laugardagskvöld var haldin skemmtidagskrá á Ráðhústorginu og komu margir listamenn fram og skemmtu bæjarbúum og gestum, sem fjölmenntu á svæðið. Myndirnar hér að neðan voru teknar við tilefnið.
https://www.akureyri.is/is/frettir/city-bus-sightseeing
City Bus Sightseeing Í júlí og ágúst býðst ferðalöngum á Akureyri sá valkostur að kynnast bænum með því að stíga um borð í City Bus Sightseeing. Þetta er strætó sem keyrir hring um bæinn frá klukkan 9.00 -13.00 með viðkomu á alls 12 stöðum og tekur hver hringur 45 mínútur. Smelltu hér til þess að sjá dagsetningarnar. Ferðin með City Bus Sightseeing kostar 500 ISK eða 3 evrur og geta ferðalangar stigið út á einum viðkomustað og gengið um borð annarsstaðar og gildir miðinn í einn dag. Farþegar fá afhentar á blaði upplýsingar um viðkomustaðina auk þess sem hægt verður að nálgast fleiri bæklinga um borð í vagninum. Smelltu hér til þess að sjá kort af ferð City Bus Sightseeing.
https://www.akureyri.is/is/frettir/mikil-aukning-ferdamanna
Mikil aukning ferðamanna Margir erlendir gestir sækja sér upplýsingar á Upplýsingamiðstöð Akureyrar og var aðsóknarmet slegið síðasta sunnudag. Þá komu alls 1164 gestir og er aukningin um 35% frá því í fyrra. Árið 2008 komu 15.262 manns í Upplýsingamiðstöðina frá 1. júní til 12. júlí, á móti 20.624 það sem af er þessu sumri. Að sögn Ingu Bjarkar Svavarsdóttur, forstöðukonu Upplýsingamiðstöðvarinnar, eru gestir að leita ýmissa upplýsinga þegar komið er til Akureyrar. Flestir vilja leiðsögn um hvað markvert sé að skoða og margir eiga eftir að ganga frá öllu er kemur að gistingu og ferðamáta. Hún segir einnig að þrátt fyrir mikla aðsókn, gangi ótrúlega vel að þjóna þeim fjölda fólks sem leitar eftir aðstoð starfsfólksins. Starfsmenn Upplýsingamiðstöðvarinnar veita upplýsingar um gistimöguleika, veitingar, afþreyingu, veður, færð á vegum, áætlunarferðir, skipulagðar ferðir og margt fleira á Norðurlandi og víðar um land. Þar er einnig hægt að nálgast upplýsingabæklinga, bóka gistingu og kaupa ferðir, ferðakort, göngukort, póstkort, frímerki og fleira. Upplýsingamiðstöðin er starfrækt í Hafnarstræti 82, en flytur í Menningarhúsið HOF haustið 2010. Myndin er af Ingu Björk Svavarsdóttur, forstöðukonu Upplýsingamiðstöðvar Akureyrar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/mikid-um-ad-vera-a-akureyri
Mikið um að vera á Akureyri Það er mikið um að vera á Akureyri næstu daga og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Undirbúningur fyrir dagskrá verslunarmannahelgarinnar Ein með öllu - og allt undir er í fullum gangi. Allir eru hvattir til þess að skoða vefsíðu hátíðarinnar www.einmedollu.is Rétt er að minnast á eftirfarandi þjónustu/afþreyingu sem hægt er að benda ferðalöngum á: Í Akureyrarkirkju er kvöld- og ferðamannakirkja frá klukkan 17 - 22 alla virka daga. Þar tekur séra Jóna Lísa Þorsteinsdóttir á móti fólki, sýnir kirkjuna og spjallar við þá sem þess þurfa. Í síðustu viku opnaði í Strandgötu 43 Laufabrauðssetur (opið virka daga 12-16). Gaman að geta sýnt og sagt erlendum ferðamönnum frá þessari íslensku hefð. Fjölda sýninga í Listagilinu - upplýsingar er að finna á http://listasumar.akureyri.is/ Öll þessi fjölbreyttu söfn bæjarins - sjá www.sofn.is - einnig er hægt að nálgast á Upplýsingamiðstöðinni virkilega góðan bækling um söfnin á Akureyri og Eyjafirði. Smelltu hér fyrir upplýsingar um hestaleigur á svæðinu. Boðið er upp á reiðhjólaleigu hjá ferðamannaversluninni (Viking 461 5551) ---------------------------------- Fimmtudagur 16. júlí Skemmtiferðaskip: Silver Cloud v/ Oddeyrarbryggju (lítið skip) dvelur frá 12 - 23. Sigling: Sögusigling með Húna II til Hjalteyrar og keyrt með rútu til baka með viðkomu á áhugaverðum stöðum. Lagt af stað klukkan 16.30 Ganga: Lifandi leiðsögn um Innbæinn: Gönguferð með leiðsögumönnum um Innbæinn. Gangan hefst neðst við kirkjutröppurnar kl 20 og tekur um tvo tíma. Tónleikar á Listasumri: Heitur fimmtudagur í Deiglunni klukkan 21.30. Dúó Edda Lár og Andreu. http://listasumar.akureyri.is/ Föstudagur 17. júlí City Bus Sightseeing keyrir 9-13 (Síðasta ferð leggur af stað klukkan 13) Tónleikar: Ketilhúsið, Föstudagshádegistónleikar á Listasumri. Fram koma Claudia Kunz óperusöngkona og Ulrich Eisenlohr píanóleikari. Sjá nánar http://listasumar.akureyri.is/ Sigling: Húni II Sögusigling kl 20. Sjá www.huni.muna.is Tónleikar: Græni hatturinn - Hljómsveitin Jagúar. Tónleikarnir byrja kl 22 en húsið opnar kl 21. Hátíð í Hrísey: Fjölskyldu- og skeljahátíðin fer fram 17. -19. Sjá dagskrána á slóðinni http://hrisey.net/ Laugardagur 18. júlí City Bus Sightseeing keyrir 9-13. Gásir: Miðaldadagar á Gásum frá 18. - 21. Sjá dagskrá á slóðinni www.gasir.is Tónleikar: Græni hatturinn - Ragnheiður Gröndal með hljómsveit. Tónleikarnir hefjast klukkan 21.30, húsið opnar 20.30. Sunnudagur 19. júlí City Bus Sightseeing keyrir 9-13 Tónleikar: Sumartónleikar í Akureyrarkirkju - Christof Pülsch orgelleikari spilar. Tónleikarnir hefjast klukkan 17. Mánudagur 20. júlí City Bus Sightseeing keyrir 9-13 Skemmtiferðaskip: Princess Danae v/Oddeyrarbryggju (lítið skip) dvelur frá 8-19. Þriðjudagur 21. júlí Sýning: Safnasafnið á Svalbarðsströnd - opnun sýningar Kristjáns Guðmundssonar, Söru Riel og Sigurðar Guðmundssonar. Klukkan 14. Tónleikar: Græni hatturinn - Guðrún Gunnarsdóttir ásamt hljómsveit kynna nýútkomna plötu þar sem hún tekur fyrir lög sænska tónlistarmannsins Corneliusar Vreeswijk. Hefjast kl 21. Fimmtudagur 23. júlí City Bus Sightseeing keyrir 9-13 Tvö skemmtiferðaskip: AMADEA v/Oddeyrarbryggju (hátt í 700 farþegar) dvelur frá 10-19. Albatros v/Tangabryggja (hátt í 700 farþegar) dvelur frá 14.30-21. Tónleikar: Heitir fimmtudagar á Listasumri - Trúnó/Tómas R. og Ragnheiður Gröndal spila í Ketilhúsinu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21.30 http://listasumar.akureyri.is/ Tónleikar: Sumarsöngur Sveins Dúa í Laugaborg Eyjafjarðarsveit (Sveinn Dúa Hjörleifsson og Helga Bryndís Magnúsdóttir). Tónleikarnir hefjast klukkan 20.
https://www.akureyri.is/is/frettir/midaldadagar-a-gasum
Miðaldadagar á Gásum Ferð inní fortíðina 18.-21. júlí. Hinn forni Gásakaupstaður vaknar til lífsins. Gásir eru 11 km fyrir norðan Akureyri við Hörgárósa og voru helsta inn- og útflutningshöfn norðlendinga um árhundraða skeið. Á Miðaldadögum, rétt eins og til forna hópast kaupmenn, handverksmenn og iðnaðarmenn saman í búðum á Gásum til að versla við erlenda kaupmenn, kaup- og ráðslaga við hvern annan og náttúrulega sýna sig og sjá aðra. Þátttakendur koma frá Akureyri, Danmörku, Hafnarfirði, Akranesi, Þingeyri, Búðardal og víðar. Dagskrá laugardag og sunnudag 11.00 -17.00 Innlendir og erlendir kaupmenn og handverksmenn að störfum. Gestir fylgjast með og geta átt kaup við slynga Gásakaupmenn. Hægt er að taka þátt í margskonar athöfnum, s.s. bogfimi, knattleik, steinakasti í “Örlygsstaðabardaga” , slöngvuvaðsfimi og að steypa fagra muni úr tini. Gásavölvan spáir í rúnir og fleira og fleira. 12.30 og 15.30 Leiðsögn um fornleifasvæðið. Gengið er frá tröppum stutt frá miðasölu 12.00 – 17.00 Knattleikur 11.00 – 17.00 Boga- og örvasmíðar 12.00 – 14.00 Getur þú skotið af miðaldaboga? 13.00- 15.00 Getur þú skotið með miðaldaslöngvuvað? 15.00 Barist á Gásum 11.00 – 17.00 Eldsmiður að störfum 13.00 og 15.00 Hvernig var bókfell gert? 12.00 og 15.30 Leikþættir úr sögu Gásakaupstaðar 13.30 og 16.00 Félagar úr sönghópnum Hymnodia syngja lög frá miðöldum Dagskráin á mánudag og þriðjudag er með svipuðum hætti en opnunartíminn er styttri. Opið er frá 11-17, laugardag og sunnudag og frá 12-16 mánudag og þriðjudag. Aðgangseyrir er einungis 1000 og gildir alla dagana. Börn 13 ára og yngri greiða 250 krónur og allir þeir sem eru minni en miðaldasverð fá frítt inn!
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyrarthaettir-a-inn
Akureyrarþættir á ÍNN Miðvikudaginn 22. júlí frumsýnir ÍNN nýja þáttaröð í samstarfi við Flugfélag Íslands, þar sem flugmennirnir ferðaglöðu Árni Árnason og Snorri Bjarnvin Jónsson heimsækja Akureyri, Egilsstaði, Ísafjörð og Vestmannaeyjar og gera heimsóknum sínum skil í tveimur þáttum frá hverjum áfangastað. Akureyrarþættirnir verða miðvikudaginn 22. júlí kl. 21.00 og föstudaginn 24. á sama tíma. Vestmannaeyjaþættirnir verða 29. júlí og sá seinni 31. júlí og svo fylgja hinir staðirnir á eftir sömu daga næstu 2 vikur. Í öllum þáttunum er í upphafi fylgst með störfum áhafnar í stjórnklefa og farþegarými, undirbúningi flugtaks og sýndar myndir frá flugleiðinni. Á áfangastað taka bæjarstjórar eða forsetar bæjarstjórna ásamt ferðamálafrömuðum á móti okkar mönnum og leiða þá í allan sannleika um yndi og ágæti héraðs og nærsveita og hvers vegna ferðamaðurinn eigi að leggja leið sína þangað. Bæjarbúar og fólkið á götunni er tekið tali og forvitnast um mannlífsflóruna allt frá matargerð, menningu, afþreyingu, atvinnu og athafnalífi. Frábær myndataka og útsjónarsemi Árna og Snorra gæðir þessar opinberu heimsóknir einstökum ljóma enda var þeim alls staðar tekið með opnum örmum. Í Akureyrarþáttunum nutu tvímenningarnir sérstakrar leiðsagnar matreiðslumeistarans landskunna Friðriks V og flughöfðingjans Arngríms Jóhannssonar,sem flaug með þá vítt um hérað á sjóflugvél sinni og endaði með því að bjóða þeim í dorg frá flothylkjum vélarinnar á Pollinum. Þáttaröðin er enn einn áfanginn í uppbyggingu ÍNN, sem kallar sig einu alíslensku sjónvarpsstöðina. Myndin er af þeim félögum, Árna Árnasyni og Snorra Bjarnvin Jónssyni.
https://www.akureyri.is/is/frettir/myndasyning-um-verslo
Myndasýning um versló Hvernig leistu út nítjánhundruðsjötíu og eitthvað? Ljósmyndasýningin Hvernig leistu út nítjánhundruðsjötíu og eitthvað? verður opnuð í vikunni fyrir verslunarmannahelgi. Þar verður hægt að sjá hvernig bæjarbúar litu út á árunum 1970-1979 og tilefnið er Abba þema helgarinnar. Þetta er einn liður í hátíðinni "Ein með öllu" og geta allir þeir sem vilja vera með í að gera lífið skemmtilegra, farið með mynd af sér til Þórhalls í Pedró eða Birgis í Ljósmyndabúðinni á Glerártorgi. Þeir sem eiga skannaðar myndir geta sent þær á [email protected]. Allar nánari upplýsingar um "Ein með öllu" má finna á heimasíðu hátíðarinnar www.einmedollu.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/storleikur-i-knattspyrnu
Stórleikur í knattspyrnu Það verður sannkallaður stórleikur í kvöld þegar Þór tekur á móti grönnum sínum í KA á nýja íþróttasvæði Þórs við Hamar, í 1. deild karla í knattspyrnu. Fyrir leikinn munar fimm stigum á liðunum, KA er í fjórða sæti með 20 stig en Þór í áttunda sæti með 15 stig. „Þetta er frekar stór dagur, bara það stærsta sem maður hefur gert held ég í fótboltanum," segir Einar Sigþórsson leikmaður Þórs. „Stemmningin er góð fyrir leikinn í kvöld. Það er búið að vera gott tímabil hjá okkur núna undanfarið þar sem við höfum unnið þrjá leiki í röð. Það er að sjálfsögðu mikil tilhlökkun í okkar herbúðum fyrir leikinn. Þór og KA að spila á nýjum velli, þetta gerist varla betra og við ætlum að sýna í kvöld að við getum spilað fótbolta," segir Einar. Fyrirliði KA, Arnar Már Guðjónsson, segir sína menn fulla tilhlökkunar fyrir leikinn. „Stemmningin er góð og leikurinn leggst vel í okkur. Það verður gaman að spila á nýjum velli og við förum fullir sjálfstraust í leikinn eftir sigurleikinn gegn Selfyssingum. Þórsarar eru líka komnir á fullt skrið í deildinni þannig að þetta verður hörkuleikur," segir Arnar Már. Leikurinn í kvöld hefst kl. 19.15 en dagskrá hefst á leikvanginum hálftíma fyrr eða 18.45 þar sem bæjarstjórinn á Akureyri, Hermann Jón Tómasson mun flytja ávarp, ásamt Geir Þorsteinssyni formanni KSÍ og Sigfúsi Helgasyni formanni Þórs. Vinir Sagga, stuðningsmannaklúbbur KA, ætla að grilla á flötinni beint á móti Þórssvæðinu, eða frjálsíþróttasvæðinu við Skarðshlíð eins og þeir vilja kalla það. Hefst grillið klukkan 17.30 og eru allir KA menn hvattir til þess að mæta og hita upp fyrir leikinn og taka þátt í gleðinni. Einnig munu Mjölnismenn, stuðningsmannaklúbbur Þórs, hita upp fyrir leikinn og verða þeir með knattþrautir við Hamar og verða verðlaun í boði. Þá munu þeir einnig selja Mjölnisboli á staðnum. Fréttin er fengin af vef Vikudags.
https://www.akureyri.is/is/frettir/sumartonleikar-i-akureyrarkirkju
Sumartónleikar í Akureyrarkirkju Hjónin David Schlaffke, organisti frá Þýskalandi, og Mariya Semotyuk, flautuleikari frá Úkraínu, eru flytjendur á Sumartónleikum í Akureyrarkirkju, sunnudaginn 26. júlí kl. 17.00. Þau hjónin hafa bæði unnið til verðlauna fyrir tónlistarflutning, haldið fjölda tónleika víða um lönd og hlotið mikið hrós fyrir vandaðan leik. Mariya starfar sem flautuleikari í Concertgebouwhljómsveitinni í Amsterdam, en sú hljómsveit er talin með bestu sinfóníuhljómsveitum Evrópu. Einnig kemur hún reglulega fram sem einleikari og með smærri kammermúsíkhópum. David er sjálfstætt starfandi orgelleikari í Amsterdam en hann lauk einleikaraprófi frá Konunglega Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn árið 2006 og hlaut önnur verðlaun í alþjóðlegu „Johann Sebastian Bach“ orgelkeppninni í Arnstadt í Þýskalandi árið 2007. Á efnisskránni er tónlist eftir Bach, Rheinberger og fleiri. Tónleikarnir standa í klukkustund, aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.
https://www.akureyri.is/is/frettir/vidburdir-naestu-daga
Viðburðir næstu daga Helgin á Akureyri hefst í kvöld þegar hljómsveitin Trúnó með Tómasi R. Einarssyni og Ragnheiði Gröndal spilar á Heitum fimmtudegi í Ketilhúsinu kl. 21.30. Hinn eini sanni Þursaflokkur er mættur í bæinn og mun skemmta Akureyringum bæði í kvöld og annað kvöld á Græna Hattinum. Dagskrá Listasumars er fjölbreytt og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á röltinu um Listagilið, margar sýningar eru í gangi og um að gera að skella sér, því síðustu sýningardagar margra þeirra eru framundan. Vekjum við athygli á því að City Bus Sightseeing verður starfræktur alla helgina frá kl. 9 – 13. Mikil dagskrá er í kringum Hjóladaga 2009 og líklegt að móturhjólum á Akureyri fjölgi til muna nú um helgina. Undirbúningur fyrir dagskrá verslunarmannahelgarinnar Ein með öllu - og allt undir er í fullum gangi. Hið stórskemmtilega lag hátíðarinnar er komið inn á vefinn og hægt að hlusta á það og skoða dagskrána á www.einmedollu.is Fimmtudagur 23. júlí City Bus Sightseeing keyrir 9-13 (Síðasta ferð leggur af stað klukkan 13). Skemmtiferðaskip: Amadea dvelur frá kl. 10 – 19 og Albatros dvelur frá kl. 14.30 – 21. Kvennalið Þór/KA í knattspyrnu spilar á Þórsvelli gegn Grindavík kl. 19.15. Frítt á völlinn. Sumarsöngur Sveins Dúa í Laugaborg Eyjafjarðarsveit (Sveinn Dúa Hjörleifsson og Helga Bryndís Magnúsdóttir). Tónleikarnir hefjast klukkan 20. Tónleikar á Listasumri: Heitur fimmtudagur í Trúnó - Tómar R. og Ragnheiður Gröndal leika í Ketilhúsinu og hefjast tónleikarnir klukkan 21.30. http://listasumar.akureyri.is/ Græni Hatturinn: Hinn íslenski Þursaflokkur – Egill Ólafsson söngur, píanó, harmónikka, Ásgeir Óskarsson trommur, slagverk, Tómas M Tómasson bassi, hljómborð, söngur, Þórður Árnason gítar, Rúnar H Vilbergsson fagott, trommur og Eyþór Gunnarsson hammond orgel og hljómborð. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00, húsið opnar kl. 20.00. Föstudagur 24. júlí City Bus Sightseeing keyrir 9-13 (Síðasta ferð leggur af stað klukkan 13). Skemmtiferðaskip: Eitt stærsta skip sumarsins, Arcadia dvelur frá kl. 8 – 14. Föstudagshádegistónleikar á Listasumri. Tónlistarhlaðborð kl. 12 í Ketilhúsinu. Svissneski söngflokkurinn Vocembalo flytur í tali, tónum og myndum, Max & Moritz eftir Christoph Kobelt á 100 ára afmæli Wilhelm Busch. Sjá nánar http://listasumar.akureyri.is/ Hjóladagar settir á svæði Móturhjólasafnsins, þar sem verður grillað ofl. Kl. 22 um kvöldið verða tónleikar með Sniglabandinu í Sjallanum til styrktar safninu. Græni Hatturinn: Hinn íslenski Þursaflokkur – Egill Ólafsson söngur, píanó, harmónikka, Ásgeir Óskarsson trommur, slagverk, Tómas M Tómasson bassi, hljómborð, söngur, Þórður Árnason gítar, Rúnar H Vilbergsson fagott, trommur og Eyþór Gunnarsson hammond orgel og hljómborð. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00 húsið opnað kl. 21.00. Laugardagur 25. júlí City Bus Sightseeing keyrir 9-13 (Síðasta ferð leggur af stað klukkan 13). Skemmtiferðaskip: Tvö skip koma til Akureyrar í dag, Aida aura dvelur frá kl. 7 – 14 og Europa dvelur frá kl. 12 – 19. Hjóladagar halda hátíð á plani ÚA kl. 12. Kynningar- og sölubásar, leikir og þrautir, burn out, grill, hoppukastali og fleira. Gítartónleikar til heiðurs Gunnari H. Jónssyni áttræðum í Kaupangskirkju í Eyjafjarðarsveit kl. 17. Þráinn Karlsson verður með leiklestur á einþáttungi eftir Böðvar Guðmundsson, “Gamli maðurinn og kvennmannsleysið” í Verksmiðjunni á Hjalteyri kl. 20. Aðgangur ókeypis. Sunnudagur 26. júlí City Bus Sightseeing keyrir 9-13 (Síðasta ferð leggur af stað klukkan 13). Skemmtiferðaskip: Le Diamant dvelur frá kl. 7 – 17. (Lítið skip). Óvissuferð í heilan dag með mat úr héraði í aðalhlutverki. Hjónin Friðrik V. Karlsson og Arnrún Magnúsdóttir, eigendur veitingastaðarins Friðriks V bjóða upp á heils dags dagskrá sem endar á hátíðarkvöldverði. Nánari upplýsingar hér. Opið Kvennamót Purity Herbs/Rose í Golfklúbbi Akureyrar. Ræst út frá kl. 9 – 12. Sveitamarkaður í Eyjafjarðarsveit, Gömlu Garðyrkjustöðinni við Vín. Opnar kl. 11. Leikhópurinn Lotta sýnir Rauðhettu í KA heimilinu kl. 14. Miðaverð kr.1000 fyrir börn og kr.1500 fyrir fullorðna. Sumartónleikar í Akureyrarkirkju - Hjónin David Schlaffke, organisti frá Þýskalandi, og Mariya Semotyuk, flautuleikari frá Úkraínu. Tónleikarnir hefjast klukkan 17, aðgangur ókeypis og allir velkomnir. Ódauðlegt verk um samhengi hlutanna eftir Steinunni Knútsdóttur. Áhugaleikhús atvinnumanna. Sýningin hefst kl. 22.00 í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Miðvikudagur 22. júlí City Bus Sightseeing keyrir 9-13 (Síðasta ferð leggur af stað klukkan 13). Skemmtiferðaskip: Deutschland dvelur frá kl. 8 – 19.
https://www.akureyri.is/is/frettir/styttist-i-verslunarmannahelgi
Styttist í verslunarmannahelgi Nú styttist óðum í Verslunarmannahelgina og skartar "Ein með öllu - og allt undir" á Akureyri fjölmörgum skemmtiatriðum og listamönnum. Að sögn Margrétar Blöndal, verkefnastjóra hátíðarinnar gengur undirbúningur mjög vel og allir sem til hafi verið leitað verið tilbúnir til að leggja sitt af mörkum svo hér verði glæsileg fjölskylduhátíð um verslunarmannahelgina. "Fjölmargir listamenn munu koma fram á ýmsum stöðum í bænum og yfirbragðið verður ljúft og elskulegt. Þema helgarinnar verður ABBA með tilheyrandi dansi, söng og búningum og alla helgina verða viðburðir víðsvegar um bæinn sem eru til þess fallnir að gera lífið skemmtilegra. Lokaatriði dagskrárinnar verður líkt og í fyrra einkar vandaðir sparitónleikar á Akureyrarvelli," segir Margrét. Nánari upplýsingar um dagskrá er að finna á www.einmedollu.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/undir-kreppunni-kraumar-kraftur
Undir kreppunni kraumar kraftur Ein umhverfisvænasta virkjun sögunnar hefur staðið yfir í vor og sumar og nú hefur mikill fjöldi afurða, unnar úr beisluðum sköpunarkrafti og íslenskri ull litið dagsins ljós. Þúfa, Fugl, Bauja, Heklukríli og Tröllaskór eru meðal þeirra verka sem bárust hönnunarsamkeppninni – Þráður fortíðar til framtíðar – en markmið samkeppninnar er að vekja athygli möguleikum íslensku ullarinnar þegar kemur að handverki og hönnun. Á fjórða hundrað innsend verk bera vitni um feikilegan sköpunarkraft og hugvit og hefur dómnefnd tilnefnt 10 verk til úrslita. Vinningshafar verða tilkynntir á Handverkshátíðinni að Hrafnagili laugardaginn 8. ágúst. Þátttaka fór langt fram úr björtustu vonum aðstandenda, en á fjórða hundrað tillögur bárust samkeppninni sem er hugarfóstur Esterar Stefánsdóttur og haldin í samvinnu við Dórótheu Jónsdóttur framkvæmdastýru Handverkshátíðarinnar að Hrafnagili, Landsamtök sauðfjárbænda, Ístex hf. og Glófa ehf. Ber þessi gífurlega þátttaka vott um mikinn áhuga á íslensku ullinni sem efnivið í hönnun og þann sköpunarkraft sem virðist krauma undir þeirri kreppu sem ríkir í samfélaginu. Hópur hönnuða, arkitekta og fagurkera valdi, úr innsendum tillögum, 30 verk sem sett verða upp á sérstakri sýningu á Handverkshátíðinni að Hrafnagili sem stendur yfir dagana 7. til 10. ágúst. Þar á meðal eru þau tíu verk, fimm í flokki fatnaðar og fimm í opnum flokki, sem dómnefnd samkeppninnar hefur tilnefnt til úrslita. Dómnefndina skipa: Védís Jónsdóttir frá Ístex, Logi A. Guðjónsson frá Glófa ehf., Birgir Arason frá Félagi sauðfjárbænda í Eyjafirði, Sveina Björk Jóhannesdóttir textílhönnuður og Jenný Karlsdóttir útgefandi Munsturs og menningar. Tilnefningar dómnefndar eru: Opinn flokkur Bauja – Elísabet Jónsdóttir og Olga Hrafnsdóttir, Holland Tröllaskór - Jóhanna Sveinsdóttir, Selfoss Verk án titils - Svala Norðdahl, Reykjavík „Þúfur" spiladósir - Margrét Guðnadóttir og Sigurbjörg Sigurðardóttir, Reykjavík Hjólahnakkar - Sigurlína Jónsdóttir, Akureyri Flíkur Slá - Halla Einarsdóttir, Akureyri „Fugl" peysa - Ástþrúður Sif Sveinsdóttir, Reykjavík Kragi - Álfheiður Björg Egilsdóttir, Hafnafjörður Vesti og húfa - Vilborg María Ástráðsdóttir, Selfoss Vattarsaumuð herðaslá - Sigríður Lilja Ragnarsdóttir, Egilsstaðir Þær tillögur sem bárust keppninni voru alls staðar af landinu, bæði frá þekktum listamönnum og hönnuðum og einnig fólki sem ekki hefur leyft öðrum að njóta hæfileika sinna hingað til. Í því samhengi má nefna að á sýningu keppninnar mun gefa að líta Heklukríli Sigrúnar Eldjárn og spiladósir Margrétar Guðnadóttur og Sigurbjargar Sigurðardóttur ásamt vattarsaumaðri herðaslá, prjónuðum hlífum á reiðhjólahnakka, gólfpullunni Bauju og svo mætti lengi telja. Hér eru myndir af nokkrum þeirra verka sem bárust samkeppninni.
https://www.akureyri.is/is/frettir/breidholt-hesthusahverfi-tillaga-ad-deiliskipulagsbreyting
Breiðholt, hesthúsahverfi. Tillaga að deiliskipulagsbreytingu. Bæjarráð Akureyrar auglýsir hér með skv. 25 gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, tillögu að deiliskipulagsbreytingu á lóð nr. 5 við Fluguborg og 10 við Faxaborg, samþykkta í bæjarráði þann 16. júlí 2009. Um er að ræða deiliskipulagsbreytingu skv. 1. mgr. 26. gr. sömu laga. Breytingin felur í sér að lóðir nr. 5 við Fluguborg og nr. 10 við Faxaborg stækka til vesturs, auk þess sem nýir byggingarreitir fyrir hús og taðþró eru skilgreindir í Fluguborg 5. Tillöguuppdráttur og greinargerð mun liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, næstu 6 vikur frá birtingu þessarar auglýsingar, þ.e. frá 29. júlí til 9. september 2009, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillöguna og gert við hana athugasemdir. Tillagan er einnig birt á heimasíðu Akureyrarbæjar: http://www.akureyri.is undir: Stjórnkerfið/Skipulag og lausar lóðir. Breiðholt - deiliskipulagsuppdráttur Frestur til að gera athugasemdir er til og með miðvikudeginum 9. september 2009 og skal athugasemdum skilað skriflega til Skipulagsdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillöguna innan þessa frests telst vera henni samþykkur. 27. júlí 2009 Skipulagsstjóri Akureyrarkaupstaðar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/opinn-golfvollur
Opinn golfvöllur Golfklúbbur Akureyrar , hefur í samkomulagi við Akureyrarbæ opnað lítinn golfvöll norðan við eigin völl við Miðhúsabraut. Tilgangurinn er að koma til móts við þá sem ekki eru í Golfklúbbi en langar að prufa og æfa sig við ásættanlegar aðstæður. Völlurinn er opinn öllum áhugasömum um golfíþróttina og ekki þarf að greiða aðgangseyri fyrir notkunina. Með þessu móti vill Golfklúbbur Akureyrar leggja sitt af mörkum í þessu árferði fyrir þá sem hafa áhuga á íþróttinni en vilja byrja hægar áður en þeir telja sig tilbúna að fara 18 holu völl. Allir áhugasamir um golfíþróttina eru hvattir til að nota sér þessar nýju aðstæður sem nú eru í boði.
https://www.akureyri.is/is/frettir/dagskra-helgarinnar
Dagskrá helgarinnar Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að verslunarmannahelgin er nú um helgina og hefst þá hin stórskemmtilega dagskrá Ein með öllu – og allt undir. Gífurlegur fjöldi uppákoma, viðburða, tónleika, listasýninga og alls kyns skemmtunar verður á boðstólum fyrir bæjarbúa og gesti. Því er um að gera að setja upp sitt fallegasta bros og njóta alls þess sem bærinn hefur uppá að bjóða. Þess má geta að ljósmyndasýningin Hvernig leistu út nítjánhundruðsjötíu og eitthvað? verður opnuð í kvöld á Glerártorgi og Ráðhústorgi. Þar er hægt að sjá hvernig bæjarbúar litu út á árunum 1970-1979 og er tilefnið Abba þema helgarinnar. Dagskrá hátíðarinnar er að finna á heimasíðunni www.einmedollu.is Eintóm gleði og hamingja! Fimmtudagur 30. júlí Skemmtiferðaskip: Prinsendam dvelur frá kl. 08 – 18. City Bus Sightseeing keyrir 9-13 (Síðasta ferð leggur af stað klukkan 13). Flötin fyrir neðan leikhúsið: Litbolti, lasertag, hopp og skopp leiktæki frá kl. 12 – 22. Heitur fimmtudagur í Deiglunni: Kvartett brasilísku söngkonunnar og leikkonunnar Jussanam da Silva verður með brasíliska sveiflu eins og hún gerist best. Húni II – Eyfirski söguhringurinn. Torfunefsbryggja á Akureyri kl 16.30. http://www.huni.muna.is Græni Hatturinn: Hvanndalsbræður. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00 og húsið opnar kl. 20.00. Föstudagur 31. júlí Föstudagshlaðborð – hádegistónleikar í Ketilhúsinu. "Víst skaltu öllum veraldar sorgum gleyma". Björg Þórhallsdóttir, sópran og Elísabet Waage, hörpuleikari City Bus Sightseeing keyrir 9-13 (Síðasta ferð leggur af stað klukkan 13). Rósasýning í Blómabúð Akureyrar frá kl. 10 – 18. Flötin fyrir neðan leikhúsið: Litbolti, lasertag, hopp og skopp leiktæki frá kl. 12 – 22. Friðrik V: Hjörleifur Valson fiðluleikari og Vadim Fedorov rússneskur harmonikkuleikari spila af fingrum fram kl. 22.00. Aðgangur ókeypis. Pylsupartý hjá Atlantsolíu frá kl. 14 – 17. Ókeypis pylsur og kók. Kirkjutröppuhlaup frá kl. 16-17. Húni II – Sögusigling. Torfunefsbryggja á Akureyri kl 20. http://www.huni.muna.is Óskalagatónleikar í Akureyrarkirkju frá kl. 20-22. Eyþór Ingi Jónsson og Óskar Pétursson. Gestir geta valið óskalög á staðnum. Skemmtidagskrá á Ráðhústorgi frá kl. 21-23. Trúbadorinn Einar Höllu, Rúnar Eff, verðlaunahljómsveitin Buxnaskjónar, hljómsveitin Von og Sjonni Brink og Ný Dönsk. Græni Hatturinn: Reggie-hjómsveitin Hjálmar. Tónleikarnir hefjast kl. 23.00 og húsið opnar kl. 22.00. Hlöðuball í Dynheimum frá kl. 22-24. Þeir sem skemmtu sér af öllum kröftum í Dynheimum í denn geta nú komið með börnunum sínum og rifjað upp ekta hlöðuballsstemmningu. Laugardagur 1. ágúst City Bus Sightseeing keyrir 9-13 (Síðasta ferð leggur af stað klukkan 13). Flötin fyrir neðan leikhúsið: Litbolti, lasertag, hopp og skopp leiktæki frá kl. 12 – 22. Rósasýning í Blómabúð Akureyrar frá kl. 10 – 18. Hvað verður alltaf um hinn sokkinn eftir þvott? Sokkaskrímslið ógurlega skartar sínu fegursta á Ráðhústorgi á Akureyri kl. 13. Sjallasandspyrnan kl. 14 á akstursíþróttasvæði Bílaklúbbs Akureyrar. Söguganga í innbænum kl. 14. Gengið frá Laxdalshúsi, Hafnarstræti 11. Leiðsögumaður í ferðinni er Hörður Geirsson, safnvörður. Ekkert þátttökugjald. Ratleikur á Glerártorgi: Ratleikur fyrir alla fjölskylduna frá kl. 11-12. Verðlaun í boði. Forskráning á [email protected] Tónlist, teppi og nestiskarfa í Lystigarðinum frá kl. 12-13. Inga Eydal, Kristján Edelstein, Stefán Ingólfsson og Ingvi Rafn Ingvason bjóða upp á ljúfa Akureyrarsveiflu. Barnaleikritið Pína pokastelpa í Lystigarðinum frá kl. 13-13.30. Abba þema í miðbænum frá kl. 14-18. Dans, söngur og gleði þar sem allir geta skemmt sér saman hvort sem þeir eru 2ja eða 102ja ára. Sjá nánar á www.einmedollu.is Græni Hatturinn: Reggie-hjómsveitin Hjálmar. Tónleikarnir hefjast kl. 23.00 og húsið opnar kl. 22.00. Skemmtidagskrá á Ráðhústorgi frá kl. 21-23. Rocky Horror, Hjálmar, Eyþór Ingi og Apollo, Rúnar Eff og hljómsveit, Gleðisveitin Nursing zemi, sippatriði frá Jump Fit, hljómsveitin Von, Sjonni Brink, Heiða Ólafs og Einar Ágúst. Listasýningar og opnanir “Vökudraumar”. María Sigríður Jónsdóttir sýnir olíumálverk á svölum Ketilhússins. Kvörn í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Á sýningunni eru verk eftir stofnendur Verksmiðjunnar og einn gest. "Náttúra og mannlíf". Guðrún Halldórsdóttir og Halldóra Helgadóttir halda samsýningu í aðalsal Ketilhússins. Þórgunnur Oddsdóttir opnar sýninguna “íslensk landafræði” á Café Karólínu. Opnun á sýningu Sebastian Montero og Steven Lepriol í Gallerí BOX. Opnun á sýningu Aðalsteins Vestmanns í Jónas Viðar Gallery. "Sex sýna". Samsýning 6 listamanna í Deiglunni. Ása Óla, Dagrún Matthíasdóttir, Sigurlín M. Grétarsdóttir, Margeir Sigurðsson, Ólafur Sveinsson og Trausti Dagsson. Fjölmargar aðrar sýningar eru enn í gangi. Nánar um dagskrá Listasumars á www.listagil.akureyri.is Sunnudagur 2. ágúst City Bus Sightseeing keyrir 9-13 (Síðasta ferð leggur af stað klukkan 13). "Summer of Love" eftir Knut Eckstein starfandi listamann í Berlín í Gallerí + Flötin fyrir neðan leikhúsið: Litbolti, lasertag, hopp og skopp leiktæki frá kl. 12-22. Rósasýning í Blómabúð Akureyrar frá kl. 12-17. Vor Akureyri í Minjasafnsgarðinum frá kl. 12-14. Hádegistónleikar með ekta Akureyrartónlist frá 7. áratugnum og hádegisverðurinn er að sjálfsögðu pylsa með rauðkáli og Valash. Markaður og Matur úr héraði í miðbænum frá kl. 14-18. Skemmtileg markaðsstemmning á Ráðhústorgi og njótum matar úr héraði í portinu hjá Friðriki V. Góðir skemmtikraftar munu krydda tilveruna. Allir geta verið með á markaðnum, ekkert þátttökugjald. Barnadagskrá á Glerártorgi frá kl. 14.30. Sigga Beinteins og Söngvaborgin. Síðdegis- og ferðamannamessa í Akureyrarkirkju frá kl. 17-18. Sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir og Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir. Tónlist: Hermann Arason og vinir. Abbalögin leikin að stund lokinni. Græni Hatturinn: "Comeback" ársins. Bravó-bítlarnir koma fram eftir 44 ára hlé. Tónleikarnir hefjast kl. 23.00 og húsið opnar kl. 22.00. Sparitónleikar á Akureyrarvelli frá kl. 21-23. Glæsilegir tónleikar þar sem fjölmargir listamenn koma fram m.a. Páll Óskar, Sigga Beinteins og hljómsveit, Bryndís Ásmundsdóttir, Mannakorn og barnastjörnurnar í Bravó sem hafa ekki komið fram á Akureyri í 44 ár. Mánudagur 3. ágúst Frídagur verslunarmanna. Flötin fyrir neðan leikhúsið: Litbolti, lasertag, hopp og skopp leiktæki frá kl. 12-22. City Bus Sightseeing keyrir 9-13 (Síðasta ferð leggur af stað klukkan 13). Markaðsdagur í Laufási í Eyjafirði: Frá 14:00 – 17:00. Á markaðnum kennir ýmissa grasa. Má þar nefna handverk og listmuni ásamt margskonar matvöru úr héraðinu. Skemmtiferðaskip: Delphin Voyager dvelur frá kl. 15 – 21 og Delphin dvelur frá kl. 14-19. (Lítil skip). Þriðjudagur 4. ágúst Skemmtiferðaskip: Maasdam dvelur frá kl. 8-23. (Stórt skip). City Bus Sightseeing keyrir 9-13 (Síðasta ferð leggur af stað klukkan 13). Miðvikudagur 5. ágúst Fjöldi sýninga í gangi. Sjá nánar á www.listagil.akureyri.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/byggdakvoti-til-uthlutunar
Byggðakvóti til úthlutunar Um helgina birti Fiskistofa auglýsingu vegna úthlutunar byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2008/2009 sbr. reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa nr. 557, 25. júní 2009. Auglýst er eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir eftirtalin byggðarlög: Grundarfjarðarbæ, Borgarfjarðarhrepp (Borgarfjörður eystri), Seyðisfjörð, Sveitarfélagið Norðurþing (Húsavík, Kópasker, Raufarhöfn) og Akureyrarbæ (Hrísey, Grímsey). Auk reglugerðarinnar er vísað til sérstakra úthlutunarreglna í hlutaðeigandi byggðalögum sbr. auglýsingu nr. 671/2009 í Stjórnartíðindum. Umsóknum skal skilað til Fiskistofu á eyðublaði sem er að finna á heimasíðu stofnunarinnar, og þar eru ofangreindur reglur einnig aðgengilegar. Umsóknarfrestur er til og með 17. ágúst 2009.
https://www.akureyri.is/is/frettir/att-thu-sledann
Átt þú sleðann? Þessi skrautlegi snjósleði fannst á dögunum við Óseyri 19 og hefur víst legið þar um nokkra hríð. Hugsanlegt er að honum hafi verið stolið og komið þarna fyrir eða að réttur eigandi hafi hreinlega týnt honum. Eigandi sleðans, eða þeir sem kannast við hann og telja sig vita hver eigandinn er, geta snúið sér til Bergs Þorra Benjamínssonar hjá framkvæmdadeild Akureyrarbæjar í síma 460 1108 eða sent tölvupóst á netfangið [email protected].
https://www.akureyri.is/is/frettir/handverkshatidin-2009
Handverkshátíðin 2009 Handverkshátíð við Hrafnagilsskóla verður sett í dag, föstudaginn 7. ágúst, í 17.sinn við hátíðlega athöfn. Guðni Ágústsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra mun setja hátíðina formlega. Margt verður að gerast í tengslum við hátíðina en yfir 100 einstaklingar og félög taka þátt í henni. Hönnunarsamkeppnin "Þráður fortíðar til framtíðar" sem haldin var í tengslum við hátíðina setur svip sinn á hana og fer verðlaunaafhending fram á laugardag klukkan 15. Þar verður þeim hampað sem fremstir fóru í flokki við gerð muna en nær 400 munir fóru fyrir dómnefnd. Mikil gróska er í handverki og hönnun á Íslandi í dag og ljóst að nýsköpun er alls ráðandi í þjóðfélaginu. Nýting á óvenjulegu hráefni eins og hænsalappaskinni, horni og beini hefur færst í aukana, og skemmtilegir munir verða til sýnis og sölu. Verksvæði handverksmanna verður fjölbreytt sem fyrr, Laufáshópur mun kynna matargerð af fornum sið, glerlistarmaður verður að störfum, tískusýningar, rúningur, krambúð, forndráttarvélasýning, andlitsmálun fyrir börn og fleira. Hátíðin stendur yfir frá föstudegi til mánudags og er opið frá klukkan 12 til 19 alla daga.
https://www.akureyri.is/is/frettir/mannmargt-i-baenum
Mannmargt í bænum Mikill mannfjöldi hefur verið á Akureyri í dag og skýrist það meðal annars af komu þriggja skemmtiferðaskipa til bæjarins. Við bryggju hafa legið skemmtiferðaskipin Albatros, Kristina Regina og Crown Princess sem er stærsta skemmtiferðaskipið sem hingað kemur í sumar, 116.000 brúttólestir með 3.242 farþega. Auk þessa er margt innlent ferðafólk í bænum því komandi helgi verður afar viðburðarík í Eyjafirði þar sem tveir helstu hápunktarnir eru Fiskidagurinn mikli á Dalvík og Handverkshátíðin við Hrafnagilsskóla sem var sett formlega kl. 11.30 í dag og stendur til mánudags. Skoða má dagskrá Handverkshátíðarinnar HÉR. Upplýsingar um ýmsa aðra viðburði er að finna á viðburðadagatali heimasíðunnar. Myndirnar að neðan voru teknar af Crown Princess og ferðafólki á Akureyri í um 17 stiga hita í morgun.
https://www.akureyri.is/is/frettir/metadsokn-a-handverkshatid
Metaðsókn á Handverkshátíð Metaðsókn er á Handverkshátíðina á Hrafnagili og á þriðja degi af fjórum voru gestir orðnir rúmlega 15.000. Bros á hverju andliti í 20 stiga hita og sól skapaði frábæra stemningu á hátíðarsvæðinu um helgina. Hátíðin verður opin í dag, mánudag, frá kl. 12 til 19. Hönnunarsamskeppni um nýsköpun í ullarvörum var í tengslum við sýninguna og þá þótti við hæfi að sýna rúning á ullinni. Birgir Arason rúningsmaður sýnir daglega vélrúning og fékk til liðs við sig konur í sveitinni með rokkinn og sátu þær við spuna. Margt er um óvenjulegt hráefni á svæðinu sem hefur vakið eftirtekt. Tískusýningar, fyrirlestrar og námskeið krydda dagskrána í hvívetna. Að þessu sinni er staðið að hátíðinni á annan máta en hefur verið því öll félögin í sveitinni hafa lagt hönd á bagga. Lionsklúbburinn Vitaðsgjafi, þrjú kvenfélög, Ungmennafélagið Samherjar og Hjálparsveitin Dalbjörg ásamt gríðarlegum fjölda tónlistarfólks og skemmtikrafta, allt fólk sem tengist Eyjafjarðarsveit á einn eða annan hátt. Handverkskona ársins 2009 var verðlaunuð á kvöldvöku á laugardag og þann titil hlaut Guðrún Ásgerður Steingrímsdóttir handverkskona með meiru.
https://www.akureyri.is/is/frettir/irene-gook-100-ara
Irene Gook 100 ára Irene Gook fagnar í dag 100 ára afmæli sínu en hún fæddist í Lundúnum 11. ágúst 1909. Foreldrar hennar voru Arthur og Florence Gook. Irene fluttist aðeins sex mánaða til Íslands þar sem faðir hennar starfaði sem kristniboði. Irene lærði hjúkrun og ljósmóðurstörf í Bretlandi. Hún starfaði lengst af á fæðingadeild FSA en vann einnig tvö ár í Hlíð þar sem haldið var upp á afmæli hennar í dag. Irene giftist Guðvini Gunnlaugssyni kennara á Akureyri. Irene er bæði með íslenskan og breskan ríkisborgararétt. Hún lítur á sig sem hálfan Íslending og segir gott að vera á Íslandi því þar búi gott fólk. Sú venja hefur skapast að bæjarstjórar hafa fært 100 ára Akureyringum blóm á afmælisdegi þeirra. Irene óskaði hins vegar sérstaklega eftir því að í stað blóma og gjafa yrði andvirði látið renna til Gideonfélagsins eða sumarbúðanna að Ástjörn. Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri færði Irene þess vegna afmæliskveðjur og tilkynningu um að Akureyrarbær hefði lagt andvirði blómakörfu inn á reikning sumarbúðanna. "Það er yndislegt að hafa kynnst Irene, maður fær aðra sýn á hvað það er að vera aldraður," segir starfsmaður í Hlíð sem segir einnig að Irene sé áhugasöm um líðan og aðstæður íbúa, starfsfólks og fjölskyldu sinnar. Hún er einstök, heimsækir aðra íbúa í Hlíð, les fyrir íbúa og meðan hún keyrði bauð hún þeim gjarnan í lengri og skemmri bíltúra. Hún hætti að keyra 96 ára en þá hafði hún keyrt farsællega í 60 ár. Irene er listræn, málar fallegar myndir og er áhugaljósmyndari. Irene hefur verið við ágæta heilsu um ævina og í dag koma saman á annað hundrað manns til að fagna með henni. Irene er elst fimm systkina og er yngsta systir hennar komin til Íslands 83ja ára til að samgleðjast henni.
https://www.akureyri.is/is/frettir/hugmyndir-um-sparnad
Hugmyndir um sparnað Snemma í vor var auglýst eftir hugmyndum starfsmanna hjá Akureyrarbæ um lækkun kostnaðar í rekstri sveitarfélagsins. Tekið var fram að hugmyndirnar mættu ná til allra rekstrarþátta í starfseminni hvort sem um væri að ræða laun eða önnur rekstrargjöld. Bæjarstjórinn á Akureyri, Hermann Jón Tómasson, veitti í dag verðlaun fyrir bestu innsendu hugmyndirnar. Starfsmenn létu ekki sitt eftir liggja og bárust fjölmargar tillögur. Framkvæmdastjórn valdi tillögur frá eftirtöldum starfsmönnum: Hugrún Sigmundsdóttir, leikskólastjóri á Pálmholti fyrir hugmynd sína um að skólamötuneyti bæjarins fái úthlutað matjurtargörðum til afnota. Þar gæti sameinast sparnaður, umhverfisfræðsla og útikennsla. Hugrún átti jafnframt verðlaunatillögu um að koma á vöruskiptum milli stofnana bæjarins. Davíð Hjálmar Haraldsson, starfsmaður á launadeild og Trausti Tryggvason starfsmaður á Fasteignum sendu báðir inn tillögur um sparnað í götulýsingu. Bergur Þorri Benjamínsson á framkvæmdadeild og Jón Aðalsteinn Brynjólfsson í Lundarskóla fengu svipaða hugmynd um hvernig spara mætti með því að nota ókeypis hugbúnað í tölvur starfsmanna. Í verðlaun var árskort í Sundlaugar Akureyrar. Talið frá vinstri: Hermann Jón Tómasson, Trausti Tryggvason, Hugrún Sigmundsdóttir, Jón Aðalsteinn Brynjólfsson, Davíð Hjálmar Haraldsson og Bergur Þorri Benjamínsson með son sinn Benjamín Þorra Bergsson í fanginu.
https://www.akureyri.is/is/frettir/lenging-akureyrarflugvallar
Lenging Akureyrarflugvallar Í dag, föstudaginn 14. ágúst kl. 13.30, var lengd flugbraut á Akureyrarflugvelli formlega tekin í notkun. Jafnframt hefur ýmiss aðflugsbúnaður verið endurnýjaður og endurbættur sem eykur öryggi í aðflugi að flugvellinum og stuðlar að enn betri nýtingu á honum. Framkvæmdir við flugvöllinn hófust vorið 2008 og var opnað fyrir flugumferð um endurbættan flugvöll og nýtt aðflug tekið í notkun 29. júlí sl. Flugbrautin var lengd um 460 metra til suðurs og er nú 2.400 metrar að lengd. Einnig var eldri hluti flugbrautarinnar styrktur og réttur af með nýju malbiki, endaöryggissvæði endurbyggð og stækkuð úr 60 metrum í 150 metra við hvorn enda vegna breyttra reglna frá Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO). Heildarlengd flugbrautar með öryggissvæðum er þar með orðin 2.700 metrar. Jafnframt hafa “axlir” við flugbrautina verið malbikaðar. Aðflugsljósabúnaður var endurnýjaður og nýr stefnusendir settur upp. Unnið er að uppsetningu á nýju og fullkomnu blindaðflugi sem gefur enn frekari möguleika fyrir þær tegundir flugvéla, sem notaðar eru í innanlandsflugi. Að framkvæmdum loknum er ljóst að Akureyrarflugvöllur er mun betur í stakk búinn til að þjóna millilandaflugi með frakt og farþega. Hlutverk hans sem varaflugvöllur styrkist við framkvæmdirnar sem og mikilvægi hans fyrir ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi. Með lengdri flugbraut opnast ný tækifæri fyrir flugrekendur til að nýta flugvöllinn til farþega- og fraktflutninga, m.a. með því að fleiri tegundir flugvéla geta núna farið um hann. Samstarf allra aðila sem komu að þessum framkvæmdum hefur verið gott og tímaáætlanir staðist. Lítils háttar röskun varð á innanlands- og millilandaflugi í júlíbyrjun 2008 vegna malbiksframkvæmda og viðgerða á eldri braut. Heildarkostnaður við verkið er um 1,7 milljarðar króna. Mynd: Hörður Geirsson.
https://www.akureyri.is/is/frettir/ataksverkefni-i-kjarnaskogi
Átaksverkefni í Kjarnaskógi Í sumar hafa fjórir starfsmenn unnið að ýmsum verkefnum á útivistarsvæðinu í Kjarnaskógi á vegum Skógræktarfélags Eyfirðinga í átaksverkefni Vinnumálastofnunar með stuðningi Akureyrarbæjar. Meðal annars hefur verið unnið að gerð göngustíga, gerð útikennslustofu fyrir grunnskólana og grisjun skógarins. Starfsmennirnir fjórir hafa verið að störfum í Kjarnaskógi og Naustaborgum frá því í apríl og verða fram í desember. Um 14 manns hafa unnið að ýmsum verkefnum á útivistarsvæðinu í sumar, þar af 6-7 úr Vinnuskólanum. Útikennslustofan er í rjóðri nærri bílastæðinu við Naustaborgir og verður nýtt af grunnskólum bæjarins þegar skólastarf hefst núna í haust. Lundarskóli kemur til með að nýta sér þetta og einnig Naustaskóli og Naustatjörn en þaðan er göngufæri í útikennslustofuna. Krakkar úr grunnskólunum komu á svæðið í vor og hjálpuðu til við að ryðja rjóðrið og hreinsa til svo aðstaðan yrði eins og best verður á kosið. Í samstarfi við Samherja var unnið að nýjum göngustíg í Naustaborgum sem myndar hring frá bílastæðinu og liggur um skemmtilegt skógivaxið landslag. Hringurinn er um 2,5 km og er einnig hægt að komast á hann með því að fara út úr stóra hringnum í Kjarnaskógi í norðvestur horni hans. Þessi stígur er ekki fullgerður en verður tilbúinn eftir um það bil viku. Þarna er um mjög forvitnilega og fallega gönguleið að ræða og verður hún eflaust vinsæl á meðal bæjarbúa og gesta bæjarins. Starfsfólk í Kjarnaskógi hefur einnig unnið að því að ryðja nýtt samkomurjóður í miðjum Kjarnaskógi og verður það vonandi tilbúið til notkunar næsta sumar. Það er á afar skólgjóðum stað í landi Litla Kjarna. Að þessum verkefnum og öðrum, til dæmis lengingu fjallahjólabrautar syðst í skóginum um einn km, hafa starfsmenn úr átaksverkefninu og krakkar úr Vinnuskólanum unnið í sumar. Starfsmenn í Kjarnaskógi kurla trjágreinar í nýja samkomurjóðrinu í Kjarnaskógi. Samkomurjóðrið er í miðjum skóginum þar sem er afar skjólgott og huggulegt að vera. Johan Wilhelm Holst, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, sýnir áningarstað þar sem borðum og stólum verður komið fyrir á nýju gönguleiðinni um Naustaborgir. Um það bil 10 metra háar aspir sem gróðursettar voru í Naustaborgum fyrir 20 árum. Johan Wilhelm Holst í Naustaborgum með Akureyrarbæ og skemmtiferðaskipið Costa Magica í baksýn.
https://www.akureyri.is/is/frettir/sidasta-syningarhelgi
Síðasta sýningarhelgi Sunnudaginn 23. ágúst lýkur sýningunni „Kreppumálararnir" í Listasafninu á Akureyri en þar er dregin upp mynd af lífi og listum þjóðarinnar á fjórða áratug síðustu aldar. Ísland hóf göngu sína sem þátttakandi í alþjóðasamfélaginu með nýju sniði í upphafi 20. aldar með heimastjórn 1904 og síðan fullveldi 1918. Umráð yfir atvinnu- og efnahagsmálum færðu mönnum aukna möguleika til viðskipta við önnur lönd, eflingu útflutnings og uppbyggingu innanlands. Allan þriðja áratug 20. aldarinnar ríkti mikil bjartsýni í atvinnulífi, sveitir tóku stakkaskiptum og íbúum kaupstaða fjölgaði. Þessi þróun stöðvaðist skyndilega með hruni verðbréfamarkaðarins í New York í árslok 1929. Íslandsbanki, sem stofnaður var í upphafi aldarinnar og hafði lánað ótæpilega fé til atvinnustarfsemi og uppbyggingar, varð gjaldþrota í febrúar 1930. Ríkið yfirtók bankann og breytti honum sama ár í tvo banka, Útvegsbanka og Búnaðarbanka. Við tóku erfiðir tímar sem ekki lauk fyrr en með hernámi Íslands árið 1940. En þrátt fyrir bágan efnahag áttu sér samt stað ýmsar merkar framfarir í atvinnulífi landsmanna og á menningarsviðinu komu fram listamenn sem síðar áttu eftir að láta meira að sér kveða. Frá aldamótunum 1900 hafði landslagið verið ráðandi viðfangsefni myndlistarmanna og varð svo áfram en upp úr 1930 kom fram ný kynslóð ungra listamanna sem leit svo á að með efnahagskreppunni og þeim þjóðfélagsátökum sem henni fylgdu hefði hugmyndagrundvelli landslagsmálverksins verið svipt burt. Þegar svo mikið hafði breyst var ekki hægt að halda áfram sem fyrr. Þeir fundu knýjandi þörf fyrir túlkun nýrra tíma í breyttu þjóðfélagi og litu til manneskjunnar í umhverfi sínu sem fram að þeim tíma hafði verið svo til fjarverandi í íslenskri myndlist. Með vaxandi þéttbýlismyndun fluttu listamennirnir á mölina, eins og svo margir og fóru að yrkja um sinn nýja veruleika. Málararnir munduðu pensla sína við myndríkan heim Reykjavíkurhafnar, hugtökin kreppumálari og kreppuskáld urðu til og vísir að borgarvitund tók að myndast. Kreppumálararnir sem hér eru kynntir, þeir Snorri Arinbjarnar (1901-1958), Gunnlaugur Scheving (1904-1972), Þorvaldur Skúlason (1906-1984) og Jón Engilberts ( 1908-1972), beindu sjónum sínum að hinum vinnandi manni og sögusviðið er oft þorpið eða bærinn sem einnig verða rithöfundum og skáldum að yrkisefni á þessum áratug. Minjasafnið á Akureyri hefur lagt til menningarsögulega muni ásamt ljósmyndum sem ætlað er að ríma við myndlistarverkin og beina sjónum sýningargesta að umhverfi og kjörum norðlenskrar alþýðu á þessum tíma. Auk einstaklinga lánuðu einnig Listasafn Íslands, Listasafn ASÍ, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Menntaskólinn á Akureyri, NBI h.f., Efling stéttarfélag, Stúdíó Stafn ehf, Borgarskjalasafn Reykjavíkur, Síldarminjasafnið á Siglufirði, verk og muni til sýningarinnar. Sýningin stendur til sunnudagsins 23. ágúst. Listasafnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17 og er aðgangur ókeypis í boði Akureyrarbæjar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/naustatjorn-opnar-deild-i-naustaskola
Naustatjörn opnar deild í Naustaskóla Leikskólinn Naustatjörn opnaði fimmtu deildina sína í gær, á sex ára afmælisdegi leikskólans. Þetta er deild sem er aðeins með elstu börnum skólans, fæddum 2004, og hún er staðsett í Naustaskóla. Fyrstu nemendur Naustaskóla eru því leikskólakrakkar sem verða grunnskólakrakkar eftir ár. Krakkarnir fluttu dótið sitt yfir í Naustaskóla upp úr hádegi í gær og ríkti mikil eftirvænting í hópnum. Börnin voru á deild sem heitir Búðargil en nýja deildin í Naustaskóla heitir Fífilbrekka. Þar hefur leikskólinn aðstöðu í tveimur minni stofum og einu stóru rými. Á leikskólanum Naustatjörn er verið að taka á móti um 60 nýjum börnum þessa dagana. Verið er að manna Búðargil að nýju, en alls fóru um 30 börn yfir í Fífilbrekku og þá er einnig verið að manna þau pláss sem losna, nú þegar elstu börnin hefja nám í grunnskóla. Það ríkti mikil eftirvænting hjá börnunum sem voru að flytja frá Naustatjörn yfir í Naustaskóla. Frétt af heimasíðu Vikudags.
https://www.akureyri.is/is/frettir/skolabyrjun-i-grunnskolum
Skólabyrjun í grunnskólum Mánudaginn 24. ágúst hefja 2.586 nemendur vetrarstarfið í grunnskólum Akureyrarbæjar og fjölgar nemendum eilítið á milli skólaára. Þar af eru 264 nemendur í 1. bekk að stíga sín fyrstu skref í grunnskóla. Lundarskóli verður fjölmennastur með 520 nemendur og fæstir verða nemendurnir í Grunnskólanum í Grímsey eða 10. Grunnskólinn í Grímsey bætist nú í hóp grunnskóla Akureyrarbæjar eins og Naustaskóli og eru grunnskólar Akureyrarbæjar þá orðnir 9 og til viðbótar er einn sérskóli, Hlíðarskóli. Í Naustaskóla verða um 150 nemendur á aldrinum 6 til 12 ára þetta fyrsta starfsár skólans. Tilkynningu frá skólastjórum um upphaf skólaársins má finna HÉR. Mjög vel gekk að manna grunnskólana á Akureyri. Ekki var óalgengt að 6 umsóknir væru um hverja stöðu sem auglýst var. Hlutfall fagmenntaðra er rétt um 100%. Mikill stöðugleiki hefur einkennt starfsmannahaldið undanfarin ár, sem er mikill styrkur fyrir allt faglegt starf, því grundvöllur þess byggist á hæfu og metnaðarfullu starfsfólki. Í grunnskólunum eru nú 281 stöðugildi við stjórnun, kennslu og ráðgjöf og 97 stöðugildi við önnur stöf s.s. umsjónarmenn húsa, skólaliðar, stuðningsfulltrúar og ritarar. Ríflega 400 starfsmenn sitja í þessum 378 stöðugildum. Stöðugildafjöldi starfsmanna er óbreyttur á milli skólaára. Af þessu má leiða að skólahald verður með svipuðu sniði þetta skólaár og verið hefur. Meðaltal nemenda í námshópi er það sama og undanfarin ár eða um 20 nemendur. Þetta á einnig við þegar skoðaður er fjöldi nemenda pr. stöðugildi kennara sem er í raun betri mælikvarði, því algengt er að fleiri en einn kennari komi samtímis að kennslu hvers námshóps. Fjöldi nemenda pr. stöðugildi kennara var ríflega 10 á sl skólaári og verður eins á þessu. Á þessu ári hefur verið gripið til margþættra ráðstafana til að lækka rekstrarkostnað skólanna. Þetta hefur leitt til þess að þröngt er um öll aðföng og einnig hefur þurft að hætta ýmsum hliðarverkefnum. Þessar aðgerðir eiga ekki að vera mjög íþyngjandi fyrir skólastarfið en líklegt er margir finni fyrir þeim að einhverju marki. Dæmi um slíkar aðgerðir er að nú loka frístundir grunnskólanna kl. 16.15 en ekki 17.15 eins og áður. Þrátt fyrir þrengri fjárhag er hugur í starfsmönnum og verður haldið áfram að vinna að fjölmörgum verkefnum sem líkleg eru til að bæta skólastarfið enn frekar, á næstu árum.
https://www.akureyri.is/is/frettir/abendingar-um-fallega-garda-1
Ábendingar um fallega garða Framkvæmdadeild Akureyrarbæjar óskar eftir ábendingum frá bæjarbúum um góðan árangur í fegrun og hirðingu bæjarins. Á Akureyrarvöku, þann 28. ágúst, mun Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri veita viðurkenningar fyrir góðan árangur í eftirfarandi flokkum: Flokkur nýrri garða. Flokkur eldri garða. Flokkur raðhúsa/fjölbýlishúsa. Flokkur stofnana. Sérstaklega verður horft til hönnunar, frágangs lóðar/athafnasvæðis, viðhalds, hirðingar, umgengni, fjölbreytilegs plöntuvals, aðlaðandi götumyndar o.fl. Ef þurfa þykir getur dómnefnd ákveðið önnur áhersluatriði en fyrr eru nefnd og veitt viðurkenningar samkvæmt því. Dómnefnd ákveður hversu margar viðurkenningar eru veittar í hverjum flokki. Heimilt er að fella niður úthlutun viðurkenningar í einstökum flokkum, ef sýnt þykir að enginn standist ofangreindar viðmiðanir Tekið er á móti ábendingum í netfangi verkefnastjóra umhverfismála, (Jón Birgir Gunnlaugsson), [email protected] frá 20. ágúst til og með 27. ágúst og í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar í síma 460-1000.
https://www.akureyri.is/is/frettir/undirbuningur-fyrir-akureyrarvoku-sem-fram-fer-28-og-29-agust-stendur-sem-haest
Undirbúningur fyrir Akureyrarvöku sem fram fer 28. og 29. ágúst stendur sem hæst Undirbúningur fyrir Akureyrarvöku sem fram fer venju samkvæmt 28. og 29. ágúst stendur nú sem hæst. Þar munu m.a. brjóstahöld koma umtalsvert við sögu en saumastofan, Saumakompan í Kaupvangsstræti 10, kallar eftir brjóstahöldum af öllum stærðum og gerðum. Brjóstahöld eru ekki bara huggulegur klæðnaður sem heillað hefur konur um aldir alda heldur hafa þeir því hlutverki að gegna að verma dýrmætan lífsvökva hvítvoðungana. Sú hefð hefur skapast að Akureyrarvöku lýkur með pompi og prakt á götum úti og kemur þá í ljós í hvaða hlutverki brjóstahöldin gegna! Nú þegar er búið að staðfesta dagskrárliði á borð við Rómantík í rökkrinu í Lystigarðinum, Draugaslóð í Innbænum, Uppskerumarkað Friðriks V og Matur úr Eyjafirði, Söng og súkkulaði í fjósinu við Galtalæk, Sirkusinn Sannleik, bleikhjúpaðan eikarbáturinn Húna ll og stórtónleika veitingastaðarins RUB 23 í Gilinu. Bæjarbúar og gestir eru hvattir til að hafa með sér myndavélina og taka þátt í ljósmyndasamkeppni þar sem markmiðið er að að grípa augnablikið sem lýsir þeirri notalegu stemningu sem bærinn hefur upp á að bjóða. Það er nokkuð ljóst að afmælisbarnið Akureyrarbær sem heldur upp á 147 ára afmæli sitt 29. ágúst mun iða af lífi í öllum krókum og kimum og kórar syngja á landi og sjó. Dagskrá Akureyrarvöku í heild sinni er að finna á www.visitakureyri.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyrarvaka-undirbuin
Akureyrarvaka undirbúin Undirbúningur fyrir Akureyrarvöku sem fram fer venju samkvæmt 28. og 29. ágúst stendur nú sem hæst. Þar munu m.a. brjóstahöld koma umtalsvert við sögu en saumastofan, Saumakompan í Kaupvangsstræti 10, kallar eftir brjóstahöldum af öllum stærðum og gerðum. Brjóstahöld eru ekki bara huggulegur klæðnaður sem heillað hefur konur um aldir alda heldur hafa þeir því hlutverki að gegna að verma dýrmætan lífsvökva hvítvoðungana. Sú hefð hefur skapast að Akureyrarvöku lýkur með pompi og prakt á götum úti og kemur þá í ljós í hvaða hlutverki brjóstahöldin gegna ! Nú þegar er búið að staðfesta dagskrárliði á borð við Rómantík í rökkrinu í Lystigarðinum, Draugaslóð í Innbænum, Uppskerumarkað Friðriks V og Matur úr Eyjafirði, Söng og súkkulaði í fjósinu við Galtalæk, Sirkusinn Sannleik, bleikhjúpaðan eikarbáturinn Húna ll og stórtónleika veitingastaðarins RUB 23 í Gilinu. Bæjarbúar og gestir eru hvattir til að hafa með sér myndavélina og taka þátt í ljósmyndasamkeppni þar sem markmiðið er að að grípa augnablikið sem lýsir þeirri notalegu stemningu sem bærinn hefur upp á að bjóða. Það er nokkuð ljóst að afmælisbarnið Akureyrarbær mun iða af lífi í öllum krókum og kimum og kórar syngja á landi og sjó. Dagskrá Akureyrarvöku í heild sinni er að finna á www.visitakureyri.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/timamotaskref-i-umhverfismalum
Tímamótaskref í umhverfismálum Föstudaginn 21. ágúst tók jarðgerðarstöð Moltu ehf. í Eyjafirði formlega til starfa en stöðinni er ætlað að taka á móti lífrænum úrgangi af Eyjafjarðarsvæðinu og úr Þingeyjarsýslu. Stöðin er staðsett á Þveráreyrum í Eyjafjarðarsveit og er hún í meirihlutaeigu sveitarfélaganna í Eyjafirði, auk matvælafyrirtækja á svæðinu og fleiri aðila. Tilkoma stöðvarinnar er lykilskref í því að sorpurðun verði hætt á Glerárdal og þannig er með stöðinni stigið stórt og langþráð skref í umhverfismálum svæðisins. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis, ræsti stöðina formlega. Steingrímur J. Sigfússon ræsir vélarnar í jarðgerðarstöðinni í gegnum tölvustjórnbúnað. Eiður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Moltu ehf. fylgist með. Jarðgerðarstöð Moltu er um margt áhugaverð. Stöðin er sú stærsta sinnar tegundar í Evrópu og getur annað um 10-13 þúsund tonnum á ársgrundvelli. Stærð stöðvarinnar markast af því að geta afkastað háönn í úrgangi á svæðinu, þ.e. á haustin þegar sláturtíð gengur yfir. Stöðin er þannig uppbyggð að mjög einfalt er að bæta við tromlum og auka afköst hennar. Hugmyndir um byggingu jarðgerðarstöðvar má rekja til starfs innan matvælahóps Vaxtarsamnings Eyjafjarðar árið 2006 en í lok þess árs var haldinn kynningarfundur með fulltrúum sveitarfélaga og fyrirtækja á svæðinu. Í kjölfarið hófust formlegar athuganir og undirbúningsferli sem leiddi til stofnunar Moltu ehf. Framkvæmdir við stöðina sjálfa hófust í ágúst 2008 og í júní sl. hófst reynslukeyrsla stöðvarinnar. Strax í næsta mánuði mun svo verða full nýting á stöðinni í sláturtíðinni. Vinnslan í stöðinni fer þannig fram að saman við lífræna úrganginn, sem að stærstum hluta er fisk- og sláturúrgangur, er í byrjun blandað stoðefnum, þ.e. pappír, timbri, grasi og garðaúrgangi. Með því fæst nauðsynlegt kolefni í jarðgerðina. Þessi blanda fer síðan í sex stórar tromlur þar sem jarðgerðarblandan hitnar og fer upp í að minnsta kosti 70°C. Þegar stöðin er á fullum afköstum eru um 250 tonn samtímis í tromlunum sex. Að umfangi getur jarðgerðarblandan rýrnað um sem næst 40% í þessu niðurbrotsferli. Út úr ferlinu kemur molta, sem þarf að fullverkast í um þrjá mánuði í mönum utan við stöðina og er hún þá tilbúin í frekari vinnslu. Moltan er verðmætt áburðarefni og nú þegar jarðgerðin er orðin að veruleika mun fyrirtækið einbeita sér að þróun á framhaldsvinnslu moltunnar. Í þeim þætti eru taldir ýmsir möguleikar sem skilað gætu fyrirtækinu frekari tekjum og skapað ný störf, en við moltugerðina eru um tvö störf á ársgrundvelli. Tækjabúnaður í jarðgerðarstöðinni er frá finnska fyrirtækinu Preseco og samanstendur m.a. af jarðgerðartromlunum og tilheyrandi móttökubúnaði, þ.e. hakkavélum, færiböndum og sniglum. Verkfræðifyrirtækið Mannvit á Akureyri kom að undirbúningi að stofnsetningu stöðvarinnar, bæði hvað varðar ráðgjöf um tæknilega útfærslu og hönnun húss. Byggingaframkvæmdir annaðist fyrirtækið Virkni ehf. Kostnaður við verkefnið í heild nemur rúmum 500 milljónum króna.
https://www.akureyri.is/is/frettir/draugaslod-i-innbae-akureyrar
Draugaslóð í Innbæ Akureyrar Skerandi skelfileg óp, drungaleg tónlist og verur af öðrum heimi er meðal annars það sem gestir og gangandi munu heyra og sjá í Innbænum, elsta hluta Akureyrar, næstkomandi föstudagskvöld, 28. ágúst, kl. 22.30-23.59 í Draugaslóð Minjasafnsins á Akureyri og Leikfélags Akureyrar. Á undanförnum árum hefur Draugagöngu Minjasafnsins og Leikfélags Akureyrar vaxið fiskur um hrygg og því verður brugðið á það ráð í ár að breyta fyrirkomulagi þessa vinsæla viðburðar. Ekki er því um eiginlega göngu með leiðsögn að ræða heldur slóð sem fólkið fylgir á sínum eigin hraða. Sögumenn verða í Minjasafnsgarðinum, við Friðbjarnarhús og við Gamla spítalann auk þess sem Laxdalshús verður gert draugalegt. Í Samkomuhúsinu verður sögustund með draugalegu ívafi að hætti leikhúsfólks kl 22.30, 23.00 og 23.30. Síðast en ekki síst verður draugalegt um að litast á Minjasafninu frá kl. 22–24 en safnið er einnig opið frá kl. 10-17. Enginn aðgangseyrir er að safninu í tilefni dagsins. Draugaslóðin er að þessu sinni meðal annars mönnuð af sjálfboðaliðum úr Leikfélagi Hörgdæla og öðrum áhugasömum velunnurum Minjasafnins á Akureyri.
https://www.akureyri.is/is/frettir/islenskar-ljosmyndir-1866-2009
Íslenskar ljósmyndir 1866-2009 Á Akureyrarvöku laugardaginn 29. ágúst kl. 15 verður sýningin „Úrvalið: íslenskar ljósmyndir 1866–2009" opnuð í Listasafninu á Akureyri. Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari hefur valið verk eftir þrettán kollega sína á sýninguna, og skrifar jafnframt um þá, sem og rökin fyrir vali sínu, í texta sem birtist í vandaðri sýningarskrá. Er þetta í fyrsta sinn sem tilraun er gerð til þess að gefa markvisst yfirlit á einni sýningu yfir sögu skapandi ljósmyndunar hér á landi, frá upphafi til dagsins í dag. Á sýningunni er verk níu látinna ljósmyndara og fjögurra sem enn starfa. Sýningarstjórinn valdi ekki fólk sem fætt er eftir 1960 og einungis fólk sem gerði ljósmyndun að ævistarfi og starfaði því við fagið á um langt skeið. Verk ellefu karlmanna og tveggja kvenna eru á sýningunni, en fram á síðustu áratugi heyrði það til undantekninga að konur störfuðu markvisst við ljósmyndun lengur en í örfá ár. Ljósmyndararnir eru: Sigfús Eymundsson, Nicoline Waywadt, Magnús Ólafsson, Pétur Brynjólfsson, Sigríður Zoëga, Jón Kaldal, Ólafur Magnússon, Vigfús Sigurgeirsson, Ólafur K. Magnússon, Guðmundur Ingólfsson, Sigurgeir Sigurjónsson, Ragnar Axelsson og Páll Stefánsson. Sigfús Eymundsson (1837–1911) kom heim til Íslands árið 1866 eftir að hafa lokið ljósmyndanámi í Noregi. „Sagt hefur verið að heimkoma Sigfúsar marki þáttaskil. Hann var fyrsti íslenski ljósmyndarinn sem náði að gera ljósmyndun að lífsstarfi – og var frábær ljósmyndari, einn sá allra merkilegasti sem hér hefur starfað, til þessa dags. Íslensk ljósmyndun var orðin til," skrifar Einar Falur. "Hvað gerir ljósmynd góða?" spyr hann. "Eða áhrifamikla? Hvaða ljósmyndari er góður og hver síðri? Þar koma margir þættir inn. Fagurfræðilegt mat, sem er huglægt og persónulegt, skiptir líklega mestu þegar myndverk eru metin út frá formrænum eigindum sínum. Og vissulega þarf að setja sköpunarverkin í sögulegt samhengi. Hugsa um stefnur og strauma í tímanum, hugmyndafræði í listum yfirleitt og afstöðu listamannanna – ljósmyndaranna. Það þarf einnig að skoða heildarverkið. Hvað liggur eftir ljósmyndarana? Náðu þeir, og jafnvel fyrir tilviljun, nokkrum góðum myndum, en voru annars bara þokkalegir iðnaðarmenn? Eða lögðu þeir mikinn metnað í sköpunina, stefndu að því að skapa einstæð myndverk? Það eru slíkir gripir sem við viljum sjá, myndir sem láta okkur staldra við og benda: svona var þetta og enginn gat sýnt það betur." Í vali sínu á ljósmyndurum og myndum þeirra beinir Einar Falur einkum sjónum að manninum, mannlífi og hinu manngerða í umhverfinu. Hann segir að ekki sé þó hægt að líta fram hjá því að hér hefur ætíð búið fátt fólk í stóru og margbrotnu landi, og náttúru- og landslagsljósmyndun hefur skipað stærri sess hér en víðast hvar. „Ljósmyndavélin gerir það sama á Íslandi og annarsstaðar. Þetta er aðeins skráningartæki. Það eru afstaða og sýn ljósmyndarans á heiminn sem skipta öllu máli." Ljósmyndirnar á sýningunni í Listasafninu á Akureyri eru í eigu Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafninu, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Morgunblaðsins og ljósmyndaranna. Sýningin er gerð í sérstöku samstarfi við bókaútgáfuna Sögur ehf. og Þjóðminjasafn Íslands. Sýningin stendur til 18. október. Listasafnið á Akureyri er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17. Ókeypis aðgangur í boði Akureyrarbæjar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/annasamt-a-amtsbokasafninu
Annasamt á Amtsbókasafninu Nýliðinn júlímánuður var annasamur á Amtsbókasafninu. Aldrei hafa gestir verið fleiri í einum mánuði eða 13.247 sem þýðir að gestir voru að meðaltali 576 á dag. Þetta er aukning um 11% miðað við sama mánuð í fyrra. Aldrei hefur heldur verið lánað út eins mikið út af gögnum safnsins eða 20.540 eintök en það er 14% aukning miðað við sama mánuð í fyrra. Sem fyrr eru það bækur og tímarit sem eru vinsælust hjá lánþegum en að auki fær fólk að láni dvd, myndbönd, tónlist og hljóðbækur svo eitthvað sé nefnt. Mikil aðsókn hefur einnig verið í tölvuaðgang og eru þar í meirihluta erlendir ferðamenn sem þurfa að komast í netsamband á ferð sinni um landið.
https://www.akureyri.is/is/frettir/nagrannavarsla-a-akureyri
Nágrannavarsla á Akureyri Átaki um nágrannavörslu var ýtt úr vör á Akureyri í gær. Það voru íbúar Beykilundar sem riðu á vaðið undir forystu Sævars Helgasonar, eins af íbúum götunnar. Að loknum stuttum kynningarfundi var fest upp skilti á horni Beykilundar sem sýnir að virk nágrannavarsla er í götunni. Átakið er unnið í samvinnu Akureyrarbæjar og Sjóvár. Sjóvá gefur út leiðbeiningar fyrir þá sem vilja skipuleggja nágrannavörslu og býður einnig til námskeiðs þar sem kenndar verða þær aðferðir við nágrannavörslu sem þykja hafa heppnast best. Í leiðbeiningunum má sjá hvernig lágmarka má hættu á innbrotum og skemmdarverkum. Þátttakendur í nágrannavörslunni fá m.a. gátlista sem auðvelda þeim að fara yfir heimili sitt til að kanna hvort það er öruggt og hvaða atriði þarf að laga. Einnig fylgja leiðbeiningar um öryggi bílsins, ferðavagna, reiðhjóla, mótorhjóla og sumarhúsa. „Það er áratuga reynsla af skipulagðri nágrannavörslu víða um heim og við viljum leggja okkar af mörkum til þess að festa virka nágrannavörslu í sessi hér á landi. Okkar framlag er handbók með ítarlegum leiðbeiningum ásamt námskeiðum og aðgengi að sérfræðingum á sviði forvarna. Framhaldið er síðan í höndum íbúanna sjálfra,“ segir Sigurjón Andrésson, markaðsstjóri Sjóvár. „Einn af kostunum við að búa á Akureyri hefur ævinlega verið að þar býr fólk við mikið öryggi og stafar lítil hætta af glæpum. Nágrannavarslan er liður í að tryggja að svo verði áfram. Þannig stuðlum við líka að samkennd meðal íbúanna og virkjum þá í því að gera góðan bæ ennþá betri, “segir Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri á Akureyri. Þeir sem hafa áhuga á að koma nágrannavörslu á í götunni sinni eða heilu hverfi geta kynnt sér málið á www.sjova.is eða haft samband við Dagnýju Harðardóttur í síma 460 1022 ([email protected]). Fyrsta skiltið var fest upp við Beykilund. Á myndinni eru frá vinstri: Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn, Sævar Helgason, íbúi við götuna, Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar og Jón Birgir Guðmundsson, útibússtjóri Sjóvár.
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyrarvaka-hefst-i-kvold
Akureyrarvaka hefst í kvöld Akureyrarvaka verður sett kl. 20 í kvöld í Lystigarðinum. Skapast hefur sú hefð að hefja Akureyrarvöku með þeim hætti að garðurinn er upplýstur og ýmsar uppákomur dreifðar um garðinn. Myndlistarsýning verður opnuð, boðið upp á upplestur og tónlist, ásamt með fleiru sem kemur vafalítið á óvart. Undirbúningur sýningarinnar List í Garðinum hefur staðið yfir í allt sumar en með sýningunni velta níu einstaklingar fyrir sér spurningunni hvað er list og útkoman er 11 verk af öllum stærðum og gerðum sem búið er að finna stað í rjóðrum og á flötum Lystigarðsins. Um ræðir handverksfólk, leikfangasmið, myndlistamenn og silfursmiði. Í Lystigarðinum verða veittar viðurkenningar fyrir fallegasta garð bæjarins og einnig fyrir fallegasta matjurtargarðinn. Lesið verður upp úr tveimur bókum sem væntanlegar eru á markað, annars vegar Sögu Akureyrar sem skrásett er af Jóni Hjaltasyni sagnfræðingi og hins vegar Gásagátu sem er barnabók um lífið og tilveruna á Gásum, rituð af Brynhildi Þórarinsdóttur rithöfundi. Einnig verður ljóðalestur og tónlist flutt af Hymnodiu, fönkbandinu Manhattan og trúbadornum Finni Erlingssyni. Draugaslóð í Innbænum hefst svo klukkan 22.30 og stendur fram á miðnætti. Á laugardaginn sem er 147. afmælisdagur Akureyrarbæjar heldur Akureyrarvaka áfram en hún markar jafnframt lok Listasumars. Fyrsti dagskrárliðurinn hefst klukkan 10 þegar Skógræktarfélag Eyfirðinga býður upp á skógargöngu um Eyrina og rekur svo hver viðburðurinn annan. Listagilið verður iðandi af lífi enda opna þar hver sýningin á fætur annarri þar sem viðfangsefnin eru eins mörg og þau eru misjöfn. Ketilhúsið, Listasafnið, Jónas Viðar Gallery, Populus Tremula, GalleriBOX, Café Karólína, DaLí Gallerí og Keramikverkstæði Margrétar Jónsdóttur bjóða öll gestum að ganga í bæinn og njóta. Þeir sem vilja hlýða á tónlist á Akureyrarvöku geta t.d. hlustað á drama- og grínóperur, ljúfa tóna í fjósinu við Galtalæk, tónleika bæði í Akureyrarkirkju og Minjasafnskirkjunni, miðnæturtónleika í Populus Tremula og síðast en ekki síst stórtónleika RUB 23 í Gilinu sem hefjast klukkan 20.00 en þar koma fram tónlistarmaðurinn Sickbird, Hundur í óskilum, hljómsveitin Manhattan og Rúnar Eff og Hvanndalsbræður. Þegar klukkan nálgast tíu mun miðbærinn taka á sig mynd útileikhúss og kemur Sirkusinn Sannleikur, eikarbáturinn Húni II, karla- og kvenraddir og síðast en ekki síst brjóstahöld koma við sögu. Nánari upplýsingar um dagskrána í heild sinni er að finna HÉR.
https://www.akureyri.is/is/frettir/fegurstu-gardarnir
Fegurstu garðarnir Við setningu Akureyrarvöku síðastliðið föstudagskvöld voru meðal annars veittar viðurkenningar fyrir fegurstu garðana á Akureyri og einnig fyrir fallegasta matjurtargarðinn. Lesa má niðurstöður dómnefndar með því að smella HÉR (pdf-skjal). Og umsögn um matjurtarreitinn sem hlaut viðurkenningu var svohljóðandi: "Úr mörgum fallegum og vel hirtum matjurtareitum var að velja og ýmsir verðlaunahæfir reitir sem komu til greina. En matjurtareitur nr. 61 er ákaflega vel hirtur reitur þar sem hlúð hefur verið að plöntunum af kostgæfni. Öllu er smekklega fyrir komið og sýnilega hefur uppskeran verið góð það sem af er. Sigrún H. Guðjónsdóttir er vel að viðurkenningunni komin og við óskum henni til hamingju."
https://www.akureyri.is/is/frettir/gaman-a-akureyrarvoku
Gaman á Akureyrarvöku Akureyrarvöku var um helgina og var þátttaka bæjarbúa og gesta góð þrátt fyrir að veðurguðirnir hefðu mátt vera örlátari á góða veðrið. Sem dæmi var Draugaslóð Minjasafnsins og Leikfélags Akureyrar virkilega vel sótt, fullt var út úr dyrum á tónleikum í Fjósinu við Galtalæk, í Minjasafnskirkjunni og á akureyskum tónum Ingu Eydal. Mikill áhugi var fyrir sýningunum sem opnuðu í Listasafninu, Ketilhúsinu og Deiglunni og var fólk duglegt við að njóta lífsins og rölta á milli opnanna í Listagilinu. Fjöldi fólks mætti í Gilið eftir kvöldmat þar sem sungið var hátt og snjallt með eyfirskum böndum á borð við Hvanndalsbræður og Hund í óskilum og mættu þeir síðarnefndu á svið með ýmiskonar tæki og tól sem sjaldnast teljast til hljóðfæra en mynduðu samt nothæf hljóð. Þegar tónleikunum lauk elti mannfjöldinn Sirkus Sannleik inn á Ráðhústorg þar sem hann lék listir sínar. Þar birtist svo fögur stúlka á stultum íklædd allsérstökum kjól gerðan úr brjóstahöldum og vakti hún mikla aðdáun viðstaddra og var þar með búið að uppljóstra leyndarmálinu um tilgang brjóstahaldaranna. Fólk elti svo stúlkuna í brjóstahaldakjólnum góða niður á Torfunefsbryggju þar sem eikarbáturinn Húníi II beið við bryggju bleikupplýstur og fallegur. Um borð voru Karlakór Akureyrar-Geysir og Kvennakór Akureyrar. Þau enduðu Akureyrarvöku á fögrum tónum og var m.a. sungið hátt "Ég veit þú kemur í kvöld til mín..." Meðfylgjandi mynd tók Þórgnýr Dýrfjörð af stúlkunni í brjóstahaldarakjólnum.
https://www.akureyri.is/is/frettir/sidastur-ut-slokkvi-ljosin
Síðastur út slökkvi ljósin? Á morgun, miðvikudaginn 2. september, fjallar Þóroddur Bjarnason um áhrif kreppunnar á búferlaflutninga og mannfjöldaþróun á Íslandi í fyrirlestrarröðinni félagsvísindatorg við Háskólann á Akureyri. Fyrirlesturinn hefst kl. 12.00 í stofu L 201 á Sólborg við Norðurslóð. Margir óttast að yfirstandandi efnahagþrengingar muni leiða til stórfellds fólksflótta frá Íslandi á næstu árum og sumir hafa jafnvel gengið svo langt að bera ástandið saman við efnahagskreppuna Færeyjum á síðasta áratug tuttugustu aldar þegar nærri tíundi hver Færeyingur flutti af landi brott. Þóroddur Bjarnason prófessor fjallar um mannfjöldaþróun á Íslandi síðustu öldina og þær breytingar sem orðið hafa á fyrstu sex mánuðum þessa árs með áherslu á mismunandi stöðu mála í einstökum landshlutum. Þóroddur mun fjalla sérstaklega um mismunandi búferlaflutninga íslenskra og erlendra ríkisborgara og áhrif þeirra á mannfjöldaþróunina. Loks mun hann meta hugsanlega þróun mannfjöldans hér á landi í samanburði við reynslu Færeyinga á árunum 1990-1996 og reifa nokkrar lykilspurningar um þær breytingar sem framundan kunna að vera. Nánar í viðburðadagatalinu, sjá HÉR.
https://www.akureyri.is/is/frettir/96000-gestir-hja-la-i-fyrra
96.000 gestir hjá LA í fyrra Mikil eftirvænting ríkir hjá Leikfélagi Akureyrar þessa dagana, enda spennandi leikár framundan. Rúmlega 96.000 gestir sáu sýningar í leikhúsinu og upprunalegar uppfærslur LA í Reykjavík á síðasta ári sem er meira en helmingi fleiri gestir en árin á undan. Þetta góða gengi gefur félaginu byr undir báða vængi og á morgun, fimmtudaginn 3. september, hefst sala áskriftakorta. Miðverð er það sama og þrjú undanfarin ár og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Nokkrir hápunktar í dagskrá vetrarins: 18. september: VIÐ BORGUM EKKI, VIÐ BORGUM EKKI. Sígildur farsi eftir Dario Fo. Uppsetningin er samstarfsverkefni LA, Borgarleikhússins og Nýja Íslands. 24. og 25. sept. DJÚPIÐ. Nýr íslenskur einleikur sem hefur hlotið einróma lof. Höfundur og leikstjóri: Jón Atli Jónasson. Leikari: Ingvar E. Sigurðsson. 9. október. LILJA. Magnað leikverk eftir Jón Gunnar Þórðarson. Verkið byggir lauslega á kvikmyndinni Lilja 4 ever eftir Lukas Moodysson. Leikstjóri: Jón Gunnar Þórðarson. 30. og 31. október. Gestasýning Íslenska dansflokksins. Þrjú ólík verk sem hafa hlotið frábæra dóma heima og erlendis. Verkin eru: SKEKKJA, SVANURINN og KVART. 26. nóvember. LYKILLINN AÐ JÓLUNUM er nýtt barnaleikrit eftir ljóta hálfvitann Snæbjörn Ragnarsson. Hvernig komast jólasveinarnir yfir það að gefa í alla þessa skó á einni nóttu? Mörg þúsund gluggar og aðeins einn sveinn til að laumast inn um þá alla, hvernig er það hægt? 8. janúar. 39 ÞREP er nýlegur gamanleikur eftir Patrick Barlow, sem byggður er á samnefndri kvikmynd meistara Hitchcock. 4 leikarar, 139 hlutverk! Leikstjóri: María Sigurðardóttir. 15. janúar. JESÚS LITLI er gestasýning frá Borgarleikhúsinu. Þarna eru á ferðinni trúðarnir skemmtilegu sem gestir LA sáu á síðasta leikári í hinni eftirminnilegu sýningu Dauðasyndirnar. Leikstjóri: Benedikt Erlingsson. 19. mars. Rokksöngleikurinn ROCKY HORROR eftir Richard O’Brien. Leikstjóri: Jón Gunnar Þórðarson. Tónlistarstjóri: Andrea Gylfadóttir. Páskar. HORN Á HÖFÐI. Barna- og fjölskyldusýning eftir Berg Þór Ingólfsson og Guðmund Brynjólfsson. Tónlist: Villi naglbítur. FÚLAR Á MÓTI. Edda Björgvins, Helga Braga og Björk Jakobsdóttir.
https://www.akureyri.is/is/frettir/greifi-hjalpar-bjarneyju
Greifi hjálpar Bjarneyju Bæjarstjórinn á Akureyri, Hermann Jón Tómasson, afhenti á föstudag leyfi fyrir 500. hundinum á Akureyri en þar er um að ræða sérþjálfaðan hund sem mun aðstoða fatlaða stúlku í bænum. Bjarney Guðrún Jónsdóttir er átta ára og með arfgengan vöðvasjúkdóm og skerta hreyfigetu og þarf því mikla aðstoð við ýmsar daglegar athafnir. Nú hefur Bjarney Guðrún fengið til liðs við sig hann Greifa, sérþjálfaðan hund sem hjálpar henni við margt sem hún á erfitt með að leysa sjálf. Hann getur hjálpað henni úr fötunum og sótt ýmsa hluti svo sem leikföng og farsímann hennar. Þegar bæjastjórinn á Akureyri afhenti Bjarneyju leyfið fyrir Greifa hafði hún aðeins haft hundinn hjá sér í fimm daga og var ótrúlegt hvað tengslin voru orðin náin á svo skömmum tíma. En það kemur foreldrum hennar ekki á óvart því Bjarney hefur mikinn áhuga á dýrum og hefur lengi langað í hund. Bjarney og Greifi í anddyri Ráðhússins eftir að leyfið hafði verið afhent. Bæjarstjórinn á Akureyri klórar Greifa og Bjarney fylgist með.
https://www.akureyri.is/is/frettir/budargil-tillaga-ad-deiliskipulagi
Búðargil - Tillaga að deiliskipulagi Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar auglýsir hér með skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tillögu að endurskoðuðu deiliskipulagi Búðargils, samþykkta í bæjarstjórn 1. september 2009. Deiliskipulagssvæðið nær til lóðar nr. 2 við Sunnutröð í Búðargili. Í deiliskipulaginu felast nokkrar breytingar frá gildandi deiliskipulagi, m.a. verður hámarksstærð frístundahúsa 185m2 í stað 78 m2 áður. Byggingarreitir B og E stækka. Á byggingarreit A er heimilt að byggja þjónustuhús og frístundahús á tveimur hæðum en hámarkshæð verður óbreytt og byggingarmagn eykst úr 250 m2 í 600 m2. Gistirýmum fjölgar úr 132 í 178 og bílastæðum fjölgar úr 43 í 69. Tillöguuppdráttur ásamt greinargerð mun liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, frá 2. september til 14. október 2009, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillöguna og gert við hana athugasemdir. Tillagan er einnig birt á heimasíðu Akureyrarbæjar: www.akureyri.is undir: Stjórnkerfið/Skipulag og lausar lóðir. Búðargil - deiliskipulagsuppdráttur, tillaga Búðargil - skýringaruppdráttur, tillaga Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna rennur út kl. 16:00 miðvikudaginn 14. október 2009 og skal athugasemdum skilað skriflega til Skipulagsdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillöguna innan þessa frests telst vera henni samþykkur. 2. september 2009 Skipulagsstjóri Akureyrarkaupstaðar
https://www.akureyri.is/is/frettir/evropski-menningarminjadagurinn
Evrópski menningarminjadagurinn Evrópski menningarminjadagurinn 2009 verður haldinn sunnudaginn 6. september. Þema dagsins að þessu sinni er torfhús í fortíð og nútíð. Af því tilefni verður boðið uppá forvitnilega dagskrá í Gamla bænum Laufási í Eyjafirði frá kl. 14–16. Minjavörður Fornleifaverndar Íslands á Norðurlandi eystra, Sigurður Bergsteinsson, verður með erindi í þjónustuhúsi Gamla bæjarins. Í því fjallar hann um íslenska torfbæinn, uppruna hans og þróun. Eftir fyrirlesturinn mun Ingibjörg Siglaugsdóttir, fyrrverandi staðarhaldari og umsjónarmaður Gamla bæjarins í Laufási, leiða gesti um bæinn og reyna að varpa ljósi á spurningar eins og hvað gerir umsjónarmaður torbæjar? Þarf að halda torbæ við – eru þeir ekki sjálfbærir? Þegar þessum ásamt mörgum öðrum áhugaverðum spurningum er svarað mun sr. Bolli Pétur Bollason segja frá því hvernig var að alast upp við torfhúsið í Laufási. Gamli bærinn í Laufási er hluti húsasafns Þjóðminjasafns Íslands en í umsjá Minjasafnsins á Akureyri. Í Laufási verður opið eins og endra nær á sumrin milli 9 og 18. Það er enginn aðganseyrir þennan dag. Fornleifavernd ríkisins hefur umsjón með evrópska menningarminjadeginum á landsvísu. Heildardagskrá dagsins má nálgast á www.fornleifavernd.is. Tilgangur Evrópska menningarminjadagsins er að vekja athygli almennings á gildi menningararfsins. Um leið og verið er að reyna að skapa vettvang fyrir almenning til að efla grenndarvitund sína með því að sækja heim sögulega staði. Gildi dagsins hefur vaxið ár frá ári og fjöldi þátttakenda eykst frá ári til árs en 49 þjóðir taka þátt þennan dag í ár. Í fyrra komu 20 milljónir gesta til þeirra 32.000 menningarminjastaða sem kynntir voru almenningi og gaman væri ef enn fleiri kæmu í ár.
https://www.akureyri.is/is/frettir/althjodadagur-laesis-a-akureyri
Alþjóðadagur læsis á Akureyri Að frumkvæði Háskólans á Akureyri og Amtsbókasafnsins á Akureyri var ákveðið að taka nú í fyrsta sinn þátt í alþjóðadegi læsis 8. september til að leggja áherslu á mikilvægi læsis til gagns og gamans og þann auð sem þjóðin á í vel menntuðu fólki. Á degi læsis er fólk hvar sem er á landinu hvatt til að lesa upp fyrir hvert annað, segja sögur, fara með ljóð eða á annan hátt nota málið til ánægjulegra samskipta. Árið 1965 tileinkuðu Sameinuðu þjóðirnar ár hvert 8. september mikilvægi læsi fyrir lífsgæði og baráttunni gegn ólæsi. Í heiminum eru ennþá 20% fullorðinna ólæsir vegna skorts á tækifærum. Þar af er hlutfall ólæsra kvenna 66%. 75 milljónir barna eiga ekki kost á skólagöngu. Íslendingar hafa getað boðið börnum sínum tækifæri til lestrarnáms en læsi er nú skilgreint af SÞ sem grunnlífsleikni. Til að viðhalda lestrarfærni þarf að iðka lestur. Í tilefni af deginum munu Austurglugginn, Morgunblaðið og Víkurfréttir birta framhaldssögu fyrir börn um Jónsa fréttaritara í átta hlutum. Kaflarnir birtast einu sinni í viku. Sagan er gefin af alþjóðasamtökum blaðaútgefenda (WAN). Á Akureyri verður, þann 8. september, boðið upp á fjölbreytta og létta dagskrá á ýmsum stöðum bæjarins. Allir sem hafa umsjón með viðburðunum gefa vinnu sína. Þess er vænst að aðrir staðar á landinu taki upp merkið, lesi saman á vinnustöðum, skólum og heimilum og setji upp dagskrá í sinni heimabyggð. Dagskrána í heild sinni má finna HÉR.
https://www.akureyri.is/is/frettir/upplysingamidstodin-vinsael
Upplýsingamiðstöðin vinsæl Á fundi stjórnar Akureyrarstofu 2. september sl. var farið yfir þjónustu upplýsingamiðstöðvarinnar í sumar, reksturinn það sem af er ári og stefnu til framtíðar. Mikil aukning varð á gestakomum í miðstöðina, í júlí komu að meðaltali 856 manns á dag í samanburði við 678 gesti í júlí 2008. Einnig var mikil ásókn í gistingu og bílaleigubíla á Akureyri og á köflum reyndist erfitt að mæta öllum óskum um þá þjónustu. Alls voru heimsóknir í upplýsingasmiðstöðina í júní, júlí og ágúst 64.689 sem er 38% aukning frá fyrra ári.
https://www.akureyri.is/is/frettir/hverfishatid-vid-glerarskola
Hverfishátíð við Glerárskóla Laugardaginn 12. september verður haldin hverfishátíð við Glerárskóla í samstarfi hverfisnefndar Holta- og Hlíðahverfis og Foreldrafélags Glerárskóla. Nemendur í Glerárskóla og hverfisbúar, ungir sem aldnir, eru hvattir til að mæta og skemmta sér saman. Þátttakendur þurfa að klæða sig eftir veðri og hafa mér sér garðstóla og teppi. Dagskrá: Kl. 10.30-11.00: Reiðhjólafólk safnast saman við Glerárskóla. Hjólað verður um hverfið og hverfisbúar minntir á hátíðina. Kl. 11.00-13.00: Hverfishátíðin við Glerárskóla. Tombóla, andlitsmálun, veitingar, tónlistaratrið frá 2. og 4 bekk í Glerárskóla, hraðskákmót, fornbílar og fleira. Myndir af Glerárþorpinu verða til sýnis á kaffihúsinu og er fólk hvatt til að koma með gamlar ljósmyndir með sér ef þær eru til. Kl. 13:00: Gönguferð um Glerárhverfi með leiðsögn í boði Minjasafns Akureyrar. Lagt af stað frá Glerárskóla og endað við Glerárvirkjun. Kl. 13.00-14.00: Glerárvirkjun opin fyrir almenning. Starfsmaður frá Norðurorku verður á staðnum og veitir upplýsingar um virkjunina. Veitingar: Kaffi og vöfflur verða til sölu og rennur ágóði í ferðasjóð nemenda 10. bekkjar í Glerárskóla og allir fá fríar pylsur og Svala. Frétt af www.vikudagur.is.
https://www.akureyri.is/is/frettir/skolakrakkar-i-huna-ii
Skólakrakkar í Húna II Nemendur í 6. bekk grunnskólanna á Akureyri fara á haustdögum í vettvangsferð á sjó á bátnum Húna II. Það eru Hollvinir Húna II sem standa að ferðunum í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Skóladeild Akureyrarbæjar með stuðningi frá Saga Capital. Í ferðunum fá nemendur að kynnast sjávarútveginum og fræðast um lífríkið í sjó á metnaðarfullan hátt, ásamt sögufræðslu um bátinn og ströndina. Sjávarlíffræðingur frá Háskólanum á Akureyri eða Hafrannsóknarstofnun miðlar til þeirra á líflegan hátt fræðslu um lífríki sjávar, sérkenni Eyjafjarðarins og sýnir þeim þurrkaðar sjávarlífverur. Rennt er fyrir fiski og gert að honum með tilheyrandi fróðleik. Að lokum er aflinn grillaður og smakkaður um borð. Fræðsla fer fram í sal (lest), þar sem nemendum eru sýnd gömul fiskileitartæki, veiðarfæri og önnur tilheyrandi tól og sagt frá notkun þeirra. Einnig heimsækja þau skipstjórann í brúnni sem fræðir þau um stjórnun og siglingartæki skipsins.
https://www.akureyri.is/is/frettir/andanefjurnar-komnar-aftur
Andanefjurnar komnar aftur! Tvær andanefjur sáust í Pollinum í morgun en flestir voru orðnir úrkula vonar um að þær kæmu aftur. Þessir fallegu hvalir glöddu bæjarbúa og gesti bæjarins síðasta sumar og mættu þá til leiks nokkru fyrr en nú, eða fljótlega upp úr verslunarmannahelgi. Lét Akureyrarstofa meðal annars búa til upplýsingaskilti um hvalategundina sem hanga enn uppi við Drottningarbrautina fólki til fróðleiks. Nú verður spennandi að sjá hvað andanefjurnar gera næstu dægrin og hvort þær ætla að staldra við í Pollinum fáeinar vikur líkt og í fyrra, bæjarbúum og ferðafólki til óblandinnar gleði. Myndirnar voru teknar í fyrrasumar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/atakalitill-risi-i-vanda
Átakalítill risi í vanda? Miðvikudaginn 16. september heldur Dr. Lassi Heininen fyrirlestur á Félagsvísindatorgi við Háskólann á Akureyri sem hann nefnir "Evrópusambandið – átakalítill risi í vanda?" Fyrirlesturinn verður fluttur í stofu L 201 á Sólborg við Norðurslóð og hefst kl. 12.00. Hvers virði er Evrópusambandið? Er það gott í sjálfu sér? Það stuðlar að friði milli aðildarríkja sinna og er með aðlaðandi efnahagskerfi. Eða er sambandið fyrst og fremst flókið regluverk sem er ekki í tengslum við íbúa sína? Við þessum spurningum er ekkert einfalt svar. Mikil umræða hefur farið af stað í tengslum Evrópusambandið og sérstaklega um þróun þess í framtíðinni. Sambandið er pólitísk heild með sameiginleg landamæri og samþætta efnahags- og peningastefnu sem skiptir miklu máli í evrópskum stjórnmálum. Í erindi sínu á Félagsvísindatorgi ræðir Lassi Heininen um vaxandi áhugi sambandsins á málefnum norðurins og þá sérstaklega norðurheimskautinu, norðuheimskautshafinu og auðlindum tengdum þessum svæðum. Hann fjallar einnig um stöðu Evrópusambandsins á alþjóðavettvangi þar sem það er skilgreint sem „mjúkt" vald þar sem það einbeitir sér aðallega aðmálum eins og loftlagsbreytingum og orkumálum. Dr. Lassi Heininen er stjórnmálafræðingur með alþjóðasamskipti, landsvæðastjórnmál, öryggismál, umhverfisstjórnmál, stjórnmálasögu sem sérsvið, með áherslu á Evrópu, Rússland og norðurheimskautið. Dr. Lassi Heininen er fyrirlesari og dósent við félagsvísindadeild Háskólans í Lapplandi, Finnlandi. Lassi flytur marga fyrirlestra í finnskum, evrópskum, norður amerískum og Rússneskum háskólum. Lassi er einnig dósent við Frost Center í Kanadafræðum, Trent Háskólanum í Kanada, Háskólann í Oulu í Finnlandi og er einnig gestafyrirlesari í Háskólanum á Akureyri. Lassi er einnig formaður stjórnarnefndar Rannsóknarþings Norðursins.
https://www.akureyri.is/is/frettir/list-i-gardinum
List í garðinum Á Akureyrarvöku var opnuð myndlistarsýning í Lystigarðinum undir yfirskriftinni "List í garðinum". Þar sýna níu listamenn verk sín og stendur sýningin út september. Fátt er indælla en að fá sér göngutúr um Lystigarðinn núna þegar haustlitirnir eru að koma fram og skoða um leið fjölbreytileg verk sem dreift hefur verið um svæðið. Lystigarðurinn er opinn virka daga frá kl. 8-22 og um helgar frá 9-22. Smelltu HÉR til að nálgast kort af Lystigarðinum og yfirlit yfir staðsetningu listaverkanna. Myndirnar að neðan voru teknar í Lystigarðinum í gær.
https://www.akureyri.is/is/frettir/betra-thorunnarstraeti-1
Betra Þórunnarstræti Nú er unnið að bættri aðkomu að bílaplani nemenda Menntaskólans á Akureyri og sameiginlegri heimavist MA og VMA. Búið er að helluleggja eyjur og koma fyrir beygjurein eða "vasa" á Þórunnarstræti, auk þess sem gatan hefur verið malbikuð (yfirbrædd) á stóru svæði. Með framkvæmdunum ætti umferð um Þórunnarstætið að ganga greiðar fyrir sig á þessu erilsama svæði sem oft hefur myndað "umferðarhnút" á ákveðnum tíma dagsins. Enda eru hér um að ræða aðkomu fjögurra stórra vinnustaða á svæðinu: MA, Sjúkrahúsins á Alureyri, Öldrunarheimilsins Hlíð og Verkmenntaskólans.
https://www.akureyri.is/is/frettir/nemar-fra-austurriki
Nemar frá Austurríki Í tíu leikskólum á Akureyri eru nú 33 leikskólakennaranemar frá Secondary Training College for Kindegarten Teachers in Mistelbach, Austurríki. Nemarnir eru komnir hingað með styrk frá Leonardo verkefninu. Nemarnir stunda hluta verknáms hér og eru í skólunum í 5 tíma á dag 4 daga í viku í 2 vikur. Markmið heimsóknarinnar er m.a. að þeir kynni sér leikskóla og starf kennara á Akureyri, ásamt því að þeir ferðast lítillega um landið og kynnast því.
https://www.akureyri.is/is/frettir/samstarf-tonak-og-rosenborgar
Samstarf Tónak og Rósenborgar Veturinn 2009-2010 eru Tónlistarskólinn á Akureyri og Ungmennahús í Rósenborg, möguleikamiðstöð, í tilraunaverkefni með samstarf. Tónlistarskólinn fær kennsluaðstöðu í Rósenborg og getur pantað tónleikasal eða aðra aðstöðu sem í boði er þar. Í staðinn ætlar tónlistarskólinn að vera með fjölbreytta tónlistarviðburði í Ungmennahúsinu. Vonir standa til að enn frekari tækifæri skapist fyrir nemendur tónlistarskólans að koma fram og að tengja saman ungmennahópa og klúbba sem starfandi eru í Húsinu sem hvetja og styrkja ungt fólk til skapandi starfa. Meginmarkmið með þessu samstarfi er að: Auka sýnileika Tónlistarskólans. Vekja frekari áhuga ungmenna á tónlistarnámi. Fjölga viðburðum á vegum UngmennaHúss. Fjölga tækifærum ungmenna til að taka þátt í fjölbreyttu tónlistarstarfi undir handleiðslu fagfólks. Að styrkja stöðu UngmennaHúss sem miðstöð fyrir skapandi tónlistarstarf. Fyrirhuguð eru eftirfarandi verkefni: Jóla og vortónleikar rytmiskudeildarinnar. Opin DVD kvöld. Það fyrsta var 15. september. Sameiginlegir viðburðir, svo sem tónleikar þar sem leiða saman hesta sína hljómsveitir frá Rósenborg og tónlistarfólk frá Tónlistarskólanum. Opnar smiðjur á þemadögum eftir því sem hægt er. Annað tilfallandi.
https://www.akureyri.is/is/frettir/samkeppni-um-lysingu
Samkeppni um lýsingu Efnt hefur verið til samkeppni um lýsingu í forsal Menningarhússins Hofs. Markmið samkeppninnar er að laða fram lausnir á lýsingu sem sameinar í senn listræna útfærslu á rýminu og notagildi og áhersla er lögð á að hugmyndir og keppnistillögur undirstriki arkitektúr hússins og aðra umhverfisþætti. Gera má ráð fyrir fjölbreyttri notkun á forsalnum en hann verður m.a. nýttur til móttökuathafna og sýningarhalds. Verkefnið getur hentað vel til samvinnu milli myndlistarmanna og hönnuða úr ólíkum greinum og eru væntanlegir þátttakendur hvattir til þess að huga að möguleikum í þá veru. Samkeppnin er tvískipt: A. Opin hugmyndasamkeppni. Þeir myndlistarmenn sem taka þátt í samkeppninni senda inn hugmynd að hönnun lýsingar í forsalnum. Myndræn framsetning hugmyndar þarf að rúmast á tveimur blöðum af stærðinni A4, en einnig á að fylgja með stutt greinargerð á einu A4 blaði um hugmyndina að baki verkinu, efnisval og uppbyggingu. Engin frekari gögn eiga að fylgja tillögunni á þessu stigi. Hugmyndinni skal skila inn undir dulnefni, eins og nánar er lýst í skilmálum keppninnar. Hugmyndinni þarf að skila til Fasteigna Akureyrar, Geislagötu 9, 600 Akureyri fyrir kl. 16:00 föstudaginn 16. október 2009. B. Lokuð samkeppni um hönnun og uppsetningu ljósa eða ljósgjafa. Þeir myndlistarmenn sem komast í þennan síðari hluta samkeppninnar eru beðnir um að útfæra hugmynd sína og koma með tillögu að verki. Þeir þurfa að skila tæknilegri lýsingu, gera nauðsynlega uppdrætti og lagnateikningar að verkinu og greina frá stærð þess og umfangi auk nákvæmrar staðsetningar á ljósum eða ljósgjöfum. Sundurliðun á kostnaði vegna uppsetningar verksins skal fylgja tillögunni. Þátttakendur í lokaða hluta samkeppninnar fá greiddar 250.000 kr. hver fyrir tillögugerðina. Þessi hluti samkeppninnar tekur tvo mánuði og er miðað við að tillögu að verkunum verði skilað til Akureyrarstofu, Geislagötu 9, 600 Akureyri, þann 8. janúar 2010. Samið verður við höfund eða höfunda þeirrar tillögu sem verður hlutskörpust að mati dómnefndar um gerð og uppsetningu verksins. Byggingarnefnd ákveður að lokum hvort og þá hvaða tillaga verður keypt. Samkeppnin fer fram samkvæmt samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM). Nafnleyndar keppenda er gætt við mat dómnefnda á innsendum hugmyndum og tillögum. Allar nánari upplýsingar má finna á slóðinni www.menningarhus.is/samkeppni.
https://www.akureyri.is/is/frettir/namskeid-i-punktinum
Námskeið í Punktinum Nú eru að hefjast alls kyns skemmtileg og gagnleg námskeið í Punktinum í Rósenborg, möguleikamiðstöð. Kennir þar ýmissa grasa, allt frá námskeiðum í fluguhnýtingum, vattarsaumi, þæfingu, leikfangasmíði og lopapeysuprjóni. Smellið HÉR til að skoða úrval námskeiða í Punktinum. Skráning er í síma 460 1244.
https://www.akureyri.is/is/frettir/ny-leid-ad-naustaborgum-1
Ný leið að Naustaborgum Í samræmi við gildandi skipulag hefur aðkoman að Naustaborgum nú verið færð frá Sómatúni yfir í Ljómatún og gerð ný bílastæði þar. Um síðustu helgi var skilti sem vísar á Naustaborgir fært frá horni Sómatúns yfir að Ljómatúni. Við enda Ljómatúns er nýtt bílastæði sem einungis á eftir að malbika. Fyrir mistök hafði gönguleiðin fyrir ofan Ljómatúnið og í átt að Naustaborgum ekki verið lagfærð en nú er unnið að úrbótum þar á.
https://www.akureyri.is/is/frettir/djupid-synt-i-samkomuhusinu
Djúpið sýnt í Samkomuhúsinu Einleikurinn Djúpið eftir Jón Atla Jónasson verður sýndur í Samkomuhúsinu á fimmtudag og föstudag. Þar gefst áhorfendum kostur á að sjá einn ástsælasta leikara þjóðarinnar, Ingvar E. Sigurðsson, í mögnuðu verki. Einleikurinn var heimsfrumsýndur í Skotlandi í apríl sl. og fékk frábærar viðtökur og fjögurra stjörnu leikdóm í The Scotsman. Bátur heldur úr höfn rétt fyrir dögun. Menn ýmist fleygja sér í koju eða halda sér vakandi á sígarettum, kaffi og veltingi. Enginn hefur minnsta grun um hvað er í vændum. Djúpið er frásögn úr íslenskum veruleika sem lætur engan ósnortinn. Þetta er óður til allra þeirra fjölmörgu íslensku sjómanna sem í gegnum aldirnar hafa haldið á djúpið. Verkið var frumsýnt í Borgarleikhúsinu 5. júní og hlaut einróma lof gagnrýnenda. Aðalhlutverkið leikur stórleikarinn Ingvar E. Sigurðsson og höfundurinn Jón Atli Jónasson leikstýrir. Leikmynd gerir Árni Páll Jóhannsson, tónlist er eftir Hilmar Örn Hilmarsson og lýsingu hannaði Björn Bergsteinn Guðmundsson. Sýningar í Samkomuhúsinu: Fimmtudagur 24. september kl. 20.00. Föstudagur 25. september kl. 19.00. Föstudagur 25. september kl. 21.30. Enn eru örfá sæti laus á þessar sýningar! Úr leikdómum: "Það er langt síðan ég hef staðið upp jafn djúpt snortinn eftir sýningu á nýju íslensku leikriti." - JVJ, DV "... feikivel flutt og áhrifamikið." - PBB, Fréttablaðið
https://www.akureyri.is/is/frettir/melateigur-tillaga-ad-deiliskipulagsbreytingu
Melateigur - Tillaga að deiliskipulagsbreytingu Bæjarstjórn Akureyrar auglýsir hér með skv. 25 gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, tillögu að deiliskipulagsbreytingu í Melateigi samþykkta í bæjarstjórn þann 15. september 2009. Um er að ræða deiliskipulagsbreytingu skv. 1. mgr. 26. gr. sömu laga. Breytingin nær til lóðar nr. 1-41 við Melateig og felur m.a. í sér að Akureyrarbær yfirtekur akstursleiðir, opið svæði og gangstéttar. Innakstur er gerður frá Miðteigi og kvöð er sett um gangstétt og stofnlagnir innan sérafnotahluta lóða. Tillöguuppdráttur og greinargerð mun liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, næstu 6 vikur frá birtingu þessarar auglýsingar, þ.e. frá 23. september til 4. nóvember 2009, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillöguna og gert við hana athugasemdir. Tillagan er einnig birt á heimasíðu Akureyrarbæjar: akureyri.is undir: Stjórnkerfið/Skipulag og byggingarmál. Melateigur - tillaga að deiliskipulagsbreytingu Frestur til að gera athugasemdir er til og með miðvikudeginum 4. nóvember 2009 og skal athugasemdum skilað skriflega til skipulagsdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillöguna innan þessa frests telst vera henni samþykkur. 23. september 2009 Skipulagsstjóri Akureyrarkaupstaðar
https://www.akureyri.is/is/frettir/frumkvaedi-i-utivistarmalum
Frumkvæði í útivistarmálum Um síðustu helgi var þremur frumkvöðlum í útivistarmálum á Akureyri veitt viðurkenning fyrir starf sitt. Það var félagsskapurinn SAUMÓ sem veitti viðurkenningarnar en hann samanstendur af áhugamönnum um útivist og uppbyggilegar athafnir, eins og segir í fréttatilkynningu. Viðurkenningin sem veitt var kallast "Vegvísirinn" og hann hlutu: Johan Holst, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga Johan hefur tekið stígagerð í nýjar víddir og skapað umhverfi sem er á við það sem best þekkist í Evrópu. Er nú svo komið að hópar alls staðar af landinu koma gagngert til þess að hjóla og njóta útivistar í Kjarnaskógi á stígum þeim sem Johan hefur hannað og búið til. Frumkvæði og framkvæmdargleði Johans er sérstaklega eftirtektarverð og öðrum til eftirbreytni. Rúnar Þór Björnsson, formaður siglingaklúbbsins Nökkva Rúnar hefur um áratugaskeið unnið óeigingjarnt starf við uppbyggingu siglingarstarfs á Pollinum og víðar. Rúnar hefur verið vegvísir starfs þess sem fram fer í Nökkva og gengið þannig til verks að eftir er tekið um land allt. Frumkvæði og framkvæmdagleði Rúnars er sérlega eftirtektarverð og öðrum til eftirbreytni. Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli Guðmundur Karl hefur leitt þróun Hlíðarfjalls í það að vera frábært skíða- og snjóbrettasvæði. Er nú svo komið að Hlíðarfjall er raunhæfur kostur í alþjóðlegu samhengi og fyrirmynd annarra skíðasvæða í landinu. Akureyri er nú vinsælasti áfangastaður allra skíða- og snjóbrettaiðkenda á Íslandi. Frumkvæði og framkvæmdagleði Guðmundar Karls er sérlega eftirtektarverð og öðrum til eftirbreytni. Á meðfylgjandi mynd er Johan Holst að sýna nýja stíga í Naustaborgum.
https://www.akureyri.is/is/frettir/biodagar-i-glerarkirkju
Bíódagar í Glerárkirkju Fjögur fræðslukvöld um kvikmyndir verða í Glerárkirkju næstu miðvikudagskvöld. Dagskráin hefst hvert kvöld kl. 19 í safnaðarsalnum. Fyrsta kvöldið verður 30. september. Þá mun sr. Árni Svanur Daníelson fjalla um hvernig trú og trúarstef birtast í kvikmyndum. Máli sínu til stuðnings verður hann með mikið af sýnidæmum. Árni Svanur er prestur á biskupsstofu sem sinnir trúfræðslu á vefnum www.kirkjan.is og www.tru.is. Hann hefur sinnt rannsóknum á guðfræði og kvikmyndum um árabil og flutt fjölda fyrirlestra um þetta efni. Hann er jafnframt meðlimur í rannsóknarhópnum Deus ex chinema http://dec.is. Undanfarin ár hefur Þjóðkirkjan veitt nokkrum kvikmyndum viðurkenningu í tengslum við Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík. Þessar þrjár myndir verða sýndar næstu miðvikudagskvöld á eftir: Fjórar mínútur eftir Chris Kraus 7. október, Listin að gráta í kór eftir Peter Schønau Fog 14. október og Snjór eftir Aida Begic 21. október. Í upphafi verður stutt kynning á myndunum og umræður á eftir. Aðgangur er ókeypis. Úr kvikmyndinni Snjór eftir Aida Begic. Bíódagar eru samstarfsverkefni Eyjafjarðarprófastsdæmis, Glerárkirkju og Deus ex chinema. Nánari upplýsingar á vef Eyjafjarðarprófastsdæmisins: http://kirkjan.is/eyjafjardarprofastsdaemi/.
https://www.akureyri.is/is/frettir/kea-styrkir-ka-og-thor
KEA styrkir KA og Þór Framkvæmdastjóri KEA, Halldór Jóhannsson, hefur skrifað undir styrktarsamninga við Íþróttafélagið Þór og Knattspyrnufélag Akureyrar (KA). Um er að ræða heildarsamninga sem taka til allra deilda félaganna og gilda þeir til eins árs. KEA hefur lengi stutt vel við íþróttafélögin en á samningstímanum verður KEA einn af aðalstyrktaraðilum félaganna. Sigfús Helgason skrifaði undir samninginn fyrir hönd Þórs og Stefán Gunnlaugsson fyrir hönd KA. Þeir sögðu báðir þegar undirritun fór fram að þessir samningar væru afar þýðingarmiklir fyrir uppbyggingu og starf félaganna en virkir iðkendur beggja félaganna eru hátt í tvö þúsund talsins. Halldór segir þetta vera framhald á þeim stuðningi sem KEA hefur veitt þessum íþróttafélögum hin síðari ár. Við leggjum metnað okkar í að skila stórum hluta af afkomu okkar út í samfélagið til stuðnings góðra verka og til efla íþrótta- og æskulýðsstarf á félagssvæði KEA.
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyri-rokkar-2009-tokst-vel
Akureyri rokkar 2009 tókst vel Tónlistarhátíðin Akureyri rokkar var haldin í Ungmenna-Húsinu um liðna helgi. Alls spreyttu sig hvorki fleiri né færri en 10 rokkhljómsveitir á föstudags- og laugardagskvöld. Stemningin var afar góð og gestir hátt í þrjú hundruð. Aðgangseyrir sem sem safnaðist verður nýttur til endurbóta á æfingaaðstöðu hljómsveita í Ungmenna-Húsinu. Ungmenna-Húsið er upplýsinga- og menningarmiðstöð ungs fólks á Akureyri sem býður upp á fjölbreytta afþreyingu og góða aðstöðu sem ýmsir hópar geta nýtt sér. Framundan er spennandi vetur þar sem reglulega verða haldnir tónleikar, stuttmynda- og ljósmyndanámskeið og video-kvöld svo fátt eitt sé nefnt. Ungmenna-Húsið er opið alla daga nema sunnudaga frá kl. 16-22 og eru áhugasamir einstaklingar og/eða hópar hvattir til þess að kynna sér aðstöðuna.
https://www.akureyri.is/is/frettir/framleidum-hugmyndir-um-land-allt
Framleiðum hugmyndir um land allt Hugmyndasamkeppnin Framleiðum hugmyndir er annar áfangi verkefnis N1, Start09 sem hófst með hugmyndafundi í Borgarleikhúsinu í júní. Markmiðið er að hvetja fólk og fyrirtæki til nýrrar sóknar og uppbyggingar um allt land og leysa nýjar hugmyndir úr læðingi. Spurningin sem Íslendingar standa frammi fyrir er þessi: Hvernig komumst við út úr vandræðunum? Lausnin felst í aukinni verðmætasköpun þjóðarinnar. Með þessari hugmyndasamkeppni er leitast við að laða fram skapandi hugmyndir sem geta skapað aukin verðmæti um allt land. Allir geta tekið þátt í samkeppninni, sérfræðingar jafnt sem almenningur, börn og fullorðnir. Eina skilyrðið er að hugmyndin snúist um aukna verðmætasköpun á Íslandi. Þátttakendur eru hvattir til að huga vel að framsetningu og myndskreytingu hugmynda sinna. Fullum trúnaði er heitið og verða hugmyndirnar að sjálfsögðu áfram eign þess sem sendir hana inn. Frestur til að skila inn hugmyndum rennur út 30. september 2009. Fyrstu verðlaun. 1.000.000 kr. Önnur verðlaun. 500.000 kr. Þriðju verðlaun. 250.000 kr. Vinningshöfum stendur einnig til boða að fá fagráðgjöf sérfræðinga við að þróa hugmyndina áfram. Þá mun N1 hjálpa til við að skapa viðskiptatengsl milli eigenda vinningshugmynda og mögulegra samstarfsaðila, s.s. fjárfesta og þróunaraðila. Sjá nánar HÉR.
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyri-keppir-annad-kvold
Akureyri keppir annað kvöld Lið Akureyrar í spurningakeppni sveitarfélaganna, Útsvari, mætir liði Borgarbyggðar annað kvöld, laugardagskvöldið 26. september, í beinni útsendingu Sjónvarpsins. Fyrir hönd Akureyringa keppa að þessu sinni þau Erlingur Sigurðarson, Hilda Jana Gísladóttir og Pálmi Óskarsson. Lið Borgarbyggðar skipa Heiðar Lind Hansson, Hjördís H. Hjartardóttir og Stefán Einar Stefánsson. Fyrsti þáttur Útsvars um síðustu helgi fór kröftuglega af stað og lá við handalögmálum strax í fyrstu bjölluspurningu svo mikill var keppnisandinn. Norðurþing hafði þó betur á endanum eftir jafna og góða keppni. Stigastaðan var þó í hærra lagi svo Reykjanesbær á enn möguleika á að komast áfram í aðra umferð þar sem 4 stigahæstu liðin munu komast í 16 liða úrslit.
https://www.akureyri.is/is/frettir/tre-arsins-er-i-kjarnaskogi
Tré ársins er í Kjarnaskógi Tré ársins 2009 er hengibjörk (Betula pendula) í Kjarnaskógi á Akureyri. Hengibjörk er fágæt trjátegund hérlendis og er tréð í Kjarnaskógi sérlega glæsilegur fulltrúi tegundarinnar. Tréð var formlega útnefnt við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 24. september, í yndislegu haustveðri. Hófst athöfnin með því að Sigrún Stefánsdóttir, formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga bauð gesti velkomna. Næstur hélt ávarp Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri Akureyrarbæjar. Hann tók svo við viðurkenningaskjali af þessu tilefni úr hendi Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, sem einnig hélt stutt ávarp. Gestum var svo boðið upp á ilmandi ketilkaffi, framreitt af starfsmönnum Skógræktarfélags Eyfirðinga. Að lokum mældi Johan Holst, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga tréð. Inn á milli atriða var svo flutt tónlist. Tréð reyndist við mælinguna vera 10,95 cm á hæð. Það klofnar í tvo stofna í um 20 cm hæð og hafa stofnarnir þvermál 20 og 21 cm í brjósthæð. Það er gaman að segja frá að í kringum 2000 var ýmsum trjám í Kjarnaskógi gefið nafn, í tengslum við ljóðagöngu sem þá var haldin og var Tré ársins meðal þeirra. Fékk það nafnið Margrét og hefur gengið undir því síðan. Margrét er gróðursett á áttunda áratugnum, líklega með fræi frá Finnlandi. Ræktaðir hafa verið græðlingar af henni, þannig að finna má „afkomendur“ hennar á nokkrum stöðum. Búið er að leggja kurlstíg að trénu, þannig að auðvelt á að vera að heimsækja Margréti. Skógræktarfélag Íslands velur Tré ársins ár hvert og er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt. Frétt af heimasíðu Skógræktarfélags Íslands. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, afhendir Hermanni Jóni Tómassyni, bæjarstjóra Akureyrarbæjar, viðurkenningaskjal (Mynd: BJ). Hengibjörkin í Kjarnaskógi.
https://www.akureyri.is/is/frettir/adalfundur-hverfisnefndar-lunda-og-gerdahverfis
Aðalfundur hverfisnefndar Lunda- og Gerðahverfis Miðvikudaginn 30. september kl. 20 verður aðalfundur Hverfisnefndar Lunda- og Gerðahverfis haldinn á sal Lundarskóla. Á dagskrá verða venuleg aðalfundarstörf sem og umræður um nágrannavörslu, stígagerð og skipulagsmál í hverfinu. Léttar veitingar í boði og geta má þess að í stjórn nefndarinnar eru laus sæti fyrir áhugasama aðila. Nánar um dagskrá fundarins: Venjuleg aðalfundarstörf Stutt kynning á nágrannavörslu Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri og Helgi Már Pálsson deildarstjóri framkvæmdadeildar: Göngustígar í hverfinu og tenging við önnur hverfi Kaffiveitingar Hverfisbúar eru hvattir til að taka þátt í skemmtilegu starfi í hverfinu sínu. Allir velkomnir! [email protected]
https://www.akureyri.is/is/frettir/forvarnardagurinn-2009
Forvarnardagurinn 2009 Forvarnardagur 2009 er haldinn í öllum grunnskólum landsins í dag, miðvikudaginn 30. september. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu. Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna. Niðurstöðurnar byggja á rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík sem hafa um árabil rannsakað áhættuhegðun ungmenna og hafa þær vakið alþjóðlega eftirtekt. Myndin að neðan var tekin í morgun þegar Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri á Akureyri, heimsótti Oddeyrarskóla í tilefni dagsins. Auk nemenda eru með Hermanni á myndinni Gunnar Gíslason, fræðslustjóri, og Rannveig Sigurðardóttir, skólastjóri Oddeyrarskóla.
https://www.akureyri.is/is/frettir/matur-inn-2009-i-ithrottahollinni
MATUR-INN 2009 í Íþróttahöllinni Sýningin MATUR-INN verður haldin um næstu helgi, 3.-4. október, og er aðgangur ókeypis. Sýningin hefur verið haldin á tveggja ára fresti og fram að þessu verið í Verksmenntaskólanum á Akureyri en ljóst var eftir sýninguna árið 2007 að færa þyrfti viðburðinn í stærra hús, enda gestafjöldinn yfir 10 þúsund! Því verður sýningin nú á 800 fermetra svæði í Íþróttahöllinni á Akureyri. Óhætt er að segja að MATUR-INN 2009 sé hápunktur í norðlenskri matarmenningu. Sýningin er haldin af félaginu Mat úr Eyjafirði í góðu samstarfi við Þingeyska matarbúrið og Matarkistuna Skagafjörð. Að baki þessum félögum standa matvælaframleiðendur stórir sem smáir, veitingaaðilar, ferða-þjónustufyrirtæki, verslanir- og þjónustufyrirtæki - allt aðilar sem eiga það sammerkt að matur kemur við sögu í þeirra starfi. Á fjórða tug aðila tekur þátt í sýningunni MATUR-INN og verður fjölbreytni mikil. Á sýningunni verða sýningarbásar fyrirtækja og matarmenningarfélaga, markaðstorg þar sem t.d. hægt verður að kaupa ferska haustuppskeru, kjötiðn sýnd, keppt verður í fiskisúpugerð, borgaragerð og síðast en ekki síst munu þjóðþekktir einstaklingar reyna með sér í matreiðslu. Gestir sýningarinnar mega vænta þess að fá ýmislegt gott að smakka í mat og drykk en ekki síður að geta gert góð kaup hjá sýnendum. Athygli er vakin á að keppnin í borgaragerð er öllum opin og upplýsingar um skráningu að finna á síðunni www.localfood.is. Málþing um íslenskan mat verður kl. 13 á laugardag og einnig verða fræðslufundir um ýmislegt sem tengist mat og matarmenningu. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun opna sýninguna formlega á laugardag en opið verður kl. 11 til 17 báða dagana. Og eins og áður segir er aðgangur ókeypis.
https://www.akureyri.is/is/frettir/rachmaninov-i-ketilhusinu
Rachmaninov í Ketilhúsinu Fyrstu Föstudagsfreistingar Tónlistarfélagsins á Akureyri og Menningarmiðstöðvarinnar í Listagili verða í Ketilhúsinu, föstudaginn 2. október kl. 12.15. Þar munu Alexandra Chernyshova sópran og Jónas Ingimundarson píanóleikari flytja sönglög eftir Sergei Rachmaninov. Boðið verður upp á súpu frá Rub 23. Aðgangseyrir er 2.000 kr. og 1.500 fyrir eldri borgara. Athugið að ekki er tekið við greiðslukortum. Föstudagsfreistingar verða að öllu óbreyttu fyrsta föstudag hvers mánaðar í Ketilhúsinu í vetur og fram á vor.
https://www.akureyri.is/is/frettir/auglysing-um-styrki
Auglýsing um styrki Félagsmálaráð og samfélags- og mannréttindaráð úthluta tvisvar á ári styrkjum til starfsemi og þjónustu sem fellur að hlutverkum þeirra. Styrkir samfélags- og mannréttindaráðs ná til forvarnamála, jafnréttismála og æskulýðs- og tómstundamála. Félagsmálaráð stýrir fölbreyttri velferðarþjónustu á vegum Akureyrarbæjar. Styrkir eru m.a. veittir til félagasamtaka og einstaklinga sem starfa á sviði félags- og heilbrigðismála. Umsækjendur eru beðnir að kynna sér reglur Akureyrarbæjar um styrkveitingar svo og samþykktir ráðanna um markmið og vinnulag á www.akureyri.is/auglysingar/adrarumsoknir. Umsóknum skal skilað á þar til gerðum eyðublöðum sem fást í Þjónustuanddyri Ráðhússins og á ofangreindri vefslóð. Umsóknafrestur er til 9. október og skal umsóknum skilað í Þjónustuanddyri Ráðhússins.
https://www.akureyri.is/is/frettir/vetrardagskra-sinfoniunnar
Vetrardagskrá sinfóníunnar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er um þessar mundir að hefja sitt 17. starfsár. Frá stofnun hljómsveitarinnar hefur mikið áunnist, tónleikum fjölgað og starfsemin aukist til muna. Miklar breytingar eru framundan hjá SN því þetta verður síðasta árið fyrir flutning hljómsveitarinnar í Menningarhúsið HOF. Efnisskrá vetrarins verður fjölbreytt og unnin í samstarfi við ýmsa aðila, m.a. Leikfélag Akureyrar, Kirkju- og menningarmiðstöðina Fjarðabyggð og Tónlistarskólann á Akureyri. Þrennir tónleikar verða á fyrri hluta starfsársins auk skólatónleika í grunnskólum á Norðurlandi. Myndin er tekin á æfingu Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í fyrra. Skólatónleikar sem skipa stóran sess í dagskrá vetrarins hefjast byrjun október. Strengjakvartett mun að þessu sinni fara í skólana og kynna tónlist frá ýmsum tímabilum tónlistarsögunnar. Farið verður í grunnskóla allt frá Siglufirði austur á Þórshöfn. Haldnir verða hátt í 30 tónleikar og er það Menningarráð Eyþings sem er aðal styrktaraðili þessa verkefnis. Saga dátans eftir Igor Stravinsky verður sett upp í samstarfi við Leikfélag Akureyrar í Samkomuhúsinu á Akureyri 17. október. Stravinsky samdi verkið fyrir þrjá leikara, dansara og litla hljómsveit. Leikstjóri er María Sigurðardóttir og hljómsveitarstjóri Guðmundur Óli Gunnarsson. Verkið fjallar um hermanninn Jósef sem er á leið heim í 14 daga frí. Á leiðinni hittir hann kölska í gervi gamals manns og selur honum fiðluna sína í skiptum fyrir bók sem á að færa honum óendanleg auðævi. Jósef kemst þó fljótlega að því að auðurinn færir honum ekki hamingju og hann þráir ekkert heitar en að vera fátækur á ný. Verkið sem var frumflutt í Sviss í lok fyrri heimsstyrjaldar er ádeila á mannlega græðgi og auðsöfnun - eitthvað sem virðist eiga erindi nú jafnt sem þá. Sunnudaginn 15. nóvember tekst hljómsveitin á við tvær sinfóníur undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Annars vegar er það Sinfónía nr. 1 eftir Prokofieff oft kölluð “Klassíska sinfónían” og hins vegar verður leikin Sinfónía nr. 8 eftir L.van Beethoven. Einnig verður á efnisskránni verk eftir R. Wagner, Sigfried Idyll. Á aðventunni leggur SN land undir fót austur á land og 29. nóvember verða haldnir aðventutónleikar á Eskifirði í samstarfi við Kirkju- og menningarmiðstöð Fjarðabyggðar og kóra á Austurlandi. Flutt verður m.a. Messa í C dúr eftir W.A. Mozart og ævintýrið um Snjókarlinn eftir Hovard Blake. Á tónleikum í Akureyrarkirkju 14. febrúar verður teflt saman nýrri og gamalli tónlist. Á efnisskránni verður Fiðlukonsert eftir Hauk Tómasson þar sem Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari leikur einleik. Einnig verður flutt Sinfónía nr. 25 eftir W.A.Mozart. Við flutning sinfóníunnar fær SN til liðs við sig strengjasveit Tónlistarskólans á Akureyri. Eru þessir tónleikar samstarfsverkefni SN og TA. Sinfónía nr. 4 í A dúr “ítalska sinfónían” eftir F. Mendelssohn og Sellókonsert nr. 1 eftir D. Shostakowich verður á efnisskrá Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á skírdag. Einleikari á selló er Bryndís Halla Gylfadóttir. Tónleikarnir í maí bera yfirskriftina Slagverk og strengir. Á efnisskrá er Konsert fyrir marimba og strengjasveit eftir Ney Rosauro, Holberg svíta eftir E. Grieg og Kammersinfónía eftir D. Shostakowich. Einleikari á marimba er Hjörleifur Örn Jónsson slagverksleikari. Stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands er Guðmundur Óli Gunnarsson.
https://www.akureyri.is/is/frettir/algengar-spurningar-nyr-hlekkur
Algengar spurningar ? nýr hlekkur. Viljum benda fólki á nýjung hér á síðu Skipulagsdeildar, en hér til vinstri er kominn nýr hlekkur – Algengar spurningar. Þar er að finna ýmsar upplýsingar um hvernig og hvað þarf að gera ef einhverjar framkvæmdir standa fyrir dyrum hjá fólki, svo sem hvað þarf að gera ef fólk ætlar að reisa skúr á lóðinni sinni – sjá spurningu um GARÐSKÚRA.
https://www.akureyri.is/is/frettir/deiliskipulag-spitalavegar
Deiliskipulag Spítalavegar Endurskoðað deiliskipulag fyrir Spítalaveg hefur verið samþykkt af Skipulagsstofnun. Auglýsing um gildistöku skipulagsins birtist von bráðar í B-deild Stjórnartíðinda og fær skipulagið þá formlegt gildi. Teiknistofan Storð vann skipulagið.
https://www.akureyri.is/is/frettir/stuttmyndanamskeid
Stuttmyndanámskeið Ungmenna-Húsið og félagsmiðstöðvar í hverfum Akureyrar, ásamt félagsmiðstöðvum og ungmennahúsum í Fjallabyggð, Dalvík, Norðurþingi, Langanesbyggð og Þingeyjarsveit bjóða nú alhliða námskeið í stuttmyndagerð á tveimur dögum. Farið verður yfir handritsgerð, kvikmyndatöku, leikstjórn og klippingu. Kennslan er í höndum Kristjáns Kristjánssonar sem gerði m.a. Venna Páer þættina. Kennt verður 10. og 11. október að Laugum. En það námskeið er orðið fullt. Einnig verður kennt 17.og 18. október verður kennt í Ungmenna-Húsinu í Rósenborg á Akureyri. Örfá sæti laus! Kennt verður báða dagana frá kl. 9 til 17. Kennslan er góður grunnur fyrir þá sem ætlar sér a keppa í Stulla 2009 sem fer fram í desember. Skráning er í síma 460 1240 eða með því að senda tölvupóst á [email protected]. Skráningarfrestur rennur út 8. október og er aðgangur ókeypis. Námskeiðið er haldið með myndarlegum styrki frá Eyþing og Rarik.
https://www.akureyri.is/is/frettir/12-14-thusund-gestir-a-matur-inn
12-14 þúsund gestir á MATUR-INN Sýningin MATUR-INN fór fram í fjórða sinn um helgina. Sýningin var haldin í Íþróttahöllinni á Akureyri og var fjölsótt. Aðgangur var ókeypis og mikilll straumur gesta báða sýningardagana. Áætlað er að 12-14 þúsund gestir hafi komið á sýninguna en hún var haldin af félaginu Mat úr Eyjafirði í góðu samstarfi við Matarkistuna Skagafjörð og Þingeyska matarbúrið. Þátttakendur í sýningunni voru á fimmta tug og þar var bæði hægt að bragða á norðlenskum matvælum en ekki síður nýttu sýningargestir sé hagstæð sýningartilboð hjá sýnendum. „Við vitum dæmi þess að fyrirtæki hafi selt tífalt meira magn en á síðustu sýningu fyrir tveimur árum og almennt voru sýnendur mjög ánægðir með viðtökur gesta,“ segir Ingvar Már Gíslason í sýningarstjórn. „Markmiðið með sýningunni var að vekja athygli á því hve matvælaframleiðsla er öflug á Norðurlandi og ekki aðeins framleiðsla heldur ekki síður veitingastarfsemi og margir aðrir þættir sem snerta matvælageirann á Norðurlandi. Við færðum sýninguna í mun stærra húsnæði en hún var áður í þannig að mun rýmra var um gesti og sýnendur. Í heild tel ég að þau markmið sem við lögðum upp með hafi gengið eftir,“ segir Ingvar Már. Fjölmargt áhugavert var á dagskrá sýningarinnar. Á laugardag var málþing um íslenskan mat, sömuleiðis matreiðslukeppni þjóðþekktra þar sem Sigrún Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri sigraði. Í þeirri keppni glímdu fjórir keppendur við eldamennsku á saltfiski en fyrirfram vissu þau ekki hvert hráefnið yrði. Aðrir keppendur voru Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður, María Sigurðardóttir, leikhússtjóri og Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur. Sömuleiðis kepptu fulltrúar matarfélaganna þriggja, þ.e. Matar úr Eyjafirði, Matarkistunnar Skagafjarðar og Þingeyska matarbúrsins í fiskisúpugerð. Í þeirri keppni sigruðu Sólveig Pétursdóttir og Jóna Matthíasdóttir fyrir Þingeyska matarbúrið. Þingeyingurinn Anton Freyr Birgisson reyndist gera besta borgarann á Norðurlandi í ár en í þeirri keppni voru 10 keppendur. Loks sýndu kjötiðnaðarmenn vinnslu á tveimur lambsskrokkum og voru afurðirnar boðnar upp. Á uppboðinu voru einnig seldar matar- og gjafakörfur, allt til stuðnings Hetjunum - félagi langveikra barna á Norðurlandi. Alls söfnuðust 167 þúsund krónur fyrir félagið. Á sýningunni voru frumkvöðlaverðlaun Matar úr Eyjafirði veitt í þriðja sinn. Þau hlaut fyrirtækið Bruggsmiðjan á Árskógssandi fyrir kraftmikla uppbyggingu í framleiðslu, góðan markaðsárangur og að halda merki íslenskrar framleiðslu á lofti. Sýningin MATUR-INN er haldin á tveggja ára fresti og er stefnt að næstu sýningu haustið 2011.
https://www.akureyri.is/is/frettir/afkoman-betri-en-rad-var-fyrir-gert
Afkoman betri en ráð var fyrir gert Frumvarp að endurskoðaðri fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2009 var lagt fram í bæjarstjórn í gær. Þrátt fyrir þrengingar í efnahagslífi þjóðarinnar má greina ýmis jákvæð teikn í áætluninni, svo sem auknar útsvarstekjur og bætta afkomu miðað við það sem áður hafði verið gert ráð fyrir. Forsendur upphaflegrar áætlunar hafa að mestu haldið. Reiknað var með 7% verðlagsbreytingu á milli ára en endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir 7,9% hækkun verðlags. Þessar forsendur hafa mikil áhrif á fjármagnsgjöld eins og kom fram í upphaflegri áætlun en reiknað var með halla upp á tæpar 1.100 milljónir króna. Í endurskoðaðri fjárhagsáætlun kemur fram að skatttekjur bæjarins hækka um 426 m.kr. og verða 7.443 m.kr. Munar þar mestu um auknar útsvarstekjur upp á 318 m.kr. Þetta skýrist fyrst og fremst að því að efnahagsþrengingar þjóðarinnar hafa ekki komið jafn þungt niður á rekstri Akureyrarbæjar og útlit var fyrir í upphafi ársins. Útgjöld bæjarsjóðs hafa á móti hækkað um 366 m.kr. og vega þar þyngst kjarasamningsbundnar launahækkanir og hækkun tryggingargjalds sem rennur í atvinnuleysistryggingasjóð. Innri húsaleiga bæjarins hækkar einnig um rúmar 94 m.kr. og annar kostnaður um 164 m.kr. Framlag til reksturs Öldrunarheimila Akureyrarbæjar hækkar um tæpar 50 m.kr. og verður samtals 183 m.kr. Í vor var samþykkt sameining sveitarfélaganna Grímseyjarhrepps og Akureyrarkaupstaðar og hafa áhrif sameiningarinnar nú verið tekin inn í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar. Tekjur og útgjöld vegna hennar eru nánast jafn háir liðir, tekjurnar þó aðeins hærri en gjöldin. Endurskoðað framkvæmdayfirlit gerir ráð fyrir auknum framkvæmdum upp á um 240 m.kr. og er stærsti einstaki liðurinn þar framkvæmdir við glæsilegt íþróttasvæði við Hamar vegna Landsmóts UMFÍ sl. sumar. Lántaka Akureyrarbæjar á þessu ári lækkar um 1.100 m.kr. sem stafar að stærstum hluta af því að lokið var að mestu við fjármögnun ársins 2009 í árslok 2008. Niðurstaðan er bætt afkoma í A-hluta samstæðunnar um sem nemur 111 m.kr. Rekstrarhalli A-hluta verður því 985 m.kr. í staðinn fyrir tæpar 1.100 m.kr. sem gert hafði verið ráð fyrir í fyrri fjárhagsáætlun. Afkoma samstæðunnar í heild batnar um 155 m.kr. frá fyrri áætlun.
https://www.akureyri.is/is/frettir/lilja-frumsynd-a-fostudag-hja-la
Lilja frumsýnd á föstudag hjá LA Föstudaginn 9. október frumsýnir Leikfélag Akureyrar leikritið Lilja eftir Jón Gunnar Þórðarson en verkið er lauslega byggt á kvikmynd Lukas Moodyssons, Lilya 4 ever, sem segir frá sönnum atburðum. Lilja er 16 ára stúlka sem býr í gömlu Sovétríkjunum. Móðir hennar yfirgefur hana og flytur til Bandaríkjanna. Lilja býr til sitt eigið heimili með vinkonu sinni Natösju og 12 ára gömlum dreng, Volodja. Öll dreymir þau um betra líf í "Vestrinu". Er draumalífið fegurðin ein eða er draumurinn helvíti á jörðu? Þetta er saga um börn, fátækt, vændi, ást og svik. Þetta er mögnuð saga um gamaldags þrældóm í nútímasamfélagi: saga sem verður að segja. Jón Gunnar vann leikritið meðan hann var við nám í Drama Centre í London. Lilja var frumsýnd í The Contact Theatre í Manchester 2008 í leikstjórn Jóns Gunnars. Sýningin fékk mjög góða gagnrýni og m.a. 5 stjörnur í Manchester Evening News. Jón Gunnar leikstýrir verkinu hjá LA og leikarar eru Jana María Guðmundsdóttir, María Þórðardóttir, Þráinn Karlsson, Atli Þór Albertsson, Ólafur Ingi Sigurðsson og Hjalti Rúnar Jónsson. Sýningar fara fram í Rýminu. María Þórðardóttir (til vinstri) og Jana María Guðmundsdóttir í hlutverkum sínum.