Title
stringlengths 15
17
| Keywords
stringlengths 3
238
| Summary
stringlengths 73
7.23k
| Text
stringlengths 125
444k
|
---|---|---|---|
Mál nr. 169/2009 | Bifreið Líkamstjón Skaðabætur Örorkubætur Miskabætur Gjafsókn | H ók austur yfir Hellisheiði í febrúar 2006 er P ók úr gagnstæðri átt, en fór yfir á rangan vegarhelming, þar sem árekstur varð milli bifreiðanna. P reyndist hafa verið ölvuð við akstur. Báðar bifreiðarnar voru vátryggðar hjá T og var óumdeilt að T bæri fébótaábyrgð á líkamstjóni H vegna slyssins. Aðilar málsins deildu um uppgjör bóta T til H, en að fengnu yfirmati gerði T honum boð um uppgjör í júlí 2008. H felldi sig ekki við uppgjör á þeim grunni, sem T bauð, en tók við fjárhæðinni með fyrirvara. Til úrlausnar fyrir Hæstarétti var ágreiningur um ákvörðun bóta til H fyrir varanlega örorku, sem laut einungis að viðmiðunarlaunum við útreikning þeirra eftir reglum 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, og fjárhæð miskabóta samkvæmt 26. gr. sömu laga, svo og málskostnað. H bar því við að meðalatvinnutekjur hans þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag, ákveðnar eftir reglum 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, gæfu ekki rétta mynd af þeim tekjum, sem hann hefði haft í framtíðinni ef slysið hefði ekki borið að höndum, þar sem hann hefði lengst af starfað á því tímabili í Noregi, en eftir heimkomu til Íslands á árinu 2005 hefði hann mátt vænta hærri tekna en hann hefði haft af fyrri störfum. Væri því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga til að meta árslaun hans eftir öðrum mælikvarða. Talið var að H hefði ekki sýnt fram á að atvinnutækifæri húsasmiða í Noregi hefðu verið lakari eða laun þeirra almennt lægri en þau voru hér á landi. Þá hefði hann lagt fram mjög ófullkomin gögn um tekjur sínar á árunum 2003 til 2005. Ekki væri því hægt að álykta að meðaltekjur H á tímabilinu hefðu vegna óvenjulegra aðstæðna verið ómarktækar um líklegar tekjur í framtíðinni. Varð því að ákveða fjárhæð skaðabóta til H vegna varanlegrar örorku með tilliti til lágmarkstekna samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Óumdeilt var að þær bætur hefðu verið réttilega ákveðnar í boði T um uppgjör og var því hafnað kröfu H um viðbótargreiðslu. Við ákvörðun miskabóta var litið til þess að tjón H hefði stafað af stórfelldu gáleysi ökumanns, sem var óhæfur til að stjórna bifreið sökum ölvunar. Að teknu tilliti til dómaframkvæmdar Hæstaréttar þótti hæfilegt að dæma T, Í, eiganda bifreiðarinnar sem P ók, og dánarbú P til að greiða H 500.000 krónur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur á þann hátt að áfrýjendum verði gert að greiða sér 4.954.746 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 31. ágúst 2007 til 3. október sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefndi þess að ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verði staðfest og áfrýjendum gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt hér fyrir dómi. I Samkvæmt gögnum málsins var stefndi, sem er fæddur 1953 og húsasmiður að mennt, búsettur í Svíþjóð frá 1990 til 2000 og Noregi frá því ári til 2005, þegar hann flutti til Íslands. Hann mun hafa unnið við smíðar á tímabilinu, sem hann var búsettur í Noregi, og síðan hér á landi frá október 2005 sem starfsmaður félags síns og sonar síns, Byggingafélagsins Eldgoðans ehf., sem sinnti á þeim tíma verkum sem undirverktaki fyrir annað félag. Þessu starfi mun stefndi hafa gegnt þegar hann ók til vinnu austur yfir Hellisheiði að morgni 12. febrúar 2006. Eftir sama vegi ók Pála Jakobsdóttir bifreið í eigu áfrýjandans Íþróttafélagsins Þrúðar úr gagnstæðri átt, en fór yfir á rangan vegarhelming, þar sem árekstur varð milli þeirrar bifreiðar og hinnar, sem stefndi ók. Pála reyndist hafa verið ölvuð við akstur og mældist vínandi í blóðsýni 1,80. Báðar bifreiðirnar voru vátryggðar hjá áfrýjandanum Tryggingamiðstöðinni hf. Óumdeilt er að áfrýjendur beri fébótaábyrgð á líkamstjóni stefnda af völdum þessa slyss. Af þeim sökum greiddi áfrýjandinn Tryggingamiðstöðin hf. stefnda á tímabilinu frá 14. mars 2006 til 8. febrúar 2007 samtals 5.972.020 krónur, þar af 5.700.000 krónur upp í bætur fyrir örorku, miska og þjáningar, en 272.020 krónur vegna útlagðs kostnaðar. Stefndi fékk 2. mars 2007 dómkvadda tvo menn til meta líkamstjón sitt, sem rakið yrði til þessa slyss. Í matsgerð þeirra 31. ágúst sama ár var komist að þeirri niðurstöðu að heilsufar stefnda eftir slysið hafi orðið stöðugt 15. júní 2007, hann hafi tímabundið verið óvinnufær frá slysdegi til þess dags og ætti vegna sama tímabils rétt til þjáningabóta, en þar af hafi hann verið rúmliggjandi í sex vikur. Varanlegur miski stefnda var metinn 20 stig, en varanleg örorka 25%. Samkvæmt beiðni stefnda mátu hinir dómkvöddu menn jafnframt fjártjón hans vegna tímabundinnar óvinnufærni og lögðu þeir til grundvallar að laun hans hafi verið samtals 1.370.185 krónur frá október 2005 til janúar 2006 eða að meðaltali um 342.500 krónur á mánuði. Samkvæmt því hafi tjón stefnda af þessum sökum orðið 5.580.000 krónur. Stefndi höfðaði mál þetta 18. september 2007. Í héraðsdómsstefnu krafðist hann þess að áfrýjendum yrði gert að greiða sér samtals 23.292.193 krónur, sem hann sundurliðaði þannig að bætur fyrir tímabundið atvinnutjón næmu 5.580.000 krónum, þjáningar 568.987 krónum, varanlegan miska 1.304.326 krónum, varanlega örorku 9.138.880 krónum og annað fjártjón og sjúkrakostnað 1.100.000 krónum, auk 5.600.000 króna í miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum. Að auki krafðist stefndi nánar tiltekinna vaxta ásamt málskostnaði, en til frádráttar þessu öllu taldi hann að koma ættu samtals 5.300.000 krónur vegna innborgana áfrýjandans Tryggingamiðstöðvarinnar hf. Einstakir liðir í þessari kröfu voru studdir við niðurstöður matsgerðarinnar að því er varðar fjárhæð bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, tímabil til grundvallar þjáningabótum og stig varanlegs miska og varanlegrar örorku. Viðmiðunarlaun að baki síðastnefnda kröfuliðnum fann stefndi með því að taka meðaltal launa sinna fyrir störf hér á landi fjóra síðustu almanaksmánuðina fyrir slysdag og framreikna það með launavísitölu til þess tíma, sem heilsufar hans taldist orðið stöðugt samkvæmt matsgerðinni, en um heimild til að beita þessari viðmiðun vísaði stefndi til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi fékk stefndi 29. janúar 2008 dómkvadda tvo menn til að meta annars vegar hver væri sjúkrakostnaður hans og annað fjártjón, sem rakið yrði til fyrrnefnds slyss, og hins vegar hverjar hefðu orðið líklegar framtíðartekjur hans í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga ef ekki hefði komið til slyssins. Sama dag fengu áfrýjendur dómkvadda þrjá yfirmatsmenn til að meta sömu atriði og greindi í matsgerðinni frá 31. ágúst 2007, en þó að frátalinni fjárhæð tjóns stefnda vegna tímabundinnar óvinnufærni. Matsgerðinni samkvæmt beiðni stefnda var lokið 18. apríl 2008. Að því er varðar sjúkrakostnað stefnda og annað fjártjón gerðu matsmennirnir sundurliðaða samantekt á útlögðum kostnaði hans samkvæmt gögnum, sem þegar lágu fyrir í málinu, þar á meðal vegna matsgerðarinnar frá 31. ágúst 2007, og var sá kostnaður samtals 1.080.983 krónur. Við þá fjárhæð bættu matsmenn 194.500 krónum vegna aksturs, sem reikningar voru ekki fyrir, og nam þessi liður því alls 1.275.483 krónum. Um líklegar framtíðartekjur stefnda tóku matsmennirnir mið af reikningum fyrir verktakastörf hans hér á landi frá október 2005 til janúar 2006, en samkvæmt þeim hafi verið greiddar 2.900 krónur fyrir hverja vinnustund. Að teknu tilliti til nánar tilgreindra útgjalda, sem tengist verktakastarfsemi af þessum toga, teldust tímalaun stefnda hafa verið 2.272 krónur. Á þeim grunni var komist að þeirri niðurstöðu að mánaðarlaun stefnda, framreiknuð með launavísitölu til þess dags sem heilsufar hans var talið hafa orðið stöðugt eftir slysið, hefðu numið 424.671 krónu. Yfirmatsgerð samkvæmt beiðni áfrýjenda var lokið 26. maí 2008. Samkvæmt samantekt í niðurlagi þeirrar matsgerðar var komist að sömu niðurstöðum og í undirmati, þó að frátöldu því að heilsufar stefnda þótti hafa orðið stöðugt 31. ágúst 2007, en ekki 15. júní sama ár. Að fengnu yfirmati gerði áfrýjandinn Tryggingamiðstöðin hf. stefnda boð um uppgjör 17. júlí 2008. Í því var ekki tekið mið af þeirri áætlun tekna stefnda, sem kom annars vegar fram í matsgerð 31. ágúst 2007 í tengslum við fjárhæð tjóns vegna tímabundinnar óvinnufærni og hins vegar í matsgerð 18. apríl 2008 varðandi bætur fyrir varanlega örorku, heldur voru lögð til grundvallar lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þá var ekki byggt á niðurstöðu síðarnefndu matsgerðarinnar um sjúkrakostnað stefnda og annað fjártjón, en þess í stað tekið fram að farið hefði verið yfir fyrirliggjandi gögn og á þeim grunni boðin sú fjárhæð, sem hér á eftir greinir. Að öðru leyti var tekið mið af yfirmatsgerð og stefnda boðnar í bætur 3.119.958 krónur vegna tímabundins atvinnutjóns, 673.400 krónur vegna þjáninga, 1.406.300 krónur vegna varanlegs miska, 3.344.923 krónur vegna varanlegrar örorku og 945.303 krónur vegna útlagðs kostnaðar. Frá þessum fjárhæðum samanlögðum, 9.489.884 krónum, voru dregnar innborganir áfrýjandans, sem sagðar voru alls 5.700.000 krónur, auk greiðslna til stefnda úr almannatryggingum, 630.000 krónur. Við mismuninn, 3.159.884 krónur, voru síðan lagðir vextir, 146.620 krónur, og innheimtuþóknun til lögmanns stefnda, 650.000 krónur, og hljóðaði því boðið upp á samtals 3.956.504 krónur. Stefndi felldi sig ekki við uppgjör á þessum grunni, en tók við þeirri fjárhæð með fyrirvara 18. júlí 2008. Við aðalmeðferð málsins í héraði 8. janúar 2009 hafði verið lagt fram skjal með endanlegri kröfugerð stefnda. Samkvæmt því krafðist hann bóta vegna tímabundins atvinnutjóns með sömu fjárhæð og í héraðsdómsstefnu, 5.580.000 krónur, vegna þjáninga með sömu fjárhæð og í fyrrgreindu uppgjörsboði áfrýjandans Tryggingamiðstöðvarinnar hf., 673.400 krónur, vegna varanlegs miska, sem án sérstakra skýringa voru taldar 1.314.320 krónur, vegna varanlegrar örorku, sem á grundvelli viðmiðunarlauna samkvæmt matsgerð 18. apríl 2008 voru taldar 7.929.669 krónur, og vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar samkvæmt sömu matsgerð, 1.275.483 krónur, en við þetta bættust 3.000.000 krónur í miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga og var því heildarfjárhæðin 19.772.872 krónur. Frá þessu voru dregnar 630.000 krónur vegna greiðslna úr almannatryggingum, svo og innborganir frá áfrýjandanum Tryggingamiðstöðinni hf., sem voru sagðar samtals 7.305.509 krónur. Samkvæmt þessu taldi stefndi sig eiga ógreiddar bætur að fjárhæð 11.837.363 krónur auk vaxta og málskostnaðar, en á framlögðu yfirliti um hann voru reiknaðar til frádráttar fyrrnefndar 650.000 krónur, sem áfrýjandinn hafði greitt 18. júlí 2008. Við munnlegan flutning málsins í héraði var fært í þingbók að stefndi gerði kröfu samkvæmt þeirri sundurliðun, sem hér að framan var lýst, en viðurkenndi að bætur fyrir þjáningar og varanlegan miska væru að fullu greiddar. Áfrýjendur kröfðust sýknu á þeim grunni að stefndi hefði fengið greiddar þær bætur, sem honum bæru, en að því frágengnu kröfðust þau þess að honum yrði dæmd lægri fjárhæð en krafist væri. Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á með stefnda að bætur vegna varanlegrar örorku ættu að nema 7.929.669 krónum og vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar 1.275.483 krónum, en að auki ætti hann tilkall til miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 1.000.000 krónur. Á hinn bóginn var hafnað kröfu hans um hærri bætur vegna tímabundins atvinnutjóns en áfrýjandinn Tryggingamiðstöðin hf. hafði greitt honum 18. júlí 2008. Á þessum forsendum komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að áfrýjendum bæri að greiða stefnda 7.607.321 krónu þegar tekið hafi verið tillit til innborgana áfrýjandans Tryggingamiðstöðvarinnar hf. Fyrir Hæstarétti unir stefndi við niðurstöðu héraðsdóms um einstaka liði í kröfu hans. Áfrýjendur hafa fallið frá mótmælum gegn kröfulið stefnda um bætur fyrir annað fjártjón og sjúkrakostnað og viðurkenna að auki skyldu sína til að greiða honum miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, en þó ekki með þeirri fjárhæð, sem dæmd var í héraði. Aðilarnir eru sammála um hver sé rétt heildarfjárhæð innborgana til stefnda frá áfrýjandanum Tryggingamiðstöðinni hf., sem ranglega var farið með í forsendum hins áfrýjaða dóms, og að með þeirri fjárhæð hafi stefnda verið gerð full skil á bótum vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáninga, varanlegs miska og annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar, svo og þeirri fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku, sem áfrýjendur hafa viðurkennt, 3.344.923 krónur. Þegar sú fjárhæð ásamt greiðslum til stefnda úr almannatryggingum, sem aðilarnir eru sammála um að nemi 630.000 krónum, er dregin frá bótum til stefnda fyrir varanlega örorku samkvæmt hinum áfrýjaða dómi, 7.929.669 krónum, standa eftir 3.954.746 krónur. Í héraði voru stefnda sem áður segir einnig dæmdar miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 1.000.000 krónur og krefst hann þess fyrir Hæstarétti að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um þessi atriði, en með leiðréttingum á ýmsum útreikningsskekkjum þannig að áfrýjendum verði gert að greiða honum samtölu tveggja síðastnefndra fjárhæða, 4.954.746 krónur. Til úrlausnar fyrir Hæstarétti er þannig ágreiningur um ákvörðun bóta til stefnda fyrir varanlega örorku, sem lýtur einungis að viðmiðunarlaunum við útreikning þeirra eftir reglum 7. gr. skaðabótalaga, og fjárhæð miskabóta samkvæmt 26. gr. sömu laga, svo og málskostnað umfram þær 650.000 krónur, sem áfrýjendur greiddu stefnda 18. júlí 2008. Óumdeilt er að áfrýjendur hafi staðið réttilega skil á vöxtum af þeim liðum í skaðabótakröfu stefnda, sem þegar hafa verið greiddir að fullu samkvæmt framansögðu, og af þeim bótum til hans fyrir varanlega örorku, sem áfrýjendur hafa viðurkennt og greitt. II Í málinu ber stefndi því við að meðalatvinnutekjur hans þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag, ákveðnar eftir reglum 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, gefi ekki rétta mynd af þeim tekjum, sem hann hefði haft í framtíðinni ef slysið hefði ekki borið að höndum, þar sem hann hafi lengst af starfað á því tímabili erlendis, en eftir heimkomu til Íslands á árinu 2005 hafi hann mátt vænta hærri tekna af vinnu við húsasmíðar en hann hafði af fyrri störfum. Sé því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga til að meta árslaun hans eftir öðrum mælikvarða. Stefndi vísar einnig til þess að dómkvaddir menn hafi lagt rökstutt mat á fjárhæð framtíðartekna, sem hann hefði haft af þessum störfum hér á landi, og tekið þar mið af tekjum hans fjóra síðustu almanaksmánuðina fyrir slysið, en áfrýjendur hafi ekki hnekkt þeirri matsgerð. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga gildir sú meginregla við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku að lagðar verði til grundvallar meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag, sem tjón varð, en þessar tekjur verði framreiknaðar samkvæmt launavísitölu fram til þess dags, sem heilsufar tjónþola telst orðið stöðugt. Með þessum mælikvarða er í senn tekið tillit til þess hvernig tjónþoli hefur í reynd nýtt getu sína til að sinna launuðum störfum um tiltekinn tíma fyrir tjónsatburð og hverra tekna hann hefur aflað á þann hátt. Til þess að vikið verði frá þessu með heimild í 2. mgr. 7. gr. laganna verður tjónþoli að sýna fram á að fyrir hendi séu óvenjulegar aðstæður og að annar mælikvarði sé réttari til að meta hverjar framtíðartekjur hans hefðu orðið. Stefndi varð sem áður segir fyrir slysinu, sem mál þetta varðar, 12. febrúar 2006. Samkvæmt því, sem fram er komið, starfaði hann við þá iðngrein, sem hann hafði menntun til, þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag, þar af í Noregi frá ársbyrjun 2003 og að því er virðist fram yfir mitt ár 2005, en eftir þann tíma hér á landi. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að atvinnutækifæri húsasmiða í Noregi hafi verið lakari eða laun þeirra almennt lægri en þau voru hér á þeim tíma, sem hann var búsettur þar ytra. Hann hefur lagt fram mjög ófullkomin gögn um tekjur sínar á árunum 2003 til 2005, en einu viðhlítandi upplýsingarnar um hluta þeirra fást úr norsku skattframtali fyrir tekjuárið 2004. Samkvæmt framtalinu voru launatekjur stefnda á því ári samtals 168.709 norskar krónur eða sem svarar 1.714.927 íslenskum krónum miðað við skráð sölugengi fyrrnefnda gjaldmiðilsins í árslok 2004. Stefndi hefur ekki lagt fram önnur skattframtöl, hvorki íslensk né erlend. Ekki getur komið til álita að álykta af þessu einu að meðaltekjur stefnda á árunum 2003 til 2005 hafi vegna óvenjulegra aðstæðna verið ómarktækar um líklegar tekjur hans í framtíðinni, enda er ófært að slá slíku föstu nema að gætt væri þess grundvallaratriðis að upplýst væri um raunverulegar heildartekjur á tímabilinu öllu. Stefndi hefur kosið að haga málatilbúnaði sínum þannig að láta hjá líða að leggja þær upplýsingar til og staðhæfa þess í stað án viðhlítandi röksemda að tekjur af störfum hans hér á landi hefðu orðið aðrar og hærri ásamt því að leggja fram matsgerð um áætlun þeirra. Við þeim málatilbúnaði verður gegn andmælum áfrýjenda ekki brugðist á annan veg en með því að ákveða fjárhæð skaðabóta til stefnda vegna varanlegrar örorku með tilliti til lágmarkstekna samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Óumdeilt er að þær bætur hafi verið réttilega ákveðnar á þeim grunni í boði áfrýjandans Tryggingamiðstöðvarinnar hf. um uppgjör, sem lá að baki greiðslu til stefnda 18. júlí 2008. Af þessum sökum verður hafnað kröfu stefnda um að áfrýjendum verði gert að greiða honum 3.954.746 krónur til viðbótar því, sem hann hefur þegar fengið í skaðabætur vegna varanlegrar örorku. Við ákvörðun miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga verður að líta til þess að tjón stefnda verður rakið til stórfellds gáleysis ökumanns, sem var óhæfur til að stjórna bifreið sökum ölvunar, sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum. Að teknu tilliti til dómaframkvæmdar Hæstaréttar við ákvörðun miskabóta eftir þessari heimild vegna tjóns, sem leitt hefur af refsiverðri háttsemi, er hæfilegt að dæma áfrýjendur til að greiða stefnda á þessum grunni 500.000 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Með hinum áfrýjaða dómi var áfrýjendum gert að greiða í ríkissjóð 800.000 krónur í málskostnað og var gjafsóknarkostnaður stefnda ákveðinn með sömu fjárhæð, en tekið fram að þar af væru 546.000 krónur vegna útlagðs kostnaðar hans. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður í dómi eða eftir atvikum úrskurði aðeins ákveðin fjárhæð málflutningsþóknunar handa lögmanni gjafsóknarhafa, en ekki heildarfjárhæð gjafsóknarkostnaðar. Stefndi nýtur einnig gjafsóknar fyrir Hæstarétti, en sem fyrr segir hefur áfrýjandinn Tryggingamiðstöðin hf. þegar greitt honum 650.000 krónur vegna þóknunar lögmanns hans. Með tilliti til alls þessa verður málflutningsþóknun lögmanns stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti í skjóli gjafsóknar ákveðin í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði. Varðandi málskostnað verður að öðru leyti að gæta að því að mál þetta var höfðað áður en áfrýjendum gafst viðhlítandi ráðrúm til að taka afstöðu til kröfu stefnda, en undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi var hún greidd að nær öllu leyti eins og úrslit þess verða. Að því virtu eru ekki efni til að fella á áfrýjendur frekari málskostnað í héraði eða fyrir Hæstarétti en stefndi hefur þegar fengið greiddan úr hendi þeirra. Dómsorð: Áfrýjendur, Tryggingamiðstöðin hf., Íþróttafélagið Þrúður og dánarbú Pálu Jakobsdóttur, greiði í sameiningu stefnda, Hreggviði Davíðssyni, 500.000 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 31. ágúst 2007 til 3. október sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans á báðum dómstigum, samtals 500.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2009 I Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 8. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hreggviði Davíðssyni, kt. 080253-5409, Fossvegi 4, Selfossi, með stefnu, birtri 18. september 2007, á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík, Pálu Jakobsdóttur, kt. 250448-2059, Espigerði 20, Reykjavík, og Íþróttafélaginu Þrúði, kt. 471099-3259, Hlégerði 7, Kópavogi. Undir rekstri málsins lézt stefnda, Pála Jakobsdóttir, og tók dánarbú hennar við aðild hennar að málinu. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda kr. 19.142.872, ásamt 4,5% ársvöxtum af kr. 7.567.772 frá 12. febrúar 2006 til 31. ágúst 2007, en af kr. 19.142.872 frá þeim degi til 3. okt. 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum eftirtöldum innborgunum þann 24. apríl 2006, kr. 200.000, þann 12. maí 2006, kr. 200.000, þann 22. júní 2006, kr. 200.000, þann 27. júlí 2006, kr. 300.000, þann 1. ágúst 2006, kr. 1.000.000, þann 22. nóv. 2006, kr. 1.000.000, þann 8. febrúar 2007, kr. 2.800.000, og þann 18. júlí 2008, kr. 2.005.509. Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en stefnandi fékk gjafsóknarleyfi með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 18. desember 2007. Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir að svo stöddu og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað að mati dómsins, en til vara er krafizt lækkunar á dómkröfu stefnanda og niðurfellingar málskostnaðar. II Málavextir Málavextir eru þeir, að þann 12. febrúar 2006 lenti stefnandi í umferðaróhappi á Suðurlandsvegi við Hveradali, þar sem hann var ökumaður bifreiðarinnar MU 599. Slysið vildi þannig til, að stefnandi, sem var á leið austur Suðurlandsveg, þegar bifreiðin, UN 523, sem kom úr gagnstæðri átt, ók í veg fyrir hann og árekstur varð. Ökumaður bifreiðarinnar UN 523 var stefnda, Pála Jakobsdóttir, skráður eigandi var stefndi, íþróttafélagið Þrúður, og var bifreiðin tryggð lögbundinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda TM hf. Ökuhraði bifreiðar stefnanda er talinn hafa verið 40-50 km á klst. Mikil þoka var og lágskýjað á Hellisheiði í umrætt sinn og skyggni því lélegt. Samkvæmt lögregluskýrslu var áreksturinn allharður. Ökumaður UN 523, stefnda Pála, var föst í bifreiðinni og varð að nota klippur til þess að ná henni út. Áfengisþef lagði frá henni og við blóðrannsókn kom í ljós, að áfengismagn í blóði mældist 1,80 prómill. Stefnandi var fluttur með sjúkrabifreið á LSH í Fossvogi, þar sem gert var að meiðslum hans, sem í upphafi virtust ekki mikil, eða brot á miðhandarbeini og stórutá. Stefnandi fann þó fljótlega fyrir verkjum í öxl, hálsi og mjóbaki. Vegna þessa leitaði hann til ýmissa lækna, en bati lét á sér standa, og svo fór að lokum, að lögmaður hans fór þess á leit við þá Björn Daníelsson lögfræðing og Birgi Guðjónsson lækni, að þeir framkvæmdu bráðabirgðamat á afleiðingum slyssins fyrir stefnanda. Þeir skiluðu matsgerð 19. desember 2006, og voru helstu niðurstöður þær, að varanlegur miski og varanleg örorka voru metin 1015 % (lágmark). Í framhaldi af þessu greiddi stefndi TM hf., að beiðni lögmanns stefnanda, inn á tjónið kr. 2.800.000, en áður hafði félagið greitt kr. 3.172.020, og námu heildargreiðslur því kr. 5.972.020. Þann 2. marz 2007 voru þeir Magnús Thoroddsen hrl. og Sigurjón Sigurðsson bæklunarlæknir dómkvaddir í Héraðsdómi Reykjavíkur, að beiðni stefnanda, til að meta afleiðingar slyssins fyrir hann. Matsgerð þeirra er dagsett 31. ágúst 2007, og voru helztu niðurstöður þær, að varanlegur miski var metinn 20% og varanleg örorka 25%. Kröfubréf byggt á matsgerðinni er dags. 3. september 2007. Stefna var síðan birt í málinu þann 18. september 2007, en svar stefndu hafði þá ekki borizt við kröfubréfinu. Hinn 29. janúar 2008 voru, að ósk stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., dómkvaddir yfirmatsmennirnir Brynjólfur Jónsson sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, Sigurður Thorlacius, sérfræðingur í taugalækningum, og Viðar Már Matthíasson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Var þeim falið að meta hvenær batahvörfum var náð, þjáningabótatímabil stefnanda, varanlegan miska hans, varanlega örorku og loks hvort örorka hans vegna slyssins nái 75% samkvæmt staðli reglugerðar nr. 379/1999, sbr. l. nr. 117/1993 og hver örorka hans vegna annarra áfalla eða færnisskerðingar fyrir slys sé. Til vara var spurt um hvort örorka stefnanda nái 50% samkvæmt framangreindum staðli. Er yfirmatsgerðin dags. 26. maí 2008. Er niðurstaða matsins sú, að batahvörf hafi verið 31. ágúst 2007, tímabil tímabundins atvinnutjóns, sem og tímabil þjáningabóta, sé frá slysdegi 12. febrúar 2006 til 31. ágúst 2007, varanlegur miski nemi 20 stigum og varanleg örorka sé 25%. Þá telja yfirmatsmenn, að örorka stefnanda samkvæmt staðli TR, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, nái ekki 75%. Jafnframt taka yfirmatsmenn fram, að tilgreindur örorkumatsstaðall sé einungis notaður til að meta hvort umsækjandi uppfylli læknisfræðileg skilyrði fyrir hæsta örorkustigi, þ.e. 75% örorku, en ekki við mat á því, hvort umsækjandi nái 50% örorku. Hinn 29. janúar 2008 voru jafnframt dómkvaddir tveir matsmenn, þeir Magnús hrl. og Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfræðingur, til að meta sjúkrakostnað og annað fjártjón stefnanda vegna afleiðinga slyssins, annars vegar fram að stöðugleikapunkti og hins vegar frá stöðugleikapunkti fram til þingfestingardags máls þessa. Þá var þeim einnig falið að meta hverjar hefðu orðið framtíðartekjur stefnanda, hefði hann ekki lent í slysinu hinn 12. febrúar 2006. Er matsgerð matsmannanna dagsett 18. apríl 2008. Er niðurstaða þeirra sú samkvæmt fyrri lið matsins, að heildarkostnaður hafi numið kr. 1.080.983, sem skiptist þannig, að fyrir 15. júní 2007 er kostnaður metinn kr. 587.083, en eftir þann tíma kr. 493.900. Framtíðartekjur stefnanda, samkvæmt síðari spurningarlið matsins, meta matsmenn að hefðu orðið kr. 424.671 á mánuði á stöðuleikapunkti hinn 15. júní 2007. Í júlí 2008 greiddi stefndi enn inn á kröfu stefnanda kr. 2.005.509. Heildargreiðslur til stefnanda nema því kr. 7.705.509. Þegar slysið varð, kveðst stefnandi hafa verið á leið til vinnu sinnar á Selfossi. Hann hafi verið tiltölulega nýkominn til landsins frá Noregi og hafði unnið hér á landi, frá því í júní 2005 sem húsasmíðameistari hjá félagi í byggingargeiranum, með mönnum sem hann hafði unnið hjá og með, áður en hann fór utan. Hafi hann haft í hyggju að vinna hjá sömu aðilum áfram næstu ár, og hafi verkefnastaða hjá vinnuveitandanum verið góð. Eftir slysið hafi stefnandi reynt að vinna, þar sem hann hafi sjálfur talið áverka þá, sem hann hlaut í slysinu, vera minni háttar og myndu jafna sig fljótlega. Málin hafi hins vegar þróazt þannig, að stefnandi hafi ekki orðið vinnufær til erfiðisvinnu á ný, og hafi hann af þeim sökum gerzt sífellt örvinglaðri. Hann hafi til dæmis fitnað heil ósköp, miðað við það sem verið hafði, og linazt allur upp. Einnig hafi honum liðið mjög illa andlega, sem og líkamlega. Stefnandi kveður ágreining aðila í máli þessu lúta að viðmiðunartekjum vegna varanlegrar örorku stefnanda, tjóni stefnanda vegna tímabundinnar örorku, dráttarvöxtum, sjúkrakostnaði og miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Í málflutningsræðum lögmanna við aðalmeðferð málsins kom fram, að óumdeilt er, að miskabætur (að frátöldum miskabótum skv. 26. gr. skbl.) og þjáningabætur eru að fullu greiddar. III Málsástæður stefnanda Stefnandi rökstyður endanlega kröfugerð sína tölulega með neðangreindum hætti: 1. Miskabætur: 6.571.600 x 20% kr. 1.314.320 2. Bætur fyrir varanlega örorku: 671.381x79x25% kr. 7.929.669 3. Þjáningabætur kr. 673.400 4. Annað fjártjón og sjúkrakostnaður kr. 1.275.483 5. Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón kr. 5.580.000 6. Bætur skv. 26. grein skaðabótalaga. kr. 3.000.000 Samtals er krafan að fjárhæð kr. 19.142.872 Bætur fyrir miska séu grundvallaðar á matsgerð dómkvaddra matsmanna og 4. grein skaðabótalaga. Höfuðstóll miskabóta er miðaður við stöðugleikapunkt í júní 2007, 4000.000 x lánskjaravísitala, þegar krafan er gerð í september 2007, þ.e. 5392/3282=6.571.600. Til stuðnings þjáningabótum sé vísað til skaðabótakvittunar hins stefnda félags. Bætur fyrir varanlega örorku: Reiknað sé með stuðlinum 6,79, eins og hið stefnda félag geri, og 25 stiga varanlegri örorku, sbr. bæði yfirmat og undirmat. Viðmiðunarlaun eru byggð á mati dómkvaddra matsmanna frá 18. apríl 2008, miðað við stöðugleikapunkt (424.671 x 11) 4.671.381. Byggt er á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Stefnandi byggir á því, að ástæður sínar séu óneitanlega sérstakar og ekki komi til greina að miðað við lágmarkslaun. Stefnandi byggir einnig á, að hann sé húsasmíðameistari, og sé þetta verulega sanngjörn viðmiðun, ef miðað sé við laun húsasmíðameistara í dag og það, að vinna þeirra sé ætíð mest á sumrin. Sú viðmiðun, sem stefnandi noti, sé hins vegar yfir lakasta tímann, eða háveturinn, þegar vinna liggi oft niðri að miklu leyti. Stefnandi byggir á, að örorka hans hafi orðið, þegar hann lenti í slysinu, en þá hafi hann verið 52 ára. Annað fjártjón og sjúkrakostnaður: Byggt sé á mati dómkvaddra matsmanna frá 18. apríl 2008. Kostnaður samkvæmt framlögðum skjölum, kr. 1.080.983 auk aksturskostnaðar, kr. 194.500, nemi samtals kr. 1.275.483. Um sé að ræða kostnað við læknisheimsóknir, læknisvottorð, matskostnað, lögfræðikostnað, sjúkraþjálfun, lyfjakaup, akstur, símtöl o.fl. Stefnandi hafi aðeins haldið hluta af þessum kostnaði til haga, sem hér greini: Matskostnaður við bráðabirgðamat, dskj. nr. 33 og 34, kr. 155.661. Kostnaður við mat dómkvaddra matsmanna, dskj nr. 62 og 63, kr. 493.900. Ógreiddur kostnaður v. læknisvottorðs skv. dskj. nr. 35, kr. 13.120. Ýmsir smáreikningar á dskj. nr. 37, kr. 17.319. Kostnaður vegna komugjalda til lækna og fl. á dskj. nr. 38, kr. 44.658. Kostnaður vegna sjúkraþjálfunar skv. dskj. nr. 39, kr. 24.531. Kostnaður vegna sjúkraþjálfunar á dskj. nr. 40, kr. 11.322. Kostnaður vegna komugjalda á dskj. nr. 41, kr. 3.028. Lyfjakaup á dskj. nr. 42, kr. 2.138. Lyfjakaup á dskj. nr. 4, kr. 925. Kostnaður skv. dskj. nr. 44, kr. 26.249. Komugjald skv. dskj. nr. 45, kr. 18.000. Þjónustugjald skv. dskj. nr. 46, kr. 22.350. Viðtal hjá Guðjóni Baldurs, kr. 3.028, sbr. dskj. nr. 47. Komugjald á slysadeild, kr. 8.692, sbr. dskj. nr. 48. Aksturskostnaður skv. dskj. nr. 49, kr. 2.700. Reikningur frá Gauta Laxdal, kr. 13.120, sbr. dskj. nr. 54. Inn í þetta vanti töluverðan kostnað svo sem akstur frá Selfossi til lækna og sjúkraþjálfara, símakostnað ofl. Alls nemi kostnaður samkvæmt nótum og reikningum vel 700.000 krónum. Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón sé byggt á matsgerðinni dskj. nr. 60, sbr. bls. 9. Bætur skv. 26. grein skaðabótalaga séu byggðar á því, að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sínu vegna vítaverðs og stórkostlegs gáleysis stefndu, Pálu Jakobsdóttur, sem hafi valdið slysinu ofurölvi, með því að aka yfir á rangan vegarhelming og beint á bifreið stefnanda á mikilli ferð. Stefnandi vísi til 2. mgr. 26. greinar skbl., sbr. hæstaréttarmál nr. 50/2004, og séu umkrafðar bætur hæfilegar 3.000.000. Greiddar hafi verið bætur frá Tryggingamiðstöðinni og lífeyrissjóðum kr. 630.000, sbr. dskj. nr. 80. Í kröfugerð sé tekið tillit til innborgana, og sé ekki ágreiningur um fjárhæðir og gjalddaga þeirra. Stefnandi kveður innborganir hafa verið inn á tímabundið tjón, kr. 2.005.509. Ekki hafi verið greitt inn á bótakröfu (sic), heldur lögmannskostnað, kr. 650.000, sbr. málskostnaðaryfirlit á dskj. nr. 84. Stefnandi byggir dómkröfur sínar á hið stefnda félag á því, að bæði bifreiðin, sem ók á stefnanda, og bifreið sú, sem stefnandi ók, er hann slasaðist, hafi verið tryggðar hjá hinu stefnda félagi. Byggi stefnandi því kröfu sína aðallega á 88. grein umferðarlaga, sbr. 90. grein sömu laga, sbr. enn 91. grein sömu laga, sbr. og 95. grein og 1. mgr. 97. greinar umferðarlaga. Kröfu sína á eiganda bifreiðarinnar, Íþróttafélagið Þrúði, byggi stefnandi á 1. mgr. 90. greinar umfl. Kröfu sína á bifreiðarstjórann, Pálu Jakobsdóttur (nú dánarbú hennar), byggi stefnandi á 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga og 26.grein skaðabótalaga. Auk þess byggi stefnandi kröfur sínar á ofangreindum ákvörðun skaðabótalaga. Þá byggi stefnandi á, að samkvæmt matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna nái stefnandi því ekki að eiga rétt á bótum frá Tryggingastofnun ríkisins, skv. staðli almannatryggingalaga, sem settur hafi verið skv. 12. grein laganna (nú 18. grein). Ekki komi því til greina að skerða umkrafðar bætur samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Til vara byggi stefnandi á 92. grein umferðarlaga. Stefnandi byggi einnig á því, að hin stefndu hafi sönnunarbyrði um allan hugsanlegan frádrátt frá bótakröfu stefnanda skv. grundvallarreglum um sönnun í skaðabótamálum. Sé þá einnig komið að 2. mgr. 24. gr. vátryggingasamningalaga, sbr. 48. gr. núgildandi laga, frumkvæðisleiðbeiningar- og upplýsingaskyldu tryggingafélaga samkvæmt lögum um vátryggingasamninga. Byggi stefnandi á því, að félaginu hafi ekki verið stætt á því að greiða einungs kr. 2.400.000 inn á tjónið á grundvelli bráðabirgðamatsins. Þá hafi félaginu verið óheimilt að taka kr. 400.000 inn á skuld stefnanda hjá félaginu. Komi sú fjárhæð því ekki til frádráttar frá dómkröfu stefnanda. Stefnandi byggi á því, að hann eigi ekki rétt á bótum samkvæmt III. kafla laga nr. 100/2007, en hann hafi starfað sem undirverktaki hjá vinnuveitanda sínum, er hann slasaðist. Hann hafi fengið greidd laun nálægt taxta verkstjóra í húsasmíði, en hafi ekki verið ráðinn sem launþegi og innheimt virðisaukaskatt af umkröfðum launum. Hann falli því hvorki undir a-lið 1. mgr. 29. greinar almtr.laga né g-lið hennar. Stefnandi kveðst styðja kröfur sínar við meginreglur bótakafla umferðarlaga, eins og lýst hafi verið. Bótafjárhæðina byggi stefnandi á 1. - 7. grein skaðabótalaga. Stefnandi vísi einnig til reglna vátryggingaréttarins um upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu vátryggingafélaga, og að félögin geti ekki takmarkað ábyrgð sína, nema samkvæmt skýrum lagaheimildum. Málsástæður stefndu Stefndu kveða óumdeilt, að á slystíma hafi verið í gildi lögbundin ábyrgðartrygging ökutækja hjá stefnda TM vegna bifreiðarinnar UN 523, og bifreið stefnanda, MU 599, hafi einnig verið tryggð þar. Sé kröfum því réttilega beint að stefnda, TM hf. Þá sé bótaskylda viðurkennd, enda hafi stefndi TM greitt kr. 5.972.020 inná tjónið, sbr. greiðsluyfirlit dags. 22. júní 2007, dskj. nr. 57. Um heilsufarslegar afleiðingar slyssins vísi stefnandi til matsgerðar þeirra Magnúsar Thoroddsen og Sigurjóns Sigurðssonar frá 31. ágúst 2007, dskj. nr. 60. Stefndu fallist hins vegar ekki á niðurstöður matsgerðarinnar. Stefndu mótmæli tölulegri útfærslu stefnanda á kröfum sínum, bæði aðal- og varakröfu. Stefndu geri athugasemdir við launaviðmiðun stefnanda, bæði varðandi varanlegt tjón og tímabundið. Að mati stefndu séu ekki efni til annars en að miða við lágmarkslaun, skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, enda hafi stefnandi ekki aflað launatekna hér á landi nema í stuttan tíma fyrir slysið, og framlögð gögn frá Noregi gefi ekki tilefni til annarrar niðurstöðu að þessu leyti. Samkvæmt afriti skattframtals frá Noregi vegna ársins 2004, dskj. nr. 26, 27 og 28, hafi tekjurnar numið n.kr. 168.709 það ár, en ekki hafi verið lögð fram af hálfu stefnanda afrit framtala annarra ára, er hér skipti máli, þ.e. tekjuáranna 2003 og 2005. Sé því ekki unnt að reikna tekjugrundvöllinn út í samræmi við ákvæði skaðabótalaga þar að lútandi. Þá virðist hér einnig vera um verktakalaun að ræða, sem verði ekki jafnað til venjulegra mánaðarlauna, þannig að ekki sé unnt, að mati stefndu, að leggja þau til grundvallar við útreikning bóta vegna atvinnutjóns í máli þessu. Enn fremur þyki rétt á þessu stigi að mótmæla sérstaklega töluliðum 4, 5 og 6 í kröfugerð stefnanda, öðru fjártjóni og sjúkrakostnaði, tímabundnu atvinnutjóni og bótum skv. 26. gr. skaðabótalaga. Kröfuliðurinn „annað fjártjón og sjúkrakostnaður“ sé ekki studdur fullnægjandi gögnum og því mótmælt. Stefndi TM hf. hafi greitt kr. 272.020 vegna þessa þáttar, dskj. nr. 57, og sé engin grein gerð fyrir því af hálfu stefnanda, hvernig sú greiðsla komi inn í þetta dæmi. Aðferðarfræði stefnanda við útreikning tímabundins tjóns sé mótmælt, bæði að því er varði tímalengdina og launafjárhæð, sem ekki sé í samræmi við fyrirliggjandi gögn, og sé vísað til þess, sem fyrr sé rakið varðandi tjón vegna varanlegrar örorku. Einnig sé, vegna ummæla í stefnu, rétt að benda á, að innágreiðslur stefnda TM hafi ekki verið inn á tímabundið tjón, enda engin krafa gerð um slíkt, eða gögn lögð fram því til stuðnings, fyrr en við þingfestingu máls þessa. Umræddar greiðslur séu inn á örorku, þjáningar og miska, sbr. dskj. nr. 57. Kröfu um bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga sé mótmælt. Í fyrsta lagi sé, að mati stefndu, ekki sýnt fram á stórkostlegt gáleysi af hálfu ökumanns UN 523, og einnig sé fjárhæðinni mótmælt sem víðs fjarri þeim fjárhæðum, sem dæmdar hafi verið í málum, þar sem þessi tiltekna grein skaðabótalaganna hafi verið til skoðunar. Þá sé í kröfugerð stefnanda gert ráð fyrir því, að bætur skuli ákvarðast eftir reglum skaðabótalaga. Þetta þýði að sjálfsögðu, að frádráttarreglur skaðabótalaga, t.d. 4. mgr. 5. gr. laganna, gildi um bótagreiðslurnar og verði því að hafna sjónarmiðum stefnanda í b-lið kröfugerðarinnar, þar sem hann haldi því fram, að svo sé ekki. Lögð sé áherzla á, að hér sé ekki við stefndu að sakast. Ábyrgðin sé stefnanda, enda verði nauðsynlegra upplýsinga að þessu leyti ekki aflað án atbeina hans. Vakin sé athygli á tl. 7 í kröfugerð stefnanda, en þar fallist hann á, að slíkum frádrætti eigi að beita, en ákveði hins vegar sjálfur, að hann geti aldrei numið hærri fjárhæð en kr. 1.000.000, en sleppi því hins vegar að upplýsa, hvernig sú tala sé fundin, og hljóti stefndu að mótmæla þeirri nálgun, sem þar sé lögð til grundvallar. Málið sé ekki eins einfalt og lögmaðurinn vilji vera láta. Um sé að ræða flókna útreikninga, þar sem tekið sé tillit til ýmissa þátta, sem m.a. tengist útreikningi á stuðli skaðabótalaganna. Útreikningar sem þessir hafi hingað til verið gerðir af tryggingastarfsmönnum og telji stefndu það einnig nauðsynlegt hér, en ítreki, að til þess að svo megi verða, verði stefnandi að afla nauðsynlegra gagna, sem hann einn geti aflað. Meðan það sé ekki gert, verður ekkert reiknað út og gagnaöflun því áfátt að þessu leyti. Tilvísun til 2. mgr. 24. gr. þágildandi vátryggingasamningalaga sé því á misskilningi byggð og sé henni mótmælt. Mótmælt sé tilvísun stefnanda í lög nr. 100/2007, en lögin hafi tekið gildi 30. maí 2007, eða rúmu ári eftir að tjónsatburður sá, sem hér sé til umfjöllunar, hafi átt sér stað og geti því aldrei átt við hann. Vaxtakröfu sé mótmælt, enda eigi hún ekki stoð í lögum. IV Forsendur og niðurstaða Bótaábyrgð stefndu er óumdeild. Endanlegur ágreiningur aðila lýtur að viðmiðunartekjum við útreikning örorkubóta vegna varanlegrar og tímabundinnar örorku, öðru fjártjóni og sjúkrakostnaði, miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga og upphafstíma dráttarvaxta. Verður fjallað um hvern lið fyrir sig. Viðmiðunartekjur stefnanda vegna varanlegrar örorku Stefnandi byggir á því, að miða beri við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, þar sem sérstakar aðstæður hafi verið fyrir hendi, sem heimili slíka viðmiðun. Stefndi mótmælir því, að aðstæður hafi verið óvenjulegar í skilningi 2. mgr. skbl. og telur að beita beri 3. mgr. 7. gr. skbl. Það liggur fyrir, að stefnandi hafði verið við störf erlendis um árabil, þar til hann flutti til Íslands árið 2005 og hóf hér störf sem undirverktaki í byggingavinnu. Hann hafði því einungis starfað á Íslandi í nokkra mánuði, þegar slysið varð. Stefnandi hefur hvorki lagt fram gögn, sem sýna tekjur hans þá mánuði, sem hann var við störf á árinu 2005 hér á landi, né gögn sem sýna tekjur hans erlendis síðustu 3 ár fyrir slys, eða gögn, ef frá er talið óstaðfest framtal vegna ársins 2004, þegar hann starfaði í Noregi, sbr. dskj. nr. 26. Fallast verður á með stefnanda, að aðstæður hafi verið óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, enda verður ekki séð, að framtalsgögn erlendis frá, við aðstæður og launakjör, sem ekki liggur fyrir að séu sambærileg við það, sem gerist hér á landi, verði lögð til grundvallar mögulegum framtíðartekjum stefnanda hérlendis. Þá verður heldur ekki séð, að tekjur vegna nokkurra mánaða árið 2005 geti gefið raunsanna mynd af aflahæfi hans, þannig að við það verði stuðzt. Stefnandi er húsasmíðameistari að mennt og má ætla, að hann hefði átt alla kosti til þess að afla sér tekna í samræmi við þá menntun, ef slysið hefði ekki orðið, enda liggur ekki fyrir, að neinar þær aðstæður hafi verið fyrir hendi í lífi hans, sem gera það ósennilegt. Stefnandi byggir tjón sitt samkvæmt þessum lið á útreikningi hinna dómkvöddu matsmanna, Magnúsar Thoroddsen hrl. og Vigfúsar Ásgeirssonar tryggingastærðfræðings. Mati þeirra hefur ekki verið hnekkt og hefur stefndi ekki sýnt fram á annan og réttari útreikning. Þykir því mega leggja til grundvallar þá fjárhæð, sem stefnandi byggir á í endanlegri kröfugerð sinni, þ.e. kr. 7.929.669. Er því fallizt á kröfu stefnanda hvað þennan lið varðar. Tímabundið atvinnutjón Stefnandi vísar til matsgerðar á dskj. nr. 60 til stuðnings þessum kröfulið, en fjallar að öðru leyti ekki um hann í málsástæðum sínum í stefnu. Af hálfu stefndu er þessum kröfulið mótmælt, bæði hvað varðar tímalengd og fjárhæð, og því haldið fram að hann sé að fullu greiddur. Samkvæmt undirmatsgerð á dskj. nr. 60, er tímabil tímabundins atvinnutjóns talið vera frá slysdegi 10. febrúar 2006 til 15. júní 2007, en í yfirmatsgerð er þetta tímabil talið ná frá slysdegi til 31. ágúst 2007. Þar sem tímabil það, sem stefnandi byggir á, er styttra en það sem greinir í yfirmatsgerð, þykir mega fallast á, að stefnandi eigi rétt á greiðslu fyrir tímabundið atvinnutjón frá slysdegi til 15. júní 2007, eins og hann krefur um. Í matsgerðinni á dskj. nr. 60 meta matsmenn tímabundið fjártjón stefnanda kr. 342.500 á mánuði, eða samtals kr. 5.580.000 fyrir allt tímabilið. Hvernig sú fjárhæð er fundin er ekki skýrt eða rökstutt í matsgerðinni. Þar er hins vegar að finna kafla, sem ber yfirskriftina „tekjusaga“, þar sem tilgreindar eru tekjur stefnanda eftir að hann flutti heim til Íslands, sem mun hafa verið í júní 2005, kr. 206.710, tímabilið janúar til ágúst, og kr. 1.370.185 tímabilið október 2005 til janúar 2006. Sýnast matsmenn hafa tekið síðasta launatímabilið og deilt í það með mánaðafjöldanum og fengið þannig út mánaðarlaun þau, sem þeir byggja tímabundið fjártjón stefnanda á. Engin gögn liggja fyrir í málinu um ofangreindar tekjur stefnanda og kemur ekki fram í matsgerðinni, hvernig matmenn hafa fengið þær upplýsingar eða hvort matsmenn hafi staðreynt þær. Þá eru engar upplýsingar um tekjur stefnanda í septembermánuði. Stefnandi hefur ekki lagt fram staðfest gögn, sem sýna tekjur hans á þeim tíma, sem slysið varð, eða mánuðina fyrir slysið, svo sem skattframtal, launamiða eða önnur gögn. Stefnandi gaf ekki skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð og reyndist því ekki unnt að fá skýringar hans á tekjum hans fyrir slysið. Verður því ekki, gegn andmælum stefndu, byggt á þessum útreikningum. Má því að fallast á með stefndu, að miða beri við lágmarkslaun þetta tímabil, og telst sú krafa að fullu greidd með kr. 3.119.958, sbr. greiðsluyfirlit stefnda á dskj. nr. 86. Annað fjártjón og sjúkrakostnaður Stefnandi byggir kröfu sína um bætur vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar á útreikningi matsmannanna, Magnúsar Thoroddsen og Vigfúsar Ásgeirssonar. Stefndi hefur mótmælt öllum kröfum þar að lútandi, sem ekki styðjast við skrifleg gögn. Samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal sá, sem bótaábyrgð ber á líkamstjóni m.a. greiða skaðabætur fyrir sjúkrakostnað og fjártjón, sem af hlýzt. Í greinargerð með skaðabótalögunum segir svo um þessa þætti: Með orðunum „annað fjártjón“ í 1. mgr. er átt við útgjöld sem falla á tjónþola strax eða fljótlega eftir að tjónsatvik bar að höndum en erfitt er að færa sönnur á, t.d. með því að leggja fram reikninga. ... Ákvæðið um bætur fyrir „annað fjártjón“ er einnig sett til þess að veita svigrúm til þess að ákvarða bætur fyrir tjón sem ekki telst til sjúkrakostnaðar í þröngri merkingu þess orðs. Stefnandi hefur lagt fram fjölmarga reikninga vegna kostnaðar, sem hann hefur haft vegna slyssins og fellur undir þennan lið. Hafa matsmenn stuðzt við þá reikninga, en jafnframt tekið inn í útreikninga sína annað fjártjón, sem þeir telja stefnanda hafa sýnt fram á með vissu, að hann hafi borið vegna slyssins, en hefur ekki getað sýnt fram á með kvittunum. Þar sem beinlínis er gert ráð fyrir því í skaðabótalögunum, að tjónþoli geti átt rétt á bótum vegna annars fjártjóns, þó hann geti ekki lagt fram skrifleg sönnunargögn vegna þess, er fallizt á kröfu stefnanda, eins og hún er endanlega fram sett vegna þessa þáttar, en matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna sýnist unnin af samvizkusemi og nákvæmni og hefur ekki verið hnekkt tölulega hvað þennan þátt varðar. Miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga Miskabótakrafa stefnanda, sem hann byggir á 26. gr. skaðabótalaga, er studd þeim rökum, að tjónvaldur, Pála heitin Jakobsdóttir, hafi verið ölvuð undir stýri, þegar hún ók bifreiðinni UN 523 á röngum vegarhelmingi í veg fyrir bifreið stefnanda, þannig að árekstri varð ekki afstýrt. Umrætt ákvæði 26. gr. skaðabótalaganna, eins og því var breytt með 13. gr. l. nr. 37/1999, heimilar að láta þann, sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni, greiða miskabætur til þess, sem misgert var við. Samkvæmt gögnum málsins telst upplýst, að Pála heitin var ölvuð, þegar slysið varð, en áfengismagn í blóði hennar eftir slysið mældist 1,80 prómill. Í 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. l nr. 48/1997, segir svo um hæfi ökumanns til þess að stjórna bifreið, þegar hann er undir áhrifum áfengis: Ef vínandamagn í blóði ökumanns nemur 1,20 eða meira eða vínandamagn í lofti, sem hann andar frá sér, nemur 0,60 milligrömmum í lítra lofts eða meira telst hann óhæfur til að stjórna ökutæki. Samkvæmt þessu var vínandamagn í blóði ökumanns bifreiðarinnar UN 523 langt yfir þeim mörkum, sem þarna greinir svo ökumaður teljist óhæfur til að stjórna ökutæki. Verður það því metið ökumanninum til stórfellds gáleysis að aka bifreiðinni við þessar aðstæður. Má því fallast á með stefnda, að honum verði dæmdar miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Þykja bætur honum til handa samkvæmt þessu lagaákvæði hæfilega ákveðnar kr. 1.000.000. Samkvæmt framansögðu nemur heildartjón stefnanda kr. 15.312.830, þegar með eru taldir tjónliðir, sem ágreiningslaust er að hafa verið að fullu bættir. Heildargreiðslur stefndu inn á tjónið nema kr. 7.705.509. Eftirstöðvarnar nema kr. 7.607.321. Eins og mál þetta er úr garði gert af hálfu stefnanda, og þegar litið er til þess, að af hans hálfu skortir allar upplýsingar um tekjur hans, svo unnt hafi verið að reikna út fjártjón hans, verða dráttarvextir ekki reiknaðir af dæmdri fjárhæð fyrr en frá dómsuppsögudegi. Vaxtakrafa stefnanda er endanlega fram sett á dskj. nr. 83. Krefur hann þar um vexti af bótum vegna þjáninga, varanlegs miska og tímabundins atvinnutjóns frá slysdegi, en af eftirstöðvunum frá þeim degi, þegar stöðugleikapunkti var náð. Það athugist, að sú fjárhæð sem hann krefur vaxta af frá slysdegi er ekki í samræmi við samanlagða bótakröfu hans vegna framangreindra liða, og er þar væntanlega um reikniskekkju að ræða. Vextir reiknast eins og greinir í dómsorði. Tekið er tillit til innborgana frá gjalddögum þeirra. Miðað við gjalddaga hinna einstöku kröfuliða í kröfugerð stefnanda og frádráttarliði er gjaldfallin krafa að fullu greidd og 592.722 kr. betur hinn 8. febrúar 2007. Samanlagðar kröfur á gjalddaga 31. ágúst 2007 nema kr. 10.205.152, að frádregnum áður greiddum kr. 592.322, eða kr. 9.612.830. Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 800.000 og rennur í ríkissjóð. Er þar með talinn útlagður kostnaður, kr. 546.000. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið litið til þess, að stefndi hefur þegar greitt beint til stefnanda kr. 650.000 í málskostnað, en ekki hefur verið litið til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Við ákvörðun á gjafsóknarkostnaði stefnanda er litið til þess, að stefnandi hefur þegar fengið greiddar kr. 650.000 í málskostnað frá stefnda. Ákveðst gjafsóknarkostnaður kr. 800.000 og greiðist úr ríkissjóði. Er þar með talinn útlagður kostnaður, kr. 546.000. Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn D Ó M S O R Ð Stefndu, Tryggingamiðstöðin hf., dánarbú stefndu Pálu Jakobsdóttur og Íþróttafélagið Þrúður, greiði in solidum stefnanda, Hreggviði Davíðssyni, kr. 7.607.321, ásamt 4,5% ársvöxtum af kr. 5.107.678 frá 12. febrúar 2006 til 24. apríl s.á., en af kr. 4.907.678 frá þeim degi til 12. maí s.á., en af kr. 4.707.678 frá þeim degi til 22. júní s.á., en af kr. 4.507.678 frá þeim degi til 27. júlí s.á., en af kr. 4.207.678 frá þeim degi til 1. ágúst s.á., en af kr. 3.207.678 frá þeim degi til 22. nóvember s.á., en af kr. 2.207.678 frá þeim degi til 8. febrúar 2007. Þá greiði stefndu insolidum stefnanda 4,5% ársvexti af kr. 9.612.830 frá 31. ágúst 2007 til 18. júlí 2008, en af kr. 7.607.321 frá þeim degi til dómsuppsögudags, 4. febrúar 2009, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði stefndu insolidum kr. 800.000 í málskostnað, sem rennur í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 800.000, greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. útlagður kostnaður, kr. 546.000. |
Mál nr. 1/2011 | Kærumál Vitni | Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni Þ um að fá að leiða sextán nafngreind vitni í máli á grundvelli 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til öflunar sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað. Talið var að tilgangurinn með vitnaleiðslunni væri ekki sá að varpa ljósi á þau atvik sem Þ taldi grundvöll skaðabótakröfu sinnar og þótti Þ því ekki hafa lögvarða hagsmuni af því að hún færi fram. Var hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. janúar 2011. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að fá að afla sönnunargagna fyrir dómi án þess að mál hafi verið höfðað með því að leiða sextán nafngreind vitni til skýrslugjafar. Kæruheimild er í f. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að sér verði heimilað að leiða þessi vitni fyrir dóm. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðilinn íslenska ríkið krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Rétt er að kærumálskostnaður falli niður. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 498/2016 | Læknir Sjúkrahús Líkamstjón Matsgerð Skaðabætur | Í málinu krafðist A þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda Í vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir á hægri hendi í kjölfar læknismeðferðar á Landspítalanum árið 2001. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að í matsgerð tveggja dómkvaddra manna, sem A hafði aflað undir rekstri málsins í héraði, hefði því verið lýst að haga hefði mátt meðferð A á annan veg en gert var umrætt sinn. Á hinn bóginn hefði ekki falist í þessu áliti, fremur en öðrum gögnum málsins, sönnun á því að mistök hefðu verið gerð í þessari meðferð sem leitt gætu til skaðabótaskyldu Í. Var Í því sýknað af kröfu A. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir ÞorgeirÖrlygsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson ogViðar Már Matthíasson. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega tilHæstaréttar 25. apríl 2016. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 8. júní2016 og var áfrýjað öðru sinni 6. júlí sama ár. Áfrýjandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndavegna líkamstjóns, sem hún varð fyrir á hægri hendi í kjölfar læknismeðferðar áLandspítala– háskólasjúkrahúsi 20. og 21. febrúar 2001. Þá krefst húnmálskostnaðar fyrir Hæstarétti.Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaðadóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Samkvæmt gögnum málsins var áfrýjandi lögðinn á bráðamóttöku barna á Landspítala skömmu eftir hádegi 20. febrúar 2001vegna alvarlegrar sýkingar, en hún var þá tæpra átta vikna. Í hinum áfrýjaðadómi er lýst nánar lífshættulegu ástandi áfrýjanda og meðferð, sem hún hlaut,en meðal annars töldu læknar sig knúna til að setja æðalegg í slagæð viðolnbogabót á hægri handlegg hennar. Æðaleggur þessi var fjarlægður eftir um sexklukkustundir þegar merki höfðu komið fram um batnandi ástand áfrýjanda, en þáhöfðu einnig greinst einkenni um blóðrásartruflanir til hægri handar hennar. Íframhaldi af því var áfrýjanda gefið lyf til að vinna gegn storkumyndun íblóði, en þótt sú meðferð hafi í byrjun borið einhvern árangur ágerðistblóðrásarþurrð í hendinni. Gekkst áfrýjandi undir skurðaðgerð af þessum sökumeftir hádegi 21. febrúar 2001, en þar var slagæðin hreinsuð og sett segalosandilyf í hana. Þrátt fyrir aðgerðina urðu vefjaskemmdir á fingrum hægri handaráfrýjanda og missti hún þá alla.Áfrýjandi telur mistök hafa verið gerð viðframangreinda læknismeðferð og höfðaði hún mál af því tilefni gegn stefnda 18.febrúar 2011 til heimtu skaðabóta. Dómur var felldur á það mál í héraði 18.desember 2012, þar sem stefndi var sýknaður af kröfu áfrýjanda. Með dómiHæstaréttar 21. nóvember 2013 í máli nr. 377/2013 var málinu vísað fráhéraðsdómi vegna vanreifunar sökum þess að áfrýjandi hafði ekki aflaðmatsgerðar til að leitast við að færa gegn andmælum stefnda sönnur á ætluðmistök við læknismeðferðina fyrr en á lokastigum málsmeðferðar fyrir Hæstarétti.Í framhaldi af því höfðaði áfrýjandi mál þetta 20. maí 2014 og krefst hún semfyrr segir að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns, semhún hafi hlotið af fyrrgreindri læknismeðferð. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómiaflaði áfrýjandi nýrrar matsgerðar tveggja dómkvaddra manna til að fá svörmeðal annars við því hvort í fyrsta lagi hafi verið forsvaranlegt að setjaæðalegg í slagæð í olnbogabót hennar, í öðru lagi hvort forsvaranlegt hafiverið að hafa æðalegginn þar svo lengi sem raun varð á og í þriðja lagi hvortliðið hafi of langur tími frá því að blóðrásartruflanir komu fram þar tilgripið var til skurðaðgerðar. Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi svöruðumatsmenn fyrstu spurningunum tveimur játandi. Um þriðju spurninguna sagði ímatsgerðinni að æðaleggurinn hafi valdið blóðsega og mjög alvarlegum truflunumí blóðrás í hægri handlegg áfrýjanda. Við þessu hafi orðið að bregðast með þvíað fjarlægja æðalegginn þegar einkenni þessi komu fram og gefa blóðþynnandilyf, eins og gert var, svo og með því að leita ráða sérfræðinga íblóðstorkusjúkdómum og æðaskurðlækningum ef ekki tækist „að endurheimtablóðrásina“ með þeim úrræðum. Síðan sagði: „Fram kemur í gögnum spítalans aðþeir sem önnuðust barnið lýstu bata í hendinni strax eftir að æðaleggurinnhafði verið fjarlægður. Síðan var hafin meðferð með heparíni en því er lýst írannsóknum að slík meðferð getur hjálpað til við að bæta blóðrásarflæði íaðstæðum sem þessum ... Því er ekki óeðlilegt að bíða í nokkra klukkutíma ogsjá hvort sú meðferð bæti ástandið. Ef skurðaðgerð er talin eini kosturinn ístöðunni verður að meta hvort ástand sjúklingsins er nægilega stöðugt til aðhætt sé að framkvæma aðgerðina ... Hugsanlega hefði mátt hafa samband þegar umkvöldið við blóðmeina/storkusérfræðing en [B] hefur þegar lýst fyrir dómi aðþetta hefði orðið hans fyrsta ráðlegging. Einnig má færa rök fyrir því aðskynsamlegt hefði verið að hafa samband þegar um kvöldið eða nóttina viðæðaskurðlækni til að leita ráða. Hins vegar kemur það ekki nægjanlega skýrtfram í gögnum hvenær ástand stúlkunnar var það stöðugt að þorandi væri aðframkvæma skurðaðgerð. Blóðprufur fara hins vegar versnandi, storkutruflanir... verða áberandi og stúlkan fær áberandi húðblæðingar. Alls óvíst er hvortstúlkan hefði þolað aðgerð um kvöldið eða nóttina. Því er hins vegar lýstmorguninn eftir að ástand stúlkunnar telst það stöðugt að hættandi sé aðframkvæma aðgerð. Það ber síðan að hafa í huga að atvik af þessu tagi ereinstaklega sjaldséð og vantar alla rútínu í kringum svona atvik. Þettakristallast í því að bæði tilkallaður blóðmeinafræðingur og æðaskurðlæknirleita ráða erlendis hvernig best sé að meðhöndla stúlkuna og hvaða leið sélíklegust til árangurs. Það eru engar vísindalegar rannsóknir til sem styðja þáákvörðun að skurðaðgerð sé besta meðhöndlunin við blóðsega af þessu tagi og þvíástandi sem stúlkan var í. Það er því mat okkar að það hefði mátt hafa sambandvið blóðmeinafræðing og æðaskurðlækni fyrr en gert var en óljóst er hvort þaðhefði leitt til minni skaða en varð. Hugsanlega hefði stúlkan getað farið íaðgerð strax morguninn eftir þegar ljóst var að heparíndreypi lagaði ekkiblóðrás og þegar tilkallaðir sérfræðilæknar hefðu verið búnir að leita ráðakollega sinna erlendis. Hvort aðgerð einhverjum klukkustundum fyrr hefði breyttútkomunni gengur ekki að segja.“ Matsmennirnir staðfestu matsgerð sína fyrirdómi.Með hinum áfrýjaða dómi var stefndisýknaður af kröfu áfrýjanda, en héraðsdómur var skipaður sömu sérfróðum meðdómsmönnumog sátu í dómi í fyrra máli hennar. Kafli í hinum áfrýjaða dómi, sem hefur aðgeyma röksemdir fyrir niðurstöðu hans, er nánast orðrétt eins og kafli um þaðefni í fyrri héraðsdóminum frá 18. desember 2012, þar á meðal þegar vísað ertil framburðar vitna við aðalmeðferð fyrra málsins, en endurrit skýrslna þeirrahafa verið lögð fram í máli þessu og komu flest vitnin á ný fyrir dóm viðmeðferð þess til að staðfesta fyrri framburð. Í niðurstöðukafla dómsins er svotil ekkert vikið að framangreindri matsgerð, en við það verður að miða að í þvífelist sú afstaða héraðsdóms að matsgerðin raski ekki niðurstöðum, sem komistvar að í fyrri dóminum. Um það efni matsgerðarinnar, sem rakið erhér að framan, er þess að gæta að í afmörkuðum atriðum hafa matsmenn lýst þvíáliti að haga hefði mátt meðferð áfrýjanda á annan veg en gert var áLandspítala 20. og 21. febrúar 2001. Á hinn bóginn felst ekki í þessu áliti,fremur en öðrum gögnum málsins, sönnun á því að mistök hafi verið gerð íþessari meðferð sem leitt gætu til skaðabótaskyldu stefnda við áfrýjanda. Aðþessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verðurhann staðfestur.Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstaréttifalli niður.Dómsorð:Héraðsdómur skal vera óraskaður.Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellurniður.Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26.janúar 2016. Mál þetta, sem var dómtekið 21.janúar sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af C og D fyrir hönd ólögráðadóttur sinnar, A, öllum til heimilis að [...], [...], á hendur íslenska ríkinu,með stefnu birtri 20. maí 2014. Stefnandi krefst þess aðviðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda, íslenska ríkisins, vegnalíkamstjóns stefnanda á hægri hönd, er hún varð fyrir í kjölfar læknismeðferðará Landspítala – háskólasjúkrahúsi 20. til 21. febrúar 2001. Þá er krafist málskostnaðar aðskaðlausu eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Stefndi krefst sýknu af öllumkröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnaðsamkvæmt mati dómsins.I Forsaga máls þessa er sú að meðdómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-835/2011 var stefndi sýknaður af kröfustefnanda í máli sem varðar sömu málsatvik. Dóminum var áfrýjað til HæstaréttarÍslands samanber dóm í málinu nr. 377/2013. Þar var máli stefnanda gegn stefndavísað frá héraðsdómi á þeim forsendum að málið væri svo vanreifað að ekki væriunnt að leggja á það dóm. Ekki var aflað matsgerðar dómkvaddra matsmanna straxvið meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Hún var lögð fyrir Hæstarétt á síðasta degigagnaöflunarfrests og átti stefndi ekki kost á því að tjá sig um hana né fáhenni hnekkt. Auk þess taldi rétturinn matsgerðir dómkvaddra matsmanna haldnarformlegum annmörkum þar sem matsmenn stóðu ekki saman að rökstuddri matsgerð,eins og þeim bar skv. 1. mgr. 63. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991,heldur skiluðu hvor fyrir sig sinni álitsgerð. IIHinn 20. febrúar 2001, þegarstefnandi var átta vikna gömul, var hún lögð inn á bráðamóttöku barna og síðarvökudeild Landspítala vegna alvarlegrar sýkingar. Við innlögn var ástandstefnanda mjög alvarlegt. Var hún m.a. með háan hita, skerta meðvitund, öndunarerfiðleikaog lélega blóðrás. Ástandið bar öll merki alvarlegrar blóðsýkingar með losti ogblóðsýringu. Var henni gefinn vökvi í æð, sýklalyf og hún sett í öndunarvél.Þar sem ekki tókst að setja upp slagæðalegg í úlnliðsæð stefnanda var tekin súákvörðun að setja æðalegg upp í slagæð í olnbogabót sem er meginæð tilframhaldleggs og handar. Ástand stefnanda fór batnandi næstu klukkustundirnar áeftir. Blóðrásartruflanir urðu til hægri handar, sömu megin og slagæðaleggurvar, og var æðaleggurinn fjarlægður eftir um sex klukkustundir og heparíngefið. Um þetta leyti sýndi stefnandi einkenni um víðtæka storkuröskun og varmeð húðblæðingar svo og blæðingu í meltingarveg og öndunarveg, auk þess semfrávik voru í storkumælingum. Blóðrás til handar fór versnandi á næsta hálfasólarhring og komu fram örugg merki um blóðrásarþurrð. Framkvæmd varskurðaðgerð þar sem slagæðin var opnuð, segi sótaður úr og segalosandi lyfgefið beint í æðina til að takmarka umfang skaðans. Óafturkræfar vefjaskemmdirurðu á fingrum, stefnandi missti alla fingur hægri handar og fékk örvefsmyndunog kreppu um úlnlið.Stefnandi var með útbreiddastorkuröskun (DIC, blóðstorkusótt) sem greindist eftir að slagæðaleggurinn varfjarlægður. Þetta ástand jók á storkuhneigð og þá sérstaklega í smæstuslagæðum, eins og í fingrum. Storkuröskunsem þessi er þekktur fylgifiskur alvarlegra sýkinga. Auk þessara veikinda varstefnandi léttburi, vó 3,5 kg þegar veikindi hófust. Hún var til rannsóknavegna hjartagalla og síðar greindist hjá henni [...] heilkenni.Landlæknir sendi frá sér álitsgerð23. apríl 2003 með eftirfarandi niðurstöðu: „[A] fékk lífshættulegan sjúkdóm envegna réttrar meðferðar lifði hún hann af. Æðaleggur í slagæð í olnbogabót ollisegamyndun en hætta á slíku var aukin vegna undirliggjandi sýkingar ogblóðstorkusjúkdóms (DIC). Læknum var nauðugur einn kostur að setja legginn íolnbogabótina og síðan var brugðist rétt og ákveðið við mjög erfiðufylgivandamáli og á engan hátt er því unnt að áfellast lækna [A] fyrirvanrækslu eða mistök í starfi. Þvert á móti sinntu þeir henni mjög vel.“ Með bréfi lögmannsins 14. mars 2003til nefndar um ágreiningsmál samkvæmt þágildandi lögum um heilbrigðisþjónustunr. 97/1990 var farið fram á að nefndin gæfi álit sitt um ýmis tilgreind atriðimálsins. Hinn 3. júní 2004 sendi nefndin frá sér álitsgerð með þeirriniðurstöðu að ekki yrði talið að mistök hafi orðið hjá starfsfólki Landspítalavið meðferð áfrýjanda. Í forsendum álitsgerðarinnar sagði: „[A] var mjög hættkomin við innlögn ... og þar sem ekki reyndist unnt að setja upp nál meðvenjulegum hætti var gripið til þess ráðs að setja nál í slagæð til að fylgjastmeð blóðþrýstingi og blóðgösum hennar. Nefndin telur ljóst að þó ávallt fylgiþví hætta að setja nál í slagæð hafi slíkt verið nauðsynlegt í þessu tilvikivegna þess lífshættulega ástands er barnið var í við komu á sjúkrahúsið. Nálinvar tekin úr slagæðinni um það bil 6 klst. síðar þar sem fram komu merki umblóðrennslistruflanir. Ástand barnsins hafði lagast smám saman á þessum tíma enætlunin var þó að hafa nálina lengur í til að fylgjast með líðan hennar. Afframlögðum gögnum málsins telur nefndin að mat starfsfólks sjúkrahússins ánauðsyn þess að hafa nálina svo lengi í slagæðinni verði að teljast réttmætt.Barnið var í sjokkástandi sem lagaðist smám saman og því var nauðsynlegt aðfylgjast mjög náið með ástandi þess. Þegar merki sáust um blóðrennslistruflanirvar brugðist við og nálin fjarlægð. Er ljóst varð að tjón hafði orðið varleitað allra leiða til að draga úr tjóni hennar og telur nefndin að brugðisthafi verið eins vel við og unnt var miðað við aðstæður.“ Stefndi hefur hafnað bótakröfustefnanda og telur sig ekki bera bótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varðfyrir og höfðar stefnandi því mál þetta. IIIStefnandibyggir kröfu sína á því að tjón stefnanda megi rekja til mistaka við meðferðhennar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi 20. til 21. febrúar 2001. Stefnanditelur að meðferð á stefnanda hafi verið ófullnægjandi að þrennu leyti þannig aðuppfyllt séu skilyrði sakarreglunnar um saknæma háttsemi.Ífyrsta lagi telur stefnandi að ekki hafi verið forsvaranlegt að setja uppæðalegg í olnbogabót stefnanda með þeim hætti sem gert var, með tilliti tilþeirrar þekktu hættu sem af því gæti stafað. Stefnandi telur að almennt sétalið best að setja æðaleggi nálægt endum útlima, þ.e. við úlnliði eða ökkla,en sé það ekki mögulegt sé talið rétt að reyna að koma upp legg í slagæð íholhönd eða í nára. Í ljósi aðstæðna, þ.e. að grunur hafi verið um blóðsýkingu,telur stefnandi ámælisvert að setja upp æðalegginn á þessum stað, enda varyfirvofandi hætta á myndun blóðtappa. Stefnandi telur að frekar hefði átt aðsetja hann upp í náraslagæð eða nafla, en hvorug þeirra lausna var reynd, eðagera frekari tilraunir til að setja upp æðalegginn í úlnliðsæð. Í það minnstasé ljóst að stefnandi hefði ekki orðið fyrir því tjóni á hægri hönd sem raunber vitni, hefði slagæðaleggnum verið komið fyrir á öðrum og áhættuminni staðog því hefði átt að reyna allar tiltækar leiðir til þess að komast hjá því aðkoma æðaleggnum fyrir á þeim stað sem gert var.Íöðru lagi telur stefnandi að ekki hafi verið forsvaranlegt að hafa æðalegginnsvo lengi í slagæðinni sem raun bar vitni og eftir að almennt ástand stefnandahafði batnað verulega og vísar í vottorði læknisins E en þar segir: „Meðferðiná næstu klukkustundum beindist að því að stabilisera blóðþrýstinginn ogblóðrásina. Jafnframt var sýkingin meðhöndluð. Ástand stelpunnar lagaðist vonbráðar, en þegar frá leið fóru að koma í ljós blóðrásartruflanir til hægri handarinnar,þeim megin sem nálin sat í artera brachialis. Nálin var því fjarlægð eftir aðhafa legið þar í um 6 klst. Telpan var þá komin úr hættulegasta ástandinu ogblóðrásin orðin viðunandi.“ Einnig er vísað til orða F fyrir dómi 22. nóvember2012 þar sem hann sagði eftirfarandi: „Og það eitt var ljóst að fljótlega,þ.e.a.s. eftir kannski einn til tvo klukkutíma, þá fannst okkur eins og þaðværi – við værum á réttri leið með að bjarga lífi hennar ...“ Stefnandi telurað þrátt fyrir að almennt ástand stefnanda hafi batnað verulega á fyrstuklukkustundunum hafi æðaleggurinn verið hafður í handlegg stefnanda svo lengisem raun bar vitni. Stefnandi telur að við þessar aðstæður hefði stöðugteftirlit átt að vera með blóðrás hennar og aðallega að fjarlægja hefði áttnálina úr hönd hennar um leið og ljóst var að ástand hennar fór batnandi. Þábendir stefnandi á að óljóst sé út frá gögnum málsins með hvaða hætti eftirlitimeð nálinni og blóðflæði fram í höndina var háttað þessar sex klukkustundir semliðu frá því að nálin var sett í og þar til hún var fjarlægð. Í dagnótu Flæknis, segir að sérstaklega hafi verið fylgst með hægri handlegg og hönd ogþar hafi fundist góðir púlsar fyrstu klukkutímana. Stefnandi bendir á að ságalli sé á þessari skráningu að ekki sé um samtímaskráningu að ræða, heldur sénótan rituð daginn eftir á milli kl. hálfþrjú og hálffimm. Í hjúkrunarskýrslusé ekkert skráð um ástand handarinnar, eingöngu að nálin hafi verið sett íhandlegginn og það næsta sem er skráð er að nálin hafi verið tekin úr hendinnikl. 21. Stefnandi telur því að eftirliti með nálinni hafi verið ábótavant.Eftir að nálin var fjárlægð var ekki talin þörf á að setja upp aðra nál annarsstaðar í staðinn, í ljósi þess að ástand stefnanda var skárra og hafði fariðbatnandi í einhvern tíma. Íþriðja lagi telur stefnandi að of langur tími hafi liðið frá því aðblóðrásartruflanir komu í ljós í hendinni og þar til gripið var til aðgerða,þ.e. í fyrsta lagi að gefa heparín-meðferð og í öðru lagi að hafa samband viðæðaskurðlækni og grípa til skurðaðgerðar. Tíminn sem leið frá því aðæðaleggurinn var fjarlægður og þar til skurðaðgerð hófst voru sautján og hálfklukkustund. Að mati stefnanda var læknismeðferð verulega ábótavant í kjölfarþess að slagæðaleggurinn var fjarlægður og þar til skurðaðgerð var framkvæmd. Stefnandivar vegna skerts blóðflæðis sett á heparín-dreypi um kl. 1:30 eftir miðnætti21. febrúar, eða fjórum og hálfri klukkustund frá því að nálin var fjarlægð,þar sem blóðflæði var lélegt í hönd og fingrum, háræðafylling var mjög léleg envirtist lagast eitthvað við meðferðina en fingurnir voru þó áfram svipaðir.Reynt var að halda hita á hendinni með notkun heitra bakstra til þess að aukaæðavíkkun. Stefnandikveður að ástand handarinnar hafi versnaði eftir því sem leið á nóttina án þessað nokkuð hafi verið að gert. Það var ekki fyrr en um 12 klukkustundum eftir aðnálin var fjarlægð, eða um klukkan 9:00 um morguninn, þegar allt er komið íóefni, að læknar fóru að ræða viðbrögð við þeirri stöðu sem hafði fengið aðmalla óáreitt alla nóttina. Fyrstu viðbrögð voru að leita eftir ráðleggingumýmissa sérfræðinga og fór langur tími í að senda út álitsbeiðnir og bíða eftirsvörum. Í ljósi þess að síðustu tólf klukkustundirnar hafði ástand handarstefnanda ekkert skánað, orsök þess lá fyrir og hvaða möguleikar voru í boðitelur stefnandi ljóst að þann tíma hefði átt að nýta til þess að ræða viðsérfræðinga og skipuleggja viðbrögð í stað þess að bíða þar til allt var komiðí óefni.Stefnandibendir á að B sérfræðingur í blóðsjúkdómum hafi gefið það álit að að strax yrðiað gera skurðaðgerð og hafi það legið fyrir um kl. 9.30 að morgni 21. febrúar.Þrátt fyrir álit B liðu ennþá fjórar klukkustundir frá því að álit hans láfyrir þar til haft var samband við G æðaskurðlækni. Hann taldi að frá upphafihafi ekkert komið til greina nema skurðaðgerð. Meðvísan til framangreinds telur stefnandi því sannað að hefði verið haft sambandvið æðaskurðlækni strax þegar ljóst var að blóðflæði var orðið slæmt tilhandarinnar og áður en drep tók að myndast í fingrum og hönd stefnanda, það erstrax að kvöldi 20. febrúar eða snemma aðfaranótt 21. febrúar, hefði aðgerð áhandlegg stefnanda verið framkvæmd mun fyrr. Þar sem það dróst hins vegar aðkalla til æðaskurðlækni hafði höndin þegar orðið fyrir óafturkræfum skaða þegarhann loksins kom að málinu. Þannig telur stefnandi sannað að töfin hafi ekkiorðið vegna þess að almennt heilsufar stefnanda hafi komið í veg fyrirskurðaðgerð mun fyrr, heldur vegna þess að ráðagerðir lækna um viðbrögð hófustof seint og þar af leiðandi tafðist að taka ákvörðun um skurðaðgerð og að húnyrði framkvæmd. Stefnandi telur að þessi töf sem varð á því að gripið væri tilaðgerðar með heparín-meðferð annars vegar og þar til ráðist var í að fá álitæðaskurðlæknis á ástandinu, sé óréttlætanleg þannig að feli í sér saknæmaháttsemi sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Stefnandi byggir kröfur sínar áákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 5.-7. gr. svo og á almennusakarreglunni, reglunni um vinnuveitandaábyrgð og 2. mgr. 9. gr. þágildandilæknalaga nr. 53/1988. Jafnframt er byggt á ákvæðum laga um sjúklingatryggingunr. 111/2000. Um vexti og dráttarvexti vísast til laga um vexti ogverðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um málskostnað byggist á 130. og 131. gr. laganr. 91/1991 um meðferð einkamála. IVStefndihafnar því að saknæmri eða ólögmætri háttsemi hafi verið til að dreifa af hálfustarfsmanna spítalans. Stefndi vísar til álits Landlæknis frá 23. apríl 2003.Álitsgerðin sé ítarleg þar sem farið er yfir vandamál þau og aðstæður sem uppkomu í febrúarmánuði 2001. Taldi landlæknir að í reynd snerist málið um tvöatriði. Annars vegar hvort réttlætanlegt hafi verið að setja slagæðarnál íolnbogabót og hins vegar hvort brugðist hafi verið nægjanlega hratt við meðaðgerðum þegar ljóst var að blóðrásartruflun í meginslagæð hafði orðið. Stefndi vísar til álitslandlæknis og áréttar það sem þar kemur fram og að læknar og starfsmennLandspítala hafi bjargað lífi stefnanda við mjög erfiðar aðstæður. Stefnandihafi fengið lífshættulegan sjúkdóm en lifað hann af vegna réttrar meðferðar.Ekki verði annað ráðið en að læknar stefnanda hafi gert allt sem í þeirra valdistóð til þess að bjarga lífi hennar, sem tókst, og hafi þeir brugðist viðerfiðu fylgivandamáli á hárréttan, yfirvegaðan og ákveðinn hátt. Sé það einnigálit landlæknis að á engan hátt sé unnt að áfellast lækna stefnanda fyrirvanrækslu eða mistök í starfi. Þvert á móti hafi þeir sinnt stefnanda mjög vel. Þá hafi einnig verið leitað tilnefndar um ágreiningsmál, samkvæmt þágildandi lögum 97/1990 umheilbrigðisþjónustu. Álit nefndarinnar liggi frammi í málinu með þeirriniðurstöðu að ekki hefðu orðið mistök hjá starfsfólki Landspítala við meðferðstefnanda í febrúar 2001. Stefndi telur að vart þurfi aðtaka fram að bótaréttur á grundvelli laga um sjúklingatryggingar byggi ekki ásök starfsmanna stefndu og afstaða Sjúkratrygginga Íslands til greiðslu bóta áþeim grundvelli hafi engin áhrif á málatilbúnað stefnda í málinu. Málsástæðurþær sem bornar séu fram af stefnanda, þess efnis að mistök á Landspítala hafivaldið stefnanda líkamstjóni, séu ekki studdar sérfræðilegum gögnum eða rökumsem hald sé í. Þvert á móti sýni gögn málsins að staðið var að meðferðstefnanda á réttan og tilhlýðilegan hátt. Fyrir liggi gögn í málinu sem hrekja málsástæðurþær sem stefnandi heldur uppi. Byggir stefndi á því að óraunhæft sé að fullyrðaeins og gert sé í stefnu að koma hefði mátt í veg fyrir tjón með annarrimeðferð. Í fyrsta lagi byggir stefnandi áþví að ekki hafi verið forsvaranlegt að setja upp æðalegg í olnbogabótstefnanda með þeim hætti sem gert var. Þessu hafnar stefndi. Fullyrðingarstefnanda séu ekki studdar sérfræðilegum rökum eða gögnum. Þá liggi ekki fyrirsönnun þess að aðrar aðgerðir sem nefndar séu hefðu komið í veg fyrir tjón. Séítrekað að álitsgerðir þær sem fyrir liggja í málinu slá því föstu að réttilegahafi verið staðið að þegar leggur var settur í olnbogabót og hafi aðraraðferðir verið síst betri eða óraunhæfar. Nauðsynlegt hafi verið og rétt aðhafa nál í slagæð stefnanda og tryggja aðgang að slagæðarblóði eins og háttaðitil um ástand hennar sem fyrr er lýst. Byggir stefndi á því að mat lækna ogathafnir þeirra hafi verið réttar og að því hafi í engu verið hnekkt afstefnanda hálfu. Telur stefndi með öllu óraunhæft að komist hefði verið hjátjóni ef slagæðarleggurinn hefði verið þræddur annars staðar. Engin sérfræðilegrök eða gögn liggja að baki þessum fullyrðingum af hálfu stefnanda. Í öðru lagi byggir stefnandi áþví að ekki hafi verið forsvaranlegt að hafa nálina svo lengi í slagæðinni semraun bar vitni. Þessu hafnar stefndi. Tilgátur í stefnu séu ekki studdar gögnumeða sérfræðilegum rökum. Þá sé ósannað að aðferðir þær sem nefndar séu í stefnuhefðu komið í veg fyrir tjón. Stefndi bendir á að leggurinn var alls ekki of lengií æðinni. Komi það fram í málinu að við aðstæður sem þessar hafi veriðnauðsynlegt að hafa aðgang að slagæðarblóði og helst eins lengi og þörf væri á.Þótt áhætta fylgi því að setja nál í slagæð hafi það verið nauðsynlegt ítilviki stefnanda vegna hins lífshættulega ástands sem hún var í. Nálin varfjarlægð þegar blóðrásartruflana varð vart í framhandlegg og hönd, þóttæskilegt hefði verið að hafa aðgang að slagæðarblóði lengur. Hvergi sé kominfram vísbending eða sönnun þess að taka hefði átt nálina fyrr úr eða að þaðhefði komið í veg fyrir tjón. Í stefnu séu túlkuð ummæli E og framburður F.Stefndi telur ályktanir þær sem dregnar séu í stefnu ekki haldbærar. Ekki séunnt að fallast á að skráning F í dagnótu sé gölluð; hún sé þvert á móti nákvæmog greinargóð. Ljóst sé að læknar og hjúkrunarfólk fylgdist vel með ástandistefnanda. Ekkert bendi til þess að tjón hafi hlotist af því hve lengi nálinvar í æðinni. Að öðru leyti séu í stefnu ýmsar ályktanir um þennan þátt málsinssem ekki séu studdar gögnum eða sérfræðilegum rökum. Í þriðja lagi byggir stefnandi áþví að of langur tími hafi liðið frá því að blóðrásartruflanir komu í ljós íhendinni þar til gripið var til skurðaðgerðar. Fullyrðingar af hálfu stefnandaþessa efnis séu aðeins rökstuddar með því að gerð sé grein fyrir því hve langurtími hafi liðið í klukkustundum uns aðgerð var framkvæmd, öllum hafi veriðljóst í hvað stefndi og að ekkert hafi réttlætt svo langan tíma þótt leitaðhafi verið til ýmissa lækna, hérlendis og erlendis við ráðagerðir. Tímatalningí stefnu sé afar hæpin og sett fram með einföldun án þess að gerð sé greinfyrir því hvernig ástand stefnanda þróaðist á þessum tíma. Stefndi mótmælir þvíað liðið hafi of langur tími uns aðgerð var framkvæmd. Engin sönnun sé kominfram um að ástæða hafi verið til að gera aðgerð fyrr eða að það hefði breytteinhverju eða komið í veg fyrir tjón. Ber enn að sama brunni í málatilbúnaðistefnanda að kenningar í stefnu og fullyrðingar um saknæma háttsemi séu ekkistuddar sérfræðilegum gögnum eða rökum. Stefndi byggir á því að í reynd séuþessi atriði tæmd í áliti landlæknis og nefndar þeirrar sem um málið fjallaði.Aðgerðir eins og sú sem gerð var séu áhættusamar og erfiðar. Frekar sétilhneiging til að bíða með slíka aðgerð en framkvæma hana fyrr og urðu læknarað meta hvort forsvaranlegt væri að framkvæma aðgerðina, sem ekki hafði veriðgerð áður hér á landi á svo ungu barni. Stefndi telur að réttara hafi verið aðgefa blóðþynnandi lyf og bíða átekta. Ástandið batnaði þá, en versnaði síðan ogvar þá lagt á ráðin um frekari úrræði. Aðgerð var þá ákveðin og gerð samdægurs. Stefndi bendir á að veikindistefnanda gerðu það að verkum að það að svæfa stefnanda og senda í aðgerð myndihafa í för með sér umtalsverða áhættu fyrir hana. Því var leitað allra annarraráða fyrst til að bjarga hendinni. Eftir að æðaleggurinn hafði verið fjarlægðurlagaðist blóðrás fram í höndina tímabundið, en versnaði aftur. Þá var gefiðblóðþynningarlyf (Heparín). Virtist blóðrásin þá batna en þegar frá leiðversnaði hún aftur. Var kannað hvort raunhæft væri að setja stefnanda á almennasegaleysandi meðferð og haft samband við B blóðmeinafræðing sem ráðfærði sigvið lækna vestanhafs. Töldu þeir það ekki ráðlegt vegna mikillarblæðingarhættu. Þá var haft samband við röntgenlækni og kannað hvort hægt væriað gefa segaleysandi meðferð beint í slagæðina þar sem blóðtappinn var í. Taldihann það ekki raunhæft vegna smæðar stefnanda. Þar sem útséð var um aðlyfjameðferð gæti hjálpað stefnanda var haft samband við æðaskurðlækni og ákvaðhann að taka stefnanda til aðgerðar tafarlaust sem gert var. Stefndi byggir á því að ekkihafi verið um óeðlilega töf að ræða. Eftir að leggurinn var fjarlægður þurftiað bíða eftir því hvort blóðrás fram í höndina myndi lagast. Þá sé ítrekað aðheparín-meðferð virtist lofa góðu en ástandið hafi versnað aftur og var þáathugað með segaleysandi meðferð. Tíma tók að fá álit sérfræðinga umlyfjameðferð og ekki verður horft fram hjá klínísku mati lækna um hvorthættandi væri á að færa stefnanda til aðgerðar. Stefndi bendir á að ekki sé réttað fara hefði átt í aðgerð umsvifalaust og ljóst sé að það hefði ekki breyttneinu til batnaðar í tilviki stefnanda. Verði einnig að hafa í huga að læknarmátu ástand stefnanda klínískt og að ekki var forsvaranlegt að gera aðgerð fyrren þeir treystu ungabarni í þessum lífsháska til að gangast undir hana. Byggirstefndi á því að engri saknæmri háttsemi sé til að dreifa við þær aðstæður aðlæknar hafi tekið sér umþóttunartíma, reynt og kannað úrræði uns ákveðið var aðgera slagæðarþræðingu á svo ungu barni. Stefndi bendir á að engu skiptiþótt stefnandi hefði gengist undir aðgerð fyrr eða æðaskurðlæknir hefði veriðkvaddur til fyrr. Eftirlit um nóttina var fullnægjandi og ekki sé rétt aðekkert hafi verið gert við versnandi ástand. Þá séu að mati stefnda ekkidregnar réttar ályktanir af nótu og framburði B sérfræðings en svar hans varekki afdráttarlaust og ráðlagði hann áfram heparín-meðferð og að fylgst yrðimeð blóðstatus. Stefndi telur ekki réttar ályktanir dregnar af framburði G, enhann gaf skýrslu um síma og kom ekki að málinu á sama hátt og þeir sérfræðingarsem mátu ástand stefnanda um nóttina og fyrr. Stefndi byggir einnig á því aðvið mat á bótaskilyrðum sé óhjákvæmilegt að líta til þess að stefnandi var íbráðri lífshættu. Óraunhæft sé með öllu að fella sakarábyrgð á lækna eðastarfsfólk stefnda við þessar aðstæður þegar leitað var allra úrræða til aðbjarga lífi stefnanda. Ef litið yrði svo á að saknæmri háttsemi væri til aðdreifa gildir hér það sjónarmið neyðarréttar sem viðurkennt sé í skaðabótaréttiað bjarga verður meiri hagsmunum fyrir minni. Bæri því að sýkna einnig í þvítilviki.V Hinn 25. júlí 2013, eða eftir uppkvaðningu héraðsdóms ogmeðan málið var undir áfrýjun, voru dómkvaddir á grundvelli matsbeiðni frástefnanda, þau H, sérfræðingur í almennum skurðlækningum og æðaskurðlækningumog I, sérfræðingur í barnalækningum, barnagjörgæslu og svæfinga- oggjörgæslulækningum. Skiluðu þau hvort sínum skriflegum niðurstöðum 13. ágúst2013. Matsmennirnir stóðu ekki saman að rökstuddri matsgerð, svo sem þeim barsamkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991, heldur létu þeir frá sér fara tværólíkar og innbyrðis misvísandi álitsgerðir. Hæstiréttur taldi því aðmatsgerðirnar gætu ekki haft það sönnunargildi sem stefnt var að meðdómkvaðningu matsmannanna. Því verða þær ekki lagðar til grundvallar í máliþessu. Hinn 4. maí 2015 voru þeir J,yfirlæknir barnaskurðdeildar háskólasjúkrahússins í Lundi, og K, sérfræðingur íbarna- og nýburalækningum við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi, dómkvaddirtil að gera matsgerð í máli stefnanda og var hún lögð fram í dómi 15. september2015. Þar kemur fram, sem svar við fyrstu spurningu, að forsvaranlegt hafiverið að setja upp nál í slagæð í olnbogabót stefnanda. Þeir telja það einnighafa verið forsvaranlegt að hafa æðalegginn svo lengi í slagæðinni íolnbogabótinni sem raun bar vitni. Þriðja matsspurning lýtur að því hvort oflangur tími hafi liðið frá því að blóðrásartruflanir komu í ljós í höndstefnanda þar til gripið var til skurðaðgerðar. Matsmenn telja að það hefðimátt hafa samband við blóðmeinafræðing og æðaskurðlækni fyrr en gert var, enóljóst sé hvort það hefði leitt til minni skaða en varð. Þeir telja aðhugsanlega hefði stefnandi getað farið í aðgerð strax morguninn eftir þegarljóst var að heparín lagaði ekki blóðrás og þegar tilkallaðir sérfræðilæknarhefðu verið búnir að leita ráða kollega sinna erlendis. Þeir telja að ekkert séhægt að segja um það hvort það hefði breytt útkomunni hefði aðgerðin verið gerðeinhverjum klukkustundum fyrr. Í fjórða lagi er spurt hvort ætla megi að hægthefði verið að takmarka eða koma í veg fyrir tjón stefnanda ef læknismeðferðhennar hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þáþekkingu og reynslu sem fyrir hendi var á þeim tíma. Matsmenn telja aðhugsanlega hefði mátt takmarka tjón stefnanda ef aðgerðin hefði verið framkvæmdfyrr, ef ástand hennar hefði leyft það. Þeir benda einnig á að hugsanlega hefðilífi hennar verið bjargað með þeirri meðferð sem hún fékk sem hafði þærafleiðingar sem raun ber vitni. Þeir telja að engan veginn sé tryggt að bestamögulega meðferð hefði bjargað henni frá tjóni af þeim toga sem varð. Sem svarvið því hvort orsakatengsl séu á milli tjóns telpunnar og einhverra þeirraatvika sem nefnd eru í 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúkratryggingar bendamatsmenn á 4. lið ákvæðisins. Að lokum telja matsmenn að stefnandi hafi veriðfársjúk og þrátt fyrir það sé erfitt að rekja tjón hennar til annars en þeirrameðferðar sem hún fékk með æðalegg í slagæð í olnbogabót. VIÍ gögnum málsins er því lýst aðstefnandi hafi komið mjög veik á Landspítalann 20. febrúar 2001. Hún var meðskerta meðvitund, háan hita, öndunarerfiðleika og einkenni blóðsýkingar. Hennivar gefið sýklalyf og vökvi og í framhaldi var hún lögð inn á Vökudeild umklukkan 13.30 og sett þar til meðferðar í einangrun. Um klukkan 15.00 varsettur æðaleggur í slagæð rétt fyrir ofan olnbogabót hægri handar, eftir aðgerðar höfðu verið ítrekaðar tilraunir til að stinga á úlnliðsslagæðum, sem ervenjuleg staðsetning, og leitað hafði verið eftir slagæðum á fæti. Leggurinnþjónaði þeim tilgangi að gera meðferðaraðilum meðal annars kleift að fylgjastmeð blóðþrýstingi og taka blóðsýni. Því er lýst í læknaskýrslum og einniglýstu læknar því fyrir dóminum að stefnanda hafi vart verið hugað líf í byrjunmeðferðar. Húðblæðingar og blæðingar frá öndunarvegi birtust síðar í ferlinusem taldar voru einkenni um blóðsýkingu og storkuröskun. Sýklalyf voru gefintafarlaust, vökvajafnvægi leiðrétt, blóðsýring leiðrétt með bíkarbónati ogstefnandi var sett í öndunarvél. Síðar var einnig gefið blóð og heparín.Krafa stefnanda í málinu er í fyrstalagi byggð á því að ekki hafi verið forsvaranlegt að setja æðalegg upp íslagæð í olnbogabót. Þessi málsástæða stefnanda er studd þeim rökum að frekarhefði átt að setja æðalegginn nálægt endum útlima, þ.e. við úlnliði eða ökkla,en sé það ekki mögulegt sé talið rétt að reyna að koma upp legg í slagæð íholhönd eða í nára. Með því hefði verið hægt að komast hjá því tjóni semstefnandi varð fyrir.Lokun meginæða til útlima hefurafdrifaríkari afleiðingar en lokun smærri slagæða í enda útlima en þar getavararásir tekið við blóðflæði. Í gögnum málsins kemur fram að ítrekað var reyntað setja æðalegginn upp í úlnliðsslagæð en það tókst ekki. Dómurinn telurótvírætt að þessi kostur hafi verið reyndur til þrautar. Þá verður að telja aðsama hætta hefði fylgt því að setja legginn í æð í nára eða í holhönd enblóðtappi, sem hætta var á að gæti myndast í sambandi við þann æðaaðgang, hefðiá sama hátt getað framkallað hættu á blóðrásartruflunum til viðkomandiganglims. Fram hefur komið að kannað var hvort unnt væri að setja æðalegg ífætur en svo reyndist ekki vera. Dómurinn telur ljóst af því sem fyrir liggur ímálinu að nauðsynlegt hafi verið að hafa aðgengi í slagæð til þess að unnt væriað veita stúlkunni þá læknishjálp sem hún var í bráðri þörf fyrir í þvílífshættulega ástandi sem hún var í. Fullreynt var að finna eða stinga ígreinaðar slagæðar við úlnlið og rist og var læknum því nauðugur sá kostur aðsetja í ógreinaða meginslagæð, þrátt fyrir þekkta áhættu sem því myndi fylgja.Af þessu leiðir að hafna verður þeirri málsástæðu stefnanda að ekki hafi veriðforsvaranlegt að setja æðalegg upp í slagæð í olnbogabót með þeim hætti semgert var og að hægt hefði verið að komast hjá því líkamstjóni sem stefnandivarð fyrir.Í öðru lagi er krafa stefnanda byggðá því að ekki hafi verið forsvaranlegt að hafa æðalegginn svo lengi í æðinnisem raun bar vitni. Hönd stefnanda hafi verið orðin verulega köld viðkomu áðuren nálin var fjarlægð. Ekki hafi þurft að setja upp annan legg eftir að nálinvar fjarlægð úr olnbogabótinni en þá hafi verið ljóst að ástand stefnanda fórbatnandi. Því hljóti að hafa verið óþarft að hafa nálina í hendi stefnanda.Miðað við augljósa áhættu af því að setja nálina upp í olnbogabót og það aðástand stefnanda hafi verið orðið nægilega gott einhverju áður, hefði átt aðfjarlægja nálina mun fyrr en gert var. Stefnandi telur að þannig hefði veriðhægt að komast hjá því stórfellda tjóni sem stefnandi varð fyrir í kjölfarið.Við skýrslutökur fyrir dóminum komfram að einkenni um byrjandi blóðrásartruflanir sáust á meðan æðaleggurinn varenn í slagæðinni. L barnahjartalæknir lýsti því fyrir dóminum að hann hefðitalað um það við læknana sem meðhöndluðu stefnanda hvort ekki væri rétt aðfjarlægja nálina, fyrst síðdegis og síðan aftur um kvöldið. Faðir stefnandalýsti því að höndin hafi verið köld viðkomu um klukkan 18.00 til 19.00. Ídagnótu F læknis kemur fram að góðir púlsar hafi þreifast fyrstu klukkutímana.Við þessar aðstæður er ljóst að taka þurfti ákvörðun um nauðsyn þess að hafaæðalegginn áfram og meta áhættu á móti ávinningi. Með slagæðalegg var unnt aðhlífa stefnanda við stungum vegna töku blóðsýna, fá betri blóðsýni og fylgjastnáið með blóðþrýstingi. Í gögnummálsins sést að klukkan 19.28 sýndi blóðsýni áfram hátt laktat gildi (Laktat9,1, viðmið < 1,6 mmol/L, merki um sýringu vefja) og klukkan 18.02 varblóðleysi (Hemoglobin 81) og blóðgjöf að hefjast. Þetta sýnir að þörf var ááframhaldandi mælingum til eftirfylgdar. Þá var því lýst við vitnaleiðslur aðum kvöldið hafi komið fram húðblæðingar og blóð í magasondu og barkatúbu semeinnig kallaði á eftirfylgd blóðrauða og storkuþátta. Þannig álykta hinirsérfróðu meðdómsmenn að þótt barninu sé lýst batnandi hafi enn verið umtalsverðveikindamerki og ekki rétt að áfellast lækna fyrir það mat að leggurinn gerðimeira gagn en ógagn. Samskipti barnahjartalæknis og nýburalækna um æðalegginnvísa á meðvitaða ákvarðanatöku um að halda honum, jafnvel þótt vitað sé umáhættu honum tengda og teikn um blóðflæðisröskun. Það að fjarlægja æðalegginnáður en það var tímabært hefði í versta falli leitt til þarfar á að setja uppnýjan legg í aðra slagæð með hættu á sambærilegum aukaverkunum.Hér verður að líta svo á að læknarsem báru ábyrgð á meðhöndlun stefnanda hafi tekið afstöðu til þess að ótímabærthafi verið að fjarlægja æðalegginn þegar ekki var fyllilega ljóst hvert stefndiog að það yrði ekki gert fyrr en ástand stefnanda væri orðið betra. Af gögnummálsins verður ráðið að það hafi ekki verið fyrr en um kvöldið þegar stefnandivar kominn yfir það versta og var æðaleggurinn þá fjarlægður klukkan 21.00. Meðþví að draga að fjarlægja æðalegginn var vissulega tekin áhætta en hana verðurþó að telja minni en áhættuna sem hefði fylgt því að taka hann úr slagæðinni offljótt. Þótt ekki hafi reynst nauðsynlegt að setja nýjan æðalegg í slagæðverður það ekki talið til marks um að leggurinn hafi verið hafður of lengi íslagæðinni í olnbogabótinni. Dómurinn telur að þarna hafi verið rétt að verkistaðið og viðbrögð í samræmi við það sem við megi búast við slíkar aðstæður semþarna voru. Ber með vísan til þess að hafna þeirri málsástæðu stefnanda aðæðaleggurinn hafi verið hafður of lengi í slagæðinni þannig að metið verðilæknum Landspítalans, sem meðhöndluðu stefnanda, til sakar.Þá er í þriðja lagi byggt á því afhálfu stefnanda að of langur tími hafi liðið frá því að blóðrásartruflanir komuí ljós í hendinni og þar til gripið var til skurðaðgerðar til að leysa þannvanda sem upp var kominn. Liðið hafi 17 og hálf klukkustund frá því að uppkomst um skert blóðflæði til handarinnar og þar til skurðaðgerðin byrjaðiklukkan 14.30 næsta dag.Í gögnum málsins kemur fram og þvívar jafnframt lýst ítarlega fyrir dóminum hvernig málin þróuðust frá því aðblóðrásartruflanir komu í ljós seinni hluta dags 20. febrúar 2001 þar tilgripið var til skurðaðgerðar eftir hádegi næsta dag. Eftir að æðaleggurinn varfjarlægður um kvöldið fór ástand handarinnar fyrst á eftir batnandi en þá vargefið lyfið heparin til að varna frekari storkumyndun. Fylgst var með stefnandaum nóttina og í skráningu hjúkrunar á kvöldvakt er eftirfarandi lýst eftir aðleggurinn var fjarlægður: „húðin er marmoreruð og köld en þó betra útlit en fyrst“.Skráning næturvaktar fjallar um að sett hafi verið heparíndreypi „þar sem h.hönd og fingur voru mjög illa perf. og fingur rauðbláir, háræðafylling var mjögléleg, virtist aðeins lagast við meðferðina en fingur áfram svipaðir“.Þegar leið að morgni komu hins vegarfram enn alvarlegri einkenni um skert/upphafið blóðflæði til handarinnar. Íbréfi E 9. mars 2001 er því lýst þannig: „þegar leið undir morgun daginn eftiróhappið, þ.e.a.s. um það bil 10 klukkustundum eftir að nálin var fjarlægð úrslagæðinni versnaði blóðrásin aftur fram til handarinnar og var sýnilegt aðilla stefndi með líf í hendinni og fingrunum“. Var þá brugðist við og haftsamráð við blóðmeinasérfræðing um klukkan 8.30, meðal annars til að fá svarvið spurningu um notkun segaleysandi lyfja og síðan myndgreiningarlækni meðfyrirspurn um mögulega æðaþræðingu og staðbundna segameðferð. Niðurstaðan afþví varð sú að þessar aðferðir töldust annars vegar of áhættusamar vegnablæðingarhættu og hins vegar ekki tæknilega framkvæmanlegar vegna smæðarbarnsins. Var þá talinn sá eini kostur mögulegur að draga úr skaða á höndstefnanda með skurðaðgerð. Var þá haft samband við æðaskurðlækni sem brástfljótt við en það var samkvæmt því sem fram hefur komið milli klukkan 13.00 og14.00. Læknarnir sem meðhöndluðu stefnanda, F barnalæknir og E, yfirlæknir ávökudeild, báru báðir fyrir dóminum að almennt ástand stefnanda hafi verið þaðslæmt að ekki hafi komið til álita að hún færi í fulla svæfingu og skurðaðgerðfyrr en ástandið var orðið betra sem þeir töldu fyrst vera að morgni 21.febrúar. Dómurinn tekur undir það sjónarmiðstefnanda að eðlilegt hefði verið að hafa fyrr samráð og upplýsa skurðlækni,þegar vakað er yfir fylgikvilla sem líklegur er til að krefjast aðgerðar,þannig að þegar sjúklingur er hæfur til aðgerðar sé hægt að bregðast skjótarvið. Þannig dróst skurðaðgerðin án þess að slík töf hafi verið réttlætt, envarð þó ekki nema í mesta lagi fjórar til fimm klukkustundir, en ekki 17 oghálf klukkustund eins og stefnandi byggir á. Af gögnum málsins og framburðilæknanna fyrir dóminum um ástand handarinnar þykir ljóst að mjög alvarlegeinkenni um skert blóðflæði höfðu komið fram að morgni 21. febrúar meðgreinilegum litaskilum um miðjan framhandlegg og rauðbláa fingur. Hinir sérfróðu meðdómsmenn telja að umfang þessskaða sem um ræðir hafi þá verið orðið það mikið, að ekki hafi verið unnt aðbjarga allri hendinni, þótt eðlilega hafi verið tekin ákvörðun um að grípa tilallra mögulegra úrræða til þess að takmarka tjónið eins og hægt var. Ósannaðverður því að telja að töf á skurðaðgerð um fjórar til fimmklukkustundir hefði breytt markvert endanlegri útkomu.Dómurinn tekur undir það sjónarmiðstefnanda að Heparíngjöf hefði gjarnan mátt byrja fyrr en raun varð á, en tekurundir vitnisburð J um að það hefi ólíklega breytt nokkru um tjón stefnanda.Stefnandi var með útbreiddablóðstorkusótt sem eðlilegt má telja að hafi átt meðvirkandi þátt í gangimála. Drep í fingrum er fylgikvilli þessa sjúkdóms svo og þeirrar nauðsynlegumeðferðar sem stefnandi fékk. Meðferðin er vandasöm og á tíðum verið að veljamilli slæmra kosta, eins og að hafa hættulegan slagæðalegg eða engan, eða aðgefa segalausn, gera aðgerð eða bíða átekta. Val á meðferðarúrræðum felur í sérað meta áhættu og ekki verður annað séð en að læknar, sem meðhöndluðustefnanda á Landspítalanum, hafi fylgst með ástandi stefnanda og brugðist afyfirvegun við álitamálum um meðferð.Að þessu virtu er ekki unnt aðfallast á þau rök stefnanda að allt of langur tími hafi liðið þar til gripiðvar til skurðaðgerðar, einkum þegar litið er til þess að læknar treystustefnanda ekki í slíka aðgerð fyrr en að morgni síðari dagsins. Ber því aðhafna þeirri málsástæðu stefnanda að ekki hafi verið brugðist nægilega hrattvið með því að of langur tími hafi liðið frá því að blóðrásartruflanir komu íljós þar til gripið var til skurðaðgerðar.Að fenginni þessari niðurstöðu erekki unnt að fallast á að stefnandi hafi sýnt fram á að tjón stefnanda verðirakið til mistaka við læknismeðferð hennar á Landspítalanum 20. og 21. febrúar2001. Skilyrði skaðabótaskyldu eru þar með ekki fyrir hendi og ber með vísantil þess að sýkna stefnda, íslenska ríkið, af kröfum stefnanda um að bótaskyldastefnda verði viðurkennd með dómi.Rétt þykir að málskostnaður í þessumþætti málsins falli niður.Gjafsóknarkostnaður stefnandagreiðist úr ríkissjóð, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Evu HrannarJónsdóttur, hrl., sem þykir hæfilega ákveðin í svo sem greini í dómsorði.Dóminn kvað upp Sigrún Guðmundsdóttirhéraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Gróu Björk Jóhannesdóttur barnalækni ogGuðmundi Valtý Óskarssyni æðaskurðlækni.D ó m s o r ð:Stefnda,íslenska ríkið, er sýknað af kröfu stefnanda, A um að viðurkennd verðiskaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns hennar á hægri hönd, er hún varðfyrir í kjölfar læknismeðferðar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi 20 til 21.febrúar 2001. Málskostnaður fellur niður.Gjafsóknarkostnaður stefnandagreiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Evu HrannarJónsdóttur 400.000 krónur. |
Mál nr. 349/2017 | Kærumál Kæruheimild Frávísun frá Hæstarétti | X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem L var veitt heimild til húsleitar á heimili hans. Þar sem húsleitin hafði þegar farið fram var málinu vísað frá Hæstarétti, sbr. 3. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og KarlAxelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júní2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður erúrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. júní 2017, þar sem sóknaraðila var veittheimild til húsleitar á heimili varnaraðila að [...]. Kæruheimild er í h. lið1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallegaað hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að ,,kveðið verði ámeð dómi Hæstaréttar að skilyrði hafi ekki – eins og á stóð – verið tilhúsleitarúrskurðar héraðsdómara“, en að því frágengnu að ,,Hæstirétturstaðfesti að húsleit að næturþeli, sbr. 2. ml. 3. mgr. 179. gr. lms., ánundanfarandi dómsúrskurðar standist ekki vegna brots þessa þar sem tekið varfram á vettvangi að ekki væri grunur um sölu eða framleiðslu fíkniefna, helduraðeins vörslu.“ Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði ogkærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.Samkvæmt 3. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 verður úrskurðurhéraðsdómara ekki kærður til Hæstaréttar ef athöfn, sem kveðið er á um íúrskurðinum, hefur þegar farið fram eða ástand, sem leitt hefur af ákvæðumhans, er þegar um garð gengið. Af gögnum málsins verður ráðið að húsleit ágrundvelli hins kærða úrskurðar hafi farið fram í kjölfar uppkvaðningar hans. Þegaraf þeirri ástæðu brestur heimild til að kæra úrskurðinn og verður málinu því vísaðfrá Hæstarétti. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr.laga nr. 88/2008. Dómsorð:Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, fimmtudaginn 1. júní2017Meðbeiðni, dags. 1. júní 2017, hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafistþess að héraðsdómur Reykjaness heimili lögreglustjóranum húsleit á lögheimili X,kt. [...] að [...][...]. Þess er krafist að heimildin nái til leitar í læstumhirslum og geymslum húsnæðisins.Krafaner sett fram af hálfu lögreglustjóra með vísan til 1. mgr. 75. gr., sbr. 1. og2. mgr. 74. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.Varnaraðilikrefst þess að kröfu lögreglustjóra verði hafnað.IÍgreinargerð lögreglustjórans segir að lögreglan hafi fengið upplýsingar fráaðila sem hún hafi metið trúverðugan, að á heimili X að [...], færi framfíkniefnaneysla. Er lögregla hafi komið að vettvangi hafi nágrannar X gefið sigá tal við lögreglu og sagst telja að á heimili hans færi fram neysla fíkniefna.Lögreglumennhafi bankað upp á íbúð X sem skömmu síðar hafi stungið höfðinu út um lítinnglugga á hurðinni. Lögreglumenn hafi strax fundið amfetamínlykt berast út umgluggann og beðið X að opna hurðina sem hann hafi gert á endanum. Töldulögreglumenn hann greinilega undir áhrifum fíkniefna og tilkynntu að lögreglahygðist tryggja vettvang til að koma í veg fyrir hættu á sakarspjöllum. X hafitekið því illa, neitað lögreglu og hafi barist við lögreglu en veriðyfirbugaður. Inni í búðinni hafi verið A kt. [...].Innií búðinni hafi mátt sjá notaðar sprautur og sprautunálar, áhöld til að leysaupp fíkniefni, grammavog og hvítt duft. HafiX ekki viljað kannast við að sprauta sig né vita hvaða hvíta duft væri þarna áferðinni. Hann hafi ekki viljað tjá sig um það hvort það væru fíkniefni ííbúðinni og eftir að hafa ráðfært sig við [...], hdl. hafi hann neitað aðheimila lögreglu leit.Aðspurðá vettvangi hafi A sagt að X hefði keypt kókaín handa þeim og að þau hefðusprautað sig með því inni í íbúðinni. Hún hafi sagst ekki vita hvort að þaðværu fleiri fíkniefni á heimilinu. ÞauA og X hafi í kjölfarið verið handtekin vegna rannsóknar málsins og íbúðinnilokað og hún innsigluð af lögreglu.Að mati lögreglu þyki fram kominn rökstuddurgrunur um að á heimili X sé að finnafíkniefni. Með vísan til framangreinds og meðfylgjandi gagna sé afar brýntfyrir lögreglu í þágu rannsóknar þessa máls að lögreglu verði heimiluð leit ínefndu húsnæði í því skyni að leggja hald á fíkniefni og önnur sönnunargögn semgeti skipt máli fyrir áframhaldandi rannsókn málsins. Ætluðbrot teljast varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefninr. 65/1974, með síðari breytingum. Um heimild til rannsóknaraðgerðarinnar ervísað til 1. mgr. 75. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 74. gr., laga um meðferð sakamálanr. 88/2008. IILögmaðurvarnaraðila taldi að framkomin krafa lögreglustjóra uppfyllti ekki þau skilyrðisem sett væru í sakamálalögum nr. 88/2008 fyrir húsleit, og þá sérstaklega aðekki væri brýn þörf til húsleitar með tilliti til eðlis brotsins sbr. 74. gr.laganna. Væru því ekki forsendur til að fara í jafn íþyngjandi aðgerðir ogkrafist væri. Þá væri slík húsleit jafnframt brot á meðalhófsreglu og brytigegn friðhelgi einkalífs skv. 71. gr. stjórnarskrárinnar.IIISamkvæmtþví sem að framan hefur verið rakið, og að gögnum málsins virtum, þykir verafyrir hendi rökstuddur grunur um að sakborningur hafi gerst sekur um brot semsætt getur ákæru og varðað fangelsisrefsingu að lögum. Einnig þykir vera fyrirhendi rökstuddur grunur um að í íbúð brotaþola sé að finna muni sem hald skalleggja á. Þykja augljósir rannsóknarhagsmunir vera hér í húfi. Er því fullnægtskilyrðum 2. og 3. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og verðurleit því heimiluð í samræmi við kröfu lögreglustjóra, sbr. 1. mgr. 75. gr. sömulaga. Úrskurðþennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari. ÚRSKURÐARORÐLögreglustjóranumá höfuðborgarsvæðinu er heimiluð húsleit á lögheimili X, kt. [...] að [...].Heimildin nær til leitar í læstum hirslum og geymslum húsnæðisins. |
Mál nr. 560/2002 | Skaðabótamál Líkamstjón Fasteign Gjafsókn | B slasaðist er hún hrasaði um brún á gólfi húsnæðis T, en húsnæðið var í eigu Í. Voru aðstæður þannig að í afgreiðslusal voru ljósar steinflísar á gólfi, en innan við salinn var skrifstofurými þar sem voru brúnar korkflísar. Var B á leið sinni út þegar hún hnaut um samskeyti gólfefnanna. Var gangvegur á milli þessara rýma hvor sínu megin við burðarsúlu, en óljóst var hvoru megin við hana B fór þegar hún hrasaði á leið sinni út. Samkvæmt skýrslu Vinnueftirlitsins var brúnin skörp og u.þ.b. 10 mm. Talið var að litamunur, ólík gerð gólfefnanna og brún á samskeytum þeirra hafi mátt vera augljós hverjum þeim, sem þarna fór á milli rýma í húsnæðinu. Hafi frágangur á samskeytunum ekki brotið í bága við lög eða reglugerðir. Þá lægi ekki fyrir að þar hafi áður orðið slys eða að mönnum hafi verið slysahætta ljós. Verði ekki talið að um vanbúnað hafi verið að ræða sem ljós slysahætta hafi stafað af og slysið því hlotist fyrir óhapp og aðgæsluleysi B. Voru Í og T því sýknuð af kröfu B. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2002. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.124.684 krónur með 2% ársvöxtum frá 16. apríl 1999 til 4. október 2000 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum. Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmd til að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa hennar verði lækkuð og málskostnaður felldur niður. Svo sem rakið er í héraðsdómi á málið rætur að rekja til þess að áfrýjandi hrasaði um brún á gólfi húsnæðis Tryggingastofnunar ríkisins við Tryggvagötu í Reykjavík 16. apríl 1999 og slasaðist. Hefur hún lagt nokkur ný gögn fyrir Hæstarétt auk þess að vísa nú til reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða, sem settar hafi verið með heimild í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Telur hún að með frágangi gólfefna í áðurnefndu húsnæði hafi stefndi brotið gegn fyrirmælum þessara reglna. Því til stuðnings er einkum bent á 4. tölulið 3. greinar og 6. lið 6. greinar, en í síðastnefnda ákvæðinu komi fram að ekki megi vera hættulegar upphækkanir, göt eða hallar á gólfum vinnustaða. Dómendur málsins gengu á vettvang og kynntu sér aðstæður, sem eru óbreyttar frá því sem var þegar málið var dæmt í héraði. Svo sem fram kemur í héraðsdómi hafa afgreiðsluborð og skrifborð, sem áður skildu afgreiðslurými frá vinnusvæði starfsmanna innan við það, nú verið fjarlægð. Af ummerkjum á vettvangi og málflutningi aðila verður ráðið að gangvegir á milli þessara rýma hafi verið hvor sínu megin við burðarsúlu, en óljóst er hvoru megin við hana áfrýjandi fór þegar hún hrasaði á leið sinni út. Ljósar steinflísar eru á gólfinu þar sem afgreiðslan var áður, en innan við það eru brúnar korkflísar og hnaut áfrýjandi um samskeyti gólfefnanna. Litamunur, ólík gerð gólfefnanna og brún á samskeytum þeirra mátti vera augljós hverjum þeim, sem þarna fór á milli rýma í húsnæðinu. Hefur áfrýjandi ekki borið við að lýsingu hafi verið áfátt. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á þá niðurstöðu hans að slysið hafi hlotist fyrir óhapp og aðgæsluleysi áfrýjanda. Verður héraðsdómur samkvæmt því staðfestur. Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Borghildar Maack, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur. Stefnandi er Borghildur Maack Jónsdóttir, kt. 040543-2959, Sogavegi 103, Reykjavík. Stefndu eru íslenska ríkið, kt. 540269-6459, og Tryggingastofnun ríkisins, kt. 660269-2669, Laugavegi 114, Reykjavík. Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða henni skaða- og miskabætur að fjárhæð kr. 2.124.684 með 2% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 16. apríl 1999 til 4. október 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá þeim degi til 1. júlí 2001 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða henni málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Stefndu gera þær dómkröfur aðallega að vera sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað. Til vara gera stefndu þær dómkröfur að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla. I. Dóm þennan kveða upp Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari og meðdómendurnir Atli Þór Ólason bæklunarlæknir og Sveinbjörn Brandsson bæklunarskurðlæknir. Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna anna dómsformanns. Dómsorð: Stefndu, íslenska ríkið og Tryggingastofnun ríkisins eru sýkn af kröfum stefnanda. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 391/2017 | Kærumál Aðfarargerð Frávísun frá héraðsdómi | Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu E ehf. um að ógilt yrði ákvörðun sýslumanns um að vísa frá kröfu E ehf. um aðfaragerð til að fá fjarlægð mannvirki Í ehf. í landi Króks í Ölfusi. Var vísað til þess að E ehf. hefði samkvæmt 14. kafla laga nr. 90/1989 um aðför getað krafist úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns með því að bera þá kröfu þegar í stað fram við sýslumann, sbr. 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1989. E ehf. leitaði hinsvegar úrlausnar dóms um ákvörðun sýslumanns og málið því lagt á rangan hátt fyrir dómstóla og því talið óhjákvæmilegt að vísa því frá héraðsdómi. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir MarkúsSigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar meðkæru 12. júní 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 28. sama mánaðar. Kærður erúrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. júní 2017, þar sem hafnað var kröfusóknaraðila um að ógilt yrði ákvörðun sýslumannsins á Suðurlandi 24. nóvember2016 um að vísa frá kröfu sóknaraðila um aðfarargerð til að fá fjarlægðmannvirki varnaraðila „með skráningarnúmerið fnr. 225-8395 af landi sóknaraðilameð nr. 192055 í landi Króks í Ölfusi.“ Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laganr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekintil greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærðaúrskurðar og kærumálskostnaðar.ISamkvæmt gögnum málsins fékk sóknaraðiliafsal 21. mars 2006 fyrir 28.975 m2 lóð úr landi Króks í Ölfusi meðlandnúmeri 192055. Sama dag mun hann einnig hafa fengið afsal fyrir gistihúsi,sem virðist áður hafa verið reist á lóðinni og borið heitið Krókur, hótel meðfastanúmeri 225-8395. Samdægurs seldi sóknaraðili síðan Dvöl ehf. gistihúsið oggerði samhliða því leigusamning til 40 ára við það félag um lóðina, sem húsiðstóð á. Samkvæmt samningnum, sem var þinglýst 22. mars 2006, átti 1. október árhvert að greiða lóðarleigu að fjárhæð 240.000 krónur, sem tæki breytingum ísamræmi við vísitölu neysluverðs. Sóknaraðili og Dvöl ehf. munu hafa verið íeigu sömu manna.Sóknaraðili höfðaði 29. september 2010 mál áhendur Dvöl ehf. og krafðist þess að staðfest yrði riftun á lóðarleigusamningiþeirra, sóknaraðila yrði heimilað að fá samninginn afmáðan úr fasteignabók,félagið yrði skyldað til að fjarlægja mannvirki með fastanúmerinu 225-8395 aflóðinni og dæmt til að greiða sóknaraðila vangoldna lóðarleigu fyrir árið 2009að fjárhæð 252.870 krónur auk dráttarvaxta. Dvöl ehf. sótti ekki þing í málinuog gekk útivistardómur 22. október 2010, þar sem framangreindar dómkröfursóknaraðila voru teknar til greina. Á þeim tíma stóð yfir nauðungarsala áeigninni Krókur, hótel og var hún seld við uppboð 16. nóvember 2010.Sýslumaðurinn á Selfossi gaf út afsal fyrir eigninni 10. janúar 2011 tilFjárvara ehf. og var því þinglýst degi síðar. Með bréfi 28. júní 2011 fór sóknaraðili þessá leit við sýslumann að leigusamningurinn frá 21. mars 2006 milli sóknaraðilaog Dvalar ehf. yrði afmáður úr fasteignabók á grundvelli fyrrnefnds dóms frá22. október 2010. Við því varð sýslumaður 19. júlí 2011, en dóminum var þáþinglýst með þeim athugasemdum að Fjárvari ehf. væri þinglýstur eigandi Króks,hótels og að þrjár tilgreindar veðkröfur hvíldu á þeirri eign. Varnaraðili fékk 4. júní 2015 afsal fráFjárvara ehf. fyrir ýmsum fasteignum, þar á meðal eign, sem tilgreind var meðheitinu „Krókur, Hótel Hlíð, 816 Ölfusi, fastanúmer 225-8395, merkt 01-0101,gistihús, 874,7 m2 ásamt öllu er eigninni fylgir og fylgja ber“. Afsalinu var þinglýst 26. júní 2015 og munvarnaraðili enn vera þinglýstur eigandi þessarar eignar. Með beiðni 6. október 2016 fór sóknaraðiliþess á leit við sýslumanninn á Suðurlandi að fram færi aðfarargerð hjávarnaraðila til að „fjarlægja mannvirki með skráningarnúmerið FMR 225-8395 aflóð gerðarbeiðanda með nr. 192055 í landi Króks í Ölfusi.“ Um heimild tilaðfarar vísaði sóknaraðili til fyrrnefnds dóms frá 22. október 2010 og kvaðststyðja beiðni sína við 72. gr. laga nr. 90/1989. Sýslumaður sendi 19. október2016 tilkynningu til varnaraðila um að 24. nóvember sama ár yrði „tekin fyrirbeiðni með kröfu um innsetningu“, sem fylgdi tilkynningunni, en þar varjafnframt skorað á varnaraðila „að fjarlægja umrædd mannvirki án tafar, tilþess að ekki þurfi að koma til frekari aðgerða embættisins í málinu.“ Varnaraðili sendi sýslumanni af þessu tilefniódagsett bréf, þar sem hann krafðist þess að „kröfu um útburð“ yrði hafnað, oggerði hann þar ítarlega grein fyrir andmælum sínum gegn beiðni sóknaraðila.Beiðni sóknaraðila um aðfarargerð var síðan tekin fyrir 24. nóvember 2016 ogvar þá meðal annars eftirfarandi fært í gerðabók: „Fulltrúi sýslumanns ákveðurað vísa málinu frá með vísan til þess að aðfararbeiðni uppfylli ekki skilyrði1. mgr. 3. gr. laga um aðför um aðild gerðarþola. Vakin er athygli á því aðmálsaðilum, þar með þriðja manni, sem hagsmuni hefur af gerðinni getur boriðákvörðun sýslumanns undir héraðsdóm, sbr. 1. mgr. 92. gr., ef krafa þess efnisberst héraðsdómara innan 8 vikna frá því að gerð var lokið.“ Mál þetta snýst umþessa ákvörðun sýslumanns.IIÍ fyrrgreindri aðfararbeiðnileitaði sóknaraðili eftir því að tiltekin mannvirki í eigu varnaraðila yrðufjarlægð af landareign sinni með útburðargerð samkvæmt 72. gr. laga nr. 90/1989á grundvelli dóms, sem gekk 22. október 2010 í máli sínu á hendur Dvöl ehf.Þegar beiðni þessi hafði borist sýslumanni bar honum samkvæmt 17. gr. sömu lagaað kanna meðal annars hvort aðfararheimild væri í lögmætu formi, en teldi hannsvo ekki vera skyldi hann þegar í stað endursenda sóknaraðila beiðnina ásamtrökstuðningi fyrir ákvörðun sinni, sbr. 2. mgr. síðastnefndrar lagagreinar. Viðslíkri höfnun sýslumanns á beiðni um aðför hefði sóknaraðili síðan getaðbrugðist með því að leita úrlausnar héraðsdóms um þá ákvörðun eftir ákvæðum 14.kafla laga nr. 90/1989.Sýslumaður fór ekki með beiðni sóknaraðilaum aðfarargerð eftir framangreindum reglum, heldur tók hann beiðnina fyrir aðtilkvöddum varnaraðila og tiltók reyndar ranglega að hún lyti aðinnsetningargerð. Var sýslumanni úr því sem komið var heimilt að taka afstöðutil beiðninnar að gættum andmælum varnaraðila, sbr. 27. gr. laga nr. 90/1989,og ákveða annaðhvort að láta gerðina ná fram að ganga eða stöðva framkvæmd hennar,en ekki að vísa henni frá. Verður þó að leggja ákvörðunina, sem sýslumaður tók,að jöfnu við það að framkvæmd gerðarinnar hafi verið stöðvuð. Samkvæmt 3. mgr.27. gr. laga nr. 90/1989 gat sóknaraðili við svo búið krafist úrlausnarhéraðsdóms um þessa ákvörðun eftir reglum 14. kafla sömu laga. Það hefðisóknaraðili átt að gera með því að bera þá kröfu þegar í stað fram viðsýslumann, sbr. 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1989. Það gerði sóknaraðili ekki,heldur ritaði hann Héraðsdómi Suðurlands bréf 14. desember 2016 meðfyrirsögninni: „Kæra“, þar sem hann leitaði úrlausnar dómsins um ákvörðunsýslumanns. Með því að mál þetta hefur verið lagt á rangan hátt fyrir dómstólaer óhjákvæmilegt að vísa því án kröfu frá héraðsdómi, sbr. meðal annars dómHæstaréttar 16. janúar 2017 í máli nr. 807/2016.Sóknaraðila verður gert að greiðavarnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einulagi eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.Sóknaraðili, Eignarhaldsfélagið Skólabrú1 ehf., greiði varnaraðila, ÍSB fasteignum ehf., samtals 750.000 krónur ímálskostnað í héraði og kærumálskostnað.Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. júní 2017. Málþetta barst dóminum þann 15. desember 2016 með bréfi sóknaraðila, dagsettu þann14. sama mánaðar. Sóknaraðilier Eignarhaldsfélag Skólabrú 1 ehf., kt. 590602-2050, Skútuvogi 5, Reykjavík,en til fyrirsvars er Unnur Jóhannsdóttir, kt. 070653-4199, Hofsvallagötu 1,Reykjavík. Varnaraðilier ÍSB fasteignir ehf., kt. 601213-5160, Kirkjusandi 2, Reykjavík,fyrirsvarsmaður Snæbjörn Sigurðsson stjórnarmaður, kt. 310377-3769, Dalsbyggð7, Garðabæ. Dómkröfursóknaraðila eru að ákvörðun sýslumannsins á Suðurlandi í innsetningarmáli nr.447-2016/0024, um frávísun máls, tekin 24.11.2016, verði ógilt með úrskurðihéraðsdóms, lagt fyrir sýslumann að taka kröfuna til efnislegrar meðferðar ogfjarlægja mannvirki með skráningarnúmerið fnr. 225-8395 af landi sóknaraðilameð nr. 192055 í landi Króks í Ölfusi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úrhendi varnaraðila, sóknaraðila að skaðlausu, að mati dómsins eða skv.málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti. Dómkröfurvarnaraðila eru að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Tilvara krefst varnaraðili þess að kæra úrskurðar héraðsdóms til æðri dóms frestiaðfarargerð, komi til þess að orðið verði við kröfu sóknaraðila. Ennfremurkrefst varnaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila samkvæmtframlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins. Munnlegurmálflutningur fór fram í málinu 21. apríl 2017 og var málið tekið til úrskurðarað honum loknum. Fyriruppkvaðningu úrskurðar var gætt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.MálavextirSóknaraðili er eigandi að landinu Krókur, Ölfusi með landnúmer 192055,samtals 28.975 fm að stærð. Með lóðarleigusamningi, dags. 21. mars 2006 leigðisóknaraðili félaginu Dvöl ehf. lóð úr landinu. Á landinu stendur gistihús íeigu varnaraðila.Sóknaraðili stefndi félaginu Dvöl ehf. vegna leigusamningsins á árinu 2010og með dómi Héraðsdóms Suðurlands, uppkveðnum, 22. október 2010 í máliE-486/2010, sem var dæmt sem útivistarmál, var staðfest riftun sóknaraðila áleigusamningi hans og Dvalar ehf. um téða 28.975 fm. lóð undir fasteign Dvalarehf., FMR 225-8395 gistihús 0101, dagsettur 21. mars 2016, sem og að stefnandaværi heimilt að láta afmá samninginn, skjal nr. 1583 móttekið til þinglýsingar22. mars 2006, úr veðmálabókum embættis sýslumannsins á Selfossi. Þá var kveðiðá um skyldu stefnda, Dvalar ehf., til að fjarlægja mannvirki, FMR 225-8395, aflóð stefnanda, þ.e. sóknaraðila þessa máls, landnúmer 192055. Auk þess var ídómsorði kveðið á um skyldu stefnda, Dvalar ehf., til að greiða stefnanda, þ.e.sóknaraðila þessa máls, vangoldna leigu auk málskostnaðar.Eftir þetta voru umrædd mannvirki seld á nauðungarsölu þann 16. nóvember2010, og var afsal gefið út til Fjárvara ehf. þann 10. janúar 2011 afsýslumanninum á Selfossi. Fyrrgreindum dómi var þinglýst á eignina 19. júlí 2011 með athugasemdþinglýsingarstjóra um að þinglýstur eigandi mannvirkis væri ekki hinn sami oggreindi í dóminum. Sýslumaður afmáði jafnframt lóðaleigusamning með skjalanr.X-1583/2006 af veðbókarvottorði eignarinnar.Með afsali þann 4. júní 2015 fékk varnaraðili mannvirkinu, þ.e. Krókurhótel, fnr. 225-8395, svo afsalað til sín. Er ekki deilt um það í málinu aðvarnaraðili sé eigandi mannvirkisins.Þann 6. október 2016 fór sóknaraðili fram á það við sýslumanninn áSuðurlandi að húsið yrði fjarlægt með aðfarargerð, með vísun til 72. gr. lagaum aðför nr. 90/1989. Boðaði sýslumaður til fyrirtöku beiðninnar þann 24.nóvember 2016. Þann 23. nóvember 2016 tilkynnti sýslumaður varnaraðila að fallist hefði veriðá að afmá framangreindan dóm af veðbókarvottorði og færa aftur innlóðarleigusamninginn og var leiðréttingin gerð með vísun til 1. mgr. 27. gr.þinglýsingalaga nr. 39/1978. Í bréfi sýslumanns 25. nóvember s. á. kemur hinsvegar fram að fyrir mistök hafi rangur lóðarleigusamningur verið færður inn ogvar það leiðrétt.Þann 24. nóvember 2016 vísaði sýslumaður aðfararbeiðni sóknaraðila frá meðbókun í gerðarbók. Í bókun kom fram að ekki hvíldi skylda á tilgreindumgerðarþola þeirrar beiðnar, þ.e. varnaraðila þessa máls, samkvæmtaðfararheimildinni sem var dómurinn frá 22. október 2010. Ekki væru uppfylltskilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989. Hvorki varnaraðili né Fjárvari munu hafa greitt leigu þann tíma semmannvirkið hefur staðið á lóðinni.Málsástæður oglagarök sóknaraðilaSóknaraðili kveðst reka kröfu sína eftir ákvæðum XI. kafla laga um aðförnr. 90/1989 sem fjalli um aðför til fullnustu kröfu um annað enpeningagreiðslu, þá einkum 72. gr. laganna. Kæruheimild kveður sóknaraðili aðsé í 1. mgr. 92. gr. laganna. Kveðst sóknaraðili reka kröfu sína eftir almennumreglum kröfu- og eignarréttar. Sóknaraðili kveðst vera eigandi að landinu Krókur, Ölfusi með landnúmer192055, samtals 28.975 fm að stærð. Með lóðarleigusamningi dags. 21. mars 2006hafi sóknaraðili leigt félaginu Dvöl ehf. lóð úr landinu. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands, uppkveðnum, 22. október 2010 í máliE-486/2010, hafi félaginu félaginu Dvöl ehf. verið gert skylt, sem eigandamannvirkja á lóðinni að fjarlægja mannvirkin af lóðinni. Ofangreind mannvirki hafi svo skömmu síðar verið seld á nauðungarsölu, þann16. nóvember 2010, og afsal verið gefið út til Fjárvara ehf. þann 10. janúar2011 af sýslumanninum á Selfossi. Fyrrgreindum dómi hafi verið þinglýst áeignina 19. júlí 2011 með athugasemd þinglýsingarstjóra um að þinglýstureigandi mannvirkis væri ekki hinn sami og greindi í dómi. Þá hafi sérstaklegaverið getið um áhvílandi veðbönd. Sýslumaður hafi jafnframt afmáð lóðarleigusamningmeð skjalanr. X-1583/2006 af veðbókarvottorði eignarinnar í samræmi viðréttaráhrif dómsins. Með afsali þann 4. júní 2015 hafi varnaraðili fengiðeigninni afsalað til sín en getið hafi verið um að varnaraðili hefði kynnt sérþinglýstar kvaðir og skilmála skv. fyrirliggjandi veðbókarvottorði, sem hafim.a. greint frá hinum þinglýsta dómi. Varnaraðili geti ekki unnið betri réttgegn betri vitund og sé ekki í góðri trú. Varnaraðili hafi ekki viljað hlíta dóminum og hafi sóknaraðili þann6.október 2016 farið fram á það, með tilvísun í 72. gr. laga um aðför nr. 90/1989,að húsið yrði fjarlægt með aðfarargerð. Sýslumaður hafi móttekið beiðnina ogboðað til fyrirtöku hennar 24. nóvember 2016. Í samtölum við lögmennsóknaraðila hafi sýslumaður hins vegar ekki upplýst um breytingar semsýslumaður hafi á sama tíma unnið að á veðbókarvottorði eignarinnar. Þann 23.nóvember 2016, daginn fyrir aðför, hafi sýslumaður afmáð af veðbókarvottorðieignarinnar fnr. 225-8395, dóm héraðsdóms og fært lóðarleigusamning aftur inn áeignina. Fyrir mistök hafi sýslumaður fyrst fært inn lóðarleigusamning meðskjalanr. A-647/2002, en breytt því aftur 25. nóvember 2016, afmáð þannlóðarleigusamning og fært inn á eignina lóðarleigusamning með skjalanr.X-1583/2006. Með þessu ætli sýslumaður að ónýta réttaráhrif dóms HéraðsdómsSuðurlands og taka sér vald sem hann hafi ekki. Sóknaraðili muni bera úrlausnþinglýsingastjóra undir héraðsdóm.Sýslumaður hafi vísað aðfararbeiðni sóknaraðila frá með bókun í gerðabók24. nóvember 2016. Í bókuninni hafi greint að ekki hvíldi skylda á tilgreindumgerðarþola þeirrar beiðnar, ÍSB fasteignum ehf., skv. aðfararheimild dóms dags.22. október 2010. Sýslumaður hafi vísað til þess að skilyrðum 1. mgr. 3. gr.laga nr. 90/1989 væri ekki mætt þar sem ekki færi saman nafn gerðarþola ogdómfellda. Sóknaraðili telur að sýslumaður hafi byggt ákvörðun sína á röngumlagaskilningi. Varnaraðili sé réttartaki dómfellda og hafi tekið við skyldumsem aðfararheimildin greini. Með því sé kröfu réttilega beint að varnaraðilasem gerðarþola og hann verði að sæta því að sóknaraðili komi aðför fram hvaðeignina varðar og að því leyti (l. successio singularis). Til stuðnings þessuáréttar sóknaraðili jafnframt að varnaraðili sjálfur hafi ekki verið í góðritrú enda hafi hann frá öndverðu vitað um dóminn og hvorki gert athugasemdir viðhann eða þinglýsingu hans. Þá hafi hvorki varnaraðili né Fjárvari greitt leiguþann tíma sem mannvirkið hafi staðið á lóðinni og sæti furðu að sýslumaðurskuli telja sig umkominn að fara gegn héraðsdómi og ryðja réttáhrifum hans,þrátt fyrir að allir hlutaðeigandi hafi viðurkennt í verki aðlóðarleigusamningi hafi verið rift.Sóknaraðili kveðst vísa til aðfararlaga nr. 90/1989. Krafa sóknaraðila ummálskostnað er reist á ákvæðum laga nr. 91/ 1991 og krafa um virðisaukaskatt álögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Málsástæðurog lagarök varnaraðila Varnaraðili kveður að meginmálsástæða sóknaraðila virðist byggja á því aðvarnaraðili sé “…réttartaki dómfellda [Dvalar ehf. í máli nr. 486/2010] oghefur tekið við skyldum og réttindum sem aðfararheimildin greinir”. Þessukveðst varnaraðili mótmæla og byggir hann á því að sóknaraðili geti ekkikrafist aðfarar á grundvelli aðfararheimildar í formi dómsorðs sem varðar ekkivarnaraðila. Varnaraðili vísar til þess að íaðfararbeiðni sóknaraðila dags. 6. október 2016 komi fram að hann styðjiaðfararbeiðni sína við dóm Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. E-486/2010.Aðfararbeiðni sóknaraðila styðjist þannig við dómsúrlausn héraðsdóms meðheimild í 1. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Samkvæmt dóminum sé dómþoliDvöl ehf. en ekki varnaraðili. Þá kveður varnaraðili að sóknaraðilivísi í aðfararbeiðni sinni til 72. gr. aðfararlaga til stuðnings kröfu sinni umað hótelbygging í eigu varnaraðila verði fjarlægð. Regla þessa ákvæðis miðisömuleiðis við að útburður gerðarþola eða muna hans af fasteign grundvallist ádómi eða annarri aðfararheimild sem sé að finna í 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga. Byggir varnaraðili á því að í 1.mgr. 3. gr. aðfararlaga segi að aðfarar megi krefjast hjá þeim sem skyldahvílir á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar. Af orðalagi 1. mgr. 3. gr. lagannaað „...skylda hvílir á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar...“ leiði að dómur semaðfararheimildin hljóði upp á verði að hljóða á nafn varnaraðila. Vísarvarnaraðili til þess að aðildarskortur einkennist af því að stefndi ídómsmálinu sé ekki réttur eigandi hagsmuna sem aðfararheimild beinist að ogeigi sjónarmið einkamálaréttarfars við um aðildarskort í aðfararmáli að breyttubreytanda. Varnaraðili byggir á því að hann séekki dómþoli samkvæmt dóminum sem sóknaraðili byggi aðfararheimild sína á oggeti dómurinn því ekki verið aðfararheimild gagnvart varnaraðila og grundvölluraðfarargerðar samkvæmt 72. gr. aðfararlaga. Varnaraðili kveðst mótmæla því semfram komi í greinargerð sóknaraðila að varnaraðili hafi yfirtekið skyldurdómþola enda styðjist sú fullyrðing hvorki við sönnunargögn né málsástæður eðalagarök. Þá séu engin lagafyrirmæli sem hafi þau réttaráhrif að varnaraðiliverði „…réttartaki dómfellda..." og leiði til þess að varnaraðili hafi"...tekið við skyldum og réttindum sem aðfararheimildin greinir„ eins ogsegi í kæru sóknaraðila, sbr. 2. mgr. 3. gr. aðfararlaga. Með vísan til framangreinds kveðurvarnaraðili að beiðni varnaraðila um aðför sé ekki reist á fullnægjandiaðfararheimild og hafi sýslumanni borið að vísa henni frá eins og hann hafigert 24. nóvember 2016. Þá byggir varnaraðili á aðaðfararbeiðni sóknaraðila feli ekki í sér beina aðfarargerð á grundvelli 12.kafla aðfararlaga sem sé um útburðar- og innsetningargerðir án almennraaðfararheimilda skv. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga. Þá vísar varnaraðili til þess aðúrskurður héraðsdóms um réttmæti ákvörðunar sýslumanns um afdrif aðfararbeiðnisóknaraðila verði aðeins byggður á framangreindum forsendum og lagarökum semsóknaraðili hafi stuðst við í aðfararbeiðni í málinu. Kveður varnaraðili að ef sóknaraðilitelji að hann eigi lögvarin réttindi til þess að varnaraðili víki affasteigninni verði hann að afla sér nýrrar aðfararheimildar sem beinist aðvarnaraðila sjálfum. Til stuðnings framangreindum sjónarmiðum kveðstvarnaraðili m.a. vísa til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 185/1998. Samkvæmt þeimdómi verði dómsorð sem aðfararheimild að tilgreina nákvæmlega þann sem heimildtil útburðar beinist að, auk þess sem skýrlega sé kveðið á um þá skyldu semkrafist er. Nægi að benda á það eitt að dómsorð héraðsdóms beinist ekki aðvarnaraðila, heldur Dvöl ehf. Vegna þessa geti framangreindur dómur ekki talistlögákveðin aðfarar- og útburðarheimild gagnvart varnaraðila. Aðfararheimild sóknaraðila haggiekki rétti varnaraðila til að nota fasteign sína á landi sóknaraðila. Varnaraðili byggir á því að í 7. gr.lóðarleigusamnings milli Dvalar ehf. og sóknaraðila sé að finna heimildþáverandi lóðarleiguhafa, Dvalar ehf., til þess að veðsetja lóðina tiltryggingar skuldum. Þáverandi lóðarleiguhafi hafi gefið út þrjú tryggingarbréfsem þinglýst hafi verið á fasteignina en í þeim tryggingarbréfum hafisérstaklega verið tekið fram að lóðarréttindi og önnur réttindi sem tengjasteigninni Króki, hóteli, gistihús 01 0101, Ölfusi, fnr. 225-8395 væru sett aðveði. Þetta kveður varnaraðili að sé í samræmi við meginreglu 1. mgr. 16. gr.laga um samningsveð nr. 75/1997 en þar sé kveðið á um afmörkun veðréttar ífasteign. Segi í a.-lið 1. mgr. 16. gr. að ef annað leiðir ekki af samningi náiveðréttur í fasteign til lands eða lóðar. BYR sparisjóður hafi lýst kröfu viðnauðungarsölu á fasteigninni á grundvelli veðheimildar í framangreindumtryggingarbréfum árið 2010. Á nauðungarsölu 16. nóvember 2010 hafi BYR sparisjóður,sem hafi framselt boð sitt til Fjárvara ehf., sem núverandi gerðarþoli ÍSBfasteignir ehf. leiði rétt sinn frá, keypt eignina. Við útgáfu afsals Sýslumannsins áSelfossi þann 10. janúar 2011 hafi Fjárvari ehf. eignast þinglýstaeignarheimild yfir framangreindri eign. Í 26. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978segi að sá sem hefur þinglýsta eignarheimild að eign, njóti einnig slíkrarheimildar að einstökum hlutum hennar, þ. á m. byggingum, sem reistar hafa veriðeða reistar verða á eigninni, nema fasteignabók nefni annan rétthafa. Ígreinargerð með frumvarpi til þinglýsingalaga verði ráðið að eignarheimildinnái til réttinda yfir landi og réttar til að hagnýta fasteign sem á landinustendur. Framangreint hafi haft þau réttaráhrif að varnaraðili hafi öðlast öllréttindi sem hafi fylgt framangreindum lóðarleigusamningi. Þá kveður varnaraðili að dómurHéraðsdóms Suðurlands í máli E-486/2010, sem sé útivistardómur, og sóknaraðilibyggi aðfararbeiðni sína á, hafi verið kveðinn upp 22. október 2010. Samkvæmt29. gr. þinglýsingalaga skuli þinglýsa réttindum yfir fasteign til þess að þauhaldi gildi gegn þeim, er reisa rétt sinn á samningum um eignina, og gegnskuldheimtumönnum eiganda eða annars rétthafa að eign. Í ljósi framangreindra meginreglnalaga, að með fasteignum fylgi óhjákvæmilega réttur til lands og lóðar og vegnafyrirliggjandi lóðarleigusamnings, hafi sóknaraðila borið, þegar eftirdómsuppkvaðningu, að þinglýsa dóminum, til að geta haldið meintum réttindumfram gagnvart kaupanda við nauðungarsölu á eigninni. Sóknaraðili, sem jafnframtsé dómhafi, hafi hvorki hlutast til um að lýsa hinum meintu réttindum samkvæmtframangreindum dómi við nauðungarsöluna né þinglýst framangreindum dómi áeignina, áður en framhaldssala eignarinnar hafi farið fram þann 16. nóvember2010. Það hafi sóknaraðili ekki gert fyrr en 19. júlí 2011, rúmu hálfu árieftir að afsal hafi verið gefið út vegna eignarinnar í kjölfar nauðungarsölu áhenni. Þegar af þessum sökum getiframangreindur dómur Héraðsdóms Suðurlands í engu haggað réttindum varnaraðilatil fasteignarinnar og afnotum hans af lóðinni. Lóðarleigusamningurinn sé þvíenn gildur gagnvart varnaraðila. Þá byggir varnaraðili einnig á þvíað sóknaraðili hafi sýnt af sér slíkt tómlæti, við að halda meintum réttindumsamkvæmt dóminum, að hann fái ekki komið þeim að rúmlega sex árum síðar meðaðfarargerð. Varnaraðili byggir á því að í gildisé lóðarleigusamningur fyrir fasteignina. Það hafi sýslumaður staðfest með þvíað færa hann aftur inn á veðmálabók fasteignarinnar eftir að hafa orðið ljósþau mistök að hafa afmáð hann. Sóknaraðila hafi verið kunnugt um það frá því aðsýslumaður hafi gefið út afsal fyrir fasteigninni þann 10. janúar 2011 og þvíafsali verið þinglýst 11. janúar 2011 að eignin hafi verið í eigu og umráðumannarra aðila en Dvalar ehf. og þar verið stunduð hótelstarfsemi allt tildagsins í dag. Allan þennan tíma hafi gerðarbeiðandi hvorki haldið því fram aðekki sé til staðar lóðarleigusamningur né hlutast til um að innheimtalóðarleigu af gerðarþola. Varnaraðili hafi ítrekað boðið framgreiðslu vegna lóðarleigugjalda til sóknaraðila og óskað eftirgreiðslufyrirmælum frá sóknaraðila, en hann ekki svarað beiðnum varnaraðila. Vegna kröfu sinnar um aðinnsetningargerð verði frestað þar til endanlegur dómur gengur um kröfursóknaraðila bendir varnaraðili á að fari gerðin fram sé ljóst að hótelbygginginverði mögulega rifin og skemmd þannig að hún verði með öllu ónýt. Komist æðri dómstóll að annarriniðurstöðu kveður varnaraðili ljóst að skaðabótakrafa hans fyrir tjóni ogafleiddum kostnaði verði há fjárkrafa og með öllu óvíst hvort sóknaraðili getistaðið undir greiðslu mögulegra skaðabóta og kostnaðar. Vísar varnaraðili til3. mgr. 84. gr. aðfararlaga nr. 90/1989um frestun aðfarar þar til æðri dómur gengur í málinu. Kröfu sína um málskostnað styðurvarnaraðili með vísun til 129. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 sbr. 94. gr.laga nr. 90/1989. Að öðru leyti vísar varnaraðili tilákvæða aðfararlaga nr. 90/1989, þinglýsingarlaga nr. 39/1978, ákvæða laga nr. 91/1991um meðferð einkamála, laga nr. 75/1997 um samningsveð og annarra reglna ogvenja á sviði eignarréttar og veðréttar svo og almennra reglna kröfuréttar ogsamningaréttar. Forsendur og niðurstaða Krafa sóknaraðila í máli þessu lýtur að framangreindri ákvörðun sýslumanns,um að vísa frá aðfararbeiðni sóknaraðila um að fram fari aðfarargerð til þessað fjarlægja framangreind mannvirki fnr. 225-8395 af lóð sóknaraðila nr. 192055í landi Króks í Ölfusi. Óumdeilt er í málinu að sóknaraðilier eigandi umrædds lands og að varnaraðili er eigandi umræddra mannvirkja. Aðfararbeiðni sína byggirsóknaraðili á framangreindum dómi Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr.E-486/2010, uppkveðnum 22. október 2010. Með dóminum var fallist á kröfustefnanda í málinu, sóknaraðila í þessu máli, að stefndi, sem var Dvöl ehf.,skyldi fjarlægja umrædd mannvirki. Byggir sóknaraðili á að skyldan, semlögð var á Dvöl ehf., hafi færst yfir á varnaraðila sem réttartaka dómfellda ímálinu. Ennfremur vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili hafi veriðgrandsamur um dóm þennan þegar hann eignaðist mannvirkin, enda hafi komið framað hann hafi kynnt sér þinglýstar kvaðir og veðbókarvottorð og hafi þar veriðgetið um dóm þennan og hann því ekki getað annað en vitað um dóminn. Geti varnaraðiliekki unnið betri rétt en fyrri eigandi, gegn betri vitund. Sóknaraðili vísartil 72. gr. laga nr. 90/1989. Í 3. gr. aðfararlaga nr. 90/1989segir að aðfarar „má krefjast hjá þeim,sem skylda hvílir á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar. Nær þetta einnig tilþeirra, sem hafa tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á efndum skuldbindingar skv. 7.eða 8. tölul. 1. mgr. 1. gr., og þeirra, sem eiga verðmæti, sem standa að veðitil tryggingar kröfu skv. 7. tölul. 1. mgr. 1. gr., ef áskilnaði þessara ákvæðagagnvart aðalskuldara er einnig fullnægt gagnvart þeim.“ Þá segir jafnframtí 2. mgr. 3. gr. að aðfarar „má einnigkrefjast hjá öðrum en þeim, sem skylda hvílir á skv. 1. mgr., ef hann hefurtekið á sig ábyrgð á efndum aðfararhæfrar skuldbindingar samkvæmt fyrirmælumlaga eða slík ábyrgð hvílir sjálfkrafa á honum lögum samkvæmt.“ Aðfararheimildin sem sóknaraðili styðst við er framangreindur dómurHéraðsdóms Suðurlands. Þar voru lagðar á Dvöl ehf. tilteknar skyldur, þ. á m.um að fjarlægja framangreind mannvirki. Er ljóst að skyldan, samkvæmt orðannahljóðan í aðfararheimildinni sjálfri, hvílir ekki á varnaraðila. Þá er ljóst aðskylda sú sem um ræðir varðar ekki skuldbindingar skv. 7. og eða 8. tölulið 1.mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Í málinu hefur heldur ekki komið fram aðvarnaraðili hafi tekið á sig ábyrgð á efndum aðfararhæfrar skuldbindingar semvar lögð á Dvöl ehf. í framangreindum dómi, eða að slík ábyrgð hvíli sjálfkrafaá varnaraðila lögum samkvæmt. Þegar af þessari ástæðu verður þvíað telja að sýslumanni hafi verið rétt að synja um framgang hinnar umbeðnugerðar og verður í samræmi við það að hafna kröfum sóknaraðila í málinu. Getamálsástæður sem sóknaraðili hefur fært fram fyrir dóminum, en sem ekki komufram við meðferð málsins hjá sýslumanni, ekki breytt þessu enda geta þærsamkvæmt efni sínu ekki bætt úr framangreindu. Rétt er að sóknaraðili greiðivarnaraðila málskostnað og er hann ákveðinn kr. 500.000 að meðtöldumvirðisaukaskatti. Sigurður G. Gíslasonhéraðsdómari kveður upp þennan úrskurð. Ú r s k u r ð a r o r ð : Kröfum sóknaraðila,Eignarhaldsfélags Skólabrú 1 ehf., er hafnað. Sóknaraðiligreiði varnaraðila, ÍSB fasteignum ehf., kr. 500.000, í málskostnað. |
Mál nr. 340/2006 | Samvinnufélag Félagssamþykktir | S stundaði mjólkurbúskap frá 1983 til 2001 og var félagsmaður í samvinnufélaginu M. Um svipað leyti og S hætti mjólkurframleiðslu var lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög breytt þannig að samvinnufélögum var heimilt að endurmeta séreignarhluti félagsaðila innan ákveðins tíma. Á aðalfundi M í mars 2002 var 11. gr. samþykkta félagsins, þar sem fjallað var um séreignarsjóð innan þess, breytt þannig að kveðið var á um að greiða skyldi þeim sem hætti framleiðslu hlutdeild hans í sjóðnum eigi síðar en 1. júlí á því ári sem á eftir færi. Jafnframt var samþykkt að fella á brott ákvæði um að inneign í séreignarsjóði félli til M tíu árum eftir að félagsaðild lyki, hefði greiðslu ekki verið krafist. Loks var samþykkt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að eigi síðar en 1. júlí 2002 skuli greiða þeim sem hætt hefði framleiðslu á árinu 2001 eða fyrr að fullu hlutdeild hans í sjóðnum. M sendi S í júní 2002 bréf með tékka sem svaraði til inneignar hans í séreignarsjóðnum í árslok 2001. S endursendi tékkann og taldi sér óskylt að sæta því að inneign hans yrði greidd út, meðal annars vegna þess að framangreind breyting á samþykktum M hefði ekki verið tilkynnt til samvinnufélagsskrár. S hafnaði jafnframt viðtöku greiðslu í kjölfar bréfs M í ágúst 2002 og var ekki gerður reki að því að greiða honum féð fyrr en með geymslugreiðslu í ágúst 2006. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 70. gr. laga nr. 22/1991 öðlist breyting á samþykktum samvinnufélags ekki gildi fyrr en hún hafi verið tilkynnt til samvinnufélagsskrár og skráð þar. Þegar M sendi S andvirði inneignar hans í séreignarsjóðnum hafði breytingin ekki öðlast gildi og stóð því ekki heimild til þessarar ráðstöfunar gegn vilja S. Var talið að S hefði með réttu mátt neita að taka við greiðslunni og endursenda hana, en eftir það hefði hann ekkert gert sem skýra mætti sem samþykki við umræddri ráðstöfun og því áfram átt inneign sína í séreignarsjóði félagsins. Vísað var til þess að í tillögu aðalfundar M um framkvæmd sértæks endurmats segði meðal annars að ,,fjárhæðin deilist á séreignarsjóðseigendur“ og hafi hún því tekið til S sem annarra, sem áttu inneign á slíkum reikningum. Þegar af þeirri ástæðu var fallist á aðalkröfu S. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. júní 2006. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.571.276 krónur með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2005 til 6. desember sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi greiðslu á 227.725 krónum með almennum vöxtum eins og í aðalkröfu frá 1. júlí 2002 til 6. desember 2005 og dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt fyrir báðum dómstigum. Stefndi krefst sýknu af kröfu áfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Hann hefur lagt fyrir Hæstarétt skjöl til staðfestingar á því að 15. ágúst 2006 greiddi hann í Landsbanka Íslands hf. 354.837 krónur inn á reikning á nafni áfrýjanda samkvæmt ákvæðum laga nr. 9/1978 um geymslufé. Stefndi kveður greiðsluna vera í samræmi við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms með áföllnum vöxtum til 14. ágúst 2006 og því krefjist hann nú sýknu. I. Áfrýjandi stundaði mjólkurbúskap á Kiðafelli í Kjós frá 1983 til 2001. Hann var jafnframt félagsmaður í Mjólkursamsölunni í Reykjavík, sem var samvinnufélag. Á árinu 2005 sameinaðist það félag Mjólkurbúi Flóamanna, sem tók við öllum eignum þess og skuldum, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Er nafn hins sameinaða félags nú MS svf. Á árinu 1994 var samþykktum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík breytt meðal annars á þann veg að samkvæmt 1. mgr. 11. gr. þeirra skyldi komið á fót séreignarsjóði innan félagsins. Var nánar kveðið á um greiðslur í sjóðinn. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skyldu framlög í sjóðinn færð á sérstakan reikning hvers mjólkurframleiðanda og jafnframt haldin skrá sem sýndi hlutdeild hvers þeirra í sjóðnum í lok hvers reikningsárs. Í 3. mgr. 11. gr. sagði síðan að inneign hvers mjólkurframleiðanda félli til útborgunar þegar hann hætti mjólkurframleiðslu, en væri að öðru leyti ekki kræf. Skyldi hann eða erfingjar hans óska skriflega eftir útborgun á séreign sinni, en stjórn félagsins væri heimilt að fresta útborgun eftir það í eitt ár. Í 4. mgr. sagði síðan: „Inneign í séreignarsjóði fellur til Mjólkursamsölunnar að 10 árum liðnum eftir að félagsaðild lýkur, enda hafi ekki verið gerð krafa um greiðslu hennar.“ Áfrýjandi hætti mjólkurframleiðslu í maí 2001. Um líkt leyti tóku gildi lög nr. 22/2001 um breytingu á lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög. Með þessum breytingum bættust við 38. gr. síðarnefndu laganna fjórar nýjar málsgreinar varðandi séreignarhluti félagsmanna í stofnsjóði samvinnufélags, auk þess sem tekið var upp ákvæði II til bráðabirgða við lögin, þar sem mælt var fyrir um svokallað sértækt endurmat. Sagði þar að samvinnufélagi væri heimilt að endurmeta séreignarhluti félagsaðila í A-deild stofnsjóðs þess fyrir árslok 2004. Endurmatið skyldi byggt á verðmæti hreinnar eignar félags í árslok 1996 eins og nánar var skýrt í ákvæðinu. Á aðalfundi Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 8. mars 2002 var samþykkt samhljóða með atkvæðum 17 af 21 fulltrúa á fundinum að breyta 11. gr. samþykkta félagsins. Eftir breytinguna hljóðaði 3. mgr. 11. gr. þannig: „Séreign hvers mjólkurframleiðanda í séreignarsjóði fellur til útborgunar er hann hættir mjólkurframleiðslu, en er að öðru leyti ekki kræf. Nú leggur framleiðandi niður framleiðslu og skal þá greiða honum að fullu hlutdeild hans í séreignarsjóði eigi síðar en 1. júlí á því ári, sem á eftir fer.“ Jafnframt var samþykkt að 4. mgr. 11. gr. félli brott. Loks var samþykkt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að eigi síðar en 1. júlí 2002 skyldi greiða þeim framleiðendum, sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu á árinu 2001 eða fyrr, að fullu hlutdeild þeirra í séreignarsjóði. Mjólkursamsalan í Reykjavík sendi áfrýjanda bréf, sem tímasett var „í júní 2002“, og fylgdi því tékki að fjárhæð 227.725 krónur. Kom þar fram að fjárhæðin svaraði til inneignar áfrýjanda í séreignarsjóði í árslok 2001 og væri hún send honum í samræmi við framangreindar breytingar á samþykktum félagsins. Áfrýjandi endursendi tékkann með bréfi 31. júlí 2002. Í héraðsdómi er nánar greint frá efni þessara bréfa og annarra sem fóru á milli hinna sömu í kjölfarið. Stjórn Mjólkursamsölunnar í Reykjavík lagði til við aðalfund félagsins 19. mars 2004 að framangreind lagaheimild um sértækt endurmat yrði nýtt. Var samþykkt svofelld tillaga: „Aðalfundur Mjólkursamsölunnar ... samþykkir að kr. 548.908.188,- verði færðar af óbundnu eigin fé í séreignarsjóð félagsins með fyrirvara um samþykki skattstjóra. Fjárhæðin deilist á séreignarsjóðseigendur í hlutfalli við séreignarsjóðseign þeirra um áramótin 2003/2004, þó þannig að allir þeir sem lögðu inn mjólk á árinu 2003 fái hlutdeild í hækkuninni.“ II. Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að ákvörðun aðalfundar 8. mars 2002 um breytingu á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar í Reykjavík hafi verið ólögmæt. Hann hafi átt rétt á því að eiga áfram inneign sína í séreignarsjóði í 10 ár eftir að hann hætti mjólkurframleiðslu, en um það vísar hann meðal annars til 15. gr., 18. gr., 37. gr. og 38. gr. laga nr. 22/1991 með áorðnum breytingum. Þann rétt hafi hann átt sem félagsmaður í félaginu, en óháð því hvernig 15. gr. laganna yrði skýrð hafi hann átt rétt á að vera áfram séreignarsjóðseigandi samkvæmt 37. gr. og 38. gr. Kveður hann ákvörðunina hafa verið ólögmæta bæði af forms- og efnisástæðum, en um það vísar hann einkum til 2. mgr. 70. gr., 1. mgr. 71. gr. og 72. gr. laganna. Telur hann ljóst að breytingin á samþykktunum 2002 hafi verið liður í að undirbúa það að nýta lagaheimildina um sértækt endurmat á séreignarhlutum með því að fækka áður séreignarreikningum í félaginu svo um munaði. Aðgerðin hafi í samræmi við það leitt til þess að félagsmönnum, sem áttu inneign í séreignarsjóði, hafi fækkað úr 1346 í upphafi árs 2002 í 769 í lok ársins. Fjöldi félagsmanna hafi hins vegar verið nokkuð stöðugur á tímabilinu frá 1995 til 2001, eða 1300 til 1400. Miklir hagsmunir hafi verið í húfi, en samkvæmt ársreikningi Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 2003 var heildarfjárhæð á séreignarreikningum aðeins samtals 117.091.812 krónur, en óbundið fé á endurmatsreikningi nam 3.105.447.232 krónum. Við hið sértæka endurmat 2004 hafi verið teknar 548.904.901 króna af þessu óbundna fé og þær færðar á séreignarreikninga til hækkunar á inneign þeirra, sem þar voru eftir. Áfrýjandi kveðst hafa leitað til löggilts endurskoðanda um að reikna út hlutdeild sína í séreignarsjóði í árslok 2004 miðað við að inneign hans hefði ekki verið greidd út 2002. Fjárhæð aðalkröfu hans sé þannig fundin að miðað sé við stöðu séreignarsjóðs í árslok 2001, en hlutdeild áfrýjanda í honum hafi verið 0,22%. Við það bætist vextir vegna áranna 2002 til 2004, sem séu þeir sömu og lagst hafi á séreignarinneignir annarra félagsmanna. Því til viðbótar sé reiknað með að séreignarsjóðsinneign áfrýjanda njóti vegna hins sértæka endurmats hlutfallslega sömu hækkunar af fyrrnefndri 548.904.901 krónu. Til stuðnings sýknukröfu vísar stefndi einkum til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 22/1991, en samkvæmt henni falli félagsaðild brott þegar aðili fullnægi ekki lengur ákvæðum félagssamþykkta um hana. Áfrýjandi hafi hætt mjólkurframleiðslu á árinu 2001, en samkvæmt samþykktum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, sem þá voru í gildi, hafi maður þurft að vera mjólkurframleiðandi til að geta verið félagsmaður þar. Þegar áfrýjandi hætti að framleiða mjólk hafi hann því ekki lengur uppfyllt sett skilyrði. Þeir, sem hættu mjólkurframleiðslu, hafi því ekki getað verið félagsaðilar og hvorki notið þeirra réttinda né borið skyldur, sem félagsaðilar gerðu. Í samræmi við það hafi verið bæði rétt og skylt að greiða áfrýjanda út inneign hans í séreignarsjóði samkvæmt félagssamþykktum, eins og þeim hafði verið breytt á árinu 2002. Stefndi mótmælir því jafnframt að nefnd breyting á samþykktunum 2002 hafi staðið í tengslum við lagaheimild um sértækt endurmat, en engin ákvörðun hafi þá verið tekin um að nýta hana, heldur hafi það fyrst verið gert tveimur árum síðar. Málsástæður aðilanna eru að öðru leyti raktar í héraðsdómi, en ekki er ágreiningur um fjárhæð kröfu áfrýjanda. III. Í áðurnefndu bréfi Mjólkursamsölunnar í Reykjavík til áfrýjanda í júní 2002 var vísað til breytinga, sem gerðar höfðu verið á samþykktum félagsins í mars á sama ári og áður var vikið að. Sagði þar að vegna þessara breytinga og með því að áfrýjandi væri ekki lengur mjólkurframleiðandi væri honum greidd út inneign hans í séreignarsjóði með hjálagðri ávísun. Áfrýjandi endursendi tékkann með bréfi 31. júlí 2002, svo sem áður er getið. Taldi hann sér óskylt að sæta því að inneign hans í séreignarsjóði yrði greidd út, meðal annars vegna þess að breytingin á samþykktunum hefði ekki verið tilkynnt til samvinnufélagaskrár. Mjólkursamsalan í Reykjavík sendi honum annað bréf 8. ágúst 2002, þar sem sagði meðal annars að úr þessu síðastgreinda hefði nú verið bætt. Í niðurlagi bréfsins var tekið fram að áfrýjandi gæti veitt fjárhæðinni viðtöku með fyrirvara ef hann vildi kanna málið nánar. Áfrýjandi hafnaði því boði. Ekki var gerður reki að því að greiða honum féð aftur fyrr en með geymslugreiðslu stefnda 15. ágúst 2006, sem fyrr var getið. Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. laga nr. 22/1991 skal breyting á samþykktum samvinnufélags tilkynnt til samvinnufélagaskrár þegar í stað og öðlast breytingin ekki gildi fyrr en hún hefur verið skráð. Þegar Mjólkursamsalan í Reykjavík sendi áfrýjanda andvirði inneignar hans í séreignarsjóði hafði breytingin á samþykktunum ekki öðlast gildi. Stóð því engin heimild til þessarar ráðstöfunar gegn vilja áfrýjanda, enda verður 3. mgr., sbr. 4. mgr. 11. gr. eldri samþykkta félagsins ekki skýrð á þann veg að því hafi verið það heimilt. Áfrýjandi mátti þannig með réttu neita að taka við greiðslunni og endursenda hana. Eftir það gerði hann ekkert sem skýra mætti sem samþykki hans í reynd við heimildarlausri ráðstöfun Mjólkursamsölunnar í Reykjavík. Samkvæmt því átti áfrýjandi áfram inneign sína í séreignarsjóði félagsins. Aðalfundur Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 19. mars 2004 ákvað að nýta lagaheimild um að framkvæma sértækt endurmat og greiða af óbundnu eigin fé inn á séreignarreikninga félagsmanna. Í tillögunni um þetta, sem samþykkt var, sagði meðal annars að „fjárhæðin deilist á séreignarsjóðseigendur“ og tók hún því beint til áfrýjanda sem annarra, sem áttu inneign á slíkum reikningum. Ber þegar af þeirri ástæðu að fallast á aðalkröfu hans í málinu, sem stefnda verður gert að greiða með vöxtum eins og krafist er að teknu tilliti til innborgunar 15. ágúst 2006. Stefndi verður dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem rennur í ríkissjóð og verður ákveðinn í einu lagi eins og greinir í dómsorði. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar segir í dómsorði. Dómsorð: Stefndi, MS svf., greiði áfrýjanda, Sigurbirni Hjaltasyni, 1.571.276 krónur með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2005 til 6. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 354.837 krónur miðað við 14. ágúst 2006. Stefndi greiði samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 600.000 krónur Mál þetta, sem var dómtekið 21. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigurbirni Hjaltasyni, Kiðafelli, Kjós á hendur MS svf. Austurvegi 65, Selfossi með stefnu birtri 5. desember 2005. Dómkrafa stefnanda er aðallega að stefndi greiði honum 1.571.276 kr. með almennum vöxtum skv. 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2005 til þingfestingardags en með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga frá þingfestingardegi til greiðsludags. Til vara er gerð krafa um greiðslu að fjárhæð 227.725 krónur með almennum vöxtum frá 1. júlí 2002 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Dómkrafa stefnda er að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða því málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Málavextir. Stefnandi máls þessa er bóndi og hefur stundað búrekstur að Kiðafelli í Kjós frá 1983. Hluti búrekstrar hans var mjólkurbúskapur og var hann af þeim sökum félagsaðili í stefnda. Stefndi er samvinnufélag. Með samrunasamningi sem samþykktur var á aðalfundum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík og Mjólkurbús Flóamanna, 16. og 17. mars 2005, sameinuðust nefnd félög algjörlega á þann veg, að Mjólkurbú Flóamanna tók við öllum eignum og skuldum Mjólkursamsölunnar án skuldaskila í samræmi við ákvæði X. kafla laga nr. 22/1991 um samvinnufélög. Sameiningin var miðuð við 1. janúar 2005 og taldist Mjólkursamsölunni slitið þann dag. Á fulltrúaráðsfundi stefnda sem haldinn var 4. nóvember 2005 var nafni þess breytt í MS svf., sem er stefndi í máli þessu. Um stefnda gilda lög nr. 22/1991 með síðari breytingum. Þá starfar stefndi einnig eftir samþykktum sem gilda um félagið. Málið varðar einnig breytingar sem gerðar voru á samþykktum Mjólkursamsölunnar. Samkvæmt samþykktum Mjólkursamsölunnar, með áorðnum breytingum sem gerðar höfðu verið á aðalfundum 21. mars 1947, 23. apríl 1976, 1. nóvember 1994 og 17. mars 2000, var 3. og 4. mgr. 11. gr. samþykktanna svohljóðandi. „Séreign hvers mjólkurframleiðanda fellur til útborgunar er hann hættir mjólkurframleiðslu, en er að öðru leyti ekki kræf. Skal hann (eða erfingjar hans sé hann látinn) óska skriflega eftir útborgun á inneign sinni í séreignarsjóði. Stjórn Samsölunnar er heimilt að fresta útborgun í eitt ár frá því að beiðni um hana berst til stjórnar. - Inneign í séreignarsjóði fellur til Mjólkursamsölunnar að 10 árum liðnum eftir að félagsaðild lýkur, enda hafi ekki verið gerð krafa um greiðslu hennar.“ Stefnandi hætti mjólkurframleiðslu í maí 2001. Á aðalfundi mjólkursamsölunnar 8. mars 2002 var 11. gr. breytt að tillögu stjórnar. Ákvæði 3. mgr. 11. gr. samþykktanna hljóðaði svo eftir breytinguna: „Séreign hvers mjólkurframleiðanda í séreignarsjóði fellur til útborgunnar (sic) er hann hættir mjólkurframleiðslu, en er að öðru leyti ekki kræf. Nú leggur framleiðandi niður framleiðslu og skal þá greiða honum að fullu hlutdeild hans í séreignarsjóði eigi síðar en 1. júlí á því ári, sem eftir fer.“ Þá var 4. mgr. 11. gr. samþykktanna felld brott en eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða samþykkt: „Í samræmi við 3. mgr. 11. gr. skal eigi síðar en 1. júlí 2002, greiða þeim framleiðendum að fullu hlutdeild þeirra í séreignarsjóði, sem hætt hafa mjólkurframleiðslu á árinu 2001 eða fyrr.“ Í júní 2002 var stefnanda tilkynnt um að stjórn Mjólkursamsölunnar hefði ákveðið að greiða honum út inneign hans í séreignarsjóði og var vísað til 11. gr. samþykkta stefnda, sem samþykktar höfðu verið á aðalfundi 8. mars 2002. Stefnanda var send ávísun að fjárhæð 227.725 krónur. Hinn 31. júlí 2002 mótmælti stefnandi útborguninni úr séreignarsjóðnum og taldi bæði form- og efnisgalla á breytingum á samþykktunum þannig að nýju ákvæðin giltu ekki. Þá ætti stefnandi rétt á hærri fjárhæð og breytingin hefði ekki verið tilkynnt til samvinnufélagaskrár. Þá endursendi stefnandi ávísun þá er hann hafði fengið frá stefnda. Hinn 8. ágúst 2002 hafnaði lögmaður stefnda athugasemdum stefnanda og tók fram, að stefnandi væri ekki lengur félagi í Mjólkursamsölunni þar sem hann væri ekki lengur mjólkurframleiðandi. Því var mótmælt að breytingarnar á 11. gr. samþykktanna væru ekki lögmætar. Auk þess var tekið fram, að stjórnin hefði ekki nýtt sér ákvæði II. til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög. Þá kom fram að breytingar á 11. gr. samþykktanna hefðu, eftir að athugasemd stefnanda barst, verið tilkynntar til samvinnufélagaskrár. Hinn 14. október 2002 voru sjónarmið stefnanda ítrekuð, þ.m.t. um það að breyting á 11. gr. samþykktanna hefði ekki verið í samræmi við 71. gr. laga nr. 22/1991 og að eftirfarandi tilkynning á breytingunni til samvinnufélagaskrár breytti ekki eðli málsins. Þá var og óskað eftir afriti af ýmsum gögnum er tengdust ákveðnum þáttum málsins. Hinn 28. október 2002 færði lögmaður Mjólkursamsölunnar frekari rök fyrir sjónarmiðum stefnda og sendi umbeðin gögn. Á aðalfundi Mjólkursamsölunnar 21. mars 2003 breyttist 3. mgr. 11. gr. samþykktanna á eftirfarandi hátt: „Séreign hvers mjólkurframleiðanda í séreignarsjóði fellur til útborgunar er hann hættir mjólkurframleiðslu, en er að öðru leyti ekki kræf. Félagsréttindum halda aðilar, meðan þeir framleiða mjólk og leggja hana að staðaldri inn hjá Mjólkursamsölunni, eða í afurðastöð á vegum einhverrar samlagsdeildar hennar. Félagsaðildinni lýkur við afgreiðslu ársreiknings þess árs, er viðskiptum með mjólkurinnlegg var hætt. Nú leggur framleiðandi niður framleiðslu og skal þá greiða honum að fullu hlutdeild hans í séreignarsjóði eigi síðar en 1. júlí á því ári, sem á eftir fer.“ Á þessum sama aðalfundi kom fram tillaga frá fulltrúa Mjólkursamlags Kjalarnesþings á þá leið, að hækka séreignarsjóð framleiðenda í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögum sem samþykkt voru á Alþingi 27. apríl 2001. Þessari tillögu var vísað til stjórnar Mjólkursamsölunnar. Á aðalfundi stefnda, 19. mars 2004, tilkynnti stjórn félagsins að hún hefði ákveðið að nýta sér heimild til að auka við inneignir félagsaðila og látið semja sérfræðiskýrslu þar sem endurmat á séreignarhluta félagsaðila fór fram. Framangreint endurmat byggðist á heimild í II. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög m.s.br. Í kjölfar þessarar ákvörðunar stjórnar voru 548.908.188 krónur færðar af endurmatsreikningi inn á séreignarsjóð til hlutfallslegrar hækkunar á inneign félagsaðila. Hinn 21. mars 2005 benti stefnandi á, í bréfi til stefnda, að stjórnin hefði nýtt sér hina sérstöku heimild samkvæmt ofangreindu bráðabirgðaákvæði. Einnig var bent á að breytingin á 11. gr. samþykktanna hefði leitt til fækkunar félagsaðila. Þá var óskað frekari gagna. Hinn 29. mars 2005 hafnaði stefndi því að nýting stjórnarinnar á bráðabirgða-ákvæðinu breytti stöðu málsins, einnig að breytingin á 11. gr. samþykktanna hefði leitt til fækkunar félagsaðila. Ekki urðu fleiri bréfaskipti milli málsaðila. Stefnandi sótti um gjafsókn í málinu og fékk hana og höfðaði í kjölfarið mál þetta. Málsástæður og lagarök stefnanda. 1.Stefnandi byggir á því að breyting á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar hafi verið ólögmæt og sé því ekki skuldbindandi fyrir hann. Stefnandi telur að sú breyting sem fólst í 11. gr. samþykktanna á aðalfundi 8. mars 2002 hafi ekki fullnægt áskilnaði 71. gr. laga nr. 22/1991 um samvinnufélög. Þar sé mælt fyrir um að breyting á félagssamþykktum þurfi samþykki tveggja lögmætra félagsfunda í röð og stuðning eigi færri en 2/3 atkvæðisbærra félagsaðila ef í henni felst röskun á því réttarsambandi sem er á milli félagsaðila. Stefnandi telur að með breytingu á 11. gr. samþykktanna hafi falist röskun á réttarsambandi aðila en það hafi leitt til þess að samþykkja hafi þurft breytinguna á tveimur aðalfundum í röð. Sú breyting sem gerð var á 11. gr. samþykktanna var hins vegar eingöngu samþykkt á einum aðalfundi. Hvað varðar röskun breytingarinnar á réttarsambandi aðila þá telur stefnandi að röskunin hafi falist í því að fyrir breytinguna hafi stefnandi getað geymt inneign sína í séreignarsjóði í allt að 10 ár, en eftir breytinguna hafi hvílt skylda á stjórninni að greiða honum út inneign hans í séreignarsjóði. Þessi breyting raskaði réttarsambandi félagsaðila vegna þess að því fleiri félagsaðilum sem stjórnin greiddi út inneign í séreignarsjóði því meira var til skiptanna úr séreignarsjóðnum til handa þeim félagsaðilum sem á eftir stóðu þegar stjórnin myndi nýta sér heimild samkvæmt II. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög enda augljós tengsl á milli breytingarinnar á samþykktunum og þess að heimildin skv. bráðbirgðaákvæðinu var nýtt. Að mati stefnanda leiddi sú breyting, sem varð á 11. gr. samþykktanna, til verulegrar fækkunar félagsaðila sem áttu inneign í séreignarsjóði. Samkvæmt ársskýrslum Mjólkursamsölunnar 1995-2004, þá var fækkunin eftirfarandi: Stefnandi upplýsir að það hafi verið með breytingu á samþykktunum 1. nóvember 1994 sem fyrst komu inn ákvæði um séreignarsjóði mjólkurframleiðanda, þ.e. 11. gr. eins og hún var fyrir umdeildar breytingar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði skyldi leggja í séreignarsjóð skv. 11. gr. samþykktanna framlag frá Mjólkursamsölunni vegna innlagðrar mjólkur framleiðenda á árunum 1985 til og með 1994. Upphaflegt framlag í séreignarsjóðinn skv. bráðabirgðaákvæðinu að frádregnum sköttum nam 39.980.883 krónum og skiptist á 1275 aðila. Stefnandi tekur fram að fyrst við breytingu á samþykktunum í mars 2000 hafi verið tekið fram að Mjólkursamsalan væri samvinnufélag í eigu mjólkurframleiðenda, en skv. eldri samþykktum hafði Mjólkursamsalan verið sölusamlag mjólkur-samlaganna á Suður- og Vesturlandi. En skv. ákvæði 11. gr. eldri samþykkta, þ.e. fyrir 1994 þá átti Mjólkursamsalan að greiða í sérstakan stofnsjóð samlagsfélaganna, sem stefnandi átti hlutdeild í sem félagsmaður í Mjólkursamlagi Kjalarness. Það var hins vegar aldrei greitt í þennan sjóð. Fjöldi félaga í Mjólkursamsölunni var nokkuð stöðugur á tímabilinu 1995-2001 eða á milli 1300-1400. Á tímabilinu 2002-2004 fækkaði hins vegar félögum sem áttu inneign í séreignarsjóði úr 1346 í ársbyrjun 2002 niður í 709 í árslok 2004. Ástæða þessarar gífurlegu fækkunar var breytingin á 11. gr. samþykktanna. Þegar aðilum hafði verið fækkað niður í 722 var séreignarsjóðurinn endurmetinn og 548.908.188 krónur færðar af endurmatsreikningi í séreignarsjóðinn til hækkunar á inneign þeirra sem þar voru. Stefnandi telur að þeir aðilar sem urðu af þessu endurmati hafi margir hverjir verið elstu félagsmennirnir enda höfðu þeir hætt mjólkurframleiðslu m.a. fyrir aldurs sakir. Þeir höfðu engu að síður lagt inn mjólk í marga áratugi og höfðu hagsmuni af því að séreign þeirra yrði endurmetin að teknu tilliti til hinnar gífurlegu eignaaukningar sem átt hafði sér stað. Að teknu tilliti til þessa þá hafði sá möguleiki stefnanda, skv. eldri samþykktum, á að geyma inneign sína, sérstaka þýðingu fyrir hann m.a. vegna þess að stjórninni var heimilt fram til ársloka 2004 að leiðrétta verðmæti hins rýra séreignarsjóðs með því að færa fjármuni af endurmatsreikningi yfir í séreignarsjóðinn samkvæmt ákvæði II. til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991. Þessi möguleiki á að geyma innistæðuna hafði líka þýðingu fyrir stefnanda ef Mjólkursamsalan hefði nýtt sér aðrar heimildir sem lögfestar voru með lögum nr. 22/2001 svo sem um að breyta samvinnufélagi í hlutafélag, sbr. 61. gr. laga nr. 22/1991, sbr. 6. gr. laga nr. 22/2001 eða hækka séreignarhluti félagsaðila í stofnsjóði, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga nr. 22/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 22/2001. 2.Stefnandi telur að þær breytingar sem gerðar hafi verið á 11. gr. samþykktanna, 8. mars 2002, hafi brotið gegn 72. gr. laga nr. 22/1991 um samvinnufélög. Samkvæmt 72. gr. fyrrnefndra laga þá má félagsfundur ekki taka ákvörðun sem bersýnlega er fallin til þess að afla ákveðnum félagsaðilum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsaðila eða félagsins. Stefnandi máls þessa hafði mikla hagsmuni af því að fá að geyma inneign sína í séreignarsjóði eftir samþykkt laga nr. 22/2001 um breyting á lögum nr. 22/1991. Stefnandi hafði verið aðili að Mjólkursamsölunni allt frá 1983 þegar hann hóf mjólkurframleiðslu. Hann hafði frá þeim tíma lagt fjármuni til hennar, eins og svo margir aðrir mjólkurbændur og þannig stuðlað að framgangi hennar. Á þessum tíma höfðu eignir Mjólkursamsölunnar aukist verulega en vegna ákvæða laga nr. 22/1991 var stjórninni ekki heimilt að leyfa einstökum félagsaðilum að njóta þeirrar aukningar. Lög nr. 22/2001, sem breyttu lögum nr. 22/1991, veittu stjórninni þessa heimild. Meginefni þeirra breytinga sem fólust í lögum nr. 22/2001 voru: Í fyrsta lagi að heimilað yrði að hækka séreignarhluti félagsaðila til þess að stofnsjóðir samvinnu-félags endurspegli betur eigið fé félags. Í öðru lagi var heimilað að breyta samvinnu-félagi í hlutafélag og í þriðja lagi var heimilað að láta framkvæma sértækt endurmat á eignum samvinnufélaga og í kjölfar þess að færa fjármuni af sérstökum endur-matsreikningi yfir á séreignarsjóð til hækkunar á inneign einstakra félagsaðila. Það hafði því sérstaka þýðingu fyrir stefnanda að mega geyma fjármuni sína inná séreignareikningi, a.m.k í þeirri von að hið sértæka endurmat færi fram fyrir árslok 2004 til hækkunar á inneign hans. Stefnandi telur að sú breyting sem stjórn Mjólkursamsölunnar lagði til á 11. gr. samþykktanna komi í veg fyrir þetta. Afleiðingin var sú að inneign fjölmargra félagsaðila í séreignarsjóði var greidd út án þess að sú inneign hefði verið leiðrétt með sértæku endurmati samkvæmt ákvæði II. til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991. Því meiri sem fækkun félagsaðila í séreignarsjóði varð þeim mun meira yrði til skiptanna þegar hið sértæka endurmat færi fram, m.ö.o. þá fengju þeir sem ættu inneign í séreignarsjóði, þegar endurmatið færi fram, meira en þeir hefðu fengið hefði 11. gr. samþykktanna ekki verið breytt. Í þessu fólst að ákveðnum félagsaðilum var aflað ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsaðila. 3.Stefnandi byggir á því að breytingin á 11. gr. samþykktanna hafi verið liður í því að hið sértæka endurmat færi fram og að 548.908.188 krónur skyldu færðar af endurmatsreikningi yfir í séreignarsjóð og hafi breytingin þannig brotið gegn ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991, sbr. lög nr. 22/2001. Stefnandi vísar til framangreinds um þá mismunun sem breytingin á 11. gr. samþykktanna hafði í för með sér en þá var ekki gætt þess jafnræðis og sanngirnis milli félagsmanna sem gert var ráð fyrir þegar umrætt bráðabirgðaákvæði var sett. Um tengslin milli breytingarinnar á 11. gr. samþykktanna og hins sérstaka endurmats má vísa til fundargerðar aðalfundar 8. mars 2002 þegar umdeild breyting á 11. gr. samþykktanna var samþykkt. Á þeim fundi er þáverandi stjórnarformaður Mjólkursamsölunnar spurður að því, hvað liði flutningi af eigin fé félagsins yfir í séreignarsjóði félagsmanna. Stjórnarformaðurinn svaraði því til að breytingin á 11. gr., sem samþykkt var á fundinum, væri eitt af skrefunum í þá átt. 4.Stefnandi telur að sú staðreynd, að þær breytingar sem gerðar voru á 11. gr. samþykktanna, hafi ekki verið tilkynntar til samvinnufélagaskrár, hafi falið í sér brot gegn 2. mgr. 70. gr. laga nr. 22/1991 um samvinnufélög og eigi að leiða til þess að þær séu ekki skuldbindandi fyrir stefnanda. Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. laga nr. 22/1991 ber að tilkynna samþykkt um breytingu á samþykktum samvinnufélags til samvinnufélagaskrár þegar í stað og breytingin öðlast eigi gildi fyrr en hún hefur verið skráð. Þegar stefnanda varð ljóst, um mitt ár 2002, að 11. gr. samþykktanna hafði verið breytt, þá gerði hann athugasemdir við stjórnina. Þær athugasemdir fólust m.a. í því að fyrrnefndar breytingar hefðu ekki verið tilkynntar til samvinnufélagaskrár, sbr. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 22/1991. Þar sem stefnandi hélt fram rétti sínum áður en fyrrnefndar breytingar voru tilkynntar til samvinnufélagaskrár, þá verður að telja að umræddar breytingar séu ekki skuldbindandi fyrir hann. 5.Varðandi það við hvaða tímamark skuli miða lok félagsaðildar bendir stefnandi á bréf lögmanns Mjólkursamsölunnar frá 8. ágúst 2002 en þar sagði: „til þess að vera félagsmaður í MS verður viðkomandi að vera mjólkurframleiðandi. Ákvæði 3. mgr. 11. gr. samþykktanna endurspeglar þetta en þar segir að séreign hvers mjólkurframleiðanda í séreignarsjóði falli til útborgunar er hann hættir mjólkurframleiðslu.“ Stefnandi telur þessa afstöðu vera í ósamræmi við það sem fram komi í fundargerð, dags. 19. mars 2004, en þar sagði m.a. um það hvaða áhrif það hefði þegar 548.908.188 kr. voru millifærðar af endurmatsreikningi yfir á séreignarsjóðsreikning: „Ákvæðið í tillögunni [...] á sér stoð í 3. og 4. mgr. 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar, en þar segir að menn haldi félagsréttindum sínum meðan þeir framleiða mjólk og leggja hana að staðaldri inn hjá Mjólkursamsölunni eða í afurðastöð á vegum einhverrar samlagsdeildar hennar. Félagsaðildinni lýkur við afgreiðslu ársreiknings þess árs, er viðskiptum með mjólkurinnlegg var hætt.“ Samkvæmt þessu virðist lögmaður stefnda hafa miðað lok félagsaðildar við það þegar mjólkurframleiðslu var hætt en stjórnin við afgreiðslu ársreiknings þess árs, er viðskiptum var hætt. Stefnandi telur að breyting á 11. gr. samþykktanna, sem framkvæmd var 8. mars 2002, sé ólögmæt. Hann hefur talið að hann væri fullgildur félagsmaður þótt hann hefði ekki lagt inn mjólk þar sem hann ætti inneign í séreignarsjóði m.ö.o. þar sem stefnandi væri enn eigandi að séreignarsjóðsinnistæðu og bæri því ábyrgð á skuldbindingum Mjólkursamsölunnar með þeirri inneign, sbr. t.d. 18. og 37. gr. laga nr. 22/1991 um samvinnufélög, þá ætti hann rétt til séreignar sinnar og því sem henni fylgir og fylgja ber þ.á m. vaxta, verðbóta, og hlutfallslegrar aukningar á inneigninni. Þannig hefði stefnandi getað geymt séreign sína og beðið þess að stjórnin nýtti sér heimild samkvæmt ákvæði II. til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991 til að endurmeta verðmæti séreignar stefnanda þótt hann hefði ekki skilað mjólk. Mjólkursamsalan hefur hins vegar haldið því fram, að þetta væri stefnanda óheimilt vegna þess að hann hefði með því að hætta mjólkurframleiðslu og að teknu tilliti til breytingarinnar á 11. gr. samþykktanna ekki lengur getað verið félagsaðili. Ofangreind afstaða var í mótsögn við samþykkt Mjólkursamsölunnar þegar hún ákvað að nýta sér heimild í ákvæði II. til bráðabirgða samkvæmt lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög. Samþykktin á aðalfundi hinn 19. mars 2004 var svohljóðandi: „Aðalfundur Mjólkursamsölunnar haldinn að Bitruhálsi 1, Reykjavík, föstudaginn 19. mars 2004 samþykkir að kr. 548.908.188,- verði færðar af óbundnu eigin fé í séreignarsjóð félagsins með fyrirvara um samþykki skattstjóra. Fjárhæðin deilist á séreignarsjóðseigendur í hlutfalli við séreignarsjóðseign þeirra um áramótin 2003/2004, þó þannig að allir þeir sem lögðu inni mjólk á árinu 2003 fái hlutdeild í hækkuninni.“ Samkvæmt þessu virðist aðalfundur vera þeirrar skoðunar að séreignarsjóðseigendur gætu notið fullra félagsréttinda jafnvel þó þeir væru hættir mjólkurframleiðslu. Stefnandi hafnaði móttöku á inneign sinni í júní 2002 þegar stjórnin gerði tilraun til að greiða honum inneign hans. Stefnandi taldi vænlegast að bíða a.m.k. þangað til að stjórnin léti endurmeta inneign hans samkvæmt ákvæði II. til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög. Stefnandi var því séreignarsjóðseigandi um áramótin 2003/2004 þegar ofangreint var samþykkt á aðalfundi og á stefnandi því skýran rétt til þeirrar hækkunar sem varð á inneign hans með ofangreindri samþykkt. Í þessu sambandi ber að taka fram að stefnandi hefur ekki upplýsingar um það hvort séreign hans hafi verið deponeruð eða ráðstafað á annan lögmæltan hátt. 6.Um forsendur og útreikning stefnukröfunnar. Stefnandi hefur ekki fengið séreignarsjóðsinneign sína útborgaða, að viðbættum vöxtum og verðbótum samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga nr. 22/1991, enda hafnaði hann móttöku hennar þegar Mjólkursamsalan bauðst til að greiða hana út í júní 2002. Hann er því enn þá séreignarsjóðseigandi og er höfuðstóll inneignar hans 227.725 krónur, en telja verður að hún hafi hækkað vegna vaxtagreiðslna og verðbóta, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 22/1991 auk þeirrar hlutfallslegu aukningar sem varð á inneigninni þegar stjórnin ákvað að nýta sér heimild II. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991. Guðmundur Snorrason, löggiltur endurskoðandi reiknaði út hver væri hlutdeild stefnanda í séreignarsjóði í árslok 2004, ef inneign hans hefði ekki verið greidd út. Niðurstaðan skv. hans útreikningum var sú að hlutdeild stefnanda í séreignarsjóði í árslok 2004 hefði numið 1.571.276 krónum, sem er stefnufjárhæð máls þessa. Ekki er tölulegar ágreiningur í málinu. 7.Um lagarök vísast til almennra óskráðra meginreglna félagaréttarins um samvinnufélög. Auk þess verður vísað til laga nr. 22/1991 um samvinnufélög, ásamt áorðnum breytingum, einkum 37., 38., 70., 71. og 72., auk þess sem vísað er til laga nr. 22/2001 um breyting á lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög. Þá er einnig vísað til almennra reglna kröfuréttar og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefnandi hefur fengið gjafsóknarleyfi frá dómsmálaráðherra. Krafan um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. ennfremur 126.-127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málsástæður og lagarök stefnda. 1.Um aðild að Mjólkursamsölunni. Mjólkursamsalan í Reykjavík var stofnuð með lögum nr. 1/1935. Fyrstu starfsreglur félagsins (sem síðar kölluðust samþykktir) litu dagsins ljós 4. mars 1936. Frá upphafi var gert ráð fyrir því að aðilar að Samsölunni væru mjólkurframleiðendur, sbr. orðalag 1. gr. reglnanna. „Fyrst um sinn skulu mjólkurframleiðendur vestan heiða hafa forgangsrétt til sölu neyslumjólkur á sölusvæði Samsölunnar.“ Þegar stefnandi gerðist aðili að Mjólkursamsölunni, árið 1983, var tekið fram í 2. gr. samþykkta félagsins að Mjólkursamsalan væri sölusamlag mjólkursamlaganna á Suður- og Vesturlandi, m.a. Mjólkursamlags Kjalanesþings, sem stefnandi tilheyrði. Samkvæmt 5. gr. samþykktanna var gert ráð fyrir því að haldin væri skrá yfir alla mjólkurframleiðendur, sem lagt hefðu inn mjólk að staðaldri og ekki minna en 2000 lítra á ári og búsetu hefðu á svæði samlagsdeildarinnar. Þeir, sem uppfylltu þessi skilyrði, töldust virkir mjólkurframleiðendur. Samþykktunum var breytt í nóvember 1994 og hljóðaði 2. gr. eftir þær breytingar svo: „Mjólkursamsalan er sölusamlag í eigu mjólkurframleiðenda á Suður- og Vesturlandi og starfar á samvinnugrundvelli. Aðild að Mjólkursamsölunni eiga samlagsdeildir Mjólkurbús Flóamanna, Mjólkursamlags Kjalarnesþings, Mjólkursamlags Borgfirðinga og Mjólkursamlagsins í Búðardal. Ábyrgð einstakra mjólkurframleiðenda á skuldbindingum Mjólkursamsölunnar er takmörkuð þannig að þeir bera einvörðungu ábyrgð á skuldbindingum með inneign sinni í séreignarsjóði skv. 11. gr.“ Með breytingu á samþykktunum 21. mars 2003 hljóðar 5. gr. samþykktanna nú svo: “Mjólkurframleiðendur verða félagsaðilar í Mjólkursamsölunni leggi þeir að staðaldri mjólk í afurðastöð einhverrar af samlagsdeildum hennar.“ Samkvæmt 2. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar, sem í gildi voru á árinu 2001 er stefnandi lét af mjólkurframleiðslu, var félagið samvinnufélag í eigu mjólkurframleiðenda. Í 1. mgr. 5. gr. er tekið fram að mjólkurframleiðendur verði félagsmenn í Samsölunni séu þeir félagsmenn í einhverri af samlagsdeildum hennar. Til þess að vera félagsmaður í Mjólkursamsölunni varð viðkomandi að vera mjólkurframleiðandi. Ákvæði 3. mgr. 11. gr. samþykktanna endurspeglaði þetta en þar sagði að séreign hvers mjólkurframleiðanda í séreignarsjóði félli til útborgunar er hann hætti mjólkurframleiðslu. Þegar stefnandi hætti mjólkurframleiðslu uppfyllti hann ekki lengur skilyrði félagsaðildar að Mjólkursamsölunni. Til að taka af allan vafa um þetta sagði í 4. mgr. 11. gr. samþykktanna að inneign séreignarsjóði félli til Mjólkursamsölunnar að 10 árum liðnum eftir að félagsaðild lýkur, enda hafi ekki verið gerð krafa um greiðslu hennar. Mjólkursamsalan hefur því ávallt verið samvinnufélag mjólkurframleiðenda. Aðrir gátu ekki fengið aðild að félaginu. Samkvæmt 15. gr. samvinnufélagalaga nr. 22/1991 fellur félagsaðild á brott þegar félagsaðili fullnægir ekki lengur ákvæðum félagssamþykkta um félagsaðild. Þeir sem hættu mjólkurframleiðslu gátu ekki verið félagsaðilar eða notið þeirra réttinda og/eða skyldna, sem félagsaðilar nutu. Í stefnu er því haldið fram að fullyrðing Mjólkursamsölunnar þess efnis að stefnandi hafi ekki lengur verið félagsaðili er breytingin var gerð á 11. gr. samþykktanna 8. mars 2002 sé í mótsögn við samþykkt sem gerð var á aðalfundi Mjólkursamsölunnar 19. mars 2004. Samþykktin hljóðaði um yfirfærslu af óbundnu fé í séreignarsjóð félagsins. Síðan sagði orðrétt í samþykktinni: „Fjárhæðin deilist á séreignarsjóðseigendur í hlutfalli við séreignarsjóðseign þeirra um áramótin 2003/2004, þó þannig að allir þeir sem lögðu inn mjólk á árinu 2003 fái hlutdeild í hækkuninni“. Stefnandi fullyrðir í stefnunni að aðalfundur virðist álíta að séreignarsjóðseigendur gætu notið fullra félagsréttinda jafnvel þótt þeir væru hættir mjólkurframleiðslu. Þetta er á misskilningi byggt hjá stefnanda. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar, sem voru í gildi 19. mars 2004, þá lýkur félagsaðild við afgreiðslu ársreiknings þess árs er viðskiptum með mjólkurinnlegg var hætt. Afgreiðsla ársreiknings fyrir árið 2003 átti sér stað á aðalfundi félagsins 19. mars 2004. Samþykktin um yfirfærslu af óbundnu fé í séreignarsjóð félagsins var tekin til afgreiðslu á aðalfundinum undir 8. dagskrárlið „Tillögur stjórnar“, en ársreikningarnir eru afgreiddir undir 5. og 6. dagskrárlið. Afgreiðslu ársreiknings ársins 2003 var þar af leiðandi lokið þegar kom að samþykktinni um séreignarsjóðinn. Því var samþykktin orðuð með þessum hætti, þ.e. tekin voru af öll tvímæli um það að þeir sem lagt höfðu inn mjólk á árinu 2003, en t.d. hætt mjólkurframleiðslu 1. desember 2003, myndu ekki missa af yfirfærslunni í séreignarsjóðinn vegna röðunar dagskrárliða á aðalfundinum. Stefndi telur ljóst að þegar stefnandi hætti mjólkurframleiðslu í maí 2001 uppfyllti hann ekki lengur skilyrði til að vera félagsaðili að Mjólkursamsölunni. Þegar af þeirri ástæðu á hann ekki rétt til hlutdeildar í þeirri hækkun sem gerð var á séreignarsjóðnum í mars 2004. Það að stefnandi hafi hafnað að veita viðtöku greiðslu á innistæðu sinni í séreignarsjóðnum sumarið 2002 breytir engu í því sambandi. 2.Um séreignarsjóð Mjólkursamsölunnar. Samkvæmt 37. gr. samvinnufélagalaga nr. 22/1991 er stofnsjóður samvinnufélags myndaður af séreignarhlutum félagsaðila. Séreignarhlutar verða til við greiðslu aðildargjalds að samvinnufélaginu og við það að hluti af hagnaði félagsins bætist við. Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. samvinnufélagalaga kemur séreignarsjóðurinn til útborgunar við andlát félagsmanns og við slit félagsaðila. Þá segir í 2. mgr. 38. gr. að jafnframt skuli greiða út séreignarhluta að ósk félagsaðila ef hann flytur af félagssvæði, enda gangi hann úr félaginu. Þá skal að ósk félagsmanns greiða honum séreignarhlutann ef hann hefur náð 70 ára aldri, enda þótt hann haldi áfram þátttöku í félaginu. Séreignarsjóður Mjólkursamsölunnar varð til með breytingum, sem gerðar voru á samþykktum félagsins 1. nóvember 1994. Samkvæmt 11. gr. samþykktanna skyldi séreignarsjóður vera til innan Mjólkursamsölunnar og skyldi árlega renna í hann allt að 0,2% af útborgunarverði innlagðrar mjólkur á starfssvæði Mjólkursamsölunnar, samkvæmt nánari ákvörðun aðalfundar. Aðalfundur Mjólkursamsölunnar hefur í samræmi við þetta tekið ákvarðanir um framlög í séreignarsjóð, eins og t.d. á aðalfundi 17. mars 2000, þar sem ákveðið var að tillag í séreignarsjóð yrði 0,2% af útborgunarverði mjólkur árið 2001, en þann aðalfund sótti m.a. stefnandi. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða er samþykkt var sama dag, 1. nóvember 1994, skyldi leggja í séreignarsjóð framlag frá Mjólkursamsölunni vegna innlagðrar mjólkur framleiðenda á árunum 1985 til og með 1994. Framlagið skyldi vera 0,2% af grundvallarverði mjólkurlítra á árinu 1994, þ.e. 10 aurar, margfaldaðir með innlögðum mjólkurlítrum hjá hverjum framleiðanda á fyrrgreindu tímabili. Flestir af þeim mjólkurframleiðendum sem hættu framleiðslu á tímabilinu 1994 til 2002 óskuðu eftir því og fengu greidda innstæðu sína í séreignarsjóðnum. Í 3. mgr. 38. gr. samvinnufélagalaga segir að hægt sé að setja í samþykktir samvinnufélags ákvæði sem heimili útborgun séreignarhluta ef félagsaðili hættir þeirri starfsemi sem er grundvöllur þátttöku hans í félaginu. Í samræmi við þetta ákvæði var kveðið á um það í 3. mgr. 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar, eins og þær hljóðuðu, er stefnandi hætti mjólkurframleiðslu árið 2001, að séreign hvers mjólkurframleiðanda félli til útborgunar er hann hætti mjólkurframleiðslu, en væri að öðru leyti ekki kræf. Skyldi hann eða erfingjar hans, væri hann látinn, óska skriflega eftir útborgun á inneigninni. Stjórn Samsölunnar var heimilt að fresta útborgun í eitt ár frá því að beiðni um hana barst. Það var hins vegar ekkert sem bannaði Samsölunni að greiða út inneign án kröfu. Þetta ákvæði þótti ekki sanngjarnt. Eins og ákvæðið var orðað var hætta á því að inneignir gætu „dagað uppi“ hjá félaginu í meira en tíu ár. Það var talið ósanngjarnt ákvæði að inneignin gæti fallið til Mjólkursamsölunnar eftir tíu ár. Því var ákveðið að leggja til breytingu á samþykktunum á aðalfundi 8. mars 2002, þess efnis að séreign hvers mjólkurframleiðanda í séreignarsjóði félli til útborgunar er hann hætti mjólkurframleiðslu, en væri að öðru leyti ekki kræf. Síðan sagði: „Nú leggur framleiðandi niður framleiðslu og skal þá greiða honum að fullu hlutdeild hans í séreignarsjóði eigi síðar en 1. júlí á því ári sem eftir fer.“ Sú kvöð var með öðrum orðum lögð á félagið að hafa frumkvæði að því að greiða þeim aðilum sem hættir voru framleiðslu og uppfylltu því ekki lengur skilyrði félagsaðildar að Mjólkursamsölunni inneign þeirra. Það átti því engin hætta að vera á því að inneignir „döguðu uppi“ hjá félaginu. Jafnframt var samþykkt sérstakt ákvæði til bráðabirgða sem kvað á um það að greiða skyldi þeim framleiðendum sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu á árinu 2001, eða fyrr, að fullu hlutdeild þeirra í séreignarsjóði, eigi síðar en 1. júlí 2002. Með þessu var tryggt að þeir sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu á undanförnum tíu árum, en ekki gætt að því að krefjast útborgunar séreignarsjóðs síns, fengju greiddar þær inneignir. Meðal annars voru nokkur dánarbú sem áttu inneign í séreignarsjóðnum. Ákvæði þetta var sett til hagsbóta fyrir fyrrverandi félagsmenn, þannig að tryggt væri að þeir fengju inneign sína í séreignarsjóði greidda út, en að hún félli ekki til félagsins að tíu árum liðnum. Það var ekki sett til að útiloka stefnanda frá því að fá hlutdeild í hugsanlegri aukningu séreignarsjóðs, svo sem hann hefur haldið fram. 3.Um að breyting á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar hafi verið ólögmæt og því ekki skuldbindandi fyrir stefnanda. Stefnandi heldur því fram að breytingin, sem gerð var á samþykktum Mjólkursamsölunnar 8. mars 2002 hafi verið marklaus vegna þess að hún hafi falið í sér breytingu á réttarsambandi aðila. Hana hafi því samkvæmt 71. gr. samvinnufélagalaga nr. 22/1991 átt að bera undir tvo félagsfundi í röð og hún hafi þurft stuðning ekki færri en 2/3 hluta atkvæðisbærra manna. Stefndi tekur fram vegna þess síðastnefnda, að tillaga um breytingu á 11. gr. samþykkta félagsins hafi hlotið atkvæði 17 fulltrúa af 21 á aðalfundinum 2002. Þá hafi breytingin á 11. gr. samþykktanna ekki falið í sér breytingu á réttarsambandi aðila. Samkvæmt áðurgildandi 3. mgr. 11. gr. féll inneign hvers mjólkurframleiðanda til útborgunar þegar hann hætti mjólkurframleiðslu. Stefndi telur að breytingartillagan hafi fellt úr gildi ósanngjarnt ákvæði 4. mgr. 11. gr. þess efnis, að ef inneignarinnar væri ekki vitjað innan tíu ára félli hún til Mjólkursamsölunnar. Breytingartillagan var gerð til hagsbóta fyrir fyrrverandi félagsmenn í Mjólkursamsölunni. Þá var kveðið á um það í breytingatillögunni hvenær Mjólkursamsölunni bæri að greiða inneign þeirra mjólkurframleiðenda sem hætt hefðu mjólkurframleiðslu á árinu 2001, en það átti að gera eigi síðar en 1. júlí 2002. Samkvæmt áðurgildandi samþykktum féll inneignin í gjalddaga þegar aðilar hættu mjólkurframleiðslu og voru þar af leiðandi ekki lengur félagar í Mjólkursamsölunni. Engin breyting varð á því með samþykkt tillagna um breytingu á 11. gr. samþykktanna á aðalfundi 8. mars 2002. Stefndi telur því að breytingin sem samþykkt var á aðalfundinum hafi ekki falið í sér breytingu á réttarsambandi aðila. Hún var ekki andstæð 71. gr. samvinnufélagalaga. Stefnandi var ekki félagsaðili er breytingin var gerð, hann hætti að uppfylla skilyrði félagsaðildar í maí 2001 er hann lét af mjólkurframleiðslu. Hann átti hins vegar inneign í séreignarsjóði, sem þarf alls ekki að vera það sama og vera félagsaðili. Stefndi telur ekki rétt með farið í stefnu þar sem því sé haldið fram að breytingin sem gerð var á 11. gr. samþykktanna 8. mars 2002 hafi leitt til verulegrar fækkunar félagsaðila sem hefðu átt inneign í séreignarsjóði og vísað til ársskýrslna Mjólkursamsölunnar árin 1995 til 2004 í því sambandi. Stefndi segir að í ársskýrslunum sé vissulega ávallt gerð grein fyrir fjölda þeirra sem eiga inneign í séreignarsjóði, en þeir eru ekki nefndir félagsaðilar, heldur aðilar, vegna þess að þeir sem áttu inneign í séreignarsjóði fyrir 1. júlí 2002 voru ekki allir félagsaðilar í Mjólkursamsölunni. Sumir, þar á meðal stefnandi, voru ekki lengur félagsaðilar vegna þess að þeir höfðu látið af mjólkurframleiðslu. Þeim sem áttu inneign í séreignarsjóði fækkaði eftir samþykktina á aðalfundinum 8. mars 2002 vegna þess að þar var Mjólkursamsalan skylduð til að greiða út inneignir þeirra sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu. Sumir höfðu átt þessar inneignir árum saman, aðrar tilheyrðu dánarbúum og virtust hreinlega hafa gleymst o.s.frv. 4.Um að breyting á 11. gr. samþykktanna andstæð 72. gr. samvinnufélagalaga. Í stefnu er því haldið fram að breytingin sem gerð var á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar 8. mars 2002 hafi verið andstæð 72. gr. samvinnufélagalaga vegna þess að félagsfundur megi ekki taka ákvörðun sem bersýnilega sé fallin til þess að afla ákveðnum félagsaðilum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsaðila eða félagsins. Þá er því haldið fram að breytingin hafi leitt til þess að stefnandi hafi ekki fengið að njóta þeirra aukningar sem gerð var á séreignarsjóðnum. Stefndi tekur fram að ástæða þess að stefnandi var ekki lengur félagsaðili að Mjólkursamsölunni hafi verið sú að hann var hættur mjólkurframleiðslu. Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu, að stefnandi héldi áfram mjólkurframleiðslu. Það voru engar kvaðir á honum um tiltekið lágmarksmagn, hann hefði getað haldið t.d. eina kú. Stefndi telur að stefnandi hafi mátt vita það að um leið og hann hætti mjólkurframleiðslu uppfyllti hann ekki lengur skilyrði félagsaðildar að Mjólkursamsölunni. Hann hafði tekið það mikinn þátt í störfum innan félagsins sem fulltrúi á fulltrúaráðsfundum og aðalfundum. Breytingin sem samþykkt var leiddi til þess að greidd var út inneign þeirra sem hættir voru mjólkurframleiðslu en áttu engu að síður inneign í séreignarsjóðnum. Hún hafði engin áhrif á þá sem voru félagsaðilar í Mjólkursamsölunni þegar samþykktin var gerð. Þegar af þeirri ástæðu var ekki um að ræða ákvörðun sem væri bersýnilega til þess fallin að afla ákveðnum félagsaðilum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsaðila. Á þessu tímamarki uppfyllti stefnandi ekki lengur skilyrði félagsaðildar að Mjólkursamsölunni. Breytingarnar hlutu samþykki tilskilins meirihluta fulltrúa á aðalfundi og þær fela ekki í sér röskun á réttarsambandi aðila. Ákvörðunin var því ekki andstæð 72. gr. samvinnufélagalaga. 5.Um að breyting á 11. gr. samþykktanna væri liður í að hið sértæka endurmat færi fram og því andstæð ákvæði II. til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991, sbr. lög nr. 22/2001. Í stefnu er því haldið fram að breytingin á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar, sem samþykkt var 8. mars 2002 hafi verið andstæð jafnræði og sanngirni milli félagsmanna, sem gert var ráð fyrir þegar bráðabirgðaákvæðið var sett. Enn aftur er hér byggt á því að stefnandi hafi verið félagsaðili þegar breytingin var gerð. Það var stefnandi ekki. Breytingin var í fullu samræmi við ákvæði II. til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991. 6.Um að breytingarnar hafi ekki verið tilkynntar til samvinnufélagaskrár fyrr en eftir að stefnandi hélt fram rétti sínum. Þá er því haldið fram í stefnu að breytingarnar hafi ekki verið skuldbindandi fyrir stefnanda vegna þess að hann hélt fram rétti sínum áður en fyrrgreindar breytingar voru tilkynntar til samvinnufélagaskrár. Það sé vissulega rétt að breytingarnar á 11. gr. samþykktanna, sem samþykktar voru 8. mars 2002, voru ekki tilkynntar til samvinnufélagaskrár fyrr en í ágúst 2002. Þá tók breytingin gildi, sbr. 2. mgr. 70. gr. samvinnufélagalaga. Stefndi telur hins vegar að engin réttaráhrif hafi verið bundin við bréf lögmanns stefnanda til Mjólkursamsölunnar, dags. 31. júlí 2002. Stefndi telur að það verði að hafa í huga að það var ekkert sem bannaði stjórnendum Mjólkursamsölunnar að greiða út innstæðu í séreignarsjóði til þeirra sem hættir voru mjólkurframleiðslu fyrir samþykktabreytinguna 8. mars 2002. Samþykktabreytingin fól það í sér að Mjólkursamsölunni var gert skylt að greiða þeim sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu innstæðu þeirra í séreignarsjóði, en áður glötuðu menn innstæðunni ef þeir óskuðu ekki eftir greiðslu hennar innan tíu ára. Forsendur og niðurstaða. Ágreiningur máls þessa snýst um það hvort stefnandi eigi rétt á hlutdeild í þeirri hækkun á séreignarsjóði Mjólkursamsölunnar sem samþykkt var á aðalfundi félagsins 19. mars 2004. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu. Þá er ágreiningslaust að stefnandi var í mjólkurframleiðslu frá 1983 til maí 2001 og einnig er ágreiningslaust að stefnandi hefur ekki fengið greidda inneign sína í séreignarsjóðnum, en hann endursendi stefnda þá fjárhæð 31. júlí 2002. Stefndi málsins er samvinnufélag og fer um það félagsform eftir lögum nr. 22/1991 með síðari breytingum. Samkvæmt 1. gr. laganna er markmið samvinnufélaga að efla hag félagsmanna eftir viðskiptalegri þátttöku þeirra í félagsstarfinu. Samkvæmt 15. gr. sömu laga er félagsaðild heimil öllum þeim sem starfa vilja í félaginu og félagsaðild fellur brot þegar félagsaðili fullnægir ekki lengur ákvæðum félagssamþykkta um félagsaðild. Þá er heimilt skv. 3. mgr. 38. gr. sömu laga að setja í samþykktir samvinnufélags ákvæði sem heimilar útborgun séreignarhluta, ef félagsaðili „hættir þeirri starfssemi sem er grundvöllur þátttöku hans í félaginu“. Lögin gera því ráð fyrir að félagsmenn taki þátt í félagsstarfinu og vísað er til félagssamþykkta varðandi það hvenær félagsaðild falli brott. Frá fyrstu starfsreglum og samþykktum Samsölunnar er gert ráð fyrir að félagsmenn séu mjólkurframleiðendur og Mjólkursamsalan sé samvinnufélag í eigu mjólkurframleiðenda. Aðrir en mjólkurframleiðendur hafa ekki átt aðild að Mjólkursamsölunni. Stefnandi var við mjólkurframleiðslu frá árinu 1983 þar til hann hætti henni í maí 2001. Á þeim tíma eignaðist hann inneign í séreignarsjóðnum, en ákvæði um þann sjóð komu fyrst inn í samþykktir Mjólkursamsölunnar 1. nóvember 1994. Í 3. mgr. 11. gr. samþykkta þeirra, sem giltu er stefnandi lét af mjólkurframleiðslu segir að séreign hvers mjólkurframleiðanda falli til útborgunar „er hann hætti mjólkurframleiðslu“. Dómurinn telur ljóst, bæði með vísan til laga um samvinnufélög svo og ákvæða félagssamþykkta Mjólkursamsölunnar, að skilyrði sé að félagsmenn séu mjólkurframleiðendur, þ.e. séu með viðskiptalega þátttöku í félagsstarfinu. Þegar mjólkurframleiðsla er ekki lengur til staðar þá skorti skilyrði fyrir félagsaðild að Mjólkursamsölunni. Með því að stefnandi hættir mjólkurframleiðslu uppfyllir hann ekki lengur skilyrði fyrir félagsaðild samkvæmt lögum um samvinnufélög nr. 22/1991 né samþykktum Mjólkursamsölunnar. Því er það mat dómsins, að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því, hvernig Mjólkursamsalan breytti samþykktum sínum eftir maí 2001, þar sem hann átti ekki lengur félagsaðild að Mjólkursamsölunni. Í ákvæði 4. mgr. 11. gr. samþykkta þeirra er giltu er stefnandi lét af mjólkurframleiðslu kom fram að inneign í séreignarsjóði félli til Mjólkursamsölunnar að 10 árum liðnum eftir að félagsaðild lyki, enda hefði ekki verið gerð krafa um greiðslu hennar. Nefnt ákvæði skýtur enn frekar stoðum undir þá túlkun sem að framan greinir, þ.e. að skilyrði félagsaðildar sé mjólkurframleiðsla. Þá liggur fyrir, að stefnandi krafðist ekki inneignar sinnar úr séreignarsjóðnum er hann hætti framleiðslu og hefur því væntanlega ætlað að láta inneign sína standa í sjóðunum í þeirri von að hún hækkaði. Með þeirri ráðstöfun varð stefnandi ekki félagsaðili að Mjólkur-samsölunni. Né frekar naut hann félagsaðildar með því að endursenda stefnda inneign sína í séreignarsjóðnum er stefndi greiddi honum 31. júlí 2002. Með þeirri ráðstöfun eignaðist hann ekki aftur inneign í séreignarsjóðnum og bar þar af leiðandi ekki ábyrgð á skuldbindingum Mjólkursamsölunnar, sbr. 18. gr. laga nr. 22/1991. Að mati dómsins er það skýlaus skylda fyrir félagsaðild að samvinnufélaginu, þ.e. Mjólkursamsölunni, að vera með viðskiptalega þátttöku í félaginu, þ.e. í tilfelli stefnanda að vera mjólkurframleiðandi. Það nægir ekki til félagsaðildar, að hafa einhvern tímann verið mjólkurframleiðandi. Hinn 27. apríl 2001 var samþykkt á Alþingi breyting á lögum um samvinnu-félög nr. 22/1991. Þar kom inn ákvæði til bráðabirgða er heimilaði að endurmeta séreignarhluti félagsaðila í A-deild stofnsjóðs þess fyrir árslok 2004. Hér þurfti Mjólkursamsalan því að taka ákvörðun um það hvaða leið yrði farin til að nýta þá heimild er ákvæðið bauð uppá. Í kjölfarið var gerð gangskör að breytingum á samþykktum Mjólkursamsölunnar. Á aðalfundi 8. mars 2002 var samþykkt að greiða þeim framleiðendum að fullu hlutdeild þeirra í séreignarsjóði, sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu á árinu 2001 eða fyrr. Þessi breyting á 11. gr. samþykktanna var ástæða þess að stefnandi fékk senda ávísun 31. júlí 2002 er svaraði til inneignar hans í séreignarsjóðnum. Á aðalfundi árið eftir, þ.e. 21. mars 2003, varð enn breyting á 3. mgr. 11. gr. samþykktanna. Áréttað var að félagsréttindum haldi menn meðan þeir framleiða mjólk og leggi hana inn að staðaldri hjá Mjólkursamsölunni. Nýmæli kom í ákvæðið í þá veru, að félagsaðildinni lyki við afgreiðslu ársreiknings þess árs, er viðskiptum með mjólkurinnlegg var hætt. Á aðalfundi Mjólkursamsölunnar 19. mars 2004 var ákveðið að færa 548.908.188 kr. af óbundnu eigin fé í séreignarsjóð félagsins. Var það lokaráðstöfunin sem aðalfundur Mjólkursamsölunnar gerði til að fullnægja lagaskilyrðum nefnds ákvæðis til bráðabirgða. Að mati dómsins voru ákvarðanir þessar málefnalegar og í samræmi við það, að mjólkurframleiðsla er forsenda félagsaðildar. Ráðstafanirnar voru ekki til hagsbóta fyrir stefnda. Þær voru ekki til þess að koma í veg fyrir að stefnandi fengi einhverja hækkun, heldur höfðu þær sömu áhrif hjá stefnanda og hjá öðrum mjólkurframleiðendum sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu árið 2001. Fyllsta jafnræðis var því gætt. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ræðst niðurstaða málsins því af þeirri staðreynd, að stefnandi ákvað að hætta mjólkurframleiðslu í maí 2001. Um réttarstöðu hans fer því eftir þeim lagaákvæðum og ákvæðum samþykkta sem voru í gildi á þeim tíma. Stefnandi getur ekki byggt neinn rétt á því hvernig málin þróuðust hjá Mjólkursamsölunni eftir maí 2001, þar sem hann á ekki aðild að því. Þar af leiðandi hafnar dómurinn þeim sjónarmiðum stefnanda, að hann eigi rétt til hækkunar á séreignarsjóði, er hann krefst. Eins og fram hefur komið endursendi stefnandi stefnda ávísun að fjárhæð 227.725 krónur hinn 31. júlí 2002. Fjárhæð þessi var hluti stefnanda í séreignarsjóði Mjólkursamsölunnar og er fjárhæðin innifalin í stefnufjárhæð málsins. Stefndi hefur fyrir dómi viðurkennt rétt stefnanda til þessarar fjárhæðar. Því verður varakrafa stefnanda tekin til greina svo sem í dómsorði greinir. Í ljósi þess að varakrafa stefnanda er tekin til greina og einnig þess að stefndu deponeruðu ekki fjárhæð þessari eftir að stefnandi endursendi stefnda hana, þykir rétt að fella niður málskostnað á milli aðila. Stefnandi hefur fengið gjafsókn í máli þessu með bréfi dómsmálaráðuneytisins 5. september 2005. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmannsins, Sigurbjörns Magnússonar hrl., sem er hæfilega ákveðin 600.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunarinnar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Af hálfu stefnanda flutti málið Sigurbjörn Magnússon hrl. Af hálfu stefnda flutti málið Þórunn Guðmundsdóttir hrl. Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. Stefndi greiði stefnanda 227.725 krónur með almennum vöxtum frá 1. júlí 2002 til 5. desember 2005, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Málskostnaður milli aðila fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, 600.000 krónur. |
Mál nr. 199/1999 | Skaðabætur Líkamstjón Fasteign Gjafsókn | Þ stefndi S til að þola viðurkenningu á því, að hann bæri skaðabótaábyrgð á því tjóni, sem hún hefði orðið fyrir er hún hrasaði í tröppum í húsi hans. Ekki var talið sannað gegn mótmælum S að Þ hefði slasast með þessum hætti og var hann því sýknaður. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. maí 1999. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að sakarskiptingu héraðsdóms verði breytt aðaláfrýjanda í hag og málskostnaður felldur niður fyrir báðum dómstigum. Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 1. júlí 1999. Hún krefst þess að viðurkennd verði með dómi bótaskylda aðaláfrýjanda vegna líkamstjóns, sem hún hafi eða kunni að hafa orðið fyrir þegar hún hrasaði á hálkubletti á tröppum húss aðaláfrýjanda að Borgarbraut 14 í Borgarnesi 30. nóvember 1993. Hún krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem hún segist njóta fyrir Hæstarétti, þar sem gjafsókn hennar fyrir héraði, sem veitt var 28. janúar 1998, nái til málskostnaðar hér fyrir dómi, sbr. 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Til vara krefst hún þess að málskostnaður falli niður. I. Eins og nánar greinir í héraðsdómi kveðst gagnáfrýjandi hafa orðið fyrir slysi er hún gekk niður tröppur við hús aðaláfrýjanda í Borgarnesi 30. nóvember 1993 laust eftir kl. 12.34. Hafi hún átt erindi inn í starfstöð aðaláfrýjanda og verið á leið þaðan er atvikið varð. Á neðstu tröppunni hafi verið hálkublettur, sem hún hafi ekki getað varast, og runnið til á. Hún hafi þó náð að verjast falli, en við þetta hafi hún rekið hægri mjöðm í handrið, sem liggur meðfram tröppunum, auk þess sem mikill hnykkur kom á bak hennar. Aðaláfrýjandi telur ósannað í málinu, að gagnáfrýjandi hafi hrasað í áðurnefndum tröppum. Einnig sé ósannað að hálka eða klaki hafi verið á tröppunum umræddan dag, en veðurskýrslur frá Hvanneyri sama dag og næstu á undan bendi eindregið til að svo geti ekki hafa verið, auk þess sem snjóbræðslukerfi í tröppunum hefði þá eytt hálku, hafi hún samt náð að myndast. Verði á hvorugt fallist eigi engu að síður að taka sýknukröfuna til greina, enda verði slysið þá ekki rakið til annars en óhappatilviljunar eða gáleysis gagnáfrýjanda, sem hafi mátt sjá klakann á leið sinni inn í húsið og því átt að varast hann hefði eðlilegrar varkárni verið gætt. II. Í málinu hafa verið lagðar fram kvittanir um greiðslu af skuldabréfum, sem bera greiðslustimpil aðaláfrýjanda með dagsetningunni 30. nóvember 1993. Kemur nafn gagnáfrýjanda fyrir á reit, þar sem greiðandi skuldanna er tilgreindur. Telur hún kvittanirnar sanna að hún hafi verið á ferð í afgreiðslu aðaláfrýjanda umræddan dag og hrasað á leið þaðan. Beri auk þess nokkur vitni að hún hafi sagt þeim frá því eftir atburðinn að hún hafi fallið í tröppunum á hálkubletti. Engin vitni urðu að óhappi gagnáfrýjanda og hún gerði aðaláfrýjanda ekki viðvart um að það hafi orðið. Hún gaf fyrst skýrslu um atvikið hjá lögreglu 17. maí 1995, en aðaláfrýjandi var ekki látinn vita um það fyrr en með bréfi lögmanns gagnáfrýjanda 14. maí 1997. Voru þá liðin nær þrjú og hálft ár frá því að hún kvað það hafa borið að höndum. Staðhæfingar gagnáfrýjanda um hvar og hvernig óhappið varð hafa heldur ekki stoð í læknisvottorðum frá þeim tíma, er það á að hafa gerst. Í vottorði heilsugæslustöðvarinnar í Borgarnesi 10. júlí 1995 er þannig getið um færslu í heilsufarsskrá stofnunarinnar 1. desember 1993, þar sem segir að gagnáfrýjandi hafi þann dag verið frá vinnu vegna verkja í mjöðm, sem hún hlaut við að misstíga sig deginum áður. Færslur um heilsufar gagnáfrýjanda í sömu skrá í lok árs 1993 og byrjun árs 1994 veita engar frekari upplýsingar um tildrög óhapps hennar eða hvar það hafi orðið. Þegar það er virt, sem að framan greinir, verður ekki talið sannað gegn eindregnum mótmælum aðaláfrýjanda að gagnáfrýjandi hafi slasast með þeim hætti, sem hún heldur fram. Þegar af þeirri ástæðu verður aðaláfrýjandi sýknaður af kröfum hennar í málinu. Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda verður staðfest. Athuga ber, að í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis 28. janúar 1998 um gjafsókn gagnáfrýjanda í héraði er tekið fram berum orðum að gjafsóknin sé takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi. Leiðir beint af 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 að kostnaður gagnáfrýjanda af meðferð málsins fyrir Hæstarétti verður ekki felldur á ríkissjóð. Dómsorð: Aðaláfrýjandi, Sparisjóður Mýrasýslu, er sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, Þorgerðar Oddsdóttur. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda skal vera óraskað. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Dómur Héraðsdóms Vesturlands 17. mars 1999. Stefnandi þessa máls er Þorgerður Oddsdóttir, kt. 110142-2779, Brákarbraut 1 Borgarnesi, Borgarbyggð. Stefnt er Sparisjóði Mýrasýslu, kt. 610269-5409, Borgarbraut 14 Borgarnesi, Borgarbyggð, og Vátryggingafélagi Íslands hf. (VÍS), kt. 690689-2009, Ármúla 3 Reykjavík, til réttargæslu. Málið var höfðað með birtingu stefnu 8. júlí 1998. Það var þingfest 15. september s.á. og tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 25. febrúar sl. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þessar: Hún krefst viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna líkamstjóns sem hún (stefnandi) varð fyrir eða kann að hafa orðið fyrir, þegar hún hrasaði á hálkubletti á suðurtröppum húss stefnda, Sparisjóðs Mýrasýslu, að Borgarbraut 14 Borgarnesi, þann 30. nóvember 1993. Stefnandi hefur gjafsókn í málinu, en hún krefst málskostnaðar úr hendi stefnda, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál, samkv. fram lögðum málskostnaðarreikningi, þ.m.t. kostnaðar stefnanda af 24,5% virðisaukaskatti. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við málskostnaðinn á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 15 dögum efir dómsuppsögu. Dómkröfur stefnda, Sparisjóðs Mýrasýslu, eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi hennar að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu og málskostnaður felldur niður. Af hálfu réttargæslustefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., eru engar sjálfstæðar kröfur gerðar, enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu. Málsatvikum er lýst svo í stefnu: Stefnandi hafi lent í slysi á leið sinni úr Sparisjóði Mýrasýslu 30. nóvember 1993. Hún hafi þá runnið til á svelli sem verið hafi á neðsta þrepi steinsteyptrar suðurtröppu sem liggur að húsi stefnda við Borgarbraut 14 Borgarnesi. Stefnandi hafi þá unnið hjá kjötvinnslu Kaupfélags Borgfirðinga [í Brákarey] í Borgarnesi, og hafi í hádegishléi skotist í Sparisjóðinn persónulegra erinda. Slysið hafi orðið skömmu eftir kl. 12:34 þann dag. Stefnanda hafi tekist að forða sér frá falli, en við það hafi hún fengið mikinn slink á bakið og hún hafi rekið hægri mjöðm utan í handrið hússins [Svo í stefnu. Handrið eru hvort sínum megin við tröppurnar. Innskot dómara]. Hún hafi strax fundið mikið til í bakinu, en haldið að þrautirnar myndu líða hjá. Hún hafi harkað af sér og haldið til vinnu eftir þetta atvik án þess að gera neinum strax viðvart um það sem gerst hefði. Næsta dag hafi stefnandi ennþá haft miklar þrautir í baki. Þá um morguninn hafi hún haft samband við lækni á heilsugæslustöðinni í Borgarnesi og greint honum frá slysinu. Stefnandi hafi reynt að hefja vinnu að nýju dagana 6. og 7. desember 1993, en það hafi ekki gengið vegna bakverkja hennar. Við skoðun hjá lækni 7. desember hafi komið fram mikil eymsli við álag á hrygg með og án mótspyrnu, og hafi þá verið gefið út “vinnuveitandavottorð” frá 1. desember til 7. desember 1993. Stefnandi kveðst hafa reynt ítrekað að hefja vinnu á ný, en ávallt orðið frá að hverfa vegna verkja. Endanlega hafi hún gefist upp á því að vinna um miðjan janúar 1994, og síðan hafi hún ekkert getað unnið vegna “einkenna frá baki og hægri mjöðm” Stefnandi kveðst hafa farið í örorkumat hjá Sigurjóni Sigurðssyni lækni. Hann hafi metið að hún hafi verið tímabundið frá vinnu 100% í 4 1/2 mánuð, og varanlega örorku stefnanda hafi hann metið 20%. Þá segir í stefnu að með bréfi, dags. 14. maí 1997, hafi verið leitað upplýsinga hjá stefnda um aðstæður á slysstað. Stefndi hafi þá upplýst að snjóbræðslukerfi hafi verið í suðurtröppum húss hans, kerfi þetta hafi verið bilað, endurbætur og viðgerð hafi farið fram sumarið 1994, en þá hafi tröppurnar verið brotnar upp og nýjar lagnir settar í þær. Með bréfi [lögmanns stefnanda], dags. 2. júní 1998, hafi verið leitað nánari upplýsinga stefnda um snjóbræðslukerfið, og í svarbréfi, dags. 23. júní 1998, hafi komið fram að fyrst hafi orðið vart við bilun í kerfinu haustið 1993 og að Guðjón Guðlaugsson byggingameistari í Borgarnesi hafi annast viðgerð á kerfinu. Í stefnu segir að stefndi, Sparisjóður Mýrasýslu, hafi verið með ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda, VÍS, þegar slysið varð. Með bréfi, dags, 7. ágúst 1997, hafi verið óskað eftir afstöðu réttargæslustefnda til bótaskyldu á tjóni stefnanda á grundvelli ábyrgðartryggingar húseiganda. Réttargæslustefndi hafi hafnað bótaskyldu með bréfi, dags. 9. september 1997. Málsástæður stefnanda. “Það er málsástæða stefnanda að hún hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni þegar hún hrasaði á hálkubletti í vanbúnum suðurtröppum húss stefnda. . .,” segir í stefnu. Skjalfest sé að hún hafi verið í sambandi við lækni daginn eftir slysið vegna þeirra “einkenna” sem hún hlaut við að skrika fótur. Frásögn hennar um að að hún hafi runnið til í tröppunum verði ekki studd framburði sjónvitna. Hún hafi ekki snúið inn í Sparisjóðinn til að tilkynna um slysið og ekki hafi hún gefið lögregluskýrslu fyrr en síðar [17. maí 1995. Innskot dómara]. Auk læknis, sem hún hafði samband við daginn eftir slysið, hafi hún greint samstarfsfólki sínu frá því hvað komið hefði fyrir. Greiðsluseðlar stefnanda staðfesti að hún hafi verið stödd í Sparisjóði Mýrasýslu á hádegi slysdaginn. Það verði að telja sannað að stefnandi hafi hrasað á tröppum Sparisjóðsins þegar hún slasaðist á baki og mjöðm. Stefnandi heldur því fram að suðurtröppur húss stefnda hafi verið vanbúnar og að hún hafi orðið fyrir tjóni vegna þess vanbúnaðar. Fyrir liggi staðfesting stefnda á því að snjóbræðslukerfi, sem var í suðurtröppunum, hafi ekki virkað sem skyldi veturinn 1993-1994. Bilunar í kerfinu hefði fyrst orðið vart um haustið. Í nóvembermánuði 1993 hafi nokkrum sinnum “mælst alhvít jörð í Borgarnesi” [Svo í stefnu. Veðurathuganir í Borgarnesi liggja ekki fyrir, en fram hefur verið lögð skýrsla um Verðurathuganir á Hvanneyri í október og nóvember 1993, ásamt skýringum Trausta Jónssonar veðurfræðings. Sjá síðar. Innskot dómara.]. Það hafi ekki getað farið fram hjá starfsmönnum stefnda að snjóbræðslukerfið virkaði ekki sem skyldi. Hálkublettur sá sem stefnandi rann til á hafi myndast vegna þess að snjóbræðslukerfið var bilað. Um þá bilun hafi starfsfólki stefnda verið kunnugt. Ekki hafi verið hafist handa um viðgerð fyrr en sumarið 1994. Tröppunum hafi ekki verið lokað og umferð viðskiptavina ekki beint um annan inngang inn í húsið, né heldur hafi verið gerðar aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir slys í tröppunum, svo sem með því að bera sand eða salt á þær. Gera verði ríkar kröfur til stefnda, eða starfsmanna hans í þessu efni, þar sem hann rekur starfsemi sem byggir á töluverðri umferð gangandi fólks um lóð hans og húsnæði. Stefnandi telur að á stefnda falli bótaábyrgð á tjóni hennar vegna vanbúnaðar á tröppunum og vegna handvammar starfsfólks stefnda að bregðast ekki við þeim vanbúnaði. Þá segir í stefnu að lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum leggi þær skyldur á herðar “vinnuveitendum” að öryggi starfsmanna á vinnustað verði tryggt með margvíslegum hætti innan húss og utan. Ekki séu efni til að gera minni kröfur um aðgengi og öryggi viðskiptamanna sömu aðilja. Stefnandi telur að öryggi viðskiptamanna stefnda hafi ekki verið tryggt með þeim hætti sem nefnd lög gera ráð fyrir að tryggja skuli starfsmönnum stefnda. Stefnandi hafi þurft að fara um vinnuumhverfi starfsmanna stefnda til að geta átt venjubundin viðskipti við hann, þegar hún slasaðist. Um lagarök segir í stefnu að krafist sé viðurkenningardóms á bótaskyldu stefnda með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Kröfur stefnanda séu reistar á ólögfestri meginreglu íslensks skaðabótaréttar um ábyrgð húseigenda á tjóni sem kann að hljótast vegna vanbúnaðar á húseignum þeirra. Einnig kveðst stefnandi byggja á ólögfestri meginreglu íslensks skaðabótaréttar um ábyrgð “vinnuveitanda” á skaðaverkum starfsmanna, húsbónda- eða vinnuveitandaábyrgðarreglunni svokölluðu. Þá kveðst stefnandi byggja kröfur sínar einnig á lögum nr. 46/1980 um hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, “beint eða fyrir lögjöfnun um aðgang, aðbúnað og öryggi á vinnustöðum”. Kröfur sínar um málskostnað styður stefnandi við lög nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. Krafa stefnanda um virðisaukaskatt á málskostnað er reist á lögum nr. 50/1980, sbr. og reglugerð nr. 562/1989. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur. Um málsástæður og lagarök stefnda, Sparisjóðs Mýrasýslu, segir í greinargerð hans, að aðalkrafan um sýknu sé annars vegar byggð á því að það sé ósannað að örorka stefnanda stafi af falli hennar í tröppunum við hús stefnda, og hins vegar á því að skilyrðum almennu skaðabótareglunnar sé ekki fullnægt, enda beri húseigendur ekki hlutlæga ábyrgð á umbúnaði fasteigna sinna. Stefnda heldur því fram að algjörlega sé ósannað að örorku stefnanda megi rekja til þess að hún hafi runnið til á svelli á tröppum húss stefnda. Stefnandi beri alfarið sönnunarbyrði um orsök tjóns síns. Engir sjónarvottar hafi verið að því þegar stefnandi slasaðist. Hún hafi ekki tilkynnt starfsfólki stefnda um slysið. Hún hafi ekki gefið lögregluskýrslu fyrr en um einu og hálfu ári síðar. Ef ekki verður á ofangreint fallist, byggir stefndi sýknukröfu sína í öðru lagi á því, að stefndi eigi enga sök á umstefndu slysi stefnanda. Það megi alfarið rekja til gáleysis hennar sjálfrar og óhappatilviljunar. Ósannað sé að hálka hafi verið á tröppum húss stefnda þann 30. nóvember 1993. Hafi svo verið, hafi stefnandi vitað eða mátt vita af því. Stefnandi hafi komið gangandi í Sparisjóðinn frá vinnustað sínum. Engin ástæða sé til að ætla að meiri hálka hafi verið á tröppum hússins en annars staðar á gangvegum í Borgarnesi. Stefnandi segist hafa verið á leið út úr húsinu þegar hún hafi hrasað. Hún hafi því gengið upp tröppurnar skömmu áður. Hún hafi því mátt ætla að aðstæður hefði ekki breyst frá því hún gekk inn í húsið. Slysið verði því alfarið rakið til gáleysis hennar sjálfrar og óhappatilviljunar. Stefndi byggir á því að umbúnaður fasteignarinnar hafi verið venjulegur og í samræmi við lög og reglugerðir. Orsök slyssins verði ekki rakin til saknæmrar hegðunar starfsmanna stefnda. Ósannað sé að starfsmenn stefnda hafi vitað af bilun í snjóbræðslukerfinu þann 30. nóvember 1993 eða að kerfið hafi verið bilað þann dag. Ekki hafi verið leitt í ljós hvenær vetrarins 1993-1994 varð vart við bilun í kerfinu. Þá hvíli ekki að lögum skylda á fasteignaeigendum að sjá til þess að tröppur og nánasta umhverfi húsa séu ávallt hálkulaus, enda óframkvæmanlegt við íslenskar veðuraðstæður. Því síður hafi hvílt nokkur skylda á stefnda að hafa snjóbræðslukerfi á tröppum hússins. Stefndi telur að orsök slyssins verði ekki rakin til vanbúnaðar á fasteign stefnda. Ósannað sé að bilun í snjóbræðslukerfi hafi valdið hálku á tröppum hússins þann 30. nóvember 1993, eða að slysið megi rekja til annars vanbúnaðar á fasteigninni. Þá verið ekki talið ámælisvert að lagfæring fór ekki fram á tröppum hússins fyrr en sumarið 1994. Íslenskt veðurfar hamli því að slíkar viðgerðir fari fram yfir vetrartímann. Stefndi mótmælir því að ekki hafi verið gætt fyllsta öryggis og aðbúnaðar starfsmanna og annarra, sem leið hafi átt um húsnæði stefnda. Þær kröfur sem lög nr. 46/1980 gera, hafi verið uppfylltar að fullu. Stefndi kveðst einnig byggja á þeirri meginreglu íslensks skaðabótaréttar að eigendur fasteigna beri ekki hlutlæga skaðabótaábyrgð á húseign sinni, þannig að þeir séu bótaskyldir, verði einhver fyrir slysi í eða við húseign þeirra. Varakrafa stefnda um skiptingu sakar er á því reist að skipta beri sök og leggja meginsök á slysinu á stefnanda sjálfa vegna framangreinds gáleysis hennar. Stefnanda hafi verið eða hafi mátt vera kunnugt um aðstæður á tröppunum, enda hefði hún gengið frá vinnustað sínum að Sparisjónum og gengið upp tröppurnar þegar hún gekk inn í húsið. Með öllu sé ósannað að hálka á tröppum hafi verið meiri en annars staðar í bænum þennan dag. Þá liggi ekki neitt fyrir um fótabúnað stefnanda. Stefnandi gaf skýrslu fyrir lögreglu 17. maí 1995. í þeirri skýrslu kemur fram að hún var tekin fyrir beiðni Jónínu Bjartmarz héraðsdómslögmanns. Í skýrslunni er m.a. þetta haft eftir stefnanda: Hún hafi verið starfandi hjá Kaupfélagi Borgfirðinga, kjötvinnslunni í Brákarey, þegar slysið varð þann 30. nóvember 1993. Hún hafi haft hálftíma í hádegismat, og í því hléi hafi hún farið erinda sinna í Sparisjóð Mýrasýslu. “Er ég var að koma út úr húsi sparisjóðsins við Borgarbraut og fór niður tröppurnar að sunnan verðu, renn ég í neðstu tröppunni, vegna klaka sem þar var. Ég barðist við að halda jafnvægi og tókst að koma í veg fyrir að ég dytti en ég fékk mikinn slink á bakið . . .” Stefnandi sagði að hún hefði þá kennt mikið til í bakinu. Þrátt fyrir mikil bakeymsli hefði hún farið gangandi í vinnuna út í Brákarey og klárað þennan vinnudag. Morguninn eftir hefði hún ekki komist niður stigann heima hjá sér fyrir þrautum. Hún hefði þá haft samband við Ingþór Friðriksson lækni sem hefði ráðlagt henni að fara ekki til vinnu næstu daga.”Um viku eftir að slysið varð fór ég aftur til vinnu minnar og var mér þá ekið til og frá vinnu. Ég hélt áfram í vinnunni þar til seinnipartinn [í] febrúar 1994 en þá gafst ég endanlega upp vegna bakverkja.” Skýrslur fyrir dómi. Fyrir dómi bar stefnandi mjög á sama veg um atvik og fyrir lögreglu, en mun ítarlegar. Hún staðfesti skýrslu sína fyrir lögreglu. Hún sagði að á þessari ferð sinni í Sparisjóðinn hefði verið hálka yfir öllu, hált hefði verið á götum og gangstéttum. Þessi hálka hefði komið til af snjó sem hefði frosið, þiðnað og frosið aftur. Um hefði verið að ræða klamma, ekki ísingu. Hálka hefði verið í öllum tröppunum. Í neðstu tröppunni, sem hún hrasaði í, hefði verið hálka við tröppubrún. Hún kvaðst hafa hrasað í neðstu tröppunni þegar hún var að koma út úr Sparisjóðnum. Hún hefði gripið í handriðið við tröppurnar til að taka af sér mesta fallið, en þá hefði hún rekist harkalega utan í handriðið með mjöðmina. Hún kvaðst hafa kennt geysilega til við að skella utan í handriðið. Hún hefði staðið þarna um stund og hugleitt að þetta mundi jafna sig. Síðan hefði hún gengið beinustu leið niður í Brákarey. Henni hefði liðið afskaplega illa þennan dag. Stefnandi var spurð um fótabúnað slysdaginn. Hún sagðist hafa verið í loðfóðruðum kuldastígvélum, sem náð hefðu upp á miðjan legg. Þau hefðu verið með grófmynstruðum, stömum sólum. Aðspurð sagði stefnandi að það hefði ekki hvarflað að sér að fara aftur inn í Sparisjóðinn eða láta nokkurn mann vita af slysinu. Hún hefði haldið að þetta mundi lagast. Þegar hún hefði haft samband við lækni daginn eftir hefði hún þó sagt honum frá atvikum. Hún nefndi líka að hún hefði sagt verkstjóranum sínum frá slysinu og tengdadóttur sinni [Hér mun stefnandi hafa átt við Jóhönnu Bergmann Þorvaldsdóttur, sem bar vitni í málinu, sbr. hér á eftir. Innskot dómara]. Stefnandi sagði að tröppurnar hefðu ekki verið stráðar sandi eða öðrum efnum til að draga úr hálku. Stefnandi var spurð um tilefni þess að hún gaf skýrslu fyrir lögreglu. Hún svaraði að lögfræðingur hjá sýslumannsembættinu hefði bent sér á að gera þetta til öryggis, vegna þess að hún ætti rétt á bótum samkvæmt skyldutryggingu sem Kaupfélagið hefði tryggt starfsmenn sína. Hún kvaðst hafa fengið þessar bætur. Þórir Sigfús Sumarliðason, sparisjóðsstjóri stefnda frá hausti 1990, gaf aðiljaskýrslu fyrir dómi. Hann var spurður hvenær stefnandi hefði fyrst leitað til stefnda vegna slyssins. Aðilinn sagði að það hefði verið með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 14. maí 1997. Hann kvaðst aðspurður ekki vita til þess að neinn hefði dottið í tröppum húss Sparisjóðsins, hvorki fyrir né eftir umrætt slys. Hann bar að hitalögn hefði verið sett í tröppurnar 1981 eða 1982, þegar byggt hefði verið við húsið. Við venjulegar aðstæður hefði hitalögnin náð að bræða snjó af tröppunum, en í mikilli snjókomu hefði kerfið ekki haft undan, en þá hefðu tröppurnar verið mokaðar. Yfirleitt hefði verið fylgst með því hvort hálka myndaðist í tröppunum. Starfsmenn stefnda færu þó alla jafna ekki um þessar tröppur. Stefndi hefði keypt hálkueyði, einn poka, í Reykjavík árið 1989 eða 1990 og notað hann. Hann hefði verið notaður á tröppurnar til öryggis. Aðilinn sagði að seint á árinu 1993, eða um haustið, hefði uppgötvast bilun í snjóbræðslukerfinu í tröppunum. Hún hefði komið fram í leka í kjallara hússins. Til að gera við bilunina hefðu tröppurnar verið brotnar upp. Þeir sem um þetta vissu segðu sér að bilun þessi hefði ekki haft áhrif á heitavatnsrennsli í tröppunum. Vitnaði aðilinn í þessu sambandi til Guðjóns Guðlaugssonar byggingameistara, en hann hefði séð um endurbætur á tröppunum. Vitnið Hildur Hallkelsdóttir bar að hún og stefnandi hefðu átt heima í sama húsi, Brákarbraut 1, þegar slysið varð og þangað til í maí 1998, að vitnið fluttist úr húsinu. Hún kvaðst hafa búið á hæðinni fyrir neðan stefnanda. Vitnið Hildur bar að stefnandi hefði sagt sér frá því að hún hefði dottið á Sparisjóðströppunum. Hún kvaðst ekki muna nákvæmlega hvaða dag þetta var, en hún sagðist muna að stefnandi hefði dottið og að vitnið hefðu þurft að sendast fyrir hana nokkra daga á eftir. Vitnið kvaðst hafa farið í búð að versla fyrir stefnanda. Nánar spurð um það hvenær stefnandi hefði beðið hana að versla fyrir sig, sagði vitnið Hildur, að það hefði verið daginn eftir slysið eða um kvöldið. Vitnið Guðjón Guðlaugsson upplýsti að hann væri tengdasonur sparisjóðsstjórans, Þóris Sigfúsar. Hann kvaðst nú vera húsvörður í byggingu stefnda, en hefði ekki verið það þegar atvik máls gerðust. Hann sagðist hafa brotið upp tröppurnar, þegar hitalögnin í þeim var lagfærð, og steypt þær aftur. Pípulagningamaður hefði lagt hitalögnina. Bilun í hitalögninni hefði uppgötvast haustið 1993. Gert hefði verið við hana í febrúar 1994. Bilunin hefði komið fram í því að farið hefði að leka í kjallara hússins, en hún hefði engin áhrif haft á virkni snjóbræðslukerfisins. Til að gera við hitalögnina hefði þurft að brjóta upp tröppurnar því lekinn hefði verið í heitavatnsleiðslunum í tröppunum. Þetta væri lokað kerfi og lekinn hefði engu breytt um virkni þess. Fyrir lagfæringu hefðu leiðslurnar legið á um 10 sm dýpi í baki trappanna, en eftir lagfæringu lægju þær á 5-6 sm dýpi í í tröppunum sjálfum. Kerfið ætti að vera betra nú en áður, ef eitthvað væri. Vitnið Guðjón sagði að snjóbræðslukerfið hefði alltaf náð að bræða sjó af tröppunum nema í einstaka tilvikum, þegar mikil ofankoma hefði verið og vindur með og dregið hefði í skafla, þá hefði kerfið ekki hreinsað tröppurnar fullkomlega. Í hitalögnina væri notað affallsvatn af ofnum hússins ásamt sjálfvirkri innspýtingu, sem skerpti á kerfinu þegar hitastig vatnsins færi niður fyrir visst mark. Hann lýsti gerð trappanna þannig að í þeim væri grásteinn ofan á steypu. Vitnið kvaðst hafa fylgst með tröppunum í sjálfboðavinnu áður en hann varð húsvörður, en ekki haft reglulegt eftirlit með þeim. Vitnið Ingigerður Jónsdóttir kvaðst hafa verið starfsmaður Kaupfélags Borgfirðinga og verkstjóri stefnanda, þegar slysið varð. Hún kvaðst ekki muna dagsetningar, en hún myndi eftir að stefnandi hefði orðið fyrir óhappi “uppi í bæ” og sagt sér frá því. Stefnandi hefði sagt sér frá því að hún hefði hrasað eða dottið fyrir utan Sparisjóð Mýrasýslu. Sig minnti að hún hefði farið í matarhléi “upp í bæ”. Stefnandi hefði þó mætt til vinnu, a.m.k. þennan dag, en svo hefði hún verið frá vinnu marga mánuði á eftir. Vitnið Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir sagðist hafa búið með syni stefnanda í tvö ár fyrir nær tveimur áratugum, og ættu þau barn saman. Vitnið sagði að hún og stefnandi töluðu oft saman. Stefnandi hefði talað við sig daginn eftir slysið. Hún hefði þá sagt sér að hún hefði dottið á hálku framarlega í tröppunum. Vitninu hefði skilist að stefnandi hefði skollið utan í vegg eða steyptan kant og fengið á sig slink og hefði liðið mjög illa. Hún hefði sagst hafa runnið til á bletti fremst í tröppunni. Vitnið kvaðst hafa haft áhyggjur af stefnanda. Hún hefði heimsótt hana skömmu síðar og fylgst með veikindasögu hennar. Við þetta slys hefðu orðið umskipti í lífi stefnanda. Hún hefði áður verið mjög létt á sér og hlaupið um götur. Það þekktu Borgnesingar. Áður hefði hún stundum verið þreytt í baki, en ekki svo að það hæði henni. Forsendur og niðurstöður. Verulegur dráttur varð á því að stefnandi sækti þann rétt sinn sem hún í þessu máli telur sig eiga á hendur stefnda. Sá dráttur veldur henni þó ekki réttarspjöllum, enda ekki á því byggt af hálfu stefnda. Að slysi stefnanda voru ekki sjónarvottar, en frásögn stefnanda af atvikum hefur verið einörð og sannfærandi, og hún hlýtur stuðning vættis þeirra sem hún sagði frá atburðinum og læknisvottorðs. Daginn eftir slysið hafði stefnandi símsamband við lækni á heilsugæslustöðinni í Borgarnesi, Ingþór Friðriksson. Í fram lögðu áverkavottorði, sem Örn E. Ingason læknir á Heilsugæslustöðinni ritar 10. júlí 1995 að beiðni þáverandi lögmanns stefnanda segir orðrétt: “Þ. 30.11.93 skrikaði sjúklingi [þ.e. stefnanda. Innskot dómara] fótur í hálku á leið niður tröppur við inngang að Sparisjóði Mýrasýslu. Þetta mun hafa gerst í hádegishléi frá vinnu og fékk hún við þetta slink eða hnykk á bak. Síðan haft verk í baki niður hæ. ganglim.” Vitnið Hildur Hallkelsdóttir bar að stefnandi hefði sagt sér frá því að hún hefði dottið á Sparisjóðströppunum. Svo er að skilja að þetta hafi verið mjög fljótlega eftir slysið, því að vitnið bar að stefnandi hefði vegna áverka síns beðið vitnið sama dag eða um kvöldið að fara í búð fyrir sig til að versla. Vitnið Ingigerður Jónsdóttir, verkstjóri stefnanda, bar að stefnandi hefði sagt sér frá því að hún hefði hrasað eða dottið fyrir utan Sparisjóð Mýrasýslu. Að því er vitnið minnti varð þetta í ferð stefnanda í matarhléi upp í bæ. Vitnið Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir bar að stefnandi hefði talað við sig daginn eftir slysið. Hún hefði þá sagt sér að hún hefði dottið á hálku framarlega í tröppunum. Vitnið sagði að sér hefði skilist að stefnandi hefði skollið utan í vegg eða steyptan kant og fengið á sig slink. Hún hefði sagst hafa runnið til á bletti fremst í tröppunni. Þegar virt eru þau gögn sem hér hafa verið rakin og skýrsla stefnanda fyrir lögreglu 17. maí 1995, sem ber saman við skýran og einarðan framburð stefnanda fyrir dómi, telur dómari að sannað sé að stefnandi hafi slasast með þeim hætti sem hún hefur lýst fyrir dómi: Hún hafi hrasað í neðsta þrepi á suðurtröppum húss stefnda, fengið slink á bakið og rekið hægri mjöðm utan í handrið sem er í tröppunum. Stefnandi bar í skýrslu sinni fyrir lögreglu að hún hefði runnið til í neðstu tröppunni vegna klaka sem þar var. Fyrir dómi sagði hún að í neðstu tröppunni, sem hún hrasaði í, hefði verið hálka við tröppubrún. Hún bar og að hálka hefði verið yfir öllu, á götum og á gangstéttum. Hálkan hefði komið til af snjó sem hefði frosið, þiðnað og frosið aftur. Hitalögn, snjóbræðslukerfi var í tröppunum. Upplýst er af stefnanda að kerfið bilaði haustið 1993, en ekki er nákvæmlega frá því greint hvenær það var. Jafnframt bar vitnið Guðjón Guðlaugsson byggingameistari, sem sá um viðgerð á tröppunum þegar gert var við hitalögnina, og bilunin hefði ekki valdið því að snjóbræðslukerfið virkaði ekki. Þeim framburði hefur ekki verið hnekkt. Þórir Sigfús Sumarliðason sparisjóðsstjóri bar að við venjulegar aðstæður hefði snjóbræðslukerfið náð að bræða snjó að tröppunum, en í mikilli snjókomu hefði það þó ekki haft undan, en þá hefðu tröppurnar verið mokaðar. Vitnið Guðjón Guðlaugsson bar á líkan veg, að kerfið hefði náð að bræða snjó af tröppunum nema í einstaka tilvikum þegar mikil ofankoma hefði verið og vindur með og dregið í skafla. Af hálfu stefnanda hefur verið lagt fram yfirlit Veðurstofu Íslands yfir veðurfar í nóvember 1993 samkv. mælingum á þeirri veðurathugunarstöð, sem næst er Borgarnesi, þ.e. Hvanneyri. Yfirliti þessu fylgja skýringar og stutt samantekt Trausta Jónssonar veðurfræðings. Þar segir hann m.a.: “Í nóvember var snjór á jörðu í nokkra daga og var örugglega hálka samfara þeim snjó.” Samkvæmt veðurfarsyfirlitinu var úrkoma mikil í nóvember: 13 daga er skráð rigning, 11 daga slydda og 4 daga snjókoma. Hinn 25. nóvember er skráð snjókoma, 9,7 mm. Hiti var mældur tvisvar á dag, kl. 9 að morgni og 9 að kveldi. Þennan dag var lágmarkshiti -0,1° C, en hámarkshiti 7,2 °. Jörð er skráð alhvít. Hinn 26. nóvember er skráð slydda, 1,2 mm, lágmarkshiti -1,8° en hámarkshiti 8,0°. Næstu tvo daga er mikil rigning skráð, 26,7 mm 27. nóv. og 25,5 mm 28. nóv., og kemst hitinn hæst 28. nóv. upp í 10,0°, en virðist þann dag fara ört lækkandi, og er lágmarkshitinn þann dag skráður 0,4°, og má lesa úr skýrslunni að þar sé um kvöldhita að ræða. Næsta dag, daginn fyrir slysið á Sparisjóðströppunum var úrkoma enn meiri, 50,2 mm og nú skráð sem slydda, og jörð er skráð alhvít á Hvanneyri. Þennan dag, þ.e. 29. nóv. var lágmarkshiti, sem mældur hefur verið að morgni, 0,3°, en gera má ráð fyrir að þá hafi verið frost við jörð; meðalvindur þennan dag var 4,7 hnútar en mesti vindur 9 hnútar. Hinn 29. nóv. fer veður hlýnandi, hámarkshiti dagsins mælist 9,0°. Hinn 30. nóvember 1993 mælist 8,1 mm rigning á Hvanneyri, hámarkshiti 7,6 °, en lágmarkshiti 1,2°, sem lesa má úr skýrslunni að hafi verið kvöldhiti. Jörð er skráð alauð á Hvanneyri. Af veðurfarsskýrslu þessari einni saman verður ekki ráðið hvort hált var á götum og gangstéttum í Borgarnesi 30. nóvember 1993, en að mati dómara útilokar hún heldur ekki að stefnandi fari með rétt mál um þetta. Úrkoman 29. nóvember féll sem slydda á Hvanneyri og varð jörð alhvít. Alkunna er að snjó sem treðst á akbraut eða gangstétt leysir mun hægar en snjó á víðavangi. Er því ekki ólíklegt að klammi hafi verið af þessum sökum á götum og gangstéttum í Borgarnesi 30. nóvember. Upplýst er af hálfu stefnda og húsvarðar stefnda að í mikilli snjókomu hafi snjóbræðslukerfi undir tröppunum ekki haft undan. Úrkoma var mjög mikil 29. nóvember, var skráð sem slydda og hefur því að líkindum fallið sem snjór að hluta. Þegar framanskráð er virt í heild, þær upplýsingar sem fyrir liggja um veður, framburður stefnanda um hálkuna og læknisvottorð og vætti um frásagnir hennar strax eftir slysið af hálku í tröppum húss stefnda, þykir dómara sannað að rétt sé lýsing stefnanda á hálku, þ.á m. í suðurtröppum húss stefnda, 30. nóvember 1993. Tröppurnar sem stefnanda skrikaði fótur í eru hluti af húsi stefnanda. Um þær liggur annar aðalinngangur í húsið, og fjöldi viðskiptamanna stefnda á þar leið um. Dómari lítur svo á að á stefnda hvíli sú ábyrgð að sjá til þess að ekki sé sérstök hætta á að menn hrasi eða falli í tröppum þessum. Upplýsingar sem fyrir liggja af hálfu stefnda annars vegar um snjóbræðslukerfi í tröppunum og hins vegar um mokstur og notkun hálkueyðis, þegar kerfið hafði ekki undan, benda til þess að stefnda hafi verið ljós þessi ábyrgð. Af þessu leiðir að stefndi, Sparisjóður Mýrasýslu, ber bótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir eða kann að hafa orðið fyrir er hún hrasaði í tröppunum 30. nóvember 1993. Stefnandi hefur borið að hálka hafi verið alls staðar, á götum og gangstéttum og í margumræddum tröppum þennan tiltekna dag. Hún hafði farið um tröppurnar inn í Sparisjóðshúsið, og vissi því vel að hált var í tröppunum. Dómara þykir af þessum ástæðum óhjákvæmilegt að líta svo á að slys stefnanda hafi að hluta til orðið vegna þess að hún hafi ekki farið nógu gætilega miðað við þær varasömu aðstæður sem hún vissi vel af. Því þykir dómara rétt að fallast að nokkru á varakröfu stefnanda um að sök verði skipt, og er það mat dómara að hæfilegt sé að skipta henni til helminga. Í máli þessu krefst stefnandi viðurkenningar á bótaskyldu vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir eða kann að hafa orðið fyrir þegar hún hrasaði á tröppum húss stefnanda. Kröfugerðin gefur ekki tilefni til að fjalla um tjón stefnanda. Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu. Útlagður kostnaður hennar skv. fram lögðum reikningum er kr. 10.500. Þóknun lögmanns hennar, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hdl., telur dómari vera hæfilega ákveðinn kr. 250.000, auk virðisaukaskatts kr. 61.250, eða samtals kr. 310.250. Þannig verður kostnaður stefnanda af máli þessu samtals kr. 321.750, og greiðist hann úr ríkissjóði. Eftir atvikum máls og niðurstöðum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 þykir dómara rétt að dæma stefnda, Sparisjóð Mýrasýslu til að greiða hluta málskostnaðar stefnanda í ríkissjóð, eða kr.130.000. Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð: Stefndi, Sparisjóður Mýrasýslu, er bótaskyldur fyrir helmingi þess líkamstjóns, sem stefnandi, Þorgerður Oddsdóttir, varð fyrir eða kann að hafa orðið fyrir, þegar hún hrasaði á hálkubletti á suðurtröppum húss stefnda, Borgarbraut 14 Borgarnesi, 30. nóvember 1993. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 321.750, greiðist úr ríkissjóði. Stefndi greiði kr. 130.000 í málskostnað í ríkissjóð. |
Mál nr. 398/2010 | Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 2. júlí 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 316/2007 | Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur en gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 1. ágúst 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 2. mars 2007 vegna gruns um aðild að umfangsmiklum innflutningi fíkniefna. Hann var fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 7. mars 2007 í máli nr. 126/2007. Frá 16. mars sama ár hefur hann sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. nú síðast dóm Hæstaréttar 15. maí 2007 í máli nr. 269/2007. Ákæra var gefin út á hendur honum og öðrum manni 11. maí 2007 og var málið þingfest í héraði 18. sama mánaðar. Var þá ákveðið að aðalmeðferð færi fram 4. júní sama ár. Hinn 30. maí 2007 lagði meðákærði varnaraðila fram matsbeiðni og var af því tilefni ákveðið að fresta aðalmeðferð málsins til 4. júlí næstkomandi. Heimild 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er eðli málsins samkvæmt háð því að ekki verði óhæfilegur dráttur á rannsókn máls og að það sé rekið með viðhlítandi hraða eftir að ákæra hefur verið gefin út. Er nú beðið niðurstöðu matsmanns, sem meðákærði varnaraðila óskaði eftir að yrði kvaddur til að meti þroska og heilbrigðisástand sitt. Dómara hefði verið rétt í ljósi ofangreindra atriða að hefja aðalmeðferð fyrr en ákveðið hefur verið og taka málið á ný til meðferðar, ef þörf verður á, er niðurstaða matsmannsins liggur fyrir, sbr. heimild í 131. gr. laga nr. 19/1991. Er ekkert því til fyrirstöðu að dómari hagi meðferð málsins nú í samræmi við þetta og ákveði að aðalmeðferð fari fram fyrr en ráðgert er. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi, sem verður markaður sá tími sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til 13. júlí 2007 kl. 16. |
Mál nr. 489/2007 | Fasteignakaup Galli Afsláttur | V og E keyptu endaraðhús af BÖ ehf. sem afhent skyldi tilbúið til innréttinga og frágengið að utan í apríl 1999. Töldu V og E galla hafa komið fram á húsinu, en þar væri um að ræða leka með þaki á útbyggðum glugga, í útidyrahurð og glugga við hana og í lofti í bílskúr, auk þess sem gólfflísar í þvottahúsi höfðu losnað. Var dómkvaddur matsmaður fenginn til að meta gallana og kostnað af úrbótum. V og E sættu sig ekki við niðurstöðu hans og fengu dómkvadda yfirmatsmenn. Kröfðu þau BÖ ehf. um greiðslu samkvæmt yfirmatsgerð. Talið var sannað að leyndir gallar hafi verið á fasteigninni sem BÖ ehf. bæri ábyrgð á. Ekki var talið að V og E hafi sýnt af sér tómlæti við að halda fram kröfum sínum, enda hafi komið fram í bréfi þeirra til BÖ ehf. í nóvember 2002 að þessi mál hafi ítrekað verið rædd og úrbótum lofað án árangurs. Þá hafi ekki orðið óeðlilegur dráttur á að leitað væri matsgerðar. Voru V og E því talin eiga rétt til afsláttar af kaupverði samkvæmt lögjöfnun frá 1. mgr. 42. gr. þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Við ákvörðun fjárhæðar var byggt á niðurstöðu yfirmatsgerðar, enda hafði áliti yfirmatsmanna ekki verið hnekkt. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. september 2007 og krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður felldur niður. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I. Svo sem nánar greinir í héraðsdómi keyptu stefndu 30. október 1998 endaraðhús að Haukalind 2 í Kópavogi af áfrýjanda, sem reisti húsið, og skyldi því skilað tilbúnu til innréttinga og frágengnu en ómáluðu að utan 15. apríl 1999. Kaupverð var 11.000.000 krónur. Ekki liggur fyrir hvenær stefndu tóku við húsinu eða hvenær þau fluttu inn. Stefndu fengu álitsgerð verkfræðings 5. júlí 2002 um orsakir leka með þaki á útbyggðum glugga á austurgafli hússins, en þar var talið að um væri að ræða þéttingu með kuldabrú og var bent á leiðir til úrbóta. Í framhaldi af því rituðu stefndu áfrýjanda bréf 25. nóvember 2002 og röktu þar í þremur liðum galla, sem þau kváðu hafa komið fram á húsinu. Nánar tiltekið var rætt þar um fyrrnefndan leka með þaki á útbyggðum glugga, leka í útidyrahurð og glugga við hana og leka í lofti í bílskúr. Í bréfinu var jafnframt vísað til þess að ítrekað hafi verið rætt um þessi mál og áfrýjandi lofað úrbótum en án nokkurs árangurs. Stefndu ítrekuðu þetta með bréfi 21. febrúar 2003, þar sem því var enn fremur lýst að gólfflísar í þvottahúsi hafi losnað upp við vegg milli hússins og þess næsta í raðhúsalengju. Með beiðni 18. ágúst 2003 leituðu stefndu dómkvaðningar manns til að meta framangreinda galla á húsinu og kostnað af úrbótum. Matsgerð var lokið 22. október 2003 og kostnaður af úrbótum metinn þar 420.855 krónur. Stefndu sættu sig ekki við þá niðurstöðu og fengu dómkvadda yfirmatsmenn 26. maí 2004. Í yfirmatsgerð 20. maí 2005 var kostnaður af því að bæta úr fyrrnefndum göllum metinn 984.000 krónur. Stefndu höfðuðu mál þetta með stefnu 13. október 2006 og kröfðust síðastnefndrar fjárhæðar úr hendi áfrýjanda. II. Í yfirmatsgerð kemur fram að þess hafi verið farið á leit að matsmenn skoðuðu og mætu öll hin sömu atriði og undirmatið tók til. Í héraðsdómi er rakið og sundurliðað hverjar niðurstöður voru um hvern fjögurra matsliða í yfirmatsgerð. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, komst að þeirri niðurstöðu að yfirmatsmenn hafi lagt rétt mat á galla á húsinu og að áætlun kostnaðar af viðgerðum og úrbótum væri eðlilegur. Áfrýjandi hafi ekki lagt fram gögn, sem hnekkt gætu yfirmatinu. Með því hafi verið hrundið undirmatsgerð og var yfirmatið lagt til grundvallar. Þótt héraðsdómur hafi ekki í niðurstöðu sinni tekið fyrir hvern hinna umdeildu matsliða og rökstutt afstöðu til hvers þeirra fyrir sig var þar fallist á yfirmatsgerð í heild. Áfrýjandi hefur í málflutningi fyrir Hæstarétti leitast við að hrekja niðurstöður yfirmatsgerðarinnar í einstökum liðum. Um orsakir leka með þaki á útbyggðum glugga á austurgafli hússins bendir áfrýjandi á að niðurstaða yfirmats sé andstæð tveimur álitsgerðum, sem stefndu hafi aflað, auk undirmatsgerðar, en í öllum þeim tilvikum var talið að orsök leka væri kuldabrú frá útvegg og þétting raka vegna hennar. Um þetta er þess að gæta að meðal þessara gagna vegur yfirmatsgerð þyngst, en á niðurstöðu hennar hefur héraðsdómur fallist. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um þennan lið í kröfu stefndu. Um kröfu stefndu vegna leka á útidyrahurð og gluggum við hana ber áfrýjandi fyrir sig að stefndu hafi skilið húsið eftir nýmúrað, lokað og óloftræst þegar þau fóru burtu í mánaðartíma skömmu eftir að það var afhent þeim. Hurðin hafi eyðilagst vegna mikils raka í húsinu og um þessa vangá verði áfrýjanda ekki kennt. Ekkert er komið fram í málinu um að áfrýjandi hafi varað stefndu við hættunni af þessum skemmdum, en hann mun hafa sett hurðina í á þessu byggingarstigi hússins. Verður því ekki fallist á að stefndu beri sjálf ábyrgð á þessum annmarka á húsinu og verður niðurstaða héraðsdóms um þennan lið í kröfu þeirra staðfest. Áfrýjandi andmælir niðurstöðu yfirmatsmanna varðandi leka í lofti í bílskúr með því meðal annars að benda á að þeir geri ráð fyrir að þakið verði byggt upp á nýtt á annan hátt en lagt sé til grundvallar í uppdráttum af húsinu. Yrði þetta gert þyrfti að breyta öðrum húsum í raðhúsalengjunni til samræmis án nokkurs annars tilefnis. Um þetta er til þess að líta að engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings því að úrbætur, sem ráðgerðar eru í yfirmatsgerð, myndu hafa þessar afleiðingar. Með þessari athugasemd verður niðurstaða héraðsdóms um þennan lið í kröfu stefndu staðfest. Áfrýjandi andmælir kröfulið stefndu vegna lausra flísa á gólfi þvottahúss með því að benda á að þau hafi sjálf komið því upp í óráðstöfuðu rými undir bílskúr, sem hann hafi ekki selt sem hluta af íbúðarrými hússins. Að auki sé nærtækast að ætla að raki, sem valdið hafi losi á gólfflísunum, berist inn í þetta rými vegna breytinga, sem stefndu hafi gert á húsinu, eða skemmda á lögnum, sem stafi af framkvæmdum þeirra við frágang lóðar. Í yfirmatsgerð var komist að þeirri niðurstöðu að raki eigi leið inn í þennan hluta hússins um holrými á milli lagna, þar sem þær liggi gegnum útvegg, en til að bæta úr þessu þurfi að þétta milli lagnanna og gera síðan við einangrun og múrhúð. Áfrýjandi hefur ekki hrundið þessu áliti yfirmatsmanna og er því ekki annað leitt í ljós en að frágangi hans á húsinu verði um þetta kennt. Engin efni eru til að fallast á að minni kröfur verði gerðar til þéttleika útveggja í þessum hluta hússins en á íbúðarhæð þess. Verður niðurstaða héraðsdóms um þennan kröfulið því jafnframt staðfest. Áfrýjandi hefur borið fyrir sig að krafa stefndu sé fallin niður fyrir tómlæti. Í fyrrnefndu bréfi þeirra 25. nóvember 2002 um annmarka, sem þau kváðu fram komna á húsinu og fyrstu þrír liðirnir í dómkröfu þeirra snúa nú að, kom fram að þau hafi ítrekað rætt þessi mál og lofað hafi verið úrbótum en án nokkurs árangurs. Þetta var áréttað í bréfi 21. febrúar 2003, auk þess sem þar var greint frá því að gólfflísar í þvottahúsi hafi losnað. Í gögnum málsins er ekki að sjá að áfrýjandi hafi andmælt staðhæfingu stefndu um að rætt hafi verið ítrekað um tiltekna annmarka á húsinu áður en fyrra bréfið var ritað. Eftir það varð ekki óeðlilegur dráttur á að stefndu leituðu matsgerðar til stuðnings kröfu af þessu tilefni, en að henni fenginni tilkynntu þau áfrýjanda að þau hygðust afla yfirmatsgerðar, svo sem raun varð á. Tafir í tengslum við öflun þessara matsgerða og málshöfðun stefndu gáfu áfrýjanda ekki réttmætt tilefni til að ætla að þau hefðu fallið frá kröfu á hendur honum. Með þessum athugasemdum verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um þessa málsástæðu áfrýjanda. Samkvæmt framansögðu verður fallist á með héraðsdómi að sannaðir séu leyndir gallar á fasteigninni, sem stefndu keyptu af áfrýjanda. Þau eiga af þeim sökum rétt á afslætti af kaupverði samkvæmt lögjöfnun frá 1. mgr. 42. gr. þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, enda skilyrðum skaðabóta samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar ekki fullnægt. Við ákvörðun fjárhæðar afsláttarins verður að leggja til grundvallar niðurstöðu yfirmatsgerðar um kostnað af því að bæta úr þessum göllum. Í hinum áfrýjaða dómi sætti krafa stefndu, sem tók mið af yfirmatsgerðinni, lækkun með tilliti til þess að þau ættu rétt á endurgreiðslu hluta virðisaukaskatts, sem félli til vegna vinnu við úrbætur á húsinu, auk þess sem vextir voru ekki dæmdir samkvæmt því, sem þau kröfðust, en ekki verður þó séð að áfrýjandi hafi borið fram mótmæli, sem að þessu snúi. Stefndu hafa ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og verður niðurstaða hans því staðfest á þann hátt, sem í dómsorði greinir. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir. Dómsorð: Áfrýjandi, Byggingafélagið Ögur ehf., greiði stefndu, Valgeiri Jónassyni og Elínborgu Bjarnadóttur, 894.856 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. febrúar 2003 til 23. september 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað. Áfrýjandi greiði stefndu 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Mál þetta var þingfest 25. október 2006 og tekið til dóms 9. maí sl. Réttargæslustefna var þingfest 13. desember 2006. Stefnendur eru Valgeir Jónasson og Elínborg Bjarnadóttir en stefndu eru Byggingarfélagið Ögur ehf. og Leifur Stefánsson til réttargæslu. Stefnendur gera þá dómkröfu að hið stefnda einkahlutafélag verði dæmt til að greiða stefnendum skuld að fjárhæð kr. 984.000,00, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 984.000,00 frá 25. nóv. 2002 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. s.l. er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 25. nóv. 2003 en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins. Stefndi gerir aðallega þá dómkröfu að stefndi verði alfarði sýknaður af kröfum stefnenda og stefnendur verði dæmdir til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu. Til vara krefst stefndi að kröfur stefnenda verði verulega lækkaðar og málskostnaður verði látinn niður falla. Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir engar kröfur í málinu. I. “Húsið skilast tilb. til innréttinga að innan og frágengið að utan en ómálað og lóð verður grófjöfnuð. Búið verður að skipta um jarðveg fyrir framan bílskúr og inngang. Kaupendur sjái um að láta teikna væntanlegar breytingar á gafli hússins (hurð og glugga) ásamt stoðvegg á lóð, þ.e. kaupendur standa straum að öllum undirbúningskostnaði vegna þessara breytinga en seljandi sér um framkvæmdina”. Stefnendur hafi orðið varir við verulega galla á eign sinni og hafi fengið Sævar Geirsson hjá Verkfræðistofunni Hamraborg í Kópavogi, til þess að líta á hver hafi verið orsökin fyrir því að læki m.a. með þaki á útbyggðum glugga á austurgafli hússins en ekki hafi verið um leka að ræða er hafi stafað frá sprungunum í veggjum eða gat á veggjum, heldur hafi verið um þéttingu að ræða með kuldabrú. Í bréfi hans, dagsettu 5. júlí 2002, segi m.a: “Lekans verður vart við viss veðurskilyrði. Skv. byggingareglugerð ber að einangra svo byggingahluta með 200 mm einangrun þannig að það vantar 100 mm viðbótareinangrun. Til að laga þennan galla þarf að setja 100 mm einangrun ofaná plötuna ásamt þakdúk. Auk þess þarf að einangra kantinn umhverfis plötu þessa þar sem þar er einnig kuldabrú og getur verið hætta á leka. Kant þennan þarf síðan að klæða með blikki eða klæðningu er fellur að útliti hússins”. Reikningur VH Verkfræðistofunnar Hamraborg v/skoðunar þessarar, liggur fyrir í málinu. Lögmaður stefnenda hafi ritað stefnda bréf dags. 25. nóvember 2002, Þar segi meðal annars: “Að sögn umbj.m. felast annmarkar fasteignarinnar einkum í eftirfarandi: Með bréfi lögm. stefnenda til stefnda dags. 21. febrúar 2003, hafi tilmæli um úrbætur verið áréttaðar. Stefnendur kveða að þar sem útséð hafi verið um að stefndi hafi haft vilja til þess að leysa mál þetta, hafi stefnendur óskað eftir dómkvaðningu matsmanns til þess að meta meinta galla og kostnað við úrbætur og viðgerðir á fasteigninni nr. 2 við Haukalind í Kópavogi, svo sem nánar hafi verið kveðið á um í undirmatsbeiðni dags. 18. ágúst 2003. Til þess að framkvæma hið umbeðna mat hafi Gunnar Aðalsteinsson, héraðsdómari kvatt Erlend Hjálmarsson, byggingafræðing og húsasmíðameistara. Matsgerð Erlendar dags. okt. 2003 liggi fyrir í málinu. Í niðurstöðu matsins segi: “Þar sem leki er eingöngu í einu horni er það skoðun matsmanns að hér sé eingöngu um staðbundinn leka í gegnum steypuskil að ræða. Það sem þarf að gera er að saga burt einangrun á þessu svæði (ca 0,5 m2) til að opna inn að steinsteyptum veggnum, hreinsa burt óhreinindi, því næst er borað inn í miðjan vegg þar settir rörbútar með nipplum og sprautað inn fljótandi 2ja þátta vatnsþéttu urethani með 40 60 punda þrýstingi, úrethanið þenst út í sprungur og æðar og þéttir þannig vegginn. (Þess má geta að þessi lausn hefur verið gerð í hús Erfðagreiningar þar sem kjallari þess húss er umflotinn vatni). Að lokum er einangrað að nýju, múrhúðað og síðan viðgerðin grunnuð, máluð einni umferð plastmálningu og að lokum veggfletirnir sem að þessu svæði koma málaðir einni umferð plastmálningu. Þetta eru niðurstöður matsmanns á þeim hlutum sem hann var beðinn að meta og er kostnaður við úrbætur samtals með vsk. 420.855 kr miðað við verðlag í okt. 2003 og er sundurliðað á kostnaðarblaði á bls. 10.” Endurrit úr þingbók Héraðsdóms Reykjaness dags. 17. september 2003 vegna tilnefningar Erlendar Hjálmarssonar sem matsmanns, bréf lögmanns stefnanda, dags. 18. september 2003, til matsmanns ásamt endurriti matsfundar dags. 20. október 2003, liggur fyrir í málinu. Stefnendur kveðast eigi hafa viljað una mati Erlendar Árna Hjálmarssonar byggingarfræðings og hafi lögmanni stefnda verið tilkynnt um það með bréfi, dags. 11. desember 2003, jafnframt því hafi verið boðað að óskað yrði yfirmats til þess að fá hnekkt undirmatinu. Með yfirmatsbeiðni stefnenda, dags. 25. apríl 2004, hafi stefnendur farið þess á leit við Héraðsdóm Reykjaness að tilnefndir yrðu tveir yfirmatsmenn til þess að framkvæma hið umbeðna yfirmat. Með yfirmatsbeiðninni hafi fylgt skýrsla Þórs Gunnarssonar, dags. 08.12.2003, sem stefnendur hafi fengið til þess að gera vegna málsins. Á dskj. nr. 17 er endurrit úr þinghaldi dags. 26. maí 2004 vegna tilnefningar yfirmatsmanna, en Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjaness, hafi tilnefnt þá Ríkharð Kristjánsson, verkfræðing og Hjalta Sigmundsson, húsasmið og byggingatæknifræðing til þess að framkvæma hið umbeðna yfirmat. Á framlögðum dómskjölum nr. 18 og 21 eru bréf lögmanns stefnenda til yfirmatsmanna en dráttur varð á því að yfirmatið gæti farið fram vegna veðuraðstæðna. Matsgerð yfirmatsmanna ásamt þar tilgerðum fylgiskjölum, dags. maí 2005 liggur fyrir. Stefnendur kveða yfirmatið hafi hnekkt niðurstöðu undirmatsins í grundvallar atriðum en í niðurstöðu yfirmatsins sem hafi verið ítarlegt og rökstutt hafi samtals verið metinn kostnaður vegna galla og kostnaður við úrbætur og viðgerðir kr. 984.000,-, sem sé stefnufjárhæð máls þessa. Með bréfi lögmanns stefnenda, dags. 23. ágúst 2005 til lögmanns stefnda hafi verið gerð krafa um að gengið yrði til uppgjörs á grundvelli yfirmatsins. Stefnendur kveða að í ljósi þess sem hér hafi verið rakið og afstöðu stefnda sem ekki verði skilin á annan veg en að greiðsluskyldu sé alfarið hafnað hafi stefnendum verið sá einn kostur nauðugur að höfða mál þetta. II. Stefnendur byggja á því að fasteignin nr. 2 við Haukalind í Kópavogi hafi verið haldin verulegum leyndum göllum er stefnendur hafi fest kaup á fasteigninni af stefnda samkvæmt framansögðu, sem stefnendur hafi átt lögvarða kröfu til þess að fá bætur fyrir úr hendi stefnda, samkvæmt mati yfirmatsmanna. Kveða stefnendur að ef eigi verði á það fallist að fasteignin hafi verið haldin verulegum leyndum göllum sem stefnda beri að bæta stefnendum sé á því byggt af hálfu stefnenda að þeir eigi lögvarða kröfu til afsláttar af kaupverði sem nemi allt að stefnufjárhæð. Stefnendur vísa til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fær m.a. lagastoð í ákvæðum. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga. Jafnframt vísast til megin reglna skaðabótaréttarins eftir því sem við kann að eiga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III kafla vaxtalaga nr. 38/2001. með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísast til 36. gr. laga nr. 91/1991. III. Stefndi kveður málavexti rétta í stefnu og vísar til málavaxtalýsingu stefnenda. Stefndi byggir sýknukröfur sínar á eftirfarandi einstökum málsástæðum og lagarökum. 1. Matsliður 1. Leki úr lofti við glugga á gafli. a. Samhljóða álit þriggja aðila í andstöðu við yfirmat. Stefndi bendir á að fyrir liggi nokkuð samhljóða álit þriggja aðila, sem að málinu hafi komið, sem stangist á við yfirmat. Álit Sævars Geirssonar, verkfræðings, sem telur að um þéttingu með kuldabrú hafi verið að ræða. Þá sé skýrsla Þórs Gunnarssonar, húsasmíðameistara, sem telur að um kuldabrú hafi verið að ræða. Undirmat Erlends Hjálmarssonar sem telur að um kuldabrú hafi verið að ræða. Þá komi fram í matinu að viðgerð hafi farið fram á þakinu í júní 2003. Matsbeiðandi (stefnendur) upplýsi það að ekki hafi orðið vart var leka á haustdögum 2003 og matsbeiðandi bendir á að leki hafi aðallega komið fram eftir frostakafla. Þá segir í umfjöllun matsmanns: ,,ekki er að sjá nein ummerki eftir raka eða leka á öðrum svæðum kringum gluggann.” b. Yfirmat. Stefndi telur að yfirmatið geti ekki staðfest né staðsett meintan leka. Þó er tekið fram í umfjöllun yfirmatsmanna að: ,,rakamerki eru á málningu í kanti að innanverðu þ.e. neðan undir einangrun sem er innan á útvegg. Þá sjást rakamerki undir einangrun í þaki útbyggingar. Rakamerki eru við gólf sunnanmegin í útbyggingunni.” Telja yfirmatsmenn að ætlaður leki sé ekki tengdur frágangi glugga í gafli yfirleitt. Niðurstöður sínar hafi matsmenn síðan byggt á útreikningum sínum, án þess að þeir gætu fest hönd frekar á ætluðum leka og orsökum hans. c. Óstaðfestar tilgátur. Skilalýsing fasteignar. Breytingar stefnenda á rafmagni eftir afhendingu, sem kann að orsaka leka. Sönnun og orsakasamhengi. Tómlæti. Stefndi telur að miðað við þessar misvísandi tilgátur, sem fram hafa komið að framan, verði dómur ekki á þeim byggður þannig að stefndi verði gerður ábyrgur fyrir ætluðu tjóni. Til þess vanti alla sönnun á orsakasamhengi. Þá bendir stefndi á að hann hafi afhent eign samkvæmt kaupsamningi hinn 15. apríl 1999. Undirmat hafi farið fram í september 2003. Þá væru liðin um fjögur og hálft ár frá afhendingu eignar. Alfarið væri ósannað hvaða aðgerðir stefnendur hafi látið framkvæma á eigninni í millitíðinni, sem kunni að hafa orsakað leka. Stefndi bendir á þessu til staðfestingar, að samkvæmt skilalýsingu sem er fylgiskjal með kaupsamningi, væri eigninni skilað á tilteknu byggingastigi. Segir þar að ,,loft skulu frágengin með raflögnum og raflagnagrind og tilbúin til klæðningar eða undir endanlega yfirborðsmeðferð”. Síðan væru skil á rafmagni frekar skilgreind. Í samningi aðila hafi frágangur á raflögnum verið óviðkomandi seljanda, stefnda í þessu máli. Stefndi kveður frágang á rakavarnalagi í húsinu hafi verið hefðbundinn. Stefndi hafi einnig byggt húsin að Haukalind 4, 6 og 8. Frágangur hafi verið á sama hátt á þeim öllum frá hendi stefnda. Á frágangi á rafmagni í þeim húsum hafi starfað rafvirki á vegum stefnda. Engin vandkvæði hvorki varðandi þennan lið né annað hafi komið fram í þeim húsum. Telur stefnandi að orsakir þess að leki hafi verið í húsinu nr. 2, megi rekja til margvíslegra óvandaðra vinnubragða stefnenda við hús sitt. Varðandi þennan kröfulið sérstaklega, telur stefndi að það hafi skipt höfuðmáli að stefnendur hafi sjálf ráðið til sín rafvirkja og breytt raflögnum eftir eigin geðþótta. Hluti af þeim breytingum hafi m.a. verið að bora fyrir loftnetskapli í gegnum umræddan útvegg. Þá er alls óupplýst hvað fleira stefnendur hafi gert á eigin spýtur í því sambandi. Allt eins væru hugsanleg frekari slysagöt eftir rafvirkja stefnenda eða annarra á öllum þessum tíma. Allar þessar breytingar hafi á engan hátt verið bornar undir fyrirsvarsmann stefnda. Á þessu hafi stefnendur borið fulla ábyrgð. Vísar stefndi í þessu sambandi til tómlætis stefnenda, m.a. að tryggja sér sönnun. Það hafi ekki verið byggt á yfirmati í þessu sambandi gegn mótmælum stefnda. Á þessi málsástæða sem vísi til tómlætis stefnenda bæði við þennan málslið sem og aðra, eftir því sem við geti átt. Stefndi tekur fram að á þeim ferli sem leit hafi farið fram að ætluðum leka í húsi nr. 2, hafi augu manna beinst að glugganum og útbyggingunni. Það hafi ekki verið fyrr en með niðurstöðu yfirmats, að bent hafi verið á aðrar hugsanlegar orsakir. Hafi yfirmatsmenn komið þar fram með ósannaðar og óstaðfestar tilgátur, eins og það hafi verið orðað í yfirmatsgerð. Að þessum atriðum athuguðum, hverju fyrir sig eða samanlögðum verði ekki hjá því komist að sýkna stefnda á þessum matslið. 2. Matsliður 2. Leki við útidyrahurð. Stefndi bendir á að er eign hafi verið skilað hafi húsið verið ný múrað. Þá hafi verið búið að setja í eignina góðar hurðir bæði í kjallara og í inngang á 1. hæð. Stefnendur hafi hins vegar af þekkingarleysi sínu eyðilagt báðar hurðirnar, með því að fara í ferðalag í um mánaðartíma og skilið húsið eftir á þeim tíma lokað og óloftræst. Vegna mikils raka sem þá hafi myndast í húsinu hafi báðar hurðirnar eyðilagst. Þessari vangá yrði stefnda ekki um kennt. Það væru engar viðarhurðir sem þyldu slíka meðferð. Þegar þetta hafi komið í ljós hafi stefndi, og algjörlega án skyldu eða viðurkenningu á nokkurri ábyrgð, látið smíða nýja hurð í kjallara og skipt út hinni ónýtu hurð. Ekki væri annað vitað en að sú hurð væri í lagi. Hurðin á efri hæð hafi verið mjög þrútin og hafi stefndi einnig án nokkurrar skyldu, reynt að aðstoða stefnendur í að gera við hurðina ef bjarga mætti henni. Ljóst er nú að það hafi ekki tekist fullkomlega. Orsakir þess að stefnendur hafi látið hurðina eyðileggjast, gætu ekki verið á ábyrgð stefnda. Þá bendir stefndi á að stefnendur hafi sjálf látið setja rafmagnsopnara í dyrabúnað og glerja a.m.k. hluta dyrabúnaðar. Hvernig að því hafi verið staðið og hugsanleg vangá í því sambandi gæti stefndi ekki borið ábyrgð á. Þá bendir stefndi á að umrædd hurð væri mjög áveðurs. Nær útilokað hafi verið að útbúa hurðabúnað sem stæðist öll íslensk veður, ekki síst eftir að hurð hafi orðið fyrir áfalli. Stefndi vísar í því sambandi til umsagnar í yfirmati. Ekki væri með sanngirni hægt að leggja þá skyldu á stefnda, ekki síst m.t.t. þess langa tíma sem hurðin hafi verið vanrækt af stefnendum og gera hann ábyrgan fyrir þessum matslið. Þá kveður stefndi að frágangur og smíði á hurðum í húsinu hafi verið á sama hátt í öllum húsunum fjórum við Haukalind, þ.e. 2, 4, 6 og 8. Ekki hafi komið upp vandkvæði við hin húsin þrjú, enda hafi eigendur þeirra væntanlega gætt betur að eigum sínum en stefnendur að þessu leyti. Stefnendur bæru því sjálfir ábyrgð á ástandi hurðar og orsökum lekans. A.m.k. hafi vantað alla sönnun fyrir því að eftir þau áföll, sem lýst hafi verið að hurðin hafi orðið fyrir, að hægt væri að byggja dóm á því, sem skyldi stefnda til úrbóta. 3. Matsliður 3. Raki í lofti við bílskúr. Misvísandi álit í andstöðu við yfirmat. Stefndi bendir á að fyrir liggi misvísandi álit þeirra sem að málinu hafi komið. Skýrsla Þórs Gunnarssonar, húsasmíðameistara, telji að um kuldabrú hafi verið að ræða eins og fram komi í dómskjali nr. 20. Stefndi bendir á niðurstöður í undirmati, dskj. 12. bls. 8. þar segir m.a: “Eftir að viðgerð á þakpappa fór fram og staðfest hefur verið að ekki sé um leka utanfrá er það niðurstaða matsmanns að ummerki eftir raka/bleytu séu vegna rakaþéttingar innanfrá...”. Stefndi telur að hér sé um yfirlýsingu hafða eftir stefnendum að ræða sem bindi stefnendur. Hver sé orsök þess að aftur hafi farið að leka sé ósvarað og bendir stefndi á líklegar orsakir þess, sem hann beri ekki ábyrgð á. Þegar undirmat hafi farið fram hafi það verið staðfest að ekki væri um frekari leka að ræða. Eftir það hafi tveir eða þrír aðilar komið að skoðun og óvíst sé hvernig þeir hafi skilið við þakið. Ljóst sé að minnsta kosti að búið hafi verið að misfara með frágang við vegg. Ekki sé vitað annað en að viðgerð sú sem stefndi hafi staðið að hafi haldið, sbr. fyrrgreinda yfirlýsingu. Seinni aðgerðum geti stefndi ekki borið ábyrgð á. Bendir stefndi á að hann hafi farið í að laga þakpappa á sínum tíma, sem ekki hafi verið tryggilega festur niður við niðurfall. Eftir það hafi leki hætt, sbr. yfirlýsingu í undirmati. Hitt sé annað mál að húseigandi hafi látið rjúfa þakkant þar sem dúkur liggur upp með útvegg undir rennu. Í ljós hafi komið að búið hafi verið að bretta dúkinn frá, en hann hafi átt að liggja við vegginn, ósoðinn að mestu til útloftunar. Þetta kunni að hafa átt þátt í vanda stefnenda. Á þessu beri stefndi ekki ábyrgð. Stefndi kveður fyrrgreinda yfirlýsingu í undirmati vera í ósamræmi við það sem segi í umfjöllun í yfirmati, en þar segir að: ,,yfirmatsbeiðendur segja að leki úr loftinu eftir frostakafla en ekki í rigningu”. Stefndi bendir á að vart verði byggt á niðurstöðum yfirmatsmanna, sem “reikni” sig í gegnum vandamálið, án þess að staðfest verði hvaðan hinn meinti raki komi. Stefndi leggi áherslu á að sami frágangur hafi verið af hans hálfu í öllum hinum fyrrgreindu húsum nr. 4, 6 og 8. Í þessu húsi einu sé um vandamál að ræða. Hafnað er því áliti yfirmatsmanna sem röngu og ósönnuðu að þak sé ekki rétt hannað og uppbyggt. Stefndi kveður þessa málsástæðu eiga reyndar við um aðra þætti yfirmats líka, þar sem yfirmatsmenn telja að hönnun hafi valdið hinu ætlaða tjóni stefnenda. Þá væri um samskonar vandamál að ræða í öllum húsunum. Svo sé ekki. Meðal annars af þeim orsökum er alfarið hafnað tillögu yfirmatsmanna um að byggja þak upp á allt annan hátt en teikningar geri ráð fyrir. Yfirmatsmenn fari þar út fyrir umboð sín og þess sem til er ætlast af þeim, með því að fara að hanna þakið upp á nýtt. Þak, sem þegar hefur verið samþykkt og dugað vel í húsum nr. 4, 6 og 8. Stefndi bendir á að hann hafi haft fyrir sér teikningar samþykktar af byggingarnefnd og byggingafulltrúa og þak hafi verið smíðað á réttan hátt í samræmi við það. Þá bendir stefndi á að ekkert eigi að vera því til fyrirstöðu að fjarlægja þakpappann, sé þakpappanum ætlað að vera orsök vandans. Það sé vel þekkt aðferð að hafa einungis steypt þök án þakpappa. Þá bendir stefndi á sanngjörn úrræði, fari svo að stefndi verði gerður ábyrgur fyrir ætluðu tjóni, s.s. með “Pilot-málningu”, eins og bent er á í undirmati eða að nota XYPEX á steininn. Það sé efni sem hafi verið notað með góðum árangri. Þessar lausnir séu vandaðar og kosti ekki nema brot af því sem yfirmatsmenn leggja til. Ef tillögur yfirmatsmanna næðu fram að ganga yrði, eðli máls samkvæmt að breyta húsunum 4, 6 og 8 til samræmis. Væri það að tilefnislausu. 4. Matsliður 4. Gólfflísar í þvottahúsi. Stefndi tekur fram að umræddu þvottahúsi hafi verið komið fyrir af stefnendum í svonefndu óráðstöfuðu rými, sem sé fyrirkomið undir bílskúr. Þessu rými hafi ekki verið skilað af stefnda sem íbúðarrými og á engan hátt selt sem slíkt. Hér sé um að ræða svarthol sem húsbyggjandi hafi fengið heimild til að sleppa við að fylla upp með grús. Mótmælt sé alfarið að stefndi beri ábyrgð á þessu rými á sama hátt og ef um íbúðarrými væri að ræða Til þess séu engar forsendur. Í þessu rými séu allir veitustofnar, sem stefndi sá um að leggja og þjappa með þeim lögnum. Á eigin ábyrgð hafi stefnendur breytt þessu rými í þvottahús. Um þetta rými fari einnig lagnir sem stefnendur hafi lagt lögðu og eru alfarið á ábyrgð stefnenda og stefnda að öllu leyti óviðkomandi. Megi þar nefna lagnir vegna snjóbræðslu. Þá sé þarna einnig loftræstilögn sem stefnendur hafi lagt eða fengið blikksmið til að leggja. Við skoðun hafi komið fram að þessi lögn hafi orðið fyrir talsverðu hnjaski. Hún hafi bæði verið beygluð og aflöguð. Leiða megi að því líkur að þegar stefnendur hafi lagt gangstétt séu líkur á að þessar skemmdir hafi átt sér stað. Stefndi telur líklegt að þá hafi verið pressað ógætilega ofan á lagnirnar og þær skemmst og inn með þeim smiti eða leki. Bendir stefndi á að afhendingadagur eignarinnar hafi verið hinn 15. apríl 1999. Það sé ekki fyrr en hinn 21. febrúar 2003, sem fyrst sé minnst á ætlað tjón. Þá eru liðin um fjögur ár. Hér er um hreint tómlæti að ræða af hálfu stefnenda, sem leiða eigi til sýknu. Þá sé alls ósannað að umræddur galli sé á nokkurn hátt af völdum stefnda, eins og áður er gert ráð fyrir. Þá er ítrekuð sjónarmið um að hér sé um rými að ræða sem stefnendur taki að sér að innrétta og beri alfarið ábyrgð á því sjálf. Til þrautavara er tekið fram að ekki sé hægt að ætlast til samskonar frágangs á þessu rými og annars. 5. Tómlæti. Stefndi kveður að með vísan til þess sem fram er komið séu kröfur stefnenda, ef þær á annað borð hafi átt við rök að styðjast, allt of seint fram komnar vegna tómlætis. Vísast þar til fjölda dóma Hæstaréttar. Mótmæli við málsástæðum og lagarökum stefnanda. Stefndi mótmæli málsástæðum stefnenda sem að ofan greinir. Mótmælt er að yfirmati hnekki undirmati, eins og haldið sé fram í stefnu. Vísast til ofangreindra raka stefnda um að í raun verði á hvorugu matinu byggt, né á álitsgerðum Sævars Geirssonar og Þóris Gunnarssonar, þannig að stefndi verði dæmdur til greiðslu bóta. Þessar álitsgerðir sýni þó að mjög misvísandi álit eru um ástæður ætlaðs galla, sem styðji rækilega kröfur stefnda um sýknu. Þá er því mótmælt að eignin hafi verði haldin verulegum leyndum göllum sem stefndi beri ábyrgð á. Það sé fullkomlega ósannað. Varakrafa stefnda: Komist rétturinn að þeirri niðurstöðu að stefndi skuli greiða stefnendum einhverjar bætur, er gerð krafa um að þær verði verulega lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla. Varðandi rök vísast til þegar framkominna raka og málsástæðna. Varðandi málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga 91/1991, einkum til 129., 130. og 131. gr. Þá vísa stefndu til meginreglna samningaréttar, kröfuréttar sem og reglna fasteignakauparéttar um skoðanaskyldu og upplýsingaskyldu, sem og meginreglna laga 91/1991 um sönnun. IV. Í málinu liggja frammi matsgerðir sem, annars vegar undirmat Erlendar Árna Hjálmarssonar, byggingarfræðings og hins vegar yfirmat Hjalta Sigmundssonar, byggingatæknifræðings og húsasmíðameistara og Ríkharðar Kristjánssonar, verkfræðings. Matsmenn skoðuðu og mátu hvort eignin að Haukalind 2 í Kópavogi væri haldin göllum. Í matsbeiðni var farið fram á að gallar og kostnaður við úrbætur og viðgerðir á fasteigninni yrðu metnir og var matsmönnum ætlað að meta fjóra þætti. Í fyrsta lagi var það gluggi á gafli hússins, en þannig hátti til að þegar það eru frost og það fer að hlána aftur þá lekur vatn úr lofti og niður á eldhúsgólf. Stefnendur höfðu fengið til sín verkfræðing til að skoða þetta og telji hann að um augljósan galla á byggingu þessa hluta hússins sé að ræða. Í öðru lagi, þegar rigni úti og veður hátti þannig til að veður standi upp á útidyrahurð þá flæði vatn inn á gólf. Stefnendur fengu þann sem smíðaði hurðina til að kom og sjá þegar þannig viðri og hann séð þá hvað var að og tekið hurðina með sér niður á verkstæði, og hafi sagst vera búinn að laga þetta, en það sé ekki rétt því hurðin leki enn, og einnig “fulning”, fyrir neðan neðsta glugga á hurðakarmi. Í þriðja lagi, í lofti bílskúrs sé farið að bera á því sama og fyrir ofan glugga í eldhúsi, sem væntanlega megi rekja til þess að ekki hafi verið nægjanlega vandað til lagningu þakpappa, og/eða hvort um sambærilegt tilvik sé að ræða og í eldhúsi. Þá hefðu gólfflísar í þvottahúsi losnað upp við vegginn sem sé á milli húsanna. Það er skoðun yfirmatsmanna að frágangi við rakavarnir þaksins sé ábótavant. Heitt og rakt loft úr íbúðinni leki upp í þakið og þéttist þar og frjósi og þiðni og leki niður aftur þegar hláni. Kostnaður við úrbætur þessa matsliðar telja yfirmatsmenn vera 354.000 krónur. Hvað annan matslið varðar, um það að þegar veður stendur upp á útidyrahurð þá flæði vatn inn á gólf og einnig um fulningu fyrir neðan neðsta glugga á hurðakarmi, töldu yfirmatsmenn að vatn læki undir hurðina af því raufin grynnist til endanna og flæði vatnið þar inn án þess að fara ofan í raufina. Þá staðreyndu yfirmatsmenn leka meðfram neðstu fulningu í hurð með því að sprauta á hana vatni úr garðslöngu. Slík prófun líki þó ekki nægilega eftir slagviðrisrigningu þar sem að mismunaþrýsting vanti. Því telji yfirmatsmenn að leki geti verið með fleiri fulningum og með tréfyllingu til hliðar við hurð þar sem glufur eru milli spjalds og karms. Útihurðin snúi til suðurs og verður því fyrir mikilli veðuráraun. Oft og tíðum hafi reynst erfitt að gera útihurðir sem opnast inn fullkomlega þéttar við þær aðstæður. Kostnaður við úrbætur þessa matsliðar telja yfirmatsmenn vera 68.000 krónur. Hvað þriðja matslið varðar, um rakamerki í lofti í bílskúr, telja yfirmatsmenn að þakið sé ekki rétt uppbyggt. Þéttasta lagið sé efst á þakinu, engin rakavörn sé til staðar og rakaþétting verði því á mörkum steyptu plötunnar og einangrunar. Greinileg ummerki um þetta séu inni bílskúrnum. Ekki verði hjá því komist að vatn leki úr þakrennum, t.d. á samskeytum og standi þá á þakinu því engin leið sé út. Kostnaður við úrbætur og málningu vegna raka telja yfirmatsmenn vera 317.000 krónur. Hvað fjórða matslið varðar, um gólfflísar í þvottahúsi sem hafa losnað upp við vegginn sem er milli húsanna, komust yfirmatsmenn að því að greinileg rakamerki voru við vissar lagnir. Lagningar liggi í búnti og komst raki í gegnum holrýmin milli þeirra. Kostnaður við úrbætur þessa matsliðar telja yfirmatsmenn vera 245.000 krónur. Heildar kostnaður við úrbætur umræddra galla telja matsmenn vera 984.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum. Á þessari yfirmatsgerð byggja stefnendur dómkröfur í málinu. V. Aðilar máls þessa deila um hvort raðhús við Haukalind nr. 2 í Kópavogi sem stefnendur keyptu af stefnda með kaupsamningi dagsettum 30. október 1998, hafi verið haldin leyndum göllum sem stefndi beri ábyrgð á. Til þess að skera úr um ágreining aðila hafa stefnendur málsins aflað matsgerða, bæði undirmatsgerðar sem og yfirmatsgerðar. Efni yfirmatsgerðar er rakið hér að framan. Báðar matsgerðirnar fjalla um sömu matsatriði og er kostnaður sundurliðaður með svipuðum hætti í báðum matsgerðum.Stefnukrafa málsins er byggð á umræddu yfirmati. Það er álit hinna sérfróðu meðdómsmanna að yfirmatsmenn hafi lagt rétt mat á galla fasteignarinnar og telja útreiknaðan kostnað við viðgerðir og úrbætur eðlilegan. Í málinu er ekkert fram komið um að ekki hafi verið gætt réttra aðferða við mat hinna dómkvöddu matsmanna eða að niðurstaða þeirra hafi verið reist á röngum forsendum, hvorki að því er varðar mat þeirra á aðferðum við úrbætur né kostnað af þeim. Stefndu hafa ekki heldur lagt fram nein gögn sem hnekkt geta þessu mati. Að mati dómsins er því í ljós leitt að fasteignin að Haukalind 2 í Kópavogi hafi verið haldin leyndum göllum, sem stefndi bar ábyrgð á samkvæmt 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Ásmundi Ingvarssyni og Gústaf Vífilssyni verkfræðingum. Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómsformanns. Stefndi, Byggingafélagið Ögur ehf., greiði stefnendum Valgeiri Jónassyni og Elínborgu Bjarnadóttur 894.856 krónur ásamt vöxtum frá 21. febrúar 2003 til 23. september 2005, en dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi greiði stefnendum 987.110 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti, en þar af er matskostnaður 426.861 króna. |
Mál nr. 22/2004 | Skaðabætur Fasteign Líkamstjón Kjarasamningur Slysatrygging Gjafsókn | A krafðist þess aðallega að R yrði dæmdur skaðabótaskyldur vegna slyss, sem A varð fyrir í febrúar 1996, þegar hún hrasaði fyrir utan kaffistofu Strætisvagna Reykjavíkur, þar sem hún starfaði sem vagnstjóri. Talið var að slysið yrði rakið til gáleysis A og fengu skýrslur, sem teknar voru af A og nafngreindum manni eftir uppkvaðningu héraðsdóms, engu um það breytt. Var því ekki fallist á að R bæri skaðabótaábyrgð vegna slyssins. A fékk í maí 1999 greitt úr slysatryggingu starfsmanna R samkvæmt örorkumati. Í júní 2001 fékk hún örorkumat annars læknis vegna slyssins, þar sem örorka hennar var metin meiri en í fyrra matinu. Varakrafa A laut að því að fá uppgjör bóta úr slysatryggingunni tekið upp á ný með tilliti til þessa síðara örorkumats. Í reglum um slysatryggingar launþega R var skýrt tekið fram að undantekningarlaust skyldi framkvæma örorkumat vegna bóta úr tryggingunni í síðasta lagi þremur árum eftir slysið. Ekki þóttu hafa verið færð fram haldbær rök fyrir því að A gæti verið óbundin af ákvæðum fyrrnefndra reglna og voru því ekki efni til að verða við varakröfu hennar. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Hrafn Bragason. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2004. Hún krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur skaðabótaskyldur vegna slyss, sem hún hafi orðið fyrir 1. febrúar 1996 þegar hún hafi hrasað fyrir utan kaffistofu Strætisvagna Reykjavíkur á horni Kalkofnsvegar og Hafnarstrætis í Reykjavík. Til vara krefst áfrýjandi þess að viðurkennt verði að stefnda hafi verið óheimilt að takmarka slysatryggingarbætur til hennar „með þeim hætti sem gert er í reglum nr. sl-1/90 og sl-2/90 um slysatryggingar launþega Reykjavíkurborgar, er samþykktar voru í borgarráði Reykjavíkur 5. júní 1990.“ Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem hún hefur notið á báðum dómstigum. Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að sök verði skipt vegna eigin sakar áfrýjanda og málskostnaður falli niður. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms kom áfrýjandi á ný fyrir dóm til að lýsa frekar atvikum að slysinu, sem hún varð fyrir 1. febrúar 1996 og dómkröfur hennar í málinu snúa að. Einnig kom fyrir dóm nafngreindur maður, sem starfaði með áfrýjanda sem vagnstjóri hjá Strætisvögnum Reykjavíkur á umræddum tíma. Hann kvaðst ekki hafa orðið vitni að slysi áfrýjanda, en lýsti á hinn bóginn aðstæðum á vettvangi. Skýrslur þessar fá engu breytt um niðurstöðu hins áfrýjaða dóms varðandi aðalkröfu áfrýjanda, sem verður þannig staðfest með vísan til forsendna hans. Svo sem nánar greinir í héraðsdómi beindi áfrýjandi kröfu til stefnda 16. desember 1998 um greiðslu bóta vegna fyrrnefnds slyss úr slysatryggingu starfsmanna Reykjavíkurborgar. Að tilhlutan stefnda og með samþykki áfrýjanda mat nafngreindur sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum tímabundna og varanlega örorku hennar af slysinu samkvæmt skilmálum slysatryggingarinnar í álitsgerð 9. apríl 1999. Varð niðurstaðan sú að áfrýjandi hafi verið óvinnufær af þessum sökum í samtals tvo mánuði og þrjár vikur, en varanleg örorka hennar var metin 15%. Á grundvelli þessarar álitsgerðar voru áfrýjanda greiddar 781.710 krónur úr slysatryggingu 25. maí 1999. Áfrýjandi fékk 6. júní 2001 örorkumat annars læknis vegna þessa slyss, þar sem meðal annars var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hafi verið óvinnufær í sex mánuði af þessum völdum, en varanlegur miski hennar samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 var metinn 30% og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. sömu laga 40%. Beinist áðurgreind varakrafa áfrýjanda að því að fá uppgjör bóta úr slysatryggingunni tekið upp á ný með tilliti til þessa síðara örorkumats. Í grein 7.1.1. í kjarasamningi stefnda við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, sem var í gildi þegar áfrýjandi varð fyrir umræddu slysi, var um slysatryggingar starfsmanna vísað til „reglna nr. sl.-1/90 og sl.-2/90 samþykktum af borgarráði þann 5. júní 1990.“ Fyrrnefndu reglurnar, sem þar var vísað til, liggja fyrir í málinu. Samkvæmt grein 3.6 í þeim mátti í fyrsta lagi ákveða örorku vegna greiðslu úr slysatryggingu einu ári eftir slys, en teldi slasaði eða stefndi að örorkan kynni að breytast upp frá því mátti fresta endanlegu örorkumati, en þó ekki lengur en í þrjú ár frá slysdegi. Í grein 3.8 sagði meðal annars eftirfarandi: „Þótt gera megi ráð fyrir að ástand hins slasaða kunni að breytast, skal undantekningarlaust framkvæma örorkumat í síðasta lagi þremur árum eftir slysið. Í þessu tilfelli ber að ákveða örorkuna eins og gera má ráð fyrir, að hún verði endanleg.“ Án tillits til þess hvort ákvæði 33. gr. eða 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum, sem áfrýjandi vísar til um varakröfu sína, geti eftir efni sínu átt hér við, verður að líta til þess að áfrýjanda hefði verið í lófa lagið að kynna sér þessa skilmála slysatryggingarinnar, en með þeim var markað nánar inntak þess réttar, sem henni var veittur á grundvelli kjarasamnings. Ákvæði skilmálanna, sem hér um ræðir, geta hvorki talist óeðlileg né óvenjuleg á sínu sviði. Með því að ekki hafa verið færð fram haldbær rök fyrir því að áfrýjandi geti verið óbundin af þessum ákvæðum eru ekki efni til að verða við varakröfu hennar. Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Aðalheiðar Arnljótsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur. I. Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 10. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Aðalheiði Arnljótsdóttur, kt. 220653-7819, Karfavogi 29, Reykjavík, með stefnu birtri 25. júní 2002 á hendur Reykjavíkurborg, kt. 530 269-7609, Ráðhúsi við Reykjavíkurtjörn. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefnda, Reykjavíkurborg, verði dæmd skaðabótaskyld vegna slyss þess, er stefnandi varð fyrir 1. febrúar 1996, er hún hrasaði og slasaðist fyrir utan kaffistofu Strætisvagna Reykjavíkur á horni Kalkofnsvegar og Hafnarstrætis. Til vara krefst stefnandi þess, að stefndu verði dæmt óheimilt að takmarka tryggingarbætur stefnanda með þeim hætti, sem gert er í reglum nr. sl-1/90 og sl-2/90 um slysatryggingar launþega Reykjavíkurborgar, er samþykktar voru í borgarráði Reykjavíkur 5. júní 1990. Auk þess gerir stefnandi kröfu um, að henni verði dæmdur hæfilegur málskostnaður úr hendi stefndu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara, að sök verði skipt á grundvelli eigin sakar stefnanda. Í báðum tilvikum er þess krafizt, að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. II. Málavextir: Stefnandi hefur starfað við akstur strætisvagna hjá SVR frá árinu 1994. Þann 1. febrúar 1996 datt stefnandi, samkvæmt því sem haldið er fram í stefnu, er hún að ganga frá strætisvagni inn á kaffistofu í gömlu smurstöðinni á horni Kalkofnsvegar og Hafnarstrætis og lenti með báða fætur í misfellu eða holu í malbiki, svo henni skrikaði fótur. Í stefnu segir enn fremur, að við fallið hafi stefnandi hlotið áverka á hægri handlegg og á læri ofan við bæði hnén og áverka á enni við hársrætur. Hafi handleggur hennar bólgnað mikið og hafi hún fengið mikla verki í framhandlegg. Þá er haft eftir stefnanda, að hún hafi haft mikil eymsli í hnjám og hafi verkir í framhandlegg ekki horfið. Þeir aukist jafnan við álag, en minnki í hvíld. Verkir í hvíld hafi horfið eftir aðgerð á Sjúkrahúsi Akraness 18. júní 1998, en álagsverkir komi ávallt fram við áreynslu. Stefnandi leitaði til Sjúkrahúss Reykjavíkur til læknisskoðunar daginn eftir slysið. Var framhandleggur röntgenmyndaður, en beináverkar greindust ekki. Stefnandi kveðst alla tíð hafa verið heilsuhraust, áður en hún varð fyrir slysinu. Eftir slysið hafi hún hafið akstur strætisvagns á ný í febrúar 1996, en hún hafi verið svo þjáð af völdum slyssins, að hún hafi orðið að taka inn verkjalyf. Í marz 1997 hafi verkir og vanlíðan gengið svo nærri henni, að hún hafi gefizt upp á strætisvagnaakstri. Hafi hún þá haldið sér gangandi mánuðum saman með verkjalyfjum og hafi þá verið farin að fá óþægindi í maga af þeim. Stefnandi eigi nú mjög erfitt með öll störf, þ.á m. störf á heimili. Stefnandi á tvö börn, 10 ára og 18 ára. Hún kveður afleiðingar slyssins hafa leitt til missis starfs og lífsviðurværis. Hún standi uppi sem atvinnulaus, einstæð móðir og hafi hún ekki fengið laun hjá SVR frá l. okt. 1997. Megintjón hennar af völdum slyssins sé örorka. Það hafi gert hana ófæra um að gegna því starfi, sem hún hafi haft lífsviðurværi sitt af í meira en 22 ár. Hún kveðst nú vera óvinnufær. Með bréfi dagsettu 16. desember 1998 krafði stefnandi Reykjavíkurborg um bætur fyrir örorku vegna slyssins og útlagðan kostnað. Atli Þór Ólason læknir mat varanlega örorku stefnanda 15% með matsgerð, dags. 9. apríl 1999. Voru stefnanda greiddar bætur samkvæmt því mati hinn 23. maí 1999 úr slysatryggingu launþega Reykjavíkurborgar samkvæmt reglum nr. sl-1/90 um slysatryggingar starfsmanna borgarinnar. Á uppgjörsblaði segir svo: “Ofangreind greiðsla borgarsjóðs telst vera fullnaðargreiðsla vegna varanlegrar örorku Aðalheiðar Arnljótsdóttur." Uppgjörsblaðið er undirritað af lögmanni stefnanda fyrir hennar hönd. Stefnandi kveður tjón sitt hafa komið enn frekar í ljós á næstu mánuðum og misserum. Að ósk stefnanda mat Björn Önundarsonar læknir skaða hennar samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Er mat hans dagsett 6. júní 2001, þar sem varanleg örorka stefnanda er metin 40% og varanlegur miski 30%. Með bréfi, dags. 3. júlí 2001, fór stefnandi fram á, að henni yrði greiddur mismunur fyrra og síðara örorkumats. Var þeirri kröfu hafnað með vísan til þess, að fullnaðaruppgjör hefði þegar farið fram, sem og með vísan til ákvæða gr. 3.6 og 3.8 í reglum sl-1/90. Upphaflega gerði stefnandi kröfur um greiðslu skaðabóta úr hendi stefndu að fjárhæð kr. 12.585.496, ásamt vöxtum og málskostnaði, en til vara gerði hún kröfu um greiðslu skaðabóta/tryggingabóta að lægri fjárhæð. Aðalkrafa stefndu var, að málinu yrði vísað frá dómi og fór fram munnlegur málflutningur um þann þátt málsins þann 19. febrúar 2003. Að loknum munnlegum málflutningi urðu aðilar ásáttir um að stefnandi breytti kröfugerð sinni þannig að eingöngu yrði fjallað um greiðsluskyldu stefnda og féll stefndi þá frá frávísunarkröfu sinni. III. Málsástæður stefnanda: Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á skaðabótaábyrgð stefndu, og vísar til skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennu skaðabótareglunnar, þ.e. saknæmisreglunnar eða gáleysisreglunnar. Í þessu tilviki hafi verið um að ræða ábyrgð stefndu vegna vanrækslu- og skeytingarleysis um að hafa malbikið fyrir framan kaffistofu SVR í gömlu smurstöðinni á horni Kalkofnsvegar og Hafnarstrætis í Reykjavík í febrúar 1996 svo slétt, að ekki væri hætta á því, að þeir, sem þar gengju, misstigju sig í holum í malbikinu. Þá skyldu stefndu að hafa örugga gangbraut fyrir framan kaffistofuna hafi stefnda vanrækt með ámælisverðum og saknæmum hætti, þ.e. með ólögmætum hætti. Stefnandi telji stefndu sem umráðaaðila nefndrar lóðar á horni Kalkofnsvegar og Hafnarstrætis í Reykjavík bera ábyrgð á því skeytingarleysi/athafnaleysi að láta ekki gera við nefnda skemmd/holu í malbikinu fyrir framan kaffistofu SVR. Lóðin, sem hér sé um að ræða, sé nr. 23-25 við Hafnarstræti, og hafi hún verið í eigu stefndu. Stefnandi telji því stefndu bera ábyrgð á slysagildru þeirri, sem hafi verið í malbiki fyrir framan kaffistofu SVR. Stefnda beri ábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. þó II. kafla laganna um skaðabótaábyrgð vegna tjóns, sem vátrygging taki til. Í nefndum skaðabótalögum segi í 1. mgr. 1. gr., að sá, sem beri bótaábyrgð á líkamstjóni, skuli greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sem af því hljótist og enn fremur þjáningabætur. Enn fremur segi í 2. mgr. nefndrar l. gr. skaðabótalaganna, að hafi líkamstjón varanlegar afleiðingar, skuli einnig greiða bætur fyrir miska og bætur fyrir örorku, þ.e. varanlegan missi eða skerðingu á getu til að afla vinnutekna. Stefnandi kveðst styðja aðalkröfu sína við þau sjónarmið, sem komi fram í matsgerð þeirri, sem lögð hafi verið til grundvallar áðurnefndum dómi Hæstaréttar frá 21. apríl 1999: Elías Theodórsson og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gegn Friðjóni Þorleifssyni og gagnsök. Í því máli hafi Örorkunefnd metið örorku F, 66 ára karlmanns, er varð fyrir slysi, er ekið var aftan á bifreið þá, sem hann ók, 10%, en með matsgerð, dags. 3. nóvember 1997, hafi meirihluti þriggja dómkvaddra matsmanna metið örorku hans vegna slyssins 100%. Hafi dómurinn fordæmisgildi í máli stefnanda. Stefnandi kveðst vera algerlega ófær um að stunda það starf, sem hún hafi lært að stunda, og hafði stundað um 20 ára skeið, þegar hún slasaðist, en hún hafi starfað hjá Strætisvögnum Kópavogs, áður en hún hóf störf hjá SVR. Þótt hún hafi verið aðeins 32 ára, er hún lenti í slysinu, telji hún í hvorugri matsgerð tryggingarlæknanna, Atla Ólasonar og Björns Önundarsonar, sýnt fram á, að hún geti fengið sér eitthvert launað starf. Í reynd sé hún óvinnufær, þ.e. örorka hennar sé 100%. Varakröfu sína byggir stefnandi á ábyrgð stefndu sem vátryggjanda. Varakrafan hafi að forsendu, að stefndu beri að dæma til að greiða stefnanda tryggingabætur, án tillits til þess, hvort hún verði talinn bera ábyrgð á því skeytingarleysi/athafnaleysi að láta ekki gera við skemmdina/holuna í malbikinu fyrir framan kaffistofu SVR á lóðinni nr. 23-25 við Hafnarstræti. Byggi það á þeirri skuldbindingu stefndu sem vinnuveitanda að slysatryggja stefnanda. Þar eð stefnda hafi sjálf á hendi vátryggingarstarfsemina, en kaupi hana ekki hjá vátryggingarfélagi með þar að lútandi vátryggingarsamningi, beri henni að haga reglum um hana þannig, að hinn vátryggði sé ekki í raun sviptur tryggingu sinni. Stefnandi telji stefndu ekki geta skotið sér undan þeirri ábyrgð með því að setja sér reglur, er takmarki þá ábyrgð stórlega. Framangreindar reglur nr. sl-1/90 um slysatryggingar launþega Reykjavíkurborgar, sbr. einkum ákvæði 3.6 og 3.8, sem stefnda beri fyrir sig, þegar hún neiti að greiða stefnanda tryggingarbætur samkvæmt síðara örorkumatinu frá 6. júní 2001, telji stefnandi vera ógildar sem lagalegur grundvöllur greiðslusynjunar, sbr. einkum meginreglur þær, sem sé að finna í 33. og 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkvæmt því sé það óheiðarlegt af stefnda að bera fyrir sig nefnd ákvæði í reglum nr. sl-1/90 um slysatryggingar launþega Reykjavíkurborgar vegna þeirra atvika, sem fyrir hendi séu í málinu. En svo sem ljóst megi vera yrði stefnandi þannig sviptur verulegum hluta tryggingarbóta vegna tjóns, sem hann ella eigi rétt á, og þegar haft sé í huga, að stefnanda hafi aldrei verið gerð grein fyrir reglum þessum, sbr. 33. gr. samningalaga. Það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig nefnd ákvæði í reglum nr. sl-1/90 um slysatryggingar launþega Reykjavíkurborgar, sbr. 36. gr. samningalaga. Samningur sé ósanngjarn, þegar hann stríði gegn góðum viðskiptaháttum og raski jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag, sbr. 2. mgr. 36. gr. c í samningalögum. Svo sem áður segi hafi stefndi gert upp tjón stefnanda samkvæmt mati Atla Ólasonar 23. maí 1999. Stefnandi hafi verið 32 ára, þegar hún varð fyrir slysinu 1. febrúar 1996. Niðurstaða Atla hafi verið, að stefnandi hefði við slysið hlotið eftirfarandi skaða: Tímabundið atvinnutjón: Þrjár vikur 100%. Eftir 18. júní 1998 Tveir mánuðir 100%. Varanleg örorka 15% Svo sem áður segi hafi tjón stefnanda, þegar fyrra tjónsmatið fór fram, ekki verið komið fram nema að litlu leyti, og allur réttur áskilinn í því efni í bréfi lögmanns stefnanda til stefndu, dags. 16. desember 1998. Og þar sem æ meira tjón hafi komið fram, eftir því sem tíminn leið, hafi verið beiðzt nýs tjónsmats. Og að gengnu mati Björns Önundarsonar 6. júní 2001 hafi þess verið farið á leit við stefndu, að hún gerði viðbótatjónið upp samkvæmt síðara matinu. Kröfugerðin hafi að forsendu, að stefnda hafi þegar greitt hluta tryggingarbótanna. Þess vegna sé einungis krafizt, að gerðar verði upp og greiddar tryggingarbætur vegna þess hluta tjóns hennar, sem ekki hafi þegar verið gerðar upp og bættar. Og svo sem komi fram í síðara matinu, sé tjón stefnanda annars vegar miski og hins vegar örorka. Niðurstaða síðara matsins, dags. 6. júní 2001, hafi verið eftirfarandi: "1. Tímabundið atvinnutjón sbr. 2. gr. l. nr. 50/1993. Slasaða var með öllu óvinnufær í 180 daga vegna afleiðinga slyss þessa. 2. Þjáningar sbr. 3. gr. l. nr. 50/1993. Slasaða var óvinnufær í 180 daga vegna afleiðinga slyss þessa, en aldrei rúmföst. 3. Varanlegur miski sbr. 4. gr. 1. nr. 50/1993. Læknisfræðilegar afleiðingar slyss þess hafa verið raktar hér að framan svo sem unnt er. Hér sýnist vera fyrst og fremst um taugaskaða að ræða í hægri handlim, sem er betri handlimur slösuðu. Einnig hefur hún óþægindi frá hnjám, einkum því hægra. Ekki verður dregið í efa, að vinnugeta slösuðu er nú verulega skert, þar sem hún hefur enga sérhæfða menntun til annarra starfa, en bifreiðaaksturs. Vafasamt verður að teljast að slasaða geti sérhæft sig til annarra starfs svo nokkru nemi. 4. Varanleg örorka sbr. 5. gr. l. nr. 50/1993. Varanleg örorka telst hæfilega metin 40%. 5. Áhrif annarra slysa eða sjúkdóma á örorkuna. Undirritaður hefur kynnt sér þau læknisfræðilegu gögn, sem fyrir liggja varðandi ofanritaða, átt við hana viðtal og skoðað hana og telur að önnur slys eða sjúkdómar eigi ekki þátt í því mati sem hér er lagt fram og lýsir eingöngu afleiðingum vinnuslyssins hinn 1. febrúar 1996. Þannig eru öll þau einkenni, sem slasaða nú ber, frá hægri handlim, og þó einkum hendi, svo og hnjám, afleiðingar vinnuslyss þess sem hún varð fyrir hinn l.febrúar 1996. Varanlegur miski, sbr. 4. gr. 30%. Varanleg örorka, sbr. 5. gr. 40%." Málsástæður stefndu: Stefnda byggir sýknukröfu sína af aðalkröfu stefnanda á því í fyrsta lagi, að slys stefnanda megi að öllu leyti rekja til gáleysis hennar sjálfrar og óhappatilviljunar. Ósannað sé með öllu, að slys stefnanda megi rekja til atvika, sem stefndi beri ábyrgð á, enda sé ósannað, að það megi rekja til saknæms vanbúnaðar á lóð stefndu. Í sjúkraskrám slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur komi fram, að stefnandi hafi runnið á hálku, sbr. dskj. nr. 6. Séu það einu gögnin sem stefnandi hafi lagt fram um tildrög slyssins, sem skráð hafi verið strax í kjölfar þess. Sé því misræmi í lýsingu stefnanda á tildrögum slyssins milli sjúkraskrár og seinni tíma gagna. Stefnandi hafi ekki sannað, að hún hafi hrasað í holu í malbiki og enn síður, að slys hennar verði rakið til. atvika, sem stefnda beri ábyrgð á. Því sé alfarið ósannað, að stefnda hafi, með saknæmum hætti, valdið tjóni stefnanda. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings fullyrðingu sinni um tildrög slyssins. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því, að skilyrði almennu skaðabótareglunnar séu uppfyllt, enda beri fasteignareigendur ekki hlutlæga ábyrgð á aðbúnaði við fasteign sína. Beri því að sýkna stefndu. Varakrafa um sakarskiptingu: Verði ekki á sýknukröfu fallizt kveðst stefnda byggja varakröfu sína um sakarskiptingu á því, að slys stefnanda megi að stærstum hluta rekja til gáleysis stefnanda sjálfrar og óhappatilviljunar. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að jafnvel þótt sannað teljist, að hola hafi verið í malbiki, hafi aðstæður verið þannig, að stefnandi hafi ekki mátt verða hennar vör og getað forðast að stíga í hana með eðlilegri aðgæzlu. Beri því að skipta sök í hlutfalli við eigin sök hennar og óhappatilviljun. Um varakröfu stefnanda: Stefnda byggir sýknukröfu sína af varakröfu stefnanda á því, að stefnandi hafi, með þegar greiddum bótum, fengið fullar bætur úr slysatryggingu launþega í samræmi við ákvæði kjarasamnings og reglur nr. sl-1/90 um slysatryggingar starfsmanna Reykjavíkurborgar vegna slysa í starfi. Í grein 7.1.1 í kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, sem gilt hafi frá 1. apríl 1995 til 31. desember 1996, sé kveðið á um, að um slysatryggingar starfsmanna vísist til reglna nr. sl.-1/90 og sl.-2/90, samþykktum af borgarráði þann 5. júní 1990. Um rétt stefnanda til greiðslu úr slysastyggingu starfsmanna fari því eftir þeim reglum. Séu þetta samningsbundin réttindi, sem veiti félagsmönnum í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar aukinn rétt til bóta vegna slysa, sem þeir verði fyrir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sem skýrlega sé kveðið á um í reglum sl -1/90. Sé því mótmælt, að reglurnar takmarki rétt stefnanda til bóta. Enn fremur sé því mótmælt, að unnt sé að víkja ákvæði kjarasamningsins og reglunum til hliðar með vísan til 33. gr., 36. gr. eða 2. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Ekki sé á nokkurn hátt óheiðarlegt að beita reglum sl-1/90 um ákvörðun bóta til handa stefnanda. Reglurnar séu hluti af kjarasamningnum, og hafi stefnandi getað kynnt sér þær eins og önnur ákvæði kjarasamningsins, sem gilt hafi um ráðningarsamband hennar og stefnda. Þá sé hvorki ósanngjarnt né andstætt góðri viðskiptavenju/viðskiptaháttum að ákveða bætur samkvæmt slysatryggingu eftir ákvæðum reglna nr. sl-1/90. Þann 25. maí 1999 hafi stefnandi fengið greiddar fullar bætur úr slysatryggingu starfsmanna í samræmi við ofangreindar reglur. Hafi stefnandi tekið við þeim bótum sem fullnaðargreiðslu vegna varanlegrar örorku án fyrirvara. Sé stefnandi bundinn af þeirri yfirlýsingu og geti því ekki krafizt frekari bóta úr slysatryggingunni. Samkvæmt ákvæði 3.6 í reglunum skuli örorka ákveðin í fyrsta lagi einu ári eftir slysið. Telji slasaði eða stefndi, að örorkan geti breytzt, geti hvor aðili um sig krafizt þess, að endanlegu örorkumati verði frestað, þó ekki lengur en þrjú ár frá slysdegi. Ákvæði 3.8 kveði á um, að þótt gera megi ráð fyrir, að ástand hins slasaða kunni að breytast, skuli undantekningarlaust framkvæma örorkumat í síðasta lagi þremur árum eftir slys. Slys stefnanda hafi orðið 1. febrúar 1996. Hámarksbiðtími, 3 ár, hafi því verið liðinn, þegar uppgjörið fór fram. Örorkumat, sem gert sé síðar, hafi því ekkert gildi varðandi greiðslu úr slysatryggingu starfsmanna. Stefnandi hafi þegar fengið greiddar bætur miðaðar við örorkumat Atla Þórs Ólasonar, og beri því að sýkna stefndu í samræmi við ofangreint. Verði ekki á ofangreindar málsástæður fallizt, sé krafa stefndu um sýknu af varakröfu stefnanda byggð á því, að ósannað sé, að slys stefnanda hafi leitt til frekara tjóns en 15% varanlegrar örorku samkvæmt mati Atla Þórs Ólasonar, sbr. dskj. nr. 10. Sé örorkumati Björns Önundarsonar mótmælt. Að öðru leyti vísist til rökstuðnings fyrir kröfu um sýknu af aðalkröfu stefnanda eftir því sem við eigi. IV. Forsendur og niðurstaða: Upplýsingar í gögnum málsins um tildrög slyss stefnanda eru nokkuð misvísandi. Í stefnu er aðdraganda þess lýst svo, að stefnandi hafi verið að ganga frá strætisvagni inn á kaffistofu í gömlu smurstöðinni á horni Kalkofnsvegar og Hafnarstrætis og hafi þá lent með báða fætur í misfellu eða holu í malbiki, svo henni hafi skrikað fótur og hún dottið. Í læknisvottorði Eybjargar B. Hansdóttur er haft eftir stefnanda við komu á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur daginn eftir slysið, að hún hafi hrasað á hálku og komið niður á bæði hnén og vinstri olnboga og borið fyrir sig hægri hendi. Fyrir dómi þann 27. júní 2003 skýrði stefnandi svo frá, að hún hefði verið að flýta sér inn í kaffistofuna, og hún hefði hlaupið yfir planið, sem hafi allt verið holótt, og lent ofan í einni af stóru holunum þar og rekið tærnar í og steypzt á hausinn. Planið hafi verið snjólaust, en þar hafi verið smáhálkublettir. Sérstaklega aðspurð kvað hún ekki hafa verið hálkublett, þar sem hún lenti í misfellunni, “en aftur lenti ég á hálkubletti svolítið áður, ég náttúrlega var hlaupandi og hljóp þar af leiðandi aðeins hraðar yfir út af hálkunni, og svo þegar ég kom út úr henni þá hélt ég áfram að hlaupa yfir og lenti ofan í þessari holu. Það var svo dimmt á þessu plani, maður sér illa .” Hún kvað planið hafa verið í svipuðu ástandi frá því að hún fór að vera þarna á Lækjartorgi, en hún hafi verið búin að vera þar í hátt í ár. Við munnlegan málflutning kvað lögmaður stefnanda atvikalýsingu rétt hafða eftir stefnanda í örorkumatsgerð Atla Þórs Ólasonar læknis, en þar er atvikum lýst svo, að stefnandi hafi verið að ganga á bílaplani Strætisvagna Reykjavíkur hjá Lækjartorgi, er hún rann til á hálku, en datt ekki, en gekk síðan spölkorn í næturmyrkrinu við lélegt skyggni, en steig með báða fætur ofan í u.þ.b. 10 cm djúpa holu á bílaplaninu og missti við það jafnvægið, datt fram fyrir sig á bæði hnén, skall með höfuðið í stétt og bar fyrir sig hægri hendi. Í síðari ræðu sinni við aðalmeðferð kvað lögmaður stefnanda málsatvikum rétt lýst þannig, að stefnandi hefði ekki farið að hlaupa fyrr en hún lenti á hálkubletti og þá hafi hún rekið fæturna í og dottið. Eins og sést af því, sem hér hefur verið rakið, var stefnandi að breyta málavaxtalýsingu sinni allt fram til þess að málið var lagt í dóm að lokinni síðari ræðu lögmanns hennar. Þykir verða að leggja til grundvallar þá lýsingu stefnanda á málsatvikum, sem hún gaf fyrir dómi, áminnt um sannsögli, að hún hafi verið að flýta sér, þegar hún kom út úr strætisvagninum, og hafi hlaupið yfir myrkvað bílaplanið, þar sem voru einhverjir hálkublettir og margar holur í malbikinu. Slysið varð við það að hún hljóp í holu, rak tærnar í og féll fram fyrir sig. Stefnandi þekkti til ástands bílaplansins og tók áhættu, þegar hún ákvað að hlaupa við þessar aðstæður inn í kaffistofu SVR. Verður slysið alfarið rakið til gáleysis hennar og engum öðrum um kennt. Er ekki fallizt á, að stefnda beri skaðabótaábyrgð vegna þessa. Varakrafa stefnanda er á því byggð, að óheimilt sé að takmarka tryggingarbætur stefnanda með þeim hætti, sem gert er í reglum nr. sl- 1/90 og sl. 2/90 um slysatryggingar launþega Reykjavíkurborgar. Hér er um að ræða tryggingar sem samið er um í kjarasamningum milli Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Er ekki fallizt á, að stefnda hafi verið óheimilt að takmarka bótarétt stefnanda í samræmi við þann samning. Þá er ekki fallizt á, að reglurnar gildi ekki gagnvart stefnanda vegna ákvæða í 33. og 36. gr. laga um samninga, umboð og ógilda löggerninga. Hafa engin haldbær rök verið færð fram fyrir þeirri niðurstöðu. Að öllu framangreindu virtu ber að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda ákveðst kr. 300.000 og greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá ekki verið litið til virðisaukaskatts. Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn. D Ó M S O R Ð : Stefnda, Reykjavíkurborg, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Aðalheiðar Arnljótsdóttur, í máli þessu. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 300.000, greiðist úr ríkissjóði. |
Mál nr. 3/2001 | Fiskveiðistjórn Veiðileyfi Úrelding Frávísun frá héraðsdómi að hluta | E keypti skip og sótti um leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir það. Fiskistofa og sjávarútvegsráðuneytið höfnuðu beiðninni með vísan til þess að endurnýjunarrétti og rétti skipsins til veiðileyfis hefði á sínum tíma verið afsalað til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins af þáverandi eigendum skipsins gegn greiðslu úreldingarstyrks. E krafðist ógildingar á úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins og bóta vegna ætlaðs tekjutaps þann tíma sem skip hans hafði ekki veiðileyfi. Hæstiréttur sýknaði Í og kvað E bundinn af þeim samningi, sem gerður var um úreldingu skipsins. Sá samningur, sem væri reistur á skýrum fyrirmælum laga, væri enn í gildi og bakaði E sömu skyldur og styrkþega á sínum tíma. Bótakrafa E þótti ekki studd nægilegum gögnum og var vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. janúar 2001 og krefst sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara, að niðurstaða héraðsdóms um ógildingu úrskurðar sjávarútvegsráðuneytisins frá 7. janúar 2000 og um málskostnað verði staðfest, en að áfrýjandi greiði bætur að fjárhæð 14.710.133 krónur auk dráttarvaxta frá 13. apríl 2000 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð matsgerð tveggja dómkvaddra matsmanna, sem unnin var að beiðni stefnda eftir uppsögu héraðsdóms, um ætlað tekjutap þann tíma sem skip hans, Stokksnes RE 123, hafði ekki veiðileyfi. Er matsgerðinni ætlað að renna stoðum undir bótakröfu stefnda. Í héraði gerði stefndi kröfu um skaðabætur að fjárhæð 49.665.000 krónur. Svo sem rakið er í niðurstöðu héraðsdóms var krafan ekki studd öðrum gögnum en áætlun hans sjálfs. Var hún því með öllu ódómhæf og bar að vísa henni frá héraði. Framlögð matsgerð bætir hér ekki úr enda of seint fram komin. Er bótakröfu stefnda sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi. II. Árið 1994 sótti þáverandi eigandi Stokksness VE 700, nú Stokksness RE 123, um úreldingarstyrk til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins á grundvelli þágildandi laga nr. 92/1994. Fallist var á umsóknina og var úreldingarstyrkur að fjárhæð 39.375.000 krónur greiddur með uppgjöri 21. apríl 1995. Skilyrði styrkveitingar var að skipið yrði tekið af skipaskrá, réttur til endurnýjunar ekki veittur og veiðiheimildir sameinaðar aflaheimildum annars skips. Þetta gekk eftir af hálfu styrkbeiðanda og lýsti hann því yfir að afskráning skipsins væri varanleg af sinni hálfu. Í því fælist að hann myndi aldrei eiga neinn þátt í því að skipið kæmi á ný á íslenska skipaskrá, hvorki sem fiskiskip né skip annarrar gerðar. Var um það samið að bryti styrkþegi gegn þessu væri sjóðnum heimilt að heimta endurgreiðslu styrksins. Fólst í úreldingunni að annaðhvort yrði skipinu fargað eða það selt úr landi. Styrkþegi seldi skipið til Hagangur Corporation Inc., 99 Albert Street, Belize City í Belize með kaupsamningi 28. mars 1995. Skipið lá þó áfram við bryggju á Fáskrúðsfirði. Forsvarsmaður stefnda, Viðar Halldórsson, keypti það 15. maí 1996 fyrir hönd V.H. Viðskipta ehf. af North Ocean Ltd., sem hafði sama heimilisfang í Belize og fyrrgreindur kaupandi. Hann sótti 2. desember 1998 um leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir skipið, sem skráð hafði verið Stokksnes RE 123 hinn 20. febrúar 1998. Með ákvörðun Fiskistofu 19. ágúst 1999 var beiðninni hafnað og vísað til þess að endurnýjunarrétti og veiðileyfi skipsins hefði verið afsalað til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins 17. febrúar 1995 af þáverandi eigendum gegn greiðslu úreldingarstyrks. Í ákvörðuninni var greint frá því að samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 92/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins væri óheimilt að veita þeim skipum, sem úrelt hefðu verið með styrk úr þróunarsjóði, veiðileyfi að nýju, enda hefðu þáverandi eigendur viðkomandi skipa afsalað þeim rétti með samningi sínum við sjóðinn og þær kvaðir sem settar hefðu verið á viðkomandi skip stæðu enn. Efnisatriði 8. gr. fyrrnefndra laga væru hluti af samningi viðkomandi við sjóðinn og sá samningur stæði þrátt fyrir það að nefnd 8. gr. hefði verið felld niður með lögum nr. 152/1996. Ákvörðun Fiskistofu var kærð til sjávarútvegsráðuneytisins, sem staðfesti hana með úrskurði 7. janúar 2000. III. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 1/1999, getur hver sá íslenskur ríkisborgari, sem ræður yfir skrásettu fiskiskipi með haffærisskírteini, sótt um almennt veiðileyfi og nýtt sér heimildir í 1. mgr. 7. gr. fyrrnefndu laganna til veiða á tegundum, sem ekki lúta heildaraflatakmörkunum. Hann getur að auki fengið aflaheimildir í þeim tegundum, sem sæta slíkum takmörkunum, með kaupum á varanlegri aflahlutdeild eða aflamarki til tiltekins tíma. Heldur stefndi því fram, og var á það fallist í héraðsdómi, að í gildandi lögum sé þess hvergi getið að óheimilt sé að veita veiðileyfi skipum, sem tekin hafi verið út af skipaskrá. Slíkar takmarkanir hafi verið að finna í ákvæðum 7. 11. gr. laga nr. 92/1994, sem lutu að úreldingu fiskiskipa, þar til þau ákvæði hafi verið felld úr gildi með setningu laga nr. 152/1996. Óhjákvæmilegt sé að kveðið sé á um það í gildandi lögum að atvinnuréttindi grandlausra eigenda slíkra skipa séu takmörkuð til þess að það gildi til frambúðar. IV. Áfrýjandi krefst sýknu á grundvelli aðildarskorts skv. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fallast ber á þá niðurstöðu héraðsdómara að eignarréttur stefnda að Stokksnesi RE 123 hafi verið nægilega skýrður. Verður sýknukrafa áfrýjanda því ekki reist á aðildarskorti. Við úrlausn ágreinings málsaðila um lögmæti synjunar sjávarútvegsráðuneytisins um veitingu veiðileyfis er óhjákvæmilegt að líta til þess að árið 1995 var gengið frá samningi milli Þróunarsjóðs sjávarútvegsins og þáverandi eiganda Stokksness um úreldingu skipsins og afsal á rétti til veiðileyfis þess gegn greiðslu úreldingarstyrks. Með þessu skuldbatt eigandinn sig til að falla frá endurnýjunarrétti þess og lýsti því jafnframt yfir að skipinu yrði ekki komið á ný á íslenska skipaskrá fyrir sína tilstuðlan eða haldið aftur til veiða í efnahagslögsögu Íslands. Styrkveitingin var reist á skýrum fyrirmælum laga nr. 92/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, sem voru sett í því skyni að stuðla að aukinni arðsemi í sjávarútvegi. Lögin voru sett í þágu fiskveiðistjórnunar og miðuðu að minnkun fiskiskipaflotans og takmörkun á fiskveiði. Áttu lögin að tryggja, gegn greiðslu styrks, að úrelt fiskiskip héldu ekki aftur til veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu, enda væru þau um allan aldur útilokuð frá því að öðlast aftur veiðileyfi. Þær almennu skorður, sem styrkþegum úreltra skipa voru settar, voru bundnar í einkaréttarlegum samningi og reistar á fyrirmælum laga. Verður ekki litið svo á, að brottfall 8. gr. laga nr. 92/1994 með lögum nr. 152/1996 hafi átt að leiða til þess, að kvaðir samhliða úreldingu skipa hafi átt að falla niður. Þótt réttarframkvæmd hafi leitt til breytinga á lögum um fiskveiðistjórnun, eins og greint er í III. kafla hér að framan, hrófluðu þær ekki við réttaráhrifum úreldingar, sem héldust þrátt fyrir þessar lagabreytingar. Veiðileyfi eru bundin við skip og skip, sem verið hefur úrelt gegn greiðslu, verður það áfram, þótt réttur manna til aðgangs að veiðileyfum hafi að uppfylltum tilteknum skilyrðum verið jafnaður með lögum nr. 1/1999 um breytingu á lögum nr. 38/1990. Getur stefndi því ekki í skjóli þeirrar lagabreytingar öðlast betri rétt en styrkþegi hafði. Samningurinn um úreldingu Stokksness er enn í gildi og bakar stefnda sömu skyldur og styrkþega á sínum tíma. Ekki skiptir hér máli, að kvöðinni var ekki þinglýst, enda verður skip, sem selt er úr landi, að vera kvaðalaust. Samkvæmt framansögðu var úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins 7. janúar 2000 reistur á réttum lögum og málefnalegum forsendum. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda. Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Bótakröfu stefnda, Eystrasalts ehf., er sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi. Áfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af öðrum kröfum stefnda. Stefndi greiði áfrýjanda 800.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2000. Mál þetta, sem dómtekið var 9. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Eystrasalti ehf., kt. 640399-2529, Mýrargötu 8, Reykjavík, á hendur Árna M. Mathiesen, kt. 021058-4409, sjávarútvegsráðherra, og Geir H. Haarde, kt. 080451-4749, fjármálaráðherra, f.h. íslenska ríkisins með stefnu sem birt var 13. apríl 2000. Dómkröfur stefnanda eru: „1. ... að ógiltur verði úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins dags. 7. janúar s.l. um að sú ákvörðun Fiskistofu að hafna beiðni um veitingu veiðileyfis í atvinnuskyni fyrir Stokksnes RE-123, skuli standa óhögguð. 2. Þess er einnig krafist að dómurinn leggi fyrir Fiskistofu að gefa út umbeðið leyfi fyrir Stokksnes RE-123 til veiða í atvinnuskyni í aflamarkskerfi. 3. Stefnandi gerir ennfremur þá kröfu að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur vegna þess tekjutjóns sem hin ólögmæta synjun hefur valdið honum, að fjárhæð kr. 49.665.000,00 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga af stefnufjárhæðinni frá stefnubirtingardegi til greiðsludags. 4. Þá gerir stefnandi kröfu til málskostnaðar að skaðlausu út hendi stefnda að mati réttarins eða skv. framlögðum reikningi ásamt álagi sem nemur virðisauka-skatti." Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar skv. mati réttarins. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar skv. mati réttarins. I. Stefnandi lýsir málavöxtum þannig: „Hinn 15. maí 1996 keypti Viðar Halldórsson, kt. 230553-3519, Hjallabraut 94, Hafnarfirði, mótorbátinn Stokksnes af fyrirtækinu North Ocean Ltd. sem staðsett er í Belize, en skip þetta hafði áður verið skráð hér á landi. Það var hins vegar ekki fyrr en rúmu ári síðar sem hann óskaði eftir skráningu skipsins á aðalskipaskrá hjá Siglingastofnun Íslands og var mælingabréf fyrir skipið gefið út hinn 20. febrúar 1998. Skipið er skráð í Reykjavík og ber skráningarnúmerið RE-123 en skipaskrárnúmer þess er 7. Við skráningu skipsins voru ekki gerðar neinar athugasemdir, hvorki varðandi skipið sjálft né heldur varðandi fyrirhuguð not þess í íslenskri fiskveiðilögsögu. Veðbókarvottorð fyrir skipið og þinglýsingabækur báru heldur ekki með sér að skipið og not þess væru kvaðabundin með einhverjum hætti. Þann 8. desember 1998 sótti Viðar Halldórsson um leyfi fyrir Stokksnes RE-123 til veiða í atvinnuskyni í aflamarkskerfi. Umsókninni svaraði Fiskistofa loks rúmum átta mánuðum síðar með bréfi dags. 19. ágúst s.l [1999] og hafnaði henni. Niðurstaða Fiskistofu byggir að því er virðist á þremur atriðum sem öll varða þá staðreynd að skipið hafði verið úrelt og þáverandi eigendur fengið greiddan úreldingarstyrk úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins. Í fyrsta lagi fullyrðir Fiskistofa að óheimilt sé að veita þeim skipum veiðileyfi sem úrelt hafa verið með styrk úr þróunarsjóðnum. Þetta byggir Fiskistofa á ákvæði 8. gr. laga nr. 92/1994 en regla þessi var felld úr lögum með setningu laga nr. 152/1996. Í öðru lagi byggir Fiskistofa niðurstöðu sína á því að þeir aðilar sem áttu skipið árið 1995 hafi afsalað rétti sínum til veiðileyfis með samningi sínum við Þróunarsjóð og að þeir aðilar séu enn bundnir af samningi sínum, þrátt fyrir brottfall 8. gr. l. nr. 92/1994. Má af bréfi Fiskistofu ráða að stofnunin telji að sá samningur bindi einnig stefnanda sem ekki var aðili að þessum samningi og var grandlaus um hann þegar hann keypti skipið. Í raun verður ekki annað ráðið af bréfi Fiskistofu en að hún telji að samningur þessi bindi þá sem koma til með að eignast skipið um ókomna framtíð. Í þriðja lagi byggir Fiskistofa svo á því að með úreldingunni og þeim samningi sem þáverandi eigendur skipsins gerðu við Þróunarsjóð sjávarútvegsins, hafi verið lögð kvöð á skipið sem gildi gagnvart grandlausum kaupendum þess, þrátt fyrir að réttarvernd hennar sé hvergi tryggð með skráningu eða þinglýsingu. Hinn 16. nóvember s.l. [1999] kærði Viðar Halldórsson framangreinda ákvörðun Fiskistofu til sjávarútvegsráðherra. Krafðist hann þess að ákvörðun Fiskistofu yrði ógilt og að lagt yrði fyrir stofnunina að gefa út umbeðið veiðileyfi. Úrskurður ráðuneytisins barst í janúar s.l. þess efnis að ákvörðun Fiskistofu skyldi staðfest. Byggðist niðurstaða ráðuneytisins á öllum sömu rökum og ákvörðun Fiskistofu. Viðar Halldórsson er framkvæmdastjóri stefnanda sem aftur er eigandi Stokksness RE -123 og því er málið höfðað í þess nafni." Af hálfu stefnda er þannig gerð grein fyrir málavöxtum: „Þann 31. maí 1994 sótti Goðaborg hf., Fáskrúðsfirði, þáverandi eigandi Stokksness VE-700 (07), um úreldingastyrk til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Í umsögninni var því lýst yfir að báturinn yrði tekinn af skipaskrá, réttur til endurnýjunar yrði ekki nýttur og veiðiheimildir sameinaðar aflaheimildum annars báts, sem allt var forsenda úreldingastyrks úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins. Úreldingarstyrkur til umsækjanda var samþykktur og allt framangreint gekk eftir eins og nánar er rakið á dskj. nr. 19-25. Styrkfjárhæð til Goðaborgar hf. nam kr. 39.375.000, sbr. dskj. nr. 25. Samkvæmt dskj. 24 var báturinn seldur á árinu 1995 úr landi til Belize. Samkvæmt dskj. nr. 26 var framangreindur bátur aftur keyptur til landsins frá Belize þann 15. maí 1996. Íslenskur kaupandi var samkvæmt dómskjalinu V.H. viðskipti ehf., kt. 540396-2809, Höfðabakka 9, 112 Reykjavík. Skipið mun hafa verið skráð á aðalskipaskrá Siglingastofnunar Íslands þann 20. febrúar 1998 með skráningarnúmerinu RE-123 (7). Með bréfi dagsettu 8. desember 1998 sótti Viðar Halldórsson persónulega um alhliða veiðileyfi til sjávarútvegsráðuneytisins fyrir Stokksnes RE-123, sbr. dskj. nr. 3. Ráðuneytið framsendi Fiskistofu umsóknina sem hafnaði henni með bréii dags. 19. ágúst 1999, sbr. dskj. nr. 4. Fyrrgreindur Viðar Halldórsson kærði ákvörðun Fiskistofu um synjun á veiðileyfi til sjávarútvegsráðuneytisins þann 16. nóvember 1999, sbr. dskj. nr. 7. Ráðuneytið úrskurðaði þann 7. janúar 2000, að ákvörðun Fiskistofu um að hafna veitingu leyfis til Stokksness RE-123, skyldi standa óhögguð, sbr. dskj. nr. 8. Málshöfðun stefnanda byggir á fyrrgreindri synjun Fiskistofu og úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins frá 7. janúar s.l. Vakin er sérstök athygli á því að í máls skjölum stefnanda eru þrír aðilar taldir eigendur og/eða umráðamenn að Stokksnesi RE-123 frá því að báturinn var keyptur frá Belize á árinu 1996 fram að stefnubirtingu málsins. V.H. viðskipti ehf virðast hafa keypt bátinn frá Belize og á veðbókarvottorði frá 23. mars 1999, sbr. dskj. nr. 10, er hann enn skráður eigandi hans (sic.). Einstaklingurinn Viðar Halldórsson kemur fram sem eigandi bátsins gagnvart Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneyti vegna umsóknar um veiðileyfi. Þriðji lögaðilinn, Eystrasalt ehf., höfðar síðan dómsmál þetta m.a. vegna synjunar Fiskistofu á erindi Viðars Halldórssonar um veiðileyfi fyrir bátinn í íslenskri lögsögu. Samspil þessara þriggja aðila er að engu leyti útskýrt í málinu og hefur stefndi í raun enga hugmynd um þátt og stöðu hvers og eins gagnvart sakarefninu." II. Af hálfu stefnanda segir að byggt sé á því að í núgildandi lögum sé einungis að finna eina lagareglu sem takmarkar rétt íslenskra borgara til að öðlast leyfi til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilögsögunni, en það sé 5. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, eins og henni var breytt með lögum nr. 1/1999. Áður en reglunni hafi verið breytt hafi þau skip ein getað fengið veiðileyfi sem hafi haft veiðireynslu á ákveðnu tímabili, að því gefnu að þau hefðu ekki horfið varanlega úr rekstri, auk skipa sem komu í stað þeirra skipa sem leyfi hafi fengið árið 1985. Þessi regla, sem verið hafði í 4. gr. upphaflegu laganna, hafi staðið í meginatriðum óbreytt frá 1985 til janúar 1999 og á henni hafi reglukerfi, sem hafði að markmiði að minnka þann flota sem stundaði veiðar í lögsögunni og gera hann hagkvæmari, verið byggð. Reglan hafi takmarkað endanlega, hvaða skip mættu veiða, og eftir reglunni hafi þeim einungis getað fækkað. Reglurnar um Þróunarsjóð sjávarútvegsins og styrki til úreldingar fiskiskipa hafi alfarið grundvallast á þeim veruleika sem þáverandi 4. gr. fiskveiðistjórnarlaganna hafi skapaði. Með því að greiða mönnum fyrir að úrelda skip og taka þau úr rekstri, hafi verið hægt að fækka markvisst þeim skipum sem höfðu leyfi til veiða, af þeirri einföldu ástæðu að lögin hafi ekki gert ráð fyrir að veita mætti ný veiðileyfi. Grundvellinum hafi verið kippt undan þessu kerfi með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 145/1998. Niðurstaða Hæstaréttar í því máli hefði verið að 5. gr. fiskveiðistjórnarlaganna stangaðist á við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi borgaranna, sbr. einkum 65. og 75. gr. hennar. Dómur Hæstaréttar hafi þannig falið í sér að ástand það og lagaumhverfi sem umrædd lagagrein myndaði, hefði verið ólögmætt. Löggjafinn hafi brugðist við dómnum með lögum nr. 1/1999 sem breytt hafi 5. gr. laganna. Eftir breytinguna séu einu skilyrðin fyrir því að skip fái veiðileyfi, að það hafi haffærisskírteini og sé á skipaskrá auk þess sem eigendur þess verði að fullnægja þeim skilyrðum sem sett séu í lögum um heimild til veiða í lögsögu Íslands. Þetta sé eina gildandi lagareglan sem takmarkar atvinnufrelsið að þessu leyti. Af hálfu stefnanda segir að hann reisi kröfur sínar á því að atvinnufrelsi hans verði ekki skert nema á grundvelli þeirra settu lagareglna sem nú séu í gildi. Hvorki löngu niðurfelldar lagareglur um Þróunarsjóð sjávarútvegsins né heldur samningar, sem aðilar ótengdir stefnanda gerðu einhvern tíma við sjóðinn, geti haft áhrif á réttarstöðu stefnanda að þessu leyti nú. Reglukerfið, í kringum 5. gr. fiskveiði-stjórnarlaganna og 8. gr. laganna um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, hafi skapað ólögmætt ástand að mati Hæstaréttar. Þetta ólögmæta ástand, sem nú hafi verið fært til rétts vegar, geti ekki í dag ráðið réttindum stefnanda með þeim hætti sem stefndi haldi fram. Af hálfu stefnanda er því mótmælt sérstaklega að réttindi hans verði skert á grundvelli einhverrar kvaðar sem stefndi segi að hvíli á skipinu. Hvorki í skipaskrá né í þinglýsingarbókum sé að finna nokkra heimild um að skipið hafi verið kvaðabundið enda hafi stefndi ekki haldið því fram að réttarvernd þessarar meintu kvaðar hafi verið tryggð. Að sjálfsögðu hafi óþinglýst kvöð ekkert gildi gagnvart grandlausum kaupanda eignar. Ekki hafi stofnast nein kvöð sem áhrif hafi á réttindi stefnanda sem eiganda skipsins. Af hálfu stefnanda er því hafnað að samningur sá sem fyrri eigendur Stokksness gerðu við Þróunarsjóðs sjávarútvegsins geti bundið stefnanda á einhvern hátt. Eins og fram komi bæði í úrskurði ráðuneytisins og bréfi Fiskistofu, þá sé samningurinn bindandi fyrir þá aðila sem að honum stóðu, en stefnandi hafi ekki verið þeirra á meðal. Í samræmi við almennar reglur um stofnun loforða og skuldbindingargildi samninga, sé augljóst að samningur þessi getur ekki á nokkurn hátt bundið stefnanda eða takmarkað réttindi hans. Af öllum framangreindum ástæðum er af hálfu stefnanda talið að ógilda beri úrskurð sjávarútvegsráðuneytisins og leggja eigi fyrir Fiskistofu að gefa út veiðileyfi fyrir Stokksnes RE-123 í fiskveiðilögsögu Íslands. Af hálfu stefnanda er ítrekað að umsókn um veiðileyfi fyrir Stokksnes RE-123 hafi verið lögð inn í byrjun desember 1998. Óeðlilegur dráttur hafi orðið á svari Fiskistofu og sé nú svo komið að rekstrarstöðvun skipsins hafi varað lengi og að enn muni líða einhver tími þar til dómur gengur í máli þessu. Stefnandi reisi bótakröfu sína á því að ólögmæt synjun Fiskistofu á útgáfu veiðileyfisins muni hindra tekjuöflun Stokksness RE-123 í a.m.k. eitt og hálft ár. Stefnandi hafi gert rekstraráætlun fyrir skipið á sl. ári og hefði byggt hana bæði á gögnum úr útgerð áþekkra skipa og opinberum upplýsingum um aflareynslu og verð afurða. Áætlaðar rekstrartekjur af útgerðinni fyrstu tólf mánuðina nemi 123.000.000 krónum en áætlaður rekstrarkostnaður á sama tíma nemi 83.890.000 krónum. Afborganir af kaupverði skipsins nemi samkvæmt áætluninni 6.000.000 króna og þegar þær ásamt rekstrarkostnaði hafa verið dregnar frá áætluðum tekjum, standa eftir 33.110.000 krónur sem er hreint tekjutjón stefnanda miðað við tólf mánuði. Þegar tjónsfjárhæðin hefur verið færð upp miðað við 18 mánuði nemi hún 49.665.000 krónum sem sé stefnufjárhæð máls þessa. Ákvörðun Fiskistofu um að hafna beiðni um veiðileyfi fyrir Stokksnes RE-123 og úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins um staðfestingu þeirrar ákvörðunar sé byggð á lagaheimildum sem numdar hafi verið úr lögum þegar ákvörðun Fiskistofu var tekin og úrskurður ráðuneytisins gekk auk þess sem ákvarðanir þessar hafi berlega farið í bága við gildandi rétt og dóm Hæstaréttar í málinu nr. 145/1998. Með þessu hafi ráðuneytið og stofnun þess gert sig seka um saknæma og ólögmæta hegðun gagnvart stefnanda og valdið honum með hegðun sinni stórfelldu tjóni. Af hálfu stefnanda sé því talið að stefndi beri ábyrgð að lögum á öllu því tjóni sem ákvarðanir þessara aðila hafa valdið stefnanda og sé gerð krafa til þess að stefndi bæti honum það tjón að fullu. Stefnukrafan sundurliðast nánar tiltekið þannig: 1. Áætlaðar heildartekjur í 18 mánuði frá byrjun janúar 1999 kr. 184.500.000.- 2. Frádráttur áætluð rekstrargjöld í 18 mánuði Launakostnaður kr. 70.110.000.- Olía kr. 12.150.000.- Beita kr. 12.150.000.- Veiðafæri kr. 7.380.000.- Tryggingar kr. 3.750.000.- Viðhald kr. 7.380.000.- Hafnar og afgreiðslugjöld kr. 1.845.000.- Stjórnunarkostnaður kr. 5.535.000.- Ýmis kostnaður kr. 5.535.000.- Áætluð rekstrargjöld Samtals kr. 125.835.000.- 3. Frádráttur áætl. afb. áhvílandi lána á 18 mánuðum kr. 9.000.000.- Mismunur er heildartjón stefnanda kr. 49.665.000.- III. Af hálfu stefnda er krafist sýknu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2 mgr. 16. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Stefndi hafi enga hugmynd um það hvernig stefnandi tengist máli þessu. Annað einkahlutafélag en stefnandi hafi flutt inn bátinn frá Belize og einstaklingurinn, Viðar Halldórsson, hafi krafist veiðileyfis fyrir bátinn og fylgt þeirri hagsmunagæslu eftir hjá Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneyti eins og um eiganda væri að ræða. Veðbókarvottorð á dskj. nr. 10 geri aðild máls þessa enn ruglingslegri en það segi eignarhald bátsins enn skráð á nafn innflutningsaðila vegna kaupanna 1996 frá Belize. Augljóslega sé hér um mismunandi lögaðila að ræða og innbyrðis samband þeirra óútskýrt. Beri því að sýkna á grundvelli 2. mgr. 16. gr. eml. nr. 91/1991. Af hálfu stefnda segir að úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins um staðfestingu á ákvörðun Fiskistofu, um að synja Viðari Halldórssyni um veiðileyfi, sé byggður á lögmætum forsendum. Telja verði að hann sé byggður á skýrum lagafyrirmælum, sem í gildi hafi verið þegar ákvörðun um úreldingu var tekin, og loforði Goðaborgar hf. frá árunum 1994 og 1995 um að báturinn myndi aldrei aftur koma inn á íslenska skipaskrá sem fiskiskip. Þessar málsástæður eiga enn við því seinni eigendur geti ekki öðlast meiri rétt en Goðaborg hf. sem á sínum tíma samdi við Þróunarsjóð sjávarútvegsins á grundvelli ákvæða þágildandi laga og skilmála um forsendur úreldingarstyrks. Fráleitt sé því að krefjast ógildingar úrskurðar sjávarútvegs-ráðuneytis. Sömu sjónarmið eiga við um bótakröfu stefnanda. Lög um Þróunarsjóð sjávarútvegsins nr. 92/1994 hafi verið í gildi þegar endurnýjunarréttur og veiðileyfi Stokksnes VE-700 var afsalað Þróunarsjóði sjávarútvegsins þann 17. febrúar 1995. Afsal endurnýjunarréttar og veiðileyfis bátsins hafi verið ætlað til þess að endanlega yrði komið í veg fyrir að báturinn gæti fengið veiðileyfi á ný. 8. gr. laganna hafi á þeim tíma hljóðað þannig: "Skilyrði fyrir veitingu loforðs um styrk vegna úreldingar fiskiskips er að eigandi þess lýsi því yfir að skipið verði tekið af skipaskrá, að réttur til endurnýjunar þess verði ekki nýttur og enn fremur að allar veiðiheimildir skipsins verði sameinaðar aflaheimildum annarra skipa. Óheimilt er að greiða úreldingarstyrki fyrr en fyrir liggur vottorð Siglingamálastofnunar ríkisins um afskráningu skipsins af skipaskrá og yfirlýsing frá Fiskistofu um að allar aflaheimildir skipsins hafi varanlega verið sameinaðar aflaheimildum annarra skipa og fallið hefur verið frá rétti til endurnýjunar skipsins. Þá er óheimilt að veita skipi leyfi til veiða í atvinnuskyni ef Þróunarsjóður hefur greitt styrk vegna úreldingar þess." Orðalag ákvæðisins sé skýrt og skilyrðin augljós fyrir veitingu úreldingarstyrks. Efnislega sambærilegt ákvæði hafi verið að finna í lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins nr. 40/1990, sbr. lög nr. 65/1992. Markmið ákvæðisins hafi verið að draga úr afkastagetu fiskiskipaflotans þannig að skip sem fengu úreldingarstyrk myndu endanlega hverfa úr fiskiskipaflotanum. Með skilyrðum sem sett hafi verið fyrir greiðslu úreldingarstyrks hafi verið reynt að tryggja að markmið laganna myndi nást. Markmið laganna hafi ótvírætt gildi við túlkun þeirra í heild sem og einstakra ákvæða. Af hálfu stefnanda sé byggt á því að með dómi frá 3. desember 1998, á bls. 4076 í dómasafni, hafi Hæstiréttur m.a. kippt grundvellinum undan 8. gr. laga nr. 92/1994, sem raunar hafi verið búið að fella úr gildi þegar dómurinn féll, sbr. lög nr. 152/1996. Því er mótmælt af hálfu stefnda að slíkar ályktanir verði dregnar af fyrrnefndum dómi. Þeirri fullyrðingu er einnig mótmælt að reglukerfið í kringum 5. gr. laga nr. 38/1990 og 8. gr. laga nr. 92/1994 hafi skapað ólögmætt ástand að mati Hæstaréttar. Aldrei hafi komið fram að Hæstiréttur telji 8. gr. laga nr. 92/1994 andstæða stjórnarskránni. Eðlismunur sé á 8. gr. laga nr. 92/1994 og 5. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 sem Hæstiréttur taldi stangast á við 65. og 75. gr. stjórnarskrár. Þegar veittur var styrkur til úreldingar fiskiskips hafi það verið gert á einkaréttarlegum grundvelli og með vitund og vilja styrkþega og skv. fortakslausum og óundanþægum skilyrðum sem lögin settu. Allt annað hafi verið uppi á teningnum þegar veitt voru veiðileyfi á grundvelli þágildandi 5. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna. Eðli máls samkvæmt hafi það ekki verið háð vilja þess sem sótti um veiðileyfi, hvort hann fengi það eða ekki, heldur hafi það byggst á lagaákvæðum sem sett hafi mörkin. Þær takmarkanir hafi Hæstiréttur talið andstæðar stjórnarskránni. Þegar ákvæði 7. - 11. gr. laga nr. 92/1994 voru felld úr gildi með lögum nr. 152/1996, segir af hálfu stefnda að það hafi ekki verið gert í því skyni að skip er þegið höfðu úreldingarstyrk gætu fengið veiðileyfi aftur. Þvert á móti hafi ætlunin verið að skip, sem fengu úreldingarstyrk, myndu endanlega hverfa úr fiskiskipaflotanum eins og lög nr. 92/1994 og lögskýringargögn beri með sér. Það komi fram í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 152/1996 að Þróunarsjóði sjávarútvegsins hafi tekist vel að uppfylla þær væntingar sem gerðar voru til hans varðandi fækkun fiskiskipa. Því sé ljóst að markmið breytinganna hafi ekki verið að fá sömu skip í flotann aftur. Hlutverki sjóðsins hafi verið breytt og önnur markmið sett í stað hinna fyrri sem náðst höfðu. Það leiðir af eðli slíkra ákvæða, að þeim sé ekki ætlað að gilda um ókominn tíma heldur þar til markmiðum sem þau stefna að er náð. Réttaráhrif úreldingarstyrkja haldast áfram þótt viðeigandi lagaákvæði falli niður eða breytist. Það sé meginregla í íslenskum rétti að lögum verður ekki beitt á afturvirkan hátt nema þau sjálf mæli svo um og því geti brottfall 7. - 11. gr. laga nr. 92/1994, sbr. lög nr. 152/1996 ekki skipt máli varðandi atvik þessa máls. Öðru kynni að gegna hefði ákvæði 8. gr. verið fellt úr gildi sakir einhvers ólögmæts ástands sem ákvæðið kynni að hafa skapað. Slíku væri hins vegar ekki til að dreifa hér. Af hálfu stefnda segir að engin lagaskylda hefði hvílt á stefnda að þinglýsa úreldingarstyrk sem kvöð á fiskiskip þegar úreldingarstyrkur var veittur vegna Stokksness. Í þessu samhengi megi benda á, að með 10. gr. laga nr. 92/1994 hafi stjórn Þróunarsjóð sjávarútvegsins verið veitt heimild til að festa kaup á fiskvinnslustöðvum í sama tilgangi og fólust í úreldingu fiskiskipa. Í 2. mgr. 10. gr. laganna komi fram skylda til að þinglýsa þeirri kvöð á þær fasteignir sem keyptar væru að þær yrðu ekki framar nýttar til fiskvinnslustarfsemi. Með samanburðarskýringu á 8. og 10. gr. laga nr. 92/1994 leiði að óskylt hefði verið að þinglýsa úreldingarstyrk á fiskiskip. Af hálfu stefnanda sé ályktað að samningur sem Goðaborg hf. gerði við Þróunarsjóð sjávarútvegsins bindi eingöngu Goðaborg hf. sem fyrri eiganda en ekki stefnanda. Ljóst sé, með hliðsjón af tilgangi og markmiðum laganna, að slíkur samningur um úreldingarstyrk sé óhjákvæmilega bundinn við skipið sjálft um aldur og ævi. Markmið laganna hafi verið að stuðla að raunhæfri fækkun skipa í fiskiskipaflotanum en ekki að losna við ákveðna einstaklinga úr fiskveiðistéttinni. Nýir eigendur fiskiskipa geti ekki öðlist meiri rétt en fyrri samningsaðilar Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Af hálfu stefnda er því mótmælir að ákvæði jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið brotið í því tilviki sem hér um ræðir svo sem haldið er fram af hálfu stefnanda. Eigandi Stokksnes VE-700 hafi gengið til samninga af fúsum og frjálsum vilja og samið um að skipið hyrfi um ókomna tíð úr fiskiskipaflota Íslands. Fyrir þennan samning hafi hann þegið umtalsverðar fjárhæðir. Ekki hafi verið sýnt fram á að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið ferðinni við setningu og beitingu 8. gr. laga nr. 92/1994. Ekki hafi heldur verið gengið á réttindi núverandi eiganda Stokksness með því að mismuna honum og öðrum sem eins er ástatt um. Því sé einnig mótmælt að atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið brotið. Þó að heimildir til veiðileyfa hafi verið rýmkaðar með lögum nr. 1/1999 sé ljóst að veiting veiðileyfis vegna Stokksnes RE-123 geti aldrei komið til álita. Dómkröfu stefnanda nr. 2 um að dómurinn leggi fyrir Fiskistofu að gefa út veiðileyfi fyrir Stokksnes RE- 123 er mótmælt af hálfu stefnda sem ódómtækri. Krafa þessi falli utan ramma valdsviðs dómstóla og ætti að vísa frá ex officio. Dómstóll sé ekki stjórnvald og geti ekki gengið inn í hlutverk þeirra. Dómstóll dæmi um lögmæti stjórnvaldsákvarðana en tekur ekki slíkar ákvarðanir né framkvæmir þær. Tölulegri kröfugerð stefnanda er mótmælt af hálfu stefnda sem einhliða, órökstuddri og þar með ósannaðri. Engin gögn hafi verið lögð fram af hálfu stefnanda til stuðnings kröfunni. Engar forsendur séu því fyrir stefnda til að fjalla um einstaka liði kröfugerðarinnar. Verði því að nægja að mótmæla henni alfarið. Af hálfu stefnda er ályktað að bótakrafa stefnanda sé byggð á almennum reglum skaðabótaréttarins utan samninga, þ.e. væntanlega á sakarreglunni. Því sé mótmælt að um saknæma háttsemi hafi verið að ræða sem leitt getur til bótaskyldu. Samkvæmt skýrum lagafyrirmælum hafi stefnda borið að hafna beiðni um veiðileyfi fyrir Stokksnes RE-123. Bótakrafan uppfyllir því ekki almenn skilyrði sakarreglunnar. IV. Framkvæmdastjóri stefnanda, Viðar Halldórsson, aðilaskýrslu fyrir réttinum. Hann sagði m.a. að hann hefði ásamt nokkrum félögum sínum keypt mótorbátinn Stokksnes. Þeir hefðu haft áhuga á að kaupa sér bát eða skip til að reka. Hafi hann farið af stað í árslok 1995 og í byrjun árs 1996 og kannað málið. Að lokum hafi þeim verið boðinn þessi bátur og hefðu þeir keypt hann snemma árs 1996. Í framhaldi af því hafi hann stofnað hlutafélag, VH. viðskipti, sem afsalið hefði verið gefið út á. Hann sagði að síðan hafi verið byrjað að gera við bátinn en ýmsu öðru sinnt í leiðinni. Báturinn hafi verið skráður árið 1998, bæði hjá sýslumanni og siglingastofnun. Síðan hefðu þeir félagar stofnað félag að nafni Eystrasalt og keypt bátinn með afsali frá VH. viðskiptum ehf. yfir til Eystrasalts ehf. í maí 1999. Hann sagði að þeir væru með önnur skip í útgerð hjá Eystrasalti ehf. Viðar sagði að upphaflegar fyrirætlanir hefðu verið að koma skipinu til veiða þar sem best hentaði hvort sem það yrði hér við land eða annars staðar í heiminum. Hann sagði að mikið hefði verið gert fyrir skipið, meira en upphaflega hefði verið gert ráð fyrir. Til dæmis hefði þurft að skipta um vél en ekki hefði verið reiknað með því er skipið var keypt. Ætlunin hefði verið að koma skipinu í haffært ástand og síðan á veiðar. Viðar kvaðst aðspurður hafa keypt skipið af fyrirtæki, sem skráð sé í Belize, en á þeim tíma hafi skipið verið statt á Fáskrúðsfirði. Hann sagði, er gengið var frá kaupum, að þá hafi ekkert komið fram um forsögu skipsins nema að það hefði verið afskráð af íslenskri skipaskrá. Engar frekari upplýsinga hefðu komið fram frá seljanda. Ekki hefði verið upplýst um að skipið hefði verið úrelt. Kvaðst hann aðspurður ekki hafa þekkt, á þeim tíma er hann keypti skipið, yfirlýsingar af hálfu Goðaborgar hf. varðandi úreldingu skipsins. Hann hefði ekkert samband haft við eigendur Goðaborgar hf. áður en hann keypti skipið. Viðar sagði að hvorki hjá sýslumanni né siglingamálastofnun hefði komið fram að einhverjar kvaðir hvíldu á skipinu. Hann sagði að sjávarútvegsráðuneytið hafi ekki gert athugsemdir við það að hann hefði persónulega sótt um veiðileyfi fyrir skipið. Lagt var fyrir Viðar dskj. nr. 11 og sagði hann að þetta væri rekstraráætlun fyrir skipið sem gerð hefði verið 1999. Kvaðst hann hafa gert þessa áætlun sjálfur og byggt hana á afla hinna ýmsu línubáta, bæði væri um að ræða kvótategndan fisk og fisk utan kvóta. Kostnaðinn kvaðst hann hafa miðað við algeng hlutföll kostnaðar af aflaverðmæti skv. upplýsingum sem hann hefði aflað frá hinum og þessum. Viðar sagði að hann hefði keypt skipið af North Ocean gegnum Hrafnkel Ásgeirsson lögmann en fulltrúi seljanda hefði verið Svanur Þór Vilhjálmsson. V. Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 1/1999 er veiting leyfa til veiða í atvinnuskyni bundin við fiskiskip sem hafa haffærisskírteini og skrásett eru á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum. Eigendur og útgerð skipanna verða og að fullnægja skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands svo sem nánar er þar kveðið á um. Eignarréttur stefnanda að mótorbátnum Stokksnes RE-123 hefur verið skýrð af framkvæmdastjóra stefnanda fyrir réttinum. Ekki eru efni til að draga í efa það sem þar kemur fram. Verður því að hafna kröfu stefnda um sýknu á grundvelli aðildaskorts stefnanda. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 12/2000 segir m.a. í forsendum: „Lögum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 er ekki markaður tiltekinn gildistími, eins og í fyrrnefndum eldri lögum ... Með þeirri skipan á fiskveiðistjórn, sem nú er við lýði, eiga þeir, sem hafa byrjað útgerð eftir fyrrgreint viðmiðunartímabil eða vilja auka aflaheimildir sínar, ekki kost á því að fá úthlutað nýjum heimildum í stofnum, sem bundnir eru heildaraflatakmörkunum. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1990, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 1/1999, getur hver sá íslenskur ríkisborgari, sem ræður yfir skrásettu fiskiskipi með haffærisskírteini, hins vegar sótt um almennt veiðileyfi og nýtt sér heimildir í 1. mgr. 7. gr. fyrrnefndu laganna til veiða á tegundum, sem ekki lúta heildaraflatakmörkunum. Hann getur að auki fengið aflaheimildir í þeim tegundum, sem sæta slíkum takmörkunum, með kaupum á varanlegri aflahlutdeild eða aflamarki til tiltekins tíma ..." Lög nr. 1/1999 öðluðust gildi 14. janúar 1999. Í gildandi lögum er þess ekki getið að ekki megi veita veiðileyfi út á skip, er tekin hafi verið af skipaskrá, sbr. 7.- 11. gr. laga nr. 92/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins svo sem lagaákvæðin voru uns þau féllu á brott með lögum nr. 152/1996, og fyrri eigendur þeirra hafa fengið styrk út á til úreldingar. Óhjákvæmilegt er að kveðið sé á um það í gildandi lögum, að atvinnuréttindi grandlausra eigenda slíkra skipa sé takmarkaður á sama hátt og áður var, til að það gildi til frambúðar. Þá verður stefnandi heldur ekki bundinn við samning, sem forsvarsmenn hans hafa ekki átt aðild að, og ekki hefur verið þinglýstur sem kvöð á skipinu. Samkvæmt framangreindu verður úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 7. janúar 2000, um að ákvörðun Fiskistofu, að hafna beiðni um veitingu veiðileyfis í atvinnuskyni fyrir Stokksnes RE-123, skuli standa óhögguð, dæmdur ógildur. Kröfu stefnanda um að dómurinn leggi fyrir Fiskistofu að gefa út umbeðið leyfi fyrir Stokksnes RE-123 til veiða í atvinnuskyni í aflamarkskerfi verður hins vegar vísað frá dómi. Af hálfu stefnanda er stefndi sóttur um skaðabætur vegna tjóns, sem af hálfu stefnanda er talið að hann hafi orðið fyrir vegna umdeildrar ákvörðunar stjórnvalda. Í stefnu er gerð grein fyrir fyrir kröfufjárhæðinni. Framkvæmdastjóri stefnanda hefur fyrir réttinum sagt hvernig hún er hugsuð. Er hún byggð á áætlunum af hálfu framkvæmdastjórans án þess að hlutlaus aðili hafi komið þar að málum. Þykir því ekki unnt að leggja hana í heild til grundvallar í málinu. Hins vegar þykir nægilega í ljós leitt að stefnandi hafi orðið fyrir miklu fjárhagstjóni sökum ólögmætrar synjunar stjórnvalda á veiðileyfi er hér um ræðir. Þykir mega ákvarða bætur til stefnanda að álitum og eru þær hæfilega ákveðnar 30.000.000 króna með vöxtum, eins og segir í dómsorði. Rétt er að stefndi greiði stefnanda málskostnað eins og í dómsorði greinir. Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn. DÓMSORÐ: Úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins, frá 7. janúar 2000 um að ákvörðun Fiskistofu, að hafna beiðni um veitingu veiðileyfis í atvinnuskyni fyrir Stokksnes RE-123, skuli standa óhögguð, skal vera ógildur. Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Eystrasalti ehf., 30.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. apríl 2000 til greiðsludags. Krafa stefnanda, um að dómurinn leggi fyrir Fiskistofu að gefa út leyfi fyrir Stokksnes RE-123 til veiða í atvinnuskyni í aflamarkskerfi, er vísað frá dómi. Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 203/2007 | Áfrýjunarstefna Birting Áfrýjunarfrestur Dómur Ómerking héraðsdóms Sératkvæði | X var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa með ofbeldi þröngvað Y til samræðis og var brotið talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga. Héraðsdómur taldi að ekki yrði litið fram hjá því að framburður stúlkunnar um að mökin hefðu verið gegn hennar vilja hefði verið afar óljós og benti ekki skýrlega til þess að X hefði beitt hana ofbeldi eða hótað henni ofbeldi eða að hann hafi mátt skynja af hegðun hennar að mökin væru gegn hennar vilja. Í dómi Hæstaréttar var með vísan til tilvitnana í skýrslur Y fyrir dómi ekki talið rétt það sem fram kom í forsendum héraðsdóms um óskýrleika framburðar hennar um hvort mökin hefðu verið gegn hennar vilja og að hann benti ekki skýrlega til að X hafi mátt skynja af hegðun hennar að svo væri, enda kæmi skýrt fram í tilvitnuðum svörum Y að mökin hefðu verið gegn hennar vilja og að hún segðist hafa gefið X það til kynna með ótvíræðum hætti. Þá var tekið fram að hafi héraðsdómur talið vafa leika á hvort beitt hafi verið ofbeldi eða hótun um það í umrætt sinn hafi borið að veita sakflytjendum kost á að reifa málið út frá því hvort heimfæra ætti brot X undir þágildandi ákvæði 195. gr. almennra hegningarlaga. Af framangreindum ástæðum var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson. Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. janúar 2007 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákveðin refsing. Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur. I. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 22. nóvember 2006. Ríkissaksóknari gaf áfrýjunarstefnu því út degi áður en áfrýjunarfresti samkvæmt 152. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála lauk. Áfrýjunarstefnan var birt ákærða rúmum tólf vikum eftir útgáfu hennar. Reisir ákærði aðalkröfu sína á því að of langur tími hafi liðið frá lokum áfrýjunarfrests til birtingar áfrýjunarstefnunnar og valdi það frávísun málsins frá Hæstarétti. Samkvæmt síðbúnum gögnum, sem ákæruvaldið hefur lagt fyrir Hæstarétt, sendi ríkissaksóknari áfrýjunarstefnuna til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 17. janúar 2007 með beiðni um að hún yrði birt ákærða. Í tölvubréfi lögreglustjóraembættisins 17. september 2007 til ríkissaksóknara kemur fram að hvorki hafi tekist að finna dvalarstað ákærða né að ná sambandi við hann. Hafi hann verið hættur störfum hjá fyrri launagreiðendum. Birting stefnunnar hafi svo tekist „á lögreglustöðinni Hverfisgötu þann 11. apríl 2007 vegna eftirlýsingar.“ Samkvæmt framansögðu verður að leggja til grundvallar að reynt hafi verið að birta áfrýjunarstefnuna í eðlilegu framhaldi af útgáfu hennar en atriði er vörðuðu ákærða hafi orðið þess valdandi að birting tókst ekki fyrr en raun varð. Verður aðalkröfu hans því hafnað. II. Ákærða er gefið að sök að hafa í byrjun sumars 2005 með ofbeldi þröngvað Y til samræðis í bifreið sem lagt hafði verið við A. Á þeim tíma var ákærði 23 ára en Y 14 ára. Mat héraðsdómur það svo að mynd sú sem hún gaf af sér við skýrslugjöf fyrir dómi sem óframfærinn unglingur með lítið sjálfstraust samrýmdist lýsingum foreldra hennar. Ákærði neitar sök. Héraðsdómur taldi engu að síður sannað að ákærði og Y hefðu átt mök í bifreiðinni umrætt sinn og reisti þá niðurstöðu fyrst og fremst á framburði stúlkunnar sem héraðsdómur taldi að þessu leyti trúverðugan. Dómurinn taldi að hins vegar yrði ekki fram hjá því litið að framburður stúlkunnar um að mökin hefðu verið gegn vilja hennar hafi verið afar óljós og bendi ekki skýrlega til þess að ákærði hafi beitt hana ofbeldi eða hótað henni ofbeldi eða að ákærði hafi mátt skynja af hegðun hennar að mökin væru gegn hennar vilja. Y gaf tvisvar sinnum skýrslu fyrir dómi. Í fyrra skiptið 3. apríl 2006 á meðan á lögreglurannsókn stóð en í seinna skiptið við aðalmeðferð málsins 3. október 2006. Skýrslurnar voru í bæði skiptin teknar upp á mynddisk, sem dómendur Hæstaréttar hafa horft á. Í fyrri skýrslunni svaraði vitnið spurningu um hvort hún hafi sagt ákærða að hún vildi ekki eiga mök við hann á svofelldan hátt: „Ég sagði nei og allt það ... hann hélt bara áfram ...“. Við skýrslugjöf við aðalmeðferð sagði hún að sér hefði fundist samfarirnar „hrein martröð“. Hún sagðist aðspurð hafa gefið ákærða það til kynna og spurningu um hvernig hún hefði gert það svaraði hún þannig: „Eða þú veist, ég sagði bara svona, sagði honum að hætta þessu og fór bara eiginlega að gráta“. Síðar í sömu skýrslutöku svaraði hún spurningu um hvort hún hefði hrópað á hjálp eða látið ákærða vita með einhverjum skýrum hætti að hún vildi þetta ekki á eftirfarandi hátt: „Ég sagði nei og var alltaf að segja nei og að ég vildi fara til D. Ég er ekki með svo mikið sjálfstraust og hef aldrei verið með það. Þannig að ég vissi ekkert hvað ég átti að segja en ég sagði allavegana nei og eigum við ekki að fara til D og sagði honum líka að hætta. Svo hélt ég að hann mundi hætta af því að ég fór að gráta en hann gerði það ekki.“ Af framangreindum tilvitnunum í skýrslur Y er ljóst að ekki er rétt sem segir í forsendum héraðsdóms um að framburður hennar um hvort mökin hafi verið gegn hennar vilja hafi verið afar óljós og hann bendi ekki skýrlega til að ákærði hafi mátt skynja af hegðun hennar að mökin væru gegn hennar vilja. Kemur skýrt fram í tilvitnuðum svörum að mökin hafi verið gegn vilja stúlkunnar og að hún segist hafa gefið ákærða það til kynna með ótvíræðum hætti. Í niðurstöðu héraðsdóms segir einnig að til þess verði að líta að í málinu sé ákært fyrir nauðgun en þau brot ein, þar sem beitt er ofbeldi eða hótun um ofbeldi til að þröngva til samræðis, teljist nauðgun. Hafi héraðsdómur talið vafa leika á því hvort beitt hafi verið ofbeldi eða hótun um það í umrætt sinn hefði hann átt að gefa sakflytjendum kost á að reifa málið út frá því hvort heimfæra mætti ætlað brot ákærða undir þágildandi ákvæði 195. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 194. gr. laganna eins og þeim var breytt með 3. gr. laga nr. 61/2007. Af framangreindum ástæðum verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm. Verður lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar á ný og fella síðan á það efnisdóm. Vegna þessara úrslita málsins verður að leggja allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti á ríkissjóð, þar með talda þóknun skipaðs réttargæslumanns bótakrefjanda í héraði og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, sem ákveðin verða í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði, hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti. Dómsorð: Héraðsdómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju. Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, á báðum dómstigum, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 622.500 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns bótakrefjanda í héraði, Guðrúnar B. Birgisdóttur héraðsdómslögmanns, 149.400 krónur. Sératkvæði Ingibjargar Benediktsdóttur Ég er sammála niðurstöðu meiri hluta dómenda um að hafna aðalkröfu ákærða og að ekki sé rétt sú fullyrðing héraðsdóms að framburður Y um hvort mök hennar og ákærða hafi verið gegn hennar vilja hafi verið afar óljós og að hann bendi ekki skýrlega til þess að ákærði hafi mátt skynja af hegðun hennar að mökin væru gegn hennar vilja. Í niðurstöðu héraðsdóms segir einnig að ekki verið litið fram hjá því að framburður Y bendi ekki skýrlega til þess að ákærði hafi beitt hana ofbeldi eða hótað henni ofbeldi. Í fyrri skýrslu sem tekin var af Y fyrir dómi 3. apríl 2006 lýsti hún atburðinum með þeim hætti að ákærði ,,tók mig að og setti mig ofan á sig ... hann ýtti mér bara niður og byrjaði bara ... byrjaði að bara að þú veist sofa hjá mér þótt ég vildi það ekki“. Aðspurð um hvað hafi svo gerst sagði hún: ,,Hann henti mér svona einhvern veginn ofan á bakið eða eitthvað og hélt hann áfram þá“. Hún svaraði spurningu um hvort ákærði hefði haldið henni eða eitthvað á þá lund með eftirfarandi hætti: ,,... hélt einhvern veginn svona hérna og ýtti mér niður“. Hún kvaðst jafnframt hafa meitt sig í klofinu og í hendinni ,,þegar að hann togaði mig niður“. Spurð að því hvort ákærði hafi sagt henni að leggjast á bakið eða hvort hún hafi sjálf gert það sagði vitnið: ,,Ég reyndi allavega að forða mér þú veist alveg upp við gluggann og síðan einhvern veginn sagði hann mér að leggjast á bakið og tók svona fæturna mínar og bara einhvern veginn ýtti þeim þangað til að ég lá á bakinu.“ Í síðari skýrslu sem tekin var við aðalmeðferð málsins 3. október 2006 lýsti vitnið atburðinum með svofelldum hætti: ,,Hann tekur mig svona upp og síðan lætur mig svona liggja í aftursætinu“. Aðspurð hvort hún hafi reynt að berjast á móti þegar ákærði var að klæða hana úr fötunum sagði vitnið: ,,Ég reyndi að taka buxurnar upp aftur, reyndi að toga þær svona upp aftur“, en hann ,,tók þær bara fastar niður“. Samkvæmt 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Í þessu máli ræðst úrlausn um sök ákærða mjög af heildarmati á sönnunargildi framburðar Y fyrir dómi. Á þykir skorta að héraðsdómur hafi litið til tilvitnaðra ummæla hennar fyrir dómi við mat á því hvort ákærði hafi beitt hana ofbeldi eða hótað henni ofbeldi í skilningi þágildandi 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en ákvæðinu var breytt með 3. gr. laga nr. 61/2007. Þykir fullyrðing héraðsdóms um að framburður Y bendi ekki skýrlega til þess að ákærði hafi beitt hana ofbeldi eða hótað henni ofbeldi ekki samræmast framangreindum tilvitnunum í skýrslur hennar. Af þessu leiðir að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kann að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls. Að þessu virtu er með vísan til 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, óhjákvæmilegt að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju. Ég er sammála niðurstöðu meiri hluta dómenda um málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Við yfirheyrslu fyrir dómi 3. október 2006 voru þrír héraðsdómarar viðstaddir skýrslugjöf Y, sem þá var 15 ára, í sérútbúnu herbergi sem ætlað er til að yfirheyra börn. Í ljósi þess hversu íþyngjandi yfirheyrsla í kynferðisbrotamálum er fyrir barn hefði verið nægilegt að dómsformaður hefði annast yfirheyrsluna en meðdómsmenn fylgst með henni í þar til gerðu herbergi við hlið þess fyrrnefnda, enda gátu þeir beint því til dómsformanns að leggja spurningar um sakarefnið fyrir barnið hefðu þeir óskað þess. Mál þetta sem dómtekið var 1. nóvember sl. er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara útgefinni 10. júlí 2006 á hendur X, kt. [...], Kópavogi ,,fyrir kynferðisbrot, með því að hafa, í byrjun sumars 2005, í bifreiðinni [...], sem lagt hafði verið við A við [...]í Reykjavík, með ofbeldi þröngvað Y, kennitala [...], til samræðis“. Telur ákæruvaldið þessa háttsemi varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992 og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar. Af hálfu Y er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og til greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar. Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi þess að bótakröfu verði vísað frá dómi. Einnig krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna er greiðist úr ríkissjóði. Málsatvik. B, faðir Y, lagði fram kæru hjá lögreglunni í Reykjavík 16. mars 2006, á hendur ákærða fyrir meint kynferðisbrot gegn dóttur hans. Hann kvað C hafa komið til sín og eiginkonu sinnar mánudaginn 13. mars 2006 og sagt þeim frá því að Y hefði greint henni frá því að ákærði hefði nauðgað henni í bíl í lok maí eða byrjun júní árið 2005, við A. Hefði D, dóttir C, orðið vitni að nauðguninni, en ákærði hefði rekið hana út úr bifreiðinni. Ákærði var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu 17. mars 2006. Kvaðst hann einungis hafa haft aðgang að kremlitaðri Toyota Corollu og kvaðst aldrei hafa notað aðra bíla en þann bíl. Hann kvaðst ekki hafa hugmynd um hver Y sé og hafi aldrei sofið hjá nokkurri stelpu við A. Ákærði var aftur yfirheyrður 14. júní 2006 og neitaði enn sök, en viðurkenndi að hann hefði einhverju sinni ekið bifreiðinni [...], sem er Volkswagen Golf, dökkblár. Þá kvaðst ákærði ekki þekkja Y. Hann kvaðst vera vinur föður D, vinkonu Y og kvað því útilokað að hann færi að vera með dóttur hans. Hann kvað D aldrei hafa stigið fæti inn í ofangreindan bíl. Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík skoðaði bifreiðina [....], 23. mars 2006, en um er að ræða Volkswagen Golf, árgerð [...], bláa að lit, 5 dyra. Lífssýnaleit var gerð í aftursætum bifreiðarinnar og á áklæðum sem voru í aftursætum. Engin lífssýni fundust eða önnur álíka gögn sem ætla mátti að tengdust rannsókn málsins. Á báðum rúðum í vinstri afturhurð voru límdar einhvers konar filmur sem gerðu rúðurnar dökkar. Filman í stærri glugganum hafði að miklum hluta verið fjarlægð en í minni rúðunnu hafði lítill hluti filmunnar verið fjarlægður. Í hægri afturhurð voru engin ummerki um filmu, utan lítill filmubútur sem er sams konar filma og í rúðum á vinstri afturhurð. Þá var skoðað hvort vindskeið hefði einhvern tíma verið á bifreiðinni og kom í ljós að þvert yfir þak bifreiðarinnar var einhvers konar límefni fast á þakinu. Í málinu liggja frammi handskrifuð blöð, rituð af móður D, C, þar sem hún skráði niður frásögn Y af atburðum þeim sem urðu tilefni ákæru í málinu. Í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun frá neyðarmóttöku kemur fram að brotaþoli hafi komið á neyðarmóttöku 17. mars 2006 kl. 17.30, skömmu eftir að aðstandendum hennar var kunnugt um málið. Hún hafi skýrt hjúkrunarfræðingi svo frá að hún hafi gist hjá vinkonu sinni í maí/júní 2005 og hafi ákærði boðið þeim vinkonum í bíltúr um hádegisbil á laugardegi. Hann hafi ekið með þær að A og rekið vinkonu hennar út. Ákærða hafi tekist að klæða meintan brotaþola úr að neðan, sett á sig smokk og sett hana ofan á sig. Hún hafi sagt að hún hefði frosið og grátið mikið. Í niðurstöðu læknis kemur fram að meyjarhaft hafi verið rofið að hluta en að öðru leyti hafi skoðunin verið eðlileg. Stúlkan hefði að sögn sýnt fleiri kreppuviðbrögð, eins og einbeitingarskort og agavanda í skóla. Svefn og matarlyst hefðu breyst og hegðun hennar í samskiptum við fjölskyldu hefði breyst. Hún forðist að vera ein úti, sérstaklega eftir myrkur. Í samantekt og áliti í greinargerð Margrétar Magnúsdóttur sálfræðings frá 16. október 2006 kemur fram að Y hafi á tímabilinu frá 19. apríl sótt 8 viðtöl til hennar. Viðtölin hafi leitt í ljós að hún glími við mikla vanlíðan sem oft megi sjá hjá þolendum kynferðisofbeldis. Hún uppfylli greiningarskilmerki felmtursröskunar og áfallaröskunar. Hún hafi átt við einbeitingarörðugleika að stríða auk svefnörðugleika sem hvort tveggja hafi komið niður á námsárangri hennar. Skólasókn hennar hafi dalað verulega þar sem hún hafi oft ekki verið í stakk búin að mæta í skólann eftir svefnlausar nætur. Hún hafi verið verulega hrædd og kvíðin og ekki þorað að vera ein á ferli og ekki þorað að sækja ákveðna staði af ótta við að rekast á meintan geranda og/eða vini hans. Þetta hafi því skert verulega lífsgæði hennar. Hún tengi vanlíðan sína við meinta nauðgun sem hún kveðist hafa orðið fyrir og sem hún sjálf sjái ekki fyrir endann á. Y sæki enn viðtalstíma hjá sálfræðingnum. Í málinu hefur verið lögð fram skaðabótakrafa af hálfu B fyrir hönd Y að fjárhæð 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum. Í kröfunni er vísað til þess að Y hafi verið aðeins fjórtán ára gömul þegar brotið hafi átt sér stað og hafi það haft mikil áhrif á hennar andlegu líðan. Krafa um skaðabætur er studd við 170. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Ákærði kvaðst ekki þekkja Y og neitar sök. Hann kvaðst hins vegar þekkja D vinkonu hennar en hann hafi leigt íbúð af foreldrum hennar í átta mánuði árið 2002-2003. Hann hafi stundum séð D þegar faðir hennar kom til að ræða við sig. Kvað hann hana hafa gefið honum jólagjöf eitt árið. Ákærði kvaðst ekki hafa verið með D og vinkonum hennar. Hann kvað það rétt sem fram kæmi í lögregluskýrslu að hann hafi haft bifreiðina [...]til umráða í eina viku árið 2004 eða 2005 en hún hafi verið í eigu annars manns. Sá maður hafi þekkt til D. Kannaðist hann við að hafa verið tekinn tvívegis réttindalaus á bifreiðinni. Hann kvaðst ekki hafa haft aðgang að lítilli svartri bifreið á þeim tíma er ákæran tekur til. Hins vegar hafi hann haft til umráða kremlitaða tveggja dyra Toyotu Corollu að hann taldi seinni hluta árs 2004. Hann kvað gælunafn sitt vera E. Vitnið, Y, gaf fyrst skýrslu fyrir dómi 3. apríl 2006. Hún kvaðst hafa gist hjá vinkonu sinni, D, er ákærði hefði hringt í hana og spurt hvort hún vildi hitta hann. Vinkonurnar hafi hitt hann um ellefuleytið um morgun. Vitnið kvaðst ekki muna hversu langt væri síðan þetta gerðist, en kvaðst halda að það væri um ár síðan. Hann hafi beðið þær að setjast í aftursæti bifreiðarinnar og þær hafi gert það. Bíllinn hafi verið svartur. Hann hafi alltaf verið að segja við þær að hann gæti alveg ,,tekið þær báðar“ en hún hafi bara sagt nei. Síðan hafi ákærði ekið að A og þar hafi hann beðið D að fara út úr bifreiðinni, sem hún hafi gert. Allt í einu hafi ákærði verið búinn að klæða vitnið úr skónum, en hún hafi ,,haldið sér í hurðina“. Síðan hafi ákærði allt í einu farið fram í og náð í smokk og þá hafi vitnið farið aftur í skóna, eða reynt það. Þá hafi ákærði einhvern veginn náð henni úr buxunum og öllu. Síðan hafi hann sagt henni að koma til sín, en vitnið hafi spurt hvort þau ættu ekki að fara að ná í D. Ákærði hafi ekki svarað því. Síðan hafi ákærði tekið vitnið og sett hana ofan á sig. Þetta hafi allt gerst í aftursæti bifreiðarinnar. Ákærði hefði svo ýtt henni niður og farið að hafa við hana samfarir. Þá hafi ákærði hent henni á bakið og haldið áfram. Síðan hafi ákærði hætt og náð í D og ekið þær í Hagkaup og sagst ætla að ná í þær síðar, en ekki komið. Það hafi verið rigning, en þær hafi að lokum gengið heim. Vitnið kvaðst hafa þekkt ákærða er hún var yngri, þar sem ákærði hafi þá alltaf að passa hana og vinkonu hennar, D. Vitnið kvað ákærða hafa farið úr buxunum eftir að hann klæddi vitnið úr fötunum. Vitnið kvað D hafa verið rétt hjá bifreiðinni á meðan þessu fór fram og að hún hafi sagt vitninu að hún ,,hefði séð“. Spurð um það hvort ákærði hefði beitt vitnið valdi eða látið vitnið gera eitthvað, svaraði vitnið: ,,Nei hann lét mig ekki gera neitt, hann sagði mér bara að koma til sín og eitthvað þannig.“ Spurð um það hvort ákærði hefði haldið henni, svaraði vitnið: ,,Nei, hélt einhvern veginn svona hérna og ýtti mér niður.“ Þá kvaðst vitnið hafa meitt sig þegar ákærði togaði hana niður, hún hefði meitt sig í klofinu og í hendinni. Það hefði blætt úr klofinu. Vitnið kvað þetta hafa verið í fyrsta skiptið sem hún hafði samfarir. Spurð um það hvort hún myndi hvernig ákærði hefði lagt hana á bakið, og hvort ákærði hefði sagt henni að gera það eða hvort hún hefði sjálf lagst á bakið, svaraði vitnið: ,,Ég reyndi alla vega að forða mér, þú veist, alveg upp við gluggann og síðan einhvern veginn sagði hann mér að leggjast á bakið og tók svona fætur mína og bara einhvern veginn ýtti þeim þangað til að ég lá á bakinu en ég er ekki alveg 100% viss hvernig þetta var.“ Spurð um það hvort ákærði hefði þá verið ofan á henni sagði hún það ekki vera, hann hefði sett fæturna, ,,einhvern veginn upp í loftið“ og haft við hana mök þannig. Spurð um það hvort hún hafi reynt að fara út úr bílnum sagði vitnið: ,,Nei, eða jú, ég sagði alltaf svona eigum við ekki að fara að ná í D og allt svoleiðis“ en ákærði hafi ekki svarað. Vitnið kvað bifreið ákærða hafa verið alveg svarta, og engar afturdyr hafi verið á henni og kvað þær vinkonurnar hafa þurft að stíga inn um framdyr bifreiðarinnar til að komast í aftursæti bifreiðarinnar. Spurð um það hvenær hún hefði sagt D frá þessu, svaraði vitnið: ,,Þú veist, ég vissi strax að þú veist, þegar hérna að við vorum búin og þegar hann skildi okkur eftir þá sagði ég henni það og hún bara svona, ég man ekki hvað hún sagði en við ákváðum að leyna þessu af því að ég gæti ekki talað um þetta, ég gæti ekki sagt mömmu frá þessu.“ Hún kvað ákærða ekki hafa beðið hana um að halda þessu leyndu. Þá kvað hún sér kunnugt um að D hafi sagt stóru systur sinni frá þessu, en sú þekki F sem sé fyrrverandi kærasta ákærða. Vitnið kvað sér hafa liðið svo illa eftir þetta að hana hafi langað til að drepa sig. Hún hafi misst alla einbeitingu í skólanum og hafi tekið upp á því að prófa að reykja og drekka til að gleyma. Það ,,spóli stundum upp í hausnum“ á henni og þá líði henni ,,svo geðveikt illa“. Vitnið kom aftur fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og kvaðst muna að hafa gist hjá D, þegar ákærði hringdi, en hún kvaðst ekki muna hvort hann hringdi í hennar síma eða D. Vitnið kvaðst halda að ákærði hefði ekki vitað símanúmer sitt, en fyrir hefði komið að D hefði gefið öðrum símanúmer hennar. Vitnið kvaðst hafa þekkt E og hefði hann verið besti vinur pabba D og þær hafi verið hrifnar af honum. Hún kvað þær einhvern tíma hafa gefið honum jólagjöf, og hann hafi verið góður vinur þeirra. Umrætt sinn hefði hann beðið þær að hitta sig og hafi þær vinkonur hitt hann við Krónuna. Þær hafi sest í aftursæti bifreiðarinnar, sem var Volkswagen Polo eða Golf, dökkblár eða svartur að lit. Engar græjur hafi verið í bílnum og kvað vitnið ,,G “, vin vinkonu D, hafa átt bílinn. Vitnið kvaðst ekki alveg muna hvort um var að ræða fjögurra dyra bíl eða þriggja dyra. Ákærði hafi alltaf verið ,,ofan í þeim“ og hafi hann stöðvað bifreiðina við A og sagt D að fara út úr bifreiðinni og hún hafi farið út. Áður en hann bað D að fara út úr bílnum hafi ákærði reynt við þær báðar og sagt að hann gæti ,,tekið þær báðar“. Hann hafi spurt hvort hann mætti snerta á þeim brjóstin. Hún kvaðst þó hafa haldið að hann vildi bara tala við hana, þegar D fór út úr bílnum. Svo hafi hann ekið bifreiðinni áfram og þar hefði ákærði sest í aftursæti bifreiðarinnar og reynt að fá vitnið til að ,,sofa hjá sér“. Einhvern veginn hafi ákærði náð henni úr fötunum, en vitnið kvaðst ekki muna hvernig hann gerði það. Fyrst hafi hann klætt hana úr skónum og síðan buxunum, en hann hafi ekki klætt hana úr bol eða peysu. Vitnið kvaðst hafa reynt að toga buxurnar aftur upp, en ákærði hefði tekið fastar í þær og klætt hana úr. Hann hafi klætt sig úr buxunum og skónum. Svo hafi hann sett á sig smokk, sem hann geymdi í hólfi í framsæti bifreiðarinnar. Spurð um það hvort vitnið hefði reynt að fara út úr bílnum, þegar ákærði fór fram í og náði í smokkinn, kvaðst vitnið ekki hafa þorað það. Svo hafi ákærði tekið hana upp og látið hana sitja ofan á honum. Síðan hafi hann látið hana liggja á bakinu í aftursætinu. Þá hafi ákærði byrjað að ,,sofa hjá henni“. Vitnið kvað að sér hefði þótt það hrein martröð. Spurð um það hvort hún hefði gefið ákærða það til kynna, sagði vitnið: ,,Já, eða þú veist ég sagði bara svona, þú veist bara, sagði honum að hætta þessu og síðan fór ég náttúrulega að gráta, og síðan var svona, ég veit ekki hvað þetta var lengi, mér fannst það vera vika eða eitthvað. Hún hafi sagt: ,,Eigum við ekki að fara til D “ en hún hafi ekki vitað hvað hún hefði átt að gera, því að hún væri ekki með mikið sjálfstraust og hefði aldrei haft það. Síðan hafi ákærði byrjað að klæða sig og vitnið hafi spurt hvort hún mætti það líka og þá hafi þau farið að ná í D. Síðan hafi ákærði sagt að hann þyrfti að fara og þær hafi beðið við Krónuna, en ákærði hafi sagt við D að hann ætlaði að sækja þær. Ákærði hefði ekki komið og þær hefðu gengið heim. Vitnið var spurt að því hvað hún sagði við D er hún kom aftur inn í bifreiðina. Sagði þá vitnið að hún hefði ekki sagt neitt frá þessu. Vitnið sagði: ,,Ég sagði bara að þetta hafi gerst, en ekkert svona.“ Hún kvaðst hafa sagt D að þau hefðu bara sofið saman, en hún hefði ekki viljað segja D að samfarirnar hefðu verið gegn hennar vilja. Hún kvað D ekki hafa séð hana grátandi, hún hafi verið hætt að gráta þegar D kom aftur inn í bílinn. Vitnið kvað að sig hefði ekki langað til að tala um þetta og bara viljað gleyma þessu. Síðar hafi D sagt mömmu sinni, C, frá þessu, þar sem ákærði var fjölskylduvinur D. Eftir það hafi vitnið sagt C allt sem gerðist. Spurt um það hvort vitnið hefði meitt sig eitthvað, svaraði vitnið að þetta hafi verið í fyrsta skiptið sem hún hafði samfarir og hún hafi meitt sig þegar ,,hann fór inn“ og eftir á, þá hafi henni verið illt í maganum. Þá kvað vitnið að blætt hefði úr leggöngum hennar. Hún kvaðst ekki muna eftir því að hún hefði fengið marblett umrætt sinn. Vitnið kvað að sér liði mun betur í dag en henni hefði liðið og kvað það vera eftir að hún fór í samtalsmeðferð til Margrétar sálfræðings. Hún kvað þó að stundum kæmu kaflar þar sem henni liði verr. Vitnið, B, faðir Y, gerði grein fyrir því að móðir D hefði skrifað bréf sem hefði að geyma framburð Y um það sem gerðist. Hafi þetta orðið til þess að hún hafði samband við vitnið og vildi ræða það sem gerðist. Hafi hún þá afhent vitninu bréfið en hann kvaðst ekki hafa lesið það heldur afhent lögreglu það. Hann kvað Y og D hafa verið mjög góðar vinkonur á þessu tímabili og hún hafi stundum gist hjá henni. Spurður um andlega líðan Y kvað vitnið hafa velt fyrir sér hvers vegna henni hafi þegar í byrjun skólaárs byrjað að ganga illa með námið. Hún hafi verið uppstökk og hafi hann kennt gelgjunni um það. Sjálfsmat hennar hafi verið lítið og einbeitingarleysi gert vart við sig. Hún hafi viljað taka sig á en það hafi alltaf dottið upp fyrir. Lýsti hann Y svo að hún hafi verið glaðlynd stúlka en kvað hana þó alla tíð hafa verið óframfærna. Til að mynda hafi hún ekki leitað eftir aðstoð í skólanum, þyrfti hún á henni að halda heldur hafi óskað eftir því að foreldrar hennar leituðu eftir aðstoðinni fyrir hennar hönd. Hún hafi hins vegar ekki tjáð sig mikið um persónuleg málefni við foreldra sína. Hún hafi ekki enn treyst sér til að ræða þetta mál við móður sína. Kvaðst vitnið ekki þekkja það hvernig samskipti hennar við hitt kynið væru. Vitnið kvað sér hafa verið ljóst, áður en þetta mál kom upp, að þörf hafi verið á því að hjálpa Y. Hún hafi farið á sjálfstyrkingarnámskeið hjá Hinu húsinu og kvað vitnið þau foreldrana hafa verið mjög sátta við að hún reyndi að efla sjálfsmat sitt. Vitnið, H, móðir Y, kvaðst ekki hafa rætt þetta mál við hana. Hún kvað hana hafa sagt sér að ákærði leigði hjá foreldrum D, vinkonu hennar. Þær hafi verið mjög góðar vinkonur og Y hafi stundum gist hjá henni. Eftir að þetta gerðist kvað vitnið sjá að hún væri alls ekki hamingjusöm og taugaveikluð. Hún svæfi illa, borðaði sama og ekkert og liði illa. Þá hafi henni hrakað í námi. Hún hafi leitað til sálfræðings hjá Barnahúsi vegna þessa. Vitnið lýsti Y svo að hún væri mjög óframfærin og feimin að eðlisfari. Hafi þetta versnað eftir að mál þetta kom upp. Vitnið, D, kvað atburði þá sem ákæra tekur til, hafa gerst að sumri til og kvaðst halda að það hafi verið um helgi. Vitnið kvað það rétt að Y hefði gist hjá henni. Vitnið kvað Y hafa þekkt ákærða áður en þetta gerðist, þar sem ákærði hefði búið fyrir neðan vitnið. Vitnið kvaðst muna eftir því að þær hefðu einhverju sinni gefið ákærða jólagjöf. Spurð um það hvers vegna þær fóru að hitta ákærða, kvaðst vitnið ekki muna hvernig og hvers vegna. Þegar rifjaður var upp framburður vitnisins í lögregluskýrslu, kvað vitnið ákærða hafa hringt í Y og spurt hvort þær vildu hitta hann og hafi vitnið sagt já, já. Vitnið kvað ákærða hafa haft símanúmerið hjá Y, en kvaðst ekki alveg vita hvernig hann fékk símanúmerið hennar. Þær hafi farið og hitt ákærða við Krónuna. Ákærði hafi verið á dökkum bíl, ekki stórum og hafi bíllinn verið fjögurra dyra og svartar rúður aftur í. Þær hafi sest í aftursæti bifreiðarinnar og hafi ákærði ekið eitthvað og stöðvað bifreiðina hjá einhverjum skóla. Hafi þau verið að tala saman, en vitnið kvaðst ekki muna um hvað þau voru að tala. Síðan hafi ákærði spurt hvort vitnið vildi fara út úr bílnum og hafi þá vitnið horft á Y, en hún hafi verið á svipinn eins og vitnið ætti ekki að fara út úr bílnum, eins og það væri rangt að vitnið færi út úr bílnum. Spurð um það hvort hún hafi reynt að fá Y til að fara með sér út úr bílnum, sagði vitnið: ,,Nei, sko, þegar hann bað mig um að fara út úr bílnum, þá horfði ég sko og ég bara, ég spurði hana, ætlar þú að vera inni í bílnum. Hún eitthvað, hún svaraði mér ekki og eitthvað var eitthvað hérna, ég veit það ekki, geðveikt feimin og eitthvað.“ Spurð um það hvað vitnið héldi að myndi gerast þegar hún færi út úr bílnum, kvað vitnið að hún hefði ekki verið að spá í það að ákærði gerði Y eitthvað og kvaðst ekki hafa trúað því að ákærði væri að gera Y eitthvað rangt. Ákærði hafi ekki sagt hvers vegna vitnið hafi átt að fara út úr bílnum og hafi ákærði ekið aðeins áfram, en vitnið hafi þó séð bílstjórahlið bílsins, og séð inn um rúður bifreiðarinnar. Vitnið hafi farið út úr bílnum og sest á hvítan vegg, sem sýndur sé sem blár steinveggur á bls. 5 í ljósmyndum þeim sem liggja frammi í dóminum. Bíllinn hafi verið á þeim stað sem merktur er með gulri ör á bls. 6. Vitnið hafi einnig séð ákærða færa sig í aftursætið og skömmu síðar hafi hún séð annan fótinn á Y inn um rúðuna og þá hafi vitnið orðið hrædd og ekki vitað hvort hún ætti að hringja í einhvern. Síðan þegar þetta var búið hafi ákærði ekið aftur til baka og vitnið farið aftur inn í bílinn. Ákærði hafi sagt við þær: ,,Ekki segja mömmu þinni og pabba“, en vitnið kvaðst hafa túlkað það þannig að þær mættu ekki segja frá því að þær hefðu hitt ákærða, þangað til Y hafi farið að ræða um að henni væri illt í kynfærunum. Hafi þá Y verið mjög þögul og ,,alla vega búin að vera að tárast geðveikt mikið“, því að hún hafi verið ,,geðveikt rauð í augunum og alltaf að nudda þau og eitthvað“. Ákærði hafi síðan skilið þær eftir hjá McDonalds og þær setið þar hjá ísbúðinni. Vitnið kvað Y hafa sagt að henni væri illt í kynfærunum, en Y hafi helst ekki viljað tala við vitnið. Vitnið kvað Y hafa fengið að fara á salernið í ísbúðinni. Vitnið kvað ákærða hafa ætlað að ná í þær þangað, en hann hafi ekki gert það og hafi Y helst ekki langað til að fara aftur með ákærða. Þær hafi svo gengið heim í grenjandi rigningu. Er vitnið var spurt um það hvort ákærði hefði haft í frammi kynferðislegt tal, áður en vitnið fór út úr bílnum, sagði vitnið: ,,Já, það var eitthvað þú veist, eitthvað, ég man það ekki, hann var eitthvað, talandi um eitthvað, nei hann var, ég man ekki alveg eftir því... “ Þegar borinn var undir vitnið framburður hennar fyrir lögreglu að ákærði hefði sagt að þær væru ógeðslega sætar, sagði vitnið, að hann hefði verið að tala um eitthvað ,,threesome“ og vitnið hafi sagt neiiii, og Y hafi sagt neiiii, og verið ,,geðveikt feimin“. Vitnið kvað Y vera mjög feimna. Síðan hafi ákærði snúið sér að Y og farið að tala við hana, en vitnið kvaðst ekki muna um hvað þau voru að tala. Vitnið kvaðst ekki vita hvort ákærði og Y voru í fötunum inni í bílnum, en Y hafi alla vega ekki verið í buxum, þegar vitnið sá fótinn á henni. Hún hafi þó verið í sokknum. Vitnið var spurð hvort þær Y hefðu rætt þetta eitthvað eftir á. Svaraði vitnið þá: ,,Ég var bara alltaf að spyrja, þú veist hvort eitthvað hefði gerst fyrir hana eða hvort henni liði illa og þá var hún alltaf að tala um að hann hafi verið að nauðga, ég man ekki hvort hún hafi verið að segja mér, að hann hafi nauðgað henni.“ Og síðan hafi hún sagt henni nokkru eftir að þetta gerðist, hvað gerst hefði. Spurð um það hvort þær Y hefðu rætt um að segja frá því sem hefði gerst svaraði vitnið: ,,Nei, jú, við vorum eitthvað byrjaðar að tala um það áður ... en síðan sögðum við bara frá þessu og ég byrjaði að segja mömmu minni frá þessu og pabba mínum.“ Þetta hafi verið um einu ári eftir atburðinn. Spurð um það hvers vegna þær hafi ekki sagt frá þessu fyrr, svaraði vitnið: ,,Ég veit það ekki, hún var alltaf bara aldrei, hún var bara hætt að tala um þetta og útilokaði þetta alveg bara, eins og þetta hefði aldrei gerst.“ Vitnið sagði þetta hafa haft þau áhrif á Y að hún hefði orðið miklu feimnari og ,,down“. Vitnið staðfesti að sá framburður sem vitnið gaf hjá lögreglu væri réttur. Vitnið, I, kvaðst þekkja ákærða, en hann hafi leigt hjá vitninu árið 2003, neðri hæð hússins þar sem vitnið bjó. D, dóttir vitnisins, hafi einnig þekkt ákærða, þar sem samgangur hafi verið þar á milli eins og um fjölskyldu væri að ræða. Vitnið kvað þær Y hafa verið vinkonur og hafi hún stundum verið hjá vitninu og fjölskyldu hans. Vitnið kvaðst ekki muna eftir því að ákærði hefði einhvern tíma passað þær þegar þær voru yngri. Vitnið kvaðst ekki vita hvort einhver samskipti voru milli ákærða og Y. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða á bílnum [...], dökkum að lit en kvaðst ekki geta sagt nákvæmlega til um hvenær hann sá ákærða á þeim bíl. Vitnið kvaðst einnig hafa það eftir öðrum að ákærði hefði verið á þessum bíl. Vitnið kvað litaðar rúður hafa verið aftur í og hafi bíllinn verið tveggja dyra, að því er vitnið minni. Vitnið, C, kvaðst þekkja ákærða, þar sem hann hefði leigt hjá þeim hjónum árið 2003. Á þeim tíma hafi Y komið á heimili vitnisins, enda hafi hún verið vinkona D, dóttur vitnisins. Vitnið kvað D oft hafa hitt ákærða, en vitnið kvaðst ekki vita hvort Y hafi þekkt ákærða. Vitnið kvað Y fyrst hafa sagt vitninu frá því sem gerst hefði. D hefði í fyrstu sagt vitninu frá því sem gerst hefði, að þær vinkonurnar hefðu farið með ákærða í bíl, en vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað D sagði. Þó kvaðst vitnið muna að D hefði sagt að ákærði hefði tekið þær upp í bíl og þar hefði nauðgunin farið fram. Hafi þá vitnið sagt við D að hún ætti að spyrja Y hvort hún vildi ekki ræða þetta við vitnið. Svo hafi Y komið til vitnisins og sagt frá þessu. Vitnið kvað Y hafa sagt að ákærði hefði beðið þær að hitta sig út við Krónuna. Þær hafi sest í aftursæti bifreiðarinnar og svo hefði ákærði ekið með þær að einhverju skólaplani. Þar hafi ákærði eitthvað farið að segja við þær og komið eitthvað við þær. Ákærði hafi spurt hvort þær vildu koma í ,,threesome“ eða að hann gæti tekið þær báðar. Svo hafi hann spurt D hvort hún vildi fara út úr bílnum. D hafi verið treg til, en þó farið út úr bílnum. Hafi þá ákærði ekið eitthvað í burtu. Y hafi sagt vitninu að ákærði hefði ,,tekið eitthvað niður um sig og eitthvað togað til hennar að láta hana koma til sín og hafi hún neitað því og farið að gráta“. Það hefði endað með því að hann hefði togað í hana og tekið hana úr og ,,látið hana koma yfir sig“. Hún hefði grátið mikið og sagt bara nei. Hann hafi svo ,,lagt hana upp og lyft upp á henni bossanum“. Svo hefði hann hent smokknum sem hann var með út um gluggann. Vitnið kvað handskrifuðu blöðin sem liggja frammi í réttinum vera þau blöð sem vitnið skrifaði frásögn Y á. Vitnið kvaðst hafa reynt að skrifa jafnóðum niður það sem Y sagði vitninu. Síðan hefði vitnið farið til foreldra Y og látið þau hafa þessi blöð. Vitnið, Rannveig Pálsdóttir, læknir, var spurð út í skoðun sína á Y. Kvað hún meyjarhaft hafa verið rofið að hluta til og hafi sést að þar væri hrufótt svæði eins og eftir sár sem blætt hafi frá. Um það væru hins vegar skiptar skoðanir hvort það merkti að samfarir hefðu átti sér stað. Oftast nær væri sú raunin. Yfirgnæfandi líkur væru á því að meyjarhaft rofnaði að hluta eða öllu leyti við samfarir, sérstaklega óundirbúnar samfarir. Rifa í meyjarhaft gæti myndast á annan hátt, t.d. við iðkun íþrótta eða notkun tíðartappa. Ekki væri sjálfgefið að meyjarhaft rofnaði að fullu við endurteknar samfarir. Kvað vitnið Y hafa tjáð sér að hún hefði ekki haft samfarir eftir að atburðurinn átti sér stað. Þá kvað hún hana hafa tjáð sér að ákærði hafi haldið sér niðri og því hafi myndast mar á handleggjum. Hafi hún sýnt greinileg einkenni langvarandi streitu, eins og þyngdartap, einbeitingarskort í skóla, hræðslu við að vera ein í myrkri auk þess sem hún hafi dregið sig í hlé frá fjölskyldu sinni. Henni hafi verið létt eftir að málið kom upp á yfirborðið. Vitnið, Margrét K. Magnúsdóttir, kvað Y hafa verið í sálfræðimeðferð hjá henni. Hún lýsti ástandi hennar svo að hún hafi í fyrstu verið mjög óttaslegin en verið létt eftir að málið kom upp á yfirborðið. Henni hafi fundist mjög erfitt að ræða þetta mál. Kvað vitnið hana vera virka feimna og óörugga. Hún hafi tjáð sér að hún hafi ekki átt náin samskipti við stráka áður. Ekki hafi orðið mikil breyting á líðan hennar en sjálf segðist hún vonast til þess að geta byggt sig upp þegar þessu væri lokið. Hún kvað endurupplifun Y hafa verið mjög sterka. Hún sæi atvikið fyrir sér og dreymdi það jafnframt. Hún hefði hliðrunareinkenni, þ.e. forðaðist umræðu tengda kynferðisafbrotum og ákveðna staði. Þá hafi hún stöðugt verið á varðbergi og hrædd við að vera ein á ferli. Vitnið, Þórir Ingvarsson lögreglumaður, kvaðst hafa tekið skýrslu af Y á rannsóknarstigi. Hann hafi sýnt henni mynd af bifreið sem ákærði hafði haft til umráða á þeim tíma sem um ræðir eftir að hún hafði með eigin orðum lýst bifreiðinni. Vitnið, Kristján Ingi Kristjánsson lögreglumaður, kvað bifreiðina [...] hafa verið haldlagða í [...]. Hún hafi verið ógangfær og því fjarlægð með krana. Vitnið kvað að ekki hefði verið rætt við skráðan eiganda á þeim tíma sem um ræðir. Vitnið kvað ekki hafa farið fram sakbendingu enda hafi legið fyrir að ákærði hafi verið sá sem stúlkan kvað hafa brotið gegn sér. Hún hafi kallað hann E en ákærði hafi staðfest að hann gengi undir því gælunafni. Vitnið, Sólberg Svanur Bjarnason lögreglumaður, var fyrst spurður að því hvar bifreiðin [...] hafi verið haldlögð. Kvað hann að henni hefði verið lagt í bílastæði í [...]. Hún hafi verið skoðuð ítarlega og hafi að hans mati mátt sjá að ,,spoiler“ eða vindskeið hafi verið á bifreiðinni. Hafi verið límkítti á þakinu. Þá var vitninu sýnd ljósmynd úr gögnum málsins sem sýnir mælaborð bifreiðarinnar og kvaðst hann sjá að þar væri útvarp. Niðurstaða. Ákærði hefur neitað sök og kvaðst ekki þekkja meintan brotaþola. Í málinu er fram komið að ákærði þekkti D, sem var besta vinkona meints brotaþola, þar sem hann hafði leigt hjá foreldrum hennar um nokkurra mánaða skeið og var nokkur samgangur milli hans og fjölskyldu hennar, samkvæmt framburði vitnisins I. Vitnið, D, kvað ákærða hafa þekkt meintan brotaþola og samrýmist það framburði hennar sjálfrar. Þær báru báðar um að þær hefðu einhverju sinni gefið ákærða jólagjöf. Ákærði kvaðst sjálfur kannast við að hafa einhverju sinni fengið jólagjöf frá D. Þá er framburður þeirra D og meints brotaþola samhljóða um aðdraganda þess að þær vinkonurnar fóru að hitta ákærða og um ökuferð þeirra að A. Einnig er framburður þeirra samhljóða um kynferðislegt tal ákærða við þær vinkonurnar inni í bílnum og um það að ákærði hefði ætlað að ná í þær er hann hafði skilið þær eftir við McDonalds. Þegar framangreint er virt er ótrúverðugur sá framburður ákærða að hann þekkti ekki meintan brotaþola og hefði ekki hugmynd um hver hún væri. Þá er fram komið í málinu að ákærði hafði aðgang að bílnum [...], sem er dökkblár 5 dyra Volkswagen Golf, en ákærði hafði í fyrstu neitað því hjá lögreglu að hann hefði haft aðgang að annarri bifreið en kremlitaðri Toyota Corolla. Rýrir þetta einnig trúverðugleika framburðar ákærða, en bæði D og meintur brotaþoli hafa borið um það fyrir dómi að ákærði hefði umrætt sinn ekið dökkbláum eða dökkum bíl. Meintur brotaþoli bar um það fyrir dómi, er hún var fyrst yfirheyrð, að bíll ákærða hefði verið tveggja dyra, en við aðalmeðferð málsins kvaðst hún ekki muna hvort bifreiðin hefði verið tveggja dyra eða fimm dyra. Vitnið, D, kvað bílinn hafa verið ,,fjögurra dyra“. Jafnvel þótt það sé í ljósi framangreinds ósannað hvaða bifreið ákærði ók umrætt sinn, er framburður stúlknanna tveggja trúverðugur um að ákærði hefði hitt stúlkurnar og ekið með þær í dökkri, lítilli bifreið og lagt henni við A. Fyrir dómi bar vitnið, D, að hún hefði spurt meintan brotaþola, Y, að því, áður en hún fór út úr bifreiðinni hvort hún ætlaði að vera áfram inni í bílnum. Hefði hún ekki svarað neinu, en verið ,,geðveikt feimin og eitthvað“. Meintur brotaþoli bar fyrir dómi 3. apríl 2006 að eftir að D fór út úr bílnum hefði ákærði ,,einhvern veginn náð henni úr skóm og buxum“ og látið hana ,,sitja ofan á sér“. Spurð um það hvort ákærði hefði beitt hana valdi, sagði hún: ,,Nei, hann lét mig ekki gera neitt hann sagði mér bara að koma til sín og eitthvað þannig.“ Spurð um það hvort hún hefði reynt að fara út úr bílnum svaraði hún: ,,Nei, eða jú, ég sagði alltaf svona, eigum við ekki að fara að ná í D “ en ákærði hefði ekki svarað. Spurð um það fyrir dómi hvort hún hefði gefið ákærða til kynna að hún vildi ekki kynmökin svaraði hún: ,,Já, eða þú veist, ég sagði bara svona, þú veist bara, sagði honum að hætta þessu og síðan fór ég náttúrulega að gráta og síðan var svona, ég veit ekki hvað þetta var lengi, mér fannst það vera vika eða eitthvað“ og síðan hafi hún sagt: ,,Eigum við ekki að fara til D.“ Að kynmökunum loknum hefði ákærði náð í D og ekið þeim að Krónunni, þar sem þær fóru út úr bifreiðinni og sagt að hann myndi sækja þær, en hann hefði hins vegar ekki komið. Spurð um það hvort hún hefði sagt D að ákærði hefði haft við hana samfarir gegn vilja hennar sagði hún að hún hefði sagt D að þau ákærði hefðu ,,sofið saman“ en hún hafi ekki viljað segja D að samfarirnar hefðu verið gegn hennar vilja. Við mat á því hvort telja verði sannað að ákærði hafi umrætt sinn þröngvað Y til samræðis með ofbeldi eða hótun um ofbeldi, verður að líta til þess að ekki nýtur neins við í málinu nema framburðar hennar og ákærða, enda lagði hún ekki fram kæru á hendur ákærða fyrr en ári eftir meinta nauðgun. Hann hefur alfarið neitað að þekkja stúlkuna, en eins og að ofan greinir er það mat dómsins að sá framburður ákærða sé ótrúverðugur. Það er mat dómsins að sú mynd sem meintur brotaþoli gaf af sér við yfirheyrslur fyrir dómi sem óframfærinn unglingur með lítið sjálfstraust, samrýmist lýsingu foreldra hennar á skapgerð og persónueinkennum hennar. Framburður hennar var trúverðugur að því leyti, að dómurinn telur sannað að ákærði og hún hafi haft mök inni í bifreiðinni umrætt sinn. Fram hjá því verður hins vegar ekki litið að framburður hennar um hvort mökin voru gegn hennar vilja er afar óljós og bendir ekki skýrlega til þess að ákærði hafi beitt hana ofbeldi eða hótað henni ofbeldi eða að ákærði hefði mátt skynja af hegðun hennar að mökin væru gegn hennar vilja. Hér verður að líta til þess að í máli þessu er ákært fyrir nauðgun en þau brot ein, þar sem beitt er ofbeldi eða hótun um ofbeldi við að þröngva manni til samræðis, teljast nauðgun. Þá rennir það ekki stoðum undir að Y hafi upplifað hegðun ákærða sem nauðgun, að hún ætlaði að bíða eftir að hann sækti þær D. Enn fremur að hún sagði ekki D frá því er hún hitti hana strax í kjölfarið, að ákærði hefði nauðgað henni, en sagði henni þess í stað að þau ákærði hefðu sofið saman. Þegar framangreint er virt, og þar sem ekki nýtur neinna annarra gagna við í máli þessu sem rennt geti stoðum undir að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir, er að mati dómsins svo mikill vafi á sekt hans að sýkna ber hann af þeirri háttsemi sem í ákæru greinir. Með vísan til 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 er skaðabótakröfu Y vísað frá dómi. Eftir þessum úrslitum greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði, 506.365 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns 319.965 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur héraðsdómslögmanns, 149.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málsvarnarlauna til skipaðs verjanda var tekið tillit til vinnu verjanda á rannsóknarstigi. Af hálfu ákæruvaldsins sótti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari. Ingveldur Einarsdóttir, Ásgeir Magnússon og Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómarar kváðu upp dóminn. D ó m s o r ð: Ákærði, X er sýkn af kröfum ákæruvaldsins. Bótakröfu Y er vísað frá dómi. Sakarkostnaður málsins, 506.365 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 319.965 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Guðrúnar B. Birgisdóttur héraðsdómslögmanns, 149.400 krónur. |
Mál nr. 254/2000 | Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 | Skilyrðum var talið fullnægt til að J sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála meðan mál hans var til meðferðar hjá ríkissaksóknara og fyrir æðra dómi. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 22. ágúst nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2000 var varnaraðili dæmdur til að sæta fangelsi í fimm ár og sex mánuði og upptöku á jafnvirði 8.000.000 króna, svo og til greiðslu hluta sakarkostnaðar, en frá refsivistinni skyldi dragast gæsluvarðhald hans frá 24. september 1999 til dómsuppsögu. Með tilkynningu til ríkissaksóknara 28. júní 2000 lýsti varnaraðila yfir áfrýjun dómsins. Skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er fullnægt til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi samkvæmt 106. gr. laganna meðan mál hans er til meðferðar hjá ríkissaksóknara og fyrir æðra dómi, en yfirlýsing varnaraðila um áfrýjun héraðsdóms bindur ekki ein sér enda á gæsluvarðhald yfir honum. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 27. júní 2000. Ríkissaksóknari hefur krafist þess að gæsluvarðhald sem dómfelldi, Júlíus Kristófer Eggertsson, kt. 271072-5119, Leifsgötu 3, Reykjavík, hefur sætt skv. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála haldist með vísan til heimildar í 106. gr. sömu laga, meðan áfrýjunarfrestur varir. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-774/2000 sem kveðinn var upp nú í dag var framangreindur Júlíus Kristófer Eggertsson, kt. 271072-5119, Leifsgötu 3, Reykjavík, dæmdur skv. 173. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 64,1974, til að sæta fangelsi í 5 ár og 6 mánuði en frá refsivistinni dragist óslitið gæsluvarðahald hans frá 24. september 1999 til dagsins í dag að telja. Skv. 106. gr. laga nr. 19,1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti skv. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19,1991 stendur. Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 vegna þeirra brota sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir. Skilyrði 106. gr. laganna eru fyrir hendi og er krafa ríkissaksóknara tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Úrskurðarorð: Dómfelldi, Júlíus Kristófer Eggertsson, sæti gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunarfrestur varir, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 22. ágúst nk. kl. 16.00. |
Mál nr. 142/2003 | Kærumál Vanreifun Frávísunarúrskurður staðfestur | Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem máli M á hendur S var vísað frá dómi. Þóttu þeir annmarkar vera á málatilbúnaði M að taka bæri til greina kröfu S um frávísun málsins, með vísan til e. og f. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. apríl 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. mars 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hnekkt og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar úrlausnar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Mýrargata 26 ehf., greiði varnaraðila, Sparisjóði Kópavogs, 150.000 krónur í kærumálskostnað. Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 28. f.m., er höfðað 7. nóvember 2002. Stefnandi er Mýrargata 26 ehf., Mýragötu 26, Reykjavík. Stefndi er Sparisjóður Kópavogs, Hlíðarsmára 19, Kópavogi. Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 24.480.744 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 31. desember 1998 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda. Stefndi hefur aðallega krafist þess að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann sýknu af kröfum stefnanda, en að því frágengnu að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda. Stefnandi gerir þá kröfu að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda vegna þessa þáttar málsins. I. Mál þetta á rót sína að rekja til þess að 18. desember 1998 gaf stefnandi út skuldabréf til stefnda að fjárhæð 25.000.000 krónur. Til tryggingar á greiðslu veðskuldarinnar var stefnda sett að veði með 6. veðrétti fasteign stefnanda að Mýrargötu 26 í Reykjavík. Stefndi ráðstafaði söluandvirði veðskuldabréfsins, 24.480.744 krónum inn á tékkareikning Desember ehf. hjá stefnda 30. desember 1998, en stefnandi var á þessum tíma í eigu þess félags og Hömru ehf. Hinn 23. nóvember sama árs hafði Desember ehf. gefið út tryggingarbréf til stefnda. Átti það að standa til tryggingar skilvísri greiðslu á skuldum sem félagið þá eða síðar kynni að standa í við stefnda allt að fjárhæð 25.000.000 krónur auk verðbóta á þá fjárhæð, dráttarvaxta og kostnaðar. Með tryggingarbréfinu var stefnda sett að veði með 4. veðrétti framangreind fasteign stefnda. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að við það hafi verið miðað þá er stefndi keypti veðskuldabréfið af stefnanda að andvirði þess yrði ráðstafað til greiðslu á þeim skuldum Desember ehf. sem tryggðar væru með tryggingarbréfinu frá 23. nóvember 1998 og að því yrði í kjölfarið létt af eigninni. Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að hann hafi ekki skuldbundið sig til að aflétta tryggingarbréfinu og að andvirði skuldabréfsins hafi í samræmi við það sem um hafi verið talað verið ráðstafað til lækkunar á yfirdráttarskuld Desember ehf. við stefnda. Í inngangskafla stefnu, þar sem ágreiningsefni aðila er lýst í hnotskurn, kveðst stefnandi höfða málið á þeim grundvelli að ráðstöfun stefnda á andvirði skuldabréfsins hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli stefnanda og að stefndi hafi ekki aflétt tryggingarbréfinu af fasteign félagsins. Krefji stefnandi því stefnda „um endurgreiðslu söluandvirðis veðskuldabréfsins auk dráttarvaxta og kostnaðar“. Fasteignin Mýrargata 26 í Reykjavík var seld nauðungarsölu 5. nóvember 2001 fyrir 103.000.000 krónur og var stefndi kaupandi hennar. Samkvæmt frumvarpi til úthlutunar á söluverði komu 2.642.708 krónur upp í kröfu stefnda samkvæmt tryggingarbréfinu á 4. veðrétti, en að öðru leyti gekk söluverðið til greiðslu á rétthærri veðkröfum og sölulaunum, sbr. 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs. II. Í stefnu er um málavexti vísað til þess að stefnandi hafi keypt fasteignina að Mýrargötu 26 í Reykjavík í apríl 1998 með það að markmiði að gera hana upp og breyta henni í skrifstofuhúsnæði. Í nóvember 1998 hafi félagið veitt Desember ehf. veðleyfi fyrir framangreindu tryggingarbréfi útgefnu 23. sama mánaðar. Mánuði síðar hafi verið ákveðið að losa tryggingarbréfið af fasteigninni. Hafi stefnandi í því skyni gefið út skuldabréf til stefnda að fjárhæð 25.000.000 krónur og hafi það verið tryggt með 6. veðrétti í fasteign félagsins. Söluandvirði skuldabréfsins hafi stefndi átt að ráðstafa með þeim hætti sem stefnandi heldur fram og áður er rakið. Að því loknu hafi verið við það miðað að tryggingarbréfinu yrði aflýst. Þetta hafi ekki gengið eftir heldur hafi stefndi ráðstafað andvirðinu inn á reikning Desember ehf. án þess að aflétta tryggingarbréfinu. Þessu næst segir svo í stefnu: „Þáverandi framkvæmdastjóri stefnanda, Sigurður Gunnarsson, [...] sem einnig var framkvæmdastjóri og annar eigandi Desember ehf. lagði fram við afgreiðslu lánsins skjal [...] sem hann kallaði „Endurrit úr fundargerðabók stjórnar Mýrargötu 26“. Skv. þessu endurriti átti andvirði hins selda skuldabréfs skv. samþykkt hluthafafundar stefnanda að renna til Desember ehf. sem lán, er greiða skyldi árið eftir. Forsenda fyrir þessari lánveitingu skv. „endurritinu“ var að stefndi breytti skilmálum tryggingarbréfsins á 4. veðrétti í fasteigninni Mýrargata 26 þannig að það færi á aftasta veðrétt og að stefnandi yrði skráður skuldari á því og það afhent stefnanda til síðari nota.“ Í stefnu er því haldið fram að þetta endurrit sé hreinn tilbúningur, án tengingar við raunverulega atburði. Af hálfu stefnanda hafi verið settar fram athugasemdir gagnvart stefnda vegna ráðstöfunar hans á andvirði veðskuldabréfsins og framgangi málsins að öðru leyti. Stefnandi hafi hins vegar verið í viðskiptum hjá stefnda og því reynt að hafa við samráð við hann um afléttingu tryggingarbréfsins. Hafi verið unnið að málinu í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu á stefnanda og Hömru ehf. Þessu næst er í stefnu lýst tilraunum stefnanda og þáverandi lögmanns félagsins til að fá tryggingarbréfinu aflýst. Þær hafi engan árangur borið. Hin veðsetta fasteign hafi síðan verið seld nauðungarsölu 5. nóvember 2001. Hafi stefndi þá lýst fjórum kröfum í söluandvirðið, það er samkvæmt veðbréfum á 4., 5., 6. og 7 veðrétti, samtals að fjárhæð 127.896.020 krónur. Fasteignin hafi síðan verið seld áfram frjálsri sölu fyrir umtalsvert hærra verð en nemi samanlögðu uppboðsandvirði og kröfum stefnda. Samkvæmt þeim kafla stefnu sem ber yfirskrftina málsástæður og lagarök kveðst stefnandi byggja kröfugerð sína á hendur stefnda á því að í ráðstöfun hans á andvirði umrædds veðskuldabréfs hafi falist ólögmæt ráðstöfun á fjármunum stefnanda „sem skapi stefnanda endurkröfurétt með dráttarvöxtum frá þeim tíma sem hin ólögmæta ráðstöfun var gerð“. Sé þar byggt á almennum reglum samninga- og kröfuréttar, svo og á almennu skaðabótareglunni. Ljóst sé að með því að ráðstafa andvirði skuldabréfsins inn á reikning Desember ehf. án þess að aflétta tryggingarbréfinu hafi stefndi brotið gegn skýrum fyrirmælum stefnanda og valdið félaginu tjóni sem nemi söluandvirði bréfsins. Stefnda hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst að sú ráðstöfun framkvæmdastjóra stefnanda að taka lán í nafni stefnanda og ráðstafa því inn á reikning annars félags í sinni eigu væri á skjön við þá meginreglu hlutafélagaréttar að hluthafar geti ekki með neins konar ályktunum knúið fram greiðslur úr sjóðum félagsins til handa sjálfum sér svo lögmætt sé nema í samræmi við þær reglur sem sé að finna í 73. 79. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá telji stefnandi það mjög skýrt að jafnvel þó svo væri að beiðni um ofangreinda ráðstöfun hafi komið frá þáverandi framkvæmdastjóra stefnanda hafi sá gerningur hans að ráðstafa 25.000.000 krónum af ráðstöfunarfé stefnanda inn á viðskiptareikning annars lögaðila, þeim aðila fullkomlega til hagsbóta, verið þess eðlis annars vegar að framkvæmdastjórinn hefði með því farið út fyrir umboð sitt og hins vegar að starfsmönnum stefnda hafi verið eða mátt vera það ljóst. Þá kveðst stefnandi ennfremur byggja á því að með ráðstöfun sinni hafi stefndi brotið gegn góðum starfsháttum og tíðkanlegum starfsreglum. Ljóst sé að starfsmenn banka og sparisjóða megi ekki millifæra fjármuni af reikningi eins aðila yfir á reikning annars nema samkvæmt skriflegri beiðni. Hafi áðurnefnd fundargerð legið til grundvallar þeirri millifærslu sem hér um ræðir sé ljóst að stefndi hafi sniðgengið skýr skrifleg fyrirmæli. Hafi þessi fundargerð ekki legið ráðstöfun stefnda til grundvallar sé ekki að sjá að nein skrifleg fyrirmæli hafi legið fyrir. Sú ráðstöfun að leysa tryggingarbréfið af hólmi með veðskuldabréfinu hafi verið liður í fjárhagslegri endurskipulagningu og fjármögnun stefnanda. Með því hafi stefnandi átt að vera laus undan veðkröfu sem kynni að verða leitað fullnustu á án fyrirvara, en veðskuldabréfið hafi verið til 15 ára. Veðsetningar-hlutfall fasteignarinnar fyrir útgáfu veðskuldabréfsins hafi verið 50% miðað við fyrirliggjandi verðmat. Með veðskuldabréfinu hafi veðsetningarhlutfallið orðið 65%. Við aflýsingu tryggingarbréfsins hefði veðsetningarhlutfallið aftur orðið 50% og því fullt tækifæri miðað við þá stöðu að fjármagna framkvæmdir og greiðslu áhvílandi lána með útgáfu og sölu á nýjum veðskuldabréfum. Allar slíkar áætlanir hafi strandað á hinu óaflýsta tryggingarbréfi. Ljóst sé að stefnandi hefði aldrei ráðstafað andvirði veðskuldabréfsins frá 18. desember 1998 með þeim hætti sem raun varð á nema að aflétting tryggingarbréfsins væri þá jafnframt tryggð. Að öðrum kosti hafi stefnandi hæglega getað komið veðskuldabréfinu í verð hjá annarri lánastofnun og notað andvirði þess til að fjármagna starfsemi sína. III. Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið eru slíkir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda að taka ber til greina kröfu stefnda um frávísun málsins. Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur. Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Ú r s k u r ð a r o r ð : Máli þessu er vísað frá dómi. Stefnandi, Mýrargata 26 ehf., greiði stefnda, Sparisjóði Kópavogs, 150.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 767/2014 | Kærumál Þinghald Frávísunarúrskurður felldur úr gildi | Ríkissaksóknari höfðaði mál gegn X fyrir kynferðisbrot með því að hafa keypt vændi, sbr. 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga. Héraðsdómari ákvað að öll þinghöld í málinu skyldu vera lokuð. I krafðist þess sem blaðamaður og ritstjóri að héraðsdómari úrskurðaði um framangreinda ákvörðun sína, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í héraði var kröfu I vísað frá á þeim grundvelli að þeir hagsmunir sem hann byggði aðild sína á væru ekki fullnægjandi til aðildar að kröfu samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008. Hæstiréttur vísaði til þess að í dómi Hæstaréttar 13. nóvember 2000 í máli nr. 407/2000 hefði verið fallist á að fréttamenn gætu átt aðild að kröfu samkvæmt lagaákvæðinu. Að virtum þeim dómi yrði að telja að héraðsdómi hefði borið að leysa efnislega úr kröfu I. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu I til efnislegrar meðferðar. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson. Kærandi, Ingimar Karl Helgason, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2014, þar sem vísað var frá dómi kröfu kæranda um að þinghöld í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila fari fram í heyranda hljóði. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að kærumálskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði. Sóknaraðili og varnaraðili hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Svo sem nánar er gerð grein fyrir í hinum kærða úrskurði ákvað héraðsdómari við útgáfu fyrirkalls að þinghald til þingfestingar málsins yrði lokað, svo og öll þinghöld eftir það, og var sú ákvörðun færð til bókar í því þinghaldi með vísan til a. og d. liðar 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008. Við þingfestinguna var lagt fram ódagsett bréf kæranda, þar sem þess var krafist að „formlegur úrskurður verði kveðinn upp um lokað þinghald í réttarhöldum yfir grunuðum vændiskaupanda í máli nr. S-[...]/2014, ... svo hægt sé að láta reyna á réttmæti þeirrar ákvörðunar fyrir æðra dómstigi. Setur undirritaður fyrrgreinda kröfu fram sem blaðamaður og ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs“. Ekki var mætt af hálfu varnaraðila við þingfestinguna, en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp eftir að sóknaraðila hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um kröfu kæranda. Var frávísun á kröfu þess síðastnefnda reist á því að þeir hagsmunir, sem hann byggði aðild sína á, væru ekki fullnægjandi til aðildar að kröfu samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008. Í kæru sinni til Hæstaréttar vísar kærandi um aðild til umræddrar lagagreinar og gerir grein fyrir henni á sama hátt og í áðurgreindu bréfi til héraðsdóms. Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um þá meginreglu að þinghald skuli háð í heyranda hljóði, en dómari geti þó í nánar tilgreindum tilvikum ákveðið að það skuli fara fram fyrir luktum dyrum. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að sá sem sætti sig ekki við ákvörðun dómara um að þinghald skuli vera lokað geti krafist þess að hann kveði upp úrskurð um þá ákvörðun sína. Í dómi Hæstaréttar 13. nóvember 2000 í máli nr. 407/2000, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 3697, var fallist á að fréttamenn geti átt aðild að kröfu samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008. Að virtum þeim dómi verður að telja að héraðsdómi hafi borið að leysa efnislega úr kröfu kæranda. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu hans til efnismeðferðar. Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu kæranda, Ingimars Karls Helgasonar, um að þinghöld í málinu skuli háð í heyranda hljóði, til efnismeðferðar. |
Mál nr. 421/2008 | Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi var staðfestur með vísan til 2. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. ágúst 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. júlí 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 28. ágúst 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að í stað gæsluvarðhalds verði honum bönnuð för í sveitarfélagið [...] þar til afplánun dóms hefst, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann „málsvarnarlauna skipaðs verjanda“. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 31. júlí 2008 var varnaraðili dæmdur í 4 ára fangelsi, meðal annars vegna brota gegn 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fyrir liggur að Hæstiréttur hefur í dómi um gæsluvarðhald yfir varnaraðila 7. júlí 2008 í máli nr. 367/2008 talið skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt. Ekki eru efni til að breyta því mati nú. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 85/1999 | Ríkisstarfsmenn Biðlaun Stjórnarskrá Sératkvæði | P var tilkynnt um að staða hans hjá Í yrði lögð niður samhliða því að ný lög um grunnskóla nr. 66/1995 gengju í gildi 1. ágúst 1996. Talið var að staða P hefði ekki verið lögð niður fyrr en 1. ágúst 1996 og bæri því að miða réttarstöðu hans, að því er biðlaun varðaði, við lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem gengu í gildi 1. júlí sama árs. Í málinu væri óumdeilt að P hafði tekið við nýju starfi 1. ágúst 1996 og notið hærri launa en í starfinu sem var lagt niður. Uppfyllti hann því ekki skilyrði 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996 til biðlauna. Ekki var talið að sú breyting á rétti til biðlaunagreiðslna sem leiddi af lögum nr. 70/1996, að réttur til biðlaunagreiðslna réðist af launamismun eldra og nýs starfs, án tillits til þess hvort það væri hjá ríki eða öðrum aðila, bryti gegn mannréttindaákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna Í af kröfum P. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. febrúar 1999 og krefst hann þess að stefndi verði dæmur til að greiða sér 2.510.028 krónur með dráttarvöxtum frá 1. ágúst 1997 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Eins og fram kemur í niðurstöðu hans féllu lög nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins niður hinn 1. júlí 1996, er gildi tóku lög nr. 70/1996 um sama efni. Staða áfrýjanda sem fræðslustjóra Vestfjarðaumdæmis var ekki lögð niður fyrr en frá og með 1. ágúst 1996 og ber að miða réttarstöðu hans, að því er biðlaun varðar, við síðargreind lög. Samkvæmt 5. mgr. ákvæðis þeirra til bráðabirgða var áfrýjanda tryggður biðlaunaréttur vegna niðurlagningar stöðunnar í jafnlangan tíma og hann hefði átt samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954. Hins vegar var um bótarétt og bótafjárhæð á biðlaunatíma vísað til 34. gr. hinna nýju laga. Samkvæmt 2. mgr. hennar, sem hér á við, skyldu greiðslur á biðlaunatíma falla niður ef viðkomandi starfsmaður tæki við starfi í þjónustu ríkisins eða annars aðila áður en biðlaunatíminn væri liðinn ef nýja starfinu fylgdu jöfn eða hærri laun, en ef laun væru lægri skyldi greiða honum mismuninn til loka tímabilsins. Varð hér á sú breyting frá 14. gr. laga nr. 38/1954, að réttur til greiðslna á biðlaunatíma réðist af launamismun eldra og nýs starfs án tillits til þess hvort það var hjá ríki eða öðrum aðila. Áfrýjandi tók hinn 1. ágúst 1996 við starfi forstöðumanns Skólaskrifstofu Vestfjarða, sem er byggðasamlag með aðild þeirra sveitarfélaga, er mynda Fjórðungssamband Vestfjarða. Er óumdeilt í málinu að áfrýjandi nýtur þar hærri launa en í starfinu, sem lagt var niður, og uppfyllti því ekki skilyrði 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996 til að njóta launagreiðslna frá stefnda í tólf mánuði frá niðurlagningu stöðu hans, svo sem hann krefst. Sú breyting, sem gerð var samkvæmt framansögðu á rétti til greiðslna á biðlaunatíma, þykir ekki þess eðlis að brjóti í bága við eignaréttarákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Getur breytingin hvorki talist ómálefnaleg né ósanngjörn. Hún náði og jafnt til allra ríkisstarfsmanna, sem eins stóð á um, og verður ekki talin brot á jafnræðisreglu. Að þessu athuguðu, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms, verður hann staðfestur. Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Ákvörðun um niðurlagningu á stöðu áfrýjanda sem starfs á vegum ríkisins var tekin með lögum nr. 66/1995 um grunnskóla, er gildi tóku 8. mars 1995 og skyldu koma að fullu til framkvæmda hinn 1. ágúst 1996, að áskildu samþykki Alþingis fyrir þann tíma við breytingum á tvennum lögum öðrum og setningu þriðju laganna, er fjalla skyldu um ráðningarréttindi kennara og skólastjórnenda við grunnskóla og tryggja þeim efnislega óbreytt ráðningarréttindi hjá nýjum vinnuveitanda. Réðst ákvörðunin einkum af ákvæðum II. kafla laganna um stjórn skólanna. Átti afnám stöðunnar að fara fram á tilteknum fresti, sem stjórnvöld voru bundin við. Svo fór, að fresturinn var nýttur að fullu, og mun áfrýjandi hafa sinnt starfi sínu til lokadags. Ekki virðist ástæða til að efast um, að eðlileg nauðsyn hafi ráðið þeirri tilhögun. Hins vegar gerðist það á þessum fresti, að ný lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins tóku gildi, hinn 1. júlí 1996. Sýnist mál þetta í raun af því risið, að svo vildi til, en ákvæði laganna um afnám stöðu eru frábrugðin fyrri reglum í mikilsverðum atriðum. Málið varðar rétt áfrýjanda til biðlauna á grundvelli þess, að staða hans var lögð niður. Í honum fólust áunnin réttindi, sem meta þarf í ljósi eignarréttarákvæða 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, ef því er að skipta. Um efni réttarins fór eftir lögum nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þegar umrædd ákvörðun gekk í gildi, en af henni var áfrýjandi ekki síður bundinn en þau stjórnvöld, sem réðu nýtingu frestsins. Eðlilegt var að miða við, að rétturinn héldist í því horfi, hverju sem fram kynni að vinda um hraðann á framkvæmd grunnskólalaganna. Verður sú ályktun enn nærtækari þegar til þess er litið, að viðurkennt var og ákveðið við meðferð þeirra laga á Alþingi, að þörf væri á að fjalla um biðlaunarétt og starfsöryggi þeirra manna, sem lögin næðu til, sbr. fyrrnefndan áskilnað í 57. gr. þeirra. Var því og fylgt eftir með samþykkt laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, sem tóku gildi 1. ágúst 1996 og gerðu þannig kleift að ljúka framkvæmd grunnskólalaganna á tilsettum fresti. Með þessum sérstöku lögum var hinum fjölmenna hópi kennara og stjórnenda við skólana tryggður sami réttur við afnám stöðu hjá nýjum vinnuveitanda og hann hafði áður notið hjá ríkinu eftir lögum nr. 38/1954. Af hálfu löggjafans var hins vegar ekki að gert um stöðu hins fámenna hóps sérfræðinga og fræðslustjórnenda, sem áfrýjandi heyrði til og hafði einnig lotið ákvæðum grunnskólalaganna. Hefur stefndi ekki sýnt, svo sem málið liggur fyrir, að í því hafi mismunun ekki verið fólgin. Við þessi atvik að því, hvernig staða áfrýjanda var lögð niður, verður að hafna því, að hann þurfi óátalið að sæta skerðingu á þeim biðlaunarétti hans, sem um var mælt í 14. gr. laga nr. 38/1954. Samkvæmt því er það álit mitt, að taka beri kröfu áfrýjanda til greina að undirstöðu til, en eftir úrslitum málsins eru ekki efni til að fjalla endanlega um fjárhæð kröfunnar. Jafnframt ber að ákveða honum hæfilegan málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti: Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 1998. I. Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 18. mars 1998 og dómtekið 18. þ.m. Stefnandi er Pétur Bjarnason, kt. 120641-3879, Túngötu 17, Ísafirði. Stefndi er íslenska ríkið, kt. 540269-6459, Arnarhváli, Reykjavík. Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér 2.510.028 krónur með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 1. ágúst 1997 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar. Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans, en til vara, að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður. II. Í málinu krefur stefnandi stefnda um greiðslu biðlauna. Hinn 6. október 1983 var stefnandi settur fræðslustjóri í Vestfjarðaumdæmi frá og með 10. s.m. að telja og skipaður í stöðuna 16. maí 1986 frá 1. júní s.á. að telja. Hann gegndi þeim starfa til 1. ágúst 1996. Samkvæmt framlögðum launaseðli fyrir júlímánuð 1996 var starfsaldur/prófaldur stefnanda talinn frá september 1962 og samkvæmt því, sem greinir í stefnu, hóf hann störf hjá ríkinu sem kennari 1. september 1965. Lög um grunnskóla nr. 66/1995 tóku gildi 13. mars 1995 og skyldu, samkvæmt 57. gr., koma að fullu til framkvæmda 1. ágúst 1996. Samkvæmt 10. gr. skal allur rekstur almennra grunnskóla vera á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga frá þeim tíma, er lögin kæmu að fullu til framkvæmda, sé ekki sérstaklega kveðið á um annað. Í 6. gr. reglugerðar nr. 349 frá 20. júní 1995, um framkvæmd laga um grunnskóla nr. 66/1995, segir: „Fræðsluskrifstofur er við gildistöku reglugerðar þessarar starfa sem ríkisstofnanir samkvæmt ákvæðum 11. gr. laga nr. 49/1991 annast, eftir því sem við verður komið, þau störf er þeim voru falin samkvæmt þeim lögum fram til 1. ágúst 1996 en þá hætta þær störfum sem ríkisstofnanir.“ Menntamálaráðherra sendi stefnanda svohljóðandi bréf, dags. 21. september 1995: „Lög um grunnskóla nr. 66 frá 8. mars 1995 koma að fullu til framkvæmda 1. ágúst 1996 sbr. 57. gr. laganna. Þau verkefni er núverandi fræðsluskrifstofur sem ríkisstofnanir annast munu frá þeim tíma vera á höndum sveitarfélaga, svo og ráðning starfsmanna til að sinna þeim. Fram til þess tíma verður starfsemi fræðsluskrifstofa sem ríkisstofnana óbreytt að öðru leyti en því er leiða kann af flutningi á einstökum verkefnum til sveitarfélaga fyrir 1. ágúst 1996 vegna undirbúnings skólaársins 1996 - 1997. Með vísan til þess sem að framan greinir verður staða yðar lögð niður frá og með 1. ágúst 1996 og er yður því hér með tilkynnt um starfslok þann 31. júlí 1996.“ Í bréfi menntamálaráðherra til stefnanda, dags. 11. júlí 1996, segir, að ráðuneytið telji rétt að gera honum grein fyrir þeim lagaákvæðum, sem fara skuli eftir við greiðslu biðlauna til hans, þar sem starf hans verði lagt niður eftir gildistöku nýrra laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, hinn 1. ágúst 1996. Um biðlaunaréttinn fari skv. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996. Samkvæmt því sé biðlaunarétturinn sá sami og var skv. eldri lögum nr. 38/1954, nema hvað varðar bótarétt og bótafjárhæð, sem fari skv. 2. mgr. 34. gr. l. nr. 70/1996. Með samningi, undirrituðum 13. júní 1996, var stefnandi ráðinn í starf forstöðumanns Skólaskrifstofu Vestfjarða frá og með 1. ágúst 1996 til og með 31. júlí 1999. Í 3. gr. ráðningarsamningsins segir, að laun skuli greidd fyrir fram mánaðarlega og að um orlof, önnur starfskjararéttindi og skyldur skuli fara samkvæmt reglum, er gildi um starfsmenn sveitarfélaga samkvæmt samningum launanefndar sveitarfélaga. Í 4. gr. segir, að forstöðumaður skuli njóta orlofs og annarra réttinda samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og að Skólaskrifstofa Vestfjarða greiði mótframlag í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 8. gr. samningsins er gagnkvæmur uppsagnarfrestur þrír mánuðir og síðan segir: „Verði ekki um endurráðningu að ræða á ráðningarsamningi, eða starfsemi skrifstofunnar verður lögð af, hefur forstöðumaður rétt til 6 mánaða biðlauna. Um greiðslu biðlauna er ekki að ræða, ef forstöðumaður óskar sjálfur að láta af störfum, áður en samningstímabili lýkur.“ Í bréfi stefnanda til fjármálaráðherra, dags. 12. desember 1996, er vísað til þess, að fáum vikum fyrir starfslok hans sem fræðslustjóra Vestfjarðaumdæmis hafi tekið gildi lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sem skerði biðlaunarétt þeirra verulega og afnemi hann hvað varðar stefnanda. Hann hafi þá verið ráðinn til starfa við Skólaskrifstofu Vestfjarða og færist áunninn biðlaunaréttur ekki yfir, þar sem hér sé um nýja stofnun að ræða, byggðasamlag. Með lögum þessum, sem sett hafi verið löngu eftir uppsögn fræðslustjóra en skömmu fyrir starfslok þeirra, telji stefnandi, að réttindi sín hafi verið skert verulega og áunnin samningsbundin eign sín, sem greitt hafi verið fyrir í þrjá áratugi sem hluti af launakjörum ríkisstarfsmanna, hafi verið gerð upptæk án bóta. Stefnandi fór fram á, að þessi skerðing yrði bætt og áskildi sér rétt til þess að leita til dómstóla. Í svarbréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 2. janúar 1997, við framangreindu erindi kemur fram höfnun á sjónarmiðum stefnanda. Stefnanda var ekki boðið annað starf á vegum ríkisins í tenglum við það, að staða hans sem fræðslustjóra í Vestfjarðaumdæmi var lögð niður frá og með 1. ágúst 1996. Hann hefur samfellt frá þeim tíma gegnt starfi forstöðumanns Skólaskrifstofu Vestfjarða. Í stefnu segir, að laun hans í því starfi séu hærri en þau, sem hann hafði hjá ríkinu. III. Málsástæður stefnanda og lagarök. a) Í fyrsta lagi er á því byggt, að um biðlaunarétt stefnanda eigi að fara eftir lögum nr. 38/1954 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það byggist á þeirri staðreynd, að hinn 21. september 1995 hafi menntamálaráðuneytið sent honum bréf, þar sem honum hafi verið tilkynnt, að staða hans yrði lögð niður 31. júlí 1996. Slík tilkynning sé í eðli sínu uppsögn og ákvöð og taki því gildi, er hún sé komin til vitundar viðtakanda. Á þessum tíma hafi verið í gildi lög nr. 38/1954 og því hafi átt að fara um biðlaunarétt stefnanda samkvæmt þeim lögum. Þá hafi lög um grunnskóla nr. 66/1995, er felldu niður störf starfsmanna fræðsluskrifstofa hjá ríkinu, öðlast gildi 8. mars 1995 og þau hafi átt að koma til framkvæmda í áföngum. Lögin hafi að mestu leyti tekið gildi 1. júní 1996, sbr. reglugerð menntamálaráðuneytisins nr. 349/1995 um framkvæmd laganna. Þá hafi lög nr. 38/1954 enn verið í gildi. b) Einnig er á því byggt, að biðlaunaréttur stefnanda hafi verið áunninn réttur, sem sé varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi hafi með áralangri þjónustu sinni fyrir íslenska ríkið unnið sér inn rétt til biðlauna. Rétturinn hafi varðað atvinnuöryggi stefnanda. Hann hafi um árabil verið hluti af ráðningarkjörum stefnanda, og því hafi hann mátt treysta því, að réttur þessi yrði ekki afnuminn einum mánuði fyrir starfslok sín. Opinberir starfsmenn hafi um árabil sætt sig við lakari launakjör en tíðkaðist á hinum almenna vinnumarkaði. Það hafi m.a. helgast af þeim ráðningarkjörum, sem þeir höfðu og því starfsöryggi, sem þeim voru tryggð. Því sé þetta hluti af launakjörum, sem verði ekki af tekin, nema fullt verð komi fyrir. Rétturinn til biðlauna sé kröfuréttindi og sem slíkur eign viðkomandi. Strax á árinu 1995 hafi stefnanda verið tilkynnt, að staða hans yrði lögð niður árið eftir. Við það hafi réttur hans orðið til og hann þá þegar átt kröfu um biðlaun. Því hafi ekki verið hægt án bóta að fella niður þann rétt hans ári síðar með lögum. Biðlaunaréttur stefnanda hafi verið skertur þannig með lögum nr. 70/1996, að laun hans hjá öðrum, eftir að staða hans var lögð niður, skyldu dragast frá biðlaunum hans. Stefnandi, sem hafi fengið hærra launaða stöðu hjá sveitarfélagi, hafi þannig misst biðlaun sín. c) Að lokum er á því byggt, að ekki hafi verið gætt jafnræðis, er ákvæðum laga um biðlaun starfsmanna við grunnskóla hafi verið breytt. Slíkt sé brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Hafa verði í huga, að lögin um grunnskóla frá 1991 hafi náð til þeirra, sem störfuðu við grunnskólann, þ.m.t. kennara, skólastjóra og starfsmanna fræðsluskrifstofa. Þegar grunnskólinn hafi verið fluttur yfir til sveitarfélaganna hafi kennarar og skólastjórnendur haldið öllum þeim réttindum, sem þeir höfðu fyrir og átt sjálfkrafa rétt á stöðum sínum áfram. Þessu hafi hins vegar verið öfugt farið með starfsmenn fræðsluskrifstofa, enda hafi störf þeirra í raun verið lögð niður. Auk þess hafi skerðing á biðlaunarétti þeirra verið mun meiri, séu borin saman ákvæði laga nr. 70/1996 og laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Í stefnu segir, að stefnandi hafi fengið fyrir fram greidd laun og því fengið síðast greidd út laun 1. júlí 1996 fyrir þann sama mánuð. Biðlaun hans falli því í gjalddaga næstu 12 mánuði, í fyrsta sinn 1. ágúst 1996. Gerð sé krafa um dráttarvexti, er öll launin séu gjaldfallin. Fjárhæð dómkröfu stefnanda sundurliðast þannig: 1. Föst mánaðarlaun ágúst ´96 - júlí ´97 2. Föst yfirvinna 40 klst. pr. mánuð kr. 1.773.372 " 736.656 IV. Málsástæður stefnda og lagarök. Því er haldið fram, með vísun til þess, sem fram sé komið um laun stefnanda og önnur starfskjör hjá hinum nýja vinnuveitanda, að hann eigi ekki rétt til biðlauna samkvæmt ákvæðum laga, sem giltu um biðlaunarétt á þeim tíma, er starf hans var lagt niður, þ.e. frá og með 1. ágúst 1996. Þann 1. júlí 1996 hafi lög nr. 38/1954 fallið úr gildi og lög nr. 70/1996 leyst hin eldri af hólmi frá sama tíma. Staða stefnanda hafi ekki verið lagt niður 21. september 1995, þótt stefnanda væri gerð grein fyrir því, að ákvæði laga nr. 66/1995 um grunnskóla kæmu að fullu til framkvæmda 1. ágúst 1996 og að verkefni fræðsluskrifstofa yrðu frá þeim tíma á hendi sveitarfélaga. Stefnanda hafi verið gerð grein fyrir því með bréfi ráðherra, dags. 11. júlí 1996, að staða hans yrði lögð niður frá og með 1. ágúst, þannig að starfslok yrðu 31. júlí 1996. Ekki sé skylt að tilkynna um niðurlagningu stöðu eða að leggja niður stöðu með fyrirvara. Unnt sé að tilkynna um niðurlagningu stöðu sama dag og af verður eða að hætta við áform um niðurlagningu allt til þess tíma. Því er mótmælt, að staða stefnanda hafi verið lögð niður fyrir gildistöku laga nr. 70/1996 eða að uppsögn hafi borist honum fyrir það tímamark. Um rétt stefnanda til biðlauna hafi farið eftir 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996, sbr. 2. mgr. 34. gr. þeirra laga, og beri að sýkna stefnda þegar af þeirri ástæðu, að stefnandi hafi ekki uppfyllt skilyrði biðlauna. Því er mótmælt, að réttur til launa við niðurlagningu stöðu eftir þeim reglum, sem áður giltu, þ.e. samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954, hafi notið verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar eða hafi getað talist eign í skilningi þess ákvæðis. Biðlaunaréttur hafi verið háður óvissu skilyrði um niðurlagningu stöðu og ekki verið afmarkaður sem eign í skilningi fjármunaréttar. Biðlaunarétti hafi í öndverðu verið ætlað það hlutverk að samsvara ríflegum uppsagnarfresti þeirra embættismanna, sem voru skipaðir eða ráðnir ótímabundið án sérstakra ákvæða um gagnkvæman uppsagnarfrest. Hafi löggjafanum verið heimilt að afnema eða breyta rétti til biðlauna með almennum lögum. Telur stefndi ekki efni til að breyta mati löggjafans á því, hvernig fari um biðlaunarétt starfsmanna ríkisins. Þá hafi réttur til launa við niðurlagningu stöðu ekki orðið virkur vegna framlaga eða iðgjalda af neinu tagi og engin fjármunaréttindi tengd 14. gr laga nr. 38/1954 verið skráð, haldið sérgreindum eða menn getað hagnýtt sér þau. Þótt talið yrði, að réttur til launa við niðurlagningu stöðu hafi notið eignarréttarverndar stjórnarskrár, hafi löggjafanum verið heimilt að breyta þeim réttindum með almennum lögum. Verði talið, að í lögum nr. 70/1996 hafi falist skerðing á eign, hafi verið um að ræða almenna og málefnalega breytingu, sem hafi ekki komið sérstaklega niður á einstökum aðilum eða afmörkuðum hópum ríkisstarfsmanna og sem menn verði að þola bótalaust. Stefndi telur einnig, að líta verði svo á, að þótt talið verði, að biðlaunaréttur hafi notið verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar hafi í raun komið fullt verð fyrir þá breytingu, með því að ríkisstarfsmönnum sé, samkvæmt 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996, tryggður réttur til launa í sex eða tólf mánuði, hafi þeir ekki aflað sér nýs starfs með jafnháum eða hærri launum. Því er mótmælt, að með breytingunni hafi atvinnuöryggi verið skert. Þá er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu, að stefnandi eða aðrir ríkisstarfsmenn, sem hann tilgreini ekki, hafi greitt fyrir biðlaunarétt með lakari kjörum en tíðkaðist á hinum almenna vinnumarkaði. Af hálfu stefnda er því mótmælt, að ekki hafi verið gætt jafnræðis, er ákvæðum laga um biðlaun ríkisstarfsmanna hafi verið breytt. Breyting sú, sem hafi orðið með lögum nr. 70/1996 á biðlaunarétti ríkisstarfsmanna, hafi ekki falið í sér sviptingu þess réttar gagnvart þeim, sem féllu undir 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða. Telur stefndi breytingu þessa vera málefnalega og sanngjarna. Einnig er á því byggt, að stefnandi hafi tekið við starfi hjá öðrum aðila, sem hafi verið fyllilega sambærilegt; launin hærri og kjör að öðru leyti hin sömu, þ.á m. um biðlaunarétt. Vísað er til þess, að samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar hafi uppsagnarfrestur verið talinn til biðlaunatíma, hvort sem starfsmaður hafi verið við störf eða ekki. Verði ekki fallist á framangreindar sýknuástæður stefnda, verði að líta svo á, að er lög nr. 66/1995 hafi verið birt þann 13. mars 1995 og reglugerð nr. 349/1995 þann 21. júní s.á., hafi orðið straumhvörf á starfi stefnanda, hliðstæð þeim, er hann ráði af bréfi því, sem ritað hafi verið 21. september 1995, og telji að jafngilt hafi uppsögn. Af þessum ástæðum beri að telja allan tímann frá 21. júní 1995 til 31. júlí 1996 til uppsagnarfrests, sem leiði til sýknu af kröfum stefnanda. Varakrafa stefnda er rökstudd þannig, að verði miðað við það tímamark, er menntamálaráðherra hafi ritað stefnanda bréf þ. 21. september 1995, sem hann telji hafa verið uppsögn, beri a.m.k. að telja tímann frá 1. október 1995 til 31. júlí 1996, eða tíu mánuði, til biðlaunatímans. Stefndi mótmælir grundvelli kröfugerðar stefnanda tölulega á þann veg, að hefði stefnandi notið biðlauna í 12 mánuði væri samtala þeirra 2.614.056 krónur í stað 2.510.028 króna, eins og haldið sé fram í stefnu. Kröfu stefnanda um dráttarvexti er mótmælt með vísun til 9. gr. og/eða 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, og séu einungis efni til að dæma þá frá dómsuppsögu eða þingfestingu málsins. V. Í 14. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins var kveðið á um biðlaunarétt. Þar sagði í 1. mgr.: „Nú er staða lögð niður, og skal þá starfsmaður jafnan fá föst laun, er starfanum fylgdu, greidd í 6 mánuði frá því að hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en í 12 mánuði, eigi hann að baki lengri þjónustualdur, enda hafi hann þá ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu á vegum ríkisins.“ Samkvæmt 5. mgr. sömu greinar skyldi greiða starfsmanni, sem nyti launagreiðslna skv. 1. mgr. og tæki við lægra launuðu starfi í þjónustu ríkisins., launamismuninn til loka 6 eða 12 mánaða tímabilsins. Launagreiðslurnar skyldu hins vegar falla niður, ef hann tæki við starfi í þjónustu ríkisins, áður en liðinn var 6 eða 12 mánaða tíminn, og laun þau, sem fylgdu nýja starfinu, væru jöfn eða hærri en þau, er hann naut í fyrri stöðunni. Lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins öðluðust gildi 1. júlí 1996. Við gildistöku laganna féllu brott lög nr. 38/1954. Í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða segir: „Sé starf lagt niður á starfsmaður, sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laga þessara og fallið hefur undir lög nr. 38/1954, en telst ekki embættismaður skv. 22. gr. laga þessara, rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár, en ella í tólf mánuði. Að öðru leyti gilda um bótarétt og bótafjárhæð ákvæði 34. gr.“ Biðlaunaréttur samkvæmt 34. gr. laga nr. 70/1996 er hinn sami og var samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954 að öðru leyti en því, að biðlaun skerðast, eða eftir atvikum falla brott, ekki einungis vegna launa, sem fylgja nýju starfi í þjónustu ríkisins á biðlaunatímanum, heldur einnig vegna launa, sem fylgja starfi í þjónustu annarra aðila. Stefnandi lét af starfi sínu við Fræðsluskrifstofu Vestfjarðaumdæmis frá og með 1. ágúst 1996 við það, að staða hans var lögð niður sem og starfsemi skrifstofunnar. Á því tímamarki einu gat réttur hans til biðlauna orðið virkur, að uppfylltum öðrum skilyrðum gildandi laga um það efni. Lög nr. 38/1954, sem stefnandi styður kröfu sína við, voru þá fallin úr gildi. Með bréfi menntamálaráðherra frá 21. september 1995, þar sem stefnanda var gert viðvart um fyrirhugaða breytingu á starfshögum hans, var gætt vandaðra stjórnsýsluhátta, en það hafði ekki áhrif á réttarsamband aðila málsins. Ósannað er, að stefnandi (eða aðrir opinberir starfsmenn) hafi goldið fyrir biðlaunarétt með lakari kjörum en tíðkaðist á hinum almenna vinnumarkaði. Réttur stefnanda að þessu leyti var háður skilyrðum, hann tengdist ekki framlögum hans, og að öðru leyti eru eigi uppfylltar kröfur, sem gerðar eru um stofnun eignaréttar. Almenna löggjafanum var því heimilt að breyta réttindum þessum eftir málefnalegum og sanngjörnum sjónarmiðum, eins og gert var með lögum nr. 70/1996, án þess að það verði talið brjóta í bága við 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Lög þessi taka jafnt til allra, sem eins er ástatt um, og er ekki fallist á, að með setningu þeirra hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu íslensks réttar, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Samkvæmt framanrituðu er niðurstaða dómsins sú, að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir mega ákveða, að málskostnaður falli niður. Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari. Dómsorð: Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, Péturs Bjarnasonar. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 519/2016 | Börn Forsjá Umgengni Gjafsókn | K og M deildu um forsjá tveggja sona sinna, umgengnisrétt og lögheimili. Komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu, með tilliti til þess að þau væru bæði hæf til að fara með forsjána, að K færi ein með forsjá A en M færi einn með forsjá B og að umgengni skyldi vera jöfn. Í dóm Hæstaréttar var vísað til þess að í hinum áfrýjaða dómi, sem skipaður hafði verið sérfróðum meðdómsmönnum, hefði verið lagt heildarmat á aðstæður drengjanna og foreldra þeirra og skipan forsjár og umgengnisréttar ákveðin á þann veg sem best hafði verið talið samræmast hag þeirra og þörfum. Var því niðurstaða héraðsdóms staðfest. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnssonhæstaréttardómari og Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldur Einarsdóttir settirhæstaréttardómarar. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14.júlí 2016. Hún krefst þess að sér verði falin forsjá sonar síns og stefnda, A,og að umgengni hans og bróður hans B, við stefnda verði ákveðin þannig að þeir verðihjá honum frá föstudegi til mánudags aðra hverja viku, frá klukkan 12 á jóladagtil sama tíma 27. desember ár hvert og um önnur hver áramót frá klukkan 12 ágamlársdag til klukkan 18 á nýársdag. Að öðru leyti verði umgengni eins ogtiltekið er í hinum áfrýjaða dómi. Þá verði stefndi dæmdur til að greiðaáfrýjanda einfalt meðlag. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits tilgjafsóknar sem henni hefur verið veitt.Stefndi krefst aðallega staðfestingar hinsáfrýjaða dóms en til vara að forsjá drengjanna verði sameiginleg, lögheimili A verðihjá stefnda en lögheimili B hjá áfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.Í hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var uppmeð sérfróðum meðdómsmönnum, var lagt heildarmat á aðstæður drengjanna ogforeldra þeirra og skipan forsjár og umgengnisréttar ákveðin á þann veg sembest var talið samræmast hag þeirra og þörfum. Ekki eru efni til að hnekkjaniðurstöðu héraðsdóms. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann því staðfestur.Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstaréttifalli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer samkvæmt því sem í dómsorðigreinir.Dómsorð:Héraðsdómur skal vera óraskaður.Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrirHæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna hennar, ÞyríarSteingrímsdóttur hæstaréttarlögmanns, 800.000 krónur, og Þorbjargar I.Jónsdóttur hæstaréttarlögmanns, 500.000 krónur.Dómur Héraðsdóms Vesturlands 15. júní2016.I.Málþetta, sem dómtekið var 18. maí sl., er höfðað af M, [...], [...], á hendur K, [...],[...].Endanlegardómkröfur stefnanda eru þær aðallega að hann fari einn með forsjá barnanna A,kt. [...], og B, kt. [...]. Til vara krefst hann þess að forsjáin verðisameiginlega í höndum beggja foreldra og að börnin eigi lögheimili hjástefnanda. Til þrautavara krefst hann þess að forsjá verði sameiginleg og aðlögheimili verði hvort hjá sínu foreldrinu. Gerðer krafa um að dómurinn ákveði hvernig umgengni barnanna við það foreldri semekki fær forsjá eða lögheimili skuli háttað.Þáer gerð krafa um að stefndu verði gert að greiða með börnunum mánaðarlegaeinfalt meðalmeðlag, eins og það ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverjusinni, frá dómsuppsögu til fullnaðs átján ára aldurs drengjanna. Stefnandikrefst og málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu samkvæmtmálskostnaðarreikningi.Stefndakrefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar eins og málið væri eigigjafsóknarmál. II.Aðilarmáls þessa gengu í hjúskap 21. apríl 2007, en í ágúst sama ár fæddust þeimdrengirnir tveir sem mál þetta varðar. Foreldrarnir slitu samvistum í maí 2011og við hjúskaparslit reis ágreiningur um forsjá drengjanna og umgengni þeirra.Lauk þeim ágreiningi með því að gert var samkomulag um sameiginlega forsjá ogað lögheimili yrði hjá stefndu.Haustið2012 höfðaði stefnda mál fyrir Héraðsdómi Vesturlands, mál nr. [...]/2012, þarsem hún gerði kröfu um að samkomulag aðila yrði fellt úr gildi og að hennieinni yrði falin forsjá drengjanna. Í málinu var lögð fram matsgerð dómkvaddsmatsmanns þar sem meðal annars kom fram að matsmaður teldi báða foreldrana hæfatil að hafa forsjá drengjanna. Jafnframt var þar tiltekið að skapast hefðuaðstæður til að hugleiða möguleika á sameiginlegri forsjá þeirra. Komstdómurinn að þeirri niðurstöðu, með dómi uppkveðnum 6. júní 2014, að forsjádrengjanna skyldi vera hjá stefndu, en ekki var þá til staðar lagaheimild fyrirþví að dæma foreldrum sameiginlega forsjá. Í dóminum var einnig kveðið á umumgengni stefnanda við börnin.Íkjölfar dómsins gerðu málsaðilar hinn 21. júlí 2014 með sér staðfest samkomulagum tímabundna sameiginlega forsjá drengjanna skv. 32. gr. barnalaga nr. 76/2003og meðlag skv. 55. gr. sömu laga, en gildistími samningsins var frá 1. ágúst2014 til 1. febrúar 2015. Þá rituðu foreldrarnir hinn 19. nóvember 2014, fyrirtilstilli barnaverndarnefndar [...], undir áætlun um meðferð máls skv. 23. gr.barnaverndarlaga nr. 80/2002, en málið var tilkynnt til nefndarinnar „vegnavanlíðan þeirra og frásagnar um ofbeldi af hendi móður“.Framkemur í stefnu að þar sem ekki hafi tekist að ná samkomulagi um breytta forsjávið lögbundna sáttameðferð hjá sýslumanni hafi málsókn þessi verið nauðsynleg.Undirrekstri máls þessa var C sálfræðingur dómkvaddur að beiðni stefnanda til aðmeta ýmis atriði tengd forsjárhæfni málsaðila, en hann hafði einnig unniðmatsgerð í fyrra forsjármáli aðila, dags. 21. apríl 2013, sem einnig liggurfyrir í þessu máli. Í seinni matsgerð hans, dags. 9. nóvember 2015, kemur meðalannars fram að drengirnir hafi hvor um sig jákvæð og sterk tengsl við foreldrasína. Viðaðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af báðum aðilum málsins og símaskýrslaaf C sálfræðingi. Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kom meðal annars fram að súbreyting hefði orðið á heimilisaðstæðum hans, frá því sem greint er frá ístefnu, að hann og fyrrverandi sambýliskona hans hefðu slitið sambúð sinni ífebrúar sl. Hefði hann fest kaup á þriggja hæða einbýlishúsi í apríl sl. þarsem hann byggi nú einn, og hefðu drengirnir þar hvor sitt herbergi. Þá kom framhjá stefndu að hún og sambýlismaður hennar hefðu slitið sambúð sinni í nóvembersl. en tekið hana upp að nýju í janúar.III.Stefnandibyggir kröfur sínar á því að hagsmunir barnanna krefjist þess að breyting verðigerð á forsjá þeirra, enda sé í ljós komið að stefnda sé illa fær um að faraein með hana. Hún eigi erfitt með að virða rétt drengjanna til umgengni ogsamneytis við stefnanda. Af þeim sökum telji stefnandi það henta best hagsmunumdrengjanna að lögheimili þeirra verði hjá honum og forsjáin annaðhvort hjáhonum eða sameiginlega í höndum beggja. Sé í því sambandi vísað til þess semfram komi í forsendum fyrri dóms í máli sömu aðila nr. [...]/2012 að því séekki að leyna að dómendur hefðu í málinu talið heilladrýgst fyrir drengina efaðilar hefðu sammælst um sameiginlega forsjá, en á þeim tíma hafi veriðóheimilt að dæma sameiginlega forsjá. Telji stefnandi ljóst að niðurstaðadómsins hefði orðið á þann veg ef dómurinn hefði þá haft til þesslagaheimildir. Þróunin hafi síðan sýnt að forsjárhæfni stefndu sé skert og þvírétt að annaðhvort verði forsjáin alfarið hjá stefnanda eða að minnsta kostilögheimili drengjanna. Stefnandibendir á að aðstæður hans til að hafa börnin hjá sér séu mjög góðar. Hann búi ígóðu einbýlishúsi, þar sem drengirnir hafi góða aðstöðu, og fjárhagur hans ségóður. Hann starfi sem kokkur og geti hagað vinnutíma sínum eftir þörfumdrengjanna þegar þeir dvelji hjá honum. Hins vegar telji hann að aðstæðurdrengjanna hjá stefndu séu mun lakari að öllu leyti og félagsleg staða þeirrahjá henni sé ekki góð. Stefnandivísar til þess að stefnda og sambýlismaður hennar hafi sýnt stefnanda og konuhans ofbeldi og haft í frammi ógnanir og ögrun þegar drengirnir fari á milli.Þá hafi barnaverndarnefnd haft afskipti af málefnum drengjanna á heimilistefndu vegna meints ofbeldis hennar í þeirra garð. Loks telji stefnandiverulega hættu á að stefnda flytji af landi brott, jafnvel til [...], þaðan semhún sé upprunnin, fari hún ein áfram með forsjána. Telji hann því afarmikilvægt að hann öðlist þau réttindi sem lögheimili drengjanna fylgi svo að hanngeti haft sem mest áhrif á uppeldið og haldið utan um hagsmuni þeirra.IV.Stefndabyggir sýknukröfu sína á því að drengjunum sé fyrir bestu að forsjá þeirra oglögheimili sé áfram hjá henni. Ljóst sé að stefnda uppfylli öll þau skilyrðisem tilgreind séu í 2. mgr. 34. gr. barnalaga að líta skuli til við mat á þvíhvernig haga skuli forsjá og lögheimili barns og að fyrirliggjandi gögn, þar ámeðal matsgerð og dómur í fyrra máli aðila, taki af allan vafa um hæfi hennar íþessu tilliti. Mótmæltsé staðhæfingum stefnanda um ofbeldi í garð drengjanna, enda sé málibarnaverndarnefndar vegna þessa nú lokið. Þá sé og mótmælt þeim staðhæfingumsem fram komi í stefnu að stefnda hafi brotið gegn þeirri skyldu sem lögð sé áforsjárforeldri og það foreldri þar sem barn hefur lögheimili að tryggja réttbarnsins til umgengni við hitt foreldrið. Hún hafi ætíð virt rétt drengjannatil umgengni við stefnanda í samræmi við niðurstöðu fyrri dóms í máli aðila.Reyndar hafi hún gengið lengra en þar sé kveðið á um því að hún hefði reynt aðstuðla að sáttum við stefnanda með því að gera tímabundið samkomulag við hannum sameiginlega forsjá drengjanna í sex mánuði, sem síðan hafi framlengst umþrjá mánuði í viðbót. Loks sé því mótmælt að stefnda hafi hug á að flytjast meðdrengina til [...]og að aðstæður hennar séu lakari en stefnanda. Hún sé ífastri vinnu á [...]og búi þar, ásamt núverandi maka sínum, í þeirra eiginíbúð, þar sem nægilegt rými sé fyrir alla heimilismenn. Drengjunum líði velhérlendis, þeir standi sig vel í skóla og eigi hér sitt líf, vini ogfjölskyldu.Ljóstsé að stöðugleiki sé eitt af því sem líta beri til, sbr. 2. mgr. 34. gr.barnalaga, við mat á því hvað sé barni fyrir bestu. Drengirnir hafi verið meðlögheimili hjá stefndu óslitið frá því að dómur hafi gengið í fyrraforræðismálinu hinn 6. júní 2014, með reglulegri umgengni við stefnanda ogumsömdu sameiginlegu forræði yfir sex mánaða tímabil, auk þriggja mánaða tilviðbótar. Drengirnir hafi alla sína ævi búið hjá stefndu og séu vanir þvífyrirkomulagi sem verið hafi. Verði að telja að breytt fyrirkomulag í þessumefnum leiði aðeins til frekari deilna milli aðila, sem síst sé til þess falliðað viðhalda ró og stöðugleika um hagi drengjanna.V.Alltfrá uppkvaðningu dóms í fyrri forsjárdeilu aðila hinn 6. júní 2014 hefurstefnda farið ein með forsjá sona þeirra tveggja. Stefnandi freistar þess nú aðhnekkja því fyrirkomulagi og krefst þess aðallega að fá dæmda fulla forsjá meðbáðum drengjunum. Að öðrum kosti verði forsjáin sameiginleg og lögheimiliþeirra hjá honum. Stefnandi krafðist þess og í stefnu til þrautavara aðforsjáin yrði ákveðin sameiginleg en að lögheimili drengjanna yrði hjá stefndu. Við upphaf aðalmeðferðar málsins gerðistefnandi þá breytingu á þessari kröfu sinni að forsjáin yrðisameiginleg en að lögheimili drengjanna yrði hvort hjá sínu foreldrinu. Sættiþessi breyting andmælum af hálfu stefndu, sem taldi að hún væri of seint framkomin og ætti því ekki að komast að í málinu. Þar sem telja verður að umræddþrautavarakrafa stefnanda, eftir breytinguna, gangi skemur en aðalkrafa hansverður fallist á að hún komist að í málinu.Þegarforeldra greinir á um forsjá barns skal í dómi ákveða hvernig forsjá oglögheimili barns verði háttað eftir því sem barni er fyrir bestu, sbr. 2. mgr.34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Skaldómur líta m.a. til hæfis foreldris, stöðugleika í lífi barns, tengsla barnsvið báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barns til umgengni, hættuá að barnið, foreldrar eða aðrir á heimili hafi orðið eða verði fyrir ofbeldiog vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. Framkemur í matsgerð dómskvadds matsmanns að drengirnir búi við góðarheimilisaðstæður hjá báðum foreldrum sínum. Beggja vegna hafi verið lögð alúðvið að skapa þeim þroskavænlegar aðstæður þar sem þeim geti liðið vel. Þeimgangi vel í skóla og séu vel studdir af báðum foreldrum við íþróttaiðkun. Kemstmatsmaður að þeirri niðurstöðu, sem er í samræmi við fyrri matsgerð hans, dags.21. apríl 2013, að foreldrarnir séu hvort um sig hæf til að fara með forsjátvíburanna, annars þeirra eða beggja. Þá segir: „Matsmaður er sammála niðurstöðumbarnaverndarnefndar ... um að vanlíðan og óöryggi drengjanna stafi afsamskiptum og árekstrum foreldra. Hann álítur að bæði kynforeldrarnir ogstjúpforeldrarnir eigi þar sinn þátt. Að mati matsmanns hafa deilur foreldrannaíþyngt tvíburunum verulega og mikilvægt er að þeirri byrði verði af þeim létt.Álagið virðist ekki hafa valdið þeim sálrænum skaða, en kvíðaeinkenni greinastog viðvarandi áhyggjur af mögulegum uppákomum, rifrildum eða slagsmálumforeldranna.“ Þásegir svo nokkru síðar í matsgerðinni: „Matsmanni virðist þó að foreldrarnirhafi reynt að framfylgja úrskurðum og að ná samningum og samkomulagi sín ámilli, en þar sem reynt hefur á túlkun atriða þá hafi þau fljótt verið sett úrsamhengi og gerður úr smáatriðum ágreiningur. Þessi samskipti geta haldið lengiáfram með alvarlegum áhrifum á drengina, mögulega valdið þeim að endingusálmeinum. ... Til þess að lágmarka líkur á árekstrum þá telur matsmaður aðráðlegt sé að njörva niður umgengni í smáatriðum eins og hægt er. Einnig það aðlágmarka bein samskipti milli foreldra til að minnka líkur á ófriði. Brýnt erað tvíburarnir lendi ekki í þeirri stöðu að bera skilaboð á milli foreldra.Matsmaður telur mögulegt að það geti gengið að annað foreldrið hafi forsjá oghitt foreldrið umgengnisrétt, en aðeins með því að kveðið verði nákvæmlega á umstað og stund fyrir umgengni, ... Annar möguleiki til að reyna að lágmarka aðágreiningur móður og föður bitni á drengjunum er sá að þau hafi forsjá sitthvors tvíburans. Í verki getur það þýtt að tvíburarnir verði álíka mikið samaneins og verið hefur. Til að gæta að því að annar tvíburinn verði ekki meirapabba barn og hinn mömmu barn þá mætti skiptast á forsjá þeirra, t.d. á tveggjaára fresti til 18 ára aldurs. ... Í þessu máli telur matsmaður að sísti kosturinnsé sá að foreldrarnir hafi sameiginlega forsjá yfir tvíburunum vegna þess hveófærir foreldrarnir eru til samstarfs sín á milli. Þeir láta sína persónuleguóvild í garð hvors annars trufla samskipti sín sem foreldra og skemma samvinnuum drengina.“ Kom fram í skýrslu matsmanns fyrir dómi að hann teldi nauðsynlegtað skerpa á því við úrslausn á ágreiningi aðila að milli þeirra ríkti jafnræði.Þeirforeldrar sem hér deila, aðilar máls þessa, eru samkvæmt athugunum báðir velhæfir uppalendur en hafa lengi deilt um atriði sem snerta syni þeirra eftir aðtil skilnaðar kom árið 2011. Deilurnar hafa stundum sprottið af litlu tilefniog erfitt að sjá hver er gerandi og hver þolandi, ásakanir ganga á víxl. Þóttágreiningsefnin sýnist ekki veigamikil liggja væntanlega undir gömul sárindi.Reynd hefur verið sú skipan að móðir fari með forsjána og einnig hafaforeldrarnir um tíma farið með hana sameiginlega. Þetta hefur ekki leitt tilþess að nauðsynlegur friður skapaðist í lífi drengjanna. Þeir eru samkvæmt athugunumí jákvæðum og sterkum tengslum við báða foreldra sína en sýna kvíðamerki semrekja má til fjölskylduaðstæðna og að mati dómkvadds matsmanns er hætta á aðtogstreitan setji varanlegt mark á þá ef ekki hægist um. Því er brýnt að nýskipan komist á sem líkleg væri til að bæta samskiptin. Drengirnir viljasjálfir ekki taka beina afstöðu í málinu en báðir hafa lýst því yfir að þeirvilji vera jafnt hjá báðum foreldrum.Báðir foreldrar leggja mikið upp úr að rækta hið góða samband semsannanlega er á milli bræðranna, sem eru tvíburar, og munu þeir vafalaust hafaslíkt áfram að leiðarljósi. Dómurinn leggur áherslu á að skapað verði þaðjafnvægi milli foreldranna að það kalli á og hvetji þau til að takasameiginlega á málum drengjanna, enda virðist ágreiningurinn leysanlegur aðmati matsmanns og oft snúast um atriði sem til heilla væri að þriðji aðiliskæri úr um. Það fyrirkomulag sem dómurinn telur vænlegast til að ná þessumarkmiði, og mundi stuðla að því að halda drengjunum utan við deilur, er aðumgengni verði sem jöfnust, reglur í kringum hana sem skýrastar og að forsjáverði skipt þannig að hvort foreldri um sig hafi forsjá annars drengsins meðhöndum. Er þetta í góðu samræmi við framangreinda niðurstöðu matsgerðar, ogframburð matsmannsins fyrir dómi, um að þetta fyrirkomulag sé líklegaheppilegasta leiðin til að knýja á um að foreldrarnir hafi ávallt með sérsamstarf um allt er lúti að uppeldi drengjanna. Með þeim hætti skapast aukið jafnvægi milli foreldranna og með þvíað kveðið verði nákvæmlega á um umgengnina geta þau að mati dómsins betureinbeitt sér að því að bæta samskipti sín á milli og rækta innbyrðis sambanddrengjanna. Því er það niðurstaða dómsins að stefnandi fari einn með forsjá Aen stefnda fari ein með forsjá B. Umgengni skal vera jöfn. Drengirnir skuluþannig dveljast saman hjá hvoru foreldri um sig í sjö daga, aðra hverja viku,frá því kl. 17 á föstudögum. Það foreldri sem nýtur umgengni við drenginahverju sinni skal ætíð bera ábyrgð á að skila þeim þegar umgengni lýkur. Ástórhátíðum skal regluleg umgengni rofin þannig að um jól og áramót séubræðurnir annað árið hjá föður sínum frá 18. til 21. desember, hjá móður sinni21. til 23. desember, hjá föður 23. til 25. desember, hjá móður 25. til 28.desember, hjá föður 28. til 30. desember, hjá móður 30. desember til 3. janúarog hjá föður 3. janúar til 6. janúar. Hitt árið skal þessari reglu snúið við.Skiptin skulu eiga sér stað kl. 13. Um páska skulu drengirnir dveljast annaðárið hjá föður sínum frá pálmasunnudegi fram á skírdag og hjá móður sinni fráþví á skírdag og fram á annan í páskum. Skiptin skulu eiga sér stað kl. 13.Hitt árið skal þessari reglu snúið við. Yfir sumarmánuðina skulu drengirnirdveljast saman í fjórar vikur hjá hvoru foreldri um sig og skulu foreldrar hafakomið sér saman um þá skipan fyrir 1. maí ár hvert. Séu þau þá ósammála skalmóðir ráða tilhögun fyrsta árið sem ágreiningur verður, faðir næsta ár semágreiningur verður og þannig áfram. Samkvæmt6. mgr. 57. gr. barnalaga verður stefndu gert að greiða einfalt meðlag meðbarninu A en stefnanda gert að greiðaeinfalt meðlag með barninu B, eins og það ákvarðast af Tryggingastofnunríkisins hverju sinni, frá dómsuppsögu til fullnaðs átján ára aldurs þeirra. Réttþykir að málskostnaður milli aðila falli niður. Stefnda hefur gjafsókn ímálinu. Allur gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t.málflutningsþóknun lögmanns stefndu, Þyríar Höllu Steingrímsdóttur hrl., semþykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af málskostnaðarreikningi hennar,1.100.000 krónur. Dómþennan kveða upp Ásgeir Magnússon dómstjóri og meðdómsmennirnir Guðfinna Eydalog Þorgeir Magnússon sálfræðingar.Dómsorð:Stefnandi,M, fari með forsjá drengsins A, en stefnda, K, fari með forsjá drengsins B.Umgengniskal vera jöfn. Drengirnir skulu þannig dveljast saman hjá hvoru foreldri umsig í sjö daga, aðra hverja viku, frá því kl. 17 á föstudögum. Það foreldri semnýtur umgengni við drengina hverju sinni skal ætíð bera ábyrgð á að skila þeimþegar umgengni lýkur. Á stórhátíðum skal regluleg umgengni rofin þannig að umjól og áramót séu bræðurnir annað árið hjá föður sínum frá 18. til 21.desember, hjá móður sinni 21. til 23. desember, hjá föður 23. til 25. desember,hjá móður 25. til 28. desember, hjá föður 28. til 30. desember, hjá móður 30.desember til 3. janúar og hjá föður 3. janúar til 6. janúar. Hitt árið skalþessari reglu snúið við. Skiptin skulu eiga sér stað kl. 13. Um páska skuludrengirnir dveljast annað árið hjá föður sínum frá pálmasunnudegi fram áskírdag og hjá móður sinni frá því á skírdag og fram á annan í páskum. Skiptinskulu eiga sér stað kl. 13. Hitt árið skal þessari reglu snúið við. Yfirsumarmánuðina skulu drengirnir dveljast saman í fjórar vikur hjá hvoru foreldrium sig og skulu foreldrar hafa komið sér saman um þá skipan fyrir 1. maí árhvert. Séu þau þá ósammála skal móðir ráða tilhögun fyrsta árið sem ágreiningurverður, faðir næsta ár sem ágreiningur verður og þannig áfram. Stefndagreiði einfalt meðlag með A og stefnandi greiði einfalt meðlag með B frádómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra.Málskostnaðurfellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, þ.m.t. málflutningsþóknunlögmanns hennar, Þyríar Höllu Steingrímsdóttur hrl., 1.100.000 krónur, greiðistúr ríkissjóði. |
Mál nr. 220/2016 | Kærumál Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma Benedikt Bogasonhæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.Varnaraðili skaut málinu tilHæstaréttar með kæru 16. mars 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18.sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. mars 2016 þar semvarnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. apríl2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 ummeðferð sakamála. Varnaraðili krefst þessaðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hannþess að honum verði gert að dvelja á viðeigandi stofnun, en að því frágengnu aðgæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.Sóknaraðilikrefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður HéraðsdómsSuðurlands 13. mars 2016.Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefurkrafist þess að X, kt. [...]-[...] verði með úrskurði Héraðsdóms Suðurlandsgert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. apríl 2016 til kl.16:00.Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess aðhenni verði hafnað, en krefst þess til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaðurskemmri tími. Þá krefst kærði þess að verði fallist á gæsluvarðhald verði hannvistaður á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun með vísan til 100. gr. laga nr.88/2008.Í kröfu lögreglustjórans kemur fram aðsamkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Vestmannaeyjum í máli lögreglunnar nr.319-2016-[...] hafi borist tilkynning frá dyravörðum á skemmtistaðnum [...] kl.03:36 aðfaranótt laugardagsins 12. mars 2016 um að árásarþoli A, kt.[...]-[...]væri þar í tökum dyravarða. Atvikum hafi verið lýst þannig ávettvangi að A hafi verið laminn af þremur mönnum inni á salerni staðarins áefri hæð. Hann hafi síðar ætlað að veitast að einum þeirra, kærða sem hafistaðið í dyrum veitingastaðarins en dyraverðir hafi stöðvað hann og lagt hann ígólfið. Kærði hafi þá komið þar að inn um bakdyr og sparkað í höfuð hans þarsem hann hafi legið. Þegar lögregla hafi komið á staðinn hafi árásarþoli ennverið á staðnum en sakborningar á bak og burt. Samkvæmt lýsingum vitna hafi þaðverið kærði sem hafi sparkað í höfuð árásarþola og hafi hann leitað í kjölfariðtil læknis. Læknir hafi haft samband við lögreglu að morgni laugardags og lýstalvarlegum og miklum áverkum árásarþola og miklum höfuðkvölum hans og taliðárásina alvarlega. Leitað hafi verið að kærða sem hafi verið handtekinn kl.13.55 þann 12. mars 2016 en vegna annarlegs ástands hans vegna fíkniefnaneysluhafi ekki verið mögulegt að ræða við hann fyrr en kl. 13 daginn eftir eða þann13. mars 2016.Lögregla hafi hafist handa við að afla gagnaí málinu og hluti þeirrar gagnaöflunar hafi verið myndbandsupptökur úreftirlitsvélum á veitingastaðnum. Við skoðun þeirra sjáist síðari hlutiárásarinnar þ.e. þegar kærði stappi ofan á höfði A þar sem hann liggi á gólfi ítökum dyravarða. Kærði hafi verið kominn út af staðnum eftir átökin á salernien árásarþoli verið innandyra. Dyravörður hafi opnað dyr og verið að tala viðkærða þegar árásarþoli hafi komið þar að og ætlað að veitast að kærða meðglerbrot í hægri hendi en verið stöðvaður af dyravörðum. Dyraverðir hafi lagt Aí gólfið, kærði komið að og virðist hafa komið inn um bakdyr og stappað ofan áhöfði A með fæti og sé eftir það lagður í gólfið af dyravörðum. B, kt. [...]-[...], sem sagður er hafagengið í skrokk á A á salerni staðarins hafi verið handtekinn kl. 17.10 álaugardag og skýrsla tekin af honumvegna málsins. Skýrsla hafi einnig verið tekin af C, kt. [...]-[...], dyraverðistaðarins. Brotaþoli hafi leitað á HeilbrigðisstofnunVestmannaeyja í nótt til aðhlynningar og fylgi myndir af áverkum þolandafrumskýrslu málsins. Meðfylgjandi sé yfirlit yfir nótu læknisins þar sem miklumáverkum árásarþola sé lýst og er vísað til þess er þar komi fram. Að mati lögreglunnar í Vestmannaeyjum megiætla að kærði muni halda áfram brotum á meðan málum hans er ekki lokið ogennfremur leiki rökstuddur grunur á að hann hafi rofið í verulegum atriðumskilyrði sem honum hafi verið sett í skilorðsbundnum dómi. Kærði eigi samfelldabrotahrinu og þá aðallega líkamsárásir og fíkniefnalagabrot frá því í maí 2014.Hann hafi hlotið fjóra dóma fyrir slík brot auk þjófnaða, gripdeild ognytjastuld. Þau mál sem séu ódæmd á kærða og hann hafi framið frá 07.06.2015séu eftirtalin:Mál nr. 319-2016-[...]Laugardaginn 12. mars 2016 hafi lögregluborist tilkynning um líkamsárás á veitingastaðnum [...], samkvæmt vitnum hafikærði og félagi hans gengið í skrokk á A, kt. [...]-[...] inni á salernistaðarins og kærði stappað ofan á höfði hans og séu til myndbandsupptökur afþví atviki. Málið sé rannsakað sem brot gegn 1. mgr. 217. gr. alm. hgl. eða 218eftir atvikum. Málið sé í rannsókn, þegar beiðni þessi hafi verið sendhéraðsdómi hafi framburður kærða ekki legið fyrir.Mál nr. 319-2016-[...]Laugardaginn 12. mars 2016 kl. 23.24 hafilögreglu borist tilkynning frá D, kt. [...]-[...], [...] ára dreng um að kærðihafi ætlað að ráðast á hann og vin hans, elt hann á bifreið að heimili hans ogeftir að hann hafi farið út úr bílnum hafi kærði elt hann upp tröppur aðheimili hans og hótað honum líkamsmeiðingum en D komist undan. Drengurinn hafiupplýst að kærði ætti eitthvað sökótt við vin sinn vegna líkamsárásar gegnhonum þann 5. júlí 2015 sem sé mál lögreglu nr. 319-2015-[...] og sé komið íákærumeðferð. Málið sé á frumstigi rannsóknar.Mál nr. 319-2016-[...]Þann 9. janúar 2016 kl. 02.59 hafi lögregluborist tilkynning um líkamsárás á [...] í Vestmannaeyjum þar sem kærði hafiskallað E, kt. [...]-[...] í andlit af tilefnislausu með þeim afleiðingum aðhann hafi fallið aftur fyrir sig og lent á borði sem hafi brotnað við höggið.Árásarþoli hafi hlotið mar og yfirborðsáverka á andlit og rifbeinsbrot. Ívottorði hafi læknirinn sagt hendingu ráða því að brotaþoli hafi ekki hlotiðhöfuðkúpubrot eða innankúpublæðingu, og að rifbrotið hafi ekki rofiðbrjósthimnu og valdið áverkum á lunga sem séu lífshættulegir áverkar. Rannsóknmálsins sé lokið og teljist málið upplýst með framburðum vitna ogmyndbandsupptöku úr eftirlitsvél staðarins og varði við 1. mgr. 218. gr. alm.hgl. Mál nr. 007-2015-[...]Þann 30.12.2015 hafi kærði verið stöðvaðurvið akstur bifreiðar í Hafnarfirði og grunaður um akstur undir áhrifumfíkniefna, kærði hafi ennfremur aldrei öðlast ökuréttindi. Þvagsýni kærða hafigefið jákvæða svörun á THC, AMP, COC og MDMA og hafi hann verið handtekinn íþágu rannsóknar málsins. Málið sé í rannsókn og beðið sé niðurstöðu úrblóðrannsókn. Þann 10. mars sl. hafi ákæra dags. 24.febrúar 2016 verið þingfest fyrir Héraðsdómi Suðurlands en kærði ekki mætt viðþingfestingu málsins og hafi ekki gefið upp afstöðu sína við brotunum. Ákært séfyrir sjö eftirtalin brot:Mál nr. 319-2016-[...]Fíkniefnalagabrot með því að hafa 7. janúar2016 haft í vörslum sínum 3,80 gr. af amfetamíni, 2,98 gr. af kókaíni og 12,92gr. af maríhúana en efnið hafui fundist við leit lögreglu í hliðarhólfi ásvartri íþróttatösku í afgreiðslu Herjólfs í Vestmannaeyjum. Mál nr. 319-2015-[...]Fíkniefnalagabrot með því að hafa 2. ágúst2015 haft í vörslum sínum 1,74 gr. af kókaíni en efnið hafi fundist undirkynfærum ákærða við leit lögreglu við hliðið inn í Herjólfsdal á Þjóðhátíð íVestmannaeyjum.Mál nr. 319-2015-[...]Fíkniefnalagabrot með því að hafa 31. júlí2015 haft í vörslum sínum 0,99 gr. af kókaíni og 2,03 gr. amfetamín en efniðhafi fundist við leit lögreglu í hægri vasa hans fyrir utan skemmtistaðinn[...], Vestmannaeyjum. Mál nr. 319-2015-[...]Tollalagabrot með því að hafa 30. júlí 2015haft í vörslum sínum 18 töflur af lyfinu Anavar, vefaukandi sterum sem ákærðihafi vitað eða mátt vita að hefðu verið ólöglega flutt til landsins en efniðhafi fundist við leit lögreglu í vasa ákærða. Brotið varði við 1. mgr. 171.gr., sbr. 169. gr. tollalaga nr. 88/2005.Mál nr. 319-2015-[...]Líkamsárás þann 5. júlí 2015 þar sem kærðihafi veist að F, kt. [...]-[...], slegið hann hnefahögg í höfuð og skallað hanní andlit með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið eymsli yfir brjóskhluta nefs,eymsli yfir kinnbeinsbrún og yfir mastoid process (fyrir neðan og aftan eyra)vinstra megin og eyrnablöðku, þreifieymsli sitt hvoru megin við miðlínu hálsvinstra megin og brot úr ysta enda á tönnum 11 og 41 og mar á tanngóm við tönn21. Brotið varði við 1. mgr. 218. gr. alm. hgl. Mál nr. 319-2015-[...]Líkamsárás þann 5. júlí 2015 þar sem kærðihafi veist að G, kt. [...]-[...], [...] ára dreng fyrir utan skemmtistað,sparkað hann niður þannig að hann hafi fallið í jörðina og slegið hannhnefahöggum í höfuðið með krepptum hnefa með þeim afleiðingum að hann hafihlotið kúlu á hægra gagnauga, bólgu á hægra kinnbein, tognun á báðum úlnliðum,tognun á vinstri öxl og mar á vinstra hné. Brotið varði við 1. mgr. 217. gr.alm. hgl. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.Mál nr. 319-2015-[...]Líkamsárás þann 7. júní 2015 fyrir utan skemmtistaðinn[...] þar sem kærði hafi veist að H, kt. [...]-[...], slegið hann hnefahögg íandlit með krepptum hnefa en við árásina hafi H fallið í jörðina og skollið meðhöfuðið í götuna. Við þetta hafi H hlotið sár í vinstri augnkrók og augabrúnþar sem sauma hafi þurft 8 spor, sár á vinstri hlið höku þar sem sauma hafiþurft 5 spor, fleiðrusár á hnakka, sár á nef og bólgu á vinstri ökkla. Brotiðvarði við 1. mgr. 217. gr. alm. hgl.Framangreindum brotum samtals 11 talsins séólokið í réttarvörslukerfinu en lögreglustjóri telji mögulegt að afgreiða málinhratt og örugglega fyrir dómstólum verði kærði vistaður í gæsluvarðhaldi ámeðan þau eru afgreidd. Nauðsynlegt sé að stöðva brotahrinu hans en hann hafiátt samfleytta brotahrinu líkamsárása frá því sumarið 2015. Af ofangreindum 11brotum séu 5 líkamsárásir, þar af tvær sem varði við 1. mgr. 218. gr. alm. hgl.og tvö skallabrot. Tvö brot, líkamsárás annars vegar og hótun um líkamsmeiðingarhins vegar, beinist gegn [...] ára börnum og séu auk þess að verahegningarlagabrot, brot á barnaverndarlögum. Þar líti ennfremur út að kærði sémeð háttsemi sinni að reyna að hafa áhrif á vitni í máli sem þegar hafi veriðþingfest.Kærði hafi hlotið fjölmarga refsidóma þráttfyrir ungan aldur en kærði verði [...] ára gamall þann [...]. Kærði hafigengist undir viðurlagaákvörðun vegna fíkniefnalagabrots 26.06.2013, hlotið dómþann 26.05.2014 þar sem refsingu hafi verið frestað fyrir þjófnað, nytjastuldog akstur án ökuréttinda. Þann 17.02.2015 hafi kærði gengist undir sátt vegnafíkniefnalagabrots hjá lögreglustjóranum á Höfuðborgarsvæðinu.Með dómi Héraðsdóms Suðurlands dags [...] ímáli nr. [...]/2015 hafi kærði verið dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og245. gr. alm. hgl. auk fíkniefnalagabrots. Í máli þessu hafi kærði gripið veskiófrjálsri hendi úr bifreið [...] gamals manns sem sat í framsæti bifreiðarinnarog þegar gamli maðurinn hafi elt hann uppi hafi kærði veist að honum, ýtt íandlit hans og legið ofan á honum á meðan þeir hafi tekist á með þeimafleiðingum að gamli maðurinn hafi hlotið yfirborðsáverka á andliti, hnjám,vinstri olnboga, tognun á vinstri baugfingri og hjartaáfall. Ákvörðun refsingarfrestað.Með dómi Héraðsdóms Suðurlands dags [...] ímáli nr. [...]/2015 hafi kærði verið dæmdur fyrir þjófnað með því að hafa fariðí félagi við annan mann inn í hús um nótt og tekið þar hluti ófrjálsri hendi,kærði hafi verið sýknaður af húsbroti. Ákvörðun refsingar frestað.Með dómi Héraðsdóms Suðurlands dags [...] ímáli nr. [...]/2015 hafi kærði verið ákærður fyrir líkamsárás í félagi við I ogB en dæmdur fyrir líkamsárás gegn J, kt. [...]-[...] með því að hafa slegiðhann ítrekað í andlit með krepptum hnefum beggja handa og hafi brotiðverið heimfært undir 1. mgr. 217. gr.alm. hgl. Kærði hafi hlotið 3 mánaða skilorðsbundinn dóm í 2 ár, dómurinn hafiverið birtur kærða þann 23.09.2015.Með dómi Héraðsdóm Suðurlands dags [...] ímáli nr. [...]/2015 hafi kærði verið dæmdur fyrir fjórar líkamsárásir ogfíkniefnalagabrot og hlotið 5 mánaða skilorðsbundinn dóm í 2 ár. Dómurinn hafiverið birtur fyrir kærða 13. mars 2016. Líkamsárásirnar sem kærði hafi veriðdæmdur fyrir í þessum dómi hafi verið eftirtaldar:Mál nr. 319-2015-[...]Með því að hafa í félagi við I, áveitingastaðnum [...]14.02.2015 ráðistmeð höggum og spörkum á K, kt. [...]-[...] með því að kærði hafi slegið hannhnefahögg í höfuð og háls og báðir ákærðu sparkað í hann þar sem hann lá.Brotið hafi varðað við 1. mgr. 217. gr. Báðir hafi játað brot sín.Mál nr. 319-2015-[...]Líkamsárás 15. febrúar 2015 á skemmtistaðnum[...] ráðist á L, kt. [...]-[...], með því að skalla hann í andlitið og sláhann tvö hnefahögg í andlit með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið mar ogbjúg í kringum vinstra auga. Brotið hafi varðað við 1. mgr. 217. gr. alm. hgl.og kærði játað brot sitt.Mál nr. 32-2014-[...]Líkamsárás 5. júlí 2014 fyrir utanskemmtistaðinn [...] skallað M, kt. [...]-[...], í andlitið með þeimafleiðingum að hann hafi hlotið bólgur, sár og þreifieymsli. Brotið hafi varðaðvið 1. mgr. 217. gr. og kærði neitað sök. Aðalmeðferð hafi farið fram í málinu10.12.2015, 28.12.2015 og 11. febrúar 2016.Mál nr. 32-2014-[...]Líkamsárás þann 27. desember 2014 áskemmtistaðnum [...] skallað N, kt. [...]-[...] í andlitið með þeim afleiðingumað hann hafi hlotið skurð og bólgu neðan við hægra auga. Brotið hafi varðað við1. mgr. 217. gr. og kærði neitað sök. Aðalmeðferð hafi farið fram í málinu10.12.2015, 28.12.2015 og 11. febrúar 2016. Langan tíma hafi tekið að ljúka þessum málumþar sem erfitt hafi verið að ná í kærða og eins og að framan greini hafi þrjártilraunir verið gerðar til þess að ljúka aðalmeðferð þar sem kærði hafi ekkimætt fyrir dóm þrátt fyrir löglegar boðanir og þrátt fyrir mætingu verjandahans í öll skiptin. Erfiðlega hafi tekist að ljúka málum sem kærði eigi tilmeðferðar þar sem erfitt sé að ná í hann og hann mæti ekki þrátt fyrir boðanir.Samkvæmt framansögðu og með vísan til gagnamálsins kveðst lögreglustjóri telja að skilyrði séu uppfyllt til að úrskurða kærðaí gæsluvarðhald á grundvelli c og d- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferðsakamála nr. 88/2008. Þegar litið sé til ástands kærða en hann séeins og fram komi í upplýsingaskýrslu lögreglu í mikilli neyslu fíkniefna ogýmissa lyfja. Upplýsingar frá móður hans hermi að hann hafi verið í Reykjavík ínokkrar vikur þar sem hann hafi verið í mikilli neyslu og hafi foreldrar hansfengið upplýsingar um það frá íbúum fjölbýlishúss þar sem hann hafi haldið sighversu alvarlegt ástand hans hafi verið vegna fíkniefnaneyslu. Kærði hafi komiðtil Vestmannaeyja 9. mars sl. og hafi verið undir miklum áhrifum fíkniefna oglyfja síðan, móðir hans hafi upplýst um að hún skilji hann ekki þegar hanntalar vegna vímuástands, hann sé þvoglumæltur og í alvarlega annarlegu ástandi.Kærði hafi frá upphafi verið uppvís að 11líkamsárásum, þar af séu þrjár framdar í félagi, tvær þeirra varði við 1. mgr.218. gr. alm. hgl. og í fimm tilvikum hafi kærði skallað menn í andlitið aðtilefnislausu. Kærði eigi nú 11 málum ólokið í refsivörslukerfinu, hafi þegarhlotið 5 skilorðsbundna dóma þar sem hann hafi ítrekað rofið skilorð. Nú meðnýjustu líkamsárásunum frá því 9. janúar2016 og 12. mars 2016 hafi hann rofið skilorð dóms frá 17.09.2015 þar sem hannhafi hlotið 3 mánaða skilorðsbundinn dóm. Kærði sé ungur að árum en engu að síðurtelur lögreglustjóri nauðsynlegt að hann verði vistaður í síbrotagæslu til þessað koma í veg fyrir að hann haldi brotum sínum áfram á meðan málum hans er ekkilokið auk þess sem enginn vafi leiki á að hann hafi rofið í verulegum atriðumskilyrði sem honum hafi verið sett í skilorðsbundnum dómum. Auk þess kveðstlögreglustjóri telja að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að verja aðra fyrirárásum hans enda hafi hann framið slíkan fjölda líkamsárása þar sem háttseminsé sérstaklega ofbeldisfull, ítrekaðir skallar í andlit, spörk í höfuðliggjandi manna, árásir unnar í félagi, árás gegn [...] ára gömlum manni, tværþeirra varði við 1. mgr. 218. gr. alm. hgl. og allar séu þær tilefnislausar. Telur lögreglustjóri nauðsynlegt að kærðisæti gæsluvarðhaldi til að stöðva afbrot hans og ljúka málum sem hann eigiólokið auk þess sem nauðsynlegt þyki að verja aðra fyrir árásum hans, sbr. c ogd- liðir 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.Með vísan til alls framangreinds,samfelldrar brotahrinu frá því í júní 2015 með fimm líkamsárásum, tveimur gegn1. mgr. 218. gr., tveimur skallabrotum, tveimur brotum gegn [...] ára börnum,hótun um líkamsmeiðingar, fíkniefnaakstri, þremur fíkniefnalagabrotum og einutollalagabroti. Kærði beiti jafnan ofbeldisfullum líkamsárásum þar sem alvarleglíkamstjón hafi hlotist af og sé talin nauðsyn að stöðva brotahrinu kærða,klára mál hans fyrir dómstólum og verja aðra fyrir árásum hans, sbr. c og d-liður 1. mgr. 95. gr. sml. með því aðhonum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. apríl 2016,kl. 16:00.Forsendurog niðurstaðaÍ þeim gögnum sem lögð hafa veriðfyrir dóminn kemur fram að kærði hafi verið í mikilli neyslu fíkniefnaundanfarið. Staðfesti kærði þetta við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar oglýsti því að neyslan hafi vaxið hröðum skrefum eftir síðustu áramót.Kærði er undir rökstuddum grun um aðhafa, í janúar og mars á þessu ári, þrívegis framið brot gegn almennumhegningarlögum nr. 19/1940 sem öll geta varðað hann fangelsisrefsingu, en öllþau ætluðu brot eru framin eftir að kærða var birtur skilorðsbundinn dómur semhann hlaut 17. september 2015. Þá er kærði auk þess undir rökstuddum grun umallnokkur sérrrefsilagabrot, auk hegningarlagabrota frá sumrinu 2015.Með vísan til ofangreinds og þeirragagna sem lögð hafa verið fram í málinu verður að fallast á það meðlögreglustjóra að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum meðan máli hans erekki lokið og að rökstuddur grunur leiki á að hann hafi rofið í verulegumatriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi, sbr. c lið1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Eru skilyrði til gæsluvarðhalds samkvæmtnefndu ákvæði uppfyllt. Ekki þykir hins vegar vera unnt að fullyrða að nauðsynberi til að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að verja aðra fyrir árásum hans.Varakrafa kærða lýtur að því aðgæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr.88/2008 verður gæsluvarðhaldi ekki markaður lengri tími en 4 vikur í senn.Verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 8. apríl 2016 kl.16:00. Þá hefur kærði krafist þess að dómari mæli fyrir um vistun hans ásjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun í stað gæsluvarðhalds. Ekkert liggur fyrir umað kærði sé ófær um að sæta gæsluvarðhaldi í fangelsi og ekkert liggur fyrir umað hann geti fengið pláss á meðferðarstofnun, svo sem hann kveðst vilja. Verðurþessari kröfu kærða hafnað.Verður því fallist á kröfulögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.Sigurður G. Gíslason héraðsdómarikveður upp úrskurð þennan.Úrskurðarorð:Kærði, X, skal sætagæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. apríl 2016 kl. 16:00. |
Mál nr. 318/2010 | Kærumál Forkaupsréttur Aðild Kröfugerð Frávísunarúrskurður staðfestur | Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli B ehf. gegn Á, H og Þ ehf. var vísað frá dómi. Krafðist B ehf. staðfestingar á forkaupsrétti sínum í fasteign þegar eigendaskipti hafi orðið á eigninni við kaupsamning og afsal þegar Þ ehf. seldi og afsalaði eigninni til B 26 ehf. Talið var að sá annmarki væri á málatilbúnaði B ehf. að B 26 ehf. hafi ekki verið stefnt í málinu, en óhjákvæmilegt hafi verið að hann beindi málsókn sinni að báðum aðilum samningsins sem hann taldi að hafi gert forkaupsrétt sinn virkan. Þá væri kröfugerð B ehf. ekki með þeim hætti að talist gæti fullnægjandi. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. maí 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Til vara krefst hann að málskostnaður, sem varnaraðilum var dæmdur, verði lækkaður. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Varnaraðilar stefndu Hraunhamri ehf. til réttargæslu fyrir héraðsdómi. Deila málsaðila snýst um forkaupsrétt að fasteigninni nr. 26 við Bæjarhraun í Hafnarfirði, sem sóknaraðili telur sig njóta samkvæmt leigusamningi um eignina. Hann heldur fram að forkaupsréttur sinn hafi orðið virkur þegar fasteigninni var afsalað frá Þáttaskilum ehf. til Bæjarhrauns 26 ehf. 28. apríl 2008, en bæði þessi einkahlutafélög voru þá að öllu leyti í eigu varnaraðilanna Ásmundar Jónassonar og Halldóru Hermannsdóttur. Þau munu hafa selt allt hlutafé í síðarnefnda hlutafélaginu fáum dögum síðar. Sá annmarki er á málatilbúnaði sóknaraðila að Bæjarhrauni 26 ehf. var ekki stefnt í málinu, en óhjákvæmilegt var að hann beindi málsókn sinni að báðum aðilum þess samnings, sem hann telur að hafi gert forkaupsrétt sinn virkan. Að auki er kröfugerð sóknaraðila ekki með þeim hætti að geta talist fullnægjandi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 6. júní 2008 í máli nr. 291/2008. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað, eins og nánar segir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Blómabúðin Dögg ehf., greiði hverjum varnaraðila um sig, Ásmundi Jónassyni, Halldóru Hermannsdóttur og Þáttaskilum ehf., 50.000 krónur í kærumálskostnað. |
Mál nr. 604/2016 | Líkamstjón Skaðabætur Örorka Viðmiðunartekjur | A krafðist bóta úr hendi T hf. vegna varanlegrar örorku sem hún hlaut í umferðarslysi 2012. Í málinu var hvorki deilt um bótaskyldu né metna örorku. Voru aðilar auk þess sammála um að beita skyldi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við útreikning bótanna og stóð ágreiningur þeirra því aðeins um hvaða árslaun ætti að leggja til grundvallar útreikningi þeirra. Í héraðsdómi var fallist á með T hf. að miða ætti við tekjur sem A hefði aflað sér í mars og apríl 2014 sem lausráðinn fulltrúi hjá sýslumanni. Í dómi Hæstaréttar kom fram að A hefði lokið hátt í 90% af námi í lögfræði þegar slysið varð. Var talið að A hefði ekki sýnt fram á að réttur mælikvarði við ákvörðun á framtíðartekjum hennar væri að miða við sérfræðistörf í lögfræði eins og gert hefði verið í aðal- og varakröfu hennar. Á hinn bóginn var talið sanngjarn og eðlilegur mælikvarði á framtíðartekjur hennar að leggja til grundvallar meðaltekjur félagsmanna í stéttarfélagi lögfræðinga árið 2012. Var því fallist á þrautavarakröfu A. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari,Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari og Ásgeir Magnússon dómstjóri.Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar30. ágúst 2016. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega9.969.959 krónur, til vara 9.268.852 krónur, að því frágengnu 7.363.276 krónur,en loks 6.463.163 krónur í öllum tilvikum með 4,5% ársvöxtum frá 26. maí 2013til 16. maí 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 umvexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnuminnborgunum 7. október 2014 að fjárhæð 4.800.585 krónur og 7. október 2015 aðfjárhæð 534.372 krónur. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrirHæstarétti.Stefndi krefst staðfestingar hinsáfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.Áfrýjandi lenti í umferðarslysi 26.nóvember 2012 og var metin til 7 stiga varanlegs miska og 7% varanlegrarörorku, eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Ekki er deilt umbótaskyldu stefnda. Við uppgjör sem áfrýjandi gekk til 7. október 2014 var lagttil grundvallar að fyrir hendi væru aðstæður sem um getur í undantekningarreglu2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og miðað við laun hennar hjáSýslumanninum […] í mars og apríl 2014. Greiddi stefndi henni í samræmi við það4.800.585 krónur vegna tjóns hennar vegna varanlegrar örorku. Áfrýjandi tók viðgreiðslunni með fyrirvara þar sem hún féllst ekki á að leggja ætti þetta tekjuviðmiðtil grundvallar bótum. Auk þess greiddi stefndi henni 534.372 krónur 7. október2015 vegna tiltekinnar leiðréttingar. Ágreiningur máls þessa snýst um hvaðaárslaun eigi að leggja til grundvallar útreikningi bóta fyrir varanlega örorkuáfrýjanda, en ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum. Telur áfrýjandi aðleggja eigi til grundvallar meðaltekjur lögfræðinga á árinu 2012, eins og þæreru settar fram í aðal- vara- og þrautavarakröfu hennar og nánar er lýst íhéraðsdómi. Með honum var fallist á með stefnda að miða ætti við tekjur semáfrýjandi aflaði sér áðurnefnda tvo mánuði sem lausráðinn fulltrúi hjáSýslumanninum […]. Áfrýjandi reisir kröfu sína á því aðtekjuviðmið stefnda gefi ekki rétta mynd af áætluðum framtíðartekjum sínum. Húnhafi lokið hátt í 90% af námi í lögfræði við Háskóla Íslands þegar slysið varðog brautskráðst með meistaragráðu í febrúar 2014. Samhliða námi hafi húnstarfað við fjölþætt störf meðal annars hjá lögmannsstofu, slitastjórn banka,Umboðsmanni skuldara og velferðarráðuneytinu. Í maí 2014 hafi hún fengiðfastráðningu hjá áðurnefndu embætti og hafið störf hjá Sýslumanninum áhöfuðborgarsvæðinu í apríl 2015. Fallist er á það með stefnda aðáfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að það sé réttur mælikvarði við ákvörðun áframtíðartekjum hennar að miða við sérfræðistörf í lögfræði eins og gert er íaðal- og varakröfu hennar. Á hinn bóginn þykir sanngjarn og eðlilegurmælikvarði á framtíðartekjur hennar að leggja til grundvallar meðaltekjurfélagsmanna í stéttarfélagi lögfræðinga árið 2012, eins og lýst er íþrautavarakröfu hennar, en til þess er að líta að hún var komin mjög langt áveg með meistaranám í lögfræði er slysið bar að höndum og hefur starfað viðlögfræðistörf eftir að námi hennar lauk.Samkvæmt þessum málsúrslitum verðurstefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 7.363.276 krónur með vöxtum eins og ídómsorði greinir, allt að frádregnum innborgunum 7. október 2014 að fjárhæð4.800.585 krónur og 7. október 2015 að fjárhæð 534.372 krónur.Eftir þessum málsúrslitum verðurstefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, semákveðin verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði.Dómsorð:Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði áfrýjanda, A, 7.363.276 krónurmeð 4,5% ársvöxtum frá 26. maí 2013 til 16. maí 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi tilgreiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 7. október 2014 að fjárhæð4.800.585 krónur og 7. október 2015 að fjárhæð 534.372 krónur. Stefndi greiði áfrýjanda 1.800.000 krónurí málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2016. I. Mál þetta var höfðað 17.september 2015 og dómtekið 19. apríl 2016. Stefnandi er A til heimilis að […], enstefndi er Tryggingamiðstöðin hf., Síðumúla 24, Reykjavík. Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 9.969.959kr. með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 26. maí 2013til 16. maí 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr.,laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur, frá þeim degi til greiðsludags, alltað frádregnum greiðslum frá stefnda að fjárhæð 4.800.585 kr. þann 7. október2014 og þann 7. október 2015 að fjárhæð 534.372 krónur. Til varaer þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 9.268.852 kr.,með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 26. maí 2013 til16. maí 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laganr. 38/2001, um vexti og verðbætur, frá þeim degi til greiðsludags, allt aðfrádregnum greiðslum frá stefnda að fjárhæð 4.800.585 kr. þann 7. október 201og þann 7. október 2015 að fjárhæð 534.372 krónur. Til þrautavaraer þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 7.363.276 kr.,með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 26. maí 2013 til16. maí 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá þeim degi til greiðsludags. Allt aðfrádregnum greiðslum frá stefnda að fjárhæð kr. 4.800.585 kr. þann 7. október2014 og þann 7. október 2015 að fjárhæð 534.372 krónur. Tilþrautaþrautavara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiðastefnanda 6.463.163 kr., með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr.50/1993 frá 26. maí 2013 til 16. maí 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1.mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur, frá þeim degitil greiðsludags, allt að frádregnum greiðslum frá stefnda að fjárhæð 4.800.585kr. þann 7. október 2014 og þann 7. október 2015 að fjárhæð 534.372 krónur. Tilþrautaþrautaþrautavara er þess krafistað stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 5.332.713 kr., með 4,5%vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 26. maí 2013 til 16. maí2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr.38/2001, um vexti og verðbætur, frá þeim degi til greiðsludags, allt aðfrádregnum greiðslum frá stefnda að fjárhæð kr. 4.800.585 kr. þann 7. október2014 og þann 7. október 2015 að fjárhæð 534.372 krónur. Þá krefst stefnandi málskostnaðar í öllum tilvikum. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda aukmálskostnaðar. II. Í máli þessu er deilt umhvaða árslaun beri að leggja til grundvallar við útreikning bóta vegna tjónssem stefnandi hlaut í umferðarslysi 26. nóvember 2012. Tildrög slyssins voru þau að stefnandi, sem varökumaður bifreiðarinnar […], ók henni í veg fyrir jeppabifreiðina […] ágatnamótum Langatanga og Borgartanga í Mosfellsbæ. Um töluvert harðan áreksturvar að ræða og kenndi stefnandi verkja og stífleika í hálsi. Leitaði stefnandisér aðstoðar hjá lækni tveimur dögum eftir umferðarslysið. B læknir og C hrl. vorufengnir til að meta líkamlegar afleiðingar umferðarslyssins fyrir stefnanda.Samkvæmt matsgerð þeirra taldist varanlegur miski 7 stig og varanleg örorka 7%. Stefnandi lauk BA-námi í lögfræði þann 23. október2010. Þegar stefnandi slasaðist stundaði hún meistaranám í lögfræði við HáskólaÍslands og hafði þá lokið 78 ECTS einingum af 120. Var hún skráð í 42 ECTSeiningar haustið 2012. Stefnandi útskrifaðist í febrúar 2014. Eftir aðstefnandi lauk laganámi í febrúar 2014, hóf hún störf hjá Sýslumanninum […]. Ímaí 2014 fékk hún fastráðningu hjá embættinu og hefur starfað við embættisýslumanna síðan, nú hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Lögmaður stefnanda sendi stefnda bótakröfu vegnaumferðarslyssins með bréfi, dags. 16. apríl 2014. Við útreikning á bótum fyrirvaranlega örorku tók stefnandi mið af töflu Hagstofunnar um meðallaun fyrirsérfræðistörf lögfræðinga á árinu 2012. Ekki náðist samkomulag um bótauppgjöriðog var málið gert upp með fyrirvara samkvæmt bótatilboði stefnda, þ.e.a.s.miðað var við þau laun sem stefnandi fékk greidd sem fulltrúi hjá Sýslumanninum[…] í mars og apríl 2014, uppreiknuð til 12 mánaða, reiknuð niður tilstöðugleikapunkts, að viðbættu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs. Íkjölfar athugasemda varðandi útreikninginn, sem fram komu í stefnu, gerðistefndi leiðréttingar á uppgjörinu þar sem láðst hafði að taka tillit tilpersónuuppbótar og orlofsuppbótar, auk þess sem miðað hafði verið við aðframlag launagreiðanda í lífeyrissjóð hafði ranglega verið miðað við 8% í stað11,5%. Einnig var gerð leiðrétting á launavísitölu og hún færð tilstöðugleikapunktsins í maí 2013. Þann 1. febrúar 2015 tók gildi ný launaákvörðun ísamræmi við stofnanasamning og hækkuðu þá laun stefnanda. Með úrskurði gerðardómssamkvæmt lögum nr. 31/2015 frá 14. ágúst 2015 var m.a. kveðið á um launahækkunhanda félögum í stéttarfélagi lögfræðinga frá 1. mars 2015. Samkvæmtúrskurðinum munu laun félagsmanna hækka aftur þann 1. júní 2016 auk þess semmælt er fyrir um sérstaka eingreiðslu þann 1. júní 2017. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskráríkisskattstjóra fyrir árið 2014 námu tekjur stefnanda á árinu 2014, 5.878.296krónum. Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum þegar aðalmeðferðmálsins fór fram. III. . Helstu málsástæður og lagarök stefnandaStefnandi telur að miðaberi bætur til hennar við meðalárstekjur lögfræðinga á slysaárinu 2012, eins ogþær komi fram á heimasíðu Hagstofu Íslands, að fjárhæð 10.932.000 krónur.Stefnandi hafi verið langt komin með meistaranám í lögfræði þegar slysið áttisér stað. Hún hafi útskrifast í febrúar 2014 og verið lausráðin frá þeim tímahjá Sýslumanninum […] og fengið fastráðningu í maí 2014. Laun hennar hafihækkað þann 1. febrúar 2015. Þá vísar stefnandi til úrskurðar gerðardómssamkvæmt lögum nr. 31/2015 frá 14. ágúst 2015 þar sem mælt var fyrir umlaunahækkun til handa félögum í stéttarfélagi lögfræðinga frá 1. mars 2015.Samkvæmt úrskurðinum munu laun félagsmanna hækka aftur þann 1. júní 2016 og þáer einnig kveðið á um sérstaka eingreiðslu þann 1. júní 2017. Stefnandi séfélagsmaður í stéttarfélagi lögfræðinga. Stefnandi telur að námslok hennar, meistarapróf ílögfræði, hafi sannanlega verið fyrirsjáanleg við tjónsatburð og ekkert semhafi gefið annað til kynna en að hún myndi starfa í kjölfarið sem lögfræðingur,svo sem hún hefur síðan gert. Því beri að leggja til grundvallar bótummeðaltekjur í hlutaðeigandi starfsgrein, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og ísamræmi við réttarframkvæmd í sambærilegum málum. Þá beri að líta til þess að ímatsgerð, sem lögð var til grundvallar bótauppgjöri, hafi, við mat á varanlegriörorku, verið miðað við að stefnandi starfaði sem lögfræðingur í framtíðinni. Stefnandi byggir á því að tekjuviðmið stefnda gefiekki rétta og raunhæfa mynd af áætluðum framtíðartekjum hennar og að hún fáiþannig ekki raunverulegt tjón sitt bætt. Tekjur stefnanda hafi nú þegar hækkað,m.a. þegar hún fékk fastráðningu hjá embættinu í maí 2014. Þær hafi afturhækkað eftir síðustu kjarabaráttu stéttarfélags lögfræðinga, og fyrirsjáanlegtsé að þær muni taka enn frekari hækkunum í nánustu framtíð, líkt og venja sé,þó að teknu tilliti til þeirrar skerðingar sem hafi orðið á tekjuöflunarhæfihennar vegna slyssins. Þá telur stefnandi það samræmast illa því meginmarkmiðiskaðabótalaga að tryggja tjónþola fullar bætur fyrir tjón hans, að miða við þærtekjur sem hún aflaði sér eftir að hún hlaut 7% varanlega örorku vegna slyssinstil að reikna út tjón hennar til framtíðar vegna sama slyss. Stefnandi telur aðréttari mælikvarði felist í upplýsingum um meðaltekjur þeirrar starfsstéttarsem stefnandi hafði því sem næst menntað sig til er slysið varð en Hæstirétturhefur ítrekað lagt slíkan mælikvarða til grundvallar við útreikning bóta vegnavaranlegrar örorku í sambærilegum málum. Varakrafa stefnanda miðast við meðalárstekjurlögfræðinga á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera, að fjárhæð 10.336.625krónur. Tekur stefnandi fram aðfyrir slysið hafi ekki annað legið fyrir en að stefnandi starfaði sem lögfræðingur,annað hvort á almennum markaði eða hjá hinu opinbera. Bendir stefnandi á að meðþessu launaviðmiði sé horft til tekna fleiri lögfræðinga og til fleirilögfræðistarfa heldur en miðað sé við í aðalkröfu og þrautavarakröfu stefnanda. Þrautavarakrafa stefnanda miðast við meðaltekjurfélagsmanna í stéttarfélagi lögfræðinga árið 2012 samkvæmt úttekt Bandalagsháskólamanna um laun starfsmanna ríkisins eftir bandalögum og stéttarfélögum.Samkvæmt úttektinni hafi árstekjur verið 6.977.412 krónur. Vísar stefnandi tilþess að allt frá útskrift hafi hún starfað hjá hinu opinbera sem fulltrúi hjáSýslumanninum […] og Sýslumanni höfuðborgarsvæðisins. Þrautaþrautavarakrafa stefnanda styðst við launstefnanda hjá Sýslumanni höfuðborgarsvæðisins í dag, eftir úrskurð gerðardómssamkvæmt lögum nr. 31/2015 frá 14. ágúst2015, sbr. einnig síðasta launaseðil stefnanda. Samkvæmt úrskurðinum séumánaðarlaun stefnanda nú 492.921 króna, föst yfirvinna 102.380 krónur, orlof affastri yfirvinnu 11.866 krónur eða samtals 607.167 krónur í heildarmánaðarlaun.Þá sé persónuuppbót stefnanda á árinu 2015 78.000 krónur og orlofsuppbót 42.000krónur. Árslaun stefnanda nemi því 7.406.004 krónum. Telur stefnandi að þessartekjur endurspegli betur líklegar framtíðartekjur hennar en þær tekjur semstefndi hafi lagt til grundvallar. Hér sé tekið tillit til tillögu stefnda semvilji miða við þau laun sem stefnandi hafi aflað sér. Stefnandi telur þó aðþetta viðmið eigi ekki vel við enda sé ljóst að tekjur hennar muni hækkatöluvert í framtíðinni með hækkandi starfsaldri og reynslu, líkt og venja sé.Þetta viðmið sé því ekki góður mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hennar. Þásé einnig ljóst að tekjur hennar muni hækka á næstu árum samkvæmt áðurgreindumúrskurði gerðardóms. Því sé réttara að miða við meðaltekjur lögfræðinga eins og gerð er grein fyrir í aðal-,vara- og þrautavarakröfu. Þrautaþrautaþrautavarakrafa stefnanda styðst, að matistefnanda, að mestu við bótatilboð stefnda, dags. 30. júní 2014 og 7. október2014, þ.e. að miða við laun stefnanda sem hún hefur sem fulltrúi Sýslumannsins […]í mars og apríl 2014 og að teknu tilliti til þeirra leiðréttinga sem gerðarvoru á útreikningi bótanna í kjölfar stefnu. 2. Helstu málsástæður og lagarökstefnda. Stefndi byggir sýknukröfusína á því að stefnandi hafi fengið greiddar fullar bætur og eigi ekki frekarikröfur á hendur stefnda. Í aðalkröfu stefnanda sé þess krafist að tjónstefnanda verði gert upp á grundvelli meðaltekna við sérfræðistörf í lögfræði áalmennum vinnumarkaði árið 2012 samkvæmt heimasíðu Hagstofu Íslands. Útreikningur dómkröfunnar leiði tilhærri skaðabóta en lögbundið hámark skv. 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þessiviðmiðun stefnanda geti undir engum kringumstæðum komið til greina að matistefnda. Stefndi tekur fram að lögfræðimenntaðir sérfræðingar á almennumvinnumarkaði hafi í flestum tilvikum aflað sér viðbótarmenntunar eðastarfsréttinda, s.s. héraðsdómsmálflutningsréttinda eðaHæstaréttarmálflutningsréttinda. Þá reka lögfræðingar á almennum vinnumarkaðimargir eigin lögfræðistofur, hafi í flestum tilvikum umfangsmikinn rekstur meðhöndum og fulltrúa og aðra starfsmenn á launaskrá. Þrátt fyrir að hafa lokiðmeistaranámi í lögfræði hefur stefnandi ekki aflað sérhéraðsdómslögmannsréttinda, sem er almenn krafa til þeirra sem sækjast eftiratvinnu sem sérfræðingar í lögfræði á almennum vinnumarkaði. Laun sérfræðinga áalmennum vinnumarkaði séu almennt hærri en laun ríkisstarfsmanna en á þeimvettvangi hafi stefnandi kosið að vinna. Ljóst sé að ef stefnandi yrði fyrirtjóni í dag kæmi ekki til greina að miða bætur hennar við laun sérfræðinga ílögfræði á almennum vinnumarkaði. Viðmiðið yrði laun stefnanda sem lögfræðingsí störfum hjá ríkinu. Stefndi vísar til þess að til greina hafi komið aðsækja launaviðmið til þeirrar háskólagráðu sem stefnandi hafði öðlast áslysdegi, þ.e. BA-gráðu í lögfræði. Hefðu bætur til hennar þá tekið mið afmeðallaunum sérfræðinga með BA háskólanám á árinu 2012. Þess í stað hafistefndi ákveðið að reikna bæturnar á grundvelli þeirra tekna sem stefnandiaflaði sér fyrstu mánuðina eftir lok meistaranámsins á árinu 2014. Samkvæmtþessu hafi stefndi sýnt stefnanda fulla sanngirni við útreikning skaðabótanna. Í fyrstu varakröfu stefnanda sé þess krafist að tjónstefnanda verði gert upp á grundvelli meðaltekna við sérfræðistörf í lögfræði áalmennum vinnumarkaði annars vegar og störf lögfræðinga hjá hinu opinbera hins vegar. Dómkrafan sé þannig settfram að lagðar séu saman meðaltekjur við sérfræðistörf í lögfræði á almennum vinnumarkaðiárið 2012 samkvæmt heimasíðu Hagstofu Íslands og meðaltekjur félagsmanna íStéttarfélagi lögfræðinga árið 2012 samkvæmt úttekt BHM um laun starfsmannaríkisins. Síðan er deilt í summu talnanna með 2 og sú tala færð tilstöðugleikapunktsins í maí 2013. Telur stefndi að þessi viðmiðun stefnanda getiekki með nokkru móti komið til greina. Rök stefnda fyrir höfnun þessararframsetningar stefnanda eru þau sömu og sett hafi verið fram varðandi aðalkröfuog þrautavarakröfu stefnanda og á þá leið að stefnandi geti ekki heimfært stöðusína á slysdegi eða eftir að meistaranámi var lokið til starfa sérfræðinga ílögfræði á almennum vinnumarkaði. Þá sé krafan sett fram á grundvelli launasérfræðinga við lögfræðistörf á almennum vinnumarkaði árið 2012 sem hafi veriðhærri en hámarksviðmið 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þá hafi stefndi sýnt framá að stefnandi hafi aldrei haft laun sem samsvari meðallaunum lögfræðinga hjáhinu opinbera og geti ekki sótt launaviðmið sitt þangað. Önnur varakrafa stefnanda, þ.e. þrautavarakrafastefnanda, sé sett fram á grundvelli meðaltekna félagsmanna í Stéttarfélagilögfræðinga árið 2012 samkvæmt úttekt BHM um laun starfsmanna ríkisins.Samkvæmt þessu viðmiði reiknist árslaunaviðmiðið á stöðugleikapunkti í maí 2013við 8.211.527 krónur. Stefndi hafnar þessu viðmiði. Árslaun stefnanda í dag,eftir úrskurð gerðardóms, með fastri yfirvinnu, orlofi á yfirvinnu,persónuuppbót og orlofsuppbót og framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð séu8.257.694 krónur. Árslaunin færð til stöðugleikapunktsins í maí 2013 nema þá7.207.720 krónum. Þessi útreikningur sýnir að laun stefnanda séu vel undirmeðallaunum lögfræðinga hjá ríkinu og geti stefnandi ekki sótt viðmið til launaþeirra sem í reynd hafi mun hærri tekjur en hún. Þá sé rétt að hafa í huga aðsamkvæmt staðgreiðsluyfirliti stefnanda fyrir árið 2014 hafi tekjur hennar fráríkissjóði það ár numið 5.878.296 krónum. Að því gefnu að stefnandi hafistarfað hjá ríkinu í 11 mánuði eftir útskrift, eins og stefnan beri með sér,námu meðalmánaðarlaun stefnanda sem ríkisstarfsmaður á árinu 2014 534.390krónum. Tólf mánaða tekjur gera þá 6.412.686 krónur. Þegar þessar tekjur erufærðar frá meðaltalsvísitölu launa 2014 (júlí484,7 stig) til stöðugleikapunktsins í maí 2013 (456,5 stig) nemiárslaunin 6.039.594 krónum sem er umtalsvert lægri upphæð en þrautavarakrafastefnanda sé byggð á. Þrautaþrautavarakrafa stefnanda er byggð á launumstefnanda hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í dag, eftir úrskurðgerðardóms samkvæmt lögum nr. 31/2015 frá 14. ágúst 2015. Stefnandi krefst þessað bætur verði þannig reiknaðar á grundvelli launa hennar eftir úrskurðgerðardóms, þ.e. á grundvelli launa 1. september 2015. Samkvæmt þessu viðmiðireiknast árslaunaviðmiðið á stöðugleikapunkti í maí 2013 við 7.207.720 krónur.Kröfugerð þessi sýni að þegar tekjur stefnanda nú séu færðar aftur tilstöðugleikapunktsins í maí 2013 þá séu þær 538.693 krónur,(7.406.004x456,5/523/12) og séu lægri en meðaltekjur félagsmanna íStéttarfélagi lögfræðinga, sem hafi numið í maí 2013 612.966 krónum samkvæmtúttekt BHM um laun starfsmanna ríkisins. Þessi liður kröfugerðarinnar sýni aðþau launaviðmið sem aðal-, vara- og þrautavarakrafa stefnanda byggjast á séufjarri raunverulegum tekjum stefnanda. Þá telur stefndi fráleitt að miða við nýgerðanúrskurð gerðardóms sem kveðinn hafi verið upp tæpum þremur árum eftirumferðarslysið og einu og hálfu ári eftir að stefnandi lauk meistaranámi ílögfræði. Laun samkvæmt úrskurðinum eigi eftir að hækka enn frekar á næstumisserum og mætti því búast við breyttri kröfugerð stefnanda á nokkurra mánaðafresti. Stefndi kveðst hafa fallist áþrautaþrautaþrautavarakröfu stefnanda og greitt bætur í samræmi við þannútreikning sem gerð er grein fyrir í málavaxtalýsingu og fram komi í bréfistefnda til lögmanns stefnanda, og á uppgjörskvittun. Tekur stefndi einnig framað í kjölfar þess að stefnandi hafi í stefnu vakið athygli á því að viðárslaunaviðmið hafi stefndi ekki tekið tillit til persónuuppbótar að fjárhæð73.600 krónur og orlofsuppbótar að fjárhæð 39.500 krónur og að framlaglaunagreiðanda, ríkisins, í lífeyrissjóð stefnanda nemi 11,5% en ekki 8% einsog fram kemur á skaðabótakvittun hafi stefndi endurreiknað skaðabæturnar miðaðvið þessar forsendur þannig: 453.547 x 12 + 73.600 + 39.500 = 5.555.664. Þáhafi stefndi leiðrétt launavísitölu og fært hana til stöðugleikapunktsins í maí2013 og leiðrétt framlag launagreiðanda í lífeyrissjóð í 11,5%. Þannig reiknistbæturnar: 5.555.664 x 456,5/475,3 x 1,115 = 5.949.546. Stefndi hafi því greittstefnanda mismun þessa útreiknings og þess sem greitt var 7. október 2014 ásamtvöxtum. Að mati stefnda sé uppgjörstillagan í alla staði sanngjörn og hafistefnandi því fengið fullar bætur. Í ljósi framangreinds beri að sýkna stefndaaf öllum kröfum stefnanda. IV. Í máli þessu eru deilt umhvaða árslaun beri að leggja til grundvallar bótagreiðslum til stefnanda vegnavaranlegrar örorku sem hún hlaut í umferðarslysi í nóvember árið 2012. Eruaðilar málsins sammála um að beita beri 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við útreikningbóta. Þegar slysið átti sér stað hafði stefnandi lokið BAnámi í lögfræði og hafði jafnframt lokið 78 ECTS einingum af 120 í meistaranámií lögfræði. Hún brautskráðist með meistaragráðu í lögfræði rúmum tveimur árumsíðar í febrúar árið 2014. Að loknu námi hóf stefnandi störf hjá Sýslumanninum […]sem löglærður fulltrúi og hefur starfað við embætti sýslumanna síðan, nú hjáSýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Stefnandi setur dómkröfur sínar fram sem aðalkröfu,varakröfu og þrjár þrautvarakröfur. Í fyrstu þremur dómkröfum stefnanda erbyggt á mismunandi meðaltekjum lögfræðinga á árinu 2012. Aðalkrafa stefnandabyggir á því að miða beri bætur til hennar við meðaltekjur lögfræðinga áslysaárinu 2012 eins og þær komi fram á heimasíðu Hagstofu Íslands. Varakrafastefnanda tekur mið af meðaltekjum lögfræðinga á almennum vinnumarkaði og hjáhinu opinbera. Fyrsta þrautavarakrafa miðast við meðaltekjur félagsmanna ístéttarfélagi lögfræðinga árið 2012 samkvæmt úttekt Bandalags háskólamanna umlaun starfsmanna ríkisins eftir bandalögum og stéttarfélögum. Í annarriþrautavarakröfu telur stefnandi rétt að miða við laun sín hjá Sýslumannihöfuðborgarsvæðis eins og þau eru í dag, en í þriðju og síðustu þrautavarakröfuer þess krafist að stuðst verði að mestu við bótatilboð stefnanda sem tók miðaf launum stefnanda í mars og apríl 2014. Stefndi tekur fram að þegar hafi verið fallist ásíðustu þrautavarakröfu stefnanda. Stefndi hafi við uppgjör bóta til stefnandalitið til þeirra tekna sem stefnandi hafi aflað sér á fyrstu tveimur mánuðumsem lögfræðingur eftir að hún lauk meistaranámi í lögfræði í febrúar árið 2014.Bætur hafi því verið greiddar að fullu til stefnanda í samræmi viðþrautaþrautaþrautavarakröfu stefnanda og að hún eigi ekki rétt á frekari bótagreiðslumúr hendi stefnda. Í 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga er mælt fyrir um aðþegar tjón vegna örorku sé metið skuli líta til þeirra kosta sem tjónþoli á tilað afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til aðhann starfi við. Samkvæmt 1. mgr. 7.gr. skaðabótalaganna skulu árslaun til ákvörðunar bóta skv. 6. gr. teljast verameðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda tillífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðréttsamkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar skulu árslaun þó metin sérstaklega þegaróvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttariá líklegar framtíðartekjur tjónþola. Ákvæði 2. mgr. 7.gr. setur samkvæmt framansögðu tvö skilyrði fyrir því að árslaun skuli ákveðasérstaklega. Annars vegar er það skilyrði að aðstæður hafi verið óvenjulegar.Hins vegar er það skilyrði að hinar óvenjulegu aðstæður leiði til þess að aðrirmælikvarðar séu réttari en þau árslaun þau sem meginreglan í 1. mgr. 7. gr.miðar við um líklegar framtíðartekjur tjónþola.Er það tjónþola að færa sönnur á að framangreind skilyrði séu fyrirhendi og þar með hvaða árslaun það séu sem teljast betri mælikvarði á framtíðartekjurhans. Eins og áður segirvar stefnandi í laganámi þegar hún varð fyrir umferðarslysi á árinu 2012. Húnhóf starfsferil sinn sem lögfræðingur hjá Sýslumanninum […] að loknumeistaranámi í lögfræði í febrúar árið 2014 og hefur starfað sem löglærðurfulltrúi við embætti sýslumanna síðan, nú við embætti Sýslumannsins áhöfuðborgarsvæðinu. Stefnandi hefur ekki aflað sér viðbótarmenntunar að loknulaganámi eða sýnt fram á að slíkt standi fyrir dyrum. Þá liggja ekki fyrir gögnum að launakjör stefnanda komi til með að breytast með þeim hætti að launakjörhennar muni jafnast á við meðaltekjur lögfræðinga hjá hinu opinbera eða áalmennum markaði eins og gerð er grein fyrir í fyrstu þremur dómkröfumstefnanda. Er því fallist á það með stefnda að meðaltekjur lögfræðinga á árinu2012 eins og þær eru settar fram í aðal- vara- og þrautavarakröfu stefnanda,geti ekki talist réttur mælikvarði á framtíðartekjur stefnanda. Víkur þá að síðustutveimur varadómkröfum stefnanda. Sú fyrri tekur mið af launum stefnanda hjáSýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu eins og þau er í dag og eftir úrskurðgerðardóms frá árinu 2015, en hin síðari miðast við laun stefnanda fyrstu tvománuði hennar í starfi hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í febrúar og marsárið 2014. Árslaun tilákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku skal, eins og áður segir, miða við þrjúsíðustu almanaksárin fyrir þann dag ertjón varð, sbr. meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Ekki er því unntað fallast á með stefnanda að miða bætur við laun hennar hjá Sýslumannihöfuðborgarsvæðisins eins og þau eru í dag að viðbættum framtíðarhækkunumsamkvæmt úrskurði gerðardóms sem kveðinn var upp þremur árum eftir að tjónvarð. Hafnar því dómurinn þrautaþrautavarakröfu stefnanda. Stefndi hefur fallist á að miða við árslaun stefnandaeins og þau voru fyrstu tvo mánuði stefnanda í starfi hjá Sýslumanninum […] áárinu 2014. Er það því niðurstaða dómsins að stefndi hafi þegar fallist á oggreitt bætur samkvæmt síðustu þrautavarakröfu stefnanda. Ber því að sýknastefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinnkostnað af rekstri málsins, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferðeinkamála. RagnheiðurSnorradóttir héraðsdómari DÓMSORÐ: Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýknaður af öllumkröfum stefnanda, A, í máli þessu. Málskostnaðurfellur niður. |
Mál nr. 536/2014 | Kærumál Farbann | Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem Xvar gert að sæta farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr.88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga. | Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason ogIngveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. ágúst 2014, sembarst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurðurHéraðsdóms Reykjaness 6. ágúst 2014 þar sem varnaraðila var gert að sætafarbanni allt til miðvikudagsins 3. september 2014 klukkan 16. Kæruheimild er íl. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilikrefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en tilvara að farbanninu verði markaður skemmri tími eða til 21. ágúst 2014. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili undir rökstuddum grun um brotgegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðað geturfangelsisrefsingu og er því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr.100. gr. laga nr. 88/2008. Í því tilliti skiptir ekki máli hvort refsing viðætluðu broti kunni að verða skilorðsbundin, en í síðastgreindu lagaákvæði erekki vísað til 3. mgr. 95. gr. laganna. Að þessu gættu en að öðru leyti meðvísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinnkærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 382/2003 | Meiðyrði Stjórnarskrá Tjáningarfrelsi Friðhelgi einkalífs Miskabætur | B sótti um stöðu kennara við HÍ og sátu G, H og J í dómnefnd sem meta skyldi hæfi umsækjenda í samræmi við 12. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands. Talið var að tilgreind tvenn ummæli, sem komu fram í áliti dómnefndarinnar um störf B, hefðu verið ærumeiðandi og voru þau dæmd ómerk og B dæmdar miskabætur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. september 2003. Hann krefst þess að síðargreind ummæli í áliti dómnefndar um starf kennara í fornleifafræði við heimspekideild Háskóla Íslands verði dæmd dauð og ómerk og að stefndu greiði honum óskipt 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.000.000 krónum frá 28. nóvember 2002 til uppsögu dóms í málinu, en af 1.500.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara, að fjárkrafa áfrýjanda verði lækkuð. I. Málsatvik eru rakin í héraðsdómi og eru þau ágreiningslaus. Stefndu sátu í dómnefnd til að meta hæfi sækjenda um starf kennara, dósents eða lektors, í fornleifafræði við sagnfræðiskor heimspekideildar Háskóla Íslands, sem auglýst var 31. desember 2001. Áfrýjandi var einn fjögurra umsækjenda, og þau ummæli sem krafist er ómerkingar á, komu fram í áliti dómnefndarinnar. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að einn umsækjenda væri hæfur til að gegna starfi dósents og annar til að gegna starfi lektors. Tveir voru ekki taldir hæfir. Annar þeirra var áfrýjandi en hinn dró umsókn sína til baka, og var umsögn dómnefndar um hann felld niður í endanlegri gerð dómnefndarálitsins. Hin átöldu ummæli voru í þeim hluta dómnefndarálits sem fjallaði um áfrýjanda. Hann segir að í álitsgerðinni komi fram ýmis ummæli, sem vegi að æru hans og persónu, en einkum séu það tvenn ummæli sem séu mjög ærumeiðandi fyrir hann. Þau séu lítt eða ekki rökstudd þótt þau feli í sér sterkar fullyrðingar um störf hans. Ummælin séu sérlega meiðandi fyrir fornleifafræðing sem sinni mikið rannsóknum, meðal annars fyrir opinbera aðila. Hann telur samhengis vegna nauðsynlegt að birtur sé eftirfarandi texti úr álitinu, en þar séu feitletruð ummælin sem krafist er ómerkingar á: 1. „Minjarnar í Hólmi í Laxárdal virðast vera enn eitt dæmi um landnámsbýli sem ekki var vitað um áður og rannsókn þeirra er því mikilvægt framlag til rannsókna á fyrstu byggð í landinu. Lítið verður sett út á aðferðir Bjarna við uppgröftinn. Sama er ekki hægt að segja um túlkun hans á minjunum. Þar slær hann fram fullyrðingum sem ekki eru byggðar á neinum rökum, en það er hreint og beint ábyrgðarleysi.“ 2. „Rannsóknin var gerð fyrir Vegagerðina vegna fyrirhugaðrar vegagerðar sem kæmi til með að eyðileggja rúst á Snæfellsnesi. Farið var út í nákvæma fornleifarannsókn á nausti frá 20. öld sem upplýsingar hefði mátt fá um frá staðarmönnum fyrir rannsókn. Rústin, sem var eyðilögð við rannsóknina, var ekki staðsett í landskerfi. Tilgangi rannsóknarinnar var því ekki náð og illa var farið með almannafé.“ Áfrýjandi sendi athugasemdir við niðurstöðu dómnefndarinnar með bréfi til rektors Háskóla Íslands 12. maí 2002 og fór fram á að niðurstaðan yrði ógilt og skipuð ný nefnd, sem fjallaði á nýjan leik um umsækjendur. Hann gerði og athugasemdir við skipan dómnefndarinnar, efnislega meðferð hennar á umsókn hans og umsögn hennar um einstök ritverk hans sem fylgdu umsókninni. Rektor sendi athugasemdirnar til stefndu, sem svöruðu þeim með bréfi í sama mánuði. Þar tekur dómnefndin fram að athugasemdir áfrýjanda breyti ekki niðurstöðu hennar. Engu að síður viðurkenndi nefndin að „óþarflega fast“ hafi verið kveðið að orði í álitinu og felldi því niður í endanlegri álitsgerð síðasta málsliðinn í umsögn um rannsókn á Hjarðarbólsodda, sem feitletraður er undir 2. tölulið. Áfrýjandi reisir kröfu sína varðandi hin auðkenndu ummæli undir 1. tölulið á því að fullyrðing dómnefndar um að hann hafi ekki stutt niðurstöðu sína neinum rökum sé röng. Fullyrðingin um ábyrgðarleysi sé engum rökum studd. Með henni hafi dómnefndin farið út fyrir hlutverk sitt og kveðið upp eins konar siðferðisdóm yfir honum. Telur hann ummælin mjög móðgandi fyrir sig og því brot á 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Varðandi ummælin undir 2. tölulið bendir áfrýjandi á, að þau séu bæði harkaleg og ósönn. Dómnefndin hefði getað leitað nánari skýringa áður en þau voru birt en ekki gert. Eftir að skýring hafði verið veitt hafi ummælin verið felld úr lokagerð álitsins. Ummælin séu tilhæfulausar, ærumeiðandi aðdróttanir í hans garð, sett fram ófyrirsynju og því brot á 235. gr. almennra hegningarlaga. Engu breyti þótt nefndin hafi fellt ummælin niður í endanlegri útgáfu álitsins, brotið hafi verið fullframið með gerð upphaflega álitsins og sendingu þess til rektors. Áfrýjandi segir ekki um það deilt að gagnrýni á verk hans og annarra umsækjenda sé nauðsynlegur hluti starfa nefndarinnar og njóti hún því rýmkaðs tjáningarfrelsis. Öll gagnrýni slíkrar nefndar verði hins vegar að byggjast á traustum rökum, auk þess að falla undir starfssvið hennar og vera í samræmi við hlutverk hennar. Því séu gerðar kröfur um sanngjarnan og hófsaman búning gagnrýninnar, ummælin megi ekki vera staðlausar dylgjur. Málsástæður stefndu eru raktar í héraðsdómi. Stefndu halda því meðal annars fram að hin átöldu ummæli séu gildisdómar en ekki staðhæfingar um staðreyndir. Samkvæmt dómaframkvæmd í meiðyrðamálum verði gildisdómar ekki sannaðir, þeir séu skoðanir sem ekki feli sér ærumeiðingar í opinberri umræðu. II. Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands var hlutverk stefndu, sem annarra dómnefndarmanna, að láta uppi rökstutt álit um það hvort ráða mætti af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann væri hæfur til að gegna starfinu. Dómnefndinni bar að fylgja almennum málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar og rækja starf sitt með alúð og samviskusemi í hvívetna og gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 14. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þeim bar samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar að sjá til þess að nægar upplýsingar lægju fyrir svo að unnt væri að fjalla um álitið á málefnalegan hátt. Ítarleg fyrirmæli um dómnefndir, mat á hæfi umsækjenda, dómnefndarálit og meðferð þess, svo og afgreiðslu máls, eru í 42. - 45. gr. reglugerðar nr. 458/2000 fyrir Háskóla Íslands. Í 8. mgr. 42. gr. hennar kemur fram að dómnefnd sé heimilt að afla frekari gagna um umsækjendur, telji hún þau nauðsynleg til að leggja mat á hæfi þeirra. Stefndu njóta tjáningarfrelsis samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar, og allar takmarkanir á því ber að skýra þröngt. Ágreiningslaust er að þetta frelsi stefndu sé rúmt vegna stöðu þeirra og skyldu til að leggja dóm á og gagnrýna verk áfrýjanda og annarra umsækjenda. Álitaefni máls þessa er því um mörk frelsis stefndu til tjáningar og æruverndar áfrýjanda samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Fallast ber á með stefndu að gildisdómar í opinberri umræðu um samfélagsleg málefni séu almennt ekki refsiverðir. Hins er að gæta, að með umsókn sinni um starfið tók áfrýjandi ekki þátt í opinberri umræðu um samfélagsmál og ummæli stefndu um hann féllu ekki í slíkri umræðu heldur drögum að dómnefndaráliti, sem samið skyldi eftir ströngum reglum, þar sem engin réttlæting er fyrir því að vegið sé að æru manna. Í þessu ljósi verða ummælin skoðuð. 1. töluliður. Fyrir héraðsdómi voru tvö af stefndu spurð um fyrri ummælin, að áfrýjandi hafi slegið fram „fullyrðingum sem ekki eru byggðar á neinum rökum, en það er hreint og beint ábyrgðarleysi.“ Annað þeirra svaraði, að þeim hafi ekki þótt áfrýjandi rökstyðja þetta nógu vel, og hitt, að rök hans hafi ekki verið gild að þeirra mati. Mikill munur er á því að segja að fullyrðingar séu ekki byggðar á neinum rökum og að segja að rökin séu ekki fullnægjandi eða ekki gild að mati álitsgjafa. Hið síðara hefðu stefndu hæglega getað sagt í álitinu, en gerðu ekki. Ummæli stefndu eru röng og meiðandi fyrir áfrýjanda og til þess fallin að skerða fræðimannsheiður hans. Með þeim gerðust stefndu brotleg við 234. gr. almennra hegningarlaga og ber að ómerkja ummælin samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laganna. 2. töluliður. Síðari ummælin tóku stefndu úr drögum að áliti eftir að hafa fengið skýringu frá áfrýjanda. Þau hafa ekki borið því við sér til varnar í málinu að þar með hafi ummælin orðið þeim refsilaus. Skýringuna gátu þau hæglega fengið áður en þau létu þessi ummæli frá sér fara, enda mátti ljóst vera að viðkomandi rannsókn hafi verið gerð að beiðni Vegagerðarinnar og kostuð af henni. Með ummælunum dróttuðu þau að áfrýjanda eyðslusemi og ófaglegum vinnubrögðum. Ummælin fela því í sér siðferðisdóm, sem er meiðandi fyrir áfrýjanda, enda tilhæfulaus og óviðurkvæmileg í dómnefndaráliti. Þau eru brot á 235. gr. almennra hegningarlaga og verða því einnig dæmd ómerk samkvæmt 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Í málinu krefst áfrýjandi sem fyrr segir greiðslu á 1.500.000 krónum úr hendi stefndu, þar af 1.000.000 krónum í miskabætur og 500.000 krónum til að standa straum af birtingu dómsins í þremur dagblöðum. Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum skal sá sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn æru manns greiða honum miskabætur. Þau skilyrði eru uppfyllt í þessu máli. Við ákvörðun bótafjárhæðar verður að líta til þess að með forsendum þessa dóms út af fyrir sig hefur hlutur áfrýjanda verið réttur eftir því sem efni standa til. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 100.000 krónur. Verður stefndu gert að greiða áfrýjanda fjárhæðina sameiginlega ásamt vöxtum, eins og í dómsorði greinir. Ekki eru efni til að taka til greina kröfu áfrýjanda um fjárgreiðslu vegna birtingar dóms, þar sem ummæli stefndu voru ekki birt í fjölmiðlum. Stefndu verða dæmd til að greiða áfrýjanda sameiginlega málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi, eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Framangreind ummæli eru ómerk. Stefndu, Guðrún Sveinbjarnardóttir, Helgi Þorláksson og John Hines, greiði áfrýjanda, Bjarna F. Einarssyni, sameiginlega 100.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. nóvember 2002 til greiðsludags. Stefndu greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2003. Mál þetta, sem dómtekið var 5. júní sl., er höfðað 28. nóvember 2002 af Bjarna F. Einarssyni, Framnesvegi 24b, Reykjavík, á hendur Guðrúnu Sveinbjarnardóttur, Skálholtsstíg 2, Reykjavík, Helga Þorlákssyni, Seljavegi 10, Reykjavík, og John Hines, 41 Stanwell Rd., Penarth, CF64 3LR, United Kingdom. Stefnandi krefst þess að neðangreind ummæli í áliti dómnefndar um starf lektors eða dósents í fornleifafræði við heimspekideild Háskóla Íslands verði dæmd dauð og ómerk. Einnig krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða honum in solidum 1.000.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi, 28. nóvember 2002, og að dráttarvextir leggist við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 28. nóvember 2003. Enn fremur krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða honum in solidum 500.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu í þremur dagblöðum, að dæmd fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá dómsuppkvaðningu og að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Stefnandi krefst málskostnaðar úr höndum stefndu in solidum að mati dómsins og að tekið verði tillit til þess að greiða þurfi virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Ummælin sem krafist er ómerkingar á koma fram í áliti dómnefndarinnar frá 23. apríl 2002 og eru undirstrikuð og feitletruð í eftirfarandi texta: "Minjarnar í Hólmi í Laxárdal virðast vera enn eitt dæmi um landnámsbýli sem ekki var vitað um áður og rannsókn þeirra er því mikilvægt framlag til rannsókna á fyrstu byggð í landinu. Lítið verður sett út á aðferðir Bjarna við uppgröftinn. Sama er ekki hægt að segja um túlkun hans á minjunum. Þar slær hann fram fullyrðingum sem ekki eru byggðar á neinum rökum, en það er hreint og beint ábyrgðarleysi." "Rannsóknin var gerð fyrir Vegagerðina vegna fyrirhugaðrar vegagerðar sem kæmi til með að eyðileggja rúst á Snæfellsnesi. Farið var út í nákvæma fornleifarannsókn á nausti frá 20. öld sem upplýsingar hefði mátt fá um frá staðarmönnum fyrir rannsókn. Rústin, sem var eyðilögð við rannsóknina, var ekki staðsett í landskerfi. Tilgangi rannsóknarinnar var því ekki náð og illa var farið með almannafé." Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara er krafist verulegrar lækkunar á fjárkröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi og að við ákvörðun málskostnaðar verði þess gætt að greiða beri virðisaukaskatt af lögmannsþóknun. Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna Stefnandi sótti um kennarastarf í fornleifafræði sem auglýst var laust til umsóknar við sagnfræðiskor heimspekideildar Háskóla Íslands í Morgunblaðinu 31. desember 2001. Aflað var umsagnar dómnefndar sem skipuð var samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999. Í áliti nefndarinnar frá 23. apríl 2002 koma fram ummæli sem stefnandi telur að vegi að æru og persónu hans. Einkum séu þó tvenn ummæli mjög ærumeiðandi fyrir hann. Þau séu lítt eða ekki rökstudd þrátt fyrir að þau feli í sér sterkar fullyrðingar um störf hans. Stefnandi krefst miskabóta vegna þessa. Stefnandi telur ummælin jafnframt óviðurkvæmileg og krefst hann að þau verði ómerkt og að stefndu verði gert að greiða kostnað við birtingu dóms í dagblöðum. Stefndu mótmæla því að ummælin séu óviðurkvæmileg eða ærumeiðandi í garð stefnanda. Í þeim komi fram mat á störfum stefnanda og vísindalegu gildi rannsókna sem hann hafi lagt fram til mats. Dómnefndin hafi því eingöngu gert það sem henni hafi borið að gera samkvæmt lögum. Mótmælt er að álit nefndarinnar sé ekki nægilega rökstutt eða að nefndin hafi farið út fyrir þau mörk sem henni væru sett í lögum. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að með auglýsingu 31. desember 2001 hafi verið auglýst laust til umsóknar starf lektors eða dósents í fornleifafræði við sagnfræðiskor heimspekideildar Háskóla Íslands. Í auglýsingunni hafi meðal annars komið fram að niðurstöður mats dómnefndar á hæfi umsækjenda yrðu lagðar til grundvallar því hvort sá eða sú sem starfið hlyti yrði ráðinn sem dósent eða lektor. Í auglýsingunni hafi verið óskað eftir skýrslu umsækjenda um vísindastörf, rannsóknir og ritsmíðar auk yfirlits yfir námsferil og störf. Einnig skyldu fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf eftir því sem við ætti. Fjórir hafi sótt um starfið. Rektor Háskóla Íslands hafi skipað þriggja manna dómnefnd til að meta hæfi umsækjenda um stöðuna, sbr. 42. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000. Nefndin hafi verið skipuð stefndu, þeim Helga Þorlákssyni prófessor í sagnfræði, sem hafi verið tilnefndur af háskólaráði, John Hines prófessor í fornleifafræði, tilnefndur af menntamálaráðuneytinu, og dr. Guðrúnu Sveinbjarnardóttur fornleifafræðingi, sem hafi verið tilnefnd af heimspekideild Háskóla Íslands, og skyldi hún vera formaður nefndarinnar. Í áliti dómnefndarinnar um hæfi allra fjögurra umsækjenda frá 23. apríl 2002 sé gert grein fyrir hverjum umsækjanda um sig, farið yfir nám þeirra og störf, umsagnir og rannsóknir skoðaðar auk reynslu þeirra af kennslu og stjórnun. Niðurstaða dómnefndarinnar hafi verið sú að tveir umsækjenda væru hæfir til að gegna þeirri stöðu sem auglýst var. Nefndin hafi talið að Margrét væri hæf til að gegna stöðu lektors og Orri til að gegna starfi dósents. Jafnframt hafi dómnefndin talið að stefnandi og fjórði umsækjandinn væru ekki hæf til að gegna þessum stöðum. Stefnandi hafi gert athugasemdir við niðurstöðu dómnefndarinnar með bréfi til rektors Háskóla Íslands, dagsettu 12. maí 2002. Í bréfinu hafi hann farið fram á að niðurstaða nefndarinnar yrði ógilt og að ný nefnd yrði sett á fót sem fjallaði á nýjan leik um umsækjendur. Stefnandi hafi gert athugasemdir við skipan dómnefndarinnar, efnislega meðferð hennar á umsókn stefnanda og umsögn hennar um einstök ritverk stefnanda sem fylgt hafi umsókn hans. Rektor hafi ekki svarað þessu erindi en hann hafi sent athugasemdirnar til dómnefndarinnar sem hafi svarað þeim með bréfi, dagsettu 27. maí 2002. Í því bréfi hafi dómnefndin tekið fram að athugasemdir stefnanda um álit nefndarinnar breyttu ekki niðurstöðum hennar. Engu að síður hafi dómnefndin fallist á að "óþarflega fast" hafi verið kveðið að orði í álitinu og hafi hún því fellt niður síðasta málslið í umsögn um rannsókn á Hjarðarbólsodda. Þrátt fyrir athugasemdir stefnandi við álit dómnefndarinnar hafi rektor ákveðið að hætta hvorki við ráðningu í stöðuna né auglýsa hana á ný og hafi hann ráðið einn umsækjenda á grundvelli hins umdeilda álits dómnefndarinnar. Stefnandi telji að dómnefndin hafi farið út fyrir valdsvið sitt og vegið að æru hans í hinu umdeilda mati. Kveðinn hafi verið upp siðferðisdómur yfir verkum stefnanda en ummælin séu sérlega meiðandi fyrir fornleifafræðing sem sinni mikið rannsóknum, m.a. fyrir opinbera aðila. Stefnandi hafi höfðað málið til að fá framangreind ummæli í álitinu dæmd dauð og ómerk og til að slík ómerking verði gerð opinber með birtingu dómsins í fjölmiðlum. Jafnframt krefjist stefnandi þess að stefndu greiði honum in solidum miskabætur fyrir hin ærumeiðandi ummæli. Vísað sé til þess að æra stefnanda sé vernduð samkvæmt íslenskum rétti. Í 71. gr. stjórnarskrárinnar sé meðal annars kveðið á um friðhelgi einkalífs og æra manns njóti refsiverndar samkvæmt XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk verndar vegna ákvæða 26. gr. laga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Stefnandi telji hin umstefndu ummæli ærumeiðandi og að þau brjóti gegn 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 127. og 128. gr. laga nr. 82/1998. Stefnandi krefjist þess að ummælin verði dæmd óviðurkvæmileg og því ómerk, sbr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Á grundvelli ofangreindra lagafyrirmæla telji stefnandi að dómnefnd um starf lektors eða dósents í fornleifafræði við heimspekideild Háskóla Íslands hafi farið langt út fyrir starfssvið sitt og hafi haft uppi ærumeiðandi móðganir og aðdróttanir í áliti sínu. Með þessu hafi verið vegið ósæmilega að starfsheiðri stefnanda og persónu og því beri stefndu að greiða stefnanda in solidum miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna, eða samkvæmt mati réttarins, í samræmi við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Dómnefndin sé matsaðili um hæfi umsækjanda. Við matið beri henni að láta uppi rökstutt álit um það hvort ráða megi af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda svo og af námsferli hans og störfum að hann sé hæfur til að gegna starfinu. Gagnrýni dómnefndarinnar á verk stefnanda og annarra umsækjanda sé nauðsynlegur hluti af starfi nefndarinnar og njóti því slík dómnefnd rýmkaðs tjáningarfrelsis og geti látið uppi gagnrýni á hugverk stefnanda. Hvorki sé deilt um þetta hlutverk dómnefndarinnar né heimildir hennar. Nefndinni sé heimilt og skylt að gagnrýna verk stefnanda sem og annarra umsækjenda. Öll gagnrýni dómnefndar eigi hins vegar að byggjast á traustum rökum og þar að auki verði hún að falla undir starfssvið hennar og vera í samræmi við hlutverk hennar. Af þeim sökum verði að gera kröfur um sanngjarnan og hófsaman búning gagnrýni; ummælin þurfi að vera rökstudd en megi ekki vera staðlausar dylgjur. Frá þessu hafi verið brugðið í hinu umdeilda áliti dómnefndarinnar. Ummælin gangi alltof langt, þau séu til þess fallin að meiða æru stefnanda og þau geti ekki talist eðlileg eða sanngjörn gagnrýni. Stefndu hafi sjálf viðurkennt að "óþarflega fast" hafi verið kveðið að orði og hafi samþykkt að fella niður ákveðin eigin ummæli eins og fram komi í umsögn stefndu frá 27. maí 2002. Þessi niðurfelling breyti engu um brot stefndu á 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en það hafi verið fullframið með gerð upphaflega álitsins og sendingu þess. Við munnlegan málflutning kom fram að stefndu hefðu átt að kalla eftir skýringum á rannsókn stefnanda, teldu stefndu þær vanta við matið. Krafa stefnanda um miskabætur byggi á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Samkvæmt þessu ákvæði skaðabótalaga sé heimilt að láta þann sem beri ábyrgð á "ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við." Tilgreind ummæli í álitsgerð dómnefndarinnar feli í sér "ólögmæta meingerð" gegn æru og persónu stefnanda í ofangreindum skilningi. Þannig sé skilyrðum lagagreinarinnar fullnægt og sé þess því krafist að fallist verði á miskabótakröfu stefnanda að fjárhæð 1.000.000 króna eða að mati réttarins. Stefnandi telji hin umstefndu ummæli varða við 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 127. og 128. gr. laga nr. 82/1998. Krafa stefnanda um ómerkingu ummæla byggðist á 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga og krafa um að stefndu verði dæmdir til að greiða kostnað af birtingu dómsins á 2. mgr. 241. gr. sömu laga. Krafa stefnanda um miskabætur sé byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Vaxtakrafa sé byggð á III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, en málskostnaðarkrafan styðjist við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Málsástæður og lagarök stefndu Stefndu vísa til þess að þau hafi verið skipuð í dómnefnd í samræmi við 3. mgr. 12. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands til að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna starfi kennara í fornleifafræði við sagnfræðiskor heimspekideildar Háskóla Íslands sem hafi verið auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu 31. desember 2001. Umsóknir hafi borist frá fjórum einstaklingum og hafi stefnandi verið einn þeirra. Stefndu hafi skilað rektor áliti 23. apríl 2002 og hafi tveir umsækjenda verið taldir hæfir til að gegna starfi kennara í fornleifafræði, annar sem lektor en hinn sem dósent. Stefnandi hafi hvorki verið talinn hæfur til að gegna starfi lektors né dósents í fornleifafræði. Í samræmi við 3. mgr. 45. gr. reglna nr. 458/2000 hafi rektor sent umsækjendum álitið og gefið þeim kost á að gera skriflegar athugasemdir áður en það yrði sent heimspekideild til afgreiðslu. Athugasemdir hafi borist frá tveimur umsækjenda, en einn þeirra hafi dregið umsókn sína til baka. Í athugasemdum sem stefnandi hafi sent rektor hafi þess verið krafist að álit dómnefndarinnar yrði ógilt og ný dómnefnd skipuð til að meta hæfi umsækjenda. Kröfuna hafi stefnandi meðal annars byggt á því að stefndu hefðu farið rangt með og sleppt mikilvægum atriðum við kynningu á störfum stefnanda, ekki gætt jafnræðis í fræðilegu mati og haft uppi ærumeiðandi ummæli um störf stefnanda. Stefnandi hafi einnig sett fram athugasemdir um sérstakt og almennt hæfi stefndu til setu í dómnefndinni. Stefndu hafi ekki talið tilefni til að gera breytingar á niðurstöðum dómnefndarálitsins. Þau hafi skilað skriflegri umsögn um athugasemdir stefnanda við dómnefndarálitið og endanlegu áliti 27. maí 2002. Í umsögn stefndu um athugasemdir stefnanda hafi verið fallist á að í umsögn um rannsókn á Hjarðarbólsodda hafi verið kveðið óþarflega fast að orði og lokamálsliður umsagnarinnar felldur út úr álitinu. Hafi það verið gert með vísan til skýringa stefnanda og nýrra upplýsinga um óskir yfirvalda sem hafi óskað eftir rannsókninni. Rektor hafi sent dómnefndarálitið deildarforseta heimspekideildar til meðferðar. Eftir umfjöllun í stöðunefnd og sagnfræðiskor hafi dómnefndarálitið verið lagt fram til umfjöllunar og atkvæðagreiðslu á deildarfundi heimspekideildar 19. júní 2002. Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands skuli dómnefnd "láta uppi rökstutt álit um það hvort ráða megi af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann sé hæfur til að gegna starfinu." Í 43. gr. reglna nr. 458/2000 sé að finna nánari fyrirmæli um þau sjónarmið sem dómnefnd beri að leggja til grundvallar við mat sitt á hæfi umsækjenda. Samkvæmt 5. mgr. 43. gr. skuli við mat á rannsóknum leggja megináherslu á vísindagildi þeirra. Þá beri við matið að "athuga frumleika rannsóknarverkefnis og sjálfstæði gagnvart öðrum rannsóknum og ritverkum, þekkingu á stöðu rannsókna á viðkomandi fræðasviði, meðferð heimilda og vísindaleg vinnubrögð, fræðilegar nýjungar og eftir atvikum notagildi rannsókna." Starf dómnefnda felist samkvæmt framansögðu að verulegu leyti í því að meta hvort framlögð ritverk umsækjenda uppfylli þær kröfur sem gera verði til kennara á viðkomandi fræðasviði við Háskóla Íslands. Reglum laga nr. 41/1999 og reglum nr. 458/2000 um mat á hæfi umsækjenda sé ætlað að tryggja að til starfans veljist einungis einstaklingar sem búi yfir nægilegri þekkingu og reynslu til að þeir geti talist hæfir til að miðla af þekkingu sinni til nemenda við æðstu menntastofnun landsins. Áhersla sé lögð á rannsóknir og fræðiskrif umsækjenda, enda verði helst ráðið af þeim hvort umsækjandi hafi tamið sér þau vísindalegu vinnubrögð sem kennarar við Háskóla Íslands verði að hafa tileinkað sér. Stefnandi krefjist þess að tvenn ummæli í umsögnum stefndu um framlögð ritverk hans verði dæmd dauð og ómerk. Annars vegar sé um að ræða umsögn stefndu þar sem fjallað sé um skrif stefnanda um minjar sem fundist hafi í Hólmi í Laxárdal. Stefndu hafi talið verulega á það skorta í skrifum stefnanda að rök væru færð fyrir tilgátum eða staðhæfingum. Að mati stefndu sé það ábyrgðarleysi af stefnanda að slá fram fullyrðingum í fræðiskrifum án fullnægjandi raka. Gera verði þær kröfur til fræðimanna að þeir sýni aðgætni við túlkun heimilda og beiti vísindalegum aðferðum við að komast að niðurstöðum. Enn fremur verði að gera ríkar kröfur til þess að stefnandi færi sannfærandi rök fyrir fullyrðingum sínum eða tilgátum enda hafi verið um einstakan fund á minjum að ræða. Í umsögn stefndu sé meðal annars vísað til þess að niðurstaða um afstöðu jarðhýsisins í tíma til kumlsins sjálfs eða afstaða þess til bæjarstæðis kynni að varpa einhverju ljósi á eðli þessara minja. Þá hefði án nokkurs vafa verið þörf samanburðar við aðrar minjar, sem hefðu fundist, áður en slegið verði fram fullyrðingum af þessu tagi. Athugasemd stefndu um ábyrgðarleysi stefnanda verði að skoða í þessu samhengi. Hlutverk stefndu hafi verið að meta meðhöndlun stefnanda á heimildum og vinnubrögð sem hann hafi viðhaft við rannsóknir og túlkanir á helstu niðurstöðum slíkra rannsókna. Niðurstaða stefndu um að stefnandi hafi ekki gætt ábyrgrar fræðilegrar nálgunar að niðurstöðum eða tilgátum geti ekki með nokkru móti talist ærumeiðandi í skilningi 234. eða 235. gr. almennra hegningarlaga. Síðari ummælin, sem dómkröfur stefnanda taki til, sé að finna þar sem stefndu hafi fjallað um skýrslu stefnanda um fornleifarannsókn á rúst á Hjarðarbólsodda við Kolgrafarfjörð á Snæfellsnesi. Um hafi verið að ræða nákvæma fornleifarannsókn á nausti frá 20. öld sem staðarmenn hefðu haft upplýsingar um. Stefndu telji að upplýsingar hefði mátt fá með mun umfangsminni rannsókn. Rústin hafi verið eyðilögð við rannsóknina án þess að hafa áður verið staðsett í landskerfi. Af þessum sökum hafi stefndu talið að tilgangi rannsóknarinnar hefði ekki verið náð og hafi þau talið það gagnrýnivert. Tilvísun stefndu til þess að illa hafi verið farið með almannafé verði ekki skilin á annan hátt en þann að þeir fjármunir sem varið hafi verið til þessa verks hefðu að þeirra mati verið betur nýttir til annarra verka. Að mati stefndu sé það ábyrgðarhluti hjá fornleifafræðingi að eyða tíma og fjármunum til nákvæmra rannsókna á rústum sem standi okkur þetta nærri í tíma og afla hefði mátt upplýsinga um með öðrum og einfaldari hætti. Samkvæmt þjóðminjalögum nr. 107/2001 teljist minjar 100 ára og eldri til fornleifa og því ljóst að umrætt naust teljist ekki til fornleifa. Fjármunir til fornleifarannsókna séu af skornum skammti og afar mikilvægt að þeir séu vel nýttir. Gera verði þá kröfu til sérfræðinga sem veiti þjónustu við eftirlit og uppgröft fornleifa að þeir meti á ábyrgan hátt hverjar framkvæmdir séu nauðsynlegar til að tryggja að ákvæði laga um verndun slíkra minja séu uppfyllt. Í athugasemdum stefnanda við umsögn stefndu um þessa rannsókn komi fram að yfirvöld hafi farið fram á að umrædd rúst yrði rannsökuð með þessum tiltekna hætti. Í skýrslu stefnanda um rannsóknina hafi hins vegar hvorki verið gerð grein fyrir ástæðum né hver þörf hafi verið á hinni nákvæmu rannsókn. Í ljósi þessara nýju upplýsinga frá stefnanda hafi stefndu fallist á að fella niður síðasta málsliðinn í umsögn um rannsóknina. Ákvörðun um að fella ummælin niður verði hins vegar ekki jafnað til þess að stefndu hafi með því viðurkennt að ummælin væru ærumeiðandi í garð stefnanda. Stefndu telji þvert á móti að færð hafi verið fram fullnægjandi rök fyrir ummælunum. Í ljósi athugasemda stefnanda hafi það hins vegar verið mat stefndu að ummælanna væri ekki þörf og að fram hafi komið upplýsingar frá stefnanda sem hafi skýrt ástæður þess að farið var í svo umfangsmiklar rannsóknir. Hvorug ummælanna geti þó talist aðdróttun í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með aðdróttun sé fyrst og fremst átt við ásakanir um refsivert athæfi en ummæli stefndu verði ekki skilin þannig þegar virt er það samhengi sem þau hafi verið sett fram í. Skilyrði fyrir því að ummælin teljist refsiverð samkvæmt 235. gr. laganna séu þau að því sé beinlínis haldið fram að refsiverður, eða eftir atvikum annar, ólögmætur eða ósiðlegur, verknaður hafi verið framinn vísvitandi. Því fari fjarri að slík skilyrði séu uppfyllt. Við mat á því hvort ummæli stefndu færu í bága við 234. gr. sömu laga verði meðal annars að líta til þess hvort þau lýsi að almannadómi verulegri óvirðingu eða fyrirlitningu eða séu niðrandi um persónugildi þess sem fyrir verði. Ummælin kunni að vekja hugmyndir um að stefnanda skorti að einhverju marki hæfileika eða þekkingu. Í því sambandi verði að líta til þess að stefndu hafi verið ætlað samkvæmt lögum og reglum um Háskóla Íslands að færa fram rökstudda gagnrýni á verk stefnanda og komast að niðurstöðu um það hvort ráða mætti af verkum hans að hann uppfyllti þær kröfur sem gera verði til kennara við skólann um ábyrg og vísindaleg vinnubrögð. Slík gagnrýni kunni á stundum að þykja harkaleg fyrir þann sem í hlut eigi. Hins vegar sé nauðsynlegt að dómnefndir njóti svigrúms til slíkrar gagnrýni ella sé hætta á að þær nái ekki tilgangi sínum. Jafnframt beri að líta til þess að ummæli stefndu um skýrslu stefnanda um Hjarðarbólsodda hafi einungis verið sett fram í drögum sem ætluð hafi verið umsækjendum einum til umsagnar. Með þessu ferli sé tryggt að umsækjendur geti komið að athugasemdum og leiðréttingum við umsögn dómnefndar áður en álit nefndarinnar verði lagt fram til atkvæðagreiðslu á deildarfundi. Dómnefnd gefist því svigrúm til breytinga eða leiðréttinga á dómnefndaráliti áður en það verði gefið út í endanlegri mynd. Stefndu vísi til 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944 og 10. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Með þessum lagagreinum sé stefndu tryggður réttur til tjáningarfrelsis. Þau hafi notið rýmkaðs tjáningarfrelsis við mat sitt á verkum umsækjenda og sé vísað þar til hlutverks dómnefnda samkvæmt lögum og reglum um Háskóla Íslands. Mat stefndu, þar með talin hin umstefndu ummæli, sé gildisdómur sem geti ekki falið í sér ærumeiðingar í garð stefnanda. Hin umstefndu ummæli séu vel innan marka tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrár. Umfjöllun stefndu um verk stefnanda beri þess ekki á nokkurn hátt merki að ætlun þeirra hafi verið að óvirða stefnanda. Stefnandi hafi í dómnefndarálitinu verið látinn njóta þess sem vel hafi verið gert, einkum við störf á vettvangi. Stefndu telja skilyrði miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ekki vera fyrir hendi. Engar þær hvatir eða ástæður hafi legið að baki umsögnum stefndu um ritverk stefnanda að þær geti talist ólögmæt meingerð gegn stefnanda. Þá sé fjárhæð miskabótakröfunnar mótmælt sem of hárri. Um varakröfuna sé vísað til þess að telji dómurinn að stefndu hafi brotið gegn ákvæðum 234. gr. eða 235. gr. almennra hegningarlaga sé þess krafist að fjárkröfur stefnanda verði verulega lækkaðar. Því sé mótmælt að stefnandi geti átt rétt til greiðslu á 500.000 krónum til birtingar dóms í þremur dagblöðum. Stefndu hafi ekki staðið að opinberri birtingu hinna umstefndu ummæla, en þau hafi eingöngu birst í dómnefndarálitinu sem ætlað hafi verið þröngum hópi manna. Líta verði einnig til þess að einungis hluta ummælanna hafi verið að finna í endanlegri útgáfu dómnefndarálitsins sem sent hafi verið deildarfundi til ákvörðunar. Ákvæði 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga sé heimildarákvæði sem verði ekki beitt um tilvik af þessu tagi. Þá sé fjárhæðum krafna í 2. og 3. tölulið dómkrafna mótmælt sem of háum. Upphafstíma dráttarvaxta í aðal- og varakröfu sé mótmælt og þess krafist að hann miðist við dómsuppsögu í héraði eða eftir atvikum Hæstarétti. Málskostnaðarkrafan sé byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991. Niðurstaða Stefndu áttu sæti í dómnefnd, sem skipuð var samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999, en hlutverk nefndarinnar var að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna kennarastarfi í fornleifafræði við heimspekideild Háskóla Íslands. Hin umdeildu ummæli koma fram í áliti dómnefndarinnar frá 23. apríl 2002. Í auglýsingu um starfið kemur meðal annars fram að umsókn þurfi að fylgja greinargóð skýrsla um vísindastörf umsækjanda, rannsóknir og ritsmíðar, svo og yfirlit um námsferil og störf. Nefndinni bar samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar að láta í té rökstutt álit á því hvort ráða mætti af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann væri hæfur til að gegna starfinu, sbr. og 1. mgr. 43. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000, sbr. 1. gr. reglna nr. 718/2001. Samkvæmt 5. mgr. sömu greinar reglnanna bar við mat á rannsóknum að leggja megináherslu á vísindagildi þeirra. Við matið bar samkvæmt sama ákvæði að athuga frumleika rannsóknarverkefnis og sjálfstæði gagnvart öðrum rannsóknum og ritverkum, þekkingu á stöðu rannsókna á viðkomandi fræðasviði, meðferð heimilda og vísindaleg vinnubrögð, fræðilegar nýjungar og eftir atvikum notagildi rannsókna. Í áliti dómnefndarinnar um rannsókn stefnanda á minjum að Hólmi í mynni Laxárdals er bent á galla sem stefndu töldu vera á rannsókninni. Einnig er gerð grein fyrir því í álitinu að umræddar minjar virtust vera enn eitt dæmi um landnámsbýli sem ekki hafi verið vitað um áður. Rannsókn á þessum minjum sé því mikilvægt framlag til rannsókna á fyrstu byggð í landinu. Lítið verði sett út á aðferðir stefnanda við uppgröftinn en sama sé ekki hægt að segja um túlkun hans á minjum. Þar slái hann fram fullyrðingum sem ekki séu byggðar á neinum rökum, en það sé hreint og beint ábyrgðarleysi. Í dómnefndarálitinu er lagt mat á gildi rannsóknarinnar, meðferð heimilda og vísindaleg vinnubrögð stefnanda, en matið er byggt á skýrslum stefnanda um rannsóknina og því að vísindalegt gildi á niðurstöðum rannsókna ráðist meðal annars af því hvort fyrir þeim hafi verið færð viðhlítandi rök. Í áliti dómnefndarinnar er rökstutt á hvern hátt vinnubrögðum og rannsókn stefnanda hafi verið áfátt sem stefndu telja ábyrgðarleysi af hans hálfu, en þar er höfðað til ábyrgðar stefnanda sem vísinda- og fræðimanns. Við úrlausn málsins verður lagt til grundvallar að stefndu hafi með fræðilegum ályktunum verið innan þeirra marka sem starfsemi dómnefndarinnar eru sett í lögum og öðrum reglum. Ummæli stefndu um að tilgangi rannsóknar stefnanda fyrir Vegagerðina á rúst á Hjarðarbólsodda við Kolgrafarfjörð á Snæfellsnesi hafi ekki verið náð og að illa hafi verið farið með almannafé eru byggð á upplýsingum sem stefndu höfðu við matið. Fram hefur komið af hálfu stefndu að í skýrslu stefnanda um rannsóknina hafi ekki verið gerð grein fyrir ástæðum þess að staðið var að rannsókninni á þann hátt sem stefnandi gerði. Stefnandi hafi veitt upplýsingar um það í athugasemdum frá 12. maí 2002, en þar hafi komið fram að yfirvöld hefðu farið fram á að umrædd rúst yrði rannsökuð með þessum tiltekna hætti. Hér verður að líta svo á að stefndu hafi með framangreindum ummælum lagt mat á notagildi rannsóknarinnar eins og þeim bar að gera samkvæmt 5. mgr. 43. gr. reglna nr. 458/2000. Þykja ekki fram komin haldbær rök fyrir því að stefndu hafi með framangreindum ummælum farið út fyrir valdheimildir eða önnur mörk sem skilgreind eru í lögum um starfsemi dómnefndarinnar. Þótt upplýsingar um ástæður fyrir hinni nákvæmu rannsókn hafi ekki komið fram í skýrslu stefnanda um rannsóknina verður ekki fallist á að stefndu hafi borið að kalla eftir skýringum af því tilefni, en stefndu tóku tillit til upplýsinga sem síðar komu fram við matið og felldu ummælin niður í endanlegu áliti. Í ljósi þess sem að framan greinir verða ummælin sem hér um ræðir ekki talin ærumeiðandi enda verða þau hvorki túlkuð þannig að í þeim felst móðgun né aðdróttun í garð stefnanda. Það er einnig mat dómsins að þau verði heldur ekki talin óviðurkvæmileg þegar litið er til framangreindra atriða. Verður með vísan til þessa hvorki fallist á að stefndu hafi með ummælunum brotið gegn lagaákvæðum um æruvernd né að þau hafi haft í frammi ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda. Kröfur stefnanda í málinu hafa þar með ekki lagastoð og ber því að sýkna stefndu af þeim. Rétt þykir að stefnandi greiði stefndu 400.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari. DÓMSORÐ: Stefndu, Guðrún Sveinbjarnardóttir, Helgi Þorláksson og John Hines, skulu sýkn vera af kröfum stefnanda, Bjarna F. Einarssonar, í málinu. Stefnandi greiði stefndu 400.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 561/2015 | Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. ágúst 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. ágúst 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 21. september 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 282/2008 | Kærumál Gjaldþrotaskipti | S hf. krafðist þess að bú I ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Var krafa S hf. reist á því að félagið taldi sig eiga nánar tiltekna fjárkröfu á hendur I ehf. á grundvelli lánssamnings þeirra. Fyrir lá að I ehf. hafði ásamt öðrum nokkru áður höfðað mál á hendur S hf. til viðurkenningar á riftun tiltekinna samninga, þ.á m. fyrrgreinds lánssamnings. Ekki var fallist á frávísun málsins frá héraðsdómi með vísan til 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem ekki var um sömu dómkröfu að ræða í báðum þessum málum. Í ljósi þess að S hf. studdi kröfu sína um gjaldþrotaskipti við kyrrsetningu hjá I ehf. eingöngu sem sönnunargagn um ógjaldfærni I ehf. mátti einu gilda hvað gert yrði við framkvæmd hennar eða hvort mál hefði verið höfðað henni til staðfestingar. Gat þetta því ekki út af fyrir sig staðið því í vegi að krafa S hf. um gjaldþrotaskipti yrði tekin til greina. I ehf. hafði hvorki lagt fram gögn þau sem lögð voru fyrir sýslumann við kyrrsetningargerðina né aflað annarra gagna til að leitast við að hnekkja niðurstöðu sýslumanns um að eignir I ehf. hrykkju ekki fyrir þeirri kröfu sem leitað var kyrrsetningar vegna. Voru því ekki efni til að líta svo á að ástæða gæti verið til að ætla að kyrrsetningargerðin gæfi ranga mynd af fjárhag sóknaraðila. Að lokum var með vísan til málsástæðna í héraðsdómsstefnu ekki unnt að líta svo á að yfirlýsing I ehf. um riftun og eftirfarandi málsókn til viðurkenningar á riftuninni gæti neinu breytt um heimild S hf. til að krefjast gjaldþrotaskipta á búi I ehf. sem lánardrottinn hans vegna skuldar samkvæmt lánssamningi þeirra. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms að því er varðaði kröfu S hf. um gjaldþrotaskipti á búi I ehf. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2008, þar sem kveðið var á um að bú sóknaraðila væri tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað, en hann krefst hvorki málskostnaðar í héraði né kærumálskostnaðar. I. Samkvæmt gögnum málsins gerðu aðilarnir lánssamning 3. ágúst 2007, þar sem varnaraðili hét að veita sóknaraðila lán að fjárhæð 582.000.000 krónur. Tekið var fram að tilgangur þess væri að „fjármagna kaup“ sóknaraðila á stofnfjárhlutum að nafnvirði 48.435.430 krónur í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og væri hann skuldbundinn til að ráðstafa fénu til þeirra kaupa. Í samningnum var mælt fyrir um útborgun lánsins, sem átti að endurgreiða 1. febrúar 2008, vexti af því og framlengingu þess eftir nefndan gjalddaga gegn tiltekinni þóknun til varnaraðila. Þá voru ákvæði þar um tryggingar fyrir greiðslu skuldarinnar, sem skyldu fólgnar í handveðrétti varnaraðila í tilteknum fjölda stofnfjárhluta í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóði og Sparisjóði Keflavíkur, svo og í öllum hlutum í sóknaraðila, sem hluthafar í félaginu skyldu setja að veði, en samhliða lánssamningnum voru gerðir átta handveðssamningar til að veita þessar tryggingar. Tekið var fram í lánssamningnum að varnaraðili skyldi meta verðmæti trygginganna hverju sinni eftir því, sem þar var nánar ákveðið, en teldi hann þetta verðmæti komið niður fyrir 150% af eftirstöðvum skuldarinnar væri honum heimilt að krefja sóknaraðila um viðbótartryggingu. Neytti varnaraðili þeirrar heimildar bæri sóknaraðila að leggja fram fullnægjandi tryggingar innan 14 daga frá því að þeirra væri krafist, en varnaraðila væri þó heimilt að ákveða skemmri frest ef „áhrifamiklar breytingar á markaðsaðstæðum“ krefðust þess. Enn fremur skuldbatt sóknaraðili sig til að hlíta því skilyrði að verðmæti uppreiknaðs eigin fjár hans yrði ávallt að vera minnst 50% hærra en skuld hans samkvæmt lánssamningnum, svo og að láta af hendi til varnaraðila gögn til að staðreyna þetta. Loks voru í samningnum sérstök ákvæði um hvað teldust vanefndir af hálfu sóknaraðila og þess getið að meðal þeirra væru brot gegn skuldbindingum, sem framangreint skilyrði um verðmæti eigin fjár hans taldist til, og vanhöld á að setja viðbótartryggingar eftir kröfu varnaraðila. Yrðu vanefndir af hendi sóknaraðila væri varnaraðila einhliða og án viðvarana heimilt að gjaldfella eftirstöðvar skuldarinnar. Um útborgun lánsins samkvæmt framangreindum samningi liggja ekki fyrir önnur gögn en ódagsett uppgjör, þar sem kom fram að af lánsfénu, 582.000.000 krónum, væru greiddar 5.820.000 krónur í lántökugjald, tiltekið lán að fjárhæð 10.148.343 krónur greiddist upp og 565.972.205 krónum væri varið til verðbréfaviðskipta, en mismuninum, 59.452 krónum, ráðstafað til sóknaraðila. Þá liggur einnig fyrir kvittun til sóknaraðila vegna viðskipta 25. júlí 2007, sem fólgin hafi verið í kaupum hans á stofnfjárhlutum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis að nafnverði 47.500.000 krónur fyrir 560.368.520 krónur og greiðslu þóknunar að fjárhæð 5.603.685 krónur. Þetta skjal ber ekki með sér frá hverjum það stafi, en ætla verður að það hljóti að vera frá varnaraðila komið. Í málinu liggur ekki fyrir skriflegur samningur um kaup sóknaraðila á þeim stofnfjárhlutum, sem hér um ræðir, en um aðdraganda kaupanna og framkvæmd þeirra er ítarlega fjallað í orðsendingum, sem gengu milli aðilanna, bréfaskiptum þeirra eftir að kaupin voru gerð og málflutningsgögnum. Ekki eru efni til að rekja þau atriði öll, en varnaraðili hefur lýst því yfir að hann hafi sjálfur verið seljandi stofnfjárhlutanna, sem að framan er getið. Sóknaraðili heldur því fram að þessir hlutir hafi áður talist til stofnfjár, sem Sundagarðar hf. hafi átt í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, en það hlutafélag hafi á þessum tíma jafnframt verið einn stærsti hluthafinn í varnaraðila. Nafngreindur fyrirsvarsmaður Sundagarða hf. hafi þá átt sæti í stjórn sparisjóðsins, en stjórnin hafi látið frá sér fara tillögu 17. júlí 2007 um að breyta honum í hlutafélag. Í tengslum við þá tillögu hafi stjórn sparisjóðsins haft undir höndum ítarlegt verðmat, þar sem talið hafi verið að markaðsvirði hans væri 59.400.000.000 krónur. Fáum dögum síðar hafi sóknaraðili keypt stofnfjárhlutina, sem áður var getið, án þess að vera kunnugt um þetta verðmat, en gengið, sem lagt hafi verið til grundvallar í kaupunum, hafi svarað til þess að markaðsvirði sparisjóðsins hefði verið yfir 110.000.000.000 krónur. Sóknaraðili staðhæfir að varnaraðili hafi boðið sér stofnfjárhlutina á þessu verði og jafnframt lán fyrir kaupverðinu, þrátt fyrir að hafa nokkru áður neitað sóknaraðila um fyrirgreiðslu til að kaupa í minna mæli stofnfjárhluti í sama sparisjóði. Stofnfjáreigendur í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hafi síðan á fundi 21. ágúst 2007 samþykkt áðurnefnda tillögu stjórnar um breytingu hans í hlutafélag og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. verið skráð í Kauphöll Íslands 23. október sama ár. Varnaraðili beindi 24. október 2007 svofelldri orðsendingu til sóknaraðila: „Eins og þið hafið orðið var við hafa Spronbréfin lækkað mikið í virði og nú er svo komið að við þurfum að kalla eftir auknum tryggingum að upphæð 320.000.000.“ Að undangengnum frekari orðsendingum milli aðilanna tilkynnti varnaraðili í bréfi til sóknaraðila 8. nóvember 2007 um gjaldfellingu skuldar samkvæmt lánssamningi þeirra 3. ágúst sama ár, en fjárhæð hennar næmi orðið 611.242.322 krónum að meðtöldum vöxtum. Um heimild fyrir þessu var vísað til fyrrnefndra ákvæða samningsins um vanefndir af hálfu sóknaraðila, en varnaraðili skírskotaði jöfnum höndum til þess að samkvæmt áætlun hans væri eigið fé sóknaraðila orðið 96.606.439 krónur eða sem svaraði tæplega 16% af fjárhæð skuldarinnar og að liðnir væru 15 dagar frá því að kallað hafi verið eftir frekari tryggingum fyrir henni, sem sóknaraðili hafi ekki orðið við. Sama dag lýsti sóknaraðili í bréfi til varnaraðila yfir riftun á kaupum á stofnfjárhlutum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis að nafnverði 47.500.000 krónur, lánssamningi þeirra 3. ágúst 2007 og átta handveðssamningum frá sama degi. Samkvæmt bréfinu reisti sóknaraðili heimild til riftunar einkum á því að þegar kaupin voru gerð hafi verðmæti stofnfjárhlutanna í reynd aðeins verið um 60% af því verði, sem hann greiddi fyrir þá, og hafi varnaraðili haft vitneskju um þennan galla á því selda. Í framhaldi af þessu tilkynnti varnaraðili sóknaraðila 12. nóvember 2007 að hann hygðist hefja næsta dag fullnustu á kröfu sinni samkvæmt lánssamningi þeirra með því að ráðstafa verðmætum, sem honum hefðu verið sett að handveði, ef sóknaraðili yrði ekki við áskorun um að greiða hana. Fyrir liggur að varnaraðili fylgdi þessu eftir 19. sama mánaðar með því að leysa til sín hlutabréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., sem komið höfðu í stað stofnfjárhluta sem hann hafði að handveði frá sóknaraðila, fyrir 317.631.941 krónu. Sóknaraðili og tveir nafngreindir fyrirsvarsmenn hans höfðuðu 7. febrúar 2008 mál á hendur varnaraðila, sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. sama mánaðar. Samkvæmt stefnu í því máli krefjast sóknaraðili og fyrirsvarsmenn hans þess að „viðurkennd verði riftun stefnenda, dags. 8. nóvember 2007, á kaupsamningi við stefnda sem gerður var þann 20. júlí 2007 um 47.500.000 stofnfjárbréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Þá er þess krafist að viðurkennd verði riftun stefnenda, dags. 8. nóvember 2007, á þeim hluta lánasamnings við stefnda sem undirritaður var þann 3. ágúst 2007 til að fjármagna kaup á 47.500.000 stofnfjárbréfum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, að fjárhæð kr. 571.575.890,- og 8 handveðsamningum milli stefnenda og stefnda, dags. 3. ágúst 2007, sem voru hluti lánasamningsins.“ Varnaraðili hefur tekið til varna í málinu og krefst aðallega að því verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður, en að því frágengnu sýknaður að hluta. Af gögnum þessa máls verður ekki ráðið að málið, sem hér um ræðir, hafi enn komið til frekari meðferðar að formi eða efni til um þessar dómkröfur. Með beiðni til sýslumannsins í Reykjavík 13. febrúar 2008 leitaði varnaraðili eftir því að kyrrsettar yrðu eignir sóknaraðila til tryggingar eftirstöðva skuldar hans samkvæmt lánssamningi þeirra 3. ágúst 2007, sem að meðtöldum vöxtum og kostnaði næmi 331.167.878 krónum þegar tillit væri tekið til áðurnefndrar innborgunar á 317.631.941 krónu. Sýslumaður tók gerðina fyrir 19. febrúar 2008 og hafnaði andmælum sóknaraðila gegn framgangi hennar, en af hálfu þess síðarnefnda var þá til kyrrsetningar bent á stofnfjárhluti í Byr sparisjóði og Sparisjóði Keflavíkur, auk stofnfjáraukningar í þeim báðum, svo og kröfu á hendur ríkissjóði um endurgreiðslu fjármagnstekjuskatts. Að kröfu varnaraðila virti sýslumaður þessar eignir og komst að niðurstöðu um að verðmæti þeirra væri 236.043.860 krónur umfram skuldir sóknaraðila við aðra en varnaraðila. Við gerðina var því lýst yfir af hálfu sóknaraðila að hann ætti ekki frekari eignir. Henni var lokið 25. febrúar 2008 með því að fyrrnefndar eignir voru kyrrsettar til tryggingar á þeim hluta kröfu varnaraðila, sem þær svöruðu til samkvæmt virðingu, en að öðru leyti án árangurs. Varnaraðili höfðaði ekki mál til staðfestingar kyrrsetningu. Varnaraðili beindi kröfu 27. febrúar 2008 til Héraðsdóms Reykjavíkur um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt henni taldi varnaraðili sig eiga kröfu á hendur sóknaraðila að fjárhæð samtals 334.084.448 krónur að meðtöldum vöxtum og kostnaði, en til sönnunar um ógjaldfærni þess síðarnefnda var vísað til þess að kyrrsetningargerð, sem áður var getið, hafi verið lokið 25. sama mánaðar án árangurs að hluta. Héraðsdómari varð við kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti með hinum kærða úrskurði. II. Eins og áður greinir hefur sóknaraðili ásamt öðrum höfðað mál á hendur varnaraðila til viðurkenningar á riftun kaupa á stofnfjárhlutum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis að nafnverði 47.500.000 krónur, lánssamnings aðilanna 3. ágúst 2007 að hluta og átta handveðssamninga þeirra frá sama degi. Ekki liggur annað fyrir en að því máli sé ólokið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Í þessu máli krefst varnaraðili á hinn bóginn að bú sóknaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þótt sú krafa sé reist á því að varnaraðili telji sig eiga nánar tiltekna fjárkröfu á hendur sóknaraðila á grundvelli lánssamnings þeirra frá 3. ágúst 2007 getur dómsmál, sem sá síðarnefndi hafði fyrr höfðað til riftunar á samningnum, ekki leitt til þess að vísa beri máli þessu frá héraðsdómi, enda taka ákvæði 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála aðeins til þeirra aðstæðna að höfðuð hafi verið tvö mál og sama dómkrafa sé höfð uppi í þeim báðum. Fyrrgreindri aðalkröfu sóknaraðila fyrir Hæstarétti verður því hafnað. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðili meðal annars borið fyrir sig að ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. fyrir því að gera mætti kyrrsetningu hjá honum fyrir kröfu varnaraðila, gagnstætt því sem sýslumaðurinn í Reykjavík ákvað 19. febrúar 2008, auk þess sem varnaraðili hafi ekki höfðað mál til staðfestingar kyrrsetningunni samkvæmt ákvæðum VI. kafla sömu laga. Um þessar mótbárur sóknaraðila er til þess að líta að í málinu styður varnaraðili kröfu sína um gjaldþrotaskipti við kyrrsetninguna hjá sóknaraðila, sem lokið var að hluta án árangurs 25. febrúar 2008. Í þessum efnum byggir varnaraðili á kyrrsetningargerðinni eingöngu sem sönnunargagni um ógjaldfærni sóknaraðila samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, á sama hátt og sérhver annar, sem kynni að telja sig vera meðal lánardrottna hans, hefði getað nýtt þetta sönnunargagn til að styðja kröfu um gjaldþrotaskipti við. Sönnunargildi kyrrsetningargerðarinnar að þessu leyti snýr eingöngu að gjaldfærni sóknaraðili og má að því er þetta varðar einu gilda hvað gert var annars við framkvæmd hennar eða hvort mál hafi verið höfðað henni til staðfestingar. Sem endranær er þetta sönnunargildi á hinn bóginn háð frekari skilyrðum 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, þar á meðal að ekki sé ástæða til að ætla að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag skuldara, auk þess sem sá, sem vill neyta þessarar sönnunar til að koma fram gjaldþrotaskiptum, verður að sýna fram á að hann eigi fjárkröfu á hendur skuldaranum og sé því lánardrottinn hans í skilningi þessarar lagagreinar. Framangreindar varnir sóknaraðila geta því ekki út af fyrir sig staðið því í vegi að krafa varnaraðila um gjaldþrotaskipti verði tekin til greina. Við kyrrsetningargerðina virti sýslumaður sem áður segir til verðs þær eignir, sem bent var á til tryggingar, og var því lýst þar yfir af sóknaraðila að frekari eignir væru ekki fyrir hendi. Við þessa virðingu, sem fór eftir ákvæðum 15. gr. laga nr. 31/1990, sbr. 38. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, komst sýslumaður að þeirri niðurstöðu að verðmæti eignanna væri 236.043.860 krónum meira en skuldir sóknaraðila við aðra en varnaraðila. Af endurriti úr gerðabók sýslumanns verður séð að sóknaraðili lagði fram við kyrrsetningargerðina „yfirlit yfir eignir og stöðu gerðarþola ásamt fylgigögnum“, sem aðilarnir tjáðu sig síðan um áður en virðing fór fram. Í málinu hefur sóknaraðili hvorki lagt fram þessi gögn né aflað annarra gagna til að leitast við að hnekkja framangreindri niðurstöðu sýslumanns, sem fól í sér að meira en 95.000.000 krónur skorti á að verðmæti eigna sóknaraðila hrykki fyrir kröfu varnaraðila. Samkvæmt því eru ekki efni til að líta svo á að ástæða geti verið til að ætla að kyrrsetningargerðin gefi ranga mynd af fjárhag sóknaraðila. Í vörnum sóknaraðila í máli þessu felst meðal annars sú mótbára að varnaraðili geti ekki talist meðal lánardrottna hans með því að sóknaraðili hafi rift lánssamningnum, sem varnaraðili styður fjárkröfu sína við, og sá síðarnefndi fengið skil á því, sem hann lét af hendi í skiptum þeirra, þegar hann tók til sín í skjóli handveðréttinda hlutabréf, sem komið höfðu í stað stofnfjárhlutanna í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis að nafnvirði 47.500.000 krónur. Eins og áður hefur komið fram gerðu aðilarnir umræddan lánssamning 3. ágúst 2007, en með honum skuldbatt varnaraðili sig til að veita sóknaraðila lán að fjárhæð 582.000.000 krónur og sóknaraðili sig til að endurgreiða varnaraðila féð með nánar tilteknum vöxtum. Í annan stað gerðu þeir sama dag átta handveðssamninga um tryggingar til varnaraðila fyrir greiðslu skuldar sóknaraðila. Í þriðja lagi sömdu þeir um kaup sóknaraðila á fyrrnefndum stofnfjárhlutum, en eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að sá samningur hafi verið munnlegur og hefur sóknaraðili í málatilbúnaði sínum miðað við að kaupin hafi verið gerð 20. júlí 2007. Sóknaraðili hefur sem fyrr segir höfðað ásamt fleirum mál gegn varnaraðila til viðurkenningar í einu lagi á riftun samninga um alla þessa þrjá þætti í viðskiptum þeirra. Samkvæmt héraðsdómsstefnu í því máli eru þessar kröfur í meginatriðum reistar á því að stofnfjárhlutirnir, sem munnlegi samningur aðilanna frá 20. júlí 2007 tók til, hafi í reynd ekki staðið undir því kaupverði, sem um var samið, og hafi varnaraðila verið það ljóst, en af þeim sökum hafi hið selda verið haldið slíkum galla að riftun kaupanna varði. Á hinn bóginn er ekki að sjá að þar séu færðar fram röksemdir fyrir því hvernig þau atvik gætu leitt til riftunar hluta lánssamnings aðilanna frá 3. ágúst 2007, þótt í sérstökum kafla stefnunnar um skil verðmæta segi að sóknaraðili „byggir jafnframt á því að í raun sé um einn löggerning að ræða þar sem seljandi lánar einfaldlega fyrir kaupverði hins selda, sem er þá í raun ógreitt þegar samningnum er rift.“ Í máli þessu hefur þetta ekki frekar verið skýrt af hendi sóknaraðila. Að þessu virtu er ekki unnt að líta svo á að yfirlýsing sóknaraðila 8. nóvember 2007 um riftun og eftirfarandi málsókn hans til viðurkenningar á riftuninni geti neinu breytt um heimild varnaraðila til að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila sem lánardrottinn hans vegna skuldar samkvæmt lánssamningi þeirra frá 3. ágúst 2007. Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar að því er varðar kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila. Með því að varnaraðili krefst á hvorugu dómstigi málskostnaðar verður hann felldur niður. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður. Með beiðni dagsettri 27. febrúar 2008, móttekinni 28. sama mánaðar, krafðist sóknaraðili Saga Capital Fjárfestingabanki hf. þess að bú varnaraðila, Insolidum ehf. verði tekið til gjaldþrotaskipta. Við fyrirtöku málsins þann 19. mars sl. var sótt þing af hálfu varnaraðila og kröfunni mótmælt. Var þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar 23. apríl sl. Sóknaraðili, Saga Capital Fjárfestingarbanki hf., krefst þess að bú varnaraðila, Insolidum ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta. Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta verði vísað frá héraðsdómi. Til vara er þess krafist að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá er krafist málskostnaðar. I Sóknaraðili lýsir málavöxtum þannig að með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2008 hafi þess verið krafist að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í beiðninni sé gerð grein fyrir kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila, sem ekki hafi fengist greiddar. Í viðleitni sinni við að tryggja hagsmuni sína hafi sóknaraðili krafist þess að fram færi kyrrsetning í eignum varnaraðila. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi fallist á að skilyrði kyrrsetningar væru fyrir hendi, en við framkvæmd gerðarinnar hafi komið á daginn að gerðarþoli ætti ekki eignir til tryggingar kröfunum. Hafi gerðin því verið lýst árangurslaus hinn 25. febrúar 2008. Í kjölfar þess hafi gjaldþrotaskiptakrafan verið lögð fram. Varnaraðili gerir ekki aðrar athugasemdir við málavaxtalýsingu sóknaraðila en þær að samningum þeim, sem sóknaraðili reisi kröfu um gjaldþrotaskipti á, hafi verið rift þann 8. nóvember 2007. Dómsmál til staðfestingar á riftuninni hafi verið þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 12. febrúar sl. Þá tekur varnaraðili fram að sóknaraðili hafi hvorki höfðað mál til staðfestingar á kyrrsetningunni sem fór fram þann 25. febrúar 2008, né heldur höfðað mál um kröfu sóknaraðila, eins og skylt sé skv. VI. kafla laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990. Kyrrsetningin sé því fallin niður skv. 39. gr. laganna. II Sóknaraðili vísar um lagastoð fyrir gjaldþrotaskiptakröfunni til 1. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Samkvæmt ákvæðinu geti lánardrottinn krafist þess að bú skuldarans verði tekið til gjaldþrotaskipta ef kyrrsetning hefur verið gerð hjá skuldaranum án árangurs að einhverju leyti eða öllu á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag og ekki er ástæða til að ætla að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag hans. Slík krafa nái þó ekki fram að ganga ef skuldarinn sýni fram á að hann sé fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Sóknaraðili telur að ekki geti verið vafi um að þau gögn sem fylgdu beiðni hans um gjaldþrotaskipti uppfylli kröfur sem gerðar séu í áðurnefndu lagaákvæði. Samkvæmt því telji sóknaraðili ágreining í málinu eingöngu geta snúist um það hvort varnaraðili geti afstýrt gjaldþrotaskiptum með því að sýna fram á að sóknaraðili sé ekki lánardrottinn varnaraðila eða að skuldarinn sé gjaldfær. Krafa sóknaraðila byggist á því að hann eigi gjaldfallna kröfu á varnaraðila, sem ekki hafi fengist greidd. Krafan sé veðtryggð að hluta til, en veðtryggingin hrökkvi hvergi nærri til að tryggja kröfuna og hafi það verið staðreynt við framkvæmd kyrrsetningargerðarinnar. Þótt varnaraðili hafi einhliða lýst yfir riftun á viðskiptum við sóknaraðila hafi hann ekki skilað aftur þeim verðmætum sem hann fékk frá sóknaraðila þegar viðskiptin áttu sér stað. Sóknaraðili hafi mótmælt riftuninni og varnaraðili hafi höfðað dómsmál til að knýja fram viðurkenningu á riftuninni. Sóknaraðili hafi tekið til varna í því máli. Sóknaraðili telji fráleitt að einhliða yfirlýsing varnaraðila um riftun hafi þau réttaráhrif að ekki sé unnt að knýja fram gjaldþrotaskipti. Ef á það væri fallist gætu allir skuldarar alltaf varist gjaldþrotaskiptakröfum með því að krefjast riftunar á skuldbindingum sem þeir hafa gengist undir. Riftun hafi ekki náð fram að ganga, og sóknaraðili telji einsýnt að við úrlausn þessa máls geti ekki komið til skoðunar hvort skilyrði riftunar teljist vera fyrir hendi. Úr því verði einungis leyst í riftunarmálinu sjálfu. Komist dómurinn á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu, að líta verði til þess hvort riftunarskilyrði séu fyrir hendi, sé á því byggt af hálfu sóknaraðila að riftunarkrafa varnaraðila fái með engu móti staðist. Af hálfu sóknaraðila hafi verið sýnt fram á ógjaldfærni varnaraðila með þeim hætti sem áskilið sé í ofangreindu ákvæði gjaldþrotaskiptalaga. Engin ástæða sé til að ætla að hin árangurslausa kyrrsetningargerð gefi ekki rétta mynd af fjárhag varnaraðila, enda hafi við framkvæmd gerðarinnar verið lögð fram skrifleg yfirlýsing stjórnar félagsins um að bent hafi verið á allar eignir félagsins. Þær eignir hafi verið formlega metnar af sýslumanni, sem að þessari yfirlýsingu fenginni hafi lýst gerðina árangurslausa. Ef varnaraðili væri gjaldfær væri að sjálfsögðu einfaldast fyrir hann að greiða kröfu sóknaraðila, en það hafi hann ekki gert. III Varnaraðili byggir á að ekki séu skilyrði að réttarfarslögum til að taka til greina kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila. Þá byggir varnaraðili á því að skilyrði 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, sem sóknaraðili reisir kröfu sína á, séu ekki uppfyllt. Í fyrsta lagi byggir varnaraðili á því að hann hafi höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til staðfestingar á riftun á samningum sínum við sóknaraðila. Í málinu verði leyst úr því hvort skilyrði riftunar á lánasamningi og átta nánar tilgreindum handveðsamningum hafi verið fyrir hendi þann 8. nóvember 2007. Krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila sé reist á þessum sömu samningum. Með öðrum orðum telji sóknaraðili að varnaraðili skuldi honum 334.084.448 kr. á grundvelli samninganna, eins og nánar sé gerð grein fyrir í kröfu um gjaldþrotaskipti. Í stefnu varnaraðila í fyrrgreindu héraðsdómsmáli, sé því lýst á hvaða forsendum samningunum var rift, og að skil á verðmætum hafi farið fram að fullu. Sóknaraðili eigi því enga kröfu á hendur varnaraðila. Af kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti yfir búi varnaraðila leiði að dómari verði að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðili eigi þær kröfur á hendur varnaraðila sem lýst sé í gjaldþrotaskiptabeiðninni. Með öðrum orðum þurfi dómari að taka afstöðu til þess, hvort riftun varnaraðila á samningum hans og sóknaraðila sé skuldbindandi fyrir sóknaraðila, svo niðurstaða megi fást um hvort skilyrði fyrir gjaldþrotaskiptum yfir búi varnaraðila séu til staðar. Þar sem varnaraðili hafi þegar þingfest dómsmál til staðfestingar á riftuninni verði dóms ekki krafist um þær kröfur í máli þessu. Beri við þær aðstæður að vísa kröfu sóknaraðila frá dómi, sbr. 2. ml. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991. Í öðru lagi byggir varnaraðili á því að ákvörðun sýslumanns um kyrrsetningu eigna varnaraðila hafi verið röng. Engin lagaskilyrði voru fyrir kyrrsetningu, eins og nánar verði rakið hér á eftir. Með því að höfða ekki staðfestingarmál hafi sóknaraðili svipt varnaraðila réttinum til að fá skorið úr um lögmæti kyrrsetningargerðarinnar fyrir dómstólum. Varnaraðili byggir á því að þessi annmarki á kyrrsetningargerðinni leiði sjálfkrafa til frávísunar á kröfu sóknaraðila, en einnig telji varnaraðili óhjákvæmilegt að dómari taki fyrst afstöðu til þess hvort skilyrði kyrrsetningar hafi verið til staðar, áður en komist sé að niðurstöðu um skilyrði gjaldþrotaskipta. Að öðrum kosti verði krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti byggð á kyrrsetningargerð sem ekki hafi hlotið umfjöllun dómstóla. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 31/1990 séu skilyrði kyrrsetningar tvenns konar; annars vegar að krafa gerðarbeiðanda sé lögvarin, sbr. 2. mgr. ákvæðisins, og hins vegar að sýnt sé fram á að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta kröfunnar takist eða að fullnusta hennar verði verulega örðugri, nái kyrrsetning ekki fram að ganga. Hvorugt framangreindra skilyrða hafi verið uppfyllt þegar eignir varnaraðila voru kyrrsettar. Í fyrsta lagi hafi krafa sóknaraðila verið reist á láns- og handveðsamningum sem varnaraðili rifti þann 8. nóvember 2007. Ástæða riftunarinnar sé sú að sóknaraðili leyndi varnaraðila grundvallarupplýsingum um viðskiptin sem lána- og handveðsamningunum var ætlað að fjármagna. Riftun sé ákvöð sem bindi viðtakanda frá móttöku. Skil á grundvelli riftunarinnar hafi þegar farið fram, enda leysti sóknaraðili þann 19. nóvember 2007 til sín öll þau verðbréf sem hann seldi varnaraðila þann 20. júlí 2007. Sóknaraðili eigi ekki frekari kröfur á hendur varnaraðila. Því hafi borið að synja um kyrrsetningu enda hafi sóknaraðili ekki átt þau réttindi sem hann hugðist tryggja. Í öðru lagi sé tilgangur kyrrsetningar að koma í veg fyrir að gerðarþoli dragi með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi mjög úr líkindum til að fullnusta kröfu takist, á meðan gerðarbeiðandi afli sér aðfararheimildar. Sóknaraðili hafi ekki með nokkrum hætti sýnt fram á eða gert líklegt að varnaraðili myndi aðhafast eitthvað sem drægi úr líkindum á fullnustu kröfunnar, og réttlætti þar með kyrrsetningu. Ekki hafi verið gerð tilraun til að rökstyðja þetta grundvallarskilyrði kyrrsetningar í kyrrsetningarbeiðni. Í kyrrsetningarbeiðni voru einu rökin fyrir því að þetta skilyrði 5. gr. laga 31/1990 gæti verið uppfyllt, þau að verðmæti verðbréfa í eigu varnaraðila hafi lækkað að undanförnu. Þar sem sú lækkun gæti haldið áfram væri þörf á skjótri fullnustu. Varnaraðili telji þessi rök ekki nægja til kyrrsetningar. Í fyrsta lagi sé sóknaraðila óheimilt að ráðstafa eignum varnaraðila, þó þær hafi verið kyrrsettar, því hafi kyrrsetning engin áhrif á það hvert verðmæti eigna varnaraðila verði, ef sóknaraðila tekst að afla sér aðfararheimildar fyrir kröfu sinni. Í öðru lagi sé einungis heimilt að líta til þess hvort aðgerðir varnaraðila sjálfs muni draga úr líkindum til fullnustu. Varnaraðili getur með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi ekki haft nein áhrif á almenna verðþróun þeirra verðbréfa, sem hann á. Möguleg breyting á utanaðkomandi aðstæðum, þ.e. áframhaldandi lækkun á fjármálamörkuðum, réttlæti því ekki kyrrsetningu. Í greinargerð með ákvæði því sem varð að 5. gr. laga nr. 31/1990 séu tilgreind þau atvik sem réttlætt geti kyrrsetningu. Þar segi að kyrrsetning eigi ekki að fara fram, nema raunhæfa nauðsyn beri til vegna hagsmuna kröfueiganda, enda sé megintilgangur kyrrsetningar „að tryggja kröfueiganda fyrir yfirvofandi hættu á að skuldara takist að eyða, selja, veðsetja eða ráðstafa með öðrum hætti öllum eignum sínum meðan dómsmál er rekið um kröfuna, þannig að engar eignir liggi fyrir til aðfarar að gengnum dómi.“ Þessi yfirvofandi hætta, sem er skilyrði kyrrsetningar, hafi ekki með nokkru móti verið til staðar. Í því sambandi sé rétt að vekja athygli á því að nú þegar hafi sóknaraðili rekið innsetningarmál gegn varnaraðila og eigendum hans, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti, þar sem sóknaraðili freistaði þess að ná yfirráðum yfir varnaraðila. Ekki hafi verið hreyft við eignum varnaraðila undir þeim málarekstri. Þá séu allar eignir varnaraðila veðsettar lánardrottnum félagsins, þ.m.t. sóknaraðila. Þrátt fyrir að varnaraðili hafi rift samningum sínum og sóknaraðila sé ljóst að varnaraðila sé ómögulegt að ráðstafa eignum sínum án samþykkis þessara lánardrottna, þ.m.t. sóknaraðila, þar til dómur gengur í riftunarmálinu. Tilgangsleysi kyrrsetningarinnar sjáist hvað best á því að sóknaraðili hafi ekki hirt um að krefjast þess að sýslumaður svipti varnaraðila umráðum yfir þeim verðmætum sem kyrrsett voru, sbr. 2. mgr. 19. gr. l. nr. 31/1990. Sóknaraðili hafi því ekki haft neina hagsmuni af kyrrsetningu. Veki það upp spurningar um hver tilgangur sóknaraðila með kyrrsetningu hafi verið. Þeirri spurningu hafi nú verið svarað. Sóknaraðili sé að nýta sér kyrrsetningarúrræðið til að koma varnaraðila í þrot, en ekki til þess sem það er ætlað, þ.e. að verja möguleikann á fullnustu kröfu gegn yfirvofandi eða byrjuðum athöfnum skuldara. Varnaraðili telji augljóst að ekki sé unnt að heimila gjaldþrotaskipti á grundvelli kyrrsetningarbeiðni sem aflað sé með þessum hætti, í þessum tilgangi og hefur þar að auki ekki komið til endurskoðunar dómstóla. Varnaraðili eigi rétt á því að skilyrði kyrrsetningar verði borin undir dómstóla. Þar sem sóknaraðili hafi svipt varnaraðila þeim rétti sínum með því að höfða ekki staðfestingarmál, en byggir allt að einu á kyrrsetningargerðinni, verði dómurinn að taka afstöðu til þess hvort skilyrði kyrrsetningar hafi verið fyrir hendi, áður en tekin sé afstaða til kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti yfir búi varnaraðila. Þar sem skilyrði kyrrsetningar hafi ekki verið fyrir hendi beri að vísa kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti frá dómi, en ella hafna kröfunni. Í þriðja lagi byggir varnaraðili á því að kyrrsetningargerð sú, sem krafa um gjaldþrotaskipti byggir á, sé fallin niður. Sóknaraðili hafi ekki hirt um að höfða mál til staðfestingar á gerðinni á grundvelli VI. kafla laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990 og því sé gerðin fallin niður á grundvelli 39. gr. laganna. Varnaraðili byggir á því að með því að höfða ekki staðfestingarmál hafi sóknaraðili lýst því yfir að skilyrði kyrrsetningar séu ekki uppfyllt. Skýra verði 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti þannig, að átt sé við gilda kyrrsetningargerð. Þar sem öll réttaráhrif af kyrrsetningu séu fallin niður geti sóknaraðili ekki reist kröfu um gjaldþrotaskipti á henni. Í fjórða lagi byggir varnaraðili á því að skilyrði fyrir gjaldþrotaskiptum á grundvelli 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt. Komi þar bæði til að varnaraðili geti sýnt fram á að hann sé fær um að standa skil á skuldbindingum sínum, auk þess sem umrædd kyrrsetningargerð gefi ekki rétta mynd af fjárhag varnaraðila. Í endurriti úr gerðabók sýslumannsins í Reykjavík, dags. 25. febrúar 2008, sé staðfest að verðmæti eigna varnaraðila umfram skuldir hafi þá numið 236.043.860 kr. Eins og áður hafi verið lýst telji varnaraðili að sóknaraðili eigi engar kröfur á hendur sér á grundvelli þeirra samninga sem taldir séu upp í gjaldþrotaskiptabeiðni, enda hafi varnaraðili rift samningunum og skilað öllum verðmætum á grundvelli þeirra. Varnaraðili byggi riftun sína á því að í viðskiptum aðila hafi innherjaupplýsingar verið nýttar með ólögmætum hætti: að varnaraðili hafi verið leyndur upplýsingum um hver væri seljandi þeirra bréfa sem lána- og handveðsamningunum hafi verið ætlað að fjármagna og því að sóknaraðili braut gegn ákvæðum laga og reglna um aðskilnað starfssviða fjármálafyrirtækja þegar umræddum viðskiptum var komið á. Um rökstuðning fyrir riftuninni vísi varnaraðili í stefnu í riftunarmáli gegn sóknaraðila, sem þingfest var þann 12. febrúar sl. Ekki virðist vera ágreiningur milli aðila um að sóknaraðili eigi ekki kröfur á hendur varnaraðila eftir riftunina, en deilt er um skilyrði hennar. Varnaraðili telji öll skilyrði fyrir riftun samninganna uppfyllt. Þar sem sóknaraðili eigi þar af leiðandi engar kröfur á hendur varnaraðila nemi eignir varnaraðila, umfram skuldir, að minnsta kosti 236.043.860 kr. Skilyrði gjaldþrotaskipta séu því ekki uppfyllt. Þá beri að ítreka það sem að framan sé rakið, að í ofangreindri málsástæðu varnaraðila felist að dómari verði að taka afstöðu til riftunar varnaraðila á samningum sínum við sóknaraðila. Þar sem dómsmál um sakarefnið hafi verið þingfest þann 12. febrúar 2008 beri að vísa kröfu sóknaraðila frá dómi án kröfu, á grundvelli 4. mgr. 94. gr. eml. Verði sóknaraðila, þrátt fyrir ofangreint, talið mögulegt og heimilt að byggja kröfu um gjaldþrotaskipti yfir búi varnaraðila á umræddum samningum, telji varnaraðili allt að einu ljóst að skilyrði fyrir gjaldþrotaskiptum séu ekki uppfyllt. Krafa sóknaraðila skv. gjaldþrotaskiptabeiðni nemi 334.084.448 kr. Eignir varnaraðila nemi skv. kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykjavík 236.043.860 kr. Mismunurinn sé 98.040.588 kr. Eins og lýst sé í kröfu um gjaldþrotaskipti, sé meginstarfsemi varnaraðila eignarhald á stofnfjárbréfum í tveimur sparisjóðum, BYR og Sparisjóðnum í Keflavík. Varnaraðili sé eigandi 0,626% stofnfjár í BYR sparisjóði, eða sem nemi að nafnvirði 88.630.168 stofnfjárbréfum. Þann 14. mars sl. hafi ársreikningur sjóðsins verið birtur. Þar leggi stjórn sjóðsins til að sjóðurinn greiði stofnfjáreigendum 44% í arð. Það þýði að varnaraðili muni fá greiddar 75.840.338 kr. í arð frá Byr (44% x 88.630.168 (stofnfjárbréf) x 1,94476 (endurmatsstuðull)). Auk þess sé lagt til að nýtt verði heimild í lögum um sérstakt endurmat stofnfjár og það hækkað um 3%. Verði tillagan samþykkt muni hækkunin fara fram fyrstu mánaðamót eftir aðalfund félagsins. Endurmatsstuðull stofnfjár BYRS fylgi breytingum á vísitölu neysluverðs og uppfærist mánaðarlega. Þá sé varnaraðili eigandi að 12.679.148 hlutum að nafnvirði í Sparisjóðnum í Keflavík. Á aðalfundi sjóðsins sem haldinn var 6. mars sl. hafi verið samþykkt að greiða stofnfjáreigendum 20% arð. Það þýði að varnaraðili fái greiddar 5.550.804 kr. í arð frá sparisjóðnum (20% x 12.679.148 (stofnfjárbréf) x 2,18895 (endurmatsstuðull)). Auk þess hafi verið samþykkt að nýtt verði heimild í lögum um sérstakt endurmat stofnfjár og það hækkað um sem nemi 10% af hagnaði ársins 2007. Muni þessi hækkun eiga sér stað um 1. apríl nk. og endurspeglast í endurmatsstuðli sparisjóðsins. Endurmatsstuðull stofnfjár Sparisjóðsins í Keflavík fylgi breytingum á vísitölu neysluverðs og uppfærist mánaðarlega. Samtals fái varnaraðili, á grundvelli stofnfjáreignar sinnar í BYR og Sparisjóði Keflavíkur, því arðgreiðslur að fjárhæð 81.391.142 kr. á næstu vikum, auk verðmætaaukningar sem felist í endurmati á stofnfé í sparisjóðunum. Þá sé reikningsskekkja í kröfu sóknaraðila. Eins og lýst sé í kyrrsetningarbeiðni sóknaraðila, leysti sóknaraðili til sín þann 19. nóvember 2007 stofnfjárbréf í SPRON sem voru í eigu varnaraðila og Daggar Pálsdóttur, en sóknaraðili hafði að handveði. Bréfin leysti sóknaraðili til sín á genginu 12,90 og nam innlausnarverðið samkvæmt því 317.631.941 kr. Hafi verðmæti bréfanna verið ráðstafað upp í meinta skuld varnaraðila við sóknaraðila. Aðferðin við innlausnina hafi hins vegar verið andstæð ákvæðum handveðssamningsins og hafi sóknaraðili viðurkennt það. Samkvæmt handveðssamningnum skuli söluverð bréfanna vera meðalgengi á stofnfjármarkaði síðustu sjö dagana fyrir söluna. Á grundvelli reglunnar sé sölugengi bréfanna 13,75 og því nemi söluverðmæti þeirra 338.526.002 kr. (að teknu tilliti til þóknunar sóknaraðila). Mismunurinn nemi 20.894.061 kr. Með hliðsjón af framansögðu nemi höfuðstóll meintrar kröfu sóknaraðila kr. 313.190.387 (kr. 334.084.448 - 20.984.061). Eignir varnaraðila, að teknu tilliti til arðgreiðslna, nemi 317.435.002 kr. ( 236.043.860 kr. + 81.391.142 kr.). Af því sjáist að eignir varnaraðila eru 4.244.615 kr. umfram skuldir. Þá beri að taka fram að dráttarvaxtakrafa sóknaraðila hafi ekki verið lækkuð sem nemi lækkun á höfuðstól kröfunnar. Þar sem höfuðstóllinn lækki um rúm 6% með því að beita réttum reikningsaðferðum, hljóti dráttarvaxtakrafa sóknaraðila að lækka sem því nemi, eða u.þ.b. um 1.275.000 kr. Þá hafi varnaraðili mótmælt innheimtuþóknun lögmanns sóknaraðila við fyrirtöku kyrrsetningarbeiðni hjá embætti sýslumannsins í Reykjavík og séu þau mótmæli ítrekuð. Ekki hafi með nokkrum hætti verið sýnt fram á grundvöll eða heimild sóknaraðila til að heimta 15.485.443 kr. af varnaraðila í innheimtukostnað. Að síðustu sé rétt að taka fram að endurmatsstuðull stofnfjárbréfa í Byr og Sparisjóðnum í Keflavík hafi hækkað síðan sýslumaður mat verðmæti bréfanna. Eins og að ofan greini fylgi endurmatsstuðullinn breytingum á vísitölu neysluverðs og uppfærist mánaðarlega. Endurmatsstuðull Byrs var 1,9635 en sé nú 1,9885 og hjá Sparisjóðnum í Keflavík var hann 2,19283 en sé nú 2,25466. Þetta þýði að verðmæti stofnfjárbréfa í eigu varnaraðila hafi aukist frá mati sýslumanns um 7.614.011 kr. Með hliðsjón af öllu framansögðu telji varnaraðili sýnt að hann sé gjaldfær. Því beri að hafna kröfu sóknaraðila um töku bús varnaraðila til gjaldþrotaskipta. Vísar varnaraðili sérstaklega til niðurlagsorða 2. mgr. 65. gr. gþl., um að líta beri til þess hvort varnaraðili verði gjaldfær „innan skamms tíma“. IV Með lánssamningi, sem var undirritaður 3. ágúst 2007, lánaði sóknaraðili varnaraðila 582.000.000 kr. Gjalddagi lánsins var 1. febrúar 2008. Með bréfi dagsettu 8. nóvember 2007 var tilkynnt um gjaldfellingu eftirstöðva lánsins vegna vanefnda á lánssamningnum. Í gjaldþrotaskiptabeiðni kemur fram að skuld varnaraðila við sóknaraðila nemi samtals 334.084.448 kr. Fyrir liggur að varnaraðili hefur höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til staðfestingar á riftun á m.a. lánssamningi sínum við sóknaraðila en krafa sóknaraðila er reist á þessum sama samningi. Áfrýjun á kröfu gjaldþrotaskiptabeiðanda til Hæstaréttar hindrar ekki gjaldþrot, sbr. hrd. 1926, bls. 387 og verður að telja að hið sama gildi þótt krafa sé til meðferðar sem umdeild krafa hjá héraðsdómi. Samkvæmt því hindrar áðurnefnd málshöfðun varnaraðila ekki að sóknaraðili geti að öðru skilyrðum uppfylltum krafist gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila á grundvelli fjárkröfu sinnar á hendur honum. Samkvæmt 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldarans verði tekið til gjaldþrotaskipta ef kyrrsetning hefur verið gerð hjá skuldaranum án árangurs að einhverju leyti eða öllu á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag og ekki er ástæða til að ætla að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag hans. Slík krafa nær þó ekki fram að ganga ef skuldarinn sýnir fram á að hann sé fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum eða verði það innan skamms tíma. Með kyrrsetningarbeiðni dagsettri 13. febrúar 2008 krafðist sóknaraðili þess að sýslumaðurinn í Reykjavík kyrrsetti eigur varnaraðila til tryggingar fullnustu kröfu hans á hendur varnaraðila að fjárhæð samtals 331.167.878 kr. Í beiðninni kemur fram að áætlað sé að um það bil 150.000.000 kr. vanti til þess að kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila geti talist tryggðar. Einu eignir varnaraðila séu verðbréf, sem í eðli sínu séu áhættufjármunir. Fyrir tæpum sex mánuðum hafi eigið fé varnaraðila verið metið á 880.000.000 kr. en sé nú uppurið. Sóknaraðili hafi fengið hluta af kröfu sinni greidda með sölu á handveðsettum hlutabréfum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. hinn 19. nóvember 2007. Bréfin hafi verið seld á genginu 12,90 og hafi fengist upp í kröfu sóknaraðila 317.631.941 kr. Varnaraðilar hafi mótmælt sölunni og talið hana fráleita. Miðað við gengi 13. febrúar 2008, 5,92, hefðu fengist 145.765.976 kr. fyrir sömu bréf. Með þessu sé sýnt hve ríkir hagsmunir séu í húfi af skjótri fullnustu krafna á hendur félögum sem einungis eigi verðbréf. Einu eignir varnaraðila séu áhættufjármunir sem séu háðir sömu markaðslögmálum og bréfin sem tókst að selja. Við núverandi aðstæður sé sóknaraðila nauðsynlegt að tryggja hagsmuni sína með því að kyrrsetja fyrir kröfu sinni þær eignir, sem kunna að vera í eigu varnaraðila, að því marki sem þær nægja til tryggingar kröfunni. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 31/1991 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. gildir það skilyrði fyrir kyrrsetningu, að sá, sem leitar eftir henni, verður að sýna nægilega fram á að mjög muni draga úr líkindum fyrir að fullnusta fáist á kröfu hans eða fullnusta verði verulega örðugri ef kyrrsetning fer ekki fram. Ekki er það skilyrði að gerðarbeiðandi leiði sönnur að réttmæti kröfu sinnar, en synja skal um kyrrsetningu, ef ætla verður af fyrirliggjandi gögnum að hann eigi ekki þau réttindi sem hann hyggst tryggja. Sóknaraðili, sem á samkvæmt því sem að framan greinir kröfu á hendur varnaraðila um greiðslu peninga, þykir með rökstuðningi sínum í kyrrsetningarbeiðni hafa sýnt nægilega fram á að honum hafi borið raunhæf nauðsyn til kyrrsetningar í eignum varnaraðila vegna kröfu hans, sem hann taldi 150.000.000 króna vanta upp á að væri tryggð, og ekki varð fullnægt með aðför, sbr. 5. gr. laga nr. 31/1991. Þann 25. febrúar sl. kyrrsetti sýslumaðurinn í Reykjavík eignir varnaraðila, fyrir samtals 236.043.860 kr., að kröfu sóknaraðila. Voru eignirnar kyrrsettar að ábendingu lögmanns varnaraðila og að kröfu lögmanns sóknaraðila. Þess var krafist af hálfu sóknaraðila að kyrrsetningargerðinni yrði lokið án árangurs hvað varðar eftirstöðvar kröfunnar og var það gert með vísan til 15. gr. laga nr. 31/1990. Í 36. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. er kveðið á um að gerðarbeiðandi skuli höfða mál til staðfestingar á kyrrsetningu, nema gerðarþoli hafi lýst því yfir við gerðina að hann uni við hana. Slíkt mál hefði sóknaraðila borið að höfða samkvæmt ákvæðinu innan viku frá lokum gerðarinnar. Fyrir liggur hins vegar að sóknaraðili höfðaði ekki staðfestingarmál, en í slíku máli er hægt að fá leyst úr öllum atriðum, sem varða lögmæti kyrrsetningar, hvort sem þau snúa að efnislegum forsendum fyrir gerðinni eða formreglum um framkvæmd hennar. Þar sem sóknaraðili höfðaði ekki staðfestingarmál féll kyrrsetningargerðin úr gildi frá þeim tíma sem sóknaraðili mátti í síðasta lagi fá gefna út réttarstefnu í málinu, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990. Eins og áður greinir hefði í staðfestingarmáli verið hægt að fá leyst úr öllum atriðum, sem varða lögmæti kyrrsetningarinnar. Það er hins vegar ekki skilyrði samkvæmt 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga, fyrir því að árangurslaus kyrrsetning að einhverju leyti eða öllu geti orðið grundvöllur gjaldþrotaskipta, að staðfestingarmál hafi verið höfðað og þar af leiðandi ekki að slíkt mál hafi verið leitt til lykta. Þá er á það að lítaað ekki er ástæða til að höfða staðfestingarmál, sbr. 36. gr. laga nr. 31/1990 þegar kyrrsetningargerð lýkur sem árangurslausri. Það kemur þannig ekki í veg fyrir að árangurslaus kyrrsetning að hluta eða öllu geti verið grundvöllur gjaldþrotaskipta, að gerðin sé sem slík fallin úr gildi, sbr. 39. gr. laga nr. 31/1990. Verður því talið að sóknaraðili geti byggt kröfu um gjaldþrotaskipti á hinni árangurslausu kyrrsetningu sem fram fór hjá varnaraðila þann 25. febrúar sl. Árangurslaus kyrrsetning er talin veita ákveðnar löglíkur fyrir ógjaldfærni skuldara. Þessar löglíkur getur skuldari afsannað með því að sýna fram á að hann sé fær um að standa skil á skuldbindingum sínum eða verði það innan skamms tíma og þannig varist kröfu um gjaldþrotaskipti. Staðhæfingar varnaraðila um að hann sé greiðslufær eða verði það innan skamms tíma þykja ekki studdar fullnægjandi gögnum, en fyrir því hefur hann sönnunarbyrði. Við kyrrsetningargerðina var samkvæmt yfirlýsingu varnaraðila, frá 25. febrúar 2008, bent á allar eignir varnaraðila. Varnaraðili krafðist þess ekki við gerðina að sýslumaður kveddi til einn eða tvo sérfróða virðingarmenn til að virða það sem kyrrsetja átti eins og heimild er fyrir í 15. gr. laga nr. 31/1990, sbr. 38. gr. laga nr. 90/1989. Þykir verða við það að miða að kyrrsetningargerðin gefi rétta mynd af fjárhag varnaraðila enda hafa fullnægjandi gögn ekki verið fram færð sem leiða annað í ljós. Samkvæmt öllu framanröktu, þykir skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti vera fullnægt og því ekki hjá því komist að taka til greina kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Eftir niðurstöðu málsins þykir rétt að varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur. Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Bú varnaraðila, Insolidum ehf., er tekið til gjaldþrotaskipta. Varnaraðili greiði sóknaraðila 100.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 58/2004 | Verksamningur | Á grundvelli samþykkts verktilboðs tók undirverktakinn B að sér að annast tiltekinn hluta verks fyrir yfirverktakann K. Síðar reis ágreiningur um hvernig túlka bæri efni samnings þeirra og hvort B bæri endurgjald fyrir aukaverk eða aukið umfangs verks, svo sem hann hélt fram. K taldi B hafa unnið verkið í samræmi við fyrrgreint tilboð sitt og þegar fengið greitt að fullu. Með því að tilboðið var samið af B var óskýrleiki í því túlkaður B í óhag. Var kröfu B hafnað að hluta, hluta hennar vísað frá héraðsdómi og einungis lítill hluti hennar tekinn til greina. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. febrúar 2004. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda, en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi tók áfrýjandi að sér 10. ágúst 2001 sem verktaki fyrir Landsvirkjun að reisa viðbyggingu og sjá um breytingar á Hrauneyjarfossstöð. Stefndi annaðist sem undirverktaki áfrýjanda hluta verksins er laut að kjarnaborun og sögun samkvæmt nánar tilgreindum verkþáttum. Var það gert á grundvelli skriflegs verktilboðs stefnda 25. júlí 2001. Ekki var gerður skriflegur verksamningur, en báðir aðilar hafa vísað til framangreinds tilboðs um lögskipti sín. Er enda óumdeilt að áfrýjandi samþykkti tilboðið þannig að stefndi skyldi vinna tilgreinda 9 verkþætti af þeim 19, sem tilboðið upphaflega laut að. Komst því á bindandi verksamningur milli aðila um þessa tilteknu 9 verkþætti með þeim hætti sem í tilboðinu greinir. Umsamið endurgjald fyrir þá verkþætti var 2.538.000 krónur. Óumdeilt er hvaða verk stefndi vann og að áfrýjandi og starfsmenn hans hafi verið á verkstað meðan verkið var unnið. Hins vegar lýtur deila málsaðila að því hvernig túlka beri efni samnings þeirra og hvort stefnda beri endurgjald fyrir aukaverk, eða aukið umfang verks. Stefndi kveðst hafa unnið aukaverk að beiðni áfrýjanda, sem bæði hafi annast verkstjórn og aðstoðað stefnda við verkið. Þá verður að skilja málatilbúnað stefnda þannig að hann krefjist ekki einungis greiðslu fyrir sérstök aukaverk heldur einnig greiðslu fyrir aukið umfang umsaminna verkþátta vegna atriða er varða áfrýjanda. Áfrýjandi telur á hinn bóginn stefnda hafa unnið verkið í samræmi við tilboð sitt. Aukaverk hafi ekki komið til og hafi hann veitt stefnda endurgjaldslausa aðstoð við suma þætti verksins. Til vara byggir áfrýjandi á því að verulegur hluti af þeim kostnaði sem stefndi telji til aukakostnaðar eigi að falla undir samningsgreiðslu hans, sem þegar hafi verið innt af hendi. II. Fyrir hinn 1. af þeim 9 liðum sem að framan er getið, ásamt viðbótarverki sem þeim lið tengdist, gerði stefndi sérstakan reikning sem áfrýjandi hefur greitt að fullu. Er ekki ágreiningur um þann þátt. Samkvæmt 6 af þeim 8 liðum sem þá standa eftir skyldi stefndi saga þrenn göt í veggi vegna dyragata fyrir lyftu, tvö göt í gólf og eitt loftræstigat. Var þykkt veggja og gólfa, sem saga átti í gegnum, mismikil og tiltekin í millimetrum. Þá voru tveir liðir um sérstaka borun vegna vírasögunar. Nánar um vinnutilhögun sagði í tilboðinu að verkið ætti að vinna í dagvinnu. Átti áfrýjandi að sjá um undirbúning og undirslátt, verkpalla, fæði og uppihald og að fjarlægja múrbrot. Auk þess skyldi áfrýjandi tryggja stefnda aðgang að vatni og rafmagni á verkstað, jafnframt því sem hann skyldi annast svokallaðar merkingar, en stefndi skyldi útvega vatnsslöngur og framlengingasnúrur fyrir rafmagn. Þá sagði í tilboðinu að innifalið í verði væri „vélar, tæki, mannalaun, akstur, tryggingar ásamt öllum opinberum gjöldum.“ Var tilboð stefnda „miðað við staðgreiðslu og inná greiðslur eftir framvindu verks.” Stefndi gerði áfrýjanda heildarreikning vegna verksins 20. mars 2002 fyrir aðra verkþætti en þann sem þegar hafði verið uppgerður samkvæmt framansögðu. Fylgdi honum yfirlit dagsett 20. nóvember 2001 þar sem áfrýjandi tilgreindi þau verk sem hann taldi að unnin hefðu verið samkvæmt „tilboði“, samtals að fjárhæð 2.596.770 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Reikningnum fylgdi jafnframt hliðstætt yfirlit dagsett 30. október sama ár, en þá um „aukaverk“ að fjárhæð samtals 1.983.817 krónur, einnig að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Eins og fram kemur í héraðsdómi mun áfrýjandi hafa, áður en málið var höfðað, greitt stefnda, vegna annarra verkþátta en þess sem þegar var uppgerður, samtals 2.421.075 krónur, eða 121.075 krónur 28. september 2001, 500.000 krónur 19. október sama ár, 600.000 krónur 26. sama mánaðar og 1.200.000 krónur 23. nóvember sama ár. Að gengnum héraðsdómi greiddi áfrýjandi 3. júní 2004 stefnda 203.763 krónur, sem hann sundurliðaði í höfuðstól 175.695 krónur og vexti 28.068 krónur. Hefur áfrýjandi þar með greitt stefnda að fullu þann hluta höfuðstóls kröfu hans er lýtur að því, sem stefndi taldi til tilboðs, í fyrrgreindu yfirliti 20. nóvember 2001. III. Svo sem að framan greinir er krafa stefnda vegna „aukaverka“ um 80% af upphaflegu tilboði hans í umrædda verkþætti. Stefndi hefur lagt fyrir Hæstarétt vinnuskýrslur starfsmanna sinna til frekari skýringar á aukaverkum. Eru þær skýrslur ekki áritaðar af áfrýjanda. Í gögnum málsins liggur ekkert skriflegt fyrir um að stefndi hafi verið beðinn um að vinna tiltekin aukaverk eða hann tilkynnt áfrýjanda að aukaverk væru nauðsynleg. Þá gerði stefndi áfrýjanda ekki fyrr en að loknu heildarverkinu sérstakan reikning vegna verka þeirra er hann taldi að meta bæri aukaverk. Tilboð stefnda kvað á um að stefndi skyldi gera „göt“ í veggi og gólf, jafnframt því sem tiltekið var sérstaklega að áfrýjandi skyldi fjarlægja „múrbrot“. Stendur stærsti hluti deilu málsaðila um túlkun á þessum ákvæðum tilboðsins. Stefndi hefur haldið því fram að í þessum orðum felist einungis skylda hans til að saga gegnum veggi og gólf án þess að þurfa fjarlægja stykki sem hann hafði með því losað úr viðkomandi vegg. Reisir hann kröfu sína á því að það hafi hann hins vegar gert. Sé sú vinna aukaverk þar sem hún hafi ekki falist í þeim verkþáttum sem tilboðið kvað á um. Áfrýjandi byggir hins vegar á því að með því að semja um að gera göt í veggi hafi stefndi ekki einungis tekist á hendur að saga í þá, heldur einnig að fjarlægja úr veggjunum þau stykki sem við það losnuðu. Eins og rakið hefur verið byggist samningur aðila á skriflegu tilboði sem stefndi samdi. Ber því að túlka óskýrleika í tilboðinu honum í óhag. Þá ber að líta til þess að hér er um að ræða mikla viðbót varðandi þennan þátt miðað við upphaflega fjárhæð tilboðsins. Ósannað er að stefndi hafi gert áfrýjanda ljóst að hann teldi þetta verk ekki innifalið í upphaflega tilboðinu. Í ljósi alls framanritaðs ber að telja það hafa verið í verkahring stefnda samkvæmt tilboðinu að fjarlægja umrædd stykki úr veggjunum, án þess að til kæmi sérstök greiðsla fyrir það. Verður því ekki fallist á kröfu hans um aukagreiðslur af þessum sökum. Þá er fram komið að stefndi þurfti að saga vikurvegg dagana 5. og 6. september 2001 til að komast að vegg, sem saga átti í samkvæmt verksamningi aðila. Verður ekki séð að samið hafi verið um endurgjald fyrir þetta verk, enda er það ekki hluti af öðrum verkþáttum. Óumdeilt er að stefndi vann verkið með vitund áfrýjanda. Krafa stefnda vegna þessa er í framangreindu yfirliti tilgreind 116.274 krónur. Er ekkert fram komið annað en að krafa þessi sé í eðlilegu samræmi við vinnu vegna þessa liðar og er því á hann fallist. Af því sem fram er komið í málinu verður ráðið að önnur umþrætt verk voru unnin samhliða þeim verkum sem tilgreind eru í tilboði stefnda og tengjast þau öll vinnu samkvæmt verkliðum í samningi aðila. Kröfur stefnda vegna þeirra verður því að líta á sem kröfur vegna aukins umfangs umsaminna verka vegna atvika er varða stefnda. Fyrir liggur að við sögun í vegg fyrir lyftudyr var gert ráð fyrir að stefndi gæti athafnað sig frá vinnslusal stöðvarhúss virkjunarinnar. Í stað þess þurfti hann, að ósk áfrýjanda, að saga hinum megin frá, eða úr lyftugöngum, þar sem svigrúm til athafna var mun minna. Verður ráðið að þess vegna hafi stefndi þurft að gera sérstakar ráðstafanir, meðal annars vegna vatnsvarna. Er kröfugerð stefnda, sem að þessu lýtur, nægilega studd gögnum málsins þannig að fallist á þennan kröfulið hans með samtals 209.799 krónum. Eins og að framan er rakið var tilboð stefnda miðað við tilgreinda þykkt veggja mælda í millimetrum. Er óumdeilt er að sumir veggir og gólf, sem sagað var í, reyndust þykkari en í tilboðinu gat, en aðrir þynnri. Í framangreindum yfirlitum um tilboð og aukaverk eru liðir vegna þessa og virðast sumir þeirra vera tilteknir á báðum yfirlitum. Þá er sundurliðun stefnda í greinargerð fyrir Hæstarétti um þennan þátt óglögg og ekki í fullu samræmi við framlögð gögn. Verður því þessum hluta kröfu stefnda vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Samkvæmt því sem að framan er rakið greiddi áfrýjandi 3. júní 2004 stefnda 28.068 krónur umfram það sem á vantaði til fullrar greiðslu höfuðstóls þess hluta kröfu stefnda sem hann taldi til tilboðs. Kemur sú greiðsla til lækkunar dæmdri fjárhæð. Samkvæmt öllu framanrituðu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 298.005 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 501.768 krónum frá 11. júní 2002 til 3. júní 2004, en af 298.005 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Í ljósi þessarar niðurstöðu er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Vísað er frá héraðsdómi þeim hluta kröfu stefnda, Bortækni verktaka ehf., á hendur áfrýjanda, Kristjáni Jónssyni, sem reistur er á því að veggir í stöðvarhúsi Hrauneyjafossvirkjunar, sem stefndi sagaði í, hafi reynst þykkari en gert var ráð fyrir í verksamningi aðila. Áfrýjandi greiði stefnda samtals 298.005 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 501.768 krónum frá 11. júní 2002 til 3. júní 2004, en af 298.005 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2003. Mál þetta, sem dómtekið var hinn 3. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Bortækni verktökum ehf., kt. 420597-3559, Vagnhöfða 19, Reykjavík, gegn Kristjáni Jónssyni, kt. 271042-2729, Réttarholti 5, Selfossi með stefnu birtri 3. júní 2002. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 4.580.587 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 4.580.587 kr. frá 20. mars 2002 til greiðsludags. Allt að frádregnum innborgunum: þann 28. september 2001 121.075 kr., þann 19. nóvember 2001, 500.000 kr., þann 26. október 2001, 600.000 kr., þann 23. nóvember 2001, 1.200.000 kr., eða alls að upphæð 2.421.075 kr., sem dragast skulu frá skuldinni miðað við stöðu hennar á hverjum innborgunardegi. Þá er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins. Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Málsatvik Krafa stefnanda er byggð á reikningi sem er tilkominn vegna vinnu stefnanda fyrir stefnda. Um sé að ræða vinnu við Hrauneyjarfossvirkjun samkvæmt tilboði í 19 liðum. Hafi tilboð verið gert í vinnu m.a. við sögun á gluggagötum, dyragötum, gólfgötum og vegna gata í veggi. Einnig hafi verið gert tilboð í kjarnaborun. Uppgefin verð í þessi göt og kjarnaborunina hafi verið eftir stærð þeirra og þykkt veggja. Samkvæmt yfirliti stefnanda hafi verið unnið jöfnum höndum við verk samkvæmt tilboðinu og umbeðin aukaverk af stefnda eftir því sem verkinu vatt fram. Aukaverk hafi m.a. verið vegna vinnu stefnanda við vatnsvarnir og fjarlæginu á steinsteypustykkjum, en samkvæmt tilboði hafi það verið í verkahring stefnda að sjá um þessa hluti. Einnig hafi verið tekið fram í tilboði að stefndi skyldi sjá um uppsetningu vinnupalla og að rafmagn yrði í góðu lagi. Svo hafi ekki verið í mörgum tilvikum og því hafi stefnandi orðið að vinna þessi verk sem aukaverk. Allt tilboðið hafi miðast við ákveðna þykkt á veggjum og stærð á götum og hafi stefndi verið meðvitaður um breytingu á verði ef breytingar yrðu á þykkt og stærð. Stefndi hafi sjálfur verið á staðnum er verkið var unnið og hafi hann verkstýrt öllu verkinu og öll þau aukaverk er unnin voru hafi verið unnin að hans beiðni. Tekið hafi verið tillit til innborgana við kröfugerð þessa. Reikningur stefnanda nr. 120 er að fjárhæð 4.580.587 kr., útgefinn 20. mars 2002 og með gjalddaga sama dag. Inn á skuldina hafa verið greiddar þessar innborganir: 28. september 2001 121.075 kr., 19. október 2001 500.000 kr., 26. október 2001 600.000 kr., 23. nóvember 2001 1.200.000 kr., og hafi þegar verið tekið tillit til þeirra við gerð dómkrafna. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar. Varðandi lagarök er vísað til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 5., 6. og 28. gr. laga 39/1922, en einnig í 45., 47. og 51.gr. laga nr. 50/2000 og 28. gr. laga nr. 42/2000. Um gjalddaga kröfunnar sé einkum vísað til meginreglu 12. gr. laga nr. 39/1922 og 49. gr. laga nr. 50/2000. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við l. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing er vísað til 36 gr. laga númer 91/1991. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi lýsir málsatvikum svo að hann hafi annast verktöku vegna viðbyggingar og breytinga á Hrauneyjafossstöð á Landmannaafrétti fyrir Landsvirkjun. Hann hafi aflað tilboðs í hluta verksins, sem laut að kjarnaborun og sögun á nánar tilgreindum verkþáttum sem skilgreindir voru í 19 liðum, sbr. tilboð stefnanda. Stefnandi hafi boðið í verkið og í tilboðinu hafi verið ákvæði um vinnutilhögun þar sem m.a. hafi verið kveðið á um að stefndi myndi sjá um undirbúning og undirslátt, fjarlægingu á múrbroti, verkpalla, fæði og uppihald. Verktaki skyldi einnig sjá um að hægt yrði að fá vatn og rafmagn á staðnum er sögun átti að eiga sér stað. Samkvæmt tilboði stefnanda skyldi stefndi greiða 3.684.500 kr. fyrir verkið. Samkomulag varð um að stefndi myndi sjálfur framkvæma hluta af þeim verkliðum sem tilgreindir voru í tilboðinu og myndi stefnandi eðlilega ekki fá greitt fyrir þá. Nánar tiltekið hafi stefndi framkvæmt verkliði nr. 10 - 19 samkvæmt tilboðinu og hafi endurgjald stefnanda þannig átt að lækka um 1.106.500 kr. Stefnandi skyldi því fá greiddar 2.578.000 kr. fyrir verkliði 1 - 9 samkvæmt samkomulagi aðila. Stefndi efndi að sínu leyti efni verksamningsins og bauðst m.a. til að aðstoða stefnanda við að fjarlægja stykki úr þeim götum sem stefnandi kjarnaboraði og sagaði, án sérstaks endurgjalds. Hafi stefndi gert þetta þegar ljóst var að stefnandi ætti í vandræðum með verkið að þessu leyti, en stefndi hafði ótvíræða hagsmuni af því að verkið ynnist hratt og vel, vegna samnings hans við aðalverkkaupa. Stefndi hafði þá þegar fengið nokkrar athugasemdir frá aðalverkkaupa vegna vinnu stefnanda og frágangs á verkstað. Stefndi taldi sig hafa að fullu leyti gert upp við stefnanda vegna verksins þegar stefnandi hófst handa við að krefja stefnda um frekari greiðslur. Stefndi lagði til í óformlegum viðræðum við stefnanda að hann greiddi stefnanda 500.000 kr. til að ljúka málinu án frekari dráttar. Þeirri málamiðlunartillögu hafi stefnandi alfarið hafnað og sé stefndi á engan hátt bundinn af þeirri sáttatillögu. Stefnandi hóf því innheimtuaðgerðir með atbeina lögmanns síns með bréfi dags. 26. mars 2002. Stefnda hafði þá ekki borist reikningur sá sem innheimta stefnanda byggir á og hafi í raun ekki enn fengið slíkan reikning í hendur. Aðalkrafa stefnda um sýknu byggir á því að á milli stefnanda og stefnda hafi stofnast tvíhliða, gagnkvæmur samningur um að stefnandi tæki að sér tiltekið verkefni gegn ákveðnu gjaldi. Stefndi hafi að fullu efnt skyldur sínar samkvæmt samningi aðila og í raun ríflega það. Stefndi vísar til þess að samið hafi verið um að stefnandi tæki aðeins að sér hluta þeirra verkliða sem tilgreindir séu í verk- og verðtilboði stefnanda. Samkvæmt greindu tilboði skyldi stefnandi fá greiddar 2.578.000 kr. fyrir verkið. Óumdeilt sé að stefndi hafi þegar greitt 2.421.075 kr. til stefnanda. Stefndi telur að heildargreiðslur hans til stefnda séu hærri, eða u.þ.b. 2.700.000 kr. og hafi hann nú þegar greitt fyrir verkið að fullu. Þá byggir stefndi á því að krafa stefnanda um greiðslu vegna aukaverka sé beinlínis röng og hafi stefndi aldrei samþykkt nein aukaverk í tengslum við verksamning aðila. Samkvæmt almennum reglum kröfu- og verktakaréttar hafi stefnanda borið að afla fyrir fram samþykkis til aukaverka sem kynnu að falla til vegna verksins, hafi um þau verið að ræða. Vísast þar m.a. til meginreglna IST 30. Ótvírætt sé að þær meginreglur sem þar séu teknar fram gildi um verksamning aðila. Með sama hætti hafi stefnanda borið að tilkynna stefnda fyrir fram um hugsanlegar hækkanir á því verði sem samið hafi verið um að stefndi skyldi greiða samkvæmt samningi aðila. Samningur aðila gerði ráð fyrir að stefndi greiddi stefnda tiltekna heildarfjárhæð fyrir verkið í heild sinni. Hafi forsendur fyrir þeim fjárhæðum breyst á verktímanum eða stefnandi talið sig knúinn til að hækka verð eða breyta samningi af einhverjum ástæðum hafi honum borið að semja um það sérstaklega við stefnda fyrir fram. Stefnandi geti ekki einhliða breytt ákvæðum verksamningsins og krafist þess að stefndi greiði hærra verð fyrir einstaka liði hans. Þá sé því sérstaklega mótmælt að stefndi hafi átt að annast það að fjarlægja stykki úr götum sem stefnandi sá um að bora og saga. Ljóst sé að almennur skilningur á því hvað felist í sögun og borun steinveggja sé að eftir standi gat. Stefnanda bar, án nokkurs vafa, að annast um að taka stykki úr veggjunum, enda sé það hluti af sögun og borun. Stefnda bar eingöngu að fjarlægja múrbrot sem féll eðlilega til við sögun og borun. Hafi stefnandi ætlast til að stefndi annaðist um að fjarlægja stykkin sem féllu til við sögun og borun bar honum að tilgreina það í tilboðinu. Samkvæmt samningi aðila skyldi stefndi taka að sér ákveðna verkhluta, sem fólust í undirbúningi og undirslætti, fjarlægingu á múrbroti, verkpöllum, fæði og uppihaldi. Jafnframt skyldi stefndi annast um að útvega vatn og rafmagn á verkstað. Stefndi hafi fyllilega staðið við sinn hluta samningsins. Að því leyti sem fjárkrafa stefnanda varðar þessa verkhluta er því mótmælt að til slíkrar kröfu hafi stofnast. Að öðru leyti er því mótmælt að stofnast hafi til skuldar stefnda umfram það sem um var samið að greitt skyldi fyrir verkið samkvæmt þeim hlutum tilboðsins sem stefnandi tók að sér að framkvæma. Stefndi hafi að fullu efnt sinn hluta samningsins og í raun ríflega það. Þá sé því sérstaklega mótmælt að stefndi skuli vera krafinn um greiðslu á reikningi, sem hafi ekki borist honum í hendur, þrátt fyrir sérstaka beiðni þar að lútandi sbr. bréf dags. 2. apríl 2002. Hafi á engan hátt verið gerður reki að því að skýra eða sundurliða kröfugerð stefnanda með viðhlítandi hætti, umfram það sem fram komi í innheimtubréfi dags. 26. mars sl. Þar sé höfuðstóll skuldarinnar tilgreindur 4.580.587 kr. en innborganir 2.421.075 kr. án frekari skýringa. Stefnandi verði að bera hallann af sönnunarskorti og óskýrri og órökstuddri kröfugerð sinni. Þá er dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt sem rangri. Verði á það fallist að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur stefnda er á því byggt að lækka beri þá kröfu verulega. Stefndi vísar til þess sem rakið er til rökstuðnings aðalkröfu, til stuðnings varakröfu sinni. Sérstaklega er á það bent að stefnandi hafi ekki fyrir fram samið um þau aukaverk sem hann krefur stefnda um greiðslu á. Þá er á því byggt að stefnandi hafi ekki með fullnægjandi hætti sýnt fram á í hverju aukakostnaður sá, sem hann hefur krafist greiðslu á, felist. Stefndi byggir á því að sá aukakostnaður sem talinn sé upp í framlögðu yfirliti sé fjarri lagi og alltof hár. Stefnandi hafi ekki skýrt með hvaða hætti greindur kostnaður falli utan verðs samkvæmt samningi aðila. Stefndi telur ljóst að verulegur hluti af þeim kostnaði sem stefnandi telur til aukakostnaðar eigi að falla undir samningsgreiðslu stefnda, sem hann hafi þegar innt af hendi. Krafa stefnanda sé þannig alltof há og beri að lækka hana verulega. Í yfirliti og verklýsingu aukaverka er í allnokkrum tilvikum um það að ræða að stefnandi hefur unnið við að brjóta og fjarlægja steypustykki eftir kjarnaborun eða sögun. Ekki verður talið að sú vinna hafi verið innifalin í verk- og verðtilboði hans og með skírskotun til þess að það hafi verið á verksviði stefnda að sjá um að fjarlægja múrbrot beri stefnanda að fá greitt aukalega fyrir vinnu sína að þessu leyti. Óumdeilt er að stefnda bar að annast vatnsvarnir vegna vinnu stefnanda við borun og sögun. Ber því einnig að fallast á að stefnanda beri að fá greitt aukalega fyrir vinnu sína vegna ófullnægjandi vatnsvarna. Þá verður að ætla að stefnda hafi verið kunnugt um önnur þau aukaverk, sem stefnandi vann og tilgreind eru í yfirliti hans og samþykkt framkvæmd þeirra í raun. Svo sem samskiptum og samstarfi aðila var háttað varðandi framkvæmd verksins samkvæmt gögnum málsins verður ekki talið að stefnandi skuli bera halla af því að hafa ekki sett fram skriflegar kröfur vegna breytinga á verkinu. Verður því fallist á kröfu stefnanda um greiðslu vegna tilgreindra aukaverka. Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan. |
Mál nr. 595/2015 | Almannatryggingar Stjórnvaldsákvörðun Dómstóll Sakarefni Stjórnarskrá Frávísun frá héraðsdómi | Árið 2011 hafnaði T umsókn K um tekjutengdar greiðslur samkvæmt 8. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna þar sem ekki væri uppfyllt það skilyrði 20. gr. laga nr. 158/2007, um breytingu á lögum nr. 22/2006, að sonur hans hefði greinst með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun 1. október 2007 eða síðar. Sama ár staðfesti úrskurðarnefnd fæðingar- og orlofsmála ákvörðun T. Í málinu gerði K ekki kröfu um ógildingu þessara stjórnvaldsúrlausna, heldur krafðist þess að T yrði dæmd til að inna af hendi fjárgreiðslu til sín sökum þess að ákvörðun stofnunarinnar hefði brotið gegn nánar greindum lagaákvæðum, þar á meðal fyrirmælum 1. mgr. 65. gr. og 1. og 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt dómstólar væru almennt til þess bærir á grundvelli 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar að taka afstöðu til kröfu um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar væri að jafnaði ekki á valdi þeirra að taka ákvörðun, sem undir stjórnvald heyrði samkvæmt lögum, svo sem ráðið yrði af fyrirmælum 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þó væru þau fyrirmæli því ekki til fyrirstöðu að dómstólar gætu kveðið á um athafnaskyldu stjórnvalds, svo sem skyldu til að inna af hendi greiðslu, að því tilskildu að stjórnvaldinu hefði verið falið að taka slíka ákvörðun á grundvelli laga þar sem ýmist væri ekki svigrúm til mats eða óumdeilt væri að ákvæði þeirra hefðu verið skýrð á tiltekinn hátt í framkvæmd. Talið var að 8. gr. laga nr. 22/2006 kvæði ekki á um skýlausan rétt foreldris til tekjutengdra greiðslna vegna alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða alvarlegrar fötlunar barns og að ekki lægi fyrir í málinu hvernig ákvæðinu hefði verið beitt í framkvæmd. Fjárkröfur K væru allar reistar á því að hann ætti samkvæmt lögum rétt til tekjutengdra greiðslna úr hendi T í fimm mánuði á árinu 2011. Samkvæmt framansögðu var talið að dómstóla brysti vald til þess að taka kröfur K til greina. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, EiríkurTómasson, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar MárMatthíasson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. september 2015 að fengnuáfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega737.193 krónur, til vara 657.195 krónur, en að því frágengnu 211.297 krónur, íöllum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 umvexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. mars 2011 tilgreiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, ántillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrirHæstarétti.ISonur áfrýjanda, Kristján Logi Kárason, sem er fæddur 14. október 2005,er alvarlega fatlaður. Óumdeilt er að hann er algjörlega öðrum háður meðhreyfifærni og flestar athafnir daglegs lífs og fellur því undir 1.fötlunarstig samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur tilforeldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.Á fyrsta aldursári Kristjáns Loga kom í ljós að hann ætti við alvarlegafötlun að stríða. Samkvæmt vottorði barnalæknis við Fjórðungssjúkrahúsið áAkureyri, þar sem drengurinn býr ásamt foreldrum sínum, 15. ágúst 2006 varsjúkdómsgreining talin vera „blandnar sértækar þroskaraskanir“. Í vottorðinusagði jafnframt: „Við níu mánaða aldur greinileg seinkun í hreyfiþroska, sem þánam um 3-6 mánuðum, verið í stífum þjálfunum síðan en því miður ekki mikillárangur ennþá ... er ljóst að drengurinn þarf áfram á miklum þjálfunum að haldaum ófyrirséða framtíð.“ Í vottorði sama læknis 24. janúar 2007 var meðal annarstekið fram um heilsufar drengsins: „Merki alvarlegrar þroskahömlunar nú komin íljós betur en áður var.“ Í vottorði Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins15. mars 2011 sagði að Kristjáni Loga hafi verið vísað á greiningarstöðina aflækninum í ágúst 2006 og hafi hann „þá gengist undir talsverðar rannsóknir ánþess að ástæða þroskaseinkunarinnar hafi fundist.“ Félagsráðgjafi ogþroskaþjálfi frá greiningarstöðinni hafi heimsótt fjölskylduna þremur mánuðumsíðar. Sagði síðan í vottorðinu: „Kristján Logi og fjölskylda komu áGreiningarstöð haustið 2007, nánar tiltekið dagana 29. október til 1. nóvemberog þá fór fram fyrsta greining. Í þeirri heimsókn hitti fjölskyldan barnalækni,sjúkraþjálfara, sálfræðing, þroskaþjálfa og félagsráðgjafa. Í niðurstöðumathugunar kemur fram að drengurinn er með lága grunnvöðvaspennu,hreyfiþroskaröskun og þroskaseinkun. Við tveggja ára aldur er þroski hans á viðþroska 6-7 mánaða barna.“Að loknu fæðingarorlofi fóru foreldrar Kristjáns Loga út á vinnumarkaðinnog drengurinn í daggæslu. Í aðilaskýrslu áfrýjanda fyrir héraðsdómi kom fram aðþað hafi gengið „alveg þokkalega en það eru samt svona alltaf reglulega frekarstuttar sjúkrahúsinnlagnir en svo gerist það þarna árið 2009 sem það verðursvona algjör toppur í sjúkrahúsinnlögnum hjá drengnum.“ Í kjölfarið kvaðstáfrýjandi, sem er grunnskólakennari, hafa fengið launalaust leyfi frávinnuveitenda sínum til að geta sinnt syni sínum.Eftir að áfrýjandi hafði fengið greidda sjúkradagpeninga frá stéttarfélagisínu í sex mánuði sótti hann til stefnda um fjárhagsaðstoð. Með bréfi stefnda28. júní 2010 var áfrýjanda synjað um tekjutengdar greiðslur fyrir foreldra ávinnumarkaði samkvæmt 8. gr. laga nr. 22/2006 þar sem ekki væri uppfyllt þaðskilyrði að drengurinn hefði greinst með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eðaalvarlega fötlun 1. október 2007 eða síðar. Hins vegar var fallist á að inna afhendi til áfrýjanda grunngreiðslur eftir 19. gr. laganna frá 1. ágúst 2010 til28. febrúar 2011. Hann sótti síðan aftur um tekjutengdar greiðslur í staðgrunngreiðslna 3. febrúar 2011 fyrir tímabilið frá 1. mars til 1. september þaðár. Með bréfi 7. mars sama ár samþykkti stefndi að greiða áfrýjanda áframgrunngreiðslur, en hafnaði á sama grundvelli og áður umsókn hans umtekjutengdar greiðslur. Áfrýjandi kærði þá ákvörðun stefnda tilúrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála sem staðfesti hana með úrskurði8. september 2011.IIEins og lög nr. 22/2006 hljóðuðu upphaflega var í 1. mgr. 8. gr. kveðið áum að foreldri, sem legði niður launuð störf þegar barn þess greindist meðalvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun, gæti átt sameiginleganrétt á greiðslum með hinu foreldri barnsins. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. lagannaskyldi greiðsla til foreldris nema tiltekinni fjárhæð á mánuði og var þaraðeins gert ráð fyrir einni tegund greiðslna. Lögin öðluðust að stærstum hlutagildi 1. júlí 2006, sbr. 1. mgr. 19. gr. þeirra. Þar kom jafnframt fram aðákvæði laganna ættu almennt við um börn sem greinst hafi með alvarlega eðalangvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun 1. janúar 2006 eða síðar. Með lögum nr. 158/2007 voru gerðar verulegar breytingar á lögum nr.22/2006. Samkvæmt 2. gr. síðarnefndu laganna er markmið þeirra eftirbreytingarnar að tryggja foreldrum langveikra eða alvarlega fatlaðra barnafjárhagsaðstoð þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrarumönnunar barna sinna, þar á meðal vegna þeirra bráðaaðstæðna sem upp komaþegar börn þeirra greinast með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlegafötlun, enda verði vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila ekki við komið.Ein helsta breytingin á lögum nr. 22/2006, sem gerð var með lögum nr.158/2007, var að breyta því greiðslukerfi, sem á hafði verið komið, í þá veruað greina greiðslur til foreldris langveiks eða alvarlega fatlaðs barns ítvennt. Annars vegar svonefndar grunngreiðslur á grundvelli IV. kafla laga nr.22/2006, sem eftir 1. mgr. 20. gr. þeirra skyldi nema fyrst um sinn 130.000krónum á mánuði, enda væru uppfyllt skilyrði 19. gr., og hins vegartekjutengdar greiðslur samkvæmt III. kafla laganna. Í 1. mgr. 8. gr. þeirra erkveðið á um að foreldri, sem leggur niður launað starf vegna þeirrabráðaaðstæðna sem upp koma þegar barn þess greinist með alvarlegan oglangvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun, geti átt sameiginlegan rétt átekjutengdum greiðslum samkvæmt 1. mgr. 11. gr. í allt að þrjá mánuði með hinuforeldri barnsins samkvæmt mati stefnda, sem ráðherra hefur eftir 1. mgr. 5.gr. laganna ákveðið að skuli fara með framkvæmd þeirra, sbr. 2. gr. reglugerðarnr. 1277/2007. Í 1. málslið 2. mgr. 8. gr. laganna segir að foreldri geti áttrétt á tekjutengdum greiðslum samkvæmt 1. mgr. hafi það verið samfellt í sexmánuði á innlendum vinnumarkaði áður en barnið greindist með alvarlegan oglangvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrarsérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu,foreldri leggi niður störf til að annast barnið meðan greiðslur standa yfir,barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris, svo sem vegna innlagnar ásjúkrahús eða meðferðar í heimahúsi, enda verði ekki annarri vistunarþjónustu ávegum opinberra aðila við komið, og foreldri og barn eigi lögheimili hér álandi þann tíma sem greiðslur eru inntar af hendi. Jafnframt segir í 3. mgr. 8.gr. að heimilt sé að framlengja sameiginleg réttindi foreldra til tekjutengdragreiðslna samkvæmt 1. mgr. um allt að þrjá mánuði þegar barn þeirra þarfnastverulegrar umönnunar vegna mjög alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða fötlunar. Eftir1. mgr. 11. gr. laganna skulu tekjutengdar greiðslur til foreldris, sem erlaunamaður, nema 80 af hundraði meðaltals heildarlauna og skal miða við tólfmánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en barnið greindist meðalvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun.Samkvæmt 20. gr. laga nr. 158/2007 öðluðust þau lög gildi 1. janúar 2008,en greiðslur skyldu koma til framkvæmda 1. mars 2008. Þó er svo fyrir mælt í20. gr. að ákvæði III. kafla laga nr. 22/2006, þar á meðal 8. og 11. gr.þeirra, eigi við um foreldra barna, sem greinast með alvarlega og langvinnasjúkdóma eða alvarlega fötlun 1. október 2007 eða síðar, að undantekinni 28.gr., enda hafi barn greinst aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eðaástand þess versnað vegna sjúkdóms eða fötlunar eftir 1. október 2007. IIIEins og áður er rakið hafnaði stefndi 7. mars 2011 umsókn áfrýjanda umtekjutengdar greiðslur samkvæmt 8. gr. laga nr. 22/2006 þar sem ekki væriuppfyllt það skilyrði 20. gr. laga nr. 158/2007 að sonur hans hefði greinst meðalvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun 1. október 2007 eðasíðar. Áfrýjandi kærði þessa ákvörðun stefnda til úrskurðarnefndar fæðingar- ogforeldraorlofsmála sem staðfesti hana með úrskurði 8. september 2011. Í máliþessu gerir áfrýjandi ekki kröfu um ógildingu þessara stjórnvaldsúrlausna,heldur krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að inna af hendifjárgreiðslu til sín sökum þess að ákvörðun hans hafi brotið gegn nánargreindum lagaákvæðum, þar á meðal fyrirmælum 1. mgr. 65. gr. og 1. og 3. mgr.76. gr. stjórnarskrárinnar.Þótt dómstólar séu almennt til þess bærir á grundvelli 60. gr. og 1. mgr.70. gr. stjórnarskrárinnar að taka afstöðu til kröfu um ógildingustjórnvaldsákvörðunar er að jafnaði ekki á valdi þeirra að taka ákvörðun, sem undirstjórnvald heyrir samkvæmt lögum, svo sem ráðið verður af fyrirmælum 2. gr.stjórnarskrárinnar. Þó eru þau fyrirmæli því ekki til fyrirstöðu að dómstólargeti kveðið á um athafnaskyldu stjórnvalds, svo sem skyldu til að inna af hendigreiðslu, að því tilskildu að stjórnvaldinu hafi verið falið að taka slíka ákvörðuná grundvelli laga þar sem ýmist er ekki svigrúm til mats eða óumdeilt er aðákvæði þeirra hafi verið skýrð á tiltekinn hátt í framkvæmd.Í 8. gr. laga nr. 22/2006 er ekki kveðið á um skýlausan rétt foreldristil tekjutengdra greiðslna vegna alvarlegs og langvinns sjúkdóms eðaalvarlegrar fötlunar barns, heldur að foreldri geti að ákveðnum skilyrðum uppfylltumátt rétt á slíkum greiðslum í allt að sex mánuði samkvæmt mati stefnda. Ekkinýtur við í málinu neinna gagna um hvernig þessum matskenndu lagaákvæðum hefurverið beitt í framkvæmd. Fjárkröfur áfrýjanda eru allar reistar á því að hann eigi samkvæmt lögumrétt til tekjutengdra greiðslna úr hendi stefnda í fimm mánuði á árinu 2011. Samkvæmtframansögðu brestur dómstóla vald til þess að taka kröfur áfrýjanda til greina.Þegar af þeirri ástæðu verður málinu vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi, sbr. 1.mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.Rétt er að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum. Ekki verður hreyft við fjárhæð gjafsóknarkostnaðar í héraði, en umgjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Máli þessu er vísað fráhéraðsdómi.Málskostnaður í héraði og fyrirHæstarétti fellur niður.Allur gjafsóknarkostnaðuráfrýjanda, Kára Jóhannessonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talinmálflutningsþóknun lögmanns hans í héraði, 800.000 krónur, og lögmanns hansfyrir Hæstarétti, 800.000 krónur. DómurHéraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2015.Mál þetta varhöfðað 20. febrúar 2014, þingfest 27. sama mánaðar og tekið til dóms 16. marssl. að loknum munnlegum málflutningi.Stefnandi er Kári Jóhannesson, kt. [...], Núpasíðu 6a, 603 Akureyri. Stefndi er Tryggingastofnun ríkisins, kt. [...],Laugavegi 114, Reykjavík. Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum737.193 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vextiog verðtryggingu, af 147.439 kr. frá 1. mars. 2011 til 1. apríl 2011, af294.877 kr. frá 1. apríl 2011 til 1. maí 2011, af 442.316 kr. frá 1. maí 2011til 1. júní 2011, af 589.755 kr. frá 1. júní 2011 til 1. júlí 2011 og af737.193 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndiverði dæmdur til að greiða stefnanda 657.195 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1.mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 131.439 kr. frá 1.mars 2011 til 1. apríl 2011, af 262.878 kr. frá 1. apríl 2011 til 1. maí 2011,af 394.317 kr. frá 1. maí 2011 til 1. júní 2011, af 525.756 kr. frá 1. júní2011 til 1. júlí 2011 og af 657.195 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Að þvífrágengnu krefst stefndi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum211.297 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vextiog verðtryggingu, af 42.259 kr. frá 1. mars 2011 til 1. apríl 2011, af84.519kr. frá 1. apríl 2011 til 1. maí 2011, af 126.778 kr. frá 1. maí 2011 til1. júní 2011, af 169.038 kr. frá 1. júní 2011 til 1. júlí 2011 og af 211.297kr. frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðarúr hendi stefnda eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál. Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi aðmati dómsins.Stefndi hafði á fyrri stigum uppi kröfu um frávísun málsins frá dómi, enþeirri kröfu var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2014.I.MálsatvikStefnandi ásoninn Kristján Loga Kárason, sem er fæddur þann 14. október 2005. KristjánLogi er alvarlega fatlaður og algjörlega háður öðrum með hreyfifærni og allarathafnir daglegs lífs og fellur því undir 1. fötlunarstig, skv. 1. tl. 1. mgr.27. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegafatlaðra barna. Í lok árs 2009mun stefnandi hafa lagt niður störf vegna veikinda drengsins. Hann mun fyrst umsinn hafa fengið greiðslur úr sjúkrasjóði, en þegar sá réttur var fullnýttursótti hann um tekjutengdar greiðslur til foreldra á vinnumarkaði skv. lögum nr.22/2006. Stefndi samþykkti, með bréfi dags. 28. júní 2010, að greiðagrunngreiðslur til stefnanda skv. 19. gr. laganna, frá 1. ágúst 2010 til 28.febrúar 2011, en synjaði hins vegar um tekjutengdar greiðslur skv. 8., sbr. 11.gr. laganna, þar sem ekki væri uppfyllt það skilyrði að barnið hefði greinstmeð alvarlegan eða langvinnan sjúkdóm 1. október 2007 eða síðar.Stefnandi sóttiaftur um tekjutengdar greiðslur þann 3. febrúar 2011 (dskj. 14 ). Með bréfi,dags. 7. mars 2011 (dskj. 3), samþykkti stefnandi að greiða grunngreiðslur tilstefnanda skv. 19. gr. laganna, í þetta skipti frá 1. mars 2011 til 31. júlí2011, en synjaði hins vegar á sama grundvelli og áður um tekjutengdar greiðslurskv. 8., sbr. 11. gr. laganna. Þann 3. júní2011 kærði stefnandi ákvörðun stefnda til úrskurðarnefndar fæðingar- ogforeldraorlofsmála, sem staðfesti ákvörðun stefnda þann 8. september 2011.Stefnandi hafði einnig leitað til Umboðsmanns Alþingis, sem skilaði áliti sínuþann 9. október 2012. Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til frekari athugana. Með heimild ílögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hefur móðir Kristins Loga fengiðgreiddar umönnunargreiðslur frá stefnda samfellt frá ágústmánuði 2006.Núgildandi umönnunarmat gildir til ársins 2016.Stefnandi fékk23. maí 2013 leyfi til gjafsóknar, samkvæmt 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991um meðferð einkamála, til þess að höfða mál gegn íslenska ríkinu til ógildingará ákvörðun stefnda 28. júní 2010. II.Málsástæður og lagarök stefnandaStefnandi byggirkröfur sínar á því að ákvörðun stefnda 7. mars 2011, sem staðfest var afúrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála 8. september 2011, brjóti gegnjafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Foreldrar sem leggja niður launuðstörf til að annast barn sitt eigi rétt til tekjutengdra greiðslna samkvæmt 8.gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegafatlaðra barna. Tekjutengdar greiðslur til foreldris, sem er launamaður, skuli,samkvæmt 1. mgr. 11. gr., nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli viðtólf mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en barnið greindist meðalvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun. Foreldrar geti einnigfengið greiðslur samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. 12. gr. sömu laga. Þágreiði ríkissjóður 8% mótframlag í lífeyrissjóð af greiðslum skv. 8., 11. og12. gr, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Foreldrum sé því gert kleift að njóta 80%tekna sinna auk greiðslna til lífeyrissjóðs líkt og þeir væru úti á vinnumarkaðnum,þrátt fyrir að þeir þurfi að leggja niður störf hvort sem er að fullu eða aðhluta, til að annast barn sitt. Áðurgreind ákvæði nái þó aðeins til foreldrabarna sem greinast eftir 1. október 2007, sbr. 20. gr. laga nr. 158/2007 umbreytingu á lögum nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra og alvarlegafatlaðra barna. Foreldrar barnasem greinst hafi fyrir 1. október 2007 eigi því aðeins rétt á grunngreiðslum,sem nemi nú 177.268 kr. á mánuði skv. c-lið 1. gr. reglugerðar nr. 1217/2013 umfjárhæðir greiðslna og frítekjumarks fyrir árið 2014 samkvæmt lögum umgreiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Það sé þvítalsverður munur á þeirri fjárhagsaðstoð sem í boði er eftir því hvenær barngreinist. Foreldrum barna sem greind hafi verið fyrir 1. október 2007 sé gertmun erfiðara um vik að leggja niður störf til að sinna umönnun barna sinna, þvítekjulækkunin sé svo mikil, en þeir eigi aðeins rétt á grunngreiðslum upp á177.268 kr. á mánuði og njóti ekki mótframlags í lífeyrissjóð. Þá eigi þeiraðeins rétt á grunngreiðslum ef þeir leggja niður störf að fullu. Foreldrarbarna sem greinast eftir 1. október 2007 geti hins vegar notið 80% af tekjumsínum á mánuði (allt að 631.986 kr. skv. a-lið 1. gr. reglugerðar nr. 1217/2013um fjárhæðir greiðslna og frítekjumarks fyrir árið 2014 samkvæmt lögum umgreiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.), aukmótframlags í lífeyrissjóð og geti fengið greiðslur samhliða minnkuðustarfshlutfalli. Ljóst sé því að talsverður munur sé á réttindum foreldra eftirþví hvenær barn þeirra greinist, en engar málefnalegar ástæður liggi tilgrundvallar þessari mismunun. Stefnandi byggirá því að ákvörðun stefnda brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr.stjórnarskrárinnar, þar sem stefnda sé mismunað á grundvelli greiningardagssonar hans. Samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar skuli allir vera jafnir fyrirlögum. Meginmarkmið jafnræðisreglunnar sé að girða fyrir að tveir menn í sömuaðstöðu fái mismunandi meðferð eða mismunandi úrlausn mála sinna á ólögmætanhátt vegna atriða sem þar eru talin og engar málefnalegar ástæður réttlætimismununina. Með því að miða rétt til greiðslna við greiningardag getiforeldrar tveggja jafngamalla barna með sama sjúkdóm hlotið ólíka afgreiðslu.Telur stefnandi að greiningardagur geti ekki talist málefnalegt sjónarmið ogþví sé um brot á jafnræðisreglu að ræða.Af hálfustefnanda er skírskotað til þess að ákvörðunin brjóti gegn 2. gr. barnasáttmálaSameinuðu þjóðanna sem lögfestur var hér á landi þann 13. mars 2013, sbr. lögnr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Stefnandi telurákvörðun stefnda jafnframt vera í andstöðu við 1. og 3. mgr. 76. gr.stjórnarskrárinnar, þar sem hún tryggi ekki þeim börnum sem greinast eftir 1.október 2007 þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Ráðstöfunartekjurheimilisins minnki til muna þegar foreldri barns, sem greinist eftir 1. október2007, þarf að leggja niður störf, þar sem það eigi aðeins rétt ágrunngreiðslum, sem séu lægri en lágmarkslaun, og það geri foreldrum í slíkumaðstæðum verulega erfitt fyrir fjárhagslega. Meðal viðurkenndralöggjafarmarkmiða sé vernd fjölskyldunnar, sbr. 10. gr. alþjóðasamnings umefnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem var fullgiltur hér á landiþann 22. ágúst 1979, sbr. auglýsingu nr. 10/1979 í C-deild Stjórnartíðinda, og16. gr. félagsmálasáttmála Evrópu, fullgiltur hér á landi þann 15. janúar1976, sbr. auglýsingu nr. 3/1976 í C-deild Stjórnartíðinda. Túlka verðistjórnarskrá og almenna löggjöf í ljósi þessara þjóðréttarleguskuldbindinga. Stefnandi vísartil markmiðs og tilgangs laga nr. 22/2006.Stefnandi telurákvörðun stefnda byggða á röngum forsendum því foreldrar barna sem greind vorufyrir 1. október 2007 geti öðlast rétt til tekjutengdra greiðslna ef ástandbarns versnar vegna sjúkdóms eða fötlunar, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr.158/2007.Ákvörðun stefndasem staðfest var af úrskurðarnefnd byggir að mati stefnanda á röngum forsendum.Ekki hafi verið tekið mið af því að ástand barnsins hafði versnað vegnafötlunar þess eftir 1. október 2007 né þess að stefnandi hafi orðið að leggjaniður störf til að sinna umönnun barnsins. Stefnandi uppfylli þar með skilyrði28. gr. laga nr. 22/2006, sbr. 18 gr. laga nr. 158/2007.Stefnandi gerirþví þá kröfu að stefnda verði gert að greiða honum mismun þess er hann fékkgreitt og þess sem hann hefði fengið greitt ef hann hefði notið tekjutengdragreiðslna til foreldra á vinnumarkaði, skv. 8. gr., sbr. 11. gr. laga nr.22/2006, líkt og hann eigi rétt á samkvæmt lögum ef áðurgreindrar mismununarnyti ekki við. Aðalfjárkrafastefnanda miðist við tekjur hans á tólf mánaða tímabili tveimur mánuðum áður enhann varð að leggja niður störf. Stefnandi gerir þá kröfu að það tímabil verðilagt til grundvallar við ákvörðun meðaltekna hans, þar sem ástand sonar hansversnaði svo stefnandi hafi orðið að leggja niður störf og því beri að leggja28. gr. laga nr. 22/2006 til grundvallar. Lögin geri ráð fyrir að ástand barnsgeti versnað vegna fötlunar og geti foreldri þá átt sameiginlegan rétt ágreiðslum samkvæmt III. kafla laganna með hinu foreldrinu, þ.e. foreldri getiöðlast rétt til tekjutengdra greiðslna ef ástand barns versnar vegna sjúkdómseða fötlunar. Skilyrðin séu að foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði áinnlendum vinnumarkaði eða stundað nám í jafnlangan tíma. Þess sé ekki getið ílögunum hvaða sex mánuði foreldri þurfi að hafa verið við nám eða ávinnumarkaði líkt og gert sé í 2. mgr. 8. gr. laganna. Þar sé miðað við 6mánuði áður en barn greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlegafötlun samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- ogmeðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu.Aðalfjárkrafastefnanda miðast við meðaltekjur hans á tólf mánaða tímabili tveimur mánuðumáður en hann varð að leggja niður störf vegna veikinda barnsins, eða fráoktóber 2008 til september 2009, þar sem stefnandi hafi orðið að leggja niðurstörf í desember 2009 og er það til samræmis við viðmiðunartímabil samkvæmt 1.mgr. 11. gr. laganna, en lögin taka ekki á því við hvaða tímabil skuli miðaðvið þessar aðstæður.Heildartekjurstefnanda á ofangreindu tímabili voru 4.419.475 kr. og meðaltekjur hans því368.290 kr. á mánuði. Hefði hann fengið samþykktar tekjutengdar greiðslur skv.8. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 22/2006 og áðurgreint viðmiðunartímabil teknaverið lagt til grundvallar þá hefði hann fengið greiddar 294.632 kr. á mánuð.Vegna hinnar kærðu ákvörðunar Tryggingastofnunar, sem staðfest var afúrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála, naut hann aðeins grunngreiðslnaað fjárhæð 147.193 kr. (sbr. c-lið 1. gr. reglugerðar nr. 1008/2010).Mismunurinn er því 147.439 kr. á mánuði og byggir aðalfjárkrafa stefnanda áþví. Varafjárkrafastefnanda miðast við framreiknaðar meðaltekjur stefnanda á viðmiðunartímabili1. mgr. 11 gr., sem er tólf mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum fyrirgreiningardag barns eða frá júní 2005 til maí 2006. Framreiknaðar heildartekjurhans á viðmiðunartímabili eru 3.482.900 kr. miðað við vísitölu neysluverðs áákvörðunardegi, þ.e. í febrúar 2011, sem var 367,7 og að teknu tilliti tilviðmiðunartekna vegna fæðingarorlofs. Meðaltekjur stefnanda áviðmiðunartímabili voru því 348.290 kr. á mánuði, með vísan til 1. mgr. 11. gr.laganna, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu laga, þar sem hann var aðeins á innlendumvinnumarkaði í 10 mánuði á umræddu 12 mánaða tímabili. Þar af leiðandi hefðihann átt rétt á 278.632 kr. á mánuði í tekjutengdar greiðslur, en fékk hinsvegar aðeins grunngreiðslur eða 147.193 kr. á mánuði. Mismunurinn er því 131.439kr. á mánuði og byggir varafjárkrafa stefnanda á því. Foreldrar eigirétt á greiðslum samkvæmt lögunum til 18 ára aldurs barns, en fyrir liggi aðalvarlega fötluð börn greinast að jafnaði mjög snemma á lífsleiðinni. Það leiðiþó ekki alltaf til þess að foreldrar verði að leggja niður störf í beinumtengslum við greiningu barnsins, heldur geti foreldri orðið að leggja niðurstörf síðar, líkt og í tilfelli stefnanda. Þá staðfesti 28. gr. laganna aðþekkt er að ástand barns geti versnað vegna sjúkdóms eða fötlunar. Þar afleiðandi sé viðmiðunartímabil 1. mgr. 11. gr., sem lagt sé til grundvallarákvörðun á tekjutengdum greiðslum til foreldra, ekki í beinum tengslum við þærtekjur sem foreldrar höfðu er þeir urðu að leggja niður störf vegna veikindabarnsins. Í ljósiframangreinds beri því að framreikna tekjur foreldra ef áðurgreintviðmiðunar-tímabil er lagt til grundvallar þrátt fyrir að nokkur tími sé liðinnfrá upprunalegri greiningu barns. Með þeim hætti muni þær tekjur sem lagðar erutil grundvallar ákvörðun gefa réttari mynd af raunstöðu foreldris og hinartekjutengdu greiðslur verði þá nær því að vera í tengslum við rauntekjurforeldris. Framreiknun tekna sé þekkt m.a. úr meðlagsmálum, en ákvarðanir umskyldu foreldris til greiðslu aukins meðlags og menntunarframlags samkvæmtbarnalögum nr. 76/2003 byggi á meðaltekjum foreldris síðustu 2-3 ára,framreiknuðum miðað við vísitölu neysluverðs á ákvörðunardegi. Séu tekjurforeldris sem leggur niður störf einhverju eftir greiningu barns ekkiframreiknaðar þá mismuni lögin ekki aðeins foreldrum eftir því hvenær barnþeirra greinist, heldur einnig eftir því hvenær foreldri verður að leggja niðurstörf vegna veikinda barnsins. Ljóst sé foreldri sem leggur niður störf íbeinum tengslum við greiningu barns fái um 80% af rauntekjum sínum, en foreldrisem leggi niður störf síðar njóti aðeins 80% af meðaltekjum sínum eins og þærvoru jafnvel einhverjum árum áður, sem sjaldnast sé í beinum tengslum viðrauntekjur viðkomandi foreldris þegar það leggur niður störf vegna breyttsefnahagsumhverfis og launaþróunar. Þar af leiðandi beri að framreikna tekjurforeldra ef viðmiðunartímabil 1. mgr. 11. gr. laganna er lagt til grundvallar ístað þess að miða við tólf mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður enbarni versnar svo að foreldri verði að leggja niður störf.Þrautavarakrafastefnanda byggir á meðaltekjum stefnanda frá júní 2005 til maí 2006.Heildartekjur stefnanda á áðurgreindu tímabili voru 2.368.156 kr. að teknutilliti til viðmiðunartekna vegna fæðingarorlofs og meðaltekjur hans því236.816 kr. á mánuði, með vísan til 1. mgr. 11. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 9.gr. sömu laga, þar sem hann var aðeins á innlendum vinnumarkaði í 10 mánuði áumræddu 12 mánaða tímabili. Þar af leiðandi hefði hann átt rétt á 189.452 kr. ámánuði sem tekjutengdum greiðslum, en fékk aðeins grunngreiðslur að fjárhæð147.193 kr. á mánuði. Mismunurinn er því 42.259 kr. á mánuði og byggirþrautavarakrafa stefnanda á því. Um lagarök vísarstefnandi til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, einkumjafnræðisreglu 65. gr. og 76. gr., svo og laga nr. 22/2006 um greiðslur tilforeldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna með síðari breytingum.Stefnandi vísar einnig til laga nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna umréttindi barnsins, til alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg ogmenningarleg réttindi, sem var fullgiltur hér á landi þann 22. ágúst 1979 ogtil félagsmálasáttmála Evrópu, sem var fullgiltur hér á landi þann 15.janúar 1976. Krafa um vexti er byggð á IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu. Um dráttarvexti er vísað til III. og IV. kafla sömu laga, einkum1. mgr. 6. gr. og 9. gr. laganna. Um varnarþing vísar stefnandi til 4. mgr. 33.gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamáls. Krafa um málskostnað er byggð áákvæðum XXI. kafla sömu laga. III.Málsástæður og lagarök stefndaStefndi krefstsýknu af öllum kröfum stefnanda. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að kröfurog málatilbúnaður stefnanda eigi ekki við nein rök að styðjast og að ákvörðunstefnda frá 7. mars 2011, sem um er deilt, hafi verið í samræmi við löggjöf áhverjum tíma og hvorki í andstöðu við stjórnarskrá né barnasáttmála Evrópu. Stefndi bendirá, að ákvörðun hans hafi verið í fullu samræmi við 20. gr. laga nr. 158/2007 umbreytingu á lögum nr. 22/2006. Ákvæði breytingarlaganna sé afdráttarlaust þessefnis að greint er á milli greiðslna til foreldra eftir því hvort börn þeirragreinast með alvarlega eða langvinna sjúkdóma fyrir 1. október 2007 eða síðaren feli ekki í sér heimild til mats fyrir viðkomandi stjórnvald. Stefnda hafiverið óheimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði laganna enda enga undanþáguað finna, hvorki í lögum nr. 22/2006 með síðari breytingum né í reglugerð nr.1277/2007 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.Þar sem mat stefnda á greiðslum til stefnanda hafi verið fyllilega lögmætt séuekki forsendur fyrir því að dómstóll endurskoði þetta mat stefnda. Ljóst sé aðgreining á veikindum eða fötlun sonar stefnanda í skilningi 8. gr. laga nr. 22/2006hafi átt sér stað fyrir 1. október 2007. Í læknisvottorðum barnalæknisinsMagnúsar Stefánssonar 15. ágúst 2006 og 24. janúar 2007, sbr. dskj. 15 og 16,er gerð grein fyrir alvarlegum erfiðleikum drengsins og þroskafrávikum. Íkjölfar þessa hafi barninu verið vísað á Greiningar- og ráðgjafarstöð. Þangaðhafi það komið til athugunar dagana 29. október til 1. nóvember 2007. Alvarlegarþroskaraskanir drengsins hafi þannig komið í ljós fyrir tímamörk þau er setteru í 20. gr. laga nr. 158/2007, þ.e. fyrir 1. október 2007. Þá hafi einnigkomið í ljós fyrir 1. október 2007 að sonur stefnanda væri alvarlega fatlaðbarn samkvæmt c-lið 3. gr. laga nr. 22/2006.Ákvæði laga nr. 22/2006 geri skýran greinarmun á greiðslum til foreldraeftir því hvort börn þeirra greinast með alvarlega eða langvinna sjúkdóma eðaalvarlega fötlun fyrir 1. október 2007 eða síðar. Hvorki lög nr. 22/2006,síðari breytingarlög né reglugerð nr. 1277/2007 feli í sér mat fyrir stjórnvöldeða heimild til að víkja frá 20. gr. laga nr. 158/2007. Stefndi hafi ekki valdtil að breyta lögum og hafi enga lagaheimild til að setja eða breytastjórnvaldsfyrirmælum. Stjórnsýsluframkvæmd stefnda er í samræmi við gildandilög, sem samþykkt eru af Alþingi, og reglugerðir sem settar eru af ráðherra. Stefndi bendir áað í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 22/2006, sbr. 5. gr. laga nr. 158/2007, sé við þaðmiðað að foreldri geti átt rétt á tekjutengdum greiðslum samkvæmt1. mgr. 8. gr., hafi það verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaðiáður en barn hafi greinst með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða fötlunsamkvæmt vottorði sérfræðings þeirrarsérhæfðu greiningar- eða meðferðarstofnunar sem veiti barninu þjónustu. Samaskilyrði megi finna í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 22/2006 fyrir réttindum foreldraí námi og einnig í 19. gr. laganna um réttindi foreldra til grunngreiðslna. Íöllum tilvikum er vísað til þess að barnið hafi greinst með alvarlegan oglangvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrarsérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu.Stefndi hafisamþykkt umsókn stefnanda um grunngreiðslur úr hendi stefnda samkvæmt 19. gr.laga nr. 22/2006, þar sem stefnandi þurfti að leggja niður störf í lok árs2009. Stefnda hafi verið óheimilt að víkja frá reglu í 20. gr. laga nr.158/2007 en samþykkt umsókn stefnanda um greiðslur sem voru óháðar tímamarki ílögum. Með þessu hafi stefndi tryggt nægilega rétt stefnanda að þessu leytisamkvæmt 65. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Hér beri einnig að taka tillit til þessað stefnandi og eiginkona hans hafi fengið greiddar umönnunargreiðslur ágrundvelli umönnunarmats stefnda, sbr. 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslegaaðstoð. Þau hafi einnig fengið greiðslur í framlengdu fæðingarorlofi, sbr.heimild í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.Stefndi hafnarþví að ákvörðunin hafi verið andstæð 65. gr. stjórnarskrárinnar eða 2. gr.barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ástæða þess tímamarks sem tilgreint er í 20.gr. laga nr. 158/2007 sé sú að það hafi verið sett til þess að gæta jafnræðis annars vegar á milli foreldra sem erusjálfstætt starfandi einstaklingar, og eigi því ekki rétt á greiðslum úrsjúkrasjóði, og hins vegar foreldrasem eru launamenn, og eigi rétt á slíkum greiðslum. Þetta komi skýrt fram íathugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 158/2007. Af hálfu stefndaer á því byggt að viðmið um greiningardag sé almennt og gildi óháð aldri barns,kynferði þess, ríkisborgararétti foreldra og þjóðernisupprunaog stöðu að öðru leyti. Stefndi hafnar því að viðmiðunarregla þessi feli í sérólögmæta mismunun gagnvart stefnanda og að hún sé í andstöðu við ákvæði 1. mgr.65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði. Hið sama gildi um 2. gr.barnasáttmálans, að breyttu breytanda. Stefndihafnar þeim fullyrðingum stefnanda með öllu að brotið hafi verið gegn réttihins síðarnefnda, samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, til aðstoðar,félagslegs öryggis og viðunandi lífskjara.Ætla verðilöggjafanum svigrúm til að ákveða viðmiðunarreglur um það hvenær menn séutaldir þurfa aðstoð. Ákvæði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar sé ætlað aðtryggja að reglur um aðstoð hvíli á jafnréttisgrundvelli án mismununar. Ísamræmi við ákvæðið hafi löggjafinn talið heimilt að takmarka þennan rétt aðþví leyti að greining barns með langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun séskilyrði fyrir tekjutengdum greiðslum skv. lögum nr. 22/2006. Stefnandi hafiekki sýnt fram á að greiðslur þær sem hann naut dugi stefnanda ekki tillágmarksframfærslu, sbr. 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár. Fjarri lagi sé aðstefnandi hafi ekki notið lágmarksréttinda, eða að brotið hafi verið gegnjafnræðisreglu, rétti til aðstoðar, félagslegs öryggis og viðunandi lífskjaraeða að íslenska ríkið hafi ekki uppfyllt skyldur sínar hvað þetta varðar.Stefndi hafnarþví að ákvörðun stefnda hafi verið byggð á röngum forsendum. Ósannað sé aðástand sonar hans hafi versnað vegna sjúkdóms eða fötlunar, í skilningi 28. gr.laga nr. 158/2007, eftir 1. október 2007. Fötlun og veikindi sonar stefnandahafi verið sambærileg og ekki versnað frá fyrstu stigum. Þegar á fyrstu mánuðumævi sonar stefnanda hafi orðið ljóst að hann ætti við alvarlega erfiðleika ogþroskafrávik að stríða, sbr. læknisvottorð Magnúsar Stefánssonar frá 15. ágúst2006 og 24. janúar 2007. Síðari vottorð staðfesti þessa greiningu Magnúsar. Aðmati stefnda benda gögn málsins til þess að ástand drengsins sé að batna eða séstöðugt en ekki að versna. Með vísan til þess að stefnandi hafi ekki sýnt framá að ástand barns hafi versnað í skilningi 28. gr. laga nr. 158/2007 fellststefndi ekki á að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Stefndimótmælir tölulegri framsetningu dómkrafna stefnanda. Þær hafi ýmist ekkilagastoð eða séu ranglega reiknaðar. Því beri að sýkna stefnda. Um lagarök vísarstefndi til laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegafatlaðra barna, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, stjórnarskrárlýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og reglugerðar nr. 1277/2007 um greiðslur tilforeldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Krafa um málskostnað er studdvið 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.IV.Skýrslurvið aðalmeðferðVið aðalmeðferðmálsins kom stefnandi fyrir dóm og rakti sögu sonar síns, svo og þau áhrif semsjúkrasaga sonarins hefur haft á störf stefnanda. Eiginkonastefnanda, Vera Kristín Vestmann Kristjánsdóttir, Núpasíðu 6a, Akureyri, komeinnig fyrir dóm og gaf skýrslu. Sagði hún m.a. frá því að sonur þeirra hafiorðið mikið veikur á árinu 2009. Hann hafi haldið illa næringu og skilað illafrá sér. Fallristill drengsins hafi bólgnað og verið styttur með aðgerð íágústmánuði 2009. Hann hafi fengið sontu og farið að klígja við mat eftir það.Í dag fái hann næringu einungis í gegnum sontu. Viðaðalmeðferð málsins gaf Gróa Björk Jóhannesdóttir læknir vitnaskýrslu. Í vættihennar kom m.a. fram að hún hefði annast Kristján Loga síðan seint á árinu2006. Að hennar sögn var árið 2009 erfitt fyrir drenginn, þar sem hann hafi þáglímt við umtalsverð veikindi og verið mikið á spítala bæði á Sjúkrahúsinu áAkureyrar og á Landspítalanum. Talsvert hafi verið um sýkingar í öndunarvegi ognæringarupptaka verið erfið. Drengurinn hafi einnig þurft að fara í aðgerð áristli. Rammt hafi kveðið að uppköstum og vökvatapi. Óværð hafi verið mikil oglæknar hafi gert tilraunir með ýmis svefnlyf. Mörg þessara vandamála hafihaldið áfram, en á árinu 2009 hafi verið breytt um fæði og lyf með þeim árangriað ástandið hafi orðið bærilegra. Endurtekin veikindi hafi komið til viðbótarvið fötlunina og ástandið verið stigversnandi. Drengurinn hafi t.a.m. komið í21 skipti á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri á árinu 2009 vegna veikinda.Ástandið hafi aldrei farið batnandi, en veikindi hans hafi bæst við hinaundirliggjandi fötlun. Veikindin sem fylgdu fötluninni hafi verið „sveiflukennd“.Engin von sé um að þroskafrávik drengsins, sem stafi af alvarlegri röskun ámiðtaugakerfi, minnki eða hverfi. Drengurinn sé með mjög alvarlega fötlun oghafi auk þess „átt við mikil veikindi að stríða til viðbótar við hana“. V.NiðurstaðaMeðlögum nr. 22/2006 um greiðslur tilforeldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sem gengu í gildi 1.júlí 2006, var mælt fyrir um rétt foreldra sem eru launamenn, sjálfstættstarfandi einstaklingar á innlendum vinnumarkaði, eða námsmenn, til greiðslnaer börn þeirra greinast með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlegafötlun. Með lögum nr. 158/2007, sem komu til framkvæmda 1. janúar 2008, vorugerðar nánar tilgreindar breytingar á lögum nr. 22/2006. Breytingalögin fólum.a. í sér endurskoðun á því greiðslukerfi sem komið var á með lögum nr.22/2006. Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 158/2007 segir m.a. að „ákvæði III. kaflalaga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðrabarna, sbr. 5.-15. gr. laga þessara, eiga við um foreldra barna sem greinastmeð alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun 1. október 2007 eðasíðar, sbr. þó d-lið 18. gr. laga þessara enda hafi barn greinst aftur meðalvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða ástand þess versnað vegna sjúkdóms eðafötlunar eftir 1. október 2007.“ Á fyrri stigumhefur stefndi synjað stefnanda um greiðslur sem foreldri á vinnumarkaði, sbr.8. gr. laga nr. 22/2006. Sú ákvörðun stefnda var staðfest af úrskurðarnefndfæðingar- og foreldraorlofsmála, sbr. úrskurð nefndarinnar 8. september 2011 ímáli nr. 13/2011. Gögn málsinsbera með sér að komið hafi í ljós strax á fyrsta aldursári drengsins að hannætti við alvarlega erfiðleika og fötlun að stríða. Í vottorði MagnúsarStefánssonar barnalæknis frá 15. ágúst 2006 (dskj. 16) er getið um „blandnarsértækar þroskaraskanir“, „seinkun í hreyfiþroska" og „vísbendingu umgalla í metabolisma“. Í vottorði sama læknis 24. janúar 2007 (dskj. 17) ergetið um sértæka þroskaröskun á hreyfisamhæfingu og aðrar tal- ogmálþroskaraskanir. Fram kemur í bréfi Maríu Játvarðardóttur, félagsráðgjafa hjáGreiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, 15. mars 2011 (dskj. 21), að KristjánLogi hafi komið á greiningarstöðina haustið 2007, nánar tiltekið dagana 29.október til 1. nóvember það ár. Í niðurstöðum athugunar hafi komið fram aðdrengurinn væri með „lága grunnvöðvaspennu, hreyfiþroskaröskun ogþroskaseinkun. Við tveggja ára aldur er þroski hans á við þroska 6-7 mánaðabarna. Drengurinn hafði fengið flogaköst en var án lyfja á þessum tíma.“ Íbréfi Fjölskyldudeildar Akureyrar til Tryggingastofnunar ríkisins 14. febrúar2011 (dskj. 20) segir að barnið hafi verið komið með „gilt umönnunarmat árið2006 og 100% umönnunarmat árið 2007“, auk þess sem barnið hafi verið með erfiðaveikindasögu frá upphafi. Í samræmi við þetta verður við það að miða að sonurstefnanda sé alvarlega fatlað barn í skilningi c-liðar 1. mgr. 3. gr. laga nr.22/2006. Af framlögðum gögnum, þ. á m. vottorðum Magnúsar Stefánssonar frá 15.ágúst 2006 og 24. janúar 2007, þykir verða að álykta að fötlun drengsins ogþroskaskerðing hans hafi verið greind fyrir 1. október 2007, þ.e. fyrir þautímamörk sem tilgreind eru í áðurtilvitnuðu ákvæði 20. gr. laga nr. 158/2007. Að þessariniðurstöðu fenginni skal þess þó einnig getið í áðurnefndri skýrslu læknisinsGróu Bjarkar Jóhannesdóttur kom fram að fötlun drengsins hafi aldrei fariðbatnandi, en veikindi hans verið „sveiflukennd“ og fylgifiskar fötlunarinnareinnig. Í ljósi þessa þykir ekki annað verða ályktað af gögnum málsins en aðhinn undirliggjandi vandi drengsins, sem greindur var fyrir 1. október 2007, sébæði alvarlegur og langvarandi, sbr. áðurnefnda skilgreiningu laga á alvarlegafötluðu barni. Gögn málsins gefa vissa vísbendingu um að drengurinn hafi áárinu 2009 legið fleiri daga á sjúkrahúsi en á öðrum tímabilum ævi sinnar.Framlögð gögn veita hins vegar enga heildarmynd af heilsufarsþróun hans, ekkisíst vegna þess að tölur skortir um komur hans og legudaga á Landspítala −háskólasjúkrahúsi á viðmiðunartímabilinu. Þá þykir ekki verða fram hjá þvílitið að í málinu nýtur engra fullnægjandi gagna við um ástæður fyrir komum ogvistun drengsins á Sjúkrahúsi Akureyrar á árinu 2009, nánar tiltekið hvortsjúkrahúsvist hans á því ári stafaði af sjúkdómum, fötlun hans eða ótengdumveikindum. Með hliðsjón því sem að framan greinir þykir ekki staðreynt að hérliggi fyrir versnun í skilningi 28. gr. laga nr. 22/2006, sbr. 18. gr. laga nr.158/2007. Slík ályktun yrði heldur ekki alfarið grundvölluð á skýrslum semgefnar voru við aðalmeðferð málsins. Fyrir liggur aðá því tímabili sem hér um ræðir fékk stefnandi grunngreiðslur samkvæmt. 19. gr.laga nr. 22/2006. Með þessu var lágmarksframfærsla samkvæmt ákvæðinu tryggð. Sútilhögun laga nr. 22/2006 sem hér ertil umfjöllunar byggir á jafnræðissjónarmiðum og málefnalegum rökum. Verður þvíekki talið að brotið hafi verið gegn tilvísuðum ákvæðum stjórnarskrár. Aðöllu framanskráðu virtu þykir verða að hafna kröfum stefnanda. Réttþykir að málskostnaður falli niður. Svosem áður greinir veitti innanríkisráðuneytið stefnanda gjafsókn fyrirhéraðsdómi 23. maí 2013. Ber því að greiða allan gjafsóknarkostnað stefnanda úrríkissjóði, þar með talda þóknun lögmanns hans, sem þykir hæfilega ákveðin800.000 kr.. Arnar ÞórJónsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.Dómsorð: Stefndi,Tryggingastofnun ríkisins, skal vera sýkn af kröfum stefnanda í máli þessu. Málskostnaðurfellur niður. Gjafsóknarkostnaðurstefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Júlíar ÓskarAntonsdóttur hdl., 800.000 kr., greiðist úr ríkissjóði. |
Mál nr. 443/2005 | Fullvirðisréttur Veiðiréttur Ábúð Gjafsókn | Deilt var um hvort V ehf., sem var eigandi jarðarinnar Þverfells í Borgarfjarðarsveit, eða I, sem var ábúandi jarðarinnar, ætti rétt til greiðslu, sem íslenska ríkið hafði innt af hendi árið 1992, vegna sölu á hluta fullvirðisréttar jarðarinnar. Fyrir lá að fullvirðisrétturinn hafði verið ákveðinn út frá framleiðslu ábúenda en ekki landeiganda. Var talið að fullnægt hefði verið skilyrðum 4. gr. reglugerðar nr. 313/1991 um að greiða skyldi ábúendum jarðarinnar kaupverð fullvirðisréttarins og var I því sýknuð af kröfu V ehf. um þetta atriði. Einnig var deilt um hvor aðilanna ætti rétt á arðgreiðslum vegna veiðiréttar jarðarinnar, sem Veiðifélag Grímsár og Tunguár hafði árlega lagt inn á bankabók í vörslu þess. Í erfðafestusamningi frá 1951 hafði þáverandi eigandi jarðarinnar áskilið sér rétt til „veiðivatna jarðarinnar“. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að það hefði staðið eigandanum nær að tryggja sér sönnun um umfang þess veiðiréttar, sem undanskilja átti við samningsgerðina. Ekki var talið sannað að hann hafi haft arðgreiðslur af Tunguá í huga þegar samningurinn var gerður, enda var þá engin veiði í ánni fyrir landi jarðarinnar. Niðurstaða héraðsdóms um að V ehf. ætti ekki rétt til arðgreiðslnanna var því staðfest. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir. Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 12. október 2005. Hann krefst þess, að viðurkennt verði að sér beri sem eiganda jarðarinnar Þverfells í Borgarfjarðarsveit réttur til innistæðu bankabókar nr. 66605 í útibúi Landsbanka Íslands hf., Laugavegi 77 í Reykjavík. Þá krefst hann þess einnig, að viðurkennt verði að sér beri sem eiganda Þverfells réttur til arðs af veiðiréttindum jarðarinnar í Tunguá, sem greiddur hafi verið árlega frá 1994 inn á bankabók í vörslu Veiðifélags Grímsár og Tunguár. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt fyrir Hæstarétti. I. Áfrýjandi máls þessa er eigandi jarðarinnar Þverfells í Borgarfjarðarsveit en stefnda er ábúandi jarðarinnar á grundvelli erfðafestusamnings 27. mars 1951. Í máli þessu deila aðilar annars vegar um það hvor þeirra eigi rétt til greiðslu, sem íslenska ríkið innti af hendi vegna sölu á hluta fullvirðisréttar jarðarinnar Þverfells og lögð hefur verið inn á bankabók nr. 66605 í útibúi Landsbanka Íslands hf. að Laugavegi 77 í Reykjavík. Hins vegar deila aðilar um það hvor þeirra eigi rétt til arðgreiðslna vegna veiðiréttar jarðarinnar, sem greiddar hafa verið árlega frá árinu 1994 inn á bankabók í vörslu Veiðifélags Grímsár og Tunguár. II. Lög nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum tóku gildi 1. júlí 1985. Í 1. mgr. a. 30. gr. laganna var kveðið á um það, að landbúnaðarráðherra væri rétt að leita eftir samningum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Stéttarsamband bænda um magn mjólkur- og sauðfjárafurða, sem framleiðendum yrði ábyrgst fullt verð fyrir á samningstímanum. Í reglugerðum, sem settar voru með stoð í lögunum, var fullvirðisréttur síðan skilgreindur sem það magn sauðfjárafurða, sem búmarkssvæði og/eða framleiðendum væri ábyrgst fullt verð fyrir á grundvelli framangreinds ákvæðis í lögunum. Með samningi ríkisins og stéttarsambands bænda 11. mars 1991 um stefnumörkun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt voru teknar upp beingreiðslur, sem miðuðust við innanlandsmarkað á hverjum tíma, og horfið frá greiðslum útflutningsbóta. Samkvæmt viðauka I með samningnum var stefnt að því að fullvirðisréttur í sauðfjárframleiðslu yrði lagaður að innanlandsmarkaði í tveimur áföngum. Í fyrri áfanganum, á tímabilinu frá 1. maí 1991 til 31. ágúst sama ár, skuldbatt ríkissjóður sig til að kaupa fullvirðisrétt, allt að 3.700 tonnum, en síðan skyldi fara fram niðurfærsla á fullvirðisrétti að því marki sem á vantaði til að markmiðum samningsins um 10% fækkun sauðfjár á því hausti frá fyrra ári yrði náð. Kveðið var á um, að verð fyrir keyptan fullvirðisrétt skyldi vera 600 krónur á kg, auk þess sem greiða skyldi förgunarbætur, sem voru ýmist 5.000 krónur eða 3.500 krónur fyrir hverja kind. Við niðurfærslu átti ríkissjóður hins vegar að greiða 450 krónur á kg, auk 3.500 króna í förgunarbætur. Í síðara áfanganum, á tímabilinu frá 1. september 1991 til 31. ágúst 1992, skuldbatt ríkissjóður sig til að kaupa fullvirðisrétt gegn 380 króna greiðslu á kg, auk 3.500 króna bóta fyrir hverja fargaða kind. Þá var gert ráð fyrir því að 15. september 1992 færi fram önnur niðurfærsla fullvirðisréttar um það, sem á vantaði til að ná settum markmiðum um aðlögun að innanlandsmarkaði. Við þessa niðurfærslu átti að greiða 380 krónur á kg. Í viðaukanum var ekki tekið fram, hverjum bæri réttur til greiðslna fyrir fullvirðisréttinn. Þrátt fyrir framangreind tímamörk var í samningi um kaup á fullvirðisrétti, sem undirritaður var af hálfu ríkissjóðs og stefndu 31. mars og 1. apríl 1992, skýrt tekið fram að kaupverðið væri 600 krónur á kg. Virðist hann því hafa verið gerður á grundvelli fyrirmæla framangreinds samnings ríkisins við Stéttarsamband bænda um kaup ríkisins á fullvirðisrétti við fyrri áfanga aðlögunarinnar. Lögum nr. 46/1985 var ekki breytt strax í kjölfar samningsins 11. mars 1991 milli ríkisins og Stéttarsambands bænda. Hins vegar var reglugerð nr. 313/1991 um aðlögun fullvirðisréttar til framleiðslu sauðfjárafurða að innanlandsmarkaði gefin út 2. júlí 1991. Í 4. gr. hennar var fjallað um ráðstöfun fullvirðisréttar og segir þar í 1. mgr.: „Fullvirðisréttur á lögbýli fylgir því og er kaupverð hans greitt til eiganda þess eða eftir tilvísun hans, nema sá fullvirðisréttur sem ábúandi hefur keypt eða flutt með sér á leigujörð, sem er greiddur ábúanda. Samningi um sölu fullvirðisréttar þarf að fylgja samþykki eiganda (eigenda) og ábúanda (ábúenda) lögbýlis, sem nýtir fullvirðisrétt á lögbýlum haustið 1991, ef ekki er um sama (sömu) aðila að ræða.” Í 8. gr. reglugerðarinnar var fjallað um greiðslu förgunarbóta og sagt að þær skyldi greiddar seljanda fullvirðisréttar, en ábúanda væri hann annar en seljandi. Samkvæmt 21. gr. átti að fylgja sömu reglum við kaup ríkisins á fullvirðisrétti við síðari áfanga aðlögunarinnar, að öðru leyti en því, að fjárhæðir voru lægri eins og ákveðið hafði verið í viðaukanum með samningnum. Í 13. gr. var kveðið á um greiðslur vegna niðurfærslu fullvirðisréttar, en ekki var þar hins vegar mælt fyrir um hverjir fengju þessar greiðslur í sinn hlut. Lögum nr. 46/1985 var breytt til samræmis við ofangreindan samning milli ríkisins og Stéttarsambands bænda með lögum nr. 5/1992 frá 28. febrúar 1992. Þar sagði í 7. gr. a., sem varð 39. gr. laganna, að frá 1. maí 1991 til 31. ágúst 1992 skyldi laga fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða að innanlandsmarkaði með því að ríkissjóði væri heimilt að greiða fyrir fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða allt að 3.700 tonnum og greiða förgunarbætur vegna fækkunar áa eftir nánari ákvörðun í reglugerð. Ekki var mælt fyrir um það í lögunum hvort greiða skyldi ábúanda eða eiganda lögbýlis fyrir fullvirðisréttinn. Með lögum nr. 112/1992 frá 29. desember 1992 var síðan bætt tveimur nýjum málsgreinum við 39. gr. laga nr. 46/1985. Þar var kveðið á um í fyrri málsgreininni, að greiðslur vegna niðurfærslu fullvirðisréttar til framleiðslu sauðfjárafurða skyldu greiddar handhafa réttar til beinna greiðslna á lögbýlinu vegna framleiðslu sauðfjárafurða verðlagsárið 1993 til 1994 samkvæmt skrám Framleiðsluráðs landbúnaðarins 31. janúar 1993. Þetta gilti þó ekki, ef gert var samkomulag um annan hátt á greiðslum milli ábúanda og eiganda lögbýlis, þegar ekki var um sömu aðila að ræða, enda bærist tilkynning um það til landbúnaðarráðuneytisins fyrir 31. janúar 1993. Í síðari málsgreininni sagði, að tæki leiguliði við greiðslunum gæti eigandi lögbýlis óskað eftir því við ábúðarlok, að tekið yrði tillit til þeirra við mat samkvæmt 16. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 að því marki sem þær teldust bætur fyrir skerðingu á búrekstraraðstöðu eftir lok ábúðartímans. Lög nr. 112/1992 höfðu ekki tekið gildi þegar ríkið keypti fullvirðisrétt jarðarinnar Þverfells um mánaðamótin mars/apríl 1992. Framangreint ákvæði í lögunum tók aðeins til greiðslu úr ríkissjóði vegna niðurfærslu fullvirðisréttar vegna framleiðslu sauðfjárafurða verðlagsárið 1993 til 1994, enda áttu kaup ríkisins á slíkum rétti að vera um garð gengin, þegar lögin tóku gildi. Ekki verður séð að nein rök hafi staðið til þess að haga greiðslum með mismunandi hætti eftir því hvort um kaup eða niðurfærslu á fullvirðisrétti var að ræða, en báðar þessar leiðir miðuðu að því að draga úr framleiðslu sauðfjárafurða til að laga framleiðsluna að innanlandsmarkaði. Þessar aðgerðir bitnuðu fyrst og fremst á framleiðendum afurðanna án tillits til þess hvort framleiðslan fór fram á lögbýlum sem þeir áttu sjálfir eða leigðu. Sú framleiðslustýring, sem komið var á með lögum nr. 46/1985, átti meðal annars að tryggja lífsafkomu framleiðenda landbúnaðarafurða þegar draga þurfti úr framleiðslunni. Var það gert með því að tryggja þeim ákveðið verð fyrir tiltekið magn, sem þeir framleiddu. Aðgerðir þær, sem kveðið var á um í viðauka I í samningi ríkisins við Stéttarsamband bænda miðuðu að því að draga úr því magni og skertu því afkomu framleiðenda, ef ekki kæmu greiðslur fyrir. Greiðslurnar samkvæmt samningnum, hvort sem þær voru vegna kaupa eða niðurfærslu á fullvirðisréttinum, áttu að bæta fyrir þá skerðingu hjá framleiðendum sauðfjárafurða. Eins og að framan greinir voru engin fyrirmæli í lögum um hverjum bæri greiðsla vegna kaupa ríkisins á fullvirðisrétti á grundvelli framangreinds samnings ríkisins við Stéttarsamband bænda. Gögn málsins bera með sér, að ábúendur Þverfells hafa nýtt jörðina til sauðfjárræktar allt frá því að erfðafestusamningurinn var gerður 1951. Fullvirðisréttur jarðarinnar, og áður búmark hennar, var því ákveðinn út frá framleiðslu ábúenda hennar en ekki landeiganda. Eins og áður getur segir í 4. gr. reglugerðar nr. 313/1991 að kaupverð fullvirðisréttar skyldi greiða til eiganda lögbýlis eða eftir tilvísun hans, nema ábúandi hefði keypt eða flutt með sér fullvirðisrétt á leigujörð sem þá skyldi greiða ábúanda. Ef skilja skal þetta ákvæði á þann veg, að við þær aðstæður sem hér um ræðir eigi að greiða eiganda en ekki ábúanda við kaup fullvirðisréttar lögbýlisins, virðist það hvorki samrýmast þeim sjónarmiðum, sem lög nr. 46/1985 eru byggð á né forsendum samningsins 11. mars 1991 milli ríkisins og Stéttarsambands bænda. Með þetta í huga verður að telja að fullnægt sé skilyrðum ákvæða reglugerðarinnar um að greiða skuli ábúanda Þverfells kaupverð fullvirðisréttarins. Gera verður ráð fyrir því, að eftir gildistöku laga nr. 112/1992 hafi eigandi Þverfells getað óskað eftir því við ábúðarlok, að tekið yrði tillit til greiðslunnar að því marki sem hún teldist bætur fyrir skerðingu á búrekstraraðstöðu eftir lok ábúðartímans, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna. Samkvæmt framansögðu ber að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um þessa kröfu. III. Með samningi 27. mars 1951 seldi þáverandi eigandi Þverfells, Sveinbjörn Finnsson, föður stefndu, Birni Davíðssyni, jörðin á leigu til erfðafestu. Samkvæmt 2. mgr. samningsins áskildi Sveinbjörn sér rétt til „veiðivatna jarðarinnar” að því undanskildu að ábúandi hefði jafnan rétt til veiði fyrir heimili sitt. Á þessum tíma voru í gildi lög nr. 112/1941 um lax- og silungsveiði. Í 3. mgr. 2. gr. laganna var kveðið á um það að væri jörð byggð á leigu fylgdi veiði ábúðinni, nema öðruvísi semdist og atvinnumálaráðherra samþykkti. Framangreindur erfðafestusamningur var ekki áritaður um samþykki ráðherra og engin gögn hafa verið lögð fram sem sýni, að ráðherra hafi samþykkt þá tilhögun veiðiréttar, sem kveðið var á um í samningnum. Fyrir liggur, að á því hefur verið byggt um áratuga skeið að um gildan samning hafi verið að ræða hvað varðar rétt til veiði. Þegar eigandi jarðarinnar afsalaði henni 19. febrúar 1963 var tekið fram, að allur veiðiréttur í Reyðarvatni fylgdi jörðinni við söluna og í afsali til áfrýjanda fyrir jörðinni 13. september 1976 var tekið fram, að jörðin seldist með öllum gögnum og gæðum, þar með töldum veiðirétti óskoruðum í Reyðarvatni, án þess að vikið væri að veiðirétti í öðrum vötnum. Enginn ágreiningur hefur verið um það, að veiðiréttur í Reyðarvatni tilheyri áfrýjanda sem eiganda jarðarinnar. Veiðifélag Grímsár og Tunguár greiddi eftir 1979 eigendum og ábúanda Þverfells arð af veiði í Tunguá í ákveðnum hlutföllum samkvæmt samkomulagi aðila, en árið 1994 var það samkomulag fellt niður og frá þeim tíma hefur hvor aðili um sig talið sig eiga rétt til alls arðs af veiði í ánni. Þegar erfðafestusamningurinn var gerður 1951 var meginreglan sú, að veiðiréttur fylgdi ábúð, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 112/1941. Ef bregða skyldi frá þeirri reglu þurfti því að kveða skýrt á um það í samningi milli eiganda og ábúanda. Það stóð eiganda jarðarinnar nær að tryggja sér sönnun um umfang þess veiðiréttar, sem undanskilja átti við samningsgerðina. Í erfðafestusamningnum var eingöngu sagt, að eigandi jarðarinnar áskildi sér rétt til veiðivatna hennar. Engin veiði var þá í Tunguá fyrir landi jarðarinnar frekar en nú, og náði veiðifélag Grímsár og Tunguár ekki til árinnar fyrr en síðar. Ósannað verður að telja, að við gerð erfðafestusamningsins hafi eigandi jarðarinnar haft arðgreiðslur af Tunguá í huga. Samkvæmt þessu verður niðurstaða héraðsdóms einnig staðfest um þessa kröfu. Samkvæmt framansögðu skal héraðsdómur vera óraskaður um annað en málskostnað. Áfrýjandi greiði málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst í einu lagi eins og greinir í dómsorði. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði svo sem segir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað. Áfrýjandi, Veiðifélagið Bláskógar ehf., greiði stefndu, Ingu Helgu Björnsdóttur, málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 900.000 krónur, og renni 400.000 krónur af því í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hennar, 400.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Vesturlands 18. júlí 2005. Mál þetta, sem dómtekið var þann 15. júlí s.l., höfðaði stefnandi, Veiðifélagið Bláskógar ehf., Logafold 150, Reykjavík, 8. ágúst 2004, gegn stefndu, Ingu Helgu Björnsdóttur, Þverfelli 2, Borgarfjarðarsveit. Kröfur stefnanda eru að viðurkennt verði með dómi að stefnanda beri sem eiganda jarðarinnar Þverfells, Lundarreykjahreppi, nú Borgarfjarðarsveit, réttur til innistæðu bankabókar nr. 66605 í útibúi Landsbanka Íslands hf. að Laugavegi 77 í Reykjavík. Stefnandi krefst þess jafnframt að viðurkennt verði með dómi að stefnanda beri sem eiganda Þverfells réttur til arðs af veiðiréttindum jarðarinnar í Grímsá sem greiddur hafi verið árlega frá árinu 1994 inn á bankabók í vörslu Veiðifélags Grímsár og Tunguár. Þá krefst stefnandi málskostnaðar. I. A. Ágreiningur aðila máls þessa er af tvennum toga. Bæði ágreiningsefnin eiga rót sína að rekja til löggernings frá 1951. Annars vegar snýr ágreiningur aðila að því hvor þeirra eigi rétt til greiðslu sem ríkið innti af hendi vegna sölu á hluta fullvirðisréttar jarðarinnar Þverfells. Hins vegar snýr ágreiningur aðila að því hvor þeirra eigi rétt til arðgreiðslna sem tilkomnar eru vegna veiðiréttar jarðarinnar. Rétt er að taka fram að í málsskjölum er ýmist talað um veiðirétt Þverfells í Grímsá eða Tunguá. Við aðalmeðferð málsins lýsti lögmaður stefndu því aðspurður yfir að hinn umdeildi veiðiréttur væri í Tunguá og mótmælti lögmaður stefnanda ekki þeirri yfirlýsingu. Tunguá er þverá Grímsár og samkvæmt gögnum málsins er sameiginlegt veiðifélag um árnar, Veiðifélag Grímsár og Tunguár. B. Stefnandi er eigandi jarðarinnar Þverfells í Borgarfjarðarsveit. Stefnda er ábúandi jarðarinnar á grundvelli áðurnefnds löggernings, dags. 27. mars 1951, en með honum byggði Sveinbjörn Finnsson jörðina á leigu til erfðafestu til Björns Davíðssonar, föður stefndu. Stefnda er nú rétthafi samkvæmt löggerningnum. Samkvæmt framlögðum samningum seldi faðir stefndu, með samþykki eiganda jarðarinnar, 25 % af fullvirðisrétti Þverfells I í byrjun apríl 1992 og samtímis seldi stefnda 10 % af fullvirðisrétti Þverfells II og voru greiddar 600 kr./kg fyrir. Fullvirðisréttur Þverfells II var síðan með þvingaðri skerðingu skertur um 17,9 % að auki og voru fyrir þann hluta greiddar 380 kr./kg, en á svæði Þverfells varð hlutfall hinnar þvinguðu skerðingar 27,9 %. Á sínum tíma varð að samkomulagi milli aðila að leggja fjármuni þá sem fyrir fullvirðisréttinn komu inn á bankabók nr. 66605, nú í útibúi Landsbanka Íslands hf. að Laugavegi 77 í Reykjavík. Þeir hafa sammælst um að veita atbeina sinn til að afhenda innistæðu bókarinnar í samræmi við niðurstöðu málsins. C. Í erfðafestusamningnum frá 27. mars 1951 sagði um veiðirétt: „Ég (Sveinbjörn Finnsson, þáverandi eigandi jarðarinnar) áskil mér þó rétt til veiðivatna jarðarinnar, að því undanskyldu að ábúandi hefir jafnan rétti til veiða fyrir heimili sitt.“ Jörðinni Þverfelli tilheyrir veiðiréttur í Reyðarvatni, Uxavatni og Tunguá. Um Grímsá og Tunguá er eins og áður segir starfandi veiðifélag og tilheyrir tiltekinn hluti arðgreiðslna vegna veiði Þverfelli. Í fyrstu greiddi veiðifélagið eigendum og ábúanda Þverfells arð þennan í tilteknum hlutföllum samkvæmt samkomulagi þar um. Árið 1994 kom upp ágreiningur milli aðila um það fyrirkomulag sem á endanum leiddi til þess að aðilar sammæltust um að fella samkomulagið úr gildi. Frá þeim tíma hefur hvor aðili um sig talið sig eiga rétt til alls þess arðs vegna veiði sem jörðinni tilheyrir. Vegna þessa hefur Veiðifélag Grímsár og Tunguár frá árinu 1994 ekki verið fáanlegt til að greiða arðinn út og hefur veiðifélagið haldið arðgreiðslum jarðarinnar aðgreindum á sérstökum vörslureikningi frá þeim tíma. Samkvæmt upplýsingum frá veiðifélaginu var innistæða á reikningnum 2.484.807 krónur þann 31. desember 2003 og munu 96.000 króna arðgreiðslur hafa bæst við upphæðina síðan, auk vaxta. II. Til stuðnings kröfu um viðurkenningu á rétti til greiðslu þeirrar er fékkst fyrir hluta fullvirðisréttar Þverfells við söluna 1992 vísar stefnandi til þess að þegar ríkisvaldið hafi hafið að takmarka heimildir til landnýtingar með framleiðslukvótum í landbúnaði hafi falist í þeim aðgerðum takmarkanir á eignarrétti landeigenda. Ekki sé meginmunur á því hvaða hugtök hafa verið notuð af hálfu löggjafans um þá skerðingu, fyrst hafi verið rætt um búmark, síðar fullvirðisrétt og að endingu greiðslumark. Hvað það álitamál sem hér um ræðir kveður stefnandi af dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands mega ráða að sömu sjónarmið gildi hvaða nafni sem skerðingin hafi verið nefnd. Í öllum tilvikum hafi í raun verið um að ræða aðferðir við að takmarka framleiðsluheimildir einstakra bújarða. Takmarkanirnar hafi verið almennar og stjórnvöld talið þær heimilar bótalaust. Í máli þessu segir stefnandi deilt um rétt til endurgjalds fyrir hluta framleiðsluréttar sem seldur hafi verið frjálsri sölu til ríkisins á grundvelli heimildar sem ríkisvaldinu hafi verið veitt með lögum nr. 5/1992 til kaupa á fullvirðisrétti bújarða. Eins og framsali umrædds framleiðsluréttar hafi verið háttað telur stefnandi engan vafa geta leikið á því að framsalið hafi skert eignarrétt hans varanlega og af þeim sökum beri honum þeir fjármunir sem ríkið hafi greitt fyrir framleiðsluréttinn. Eigandi og ábúandi jarðarinnar hafi orðið ásáttir um að skilja tiltekinn hluta framleiðsluréttinda, er jörðinni fylgdu, frá henni. Ráðstöfun þessi sé óafturkræf og verði framleiðsluheimildir jarðarinnar ekki auknar nema með því að kaupa slíkar heimildir af þriðja aðila. Stefnandi vísar til þess að í d. lið 7. gr. laga nr. 5/1992 segi að frá 1. september 1992 séu aðilaskipti greiðslumarks heimil milli lögbýla. Í 2. mgr. komi fram að leiguliði hafi heimild til að kaupa sér framleiðslurétt sem skráður verði á hans nafn. Landeigandi eigi þá ekki tilkall til þeirra réttinda þess utan að hann eigi að þeim forkaupsrétt kjósi leiguliði að selja þau aftur. Af reglum þessum segir stefnandi þá ályktun verða dregna að sá framleiðsluréttur sem fylgi jörðinni í öndverðu í samræmi við takmarkanir löggjafans á framleiðsluheimildum hljóti að teljast eign landsdrottins en ekki leiguliða þó svo sá síðarnefndi hafi heimild til að nýta hann eins og önnur réttindi sem jörðinni fylgi. Söluandvirði réttindanna sé því raunverulega bætur fyrir varanlega skerðingu eignarréttar sem jarðareiganda beri. Þessu til stuðnings kveðst stefnandi vísa til dóma Hæstaréttar Íslands, einkum dóms réttarins frá 8. mars 2001 í máli nr. 279/2000. Þá segir stefnandi fram hafa komið í fjölmörgum dómum Hæstaréttar að búmark, fullvirðisréttur eða greiðslumark fylgi lögbýli og að leiguliði eigi ekki neins konar hlutdeild í þessum réttindum við ábúðarlok. Röksemdum leiguliða um að framleiðslurétturinn hafi orðið til fyrir hans tilstuðlan hafi almennt verið hafnað. Með vísan til framangreinds telur stefnandi einsýnt að honum beri andvirði þess fullvirðisréttar sem íslenska ríkið hafi keypt 1992 og varðveitt hafi verið síðan á bankabók nr. 66605. Um lagarök hvað varðar rétt stefnanda til umræddrar greiðslu kveðst hann vísa til meginreglna eignarréttar um eignarheimildir landeigenda og heimildir leigutaka til að nýta þær eignarheimildir. Einnig vísi hann til ákvæða ábúðarlaga nr. 64/1976 og laga nr. 46/1985 eins og þeim var breytt með lögum nr. 5/1992, einkum 41. og 42. gr. laga nr. 46/1985, sbr. c. og d. liði 7. gr. laga nr. 5/1992. Kröfu sína um viðurkenningu á rétti til arðs af veiðirétti í Grímsá (Tunguá samkvæmt framansögðu) reisir stefnandi á að rétturinn hafi verið undanskilinn samkvæmt erfðafestusamningi árið 1951. Skilja beri orðið „veiðivatna“ í erfðafestusamningnum svo að þar sé bæði átt við ár og vötn. Sá skýringarmáti sé í samræmi við orðnotkun vatnalaga nr. 15/1923 þar sem orðið vötn sé bæði notað um ár og stöðuvötn, t.d. í heiti laganna. Einnig megi nefna 7. gr. laganna þar sem segi: „Vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið. Stefnandi heldur því fram að veiði hafi öll verið undanskilin við leigu jarðarinnar Þverfells, en það hafi verið heimilt samkvæmt þágildandi lögum. Í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 76/1970 sé kveðið á um að veiði fylgi ábúð nema öðru vísi sé samið og þurfi slíkur samningur samþykki veiðimálastjóra að fengnu áliti veiðimálanefndar. Samið hafi verið um að veiðiréttur jarðarinnar Þverfells væri undanskilinn leiguafnotum ábúanda og hafi sá samningur verið gerður áður en lögin um lax- og silungsveiði tóku gildi. Af þeim sökum verði gildi hans ekki dregið í efa þó svo ekki hafi verið aflað samþykkis nefndra aðila á efni hans. Í þessu sambandi segir stefnandi mega hafa hliðsjón af 3. gr. sömu laga sem veiti landeigendum rétt til að leysa til sín veiðirétt jarða sem varanlega hafi verið skilinn frá jörðunum fyrir gildistöku laganna. Slíkir samningar séu ekki ógildir en jarðeigendum veittar sérstakar heimildir til að ná til sín veiðiréttinum, en þá gegn greiðslu endurgjalds. Einsýnt er að mati stefnanda að ákvæðum laga nr. 76/1970 sem þrengi heimildir landeiganda til að ráðstafa eignarréttindum sínum verði ekki beitt fyrr en eftir gildistöku þeirra. Þá geti reglur þess efnis ekki hróflað við þegar gerðum samningum nema fyrir því sé skýlaus lagaheimild. Þar sem slíkri heimild sé ekki fyrir að fara í því tilviki sem hér um ræði njóti landeigandi þessara réttinda samkvæmt erfðafestusamningnum. Því verði að taka til greina kröfu stefnanda um viðurkenningu á rétti hans til þeirra arðgreiðslna sem frá 1994 hafi verið lagðar inn á bankabók í vörslum Veiðifélags Grímsár og Tunguár. Til stuðnings síðastgreindri kröfu sinni vísar stefnandi til ákvæða vatnalaga nr. 15/1923 og ákvæða laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, auk meginreglna eignarréttar um ráðstöfunarheimildir fasteignareiganda yfir eign sinni og áskilnað um lagaheimild til að skerða slík réttindi. Um heimild til að sækja framangreindar kröfur í einu máli vísar stefnandi til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, kröfurnar eigi rætur sínar að rekja til sama löggernings, erfðafestusamningsins frá 1951. Hvað varðar kröfu um málskostnað tekur stefnandi sérstaklega fram að hann sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili. Við ákvörðun málskostnaðar verði því að taka tillit til þeirrar skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. III. Stefnda telur að henni beri bætur þær fyrir skerðingu fullvirðisréttar sem greiddar voru inn á bankabók nr. 66605 í Landsbanka Íslands. Byggir stefnda á því að sá fullvirðisréttur sem á jörðinni er sé fyrst og fremst til kominn vegna vinnu ábúenda og framkvæmda á jörðinni og eigi því með réttu að tilheyra þeim. Burtséð frá því hverjum fullvirðisrétturinn tilheyri við möguleg ábúðarlok telur stefnda ljóst að bætur þær sem fyrir skerðingu fullvirðisréttarins árið 1991 (svo) komu tilheyri henni sem ábúanda. Stefnda bendir í því sambandi á að skerðing sú sem framkvæmd hafi verið á fullvirðisrétti á árinu 1991 (svo) hafi fyrst og fremst verið kjaraskerðing fyrir ábúendur sem framleiðendur er skert hafi þær tekjur sem þeir höfðu af búrekstri sínum. Bótum þeim sem fyrir fullvirðisréttin komu hafi augljóslega verið ætlað að bæta framleiðendum tekjumissinn. Á skattframtölum ábúenda 1992 og 1993 hafi þeir talið bæturnar til tekna í samræmi við leiðbeiningar ríkisskattstjóra þar um. Skerðing á fullvirðisréttinum hefði að sögn stefndu orðið 27,9 % og bætur fyrir hann 1.022.377 krónur, í stað 1.259.512 króna, ef ábúendur hefðu ekki haft að því frumkvæði að selja fullvirðisréttinn. Skýrir stefnda fyrrgreindu fjárhæðina nánar svo að 450 kr./kg hefðu fengist fyrir 10 % og 380 kr./kg fyrir 17,9 % Liggi því fyrir að ef ábúendur hefðu ekki gripið til þess ráðs að minnka framleiðslu með frjálsri sölu á fullvirðisréttinum hefði skerðing hans orðið meiri en raunin varð og lægri bætur komið fyrir. Þær bætur hefðu verið greiddar beint til ábúenda, sbr. bréf Framleiðsluráðs landbúnaðarins til maka stefndu, dags. 9. nóvember 1995. Í þessu sambandi segir stefnda rétt að geta þess að þær reglur hafi gilt um greiðslu bóta vegna skerðingar á fullvirðisrétti á jörðum sem í eigu ríkisins voru að bæturnar voru greiddar óskiptar til ábúenda, en það sé til marks um að greiðslur fyrir fullvirðisréttinn hafi verið ætlaðar framleiðendum sem bætur fyrir þá framleiðsluskerðingu sem þeir hafi þurft að þola með minnkuðum fullvirðisrétti. Stefnda heldur því fram að af dómum sem gengið hafi um fullvirðisrétt, og síðar greiðslumark, verði ekki dregin sú ályktun að þeim beri ekki hinar umdeildu bætur. Dómar þess efnis að greiðslumark fylgi lögbýli og sé ekki endilega eign ábúenda við ábúðarlok hafi ekki fordæmisgildi í málinu. Vísar stefnda til þess að í lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sé sérstakt ákvæði þess efnis að greiðslumark fylgi lögbýli, en ekkert slíkt ákvæði hafi gilt varðandi fullvirðisrétt. Jafnframt verði að horfa til þess að í málinu sé ekki verið að deila um eignarrétt á fullvirðisrétti við ábúðarlok, heldur um bætur vegna framleiðsluskerðingar sem skerðing fullvirðisréttarins hafi haft í för með sér. Ábúendur hafi nú í rúm tíu ár frá því að skerðingin átti sér stað, eins og raunar í áratugi þar á undan, stundað sauðfjárrækt að Þverfelli. Því sé alveg ljóst að nefnd framleiðsluskerðing hafi fyrst og fremst bitnað á möguleikum þeirra til að afla sér lífsviðurværis. Hvað varðar kröfu stefnanda er lýtur að arði af veiðirétti í Tunguá vísar stefnda til þess að áðurnefndur erfðafestusamningur hafi verið gerður í mars árið 1951. Í honum hafi meðal annars verið að finna ákvæði þess efnis að landeigandi áskilji sér rétt til veiðivatna jarðarinnar, með þeim takmörkunum sem í samningnum greini. Við samningsgerðina hafi verið í gildi lög nr. 112/1941 um lax og silungsveiði. Í 3. mgr. 2. gr. laganna hafi verið kveðið á um það að þegar jörð væri byggð á leigu fylgdi veiði ábúðinni nema öðru vísi semdist og atvinnumálaráðherra samþykkti. Efnislega sambærilegt ákvæði hafi æ síðan verið að finna í lögum um lax- og silungsveiði, sbr. nú 3. tölulið 2. gr. laga nr. 76/1970, en samkvæmt þeim lögum sé það þó veiðimálastjóri sem ætlað sé að samþykkja slíka samninga að fengnu áliti veiðimálanefndar. Stefnda viti ekki til þess að umræddur ábúðarsamningur hafi á sínum tíma, að því er varðar ákvæði um veiðirétt, verið borinn undir samþykki eða samþykktur af atvinnumálaráðherra. Hafi slíks samþykkis ekki verið aflað telur stefnda að ekki sé á samningnum byggjandi að því er varðar veiðirétt landeiganda. Þó svo fyrir lægi að samningurinn hefði verið samþykktur af atvinnumálaráðherra segir stefnda það meginreglu að veiðiréttur skuli fylgja ábúð. Ábúðarsamningar sem undanskilji veiði þurfi því að vera skýrir og þá eigi að túlka þröngt. Að áliti stefndu sé ljóst að það hafi aðeins verið ætlun aðila að undanskilja veiði í Reyðarvatni og Uxavatni. Um það vísar stefnda til framlagðrar skýrslu móður sinnar, Herdísar Guðmundsdóttur, dags. 10. maí 1999. Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnda til ábúðarlaga nr. 64/1976 og meginreglna um rétt ábúanda. Einnig byggi stefnda á lögum nr. 112/1941 um lax- og silungsveiði, einkum 3. tl. 2. gr. laganna og samsvarandi ákvæðum núgildandi laga um sama efni. IV. Þann 11. mars 1991 var gerður samningur milli landbúnaðarráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, og Stéttarsambands bænda um framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða. Í viðauka I við búvörusamninginn, en svo var ofangreindur samningur nefndur, var því lýst hvernig staðið skyldi að því að aðlaga framleiðslu sauðfjárafurða að innanlandsmarkaði með því að fækka sauðfé og draga úr framleiðslu. Samkvæmt upphafsorðum viðauka I skuldbatt ríkissjóður sig til að kaupa fullvirðisrétt, allt að 3.700 tonna framleiðslu, á tímabilinu 1. maí 1991 til 31. ágúst 1992. Á móti skuldbundu bændur sig til að minnka bústofn um tilsvarandi fjölda kinda og sölunni næmi. Í þessum tilgangi bauðst ríkissjóður til að kaupa af framleiðendum fullvirðisrétt á tímabilinu frá 1. maí 1991 til 31. ágúst 1991 á 600 kr./kg, sbr. kafla 1.2. í viðaukanum. Framleiðendum sem seldu í það minnsta 25 % af fullvirðisrétti sínum á greindu tímabili var tryggt að ekki kæmi til frekari skerðingar á fullvirðisrétti þeirra, sbr. kafla 2.4. viðaukans. Svo ná mætti markmiðum búvörusamningsins um áðurnefnda aðlögun að fullu var síðan ráð fyrir því gert að fullvirðisréttur framleiðenda skyldi skertur í tveimur áföngum. Í fyrri áfanganum skyldu greiddar 450 kr./kg, sbr. kafla 2.2. viðaukans, en í þeim síðari 380 kr./kg, sbr. kafla 7.1. Hversu mikil sú skerðing þyrfti að vera réðst af því hversu margir framleiðendur seldu fullvirðisrétt sinn og var skerðingin því mismikil eftir svæðum. Í tengslum við gerð búvörusamningsins voru sett lög nr. 5/1992 um breytingu á lögum nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Horfið var frá greiðslu útflutningsbóta og því að miða við fullvirðisrétt hverrar bújarðar en í stað þess teknar upp beingreiðslur. Til ákvörðunar réttar til beingreiðslna var hverri bújörð ákvarðað greiðslumark. Við fyrstu ákvörðun greiðslumarks var stuðst við fullvirðisrétt jarðar en í lögum nr. 5/1992 voru ákvæði um aðlögun fullvirðisréttar að innanlandsmarkaði. Jafnframt voru í lögunum ákvæði um heimildir ríkisins til að kaupa fullvirðisrétt af einstökum framleiðendum með það að markmiði að draga úr heildarframleiðslunni. Fyrir þennan rétt skyldi ríkið greiða ákveðið kílóverð ásamt förgunarbótum. Þá voru í lögunum ákvæði um að ef markmið um aðlögun framleiðslumagns að innanlandsmarkaði næðust ekki með þessu móti kæmi til flatrar skerðingar á framleiðendur. Voru þessi ákvæði í samræmi við ákvæði búvörusamningsins frá 11. mars 1991. Þá voru og um þetta efni sett lög nr. 112/1992 en þau voru, líkt og lög nr. 5/1992, breytingarlög á lögunum nr. 46/1985. V. Stefnandi hefur til stuðnings kröfum sínum í málinu vísað til dómafordæma Hæstaréttar Íslands sem og laga nr. 5/1992 er áður var getið. Í dómi réttarins í máli nr. 279/2000, sem kveðinn var upp 8. mars 2001, er fjallað um hugtakið búmark. Í dóminum segir að með reglugerð nr. 465/1983, sem sett hafi verið samkvæmt lögum nr. 95/1981 um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl., hafi búmark verið skilgreint á þann veg, að það væri tala ærgildisafurða, sem fundin væri fyrir hvern framleiðanda og höfð til viðmiðunar, þegar ákveða þyrfti mismunandi verð fyrir búvöru til framleiðanda vegna framleiðslustjórnunar. Búmarki hefði ekki verið úthlutað sem framleiðslurétti, heldur hafi það eingöngu verið viðmiðunartala, sem skerðing á afurðaverði hafi reiknast frá. Engu að síður hafi með því skapast takmarkaður réttur til handa framleiðendum búvara, sem haft hafi getað fjárhagslega þýðingu fyrir þá. Við setningu laga nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum var hætt að miða rétt hvers einstaks framleiðanda við búmark en í stað þess var tekið upp hugtakið fullvirðisréttur. Fullvirðisréttur var viðmið þess afurðamagns sem hver einstakur framleiðandi fengi fullt verð fyrir. Í reglugerð nr. 339/1986 var hugtakið fullvirðisréttur skilgreint sem það magn mjólkur og sauðfjárafurða sem framleiðendum væri ábyrgst fullt verð fyrir á grundvelli samnings samkvæmt a-lið 30. gr. laga nr. 46/1985. Hugtakið fullvirðismark var hins vegar skilgreint sem samanlagður fullvirðisréttur allra framleiðenda á búmarkssvæði til framleiðslu mjólkur- eða sauðfjárafurða reiknaður sem hlutfall af samanlögðu búmarki svæðisins í viðkomandi búgrein. Í reglugerð nr. 445/1986 var fullvirðisréttur síðan skilgreindur sem það magn sauðfjárafurða sem búmarkssvæði og/eða framleiðendum væri ábyrgst fullt verð fyrir á grundvelli samnings samkvæmt a-lið 30. gr. laga nr. 46/1985. Sambærilega skilgreiningu var að finna í reglugerðum nr. 443/1987, 440/1988, 466/1989 og 407/1990. Þrátt fyrir tilkomu fullvirðisréttar hafði búmarkið áfram mikið gildi og myndaði það grunn framleiðslustjórnarinnar og hafði veruleg áhrif á fullvirðisrétt einstakra framleiðenda. VI. A. Samkvæmt framansögðu var þann 11. mars 1991 gerður samningur milli landbúnaðarráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, og Stéttarsambands bænda um framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða. Meðal markmiða samningsins var að koma á og viðhalda jafnvægi í framleiðslu og sölu mjólkur- og sauðfjárafurða. Í viðauka I með samningnum kom fram hvernig samningsaðilar hygðust ná því markmiði að laga þáverandi fullvirðisrétt að innanlandsmarkaði. Helstu efnisatriði viðaukans er mál þetta varða eru rakin í kafla IV hér að framan. Samkvæmt framlögðum samningum þáverandi ábúenda Þverfells, stefndu og föður hennar, Björns Davíðssonar, við landbúnaðarráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, seldu þeir, með samþykki eiganda jarðarinnar, 25 % af fullvirðisrétti Þverfells I og 10% af fullvirðisrétti Þverfells II í byrjun apríl 1992 og voru greiddar 600 kr./kg fyrir. Er í samningum ábúenda við ríkissjóð vísað til þess að þeir séu gerðir á grundvelli tilboðs ríkissjóðs um kaup á fullvirðisrétti í sauðfjárframleiðslu samkvæmt 1. tl. viðauka I við áðurnefndan samning frá 11. mars 1991 um aðlögun fullvirðisréttar í sauðfjárframleiðslu að innanlandsmarkaði. Það að greiddar hafi verið 600 krónur fyrir kg samrýmist hins vegar ekki dagsetningum í ákvæðum viðauka I þegar horft er til dagsetninga undirritana samninganna. Þá er að finna í samningunum dagsetningar sem ekki heldur samrýmast þeim dagsetningum. Hins vegar er allt að einu óumdeilt í málinu að umræddur hluti fullvirðisréttar Þverfells var seldur fyrir 15. september 1992 og fyrir hann fengust 600. kr./kg. Fullvirðisréttur Þverfells II var síðan með þvingaðri skerðingu skertur um 17,9 % að auki og voru fyrir þann hluta greiddar 380 kr./kg, en á svæði Þverfells varð hlutfall þeirrar skerðingar 27,9 %. Stefnandi hefur kröfum sínum til stuðnings sérstaklega vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 279/2000, sem kveðinn var upp 8. mars 2001, og einnig dóms réttarins í máli nr. 310/1999, uppkveðnum 24. febrúar 2000. Við mat á fordæmisgildi þessara dóma Hæstaréttar verður að hafa í huga að í báðum málunum var deilt um hvort greiðslumark tilheyrði ábúanda eða eigendum jarða, en í settum lögum, sbr. lög 99/1993, var að finna ákvæði þess efnis að greiðslumark fylgdi lögbýli, en ekkert slíkt ákvæði var í settum lögum hvað fullvirðisrétt varðaði. Þá var aðstaðan í báðum þessum málum sú að viðkomandi bændur voru alfarið að hætta framleiðslu á jörðunum. Í tengslum við gerð búvörusamningsins vorið 1991 voru sett lög á Alþingi nr. 5/1992 um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46/1985, með síðari breytingum. Í lögunum voru ákvæði sem efnislega samræmdust ákvæðum í títtnefndum viðauka I. Þá voru og samþykkt á árinu 1992 lög nr. 112/1992 sem einnig breyttu lögum nr. 46/1985. Í frumvarpi til laga nr. 112/1992 var í 17. gr. lagt til að við 39. gr. laga nr. 46/1985, sbr. a-lið 7. gr. laga nr. 5/1992 bættist ný málsgrein, svohljóðandi: „Greiðslur vegna niðurfærslu fullvirðisréttar til framleiðslu sauðfjárafurða skulu greiddar handahafa réttar til beinna greiðslna á lögbýlinu vegna framleiðslu sauðfjárafurða verðlagsárið 1993-1994 samkvæmt skrám Framleiðsluráðs landbúnaðarins 31. janúar 1993. Þetta gildir þó ekki ef gert er samkomulag á milli ábúanda og eiganda lögbýlis, þegar ekki er um sömu aðila að ræða, um annan hátt á greiðslum, enda berist tilkynning þess efnis til landbúnaðarráðuneytisins fyrir 31. janúar 1993.“ Við meðferð málsins á Alþingi lagði landbúnaðarnefnd til að bætt yrði annarri málsgrein við umrætt ákvæði, svo hljóðandi: „Taki leiguliði við greiðslunum getur eigandi lögbýlis óskað eftir því við ábúðarlok að tekið verði tillit til þeirra við mat skv. 16. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976, að því marki sem þær teljast bætur fyrir skerðingu á búrekstrarstöðu eftir lok ábúðartímans.“ Í nefndaráliti landbúnaðarnefndar sagði um þessa breytingartillögu nefndarinnar: „Sú viðbót, sem lögð er til við 17. gr. frumvarpsins, er þess efnis að eigandi lögbýlis geti óskað eftir því við ábúðarlok leiguliða að greiðslur, sem hann hefur þegið sem bætur fyrir skerta búrekstrarstöðu, skuli koma til mats skv. 16. gr. ábúðarlaga. Réttlátt þykir að leiguliði taki við bótunum eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Sú staða getur aftur á móti komið upp að leiguliði yfirgefi jörðina skömmu eftir að hann hefur tekið við bótum og er það þá eigandinn sem situr eftir með skerta eign. Af þessum ástæðum þykir eðlilegt að unnt sé að taka tillit til umræddra bóta í uppgjöri eiganda og leiguliða við ábúðarlok.“ Samkvæmt öllu framansögðu er ljóst að bætur, sem greiddar voru við lok umrædds aðlögunartímabils vegna þvingaðrar skerðingar á fullvirðisrétti, tilheyrðu, semdist ekki um annað milli ábúanda og jarðareiganda, þeim fyrrnefnda. Hins vegar áttu landsdrottnar sem fengu jörð sína úr ábúð skömmu eftir skerðinguna möguleika á að ná til sín umræddum fjármunum í tengslum við framkvæmd mats á grundvelli 16. gr. þágildandi ábúðarlaga nr. 64/1976. Maki stefndu, Rúnar Hálfdánarson, ritaði Framleiðsluráði landbúnaðarins í október 1995 og spurðist fyrir um hvaða reglur hefðu gilt um greiðslu bóta fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar til framleiðslu sauðfjárafurða haustin 1991 og 1992. Í svarbréfi Framleiðsluráðs, dags. 9. nóvember 1995, sagði meðal annars: „Eftir því sem best verður séð giltu engar sérstakar reglur um greiðslu bóta fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar haustið 1991. Aðeins var um fáa einstaklinga á nokkrum búmarkssvæðum að ræða, en fjölmargir sauðfjárbændur seldu ofan af réttinum til þess að komast hjá niðurfærslu. Varðandi greiðslu fyrir niðurfærsluna haustið 1992 giltu ákvæði 16. gr. laga nr. 112/1992, en þar segir m.a. að greiðslurnar skuli greiddar handhafa beinna greiðslna á lögbýlinu nema öðruvísi sé um samið milli ábúanda og eiganda.“ Af bréfi Framreiðsluráðs má glögglega ráða að flestir bændur, framleiðendur sauðfjárafurða, fóru sömu leið og ábúendur Þverfells með því að selja hluta fullvirðisréttarins og komast þannig hjá þvingaðri skerðingu hans síðar. Þá liggur fyrir með framlögðu bréfi landbúnaðarráðuneytisins, dags. 28. ágúst 1991, að greiðslur fyrir fullvirðisrétt til sauðfjárframleiðenda á ríkisjörðum runnu alfarið til ábúenda, bæði fyrir samningsbundna fækkun og vegna skerðingar, gegn því að þær yrðu fyrndar á 10 árum. Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum þykir við úrlausn þess verða að líta heildstætt á þá aðlögun fullvirðisréttar að innanlandsmarkaði sem kveðið var á um í viðauka I við búvörusamninginn frá 11. mars 1991, sbr. og lög nr. 5/1992, þ.e. tímabilið frá 1. maí 1991 til 15. september 1992. Þrátt fyrir að ábúendur Þverfells, framleiðendur sauðfjárafurða á jörðinni, hafi árið 1991 eða 1992, með samþykki eiganda jarðarinnar, selt hluta fullvirðisréttar hennar var fullvirðisréttur jarðarinnar samkvæmt áðursögðu skertur enn frekar haustið 1992 á grundvelli greinar 7.1. í títtnefndum viðauka I. Fyrir liggur að ábúendur héldu áfram sauðfjárbúskap eftir hina umdeildu sölu fullvirðisréttarins. Árið 1996 tók stefnda alfarið við ábúð Þverfells og nýtir hún jörðina enn til sauðfjárræktar. Með vísan til þessa og alls þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að greiðslur þær sem fengust fyrir fullvirðisrétt samkvæmt samningum ábúenda Þverfells og landbúnaðarráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, er undirritaðir voru af hálfu ábúenda 1. apríl 1992, séu ekki eign eiganda jarðarinnar. Að þessari niðurstöðu fenginni ber að sýkna stefndu af þeirri kröfu stefnanda að viðurkennt verði að honum beri sem eiganda Þverfells réttur til innistæðu bankabókar nr. 66605 í útibúi Landsbanka Íslands hf. að Laugavegi 77 í Reykjavík. B. Í löggerningi þeim frá 27. mars 1951, sem málsaðilar nefna erfðafestusamning, og stefnda leiðir frá rétt sinn til ábúðar á jörðinni Þverfelli, er að finna svohljóðandi ákvæði um veiðirétt: „Égáskil mér þó rétt til veiðivatna jarðarinnar, að því undanskyldu að ábúandi hefir jafnan rétti til veiða fyrir heimili sitt. ...“ Undir löggerninginn ritar nafn sitt þáverandi eigandi jarðarinnar, Sveinbjörn Finnsson, ásamt tveimur vitundarvottum. Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að viðurkennt verði að honum beri sem eiganda Þverfells réttur til arðs af veiðiréttindum jarðarinnar í Grímsá (Tunguá samkvæmt áðursögðu) sem greiddur hafi verið árlega frá árinu 1994 inn á bankabók í vörslu Veiðifélags Grímsár og Tunguár. Kröfu sína um sýknu af þessari kröfu byggir stefnda meðal annars á því að samþykkis atvinnumálaráðherra hafi ekki verið aflað fyrir því að veiðiréttur yrði undanskilinn, með þeim hætti sem að ofan greinir, þegar föður stefndu var byggð jörðin á leigu og af þeim sökum sé ekki á erfðafestusamningnum byggjandi að því er varðar veiðirétt eiganda jarðarinnar. Í lögum um lax- og silungsveiði nr. 112/1941, sem í gildi voru er umræddur löggerningur var gerður, sagði í 3. mgr. 2. gr.: „Nú er jörð byggð á leigu, og fylgir þá veiði ábúðinni, nema öðruvísi semjist og atvinnumálaráðherra samþykki.“ Ákvæði þetta var í upphafi fært í lög með lögum um sama efni nr. 61/1932. Í frumvarpi til þeirra laga var í 2. mgr. 2. gr. hins vegar að finna fortakslaust ákvæði um að veiði fylgdi ábúð væri jörð byggð á leigu, sbr. bls. 811 í A-deild alþingistíðinda frá 1930. Í athugasemdum við umrædda grein frumvarpsins sagði síðan eftirfarandi á bls. 853: „Ákvæði 2. málsgr. er nýmæli. Nefndin lítur svo á, að eðlilegast sé og heppilegast, að þessar landsnytjar, veiðin, fylgi öðrum nytjum landsins og að ábúandi jarðarinnar, sem hefir önnur landsnot hennar, njóti einnig veiðinnar. Tilætlun nefndarinnar er, að ákvæði þetta sé ófrávíkjanlegt og að veiði því eigi verði undanskilin í ábúðarsamningi.“ Í meðförum þingsins kom fram sú breytingartillaga að bætt yrði inn í umrædda málsgrein orðunum „... nema öðruvísi semjist.“, sbr. bls. 1261 í A-deild alþingistíðinda frá 1932. Að framkominni þeirri tillögu kom fram önnur breytingatillaga þess efnis að á eftir greindum orðum samkvæmt fyrrnefndu breytingartillögunni yrðu felld inn í umrædda málsgrein orðin „... og atvinnumálaráðherra samþykki.“, sbr. bls. 1300 í A-deild alþingistíðinda frá 1932. Í frumvarpi því sem að lokum var lagt fyrir Alþingi árið 1932, þingskjal 773, og samþykkt var af þinginu sem lög nr. 61/1932 um lax- og silungsveiði, var að finna báðar framangreindar breytingartillögur. Stóð ákvæðið síðan óbreytt er samþykkt voru lög nr. 112/1941 um lax- og silungsveiði samkvæmt framansögðu, sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna. Stefnda heldur því fram að eigandi Þverfells hafi ekki fengið samþykki atvinnumálaráðherra fyrir því að undanskilja veiðirétt við byggingu jarðarinnar á leigu til föður stefndu. Ljóst er samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 112/1941 og 1. mgr. 25. gr. ábúðarlaga nr. 8/1951, sem í gildi voru er umræddur löggerningur var gerður, að meginreglan var sú að réttur til lax- og silungsveiði fylgdi ábúð. Ef ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 112/1941 er skýrt samkvæmt orðanna hljóðan þá verður veiðiréttur samkvæmt ákvæðinu ekki undan skilinn við byggingu jarðar á leigu nema fyrir því fáist samþykki atvinnumálaráðherra. Að þessu virtu og með vísan til framangreindrar meginreglu, sem og þess er ítarlega hefur verið rakið um tilurð umrædds ákvæðis, telur dómurinn það fortakslaust skilyrði, svo títtnefnt ákvæði í löggerningnum frá 27. mars 1951 verði mögulega talið skapa eigendum jarðarinnar Þverfells rétt til arðs vegna veiðiréttar jarðarinnar í Tunguá, að fyrir liggi samþykki atvinnumálaráðherra. Stefnandi hefur hins vegar ekki fært á það sönnur að þessa samþykkis hafi verið aflað, en um það ber hann sönnunarbyrðina samkvæmt almennum venjuhelguðum reglum um sönnun. Sýkna ber því stefndu af umræddri kröfu stefnanda. C. Með vísan til úrslita málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, dæmist stefnandi til að greiða stefndu málskostnað er hæfilega telst ákveðinn svo sem í dómsorði greinir. Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson, settur héraðsdómari. Við uppsögu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. D Ó M S O R Ð: Stefnda, Inga Helga Björnsdóttir, skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Veiðifélagsins Bláskóga ehf., í máli þessu. Stefnandi greiði stefndu 900.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 394/2011 | Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. júní 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. júlí 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 1. júní 2011 í máli nr. 344/2011 er varnaraðili sakaður um að hafa í félagi við annan mann að kveldi þriðjudagsins 10. maí 2011 svipt A frelsi sínu. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 484/2002 | Skjalafals Fjársvik Tilraun Sakartæming Skilorðsrof Reynslulausn | R var sakaður um tilraun til fjársvika og skjalafals með því að hafa reynt í félagi við annan mann að svíkja út hjá tilteknu fyrirtæki skjávarpa og myndavél og undirritað kvittun fyrir móttöku varanna með nafni annars manns. Var R sakfelldur fyrir brot á 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga, en það ákvæði tæmdi sök gagnvart 248. gr. laganna. Með brotinu rauf R skilyrði reynslulausnar á samtals 720 daga eftir stöðvum fangelsis refsingar. Var refsing hans fyrir brotið og óafplánuð refsing hans samkvæmt eldri dómum ákveðin í einu lagi. Við ákvörðun refsingarinnar var annars vegar litið til sakaferils R og þess að hann framdi brotið í félagi við annan mann, en hins vegar til þess að hann var ungur að árum og játaði brot sitt hreinskilnislega. Var refsing R ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. október 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu hans. Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð. Ákærði er sakaður um tilraun til fjársvika og fyrir skjalafals 5. febrúar 2002 með því að hafa reynt í félagi við annan mann að svíkja út hjá tilteknu fyrirtæki skjávarpa og myndavél, eins og nánar er rakið í ákæru, og undirritað kvittun fyrir móttöku varanna með nafni annars manns. Eins og í héraði hélt ákærði því fram fyrir Hæstarétti að hann hafi ekki framið brotið í félagi við annan mann, svo sem honum er gefið að sök í ákæru. Ríkissaksóknari og ákærði áfrýjuðu héraðsdómi einvörðungu til endurskoðunar á viðurlögum, sbr. a. lið 147. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 7. gr. laga nr. 37/1994. Verður niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða því ekki haggað. Í ákæru er brot hans talið varða við 248. gr., sbr. 20. gr., og 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Síðastgreinda ákvæðið tæmir sök gagnvart því fyrstnefnda og verður brotið því einvörðungu heimfært til 1. mgr. 155. gr. laganna. Samkvæmt sakavottorði ákærða, sem er fæddur 1982, var hann dæmdur 23. júní 1999 í fangelsi í 2 mánuði, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá var hann dæmdur 25. janúar 2000 fyrir rán í 10 mánaða fangelsi, þar af 8 mánuði skilorðsbundið í 3 ár, og var skilorðsbundin refsing fyrri dómsins dæmd með. Næst hlaut hann dóm í Hæstarétti 21. september 2000, hegningarauka, fangelsi í 3 ár og 6 mánuði, fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr., 211. gr., sbr. 20. gr., og 217. gr. almennra hegningarlaga. Var skilorðsbundinn hluti refsingar hans samkvæmt dóminum frá 25. janúar sama ár dæmdur með. Enn var ákærði dæmdur í fangelsi 19. desember 2000, hegningarauka í 6 mánuði, fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Loks gekkst hann undir viðurlagaákvörðun 3. desember 2002 með greiðslu 128.000 króna sektar fyrir fíkniefnabrot. Til stuðnings kröfu sinni um mildari refsingu vísar ákærði til þess að hann hafi játað brot sitt hreinskilnislega og ekkert tjón hafi hlotist af því. Þá sé heimilt samkvæmt 42. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum að gera honum refsingu fyrir hið nýja brot sér í lagi án skilorðs, en láta reynslulausn hans haldast, einkum ef litið sé til þess að brot hans sé annarrar tegundar en hann hafi áður verið dæmdur fyrir og þau brot hafi ekki ítrekunaráhrif. Með broti því sem hér er til umfjöllunar rauf ákærði skilyrði reynslulausnar, sem honum var veitt 26. desember 2001 á samtals 720 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar, sem honum var gert að sæta með dómum Hæstaréttar 21. september 2000 og Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember sama árs. Eftir 2. málslið 60. gr., sbr. 42. gr. almennra hegningarlaga kemur einkum til greina að láta skilorðsbundna reynslulausn haldast þrátt fyrir rof á henni, þegar brot hefur ekki verið framið af ásettu ráði eða varðar sektum. Þegar litið er til þess að hvorugt þessara atriða er fyrir hendi og til brots ákærða kemur ekki til álita að láta reynslulausn hans haldast. Verður refsing ákærða fyrir brot hans nú og óafplánuð refsing hans samkvæmt fyrrnefndum dómum ákveðin í einu lagi samkvæmt 42. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og 77. gr. laganna. Við ákvörðun refsingar ákærða verður annars vegar litið til sakaferils hans og þess að hann framdi brotið í félagi við annan mann, sbr. 2. mgr. 70. gr. sömu laga, en hins vegar til þess að hann er ungur að árum og játaði hreinskilnislega brot sitt. Samkvæmt öllu framansögðu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár og 6 mánuði. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Ragnar Davíð Bjarnason, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. September 2002. Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 8. maí sl., á hendur ákærðu, Guðmundi Helga Svavarssyni, heimilislausum manni í Reykjavík, kt. 140162-4349, og Ragnari Davíð Bjarnasyni, Meðalholti 4, Reykjavík, kt. 151182-5429, “fyrir eftirgreind brot framin í Reykjavík, nema annars sé getið, á tímabilinu frá nóvember 2001 fram í apríl 2002: I. Ákærða Guðmundi Helga: 1. Skjalafals með því að hafa föstudaginn 18. janúar framvísað hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Álfabakka 14, umsókn um tékkareikning og debetkort sem hann falsaði með nafni Páls H. Svavarssonar, kt. 070650-3989, sem umsækjanda og fengið þannig afhent hjá sparisjóðnum tékkhefti og debetkort á reikning nr. 4471 og framvísað jafnframt víxileyðublaði til tryggingar á heimild til yfirdráttar á 500.000 kr. á reikninginn, útfylltu að andvirði 500.000 kr., sem ákærði falsaði með áritun á nafni nefnds Páls sem samþykkjanda og greiðanda og með nafni Sigurðar Grétarssonar, kt. 280452-4599, sem útgefanda. M. 10-2002-2894. Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. 2. Fjársvik með því að hafa svikið út á eftirgreindum stöðum í febrúar vörur að andvirði alls kr. 51.600, sem hann greiddi með tékkum sem hann gaf út í eigin nafni á nefndan tékkareikning sem hann hafði stofnað í sparisjóðnum í nafni Páls H. Svavarssonar: 1. Í versluninni Brynju, Laugavegi 29, vörur að andvirði kr. 31.600. 2. Í söluturninum King Kong, Eddufelli 8, vörur að andvirði kr. 5.000. 3. Á bensínstöð Skeljungs hf. við Vesturlandsveg vörur að andvirði kr. 15.000. M. 10-2002-6962 3. Fjársvik framin í janúar með því að hafa í auðgunarskyni stofnað til reikningsviðskipta við fyrirtækið Sindra-Stál hf., kt. 500377-0119, Klettagörðum 12, og á tímabilinu frá 14. janúar til 28. febrúar tekið út í reikninginn verkfæri alls að andvirði 423.846 kr. þrátt fyrir að hann væri með öllu eignalaus og ógjaldfær og ráðstafað verkfærunum með óþekktum hætti án þess að greiða reikninginn. M. 10-2002-8274. Telst háttsemin samkvæmt liðum I. 2 og 3 varða við 248. gr. almennra hegningarlaga. 4. Fjárdrátt með því að hafa í febrúar slegið eign sinni á verkfæri alls að verðmæti 216.950 kr., sem hann tók á leigu hjá Sindra-Stáli hf., Klettagörðum 12. M. 10-2002-8274. Telst þetta varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga. 5. Fjársvik og skjalafals með því að hafa, á tímabilinu frá 10. janúar til 22. febrúar í 12 skipti svikið út farsíma og fylgihluti í verslunum Landssíma Íslands alls að verðmæti 834.927 kr., sem ákærði lét skuldfæra heimildarlaust í viðskiptareikning "Birkilunds, félags, Pósthólf 681", nema annars sé getið, og hafa jafnframt, að undanskildum brotunum í liðum 1, 5 og 11, falsað nafnritanir undir úttektarbeiðnir með nafnrituninni Magnús Magnússon, svo sem rakið er: 1) Þann 10. janúar í Kringlunni 8 - 12 vörur að verðmæti 34.980 kr. 2) Þann 16. janúar í Ármúla 27 vörur að verðmæti 24.961 kr. 3) Þann 25. janúar í Ármúla 27 vörur að verðmæti 44.940 kr. 4) Þann 1. febrúar í Ármúla 27 vörur að verðmæti 19.981 kr. 5) Þann 4. febrúar í Ármúla 27 vörur að verðmæti 298.303 kr. Ákærði lét skuldfæra andvirði vörunnar í reikning fyrirtækisins Rolf Johansen & Co og falsaði úttektarbeiðni með nafnrituninni Sigurður Hannesson. 6) Þann 10. febrúar í Smáralind, Kópavogi, vörur að verðmæti 54.740 kr. 7) Þann 13. febrúar í Ármúla 27 vörur að verðmæti 46.980 kr. 8) Þann 14. febrúar í Kringlunni 8 - 12 vörur að verðmæti 80.919 kr. 9) Þann 17. febrúar í Smáralind, Kópavogi, vörur að verðmæti 22.982 kr. 10) Þann 17. febrúar í Kringlunni 8 - 12 vörur að verðmæti 48.460 kr. 11) Þann 19. febrúar í Smáralind, Kópavogi, vörur að verðmæti 29.980 kr. 12) Þann 22. febrúar að Laugavegi 15 vörur að verðmæti 127.701 kr. M. 10-2002-9241. Teljast þessi brot ákærða varða við 248. gr. almennra hegningarlaga og jafnframt við 1. mgr. 155. gr. sömu laga að undanskildum brotunum í liðum 1 og 11. 6. Fjársvik og skjalafals með því að hafa mánudaginn 4. febrúar tekið á leigu hjá bílaleigunni Avis, Knarrarvogi 2, fólksbifreiðina BP-624 til 7. næsta mánaðar heimildarlaust í nafni nefnds Páls H. Svavarssonar fyrir hönd fyrirtækisins Rolf Johansen & Co. og falsað þar leigusamning í því sambandi sem hann undirritaði með nafni Páls, en lögreglan fann bifreiðina skemmda við Hafnarfjarðarveg 6. mars. M. 10-2002-7037. Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga. 7. Skjalafals og fjársvik í febrúar með því að hafa í auðgunarskyni stofnað til reikningsviðskipta við verslunina Þór hf., Ármúla 11, og jafnframt framvísað til tryggingar væntanlegum viðskiptum víxileyðublaði fyrir andvirði 250.000 kr. sem ákærði samþykkti sjálfur til greiðslu og falsaði með áritun á nafni nefnds Páls H. Svavarssonar sem útgefanda og áritun á nafni Þóreyjar Indriðadóttur, kt. 051278-3059, sem ábekings og tekið síðan út vörur að andvirði 273.063 kr., þrátt fyrir að hann væri með öllu eignalaus og ógjaldfær, og ráðstafað vörunum með óþekktum hætti án þess að greiða reikninginn. M. 10-2002-10093. Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga. 8. Fjársvik með því að hafa miðvikudaginn 27. febrúar svikið út hjá 4 verslunum Húsasmiðjunnar hf. vörur að verðmæti 352.537 kr. með því að láta skuldfæra andvirði varanna heimildarlaust í viðskiptareikning Teiknistofunnar, Ármúla 6, Reykjavík, hjá Húsasmiðjunni: 1) Í versluninni í Skútuvogi 16 vörur að andvirði 152.803 kr. 2) Í versluninni í Helluhrauni 16, Hafnarfirði, vörur að andvirði 47.991 kr. 3) Í versluninni í Fossaleyni 2 vörur að andvirði 87.539 kr. 4) Í versluninni í Ármúla 18 vörur að andvirði 64.204 kr. M. 10-2002-6869 9. Fjársvik með því að hafa, dagana 10. og 12. janúar, svikið út vörur í 2 verslunum gegn afhendingu innistæðulausra tékka sömu fjárhæðar sem hann gaf út á reikning sinn nr. 9033 hjá S24: 1) Blöndunartæki að verðmæti kr. 20.889 hjá verslun Metró ehf., Skeifunni 7. 2) Matvöru að verðmæti kr. 20.476 í versluninni Gripið og greitt, Skútuvogi 4. M. 10-2002-2758. Telst háttsemi samkvæmt liðum I. 8 og 9 varða við 248. gr. almennra hegningarlaga. 10. Fjársvik og skjalafals með því að hafa þann 8. apríl 2002 svikið út í verslun Símans, Smáralind, Kópavogi, farsíma ásamt fylgihlutum sem ákærði lét skuldfæra heimildarlaust að hluta eða kr. 36.000 á viðskiptareikning nefnds Páls H Svavarssonar hjá Símanum og hafa jafnframt falsað þar eftirgreind skjöl með nafni Páls: 1) Tékka að fjárhæð kr. 15.000, sem ákærði falsaði með áritun á nafni Páls sem útgefanda á eyðublað nr. 7323475, sem ákærði hafði komist yfir, og notaði sem greiðslu að hluta fyrir farsímann. 2) Tvær umsóknir um ný símanúmer sem ákærði falsaði með nafni Páls sem umsækjenda og fengið þannig í nafni Páls afnot af símanúmerunum 893-4359 og 896-4359. Mál nr. 10-2002-12099 Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga. 11. Brot á tékkalögum með því að hafa þann 25. janúar greitt fyrir þvott í þvottahúsi Emlu ehf., Barónsstíg 3, með innistæðulausum tékka að fjárhæð kr. 7.800 sem hann gaf út á reikning sinn nr. 6677 hjá Landsbanka Íslands, Austurbæjarútibúi, á eyðublaði nr. 8078928. M. 10-2002-9116. Telst þetta varða við 73. gr. tékkalaga nr. 94, 1933, sbr. lög nr. 35, 1977. 12. Brot á umferðarlögum með því að hafa laugardaginn 10. nóvember ekið bifreiðinni KS-460, óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna neyslu deyfandi lyfja, frá Reykjavík til Hafnarfjarðar en akstri hans lauk þar við Lyngás 10 þar sem ákærði sofnaði í bifreiðinni. M. 36-2001-5910 Málavextir I. kafli ákæru Ákærði Guðmundur Helgi. Dæma ber ákærða, Guðmund Helga, til þess að greiða verjanda sínum, Sigurði Kára Kristjánssyni hdl., ¾ hluta af 700.000 króna réttargæslu- og málsvarnarlaunum en ¼ hluta ber að greiða úr ríkissjóði. Þá ber að dæma ákærða, Ragnar Davíð, til þess að greiða verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 120.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun. Laun verjendanna eru hér tiltekin án virðisaukaskatts. Loks ber að dæma ákærða, Guðmund Helga, til þess að greiða allan annan sakarkostnað. Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn. DÓMSORÐ: Ákærði, Ragnar Davíð Bjarnason, sæti fangelsi í 2 ár. Ákærði, Guðmundur Helgi, sæti sviptingu ökuréttar í 12 mánuði frá dómsbirtingu. Ákærði, Guðmundur Helgi, greiði skaðabætur sem hér segir: Landsíma Íslands hf. 799.947 krónur ásamt almennum vöxtum frá 22. febrúar 2002 til dómsuppsögu en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags, Þór hf. 273.063 krónur, Húsasmiðjunni hf. 81.640 krónur ásamt almennum vöxtum frá 28. febrúar 2002 til dómsuppsögu en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags, Landsímanum hf. 50.460 krónur ásamt almennum vöxtum frá 8. apríl 2002 til dómsuppsögu, en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags. Ákærði Guðmundur Helgi greiði verjanda sínum, Sigurði Kára Kristjánssyni hdl., ¾ hluta af 700.000 króna réttargæslu- og málsvarnarlaunum en ¼ hluti greiðist verjandanum úr ríkissjóði. Ákærði Ragnar Davíð greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 120.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun. Allan annan sakarkostnað greiði ákærði Guðmundur Helgi. |
Mál nr. 39/2023 | Laun Dómarar Opinberir starfsmenn Embættismenn Stjórnarskrá Stjórnsýsla Endurgreiðsla ofgreidds fjár Lögskýring Viðurkenningarkrafa Ógildingarkrafa | Í málinu var deilt um ákvarðanir Í sem vörðuðu laun A og tilkynntar voru með bréfi Fjársýslu ríkisins 29. júní 2022. Í fyrsta lagi var tekin ákvörðun um að breyta viðmiði við árlega uppfærslu launa A, í öðru lagi um að endurkrefja hana um hluta greiddra launa og í þriðja lagi um að lækka laun hennar fyrir júní 2022. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016, sbr. 9. gr. laga nr. 79/2019, skyldu laun dómara taka breytingum í samræmi við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Hins vegar lægi fyrir að allt frá gildistöku 9. gr. laga nr. 79/2019 til 1. júlí 2022 hefði Í lagt til grundvallar launavísitölu ríkisstarfsmanna við framkvæmd árlegra breytinga á launum dómara. Hæstiréttur vísaði til þess að stjórnvöld gætu almennt ekki breytt túlkun sinni á lagaákvæði sem lægi til grundvallar stjórnsýsluframkvæmd, borgurunum í óhag, nema hún hafi reynst röng. Meginreglur stjórnsýsluréttar um breytta stjórnsýsluframkvæmd hefðu jafnframt aukið vægi í þessu máli þar sem í því reyndi á breytingar á framkvæmd samkvæmt löggjafarfyrirkomulagi sem byggði á þeirri grunnforsendu að tryggja yrði sjálfstæði dómstóla gagnvart framkvæmdarvaldinu þegar kæmi að ákvörðun um laun dómenda. Taldi rétturinn að ekki hefði verið heimilt að víkja frá fyrri framkvæmd nema sýnt hefði verið fram á að hún hefði verið bersýnilega í ósamræmi við gildandi lög. Hæstiréttur taldi það val Í í upphafi að miða við launavísatölu ríkisstarfsmanna ekki vera í bersýnilegu ósamræmi við texta 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016, sbr. 9. gr. laga nr. 79/2019 eða lögskýringargögn, enda væri orðalag ákvæðisins um það viðmið sem lagt skyldi til grundvallar ekki skýrt. Hefði umrædd breyting á stjórnsýsluframkvæmd því ekki verið heimil að óbreyttum lögum samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar. Komst Hæstiréttur því að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun að breyta því viðmiði sem lá til grundvallar árlegum útreikningi hlutfallslegrar breytingar á launum dómara væri ólögmæt. Þá væri ljóst að ákvarðanir Í um að A skyldi endurgreiða hluta greiddra launa og um lækkun á launum hennar fyrir júní 2022 sæktu efni sitt og forsendur til lögmætis ákvörðunar á Í um að breyta viðmiði til grundvallar árlegri uppfærslu launa. Komst rétturinn því að þeirri niðurstöðu að þær væru einnig ólögmætar. Þá væri ákvörðun um að krefja A um endurgreiðslu greiddra launa í ósamræmi við meginreglur kröfuréttar. Með dómi Hæstaréttar var viðurkennt að þær þrjár ákvarðanir Í sem málshöfðun A beindist að væru ólögmætar. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Lára V. Júlíusdóttir lögmaður, Guðmundur Sigurðsson prófessor, Hrefna Friðriksdóttir prófessor, Kristinn Bjarnason lögmaður og Róbert R. Spanó prófessor.2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júlí 2023. Áfrýjandi krefst sýknu af öllum kröfum stefndu og málskostnaðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.3. Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar.Ágreiningsefni4. Ágreiningur aðila lýtur að ákvörðunum áfrýjanda sem vörðuðu laun stefndu og tilkynntar voru henni með bréfi 29. júní 2022. Í fyrsta lagi er um að ræða ákvörðun um að breyta viðmiði við árlega uppfærslu launa stefndu samkvæmt 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, sbr. lög nr. 79/2019 um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, nr. 130/2016, með síðari breytingum (launafyrirkomulag), í öðru lagi um að endurkrefja hana um hluta greiddra launa, samtals að fjárhæð 551.120 krónur, og í þriðja lagi um að lækka laun hennar fyrir júní 2022 sem leiddi til þess að laun hennar fyrir júní 2022 voru lækkuð úr 1.646.286 krónum í 1.612.112 krónur.5. Með héraðsdómi 15. maí 2023 var fallist á aðalkröfur stefndu um ógildingu ákvarðana áfrýjanda.6. Áfrýjunarleyfi í málinu til að áfrýja dómi héraðsdóms beint til Hæstaréttar var veitt 10. júlí 2023 með ákvörðun réttarins nr. 2023-73 á þeim grundvelli að dómur í því gæti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti.7. Með bréfi til dómsmálaráðuneytisins 11. júlí 2023 viku allir dómarar Hæstaréttar sæti í málinu. Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2016 setur ráðherra dómara í Hæstarétt að fenginni tillögu nefndar sem starfar samkvæmt III. kafla laganna, ef allir hæstaréttardómarar eru vanhæfir. Að fengnum tillögum nefndarinnar voru varadómarar settir 20. júlí 2023 til að taka sæti í málinu.Atvik máls og sakarefni8. Málsatvikum er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi og er ekki um þau deilt á meðal málsaðila.9. Líkt og fram kemur í héraðsdómi er stefnda skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjaness. Fjársýsla ríkisins sendi stefndu bréf 29. júní 2022 um launabreytingar samkvæmt lögum nr. 79/2019 og leiðréttingu á ofgreiddum launum. Í bréfinu var tilkynnt að í lögum nr. 79/2019 væri kveðið á um að laun þjóðkjörinna manna, ráðherra og tiltekinna embættismanna ríkisins skyldu taka breytingum 1. júlí ár hvert samkvæmt hlutfallslegri breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár sem Hagstofa Íslands reikni og birti fyrir 1. júlí ár hvert. Í ljós hefði komið að allt frá gildistöku laga nr. 79/2019 hefði viðmið við framkvæmd launahækkana samkvæmt lögunum verið launavísitala ríkisstarfsmanna í stað meðaltals reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár, eins og tilgreint væri í lögunum að miða skyldi við. Hefði þessi framkvæmd leitt til þess að laun stefndu hefðu hækkað umfram það viðmið sem tilgreint væri í lögunum. Í bréfinu voru launahækkanir frá gildistöku laganna raktar og hversu mikið laun hefðu átt að hækka. Þannig hefðu laun stefndu frá 1. maí 2019 hækkað um 6,3% en átt að hækka um 5,9%, frá 1. janúar 2020 um 6,3% en átt að hækka um 5,9%, frá 1. janúar 2021 um 3,4% en átt að hækka um 2,7% og frá 1. júlí 2021 um 6,2% en átt að hækka um 5,1%. Þá kom fram að þann 1. júlí 2022 og hér eftir myndu laun verða greidd samkvæmt réttum launataxta og taka breytingum í samræmi við það viðmið sem fram kæmi í lögum nr. 79/2019. Þeir sem væru á fyrirframgreiddum launum myndu fá hækkun 1. júlí 2022 í samræmi við það. Eftirágreidd laun 1. júlí 2022 yrðu einnig greidd í samræmi við rétt viðmið 1. júlí 2022, þannig að laun fyrir júnímánuð yrðu lægri en laun fyrir maímánuð. Enn fremur var tilkynnt að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði ákveðið að leiðrétta laun þeirra sem þessi framkvæmd ætti við um og falið Fjársýslu ríkisins að krefjast endurgreiðslu á ofgreiddum launum frá gildistöku laganna. Loks kom fram að ofgreidd laun stefndu hefðu verið 551.120 krónur og yrðu dregin af launum stefndu í jöfnum hlutum í 12 mánuði nema fram kæmi ósk um annað endurgreiðslutímabil.0. Fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi dómstólasýslunni jafnframt bréf 29. júní 2022 og upplýsti um að komið hefði í ljós að frá gildistöku laga nr. 79/2019 hefði launavísitala ríkisstarfsmanna verið notuð við framkvæmd launabreytinga en ekki það viðmið sem tilgreint væri í lögunum. Þætti ráðherra rétt að upplýsa dómstólasýsluna um þessa framkvæmd og viðbrögð ráðherra til að leiðrétta hana.1. Dómarafélag Íslands sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins 1. júlí 2022 og mótmælti ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra. Vísað var meðal annars til þess að hún væri í andstöðu við gildandi lög um launakjör dómara og með henni væri vegið að rétti borgaranna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli.2. Sama dag sendi dómstólasýslan bréf til Fjársýslu ríkisins og Hagstofu Íslands þar sem mikilvægi sjálfstæðis dómstólanna var áréttað ásamt því að spurningum var beint til stofnananna. Bréfinu var svarað af hálfu Hagstofu Íslands 8. júlí 2022 en þar kemur fram að Hagstofan gefi mánaðarlega út launavísitölu samkvæmt lögum nr. 89/1989 um launavísitölu og birti í niðurbroti fyrir helstu hópa launafólks og launagreiðenda á grundvelli mánaðarlegra breytinga. Enn fremur birti Hagstofan einu sinni á ári meðaltal launa á ársgrundvelli fyrir helstu hópa launafólks og launagreiðenda auk þess að miðla upplýsingum um laun í einstökum störfum. Í því talnaefni séu einnig upplýsingar um meðaltal reglulegra launa ríkisstarfsmanna. Hagstofan birti ekki hlutfallslega breytingu á meðallaunum heldur einungis launastigið sjálft. Þá kemur fram að árleg útgáfa meðallauna sé bráðabirgðaútgáfa sem feli í sér að áður birtar tölur séu endurskoðaðar og reynslan hafi sýnt að endurskoðun skili oftast einungis lítils háttar breytingum. Í ljósi þess að ekki væri um að ræða lögbundna eða samningsbundna tölfræði hefði forgangsröðun verkefna ítrekað leitt til seinkunar á útgáfu. Í bréfinu kemur jafnframt meðal annars fram að það sé ekki hlutverk Hagstofunnar að velja viðmið sem tengist framkvæmd stjórnvaldsákvarðana, sbr. útreikninga Fjársýslunnar á launabreytingum tiltekinna hópa samkvæmt lögum nr. 79/2019. Þá vísaði Hagstofan til samskipta stofnunarinnar við fjármála- og efnahagsráðuneytið og Fjársýsluna í maí 2022 þar sem spurst var fyrir um opinbert talnaefni um breytingar á reglulegum launum ríkisstarfsmanna vegna laga nr. 79/2019. Í kjölfarið hefði átt sér stað samskipti þessara aðila um hagnýtingu opinbers talnaefnis Hagstofunnar en ekki sérvinnslu. Þar hefði komið fram sá skilningur Hagstofunnar að miða ætti við meðaltal reglulegra launa hjá starfsfólki ríkisins. Ekki kæmi fram í lagatexta hvort miða ætti við laun allra sem vinni hjá ríkinu eða einungis fullvinnandi starfsfólks. Hagstofan hefði mælt með því síðara þar sem líta mætti á að þar færi kjarni starfsmannahópsins hverju sinni og breytileiki sé því minni á milli ára í þeim hópi. Spurt hafi verið um áhrif vinnutímabreytinga hjá ríkisstarfsmönnum á mælingar á launatölfræðinni og Hagstofan bent á að meðallaun yrðu ekki fyrir áhrifum af styttingu vinnuvikunnar öfugt við launavísitölu sem endurspegli vinnutímastyttingu að hluta. Enn fremur hafi verið rætt um að koma upp nýju verklagi sem fæli í sér formlega fyrirspurn til Hagstofunnar um meðaltal reglulegra launa. Hagstofan hafi því ekki komið að ákvörðun útreikninga.3. Fjársýslan svaraði erindi dómstólasýslunnar 11. júlí 2022. Í svarbréfinu kemur fram að mistök hafi komið í ljós við undirbúning launabreytinga ársins 2022. Framkvæmd þeirra sé á ábyrgð Fjársýslu ríkisins en útfærsla og túlkun sé sameiginlegt verkefni Kjara- og mannauðssýslu ríkisins og Fjársýslunnar. Ekki hafi átt að notast við launavísitölu ríkisstarfsmanna líkt og gert hafi verið heldur meðaltal reglulegra launa starfsmanna ríkisins. Þá kemur fram að samkvæmt ráðleggingu Hagstofunnar hafi verið metið að meðaltal reglulegra launa fullvinnandi ríkisstarfsmanna endurspeglaði þennan hóp best.4. Stjórn Dómarafélagsins sendi fjármála- og efnahagsráðherra bréf 5. júlí 2022 og mótmælti ákvörðun ráðuneytisins um einhliða og afturvirka skerðingu á kjörum dómara. Skorað var á ráðherra að draga ákvörðunina til baka en að öðrum kosti yrði félagsmönnum nauðugur sá kostur að leita réttar síns fyrir dómstólum.5. Níu héraðsdómarar við Héraðsdóm Reykjaness, þar með talin stefnda, sendu bréf til Fjársýslu ríkisins 11. júlí 2022 þar sem fram kom að þau teldu ákvörðun um að krefjast endurgreiðslu launa ólögmæta enda hefðu þau tekið við þeim í góðri trú. Launagreiðandi gæti heldur ekki lækkað laun afturvirkt eins og gert hefði verið frá 1. júní 2022. Þá voru gerðar alvarlegar athugasemdir við meðferð málsins sem hefði ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993, enda hefði ekki verið gætt andmælaréttar samkvæmt 13. gr. laganna.6. Stefnda höfðaði í kjölfarið mál þetta 31. ágúst 2022.Málsástæður aðilaHelstu málsástæður áfrýjanda7. Áfrýjandi vísar til þess að ljóst sé af orðalagi 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016, sbr. 9. gr. laga nr. 79/2019, sem og af lögskýringargögnum, að það viðmið sem nota skuli við árlega launauppfærslu dómara og þar á meðal stefndu sé hlutfallsleg breyting á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands. Áfrýjandi telur einsýnt að hvorki texti lagaákvæðisins sjálfs né fyrirliggjandi lögskýringargögn gefi svigrúm til mats á því hvert viðmiðið skuli vera.8. Áfrýjandi byggir jafnframt á því að sú ákvörðun að leiðrétta fyrri útreikningsaðferð varðandi árlega launauppfærslu stefndu með því að fylgja 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016, sbr. 9. gr. laga nr. 79/2019, hafi ekki verið stjórnvaldsákvörðun. Vísar áfrýjandi til þess að ákvörðunin hafi að öllu leyti verið samræmd og tekið til ótilgreinds fjölda einstaklinga sem falli undir það launafyrirkomulag sem fram kemur í ákvæðum laga nr. 79/2019. Með leiðréttingunni hafi þannig ekki verið kveðið einhliða á um rétt eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli og við slíka framkvæmd geti launþegar tæplega talist aðilar máls í skilningi stjórnsýslulaga. Áfrýjanda hafi borið skylda til að leiðrétta fyrri framkvæmd. Annað hefði verið andstætt skýrum lagafyrirmælum. Málefnalegar og lögmætar ástæður hafi þannig legið að baki ákvörðun áfrýjanda. Stjórnvöld taki margvíslegar ákvarðanir sem ekki teljist til stjórnvaldsákvarðana, þar á meðal stjórnvaldsfyrirmæli og ákvarðanir sem þau taki í málefnum starfsmanna sinna á grundvelli þeirra stjórnunarheimilda sem þau hafi. Þá geti það ekki á nokkurn hátt talist íþyngjandi í garð stefndu né annarra sem tilheyrðu þessum hópi að þurfa að sæta þeirri leiðréttingu að uppfærsla launa þeirra verði lögum samkvæmt. Réttmætar væntingar þessa hóps til launa geti aldrei staðið til annars en að fá greidd laun í samræmi við það sem kveðið var á um í 44. gr. laga nr. 50/2016.9. Verði hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að um stjórnvaldsákvörðun hafi verið að ræða telur áfrýjandi engu að síður að ekki beri að ógilda ákvörðunina. Almennt hafi verið talið að þó að annmarkar kunni að vera á málsmeðferð við töku stjórnvaldsákvörðunar leiði það ekki sjálfkrafa til ógildingar hennar því að veigamikil sjónarmið kunni að vera fyrir hendi sem mæli gegn ógildingu. Eigi það við í þessu máli auk þess sem ákvörðunin snúi eingöngu að leiðréttingu í samræmi við ákvæði laga. Þá verði ekki séð að það hefði haft raunverulega þýðingu fyrir stefndu að njóta þeirra réttinda sem stjórnsýslulögin kveða á um í ljósi aðstæðna og atvika máls.20. Þá vísar áfrýjandi til þess að verði talið að sú ákvörðun að leiðrétta viðmið við uppfærslu launa hafi falið í sér breytingu á stjórnsýsluframkvæmd sé ljóst að sú breyting sem hafi verið gerð við uppfærslu launa 1. júlí 2022 hafi verið innan ramma laganna og í alla staði málefnaleg.21. Um þá ákvörðun að endurkrefja alla þá sem fengið höfðu ofgreidd laun vísar áfrýjandi til þess að það sé viðurkennd meginregla í íslenskum rétti að þeir sem fyrir mistök fái greidda fjármuni sem þeir eiga ekki rétt á lögum samkvæmt skuli endurgreiða þá. Þrátt fyrir að frá þeirri meginreglu séu ákveðnar undantekningar sé ekki óeðlilegt í ljósi aðstæðna og stöðu þess hóps sem um ræðir í málinu að gerðar séu ríkar kröfur til hans þegar kemur að réttindum og skyldum að þessu leyti. Krafa um endurgreiðslu hafi grundvallast á leiðréttingu á rangri framkvæmd þannig að laun stefndu og annarra sem eins var ástatt um yrðu rétt í samræmi við ákvæði laga.22. Hvað varðar ákvörðun um leiðréttingu á útborgun launa 1. júlí 2022 fyrir júní 2022 bendir áfrýjandi á að réttur stefndu til launa fyrir júní 2022 hafi eðli máls samkvæmt átt að vera í samræmi við ákvæði 44. gr. laga nr. 50/2016, sbr. lög nr. 79/2019. Jafnræðis hafi því verið gætt við töku ákvörðunarinnar.Helstu málsástæður stefndu23. Stefnda byggir á því að ákvarðanir áfrýjanda sem deilt er um í málinu teljist til stjórnvaldsákvarðana sem haldnar séu nánar tilgreindum ógildingarannmörkum, bæði um form og efni. Jafnframt að jafnvel þótt ákvarðanirnar teldust ekki til eiginlegra stjórnvaldsákvarðana væru þær af sama toga og lytu óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar. Þá vísar stefnda til þess að hafi stjórnsýsluframkvæmd lengi tíðkast geti stjórnvald ekki breytt henni svo að íþyngjandi sé gagnvart stefndu á þeim grunni einum að málefnalegar ástæður búi þar að baki heldur verði að taka slíka ákvörðun á formlegan hátt og kynna hana þannig að þeir sem breytingin varðar geti gætt hagsmuna sinna. Þá mótmælir stefnda því að umræddar ákvarðanir áfrýjanda falli í flokk almennra stjórnunarheimilda stjórnvalda.24. Stefnda segist hvorki hafa notið stöðu aðila við málsmeðferð þess né hafi lögbundinni aðferðafræði verið fylgt við töku þeirra ákvarðana sem deilt er um. Þá mótmælir stefnda því að engin ástæða sé til ógildingar þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð og mótmælir því að það hefði ekki haft raunverulega þýðingu fyrir hana að koma að sínum sjónarmiðum. Stefnda mótmælir því enn fremur að ákvörðun um breytt viðmið við uppfærslu launa hennar hafi eingöngu snúið að leiðréttingu fyrri ákvörðunar í samræmi við ákvæði laga. Vísar stefnda til þess að í ljósi stjórnarskrárvarins sjálfstæðis dómstóla verði að gera þær kröfur til stjórnvalda, komi til álita að taka ákvarðanir sem hafi áhrif á launakjör dómara, að þær séu ekki teknar nema í kjölfar gagnsærrar, vandaðrar og tryggilegrar málsmeðferðar. Brot á mikilvægum málsmeðferðarreglum á borð við andmælareglu leiði að meginstefnu almennt til ógildingar nema augljóst megi telja að brotið hafi enga þýðingu getað haft en svo hátti ljóslega ekki til í tilviki stefndu. Stefnda vísar jafnframt til þess að ákvarðanirnar séu ólögmætar, án tillits til þess hvort þær teljist stjórnvaldsákvarðanir.25. Stefnda telur það viðmið sem stuðst hafi verið við fram að síðustu launahækkun hennar samþýðanlegt efnislegu inntaki 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016, sbr. lög nr. 79/2019, og rúmist innan greinarinnar. Þannig mæli mánaðarleg launavísitala, þar með talin launavísitala ríkisstarfsmanna, að sönnu breytingar á launum yfir tíma. Sá mælikvarði sem stuðst hafi verið við sé því ekki ósamþýðanlegur efni 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016 enda mæli hann breytingar á reglulegum launum starfsmanna ríkisins, út frá tímakaupi, fyrir næstliðið almanaksár. Því sé um að ræða lögmætan og málefnalegan mælikvarða sem rúmist innan lagaákvæðisins. Horfa verði til þess að á sviði stjórnsýsluréttar kunni sá skilningur sem mótast hafi í stjórnsýsluframkvæmd að hafa þýðingu við túlkun lagaákvæðis, einkum þegar stjórnsýsluframkvæmd er til hagsbóta fyrir borgarana. Hafi stjórnvöld túlkað lagaákvæði í samræmi við orðalag þess og lögskýringargögn geti þau almennt ekki breytt túlkun sinni síðar nema hún hafi reynst röng, til dæmis þegar henni hefur verið hnekkt af æðra stjórnvaldi eða dómstólum. Að öðrum kosti verði túlkun almennt ekki breytt nema á grundvelli laga. Stefnda mótmælir því að einsýnt sé að hvorki texti 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016 né fyrirliggjandi lögskýringargögn gefi svigrúm til mats á því hvert viðmiðið skuli vera.26. Stefnda vísar jafnframt til þess að gæta verði að mikilvægi sjálfstæðis dómara í dómarastörfum, sbr. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 50/2016, sem endurspegli fyrirmæli 61. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. einnig ákvæði stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómi.27. Stefnda byggir á því að reglur kröfuréttar standi endurheimtukröfu áfrýjanda í vegi enda atvik og aðstæður að baki kröfunni bersýnilega með þeim hætti að lög standi ekki til þess að henni verði komið við eftir reglum fjármunaréttar. Áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að stefndu hafi mátt vera ljóst að hún hafi fengið of háar greiðslur. Stefnda byggir jafnframt á því að áfrýjandi hafi sýnt af sér tómlæti. Þá standist ekki að sérsjónarmið gildi gagnvart stefndu sem dómara í þessu tilliti.28. Varðandi ákvörðun áfrýjanda um að lækka laun stefndu fyrir júní 2022 með afturvirkum hætti vísar stefnda til sjónarmiða um óheimila afturvirka skerðingu sem brjóti gegn eignarrétti hennar og að lögin sjálf miði við að breytingar taki gildi 1. júlí 2022. Hins vegar fellst stefnda á að ekki hafi verið brotið gegn jafnræði þeirra sem fengu laun greidd eftir á gagnvart þeim sem fengu laun greidd fyrir fram.Löggjöf29. Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 greinist ríkisvaldið í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Dómendur fara með dómsvaldið og fjallað er um það í V. kafla stjórnarskrárinnar. Samkvæmt 59. gr. verður skipan dómsvaldsins ekki ákveðin nema með lögum. Í 60. gr. er kveðið á um að dómendur skeri úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Samkvæmt 61. gr. skulu dómendur í embættisverkum sínum einungis fara eftir lögum og verður þeim ekki vikið úr embætti nema með dómi.30. Í 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, segir að öllum beri réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 segir að í ákvæðinu sé mælt fyrir um að dómstólar skuli vera óháðir og óhlutdrægir en þetta sé einn mikilvægasti áskilnaðurinn í ákvæðinu og undirstaða þess að maður geti talist njóta réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómstóli. Þegar tekið sé fram að dómstólar skuli vera óháðir væri einkanlega skírskotað til þess að dómstólar eigi að vera sjálfstæðir og ekki háðir öðrum þáttum ríkisvaldsins. Væri sjálfstæði þeirra gagnvart framkvæmdarvaldinu sérstaklega mikilvægt, bæði hvað varðaði skipunarvald framkvæmdarvaldsins yfir þeim, kjör sem dómendum væru tryggð og að dómendum verði ekki vikið úr starfi með stjórnvaldsákvörðun. Þá segir að sérstakur kafli stjórnarskrárinnar, V. kafli, fjalli um skipan dómsvaldsins og sé honum ætlað að tryggja sjálfstæði dómstólanna auk almennu reglunnar um þrískiptingu ríkisvaldsins í 2. gr. Þótt sjálfstæði dómstólanna birtist þannig í öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar þætti rétt að árétta þetta frumskilyrði í þessu ákvæði.31. Ríkisstjórnin ákvað í janúar 2018 að skipa starfshóp um málefni kjararáðs. Í skýrslu hans 1. febrúar 2018 var áréttað að almennt væri viðurkennt að ákvörðun launa dómara og nokkurra annarra starfsgreina nyti sérstöðu vegna þess að tryggja þyrfti starfskjör og sjálfstæði þeirra gagnvart öðrum greinum ríkisvaldsins. Ein af helstu niðurstöðum starfshópsins var að leggja til að kjör dómara yrðu ákveðin í lögum með fastri fjárhæð. Hvað varðar uppfærslu launa var lagt til að miðað yrði við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna eins og það birtist í tölum Hagstofu Íslands fyrir næstliðið almanaksár. Í skýrslunni segir að starfshópurinn telji að sá mælikvarði við endurskoðun launa sem best eigi við sé launaþróun ríkisstarfsmanna og þá að notað sé launahugtakið regluleg laun samkvæmt skilgreiningu Hagstofu Íslands. Heildarlaun séu því marki brennd að þau feli í sér yfirvinnugreiðslur, sem séu útbreiddar á Íslandi og geti sveiflast á milli ára, án þess að laun þróist með almennum hætti að sama skapi. Grunnlaun séu einnig óheppilegur mælikvarði sökum þess að viðbótargreiðslur séu almennar og séu regluleg laun því besta kjaraviðmiðið af framangreindum þremur launahugtökum.32. Með lögum nr. 60/2018 um brottfall laga um kjararáð, nr. 130/2016 með síðari breytingum, var kjararáð aflagt frá og með 1. júlí 2018. Í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 60/2018 sagði að þrátt fyrir gildistöku þeirra skyldu allir þeir sem féllu undir úrskurðarvald kjararáðs halda fyrri launum þar til ný ákvörðun hefði verið tekin um laun og starfskjör þeirra. Ef það hefði ekki verið gert fyrir 1. maí 2019 skyldu laun þessara aðila taka breytingum í samræmi við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna eins og hún birtist í tölum Hagstofu Íslands fyrir næstliðið almanaksár.33. Með lögum nr. 79/2019 var fyrirkomulagi launaákvarðana þeirra sem höfðu fallið undir úrskurðarvald kjararáðs breytt. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kom fram að með þeim yrðu laun dómara, saksóknara, ráðherra, ráðuneytisstjóra, ríkissáttasemjara, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra framvegis ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð. Þau yrðu síðan endurákvörðuð 1. júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.34. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laganna kemur fram að nokkrum aðilum, meðal annars Dómarafélagi Íslands, hafi verið boðið að gera athugasemdir við frumvarpið. Dómarafélag Íslands skilaði umsögn um það til fjármála- og efnahagsráðuneytisins 20. júlí 2018, þar sem meðal annars var gerð athugasemd við það viðmið sem launabreytingar skyldu taka mið af. Bent var á að ekki væri vikið að því í lögskýringargögnum hvað nánar fælist í útreikningi þessa viðmiðs. Hvorki í lögum nr. 163/2007 um Hagstofu Íslands og opinbera hagsýslugerð né í lögum nr. 89/1989 væri að finna nánari upplýsingar um útreikning þessa viðmiðs og rökstuðning fyrir því af hverju talið væri rökrétt að miða við það. Nauðsynlegt væri að skýra það nánar og jafnframt vísa til þess hvort forsendur útreikningsins gætu breyst og hvaða áhrif það hefði á launaákvarðanir þeirra hópa sem tengdir yrðu við þessa vísitölu. Dómarafélag Íslands áréttaði sjónarmið sín í umsögn um frumvarpið sem barst Alþingi 12. mars 2019.35. Frumvarp til laga nr. 79/2019 var einnig birt í samráðsgátt stjórnvalda og skilaði Hagstofa Íslands umsögn 18. júlí 2018 til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar kemur fram að Hagstofu Íslands þyki rétt að benda á að enginn lagalegur grundvöllur sé fyrir útreikningum á árlegum meðaltölum reglulegra launa ríkisstarfsmanna heldur séu þeir í samræmi við þær aðferðir sem Hagstofan ákvarði hverju sinni og þær geti breyst vegna betrumbóta á aðferðum eða gögnum. Jafnframt kemur fram að til þess að launabreytingar geti tekið gildi 1. maí verði Hagstofan að birta meðaltal næstliðins árs í tæka tíð. Sé horft til birtinga síðustu fimm ára hafi árleg meðallaun einungis tvisvar verið birt fyrir 1. maí.36. Lög nr. 79/2019 voru samþykkt 18. júní 2019 og tóku þegar gildi. Með 9. gr. laganna voru gerðar breytingar á 44. gr. laga nr. 50/2016 sem fjallar um laun dómara. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi því er varð að fyrrnefndu lögunum var vísað til 2. gr. stjórnarskrárinnar um að dómendur færu með dómsvaldið. Þá var vísað til þess að dómstólar ættu að vera sjálfstæðir enda hefðu þeir eftirlit með framkvæmdar- og löggjafarvaldinu, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Auk þess væri sjálfstæði dómara að nokkru leyti tryggt í 61. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt var áréttað að sjálfstæði dómstóla væri grundvallaratriði í réttarríki og kjör dómara þyrftu að vera nægilega góð til að tryggt yrði að þeir verði ekki öðrum háðir. Fram kom að sú framkvæmd að ákvarða kjör dómara í lögum með fastri krónutölufjárhæð væri lögð til þar sem ekki væri æskilegt að framkvæmdarvaldið kæmi að ákvörðun launa og starfskjara dómara vegna sjónarmiða um sjálfstæði þeirra. Lögð væri sú skylda á launagreiðanda að endurákvarða launin 1. júlí ár hvert til samræmis við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins og einnig gæti ráðherra starfsmannamála ákveðið að launin hækki 1. janúar ár hvert til samræmis við breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna sem Hagstofan birti fyrir 1. júní ár hvert. Í 4. málslið 3. mgr. greinarinnar er kveðið á um að laun annarra héraðsdómara en dómstjóra og varadómstjóra nemi 1.410.328 krónum á mánuði og þar af skuli greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgi nema 315.876 krónum.Niðurstaða37. Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á aðalkröfur stefndu um ógildingu á ákvörðunum áfrýjanda, sem tilkynntar voru stefndu með bréfi Fjársýslu ríkisins 29. júní 2022, um að breyta viðmiði við árlega uppfærslu launa hennar, um að endurkrefja hana um ofgreidd laun og um að lækka laun hennar fyrir júní 2022. Fyrir héraðsdómi hafði stefnda uppi varakröfur um að viðurkennt yrði að allar framangreindar ákvarðanir væru ólögmætar. Í ljósi málatilbúnaðar aðila fyrir Hæstarétti og eðlis þeirra ákvarðana áfrýjanda sem kröfugerð hennar beinist að verður að líta svo á að krafa stefndu um að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur girði ekki fyrir að undir áfrýjun sé Hæstarétti fært að taka afstöðu til kröfugerðar stefndu fyrir héraðsdómi í heild sinni.38. Þegar litið er til kröfugerðar og málatilbúnaðar stefndu snýst ágreiningur máls þessa í grundvallaratriðum um hvort fjármála- og efnahagsráðherra hafi að lögum verið heimilt að breyta viðmiði við uppfærslu árlegra launa hennar. Þá var stefnda á sama grundvelli krafin um endurgreiðslu ofgreiddra launa.39. Mælt er fyrir um fasta krónutölufjárhæð launa dómara í 1.–3. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016, eins og því ákvæði var breytt með 9. gr. laga nr. 79/2019. Í samræmi við þá löggjafarstefnu sem var mörkuð með þeim lögum, og rakin er að framan, hefur löggjafinn ákveðið að framkvæmdarvaldið skuli ekki koma að ákvörðun launa dómara í ljósi grundvallarreglna stjórnarskrárinnar um sjálfstæði dómstóla. Launakjör dómara ráðast því beint af lögum. Á hinn bóginn mælir 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016, sbr. 9. gr. laga nr. 79/2019, fyrir um tiltekið efnislegt viðmið við útreikning árlegra breytinga á fastri krónutölufjárhæð launa dómara á grundvelli ákvæðisins, en það hljóðar svo:Laun skv. 1.–3. mgr. skulu taka breytingum 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum aflar Hagstofan skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem hún telur þörf á. Við launaafgreiðslu fyrir júlí uppfærir Fjársýsla ríkisins krónutölufjárhæð til samræmis við tölur Hagstofunnar.40. Allt frá gildistöku 9. gr. laga nr. 79/2019 lagði áfrýjandi til grundvallar launavísitölu ríkisstarfsmanna við framkvæmd árlegrar breytingar á launum dómara. Með áðurnefndu bréfi Fjársýslu ríkisins til stefndu 29. júní 2022 var henni tilkynnt að uppfærsla á fjárhæð launa hefði frá gildistöku laga nr. 79/2019 byggst á röngu viðmiði. Frá 1. júlí 2022 yrðu launin „greidd samkvæmt réttum launataxta og taka breytingum í samræmi við það viðmið sem fram kemur í lögum nr. 79/2019“. Eftirágreidd laun 1. júlí 2022 yrðu einnig greidd í samræmi við rétt viðmið. Þá hefði fjármála- og efnahagsráðuneytið ákveðið að krefja alla þá sem hefðu fengið ofgreidd laun um endurgreiðslu á því sem hafði verið ofgreitt.41. Fallist er á það með stefndu að breyting á þeirri stjórnsýsluframkvæmd sem mörkuð var af hálfu áfrýjanda við gildistöku laga nr. 79/2019 varð að samrýmast meginreglum stjórnsýsluréttar um heimildir stjórnvalda til að gera breytingar á stjórnsýsluframkvæmd sem eru íþyngjandi fyrir borgarana. Þá hefur það verulega þýðingu að stjórnsýsluframkvæmdin sneri að árlegum útreikningi til breytinga á launakjörum dómara. Eins og leiðir af athugasemdum við 8. gr. greinargerðar með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, er varð að 70. gr. stjórnarskrárinnar, eru kjör sem dómendum skulu tryggð einn af efnisþáttum í mati á því hvort dómstólar teljist sjálfstæðir í störfum sínum í samræmi við kröfur stjórnarskrárinnar, sbr. dóm Hæstaréttar 9. desember 1999 í máli nr. 278/1999.42. Samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar geta stjórnvöld almennt ekki breytt túlkun sinni á lagaákvæði sem liggur til grundvallar stjórnsýsluframkvæmd borgurunum í óhag nema hún hafi reynst röng, til dæmis þegar henni hefur verið hnekkt af æðra stjórnvaldi eða dómstólum. Í því sambandi er almennt viðurkennt að þegar stjórnvöld taka afstöðu til þess hvaða breytingar unnt er að gera á efni stjórnsýsluframkvæmdar verði þau meðal annars að líta til réttmætra væntinga málsaðila og taka tilhlýðilegt tillit til þeirra. Þá kann sá skilningur, sem mótast hefur í stjórnsýsluframkvæmd, að hafa þýðingu við túlkun lagaákvæðis. Þetta á einkum við þegar stjórnsýsluframkvæmd hefur verið til hagsbóta fyrir borgarana, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 5. febrúar 1998 í máli nr. 224/1997 sem birtur er á bls. 536 í dómasafni réttarins 1998. Er þá horft til sjónarmiða um þrígreiningu ríkisvaldsins og þá einkum um stöðu framkvæmdarvaldsins gagnvart dómstólum. Framangreindar meginreglur stjórnsýsluréttar hafa jafnframt aukið vægi í máli þessu þar sem reynir á heimildir áfrýjanda til að gera breytingar á framkvæmd á útreikningi árlegra breytinga á launum dómara samkvæmt löggjafarfyrirkomulagi sem byggist á þeirri grunnforsendu að tryggja verður eins og kostur er sjálfstæði dómstóla gagnvart framkvæmdarvaldinu þegar kemur að ákvörðunum um launakjör dómenda.43. Af framangreindu leiðir að áfrýjanda var ekki heimilt að víkja frá fyrri framkvæmd nema að sýnt hefði verið fram á að hún hefði bersýnilega verið í ósamræmi við gildandi lög.44. Kemur þá næst til skoðunar hvort sú framkvæmd sem upphaflega var mörkuð við útreikning árlegrar breytingar á launum dómara hafi verið í bersýnilegu ósamræmi við 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016, sbr. 9. gr. laga nr. 79/2019 eins og það ber að túlka í ljósi orðalags ákvæðisins, athugasemda greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 79/2019, og einnig að teknu tilliti til þeirra meginreglna stjórnsýsluréttar og sjónarmiða um sjálfstæði dómstóla sem að framan eru rakin.45. Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016, sbr. 9. gr. laga nr. 79/2019, skulu laun dómara taka breytingum í samræmi við „hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár“. Óumdeilt er að frá gildistöku laga nr. 79/2019 og allt til 1. júlí 2022 höfðu laun stefndu og annarra dómenda tekið breytingum árlega á grundvelli launavísitölu ríkisstarfsmanna.46. Fyrir liggur bréf Fjársýslu ríkisins 14. júní 2022 til fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem greint var frá því að Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Fjársýsla ríkisins hefðu „rýnt það verklag sem viðhaft [hafi] verið og framkvæmd laganna“. Vísað er til þess að fram til þessa hafi verið byggt á „vísitölu launa opinberra starfsmanna, ríkisstarfsmanna, meðaltali ársins og prósentubreytingum frá fyrra ári“. Í ljós hafi komið að um mistök hafi verið að ræða. Rétt hefði verið að miða við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár sem Hagstofan reikni og birti. Í bréfinu er síðan rakið upphaf þess verklags að miða við launavísitölu ríkisstarfsmanna sem rekja megi allt aftur til ársins 2019. Er þar vísað til fundargerðar af fundi Kjara- og mannauðssýslu ríkisins og launasviðs Fjársýslunnar frá 27. júní 2019 þar sem segi að „[laun] þeirra sem heyra undir lög nr. 130/2016 [taki] breytingum 1. júlí ár hvert, samkvæmt mati Hagstofu Íslands á breytingum launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Samkvæmt mati Hagstofunnar [hækki] laun þessi um 6,3% frá 01.07.2019.“ Þá segir í bréfi Fjársýslunnar til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að „[hér] sé vísað í breytingu á mánaðarlegri launavísitölu helstu launþegahópa frá árinu 2015, þ.e. prósentuhækkun á milli áranna 2018 og 2019“. Síðan segir svo í bréfinu: „Í lögunum er ekki að finna nákvæma leiðsögn um nákvæmlega hvaða kvarða skuli miða við þegar launin taki breytingum. Hagstofan leggur til við Fjársýsluna að horft verði til meðaltals reglulegra launa fyrir fullvinnandi starfsfólk ríkisins.“47. Samkvæmt þessu liggur fyrir að af hálfu áfrýjanda var í upphafi talið að við framkvæmd 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016, sbr. 9. gr. laga nr. 79/2019, hafi verið fært að miða við launavísitölu ríkisstarfsmanna. Á vormánuðum ársins 2022 hafi hins vegar sú afstaða breyst og Fjársýsla ríkisins þá talið að fyrra viðmið samræmdist ekki orðalagi lagaákvæðisins. Í bréfi Fjársýslunnar 14. júní 2022 til fjármála- og efnahagsráðuneytisins er þó jafnhliða viðurkennt að lögin væru ekki alls kostar skýr um þau viðmið sem miða skyldi við þegar árlegar breytingar væru reiknaðar. Í bréfinu er raunar að finna tillögu um að framvegis beri að miða við meðaltal reglulegra launa fyrir „fullvinnandi starfsfólk ríkisins“, án þess að séð verði að það viðmið eigi sér stoð í texta ákvæðisins frekar en að miða skuli við heildarhóp ríkisstarfsmanna.48. Dómurinn fellst á það með stefndu að orðalag 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016, sbr. 9. gr. laga nr. 79/2019, útiloki ekki þá túlkun að við árlegan útreikning á hlutfallslegri breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið ár sé fært að miða við launavísitölu ríkisstarfsmanna. Af gögnum málsins má ráða að áfrýjandi hefur viðurkennt að orðalag ákvæðisins gefi nokkurt svigrúm til að velja á milli mismunandi túlkunarkosta. Af hálfu áfrýjanda hefur í þessu máli einnig verið viðurkennt að launavísitala ríkisstarfsmanna geti talist málefnalegur mælikvarði í þessu sambandi og því sé ekkert efnislega því til fyrirstöðu að árlegar breytingar á launum stefndu og annarra dómenda taki mið af því viðmiði eins og raunin var frá 1. júlí 2019 til 1. júlí 2022. Af þessari ástæðu er ekki fallist á það með áfrýjanda að það geti talist skýrt af orðalagi 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016, sbr. 9. gr. laga nr. 79/2019, að sú framkvæmd sem lögð hafði verið til grundvallar af hálfu stjórnvalda frá gildistöku síðarnefndu laganna og allt til 1. júlí 2022 hafi verið bersýnilega í ósamræmi við lög.49. Þá verður heldur ekki ráðið af athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 79/2019 né þingmeðferð þess að löggjafinn hafi tekið sérstaka afstöðu til þess hvort heimilt væri að líta til launavísitölu ríkisstarfsmanna, sem Hagstofan ákveður á grundvelli laga nr. 89/1989, við mat á hlutfallslegri breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Í því sambandi skiptir og máli að fyrir liggur að Hagstofan vakti sérstaka athygli fjármála- og efnahagsráðherra á því í aðdraganda setningar laga nr. 79/2019 að „enginn lagalegur grundvöllur [væri] fyrir útreikningum á árlegum meðaltölum reglulegra launa ríkisstarfsmanna heldur [væru] þeir í samræmi við þær aðferðir sem Hagstofan ákvarðar hverju sinni“. Bendir það og til þess að eins og útfærslu 9. gr. laga nr. 79/2019 er háttað hafi það verið afstaða Hagstofu Íslands að sá mælikvarði sem orðaður er í ákvæðinu eigi sér ekki beina skírskotun í gildandi lögum, en hafa ber í huga að stofnuninni er aftur á móti sérstaklega falið með 1. gr. fyrrgreindra laga nr. 89/1989 að reikna og birta mánaðarlega sérstaka launavísitölu.50. Í ljósi þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin verður því ekki á það fallist að það val áfrýjanda í upphafi, að miða við launavísitölu ríkisstarfsmanna geti talist í bersýnilegu ósamræmi við texta laganna eða lögskýringargögn, enda er orðalag ákvæðisins um það viðmið sem lagt skal til grundvallar ekki skýrt. Í þessu sambandi skiptir og máli að upphafleg túlkun áfrýjanda á inntaki 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016, sbr. 9. gr. laga nr. 79/2019, var liður í þeirri stefnu og framkvæmd stjórnvalda að gera árlegar breytingar á launum dómara, sem sjálfstæðra handhafa ríkisvalds, með þeim hætti að tryggt yrði að sú breyting væri lögbundin en ekki háð mati framkvæmdarvaldsins. Umrædd breyting á stjórnsýsluframkvæmd var því ekki heimil að óbreyttum lögum samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar. Það er verkefni löggjafans að taka skýra afstöðu til þess hvort tilefni sé til að víkja frá því viðmiði til framtíðar, um launavísitölu ríkisstarfsmanna, sem lagt hafði verið til grundvallar allt frá gildistöku laga nr. 79/2019 til 1. júlí 2022.51. Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að sú ákvörðun áfrýjanda frá 29. júní 2022 að breyta því viðmiði sem lá til grundvallar árlegum útreikningi hlutfallslegrar breytingar á launum dómara hafi verið ólögmæt.52. Hvað varðar kröfur stefndu er lúta að ákvörðunum áfrýjanda um endurgreiðslu hluta greiddra launa og um lækkun á launum stefndu fyrir júní 2022 er ljóst að þær sækja efni sitt og forsendur til lögmætis upphaflegrar ákvörðunar áfrýjanda um að breyta því viðmiði um árlega uppfærslu launa sem að framan hefur verið dæmd ólögmæt.53. Hvað varðar sérstaklega ákvörðun áfrýjanda um að krefja stefndu um endurgreiðslu hluta launa frá gildistöku laga nr. 79/2019 fram að ákvörðun áfrýjanda er við það að bæta að fallist er á það með stefndu að við mat á lögmæti þeirrar ákvörðunar verði jafnframt að horfa til meginreglna kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Eins og leiðir af dómi Hæstaréttar frá 13. september 2007 í máli nr. 32/2007 gildir sú meginregla í íslenskum rétti að þeir sem fá fyrir mistök greidda peninga sem þeir eiga ekki rétt til skuli endurgreiða þá. Frá þessari reglu eru þó gerðar undantekningar eftir því hver atvik eru að ofgreiðslunni og endurkröfu hennar. Ber þá að horfa til þess hvort móttakandi greiðslu vissi eða mátti vita að greitt hefði verið án eða umfram skyldu, hvort greiðandi hafi gefið móttakanda ástæðu til að ætla að greiðslan væri endanleg, hvort greiðandi eða móttakandi verði frekar talinn bera ábyrgð á þeim mistökum sem leiddu til greiðslunnar og hvers eðlis krafan er sem um ræðir. Þegar um laun eða aðrar kröfur sem ætlaðar eru móttakanda til framfærslu er að ræða þarf jafnan meira til en endranær svo að fallist verði á endurgreiðslu.54. Þegar litið er til framangreindra sjónarmiða kröfuréttar, að virtum atvikum máls þessa, verður talið ótvírætt að ekki hafi verið heimilt að krefja stefndu um endurgreiðslu launa ef á annað borð hefði verið talið að sú breyting á viðmiði við árlega uppfærslu launa hefði verið lögmæt. Í fyrsta lagi var um að ræða launagreiðslur sem nýttust stefndu til framfærslu og því ríkari kröfur en endranær gerðar til þess að lögmæt endurgreiðslukrafa gæti orðið virk. Í öðru lagi liggur fyrir að lög nr. 79/2019 tóku gildi 18. júní 2019 en það var ekki fyrr en í júní 2022, eða um þremur árum síðar, sem áfrýjandi komst að þeirri niðurstöðu að beita skyldi öðru viðmiði við uppfærslu launa en gert hafði verið frá gildistöku laganna. Af öllu því sem rakið hefur verið um fyrri framkvæmd stjórnvalda við breytingar á launum stefndu gat stefnda ekki hafa vitað eða mátt vita að áfrýjandi myndi telja að laun hennar hefðu ekki tekið breytingum samkvæmt lögmæltu viðmiði 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016. Í þriðja lagi var um að ræða launagreiðslu til dómara sem byggð var á föstu lögmæltu viðmiði er jafnframt var reist á löggjafarstefnu um að girða fyrir aðkomu framkvæmdarvaldsins að ákvörðunum um laun dómara. Er því ekki vafa undirorpið að stefnda hafi mátt líta svo á að þær greiðslur sem henni höfðu borist væru endanlegar. Af öllu framangreindu leiðir að ákvörðun áfrýjanda um að krefja stefndu um endurgreiðslu launa var bæði ólögmæt að efni til, þar sem hin undirliggjandi ákvörðun sem hún var reist á um að breyta umræddu viðmiði um árlega uppfærslu launa stefndu var sem slík ólögmæt, og jafnframt í andstöðu við meginreglur kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár.55. Samkvæmt því sem að framan er rakið er fallist á kröfur stefndu um að viðurkennt verði að þær ákvarðanir áfrýjanda, sem málatilbúnaður stefndu beinist að séu ólögmætar. Að þessu virtu og þar sem ákvarðanirnar eru haldnar skýrum annmörkum að efni til sem snúa að lögmæti þeirra er ekki þörf á því að fjalla sérstaklega um kröfur stefndu um ógildingu sömu ákvarðana, eins og eðli þeirra og atvikum er háttað. Af sömu ástæðu er jafnframt ekki þörf á að leysa úr málatilbúnaði stefndu er beinist að ætluðum formannmörkum á töku þessara ákvarðana.56. Eftir úrslitum máls þessa verður áfrýjanda gert að greiða málskostnað stefndu fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Viðurkennt er að sú breyting áfrýjanda, íslenska ríkisins, á útreikningsaðferð við breytingu launa stefndu, Ástríðar Grímsdóttur, samkvæmt 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016, sem stefndu var tilkynnt með bréfi Fjársýslu ríkisins 29. júní 2022, hafi verið ólögmæt.Viðurkennt er að áfrýjanda hafi verið óheimilt að endurkrefja stefndu um hluta greiddra launa, samtals að fjárhæð 551.120 krónur, í samræmi við tilkynningu Fjársýslu ríkisins til hennar 29. júní 2022.Viðurkennt er að lækkun launa stefndu fyrir júní 2022, með þeim hætti sem henni var tilkynnt með bréfi Fjársýslu ríkisins 29. júní 2022, sem leiddi til þess að laun stefndu fyrir júní 2022 lækkuðu úr 1.646.286 krónum í 1.612.112 krónur, hafi verið ólögmæt.Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað er staðfest.Áfrýjandi greiði stefndu 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.https://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=33199be7-ae2a-4092-9f79-1a1eb5918359 |
Mál nr. 607/2016 | Fjármálafyrirtæki Lánssamningur Gengistrygging Vextir Viðbótarkrafa Fullnaðarkvittun Málsástæða | J gerði kröfu um endurgreiðslu tiltekinnar fjárhæðar sem hann taldi sig hafa ofgreitt D hf. Deildu aðilar um hvort D hf. hefði við endurútreikning á lánssamningi aðila, sem bundinn hafði verið ólögmætri gengistryggingu, verið heimilt að endurreikna vexti á grundvelli 4. gr. laga nr. 38/2001 í stað upphaflega umsaminna vaxta. Í málinu byggði D hf. meðal annars á þeirri nýju málsástæðu að krafa J væri niður fallin fyrir vanlýsingu, en á hluthafafundi í D hf. hafði verið tekin ákvörðun um að slíta félaginu og því kosin skilanefnd samkvæmt ákvæðum laga nr. 2/1995. Þar sem umrædd málsástæða gat fyrst komið fram að liðnum kröfulýsingarfresti taldi Hæstiréttur að það fengi samrýmst 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 að á henni yrði byggt fyrir Hæstarétti, enda gæti önnur niðurstaða valdið D hf. réttarspjöllum. Hæstiréttur féllst hins vegar ekki á að krafa J hefði fallið niður sökum vanlýsingar þar sem fyrir hendi hefði verið sú aðstaða er um ræddi í 2. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991. Þá vísaði Hæstiréttur meðal annars til þess að í dómaframkvæmd hefði þeirri meginreglu kröfuréttar verið slegið fastri að kröfuhafi, sem fengið hefði minna greitt en hann ætti rétt á úr hendi skuldara, ætti tilkall til viðbótarkröfu. Frá þeirri meginreglu giltu þó undantekningar við sérstakar aðstæður sem réðust af heildarmati á atvikum öllum og lögskiptum aðila. Taldi Hæstiréttur að þótt fjárhæð viðbótarkröfunnar væri nokkur miðað við greidda vexti, væri hún óveruleg sem hluti af höfuðstól lánsins, auk þess sem virða yrði fjárhagslega röskun J vegna viðbótarkröfunnar í ljósi þess að hann hefði greitt skuldina. Væru því ekki efni til þess að víkja frá áðurnefndri meginreglu. Var D hf. því sýknaður af kröfu J. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson ogIngveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. ágúst 2016. Hann krefst sýknuaf kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrirHæstarétti.IMálavextir, sem nánar eru raktir í hinum áfrýjaða dómi, eru óumdeildir.Aðilar deila um það hvort stefndi geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum fyrirgreiðslu vaxta vegna láns sem hann tók ásamt maka sínum hjá forvera áfrýjanda,Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., 20. febrúar 2008. Lánið, sem bar LIBOR-vextiað viðbættu 3,98% álagi, var til 25 ára og eins mánaðar og voru gjalddagarmánaðarlega. Greiddar voru 38 afborganir af láninu, þar af 36 afborganir vaxta.Ekki er um það deilt að lánið var bundið ólögmætri gengistryggingu ogendurreiknaði áfrýjandi lánið 28. mars 2011. Eftir það greiddi stefndi tværafborganir af láninu en greiddi það síðan upp með eingreiðslu 25. maí 2011 aðfjárhæð 11.388.151 króna. Við útreikning lánsins 28. mars 2011 voru vextir endurreiknaðir ágrundvelli 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu í stað upphaflegaumsaminna vaxta. Stendur efnislegur ágreiningur aðila um það hvort þetta hafiverið áfrýjanda heimilt og er óumdeilt að stefnufjárhæðin í málinu svarar tilmismunar á þessum vöxtum.II.Í svokallaðri „framhaldsgreinargerð“, 28.maí 2017, byggir áfrýjandi á þeirri nýju málsástæðu að ætluð krafa stefnda séfallin niður fyrir vanlýsingu. Á hluthafafundi í áfrýjanda 15. nóvember 2016 hafiverið ákveðið að slíta félaginu á grundvelli ákvæða XIII. kafla laga nr. 2/1995um hlutafélög, sbr. 110 gr. þeirra. Á hluthafafundi 25. sama mánaðar hafi veriðkosin skilanefnd samkvæmt 2. mgr. 110. gr. og 111. gr. laganna. Skilanefndinhafi á grundvelli 112. gr. þeirra birt innköllun til kröfuhafa áfrýjanda 9. og16. desember 2016. Lauk kröfulýsingarfresti 9. febrúar 2017. Stefndi hafi ekkilýst kröfu þeirri sem undir sé í dómsmáli þessu innan kröfulýsingarfrests og séhún því fallin niður vegna vanlýsingar. Þrátt fyrir að greinargerð áfrýjandatil Hæstaréttar sé frá 6. október 2016 og gagnaöflunarfresti í málinu lokið 30.nóvember 2016 þá telur áfrýjandi sér heimilt, með vísan til 2. mgr. 163. gr.laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að byggja á þeirri málsástæðu fyrirHæstarétti enda verði hann að öðrum kosti fyrir réttarspjöllum.Málsástæða byggð á ætlaðri vanlýsingukröfu stefnda gat fyrst komið fram að liðnum kröfulýsingarfresti samkvæmt 1.mgr. 112. gr. laga nr. 2/1995, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Þegarsvo stendur á fær það samrýmst 2. mgr. 163. gr. sömu laga að á henni verðibyggt fyrir Hæstarétti enda er ljóst að niðurstaða í aðra veru gæti valdiðáfrýjanda réttarspjöllum. Verður málsástæðan því tekin til úrlausnar. IIIUm ætlaða niðurfellingu kröfu stefndafyrir vanlýsingu vísar áfrýjandi sem fyrr segir til vanlýsingaráhrifa samkvæmt112. gr. laga nr. 2/1995 í ljósi þess að ágreiningslaust er að stefndi lýstiekki fyrir skilanefnd kröfu þeirri sem deilt er um í málinu. Í niðurlagsákvæði1. mgr. 112. gr. er áréttað að réttaráhrif innköllunar skulu vera hin sömu ogvið gjaldþrotaskipti á búi hlutafélags. Í 1. mgr. 118. gr. laga nr. 21/1991 umgjaldþrotaskipti o.fl. kemur fram að ef kröfu á hendur þrotaþrotabúi séekki lýst fyrir skiptastjóra áður en fresti lýkur og ekki er unnt að fylgjahenni fram gagnvart því samkvæmt 116. gr., þá falli hún niður. Í 2. mgr. þeirrargreinar kemur síðan fram að halda megi máli til dóms ef það hefur verið höfðaðá hendur þrotamanninum og dómur ekki gengið í því áður en úrskurður gekk um aðbúið væri tekið til gjaldþrotaskipta, enda tilkynni stefnandi þess skiptastjóraum það. Sú aðstaða sem um ræðir í 2. mgr. 116. gr. var fyrir hendi í máli þessuog engin þörf á því að stefndi tilkynnti skilanefnd áfrýjanda sérstaklega ummálsóknina í ljósi þess að lögmaður áfrýjanda, sem rekið hefur mál þetta ábáðum dómstigum, sat í stjórn hans fyrir slitin og situr nú í skilanefnd, sbr.111. gr. laga nr. 2/1995. Verður því hafnað þeirri málsástæðu áfrýjanda aðætluð krafa stefnda sé fallin niður fyrir vanlýsingu.IV.Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur þeirrimeginreglu kröfuréttar verið slegið fastri að kröfuhafi, sem fengið hefur minnagreitt en hann á rétt til úr hendi skuldara, eigi tilkall til viðbótarkröfu.Frá þeirri meginreglu gilda þó undantekningar við sérstakar aðstæður, semráðast af heildarmati á öllum atvikum og lögskiptum aðila. Þau atriði sem lítaverður til við mat á því hvort svo standi á eru hvort skuldari hafi verið ígóðri trú, hvort sá aðstöðumunur hafi verið á samningsaðilum að það réttlæti aðhafna beri viðbótarkröfu og hvorum aðilanum standi nær að bera áhættu af þeimmistökum sem leiða til þess að vangreitt hefur verið. Í því sambandi skiptireinkum máli hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langurtími hafi liðið frá því að mistök komu fram þar til krafa er höfð uppi, hvortöðrum samningsaðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvortsamningssambandið sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfangviðbótarkröfu.Fallist er á það sem lagt er tilgrundvallar í hinum áfrýjaða dómiað nægileg festa hafi verið komin á umefndir afborgana af láninu til þess að stefndi gæti að réttu haft þær væntingarað vextir væru að fullu greiddir. Þá verður jafnframt lögð til grundvallar góðtrú stefnda af sama tilefni.Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómigreiddi stefndi 36 vaxtagreiðslur af láninu þar til það var endurútreiknað 28.mars 2011 miðað við hina breyttu vexti. Með aðilum er ágreiningslaust aðfjárhæð þeirrar viðbótarkröfu nemi stefnufjárhæð 1.443.216 krónum. Þóttfjárhæðin sé nokkur þegar litið er til þess að greiddir vextir af bréfinu voru 2.531.881króna fram í mars 2011 og viðbótarkrafan sé 57% sem hlutfall af greiddum vöxtumer hún á hinn bóginn óveruleg sem hluti af höfuðstól lánsins eða um 14,43% en11,22% sé miðað við verðlagsbreytingar. Þá verður að virða fjárhagslega röskunstefnda vegna viðbótarkröfunnar í því ljósi að hann hefur greitt skuldina. Aðþessu gættu og með hliðsjón af dómum Hæstaréttar 16. janúar 2014 í máli nr.661/2013 og 14. apríl 2016 í máli nr. 617/2015 eru ekki efni til þess í málinuað víkja frá þeirri meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minnagreitt en honum ber, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Gatáfrýjandi því teflt fram þessari viðbótarkröfu gegn kröfu stefnda umendurgreiðslu.Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefnda, en rétter að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.Dómsorð:Áfrýjandi, Drómi hf., er sýkn af kröfu stefnda, Jóns Óskars Hinrikssonar.Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.DómurHéraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2016.Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 13. apríl sl.og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 9. júní sl. Stefnandi er Jón ÓskarHinriksson, Hvassaleiti 24, Reykjavík. Stefndi er Drómi hf., Laugavegi 182,Reykjavík. Stefnandikrefst þess aðallega að stefndi greiði honum 1.443.216 krónur en til vara721.608 krónur. Stefnandi gerir aðallega kröfu um dráttarvexti frá 23. nóvember2013, en til vara frá 18. júní 2015, til greiðsludags. Hann krefst einnigmálskostnaðar. Stefndikrefst sýknu auk málskostnaðar. Atvikmálsins eru óumdeild og er ágreiningur aðila bundinn við það hvort fullnægt séskilyrðum til þess að stefnandi geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum fyrirgreiðslu vaxta vegna láns sem hann tók ásamt maka sínum, Sigríði AldísiJónsdóttur, 20. febrúar 2008. Þá er einnig deilt um upphafsdag dráttarvaxta.Ekki er uppi tölulegur ágreiningur.Umrætt lán var í formi veðtryggðsskuldabréfs að jafnvirði 10 milljónir króna í svissneskum frönkum og japönskumjenum að jöfnu. Ekki er um það deilt að lánið hafi verið bundið ólögmætrigengistryggingu svo sem fram kom í texta veðskuldabréfsins. Lánið bar svonefndaLIBOR-vexti að viðbættu 3,98% álagi. Lánstími var 25 ár og einn mánuður,gjalddagar mánaðarlega. Vaxtagjaldagar voru 36 þannig að við fyrstu 36afborganirnar voru einungis greiddir vextir. Greitt var af láninu í 38 skiptiog fólu þannig einungis tvær síðustu greiðslurnar í sér afborgun af höfuðstól.Síðasta greiðslan fór fram vegna gjalddaga 2. maí 2011, en 25. sama mánaðar varlánið greitt upp með . Segir í stefnu að þetta hafi verið gert með fyrirvara umendurgreiðslu á ofgreiddri fjárhæð og að viðhöfðum mótmælum viðendurútreikningi stefnda sem stefnanda mun hafa verið kynntur hinn 28. mars2011. Aðilar eru sammála um að ef miðað er við að stefnda hafi verið óheimiltað krefjast frekari vaxta, en þegar höfðu verið greiddir áendurútreikningsdegi, hafi verið ofgreitt af láninu sem nemi stefnufjárhæð.Jafnframt sé þá hlutfall viðbótarkröfu 14,43% af upprunalegum höfuðstól en11,22% sé miðað við verðlagsbreytingar.Samkvæmt stefnu krafðiststefnandi þess að lánið yrði endurreiknað að nýju í kjölfar dóma Hæstaréttar ímálum nr. 600/2011 og 464/2012 og ofteknar fjárhæðir yrðu endurgreiddar. Meðbréfi stefnda 23. október 2013 var kröfunni hafnað. Með hliðsjón af úrlausnmálsins er ekki ástæða til þess að rekja frekar samskipti aðila. Stefnandibyggir málatilbúnað sinn á því að fullnægt sé öllum þeim skilyrðum sem mótuðhafi verið í dómaframkvæmd um rétt skuldara gengistryggðs láns til að byggjarétt á fullnaðarkvittunum vegna greiðslu vaxta. Þannig hafi stefnandi verið ígóðri trú, aðstöðumunur hafi verið á aðilum og festa hafi verið í greiðslum afláninu. Að því er umfang viðbótarkröfu varðar er lögð á það áhersla að þaðráðist af heildarmati hvorum aðila það standi nær að bera þann vaxtamun semskapast hafi af ólögmætri gengistryggingu. Er vísað til þess að hér sé um aðræða greiðslur einstaklings með tekjur í meðallagi. Sé ljóst af öllum atvikummálsins að viðbótarkrafa stefnda hafi haft í för með sér verulega röskun áfjárhagslegum hagsmunum stefnanda og/eða beggja skuldara lánsins. Að því ervarðar upphafsdag dráttarvaxta vísar stefnandi til þess að bréf stefnda 23.október 2013 beri skýrlega með sér að þá hafi verið komin fram krafa af hálfustefnanda um endurgreiðslu. Jafnframt hafi stefndi ekki getað verið í góðri trúum réttmæti þess að synja um endurgreiðslu á þessum tíma með hliðsjón af þeimdómafordæmum sem þá lágu fyrir. Stefndibyggir varnir sínar á því að ekki sé uppfyllt það skilyrði reglu kröfuréttar umrétt skuldara til að byggja á fullnaðarkvittunum að viðbótarkrafa kröfuhafahafi verið veruleg eða valdið verulegri röskun á högum skuldara. Vísar hann tilþess að hlutfall viðbótarkröfu af höfuðstól hafi verið lágt og undir því semmiðað hafi verið við í dómaframkvæmd. Hann telur einnig að við mat á röskun áhögum skipti máli að lánið hafi verið greitt upp að fullu. Þá hafi mjögóverulegur afborganahluti verið greiddur af láninu áður en lánið hafi að fulluverið gert upp. Lánið hafi því haft öll einkenni svonefnds kúluláns. Að því ervarðar upphafsdag dráttarvaxta telur stefndi að stefnandi hafi ekki vísað tilneinna gagna um að stefndi hafi verið krafinn um ofgreidda fjárhæð þannig aðskilyrðum 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu teljistfullnægt. Engarmunnlegar skýrslur voru við aðalmeðferð málsins.Niðurstaða Svosem áður greinir er ágreiningslaust að lán það sem stefnandi tók ásamt makasínum, Sigríði Ásdísi Jónsdóttur, 20. febrúar 2008 var bundið ólögmætrigengistryggingu. Jafnframt eru aðilar sammála um að endurútreikningur stefnda,sem mun hafa verið tilkynntur stefnanda 28. mars 2011, leiddi til þess aðupphæð vaxta fyrir endurútreikningstímabilið hækkaði sem nam 1.446.216 krónum.Svarar sú fjárhæð til 14,43% af höfuðstól eða 11,22%, ef tekið er tillit tilverðbreytinga fram að endurútreikningsdegi. Í málinu er fram komið að greitthafði verið skilvíslega af láninu með föstum afborgunum, alls 38 sinnum, yfirrúmlega þriggja ára tímabil, þar af 36 sinnum áður en endurútreikningur láfyrir. Er því ljóst að nægileg festa var í lögskiptum aðila til þess aðskuldarar gætu haft lögmætar væntingar um að þeir hefðu að fullu greitt þávexti sem hér um ræðir. Er af hálfu stefnda í sjálfu sér ekki dregið í efa aðskuldarar hafi verið í góðri trú um að greiðslur þeirra væru fullnaðargreiðslurvaxta. Þá telur dómurinn að það geti ekki haft þýðingu um mat á þessu atriði aðgreiðslur skuldara fólu að mestu í sér greiðslu samningsvaxta án afborgana afhöfuðstól lánsins. Atvikmálsins, þ. á m. fjárhæð lánsins, benda ekki til þess að umrædd lántaka hafifarið fram í þágu atvinnustarfsemi eða fjárfestinga umfram það sem eðlilegtgetur talist hjá einstaklingum. Er sakarefnið því ólíkt því sem skorið var úrmeð dómum Hæstaréttar 15. október 2015 í málum nr. 34 og 35/2015, svo og dómiréttarins 14. apríl 2016 í máli nr. 617/2015 sem einnig hefur verið vísað tilaf hálfu stefnda. Að þessu virtu telur dómurinn að sú viðbótarfjárhæð semstefnandi og maki hans voru í reynd sameiginlega krafin um með fyrrgreindumendurútreikningi hafi falið í sér umtalsverða röskun á fjárhagslegum hagsmunumþeirra. Getur það ekki ráðið úrslitum í þessu sambandi þótt sú fjárhæð sem hérum ræðir hafi falið í sér tiltölulega lágt hlutfall höfuðstóls og búið hafiverið að greiða lánið upp á endurútreikningsdegi. Þegar litið er til allraatvika málsins og höfð er hliðsjón af þeim viðmiðum sem ítrekað hafa verið lögðtil grundvallar í dómum Hæstaréttar er það samkvæmt þessu álit dómsins að þaðstandi stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem hlaust af ólögmætrigengistryggingu lánsins á áðurgreindum vaxtadögum lánsins.Meðal gagna málsins er yfirlýsingfyrrnefndrar Sigríðar Ásdísar Jónsdóttur, þar sem hún veitir stefnanda heimildtil að höfða mál til innheimtu á allri kröfunni. Af hálfu stefnda hefursóknaraðild stefnanda á grundvelli þessa skjals ekki verið mótmælt. Að þessuvirtu, svo og að teknu tilliti til sambands stefnanda og nefndrar Sigríðar,verður aðild stefnanda til fullrar sóknar í málinu látin óátalin.Samkvæmt öllu framangreinduverður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda stefnufjárhæðina. Miða verður viðað stefnda hafi verið vel ljóst umfang endurgreiðslukröfu stefnanda þegar hennivar hafnað með bréfinu 23. október 2013. Með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr.38/2001 um vexti og verðtryggingu verður því fallist á dráttarvaxtakröfustefnanda líkt og nánar greinir í dómsorði.Eftir úrslitum málsins verðurstefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn350.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Af hálfu stefnanda flutti máliðJónas Fr. Jónsson hdl.Af hálfu stefnda flutti máliðJóhann Pétursson hrl.Skúli Magnússon héraðsdómarikveður upp dóm þennan.DÓ M S O R ÐStefndi, Drómi hf., greiði stefnanda, Jóni ÓskariHinrikssyni, 1.443.216 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. nóvember 2013 til greiðsludags. Stefndigreiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 623/2009 | Kærumál Kröfugerð Frávísun frá héraðsdómi | Hæstiréttur vísaði málinu frá héraðsdómi þar sem krafa L í héraði uppfyllti ekki formkröfur 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. október 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að nánar tilgreindum fjármálastofnunum yrði með úrskurði gert skylt að láta sóknaraðila í té allar upplýsingar um bankareikninga sem skráðir væru á fyrirtæki varnaraðila, Y ehf., þar með taldar upplýsingar um innlagnir og úttektir, gjaldeyrisviðskipti og öll skjöl tengd þeim færslum, á tímabilinu frá 1. október 2007 til uppkvaðningar úrskurðarins. Þá var þess jafnframt krafist að fjármálastofnunum þessum yrði gert skylt að upplýsa sóknaraðila hvort varnaraðili færi með prókúru fyrir önnur fyrirtæki en það sem að framan greinir. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í 103. gr. laga nr. 88/2008 segir að lögreglustjóri eða ákærandi skuli, þegar hann telji þörf á atbeina dómara til rannsóknaraðgerðar samkvæmt 1. mgr. 102. gr., leggja skriflega og rökstudda kröfu um hana fyrir héraðsdóm. Þar skuli þess meðal annars getið hvort sá sem hana geri krefjist þess að hún sæti meðferð fyrir dómi án þess að sakborningur eða annar sá sem hún beinist að verði kvaddur á dómþing, sbr. 1. mgr. 104. gr. Í síðastnefndu ákvæði kemur fram að sé þess beiðst, að krafa um rannsóknaraðgerð hljóti meðferð fyrir dómi án þess að sakborningur eða annar sá sem hún beinist að verði kvaddur á dómþing, skuli að jafnaði ekki verða við þeirri beiðni nema dómari telji það nægilega rökstutt að vitneskja um aðgerðina fyrir fram hjá sakborningi eða þeim sem hún á að beinast að geti spillt fyrir rannsókn. Í erindi sóknaraðila til héraðsdóms var þess beiðst að krafan yrði tekin til meðferðar án þess að sakborningur eða annar sá sem hún beinist að yrði kvaddur á dómþing. Þar var ekki að finna rökstuðning fyrir þeirri ósk svo sem áskilið er 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008. Skorti þannig á að erindið uppfyllti skilyrði laga að þessu leyti. Verður málinu því vísað frá héraðsdómi. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að BYR-sparisjóði, kt. 610269-2229, Borgartúni 18, Reykjavík, Nýja Glitni hf., 491008-0160, Kirkjusandi, Reykjavík, NBI hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, Reykjavík, MP fjárfestingabanka, kt.540599-2469, Skipholti 50d, Reykjavík, Nýja Kaupþing banka hf., kt. 581008-0150, Borgartúni 19, Reykjavík og Sparisjóðabanka Íslands hf., 681086-1379, Rauðarárstíg 27, Reykjavík, verði með úrskurði gert skylt að láta lögreglustjóranum á Suðurnesjum í té allar upplýsingar um bankareikninga sem skráðir eru á fyrirtæki það sem X, kt. [...], er skráður fyrir, Y ehf., kt. [...], þar með talið upplýsingar um innlagnir og úttektir, gjaldeyrisviðskipti og öll skjöl tengd þeim færslum, á tímabili frá 1. október 2007 til uppkvaðningar úrskurðarins. Þá er þess jafnframt krafist að framangreindum bönkum verði gert skylt að upplýsa lögreglustjóra hvort X sé með prókúru á önnur fyrirtæki en að ofan greinir. Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að skömmu fyrir miðnætti 10. október sl. hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu um borð í flugvél Iceland Express sem hafi verið að koma frá Varsjá, Póllandi, vegna farþega sem hefði verið mjög æstur og ógnandi um borð í vélinni. Umræddur farþegi hafi reynst vera litháísk kona, sem kvaðst heita Ieva Grisiúte og hafi hún framvísað „breytifölsuðu“ nafnskírteini því til staðfestingar. Hafi hún verið yfirbuguð af flugliðum og eftir lendingu verið flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Athygli lögreglu hafi vakið að þrír Litháar hafi verið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að taka á móti konunni, en jafnframt hafi þeir spurst fyrir um hana á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja svo og á lögreglustöðinni á Hringbraut, Keflavík. Eftir að konan hafi verið flutt á lögreglustöðina á Hverfisgötu, Reykjavík 11. október sl. hafi mennirnir verið þar fyrir utan og verið að grennslast fyrir um hana, en hún hafi virst vera mjög óttaslegin við mennina. Hafi hún því fengið að gista í fangahúsi lögreglu að eigin ósk þar til unnt væri að fá far fyrir hana úr landi, en hún hafi eigi haft fjármuni meðferðis. Þann 12. október hafi verið rætt við konuna með milligöngu fagaðila en lögregla hafði þá rökstuddan grun til að ætla að hún kynni að vera ætlað fórnarlamb mansals. Konan hafi virst vera mjög illa áttuð og hafi ekki vitað hvar í heiminum Ísland væri. Hún hafi borið um það að hafa komið hingað til lands til að stunda vinnu sem henni hafi verið úthlutað. Að kvöldi þess 12. október sl. hafi konan yfirgefið þann stað sem lögreglan hafði úthlutað henni og hafi ekkert spurst til hennar fyrr en fimmtudagskvöldið 15. október sl. en þann dag hafi hún verið skráð inn á hótel sem annar maður hafi greitt fyrir hana. Þann 20. október sl. hafi kærði verið handtekinn ásamt tveimur öðrum mönnum, grunaður um aðild að ætluðu mansali auk annarrar skipulagðrar glæpastarfsemi. Kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 21. október sl. en látinn laus daginn eftir, þann 22. október sl. Þá hafi lögreglan m.a. rökstuddan grun til að ætla að kærði kunni að standa að sölu kvenna í vændi hér á Íslandi og taki greiðslu fyrir. Þá telji lögreglustjóri rökstuddan grun til að ætla að kærði kunni að hafa tengst peningaþvætti í sambandi við hina ætluðu skipulögðu glæpastarfsemi sem nú sé til rannsóknar í gegnum fyrirtæki sín. Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi. Málið hafi orðið sífellt umfangsmeira og virst teygja anga sína víða og telji lögreglan að rökstuddur grunur sé á að um sé að ræða verulega umfangsmikla skipulagða glæpastarfsemi. Enn sé verið að rannsaka aðdraganda að ferð konunnar hingað til lands, bakgrunn og forsögu hennar og tengsl hennar við hugsanlega aðila sem stunda mansal á Íslandi og eða erlendis auk annarra atriða. Þá telur lögregla rökstuddan grun til að ætla að hið ætlaða mansal sé hluti af mun stærri og umfangsmeiri glæpastarfsemi sem sé skipulögð. Sú háttsemi sem kærða hafi verið gefið að sök telur lögreglustjóri að kunni einkum að varða við ákvæði 227. gr. a, 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940 en ætlað brot gegn því ákvæði geti varðað fangelsisrefsingu, allt að 8 árum. Miklu skipti fyrir áframhaldandi rannsókn málsins að fengin sé heimild til rannsóknaraðgerðar í samræmi við kröfu svo unnt sé að upplýsa málið og finna út hvort og hvernig kærði tengist hinni ætluðu skipulögðu glæpastarfsemi eins og rökstuddur grunur er til að ætla og þá við hverja kærði hafi verið í tengslum við vegna þess. Þá telur lögreglustjóri jafnframt að ríkir almanna- og einkahagsmunir krefjist þess að mál þetta upplýsist. Með vísan til 1. mgr. 103. gr., sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008 sé þess krafist að krafa þessi sæti meðferð fyrir dómi án þess að sakborningur eða bankastofnanir þær sem krafan beinist að verði kvödd á dómþing. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga. Eins og fram kemur í greinargerð lögreglustjóra var kærði úrskurðaður í gæsluvarðhald hinn 21. október sl. í héraðsdómi vegna gruns um aðild að ætluðu mansali auk annarrar skipulagðrar glæpastarfsemi. Þessi úrskurður var felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar hinn 23. október sl., samanber hæstaréttarmál nr. 607/2009, en samkvæmt dómi Hæstaréttar þótti lögreglustjórinn á Suðurnesjum ekki hafa sýnt fram á með fullnægjandi hætti að rökstuddur grunur beindist að varnaraðila um brot gegn þeim ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem að ofan greinir. Þá yrði ekki heldur ráðið af gögnum málsins að næg stoð væri fyrir slíkum grun. Engin ný gögn hafa verið lögð fram í málinu eftir að framangreindur dómur Hæstaréttar gekk. Með vísan til framangreinds hefur ekki verið sýnt fram á að rökstuddur grunur beinist að kærða um brot gegn þeim ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem að framan greinir. Eru því ekki skilyrði til að taka kröfu lögreglustjóra til greina og er henni því hafnað. Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari. Úrskurðarorð: Framangreindri kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum er hafnað. |
Mál nr. 53/2015 | Eignarréttur Stjórnarskrá Eignarnám Matsnefnd eignarnámsbóta Lögskýring Raforka | L, sem fengið heimild til eignarnáms á spildum úr landi G o.fl. í tilefni af framkvæmdum við að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 á Reykjanesi, studdi eignarnámið rökum um almenningsþörf samkvæmt áskilnaði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í kjölfarið fór L þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að sér yrði heimiluð umráðataka hins eignarnumda lands samkvæmt heimild í 14. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, áður en fram færi mat á fjárhæð eignarnámsbóta, og studdi hann þá kröfu sína sömu rökum og áður var getið. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að þegar L beindi erindum til matsnefndar eignarnámsbóta um umráðatöku samkvæmt 14. gr. laga nr. 11/1973 hefði honum borið að færa fyrir því rök að skilyrðum þeirrar lagagreinar væru fullnægt. Þótt vera kynni að saman gætu farið í ákveðnum tilvikum sjónarmið sem byggju að baki mati á almenningsþörf samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og sjónarmið því til stuðnings að fullnægt væri skilyrðum 14. gr. laga nr. 11/1973 væri ekki sjálfgefið að svo væri. Réðist niðurstaðan af atvikum hverju sinni og væri þá til þess að líta að mat samkvæmt stjórnarskrárákvæðinu réðist oftar ekki af langtímahagsmunum en mat samkvæmt 14. gr. á hinn bóginn eingöngu af sjónarmiðum þar sem hagsmunir til skemmri tíma réðu för. Af þessu leiddi að almennt stoðaði það eignarnema ekki í beiðni um umráðatöku samkvæmt 14. gr. laga nr. 11/1973 að láta við það eitt sitja að endurtaka þau rök sem hann hefði áður fært fram fyrir því að fullnægt væri áskilnaði 72. gr. stjórnarskrárinnar, heldur yrði hann hið minnsta að rökstyðja að þeir hagsmunir færu saman við hagsmuni hans af því að fá með stoð í 14. gr. laga nr. 11/1973 fljótt umráð hins eignarnumda. Var L ekki talinn hafa fært fram fyrir matsnefnd eignarnámsbóta rök sem að lögum gátu leitt til þeirrar niðurstöðu að fallist yrði á beiðni hans um umráðatöku. Af þeim sökum var talið að brostið hefði lagaskilyrði af hálfu matsnefndar eignarnámsbóta til að verða við beiðnum L um umráðatöku hins eignarnumda lands og var úrskurður nefndarinnar sem reistur var á röngum lagagrundvelli því felldur úr gildi. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2015 og krefjast þess hver fyrir sitt leyti að ógiltir verði eftirtaldir úrskurðir matsnefndar eignarnámsbóta 29. júlí 2014 vegna lands innan nánar tilgreindra jarða á Reykjanesi: Áfrýjandinn Margrét Guðnadóttir vegna úrskurðar í máli nr. 6/2014 varðandi Landakot, áfrýjandinn Sauðafell sf. vegna úrskurðar í máli nr. 4/2014 varðandi Hvassahraun, áfrýjendurnir Reykjaprent ehf., Ólafur Þór Jónsson og Sigríður S. Jónsdóttir vegna úrskurðar í máli nr. 8/2014 varðandi Heiðarland Vogajarða, áfrýjendurnir Bjarney Guðrún Ólafsdóttir, Ólafur Þór Jónsson og Sigríður S. Jónsdóttir vegna úrskurðar í máli nr. 7/2014 varðandi Stóra Knarranes I og áfrýjendurnir STV ehf., Geirlaug Þorvaldsdóttir, Katrín Þorvalsdóttir og Skúli Þorvaldsson vegna úrskurðar í máli nr. 5/2014 varðandi Stóru-Vatnsleysu og Minni-Vatnsleysu. Þá krefjast áfrýjendur hver fyrir sitt leyti málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2015. Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 16. desember 2014, er höfðað með réttarstefnu, áritaðri um birtingu 13. ágúst 2014. Málið var þingfest 18. ágúst 2014 og sætir flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnendur eru Geirlaug Þorvaldsdóttir, Stigahlíð 80, Margrét Guðnadóttir, Rofabæ 29, Ólafur Þór Jónsson, Sléttuvegi 31, Reykjaprent ehf., Síðumúla 14, Sauðafell sf., Meistaravöllum 31, Sigríður S. Jónsdóttir, Hvassaleiti 56-58, Bjarney Guðrún Ólafsdóttir, Safamýri 47, öll í Reykjavík, STV ehf., Stóru-Vatnsleysu, Vogum, Skúli Þorvaldsson og Katrín Þorvaldsdóttir, bæði í Lúxemborg. Stefndu eru Landsnet hf., Gylfaflöt 9, Reykjavík og íslenska ríkið, Arnarhvoli, einnig í Reykjavík, og er innanríkisráðherra stefnt fyrir hönd íslenska ríkisins. Dómkröfur stefnenda Margrét Guðnadóttir krefst þess að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 6/2014 frá 29. júlí 2014, þar sem stefnda Landsneti hf. var veitt heimild til umráðatöku lands innan jarðarinnar Landakots, landnr. 130865, verði ógiltur með dómi. Sauðafell sf. krefst þess að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 4/2014 frá 29. júlí 2014, þar sem stefnda Landsneti hf. var veitt heimild til umráðatöku lands innan jarðarinnar Hvassahrauns, landnr. 206748, verði ógiltur með dómi. Reykjaprent ehf., Ólafur Þór Jónsson og Sigríður S. Jónsdóttir krefjast þess hvert um sig að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 8/2014 frá 29. júlí 2014, þar sem stefnda Landsneti hf. var veitt heimild til umráðatöku lands innan Heiðarlands Vogajarða, landnr. 206748, verði ógiltur með dómi. Bjarney G. Ólafsdóttir, Ólafur Þór Jónsson og Sigríður S. Jónsdóttir krefjast þess hvert um sig að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 7/2014 frá 29. júlí 2014, þar sem stefnda Landsneti hf. var veitt heimild til umráðatöku lands innan jarðarinnar Stóra Knarrarness I, landnr. 130884, verði ógiltur með dómi. STV ehf., Geirlaug Þorvaldsdóttir, Katrín Þorvaldsdóttir og Skúli Þorvaldsson krefjast þess hvert um sig að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 5/2014 frá 29. júlí 2014, þar sem stefnda Landsneti hf. var veitt heimild til umráðatöku lands innan jarðanna Stóru-Vatnsleysu, landnr. 130886 og Minni-Vatnsleysu, landnr. 130869, verði ógiltur með dómi. Hver um sig krefjast stefnendur einnig málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu in solidum. Dómkröfur stefndu Landsnet hf. krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda og málskostnaðar að óskiptu úr þeirra hendi, að mati dómsins. Íslenska ríkið krefst einnig sýknu af öllum kröfum stefnenda og að stefnendum verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Málsatvik Samkvæmt 2. gr. laga nr. 75/2004, um stofnun Landsnets hf., er hlutverk þess að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga nr. 65/2003. Landsnet hf. ber ábyrgð á rekstri og kerfisstjórnun raforkukerfisins, sbr. 8. gr. raforkulaga. Hefur fyrirtækið eitt heimild til að reisa ný flutningsvirki og ber því að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku, sbr. 1. mgr. 9. gr. sömu laga. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar þarf leyfi Orkustofnunar fyrir nýjum raflínum sem flytja eiga raforku á 66 kV spennu eða hærri, og getur Orkustofnun bundið leyfið skilyrðum er lúta að þeim atriðum sem greinir í 1. mgr., auk skilyrða er lúta að umhverfisvernd og landnýtingu. Árið 2005 hóf Landsnet hf. undirbúning að verkefni sem nefnt er Suðvesturlínur, en það tekur til meginflutningskerfis raforku frá Hellisheiði að Geithálsi og Hafnarfirði og áfram út á Reykjanes. Markmið framkvæmdarinnar er að byggja upp og styrkja til framtíðar raforkuflutningskerfið á Suðvesturlandi þannig að það geti mætt áformum um orkuflutning á svæðinu, jafnt fyrir atvinnustarfsemi og til almannanota. Á undirbúningsstigi var haft samráð við sveitarfélög, stofnanir og aðra hagsmunaaðila, en framkvæmdin varðar 12 sveitarfélög. Á árinu 2007 var fyrirhuguð framkvæmd kynnt landeigendum bréflega, þ. á m. stefnendum þessa máls, og gerð grein fyrir mögulegum valkostum við lagningu háspennulínu um jarðir þeirra. Í kynningarbréfinu kom fram að umrædd framkvæmd hefði í för með sér öruggari tengingu núverandi notenda á Reykjanesi, aukna flutningsgetu kerfisins og tengingu nýrra notenda og framleiðslu á svæðinu við meginflutningskerfi raforku. Tekið var fram að einungis ein lína tengdi svæðið við meginflutningskerfið og þrátt fyrir framleiðslu raforku á svæðinu ylli bilun á henni rafmagnsleysi á Suðurnesjum. Í febrúar 2009 voru haldnir kynningarfundir um tillögu að matsáætlun Landsnets hf. vegna Suðvesturlínu, þ. á m. í Reykjanesbæ. Skipulagsstofnun féllst á tillöguna í mars 2009 og var endanleg matsskýrsla send stofnuninni í ágúst sama ár. Með útgáfu álits 17. september 2009 féllst Skipulagsstofnun á mat Landsnets hf. á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Fyrri hluta árs 2011 var hafinn undirbúningur að styrkingu raforkuflutningskerfisins á Suðurnesjum, frá Hafnarfirði að Reykjanesbæ. Er sá hluti framkvæmdarinnar nefndur Suðurnesjalína 2 og felur í sér að reist verður ný 32,4 kílómetra löng 220 kV háspennulína frá tengivirki við Hamranes í Hafnarfirði, um Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ að tengivirki við Rauðamel, um 5 kílómetrum norðan við Svartsengi. Mun línan liggja um eignarlönd tuga jarða, þ.m.t. jarða stefnenda. Frá landamerkjum Lónakots og Hvassahrauns, við mörk sveitarfélaganna Voga og Hafnarfjarðar, mun línan fylgja núverandi Suðurnesjalínu 1 að sunnanverðu, að tengivirkinu við Rauðamel. Samkvæmt framlögðum gögnum er Suðurnesjalína 1, sem þjónar Suðurnesjum og rekin er á 132 kV spennu, fulllestuð í dag, þrátt fyrir að hafa verið tekin í notkun árið 1991. Fullyrt er að öryggi raforkuflutningskerfisins á svæðinu sé ófullnægjandi, þar sem aðeins ein tenging sé nú frá Reykjanesskaganum við 220 kV meginflutningskerfi Landsnets hf. í Hamranesi við Hafnarfjörð. Þá sé svæðið ekki tengt svokallaðri N-1 tengingu, en slíkt sé óviðunandi að mati Landsnets hf. fyrir jafn stór byggðarlög og á Suðurnesjum. Hafi það valdið vandkvæðum og straumleysi á svæðinu þegar núverandi háspennulína hafi farið úr rekstri vegna viðhalds eða truflana. Í júní 2011 hóf stefndi Landsnet hf. formlegar samningaviðræður við landeigendur um landnot vegna lagningar Suðurnesjalínu 2. Samkvæmt greinargerð Landsnets hf. hafa samningar tekist við alla landeigendur á fyrirhugaðri línuleið, að frátöldum stefnendum þessa máls og eigendum jarðarinnar Sjónarhóls. Ítrekaðar samningaviðræður hafi reynst árangurslausar. Stefnendur telja hins vegar að raunhæfar samningaviðræður hafi aldrei átt sér stað þar sem Landsnet hf. hafi ætíð slegið út af borðinu hugmynd þeirra um að kannað verði að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörð. Á árinu 2013 fór stefndi Landsnet hf. þess á leit, með vísan til 1. mgr. 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003, að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra veitti fyrirtækinu heimild til eignarnáms á nauðsynlegum landsréttindum stefnenda vegna fyrirhugaðrar línulagnar. Með beiðnum fyrirtækisins fylgdi greinargerð, þar sem nánar var lýst fyrirhuguðum framkvæmdum á hverri jörð, lengd línulagnar og umfangi fyrirhugaðs eignarnáms. Jarðirnar, sem allar eru innan marka sveitarfélagsins Voga á Vatnsleysuströnd, eru eftirfarandi, taldar frá austri til vesturs: 1. Hvassahraun. Eigandi jarðarinnar er stefnandi Sauðafell sf. Áformað er að háspennulínan liggi yfir land jarðarinnar á 2.795 metra löngum kafla og var krafist heimildar til eignarnáms á 12,53 hektörum landsins. 2. Óskipt land jarðanna Stóru- og Minni-Vatnsleysu. Stefnandi, STV ehf., er eigandi að 6/10 hlutum, en stefnendurnir Geirlaug Þorvaldsdóttir, Katrín Þorvaldsdóttir og Skúli Þorvaldsson eru eigendur að 4/10 hlutum. Áformuð háspennulína mun liggja yfir hið óskipta land á 3.650 metra löngum kafla. Krafist var heimildar til eignarnáms á 17,235 hektörum lands í eigu stefnenda. 3. Landakot. Stefnandi, Margrét Guðnadóttir, er eigandi jarðarinnar. Háspennulínan mun liggja yfir land jarðarinnar á 418 metra löngum kafla. Krafist var heimildar til eignarnáms á 1,9642 hektara lands. 4. Stóra Knarrarnes I. Eigendur eru fjölmargir einstaklingar sem eiga landið í óskiptri sameign með eigendum Minna Knarrarness og Stóra Knarrarness II. Stefnendur, Bjarney Guðrún Ólafsdóttir, Sigríður S. Jónsdóttir og Ólafur Þór Jónsson eiga samanlagt 6,0485% hins óskipta lands. Áformað er að háspennulínan liggi yfir hið óskipta land á 437 metra löngum kafla. Krafist var heimildar til eignarnáms á 0,1241 hektara lands í eigu stefnenda. 5. Heiðarland Vogajarða. Eigendur jarðarinnar eru 11 talsins, en stefnendur, Reykjaprent ehf., Sigríður Jónsdóttir og Ólafur Þór Jónsson, eiga samanlagt 33,375% jarðarinnar. Ráðgert er að háspennulínan liggi yfir landið á 4.463 metra löngum kafla og lýtur krafa um eignarnám að 6,957 hektörum lands í eigu stefnenda. Með ákvörðun 24. febrúar 2014 veitti atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra Landsneti hf. heimild til umbeðins eignarnáms á framantöldum jörðum til ótímabundinna afnota. Stefnendur hafa nú allir höfðað mál á hendur stefndu og krafist ógildingar á ákvörðun ráðherra. Er krafa þeirra á því reist að ákvörðunin sé í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 23. gr. raforkulaga. Jafnframt telja þeir að við töku umræddrar ákvörðunar hafi verið brotið gegn 10. og 13. gr. stjórnsýslulag nr. 37/1993. Á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 var stefnda Landsneti hf. hinn 5. desember 2013 veitt leyfi Orkustofnunar til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2. Í bréfi Orkustofnunar, sem fylgdi umræddu leyfi, er afstaða stofnunarinnar ítarlega rökstudd, meðal annars með vísan til þeirra yfirlýstra markmiða raforkulaga nr. 65/2003 að stuðla að þjóðhagslegu hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, sbr. 1. gr. laganna. Þá segir þar eftirfarandi: „Orkustofnun ber að líta til þessara þátta í mati sínu á því hvort framkvæmd, eins og lagning Suðurnesjalínu 2, þjóni markmiði laganna og að kostnaður við framkvæmdina sé ekki óeðlilegur út frá hagsmunum almennings, en þá er litið til almennra sjónarmiða um viðmið og kostnað, kostnaðarmun á loftlínu eða jarðstreng og til annarra sjónarmiða sem að gagni koma við þessa túlkun um hvað sé hagkvæmt og hvað ekki, m.a. pólitíska stefnumörkun ríkis og sveitarfélaga um atvinnuuppbyggingu og umhverfisvernd og álit annarra þar til bærra stofnana, svo sem þeirra sem fjalla um málefni náttúruverndar. Þó að ekki sé fyrirséð að þörf sé fyrir alla þá flutningsgetu sem felst í Suðurnesjalínu 2, þ.e. 220 kV loftlínu, á allra næstu árum nema til komi orkufrekur iðnaður, ber að hafa í huga að slíkur orkufrekur iðnaður hefur verið pólitískt stefnumarkaður til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum af þar til bærum stjórnvöldum auk aukinnar orkuframleiðslu á Reykjanesi samkvæmt rammaáætlun. Fyrst um sinn verður línan því rekin sem 132 kV lína þar til flutningsþörfin eykst. Einnig ber að hafa í huga að þróun byggðar á næstu fjörutíu til sjötíu árum mun leiða til þéttingar byggðar og aukinnar orkuþarfar.“ Um mat á flutningsþörf raforku og hagkvæmni framkvæmdarinnar segir síðan: „[...] þá er það mat Orkustofnunar að afhendingaröryggi verði ekki aukið nema með því að tengja Suðurnes við flutningskerfið með annarri línu en þeirri sem fyrir er. Ófullnægjandi er að svo stórt svæði sé einungis tengt meginflutningskerfinu með einni tengingu. Varðandi flutningsþörfina bendir Orkustofnun á að viðskiptavinir Landsnets eru samkvæmt raforkulögum dreifiveitur, stórnotendur, virkjanir og þeir aðilar sem hafa leyfi til að stunda viðskipti með raforku. [...] Þá tekur Orkustofnun undir þau rök Landsnets að jarðstrengur sé óhagkvæmari framkvæmd en loftlína miðað við 220 kV línu og að hvorki umhverfissjónarmið né annað í forsendum framkvæmdarinnar réttlæti þann kostnaðarauka sem af slíku myndi hljótast.“ Fram kemur í stefnu að stefnendur séu alfarið ósammála ákvörðun Orkustofnunar og hafi þeir af þeim sökum höfðað mál á hendur stofnuninni, Landsneti hf. og fleirum. Í því máli er byggt á því að umrædd ákvörðun sé haldin slíkum annmörkum, bæði að formi og efni til, að óhjákvæmilegt sé að hún verði felld úr gildi. Með bréfum til matsnefndar eignarnámsbóta 14. mars 2014 fór stefndi Landsnet hf. þess á leit að matsnefndin heimilaði fyrirtækinu umráðatöku þess lands stefnenda sem taka mátti eignarnámi samkvæmt fyrrnefndri ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Stefnendur mótmæltu kröfunni og kröfðust þess í staðinn að málunum yrði frestað ótiltekið á meðan rekin væru dómsmál um lögmæti eignarnámsins. Matsnefnd eignarnámsbóta kvað upp úrskurði sína 29. júlí 2014. Niðurstaða matsnefndar í öllum málunum var sú að hafnað var kröfu eignarnámsþola, stefnenda í þessu máli, um frestun málsmeðferðar. Eignarnema, stefnda Landsneti hf., var þess í stað heimiluð umráðataka á nauðsynlegum landsréttindum stefnenda gegn tryggingu fyrir væntanlegum eignarnámsbótum. Stefnendur eru ósammála afstöðu matsnefndar eignarnámsbóta til umráðatöku lands þeirra, svo og þeim rökstuðningi sem fram kemur í úrskurðum nefndarinnar þar að lútandi. Er mál þetta því höfðað til ógildingar á úrskurðum nefndarinnar. Í greinargerð stefnda Landsnets hf. kemur fram að fyrirtækið hafi 14. ágúst 2014 lagt fram tryggingar fyrir væntanlegum eignarnámsbótum, samtals að fjárhæð 132 milljónir króna. Einnig segir þar að 18. ágúst 2014 hafi lögmaður stefnenda tilkynnt matsnefnd eignarnámsbóta að stefnda Landsneti hf. yrði ekki veittur aðgangur að landi stefnenda nema að undangenginni aðför, sbr. 13. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973. Dómarar, ásamt lögmönnum aðila og meirihluta stefnenda, gengu á vettvang 15. desember 2014 og kynntu sér aðstæður svo sem kostur var. Málsástæður stefnenda og lagarök Stefnendur telja í fyrsta lagi að rökstuðningur í fyrirliggjandi úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta sé með öllu ófullnægjandi. Þannig sé til að mynda ekki fjallað efnislega um rök þeirra fyrir því að fresta beri málinu og telja þeir að matsnefndin geti ekki komið sér undan því að fjalla um þá kröfu þeirra. Ekki verði heldur séð að nefndin hafi skoðað með sjálfstæðum hætti hvort lagarök hafi staðið til þess að beita undantekningarreglu 14. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, til umráðatöku landsins á þessu stigi. Þvert á móti hafi nefndin tekið upp einhliða staðhæfingar stefnda Landsnets hf., án raunverulegrar skoðunar, og það þótt gögn styddu ekki staðhæfingar fyrirtækisins. Stríði þetta gegn rannsóknarskyldu nefndarinnar og skyldu til að rökstyðja ákvarðanir sínar, sbr. til hliðsjónar 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að dómi stefnenda séu þetta verulegir annmarkar á úrskurðum nefndarinnar sem, ásamt öðru því sem hér verður talið, eigi að leiða til þess að fella verði þá úr gildi. Í öðru lagi byggja stefnendur á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, um umráðatöku landsins. Vísa þeir til þess að samkvæmt 2. gr. sömu laga sé það almennt ekki hlutverk matsnefndarinnar að veita eignarnemum umráð hins eignarnumda, heldur fyrst og fremst að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald sem ákveða beri samkvæmt lögunum. Þannig eigi matsnefndin að meta fjárhæð bóta, sbr. 13. gr. laganna, en síðan eigi eignarnemi sjálfur að sjá um að fá umráð hins eignarnumda eftir að hann er búinn að greiða eignarnámsbæturnar, eftir atvikum með atbeina sýslumanns. Í undantekningartilvikum geti matsnefndin þó ákveðið að eignarnema verði heimilað að taka umráðin, þrátt fyrir að mati sé ekki lokið, sbr. 14. gr. sömu laga. Þar sem um undantekningarreglur sé að ræða beri samkvæmt almennum lögskýringarreglum að skýra þær þröngt. Reglur þessar eigi að vera sem eins konar öryggisventill og megi aðeins beita þeim í algerum undantekningartilvikum, enda sé í þeim tilvikum verið að leggja í hendur matsnefndar að taka afar íþyngjandi ákvarðanir, sem kunni að hafa afgerandi áhrif á eignarnámsþola. Þannig hafi fræðimenn lagt til grundvallar að undantekningarregla 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 eigi einungis við þegar eignarnema er mikil nauðsyn á að fá fljótt umráð eignarnumins verðmætis til að geta ráðist í þær framkvæmdir sem eru tilefni eignarnámsins, svo og að verulegt óhagræði sé af því að bíða eftir ákvörðun bóta. Þurfi þá bæði skilyrðin að vera uppfyllt. Telja stefnendur að hvorugu sé að heilsa í þessu tilviki, en stefndi Landsnet hf. beri sönnunarbyrði fyrir því. Einhliða fullyrðingar fyrirtækisins geti ekki talist fullnægjandi í því efni. Ekki dugi heldur að vísa til þess að í framtíðinni sé þörf á því að styrkja raforkuflutningskerfi á svæðinu. Í þessu sambandi benda stefnendur á að undirbúningur að lagningu Suðurnesjalínu 2 hafi staðið yfir í langan tíma, eða allt frá árinu 2007. Álit Skipulagsstofnunar hafi legið fyrir í september 2009, en stefndi Landsnet hf. hafi fyrst á árinu 2011 hafið samningaviðræður við stefnendur. Seint á árinu 2012 og snemma árs 2013 hafi fyrirtækið síðan sótt um leyfi til Orkustofnunar og heimild til eignarnáms. Virðist stefnendum því sem stefnda Landsneti hf. hafi ekki legið neitt á að klára þetta mál fyrr en allt í einu við meðferð málsins hjá matsnefnd eignarnámsbóta. Í því ljósi, en einnig þegar haft er í huga að stefndi Landnet hf. óskaði aldrei eftir því að málið sætti flýtimeðferð, hvorki í meðferð þess hjá ráðuneytinu né Orkustofnun, telja stefnendur að ekki sé uppfyllt fyrrnefnt skilyrði um mikla nauðsyn á að fá fljótt umráð hins eignar-numda. Jafnframt mótmæla þeir sérstaklega rökstuðningi matsnefndarinnar fyrir því að stefnda Landsneti hf. sé nauðsyn á að fá umráð hins eignarnumda sem fyrst, þar sem sýnt þyki að flutningsgeta um núverandi raflínu sé fullnýtt og að ekki sé nægilega öruggt að flytja raforku á jafnstórt svæði um einungis eina línu. Sú niðurstaða sé grundvölluð á þeirri fullyrðingu stefnda Landsnets hf. að svæðið sé ekki tengt með svokallaðri N-1 tengingu, án þess þó að sú fullyrðing sé studd gögnum af hálfu fyrirtækisins. Hafi matsnefnd eignarnámsbóta að þessu leyti ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og litið fram hjá þeirri ríku sönnunarbyrði sem hvíli á eignarnema. Staðhæfa stefnendur þvert á móti að umrædd fullyrðing sé röng og úrskurðir matnefndarinnar því byggðir á röngum grundvelli. Hið rétta sé að Suðurnesjalína 1 hafi svokallaða N-1 tengingu með Fitjalínu, sem flytji rafmagn frá virkjunum á Reykjanesi og í Svartsengi. Falli Suðurnesjalína 1 út megi því nýta það rafmagn sem framleitt sé á svæðinu til raforkunotkunar þar. Með eðlilegu skipulagi á nýtingu núverandi virkjana á Reykjanesi og í Svartsengi telja stefnendur að Suðurnes séu sjálfbær um raforku, án nýrrar tengingar við meginflutningskerfið. Auk ofanritaðs byggja stefnendur á því að stefndi Landsnet hf. hafi ekki lagt fram nein gögn eða sýnt fram á hvaða verulega óhagræði fyrirtækið muni verða fyrir fái það ekki nú þegar umráð landa stefnenda. Sönnunarbyrðin um það hvíli að sjálfsögðu á eignarnema. Vekja stefnendur athygli á því að Landsnet hf. hafi enn ekki aflað allra nauðsynlegra leyfa fyrir lagningu háspennulínunnar, en framkvæmdaleyfi hjá viðkomandi sveitarfélögum sé forsenda fyrir því að ráðist verði í framkvæmdina, sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem leyfi sveitarfélaganna liggi ekki fyrir telja stefnendur að fráleitt sé að fyrirtækið hafi sýnt fram á óhagræði af því að umráðataka fáist ekki nú þegar. Í ljósi ofanritaðs hafna stefnendur því alfarið að uppfyllt séu skilyrði til þess að beita megi 14. gr. laga nr. 11/1973 til umráðatöku lands þeirra. Því beri að fella úr gildi úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu. Kröfur stefnenda eru í þriðja lagi á því reistar að ákvarðanir matsnefndar um heimild Landsnets hf. til umráðatöku landa stefnenda séu meðal annars í andstöðu við lög nr. 11/1973, stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Þessu til stuðnings vísa stefnendur til þess að enn leiki vafi á um lögmæti eignarnámsins, en af lögum nr. 11/1973 megi ráða að ekki sé gert ráð fyrir því að matsnefnd eignarnámsbóta fjalli um eignarnámsbætur þegar slíkur vafi sé uppi. Vísa stefnendur hér til 5. gr. laganna og telja að af henni verði ráðið að matsnefnd eignarnámsbóta eigi ekki að fjalla um mál nema fyrir liggi alveg skýr eignarnámsheimild. Þá segi í 17. gr. sömu laga að leita megi úrlausnar dómstóla um ágreining út af lögmæti eignarnáms. Sé þetta í samræmi við hið takmarkaða hlutverk matsnefndar eignarnámsbóta, sem og almenn sjónarmið stjórnsýslu¬réttarins um meðalhóf, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umrædd ákvæði endurspegli jafnframt þau viðhorf að eðlilegt sé að stjórnsýslunefndir gæti varfærni við töku íþyngjandi ákvarðana og gangi ekki lengra en nauðsynlegt er til þess að tryggja þau markmið sem að er stefnt. Stefnendur minna jafnframt á að þeir hafi þegar höfðað dómsmál til ógildingar á ákvörðun Orkustofnunar og eignarnámsákvörðunum ráðherra. Í þeim málum lúti málatilbúnaður þeirra að kjarnaatriðum eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar um almenningsþörf og meðalhóf. Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sé eignarrétturinn friðhelgur. Aðgangur að dómstólum og réttur til raunhæfrar endurskoðunar á úrskurðum stjórnvalda njóti einnig verndar stjórnarskrár og Mannréttindasáttmálans, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmálans. Í umræddum dómsmálum byggi stefnendur á því að lagning háspennulínunnar í jörðu sé miklum mun hóflegri og mun minna íþyngjandi framkvæmd en að leggja línuna í lofti um land þeirra. Eigi þeir rétt á því að fá úrlausn dómstóla um hvort efnisleg skilyrði séu uppfyllt til þess að eignarnám fari fram í landi þeirra. Stefnendur byggja einnig á því að þær framkvæmdir sem Landsnet hf. ætlar sér að ráðast í muni koma til með að hafa veruleg og óafturkræf áhrif á eignir þeirra. Þannig gæti sú staða komið upp að dómstólar myndu komast að þeirri niðurstöðu að eignarnámið væri reist á ólögmætum grundvelli, en að óafturkræft jarðrask væri þá þegar yfirstaðið á jörðum þeirra á grundvelli ólögmætrar eignarnámsheimildar. Matsnefnd eignarnámsbóta hefði þá að engu gert þau réttindi stefnenda að geta leitað til dómstóla til þess að fá skorið úr um lögmæti eignarnámsins. Ekki sé heldur útilokað að í áðurnefndum dómsmálum muni stefnendur vilja afla sér mats dómkvaddra matsmanna, eða að dómurinn vilji ganga á vettvang til þess að skoða aðstæður. Landsvæðið sem færi undir loftlínur yrði því eðli máls samkvæmt að vera óhreyft, þar sem sönnunarstöðu stefnenda væri ella spillt. Samkvæmt framanrituðu telja stefnendur að það hafi verið í ósamræmi við lög nr. 11/1973 og í andstöðu við meðalhófsreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttarins að heimila stefnda Landsneti hf. umráðatöku á landi þeirra, enda hafi legið fyrir að stefnendur höfðu þegar höfðað dómsmál til ógildingar á eignarnámsákvörðunum ráðherra og ætluðu að láta reyna á stjórnarskrárvarinn rétt sinn fyrir dómstólum. Því beri að ógilda úrskurði matsnefndarinnar. Að endingu telja stefnendur að stefndi Landsnet hf. hafi frá upphafi brotið gróflega gegn skyldu sinni til samráðs við þá við undirbúning framkvæmdarinnar. Því til stuðnings vísa þeir til 4. mgr. 6. gr. tilskipunar 2011/92/EB, um mat á umhverfisáhrifum, sem sé hluti af EES-samningnum, 4. mgr. 6. gr. Árósasamningsins, um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, sem Ísland hafi fullgilt og sé hluti af EES-rétti, sem og tilskipunar 2003/5/EB, um þátttöku almennings við gerð skipulags og framkvæmdaáætlana í tengslum við umhverfismál. Stefnendum hafi í upphafi ákvarðanatökuferilsins aðeins verið kynntur einn valkostur og með því hafi réttur þeirra til þátttöku verið virtur að vettugi. Telja þeir að þetta undirstriki hversu alvarlega hafi verið brotið gegn rétti þeirra til aðgangs að dómstólum og til raunhæfs réttarúrræðis. Vegna sameiginlegrar aðildar til sóknar í máli þessu vísa stefnendur til 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa þeirra styðst við 1. mgr. 130. gr. sömu laga. Málsástæður og lagarök stefnda Landsnets hf. Stefndi Landsnet hf. hafnar málsástæðum stefnenda í heild sinni sem röngum og ósönnuðum. Leggur hann áherslu á að umrædd framkvæmd, lagning Suðurnesjalínu 2, varði almannahagsmuni, hún sé lögbundin og hvíli á ákvæðum raforkulaga nr. 65/2003, sérstaklega III. kafla þeirra, svo og eignarnámsheimildum sömu laga. Stefnendur séu fámennur hópur landeigenda sem eigi land sem nauðsynlegt sé að fá afnot af vegna framkvæmdarinnar, hvort sem um loftlínu eða jarðstreng sé að ræða og óháð spennustigi. Þau atriði er varði val á tilhögun framkvæmdarinnar byggist á ákvæðum raforkulaga, lögbundnum skyldum Landsnets hf., mati á umhverfisáhrifum og áliti Skipulagsstofnunar, lögmætum skipulagsákvörðunum viðkomandi sveitarstjórna og lögbundinni ákvörðun Orkustofnunar. Fyrir matsnefnd eignarnámsbóta hafi verið lagðar gildar og lögmætar stjórnvaldsákvarðanir sem falið hafi í sér eignarnámsheimildir stefnda og hafi matsnefndinni borið að taka þær til afgreiðslu, sbr. 5. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973. Matsnefndin hafi ekki heimild að lögum til þess að endurskoða þær stjórnvaldsákvarðanir. Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnenda um að rökstuðningur í umþrættum úrskurðum sé ófullnægjandi og að matsnefndin hafi tekið upp einhliða staðhæfingar stefnda, án raunverulegrar skoðunar, og það enda þótt gögn styddu ekki staðhæfingar fyrirtækisins. Hinu sama gegnir um þá staðhæfingu stefnenda að matsnefndin hafi ekki skoðað með sjálfstæðum hætti hvort lagarök hafi staðið til þess að beita undantekningarreglu 14. gr. laga nr. 11/1973, eða að matsnefndin hafi brotið með öðrum hætti gegn 10. eða 22. gr. stjórnsýslulaga. Bendir stefndi á að matsnefnd eignarnámsbóta geti að sjálfsögðu lagt til grundvallar sínum úrlausnum þær upplýsingar sem komi frá stefnda, enda starfi Landsnet hf. eftir lögbundnu starfsleyfi og hafi fyrirtækið skyldur að lögum. Stefndi hafi lagt fyrir matsnefndina öll sömu gögn og lögð séu fram í þessu máli og hafi matsnefndin tekið afstöðu til þeirra, sem og þeirra gagna sem stefnendur lögðu fram við meðferð málanna fyrir nefndinni. Gildi úrskurða matsnefndarinnar verði ekki metið eftir fjölda dálksentimetra, né verði þeir ógiltir á þeim grundvelli einum að nefndin hafi ekki fallist á málsástæður stefnenda. Stefndi hafnar jafnframt þeirri túlkun stefnenda á lögum nr. 11/1973 að það sé almennt ekki hlutverk matsnefndar eignarnámsbóta að veita eignarnemum umráð yfir hinu eignarnumda. Bendir hann á að hafi eignarnámi verið beitt samkvæmt 23. gr. raforkulaga beri að leggja ákvörðun um bætur fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, sbr. 1., 2. og 4. gr. laga nr. 11/1973. Slíkt sé og nauðsynlegt skilyrði fyrir umráðatöku hafi landeigandi ekki veitt samþykki sitt fyrir henni. Umráðataka geti farið fram heimili matsnefndin slíkt og sé það hlutverk nefndarinnar að meta slíka beiðni komi hún fram. Vísar stefndi í þessu sambandi til 13. og 14. gr. tilvitnaðra laga, sem hann telur að sýni glöggt að lögin geri ráð fyrir að umráðataka sé almennt heimiluð ef trygging er sett. Jafnframt vísar hann til greinargerðar með frumvarpi því er síðar var að lögum nr. 11/1973, þar sem fram komi það viðhorf að ekki megi einblína um of á hagsmuni eignarnámsþola, heldur verði að taka hæfilegt tillit til hagsmuna eignarnema. Þá segi þar orðrétt: „Honum [þ.e. eignarnema] má ekki íþyngja með óhóflegri greiðslubyrði vegna eignarnáms og ekki má eignarnám tefja um of framkvæmdir eignarnema.“ Af þessu telur stefndi ljóst að ekki beri síður að taka tillit til lögvarinna hagsmuna og málefnalegra sjónarmiða eignarnema við ákvarðanir matsnefndar eignarnámsbóta. Þá mótmælir stefndi þeirri fullyrðingu stefnenda að matsnefndin hafi með úrskurðum sínum tekið ákvarðanir sem séu utan valdsviðs hennar eða feli í sér meiri háttar íþyngjandi ákvörðun. Hér sé ekki um að ræða ákvörðun um eignarnám heldur ferli til ákvörðunar eignarnámsbóta. Matsnefndin hafi tekið matsmálin til meðferðar, en í því felist ákvörðun um að bótafjárhæð verði ákveðin. Jafnframt hafi matsnefndin fallist á kröfu stefnda um umráðatöku landsins, gegn því að stefndi legði fram tryggingu, samtals að fjárhæð 132 milljónir króna, og hafi stefndi þegar reitt þá tryggingu fram. Stefnendur hafi í engu sýnt fram á að mat matsnefndarinnar við beitingu skýrrar heimildar sinnar samkvæmt 14. gr. laga nr. 11/1973 hafi verið ómálaefnalegt eða byggt á ólögmætum sjónarmiðum. Ekki hafi þeir heldur fært nein rök fyrir hagsmunum sínum af því að halda umráðum hins eignarnumda svæðis þar til matsferli er endanlega lokið. Á hinn bóginn telur stefndi að hagsmunir hans af því að fá umráð landsins séu brýnir, enda knýjandi nauðsyn að ráðist verði í framkvæmdir sem fyrst. Jafnframt telur hann að þar sem stefnendur kröfðust þess að stefndi legði fram tryggingu fyrir hugsanlegum eignarnámsbótum, og matsnefndin hafi fallist á þá kröfu, kunni verulegur vafi að leika á því hvort stefnendur hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn krafna sinna í þessu máli. Vísar hann í því efni til 17. gr. laga nr. 11/1973. Stefndi mótmælir því að hann hafi á nokkurn hátt stuðlað að því að umrædd framkvæmd hafi dregist á langinn, eins og stefnendur láti liggja að. Tekur hann fram að unnið hafi verið í málinu frá árinu 2007 og endurspegli tímalend verkefnisins hin ýmsu lögbundnu ferli sem skylt hafi verið að vinna eftir, svo sem mat á umhverfisáhrifum og gerð skipulagsáætlana. Tímalengdin hafi ekki verið á valdi stefnda þótt hann hafi um árabil verið reiðubúinn til að hefja framkvæmdir. Mótmælt er einnig sem röngum og ósönnuðum staðhæfingum stefnenda um að matsnefnd eignarnámsbóta hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga með því að taka trúanlegar ástæður stefnda fyrir uppbyggingu flutningskerfisins á Suðurnesjum. Til grundvallar ákvörðunum sínum hafi matsnefndin litið til þeirrar staðreyndar að takmörkuð flutningsgeta Suðurnesjalínu 1 og afhendingaröryggi raforku til og frá Suðurnesjum kalli á að ráðast verði sem fyrst í framkvæmdina. Byggist sú niðurstaða á heildarmati málsins, en ljóst sé að öll gögn stefnda og allar stjórnvaldsákvarðanir sem teknar hafi verið staðfesti að framkvæmdin sé bæði brýn og nauðsynleg út frá almannahagsmunum. Þá fullyrðir stefndi að aldrei í sögu matsnefndar eignarnámsbóta hafi komið til þess að hafnað hafi verið beiðni eignarnema um umráðatöku á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973. Áréttar hann að núverandi tenging Reykjaness við flutningskerfi raforku uppfylli ekki kröfu um svokallaða N-1 tengingu og því sé brýnt að hefja framkvæmdir sem fyrst, enda miklir hagsmunir í húfi, bæði hvað varðar afhendingaröryggi á raforku sem og fjárhagslegir hagsmunir stefnda og alls samfélagsins. Um leið vísar stefndi á bug þeim málflutningi stefnenda að með eðlilegu skipulagi á nýtingu núverandi virkjana á Reykjanesi og í Svartsengi séu Suðurnes sjálfbær um raforku, án nýrrar tengingar við meginflutningskerfið. Ekkert í gögnum málsins styðji slíkt. Vegna umfjöllunar stefnenda um að ekki verði séð að neitt óhagræði sé af því fyrir stefnda þótt hann fái ekki nú þegar umráð hins eignarnumda, þar sem framkvæmdaleyfi hafi enn ekki fengist hjá viðkomandi sveitarfélögum, tekur stefndi fram að hann hafi nú þegar sótt um öll framkvæmdaleyfi vegna lagningar háspennulínunnar. Eitt leyfi hafi þegar verið gefið út, en önnur séu til meðferðar hjá viðkomandi sveitarfélögum. Hins vegar bendir hann á að veiting framkvæmdaleyfis á grundvelli skipulagslaga sé ekki forsenda umráðatöku á grundvelli laga nr. 11/1973. Stefndi Landsnet hf. byggir á því að ákvarðanir matsnefndar eignarnámsbóta um að heimila fyrirtækinu umráðatöku hins eignarnumda séu að öllu leyti lögmætar. Til grundvallar störfum sínum beri matsnefndinni að horfa til ákvarðana ráðherra um eignarnám og hafi nefndin enga heimild til að endurskoða þær ákvarðanir. Um leið mótmælir stefndi þeim málatilbúnaði stefnenda að lög nr. 11/1973 geri ekki ráð fyrir því að matsnefnd fjalli um eignarnámsbætur þegar vafi leiki á um lögmæti eignarnámsins. Í því sambandi bendir stefndi á að umfjöllun stefnenda um málsástæður í þeim dómsmálum sem þeir hafi höfðað vegna leyfisveitingar Orkustofnunar og eignarnámsákvarðana ráðherra séu máli þessu óviðkomandi, en ákvörðun stefnenda um þær málshöfðanir geti ein og sér ekki orðið til þess að verulegur vafi teljist um lögmæti eignarnámsins. Þá fresti þau dómsmál heldur ekki réttaráhrifum stjórnvaldsákvarðana er varði framkvæmdina, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Af málatilbúnaði stefnenda telur stefndi ljóst að stefnendur vilji breyta stjórnvaldsákvörðunum sem teknar hafi verið vegna Suðurnesjalínu 2, fremur en að þeir telji að brotið sé á einstaklegum og lögvörðum hagmunum þeirra. Fari þeir þannig fram á að sæta annarri meðferð að lögum en þeir sem eru í sambærilegri stöðu. Leggur stefndi áherslu á að eignarréttur stefnenda sæti almennum takmörkunum laga og staðhæfir að við meðferð málsins hafi í engu verið brotið gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 70. gr. hennar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt er því mótmælt að framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 muni hafa veruleg og óafturkræf áhrif á eignir stefnenda, enda hafi stefnendur ekki með neinu móti rökstutt slíkar fullyrðingar með gögnum. Hins vegar sé hér um að ræða almenna kvöð á eignarrétti sem allir landeigendur á línuleiðinni, sem fari um skipulagt mannvirkjabelti á Reykjanesi, þurfi að sæta. Stefndi mótmælir loks þeirri fullyrðingu stefnenda að hann hafi brotið gróflega gegn skyldu sinni til samráðs við stefnendur við undirbúning umræddrar framkvæmdar. Þvert á móti staðhæfir hann að öllum lögbundnum kynningarferlum hafi verið fylgt og það umfram skyldu. Raunar fær stefndi ekki séð hvaða þýðingu þessi fullyrðing stefnenda hafi við úrlausn málsins. Engu að síður þykir honum ástæða til að benda á að Árósasamningurinn hafi verið fullgiltur hér á landi árið 2011, en tilskipun 2003/35/EB tekin upp í EES-samninginn 10. febrúar 2012 með ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þá hafi tilskipun 2011/92/EB, er varði mat á umhverfisáhrifum, verið birt í EES-viðbæti Stjórnartíðinda Evrópusambandsins nr. 14, 20. árgangi, 7. mars 2013. Geri stefnendur enga grein fyrir því á hvern hátt íslensk lög sem taki mið af EES-rétti hafi verið brotin, sér í lagi lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Umhverfismati hafi hins vegar verið lokið árið 2009. Með vísan til alls ofanritaðs byggir stefndi á því að stefnendum hafi á engan hátt tekist að sýna fram á að ógilda beri umþrætta úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta. Krefst hann því sýknu af kröfum þeirra. Um lagarök kveðst stefndi einkum vísa til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, aðallega 60. og 72. gr., mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, raforkulaga nr. 65/2003, aðallega 1. gr., III. og VI. kafla, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga um stofnun Landsnets hf. nr. 75/2004, laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, skipulagslaga nr. 123/2010, einkum 13. og 15. gr., laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 og laga um úrskurðarnefnd í umhverfis- og auðlindamálum nr. 130/2011. Um málskostnað vísar stefndi til 129., sbr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Málsástæður og lagarök stefnda íslenska ríkisins Í upphafi máls síns vekur stefndi íslenska ríkið athygli á því að ekki verði séð að nauðsyn hafi borið til að stefna íslenska ríkinu í máli þessu, enda varði málið aðeins hagsmuni stefnda Landsnets hf., sem eignarnema í skilningi laga nr. 11/1973. Íslenska ríkið telur því að til álita komi að vísa málinu frá dómi að því er það varðar. Sýknukrafa íslenska ríkisins byggist á því að ekkert sé fram komið í málinu sem valdið geti ógildingu umræddra úrskurða matsnefndar eignarnámsbóta. Þannig séu ákvarðanir matsnefndarinnar rökstuddar eins og tilefni hafi verið til og hafi málið verið reifað og rökstutt munnlega af hálfu aðila fyrir nefndinni, að undangengnum skriflegum málflutningi. Jafnframt hafi verið gengið á vettvang. Ekki verði heldur séð að nefndin hafi horft fram hjá gögnum um málið eða upplýsingum er það varði. Telur stefndi því að meðferð og ákvarðanir matsnefndarinnar hafi uppfyllt skilyrði um rannsókn og rökstuðning, sbr. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Mat nefndarinnar hafi verið að eignarnema væri brýn nauðsyn á að fá landsvæðið til umráða strax. Stefndi tekur fram að alla jafna þurfi sérstaka heimild í lögum ef kærur eða málshöfðun eiga að fresta framkvæmd ákvörðunar. Meginreglan sé sú sem 2. málsliður 60. gr. stjórnarskrár kveði á um, sbr. einnig 29. gr. stjórnsýslulaga. Á sama hátt sé því óraunhæf sú málsástæða stefnenda að matsnefndin hafi ekki mátt heimila umráðatöku þótt ekki væri leyst úr dómsmálum um gildi eignarnámsins. Ákvæði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 mæli sérstaklega fyrir um að heimila megi eignarnema að taka eign til umráða þótt mati sé ekki lokið. Af því leiði sjálfkrafa að heimila megi það þótt ekki hafi verið leyst úr um gildi eignarnámsins fyrir dómi. Stefndi hafnar því að ákvarðanir matsnefndarinnar stríði gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar. Gildi eignarnámsins velti að endingu á þeirri grein kjósi aðili að bera málið undir dóm. Þótt eignarnema sé heimiluð umráðataka telur stefndi það í reynd ekki frekara inngrip í eignarrétt. Því verði tæplega séð að umráðatakan njóti sérstakrar eignarréttarverndar svo lengi sem eignarnám stendur óhaggað. Að sama skapi hafnar stefndi því að ákvarðanir matsnefndarinnar brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og meðalhófsreglu stjórnarskrárinnar. Þá hafi stefnendur ekki sýnt fram á hvaða hagsmuni þeir hafi af því að stefndi Landsnet hf. fái ekki umráð landsins meðan eignarnámið stendur óhaggað og því hafi ekki verið hrundið eða það staðfest með dómi. Ekki sé heldur rökstutt á hvern hátt umráðatakan kunni að spilla matsstörfum, en augljóslega sé unnt að meta eignarnámsbætur þótt eignarnemi fái umráð landsins. Á hinn bóginn sé ekkert í ákvörðunum matsnefndarinnar sem komi í veg fyrir að stefnendur geti lagt mál sín fyrir dómstóla, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Að áliti stefnda voru uppfyllt að öllu leyti skilyrði 14. gr. laga nr. 11/1973 þegar matsnefnd ákvað að veita stefnda Landsneti hf. heimild til umráðatöku nauðsynlegra landsréttinda stefnenda. Telur hann að málatilbúnaður stefnenda gangi þvert á orð laganna. Með vísan til fyrri röksemda byggir stefndi einnig á því að matsnefndin hafi að réttu lagi hafnað kröfu stefnenda um að fresta málinu. Málskostnaðarkrafa stefnda íslenska ríkisins byggist á ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Niðurstaða Í máli þessu krefjast stefnendur ógildingar á úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta í málum nr. 4/2014, 5/2014, 6/2014, 7/2014 og 8/2014, sem allir voru kveðnir upp 29. júlí 2014. Með úrskurðum þessum var stefnda Landsneti hf. veitt heimild til umráðatöku lands innan jarða stefnenda vegna áforma fyrirtækisins um að leggja svokallaða Suðurnesjalínu 2 í lofti. Kröfur stefnenda eru meðal annars á því reistar að rökstuðningur og rannsókn matsnefndar eignarnámsbóta sé með öllu ófullnægjandi og hafi nefndin til að mynda ekki fjallað efnislega um þá aðalkröfu stefnenda að fresta bæri meðferð málanna þar til leyst hefði verið úr ágreiningi um lögmæti eignarnámsins fyrir dómstólum. Samkvæmt meginreglu stjórnsýsluréttar um skilvirka málsmeðferð bar matsnefnd eignarnámsbóta að taka fram komnar kröfur stefnda Landsnets hf. um umráðatöku til meðferðar eins fljótt og kostur var, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þau sjónarmið sem stefnendur færðu fram því til stuðnings að matsnefnd bæri að fresta málunum, í stað þess að taka þau til efnislegrar meðferðar og kveða upp í þeim úrskurð að lokinni gagnaöflun, lutu í reynd að lagalegum skilyrðum fyrir umráðatöku samkvæmt lögum nr. 11/1973, en ekki að atriðum sem leitt gátu til frestunar stjórnsýslumáls. Í samræmi við þetta hafa stefnendur hér fyrir dómi vísað til þessara sjónarmiða til stuðnings því að lagalegum skilyrðum hafi ekki verið fullnægt til umráðatöku, svo og að úrskurðir matsnefndar eignarnámsbóta hafi brotið gegn nánar tilteknum ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, þ. á m. rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar, og 6. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í þessu ljósi telur dómurinn að matsnefndinni hafi ekki borið að rökstyðja frekar en gert var þá afstöðu sína að hafna bæri kröfum stefnenda um frestun málanna. Eins og mál þetta hefur nú verið lagt fyrir dóminn koma þau atriði sem stefnendur færðu fram til stuðnings kröfu sinni um frestun málsmeðferðar matsnefndar hins vegar til skoðunar við úrlausn um lögmæti fyrrgreindra úrskurða. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, getur matsnefnd eignarnámsbóta, þótt mati sé ekki lokið, heimilað eignarnema að taka umráð verðmætis, sem taka á eignarnámi, og ráðast í þær framkvæmdir, sem eru tilefni eignarnámsins. Komi krafa um það fram af hálfu eignarnámsþola, skal eignarnemi setja tryggingu fyrir væntanlegum bótum samkvæmt ákvörðun nefndarinnar. Sama á við ef vandkvæði eru á að ákveða bætur fyrir fram eða mat er að öðru leyti vandasamt, sbr. 2. mgr. Téð ákvæði fela í sér frávik frá þeirri meginreglu 13. gr. laganna að eignarnemi fái einungis umráð eignarnumins verðmætis gegn greiðslu matsfjárhæðar og kostnaðar af mati. Einnig verður hér að líta til þess að eignarnám felur í sér skerðingu á stjórnskipulega vernduðum réttindum manna sem getur aðeins farið fram á grundvelli laga og að því tilskildu að almenningsþörf krefji og fullt verð komi fyrir, sbr. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Í þessu ljósi verður að skýra 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 á þá leið að heimild ákvæðisins sé bundin við þá aðstöðu að eignarnema sé nauðsyn á að fá fljótt umráð eignarnumins verðmætis og sé verulegt óhagræði af því að bíða eftir ákvörðun bóta. Er eignarnema þannig ekki nægilegt að sýna fram á að eignarnám hans þjóni almennt almannahagsmunum þannig að fullnægt sé fyrrgreindum áskilnaði stjórnarskrár um almannaþörf, heldur verður hann einnig að færa að því rök að tafarlaus umráðataka sé nauðsynleg, svo og að slík ráðstöfun gangi ekki lengra en nauðsynlegt er með hliðsjón af þeim hagsmunum sem um er að tefla. Með vísan til þessa ber mati samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laganna að vera heildstætt og taka til allra þátta sem þýðingu hafa um hagsmuni aðila, þ. á m. hvort fyrirsjáanlegt er að mat á eign verði flókið og tímafrekt þannig að umráðataka samkvæmt 13. gr. laganna kunni að dragast umtalsvert, sbr. til hliðsjónar þau sjónarmið sem liggja til grundvallar fyrrgreindri 2. mgr. 14. gr. laganna. Jafnframt er eðlilegt að líta til eðlis þeirra hagsmuna eignarnámsþola sem skertir verða með eignarnámi og tafarlausri umráðatöku, meðal annars hvort tafarlaus umráðataka kunni í reynd að skerða möguleika eignarnámsþola til að fá skorið úr um lögmæti ákvörðunar um að heimila eignarnám fyrir dómi. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 bar matsnefnd eignarnámsbóta að taka rökstudda afstöðu til þeirra lagalegu skilyrða sem hér um ræðir og jafnframt greina frá þeim meginsjónarmiðum sem réðu mati nefndarinnar á hagsmunum aðila. Í áðurgreindum úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta er vísað til þess að flutningsgeta núverandi raflínu sé fullnýtt og ekki þyki nægilega öruggt að flytja raforku til jafnstórs svæðis um einungis eina línu. Samkvæmt þessu telur nefndin að sýnt hafi verið fram á þörfina á að styrkja línuna með þeirri nýju línu sem heimilað hafi verið að leggja og lítur nefndin svo á að stefnda Landsneti hf. sé nauðsyn á að fá umráð hins eignarnumda sem fyrst. Verður að skilja þennan rökstuðning nefndarinnar þannig að í meginatriðum hafi verið tekið undir þau sjónarmið sem fram komu í beiðni stefnda Landsnets hf. um umráðatöku og eftirfarandi greinargerð, en í þessum gögnum var um þetta einkum vísað til fyrrgreindra ákvarðana atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um heimild til eignarnáms, svo og forsendna Orkustofnunar fyrir veitingu leyfis til að reisa Suðurnesjalínu 2. Í forsendum fyrir téðu leyfi Orkustofnunar kemur fram að fyrirhuguð framkvæmd stefnda muni þjóna þjóðhagslegri hagkvæmni með því að tryggja afhendingaröryggi raforku frá framleiðendum raforku til neytenda um flutnings- og dreifikerfi með raflínum, en í því sambandi er talið ófullnægjandi að stór svæði séu tengd meginflutningskerfinu með einungis einni tengingu. Segir í forsendum Orkustofnunar að „þannig verði með uppbyggingu flutningskerfisins að horfa til lengri tíma og framtíðarþarfa allra notenda samkvæmt raforkulögum sem eru dreifiveitur, stórnotendur, virkjanir og þeir aðilar sem hafa leyfi til að stunda viðskipti með raforku“. Með svipuðum hætti er í áðurnefndum ákvörðunum atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um heimild til eignarnáms litið til þess að við framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku séu áreiðanlegar tengingar fyrir svæðið inn á meginflutningskerfi raforku nauðsynlegar, ekki síst þegar höfð sé hliðsjón af þegar starfandi virkjunum og virkjanakostum á Reykjanesi. Í ákvörðunum ráðherra er hins vegar einnig vísað til sjónarmiða stefnda Landsnets hf. um að sú lína sem nú þjóni svæðinu sé fulllestuð og öryggi kerfisins ófullnægjandi þar sem svæðið sé ekki tengt meginflutningskerfi Landsnets hf. með svokallaðri N-1 tengingu. Jafnframt er fullyrt að það hafi valdið vandkvæðum og straumleysi á svæðinu þegar Suðurnesjalína 1 hafi farið úr rekstri vegna viðhalds og truflana. Út frá lágmarks afhendingaröryggi raforku sé um brýna og óumflýjanlega framkvæmd að ræða og er í því sambandi bent á að helsti millilandaflugvöllur landsins sé staðsettur á svæðinu. Þá kemur fram í ákvörðunum ráðherra að landeigendur taki almennt undir þá meginforsendu stefnda Landsnets hf. að tenging Suðurnesja við meginflutningskerfi raforku sé ófullnægjandi. Af framlögðum gögnum málsins verður dregin sú ályktun að lagning Suðurnesjalínu 2 sé ætlað að tryggja öruggan flutning raforku frá raforkuverum á Reykjanesi inn á meginflutningsnet stefnda Landsnets hf. Til framtíðar litið mun lagning línunnar einnig skapa forsendur fyrir flutningi raforku frá mögulegum framtíðarvirkjunum á svæðinu. Í þessu sambandi er til þess að líta að á Reykjanesi eru nú tvær jarðvarmavirkjanir sem framleiða samtals 175 MW. Er það meira en heildarnotkun raforku á Reykjanesi og því er stór hluti þeirrar orku fluttur um Suðurnesjalínu 1 til höfuðborgarsvæðisins. Í málinu liggja ekki fyrir gögn um að núverandi fyrirkomulag hafi valdið stefnda Landsneti hf. sérstöku óhagræði, svo sem í samningsgerð við stórnotendur eða framkvæmd samninga, eða leitt til tjóns eða jafnvel hættu fyrir samfélagið. Engu að síður telur dómurinn hafið yfir vafa að við núverandi aðstæður sé afhendingaröryggi raforku á Reykjanesi ábótavant. Þannig mun ljóst að slái Suðurnesjalína 1 óvænt út vegna bilunar mun algjört rafmagnsleysi verða á því svæði. Við slíkar aðstæður munu virkjanir á svæðinu ekki geta séð því fyrir raforku þar sem ómögulegt er að reka jarðvarmavirkjanir í svonefndum eyjarekstri sökum eðliseiginleika þeirra. Líklegt er að við slíka truflun myndu þær leysa út og yrði ekki mögulegt að ræsa þær aftur fyrr en rafmagnstenging kæmist á að nýju frá meginflutningskerfinu. Að öllu þessu virtu telur dómurinn að fallast verði á það mat stefnda Landsnets hf. að þörfin á að bæta tengingu þess svæðis sem hér um ræðir við meginflutningskerfi stefnda sé ekki einungis nauðsynleg vegna langtímasjónarmiða, heldur sé hún einnig aðkallandi til skemmri tíma litið. Dómurinn telur ljóst að mat á bótum vegna eignarnáms á nauðsynlegum landsréttindum stefnenda kann að reynast flókið og tímafrekt. Er því fyrirsjáanlegt að bygging Suðurnesjalínu 2 kann að dragast umtalsvert ef stefnda Landsneti hf. er synjað um tafarlausa umráðatöku. Að þessu virtu, svo og með hliðsjón af eðli þeirrar skerðingar sem fyrirhuguð er á fasteignaréttindum stefnenda, verður á það fallist að efnislegum skilyrðum 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 hafi verið fullnægt. Ekki verður á það fallist að málsmeðferð matsnefndar eignarnámsbóta hafi verið ábótavant með tilliti til rannsóknar málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þótt rökstuðningur matsnefndar eignarnámsbóta í áðurgreindum úrskurðum nefndarinnar sé vissulega fábrotinn með tilliti til þeirra skilyrða sem leiða af 14. gr. laga nr. 11/1973 og áður greinir, er engu að síður vísað þar til afhendingaröryggis raforku sem meginrökstuðnings fyrir niðurstöðu nefndarinnar. Þegar litið er til þess, aðdraganda málsins og efnis úrskurðanna í heild, er það álit dómsins að annmarkar á rökstuðningi matsnefndar eignarnámsbóta séu ekki svo stórvægilegir að nægi til ógildingar úrskurðanna með vísan til 22. gr. laga nr. 37/1993. Samkvæmt þessu verður heldur ekki á það fallist að úrskurðir matsnefndar eignarnámsbóta hafi verið andstæðir þeim ákvæðum stjórnarskrár og ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu sem stefnendur vísa til. Samkvæmt ítrekuðum fordæmum Hæstaréttar er ljóst að íslenska ríkið á ekki varnaraðild að máli sem höfðað er til ógildingar ákvörðunar sjálfstæðrar stjórnsýslunefndar. Ber því að vísa kröfum stefnenda á hendur stefnda íslenska ríkinu frá dómi án kröfu. Þrátt fyrir niðurstöðu málsins þykir rétt, í ljósi atvika og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að bæði stefnendur og stefndi Landsnet hf. beri hver sinn kostnað af málinu. Hins vegar verða stefnendur á grundvelli 2. mgr. 130. gr. sömu laga dæmdir til að greiða stefnda íslenska ríkinu málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 250 þúsund krónur. Dóminn kváðu upp Ingimundur Einarsson dómstjóri, sem dómsformaður, og meðdómsmennirnir Skúli Magnússon héraðsdómari og Gnýr Guðmundsson rafmagnstæknifræðingur. D Ó M S O R Ð: Kröfum stefnenda, Geirlaugar Þorvaldsdóttur, Margrétar Guðnadóttur, Ólafs Þórs Jónssonar, Reykjaprents ehf., Sauðafells sf., Sigríðar S. Jónsdóttur, Bjarneyjar Guðrúnar Ólafsdóttur, STV ehf., Skúla Þorvaldssonar og Katrínar Þorvaldsdóttur, gegn stefnda, íslenska ríkinu, er vísað frá dómi. Stefnendur greiði óskipt stefnda, íslenska ríkinu, 250.000 krónur í málskostnað. Stefndi, Landsnet hf., er sýkn af kröfum stefnenda. Málskostnaður milli stefnenda og stefnda, Landsnets hf., fellur niður. |
Mál nr. 342/2000 | Skuldabréf Sameignarfélag Prókúra Umboð | R, S og M ráku sameignarfélagið B með ótakmarkaðri ábyrgð. E krafði áfrýjendur um höfuðstól skuldabréfs, að viðbættum vöxtum og kostnaði, sem SH, starfsmaður B, hafði gefið út fyrir hönd þess. Áfrýjendur höfnuðu greiðsluskyldu á þeirri forsendu að SH hefði skort umboð til að skuldbinda B með útgáfu bréfsins. Ljóst var talið að hvorki hefði firmaskrá verið tilkynnt að SH gæti skuldbundið félagið né að félagið hefði veitt honum umboð til þess. Þá lægi ekkert fyrir um störf SH hjá B, sem nægði til að líta svo á að hann hefði notið stöðuumboðs til að gefa út skuldabréf í nafni félagsins. Var því fallist á að áfrýjendur væru ekki skuldbundnir af skuldabréfinu. Lögskipti að baki skuldabréfinu voru ekki talin geta komið til skoðunar þar sem málið hefði verið sótt eftir reglum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 6. september 2000. Þau krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi gaf Sævar Helgason út skuldabréf 19. október 1998 „pr.pr. Bílapartasala Garðabæjar sf.“ til stefnda að fjárhæð 879.750 krónur. Gekkst Sævar jafnframt í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldinni. Hún átti að bera hæstu skuldabréfavexti innlánsstofnana á hverjum tíma og greiðast með 48 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 1. nóvember 1998. Stefndi kveðst engar greiðslur hafa fengið af skuldinni. Samkvæmt ódagsettri tilkynningu, sem barst firmaskrá Garðabæjar 9. apríl 1991, reka áfrýjendurnir Ragnar Duerke Hansen, Sæunn Erna Sævarsdóttir og Már Gunnþórsson með ótakmarkaðri ábyrgð Bílapartasölu Garðabæjar sf. Stefndi höfðaði málið gegn áfrýjendum og Sævari Helgasyni með stefnu 31. ágúst 1999 til greiðslu höfuðstóls skuldar samkvæmt skuldabréfinu, sem að viðbættum umsömdum vöxtum til fyrsta gjalddaga nam 883.709 krónum, auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Málið var dómtekið í héraði 2. júní 2000 og hinn áfrýjaði dómur kveðinn upp 6. sama mánaðar. Með honum var krafa stefnda tekin að fullu til greina. Í skýrslu, sem áfrýjandinn Már gaf við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi, kom fram að Sævar Helgason hafi verið starfsmaður Bílapartasölu Garðabæjar sf. Hafi Sævar haft heimild til að gefa út tékka á bankareikning félagsins. Hann hafi séð um daglega afgreiðslu og þannig mátt kaupa í þágu félagsins bifreiðir, en verð þeirra flestra hafi verið á bilinu frá 10.000 til 25.000 krónur. Sævar hafi hins vegar ekki getað bakað félaginu „stórar skuldbindingar“. Aðrir áfrýjendur gáfu ekki skýrslu fyrir dómi og heldur ekki Sævar. Í fyrrnefndri tilkynningu til firmaskrár Garðabæjar segir að áfrýjendurnir Ragnar, Sæunn og Már riti sameiginlega firma Bílapartasölu Garðabæjar sf. Greinir þar einnig að áfrýjandinn Ragnar hafi prókúruumboð fyrir félagið, en annarra er ekki getið í því sambandi. Af þessu er ljóst að ekki var tilkynnt firmaskrá að Sævar Helgason gæti skuldbundið félagið. Eins og standa átti að ritun á firma þess hefði Sævar ekki getað fengið heimild í þessu skyni nema með atbeina allra áfrýjendanna Ragnars, Sæunnar og Más. Þótt ráða megi af framburði þess síðastnefnda fyrir dómi að Sævar kunni að hafa notið einhverrar heimildar til að baka félaginu skuldbindingar, er að engu leyti staðfest í málinu af hendi hinna tveggja að slík heimild hafi verið veitt. Af þeirri ástæðu verður ekki fallist á með stefnda að sýnt sé fram á að Sævari hafi verið veitt prókúrumboð fyrir félagið, berum orðum eða á annan hátt, sbr. 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð. Í málinu liggur ekkert fyrir um störf Sævars hjá félaginu, sem nægir til að líta svo á að hann hafi notið umboðs til að gefa út skuldabréf í nafni þess í skjóli 2. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkvæmt framangreindu verður að fallast á með áfrýjendum að þau séu ekki bundin af skuldabréfinu, sem um ræðir í málinu. Með héraðsdómsstefnu lagði stefndi málinu þann grunn að það væri sótt eftir reglum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Geta lögskipti að baki skuldabréfinu því ekki komið til skoðunar um hvort það kunni að hafa verið gefið út til hagsbóta Bílapartasölu Garðabæjar sf., svo sem stefndi byggði öðrum þræði á við flutning málsins fyrir Hæstarétti. Að þessu gættu verða áfrýjendur sýknuð af kröfu stefnda. Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi handa hverju þeirra um sig eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Áfrýjendur, Ragnar Duerke Hansen, Sæunn Erna Sævarsdóttir, Már Gunnþórsson og Bílapartasala Garðabæjar sf., eru sýkn af kröfu stefnda, Eignarhaldsfélagsins Jöfurs hf. Stefndi greiði hverjum áfrýjanda um sig samtals 75.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2000. I. Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 21. marz sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Eignarhaldsfélaginu Jöfri ehf., kt. 681276-0259, Nýbýlavegi 2, Kópavogi, með stefnu birtri 13. og 16. september 1999 á hendur Ragnari Duerke Hansen, kt. 210253-2709, Víðihvammi 14, Kópavogi, Sæunni Ernu Sævarsdóttur, kt. 251167-3629, Heiðarvegi 62, Vestmannaeyjum, og Má Gunnþórssyni, kt. 020153-3859, Fagrabergi 10, Hafnarfirði, öllum persónulega og f.h. Bílapartasölu Garðabæjar sf., og á hendur Sævari Erni Helgasyni, kt. 140844-5789, Reykjavíkurvegi 68, Hafnarfirði. Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda kr. 883.709, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 25/1987, frá 01.11.98 til greiðsludags, auk málskostnaðar að mati dómsins. Krafizt er vaxtareiknings í samræmi við 12. gr. vaxtalaga. Dómkröfur stefndu, Ragnars Duerke Hansen, Sæunnar Ernu Sævarsdóttur og Más Gunnþórssonar, eru þær, að þau verði alfarið sýknuð af öllum kröfum stefnanda í málinu og að stefnanda verði gert að greiða þessum stefndu, hverju um sig, málskostnað að skaðlausu, að viðbættum virðisaukaskatti. Af hálfu stefnda, Sævars Helgasonar, hefur ekki verið sótt þing. II. Málsástæður stefnanda: Stefnandi byggir kröfu sína á skuldabréfi, upphaflega að fjárhæð kr. 879.750, útgefnu í Kópavogi hinn 19.10.98 af stefnda, Bílapartasölu Garðabæjar sf., til Eignarhaldsfélagsins Jöfurs hf. og tryggðu með sjálfskuldarábyrgð stefnda, Sævars. Skuldabréfið hafi upphaflega átt að greiðast með 48 afborgunum á 1 mánaðar fresti, í fyrsta skipti hinn 01.11.98 og bera 12,5% ársvexti. Skuldabréfið hafi verið gjaldfellt samkvæmt ákvæðum þess vegna vanskila frá 01. gjalddaga þess hinn 01.11.98, þá að eftirstöðvum kr. 879.750, auk samingsvaxta kr. 3.959 eða samtals kr. 883.709. Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga, og sé mál þetta rekið samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti eru studdar við reglur III. kafla laga nr. 25/1987 og krafa um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði er reist á lögum nr. 50/1988. Málsástæður stefndu, Ragnars Duerke Hansen, Sæunnar Ernu Sævarsdóttur og Más Gunnþórssonar: Stefndu byggja sýknukröfu sína á því, að þeir hafi verið eigendur Bílapartasölu Garðabæjar sf. og hafi einir haft heimild til að skuldbinda félagið. Samkvæmt skuldabréfinu sé það hins vegar stefndi, Sævar Örn Helgason, sem gefi út skuldabréfið í nafni sameignarfélagsins, án þess að hafa til þess heimild meðstefndu. Þar fyrir utan sé þessi skuld samkvæmt skuldabréfinu alls óviðkomandi stefndu, en eftir því sem þeir hafa komizt að, sé þessi skuld þannig til komin, að stefndi, Sævar, hafi verið að kaupa bifreið af stefnanda. Stefnanda hafi verið um þetta fullkunnugt, enda hafi verið gengið frá útgáfu skuldabréfsins í starfsstöð stefnanda. Stefndu séu samkvæmt þessu í engri skuld við stefnanda, og beri því að sýkna þá af öllum kröfum hans í málinu. Stefndu vísa til þess, að á milli þeirra og stefnanda séu engin þau lögskipti, að því er tekur til kröfu stefnanda, sem leiða hafi átt til þess, að þeim beri að greiða kröfuna. Tilvísun stefnanda í almennar reglur kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga eigi ekki við í tilviki stefndu. Krafan um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. l. nr. 91/1991, og krafan um virðisaukaskatt á málskostnað er reist á 1. nr. 50/1988, en stefndu séu ekki virðisaukaskattskyldir. III. Forsendur og niðurstaða: Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar stefndi, Már Gunnþórsson, og vitnið, Ludvig Hraundal. Stefndi, Már, skýrði svo frá, að hann hefði verið meðeigandi að Bílapartasölu Garðabæjar sf., sem hefði nú verið lögð niður. Hann kvaðst ekki hafa komið að daglegum rekstri hennar, en þó hafi ekki átt að taka ákvarðanir um kaup, nema hann væri með í ráðum. Meðstefndi, Ragnar Hansen, hafi frekar séð um reksturinn á fyrirtækinu. Hann kvað meðstefnda, Sævar, hafa komið fram fyrir hönd fyrirtækisins í viðskiptum við Jöfur, en Sævar hafi unnið hjá félaginu og séð um daglega afgreiðslu. Aðspurður, hvort stefndu hefðu aldrei gert athugasemdir við bílakaup Sævars, svaraði stefndi því til, að Sævar væri bróður konu hans, svo það hefði verið dálítið viðkvæmt mál að fara að kæra hann. Sævar hafi haft heimildir til innkaupa, en það hafi ekki verið fyrir stórar fjárhæðir, flestir bílanna hafi verið keyptir fyrir 10 til 25 þúsund krónur, en hann treysti sér ekki til að segja til um, við hvaða fjárhæð heimild Sævars takmarkaðist. Hann kvað Sævar hafa haft heimild til að skrifa út tékka af tékkhefti, en ekki til að kaupa og setja fyrirtækið í stórar skuldbindingar. Aðspurður um hversu stórar skuldbindingar Sævar hafi mátt sjá um, svaraði stefndi, að það takmarkaðist bara við það, “sem manni finnst bara af normal skynsemi að séu stórar skuldbindingar”. Stefndi kvaðst telja, að Sævar hefði örugglega ekki haft heimild félagsins til að skuldbinda það með þeim hætti, sem fram komi í umdeildu skuldabréfi. Sævar hafi með því keypt Econoline bifreið af Jöfri, sem hafi verið fyrir hann persónulega, en stefndi kvaðst ekki hafa verið þar nærri. Kvaðst hann halda, að Sævar hefði selt bifreiðina aftur, en hann hafi ekki reynt að grennslast fyrir um það. Hann hafi ekki vitað um þessi viðskipti Sævars, en kvaðst telja, að bifreiðin hafi verið skráð á Sævar. Hann kvaðst ekki treysta sér til að segja til um, hver hefði tekið ákvörðun um að kaupa bíl þann, sem tilgreindur er á dskj. nr. 7. Vitnið, Ludvig Hraundal, kvaðst hafa verið sölumaður hjá Jöfri, og hefði Sævar komið þangað til að kaupa bíla. Á tímabili hafi hann komið þangað oft og keypt bíla fyrir Bílapartasölu Garðabæjar, þótt það hefðu kannski ekki verið keyptir mjög margir bílar. Hann kvaðst hafa gert ráð fyrir, að Sævar hefði umboð frá Bílapartasölunni, en kvaðst ekki hafa kannað það sérstaklega, en hann hefði aldrei fengið athugasemdir frá Bílapartasölunni. Hann kvað hafa verið algengast, að Sævar greiddi bílana með skuldabréfi, en kvaðst ekki geta sagt til um, hvort þessi fjárhæð á umdeildu skuldabréfi hefði verið afbrigðileg miðað við önnur skuldabréf, þar sem hann myndi ekki eftir fjárhæðum annarra bréfa. Hann kvaðst muna eftir Econoline bifreiðinni. Sævar hafi keypt bílinn, og afsalið taldi hann næsta öruggt að hefði verið á Bílapartasöluna, en Sævar hafi síðan sett bílinn beint á nafn þriðja aðila. Samkvæmt framangreindum framburði stefnda, Más, hafði meðstefndi, Sævar, heimild til að koma fram fyrir hönd fyrirtækis stefndu í viðskiptum þess við Jöfur, og er algerlega óupplýst, hvort það umboð var takmarkað við einhverjar fjárhæðir. Kom þessi stefndi ekkert nálægt daglegum rekstri fyrirtækisins, en mun hafa tekið þátt í ákvarðanatöku um bifreiðakaup. Hann gat þó ekki gefið neinar upplýsingar um viðskipti fyrirtækisins við Jöfur, sem varpað geti ljósi á mál þetta. Meðstefndi, Ragnar Duerke Hansen, sem sá um rekstur fyrirtækisins, mætti ekki fyrir dóminn til skýrslugjafar, þrátt fyrir að það hafi verið boðað af hálfu stefndu. Verða stefndu að bera hallann af því, að svo miklu leyti sem framburður hans kann að hafa skipt máli fyrir niðurstöðu í máli þessu. Verður því að líta svo á, þar sem annað er ósannað, að stefndi, Sævar, hafi komið fram gagnvart stefnanda með ótakmarkað umboð stefndu til að undirrita skuldabréf vegna viðskipta fyrirtækjanna, þrátt fyrir að hann hafi ekki haft prókúruumboð fyrir fyrirtækið. Það liggur ekki fyrir, að nokkru sinni hafi verið gerðar athugasemdir við umboð hans gagnvart Jöfri, eða greiðsluskyldu hafnað vegna útgefinna skuldabréfa í nafni fyrirtækisins, undirrituðum af stefnda, Sævari. Málið er höfðað samkvæmt 17. kafla l. nr. 91/1991, og koma lögskiptin að baki skuldabréfinu því ekki til álita sem varnarástæður í máli þessu. Ber því þegar af þessum sökum að taka kröfur stefnanda til greina að öllu leyti á hendur stefndu, Ragnari, Sæunni og Má, en ekki er ágreiningur um fjárhæð dómkröfu eða vaxtakröfu. Kröfur stefnanda á hendur stefnda, Sævari, byggja á nafnritun hans á skuldabréfið sem sjálfskuldarábyrgðaraðila. Þessi stefndi hefur hvorki sótt né látið sækja þing, og er honum þó löglega stefnt. Með því að dómkröfur stefnanda á hendur honum eru í samræmi við framlögð skjöl, verða kröfur hans teknar til greina að öllu leyti. Eftir þessum úrslitum ber að dæma alla stefndu til að greiða stefnanda in solidum málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 180.000. Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn. D Ó M S O R Ð : |
Mál nr. 131/2012 | Verksamningur Aðild | Sehf. krafði S um greiðslu reikninga vegna vinnu og efniskaupa við byggingu áhúsi S. Í málinu krafðist S m.a. sýknu þar sem hún hefði enga samninga gert viðS ehf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum værureikningar fyrir vinnu og efni vegna byggingarinnar gefnir út á nafn S eftirframvindu verksins. Þá hefðu reikningar verið greiddir af bankareikningi íhennar nafni fram að því að þeir reikningar sem um væri deilt í málinu vorusendir henni. Þá lægi fyrir að eftir að húsið var reist hefði S eignastfasteignina með afsali og hafi hún í kjölfarið tekið lán í eigin nafni með veðií fasteigninni. Var með vísan til þessa staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dómsum að S væri réttur aðili að málinu og um greiðsluskyldu hennar gagnvart S ehf. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnirÓlafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar29. febrúar 2012. Hún krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara aðkrafa stefnda verði lækkuð. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrirHæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar hinsáfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Málavextir eruraktir skilmerkilega í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram tók stefndiað sér að reisa byggingu á lóð í landi Haga á Rangárþingi ytra íRangárvallasýslu, sem fékk nafnið Burstabrekka. Skyldi húsinu skilað tilbúnuundir tréverk. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru reikningar fyrir vinnu ogefni vegna byggingar hússins gefnir út á nafn áfrýjanda eftir framvinduverksins. Fram að því að þeir reikningar sem um er deilt í máli þessu vorusendir áfrýjanda voru reikningar vegna verksins greiddir af bankareikningi ínafni áfrýjanda að því er virðist athugasemdalaust. Hinir greiddu reikningarbera með sér að virðisaukaskattur hefur verið endurgreiddur vegna vinnu. Þáliggur fyrir í málinu að eftir að húsið var reist eignaðist áfrýjandifasteignina með afsali 7. október 2009 og tók hún í kjölfarið lán í eigin nafnimeð veði í fasteigninni. Með vísan til þessa verður staðfest sú niðurstaða hinsáfrýjaða dóms um að áfrýjandi sé réttur aðili að máli þessu. Áfrýjandikrefst þess til vara að krafa stefnda verði lækkuð. Hefur reikningum stefndaekki verið hnekkt með haldbærum gögnum, að öðru leyti en því sem tekið vartillit til í hinum áfrýjaða dómi, en stefndi hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi.Að framangreindu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan tilforsendna hans. Eftir þessariniðurstöðu verður áfrýjandi dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrirHæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal veraóraskaður. Áfrýjandi, Sigrún BáraEggertsdóttir, greiði stefnda, Sérbyggð ehf., 500.000 krónur í málskostnaðfyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2011. Mál þetta,sem dómtekið var 18. október sl., er höfðað af Sérbyggð ehf., kt. 500507-1440, Stararima 51, Reykjavík, með stefnu birtri7. febrúar sl. á hendur Sigrúnu Báru Eggertsdóttur, kt.270465-4399, Hrafnsskálum 2, Hellu. Dómkröfurstefnanda eru þær, að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld aðfjárhæð 7.887.567 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun SeðlabankaÍslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6.gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. janúar 2010 tilgreiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar. Af hálfustefndu er þess krafist, að stefnda verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Tilvara er krafist lækkunar. Hvernig sem málið fer, er gerð sú krafa, að stefnandaverði gert að greiða stefndu málskostnað ásamt virðisaukaskatti. Þá krefststefnda skuldajöfnuðar vegna galla og skemmda, semstefnandi beri ábyrgð á gagnvart stefndu. Undirrekstri málsins var fallið frá aðalkröfu stefndu um frávísun málsins fráhéraðsdómi. I Guðný Ósk Gottliebsdóttir eignaðist sumarhús og sumarhúsalóð í landiHaga á Rangárþingi ytra í Rangárvallasýslu með afsali, dagsettu 10. september2007, sem síðar fékk svo nafnið Burstabrekka. Með umboði, dagsettu 1. ágúst2008, veitti hún föður sínum, Gottlieb Konráðssyni,fullt og ótakmarkað umboð til þess að fara með öll yfirráð yfir landspildunni,sem væri hún hans eigin, og byggja á henni íbúðarhús eða önnur mannvirki. Ágrundvelli umboðsins sótti Gottlieb Konráðsson umbyggingarleyfi 17. september 2008 til að byggja íbúðarhús á lóðinni og segir áumsókninni, að staðfesting landeiganda liggi fyrir. Er Kristjón Kristjónssonskráður sem byggingarstjóri, en Gottlieb undirritarsem eigandi byggingarinnar. Á fylgiblaði eru svo gefin upp nöfn þeirraiðnmeistara, sem taka að sér umsjón með framkvæmd byggingarinnar og ábyrgð áhenni. Er nefndur Kristjón þar skráður sem húsasmíðameistari. Byggingarleyfivar síðan útgefið á nafn hans sem eiganda 7. nóvember 2008. Á vormánuðum2009 var stefnanda falið að reisa byggingu á lóðinni og um það gerður munnlegursamningur við Magnús Guðfinnsson, fyrirsvarsmann stefnanda, en aðila málsinsgreinir á um, hvort viðsemjandinn hafi verið stefnda sjálf eða Gottlieb Konráðsson, sem og hversu háa fjárhæð hafi veriðsamið um að greiða skyldi fyrir byggingu íbúðarhússins. Búið var að steypabílakjallara og skyldi húsið byggt ofan á honum, en verkinu skyldi skilað í þvíástandi, að húsið yrði tilbúið undir tréverk. Heldur stefnandi því fram, að umsamiðverð hafi verið á bilinu 24 til 25 milljónir króna með efniskostnaði, en afhálfu stefndu er því haldið fram, að byggingin ásamt efniskostnaðinum hafi áttað kosta 14 til 15 milljónir. Var unnið að byggingu hússins um sumarið og framá haustið og voru þar að verki Magnús Guðfinnsson og aðrir starfsmennstefnanda, en Magnús var verkstjóri. Í fjarveru hans tók annar smiður viðverkstjórninni, en á vegum stefnanda störfuðu trésmiður, múrari ografmangsverkfræðingur með viðurkennd réttindi að verkinu, en misjafnt varhversu margir voru að störfum hverju sinni. Sá stefnandi um byggingu hússins ogklæðningu auk aukaverka við að leggja steyptan gangstíg, klæða súlur og bita ogfella skáp inn í útvegg. Með afsali,dagsettu 7. október 2009, eignaðist stefnda svo eignina og sló í kjölfarið tvölán í eigin nafni gegn veði í eigninni. Stefnandistílaði reikninga vegna verksins og efniskaupa á stefndu, sem greiddir voru afbankareikningi í hennar nafni án athugasemda. Þeir þrír reikningar, sem stefnter vegna, eru ógreiddir, en þeir eru frá 31. desember 2009. Stefndafékk sent innheimtubréf frá lögmanni stefnanda vegna reikninganna, dagsett 11.júní 2010. Með bréfi lögmanns stefndu frá 23. júní 2010 var kröfu stefnandaandmælt, þar sem stefnda kvaðst ekki hafa óskað eftir verkinu heldur Gottlieb Konráðsson, sem væri réttur skuldari. Þá var þvíborið við, að reikningarnir hefðu aldrei borist stefndu, sem hefði því ekki séðþá eða getað tekið afstöðu til þeirra. Að síðustu voru reikningarnir taldirallt of háir og þeim mótmælt sem röngum og tilhæfulausum. II Stefnandi reisirdómkröfu sína á þremur reikningum og kveður skuldina vera tilkomna vegna vinnustefnanda og efniskaupa vegna byggingar á húsi stefndu að Burstabrekku á Rangarþingi ytra. Nánar eru reikningarnir tilgreindir sem: Nr. Útgáfudagur Gjalddagi Fjárhæð 1.31.12.2009 31.12.2009 1.559.999,00 2.31.12.2009 31.12.2009 670.047,00 3.31.12.2009 31.12.2009 5.657.541,00 Samanlagtnema fjárhæðirnar 7.887.587 krónum, sem er stefnufjárhæðin. Hafi skuldin ekkifengist greidd þrátt fyrir eftirgangsmuni og sé málshöfðun því óhjákvæmileg. Umlagarök vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndirfjárskuldbindinga, sem fái m.a. stoð í lögum nr. 50/2000 og samningalögum nr.7/1936. Hvað gjalddaga kröfunnar varðar er jafnframt vísað til þeirra laga.Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III.kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum og málskostnaðarkröfu sínastyður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. III Stefndareisir sýknukröfu sína á því, að hún hafi enga samninga gert við stefnanda. Hinsvegar hafi Gottlieb Konráðsson staðið fyrirbyggingarverkefninu á byggingarstað og samið beint við stefnanda í einu og öllusem viðsemjandi og verkbeiðandi. Beri öll gögn um samskipti hans viðbyggingaryfirvöld með sér, að hann sé eigandi byggingarinnar og sá, sem fengiðhafi opinber leyfi til að byggja á staðnum. Hann hafi að þessu leyti verið aðvinna innan fulls umboðs Guðnýjar Gottliebsdóttur, ená eigin ábyrgð og í sínu nafni. Guðný hafi verið þinglesinn eigandi lóðar ogmannvirkja á lóðinni á byggingartíma. Nafns stefndu sé þar hvergi getið. Stefnda hafi fengið reikninga fyrst með innheimtubréfi lögmanns stefnanda,sem lögmaður stefndu hafi mótmælt. Er þeim mótmælt sem röngum, allt of háum ogtilhæfulausum. Þá hefurstefnda uppi sérstök mótmæli við framlögð dagsyfirlit í málinu. Stefnandi hafiekki unnið handtak í húsinu eftir að stefnda hafi keypt húsið 7. október 2009.Öllum vinnuskýrslum og reikningum á þeim byggðum eftir þann dag sé því mótmælt.Þá sé hafnað öllum vinnuskýrslum og reikningum á þeim byggðum, sem ekkiinnihaldi skýringar á því, hvað verið sé að gera í húsinu fyrir stefndu. Þá ermótmælt aksturskröfum og húsaleigu í kröfugerð. Af hálfustefnanda hafi Magnús Guðfinnsson komið fram gagnvart Gottliebog hafi þeir samningar verið þeir einu, sem hafi haft gildi við þann, sem létvinna verkið. Þetta viti Magnús vel. Þátturstefndu, sem tengist framkvæmdum sé þannig, að hún hafi lagt til nafn sitt tilþess að Gottlieb gæti fengið virðisaukaskattendurgreiddan samkvæmt skattalögum og nemi 60% af vinnu á byggingarstað. Í öðrulagi hafi hún stofnað bankareikning á sínu nafni, sem Gottliebhefði haft prókúru að, í Kaupþingi banka á Hellu. Þetta hafi veriðbyggingarreikningur hússins, sem Gottlieb einn hafistjórnað. Stefnda hafi ekkert notað þennan reikning og séu engar færslur henniviðkomandi. Ástæðanfyrir þessari aðstoð sé, að Gottlieb hafi orðiðgjaldþrota fyrir nokkrum árum. Hann hafi skuldað opinber gjöld og því hefðiendurgreiddur virðisaukaskattur farið upp í skattskuldir hans. Þá hafi Gottlieb ekki getað stofnað eigin bankareikning. Þessiformlega aðstoð stefndu leiði ekki til samningssambands milli málsaðila og hafistefnda ekkert átt í húsinu eða haft hagsmuni af byggingu þess. Þetta hafiMagnús Guðfinnsson vitað. Aðstoð stefndu hafi verið sambærileg við það, aðMagnús hafi unnið við smíði hússins án þess að vera húsasmíðameistari og til aðgeta tekið að sér verkefnið, sem hann hafi sótt fast eftir við Gottlieb, hafi hann fengið utan að komandi aðstoð KristjónsKristjónssonar, sem húsasmíðameistara og byggingarstjóra verksins. Stefnandahafi orðið á stórfelld mistök við smíði hússins og séu til staðar skemmdir oggalli, sem hann beri ábyrgð á, sem stefnda krefjist að verði bætt af stefnanda. Í fyrstalagi sé húsið byggt þannig, að ofan á steyptri plötu sé reist timburhús, enbílskúr sé í steypta hlutanum undir íbúðarhúsinu. Samkvæmt teikningum af húsinuskuli vera 15 cm hár sökkulveggur með suðurútvegghússins, en að sunnan, meðfram húsinu, komi verönd, sem sé einnig ofan ásteyptu plötunni. Útveggir séu að öðru leyti með útkanti steyptu plötunnar.Sökkulveggurinn hafi það hlutverk að verja húsið gegn vatni og bleytu, semrenni af plötunni og að húsveggnum. Stefnandi hafi sleppt því að reisa nefndansökkulvegg. Hann hafi neglt tréplanka á steyptu plötuna og síðan útvegg hússinsþar ofan á. Því hafi vatn runnið inn í húsið þegar rignt hafi og leysingavatnmyndast. Tilraunir stefndu til að leysa þetta vandamál, sem hafi falist í þvíað múra neðst utan á húsvegginn, setja lím- og þéttiefni með samskeytum viðplötu og bæta múr ofan á plötuna til að auka vatnshallann, hafi ekki boriðárangur. Búast megi við, að steypa verði vegginn með tilheyrandi röskun ogmiklum kostnaði, en á þessari handvömm beri stefnandi fulla og óskoraða ábyrgð. Í öðru lagihafi starfsmenn stefnanda brotið stofuglugga, þegar þeir settu gifs með framglugganum. Þeir hafi slegið með hamri í gifsið og í gluggann og glerið hafisprungið. Hafi Gottlieb séð þetta gerast. Þá mótmælirstefnda reikningsupphæðinni. Stefnandi krefjist greiðslu fyrir bæði efni ogvinnu, en stefnda hafi þegar greitt um 4 milljónir fyrir efnisreikning frástefnanda og þar með sé þegar greitt fyrir öll efniskaup. Þá sé vinnuliðurinnallt of hár. Stefnandi hafi lofað Gottlieb aðvinnuliðurinn yrði í mesta lagi 6 milljónir og hafi þegar verið greitt langtumfram þá fjárhæð. Stefnda áskilji sér rétt til að láta dómkvadda matsmenn metahæfilegt endurgjald fyrir vinnu stefnanda og efnisliði. Haustið2009 hafi Magnús, fyrirsvarsmaður stefnanda, farið til útlanda í frí í u.þ.b.tvær vikur. Hann hafi þá fengið fyrirmæli frá Gottlieb,um að starfsmenn hans, sem voru fjórir Pólverjar, kæmu ekki nálægt neinni vinnuí húsinu. Þrátt fyrir það, hafi Pólverjarnir farið í að klæða innveggi, semekki hafi mátt gera, þar sem rafvirki hússins hefði ekki lokið vinnu sinni ívegggrind. Magnús hafi farið til útlanda á föstudegi, en næsta fimmtudag áeftir hafi Gottlieb komið á staðinn og þá hafiPólverjarnir setið þar verklausir. Þeir hefðu verið búnir að loka innveggjunum.Tekið hafi tvo vinnudaga að fjarlægja klæðninguna og þá hafi verið unnt aðljúka rafvirkjaverkinu í veggjunum. Þeir pólsku hafi setið þar inni og ekkertvitað hvað þeir áttu að gera og sagt. „Maggi bara geyma okkur hér.“ Gottlieb hafi þá látið stefnanda hætta að vinna í húsinu oghann ekki komið meira við sögu smíðinnar. Stefnda krefst bóta fyrir þetta tjón. Stefndatelur óhjákvæmilegt að láta dómkvadda matsmenn meta tjónið vegna allra mistakastefnanda við smíðina, sem að ofan er lýst, svo og vegna stofugluggans, semstarfsmenn hans hafi brotið, og í þriðja lagi, að metið verði vinnuframlagstefnanda í þágu stefndu. Þessir liðir komi til skuldajafnaðar eftir atvikum ogeftir því sem kröfur stefnanda verði viðurkenndar. Um lagarökvísar stefnda til meginreglna kröfu- og samningaréttar. Þá er byggt á almennumskaðabótareglum um ábyrgð verksala á gallalausu framlagi, byggingarlögum,byggingarreglugerðum og byggingarstjóraábyrgð. Vísað er til einkamálalaga ummálskostnað og laga um virðisaukaskatt vegna kröfu um virðisaukaskatt ámálflutningsþóknun. IV Ágreiningur aðila í máli þessulýtur í fyrsta lagi að því, hvort stefnda teljist vera viðsemjandi stefnanda umbyggingu íbúðarhúss að Burstabrekku og hvort hún hafi tekið á sigskuldbindingar gagnvart stefnanda um greiðslu fyrir bygginguna. Þá lýturágreiningur aðila að fjárhæð kröfu stefnanda og ætlaðra galla, sem komi til skuldajöfnuðar við kröfu stefnanda. Af hálfustefnanda er því haldið fram, að stefnda hafi verið viðsemjandi stefnanda.Stefnandi hafi tekið að sér að reisa hús fyrir stefndu með munnlegum samningi ávormánuðum 2009, en við samningsgerðina hafi þar verið viðstaddur vitnið Gottlieb. Fyrir dómi bar fyrirsvarsmaður stefnanda svo, aðsamningurinn hefði verið gerður við stefndu, þar sem Gottliebværi gjaldþrota og því hefði ekki komið til greina að semja við hann umbyggingu hússins. Hefðu þau bæði tekið þátt í samningsgerðinni, en hann liti áþau sem sambýlisfólk, sem væri að reisa sér íbúðarhús, en stundum hefði hann þóaðeins rætt við Gottlieb. Um þetta hefði verið samiðmeð munnlegum samningi, þar sem mikil vinátta hafi ríkt milli aðila oggagnkvæmt traust, enda þótt honum hefði verið kunnugt um, að dóttir Gottliebs hefði þá verið þinglýstur eigandifasteignarinnar, en byggingarleyfi kvaðst hann aldrei hafa séð. Þá vísarstefnandi til þess, að stefnda hafi tekið á móti reikningum á sínu nafni ánathugasemda og greitt fyrir með millifærslu af eigin bankareikningi, auk þesssem hún væri skráður eigandi hússins og hefði tekið lán með veði í húsinu. Stefndakrefst sýknu í málinu, þar sem það hafi ekki verið hún, sem hafi samið viðstefnanda um byggingu íbúðarhússins að Burstabrekku. Í greinargerð er þvíhaldið fram, að hún hafi aldrei átt nein samskipti við stefnanda og að félagiðhafi hvorki haft verkefni á höndum fyrir hana, né hafi samningar verið gerðirmilli þeirra. Fyrir dómibar stefnda, að hún hefði verið viðstödd, þegar ofangreindar viðræður áttu sérstað, sem fyrirsvarsmaður stefnanda vísar til, en hélt því fram, að þá hefðisamkomulag þegar tekist milli stefnanda og Gottliebsum verkið. Þar hefði verið rætt nánar um efni samkomulagsins, sem hún mundinokkuð nákvæmlega eftir, þótt ekki hefði verið samið um verkið þá. Málið hefðiþví alfarið verið á milli stefnanda og Gottliebs. Þábar hún fyrir dómi, að fyrsti reikningurinn fyrir verkið hefði upphaflega veriðstílaður á nafn Gottliebs, en fyrirsvarsmaðurstefnanda og Gottlieb hefðu fengið hana til aðheimila, að hún yrði skráð fyrir reikningunum, því þá fengist endurgreiddurvirðisaukaskattur af verkinu og því hafi reikningarnir síðan verið stílaðir áhennar nafn. Hún hefði tekið að sér að „leppa“ fyrir Gottliebog „lánað honum nafnið sitt.“ Þannig hefði Gottliebhaft reikning á hennar nafni í banka, sem nýttur hefði verið til að greiðafyrir byggingu hússins, þar sem Gottlieb værigjaldþrota og gæti ekki opnað reikning í eigin nafni. Þá hefði hún að samaskapi tekið að sér að vera skráð fyrir eigninni og taka lán út á eignina, alltí þágu Gottliebs. Framburðivitnisins Gottliebs Konráðssonar og framburði stefnduber að mestu leyti saman. Þeim ber jafnframt saman um það, að stefnda hafi ekkikomið nærri því að semja við banka um greiðslu reikninga eða nefndalánafyrirgreiðslu, heldur hafi það alfarið verið milli bankastjórans sjálfs og Gottliebs. Kveðst Gottlieb hafafarið með reikninga til bankans, sem hafi greitt þá af reikningi stefndu, oghann hafi svo tekið lán á nafni stefndu út á fasteignina, sem var í hennareigu. Sýknukröfusína byggir stefnda á því, að hún hafi ekki verið viðsemjandi stefnanda, ogverður krafa hennar skilin svo, að krafist sé sýknu vegna aðildarskorts. Einsog að framan er rakið kveðst stefnandi hafa samið við stefndu, þar sem Gottlieb hafi verið gjaldþrota, en hann kveður þau verasambýlisfólk. Spurð um það, hvort þau væru sambýlisfólk, bar stefnda fyrirdómi, að þau væru ekki í skráðri sambúð. Getur það haft nokkur áhrif á mat áframburði þeirra, að náin vinátta er milli þeirra, enda þótt þau séu ekki ískráðri sambúð. Þykirframburður stefndu og vitnisins Gottliebs um þátilhögun, að Gottlieb hafi sjálfur samið um og fengiðlánafyrirgreiðslu í banka á hennar nafni án aðkomu stefndu ótrúverðugur. Þábyggir málatilbúnaður stefndu að nokkru leyti á þeirri málsástæðu fyrirsýknukröfunni, að eignayfirfærsla fasteignarinnar á hennar nafn hafi veriðmálamyndagerningur vegna gjaldþrots GottliebsKonráðssonar. Verður þessi ráðstöfun ekki skilin með öðrum hætti en svo, að húnhafi verið gerð til að forða ætlaðri eign GottliebsKonráðssonar undan aðför skuldheimtumanna. Slík háttsemi er refsiverð samkvæmt4. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr.19/1940 og verður atbeina dómstóla ekki leitað til að koma fram eða fylgjaeftir slíkum ráðstöfunum, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferðeinkamála. Þá er því enn fremur haldið fram af hálfu stefndu, að reikningarstefnanda hafi aðeins verið stílaðir á stefndu til þess að virðisaukaskatturfengist endurgreiddur af byggingu hússins á fasteign stefndu. Hafi fyrstireikningurinn verið stílaður á nafn Gottliebs, enþegar fyrirsvarsmaður stefnanda hafi rætt málið við Gottlieb,hafi þeir beðið stefndu í sameiningu um þessa tilhögun. Hefur þessi reikningureða samrit hans ekki verið lagt fram í málinu. Málsástæða þessi byggir að samaskapi á ráðstöfun, sem ekki verður leitað atbeina dómstóla til að koma fram eðafylgja eftir, sbr. fyrrnefnt ákvæði laga um meðferð einkamála, enda kann slíkháttsemi að varða sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 40. gr. laga nr. 50/1988um virðisaukaskatt og ákvæði XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður ekkiannað ráðið en að stefnda hafi sjálf verið viðstödd samningsgerð um bygginguíbúðarhússins, sem um ræðir í máli þessu, á vormánuðum 2009. Mátti ráða afframburði hennar fyrir dómi, að komist hefði verið að efnislegu samkomulagi þarum verð fyrir vinnu og efni til verksins. Reikningar fyrir verkið voru stílaðirá stefndu og átti að nýta þá til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt afvinnunni. Voru reikningarnir jafnframt greiddir án athugasemda með millifærsluaf bankareikningi hennar. Síðar verður stefnda svo eigandi fasteignarinnar ogtekur lán gegn veði í eigninni. Verður því ekki annað lagt til grundvallar,eins og hér stendur á, en að með þessu hafi stefnda tekið sér á hendur þáskuldbindingu að standa stefnanda skil á greiðslu fyrir verkið, eins og samiðhafði verið um með munnlegu samkomulagi á vormánuðum 2009. Verður því ekkifallist á sýknukröfu stefndu, sem byggir á aðildarskorti að þessu leyti, ogtelst stefnda vera réttur aðili að málinu. Ber hún því ábyrgð á greiðslum tilstefnanda fyrir byggingu íbúðarhússins að Burstabrekku. Breytir hér engu, að Gottlieb Konráðsson er skráður sem eigandi byggingarinnar áumsóknum um byggingarleyfi og leyfinu sjálfu, enda hafði hann fullt umboðeiganda fasteignarinnar til þeirra erindagjörða. Til varagerir stefnda kröfu um lækkun. Er upphæðum reikninganna mótmælt og því boriðvið, að reikningarnir séu ónákvæmir, ósundurliðaðir og ekki í samræmi við þærfjárhæðir, sem samið hafi verið um. Þá hafi stefnda þegar greitt að fullu fyrirefniskaup og sé vinnuliður kröfunnar allt of hár, auk þess sem kröfuliðum umakstur og húsaleigu er mótmælt. Samkvæmtframburði fyrirsvarsmanns stefnanda tókst munnlegt samkomulag milli aðila áfundi á vormánuðum 2009 um, að stefnandi tæki að sér að reisa bygginguna ogskila verkinu tilbúnu undir tréverk fyrir verð á bilinu 24 til 25 milljónirkróna og væri efniskostnaður innifalinn í því verði. Á hinn bóginn hafi bættst við nokkur aukaverk á byggingartímanum. Kveðststefnandi þegar hafa fengið greiddar rétt rúmar 12 milljónir króna fyrirverkið, en heildarverðið sé í kringum 20 milljónir króna. Stefnda bar fyrirdómi, að á fundinum hefði verið samið um það, að heildarkostnaðurinn mundi nema14 til 15 milljónum króna, þ.e. 7 milljónir króna færu í efniskostnað og aðrar7 eða í mesta lagi 8 milljónir færu í að reisa húsið, gera tilbúið undirtréverk og klára að utan. Þá er því haldið fram af hálfu stefndu, að þegar hafiverið greiddur 4 milljóna króna efnisreikningur frá stefnanda og þar með hafiverið greitt fyrir öll efniskaup. Þeir þrírreikningar, sem lagðir eru fram í málinu, eru allir dagsettir 31. desember2009. Eru tveir þeirra vegna efniskaupa, annars vegar að fjárhæð 1.559.999krónur fyrir efni í glugga í íbúðarhús, og hins vegar 670.047 krónur fyrir önnurefniskaup, sem tilgreind eru sem ál, bjálkaskór, timbur, saumar, múrboltar,tjörubönd, vinklar o.fl. Hafa aðrir reikningar ekki verið lagðir fram í málinu.Samkvæmt sundurliðunarblaði, sem er meðal gagna málsins, segir, að verð fyrirglugga samkvæmt tilboði hljóði upp á 1.560.000 krónur, og sundurliðun áútlögðum kostnaði er sögð nema 765.767 krónum, en þar eru m.a. sundurliðaðirnánar sambærilegir efnisliðir, sem taldir eru upp í dæmaskyni á síðarnefndareikningnum. Af hálfu stefndu er mótmælt síðustu átta liðum á þeirrisundurliðun, sem fyrirsvarsmaður stefnanda gat ekki gert grein fyrir viðaðalmeðferð málsins, en þeir nema 150.352 krónum, en samtala liðanna þar fyrirofan nemur 615.415 krónum. Verður ekki fallist á, að reikningarnir séu þaðónákvæmir eða ósundurliðaðir, að ekki verði byggt á þeim. Stefnandilagði sjálfur fram samantektina um sundurliðun kröfuliðanna við þingfestingumálsins. Málatilbúnaður stefnanda byggir því á henni. Af hálfu stefnanda hefurekki verið gerð nægileg grein fyrir átta síðustu kröfuliðunum ásundurliðunarblaði, sem telst vera til grundvallar reikningi að fjárhæð 670.047krónur, og verður því ekki fallist á þá kröfuliði, en fallist er á kröfu aðfjárhæð 615.415 krónur, enda þykir nægilega sýnt fram á, að sundurliðunin búi aðbaki reikningnum. Hvað reikning vegna glugga varðar, þá er sá reikningur lægrien samkvæmt gögnum í framlagðri samantekt og verður því fallist á hann í heildsinni, enda þótt þar sé vísað til tilboðs, sem ekki er að finna meðal gagnamálsins. Af hálfu stefnduer því haldið fram, að stefnda hafi þegar greitt 4 milljónir króna fyrirefniskaup og þar með hafi verið greitt fyrir öll efniskaup, en samkvæmtframburði stefndu samdist aðilum svo um, að greiða ætti u.þ.b. 7 milljónirkróna vegna efniskaupa. Engir reikningar þessu til sönnunar hafa verið lagðirfyrir dóminn, en fjárhæðir reikninganna rúmast innan þeirrar fjárhæðar, semstefnda sjálf hefur lagt til grundvallar að greiða skyldi fyrir efniskaup, aðteknu tilliti til þeirra 4 milljóna króna, sem stefnda kveður þegar hafa veriðgreiddar. Verður því fallist á fjárhæð reikninganna vegna efniskaupa eins ogáður greinir. Reikningistefnanda vegna vinnu við smíði á íbúðarhúsinu er mótmælt af hálfu stefndu semof háum, bæði hvað varðar verð á útseldum vinnutíma óháð menntun og reynslustarfsmanna, og fjölda vinnustunda. Stefndahefur hvorki óskað eftir né lagt fram mat á vinnuframlagi stefnanda. Engumskriflegum samningi er til að dreifa í málinu og má sjá af reikningi ogsundurliðun á samantektarblaði frá stefnanda, að hver útseld vinnustund er seldá sama verði og er það jafnaðarkaup. Því er ekki gerður greinarmunur á því,hver starfsmanna er að störfum eða hvort starfsmenn vinni yfirvinnu eða ekki.Af hálfu stefndu hafa ekki verið lögð fram gögn um umsamið verð á útseldrivinnustund eða færð fram haldbær rök um það, hver verðviðmiðunin ætti annars aðvera. Verður því ekki fallist á þessi mótmæli stefndu, hvað verð útseldrarvinnustundar varðar. Af hálfustefndu er því haldið fram, að ekkert hafi verið unnið í húsinu frá 7. október2009, en afsal hennar fyrir eigninni er dagsett þann dag. Samkvæmt framburðistefndu kom upp ágreiningur milli aðila einhvern tímann um haustið 2009, semvarð til þess, að aðrir voru fengnir til að ljúka verkinu. Vitnið Gottlieb taldi ekkert hafa verið unnið á svæðinu eftir aðstefnda fékk afsal fyrir eigninni og kveður hana ekki hafa viljað hafa þá ívinnu. Vitnið kannaðist þó við, að stefnandi hefði unnið í húsinu viðuppsetningu klæðningar. Spurt nánar um tímasetninguna í ljósi þess, að járnið,sem klæða átti húsið með, hafi ekki borist fyrr en í lok október, taldi vitniðsig ekki muna dagsetninguna nægilega vel. Ber dagsyfirlitum og skýringum áþeim, svo og framburði fyrirsvarsmanns stefnanda nægilega vel saman um, aðunnið hafi verið í húsinu eftir 7. október 2009. Þykir stefnda því ekki hafahrundið þeirri fullyrðingu stefnanda, að unnið hafi verið að byggingu hússinseftir 7. október 2009, enda er það í samræmi við gögn málsins. Þá þykjaskýringar á dagsyfirlitum og reikningum hafa verið skýrðar nægilega undirrekstri málsins svo fallast megi á þær. Stefnandikrefst greiðslu á 1.199 vinnustundum samkvæmt reikningi, þar sem uppgefiðeiningarverð er 3.790 krónur. Samtals er reikningur vegna vinnu að fjárhæð5.567.541 króna með virðisaukaskatti. Samkvæmt sundurliðun á unnum vinnustundumí framlagðri samantekt er heildarfjöldi vinnustunda 1.199. Við samanburð áuppgefnum fjölda vinnustunda í sundurliðun og framlögðum dagsyfirlitum má ráða,að þar skeiki 95 vinnustundum, en samkvæmt framlögðum dagsyfirlitum nemurfjöldi vinnustunda á tímabilinu 3. ágúst 2009 til 9. ágúst 2009 66vinnustundum, en 74 vinnustundum samkvæmt sundurliðun í framlagðri samantekt.Þá eru engin gögn um 87 vinnustundir í samantekt, sem skráðar eru undirvinnulið á nafni fyrirsvarsmanns stefnanda og hefur ekki verið gerð grein fyrirþeim frekar. Verður stefnandi bundinn af þeim gögnum, sem hann byggirmálatilbúnað sinn á, og verður því fallist á uppgefinn fjölda vinnustunda aðfrádregnum þeim 95 vinnustundum, sem ekki njóta stuðnings af gögnum málsins.Verður því fallist á fjárhæð, sem nemur 1.104 vinnustundum, útseldum á 3.790krónur á hverja einingu, samtals 4.184.160 krónur eða 5.209.279 krónur aðviðbættum virðisaukaskatti. Samkvæmtþessu verður ekki ráðið, að kröfuliðir um húsaleigu og akstur séu innifaldir íkröfum stefnanda, þótt þeirra sé getið í samantekt stefnanda á áðurnefndrisundurliðun. Í málinukrefst stefnda skuldajöfnuðar við kröfu stefnandavegna galla og skemmda, sem stefnandi beri ábyrgð á gagnvart stefndu. Hafaengin gögn verið lögð fram um ætlað tjón af völdum stefnanda eða mat á umfangiþess eða galla, sem eiga að vera á íbúðarhúsinu. Kemur krafa stefndu umskuldajöfnuð því ekki til álita í málinu. Að ölluþessu virtu verður fallist á dómkröfur stefnanda, eins og nánar greinir ídómsorði. Með vísantil 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda dæmd til að greiðastefnanda, Sérbyggð ehf., málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 360.000krónur. Af hálfustefnanda flutti málið Jón Gunnar Zoëga, hrl., en afhálfu stefndu flutti málið Valgeir Kristinsson, hrl. Vegnastarfsanna dómarans hefur dómsuppkvaðning dregist fram yfir frest samkvæmt 1.mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en lögmenn aðila og dómari töldu endurflutningmálsins óþarfan. Dóm þennankveður upp Hrannar Már S. Hafberg, settur héraðsdómari. D Ó M S o r ð : Stefnda,Sigrún Bára Eggertsdóttir, greiði stefnanda, Sérbyggð ehf., 7.384.693 krónurásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. janúar2010 til greiðsludags. Stefndagreiði stefnanda 360.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 233/2003 | Könnun Ráðningarsamningur Riftun | Vanefnd S á greiðslu launa til P þótti, eins og á stóð, ekki þess eðlis að hún hafi heimilað P að slíta vinnusamningi þeirra fyrirvaralaust. Í ljósi þess var fyrirvaralaus riftun P á ráðningarsamningi aðila talin ólögmæt. Í samræmi við kjarasamning aðila og dómaframkvæmd var P gert að bæta S það tjón sem hann olli með riftun sinni og kom sú krafa S til skuldajafnaðar við þann hluta launakröfu P sem ágreiningur var ekki um, en S var dæmt til að greiða P það sem út af stóð, sbr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Til tryggingar þeirri fjárhæð var staðfestur sjóveðréttur P í bátnum B, sbr. 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar með stefnu 19. júní 2003. Hann krefst þess að stefndi S. Gunnarsson ehf. verði dæmdur til að greiða sér 1.639.507 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 308.839 krónum frá 15. júní 2001 til 1. júlí sama árs, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 15. júlí sama árs, af 432.290 krónum frá þeim degi til 15. ágúst sama árs, af 519.374 krónum frá þeim degi til 15. september sama árs, af 635.146 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2002, af 1.568.897 krónum frá þeim degi til 15. maí sama árs og af 1.639.507 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Á hendur stefnda Útgerðarfélaginu Lónfelli ehf. gerir áfrýjandi þá kröfu að staðfestur verði sjóveðréttur í fiskiskipinu Blika BA 72, skipaskrárnúmer 530, fyrir 1.207.217 krónum, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 87.084 krónum frá 15. ágúst 2001 til 15. september sama árs, af 202.856 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2002, af 1.136.607 krónum frá þeim degi til 15. maí sama árs, en af 1.207.217 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Áfrýjandi krefst málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Fyrir Hæstarétti reisir áfrýjandi málatilbúnað sinn á því að honum hafi verið heimilt að rifta ráðningu sinni fyrirvaralaust og án undanfarandi viðvörunar þar sem útgerðarstjóri stefnda S. Gunnarssonar ehf. hafi þann 11. apríl 2002 lýst því yfir í símtali við áfrýjanda að hann myndi ekki greiða honum vangreidd laun vegna útreiknings á aflahlut. Ekki verður séð að áfrýjandi hafi byggt á þessari málsástæðu í héraði og beindist gagnaöflun fyrir héraðsdómi ekki sérstaklega að því að leiða í ljós hvort forsvarsmenn stefnda S. Gunnarssonar ehf. hefðu gefið slíka yfirlýsingu. Kemst þessi málsástæða því gegn andmælum stefndu ekki að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eins og henni var breytt með 17. gr. laga nr. 38/1994. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Með vísan til 1. málsliðar 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður hver málsaðili látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Mál þetta var þingfest 4. september 2002 og tekið til dóms 6. mars síðastliðinn. Stefnandi er Páll Þorgríms Jónsson, kt. 210656-5109, Yrsufelli 11, Reykjavík en stefndu eru S. Gunnarsson ehf., kt. 621193-2449, Eyrartröð 13, Hafnarfirði og Útgerðarfélagið Lónfell ehf., kt. 701299-4779, Eyrartröð 13, Hafnarfirði. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, S. Gunnarsson ehf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.639.507 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 af 308.839 krónum frá 15. júní 2001 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 15. júlí 2001, af 432.290 krónum frá þeim degi til 15. ágúst 2001, af 519.374 krónum frá þeim degi til 15. september 2001, af 635.146 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2002, af 1.568.897 krónum frá þeim degi til 15. maí 2002 og af 1.639.507 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar. Á hendur stefnda, Útgerðarfélaginu Lónfelli ehf., gerir stefnandi þá kröfu að staðfestur verði sjóveðréttur í dragnóta- og netabátnum Blika BA-72, skipaskrárnúmer 530, fyrir 1.207.217 krónum auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 87.084 krónum frá 15. ágúst 2001 til 15. september 2001, af 202.856 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2002, af 1.136.607 krónum frá þeim degi til 15. maí 2002 en af 1.207.217 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá gerir stefnandi jafnframt þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað. Stefndu krefjast þess að fjárhæð dómkröfu stefnanda verði lækkuð í 238.757 krónur. Þá er gerð krafa um að málskostnaður verði látinn falla niður. I Stefnandi réðist sem háseti á Blika BA-72, 63,7 brúttólesta dragnóta- og netabát, þann 15. febrúar 2000. Frá því í apríl 2000 til 12. apríl 2002 gegndi stefnandi stöðu 1. stýrimanns á bátnum. Enginn ráðningarsamningur var gerður en óumdeilt er að um ráðningarkjör fór samkvæmt sjómannalögum nr. 35/1985 og kjarasamningi á milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Verðlagsstofa skiptaverðs fékk til athugunar uppgjör til áhafnarinnar. Í bréfi stofunnar 23. nóvember 2001 segir meðal annars að Verðlagsstofa skiptaverðs hafi haft til athugunar uppgjör við áhöfnina á Blika BA-72. Könnun þessi hafi verið unnin með tilvísun í 6. gr. laga nr. 13/1998 og nái yfir tímabilið 1. júní 2000 til 31. júlí 2001. Tilgangurinn hafi verið kanna hvort misræmis gæti milli söluverðs afla annars vegar og grunns að útreikningi á aflahlutdeild skipverja hins vegar. Verðlagsstofa hafi sent niðurstöður úr athugun sinni til útgerðar og fengið greinargott svar. Þegar tekið hafi verið tillit til leiðréttinga útgerðar séu niðurstöður þær að um misræmi sé að ræða. Útgerðin geri ekki athugasemd við þá niðurstöðu Verðlagsstofu. Í lok bréfsins er sagt að stofan sendi þessi gögn til skipverja og umbjóðenda þeirra og sé áframhaldandi framvinda málsins nú í höndum skipverja. Verðlagsstofa skiptaverðs fékk á ný til umfjöllunar ágreining áhafnar og útgerðar um skiptaverð. Í bréfi 19. mars 2002 kemst stofan að þeirri niðurstöðu að útflutningskostnaður, sem dreginn hafi verið frá skiptum, sé óvenjuhár. Í útreikningum stofunnar kemur fram að hásetahlutur fyrir tímabilið júní 2000 til júní 2001 eigi að hækka um 75.052 krónur af þessum sökum. Ágreiningslaust er að hlutur stefnanda vegna þessa er 112.578 krónur að viðbættu orlofi að fjárhæð 11.449 krónur eða samtals 124.027 krónur Í bréfi Verðlagsstofu skiptaverðs 12. mars 2002 er fjallað um uppgjör til áhafnar vegna skarkolaveiða mánuðina maí, júní, júlí og ágúst 2001. Er komist að þeirri niðurstöðu í bréfinu að útgerðin hafi lagt til grundvallar fiskverðssamning aðila en ekki aflaverðmæti á fiskmarkaði eins og rétt hefði verið að gera þar sem allur skarkoli hafi verið seldur á fiskmarkaði. Niðurstaða Verðlagsstofu er sú að vangreidd laun stefnanda vegna þessa nemi með orlofi 581.729 krónum. Stefndi gerir ekki athugasemd við þessa útreikninga Verðlagsstofu og hefur samþykkt að hann skuldi stefnanda þessa fjárhæð vegna skarkolaveiðavertíðar 2001. Með bréfi stefnda til stefnanda 18. mars 2002, sem stefnandi móttók sama dag, var stefnanda sagt upp störfum frá og með 19. mars 2002. Í uppsagnarbréfi er tekið fram að uppsagnarfrestur samkvæmt kjarasamningi sé 3 mánuðir og ljúki því starfstíma stefnanda hjá stefnda 19. júní 2002. Með símskeyti 15. apríl 2002 rifti stefnandi ráðningarsamningi sínum hjá stefnda. Sama dag sendi lögmaður stefnanda innheimtubréf til stefnda og gerði kröfu um vangoldin laun, greiðslu launa eða skaðabóta í uppsagnarfresti, greiðslu dráttarvaxta og innheimtuþóknunar, samtals að fjárhæð 1.978.340 krónur. Stefndi mótmælti riftun stefnanda á ráðningarsamningi með skeyti 18. apríl 2002 og minnti stefnanda á að samningurinn væri enn í gildi. Stefnanda bæri að mæta til skips í Þorlákshöfn kl. 07:00 næstkomandi sunnudagsmorgun en þá færi skipið á veiðar. Mæti hann ekki áskilji stefndi sér rétt til að krefja stefnanda um bætur vegna tjóns sem af því kunni að leiða. II. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki gert upp við stefnanda úr aflahlut fiskiskipsins Blika í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga. Stefndi hafi litlar sem engar veiðiheimildir á skipinu og þurfi hann því að leigja til sín veiðiheimildir að langmestu leyti. Telur stefnandi að hann hafi verið látinn taka þátt í kaupum á veiðiheimildum og þar með að taka þátt í útgerðarkostnaði stefnda. Slíkt sé andstætt ákvæðum 1. og 2. málsliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sbr. 10. gr. laga nr. 79/1994. Þessi grundvallarregla í samskiptum útvegsmanna og sjómanna sé jafnframt staðfest í grein 1.03. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Þetta athæfi sé jafnframt brot á 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Stefnandi hafi rift fyrirvaralaust ráðningarsamningi aðila þegar honum hafi orðið kunnugt um misferli stefnda. Skilasvik af þessum toga séu refsiverð og sé því fyrirvaralaus riftun lögmæt. Bótarétt sinn byggir stefnandi á 25. gr. og 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Skaðabætur séu miðaðar við aflareynslu skipsins undanfarna mánuði. Stefnandi hafi unnið 28 daga af uppsagnarfresti og standi því eftir 62 dagar til útreiknings skaðabótanna. Þannig telst stefnanda til að meðallaun hans hafi numið 14.740 krónum á dag að viðbættum fæðispeningum, samtals að fjárhæð 36.611 króna. Bætur nemi því samtals 933.751 krónu. Dráttarvextir reiknist af meðalbótum samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 frá ráðningarlokum stefnanda hjá stefnda þann 15. apríl 2002. Af hálfu stefnda er ekki gerð athugasemd við launakröfu stefnanda að fjárhæð 705.632 krónur. Felst stefndi á útreikninga Verðlagsstofu skiptaverðs í því sambandi og gerir ennfremur ekki athugasemd við upphafstíma dráttarvaxta hvað varðar þá kröfu. Hann fellst einnig á að sjóveðréttur standi fyrir kröfu stefnanda. Hins vegar byggir stefndi á því að riftun stefnanda á ráðningarsamningi aðila þann 15. apríl hafi verið ólögmæt. Stefnandi eigi því ekki rétt á skaðabótum sem nemi launum í uppsagnarfresti frá 15. apríl 2002 til loka uppsagnarfrests eins og krafist sé í málinu. Samkvæmt grein 1.21. í kjarasamningi aðila eigi útgerðarmaður rétt á bótum úr hendi yfirmanns sem fari fyrirvaralaust úr starfi, bætur sem nemi launum á hálfum uppsagnarfresti eða helmings þess tíma sem eftir sé af uppsagnarfrestinum. Óumdeilt sé að laun stefnanda fyrir þann tíma séu 933.751 króna. Bótakrafa stefnda á hendur stefnanda sé því helmingur þeirrar fjárhæðar eða 466.875 krónur. Gagnkrafa stefnda er því þannig reiknuð að til frádráttar launakröfu að fjárhæð 705.632 krónur kemur bótakrafa stefnda að fjárhæð 466.875 krónur. Eftirstöðvar eru því 238.757 krónur sem er stefnukrafa málsins. Stefndi krefst þess að bótakrafan komi til skuldajafnaðar við launakröfu stefnanda miðað við 15. apríl 2002 enda hafi bótakrafan þá fallið í gjalddaga. Stefndi viðurkenni því að skulda stefnanda 238.757 krónur og viðurkennir jafnframt að sjóveðréttur standi fyrir þeirri kröfu auk dráttarvaxta til greiðsludags. Stefndi mótmælir fullyrðingu stefnanda um refsiverða háttsemi fyrirsvarsmanna stefndu. Útreikningar á skiptaverði séu flóknari en hefðbundnir launaútreikningar og vafaatriði mörg. Byggir stefndi á því að ágreiningur hafi verið um uppgjörsútreikninga og vafaatriði í því sambandi. Stefndi hafi hins vegar ákveðið að una við útreikninga Verðlagsstofu skiptaverðs. Stefndi heldur því fram að stefnanda hafi verið fullkunnugt um uppgjörsaðferðir þessar og hafi hann unnið hjá stefnda eftir sem áður. Stefnandi hafi horfið úr vinnu án þess að skora fyrst á stefnda að greiða vangoldin laun. Á þeim tíma er stefnandi hafi lýst yfir riftun og í nokkra mánuði þar á undan hafi stefndi greitt stefnanda réttilega öll laun í samræmi við samninga. Vanefnd stefnda hafi einungis varðað uppgjörsaðferð á einni fisktegund tiltekið tímabil. Að öðru leyti hafi stefndi staðið við ráðningarsamning sinn við stefnanda. Vanefnd stefnda hafi því ekki verið veruleg. Máli sínu til stuðnings vísar stefndi til sjómannalaga nr. 35/1985 og almennra reglna vinnuréttar um skyldur launþega til þess að inna vinnuskyldu sína af hendi á uppsagnarfresti. Um bótakröfu vísar stefndi til greinar 1.21 í kjarasamningi og heimild til skuldajöfnuðar til 28. gr. laga nr. 91/1991. III. Stefnandi réðist sem háseti á dragnóta- og netabátinn Blika BA-72 í febrúar 2000 en gegndi stöðu stýrimanns frá apríl 2000 til 12. apríl 2002. Honum var sagt upp starfi frá og með 19. mars 2002 og var þess krafist að hann ynni út uppsagnarfrestinn. Stefnandi rifti hins vegar ráðningarsamningi sínum við stefnda 15. apríl 2002 og mætti ekki til vinnu eftir það. Hann krefst launa eftir 15. apríl 2002 til loka uppsagnarfrests 19. júní 2002, samtals að fjárhæð 933.751 króna. Þá kröfu rökstyður stefnandi með því að honum hafi verið heimilt að víkja úr starfi vegna brota stefnda á vinnusamningi aðila. Eins og framan er rakið er ekki deilt um í málinu að um ráðningarkjör stefnanda fór samkvæmt sjómannalögum nr. 35/1985 og kjarasamningi milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Óumdeilt er að uppsagnarfrestur var 3 mánuðir. Þá hefur stefndi og samþykkt útreikninga Verðlagsstofu skiptaverðs vegna skarkolavertíðar frá maí til ágúst 2001 og að hann skuldi stefnanda vegna þeirrar vertíðar 581.729 krónur. Hann hefur einnig samþykkt útreikninga Verðlagsstofu skiptaverðs vegna ofreiknaðs útflutningskostnaðar að fjárhæð 124.027 krónur. Samtals hefur stefndi því viðurkennt að skulda stefnanda laun að fjárhæð 705.756 krónur. Stefndi hefur einnig viðurkennt dráttarvaxtakröfu stefnanda og að sjóveðréttur standi fyrir þessari fjárhæð. Ágreiningur aðila snýst því eingöngu um hvort stefnanda beri laun fyrir þann tíma er eftir stóð af uppsagnarfresti, eftir að stefnandi hvarf úr vinnu. Óumdeilt er að laun fyrir þann tíma nema 933.751 krónu. Upplýst er í málinu að stefndi vanefndi samning sinn við stefnanda með því að greiða honum lægri laun en honum bar. Þó svo að stefndi hafi ekki enn gert upp við stefnanda verður ekki annað séð af gögnum málsins en að stefndi hafi viðurkennt mistök sín við útreikning launa eftir að Verðlagsstofa skiptaverðs hafði fjallað um málið. Ósönnuð telst sú staðhæfing stefnanda að stefndi hafi brotið af sér með refsiverðum hætti við launauppgjör við stefnanda. Stefnandi gaf stefnda ekki kost á því að greiða vangoldin laun áður en hann rifti samningi aðila fyrirvaralaust og hvarf úr vinnu. Hin vangoldnu laun voru að mestu fyrir tímabilið maí til ágúst 2001 og hafði því stefnandi unnið hjá stefnda í rúma 7 mánuði eftir það og fengið rétt uppgert. Vanhöld stefnda á launagreiðslum voru að mestu fyrir ákveðið tímabil vegna ákveðinnar fisktegundar. Þegar framangreint er virt þykir fyrirvaralaust brotthlaup stefnanda úr starfi ólögmætt. Vanefnd stefnda á greiðslu launa til stefnanda þykir ekki eins og hér stendur á þess eðlis að hún hafi heimilað stefnanda að slíta vinnusamningi aðila fyrirvaralaust. Samkvæmt gr. 1.21 í kjarasamningi aðila og dómaframkvæmd verður stefnandi að bæta stefnda það tjón sem stefnandi olli stefnda með ólögmætu brotthlaupi. Er gert ráð fyrir meðalhófsbótum samkvæmt 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928 sé fjárhæð tjóns ekki sönnuð. Er þá miðað við helming af kaupi fyrir þann tíma sem eftir var af uppsagnarfresti. Ágreiningslaust er að laun fyrir það tímabil er eftir stóð af uppsagnarfresti voru 933.751 króna. Stefndi á því rétt á bótum er nemi helming þeirrar fjárhæðar eða 466.875 krónur. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 91/1991 kemur sú krafa til skuldajafnaðar við launakröfu stefnanda að fjárhæð 705.756 krónur. Eftirstöðvar eru því 238.881 króna og verður stefndi dæmdur til þess að greiða þá fjárhæð með vöxtum eins og krafist er í stefnu. Með vísan til 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985 á stefnandi sjóveðrétt í Blika BA- 72, skipaskráningarnúmer 530, til tryggingar tildæmdri fjárhæð. Eftir þessari niðurstöðu verða báðir stefndu dæmdir til þess að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Stefndi, S. Gunnarsson ehf., greiði stefnanda, Páli Þorgríms Jónssyni, 238.881 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 15. júní 2001 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi á sjóveðrétt hjá stefnda, Útgerðarfélaginu Lónfelli ehf., í Blika BA- 72, skipaskrárnúmer 530, til tryggingar tildæmdri fjárhæð. Stefndu greiði stefnanda 150.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 275/2004 | Bifreið Líkamsmeiðing af gáleysi Sératkvæði | X var ákærður fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa á leið austur Eiðisgranda í Reykjavík ekið bifreið sinni í veg fyrir bifreið, sem ekið var vestur sömu götu, með þeim afleiðingum að bifreiðarnar rákust á og ökumaður hinnar síðarnefndu slasaðist alvarlega og farþegi úlnliðsbrotnaði. Í málinu var upplýst að skömmu fyrir áreksturinn hafði X keypt sér hamborgara og gosdrykk í söluturni og fengið sér bita af hamborgaranum á sama stað. Talið var að þótt sú skýring væri nærtæk að X hafi misst stjórn á bifreiðinni við að teygja sig eftir hamborgaranum, lægi ekkert fyrir um það. Hafi rannsókn málsins ekki verið sem skyldi, en eins og á stóð hafi borið að rannsaka bifreið X einkum með tilliti til stýrisbúnaðar hennar og hvort rekja mætti sprunginn hjólbarða hennar til árekstursins, eða hvort hjólbarðinn hafi sprungið áður og rekja mætti orsök slyssins til þess. Með vísan til þessa var ekki talin fram komin lögfull sönnun þess að slysið yrði rakið til gáleysis X. Var X því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins í málinu. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. júní 2004 og krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar. Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur. Í hinum áfrýjaða dómi er rakinn í stuttu máli framburður ákærða og vitna fyrir dómi. Þar er meðal annars haft eftir ákærða að hann hafi verið byrjaður að borða hamborgarann og hafi lagt hann í farþegasætið eftir hvern munnbita. Þetta er ekki allskostar rétt því að í bókuðum framburði ákærða fyrir dómi kemur fram að hann hafi fengið sér bita af hamborgaranum inni í búðinni, þar sem hann var keyptur, og væri það síðasti bitinn sem hann myndi eftir. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur. Sératkvæði Garðars Gíslasonar I Ákærða er gefið að sök að hafa föstudaginn 7. nóvember 2003, á leið austur Eiðsgranda í Reykjavík, rétt vestan gatnamótanna við Rekagranda, ekið fólksbifreiðinni [1] yfir tvær óbrotnar línur inn á akrein fyrir umferð á móti án þess að nauðsyn bæri til, án nægjanlegrar aðgæslu þar við vegamótin og í veg fyrir fólksbifreiðina [2], sem ekið var vestur götuna, með þeim afleiðingum að árekstur varð með bifreiðunum. Ökumaður [2], Y, fædd [...] 1960, hlaut alvarlegan höfuðáverka með vinstri helftarlömun, þindarslit, vont brot á vinstri olnboga, tvíbrot á vinstri framhandlegg og brot á hægra fæti og fótlegg, og sonur hennar, Z, fæddur [...] 1998, farþegi í barnastól í aftursæti, úlnliðsbrotnaði. Þessi háttsemi ákærða er talin varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 svo og nánar tilgreind ákvæði umferðarlaga nr. 50/1987. Áreksturinn var tilkynntur lögreglunni kl. 13.47 þennan dag. Næst vettvangi var lögreglubifreið sem Ó lögreglumaður ók og kom hann fyrstur á vettvang. Hann óskaði eftir að tækjabifreið slökkviliðs og sjúkrabifreið yrðu sendar á vettvang, þar sem ökumaður annarrar bifreiðarinnar væri meðvitundarlaus og fastur inn í henni. Tveir lögreglumenn komu á vettvang kl. 13.58 og gerðu viðeigandi ráðstafanir um lokun vettvangs og rannsókn málsins með tæknideild lögreglunnar og framkvæmdastjóra rannsóknarnefndar umferðarslysa. Í frumskýrslu lögreglunnar segir að áreksturinn hafi orðið rétt vestan gatnamóta Rekagranda. Þarna sé Eiðsgrandinn ein akrein í hvora átt og breidd hvorrar akreinar 3,5 metrar. Á milli akreinanna sé autt svæði afmarkað með óbrotnum línum og breidd þess 3 metrar. Á þessum vegarkafla sé gatan bein og yfirsýn góð. Yfirborð vegarins hafi verið blautt og ekki unnt að merkja nein hemlaför á yfirborðinu. Áreksturinn hafi orðið á nyrðri helmingi vegarins og hafi bifreiðin [2] kastast út fyrir veg til norðurs og ökumaður hennar verið meðvitundarlaus og fastur í bifreiðinni. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar, ákærði í máli þessu, hafi verið með meðvitund en kvartað undan eymslum í brjósti og fótum. Áður en hann hafi verið fluttur á slysadeild hafi náðst að tala stuttlega við hann. Hann hafi sagst ekkert muna eftir aðdraganda óhappsins en sagst hafa verið að koma utan af Nesi og ekið austur Eiðsgranda. Tekið er fram í skýrslunni að greinilegt hafi verið að ákærði hafi ekki notað öryggisbelti við aksturinn því það hafi verið fast í þeirri stöðu sem það sé í þegar það sé ónotað. Á gólfi bifreiðarinnar fyrir framan hægra framsæti hafi legið hálfétinn hamborgari. Báðar bifreiðarnar voru dregnar af vettvangi og var mat lögreglumanna að þær hefðu orðið fyrir það miklum skemmdum að þær teldust tjónabifreiðar og voru skráningarnúmer þeirra tekin af. Lögreglan bað fjölmiðla að auglýsa eftir vitnum. Ákærði hafði samband við föður sinn frá vettvangi og kom hann þangað. Ákærði var fluttur á slysadeild til rannsóknar. Segir í skýrslu lögreglunnar að þegar störfum hafi verið lokið á vettvangi hafi verið rætt við ákærða á slysadeild og hafi foreldrar hans verið viðstaddir. Ákærði hafi þá sagst hafa verið að koma utan af Nesi og ekið austur Eiðsgranda. Hann hafi verið að koma frá versluninni Nesval, Melabraut 19, Seltjarnarnesi, þar sem hann hafi keypt sér hamborgara og kók. Hann hafi verið byrjaður að borða hamborgarann og lagt hann frá sér í hægra framsæti eftir hvern munnbita, en kókdósina hafi hann ekki opnað. Vitnin B og C gáfu sig fram við lögreglu eftir að hafa heyrt í fréttum að vitni vantaði að umferðarslysinu á Eiðsgranda. Í skýrslunni er haft eftir vitninu B að hann hafi ekið austur Eiðsgranda á eftir leigubifreið en á undan henni hafi verið bifreið ákærða. Stutt hafi verið á milli bifreiðanna. Nálægt gatnamótum Rekagranda hafi bifreið ákærða verið beygt mjög snögglega til vinstri yfir á öfugan vegarhelming, þar sem hún hafi lent á bifreið sem ekið var úr gagnstæðri átt. Hann hafi ekki séð nein hemlaljós á bifreið ákærða fyrir áreksturinn. Haft var eftir vitninu C að hún hafi ekið á eftir brúnni jeppabifreið. Hún kvaðst hafa veitt athygli grárri fólksbifreið fyrir framan bifreiðarnar. Þegar nálgaðist gatnamót Rekagranda hafi hún séð þegar ökumaður gráu bifreiðarinnar hafi beygt mjög skyndilega til vinstri og ekið yfir á öfugan vegarhelming og þar á græna fólksbifreið sem ekið hafi verið úr gagnstæðri átt. Hún hafi ekki séð hemlaljós á gráu bifreiðinni. Vitnið C gaf skýrslu hjá lögreglunni 15. janúar 2004. Hún kvaðst hafa ekið af Skeljagranda inn á Eiðsgranda til austurs. Þá hefði hún lent á eftir dökkum jeppa, fyrir framan jeppann hafi veri leigubíll og síðan bíll ákærða. Umferðin hafi ekki verið hröð og hún ekki fylgst sérstaklega með umferðinni, sem gengið hafi eðlilega. Hún hafi síðan séð er bifreiðinni [1] var beygt til vinstri og stefnt út af og þá hafi hún jafnframt séð að ökumaðurinn hallaði sér mikið til hægri, líkt því að hann væri að beygja sig eftir einhverju á milli sætanna. Bifreiðinni hefði síðan verið ekið inn á öfugan veghelming og lent beint framan á bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Sérstaklega aðspurð kvaðst hún ekki hafa tekið eftir að stefnumerki hafi verið gefin til vinstri eða að ökumaður hafi hemlað fyrir áreksturinn og ekki séð neina hindrun á akstursleiðinni. Ákærði kom til lögreglunnar 15. janúar 2004 að eigin frumkvæði til að gefa skýrslu. Hann var spurður hvaðan hann hafi verið að koma og hann svaraði að hann hafi verið að koma heiman frá sér, sem var að Melabraut [...]. Aðspurður hvert hann hafi verið að fara svaraði hann að hann hafi verið að fara niður í bæ til að sækja sér lyf en hann hafi verið með kvef og hálsbólgu, þó ekki með hita. Hann kannaðist við að hafa keypt hamborgarann í sjoppu á Melabraut 19 en hann myndi ekki eftir að hafa verið að borða hann. Honum var þá kynntur framburður vitnisins C að hún hafi séð hann beygja sig niður til hægri, líkt því að hann væri að sækja eitthvað niður á milli sætanna. Hann kvaðst ekki átta sig á eftir hverju hann hafi verið að beygja sig, en hann myndi ekkert síðust sekúndurnar fyrir slysið. Vitnið B kom einnig til skýrslugjafar hjá lögreglu 15. janúar 2004. Hann kvaðst alveg viss um að ökumaður [1] hafi ekki gefið stefnumerki til vinstri og hann hafi ekki orðið var við að hann hafi hemlað fyrir áreksturinn. Einnig, að engin hindrun hafi verið á veginum, hann hafi verið alveg hreinn, ekkert hafi verið á honum. Hann hafi ekki séð hvort ökumaðurinn beygði sig niður eða hafi verið boginn niður er hann beygði út af. II Fyrir héraðsdómi kvaðst ákærði ekki hafa hugmynd um af hverju hann beygði yfir á akrein á móti, en honum dytti í hug að það hafi sprungið og hann hafi misst stjórn á bílnum. Hann kvaðst ekki hafa verið í öryggisbelti. Hann var spurður um hamborgarann. Hann kvaðst muna eftir að hann fékk sér bita í búðinni, það sé síðasti bitinn sem hann myndi eftir. Hann hafi labbað úr búðinni og inn í bílinn. Þá var borin undir hann skýrsla lögreglu þar sem haft sé eftir honum að hann hafi verið byrjaður að borða hamborgarann og lagt hann frá sér í hægra framsæti eftir hvern munnbita, og hvort þetta gæti staðist. Hann svaraði því til að þetta gæti staðist á meðan hann var á leiðinni út í bíl og væri að starta bílnum, þá hafi hann lagt hamborgarann frá sér. Nánar aðspurður um þetta svaraði ákærði að hann myndi þetta ekki. Vitnið C kom fyrir héraðsdóm. Hún kvaðst hafa fylgst með bílnum þegar hún sá hann fram undan jeppanum og hafi haldið að eitthvað hefði komið fyrir, af því að hún hafi séð hann „bara á milli sætanna, ökumanninn“ Henni hafi fundist eins og hann hefði hallast aðeins til hægri yfir á farþegasætið. Vitnið G rannsóknarlögreglumaður, sem samdi frumskýrslu lögreglunnar, bar fyrir héraðsdómi að engin hemlaför hefðu fundist. Ákærði hefði sagt á slysadeild að hann hefði keypt hamborgara og verið að borða hann við aksturinn. Ekkert á vettvangi hafi bent til að sprungið hefði á bifreiðinni áður en henni var beygt, en þeir hafi leitað vel eftir slíkum ummerkjum. Vinstra framhjól bifreiðarinnar hafi verið „alveg í köku“. Vitnið J rannsóknarlögreglumaður, sem kom á vettvang ásamt G og gerði uppdrátt, bar fyrir héraðsdómi að engin hemlaför hafi fundist. Hann bar á sama veg og G, að hvellspringi á bifreið þá markist för í malbikið og ekkert slíkt hafi sést. Hann hafi talað við ákærða á slysdeild ásamt G. Ákærði hafi þar sagst hafa keypt hamborgara úti á Nesi og sig minnti að hann hafi talað um að hann hafi verið að borða hamborgarann og lagt hann frá sér þess á milli sem hann beit í hann, en hann hafi ekki verið búinn að opna kókdósina. Það hafi mátt skilja ákærða þannig að meðan hann ók hafi hann tekið sér bita og lagt hamborgarann frá sér þess á milli. Vitnið S rannsóknarlögreglumaður tók ljósmyndir á vettvangi. Hann bar að ekkert á götunni hafi bent til að hjólbarði hafi sprungið fyrir áreksturinn. III Bifreiðin, sem ákærði ók, var fjögurra dyra fólksbifreið, Toyota Corolla, frá bílaleigu. Á einni framlagðra ljósmynda sést á gólfi framan við farþegasæti plast matarbakki og munnþurrkur og á næstu mynd af sama svæði má sjá sama matarbakka og munnþurrkur og einnig bita af hamborgarabrauði. Myndirnar sýna að báðar bifreiðar voru illa útleiknar eftir áreksturinn. Þær voru dregnar af vettvangi og taldar ónýtar. Þegar ákærði var spurður fyrir héraðsdómi hvort hann hefði hugmynd um af hverju hann hefði beygt til vinstri yfir á akreinina á móti svaraði hann: „Ekki hugmynd. Mér dettur það í hug að það hafi sprungið og ég hafi misst stjórn á bílnum, annað veit ég ekki.“ Rannsókn á vettvangi sýndi engin merki þess að sprungið hefði á hjólbarða bifreiðarinnar, og vitni að atburðinum sáu heldur engin merki þess. Verður því að telja það ósennilegt. Þá var ákærði spurður hvort hann hafi verið að borða hamborgarann í bílnum. Hann svaraði: „Ég man eftir að ég fékk mér bita í búðinni, það er síðasti bitinn sem ég man eftir. Ég labbaði úr búðinni og inn í bílinn.“ Þá var borið undir hann það sem lögreglan skráði í frumskýrslu eftir honum á slysadeildinni um að hann hafi verið að borða hamborgarann í bílnum og lagt hann fá sér í hægra framsæti eftir hvern munnbita. Hann svaraði: „Þetta getur passað á meðan ég er á leiðinni út í bíl og er að starta bílnum, þá legg ég hann frá mér.“ Í bifreið ákærða fannst hálfétinn hamborgari. Kemur það illa heim og saman við framburð ákærða fyrir dómi að hann hefði aðeins fengið sér einn bita af hamborgaranum í búðinni. Að lokinni rannsókn á vettvangi fóru lögreglumennirnir á slysadeild og höfðu tal af ákærða, sem þar var ásamt foreldrum sínum. Samkvæmt frumskýrslunni sagði ákærði þeim þar að hann hefði keypt hamborgara og kók og verið byrjaður að borða hamborgarann og lagt hann frá sér í hægra framsæti eftir hvern munnbita. Fyrir héraðsdómi breytti hann þessari frásögn eins og að framan greinir. Vitnið C sá til ákærða þar sem hann færði sig á milli sætanna og beygði sig rétt áður en áreksturinn varð. Ákærði var ekki með öryggisbeltið spennt og styður það frásögn vitnisins og skýrir hana. Þegar þetta er virt verður að líta til þess sem ákærði sagðir sjálfur lögreglunni á slysadeildinni. Orð hans um að hann hafi lagt hamborgarann frá sér í hægra framsæti eftir hvern munnbita koma á engan hátt heim og saman við orð hans fyrir héraðsdómi að hann hafi aðeins lagt hann frá sér þegar hann var að gangsetja bifreiðina. Engin skynsamleg skýring er á þessum breytta framburði ákærða nema sú, að hann hafi á síðari stigum ekki viljað kannast við sína upprunalegu frásögn. Þessi fyrsta frásögn hans um að hann hafi verið að fá sér bita og lagt hamborgarann fá sér í hægra framsæti eftir hvern munnbita verður því lögð til grundvallar. Fyrir Hæstarétti heldur ákærði því fram að ekki hafi verið færð lögfull sönnun fyrir gáleysi hans þar sem gögn málsins skýri ekki aksturslag hans og þess vegna hefði ýtarleg rannsókn á bifreiðinni þurft að fara fram. Hvorki hafi farið fram athugun sérfróðra manna á því hvort bilun í bifreiðinni gæti verið orsök árekstursins né hvort sprunginn hjólbarði gæti skýrt hann. Svo sem fyrr greinir er ekkert sem bendir til þess að hjólbarði hafi sprungið á bifreið ákærða, sem hafi valdið því að hann hafi misst stjórn á bifreiðinni. Enda þótt ekki hafi farið fram rannsókn á bifreið ákærða eftir áreksturinn til þess að leita að bilun í stýrisútbúnaði hennar, eða öðru sem gæti hafa bilað, verður ekki fram hjá því litið að hann hemlaði ekki á þeim tíma sem tók að færa bifreiðina yfir óbrotna línu og þriggja metra breitt svæði áður en bifreið hans skall beint framan á bifreið þá sem á móti kom. Það bendir ekki til skyndilegrar bilunar í bifreið ákærða þannig að hann hafi misst stjórn á henni. Á hinn bóginn er frásögn hans sjálfs af því að hann hafi bitið í hamborgarann og lagt hann þess á milli í sætið við hliðina á sér, sem studd er framburði vitnis að atburðinum. Frásögnin bendir eindregið til þess að hann hafi ekki verið með hugann við aksturinn og því hvorki leiðrétt stefnuna né hemlað þegar í óefni var komið. Að öllu athuguðu er þetta ekki aðeins sennilegasta skýringin heldur eina skýringin sem fram er komin á atburði þessum. Samkvæmt framansögðu er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er réttilega heimfærð til lagaákvæða. Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 219. gr. almennra hegningarlaga og tilgreindum ákvæðum umferðarlaga. Hann er fæddur 1979 en hefur þrívegis sætt refsingum fyrir brot gegn 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðalaga og einu sinni gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og þrívegis verið sviptur ökurétti. Við ákvörðun refsingar ákærða er til þess að líta að með broti sínu olli hann miklum meiðslum og var hending ein að ekki hlaust af því mannsbani. Með hliðsjón af þessu er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði, en fresta má fullnustu hennar haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Einnig skal hann sviptur ökurétti í tvö ár. Þá skal ákærði greiða 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað. Telst þetta varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 25. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.” Samkvæmt lögregluskýrslu dags. 7. nóvember 2003 var lögreglu tilkynnt um áreksturinn, sem lýst er í ákærunni, kl. 13.47 ofangreindan dag. Í skýrslunni segir svo: ,,Áreksturinn varð á Eiðisgranda rétt vestan gatnamóta Rekagranda. Þar sem áreksturinn varð er Eiðsgrandinn ein akrein í hvora átt og er breidd hvorrar akreinar 3,5 metrar. Á milli akreinanna er autt svæði afmarkað með óbrotnum línum og breidd svæðisins 3 metrar. Á þessum vegarkafla er Eiðsgrandi bein og yfirsýn góð. Sjá nánar vettvangsuppdrátt. Yfirbor vegarins var blautt og ekki hægt að merkja nein hemlaför á yfirborðinu.” Þá segir að greinilegt hafi verið af ummerkjum á vettvangi að áreksturinn hafi orðið á nyrði helmingi vegarins. Ökumaður bifreiðarinnar [2] var meðvitundarlaus, en ökumaður [1], ákærði í máli þessu, hafi verið í bifreið sinni er lögreglan kom á vettvang. Áður en hann var fluttur á slysadeild náðist að ræða stuttlega við hann. Segir í skýrslunni að hann hafi ekkert munað eftir aðdraganda óhappsins. Rætt var við ákærða á slysadeild og greindi hann þá svo frá, að hann myndi ekki eftir aðdraganda slyssins. Hann kvaðst hafa ekið utan af Nesi, austur Eiðisgranda, hann kvaðst hafa keypt hamborgara og kókdós í verslun skömmu áður og hafi hann verið byrjaður að borða hamborgarann á þessari akstursleið. Hann hafi lagt hamborgarann frá sér í farþegasæti milli þess sem hann tók munnbita af honum. Kókdósina kvaðst hann ekki hafa verið búinn að opna. Í skýrslunni er lýst aðgerðum lögreglu á vettvangi og því að auglýst hafi verið eftir vitnum og eftir það hafi vitnin B og H gefið sig fram. Y slasaðist mikið við áreksturinn og í viðtali við hana kom fram að hún mundi ekki eftir honum. Fékkst þetta einnig staðfest í viðtali við eiginmann hennar, sem greindi frá minnistapi Y. Af þessum sökum var hvorki tekin af henni skýrsla undir rannsókn málsins né undir aðalmeðferð þess. Í skýrslutöku hjá lögreglunni 15. janúar sl. greindi ákærði svo frá að hann myndi ekki eftir slysinu. Hann myndi eftir sér akandi framhjá verslun Bónuss við Eiðistorg og síðan er hann rankaði við sér eftir slysið fastur í bifreið sinni. Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi. Ákærði kvaðst ekki muna eftir aðdraganda slyssins. Hann kvaðst ekki vita hvers vegna hann beygði yfir á akrein fyrir umferð á móti, en kvað hugsanlegt að sprungið hefði á bifreið sinni og hann misst stjórn á henni. Ákærði kvaðst ekki vita þetta. Hann kvaðst síðan muna eftir sér fyrir slysið er hann ók framhjá umferðarljósum við Eiðistorg. Eftir slysið kvaðst hann fyrst muna atburði er hann rankaði við sér í bíl sínum eftir slysið og hafi hann átt erfitt með andardrátt. Hann hafi séð strák koma hlaupandi að bílnum og aðstoðað sig út úr honum. Ákærði kvaðst hafa komið við í sjoppu á Melabraut 19, þar sem hann hafi keypt hamborgara og kók. Hann kvaðst hafa verið byrjaður að borða hamborgarann á þessari akstursleið og hafi hann lagt hann í farþegasætið eftir hvern munnbita. Við skoðun bifreiðarinnar á vettvangi fannst hamborgarinn á gólfinu fyrir framan farþegasætið. Ákærði lýsti afleiðingum slyssins fyrir sig, en hann hafi brákast, 8 rifbein brotnað og hann hlotið höfuðhögg og fleiri áverka. Hann hafi verið frá vinnu í 6 vikur af þessum sökum. Vitnið H kvaðst hafa ekið bíl sínum af Skeljagranda, inn á Eiðsgranda og framhjá Seilugranda er hún sá til bifreiðar ákærða á öfugum vegarhelmingi. Hún kvaðst hafa séð er bifreiðinni var skyndilega beygt yfir á öfugan vegarhelming og hafi hún talið að eitthvað hafi komið fyrir og séð ökumann á milli framsætanna. Nánar aðspurð um þetta kvað hún að sér hafi komið til hugar að eitthvað hafi komið fyrir ökumanninn, hann sofnað, eða liðið hefði yfir hann, þar sem hann hafi hallast yfir til hægri í áttina að farþegasætinu. Hún kvaðst ekki hafa séð hann beygja sig niður. Hún kvaðst ekki minnast þess að hafa heyrt hvell eins og ef hvellsprungið hefði á bifreið. Vitnið B kvaðst hafa ekið frá Eiðistorgi á þessum tíma og undan sér hafi ekið tvær bifreiðar. Allt í einu hafi bifreið ákærða tekið sig út úr og verið ekið í aflíðandi beygju yfir á akreinina fyrir umferð á móti og árekstur orðið. B kvaðst ekki hafa séð neina ástæðu fyrir þessu aksturslagi ákærða. Bifreið ákærða hafi ekki verið hemlað og hann hafi ekki séð neina hindrun, sem hafi orðið þessa valdandi. B var spurður hvort hann hafi heyrt hvell, eins og ef hvellsprungið hefði á bifreið. Hann kvaðst ekki hafa heyrt annan hvell en þann, er bifreiðarnar skullu saman. Hann kvaðst ekki hafa séð til ákærða og ekki tekið eftir því hvort hann hafi beygt sig til hliðar. Vitnið Guðlaugur Einarsson rannsóknarlögreglumaður kom á staðinn. Hann kvað engin hemlaför hafa fundist eftir bifreiðarnar sem skullu saman, en yfirborð vegar var blautt sem minnki líkur á því að hemlaför sjáist. Guðlaugur kvaðst hafa haft tal af ákærða eftir slysið. Komið hafi í ljós að hann mundi ekkert eftir aðdraganda þess. G kvað ekkert hafa komið fram við rannsókn á vettvangi, sem benti til þess að hvellsprungið hefði á bifreið ákærða fyrir áreksturinn, en hann kvað erfitt að fullyrða um þetta. G minnti að ákærði hafi gefið upp 50 - til 60 km ökuhraða og ef hvellspringur á bifreið á þeim hraða þá komi annaðhvort gúmmíför í malbikið eða för eftir felguna. Hvorugu hafi verið til að dreifa á vettvangi, en þessa hafi verið leitað eftir að bílarnir voru fjarlægðir. Vitnið J rannsóknarlögreglumaður skýrði og staðfesti vettvangsuppdrátt sem hann gerði, en engin hemlaför hafi fundist og engin ummerki um að hvellsprungið hefði á bifreið ákærða fyrir áreksturinn. J var spurður hvers vegna ekki hefði verið kallað í bíltæknimenn á vettvang. Kvað hann ástæðuna þá að lögreglumenn, sem færu á vettvang, hefðu ekki aðgang að slíku manni eins og áður var. J kvaðst í þessu tilviki hafa talið ástæðu til að kalla út slíkan mann á vettvang. Aðspurður um það hvers vegna bifreið ákærða var ekki skoðuð eftir að hún var flutt af vettvangi, kvaðst hann ekki hafa komið að þeirri ákvörðun, það sé í verkahring þeirra sem annist framhaldsrannsókn málsins. S rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og skýrði ljósmyndir sem hann tók af vettvangi. Fyrir liggur læknisvottorð Y, sem dags. er 10. febrúar 2004. Svavar Haraldsson bæklunarlæknir ritaði vottorðið og kom hann fyrir dóm og skýrði það og greindi frá afleiðingum slyssins fyrir Y og batahorfum. Niðurstaða Sannað er með vitnisburði H og B og með ljósmyndum af vettvangi, sem sýna hvar bifreiðarnar ráukust saman, að bifreið ákærða fór yfir á öfugan vegarhelming, eins og lýst er í ákærunni. Ákærði man ekki andartökin áður en áreksturinn varð og hefur því ekki getað borið um það hvers vegna bifreið hans fór þessa leið. Eins og rakið var hefur Y, ökumaður bifreiðarinnar [2], ekki getað upplýst um aðdraganda slyssins. Lögreglumenn sem komu á vettvang höfðu tal af ákærða og þá kom í ljós að hann gat ekki greint frá aðdraganda slyssins. Vitnið J rannsóknarlögreglumaður lýsti því að ekki hefði verið kallað á sérfróðan aðila til að skoða bifreiðarnar á staðnum vegna þess að lögreglan hefði ekki aðgang að slíkum manni. J kvaðst hafa talið ástæðu til að gera það. Þá liggur fyrir að bifreið ákærða var ekki skoðuð af sérfróðum aðilum eftir að hún var flutt á brott og samkvæmt lögregluskýrslu dags. 1. apríl sl. var búið að rífa bifreiðina í varhluti er það var kannað sama dag. Samkvæmt þessu fór engin skoðun fram á bifreið ákærða í því skyni að ganga úr skugga um það hvort bilun í bílnum gæti skýrt aksturslag bifreiðarinnar í greint sinn, eða hvort að sprunginn framhjólbarði gæti skýrt aksturinn. Þetta hefði þurft að gera eins og á stóð, enda lá fyrir að ökumenn bifreiðanna gátu ekki borið um aðdraganda slyssins. Ekkert í gögnum málsins skýrir aksturslag ákærða, þótt vitni hafi lýst akstursleið hans fyrir áreksturinn. Fram kom að ákærði hafði skömmu fyrir áreksturinn borðað hamborgara, sem hann kvaðst hafa lagt frá sér í farþegasæti á milli þess sem hann tók bita af honum. Við rannsókn á bifreið ákærða fannst hamborgari á gólfi fyrir framan farþegasætið, sem staðfestir frásögn ákærða um þetta. Þó nærtæk kunni að virðast sú skýring að ákærði hafi misst stjórn á bifreiðinni við að beygja sig eftir hamborgaranum liggur ekkert fyrir um það. Það er álit dómsins að nokkuð skorti á að rannsókn máls þessa hafi verið sem skyldi. Eftir að ljóst varð hvers kyns var, það er að fólk slasaðist alvarlega og ökumenn bifreiðanna gátu ekki greint frá aðdraganda slyssins, bar eins og á stóð að rannsaka bifreið ákærða með tilliti til alls þess sem nú hefur verið rakið, einkum stýrisbúnað bifreiðarinnar og hvort ástæða sprungins hjólbarða verði rakin til árekstursins, eða hvort hjólbarðinn kunni að hafa sprungið áður og rekja megi orsök slyssins til þess. Að öllu ofanrituðu virtu þykir ekki fram komin lögfull sönnun þess að slysið, sem lýst er í ákærunni, verði rakið til gáleysis ákærða svo varði við þau lagaákvæði, sem í ákæru greinir. Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða af kröfum ákæruvaldsins. Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar 120.000 krónur í málsvarnarlaun til Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns. Þorsteinn Skúlason, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, flutti málið fyrir ákæruvaldið. Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn. DÓMSORÐ: Ákærði, X, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar 120.000 krónur í málsvarnarlaun til Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns. |
Mál nr. 544/2005 | Kærumál Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 | Í greinargerð ríkislögreglustjóra kemur fram að kærði hafi komið til landsins með flugi [...] frá [...] þann 20. september sl. Við komuna til landsins hafi kærði framvísað fölsuðum skilríkjum, nánar tiltekið fölsuðu albönsku vegabréfi og fölsuðu grísku nafnskírteini og var í Héraðsdómi Reykjaness dæmdur í 45 daga fangelsi þann 30. september sl. Kærði hóf afplánun dómsins þann sama dag og var dómurinn fullnustaður þann 14. nóvember sl. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. janúar 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 15. desember 2005 var fallist á beiðni grískra dómsmálayfirvalda um að varnaraðili yrði framseldur til Grikklands. Í 2. málslið 1. mgr. 18. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er mælt fyrir um að sé sá sem óskast framseldur ekki í haldi megi handtaka hann og úrskurða í gæslu uns hann er afhentur eða takmarka frelsi hans með öðrum hætti eftir því sem segi í lögum um meðferð opinberra mála. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal úrskurður um þvingunaraðgerðir þó ekki gilda lengur en í 30 daga eftir að endanleg ákvörðun um framsal hefur verið tekin. Þegar sérstaklega stendur á er þó heimilt að beita þvingunarráðstöfunum í lengri tíma. Í 15. gr. laganna er enn fremur fjallað um þvingunaraðgerðir, sem lög um meðferð opinberra mála heimila, í tengslum við rannsókn vegna framsalsbeiðna. Í 2. mgr. segir að slíkum aðgerðum megi beita uns úr því sé skorið hvort framsal skuli fara fram og síðan þangað til framsal er framkvæmt sé það heimilað. Síðan segir í málsgreininni: „Ef kveðinn er upp úrskurður um gæsluvarðhald, skal því ekki markaður lengri tími en 3 vikur. Þyki nauðsyn bera til að lengja gæsluvarðhaldstímann, skal það gert með úrskurði á dómþingi, þar sem gæslufanginn er viðstaddur. Ekki má framlengja gæsluvarðhaldstímann um meira en 2 vikur í senn.“ Líta verður svo á að síðastnefndar tímatakmarkanir eigi ekki aðeins við um gæsluvarðhald vegna rannsóknar í tilefni af framsalsbeiðni heldur einnig um gæsluvarðhald samkvæmt 18. gr. laga nr. 13/1984 eftir að fallist hefur verið á slíka beiðni. Samkvæmt þessu er nú óheimilt að framlengja gæsluvarðhald varnaraðila um lengri tíma en tvær vikur frá því að fyrra gæsluvarðhald hans rann út. Með vísan til 18. gr. laga nr. 13/1984, sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, og með hliðsjón af hinum alvarlegu sakargiftum sem beinast að varnaraðila í Grikklandi, skal hann samkvæmt framansögðu sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. janúar kl. 16. Dómsorð: Varnaraðili, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. janúar kl. 16. |
Mál nr. 169/1998 | Útboð Verksamningur Skaðabætur EES-samningurinn EFTA-dómstóllinn Ráðgefandi álit Sératkvæði | B átti lægsta boð í útboði á vegum Í, R og M vegna framkvæmda við byggingu Borgarholtsskóla. Við boð sitt hafði B meðal annars notað tilboð frá F í þakeiningar og uppsetningu þeirra, en þakeiningar F voru frá norskum framleiðanda. Í verksamningi byggingarnefndar skólans, sem fram kom gagnvart bjóðendum, og B, var í 3. gr. kveðið á um, að við það væri miðað að þakeiningar skyldu smíðaðar hérlendis. Í máli sem F höfðaði gegn B, féllst héraðsdómur á kröfu F um bætur vegna kostnaðar sem F hefði haft af tilboðsgerð sinni. Hins vegar var kröfu F um efndabætur hafnað, þar sem ekki var talið að komist hefði á bindandi samningur milli F og B. F krafði Í, R, M og byggingarnefndina um bætur vegna tapaðs arðs og vísaði til þess að áskilnaður byggingarnefndarinnar um að þakeiningarnar skyldu smíðaðar á Íslandi gengju gegn 4. og 11. gr. EES-samningsins. Með úrskurði Hæstaréttar var ákveðið að leita skyldi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, sem komst að þeirri niðurstöðu að ákvæði, eins og það sem 3. gr. verksamningsins hefði að geyma, væri andstætt 11. gr. EES-samningsins og yrði ekki réttlætt á grundvelli 13. gr. hans. Talið var, að það leiddi af 3. gr. EES-samningsins, að íslenskir dómstólar skyldu hafa hliðsjón af áliti EFTA-dómstólsins við skýringu á efni ákvæða samningsins. Þar sem ekkert þótti fram komið, sem leitt gæti til þess, að vikið yrði frá álitinu, var talið sýnt að ákvæði 3. gr. verksamningsins bryti í bága við 11. gr. EES-samningsins og væri því ólögmætt. B hefði notað tilboð F óbreytt, en það yrði ekki öðruvísi skilið en sem loforð um að F fengi verkið, að því tilskildu að boði B yrði tekið og verkkaupi samþykkti F sem undirverktaka. Af gögnum málsins þótti ljóst, að það hefði eingöngu verið vegna afstöðu byggingarnefndarinnar að F varð af samningnum. Eins og atvikum málsins var háttað var ákvörðunin metin nefndinni til sakar, og bæru Í, R og M skaðabótaábyrgð á því tjóni, sem rakið yrði til ákvörðunarinnar eftir almennum reglum. Talið var ljóst að nefndarmönnum byggingarnefndarinnar hefði mátt vera ljóst, að með því að verða til þess að F varð af samningnum stuðluðu þeir að því, að hann færi á mis við hagnað af honum. Var talið að ólögmæt háttsemi nefndarinnar stæði í svo nánum tengslum við væntanlegan samning B og F, að sá síðarnefndi ætti rétt á nokkrum bótum fyrir missi af hagnaðarvon enda stæðu sett lög ekki til annars. Ákvæði 20. gr. laga nr. 65/1993 um útboð, þar sem kveðið er á um að bótafjárhæð skuli miðast við kostnað við að undirbúa tilboð og að taka þátt í útboði, var ekki talið eiga við í málinu. Þá þótti 27. gr. laga nr. 63/1970, sbr. 2. gr. laga nr. 55/1993, ekki vera því til fyrirstöðu, að F fengi bætur vegna missis hagnaðar. Voru F því dæmdar bætur fyrir missi hagnaðar, sem ákveðnar voru að álitum með hliðsjón af kostnaðarreikningi F. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason. Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 22. apríl 1998. Hann krefst þess, að stefndu greiði 4.289.440 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, 0,5% ársvöxtum frá 21. apríl 1995 til 1. júní sama árs, og 0,65% frá þeim degi til 3. nóvember sama árs, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talinn kostnað vegna meðferðar málsins fyrir EFTA-dómstólnum. Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Nokkur ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Varða þau aðallega ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins 12. maí 1999, en með úrskurði Hæstaréttar 25. júní 1998 var fallist á ósk áfrýjanda um að leita þess álits. Þá hefur verið lagður fram samningur stefndu, íslenska ríkisins, Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar sín í milli 28. janúar 1993 um stofnun Borgarholtsskóla. I. Í janúar 1995 voru boðnar út framkvæmdir við byggingu Borgarholtsskóla í Reykjavík. Útboðið var á vegum íslenska ríkisins, Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar og skyldi tilboðum skilað til Ríkiskaupa. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 63/1970 um skipan opinberra framkvæmda giltu þau lög um framkvæmdir þessar og að 22. gr. þeirra laga, sbr. 2. gr. laga nr. 55/1993, fór útboðið fram á Evrópska efnahagssvæðinu. Verkkaupi var byggingarnefnd skólans og kom hún fram gagnvart bjóðendum. Um útboð þetta giltu einnig lög um framkvæmd útboða nr. 65/1993, sbr. 1. gr. þeirra laga, og í útboðsskilmálum kom fram að ÍST 30, sem er íslenskur staðall um almenna útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir, væri hluti útboðsgagna. Byrgi ehf. bauð í verkið og þar sem útboðsgögn gerðu ráð fyrir að nota mætti þakeiningar til verksins hafði fyrirtækið samband við áfrýjanda og falaðist eftir tilboði í þann verkþátt. Með bréfi 2. febrúar 1995 gerði áfrýjandi Byrgi ehf. tilboð í þakeiningarnar og uppsetningu þeirra. Var í tilboðinu vísað til viðeigandi liða í verklýsingu útboðsins. Samtals bauðst áfrýjandi til að vinna verkþáttinn fyrir 30.642.770 krónur. Fram var tekið í tilboði hans að allar upplýsingar varðandi verkið yrðu lagðar fram, en sækja yrði um undanþágu frá byggingarreglugerð vegna þakeininganna, en áfrýjandi hafði áður fengið undanþágu vegna smíði þaks annarrar byggingar. Áfrýjandi segir Byrgi ehf. hafa tekið þessu tilboði og notað það við gerð síns tilboðs til Ríkiskaupa. Byrgi ehf. varð lægstbjóðandi í verkið, en í samningaviðræðum sem fram fóru var af hálfu byggingarnefndar skólans farið fram á að notaðar yrðu þakeiningar, sem settar yrðu saman hér á landi. Verksamningur var síðan gerður 21. apríl 1995 og segir þar í 3. gr.: „Til grundvallar er lagt aðaltilboð verktaka og við það miðað að þakeiningar verði smíðaðar hérlendis.“ Áfrýjandi telur að fyrirsvarsmenn byggingarnefndarinnar hafi, með því að krefjast þess að sett yrði framangreint skilyrði í verksamninginn, komið í veg fyrir að hann fengi umrætt verk. Með bréfi 9. júní 1995 mótmælti hann því við fjármálaráðuneytið að þetta ákvæði hefði verið sett í verksamninginn. Taldi hann að með því væru brotin lög um framkvæmd útboða nr. 65/1993, reglur um opinber innkaup og framkvæmdir á Evrópska efnahagssvæðinu og einnig bryti það í bága við útboðsstefnu ríkisins. Stefndu benda á að tekið hafi verið fram í verklýsingu að teikningar í útboðsgögnum væru ekki af fullhönnuðum burðarvirkjum í þaki og hafi verktaki átt að leggja fram endanlegar teikningar til verkkaupa og afla nauðsynlegra samþykkta byggingaryfirvalda á burðarþoli og tæknilegum lausnum. Þá hafi komið fram í verkskilmálum að ekki mætti sækja um undanþágu frá gildandi lögum eða reglugerðum án undangengis samþykkis verkkaupa. Segir í bréfi byggingarnefndarinnar 13. september 1995 að ástæða þess að samið var um smíði eða samsetningu hérlendis hafi verið sú að með því hafi mátt fylgjast með þessari framkvæmd, enda vilji nefndin gera strangar kröfur um gæði og frágang og forðast lausnir er hún þekki ekki og háðar séu sérstakri undanþágu byggingaryfirvalda frá ákvæðum byggingarreglugerðar. Nefndin telji sig að höfðu samráði við ráðgjafa fá betra þak með þessum hætti. Áfrýjandi höfðaði skaðabótamál á hendur Byrgi ehf. og krafðist bóta vegna kostnaðar við gerð tilboðsins og vegna tapaðs arðs. Héraðsdómur Reykjaness kvað upp dóm í því máli 9. desember 1996 og komst að þeirri niðurstöðu að umrætt ákvæði verksamningsins bryti í bága við 4. gr. og 11. gr. EES-samningsins. Áfrýjanda hafi í raun verið hafnað sem undirverktaka að umræddu verki vegna ólögmæts ákvæðis í verksamningi Byrgis ehf. og stefndu byggingarnefndar Borgarholtsskóla en ekki af málefnalegum ástæðum. Hann þótti því eiga rétt á að fá bættan kostnað við tilboðsgerðina. Hins vegar var kröfu hans um efndabætur hafnað þar sem ekki var talið að komist hefði á bindandi samningur milli áfrýjanda og Byrgis ehf. samkvæmt ÍST 30, grein 34.8.0. Áfrýjandi þingfesti síðan skaðabótamál á hendur stefndu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 19. júní 1997 og krafðist bóta vegna tapaðs arðs af verkinu. II. Áfrýjandi kveðst hafa þann tilgang með áfrýjun sinni að hnekkja mati héraðsdóms um að 3. gr. í verksamningi Byrgis ehf. við stefndu byggingarnefnd Borgarholtsskóla brjóti ekki í bága við ákvæði EES-samningsins og að starfsmenn stefndu hefðu ekki með saknæmri og ólögmætri háttsemi bakað áfrýjanda tjón sem gæti orðið grundvöllur skaðabótakröfu hans. Kveðst hann reka mál þetta á grundvelli almennra reglna íslensks réttar um skaðabætur utan samninga, auk þess að byggja það á reglum EES-réttar. Stefndu mótmæla því að þeir beri ábyrgð á einhverju tjóni, sem áfrýjandi hafi orðið fyrir vegna viðskipta sinna við Byrgi ehf. Vitnað er til röksemda héraðsdóms. Ákvæði verksamningsins hafi einungis haft það að markmiði, sem telja verði málefnalegt, að tryggja það að verkið yrði unnið í samræmi við íslensk lög og reglur. Lausn áfrýjanda á framkvæmdunum hafi ekki uppfyllt réttmætar kröfur og hafi hún beinlínis verið andstæð ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 177/1992. Í ljósi þessa telja stefndu að með umræddu ákvæði verksamningsins hafi ekki verið brotið gegn þeim ákvæðum EES-samningsins, sem áfrýjandi byggi á, enda hafi ákvæðið verið niðurstaða samningaviðræðna aðila. Þótt litið yrði svo á að orðalag 3. gr. verksamningsins fái ekki staðist samningsskuldbindingar íslenska ríkisins að EES-rétti hafi ekki verið sýnt fram á orsakatengsl milli ákvæðisins og tjóns áfrýjanda. Þá benda þeir á að ekkert samningssamband sé milli aðila málsins og að áfrýjandi hafi þegar sótt bætur í hendur viðsemjanda síns Byrgis ehf. III. Með beiðni 24. apríl 1998 óskaði áfrýjandi eftir því að Hæstiréttur leitaði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á nánar tilgreindum atriðum málsins um skýringu 4. gr. og 11. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins), sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Nánar tiltekið óskaði áfrýjandi þess að þrjár spurningar yrðu bornar upp við dómstólinn. Lutu fyrstu tvær spurningarnar að því hvort 3. gr. verksamningsins væri í andstöðu við 4. eða 11. gr. EES-samningsins. Þriðja spurningin laut svo að því hvort til skaðabótaréttar stofnist við brot á 4. og 11. gr. samningsins á grundvelli dóms Evrópudómstólsins 19. nóvember 1991 í málum nr. 6/90 og 9/90, Francovich o.fl. gegn ítalska ríkinu. Með úrskurði Hæstaréttar 25. júní 1998 var á það fallist að tilefni væri til þess að leita álits EFTA-dómstólsins vegna þeirra atriða, sem fyrstu tvær spurningarnar lutu að, sbr. 3. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Hins vegar þótti áfrýjandi ekki hafa sýnt fram á að þriðja spurning hans kæmi að notun við efnislega úrlausn Hæstaréttar, þar sem hann hefði ekki vísað sérstaklega til reglna Evrópska efnahagssvæðisins um bótaheimild. Var beiðni hans um þriðju spurninguna því hafnað. Þá var einnig hafnað beiðni stefndu um að leitað yrði svara við því hvort efni greinar 7.5.11 byggingarreglugerðar nr. 177/1992 væri í andstöðu við 11. gr. EES-samningsins, þar sem um tæknilegt atriði væri að ræða og undanþága væri tæpast veitt frá þessu ákvæði nema frágangur þaks með umræddum þakeiningum gerði kröfur samkvæmt ákvæðinu óþarfar. Samkvæmt úrskurði Hæstaréttar var því leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um eftirfarandi spurningar: 1. Stendur 4. gr. EES-samningsins því í vegi að sett verði í verksamning ákvæði um að við það verði miðað að þakeiningar verði smíðaðar á Íslandi? 2. Stendur 11. gr. EES-samningsins í vegi ákvæði af þessu tagi? EFTA-dómstóllinn lét uppi ráðgefandi álit um þessar spurningar 12. maí 1999 í máli nr. E-5/98. IV. Byrgi ehf. óskaði eftir því við áfrýjanda að hann byði í gerð þakeininga Borgarholtsskóla og notaði tilboðið óbreytt í boð sitt í heildarverkið. Í útboðsskilmálum var ekkert sem útilokaði að notaðar væru innfluttar þakeiningar eins og þær sem áfrýjandi bauð fram og samkvæmt framburði arkitekts hússins var út frá því gengið að nota mætti slíkar einingar í þakið. Hins vegar voru teikningar í útboðsgögnum ekki af fullhönnuðum burðarvirkjum þaks og skyldi verktaki leggja fram endanlegar teikningar til verkkaupa og afla nauðsynlegra samþykkta byggingaryfirvalda á burðarþoli, tæknilegum lausnum svo sem útloftun, þakþéttingum, hljóðdempum og brunaþoli. Verktaki gat þannig komið með sjálfstæðar tillögur um þakið. Hins vegar varð hann samkvæmt verkskilmálum að fá samþykki verkkaupa áður en sótt yrði um undanþágu frá lögum eða reglum. Þá er ekki annað fram komið en að um almennt útboð hafi verið að ræða og verkkaupa því heimilt að taka hvaða tilboði sem væri eða hafna þeim öllum, sbr. 13. gr. laga nr. 65/1993. Verður ekki talið að 3. gr. verksamnings Byrgis ehf. og stefnda um að miðað sé við að þakeiningar skuli smíðaðar hérlendis hafi brotið gegn 16. gr. laga nr. 65/1993. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 2/1993 er meginmál EES-samningsins hluti af íslenskum lögum. Áður er sagt frá því að ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins var leitað. Taldi dómstóllinn það leiða af tilvitnuðum fordæmum dómstóls Evrópubandalaganna að ákvæði í skilmálum opinbers verksamnings gæti fallið undir bannið í 30. gr. stofnsáttmála EB (eftir breytingu, 28. gr. hans), sem svarar til 11. gr. EES-samningsins, en samkvæmt ákvæði 6. gr. hans ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samningsins að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem kveðnir voru upp fyrir undirritunardag samningsins. Þá taldi dómstóllinn ljóst að byggingarnefndin hefði komið fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og yrði því að teljast opinbert samningsyfirvald. Taldi hann því að 11. gr. EES-samningsins yrði beitt um ákvæði eins og áðurnefnda 3. gr. verksamningsins. Dómstóllinn tók fram að samkvæmt greindum fordæmum dómstóls EB banni 11. gr. allar reglur um viðskipti settar af aðildarríkjum sem til þess séu fallnar að hindra viðskipti innan bandalagsins, beint eða óbeint, hugsanlega eða raunverulega. Séu reglur þessar taldar hafa samsvarandi áhrif og magntakmarkanir á innflutningi. Þar sem mál þetta lyti að því hvort ákvæði í opinberum verksamningi, sem mæli fyrir um að þakeiningar verði smíðaðar á Íslandi, sé samrýmanlegt 11. gr. EES-samningsins hefði það þau áhrif að koma í veg fyrir að innfluttar þakeiningar yrðu notaðar í umrætt verk. Ákvæðið fæli þannig í sér takmarkanir á viðskiptum í skilningi greindra dómafordæma og bryti því gegn ákvæðum 11. gr. EES-samningsins. Ekki var talið að samningaumleitanir eftir útboð yrðu greindar frá útboðinu sjálfu. Þá taldi EFTA-dómstóllinn að ekki mætti réttlæta 3. gr. verksamningsins með vísan til ákvæðis 13. gr. EES-samningsins, sem veitir undanþágu frá ákvæðum 11. gr. varðandi höft sem réttlætast af vernd á heilsu og lífi manna. Niðurstaða EFTA-dómstólsins var því sú að ákvæði í opinberum verksamningi, sem tekið væri upp í samning eftir að útboð hefur farið fram að kröfu samningsyfirvalds og væri þess efnis að þakeiningar sem nota þyrfti til verksins yrðu smíðaðar á Íslandi væri ráðstöfun sem hefði samsvarandi áhrif og magntakmarkanir á innflutningi, sem 11. gr. EES-samningsins legði bann við. Þá yrði slík ráðstöfun ekki réttlætt með vísan til verndar á heilsu og lífi manna samkvæmt 13. gr. EES-samningsins. Álit EFTA-dómstólsins eru ekki bindandi að íslenskum rétti, sbr. 1. gr. laga nr. 21/1994, en heimildir íslenskra dómstóla til að leita slíks álits eru til þess veittar að stuðla að samkvæmni og einsleitni í skýringum á ákvæðum EES-samningins og þar með á samræmdri framkvæmd samningsins á öllu hinu Evrópska efnahagssvæði, en það er eitt af markmiðum samningsins, eins og meðal annars kemur fram í 4. mgr. aðfararorða hans og nánar er kveðið á um í 1. þætti 3. kafla hans. Hafa Íslendingar skuldbundið sig til að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að stuðla að þessum markmiðum, sbr. 3. gr. EES-samningsins. Af þessu leiðir að íslenskir dómstólar eiga að hafa hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins við skýringar á efni ákvæða EES-samningsins. Ekkert þykir fram komið, sem leitt getur til þess að vikið verði frá framangreindu ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um efni ákvæða 11. gr. EES-samningsins. Verður að telja að sýnt hafi verið fram á það í málinu að umdeilt ákvæði 3. gr. verksamnings Byrgis ehf. og stefndu byggingarnefndar Borgarholtsskóla hafi brotið í bága við ákvæði EES-samingsins og því verið ólögmætt. Af þessu samningsákvæði leiddi að samningur komst ekki á milli áfrýjanda og Byrgis ehf., sbr. grein 34.8.0. ÍST 30, en af gögnum málsins verður að telja fram komið að ekki hefði átt að verða fyrirstaða af hálfu byggingaryfirvalda á að veita undanþágu vegna þaksins. Byrgi ehf. hafði notað tilboð áfrýjanda óbreytt, en það varð ekki öðru vísi skilið en sem loforð um að áfrýjandi fengi verkið að því tilskildu að tilboðinu yrði tekið og verkkaupi samþykkti áfrýjanda sem undirverktaka. Af þessu og öðrum gögnum málsins þykir ljóst að það var eingöngu vegna afstöðu byggingarnefndarinnar að áfrýjandi varð af samningnum. Eins og atvikum málsins var háttað, verður ákvörðunin metin byggingarnefndinni til sakar og bera stefndu skaðabótaábyrgð á því tjóni sem rakið verður til ákvörðunarinnar eftir almennum skaðabótareglum. V. Áfrýjandi hefur þegar fengið bættan kostnað sinn við þátttöku í útboðinu frá Byrgi ehf. og krefst því eingöngu skaðabóta fyrir missi hagnaðar, sem hann telur nema stefnufjárhæðinni. Vitnar hann til framlagðs kostnaðarreiknings því til styrktar. Stefndu hafa mótmælt útreikningi stefnufjárhæðarinnar og benda á að hún styðjist hvorki við mat né útreikninga óvilhallra manna. Við meðferð málsins í héraði og við upphaf meðferðar þess fyrir Hæstarétti var svo sem áður greinir ekki sérstaklega vísað til bótaheimilda EES-réttar. Varð málatilbúnaður áfrýjanda ekki öðruvísi skilinn en svo, að hann byggði eingöngu á almennum íslenskum skaðabótareglum utan samninga. Sjónarmið áfrýjanda um að leggja skuli bótareglur EES-réttar til grundvallar við mat á því hverra skaðabóta hann getur krafist koma því ekki til skoðunar. Verður því ekki litið til dómafordæma EB-dómstólanna og EFTA-dómstólsins við úrlausn þess álitaefnis. Stefnda byggingarnefnd Borgarholtsskóla braut, eins og að framan greinir, rétt á áfrýjanda með því að sniðganga reglur EES-samningsins. Mátti nefndarmönnum vera ljóst að með því að verða til þess að áfrýjandi varð af samningnum stuðluðu þeir að því að hann færi á mis við hagnað af honum. Verður að telja að ólögmæt háttsemi byggingarnefndarinnar hafi staðið í svo nánum tengslum við væntanlegan samning Byrgis ehf. og áfrýjanda, að sá síðarnefndi geti átt rétt á nokkrum bótum fyrir missi af hagnaðarvon samkvæmt almennum skaðabótareglum verði hann talinn hafa sýnt fram á slíkt tjón. Gæta verður þó þess að lög mæla fyrir um hvaða tjón skuli bætt við útboð og verður að taka afstöðu til þess hvort þau lagaákvæði eigi við í máli þessu og með hvaða hætti. Samkvæmt 20. gr. laga nr. 65/1993 skal bótafjárhæð vegna brota á lögunum miðast við kostnað við að undirbúa tilboð og að taka þátt í útboði. Réttur áfrýjanda til skaðabóta verður ekki byggður á broti á útboðsskilmálunum sem slíkum samkvæmt því sem áður er frá greint. Auk þess á reglan aðeins beint við þegar útboðið er jafnframt ógilt og kostur gefst þannig á því að bjóða í verkið að nýju. Er ákvæðið ekki því til fyrirstöðu að áfrýjandi fái dæmdar bætur fyrir missi hagnaðar eins og hér stendur á. Samkvæmt 27. gr. laga nr. 63/1970, sbr. 2. gr. laga nr. 55/1993, er verkkaupi bótaskyldur vegna þess tjóns sem hann bakar verktaka með broti á VI. kafla laganna, en kaflinn fjallar um opinberar framkvæmdir á Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt síðari málslið ákvæðisins skal bótafjárhæðin miðast við kostnað við að undirbúa tilboð og að taka þátt í útboði. Ákvæði VI. kafla voru sett í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Var ákvæðum hans ætlað að fullnægja skyldu íslenska ríkisins um að lögfesta ákveðnar tilskipanir ráðs Evrópubandalaganna um opinber útboð, sbr. einkum tilskipun nr. 93/37/EBE um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga og tilskipun nr. 89/665/EBE um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla aðildarríkjanna á reglum um meðferð kæru vegna útboðs og gerðar opinberra vörukaupa- og verksamninga. Við meðferð Alþingis á frumvarpi til breytingarlaga nr. 55/1993 um þetta efni voru gerðar breytingar á 27. gr., en þá var 1. mgr. hennar samkvæmt frumvarpinu færð og gerð að síðari málsgrein 26. gr. Í þessari málsgrein er vitnað til 29. gr. laganna, en tilvitnunin þykir ásamt orðalagi núverandi 27. gr. benda til þess að ákvæðinu hafi ekki verið ætlað að gilda eftir að verksamningur var kominn á. Er þessi skýring í samræmi við túlkun á ákvæði 20. gr. laga nr. 65/1993, svo sem áður er rakið, en eðlilegt verður að telja að sambærileg bótaákvæði eigi við um öll útboð að þessu leyti. Með tilliti til þess sem hér er rakið verður að skýra ákvæði 27. gr. laga nr. 63/1970, sbr. 2. gr. laga 55/1993, á þann veg að það mæli fyrir um bætur til verktaka, sem brotið er gegn áður en tilboð frá bjóðanda hefur verið samþykkt, og eigi að auðvelda honum sönnun fyrir tjóni, óháð því hvort hann geti sýnt fram á að hann hefði orðið af verki. Verður ákvæðið því ekki talið því til fyrirstöðu að áfrýjandi fái bætur vegna missis hagnaðar sanni hann tjón sitt. Að framan er komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hafi nægilega sannað að hann hafi orðið af hagnaðarvon vegna ólögmætra aðgerða stefndu byggingarnefndar Borgarholtsskóla og getur hann átt rétt á nokkrum bótum úr hendi stefndu íslenska ríkisins, Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar, sem kostuðu verkið, en þeir verða taldir bera ábyrgð á ákvörðunum stefndu byggingarnefndar Borgarholtsskóla. Óþarft var hins vegar að stefna nefndinni. Erfitt er að sannreyna hvaða tjón áfrýjandi hefur beðið og óvissu gætir um hagnað af tilboði hans. Hafa stefndu haldið fram að í tilboðið hafi vantað verkþætti og aðrir verið vanáætlaðir. Við ákvörðun bóta má að nokkru styðjast við framlagðan kostnaðarreikning áfrýjanda, en taka verður tillit til þess að hann er ekki unnin af óvilhöllum matsmönnum. Bætur verða því dæmdar að álitum og þykja þær hæfilega metnar 1.850.000 krónur með ársvöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 21. apríl 1995 til þingfestingardags 19. júní 1997, en með dráttarvöxtum frá þeim tíma til greiðsludags. Samkvæmt þessum úrslitum ber stefndu að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talinn kostnað við að leita álits EFTA- dómstólsins, svo sem nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Stefndu, íslenska ríkið, Reykjavíkurborg og Mosfellsbær, greiði áfrýjanda, Fagtúni ehf., 1.850.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. apríl 1995 til 19. júní 1997, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Stefndu greiði áfrýjanda 1.400.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talinn kostnað við að leita álits EFTA-dómstólsins. Gögn málsins gefa til kynna, að hið umdeilda ákvæði 3. gr. verksamningsins milli Byrgis ehf. og byggingarnefndar Borgarholtsskóla hafi verið tekið upp í samninginn að kröfu nefndarinnar, án þess að gagnaðilinn fengi þar miklu um ráðið. Hafi nefndin litið svo á, að þær forsendur um gerð þaks á bygginguna, sem þar lágu til grundvallar, hafi ekki farið í bága við efni og markmið samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, gat hún vart tekið óheppilegar til orða. Í álitsgerð EFTA-dómstólsins 12. maí 1999 er það rökstutt með sannfærandi hætti, að ákvæðið hafi í raun farið í bága við 11. gr. þessa samnings sem ígildi magntakmörkunar á innflutningi til landsins. Má fallast á niðurstöður álitsgerðarinnar eftir efni hennar, eins og hún liggur fyrir, án þess að bollaleggja þurfi, hvort réttinum beri skylda til slíks eða ekki. Að íslenskum lögum var það almenn regla áður en lög nr. 65/1993 komu til skjalanna, að verktakar eða seljendur, sem yrðu fyrir barðinu á mistökum við framkvæmd útboðs á verki eða efni til þess, gætu átt rétt á vangildisbótum vegna fyrirhafnar sinnar við að taka þátt í útboðinu, að minnsta kosti ef sýnt væri fram á, að tilboð þeirra væru raunhæf og ekki fjarri því að koma til greina við val milli bjóðenda. Er eðlilegt að líta svo á, að 20. gr. laganna hafi ekki verið ætlað að breyta þessari reglu, heldur fremur að auðvelda þá sönnun, sem til þyrfti. Á sama hátt var það almenn regla, að verktaki eða seljandi gæti átt tilkall til efndabóta, ef honum tækist að gera það nægilega líklegt, að hann hefði beinlínis orðið af verki vegna annarlegra sjónarmiða við framkvæmd útboðs eða val milli tilboða af hálfu væntanlegs verkkaupa. Verður umrædd lagagrein ekki skýrð svo, að hún hafi áhrif á gildi þeirrar reglu. Það sem hér var sagt á einnig við um 27. gr. laga nr. 63/1970, sbr. 2. gr. laga nr. 55/1993, enda er ákvæði hennar um vangildisbætur orðað nákvæmlega eins og 20. gr. hinna laganna. Stefndu hafa ekki sýnt fram á, að endanleg smíði skólaþaksins hafi verið með þeim hætti, að af megi draga þá ályktun, að áfrýjandi hefði aldrei komið til greina sem undirverktaki Byrgis ehf. við smíðina, og þá af ástæðum, sem samrýmanlegar væru 11. gr. EES-samningsins þrátt fyrir áðurnefndan ljóð á verksamningnum. Með þessum athugasemdum er ég samþykkur atkvæði annarra dómenda. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 1998. Mál þetta sem dómtekið var 27. janúar sl. er höfðað með stefnu þingfestri 19. júní 1997 af Fagtúni hf., Brautarholti 8, Reykjavík gegn byggingarnefnd Borgarholtsskóla, íslenska ríkinu, Reykjavíkurborg og Mosfellsbæ. Dómkröfur Dómkröfur stefnanda er þær, að stefndu verði gert að greiða stefnanda 4.289.440 krónur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. lög 67/1989, frá 21. apríl 1995 til 3. nóvember 1995, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Þess er jafnframt krafist að dæmt verði að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 3. nóvember 1996, allt í samræmi við 12. gr. vaxtalaga. Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar. Þá krefjast stefndu málskostnaðar að mati dómsins og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefndu til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Málavextir Stefnandi lýsir málavöxtum svo að í janúarmánuði 1995 hafi verið boðnar út byggingaframkvæmdir við Borgarholtsskóla í Reykjavík. Útboð þetta hafi verið á vegum ríkisins, Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar, og skyldi tilboðum skilað til Ríkiskaupa merktu útboði nr. 10257. Verkkaupi hafi verið byggingarnefnd Borgarholtsskóla, Laugavegi 162, Reykjavík og hafi hún komið fram gagnvart bjóðendum. Útboðs- og verklýsing hafi verið samin af Arkitektastofu Finns Björgvinssonar og Hilmars Þórs Björnssonar hf., Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar hf. og Rafhönnun hf. Um útboð þetta hafi gilt lög um framkvæmd útboða nr. 65/1993 og í útboðsskilmálum komi fram, í lið 0.1.3 e), að Íslenskur staðall, ÍST 30, sé hluti útboðsgagna. Byrgi ehf. hugðist bjóða í verk þetta og þar sem útboðsgögn hafi gert ráð fyrir að notaðar yrðu þakeiningar hafi fyrirsvarsmenn Byrgis ehf. haft samband við stefnanda og leitað eftir tilboði í þann þátt verksins, þ.e. þakeiningarnar. Með bréfi dagsettu 2. febrúar 1995 hafi stefnandi gert tilboð í þakeiningarnar og uppsetningu þeirra. Í tilboðinu sé vísað til viðeigandi liða í verklýsingu útboðs nr. 10257. Tilboð stefnanda hafi hljóðað svo: Í lið 3.5.3 upp á 29.875.800 kr. Í lið 6.2.3 upp á191.670 kr. Í lið 6.2.4 upp á 575.300 kr. Samtals 30.642.770 kr. Tekið sé fram í tilboðinu varðandi lið 3.5.3 í verklýsingu að stefnandi muni leggja fram allar upplýsingar og tekið sé fram að sækja þurfi um undanþágu frá byggingarreglugerð vegna þakeininganna. Með bréfi dagsettu 9. mars 1995 til Gunnars St. Ólafssonar, tæknilegs ráðunauts stefnda, hafi verið gefinn 5% afsláttur frá tilboðsfjárhæð vegna hagstæðra samninga um flutning. Byrgi ehf. hafi samþykkt tilboð stefnanda og notað það við gerð tilboðs síns til Ríkiskaupa. Byrgi ehf. var lægstbjóðandi í útboðinu og í framhaldi af opnun tilboða hafi stefndi hafið viðræður við Byrgi ehf. um að taka verkið að sér. Gunnar St. Ólafsson hafi ritað Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar bréf þann 16. mars 1995, í samræmi við grein 0.1.9 í útboðslýsingu, þar sem hann veitir upplýsingar um Byrgi ehf. Í því bréfi komi fram að stefnandi muni sjá um þakeiningar sem undirverktaki og nota LETT TAK einingar. Í viðræðum Byrgis ehf. við stefnda hafi stefndi farið fram á að notaðar væru þakeiningar sem settar væru saman hér á landi. Í upphaflegum drögum að verksamningi hafi verið ákvæði um það að þakeiningarnar skyldu settar saman hérlendis. Þessu hafi Gunnar Ólafsson mótmælt fyrir hönd Byrgis ehf. og muni hafa farið fram á að verkkaupi setti fram formlega ósk þar um, enda hafi Byrgi ehf. gert samning við stefnanda um kaup á þakeiningum og uppsetningu á þeim. Að loknum samningaviðræðum hafi stefndi og Byrgi ehf. gert með sér verksamning þar sem segi í 3. gr. i.f. "Til grundvallar er lagt aðaltilboð verktaka og við það miðað að þakeiningar verði smíðaðar hérlendis." Byrgi ehf. hafi ekki getað útvegað íslenskar þakeiningar á húsið og mun hafa orðið úr að þakið var allt smíðað á staðnum í stað þess að nota þær einingar sem tilboðið gerði ráð fyrir. Samningar stefnda við Byrgi ehf. hafi leitt til þess að stefnandi varð af umræddu verki, þ.e.a.s. stærsta hluta þess, lið 3.5.3 í verklýsingu. Við það hafi stefnandi ekki viljað una og þegar hafið ráðstafanir til að ná fram rétti sínum. Þann 9. júní 1995 hafi stefnandi sent bréf til fjármálaráðuneytisins þar sem mótmælt var ákvæði í verksamningi um að þakeiningar skyldu settar saman hérlendis. Þá hafi þess verið farið á leit að ráðuneytið hlutaðist til um að áðurnefnd grein yrði ógilt og að það beitti sér fyrir því að óeðlilegum þrýstingi stefnda á Byrgi ehf. varðandi smíði þaksins, og þar með á viðskipti hans við stefnanda, yrði aflétt. Hafi stefnandi talið að með þessu væru brotin lög um framkvæmd útboða nr. 65/1993, reglur um opinber innkaup og framkvæmdir á Evrópska efnahagssvæðinu og bryti í bága við útboðsstefnu ríkisins. Með bréfi til stefnda, dagsettu 28. júlí 1995, hafi fjármálaráðherra lýst erindi því sem stefnandi hafði komið á framfæri við ráðuneytið í fyrrnefndu bréfi. Þar kom það fram að ráðuneytið hafði leitað álits hjá Arkitektastofu Hilmars Þórs Björnssonar og Finns Björgvinssonar, en þeir hafi verið aðalhönnuðir verksins. Samkvæmt upplýsingum frá Hilmari Þór Björnssyni arkitekt hafði þak Borgarholtsskóla verið hannað með þakeiningar í huga, svipaðar þeim frá LETT TAK A.S. í Noregi. Í verklýsingu hafi verið kveðið á um að þakeiningar skyldu byggðar upp skv. þeirri teikningu sem útboðinu fylgdi eða á annan sambærilegan hátt. Þá sagði í bréfinu að í tilboði sínu hefði Byrgi ehf. notað tölur úr tilboði stefnanda. Fjármálaráðuneytið hafi sagt um áðurefndan fyrirvara í verksamningnum: "Verður að líta svo á, að tilvitnað ákvæði í verksamningi samrýmist ekki ESS-samningnum, þó svo að réttmætar ástæður kunni að vera fyrir því vali á þakgerð, sem það felur í sér." Ennfremur hafi ráðuneytið beint þeim tilmælum til byggingarnefndarinnar að hún tæki ákvæði 3. gr. verksamningsins til athugunar og skýrði orðalag þess eða breytti því þannig að það fengi samrýmst ákvæðum ESS-samningsins. Stefndi hafi svarað með bréfi dagsettu 13. september 1995. Þar komi fram að ástæða þess að samið var um smíði eða samsetningu hérlendis hafi verið sú "að með því má fylgjast með þessari framkvæmd sem öðrum við byggingu hússins enda vill byggingarnefndin gera strangar kröfur um gæði og frágang þeirrar byggingar er hún er að reisa og forðast lausnir er hún þekkir ekki og háðar eru sérstöku samþykki byggingaryfirvalda hverju sinni um undanþágu frá ákvæðum byggingarreglugerðar. Nefndin telur sig þannig fá betra þak að höfðu samráði við ráðgjafa". Stefnandi hafi ekki viljað una skýringum stefnda á ástæðum fyrir breytingum á framkvæmd verksins frá verklýsingu varðandi lið 3.5.3, sem og ástæðum Byrgis ehf. fyrir að una kröfu nefndarinnar. Hafi stefnandi því höfðað skaðabótamál á hendur Byrgi ehf. og krafist bóta vegna kostnaðar við gerð tilboðsins og vegna tapaðs arðs. Niðurstaða dóms Héraðsdóms Reykjaness, í málinu nr. E-215/1996, uppkveðnum 9. desember 1996, hafi verið sú að umrætt ákvæði verksamningsins bryti í bága við 4. gr. og 11. gr. ESS-samningsins. Þar sem stefnanda hafi þannig í reynd verið hafnað sem undirverktaka í umræddu verki vegna ólögmæts samningsákvæðis í verksamningi Byrgis ehf. og stefnda, en ekki af málefnalegum ástæðum, þótti hann eiga rétt á að fá bættan þann kostnað sem hann hafði haft af tilboðsgerð sinni. Hins vegar hafi kröfu stefnanda um efndabætur verið hafnað þar sem ekki var talið að komist hefði á bindandi verksamningur milli stefnanda og stefnda samkvæmt ÍST 30, grein 34.8.0. Stefnandi hafi krafið stefnda um greiðslu bóta með bréfi þann 3. október 1995. Þeirri kröfu hafi verið hafnað með bréfi lögmanns stefnda, dags. 26. október 1995. Varðandi málavexti er á það bent af hálfu stefnda að samkvæmt grein 3.5.3. í útboðsskilmálum, sjá dskj. nr. 8, segi að þakeiningar skyldu spanna milli þakbita og skyldu byggðar upp skv. teikn. VSÓ nr. 3.120 "eða á annan sambærilegan hátt". Eins og tekið hafi verið fram í grein 3.5.0. hafi teikningar í útboðsgögnum ekki verið af fullhönnuðum burðarvirkjum í þaki og hafi verktaki átt að leggja fram endanlegar teikningar til verkkaupa og afla nauðsynlegra samþykkta byggingayfirvalda á burðarþoli og tæknilegum lausnum. Stefndu leggja áherslu á þetta vegna þeirrar tilvitnunar sem höfð sé uppi í stefnu til bréfs fjármálráðuneytisins, dags. 28. júlí 1995, um að arkitekt hússins hafi gefið þær upplýsingar að þak Borgarholtsskóla hafi verið hannað með þakeiningarnar í huga, svipaðar þeim frá LETT TAK A.S. í Noregi. Við vitnaleiðslur í héraðsdómsmáli því sem rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjaness sem mál nr. E-215/1996 hafi komið fram hjá arkitektinum staðfesting á því að þakið hefði ekki verið fullhannað við útboðið og þar hefðu ýmsar lausnir getað komið til greina, ekki endilega ein gerð þakeininga. Þá minna stefndu á að í grein 0.2.13. í útboðsskilmálunum hafi verið tekið fram að ekki mætti sækja um undanþágu frá gildandi lögum og reglugerðum án undangengis samþykkis verkkaupa. Í stefnu segi að Byrgi ehf. hafi ekki getað útvegað þakeiningar sem smíðaðar voru hér á landi og það muni hafa orðið úr að þakið hafi allt verið smíðað á staðnum í stað þess að nota þær einingar sem tilboðið gerði ráð fyrir. Þetta sé rangt. Byrgi ehf. hafi látið smíða þakeiningar til verksins hér á landi og fulltrúar Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og byggingafulltrúinn í Reykjavík hafi haft eftirlit með verkinu og m.a. gert kröfur um sérstakar styrkingar. Stefndu mótmæla þeirri lýsingu stefnanda á málsatvikum að 3. gr. verksamningsins við Byrgi ehf. hafi falið í sér breytingu á framkvæmd verksins frá verklýsingu varðandi lið 3.5.3. Um athugasemdir stefndu vegna lýsingar stefnanda á málsatvikum vísa stefndu að öðru leyti til þess sem gerð sé grein fyrir við umfjöllun um einstakar málsástæður hér síðar. Málsástæður stefnanda og lagarök Stefnandi byggir á því að tjón sem hann hafi orðið fyrir sé sennileg afleiðing ólögmætrar og saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda við framkvæmd starfs þeirra og beri stefndi því ábyrgð á tjóninu. Skilyrði verksamnings um að þakeiningarnar skyldu smíðaðar hérlendis brjóti í bága við ákvæði EES-samningsins og að starfsmönnum stefnda hafi mátt vera það ljóst þegar þeir settu skilyrðið. Lögmæti Fyrir liggi að Borgarholtsskóli var hannaður með þakeiningar í huga, svipaðar þeim sem stefnandi flytur inn frá LETT TAK A.S. í Noregi og hafi verið þær einingar sem stefnandi bauð fram í tilboði sínu til Byrgis ehf. því verið í samræmi við þá útboðslýsingu sem lögð var til grundvallar tilboðinu. Hefði stefndi ekki sett það skilyrði að þakeiningarnar yrðu smíðaðar hérlendis hefði stefnandi fengið umrætt verk. Samkvæmt VI. kafla laga nr. 63/1970 um skipan opinberra framkvæmda gildi reglur EES-samningsins um títtnefnt útboð. Á grundvelli 4. gr. samningsins sé hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs bönnuð. Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að í ákvæði 3. gr. verksamningsins, þess efnis að þakeiningarnar verði smíðaðar hér á landi, felist mismunun á grundvelli ríkisfangs sem brjóti í bága við 4. gr. EES-samningsins. Með ákvæði 3. gr. verksamningsins hafi í raun verið að útiloka að notaðar yrðu þakeiningarnar frá LETT TAK A.S., á grundvelli uppruna þeirra. Stefnandi, sem sé umboðsaðili fyrir LETT TAK A.S. á Íslandi, hafi orðið fyrir tjóni, sem nemi töpuðum arði, vegna þessara ólögmæta skilyrðis, enda liggi fyrir að þakeiningarnar hefðu verið notaðar ef stefndi, byggingarnefnd Borgarholtsskóla, hefði ekki breytt 3. gr. verksamningsins. Samkvæmt 11. gr. EES-samningsins séu hvers konar ráðstafanir sem samsvari magntakmörkunum á innflutning ólögmætar. Stefnandi byggir í öðru lagi á því að í ákvæði 3. gr. verksamningsins felist slík ráðstöfun sem samsvarandi sé magntakmörkun á innflutningi skv. 11. gr. EES og því beri stefndi bótaábyrgð á tjóni hans. Þessu til stuðnings megi benda á dóma Evrópudómstólsins í málunum nr. 45/87, Framkvæmdastjórnin gegn Írlandi, og nr. 249/81, Framkvæmdastjórnin gegn Írlandi, og einnig forúrskurð Evrópudómstólsins í málinu nr. 120/78, Rewe-Zentral AG gegn Bundesmonopolverwaltung für Branntwein. Saknæmi Stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi þar sem honum hafi verið eða hljóti að hafa verið ljóst að það að setja umrætt skilyrði í verksamninginn og halda því til streitu leiddi óhjákvæmilega til tjóns fyrir stefnanda. Fjármálaráðuneytið hafi gert stefnda grein fyrir þeirri afstöðu sinni að umrætt ákvæði samrýmdist ekki EES-samningnum og hafi beint þeim tilmælum til stefnda að skýra orðalag lokaákvæðis 3. gr. verksamningsins eða breyta því þannig að það samrýmdist ákvæðum EES-samningsins. Stefndi hafi hins vegar ekki farið að tilmælum ráðuneytisins. Þvert á móti hafi stefndi haldið fast við hið umdeilda ákvæði þrátt fyrir tilmælin og þó að honum væri eða mætti vera ljóst að ákvæðið bryti gegn ákvæðum EES-samningsins. Ástæður þær sem stefndi segi liggja að baki ákvæðinu, sbr. dskj. nr. 13, staðfesti mismun á grundvelli ríkisfangs, enda komi fram að byggingarnefndin telji að þak sem smíðað er á Íslandi sé betra en þak sem smíðað sé í öðrum aðildaríkjum EES-samningsins, án þess að sú fullyrðing sé studd efnislegum rökum. Stefnda hafi verið ljóst fyrir gerð verksamningsins að stefnandi yrði af verkinu ef skilyrði um að þakeiningar yrðu smíðaðar hérlendis yrði sett inn í verksamninginn. Stefnda hafi verið kunnugt um að stefnandi væri undirverktaki samkvæmt tilboðinu og myndi nota LETT TAK þakeiningar sem smíðaðar séu í Noregi, enda komi það fram í bréfi Byrgis ehf. til Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar, dags. 16. mars 1955. Þrátt fyrir það hafi stefndi sett það sem skilyrði fyrir verksamningi við Byrgi ehf. að þakeiningarnar yrðu smíðaðar hérlendis. Byrgi ehf. hafi notað tilboð stefnanda við gerð tilboðs síns til stefnda en vegna hins ólögmæta ákvæðis 3. gr. verksamningsins hafi stefnandi orðið af þeim þætti verksins sem hann hefði annars tekið þátt í. Stefnandi hafi því tapað töluverðum arði sem verkið hefði veitt honum. Tjón það sem stefnandi hafi orðið fyrir sé sennileg afleiðing saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna stefnda sem stefndi beri bótaábyrgð á. Bótakrafa stefnanda hljóði upp á 4.289.440 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar og sé hún vegna tapaðs arðs af verkinu. Bótakrafan sé fundin út með því að leggja saman tollverð þakeininganna, sem þurfti samkvæmt 3.5.3 í verklýsingu, þ.m.t. kostnaður vegna flutnings til landsins, uppskipun, vörugjald, akstur og kostnaður við uppsetningu. Samtala allra kostnaðarliða nemi 24.092.570 krónum, en tilboð stefnanda til stefnda vegna liðar 3.5.3 hafi numið 28.382.010 krónum. Mismunurinn sé 4.289.440 krónur sem sé fjárhæð þeirra bóta sem krafist er. Fjárhæðirnar séu miðaðar við gengi norskrar krónu í febrúar 1995 er tilboðið var gert og hafi kröfugerðin ekki sætt tölulegum andmælum af hálfu stefndu í héraðsdómsmálinu á Reykjanesi nr. E-215/1996, né heldur stefndu í þessu máli, en þeim hafi verið stefnt til réttargæslu. Lagarök Stefnandi byggir kröfur sínar á almennum reglum skaðabótaréttar. Þá vísar stefnandi til ESS-samningsins og laga nr. 63/1970 um skipan opinberra framkvæmda.Um aðild er vísað til 18. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um varnarþing er vísað til 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Krafa um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málsástæður stefndu og lagarök Varðandi aðild málsins vekja stefndu athygli á því að í stefnu sé ekki gerð grein fyrir hvers vegna hverjum og einum af stefndu sé stefnt í málinu, heldur sé aðeins vísað til 18. gr. laga nr. 91/1991. Sé málið vanreifað að þessu leyti af hálfu stefnanda, en stefndu gera ekki sjálfstæðar kröfur af þessu tilefni. Stefndu mótmæla því að þeir beri ábyrgð á einhverju meintu tjóni sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir vegna viðskipta sinna við Byrgi ehf. Það eitt að stefnandi gerði Byrgi ehf. tilboð um ákveðið efni til verks sem Byrgi ehf. var að bjóða í og Byrgi ehf. biði það efni í tilboði sínu hafi ekki leitt til þess að nein þau tengsl yrðu á milli stefnanda og stefndu sem geti orðið grundvöllur bótagreiðslna úr hendi stefndu. Stefndu, byggingarnefnd Borgarholtsskóla, hafi ekki samþykkt það efni sem Byrgi ehf. ætlaði að nota frá stefnanda og þar með ekki stefnanda sem undirverktaka, sbr. ÍST 30 gr. 34.8.0. Af hálfu stefndu er á því byggt að 3. gr. verksamningsins milli stefndu byggingarnefndar Borgarholtsskóla og Byrgis ehf. feli ekki í sér brot gegn 4. eða 11. gr. ESS-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993. Því hafi verið lýst hér að framan að burðarvirki í þaki Borgarholtsskóla hafi ekki verið fullhannað þegar verkið var boðið út. Það sé því rangt þegar stefnandi fullyrði að fyrir liggi að Borgarholtsskóli hafi verið hannaður með þakeiningar í huga, svipað þeim sem stefnandi flytji inn frá LETT TAK A.S. í Noregi. Það sé ágreiningslaust milli aðila að ekki hafi verið heimilt að nota umræddar þakeiningar frá LETT TAK A.S. í byggingar hér á landi nema að fengnu sérstöku leyfi byggingaryfirvalda. Stefnandi byggir á því að ef ekki hefði komið til það ákvæði 3. gr. verksamningsins, um að miðað yrði við að þakeiningar yrðu smíðaðar hérlendis, hefði stefnandi fengið umrætt verk. Stefndu mótmæla þessari fullyrðingu. Fyrir liggi að það efni sem stefnandi gerði Byrgi ehf. tilboð um hafi ekki verið heimilt að nota án sérstaks leyfis byggingaryfirvalda og samkvæmt útboðsskilmálum hafi það verið háð ákvörðun stefndu sem verkkaupa hvaða undirverktaka þeir samþykktu og þar með það efni og lausnir sem slíkir aðilar buðu. Í viðræðum Byrgis ehf. og stefnda, byggingarnefndar Borgarholtsskóla, til undirbúnings verksamnings aðila hafi sérstaklega verið rætt um þakeiningar. Eins og stefndi, byggingarnefnd Borgarholtsskóla, lýsi í bréfi sínu á dskj. nr. 13 hafi ástæða þess, að samið hafi verið um að smíði (samsetning) færi fram hérlendis, verið sú að með því væri unnt að fylgjast með þeirri framkvæmd, sem öðrum, við byggingu hússins, enda hafi byggingarnefndin viljað gera strangar kröfur um gæði og frágang þeirrar byggingar sem hún sé að reisa og forðast allar lausnir sem hún þekkti ekki og væru háðar sérstöku samþykki byggingaryfirvalda hverju sinni sem undanþágu frá ákvæðum byggingarreglugerðar. Með því ákvæði verksamningsins, að miðað yrði við að þakeiningar yrðu smíðaðar hérlendis, hafi nefndin talið sig fá betra þak, að höfðu samráði við ráðgjafa. Með kröfu um smíði eininganna hérlendis hafi verið að tryggja að uppfylltar væru kröfur íslenskra byggingaryfirvalda og hægt væri að hafa fullnægjandi eftirlit með verkinu. Stefndu telja að með því að setja umrætt ákvæði í verksamninginn hafi byggingarnefndin ekki brotið í bága við skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum enda hafi hún einungis gætt faglegra sjónarmiða og þeirrar skyldu sinnar að sjá til þess að verkinu yrði hagað í samræmi við gildandi kröfur íslenskra byggingaryfirvalda. Með þessu hafi stefndi, byggingarnefnd Borgarholtsskóla, einnig komið í veg fyrir að óvissa yrði um eftirlit með gæðum þakeininganna. Verði litið svo á að 3. gr. verksamningsins feli í sér brot gegn EES-samningnum er á því byggt af hálfu stefndu að orsakasamband sé ekki milli brotsins og þess að stefnandi varð af umræddum samningi. Eins og lýst er í dskj. nr. 18 hafði Byrgi ehf. kannað það, meðan á viðræðunum við stefnda um gerð verksamningsins stóð, hvort hægt væri að fá LETT TAK einingarnar ósamsettar til landsins og setja þær saman hér. Af svörum fyrirsvarsmanns stefnanda verði ekki annað ráðið en að slíkt hafi verið framkvæmanlegt en það hefði hins vegar aukakostnað í för með sér. Ákvæðið um að miðað skyldi við það að þakeiningarnar yrðu smíðaðar hérlendis hafi ekki komið í veg fyrir að notað yrði efni sem stefnandi flytti inn og að starfsmenn hans og hins erlenda framleiðanda sæju um smíðina (samsetninguna). Ekki hafi því verið um að ræða mismun á grundvelli ríkisfangs. Tilgreining á verkstaðnum í 3. gr. verksamningsins hafi eingöngu falið í sér að þar með væri það tryggt af hálfu verkkaupa að hann yrði ekki fyrir skakkaföllum vegna þess að innlend byggingaryfirvöld teldu sig ekki geta sinnt lögboðnu eftirliti og efni til verksins uppfyllti ekki þær kröfur sem þau gerðu á grundvelli byggingarreglugerðar. Minnt skuli á að tilboð stefnanda hafi falið í sér að notaðar yrðu þakeiningar sem ekki uppfylltu skilyrði byggingarreglugerðar nr. 177/1992 með síðari breytingum án þess að til þess kæmi sérstök heimild byggingaryfirvalda. Ekkert í EES-samningnum komi í veg fyrir að aðildaríki setji reglur um tæknilegar kröfur í innlendri löggjöf eða öðrum reglum. Jafnvel þótt tæknilegar kröfur byggingarreglugerðar nr. 177/1992 væru í einhverjum tilvikum strangari en annars staðar tíðkist þá sé ekki þar með sagt að með því sé brotið gegn ákvæðum EES-samningsins, enda feli ákvæði reglugerðarinnar ekki í sér mismun eftir þjóðerni. Hér beri jafnframt að taka tillit til hinna sérstöku aðstæðna sem fyrir hendi séu hérlendis og sé þá sé einkum átt við hnattstöðu lands og veðurfar og mikil lífsgæði hinsvegar og þar af leiðandi ríkari kröfur almennings til gæða húsbygginga en algengt sé annars staðar. Þá skuli þess getið að því hafi ekki verið hreyft af hálfu stefnanda að nefnd skilyrði reglugerðar nr. 177/1992 brjóti með einhverjum hætti gegn samningsskuldbindingum hins Evrópska efnahagssvæðis. En jafnframt þó að svo væri þá gæti það vart komið í hlut stefndu að gæta hagsmuna stefnanda í því sambandi heldur yrði hann að sækja rétt sinn eftir öðrum leiðum. Stefndu, byggingarnefnd Borgarholtsskóla, hafi því verið heimilt að hafna stefnanda sem undirverktaka af þessum sökum. Stefndu mótmæla því að 3. gr. verksamningsins við Byrgi ehf. feli í sér brot gegn 11. gr. samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Því hafi verið lýst hér að framan að stefnandi taldi ekki útilokað að flytja þær einingar sem hann bauð ósamansettar til landsins. Enn og aftur hafi stefndu verið í þeim sporum, sem framkvæmdaraðili við stórbyggingu, að gæta þess að verkið gengi fram með eðlilegum verkhraða og það væri unnið í samræmi við íslenskar byggingarreglur. Notkun innfluttra tilbúinna þakeininga hafi verið háð sérstökum undanþágum frá íslenskum byggingaryfirvöldum. Það hafi því ekki verið ólögmætt af hálfu stefndu að semja svo um við Byrgi ehf. að miðað yrði við að þakeiningarnar yrðu smíðaðar hérlendis. Stefnandi krefjist í máli þessu skaðabóta vegna tapaðs arðs. Bótakrafan sé reiknuð með þeim hætti að ætlaður kostnaður við þann þátt verksins sem hér skipti máli og varði þakeiningar og uppsetningu þeirra, sbr. lið 3.5.3. í verklýsingu, sé dregin frá þeirri fjárhæð sem stefnandi hafi lagt til grundvallar í tilboði sínu vegna þess liðar í tilboðslýsingu. Stefnandi krefjist þess með öðrum orðum að honum verði dæmdar (efnda)bætur úr hendi þriðja aðila, stefndu, er geri hann eins settan og ef gildur verksamningur hefði komist á með honum og Byrgi ehf. og sá samningur efndur að fullu. Þessari kröfu andmæla stefndu. Stefndu taka það fyrst fram að samningssambandi hafi aldrei verið fyrir að fara á milli stefnanda og stefnda, byggingarnefndar Borgarholtsskóla. Jafnframt er á því byggt að gildur samningur hafi ekki stofnast á milli stefnanda og Byrgis ehf. Stefndu samþykki aldrei stefnanda sem undirverktaka Byrgis ehf., enda í verksamningi stefndu og Byrgis ehf. samið um það að þó svo að til grundvallar væri lagt aðaltilboð Byrgis ehf. væri miðað við það að þakeiningar yrðu smíðaðar hérlendis. Verði að líta svo á að stefndu, byggingarnefnd Borgarholtsskóla, hafi með þessu í reynd hafnað stefnanda sem undirverktaka. Það skorti því á að uppfyllt séu skilyrði greina 34.8.0., sbr. 12.1.1. í þágildandi ÍST 30, til að gildur samningur hafi stofnast milli stefnanda og Byrgis ehf. Stefnandi geti því aldrei átt rétt á bótum úr hendi stefndu sem miði að því að gera hann eins settan og ef sá "samningur" hefði verið efndur að fullu, enda viðurkennt sjónarmið í kröfurétti að skaðabætur vegna tjóns sem sé afleiðing ógilds samnings eða samnings sem aldrei taki gildi takmarkist við það að gera þann sem tjónið má þola eins settan og ef enginn samningur hefði verið gerður (vangildisbætur). Þetta sjónarmið sé staðfest með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. E-215/1996, Fagtún hf. gegn Byrgi hf. (sic) og til réttargæslu íslenska ríkinu, Reykjavíkurborg, Mosfellsbæ og byggingarnefnd Borgarholtsskóla. Í forsendum dómsins sé litið svo á að ekki hafi komist á bindandi verksamningur milli stefnanda og Byrgis hf. þar sem stefndi hafi í raun hafnað stefnanda sem undirverktaka. Beri því þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu stefnanda um efndabætur. Þessar forsendur eigi við í máli því sem hér sé til umfjöllunar að breyttu breytanda þar sem stefnandi geti í tilviki sem þessu ekki öðlast betri rétt gegn þriðja aðila, stefndu, en hann eigi gagnvart viðsemjanda sínum. Þá byggja stefndu á því að stefnandi geti hvað sem öðru líður ekki öðlast betri rétt gagnvart stefndu en mælt sé fyrir um í 27. gr. laga nr. 63/1970 um framkvæmd útboða. Í báðum þessum lagagreinum sé það tekið fram að bótafjárhæð skuli miðast við kostnað við að undirbúa tilboð og að taka þátt í útboði. Samkvæmt þessum lagaákvæðum sé ábyrgð verkkaupa gagnvart verktaka vegna brota þess fyrrnefnda á ákvæðum laganna takmörkuð við kostnað við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði. Ákvæðið verði skýrt með þeim hætti að það taki einnig til skaðabótaábyrgðar verkkaupa gagnvart meintum undirverktaka, enda óeðlilegt að líta svo á að réttarstaða undirverktaka gagnvart verkkaupa sé sterkari en réttarstaða verktaka gagnvart honum. Þetta sjónarmið sé viðurkennt í bréfi stefnanda til stefnda, byggingarnefndar Borgarholtsskóla dags. 3. október 1995, en þar er stefndi, byggingarnefnd Borgarholtsskóla, krafin um bætur og tekið fram að á grundvelli 27. gr. fyrrnefndra laga um skipan opinberra framkvæmda takmarkist bótafjárhæðin við kostnað við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði. Með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness í áðurnefndu máli hafi stefnandi fengið dæmdar bætur að álitum vegna kostnaðar við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði. Hann geti því ekki fengið slíkar bætur greiddar úr hendi stefndu. Af hálfu stefndu er því haldið fram að það breytti engu hér þótt dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að umrætt ákvæði 3. gr. verksamningsins milli byggingarnefndar Borgarholtsskóla og Byrgis ehf. væri sjálfstætt brot gegn tilteknum ákvæðum EES-samningsins, sbr. lög 2/1993. Íslenski löggjafinn hafi tekið afstöðu til þess við hvað bótafjárhæð skuli miðuð hafi framkvæmd útboðs, þ.m.t. samþykkt tilboðs og tilheyrandi samningur, ekki verið í samræmi við lög. Það eitt að stefndi, byggingarnefnd Borgarholtsskóla, hafi ekki gerst brotleg við lög um skipan opinberra framkvæmda nr. 63/1970 og lög um framkvæmd útboða nr. 65/1993 geti ekki orðið til að stefnandi eigi kröfu til hærri bóta úr hendi stefndu. Það er sérstaklega tekið fram að stefnandi byggir ekki á því að hann kunni að eiga ríkari skaðabótarétt að EES-rétti en hann eigi samkvæmt réttarreglum landsréttar. Það komi því ekki til álita í máli þessu hvort réttarreglur landsréttar, sem takmarka skaðabótaábyrgð við útlagðan kostnað og útiloka um leið óbeint fjártjón, þ.á.m. bætur vegna tapaðs hagnaðar, standist gagnvart ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, eða gagnvart þeim meginreglum sem samningurinn kunni að fela í sér. Verði ekki fallist á sýknukröfur stefndu er því haldið fram að sá hagnaður sem stefnandi hafi áætlað vegna verksins sé of hár og ósannaður og ekki í samræmi við eðlilegar væntingar miðað við aðstæður. Í því sambandi benda stefndu á að einstakir kostnaðarliðir séu vanáætlaðir af hálfu stefnanda auk þess sem ekki sé tekið tillit til allra kostnaðarliða. Stefndu benda jafnframt á að útreikningur stefnanda miðist við hæsta mögulegan hagnað en eðlilegra sé að gera ráð fyrir einhverjum skakkaföllum við framkvæmd verksins og þar af leiðandi hærri kostnaði en að sama skapi lægri hagnaði. Þá er vakin athygli á því að stefnufjárhæð byggir eingöngu á útreikningum stefnanda sjálfs en ekki á mati og/eða útreikningum óvilhallra manna.. Stefndu ítreka því að bótakrafa stefnanda sé ósönnuð. Þá mótmæla stefndu upphafstíma vaxta og dráttarvaxta. Stefnandi segir í lýsingu sinni á málsatvikum að hann hafi krafið stefnda um greiðslu bóta með bréfi þann 3. október 1995. Vakin er athygli á því að það hafi eingöngu verið höfð uppi krafa um bætur vegna kostnaðar við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði. Það hafi fyrst verið með stefnu í þessu máli sem stefnandi hafi haft uppi þá bótakröfu sem hann geri á hendur stefndu. Það sé því krafa stefndu að vextir verði aldrei dæmdir nema frá uppsögu dóms í þessu máli. Stefndu byggja í máli þessu einkum á þeim sömu lagareglum og vísað er til í stefnu en þó þannig að leiða eigi til sýknu í málinu. Vísað er til meginreglna samningaréttar um stofnun samninga og þeirra reglna er gilda um vangildisbætur. Jafnframt er vísað til byggingarreglugerðar nr. 177/1992 með síðari breytingum og ákvæða EES-samningsins. Þá er vísað til laga nr. 63/1970 um skipan opinberra framkvæmda, sbr. lög 55/1993 og 20. gr. laga nr. 65/1993 um framkvæmd útboða. Um málskostnaðarkröfu er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum til 1. mgr. 130. gr. Niðurstaða Eins og fram er komið buðu fyrirsvarsmenn Byrgis ehf. í byggingarframkvæmdir við Borgarholtsskóla í Reykjavík er útboð fór fram í janúar 1995. Þar sem útboðsgögn gerðu ráð fyrir að notaðar yrðu þakeiningar höfðu þeir samband við stefnanda og leituðu eftir og fengu tilboð frá stefnanda um ákveðið efni í ákveðinn þátt framkvæmdanna, þ.e. þakeiningar. Í grein 3.5.3. í verklýsingu segir m.a. "Þakeiningar skulu spanna milli þakbita og skulu byggðar upp skv. teikn. VSÓ nr. 3.120 eða á annan sambærilegan hátt." Ekki þykir sýnt fram á að í útboðsgögnum hafi verið að finna einhver skilyrði sem útilokuðu að innfluttar þakeiningar, eins og þær sem undirverktakatilboð stefnanda miðaðist við, kæmu til álita. Hins vegar er óumdeilt að umræddar þakeiningar uppfylltu ekki skilyrði byggingareglugerðar og var notkun þeirra því háð undanþáguheimild íslenskra byggingaryfirvalda. Í bótamáli því er stefnandi höfðaði á hendur Byrgi ehf. fyrir Héraðsdómi Reykjaness komst dómurinn að þeirri niðurstöðu, með vísan til greinar 34.8.0 í íslenskum staðli ÍST 30 sem skyldi gilda um lögskipti aðila, að bindandi verksamningur hefði ekki komist á milli aðila þar sem byggingarnefnd Borgarholtsskóla hefði í raun hafnað stefnanda sem undirverktaka en í nefndri grein segir svo: "Nú hefur bjóðandi fengið tilboð frá undirverktaka í hluta verks sem boðið hefur verið út og bjóðandi notað þessa tilboðsfjárhæð sem hluta af tilboði sínu til verkkaupa og telst verksamningur þá kominn á á milli bjóðanda og undirverktaka þess efnis sem í tilboði undirverktaka greinir, að því tilskyldu að tilboði bjóðanda verði tekið og verkkaupinn samþykkir undirverktakann, sbr. gr. 12.1.1." Var kröfu Fagtúns hf. um efndabætur hafnað en dæmdar voru bætur fyrir kostnað af tilboðsgerð. Telja verður, með hliðsjón af grein 34.8.0 í ÍST 30, að þar sem stefndi, byggingarnefnd Borgarholtsskóla, samþykkti ekki stefnanda sem undirverktaka, hafi verksamningur ekki komist á með Byrgi ehf. og Fagtúni hf. Því síður komst á verksamningur milli stefnanda, Fagtúns hf., og stefnda, byggingarnefndar Borgarholtsskóla, þar sem byggingarnefndin hafnaði stefnanda sem undirverktaka en gerði verksamning við Byrgi ehf. Samkvæmt 3. gr. þess verksamnings var aðaltilboð vertaka, þ.e. Byrgis ehf., lagt til grundvallar og við það miðað að þakeiningar verði smíðaðar hérlendis. Var hér um samningsatriði að ræða milli aðila verksamnings eftir að útboð hafði farið fram og tilboði Byrgis ehf., sem var lægst, hafði verið tekið. Í útboðsgögnum var hins vegar ekki minnst á það að þak verði að vera smíðað hérlendis og gat því hvorttveggja komið til greina, samkvæmt útboðsgögnum, að þak yrði smíðað hérlendis eða erlendis. Ekki þykir sýnt fram á að stefndi, byggingarnefnd Borgarholtsskóla, hafi brotið lög nr. 65/1993 um framkvæmd útboða. Telja verður að það hafi verið stefnda, sem verkkaupa, að ákveða hvaða tilboði var tekið og jafnframt að ákveða hvaða undirverktaka nefndin samþykkti. Ekkert hefur komið fram í málinu er sýni fram á skyldu stefnda til að samþykkja það efni og þá útfærslu sem stefnandi bauð upp á fremur en annað, auk þess sem sú lausn er stefnandi bauð upp á var háð sérstöku samþykki byggingaryfirvalda, eins og áður greinir. Þegar framanritað er virt þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að starfsmenn stefndu hafi með ólögmætri eða saknæmri háttsemi sinni bakað stefnanda tjón. Þá þykir ekki sýnt fram á að ákvæði 3. gr. verksamnings milli Byrgis ehf. og stefnda, byggingarnefndar Borgarholtsskóla, brjóti í bága við ákvæði EES-samningsins. Ekki hefur verið sýnt fram á í málinu nein þau tengsl milli stefnanda og stefndu er geti orðið grundvöllur bótagreiðslna úr hendi stefndu. Ber því samkvæmt framansögðu að sýkna stefndu af kröfum stefnanda. Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað sem ákveðst 400.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð : Stefndu, byggingarnefnd Borgarholtsskóla, íslenska ríkið, Reykjavíkurborg og Mosfellsbær skulu vera sýkn af kröfum stefnanda Fagtúns hf. Stefnandi greiði stefndu 400.000 krónur í málskostnað. [Álit EFTA-dómstólsins nr. 5/98 12. maí 1999 í máli Fagtúns ehf. gegn byggingarnefnd Borgarholtsskóla, íslenska ríkinu, Reykjavíkurborg og Mosfellsbæ, má nálgast á eftirfarandi slóð: http://www.efta.int/structure/court/efta-crt.cfm] |
Mál nr. 356/2000 | Kærumál Frestur Sameining mála | A og H gerðu kaupsamning um fasteign. H taldi A hafa vanefnt kaupsamninginn og rifti honum, en í framhaldinu höfðaði A mál gegn H og krafðist þess að hann yrði dæmdur til að gefa út afsal fyrir fasteigninni. Rúmum mánuði eftir þingfestingu málsins höfðaði H sjálfstætt mál á hendur A og krafðist viðurkenningar á heimild sinni til riftunar kaupsamningsins og skaðabóta. Undir rekstri nýja málsins krafðist H þess að það yrði sameinað þessu máli. Því mótmælti A og var ákveðinn munnlegur málflutningur um þann ágreining. Áður en til þess kom var mál þetta tekið fyrir á dómþingi og krafðist H að því yrði frestað þar til lyktir fengjust um hvort málin yrðu sameinuð. Talið var að ákvæði 2. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála stæðu í vegi fyrir því að málin yrðu sameinuð, þar sem nýja málið var höfðað eftir að frestur samkvæmt 2. mgr. 28. gr. sömu laga til að höfða gagnsök um kröfur H í eldra málinu var liðinn. Með því að H studdi ekki kröfu um frestun málsins frekari rökum var henni hafnað. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. september 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2000, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var frestað um ótiltekinn tíma. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hnekkt og lagt fyrir héraðsdómara að ákveða aðalmeðferð í málinu. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað. I. Málið á rætur að rekja til þess að aðilarnir gerðu samning 3. júní 1999, þar sem sóknaraðili keypti af varnaraðila nánar tiltekinn hluta fasteignarinnar að Seljabraut 54 í Reykjavík fyrir 21.000.000 krónur. Af þeirri fjárhæð áttu samtals 3.796.820 krónur að teljast greiddar við undirritun kaupsamningsins með afsali frá sóknaraðila á þremur nánar tilgreindum bifreiðum, 15.500.000 krónur áttu á sama tíma að greiðast „skv. skilyrtu veðleyfi“, sóknaraðila bar að greiða með peningum 900.000 krónur 1. nóvember 1999 og 583.180 krónur 2. apríl 2000, en loks áttu að greiðast 220.000 krónur með því að sóknaraðili tæki yfir skuldbindingar vegna leigutaka að húsnæðinu. Óumdeilt er að sóknaraðili innti af hendi áðurnefnda greiðslu samkvæmt veðleyfi við gerð kaupsamningsins, svo og að hann hafi þá þegar afhent varnaraðila tvær af þeim þremur bifreiðum, sem greiða átti hluta kaupverðs með. Þá er og óumdeilt að samið hafi verið um að fresta um skamman tíma afhendingu þriðju bifreiðarinnar vegna bilunar, sem unnið var að viðgerð á. Af ástæðum, sem ekki eru efni til að rekja hér nánar og aðilana greinir að nokkru á um, voru fyrrnefndu bifreiðirnar tvær seldar nauðungarsölu í desember 1999 og var öllu söluverði þeirra varið til greiðslu upp í veðskuldir, sem hvíldu á þeim við gerð kaupsamnings aðilanna. Þá hafði að sögn varnaraðila áður komið fram alvarleg bilun í annarri þessara bifreiða. Varnaraðili ber því og við að verulegur dráttur hafi orðið á að lokið yrði viðgerð þriðju bifreiðarinnar, sem hafi af þeim sökum ekki verið afhent sér eins og um var samið, en vegna þeirrar vanefndar hafi hann rift kaupum á bifreiðinni með bréfi til sóknaraðila 21. september 1999 og krafist greiðslu andvirðis hennar með peningum. Gagnstætt þessu kveður sóknaraðili bifreiðina hafa staðið varnaraðila til reiðu allt frá lokum júní 1999, en riftun á kaupum hennar hafi bréflega verið mótmælt með vísan til þessa 11. október sama árs. Með bréfi 19. nóvember 1999 lýsti varnaraðili yfir riftun kaupsamnings aðilanna í heild vegna verulegra vanefnda sóknaraðila. Reisti varnaraðili riftunina á því að ekki hefði enn verið innt af hendi kaupsamningsgreiðsla, sem fást átti með afhendingu áðurnefndrar bifreiðar, að önnur umræddra bifreiða hefði verið haldin galla við afhendingu og ógangfær allar götur síðan og að sóknaraðili hefði ekki greitt hluta útborgunar samkvæmt kaupsamningi, 900.000 krónur, sem hafi verið í gjalddaga 1. nóvember 1999. Þessu svaraði sóknaraðili með bréfi 24. nóvember 1999, þar sem ítrekað var að fyrstnefnda bifreiðin hefði staðið varnaraðila til boða allt frá því í júní sama árs. Að auki var því haldið þar fram að önnur umræddra bifreiða hafi ekki verið haldin galla við afhendingu, svo og að sóknaraðila væri heimilt að halda eftir kaupsamningsgreiðslu, sem var í gjalddaga 1. nóvember 1999, vegna atvika, sem þar greindi nánar. Þá var því jafnframt mótmælt að vanefndir, ef einhverjar hefðu orðið, væru svo verulegar að riftun væri heimil vegna þeirra. Aðilarnir ítrekuðu báðir röksemdir fyrir afstöðu sinni með bréfum 2. og 3. desember 1999, sem ástæðulaust er að rekja frekar. Sóknaraðili höfðaði mál þetta með stefnu 16. mars 2000, þar sem krafist var að varnaraðili yrði dæmdur til að gefa út afsal fyrir eignarhlutanum í fasteigninni að Seljabraut 54 og greiða sóknaraðila skaðabætur að fjárhæð 446.220 krónur með dráttarvöxtum eins og nánar greindi í stefnunni auk málskostnaðar. Var þess sérstaklega getið að í dómkröfunni fælist að leitað væri viðurkenningar á rétti sóknaraðila til að halda eftir eigin greiðslum samkvæmt kaupsamningi á móti skaðabótakröfu sinni. Málið var þingfest 23. mars 2000. Í greinargerð varnaraðila, sem var lögð fram í héraði 18. maí 2000, krafðist hann sýknu á þeirri forsendu að sóknaraðili hefði vanefnt kaupsamning þeirra og ætti því ekki rétt á afsali á grundvelli hans. Hefði varnaraðili ekki vanefnt samninginn fyrir sitt leyti og gæti sóknaraðili því ekki krafið hann um bætur. Var því og hreyft að sóknaraðili hafi enga heimild haft til að halda eftir eigin greiðslum samkvæmt kaupsamningnum og væri sú háttsemi hans slík vanefnd að hún varði ein og sér riftun samningsins. Með stefnu 4. maí 2000 höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila, þar sem þess var krafist að viðurkenndur yrði réttur varnaraðila til riftunar á kaupum þeirra, svo og að sóknaraðila yrði gert að greiða skaðabætur aðallega að fjárhæð 6.834.362 krónur en til vara 5.280.000 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Í stefnunni var þess getið að varnaraðili óskaði eftir að þetta nýja mál yrði sameinað fyrra málinu, sem sóknaraðili ræki á hendur honum. Málið var þingfest 11. maí 2000 og liggur fyrir að sóknaraðili hafi krafist að því verði vísað frá dómi. Í þinghaldi í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila 8. september 2000 lýsti sá fyrrnefndi gagnaöflun lokið og krafðist þess að ákveðinn yrði dagur til aðalmeðferðar. Varnaraðili mótmælti því með vísan til þess að mál hans gegn sóknaraðila yrði tekið fyrir 20. september 2000 til munnlegs flutnings um ágreining vegna kröfu sinnar um sameiningu þess við mál þetta. Krafðist varnaraðili að máli þessu yrði af þeim sökum frestað „fram yfir þann tíma“. Með hinum kærða úrskurði féllst héraðsdómari á þá kröfu varnaraðila. II. Dómkröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila í málinu, sem sá áðurnefndi þingfesti 11. maí 2000, hefði mátt hafa uppi með gagnsök í máli þessu, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Varnaraðili neytti hins vegar ekki þess kosts og gerði ekki reka að málshöfðun um kröfur sínar fyrr en að liðnum fresti samkvæmt nefndu lagaákvæði til að koma að gagnsök til sjálfstæðs dóms. Samkvæmt b. lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991 getur dómari að ósk annars eða beggja aðila ákveðið að sameina tvö einkamál ef unnt hefði verið að höfða annað þeirra sem gagnsök í hinu. Með 2. mgr. 30. gr. sömu laga er hins vegar girt fyrir að mál verði sameinuð gegn mótmælum aðila ef það hefði varðað frávísun eftir kröfu hans að höfða mál þannig í öndverðu. Sóknaraðili hefur mótmælt að nýtt mál varnaraðila verði sameinað þessu máli. Ef varnaraðili hefði höfðað gagnsök í máli þessu með fyrrnefndri stefnu 11. maí 2000 í stað þess að höfða sjálfstætt mál, hefði óumflýjanlega orðið að vísa þeirri gagnsök frá dómi vegna ákvæðis síðari málsliðar 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 án tillits til þess hvort sóknaraðili gerði um það kröfu. Brestur samkvæmt þessu fyrrnefnt skilyrði 2. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991 til að verða við kröfu varnaraðila um sameiningu málanna gegn mótmælum sóknaraðila. Varnaraðili hefur ekki fært fram önnur haldbær rök fyrir kröfu sinni um að máli þessu verði frestað. Vegna þess, sem að framan greinir, eru engin efni lögum samkvæmt til að fresta máli þessu í þeim tilgangi að leyst verði úr hvort fyrrnefnt mál verði sameinað því. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar. Varnaraðili verður dæmur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar. Varnaraðili, Hótel Egilsstaðir ehf., greiði sóknaraðila, Arnari Theodórssyni, 50.000 krónur í kærumálskostnað. |
Mál nr. 416/2008 | Málsástæða Dómur Heimvísun | I höfðaði mál á hendur J og B til heimtu skaðabóta eða afsláttar vegna galla sem hún taldi vera á íbúð sem hún hafði keypt af J. Krafa hennar á hendur J var byggð á því að hann hefði vanefnt kaupsamninginn með því að afhenda íbúðina haldna göllum. Krafa hennar á hendur B var hins vegar byggð á því að hann hefði við byggingu hússins brugðist lögmæltum skyldum sínum sem byggingarstjóri þess og þannig valdið henni fjártjóni. Í sameiginlegri greinargerð J og B í héraði var meðal annars tekið fram að matslið, er varðaði skort á aðgengi fyrir hreyfihamlaða utanhúss, væri mótmælt vegna tómlætis I. Í greinargerð þeirra fyrir Hæstarétti voru andmæli þeirra sem reist voru á tómlæti I ekki bundin við fyrrgreindan kröfulið, heldur var þessi málsástæða einnig höfð uppi gegn öðrum kröfuliðum hennar. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var ágreiningslaust að þessi hefði einnig verið raunin við munnlegan málflutning í héraði án þess að fram hefðu komið mótmæli af hálfu I. Taldi Hæstiréttur að hinn áfrýjaði dómur færi í bága við e. og f. liði 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem hvorki hefði verið gerð grein fyrir því hversu víðtæk sú málsvörn J og B væri, sem reist væri á tómlæti, né tekin afstaða til hennar. Var því ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 20. maí 2008, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 2. júlí 2008. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 29. júlí 2008. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi og stefndi verði dæmdir óskipt til að greiða sér 3.057.815 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2005 til 18. ágúst 2006 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 8. október 2008. Hann krefst sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Aðaláfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti. Félagið hefur ekki látið málið til sín taka. Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta til heimtu skaðabóta eða afsláttar vegna galla sem hún taldi vera á íbúð að Bakkastöðum 161 í Reykjavík en íbúð þessa keypti hún af gagnáfrýjanda, sem þá nefndist Járnbending ehf. Krafa hennar á hendur gagnáfrýjanda var byggð á því að hann hefði vanefnt kaupsamninginn með því að afhenda íbúðina haldna göllum. Krafan á hendur stefnda var hins vegar byggð á því að hann hefði við byggingu hússins brugðist lögmæltum skyldum sínum sem byggingarstjóri þess og þannig valdið henni fjártjóni. Í sameiginlegri greinargerð gagnáfrýjanda og stefnda í héraði var meðal annars tekið fram að matslið nr. 9 í kröfum aðaláfrýjanda væri mótmælt vegna tómlætis hennar. Svo sem fram kemur í héraðsdómi varðaði þessi liður ætlaðan skort á aðgengi fyrir hreyfihamlaða utanhúss. Var í hinum áfrýjaða dómi fallist á að eigninni hefði verið ábótavant að þessu leyti. Í greinargerð gagnáfrýjanda og stefnda fyrir Hæstarétti eru andmæli þeirra sem reist eru á tómlæti aðaláfrýjanda ekki bundin við fyrrgreindan kröfulið, heldur er þessi málsástæða einnig höfð uppi gegn öðrum kröfuliðum hennar. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var ágreiningslaust að þessi hefði einnig verið raunin við munnlegan málflutning í héraði án þess að fram hafi komið mótmæli af hálfu aðaláfrýjanda. Í hinum áfrýjaða dómi er ekki gerð grein fyrir því hversu víðtæk sú málsvörn gagnáfrýjanda og stefnda sé, sem reist er á tómlæti. Þar er heldur ekki tekin afstaða til hennar; hvorki hvort hald sé í málsástæðunni yfirleitt og þá heldur ekki hvort sömu skilyrði séu fyrir henni hjá þeim báðum. Fer dómurinn að þessu leyti í bága við e. og f. liði 114. gr. laga nr. 91/1991 og verður ekki hjá því komist að ómerkja hann og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. Miðað við þessi málsúrslit verður málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Mál þetta, sem dómtekið var 7. febrúar 2008 var höfðað 19. mars 2007. Stefnandi er Ingunn Jóna Gísladóttir, Bakkastöðum 161, Reykjavík en stefndu eru JB Byggingafélag ehf., Bæjarlind 4, Kópavogi og Bjarni Már Bjarnason, Fífulind 1. Kópavogi. Réttargæslustefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík. Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 3.057.815 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2005 til 18. ágúst 2006 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún þess að stefndu verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar auk matskostnaðar að fjárhæð 737.040 krónur. Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða þeim málskostnað. Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og gerir hann engar kröfur í málinu. Málavextir eru þeir að með kaupsamningi 28. mars 2000 keyptu stefnandi og þáverandi eiginmaður hennar, Dan Sommer, af stefnda, JB byggingafélagi ehf., sem þá hét Járnbending ehf., íbúð á 1. hæð í húsinu nr. 161 við Bakkastaði í Reykjavík, en íbúðin er hluti fjöleignahússins Bakkastaðir 159-161. Stefndi Bjarni Már var byggingarstjóri hússins og seldi réttargæslustefndi honum ábyrgðartryggingu vegna starfans. Við skilnað stefnanda og Dans kom umdeild fasteign í hennar hlut. Á kaupsamningsdegi var fasteignin í byggingu og var kaupverðið 14.300.000 krónur. Var íbúðin afhent kaupendum í júní 2000. Samkvæmt kaupsamningi skyldi hún afhent fullbúin að innan en án gólfefna. Þá skyldi baðherbergi vera flísalagt og sameign fullfrágengin með malbikuðum bílastæðum. Nánari skilalýsing var á fylgiblaði sem var hluti kaupsamnings. Þá var kaupendum afhent handbók eigenda fjöleignahússins Bakkastaða 159-161 við kaupin en þar eru meðal annars upplýsingar um frágang fasteignarinnar, viðhald og umhirðu. Stefnandi kveður að hún og Dan hafi strax orðið vör við ýmsa vankanta á eigninni eftir að þau fengu hana afhenta. Sendu þau seljanda tölvupóst 31. júlí 2000 þar sem þau komu athugasemdum sínum á framfæri. Kom fram hjá þeim að yrði ekki brugðist skjótt við erindinu myndu þau óska eftir mati og í framhaldinu fá iðnaðarmenn til að laga og klára íbúðina. Myndi sá kostnaður dreginn frá lokagreiðslunni. Meðal þeirra atriða sem þau gerðu athugasemdir við vörðuðu halla á baðgólfi, eldhúsinnréttingu, skápahurðir, svalahurð og útidyrahurð. Hinn 10. febrúar 2001 sendi stjórn húsfélagsins Bakkastaðir 159-161 seljanda bréf með lista yfir atriði sem íbúar teldu ófrágengin og óskaði eftir fundi með seljanda til að ræða umbætur. Eru þar talin upp að hluta til sömu atriði varðandi íbúð stefnanda og gert var með fyrrgreindum tölvupósti, meðal annars athugasemdir varðandi halla á baðgólfi, eldhúsinnréttingu, útidyrahurð, svalahurð og skápahurðir. Þá komu fram athugasemdir í þessu bréfi varðandi opnanlegt fag í eldhúsi og sprungu í millivegg í barnaherbergi. Í svarbréfi seljanda 1. mars 2000 kom fram að tveir starfsmenn hans hefðu mætt á staðinn og farið yfir athugasemdir íbúðaeigenda og teljist allmargar þeirra réttmætar. Hafi eftir fundinn verið hafist handa við lagfæringar meðal annars pantaðar nýjar skápahurðir, svalahurðir lagfærðar, skipt verði um lamir og opnanlegum fögum og fengnir þéttikantar á útihurðir. Þá kom fram í bréfinu að nokkur hluti athugasemda væru þess eðlis að bíða verði vorsins til að hægt væri að vinna í þeim. Stefnandi greiddi ekki að fullu síðustu afborgun samkvæmt kaupsamningi heldur hélt eftir greiðslu að höfuðstól 300.000 krónur. Sendi þáverandi lögmaður stefndu henni innheimtubréf af þeim sökum hinn 14. júní 2002. Húsfélagið Bakkastaðir 159-161 fór þess á leit að Línuhönnun hf. skoðaði athugasemdir íbúa fjöleignahússins vegna frágangs seljanda. Voru meðal annars gerðar athugasemdir við sprungumyndun, óþéttleika með opnanlegum fögum og hurðum, hálku í tröppum og á bílastæði. Fór úttekt Línuhönnunar hf. fram 22. júní 2002. Í kjölfarið sendi Línuhönnun hf. stefndu úttekt sína með bréfi 25. september 2002 og óskaði afstöðu seljanda um hvort hann myndi lagfæra það sem félagið taldi ábótavant. Stefndi JB Byggingafélag ehf. gaf út stefnu á hendur stefnanda og Dan Sommer 1. ágúst 2002 til heimtu eftirstöðva kaupverðsins. Var málið fellt niður eftir að kaupendur greiddu kröfuna hinn 20. nóvember 2002. Greiddu þau kröfuna með fyrirvara og áskildu sér rétt til gagnkröfu vegna leyndra og ljósra galla á ástandi hinnar seldu eignar. Að ósk Dans Sommer skoðaði Hans Kristinsson múrarameistari flísar á baðherbergi íbúðarinnar og sprungur í veggjum og lagði mat á áætlaðan kostnað við lagfæringu. Þá liggur fyrir að Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins skoðaði sprungur í milliveggjum og loftaplötu í íbúðinni, sbr. bréf 27. nóvember 2002. Með bréfi þáverandi lögmanns stefnanda til stefnda JB Byggingafélags ehf. 28. nóvember 2002 var farið fram á afslátt og/eða skaðabætur vegna leyndra galla á íbúðinni jafnframt því sem tilkynnt var um fyrirhugaða beiðni um dómkvaðningu matsmanna og málshöfðun í kjölfarið. Í nóvember 2002 buðu stefndu stefnanda og eiginmanni hennar að lagfærðar yrðu flísar á baðherbergi en að ráðleggingu lögmanns stefnanda hafnaði hún því. Kemur fram í bréfi lögmanns stefnanda 16. desember 2002 að framkvæmdum hafi ekki verið hafnað heldur einungis óskað eftir að þeim framkvæmdum væri frestað vegna þess að málið væri í skoðun af hálfu fagaðila. Þá var það tekið fram að ekki væri nóg að gera við flísarnar sjálfar heldur væri nauðsynlegt að gera jafnframt við sprungur undir flísalögninni. Hinn 30. september 2004 ritaði þáverandi lögmaður stefnanda, réttargæslustefnda bréf og gerði kröfu í starfsábyrgðartryggingu stefnda Bjarna Más hjá réttargæslustefnda. Hinn 20. október 2004 sendi lögmaðurinn byggingafulltrúanum í Reykjavík bréf og krafðist þess að hann annaðist eftirlit og lokaúttekt á fasteigninni og sama dag ritaði hún réttargæslustefnda bréf og óskaði liðsinnis hans við að krefja byggingarfulltrúa um lokaúttekt. Stefnandi óskaði eftir dómkvaðningu matsmanna 2. febrúar 2005. Hinn 4. mars 2005 voru þeir Freyr Jóhannesson byggingatæknifræðingur og Níels Indriðason byggingaverkfræðingur dómkvaddir matsmenn í málinu. Er matsgerð þeirra dagsett í júlí 2005. Stefnandi taldi að hinir dómkvöddu matsmenn hefðu ekki tekið tillit til mikils galla vegna þess að á skápahurðum í eldhúsi hefðu verið settar of stórar höldur og væri forhlið skápanna ónýt vegna skrúfuganga á röngum stað. Óskaði hún því eftir tilboði frá Axis húsgögnum ehf. vegna þessa og er tilboð þess félags dagsett 7. júlí 2006. Með bréfi til stefndu 18. júlí 2006 voru settar fram kröfur af hálfu lögmanns stefnanda á grundvelli matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna og framangreinds tilboðs Axis húsgagna ehf. auk útlagðs kostnaðar stefnanda. Var öllum kröfum stefnanda hafnað af hálfu stefndu með bréfi lögmanns þeirra 18. október 2006. Við meðferð máls þessa fyrir dómi sagði lögmaður stefndu sig frá málinu vegna hagsmunaárekstra. Tók nýr lögmaður við málinu hinn 9. nóvember 2007. Í málinu krefur stefnandi stefndu um bætur og/eða afslátt af kaupverði umdeildrar fasteignar vegna meintra galla á henni. Stefnandi kveðst aðallega byggja kröfur sínar á reglum kauparéttar um skaðabætur vegna galla á fasteign. Vísist til dómvenju um vanefndir í fasteignakaupum og sérstaklega til 2. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sem gjarnan hafi verið beitt með lögjöfnun eða höfð til hliðsjónar þegar dæmt hafi verið um bótaskyldu áður en lög nr. 40/2002 um fasteignakaup hafi tekið gildi. Þannig geri stefnandi kröfu um skaðabætur vegna vanefnda á kaupsamningi þar sem hin selda eign hafi verið haldin göllum er afhending hafi farið fram. Hafi eignin hvorki verið í því ástandi sem greini í sölulýsingu, kaupsamningi og skilalýsingu með honum né hafi hún uppfyllt almennar kröfur til slíkrar eignar. Þá hafi fasteignin ekki uppfyllt almennar kröfur um áskilda kosti. Hafi fasteignin ekki verið í samræmi við það sem seljendur hafi skuldbundið sig til að afhenda samkvæmt kaupsamningi og lögum. Hún hafi því ekki uppfyllt þá kosti sem ætla mátti að stefnandi áskildi sér í kaupunum. Hafi stefnandi og eiginmaður hennar strax kvartað yfir göllum og vanefndum og gert kröfur um úrbætur. Þar sem íbúðin hafi verið í byggingu er hún hafi verið seld verði að gera sérstaklega strangar kröfur til stefndu varðandi réttan frágang og efndir. Á sama hátt sé ekki hægt að gera strangar kröfur til kaupanda um aðgæslu- eða varúðarskyldu þar sem hann hafi ekki mátt vænta þess að íbúðin yrði haldin göllum. Megi segja að réttarstaða kaupanda hefði átt að vera sú sama og hún sé nú við neytendakaup og tilgreind sé í 2. mgr. 19. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 40/2002. Telur stefnandi að efndum sé í raun ekki lokið þar sem byggingaraðili hafi ekki gert gangskör að því að láta fara fram lokaúttekt á eigninni þrátt fyrir áskoranir. Sé af hálfu stefnanda gerður fyrirvari um frekari kröfur ef í ljós komi við lokaúttekt að enn sé nokkru ábótavant. Stefnandi telji það til áskilinna kosta að gólf og veggir séu ekki sprungnir umfram það sem eðlilegt sé í nýjum húsum og gluggar og hurðir séu þannig að þær haldi vatni og vindi. Það sama eigi við um ástand og útlit eldhúsinnréttingar. Þá hafi íbúðin ekki uppfyllt sérstakar gæðakröfur í því tilfelli að hún hafi átt að vera fyrir fatlaða en það hafi verið ein ástæða fyrir því að stefnandi hafi valið þessa íbúð. Hafi íbúðin verið kynnt þannig fyrir stefnanda og þannig teiknuð af arkitekt. Hafi teikningin verið samþykkt þannig og árituð af byggingafulltrúanum í Reykjavík og samkvæmt 104.5 grein byggingarreglugerðar nr. 441/1998 skuli að minnsta kosti ein íbúð vera hönnuð fyrir fatlaða í fjölbýlishúsum með sex íbúðir eða fleiri. Í fjölbýlishúsinu Bakkastaðir 159-161 séu átta íbúðir. Kveður stefnandi að skaðabótakrafa sín sé efndabótakrafa og miðist hún við að stefnandi fái bætt fjártjón sitt af völdum hinna leyndu galla. Verði ekki fallist á að skilyrði skaðabóta séu uppfyllt í öllum atriðum sé til vara byggt á reglum um afslátt af kaupverði hússins að tiltölu. Vísi stefnandi til dómvenju og 1. mgr. 42. gr. kaupalaga nr. 39/1922 sem jafnan hafi verið beitt með lögjöfnun eða höfð til hliðsjónar þegar dæmt hafi verið um afslátt vegna galla áður en lög nr. 40/2002 um fasteignakaup tóku gildi. Sé þá á því byggt að vegna umræddra galla hafi verðmæti hússins verið minna en gert hafi verið ráð fyrir í kaupsamningi. Verðmunurinn sé óhjákvæmilegur kostnaður við úrbætur á göllum og sé afsláttarkrafan því jafnhá bótakröfu vegna gallanna og sundurliðist hún á sama hátt. Stefnandi kveðst telja byggingarstjórann samábyrgan seljanda þar sem hann beri ábyrgð á því samkvæmt 2. mgr. 32. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Sérstaklega skuli tekið fram að ábyrgð byggingarstjóra sé rík gagnvart kaupendum þar sem stærstu matsliðirnir varði brot á byggingarreglugerð nr. 441/1998. Þá verði að telja að umsjón hans á verkinu í heild leiði til sömu niðurstöðu. Einnig hljóti að vekja ákveðið traust hjá kaupendum að á verkinu sé ábyggilegur byggingarstjóri sem gæti þess að byggt sé í samræmi við skilalýsingu. Réttargæslustefndi hafi selt stefnda Bjarna Má ábyrgðartryggingu byggingarstjóra samkvæmt 1. mgr. 33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og bótakrafa stefnanda sé innan vátryggingafjárhæðar. Skuli vátryggingin gilda að minnsta kosti í 5 ár frá lokum framkvæmda, sem miðist við dagsetningu lokaúttektar. Hún hafi ekki farið fram og sé greiðsluskylda réttargæslustefnda því yfirvofandi nái kröfur stefnanda fram að ganga. Stefnandi sundurliðar kröfur sínar svo: Kröfur samkvæmt liðum 1-10 kveður stefnandi byggðar á matsgerð hinna dómkvöddu matsamanna og liður 11 byggi á tilboði Axis húsagagnaverslunar ehf., en frá því fyrirtæki hafi innréttingin í eldhúsinu verið. Liðir 12-15 séu útlagður kostnaður vegna álitsgerða og dómsmáls vegna eftirstöðva kaupverðs. Þá sé krafist kostnaðar vegna mats dómkvaddra matsmanna að fjárhæð 737.040 krónur sem samkvæmt hefðbundnum hætti teljist til málskostnaðar. Krafa um dráttarvexti byggist á ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001 og sé þeirra krafist frá 18. ágúst 2006 þegar mánuður hafi verið liðinn frá kröfubréfi lögmanns stefnanda, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi JB byggingarfélag ehf. byggir á því að íbúðin hafi verið afhent í samræmi við kaupsamning aðila og skilalýsingu. Ýmist sé búið að bæta úr þeim ágöllum sem kaupendur hafi bent á í upphafi eða hafi kaupendur hafnað úrbótum af hálfu seljanda. Þá sé íbúðin að öllu leyti í samræmi við sambærilegar íbúðir og uppfylli þær kröfur sem gerðar verði til slíkra íbúða. Þá hafna stefndu því að stefnandi hafi sambærilega stöðu og við neytendakaup, sbr. ákvæði 19. gr. núgildandi laga um fasteignakaup. Stefndu geri verulegar athugasemdir varðandi einstaka liði í framlagðri matsgerð. Hafni þeir alfarið að sprungur í hinni seldu eign séu umfram það sem eðlilegt geti talist í sambærilegum eignum. Þá fallist þeir ekki á að kostnaður við viðgerðir samkvæmt matsgerð sé á þeirra ábyrgð. Þá andmæli stefndu að um leyndan galla sé að ræða að þessu leyti. Í handbók sem kaupendur hafi fengið afhenta við kaupin standi að mála þurfi eftir 2 ár. Séu niðurstöður matsgerðar í samræmi við þessar ábendingar sem gerðar hafi verið við kaupsamningsgerð. Hafi því ekki stofnast bótaréttur vegna þessa. Þá mótmæli stefndu niðurstöðum matsgerðar er varði milliveggi sem órökstuddum en í matsgerð segi að matsmenn geti ekki fullyrt að járn séu ekki til staðar. Leit með málmleitartæki hafi sýnt að málmur væri í veggnum. Verði því ekki byggt á þeirri niðurstöðu matsmanna að ekki séu steypujárn í veggnum. Sé matsgerðin því marklaus hvað þetta atriði varði. Varðandi matslið 3, sem snúist um flísar á baðherbergi, byggi stefndu á að úrbætur hafi verið boðnar af þeirra hálfu í nóvember 2002. Hafi þeirri umleitan verið hafnað af hálfu stefnanda og þáverandi eiginmanns hennar. Samkvæmt framlagðri matsgerð hefðu þær úrbætur sem þá voru boðnar verið fullnægjandi lausn á vandanum. Verði stefnandi að bera hallann af því að hafa neitað stefnda JB Byggingarfélagi ehf. að beita úrbótarétti sínum. Um það vísist til 49. gr. lausafjárkaupalaga nr. 39/1922 með lögjöfnun. Varðandi matslið 4 um rakaskemmdir byggja stefndu á niðurstöðum framlagðrar matsgerðar þar sem fram komi að ástæður rakans séu ókunnar. Sé því ósannað að um sé að ræða galla sem sé á ábyrgð seljanda og bótaskyldu vegna þess því hafnað. Varðandi matsliði 5 og 8, er snúi að svalahurð og útidyrahurð, telja stefndu að ekki séu leiddar líkur að því að um sé að ræða galla í skilningi meginreglna um fasteignakaup. Stefndu bendi á að hurðirnar hafi verið skoðaðar um fimm árum eftir afhendingu. Hafi verið gerðar úrbætur árið 2001 sem hafi verið fullnægjandi. Á ástandi hurðanna árið 2005 beri seljandi ekki ábyrgð. Um matslið 7 byggja stefndu á niðurstöðu matsgerðar, um að hinn meinti galli rýri ekki verðgildi fasteignarinnar, og sé því ekki um að ræða tjón í skilningi þágildandi reglna um fasteignakaup. Um matslið 9 sé byggt á að kaupendur hafi sýnt af sér tómlæti við gerð gallakröfu. Athugasemdir við að íbúðin hafi ekki fyllt umræddar kröfur hafi fyrst verið bornar upp við framlagningu matsgerðar í mars 2005, rétt um fimm árum eftir gerð kaupsamnings. Þá sé því hafnað að íbúðin hafi verið kynnt fyrir stefnanda sem íbúð fyrir fatlaða. Því sé hafnað að kaupendur hafi gert slíkt að forsendu fyrir kaupum sínum enda slíks ekki getið í samningi aðila eða fylgiskjölum. Þá sé byggt á að fullyrðingu um að íbúðin uppfylli ekki sérstakar gæðakröfur þar sem hún hafi átt að vera fyrir fatlaða sé ósönnuð og eigi sér enga stoð í gögnum málsins. Samkvæmt byggingarreglugerð nr. 441/1998 skuli ein íbúð hönnuð þannig að mögulegt sé að útbúa hana fyrir fatlaða. Hins vegar hafi hvergi í kaupsamningi eða fylgigögnum verið tekið fram á að slíkar breytingar væru gerðar á íbúðinni. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að ekki megi innrétta íbúðina samkvæmt þörfum hreyfihamlaðra. Sé ekki fallist á ofangreint byggi stefndu á að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að verðgildi íbúðarinnar hafi rýrnað vegna þessara meintu galla. Verði ekki séð að verðgildi íbúðarinnar sé minna en ella og stefnandi því ekki orðið fyrir tjóni vegna þessa. Varðandi meinta galla á eldhúsinnréttingu byggi stefndu á að ósannað sé að gallar á eldhúsinnréttingu verði raktir til atvika sem þeir beri ábyrgð á. Stefndi byggi á að ósannað sé að plata undir ísskáp hafi brostið vegna galla í innréttingu eða uppsetningu. Þá byggi stefndu á að atvik tilkomin eftir afhendingu íbúðar séu á ábyrgð kaupanda. Að mati stefndu sé ósannað að litabrigði í innréttingu séu meiri en ætla megi í innréttingu af þessari gerð. Krafa stefnanda er varði eldhúsinnréttingu sé ósundurliðuð og verði því að hafna henni í heild með vísan til framangreinds. Hvað varði fjárhæð skaðabótakröfu vegna þessa liðs sé rökstuðningi stefnanda hafnað enda liggi ekkert fyrir um að tilboð feli í sér sambærilega innréttingu. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að innrétting sé með öðrum hætti en um hafi verið samið. Þá sé niðurstöðum og forsendum mats að öðru leyti mótmælt og byggt á að ósannað sé að gallar verði raktir til atvika sem seljandi beri ábyrgð á. Verði stefnandi að bera hallann af því að afla ekki mats dómkvaddra matsmanna fyrr en um mitt ár 2005. Sé óútskýrt hvers vegna ekki hafi verið aflað mats fyrr. Stefndu byggi á að ósannað sé hvort gallar séu tilkomnir vegna atvika eftir að íbúð var afhent. Hallann af þeim sönnunarskorti verði stefnandi að bera. Hvað varði ábyrgð stefnda Bjarna Más sé hafnað að frávik hafi verið meiri en eðlilegt eða venjulegt geti talist og því fari fjarri að við framkvæmdina hafi ekki verið gætt fullnægjandi faglegra vinnubragða. Sé byggt á því að ekki hafi verið sýnt fram á að ekki hafi verið byggt í samræmi við samþykktar teikningar. Hvað varði stærstu matsliði sé meginumkvörtunum stefnanda vegna sprungumyndana hafnað. Þá hafi ekki verið færð rök fyrir því að stefndi hafi með saknæmum hætti vanrækt eftirlitsskyldu sína. Þá sé því alfarið hafnað að stefnandi geti átt afsláttarkröfu á hendur stefnda Bjarna Má. Þeim liðum er byggi á afslætti sé sérstaklega hafnað varðandi hann. Þá sé því hafnað að kröfur stefnanda að öðru leyti verði felldar undir ábyrgð byggingarstjóra. Stefndu hafna því að byggt verði á framlögðum álitsgerðum Línuhönnunar hf., Hans Kristinssonar og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins. Þá sé andmælt sérstaklega kostnaði vegna úttektar Línuhönnunar hf. á húsinu, kostnaði við skoðun múrarameistara og kostnaði vegna teikninga hjá byggingarfulltrúa. Í engu sé rökstutt hvers vegna sá kostnaður eigi að leggjast á stefndu í málinu enda um að ræða kostnað við öflun gagna sem ekki hafi sönnunargildi í málinu. Þá er mótmælt að stefndu verði gert að endurgreiða útlagða dráttarvexti og lögmannskostnað. Sú krafa stefnanda sé órökstudd. Hafi verið búið að bæta úr þeim göllum sem kvartað hafi verið um og hafi greiðsluskylda kaupenda því verið til staðar. Stefndu mótmæla því að kostnaður vegna matsgerðar verði lagður á þá. Stærstum hluta matsgerðar, þeim er sneri að meintum göllum á burðarvirki og sprungum í veggjum hafi að mestu verið hafnað í matsgerðinni. Sé því ekki eðlilegt að sá kostnaður verði felldur á stefndu. Stefndu byggja kröfur sínar á meginreglum laga um lausafjárkaup nr. 39/1922 með lögjöfnun er varði skilyrði galla. Þá sé byggt á meginreglu um áhættuskipti við fasteignakaup. Kröfu um málskostnað byggja stefndu á 1. mgr. 130. gr. , sbr. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eins og fram er komið byggir stefnandi kröfur sínar á því fyrst og fremst að umrædd fasteign hafi verið haldin göllum því hún hafi ekki uppfyllt þá kosti sem ætla mátti að stefnandi áskildi í kaupunum. Krefst hún fyrst og fremst skaðabóta úr hendi stefndu með hliðsjón af 2. mgr. 42. gr. þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Verði ekki fallist á að skilyrði skaðabóta séu uppfyllt í öllum atriðum sé til vara byggt á reglum um afslátt af kaupverði hússins að tiltölu og vísar stefnandi í því sambandi til 1. mgr. 42. gr. fyrrgreindra laga. Byggir stefnandi þá kröfu á því að vegna umræddra galla hafi verðmæti fasteignarinnar verið minna en gert hafi verið ráð fyrir í kaupsamningi. Hér á eftir verður fjallað um einstaka liði í kröfugerð stefnanda eins og þeir eru settir fram í stefnu en fyrstu tíu liðina í kröfugerð sinni byggir stefnandi á matsgerð dómkvaddra matsmanna. 1. Sprungumyndun. Þessi kröfuliður stefnanda vegna sprungumyndunar í veggjum, lofti og gólfi er samtals að fjárhæð 509.380 krónur, sem sundurliðast svo í matsgerð: Í matsbeiðni voru matsmenn beðnir um mat á ástæðum sprungumyndunar í veggjum, lofti og gólfi í allri íbúðinni. Kemur fram í áliti matsmanna að styrkleiki steypu teljist fullnægjandi auk þess sem undirstaða hennar sé fullnægjandi. Þá sannreyndu matsmenn að stærð byggingarhluta og staðsetning væri í samræmi við burðarþolsteikningar. Þá var það niðurstaða matsmanna að ekkert sig væri merkjanlegt í gólfplötu og engra úrbóta væri þörf þar. Í niðurstöðum matsmanna kemur fram að þótt athugun þeirra væri ekki óyggjandi teldu þeir víst að engir festiteinar væru upp í loftið úr hlöðum milliveggjum og leggja þeir til að slíkt verði gert. Meta þeir kostnaðinn við þetta að fjárhæð 54.000 krónur. Af matsgerð verður ekkert ráðið á hverju þessi tillaga matsmanna um úrbætur byggist en skilja mátti matsmanninn Frey Jóhannesson þannig er hann gaf skýrslu fyrir dómi að þessi frágangur væri til fyrirmyndar og til aukins öryggis en slíks væri ekki krafist í byggingareglugerð. Þá kemur fram í matsgerðinni að ekki verði fullyrt með óyggjandi hætti að ekki hafi verið gengið frá hinum hlöðnu milliveggjum á þann hátt sem þeir leggja til. Hefur stefnandi ekki lagt fram haldbær gögn um að ekki hafi verið gengið frá tengingu milliveggja við loft á forsvaranlegan hátt og verður hún að bera hallann af því og því ósannað að íbúðin hafi verið haldin göllum að þessu leyti. Af matsgerð verður ráðið að matsmenn geri ráð fyrir að mála þurfi loft og steypta veggi vegna óhreininda sem verði við viðgerð hlöðnu veggjanna og tengingu þeirra við loftið. Gera þeir ráð fyrir kostnaði við að mála loft að fjárhæð 127.500 krónur og við að mála steypta veggi að fjárhæð 77.520 krónur. Þegar af þeirri ástæðu að ekki hefur verið sýnt fram á að frágangur hlaðinna milliveggja við loft sé óforsvaranlegur og úrbóta sé þörf verða stefndu ekki látnir bera ábyrgð á kostnaði sem hlýst af þeim framkvæmdum sem matsmenn leggja til. Þá er þess að geta að í handbók eiganda sem fylgdi með til stefnanda þegar hún keypti fasteignina kemur fram að kaupendur fái íbúðirnar afhentar með hvítri málningu. Eftir að búið hafi verið í íbúðunum í um tvö ár sé eðlilegt að mála þær aftur og megi þá gera ráð fyrir að allir veggir séu að mestu innþornaðir og að sprungumyndun verði ekki meiri. Þá er það niðurstaða matsmanna að sprungur í hlöðnum veggjum séu mun stærri og viðameiri en ásættanlegt sé og gera þeir ráð fyrir úrbótum samtals að fjárhæð 177.600 krónum (170.400+7.200), þar af vinnuliður 125.800 krónur. Hvað snertir flísalagt gólf í baðherbergi þá kemur fram í matsgerð að rétt sé að flísaleggja gólf í baðherbergi upp á nýtt þar sem hallinn á niðurfallinu sé ekki viðunandi. Leggja matsmenn mat á kostnað við lagfæringu þessa og kveða hann 72.760 krónur, þar af vinnuliður 53.040 krónur. Hefur þessu mati matsmanna ekki verið hnekkt og er það niðurstaða dómsins að frágangur hafi verið óviðunandi að því er varðar sprungur í hlöðnum veggjum og halla á baðgólfi. 2. Veggflísar á baðherbergi. Þá má af matsgerð ráða að sprungumyndun á flísalögðum vegg á baðherbergi sé óásættanleg og gera matsmenn ráð fyrir kostnaði að fjárhæð 49.500 krónur vegna endurnýjunar á veggflísum, þar af vinnuliður 42.000 krónur. Er það niðurstaða dómsins að hér sé um að ræða galla sem stefnandi á ekki að þurfa að sætta sig við. Þykir ekki breyta neinu um ábyrgð seljanda þótt stefndu hafi boðist til að lagfæra flísalögn á baði á árinu 2002 þegar ágreiningur var kominn upp milli aðila vegna meintra galla á fasteigninni og aðilar komnir með lögfræðinga í málið. 3. Sílanhúðun gaflveggjar. Í kröfugerð sinni gerir stefnandi kröfu vegna kostnaðar við sílanhúðun gaflveggjar sem matsmenn meta að fjárhæð 22.918 krónur. Í matsgerð segir að rakaúrfellingar séu í útvegg geymslu er snúi að gafli hússins og nái þar allt að 10-15 cm frá gólfi. Geti hér verið um að ræða leka frá efri hæð hússins, jafnvel þaki. Einnig geti verið um að ræða leka á steypuskilum. Þrátt fyrir ítarlega skoðun hafi matsmenn ekki fundið neinn augljósan lekastað en líklegast sé að leki komi frá fínum sprungum í gaflveggjum þótt ekki væru þær sýnilegar berum augum. Telja þeir nauðsynlegt að sílanbera gaflvegginn. Af matsgerð verður ekki með vissu ráðið af hvaða sökum umræddur leki stafi og þykir allsendis ósannað að hann stafi frá meintum sprungum á gaflvegg. Verður því ekki fallist á að fasteigninni sé áfátt að þessu leyti. 4. og 7. Hurðablöð Kröfur stefnanda varðandi kostnað við hurðablöð á svalahurð að fjárhæð 112.000 krónur, þar af vinnuliður 39.000 krónur og útidyrahurð að fjárhæð 32.446 krónur, þar af vinnuliður 11.307 krónur, byggja jafnframt á mati hinna dómkvöddu matsmanna. Kemur fram hjá matsmönnum að svalahurð sé sigin og skökk í falsi og að útidyrahurð sé skökk í falsi. Séu rifur milli hurðar og karms beggja þessara hurða allt að 11 mm þar sem mest sé. Miðast úrbætur sem matsmenn leggja til við að endursmíða hurðarblað beggja hurðanna. Með mati hinna dómkvöddu matsmanna þykir sýnt að ekki hafi verið um að ræða fullnægjandi viðgerð á hurðunum á árinu 2001, svo sem stefndu halda fram og þykir ljóst að ástand hurðanna var óviðunandi þegar matið fór fram. Verður að gera þær kröfur að útidyrahurðir og svalahurðir fasteigna séu þannig útbúnar að þær haldi vatni og vindum í meira en fimm ár frá því að þær eru teknar í notkun. Verður því að fallast á það með stefnanda að fasteigninni hafi verið áfátt að þessu leyti. 5. Lamir og opin fög. Þá gerir stefnandi kröfur vegna kostnaðar við að skipta um lamir og stilla opin fög sem matsmenn meta að fjárhæð 107.200 krónur, þar af vinnuliður 73.600 krónur. Kemur fram hjá matsmönnum að bil milli opinna faga og gluggakarma og gluggapósta séu það stór að ekkert megi út af bera til þess að óþéttleiki myndist og þau fari að leka og vindþéttleiki verði óviðunandi. Þá hafi mæld bil einnig verið mjög mismunandi, allt frá 1-11 mm auk þess sem dæmi væru um að opið fag mislandaði um allt að 4 mm út fyrir gluggakarma og gluggapósta. Hafi verið notaðar svokallaðar viðnámslamir og sé mikilvægt að setja þær rétt upp þannig að opnanlega fagið falli þétt að á öllum hliðum. Telja þeir að taka verði niður öll opin fög, skipta um þéttilista og lamir sem ekki sé hægt að endurnýta. Síðan verði opnu fögin sett upp aftur á faglegan hátt. Af þessu verður ráðið að ekki hafi verið gengið frá opnanlegum fögum á forsvaranlegan hátt og fasteigninni því áfátt að þessu leyti. 6. Gluggalistar. Þá kemur fram í matsgerð að stórt bil sé milli lóðréttra gluggalista og lista við neðanvert gluggafals. Sé það fyllt með kítti og sé útlitslega lýti á gluggunum enda þótt þetta sé ekki brot á byggingareglugerð eða komi að sök. Er það niðurstaða matsmanna að hæfilegur afsláttur vegna þessa útlitsgalla sé að fjárhæð 50.000 krónur. Er það niðurstaða dómsins að sýnt hafi verið fram á það með mati hinna dómkvöddu matsmanna að frágangur gluggalista hafi verið óviðunandi. 8. Aðgengi fyrir hreyfihamlaða innanhúss. Stefnandi gerir kröfur á hendur stefndu vegna skorts á aðgengi fyrir hreyfihamlaða innanhúss og byggir þá kröfu á mati hinna dómkvöddu matsmanna en þeir meta kostnað vegna hefts aðgengis vegna hurðabreidda að fjárhæð 250.000 krónur og afsláttar vegna endurgerðar á baðherbergi að fjárhæð 500.000 krónur. Niðurstaða matsgerðar byggir á beiðni um mat á því hvort frágangur á íbúð og hurðarstærðum sé eðlilegur og forsvaranlegur fyrir hreyfihamlaða. Er niðurstaðan því miðuð við hvað þurfi að gera til að íbúðin uppfylli kröfur fyrir hreyfihamlaða en matsmenn taka sérstaklega fram að þeir hafi hvergi séð í matsgögnum öðrum en teikningu arkitekts að íbúðin skuli uppfylla kröfur fyrir hreyfihamlaða. 9. Aðgengi fyrir hreyfihamlaða utanhúss. Stefnandi byggir á því að skortur sé á aðgengi fyrir hreyfihamlaða utanhúss og byggir á mati hinna dómkvöddu matsmanna um það en þeir meta hæfilegan afslátt af verði íbúðarinnar vegna þessa að fjárhæð 500.000 krónur. Samkvæmt byggingarreglugerð grein 203.1 skulu skábrautir fyrir umferð í hjólastól að jafnaði ekki vera brattari en 1:20. Matsmenn fundu út að kafli á bílastæði næst inngangi íbúðarinnar væri 1:8,7 og halli á gangstétt frá efri brún á kantsteini við götu og á móts við húshorn væri 1:9,8 en halli þaðan og á móts við útidyr íbúðar 1:27 eða minna. Samkvæmt því er halli á bílastæðum og gangstétt að húsi mun meiri en kröfur byggingarreglugerðar segja til um og er það mat matsmanna að vandséð sé hvernig bæta megi úr þeim ágalla nema með mjög kostnaðarsömum og óæskilegum aðgerðum. Þá sé óvíst að samþykki meðeigenda fengist vegna þessa. Að þessu virtu er það niðurstaða dómsins að við gerð bílastæðis og gangstétt að húsi hafi verið gengið á svig við fyrrgreint ákvæði byggingarreglugerðar og því sé fasteigninni ábótavant að þessu leyti. 10. og 11. Eldhúsinnrétting. Stefnandi gerir kröfur um 60.000 krónur vegna útlitsgalla á eldhúsinnréttingu en það er sú fjárhæð sem matsmenn meta hæfilegan afslátt vegna útlitsgalla hennar. Í matsbeiðni stefnanda varðandi þennan lið er þess farið á leit að matsmenn meti ástand eldhúsinnréttingar þar sem hún uppfylli ekki kröfur um sentimetrastærð í eldhúsi, úrbætur og kostnað við þær. Þá er þess farið á leit að metið verði hvort þessi meinti galli muni rýra verðmæti fasteignarinnar þar sem venjuleg eldhústæki passi ekki og það takmarki nýtingarmöguleika. Hinir dómkvöddu matsmenn komast að þeirri niðurstöðu að stærðir á skápum og borðplötu séu alvanalegar. Þá hafi botnplata undir ísskáp gefið sig undan þunga hans að framan og því þurfi að skipta um hana. Þá séu nokkrir útlitsgallar á spæni og kantlíming ekki alls staðar vönduð. Matsmenn meta kostnað viðgerðar vegna þessa að fjárhæð 25.000 krónur, þar af vinnuliður 14.000 krónur og telja hæfilegan afslátt vegna þessa að fjárhæð 60.000 krónur eins og áður segir. Lið nr. 11 í kröfugerð stefnanda sem varðar nýjar skáphurðir og höldur í eldhúsinnréttingu samtals að fjárhæð 453.513 krónur, byggir stefnandi á tilboði frá Axis húsgögnum ehf. Framlagt tilboð sem stefnandi byggir ofangreindan kröfulið sinn á ber ekki með sér svo óyggjandi sé hvað nákvæmlega er verið að gera tilboð í en stefnandi kveður það vera tilboð í nýjar skápahurðir og höldur í eldhúsinnréttingu en af tilboðinu má ráða að það varði enn fremur skúffur. Þá verður ekki séð hvernig tilboð þetta snerti það álitaefni sem uppi er um meintan galla á eldhúsinnréttingunni. Hefur matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna ekki verið hnekkt að þessu leyti og er það niðurstaða dómsins að galli vegna eldhúsinnréttingar sé hæfilega metinn til verðs í mati hinna dómkvöddu matsmanna samtals að fjárhæð 85.000 krónur, þar af vinnuliður 14.000 krónur. Í matsbeiðni stefnanda var óskað mats á skemmdum á fataskápahurðum, úrbótum og kostnaði við þær og var niðurstaða matsmanna sú að hæfilegur afsláttur vegna útlitslýta væri að fjárhæð 50.000 krónur. Eins og málatilbúnaði stefnanda er háttað verður hins vegar ekki séð að gerð sé krafa á þeim grundvelli að skápahurðum hafi verið ábótavant. Stefnandi hefur ekki rökstutt með tilhlýðilegum hætti á hverju hún byggir kröfur sínar á hendur stefndu um greiðslu á útlögðum kostnaði við að afla gagna sem hún gerði einhliða og án samráðs við stefndu og ekki verður séð að hún byggi kröfur sínar á þeim gögnum. Þá telst kostnaður sem stafar beinlínis af máli sem og þóknun matsmanna til málskostnaðar, sbr. 1 mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður því ekki fallist á að stefnandi geti átt kröfu til að fá útlagðan kostnað vegna matsgerða og teikninga endurgreiddan nema að því leyti sem tekið kann að verða tillit til slíks kostnaðar í ákvörðun um málskostnað. Krafa stefnanda um endurgreiðslu vegna dráttarvaxta og kostnaðar sem hún þurfti að greiða vegna innheimtu eftirstöðva kaupverðs er að fjárhæð 329.297 krónur. Fyrir liggur að stefnandi greiddi ekki eftirstöðvar kaupverðs á gjalddaga og ekki fyrr en seljandi hafði höfðað mál til innheimtu skuldarinnar, en greiðsluna innti hún af hendi 20. nóvember 2002. Matsgerð sú sem stefnandi byggir meginþorra krafna sinna á lá ekki fyrir fyrr en í júlí 2005. Á þeim tíma sem stefnandi greiddi vanskil vegna eftirstöðva kaupverðsins hafði hún ekki aflað viðhlítandi sönnunargagna um meintar gagnkröfur sínar og því verður ekki fallist á að hún geti krafið stefndu um endurgreiðslu þess kostnaðar sem af vanskilum hennar hlaust. Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að íbúð sú sem um er fjallað í máli þessu hafi verið gölluð og hafa matsmenn metið þá galla sem fallist er á að hafi verið á fasteigninni samkvæmt framansögðu samtals að fjárhæð 1.186.506 krónur. Umrædd fasteignakaup fóru fram í mars 2000 eða fyrir gildistöku laga nr. 40/2002 um fasteignakaup sem gilda um samninga sem gerðir hafa verið eftir 1. júní 2002. Á þeim tíma sem umrædd fasteignakaup áttu sér stað voru ekki í gildi sérstök lög um fasteignakaup og fyrir gildistöku fasteignakaupalaganna var ákvæðum laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup jafnan beitt um fasteignakaup með lögjöfnum. Í 1. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 sagði að væri ákveðinn hlutur seldur og honum væri áfátt eða galli á honum mætti kaupandi rifta kaupunum eða heimta afslátt af kaupverði að tiltölu. Ef gallin taldist óverulegur gat kaupandi ekki rift kaupunum nema seljandi hefði haft svik í frammi. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins gat kaupandi krafist skaðabóta ef keyptan hlut skorti einhverja þá kosti sem ætla mátti að áskildir væru eða það sem hlut væri áfátt hefði gerst fyrir vanrækslu seljanda eftir að kaup voru gerð eða seljandi hefði haft svik í frammi. Þegar allt framangreint er virt þykir umfang galla á íbúð stefnanda slíkt að áhrif hefði haft á kaupverð, ef vitneskja um þá hefði legið fyrir við samningsgerð. Verður að gera þá kröfu að ný íbúð sem auglýst er sem lúxusíbúð sé ekki haldin þeim annmörkum sem staðreynt hefur verið að hafi verið á henni. Þykir stefnandi því eiga rétt á afslætti samkvæmt meginreglu 1. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 vegna þessara galla. Við mat á fjárhæð afsláttarins þykir rétt að leggja til grundvallar mat hinna dómkvöddu matsmanna sem meta gallana ýmist miðað við kostnað við gera við þá eða hæfilegan afslátt vegna þeirra. Eins og fram er komið hafa þeir gallar sem slegið hefur verið föstu að hafi verið á eigninni verið metnir samtals að fjárhæð 1.186.506 krónur. Í matsgerð er gerð grein fyrir því að í kostnaðartölum sé innifalinn virðisaukaskattur. Samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt fæst 60% af virðisaukaskatti af vinnu á verkstað vegna endurbóta og viðhalds á húsnæði. Inn í matsfjárhæðum sem varða kostnað við úrbætur eru vinnuliðir samtals að fjárhæð 358.747 krónur. Þykir rétt við mat á fjárhæð afsláttar að taka tillit til þessa og er það því niðurstaða málsins að stefnandi eigi rétt á afslætti af kaupverði eignarinnar sem nemur 1.144.148 krónum (1.186.506-42.358) með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði en rétt þykir með vísan til 5. gr. laga nr. 38/2001 að upphafsdagur dráttarvaxta miðist við mánuð eftir að stefnandi setti fram kröfur sínar á grundvelli matsgerðarinnar. Óumdeilt er að stefnandi hefur staðið skil á kaupverði fasteignarinnar og á hún því rétt á að fá ofangreinda fjárhæð greidda úr hendi seljanda, stefnda JB Byggingafélags ehf. Kröfur stefnanda á hendur stefnda Bjarna Má, sem var byggingarstjóri fasteignarinnar, byggir hún á þeim rökum að hann sé samábyrgur seljanda á grundvelli 2. mgr. 32. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Að mati stefnanda sé ábyrgð hans rík þar sem stærstu matsliðirnir varði brot á byggingarreglugerð auk þess sem telja verð að umsjón hans á verkinu í heild leiði til sömu niðurstöðu. Stefndi Bjarni Már var ekki aðili að kaupsamningi stefnanda og stefnda JB Byggingarfélagi ehf. og verður hann þegar af þeirri ástæðu ekki dæmdur til að veita stefnanda afslátt af kaupverði fasteignarinnar. Stefndi Bjarni Már ber hins vegar sem byggingarstjóri ábyrgð á því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykir ekki annað komið fram en að umrædd fasteign hafi verið byggð í samræmi við þessi ákvæði að því undanskyldu að því hefur verið slegið föstu að fasteigninni hafi verið áfátt að því leyti að halli á bílastæði og lóð hafi verið mun meiri en kröfur byggingarreglugerðar segja til um. Í málinu liggja hins vegar ekki fyrir haldbær gögn um að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni af þessum völdum þótt metinn hafi verið hæfilegur afsláttur af kaupverðinu vegna þessa. Verður hún að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Verður stefndi Bjarni Már því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir þessari niðurstöðu verður stefndi JB Byggingafélag ehf. dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur, þar með talinn útlagður kostnaður vegna öflunar matsgerðar dómkvaddra matsmanna, en hlutdeild stefnda í þeim kostnaði þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur. Þá verður stefnandi dæmd til að greiða stefnda Bjarna Má Bjarnasyni 600.000 krónur í málskostnað. Af hálfu stefnanda flutti málið Páll Arnór Pálsson hrl. en af hálfu stefndu flutti málið Magnús Guðlaugsson hrl. Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Ásmundi Ingvarssyni verkfræðingi og Gústaf Vífilssyni verkfræðingi. Stefndi, JB byggingafélag ehf., greiði stefnanda, Ingunni Jónu Gísladóttur, 1.144.148 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 18. ágúst 2006 til greiðsludags. Stefndi, Bjarni Már Bjarnason, er sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Stefndi, JB byggingafélag ehf., greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað. Stefnandi greiði stefnda, Bjarna Má Bjarnasyni, 600.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 721/2016 | Verksamningur Meðdómsmaður Ómerking héraðsdóms Aðfinnslur | V ehf. gerði samning við H hf. um afhendingu á stáli í byggingu sem V ehf. var að reisa samkvæmt verksamningi við E ehf. Hafði síðargreindi samningurinn verið gerður að undangengnu útboði. Miðað var við í upphafi að stál í bygginguna yrði um 350 tonn en það magn sem var notað og H hf. afhenti reyndust vera um 550 tonn. Deildu aðilar meðal annars um hvor þeirra bæri áhættuna af því. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við úrlausn á því hvort H hf. gæti krafið V ehf. um greiðslu fyrir allt stálið gæti skipt máli hvort honum hefði mátt vera ljóst af útboðsgögnum einum, sem fyrir lá að V ehf. hafði sent honum, að V ehf. hefði reiknað með að nota of lítið af stáli í bygginguna. Einnig þyrfti að meta hvort H hf. hefði verið kleift á grundvelli útboðsgagna að hanna burðaþol byggingarinnar eða hvort hann þurfti við þá hönnun að hafa teikningar frá arkitektum hússins. Talið var að þegar þessi atriði væru virt reyndi á sérfræðileg álitaefni á sviði byggingaverkfræði. Hefði því verið nauðsynlegt að héraðsdómari kveddi til sérfróða meðdómsmenn til að leggja mat á þau og dæma málið með sér, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem það hefði ekki verið gert var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogasonog Karl Axelsson.Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. október 2016. Hann krefst þessaðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur ásamt meðferð málsins frá og meðþinghaldi 1. júní 2016 og málinu vísað heim í hérað, til vara að hann verðisýknaður af kröfu stefnda, en að því frágengnu að krafa stefnda verði lækkuð ogað hún beri dráttarvexti frá uppsögu héraðsdóms. Þá krefst hann málskostnaðar íhéraði og fyrir Hæstarétti.Stefndi krefst staðfestingarhéraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.IÍ nóvember 2014 bauð Eimskip Íslandehf. út í lokuðu útboði byggingu frystigeymslu ásamt forrými og stoðrýmum viðSuðurhöfn að Óseyrarbraut 22 í Hafnarfirði. Byggingin skiptist í tvofrystiklefa, samtals að grunnfleti um 5.400 fermetrar, og forrými, um 1.200fermetrar. Verkið skiptist í tvo áfanga og átti þeim fyrri að vera lokið 1.júlí 2015 en þeim síðari 1. október sama ár. Tilboðum í verkið átti að skila 3.desember 2014 og bauð áfrýjandi í það. Tilboði hans var tekið og mun hafakomist á samningur um verkið á grundvelli útboðsgagna.Í kjölfar þess að áfrýjandi tókað sér verkið hófst hann handa við að afla tilboða í efni og tæki fyrir bygginguna.Meðal annars fékk hann tilboð 8. janúar 2015 frá stefnda í yleiningar ogklæðningarefni og keypti þær vörur af honum. Jafnframt óskaði áfrýjandi eftirtilboði frá stefnda í stál fyrir bygginguna og fékk það með bréfi hans 15. samamánaðar. Þar kom fram að einingarverð á máluðu stáli væri 1.690 evrur en áheithúðuðu stáli 1.750 evrur. Innifalið í verðinu var burðarþolshönnun ástálvirki forrýmis og frystigeymslu. Samhliða þessu fékk áfrýjandi þrjú önnurtilboð í þennan þátt verksins, en vikið er að efni þeirra í hinum áfrýjaðadómi. Í einu af þessum tilboðum var miðað við að magn af stáli í byggingunayrði um 347 tonn en í öðru um 520 tonn.Áfrýjandi gekk til samninga viðstefnda og keypti af honum allt stál í bygginguna, en það var framleitt í Póllandi.Um viðskiptin var ekki gerður skriflegur samningur, en í aðdraganda þeirrasendi áfrýjandi tölvupóst 6. janúar 2015 til stefnda með gögnum úr útboðinu. Þarvar tekið fram að verkáætlun gerði ráð fyrir að stálvirki yrði reist ummánaðarmótin apríl/maí 2015 og að afhending til verkkaupa yrði í ágúst sama ár.Þessu erindi svaraði stefndi með tölvupósti síðar sama dag, en þar sagði meðalannars svo: „ ... við erum að tala um að burðarvirkið sem um 350 tonn ...“.Eftir að viðskiptin um kaup ástálinu komust á skiptust aðilar á fjölda tölvupósta. Að því er varðar magn ástáli kom fram í tölvupósti stefnda 9. mars 2015 að umtalsverð aukning hefðiorðið á því með aukabitum vegna brunakrafna eða 32 tonn. Þannig færi stálvirkiðúr 346 tonnum í 378 tonn. Í tölvupósti stefnda 22. apríl sama ár til áfrýjandavar spurt að því hvort „350 tonnin sem þið töluðuð um í upphafi“ ættu að vera450 tonn eða hvort þetta væri „allt eitt bull?“ Þessu svaraði áfrýjandi meðtölvupósti sama dag þar sem sagði: „350 tonn áttu að vera 350 tonn og ekkertbull.“ Þegar upp var staðið fóru samtals um 550 tonn af stáli í bygginguna.Stefndi gerði áfrýjanda fjöldareikninga á tímabilinu frá 29. maí til 30. september 2015 samtals að fjárhæð351.583.323 krónur. Af þeirri fjárhæð hefur áfrýjandi greitt samtals 263.376.946krónur, en síðasta greiðslan var innt af hendi 27. ágúst 2015.Aðilar funduðu 24. september og7. október 2015 um viðskiptin og ritaði starfsmaður áfrýjanda minnisblað umfundina. Minnisblaðið var sent stefnda með tölvupósti 26. október það ár. Þarkom meðal annars fram að í upphafi hefði áfrýjandi áætlað að magn af stáli íhúsið næmi 350 tonnum. Stefndi hefði látið hanna meira og teldi fjölda tonnavera um 370 til 380 en hefði gert reikninga fyrir 550 tonn. Þá kom fram aðskýringu vantaði á umfram fjölda tonna um 150 til 170. Í niðurlagiminnisblaðsins sagði að fram hefði komið af hálfu áfrýjanda að frekari greiðsluryrðu ekki inntar af hendi fyrr en ágreiningi aðila um viðskiptin yrði ráðið tillykta. Stefndi sendi áfrýjanda bréf 11. nóvember 2015 og krafðist þess aðstaðið yrði skil á því sem væri ógreitt samkvæmt reikningum stefnda. Þessuerindi svaraði áfrýjandi með bréfi 26. sama mánaðar þar sem greiðsluskyldu varsynjað meðal annars af þeirri ástæðu að upphaflega hefði verið samið um kaup á346 tonnum en við það bæst 32 tonn sem áfrýjandi hefði óskað eftir tilviðbótar. Að auki bæri að greiða fyrir stál sem verkkaupi, Eimskip Ísland ehf.,hefði óskað eftir vegna aukaverka, en það næmi um 53 tonnum.Af hálfu áfrýjanda varð dráttur áþví að skila verkinu tímanlega til verkkaupa. Í samræmi við verksamning gekkstáfrýjandi af þeirri ástæðu undir að greiða verkkaupa tafabætur að fjárhæð19.000.000 krónur með samkomulagi 1. febrúar 2016. Áfrýjandi heldur því fram aðdráttur af hálfu stefnda á því að afhenda stálið hafi valdið því að verkinu varekki skilað í tæka tíð. Telur áfrýjandi að tjón sitt af þessum sökum svari tiltafabótanna og heldur hann þeirri kröfu fram til skuldajafnaðar gegn fjárkröfustefnda. Stefndi telur aftur á móti að dráttur á afhendingu af sinni hálfuverði rakinn til atriða sem áfrýjandi beri ábyrgð á.Um afhendingu á stálinu kom fram í tölvupósti stefnda10. febrúar 2015 til áfrýjanda að hinn fyrrnefndi hefði gert samkomulag viðtiltekna verkfræðiskrifstofu í Þýskalandi um framleiðsluteikningar stálvirkisog var tekið fram að þeim yrði lokið tímanlega fyrir framleiðanda stálsins.Stálvirki fyrir forrýmið, annan af frystiklefunum og hluta af hinum, yrði komiðtil landsins 27. apríl til 2. maí 2015 en afgangur stálsins kæmi 25. til 30. maísama ár. Þetta væri þó háð því að ekki yrðu gerðar neinar þær breytingar ábyggingunni sem seinkað gætu teiknivinnu. Með tölvupósti 16. febrúar 2015 lýstiáfrýjandi yfir óánægju og áhyggjum gagnvart stefnda af framgangi mála viðhönnun byggingarinnar. Var vísað til þess að þann dag hefði átt að halda þriðjafund um hönnunina, en þetta væri jafnframt þriðji slíkur fundur sem stefndihefði óskað eftir að yrði frestað. Einnig var vísað til þess að óskað hefðiverið eftir hönnunar- og verkáætlun frá stefnda, en komið hefði í ljós að áformum skil á þeim myndu ekki standast. Þetta væri byrjað að valda töfum sem erfittværi að vinna upp. Jafnframt sendi áfrýjandi tölvupóst 4. mars 2015 til stefndaþar sem vísað var til fundar 17. febrúar sama ár sem boðað hafði verið til vegnaóánægju með gang mála við hönnun og útvegun efnis í bygginguna. Frá þeim fundiværu liðnar tvær vikur og áhyggjur af framvindunni væru síst minni, enda væristefndi farinn „að líta vægast sagt vandræðalaga út gagnvart verkkaupa“. Ítölvupósti stefnda 9. sama mánaðar til áfrýjanda sagði aftur á móti aðverkfræðistofan í Þýskalandi gæti ekki haldið áfram vinnu við burðarþolshönnunsökum þess að teikningar frá arkitektum hefðu ekki borist. Þá kom fram ítölvupósti áfrýjanda 18. júní 2015 til stefnda að ákveðið hefði verið á fundiaðila 24. apríl sama ár að hafist yrði handa við framleiðslu á stálinu, en núrétt tæpum tveimur mánuðum síðar hefðu borist 25 til 30% af efninu, lítið væriá leiðinni og ekkert vitað um framleiðslulok. Efnið í bygginguna mun síðan hafaborist þá um sumarið og afhendingu þess lokið í ágúst það ár.Undir áfrýjun málsins fékkáfrýjandi dómkvaddan mann til að meta nánar tilgreind atriði um venjur íverktakastarfsemi og byggingu frystigeymslunnar, sbr. dóm Hæstaréttar 25.janúar 2017 í máli nr. 835/2016. Matsgerð þessari var skilað 21. febrúar 2017,en þá var liðinn sameiginlegur frestur aðila til gagnaöflunar fyrir réttinum.Af hálfu stefnda var því mótmælt með bréfi 23. sama mánaðar að matsgerðinkæmist að í málinu, en við munnlegan flutning þess var fallið frá þeimandmælum. Í matsgerðinni kemur meðal annars fram að aðeins burðarþolshönnuðurhefði getað reiknað út magn af stáli í bygginguna. Aðrir hefðu eingöngu getaðgiskað á það.IIEins og hér hefur verið rakið tókstefndi að sér gagnvart áfrýjanda að afhenda stál í byggingu, sem hann var að reisasamkvæmt verksamningi við Eimskip Ísland ehf. Þegar þessi viðskipti aðila komustá var miðað við að stálið í bygginguna yrði um 350 tonn, en það magn sem varnotað og stefndi afhenti reyndist vera um 550 tonn. Aðilar deila um hvor þeirraberi áhættuna af þessu. Jafnframt sömdu aðilar ekki í öndverðu um tiltekinnafhendingartíma á stálinu, en þó liggur fyrir að áfrýjandi sendi stefnda gögnúr útboði verkkaupans og þar kom fram hvenær skila átti verkinu. Verður þvímiðað við að stefnda hafi borið að afhenda stálið í tæka tíð svo verkinu yrðiskilað á réttum tíma.Við úrlausn þess hvort stefndigeti krafið áfrýjanda um greiðslu fyrir allt það stál sem hann afhenti geturskipti máli hvort honum hafi mátt vera ljóst af útboðsgögnum einum hvort áfrýjandireiknaði með að nota of lítið af stáli í bygginguna. Einnig þarf að meta hvortstefnda var kleift á grundvelli útboðsgagnanna að hanna burðarþolbyggingarinnar eða hvort hann þurfti við þá hönnun að hafa teikningar fráarkitektum hússins. Þegar virt eru bæði þessi atriði, sem aðilar deila um,reynir á sérfræðileg álitaefni á sviði byggingaverkfræði. Var því nauðsynlegtað héraðsdómari kveddi til sérfróða meðdómsmenn til að leggja mat á þetta ogdæma málið með sér, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.Þar sem það var ekki gert verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferðmálsins í héraði frá og með aðalmeðferð 1. júní 2016 og vísa málinu heim íhérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.Rétt er að aðilar beri hvor sinnkostnað af málinu fyrir Hæstarétti.Það athugast að samninguhéraðsdóms er áfátt af þeim sökum að lýsing málavaxta er óglögg og ástæðulaustvar með öllu að rekja í löngu máli framburð þeirra sem gáfu skýrslu fyrir dómií stað þess að geta aðeins um það í aðila- og vitnaskýrslum sem dómari taldihafa áhrif við sönnunarmatið.Dómsorð:Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísaðheim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.Málskostnaðurfyrir Hæstarétti fellur niður. DómurHéraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016.Mál þetta, sem þingfest var 9. desember 2015 ogdómtekið 1. júní 2016, var höfðað af Hýsi-Merkúr ehf., kt. 701006-2590,Völuteigi 7, 270 Mosfellsbæ, með stefnu, dagsettri 8. desember 2015, á hendurVHE ehf., kt. 531295-2189, Melabraut 23-25, Hafnarfirði. Endanlegardómkröfur stefnanda eru að stefnda verði gert aðgreiða stefnanda 351.583.323 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr.laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 78.353.660 krónum frá 29. maí2015 til 17. júní 2015, en af 83.175.499 krónum frá þeim degi til 18. júní2015, en af 154.196.431 krónu frá þeim degi til 19. júní 2015, en af180.874.485 krónum frá þeim degi til 20. júlí 2015, en af 242.878.271 krónu fráþeim degi til 21. júlí 2015, en af 254.275.890 krónum frá þeim degi til 29.júní 2015, en af 261.464.388 krónum frá þeim degi til 30. júlí 2015, en af316.815.507 krónum frá þeim degi til 12. ágúst 2015, en af 323.059.606 krónumfrá þeim degi til 18. ágúst 2015, en af 329.705.808 krónum frá þeim degi til21. ágúst 2015, en af 334.028.904 krónum frá þeim degi til 24. ágúst 2015, enaf 341.789.811 krónum frá þeim degi til 26. ágúst 2015, en af 345.042.343krónum frá þeim degi til 1. október 2015, en af stefnufjárhæð frá þeim degi tilgreiðsludags, allt að frádregnum innborgunum samtals að fjárhæð 269.355.498krónur sem greiddar voru þann 16. júní 2015 að upphæð 21.036.020 krónur, þann18. júní 2015 12.568.779 krónur, þann 26. júní 2015 12.196.227 krónur, þann 15.júlí 2015 32.552.634 krónur, þann 15. júlí 2015 3.061.112 krónur, þann 15. júlí2015 1.760.727 krónur, þann 15. júlí 2015 45.585.483 krónur, þann 24. júlí 201516.571.127 krónur, þann 5. ágúst 2015 23.473.014 krónur, þann 14. ágúst 20155.362.438 krónur, þann 14. ágúst 2015 3.501.884 krónur, þann 14. ágúst 20153.205.040 krónur, þann 14. ágúst 2015 62.003.789 krónur og þann 27. ágúst 201520.498.672 krónur. Þá lækkaði stefnandi dómkröfur sínar þannig að hannsamþykkti afslátt frá 30. sept. 2015 að fjárhæð 3.400.678 krónur vegna gengismunar og þann 23. feb. 20162.577.874 krónur vegna stálsmíði stefnda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendistefnda. Stefndi krefst sýknu af öllumkröfum stefnanda en til vara að kröfur hans verði lækkaðar. Þá krefst stefndimálskostnaðar úr hendi stefnanda. Málsatvik og aðdragandi máls. Samkvæmt gögnum málsins og framburði aðila bauðstefndi í frystigeymslu fyrir Eimskip í Hafnarfirði í lokuðu útboði í nóvember2014. Í framhaldi leitaði stefndi tilboða í stál til byggingarinnar, m.a. hjástefnanda, Húsasmiðjunni ehf., Límtré-Vírnetiehf. og Oostingh Staalbouw Katwijk í Póllandi. Stefnandi bauð í yleiningar ogklæðningu í skemmu Eimskips. Í framhaldi af því gerði stefnandi stefnda tilboðí stálgrind skemmunnar. Sendi stefnandi stefnda yfirlýsingu þar sem segir aðstefnandi staðfesti eftirfarandi stálverð vegna tilboðs þeirra í efnispakka ífrystigeymslur fyrir Eimskip í Hafnarfirði. „Stálverð (málað) 1690 EUR. EX-workí Póllandi. Stálverð (heithúðað) 1750 EUR. EX-work í Póllandi. Flutningur á efniper trukk til Cuxhaven 980 EUR. Innifalið í stálverði er burðarþolshönnun ástálvirki forrýmis og frystigeymslu. VHE kaupir krana sem samið var um á fundiHýsi-Merkúr hf. við Lambhagaveg 6. Þröstur og Unnar ganga frá samningi ágreiðslum varðandi verk þessi. Endanlegur samningur verður gerður eigi seinnaen í byrjun febrúar 2015“ Ítölvupósti sendum frá stefnda til stefnanda 6. janúar 2015 segir að í framhaldiaf símtali við Þröst hafi stefndi sent meðfylgjandi gögn og ósk um verð ístálgrindarhús. Miðað við þau viðmiðunarverð sem Þröstur hafi gefið upp deginumáður geti stefndi ekki betur séð en að stefnandi sé samkeppnishæfur eftir aðhafa tekið stikkprufu. Um sé að ræða stálgrind, Z- prófíla, báruklæðningu úrstáli og ákeyrsluvörn að innan. Þá er stefnandi spurður hvort þeir séu íaðstöðu til að útvega alla verkþættina eða jafnvel fleiri en þá sem taldir séuupp. Hönnunargögn sem stefndi hafi fengið frá verkkaupa séu meðfylgjandi ogmegi þar nefna grunnmynd, útlit og snið á AutoCad-formi, álagsforsendur ogverklýsingu. Varðandi afhendingartíma þá geri verkáætlunin ráð fyrir aðstálreising byrji um mánaðamótin apríl-maí 2015 og afhending til verkkaupa sé íágúst 2015. Sama dag svaraði stefnandi stefnda í tölvupósti þar sem segir aðhann sé að vinna í þessu og þeir séu að tala um að burðarvirkið sé um 350 tonnog spyr hvort stefndi viti hver skiptingin sé á stálinu milli forrýmis ogfrystiklefa. Í gögnunum sé talað um að forrýmisburðarvirkið eigi að veraheithúðað en frystiklefaburðarvirkið eigi að vera málað. Ígögnum málsins er verðtilboð frá stefnanda til stefnda í klæðningarefni ogfylgihluti vegna Eimskips. Kemur fram að það sé báruvalsað járn, Pir-samlokueiningarog fylgihlutir. Í greiðsluskilmálum segir að allt verð séu staðgreiðsluverð ííslenskum krónum og án virðisaukaskatts nema annað sé tekið fram. Verðið miðistvið sölugengi gjaldmiðla á tilboðsdegi samkvæmt gengisskráningu SeðlabankaÍslands og breytist í samræmi við skráð gengi við uppgjörsdag. Í viðhengi viðtilboðið kemur fram að lækkun sé í íslenskum krónum 3.500.000, gengi Evru sé154,68, fyrra verð 100 mm steinull og með lækkun 100 mm steinull. Var þanniggengið frá málum að Eimskip myndi sjá um flutninga á stálinu til landsins. Þann16. janúar 2015 sendi stefnandi stefnda tölvupóst sem ber efnisheitið„Heiðursmannasamningur milli Hýsi-Merkúr og VHE“. Segir í póstinum að þar komi þetta aftur eftirleiðréttingar á stafarugli. Þá segir stefnandi að stefndi athugi að endanlegttilboð sé á þremur síðum, útreikningur á einingaverði 7701 m2 200 mm Pir-einingannahafi verið breytt til að lækka verðið í Evrum sem samsvari 3.500.000 krónum.Daginn eftir svaraði stefndi stefnanda og sagðist staðfesta þetta samkomulag.Það vanti þó þar inn að ef samið verði við stefnanda um tölvuverið íReykjanesbæ þá muni þeir einnig taka það. Ítölvupósti frá stefnanda til stefnda þann 10. febrúar 2015 kvaðst stefnandistaðfesta eftirfarandi í samræmi við ósk stefnda frá 22. janúar sl.:„Meðfylgjandi er teikning þar sem ég er búinn að merkja inná forrými ogfrystigeymsla 1 og 2. Forrýmið og frystiklefi 1 og hluti af frystiklefa 2, sáhluti af frystiklefa 2 sem snýr að forrýminu þarf að vera komið í viku 18.Restina þurfum við að fá í viku 22. Það má koma fyrr en ekki seinna.“ Þá segirstefnandi einnig: „Þá staðfestum við að allar þær tæknilegu upplýsingar semBjörn hjá VSB þarf frá okkur verða komnar til hans fyrir lok þessarar viku aðundanskildum upplýsingum um boltagrúppur sem koma munu með hönnun sjálfrarstálgreindarinnar. Væntanlega verða þær tilbúnar eigi síðar en miðvikudaginn ínæstu viku, 18. febrúar. Við höfum gert samkomulag við verkfræðistofuna IMC íLeipzig í Þýskalandi um allar framleiðslueiningar stálvirkis og verður þeimlokið tímanlega fyrir framleiðanda stálsins Metalbark, en þessi 2 fyrirtækihafi unnið mikið saman. Afgreiðsla á stálvirkinu fyrir forrýmið og frystiklefa1 og hluta af frystiklefa 2 verður því komið til landsins viku 18 og afgangurinní viku 22. Að sjálfsögðu miðast þetta við að ekki verði gerðar neinar þærbreytingar á húsinu sem seinkað geta teiknivinnu. ...“ Þann16. febrúar 2015 sendi stefnandi stefnda tölvupóst þar sem hann óskaði eftirtveggja til þriggja daga fresti á hönnunarfundi sem þeir hafi ætlað að haldadaginn eftir. Segir í póstinum að eftir reiknivinnu síðustu daga hafi þeir ekkiverið alveg nógu sannfærðir um að módelið væri að skila þeim nógu réttumkröftum svo að þeir hafi ákveðið að skjóta þessu til verkfræðinganna í Leipzigsem þeir höfðu samið við um að klára dæmið eins og útskýrt hafi verið ítölvupósti 10. sama mánaðar. Stefndi svarar stefnanda sama dag í tölvupósti oglýsir yfir óánægju og áhyggjum sínum með framgang mála við hönnunina. Þettahafi átt að vera þriðji hönnunarfundurinn með starfsmönnum VSB og þetta séjafnframt þriðji hönnunarfundurinn sem stefnandi óski frestunar á. Þá bendirstefndi stefnanda á að dagsetningar um afhendingu hönnunargagna muni ekkistandast frá stefnanda. Lýsir stefndi yfir áhyggjum vegna seinkana frástefnanda og kveðst einnig vera undrandi á því að hönnunar- og verkáætlun semstefndi hafði óskað eftir frá byrjun hafi borist 10. febrúar sl. og viku síðarséu orðnar tafir á henni. Óskar stefndi eftir áreiðanlegri áætlun frástefnanda. Kvað stefndi þetta þegar vera farið að valda töfum sem verði erfittað vinna upp þar sem eðli verkefnisins bjóði ekki upp á neinar tafir. Þá séuþessar tafir þá þegar farnar að hafa áhrif á verkið. Næstliggur fyrir tölvupóstur frá stefnda til stefnanda 4. mars 2015 þar sem segirað meðfylgjandi sé tölvupóstur með minnisblaði sem stefndi kvaðst hafa sent út17. febrúar þar sem fram komi ósk þeirra um að skipta afhendingu stálsins íþrennt og flýta einnig afhendingu. Einnig fylgi með teikning sem sýni þettamyndrænt. Þá spyr stefndi hver sé staðan á þessari ósk hans. Sama dag svaraðistefnandi tölvupósti stefnda þar sem hann kveðst ekki kannast við að hafafengið þetta blað um afhendingu stáls. Spyr stefnandi hvort hann megi sendaþetta svona í verksmiðjuna eða hvort einhverjar athugasemdir séu. Tölvupósturþann 5. mars 2015 frá stefnanda til Ólafs Hermannssonar hjá VSÓ liggur fyrir.Upplýsir stefnandi þar að þeir séu búnir að vera í sambandi við Metalbark vegnaafgreiðslnanna og nú sé bara beðið eftir teikningunum en stefnanda skiljist aðþessi ósk sé ekki útilokuð, en þeir, í samræmi við Gunnar, hafi óskað eftirafgreiðslum í viku 15 á hluta 1, í viku 17 á hluta 2 og viku 19 á hluta 3 meðþví fororði að hluta 3 mætti alveg seinka til viku 22 að skaðlausu. Það væruhlutar 1 og 2 sem væru áríðandi. Ólafur Hermannsson svarar stefnanda sama dagog kveðst m.a. skynja að boðleiðir væru langar til stálhönnuða ogstálframleiðandans. Um stálvirkið kveður hann gott ef menn ná að flýtaafhendingu á stálinu. Það sé mikilvægt að framleiðandinn viti nákvæmlega hvaðstefnandi vilji fá af stálinu á hverjum tíma. Þeir verði að gera skýran greinarmungagnvart framleiðandanum og VHE hvort átt sé við afhendingu úr verksmiðju (viku15, 17 etc) eða afhendingu á verkstað í Hafnarfirði. Þeir eða VHE þurfi líka aðgera ráðstafanir í tíma vegna flutnings með Eimskipi. Þá kannist brunahönnuður við eitt símtal fráGísla í fyrradag þar sem þeir hafi rætt hvaða upplýsingar brunahönnuðinn vantivegna brunahönnunar á stálvirkinu. Þá segir í lokin að það þurfi að vera áhreinu að það sé VHE sem ráði ferðinni í hvaða röð stálvirki og samlokueiningarkomi á staðinn. Þeir séu ábyrgir gagnvart Eimskip með að skila húsinu á réttumtíma. Þann9. mars 2015 sendi stefnandi stefnda tölvupóst þar sem hann upplýsti stefnda umað það hafi komið hringing frá hönnuðinum í Þýskalandi. Þeir séu stopp þar semteikningar frá arkitektinum sem hafi átt að berast þeim samdægurs hafi ekki skilaðsér. Þeir segist ekkert geta eða munu gera fyrr en teikningarnar berist og munurukka stefnanda fyrir þennan biðtíma. Það hafi verið umtalsverð aukning ístálinu þar sem þeir aukabitar þurfi að koma vegna brunakrafna, 32 tonn eðasvo. Stálvirkið fari því úr 346 tonnum í 378 tonn. Þann10 mars s.á. sendi stefnandi stefnda tölvupóst með efnislýsingunni „Klæðninginog einingar fyrir Eimskip“. Kvaðst stefndi ítreka enn og aftur að hann séfarinn að hafa verulegar áhyggjur af ákvarðanatöku á magni lit/áferð o.s.frv.með klæðninguna 46/159/900 sérstaklega. Samadag svaraði stefndi ofangreindum tölvupósti og kvaðst ekki kannast við aðstefnandi hafi rætt þetta við stefnda og hvað þá „ítrekað“. Segir að Guðbjarturhafi lagt bæklinga á borðið hjá sér með tækniblöðum varðandi klæðningarnar. Áþeim tækniblöðum geti hann ekki séð að þessar plötur uppfylli kröfurútboðsgagna um PVC 200µ þykka húð. Hafi stefndi þá óskað eftir frekari gögnumtil að leggja inn til efnissamþykktar. Þann 2. mars hafi stefnandi sent sértækiblöðin á tölvutæku formi. Á þeim blöðum hafi ekkert verið frekar um þykkt áhúðinni og í kjölfarið hafi hann verið í reglulegu sambandi við Gísla sem hafisagt sér deginum áður að það væri komið til stefnanda. Þá eru nokkrar umræðurum frávik frá útboðslýsingu og tegund efnis. Daginneftir eða 11. mars 2015 svaraði stefnandi stefnda í löngu máli um framvindumálsins sem hefur ekki þýðingu að reifa hér. Tölvupósturfrá pólska framleiðandanum til Cedrus ehf., dagsettur 22. apríl 2015, liggurfyrir í málinu. Segir þar að heildarþyngd á stáli sé 460 tonn og sundurliðastþannig: „Main building 116t columns + wall braces-málað. 234t trusses + roofbraces – málað. 8t parapets = þakkantur – málað. 12t walkways = þjónustubrýr –galv. Lower building 71t complete-galv. Mezzanine =milligólf í forrými 20t-beams, volumns, hangers-galv.“Framsendi Cedrus þennan tölvupósttil stefnanda sama dag og kvað þar koma upplýsingar um þyngd á stálvirkinueftir breytingar. Stefnandi svarar sama dag og spyr hvort 350 tonnin sem þeirhafi talað um í upphafi hafi átt að vera 450 tonn eða hvort þetta sé allt eittbull. Óskaði stefnandi eftir símtali við stefnda eins fljótt og kostur væri.Stefndi svaraði stefnanda sama dag og segist ekki skilja hvað stefnandi sé aðfara. 350 tonn hafi átt að vera 350 tonn og ekkert bull. Stefnandi svaraðistefnda sama dag og spyr hvað hafi komið út úr spjalli Gísla og Pjotr. Biðurhann Gunnar hjá stefnda að hringja í sig því að þetta verði að leysa áður enlengra sé haldið og allt fari í steik. Aftur þann 22. apríl 2015 sendiPiotr tölvupóst til Cedrus og kvað eftirfarandi ekki hafa verið innifalið ífyrri tölvupósti: „mezzanine, beams in paratets, small side roof in lowerbuilding, additional elements for internal panels, frames for windows andadditional gates.“ Segir enn fremur: „truss in lower building were higher -˃lighter porfiles were used. Beams for freezers and frames for piping- Idesigned 2xU140 not HEA220 as required byFrost. So the differnence (460 – 415 = 45t) should cover the mentionesdelements“. Var þessi tölvupóstur sendur stefnanda sem svaraði aftur ogkvaðst bíða eftir símtali og hvað þeirvildu gera eða hvað sé hægt að gera. Með tölvupósti 5. maí 2015 frástefnanda til stefnda sendi stefnandi afgreiðsluáætlun. Í afgreiðsluáætluninnisegir m.a.: Efni. Stálgrind 1. hluti, hvenær fór/fer pöntun til framleiðanda.27.4.2015. Afgreiðslutími erlendis í viku 20-21. Í athugasemdum segir að beðiðsé eftir staðfestingu frá Metalbark. Stálgrind 2. hluti, pöntun til framleiðanda,fljótlega, lestað í skip í Hamborg og beðið eftir staðfestingu frá Metalbark.Stálgrind 3. hluti, pöntun til framleiðanda fljótlega, verður lestað í skip íHamborg og beðið eftir staðfestingu frá Metalbark. Þá er tiltekið hvenær aðrarsendingar eiga að berast og hvar þær verði afhentar. Stefnandi sendi stefnda afturtölvupóst tæpum klukkutíma síðar og kvað svarthvítan veruleikann líta þannigút, en því miður komi tölvupóstur frá Metalbark ekki fyrir klukkan tíu þannsama dag en hann komi. Stefnandi hafi rætt við starfsmann sem hafi gefiðstefnanda eftirfarandi afgreiðslutíma og hafi sagt þá verða staðfesta stuttusíðar. Fyrstu afgreiðslur verði í viku 21 og 22. Hugsanlega klárist ekki að„trukka“ þessu öllu fyrr en í viku 23 þar sem þetta sé mikið magn. Önnurafgreiðsla, þ.e.a.s. lóðréttir bitar undir þakburðarvirki, komi í 23.-24. viku.Áætlaður afgreiðslutími á áfanga 2 eða rest af húsinu verið í 25. viku.Afgreiðslur á öllu frá Metalbark miðist við að þetta sé komið á trukkum tilflutningsaðila. Þann 13. maí 2015 sendi stefndistefnanda tölvupóst og segir að smíða- og flutningsáætlun stefnanda sé enganveginn í samræmi við það sem rætt hafi verið og ákveðið í heimsókn þeirra Gíslatil Póllands. Þar hafi verið farið mjög nákvæmlega yfir það hvað þeir hafiþurft að fá fyrst og útskýrt af hverju. Það hafi verið gert bæði fyrir Piotr ogaðaleiganda Metalbark. Farið hafi verið fram á að fá grindina í eftirfarandiröð: 1. Klefa 1, súlur, bita og gitter svo hægt verði að byrja og reisarammann. 2. forrýmið, súlur, bitar og gitter svo hægt verði að byrja að reisarammann. 3. Klefi 2, þ.e. súlur, bitar og gitter svo hægt verði að byrja aðreisa rammann. Þá segir að samkvæmt planinu sem stefnandi hafi sent deginumáður séu þeir að fá eftirfarandi til landsins: Vika 23- þakvirki, þrjú fleti,52t. Vika 24- þakvirki, þrjú fleti, 52t og vika 25- bitar, tvö fleti, ca 38t.Vika 25 sé júní hálfnaður og ekki byrjað að reisa nokkuð. Þá spyr stefndihvenær þeir eigi von á súlum svo að hægt verði að byrja að reisa grindina. Þann 1. júní 2015 kemur fram ítölvupósti frá stefnanda til stefnda að allur frystiklefi 1 sé mættur. Næst liggur fyrir tölvupóstur frástefnanda til stefnda frá 19. júní 2015 þar sem hann segir að 16 gámar af 24 ífrysti 2 hafi farið í þessari viku og komi því einhverjir í næstu viku. Þátíundar stefnandi að skrúfur o.fl. sé í gámunum. Þá segir að afgangurinn affrysti 2 fari frá Joris í næstu viku (8 gámar). Tölvupóstur frá 3. júlí 2015 frástefnanda til stefnda liggur fyrir þar sem stefnandi sendir í viðhengipakklista frá Metalbark fyrir næstu sendingu sem sé væntanleg 6. júlí en þaðséu trukkar 15-18. Stefnandi svaraði og kvaðst vera með þá pakklista en vantafyrir trukk 19. Sá pakklisti var sendur stefnda þann sama dag í tölvupósti. Þann 9. júlí 2015 sendi stefnandistefnda tölvupóst og sagði frystiklefa 1 hafa verið kominn allan þann 1. júnísl. Bað hann stefnda því að snerta ekki gáma með 200 mm einingum sem hafi komiðeftir miðjan júní nema til að taka skrúfurnar og vinklana fyrir purlingana fyrren þeir byrji á frystiklefa 2. Það virðist sem tollafgreiðslan hafi klúðrast ívikunni áður vegna þess að póstur hafi ekki komist á milli vegna stærðar en þvíverði kippt í lið sama dag. Þann 13. júlí sendi stefnandistefnda tölvupóst ásamt pakklista fyrir trukk 23. Sama dag sendi hann afturtölvupóst og sagði að trukkur 24 og 23 væru að fara í skipið þann sama dag.Tölvupóstur milli Metalbark, stefnanda og stefnda þann 14. júlí 2015 upplýsirað trukkur 25 komi til Hamborgar þann sama dag. Næsti tölvupóstur sem liggurfyrir í málinu er frá stefnda til stefnanda þann 22. júlí 2015 þar sem hannsegir að hann þurfi nauðsynlega að vita hvar eftirtaldir bitar (súlur) séustaddir og hvenær sé von á þeim til landsins: „RE40, RE41, RE42, RE43, RE44,RE45, RE51“. Þá segir að það séu 3-4 dagar þar til stefndi verði að fá þessabita til að koma í veg fyrir að vinna við samlokueiningar stoppi. Miðað viðpökkunarlistana sem stefndi hafi fengið þá hafi hann ekki séð þessi númer.Kveðst stefndi þurfa svör við þessu strax, því sé þessi vara ekki á leiðinni þáverði hann að athuga hvort það efni sé til í landinu og láta smíða það sjálfur.Stefnandi sendir til Metalbark fyrirspurn stuttu síðar og spyr hvar umræddarvörur hafi verið afhentar. Metalbark svarar tölvupósti stefnanda samdægurs ogkveðst setja umrædda vöru daginn eftir á flutningabíl sem verði í Hamborgmánudaginn 27. júlí 2015. Stefnandi framsendir þau svör til stefnda samdægurs.Nokkrum mínútum síðar svarar stefndi stefnanda og kveðst neyðast til að látasmíða þessa fjóra bita nú. Miðað við svarið frá Metalbark fari trukkurinn tilHamborgar 27. júlí og fari í skip 3. ágúst og þá verði efnið komið til stefnda10. ágúst 2015. Kvaðst stefndi vera orðlaus því að þegar hann og Gísli hafifarið út síðast hafi þeim verið tjáð að allur klefinn væri tilbúinn enframleiðendur farið undan í flæmingi en svarað í lokin að þetta væri þaðsíðasta sem færi í skip í næstu viku. Í tölvupósti 31. júlí 2015 millistefnanda og stefnda segir í efnislýsingu: „Pakklisti trukkur 31 í hamborg ídag.“ Í tölvupósti 10. ágúst 2015 frá stefnanda til stefnda segir íefnislýsingu: „Réttur pakklisti trukkur 31, tollað á eftir.“ Í tölvupósti 12.ágúst 2015 frá stefnanda til stefnda segir í efnislýsingu: „Joris gámur,pakklistar með skýringum.“ Ítölvupósti frá stefnanda til söluaðila í Póllandi þann 10. ágúst 2015 segiststefnandi ekki finna sendingu F27 og F36 og óskar eftir upplýsingum um afhendinguþeirra. Sama dag er stefnanda svarað þar sem segir að sendingarnar hafi fariðfrá þeim og í öðrum pósti segir að vörurnar hafi farið á trukk 29. Þessumupplýsingum var komið til stefnda með tölvupósti 11. ágúst s.á. og segirstefnandi að það sé of seint að framleiða stykkin í Póllandi aftur og því þurfiað framleiða þessi stykki á Íslandi. Tölvupósturfrá söluaðila í Póllandi 11. ágúst 2015 til stefnanda liggur fyrir þar semkemur fram að búið sé að ferma trukk 29 og vörurnar hafi farið þar með. Ítölvupósti sama dag frá stefnda til stefnanda segir að á pökkunarlista fyrirtrukk 29 sé margt komið en ekki plötur merktar F27 og F36. Þeir neyðist því tilað láta smíða þær plötur og skráist það á kostnað stefnanda. Stefnandi svararþessu og spyr hvort það sé þannig að ef stefndi týni einhverju þá sé þeimkostnaði komið yfir á stefnanda. Stefndi svarar sama dag og kveðst fyrst þurfaað fá efnið afhent áður en hann geti týnt því. Stefnandi svarar því til aðhingað til hafi ekki vantað neitt frá Metalbark og miðað við fyrri póst frástefnda þá hafi þeir ekki leitað af sér allan grun. Næstliggur fyrir tölvupóstur frá 11. ágúst 2015 frá stefnda til stefnanda og spyrstefndi hvernig stefnandi geti sagt að fram til þessa hafi ekki vantað neittfrá Metalbark, þá hafi vantað stál fráþeim allt sumarið. Hringlandahátturinn hafi þar að auk verið svo mikill aðerfitt hafi verið að fylgjast með hvað sé að koma á hvað fleti. Lítið hafiverið að marka þessa svokölluðu pökkunarlista enda jafnvel tveir mismunandipakklistar gefnir út fyrir hvert fleti. Stefnandi svaraði þeim tölvupóstisamdægurs og kvað það einu sinni hafa gerst að það hafi komið tveir pakklistarfyrir sömu sendinguna en það hafi komið skýringar á því. Þá kvartar stefnandiyfir vinnulagi stefnda. Kvaðst stefnandi selja þeim „ex works“ og það séstefnda að gæta að því hvað komi til þeirra og það sé á ábyrgð þeirra ogEimskips að sjá um flutninginn. Vörurnar komi í nafni stefnanda eingöngu vegnatollskýrslnanna. Séu umræddir plattar ekki í sendingunni verði bara að reddaþví og gera það upp síðar. Stefndi svarar stefnanda sama dag og kvaðst ætla aðhnykkja á nokkrum atriðum. Stefndi kvaðst hafa skoðað pakklista frá söluaðila enþað hafi stefnandi ekki gert. Þá kvað stefndi ekkert „ástand vera að koma upptrekk í trekk“. Kvað hann það ástand hafa varað allan tímann. Kvað stefndieinnig að það væri á ábyrgð stefnanda að það efni sem stefndi keypti afstefnanda bærist stefnda. Ef eitthvað vanti upp á sé það stefnanda að leysaþað. Þá sé það á ábyrgð seljanda, þótt varan sé seld „ex works“, að sjá tilþess að ekki vanti neitt efni í sendingarnar. Stefndi svarar þessum tölvupósti27. ágúst og segist senda stefnanda ljósmynd af bretti sem innihélt rauðaplatta sem þá hafi vantað 10. ágúst sl. Stefnandi hafi átt að vera með meiriyfirlýsingar um að þetta væri komið til landsins og að stefndi hafi týntvörunni. Staðreyndin sé að varan hafi komið til landsins 18. ágúst 2015 ogafhent stefnanda 20. ágúst og komið fyrir á verkstað án þess að láta nokkurnhjá stefnda vita. Stefnandi hefði getað sparað sér sporin því að það hafi veriðbúið að smíða og skrúfa þetta saman áður en stefnandi hafi komið efninu áverkstað. Þann13. ágúst 2015 óskaði stefndi eftir pökkunarlista frá stefnanda í tölvupóstifyrir efni sem átti að koma með skipi eftir þá helgi. Stefnandi svarar þvísamdægurs og kvaðst senda pakklista fyrir trukk 32 og 33 sem komi eftirhelgina. Einnig fyrir trukk 34 sem væri kominn til Hamborgar og kæmi tilÍslands 24. ágúst. Þá væri bara eftir trukkur 35 sem stefnanda skildist að værifarinn frá Metalbark en stefnandi myndi senda stefnda þann pakklista um leið oghann bærist. Þá spyr stefnandi stefnda í sama tölvupósti hvort plattarnir hafifundist eða hvort stefndi hafi þurft að láta smíða þá. Þann17. ágúst 2015 sendi stefnandi stefnda tölvupóst þar sem segir að það sésíðasta stálið frá Metalbark, trukkur 35. Segir stefnandi að það sé áríðandi aðstefndi fari yfir meðfylgjandi pakklista og gangi úr skugga um að ekkert vantimiðað við kokkabækur stefnda og láti vita strax ef þeir telji að svo sé. Þann17. september 2015 sendi söluaðili Metalbark stefnanda tölvupóst og kvaðstframleiða P7, 2 stk., P8, 1 stykki og P16, fjögur stykki. Áframsendi stefnandiþær upplýsingar til stefnda með þeim orðum að Metalbark hafi verið að senda sérfyrirspurn og hvort þeir eigi að segja fyrirspyrjanda að þeir hafi engan tímatil að framleiða þetta, ef varan liggi ekki hjá einhverjum öðrum viðskiptavinií reiðuleysi, þá verði þeir að búa þetta til hér á landi. Sama dag svaraðistefndi stefnanda og kvaðst ekki hafa tíma til að bíða eftir því að þeirframleiddu þessa vöru og sendi þeim, þeir þyrftu á þessu að halda strax eðaþann sama dag. Stefnandi svaraði stefnda sama dag þannig: „Takk. Annað semvantar, verður það einnig framleitt hérlendis?“ Stefndi svaraði stefnanda samadag og kvað mikið álag á mannskapnum núna og af þeim sökum hafi þeir ekki hafttök á að finna númerin á þeim bitum sem einnig vanti. Hann geri ráð fyrir aðþetta verði smíðað hér nema að þeir sjái hvaða númer þetta séu þá fljótlega ogkomi þeim til stefnanda. Minnispunktaraf fundum stefnanda og stefnda 24. september og 7. október 2015 liggja fyrir. Ípunktum frá stefnda segir m.a.: Í upphafi gaf VE ehf. upp áætlaðan tonnafjöldaí húsið ca 350 tonn. Hýsi lét hanna meira og taldi tonnafjölda ca 370-380 tonn.Hýsi búið að senda inn reikninga vegna 550 tonna. Vantar skýringar á umframtonna fjöldanum ca 150-170 tonn. Líklegt að hægt sé að rukka Eimskip umeitthvað af umfram tonnunum vegna aukaverka. Finna þarf út þann tonnafjölda semer í byggingunni og hvað er fyrir utan. Dæmi: Það komu 17 rangir bitar sempassa ekki í húsið. VHE ehf. búið að borga 263 milljónir, vitað að VHE ehf. áað borga meira en þarf að finna út nákvæmlega hver raunveruleg staða er. Afhálfu stefnanda voru eftirfarandi atriði m.a. nefnd: Hýsir gerði VHE ehf.tilboð en ekki Eimskipi. Finnst skrítið að umræða um aukaverk hafi ekki komiðupp fyrr en á fundi 18. ágúst sl. Í fundargerð frá 7. október 2015 segir aðkomnar séu upplýsingar um aukaverk fyrir ca 50 tonn. Enn vanti upplýsingar umca. 100 tonn. Þann 11. nóvember 2015 sendilögmaður stefnanda stefnda bréf og krafði hann um ógreidda reikninga að fjárhæð88.479.851 króna auk vaxta. Málsástæður stefnanda. Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda áalmennum reglum kröfuréttar og samningaréttar auk þess að vísa til laga umlausafjárkaup nr. 50/2000. Krafan byggist á útgefnum reikningum sem ekki hafisætt andmælum en reikningarnir séu fyrir efnissölu sem afhent hafi verið áverkstað að Óseyrarbraut 22 í Hafnarfirði samkvæmt samningi við stefnda. Engarupplýsingar hafi borist um að efnið hafi verið gallað eða með öðrum hættiónothæft. Kveður stefnandi að stefndi hafi með óformlegum hætti borið því viðað magnaukning hafi orðið í verkinu og það sé orsök greiðsludráttar ogvanskila. Hafnar stefnandi því að það magn af stáli sem fór í verkið sé á hansáhættu. Stefnandi hafi gert stefnda tilboð um einingaverð en greiðsla einingafari svo eftir þyngd, einingafjölda, fermetrum eða lengdarmetrum. Stefnandihafi samið um að afhenda það magn af efni sem þyrfti í framkvæmdina samkvæmtútboðsgögnum en með þeim hafi fylgt útboðsteikningar og hafi framkvæmdin ekki verið fullhönnuð þegar aðilargerðu með sér efnissamning og hafi þau gögn sem lágu til grundvallar langt ífrá verið endanleg. Aðilar hafi ekki í byrjun vitað nákvæmlega hversu mikiðmagn færi í húsið en verkið hafi aukist að magni frá því sem útboðsgögn segitil um. Beri þar helst að nefna að upprunalegt milligólf hafi stækkað verulegasem og hafi nýju milligólfi verið bætt við, innkeyrsluleiðum inn í frystiklefabreytt o.s.frv. Stefnandi hafi einfaldlega tekið að sér að afhenda það efni semþurfti samkvæmt samningum við stefnda. Þá liggur fyrir það magn efnis semstefnandi hafi afhent stefnda. Stefndi hafi hins vegar ekki greitt fyrir umfjórðung efnisins. Afhendingarseðlar séu til en þeir nemi vel á annað hundrað íblaðsíðum en hingað til hafi það ekki sætt andmælum hvaða efni hafi veriðafhent. Stefnandi kvaðst ekki geta veriðábyrgur vegna annarra tilboða sem stefnda hafi borist. Stefnandi hafi gerttilboð og það skipti máli. Stefnandi hafi ekki fengið upplýsingar um önnurtilboð áður en hann gerði sitt tilboð.Kvað stefnandi að ef hann hafi ætlað að bjóða í ákveðinn tonnafjöldahefði það verið tekið fram í tilboði hans. Stefnanda hafi aldrei verið gerðgrein fyrir því af hálfu stefnda að ef magnið færi yfir ákveðinn tonnafjölda þáætti stefnandi að vera ábyrgur fyrir því. Þá kvað stefnandi að innifalið í stálverði frá stefnanda væri að hann legði tilhönnuð í burðarþol stálsins. Sé það eðlilegur framgangur við sölu á stáli íbyggingar sem þessar að aðili á vegum efnissala reikni út burðarþolið og sjáiþannig um hönnun stálvirkisins. Einuandmæli stefnda hafi borist 26. nóvember 2015. Þar sé því haldið fram að ítilboði stefnanda komi fram að um 350 tonn séu áætluð í verkefnið. Þessifullyrðing stefnda sé einfaldlega röng. Þá sé einnig villandi framsetning íþessu svarbréfi stefnda að einhverjar tímasetningar hafi verið ákveðnargagnvart stefnanda. Jafnvel þó svo að einhverjar tímasetningar teldust skuldbindandigagnvart stefnanda þá hafi í fyrsta lagi ekkert verið upplýst um að hann hafiekki staðið við þær tímasetningar og í öðru lagi þá liggi ekkert fyrir um aðafhending efnis af hálfu stefnanda hafi með nokkru móti tafið verkframkvæmdstefnda. Stefndi hafi aldrei gert athugasemdir við þær upplýsingar eða hönnunsem borist hafi frá stálhönnuðinum. Hvorki er varði magnáætlanir, burðarþol néannað. Þá sé staðfest í gögnum að frystiklefi eitt hafi verið kominn 1. júní ogsé því mótmælt að stefndi hafi orðið fyrir tjóni vegna seinkunar á því að hannhafi ekki komið í einu lagi. Engin gögn hafi verið lögð fram um aðframleiðandinn hafi fengið plan frá stefnda og í hvaða röð stálið hafi átt aðkoma og ekkert lagt fram um það. Því sé engin leið að átta sig á því hvort þaðhafi valdið töfum. Þá hafi stefndi ekki haldið neitt yfirlit yfir það efni semkom á staðinn þegar hann tók á móti því en í desember hafi stefndi verið aðspyrjast fyrir um efni sem hafi komið í ágúst en megnið af efninu hafi veriðkomið í ágúst. Þá hafi stálhönnuður ítrekað þurft að gera breytingar vegnabreytinga frá íslenska hönnuðinum sem hafi verið á vegum Eimskips. Stefnandimótmælir kröfum stefnda um skaðabætur. Stefnandi hafi ekki verið aðili aðsamningi stefnda og Eimskips og hafi ekki átt neina aðild að þeim samningum. Þásé ekki gerð grein fyrir kröfunni í greinargerð stefnda og sú krafa því ofseint fram komin. Efni í frystiklefa eitt hafi verið komið í júní 2015 og hafistefndi ætlað að reisa frystiklefann frá 1. júní fram í ágúst eða á tveimurmánuðum. Afhending efnisins hafi því engin áhrif haft á smíði frystiklefans ogósannað að tafir þar séu af völdum stefnanda. Stefnandimótmælir kröfum stefnda um skaðabætur vegna nauðsynlegrar yfirvinnu vegnaafhendingardráttar, skaðabætur vegna umfram hönnunar, skaðabætur vegna missisverktakaálags og um lækkun vegnakreditfærslu frá Eimskipi til stefnanda vegna flutningskostnaðar sem of seintfram komnum en þær hafi ekki verið tilgreindar í greinargerð stefnda. Kveðurstefnandi umkrafðar kröfur allar ósannaðar og engin gögn sem sýni fram á þær. Vaxtakröfusína byggir stefnandi á breyttri kröfugerð. Engar athugasemdir hafi veriðgerðar við reikningana og greiðsludráttur sé á ábyrgð stefnda. Því beri honumað greiða dráttarvexti eins og krafið sé um. Stefnandibyggir á 45. gr. laga nr. 50/2000 enda einingaverð umsamið. Stefndi bersönnunarbyrði fyrir því að stefnandi hafi ekki afhent það magn sem greinir áreikningum hans. Þá vísar stefnandi til 47. gr. sömu laga um að kaupanda beriað segja til innan sanngjarns tíma ef hann samþykkir ekki verðið. Einnig vísarstefnandi til 49. gr. sömu laga um greiðslu kaupverðs. Stefnandi byggir því áþeirri málsástæðu að jafnvel þótt stefndi kunni að koma fram með einhverjarmótbárur við reikningi þá séu þær of seint fram komnar. Málsástæður oglagarök stefnda.Stefndi byggir sýknukröfu sína á því aðstefnandi hafi komið fram gagnvart sér bæði sem efnissali og undirverktaki.Hann hafi séð um að selja stefnda efni í verkið og jafnframt hafi hann lagt tilhönnuð í burðarþol stálsins. Stefnandi hafi fengið í hendur öll útboðsgögn oggert stefnda tilboð sitt á grundvelli þeirra gagna. Stefndi hafi notað umrætttilboð stefnanda sem hluta af sínu tilboði til Eimskips hf. Telur stefndi aðstefnandi hafi orðið bundinn sem undirverktaki af skilmálum ÍST 30:2012, sbr.ákvæði 3.2.4 og grein 0.2.4 í útboðsgögnum. Telur stefndi að þótt ekki hafikomist á beint samningssamband milli undirverktaka og verkkaupa séundirverktaki engu að síður bundinn við þá skilmála útboðsgagna sem snúi beintað hans verkþætti og hann hafi notað við gerð tilboðs síns. Það er því fráleitfullyrðing stefnanda í stefnu að honum sé annars vegar ókunnugt um efnisamnings stefnda við Eimskip hf. eða að sá samningur sé honum með ölluóviðkomandi. Stefnandi sé sérfræðingur í hönnun stálvirkis og útreikningum áburðarþoli. Það sé því í hans höndum að reikna út hversu mikið magn af stáli þurfií byggingar sem þessar. Stefndi hafi treyst á þekkingu stefnanda á þessu sviðiog því hafi hann óskað eftir því að fá stefnanda til verksins. Stefnandi hafi komiðseint að verkinu og hann því verið inntur eftir því hvort hann gæti boðið íverkið á sömu nótum og aðrir og hafi stefnandi svarað því til að ef aðrir gætuþað þá gæti hann það líka. Það hafi hins vegar komið í ljós á verktímanum aðstefnandi hafi ekki getað staðið við tilboð sitt og það sé á ábyrgð stefnandasjálfs. Stefndibyggir á því að í nokkrum tölvubréfum milli aðila komi fram að stefnandi hafiboðið 346 tonn í stálvirkið þegar tilboðið var gert.Bendir stefndi á að það sé rétt að geta þess að leitað hafi veriðtilboða annars vegar í stálgrindina eins og hönnunargögn útboðslýsingar hafigert ráð fyrir og hins vegar hafi verið leitað tilboða í einingaverð þar semfyrir lá að hönnun var ekki að fullu lokið og því gæti tonnafjöldinn átt eftirað breytast til samræmis við óskir Eimskips hf. um breytingar og viðbætur. Stefndi byggir á því að sannað sé að stefnandihafi greint stefnda frá því að heildartonnafjöldi í stálvirkið færi úr 346tonnum í 378 tonn vegna brunakrafna. Stefndi kveðst ekki gera athugasemdir viðauka- og viðbótarverk og eigi að standa skil á samtals 431 tonni að því gefnuað Eimskip hf. samþykki 53 tonn af þeim sem viðbót. Telur stefndi að getistefnandi ekki rökstutt greiðsluskyldu verkkaupa, Eimskips hf., þá geti hannekki velt þeirri greiðsluskyldu yfir á stefnda þessa máls vegna tonnafjölda semekki hafi verið samið um og sé með öllu óskilgreindur og ekki sé vitað hvarliggur. Stefnandibyggir á því að í útboðsgögnum frá Eimskipi hf., sem stefnandi hafi fengið send,hafi allir tímafrestir komið fram með skýrum hætti og að aðalverktaki gætiþurft að sæta dagsektum ef ekki yrði staðið við tímafesti. Stefnanda hafi veriðvel kunnugt um ákvæðið um dagsektir. Stefnandi hafi verið margkrafinn umáætlanir um afhendingu sem hafi brugðist jafnharðan og hann setti þær fram.Stefndi byggir á því að margítrekað hafi hann kvartað við stefnanda um aðtímasetningar standist ekki og vísar til tölvupóstssamskipta því til staðfestu.Stefndi telur hafið yfir vafa að stefnanda hafi borið að afhenda stál og annaðefni í samræmi við ákvæði útboðsgagna. Að hann hafi bæði vitað um tímafresti ogverið meðvitaður um mikilvægi þeirra. Hann hafi sjálfur gefið upp nýja og nýjaviðmiðunartíma sem hann hafi ekki getað staðið við. Stefnandi er sérfræðingur áþessu sviði og auglýsi á heimasíðu sinni að rétt vara sé afhent á réttum tíma ísamræmi við væntingar kaupanda. Ekkert af þessu hafi staðist. Af þessum ástæðumstandi stefndi frammi fyrir kröfu um greiðslu dagsekta. Eimskip hf. hefur þegarboðað að það muni krefja stefnda um greiðslu á 66.000.000 króna og að sú talasé hækkandi. Telur stefndi að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefnandajafnháa ofangreindri fjárhæð, sem eftirlitsaðili verksins telji að megi að ölluleyti rekja til vandamála við hönnun á vegum stefnanda og allt of síðbúinnaskila á hinu umsamda stáli. Stefndi byggir áþví að hluti reikninga stefnanda sé tilhæfulaus og að stefnda beri ekki aðgreiða fyrir meira en 431 tonn. Stefnandi hafi hins vegar gert stefndareikninga fyrir um 550 tonn. Þar til viðbótar liggi fyrir að stefndi telji aðsumir reikningar séu með rangri gengisviðmiðun og að leiðrétta eigi eftir rangteiningaverð þar sem það eigi við. Að auki hafi komið fram á fundum að sumirreikningar séu óskýrir og óskað hafi verið eftir skýringum sem ekki hafiborist. Í greinargerð kveður stefndi að það eigi einnig eftir að taka samankostnað vegna smíði stefnda á bitum sem hafi vantað í sendingar frá birgistefnanda. Vísar stefndi til 27. gr. laga nr. 50/2000 um rétt sinn til skaðabóta sem nemi fjárhæð jafnhárri þeimdagsektum sem hann hafi verið krafinn um fyrir að minnsta kosti 66.000.000 króna.Stefndi telur að þar sem stefnandi krefjist greiðslu fyrir mun meira magn afstáli en honum sé heimilt skv. samningi aðila telji hann að skaðabótakrafa sínsé hærri en mögulegar eftirstöðvar kaupverðs og því sé honum heimilt að haldaeftir öllum eftirstöðvum kaupverðs til tryggingar skaðabótakröfunni skv. 42.gr. l. nr. 50/2000.Stefndi byggir áþví að greiðsla á hverjum reikningi fyrir sig hafi verið innáborganir.Reikningar sem gefnir hafi verið út í upphafi hafi verið mjög ófullkomnir meðröngu gengisvirði og röngu einingaverði. Það hafi átt að gera verkið upp ílokin. Kvaðstefndi að krafan vegna greiðslu fyrir yfirvinnustundir sé þannig fundin:Áætluð dagvinna 7.900 klst. x 6498 krónur = 51.748.772. Raundagvinna hafi verið5178 klst. sem gerir 33.646.644 krónur. Raunnæturvinna og raundagvinna sé61.697.164 krónur. Ef allt hefði verið dagvinna hefði það orðið 51.748.772krónur. Gerð sé því krafa um umframkostnað sem stefndi hafi orðið fyrir vegnadráttar af hálfu stefnanda. Aldrei hafi verið hægt að setja á næturvaktir þarsem stál hafi vantað til að klára verkið eins og stóð til að gera. Tímaskýrslurséu lagðar fram. Þá hafi orðið kostnaður vegna VSB. Fara hafi þurft í aukavinnuvegna nýrra krafna stálsala, 562.790 krónur. Stefndi hafi gert kröfu um 15% verktakaálagað fjárhæð 3.196.564 en hann falli frá þeirri kröfu utan verktakaálags sem sékrafist ofan á 2.577.874 krónur sem sé386.681 króna. Stefnandi hafi samþykkt þessa fjárhæð í breyttri kröfugerðsinni. Stefnufjárhæðin eigi að lækka um þá fjárhæð þar sem stefnandi hafisamþykkt þá liði. Þábyggir stefndi á því að þær tafabætur sem hann hafi þurft að greiða séutilkomnar vegna seinni afhendingar stálsins. Hönnunarstjóri telji eðlilegt aðframlengja skil á verkinu um 15 daga vegna breytinga á auka- og viðbótarverkum.Meginástæða fyrir verktöfum sé hönnun og afhending stálvirkis sem ekki hafigengið skv. áætlun. Samkomulag hafi orðið undir rekstri málsins á milli stefndaog Eimskips um að stefndi greiddi Eimskipi 19.000.000 króna í tafabætur og geristefndi kröfu um skaðabætur fyrri sömu fjárhæð á hendur stefnanda. Þá beri aðlækka kröfu stefnanda um 12.336.006 krónur vegna yfirvinnu. Einnig um 697.860krónur sem sé skaðabótakrafa til skuldajöfnunar skv. 27. gr. laga vegnabreyttrar hönnunar. Þá beri að lækka kröfu stefnanda um 1.050.000 krónur en þaðsé lækkun sem þessu nemi frá Eimskipi en það sé reikningur upp á rúmlega 34 milljónirog sé nr. 6143 vegna flutningskostnaðar. Í vitnaskýrslum hafi verið útskýrt aðverið var að bakfæra þessa fjárhæð. Því hafi verið um að ræða lækkun á þeirrikröfu frá Hýsi. Ef stefndi hefði greittþennan reikning að fullu þá stæði eftir að stefnandi hefði fengið afsláttinn.Kröfur um skaðabætur næmu því hærri fjárhæð en stefnufjárhæðin. Stefnditelur að hann þurfi ekki að greiða dráttarvexti frá útgáfu reikninga heldur frádómsuppsögu. Reikningarnir séu rangir, stefnandi hafi sjálfur leiðréttkröfugerð sína og hafi dómskjöl þess efnis verið lögð fram í mars þar sem gerðhafi verið grein fyrir leiðréttingu. Þá sé krafið um dráttarvexti af reikningisem hafi verið bakfærður af stefnanda og nýr reikningur verið gefinn út íoktóber 2015. Stefnandi byggir á því að munnlegur samningur hafi verið gerðurmilli aðila og við þá beri að standa. Stefndimótmælir því að tómlæti sem stefnandi byggi á eigi við í þessu máli. Menn hafiverið að reyna sættir og að leysa ágreining frá því í september og október sl. Skýrslur fyrirdómi.Þröstur Lýðsson, forsvarsmaður stefnanda, gafskýrslu fyrir dóminum og kvað aðdraganda að samningi aðila hafa verið að seintá árinu 2014 hafi Eimskip farið í alútboð á frystigeymslu. Stefnandi hafði áðurselt Eimskipi yleiningar í frystigeymslur fyrir Eimskip svo þeir hafi talið sigstanda vel að vígi og boðið í yleiningar og klæðningar og þess háttar. Þónokkrir hafi boðið í verkið en stefndi hafi síðan fengið verkið. Miklarbreytingar hafi orðið í byrjun en stefnandi hafi farið á fund með stefnda íbyrjun janúar 2015 með skjal með sér þar sem magn og verð frá verksmiðju kæmufram. Kvað stefnandi mestu skipta í svona stóru verkefni hvað varan kosti komintil landsins. Á þessum fundi hafi stefnandi útskýrt fyrir stefnda hvernigkaupin og verðið komi út. Hafi stefndi átt að geta reiknað kostnað útnákvæmlega miðað við magn og kostnaðarverð. Stefnandi kvað þann fund hafa veriðum 12. til 14. janúar 2015. Á þessum tíma hafi eingöngu verið rætt um yleiningarog klæðningu en stál í burðargrind hafi ekki verið komið í umræðuna. Líklegahafi tilboðið sem liggi fyrir, dagsett 15. janúar 2015, verið gert í beinuframhaldi af fundi þeirra 12. til 14. janúar. Lýsti stefnandi því hvernigtilboðið í yleiningarnar og klæðninguna hafi breyst í meðförum. Allirreikningar hafi verið gerðir eftir upphaflegum tillögum sem hafi verið gerðar áfundi í janúar 2015. Þá hafi orðið breytingar á áferð klæðningarinnar, skrúfumog fleira. Kvað vitnið skrúfur og bolta sem hafi fylgt stálgrindinni ekki hafaverið reiknisfærðir því að það hafi verið inni í tilboðinu í stálið. Stefnandikvað upphaflega eingöngu hafa verið gert tilboð í yleiningar og klæðningu. Íframhaldi hafi viðskiptaaðilar stefnanda í Þýskalandi endilega viljað geratilboð í stálgrindina líka. Í þeim tilgangi hafi verið haft samband viðviðskiptaaðila þeirra í Póllandi sem hafi gefið þeim hugmynd um verð. Hafistefnandi í framhaldi gert tilboð í tonnaverð í stálið og það verið sent tilstefnda 15. janúar 2015. Það tilboð hafi verið samþykkt. Stefndi hafi upplýst stefnandaum að magnið væri 350 tonn. Stefnandi hafi ekki reiknað út magnið af stáli semþurfti í húsið, það hafi stefndi gert. Hafi stefnandi eingöngu boðið verð ítonnið en ekki magnið enda hafi stefndi spurt stefnanda hvort þeir gætu gerttilboð í tonnaverð. Stálefnið hafi komið frá Metalbark í Póllandi. Aðspurðurhvort stefnandi hafi miðað sín samskipti við Metalbark við 350 tonn, hvaðstefnandi það vera rétt. Stefnandi sagði að í ljós hafi komið að frystigeymslanhafi langt í frá því verið fullhönnuð á þeim tíma. Síðustu teikningar fráarkitekti á vegum Eimskips til verkfræðistofunnar sem hafi síðan teiknað stálgrindinaog sent stálframleiðandanum, sem svo smíðar samkvæmt þeim teikningum, hafifarið frá hönnuði hússins, þ.e. hönnuði Eimskips, um miðjan mars tilverkfræðistofunnar. Sökum þess dráttar sem hafði verið á teikningum hafi súverkfræðistofa sem stefnandi hafði samið við í upphafi sagt sig frá verkinu. Ferliðsé þannig að arkitektar á vegum Eimskips hanni húsið, þ.e. burðarvirkið. Þegarþví sé lokið séu teikningarnar sendar til þess sem teikni burðarvirkið sem sendirþær teikningar til þess sem framleiði stálið. Þjóðverjarnir hafi gerttímaáætlun vegna framleiðslunnar en vegna seinkunar á skilum á teikningum fráEimskipi hafi þeir ekki getað staðið við fyrri áætlun en þá hafi verið kominseinkun upp á tvo mánuði. Þeir hafi því sagt sig frá verkefninu. Í framhaldihafi stefnandi fundið pólskan stálgrindarhönnuð í verkið og 20. mars hafisamningar verið gerðir við hann. Þann 24. mars hafi Gunnar Valdimarsson,starfsmaður stefnda og stjórnandi verksins, og íslenskur hönnuður á vegumstefnanda, Gísli Rafn, farið til Póllands, heimsótt stálgrindarhönnuðinn ogfundað með honum um það hvernig verkið ætti að ganga fyrir sig og síðan farið íverksmiðjuna og farið yfir það hvenær stefndi þyrfti að fá stálið afhent.Fundur hafi verið með Ólafi, hönnuði á vegum Eimskips, 13. mars. Hafi þar komiðfram að þýska verksmiðjan hafi sagt sig frá verkinu og því þyrfti að finnaannan stálframleiðanda. Í apríl hafi stefnandi verið farinn að ýta á eftir þvíhvernig teiknivinna gengi hjá pólsku teiknistofunni og þá hafi komið í ljós aðhúsið væri komið upp í 450 tonn og þá væri allt stálið í forrýmið eftir.Stefnandi hafi um hæl sent stefnda tölvupóst og spurt hvað væri í gangi,stefnanda hafi verið tjáð að húsið væri 350 tonn en nú væri magnið komið upp í450 tonn og hellingur eftir. Stefndi hafi svarað því að húsið ætti að vera 350tonn og hafi stefnandi kallað eftir fundi. Á fundinum hafi stefnandi rætt þessamagnaukningu og hafi stefndi spurt stefnanda hvort hann væri hræddur um að hannfengi ekki borgað fyrir stálið sem færi í húsið. Hvað stefnandi þessa aukninguhafa komið sér á óvart. Ákveðið hafi verið að flýta verkinu eins hratt ogkostur hafi verið. Hönnunartími hússins hafði dregist um tvo mánuði auk þesssem verksmiðjan hafi þurft að framleiða stál í hús sem upphaflega hafi átt aðvera 350 tonn en væri allt í einu komið upp í 450 tonn og hafi þeir þurft að bætaþví inn í framleiðslulínu sína. Afgreiðslutíminn hjá verksmiðunni hafi þvílengst frá því sem í upphafi hafi verið samið um. Aðspurðurum ágreining um magnið, þegar gera átti verkið upp milli aðila, kvað stefnandiþetta verk vera langstærsta verk stefnanda sem farið hafi verið í eftirbankahrunið þar sem ekki hafi verið opnuð bankaábyrgð fyrir greiðslum. Þegar íljós hafi komið að húsið var miklu meira og stærra en þeim hefði verið sagt, hafiekkert annað verið í stöðunni en að klára verkið eins fljótt og vel og kosturvar. Aldrei hafi komið athugasemd frá stefnda um magnið sem hafi farið í húsið.Stefndi hafi að vísu sent stefnanda tölvupóst þar sem þeir kváðu nýtingu ástálinu vera góða. Þann 20. sept. hafi starfsmaður stefnda, Unnar, hringt í sigog tjáð sér að búið væri að loka öllum viðskiptareikningum hjá stefnda viðbirgja og hafi hann tjáð stefnanda að þeir myndu ekki geta greitt stefnandameira. Í framhaldi hafi verið fundur með starfsmönnum stefnda, 24. september,og þar hafi stefnanda verið tjáð að það væri á ábyrgð hans að reikna út alltþað magn sem hefði átt að fara í húsið þar sem stefnandi hafi verið ábyrgurfyrir stálgrindarhönnuninni. Stefnandi hafi strax farið í að reikna út í hverjuaukamagnið hafi verið og hafi menn þá fundið út hvaða magn hafi farið íaukaverk. Stefndi hafi þrátt fyrir það neitað að greiða eftirstöðvar. Þegarstefndi hafi fengið greitt frá Eimskipi, sem hafi verið krafa stefnda áður enþeir greiddu stefnanda, neitaði stefndi aftur að greiða stefnanda fyrr en þeirværu búnir að fá á hreint hvaða tafabætur þeir þyrftu að greiða Eimskipi. Íljós hafi komið að stefndi fengi í tafabætur 19.000.000 króna og hafi stefnanditalið að stefndi myndi þá draga það frá ógreiddum reikningum en það hafi stefndiekki gert heldur neitað að greiða frekar. Stefnandi kvað að í apríl hafi veriðorðið ljóst að húsið varð miklu stærra en 350 tonn eins og stefnanda hafi veriðtjáð í upphafi af stefnda. Reyndar hafi stefnandi frétt utan að sér að stefndihafi fengið tilboð frá fleiri aðilum í húsið, annað sem hljóðaði upp á 550 tonnog hitt upp á 700 tonn. Stefnandi kvað starfsmenn stefnda hafa sagt sér á fundiað stefndi gæti vel skrifað upp á að húsið yrði 420 til 450 tonn en það sékomið upp í 550 tonn. Hafi stefndi sagt stefnanda að hann yrði sjálfur að finnaút úr þessu. Stefnandi hafi lagt til við stefnda að þeir greiddu 50.000.000 krónaog þeir deildu svo um mismuninn en stefndi hafi þá þegar nýtt sérvirðisaukaskatt á útgefnum ógreiddum reikningum stefnanda sem innskatt. Þegarkomið hafi verið fram í mars hafi stefndi ekki verið farinn að panta neitt af yleiningum.Kvað stefnandi að áður en stálgrindin færi upp þyrftu yleiningarnar ífrystigeymsluna að vera komnar upp. Hafi verið um 47 gáma að ræða. Seljandinnhafi viljað afhenda þær í janúar en þá var afgreiðslutíminn að öllu jöfnu tværtil þrjár vikur. Þegar leið á vorið hafi afgreiðslutíminn lengst í sjö til áttavikur og allt að tíu vikur þar til varan var komin til landsins. Hafi stefnandiverið farinn að hafa verulegar áhyggjur af þessum drætti, þar sem komið hafiverið fram í mars, vegna yleininganna. Stefnandi hafi þó ekki haft áhyggjur afafhendingartíma á stálgrindinni en þá hafi stefnandi ekki vitað að hönnuninhafi gengið svo illa sem raun var og að verkfræðistofan þýska hafði þá ekkifengið þau gögn sem hún þurfti til að geta klárað hönnunina og koma henni íframleiðslu. Kvað stefnandi stefnda hafa ráðið þeirri för. Stefnandi kvaðsthafa reynt á þessum tíma að stytta boðleiðir og því haft samband beint við ÓlafHermannsson sem starfaði á vegum Eimskips en stefnanda verið bent á að hannætti ekki að fara þá leið. Stefnandi kvaðst selja ákveðið efni en það væriákvörðun stefnda hvernig og hvað þeir vildu fá afhent á hverjum tíma. Stefnandikvaðst aldrei hafa komið nálægt því hvar og þá hvernig ætti að afhendastálgrindina, aðilar á vegum stefnda hafi farið út til Póllands og hitt hönnuðiog síðan farið í verksmiðjuna og gefið fyrirmæli um það hvernig og hvað afstálinu stefndi vildi fá á hverjum tíma. Skyldur stefnanda hafi verið aðafgreiða efni á því verði sem um hafi verið samið. Enginn tími hafi veriðtilgreindur um afhendingu. Í tölvupósti frá 10. febrúar 2015 frá stefnanda tilstefnda kemur fram að að sjálfsögðu miðist þetta við að ekki verði gerðarneinar breytingar á húsinu sem seinkað geti teiknivinnu því að framleiðandi getiekki byrjað framleiðslu nema hafa til þess teikningar. Stefnandi kvað að þegarstjórnandi verksins fyrir hönd stefnda og tengiliður stefnanda viðstálgrindarhönnunina hafi farið til Póllands og heimsótt verksmiðjuna þá hafilegið í hlutarins eðli að þeir legðu fyrir framleiðandann í hvaða röð þeirvildu fá afhendingu á tilteknum hlutum í stálgrindina. Það hafi síðan komið íljós að þeir hafi ekki gert það. Stefndi kvaðst aldrei hafa brotið neinaverkáætlun af hálfu stefnda. Um miðjan janúar hafi komið fram hjá stefnda aðþeir hafi þurft að fá afhendingu í viku 17-22. Stefnandi hafi samþykkt það aðþví tilskildu að allar teikningar frá stefnda væru komnar tímanlega svo að hægtværi að afhenda stálið á umræddum tíma. Eðlilegur afhendingartími á hönnun ásvona húsi sé fjórar til sex vikur. Teikningarnar séu síðan sendar tilstálframleiðandans sem taki sér um tvær vikur til að yfirfara teikningarnar.Framleiðslutíminn á 30 til 70 tonnum sé eðlilegur ein vika. Áður en slíkurframleiðslufrestur sé fundinn þurfi að kanna hver sé verkefnisstaðan hjáviðkomandi framleiðanda. Þann 5. maí hafi legið fyrir að fyrsta stálafgreiðslanyrði komin til Hamborgar í viku 20 til 21. Stefnandi kvað í símtali seinnihlutaseptember við starfsmann stefnda að starfsmaðurinn hafi aldrei lagt fyrirverksmiðjuna í Póllandi hvaða hluta af stálgrindinni stefndi vildi fá og áhvaða tíma. Stefnandi kvað stefnda aldrei hafa tekið þá með á fundi með Eimskipiog allar ákvarðanir milli stefnda og Eimskips varðandi afhendingu og fl. hafiverið teknar án vitundar eða samráðs stefnanda. Stefnandikvað að það hefði verið hægt að afhenda efnið í stálgrindina í viku 21, 22 efteikningar frá stefnda hefðu legið fyrir í upphafi ferilsins eins og stefnandihafi gert ráð fyrir við tilboðsgerð sína. Aðspurðurkvað stefnandi sér aldrei hafa verið tilkynnt um að stefndi þyrfti að stofnatil meiri yfirvinnukostnaðar eða annars kostnaðar við byggingu skemmunnar. Stefnanditelur að stefnda hafi verið ljóst allt frá upphafi, með hliðsjón af öðrumtilboðum sem þeir höfðu fengið áður en stefnandi gerði þeim tilboð, aðstálgrindarhúsið yrði á bilinu 350 til 700 tonn. Stefndi hafi hins vegar sagtstefnanda að húsið væri 350 tonn en síðar hafi komið í ljós að það var miklustærra. Stefnandi kvaðst ekki hafa haft önnur tilboð undir höndum sem stefndihafði fengið frá öðrum aðilum og hafi stefnandi aldrei gert tilboð í annað entonnaverð frá framleiðanda. Hönnunarkostnaður hefði eingöngu orðið hærri efhann hefði vitað um að meira stál færi í húsið. Afhendingartími hefði hugsanlegalengst ef framleiðandinn hefði vitað fyrirfram að um væri að ræða 550 tonna húsen ekki 350 tonna. Stefnandi kvað aðspurður starfsmann á sínum vegum hafa setiðá fyrstu hönnunarfundum með stefnda, starfsmaður stefnanda hafi setið einn eðatvo fundi og stefnandi setið síðasta hönnunarfundinn með stefnda. Hönnunhússins hefði ekki komið stefnanda neitt við nema þá til þess að komaupplýsingum til þeirra birgja. Aðspurðurkvað stefnandi það rétt að Hýsi-Merkúr hefði aldrei reiknað það út hversu mikiðaf stáli þyrfti í húsið. Stefnandi væri ekki með arkitekta á sínum snærum.Stefnandi kvaðst fyrst hafa komið að málinu með tilboði í klæðningu og yleiningaren það hafi ekki verið fyrr en eftir að því tilboði hafi verið tekið semstálgrindin hafi komið til. Stefnandi kvaðst hafa burðarþolshönnuð á sínumvegum, Gísla Rafn. Aðspurður um það hvort hægt væri að tryggja sig fyrir því aðslík hús væru ekki ofhönnuð, kvaðst stefnandi ekki hafa heyrt um það og eingöngufengið upplýsingar um að nýting stálsins væri góð. Stefnandi kvaðst ekki hafahaft neitt í höndunum um hversu mikið magn myndi fara í húsið, eingönguupplýsingar frá stefnda um að það væru 350 tonn. Aðspurðurum tölvupóst frá 6. janúar 2015 frá stefnda til stefnanda kvað stefnandi aldreihafa boðið í stálgrindarhús sem slíkt heldur einungis í verð á tonni. Aðspurðurum yfirlýsingu stefnanda frá 16. janúar 2015 um verð í Z-bita vegna tilboðsþeirra í efnispakka í fyrirgeymslur kvað stefnandi þetta skjal vera uppgefiðverð í ákveðna bita sem klæðning skrúfast á. Því komi allir þessir bitar semnefndir séu í skjalinu. Um sé að ræða metraverð í skjalinu. Aðspurður um þærupplýsingar í tölvupósti frá 9. mars 2015 um að stálvirki fari úr 346 tonnum í378 tonn vegna brunavarna kvaðst stefnandi ekki vita hvaðan þær tölur hafi komið.Stefnandi kvaðst hafa gert allt sem í sínu valdi stóð til að láta hlutina gangaupp. Stefnandi kvaðst ekki hafa litið svo á að hann væri undirverktaki í þessumviðskiptum, hann hafi verið efnissali. Spurður um dagsektir, hvort stefnandihafi litið svo á að hann bæri einhverja ábyrgð á dagsektum, kvaðst stefnandiekki hafa litið svo á, ekki nema að tafir hafi stafað af völdum stefnanda. Spurðurum frestun á hönnunarfundum kvaðst stefnandi ekki muna hvers vegna það hafiverið en þetta hafi verið 16. febrúar 2015. Hönnun hússins hafi fyrst verið lokiðþegar teikningar voru sendar út 12. mars 2015 á vegum stefnda. Stefnanda hafiþví verið ómögulegt að afhenda efni sem ekki var vitað hvernig átti að smíða. Stefnandikvað flutningskostnað koma þannig til að Eimskip hafi gert stefnda tilboð íflutning vörunnar sem stefnandi hafi ekki komið að. Reikningana hafi þurft aðskrifa á stefnanda svo að hann hafi getað tollafgreitt vöruna. Stefnandi hafilagt út fyrir þeim kostnaði og væri hann ógreiddur af stefnda. Stefnandiskýrði það svo að þegar búið væri að hanna húsið sjálft þá takiburðarþolshönnun við. Sú hönnun hafi verið á ábyrgð stefnanda og innifalin íverðtilboði hans. Taki sú hönnun fjórar til sex vikur. Hönnun hússins hafi ekkilokið fyrr en í mars 2015 en þá hafi burðarþolshönnun fyrst geta hafist. Hennihafi lokið í apríl 2015. Burðarþolshönnun hafi verið innifalin í tilboðistefnanda. Pólski burðarþolshönnuðurinn hafi sent stefnanda upplýsingar um aðstálgrindin væri komin í 460 tonn. Stefnandi hafi fengið „áfall“ og farið áfund stefnda og rætt þetta magn. Á þeim fundi hafi starfsmenn stefnda spurtstefnanda hvort hann væri hræddur um að hann fengi umframmagnið ekki greitt.Kvað stefnandi að ef stefndi hefði lýst því á þeim fundi að þeir greiddu barafyrir 350 tonn þá hefði hann stöðvað alla vinnu sem hafi verið á ábyrgðstefnanda. UnnarSteinn Hjaltason, forsvarsmaður stefnda, kom fyrir dóminn. Kvað hann að rætthafi verið á milli stefnanda og stefnda hversu mikið magn af stáli þyrfti íverkefnið. Þeir hafi hist á fundi og stefndi upplýst að stefndi hefði veriðbúinn að fá tilboð frá tveimur öðrum aðilum og hafi tonnafjöldinn verið ca 350tonn. Fyrirsvarsmaður stefnanda hafi þá svarað því að ef aðrir geti þetta þágætu þeir það líka. Stefndi kvaðst ekki hafa samþykkt tilboð þar sem heildarverðkæmi ekki fram, tonnafjöldinn yrði líka að koma fram. Heildarverðið skipti þvímáli. Bæði einingarverð og heildartonnafjöldi hafi komið fram í öðrum tilboðumsem bárust stefnda í stálgrindina. VitniðSigurfinnur Sigurjónsson, starfsmaður stefnda, kom fyrir dóminn. Kvaðst vitniðhafa rætt við stefnanda um hversu mikið af stáli þyrfti í verkefnið. Eftir aðstefndi hafi tekið þátt í útboði Eimskips hafi stefndi kallað til tvo aðila semhöfðu gert tilboð í stálið. Stefnandi hafi verið annar þeirra aðila. Hafi sáfundur verið til að staðfesta magnið af stáli sem þurfti í verkið en það hafiverið á bilinu 340 til 350 tonn. Kvað vitnið tilganginn með fundinum hafa veriðað ganga frá magntölum. Stefndi hafi ekki getað gengið til samninga við birgjanema hafa heildarmagn frá þeim. Kvaðst vitnið hafa beðið báða þessa aðila aðganga úr skugga um að þetta væri það stálmagn sem færi í verkið og ekki meira.Vissi vitnið ekki til þess að stefnandi hafi látið reikna magnið sérstaklega útfyrir sig. Kvaðst vitnið muna að stefnandi hafi svarað því svo til að ef aðrirgætu smíðað húsið með þessu stálmagni þá gætu þeir það líka. Tölvupósturfrá 18. júní 2015 var borinn undir vitnið. Kvað vitnið tafir hafa verið áafgreiðslu stálsins og því legið fyrir að það þyrfti að vinna auka- ognæturvinnu til að vinna upp tafir. Þó hafi aldrei verið farið að vinna á sólarhringsvöktumeins og fyrirhugað hafði verið. Ástæðan hafi verið sú að þeir hafi ekki haftnægjanlegt stál til að vinna úr, það hefði ætíð borist það lítið af stáli tillandsins í einu að það hafi ekki veriðgrundvöllur fyrir yfirvinnu. Aðspurt um bakfærðan reikning að fjárhæð 1.055.000krónur, kvað vitnið að Eimskip hafi gert kröfu um að stefnandi flytti allt efnitil landsins. Þegar reikningar hafi verið gerðir upp hafi þessi reikningurverið lækkun á fyrri reikningi að fjárhæð rúmlega 34.000.000 króna. Aðspurthvort vitnið hafi upplýst stefnanda í upphafi að ekki yrði greitt fyrir meiraen 350 tonn kvað vitnið að um hafi verið rætt í samningum að það væri það magn semætti að fara í verkið. Hvort það hafi verið nógu skýrt gat vitnið ekki sagt tilum. Tilboð stefnanda til stefnda frá 15. janúar 2015 um einingaverð á tonni varborið undir vitnið. Kvaðst vitnið hafa litið svo á að það einingaverð sem kemurfram í tilboðinu margfaldað með 350 tonnum væri heildarverðið. Vitnið kvaðsttelja sig hafa gert stefnanda ljóst að um væri eingöngu að ræða 350 tonn semstefndi myndi greiða fyrir. Hafi starfsmaður stefnanda orðað það þannig að efaðrir gætu þetta þá gætu þeir það líka. Hönnun hafi verið ólokið en það hafiátt að vera 350 tonn ±10%. Vitnið hafi beðið menn um að fara heim og reiknaþetta upp en það hafi ekki verið gerður samningur um þetta. Vitnið kvað aðupphaflega hafi verið gert ráð fyrir 350 tonnum en til viðbótar því hafi komiðýmsar breytingar sem hafi orðið til þess að magnaukningar hafi orðið og þaðhafi aldrei verið ætlunin að greiða ekki fyrir það. Í apríl 2015 hafi enginkrafa verið komin fram um aukaverkin eða viðbótarmagn. Í tölvupósti frá 22.apríl 2015 komi fram að verkið hafi verið komið upp í 450 tonn og það séágreiningur um það. Þeir hafi gert ráð fyrir 350 tonnum og viðbótarverki að óskverkkaupa og fyrir það hafi þeir ætlað að greiða. Tilboð frá Húsasmiðjunni semvar upp á 347 tonn var borið undir vitnið og kvað vitnið að sér sýndist þettavera rétt tilboð frá þeim. Tonnin 350 hafi verið fundin á grófan hátt frátæknimanni stefnda auk þess sem að flestir sem gerðu tilboð í stálverkið hafireiknað með svipuðu tonnamagni. Tilboð frá Límtré Vírneti frá 14. janúar 2015var borið undir vitnið auk tilboðs frá Oostingh Staalbouw Katwijk sem gerðitilboð í 520 tonn og kvaðst vitnið ekki hafa borið það undir stefnanda. Vitniðhafi ásamt öðrum starfsmanni ákveðið að ræða bara við lægstbjóðendur. Stefnandihafi ekki fengið að vita um þessi tilboð. Aðspurt hvers vegna það hafi ekkigert athugasemd við reikning sem gerður var 29. maí 2015, þar sem krafið varfyrir grind fyrir gám og fl. þar sem stuðst sé við útreikninga frá því í janúar,kvaðst vitnið hafa litið svo á að um væri að ræða innágreiðslu inn á verkið enuppgjör færi síðar fram. Vitnið hafi ekki staðreynt hvort það efni hefði boristsem rukkað var fyrir þar sem það hafði ekki farið sjálft yfir pakklista. Vitniðkvað hönnun hússins hafa breyst eftir miðjan janúar og hafi verið um nokkrarbreytingar að ræða en ekki stórvægilegar. Vitnið kvaðst hafa vitað að skipthafi verið um hönnuð frá Þýskalandi yfir til Póllands. Vitnið kvað ráðstafanirhafa verið gerðar til að vinna aukavinnu í kjölfar þess að dráttur varð áafhendingu stálsins til þess að geta staðið við afhendingartíma sem samið hafðiverið um við Eimskip. Vitnið kvaðst muna til þess að athugasemdir hafi veriðgerðar við stefnanda þegar efni vantaði í sendingar. Vitnið kvað aðspurt aðhugmyndin um stálmagnið hafi komið frá þeim fyrstu sem gerðu tilboð ístálgrindina. Því hafi stefndi miðað við það magn. Stálgrindin hafi síðan veriðteiknuð af stefnanda. Því líti vitnið svo á að ef meira af stáli hafi farið ístálgrindina þá hafi umframmagnið átt að vera á ábyrgð stefnanda. Stefndi hafihins vegar hvorki fengið útreikninga frá stefnanda né teikningar. Gengið hafiverið út frá því að stefnandi hafi sagt að ef aðrir gætu gert þetta með 350tonnum þá gætu þeir það líka. Vitnið kvaðst hafa hvatt stefnanda til að faraheim og reikna dæmið út en vissi ekki hvort stefnandi hafi gert það og ekki séðútreikninga þess efnis. Vitnið kvað aðila hafa rætt um það að stálvirkið þyrftiað koma í síðasta lagi um mánaðamótinapríl/maí 2015. Verkáætlun hafi verið gerð af hálfu stefnda og þegar stefndihafi séð að afhending efnisins var farin að dragast hafi verið ákveðið að fáefnið sent heim í þremur áföngum. Starfsmaður stefnda og tengiliður stefnandahafi farið til Póllands til að ganga frá því. Þetta hafi ekki verið tilkynntstefnanda sérstaklega. Til að átta sig á því hversu mikið stál færi í verkið hefðistefnandi þurft að rýna í teikningarnar. Vitnið kvaðst ekki geta svarað þvíhvers vegna skriflegir samningar hafi ekki verið gerðir milli aðila. VitniðTjörvi Skarphéðinsson kom fyrir dóminn. Var tilboð sem Húsasmiðjan hafði gertstefnda borið undir vitnið. Kvað vitnið birgja Húsasmiðjunnar hafa reiknað útmagnið af stáli sem þyrfti í húsið og tilboðið verið byggt á því. Vitnið kvaðstaldrei hafa séð né vitað til þess að tilboð væru eingöngu með einingaverði.Húsasmiðjan hefði fengið útboðsgögn frá stefnda sem hafi verið forsenda tilboðsHúsasmiðjunnar. Birgir Húsasmiðjunnar hafi verið í Lettlandi. Aðspurt hvortHúsasmiðjan hefði tekið á sig viðbótarmagn ef verkið hefði farið upp fyrir 350tonn kvaðst vitnið ekki geta svarað því. Vitnið kvaðst þó ekki vita hvaðaforsendur þeirra birgir hafi notað við útreikningana, þeim birgi væri baratreyst. ÓlafurHermannsson hjá VSÓ ráðgjöf og hönnunarstjóri kom fyrir dóminn og kvaðaðspurður að útboðsgögn Eimskips hafi verið nægjanlega skýr til að mögulegthafi verið að reikna nákvæmlega út magnið af stáli sem þurfti í húsið, þ.e. tilað hanna burðarveggi. Samkvæmt útboðsgögnunum hafi verktaki átt að hannaburðarverkið. Vitnið kvað magntölur ekki hafa verið breytilegar, einumagntölurnar sem hafi verið í útboðsgögnunum hafi verið í jarðvinnu. Sá semhanni burðarvirkið þurfi að reikna út hversu mikið stál þurfi í burðarvirkið.Vitnið kvaðst ekki hafa talið að viðbótarstál þyrfti vegna aukaverka en þaðværi mögulegt ef breytingar yrðu á vegum verkkaupa eftir að tilboði var tekið.Eftir að samningar hafi farið fram sé fyrst og fremst vísað til útboðsgagna ensamningurinn sem slíkur sé bara tvö til þrjú blöð en að öðru leyti að mestuvísað til útboðsgagna. Vitnið kvað sér hafa orðið það kunnugt í ferlinu ísamskiptum við stefnda að stefndi ætlaði að skipta við stefnanda og að hönnunburðarvirkisins yrði í höndum stefnanda. Vitnið kvaðst hafa haft áhyggjur þegarafhending stálsins fór að dragast og hafi komið þeim áhyggjum á framfæri viðstefnda en það væru boðleiðirnar sem verkkaupi hefði. Vitnið kvað að í byrjummars 2015 hafi vitnið ásamt starfsmanni stefnda farið í heimsókn til stefnandatil að fá skýrari svör. Vitnið taldi að þær breytingar sem hefðu verið gerðar áteikningum hefðu ekki átt að tefja afhendingu stálsins að neinu marki. Aðspurtum tafabætur sem stefnda var gert að greiða til Eimskips, kvaðst vitnið teljaað þær bætur hefðu átt að vera hærri en nítján milljónir sem samkomulag vargert um. Stefndi hafi hins vegar talið að þeir ættu ekki að greiða neinartafabætur. Aðspurt um þá ætlun að vinna á sólarhringsvöktum, eins og komi framí tölvupósti frá vitninu 6. apríl 2015, kvað vitnið það ekki hafa komist á þarsem afhending á stáli á verkstað hafi verið með þeim hætti að það bauð ekki uppá sólarhringsvinnu. Útreikningur vegna þess magns sem stefndi er krafinn um afstáli og kemur fram í skjali sem liggur frammi var borinn undir vitnið. Kvaðstvitnið geta staðfest að þau aukaverk sem hafi verið í gangi og tíunduð séu ískjalinu hafi verið samþykkt af Eimskipi. Vitnið hafi hins vegar ekkiupplýsingar um tonnafjöldann. Þá hafi mest af þeim verkum sem hafi verið hafnaðekki átt rétt á sér. Útboðsgögn hafi verið nógu skýr til að menn gætu gert ráðfyrir því í sínu tilboði. Vitniðkvaðst hafa sjálft ásamt framkvæmdastjóra VSÓ samið útboðslýsingu ífrystigeymslu Eimskips. Lýsti vitnið því svo að eftir að tilboði sé tekið farifram ákveðið hönnunarferli, þar sem hönnuðir verkkaupa, arkitekt, lagna- ografhönnuðir komi að ásamt burðarvirkjahönnuði sem verktakinn eigi að útvega.Hafi stefndi tilnefnt ákveðinn burðarvirkjahönnuð í þessu tilviki. Stærðirhússins hafi lítið sem ekkert breyst á öllu hönnunarferlinu.Burðarvirkjahönnuður hafi getað þá strax farið að stilla upp sínu reiknimódelitil að átta sig á kröftum, sem hafi átt að skila sér niður í undirstöður, súlur,bita og þess háttar. Á þessum hönnunarfundum hafi menn lítið sem ekkert veriðað hræra í aðalstærðum. Aðallega hafi menn verið að spá í hurðargöt,staðsetningar á þeim o.fl., auk ákveðnar þarfir vegna frystikerfisins. Breyta hafiþurft þaksperru og gæta að burðarþoli vegna frystiklefa. Minnti vitnið aðfyrsti hönnunarfundurinn hafi verið fyrstu vikuna í janúar 2015. Burðarvirkishönnuðurá vegum stefnda hafi setið fyrstu hönnunarfundina en enginn frá stefnanda. Hafiþað verið Gunnar Valdimarsson frá stefnda og Björn Gústafsson frá VSB. Björnhafi verið sá burðarvirkjahönnuður sem stefndi tilnefndi. Hans hlutverk hafiverið að hanna undirstöðurnar og síðan væntanlega að taka ábyrgð á heildarhönnunhússins. Sé stálgrind hönnuð og framleidd erlendis þurfi íslenskanburðarvirkjahönnuð til að staðfesta niðurstöðurnar. Hafi það verið Björn Gústafssonfrá VSB. Ekki hafi verið ætlunin að halda fleiri hönnunarfundi eftir fund 15.apríl 2015 nema sérstök ástæða þætti til. Vitninu hafi þótt ástæða til að haldasérstakan hönnunarfund til að ræða hönnun stálvirkis og útfærslur og efnisval íklæðningum og samlokueiningum og hafi boðað til hans 17. apríl sl. og hafi stefnandiverið boðaður á þann fund og starfsmenn hans. Vitnið kvaðst hafa vitað til þessað upphaflega hafi verið rætt um að þýsk verkfræðistofa myndi hannaburðarvirkið. Stefnandi hafi verið tengiliður þess aðila. Minntist vitnið þessað í byrjum mars 2015 hafi menn sent út tölvugrunn og sagt að það væriendanlegur grunnur. Kvað vitnið alla tölvugrunna koma frá arkitektinum á vegumEimskips sem þeir sendi áfram til VHE sem áframsendi þá til Hýsi-Merkúr sem svohafi áframsent þá til þýsku verkfræðistofunnar. Það hafi komið fram áhönnunarfundi að hönnunin hafi verið tekin af þýsku hönnunarstofunni og flutttil Póllands. Starfsmenn stefnda ásamt stefnanda hafi farið í heimsókn tilPóllands og þar hafi komið fram að lítið hafi verið gert. Hafi það komið mönnumá óvart. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa komið að gerð kostnaðaráætlunar vegnaþessa verks en vitnið vissi að grunnurinn að áætluninni byggðist ekki endilegaá tonnafleti á stáli heldur frekar á hjúpfleti, veggjum og fleira. Aðspurt kvaðvitnið að ekki hafi verið bruðlað með stál í húsinu, það sé skylda hvershönnuðar að hanna slíka byggingu á „grensunni“. Fram hafi komið að það væri góðnýting á stálinu og segi það vitninu að grindin hafi verið hönnuð á leyfilegumþolmörkum og þannig eigi að hanna burðarvirki. Aðspurt hvort hefði verið hægtað hanna stálgrindina á 350 tonnum kvaðst vitnið ekki geta svarað því. Aðspurthvort viðbótarfrystiblásarar hafi haft áhrif á magn stálsins kvaðst vitnið hafasamþykkt viðbótarstál vegna þeirrar viðbótar en það hafi verið lítill hluti afheildarkröfunni. Vitnið hafi eingöngu metið viðbótina út frá því hversu mikiðstál hafi þurft til að halda uppi fjórum frystiblásurum og lögnum að þeim ogfimm blásurum. Krafan hafi hins vegar verið fyrir alla blásarana. Vitnið kvaðað það hafa verið rætt á verkfundum að fá stálið í áföngum. Frystiklefi eitt hafiátt að koma fyrstur, síðan forrými í áfanga tvö örfáum vikum síðar, og frystiklefitvö átt að koma síðastur því að hann átti að taka síðast í notkun. Talað hafiverið um og bókað að stefnt væri að því að frystiklefi eitt ætti að koma í vikuátján og forrými í viku tuttugu og tvö. Síðan þegar stálið fór að koma þá hafiklefi eitt ekki komið í einni sendingu heldur hafi hann komið í mörgumsendingum. Þeir hafi því ekki verið að fá húshluta í einni sendingu.Tímasetningarnar hafi alltaf komið frá verktakanum, Gunnari Valdimarssyni,starfsmanni stefnda, en vitnið hafi verið í mestum tengslum við hann áverktímanum. Aðspurtum tafabætur sem stefnda var gert að greiða Eimskipi kvað vitnið þær vera tölusem aðilar hafi komist að samkomulagi um. Vitnið kvað verklag verktakans ekkihafa haft áhrif á verktafir stefnda. Vitnið kvað Eimskip hafa getað tekið ínotkun frystiklefa eitt 13. nóvember og frystiklefa tvö fyrri hlutann í desember2015. Klefi eitt hafi átt að vera tilbúinn 31. júlí. Kvað vitnið fyrstustálsendinguna hafa komið til landsins í byrjun júní og hafi hún verið þannigað ekki hafi verið hægt að byrja að reisa neitt stál því að það hafi vantað svomikið inn í sendinguna. Vitnið hafi fengið þær upplýsingar frá starfsmönnumstefnda auk þess sem vitnið hafi farið á verkstað og séð það sjálfur. Ávikulegum verkfundum hafi verið bókað að nú væri von á stálsendingu en þær hafikomið vikulega. Þá hafi líka verið bókað að það vantaði súlu eða bita svo að hægtværi að byrja að reisa húsið. Stefndi hafi ekki getað byrjað að reisastálverkið af krafti fyrr en mánuði eftir að fyrsta sending kom á staðinn. Vitniðvar spurt um það hvers vegna ekki hafi verið hægt að taka frystiklefa eitt ínotkun fyrr en í nóvember þar sem allt stál hafi verið komið í ágúst og megniðaf því í júlí 2015. Kvað vitnið það veraeitt að reisa stálgrindina en síðan hafi þurft að klæða hana að innan meðsamlokueiningum. Það taki ákveðinn tíma. Síðan sé tengt uppsetningu stálsins,til dæmis forrými, en þar séu tæknirými fyrir rafkerfi, lagnakerfi ogfrystikerfi. Allt það hafi þurft að vera nothæft til að hægt hafi verið að takaklefann í notkun. Aðspurt hvort verklag stefnda hafi haft áhrif á þann dráttsem varð, kvaðst vitnið ekki hafa séð það og ekki gert athugasemdir viðverkhraða þeirra. Í viku átján hafi stál í frystiklefa eitt átt að vera komiðog í rest í viku 22. Frystiklefi eitt hafi átt að vera tilbúinn 31. júlí 2015.Eins og málin hafi þróast hafi það dregist í þrjá mánuði að gera frystiklefaeitt tilbúinn. Taldi vitnið tafirnar fyrst og fremst hafa stafað af drætti áafhendingu stálsins en það gæti einnig skýrst af bjartsýnni áætlun verktakans. Vitniðkvaðst kannast við þau aukaverk sem listuð voru upp í excel-skjali frá stefndaog þau verk sem samþykkt hafi verið. VitniðGuðbjartur Halldórsson kom fyrir dóminn og kvaðst starfa fyrir stefnanda.Vitnið kvaðst hafa komið að gerð dómskjals 6, sundurliðun á tilboði í yleiningarog klæðningu í stálskemmu fyrir stefnda. Þröstur Lýðsson hafi einnig komið aðgerð skjalsins. Kvað hann það skjal vera fyrstu hugmyndir að tilboði tilstefnda. Aðspurt kvað vitnið sig hafa gert tilboð í einingaverð en ekki magn.Aðspurt um tölvupóst frá 6. janúar 2015, þar sem fram komi talan um 350 tonn, kvaðvitnið stefnda hafa tjáð þeim að stefndi væri þegar með tilboð í burðarvirkið,350 tonn. Tölvupósturinn hafi meirasnúist um það hvernig skiptingin á stálinu ætti að vera á milli forrýmis ogfrystiklefa. Hluti hafi átt að vera heit-galvaniserað og annað málað og þvíhafi hann beint þessari fyrirspurn til stefnda en stefndi hafi þegar látiðvitnið vita að um 350 tonn væri að ræða. Vitnið hafi ekki reiknað út magnið afstáli í bygginguna og mundi ekki til þess að það hafi komið til. Vitnið hafiekki haft neinar forsendur til að reikna það út. Á þessum tíma hafi stefndisagt að þeir væru með tilboð frá 350 tonnum til 550 tonna. Vitnið hafi beðiðstarfsmann stefnda að sýna sér þau tilboð sem hann hafi gert eftir að hafa yfirstrikaðfjárhæðir. Vitnið kvað að talað hafi verið um afhendingu á áfanga eitt, tvö ogþrjú. Talað hafi verið um að afhending gæti verið samkvæmt því plani efhönnunargögn frá hönnuði lægju tímanlega fyrir. Þær teikningar hafi dregist vonúr viti. Vitað hafi verið að mikill sprettur hafi verið á þessu og einnig aðöll gögn hafi þurft að liggja fyrir hjá stefnda strax í upphafi. Spurt hvortoft hafi vantað tiltekið efni kvaðst vitnið ekki geta sagt að það hafi komiðoft fyrir en það hafi komið fyrir. Tvisvar til þrisvar hafi vitnið fundiðsjálfur vöruna hjá stefnda en það hafi ekki komið oft fyrir. Varan hafi veriðþannig afgreidd að hvert einasta stykki væri afhent með númerum og stefndaverið uppálagt að bera pakklistana saman við vöruna sem kom með gámunum. Eittsinn hafi vantað plötur svo að stefndi hafi smíðað þær en síðar hafi Eimskiplætt plötunum til þeirra en þær hefðu þá verið inni í vöruhúsi hjá Eimskipi.Eitt sinn hafi vantað skrúfur samkvæmt stefnda en vitnið hafi síðan fundiðmyndir af skrúfunum sem hafi verið teknar nokkrum vikum áður þannig að vitniðvissi að þær skrúfur hafi komið. Eitt sinn hafi komið sjö bitar aukalega. Efstarfsmenn hefðu farið eftir leiðbeiningum um affermingu þá hefði vafalaustverið betri reiður á hlutunum. VitniðGunnar Valdimarsson, starfsmaður stefnda, kom fyrir dóminn og kvaðst kannastvið tilboð sem Húsasmiðjan gerði stefnda í stálvirki fyrir Eimskip. Vitniðkvaðst hafa sent Húsasmiðjunni útboðsgögnin og beðið þá að yfirfara magnið semhann hafi reiknað í húsið og hafi svo verið gert. Kvaðst vitnið hafa senttilboðsgjafa öll hönnunargögn frá verktaka til að gefa upp réttar forsendur.Vitnið kvaðst hafa farið til Þýskalands ásamt Gísla Rafni Gylfasyni,starfsmanni stefnanda, þar sem þeir hafi ekki fengið nein svör um framvindu hönnunarþar, en öll gögn hafi þurft að leggja fyrir byggingarfulltrúa áður en farið varí framleiðsluna. Þá hafi komið í ljós að þýska fyrirtækið sem ætlaði að hannahúsið hafi hætt við og pólskur aðili væri tekinn við verkinu. Vitnið kvaðstekki vita hvers vegna þýski aðilinn hætti með verkið. Þeir hafi því lent íÞýskalandi en farið þaðan til Póllands. Vitnið kvað stefnda ekki hafa haftneitt um það að segja við hverja stefnandi samdi. Kvað vitnið að þegar þeirfóru út hafi vitnið verið búið að teikna upp í hvaða röð það vildi fá húsiðafhent en það hafi verið í þremur áföngum. Hafi vitnið farið yfir það meðhönnuðum og þeir skilið að þeir þyrftu að hanna stálið í samræmi við þáeinföldu teikningu sem vitnið hafði haft með sér út til Póllands.Hönnunaraðilar hafi viljað hanna húsið eftir annarri áætlun sem hefði hentaðþeim betur en þeir hefðu skilið það fullkomlega af hverju vitnið óskaði eftirafgreiðslu og afhendingu stálsins á annan hátt en þeir höfðu ætlað. Þeir hafi íframhaldi af heimsókn til hönnuðanna heimsótt framleiðandann sem var þar stuttfrá. Framleiðendur hefðu einnig skilið þarfir stefnda en þegar stálið hafikomið til landsins hafi það verið allt annað en vitnið hafði óskað eftir.Stálið hafi ekki komið í réttri röð og því hefðu þeir ekki getað byrjað aðreisa grindina. Þeir hafi fyrst fengið sperrur í þakið í 23. og 24. viku. Komiðhafi verið fram í viku 25 og þeir hafi ekki getað reist húsið þar semburðarsúlur hafi t.d. vantað. Gríðarlegt magn af efni hafi verið komið en engarsúlur og því ekki hægt að hefja reisingu. Tölvupósturfrá 4. mars 2015, sem vitnið sendi stefnanda, var borinn undir vitnið þar semfram kemur að meðfylgjandi sé minnisblað frá 17. febrúar þar sem fram komi óskstefnda um að skipta afhendingu stálsins í þrennt og flýta einnig afhendingu.Vitnið kvað stefnanda ekki hafa getað lofað að stálið bærist fyrr og þá myndifyrri afhendingartími gilda. Þá dagsetningu hafi stefndi sett fram. Aðspurtum samskipti milli hönnuða sem hönnuðu fyrir Eimskip hvað vitnið gögn hafa bæðifarið beint til stefnda auk þess að hafa síðar einnig farið á stefnanda. Vitniðkvað ætlun hafa verið um að vinna á vöktum við reisingu á húsinu en þeir hafialdrei fengið nægjanlegt stál til að vinna úr svo að úr því hefði ekki orðið.Vitnið kvaðst hafa ýtt á að fá frekari upplýsingar frá stefnanda um afhendingustálsins með tölvupósti 19. maí og aftur 20. júlí 2015. Þeir hafi fengið pakklistaseint og illa yfir það sem væri að koma í sendingum. Aðspurður um platta semstefndi kvað ekki hafa komið frá framleiðanda kvaðst stefndi hafa þurft að látasmíða þá sérstaklega því að það hefði tekið of langan tíma að bíða eftirhlutnum frá framleiðanda erlendis. Þá kvað vitnið efni hafa komið með gámum semekki hafi tilheyrt verkinu og stefndi hafi sett í geymslu en stefnandi verið látinnvita um það. Sjáist það t.d. í tölvupósti frá 8. október 2015 þar sem vitniðhafi spurt stefnanda um óviðkomandi efni sem hafi borist og ekki verið merktverkinu. Vitnið kvað að ef pakklistar hafi verið stimplaðir af framleiðandahafi það merkt að þær vörur sem tilgreindar væru á pakklistanum væru í trukknumog í viðkomandi sendingu. Yfirlit yfir efni var borið undir vitnið ásamttölvupósti frá 4. desember 2015. Kvað vitnið það síðasta sem sett hafi veriðupp í húsinu hafi verið þakkantur. Þeir hafi ekki getað klárað það þar sem hornfrá framleiðandanum í Póllandi hafi vantað. Fyrirspurn hafi verið send tilstefnanda með tölvupósti 4. desember 2015. Stefnandi hafi ekki kannast við þetta.Komið hafi í ljós að hornin hafi enn verið hjá framleiðanda. Ákvörðun hafiverið tekin um að láta smíða hornin á Íslandi því að það hefði tekið of langantíma að láta senda hornin til Íslands. Vitnið kvaðst hafa sett upp hvaðaaukaverk stefndi hafi samþykkt og hvaða verkum hafi verið hafnað. Þá hafikostnaði vegna hönnunartímans verið hafnað. Vitnið kvaðst hafa óskað eftirrökstuðningi frá starfsmanni stefnanda fyrir viðbótarkostnaði og ekki fengið.Því hafi samþykktir stefnda verið lagðar fram fyrir Ólaf Hermannsson. Hann hafihafnað frekari kostnaði fyrir hönnun. Aðspurthvort stefndi hefði yfirfarið og borið saman pakklista og efnið sem kom meðgámunum, kvað vitnið það hafa verið gert til að byrja með en svo hafi það orðiðógerlegt. Efni hefði verið sent þannig að fyrst væri efni sett á trukk hjáframleiðanda og það keyrt í höfn. Efnið hafi síðan verið sett á svokölluð flet.Á fletin hafi komist minna magn en var í trukkunum. Því hafi pakklistarnir semsögðu til um það efni sem var í viðkomandi bíl ekki stemmt við efnið sem síðankom á fletum til stefnda. Restin af efninu sem hafi verið í trukknum hafi síðankomið á öðru fleti. Því hafi verið ógerningur að stemma af það efni sem hafikomið á fleti við pakklistana og ganga þannig úr skugga um að allt efnið, semsagt að væri að fara til landsins samkvæmt pakklistanum, hafi komið á samafleti. Farmur trukksins hafi því oft verið á fleiri en einu fleti. Kvað vitniðstarfsmenn hafa byrjað á því að setja fletin hlið við hlið og reyna að stemmapakklistana af við efnið en það hafi verið ógerningur. Vitnið kvað efnið ekkihafa komið í réttri röð og því hafi ekki verið hægt að hafa yfirsýn yfir þaðhvað kom og hvenær. Vitnið kvað rétt að það hafi gefið þau fyrirmæli í Póllandiað allt efni í frystiklefa eitt ætti að koma fyrst, síðan allt efni í forrýmiog síðan allt rými í klefa tvö. Engin athugasemd hafi verið gerð við þetta planá Íslandi og ekki erlendis. Afhendingartíminn hafi komið fram í tölvupósti. Aðspurtum það magn af stáli sem átti að fara í húsið, kvaðst vitnið ekki hafa veriðmeð í samningum aðila. Vitnið kvaðst þó hafa vitað að stefnandi hafi gerttilboð í húsið, 350 tonn. Einingaverð hafi komið fram í tilboði en magnið hafiverið rætt milli aðila. VitniðÞorvaldur Guðjónsson kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið að verkinu að beiðnistefnanda í þeim tilgangi að reikna út stálið sem hafði farið í verkið og reiknaút aukaverk. Skjal var borið undir vitnið sem kvað það stafa frá sér ígrunninn. Þar hafi vitnið tekið saman upp úr gögnum, efni og verði sem hafðifarið í verkið. Hafi vitnið verið í samskiptum við stefnda við þessa vinnu.Vitnið kvaðst hafa reynt sættir með aðilum um uppgjör en vitninu hafi fundistmenn komnir í þrot með það. Forsendur ogniðurstaða.Mál þetta er tvíþætt. Í fyrsta lagi er óumdeilt aðstefnandi gerði stefnda tilboð í yleiningar og klæðningarefni í frystigeymslusem stefndi hugðist reisa samkvæmt samningi stefnda við Eimskip að Óseyrarbraut22 í Hafnarfirði. Er tilboðið dagsett 8. janúar 2015. Kemur fram í tilboðinutegund, stærðir, verð frá framleiðanda og heildarverð. Í framhaldi af þvítilboði gerðu aðilar samning um lækkun á því efni sem nam 3.500.000 krónummiðað við ákveðið gengi EUR. Stefnandi hefur lækkað dómkröfur sínar að fjárhæð3.400.678 krónur vegna þessa gengismunar. Íöðru lagi gerði stefnandi stefnda tilboð vegna stálverðs í efnispakka í sömufrystigeymslur. Er tilboðið dagsett 15. janúar 2015.Ágreiningur máls þessa snýst ífyrsta lagi um það hvort samið hafi verið um það magn af stáli sem þurfti ístálgrindina og hvort stefnandi ætti að bera ábyrgð á því, í eigin reikning, efmeira magn en 350 tonn færu í stálgrindina auk samþykktra auka- ogviðbótarverka. Þá er ágreiningur um það hvortstefndi eigi að fá afslátt á útgefnum reikningum vegna lækkunar á einingaverðivegna klæðningar, vegna útreiknings á gengismun vegna reikninga til stefnda og skaðabæturvegna tafabóta, yfirvinnu, kostnaðar vegna umfram hönnunar, aukastálsmíði,missis verktakaálags og flutningskostnaðar frá stefnanda.Stefndi féll frá kröfu umskaðabætur vegna missis15% verktakaálags utan stálsmíðinnar, 2.692.369 krónur.Þá krefst stefndi lækkunar vegna kreditfærslu frá Eimskipi til Hýsis-Merkúrvegna flutningskostnaðar, 1.050.000 krónur, en stefndi kveður að Eimskip munigera stefnanda kreditreikning vegna þeirrar fjárhæðar.Stefnandi mótmælir öllum kröfumstefnda og byggir m.a. á tómlæti stefnda en stefndi hafi ekki gert athugasemdirvið reikningsgerð stefnanda fyrr en undir rekstri þessa máls og séu þær þau þvíof steint fram komin. Ekki er byggt á því að yleiningarog klæðningar hafi ekki borist á réttum tíma heldur krefst stefndi leiðréttingará reikningum vegna þeirra reikninga og samninga um að ákveðið gengi EUR giltium þá. Ljóster að aðilar gerðu aldrei með sér skriflegan samning um það magn og þann afhendingartímasem deilt er um í máli þessu. Eingöngu liggur fyrir tilboð eða yfirlýsing frástefnanda í einingaverð í stál sem átti að byggja stálgrind úr í frystigeymsluEimskips. Stefndi heldur því fram að munnlegur samningur hafi verið gerður um 350tonn og það sem umfram sé beri stefnandi ábyrgð á og geti ekki krafið stefndaum utan samþykktra viðbótar-og aukaverka. Ígögnum málsins liggja fyrir þrjú tilboð í stálgrindarhús Eimskips til stefnda: Tilboðfrá Húsasmiðjunni, dagsett 27. nóvember 2014, sem hljóðar upp á 347,1 tonn.Tilboð frá Límtré Vírneti ehf., dagsett 14. janúar 2015, sem segir aðheildarfjöldi gáma sé +/- 49, 40 feta HC gámar. Ekki kemur fram hversu mikilltonnafjöldi tilboðið hljóðar upp á en stefnandi heldur því fram að það séu um800 tonn. Segir að afhendingartími sé 34 vikur eftir að framleiðsluteikningar hafiverið samþykktar. Tilboð frá Oostingh Staslbouw Katwijk, dagsett 27. nóvember2014, sem hljóðar upp á 520 tonn. Ekki liggur fyrir samanburður á þessumtilboðum hvort þau séu sambærileg en þau byggjast væntanlega öll á útboðsgögnumsem stefndi hafði til viðmiðunar frá Eimskipi hf. Er af þessu ljóst að áður enstefnandi kom að tilboðsgerð í stálgrindina hafði stefndi fengið tilboð fráöðrum aðilum frá 347,1 tonni upp í 800 tonn. Stefndi hélt því fram fyrirdóminum að stefnandi hafi sagst geta gert tilboð í stálgrindina upp á 350 tonnen stefnandi kvaðst hafa sagt við stefnda að ef aðrir gætu það þá gæti hann þaðörugglega líka. Stefnandi kvað hins vegar að ef hann hefði átt að bera ábyrgð áþví að ekki færi meira magn en 350 tonn auk samþykktra aukaverka í stálgrindinaog hann ætti að bera kostnað af því sem umfram færi í húsið, hefði hann hættvið tilboð sitt. Þá er viðurkennt í málinu aðstefndi lagði til magnið við stefnanda, 350 tonn, sem virðist hafa verið hafttil viðmiðunar vegna framleiðslugetu viðskiptaaðila stefnanda í Póllandi,Metalbark, framleiðanda stálsins. Í gögnum málsins er að finna tölvupóst millistefnanda og stefnda þar sem stefnandi spyr stefnda hvort 350 tonn sem stefndihafi talað um séu komin upp í 450 tonn eða hvort þetta sé bara bull. Tölvupósturfrá 22. apríl 2015 um að stálið sé komið upp í 450 tonn gefur til kynna aðmagnið hafi komið stefnanda á óvart. Ekkert er í gögnum málsins sem gefur tilkynna að stefnandi hafi borið ábyrgð á því umframstáli sem myndi fara ístálgrindarhúsið né hafa verið færðar sönnur fyrir því við aðalmeðferð málsins.Var stefnda í lófa lagið að bóka það í fundargerðir eða ganga frá því ísamningi við stefnanda. Það gerði stefndi ekki. Gegn neitun stefnanda um aðhann hafi átt að bera kostnað vegna umframmagns á stáli telur dómurinn þáfullyrðingu stefnda ósannaða. Verður þeirri málsástæðu stefnda hafnað endaekkert í málinu sem styður þann framburð stefnda. Verður stefndi því dæmdur tilað greiða stefnanda það magn af stáli sem stefnandi flutti inn og var ætlað tilnotkunar í stálgrindarhús Eimskips og reikningar hafa verið gerðir fyrir. Þá er til skoðunar sú málsástæðastefnda um að lækka beri stefnufjárhæðina og reikningana fyrir klæðningu frá stefnandavegna gengismunar sem samið hafi verið um. Stefnandi mótmælti þeirri kröfu stefndasem of seint fram kominni og sökum tómlætis hafi stefndi fyrirgert sér rétt tilað gera athugasemdir við reikningana. Stefnandi kveður að á hverjum reikningikomi fram að athugasemdir vegna reikninga, skemmda eða vöntunar þurfi að berastinnan tíu daga frá dagsetningu reiknings, annars teljist hann samþykktur.Stefnandi byggir einnig á því að samkvæmt útboðsgögnum sem stefndi byggisjálfur mál sitt á segi að gefnir séu 28 dagar frá því að kröfugerð sé lögðfram og þar til hún skuli samþykkt eða henni hafnað. Samkvæmt IST 30 semstefndi og Eimskip sömdu um að gilti í samningum milli þeirra eru ákvæði þessefnis að greiðslu skuli lokið innan þriggja vikna frá því að hennar var krafistnema verkkaupi hafi borið skriflega fram rökstudd andmæli gegn reikningi. Í47. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup segir að ef kaupandi hafi fengiðreikning eða orðsendingu sé hann bundinn við það verð sem þar komi fram ef hannsegi ekki til um það innan sanngjarns tíma að hann samþykki ekki verðið. Telurdómurinn að athugasemdir stefnda við réttmæti reikninganna séu of seint framkomnar. Þrátt fyrir þetta liggur fyrir í gögnum málsins að stefnandi samþykktií tölvupósti þann 16. janúar 2015 útreikning á einingaverði á Pir-einingum aðfjárhæð 3.500.000 krónur. Stefnandi lækkaði við upphaf aðalmeðferðarstefnufjárhæð sína um 3.400.678 krónur vegna þessa gengismunar. Telur dómurinnsannað að þrátt fyrir nýja útreikninga, beri stefnanda að veita stefnda afsláttað fjárhæð 3.500.000 krónur eins og hann hafði í upphafi samþykkt án fyrirvara.Verður dómkrafa stefnanda lækkuð í samræmi við þetta. Í máli þessu gerir stefndi kröfuum lækkun á 21 reikningi sem ýmist eru greiddir athugasemdalaust eða ógreiddirí dag samtals að fjárhæð 11.522.185 krónur. Varðandi þá reikninga sem stefndihefur greitt athugasemdalaust komu ekki fram mótmæli fyrr en í greinargerðstefnda 20. janúar 2016 og útreikningar ekki fyrr en með framlagningu skjala17. mars sl. Þó eru almennar athugasemdir gerðar á fundum aðila 24. septemberog 7. október 2015 en þá er bókað eftir fyrirsvarsmanni stefnanda að honumfinnist skrýtið að umræða um aukaverk hafi ekki komið upp fyrr en á fundi 18.ágúst 2015. Ekki eru nein mótmæli eða athugasemdir bókaðar vegna greiddrareikninga í fundargerðina. Stefnandi leitaði sér aðstoðar lögmanns sem sendistefnda innheimtubréf 11. nóvember 2015 þar sem stefnandi krafði stefnda umógreidda reikninga. Stefndi svaraði bréfi stefnanda með bréfi 26. nóvember 2015en þar kveðst stefndi ekki þurfa að greiða fyrir meira en 378 til 431 tonn afstáli. Ekki eru gerðar efnislegar athugasemdir við framkomna reikningastefnanda. Í greinargerð stefnda, sem lögð var fram 20. janúar 2016, segir aðhluti reikninga stefnanda séu tilhæfulausir og að stefnda beri ekki að greiðafyrir meira en 431 tonn. Nánari útlistanir eru ekki gerðar fyrr en undirrekstri málsins er stefndi lagði fram sundurliðun á kröfugerð sinni þann 23.febrúar og 17. mars 2016 eða tæpum fimm mánuðum eftir að síðasti reikningurinnvar gefinn út og sex mánuðum eftir að stefndi greiddi síðast reikningathugasemdalaust. Ósannað er að stefndi hafi gert athugasemdir við hvernreikning efnislega fyrr en undir rekstri málsins bæði hvað varðar gengisákvæðireikninganna og einingaverð sem krafið var um. Telur dómurinn að stefndi hafimeð þessu athafnaleysi sínu glatað rétti sínum til að bera fyrir sig réttmætiþeirra reikninga sem hann í það minnsta greiddi athugasemdalaust og svo reikningasem gefnir voru út síðar. Þá gerði stefndi ekki athugasemdir við það magn sem honumvar afhent og á meðan enn var unnt að staðreyna ágreiningsefnið. Eins og málumer fyrirkomið í dag er aðilum ómögulegt að staðreyna hugsanleg mótmæli stefndaum að það magn hafi komið sem krafið er um. Falla þessar varnir stefnda þvíniður sökum tómlætis og ber að hafna þeim. Stefndi krefur stefnanda umskaðabætur til skuldajafnaðar vegna tafabóta sem stefnda var gert að greiðaEimskipi hf., að fjárhæð 19.000.000 króna. Eins og fram hefur komið gerðuaðilar ekki með sér skriflegan samning um verkið og eru því engin sönnunargögnsem staðfesta efnisinnihald hans. Greinir menn á um ástæður þess að reisingfrystiskemmunnar dróst. Stefndi kveður ástæðu þess vera að stefnandi hafi ekkistaðið við að afhenda stálið á þeim tíma er hann hafði lofað en stefnandikveður drátt hafa orðið í upphafi vegna þess að hönnunarteikningar fráíslenskum hönnuði hafi ekki verið tilbúnar í tæka tíð svo að hægt hafi verið aðhanna stálgrindina í húsið. Hafi dráttur framleiðanda því verið af völdumstefnda. Stefndi telur hafið yfir vafa að stefnanda hafi borið að afhenda stálog annað efni í samræmi við ákvæði útboðsgagna frá Eimskipi. Því hefurstefnandi mótmælt.Ekkert kemur fram í gögnummálsins um það hvenær átti að afhenda stálið utan misvísandi skilaboð ogfullyrðingar stefnda og stefnanda. Þó er ljóst að stálið hefur komið tilstefnda síðar en gert var ráð fyrir gagnvart skilum til Eimskips.Í tölvupósti frá stefnanda til stefnda 10.febrúar 2015 segir að afgreiðsla á stálvirkinu fyrir forrými og frystiklefa 1og að hluta af frystiklefa 2 verði komið til landsins í viku 18 og afgangurinní viku 22 en það miðist við að ekki verði gerðar neinar þær breytingar á húsinusem seinkað geti teiknivinnu. Vika 18 á árinu 2015 var 27. apríl til 2. maí ogvika 22 25. til 30. maí. Í tölvupósti frá stefnanda til stefnda þann 9. marssegir að stefnandi hafi fengið hringingu frá hönnuðunum í Þýskalandi en þeirværu stopp þar sem arkitektateikningarnar sem hafi átt að berast þeim 9. marshafi ekki borist og þeir gætu ekkert gert fyrr en þær bærust. Voru þaðteikningar á vegum stefnda. Af þessum sökum sagði þýska fyrirtækið sig fráverkinu og stefnandi þurfti að finna annan framleiðanda og hönnuð til að getastaðið við tilboð sitt. Telur dómurinn sannað að upphaf tafa vegna framleiðslustálsins hafi verið af völdum sem stefnda var um kennt. Þá liggur fyrir aðstarfsmaður á vegum stefnda fór tvívegis til Póllands og heimsótti framleiðandastálsins og lagði fyrir hann í hvaða röð hann vildi fá stálið afhent. Stefndihefur ekki lagt fram nein gögn sem sanna þær tímasetningar og að stefnandi bæriábyrgð á þeim. Eins og fyrr segir kom fram í tölvupósti að frystiklefi eittværi allur kominn 1. júní. Ágreiningur er á milli aðila hverjum er um að kennaað dráttur varð á afhendingu stálsins og hefur það ekki verið upplýst í málinu.Stefndi heldur því fram að allur dráttur hafi verið af völdum stefnanda enstefnandi hefur mótmælt því og talið dráttinn vera vegna seinagangs hjáhönnuðum stefnda sem hafi haft keðjuverkandi áhrif. Því sé síðbúin afhendingekki á ábyrgð stefnanda. Þá kemur fram í tölvupósti að afhending stálsins hafiekki verið í samræmi við óskir stefnda og samkvæmt því sem hann lagði fyrirframleiðandann að afhenda. Teikningar sem stefndi fór með til Póllands umbreytt afhendingarfyrirkomulag voru ekki lagðar fram í málinu. Því eru engingögn um þá breytingu sem gerð var á afhendingu stálsins en óumdeilt er aðstarfsmaður stefnda hafði óskað eftir að afhendingu stálsins frá framleiðanda yrðibreytt í samræmi við kröfur hans. Af þessu verður ekki annað ráðið en aðósannað sé af hálfu stefnda að þær tafir sem urðu á afhendingu stálsins tilstefnda hafi verið á ábyrgð stefnanda eða að stefnandi hafi ekki staðið viðsamninga um afhendingardag og að stefnanda beri að greiða stefnda skaðabæturvegna þess. Þá er ekkert í málinu um að stefnandi hafi tekið á sig ábyrgð eðadagsektir vegna tafa á afhendingu stálsins og telur dómurinn verksamning, semstefndi gerði við Eimskip hf., stefnanda óviðkomandi og óskuldbindandi fyrirstefnanda. Verður stefnandi því sýknaður af þessari kröfu stefnda. Þá krefur stefndi stefnandaeinnig um skaðabætur til skuldajafnaðar að fjárhæð 3.196.564 krónur vegnastálsmíði á efni sem ekki hafi borist frá stefnanda. Stefndi féll frá kröfu umskaðabætur vegna missis verktakaálags 15% vegna stálsmíðinnar 2.692.369 krónur.Stefnandi samþykkti fyrir dóminum kröfu að fjárhæð 2.577.874 krónur vegnastálsmíðinnar utan virðisaukaskatts. Verktakaálag á þá fjárhæð er 386.681 krónasem stefndi krefur stefnanda um. Verður sú krafa tekin til greina.Þá krefststefndi skaðabóta vegna nauðsynlegrar yfirvinnu sökum afhendingardráttar,að fjárhæð 12.336.006 krónur, vegna umfram hönnunar, 697.860 krónur, og vegnamissis verktakaálags, 2.434.564 krónur, eða samtals 37.664.994 krónur. Stefnandileggur fram í málinu afrit af reikningi frá VSB verkfræðistofu ehf., dagsettan22. apríl 2015 að fjárhæð 2.692.369 krónur. Þrátt fyrir að lesa megi úrtölvupósti milli aðila að þurft hafi að smíða eitthvað af því efni sem virðistekki hafa komið með í sendingum til stefnda hefur stefndi ekki lagt framreikninga né sýnt fram á hvaða efni það var sem þurfti að smíða hérlendis utanþað sem stefnandi hefur samþykkt að greiða og kemur fram í breyttri kröfugerðhans. Stefndi lagði fram yfirlit yfir unnar klukkustundir hjá starfsmönnumstefnda. Er útilokað að sjá af því skjali að það hafi verið yfirvinna sem hafiverið unnin vegna tafa á ábyrgð stefnanda. Er þessi skaðabótakrafa eins og húner fram sett, ásamt vinnu við umrædda smíði, svo vanreifuð að henni ber að hafna.Að lokum krefst stefndi lækkunará kröfum stefnanda vegna kreditfærslu frá Eimskipi til stefnanda vegnaflutningskostnaðar að fjárhæð 1.050.000 krónur. Engin gögn eru í málinu semsýna fram á þessa fjárhæð utan færslu á skjali sem segir: „Villa í taxta 900EUR, hærri sjófrakt um 5200EUR, hærri uppskipun 900 EUR, samtals ISK 1.050.000.“Í tölvupósti frá 29. september 2015 sem stefndi vísar til er ekkert að finna umað þessi fjárhæð verði kreditfærð á stefnanda. Því liggur ekkert fyrir í gögnummálsins né viðurkenning stefnanda um að ofangreind fjárhæð hafi verið bakfærðaf hálfu Eimskips. Verður því að hafna þessari kröfu stefnda. Af öllu framangreindu virtuverður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 81.741.822 krónur. Stefnandikrefur stefnda um dráttarvexti frá útgáfudegi reikninga til greiðsludags aðfrádregnum innborgunum. Eins og máli þessu er háttað er ljóst, þótt aðilar hafiekki getað staðfest hvað þeim hafi farið á milli á sáttafundum, að drátt áuppgjöri aðila megi rekja til þeirra beggja. Verður stefndi því dæmdur tilgreiðslu dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu af ofangreindri fjárhæð frá því að mál þetta var höfðað meðbirtingu stefnu þann 8. desember 2015 til greiðsludags.Að þessum málalokum virtum verðurstefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að upphæð 2.200.000 krónur. Ástríður Grímsdóttir kveður uppdóm þennan. Við uppkvaðningu dómsins var gættákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991. Dómsorð.Stefndi, VHE ehf., greiði stefnandaHýsi-Merkúr hf., 81.741.822 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr.laga nr. 38/2001 frá 8. desember 2015 til greiðsludagsStefndi greiði stefnanda2.200.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 5/2004 | Víxill Skaðabætur Húsaleigusamningur | M sagði upp leigusamningi, sem hann hafði gert við Á og skilaði húsnæðinu 1. nóvember 2000, án þess að hafa málað það samkvæmt því sem sagði í samningnum. Aflaði Á sér tilboðs í vinnu og efni við málun húsnæðisins og hljóðaði það alls upp á 747.750 krónur. Á höfðaði víxilmál vegna víxils sem afhentur hafði verið til tryggingar leigusamningnum, og voru M og Ó, faðir hans, dæmdir til greiðslu víxilfjárhæðarinnar, 700.000 krónur. Þegar kom að nauðungarsölu fasteignar Ó af þessu tilefni greiddi hann kröfuna. Höfðaði Ó þá mál á hendur Á, samkvæmt heimild í lögum um meðferð einkamála, og krafðist skaðabóta fyrir að hafa farið á mis við það að koma að vörnum í víxilmálinu. Talið var að Á hafi vegna ákvæða húsaleigulaga borið að gera kröfu, sem umrædd trygging tæki til, innan tveggja mánaða frá því að M skilaði húsnæðinu til Á. Símskeyti Á til M 17. nóvember 2000 og innheimtubréf 24. nóvember s.á. voru ekki talin hafa falið í sér kröfu í skilningi tilvitnaðs ákvæðis húsaleigulaga og ekki varð séð að Á hefði á annan hátt haldið fram slíkri skaðabótakröfu fyrir lok ársins 2000. Tryggingin hafi því verið fallin úr gildi þegar víxilmálið var höfðað. Á hafi þannig með víxilmálinu og eftirfarandi fjárnámi og nauðungarsölu knúið fram greiðslu, sem hann hafi ekki átt efnislegan rétt til úr hendi Ó, enda hafi hann ekki borið ábyrgð á efndum húsaleigusamningsins umfram það, sem leiddi af víxilskuldbindingu hans. Var Á dæmdur til að greiða Ó þá fjárhæð sem sá fyrrnefndi hafði knúið fram greiðslu á með fyrrnefndum hætti. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. janúar 2004. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti. I. Samkvæmt gögnum málsins gerðu áfrýjandi og Magnús Torfi Ólafsson, sonur stefnda, húsaleigusamning 18. mars 1999, þar sem sá síðarnefndi tók á leigu af þeim fyrrnefnda atvinnuhúsnæði að Kaplahrauni 9 í Hafnarfirði. Sagði meðal annars í samningnum að leigutaki tæki við húsnæðinu í því ástandi, sem það væri þá og hann sætti sig við að öllu leyti. Bæri leigutaka að annast viðhald húsnæðisins að innanverðu, en hann lofaði „að skila hinu leigða í sama ástandi að leigutíma loknum. Nýmáluð gólf og veggir með olíumálningu, marmarahvítt að ofan og fagurgult að neðan, upp á veggi. Gólf er málað með E 21 mógrænt og ber leigutaka að skila húsnæðinu ný máluðu með sömu efnum að leigutíma loknum.“ Við gerð þessa samnings afhenti leigutakinn áfrýjanda víxil, sem áritaður var um að hann væri til tryggingar „fyrir leiguhúsnæði að Kaplahrauni 9“. Var víxillinn samþykktur til greiðslu af leigutakanum, en útgefinn af stefnda. Með bréfi 4. ágúst 2000 tilkynnti leigutakinn áfrýjanda um uppsögn framangreinds húsaleigusamnings frá og með 1. sama mánaðar með þriggja mánaða fyrirvara. Tók hann fram að hann myndi skila húsnæðinu 1. nóvember 2000 „í því ástandi sem um getur í nefndum leigusamningi.“ Leigutakinn skilaði húsnæðinu á tilsettum tíma, en án þess að hafa málað það eftir fyrrnefndu ákvæði samningsins. Áfrýjandi leitaði í framhaldi af því til byggingarfulltrúa í Hafnarfirði um úttekt á húsnæðinu. Með bréfi 7. nóvember 2000 hafnaði byggingarfulltrúi þessu erindi, þar sem hann hafi ekki tekið húsnæðið út við upphaf leigumálans. Á hinn bóginn tók hann fram að hann hafi skoðað húsnæðið að beiðni áfrýjanda 3. sama mánaðar og hafi það ekki fullnægt þeim áskilnaði húsaleigusamningsins að veggir og gólf skyldu vera máluð að nýju, enda ljóst að langt væri síðan málað hafi verið. Vegna þessa aflaði áfrýjandi sér tilboðs 6. nóvember 2000 í vinnu og efni við málun húsnæðisins og hljóðaði það alls upp á 747.750 krónur. Hann tilkynnti síðan leigutakanum með símskeyti 17. sama mánaðar að hann áskildi sér „allan rétt til skaðabóta vegna skila yðar á leiguhúsnæði að Kaplahrauni 9, Hafnarfirði.“ Áfrýjandi beindi 24. nóvember 2000 innheimtubréfi til leigutakans vegna víxilsins, sem afhentur hafði verið til tryggingar leigumála þeirra. Kom þar fram að útgáfudagur víxilsins hafi verið 18. mars 1999, en gjalddagi 20. nóvember 2000 og fjárhæð hans 700.000 krónur. Í bréfi 29. sama mánaðar andmælti leigutakinn þessari kröfu með því að húsnæðið hafi ekki verið ný málað við gerð húsaleigusamningsins og hafi hann þannig skilað því í sama ástandi og hann fékk það afhent. Áfrýjandi höfðaði í framhaldi af þessu mál, sem þingfest var 31. janúar 2001, á hendur leigutakanum, stefnda og nafngreindri konu, sem hafði gerst ábekingur á víxlinum, og krafði þau um greiðslu hans. Tóku þau til varna í málinu, en dómur gekk í því 18. desember 2001 og var krafa áfrýjanda tekin þar til greina. Hann fékk síðan gert fjárnám 22. janúar 2002 í fasteign stefnda, sem hann krafðist nauðungarsölu á. Þegar kom að sölu fasteignarinnar af þessu tilefni greiddi stefndi kröfu áfrýjanda að fullu 25. september 2002 með innborgun á bankareikning lögmanns hans að fjárhæð 1.470.015 krónur. Í máli þessu, sem stefndi höfðaði 4. mars 2003, krefur hann áfrýjanda um greiðslu þessarar fjárhæðar í skaðabætur. II. Stefndi reisir kröfu sína í málinu á 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og leitar skaðabóta fyrir að hafa farið á mis við það að koma að vörnum í víxilmáli áfrýjanda á hendur sér. Þótt krafa stefnda um skaðabætur sé sömu fjárhæðar og dómkrafan, sem hann greiddi áfrýjanda 25. september 2002, er hann ekki að leita endurheimtu á þeirri greiðslu eftir almennum reglum kröfuréttar. Getur því engu skipt um réttarstöðu stefnda að hann gerði ekki fyrirvara um rétt sinn til endurkröfu þegar hann innti umrædda greiðslu af hendi til áfrýjanda. Eins og áður er fram komið var húsaleigusamningurinn frá 18. mars 1999 gerður um atvinnuhúsnæði. Í samningnum voru engin ákvæði um tryggingu af hendi leigutakans, meðferð hennar eða skilyrði fyrir rétti áfrýjanda til að nýta sér hana. Af þessum sökum giltu um þessi atriði ákvæði VII. kafla húsaleigulaga nr. 36/1994, sbr. 2. mgr. 2. gr. þeirra. Óumdeilt er í málinu að leigutakinn skilaði húsnæðinu til áfrýjanda 1. nóvember 2000. Vegna ákvæða 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, sem tóku til tryggingar leigutakans, sbr. 5. tölulið 1. mgr. sömu lagagreinar, bar áfrýjanda innan tveggja mánaða frá þeim degi að gera kröfu, sem tryggingin tæki til, að viðlögðu því að hún félli úr gildi. Áfrýjandi sendi sem áður segir leigutakanum símskeyti 17. nóvember 2000, þar sem hann tilkynnti að hann áskildi sér rétt til skaðabóta vegna ástands húsnæðisins við skil þess. Með þessari orðsendingu gerði áfrýjandi ekki kröfu á hendur leigutakanum í skilningi 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Innheimtubréf áfrýjanda 24. nóvember 2000 sneri eingöngu að víxilkröfu hans, en í engu var þar vikið að skaðabótakröfu vegna vanefnda á húsaleigusamningnum. Af gögnum málsins verður ekki séð að áfrýjandi hafi á annan hátt haldið fram slíkri skaðabótakröfu fyrir lok ársins 2000. Var réttur áfrýjanda samkvæmt tryggingunni því fallinn niður samkvæmt 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga þegar hann höfðaði fyrrnefnt mál á hendur stefnda og öðrum skuldurum samkvæmt víxlinum í janúar 2001. Með fullnustu víxilkröfunnar í skjóli málsóknar, sem laut reglum XVII. kafla laga nr. 91/1991, og eftirfarandi fjárnámi og nauðungarsölu knúði þannig áfrýjandi fram greiðslu, sem hann átti ekki efnislegan rétt til úr hendi stefnda, enda bar hann ekki ábyrgð á efndum húsaleigusamningsins umfram það, sem leiddi af víxilskuldbindingu hans. Samkvæmt því er fullnægt skilyrðum 2. mgr. 119. gr. síðastnefndra laga til að verða við kröfu stefnda, sem ekki hefur sætt andmælum tölulega. Með vísan til þess, sem að framan greinir, verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Eftir þeim úrslitum málsins verður að dæma áfrýjanda til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Ársæll Karl Gunnarsson, greiði stefnda, Ólafi Hróbjartssyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Mál þetta, sem dómtekið var 2. desember sl. er höfðað fyrir héraðsdómi Reykjaness með stefnu útgefinni 3. mars sl. af Ólafi Hróbjartssyni, kt. 150149-2909, Kristnibraut 77, Reykjavík gegn Ársæli Karli Gunnarssyni, kt. 120753-5179, Brekkuskógum 1, Bessastaðahreppi. Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.470.015 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. september 2002 til greiðsludags. Að auki gerir stefnandi þær kröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu eða að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda. Til vara að bótakrafa stefnda að fjárhæð 1.470.015 krónur sem stefnandi hefur greitt stefnda og er nú að endurkrefja stefnda um, komi til skuldajafnaðar upp á móti dómkröfu stefnanda. Til þrautavara að stefndi verði sýknaður að svo stöddu eða þar til stefnandi hafi sýnt fram á fjárþrot samþykkjanda tryggingarvíxilsins Magnúsar Torfa Ólafssonar. Í öllum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins og/eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts. I. Málsatvik verða rakin í einu lagi og umdeildra atriða getið eftir því sem við á. Með leigusamningi frá 18. mars 1999 tók sonur stefnanda, Magnús Torfi Ólafsson, á leigu atvinnuhúsnæði af stefnda í húsinu nr. 9 við Kaplahraun í Hafnarfirði, undir bílapartasöluna Start, auk þess sem stefndi seldi Magnúsi Torfa rekstur bílapartasölunnar. Var leigutíminn frá 1. apríl 1999 til 1. apríl 2000. Til tryggingar húsaleigusamningnum gerðist stefnandi útgefandi á tryggingarvíxli. Stefnandi heldur því fram að víxillinn hafi verið óútfylltur að öllu leyti þegar aðilar rituðu undir hann, þ.e. hvorki hafði verið ritað á hann víxilfjárhæð, útgáfudagur né gjalddagi. Stefndi heldur því hins vegar fram að einungis gjalddagi og útgáfudagur víxilsins hafi verið óúfyllt og hafi víxilfjárhæðin, kr. 700.000, þegar verið búið að rita á víxilinn þegar aðilar undirrituðu hann. Magnús Torfi sagði upp leigusamningnum með þriggja mánaða fyrirvara með rýmingu 1. nóvember 2000 og tók stefndi þá við húsnæðinu. Í framhaldinu upphófust deilur milli aðila um það hvort húsnæðinu hafi verið skilað til leigusala, stefnda, í fullnægjandi ástandi. Stefnandi telur að á þeim tímapunkti þegar Magnús Torfi tók við húsnæðinu, þ.e. í upphafi leigutímans, hafi húsnæðið verið ómálað og hafi honum því borið, með vísan til leigusamnings aðila, að skila húsnæðinu í sama ástandi og hann tók við því, þ.e. ómáluðu. Stefndi telur hins vegar að hann hafi verið tiltölulega nýbúinn að mála húsnæðið þegar hann afhenti það stefnanda til leigu í upphafi leigutímans. Auk þess hefur hann bent á ákvæði leigusamningsins þar sem segi að í lok leigutímans beri leigutaka að skila húsnæðinu nýmáluðu og ákveðin málningartegund tilgreind þar að lútandi. Stefndi höfðaði víxilmál á hendur stefnanda á grundvelli tryggingarvíxilsins og var dómur kveðinn upp í hag stefnda, Ársæli Karli, þann 18. desember 2001. Á grundvelli þess dóms hóf stefndi í þessu máli innheimtuaðgerðir á hendur stefnanda og var gert fjárnám í fasteign stefnanda í því skyni. Skömmu fyrir framhaldsuppboð á eigninni greiddi stefnandi dómskuldina ásamt tilheyrandi kostnaði. Stendur deila aðila um það hvort stefndi hafi með löglegum hætti staðið að innheimtu tryggingarvíxilsins svo og einnig hvort greiðsla stefnanda á dómskuldinni hafi verið fyrirvaralaus og þar af leiðandi ekki verið hægt að endurkrefja stefnda um þá greiðslu. II. Stefnandi höfðar mál þetta á grundvelli 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 til endurgreiðslu á óréttmætri og löglausri innheimtu tryggingarvíxils, sem hann var útgefandi að. Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að samkvæmt 5. gr. húsaleigusamnings aðila dags. 18. mars 1999 hafi leigutaka borið að skila leiguhúsnæðinu í því ástandi sem hann tók við því. Í 5. gr. samningsins segir orðrétt: „Leigutaki lofar að skila hinu leigða í sama ástandi að leigutíma loknum. Nýmáluð gólf og veggir með olíumálningu, marmarahvítt að ofan og fagurgult að neðan, upp á veggi. Gólf er málað með E 21 mógrænt og ber leigutaka að skila húsnæðinu ný máluðu með sömu efnum að leigutíma loknum.“ Stefnandi byggir á því að samkvæmt þessu ákvæði átti húsnæðið að vera nýmálað við afhendingu þess til stefnanda. Vísar stefnandi meðal annars til yfirlýsingar nokkurra aðila dags. 24. nóvember 2000 þess efnis að húsnæðið hafi ekki verið nýmálað þegar Magnús Torfi tók húsnæðið á leigu, heldur hafi það verið með gamalli málningu á gólfi og veggjum. Magnús Torfi hafi því skilað húsnæðinu til stefnda í því ástandi sem hann tók við því. Stefndi hafi síðan í framhaldinu tekið við húsnæðinu án fyrirvara. Í öðru lagi byggir stefnandi á því að samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 40. gr. laga um húsaleigu nr. 36/1994 megi leigusali ekki ráðstafa tryggingarfé, þ.e. tryggingarvíxlinum, eða taka af því án samþykkis leigjanda nema genginn sé dómur um bótaskyldu leigjanda. Tryggingarfé samkvæmt ákvæðinu beri að túlka á þann veg að þar undir falli ekki einungis peningar heldur einnig önnur verðmæti eins og til dæmis bankatrygging, skuldabréf og víxlar. Samkvæmt þessu hafi stefnda ekki verið heimilt að innheimta víxilinn, og þar með ráðstafa tryggingarfénu, með þeim hætti sem gert var þar sem að ekki hafði gengið dómur um bótaskyldu leigjanda, Magnúsar Torfa. Í þriðja lagi er samkvæmt greinargerð stefnda bent á það að skömmu fyrir framhaldsuppboð fasteignar stefnanda hafi stefnandi fyrirvaralaust greitt dómkröfu þá er honum var gert að greiða í víxilmáli aðila, ásamt áföllnum kostnaði og hafi þar með viðurkennt greiðsluskyldu sína og fyrirgert öllum rétti til endurgreiðslu víxilskuldarinnar eða skaðabóta. Þessum röksemdum vísar stefnandi á bug. Stefnandi byggir á því að ekki þurfi að gera neina fyrirvara um endurgreiðslu vegna réttmæti kröfu þegar um greiðslu dómkröfu er að ræða, öfugt við greiðslu venjulegra viðskiptaskulda þar sem dómur liggur ekki fyrir. Stefnandi telur að varakrafa stefnda um skuldajöfnuð sé ekki dómtæk og hefði stefndi þurft að gagnstefna í málinu til staðfestingar á bótaskyldu stefnanda og sömuleiðis gagnstefna varðandi bótafjárhæðina. Varðandi þrautavarakröfu stefnda bendir stefnandi á það að hann eigi sjálfstæðan rétt gagnvart þeim aðila sem misfer með tryggingarfé gagnvart sér. Samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 á því stefnandi sjálfstæðan rétt til að höfða skaðabótamál gegn þeim aðila sem valdið hefur sér tjóni og þarf hann því ekki fyrst að gera reka að því fá kröfuna greidda hjá samþykkjanda víxilsins. Stefnandi bendir að lokum á að málskostnaðarreikningur stefnda sé of hár. Stefndi krefst þar virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, en stefnandi telur að stefndi sé atvinnurekandi og því virðisaukaskattskyldur og eigi þar af leiðandi ekki rétt á að fá tildæmdan virðisaukaskatt. III. Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að leigutaki hafi ekki skilað leiguhúsnæðinu í umsömdu ástandi. Í leigusamningi aðila er ákvæði í 5. gr. sem er eftirfarandi: „Leigutaki lofar að skila hinu leigða í sama ástandi að leigutíma loknum. Nýmáluð gólf og veggir með olíumálningu, marmarahvítt að ofan og fagurgult að neðan, upp á veggi. Gólf er málað með E 21 mógrænt og ber leigutaka að skila húsnæðinu ný máluðu með sömu efnum að leigutíma loknum.“ Leigutakinn, Magnús Torfi, átti samkvæmt leigusamningnum að skila leiguhúsnæðinu í tilteknu ástandi sem hann gerði ekki, en húsnæðið var nánast nýmálað þegar leigutakinn tók við því og sá ekkert á því, utan örfáar smá rispur á gólfi. Leigutakinn átti að vinna ákveðið verk, þ.e. að skila húsnæðinu nýmáluðu, sbr. 5. gr. samningsins, og er það vanefnd sem leiðir til bótaskyldu samkvæmt reglum um skaðabætur innan samninga. Stefndi mótmælir skjali sem ritað var 24. nóvember þar sem fimm einstaklingar vottuðu um ástand leiguhúsnæðisins við upphaf leigutímans. Telur stefndi vottorð þetta hafa verið pantað í þágu málarekstrarins í víxilmálinu og ekki á því byggjandi, sérstaklega þegar litið er til þess að þeir aðilar sem undir skjalið rita eru ýmist vinir, kunningjar og skyldmenni leigutakans. Leigutakinn tók síðan við húsnæðinu athugasemdalaust, þ.e. án nokkurra skriflegra athugasemda. Í uppsagnarbréfi sínu frá 4. ágúst 2000 ítrekar leigutaki loforð sitt um að skila húsnæðinu í tilteknu umsömdu ástandi. Við skil leigutaka til stefnda á húsnæðinu gerði stefndi strax athugasemdir um ástand leiguhúsnæðisins og krafðist þess að leigutakinn stæði við leigumálann, en án árangurs. Var leigutaka þá sent símskeyti dags. 17. nóvember 2000 þar sem áskilinn var réttur til skaðabóta og var það sent aðeins 17 dögum frá því að húsnæðinu var skilað. Það er því rangt sem kemur fram í málflutningi lögmanns stefnanda að stefndi hafi tekið við húsnæðinu athugasemdalaust. Samkvæmt leigusamningi aðila bar því leigutaka, Magnúsi Torfa, að skila hinu leigða húsnæði nýmáluðu og á þessi niðurstaða stoð í úrskurði kærunefndar húsaleigumála nr. 5/2002 frá 11. október 2002. Stefndi byggir sýknukröfu sína á þeirri málsástæðu að stefndi hafi ekki með neinum hætti bakað sér bótaskyldu vegna meðferðar á tryggingarvíxlinum. Í 2. mgr. 2. gr. laga um húsaleigu nr. 36/1994 er ákvæði sem kveður á um að reglur laganna um atvinnuhúsnæði séu frávíkjanlegar. Í húsaleigusamningnum segir í 5. gr.: „Leigutaki skal fara vel með hið leigða í hvívetna og ber ábyrgð gagnvart leigusala eftir almennum skaðabótareglum.“ Samkvæmt þessu eru leigusala ekki settar neinar skorður við að sanna tjón sitt. Með öðrum orðum er hann ekki bundinn af ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994. Stefnda var því ekki skylt að biðja um mat byggingarfulltrúans við mat á tjóni stefnda í umrætt sinn. Samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 65. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 er hvorum aðila að húsaleigusamningi rétt að krefjast mats dómkvaddra manna á bótafjárhæð innan tveggja mánaða frá því að aðila var kunn niðurstaða byggingarfulltrúa. Lögmanni stefnanda var kunnugt um álitið þegar honum voru send öll gögn málsins í framhaldi af bréfi hans frá 29. nóvember 2000. Stefnanda hafi því samkvæmt þessu verið í lófa lagið að biðja um mat dómkvaddra matsmanna ef hann var ekki sáttur við það mat sem liggur fyrir í málinu. Þar sem stefnandi lét það undir höfuð leggjast verður hann að bera hallann af því. Í þriðja lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi greitt dómskuldina í víxilmálinu fyrirvaralaust og eigi því ekki rétt á endurgreiðslu á hendur stefnda. Ef stefnandi hafi talið sér óskylt að greiða dómskuldina hafi honum borið að greiða hana með fyrirvara og áskilja sér rétt til endurgreiðslu. Máli sínu til stuðnings vísar stefndi til eftirfarandi Hæstaréttardóma: Hrd. 24 bindi:496, hrd. 26 bindi:633, hrd. 1936:15, hrd. 1945:400, hrd. 1949:33, hrd. 1953:623, hrd. 1954:1, 1955:633, hrd. 1956:161, hrd. 1957:314, hrd. 1962:184, hrd. 1966:827, hrd. 1973:552, hrd. 1981:1357, 1986:462 og hæstaréttarmál nr. 73/1999 og 312/2003. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar um greiðslu skuldar án fyrirvara þá hafi stefnandi fyrirgert öllum rétti sínum til endurgreiðslu á dómskuldinni samkvæmt tryggingarvíxlinum og leiðir þetta því til sýknu stefnda þegar af þeirri ástæðu. Um hálfu ári frá því að stefnandi greiddi dómskuldina fyrirvaralaust var mál þetta höfðað til endurgreiðslu og sé því um tómlæti af hálfu stefnanda að ræða sem að sama skapi leiðir til sýknu stefnda. Stefndi byggir í fjórða lagi á því að skilyrði sakarreglunnar séu ekki fyrir hendi, en eins og fram hefur komið reisir stefnandi endurkröfu sína á hinni almennu skaðabótareglu, sbr. 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefndi telur að engin skilyrði sakarreglunnar séu uppfyllt, þ.e. um ekkert tjón sé að ræða, engin saknæm háttsemi sem stefndi ber ábyrgð á og um enga ólögmæta háttsemi að ræða af hálfu stefnda. Stefndi telur í fimmta lagi að málsástæða stefnanda, þar sem vísað er til 4. tl. 1. mgr. 40. gr. laga um húsaleigu nr. 36/1994, sé á misskilningi byggð. Tryggingarfé í skilningi ákvæðisins beri að skilja sem peninga en ekki tryggingarvíxil. Í þessu máli var ekki um að ræða peninga og á því framangreind lagagrein ekki við hér. Stefndi bendir í sjötta lagi á að hann sé ekki atvinnurekandi, hvorki þegar mál þetta var höfðað né í dag og eigi því rétt á að fá tildæmdan virðisaukaskatt á málflutningsþóknun, verði honum dæmdur málskostnaður að mati dómsins. Varakröfu sína byggir stefndi á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna vanefnda leigutaka sem nemi að minnsta kosti höfuðstól kr. 747.750, sem hann hefur að hluta til bætt ásamt áföllnum kostnaði með greiðslu stefnanda á dómskuldinni vegna tryggingarvíxilsins. Stefndi gerir þá kröfu að fjárhæð sú sem stefnandi greiddi, kr. 1.470.015 komi til skuldajafnaðar upp á móti kröfu stefnanda, auk málskostnaðar. Enginn ágreiningur er um það að með áritun sinni á tryggingarvíxilinn tókst stefnandi á hendur sjálfskuldarábyrgð gagnvart stefnda á efndum leigusamningsins og var stefnanda það ljóst frá upphafi, enda ber víxillinn það glögglega með sér. Stefnandi beri því ótvíræða ábyrgð á efndum leigumálans með sama hætti og sonur hans, leigutakinn. Stefndi hafnar alfarið röksemdum stefnanda um að honum hafi borið nauðsyn til þess að gagnstefna varakröfunni um skuldajöfnuð. Einungis sé þess þörf þegar um er að ræða hærri kröfu eða þegar krafist er sjálfstæðs dóms fyrir því sem umfram er stefnufjárhæð máls. Þrautavarakröfu sína byggir stefndi á því að stefnandi eigi framkröfu að víxilrétti á hendur samþykkjanda tryggingarvíxilsins fyrir allri þeirri fjárhæð sem hann greiddi stefnda, en hefur ekki gert neinn reka að því að fá kröfu sína greidda hjá honum sem er sá eini sem ber ábyrgð á ætluðu tjóni hans. Til þess að stefnandi fái tekna afstöðu til efniskröfu sinnar verður hann að sýna fram á fjárþrot samþykkjandans. Er því krafist að stefndi verði samkvæmt þessu sýknaður að svo stöddu. IV. Með leigusamningi frá 18. mars 1999 gerði leigutaki, sonur stefnanda, samning við stefnda um leigu á atvinnuhúsnæði undir bílapartasölu. Var samningurinn tímabundinn frá 1. apríl 1999 til 1. apríl 2000. Til tryggingar húsaleigusamningnum gerðist stefnandi útgefandi á tryggingarvíxli. Við skil á húsnæðinu risu deilur milli leigutaka og stefnda um hvort leigutaka bæri að skila húsnæðinu nýmáluðu eður ei. Stefndi höfðaði víxilmál á hendur stefnanda á grundvelli víxilsins og var kveðinn upp dómur stefnda í hag þann 18. desember 2001. Á grundvelli dómsins hóf stefndi innheimtuaðgerðir á hendur stefnanda og greiddi stefnandi dómkröfuna ásamt áföllnum kostnaði og dráttarvöxtum að fjárhæð 1.470.015 krónur þann 25. september 2002, sem er stefnufjárhæð þessa máls. Þetta mál höfðaði stefnandi sem skaðabótamál skv. 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91/1991 og er skaðabótakrafan sama fjárhæð og stefnandi var dæmdur til að greiða í fyrra máli að viðbættum áföllnum vöxtum og kostnaði. Hvað sem líður lögskiptum leigutaka og stefnda um frágang hins leigða húsnæðis hefur það engin áhrif á réttarstöðu stefnanda. Stefnandi var útgefandi að umræddum tryggingarvíxli og hefur hann því enga stöðu í ágreiningi leigutaka og stefnda. Mál þetta lýtur því ekki að leigumálanum sem slíkum eða réttarsambandi leigutaka og stefnda, heldur eingöngu að því hvort innheimta víxilsins var lögum samkvæmt. Telja verður að stefnda hafi ekki verið heimilt að lögum að innheimta umræddan tryggingarvíxil með þeim hætti sem gert var. Á þeim tímapunkti sem stefndi krafði stefnanda um greiðslu samkvæmt víxlinum lá ekki fyrir mat dómkvaddra og óháðra matsmanna á því hvað kostaði að mála húsnæðið, heldur studdist stefndi við tilboð málarameistara sem aflað hafði verið einhliða og án samráðs við stefnanda. Mat byggingarfulltrúans í Hafnarfirði gæti ekki talist fullnægjandi sönnunargagn þar sem fulltrúinn gerði einungis úttekt á húsnæðinu að leigutímanum loknum og gat því ekki sagt til um ástand þess við upphaf leigutímans. Er það því mat dómsins að um óréttmæta og löglausa innheimtu víxilsins hafi verið að ræða sem leiddi til tjóns fyrir stefnanda, en stefndi gætti ekki skýrra ákvæða 40. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 um meðferð tryggingarfjár frá leigjanda. Ber stefnda því að endurgreiða stefnanda 1.470.015 krónur ásamt dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Að auki skal stefnda gert að greiða stefnanda 350.000 krónur í málskostnað, að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Stefndi, Ársæll Karl Gunnarsson, greiði stefnanda, Ólafi Hróbjartssyni, 1.470.015 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 25. september 2002 til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 677/2010 | Kærumál Vanreifun Frávísunarúrskurður staðfestur | Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli R gegn A hf. var vísað frá dómi að kröfu A hf. Í málinu krafðist R að viðurkenndur yrði með dómi réttur hans til skaðabóta úr hendi A hf. vegna rýrnunar sem varð á fjármunum hans er voru í fjárvörslu og eignastýringu hjá K hf. og síðar A hf. er rekja mætti til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi A hf. og starfsmanna hans. Í málinu var talið að R hefði m.a. ekki gert grein fyrir því tjóni sem hann taldi sig hafa orðið fyrir eða í hverju hin meintu brot höfðu verið fólgin né hvenær þau voru framin. Var bótagrundvöllur talinn vanreifaður og óljós og R ekki talinn hafa leitt líkur að því að hann hefði orðið fyrir bótaskyldu tjóni þannig að nægði til höfðunar viðurkenningarmáls á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.Var hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslson, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðila verður gert að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Ræktunarsamband Suður-Dala, greiði varnaraðila, Arion banka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað. |
Mál nr. 330/2017 | Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnirBenedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir setturhæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu tilHæstaréttar með kæru 26. maí 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum samadag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2017, þar semvarnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. júní2017 klukkan16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferðsakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinnkærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verðimarkaður skemmri tími.Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærðaúrskurðar.Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðarverður hann staðfestur.Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2017.Héraðssaksóknari hefur krafist þess aðHéraðsdómur Reykjavíkur úrskurði með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008um meðferð sakamála, að ákærða, X, kt. [...], [...],verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. júní 2017,kl. 16.00.Í greinargerð héraðssaksóknara kemur fram að mál þetta hafi borist héraðssaksóknarafrá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 18. maí sl. en ákærði sésterklega grunaður um að hafa veist að A utandyra við [...] við [...] íReykjavík aðfaranótt sunnudagsins 5. mars sl. og stungið hann með hnífi íhöfuðið. Með ákæru Héraðssaksóknara í dag, 26. maí 2017, sé ákærða gefið að söktilraun til manndráps sem sé brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaganr. 19/1940 og geti varðað allt að ævilöngu fangelsi og ekki skemur en 5 árafangelsi og því ljóst að um mjög alvarlegt brot sé að ræða. Ákærði hafi neitaðsök hjá lögreglu.Þrátt fyrir neitun ákærða sé að matiákæruvaldsins fram kominn sterkur grunur um að ákærði hafi stungið brotaþolamálsins með hníf í höfuðið eftir að ákærði og brotaþoli höfðu átt í átökum við hvorn annan. Ákæruvaldið hafibyggt þennan sterka grun sinn á framburði brotaþola sem hafi lýst því að ákærðihafi stungið sig með hnífi í höfuðið og vitni, sem hafi vinatengsl við ákærða, hafilýst atvikum með sambærilegum hætti og brotaþoli og framburðir þeirra fái stoðí áverkavottorði læknis sem lýsir þeim áverkum sem brotaþoli hafi hlotið umrættsinn og sé lýst í ákæru. Þar kemur m.a. fram að brotaþoli hafi verið með skurðá höfði og slagæðarblæðingu úr höfuðleðri og hafi áverkinn náð í gegnum fulla þykkthöfuðkúpunnar auk þess sem það hafi flísast upp úr höfuðkúpunni. Læknirinn hafieinnig greint frá því í læknisvottorði að ef eggvopnið hefði gengið inn íheilavefinn hefði ekki verið að sökum að spyrja og áverkinn getað leitt tilmikils varanlegs tjóns og jafnvel dauða. Að mati ákæruvaldsins benda þessiráverkar brotaþola til þess að hnífi hafi verið beitt af miklu afli í átt að höfðihans. Framburður ákærða hafi verið á þann veg að til átaka hafa komið millihans og brotaþola og ákærði að lokum náð hnífi af brotaþola, sem brotaþoli hafikomið með á vettvang, og ákærði hafi síðan kastað hnífnum í burtu. Ákærði hafihins vegar ekki getað útskýrt með hvaða hætti brotaþoli hafi fengið þá áverkasem hann hafi greinst með í kjölfar átakanna við ákærða. Fyrrgreint vitni semhafi verið sjónarvottur að atvikinu hafi óskað eftir því við lögreglu að fá aðgefa aðra skýrslu hjá lögreglu til þess að leiðrétta það sem hún hafði áðurborið um að ákærði hafi komið með hnífinn á vettvang og kvað vitnið það ekkirétt heldur hafi það verið brotaþoli sem hafi komið með hnífinn á vettvang. Hafivitnið talið að hnífurinn hafi fallið á jörðina í átökum ákærða og brotaþolaþar sem ákærði hafi tekið hann upp og stungið brotaþola. Mat ákæruvaldsins á hinum sterka grun fyrirbroti ákærða hafi fengið stoð í úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur og dómumHæstaréttar og beri þar helst að nefna; úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur nr.R-76/2017, frá 10. mars sl., nr. R-106/2017, frá 6. apríl sl. sem staðfestur hafiverið með dómi Hæstaréttar nr. 226/2017 og úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur nr.R-131/2017 frá 4. maí sl. sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar nr.276/2017. Að mati ákæruvaldsins hafi ekkert fram komið sem hafi gefið tilefnitil þess að breyta framangreindu mati Hæstaréttar. Að matihéraðssaksóknara séu skilyrði 2. mgr., sbr. 4. mgr. 95. gr. laga um meðferðsakamála uppfyllt með vísan til alvarleika brotsins sem ákærði sé sterklegagrunaður um en það geti varðað allt að ævilöngu fangelsi. Að matihéraðssaksóknara sé gæsluvarðhald einnig nauðsynlegt með vísan til eðlibrotsins og að almannahagsmunir krefjist þess að ákærði fari ekki frjáls ferðasinna á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir dómstólum en slíkt myndi stríðagegn réttarvitund almennings. Með vísan til alls framangreinds, fyrri úrskurðaHéraðsdóms Reykjavíkur og dóma Hæstaréttar sem vísað var til og framlagðragagna sé þess krafist að krafan nái fram að ganga. Um heimild til að úrskurðaákærða í gæsluvarðhald sé vísað til, 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 ummeðferð sakamála. Niðurstaða Í ljósirannsóknargagna og að teknu tilliti til dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr.226/2017 og 276/2017 er á það fallist að ákærði sé undir sterkum grun umtilraun til manndráps eða stórfellda líkamsárás, sbr. 211. gr., sbr. 20. gr.almennra hegningarlaga, eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Brot gegn 211. gr.almennra hegningarlaga getur varðað fangelsi ekki skemur en í fimm ár eðaævilangt. Þá getur brot gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga varðað allt að 16 árafangelsi. Skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um að sterkur grunur leikiá að sakborningur hafi framið afbrot sem varðað getur 10 ára fangelsi, er þvífyrir hendi. Með vísan til eðli brotsins og fyrrgreindra dóma HæstaréttarÍslands er einnig á það fallist að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti tilalmannahagsmuna. Síðari dómur Hæstaréttar var kveðinn upp 8. maí sl., máliðmóttekið hjá héraðssaksóknara 18. maí sl. og ákæra gefin út á hendur ákærða ídag. Ekki er fallist á að dráttur hafi orðið á málinu. Því verður fallist ákröfu sóknaraðila um að ákærði sæti áfram gæsluvarðahaldi á grundvelliheimildar í 2. mgr. 95. gr. sbr. og 4. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 eins og íúrskurðarorði greinir, en ekki er efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmritíma.Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveðurupp þennan úrskurð. Ú R S K U R Ð A R O R ÐÁkærði, X, kt. [...], [...], [...], skalsæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. júní 2017, kl. 16.00. |
Mál nr. 164/2017 | Vanreifun Frávísun frá héraðsdómi Kröfugerð | L ehf. krafðist þess að A hf. yrði gert að greiða sér tiltekna fjárhæð sem hann taldi tilkomna vegna mismunar á raunverulegri stöðu láns A hf. á grundvelli endurútreiknings og virði jarðar L hf. sem A hf. hafði leyst til sín vegna vanskila H ehf. á greiðslu af fyrrnefndu láni. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af málatilbúnaði L ehf. fyrir Hæstarétti yrði helst ráðið að hann byggði kröfu sína á reglum fasteignakauparéttarins um réttar efndir kaupa, sbr. a. lið 1. mgr. 49. gr. laga nr. 40/2002. Var vísað til þess að sá grundvöllur málsins hefði ekki verið lagður með skýrum hætti í stefnu auk þess sem hann gæti vart komið til álita án frekari málsútlistana. Þá hefði enginn frekari grundvöllur verið lagður að málinu af hálfu L ehf. Var því talið að málatilbúnaður L ehf. uppfyllti ekki kröfur d. og e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og svo verulegir annmarkar væru á honum að ekki yrði hjá því komist að vísa kröfu L ehf. sjálfkrafa frá héraðsdómi. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og HildurBriem héraðsdómari.Áfrýjandi skautmálinu til Hæstaréttar 10. mars 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert aðgreiða sér 23.523.334 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr.38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. júní 2015 til greiðsludags. Þá krefsthann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.Svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi þá seldi þáverandi eigandiáfrýjanda Hafnarkletti ehf. öll hlutabréf í áfrýjanda fyrir 40.000.000 króna ogvar kauptilboð þar að lútandi samþykkt 1. september 2007. Til að fjármagnakaupin fékk Hafnarklettur ehf. heimild hjá áfrýjanda til að veðsetja stefndajörðina Hafragil í Skagafirði sem var helsta eign áfrýjanda. Var skuldabréfið,sem var í svissneskum frönkum, gefið út 12. september 2007 til Kaupþings bankahf., en stefndi mun hafa yfirtekið réttindi og skyldur Kaupþings banka hf.vegna lánsins eftir hrun bankakerfisins. Vegna vanskila Hafnarkletts ehf. ágreiðslu af skuldabréfinu leysti stefndi fyrrnefnda jörð til sín meðkaupsamningi 14. október 2009 og var afsal gefið út sama dag. Í kaupsamningnumvar kaupverðið ekki sérstaklega tilgreint en tekið fram að það væri greitt „meðyfirtöku á áhvílandi láni“, það er fyrrnefndu láni Hafnarkletts ehf. Samkvæmtútreikningum stefnda stóð lánið þá í rúmum 94.000.000 króna. Á árinu 2014 varumrætt lán endurútreiknað vegna ólögmætrar gengistryggingar þess og áfrýjandatilkynnt þar um, sbr. útreikning miðaðan við 29. júlí það ár, en samkvæmtendurskoðun á útreikningi stefnda, sem lagður var fram á dómþingi HéraðsdómsReykjavíkur 8. september 2015, námu eftirstöðvar lánsins þann dag 17.367.058krónum. Í máli þessu krefst áfrýjandi fjárhæðar sem hann telur tilkomna vegnamismunar á raunverulegri stöðu láns stefnda á grundvelli endurútreiknings þessá afsalsdegi og virði jarðarinnar á sama tímamarki.IIÍ stefnuáfrýjanda til héraðsdóms kemur það eitt fram um grundvöll málsins, í kafla sember heitið málsatvik og málsástæður, að hann telji „ ... að stefndi skuldi sérstefnukröfuna vegna þess að stefnandi hafi á árinu 2009 selt og afsalað stefndajörð sinni gegn yfirtöku stefnda á kr. 65.000.000,- láni áhvílandi á jörðsinni. Lánið hafi reynst vera lægra og nemur krafa stefnanda mismuni söluverðsog þess sem stefnandi telur að lánið hafi staðið í á afsalsdegi.“ Um lagarökvísar áfrýjandi til „ ... lögfestra og ólögfestra meginreglna á sviðisamningaréttar einnig til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga... Einnig er byggt á lögum um fasteignakaup nr. 40/2002.“ Þannig var því íengu lýst nánar á hvaða reglum fasteignakauparéttarins væri byggt eða eftiratvikum á hvaða grundvelli öðrum ætluð kröfuréttindi áfrýjanda á hendur stefndaværu reist. Þar á meðal var ekkert fjallað um þýðingu þess að jörðinni varafsalað til stefnda sökum þess að stefndi hugðist ganga að henni sem veðhafi vegnavanskila þriðja aðila, Hafnarkletts ehf. Í hinum áfrýjaða dómi var að því vikiðað málið sé vanreifað af hálfu áfrýjanda en allt að einu taldi héraðsdómur unntað taka efnislega afstöðu til dómkrafna áfrýjanda og sýknaði stefnda af þeim. Óljóster þó af dómi héraðsdóms á hvaða lagagrundvelli sú krafa sem sýknað var af vartalin reist. Af málatilbúnaði áfrýjanda fyrir Hæstarétti verður helst ráðið aðhann byggi umrædda kröfu á reglum fasteignakauparéttarins um réttar efndirkaupa, sbr. a. lið 1. mgr. 49. gr. laga nr. 40/2002. Þessi grundvöllur málsinsvar ekki lagður með skýrum hætti í stefnu auk þess sem hann gæti vart komið tilálita, að minnsta kosti ekki án frekari málsútlistana, en stefndi yfirtókáhvílandi lán á grundvelli kaupsamningsins og innti ekki af hendi greiðslu ípeningum. Svo sem fyrr segir er enginn frekari grundvöllur lagður aðmálatilbúnaði áfrýjanda og hvorki vísað til annarra úrræða 1. mgr. 49. gr. laganr. 40/2002, reglna um skaðabætur, reglna um endurgreiðslu vegna þess aðofgreitt hafi verið af umræddu skuldabréfi, sjónarmiða um ólögmæta auðgun néannarra réttarreglna sem tækt hefði verið að taka til efnislegra varna við. Þáeru útreikningar áfrýjanda á ætluðum eftirstöðvum umrædds skuldabréfs ákaupdegi jarðarinnar bersýnilega rangir með hliðsjón af því að samkvæmt þeim ermiðað við 5,7% fasta vexti þegar skuldabréfið sjálft kveður á um að það beribreytilega vexti.Samkvæmt d. oge. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að greina ístefnu svo glöggt sem verða má dómkröfur og málsástæður sem málsókn er byggð á,svo og önnur atvik sem þarf að geta til þess að samhengi málsástæðna verðiljóst. Samkvæmt framansögðu uppfyllir málatilbúnaður áfrýjanda ekki þessarkröfur og eru því svo verulegir annmarkar á honum að ekki verður hjá því komistað vísa kröfu áfrýjanda á hendur stefnda sjálfkrafa frá héraðsdómi.Samkvæmt 2. mgr.130. gr., sbr. 190. gr. laga nr. 91/1991 verður áfrýjanda gert að greiðastefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Máli þessu ervísað frá héraðsdómi.Áfrýjandi, Laxáehf., greiði stefnda, Arion banka hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrirHæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2016Stefna málsins, sem útgefin var 19. júní 2015 varárituð af lögmanni stefnda um birtingu. Hins vegar láðist að getabirtingardags. Verður því litið svo á að málið hafi verið höfðað áþingfestingardegi sem var 30. júní 2015, en fallið var frá stefnufresti og mætthefur verið frá fyrsta degi af hálfu stefnda. Málið var dómtekið eftiraðalmeðferð þess 19. október 2016.Stefnandier Laxá ehf., Hafragili, 551 Sauðárkróki og stefndi er Arion banki hf.,Borgartúni 19, 105 Reykjavík,Stefnandikrefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 23.523.334 krónurásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 afstefnufjárhæðinni frá 14. október 2009 og til greiðsludags.Þá krefst hann málskostnaðarsamkvæmt mati dómsinsStefndi krefst sýknu og aðstefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.I.Upphaf málsinsverður rakið til þess að þáverandi eigandi Laxár ehf. samþykkti 1. september2007, 40.000.000 króna kauptilboð frá einkahlutafélaginu Hafnarkletti í öllhlutabréf í stefnanda. Helsta eign félagins var jörðin Hafragil í Skagafirði ogfylgdi hún með ásamt húsum og veiðirétti m.a. í Laxá, en ekki aðrar eignirfélagsins. Til að fjármagna kaupin fékk Hafnarklettur ehf. veðleyfihjá seljanda til að veðsetja jörðina fyrir 40.000.000 króna. Skuldabréf var útgefið 12. september 2007,til forvera stefnda, Kaupþings banka hf., og var að fjárhæð að jafnvirði40.000.000 króna í svissneskum frönkum. Skuldabréfið var til tveggja ára ogskyldi bera breytilega vexti eins og þeir væru ákveðnir á hverjum tíma af Kaupþingibanka, sem voru 5,7% við útgáfu skuldabréfsins. Trygging lánveitanda fyrirendurgreiðslu lánsins var sú að auk 1. veðréttar í jörðinni ábyrgðust þríreinstaklingar, hver um sig greiðslu á 1/3 hluta kröfunnar, þeir voru allirtengdir stefnanda og Hafnarkletti ehf.Skuldina skyldi greiða meðeingreiðslu 15. september 2009, en vaxtagjalddagar áttu þó að vera á einsmánaðar fresti, í fyrsta sinn 15. október 2007. Það gekk eftir í byrjun en fráársbyrjun 2008 fóru greiðslur að berast seint og illa. Eftir greiðslu 9.desember 2008 féllu greiðslur alveg niður og var ekki greitt frekar afskuldabréfinu. Við bankahrunið hækkaðilánsfjárhæðin upp úr öllu valdi eins og önnur gengistryggð lán. Samkvæmtútreikningi stefnda stóð lánið í rúmum 94.000.000 króna um miðjan júlí 2009. Íljós kom síðar að gengnum fordæmisgefandi dómum Hæstaréttar, að gengistrygginglánsins var ólögmæt eins og hún var formuð. Lánið var því endurreiknað miðaðvið 29. júlí 2014 og fór höfuðstóll lánsins þá úr 82.995.765 krónum niður í17.945.341 krónu og lækkaði því um 65.050.424 krónur. Með greinargerð sinni tilhéraðsdóms lagði stefndi fram nýjan leiðréttan útreikning sem sýndi höfuðstólað fjárhæð 17.369.058 krónur miðað við sama dag. Eftir greiðslufall í ársbyrjun2009, voru þreifingar á milli stefnda og ábyrgðarmannanna. Útibússtjóri stefndaí Garðabæ, sendi 10. júní 2009, tölvuskeyti til aðila með tilboði um lausnmálsins. Annaðhvort yrði láninu skuldbreytt og greiðslubyrði vegna afborgana ogvaxta komið niður í 260.000 krónur á mánuði, sem bankinn sagði stöðu lánsins ímaí 2008, og yrði Laxá ehf. þá nýr greiðandi, eða að bankinn leysti til sínveðið á 65.000.000 króna og hver ábyrgðarmaður greiddi 3.000.000 króna.Eftirstöðvar yrðu þá felldar niður. Boð bankans um lækkun ábyrgða skyldi standatil 1. ágúst 2009.Með tölvuskeyti 1. september 2009 tilkynntiútibússtjórinn að þar sem ekki hefðu borist svör frá öllum ábyrgðaraðilummálsins hygðist bankinn hefja hefðbundið innheimtuferli með aðstoðlögfræðisviðs bankans. Eitthvað héldu þó tilraunir tillausnar á málinu áfram og sendi útibússtjórinn tölvupóst 14. október 2009, þessefnis að þótt krafan væri í lögfræðiinnheimtu, væri boð bankans um lækkunábyrgða og afsal á jörðinni að renna út. Var gefin vika í þetta sinn áður enmálið færi í hefðbundið innheimtuferli. Stefndi leysti til sín jörðinameð kaupsamningi 14. október 2009, en afsal var gefið út sama dag. Kaupverðkemur ekki fram á skjalinu, en um kaupverðið segir að það sé að fullu greittmeð yfirtöku á áhvílandi láni, sem var þá framangreint lán, upphaflega aðhöfuðstól 40.000.000 króna. Ólafur Örn Karlsson ábyrgðarmaður skrifaði upp áuppgreiðslusamning á árinu 2010, en nákvæm dagsetning skjalsins er ólæsileg.Hið sama gerði ábyrgðarmaðurinn Karl Örvarsson 7. október 2010. Í báðumtilvikum skyldu greiddar rúmar þrjár milljónir sem yrðu fullnaðargreiðsla.Þriðji ábyrgðarmaðurinn skrifaði ekki undir og bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta23. janúar 2014.Stefndi seldi svo jörðina Hamragil með kaupsamningi17. nóvember 2011 fyrir 30.000.000 króna. Í málinu liggur fyrir verðmat Magnúsar Leópoldssonarlöggilts fasteignasala frá 24. mars 2009, en fyrirtæki hans Fasteignamiðstöðinannaðist sölu eignarinnar þegar stefndi keypti hana í október það ár. Magnúsmat virði jarðarinnar og húsakosts 65.000.000 króna. Þá liggur frammi verðmat fráKletti fasteignasölu frá 7. maí 2008, en þar mátu Örn Helgason sölumaður ogSvavar Geir Svavarsson, löggiltur fasteignasali, jörðina á 134.500.000 krónur. Stefndi óskaði eftir dómkvaðningu matsmanns undirrekstri málsins. Dómkvaddur til starfans var Ingi Tryggvasonhæstaréttarlögmaður og löggiltur fasteignasali. Matsgerð lá fyrir 20. apríl2016, og varð niðurstaða matsins sú að verðmæti jarðarinnar hafi verið35.000.000 króna, hvort sem miðað væri við júní eða október 2009.KarlÖrvarsson forsvarsmaður stefnanda gaf skýrslu fyrir dómi. Þá gáfu skýrslu ÁrniGunnarsson, fyrrverandi útibússtjóri stefnda, og Magnús Leopoldsson, löggilturfasteignasali. Dómkvaddur matsmaður Ingi Tryggvason staðfesti matsgerð sína. II.Stefnandi byggirkröfu sína á því að þegar stefndi leysti til sín eignina með yfirtöku áhvílandiveðskuldar hafi verið miðað við að verðmæti eignarinnar næmi 65.000.000 króna,og það hafi tekið mið að stöðu lánsins þá. Síðar hafi komið í ljós að lániðhafi, vegna ólögmætrar gengistryggingar, verið mun lægra og nemi krafastefnanda mismun söluverðs og þess sem stefnandi telur að lánið hafi með réttustaðið í á afsalsdegi.Umsamiðsöluverð jarðarinnar hafi allt verið greitt með yfirtöku stefnda á áhvílandi 1.veðréttarskuld á jörðinni vegna láns upphaflega að fjárhæð 40.000.000 króna,frá Kaupþingi banka hf. Stefnandi hafi heimilað Hafnarkletti ehf., greiðandalánsins, að veðsetja bankanum jörð sína til tryggingar láninu. Stefnandi hefðisíðan tekið yfir þetta lán við hrun bankakerfisins og yfirtekið rétt og skylduvegna þess.Stefnandivísar, til stuðnings samningi aðila, til þess að matsverð jarðarinnar hafiverið samkvæmt verðmati Magnúsar Leópoldssonar sama fjárhæð. Í matinu komi framað jörðin sé talin 1005 hektarar lands að stærð og á henni sé 163,8 m2íbúðarhús, hesthús og hlaða og bogaskemma. Íbúðarhúsið hafi allt veriðendurbyggt. Þá séu veiðihlunnindi í Laxá og Bjarnarvötnum og gott rjúpu- oggæsaland. Þetta sé áhugaverð jörð í fögru umhverfi. Áárinu 2009 hafi stefndi talið að í mikið óefni væri komið með tilvísað lán, semhafði vegna gengistryggingar sinnar hækkað mikið og hafi numið 17. júlí 200994.182.135 krónum.Fyrir liggi aðÁrni Gunnarsson, útibússtjóri stefnda, hafi með bréfi til Ólafs ArnarKarlssonar, ábyrgðarmanns lánsins og varastjórnarmanns stefnanda, boðiðskuldara, Hafnarkletti ehf., veðsala, stefnanda Laxá ehf. og þremurábyrgðarmönnum lánsins, tvo kosti: Að greiða lánið með 260.000 krónamánaðarlegum greiðslum og yrði láninu skuldskeytt þannig að stefnandi tæki þaðyfir eða að stefnandi afsalaði bankanum jörðinni, veðinu, á 65.000.000 króna,og sjálfskuldarábyrgðarmennirnir greiddu bankanum auk þess 3.000.000 króna,hver og yrðu þá eftirstöðvar felldar niður. Ella yrði jörðin seld nauðungarsöluvegna vanskila á láninu. Stefnandihafi þannig ákveðið að ljúka málinu við stefnda svo, að hann seldi og afsalaðihonum jörð sinni á tilvísuðu verði. Hafi stefnandi verið grunlaus um að krafastefnda væri ekki rétt reiknuð, svo sem síðar hafi komið í ljós.Þaðhafi svo verið með tilkynningu stefnda til Hafnarkletts ehf. 30. júlí 2014, semtilkynnt var um endurútreikning lánsins og nýr höfuðstóll sagður vera17.945.341 króna. Lán stefnda hafi því verið bundið óheimilli gengistryggingu,skv. áliti stefnda sjálfs.Stefndihafi þrátt fyrir framangreint hafið þann 27. október 2014 innheimtuaðgerðirgegn skuldara lánsins og Karli Birgi Örvarssyni, upphaflegum ábyrgðarmannilánsins, á grundvelli endurreiknings. Þetta hafi verið gert þrátt fyrir aðfullnaðaruppgjör kröfunnar hafi farið fram 2009. SkuldHafnarkletts, upphaflega 40.000.000 króna og bundin ólögmætu gengisviðmiði, skyldibera 5,7% ársvexti, sem leggi sig út á 190.000 krónum á mánuði í rétt um 25mánuði til afsalsdags jarðarinnar og greiðslu lánsins, eða alls 4.750.000krónur í vexti. Þá hafi þegar verið greiddar 3.273.334 krónur í vexti.Vangreiddir vextir hafi því numið á afsalsdegi 1.476.666 krónur, sem bættust þávið höfuðstól lánsins sem þá stóð raunverulega í 41.476.666 krónum en ekki um94.000.000 króna líkt og stefndi virðist byggja á. Stefnandareiknar kröfu sína með þeim hætti að frá söluverði eignarinnar 65.000.000krónum skuli draga raunverulega stöðu lánsins á kaupsamnings- og afsalsdegieignarinnar 41.476.666 krónur. Skuld stefnda við stefnanda nemi mismuninum eða23.523.334 krónum.Lögmaðurstefnanda hafi gert kröfu í þessa veru 8. júní 2015, og skorað á stefnda aðgreiða stefnanda skuldina, en stefnandi hafi ekki orðið við því.III.Stefndi hafnar öllum málsástæðum stefnanda semganga gegn málatilbúnaði hans og krefst sýknu í málinu.Í fyrsta lagi byggir stefndi á því að stefnandi geti ekkisótt ætlaða kröfu sína í málinu, enda sé ekkert kröfuréttarsamband millistefnanda og stefnda í málinu. Nánar tiltekið, ef einhver endurkrafa sé tilstaðar yfirhöfuð, geti stefnandi ekki sótt þá kröfu, heldur einungis, eftiratvikum, skuldarar eða ábyrgðarmenn umrædds skuldabréfs. Því eigi að sýknastefnda af kröfu stefnanda á grundvelli aðildarskorts stefnanda að málinu,sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í öllu falli eigiað sýkna stefnda af hluta kröfu stefnanda þar sem í kröfunni felist endurkrafaá fjármunum sem hann greiddi ekki sjálfur. Verði ekki fallist á aðildarskort, byggir stefndisýknukröfu sína í öðru lagi á þeim grundvelli að ákveðnar forsendur ímálatilbúnaði stefnanda standist engan veginn sem leiði til þess að stefnandihafi ekki greitt af umræddu skuldabréfi umfram skyldu, eins og hann haldi fram.Stefndi kveðst mótmæla því að samið hafi verið svo aðkaupverð jarðarinnar hefði, milli aðila, verið 65.000.000 króna. Stefndimótmælir verðmati Magnúsar Leópoldssonar, löggilts fasteignasala, og telurþað ekki hafa sönnunargildi í málinu. Á verðmatinu komi enda fram að Ólafur ÖrnKarlsson, einn ábyrgðarmannanna, hafi óskað eftir verðmatinu og bankinn hafienga aðkomu átt að vinnslu þess. Þá sé því hafnað að tölvupóstur Árna Gunnarssonar,starfsmanns bankans, sýni fram á að söluverð jarðarinnar hafi verið 65.000.000króna við framsal hennar. Ekkert í samskiptum aðila gefi það til kynna aðstefndi hafi samþykkt að yfirtaka jörðina á þessu verði, en með því falli allurmálatilbúnaður stefnanda um sjálfan sig. Varðandi þetta vísar stefndisérstaklega til meginreglna einkamálaréttarfars um sönnunarbyrði, en ljóstsé að hún hvíli öll á stefnanda varðandi þetta atriði.Stefndi telur þannig að tilvísaður tölvupóstur hafiefnislega ekki falið í sér tilboð af hálfu stefnda, sem móttakendur tölvupóstsinshefðu getið samþykkt fyrir sitt leyti og bindandi samningur þannig komist á.Stefndi telur að í umræddum tölvupósti hafi falist óskuldbindandi tillögurstefnda að lausn málsins. Því hafi stefndi, í póstinum, ekki tekið ákvörðun umvirði jarðarinnar. Stefndi vekur þannig sérstaka athygli á því að af síðarisamskiptum milli aðila megi sjá að aðilar hafi enn verið að ræða tillögur umlausn á skuldamálum Hafnarkletts ehf., sbr. til dæmis tölvupóst KarlsÖrvarssonar til starfsmanns stefnda 2. september 2009. Stefndi bendir einnig á,og telur skipta miklu máli í þessu tilliti, að í framsalsgjörningum vegnajarðarinnar, þ.e. kaupsamningi og afsali hafi ekkert verð verið tiltekið fyrirjörðina, en stefndi telur að öll eðlisrök leiði til þess að þeir gjörningareigi að ráða réttarstöðu aðila um þetta atriði, en ekki fyrrgreindur tölvupóstur.Varðandi ofangreint, vísar stefndi til almennra túlkunarreglna samningaréttarins,s.s. meðskýringarreglunnar. Þá telur stefndi að horfa beri til þess að jörðinhafi alls ekki verið svona verðmæt sbr. framlagða matsgerð dómkvadds matsmanns.Ef litið yrði svo á að í títtnefndum tölvupósti hafifalist tilboð stefnda til móttakenda póstsins, byggir stefndi á því að þaðtilboð hafi ekki verið samþykkt, í það minnsta ekki á réttum tíma, og því hafitilboðið fallið niður. Tilboðið hafi fyrst gilt til 1. ágúst 2009, en frestursíðan verið framlengdur til 1. sept. 2009, eins og staðfest hafi verið ítölvupósti starfsmanns stefnda frá sama degi. Þar hafi jafnframt verið boðuðinnheimta skuldarinnar með hefðbundnum hætti og þá með aðstoð lögfræðisviðsbankans. Því verði að telja að þarna hafi stefndi fellt niður tilboðið ef þaðvar á annað borð til staðar. Aðilar virðist svo hafa hafið samningaviðræður áný og náð sátt um að gera upp kröfu umrædds skuldabréfs með álíkum hætti ogkomið hafi fram í tölvupóstinum, en verð jarðarinnar hafi hvergi veriðtilgreint eftir þetta. Samning sem komist hafi á í framhaldi verði að skoða semnýjan samning milli aðila. Um framangreint vísar stefndi til I. kafla, og þáaðallega 2. gr., laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.Ef fyrrgreindum sjónarmiðum sé hafnað og litið svo á aðkomist hafi á samningur, með samþykki á tilboði stefnda, byggir stefndi á þvíað móttakendur póstsins hafi ekki staðið við það samkomulag, þar sem a.m.k.einn ábyrgðarmanna hafi ekki greitt þær 3.000.000 króna sem hann hefði lofað.Það hafi leitt til þess að aðilar litu svo á að samkomulagið hafi fallið niðurog eftirstöðvar kröfunnar raknað við. Tilstuðnings ofangreindum röksemdum vísar stefndi jafnframt til þess að ísamningaviðræðum aðila hafi stefnandi haft lögmann sér til aðstoðar, auk þessað ábyrgðarmenn lánsins hafi búið að reynslu í viðskiptum sem þessum. Varðandi fjárkröfu stefnanda þá mótmælir stefndi því aðhægt sé að miða við að skuldabréfiðskuli bera samningsvexti þess, en stefnandi kveði vextina vera 5,7%, eðasamtals 4.750.000 kr. yfir líftíma skuldabréfsins. Það sé með öllu órökstuttaf stefnanda af hverju framangreinda útreikningsaðferð eigi að leggja tilgrundvallar kröfugerð hans. Hvað sem því líði, megi ljóst vera, fyrst báðiraðilar séu sammála um að skuldabréfið feli í sér gengistryggingu, að vextirskuldabréfsins skuli þá ráðast af ákvæðum 18. gr., sbr. 4. gr. laga nr.38/2001, og dómum Hæstaréttar sem fjalla um þetta álitaefni, samanber tildæmis mál réttarins nr. 600/2011 og nr. 464/2012, þ.e.a.s. að skuldabréfiðskuli bera óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands, en þó þannig að stefnandigeti ekki krafið stefnda um hærri vexti en stefnandi raunverulega greiddi ásínum tíma, en í stefnu viðurkenni stefndi til að mynda, að vextir skuldabréfsinsséu að hluta til vangreiddir. Að mati stefnda geri þessi ranga forsenda íútreikningum stefnanda það að verkum að fjárkrafa stefnanda byggi á röngumforsendum og sé ekki dómtæk. Þá sé ljóst að í útreikningi fyrir fjárkröfu sinni takistefnandi tillit til vaxtagreiðslna, samtals 3.273.334 krónur, sem hann hafiekki greitt sjálfur, sbr. framlagðar greiðslukvittanir. Auk þess hafi allargreiðslur, til og með greiðslu sem greidd var 1. október 2008, verið greiddarforvera stefnda, Kaupþingi banka hf., en ekki stefnda. Engin lagarök standi tilþess að stefndi standi stefnanda skil á slíkum fjármunum, en a.m.k. hafi stefnandiekki fært fram þau rök. Stefndi telur ofangreindar tvær athugasemdir sýnaverulega galla á málatilbúnaði stefnanda sem eigi að leiða til frávísunarmálsins án kröfu eða sýknu stefnda.Verði allt að einu ekki fallist á framangreindarröksemdir stefnda, byggir stefndi í þriðja lagi á því að enginn endurheimturéttursé fyrir hendi í málinu. Enginn rökstuðningur sé í stefnu fyrir ætlaðrikröfu stefnanda, s.s. á hvaða lagagrundvelli krafan sé byggð, annað en almenntilvísun til lögfestra og ólögfestra meginreglna á sviði samningaréttar aukmeginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga. Telur stefndi að þettaeigi að leiða til frávísunar málsins án kröfu, enda í raun ekki hægt fyrirstefnda að verjast kröfu stefnanda að svo búnu máli. Að framangreindu frátöldu, telur stefndi að sýkna eigihann af kröfum stefnanda þar sem einsýnt sé að á lánstímanum hafi greiðslurHafnarkletts ehf., sem skuldara, og stefnanda, sem veðsala, og móttaka stefndaog forvera hans hverju sinni á greiðslu afborgana og vaxta byggst á eðlilegriog forsvaranlegri túlkun á samningsákvæðum, þótt hún hafi síðar reynst röng.Virðist enginn ágreiningur milli aðila um að stefndi hafi verið, á sama háttog stefnandi, grandlaus um að krafa skuldabréfsins hafi byggst á röngumforsendum og því ekki verið rétt reiknuð þegar framsal jarðarinnar átti sérstað 14. október 2009. Þessi atvik hafi átt sér stað löngu áður en dómar genguum ólögmæta gengistryggingu lána sem þessara. Viðurkennt sé að í þeim málum,t.d. málum Hæstaréttar nr. 92/2010, 153/201 og 155/2011, hafi verið leyst úrflóknum ágreiningsatriðum varðandi gengistryggð lán. Af framangreindu leiðiað hafna beri endurheimturétti skv. almennum reglum kröfuréttar. Stefndi kveðst árétta að afstaða stefnanda, samkvæmt hanseigin málatilbúnaði, hafi verið sú að krafa samkvæmt skuldabréfinu hafiverið gerð upp með samkomulagi aðila um uppgjör þess. Fyrir stefnanda hafiþetta gerst 14. október 2009 eða þar um bil. Fjárkrafa stefnanda nú raskiþeirri réttarstöðu sem stefnandi sjálfur taldi vera komna á milli aðila. Ljóstsé miðað við almennar reglur kröfuréttar að mikið þurfi að koma til svofallist verði á slíkt, enda mikilvægt að greiðsla, sem stefnandi taldi verafullar efndir sínar og ábyrgðarmannanna skv. hinu meinta samkomulagi aðila,feli í sér endalok samskipta aðila varðandi þá kröfu. Sá samningur séskuldbindandi fyrir stefnanda. Sjálfstætt og til stuðnings framangreindum röksemdumbyggir stefndi jafnframt á því að sýkna eigi hann af kröfu stefnanda á þeimgrunni að ef fallist yrði á hana yrði að telja það almennt ósanngjarnt gagnvartstefnda. Forveri stefnda, Kaupþing banki hf., hafi lánað fyrir öllu kaupverði jarðarinnar,og stefndi hafi tapað á viðskiptunum. Stefnandi hafi tekið mikið tillit tilábyrgðarmanna skuldabréfsins og verði fallist á kröfu stefnanda í málinu, hafistefnandi auðgast með óréttmætum hætti á kostnað stefnda. Verðiekki fallist á framangreint, byggir stefndi á því að ætluð endurgreiðslukrafastefnanda hafi fallið niður fyrir fyrningu. Stefndi telur að líta verði svo áað „ofgreiðsla“ stefnanda hafi átt sér stað við afhendingu jarðarinnar Hafragil14. október 2009, sbr. kaupsamning og afsal sem dagsett eru þann sama dag. Þvíhafi krafan fyrnst í síðasta lagi 14. október 2013, sbr. 3. gr. laga nr.150/2007, enda hafi stefnandi ekkert gert til að halda henni við innan þesstímamarks. Að lokum kveðst stefndi byggja á því að ætluð krafa stefnandahafi fallið niður fyrir tómlæti hans. Samkvæmt málatilbúnaði stefnanda sjálfshafi krafa umrædds skuldabréfs verið gerð upp með því samkomulagi semstefnandi heldur fram að hafi komist á og var m.a. framkvæmt með kaupsamningiog afsali dags. 14. október 2009. Stefnandi, Hafnarklettur ehf., og ábyrgðarmennhafi fengið fjölmörg bréf og tilkynningar frá bankanum á liðnum árum þar semtekið hafi verið fram að eftirstöðvar kröfunnar væru enn ógreiddar. Þráttfyrir það hafi stefnandi ekki aðhafst í málinu varðandi ætlaða kröfu sína fyrren löngu síðar eða með bréfi dags. 8. júní 2015. Þetta sýni verulegt tómlætivið að halda ætlaðri kröfu sinni til haga og leiði til sýknu.Stefndi kveðst gera þá kröfu að dráttarvaxtakröfustefnanda verði hafnað. Fyrir það fyrsta á þeirri forsendu að hún sé algjörlegavanreifuð, enda ekkert fjallað um hana í stefnu. Í öðru lagi mótmælir stefndiupphafsdegi dráttarvaxta, enda engin rök til að dæma stefnda til að greiðastefnanda dráttarvexti frá þeim degi er meint samkomulag hafi verið gert íoktóber 2009, heldur í fyrsta lagi frá 8. júlí 2015, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. um það innheimtubréf stefnanda tilstefnda dags. 8. júní 2015.Um lagarök vísar stefndi tilreglna samninga- og kröfuréttar um túlkun samninga, réttar efndirfjárskuldbindinga og frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningumvið aðra þannig að samningar teljist gildir nema sýnt sé fram á að þeir fari íbága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum. Þá er vísað til 2.–9. gr. laganr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndi vísar ennfremur til reglna einkamálaréttar um sönnun og sönnunarbyrði. Einnig vísarstefndi til skilyrða fyrir endurgreiðslu ofgreidds fjár. Stefndi vísarjafnframt til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og þá aðallega 3.,4. og 18. gr. þeirra laga, reglna kröfuréttar um endurheimtu ofgreidds fjár ogþeirra reglna sem myndast hafa í dómaframkvæmd Hæstaréttar um rétt kröfuhafatil greiðslu viðbótarkröfu vaxta úr hendi skuldara. Þá vísar stefndi til laganr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, og einnig laga nr.150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Einnig vísar stefndi til almennra reglnakröfuréttar um tómlætisáhrif.Um málskostnað vísar stefndi til laga nr. 91/1991um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr.IV.Af gögnum málsins verður ráðið, að sérstaklega umhaustið 2009, eftir að greiðslufall hafði orðið í ársbyrjun á því skuldabréfisem málið varðar einkum, hafi skuldarar og útibússtjóri hjá stefnda reynt aðfinna lausn. Á þessum tíma hafði skuldin hækkað úr 40.000.000 króna við útgáfuskuldabréfsins í september 2007, í tæpar 95.000.000 króna auk dráttarvaxta aðþví er virðist. Áður er getið tölvupósts sem útibússtjórinn sendiskuldurum bréfsins í tölvuskeyti 10. júní 2009 og efnis hans, um að ef jörðinHafragil í Skagafirði, yrði framseld bankanum og ábyrgðarmenn skuldabréfsinsgreiddu hver um sig bankanum 3.000.000 króna, yrðu eftirstöðvar skuldarinnarfelldar niður. Dómurinn telur vafalaust að með þessari framsetningu hafibankinn sett fram tilboð, enda þannig um það fjallað í þeim samskiptum sem fóruá milli manna á þessum tíma og ekki gerður ágreiningur um að Árni Gunnarsson,þáverandi útibússtjóri stefnda í Garðabæ, hafi haft umboð til að ljúka málinumeð þessum hætti. Í tölvuskeyti frá 2. september 2009 til þáverandi lögmannsskuldara tekur útibússtjórinn til að mynda fram að „tilboði bankans um lausnhefur ekki verið svarað“.Þótt stefndi hafi sent lögfræðideild bankans kröfuna 1.september 2009 eða þar um bil og greiðsluáskoranir verið sendar 3. s.m., þáhéldu viðræður greinlega áfram og hefur ekki verið gerður ágreiningur um það. Ítölvuskeyti útibússtjórans þennan dag samþykkir hann þannig gagnvart einumábyrgðarmanna að sá geti lokið ábyrgð sinni með greiðslu á 3.000.000 króna,þ.e. í samræmi við ofangreint tilboð.Í tölvuskeyti til annars ábyrgðarmanns 14. október 2009,segir útibússtjóri: „Eins og kunnugt er eru kröfur Kaupþings á hendurHafnarkletti ehf. í lögfræðiinnheimtu. Boð bankans um að ganga frásjálfskuldarábyrgðum og afsala jafnframt jörðinni Hafragili til bankans er aðrenna út.“ Þennansama dag var, eins og fram er komið, jörðinni afsalað til bankans, en án þessað tilgreina kaupverð öðruvísi en svo að það hafi verið greitt með yfirtökuáhvílandi veðskuldar. Þessi atburðarás og heildarmat á framlögðum gögnummálsins bendir að mati dómsins án nokkurs vafa til þess að samkomulag hafitekist um fullnaðaruppgjör kröfunnar eins og til stóð, þannig að hvorugur aðilaætti þá kröfur á hinn í skuldasambandinu. Telja verður a.m.k. að skuldari,veðsali og ábyrgðarmenn hafi mátt líta svo á að þessi væri staðan. Gengiðverður og út frá því að þótt tveir ábyrgðarmanna hafi ekki skrifað undir fyrren á árinu 2010, þ.e. talsvert eftir framsal á jörðinni, og sá þriðji, að þvíer virðist aldrei, verður ekki séð að við því hafi verið brugðist af bankanum,en samkomulag við þá sem skrifuðu undir var uppgreiðslusamkomulag, eins ogfyrirsögn skjalsins bar með sér. Engin orðsending liggur fyrir í málinu um aðbankinn hafi talið að forsendur hefðu brostið fyrir samkomulagi eða samskiptium að krafa hefði verið uppi um að úr vanefndum yrði að bæta. Svo virðist sem stefndi meðhöndli mál ábyrgðarmannsinsKarls með öðrum hætti en ábyrgðarmannsins Ólafs. Þá meðferð verður að teljabyggja á því, að í athugasemdareit í uppgreiðslusamkomulagi því sem Ólafurgerði við bankann er sérstaklega tekið fram að um sé að ræða lokagreiðslu Ólafsvegna ábyrgðar hans. Slík athugasemd er ekki gerð í samningi Karls. Dómurinntelur þetta engu máli skipta. Um sé að ræða uppgreiðslusamkomulag við báðaþessa aðila að öðru leyti svo til nákvæmlega eins, og í skuldabréfum sem gefinvoru út samfara samkomulaginu er ákvæði um að vanefndir geti leitt tilgjaldfellingar, en ekkert minnst á fyrra skuldasamband. Stefnandi byggir á því að kaupverð jarðarinnar hafi veriðumsamið 65.000.000 króna en því neitar stefndi. Fjárhæð kaupverðs rataði ekkiinn í kaupsamning stefnanda og stefnda. Hins vegar má til sanns vegar færa aðkaupverðið hafi verið enn hærra, þar sem sú skuld sem yfirtekin var, nam áannað hundrað milljónir króna. Í hlutaskilagrein vegna skuldarinnar sem dagsetter 31. desember 2009 og stafar frá stefnda er krafan þannig sögð nema124.795.092 krónum. Færa má rök fyrir því að kaupverðið, ef svo má kalla, hafiþá verið fremur í námunda við þá tölu. Hins vegar verður að fallast á þau rök stefnda sem framkom við aðalmeðferð, að það hafi í raun einu gilt hvaða fjárhæð hefði veriðlögð til grundvallar. Það sjónarmið stefnda undirstrikar raunar enn frekar aðsamkomulagið hafi verið um fullnaðaruppgjör kröfunnar. Ef bankinn hefði taliðað krafan væri ekki að fullu greidd við framsal jarðarinnar, hefði það skiptmáli fyrir alla hlutaðeigendur að verðið væri fastákveðið og það skýrt tekiðfram hvert það væri. Dómurinn telur að stefndi þurfi að bera hallann af því aðþað skyldi ekki gert í ljósi stöðu stefnda og hlutverks, ef hann taldi færi áþví að innheimta kröfuna frekar. Einnig verður því slegið föstu að ef umfullnaðaruppgjör var að ræða, eins og dómurinn telur, hafi það heldur ekkiskipt stefnanda neinu máli hvaða fjárhæð yrði lögð til grundvallar, þ.e.gagnvart stefnda, þar sem hann eignaðist ekki kröfu á stefnda við framsaljarðarinnar, heldur hugsanlega vegna síðari atvika. Það vekur í þessu sambandi nokkra athygli að stefndidregur frá sem innborgun inn á kröfuna í framannefndri hlutaskilagrein29.700.000 krónur, sem er sagt verðmæti jarðarinnar að frádregnum 300.000 krónakostnaði. Er það rökstutt í stefnu þannig að samkvæmt grunnrökum 57. gr. laganr. 90/1991, um nauðungarsölu, hafi borið að draga andvirði jarðarinnar fráláninu. Eftir þá innborgun nam heildarskuldin því, m.v. 31. desember 2009,95.090.092 krónum. Í greinargerð stefnda er látið að því liggja að þarna sé umað ræða frádrátt á grundvelli söluandvirðis jarðarinnar þegar stefndi seldihana. Það kemur illa heim og saman við það að sala jarðarinnar fór ekki framfyrr en tæpum tveimur árum síðar, þá reyndar fyrir þessa sömu fjárhæð. Ekkertmat hefur verið lagt fram sem réttlætti þessa verðlagningu bankans eftiryfirtöku eignarinnar 2009. Umrædd hlutaskilagrein gefur til kynna að bankinnhafi litið svo á að krafan hafi verið til staðar þrátt fyrir að hann hafi leysttil sín jörðina. Fyrir því ber stefndi sönnunarbyrði, sem ekki verður talið aðhann hafi axlað sbr. framangreint. Er það enda svo að engar innheimtutilraunireru sjáanlegar eftir afsal jarðarinnar, fyrr en í endaðan október 2014, þ.e.talsvert eftir endurútreikning á láninu. Dómurinn telur að verðmat Magnúsar Leópoldssonar ájörðinni nokkrum mánuðum fyrir framsal hennar til stefnda geti ekki talistsönnun fyrir verðmæti hennar haustið 2009, andspænis matsgerð dómkvaddsmatsmanns. Stefndi hefur mótmælt gildi mats Magnúsar fyrir málið, enda hafiþess verið aflað samkvæmt beiðni eins af ábyrgðarmönnum lánsins og án nokkursatbeina, aðkomu eða vitneskju stefnda. Mat Magnúsar virðist þó hafa verið notaðsem innlegg í viðræður aðila um heildarlausn málsins og þannig hefurniðurstaðan væntanlega ratað inn í tölvupóstsamskipti aðila um skeið. Fram hjáhinu verður hins vegar ekki litið að niðurstaða þess mats er ekki tekin inn ískjöl málsins við frágang þess. Dómurinn telur því ósannað að verðmæti jarðarinnarhafi verið 65.000.000 króna. Hvorki hafi það verið raunverulegt verðmætijarðarinnar né hafi aðilar miðað við það verð við uppgjör sitt. Þar semmatsgerð dómkvadds matsmanns hefur ekki verið hnekkt og ekki eru á því neinirágallar auk þess sem stefnandi hefur ekki haldið slíku fram, verður matið lagttil grundvallar og verðmæti jarðarinnar í júní og í október 2009 talið hafaverið 35.000.000 krónur.-------Nokkuðóljóst verður að telja á hvaða lagarökum málatilbúnaður stefnanda byggir.Veðsali, sem veðsett hefur eign sína til tryggingar skuld annars aðila á ekkikröfu á hendur veðhafa, þegar sá leysir til sín veðið vegna vanefnda skuldara,a.m.k. ekki undir venjulegum kringumstæðum. Veðsali eignast hins vegar að öllujöfnu kröfu á þann sem lánið tók, vegna þess skaða sem sá hefur valdið honummeð vanefndum gagnvart kröfuhafa. Það sem gerist hins vegar í þessu máli er að forsendurfyrir uppgjöri aðila breyttust til muna þegar í ljós kom að lán það semsannanlega þvingaði stefnanda til að afhenda eign sína var bundið með ólögmætumhætti við gengi erlends gjaldmiðils, og var því í raun rangt reiknað áuppgjörsdegi. Dómurinn telur að krafa undir þessum kringumstæðum og þessaeðlis, verði ekki rökstudd með vísan til meginreglu kröfuréttar um efndirfjárskuldbindinga eða með vísan til laga um fasteignakaup nr. 40/2002. Ekkiverður þannig séð að stefndi hafi í málinu tekið á sig fjárskuldbindingugagnvart stefnanda og vandséð er hvaða ákvæði laga nr. 40/2002 geta átti við umágreining aðila enda ekki verið vísað til einstakra ákvæða þeirra laga. Ekkiverður heldur séð að það varpi ljósi á lagagrundvöllinn að þetta sé„uppgjörsmál“ eins og það er orðað í stefnu. Þá verður að telja fjárkröfustefnanda vanreifaða. Ekki er útskýrt á hvaða grundvelli stefnandi telur réttað miða við 5,7% vexti á kröfuna. Þótt sú hafi verið vaxtaprósentan við útgáfuskuldabréfsins var þar um að ræða breytilega vexti og hefur stefndi lagt framgögn sem gefa til kynna að vextir á tímabilinu hafi verið aðrir og hærri ogallt upp í 7,49%. Þá er ekki rökstutt á hvaða grundvelli stefnandi telur sigeiga rétt til dráttarvaxta frá afsalsdegi fasteignarinnar þann 14. október2009. Dómurinn telur að þessi atriði ættu alla jafnan að leiða til frávísunarmálsins enda örðugt um vik fyrir stefnda að verjast kröfu stefnanda þegarlagagrundvöllurinn er jafn óljós og raun ber vitni. -------Íljósi málatilbúnaðar stefnanda að öðru leyti telur dómurinn hins vegar hægt aðfella dóm á sakarefnið í ljósi framangreindra forsendna. Stefnandi leggurþannig sjálfur til grundvallar í kröfugerð sinni að fjárhæð kröfu stefnda hafimeð réttu numið 41.476.666 krónum á kaupsamnings- og afsalsdegi. Dómurinn telurað þann dag hafi virði jarðarinnar verið 35.000.000 króna. Stefnandi byggirallan málatilbúnað sinn á því, burtséð frá lagagrundvellinum sbr. framangreint,að honum beri mismunur á raunverulegri stöðu lánsins 14. október 2009 og virðijarðarinnar þann dag. Þar sem dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu aðslíkum mismun sé ekki til að dreifa í málinu stefnanda í hag, verður stefndiþegar af þeirri ástæðu sýknaður af kröfu stefnanda,Af virtum atvikum málsins og þess að nokkra óvissu ímálinu má rekja til ófullnægjandi skjalagerðar og frágangs, sem dómurinn telurað stefndi beri í ljósi stöðu hans, ábyrgð á, verður talið rétt að fella niðurmálskostnað.Af hálfu stefnanda flutti máliðTryggvi Agnarsson hæstaréttarlögmaður og af hálfu stefnda Kristján B.Thorlacius hæstaréttarlögmaður. Fyrir dómsuppkvaðningu var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laganr. 91/1991 um meðferð einkamála, en lögmenn aðila voru sammála dómara um aðendurflutningur væri óþarfur.Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dómþennan. D Ó M S O R Ð:Stefndi, Arion banki hf. er sýknaður af kröfustefnanda Laxár ehf. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 101/2004 | Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 | Telja verður að rökstuddur grunur sé fyrir því að kærði, X, hafi átt hlut að brotum gegn 124. gr., 173. gr. a, 211. gr. og eða 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og að hætta geti verið á því að hann torveldi rannsókn málsins, sem enn er ólokið, svo sem með því að skjóta undan gögnum og hafa áhrif á vitni og eða samseka, ef hann fær að fara frjáls ferða sinna. Ber því samkvæmt a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að taka kröfu ríkislögreglustjóra til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. mars 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. mars 2004 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 706/2016 | Kærumál Nauðungarsala Úthlutun söluverðs Skuldabréf Málamyndagerningur | Þrotabú T kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu þess um breytingu á frumvarpi sýslumanns til úthlutunar söluverðs fasteignar í eigu T. Krafðist þrotabúið þess að frumvarpinu yrði breytt á þá leið að ekkert kæmi í hlut Á vegna nánar tilgreinds skuldabréfs sem T hafði gefið út, en krafan var á því reist að um málamyndagerning hefði verið að ræða. Í dómi Hæstaréttar sagði að ekkert væri komið fram í málinu um að Á hefði átt fjárkröfu á T þegar umrætt skuldabréf hefði verið afhent og hefði hinn fyrrnefndi ekki lagt fram gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu að hann hefði afhent T tíu milljónir króna. Þá hefði Á og T ekki borið saman um tengsl sín og frásögn þeirra af atvikum um sumt verið óskýr. Að teknu tilliti til þessa, og m.a. þar sem Á hefði verið kunnugt um bága fjárhagsstöðu T, var talið að Á yrði að bera hallann af sönnunarskorti um atvik, enda stæði honum nær að færa sönnur á að raunveruleg krafa byggi að baki bréfinu en þrotabúinu að sanna hið gagnstæða. Var krafa þrotabúsins því tekin til greina. | DómurHæstaréttar.Mál þettadæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og KarlAxelsson. Sóknaraðiliskaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2016, en kærumálsgögn bárustréttinum 21. sama mánaðar. Eftir ákvörðun Hæstaréttar lagði sóknaraðili frammálskostnaðartryggingu 7. nóvember 2016. Kærður er úrskurður HéraðsdómsReykjavíkur 29. september 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila umbreytingu á frumvarpi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til úthlutunarsöluverðs fasteignarinnar að Birkihlíð 42 í Reykjavík, með fastanúmerið203-2920. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.Sóknaraðili krefst þess aðallega að fyrrgreindu frumvarpi verði breytt á þáleið að ekkert komi í hlut varnaraðila vegna skuldabréfs dagsetts 12. ágúst2012, sem er á 4. veðrétti eignarinnar, en til vara að þeirri ráðstöfun semfalist hafi í útgáfu skuldabréfsins verði rift og að fjárhæðin renni óskipt tilsín. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.Varnaraðilikrefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.ITildrög málsþessa eru þau að 12. ágúst 2012 gaf Tryggvi Pétursson út veðskuldabréf tilhandhafa að fjárhæð 25.000.000 krónur. Var bréfið bundið vísitölu neysluverðsog fastir vextir 7% sem reiknast skyldu frá 1. september 2012. Gjalddagar vorualls 40, á sex mánaða fresti og sá fyrsti 1. janúar 2013. Til tryggingargreiðslu samkvæmt bréfinu var fasteign Tryggva og Þóru Margrétar Pálsdóttur aðBirkihlíð 42, Reykjavík, sett að veði og var bréfið á 4. veðrétti. Er óumdeiltað Tryggvi afhenti bréfið varnaraðila. Ekkert mun hins vegar hafa verið greittaf því og liggur fyrir að þegar bú Tryggva var tekið til gjaldþrotaskipta meðúrskurði héraðsdóms 7. febrúar 2014 höfðu hvorki innheimtuseðlar négreiðsluáskoranir verið sendar af hálfu varnaraðila. Ennfremur að hann lýstiekki kröfu vegna bréfsins á hendur sóknaraðila. Viðnauðungarsölu fyrrgreindrar fasteignar hjá sýslumanni 23. nóvember 2015 krafðistvarnaraðili að sér yrði úthlutað 38.789.757 krónum af söluverði fasteignarinnarvegna fyrrgreinds veðskuldabréfs. Var hann jafnframt hæstbjóðandi í eignina.Samkvæmt frumvarpi sýslumanns til úthlutunar söluverðs hennar 18. janúar 2016fengust greiddar að fullu kröfur á 1., 2., og 3. veðrétti, en upp í kröfuvarnaraðila á 4. veðrétti voru greiddar 14.551.642 krónur. Sóknaraðili mótmæltikröfu varnaraðila, meðal annars með þeim rökum að þar sem engin skuld stæði aðbaki veðskuldabréfinu hefði verið um málamyndagerning að ræða. Hinn 11. mars2016 tók sýslumaður ákvörðun um að fyrrgreint frumvarp til úthlutunar skyldistanda óbreytt. Þeirri ákvörðun var skotið til héraðsdóms 1. apríl 2016.IIEins oggreinir í hinum kærða úrskurði lýtur ágreiningur málsins einkum að því hvortútgáfa fyrrgreinds veðskuldabréfs til varnaraðila hafi falið í sérmálamyndagerning. Sóknaraðili byggir á því að engin raunveruleg fjárkrafastandi að baki bréfinu, enda liggi ekki fyrir gögn sem staðfestifjármunatilfærslu milli Tryggva Péturssonar og varnaraðila. Þá hafiskuldarinnar hvergi verið getið í skattframtölum Tryggva. Hafi skuldabréfiðverið útbúið í þeim tilgangi að skjóta eign undan gjaldþroti, en kröfu samkvæmtþví ekki verið lýst á hendur sóknaraðila. Varnaraðili byggir á hinn bóginn áþví að hann hafi greitt fyrir veðskuldabréfið, meðal annars með því að greiðatvo reikninga erlendrar lögmannsstofu fyrir Tryggva og 10.000.000 krónur íreiðufé. Þessu til stuðnings hefur varnaraðili lagt fram tvær kvittanir 14.mars 2013 þar sem fram kemur að hann hafi greitt Lutgen Assoices í Lúxemborg2.759.296 krónur með símgreiðslu vegna Tryggva. Bæðivarnaraðili og Tryggvi gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Bar varnaraðili að tengslsín við Tryggva væru eiginlega engin og hann einungis þekkt hann lítillega.Tryggvi hefði komið að máli við sig síðsumars eða haustið 2012 vegnafjárhagsvanda og þurft á reiðufé að halda. Í byrjun árs 2013 hafi hann keypt afhonum skuldabréfið fyrir „eitthvað á milli 13 til 14 milljónir“ krónur. Hefði Tryggvi útbúið bréfið og annast umþinglýsingu þess, án síns atbeina. Inntur eftir hvernig greiðsla fyrirskuldabréfið hefði farið fram svaraði varnaraðili að hann hefði greitt,,lögfræðireikninga fyrir Tryggva að hans beiðni og svo ... fékk hann afhentarum það bil 10 milljónir í lögeyri.“ Hefði sú greiðsla átt sér stað viðafhendingu bréfsins. Þá kvaðst varnaraðili hafa vitað af fjárhagslegumvandræðum Tryggva og að ,,það væru einhverjir kröfuhafar að sækja að honum ogþetta væru einhver slagsmál fyrir einhverjum dómstólum í útlöndum,Bandaríkjunum og Lúxemborg, sem gerðu það að verkum að hann bað mig að greiðaþessa lögfræðireikninga úti í Lúx, sem ég og gerði.“ Á hinn bóginn hefðiTryggvi ekki greitt af skuldabréfinu, enda ekki verið við því að búast strax,en um hafi verið að ræða kröfu tryggða með veði. Tryggvi bar á þann veg að hannhefði þekkt varnaraðila í ,,allmörg ár … Ég hef aðgang að sumarbústað áÞingvöllum … Ársæll er með bústað þar næst frá mér ... Ég er búinn að þekkjahann nokkuð lengi, þannig, þetta er svona kjaftað við girðinguna.“ KvaðstTryggvi hafa lent í fjárhagsvandræðum, en hann hefði verið atvinnulaus ogvantað peninga þar sem hann hefði nýlega keypt fasteignina að Birkihlíð 42 aukþess að hafa verið í málaferlum erlendis. Vegna þessa hefðu hann og varnaraðilikomið sér saman um útgáfu veðskuldabréfsins gegn því að hann fengi 10.000.000krónur í reiðufé og varnaraðili myndi borga „reikninga“. Lýsti hann því að þeirvarnaraðili hefðu átt samtal um þetta sumarið 2012, en viðskipti þeirra orðið íbyrjun árs 2013.IIIÍ máli þessuheldur sóknaraðili því fram að engin raunveruleg fjárkrafa sé að baki veðskuldabréfinusem Tryggvi Pétursson gaf út. Hafi það verið gefið út í þeim tilgangi einum aðskjóta fasteign Tryggva undan gjaldþrotaskiptum og sé því um að ræðamálamyndagerning sem líta beri framhjá við úthlutun söluandvirðis eignarinnar,enda hafi þetta gerst skömmu áður en bú hans var tekið til skipta. Ef frá ertalinn framburður þeirra tveggja, varnaraðila og Tryggva fyrir héraðsdómi, erekkert komið fram í málinu um að sá fyrrnefndi hafi átt fjárkröfu á hendur þeimsíðarnefnda þegar veðskuldabréfið var afhent honum. Bar þeim tveimur ekki aðöllu leyti saman um tengsl sín og að auki var frásögn þeirra af atvikum um sumtóskýr. Einu gögnin sem varnaraðili hefur lagt fram um að hann hafi innt afhendi einhverjar greiðslur í þágu Tryggva eru áðurgreindar kvittanir umgreiðslu á skuld hans við erlenda lögmannsstofu að fjárhæð 2.759.296 krónur semátti sér stað 14. mars 2013 eða nokkru eftir að bréfið var að sögn varnaraðilaafhent honum og um sex mánuðum eftir útgáfu þess. Hins vegar hefur varnaraðiliekki lagt fram nein skjöl eða önnur gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu sinniað hann hafi afhent Tryggva 10.000.000 krónur sem greiðslu fyrir skuldabréfið,svo sem gögn um úttekt fjárins af eigin reikningi eða innborgun á reikning íeigu Tryggva. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um að varnaraðili hafi taliðumrædda verðbréfaeign fram til skatts. Að teknu tilliti til allra málsatvika,þar á meðal að varnaraðila var samkvæmt aðilaskýrslu sinni fyrir dómi kunnugtum bága fjárhagsstöðu Tryggva um það leyti sem hann fékk skuldabréfið afhent oghann gerði ekki neinn reka að innheimtu kröfunnar fyrr en með kröfu sinni umgreiðslu af söluandvirði fasteignarinnar, verður hann að bera hallann afframangreindum sönnunarskorti, enda stendur honum nær að færa sönnur á aðraunveruleg krafa búi að baki bréfinu en sóknaraðila að sanna hið gagnstæða,sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 1. september 2003 í máli nr. 311/2003 sembirtur er í dómasafni það ár, bls. 2939. Verður aðalkrafa sóknaraðila því tekintil greina. Varnaraðilaverður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, einsog í dómsorði greinir. Dómsorð:Frumvarpisýslumanns að úthlutunargerð söluandvirðis fasteignarinnar Birkihlíð 42,Reykjavík, fastanúmer 203-2920, skal breytt á þann veg að ekki kemur tilúthlutunar af söluverðinu upp í kröfu varnaraðila, Ársæls Valfells, á 4.veðrétti eignarinnar. Varnaraðiligreiði sóknaraðila, þrotabúi Tryggva Péturssonar, samtals 600.000 krónur ímálskostnað í héraði og kærumálskostnað. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2016. Máli þessu var skotið tildómsins 1. apríl 2016. Deilt er umúthlutun söluandvirðis fasteignarinnar Birkihlíðar 42, sem seld varnauðungarsölu 23. nóvember 2015.Nauðungarsalan fór fram að kröfu Lífsverks lífeyrissjóðs, OrkuveituReykjavíkur – vatns- og fráveitu sf. og Reykjavíkurborgar. Gerðarþolar voru Tryggvi Pétursson og ÞóraMargrét Pálsdóttir. Bú Tryggva var tekiðtil gjaldþrotaskipta með úrskurði 7. febrúar 2014 og er skiptum ekkilokið. Sóknaraðili málsins er þrotabúTryggva Péturssonar, Birkihlíð 42, Reykjavík.Varnaraðilar eru Ársæll Valfells, Gunnarsbraut 5, Reykjavík og ÞóraMargrét Pálsdóttir, Birkihlíð 42, Reykjavík.Kröfur eru ekki gerðar beint á hendur varnaraðila Þóru, en aðild hennarer nauðsynleg þar sem hún kann að hafa beina hagsmuni af niðurstöðumálsins. Aðrir aðilar nauðungarsölunnarhafa hins vegar ekki hagsmuna að gæta hér. Sóknaraðili krefst þess aðhnekkt verði þeirri ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að úthluta tilvarnaraðila Ársæls Valfells 14.551.642 krónum af söluverði fasteignarinnar ogað úthlutun verði breytt þannig að ekkert komi í hlut varnaraðila en aðfjárhæðin renni óskipt til þrotabúsins.Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila ÁrsælsValfells. Varnaraðili Ársæll Valfellskrefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert aðgreiða honum málskostnað. Varnaraðili Þóra MargrétPálsdóttir sótti ekki þing. Meðferð nauðungarsölumálsinshófst með fyrirtöku hjá sýslumanni 20. ágúst 2015. Nauðungarsala fór fram þann 23. nóvember 2015og varð varnaraðili Ársæll Valfells hæstbjóðandi. Samkvæmt frumvarpi að úthlutun greiðastveðkröfur á 1., 2. og 3. veðrétti að fullu, auk sölulauna og lögveðskrafna. Upp í kröfu varnaraðila á 4. veðréttigreiðast 14.551.642 krónur. Hann hafðilýst kröfu að fjárhæð samtals 38.789.757 krónur, en hún var fyrst sett fram viðsýslumann er nauðungarsalan fór fram 23. nóvember. Krafa varnaraðila Ársæls byggistá veðskuldabréfi dags. 12. ágúst 2012, útgefnu af þrotamanni og árituðu umsamþykki til veðsetningar af varnaraðila Þóru Margréti. Bréfið var að höfuðstól 25.000.000,verðtryggt og gefið út til handhafa. Engin gögn hafa verið lögð framum innheimtu umrædds skuldabréfs, ekki innheimtuseðlar, greiðsluáskoranir eðaannað. Eina skjalið sem lagt hefur veriðfram, auk skuldabréfsins sjálfs, er kröfulýsing lögmanns. Á umrædda fasteign var þann 25.apríl 2012 þinglýst kvöð um að eignarhald Tryggva Péturssonar á eigninni skyldiverða í fimm ár frá 28. mars 2012. Yrðibrotið gegn kvöðinni skyldi Seðlabanka Íslands heimilt að leysa til sín 9,44%af eigninni endurgjaldslaust. Tryggvi Pétursson var leiddursem vitni við aðalmeðferð málsins og varnaraðili Ársæll gaf aðilaskýrslu. Tryggvi sagði að hann hefði þekkt varnaraðilaÁrsæl um nokkurra ára skeið. Hann hefðiselt honum þetta bréf. Ársæll hefði borgaðum tíu milljónir í reiðufé og greitt að auki nokkra reikninga frálögfræðistofum fyrir sig. Þetta hefðuverið eðlileg viðskipti. Ársæll Valfells sagði að hannhefði eiginlega engin tengsl við Tryggva Pétursson, hann þekkti hannlítillega. Síðsumars eða um haustið 2012hefði Tryggvi komið að máli við sig og boðið sér skuldabréf til sölu. Það hafi orðið úr að hann keypti af honumbréf í ársbyrjun 2013. Tryggvi hefðiútbúið bréfið og komið með það. Hefði þáverið búið að þinglýsa bréfinu. Hann hefðiborgað á milli 13 og 14 milljónir fyrir bréfið.Hann hefði borgað um tíu milljónir í reiðufé og greitt reikninga fyrirTryggva. Varnaraðili lagði fram gögn semsýna að hann greiddi í mars 2013 10.000 evra reikning lögmannsstofu íLúxemborg, sem stílaður var á Tryggva Pétursson. Málsástæðurog lagarök sóknaraðila Sóknaraðili byggir á því aðumrætt skuldabréf sé málamyndagerningur, engin skuld standi á bak við það. Bendir hann á að skuldarinnar hafi ekki veriðgetið í skattframtali Tryggva og engin gögn hafi verið lögð fram sem staðfestifjármunatilfærslu milli aðila.Skuldabréfið hafi verið útbúið til að skjóta eign undan gjaldþroti. Telur sóknaraðili að úthlutun til varnaraðilaÁrsæls gangi gegn öllum góðum gildum og almennu velsæmi. Sóknaraðili byggir á því aðTryggva hafi verið óheimilt að veðsetja eignina, vegna kvaðar sem hvíldi áhenni. Tryggvi hafi brotið vísvitandigegn þessu banni með útgáfu veðskuldabréfsins.Veðsetningin hafi því ekkert gildi, hún sé marklaus og ekki verðiúthlutað samkvæmt henni til varnaraðila. Loks byggir sóknaraðili á því aðum sé að ræða riftanlega ráðstöfun þrotamanns samkvæmt lögum umgjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Vísar hanntil 131. og 141. gr. laganna. Annaðhvort hafi hér verið um að ræða gjöf til varnaraðila eða ótilhlýðilegaráðstöfun, nema hvort tveggja sé. Hafivarnaraðila mátt vera þetta ljóst. Vísarsóknaraðili jafnframt til 137. gr. og 142. og 143. gr. laganna. Málsástæðurog lagarök varnaraðila Ársæls Valfells Varnaraðili mótmælir því aðmálsástæður sóknaraðila komist að í málinu.Vísar hann til XVII. kafla laga um meðferð einkamála sem takmarki þærvarnir sem hafa megi uppi. Sóknaraðiligeti ekki sniðgengið reglur XVII. kafla með því að skjóta ágreiningnum tildómstóla eftir reglum laga nr. 90/1991. Varnaraðili mótmælir því aðskuldabréfið hafi verið málamyndagerningur.Hann hafi greitt fyrir bréfið, m.a. með því að greiða reikninglögmannsstofu fyrir Tryggva Pétursson.Sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvíli á sóknaraðila. Varnaraðili byggir á því að kvöðsú sem hvíldi á fasteigninni leiði ekki til þess að veðsetningin sémarklaus. Ljóst sé af efni kvaðarinnarhverjar afleiðingar brot gegn henni hafi.Það heimili Seðlabankanum að innleysa hluta af eigninni, en hafi ekkiaðrar afleiðingar. Varnaraðili byggir á því að ekkisé hægt að koma að í þessu máli kröfu um riftun samkvæmt 131. eða 141. gr.gjaldþrotalaga. Þá hafi ekki verið leystúr þessari kröfu hjá sýslumanni. Hannmótmælir því að í útgáfu skuldabréfsins hafi falist gjöf eða ótilhlýðilegráðstöfun. Þá sé riftunarkrafan settfram of seint, sbr. 148. gr. gjaldþrotalaga. Niðurstaða Máli þessu er skotið til dómsinssamkvæmt heimild í 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Um málsmeðferð gilda ákvæði XIII. kaflalaganna. Þar er ekki lögfest neintakmörkun á því hvaða málsástæður verða hafðar uppi, hvort sem er til sóknareða varnar. Tilvísun 2. mgr. 77. gr. tilalmennra reglna laga um meðferð einkamála felur heldur ekki í sér tilvísun tilXVII. kafla þeirra laga. Verður því aðleysa úr öllum málsástæðum sóknaraðila. Sóknaraðili byggir á því aðútgáfa eða afhending umrædds veðskuldabréfs til varnaraðila Ársæls hafi veriðtil málamynda. Sönnunarbyrði um þettahvílir á sóknaraðila og hann hefur ekki með neinum sönnunargögnum fært framsönnun fyrir þessum staðhæfingum sínum.Eru þær ósannaðar. Ósannað er aðskuldabréfið hafi verið útbúið til að skjóta eignum undan gjaldþroti og verðurþví ekki fallist á að úthlutun til varnaraðila gangi gegn öllum góðum gildum ogalmennu velsæmi. Tryggvi Pétursson gekkst undirkvöð um að ráðstafa ekki fasteigninni með tilteknum hætti. Hann gekkst undir þessa kvöð gagnvartSeðlabanka Íslands og í henni felst ekki almennt bann. Getur þrotabúið ekki byggt á því að útgáfaveðskuldabréfsins hafi verið óheimil og því marklaus. Kröfulýsing varnaraðila Ársæls ínauðungarsöluandvirðið var lögð fram hjá sýslumanni 23. nóvember 2015. Fyrst þá var skiptastjóra unnt að hafa uppikröfu um riftun ráðstöfunar samkvæmt XX. kafla gjaldþrotalaga. Skiptastjóri mótmælti úthlutun tilvarnaraðila hjá sýslumanni og skaut málinu til héraðsdóms 1. apríl 2016. Var frestur 1. mgr. 148. gr. ekki úti þegarþað var gert. Verður því að leysa úrþessari málsástæðu sóknaraðila. Hér að framan er komist aðþeirri niðurstöðu að ósannað sé að skuldabréfið hafi verið til málamynda í þeimtilgangi að skjóta eignum undan gjaldþroti.Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á nein önnur atvik sem leiða ættu tilþess að rifta bæri afhendingu eigna til varnaraðila Ársæls. Verður þessum málsástæðum sóknaraðilahafnað. Samkvæmt framansögðu er ekkifallist á neina af málsástæðum sóknaraðila.Verður kröfum hans því öllum hafnað.Verður í samræmi við þá niðurstöðu að dæma hann til að greiðavarnaraðila Ársæli Valfells 450.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit tilvirðisaukaskatts. Að öðru leyti fellurmálskostnaður niður. Jón Finnbjörnsson héraðsdómarikveður upp úrskurð þennan. Ú r s k u r ð a r o r ð Kröfum sóknaraðila, þrotabúsTryggva Péturssonar, um breytingu á frumvarpi til úthlutunar á söluverðifasteignarinnar Birkihlíðar 42, er hafnað. Sóknaraðili greiði varnaraðila,Ársæli Valfells, 450.000 krónur í málskostnað.Að öðru leyti fellur málskostnaður niður. |
Mál nr. 26/2020 | Samkeppni Stjórnvaldssekt Misnotkun á markaðsráðandi stöðu Upplýsingaskylda Stjórnarskrá | Í ákvörðun S í júlí 2016 var komist að þeirri niðurstöðu að MS ehf. hefði verið í markaðsráðandi stöðu á nánar tilteknum markaði og að félagið hefði misnotað þá stöðu og brotið með því gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Þá var MS ehf. einnig talið hafa brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með því að hafa gefið rangar upplýsingar og ekki lagt fram framlegðar- og verkaskiptasamkomulag við KS ehf. við rannsókn S. Var MS ehf. gert að greiða 480.000.000 krónur í stjórnvaldssekt. MS ehf. kærði ákvörðun S til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem felldi hana úr gildi með úrskurði í nóvember 2016 að öðru leyti en því að MS ehf. skyldi greiða 40.000.000 krónur vegna brots gegn 19. gr. samkeppnislaga. Bæði S og MS ehf. höfðuðu í kjölfarið mál til ógildingar á framangreindum úrskurði að hluta og voru málin sameinuð í héraði. Í dómi Hæstaréttar var frávísunarkröfu MS ehf. hafnað og ekki talið að dómstólar færu út fyrir stjórnskipulegt hlutverk sitt samkvæmt 2. og 60. gr. stjórnarskrárinnar með því að leggja á sekt í samkeppnismáli samhliða ógildingu á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þá taldi Hæstiréttur ljóst að markmið samkomulags MS ehf. og KS ehf. um framlegðar- og verkaskipti hefði ekki verið einskorðað við afkomuskiptingu vegna einstaka tegunda framleiðsluvara tengdum verkaskiptingunni heldur miðaði einnig að heildarjöfnun á hlutfallslegri framlegð í greininni óháð verkaskiptingu afurðastöðva. Var samkomulagið ekki talið geta rúmast innan heimilda 71. gr. búvörulaga nr. 99/1993 eða hvílt á öðrum heimildum laganna. Hæstiréttur taldi ekki undirorpið vafa að MS ehf. hafi verið í markaðsráðandi stöðu á viðkomandi markaði. Félagið hefði selt hrámjólk til tengdra aðila á mun lægra verði en ótengdum aðilum og sú mismunun hafi veitt hinum tengdu aðilum óeðlilegt forskot í samkeppni á markaði málsins. MS ehf. var því talið hafa mismunað viðskiptaaðilum sínum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og þannig veikt samkeppnisstöðu þeirra og með því brotið með alvarlegum hætti gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga. Þá hafi sú mikla mismunun sem var á verðlagningu MS ehf. til ótengdra aðila og verði til eigin framleiðslu falið í sér alvarlegan og langvarandi verðþrýsting sem hafi einnig verið til þess fallinn að verja markaðsráðandi stöðu félagsins. Hæstiréttur taldi jafnframt að MS ehf. hefði brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með því að leggja ekki fram áðurnefnt samkomulag sitt og KS ehf. við rannsókn S. Hvað varðaði fjárhæð stjórnvaldssektarinnar vísaði Hæstiréttur til þess að brot MS ehf. hafi verið alvarlegt auk þess sem það hafi staðið lengi. Þá fólst í broti MS ehf. ítrekun á fyrra broti þótt að ekki hafi verið ákveðin sekt í fyrra málinu. Var MS ehf. gert að greiða samtals 480.000.000 krónur í ríkissjóð vegna brota gegn 11. og 19. gr. samkeppnislaga. | Dómur Hæstaréttar.Málþetta dæma hæstaréttardómararnir BenediktBogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldssonog Sigurður Tómas Magnússon. Áfrýjandiskaut málinu til Hæstaréttar 28. maí 2020. Hann krefst aðallega annars vegarsýknu af þeirri kröfu stefnda Samkeppniseftirlitsins að úrskurðuráfrýjunarnefndar samkeppnismála 18. nóvember 2016 í máli nr. 4/2016 verðiógiltur að því leyti sem þar er felldur úr gildi sá hluti ákvörðunar stefndaSamkeppniseftirlitsins nr. 19/2016 að áfrýjandi skuli greiða 440.000.000 krónastjórnvaldssekt í ríkissjóð, vegna brots á 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005,og hins vegar að vísað verðifrá dómi kröfu stefnda um að áfrýjanda verði gert að greiða 440.000.000 krónasekt í ríkissjóð. Áfrýjandikrefst þess jafnframt að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála verðiógiltur að því leyti sem honum var gert að greiða 40.000.000 króna sekt vegnabrots gegn 19. gr. samkeppnislaga. Þá krefst hann þess gagnvart stefndaíslenska ríkinu að því verði gert að endurgreiða sér 40.000.000 króna með nánartilgreindum dráttarvöxtum. Tilvara krefst áfrýjandi þess að hann verði sýknaður af kröfum stefndaSamkeppniseftirlitsins um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála verðiógiltur að nánar tilteknu leyti og honum gert að greiða 440.000.000 króna sektí ríkissjóð. Áfrýjandi krefst þess jafnframt að úrskurður áfrýjunarnefndarsamkeppnismála verði ógiltur að því leyti sem honum var gert að greiða40.000.000 króna sekt vegna brots gegn 19. gr. samkeppnislaga. Þá krefstáfrýjandi þess gagnvart stefnda íslenska ríkinu að því verði gert aðendurgreiða sér 40.000.000 króna með nánar tilgreindum dráttarvöxtum.Til þrautavara krefst áfrýjandi þess aðjafnvel þótt fallist verði á kröfu stefnda Samkeppniseftirlitsins um ógildinguúrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála verði sekt ekki lögð á hann.Áfrýjandi krefst þess jafnframt að úrskurðinum verði breytt á þann veg að sektinsem lögð var á hann verði felld niður. Þá krefst áfrýjandi þess gagnvartstefnda íslenska ríkinu að því verði gert að endurgreiða 40.000.000 króna meðnánar tilgreindum dráttarvöxtum. Aðþví frágengnu krefst áfrýjandi þess að krafa stefnda Samkeppniseftirlitsins umgreiðslu 440.000.000 króna sektar í ríkissjóð verði ákveðin mun lægri. Áfrýjandikrefst þess jafnframt að úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála verði breyttá þann veg að sektin sem lögð var á hann verði lækkuð verulega. Þá krefst hannþess að stefnda íslenska ríkinu verði gert að endurgreiða honum mismun á40.000.000 króna og þeirri sekt sem ákvörðuð kann að verða með dómi með nánartilgreindum dráttarvöxtum. Áfrýjandi krefst í öllum tilvikum málskostnaðar áöllum dómstigum.Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms ogmálskostnaðar fyrir Hæstarétti.IÁgreiningur í máli þessu lýtur að því hvort áfrýjandi hafi misnotaðmarkaðsráðandi stöðu með því að selja hrámjólk til vinnslu mjólkurafurða á hærraverði til keppinauta en til eigin framleiðsludeildar og tengdra aðila og þannigbrotið gegn 11. gr. samkeppnislaga og hvort honum skuli gerð stjórnvaldssekt afþeim sökum. Í því sambandi er deilt um hvort lægri verðlagning til tengdraaðila falli utan gildissviðs samkeppnislaga vegna samkomulags á grundvelli 71.gr. búvörulaga nr. 99/1993. Jafnframt er deilt um hvort áfrýjandi vanræktiupplýsingaskyldu sína samkvæmt 19. gr. samkeppnislaga með því að afhenda ekki tilgreintskjal, svokallað framlegðar- og verkaskiptasamkomulag við Kaupfélag Skagfirðingasvf. 15. júlí 2008, við fyrri rannsókn stefnda Samkeppniseftirlitsins í málinu oghvort gera skuli honum sekt fyrir brot á því ákvæði. Enn fremur er ágreiningurum hvort endurskoðunarvald dómstóla gagnvart sektarákvörðunumsamkeppnisyfirvalda nái aðeins til þess að ógilda slíkar ákvarðanir en ekki tilað taka ákvörðun um að leggja sekt á áfrýjanda og leysa úr um brot ásamkeppnislögum vegna fyrirmæla 2. og 60. gr. stjórnarskrárinnar.Með héraðsdómi var áfrýjandi talinn hafa brotið gegn 11. og19. gr. samkeppnislaga, honum gert að greiða 440.000.000 króna sekt vegna brotsá 11. gr. laganna og staðfest niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnislaga um40.000.000 króna sekt vegna brots á 19. gr. laganna. Með hinum áfrýjaða dómivar sú niðurstaða staðfest.Áfrýjunarleyfi var meðal annars veitt á þeim grunni að máliðhefði fordæmisgildi um skýringu á 71. gr. búvörulaga um undantekningar frásamkeppnislögum í samstarfi afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Þá reyndi í fyrstaskipti á túlkun 19. gr., sbr. 37. gr. samkeppnislaga um brot fyrirtækisgegn upplýsingaskyldu. Loks hefði málið fordæmisgildi um fjárhæð sektar vegnabrots gegn 11. gr. samkeppnislaga svo og mörk endurskoðunarvalds dómstólagagnvart sektarákvörðunum samkeppnisyfirvalda.Með tilvísunum til stefnda verður hér eftir átt við stefndaSamkeppniseftirlitið eingöngu en þess getið sérstaklega ef stefndi íslenskaríkið á í hlut.IIÁfrýjandier eina fyrirtækið hér á landi sem selur hrámjólk í heildsölu til annarramjólkurvöruframleiðenda og nýtir hana auk þess til eigin framleiðslu. Hrámjólker ógerilsneydd mjólk sem er undirstöðuhráefni við framleiðslu á hvers kynsmjólkurvörum. Áfrýjandi hóf starfsemi í núverandi mynd árið 2007 en þáurðu miklar breytingar á skipulagi fyrirtækja í mjólkuriðnaði í landinu semfólust í því að allar helstu afurðastöðvar á mjólkurmarkaði og Osta- ogsmjörsalan runnu saman í áfrýjanda. Hann er að 90,1% hluta í eigu Auðhumlu svf.og að 9,9% hluta í eigu Kaupfélags Skagfirðinga svf. Auðhumla er samvinnufélagrúmlega 550 mjólkurbænda víðs vegar um landið. Kaupfélag Skagfirðinga er samvinnufélagmeðal annars um 60 mjólkurbænda og í blönduðum rekstri en ein af helsturekstrareiningum þess er mjólkurafurðastöð. Bæði áfrýjandi og Kaupfélag Skagfirðingasvf. kaupa ógerilsneydda hrámjólk af félagsmönnum sínum og vinna úr hennimjólkurafurðir.Afurðastöðin Mjólka ehf. hóf starfsemi árið 2005 (hér eftirMjólka I). Mjólka I keypti eins og Kaupfélag Skagfirðinga svf. hrámjólk afáfrýjanda og framleiddi í upphafi fetaost en hóf síðar að framleiða aðrarmjólkurafurðir svo sem jógúrt, sýrðan rjóma, rifinn ost, skyr og skyrtertur.Árið 2009 komst Mjólka I í eigu Kaupfélags Skagfirðinga svf. (frá því tímamarkiverður hér eftir rætt um Mjólku II). Eftir breytingar á eignarhaldinu hélt MjólkaII áfram að framleiða meðal annars fetaost og sýrðar mjólkurvörur og keypti hrámjólktil framleiðslunnar af áfrýjanda. Fyrri helsti eigandi Mjólku I stofnaði á hinnbóginn ásamt öðrum nýtt fyrirtæki, Mjólkurbúið Kú ehf., sem hóf vinnslu og söluá mjólkurafurðum á árinu 2010, meðal annars ostum og sýrðum rjóma. Mjólkurbúið Kúehf. hefur keypt hrámjólk af áfrýjanda. Í desember 2012 barst stefnda ábending frá Mjólkurbúinu Kúehf. um að áfrýjandi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með því aðmismuna keppinautum sínum í verði á hrámjólk til vinnslu mjólkurafurða. Því tilstuðnings fylgdu reikningar áfrýjanda til Mjólkurbúsins Kú ehf. þar sem lítraverðá hrámjólk var 90,74 krónur og reikningar til Mjólku II þar sem verðið var77,69 krónur. Stefndi sendiáfrýjanda tölvubréf 20. desember 2012 ásamt fyrrgreindum gögnum þar sem óskaðvar skýringa hans á ástæðum mismunandi verðs á hrámjólk. Í svari forstjóraáfrýjanda 7. janúar 2013 kom meðal annars fram að um væri að ræða tvenn ólíkviðskipti. Annars vegar sölu á mjólk í lausu máli með afslætti en án frekarikostnaðar og skuldbindinga af hálfu kaupanda en hins vegar miðlun á hráefni ákostnaðargrunni innan viðskiptasambands sem axlaði aukakostnað af söfnun,lyfjaeftirliti, gæðaeftirliti, frumvinnslu og dreifingu auk sölutryggingar tilbænda. Vísað var til þess að áfrýjandi og Kaupfélag Skagfirðinga svf. hefðu meðsér samstarf og verkaskiptingu um framleiðslu á mjólkurvörum á grundvelli 71.gr. búvörulaga. Einnig kom fram að verðið sem tilgreint væri í reikningiáfrýjanda til Mjólkurbúsins Kú ehf. væri verð á mjólk í lausu máli ákvarðað afverðlagsnefnd búvöru í samræmi við 8. gr. þágildandi laga nr. 99/1993 umframleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (nú búvörulög), að frádregnumafslætti vegna hagræðis sem fælist í reglulegri afhendingu á magni. Í kjölfariðhófst rannsókn stefnda sem lauk 22. september 2014 með ákvörðun nr. 26/2014. Varðniðurstaða stefnda að áfrýjandi hefði með því að selja hrámjólk til vinnslumjólkurafurða á hærra verði til keppinauta en til eigin framleiðsludeildar ogtengdra aðila brotið gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga og var honumgert að greiða 370.000.000 króna í stjórnvaldssekt.Áfrýjandi kærði ákvörðun stefnda til áfrýjunarnefndarsamkeppnismála en við meðferð málsins hjá nefndinni lagði hann fyrst fram fyrrgreintgagn, framlegðar- og verkaskiptasamkomulag 15. júlí 2008 milli sín og KaupfélagsSkagfirðinga svf. Hafði samkomulagið meðal annars að geyma ítarleg ákvæði umtilflutning milli aðila í framleiðslu tiltekinna mjólkurvara og viðskiptakjör íviðskiptum með hráefni. Áfrýjandi hélt því fram að samkomulagið birti skýrlegaþá meginforsendu í samstarfi aðila að hið lága verð á hrámjólk til Kaupfélags Skagfirðingasvf. væri liður í því að skipta aukinni framlegð áfrýjanda vegna verkaskiptingarþeirra í milli.Áfrýjunarnefndin felldi ákvörðun stefnda úr gildi meðúrskurði 16. desember 2014 í máli nr. 5/2014 með vísan til þess að frekarirannsóknar væri þörf að því er varðaði umrætt samkomulag og fól nefndin stefndaað taka nýja ákvörðun að undangenginni slíkri rannsókn.2 Stefndi hóf á ný rannsókn á ætluðum brotum áfrýjanda á 11. gr.samkeppnislaga og ákvað samhliða að rannsaka hvaða ástæður lægju að baki því aðáfrýjandi lagði ekki umrætt framlegðar- og verkaskiptasamkomulag fram við fyrrirannsókn málsins í ljósi upplýsingaskyldu aðila samkvæmt 19. gr. laganna. Tókrannsóknartímabilið til áranna 2008 til 2013. Hinn 7. júlí 2016 tók stefndi ákvörðun nr. 19/2016og komst að þeirri niðurstöðu, eins og í fyrri ákvörðun, að áfrýjandi hefðibrotið gegn 11. samkeppnislaga og einnig 19. gr. laganna. Var honum gert aðgreiða 440.000.000 króna sekt vegna brots á 11. gr. og 40.000.000 króna sekt vegnabrots á 19. gr. Í II. kafla ákvörðunar stefnda var fjallaðítarlega um þá meginmálsvörn áfrýjanda að verðlagningin ætti stoð í 71. gr. búvörulaga,eins og henni var breytt með lögum nr. 85/2004, og hún veitti áfrýjandaundanþágu frá 11. gr. samkeppnislaga. Lýst var aðdraganda þeirrar lagasetningarásamt lögskýringargögnum og ályktað að markmið hennar hefði ekki verið að veitaundanþágur frá samkeppnislögum umfram það orðalag sem kæmi beinlínis fram íákvæðinu, auk þess sem frávik frá almennum reglum laganna bæri að túlka þröngt.Stefndi komst að þeirri niðurstöðu að sala áfrýjanda á hrámjólk á lægra verðitil Kaupfélags Skagfirðinga svf. en til keppinauta hefði ekki verið veriðórjúfanlegur eða nauðsynlegur hluti af verkaskiptingu sem 71. gr. búvörulagaheimilaði milli afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Auk þess var talið að ákvörðunáfrýjanda um verðlagningu gæti ekki hvílt á 4. mgr. 13. gr. búvörulaga umheimildir afurðastöðva til að semja sín í milli um verðtilfærslu millitiltekinna afurða enda hefði samkomulag aðila stefnt að því að jafna hlutfallslegaframlegð þeirra afurðastöðva sem stæðu að eignarhaldi áfrýjanda óháðverkaskiptingu hverju sinni í framleiðslu mjólkurvara með ólíka framlegð. Lokshefði sala áfrýjanda á hrámjólk til Mjólku II á sama lága verði og tilKaupfélags Skagfirðinga svf. ekki verið órjúfanlegur eða nauðsynlegur hluti af samstarfisem ákvæði 71. gr. búvörulaga heimilaði, enda hefði Mjólka II ekki verið aðili aðneinum samningi við áfrýjanda þar um.Í III. kafla ákvörðunar stefnda varmarkaðurinn skilgreindur og lagt mat á hvort áfrýjandi hefði markaðsráðandistöðu í ljósi ákvæða 4. og 5. töluliðar 4. gr. samkeppnislaga. Fram kom að markaðurmeð hrámjólk hefði þá sérstöðu að hún hefði mjög takmarkaða staðgöngu við aðrarvörur. Hrámjólk væri notuð sem hráefni til að framleiða ýmiss konarmjólkurafurðir, svo sem drykkjarmjólk, osta eða jógúrt og ekki væri hægt aðskipta henni út fyrir annað hráefni. Áfrýjandi væri í eigu nánast allramjólkurframleiðenda á Íslandi, fyrirtækið safnaði hrámjólk frá eigendum sínumum allt land og flytti í fimm mjólkurstöðvar en einnig væri það stærstadreifingarfyrirtæki landsins. Áfrýjandi hefði bæði notað umrædda hrámjólk tileigin afurðavinnslu og selt hana til Kaupfélags Skagfirðinga svf., Mjólku I,Mjólku II og Mjólkurbúsins Kú ehf., óháð því til hvaða nota hún væri keypt þar.Þegar áfrýjandi seldi umræddum viðskiptavinum hrámjólk til framleiðslu mjólkurafurðahefði verið um að ræða markað fyrir heildsölu. Hefðu keppinautar áfrýjanda ívinnslu og sölu mjólkurafurða, á borð við Mjólku I og Mjólkurbúið Kú ehf., því einnigverið viðskiptavinir áfrýjanda sem annaðist dreifingu á hrámjólk í heildsölubeint til vinnsluaðilanna. Við úrlausn um hvort áfrýjandi væri í markaðsráðandistöðu á mjólkurmarkaði var litið til þess að á rannsóknartímabilinu hefði hannkeypt yfir 90% af allri hrámjólk sem mjólkurbændur seldu í landinu. Staðaáfrýjanda í sölu mjólkurvara væri afar sterk og auk þess hefði fyrirtækiðeignatengsl og nána viðskiptalega samvinnu við næststærsta fyrirtækið ámjólkurmarkaði, Kaupfélag Skagfirðinga svf. Heildarvelta áfrýjanda hefði verið22 milljarðar króna árið 2013 og ljóst að fyrirtækið byggi við umtalsverðanfjárhagslegan styrk umfram keppinauta sína. Niðurstaða stefnda í málinu var þvíað áfrýjandi væri ekki aðeins markaðsráðandi á skilgreindum markaði fyrirhrámjólk heldur einnig í einstakri yfirburðastöðu á mjólkurmarkaði. Í ljósiþess var 11. gr. samkeppnislaga talin taka til áfrýjanda á rannsóknartímabilimálsins.Í IV. kafla ákvörðunar stefnda varlagt mat á aðgerðir áfrýjanda gagnvart Mjólku I og Mjólkurbúinu Kú ehf., borinsaman viðskiptakjör sem áfrýjandi veitti tengdum og ótengdum aðilum og lagt matá forsendur þeirra. Niðurstaða stefnda var sú að áfrýjandi hefði miðað verðsitt á hrámjólk til ótengdra aðila, Mjólku I og Mjólkurbúsins Kú ehf., viðverðákvörðun verðlagsnefndar á unninni mjólk. Á sama tímabili hefði áfrýjandi selthrámjólk til tengdra aðila, Kaupfélags Skagfirðinga svf. og Mjólku II, á munlægra verði eða lágmarksverði verðlagsnefndar til bænda í viðskiptum félagsinsmeð hrámjólk. Sú verðmismunun sem Mjólka I og síðar Mjólkurbúið Kú ehf. hefðusætt af hálfu áfrýjanda hefði verið veruleg og þessi fyrirtæki þurft að borgaverð sem var á bilinu 9,05% til 17,39% hærra en tengdir aðilar. Ekki var talið að áfrýjandi hefði sýntfram á að mismunandi kostnaður við sölu eða afhendingu vörunnar eða annaðkostnaðarlegt hagræði réttlætti hið hærra verð á mjólk til Mjólku I ogMjólkurbúsins Kú ehf.Stefndi komst að þeirri niðurstöðuað framlegðar- og verkaskiptasamkomulag áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðingasvf. 15. júlí 2008 ásamt síðari breytingum hefði ekki verið framkvæmt tiljöfnunar á tapaðri framlegð þess síðargreinda vegna verkaskiptingarinnar einsog upphaflega stóð til. Þess í stað hefði Kaupfélag Skagfirðinga svf. greittáfrýjanda um 175 milljónir króna í verðtilfærslu frá árinu 2008 til ársins 2013þegar tekið væri mið af inn- og útgreiðslum Kaupfélags Skagfirðinga svf. vegnaverðtilfærslu á sama tíma. Þær greiðslur hefðu verið ætlaðar til að bæta uppframlegð áfrýjanda vegna verkaskiptingarinnar samkvæmt samkomulaginu 15. júlí2008. Það varð einnig niðurstaða stefnda að áfrýjandi hefði veitt Kaupfélagi Skagfirðingasvf. fjárhagslegan ávinning með eftirgjöf á umboðslaunum og skuldum árannsóknartímabili málsins sem námu alls um 328 milljónum króna. Þá væri ljóstað hefði Kaupfélagi Skagfirðinga svf. og Mjólku II verið gert að greiða samaverð fyrir hrámjólk og keppinautum þeirra hefði hráefniskostnaður þeirra fyrrnefnduorðið um 239 milljónum krónum hærri á árunum 2008 til 2013 en raun varð á. Þaðvarð niðurstaða stefnda að þessi mismunun hefði veitt Kaupfélagi Skagfirðingasvf. og Mjólku II óeðlilegt forskot í samkeppni á skilgreindum markaði málsins.Í V. kafla ákvörðunar stefnda var lagtmat á aðgerðir áfrýjanda í ljósi 11. gr. samkeppnislaga um bann við misnotkun ámarkaðsráðandi stöðu. Var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hefði ekkisett fram nein málefnaleg sjónarmið sem gætu réttlætt þessi viðskiptakjörgagnvart fyrirtækjum sem voru bæði í samkeppni við áfrýjanda og tengd fyrirtækiá næsta sölustigi fyrir neðan. Áfrýjandi væri öflugt fyrirtæki með miklaþekkingu á mjólkuriðnaði og mjólkurviðskiptum og starfsmenn hans hefðu setið íverðlagsnefnd búvöru á rannsóknartímabilinu. Hefði áfrýjandi vegið mjög að samkeppnisstöðu Mjólku I ogMjólkurbúsins Kú ehf. sem hefði verið háð áfrýjanda um aðgang að þessu hráefni.Þessi ómálefnalegu viðskiptakjör væru ekki í samræmi við þær ríku skyldur semhvíldu á áfrýjanda sem markaðsráðandi fyrirtæki samkvæmt 11. gr.samkeppnislaga.Í sama kafla í ákvörðun stefnda vareinnig fjallað um áhrif verðþrýstings á verðlagningu áfrýjanda en hann hafðivið meðferð hins fyrra máls gert athugasemdir við að stefndi hefði ekki lagtmat á þetta atriði. Í umfjöllun stefnda var rakið hvernig markaðsráðandifyrirtæki getur brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með verðþrýstingi sem snúistí aðalatriðum um ósanngjarnan mun á heildsöluverði viðkomandi aðfangs ogsmásölu-/afurðaverði á neðra vinnslu- og sölustigi sem geri keppinautummarkaðsráðandi fyrirtækja erfitt eða ómögulegt að keppa á neðra sölustigi. Skilyrðislíks verðþrýstings hefðu verið fyrir hendi í þessu máli þar sem áfrýjandihefði verið markaðsráðandi fyrirtæki og til staðar verið lóðrétt samþætting þarsem áfrýjandi var í senn birgir og keppinautur viðskiptavina sinna. Þá væri tilmarks um alvarleika háttsemi áfrýjanda að hann hefði selt ótengdum keppinautumsínum hrámjólk á mun hærra verði en hans eigin framleiðsludeild og tengdirkeppinautar þurftu að greiða. Ótengdir keppinautar hefðu þannig þurft að greiðaallt að 21% hærra verð fyrir hrámjólk en áfrýjandi til eiginmjólkurvöruframleiðslu. Hefði áfrýjandi þurft að greiða sama verð og MjólkurbúiðKú ehf. fyrir hrámjólk til eigin vinnslu hefði rekstur hans skilað umtalsverðutapi. Þannig væri dregið fram með enn skýrari hætti hversu alvarleg ogsamkeppnishamlandi verðmismunun áfrýjanda hefði í eðli sínu verið gagnvartMjólku I og Mjólkurbúinu Kú ehf. og voru aðgerðir áfrýjanda metnar sem mjögalvarlegur og langvarandi ólögmætur verðþrýstingur. Loks var rannsakað hvort umólögmæt viðskiptakjör væri að ræða gagnvart ótengdum fyrirtækjum og ályktað aðáfrýjandi hefði ekki sett fram nein málefnaleg sjónarmið sem gætu réttlættþessi viðskiptakjör gagnvart fyrirtækjum sem hefðu verið bæði háð áfrýjanda umhrámjólk og í samkeppni við hann og tengd fyrirtæki á næsta sölustigi fyrirneðan. Varð það niðurstaða stefnda aðháttsemi áfrýjanda fæli í sér alvarlegt brot á 11. gr. samkeppnislaga. Fælistbrotið í ólögmætum verðmismun samkvæmt c-lið 2. mgr. 11. gr. laganna en einnigværi um að ræða alvarleg brot á reglum 11. gr. um verðþrýsting og óhagkvæmviðskiptakjör.Í VI. kafla ákvörðunar stefnda varfjallað um brot gegn 19. gr. samkeppnislaga. Rakið var að allt frá því að stefndihefði fyrst óskað skýringa frá áfrýjanda á þeim mun sem var á verðlagningufyrirtækisins á hrámjólk í desember 2012 og í eftirfarandi rannsókn vegnameintra brota á 11. gr. samkeppnislaga hefði áfrýjandi aldrei afhent framlegðar-og verkaskiptasamkomulag sitt frá 15. júlí 2008 við Kaupfélag Skagfirðinga svf.Í ákvörðun stefnda kom fram að áfrýjanda hefði ekki getað dulist mikilvægiþessara gagna þegar hann fékk upplýsingabeiðnir stefnda í hendur. Það var niðurstaðastefnda að áfrýjandi hefði brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með því annarsvegar að hafa gefið rangar upplýsingar um að Kaupfélag Skagfirðinga svf. hefðifært sig úr framleiðslu á vörum með hærri framlegð í vörur með lægri framlegðog hins vegar að hafa hvorki vísað til né lagt fram umrætt skjal við rannsóknstefnda sem leiddi til ákvörðunar nr. 26/2014.Í VII. kaflaákvörðunar stefnda var fjallað um viðurlög. Lagt var mat á eðli og umfang brotsá 11. gr. samkeppnislaga í ljósi viðmiða 37. gr. laganna. Vísað var til þess aðáfrýjandi, sem væri með yfirburðastöðu á íslenskum mjólkurmarkaði, hefði beittkeppinauta sína verðmismunun við kaup þeirra á hrámjólk. Til viðbótar hefðiverð á hrámjólk til keppinauta miðast við verð á annarri og dýrari vöru, nánartiltekið gerilsneyddri mjólk í lausu máli. Keppinautar áfrýjanda hefðu ekkiaðeins þurft að sæta því að markaðsráðandi fyrirtæki beitti þá mismunun í verðiheldur einnig að félög tengd áfrýjanda (og áfrýjandi sjálfur) fengju þettahráefni á mun lægra verði sem var til þess fallið að veita þeim verulegtsamkeppnisforskot gagnvart Mjólkurbúinu Kú ehf. og áður Mjólku I. Með þessumóti hefði geta Mjólkurbúsins Kú ehf. og Mjólku I til þess að keppa viðáfrýjanda og tengd félög á markaði fyrir sölu mjólkurafurða verið skert meðalvarlegum hætti og markaðsráðandi staða áfrýjanda varin. Það væri til þessfallið að skaða á endanum hagsmuni neytenda.Við mat áfjárhæð sekta var einnig litið til ítrekunaráhrifa, sbr. 1. mgr. 37. gr.laganna, en í ákvörðun stefnda nr. 39/2006 og úrskurði áfrýjunarnefndarsamkeppnismála 13. desember 2006 í máli nr. 8/2006 hefði Osta- og smjörsalan,sem síðar varð hluti af áfrýjanda, verið talin hafa misnotað markaðsráðandistöðu sína og brotið gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga með því að beitaMjólku I verðmismunun við sölu á undanrennudufti. Í ljósi alvarleika brota áfrýjandataldi stefndi ekki hjá því komist að leggja verulega íþyngjandi viðurlög á áfrýjanda.Að þessu gættu var sekt ákveðin 440.000.000 króna. Um viðurlög vegna brots á19. gr. samkeppnislaga var í ákvörðun stefnda litið til þess að um alvarlegtbrot hefði verið að ræða sem hefði tafið meðferð málsins. Í því ljósi og til aðskapa bæði almenn og sérstök varnaðaráhrif taldi stefndi nauðsynlegt að leggja40.000.000 króna sekt á áfrýjanda vegna þessa brots.3Hinn 4. ágúst 2016 beindi áfrýjandikæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess aðallega að ákvörðunstefnda yrði felld úr gildi en til vara að hin álagða sekt yrði felld niður eðafjárhæð hennar lækkuð verulega. Með úrskurði nefndarinnar 18. nóvember 2016 ímáli nr. 4/2016 var ákvörðunin felld úr gildi að öðru leyti en því að áfrýjandiskyldi greiða 40.000.000 króna stjórnvaldssekt vegna brots á 19. gr.samkeppnislaga.Allir þrír nefndarmennáfrýjunarnefndarinnar voru sammála um brot áfrýjanda gegn 19. gr. laganna ogálagða stjórnvaldssekt vegna þess. Niðurstaða tveggja nefndarmanna var að samkomulagáfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga svf. 15. júlí 2008 um framlegð ogverkaskiptingu og síðari breytingar rúmaðist innan 71. gr. búvörulaga og félliutan gildissviðs samkeppnislaga. Þá hefði ekki verið sýnt fram á nein þauatriði við forsendur eða framkvæmd samkomulagsins eða síðari samninga sem gætiorðið grundvöllur sektarákvörðunar í málinu. Loks var tekið fram að þóttstefndi hefði aflað ýmissa gagna og reifað málið að hluta til út frá því að umverðþrýsting eða önnur ólögmæt viðskiptakjör væri að ræða af hálfu áfrýjandahefðu þessi atriði ekki verið metin sjálfstætt. Af því leiddi að ekki væri unntað taka þau til sérstakrar skoðunar og var þeim því hafnað. Ákvörðun stefnda um brot áfrýjanda á 11. gr. samkeppnislaga var þvífelld úr gildi. Einn nefndarmaður taldi íséráliti að staðfesta ætti ákvörðun stefnda um brot áfrýjanda gegn 11. gr.samkeppnislaga og álagða sekt vegna þess. Byggði hann á því að þótt 71. gr.búvörulaga um verkaskiptingu á framleiðslu tiltekinna mjólkurafurða gæti faliðí sér heimild til að kveða á um verðtilfærslu því samfara til að jafna framlagmismunandi framleiðslutegunda milli mjólkurbúa, fælist ekki í ákvæðinusjálfstæð heimild til að gera samninga um heildarjöfnun á framlegð í greininni.Því yrði að skoða mismunun í verðlagningu áfrýjanda í ljósi 11. gr. samkeppnislaga.4Bæði áfrýjandi og stefndu höfðuðu málfyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndarinnar,sbr. 41. gr. samkeppnislaga. Málin voru sameinuð í héraðsdómi 3. maí2018 með vísan til b-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.Héraðsdómur gekk 29. maí sama ár. Með honum var úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismálaógiltur að því leyti sem þar var felldur úr gildi sá hluti ákvörðunar stefndaað áfrýjandi skyldi greiða 440.000.000 krónastjórnvaldssekt í ríkissjóð. Var áfrýjandi talinn hafa brotið gegn 11.gr. samkeppnislaga með mismunun í verðlagningu til tengdra og ótengdra aðila oghonum gert að greiða 440.000.000 króna sekt í ríkissjóð. Þá var hafnaðkröfum áfrýjanda um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála yrði ógilturað því leyti sem honum var gert að greiða 40.000.000 króna sekt vegna brotsgegn 19. gr. samkeppnislaga.Dóminum var áfrýjað tilLandsréttar með áfrýjunarstefnu birtri 2. júlí 2018. Undir rekstri málsins íLandsrétti féllst rétturinn á ósk áfrýjanda um dómkvaðningu matsmanns til aðleggja mat á eftirfarandi: „1. Hvort Kaupfélag Skagfirðinga hafi viðverkaskiptingu samkvæmt svonefndu framlegðar- og verkaskiptasamkomulagi frá15. júlí 2008 látið frá sér sölu á vörum sem voru með hærri framlegð og tekiðvið framleiðslu vara með lægri framlegð? 2. Að frádreginni millisölu á hráefnumog fullunnum vörum, hver var framlegð 1 af vinnslu mjólkur á tímabilinu 2008 –2013 hjá annars vegar Kaupfélagi Skagfirðinga, og hins vegar áfrýjanda af eiginframleiðslu?“ Til að vinna matið var löggiltur endurskoðandi dómkvaddur ogskilaði hann matsgerð 26. júní 2019. Einnig gaf hann skýrslu við aðalmeðferðmálsins fyrir Landsrétti.Landsréttur taldi að umrættsamkomulag og atvik málsins yrðu ekki undanskilin gildissviði samkeppnislaga á grundvelliákvæða búvörulaga og að áfrýjandi hefði með háttsemi sinni brotið gegn c-lið 2.mgr. 11. gr. samkeppnislaga. Var niðurstaða héraðsdóms um mat á háttsemi áfrýjandasvo og álagning og fjárhæð sekta vegna brota á 11. og 19. gr. samkeppnislagastaðfest. Í forsendum dóms Landsréttar var meðal annars vísað til þess að ekkiyrði séð hvernig sá þáttur samkomulagsins, þar sem mælt var fyrir um söluáfrýjanda á allt að 3,5 milljónum lítra hrámjólkur til Kaupfélags Skagfirðingasvf. á því lágmarksverði sem gilti um kaup frá bændum, hefði talistnauðsynlegur vegna þeirrar verkaskiptingar sem samkomulagið kvað á um til aðbæta tapaða framlegð Kaupfélags Skagfirðinga svf. Meðal annars var litið tilfyrrgreindrar matsgerðar um að miðað við forsendur á árinu 2007 hefði KaupfélagSkagfirðinga svf. haft 23.000.000 króna ávinning af samkomulaginu.5Eftir að málinu var áfrýjaðtil Hæstaréttar óskaði áfrýjandi þess í beiðni 9. júní 2020 til héraðsdóms aðfyrrgreindur matsmaður yrði kvaddur á ný til að svara einni matsspurningu ítilefni af matsgerð sinni 26. júní 2019. Héraðsdómur féllst á það 26. júní2020. Fram kom að tilgangur hins umbeðna mats væri að hnekkja þeirrifullyrðingu Landsréttar að matsmaðurinn hefði komist að þeirri niðurstöðu aðKaupfélag Skagfirðinga svf. hefði haft 23.000.000 króna ávinning afsamkomulaginu. Var þess óskað að matsmaður léti í ljós skriflegt og rökstuttálit á eftirfarandi atriðum: „Er í svari matsmanns við spurningu 1 í matsgerðdags. 26. júní 2019, tekið tillit til þeirra breytinga semverkaskiptasamkomulagið hafði á verðtilfærslu matsbeiðanda og KS, þ.e. þauáhrif sem samkomulagið hafði á úthlutun til þeirra úr verðtilfærslusjóðiárlega? Ef ekki, er óskað eftir því að matsmaður leggi mat á hvort og þá hvaðaáhrif þetta hafi á niðurstöðu hans. Óskað er eftir því að tekið verði tillittil allra þeirra atriða sem matsmaður telur að geti skipt máli.“ Matsmaður skilaðiviðbótarmatsgerð 3. september 2020 og gaf skýrslu um hana fyrir héraðsdómi 21.sama mánaðar.IIIÁfrýjandi byggir frávísunarkröfu sína á því aðheimildir dómstóla til að endurskoða úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála samkvæmt1. mgr. 41. gr. samkeppnislaga geti aðeins náð til þess að ógilda úrskurðhennar en ekki að taka nýja ákvörðun um brot á 11. gr. laganna og álagningusektar. Í máli þessu hafi áfrýjunarnefndin komist að þeirri niðurstöðu aðsamstarf áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga svf. rúmaðist að fullu innan 71.gr. búvörulaga og því ekkert fjallað um hvort áfrýjandi hafi brotið gegn 11.gr. samkeppnislaga eða um álagningu sektar vegna slíks brots. Eins og fram komií 1. og 5. mgr. 37. gr. samkeppnislaga sé það hlutverk stefnda og áfrýjunarnefndarsamkeppnismála að leggja á stjórnvaldssektir en dómstólar hafi enga slíkaheimild. Með niðurstöðu sinni hafi Landsréttur tekið fram fyrir hendur ááfrýjunarnefnd samkeppnismála og ákveðið að framkvæma lögin í stað þess að dæmaum lögmæti stjórnvaldsákvörðunar í málinu en það samrýmist ekki 2. og 60. gr.stjórnarskrárinnar. Af hálfu stefnda er byggt á því aðdómstólar hafi óskorað vald til að ákvarða sektir í málum sem fjalla um brot á samkeppnislögumsvo og um fjárhæð þeirra eins og staðfest hafi verið í dómaframkvæmd. Það værií ósamræmi við markmið málskotsheimildar stefnda samkvæmt 1. mgr. 41. gr.samkeppnislaga ef jafnræði aðila væri ekki tryggt í þessu tilliti og stefndigæti ekki krafist þess að sekt, sem hann hefur gert fyrirtæki að greiða ogáfrýjunarnefnd síðan lækkað eða fellt niður, verði færð til fyrra horfs meðdómi. Einnig sé ljóst að í evrópskum samkeppnisrétti og aðildarríkjumEvrópusambandsins sé skilvirk framkvæmd samkeppnisreglna talin fela í séráskilnað um að dómstólar hafi óskorað endurskoðunarvald við ákvörðunsektarfjárhæða. 2Súmeginregla hefur verið leidd af fyrirmælum stjórnarskrárinnar í 2. gr. um þrígreininguríkisvalds og 60. gr. um endurskoðun dómstóla á stjórnvaldsákvörðunum aðdómstólar séu almennt ekki bærir til að taka efnislegar ákvarðanir um málefnisem lögum samkvæmt eru á hendi handhafa framkvæmdarvalds. Frá þessarimeginreglu er þó að finna ýmsar undantekningar í framkvæmd dómstóla en rök aðbaki þeim verður að meta í ljósi þess hvers eðlis hin umþrættastjórnvaldsákvörðun er. Ákvörðun um refsingu eða önnur viðurlög við lögbrotum telstí eðli sínu falla undir verksvið dómsvalds en ekki framkvæmdarvalds. Engu aðsíður hefur löggjafanum verið talið heimilt að fela stjórnvöldum úrskurðarvaldum tiltekin viðurlög á hendur einstaklingum og lögaðilum, svo sem um stjórnvaldssektirvegna brota á lögum, án þess að í bága fari við 2. gr. stjórnarskrárinnar. Slíkheimild helgast þó af því að dómstólar skuli eiga lokaorðið eftir að ákvörðunum viðurlög liggur fyrir og hafi víðtækt vald til að endurskoða efnislegalögmæti slíkrar stjórnvaldsákvörðunar, svo og sönnunaratriði, túlkun lagaatriðaog fjárhæð sekta. Þannig er réttur einstaklinga og lögaðila til að bera stjórnvaldsákvarðanirum réttindi sín og skyldur undir dómstóla tryggður svo sem áskilið er í 1. mgr.70. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar dómstólar fjalla um álagningustjórnvaldssekta sem einstaklingar eða lögaðilar skjóta til þeirra mælasjónarmið um réttaröryggi og skilvirkni auk þess með því að þeir geti tekiðnýja efnislega ákvörðun í máli, þar á meðal að lækka fjárhæð sektar fremur enað ógilda sektarákvörðun og vísa máli til nýrrar sektarákvörðunar fyrirstjórnvaldi. Um slíka framkvæmd við endurskoðun stjórnvaldsákvarðana vitnameðal annars þau fordæmi sem vísað er til í hinum áfrýjaða dómi, sbr. dómaHæstaréttar 2. október 2008 í máli nr. 640/2007 og 9. febrúar 2012 í máli nr.205/2011, þar sem dómstólarlækkuðu sektir á fyrirtæki vegna brota á samkeppnislögum. Stefndi sem stjórnvald nýtur ekki hliðstæðs stjórnarskrárvarinsréttar og borgararnir til að bera ákvarðanir æðra stjórnvalds í kærumáli undirdómstóla. Löggjafinn getur engu að síður mælt fyrir um slíka málskotsheimild ágrundvelli þess að ríkir almannahagsmunir séu bundnir við að fá úrlausndómstóla um tiltekið álitaefni, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 22. september 1998í máli nr. 297/1998 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 2821. Þegarmálskotsheimild stjórnvalds er þannig bundin í lög styðja sömu rök að dómstólarhafi einnig óskorað endurskoðunarvald gagnvart viðkomandi sektarákvörðun og meðþví mæla einnig rök um skilvirkni. Dómstólar geta því bæði ógilt ákvörðun ogkomist að annarri efnislegri niðurstöðu um skýringu laga, álagningu sektar eða fjárhæðút frá mati á saknæmi og alvarleika brots. Þetta markmið birtist glöggt í lögskýringargögnummeð 4. gr. laga nr. 14/2011 sem bættu í 41. gr. samkeppnislaga málskotsheimildtil handa stefnda til að höfða mál fyrir dómstólum til ógildingar á úrskurðiáfrýjunarnefndar samkeppnismála vilji hann ekki una honum. Í skýringum við framangreintákvæði í greinargerð með frumvarpi til laganna er tekið fram að hlutverk Samkeppniseftirlitsins sé meðalannars að vernda þá lögvörðu almannahagsmuni sem felist í virkri samkeppni ogþví óeðlilegt að það geti ekki gætt almannahagsmuna til sóknar fyrir dómstólum.Mikilvægt sé að eftirlitið geti varið fyrir dómstólum niðurstöðu ákvarðana sinnasem áfrýjunarnefndin hefur ógilt eða breytt. Slíkt leiði til jafnræðis aðilamáls og einnig megi leiða líkur að því að það stuðli að vandaðri málsmeðferð hjááfrýjunarnefndinni. Með vísan til framangreinds verður ekki fallist á þámálsástæðu áfrýjanda að dómstólar fari út fyrir stjórnskipulegt hlutverk sittmeð því að leggja á sekt í samkeppnismáli samhliða ógildingu á úrskurði áfrýjunarnefndarsamkeppnismála. Í ljósi þess að stefnda er gert kleift að verja upphaflega ákvörðunsína sem áfrýjunarnefndinhefur ógiltmiðast efri mörk sektar við þá fjárhæð sem þar er ákveðin. Í héraðsstefnu eruraktar málsástæður að baki kröfu stefnda um ógildingu á þeim hluta úrskurðaráfrýjunarnefndar þar sem ákvörðun stefnda var felld úr gildi. Þær byggjast á ítarlegrirannsókn sem lýst var í ákvörðun stefnda þar sem tekin var afstaða til atriðasem þýðingu hafa við mat á því hvort áfrýjandi hafi brotið gegn 11. gr.samkeppnislaga. Það samrýmist því markmiði breytingar á 41. gr. samkeppnislagameð lögum nr. 14/2011 sem fyrr er lýst að dómstólar geti tekið afstöðu til þesshvort áfrýjandi hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga, sbr. einnig dómHæstaréttar 7. janúar 2021 í máli nr. 42/2019. Samkvæmt framansögðu er hrundið kröfu áfrýjanda um frávísuná kröfum stefnda. IVÁfrýjandi byggir kröfu sína um sýknu af kröfum stefnda vegnabrots gegn 11. gr. samkeppnislaga á því að 71. gr. búvörulaga sé ætlað að gerafyrirtæki sem efnir til samstarfs á þeim grundvelli sem þar getur undanþegiðákvæðum samkeppnislaga, þar með talinni 11. gr. um verðlagningu. Jöfnunframlegðar sé óhjákvæmilegur fylgifiskur samkomulags um heildstæðaverkaskiptingu afurðastöðva til framtíðar. Nauðsynleg forsenda þess aðKaupfélag Skagfirðinga svf. féllist á að láta af framleiðslu á framlegðarháumvörum eins og ferskvörum sem færðist til áfrýjanda og einskorða sig viðframleiðslu á vörum sem hafa að meðaltali lægri framlegð eins og ostum hafiverið að koma á ákveðinni framlegðarjöfnun. Í því sambandi bendir áfrýjandi áað það hefði verið óvenjuleg ráðstöfun af hálfu löggjafans að heimilaafurðastöðvum að skipta verkum milli mjólkursamlaga en banna þeim samhliða aðjafna þann mun á framlegð sem af slíkri verkaskiptingu leiddi. Því hefði þurftað taka það fram sérstaklega í ákvæðinu. Til að bæta Kaupfélagi Skagfirðingasvf. framlegðartap hafi félaginu meðal annars verið seld hrámjólk ákostnaðarverði en einnig með öðrum hætti eins og ákvæðum um gagnkvæmasöluþóknun og skiptingu flutningskostnaðar. Framlegðarjöfnun hafi tekist afarvel eins og fram komi í fyrirliggjandi matsgerð og ekki skipti máli hvortframlegðin hafi verið jöfnuð með peningagreiðslum eða sölu á hrámjólk á lægraverði en til annarra fyrirtækja sem ekki ættu í slíku samstarfi. Áfrýjandi telur að í hinum áfrýjaða dómi sé dregin sú ranga ályktunaf matsgerð að Kaupfélag Skagfirðinga svf. hafi ekki tapað framlegð vegnasamkomulagsins heldur haft af því 23 milljóna króna ávinning. Ekki sé rétt aðhorfa einangrað til vöruframlegðar. Í dóminum hafi þannig ekki verið tekið tillittil greiðslna úr verðtilfærslusjóðum sem breyttust vegna verkaskiptingarinnar. Ísamkomulaginu hafi sérstaklega verið tilgreint sem framlegðartap Kaupfélags Skagfirðingasvf. að í stað þess að fá 25 milljóna króna tekjur árlega úr verðtilfærslusjóðumvegna framleiðslu sinnar á ferskvörum þyrfti félagið að greiða árlega 31milljón króna í sjóðinn þar sem framleiðslan hefði færst eingöngu yfir í osta.Þetta hefði því þýtt 56 milljóna króna tekjutap félagsins. Niðurstaða matsmannshafi rímað í öllum meginatriðum við þessa forsendu í samkomulaginu sem hafi veriðstaðfest í viðbótarmatsgerð sem áfrýjandi hafi óskað eftir. Stefndi byggir á því að samkomulagi aðila hafi í reynd veriðætlað að jafna framlegð félaganna óháð slíkri verkaskiptingu þannig að þauhefðu hlutfallslega svipaða framlegð og að breyting á söluþóknun hafi veriðnotuð til að færa verðmæti á milli þegar hallað hafi á annað hvort þeirra. Þettasé staðfest með skýrum hætti í samtímagögnum sem stefndi hafi aflað frááfrýjanda við meðferð málsins, meðal annars í samantekt sem hann afhentistefnda 28. janúar 2015 um framkvæmd samkomulagsins við Kaupfélag Skagfirðingasvf. Þar komi fram að samstarfiðhafi í raun skilað mun hagstæðari niðurstöðu fyrir Kaupfélag Skagfirðinga svf. engert var ráð fyrir. Þetta hafi einnig kallað á breytingar á samkomulaginu. Þannighafi fyrirtækin á árinu 2010 gert samkomulag um sérstaka greiðslu Kaupfélags Skagfirðingasvf. til áfrýjanda vegna þess að framlegðarmunurinn hafi breyst félaginu í hagvegna umtalsverðrar veltuaukningar sem hafi fylgt tilfærslu verkefna á borð viðrifostagerð. Af framlegð fyrirtækjanna tveggja á árunum 2010 og 2011 sé ljóst aðsveiflan hafi verið Kaupfélagi Skagfirðinga svf. í hag en áfram hafi veriðframlegðarvöntun hjá áfrýjanda og því hafi verið gert samkomulag um 40 milljónakróna greiðslu félagsins til áfrýjanda á árinu 2012. Um framlegð fyrirtækjannaá árunum 2012 og 2013 segir síðan að ljóst sé að halla muni á áfrýjanda íverkaskiptunum. Vafalaust sé að framlegð Kaupfélags Skagfirðinga svf. hafimargfaldast eftir að verkaskiptingin komst á. Staðhæfing áfrýjanda um að bæta hafiþurft Kaupfélagi Skagfirðinga svf. upp tapaða framlegð eigi því ekki við rök aðstyðjast. Auk þess veiti ákvæði búvörulaga enga heimild fyrir afurðastöð ímarkaðsráðandi stöðu til að krefja smáa og ótengda keppinauta um mun hærra verðen sína eigin framleiðsludeild.2 Efni framlegðar- og verkaskiptasamkomulags áfrýjanda ogKaupfélags Skagfirðinga svf. 15. júlí 2008 og síðari breytinga á því erítarlega rakið í hinum áfrýjaða dómi og ákvörðun stefnda. Markmið þess var aðfastsetja verkaskiptingu í framleiðslu mjólkurvara og samhliða þvíframlegðarskipti vegna framleiddra mjólkurvara með tilliti til verkaskiptingarí mjólkurvinnslu og sölu hráefnis og fullunninna vara milli áfrýjanda ogKaupfélags Skagfirðinga svf. Þar kom fram að til að mæta framlegðartapi Kaupfélags Skagfirðingasvf. vegna samkomulagsins skyldi áfrýjandi selja félaginu allt að 3,5 milljónirlítra af mjólk á ársgrunni á verðlagi sem tæki mið af skráðu lágmarksverðiVerðlagsnefndar búvöru fyrir meðalmjólk (afurðastöðvaverði), en ofan á skráðlágmarksverð skyldu bætast lítratengd sjóðagjöld. Var umrætt framlegðartapKaupfélags Skagfirðinga svf. sett í samhengi við lækkun tekna úrverðtilfærslusjóði um 56 milljónir króna árlega auk þess sem heildsölutekjurfélagsins af því að framleiða eingöngu ost í stað ferskvara myndu minnka um 47milljónir króna til viðbótar eða samtals um 103 milljónir króna. Þegar einnigværi tekið tillit til 62 milljóna króna lægri kostnaðar félagsins vegnabreyttrar verkaskiptingar yrðu nettóáhrifin 41 milljónar króna framlegðartap.Þann mismun yrði að leiðrétta auk 24 milljóna króna viðbótar út af skiptinguframlegðar vegna verkaskiptingar á markaði. Eftir að ákvörðun stefnda nr.26/2014 lá fyrir 22. september 2014 ákváðu fyrirtækin að breyta samkomulaginu.Þaðan í frá væru verðmætatilfærslur í samstarfinu gerðar samkvæmt reikningieftir uppreikning hvers árs. Með því greiddu aðilar að framleiðslusamstarfinufyrir ávinning með beinum peningatilfærslum en ekki í gegnum hráefnis- ogvöruverð.Í ákvörðun stefnda og hinum áfrýjaða dómi er lýst forsögu ogmarkmiði með setningu laga nr. 85/2004 sem færðu 71. gr. búvörulaga í núverandimynd. Með sömu lögum var breytt ákvæði 3. mgr. 13. gr. laganna, sem síðarfærðist í 4. mgr. með lögum nr. 102/2016, og kveðið á um að þrátt fyrir ákvæðisamkeppnislaga sé afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að gera samninga sín ímilli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða og leggja skuli slíka samningafyrir verðtilfærslunefnd til upplýsingar. Samkvæmt greinargerð með þvífrumvarpi sem varð að lögum nr. 85/2004 var því ætlað að „eyða þeirriréttaróvissu sem skapast hefur um að gildandi búvörulög, nr. 99/1993, tryggiekki með nægjanlegri vissu að samráð, samruni og verðtilfærsla í mjólkuriðnaðisé undanskilið gildissviði samkeppnislaga í samræmi við ætlan löggjafans.“ Þávar vísað til þess markmiðs með breytingu á framangreindum ákvæðum búvörulaga að gera afurðastöðvum ímjólkuriðnaði kleift að mæta harðnandi samkeppni erlendis frá þar sem líklegtværi að tollar myndu lækka á samkeppnisvörum í kjölfar skuldbindinga ríkisinsvegna samninga aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og þeirrar stefnustjórnvalda að verðlagning á landbúnaðarvörum yrði gefin frjáls þegarmarkaðsaðstæður sköpuðust til þess að verðmyndun gæti orðið á grundvelliframboðs og eftirspurnar.Samkvæmt71. gr. búvörulaga er afurðastöðvum í mjólkuriðnaði, þrátt fyrir ákvæðisamkeppnislaga, heimilt að gera með sér samkomulag um verkaskiptingu millimjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstaka mjólkurvara og hafa meðsér annars konar samstarf til að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymsluog dreifingu mjólkurafurða. Slíkt samstarf getur stuðlað að framförum ogaukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrirframleiðendur og neytendur og þannig þjónað þeim markmiðum sem sett eru í 1.gr. laganna. Fallast verður á með áfrýjanda að forsenda samstarfs afurðastöðvaum að skipta með sér verkum til að ná fram ákveðinni sérhæfingu og hagræðingu getiverið að bæta þá tilfærslu á framlegð sem beinlínis leiðir af slíkriverkaskiptingu, en ella væri enginn hvati til að gera slíkt samkomulag fyrirafurðastöðvar sem tapa framlegð. Af 4. mgr. 13. gr. búvörulaga, forsögu hennarog tengslum við 71. gr. laganna, sem ítarlega eru rakin í ákvörðun stefnda oghinum áfrýjaða dómi, verður ályktað að afurðastöðvum sé heimilt að semja um aðjafna út tapaða framlegð sem beinlínis leiðir af slíkri verkaskiptingu þráttfyrir ákvæði samkeppnislaga. Um það hvaða aðferð aðilar megi beita sín í milli tiljöfnunar framlegðar er engar vísbendingar að finna í ákvæðum búvörulaga eðalögskýringargögnum. Í ákvörðun meirihluta áfrýjunarnefndar kemur fram að súaðferð að selja hrámjólk á tilteknu lágu verði til að jafna framlegð vegnaverkaskiptingar við framleiðslu á mjólkurvörum sé ekki bönnuð samkvæmtbúvörulögunum heldur ein af mörgum aðferðum sem til greina getur komið.Hvað sem því líður er ljóst að markmið samkomulagsáfrýjanda við Kaupfélag Skagfirðinga svf. 15. júlí 2008 og framkvæmd þess voru ekkieinskorðuð við afkomuskiptingu vegna einstaka tegunda framleiðsluvaratengdum verkaskiptingunni svo sem vegna breytinga á tekjum og gjöldum úrverðtilfærslusjóði. Samkomulagið miðaði einnig að heildarjöfnun áhlutfallslegri framlegð í greininni óháð þeirri verkaskiptingu afurðastöðva,eins og hún kynni að vera ákveðin hverju sinni. Þetta markmið er ekki eingöngusett skýrlega fram í 1. gr. samkomulagsins heldur er það stutt af gögnum málsinssem aflað var í rannsókn stefnda og stafa meðal annars frá áfrýjanda sjálfum íútskýringum á framkvæmd samkomulagsins. Á grundvelli árlegs mats sem fram fór áþróun í sölu einstaka mjólkurafurða og framlegðar var uppgjör framkvæmt meðverðmætatilfærslum milli áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga svf., svo sem meðbeinum greiðslum eða breytingum á söluþóknun. Þannig kemur ótvírætt fram aðgreiðslur hafi farið á milli aðila til að jafna framlegð fyrirtækjanna á báða bóga.Þá var orðið ljóst að enn hallaði á áfrýjanda í framlegð í árslok 2013. Óskaðiáfrýjandi þá eftir því að forsendur samstarfsins við Kaupfélag Skagfirðingasvf. yrðu endurskoðaðar í heild, nýjar forsendur settar fyrir framlegðarskiptumfélaganna og samningurinn endurgerður frá grunni en ekki tókust samningar umþað.Um mat á áhrifum samkomulagsins á framlegð Kaupfélags Skagfirðingasvf. er meðal annars fjallað í matsgerð 26. júní 2019 sem áður var lýst. Svosem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var í síðari matsspurningunni sett framtafla um framlegð 1 í tilviki áfrýjanda annars vegar og Kaupfélags Skagfirðingasvf. hins vegar. Með framlegð 1 er átt við nettósölutekjur að frádreginnivörunotkun. Kemur þar meðal annars fram að ætluð framlegðarprósenta áfrýjandaán viðskipta við Kaupfélag Skagfirðinga svf. hafi verið 36,45% fyrir árið 2007,34,53% 2008, 32,10% 2009, 34,56% 2010, 34% 2011, 35,61% 2012 og 34,62% 2013.Áætluð framlegðarprósenta Kaupfélags Skagfirðinga svf. af vinnslu mjólkur hafihins vegar verið 30,21% fyrir árið 2007, 34,44% 2008, 31,23% 2009, 35,42% 2010,32,56% 2011, 33,23% 2012 og 32,51% 2013. Eins kemur fram yfirlit yfir framlegð1 í krónutölu fyrir Kaupfélag Skagfirðinga svf. en af því sést að frá árinu2007 til og með árinu 2013 jókst árleg heildarframlegð Kaupfélags Skagfirðingasvf. úr 243.732.763 krónum í 1.209.585.956 krónur. Eins og fram kom í skýrslumatsmanns fyrir héraðsdómi er hér um að ræða heildartölur um framlegð af öllumvörum sem Kaupfélag Skagfirðinga svf. framleiddi að teknu tilliti tilverðhækkana og framleiðslubreytinga. Af framangreindu verður ályktaðað á næstu fimm árum eftir að aðilar gerðu samkomulagið 15. júlí 2008, sem fólí sér að Kaupfélag Skagfirðinga svf. lét frá sér framleiðslu á ferskvörum entók við framleiðslu á ostum, þar með talið rifostum, nærfellt fimmfaldaðistheildarframlegð félagsins. Áfrýjandi hefur í málatilbúnaði sínum lagthöfuðáherslu á að í mjólkurvöruframleiðslu hafi ostar að meðaltali lægriframlegð en ferskvörur, meðal annars vegna minni tekna úr verðtilfærslusjóði ogað markmið með lækkuðu verði á hrámjólk til Kaupfélags Skagfirðinga svf. hafiverið að bæta upp þetta framlegðartap. Ekki verður þó litið fram hjá því aðsamkomulagið 15. júlí 2008 leiddi sem fyrr segir í reynd til mikillar veltuaukningarKaupfélags Skagfirðinga svf. vegna gríðarlegrar söluaukningar á rifosti og eraukin framlegð 1 vegna framleiðslu rifosts meðtalin í framangreindum tölum umframlegð félagsins. Hvað sem líður framlegðartapi Kaupfélags Skagfirðinga svf.,meðal annars vegna lægri tekna úr verðtilfærslusjóði eftir að hafa tekið við framleiðsluá ostum, verður ekki fallist á að þurft hafi að bæta Kaupfélagi Skagfirðingasvf. upp tapaða framlegð enda staðfesta gögn um framkvæmd samkomulagsins það gagnstæða,að samstarfið skilaði því mun hagstæðari niðurstöðu en gert var ráð fyrir. Sem fyrr segir getur samkomulag um verkaskiptingu viðframleiðslu mjólkurafurða á grundvelli 71. gr. búvörulaga falið í sér fjárhagslegtuppgjör vegna tapaðrar framlegðar sem leiðir beinlínis af slíkriverkaskiptingu. Á hinn bóginn verður ekki ályktað af umræddum breytingarlögumnr. 85/2004, sem ætlað var að eyða ákveðinni réttaróvissu, eins og að framanvar rakið, að með þeim yrði markaðsráðandi afurðastöð í mjólkuriðnaðiundanþegin gildissviði 11. gr. samkeppnislaga og hún gæti með verðlagningusinni á grundvallarhráefni mismunað afurðastöðvum tengdra og ótengdra aðila semþætti í samkomulagi um að jafna hlutfallslega framlegð fyrirtækja. Má enn fremurbenda á þau ummæli í greinargerð með frumvarpi til fyrrgreindra laga að fara bæri varlega þegar lagður væri sá skilningur ílagaákvæði að þau undanskildu tiltekna þætti í atvinnustarfsemi gildissviðisamkeppnislaga. Slík frávik frá almennum reglum bæri jafnan að túlka þröngt ogþví þyrfti með skýrum lagatexta að undanskilja ákveðna þætti landbúnaðarinsgildissviði samkeppnislaga. Verður að álykta afþessu að hefði ætlun löggjafans verið að heimila mismunun íverðlagningu og frávik frá 11. gr. laganna við þær aðstæður sem uppi eru í máliþessu hefði slík undantekning frá samkeppnislögum þurft að vera orðuð meðskýrum hætti. Í samkomulagi aðilaskuldbatt áfrýjandi sig til að selja Kaupfélagi Skagfirðinga svf. og síðareinnig Mjólku II ákveðið magn hrámjólkur á verði sem var allt að 17% lægra entil ótengdra afurðastöðva svo sem Mjólku I og Mjólkurbúsins Kú ehf. Tók áfrýjandiað selja Kaupfélagi Skagfirðinga svf. mikið magn hrámjólkur á þessu lága verðistrax þegar samkomulagið tók gildi 2008 þrátt fyrir að verkaskipting um það samkvæmtsamkomulaginu hæfist ekki í eiginlegri mynd fyrr en seint á árinu 2009. Á samatíma var ótengdum afurðastöðvum seld sama vara, ógerilsneydd hrámjólk, á samaverði og gerilsneydd mjólk sem er meira unnin vara. Áfrýjanda hefur samkvæmt framansögðu ekki tekist að sýnafram á að þessi mismunun í verðlagningu hafi verið óhjákvæmilegur þáttur ísamstarfi aðila á grundvelli 71. gr. búvörulaga eða hvílt á öðrum heimildumlaganna. Í því sambandi ber einnig að líta til þess sérstaklega að Mjólka IIvar ekki aðili að umræddu samkomulagi áfrýjanda við Kaupfélag Skagfirðinga svf.um verkaskiptingu og framlegðarjöfnun. Samkvæmt gögnum málsins var það hinsvegar markmið áfrýjanda að tryggja nægilega afkomu Mjólku II til að greiðaniður skuldir með því að fyrirtækið fengi allt að 600.000 lítra af hrámjólk ásama lágmarksverðinu og greitt væri til bænda. Að öllu framangreindu virtu verður að hafna þeirriniðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála að samkomulagið 15. júlí 2008 og framkvæmdþess hafi rúmast innan heimilda 71. gr. búvörulaga. Þar með er einnig hafnaðþeirri málsástæðu áfrýjanda að 11. gr. samkeppnislaga um misnotkun á markaðsráðandistöðu hafi ekki gilt um verðlagningu á hrámjólk til Mjólkurbúsins Kú ehf. ogMjólku II. Því verður að meta hvort mismununáfrýjanda á verðlagningu hrámjólkur á milli tengdra og ótengdra aðila hafisamræmst 11. gr. samkeppnislaga.V Áfrýjandi mótmælir því að mismunandiverðlagning á hrámjólk feli í sér verðmismunun í skilningi c-liðar 2. mgr. 11.gr. samkeppnislaga, enda séu ekki uppfyllt skilyrði ákvæðisins að um sams konarviðskipti sé að ræða gagnvart viðskiptaaðilum. Hafi viðskipti hans viðKaupfélag Skagfirðinga svf. svo og Mjólku II hvílt á margþættu samstarfi ágrundvelli 71. gr. búvörulaga og margvíslegra gagnkvæmra skyldna svo sem um framleiðsluá vörum óháð framlegð þeirra og kaup á vörum hvors annars. Niðurstaða um þaðhvort viðskipti séu sams konar ráðist af fjöldamörgum þáttum sem litið hafiverið fram hjá í hinum áfrýjaða dómi. Þá sé niðurstaða í ákvörðun stefnda umskilgreiningar á markaði og skaðleg áhrif verðlagningar áfrýjanda á hrámjólk ásamkeppni ófullnægjandi og engar vísbendingar um að samkeppnisstaða Mjólku Ieða Mjólkurbúsins Kú ehf. hafi verið veikt vegna hennar. Loks séu engin gögn ímálinu um meinta innri verðlagningu áfrýjanda, enda ljóst að eigin framleiðsludeildhans geti ekki talist viðskiptaaðili samkvæmt c-lið 2. mgr. 11. gr.samkeppnislaga. Stefndi telur þvert á móti aðviðskipti áfrýjanda hafi falið í sér eins skýrt brot á c-lið 1. mgr. 11. gr.samkeppnislaga og hugsast getur. Ákvæðið banni að viðskiptaaðilum sé mismunaðmeð ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra veikt.Með viðskiptaaðila sé hvort heldur átt við aðila sem sé tengdur eða ótengdurhinu markaðsráðandi fyrirtæki eða einingu eða deild innan fyrirtækisins. Þannigeigi brot gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. einnig við ef keppinautur fyrirtækis einsog áfrýjanda sem sé í markaðsráðandi stöðu á hráefnismarkaði þurfi að greiðahærra verð fyrir hráefni en framleiðsludeild þess. Þá hafi enn frekariverðmismunun milli eigin framleiðsludeildar og keppinauta á hrámjólk falið ísér mismunun áfrýjanda á markaðsráðandi stöðu sé hún metin eftir reglum 11. gr. samkeppnislaga um ólögmætanverðþrýsting og ólögmæt viðskiptakjör. Með þessu móti hafi geta ótengdra aðilatil þess að keppa við áfrýjanda og tengd félög verið skert með alvarlegum hættiog markaðsráðandi staða samstæðu áfrýjanda varin.2 Eins og fram kemur í hinum áfrýjaðadómi og ákvörðun stefnda er áfrýjandi eina fyrirtækið hér á landi sem seluröðrum mjólkurvöruframleiðendum hrámjólk í heildsölu, ásamt því að nýta hana tileigin framleiðslu, og er hann jafnframt talinn taka við 90% af þeirri hrámjólksem bændur framleiða. Er því ekki undirorpið vafa að áfrýjandi hafi verið í markaðsráðandi stöðu, sbr. 4.tölulið 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga. Kemur þátil úrlausnar hvort áfrýjandi hafi í skilningi 11. gr. samkeppnislaga misnotaðþá stöðu sína á mörkuðum málsins. Taka verður mið af þeirri sérstöðuhrámjólkur á markaði að hún hefur mjög takmarkaða staðgöngu við aðrarvörur og er undirstöðuhráefni til að framleiða margvíslegar mjólkurafurðir semekki væri hægt að skipta út fyrir annað hráefni. Kostnaður við hana vegur þungtvið framleiðslu á öllum mjólkurvörum óháð því hvaða afurðir eru framleiddar úrhenni. Hefur því ekki þýðingu eins og áfrýjandi heldur fram hvort ótengdirkeppinautar og fyrirtæki tengd áfrýjanda framleiddu sams konar mjólkurvörur úrhrámjólkinni. Er því fallist á röksemdir stefnda um að ekki ráði úrslitum hvortbáðir aðilar framleiða nákvæmlega sömu vöruna úr hrámjólk enda nægir að þeirgeti gert það. Fyrir liggur að áfrýjandi miðaði verðsitt á hrámjólk til Mjólku I og Mjólkurbúsins Kú ehf. við verðákvörðunverðlagsnefndar búvara á mjólk í lausu máli jafnvel þótt að um ógerilsneyddamjólk hafi verið að ræða. Í gögnum málsins liggur fyrir staðfesting fránefndinni 10. desember 2013 um að með mjólk í lausu máli hafi á þessum tímaverið átt við gerilsneydda en ópakkaða mjólk. Á sama tíma miðaði áfrýjandi verðá hrámjólk til tengdra aðila, Kaupfélags Skagfirðinga svf. og Mjólku II, viðmun lægra verð eða það lágmarksverð sem verðlagsnefnd ákvað fyrir mjólk tilbænda. Af þessum sökun var sú verðmismunun sem Mjólka I og síðar Mjólkurbúið Kúehf. sætti af hálfu áfrýjanda veruleg og þurftu þessi fyrirtæki að borga verðsem nam allt að 17% hærra verði en Mjólka II og Kaupfélag Skagfirðinga svf. greiddufyrir vöruna. Hefði hinum tengdu félögum verið gert að greiða sama háa verð ogkeppinautar þeirra fyrir hrámjólk hefði hráefniskostnaður þeirra orðið um 239milljónum krónum hærri á árunum 2008 til 2013 en raun varð á. Fallist er á þá niðurstöðu hins áfrýjaðadóms að þessi mismunun hafi veitt Kaupfélagi Skagfirðinga svf. og Mjólku IIóeðlilegt forskot í samkeppni á skilgreindum markaði málsins. Í ljósi yfirburðaáfrýjanda og veikri samkeppni á hinum skilgreinda markaði málsins var með þessuverklagi vegið mjög að samkeppnisstöðu Mjólku I og Mjólkurbúsins Kú ehf. sem voruháð áfrýjanda um aðgang að þessu hráefni. Þá verður að fallast á að þessiómálefnalegu viðskiptakjör hafi ekki samrýmst þeim skyldum sem hvíldu ááfrýjanda sem markaðsráðandi fyrirtæki samkvæmt 11. gr. samkeppnislaga. Áfrýjandier fyrirtæki með mikla þekkingu á mjólkuriðnaði og mjólkurviðskiptum og í reyndmeð yfirburðastöðu á mjólkurmarkaði. Í þessu ljósi var háttsemi áfrýjandasérlega alvarleg. Mismunun í verðlagningu verður ekki réttlættmeð vísan til ákvæða búvörulaga svo sem fyrr var lýst. Þá hefur áfrýjanda ekkitekist að sýna fram á hlutlægar ástæður sem réttlættu hana, en sönnunarbyrði umslíkt hvílir á honum. Verður að öllu framangreindu virtu og öðru leytimeð vísan til forsendna dóms Landsréttar fallist á niðurstöðu hans aðmeð mismunandi kjörum hafi áfrýjandi, sem markaðsráðandi fyrirtæki, mismunaðviðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum, veikt þannigsamkeppnisstöðu þeirra og með því brotið með alvarlegum hætti gegn c-lið 2.mgr. 11. gr. samkeppnislaga. Stefndi byggir einnig á því að með verðlagninguáfrýjanda á hrámjólk til eigin framleiðsludeildar, sem var ekki þáttur íframangreindu samkomulagi frá 15. júlí 2008, hafi verið brotið gegn c-lið 2.mgr. 11. gr. laganna og telur staðhæfingu í hinum áfrýjaða dómi um annað ekki standast.Í þessu sambandi verður að byggja á þeirri viðurkenndu túlkun í samkeppnisréttiað með viðskiptaaðila í skilningi ákvæðisins sé átt við aðila með sjálfstæðaefnahagslega starfsemi en ekki hluta af sama fyrirtæki, sbr. einnig dómEFTA-dómstólsins frá 22. september 2016 í máli E-29/15 Sorpa bs. gegn Samkeppniseftirlitinu, þar sem reyndi á skýringuhliðstæðs hugtaks í c-lið 2. mgr. 54. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið,sbr. lög nr. 2/1993. Stefndi hefur ekki lagt fram gögn til að sýna fram á hvernigframleiðsludeild áfrýjanda uppfylli þetta skilyrði eða hvernig skipulagi ogstöðu hennar gagnvart fyrirtækinu er háttað. Í ákvörðun stefnda er hins vegarrökstutt hvernig verðlagning áfrýjanda á hrámjólk til eigin framleiðsludeildarhafi í eðli sínu verið bæði alvarleg og samkeppnishamlandi gagnvart Mjólku I ogMjólkurbúinu Kú ehf. sem þurftu að greiða allt að 21% hærra verð fyrir hrámjólk.Hér verður lagt til grundvallar að áfrýjandi er lóðrétt samþætt ogmarkaðsráðandi fyrirtæki í heildsölu á hrámjólk og jafnframt keppinauturviðskiptavina sinna í heildsölu á mjólkurvörum framleiddum úr hráefninu. Þanniger áfrýjandi í yfirburðastöðu á því sviði sem gerir samkeppnisumhverfið ennviðkvæmara. Færð eru töluleg rök fyrir því í ákvörðun stefnda að reksturáfrýjanda hefði ekki staðið undir sér heldur skilað umtalsverðu tapi átímabilinu 2008 til 2013 hefði hann þurft að greiða sama verð og Mjólka I ogMjólkurbúið Kú ehf. fyrir hrámjólk til mjólkurafurðaframleiðslu sinnar. Þóttáfrýjanda hafi gefist kostur á að taka til andsvara við ályktunum stefnda umþessar málsástæður allt frá því hann fékk andmælaskjal stefnda 22. október 2015kaus hann að gera það ekki með rökstuddum hætti. Verður samkvæmt framangreindu fallistá þá niðurstöðu stefnda að sú mikla mismunum sem var á verðlagningu áfrýjanda áhrámjólk til ótengdra aðila og verði til eigin framleiðslu hafi falið í séralvarlegan og langvarandi verðþrýsting sem var einnig fallinn til að verjamarkaðsráðandi stöðu áfrýjanda og þannig hafi þessi háttsemi falið í sér brot á11. gr. samkeppnislaga.VI Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. samkeppnislagagetur Samkeppniseftirlitið krafið einstök fyrirtæki, fyrirtækjahópa og samtökfyrirtækja, sem lögin taka til, um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja viðathugun einstakra mála. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflegaog skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem stofnunin setur. Þá geturþað samkvæmt 2. mgr., með sömu skilyrðum og greinir í 1. mgr., krafist þess aðfá gögn afhent til athugunar og skulu þau þá afhent innan hæfilegs frests semstofnunin setur.Af hálfu áfrýjanda er byggt á því að hann hafi ekkivanrækt upplýsingaskyldu samkvæmt 19. gr. samkeppnislaga með því að afhendaekki framlegðar- og verkaskiptasamkomulagið við Kaupfélaga Skagfirðinga svf. fyrren með kæru sinni til áfrýjunarnefndar í fyrri meðferð samkeppnisyfirvalda ámálinu. Stefndi hafi aldrei farið fram á að umrætt samkomulag yrði afhent og ljóstsé að 1. og 2. mgr. 19. gr. laganna feli ekki í sér skyldu fyrirtækja til aðafhenda gögn að eigin frumkvæði. Jafna megi stjórnvaldssekt fyrir brot ásamkeppnislögum til refsiviðurlaga í skilningi 6. gr. mannréttindasáttmálaEvrópu og því beri að skýra þröngt ákvæði um álagningu sekta. Með því aðfallast á frumkvæðisskyldu fyrirtækja í þessu tilliti verði í raun lögð hlutlægrefsiábyrgð á fyrirtæki sem engin lagaheimild sé fyrir.Stefndi leitaði upplýsinga og gagna frá áfrýjanda í fyrrirannsókn sinni á málinu sem nauðsynlegar töldust til að útskýra mismunandiverðlagningu á hrámjólk. Voru svör áfrýjanda í fyrstu misvísandi en þar var ísenn vísað til þess að um ólík viðskipti væri að ræða og verðlagningin skýrðistaf mismunandi kostnaði. Þá komu einnig fram skýringar áfrýjanda sem ekkistóðust að hið lága verð á hrámjólk til Kaupfélags Skagfirðinga svf. væriákveðið af verðlagsnefnd búvara samkvæmt 1. mgr. 8. gr. búvörulaga. Þóttáfrýjandi hafi tekið fram að samstarf og verkaskipting milli aðila hafi hvílt á71. gr. búvörulaga, þegar hann var inntur eftir skýringum og gögnum í rannsóknstefnda, lét hann hjá líða að afhenda eða greina frá að fyrir lægi skriflegtsamkomulag um skyldu hans til að selja Kaupfélagi Skagfirðinga svf. allt að 3,5milljónir lítra af hrámjólk sem jafngilti lágmarksverði fyrir mjólk til bænda. Þegaráfrýjandi lagði samkomulagið fyrst fram með kæru til áfrýjunarnefndarsamkeppnismála á fyrri ákvörðun stefnda var auk þess ljóst að hann taldi það sjálfurmikilvægasta gagnið til skýringar á þeim verðmun sem hann var spurður um íupphafi. Eins og rakið er í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála og í hinum áfrýjaðadómi var stefnda ekki ljós tilvist samkomulagsins við fyrri rannsókn málsins ogþví var honum ókleift að krefjast þess að áfrýjandi afhenti það. Umrætt skjalhafði hins vegar grundvallarþýðingu til útskýringar fyrir málið. Verður súrökrétta krafa leidd af 1. mgr. 19. gr. samkeppnislaga að áfrýjanda hafi veriðskylt að afhenda stefnda samkomulagið þegar stefndi innti hann eftir skýringumá verðlagningu hrámjólkur til Kaupfélags Skagfirðinga svf. Jafnframt er hafnaðþeirri málsástæðu áfrýjanda að með slíkri skýringu á 19. gr. laganna sé meðólögmætum hætti lögð á hann frumkvæðisskylda eða hlutlæg refsiábyrgð sem fari íbága við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í þvísambandi skal áréttað að þagnarréttur lögaðila nýtur ekki sérstakrar verndar framangreindsákvæðis hvað varðar skyldu til að leggja fram gögn sem þegar eru til viðrannsókn samkeppnisyfirvalda, sbr. til hliðsjónar dóm undirréttarEvrópudómstólsins 14. mars 2014 í máli T-297/11, Buzzi Unicem SpA gegnframkvæmdastjórninni.Að framangreindu virtu verðurfallist á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að í þessari háttsemi áfrýjanda hafifalist brot gegn 19. gr. samkeppnislaga.VII Í b- og i-lið 1. mgr. 37. gr.samkeppnislaga er kveðið á um að Samkeppniseftirlitið leggi stjórnvaldssekt áfyrirtæki eða samtök fyrirtækja sem brjóta gegn banni samkvæmt 11. gr. lagannaog skyldu til að veita upplýsingar og afhenda gögn samkvæmt 19. gr. Í 2. mgr.37. gr. laganna er mælt fyrir um að sektir geti numið allt að 10% afheildarveltu síðasta rekstrarárs hjá hverju því fyrirtæki eða þeim samtökumfyrirtækja sem aðild eigi að broti. Við ákvörðun um fjárhæð sekta skal hafahliðsjón af eðli og umfangi brota, hvað brot hafa staðið lengi og hvort umítrekað brot er að ræða. Ýmsir aðrir þættir geta þó haft áhrif við ákvörðunsektarfjárhæðar, þar á meðal að álögð sekt sé til þess fallin að skapavarnaðaráhrif meðal annars með tilliti til fjárhagslegs styrkleika aðila.Í ákvörðun sinni lagði stefndi 440.000.000 krónastjórnvaldssekt á áfrýjanda fyrir brot gegn 11. gr. samkeppnislaga og40.000.000 króna stjórnvaldssekt fyrir brot gegn 19. gr. sömu laga.Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti síðarnefndu sektina en felldi hinafyrrnefndu úr gildi í ljósi þess að ekki var talið um brot áfrýjanda að ræða á11. gr. laganna.Eins og rakið er að framan er fallist á þá niðurstöðu hinsáfrýjaða dóms og ákvörðun stefnda, andstætt niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar,að áfrýjandi hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Í ákvörðun stefnda um fjárhæðsektar var virt til þyngingar að um ítrekuð brot áfrýjanda væri að ræða. Var íþví sambandi vísað til úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála 13. desember2006 í máli nr. 8/2006 um að Osta- og smjörsalan, forveri áfrýjanda, hefðibrotið gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga og misnotað markaðsráðandistöðu sína með því að selja tengdum aðila, Ostahúsinu, og ótengdum, Mjólku I,undanrennuduft á mismunandi verði. Óumdeilter að þegar fyrirtæki áfrýjanda var stofnað í árslok 2006 gekk Osta- og smjörsalaninn í hið nýja rekstrarfélag og færðist framleiðslan jafnframt þangað auk þesssem áfrýjandi tók við öllu sölu- og markaðsstarfi fyrirtækisins. Er því ljóstað sú efnahagslega starfsemi sem Osta- og smjörsalan hafði með höndum var aðöllu leyti færð til áfrýjanda. Af skýringu á hugtakinu fyrirtæki í 11. og 37.gr. samkeppnislaga leiðir að brot sem eru framin í nafni eins lögaðila getaleitt til ítrekunaráhrifa gagnvart öðrum ef viðkomandi aðilar eru í raun hlutiaf sama fyrirtækinu. Fallist verður á að fyrrgreint brot hafi ítrekunaráhrifþótt ekki hafi verið ákveðin sekt í fyrra málinu, sbr. einnig dóm Evrópudómstólsins8. febrúar 2007 í máli C-3/06 P, Groupe Danone gegn framkvæmdastjórninni. Hefðiáfrýjanda af þessari ástæðu enn frekar mátt vera ljóst að samkomulag hans um mismunandiviðskiptakjör með hrámjólk gagnvart tengdum og ótengdum aðilum myndi raskasamkeppni, en samkomulagið kom til framkvæmda innan við tveimur árum eftir aðfyrrgreindur úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 8/2006 lá fyrir.Teljaverður að brot áfrýjanda gegn 11. gr. samkeppnislaga, sem fólst í því aðfyrirtæki ótengd honum þurftu að greiða mun hærra verð fyrir hrámjólk en félögtengd áfrýjanda og áfrýjandi sjálfur, hafi verið alvarlegt auk þess sem þaðstóð lengi og var augljóslega mjög til þess fallið að raska samkeppnisstöðu. Þálaut það að mikilvægri neysluvöru og snerti á þann hátt almenning í landinu. Aðþessu virtu er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að áfrýjanda verði gertað greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 440.000.000 króna. Er sú sektarfjárhæð aukþess langt innan fyrrgreinds 10% hámarks af heildarveltu fyrirtækis. Heildarveltaáfrýjanda árið 2015 mun hafa verið um 26.700.000.000 króna og fjárhæðsektarinnar nemur því um 1,65% af heildarveltunni.Viðákvörðun sektar vegna brots áfrýjanda á 19. gr. samkeppnislaga tók stefndi ekkiaðeins mið af því að áfrýjandi hefði ekki lagt fram umrætt samkomulag viðrannsókn stefnda heldur að áfrýjandi hefði ranglega sagt í bréfi 13. febrúar2013 að Kaupfélag Skagfirðinga svf. hefði fært sig úr framleiðslu á vörum meðhærri framlegð í vörur með lægri framlegð. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála taldiað ekki ætti að byggja á síðara atriðinu. Engu að síður væri brot áfrýjanda, aðleggja ekki fram samkomulagið, svo alvarlegt að það réttlætti sömu sektarfjárhæðog stefndi hefði ákveðið eða 40.000.000 króna. Álykta verður að áfrýjandi hafiaf ásetningi leynt fyrir stefnda skjali sem honum mátti vera ljóst að hefðigrundvallarþýðingu fyrir rannsókn máls samkvæmt 19. gr. samkeppnislaga, enstöðu sinnar vegna hafði hann sérlega ríkar skyldur til að upplýsa um grundvöllviðskiptakjaranna. Í stað þess að gefa hina réttu útskýringu með vísan tilskilmála samkomulagsins færði hann fram misvísandi svör um ástæður mismunandi viðskiptakjara.Þannig flækti hann í senn rannsókn málsins auk þess sem skortur á þessarimeginforsendu í fyrri rannsókn stefnda á verðlagningu áfrýjanda leiddi til aðfyrri ákvörðun hans ónýttist.Að þessu virtu og með vísan tilforsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti verður staðfest að áfrýjanda sé gerð40.000.000 króna sekt fyrir brot á 19. gr. samkeppnislaga. Áfrýjandi hefurþegar greitt umrædda sekt en af framangreindri niðurstöðu leiðir að hafnað er kröfuhans gagnvart stefnda íslenska ríkinu um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar ásamtdráttarvöxtum.Áfrýjandaverður gert að greiða báðum stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og ídómsorði greinir.Dómsorð:Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.Áfrýjandi, Mjólkursamsalan ehf., greiði stefndaSamkeppniseftirlitinu 3.000.000 króna og stefnda íslenska ríkinu 1.500.000 krónurí málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Landsréttar.Mál þetta dæma landsréttardómararnir DavíðÞór Björgvinsson, EiríkurJónsson og ÞorgeirIngi Njálsson.Málsmeðferð og dómkröfur aðilaÁfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 22. júní 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2018 ímálinu nr. E-1613/2017.2Áfrýjandi gerir aðallega eftirfarandi kröfur: Í fyrsta lagiað vísað verði frá dómi þeim kröfum stefnda Samkeppniseftirlitsins, sem hafðarvoru uppi með gagnsök í héraði, annars vegar um að úrskurður áfrýjunarnefndarsamkeppnismála 18. nóvember 2016 í máli nr. 4/2016 verði ógiltur að því leytisem þar er felldur úr gildi sá hluti ákvörðunar þessa stefnda nr. 19/2016 aðáfrýjandi skuli greiða 440.000.000 króna stjórnvaldssekt í ríkissjóð vegnabrots á 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, og hins vegar að áfrýjanda verðigert að greiða 440.000.000 króna sekt í ríkissjóð. Í öðru lagi krefst áfrýjandiþess gagnvart stefnda Samkeppniseftirlitinu að fyrrnefndur úrskurðuráfrýjunarnefndar samkeppnismála verði ógiltur að því leyti sem áfrýjanda vargert að greiða 40.000.000 króna sekt vegna brots gegn 19. gr. samkeppnislaga. Íþriðja lagi gerir áfrýjandi þá kröfu á hendur stefnda íslenska ríkinu að þvíverði gert að endurgreiða honum 40.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1.mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. maí 2017 tilgreiðsludags.3Til vara gerir áfrýjandi eftirfarandi kröfur: Í fyrsta lagiað hann verði sýknaður af fyrrnefndum kröfum stefnda Samkeppniseftirlitsins,sem hafðar voru uppi með gagnsök í héraði, um að úrskurður áfrýjunarnefndarsamkeppnismála í máli nr. 4/2016 verði ógiltur að tilteknu leyti og áfrýjandagert að greiða 440.000.000 króna sekt í ríkissjóð. Í öðru lagi krefst áfrýjandiþess gagnvart stefnda Samkeppniseftirlitinu að fyrrnefndur úrskurðuráfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 4/2016 verði ógiltur að því leytisem áfrýjanda var gert að greiða 40.000.000 króna sekt vegna brots gegn 19. gr.samkeppnislaga. Í þriðja lagi gerir áfrýjandi þá kröfu á hendur stefndaíslenska ríkinu að því verði gert að endurgreiða honum 40.000.000 króna meðdráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. maí 2017 tilgreiðsludags.4Að þessu frágengnu gerir áfrýjandi eftirfarandi kröfur: Ífyrsta lagi að jafnvel þótt fallist verði á kröfu stefndaSamkeppniseftirlitsins, sem höfð var uppi með gagnsök í héraði, um ógildinguúrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 4/2016, verði sekt ekkilögð á áfrýjanda. Í öðru lagi krefst hann þess að úrskurði áfrýjunarnefndarsamkeppnismála í máli nr. 4/2016 verði breytt á þann veg að sekt sú sem lögðvar á áfrýjanda verði felld niður. Í þriðja lagi krefst áfrýjandi þess gagnvartstefnda íslenska ríkinu að því verði gert að endurgreiða honum 40.000.000 krónameð dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. maí 2017 tilgreiðsludags.5Að því frágengnu gerir áfrýjandi eftirfarandi kröfur: Ífyrsta lagi að krafa stefnda Samkeppniseftirlitsins um greiðslu 440.000.000króna sektar í ríkissjóð, sem höfð var uppi með gagnsök í héraði, verði ákveðinmun lægri en stefndi Samkeppniseftirlitið gerir kröfu um. Í öðru lagi aðúrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 4/2016 verði breytt á þannveg að sekt sú sem lögð var á áfrýjanda verði lækkuð verulega. Í þriðja lagi aðstefnda íslenska ríkinu verði gert að endurgreiða áfrýjanda mismun á 40.000.000króna og þeirri sekt sem ákvörðuð kann að verða með dómi með dráttarvöxtum frá15. maí 2017 til greiðsludags.6Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði ogfyrir Landsrétti.7Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms ogmálskostnaðar fyrir Landsrétti.Málsatvik og sönnunarfærsla8Áfrýjandi er í eigu Auðhumlu svf. (90,1%) og KaupfélagsSkagfirðinga (9,9%). Seint á árinu 2012 sendi áfrýjandi Mjólkurbúinu Kú ehf. fyrirmisgáning reikning vegna kaupa Mjólku ehf. á hrámjólk. Stofnandi fyrrnefndafélagsins hafði áður verið helsti eigandi síðarnefnda félagsins en Mjólka ehf.var á þessum tíma komið í eigu Kaupfélags Skagfirðinga. Líkt og í úrlausnumsamkeppnisyfirvalda og hinum áfrýjaða dómi verður heitið Mjólka I hér eftirnotað um Mjólku ehf. þar til það komst í eigu Kaupfélags Skagfirðinga en heitiðMjólka II um félagið eftir það tímamark. Þá er með tilvísunum til stefnda héreftir vísað til stefnda Samkeppniseftirlitsins eingöngu, en þess getiðsérstaklega ef stefndi íslenska ríkið á í hlut.9Af fyrrnefndum reikningi varð Mjólkurbúinu Kú ehf. ljóst aðfélagið hefði greitt mun hærra verð fyrir hrámjólk en Mjólka II. Beindi það þvíábendingu og síðan kvörtun til stefnda. Stefndi sendi forstjóra áfrýjandatölvupóst 20. desember 2012 með reikningi áfrýjanda til Mjólkurbúsins Kú ehf.annars vegar, þar sem lítraverð var 90,74 krónur, og reikningi til Mjólku IIhins vegar, þar sem verðið var 77,69 krónur. Í tölvupóstinum var óskað skýringaáfrýjanda á ástæðum hins mismunandi verðs. Í kjölfarið hófst rannsókn stefndasem lauk með ákvörðun 22. september 2014 nr. 26/2014. Þar var komist að þeirriniðurstöðu að áfrýjandi hefði með aðgerðum sínum brotið gegn 11. gr.samkeppnislaga og honum gert að greiða 370.000.000 króna í stjórnvaldssekt. 0Áfrýjandi kærði ákvörðun stefnda til áfrýjunarnefndarsamkeppnismála. Með úrskurði nefndarinnar 16. desember 2014 í máli nr. 5/2014var ákvörðunin felld úr gildi og lagt fyrir stefnda að rannsaka málið frekar ogtaka síðan ákvörðun á ný að því loknu. Byggðist sú niðurstaða á því að frekarirannsóknar væri þörf að því er varðaði samkomulag milli áfrýjanda og KaupfélagsSkagfirðinga frá 15. júlí 2008, en áfrýjandi lagði það samkomulag fyrst fram ákærustigi. 1Að aflokinni frekari rannsókn tók stefndi ákvörðun 7. júlí2016 nr. 19/2016. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hefði brotiðgegn 11. og 19. gr. samkeppnislaga og var honum gert að greiða 480.000.000króna stjórnvaldssekt, 440.000.000 króna vegna brots á 11. gr. laganna og40.000.000 króna vegna brots á 19. gr. þeirra. Áfrýjandi kærði ákvörðunina tiláfrýjunarnefndar samkeppnismála. Með úrskurði nefndarinnar 18. nóvember 2016 ímáli nr. 4/2016 var ákvörðunin felld úr gildi að öðru leyti en því að áfrýjandiskyldi greiða 40.000.000 króna stjórnvaldssekt vegna brots á 19. gr.samkeppnislaga. Byggðist niðurstaðan á því að áðurgreint samkomulag áfrýjandaog Kaupfélags Skagfirðinga rúmaðist innan 71. gr. búvörulaga nr. 99/1993 ogekki hefði verið sýnt fram á nein þau atriði við forsendur eða framkvæmd þess,eða síðari samninga, sem gæti orðið grundvöllur sektarákvörðunar í málinu.Áfrýjunarnefndin klofnaði í málinu. Í sératkvæði eins nefndarmanns var komistað þeirri niðurstöðu að staðfesta ætti ákvörðun stefnda um brot áfrýjanda gegn11. gr. samkeppnislaga og álagða sekt vegna þess. Allir þrír nefndarmenn voru áhinn bóginn sammála um brot áfrýjanda gegn 19. gr. laganna og álagðastjórnvaldssekt vegna þess.2Aðilar málsins höfðuðu báðir mál vegna úrskurðaráfrýjunarnefndarinnar, áfrýjandi í því skyni að fá hnekkt niðurstöðunni um brotgegn 19. gr. samkeppnislaga en stefndi í því skyni að fá hnekkt þeirriniðurstöðu að ekki hefði verið brotið gegn 11. gr. laganna. Málin voru sameinuðí héraði og í hinum áfrýjaða dómi komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandihefði brotið gegn báðum þessum ákvæðum. Var stefndi þannig sýknaður af kröfuáfrýjanda um ógildingu þess hluta úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála þarsem honum var gert að greiða 40.000.000 króna sekt vegna brots gegn 19. gr.samkeppnislaga, og um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar, en úrskurðurinn ógilturað því leyti sem felld hafði verið úr gildi ákvörðun stefnda um að áfrýjandiskyldi greiða 440.000.000 króna sekt vegna brots gegn 11. gr. samkeppnislaga,og var hann dæmdur til að greiða þá fjárhæð í ríkissjóð. Var niðurstaða hinsáfrýjaða dóms því á sömu lund og í ákvörðun stefnda og samkvæmt sératkvæði hjááfrýjunarnefnd samkeppnismála. 3Fyrrnefnt samkomulag áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga frá15. júlí 2008, sem deila málsaðila lýtur að verulegu leyti að, ber heitið„Framlegðar- og verkaskiptasamkomulag“. Í 1. mgr. 1. gr. þess segir að markmiðsamkomulagsins sé að fastsetja helstu forsendur í samstarfi samningsaðila um:a) Verkaskiptingu í framleiðslu mjólkurvara; b) Framlegðarskipti framleiddramjólkurvara með tilliti til verkaskiptingar í mjólkurvinnslu og sölu hráefnisog fullunninna vara milli áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga sem liðar íframlegðar- og verkaskiptingu; c) Aðrar forsendur eins og verðlagsmál ogbreytingar á sjóðakerfi mjólkurvara samkvæmt breytingum á búvörulögum. Í 3.mgr. 1. gr. segir: „Svo unnt verði að koma á frekari verkaskiptingu ímjólkuriðnaði, og ná nauðsynlegri lækkun á vinnslu- og dreifingarkostnaðmjólkurvara, skulu samningsforsendur stuðla að jöfnun framlegðar millimjólkurvara. Þetta skal gert í þeim tilgangi að þeir lögaðilar sem standa aðeignarhaldi og rekstri MS ehf., hafi sambærilega rekstrarafkomu við vinnslumjólkur, óháð þeirri verkaskiptingu afurðastöðva eins og hún kann að verðaákveðin hverju sinni með hagsmuni greinarinnar í heild sinni að leiðarljósi.“ 4Í kjölfar 1. gr. kemur A-hluti samkomulagsins sem beryfirskriftina „Verkaskipting í framleiðslu mjólkurvara“. Þar kemur meðal annarsfram að framleiðslu og pökkun eftirtalinna ferskvara verði hætt á Sauðárkróki:Nýmjólkur, léttmjólkur, undanrennu, rjóma og mysu. Áfrýjandi muni annastframleiðslu og pökkun þessara vara fyrir sölu- og þjónustusvæði KaupfélagsSkagfirðinga. Þá verði framleiðslu og pökkun súrmjólkur hætt á Sauðárkróki.Einnig kemur fram að framleiðsla á rifnum osti skuli flytjast á Sauðárkrók oghjá mjólkursamlagi Kaupfélags Skagfirðinga verði lögð áhersla á framleiðslufastra osta og viðbits úr þeirri mjólkurfitu sem til falli við ostagerð.5Í B-hluta samkomulagsins, sem ber yfirskriftina„Framlegðarskipti mjólkurvara“, segir að aðilar séu sammála um aðframlegðarskipti verði framkvæmd milli fyrirtækjanna á grunni mjólkurvara oghráefnis. Um forsendur þeirra skipta segir að gert sé ráð fyrir aðverðtilfærsla mjólkurvara verði aflögð, bæði lögbundin tilfærsla ogverðtilfærsla Samtaka afurðamiðstöðva í mjólkuriðnaði sem framkvæmd hafi veriðsamkvæmt heimildarákvæðum búvörulaga. Þó sé í byrjun gert ráð fyrir innheimtuog útgreiðslu lögbundinnar verðtilfærslu. Síðan segir: „Áhrif þessararáðstafana á KS og MS eru að KS fer úr því að hafa 25 millj. kr. í tekjur vegnaverðtilfærslu árlega (verðtilfærslutekjur – verðtilfærslugjöld), í að þurfa aðgreiða árlega 31 millj. kr. í verðtilfærslu. Breytingin nemur því um 56 millj.kr. framlegðartap fyrir KS en að sama skapi jafnhá framlegðaraukning fyrirfyrir MS (sjá meðfylgjandi útreikninga). Þessi niðurstaða er að teknu tillititil þess að mjólkurpökkun og framleiðsla sýrðra vara færist til MS frá KS. Viðað framleiða eingöngu ost í stað ferskvara minnka [heildsölutekjur] KS um 47millj. kr. til [viðbótar] – eða samtals um 103 millj. kr. Áhrif breyttrarverkaskiptingar á aðra vörunotkun og sölu- og dreifingarkostnað nemur um 62millj. kr lægri kostnað fyrir KS en að sama skapi sömu upphæð hærri fyrir MS.Nettóáhrif þessara breytinga vegna verkaskiptingar og verðtilfærslubreytinganemur því (103 – 62) = 41 millj. kr. Þennan mismun þarf því að leiðrétta auk 24millj. kr. viðbót vegna skiptingu framlegðar vegna verkaskiptingu á markaði.“ 6Í samkomulaginu segir næst undir yfirskriftinni „Magnhrámjólkur frá MS til KS og verðlagning þess“: „Til að mæta [framlegðartapi] KS(samsvarandi framlegðaraukningu MS) vegna breytinga í verkaskiptingu ogverðtilfærslu svo og sem lið í framlegðarútjöfnun, skal framkvæma eftirfarandi:1. MS ehf. skal selja KS sem nemur allt að 3,5 millj. ltr af mjólk á ársgrunni.2. Verðlagning mjólkurinnar skal taka mið af skráðu lágmarksverðiVerðlagsnefndar búvöru fyrir meðalmjólk (afurðastöðvaverð). Ofan á skráðlágmarksverð skulu bætast lítratengd sjóðagjöld (Lögbundin verðtilfærsla ogVerðmiðlunarsjóðsgjald meðan lagaskylda er til staðar). Ekki skal leggja fastálag ofan á framangreint verð mjólkurinnar eins og tíðkast hefur skv.[ákvörðun] SAM. Á sama hátt skal verðleggja hráundanrennu og hrárjóma í[viðskiptum] aðila, ef til þeirra kemur. 3. Kostnaður af flutningi hráefnismilli aðila (viðbótarkostnaður umfram söfnunarkostnað mjólkur) skal skiptastjafn milli aðila (50/50). Kostnaður skal reiknast skv. samtals eknum km. íhverjum mánuði með hráefni milli aðila.“ Í samkomulaginu kemur síðan fram að afskráðu heildsöluverði mjólkurvara skuli innheimta 10% söluþóknun í viðskiptummilli aðila.7Gerð var breyting á framangreindu samkomulagi með samningi26. febrúar 2009 þar sem hámark var sett á söluþóknun til áfrýjanda. Uppfærtsamkomulag um verkaskiptingu og framlegð var síðan gert 2. mars 2010 þar semhámarkið á söluþóknun var hækkað. Frekari breytingar voru gerðar ásamkomulaginu síðar það sama ár og meðal annars var árlegt magn hrámjólkur semáfrýjandi seldi Kaupfélagi Skagfirðinga fastsett 3,5 milljónir lítra, sem áðurvar hámark þeirra viðskipta. Í málinu liggja fyrir frekari gögn um endurskoðunog uppgjör samkomulagsins sem til samræmis við efni þess var ætlað að miða aðjöfnun framlegðar. Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála segir aðleiðréttingarnar hafi einkum farið fram á þann hátt að umboðslaun tilsamningsaðila hafi verið leiðrétt eftir því sem efni hafi staðið til. Fleiriaðferðir hafi þó verið notaðar. Leiðréttingarnar hafi farið fram á grundvelliýmissa reikningslegra gagna málsins, meðal annars tölvupóstum milliforsvarsmanna aðila, og endað að lokum með einhvers konar samkomulagi milliþeirra. Hinn 2. október 2014, í kjölfar fyrri ákvörðunar stefnda í málinu,gerðu áfrýjandi og Kaupfélag Skagfirðinga með sér nýjan samstarfssamning semekki er til umfjöllunar hér. 8Fyrir Landsrétti óskaði áfrýjandi dómkvaðningar matsmanns tilað leggja mat á eftirfarandi: „1. Hvort Kaupfélag Skagfirðinga hafi viðverkaskiptingu samkvæmt svonefndu Framlegðar- og verkaskiptasamkomulagi frá 15.júlí 2008 látið frá sér sölu á vörum sem voru með hærri framlegð og tekið viðframleiðslu vara með lægri framlegð? 2. Að frádreginni millisölu á hráefnum ogfullunnum vörum, hver var framlegð 1 af vinnslu mjólkur á tímabilinu 2008 –2013 hjá annars vegar Kaupfélagi Skagfirðinga og hins vegar [áfrýjanda] afeigin framleiðslu?“ Var Ingvar Garðarsson, löggiltur endurskoðandi, dómkvaddurtil að framkvæma umbeðið mat. Skilaði hann matsgerð 26. júní 2019 og gafskýrslu við aðalmeðferð málsins. Líkt og rakið er í ákvörðun stefnda erframlegð 1 skilgreind af áfrýjanda sem sölutekjur að frádregnu hráefni, umbúðumog hjálparefnum. 9Í svari við fyrri matsspurningunni framkvæmdi matsmaðurinnsamanburð á áætlaðri framlegð fyrir og eftir samkomulagið miðað við árið 2007annars vegar og árið 2010 hins vegar. Um fyrrnefnda árið var komist aðeftirfarandi niðurstöðu: „Miðað við framlegð 1 á hverja einingu eins og hún vará árinu 2007 og óbreytt magn af móttekinni og keyptri mjólk til vinnslu, þáhefði heildarframlegð KS aukist um 23 milljónir króna vegnaverkaskiptasamkomulagsins þegar áhrif þess voru að fullu komin fram.“ Um árið2010 var hins vegar komist að eftirfarandi niðurstöðu: „Miðað við framlegð 1 áhverja einingu eins og hún var á árinu 2010 og ef KS hefði unnið úr sama magniaf móttekinni og keyptri mjólk til vinnslu á árinu 2007 eins og það gerði á árinu2010, þá hefði heildarframlegð KS lækkað um 145 milljónir króna vegnaverkaskiptasamkomulagsins þegar áhrif þess voru að fullu komin fram.“ Íkaflanum „Ígrundun“ segir síðan meðal annars um matsspurninguna: „Það erniðurstaða matsmanns að KS tapaði heildarframlegð á verkaskiptasamkomulaginu oger tapið áætlað 145 milljónir króna miðað við vinnslumagn, verðlag og framlegðeinstakra vara eins og það var eftir að áhrif verkaskiptasamkomulagsins voru aðfullu fram komin árið 2010. Í þessari niðurstöðu felst að matsmaður líturframhjá orðinu „voru“ í matsspurningunni. Þetta orð vísar til fortíðar og gefurtil kynna að spurningin vísi til framlegðar einstakra vara eins og hún varfyrir verkaskiptasamkomulagið. Er þá nærtækast að líta til ársins 2007 og gaumgæfaáhrif samkomulagsins á heildarframlegð KS miðað við magn, verðlag og framlegð áhverja einingu eins og hún var á þeim tíma. Á þann mælikvarða nam ávinningur KS23 milljónum króna. Matsmaður lítur svo á að matsspurningin vísi til þess semraunverulega gerðist, frekar en þeirra væntinga sem aðilar samkomulagsins hefðumögulega getað haft til ávinnings af því, ef þeir hefðu með nákvæmum hættigetað séð fyrir hvernig eftirspurn eftir einstökum vörum myndi þróast fram tilársins 2010.“ 20Í svari við síðari matsspurningunni er sett fram tafla umframlegð áfrýjanda annars vegar og Kaupfélags Skagfirðinga hins vegar. Kemurþar meðal annars fram að ætluð framlegðarprósenta áfrýjanda án viðskipta viðKaupfélag Skagfirðinga hafi verið 36,45% fyrir árið 2007, 34,53% 2008, 32,10%2009, 34,56% 2010, 34% 2011, 35,61% 2012 og 34,62% 2013. Áætluðframlegðarprósenta Kaupfélags Skagfirðinga hafi hins vegar verið 30,21% fyrirárið 2007, 34,44% 2008, 31,23% 2009, 35,42% 2010, 32,56% 2011, 33,23% 2012 og32,51% 2013.21Um málsatvik vísast að öðru leyti til hins áfrýjaðadóms. Málsástæður aðila22Áfrýjandi byggir þá kröfu sína, að kröfum stefnda verði vísaðfrá dómi, í meginatriðum á því að stefnda skorti heimild til að skjóta málinutil dómstóla. Þá feli sú krafa stefnda, að áfrýjanda verði gert að greiða440.000.000 króna sekt í ríkissjóð, í sér að dómstólar taki nýjastjórnvaldsákvörðun en það fái ekki samrýmst meginreglu stjórnskipunarréttar.Varakröfu um sýknu af nefndum kröfum stefnda byggir áfrýjandi einkum á því aðsá verðmunur sem málið lúti að hafi verið liður í samkomulagi og samstarfiáfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga sem heimilt hafi verið samkvæmt 71. gr.búvörulaga. Þá teldist verðlagning áfrýjanda ekki fela í sér mismunun samkvæmtc-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga jafnvel þótt greinin yrði talin eiga við.Kröfu sína um ógildingu niðurstöðu um brot gegn 19. gr. samkeppnislaga byggiráfrýjandi á því að hann hafi aldrei vanrækt upplýsingaskyldu sína. Ef taliðverði að brotið hafi verið gegn 11. og/eða 19. gr. samkeppnislaga beri að fellaniður sektir eða ákveða þær mun lægri en stefndi hafi gert og krefjist. 23Stefndi byggir einkum á því að áfrýjanda hafi ekki veriðheimilt að selja ótengdum keppinautum hrámjólk á hærra verði en hans eiginframleiðsludeild annars vegar og tengdir keppinautar hins vegar hafi þurft aðgreiða fyrir slíka mjólk. Þetta hafi falið í sér brot gegn 11. gr.samkeppnislaga og ákvæði búvörulaga breyti því ekki. Þá hafi áfrýjandi brotiðgegn 19. gr. samkeppnislaga með því að upplýsa ekki um framlegðar- ogverkaskiptasamkomulag hans og Kaupfélags Skagfirðinga fyrr en eftir að stefnditók fyrri ákvörðun sína í málinu. Ekki sé ástæða til þess að fella niður eðalækka þær sektir sem stefndi hafi ákvarðað og dæmdar hafi verið í hinumáfrýjaða dómi. 24Um nánari málsástæður aðila vísast til hins áfrýjaða dóms ogþess sem á eftir greinir.Niðurstaða 25Samkvæmt framangreindu lýtur deila aðila að því hvortáfrýjandi hafi brotið gegn 11. og 19. gr. samkeppnislaga og skuli gerðstjórnvaldssekt af þeim sökum. Stefndi taldi áfrýjanda hafa brotið gegn báðumákvæðunum og gerði honum að greiða 440.000.000 króna vegna brots á 11. gr.laganna og 40.000.000 króna vegna brots á 19. gr. þeirra. Áfrýjunarnefndsamkeppnismála felldi fyrrgreindu niðurstöðuna úr gildi en staðfesti þásíðargreindu. Mál þetta var höfðað í því skyni að fá úrskurðiáfrýjunarnefndarinnar hnekkt, af hálfu áfrýjanda til að fá breytt niðurstöðunnium brot gegn 19. gr. samkeppnislaga en af hálfu stefnda til að fá breytt þeirriniðurstöðu að ekki hefði verið brotið gegn 11. gr. sömu laga. Með hinumáfrýjaða dómi var fallist á kröfur stefnda.Um frávísunarkröfuráfrýjanda26Sú meginregla gildir í stjórnsýslurétti að lægra settstjórnvald getur því aðeins hlutast til um að fá úrskurði æðra settsstjórnvalds hnekkt að fyrir hendi sé ótvíræð lagaheimild fyrir stjórnvaldið tilað skjóta deiluefninu til dómstóla, sbr. dóm Hæstaréttar 22. september 1998 ímáli nr. 297/1998 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 2821. Með4. gr. laga nr. 14/2011 var slík heimild fyrir stefnda lögfest í 41. gr.samkeppnislaga. Þar segir nú í 1. málslið að vilji aðili, þar með taliðSamkeppniseftirlitið, ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar geti hann höfðað máltil ógildingar hans fyrir dómstólum. Í skýringum við 4. gr. í frumvarpi því semvarð að lögum nr. 14/2011 segir meðal annars að sú staðreynd að stefndi hafiekki málskotsrétt til dómstóla takmarki möguleika hans til þess að gætahagsmuna almennings í samkeppnismálum. Hlutverk hans sé meðal annars að verndaþá lögvörðu almannahagsmuni sem felist í virkri samkeppni og því óeðlilegt að hanngeti ekki gætt þeirra hagsmuna til sóknar fyrir dómstólum. Mikilvægt sé að stefndigeti, eftir atvikum, varið fyrir dómstólum niðurstöðu ákvarðana sinna semáfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur ógilt eða breytt. Þar segir einnig aðmikilvægt sé að stefndi geti borið úrskurði áfrýjunarnefndarinnar undirdómstóla.27Með málsókn sinni bar stefndi úrskurð áfrýjunarnefndarsamkeppnismála undir dómstóla að því leyti sem þar var felld úr gildiniðurstaða stefnda um að áfrýjandi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga ogsekt sem stefndi lagði á hann af þeim sökum. Til þessa hafði stefndi ótvíræðaheimild samkvæmt framangreindu ákvæði í 41. gr. samkeppnislaga og eru því enginefni til frávísunar á þeim grunni að slíka heimild hafi skort. Þá erdómaframkvæmd Hæstaréttar skýr um að dómstólar fara með fullt endurskoðunarvaldá úrlausnum samkeppnisyfirvalda, þar á meðal á niðurstöðu þeirra um sektir, enfyrir liggja fjölmargir dómar þar sem sektarfjárhæðum samkeppnisyfirvalda hefurverið breytt og þannig vikið frá meginreglunni um að dómstólar geti aðeinsógilt ákvarðanir stjórnvalda en ekki tekið aðrar efnislegar ákvarðanir ístaðinn. Er þetta og í samræmi við framangreinda umfjöllun í lögskýringargögnum.Í þessu sambandi má meðal annars benda á dóma Hæstaréttar 2. október 2008 ímáli nr. 640/2007 og 9. febrúar 2012 í máli nr. 205/2011, svo og dómLandsréttar 14. júní 2019 í máli nr. 490/2018. Sú sérstaða er þó uppi í þvímáli sem hér er til úrlausnar að krafa stefnda lýtur að því að lögð verði ásekt vegna brots sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála taldi ekki vera fyrir hendiog tók því ekki ákvörðun um stjórnvaldssekt. Til þess er hins vegar að líta aðstefndi hafði áður komist að niðurstöðu um brot gegn 11. gr. samkeppnislaga oglagt á 440.000.000 króna sekt vegna þess. Fyrsta krafa stefnda er um ógildinguá þeim hluta úrskurðar áfrýjunarnefndarinnar sem felldi nefnda niðurstöðustefnda úr gildi. Afleiðing slíkrar ógildingar væri óhjákvæmilega sú aðákvörðun stefnda stæði og krafa stefnda um greiðslu fyrrnefndrar fjárhæðarfelur í sér að niðurstaðan verði sú sem þar greindi. Með þessu leitast stefndivið að verja fyrir dómstólum niðurstöðu ákvörðunar sinnar, að því marki semáfrýjunarnefndin ógilti hana, og koma á því ástandi sem í ákvörðuninni fólst.Verður samkvæmt þessu hvorki talið að fyrrgreind meginregla um að dómstólartaki ekki stjórnvaldsákvarðanir né 41. gr. samkeppnislaga leiði til frávísunará kröfu stefnda um að áfrýjandi greiði 440.000.000 króna í ríkissjóð. DómurHæstaréttar 1. desember 2011 í máli nr. 116/2011 breytir ekki þeirri niðurstöðuen í því sambandi er meðal annars til þess að líta að það mál laut aðformannmarka, þar sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafði hvorki rannsakaðmálið nægilega né fullnægt lágmarkskröfum um rökstuðning. Enginn slíkurformannmarki telst vera fyrir hendi í þessu máli heldur lúta álitaefnin að þvíhvort áfrýjunarnefndin hafi komist að efnislega réttri niðurstöðu. Standa enginrök til annars en að dómstólar leiði málið til lykta.Um tengsl samkeppnislaga ogbúvörulaga28Deila aðila um hvort áfrýjandi hafi brotið gegn 11. gr.samkeppnislaga snýst að verulegu leyti um skil samkeppnislaga annars vegar ogbúvörulaga nr. 99/1993 hins vegar. Líkt og áður er rakið hófst málið með því aðáfrýjandi var í desember 2012 krafinn skýringa á mismunandi verði á hrámjólksamkvæmt reikningum til Mjólkurbúsins Kú ehf. annars vegar og Mjólku II hinsvegar, en lítraverð samkvæmt fyrrgreinda reikningnum var 90,74 krónur en 77,69krónur samkvæmt þeim síðargreinda. Rannsókn stefnda leiddi í ljós að átímabilinu 2008 til 2013 þurfti Mjólka I og síðan Mjólkurbúið Kú ehf. að greiðaallt að 17% hærra verð fyrir hrámjólkina en Kaupfélag Skagfirðinga og Mjólka II,en verðið til hinna síðargreindu var það sama og hið opinbera lágmarksverð tilmjólkurbænda. Framangreind atriði eru óumdeild en deilt er um hvort þau hafifalið í sér brot gegn 11. gr. samkeppnislaga. Stefndi telur svo vera enáfrýjandi ekki og byggir einkum á því að hin mismunandi verðlagning hafi veriðheimil samkvæmt 71. gr. búvörulaga þar sem hún hafi byggt á samkomulagiafurðastöðva um verkaskiptingu. 29Áður er rakið efni þess framlegðar- og verkaskiptasamkomulagssem áfrýjandi og Kaupfélag Skagfirðinga gerðu með sér 15. júlí 2008. Varsamkomulaginu samkvæmt 1. gr. ætlað að „stuðla að jöfnun framlegðar millimjólkurvara“ í þeim tilgangi „að þeir lögaðilar sem standa að eignarhaldi ogrekstri MS ehf., hafi sambærilega rekstrarafkomu við vinnslu mjólkur, óháðþeirri verkaskiptingu afurðastöðva eins og hún kann að verða ákveðin hverjusinni“. Bera samkomulagið sjálft, síðari breytingar á því og gögn um uppgjörvegna þess með sér að ætlun samningsaðila hafi verið að jafna framlegð á milliáfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga hlutfallslega, þannig að heildarframlegðþeirra af framleiðslu og sölu mjólkurafurða yrði sem jöfnust í prósentum talið.Fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála var áfrýjandi til að mynda inntur eftir þvíhvort það væri réttur skilningur á málatilbúnaði hans að tilgangursamkomulagsins hafi verið „að jafna almennt og ótímabundið hlutfallslegaframlegð (framlegð 1) á milli KS og MS við framleiðslu og sölu mjólkurvara“.Svaraði hann þessu játandi og tók fram að samkomulaginu „hafi verið ætlað aðtryggja að aðilar hefðu sem jafnasta hlutfallslega framlegð (1) af hverjuminnvegnum mjólkurlítra“. Í þessu fólst í reynd að sá sem lægri framlegð fengiskyldi fá greiðslu frá þeim sem hærri framlegð hefði til að jafna framlegðþeirra á hverju uppgjörstímabili. Byggir áfrýjandi á því að verðið semKaupfélag Skagfirðinga greiddi fyrir hrámjólkina hafi þannig verið liður í aðbæta félaginu framlegðartap sem það hafi orðið fyrir vegna verkaskiptingarþeirra og því verið liður í samkomulagi sem undanskilið sé samkeppnislögumsamkvæmt 71. gr. búvörulaga. 30Núgildandi 71. gr. búvörulaga var sett með lögum nr. 85/2004,sem breytti auk þess 3. mgr. 13. gr. laganna, sem eftir setningu laga nr.102/2016 er í 4. mgr. greinarinnar. Í síðarnefnda ákvæðinu segir að þrátt fyrirákvæði samkeppnislaga sé afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að gera samningasín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Leggja skuli slíkasamninga fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar. Í 71. gr. segir að þrátt fyrirákvæði samkeppnislaga sé afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að sameinast,gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðarframleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf tilþess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingumjólkurafurða. 31Forsaga framangreindra ákvæða búvörulaga er sú að í 59. gr.laganna, sem fram til setningar laga nr. 46/2015 báru heitið lög umframleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sagði, eftir endurútgáfu lagannasamkvæmt lögum nr. 112/1992: „Framleiðsluráði landbúnaðarins og afurðastöðvum ímjólkuriðnaði er heimilt að gera samkomulag um verkaskiptingu millimjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara fyririnnlendan og erlendan markað. Í slíku samkomulagi er heimilt að kveða á umverðtilfærslu til að jafna framlegð mismunandi framleiðslutegunda á millimjólkurbúa. Fimmmannanefnd getur gripið inn í verðtilfærslu milli afurða teljihún það nauðsynlegt. Verðtilfærsla má aldrei verða hærri fjárhæð en sem svararhráefnisverði hverrar afurðar. Samkomulagið öðlast ekki gildi fyrr enlandbúnaðarráðherra hefur staðfest það.“ Með lögum nr. 69/1998 var svohljóðandiákvæði tekið upp í 3. mgr. 13. gr. laganna: „Verðlagsnefnd getur, að fengnumtillögum afurðastöðva eða samtaka þeirra, heimilað afurðastöðvum að gerasamninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Samningar þessirskulu hljóta staðfestingu verðlagsnefndar.“ Í greinargerð með því frumvarpi semvarð að lögum nr. 69/1998 sagði að síðastnefnt ákvæði væri efnislega samhljóða59. gr. gildandi laga sem heimilaði samninga milli Framleiðsluráðslandbúnaðarins og afurðastöðva í mjólkuriðnaði „er kveði á um verðtilfærslu tilað jafna framlegð mismunandi framleiðslutegunda milli mjólkurbúa“. Samhliðaupptöku ákvæðisins í 3. mgr. 13. gr. var 2. til 4. málsliður 59. gr. þvífelldur úr gildi. Með lögum nr. 112/1999 var Framleiðsluráð landbúnaðarinstekið út úr 59. gr., sem eftir það hljóðaði í heild sinni svo: „Afurðastöðvum ímjólkuriðnaði er heimilt að gera samkomulag um verkaskiptingu millimjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara fyririnnlendan og erlendan markað. Samkomulagið öðlast ekki gildi fyrr enlandbúnaðarráðherra hefur staðfest það.“ Þannig stóðu 3. mgr. 13. gr. og 71.gr. laganna þar til lög nr. 85/2004 færðu þau í fyrrnefnt og núgildandihorf. 32Samkvæmt greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr.85/2004 var því ætlað að „eyða þeirri réttaróvissu sem skapast hefur um aðgildandi búvörulög, nr. 99/1993, tryggi ekki með nægjanlegri vissu að samráð,samruni og verðtilfærsla í mjólkuriðnaði sé undanskilið gildissviðisamkeppnislaga í samræmi við ætlan löggjafans“. Lagaákvæði sem feli í sérfrávik frá almennum reglum beri jafnan að túlka þröngt. Í þessu felist að faraberi varlega þegar lagður sé sá skilningur í lagaákvæði að þau undanskiljitiltekna þætti í atvinnustarfsemi gildissviði samkeppnislaga og þar meðíhlutunarvaldi samkeppnisyfirvalda. Því þurfi með skýrum lagatexta að lögfestavilja löggjafans til þess að undanskilja ákveðna þætti landbúnaðarinsgildissviði samkeppnislaga. Í greinargerðinni segir og að með þeim breytingumsem felist í frumvarpinu sé verið að styrkja grundvöll til hagræðingar ogtryggja að sú hagræðing njóti enn um sinn undanþágu frá gildissviði samkeppnislagasé það gert í þeim tilgangi að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu ogdreifingu mjólkurafurða. 33Framangreind löggjafarsaga ber ekki með sér að búvörulögundanskilji samkomulag, af þeim toga sem áfrýjandi og Kaupfélag Skagfirðingagerðu með sér, samkeppnislögum á þann hátt að ekki komi til athugunar hvort áfrýjandihafi brotið gegn 11. gr. síðarnefndu laganna í málinu. Samkomulagið fól líkt ogað framan greinir í sér hlutfallslega jöfnun á framlegð fyrirtækjanna. Hvorki í4. mgr. 13. gr. né 71. gr. búvörulaga er vikið að slíkri jöfnun framlegðar. Ígreinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 69/1998 er að vísu vikið aðjöfnun framlegðar en þá í tengslum við heimildina til verðtilfærslu, semfærðist með þeim lögum í 3. mgr. 13. gr. og er nú í 4. mgr. sömu greinar.Jöfnunin sem í samkomulaginu fólst getur ekki talist til slíkrar verðtilfærsluenda er þannig færsla annars eðlis og felur í sér verðtilfærslu á millitiltekinna afurða en ekki hlutfallslega jöfnun á framlegð fyrirtækja. Eftirstendur þá hvort nefnd jöfnun falli undir 71. gr. búvörulaga. Þar er sem fyrrsegir hvergi minnst á jöfnun framlegðar og ekki heldur í lögskýringargögnum meðgreininni eins og hún hefur verið síðan verðtilfærsluhluti hennar færðist í 3.mgr. og síðan 4. mgr. 13. gr. Í ljósi framangreinds verður að telja nærtækastað skýra ákvæðin í samhengi svo að hyggist afurðastöðvar jafna framlegð vegnasamkomulags um verkaskiptingu skuli það gert með verðtilfærslu samkvæmt 4. mgr.13. gr. búvörulaga. Það var ekki gert samkvæmt framansögðu. 34Lögskýringargögn með lögum nr. 85/2004 benda ekki í aðra átt.Markmið þess frumvarps sem varð að lögunum var að tryggja að „samráð, samruniog verðtilfærsla“ í mjólkuriðnaði væru undanskilin gildissviði samkeppnislaga.Fyrstnefndu tvö atriðin vísa nokkuð skýrlega til þess að sameiningar ogsamstarf sem búvörulög heimila skuli vera undanskilin reglum samkeppnislaga umsamráð og samruna á meðan hið síðastnefnda vísar til þess að það samkomulag umverðtilfærslu, sem 3. mgr. 13. gr. heimili, sé undanskilið reglumsamkeppnislaga. Ekkert í frumvarpinu vísar sérstaklega til undanþágu frá 11.gr. laganna og gögn sem tengjast aðdraganda lagasetningarinnar benda fremur ígagnstæða átt. Þá er sem fyrr segir ekkert í lögskýringargögnum með þvífrumvarpi sem varð að lögunum sem rennir stoðum undir að jöfnun framlegðar afþeim toga sem margnefnt samkomulag miðaði að hafi verið undanskiliðsamkeppnislögum. Eins er þess að gæta að eitt er að hafa heimild til aðsameinast, hafa með sér verkaskiptingu og samstarf og semja um verðtilfærslur átilteknum vörum, en annað að hafa heimild til þess að semja um hlutfallslegajöfnun á framlegð fyrirtækja. Rök áfrýjanda um að stefndi hafi með nánartilteknum ummælum í ákvörðun sinni viðurkennt að framlegðarskipti geti veriðsamrýmanleg 71. gr. búvörulaga og sé bundinn af þeirri afstöðu eru haldlausenda geta þau engu breytt um heimild dómstóla til skýringar umræddra ákvæða aukþess sem afstaða stefnda var ótvírætt sú frá upphafi að undanþága ákvæðisinsætti ekki við um hið umdeilda samkomulag. 35Til viðbótar því sem hér hefur verið rakið, um heimildir tilsamkomulags um hlutfallslega jöfnun framlegðar fyrirtækja, er til þess að lítaað eigi verðlagning sú sem á reynir að falla utan samkeppnislaga nægir ekki aðbúvörulög hafi undanskilið samkomulagið sem slíkt, heldur þurfa þau að hafaundanskilið verðlagninguna sjálfa, þar sem áfrýjandi seldi ótengdum aðilumhrámjólk á mun hærra verði en Kaupfélagi Skagfirðinga og Mjólku II. Í þvísambandi er þess að gæta að jafnvel þótt heimild til að semja um hlutfallslegajöfnun á framlegð fyrirtækja teldist fyrir hendi myndi það ekki leiða til þessað allt sem af þeirri jöfnun og framkvæmd hennar hlytist gæti ekki talist tilbrots gegn 11. gr. samkeppnislaga. Ljóst er að verðið til annarra en KaupfélagsSkagfirðinga og Mjólku II gæti aldrei talist undanþegið samkeppnislögum vegna samkomulagsinsenda er það ótengt því. Sú ákvörðun áfrýjanda að selja Mjólku I og síðarMjólkurbúinu Kú ehf. hrámjólk, sem er ógerilsneydd, á sama verði og notað hafðiverið um gerilsneydda mjólk, sem er meira unnin vara, getur þannig á engan hátttalist þáttur í nefndu samkomulagi. Þá verður að telja mjög óljóst hvernig sáþáttur samkomulagsins, þar sem mælt var fyrir um sölu áfrýjanda á allt að 3,5milljónum lítra hrámjólkur til Kaupfélags Skagfirðinga á því lágmarksverði semgilti um kaup frá bændum, taldist nauðsynlegur vegna þeirrar verkaskiptingarsem samkomulagið kvað á um. Í þeim efnum má vísa til þess sem áður er rakið aðmatsmaðurinn, sem áfrýjandi fékk dómkvaddan, komst meðal annars að þeirriniðurstöðu að miðað við forsendur á árinu 2007 hafi Kaupfélag Skagfirðinga haft23.000.000 króna ávinning af samkomulaginu. Af þessu og öðrum fyrirliggjandigögnum verður ekki séð hvernig nauðsyn gat staðið til þess árið 2008 að semjaum hina umfangsmiklu mjólkursölu milli aðila á lágmarksverðinu til bænda í þvískyni að bæta upp tapaða framlegð Kaupfélags Skagfirðinga vegnaverkaskiptingarinnar. Þá er það til marks um hina óljósu tenginguframangreindra kjara Kaupfélags Skagfirðinga við þá verkaskiptingu sem aðilartóku upp að tilgangur samkomulagsins var að tryggja aðilum þess „sambærilegarekstrarafkomu við vinnslu mjólkur, óháð þeirri verkaskiptingu“, sbr. 1. gr.samkomulagsins, og aðilar notuðu aðrar leiðir til að jafna framlegðina íuppgjörum sínum á milli á meðan hrámjólkurmagnið stóð svo til óbreytt. Loks verðurekki séð hvað í verkaskiptingu og samkomulagi aðila hafi kallað á að Mjólku IIyrði seld hrámjólk á sama verði. Þannig er óljóst hvaða tap Mjólku II afverkaskiptingu aðila var verið að bæta félaginu og raunar verður ráðið affyrirliggjandi samantekt áfrýjanda um framkvæmd samkomulagsins að ætlunin með þessulága verði til Mjólku II hafi verið að veita félaginu svigrúm til þess aðgreiða niður skuldir sínar, en þar segir orðrétt: „Mjólkurmagnið er takmarkaðvið um 600 þúsund [lítra] og þannig er Mjólku II tryggð nægileg afkoma til aðgreiða niður skuldir.“ 36Sem fyrr greinir var í frumvarpi því sem varð að lögum nr.85/2004 tekið fram að lagaákvæði sem feli í sér frávik frá almennum reglum berijafnan að túlka þröngt. Því beri að fara varlega þegar lagður sé sá skilningurí lagaákvæði að þau undanskilji tiltekna þætti í atvinnustarfsemi gildissviðisamkeppnislaga. Líkt og hér hefur verið rakið bera 4. mgr. 13. gr. og 71. gr.búvörulaga og lögskýringargögn með þeim ekki með sér að lögin undanskiljisamkomulag, af þeim toga sem áfrýjandi og Kaupfélag Skagfirðinga gerðu með sér,samkeppnislögum á þann hátt að ekki komi til athugunar hvort áfrýjandi hafibrotið gegn 11. gr. síðarnefndu laganna með þeirri háttsemi sem á reynir ímálinu. Þá gæti umrætt samkomulag raunar aldrei undanskilið nema hlutaháttseminnar, það er verðlagninguna til Kaupfélags Skagfirðinga og Mjólku II,og tengslin á milli þess verðs og þeirrar verkaskiptingar sem aðilar sömdu umeru í besta falli óljós. Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að nefndákvæði búvörulaga undanskilji þau atvik sem hér reynir á með nokkrum hættisamkeppnislögum. Verður því að meta hvort sú tvenns konar verðlagning, semmálið spratt af, hafi samræmst 11. gr. samkeppnislaga. Nánar um ætluð brotáfrýjanda gegn 11. gr. samkeppnislaga37Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. samkeppnislaga er misnotkun eins eðafleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu bönnuð. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 11. gr.getur misnotkun samkvæmt 1. mgr. meðal annars falist í því að viðskiptaaðilumsé mismunað með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaðaþeirra þannig veikt. 38Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála er rakið aðáfrýjandi sé eina fyrirtækið hér á landi sem selji öðrummjólkurvöruframleiðendum hrámjólk í heildsölu, ásamt því að nýta hana til eiginframleiðslu. Áfrýjandi sé talinn taka við 90% af þeirri hrámjólk sem bændurframleiði. Enginn vafi er á því að áfrýjandi var í markaðsráðandi stöðu, sbr.4. tölulið 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga, líkt og stefndi byggði á í ákvörðunsinni, svo og bæði meirihluti og minnihluti áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Berasamtímagögn raunar með sér að áfrýjanda hafi verið þetta ljóst. 39Sem fyrr greinir seldi áfrýjandi Kaupfélagi Skagfirðinga ogMjólku II hrámjólk á allt að 17% lægra verði en öðrum aðilum. Var sama vara þvíseld ólíkum aðilum á mjög mismunandi verði. Þessi háttsemi veikti ótvírættsamkeppnisstöðu þeirra sem hærra verðinu sættu, sem voru í samkeppni viðKaupfélag Skagfirðinga, Mjólku II og áfrýjanda sjálfan við sölu mjólkurafurða.Í því sambandi er þess að gæta að hrámjólk er undirstöðuhráefni við vinnslu mjólkurafurðaog mikill verðmunur á henni augljóslega til þess fallinn að hafa áhrif ásamkeppnisrekstur fyrirtækis sem borga þarf hærra verð fyrir hana. Líkt og áðurer rakið réttlætist verðmunurinn ekki af ákvæðum búvörulaga og ekki verðurtalið að fyrir hendi séu aðrar hlutlægar ástæður sem réttlæti hann, ensönnunarbyrði fyrir því að slíkar ástæður séu fyrir hendi hvílir á áfrýjanda.Samkvæmt þessu verður að telja að með hinum mismunandi kjörum hafi áfrýjandi,sem markaðsráðandi fyrirtæki, mismunað viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum ísams konar viðskiptum, veikt þannig samkeppnisstöðu þeirra og með því brotiðgegn c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga. Ekki er talin þörf á að fjallasérstaklega um verðlagningu áfrýjanda til sinnar eigin framleiðsludeildar, semstefndi hefur lagt áherslu á fyrir Landsrétti, enda er ljóst að viðsektarákvörðun stefnda vegna brotsins, sem afstaða er tekin til hér á eftir,var ekki litið til þeirrar háttsemi.Um ætluð brot áfrýjandagegn 19. gr. samkeppnislaga40Deila aðila um hvort áfrýjandi hafi brotið gegn 19. gr.samkeppnislaga snýst um hvort brot hafi falist í því að leggja ekki frammargnefnt samkomulag áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga frá 2008, og önnurgögn sem því tengjast, fyrr en eftir að stefndi tók fyrri ákvörðun sína ímálinu. 41Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. samkeppnislaga getur stefndi krafiðfyrirtæki sem lögin taka til um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja viðathugun einstakra mála. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflegaog skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem stofnunin setur. Þá kemur fram í2. mgr. sömu greinar að stefndi geti með sömu skilyrðum og í 1. mgr. krafistþess að fá gögn afhent til athugunar og skulu þau þá afhent innan hæfilegsfrests sem stofnunin setur.42Óumdeilt er að stefndi fór aldrei með beinum hætti fram á aðhonum yrði afhent nefnt samkomulag. Tildrög málsins voru á hinn bóginn þau aðstefndi leitaði eftir því að áfrýjandi skýrði ástæður hinnar mismunandiverðlagningar til Mjólku II annars vegar og Mjólkurbúsins Kú ehf. hins vegar.Áfrýjandi setti fram skýringar og að þeim fengnum leitaði stefndi ýmissaupplýsinga og gagna en samkomulagið var ekki lagt fram fyrr en með kæru tiláfrýjunarnefndar samkeppnismála. Af málatilbúnaði áfrýjanda er þó ljóst að hanntelur samkomulagið vera það grundvallargagn sem skýri og réttlæti hinamismunandi verðlagningu. Af þessu leiddi að stefndi leysti úr málinu fyrrasinnið án þess að fyrir lægi það gagn sem áfrýjandi sjálfur telur mestu skiptavið skýringu á þeim verðmun sem hann var spurður um í upphafi. Augljóst er aðstefndi gat ekki óskað eftir afhendingu samkomulagsins eða tengdra gagna, semhann vissi ekki að væri til, og áfrýjanda, sem líkt og fyrr greinir ermarkaðsráðandi fyrirtæki, mátti vera fulljóst að með því að leggja ekki framþað gagn sem hann sjálfur telur skýra verðmuninn væri hann að torvelda rannsóknmálsins. Verður í ljósi þessa að telja að í þessari háttsemi áfrýjanda hafifalist brot gegn 19. gr. samkeppnislaga.Um sektarákvarðanir43Með ákvörðun sinni lagði stefndi 440.000.000 krónastjórnvaldssekt á áfrýjanda fyrir brot gegn 11. gr. samkeppnislaga og40.000.000 króna stjórnvaldssekt fyrir brot gegn 19. gr. sömu laga.Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti síðarnefndu sektina en felldi hinafyrrnefndu úr gildi, sem minnihluti nefndarinnar vildi staðfesta. 44Samkvæmt því sem að framan er rakið er fallist á það meðstefnda, öndvert niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála, að áfrýjandi hafibrotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 37. gr. lagannaleggur stefndi stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn banni samkvæmt 11.gr. þeirra. Það gerði stefndi með ákvörðun sinni á grundvelli þeirra sjónarmiðasem fram koma í 2. mgr. 37. gr., en þar segir í 3. málslið að við ákvörðun áfjárhæð sekta skuli hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota, hvað brot hafistaðið lengi og hvort um ítrekað brot sé að ræða. Þá kemur fram í 1. málsliðsömu málsgreinar að sektir geti numið allt að 10% af heildarveltu síðastarekstrarárs hjá hverju því fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja sem aðild eiga aðbroti. 45Fjárhæð þeirrar stjórnvaldssektar sem stefndi lagði á erlangt innan þeirra 10% marka sem greinir í síðastgreindu ákvæði. Þá verður ekkitalið að þær forsendur sem litið var til við ákvörðun sektarfjárhæðarinnar hafiverið rangar eða ómálefnalegar. Telja verður brot áfrýjanda gegn 11. gr.samkeppnislaga alvarlegt auk þess sem það stóð lengi og var augljóslega mjögtil þess fallið að raska samkeppnisstöðu. Þá laut það að mikilvægri neysluvöruog snerti á þann hátt allan almenning í landinu. Þegar litið er tilframangreindra atriða verður áfrýjanda gert að greiða stjórnvaldssekt aðfjárhæð 440.000.000 króna, eins og ákveðið var í ákvörðun stefnda og hinumáfrýjaða dómi. 46Stjórnvaldssektin sem stefndi lagði á vegna brots gegn 19.gr. samkeppnislaga byggðist ekki eingöngu á því að framlegðar- ogverkaskiptasamkomulagið hefði ekki verið lagt fram heldur einnig á því aðáfrýjandi hefði ranglega sagt í bréfi frá 13. febrúar 2013 að KaupfélagSkagfirðinga hefði fært sig úr framleiðslu á vörum með hærri framlegð í vörurmeð lægri framlegð. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála féllst ekki á að hiðsíðarnefnda teldist brot gegn 19. gr. samkeppnislaga en staðfesti engu að síðurþá 40.000.000 króna stjórnvaldssekt sem stefndi lagði á vegna brota ágreininni. Þrátt fyrir að áfrýjunarnefndin hafi þannig ekki talið nema annaðatriðið sem stefndi byggði á að þessu leyti til brots gegn 19. gr. er ljóst aðhún taldi það brot eitt og sér það alvarlegt að það réttlætti sömusektarfjárhæð og stefndi hafði ákvarðað fyrir bæði brotin. Á þá niðurstöðuverður fallist enda fólst í brotinu að markaðsráðandi fyrirtæki, sem krafið varskýringa á ástæðum verðmismunar sem var fyrir hendi, lagði ekki fram helstagagnið sem það telur skýra verðmuninn fyrr en eftir að stefndi hafði tekiðákvörðun í málinu. Eru því engin efni til að ákveða lægri stjórnvaldssekt vegnaþessa brots en ákveðin var í úrlausnum samkeppnisyfirvalda. 47Önnur sjónarmið sem áfrýjandi hefur fært fram í málinu getaekki leitt til þess að kröfur hans verði teknar til greina. Verður samkvæmtþessu fallist á kröfu stefndu um staðfestingu hins áfrýjaða dóms, þar á meðalum málskostnað. 48Þótt forsendur hins áfrýjaða dóms beri með sér að kröfuáfrýjanda á hendur stefnda íslenska ríkinu sé hafnað þá er sýknu af þeirrikröfu ekki getið í dómsorði auk þess sem ekki er tekin afstaða tilmálskostnaðarkröfu stefnda íslenska ríkisins á hendur áfrýjanda. Ekki þykir þónægilegt tilefni til ómerkingar hins áfrýjaða dóms af þessum sökum eða tilbreytinga á dómsorði, meðal annars í ljósi þeirrar afstöðu stefnda íslenskaríkisins hér fyrir dómi að krefjast engu að síður staðfestingar hins áfrýjaðadóms. 49Samkvæmt úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiðabáðum stefndu málskostnað fyrir Landsrétti eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Hinnáfrýjaði dómur skal vera óraskaður.Áfrýjandi,Mjólkursamsalan ehf., greiði stefnda Samkeppniseftirlitinu 2.000.000 króna ogstefnda íslenska ríkinu 500.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2018Mál þetta, sem var dómtekið 14. maísl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, annars vegar af Mjólkursamsölunni ehf., Bitruhálsi 1, Reykjavík gegnSamkeppniseftirlitinu, Borgartúni 26, Reykjavík og íslenska ríkinu, Vegmúla 3,Reykjavík, og hins vegar af Samkeppniseftirlitinu gegn Mjólkursamsölunni ehf. Mál ofangreindra aðila voru sameinuð í þinghaldi 3.maí 2018 með vísan til b-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991 um meðferðeinkamála þannig að í aðalsök er leyst úr kröfum aðalstefnanda,Mjólkursamsölunnar ehf., en í gagnsök er leyst úr kröfum gagnstefnanda,Samkeppniseftirlitsins.Í aðalsök geriraðalstefnandi aðallega þá dómkröfu á hendur gagnstefnanda,Samkeppniseftirlitinu,að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 18. nóvember 2016 í máli nr.4/2016 verði ógiltur að því leyti sem aðalstefnanda var gert að greiða40.000.000 króna vegna brots gegn 19. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Til varaer þess krafist að dómstólar felli fyrrgreinda sekt áfrýjunarnefndarinnar niðurog til þrautavara að sektin verði lækkuð verulega. Gagnvart stefnda, íslenska ríkinu,krefst aðalstefnandi þess aðallega að stefnda, íslenska ríkinu, verði gert aðendurgreiða aðalstefnanda 40.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr.6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. maí 2017 til greiðsludags. Til vara er þesskrafist að stefnda, íslenska ríkinu, verði gert að endurgreiða aðalstefnandamismun á 40.000.000 króna og þeirri sekt sem ákvörðuð kann að verða með dómi,með dráttarvöxtum frá 15. maí 2017 til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst aðalstefnandimálskostnaðar úr hendi gagnstefnanda og stefnda,íslenska ríkisins.Gagnstefnandi ogstefndi, íslenska ríkið, krefjast báðir sýknu í aðalsök auk málskostnaðar. Í gagnsök krefstgagnstefnandi þess að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 18. nóvember2016 í máli nr. 4/2016 verði ógiltur að því leyti sem þar er felldur úr gildisá hluti ákvörðunar gagnstefnanda frá 7. júlí sama árs, nr. 19/2016 aðaðalstefnandi skuli greiða 440.000.000 kr. stjórnvaldssekt í ríkissjóð, vegnabrots á 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, eigi síðar en einum mánuði eftirdagsetningu ákvörðunarinnar. Þá er þess krafist að aðalstefnandaverði gert að greiða 440.000.000 kr. sekt í ríkissjóð.Gagnstefnandi krefst málskostnaðar úrhendi aðalstefnanda Aðalstefnandi krefst aðallega sýknuaf öllum kröfum gagnstefnanda í gagnsök en til vara að sekt verði ekki lögð áaðalstefnanda eða að hún verði mun lægri en krafist er. Í báðum tilvikum erkrafist málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda.Í öndverðu krafðistaðalstefnandi þess aðallega að kröfum gagnstefnanda í gagnsök yrði vísað frádómi. Með úrskurði 25. janúar 2018 var þeirri kröfu hafnað.IMál þetta varðar ógerilsneydda mjólk,þ.e. hrámjólk sem er grundvallarhráefni við framleiðslu á hvers konarmjólkurvörum. Aðalstefnandi er eina fyrirtækið hér á landi sem selur hrámjólk íheildsölu til annarra mjólkurframleiðenda, ásamt því að nýta hana til eiginframleiðslu. Aðalstefnandi hefur tekið við um 90% af þeirri hrámjólk sem bændurframleiða.Í árslok 2012 urðu þau mistök hjáaðalstefnanda að hann sendi Mjólkurbúinu reikning fyrir kaupum á hrámjólk enreikningurinn átti að fara til Mjólku II. Varð Mjólkurbúinu þá ljóst að þaðþyrfti að greiða umtalsvert hærra verð fyrir hrámjólk en keppinauturinn. Íársbyrjun 2013 sendi Mjólkurbúið gagnstefnanda kæru og hófst þá rannsóknmálsins. Til skoðunar var hvort aðalstefnandi hefði á árunum 2008–2013 misnotaðmarkaðsráðandi stöðu annars vegar gagnvart Mjólku I og hins vegar gagnvart Mjólkurbúinu.Hinn 22. september 2014 tókgagnstefnandi ákvörðun nr. 26/2014 og komst að þeirri niðurstöðu aðaðalstefnandi hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína og raskað samkeppni áumræddu tímabili. Rannsókn gagnstefnanda leiddi í ljós að Mjólka I og síðarMjólkurbúið höfðu þurft að greiða allt að 17% hærra verð fyrir hrámjólkina enþað verð sem KS og Mjólka II greiddu. Verðmunurinn hafi verið allt að 21% þegarhorft væri til þess verðs sem framleiðsludeild aðalstefnanda greiddi fyrirhrámjólkina. Þá var aðalstefnanda gert að greiða 370 milljónir króna í sekt.Aðalstefnandi skaut málinu tiláfrýjunarnefndar samkeppnismála. Fyrir áfrýjunarnefndinni lagði aðalstefnandi ífyrsta sinn fram framlegðar- og verkaskiptasamkomulag við KS, dags. 15. júlí2008. Aðalstefnandi taldi skjal þetta mikilvægt til að sýna lögmæti aðgerðasinna. Hins vegar var það aldrei kynnt gagnstefnanda undir rekstri málsins þar.Með úrskurði áfrýjunarnefndarsamkeppnismála nr. 5/2014 frá 16. desember 2014 var ákvörðun gagnstefnanda nr.26/2014 felld úr gildi. Í forsendum úrskurðarins kom m.a. fram aðáfrýjunarnefndin teldi það vera grundvallaratriði í málinu að efnisamkomulagsins frá 15. júlí 2008 yrði rannsakað og fengin fram sjónarmið ervörðuðu þýðingu samningsins milli aðalstefnanda og KS, uppgjör milli aðila ogefndir á því tímabili er ætluð brotastarfsemi stóð. Þar sem samkomulagið hefðiekki legið fyrir við meðferð málsins hjá gagnstefnanda taldi nefndin sér ekkiunnt að taka efnislega afstöðu til málsins. Var ákvörðunin því felld úr gildiog lagt fyrir gagnstefnanda að rannsaka málið að teknu tilliti til nefndssamkomulags. Hinn 19. desember2014 hófst ný rannsókn hjá gagnstefnanda. Í bréfinu var vísað til þess að aðalstefnandi hefði ekki lagtsamkomulagið frá 15. júlí 2008 fram í aðdraganda ákvörðunar gagnstefnanda nr.26/2014. Vegna þessa hygðist gagnstefnandi taka afstöðu til þess hvortupplýsingagjöf aðalstefnanda hefði verið ófullnægjandi eða villandi í skilningisamkeppnislaga. Var í því sambandi óskað eftir ítarlegum upplýsingum og gögnumsem voru tilgreind í 14 töluliðum í bréfinu. Aðalstefnandi svaraði umræddribeiðni um gögn með bréfi 28. janúar 2015 og hafnaði því að hafa brotið gegn 19.gr. samkeppnislaga. Hinn 22. október 2015 barstaðalstefnanda andmælaskjal, þar sem frumniðurstöðu gagnstefnanda var lýst. Hinn12. janúar 2016 sendi aðalstefnandi frá sér athugasemdir sínar. Hinn 7. júlí2016 var aðalstefnanda birt ákvörðun gagnstefnanda nr. 19/2016. Niðurstaðaákvörðunarinnar var sú að aðalstefnandi hefði brotið gegn 11. og 19. gr.samkeppnislaga. Var honum gert að greiða samtals 480.000.000 króna ístjórnvaldssekt vegna umræddra brota, 440.000.000 króna vegna brots á 11. gr.og 40.000.000 króna vegna brots á 19. gr. Hinn 4. ágúst 2016 kærðiaðalstefnandi ákvörðun gagnstefnanda til áfrýjunarnefndar samkeppnismála ogkrafðist þess að hún yrði felld niður. Meirihluti áfrýjunarnefndarinnar taldiað aðalstefnanda hefði á grundvelli 71. gr. laga nr. 99/1993 verið heimilt aðmismuna tengdum og ótengdum aðilum. Í niðurstöðu meirihlutans er hins vegarekki tekin afstaða til þess hvort aðalstefnanda var heimilt að mismuna sinnieigin framleiðsludeild og ótengdum aðilum og lýtur gagnsök málsins að þessuatriði. Niðurstaða minnihluta áfrýjunarnefndarinnar var að staðfesta bæri ákvörðungagnstefnanda um að aðalstefnandi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Íatkvæði minnihlutans kemur fram að verðlagning aðalstefnanda á hrámjólk hafileitt til þess að samkeppnisstaðan á markaðihafi skekkst „með eins skýrum hætti og hugsast getur“. Taldi minnihlutinn aðstaðfesta bæri niðurstöðu gagnstefnanda um fjárhæð þeirrar stjórnvaldssektarsem var lögð á stefnda vegna þessa.Niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar varhins vegar einróma um að aðalstefnandi hefði brotið gegn 19. gr. samkeppnislagameð því að upplýsa ekki gagnstefnanda um tilvist framlegðar- ogverkaskiptasamkomulagsins. Taldi áfrýjunarnefndin að brotið væri alvarlegt. Áhinn bóginn féllst hún ekki á að aðalstefnandi hefði brotið ákvæðið með því aðstaðhæfa að hann hefði tekið að sér að framleiða vörur með lægri framlegð.Taldi áfrýjunarnefndin að málsvörn aðalstefnanda væri innan marka þess svigrúmssem yrði að játa þeim sem verði hendur sínar. Niðurstaða áfrýjunarnefndarinnarvar því að ekki væru efni til að hrófla við ákvörðun gagnstefnanda um fjárhæðþeirrar stjórnvaldssektar sem stefnda var gert að greiða fyrir brot gegn 19.gr. laganna. Í aðalsök er fjallað um þetta atriði.II Helstu málsástæður og lagarök aðalstefnanda í aðalsökÁgreiningur í aðalsök lýtur að þvíhvort aðalstefnandi hafi brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með því að afhendagagnstefnanda ekki, að eigin frumkvæði, samkomulag sitt við KS frá 15. júlí2008 og samningana við KS frá 26. febrúar 2009 og 12. mars 2009 í aðdragandaákvörðunar gagnstefnanda nr. 26/2014. Aðalstefnandi telur það kjarnamálsins að hann hafi veitt allar þær upplýsingar og afhent öll þau gögn semóskað hafi verið eftir af hálfu gagnstefnanda í aðdraganda ákvörðunar nr.26/2014. Sé þetta raunar óumdeilt, enda hafi samkeppnisyfirvöld aldrei haldiðþví fram að gagnstefnandi hafi beðið aðalstefnanda sérstaklega um samkomulagið,heldur leggi þau til grundvallar að aðalstefnandi hefði að eigin frumkvæði áttað afhenda það. Aðalstefnandi taki það fram að engin almenn gagna- ogupplýsingabeiðni hafi komið frá gagnstefnanda í aðdraganda ákvörðunarinnar.Beiðnirnar hafi allar verið afmarkaðar og óskað hafi verið eftir tilgreindumupplýsingum og gögnum sem aðalstefnandi hafi veitt undanbragðalaust.Annars vegar byggir aðalstefnandi áþví að upplýsingaskylda hans hafi aldrei verið vanrækt. Samstarfiaðalstefnanda, KS og Mjólku II hafi verið ítarlega lýst í öllum bréfasamskiptumaðalstefnanda við gagnstefnanda og til þess vísað að verðlagningin til KS ogMjólku II væri liður í samstarfi þessara aðila á grundvelli 71. gr. búvörulaga.Gagnstefnanda hefði verið í lófa lagið að óska eftir frekari upplýsingum oggögnum um samstarfið ef hann hefði haft áhuga á því að grennslast fyrir um þaðeða talið fyrirliggjandi upplýsingar um það ekki fullnægjandi til tökuefnislegrar ákvörðunar í málinu. Hins vegar byggir aðalstefnandi á þvíað engin frumkvæðis- eða hlutlægnisskylda hvíli á honum samkvæmt 19. gr.samkeppnislaga. Af 1. og 2. mgr. lagaákvæðisins sé augljóst að fyrirtæki berieinungis að veita þær upplýsingar sem gagnstefnandi krefst afhendingar á.Óumdeilt sé að aðalstefnandi vanrækti aldrei slíka skyldu. Sé því útilokað aðgera honum viðurlög á grundvelli i-liðar 1. mgr. 37. gr. laganna. Til vara sé þess krafist að sektinverði felld niður, en til þrautavara að hún verði lækkuð verulega. Tilstuðnings kröfunum sé vísað til þeirra sjónarmiða sem áður séu rakin.Aðalstefnandi telur að ætlað brot sé óverulegt, enda hvorki framið af ásetninginé gáleysi. Þá telji aðaláfrýjandi að ekki sé þörf á sektum í málinu til aðstuðla að og efla virka samkeppni, enda hafi aðalstefnandi hvorki leynt négefið rangar upplýsingar við meðferð málsins. Fullt tilefni sé til þess aðfella sektina niður, sbr. 4. mgr. 37. gr. samkeppnislaga. Sé ekki fallist á þaðhljóti að þurfa að lækka sektina verulega. Sekt að fjárhæð 40.000.000 kr. fyrirbrot gegn 19. gr. sé verulega há og úr öllu hófi með hliðsjón af hinu ætlaðabroti. Kröfur aðalstefnanda gegn stefndaíslenska ríkinu byggjast á öllum sömu málsástæðum og kröfur aðalstefnanda gegngagnstefnanda. Helstu málsástæður og lagarök gagnstefnanda og stefnda,ísl. ríkisins í aðalsökGagnstefnandi byggir á því að aðalstefnandi hafi brotið gegn19. gr. samkeppnislaga með því að upplýsa ekki um framlegðar- ogverkaskiptasamkomulag það sem hann gerði við Kaupfélag Skagfirðinga svf. 15.júlí 2008, og síðari breytingar á því, í tilefni af kröfu gagnstefnanda um aðaðalstefnandi skýrði þann mismun sem væri á verði á þeirri mjólk sem hann seldiMjólkurbúinu ehf. og Mjólku II. Í samkomulaginu hafi verið kveðið á um skylduaðalstefnanda til að selja Kaupfélagi Skagfirðinga svf. allt að 3,5 m. lítra afhrámjólk á verði sem jafngilti lágmarksverði til bænda. Í stað þess að upplýsaum samkomulagið hafi aðalstefnandi haldið því fram að verðið á þeirri mjólk semværi seld Mjólkurbúinu ehf. væri ákveðið af verðlagsnefnd búvara. Þó aðaðalstefnandi hafi vísað til verkaskiptingar félaganna samkvæmt 71. gr. laganr. 99/1993 og síðar bent á heimild félaganna til að gera með sér samning umverðtilfærslu milli tiltekinna afurða, sbr. 3. mgr. 13. gr. sömu laga, hafihann aldrei upplýst að fyrir lægi skriflegt samkomulag milli sín og KaupfélagsSkagfirðinga svf. þar sem kveðið væri um á viðskipti félaganna með hrámjólk.Það hafi ekki verið fyrr en gagnstefnandi hafði gert aðalstefnanda að greiða370 m. kr. sekt í ríkissjóð fyrir brot á 11. gr. samkeppnislaga semaðalstefnandi hafi séð ástæðu til að upplýsa um samkomulagið og leggja þaðfram. Breyti engu í þessu sambandi þótt aðalstefnandi hafi greint frá því aðhann og Kaupfélag Skagfirðinga svf. hafi skipt með sér verkum. Í þeim bréfumsem aðalstefnandi sendi gagnstefnanda hafi aldrei verið gerð nákvæm grein fyrirákvæðum samkomulagsins um viðskipti félaganna með hrámjólk.Gagnstefnandi hafni vara- og þrautavarakröfum aðalstefnandaog bendi á að aðalstefnandi hafi ekki aðeins látið hjá líða að upplýsa um framlegðar- og verkaskiptasamkomulagiðheldur hafi hann gefið skýringar á verðmismuninum sem hann vissi að ættu ekkivið rök að styðjast. Gagnstefnandi mótmæli þess vegna því að aðalstefnandi hafigefið allar upplýsingar eftir bestu vitund. Varðandi fjárhæð sektarinnar liggifyrir að aðalstefnandi hafi torveldað rannsókn málsins og brot hans leitt tilþess að hefja þurfti rannsóknina að nýju. Brotið hafi því leitt til tafa ogkostnaðar sem komast hefði mátt hjá. Þá verði að hafa í huga að aðalstefnandihafi áður brotið samkeppnislög. Með þetta í huga og að teknu tilliti til veltuog efnahags aðalstefnanda og nauðsynjar þess að sektin hafi bæði almenn ogsérstök varnaðaráhrif byggi gagnstefnandi á því að fjárhæð sektarinnar séhæfileg.Stefndi,íslenska ríkið, krefst sýknu af kröfunum á þeim grundvelli að verðigagnstefnandi, Samkeppniseftirlitið, sýknaður af þeim kröfum sem beinast aðhonum, hvort heldur að hluta eða öllu leyti, beri með sama hætti að sýknastefnda, íslenska ríkið. IIIHelstu málsástæður og lagarök gagnstefnanda í gagnsök. Gagnstefnandikrefst þess að úrskurður áfrýjunarnefndarinnar verði ógiltur að því leyti semþar er felldur úr gildi sá hluti ákvörðunar gagnstefnanda nr. 19/2016 aðaðalstefnandi skuli greiða 440.000.000 kr. stjórnvaldssekt í ríkissjóð vegnabrots á 11. gr. samkeppnislaga, eigi síðar en einum mánuði eftir dagsetninguákvörðunarinnar. Krafan byggist á því að aðalstefnandi hafi brotið gegn 11. gr.samkeppnislaga með þeim aðgerðum sem gerð er grein fyrir í ákvörðun nr. 19/2016og að lög nr. 99/1993 hafi ekki heimilað aðgerðirnar. Gagnstefnandi byggir meðal annars áþví að meirihluti áfrýjunarnefndarinnar hafi hvorki reist niðurstöðu sína áréttri skýringu á ákvæðum laga nr. 99/1993 né á réttu mati á þeim gögnum ogupplýsingum sem aflað var við meðferð málsins. Þá hafi meirihlutinn ekki byggtniðurstöðu sína á réttum málsatvikum. Þetta sé verulegur annmarki á úrskurðiáfrýjunarnefndarinnar. Einnig hafi rökstuðningi meirihlutans verið ábótavant. 2 Gagnstefnandi byggir áþví að aðgerðir aðalstefnanda hafi ekki samræmst 11. gr. samkeppnislaga.Aðalstefnandi hafi verið í markaðsráðandi stöðu á hinum ráðandi markaði fyrirsölu á hrámjólk til vinnslu mjólkurafurða. Aðalstefnandi hafi tekið við u.þ.b.90% af þeirri hrámjólk sem var framleidd hér á landi og verið eina fyrirtækiðsem seldi hrámjólk í heildsölu. Þá hafi aðalstefnandi verið með ráðandi stöðu ámarkaðinum fyrir vinnslu mjólkurafurða þar sem hlutdeild hans hafi verið80–90%. Styrkur aðalstefnanda hafi verið slíkur að hann hafði einstakayfirburði á hvorum tveggja, hinum ráðandi markaði málsins (markaði fyrirheildsölu á hrámjólk) og hinum fráliggjandi markaði (markaði fyrir vinnslumjólkurafurða). Fyrir liggi að á þvítímabili sem rannsókn gagnstefnanda tók til hafi aðalstefnandi selt keppinautumsínum hrámjólk á hærra verði en hans eigin framleiðsludeild og aðilar tengdirhonum greiddu fyrir slíka mjólk. Þannig hafi þeir greitt allt að 21% hærra verðen framleiðsludeild aðalstefnanda og allt að 17% hærra verð en aðilar tengdiraðalstefnanda. Hráefniskostnaður KS og Mjólku II hafi verið 239 m. kr. lægri enhefði verið ef þau félög hefðu greitt sama verð og aðilar ótengdiraðalstefnanda, þ.e. Mjólka I og Mjólkurbúið ehf. Sú mismunun sem aðalstefnandihafi beitt fyrirtækin hafi veikt samkeppnisstöðu þeirra og haft bein áhrif ávöxt þeirra og viðgang.Samkvæmt 11. gr. samkeppnislaga sé misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja ámarkaðsráðandi stöðu bönnuð. Í c-lið 2. mgr. 11. gr. segi að misnotkun getifalist í því að viðskiptaaðilum sé mismunað með ólíkum skilmálum í sams konarviðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannig veikt. Viðskiptaaðili í skilningiákvæðisins geti verið deild eða eining innan hins markaðsráðandi fyrirtækis semstarfar á hinum fráliggjandi markaði. Af framansögðu leiði að fyrirtæki sem séí markaðsráðandi stöðu á markaði fyrir sölu hráefnis geti brotið gegn c-lið 2.mgr. 11. gr. ef það selur sinni eigin framleiðsludeild hráefni á lægra verði enótengdum keppinauti á fráliggjandi markaði. Hið sama eigi við ef viðskiptaaðilisem er tengdur hinu markaðsráðandi fyrirtæki fær hráefni á lægra verði enótengdur viðskiptaaðili. 3. Gagnstefnandi byggir á því að lögnr. 99/1993 hafi ekki haft að geyma heimild fyrir aðgerðum aðalstefnanda.Ákvæði samkeppnislaga gildi um starfsemi afurðastöðva í mjólkuriðnaði nema íþeim tilvikum þar sem ákvæði laga nr. 99/1993 mæla fyrir um annað. Í niðurstöðumeirihluta áfrýjunarnefndarinnar sé litið svo á að aðgerðir aðalstefnanda hafiverið heimilar á grundvelli 71. gr. laga nr. 99/1993, sbr. 2. gr. laga nr.85/2004.Áður en lög nr. 85/2004 voru samþykkthafi landbúnaðarráðherra falið Árna Vilhjálmssyni hrl. og Eiríki Tómassyni aðrita álitsgerð um tengsl búvörulaga og samkeppnislaga og gera tillögur tilbreytinga. Í álitsgerðinni 30. apríl 2004 komi fram að höfundum hennar hafisérstaklega verið falið að meta hvernig hægt væri „að tryggja virka samkeppni íframleiðslu og sölu búvara án þess að hagsmunir bænda og íslensks landbúnaðarværu fyrir borð bornir“. Í álitsgerðinni sé lagt til að gerðar verði breytingará 13. og 71. gr. laga nr. 99/1993 og tekið fram að þær muni þýða að banni 10.gr. samkeppnislaga við samráði verði ekki beitt nema að mjög takmörkuðu leyti„þegar um [sé] að ræða starfsemi þessara afurðastöðva og samskipti þeirrainnbyrðis“ en hins vegar muni önnur ákvæði samkeppnislaga „gilda um innlendanmjólkuriðnað“. Í því sambandi sé sérstaklega vísað til 11. gr. samkeppnislaga.Í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögumnr. 85/2004 sé vísað til álitsgerðarinnar og tekið fram að frumvarpið sé lagtfram til „að eyða þeirriréttaróvissu sem skapast [hafi] um að gildandi búvörulög, nr. 99/1993, tryggiekki með nægjanlegri vissu að samráð, samruni og verðtilfærsla í mjólkuriðnaðisé undanskilið gildissviði samkeppnislaga í samræmi við ætlan löggjafans“. Í áliti meirihluta landbúnaðarnefndar Alþingisvar hnykkt á því að tilgangurinn væri að veita undanþágu frá samruna- ogsamráðsákvæðum samkeppnislaga. Frumvarpið byggði á þeirri tillögu álitsgjafanna þeirra, Eiríks og Árna,að undanskilja aðeins tiltekna þætti í mjólkuriðnaði gildissviðisamkeppnislaga. Þannig hafi bannið við misnotkun á markaðsráðandi stöðu átt aðgilda áfram í mjólkuriðnaði. Frumvarpið hafi orðið óbreytt að lögum nr. 85/2004 en meðþeim hafi meðal annars verið gerðar breytingar á 3. mgr. 13. gr. og 71. gr.laga nr. 99/1993. Ákvæðin hafi veitt undanþágu frá þeim ákvæðum samkeppnislagasem banna eða veita heimildir til inngripa í samruna eða tiltekið samstarffyrirtækja. Ákvæðin feli hins vegar ekki í sér undanþágu frá banni 11. gr.laganna við því að fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu grípi til einhliða aðgerða.Hafi þáverandi landbúnaðarráðherra tekið það skýrt fram á Alþingi að þráttfyrir heimild afurðastöðva samkvæmt 71. gr. laga nr. 99/1993 geti þær „ekki beittmarkaðsráðandi stöðu sinni, það er auðvitað ekkert sem samkeppnislögin eðabúvörulögin eða nein önnur lög heimila þeim að gera“.4. Því erhaldið fram að 71. gr. laga 99/1993 hafi ekki falið í sér heimild fyriraðalstefnanda og KS til að jafna framlegðina. Niðurstaða meirihlutaáfrýjunarnefndarinnar um að ákvæðið hafi að geyma slíka heimild sé ekki reist áréttri lögskýringu. Gagnstefnandi hafni rúmri túlkun meirihlutaáfrýjunarnefndar á 71. gr., sem og því að viðskipti aðalstefnanda með hrámjólká lágu verði hafa falið í sér „eina af mörgum aðferðum sem til greina geturkomið til að jafna framlegð við svipaðar aðstæður og greinir í þessu máli“. Í forsendum meirihlutaáfrýjunarnefndarinnar sé vísað til þess að í 20. gr. laga nr. 112/1992, sem varundanfari 71. gr. laga nr. 99/1993, hafi verið kveðið á um að í samkomulagimjólkursamlaga um framleiðslu einstakra mjólkurvara, væri „heimilt að kveða áum verðtilfærslu til að jafna framlegð mismunandi framleiðslutegunda á millimjólkurbúa.“ Í forsendunum segi að telja megi ákveðna framlegðarjöfnun milliafurðastöðva „eðlilega og nauðsynlega til að ná fram samningum um sjálfaverkaskiptinguna“. Þessu sé hafnað ogbyggt á því að breytingar þær sem gerðar hafi verið á 71. gr. staðfesti aðákvæðið feli eingöngu í sér heimild fyrir afurðastöðvar til að skipta með sérverkum en ekki til að jafna framlegð. Sú heimild sem afurðastöðvar hafi til aðgera samninga sín á milli um verðtilfærslu (jöfnun framlegðar) sé í 3. mgr. 13.gr. laganna, en þar sé þeim veitt heimild til að semja sín á milli umverðtilfærslu „milli tiltekinna afurða“.Ákvæði 71. gr. laganna hafi hins vegar ekki að geyma neina slíka heimild. 5. Gagnstefnandibyggir á því að niðurstaða meirihluta áfrýjunarnefndar um túlkun á 71. gr.,sbr. 3. mgr. 13. gr. búvörulaga, samræmist ekki forsögu ákvæðanna. Í lögum hafiupphaflega verið gert ráð fyrir því að afurðastöðvum í mjólkuriðnaði væri skyltað skipta með sér verkum, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 46/1985. Með 20. gr.laga nr. 112/1992 hafi verið gerð sú breyting að það hafi ekki lengur veriðskylt heldur gátu afurðastöðvar starfað algerlega sjálfstætt. Einnig hafi veriðgerð sú breyting að ekki hafi verið gert ráð fyrir að heimild afurðastöðva tilað jafna framlegð sín á milli (verðtilfærsla) væri innifalin í heimild þeirratil að skipta með sér verkum. Þannig þyrfti að semja sérstaklega um slíkajöfnun framlegðar. Lög nr. 46/1985 voru síðan endurútgefin sem lög nr. 99/1993.Með 4. gr. laga nr. 69/1998 um breytingu á lögum nr. 99/1993 hafi heimildin tilað jafna framlegð með verðtilfærslu verið færð úr 59. gr. (áður 56. gr.) í 3.mgr. 13. gr. laganna, sem kvað á um að afurðastöðvum var heimilt að gerasamninga um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða, en verðlagsnefnd skyldistaðfesta þá. Eftir þá breytingu sem hafi verið gerð á 59. gr. með 18. gr. laganr. 69/1998 hafi ákvæðið orðið efnislega samhljóða 71. gr. Með lögum nr.85/2004 hafi, sem fyrr segir, verið gerðar breytingar á ákvæðum 3. mgr. 13. gr.og 71. gr. laga nr. 99/1993. Þessar breytingar hafi hins vegar ekki haft áhrifá það fyrirkomulag að heimild afurðastöðva til að skipta með sér verkum sé í71. gr. á meðan heimildin til að semja um verðtilfærslu milli tiltekinna afurðasé í 3. mgr. 13. gr. (nú 4. mgr. 13. gr.) laganna. Niðurstaða meirihluta áfrýjunarnefndarinnarum að 71. gr. laganna feli í sér heimild til að jafna framlegð samræmist þvíekki forsögu ákvæðanna.6. Þásamræmist niðurstaða meirihluta áfrýjunarnefndarinnar ekki því sjálfstæði semafurðastöðvum hafi verið veitt með lögum nr. 112/1992 og 69/1998. Breytingarnarhafi átt rætur að rekja til þjóðarsáttarsamninganna frá 1990 og tillagnasvokallaðrar sjömannanefndar. Breytingarnar hafi verið í frjálsræðisátt og þótt„mjög byltingarkenndar“ Með lögum nr. 69/1998 hafi þeimafurðastöðvum sem svo kusu verið heimilað að starfa sjálfstætt og veitasamkeppnislegt aðhald, meðal annars til hagsbóta fyrir bændur. Reynslan hafisýnt að þetta fyrirkomulag gat gefið góða raun. Athugun gagnstefnanda hafi t.d.sýnt að samkeppni Mjólku I leiddi til þess að það verð sem afurðastöðvargreiddu mjólkurbændum fyrir hrámjólk hækkaði á meðan verð á mjólkurvörum tilneytenda lækkaði, sbr. álit stefnanda nr. 1/2006. Gildistaka laga nr. 85/2004hafi ekki breytt framangreindu enda séu heimildir laganna valkvæðar. Samkvæmtþví hafi afurðastöðvar eins og Mjólka I áfram getað starfað sjálfstætt.Gagnstefnandi byggir á því að meirihluti áfrýjunarnefndarinnar hafi litið framhjá því markmiði löggjafans að á mjólkurmarkaði geti starfað sjálfstæðarafurðastöðvar. Með setningu 71. gr. laga nr. 99/1993, sbr. 2. gr. laga nr.85/2004, hafi ekki verið stefnt að því að markaðsráðandi afurðastöð gæti meðverðlagningu sinni á grundvallarhráefni takmarkað eða gert möguleikasjálfstæðra afurðastöðva til að starfa og veita samkeppnislegt aðhald að engu.Því standist ekki niðurstaða meirihluta áfrýjunarnefndarinnar.7. Gagnstefnandibyggir á því að niðurstaða meirihluta áfrýjunarnefndarinnar samræmist ekki þvíað samkeppnislög gilda um viðskipti með búvörur nema annað sé tekið fram ísérlögum. Allt frá setningu laga nr. 46/1985, sbr. nú lög nr. 99/1993, hafiverið miðað við að samkeppnisreglur gildi um viðskipti með búvörur nema annaðsé skýrt tekið fram í lögunum. Í þeim tilvikum þar sem verð á búvöru sé ákveðiðá grundvelli laganna sé verðlagsnefnd búvara, þar sem fulltrúar neytenda hafaátt sæti, falið að gæta almannahagsmuna. Í þeim tilvikum þar sem verðlagninginsé frjáls sé samkeppnisreglum hins vegar ætlað að tryggja almannahagsmuni. Íathugasemdum með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum nr. 46/1985 segi að meðþessu sé „verðákvörðun allra búvara búinn staður í lögum á þann veg, að takamegi tillit til mismunandi aðstæðna við verslun með þær.“Í ákvörðun gagnstefnanda sé bent á aðá rannsóknartímabilinu hafi verðlagning aðalstefnanda á þeirri hrámjólk semhann seldi tengdum og ótengdum aðilum verið frjáls. Í niðurstöðu meirihlutaáfrýjunarnefndarinnar sé ekki gætt að því að í slíkum tilvikum banni 11. gr.samkeppnislaga markaðsráðandi afurðastöð að misnota stöðu sína í viðskiptum meðhina „frjálsu“ búvöru. 8. Gagnstefnandibyggir á því að niðurstaða meirihluta áfrýjunarnefndarinnar samræmist ekki þvíað 71. gr. laga nr. 99/1993 feli aðeins í sér takmarkaðar undanþágur frá 10.gr. samkeppnislaga. Meirihluti áfrýjunarnefndarinnar horfi fram hjá því að 10.gr. samkeppnislaga bannar hvers konar verðsamráð og markaðsskiptingu millikeppinauta, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í máli nr. 360/2015. Í 71. gr.laga nr. 99/1993 sé afurðastöðvum hins vegar aðeins veitt heimild til þesssamráðs sem þar er sérstaklega tilgreint. Með öðrum orðum gildiundanþágan aðeins um „þær aðgerðir sem þar koma fram“, sbr. athugasemdir meðfrumvarpi því sem varð að lögum nr. 85/2004. Samkvæmt þessu eigi undanþágan í71. gr. aðeins við ef samráð afurðastöðva tekur til þeirrar verkaskiptingar ogsamstarfs sem þar er tilgreint. Eins og orðalag 71. gr. ber með sérheimili ákvæðið ekki samráð um verð, skiptingu/jöfnun framlegðar eða afkomu afsölu mjólkurafurða. Eðli málsins samkvæmt feli slíkt verðsamráð heldur ekki ísér verkaskiptingu eða aðgerðir til að halda niðri kostnaði við framleiðslumjólkurvara. Ákveðin tegund verðsamráðs sé þóheimil samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga nr. 99/1993. Þannig geti afurðastöðvarsamið um verðtilfærslu milli nánar tiltekinna afurða í því skyni að styðja viðsamvinnu samkvæmt 71. gr. laganna enda við það miðað að þeim afurðastöðvum semsemji um verkaskiptingu sé „jafnframt heimilt“ að beita verðtilfærslu til þessað „jafna framlegð mismunandi framleiðslutegunda“. Sútúlkun að 71. gr. feli í sér ólögfesta heimild til tiltekins samráðs keppinauta(framlegðarjöfnunar) sé í ósamræmi við hvor tveggja lög nr. 99/1993 ogsamkeppnislög.9. Íniðurstöðu meirihluta áfrýjunarnefndarinnar komi fram að 3. mgr. 13. gr. laganr. 99/1993 varði atvik málsins og niðurstöðu án þess að það sé rökstutt nánar.Gagnstefnandi byggir á því að þetta sé verulegur annmarki á úrskurðinum. Írökstuðningi fyrir niðurstöðu meirihlutans sé eingöngu tekið fram að áskilnaður3. mgr. 13. gr. um að afurðastöðvar skuli leggja samninga um verðtilfærslufyrir verðlagsnefnd til upplýsingar feli „hvorki í sér skilyrði fyrir beitingu13. gr. né 71. gr. laganna“. Af úrskurðinum verði hins vegar ekki ráðið meðhvaða hætti meirihlutinn telji ákvæðið varða atvik málsins. Hvað sem því líðurbyggir gagnstefnandi á því að niðurstaða meirihlutans um skýringu ákvæðisinseigi ekki við rök að styðjast. Það verðsamráð sem heimilað sé í 3. mgr. 13. gr.sé afar viðkvæmt samkeppnislega (eins og allt verðsamráð keppinauta og ekkisíst þegar markaðsráðandi fyrirtæki á aðild að því) og geti raskað hagsmunumviðskiptavina og almennings. Sökum þessa hafi fram til gildistöku laga nr.85/2004 verið mælt fyrir um beint eftirlit með efni slíkra samninga, sem hafimeðal annars falist í því að þeir skyldu hljóta staðfestingu verðlagsnefndarbúvara.Með lögum nr. 85/2004 hafi þessufyrirkomulagi verið breytt og mælt fyrir um skyldu til að leggja samninga umverðtilfærslu fyrir verðlagsnefnd búvara til upplýsingar. Þetta hafi veriðliður í að „færa ábyrgð og endanlega ákvörðunartöku um verðlagningumjólkurafurða sem ekki falla undir verðlagsnefnd til afurðastöðva“. Þetta þýðir hins vegar ekki að skyldantil að upplýsa verðlagsnefnd sé í raun þýðingarlaust formsatriði, eins ogmeirihluti áfrýjunarnefndar leggi til grundvallar. Lögskýringargögn sýni aðupplýsingaskyldan sé mikilvægur liður í eftirliti þó það sé með breyttu sniði. Íáliti meirihluta landbúnaðarnefndar hafi verið fallist á að frumvarpið yrðisamþykkt óbreytt, meðal annars „meðhliðsjón af skipun verðlagsnefndar og því eftirlitshlutverki sem henni er ætlaðsamkvæmt lögum, að séð sé fyrir því að hagsmunir bænda, framleiðenda, neytendaog stjórnvalda verði tryggðir á hverjum tíma“. Samkvæmt þessu sé mjög brýnt að afurðastöðvar virði þálagaskyldu að leggja samninga um verðtilfærslu fyrir verðlagsnefnd búvara tilupplýsingar. Telji verðlagsnefndin að slíkir samningar fari gegnalmannahagsmunum geti hún beitt verðákvörðunarvaldi sínu eða eftir atvikumvakið athygli gagnstefnanda á því að afurðastöð kunni að misnota markaðsráðandistöðu sína með tiltekinni útfærslu á verðtilfærslu. Hvorki aðalstefnandi né KShafi upplýst verðlagsnefnd búvara um verkaskiptasamkomulagið eða þáframlegðarjöfnun sem hafi farið fram á grundvelli þess enda hafi aðalstefnandiítrekað lýst því yfir að hann teldi 3. mgr. 13. gr. laga nr. 99/1993 ekki eigavið í málinu. 0. Gagnstefnandibyggir á því að 11. gr. samkeppnislaga gildi um aðgerðir markaðsráðandifyrirtækis nema í lögum sé mælt fyrir um skyldu þess til að grípa til þeirraaðgerða sem um ræði, sbr. til hliðsjónar dóm dómstóls ESB 14. október 2010 ímáli nr. C-280/08 (81. mgr.). Samkvæmt því gildi 11. gr. samkeppnislaga um þæraðgerðir markaðsráðandi fyrirtækis sem koma í veg fyrir, takmarka eða raskasamkeppni þegar í lögum sé aðeins mælt fyrir um heimild en ekki skyldufyrirtækisins til að grípa til slíkra aðgerða, sbr. dóm EFTA-dómstólsins 22.september 2016 í máli nr. E-29/15 (86. mgr.). Samkvæmt því sé fyrirtæki ímarkaðsráðandi stöðu áfram bundið af 11. gr. samkeppnislaga þótt lög hvetji þaðtil eða geri því auðveldara að misnota slíka stöðu sína enda ráði það þá sjálftþví hvort það verður við slíkri hvatningu eða nýtir sér slíka heimild, sbr.áðurnefndan dóm dómstóls ESB (82. mgr. o.áfr.).Ákvæði 71. gr. laga nr. 99/1993 hafi ekki falið í sér skyldu aðalstefndatil að mismuna keppinautum sínum við verðlagningu á hrámjólk. Í þessu sambandiverði að hafa í huga að aðalstefnandi hafi getað hagað fyrirkomulagisamstarfsins við Kaupfélag Skagfirðinga svf. þannig að það samræmdist 11. gr.samkeppnislaga enda hafi hann breytt því eftir að gagnstefnandi hóf rannsókn ámálinu. Með vísan til þessa byggir gagnstefnandi á því að aðalstefnanda hafiekki verið skylt að grípa til aðgerðanna eða þær verið óhjákvæmilegar vegnasamstarfs félaganna.1.Í niðurstöðu meirihluta áfrýjunarnefndarinnar sé lagt til grundvallar aðaðalstefnanda og Kaupfélagi Skagfirðinga svf. hafi verið heimilt að jafnaframlegð sína, meðal annars með verðtilfærslu, árlegri endurskoðun á ákvæðum umsöluþóknun og sölu hrámjólkur á lágmarksverði. Að mati áfrýjunarnefndarinnarhafi gagnstefnanda ekki tekist að sýna fram á „nein þau atriði við forsendureða framkvæmd umrædds framlegðar- og verkaskiptisamkomulags frá 2008 eða síðarisamninga sem geti orðið grundvöllur sektarákvörðunar í málinu“. Gagnstefnandibyggir á því að þessi staðhæfing meirihluta áfrýjunarnefndarinnar sé órökstuddog að þetta sé verulegur annmarki á úrskurðinum. 2. Gagnstefnandibyggir á því að meirihluti áfrýjunarnefndarinnar hafi ekki reist niðurstöðusína á réttum ályktunum af þeim gögnum og upplýsingum sem aflað var við meðferðmálsins og hafi því ekki byggt niðurstöðu sína á réttum málsatvikum. Íniðurstöðu meirihlutans sé í fyrsta lagi horft fram hjá upplýsingum og gögnumsem gagnstefnandi hafi aflað, í öðru lagi séu lagðar til grundvallarstaðhæfingar aðalstefnanda og starfsmanna hans sem samræmist ekki áðurnefndumupplýsingum og gögnum og í þriðja lagi sé beitt sönnunarreglum í ósamræmi viðhefðbundin viðmið í samkeppnisrétti. Gagnstefnandi byggir á því að meirihlutinnhafi ekki rökstutt hvers vegna hann hafi ekki litið til niðurstaðnagagnstefnanda af þeirri rannsókn sem fór fram í samræmi við fyrirmæli í fyrriúrskurði áfrýjunarnefndarinnar.3. Gagnstefnandibyggir á því að aðalstefnanda hafi ekki verið heimilt að selja hrámjólk á hinulága verði til Mjólku II enda hafði hann aldrei samið um verkaskiptingu viðfélagið á grundvelli 71. gr. laga nr. 99/1993. Gagnstefnandi byggir á því aðhvað sem öðru líði verði ákvæðið ekki skýrt rýmra en svo að öll jöfnun áframlegð sé bundin við það að afurðastöðvar hafi sannanlega gert með sérsamkomulag um verkaskiptingu á grundvelli 71. gr. laganna. Enginn slíkursamningur hafi verið á milli stefnda og Mjólku II. Gagnstefnandi byggir á þvíað þetta sé verulegur annmarki á úrskurðinum.4. Gagnstefnandibyggir á því að í niðurstöðu meirihluta áfrýjunarnefndarinnar sé eingöngufjallað um hluta þeirra aðgerða sem gagnstefnandi taldi að fælu í sér brotaðalstefnanda. Meirihlutinn hafi talið að aðalstefnanda hefði verið heimilt aðselja tengdum aðilum hrámjólk á lægra verði en hann seldi ótengdum aðilum slíkamjólk. Hins vegar sé ekkert fjallað um þá mismunun sem hafi falist í því aðhann krafði aðila ótengda sér um mun hærra verð fyrir hrámjólk en hans eiginframleiðsludeild greiddi fyrir slíka mjólk.5. Verðifallist á ógildingarkröfu gagnstefnanda verði úrskurður áfrýjunarnefndarinnaraðeins ógildur að því leyti sem þar sé felldur úr gildi sá hluti ákvörðunargagnstefnanda að aðalstefnandi skuli greiða 440.000.000 kr. stjórnvaldssekt íríkissjóð vegna brots á 11. gr. samkeppnislaga. Með því sé hins vegar ekki tekinbein afstaða til þeirrar sektar sem aðalstefnanda beri að greiða vegnabrotsins. Gagnstefnandi geri því sérstaka kröfu um að aðalstefnanda verði gertað greiða sekt í ríkissjóð.Krafa gagnstefnanda um aðaðalstefnanda verði gert að greiða 440.000.000 kr. sekt í ríkissjóð sé reist áþví að aðalstefnandi hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með þeim aðgerðumsem gerð sé grein fyrir í ákvörðun gagnstefnanda og að fjárhæðin sé hófleg sektþegar litið sé til eðlis og umfangs brotsins. Gagnstefnandi byggir á því aðbrotið sé alvarlegt og að það hafi staðið yfir í langan tíma, þ.e. á tímabilinufrá 2008 til 2013. Aðgerðir aðalstefnanda hafi tengst umfangsmiklum viðskiptummeð grundvallarhráefni til vinnslu mikilvægrar neysluvöru. Aðgerðirnar hafiverið til þess fallnar að skaða samkeppni og neytendur með alvarlegum hætti.Þær séu alvarlegar.Gagnstefnandi byggir á því að umítrekað brot sé að ræða, en með úrskurði áfrýjunarnefndarinnar 14. desember2006 í máli nr. 8/2006 hafi verið staðfest að Osta- og smjörsalan sf.,fyrirrennari aðalstefnanda, hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með því aðbeita Mjólku I verðmismunun. Gagnstefnandi byggir á því að sektir sem lagðarséu á samkvæmt 37. gr. samkeppnislaga verði að fullnægja því markmiði að hafavarnaðaráhrif og stuðla að framkvæmd samkeppnislaga. Til að tryggjafullnægjandi varnaðaráhrif sekta sé nauðsynlegt að þær taki mið af styrkleikahins brotlega fyrirtækis. Í því sambandi komi til skoðunar heildarveltaviðkomandi fyrirtækis á síðasta reikningsári áður en sekt sé lögð á það.Samkvæmt samstæðureikningi Auðhumlu svf. fyrir árið 2015 hafi heildarveltafélagsins verið u.þ.b. 26,7 ma. kr. Velta af starfsemi Auðhumlu svf. hafi veriðóveruleg og því í reynd um að ræða heildarveltu aðalstefnanda umrætt ár. Gagnstefnandibyggir á því að 440.000.000 kr. sekt sé hófleg, eða um 1,6% af veltunni á árinu2015. Sektin sé því vel innan leyfilegs 10% sektarhámarks 2. mgr. 37. gr.samkeppnislaga, en það eigi að tryggja að sektir sem lagðar séu á fyrirtæki séuekki óhóflega háar. Málsástæður oglagarök aðalstefnanda í gagnsök. Aðalstefnandi hafnar því að úrskurðuráfrýjunarnefndarinnar sé haldinn annmarka. Hann sé hvorki haldinn form- néefnisannmörkum og því standi engin rök til þess að ógilda hann. 2. Aðalstefnandibyggir á því að verðlagning hans á hrámjólk til KS og Mjólku II hafi veriðhluti af samstarfi þessara aðila á grundvelli 71. gr. búvörulaga. Byggt sé áþví að í 71. gr. laganna sé skýr og ótvíræð undanþága frá ákvæðumsamkeppnislaga fyrir afurðastöðvar í mjólkuriðnaði til að sameinast, gera meðsér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðarframleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf tilþess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.Kjósi afurðastöðvar að gera með sér slíkt samkomulag og hafa með sér slíktsamstarf séu því allir þættir viðkomandi samkomulags og samstarfs undanþegnirákvæðum samkeppnislaga.Kjarni málsins sé að löggjafinn hafikosið að láta sérstök ákvæði gilda um samstarf í mjólkuriðnaði og tekið afskarið um að almenn ákvæði samkeppnislaga eigi ekki við. Aðalstefnandi hafikosið að nýta sér þessa heimild og ágreiningur aðila snúi að því hvort þaðsamstarf sem um ræðir hafi gengið lengra eða verið annars eðlis en löginheimila.Samkvæmt framlegðar- ogverkaskiptasamkomulagi aðalstefnanda við KS, dags. 15. júlí 2008, sem og þeimgögnum málsins sem framkvæmd þess tengjast, hafi miðlun aðalstefnanda áhrámjólk til KS og Mjólku II á lægra verði en til annarra verið liður í að bætatapaða framlegð vegna slíks samkomulags og samstarfs. Það liggi í hlutarinseðli að til þess að unnt sé að gera slíkt samkomulag eða viðhafa slíkt samstarfþurfi að tryggja að framlegð aðila þess breytist ekki eftir því hvaða vörur þeirtaki að sér að framleiða á grundvelli þess samkomulags og samstarfs sem taliðsé hagkvæmast og best til þess fallið að ná þeim markmiðum sem tilgreind séu í71. gr. búvörulaga. Væri það ekki gert væri ekki hægt að koma á slíkusamkomulagi með hámarkshagkvæmni að leiðarljósi þar sem aðilar þyrftu þásamhliða að taka mið af eigin framlegð og markmið 71. gr. búvörulaga myndu þarmeð ekki ná fram að ganga.Áréttað sé að vegna þessfyrirkomulags sem gildi um verðlagningu sé sú framlegð sem tilteknar mjólkurvörurhafi ekki á valdi afurðastöðva heldur verðlagsnefndar búvara og hafi þær ágrundvelli ákvarðana hennar mjög ólíka framlegð Sú staðreynd hafi það í för meðsér að ef afurðastöðvar gera með sér samkomulag um verkaskiptingu að því erframleiðslu einstakra mjólkurvara varðar eða hafa með sér annars konar samstarfá grundvelli 71. gr. búvörulaga sé nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að jafnaframlegð þeirra á milli samhliða. Ella mundi markmið ákvæðis 71. gr. ekki náfram að ganga þar sem þær afurðastöðvar sem gengjust undir slíkt samkomulag eðatækju þátt í annars konar samstarfi þyrftu þá samhliða að taka mið af framlegðþeirra vara sem þeim væri ætlað að framleiða. Að mati aðalstefnanda skipti ekkimáli fyrir samkeppnisstöðu annarra afurðastöðva hvort sú nauðsynlega jöfnuneigi sér stað við verðlagningu hrámjólkur í innbyrðis viðskiptum aðila aðsamkomulagi um verkaskiptingu á grundvelli 71. gr. búvörulaga eða með öðrumhætti. Eðlilegt sé að hún eigi sér stað með þeim hætti sem talið sé hagkvæmasthverju sinni, en lögin setji ekki skorður í þeim efnum.Aðalstefnandi kveður að farið hafiverið yfir framlegð aðila reglulega og fylgst með þróun hennar. Öll gögnmálsins um framkvæmd framlegðar- og verkaskiptasamkomulagsins og fyrirliggjandisamskipti aðila þar að lútandi beri ótvírætt vott um að aðilar hafi leitast viðað tryggja að framlegð þeirra af vinnslu mjólkur væri sambærileg líkt og aðhafi verið stefnt. Ekkert í málinu styðji staðhæfingar gagnstefnanda um aðmiðlun aðalstefnanda á hrámjólk til KS og Mjólku II hafi verið í öðru skyni eðahaft í för með sér röskun á samkeppni enda aðrir kaupendur hrámjólkur ekkibundnir af því að framleiða tilteknar vörur.Aðalstefnandi telji að viljilöggjafans sé til að undanþiggja samstarf af framangreindum toga gildissviðisamkeppnislaga án frekari afmörkunar á einstökum þáttum slíks samstarfs eðaþeim ákvæðum samkeppnislaga sem undanþágan taki til. Sá þáttur slíks samstarfsem lúti að því að aðilar jafni framlegð sín á milli í tilefni afverkaskiptingu að því er framleiðslu einstakra mjólkurafurða varðar falli þvíeinnig þar undir. Þannig telji aðalstefnandi ljóst að ef ákvæði 71. gr.búvörulaga sé virt með hliðsjón af lögskýringargögnum og þeim tilgangi sem þvísé ætlað að þjóna rúmist samstarf hans við KS og Mjólku II að öllu leyti innanþess. Þá skipti ekki máli þótt slíkt samstarf hafi mögulega þau áhrif að aðrirgreiði hærra verð fyrir vöruna en sú afurðastöð sem á í viðkomandi samstarfi.Slíkt feli ekki í sér verðmismunun í neinum skilningi, enda sé aðeins um að ræðaútfærslu á því hvernig framlegð sé jöfnuð. Með hinum umþrætta úrskurði hafiáfrýjunarnefnd samkeppnismála komist að þeirri niðurstöðu að framlegðar- ogverkaskiptasamkomulag aðalstefnanda og KS frá 15. júlí 2008, með síðaribreytingum, hafi rúmast að fullu innan heimildar 71. gr. búvörulaga. Þannighafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að „einhvers konar réttlát jöfnun áframlegð á milli þeirra fyrirtækja sem gera með sér verkaskiptingu til að haldaniðri kostnaði [væri] rökrétt aðferð til að auðvelda samninga um verkaskiptinguog ná þannig þeim markmiðum sem 71. gr. búvörulaga er reist á“. Niðurstaðanefndarinnar hafi því verið sú að gagnstefnandi hefði ekki sýnt fram á nein þauatriði við forsendur eða framkvæmd umrædds framlegðar- og verkaskiptasamkomulagseða síðari samninga sem gæti orðið grundvöllur sektarákvörðunar í málinu.Aðalstefnandi byggir á því aðniðurstaða áfrýjunarnefndarinnar að þessu leyti sé reist á réttri skýringu áákvæðum búvörulaga og réttu mati á þeim gögnum og upplýsingum sem aflað hafiverið við meðferð málsins og þar með réttum málsatvikum. Engin lagaskilyrði séuþví fyrir hendi til að ógilda umræddan hluta úrskurðarins, enda engir annmarkará honum.Þá tekur aðalstefnandi fram að þóttsamkomulagið falli ekki með beinum hætti undir 3. mgr. (nú 4. mgr.) 13. gr.búvörulaga hafi samkomulag um framlegðarjöfnun sama markmið og sambærileg áhrifog samningur um verðtilfærslu. Eigi því sömu sjónarmið við um samninga, hvortsem þeir séu gerðir eftir 71. gr. eða 13. gr. laganna. 3. Aðalstefnandiheldur því fram að aðgerðir hans hafi ekki falið í sér brot gegn 11. gr.samkeppnislaga. Í fyrsta lagi beri aðógilda úrskurðinn þegar af þeirri ástæðu og hefja rannsókn málsins á nýjanleik. Aðalstefnandi telji að 11. gr. samkeppnislaga, og ætlað brot á henni,geti ekki komið til úrlausnar dómstóla þar sem áfrýjunarnefndin hafi ekkifjallað um þessi atriði í úrskurði sínum. Verði hér að hafa í huga að í málinusé einungis krafist ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndarinnar, en ekki t.d.staðfestingar á ákvörðun gagnstefnanda. Úrskurður áfrýjunarnefndar sé því einastjórnvaldsákvörðunin sem sæti endurskoðun í máli þessu. Það væri bersýnilega íandstöðu við endurskoðunarvald dómstóla og þrígreiningu ríkisvaldsins efdómstólar tækju afstöðu til atriða sem komu ekki til skoðunar hjá hinu æðrasetta stjórnvaldi. Í öðru lagi hafi aðalstefnandi fráupphafi byggt á því að jafnvel þó svo að ráðstafanir til jöfnunar á framlegðyrðu ekki taldar rúmast innan heimildar 71. gr. búvörulaga hafi umrædd verðlagninghans ekki falið í sér brot á 11. gr. samkeppnislaga þar sem skilyrði ólögmætrarverðmismununar séu ekki uppfyllt, sbr. c-lið 2. mgr. umrædds ákvæðis. Þannighafi viðskiptin hvorki verið sambærileg né viðskiptavinum verið mismunað meðólíkum skilmálum. Þá gefi gögn málsins engar vísbendingar um að samkeppnisstaðaMjólku I eða Mjólkurbúsins hafi verið veikt vegna viðskipta þeirra viðaðalstefnanda. 4. Aðalstefnandihafnar því að búvörulögin hafi ekki að geyma heimild fyrir aðgerðum hans. Ef umsé að ræða samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðiframleiðslu einstakra mjólkurvara eða annars konar samstarf til þess að haldaniðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða falli slíktsamkomulag eða samstarf því í heild utan gildissviðs samkeppnislaga samkvæmtskýru ákvæði 71. gr. búvörulaga, óháð því undir hvaða ákvæði samkeppnislagaeinstakir þættir slíks samkomulags eða samstarfs hefðu hugsanlega fallið ella.Óumdeilt sé að samkomulag og samstarf aðalstefnanda við KS og Mjólku II hafiverið slíkt samkomulag og samstarf og því falli allir þættir þess undir heimild71. gr. búvörulaga.Aðalstefnandi hafnar því að forsaga71. gr. búvörulaga styðji ekki niðurstöðu meirihluta áfrýjunarnefndar og hanntelji umfjöllun gagnstefnanda um þróun búvörulaga villandi. Þá sé ítrekað aðsömu og sambærileg sjónarmið eigi við um samkomulag sem falli undir 71. gr. ogsamkomulag um verðtilfærslu samkvæmt 3. mgr. (nú 4. mgr.) 13. gr.Lögskýringargögnin séu afdráttarlaus um að samráð, samruni og verðtilfærsla ímjólkuriðnaði sé undanskilin gildissviði samkeppnislaga. Aðalstefnandi telji niðurstöðuáfrýjunarnefndarinnar fráleitt þá að markaðsráðandi afurðastöð geti meðverðlagningu sinni á grundvallarhráefni takmarkað eða gert möguleikasjálfstæðra afurðastöðva til að starfa og veita samkeppnislegt aðhald að engu.Niðurstaða nefndarinnar hafi þvert á móti verið sú að sú verðlagning sem málþetta snýst um hafi ekki falið í sér mismunun þar sem hún hafi verið liður í aðjafna framlegð á milli aðila samkomulags og samstarfs á grundvelli 71. gr.búvörulaga. Aðalstefnandi hafnar því aðniðurstaða áfrýjunarnefndarinnar samræmist ekki því að samkeppnislög gildi umviðskipti með búvörur, nema annað sé tekið fram í sérlögum. Aðalstefnandiáréttar að verðlagning hans á hrámjólk sem ekki hafi verið liður í að jafnaframlegð á grundvelli fyrrgreinds samkomulags og samstarfs hafi tekið mið afákvörðun verðlagsnefndar búvara um verð á mjólk í lausu máli. Þá áréttar aðalstefnandi að ákvæði71. gr. búvörulaga heimili tiltekið samkomulag og samstarf þrátt fyrir ákvæðisamkeppnislaga. Ekkert í niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar gangi gegn því aðsamkeppnislög gildi um viðskipti með búvörur þar sem sérákvæðum búvörulagasleppi.Aðalstefnandi hafnar því aðrökstuðningur áfrýjunarnefndarinnar sé óljós um 3. mgr. (nú 4. mgr.) 13. gr.búvörulaganna. Þótt gert sé ráð fyrir því í ákvæðinu að samningar umverðtilfærslu séu lagðir fyrir verðlagsnefnd „til upplýsingar“ sé ekki gert ráðfyrir því að gildi samningsins sé háð því skilyrði eða að nefndin þurfi aðsamþykkja efni hans. Slíkt hafi verið gert að skilyrði áður en lög nr. 85/2004tóku gildi, en ljóst sé að það hafi verið eindreginn vilji löggjafans meðfrumvarpinu sem síðar varð að þeim lögum að draga úr aðkomu verðlagsnefndar aðþessu leyti. 5. Aðalstefnandihafnar því að aðgerðir hans væru andstæðar 11 gr. samkeppislaganna þótt búvörulöginyrðu talin hafa veitt honum heimild til þeirra. Hann áréttar að það liggi íhlutarins eðli að engu skipti fyrir samkeppnisstöðu keppinauta hans, KS ogMjólku II, hvort framlegð sé jöfnuð með miðlun tiltekins magns af hrámjólk áinnvigtunarverði eða með öðrum hætti og eðlilegt að sú leið sem sé hagkvæmustsé valin í því skyni. 6. Aðalstefnandihafnar því sjónarmiði gagnstefnanda að sú niðurstaða áfrýjunarnefndarsamkeppnismála að gagnstefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á „nein þauatriði við forsendur eða framkvæmd umrædds framlegðar- ogverkaskiptasamkomulags frá 2008 eða síðari samninga sem geti orðið grundvöllursektarákvörðunar í málinu“ sé ekki rökstudd með fullnægjandi hætti. Þvert ámóti hafi niðurstaða gagnstefnanda að þessu leyti í ákvörðun hans nr. 19/2016verið byggð á forsendum sem ekki stóðust skoðun líkt og ítarlega hafi veriðrakið við meðferð málsins á stjórnsýslustigi. Aðalstefnandi áréttar að KS hafisannanlega tekið að sér framleiðslu á vörum sem beri lægri framlegð en þær vörursem aðalstefnandi hafi tekið að sér að framleiða. Þá hafi verkaskiptinginsannanlega gengið eftir og forsendur samkomulagsins ekki brostið. Þá hafisamkomulagið ekki leitt til þess að framlegð KS yrði hærri en framlegðaðalstefnanda. Þá sé vísað til skýrslu KPMG dags. 22. ágúst 2016 til stuðningsniðurstöðunni. Skýrslan sé í fullu samræmi við þau samtímagögn semaðalstefnandi hafi lagt fram í málinu.7. Aðalstefnandibyggir á því að áfrýjunarnefndin hafi reist niðurstöðu sína á réttum ályktunumaf þeim gögnum og upplýsingum sem aflað hafi verið við meðferð málsins og þarmeð byggt niðurstöðu sína á réttum málsatvikum. Samtímagögn hafiverið lögð fram, en gagnstefnandi hafi við rannsókn sína litið fram hjástærstum hluta þeirra samtímagagna sem aðalstefnandi hafi lagt fram og dregiðaf öðrum gögnum ályktanir sem byggðar hafi verið á röngum forsendum. Aðalstefnandi áréttarað öll gögn málsins beri vott um að framlegðar- og verkaskiptasamkomulagaðalstefnanda og KS og öll framkvæmd þess hafi miðað að því að aðilar þesshefðu sem jafnasta framlegð í vinnslu mjólkur. Þá mótmæliraðalstefnandi sérstaklega þeirri fullyrðingu að sala aðalstefnanda á hrámjólktil KS á innvigtunarverði „hafi haft þann tilgang að veita KS aukinn slagkrafttil þess að keppa við minni keppinauta á markaði sem sérhæfðu sig í framleiðsluá framlegðarháum vörum á markaði og þá sér í lagi Mjólku I“. Þessi fullyrðingsé úr lausu lofti gripin og eigi sér enga stoð í gögnum málsins. Hið sama gildium þá staðhæfingu gagnstefnanda að eftir að Mjólka var keypt af KS hafiaðalstefnandi og KS hafið „að skipuleggja verðhækkun á framlegðarháum vörum,þ.e. á vörum sem voru ekki verðlagðar af verðlagsnefnd búvara“. Ekkert sé ígögnum málsins sem styðji slíkt.8. Aðalstefnandihafnar því að niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála sé að verulegu leytibyggð á einhliða staðhæfingum hans og byggir á því að niðurstaða nefndarinnarsé í fullu samræmi við fyrirliggjandi samtímagögn. Þau gögn sem hann lagði framfyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála séu í fullu samræmi við þau samtímagögn semhann hafi látið gagnstefnanda í té við rannsókn málsins og séu þeim ýmist tilfrekari skýringar eða stuðnings. Sönnunarbyrðin um það aðfjárhagslegar forsendur framlegðarjöfnunarinnar hafi ekki staðist hvíli eðlimálsins samkvæmt á gagnstefnanda, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Rannsóknmálsins hafi þó fyrst og fremst snúist um að draga eigin ályktanir affyrirliggjandi gögnum og freista þess að bera brigður á skýringaraðalstefnanda. Aðalstefnandi telji því að gagnstefnandi hafi á engan hátt axlaðsönnunarbyrði sína fyrir þessu atriði. 9. Aðalstefnandihafnar því að rökstuðningur áfrýjunarnefndarinnar um aðild Mjólku II aðframleiðslusamstarfi aðalstefnanda og KS sé ófullnægjandi og úrskurðurnefndarinnar haldinn annmörkum af þeim sökum. Aðild Mjólku II aðframleiðslustarfinu sé byggð á munnlegum samningi líkt og Mjólka II hafistaðfest með bréfi dags. 12. febrúar 2015. Þá beri það skýran vott um aðildMjólku II að umræddu samstarfi að framleiðsla Mjólku II var að stærstum hlutaflutt til annars vegar KS og hins vegar aðalstefnanda. 0 Gagnstefnandibyggir á því að það sé verulegur annmarki á úrskurði áfrýjunarnefndarsamkeppnismála að í niðurstöðu hennar sé „ekkert fjallað um þá mismunun semfólst í því að [aðalstefnandi] krafði aðila ótengda sér um mun hærra verð fyrirhrámjólk en hans eigin framleiðsludeild greiddi fyrir slíka mjólk“. Þessu hafniaðalstefnandi og bendi á að verðlagning aðalstefnanda á hrámjólk til hans eiginframleiðsludeildar hafi ekki á nokkru stigi verið hluti af rannsókngagnstefnanda enda engri slíkri verðlagningu fyrir að fara. 1. Varðandisýknukröfu um greiðslu sektar tekur aðalstefnandi fram að hann hafi hafnað þvíað hafa gerst brotlegur við 11. gr. samkeppnislaga enda hafi það samstarf semmálið snúist um rúmast innan þeirra heimilda sem 71. gr. búvörulaga veitiafurðastöðum í mjólkuriðnaði. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að ekki séuforsendur fyrir álagningu sektar og því beri að sýkna aðalstefnanda af umræddrikröfu. Krafan um niðurfellingueða lækkun sektar byggist á því að aðalstefnandi hafi ávallt talið allastarfsemi sína, þar með talið framlegðar- og verkaskiptasamkomulagið ogsamstarf hans við KS og Mjólku II, vera í samræmi við samkeppnislög, enda hafiumræddur samningur verið gerður á grundvelli 71. gr. búvörulaga. Verði komistað gagnstæðri niðurstöðu í máli þessu telji aðalstefnandi ljóst að ætlað brothans á samkeppnislögum stafi eingöngu af skilningi hans á 71. gr. búvörulaga,sem fram til þessa hafi hvorki reynt á fyrir samkeppnisyfirvöldum, öðrumstjórnvöldum né dómstólum. Sú staðreynd að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafikomist að algerlega öndverðri niðurstöðu við gagnstefnanda að því leyti sýni íöllu falli að ætlað brot aðalstefnanda geti ekki talist jafn vítavert oggagnstefnandi byggi á. Álagning hárrar sektar á aðalstefnanda, líkt oggagnstefnandi krefjist, geti við þessar aðstæður ekki samrýmst markmiði sekta ágrundvelli samkeppnislaga og vegi að réttaröryggi fyrirtækja.Þá verði ekki litið fram hjá því að aðalstefnandihafi í allri starfsemi sinni lagt mikla áherslu á að haga henni til samræmisvið ákvæði samkeppnislaga. Sé viðleitni hans til að eiga í samstarfi viðgagnstefnanda, veita upplýsingar um starfsemina og leita eftir leiðsögn umskyldur félagsins samkvæmt samkeppnislögum, langt umfram skyldu, til marks umviðhorf aðalstefnanda til samkeppnislaga. 2. Verði afeinhverjum ástæðum talið rétt að leggja sekt á aðalstefnanda sé þess krafist aðsektin verði lækkuð verulega. Styðjist lækkunarkrafan við allar sömumálsástæður og krafa hans um niðurfellingu sektar og vísist til þeirra.Aðalstefnandi telji röksemdirgagnstefnanda fyrir álagningu sektar ekki standast. Þannig sé sjónarmiðumgagnstefnanda á umfangi hinna ætluðu brota í fyrsta lagi mótmælt. Í þvísambandi sé bent á að þau viðskipti sem aðalstefnandi hafi átt við KS og MjólkuII með hrámjólk, á grundvelli 71. gr. búvörulaga, séu allt annars eðlis og ekkihæf til samanburðar við viðskipti aðalstefnanda við ótengda aðila með hrámjólk.Þá megi ljóst vera að sala aðalstefnanda á hrámjólk til ótengdra aðila hafi íraun einungis haft áhrif á afar takmarkaðan hluta mjólkurmarkaðar, þar semumrædd hrámjólk hafi að meginstefnu verið notuð til framleiðslu á mygluostum.Því sé mótmælt að raunveruleg áhrif ætlaðra brota stefnda hafi haft víðtækariáhrif. Aðalstefnandi mótmælir því að hinætlaða brotlega háttsemi hafi staðið yfir í langan tíma, þ.e. á tímabilinu2008–2013. Hið rétta sé að Mjólka I keypti hrámjólk af aðalstefnanda frá mars2008 til júlí 2009 (í eitt ár og þrjá mánuði) og Mjólkurbúið keypti hrámjólk afaðalstefnanda frá árslokum 2010 til ársloka 2013 (í þrjú ár). Þannig hafi veriðum að ræða tvö aðskilin tímabil með um eins og hálfs árs millibili. Gera verðiskýran greinarmun á þessum tveimur tímabilum, enda hafi aðstæður verið ólíkar íhvoru tilviki fyrir sig. Gagnstefnandi hafi ekki gert reka að því að rökstyðjahvers vegna hin ætlaðu brot séu talin hafa varað samfellt öll árin, en fyrirþví beri hann sönnunarbyrði.Aðalstefnandi hafnar því að ætluðbrot hans séu ítrekuð, svo sem gagnstefnandi heldur fram með því að vísa tilþess að Osta- og smjörsalan sf. („OSS“)hafi áður brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga, með því að beita Mjólku Iverðmismunun, sbr. úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 8/2006.Þarna sé að mati aðalstefnanda um að ræða verulega einföldun og byggiaðalstefnandi á því að grundvallarmunur sé á þessum tveimur málum. Í hinu fyrramáli hafi verið um að ræða sölu á undanrennudufti til tveggja aðila á misháuverði fyrir mistök, en í því máli sem hér sé til umfjöllunar hafi verið um aðræða verðlagningu sem var liður í að jafna framlegð í samstarfi á grundvelli71. gr. búvörulaga. Þar sem OSS hafi ekki verið afurðastöð í skilningibúvörulaga hafi undanþáguheimildir 71. gr. búvörulaga ekki átt við um starfsemiþess félags. Þær réttarheimildir sem komi til skoðunar í hvoru máli fyrir sigséu ólíkar í grundvallaratriðum og geti úrskurður í máli OSS því ekki leitt tilítrekunaráhrifa í máli þessu.Með vísan til þess sem að framan sérakið telji aðalstefnandi að sanngirnissjónarmið leiði til þess að fella beriniður sekt í málinu, eða lækka beri hana verulega, enda séu varnaðaráhrif sektamun meiri þegar um sé að ræða meðvitaða ákvörðun um brot gegn samkeppnislögumen þegar slíkt brot eigi sér stað vegna mismunandi skilnings á lagaákvæði semundanþiggi tiltekna háttsemi gildissviði samkeppnislaga. Loks byggir aðalstefnandi á því aðótækt sé að horfa til veltu félagsins við ákvörðun viðurlaga, enda starfiaðalstefnandi ekki með sama hætti og fyrirtæki sem rekin séu í hagnaðarskyni.Þvert á móti eigi tekjur og gjöld í ársuppgjöri hans að jafnast út þannig aðtryggt sé að bæði bændur og neytendur skipti með sér öllum þeim ávinningi sembúvörulögum sé ætlað að tryggja. Álagning hárrar sektar muni því hafa áhrif áhag bæði bænda og neytenda.Aðalstefnandi byggir á því, meðhliðsjón af atvikum málsins og þeim sjónarmiðum sem rakin hafa verið, að súfjárhæð sektar sem gagnstefnandi lagði á aðalstefnda með ákvörðun nr. 19/2016,og gagnstefnandi krefst nú að verði lögð á aðalstefnanda með dómi, sé langtfram úr hófi og í engu samræmi við þá háttsemi aðalstefnanda sem talin sébrotleg. Um sé að ræða mjög háa sekt í samanburði við það sem þekkst hafi hér álandi fram til þessa vegna ætlaðra brota á 11. gr. samkeppnislaga og séu aðmati aðalstefnanda engar forsendur til að ákvarða slík viðurlög í máli þessu.IV. Aðalstefnandimálsins er rekstrarfélag mjólkuriðnaðarins á Íslandi og er í eigu tveggjasamvinnufélaga, Auðhumlu svf. sem á 90,1%, og KS, þ.e. Kaupfélags Skagfirðingasvf., sem á 9,9%. Auðhumla er samvinnufélag u.þ.b. 550 kúabænda og fjölskyldnaþeirra víðs vegar um landið. KS er samvinnufélag á markaðssvæði Skagafjarðar. Fyrirtækið Mjólka ehf. var stofnaðárið 2005 og var í eigu aðila ótengdum aðalstefnanda fram til ársins 2009 eðaþar til KS keypti 100% hlutafjár í fyrirtækinu. Við meðferð málsins fyrirsamkeppnisyfirvöldum var fyrirtækið til aðgreiningar iðulega nefnt Mjólka Iþegar vísað var til atvika áður en fyrirtækið sameinaðist KS (2005–2009), enMjólka II þegar vísað var til atvika sem áttu sér stað eftir samrunann ogverður sami háttur hafður á hér. Helsti eigandi Mjólku I, Ólafur F. Magnússon,stofnaði ásamt öðrum nýtt fyrirtæki, Mjólkurbúið ehf., sem hóf vinnslu og söluá mjólkurafurðum árið 2010. 2. Svo semgreinir hér að framan er upphaf málsins að rekja til þess að aðalstefnandisendi fyrir mistök reikning til Mjólkurbúsins ehf. sem átti að fara til MjólkuII. Reikningurinn bar með sér að lítraverð á hrámjólk væri 77,69 kr. íviðskiptum aðalstefnanda við Mjólku II. Hins vegar var lítraverðið 90,74 kr. íviðskiptum aðalstefnanda og Mjólkurbúsins. Sendi Mjólkurbúið því kvörtun tilgagnstefnanda hinn 18. janúar 2013. Rannsókn hófst og lauk henni með ákvörðungagnstefnanda 22. september 2014, nr. 26/2014. Þar komst gagnstefnandi aðþeirri niðurstöðu að aðalstefnandi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Íákvörðuninni var bent á að verðlagsnefnd búvara hefði aðeins ákveðið þaðlágmarksverð sem bæri að greiða framleiðendum mjólkur fyrir ógerilsneydda mjólk(hrámjólk). Verðlagsnefndin hefði hins vegar ekki ákveðið verð á ógerilsneyddrimjólk í viðskiptum milli afurðastöðva. Því stæðust ekki þær skýringaraðalstefnanda að verðlagsnefndin hefði ákveðið verð á þeirri hrámjólk sem máliðtæki til. Með því að selja keppinautum sínum hrámjólk á verði sem verðlagsnefndbúvara ákvað fyrir unna vöru (gerilsneydda mjólk í lausu máli) hefðiaðalstefnandi að vissu marki knúið þá til að greiða tvisvar fyrir sömukostnaðarliðina. Þá taldi gagnstefnandi að með því að selja Mjólku I ogMjólkurbúinu ehf. hrámjólk á mun hærra verði en hans eigin framleiðsludeild ogaðilar tengdir honum hefðu þurft að greiða fyrir slíka mjólk hefði aðalstefndimismunað fyrirtækjunum en slík háttsemi markaðsráðandi fyrirtækis væri andstæð11. gr. samkeppnislaga. Með þessu hefði aðalstefnandi skert getu fyrirtækjannatil að keppa við sig og aðila tengda sér á markaðinum fyrir vinnslumjólkurvara. Var aðalstefnanda gert að greiða sekt að fjárhæð 370.000.000 kr.fyrir brot á 11. gr. samkeppnislaga. Ákvörðuninvar hinn 20. október 2014 kærð til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Með kærunnivar lagt fram svonefnt Framlegðar- og verkaskiptasamkomulag milli aðalstefnandaog KS. Samkomulagið er undirritað 15. júlí 2008 og er gerð grein fyrir því hérsíðar. Íúrskurði sínum frá 16. desember 2014 komst áfrýjunarnefndin að þeirriniðurstöðu að ógilda bæri ákvörðun gagnstefnanda frá 20. október 2014 og leggjafyrir hann að taka að nýju afstöðu til málsins að undangenginni rannsókn áþýðingu samkomulagsins frá 15. júlí 2008, uppgjöri milli aðila og efndum. Aðlokinni þeirri rannsókn leit ný ákvörðun gagnstefnanda dagsins ljós hinn 7.júlí 2016 með þeirri niðurstöðu að aðalstefnandi hefði misnotað markaðsráðandistöðu sína. Talið var að háttsemi aðalstefnanda hefði falið í sér verðmismununí andstöðu við 11. gr. samkeppnislaga. Aðalstefnandi kærði ákvörðunina hinn4. ágúst 2016 til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem klofnaði í niðurstöðusinni um ætlað brot á 11. gr. samkeppnislaga. Meirihluti nefndarinnar taldi aðekki hefði verið sýnt fram á nein þau atriði við forsendur eða framkvæmdumrædds framlegðar- og verkaskipta-samkomulags frá 2008 eða síðari samninga semgæti orðið grundvöllur sektarákvörðunar í málinu. Minnihlutinn taldi aðstaðfesta bæri ákvörðun gagnstefnanda um að aðalstefnandi hefði brotið gegn 11.gr. samkeppnislaga.3. Þáverður vikið að samkomulagi aðalstefnanda og KS, svonefndu Framlegðar ogverkaskiptasamkomulagi sem var undirritað 15. júlí 2008. Í 1. gr. samkomulagsinssegir: „Svo unnt verði að koma á frekari verkaskiptingu í mjólkuriðnaði, og nánauðsynlegri lækkun á vinnslu- og dreifingarkostnaði mjólkurvara, skulusamningsforsendur stuðla að jöfnun framlegðar milli mjólkurvara. Þetta skalgert í þeim tilgangi að þeir lögaðilar sem standa að eignarhaldi og rekstri MSehf., hafi sambærilega rekstrarafkomu við vinnslu mjólkur, óháð þeirriverkaskiptingu afurðastöðva eins og hún kann að verða ákveðin hverju sinni meðhagsmuni greinarinnar í heild sinni að leiðarljósi.“ Í A-hlutasamkomulagsins er í 2. gr. fjallað um breytingu á framleiðslu-skipulagi milliaðalstefnanda og KS. KS hætti framleiðslu og pökkun á ferskum og sýrðummjólkurvörum og fluttist það yfir til aðalstefnanda. Véla- og tækjabúnaður ertilheyrði rifostagerð skyldi flytjast á Sauðárkrók, en þar átti að leggjaáherslu á framleiðslu fastra osta og viðbits. Í B-hlutasamkomulagsins var kveðið á um framlegðarskipti mjólkurvara milli aðalstefnandaog KS á grunni mjólkurvara og hráefnis. Síðan segir í samkomulaginu:„Forsendur:Verðtilfærsla mjólkurvara:a)Gerter ráð fyrir að verðtilfærsla mjólkurvara verði aflögð, bæði lögbundintilfærsla sem og verðtilfærsla SAM sem framkvæmd hefur verið skv.heimildarákvæðum laga nr. 99/1993b)Íbyrjun er þó gert ráð fyrir innheimtu og útgreiðslu lögbundinnar verðtilfærsluskv. lögum 99/1993. Jafnframt er gert ráð fyrir því verðtilfærsla SAM leggistaf, og er stuðst við áhrif þess í útreikningum sem samningur þessi byggir á. Áhrif þessara ráðstafana á KS og MSeru að KS fer úr því að hafa 25 millj. kr. í tekjur vegna verðtilfærslu árlega(verðtilfærslutekjur – verðtilfærslugjöld),í að þurfa að greiða árlega 31 millj. kr. í verðtilfærslu. Breytingin nemur þvíum 56 millj. kr. framlegðartap fyrir KS en að sama skapi jafnhá framlegðaraukningfyrir MS (sjá meðfylgjandi útreikninga). Þessi niðurstaða er að teknu tillititil þess að mjólkurpökkun og framleiðsla sýrðra vara færist til MS frá KS. Viðað framleiða eingöngu ost í stað ferskvara minnka heildsölutekjur KS um 47millj. kr. til viðbótar – eða samtals um 103 millj. kr.Áhrif breyttrar verkaskiptar á aðravörunotkun og sölu- og dreifingarkostnað nemur um 62 millj. kr lægri kostnaðfyrir KS en að sama skapi sömu upphæð hærri fyrir MS.Nettóáhrif þessara breytinga vegnaverkaskiptingar og verðtilfærslubreytinga nemur því (103-62) = 41 millj. kr.Þennan mismun þarf því að leiðrétta auk 24 mill. kr. viðbót vegna skiptingarframlegðar vegna verkaskiptingar á markaði.MAGN HRÁMJÓLKUR FRÁ MS TIL KS OGVERÐLAGNING ÞESS:c)Tilað mæta framlegðartapi KS (samsvarandi framlegðaraukningu MS) vegna breytinga íverkaskiptingu og verðtilfærslu svo og sem lið í framlegðarútjöfnun, skalframkvæma eftirfarandi:. Ms ehf. skal selja KS sem nemur alltað 3,5 millj. ltr af mjólk á ársgrunni.2. Verðlagning mjólkurinnar skal takamið af skráðu lágmarksverði Verðlagsnefndar búvöru fyrir meðalmjólk(afurðastöðvaverð). Ofan á skráð lágmarksverð skulu bætast lítratengdsjóðagjöld. (Lögbundin verðtilfærla og Verðmiðlunarsjóðsgjald meðan lagaskyldaer til staðar). Ekki skal leggja fast álag ofan á framangreint verðmjólkurinnar eins og tíðkast hefur skv. ákvörðun SAM. Á sama hátt skalverðleggja hráundanrennu og hrárjóma í viðskiptum aðila, ef til þeirra kemur.3. Kostnaður af flutningi hráefnis milliaðila (viðbótarkostnaður umfram söfnunarkostnað mjólkur) skal skiptast jafnmilli aðila (50/50). Kostnaður skal reiknast skv. samtals eknum km. í hverjummánuði með hráefni milli aðila.“Í d- og e-liðum 2. gr. er kveðið á umgagnkvæma söluþóknun fyrir fullunnar mjólkurvörur í viðskiptum. Í 3. gr. ersíðan kveðið á um gagnkvæma skuldbindingu samningsaðila til sölu áframleiðsluvörum hvors annars. Í 4. gr. er fjallað um uppgjör og í 5. gr. erkveðið á um gildistíma og endurskoðunarákvæði samningsins. Þá voru gerðirviðaukar við og breytingar á samkomulaginu á tímabilinu 26. febrúar 2009 til27. ágúst 2010. Með framlegð ískilningi samkomulagsins er átt við „framlegð I“ sem er nettósölutekjur aðfrádreginni vörunotkun. Með nettósölutekjum er átt við reikningsfærða sölu, aðviðbættum eða frádregnum sjóðagjöldum og/eða úthlutun úr verðjöfnunarsjóðum.Frá þeirri fjárhæð er dregin vörunotkun samkvæmt nánari skilgreiningu, enhrámjólkin er stærsti kostnaðarliðurinn í vörunotkuninni. Eins og fram kemur í 1. gr.samkomulagsins er tilgangurinn með samkomulaginu að koma á frekariverkaskiptingu í mjólkuriðnaði og ná nauðsynlegri lækkun á vinnslu- ogdreifingarkostnaði mjólkurvara. Til að ná því markmiði áttu samningsaðilar aðstuðla að „jöfnun framlegðar“ milli mjólkurvara. Tilgangurinn var því aðviðhafa framlegðarskipti milli aðalstefnanda og KS á grundvelli mjólkurvara oghráefnis og var ætlunin að samningsaðilar hefðu sem jafnasta framlegð. Slíktgetur leitt til lækkunar á framleiðslu-, geymslu- og dreifingarkostnaði ogfallið undir 71. gr. búvörulaga. Þá geta aðilar haft með sér viðskipti umtiltekið magn, svo sem gert er í samkomulaginu, og það verið samrýmanlegt 71.gr. búvörulaga. En það eru raunveruleg áhrif samkomulagsins sem skipta máli. Í samkomulaginu segir að til að mætaframlegðartapi KS vegna áhrifa samkomulagsins, og sem lið í framlegðarútjöfnun,skuli aðalstefnandi selja KS sem nemi allt að 3,5 millj. l af mjólk áársgrunni.Skjöl málsins sýna að verkaskiptinginleiddi til þess að framleiðsla á framlegðarlágum afurðum, svo sem ferskummjólkurvörum, færðist frá KS til aðalstefnanda og KS einbeitti sér aðframleiðslu á framlegðarháum afurðum, t.d. rifnum osti, ostum í blokkum ogviðbiti. Sést þetta í töflu er stafar frá fjármálastjóra aðalstefnanda, en þarkemur fram að sala KS á ferskum mjólkurvörum árið 2008 nam tæpum 100 millj. kr.En svo dæmi sé tekið af rifnum osti var sala á honum árið 2009 tæpar 800 millj.kr. Því virðist samkomulagið hafa haft í för með sér mikla framlegðaraukninguhjá KS. Það sem gerist í framhaldinu kemur fram á yfirliti um framlegðarskipti2008–2013. Sést þar að framlegð aðalstefnanda án KS-viðskiptanna og framlegð KSer mjög svipuð og hluta tímabilsins hafi ekki þurft að koma til sérstaksuppgjörs þeirra á milli. Því verður ekki séð að nauðsyn hafi borið til að seljaKS 3,5 millj. lítra af hrámjólk í því skyni að bæta KS framlegðartap vegnabreytinga á verkaskiptingu og verðtilfærslu svo og framlegðarjöfnun eins ogsegir í c lið samkomulagsins. Því verður ekki fallist á að vernd 71. gr.búvörulaga eigi við, sbr. hér síðar.Varðandi skýrslu KPMG dags. 22. ágúst2016, sem aðalstefnandi vísar til, þá var hennar aflað einhliða af hálfuaðalstefnanda og á hans kosnað og verður því ekki litið til hennar í niðurstöðumálsins.Ekki verður fram hjá því litið aðkeppinautur eins og Mjólka framleiddi einungis vörur með háa framlegð. Því gáfukaup KS á hrámjólk á lægra verði KS aukinn kraft í samkeppni þeirra. 4. Íaðalsök gerir aðalstefnandi, Mjólkursamsalan ehf., aðallega þá dómkröfu áhendur gagnstefnanda aðúrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 18. nóvember 2016 í máli nr.4/2016 verði ógiltur að því leyti sem aðalstefnanda var gert að greiða40.000.000 króna vegna brots gegn 19. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Til varaer þess krafist að dómstólar felli fyrrgreinda sekt áfrýjunarnefndarinnar niðurog til þrautavara að sektin verði lækkuð verulega. Samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. 19. gr.samkeppnislaga getur gagnstefnandi krafið einstök fyrirtæki, hópa þeirra ogsamtök um allar upplýsingar sem honum þykja nauðsynlegar við athugun einstakramála, svo og um gögn til athugunar, og skal orðið við slíkri kröfu innanhæfilegs frests, sem hann setur. Í i-lið 1. mgr. 37. gr. samkeppnislaga er mæltfyrir um að gagnstefnandi leggi stjórnvaldssektir á fyrirtæki eða samtökþeirra, sem brjóta gegn skyldu til að veita upplýsingar og afhenda gögnsamkvæmt 19. gr. laganna.Samkvæmt gögnum málsins óskaðigagnstefnandi skýringa á því, í bréfi 20. desember 2012 til aðalstefnanda, hvaðylli ólíku verði á reikningunum til Mjólkurbúsins ehf. og Mjólku II. Svaraðiaðalstefnandi því með bréfi 7. janúar 2013. Þar segir að verið sé að bera samantvenn ólík viðskipti. Annars vegar sé sala á mjólk í lausu máli með afslætti,en án frekari kostnaðar og skuldbindinga af hálfu kaupanda. Hins vegar sé um aðræða miðlun á hráefni á kostnaðargrunni innan viðskiptasambands sem axliaukakostnað af söfnun, lyfjaeftirliti, gæðaeftirliti, frumvinnslu og dreifinguauk sölutryggingar til bænda. Þá var tilgreint í bréfinu að í reikningiaðalstefnanda væri verð á mjólk í lausu máli ákvarðað af verðlagsnefnd búvöru ísamræmi við 8. gr. búvörulaga. Í öðru bréfi aðalstefnanda frá 13.febrúar 2013, sem er svarbréf hans við bréfi gagnstefnanda frá 30. janúar 2013um frekari gögn og upplýsingar, kemur fram að KS sé eigandi Mjólku II. Þá hafiaðalstefnandi og KS samstarf um verkaskiptingu og framleiðslustýringu ágrundvelli 71. gr. búvörulaga og um sama aðilann sé að ræða í viðskiptalegutilliti. Verið væri að bera saman tvenns konar ólík viðskipti í kærunni, það erannars vegar miðlun mjólkurhráefnis í samstarfi tveggja fyrirtækja og hinsvegar sölu mjólkur á verðlistaverði (að frádregnum afslætti) án frekariskuldbindinga þess sem keypti hráefnið. Fyrirspurnirgagnstefnanda byggjast á 19. gr. samkeppnislaga. Sú skylda hvíldi áaðalstefnanda að upplýsa um öll nauðsynleg atriði innan þess frests sem gefinnvar. Í svarbréfinu frá 7. janúar 2013 var ekki minnst á það að umsamiðhrámjólkurverð ætti að mæta röskun á framlegð vegna verkaskiptingar og ekki varheldur á það minnst að samningur lægi þar að baki, sem þó verður að teljagrundvallargagn í málinu. Þá var ekki minnst á að aðalstefnandi skyldi selja KSsem næmi allt að 3,5 millj. lítra hrámjólkur á ársgrunni. Það dugar í engu aðvísa til þess að aðalstefnandi og KS hafi haft samstarf um verkaskiptingu ogframleiðslustýringu á grundvelli 71. gr. búvörulaga, svo sem bent er á íbréfinu frá 13. febrúar 2013. Sú skylda hvíldi á aðalstefnanda að leggja framöll gögn, en ekki gagnstefnanda að kalla eftir gögnum sem hann vissi ekki aðværu til. Í málinu liggur fyrir aðaðalstefnandi hafði mörg tilefni til þess að leggja fram umræddan samning aðilafrá 15. júlí 2008 en lét hjá líða að gera svo. Gagnstefnandi óskaði eftir öllumsamningum aðila við 50 stærstu viðskiptavini félagsins. Telur dómurinn aðaðalstefnandi geti ekki borið það fyrir sig að hafa ekki vitað að leggja ættifram umrætt skjal, sem þýðingu gæti haft í málinu. Með því að leggja ekkiFramlegðar- og verkaskiptasamkomulag Kaupfélags Skagfirðinga svf. og MS framhafi aðalstefnandi brugðist þeirri skyldu sinni að veita upplýsingar og afhendagögn, sbr. 19. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Eins og mál þetta liggur fyrir þykjaengin efni til þess að lækka sektina. Er þá litið til þeirra skýringa semaðalstefnandi gaf í bréfum sínum og hve augljóst er að mati dómsins aðeinfaldast hafi verið fyrir aðalstefnanda að leggja samkomulagið strax fram tilað upplýsa málið. Með háttalagi sínu torveldaði aðalstefnandi rannsókn málsinsog því þurfti að hefja rannsóknina að nýju. Þegar litið er til veltu ogefnahags aðalstefnanda, sem og nauðsynjar þess að sektir hafi sérstökvarnaðaráhrif, þykir fjárhæð sektarinnar hæfileg.5. Ígagnsök krefst gagnstefnandi, Samkeppniseftirlitið, þess að úrskurðuráfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 4/2016 verði ógiltur að því leytisem þar er felldur úr gildi sá hluti ákvörðunar gagnstefnanda frá 7. júlí samaárs, nr. 19/2016, að aðalstefnandi skuli greiða 440.000.000 kr. stjórnvaldssektí ríkissjóð, vegna brots á 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, eigi síðar eneinum mánuði eftir dagsetningu ákvörðunarinnar. ÁkvörðunSamkeppniseftirlitsins varðaði ætluð brot aðalstefnanda á 11. gr.samkeppnislaga nr. 44/2005. Niðurstaðan varð sú að aðalstefnandi hefði misnotaðmarkaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir heildsölu á hrámjólk til vinnslumjólkurafurða. Fælist misnotkunin í því að á árunum 2008–2013 hefðiaðalstefnandi selt keppinautum sínum hrámjólk á hærra verði en hans eiginframleiðsludeild annars vegar og aðilar tengdir honum hins vegar þurftu aðgreiða fyrir slíka mjólk. Deilt er um hvort þessi mismunun hafi veiktsamkeppnisstöðu keppinauta aðalstefnanda á markaði fyrir vinnslu mjólkurafurða. Úrskurðuráfrýjunarnefndar samkeppnismála er nr. 4/2016, frá 18. nóvember 2016. Nefndinklofnaði í afstöðu sinni til þess hvort aðalstefnandi hefði brotið gegn banni11. gr. samkeppnislaga við misnotkun markaðsráðandi stöðu. Meirihlutinefndarinnar taldi að aðalstefnandi hefði, á grundvelli 71. gr. laga nr.99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, mátt mismuna tengdum ogótengdum aðilum. Minnihluti nefndarinnar taldi hins vegar að staðfesta bæriákvörðun Samkeppniseftirlitsins um brot aðalstefnanda gegn 11. gr.samkeppnislaga.6. Ímálinu liggur fyrir að aðalstefnandi seldi á rannsóknartímabilinu tengdumfyrirtækjum, KS og Mjólku II, hrámjólk á verði sem var það sama og hið opinberalágmarksverð sem gilti gagnvart mjólkurbændum. Verð aðalstefnanda á sömuhrámjólk til ótengdra aðila, Mjólku I og Mjólkurbúsins, var hins vegar munhærra og nam allt að 17%. Miðaðist verð aðalstefnanda á hrámjólkinni tilótengdra aðila við verð á annarri vöru, þ.e. gerilsneyddri mjólk.Ágreiningsefnið lýtur að því hvort aðalstefnandi hafi brotið gegn 11. gr.samkeppnislaga, en þar segir að misnotkuneins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu sé bönnuð og að misnotkuningeti, samanber c-lið ákvæðisins, falist í því að viðskiptaaðilum sé mismunaðmeð ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannigveikt.Aðalstefnandibyggir á því að ekki geti verið um brot á samkeppnislögum að ræða og vísaraðallega til 71. gr. búvörulaga, en þar segir: „Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga erafurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag umverkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakramjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðrikostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.“Því lýtur ágreiningur málsinsað því atriði hvort 71. gr. búvörulaga víki ákvæðum samkeppnislaga til hliðar.7. Verður þá vikið að forsögu 3. mgr. 13 gr. og 71. gr.búvörulaga. Ákvæði 1. mgr. 48. gr. laga nr.46/1985 um framleiðslu og sölu á búvörum o.fl. (endurútgefin sem lög nr.99/1993) var svohljóðandi: „Framleiðsluráð landbúnaðarins og samtökafurðastöðva í mjólkuriðnaði skulu gera samkomulag um verkaskiptingu á millimjólkursamlaga, að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara með tillititil heildarafkomu framleiðslugreinarinnar og hagsmuna mjólkurframleiðenda ogneytenda.“Þessu ákvæði var breytt með 21. gr.laga nr. 112/1992 um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu ábúvörum, nr. 46 1985, með síðari breytingum. Samsvarandi ákvæði var þá í 56.gr., svohljóðandi:„Framleiðsluráði landbúnaðarins ogafurðastöðvum í mjólkuriðnaði er heimilt að gera samkomulag um verkaskiptingumilli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara fyririnnlendan og erlendan markað. Í slíku samkomulagi er heimilt að kveða á umverðtilfærslu til að jafna framlegð mismunandi framleiðslutegunda á millimjólkurbúa. Fimmmannanefnd getur gripið inn í verðtilfærslu milli afurða teljihún það nauðsynlegt. Verðtilfærsla má aldrei verða hærri fjárhæð en sem svararhráefnisverði hverrar afurðar. Samkomulagið öðlast ekki gildi fyrr enlandbúnaðarráðherra hefur staðfest það.“ Með þessarilagabreytingu var það ekki lengur skylda að gera samkomulag um verkaskiptingu ámilli mjólkursamlaga, að því er varðaði framleiðslu einstakra mjólkurvara,heldur var það heimilt og gátu þær starfað algerlega sjálfstætt. Jafnframt varí slíku samkomulagi heimilt að kveða á um verðtilfærslu til að jafna framlegðmismunandi framleiðslutegunda á milli mjólkurbúa. Þannig er um sitt hvortatriðið að ræða, það er samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga aðþví er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hins vegar samkomulag umverðtilfærslu til að jafna framlegð mismunandi framleiðslutegunda á millimjólkurbúa. Héðan í frá verður kveðið á um samninga um jöfnun framlegðar í einuákvæði og heimildir til að gera verkaskiptasamninga í öðru ákvæði.Lög nr. 46/1985 voru síðanendurútgefin sem lög nr. 99/1993 og varð fyrrnefnd 56. gr. að 59. gr. Með 4. gr. laga nr. 69/1998 umbreyting á lögum nr. 99/1993 var heimildin til að jafna framlegð meðverðtilfærslu í 3. mgr. 13. gr. laganna, sem varð svohljóðandi:„Verðlagsnefndgetur, að fengnum tillögum afurðastöðva eða samtaka þeirra, heimilaðafurðastöðvum að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinnaafurða. Samningar þessir skulu hljóta staðfestingu verðlagsnefndar.“ Efnislegaer ákvæði þetta samhljóða eldra ákvæði. Eftir þá breytingu sem var gerð á 59.gr. með 18. gr. laga nr. 69/1998 hljóðaði ákvæðið svo:„Framleiðsluráði landbúnaðarins ogafurðastöðvum í mjólkuriðnaði er heimilt að gera samkomulag um verkaskiptingumilli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara fyririnnlendan og erlendan markað. Samkomulagið öðlast ekki gildi fyrr enlandbúnaðarráðherra hefur staðfest það.“Með lögum nr. 112/1999 var tilvísunlaganna til framleiðsluráðs landbúnaðarins felld niður. Í kjölfarið voru gerðarbreytingar á lögum nr. 99/1993 sem leiddu til þess að 59. gr. varð að 71. gr.laganna. Þannig kvað 71. gr. búvörulaganna á um heimild til afurðastöðva til aðgera samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga varðandi einstakarmjólkurvörur og 13. gr. 3. mgr. sömu laga kvað á um heimild afurðastöðva til að gera samninga sín á milli umverðtilfærslu milli tiltekinna afurða.Í maí 2004 var lagt fram á Alþingi stjórnarfrumvarp umframleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (verðsamráð í mjólkuriðnaði).Frumvarpið var samið að tilhlutan landbúnaðarráðherra „í því skyni“, eins ogsegir í upphafi þess (þingskjal 1665 á 130. löggjafarþingi), „að lögfestaákvæði sem ætlað er að eyða þeirri réttaróvissu sem skapast hefur um aðgildandi búvörulög, nr. 99/1993, tryggi ekki með nægjanlegri vissu að samráð,samruni og verðtilfærsla í mjólkuriðnaði sé undanskilið gildissviðisamkeppnislaga í samræmi við ætlan löggjafans“. Í frumvarpinu var kveðið á umbreytingu á tveimur ákvæðum, það er 3. mgr. 13. gr. og 71. gr. Ífrumvarpinu kemur fram að til þess að kanna tengsl laga um framleiðslu,verðlagningu og sölu á búvörum (búvörulaga) nr. 99/1993 og samkeppnislaga hafilandbúnaðarráðherra falið Árna Vilhjálmssyni hrl. og Eiríki Tómassyni prófessorað skrifa álitsgerð um efnið og gera tillögur til breytinga á búvörulögum.Sérstaklega hafi þeim verið falið að leggja mat á hvernig hægt væri að tryggjavirka samkeppni í framleiðslu og sölu búvara án þess að hagsmunir bænda ogíslensks landbúnaðar væru fyrir borð bornir. Skiluðu þeir álitsgerð sinni tillandbúnaðarráðherra 30. apríl 2004. Í kjölfarið fór fram endurskoðun á búvörulögunum og í megindráttumvar það niðurstaða endurskoðunarinnar að í ljósi skuldbindandi samningaríkisins við framleiðendur um styrki, og að teknu tilliti til markaðsaðstæðna,gæti verið nauðsynlegt að lögfesta skýr ákvæði í búvörulög sem undanskilduákveðna þætti verðmyndunar á heildsöluverði gildissviði samkeppnislaga. Íálitsgerðinni komu fram viðamiklar breytingar en sérstaklega var tekið fram aðfrumvarpið gerði ekki ráð fyrir þeim öllum, að svo komnu máli. Í frumvarpinu kemur fram að þar sé fylgt landbúnaðarstefnubúvörulaga, samanber 1. gr. laganna, það er að tryggja jöfnuð á milliframleiðenda og viðunandi kjör bænda, og einnig kemur fram sú stefna löggjafansað framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi viðþarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegaraðstæður í landinu. Í 1.gr. frumvarpsins er kveðið á um breytingar á 3. mgr. 13. gr. búvörulaganna enþar segir að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga sé afurðastöðvum í mjólkuriðnaðiheimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða.Leggja skuli slíka samninga fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar.Í 2.gr. var kveðið á um breytingu á 71. gr. búvörulaga, það er um heimild til handaafurðastöðvum í mjólkuriðnaði að gera samkomulag um verkaskiptingu um framleiðslueinstakra mjólkurvara. Samkomulagið öðlast þó ekki gildi fyrr enlandbúnaðarráðherra hefði staðfest það. Þá kom fram í frumvarpinu að með breytingunum á 71. gr. væri veriðað styrkja framangreindan grundvöll til hagræðingar og tryggja eðlilega að súhagræðing nyti enn um sinn undanþágu frá gildissviði samkeppnislaga ef það værigert í þeim tilgangi að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu ogdreifingu mjólkurafurða. Í breytingunni felst einnig að afurðastöðvarnar þurfiekki lengur leyfi landbúnaðarráðherra til þess að sameinast, gera með sérsamkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslueinstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til samræmis viðaukna ábyrgð afurðastöðvanna sjálfra á verðlagningu. Af 71.gr. búvörulaganna og lögskýringargögnum með því ákvæði verður ekki annað ráðiðen að tilgangur ákvæðisins sé að undanþiggja afurðastöðvar í mjólkuriðnaðinumákvæðum samkeppnislaga og að þeim sé heimilt að gera með sér samkomulag umverkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakramjólkurvara og einnig að hafa með sér annars konar samstarf. Tilgangurinn verðiþó að vera að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingumjólkurafurða. Þegarnefndri 71. gr. var breytt á Alþingi kom einnig til breytingar á 3. mgr. 13.gr. laganna. Þar segir að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga sé afurðastöðvum ímjólkuriðnaði heimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu millitiltekinna afurða, en leggja skuli slíka samninga fyrir verðlagsnefnd tilupplýsingar.Málflutninguraðalstefnanda er sá að með samkomulaginu frá 15. júlí 2008 hafi tilgangurinnverið að jafna framlegðina milli hans og KS, þó samkvæmt gögnum málsins virðistsem framlegð KS hafi aukist til muna með samkomulaginu. Jöfnun framlegðar er ekkert annað en verðtilfærsla sem nýtur ekkiverndar 71. gr. búvörulaganna heldur 3. mgr. 13. gr. sömu laga þar sem kveðiðer á um slíka samninga. Hins vegar er ekki byggt á því ákvæði af hálfuaðaláfrýjanda. Hefði það verið gert þá liggur ekki fyrir í málinu hvort aðalstefnandi eða KShefði lagt samninginn fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar. Með því að enginstaðfesting liggur fyrir verður að líta svo á að henni sé ekki til að dreifa. Meirihlutiáfrýjunarnefndar virðist hafa talið að ekki væri þörf á að upplýsaverðlagsnefnd um samninginn. Dómurinn telur hins vegar að um fortakslaustákvæði sé að ræða. Er þá hvoru tveggja litið til orðalags ákvæðisins, sembeinlínis kveður á um skyldu, sem og til forsögu þess. Fram til gildistöku laga nr. 85/2004var mælt fyrir um beint eftirlit með efni slíkra samninga, sem fólst meðalannars í því að þeir skyldu hljóta staðfestingu verðlagsnefndar búvara. Meðlögum nr. 85/2004 var þessu fyrirkomulagi breytt og mælt fyrir um skyldu til aðleggja samninga um verðtilfærslu fyrir verðlagsnefnd búvara til upplýsingar. Í athugasemdum með frumvarpinu, segir „Með breytingunni er því aðeins verið að færa formið og ábyrgðina tilafurðastöðvanna frá verðlagsnefnd í samræmi við venjubundna framkvæmd samkvæmtbúvörulögum og undanskilja verðtilfærsluna skýrlega gildissviði samkeppnislaga.Þó er talið rétt að verðlagsnefnd sé upplýst um þessa samninga og því er lögðskylda á afurðastöðvarnar að senda nefndinni þá til upplýsingar. Breytingarnarkalla hvorki á afnám lögbundins verðtilfærslugjalds skv. 22. gr. búvörulaga, enþað gjald stendur undir verðtilfærslu milli tiltekinna mjólkurafurða, nébreytingar á verðmiðlunargjaldi skv. 19. gr. búvörulaga.“ Ljóst máþví vera aðupplýsingaskyldan er mikilvægur liður í eftirliti þó það sé með breyttu sniði.Kemur þetta einnig fram í áliti meirihluta landbúnaðarnefndar að fallist var áað frumvarpið yrði samþykkt óbreytt, meðal annars „með hliðsjón af skipun verðlagsnefndar og þvíeftirlitshlutverki sem henni er ætlað samkvæmt lögum, að séð sé fyrir því aðhagsmunir bænda, framleiðenda, neytenda og stjórnvalda verði tryggðir á hverjumtíma.“ Telja verður aðaðalstefnandi verði að bera hallann af því að hafa ekki lagt samninginn fyrirnefndina.Meðvísan til þess sem að framan greinir og þess sem fram kemur í 3. kafla hér aðframan er það niðurstaða dómsins að samningurinn frá 15. júlí 2008 njóti hvorkiverndar 71. gr. né 3. mgr. 13. gr. búvörulaganna.8. Samkvæmt1. mgr. 11. gr. samkeppnislaga er misnotkuneins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu bönnuð. Misnotkun skv. 1.mgr. getur m.a. falist í því að viðskiptaaðilum sé mismunað með ólíkumskilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannig veiktsamanber c-lið 2. mgr. 11. gr. laganna. Það erágreiningslaust að aðalstefnandi er með markaðsráðandi stöðu á hinum ráðandimarkaði fyrir sölu á hrámjólk til vinnslu mjólkurafurða. Hann tók við um þaðbil 90% af þeirri hrámjólk sem framleidd er í landinu og var eina fyrirtækiðsem seldi hrámjólk í heildsölu. Gagnvart keppinautum sínum var hann birgirþeirra vegna kaupa á hrámjólk, sem og öflugasti keppinautur þeirra. Samkvæmtgögnum málsins greiddu keppinautar aðalstefnanda hrámjólk á hærra verði enaðilar sem voru tengdir aðalstefnanda. Munurinn á rannsóknartímabilinu er um239 millj. kr., þ.e. hversu miklu minna tengdir aðilar aðalstefnandagreiddu en ótengdir aðilar. Því erfallist á að aðalstefnandi hafi veikt samkeppnisstöðu ótengdu aðilanna og haftbein áhrif á vöxt þeirra.Meðvísan til þess sem að framan greinir lítur dómurinn svo á að aðalstefnandi hafibrotið gegn 11. gr. samkeppnislaganna.Aðalstefnandibyggir á því að dómstólinn skorti heimild til að fjalla um 11. gr.samkeppnislaganna þar sem ekki var fjallað um það ákvæði fyriráfrýjunarnefndinni með því að meirihluti hennar taldi að samkomulagið frá 15.júlí 2008 nyti verndar 71. gr. búvörulaganna. Áþetta sjónarmið er ekki fallist. Heimild gagnstefnanda til að verja ákvörðunsína styðst við 41. gr. samkeppnislaga, sbr. 4. gr. laga nr. 14/2011. Þar segir:„Nú vill aðili, þ.m.t. Samkeppniseftirlitið, ekki una úrskurði áfrýjunarnefndarog getur hann þá höfðað mál til ógildingar hans fyrir dómstólum.“ Íathugasemdum við 4. gr. frumvarpsins er sérstaklega tekið fram að mikilvægt séað samkeppniseftirlitið geti eftir atvikum varið fyrir dómsólum niðurstöðuákvarðana sinna sem áfrýjunarnefndin hefur „ógilt eða breytt“. Meirihlutiáfrýjunarnefndar felldi niður sekt þá er gagnstefnandi ákvarðaði. Hefurgagnáfrýjandi því heimild til að bera úrskurðinn undir dómstóla. 9. Með vísan til þess sem að framan greinir verður krafagagnstefnanda í gagnsök tekin til greina og úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 18. nóvember2016 í máli nr. 4/2016 verður ógiltur að því leyti sem þar er felldur úr gildisá hluti ákvörðunar gagnstefnanda frá 7. júlí sama árs, nr. 19/2016, um aðaðalstefnandi skuli greiða 440.000.000 kr. stjórnvaldssekt í ríkissjóð, vegnabrots á 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, eigi síðar en einum mánuði eftirdagsetningu ákvörðunarinnar. Ber því aðalstefnanda að greiða sekt í ríkissjóð. Varðandi fjárhæð sektarinnar er litiðtil þess að brot aðalstefnanda er alvarlegt og stóð í langan tíma. Það varðaðivinnslu á mikilvægri neysluvöru og voru aðgerðir aðalstefnanda fallnar til aðskaða samkeppni og neytendur með alvarlegum hætti. Þá er litið til þess að umítrekað brot er að ræða, sbr. úrskurð áfrýjunarnefndarinnar 14. desember 2006 ímáli nr. 8/2006. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr.samkeppnislaga getur sekt numið allt að 10% af heildarveltu síðasta rekstrarárþeirra sem aðild eiga að brotinu. Mun heildarvelta aðalstefnanda árið 2015 hafaverið um það bil 26,7 ma. kr. Sekt gagnstefnanda nemur um það bil 1,6% afveltunni, sem telja verður hóflegt þegar litið er til heimildar 2. mgr. 37. gr.Verður aðalstefnanda því gert að greiða 440.000.000 kr. í sekt.Við aðalmeðferð málsins kvaðstlögmaður gagnstefnanda ekki gera kröfu um vexti og kvaðst miða við að sektinyrði greidd innan mánaðar frá dómsuppsögu. Var því ekki andmælt afaðalstefnanda.Eftirþessari niðurstöðu ber aðalstefnanda að greiða gagnstefnanda málskostnað svosem greinir í dómsorði. Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómarikvað upp dóm þennan.DÓMSORÐ: Íaðalsök er gagnstefnandi, Samkeppniseftirlitið, sýknað af kröfum aðalstefnanda,Mjólkursamsölunnar ehf. Í gagnsök erúrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 18. nóvember 2016 í máli nr. 4/2016ógiltur að því leyti sem þar er felldur úr gildi sá hluti ákvörðunargagnstefnanda frá 7. júlí sama árs, nr. 19/2016, um að aðalstefnandi skuligreiða 440.000.000 króna stjórnvaldssekt í ríkissjóð. Aðalstefnandi greiðiríkissjóði 440.000.000 króna Aðalstefnandi greiði gagnstefnanda 3.000.000 króna í málskostnað. |
Mál nr. 445/2008 | Lögreglurannsókn Ákæra Dráttur á máli Skaðabætur | G krafði íslenska ríkið um bætur eftir að hætt hafði verið lögreglurannsókn á hendur honum vegna ætlaðrar vanrækslu hans á skyldum í starfi sem löggiltur endurskoðandi. Byggði hann kröfu sína á því að honum hafi að ósekju verið gefin réttarstaða sakbornings, en ekki hafi verið réttlætt eða skýrt hvers vegna játningar annars manns um blekkingar gagnvart honum hafi ekki verið rannsakaðar. Talið var að með því að G hafi verið grunaður um refsiverða háttsemi sem sætti rannsókn lögreglu hafi ekki verið um annað að ræða en að tekin yrði skýrsla af honum sem sakborningi. Þótti ósannað að sérstök rannsókn á blekkingum gagnvart G hefði komið í veg fyrir að hann hefði haft stöðu sakbornings. G byggði einnig á því að lögreglurannsókn á hendur honum hafi verið í ósamræmi við 31. gr. laga um meðferð opinberra mála og ekki náð markmiðum 67. gr. laganna. Talið var að G hafi ekki sýnt fram á að afstaða lögreglu um sök hans hafi legið fyrir strax frá upphafi rannsóknar eða að ekki hafi verið gætt hlutlægni við rannsókn og meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi. Þótt refsimáli á hendur G hafi í Hæstarétti verði vísað frá héraðsdómi, m.a. vegna annmarka á rannsókn, sbr. 67. gr. laga um meðferð opinberra mála, yrði ákvörðunin um útgáfu ákæru ekki talin saknæm og ólögmæt. G byggði einnig á því að hann ætti rétt til skaðabóta vegna dráttar á málinu. Talið var að sá tími sem liðið hafi frá útgáfu ákæru til dóms í Hæstarétti hafi verið hóflegur miðað við umfang málsins. Liðið hafi rúmt ár frá því rannsókn hófst að nýju þar til málið hafi verið fellt niður, en ekki hafi þó orðið óeðlilegur dráttur á málinu. Var ríkið því sýknað af kröfu G. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Mál þetta, sem dómtekið var 29. apríl 2008 var höfðað 9. maí 2007. Stefnandi er Gunnar Örn Kristjánsson, Mánalind 5, Kópavogi, en stefndi er íslenska ríkið. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 449.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. mars 2007 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti. Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað. Málavextir eru þeir helstir að stefnandi varð löggiltur endurskoðandi árið 1985 og vann sem slíkur til ársloka 1993 er hann hóf störf sem forstjóri Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda hf. (SÍF). Þar starfaði hann til loka janúar 2004. Á árinu 1986 tók stefnandi að sér að endurskoða reikninga Tryggingasjóðs lækna og hélt því áfram, þrátt fyrir að hafa látið af störfum sem endurskoðandi að öðru leyti, allt til loka ársins 2000, en hann endurskoðaði síðast ársreikning tryggingasjóðsins fyrir árið 2000 sem hann áritaði 11. júní 2001. Á þeim tíma, sem stefnandi starfaði sem endurskoðandi Tryggingasjóðs lækna, starfaði Lárus Halldórsson endurskoðandi hjá sjóðnum sem framkvæmdastjóri. Hafði hann starfað þar frá árinu 1969 sem verktaki og sá endurskoðunarskrifstofa hans um reikningsskil og bókhald fyrir sjóðinn. Stefnandi kveður að fyrir hann hafi verið lagðir ársreikningar sem voru staðfestir og undirritaðir af stjórn tryggingasjóðsins. Hafi endurskoðun farið fram á skrifstofu sjóðsins sem hafi jafnframt verið endurskoðunarskrifstofa Lárusar. Hafi Lárus látið stefnanda í té þau gögn sem hann óskaði eftir vegna endurskoðunarinnar og ekkert komið fram við hefðbundna endurskoðun stefnanda sem bent hafi til þess að reikningar sjóðsins gæfu ekki í aðalatriðum rétta mynd af fjárhag sjóðsins. Þá hafi stjórn sjóðsins heldur ekki orðið vör við að eitthvað skorti á fjárreiður framkvæmdastjórans. Í byrjun maí 2002 beindi Lárus Halldórsson því til ríkislögreglustjóra að tekin yrðu til rannsóknar brot sem hann hefði framið í starfi framkvæmdastjóra Tryggingasjóðs lækna. Kvaðst hann hafa dregið sér fé, farið gáleysislega með fjármuni, brotið gegn lögum um bókhald og ársreikninga og blekkt stjórn sjóðsins og endurskoðanda. Hafi þetta einkum verið á árunum 1984 til 1994. Í skriflegri samantekt Lárusar frá 30. apríl 2002 kom fram að honum væri ekki ljóst hversu mikið fé hann hefði dregið sér þar sem bókhaldið væri í slíku horfi að ekki yrði komist að því nema með tímafrekri rannsókn. Kvaðst Lárus hafa endurgreitt sjóðnum 27.100.000 krónur sem hann taldi geta svarað til fjárdráttarins. Í samantektinni kom enn fremur fram að ekki væri heil brú í bókhaldi sjóðsins. Væru daglegar færslur og afstemmingar bankareikninga í lagi en allt væri löngu gengið úr skorðum varðandi reikningsskil, svo og tengsl sérstaks skuldabréfabókhalds og bókhalds séreignarsjóðs við aðalbókhald sem ekki hafi stemmt saman um árabil. Útreikningar vaxta í séreignasjóði hafi að litlu leyti stuðst við raunverulega afkomu tryggingasjóðsins en hann hafi hagað málum þannig að ekki yrði kvartað undan henni. Af því hafi leitt að skuldabréfaeign tryggingasjóðsins væri stórlega ofmetin. Þá tók hann fram að daglegt bókhald hefði verið fært af starfsmönnum á skrifstofu hans en hann hafi sjálfur sinnt allri vinnu við uppgjör og gerð ársreikninga. Þá segir orðrétt í samantektinni: „Það, að þessi afglöp hafi getað staðið allan þennan tíma, án þess að upp kæmist, er fyrst og fremst vegna þess að stjórn sjóðsins og endurskoðandi hafa ranglega dregið þá ályktun að ég væri trausts þeirra verður. ...Um núverandi endurskoðanda sjóðsins gildir það að ég tel að hann hafi, vegna gamallar vináttu við mig, áritað reikninga sjóðsins enda hefur hann alla tíð talið að ekkert væri athugavert við rekstur sjóðsins. Ég hef auk þess lagt fyrir hann fölsuð gögn, sem áttu að sýna að rétt væri að öllu staðið.“ Mál Lárusar sætti rannsókn hjá ríkislögreglustjóra og með heimild í 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála leitaði lögregla til Grant Thornton endurskoðunar ehf. vegna sérfræðilegrar rannsóknar á bókhaldi og meðferð fjármuna hjá sjóðnum. Lögregluskýrsla var tekin af Lárusi hinn 8. maí 2002 um þau sakarefni sem hann hafði upplýst um. Þar ítrekaði Lárus það sem hann hafði áður sagt um að fjárdráttur hans hefði byrjað á árinu 1984 og jafnvel staðið fram yfir árið 1996. Hann hafi dregið sér fé í fyrsta lagi með því að taka fé af bankareikningi og færa fjárhæðina í bókhaldi sem kaup á verðbréfum. Í öðru lagi hafi hann greitt sjálfum sér fyrir vinnu, umfram það sem honum hafi borið og í þriðja lagi hafi hann dregið sér fé með því að taka til sín tékka fyrir greiðslu á iðgjöldum til sjóðsins, en ráðstöfun á andvirði iðgjaldanna hafi hann fært í bókhaldið sem kaup á verðbréfum og endurgreiðslur á iðgjöldum til sjóðsfélaga, sem hafi þá ekki verið tengdar bókhaldi yfir séreignarsjóði þeirra. Varðandi blekkingar í garð stefnanda og sjóðsstjórnar tók Lárus fram að hann hefði lagt fölsuð gögn fyrir stefnanda sem endurskoðanda. Hafi stefnandi lært til endurskoðanda hjá honum á sínum tíma og verið samstarfsmaður hans um nokkurra ára skeið auk þess sem persónuleg vinátta væri milli þeirra. Samstarfi þeirra hafi verið þannig háttað að stefnandi hafi borið til hans fyllsta traust. Hafi Lárus alltaf verið nálægur þegar stefnandi hafi farið yfir bókhaldið, vitandi það sem löggiltur endurskoðandi um hvað stefnandi kynni að spyrja. Hann hafi því haft þau gögn tilbúin sem nauðsynleg voru vegna endurskoðunarinnar. Sérstaklega aðspurður um kunningsskap þeirra Lárusar við aðalmeðferð máls þessa neitaði stefnandi því að um persónulega vináttu hefði verið að ræða milli þeirra. Með bréfi til ríkislögreglustjóra 4. febrúar 2003 skilaði Grant Thornton endurskoðun ehf. skýrslu um rannsókn á bókhaldi sjóðsins vegna ætlaðs fjárdráttar Lárusar og tók rannsóknin til áranna 1992-2002. Í þeirri skýrslu kemur fram að umrædd ár hafi bókhald verið fært fyrir sjóðinn en afstemmingum verið verulega áfátt. Í mörgum tilvikum hafi færslur ýmist ekki stuðst við fullnægjandi fylgiskjöl eða engin gögn verið þar að baki. Þá hafi skort tengingar og tengsl við undirkerfi í bókhaldi. Heildarniðurstöður skýrsluhöfunda voru þær að á umræddu tímabili hafi Lárus dregið sér fé af tveimur bankareikningum tryggingasjóðsins samtals að fjárhæð 75.330.552 krónur, af skuldabréfi 1.192.367 krónur, með blekkingarfærslum í bókhaldi 759.730 krónur, með færslum í bókhaldi án fylgiskjala 581.586 krónur og af greiðslu iðgjalda fyrir sjóðfélaga 8.517.653 krónur, eða samtals 86.926.091 krónu, en í þeirri fjárhæð var ekki tekið tillit til þeirrar endurgreiðslu sem Lárus innti af hendi. Eftir að Lárus gaf skýrslu aftur hjá lögreglu þar sem framangreind rannsóknarskýrsla var kynnt honum, var skýrslan endurskoðuð og endanleg niðurstaða var sú að Lárus hefði dregið að sér 75.330.552 krónur. Í kjölfarið höfðaði ríkislögreglustjóri mál á hendur Lárusi með ákæru 6. febrúar 2004 þar sem honum var gefinn að sök framangreindur fjárdráttur og nánar tilgreind bókhaldsbrot. Fyrir dómi gekkst Lárus við sakargiftum um fjárdrátt og að verulegu leyti um bókhaldsbrot og var hann sakfelldur fyrir þau brot sem hann gekkst við með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2004. Í kjölfar þess að Lárus játaði á sig langvarandi fjárdrátt frá Tryggingasjóði lækna og athugun leiddi í ljós að sjóðurinn væri mjög illa staddur fjárhagslega var ákveðið að slíta honum og var skilanefnd skipuð hinn 19. febrúar 2003. Ríkislögreglustjóri óskaði liðsinnis Árna Tómassonar, löggilts endurskoðanda, við undirbúning skýrslutöku af stefnanda vegna málefna Tryggingasjóðs lækna. Var tekin skýrsla í fyrsta sinn af stefnanda vegna málsins 24. september 2003. Við upphaf skýrslutöku var honum tjáð að við rannsókn á ætluðum brotum Lárusar hafi vaknað grunur um að stefnandi kynni í störfum sínum sem löggiltur endurskoðandi Tryggingasjóðs lækna að hafa gerst sekur um brot gegn lögum nr. 18/1997 um endurskoðendur, lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lögum nr. 144/1994 um ársreikninga og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Stefnandi neitaði sök. Í lok skýrslutökunnar afhenti hann lögreglu öll þau vinnugögn og skjöl sem hann hafði í sínum fórum vegna endurskoðunarvinnu sinnar fyrir sjóðinn. Í kjölfar lögregluskýrslu af stefnanda leitaði ríkislögreglustjóri álits Árna Tómassonar á framburði stefnanda og í minnisblaði 26. september 2003 lét Árni þá skoðun uppi að margt benti til að ekki stæðist að stefnandi hefði fylgt góðri endurskoðunarvenju í starfi sínu fyrir Tryggingasjóð lækna og benti á ýmis úrræði sem væru til þess fallin að tryggja betur grundvöll málsins. Ríkislögreglustjóri fól Grant Thornton endurskoðun ehf. að fara yfir vinnugögn stefnanda sem hann hafði afhent við skýrslugjöf hjá lögreglu 24. september 2003 og bera þau saman við bókhald og önnur gögn varðandi Tryggingasjóð lækna. Í niðurstöðum skýrslu endurskoðendanna 3. nóvember 2003 kom fram að gögn þessi gætu ekki talist nægur rökstuðningur fyrir áliti stefnanda og fyrirvaralausri áritun hans á ársreikninga lífeyrissjóðsins fyrir árin 1992 -2000. Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu aftur 27. nóvember 2003 og var framangreind skýrsla Grant Thornton endurskoðunar ehf. kynnt honum. Gerði hann athugasemdir við skýrsluna og taldi rangt að hann hefði ekki aflað fullnægjandi gagna til stuðnings því áliti sem hann hefði látið uppi í áritun. Óskaði stefnandi eftir frekari rannsókn á því hvernig samræmi hefði verið milli skuldabréfakerfis tryggingasjóðsins og raunverulegrar skuldabréfaeignar hans þegar uppgjör fór fram svo og hvort eitthvað í gögnum sjóðsins benti til þess að fyrirliggjandi skuldabréfalistar væru falsaðir. Voru atriði þessi borin undir Grant Thornton endurskoðun ehf. sem komst að því í skýrslu sinni 8. desember 2003 að í ljós hafi komið að samtölur í sumum skuldabréfalistum þeim sem voru í vinnugögnum stefnanda væru augljóslegar rangar. Í kjölfar þessa afhenti stefnandi tvær álitsgerðir Jóns Þ. Hilmarssonar endurskoðanda, aðra dagsetta 16. desember 2003 en hina 3. febrúar 2004. Var það álit hans að ef til þess kæmi að stefnandi yrði ákærður væri nauðsynlegt að dómkveðja matsmenn til að rannsaka málið frá grunni. Þá taldi hann að áður en til álita kæmi hvort stefnandi hefði unnið eftir endurskoðunarstöðlum yrðu öll atriði málsins að liggja skýrt fyrir. Því var Árni Tómasson ósammála og í minnisblaði hans, dagsettu 4. febrúar 2004, kemur fram að fyrir liggi játning á verulegum fjárdrætti og niðurstaða um frávik frá áritaðri eignastöðu samkvæmt ársreikningum og raunverulegum eignum, þrátt fyrir að öll vafatilvik séu metin stefnanda í hag. Sé því eðlilegt að stefnandi leggi fram gögn um hvaða endurskoðunaraðgerðum hann hafi beitt við endurskoðun hvert ár sem leitt hafi til þeirrar niðurstöðu að hann áritaði reikninga tryggingasjóðsins. Ríkislögreglustjóri óskaði eftir því að Grant Thornton endurskoðun ehf. gerði yfirlit um eignir tryggingasjóðsins í árslok 2000 og bæri saman við ársreikning fyrir sama ár miðað við upplýsingar í bókhaldi sjóðsins. Grant Thornton endurskoðun ehf. skilaði skýrslu 7. febrúar 2004 og er niðurstaðan sú að mismunur milli eigna sem í reynd hafi verið fyrir hendi og þeirra sem greindi í ársreikningi hafi alls numið 55.968.681 krónu. Enn á ný var tekin skýrsla af stefnanda hjá lögreglu 2. mars 2004 og ítrekaði hann þá fyrri athugasemdir varðandi það að ekki hefði verið rannsakað hvernig Lárus Halldórsson hefði blekkt hann. Ríkislögreglustóri höfðaði mál á hendur stefnanda með ákæru 16. apríl 2004 þar sem honum var gefið að sök að hafa á árunum 1993-2000 vanrækt skyldur sínar sem löggiltur endurskoðandi með því að hafa, eftir endurskoðun á ársreikningum Tryggingasjóðs lækna, áritað þá án fyrirvara og með yfirlýsingu um að þeir gæfu glögga mynd af afkomu og efnahag og breytingu á handbæru fé, án þess að hafa aflað fullnægjandi gagna og kannað á fullnægjandi hátt fyrirliggjandi gögn og þannig ekki hagað endurskoðun sinni í samræmi við góða endurskoðunarvenju. Stefnandi neitaði að öllu leyti sök í málinu. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 30. nóvember 2004, var stefnandi sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 12. maí 2005 í máli nr. 509/2004, var málinu vísað frá héraðsdómi þar sem verulega hefði skort á að lögregla hefði, eins og hún hagaði rannsókn sinni, náð því markmiði sem mælt sé fyrir um í 67. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, auk þess sem verknaðarlýsing í ákæru væri áfátt. Ríkissaksóknari óskaði eftir því við ríkislögreglustjóra með bréfi 31. maí 2005 að undirbúið yrði framhald rannsóknar máls á hendur stefnanda í samræmi við athugasemdir í forsendum hæstaréttardómsins frá 12. maí 2005. Var stefnanda tilkynnt með bréfi ríkislögreglustjóra 20. október 2005 um að ákveðið hafi verið að taka málið til rannsóknar að nýju og ráða bót á þeim annmörkum sem Hæstiréttur hefði talið vera á rannsókn málsins. Í kjölfarið krafðist stefnandi úrskurðar héraðsdóms um meðal annars að óheimilt væri að hefja lögreglurannsókn að nýju og að úrskurðað væri að stefnandi hefði ekki réttarstöðu sakbornings vegna þeirra sakarefna sem voru grundvöllur ákæru í fyrrgreindu hæstaréttarmáli. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 16. nóvember 2005, sem staðfestur var í Hæstarétti 22. nóvember 2005 var kröfum stefnanda hafnað. Í tengslum við framangreinda rannsókn máls á hendur stefnanda óskaði ríkislögreglustjóri eftir dómkvaðningu matsmanna hinn 9. nóvember 2005. Mótmælti stefnandi kröfunni og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 17. febrúar 2006, var beiðni ríkislögreglustjóra um dómkvaðningu matsmanna hafnað. Hæstiréttur felldi þann úrskurð úr gildi 14. mars 2006. Með ákvörðun 24. mars 2006 ákvað héraðsdómari að matsmenn skyldu dómkvaddir en með dómi Hæstaréttar 7. apríl 2006 var ákvörðun þessi felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna til efnislegrar meðferðar. Enn á ný var uppi ágreiningur um dómkvaðningu matsmanna og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2006 var niðurstaðan sú að dómkvaddir skyldu tveir matsmenn til að meta þau atriði sem greindi í matsbeiðni ríkislögreglustjóra. Var úrskurður þessi staðfestur með dómi Hæstaréttar 30. maí 2006. Hinn 20. júní 2006 voru Guðmundur Óskarsson og Gunnar Sigurðsson, löggiltir endurskoðendur, dómkvaddir í verkið. Með bréfi til dómsins 23. júní 2006 tilkynnti Guðmundur Óskarsson að hann væri óhæfur til verksins. Af gögnum málsins verður ekki séða að nokkuð hafi verið aðhafst í að dómkveðja nýjan matsmann fyrr en matsbeiðandi fór að grennslast fyrir um hvar málið væri statt í september 2006. Þá var boðað til fyrirtöku í málinu en málinu frestað þar sem erfiðlega hafði gengið að finna hæfan matsmann sem var tilbúinn að taka að sér verkið. Með bréfi lögmanns stefnanda til ríkislögreglustjóra 31. ágúst 2006 var þess krafist að málið yrði fellt niður enda dráttur sá sem orðinn væri á málinu skýlaust brot á réttindum stefnanda. Með bréfi lögmanns stefnanda til ríkissaksóknara 18. október 2006 var þess farið á leit að hann skoðaði málið og gæfi eftir atvikum ríkislögreglustjóra fyrirmæli um að fella umrædda rannsókn máls niður. Ríkissaksóknari óskaði í kjölfarið upplýsinga um stöðu málsins með bréfi 24. október 2006 og í svarbréfi ríkislögreglustóra 30. október 2006 var upplýst að erfiðlega gengi að fá hæfan löggiltan endurskoðanda í matið en formaður Félags löggiltra endurskoðenda væri að kanna málið og stæðu vonir til að það tækist fljótlega. Ríkissaksóknari óskaði eftir því í bréfi til ríkislögreglustjóra 13. nóvember 2006 að honum yrðu send þau gögn sem bæst hefðu við rannsóknargögn málsins eftir 31. maí 2005 og fór þess á leit að ríkislögreglustjóri hlutaðist til um að Héraðsdómur Reykjavíkur frestaði dómkvaðningu matsmanns í stað Guðmundar Óskarssonar. Í bréfi ríkissaksóknara til ríkislögreglustjóra 20. nóvember 2006 kom fram að dráttur sá sem orðið hefði á að skapa grundvöll til að taka ákvörðun um hvort ákæra bæri á ný í málinu væri orðinn óhæfilegur og því ekki lengur réttmætt af hálfu ákæruvalds að halda málinu áfram. Með bréfi ríkislögreglustjóra 5. desember 2006 til stefnanda var honum tilkynnt að rannsókn málsins vegna ætlaðra brot hans hefði verið hætt. Með bréfi lögmanns stefnanda til ríkislögmanns 16. febrúar 2007 var skaðabótakröfu stefnanda komið á framfæri vegna meintra stórfelldra ágalla á málsmeðferð lögreglu og ákæruvalds við rannsókn og ákæru í opinberu máli á hendur honum vegna starfa hans sem endurskoðanda Tryggingasjóðs lækna. Með svarbréfi ríkislögmanns 4. apríl 2007 var bótakröfu stefnanda hafnað. Stefnandi byggir á því að hin bótaskyldu atvik sem stefndi beri ábyrgð á og leitt hafi til tjóns hans séu eftirfarandi: Í fyrsta lagi sú ákvörðun að hann skyldi fá réttarstöðu sakbornings vegna starfa sinna við endurskoðun Tryggingasjóðs lækna. Á engan hátt hafi verið réttlætt eða skýrt af hverju játningar Lárusar Halldórssonar um blekkingar og falsanir gagnvart stefnanda hafi ekki verið rannsakaðar. Í öðru lagi hvernig staðið hafi verið að lögreglurannsókn vegna sakargifta á hendur stefnanda frá 24. september 2003 til 16. apríl 2004, en sú rannsókn hafi verið fjarri því að vera í samræmi við 31. gr. laga nr. 19/1991 og því að ná markmiði 67. gr. sömu laga. Í þriðja lagi sú ákvörðun ákæranda að gefa út ákæru á hendur stefnanda á grundvelli fyrirliggjandi rannsóknar og efni ákærunnar enda hljóti ákæranda að hafa verið eða mátt vera ljóst að rannsóknin hafi ekki uppfyllt skilyrði 67. gr. laga nr. 19/1991. Í fjórða lagi sú ákvörðun að stefnandi hafi haft réttarstöðu sakbornings að ósekju og mun lengur en verið hefði ef rannsókn og saksókn hefði farið fram í samræmi við lög um meðferð opinberra mála, stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Bæði sé um að ræða drátt sem hafi orðið vegna ákvörðunar um ákæru á grundvelli ófullnægjandi rannsóknar og án fullnægjandi verknaðarlýsingar og drátt sem orðið hafi eftir að málinu var vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar Íslands 12. maí 2005 í máli nr. 509/2004. Dráttur þessi hafi á engan hátt verið réttlættur og sé alfarið á ábyrgð stefnda. Stefnandi kveður að þrátt fyrir það að Lárus Halldórsson hafi strax í upphafi viðurkennt hjá lögreglu að hann hefði beitt stefnanda blekkingum hafi hann aldrei verið spurður út í það hver þau gögn væru sem hann hefði falsað eða hvaða blekkingum hann hefði beitt stefnanda. Þá hafi stefnandi aldrei verið kallaður til skýrslutöku vegna brota Lárusar Halldórssonar, hvorki hjá lögreglu né vegna meðferðar máls á hendur Lárusi fyrir dómi. Þá hafi ekki verið óskað eftir upplýsingum eða gögnum frá stefnanda til þess að staðhæfa fullyrðingar Lárusar um að hann hefði falsað skjöl og viðhaft blekkingar gagnvart stefnanda. Af þeim sökum hefðu vinnupappírar stefnanda ekki verið afhentir lögreglu fyrr en um 17 mánuðum eftir að Lárus hafi verið yfirheyrður fyrst. Ríkislögreglustjóri hafi hinn 6. febrúar 2004 gefið út ákæru á hendur Lárusi Halldórssyni, en þar hafi Lárus ekki verið ákærður fyrir skjalafals eða rangfærslur með því að hafa lagt fyrir stefnanda skjöl sem hann hafði falsað og/eða rangfært. Engar skýringar hafi komið fram á því af hverju brot Lárusar gagnvart stefnanda hafi ekki verið rannsökuð. Stefnandi byggir á því að brotið hafi verið alvarlegra gegn honum með því að sakir Lárusar gagnvart stefnanda hafi ekki verið rannsakaðar, enda hlyti slík rannsókn að hafa leitt í ljós að endurskoðunarstörf stefnanda hefðu ekki með neinum hætti brotið í bága við lög. Með slíkri rannsókn hefði komið fram að Lárus hefði beitt stefnanda blekkingum sem ekki verði metið honum til lasts að hafa ekki tortryggt. Að mati stefnanda sé niðurstaða um blekkingar og falsanir Lárusar gagnvart honum grundvallaratriði um endurskoðunarstörf stefnanda fyrir Tryggingasjóð lækna. Hljóti lögreglu og ákæranda að hafa verið ljóst mikilvægi þess að rannsaka þessar falsanir og blekkingar þegar í upphafi og samhliða öðrum sakarefnum á hendur Lárusi, enda sakarefnin tengd. Þá megi ljóst vera að líklegast hefði verið hægt að fá upplýsingar frá Lárusi um þessi brot hans í upphafi rannsóknar. Stefnandi byggi á því að bótaskylda stefnda hafi þegar stofnast af þeim sökum að brot Lárusar gagnvart stefnanda hafi ekki verið rannsökuð og ekki ákært fyrir þau. Af þeim gögnum sem fyrir liggi verði ekki ráðið með óyggjandi hætti hvort um beinan ásetning þeirra sem stýrðu rannsókn og saksókn hafi verið að ræða eða stórfellt gáleysi. Um bótaskylduna gildi það einu enda byggi stefnandi á almennu skaðabótareglunni utan samninga og reglunni um húsbóndaábyrgð hvort sem um ásetning eða gáleysi hafi verið að ræða. Hefði verið staðið að lögreglurannsókn á brotum Lárusar Halldórssonar með lögmætum hætti hefði það leitt til þess að stefnandi hefði ekki fengið réttarstöðu sakbornings vegna endurskoðunarstarfa sinna fyrir Tryggingasjóð lækna. Hafi bótaábyrgð stofnast við það að stefnandi hafi fengið réttarstöðu sakbornings sem honum var kynnt þegar hann mætti boðaður til skýrslutöku hjá ríkislögreglustjóra 24. september 2003. Ákvörðun rannsóknaraðila hafi verið tekin vegna þeirrar saknæmu og ólögmætu háttsemi að láta hjá líða að rannsaka brot Lárusar Halldórssonar gagnvart stefnanda sem hann hafði játað í öndverðu og höfðu á þessum tíma verið til rannsóknar í um 17 mánuði. Byggi stefnandi á því að saknæm og ólögmæt háttsemi rannsóknaraðila og kunnáttumanna sem hann beri ábyrgð á hafi leitt til þess að stefnandi hafi að ósekju fengið réttarstöðu sakbornings, en þá stöðu hafi stefnandi haft í rúmlega þrjú ár. Fyrir stefnanda hafi það haft mjög skaðlegar afleiðingar að fá þessa réttarstöðu, bæði vegna starfs þess sem hann sinnti sem forstjóri virts fyrirtækis á almennum hlutabréfamarkaði og einnig vegna möguleika hans til að starfa sem endurskoðandi. Við lok skýrslutöku af stefnanda hjá lögreglu 24. september 2003 hafi stefnandi afhent lögreglu vinnupappíra sína vegna endurskoðunarvinnu fyrir Tryggingasjóð lækna fyrir allt það tímabil sem hann hafi unnið að endurskoðun fyrir sjóðinn. Meðal þeirra hafi verið þau skjöl sem Lárus Halldórsson hafi afhent stefnanda við endurskoðunarvinnuna. Tveimur dögum eftir að stefnandi hafi gefið sína fyrstu skýrslu hafi tilkvaddur kunnáttumaður, Árni Tómasson, löggiltur endurskoðandi, lýst því yfir við rannsóknaraðila að hann teldi skylt að láta reyna á ábyrgð endurskoðandans. Hafi Árni lagt slíka áherslu á þetta atriði að hann hafi talið að líta mætti svo á að annars væri embætti ríkislögreglustjóra að brjóta gegn lögboðnum skyldum sínum. Hafi Árni með þessu komist að þeirri fortakslausu niðurstöðu að stefnandi væri sekur án þess að hafa kannað vinnupappíra þá sem afhentir höfðu verið. Róbert Bjarnason lögreglufulltrúi sem stýrði lögreglurannsókninni hafi gert framangreinda skoðun hins tilkvadda kunnáttumanns um sök stefnanda að sinni í bréfi sem hann hafi ritað Þórunni Guðmundsdóttur, hæstaréttarlögmanni og formanni skilanefndar Tryggingasjóðs lækna, hinn 16. október 2003. Í því bréfi kveði hann að niðurstaða rannsóknar á sakargiftum á hendur stefnanda sé sú að ekki verði komist hjá því láta reyna á ábyrgð hans. Megi ljóst vera að yfirlýsingar þessara aðila um að sakaður maður skuli sæta ábyrgð geti ekki þýtt neitt annað en ákveðið hafi verið að ákæra stefnanda og krefjast þess að hann sæti refsingu, enda geti ábyrgð sakaðs manns í þessu samhengi ekki verið önnur. Í greinargerð Þórunnar Guðmundsdóttur til fjármálaeftirlitsins og viðskiptaráðuneytisins 13. nóvember 2003 komi skýrt fram hvernig hún hafi skilið framangreinda fullyrðingu í bréfi Róberts Bjarnasonar, en í upphafi greinargerðarinnar sé vitnað til umrædds bréfs og síðar í henni fullyrt að ákveðið hefði verið að ákæra stefnanda. Þegar tilgreindur yfirmaður rannsóknarinnar hafi ritað umrætt bréf til formanns skilanefndar hefðu vinnupappírar stefnanda ekki verið afhentir kunnáttumönnum til rannsóknar, enda hafi þeir fyrst verið afhentir Grant og Thornton endurskoðun ehf. hinn 20. október 2003. Hafi þessi afstaða rannsóknaraðila á sök stefnanda því legið fyrir áður en nokkur rannsókn hafi farið fram á vinnupappírum stefnanda og áður en hann og/eða aðrir hafi verið spurðir um hvernig stefnandi hafi unnið endurskoðunarvinnuna, og án þess að nokkur athugun hefði fram á því að hvað hafi falist í orðum Lárusar Halldórssonar um að hann hefði blekkt endurskoðanda sjóðsins og lagt fyrir hann fölsuð skjöl. Megi því ljóst vera að fyrir hafi legið í upphafi lögreglurannsóknar fyrir fram gefin niðurstaða um sök stefnanda án þess að nokkur viðhlítandi rannsókn hefði farið fram. Stefnandi byggir á því að augljóslega megi sjá að rannsókn og saksókn málsins hafi goldið alla tíð fyrir þessa fyrir fram gefnu niðurstöðu um að stefnandi hefði hagað endurskoðunarvinnu sinni í andstöðu við lög. Í málsmeðferð þessari felist brot á lögum um meðferð opinberra mála og beri allt framhald málsins merki þess að verið sé að verja þá fyrir fram gefnu niðurstöðu fremur en að rannsaka af hlutlægni bæði það sem kynni að vera til sektar og sýknu, eins og skylt sé. Stefnandi hafi síðan verið kallaður til skýrslutöku að nýju 27. nóvember 2003, en þá hafi honum verið kynnt skýrsla Grant Thornton endurskoðunar ehf., dagsett 3. nóvember 2003, um vinnupappíra þá sem stefnandi hafði afhent 24. september 2003. Í skýrslunni komi fram að í þeim vinnugögnum sem lögð hafi verið fram séu eingöngu staðfestingar um stöðu bankareikninga um áramót og útprentanir úr bókhaldi sjóðsins. Útprentanir úr bókhaldi sjóðsins á viðskiptareikningum, stöðulistum og útprentanir úr skuldabréfakerfi sjóðsins geti ekki talist staðfestingar einar sér. Upplýsingar um endurskoðun allra annarra þátta í starfsemi lífeyrissjóðsins vanti. Að mati skýrsluhöfunda geti gögnin ekki talist nægilegur rökstuðningur fyrir áliti stefnanda og fyrirvaralausri áritun hans á ársreikninga lífeyrissjóðsins fyrir árin 1992-2000. Stefnandi kveður að í framangreindri skýrslu sé í engu getið hvað höfundar telji að vanti upp á gögnin til þess að fyrirvaralausar áritanir gætu hafa átt sér stað. Þá verði ekki heldur séð að skýrsluhöfundar hafi orðið þess varir að í vinnupappírum hafi verið skjöl, sem stefnandi hafi fengið afhent við endurskoðunarvinnuna, sem hafi verið rangfærð og/eða fölsuð. Fullyrðingar um annað í vitnisburðum endurskoðendanna fyrir héraðsdómi, við meðferð ákæru á hendur stefnanda, fái ekki staðist þegar önnur gögn málsins séu skoðuð. Auk þess hljóti að vera sérstaklega ámælisvert og augljóst brot á lögum að geta ekki um fölsuð eða rangfærð gögn ef þeir hefðu komið auga á þau við yfirferð vinnupappíranna. Í skýrslu stefnanda frá 27. nóvember 2003 hafi hann tjáð sig um þau sakarefni sem til rannsóknar voru og skýrt vinnu sína og afstöðu í stuttu máli. Í lok hennar hafi stefnandi meðal annars óskað eftir að kannað yrði hvort eitthvað í gögnum sjóðsins benti til þess að skuldabréfalistar sem voru meðal vinnupappíra hans væru rangir eða falsaðir. Að beiðni rannsóknaraðila hafi Grant Thornton endurskoðun ehf. verið fengnir til þess að kanna hvort í vinnupappírunum væru fölsuð skjöl. Í skýrslu þeirra 8. desember 2003 komi fram að við skoðun á þeim skuldabréfalistum sem hafi verið í vinnuskjölum stefnanda hafi komið í ljós að samlagning á listunum hafi ekki stemmt við samtölur þeirra og séu niðurstöður þeirra augljóslega rangar. Ekki sé ljóst hvað felist í orðunum „augljóslega rangar“ og séu skýringar skýrsluhöfunda í vitnisburði fyrir dómi óljósar í þeim efnum. Svo virðist sem umræddum endurskoðendum hafi yfirsést þetta atriði við upphaflega rannsókn á vinnupappírunum og fölsun þessi því væntanlega ekki augljós í þeim skilningi að hún blasi við. Þá hafi Árni Tómasson endurskoðandi í bréfi til ríkislögreglustjóra 21. júní 2004 kallað fölsun á skuldabréfalista ársins 1993 lævíslega og fagmannlega, og talið að ekki væri hægt að áfellast vinnubrögð endurskoðandans vegna þeirrar fölsunar. Af umræddu bréfi og minnisblaði Árna 4. febrúar 2004 vegna greinargerðar Jóns Hilmarssonar endurskoðanda 3. febrúar 2004, megi ljóst vera að Árna hafi ekki verið kunnugt um þá rannsóknarniðurstöðu Grant Thornton endurskoðunar ehf. frá 8. desember 2003 að allir skuldabréfalistar sem voru meðal vinnupappíra stefnanda væru falsaðir með sambærilegum hætti. Í lok framangreindrar skýrslu frá 8. desember 2003, án þess þó að rannsóknaraðili virðist hafa spurt sérstaklega um það, segi hinir tilkvöddu kunnáttumenn að einu ytri staðfestingar sem liggi fyrir í vinnuskjölum stefnanda séu staðfestingar á stöðu bankareikninga um áramót. Það sé því niðurstaða þeirra að vinnuskjöl og upplýsingar um vinnu endurskoðandans varðandi aðra liði en stöðu bankareikninga um áramót vanti. Ekkert sé um það fjallað hvaða gögn sé eða geti verið um að ræða. Fái þessi ályktun ekki staðist og beri hún ekki vott um hlutlægni. Eins og tilkvöddum kunnáttumönnum og rannsóknaraðila hafi átt að vera ljóst hafi einu ytri gögn Tryggingasjóðs lækna verið gögn frá bönkum um stöðu bankareikninga og spariskírteina. Starfsmaður sjóðsins hafi sjálfur séð um að útbúa skuldabréf vegna lána sjóðsfélaga, innheimta þau, senda út greiðsluseðla, bóka innborganir og þess háttar. Hafi síðasta lögregluskýrslan verið tekin af stefnanda 2. mars 2004. Þar hafi stefnandi gert grein fyrir því á grundvelli eigin athugunar og endurskoðanda á hans vegum, að hann teldi blekkingar Lárusar gagnvart sér felast í fölsun afstemminga og skuldabréfalista, fölsun ljósrita spariskírteina ríkissjóðs, fölsun á tölvulistum skuldabréfa ársins 1998, færsla á tveimur útgáfum á bókhaldi og fölsun skuldabréfalista. Af hálfu verjanda stefnanda hafi í lok skýrslutökunnar verið bókað að svo sem fram komi í gögnum þeim sem stefnandi hafi afhent lögreglunni sé ljóst að engin viðhlítandi rannsókn hafi farið fram á sakargiftum á hendur stefnanda. Sé það afstaða stefnanda að þar hafi hann í einu og öllu beitt forsvaranlegum vinnubrögðum þó hann hafi ekki séð í gegnum blekkingar sem framkvæmdastjóri sjóðsins hafi beitt. Það geti aldrei orðið viðhlítandi grundvöllur undir ákæru á hendur stefnanda að sanna fjárdrátt Lárusar Halldórssonar án þess að rannsaka starfshætti stefnanda. Það geti heldur ekki verið hlutverk hans að sanna sakleysi sitt gagnvart slíkum sakargiftum. Á fundi sem haldinn hafi verið þann 17. mars 2004 hafi Theódór Sigurbergsson, endurskoðandi hjá Grant Thornton endurskoðun ehf., upplýst að hann teldi þau gögn sem fram höfðu komið af hálfu stefnanda og þeirra sem störfuðu fyrir hann engu breyta um niðurstöðu rannsóknarinnar á endurskoðunarvinnu stefnanda. Þrátt fyrir ábendingar stefnanda varðandi falsanir og blekkingar hafi ekki frekar en áður verið talið nauðsynlegt af hálfu lögreglu að taka skýrslu af Lárusi Halldórssyni um þær eða þær rannsakaðar frekar með öðrum hætti. Eins og fram komi í dómi Hæstaréttar 12. maí 2005 í máli nr. 509/2004 skorti mjög á að lögregla hafi hagað rannsókn sinni þannig að hún næði því markmiði sem mælt sé fyrir um í 67. gr. laga nr. 19/1991, þ.e. að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að lokinni rannsókn að taka ákvörðun um hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómi. Hafi því ekki legið fyrir viðhlítandi rannsókn þegar ákæra hafi verið gefin út á hendur stefnanda 16. apríl 2004. Byggi stefnandi á því að lögreglurannsókn á hendur honum hafi haft alvarlega ágalla og verið í andstöðu við lög og hafi bótaábyrgð stofnast vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi lögreglu og tilkvaddra kunnáttumanna við hana. Stefnandi heldur fram og byggir á að lögmæt lögreglurannsókn hefði leitt til þess að mál á hendur honum hefði verið fellt niður. Þá kveður stefnandi að sú ákvörðun ákæranda að gefa út ákæru 16. apríl 2004 á grundvelli þeirrar rannsóknar sem um ræði hafi verið saknæm og ólögmæt og leiði hún til bótaskyldu fyrir stefnda, enda hafi það mátt vera ákæranda ljóst að rannsóknin gæti ekki verið grundvöllur fyrir ákvörðun um saksókn auk þess sem á hafi skort að aflað hefði verið nægjanlegra gagna til undirbúnings málsmeðferðar. Þá hafi í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands verið slegið föstu að verknaðarlýsing ákærunnar á hendur stefnanda hafi verið verulegum annmörkum háð og í andstöðu við lög. Þá byggi stefnandi á því að útgáfa og birting ákæru á hendur honum hafi valdið honum verulegu tjóni ein og sér enda felist í slíku mikill álitshnekkir sem menn verði ekki að fullu hreinsaðir af, jafnvel þótt þeir verði sýknaðir. Fyrir löggiltan endurskoðanda sé ákæra sérstaklega alvarleg og feli í raun í sér sviptingu réttinda meðan málsmeðferð fari fram og einnig eftir það, sama hver úrslit máls verða. Sá dráttur sem orðið hafi á því að málinu lyki gagnvart stefnanda sé að öllu leyti á ábyrgð lögreglu og ákæruvalds og verði á engan hátt talinn ásættanlegur eða afsakanlegur. Fyrir liggi að sú málsmeðferð sem hófst með útgáfu ákæru 16. apríl 2004 og lauk með frávísun Hæstaréttar Íslands hinn 12. maí 2005 hafi ekki skilað neinni efnislegri niðurstöðu. Málið hafi því í raun verið í sömu stöðu eftir frávísunardóminn og það hafi verið þegar ákæra var gefin út. Eftir framangreindan frávísunardóm Hæstaréttar hafi ekkert verið aðhafst fyrr en stefnanda hafi verið afhent bréf 20. október 2005, eða tæpum sex mánuðum síðar, þar sem tilkynnt hafi verið um þá ákvörðun efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra að hefja lögreglurannsókn á hendur stefnanda að nýju. Í kjölfar þess hafi verið tekin stutt vitnaskýrsla af Lárusi Halldórssyni þar sem lagðar hafi verið fyrir hann nánast sömu spurningar og hann hafði verið spurður af verjanda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur við aðalmeðferð fyrrgreinds sakamáls á hendur stefnanda. Hafi þær fyrst og fremst lotið að blekkingum hans og fölsunum gagnvart stefnanda. Sú niðurstaða ríkissaksóknara, sem hann tilkynnti ríkislögreglustjóra með bréfi 20. nóvember 2006, að hætta skyldi rannsókn sakargifta á hendur stefnanda, hafi byggst á því að dráttur sá sem þegar hefði orðið á málinu væri orðinn óhæfilegur og því óréttmætt að halda málinu áfram. Þegar ríkislögreglustjóri svo tilkynnti stefnanda það með bréfi 5. desember 2006 að rannsókn á ætluðum brotum hans við endurskoðun ársreikninga fyrir Tryggingasjóð lækna hefði verið hætt hafi verið liðnir tæplega 19 mánuðir frá dómi Hæstaréttar sem hafi skýrt nákvæmlega í hverju rannsókn málsins hefði verið áfátt. Verði dráttur þessi á engan hátt afsakaður og feli hann í sér brot gegn lögvörðum rétti stefnanda til réttlátrar málsmeðferðar. Hafi réttarstaða stefnanda sem sakbornings staðið frá 24. september 2003 til 5. desember 2006. Hafi rannsókn og saksókn á hendur stefnanda sem hafi farið fram á þessu tímabili ekki leitt í ljós að neitt hafi verið athugavert við störf hans fyrir Tryggingasjóð lækna. Byggi stefnandi á því að allur dráttur á málinu frá 12. maí 2005 til 5. desember 2006 sé bótaskyldur enda hafi hann verið í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrár nr. og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um hæfilegan málshraða. Beri stefndi bótaábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli almennu skaðabótareglunnar utan samninga og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi lögreglu og ákæranda sem hafi valdið stefnanda stórfelldu tjóni. Leiði hvert og eitt framangreindra atriða til bótaskyldu. Að minnsta kosti hljóti hluti þeirra eða öll saman að leiða til bótaskyldu enda ágallar á málsmeðferðinni í heild stórfelldir og í brýnni andstöðu við lögvarin réttindi stefnanda. Hafi stefnandi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar og með því hafi verið brotið gegn mannréttindum hans sem tryggð séu í stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. Þegar stefnandi hafi fengið réttarstöðu sakbornings hafi hann verið forstjóri SÍF, sem þá hafi verið eitt stærsta fyrirtæki á Íslandi með starfsemi út um allan heim. Stefnandi hafi á þessum tíma verið þekktur í viðskiptalífi hér á landi og víðar um heim á því sviði sem SÍF starfaði. Hann hafi meðal annars verið kosinn maður ársins í íslenska viðskiptalífinu árið 1999. Nokkru eftir að mál þetta hafi komið upp hafi stefnandi látið af forstjórastarfi hjá SÍF, eða frá og með 1. febrúar 2004, en samkomulag um starfslok hafi verið gert í janúar 2004. Tildrög þess að stefnandi hætti störfum hjá SÍF hafi verið að hann hafi ekki talið sér stætt í því starfi eftir að opinber rannsókn hófst á því hvort hann væri sekur um refsiverða háttsemi við störf sem hann hefði unnið á sama tíma og hann starfaði hjá SÍF, en hann hafi fengið af því fregnir í kringum áramót 2003/2004 að ákærandi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra hefði þegar ákveðið að ákæra hann. Í samræmi við ráðningarsamning hafi stefnandi haft takmarkaða vinnuskyldu hjá SÍF í eitt ár eftir starfslokin. Honum hafi hins vegar verið heimilt að ráða sig til starfa hjá öðrum aðila frá 1. febrúar 2004 án þess að það hefði áhrif á greiðslur frá SÍF eftir starfslok, enda væri hið nýja starf eða starfsemi ekki í samkeppni við starfsemi SÍF. Greiðslur þær sem stefnandi hafi fengið frá fyrrum vinnuveitanda á grundvelli ráðningarkjara hans séu eftirlaunaréttur sem hann hafði áunnið sér og skipti því ekki máli við mat á tjóni stefnanda. Í fjölmiðlum hafi verið fluttar fréttir af því að stefnandi hafi sætt lögreglurannsókn vegna endurskoðunarstarfa sinna. Af fyrstu umfjöllun í dagblaðinu DV um málið verði ekki annað séð en blaðamaður hafi haft aðgang að upplýsingum úr lögreglurannsókn sem trúnaður hafi átt að vera um. Hafi þetta verið til þess fallið að auka tjón stefnanda. Við þær aðstæður sem upp hafi verið komnar hafi stefnandi hvorki verið gjaldgengur sem forstjóri SÍF né annarra fyrirtækja af svipaðri stærð. Honum hafi einnig verið lokuð sú leið að hefja störf að nýju sem endurskoðandi. Stefnanda hafi ekki boðist forstjórastarf eða starf við endurskoðun frá því mál þetta á hendur honum hafi komist í hámæli. Sú staða sem stefnandi hafi verið í hafi einnig takmarkað verulega möguleika hans á að taka að sér ýmiss konar trúnaðarstörf, svo sem setu í stjórnum fyrirtækja. Eigi stefnandi rétt á skaðabótum sem nemi fjártjóni hans af því að hafa ekki getað haldið áfram í því starfi sem hann sinnti eða fengið sambærilegt starf annars staðar vegna hinna ólögmætu aðgerða lögreglu og ákæranda. Stefnandi byggi á því að hafa orðið að hætta störfum hjá SÍF og ekki átt kost á að ráða sig til sambærilegra starfa hér á landi hjá öðrum. Hafi stefnandi ekki verið í launuðu starfi frá 1. febrúar 2004 og hafi honum ekki boðist slíkt starf á þeim sviðum þar sem þekking hans, reynsla og menntun gæti nýst og tryggt honum sambærilegar vinnutekjur og hann hafi áður haft og mátt vænta að hafa áfram. Hafi verið útilokað fyrir stefnanda að fá starf sem forstjóri/framkvæmdastjóri stærri fyrirtækja á Íslandi meðan hann hafi haft réttarstöðu sakbornings. Þeirri réttarstöðu hafi lokið 5. desember 2006 og miðist bótakrafan við árslok þess árs. Miði stefnandi bótakröfuna við að áætluð heildarlaun sem hann hefði getað vænst að fá sem forstjóri SÍF eða hjá öðrum sambærilegum aðila á verðlagi í febrúar 2007 séu að lágmarki 2.500.000 krónur á mánuði. Sé sú fjárhæð að fullu reiknuð frá 1. febrúar 2004 til ársloka 2007. Fjárhæðin sé áætluð enda ekki hægt að sanna hana með óyggjandi hætti, meðal annars vegna þess að laun stefnanda hjá SÍF hafi að nokkru tekið mið af afkomu. Haldi stefnandi því fram að jafnvel þó málalyktir hafi orðið og hann hafi ekki lengur réttarstöðu sakbornings, þá muni þau atvik sem lýst hafi verið, hafa þau áhrif að stefnandi muni ekki eiga möguleika á að fá sambærilegt starf og hann var í þegar málið hófst. Það hversu lengi stefnandi hafi haft réttarstöðu sakbornings og ekki verið gjaldgengur til þeirra starfa sem áður hafi verið lýst, geri tjón hans umfangsmeira en ella, enda erfitt að komast að nýju inn í hóp tiltölulega fámenns hóps hér á landi sem taldir séu eftirsóknarverðir sem forstjórar stórra fyrirtækja. Fjártjón stefnanda vegna þessa sé áætlað 1.500.000 krónur á mánuði frá 1. janúar 2007 þar til hann hafi náð 67 ára aldri. Miðað sé við að stefnandi geti aflað sér tekna af öðrum störfum en forstjórastarfi eða 1.000.000 króna á mánuði, og lækki því áætluð fjárhæð úr 2.500.000 krónur í 1.500.000 krónur. Eigi stefndi að bera áhættuna af óvissunni hvað orðið hefði, ef stefnandi hefði ekki orðið fyrir hinni bótaskyldu háttsemi sem stefndi beri ábyrgð á. Þá byggi stefnandi einnig á því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna þess að málarekstur á hendur honum hafi leitt til spjalla á lánstrausti og viðskiptahagsmunum hans. Fjárhæð þess tjóns sé metið að álitum 10.000.000 króna, en ómögulegt sé að sanna með óyggjandi hætti slíkt tjón. Fyrir mann í þeirri stöðu sem stefnandi hafi gegnt sé verulegur skaði fólginn í þeim álitshnekki sem felist því að vera sakaður um refsiverða háttsemi í starfi sínu, bæði varðandi möguleika á störfum og annarri þátttöku í viðskiptalífi. Hafi stefnandi orðið fyrir stórfelldum miska og álitshnekki vegna lögreglurannsóknar, ákæru og málsmeðferðar fyrir dómi á endurskoðunarstörfum hans fyrir Tryggingasjóð lækna. Eigi 26. gr. skaðabótalaga við hér enda hafi verið brotið gegn persónu stefnanda, æru og friði. Hafi stefnandi mátt sæta því að hafa haft réttarstöðu sakaðs manns í ríflega þrjú ár, án þess að það leiddi til annarrar efnislegrar niðurstöðu en mál hafi verið fellt niður á hendur honum. Þurfi ekki að fara mörgum orðum um áhrif þess á flekklausan og gifturíkan feril stefnanda í íslensku viðskiptalífi eða hvaða áhrif mál þetta hafi haft á allt líf stefnanda og fjölskyldu hans. Auki það enn miska stefnanda að lögreglurannsókn og saksókn skuli beinast að störfum sem stefnandi hafi aflað sér menntunar og löggildingar til að sinna. Sé krafa um 50.000.000 króna í miskabætur hæfileg þegar litið sé til stöðu hans og atvika, þar á meðal þess langa tíma sem stefnandi hafi haft réttarstöðu sakbornings án þess að viðhlítandi lögreglurannsókn eða saksókn hafi farið fram. Það fylgi því mikið opinbert vald að lögum að fara með lögreglurannsóknir og ákvörðun um saksókn og þar með mikil ábyrgð. Þó játa verði þeim sem fari með vald þetta nokkurt svigrúm til ákvarðanatöku geti það ekki leitt til þess að heimilt sé að standa þannig að málum að fari í bága við lög og grundvallarmannréttindi borgaranna. Þegar út af bregði, með svo alvarlegum hætti eins og í þessu máli, beri að bæta allt það tjón sem valdið hafi verið með saknæmri og ólögmætri háttsemi starfsmanna stefnda, enda séu uppfyllt skilyrði um orsakasamband og sennilega afleiðingu. Stefnukröfu sína sundurliðar stefnandi þannig: Stefnandi krefjist dráttarvaxta frá 16. mars 2007 en þá hafi verið liðinn mánuður frá því bótakrafa á hendur stefnda hafi verið sett fram, en það hafi verið gert með kröfubréfi 16. febrúar 2007. Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar stefnandi til 13. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og hvað snertir bætur fyrir spjöll á lánstrausti og viðskiptahagsmunum byggir stefnandi auk almennu skaðabótareglunnar á meginreglu 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. eða lögjöfnun frá því ákvæði, enda séu tilvik eðlislík að því leyti að í báðum tilvikum séu líkindi fyrir að tjón verði en erfitt eða ómögulegt að sanna það. Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi kveður óhjákvæmilegt að í skýrslutöku hjá lögreglu 24. september 2003 hafi stefnandi haft stöðu sakbornings. Hafi annað verið löglaust með hliðsjón af því að til rannsóknar hafi verið ætluð refsiverð afglöp hans við endurskoðun vegna Tryggingasjóðs lækna. Í stöðu sakbornings felist tiltekin réttindi en ekki áfellisdómur. Réttarstaðan tryggi aðeins ákveðin réttindi sem sakborningur hafi umfram aðra menn sem framburðarskýrsla sé tekin af en ekki sé um annað að ræða en að maður fái annað hvort vitnastöðu eða stöðu sakbornings. Fái maður ranglega vitnastöðu þegar verið sé að rannsaka möguleg afbrot hans geti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir framhald og rannsókn máls auk þess sem með því sé brotið gegn réttindum sakbornings. Hefði þannig getað horft til sakarspjalla og ónýtingar máls að gefa stefnanda vitnastöðu á þessum tíma. Í framangreindri lögregluskýrslu, sem tekin var af stefnanda, hafi sakarefnið verið tilgreint á þann veg að við rannsókn á ætluðum bókhalds- og auðgunarbrotum Lárusar Halldórssonar hafi vaknað grunur um að stefnandi kynni að hafa gerst brotlegur við lög í störfum sínum sem endurskoðandi fyrir Tryggingasjóð lækna. Hafi stefnanda verið kynnt að ætluð brot hans gætu varðað við þar til greind lög. Samkvæmt framburði og upplýsingum Lárusar hafi verið um að ræða gamalgróna vináttu milli Lárusar og stefnanda, en ætla verði að slík atriði styrki grun um slæleg vinnubrögð við endurskoðunina og/eða grun um ástæðu eða vilja til að leyna auðgunarbroti annars manns, en á þessum tíma hafi Lárus verið undir sterkum rökstuddum grun um auðgunarbrot. Telur stefndi að um hafi verið að ræða réttmætan og eðlilegan rökstuddan grun. Fyrir hafi legið að Lárus hafi árum saman getað dregið sér tugi milljóna úr sjóðum Tryggingasjóðs lækna og að bókhald sjóðsins hafi verið ranglega fært og illa. Þá hafi legið fyrir að tilfærðar eignir hafi ýmist verið færðar allt of hátt eða þær ekki til. Þrátt fyrir þetta hafi stefnandi endurskoðað reikninga og bókhald sjóðsins og áritað ársreikninga athugasemdalaust. Það hafi hann gert þótt á honum hafi hvílt ríkari skylda sem endurskoðanda til að gera sjálfstæða könnun og eftir atvikum að afla gagna frá þriðja aðila, vegna þess að ljóst hafi verið að ekkert innra eftirlit hafi verið hjá Tryggingasjóði lækna. Þá hafi legið fyrir að inneignir sjóðfélaga hafi verið greiddar út í trássi við reglur sjóðsins og samþykktir hans, og félögum þannig verið mismunað verulega. Bendi stefndi á að lögregla hafi notið aðstoðar og liðsinnis kunnáttumanna á þessu sviði og hafi farið fram rækileg rannsókn áður en stefnandi var boðaður til fyrstu yfirheyrslu. Hafi ekki verið um órökstutt og illa grundað mat lögreglu að ræða eins og stefnandi vilji vera láta, heldur rökstuddan grun sem stuðst hafi við álit sérfræðinga. Við undirbúning skýrslutöku yfir stefnanda 24. september 2003 hafi lögregla notið liðsinnis Árna Tómassonar, löggilts endurskoðanda. Í yfirheyrslu hafi stefnandi verið spurður um ætlaðar sakargiftir og hafi hann neitað sök og afhent lögreglu öll vinnugögn og skjöl sem hann hafi haft í fórum sínum og meðferðis, en lögregla hafi áður lagt hald á bókhaldsgögn Tryggingasjóðs lækna eftir ábendingu Lárusar. Í framburði stefnanda hafi komið fram að við endurskoðun sína hefði hann ekki aflað neinna gagna á sjálfstæðan hátt. Hann hafi ekki farið yfir lífeyrisgreiðslur, endurgreiðslur, réttindaflutning og útborganir úr sjóðnum, þrátt fyrir að þetta væru meðal mikilvægustu þátta í bókhaldinu. Þá hafi hann ekki farið yfir aðrar greiðslur til sjóðfélaga eða farið yfir slíka lista og borið saman við ársreikning. Þá hafi stefnandi upplýst að hann hefði ekki farið yfir inneign sjóðfélaga og fyrirkomulag á þeirri inneign. Þá hafi hann ekki kannað hvort listum um séreignarsjóði bæri saman við ársreikninga, en talið að sjóðfélagar hafi fengið yfirlit um inneign sína hver fyrir sig. Þetta hefði stefnandi þó ekki sannreynt. Með hliðsjón af framburði stefnanda hafi lögregla talið ljóst að ekki hafi verið lögð fyrir stefnanda fölsuð gögn í blekkingarskyni svo neinu næmi og síst svo að það hefði haft úrslitaáhrif um vinnu hans enda hefði stefnandi sjálfur ekki aflað gagna varðandi flesta af mikilvægustu þáttunum í starfi Tryggingasjóðs lækna. Frá því hafi þó verið sú undantekning að í 4 tilfellum af 9 hafi stefnandi fengið falsaða skuldabréfalista. Komið hafi fram hjá Lárusi að einu fölsuðu gögnin sem hann hefði lagt fyrir stefnanda hafi verið skuldabréfalistarnir auk þess sem hann hefði einu sinni sýnt stefnanda falsað ljósrit af ríkisskuldabréfi. Það hafi verið eina skiptið sem stefnandi hafi spurt um slíkt þó svo að ríkulegur hluti eigna sjóðsins hafi verið sagður í slíkum bréfum. Í vinnugögnum stefnanda vegna endurskoðunarstarfsins hafi ekki fundist frekari fölsuð gögn. Mótmæli stefndi því að rannsókn hafi ekki beinst að því í nægilega ríkum mæli hvaða fölsuðu gögn og rangfærslur Lárus hafi lagt fyrir stefnanda við endurskoðunina. Fyrir liggi að um hafi verið að ræða mjög óveruleg gögn og hafi meginástæða þess að Lárusi tókst að blekkja stefnanda ekki verið sú að gögn hafi verið fölsuð og rangfærð gögn heldur að stefnandi hafi ekki borið sig eftir gögnum og ekki gengið úr skugga um það með sjálfstæðri aðgerð að staða sjóðsins væri eins og hún hafi verið látin líta út og að áritun hans á ársreikning stæðist. Hefði stefnandi borið sig eftir að fá að sjá hvað hafi verið að baki hinum röngu skuldabréfalistum þá hefði blasað við að maðkur væri í mysunni. Frá upphafi hafi legið fyrir af hendi Lárusar að meginástæða þess að ekki hafi komist upp um hann hafi verið sú að endurskoðandinn hafi borið til hans óverðskuldað traust. Jafnframt sé ljóst að ástæða þess að ekki hafi komist upp um fjárdráttinn og raunverulega stöðu sjóðsins sé sú að stefnandi hafi látið hjá líða að framkvæma aðgerðir sem hefðu leitt hið sanna í ljós. Rangfærðir skuldabréfalistar og falsað ljósrit af spariskírteini ríkissjóðs breyti engu þar um. Áður en framburðarskýrsla hafi verið tekin aftur af stefnanda 27. nóvember 2003 hafi lögregla notið liðsinnis kunnáttumanna til að fara yfir fyrri framburð stefnanda, vinnugögn hans og annað sem máli skipti, ásamt því að leggja drög eða grunn að frekari spurningum til stefnanda. Um hafi verið að ræða sérfræðileg atriði varðandi bókhald, gerð ársreikninga og endurskoðun sem lögreglumenn séu ekki sérmenntaðir í og því rétt og eðlilegt að leita til kunnáttumanna þó svo að lögregla fari eftir sem áður með stjórn á rannsókn máls. Hafi álit þeirra kunnáttumanna sem lögreglan leitaði til verið að þau vinnugögn sem fram hefðu verið lögð gætu ekki talist vera nægilegur rökstuðningur fyrir áliti stefnanda og fyrirvaralausri áritun hans á ársreikninga Tryggingasjóðs lækna fyrir árin 1992-2000, sbr. samantekt Grant Thornton endurskoðunar ehf. 3. nóvember 2003. Þá hafi Árni Tómasson, löggiltur endurskoðandi, sem veitt hafi aðstoð fyrir og eftir skýrslutökuna af stefnanda 24. september 2003, talið rúmlega 84% eigna sjóðsins ranglega tilgreind og að engin raunveruleg eign væri þar á bak við. Árni hafi látið lögreglu í té minnisblað 26. september 2003, vegna fyrri skýrslunnar sem tekin var af stefnanda. Þar hafi hann bent á ýmislegt sem úrskeiðis hefði farið í störfum stefnanda sem endurskoðanda Tryggingasjóðs lækna og sett fram þá skoðun sína að ekki yrði hjá því komist að láta reyna á ábyrgð stefnanda. Mótmælir stefndi því að framangreint orðalag um að ekki yrði komist hjá að láta á ábyrgð stefnanda reyna og að tiltekið orðalag í bréfi Róberts Bjarnasonar, lögreglufulltrúa við embætti ríkislögreglustjórans 16. október 2003, sé órækt vitni þess að hlutleysisskylda lögreglu hafi ekki verið virt við rannsókn málsins. Í fyrsta lagi skipti skoðanir aðkeyptra sérfræðinga ekki máli að þessu leyti enda fari þeir ekki með rannsókn eða saksókn máls og taki þar engar ákvarðanir. Í öðru lagi verði orðalag Árna ekki túlkað öðruvísi en svo að hann telji óhjákvæmilegt að lögregla taki möguleg brot endurskoðandans til rannsóknar. Ekki sé vikið að ákæru eða saksókn í bréfi Árna og þyki stefnda of langt seilst að túlka bréf þetta á þann veg að Árni hafi nánast gefið ríkislögreglustjóra fyrirmæli um að stefnandi skyldi ákærður og að útgáfa ákæru væri óhjákvæmileg. Tilvitnað orðalag vísi aðeins til þeirrar einkaskoðunar Árna að eðlilegt sé að málið sæti rannsókn. Annað sé heimildarlaus túlkun stefnanda og á hans ábyrgð. Þá bendi stefndi á að í nefndu bréfi Árna séu tínd til ýmis atriði stefnanda til málsbóta. Varðandi orðalag í bréfi Róberts vill stefndi taka fram að þó að hann hafi verið skráður stjórnandi rannsóknarinnar hafi hann verið á þeim tíma settur undir boð- og ákvörðunarvald yfirmanna sinna við embætti ríkislögreglustjórans, þar með talið saksóknara og ríkislögreglustjóra. Hafi Róbert því ekki haft sjálfstætt ákvörðunarvald um hvað sætti rannsókn og hvað ekki og enn síður hafi hann haft vald til ákvörðunar um saksókn. Orðalag í bréfi hans verði heldur ekki túlkað þannig að slík ákvörðun hafi verið tekin, heldur verði í mesta lagi af bréfinu dregin sú ályktun að hann telji fjölmargt benda til þess að ekki verði hjá því komist að láta reyna á ábyrgð endurskoðandans, en vera kunni að það vísi til útgáfu ákæru. Ekkert sé fullyrt um útgáfu ákæru. Bréf hans verði hins vegar að skoða í því ljósi að tilgangur þess sé að gefa brotaþola kost á að koma bótakröfu að í opinberu máli, eins og lögreglu sé skylt að gera við rannsókn máls. Allar fullyrðingar stefnanda um brot gegn hlutlægnisskyldu lögreglu og ákæruvalds við meðferð málsins séu því úr lausu lofti gripnar og haldlausar. Hafi verðbréfaeign verið langstærsti hluti bókfærðra eigna Tryggingasjóðs lækna og með þeim lið hafi ekkert innra eftirlit verið. Stefndi telur það hafa verið ófullnægjandi vinnubrögð hjá stefnanda að afla ekki frekari staðfestinga um þá eign en að fá um hana innri gögn frá starfsmanni sjóðsins. Ekki komi neitt fram um það í vinnugögnum stefnanda hvernig hann hafi staðreynt umrædda eign umfram það að skoða skuldabréfalista og þá aðeins í hluta tilfella. Hafi að mati stefnda verið réttmætt og eðlilegt að á stefnanda hafi fallið rökstuddur grunur og óhjákvæmilegt í því ljósi að við skýrslutökur af stefnanda hafi honum verið gefin staða sakbornings. Það að fá stöðu sakbornings við rannsókn máls leiði ekki til bótaréttar og heldur ekki að ákæra sé gefin út á hendur manni hvorki samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála né heldur samkvæmt þeim lagareglum sem stefnandi tilgreini. Ekkert liggi fyrir um að sú staðreynd að stefnandi hafi fengið stöðu sakbornings hafi verið ólögmæt og saknæm háttsemi af hálfu starfsmanna stefnda, eða að í því hafi falist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda. Stefnandi hafi ekki fært rök fyrir því að í rannsóknartökum eða útgáfu ákæru hafi falist ólögmæt og/eða saknæm háttsemi af hálfu starfsmanna stefnda. Það sé rangt hjá stefnanda að við rannsókn málsins og ákvörðun um útgáfu ákæru hafi ekki verið gætt réttra aðferða og hlutlægnisskyldu. Hafi engin rök verið að því færð að þeir starfsmenn stefnda sem tekið hafi ákvarðanir um rannsókn og saksókn hafi verið óvilhallir eða haft um það fyrir fram gefnar skoðanir eða niðurstöður um að stefnandi væri sekur fremur en saklaus, eða að þeir hafi ekki gætt réttra aðferða, s.s. hlutlægnisskyldunnar, enda hafi þeir ekki haft neinna persónulegra hagsmuna að gæta. Ákæra í málinu hafi verið gefin út af Jóni Snorrasyni saksóknara, en hann hafi á þessum tíma verið yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans og sem slíkur haft ákvörðunarvald um rannsóknir og rannsóknartök. Í stefnu sé ekki vikið orði að saksóknaranum eða því hvernig hann hafi ekki gætt réttra aðferða. Sama gildi um ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara. Séu fullyrðingar um saknæma og/eða ólögmæta háttsemi starfsmanna stefnda, sem tóku ákvarðanir í málinu, því úr lausu lofti gripnar og með öllu órökstuddar. Sama gildi um að í háttsemi þeirra og ákvörðunum hafi falist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda. Meintar og ósannaðar skoðanir undirmanna og aðkeyptra sérfræðinga geti þar engu breytt. Sá skortur sem stefnandi kveði vera á því að rannsakað hafi verið til þrautar hvaða fölsuðu gögn voru lögð fyrir stefnanda breyti engu. Bæði sé að þetta hafi sætt rannsókn, en fölsuð og röng gögn hafi ekki verið meginástæða þess að ekki hafi komist upp um fjárdráttinn, heldur slæleg vinna endurskoðandans. Stefndi mótmælir því að ekki hafi verið gætt hlutlægnisskyldu og annarra lögmæltra sjónarmiða og aðferða við rannsókn og meðferð máls hjá lögreglu og ákæruvaldi. Í niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 509/2004 sé bent á vankanta við rannsókn málsins og enn fremur við ákærusmíð í máli því sem höfðað hafi verið gegn stefnanda. Þó Hæstiréttur hafi metið það svo að ágallar væru þar á, með hliðsjón af réttarfarslögum, valdi það ekki ólögmæti og/eða saknæmi í skilningi skaðabótaréttar. Ekki sé unnt að setja samasemmerki milli þess annars vegar að rannsókn hafi verið ófullkomin að því leyti sem Hæstiréttur telji, og ákæran ekki nægilega nákvæm, og hins vegar að háttsemi þeirra starfsmanna stefnda sem unnu verkið hafi verið saknæm og ólögmæt og/eða falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda. Með ákæru ríkislögreglustjóra, dags. 16. apríl 2004, hafi verið höfðað opinbert mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur stefnanda. Þann dag hafi verið tekin ákvörðun um ákæru og ekki fyrr. Þá hafi verið liðinn 141 dagur frá því að stefnandi gaf sína síðari skýrslu hjá lögreglu og 205 dagar frá því hann fékk stöðu sakbornings. Það verði ekki talinn langur tími og síst svo að gangi gegn réttarfarslögum og/eða ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 6. gr. hans. Verði engin bótaskylda á þessu byggð. Hafi gangur málsins fyrir héraðsdómi verið eðlilegur og hafi stefnandi ekki gert athugasemdir við hann. Í þessu sambandi verði einnig að benda á að stefnandi hafi á þessum tíma aldrei nýtt sér heimildir sínar til að bera rannsóknaraðgerðir lögreglu undir dóm á rannsóknarstigi, sbr. 75. gr. laga um meðferð opinberra mála. Málið hafi fyrst verið tekið fyrir í héraðsdómi 25. júní 2004 og þá frestað til 9. september 2004. Þann dag var málið tekið fyrir að nýju og aðalmeðferð ákveðin 9. nóvember 2004. Áður en aðalmeðferð hafi farið fram hafi málið verið tekið fyrir 22. september 2004 og 4. október 2004. Samkvæmt áætlun hafi aðalmeðferð farið fram 9. nóvember 2004 og dómur kveðinn upp 30. nóvember 2004. Hafi stefndi verið sýknaður í héraðsdómi og að mati stefnda hafi hann notið réttlátrar málsmeðferðar í héraðsdómi. Málshraði hafi verið eðlilegur og hvergi brotið gegn rétti stefnanda við dómsmeðferðina. Ákæruvaldið hafi áfrýjað sýknudómi héraðsdóms og áfrýjunarstefna hafi verið gefin út 16. desember 2004, en málið verið dæmt í Hæstarétti 12. maí 2005. Stefndi telur að ekki hafi hallað á stefnanda eða á honum brotinn réttur við áfrýjunarmeðferð málsins og ekki hafi orðið dráttur á meðferð málsins við áfrýjun þess og hafi meðferð þess verð í samræmi við lög og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Frá útgáfu ákæru 16. apríl 2004 til dóms Hæstaréttar 12. maí 2005 hafi liðið rúmt ár. Það verði ekki talinn vera langur tími til að ljúka dómsmeðferð í slíku máli. Hafi stefnandi ekki sýnt fram á að ámælisverður dráttur hafi orðið á málinu frá því að hann var kallaður til yfirheyrslu 24. september 2003 þar til dómur Hæstaréttar gekk. Eins og rakið hafi verið hafi málinu verið vísað frá héraðsdómi þar sem rannsókn og saksókn hafi ekki uppfyllt skilyrði réttarfarslaga en þýði ekki að rannsókn og saksókn teljist hafa verið ólögmætar og saknæmar eða hafi falið í sér ólögmæta meingerð. Öllum skilyrðum um rannsókn og saksókn varðandi heimildir lögreglu og valdmörk hafi verið fullnægt. Lögreglu og ákæruvaldi hafi verið heimilt að lögum að rannsaka mál stefnanda og gefa út ákæru, en það valdi ekki ólögmæti þeirra athafna að á þeim hafi ekki þótt fært að byggja refsidóm. Í því efni bendi stefndi á að stefnandi byggi ekki á bótaákvæðum 175. og 176. gr. laga um meðferð opinberra mála, en rannsókn og saksókn séu ekki meðal þeirra athafna sem bótaskyldar geti verið. Komi þannig aðeins til skoðunar almennar bótareglur skaðabótaréttar og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ríkissaksóknari hafi talið ríkislögreglustjóra hafa fullt tilefni til að ákæra stefnanda á grundvelli þeirrar rannsóknar sem fram hafði farið, og jafnframt að ákæra væri nægilega glögg og hefði að geyma næga lýsingu á refsiverðum verknaði. Jafnvel þó að rannsóknargögn yrðu ekki talin hafa gefið tilefni til útgáfu ákæru, með hliðsjón af sjónarmiðum 112. gr. laga um meðferð opinberra mála, þá verði það ekki tilefni skaðabótaskyldu. Það að ákæru sé vísað frá eða sýknað af sakargiftum verði ekki til þess að bótaskylda stofnist sjálfkrafa á hendur ríkinu. Stefnandi hafi ekki náð að sýna fram á að lögreglumenn hafi farið offari í aðgerðum sínum gegn honum við rannsókn á brotum þeim sem málið varði eða að ómálefnalegar ástæður hafi búið að baki því að grunur féll á hann og að opinbert mál var höfðað. Hafi málinu ekki verið vísað frá héraðsdómi vegna þess að rannsókn og saksókn hafi verið ólögmætar, heldur vegna þess að á henni hafi verið vankantar þess eðlis að Hæstiréttur hafi ekki talið unnt að byggja sakfellingu í refsimáli á henni. Á þessu sé ríkulegur eðlismunur. Eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar 12. maí 2005 hafi verið ljóst að málið væri í raun komið í sömu stöðu og það var í áður en ákæra var gefin út. Í framhaldi af því hafi ríkissaksóknari hinn 31. maí 2005 mælt fyrir um það að ríkislögreglustjóri léti sem fyrst undirbúa framhald rannsóknar málsins í samræmi við athugasemdir í forsendum hæstaréttardómsins og hafi stefnanda verið tilkynnt það með bréfi 20. október 2005 að ákveðið hefði verið að taka málið til rannsóknar á ný og ráða bót á þeim annmörkum sem Hæstiréttur hafi talið vera á rannsókninni. Hinn 26. október 2005 hafi verið tekin framburðarskýrsla af Lárusi Halldórssyni vegna rannsóknarinnar og hinn 9. nóvember 2005 hafi ríkislögreglustjórinn óskað eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddir yrðu matsmenn í málinu. Töluverðar tafir hafi orðið á málinu þó ekki væru þær af völdum lögreglu. Matsmenn hafi verið dómkvaddir 20. júní 2006 og þeim strax daginn eftir send gögn málsins. Annar matsmanna hafi beðist undan matsstörfum og sent dóminum bréf um það 23. júní 2006 en upplýsingar um það hafi hins vegar ekki borist lögreglu fyrr en í september sama ár þegar lögregla hafi grennslast fyrir um hvar málið væri statt hjá matsmönnum. Lögregla hafi þá sent bréf til dómsins og óskað upplýsinga og í kjölfarið hafi verið boðað til nýs þinghalds 18. október 2006 til að skipa nýjan matsmann. Fram hafi komið að ekki hafi tekist að finna matsmann til að taka verkið að sér, en ríkissaksóknari hafi hlutast til um að frestað yrði dómkvaðningu meðan hann færi yfir gögn málsins. Hann hafi tekið um það ákvörðun 20. nóvember 2006 að hætta þeirri rannsókn sem mælt hafi verið fyrir um 31. maí 2005 og með bréfi 5. desember 2006 hafi lögregla tilkynnt stefnanda að rannsókn málsins væri hætt. Stefndi byggir á því að heimilt hafi verið að taka rannsókn málsins upp á ný eftir frávísunardóm Hæstaréttar 12. maí 2005, en þetta verði ráðið af dómi Hæstaréttar 22. nóvember 2005. Af þeim dómi verði jafnframt ráðið að heimilt og eðlilegt hafi verið að stefnandi hefði stöðu sakbornings við rannsóknina. Leggja verði mat á rannsókn málsins og meðferð þess út frá hlutlægum sjónarmiðum og telur stefndi að málið allt hafi ekki tekið óeðlilega langan tíma í meðförum hjá lögreglu og ákæruvaldi. Stefnandi hafi ekki haldið fram að málsmeðferð dómara hafi verið lögum andstæð, en dómari hafi ákvörðunarvald um hvenær þinghöld séu háð í máli. Sé þannig ekki til umfjöllunar dráttur sem kunni að hafa orðið af völdum annarra en lögreglu og ákæruvalds. Tíminn frá því að stefnandi fékk stöðu sakbornings til útgáfu ákæru hafi verið skammur. Rannsókn málsins hafi aldrei legið niðri. Dómsmeðferð málsins hafi öll tekið rúmt ár, sem geti ekki talist langur tími fyrir dómsmeðferð í héraðsdómi og Hæstarétti. Frá dómi Hæstaréttar 12. maí 2005 hafi liðið allnokkrar vikur uns stefnanda var tilkynnt að ákveðið hefði verið að hefjast handa á ný við rannsókn málsins. Sá tími hafi ekki verið langur og hafi ekki komið stefnanda að sök, enda hafi hann ekki verið undir rannsókn á þeim tíma. Geti það tímaskeið ekki talist til dráttar á máli. Frá tilkynningu um rannsókn þar til hafist var handa um að fá dómkvadda matsmenn og taka skýrslu af Lárusi Halldórssyni hafi liðið nokkrir dagar. Dráttur málsins eftir það sé ekki á ábyrgð lögreglu sem geti ekki stjórnað og beri ekki ábyrgð á málshraða hjá dómstólum. Hafi ákvarðanir rannsóknaraðila verið bornar undir héraðsdóm og ákvarðanir og úrskurðir héraðsdóms kærðar til Hæstaréttar og sé ljóst að það hafi frekar verið stefnandi sem efnt hafi til ágreinings, svo sem réttur hans hafi staðið til, en sá dráttur sem af því hlaust verði ekki kenndur öðrum. Ekki hafi fengist endanleg niðurstaða í þær deilur fyrr en í lok maí 2006 og skömmu síðar hafi matsmenn verið dómkvaddir. Jafnvel þó að sá tími sem rannsóknin tók eftir frávísunardóminn 12. maí 2005 hafi ekki verið á ábyrgð lögreglu þá hafi ríkissaksóknari allt að einu tekið ákvörðun um að hætta rannsókninni þar eð drátturinn hafi verið orðinn óhæfilegur. Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi orðið fyrir stórkostlegu tjóni vegna málsins. Tjón stefnanda sé allt ósannað. Hafi stefnandi allt að einu orðið fyrir tjóni, þá telji stefndi ósannað allt orsakasamhengi þess við athafnir og/eða athafnaleysi starfsmanna stefnda. Þá telji stefndi meint tjón stefnanda alltof hátt metið, og hafi stefnandi orðið fyrir tjóni, þá verði það að mestu leyti eða öllu rakið til eigin sakar stefnanda sjálfs. Þá hafi stefnandi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að takmarka tjón sitt eftir föngum. Samkvæmt gögnum málsins hafi stefnandi sjálfur tekið ákvörðun um að segja lausu starfi sínu hjá SÍF. Hvergi komi fram í málinu að hann hafi verið beittur þrýstingi til að segja því lausu. Þá verði ekki ráðið af ráðningarsamningi stefnanda, eða öðrum gögnum málsins, að honum hafi borið skylda til að segja starfi sínu lausu við þær aðstæður sem uppi voru en í samningi hans við SÍF sé því lýst hvað teljist vera vanefndir á samningnum og hvaða háttsemi teljist vera ósamrýmanleg starfi stefnanda, sbr. 3. og 11. gr. samningsins. Verði því ekki annað séð en að stefnandi hafi sjálfur kosið að segja starfi sínu lausu vegna eigin samvisku og sómakenndar og þess að hann hafi sjálfur ekki talið sér stætt í starfinu. Á því beri stefndi ekki ábyrgð. Meginorsök þess að stefnandi telji sig ekki hafa átt kost á endurskoðunarvinnu eftir umrætt mál felist í vinnubrögðum stefnanda sjálfs auk þess sem ekki liggi fyrir að stefnandi hafi kært sig um að stunda slíka vinnu um langt árabil utan vinnu hans fyrir Tryggingasjóð lækna. Stefndi kveður ósannað að stefndi sé ekki gjaldgengur í forstjórastarf hjá stórfyrirtækjum eftir að sakamálið kom upp vegna álitshnekkis sem það hafi valdið honum. Þá telur stefndi að meginorsök hins meinta álitshnekkis, sem stefnandi kveðist hafa orðið fyrir, sé sú að hann hafi misst traust vegna vanrækslu við endurskoðunarstörf sín fyrir Tryggingasjóð lækna. Það hvernig stefnandi hafi sinnt endurskoðendaskyldum sínum fyrir sjóðinn sé mun líklegra til að hafa valdið honum álitshnekki í viðskiptalífinu heldur en rannsókn og málsmeðferð sakamálsins sjálfs og athafnir starfsmanna stefnda í því sambandi. Í þessu efni bendi stefndi á að vinnubrögð stefnanda við endurskoðun sjóðsins hafi aldrei fengið efnislega umfjöllun í dómi og sé það stefnanda að sanna að vinnubrögð hans hafi verið forsvaranleg. Stefndi telji megin orsök meints álitshnekkis stefnanda vera hans eigin vinnu en ekki störf og vinnubrögð starfsmanna stefnda. Beri stefnandi þannig sjálfur alla sök á þeim álitshnekki sem málið kann að hafa valdið honum og jafnframt því tjóni sem hann kann að hafa orðið fyrir vegna þess. Ekkert liggi fyrir um af hvaða störfum stefnandi hafi misst og hvaða tækifæri hafi gengið honum úr greipum vegna málsins. Verði ekki ráðið af stefnu og framlögðum gögnum að stefnandi hafi borið sig eftir nokkru starfi eða að á þetta hafi reynt. Séu þannig allar fullyrðingar stefnanda um skerta starfsmöguleika ósannaðar. Jafnframt þyki stefnandi ekki hafa sinnt þeirri skyldu sinni að takmarka meint tjón sitt eftir megni. Þá kveður stefnandi fjárhæðir meints tjóns stefnanda dæmalausar. Ekkert liggi fyrir um hver laun stefnanda hafi nákvæmlega verið meðan hann starfaði hjá SÍF og séu fjárhæðir ósannaðar að því leyti. Ekkert liggi fyrir um hversu lengi stefnandi hefði haldið slíkum launum og hversu lengi hann hafi verið í slíku starfi eða hvað hefði tekið við hjá honum að því starfi frágengnu. Þannig séu fjölmargir óvissuþættir þetta varðandi og geti stefnandi ekki fullyrt að hann hefði haldið slíkum launum til fullnaðs 67 ára aldurs eins og hann byggi kröfu sína á. Sé verulegur hluti tekna stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi falinn í hagnaðarhlutdeild. Ekki sé unnt að fullyrða hvernig hagnaður fyrirtækisins verði á næstu áratugum og sé þetta, með öðru, slíkur óvissuþáttur að fjárhæðir krafna stefnanda séu úr lausu lofti gripnar. Séu eiginleg laun í samningi tilgreind rúmar 1.400.000 krónur á mánuði. Þá sé ekki upplýst hver séu núverandi laun stefnanda og hversu langt þau séu frá þeim tekjum sem hann telji að hann hefði haft í starfi sínu hjá SÍF. Laun stefnanda nú kunni að koma til frádráttar á meintu tjóni hans. Fyrir liggi að stefnandi hafi notið starfslokasamnings og greiðslna samkvæmt honum. Telji stefndi að allar greiðslur sem stefnandi hafi fengið samkvæmt þeim samningi og aðrar greiðslur sem stafi frá SÍF og tengdum félögum beri að draga frá kröfum hans, en starfslokasamningurinn dragi einmitt úr meintu tjóni stefnanda. Sé óeðlilegt að fyrir þann tíma sem stefnandi hafi notið greiðslna samkvæmt starfslokasamningi njóti hann einnig fullra launa enda ekki gert ráð fyrir að maður hagnist á tjóni. Þá mótmæli stefndi því að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni vegna spjalla á lánstrausti og viðskiptahagsmunum. Þetta sé ekki útskýrt í stefnu en vísað sé til þess að hann hafi orðið fyrir verulegum álitshnekki í viðskiptalífinu. Vísi stefndi til þess sem fyrr sé sagt um háttsemi stefnanda sjálfs sem frumorsök þess meinta álitshnekkis sem hann kveðist hafa orðið fyrir. Ekki sé af hálfu stefnanda gerð grein fyrir á hvaða hátt lánstraust stefnanda hafi skerst en ef litið sé til skattframtala stefnanda sýnist hann njóta umtalsverðs lánstrausts. Þá liggi ekkert fyrir um það í hvaða viðskiptum og lántökum stefnandi hafi verið eða hyggist vera í persónulega, en persónulegt lánstraust hans og viðskiptasambönd séu ekki það sama og lánstraust og viðskiptasambönd fyrirtækis sem hann stýri eða kunni að stýra. Sé með öllu órökstutt tjón á lánstrausti og viðskiptahagsmunum sem stefnandi meti til 10.000.000 króna. Þá sé lýsing stefnanda á því tjóni sú sama og lýsing á ætluðum miska hans. Sé þannig ekki ljóst að um sé að ræða raunverulegt fjártjón. Stefndi mótmæli miskabótakröfu að fjárhæð 50.000.000 króna. Hafi stefnandi ekki verið handtekinn og hann ekki sætt neinum þvingunarráðstöfunum af hálfu lögreglu vegna rannsóknarinnar. Málið hafi ekki dregist á langinn svo að ólögmætt verði talið. Ekki hafi verið beitt ólögmætum aðferðum og/eða sjónarmiðum við meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi. Sá miski sem stefnandi lýsi standi allur í tengslum við annars vegar vinnubrögð hans sjálfs við endurskoðunina, og hins vegar þá ákvörðun hans að segja þáverandi starfi sínu lausu. Þá sé fjárhæð miskabótakröfu fjarri öllu lagi og í ósamræmi við alla dómaframkvæmd og venju á sviði miskabóta. Séu skilyrði 26. gr. sakaðbótalaga nr. 50/1993 og annarra réttarreglna um bótaskyldu ekki uppfyllt. Ekki sé um að ræða ólögmæta meingerð svo sem áskilið sé. Það að hafa stöðu sakbornings og sæta síðan ákæru feli ekki í sér ólögmæta meingerð. Til þess þurfi annað til að koma, s.s. að lögreglumenn hafi farið offari í aðgerðum sínum gegn manni við rannsókn á brotum þeim, sem málið varði, eða ómálefnalegar ástæður hafi búið að baki því að grunur hafi fallið á hann, eða opinbert mál hafi verið höfðað, eða málsmeðferð hafi dregist úr hömlu eða á annan hátt hafi verið beitt ólögmætri aðferð eða aðgerð reistri á ólögmætum sjónarmiðum. Vegna meints tjóns af fjölmiðlaumfjöllun um mál stefnanda bendi stefndi á að ekki liggi fyrir að slík umfjöllun hafi valdið stefnanda tjóni. Ekkert liggi heldur fyrir um að óeðlileg upplýsingagjöf hafi verið frá starfsmönnum stefnda til fjölmiðla um mál stefnanda en þinghöld í opinberum málum séu háð í heyranda hljóði. Þá sé óútskýrð krafa um laun frá 1. febrúar 2004 1. janúar 2007. Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi byggir kröfur sínar aðallega á almennu skaðabótareglunni, reglum um húsbóndaábyrgð og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ekki er byggt á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Eins og að framan greinir heldur stefnandi einkum uppi fjórum málsástæðum í málinu. Í fyrsta lagi byggir stefnandi bótakröfu sína á því að hann hafi að ósekju fengið réttarstöðu sakbornings vegna starfa sinna sem endurskoðandi fyrir Tryggingasjóð lækna og hafi á engan hátt verið réttlætt eða skýrt af hverju játningar Lárusar Halldórssonar um blekkingar og falsanir gagnvart stefnanda hafi ekki verið rannsakaðar. Hafi verið brotið alvarlega gegn stefnanda og bótaskylda stofnast með því að brot Lárusar gagnvart stefnanda hafi ekki verið rannsökuð og ekki ákært fyrir þau. Í tengslum við rannsókn á ætluðum auðgunar- og bókhaldsbrotum Lárusar í störfum hans sem framkvæmdastjóri Tryggingasjóðs lækna vaknaði hjá lögreglu grunur um að stefnandi kynni að hafa í störfum sínum sem löggiltur endurskoðandi sjóðsins gerst brotlegur við lög um endurskoðendur nr. 18/1997, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 og lögum um ársreikninga nr. 144/1944 sbr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var stefnandi þannig grunaður um refsiverða háttsemi sem sætti rannsókn lögreglu og var því ekki um annað að ræða en að tekin yrði skýrsla af honum sem sakborningi. Stefnandi heldur því fram að ef þeir sem stóðu að rannsókn sakamáls á hendur Lárusi Halldórssyni hefðu ekki látið hjá líða að rannsaka meintar blekkingar og falsanir Lárusar gagnvart stefnanda hefði stefnandi ekki fengið réttarstöðu sakbornings. Fyrir liggur að stefnandi hafði um langt árabil endurskoðað og áritað reikninga Tryggingasjóðs lækna. Samkvæmt gögnum málsins var Tryggingasjóður lækna séreignarsjóður og hlutverk hans að vera uppsöfnunarsjóður til greiðslu lífeyris og að hafa forgöngu um að læknum stæði til boða hagkvæmir tryggingavalkostir á hverjum tíma. Um sjóðinn giltu því ákvæði laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Samkvæmt 42. gr. laganna ber endurskoðanda, verði hann var við verulega ágalla í rekstri lífeyrissjóðs eða atriði er varða innra eftirlit, iðgjaldainnheimtu, greiðslutryggingar útlána, meðferð fjármuna eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu lífeyrissjóðsins, svo og ef hann hefur ástæðu til að ætla að lög, reglugerðir eða reglur sem gilda um starfsemina hafi verið brotnar, þegar í stað að gera stjórn sjóðsins og Fjármálaeftirlitinu viðvart um þessi atriði. Ljóst er því að ríkar skyldur hvíldu á stefnanda varðandi endurskoðun á sjóðnum. Þegar í ljós kom við rannsókn á meintum brotum Lárusar Halldórssonar að stefnandi hafði áritað ársreikning sjóðsins vegna ársins 2000 án athugasemda og í ljós hafði verið leitt við rannsókn málsins gagnvart Lárusi að uppsafnaður fjárdráttur hans næmi yfir 75 milljónum króna en hrein eign samkvæmt ársreikningi þess árs væri rúmar 84 milljónir verður að telja að þegar af þeirri ástæðu hafi verið full ástæða til að hefja rannsókn á því hvort stefnandi hefði sinnt skyldum sínum sem endurskoðandi sjóðsins og veita honum við þá rannsókn réttarstöðu sakbornings. Þykir allsendis ósannað að sérstök rannsókn á meintum fölsunum og blekkingum Lárusar gagnvart stefnanda og útgáfa ákæru á hendur honum vegna þeirra hefði orðið til þess að stefnandi hefði ekki verið yfirheyrður sem sakborningur og þar sem það hafi ekki verið gert hafi stefndi þegar orðið bótaskyldur gagnvart stefnanda. Þá er þess að geta að samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir það mat Grant Thornton endurskoðunar ehf. að þau gögn sem stefnandi hafði sjálfur undir höndum gætu ekki talist nægilegur stuðningur fyrir áliti hans og fyrirvaralausri áritun hans á ársreikninga lífeyrissjóðsins. Þá liggur fyrir mat Árna Tómassonar löggilts endurskoðanda um að margt bendi til þess að stefnandi hafi ekki fylgt góðri endurskoðunarvenju í starfi sínu fyrir tryggingasjóðinn. Bar honum sem endurskoðanda að afla gagna og gera nauðsynlegar kannanir til að fá vissu fyrir því að ársreikningar væru í samræmi við lög um ársreikninga, góða reikningsskilavenju og samþykktir sjóðsins. Af gögnum málsins verður ráðið að þau gögn sem Lárus afhenti stefnanda og voru fölsuð voru skuldabréfalistar auk þess sem hann hefði einu sinni sýnt honum falsað ljósrit af ríkisskuldabréfi. Stefnandi bar hjá lögreglu að hann hefði ekki aflað neinna gagna sjálfstætt. Hann hafi ekki farið yfir lífeyrisgreiðslur, endurgreiðslur, réttindaflutning og útborganir úr sjóðnum, sem þó virðast mikilvægir þættir í bókhaldi sjóðsins. Þykir stefnandi því ekki hafa sýnt fram á að meint takmörkuð rannsókn lögreglu á meintum blekkingum og framvísun falskra gagna af hálfu Lárusar hafi verið saknæm og ólögmæt og stefndi sé skaðabótaskyldur af þeim sökum gagnvart stefnanda. Í öðru lagi byggir stefnandi á því að lögreglurannsókn vegna sakargifta á hendur stefnanda frá 24. september 2003 til 16. apríl 2004 hafi verið fjarri því að vera í samræmi við 31. gr. laga nr. 19/1991 og því að ná markmiði 67. gr. sömu laga. Samkvæmt 31. gr. laganna skulu þeir sem fara með ákæruvald vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Þá segir í 67. gr. laganna að markmið rannsóknar sé að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar. Stefnandi byggir meðal annars á því að Árni Tómasson, löggiltur endurskoðandi, sem ríkislögreglustjóri hafði tilkvatt sem kunnáttumann við rannsókn málsins, hefði lýst þeirri skoðun sinni tveim dögum eftir að stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu, að hann teldi skylt að láta reyna á ábyrgð stefnanda og hafi hann lagt slíka áherslu á þetta atriði að hann hafi talið að annars væri embætti ríkislögreglustjóra að brjóta gegn lögbundum skyldum sínum. Hafi hann þannig komist að þeirri fortakslausu niðurstöðu að stefnandi væri sekur án þess að hafa kannað þá vinnupappíra sem stefnandi hafi afhent við skýrslutökuna. Þá hafi Róbert Bjarnason, lögreglufulltrúi, sem stýrt hafi rannsókninni gert þessa skoðun Árna um sök stefnanda að sinni í bréfi til formanns skilanefndar Tryggingasjóðs lækna. Í minnisblaði Árna Tómassonar sem hann lét lögreglu í té vegna yfirheyrslu yfir stefnanda og er dagsett 26. september 2003 lætur Árni uppi þá skoðun að margt bendi til þess að ekki fái staðist að stefnandi hafi fylgt góðri endurskoðunarvinnu í starfi sínu fyrir Tryggingasjóð lækna og vísar um það nánar til ýmislegs sem fram hafði komið í skýrslu stefnanda. Kemur fram hjá honum að hann telji ekki unnt að líta fram hjá því að stefnandi hafi ekki uppfyllt ákvæði laga um endurskoðendur eða fylgt ákvæðum samþykkta sjóðsins. Verði að horfa til þess að þeir sjóðfélagar sem greiði í sjóðinn í góðri trú, stjórn sjóðsins að vissu marki og opinberir eftirlitsaðilar verði að geta treyst því að óháðir ytri endurskoðendur sinni störfum sínum af kostgæfni og gangi úr skugga um að starfsemi sjóðsins sé í meginatriðum í lagi að því er fjárhagslega og lagalega þáttinn varði. Sé ljóst að í þessu tilfelli hafi þetta verulega brugðist, hvort sem horft sé til umfangs, tímalengdar eða annarra atriða. Var það því niðurstaða Árna að hann teldi að ekki verði hjá því komist að láta reyna á ábyrgð endurskoðanda í þessu tilviki. Gerði ríkislögreglustjóri það ekki mætti áfellast embætti hans fyrir að sinna ekki lögbundum skyldum sínum. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1991 leitar rannsóknari kunnáttumanna þegar þörf er á sérfræðingi í rannsókn. Nýtti ríkislögreglustjóri sér þessa heimild samkvæmt framanskráðu. Samkvæmt því sem fram kemur í minnisblaði Árna taldi hann ekki verða hjá því komist og að ríkissaksóknara bæri skylda til að á ábyrgð stefnanda yrði látið reyna. Í minnisblaði þessu setur Árni fram skoðun sína á málinu sem ráðgjafi ríkislögreglustjóra og verður ekki annað af orðum hans ráðið en að hann telji rétt að rannsaka þátt stefnanda. Ákvörðun um saksókn var í höndum ríkislögreglustjóra en ekki hins sérfróða kunnáttumanns. Í bréfi Róberts Bjarnasonar lögreglumanns til formanns skilanefndar tryggingasjóðsins 16. október 2003 getur hann þess að við rannsókn á meintum brotum Lárusar Halldórssonar hafi vaknað grunur um refsiverð brot af hálfu stefnanda. Þá kemur fram hjá honum að niðurstaða rannsóknar varðandi þátt stefnanda sé sú að fjölmargt bendi til þess að góðri endurskoðunarvenju hafi ekki verið fylgt og að verulega hafi skort á að svo væri og yrði því ekki komist hjá því að láta reyna á ábyrgð stefnanda. Þykir augljóst að þarna er lögreglumaðurinn að gera orð Árna að sínum en af þeim verður ekkert fullyrt um að ákvörðun hefði verið tekin á þessari stundu að stefnandi yrði ákærður enda var slík ákvörðun ekki á valdi lögreglumannsins. Stefnandi telur augljóst að endurskoðendur frá Grant Thornton hafi við skoðun á vinnupappírum stefnanda, sbr. skýrsla þeirra 3. nóvember 2003 látið blekkjast eins og hann af hinum fölsuðu skuldabréfalistum þar sem þeir hafi ekki tekið eftir því strax að samtölur þeirra stemmdu ekki. Að mati stefnanda hafi fölsun því ekki verið augljós í þeim skilningi að hún hafi blasað við þótt endurskoðendur hafi eftir frekari skoðun gagnanna sagt í skýrslu sinni 8. desember 2003 að við skoðun á þeim skuldabréfalistum sem voru í vinnugögnum stefnanda hafi komið í ljós að samlagning á listunum stemmdi ekki við samtölur þeirra og séu niðurstöður þeirra augljóslega rangar. Þá komi fram hjá Árna Tómassyni í bréfi sínu til ríkislögreglustjóra 21. júní 2004 að hann hafi kallað fölsun á skuldabréfalista ársins 1993 lævíslega og fagmannlega og talið að ekki væri hægt að áfellast vinnubrögð stefnanda vegna þeirrar fölsunar. Í lok framangreindrar skýrslu 8. desember 2003 komi fram að einu ytri staðfestingar sem liggi fyrir í vinnuskjölum stefnanda séu staðfestingar á stöðu bankareikninga um áramót. Sé það því niðurstaða skýrsluhöfunda að vinnuskjöl og upplýsingar um vinnu endurskoðandans varðandi aðra liði en stöðu bankareikninga vanti. Ekkert sé þó fjallað um hvaða gögn það séu eða gæti verið um að ræða. Standist þessi ályktun ekki og beri hún ekki vott um hlutlægni. Ekki verður séð að hvaða leyti fullyrðingar hinna sérfróðu kunnáttumanna um gagnaskort við endurskoðun stefnanda beri í sér vott um hlutdrægni þannig að í bága fari við ákvæði 31. gr. laga nr. 91/1991 enda fara skýrsluhöfundar ekki með ákæruvald heldur eru aðeins ráðgjafar ríkislögreglustjóra. Af því sem nú hefur verið lýst hefur stefnandi ekki sýnt fram á það að við lögreglurannsókn vegna sakargifta áhendur stefnanda hafi afstaða rannsóknara um sök stefnanda legið fyrir strax við upphaf rannsóknar málsins eða að ályktun Grant Thornton endurskoðunar ehf. um vinnupappíra stefnanda sýndi fram á að ríkislögreglustjóri hafi ekki gætt hlutlægnisskyldu sinnar og annarra lögmæltra sjónarmiða og aðferða við rannsókn og meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi. Verður því ekki séð að rannsóknin hafi að þessu leyti brotið í bága við ákvæði 31. gr. og 67. gr. laga nr. 19/1991 og þannig verið saknæm og ólögmæt. Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að sú ákvörðun ákæranda að gefa út ákæru á hendur stefnanda á grundvelli þeirrar rannsóknar sem fyrir lá og þess efnis sem hún var þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst að rannsóknin uppfyllti ekki skilyrði 67. gr. laga nr. 19/1991 hafi verið saknæm og ólögmæt og leiði til bótaskyldu stefnda. Auk þess að ákæranda hefði mátt vera ljóst að rannsóknin væri ófullnægjandi og hefði mjög skort á að aflað hefði verið nægra gagna til undirbúnings málsmeðferðar. Samkvæmt 112. gr. laga nr. 19/1991 á það alfarið undir ákæruvaldið að meta fram komin rannsóknargögn og meta hvort sækja skuli mann til sakar eða ekki. Var það mat ákæruvaldsins að svo væri þegar ákvörðun var tekin um útgáfu ákæru á hendur stefnanda. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í máli 504/2004 að eins og lögregla hagaði rannsókn skorti mjög á að hún hefði náð því markmiði sem mælt er fyrir um í 67. gr. laga nr. 19/1991 auk þess sem vankantar væru á ákærusmíð og væri því ófært að leggja efnisdóm á málið. Framangreind niðurstaða Hæstaréttar þykir ekki renna stoðum undir þær fullyrðingar stefnanda að sú ákvörðun að gefa út ákæru á grundvelli fyrirliggjandi rannsóknar hafi verið saknæm og ólögmæt og falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi friði, æru eða persónu stefnanda þannig að leiði til bótaskyldu. Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að hann hafi haft réttarstöðu sakbornings að ósekju mun lengur en verið hefði ef rannsókn og saksókn hefði fari fram í samræmi við lög um meðferð opinberra mála, 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Bæði vegna dráttar vegna ákvörðunar um ákæru á grundvelli ófullnægjandi verknaðarlýsingar og dráttar eftir frávísun ákæru með dómi Hæstaréttar. Er það mat dómsins að sá tími sem leið frá ákæru 16. apríl 2004 þar til dómur féll í Hæstarétti 12. maí 2005 hafi verið hóflegur miðað við umfang málsins og ekkert í málinu sem bendir til þess að stefndi beri nokkra ábyrgð á þeim málstíma. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki fallist á það að þótt niðurstaða Hæstaréttar hafi verið að málið hefði ekki verið nægilega rannsakað þegar ákæra var gefin út og ákæran ekki í samræmi við réttarfarslög að sá tími sem leið þar til dómur féll hafi verið óhæfilegur dráttur sem fari í bága við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Sá tími sem leið frá því að dómur Hæstaréttar lá fyrir þar til ákvörðun var tekin um að taka málið til rannsóknar að nýju voru rúmir fimm mánuðir. Á þeim tíma hafði stefnandi ekki réttarstöðu sakbornings. Frá þeim tíma sem ákvörðun var tekin um að hefja rannsókn á ný hinn 20. október 2005 þar til ákvörðun var tekin um að fella málið niður 5.desember 2006 leið rúmt ár. Á þeim tíma var leyst úr hinum ýmsu ágreiningsefnum milli ríkislögreglustjóra og stefnanda fyrir dómstólum, ekkert síður vegna krafna stefnanda. Tafði það málið óhjákvæmilega auk þess sem dróst úr hófi að fá dómkvadda matsmenn sem ákæruvaldið ber ekki ábyrgð á. Þykir stefnandi því ekki hafa sýnt fram á að óeðlilegur dráttur hafi verið á málinu sem stefndi beri ábyrgð á þannig að hann hafi verið í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið hefur stefnandi ekki sýnt fram á það að rannsóknaraðilar eða ákæruvald hafi við rannsókn og saksókn máls vegna sakargifta á hendur stefnanda sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi eða ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda og að meint tjón stefnanda vegna tapaðra launa, miska og spjalla á viðskiptahagsmunum og lánstrausti verði rakið til sakar stefnda. Þegar af þeim ástæðum verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir eftir atvikum rétt að hvor aðili beri sinn kostnað við málið. Af hálfu stefnanda flutti málið Kristinn Bjarnason hrl., en af hálfu stefnda flutti málið Sigurður G. Gíslason hdl. Dóminn kveða upp Greta Baldursdóttir héraðsdómari sem formaður dómsins og meðdómendurnir, Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari og Bjarni Frímann Karlsson, viðskiptafræðingur og lektor við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Gunnars Arnar Kristjánssonar. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 254/2006 | Kærumál Börn Bráðabirgðaforsjá Umgengni | Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi hinn 30. mars sl., var þingfest 21. febrúar sl. en það barst dóminum með bréfi sóknaraðila þann 13. janúar sl. Fyrir dóminum er nú rekið ágreiningsmál aðila um forsjá barnsins og var það þingfest 15. febrúar 2006. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 21. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 7. apríl 2006, þar sem hafnað var kröfu beggja málsaðila um að mælt yrði fyrir um forsjá dóttur þeirra til bráðabirgða, en kveðið á um að stúlkan skyldi eiga lögheimili hjá sóknaraðila, varnaraðili greiddi með henni tiltekið meðlag og að umgengni varnaraðila við barnið skyldi vera aðra hverja helgi frá fimmtudegi eftir leikskóla til sunnudagssíðdegis, annan hvern laugardag og miðvikudagseftirmiðdag í vikunni eftir helgarumgengni. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt þannig að í brott verði felld umgengni varnaraðila við barnið annan hvern laugardag, en að öðru leyti verði úrskurðurinn staðfestur. Þá krefst hún kærumálskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Sóknaraðili hefur ekki lagt fram gjafsóknarleyfi vegna reksturs málsins fyrir Hæstarétti og verður henni því ekki dæmdur gjafsóknarkostnaður. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar þykir mega staðfesta þá tilhögun um umgengni til bráðabirgða sem þar er ákveðin. Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 216/2008 | Akstur sviptur ökurétti Reynslulausn Skilorðsrof | Æ var sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. Með broti sínu rauf hann skilorð reynslulausnar sem honum hafði verið veitt á 105 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar og var honum því gerð refsing í einu lagi. Refsing Æ var ákveðin fangelsi í sex mánuði. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 3. apríl 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms. Ákærði krefst aðallega að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð en til vara að refsiákvörðun héraðsdóms verði staðfest. Ákærða er gefið að sök að hafa ekið bifreið 1. september 2007, sviptur ökurétti. Farið var með málið í héraði samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Sakarferill ákærða er nokkur. Hann hefur meðal annars oft hlotið refsingu vegna aksturs sviptur ökurétti. Fyrst hlaut hann refsingu fyrir slíkt brot með dómi í nóvember 2004, þá með dómi í janúar 2005 og var sú refsing hegningarauki við fyrrnefnda dóminn. Í október 2005 gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun vegna sams konar brots og var enn á ný dæmdur fyrir sömu sakir í lok desember það ár. Í september 2006 gekkst hann svo undir lögreglustjórasátt og í sama mánuði hlaut hann að auki tvisvar sinnum dóm fyrir slík brot en þessi þrjú brot voru framin í febrúar og júní það ár og hefði því mátt dæma um þau í einu lagi. Fallist er á með héraðsdómi að ákærði hafi með broti sínu nú rofið skilorð reynslulausnar sem honum var veitt 17. apríl 2007 á 105 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar sem hann hafði hlotið meðal annars vegna aksturs sviptur ökurétti. Ber því að ákveða refsingu í einu lagi með hliðsjón af þeirri fangelsisrefsingu, sem óafplánuð er samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu virtu er refsing ákærða ákveðin fangelsi sex mánuði. Eftir þessum úrslitum skal áfrýjunarkostnaður falla á ríkissjóð samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Ægir Björn Ólafsson, sæti fangelsi í sex mánuði. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur. Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 3. desember 2007 á hendur Ægi Birni Ólafssyni, kt. 170785-2159, Laugateig 30, Reykjavík fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni SU-894, að kvöldi laugardagsins 1. september 2007, sviptur ökuréttindum, vestur Miklubraut í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn við Fellsmúla í Reykjavík. Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Ákærði krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa. Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði hefur ítrekað verið fundinn sekur um akstur sviptur ökurétti eftir 18 ára aldur. Þá hefur hann með broti sínu rofið skilorð reynslulausnar sem honum var veitt 17. apríl 2007, skilorðsbundið í 1 ár, á 105 daga eftirstöðvum refsingar. Ber að dæma upp reynslulausnina og gera honum refsingu í einu lagi. Samkvæmt þessu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 8 mánuði. Engan kostnað leiddi af málinu. Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn. D ó m s o r ð : Ákærði, Ægir Björn Ólafsson, sæti fangelsi í 8 mánuði. |
Mál nr. 20/2011 | Kærumál Innsetningargerð Börn | Þetta mál, sem var tekið til úrskurðar 2. desember, var þingfest 19. ágúst, en barst héraðsdómi 12. ágúst sl. með aðfararbeiðni dagsettri 11. sama mánaðar. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt fyrir Hæstarétti. I Samkvæmt gögnum málsins kynntust sóknaraðili og varnaraðili í september 2007. Þau gengu í hjúskap 20. september 2008 og fluttu til Íslands í október það ár. Áður hafði varnaraðili verið búsettur í [...] í nokkur ár en sóknaraðili er íslenskur ríkisborgari sem búið hafði á Íslandi frá árinu 1998. Varnaraðili er [...] ríkisborgari. Þann 13. mars 2009 eignuðust þau dótturina A. Í júní það ár fluttust þau öll þrjú til borgarinnar [...] á [...] og bjuggu þar hjá móður varnaraðila. Eftir um sjö mánaða dvöl í [...] fór sóknaraðili á ný til Íslands og var A með í för. Þær dvöldu á Íslandi fram í byrjun febrúar 2010 en sneru þá aftur til [...]. Þann 23. mars 2010 eignuðust varnaraðili og sóknaraðili sitt annað barn, B. Sóknaraðili kærði 26. maí 2010 varnaraðila til lögreglu fyrir líkamsárás og alvarlegar hótanir. Í kjölfarið yfirgaf hún heimili þeirra ásamt börnunum A og B. Varnaraðili var handtekinn og honum meinað að umgangast sóknaraðila. Þann 2. júní 2010 fluttist sóknaraðili á ný til Íslands ásamt báðum börnunum. Íslenska sendiráðið í [...] aðstoðaði sóknaraðila við að komast til Íslands eftir samráð við [...] félagsmálayfirvöld en sóknaraðili hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa undir ferðakostnaði. Ýmis gögn benda til að hjónaband sóknaraðila og varnaraðila hafi verið stormasamt. Fyrir liggur að sóknaraðili tilkynnti lögreglu í desember 2008 að varnaraðili hefði ráðist á hana. Sóknaraðili hefur jafnframt lagt fyrir Hæstarétt tölvupósta frá varnaraðila í íslenskri þýðingu þar sem varnaraðili hótar henni ítrekað alvarlegum líkamsmeiðingum. Varnaraðili hefur gengist við því að hafa ritað þessa tölvupósta en ber við að það hafi verið gert í reiði. Þykja tölvupóstarnir varpa ljósi á samskipti aðila á meðan samvistir þeirra stóðu. Í gögnum málsins kemur jafnframt fram að lögreglan í [...] hafi komið sóknaraðila og börnunum A og B til [...] félagsmálayfirvalda 26. maí 2010 vegna ásakana sóknaraðila um að hún hafi sætt líkamlegu ofbeldi af hálfu varnaraðila og að hann hafi ítrekað beitt hana kynferðisofbeldi. Sóknaraðili hafi fengið neyðarvistun af þessum sökum hjá félagsmálayfirvöldum. Hún hefur lýst samskiptum sínum við varnaraðila í viðtölum við íslenska sálfræðinga, bæði áður en hún fór til [...] í febrúar 2010 en einnig eftir að hún kom aftur til Íslands í júní sama ár. Í skýrslunum heldur hún fram að varnaraðili hafi beitt sig líkamlegu og andlegu ofbeldi og ítrekað neytt sig til samræðis. Meðan á dvöl sóknaraðila í [...] stóð leitaði hún eftir félagslegri aðstoð frá þarlendum yfirvöldum. Samkvæmt bréfum þeirra 17. og 18. maí 2010 átti sóknaraðili hvorki rétt á fjárhagslegri aðstoð né aðstoð í formi húsnæðis, þegar hún flutti til Íslands í byrjun júní 2010. Sóknaraðili kveðst ekki eiga aðra að í [...] en varnaraðila og tengdamóður sína. Varnaraðili búi hjá móður sinni og hafi sóknaraðili ekki átt í önnur hús að vernda. Eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms bera gögnin með sér að félagsmálayfirvöld í [...] töldu það ekki tæka lausn að sóknaraðili skildi börnin eftir hjá varnaraðila þar sem hún væri með annað þeirra á brjósti og vegna fullyrðinga hennar um ofbeldi varnaraðila. Í bréfi frá sendiráði Íslands í [...] 2. júní 2010 kemur fram að sendiráðið hafi aðstoðað sóknaraðila og börn hennar tvö til að komast til Íslands í samráði við [...] félagsmálayfirvöld. II Mál þetta er til komið vegna aðfararbeiðni varnaraðila á grundvelli laga nr. 90/1989, sbr. 13. gr. laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Fyrir liggur beiðni samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 160/1995 um að sóknaraðila verði gert skylt að sjá til þess að börn hennar og varnaraðila fari aftur til [...]. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á þá niðurstöðu að aðilar hafi farið sameiginlega með forsjá barnanna þegar sóknaraðili flutti þau hingað til lands í júní 2010 og að ekki hafi tekist að sýna fram á annað en að börnin hafi þá verið búsett í [...]. Kemur því til úrlausnar hvort synja beri um afhendingu barnanna með vísan til 2. töluliðar eða 4. töluliðar 12. gr. laga nr. 160/1995 eins og sóknaraðili krefst. Börn aðila eru ung að árum, B rúmlega 10 mánaða og A tæplega 2 ára, en þegar sóknaraðili flutti hingað til lands síðastliðið sumar var B einungis 11 vikna gamall. Fyrir liggur mat Gylfa Jóns Gylfasonar sálfræðings 14. október 2010 um að tengsl sóknaraðila við börnin séu góð og verði þau tekin úr umsjá hennar og „þeim gert að flytja úr því öryggi, umhyggju og ástúð sem þau búa við nú hjá móður sinni, með stuðningi fjölskyldu sinnar er hætta á að röskun geti orðið á tengslamyndun barnanna.“ Með hliðsjón af mati hans og aldri barnanna verður að telja brýnt að þau verði áfram í umsjá sóknaraðila enda verulega háð henni. Á þetta sérstaklega við um B sem mun enn hafa verið á brjósti þegar úrskurður héraðsdóms féll 16. desember 2010. Samkvæmt framansögðu verður að miða við að hag barnanna sé stefnt í hættu verði þau slitin frá sóknaraðila. Þá liggja fyrir gögn um að varnaraðili hafi ítrekað hótað sóknaraðila líkamsmeiðingum, en hún yrði honum háð um framfærslu sína og barnanna færi hún til [...]. Er ekki unnt að miða við annað en að hann kunni að láta verða af þessum hótunum. Við þessar aðstæður verður að telja að skilyrðum 2. töluliðar 12. gr. laga nr. 160/1995 sé fullnægt. Samkvæmt því verður ekki fallist á kröfu varnaraðila um að börnin skuli afhent honum með beinni aðfarargerð. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi um annað en málskostnað og gjafsóknarkostnað, sem ekki hefur verið krafist endurskoðunar á fyrir Hæstarétti. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Kröfu varnaraðila, M, um að fá börnin A og B tekin úr umráðum sóknaraðila, K, og afhent sér með beinni aðfarargerð, er hafnað. Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Hjördísar E. Harðardóttur hæstaréttarlögmanns, 350.000 krónur. Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Valborgar Þ. Snævarr hæstaréttarlögmanns, 350.000 krónur. |
Mál nr. 281/2016 | Kynferðisbrot Börn | X var ákærður fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með því að hafa á baðherbergi í tiltekinni íbúð haft samræði við A, er hún var 15 ára, gegn vilja hennar. Héraðsdómur lagði framburð A til grundvallar við úrlausn málsins þar sem hún hefði skýrt á sama hátt frá atvikum frá upphafi, auk þess sem skýrsla hennar hefði stuðning af framburði tveggja vitna sem voru í íbúðinni þegar ætlað brot var framið. Þótt héraðsdómur teldi að framburður X fyrir dómi væri „ekki ótrúverðugur“ var við mat á honum haft í huga að það hefði verið þriðja útgáfa X af því sem gerst hefði milli þeirra A umrætt sinn. Í samræmi við það var hann sakfelldur í héraði og gert að sæta fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að mat á sönnunargildi munnlegs framburðar, þar á meðal trúverðugleika ákærðu og vitna, yrði ekki endurmetið af réttinum nema þau hefðu gefið skýrslu þar fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Á hinn bóginn yrði að gera þá kröfu til framburðar brotaþola fyrir héraðsdómi, ætti hann að vera lagður til grundvallar sakfellingu, að hann fengi næga stoð í framburði annarra, sem gefið hefðu skýrslu í málinu, eða öðrum sönnunargögnum. Talið var að við samanburð á framburði A hjá lögreglu annars vegar og fyrir dómi hins vegar gætti nokkurs misræmis og því væri ekki unnt að fallast á með héraðsdómi að hún hefði skýrt á sama hátt frá atvikum frá upphafi. Þá væri af samanburði á framburði A og vitnisburði vitnanna tveggja ekki heldur unnt að draga þá ályktun að framburður hennar fengi stuðning þeirra. Loks væri ekki til að dreifa neinum öðrum sönnunargögnum, sem styddu framburð A, ef frá væru taldar skýrslur þeirra sem hún hefði sagt frá atvikum. Að því er varðaði samanburð á framburði X fyrir héraðsdómi og hjá lögreglu vísaði Hæstiréttur til þess að hann hefði í meginatriðum verið sá sami, að því undanskildu að í einni skýrslutökunni hefði X neitað að hafa haft kynmök við A. Drægi það úr trúverðugleika X, en ekki hefði verið um að ræða þrjár ólíkar útgáfur af frásögn hans af því sem gerðist milli þeirra umrætt sinn eins og álykta mætti af héraðsdómi. Að öllu þessu virtu taldi Hæstiréttur að héraðsdómur hefði ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að leggja framburð A til grundvallar við úrlausn málsins, en hafna framburði X fyrir dómi þrátt fyrir að hann hefði verið álitinn „ekki ótrúverðugur“. Með vísan til þess að þau X og A hefðu gengið saman inn á baðherbergið og komið þaðan gangandi og orð staðið gegn orði um það, sem þar hefði gerst, var talið ósannað að A hefði verið rænulaus eða rænulítil umrætt sinn. Af þeirri ástæðu var X sýknaður af ákæru fyrir brot á 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af atvikum málsins var ekki talið, gegn eindreginni neitun X, að sannað væri svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008, að hann hefði beitt A ólögmætri nauðung og með því brotið gegn 1. mgr. 194. gr. laganna. Var X því sýknaður. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Eiríkur Tómasson,Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. mars 2016 í samræmi viðyfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist aðrefsing ákærða verði þyngd. Ákærði krefst aðallega sýknu, entil vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega aðeinkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennarverði lækkuð. A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæðihéraðsdóms um einkaréttarkröfu verði staðfest.IÍ máli þessu er ákærði sakaður um brot gegn 1. og 2. mgr. 194. gr.almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr.80/2002 með því að hafa að kvöldi 17. júní 2013 inni á baðherbergi að [...] íReykjavík haft samræði við A, sem þá var 15 ára að aldri, gegn vilja hennar.Það hefði ákærði, sem var 18 ára, gert með því að beita hana ólögmætri nauðungog notfæra sér yfirburði sína gagnvart henni vegna aldurs- og þroskamunar og aðhún var stödd á ókunnugum stað og sumpart með því að notfæra sér að hún gatekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og þreytu.Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir málsatvikum og reifaðarskýrslur ákærða og A hjá lögreglu. Þá er rakinn framburður þeirra fyrir dómi,svo og vitnisburður annarra sem þar gáfu skýrslu. Héraðsdómur lagði framburð Atil grundvallar við úrlausn málsins þar sem hún hefði skýrt á sama hátt fráatvikum frá upphafi. Jafnframt fengi skýrsla hennar stuðning af framburðivitnanna B og C, sem voru staddir í íbúðinni að [...] auk ákærða og A þegarætlað brot var framið, og því einir til frásagnar um það, sem átti sér stað umrættsinn, fyrir utan þau tvö. Þá hafnaði dómurinn því, sem ákærði hélt fram, að Ahefði viljað hafa við hann kynmök. Þótt framburður ákærða fyrir dómi væritalinn „ekki ótrúverðugur“ yrði við mat á honum að hafa í huga að það væriþriðja útgáfa ákærða af því sem gerst hefði milli þeirra tveggja nefndan dag. Ísamræmi við það var hann sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að söksamkvæmt framansögðu.IISvo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi fór barnaverndarnefnd [...] þess áleit 9. september 2013 að lögregla rannsakaði hið ætlaða brot ákærða í garð A. Afástæðum, sem ákærða verður ekki um kennt, dróst hins vegar úr hömlu að ákæraværi gefin út á hendur honum. Varð það til þess að aðalmeðferð í málinu fórfyrst fram 16. febrúar 2016 þegar tvö ár og átta mánuðir voru liðnir frá því aðætlað brot átti sér stað. Fyrir vikið áttu þeir, sem skýrslu gáfu fyrirhéraðsdómi, erfitt með að rifja upp það sem gerðist. Er þessi töf ámælisverðþar sem nánast einu sönnunargögnin, sem á verður byggt í málinu um sekt eðasýknu ákærða, er framburður hans og vitna fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 111. gr.laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 3. október 2013. Við það tækifæri sagðisthann hafa haft samfarir við A í umrætt skipti að hennar beiðni. Hún hefði veriðofurölvi, farið sjálf úr fötunum og þau verið, að hann minnti, standandi. Kvaðákærði kynmökin hafa átt sér stað í svefnherbergi í íbúðinni að [...] og hefði Aekki síður tekið þátt í þeim en hann. Í lokin hefði hann fengið sáðlát og húnþá beðið um meira.Við skýrslutöku hjá lögreglu 3. júlí 2014 neitaði ákærði því að hafa haftkynmök við A umrætt sinn. Skýrði ákærði breyttan framburð sinn með því að hannhefði ekki vitað hvað hann var að gera vegna mikillar neyslu áfengis ogfíkniefna um það leyti sem hann gaf skýrslu í fyrra skiptið.Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi kvaðst ákærði á sínum tíma hafa verið ímikilli kókaínneyslu. Þegar A hefði komið í íbúðina hefðu þau sest saman í sófaog hún farið að drekka áfengi. Þau hefðu síðan farið „að kyssast og knúsast“ ogeitt leitt af öðru. Það hefði svo verið sameiginleg ákvörðun þeirra að geraeitthvað meira. Í framhaldinu komst ákærði svo að orði: „Svo fórum við inn áklósett. Og ... svo tekur hún niður um sig buxurnar og ég tek niður mínar ... Ogvið höfðum saman samfarir og ... við vorum standandi. Og svo setjumst við niðurog erum þannig líka.“ Nánar aðspurður endurtók ákærði að þau A hefðu verið aðkyssast í sófanum og bætti við að hún hefði verið „viljug allan tímann.“ Húnhefði þó alltaf verið „að detta út“ eins og hún væri búin að drekka allt ofmikið. Ákærði sagði að A hefði farið „viljug inn á klósett“ og þau gengiðþangað hlið við hlið. Eftir að komið var inn á baðherbergið sagði ákærði að þauhefðu haft kynmök og hann fengið sáðlát. Hún hefði sagt „ekki hætta“ og veriðpirruð þegar hann hefði ekki getað meira. Síðan hefðu þau farið fram og kvaðstákærði hafa beðið vitnið C um að fara með A heim þar sem hún hefði verið orðinsvo ölvuð. Ákærði sagðist halda að hann hefði hringt í hana daginn eftir.Fyrir dómi staðfesti ákærði að þetta væri rétt frásögn af því sem gersthefði. Spurður hvers vegna hann hefði ekki skýrt eins frá við skýrslutöku hjálögreglu sagðist ákærði hafa verið hræddur við að vera sakfelldur fyrir eitthvaðsem hann væri saklaus af.2A gaf skýrslu sem vitni hjálögreglu 25. september 2013. Í upphafi sagðist hún aðeins hafa verið byrjuð aðdrekka fyrr um daginn í miðborg Reykjavíkur áður en hún fór í íbúðina að [...].Nánar spurð um þetta svaraði hún að margir krakkar hefðu verið „með gras ogáfengi“ og hún beðið um að „fá sopa“. Að sögn A fór hún ásamt vitninu C, vinisínum, með strætisvagni áleiðis að [...]. Hefði ákærði tekið á móti þeim áviðkomustað strætisvagnsins og þau haldið þrjú saman í íbúðina þar sem vitnið Bvar húsráðandi. A kvað ákærða hafa setið við hliðina á sér í sófa og sagt viðsig að hún yrði að kyssa hann til að verjast áreitni B sem hefði verið ágengurvið sig. Sagðist hún hafa gert „það viljug, ég kyssti hann“. Síðan sagðist húnhafa orðið þreytt og lokað aftur augunum, en skömmu síðar fundið fyrir aðákærði hefði verið að troða hendinni á henni niður um buxurnar sínar. Hún hefðistaðið upp, en verið svo drukkin að hún hefði ekki náð að standa í fæturna. Þáhefði ákærði tekið hana og haldið á henni inn á klósettið eins og íbóndabeygju. Þegar inn á baðherbergið var komið sagði A að ákærði hefði ýtthenni „einhvern veginn utan í vegginn“, síðan tekið niður um hana buxurnar oggirt niður um sig. Kvaðst hún þá hafa frosið. Því næst hefði ákærði sett hanaupp á vaskinn og verið að reyna að koma limnum á sér inn. Þegar það hefði ekkigengið hefði hann sest á klósettið og haldið henni ofan á sér. Síðan hefðilimurinn farið inn í hana og ákærði svo tekið hana af sér, girt sig og gengiðfram. Áður hefði hann sagt: „Þú segir engum.“ A sagðist hafa girt upp um sig ogfarið fram, en skömmu síðar haldið á brott úr íbúðinni með C. Aðspurð sagði húnað ákærði hefði ekki meitt hana, en það hefði verið óþægilegt þegar hann hefðiþrýst henni upp að veggnum. Ákærði hefði svo hringt í hana daginn eftir, en húnskellt á hann. Við skýrslutökuna sagðist A vera „skíthrædd“ við ákærða því aðhann væri í svo mikilli neyslu og hún hefði „heyrt svo margar sögur um hann“.Þegar A gaf vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst hún muna lítið eftirþví, sem gerðist umrætt sinn, þar sem hún hefði reynt að útiloka það úr hugasér. Spurð hvort hún hefði farið upp í [...] sagðist hún hafa farið með vitninuC í strætó, en ekki verið ölvuð þá. Ákærði hefði tekið á móti þeim og þauhaldið í íbúðina að [...]. A sagði að þau ákærði hefðu verið að spjalla ísófanum. Síðan myndi hún eftir að hafa vera búin „að drekka svolítið mikið“ ogátt erfitt með að ganga sjálf eða tala. Ákærði hefði svo haldið á sér inn ábaðherbergið. Nánar aðspurð hvernig það hefði komið til að þau voru kominþangað svaraði hún: „Ég man það ekki. Ég man bara að hann hélt á mér eða leiddimig eða eitthvað svoleiðis. Ég man ekki eftir að hafa labbað sjálf“. Íhéraðsdómi kemur fram að ljóst hafi verið að skýrslugjöfin fyrir dómi reyndiverulega á A. Þannig var frásögn hennar af því, sem átti sér stað inni ábaðherberginu, mjög slitrótt. Hún bar að ákærði hefði klætt hana úr buxunum oglátið hana setjast ofan á vaskinn eða vaskborðið. Hann hefði sett liminn á sérinn í leggöngin á henni, en mundi óljóst eftir hvenær það hefði gerst. Þó hefðiákærði undir lokin verið sestur á klósettið og haldið henni ofan á sér. Þáhefði limurinn verið inni í henni og hann fengið sáðlát. Síðan hefði hannstaðið upp og þau gengið út. Spurð hvort ákærði hefði sagt eitthvað við hana ábaðherberginu kvaðst hún ekki muna það, en hann hefði hringt í sig eftir aðþetta gerðist og hún skellt á hann. Aðspurð sagðist A ekki muna hvort þauákærði hefðu verið að kyssast í sófanum. Henni hefði ekki liðið vel á baðherberginu„beið bara eftir að þetta væri búið og fór síðan heim.“ Síðan bætti hún við:„Ég vildi þetta ekki ... Hann bað ekki um leyfi, hann spurði ekki neitt.“Frekar spurð sagðist A hvorki muna eftir frásögn sinni hjá lögreglu um að húnhefði verið að drekka fyrr um daginn né að hún hefði verið að kyssa ákærða ísófanum. Hins vegar myndi hún eftir því að hann hefði reynt að troða hendinni áhenni inn um buxurnar á sér meðan hún dottaði.3Í skýrslu vitnisins C fyrir héraðsdómi bar hann að A hefði verið „aðdrekka eitthvað niðri í bæ“ fyrr um daginn. Einnig hélt hann að hún hefði„verið búin að reykja gras þann dag“. Aðspurður sagðist vitnið ekki hafa orðiðvar við að neinn hefði verið að áreita hana þegar komið var í íbúðina að [...].Spurður hvort eitthvað hefði verið í gangi milli ákærða og A þar sem þau sátu ísófanum játti vitnið því, en mundi ekki eftir hvort þau hefðu verið að kyssast.Að sögn vitnisins gengu þau saman inn á baðherbergið. Spurningunni „Var einhverað draga einhvern eða halda á einhverjum?“ svaraði vitnið neitandi. Vitnið gatekki borið um það sem átti sér stað á baðherberginu. Spurður hvort A hafi veriðhrædd við ákærða umrætt sinn svaraði vitnið: „Nei. Hún kom þarna af sínum eiginvilja alla vega ... það var ekki eins og hann hafi neytt hana að koma“. Þegarborin voru undir vitnið ummæli hans við skýrslutöku hjá lögreglu um að ákærðihefði alltaf verið að reyna að setja höndina á henni inn á sig sagði hann aðþað „gæti passað“. Einnig staðfesti vitnið fyrir dómi að hann hefði sagt viðsama tækifæri að ákærði og A hefðu verið að kyssast í sófanum, en sagðist númuna lítið eftir hvað gerst hefði.Við skýrslutöku fyrir dómi gat vitnið B lítið borið um atvik í íbúð sinniað [...] umrætt sinn sem þýðingu hafa við úrlausn um sekt eða sýknu ákærða.Aðspurður sagði vitnið að ákærði og A hefðu gengið inn á baðherbergið. Þarhefðu þau stundað kynlíf án þess að hann gæti greint frekar frá því sem þarhefði átt sér stað.IIIMat á sönnunargildi munnlegs framburðar, þar á meðal trúverðugleikaákærðu og vitna, verður ekki endurmetið af Hæstarétti nema þau hafi gefiðskýrslu hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Á hinn bóginnverður að gera þá kröfu til framburðar brotaþola fyrir héraðsdómi, eigi hann aðvera lagður til grundvallar sakfellingu, að hann fái næga stoð í framburðiannarra, sem gefið hafa skýrslu í málinu, eða öðrum sönnunargögnum. Þegar framburður ákærða fyrir héraðsdómi er borinn saman við fyrri skýrsluhans hjá lögreglu er framburðurinn í meginatriðum sá sami, að því undanskilduað ákærði bar í fyrri lögregluskýrslunni að þau A hefðu haft kynmök ísvefnherbergi íbúðarinnar, en ekki á baðherberginu. Við síðari skýrslutöku hjálögreglu var framburður ákærða hins vegar á allt annan veg og dregur það úrtrúverðugleika hans þótt ekki hafi verið um að ræða þrjár ólíkar útgáfur affrásögn ákærða af því, sem gerðist milli þeirra tveggja umrætt sinn, eins ográða má af forsendum hins áfrýjaða dóms.Við samanburð á framburði A hjá lögreglu annars vegar og fyrir dómi hinsvegar gætir nokkurs misræmis. Í fyrsta lagi bar hún hjá lögreglu að hún hefðiverið byrjuð að neyta áfengis fyrr um daginn, en sagði síðan fyrir dómi að húnhefði ekki verið orðin ölvuð þá. Í öðru lagði kvaðst hún í skýrslu sinni hjálögreglu hafa kysst ákærða „viljug“ þar sem þau sátu saman í sófanum, en fyrirdómi mundi hún ekki eftir því. Í þriðja lagi hélt hún því staðfastlega fram hjálögreglu að ákærði hefði haldið á sér inn á baðherbergið og bar það sama viðupphaf skýrslutöku fyrir dómi, en breytti síðan framburði sínum á þá leið aðhann hefði haldið á sér, leitt sig „eða eitthvað svoleiðis.“ Í fjórða lagi barhún ekki á sama hátt fyrir dómi um það, sem átt hefði sér stað á baðherberginumilli sín og ákærða, og hún hafði áður gert hjá lögreglu. Þótt þetta misræmikunni að stafa af því hve langur tími leið frá hinu ætlaða broti þar tilskýrslan var gefin fyrir dómi er ekki unnt að fallast á með héraðsdómi að húnhafi skýrt á sama hátt frá atvikum frá upphafi. Af samanburði á framburði A ogvitnisburði C og B fyrir dómi verður heldur ekki dregin sú ályktun aðframburður hennar fái stuðning af vitnisburði þeirra. Þannig báru þeir báðir aðþau ákærði hefðu gengið saman inn á baðherbergið, en hann hvorki haldið á henniné dregið hana þangað, svo sem hún hélt fram. Þá er til þess að líta aðframburður vitna, sem báru um það að A hefði skýrt þeim frá ætluðu broti ákærðaeftir á og gerir frásögn hennar sennilegri, var einvörðungu byggður á endursögnaf því sem gerst hefði. Vottorð og skýrslur sérfræðinga, sem lagðar hafa veriðfram í málinu, eru sama marki brenndar, en ekki er til að dreifa neinum öðrumsýnilegum sönnunargögnum sem styðja framburð hennar.Að öllu þessu virtu hefur héraðsdómur ekki fært viðhlítandi rök fyrir þvíleggja framburð A til grundvallar við úrlausn málsins, en hafna framburðiákærða fyrir dómi þrátt fyrir að hann væri álitinn „ekki ótrúverðugur“. 2Samkvæmt framburði ákærða og vitnanna C og B gengu ákærði og A saman inná baðherbergið og eru þau tvö síðarnefndu sammála um að hafa komið þaðangangandi. Þau eru hins vegar ein til frásagnar um það, sem átti sér stað inni íherberginu, og stendur þar orð gegn orði.Í 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga er meðal annars lögð refsingvið því að hafa samræði eða önnur kynferðismök með því að notfæra sér að þannigsé ástatt um þolandann að hann geti ekki spornað við verknaðinum eða skiliðþýðingu hans. Af lögskýringargögnum verður ráðið að með þessu sé einkum vísaðtil ýmiss konar skammvinnra truflana þolandans, svo sem rænuleysis hans vegnaáfengis- eða fíkniefnaneyslu, svefns eða yfirliðs, enda sé ástandið ekki tilkomið fyrir tilverknað hins brotlega. Þótt fyrir liggi að A hafi verið talsvertölvuð þegar hún fór með ákærða á baðherbergið er ósannað, með vísan til þesssem að framan greinir, að hún hafi verið rænulaus eða rænulítil sökum ölvunarog þreytu meðan hún var þar inni. Þegar af þeirri ástæðu verður að sýkna ákærðaaf sakargiftum um að hafa brotið gegn umræddu refsiákvæði.Ef frá er talinn framburður A og þeirra, sem hún skýrði frá atvikumsíðar, er ekkert fram komið í málinu um að ákærði hafi þvingað hana til að hafasamræði við sig gegn vilja hennar umrætt sinn. Samkvæmt því verður ekki talið,gegn eindreginni neitun ákærða, að sannað sé svo að hafið sé yfir skynsamleganvafa, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008, að hann hafi beitt hana ólögmætri nauðungá þann hátt sem í ákæru greinir. Af þeim sökum verður hann sýknaður af brotumgegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlagasem hann er sakaður um.Samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 verður einkaréttarkröfu Avísað frá héraðsdómi.Sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraðsdómi verður felldur áríkissjóð.Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talinmálsvarnarlaun skipaðs verjanda og þóknun skipaðs réttargæslumanns sem eruákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð:Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.Einkaréttarkröfu A er vísað frá héraðsdómi.Sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraði greiðist úr ríkissjóði.Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talinmálsvarnarlaun verjanda ákærða, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns,992.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns A, Þyríar H. Steingrímsdótturhæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.Dómur HéraðsdómsReykjavíkur 9. mars 2016.IMál þetta, sem dómtekið var 16. febrúarsíðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 27. nóvember 2015„á hendur X, kennitala [...], [...], [...] fyrirnauðgun og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa kvöldi mánudagsins 17.júní 2013, inni á baðherbergi að [...] í Reykjavík, haft samræði við A,kennitala [...], sem þá var 15 ára gömul gegn vilja hennar, með því að beitahana ólögmætri nauðung með því að notfæra sér yfirburði sína gagnvart hennivegna aldurs- og þroskamunar og að hún var stödd á ókunnugum stað, og sumpartmeð því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar ogþreytu. Telst þetta varða við 1. og 2.mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr.barnaverndarlaga nr. 80/2002.Þess er krafist að ákærði verðidæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.Einkaréttarkrafa:Af hálfu D, kt. [...], fyrir höndólögráða dóttur hennar, A, kt. [...], er gerð krafa um að ákærða verði gert aðgreiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000,- auk vaxta skv. 8. gr. lagaum vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 17. júní 2013 þar til mánuður erliðinn frá því að bótakrafan var birt en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1.mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist aðkærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða skv. síðarframlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti ámálflutningsþóknun.“Ákærði neitar sök og krefstsýknu. Hann krefst þess að bótakröfunni verði vísað frá dómi og sakarkostnaðurgreiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun.II Málavextireru þeir að með bréfi barnaverndarnefndar í sveitarfélagi brotaþola 9.september 2013 var beðið um lögreglurannsókn á kynferðisbroti er brotaþoli áttiað hafa orðið fyrir 17. júní sama ár. Í bréfinu kemur fram að brotaþoli hafirætt um þetta við geðhjúkrunarfræðing á barna- og unglingageðdeild og einshefði hún farið í könnunarviðtal í Barnahúsi. Í bréfinu segir að móðirbrotaþola hafi komið í viðtal hjá starfsmanni nefndarinnar. Í viðtalinu hafikomið fram að brotaþoli hefði verið í miðbænum 17. júní ásamt félögum sínum.Hún hefði drukkið töluvert af áfengi. Brotaþoli hefði síðan farið ásamt félögumsínum á heimili manns í miðbænum en ekki hefði hún munað nákvæmlega hvar þaðvar. Í íbúðinni hefði meintur gerandi dregið hana inn á baðherbergi. „Hafi húnneitað að gera það sem meintur gerandi bað hana um að gera en hann hafi komiðfram vilja sínum gagnvart henni. Hún hafi sagt við hann að hún vildi þetta ekki,en hann ekki hlustað á hana. Hafi hún verið standandi inni á baðherberginuþegar atvikið átti sér stað.“ Brotaþoli hefði síðan farið úr íbúðinni og haftsamband við foreldra sína er hefðu komið og sótt hana. Eftir móðurinni er haftað brotaþoli hafi ekki nefnt þennan atburð er hún kom heim og það hafi ekkiverið fyrr en eftir könnunarviðtalið sem hún hafi viljað ræða um hann. Í fyrstuhafi brotaþoli ekki viljað kæra en síðar hafi henni snúist hugur. Meðalgagna málsins er vottorð frá barna- og unglingageðdeild varðandi brotaþola. Þarer orðrétt haft eftir geðhjúkrunarfræðingi um viðtal hennar við brotaþola 20.júní: „Sagði frá því að á 17. júní hefði hún orðið drukkin, lent í stjórnleysiog atburðir kvöldsins væru að e-u leyti í þoku. Hún greindi u-r frá því að húnmyndi þó að henni hefði verið nauðgað þetta kvöld af jafnaldra sínum, sem húnnafngreindi. Liðið mjög illa á eftir, finnur fyrir skömm og kennir sér um. Ekkibúin að segja neinum öðrum frá þessu. U-r útskýrði skylduheilbrigðisstarfsfólks til að tilkynna slíka atburði bæði til foreldra ogviðkomandi barnaverndarnefndar.“ Lögreglantók skýrslu af móðurinni 23. september og kom þar hið sama fram og rakið varhér fyrr úr bréfinu. Móðirin kvað föður brotaþola hafa sótt hana að kvöldi 17.júní og fundið hana dauðadrukkna inni á salerni skyndibitastaðar. Þegarbrotaþoli kom heim hefði hún ekki virst dauðadrukkin en greinilega verið undiráhrifum. Viðskýrslutöku hjá lögreglu 25. september bar brotaþoli að hafa verið á heimilimanns ásamt ákærða og fleira fólki. Hún hefði komið þangað í strætisvagni meðfélaga sínum. Brotaþoli kvaðst hafa verið drukkin og hefði húsráðandi klipiðhana í rassinn. Hún kvaðst hafa setið í sófa við hlið ákærða er hefði sagt aðhún ætti að kyssa hann til að húsráðandi léti hana í friði. Hún kvaðst hafakysst hann en hann hefði þá farið að troða hendi hennar niður í buxur hennar.Hún kvaðst hafa sagt honum að hætta en hann hefði bara hlegið að henni. Næstkvaðst hún muna eftir að hún hefði staðið upp en verið svo drukkin að hennihefði fundist hún eins og fljúga um herbergið. Ákærði hefði þá komið, tekiðhana og borið hana inn á baðherbergi. Þar hefði hann ýtt henni upp að vegg ogdregið niður um hana buxurnar. Hún kvaðst hafa spurt hann hvað hann væri aðgera en þá hefði hann sett hana upp á vaskinn og reynt að koma limnum inn íhana. Það hefði ekki tekist en hann hefði sest á klósettið og sett hana yfirsig og farið inn í hana óvarinn. Ákærði hefði lokið sér af, tekið hana af sér,gyrt sig og farið út úr baðherberginu. Tekinvar lögregluskýrsla af ákærða 3. október 2013 að viðstöddum þáverandi verjandahans. Hann kvaðst hafa verið í samkvæmi 17. júní 2013 er brotaþoli hefði hringtog spurt um samkvæmi. Hann kvaðst hafa sagt henni að koma. Það hefði hún gertásamt vini sínum og drukkið allt áfengið þarna eins og hann orðaði það. Húnhefði síðan verið að biðja alla um að koma með sér inn í herbergi og „maðursegir ekki nei ef maður er fullur“ sagði ákærði orðrétt. Ákærði kvað nokkrapilta hafa verið í samkvæminu og hefði hann beðið einn þeirra að fylgjabrotaþola heim vegna þess hversu ölvuð hún hafi verið, hún hafi verið „dauð“klukkan átta. Ákærðikvaðst hafa farið inn í svefnherbergi með brotaþola og haft við hana samfarirað hennar beiðni. Hann taldi þau hafa verið standandi á meðan en kvaðst lítiðmuna eftir þeim sökum ölvunar. Afturvar tekin lögregluskýrsla af ákærða 3. júlí 2014 og þá að viðstöddum núverandiverjanda hans. Hann neitaði nú að hafa haft kynmök við brotaþola. Hann kvaðhana hafa setið við hlið sér í sófa en síðan farið inn á baðherbergi og hefðihúsráðandi elt hana en ekki kvaðst ákærði vita hvort hann hefði farið með henniinn. Nánar spurður kvað ákærði brotaþola hafa gengið í átt að baðherberginu enekki kvaðst hann vita hvort hún hefði farið þangað inn. Ákærði kvaðst hafaverið undir áhrifum fíkniefna í fyrri yfirheyrslu og þess vegna viðurkenntkynmök við brotaþola. III Viðaðalmeðferð skýrði ákærði svo frá að hann hefði farið til vinar síns eftir aðdagskrá 17. júní 2013 lauk. Með honum hefðu farið þrír félagar hans. Á heimilivinarins hefði verið samkvæmi og hefði brotaþoli hringt í einn félaga ákærða ogspurt eftir samkvæmi. Ákærði kvaðst hafa tekið símann af honum og sagtbrotaþola að þarna væri samkvæmi. Áður en brotaþoli kom með félaga sínum hefðufélagar ákærða, allir þrír, farið að kaupa tóbak. Þeir hefðu ekki komið afturog voru því eftir í samkvæminu ákærði, brotaþoli, félagi hennar og húsráðandi,vinur ákærða. Ákærði kvað sig og brotaþola hafa setið í sófa og hefðu þau veriðað kyssast og knúsa hvort annað. Hann kvað brotaþola hafa drukkið romm og landaog hafi hún verið orðin allverulega ölvuð. Þá kvað hann hana og félaga hennarhafa reykt marijúana áður en þau komu. Ákærði kvaðst hafa kannast við brotaþolaog hafa vitað að hún var tveimur árum yngri en hann. Ákærðikvað eitt hafa leitt af öðru þegar þau voru í sófanum og það hefði veriðsameiginleg ákvörðun þeirra að gera eitthvað meira eins og hann orðaði það. Þauhefðu spurt hvort annað hvort þau ættu að gera eitthvað meira og hefðu bæðijánkað því. Hann kvað þau hafa farið inn á baðherbergi og gengið hlið við hlið.Þar hefði hún tekið niður um sig buxurnar og hann hefði tekið buxurnar niður umsig. Þau hefðu verið að kysstast og haft samfarir. Fyrst hefðu þau veriðstandandi við samfarirnar en síðan hefðu þau sest niður. Hann kvaðst hafa sestá klósettið og hún hefði sest ofan á hann. Ákærði kvaðst hafa fengið sáðlát ogbrotaþoli hefði sagt „ekki hætta“ en hann hefði ekki getað meira. Ákærði tókfram að brotaþoli hefði viljað þetta og hefði hún verið pirruð yfir því að hannhefði ekki getað meira. Eftir samfarirnar hefðu þau farið fram og farið aðspjalla saman en brotaþoli hefði verið svo drukkin að hann hefði beðið félagahennar að fara með hana og hefði hann gert það. Sjálfur kvaðst ákærði hafaverið undir áhrifum þennan dag, aðallega kókaíns. Ákærðivar spurður um framburð sinn hjá lögreglu og kvaðst hann hafa verið hræddur íyfirheyrslunni við að verða sakfelldur fyrir eitthvað sem hann væri saklaus af.Hann kvaðst hafa sagt sannleikann fyrir dómi. Brotaþolikvaðst hafa verið í miðbænum með vinkonu sinni 17. júní 2013. Hún kvað ákærðahafa hringt í sig og í framhaldinu hefði hún farið með félaga sínum ístrætisvagni í úthverfi þar sem hafi verið samkvæmi í húsi. Hún kvaðst ekkihafa verið ölvuð og ekki verið undir áhrifum efna. Brotaþoli kvað ákærða hafakomið á móti þeim á stoppistöðina og fylgt þeim að húsinu. Þar hefði veriðhúsráðandi og tveir piltar. Þau hefðu fyrst verið að spjalla og eins hefðiákærði gefið henni töflu sem hann hefði sagt að væri ofnæmistafla. Hún kvaðsteinnig hafa fengið romm að drekka. Brotaþolikvað tvo sófa hafa verið í stofunni og hefði hún setið í öðrum þeirra ásamtákærða. Þau hefðu verið að spjalla saman og hefði ákærði sagt henni að kærastihennar hefði verið með annarri stelpu. Hefði ákærði verið að reyna að fá hanatil að hætta með kærastanum. Brotaþoli kvaðst hafa verið búin að drekka mikiðog hefði hún átt erfitt með gang og helst viljað sitja í sófanum og sofna. Húnkvað ákærða hafa haldið á henni inn á baðherbergið en þau hefðu ekkert veriðbúin að ræða saman á kynferðislegum nótum. Þá kvaðst hún ekki muna til þess aðþau hefðu verið að kyssast í sófanum. Á baðherberginu hefði ákærði klætt hanaúr buxunum og var hún þá standandi. Hún kvaðst hafa haft augun lokuð og ekkivita hvort ákærði fór úr buxunum. Brotaþoli kvað mjög erfitt fyrir sig að rifjaþetta upp. Hún myndi illa eftir þessu vegna þess að hún hefði reynt að gleymaþessu og loka á það. Hún vildi ekki reyna að geta í eyðurnar en kvað ákærðahafa sett hana upp á borð þar sem vaskur var. Þar kvað hún hann hafa sett limsinn inn í leggöngin á henni. Hún kvaðst þó ekki alveg muna hvort honum hefðitekist þetta en hann hefði svo sest á klósettið og haldið henni ofan á sér oghefði þá limur hans verið inni í henni. Þessu hefði lokið er ákærði hefðifengið sáðlát. Hún kvaðst hafa lokað augunum og beðið eftir að þessu lyki endahefði hún ekki viljað þetta. Ákærði hefði ekki beðið hana um leyfi. Hann hefðisvo staðið upp og hún kvaðst hafa farið fram. Á eftir hefði hún svo farið heimá leið með strætisvagni en farið úr á leiðinni og hringt í foreldra sína. Faðirhennar hefði sótt hana þangað sem hún var sofandi á gólfi salernis ábensínstöð. Brotaþoli kvaðst hafa orðið mjög ölvuð í íbúðinni en hún hefði ekkiverið að drekka áður en hún kom þangað. Þá kvaðst hún ekki hafa notað önnurvímuefni. Vinkonabrotaþola, sem var með henni 17. júní, bar að þær hefðu farið saman niður í bæþennan dag. Þaðan kvaðst hún hafa tekið strætisvagn út á land. Brotaþoli hefðiekki verið undir áhrifum áfengis. Hún kvað brotaþola hafa síðar sagt sér að húnhefði verið tekin inn á salerni og misnotuð en ekki kvaðst hún muna nánar aðgreina frá þessu nema hvað hún kvað brotaþola hafa sagt sér að ákærði hefðiverið gerandinn. Vinkonan kvað brotaþola hafa verið niðurbrotna þegar hún sagðifrá þessu. Félagibrotaþola, sem fór með henni í samkvæmið, kvaðst hafa hitt hana niðri í bæ 17.júní og hefði hún beðið hann að koma með sér í úthverfið. Þar hefði hún ætlaðað hitta ákærða en þau hefðu verið búin að ræða saman. Þau hefðu farið meðstrætisvagni og hefði ákærði sótt þau á stoppistöðina. Þau hefðu farið saman aðhúsi og þar hefðu verið félagar ákærða. Þeir hefðu farið skömmu eftir að þaukomu og voru þau brotaþoli þá eftir ásamt ákærða og húsráðanda. Þau hefðu veriðí stofunni að spjalla saman og eitthvað hefði verið drukkið af áfengi, aðminnsta kosti hefði brotaþoli verið orðin vel full. Hann kvað hana hafa drukkiðáfengi niðri í bæ. Að öðru leyti kvaðst hann ekki mikið muna eftir áfengisneysluþarna. Hann kvað ákærða og brotaþola hafa setið saman í sófanum en ekki kvaðsthann muna hvort þau hefðu verið að kyssast. Eitthvað hefði þó verið á milliþeirra eins og hann orðaði það. Hann kvað þau hafa farið saman inn ábaðherbergi og verið þar skamma stund. Nánar spurður kvaðst hann hafa séð þaustanda upp og ganga saman í áttina að baðherberginu. Eftir það kvaðst hann hafaákveðið að fara. Hann tók fram að hann hefði verið 13 ára á þessum tíma ogþurft að koma sér heim. Brotaþoli hefði komið á eftir sér og þau hefðu fariðsaman í strætisvagni. Brotaþoli hefði ekki rætt um neitt á leiðinni enda hefðihún verið mjög drukkin. Hann kvaðst ekki muna til þess að ákærði hefði beðiðsig um að fara með brotaþola. Húsráðandií húsinu þar sem samkvæmið var bar að ákærði hefði verið í heimsókn hjá sérnefndan dag ásamt félögum sínum. Eins hefðu komið þangað piltur og stúlka.Fólkið hefði verið að skemmta sér en svo hefðu einhverjir farið. Hann kvaðstgeta borið um kynlíf inni á baðherbergi enda hefði hann heyrt það en ekki gathann lýst því nánar. Húsráðandi kvaðst ekki hafa séð ákærða og stúlkuna kyssastí stofunni. Hann hefði séð ákærða og brotaþola fara inn á baðherbergið og veriðþar allnokkra stund. Hann kvaðst hafa verið að drekka romm en ekki mundi hannhvort fleiri hefðu drukkið. Einnaf félögum ákærða sem voru í samkvæminu kvaðst þekkja brotaþola í gegnum vinisína. Þarna hefðu verið nokkrir menn og þar á meðal ákærði. Brotaþoli hefðikomið og með henni piltur. Hún hefði verið útúrlyfjuð og sagst hafa verið aðtaka töflur. Hann kvaðst hafa farið skömmu eftir að brotaþoli kom. Sjálfurkvaðst hann hafa verið búinn að reykja gras. Hann mundi ekki eftir hvort ákærðihefði verið undir áhrifum. Hann gat ekkert borið um ákæruefnið. Annarfélagi ákærða bar að hafa verið í nefndu húsi 17. júní er brotaþoli hefðihringt í hann og viljað hitta hann. Hann kvaðst ekki hafa getað það og sagthenni það. Hann kvað hana þá hafa rætt við ákærða í símann en ekki kvaðst hannhafa hlustað á samtalið. Hann kvaðst hafa verið farinn þegar brotaþoli kom íhúsið þennan dag en hafa vitað að hún ætlaði að koma. Hann kvað brotaþola hafasagt sér síðar að hún og ákærði hefðu farið inn á baðherbergi eftir að hafaverið að kyssast. Á baðherberginu hefði ákærði misnotað brotaþola að hennarsögn. Þriðjifélagi ákærða bar að hafa verið í nefndu húsi og mundi eftir brotaþola en gatað öðru leyti lítið sem ekkert um málsatvik borið. Móðirbrotaþola bar að faðir brotaþola hefði sótt hana að kvöldi 17. júní og kvaðsthún hafa séð að brotaþoli var undir áhrifum áfengis. Brotaþoli hefði skýrtgeðhjúkrunarfræðingi frá því sem hafði gerst og hefði hún sagt sér frá þessu.Geðhjúkrunarfræðingurinn hefði sagt sér eftir brotaþola að ákærði hefði gefiðhenni töflu, farið með hana inn á bað og komið fram vilja sínum. Síðar hefðibrotaþoli sagt sér þetta að viðstöddum geðhjúkrunarfræðingnum. Faðirbrotaþola kvaðst hafa farið að sækja hana og fundið hana á gólfi salernisskyndibitastaðar, hálfmeðvitundarlausa. Hann kvaðst hafa gert ráð fyrir að húnværi drukkin enda hefði hann fundið áfengislykt af henni. Brotaþoli hefði ekkisagt sér hvað gerst hefði. Hann kvað eiginkonu sína hafa sagt sér frá því sembrotaþoli hefði sagt henni. Síðar hefði brotaþoli sagt sér frá því að ákærðihefði gefið henni ofnæmistöflu vegna þess að dýr væru í íbúðinni. Hann hefðisíðan nauðgað henni inni á baðherbergi. Framangreindurgeðhjúkrunarfræðingur staðfesti vottorð sitt. Hún kvaðst hafa sinnt brotaþola írúmt ár áður en atburður sá varð sem er ákæruefnið. Hún kvað brotþola hafakomið til sín 20. júní og sagt sér frá því að hún hefði farið niður í bæ 17.júní og þar hefði ákærði dregið hana með sér inn í hús. Þar hefði hann dregiðhana inn á baðherbergi og nauðgað henni. Í framhaldinu hefði brotaþola liðið mjögilla og lagst inn á BUGL eftir að hafa tekið inn of stóran skammt af lyfjum. Þáhefði hún borið merki um áfallastreituröskun. Áður en þetta gerðist bar áþunglyndiseinkennum hjá brotaþola. Hún hefði flutt í annað bæjarfélag vegnafélagslegra vandamála í skóla. Hún kvað brotaþola hafa leitað til sálfræðingsog eins hefði hún farið í viðtöl í Barnahúsi. Sérfræðingur Barnahúss, sem ræddi viðbrotaþola, kvað hana hafa skýrt sér frá atvikum í samræmi við það er áður varkomið fram. Brotaþoli hefði hitt ákærða heima hjá manni. Hún hefði verið mjögdrukkin og svo hefði eitthvað gerst inni á baðherbergi. Hún kvað það ekki hafaverið sitt hlutverk að grafast fyrir um hvað hefði gerst heldur frekar hjálpabrotaþola. Hún kvað brotaþola hafa liðið mjög illa vegna þessa og eins hefðihún kennt sjálfri sér um þar eð hún hefði verið drukkin. Brotaþoli sagði henniað það sæti í henni að hafa ekki gefið sterkar til kynna að hún vildi þettaekki. Þá kom einnig fram hjá brotaþola að eftir þetta hefði brotaþoli gerttilraun til sjálfsvígs en hún hefði reynt það áður. Einnig hefði brotaþoli áttvið margs konar vanda að etja fyrir þennan atburð.IV Einsog hér að framan var rakið viðurkenndi ákærði við aðalmeðferð að hafa haftsamfarir við brotaþola inni á baðherbergi hússins sem nefnt er í ákæru. Hannkvað samfarirnar hafa verið með vilja brotaþola og hefðu þau sammælst um þæráður en þau fóru inn á baðherbergið eins og rakið var. Ákærði hafði veriðyfirheyrður tvívegis af lögreglu. Í fyrri skýrslunni kannaðist hann við að hafahaft samfarir við brotaþola í herbergi í húsinu en í síðari skýrslunni neitaðihann að hafa haft samfarir við hana. Brotaþolihefur á hinn bóginn alltaf haldið því fram að ákærði hafi farið með hana inn ábaðherbergi og haft þar samfarir við hana án hennar vilja. Hún hafi ekki getaðspornað við samförunum, meðal annars vegna ölvunar. Fram er komið í málinu aðbrotaþoli neytti áfengis eftir að hún kom í nefnt hús og varð allverulegaölvuð. Framburðurákærða fyrir dómi er ekki ótrúverðugur. Hann hafði hins vegar gefið misvísandiskýrslur hjá lögreglu eins og grein hefur verið gerð fyrir. Ákærði bar að þaubrotaþoli hefðu sammælst um að fara og hafa kynmök eftir að hafa verið aðkyssast og knúsast. Brotaþoli ber á annan veg og hefur gert frá upphafi. Húnkvaðst hafa orðið verulega ölvuð og ákærði hafi farið með hana inn ábaðherbergið og nauðgað henni eins og lýst hefur verið. Hún kannaðist ekki viðað þau ákærði hefðu verið að kyssast eða að þau hefðu sammælst um að hafakynmök. Það sem gerðist hefði ekki verið að hennar vilja. Það er mat dómsins aðbrotaþoli hafi gefið trúverðuga skýrslu fyrir dómi og var greinilegt aðskýrslugjöfin reyndi verulega á hana. Þegarákærði og brotaþoli fóru inn á baðherbergið voru tvö vitni í húsinu, húsráðandiog félagi brotaþola. Húsráðandinn kvaðst ekki hafa séð ákærða og brotaþolakyssast og félaginn mundi ekki eftir hvort þau höfðu verið að kyssast. Að öðruleyti var framburður þeirra óljós um aðdraganda þess að þau fóru inn ábaðherbergið. Hafa verður í huga að húsráðandi var undir áhrifum áfengis ogfélaginn var aðeins 13 ára. Þegaratburður sá gerðist sem málið er sprottið af var ákærði 18 ára og brotaþoli 15ára. Sannað er með framburði ákærða og brotaþola, er fær stuðning í framburðivitna, að hún var verulega ölvuð. Ákærði kvaðst sjálfur hafa verið undiráhrifum kókaíns. Framburður hans um að brotaþoli hafi sjálfviljug komið meðhonum inn á baðherbergið og haft við hann samfarir stangast á við eindreginnframburð hennar. Frásögn brotaþola af því sem gerðist hefur frá upphafi veriðhin sama og kemur heim og saman við framburð hennar fyrir dómi. Það erniðurstaða dómsins að við úrlausn málsins eigi að leggja til grundvallartrúverðugan framburð brotaþola sem skýrt hefur á sama hátt frá atvikum fráupphafi. Framburður hennar fær stuðning af framburði framangreindra vitna ervoru í húsinu á sama tíma. Einnig fær hann stuðning í framburði vitna sem húnskýrði frá atvikum eftir þau gerðust, fyrst þremur dögum síðar, og rakinn hefurverið. Það er niðurstaða dómsins að hafna framburði ákærða um að brotaþoli hafiviljað hafa við hann samfarir. Þótt framburður hans fyrir dómi sé ekkiótrúverðugur verður við mat á honum að hafa í huga að það er þriðja útgáfa hansaf því sem gerðist milli hans og brotaþola nefndan dag. Samkvæmt þessu verðurákærði sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök í ákærunni og er brothans þar rétt fært til refsiákvæða. Ákærðahefur ekki áður verið refsað og er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2ár og sex mánuði. Miskabætur til brotaþolaeru hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur og skulu þær bera vexti eins og ídómsorði greinir. Það athugast að ákærða var birt bótakrafan í yfirheyrslu hjálögreglu 3. október 2013 og miðast upphaf dráttarvaxta við þann dag er liðnirvoru 30 dagar frá þeim degi. Loksverður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og launréttargæslumanns brotaþola, eins og þau eru ákveðin með virðisaukaskatti ídómsorði, en annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins. Dóminnkváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg dómsformaður, IngibjörgÞorsteinsdóttir og Ingimundur Einarsson.D ó m s o r ð : Ákærði,X, sæti fangelsi í 2 ár og sex mánuði. Ákærði greiði A 1.200.000 krónurmeð vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. júní 2013 til 3.nóvember 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeimdegi til greiðsludags. Ákærði greiði málsvarnarlaunskipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 757.020 krónur, ogþóknun réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýar Brynjólfsdóttur hdl., 327.360krónur. |
Mál nr. 305/1999 | Skaðabætur Líkamstjón Tímabundin örorka Matsgerð | Ó varð fyrir slysi við vinnu á skipi Ú. Örorkunefnd samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 mat varanlegan miska Ó vegna slyssins 22%, en varanlega örorku 40%. Þá taldi nefndin að eftir 1. janúar 1998 hefði Ó ekki mátt vænta frekari bata af meiðslun sínum, svo að máli skipti. Að fenginni álitsgerð örorkunefndar sömdu Ó og T, vátryggjandi Ú, um uppgjör bóta vegna slyssins að öðru leyti en því, að T féllst ekki á að bæta Ó tímabundið atvinnutjón nema frá slysdegi til 1. janúar 1997. Ó krafði Ú um skaðabætur fyrir tímabundið atvinnutjón vegna tímabilsins 1. janúar 1997 til 1. janúar 1998. Undir meðferð málsins voru dómkvaddir tveir menn, sem töldu að líta mætti svo á að Ó hefði fengið einhvern bata á tímabilinu frá ársbyrjun til 14. apríl 1997. Að fenginni þessari matsgerð greiddi T Ó bætur fyrir atvinnutjón hans til 14. apríl 1997, en frá þeim tíma væri lítil von um bata. Af framburði tveggja nefndarmanna örorkunefndar fyrir dómi og ummælum í áliti nefndarinnar var talið að leggja yrði til grundvallar, að niðurstaða nefndarinnar um að Ó hefði ekki mátt vænta frekari bata eftir 1. janúar 1998, hefði verið reist á mati hennar um þann tíma, sem hann hefði þurft til að jafna sig eftir aðgerð á öxl haustið 1996. Að virtu vottorði frá lækninum, sem annaðist aðgerðina, og mati dómkvaddra manna þótti ekkert liggja fyrir um að heilsa Ó hefði breyst eftir 14. apríl 1997 vegna atvika, sem rakin yrðu til slyssins. Var Ó talin hafa fengið tímabundið atvinnutjón sitt að fullu bætt og Ú því sýknað af kröfu hans. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. ágúst 1999. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda, svo og að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I. Stefndi varð fyrir slysi 2. september 1994 við vinnu á skipi áfrýjanda. Stefndi hlaut þar meiðsl á baki, hálsi og öxl. Leitaði hann lækninga eftir að skipið kom að landi og fékk einnig umfangsmikla sjúkraþjálfun, sem bar þó takmarkaðan árangur. Í febrúar 1996 gekkst hann undir aðgerð á öxl og aftur í október sama árs. Að sögn hans bættu þessar aðgerðir líðan hans lítið til lengri tíma litið. Í vottorði 29. apríl 1997 frá sérfræðingi í bæklunar- og skurðlækningum, sem hafði stundað stefnda, var talið að ekki væri unnt að bjóða honum upp á frekari meðferð og væri „lítil von um frekari bata.“ Áfrýjandi hafði vátryggingu hjá Tryggingamiðstöðinni hf., sem nær til tjóns stefnda vegna vinnuslyss hans. Vátryggingafélagið, sem er stefnt til réttargæslu í málinu, beindi 4. júlí 1997 til örorkunefndar, sem starfar samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að hún legði mat á varanlega örorku og miska stefnda. Í álitsgerð nefndarinnar 22. apríl 1998 var varanlegur miski stefnda vegna slyssins metinn 22%, en varanleg örorka 40%. Þá taldi nefndin að eftir 1. janúar 1998 hafi stefndi ekki mátt vænta frekari bata af meiðslum sínum, svo máli skipti. Að fenginni álitsgerð örorkunefndar sömdu stefndi og Tryggingamiðstöðin hf. 24. júní 1998 um uppgjör bóta vegna slyssins að öðru leyti en því að félagið féllst ekki á að bæta stefnda tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nema frá slysdegi til 1. janúar 1997. Var gerður fyrirvari í uppgjörinu um rétt stefnda til skaðabóta á þessum grunni vegna ársins 1997, en samkomulag tókst um að slíkar bætur gætu orðið 245.000 krónur fyrir hvern mánuð, eða samtals 2.940.000 krónur vegna alls umrædds árs. Stefndi höfðaði síðan málið 7. september 1998 til heimtu síðastnefndrar fjárhæðar. Var krafa hans tekin til greina með hinum áfrýjaða dómi. Að gengnum héraðsdómi fékk Tryggingamiðstöðin hf. dómkvadda tvo menn til að meta hvort heilsufar stefnda hafi breyst til batnaðar á árinu 1997 hvað varðar afleiðingar slyssins, hvort slíkar breytingar, ef einhverjar væru, hefðu leitt til lækkunar á varanlegri örorku eða miska stefnda og hvenær matsmenn teldu að „stöðugleikatímapunkti vegna slyssins“ hafi verið náð. Í matsgerð hinna dómkvöddu manna 20. desember 1999 var talið að af nánar tilteknum ástæðum mætti líta svo á að stefndi hafi fengið einhvern bata á tímabilinu frá ársbyrjun til 14. apríl 1997, þessi bati hafi orðið til að lækka miskastig hans og heilsa hans hafi náð „stöðugleikatímapunkti“ síðastgreindan dag. Að fenginni ofangreindri matsgerð greiddi Tryggingamiðstöðin hf. stefnda 27. janúar 2000 samtals 1.095.939 krónur. Samkvæmt málflutningi aðilanna fyrir Hæstarétti eru þeir sammála um að stefndi hafi með þessu fengið að fullu bætt tímabundið atvinnutjón sitt vegna tímabilsins frá 1. janúar til 14. apríl 1997 með 837.720 krónum, að viðbættum dráttarvöxtum að fjárhæð 258.219 krónur. Eins og áður greinir krefst áfrýjandi sýknu af kröfu stefnda. Leggur áfrýjandi þar til grundvallar að stefndi geti ekki lengur reist kröfu um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns á tímabilinu frá 14. apríl 1997 til 1. janúar 1998 á niðurstöðu örorkunefndar, sem hafi verið hnekkt með mati dómkvaddra manna. II. Ákvæði XXV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála standa ekki í vegi því að áfrýjandi geti fyrir Hæstarétti byggt á fyrrnefndri matsgerð, sem var aflað eftir uppkvaðningu héraðsdóms, enda sækir hann til hennar sönnun vegna málsástæðu, sem hann bar fyrir sig í héraði til stuðnings varakröfu sinni, en hún var efnislega sú sama og krafa áfrýjanda um sýknu er nú. Verður af þessum sökum ekki fallist á mótmæli stefnda gegn því að matsgerðinni verði komið að í málinu. Um það tímamark, sem réði úrslitum um hversu lengi stefndi gæti átt rétt til bóta vegna tímabundins atvinnutjóns samkvæmt þágildandi ákvæði 2. gr. skaðabótalaga, sagði eftirfarandi í niðurstöðum álitsgerðar örorkunefndar: „Örorkunefnd telur að eftir 1. janúar 1998 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata sem máli skiptir af afleiðingum vinnuslyssins 2. september 1994.“ Þessi ályktun nefndarinnar er ekki rökstudd frekar í tengslum við tilvitnuð ummæli. Tveir nefndarmenn í örorkunefnd gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Af framburði þeirra virðist ekki annað verða ályktað en að niðurstaða nefndarinnar um þetta efni hafi verið reist á því annars vegar að stefndi hafi gengist undir síðari aðgerðina á öxl um haustið 1996, sem hafi tekið hann langt fram á árið 1997 að jafna sig af, og hins vegar að hann hafi farið að finna haustið 1997 fyrir dofa og kuldatilfinningu í handlegg, sem hafi tengst brjósklosi í hálsi. Varðandi síðastgreint atriði verður þó að líta sérstaklega til þess að í álitsgerð nefndarinnar segir að hún telji „ekki hægt að fullyrða hvort brjósklos tjónþola í hálsi stafi af slysinu“. Samkvæmt þessu er ekki annað unnt en að leggja til grundvallar að niðurstaða örorkunefndar um að stefndi hafi ekki mátt vænta frekari bata eftir 1. janúar 1998 hafi verið reist á mati hennar um þann tíma, sem hann hafi þurft til að jafna sig eftir umrædda aðgerð á öxl haustið 1996. Gagnstætt þessu stendur áðurnefnt vottorð 29. apríl 1997 frá lækninum, sem annaðist aðgerðina á stefnda, um að lítil von hafi verið um frekari bata en fram var kominn við læknisskoðun 14. sama mánaðar. Undir þetta álit læknisins er tekið í matsgerð dómkvaddra manna, sem lýstu meðal annars því áliti að eðlilegt væri að stefndi hafi þurft um hálft ár til að jafna sig eftir aðgerðina. Ekkert liggur fyrir um að heilsa stefnda hafi breyst eftir þetta vegna atvika, sem rakin verða til slyssins. Að virtu þessu í heild verða ekki séð haldbær rök til að líta svo á að stefndi hafi mátt vænta frekari bata eftir 14. apríl 1997. Samkvæmt því hefur stefndi þegar fengið tímabundið atvinnutjón sitt bætt með greiðslu áfrýjanda 27. janúar sl. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda. Áðurnefnd greiðsla áfrýjanda, sem leiðir nú til sýknu hans, var innt af hendi fjórum dögum fyrir munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti. Getur greiðsla á því stigi málsins ekki firrt áfrýjanda skyldu til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Áfrýjandi, Útgerðarfélag Akureyringa hf., er sýkn af kröfu stefnda, Óla G. Jóhannssonar. Áfrýjandi greiði stefnda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 1999. Mál þetta, sem dómtekið var 8. apríl sl., er höfðað af Óla G. Jóhannssyni, Háhóli, Eyjafjarðarsveit, gegn Útgerðarfélagi Akureyringa, Fiskitanga, Akureyri og Tryggingamiðstöðinni hf., Aðalstræti 6-8 Reykjavík, til réttargæslu. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, Útgerðarfélag Akureyringa hf., verði dæmdur til að greiða honum 2.940.000,00 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. maí 1998 til greiðsludags, auk málskostnaðar að mati dómsins og virðisaukaskatts, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur aðili. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur á hendur réttargæslustefnda. Dómkröfur stefnda í málinu eru þær aðallega að sýknað verði af öllum kröfum stefnanda í málinu, en til vara er krafist lækkunar. Í aðalkröfu er gerð krafa um málskostnað að mati dómsins en í varakröfu er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður. Málsatvik Málsatvik eru þau að stefnandi slasaðist við vinnu sína 2. september 1994 á skuttogaranum Sólbaki EA 307, eign stefnda, Útgerðarfélags Akureyringa hf., þegar togarinn var við veiðar í Smugunni. Stefndi naut vátryggingarverndar réttargæslustefnda vegna skips og áhafnar þegar slysið bar að höndum og hefur réttargæslustefndi komið fram gagnvart stefnanda varðandi uppgjör á slysabótum. Með beiðni, dags. 4. júlí 1997, óskaði réttargæslustefndi eftir mati örorkunefndar á varanlegri örorku og miskastigi stefnanda. Niðurstaða nefndarinnar lá fyrir þann 22. apríl 1998. Í áliti hennar, sem unnið var af Ragnari Halldóri Hall hrl. og læknunum Brynjólfi Mogensen og Magnúsi Ólasyni, kemur fram, að eftir 1. janúar 1998 hafi ekki verið að vænta frekari bata hjá stefnanda og var varanleg örorka hans metin 40% og miski 22%. Í niðurstöðu matsins sagði jafnframt á bls. 5 og 6: "Þrátt fyrir viðamikla meðferð hefur líðan tjónþola lítið lagast. Hann hefur verið óvinnufær frá slysi... örorkunefnd telur að eftir 1. janúar 1998 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata sem máli skiptir af afleiðingum vinnuslyssins 2. september 1994." Þegar álitið lá fyrir og réttargæslustefndi hafði kynnt sér það ritaði hann Örorkunefnd bréf þann 4. maí 1998. Í bréfinu spurðist hann fyrir um hvort í stað 1. janúar 1998 í áliti nefndarinnar ætti að standa 1. janúar 1997. Örorkunefnd kannaði málið og svaraði réttargæslustefnda með bréfi, dags. 7. maí 1998, og sagði þar: "Farið er yfir gögn málsins og niðurstaðan ótvírætt sú að ekki hafi verið um misritun að ræða og er því ekki tilefni til breytingar á álitsgerðinni." Þegar kom að uppgjöri skaðabóta á grundvelli álits örorkunefndar ákvað réttargæslustefndi, þrátt fyrir álitsgerðina og svar nefndarinnar frá 7. maí 1998, að líta svo á, sem stefnandi hefði aðeins verið óvinnufær frá slysdegi til og með 1. janúar 1997 og neitaði að greiða fyrir tímabundið atvinnutjón stefnanda á árinu 1997. Við uppgjör skaðabóta þann 24. júní 1998 varð að samkomulagi að leggja ágreining um þetta atriði fyrir dómstóla. Jafnframt var samkomulag um að fjárhæð þessarar kröfu væri 2.940.000,00 krónur. Málsástæður stefnanda og lagarök Stefnandi byggir kröfu sína á því, að í máli þessu liggi fyrir læknisfræðileg gögn um að hann hafi verið óvinnufær á árinu 1997 og að ekki hafi verið að vænta frekari bata eftir 1. janúar 1998. Hann hafi því orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni á árinu 1997 í skilningi skaðabótalaga. Þrátt fyrir að þessi gögn liggi fyrir hefur stefndi neitað að greiða bætur fyrir tímabundið atvinnutjón á árinu 1997. Sú neitun sé þó ekki byggð á neinum gögnum sem fá hnekkt áliti örorkunefndar um ástand stefnanda á árinu 1997. Stefnandi byggir kröfu sína á l. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafa um dráttarvexti byggist á 15. gr. sbr. 10. gr. vaxtalaga nr. 2S/1987. Krafa um málskostnað byggir á ákvæðum XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Málsástæður stefnda og lagarök Stefndi byggir kröfur sínar í málinu á því að álitsgerð örorkunefndar sé röng. Í álitsgerð nefndarinnar, dags. 22. apríl 1998, komist örorkunefnd m.a. að þeirri niðurstöðu að eftir 1. janúar 1998 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata sem máli skipti af afleiðingum vinnuslyssins þann 2. september 1994. Hér sé um að ræða tímabundið atvinnutjón í 3 ár og 4 mánuði. Stefndi telur, með vísan til þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu og lögð voru fyrir örorkunefnd, svo og með vísan til skaðabótalaga nr. 50/1993, að þetta mat örorkunefndar sé rangt. Í meðferð bótamáls stefnanda hafi réttargæslustefndi boðist til að miða lok tímabundins atvinnutjóns stefnanda við 1. janúar 1997. Þó svo að stefndi telji að í raun hafi tímabundnu atvinnutjóni stefnanda lokið fyrir 1. janúar 1997 miðast aðalkrafa stefnda í málinu við þá dagsetningu. Til vara er gerð sú krafa að í síðasta lagi hafi ekki verið að vænta frekari bata fyrir tjónþola eftir 14. apríl 1997. Verði lok tímabundins atvinnutjóns stefnanda miðað við þá dagsetningu ætti hann rétt á 837.720,00 krónum í bætur fyrir tímabilið l. janúar til 14. apríl 1997. Í framhaldi af þessu bendir stefndi á eftirfarandi: Þó að mat á því hvenær ekki sé að vænta frekari bata samkvæmt skaðabótalögunum nr. 50/1993 feli í sér mat á læknisfræðilegu ástandi tjónþola sé hér um að ræða mat sem byggi á lögfræðilegri túlkun á skaðabótalögunum, þ.e.a.s. skaðbótalögin skilgreini hvaða meginregla liggi að baki orðalaginu "þegar ekki er að vænta frekari bata". Stefndi telur það rétta túlkun á skaðabótalögunum að ekki sé að vænta frekari bata fyrir tjónþola frá og með því tímamarki þegar læknisfræðileg meðferð reynist ekki lengur hafa áhrif til breytinga á miskastigi eða fjárhagslegri örorku tjónþola vegna slyss. Komi þannig í ljós að tiltekin læknisfræðileg meðferð hafi ekki áhrif til breytinga á miska- eða fjárhagslega örorku geti sú meðferð ekki orðið til þess að lengja tímabundið atvinnutjón tjónþola samkvæmt skaðabótalögunum. Stefndi telur því að hér eigi að beita hlutlægu mati á hver árangur meðferðar hafi orðið, en ekki huglægu mati á hvort viðkomandi læknisfræðileg meðferð var réttlætanleg. Þannig megi ljóst vera að sú meðferð sem ekki skilar árangri geti ekki lengt tímabil tímabundins atvinnutjóns tjónþola. Stefndi telur hins vegar að örorkunefnd hafi í álitsgerð sinni í máli stefnanda nálgast spurninguna um hvenær ekki hafi verið að vænta frekari bata fyrir stefnanda út frá þeirri forsendu hvað sé læknisfræðilega réttlætanleg meðferð á hverjum tíma en ekki út frá því hvort sú meðferð hafi haft áhrif á varanlegan miska eða örorku stefnanda vegna slyssins. Stefndi telur að læknisfræðileg gögn í málinu sýni með hlutlægum hætti fram á að tímabundnu atvinnutjóni stefnanda vegna slyssins þann 2. september 1994 hafi verið lokið þann l. janúar 1997. Þar bendir stefndi á eftirfarandi: 1.Gerðar hafi verið tvær aðgerðir á vinstri öxl stefnanda án sýnilegs varanlegs árangurs. Fyrri aðgerðin hafi verið framkvæmd þann 23. febrúar 1996 og sú seinni þann 15. október 1996. 2.Stefnandi hafi komið í lokaskoðun til Ara H. Ólafssonar þann 14. apríl 1997 og í vottorði frá Ara, dags. 29. apríl 1997 komi fram að hann telur að ekki sé hægt að bjóða stefnanda upp á frekari meðferð og því sé formlegri læknisfræðilegri meðferð vegna slyssins frá 1994 lokið, enda sé ekki ástæða til að ætla að um frekari bata verði að ræða. Þá komi fram í álitsgerð örorkunefndar að nefndin hafi ekki haft við matið undir höndum læknisfræðileg gögn sem voru dagsett seinna en lokavottorð Ara H. Ólafssonar frá 29. apríl 1997. 3.Hvað varðar verki í baki og hálsi vegna slyssins bendi læknisfræðileg gögn eindregið til þess að þeir áverkar lengi ekki tímabundið atvinnutjón umfram það sem stafar af áverka á vinstri öxl. Þannig komi fram í læknisvottorði á dómsskjali nr. 19 að við skoðun þann 28. október 1996 hafi Halldór Jónsson, yfirlæknir á bæklunardeild Landspítalans talið að þó svo að stefnandi væri með útbreiddar slitbreytingar í hálsi, og reyndar á einum stað brjósklos samkvæmt niðurstöðu segulómskoðunar frá 19. ágúst 1996, sé alsendis óvíst um árangur aðgerðar og hafi því ekki ráðlagt slíka meðferð. 4.Þá komi fram í niðurstöðu álitsgerðar örorkunefndar að þrátt fyrir viðamikla meðferð hafi líðan tjónþola lítið lagast. Það virðist því ljóst að sú læknisfræðilega meðferð sem stefnandi gekk í gegnum vegna slyssins frá 2. september 1994 hafði lítil áhrif haft á varanlegan miska eða fjárhagslega örorku stefnanda vegna slyssins. Sem enn frekari rök fyrir kröfugerð sinni bendir stefndi á eftirfarandi: 1.Í álitsgerð örorkunefndar geri nefndin enga tilraun til að rökstyðja það hvernig hún komist að þeirri niðurstöðu að eftir 1. janúar 1998 hafi ekki verið að vænta frekari bata fyrir stefnanda. Í því sambandi vilji stefndi benda á 1. og 4. gr. reglugerðar nr. 335/1993 um starfsháttu örorkunefndar. Þar komi fram í 1. gr. að nefndin gefi álit um miskastig eða örorkustig eftir 4. og 5. gr. skaðabótalaga og að í áliti nefndarinnar skuli að jafnaði koma fram hvenær nefndin telji að tjónþoli hafi ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum líkamstjóns. Í 4. gr. reglugerðarinnar komi síðan fram að niðurstöðu örorkunefndar skuli fylgja stuttur rökstuðningur. 2.Í álitsgerð örorkunefndar komi fram að frá og með október 1997 hafi stefnandi haft eins og dofa- eða kuldatilfinningu í vinstri baug- og litlafingri. Þetta komi hins vegar ekki fram í neinum læknisfræðilegum gögnum sem liggi fyrir í málinu og virðist því eingöngu haft eftir tjónþola í viðtali við Brynjólf Mogensen lækni þann 4. febrúar 1998. Ekki sé heldur á þetta minnst í niðurstöðu örorkunefndarinnar. Því virðist sem nefndin hafi ekki talið þetta til þess fallið að hafa áhrif á miskastig eða varanlega fjárhagslega örorku stefnanda vegna slyssins frá 2. september 1994. 3.Þá bendir stefndi einnig á það, varðandi huglægt mat stefnanda á læknisfræðilegu ástandi sínu, að í álitsgerð örorkunefndar sé haft eftir honum að hann telji líðan sína hafa verið nánast óbreytta frá 1. janúar 1997. Þá komi einnig fram í álitsgerð örorkunefndar að stefnanda fannst aðgerðin þann 15. október 1996 hafa gert lítið gagn. Þá mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda og telur að hér eigi að greiða vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga ef um áfellisdóm verði að ræða. Niðurstaða Ekki er í máli þessu deilt um málsatvik eða fjárhæð dómkröfunnar. Ágreiningur málsaðila snýst um það hvert var tímabundið atvinnutjón stefnanda. Stefnandi byggir á því, eins og áður segir, að stefnandi hafi verið óvinnufær á árinu 1997 og að ekki hafi verið að vænta frekari bata eftir 1. janúar 1998. Stefndi heldur því hins vegar fram að tímabundnu atvinnutjóni stefnanda hafi verið lokið þann 1. janúar 1997. Samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal ákveða bætur fyrir atvinnutjón þann tíma frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til ekki er að vænta frekari bata. Í álitsgerð sinni, dagsettri 22. apríl 1998, kemst örorkunefnd að þeirri niðurstöðu að eftir 1. janúar 1998 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata sem máli skipti af afleiðingum vinnuslyssins 2. september 1994. Ítrekaði örorkunefnd þessa niðurstöðu sína í svari sínu til stefnda varðandi þá spurningu hvort um ritvillu gæti verið að ræða þannig að ártalið hefði átt að vera 1997 en ekki 1998. Í bréfi örorkunefndar segir: “Farið er yfir gögn málsins og er niðurstaðan ótvírætt sú að ekki hafi verið um misritun að ræða og er því ekki tilefni til breytingar á álitsgerðinni.” Stefndi byggir á því, eins og fram er komið, að örorkunefnd hafi í álitsgerð sinni nálgast spurninguna um hvenær ekki var að vænta frekari bata fyrir stefnanda út frá þeirri forsendu hvað sé læknisfræðilega réttlætanleg meðferð á hverjum tíma en ekki út frá því hvort sú meðferð hafi haft áhrif á varanlegan miska eða örorku stefnanda vegna slyssins. Í greinargerð með 2. gr. skaðabótalaga segir svo m.a.: “Venjulega er ekki að vænta frekari bata þegar svo er komið að áliti lækna að ólíklegt sé að tjónþoli læknist frekar af afleiðingum líkamstjóns.” Í læknisvottorði Ara H. Ólafssonar læknis dagsettu 29. apríl 1997 segir í samantekt að lækninum sýnist ekki hægt að bjóða stefnanda upp á frekari meðferð. Miðað við það sem komið hefði fram við skoðanir og vital við hann sýnist því miður lítil von um frekari bata. Vottorð þetta var eitt þeirra vottorða er lágu fyrir hjá örorkunefnd er hún vann að áliti sínu. Eins og fram er komið taldi örorkunefnd að eftir 1. janúar 1998 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata sem máli skipti af afleiðingum slyssins. Ekki er þessi niðurstaða sérstaklega rökstudd í álitsgerð nefndarinnar. Brynjólfur Mogensen læknir, einn nefndarmanna í Örorkunefnd, kom fyrir dóminn. Bar hann að stefnandi hefði frá slysi verið í umfangsmikilli meðferð og komið reglubundið til lækna. Hann hafi, fyrri hluta árs 1996, farið í aðgerð á öxl og síðan aftur í aðgerð síðari hluta árs 1996 á sömu öxl. Taldi hann að stefnandi hefði verið langt fram á árið 1997 að jafna sig eftir þessa síðari aðgerð. Á árinu 1997 hafi hann fengið ný einkenni, en eins og fram komi í álitsgerðinni hafi stefnandi haft dofa- eða kuldatilfinningu í vinstri hendi frá hausti 1997. Með hliðsjón af þeim atriðum sem rakin séu í niðurstöðukafla álitsgerðar og með hliðsjón af allri sjúkrasögu stefnanda, hafi nefndin komist að umræddri niðurstöðu, þ.e. að eftir 1. janúar 1998 sé ólíklegt að stefnandi læknist frekar af afleiðingum þess líkamstjóns er hann hlaut í slysinu. Engin ný læknisfræðileg gögn hafa verið lögð fram í málinu eftir að álitsgerð örorkunefndar lá fyrir. Þykir ekki sýnt fram á í málinu að meðferð sú sem stefnandi hlaut eftir 1. janúar 1997 hafi verið gagnslaus og því ekki haft nein áhrif til lækkunar á varanlega örorku eða varanlegan miska stefnanda. Hefur áliti örorkunefndar því ekki verið hnekkt og verður á því byggt varðandi það hvenær stefnandi gat ekki vænst frekari bata, þ.e. 1. janúar 1998. Ber samkvæmt framansögðu að taka kröfur stefnanda til greina, en ágreiningur er ekki um fjárhæðir eins og áður segir. Dráttarvaxtakrafa er tekin til greina eins og hún er fram sett. Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 300.000 krónur og er þá tekið tillit til virðisaukaskatts. Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Stefndi, Útgerðarfélag Akureyringa hf., greiði stefnanda, Óla G. Jóhannssyni, 2.940.000,00 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. maí 1998 til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 149/2013 | Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. apríl 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 537/2016 | Lífeyrisréttindi Sparisjóður | S hefur frá 1999 haft umsjón með lífeyrissparnaði sparisjóðanna samkvæmt II. kafla laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og hefur samstarfsverkefnið verið rekið undir heitinu Lífsval. Eftir sameiningu Í hf. og sparisjóðsins B hf. ákvað Í hf. að flytja réttindi viðskiptamanna B hf. úr Lífsvali yfir í eigin lífeyrissparnað. S krafði Í hf. um greiðslu svokallaðs flutningsgjalds að fjárhæð 1% af lífeyrisréttindum á grundvelli þess samnings sem lá til grundvallar samstarfi sparisjóðanna um Lífsval. Var talið að ákvæði samningsins ætti samkvæmt orðanna hljóðan við þegar lífeyrisréttindi viðskiptamanns sparisjóðs væri flutt til annars fjármálafyrirtækis að hans ósk en ekki þegar fjármálafyrirtæki drægi sig úr samstarfi um lífeyrissparnað. Þá var ekki talið sannað að með aðilum hefði komist á munnlegur samningur um að Í hf. hefði borið að greiða S sérstakt gjald vegna þess að Í hf. hætti samstarfinu við S. Var Í því sýknað af kröfu S. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir HelgiI. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingibjörg Benediktsdóttir setturhæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar26. júlí 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega80.636.889 krónur, en til vara 72.295.714 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtumsamkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. júlí2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrirHæstarétti.Stefndi krefst staðfestingar hinsáfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.Áfrýjandi hefur ekki sannað að meðaðilum hafi komist á munnlegur samningur um að stefnda hafi borið að greiðaáfrýjanda sérstakt gjald vegna þess að stefndi hætti samstarfi við áfrýjanda umlífeyrissparnað. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendnahins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.Áfrýjanda verður gert að greiðastefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Héraðsdómur skal vera óraskaður.Áfrýjandi, Samband íslenskrasparisjóða, greiða stefnda, Íslandsbanka hf., 1.000.000 krónur í málskostnaðfyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2016.Mál þetta erhöfðað með stefnu birtri 31. ágúst 2015 og dómtekið 11. apríl sl. að lokinniaðalmeðferð. Stefnandi er Samband íslenskra sparisjóða, Borgartúni 35,Reykjavík. Stefndi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík. Endanleg krafa stefnanda er aðstefndi verði aðallega dæmdur til að greiða stefnanda 80.636.889 krónur, en tilvara 72.295.714 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr.38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. júlí 2014 til greiðsludags. Hannkrefst einnig málskostnaðar. Stefndi krefst sýknu aukmálskostnaðar.Helstu ágreiningsefni aðila Stefnandi er heildarsambandíslenskra sparisjóða og hefur frá árinu 1999 haft umsjón með lífeyrissparnaðisparisjóðanna, samkvæmt II. kafla laga nr. 129/1997 um skyldutryggingulífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem rekin hefur verið undirheitinu „Lífsval“. Stefndi sameinaðist Byr hf. 29. nóvember 2011, en Byr hf.var áður sparisjóðurinn Byr og sem slíkur þátttakandi í umræddu samstarfisparisjóðanna um lífeyrissparnað. Eftir sameiningu stefnda og Byrs hf. ákvaðstefndi að flytja réttindi viðskiptamanna úr „Lífsvali“ yfir í eiginlífeyrissparnað. Lagalegurágreiningur aðila lýtur að því hvort stefnda hafi borið skylda til að greiðasvonefnt flutningsgjald að fjárhæð 1% af lífeyrisréttindum til stefnanda, ágrundvelli þess samnings sem lá til grundvallar samstarfi sparisjóðanna umLífsval. Ágreiningur aðila um atvik málsins lýtur einkum að viðræðum aðila haustið 2011 og í byrjun árs 2012 og þá aðþví hvort stefnandi hafi þá haft uppi kröfu um að flutningsgjaldið yrði greittef stefndi hætti þátttöku í Lífsval. Ekki er uppi tölulegur ágreiningur ímálinu.Yfirlit málsatvikaHinn20. janúar 1999 staðfesti fjármálaráðherra reglur um lífeyrissparnað fyrir 26sparisjóði, meðal annars fyrir þá sparisjóði sem síðar urðu að sparisjóðnumByr. Um er að ræða sparnaðarform sem í daglegu máli eru nefndur„viðbótarlífeyrissparnaður“ eða „séreignasparnaður“ og lýtur II. kaflafyrrnefndra laga nr. 129/1997. Allir sparisjóðir landsins, að frátöldum SPRON,munu hafa boðið fram umræddan viðbótarlífeyrissparnað undir vörumerkinu Lífsvalsem var í eigu stefnanda. Hver og einn sparisjóður var þó vörsluaðili fyrirrétthafa sína og starfaði samkvæmt sjálfstæðum reglum, sbr. 10. gr. laga nr.129/1997.Íumræddum reglum sparisjóðanna var frá upphafi gert ráð fyrir því aðviðskiptamaður gæti sagt upp samningi um lífeyrissparnað með ákveðnum fyrirvaraog flutt innistæðu til annars aðila, þ.e. annars fjármálafyrirtækis, sem gætiboðið upp á samning af þessi tagi. Jafnframt var þá gert ráð fyrir því aðkostnaður því samfara færi að gildandi gjaldskrá sparisjóðsins við flutninginn.Í leiðbeinandi verðskrá stefnanda, lið 1.2.8., frá 1. janúar 2011, sem í gildivar þegar atvik málsins áttu sér stað, sagði að þóknun vegna flutnings innstæðutil annars fjármálafyrirtækis væri 1% en að lágmarki 5.000 krónur. Svosem áður greinir er Lífsval skráð vörumerki í eigu stefnanda og með kennitölutil aðgreiningar í reikningslegu tilliti. Lífsval er hins vegar ekkisjálfstæður lögaðili og heyrir því til rekstrar stefnanda. Fyrir liggur aðstofnað var til Lífsvals með það fyrir augum að einstakir sparisjóðir gætuboðið viðskiptamönnum upp á viðbótarlífeyrissparnað í eigin nafni en undirsameiginlegu vörumerki sparisjóðanna. Ekki er um það deilt að það fé semviðskiptamenn einstakra sparisjóða greiddu rann til hlutaðeigandi sparisjóðs,þó þannig að þegar viðskiptamenn fjárfestu í verðbréfum (svonefndri„verðbréfaleið“) var um að ræða sameiginlega sjóði sparisjóðanna og átti þáhver sparisjóður hlutdeild að tiltölu við áunnin réttindi viðskiptamanna sinna.Stefnandihafði frá upphafi umsjón með rekstri Lífsvals, þó þannig að ýmsum verkefnum varútvistað, þ. á m. til tiltekinna sparisjóða. Þannig liggur fyrir að T Plús hf.sinnti bakvinnslu, þ.m.t. færslu fjárhagsbókhalds, réttindabókhalds,skýrslugerð, gerð yfirlita o.fl., samkvæmt sérstökum samningi 15. apríl 2011.Sinnti stefnandi þannig samskiptum við einstaka viðskiptamenn eftir aðsamningur hafði komist á að tilhlutan tiltekins sparisjóðs. Stefnandi sá ummarkaðssetningu, kom fram gagnvart opinberum aðilum, gaf út leiðbeinandiverðskrá o.fl. Samkvæmt því sem fram kom í skýrslum við aðalmeðferð málsins varþessi rekstur ekki fjármagnaður með reglulegum árgjöldum stefnanda heldur meðsérstöku gjaldi sem tók mið af hlutdeild hvers og eins sparisjóðs í Lífsval. Afhálfu stefnanda er lögð á það áhersla að framgreint flutningsgjald hafi meðalannars átt að fjármagna rekstur stefnanda vegna Lífsvals og mæta breytingum átekjustofni stefnanda ef réttindi væru flutt úr Lífsvali.Samkvæmtþeim samningi stefnanda og T Plús hf., sem áður greinir, á innheimtaflutningsgjalds að vera framkvæmd með þeim hætti að þegar rétthafi óskar eftirflutningi úr Lífsvali skal beiðni þar um send T Plús hf., sem þjónustuaðilaLífsvals, sem sér um framkvæmd flutningsins. Segir í stefnu að flutningur hafiverið framkvæmdur með þeim hætti að T Plús hf. annist útreikning á þóknunum oggjöldum samkvæmt verðskrá Lífsvals af eignum rétthafa og leggi inn á sérstakanreikning í eigu stefnanda, merktan Lífsvali. Þá annist T Plús hf. innheimtu afkostnaði vegna flutnings til þriðja aðila og leggi inn á kostnaðarreikning íeigu stefnanda. Séu eignir rétthafa þannig millifærðar úr Lífsvali að frádregnuflutningsgjaldi sem sé millifært inn á reikning í eigu stefnanda. Aðflutningnum loknum er skilagrein útbúin þar sem flutningsgjaldið er tilgreint. Eftirsamruna stefnda og Byrs hf. þann 29. nóvember 2011 hófust viðræður umafstemmingu eigna og skulda þeirra rétthafa sem voru með samning umlífeyrissparnað við Byr. Hinn 23. febrúar 2012 undirrituðu stefndi ogstefnandi, ásamt Landsbankanum hf., staðfestingu á skiptingu á réttindum ogeignasafni Lífsvals. Í skjalinu er uppskipting á réttindum og eignasafniLífsvals milli stefnanda, stefnda og Landsbankans vegna hlutabréfa- ogskuldabréfaáherslu Lífsvals staðfest í ákveðnum hlutföllum. Þá segir í 2. gr.samkomulagsins að greint skuli á milli rétthafa Lífsvals sparisjóðanna annarsvegar og svo rétthafa stefnda (áður Byr) hins vegar í lífeyriskerfinu Jóakim.Rétthafar Landsbankans (áður SpKEF) færist til Landsbankans eftir undirskriftstaðfestingarinnar. Einnig kom fram að eignasafni hverrar leiðar skyldi skipt ámilli sömu þriggja aðila. Þá sagði að innlánsreikningum skyldi lokað svoáfallnir vextir og verðbætur fengjust greiddar út og heildarfjárhæðinni að þvíloknu skipt eftir skiptihlutföllum og hver hluti lagður inn á innlánsreikningsem hver vörsluaðili tilgreindi. Að síðustu var í greininni einnig fjallað umskiptingu skulda milli umræddra þriggja aðila þar sem neikvæður munur væri ámilli skulda (útgefinna réttinda) og eigna leiðanna. Ekki er um það deilt aðeftir undirritun samkomulagsins var sá hluti eignasafnsins sem tilheyrðistefnda fluttur úr kerfi Lífsvals yfir á vörslureikninga hjá stefnda, en líktog síðar greinir telur stefnandi að þetta hafi alfarið verið einhliða ákvörðunstefnda sem ekki hafi haft neina stoð í umræddu samkomulagi.Hinn1. mars 2012 sendi stefndi þeim viðskiptavinum sínum, sem voru rétthafarsamkvæmt samningi um lífeyrissparnað Lífsvals, bréf þar sem hann tilkynnti aðhann hygðist flytja eignir viðskiptavina úr Lífsvali yfir í eiginlífeyrissparnað í þeim tilgangi að samræma vöruframboð og bæta þjónustu íviðbótarlífeyrissparnaði. Myndu iðgjöld eftir 23. mars 2012 því renna tillífeyrissparnaðar stefnda þannig að samræmdist best eldri fjárfestingarleiðLífsvals nema viðskiptamaður óskaði eftir annarri ráðstöfun. Hinn 3. apríl 2012færði stefndi svo eignir þeirra viðskiptamanna, sem gert höfðu samning umlífeyrissparnað við Byr og voru í svokallaðri „Verðtryggðri innlánsleið“, úrLífsvali og yfir í eigin viðbótarlífeyrissparnað. Í skýrslum við aðalmeðferðmálsins kom fram að T Plús hf. hefði séð um flutning réttindanna úr kerfumLífsvals. Þá kom jafnframt fram að stefndi hefði greitt fyrirtækinu beint fyrirþetta verk.Samkvæmtþví sem fram kemur í stefnu átti fyrirsvarsmaður stefnanda fund meðstarfsmönnum stefnda í júní 2013 þar sem málið var kynnt og óskað upplýsinga umþað af hverju stefndi hafði ekki staðið skil á flutningsgjaldi til stefnanda.Hinn 6. desember 2013 átti stefnandi enn fundi með fulltrúum stefnda og gerðigrein fyrir þeim sjónarmiðum að stefnda bæri skylda til að innheimta greiðslu áflutningsgjaldi vegna flutnings viðskiptavina og standa skil á því tilstefnanda. Í kjölfar fundarins sendi yfirlögfræðingur stefnda tölvupóst tilstefnanda 13. desember 2013, þar sem stefndi upplýsti að hann teldi ekkiforsendur fyrir greiðsluskyldu stefnda. Hinn 16. desember 2013 sendistjórnarformaður stefnanda tölvupóst til stefnda þar sem stefnandi færðifrekari rök fyrir greiðsluskyldu stefnda og með tölvupósti 28. janúar 2014ítrekaði stefndi að hann hafnaði greiðsluskyldu. Ekki er ástæða til að gerafrekari grein fyrir tilraunum aðila til að leysa ágreining sinn utan réttar. Við aðalmeðferð málsins komufyrir dóm sem vitni, Haraldur Úlfarsson, starfsmaður stefnanda, GísliJafetsson, framkvæmdastjóri og fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Ragnar Birgisson,framkvæmdastjóri og fyrrverandi stjórnarmaður stefnanda, Jón Finnbogason,forstöðumaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri Byrs hf., Kjartan SmáriHöskuldsson, starfsmaður stefnda, Jón Tryggvi Jökulsson, starfsmaður Arionbanka hf. áður sparisjóðs Siglufjarðar, Ingi Steinar Ellertsson, forstöðumaðurT Plús hf. og Svanfríður Pétursdóttir, starfsmaður við bakvinnslu hjá Premíuhf. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi byggir málatilbúnaðsinn á því að komist hafi á samningur milli sparisjóða, sem eru og voru aðilarað samstarfssamningi um Lífsval, og stefnda, sem varð aðili að samningnum eftirsamruna við Byr hf., áður sparisjóðurinn Byr. Beri stefnda skylda til greiðsluflutningsgjalds til stefnanda vegna tveggja nánar tilgreindra flutningaafmarkaðs hóps viðskiptavina í febrúar og apríl 2012 á grundvelli þessasamnings. Grundvallar stefnandi kröfu sína þannig á þeirri meginreglu íslensksréttar að munnlegur samningur sé jafngildur skriflegum og að samningar skulistanda. Skipti því ekki máli þótt samstarfssamningur sparisjóðanna um Lífsvalhafi ekki verið skriflegur. Fyrir liggi að sparisjóðirnir höfðu með sérsamstarf um lífeyrissparnað frá 1999 og á árunum 2004 til 2005 hafi samstarfiðorðið formfastara undir vörumerkinu Lífsval sem sé í eigu stefnanda. Einnigliggi fyrir að fulltrúar forvera stefnda hafi verið viðstaddir umfjöllun umLífsval á stjórnarfundum stefnanda.Stefnandivísar til þess að hann hafi haft umsjón með ýmsum verkefnum vegna Lífsvals,komið fram fyrir hönd aðila að Lífsvali gagnvart opinberum aðilum, svo semRíkisskattstjóra og Fjármálaeftirlitinu, og gert samninga við þriðju aðila umýmis verkefni vegna Lífsvals, sbr. t.d. þjónustusamning stefnanda og T-plús,þar sem stefnandi útvistaði tilteknum verkefnum, fyrir hönd þeirra sparisjóðasem eru aðilar að Lífsvali, til T-plús. Telur stefndi því óumdeilt að í gildisé samningur milli sparisjóðanna um samstarf um Lífsval þar sem stefnanda erufalin tiltekin verkefni. Er þessu til stuðnings vísað til áralangrar athugasemdalausrarframkvæmdar og 6. gr. í samþykktum stefnanda þar sem beinlínis segi aðstefnandi eigi að vera vettvangur fyrir samstarfsverkefni sparisjóðanna.Hvaðvarðar einstök efnisatriði samningsins um aðild að Lífsvali þá telur stefnandiað í verki hafi, á þeim tíma þegar umræddir flutningar áttu sér stað, veriðtekin af öll tvímæli um að kominn væri á samningur milli aðila. Hann hafi veriðmeð þeim skilmálum að greiða ætti 1% flutningsgjald vegna flutnings eignaviðskiptavina úr Lífsvali og aðilum að samningnum um Lífsval bæri skylda til aðstanda skil á flutningsgjaldinu til stefnanda. Í fyrsta lagi byggir stefnandi áþví að í verðskrá sparisjóðanna, sem stefnandi hafði umsjón með, sé mælt fyrirum að viðskiptamenn sem óski eftir flutningi úr Lífsvali skuli greiða 1% þóknunvegna flutningsins en að lágmarki 5.000 krónur af innstæðu sem flutt er tilannars fjármálafyrirtækis. Fái þetta enn frekari stoð í þeim skilmálum semgildi í samningum viðskiptavina við sparisjóði vegna Lífsvals en þar komi framað viðskiptavinir skuli greiða flutningsgjald við flutning úr Lífsvali.Íöðru lagi byggir stefnandi á tilgangi flutningsgjaldsins, en því sé m.a. ætlaðað bæta tekjutap samstarfsverkefnisins vegna flutnings viðskiptavina úrLífsvali, hvort heldur sem er til annarra vörsluaðila eða ekki, og mæta þeimkostnaði sem stefnandi hafði þegar stofnað til vegna Lífsvals. Ef tekjur hafiverið umfram kostnað hafi þær verið notaðar í markaðssetningu oguppbyggingarstarf Lífsvals. Ef kostnaður hafi verið umfram tekjur hafi aðilarað verkefninu borið þann kostnað. Þessu til stuðnings vísar stefnandi til 2.mgr. 6. gr. í samþykktum stefnanda þar sem segir að samstarfsverkefni skulikostuð að fullu af þeim sparisjóðum sem taka þátt í þeim.Íþriðja lagi byggir stefnandi á því að við túlkun samningsins um aðild aðLífsvali, og þegar horft sé til skuldbindinga stefnda eftir samruna við Byrhf., verði að taka mið af áralangri athugasemdalausri framkvæmd við innheimtuog greiðslu flutningsgjaldsins inn á reikning stefnanda. Þar með talinn sé sátími eftir að stefndi sameinaðist Byr hf. og í aðdraganda þess að stefndiflutti eignir rétthafa einhliða úr Lífsvali. Eftir brotthvarf stefnda úrLífsvali hafi framkvæmdin haldist óbreytt. Þannig telur stefnandi að leggjaverði til grundvallar að í verki hafi verið tekin af öll tvímæli um að kominnværi á samningur milli aðila með þeim skilmálum að innheimta ætti 1%flutningsgjald og ráðstafa til stefnanda. Þessu til stuðnings liggi einnigfyrir að framkvæmd við innheimtu, ráðstöfun og greiðslu 1% flutningsgjaldsvegna viðskiptavina stefnda, eftir samruna við Byr, hafi verið hagað í samræmivið efni þess samnings sem stefnandi hafi lýst. Vísar stefnandi í þessusambandi til gagna sem sýni flutninga lífeyrisréttinda á tímabilinu eftir aðstefndi yfirtók réttindi og skyldur Byrs hf., þ.e. frá því samruninn varsamþykktur 29. nóvember 2011 og fram að þeim tíma er stefndi loks framkvæmdieinhliða flutning á eignum hóps rétthafa úr Lífsvali, 22. febrúar og 3. apríl2012, þegar greitt hafi verið flutningsgjald. Þá liggi fyrir að framkvæmdinhafi haldist óbreytt hjá öðrum aðilum að Lífsvali.Einnigliggi fyrir að stefndi gerði hvorki athugasemdir við verðskrá Lífsvals néframkvæmd á innheimtu flutningsgjaldsins eftir að hann tók yfir réttindi ogskyldur Byrs hf. Hafi hann þar með orðið aðili að samningnum um Lífsval viðsamruna við Byr hf. hinn 29. nóvember 2011. Þvert á móti sýni ofangreindyfirlit að stefndi staðfesti umrædda framkvæmd og flutningsgjald var innheimtaf viðskiptavinum stefnda, eftir samruna við Byr, sem fluttu sig frá Lífsvali. Íþessu samhengi er einnig vísað til þess að stefnandi hafi gert samkomulag viðLandsbankann hf. vegna sambærilegra flutninga og í máli þessu, þ.e. í kjölfarsamruna Landsbankans og starfandi sparisjóða. Stefnandimótmælir því að það hafi þýðingu í málinu að beiðni um flutning kemur frávörsluaðila en ekki viðskiptamanni. Vísar hann til þess að flutningsgjaldinu erætlað að bæta tekjutap vegna flutnings rétthafa úr Lífsvali og mæta þeimkostnaði sem stefnandi hefur þegar stofnað til vegna Lífsvals. Leiðir af þeirriástæðu að enginn greinarmunur sé gerður á því hvort beiðni um flutning komi frárétthafa sjálfum eða frá aðila að Lífsvali. Uppsögn eða flutningur vörsluaðilaleiði eðli málsins samkvæmt til meira tjóns fyrir Lífsval og stefnanda, semumsjónaraðila Lífsvals, heldur en flutningur einstaks rétthafa hverju sinni. Afþví leiðir að enn mikilvægara er fyrir stefnanda að fá greitt flutningsgjaldtil að mæta þeim kostnaði sem þegar hefur verið stofnað til og því tekjutapisem leiðir óhjákvæmilega af slíkum flutningi. Samningurinn um aðild að Lífsvalihafi því engan greinarmun gert á því hvaða aðili óskaði eftir flutningnum.Stefnandimótmælir því einnig að samkomulagið 23. febrúar 2012 hafi falið í sér endanlegtuppgjör milli aðila um flutning rétthafa frá Lífsvali til stefnda. Samkomulagiðfeli aðeins í sér staðfestingu tiltekinna aðila um uppskiptingu á tilteknumréttindum og ákveðnum undirliggjandi eignum í Lífsvali. Þá er vísað til þess aðflutningur umræddra réttinda hafi verið framkvæmdur einhliða af stefnda, ánþess að gert væri nokkuð samkomulag við stefnanda, og hafi því ekki falist íaðgerðinni nein viðurkenning af hálfu stefnanda. Kemur í þessu sambandi fram aðflutningurinn sem framkvæmdur var 3. apríl 2012 hafi í raun verið einhliðainnri færsla á milli reikninga stefnda, en ekki flutningur á milli tveggjaólíkra vörsluaðila. Helstu málsástæður og lagarök stefndaStefndimótmælir því að fyrir hafi legið samningur um að greiða skyldi áðurlýstflutningsgjald við þær aðstæður sem uppi eru í málinu. Hann bendir á aðrétthafar hafi gert samninga við sparisjóðinn Byr um tryggingavernd, sbr.heimild í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997. Við samruna Byrs og stefnda hafistefndi orðið vörsluaðili réttinda rétthafa. Við samrunann hafi legið ljóstfyrir að stefndi hugðist sameina lífeyrisréttindi undir einn hatt og þar meðmyndi stefndi hætta í samstarfi sparisjóðanna um Lífsval. Með því hafi ekki áttsér stað færsla réttinda milli vörsluaðila, stefndi hafi einungis hætt aðnotast við vörumerkið Lífsval og hætt í öðru samstarfi þar um. Að öðru leytihafi það verið réttaráhrif samrunans sem leiddu til breytinganna.Stefnditelur raunar ekki fullljóst hvort stefnandi byggi á því að stefnda hafi veriðskylt að innheimta flutningsgjöld af viðskiptamönnum sínum vegna flutningannaog greiða stefnanda eða hvort byggt sé á því að stefnda hafi borið að greiðaflutningsgjaldið úr eigin vasa. Hvorugt getur þó átt við. Að því er varðargrein 1.2.8 í leiðbeinandi verðskrár sparisjóðanna sé henni beint tilviðskiptavina sparisjóðanna sem verð fyrir veitta þjónustu. Sá flutningur semstefnandi byggir kröfur sínar á hafi ekki verið flutningur að beiðniviðskiptavina heldur hafi hann staðið í tengslum við samruna stefnda og Byrs.Þannig eigi yfirfærsla réttindanna yfir í lífeyrisþjónustu stefnda ekkert skyltvið framkvæmdina sem sé viðhöfð þegar rétthafi óskar þess að flytja eignirsínar í annan lífeyrissjóð sem viðkomandi hafi gert samning við. Þá er ekkiunnt að fallast á að flutningurinn hafi verið til annars fjármálafyrirtækisenda hafi stefndi yfirtekið allar eignir og skuldir Byrs þegar við samrunafélaganna. Íþessu samhengi bendir stefndi á að samkvæmt 9. gr. laga nr. 129/1997 skuliallir skilmálar varðandi viðbótartryggingavernd koma fram í samningi um slíkavernd. Hafi átt að leggja á viðskiptamenn sérstakt gjald vegna innbyrðisflutnings hefði þurft að taka það skýrt fram. Lögð sé áhersla á að stefnandihafi séð um samningu þeirra reglna sem giltu í samstarfi sparisjóðanna sem vorusamræmdar hjá samstarfsaðilum. Stefndi telur því alveg ljóst að ekki hafi veriðunnt að innheimta flutningsgjald á grundvelli þessara samningsákvæða vegnaflutnings eigna í lífeyrisþjónustu stefnda. Aðþví er varðar áralanga athugasemdalausa framkvæmd við innheimtu og greiðsluflutningsgjaldsins inn á reikning stefnanda vísar stefndi til þess að þessiframkvæmd lúti að því þegar viðskiptavinir óska flutnings úr Lífsvali. Þettaeigi einnig við um þær færslur viðskiptavina Byrs sem voru framkvæmdar eftir sameininguvið stefnda. Í þessum tilvikum hafi ósk um flutning komið fram áður en varð afsameiningu og hafi þær því enga þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Loks geturstefndi ekki séð að meint greiðsla Landsbankans á þóknun vegna flutnings hafiþýðingu í þessu máli.Aðþví er varðar tilgang flutningsgjaldsins og tekjutap stefnanda telur stefndiengar haldbærar röksemdir komnar fram um að samið hafi verið svo um aðþátttakendur í Lífsvali ættu að bæta tekjutap stefnanda eða að flutningsgjaldiðhafi átt að gegna hlutverki í því sambandi. Í því samhengi bendir stefndi á aðflutningsgjaldinu hafi m.a. verið ætlað að standa undir kostnaði vegnamarkaðssetningar og uppbyggingarstarfs Lífsvals. Þannig hafi stefnanda veriðætlað að sinna ýmsum verkefnum fyrir samstarfsaðila vegna Lífsvals, m.a. í þvískyni að laða að fleiri viðskiptavini. Þar sem stefndi sé ekki aðilisamstarfsins séu engin rök fyrir því að hann þurfi að bæta einhvers konartekjutap stefnanda til framtíðar. Þá hafi enginn kostnaður myndast vegna tilfærslunnarog engar upplýsingar liggi fyrir um að stefndi sé í annars konar skuld viðstefnanda.Stefndibendir á að ekki hafi verið samið um greiðslu flutningsgjald vegna ákvörðunarstefnda um að hætta þátttöku í samstarfi sparisjóðanna og hætta að notast viðvörumerkið Lífsval. Hvergi sé því að finna stoð fyrir slíkri skuldbindingu. Aðsama skapi hafi hvergi verið getið sérstaks flutningsgjalds í samkomulagi aðilaum skiptingu á réttindum og eignasafni Lífsvals. Frá samruna stefnda og Byrshafi legið ljóst fyrir að umrædd lífeyrisréttindi flyttust yfir ífjárfestingarleiðir lífeyrisþjónustu hjá stefnda. Viðræður hafi staðið á milliaðila frá 29. nóvember 2011 og hafi afstemmingu lokið í febrúar 2012 ogsamkomulag undirritað hinn 23. febrúar 2012 um uppgjör vegna réttindarétthafanna. Stefndi byggir á því að með samkomulaginu hafi aðilar samiðendanlega um það hvernig uppgjör færi fram vegna færslu réttinda rétthafastefnda úr Lífsvali. Stefndi telur að stefnandi þurfi að bera hallann af því aðhafa ekki tiltekið í samkomulaginu að sérstök greiðsla skyldi innt af hendivegna flutnings réttindanna hafi stefnandi talið sig eiga tilkall til hennar.Tómlætis- og aðgerðarleysisverkanir leiði til sömu niðurstöðu, en gera eigiríka kröfu til þess að aðili eins og stefnandi geri tafarlaust grein fyrirkröfum sínum eða fyrirvörum.Afframansögðu telur stefndi ljóst að enginn lagagrundvöllur sé til greiðsluflutningsgjaldsins, hvorki þannig að stefnda hafi borið skylda til að innheimaþað hjá viðskiptavinum vegna samningsskuldbindingar við stefnanda né þannig aðstefnda hafi borið að greiða það á öðrum forsendum.NiðurstaðaÍmáli þessu er óumdeilt að með samruna Byrs hf. og stefnda 29. nóvember 2011 tóksá síðarnefndi yfir réttindi og skyldur félagsins gagnvart stefnanda, þ. á m.vegna þátttöku hans í fyrrgreindu samstarfi sparisjóðanna um lífeyrissparnaðsem rekið var á vegum stefnanda undir heitinu „Lífsval“. Í málinu liggja fyrirreglur um lífeyrissparnað sparisjóðanna, þ. á m. sparisjóðsins Byrs, frá 1999og 2011. Gera þessar reglur ráð fyrir því að viðskiptamaður geti sagt uppsamningi um lífeyrissparnað við sparisjóð með skriflegum hætti. Þar kemureinnig fram að uppsögn skuli ekki veita rétt til útborgunar innistæðu og eigiað flytja hana til annars aðila, sem geti boðið upp á samning af þessu tagi,sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997, eftir ósk viðskiptamanns, en kostnaðurþví samfara skuli fara að gildandi gjaldskrá spariðsjóðsins við flutning. Svosem áður greinir er meðal gagna málsins leiðbeinandi gjaldskrá sparisjóða frá1. janúar 2011. Segir þar í lið 1.2.8 að greiða skuli 1% en þó að lágmarki5.000 krónur fyrir „lífeyrissparnað, flutning innistæðu til annarsfjármálafyrirtækis“. Fyrrgreindákvæði eiga samkvæmt orðum sínum við þá aðstöðu þegar réttindi viðskiptamanns íviðbótarlífeyrissparnaði sparisjóðs eru flutt til annars aðila, þ.e. annarsfjármálafyrirtækis, að hans eigin ósk. Liggur þá jafnframt fyrir að það erviðskiptamaðurinn sem greiðir gjaldið og er hann þannig látinn bera ákveðinnkostnað vegna ákvörðunar um flutning réttinda sinna. Að mati dómsins verðurþessari aðstöðu ekki jafnað til þess þegar sparisjóður, eða fjármálafyrirtækisem tekið hefur yfir réttindi og skyldur sparisjóðs gagnvart rétthafaviðbótarlífeyris, ákveður að draga sig út úr áðurlýstu samstarfi umlífeyrissparnað sem rekið er á vegum stefnanda og hætta að nota vörumerkið„Lífsval“. Nánar tiltekið verður ekki séð að við slíkar aðstæður sé um flutninglífeyrisréttinda að ræða sem skapað geti viðskiptamönnum, eða þeirri fjármálastofnunsem þeir skipta við, greiðsluskyldu með vísan til fyrrgreindrar gjaldskrár. Erekki nægilega komið fram að myndast hafi venja um aðra og rýmri skýringufyrrgreinds ákvæðis í leiðbeinandi gjaldskrá sparisjóðanna sem hafi bundið Byrhf. þegar félagið sameinaðist stefnda haustið 2011 þannig að skulbindandi séfyrir stefnda.Einsog atvikum málsins er háttað verður að líta svo á að stefndi hafi rift eða sagtupp samstarfssamningi sínum við stefnanda og hafi vilji hans í því efni legiðfyrir eigi síðar en við aðdragandann að því uppgjöri aðila 23. febrúar 2012 semáður er rakið. Málatilbúnaður stefnanda byggist ekki á því að þessi riftun, eðauppsögn, hafi verið ólögmæt með hliðsjón af fyrirliggjandi samstarfssamningi um„Lífsval“ eða bakað stefnda bótaskyldu á þeim grundvelli. Þess í stað ereingöngu vísað til fyrrgreindra ákvæða um flutning viðbótarlífeyrisréttindamilli fjármálastofnana. Líkt og áður greinir verður ekki á það fallist aðþessar reglur hafi tekið til þess þegar sparisjóður, eða annað fjármálafyrirtækisem tekið hafði yfir réttindi og skyldur sparisjóðs, ákvað að hætta í umræddusamstarfi um viðbótarlífeyrissparnað á vegum stefnanda. Að öllu virtu hefurstefnandi því ekki sýnt fram á að fyrir hafi legið samningur sem skuldbattstefnda til umstefndrar greiðslu við þær aðstæður sem uppi eru í málinu. Einsog krafa stefnanda er sett fram er því óhjákvæmilegt að sýkna stefnda af kröfumstefnanda.Eftirúrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað semþykir hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur.Afhálfu stefnanda flutti málið Jóhann Tómas Sigurðsson hdl.Afhálfu stefnda flutti málið Jóhannes Karl Sveinsson hrl.SkúliMagnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.D Ó M S O R ÐStefndi,Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Sambands íslenskra sparisjóða. Stefnandi greiði stefnda1.200.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 22/2003 | Kærumál Vitni Úrskurður Ómerking ákvörðunar héraðsdóms | Héraðsdómari ákvað að hafna kröfu X um að fá að leiða þrjú nafngreind vitni í máli, sem ákæruvaldið hafði höfðað gegn honum fyrir brot gegn 120. gr. a. almennra hegningarlaga. Hæstiréttur felldi þessa ákvörðun úr gildi með vísan til þess að dómaranum hefði borið að kveða upp úrskurð í stað þess að taka ákvörðun, sbr. 61. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. janúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2003, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að fá að leiða þrjú nafngreind vitni í máli ákæruvaldsins gegn honum. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að honum verði heimilað að leiða þessi vitni í málinu. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun héraðsdómara verði staðfest. Ríkissaksóknari gaf út ákæru í málinu á hendur varnaraðila 2. desember 2002 fyrir ætluð brot gegn 120. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Þegar málið var tekið fyrir í héraðsdómi 13. janúar 2003 krafðist varnaraðili þess að fá að leiða nánar tiltekin vitni fyrir dóm til að bera um atvik, sem hann taldi tengjast málinu. Því mótmælti sóknaraðili. Féllst héraðsdómari á þau mótmæli með hinni kærðu ákvörðun. Samkvæmt 61. gr. laga nr. 19/1991 ber héraðsdómara að úrskurða ágreining um atriði, sem varða vitni. Af þeim sökum var honum ekki fært að taka afstöðu til deilu aðilanna með ákvörðun, heldur bar honum að kveða upp úrskurð samkvæmt 2. mgr. 134. gr. laga nr. 19/1991 um ágreiningsefnið. Verður því ekki komist hjá að fella ákvörðun héraðsdómara úr gildi og leggja fyrir hann að kveða upp úrskurð um ágreining málsaðilanna. Dómsorð: Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi. |
Mál nr. 25/2000 | Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 | X var undir rökstuddum grun um umfangsmikil tollalagabrot. Var X gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. janúar 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. janúar nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 20. janúar 2000. Hann krefst þess að gæsluvarðhald yfir varnaraðila standi allt til 28. janúar nk. kl. 16. Varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa með skipulögðum hætti framið umfangsmikil tollalagabrot við innflutning bifreiða um nokkurt skeið. Af gögnum málsins má ráða að nokkrir aðrir kunni að hafa komið að þessum innflutningi, en eftir er að rannsaka frekar þeirra þátt í því, auk þess að kanna verulegan fjölda skjala, sem hald hefur verið lagt á. Má fallast á að hætta sé á að varnaraðili geti torveldað rannsókn ef hann fer frjáls ferða sinna. Er þannig fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Verður því markaður tími til föstudagsins 28. janúar nk. kl. 16. Dómsorð: Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. janúar 2000 kl. 16. Ríkislögreglustjórinn hefur krafist þess að X, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 28. janúar nk. kl. 16.00, vegna gruns um brot gegn 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 126. gr. tollalaga nr. 55,1987. Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði synjað, en til vara, verði orðið við henni, að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Ljóst er af gögnum málsins að þegar hefur farið fram umfangsmikil rannsókn á innflutningi þeirra bifreiða sem áður greinir. Rannsóknin er þó eigi að síður enn á frumstigi. Að kærða frátöldum hafa engar skýrslutökur átt sér stað af mönnum hér á landi sem sýnast tengjast málinu, en nauðsyn ber til að þeir verði yfirheyrðir. Þá er og ljóst að frekari gagnaöflun þarf að fara fram auk úrvinnslu þeirra gagna sem haldlögð voru. Þegar allt framanritað er virt þykja vera komnar fram nægar ástæður til að verða við kröfu ríkislögreglustjórans um gæsluvarðhald yfir kærða. Verður kærða samkvæmt því og með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991, gert að sæta gæsluvarðhaldi, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. janúar nk. kl. 16.00. Júlíus B. Georgsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: |
Mál nr. 131/2017 | Kærumál Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Fallist var á kröfu Á um að X yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Davíð ÞórBjörgvinsson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu tilHæstaréttar með kæru 23. febrúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnumsama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2017, þar semhafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að sæta áframgæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur varir og eftir atvikum meðan málvarnaraðila sætir meðferð fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til föstudagsins16. júní 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr.88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að aðallega framangreindkrafa sín verði tekin til greina, en til vara að hinn kærði úrskurður verðistaðfestur. Varnaraðili krefst þess aðallegaað kröfu sóknaraðila verði „vísað frá dómi“, en til vara að hinn kærði úrskurðurverði staðfestur.Við uppkvaðningu hins kærðaúrskurðar í þinghaldi 23. febrúar 2017 lýsti sóknaraðili yfir að hann kærðiúrskurðinn til Hæstaréttar, þar sem gerð yrði sú krafa að varnaraðila verðigert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur ogeftir atvikum á meðan mál varnaraðila er til meðferðar fyrir Hæstarétti. Íyfirlýsingu sóknaraðila kemur fram í hvaða skyni kært er, sbr. 2. mgr. 193. gr.laga nr. 88/2008. Verður kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá Hæstaréttiþví hafnað.Með úrskurði héraðsdóms 18.febrúar 2017 var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi til 17. mars sama ár ágrundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 vegna rökstudds gruns umað hann hafi gerst sekur um fjölda brota á tímabilinu frá 5. október 2016 til 18.febrúar 2017, sem fangelsisrefsing liggur við. Þá kom fram í forsendumúrskurðarins að beðið væri dóms í máli, þar sem ákæruvaldið hafi farið fram áað varnaraðili sætti fangelsi í þrjú ár. Með héraðsdómi [...].febrúar 2017 í því máli var varnaraðili sakfelldur fyrir að hafa í tvígang samadag gerst sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás og dæmdur í 18 mánaðafangelsi. Við uppkvaðningu dómsins lýsti varnaraðili því yfir að hann tæki sérlögboðinn frest til að taka afstöðu til áfrýjunar.Samkvæmt fyrri málslið 3. mgr.97. gr. laga nr. 88/2008 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinnupp í málinu, en sem fyrr segir var mál það, sem varnaraðili hlaut dóm í [...].febrúar 2017, meðal þess sem lá til grundvallar gæsluvarðhalds yfir honumsamkvæmt úrskurðinum 18. sama mánaðar eftir c. lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga.Samkvæmt síðari málslið 3. mgr. 97. gr. laganna getur dómari, eftir kröfuákæranda, úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti eftir 199.gr. laganna stendur, svo og meðan mál er til meðferðar fyrir Hæstarétti. Eftirorðanna hljóðan er ekkert því til fyrirstöðu að ákærandi geti krafist þess íeinu lagi að sakborningur verði úrskurðaður í gæsluvarðhald meðan ááfrýjunarfresti stendur og meðan mál hans er til meðferðar í Hæstarétti, komitil þess að að héraðsdómi verði áfrýjað í tæka tíð. Að öðrum kosti félligæsluvarðhaldið sjálfkrafa niður við lok hins lögboðna áfrýjunarfrests, sbr.fyrri málslið 3. mgr. 97. gr. og 5. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu virtu er fallist á meðsóknaraðila að uppfyllt séu skilyrði til að varnaraðili sæti áframgæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 á þannveg sem í dómsorði greinir. Dómsorð:Varnaraðili, X,sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 16. júní 2017 klukkan 16.Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2017. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefurkrafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að dómfellda, X, kt. [...],verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, uns áfrýjunarfrestur varir ogeftir atvikum meðan mál X sætir meðferð fyrir Hæstarétti Íslands, þó eigilengur en til föstudagsins 16. júní 2017 kl. 16:00.Í greinargerð lögreglu kemur fram að í hafihafi kærði hlotið dóm fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem kærði hafi hlotið fangelsisrefsingufyrir brot á almennum hegningarlögum og vopnalögum., sbr. dóm HéraðsdómsReykjavíkur nr. [...]/2015. Kærði hafi tekið sér frest til áfrýjunar og sédómurinn því ekki fullnustuhæfur. Kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhaldá grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála meðúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 18. febrúar sl. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafigefið út ákæru á hendur kærða þann 25. október sl. vegna fjögurraumferðarlagabrota. Málið sætir meðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Frá 4. október síðastliðnum sé kærðigrunaður um eftirfarandi brot: Mál 007-2017-[...]Brot gegn valdstjórninni, með því að hafalaugardaginn 18. febrúar sl. á lögreglustöðinni við Hverfisgötu 113-115 íReykjavík, hótað að stúta lögreglumanninum A. Ekki hafi verið tekin skýrsla afkærða vegna þessa brots. Mál nr. 007-2017-[...]Brot gegn nálgunarbanni og þjófnað, með þvíað hafa 18. febrúar sl. komið á heimili barnsmóður sinnar [...] að [...] í [...],þrátt fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi þann 1. nóvember 2016 staðfest ákvörðunlögreglustjóra um að kærða væri bannað að koma á eða í námunda við heimilihennar, veita henni eftirför, nálgast hana á almannafæri eða setja sig ísamband við hana með öðrum hætti. B hafi talið að kærði hafi meðal annars tekiðIpod og USB lykil sem hún hafi átt Kærði hafi verið handtekinn í íbúð B að [...].Við öryggisleit á honum hafi meðal annars fundist tveir samsung símar og einnIpod. Hafi hann falið einn síma í nærbuxum sínum. Við skýrslutöku hjá lögregluhafi kærði kvaðst hafa verið í [...] umrædda nótt og hafi verið meðvitaður umað hann væri í nálgunarbanni gagnvart B. Mál nr. 007-2017-[...]Þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 31.janúar 2017 í verslun Bónuss, Faxafeni 14, Reykjavík, stolið matvöru, samtalsað verðmæti kr. 3.875. Kærði hafi játað sök í málinu. Mál nr. 007-2017-[...]Þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 18.janúar 2017, brotist inn í nýbyggingu við [...] í Reykjavík, og stolið þaðanmiklu magni af verkfærum, að óþekktu verðmæti. Verkfæri úr innbrotinu hafifundist við húsleit lögreglu þann 2. febrúar sl. á heimili [...] að [...] íReykjavík. Hafi C upplýst um að hann hafi fengið þetta upp í skuld frá kærða.Við skýrslutöku hjá lögreglu í dag hafi kærði ekki kvaðst hafa brotist þarnainn, en C hafi gert það. Mál nr. 007-2017-[...]Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafafimmtudaginn 5. janúar 2016, komið á heimili barnsmóður sinnar B að [...] íReykjavík, þrátt fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi þann 1. nóvember 2016staðfest ákvörðun lögreglustjóra um að kærða væri bannað að koma á eða ínámunda við heimili hennar, veita henni eftirför, nálgast hana á almannafærieða setja sig í samband við hana með öðrum hætti. Mál nr. 007-2017-[...]Þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 3.janúar 2017, í Apótekaranum, Lóuhólum 2-6, Reykjavík, stolið vörum, samtals aðverðmæti kr. 11.463. Kærði hafi játað sök í málinu. Mál nr. 007-2017-[...]Umferðarlagabrot, með því að hafasunnudaginn 1. janúar 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti suður Stöngí Reykjavík, við Breiðholtsbraut, þar sem kærði hafi ekið gegn rauðuumferðarljósi. Kærði hafi gengist við brotinu. Mál nr.007-2017-6081Þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 28.desember 2016, við [...] í Kópavogi. stolið farsíma, að óþekktu verðmæti.Eigandi símans hafi haft samband við lögreglu og greint frá því að myndir úrsímanum hafi skyndilega byrjað að uppfærast á OneDrive, en myndirnar séudagsettar 2. og 3. febrúar. Kærði hafi þekkst á myndunum. Við skýrslutöku hjálögreglu í dag hafi kærði neitað að hafa stolið símanum. Hafi í fyrstu sagt að Dhafi stolið símanum, en þegar honum hafi verið bent á að D hafi verið ífangelsi á þessum tíma, hafi hann sagst ekki hafa stolið símanum og ekki vitahver hafi stolið honum. Mál nr. 007-2016-[...]Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafaföstudaginn 23. desember 2016 við Krókháls í Reykjavík, til móts viðVeiðihornið, verið farþegi í bifreið barnsmóður sinnar B, þrátt fyrir aðHæstiréttur Íslands hafi þann 1. nóvember 2016 staðfest ákvörðun lögreglustjóraum að kærða væri bannað að koma á eða í námunda við heimili hennar, veita hennieftirför, nálgast hana á almannafæri eða setja sig í samband við hana með öðrumhætti. Lögregla hafi stöðvað aksturinn umrætt sinn. Mál nr. 007-2016-[...]Umferðarlagabrot, með því að hafaþriðjudaginn 13. desember 2016 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti ogóhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóðimældist amfetamín 115 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 1,1 ng/ml) á bifreiðastæðivið Spöngina í Reykjavík, þar sem lögregla hafi haft afskipti af kærða.Mál nr. 007-2016-[...]Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafaþriðjudaginn 18. október 2016 komið á heimili barnsmóður sinnar B að [...] íReykjavík, þrátt fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi hefði þann 1. nóvember 2016staðfest ákvörðun lögreglustjóra um að kærða væri bannað að koma á eða ínámunda við heimili hennar, veita henni eftirför, nálgast hana á almannafærieða setja sig í samband við hana með öðrum hætti. Vitni hafi tilkynnti að kærðiværi að reyna að brjótast inn í íbúð B. Tvö vitni hafi skýrt frá því að kærðihafi komið með þeim á vettvang og hafi þau séð á eftir kærða inn í [...].Skömmu síðar hafi lögregla komið á vettvang en ekki fundið kærða. Kærði hafineitað sök í málinu. Mál nr. 007-2016-[...]Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa átímabilinu frá 17. október til 18. október, sent barnsmóður sinni B fjölda smsskilaboða, þrátt fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi þann 1. nóvember 2016staðfest ákvörðun lögreglustjóra um að kærða væri bannað að koma á eða ínámunda við heimili hennar, veita henni eftirför, nálgast hana á almannafærieða setja sig í samband við hana með öðrum hætti. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafikærði neitað að gefa upp símanúmer sitt. Honum hafi þá verið kynnt að af lestriskilaboðanna væri ljóst að þau væru milli hans og B. Hafi hann kveðið B ofthafa sent honum skilaboð og að hann hafi oft svarað henni. Kærði hafi neitað aðhafa átt frumkvæði að því að vera í sambandi við B, hann hafi einungis svaraðskilaboðunum. Mál nr. 007-2016-[...]Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafamánudaginn 17. október 2016 komið á heimili barnsmóður sinnar B að [...] íReykjavík, þrátt fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi hefði þann 1. nóvember 2016staðfest ákvörðun lögreglustjóra um að kærða væri bannað að koma á eða ínámunda við heimili hennar, veita henni eftirför, nálgast hana á almannafærieða setja sig í samband við hana með öðrum hætti. Lögregla hafi handtekið kærðaá vettvangi. Kærði hafi neitað að tjá sig við skýrslutöku hjá lögreglu. Mál nr. 007-2016-[...]Líkamsárás og brot á barnaverndarlögum, meðþví að hafa sunnudaginn 16. október 2016, að [...] í Reykjavík, veist aðbarnsmóður sinni B, að viðsöddum börnum þeirra þriggja og fjögurra ára, skellthenni í gólf, togað í hönd hennar svo hún fékk roða á höndina, tekið af hennisíma og gripið fyrir munn hennar. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi Xverið ölvaður og í annarlegu ástandi. Í skýrslu lögreglu hafi komið fram að B hafióttast kærða. Íbúi í blokkinni hafi tilkynnt að hann teldi karlmann vera aðganga í skrokk á kvenmanni sem þar búi og hafi heyrt öskur frá kvenmanni ogbörnum frá íbúðinni. Börn B og kærða hafi skýrt starfsmanni barnaverndar fráþví að pabbi þeirra hafi sagt við móður þeirra að hún ætti að skera af sérhausinn og hann hafi tekið af henni símann. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafikærði kveðið þau hafa verið að rífast um peninga. Hafi hann kvaðst ekki hafakýlt hana eða slegið. Mál 007-2016-[...]Líkamsárás, húsbrot, kynferðisbrot,eignaspjöll og valdstjórnarbrot, með því að hafa miðvikudaginn 5. október 2016,brotið sér leið inn í íbúð að [...], íbúð [...], sem E hafi haft til umráða, með því að sparka uppútidyrahurðinni, með þeim afleiðingum að karmur hafi brotnað, hótað E og slegiðhana hana í andlitið og tekið hana hálstaki. Hafi glerbrot verið um alltstofugólf í íbúðinni. Kærði hafi einnig ráðist á vin E, F, sem hafi orðið fyrirfólskulegri árás og meðal annar verið sparkað ítrekað í hann liggjandi, þar ámeðal í höfuðið. F hafi flúið af vettvangi á bíl E. E hafi skýrt lögreglu fráþví að kærði hafi farið upp í næstu hæð í íbúð barnsmóður sinnar, þar sem hann hafiverið með vinkonu sinni G. Lögregla hafi bankað á hurð þeirrar íbúðar, en hafimátt já að búið hafi verið brjóta úr vegg við útidyrahurðina og hlutir hafilegið um allt gólf. Kærði hafi tekið á móti lögreglu í anddyri íbúðarinnar íannarlegu ástandi. Við handtöku hafi hann látið ófriðlega og hafi haft íhótunum við lögreglumenn um að beita þá ofbeldi. G hafi skýrt frá því að kærði hafiverið að fara að nauðga henni og hefði það gerst hefði lögregla ekki komið. Húnhafi kveðið hann hafa káfað á sér og reynt að kyssa sig. Hann hafi ítrekaðkáfað á henni innan klæða á brjóstum en utan klæða á kynfærum. G hafi kvaðsthafa verið verulega hrædd við kærða. B barnsmóðir kærða hafi skýrt frá því aðkærði hafi fyrr þennan dag slegið hana og verið mjög árásargjarn og að hún hafiverið með áverka eftir átökin. Lögreglumenn hafi staðfest að B hafi verið meðsjáanlegt glóðarauga í kringum hægra auga sem hún hafi sagt að væri eftirhnefahöggið sem hún hafi fengið frá kærða. Kærði hafi neitað sök í málinu.Rannsókn málsins sé ólokið. Það sé mat lögreglustjórans áhöfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum c. liðar 1. mgr. 95. gr. sbr. 3. mgr. 97.gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda séu yfirgnæfandi líkur á því aðdómfelldi muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinn. Með vísan tilframangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 ummeðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.LagarökSakarefni málanna séutalin varða við 106. gr., 217. gr., 2. mgr. 218. gr., 4. mgr. 220. 231. gr.,232. gr., 233. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk ákvæðabarnaverndar, umferðar- og vopnalaga, en brot gegn ákvæðunum geti varðaðfangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísaðtil c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. NiðurstaðaKrafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinubyggir á því að embættið telur að lagaskilyrðum c. liðar 1. mgr. 95. gr. sbr.3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda séu yfirgnæfandi líkur á þvíað dómfelldi muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinn. Verjandi kærða telur að ekki sé nægjanlegaskýr tilvísun til 3. mgr. 97. gr. í málinu til stuðnings kröfu þessari.Aðstoðarsaksóknari vísar til niðurlags í kröfuskjali og telur fullljóst áhverju sé byggt. Dómurinn fellst á það. Eins og aðstoðarsaksóknari hefur útskýrt viðmeðferð málsins, telur embættið að ef dómur gengur þar sem gæsluvarðhaldsfangier dæmdur fyrir refsiverða háttsemi, að þá falli gæsluvarðhald sjálfkrafa niður,burtséð frá því fyrir hvaða brot ákærði hefur verið dæmdur. Því sé skylt aðláta gæsluvarðhaldsfanga lausan þegar slíkur dómur gengur sbr. 3. mgr. 97. gr.laga nr. 88/2008. Verjandi kærða tók undir þessa afstöðu.Dómurinn fellst ekki á þessa lögskýringu.Fyrir liggur að laugardaginn 18. febrúar sl. úrskurðaði þessi sami dómstóllkærða í gæsluvarðhald til 17. mars nk. kl. 16:00 í málinu nr. R-[...]/2017. Sáúrskurður var byggður á nákvæmlega sömu brotum og hér hafa verið tíunduð ogbyggði á c-lið 1. málsgreinar 95 gr. laga nr. 88/2008 . Dómur í málinu nr. S-[...]/2015sem kveðinn var upp [...] yfir kærða, þar sem honum er gert að sæta 18 mánaðafangelsi varðar ekki þau brot, sem grunur leikur á um að kærði hafi framið, og vorugrundvöllur gæsluvarðhaldsúrskurðar í framangreindu máli nr. R-[...]/2017.Þannig er, að því best verður séð engin skörun á milli þessara brota, þ.e. þeirrasem um ræðir í málinu nr. S-[...]/2015 og í málinu nr. R-[...]/2017.Í 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, kemur frammeginregla sem orðast svo: „Gæsluvarðhaldi lýkur þegar héraðsdómur hefur veriðkveðinn upp í málinu.“ Dómurinn lítur svo á að ákvæðið eigi einungis við þegarkærði hefur sætt gæsluvarðhaldi vegna þeirra brota eða þess brots sem um erfjallað í þeim dómi sem þarna er vísað til enda notast við orðið „málinu“ semvísar ótvírætt til ákveðins máls en ekki brotaferlis viðkomandi að öðru leyti.Ef kærði hefur þannig setið í gæslu vegna óskyldra eða a.m.k. annarra brota, þáhafi slíkur dómur ekki ofangreind áhrif.Þá stenst að mati dómsins í ljósi sömu sjónarmiða, heldur ekki krafasóknaraðila um að gæsluvarðhaldinu verði markaður tími til 16. júní 2017, þarsem krafan er studd við c-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, þótt jafnframtsé vísað til 3. mgr. 97. gr. laganna. Upplýst er að kærði hefur ekki setið ígæsluvarðhaldi undanfarið vegna þeirra brota sem hann hefur nú verið sakfelldurfyrir í málinu nr. S-[...]/2015. Því verður ekki með vísan til 1. mgr. 97. gr.laganna in fine, komist framhjá hámarki ákvæðisins um að gæsluvarðhald megiekki ákveða lengur en í fjórar vikur í senn, þ.e. ef litið yrði svo á að hægtværi á annað borð að fallast á kröfur sóknaraðila. Slík niðurstaða færi gegnréttindum kærða miðað við málsatvik og gegn ofangreindum lagaákvæðum. Lagaskilyrðimyndi enda skorta til að hneppa kærða í gæsluvarðhald ef engum öðrum brotumværi til að dreifa en þeim sem hann var dæmdur fyrir fyrr í dag. Dómurinn telur því að hafna verði kröfu sóknaraðila eins og hún er framsettí máli þessu. Til álita kæmi að vísa málinu frá þótt slík krafa hafi ekki veriðgerð. Telja verður hins vegar þá niðurstöðu að hafna kröfunni einnig tæka. Undirstrikað er að framangreind niðurstaða felur í sér að dómurinn telurótvírætt að sú staða er þá uppi við uppkvaðningu úrskurðarins að kærði sætirþví enn gæsluvarðhaldi á grundvelli úrskurðar hliðsetts dómara í málinu nr. R-[...]/2017 og muni að óbreyttuþurfa að sæta þeirri frelsisskerðingu allt til 17. mars 2017.Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.Ú R S K U R Ð A R OR ÐKröfu sóknaraðila lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu erhafnað. Kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli úrskurðar dómsinsí málinu nr. R-[...]/2017, samkvæmt úrskurðarorði hans. |
Mál nr. 220/2017 | Skjalafals Vegabréf Refsiákvörðun | S, ríkisborgari í Srí Lanka, var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa við vegabréfaskoðun framvísað við lögreglu þýsku bráðabirgðavegabréfi sem reyndist breytifalsað að hluta. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að S hafði játað skýlaust brot sitt og ekkert lægi fyrir um að hann hefði áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Var refsing S ákveðin fangelsi í 30 daga en gæsluvarðhaldsvist sem hann hafði sætt kom til frádráttar refsingunni. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, GretaBaldursdóttir og Karl Axelsson.Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. mars 2017 í samræmi viðyfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms. Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar meðtalin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða meðvirðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.Dómsorð:Héraðsdómurskal vera óraskaður.Ákærði,Sathiyarupan Nagarja, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 382.440krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Unnars Steins Bjarndalhæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.DómurHéraðsdóms Reykjaness, föstudaginn 17. mars 2017Málþetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru lögreglustjórans áSuðurnesjum, útgefinni í dag, á hendur Sathiyarupan Nagarja, fæddum 28.desember 1973, ríkisborgara í Sri Lanka, „fyrir skjalafals, með því að hafa,fimmtudaginn 9. mars 2017, er ákærði var í vegabréfaskoðun í flugstöð LeifsEiríkssonar, framvísað við lögreglu í blekkingarskyni þýskubráðabirgðavegabréfi nr. [...] sem reyndist breytifalsað, þ.e. falsað að hluta.Nánar tiltekið var vegabréfið ranglega ánafnað [...], f.d. [...], meðgildistíma frá 20.02.2017 til 19.02.2018 og var embættisstimpill þýskrastjórnvalda jafnframt falsaður. Vegabréfið var svo límt í vegabréfabók annarsþýsks vegabréfs nr. [...] en bæði vegabréfin höfðu verið tilkynnt stolin. Telstþessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr.19/1940.Þesser krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu allssakarkostnaðar.“Um málavaxtalýsingu erskírskotað til ákæru.Ákærði játaði brot sittskýlaust fyrir dóminum eins og því er lýst í ákæru. Þykir með játningu ákærða,sem á sér stoð í gögnum málsins, sannað að ákærði hafi gerst sekur um þáháttsemi sem ákært er fyrir og er brot ákærða rétt heimfært til refsiákvæða íákærunni.Fyrir liggur að tollayfirvöldhöfðu afskipti af ákærða við vegabréfaskoðun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar erákærði var á leið til Toronto í Kanada. Þegar vegabréf hans var skannað kom íljós að það hafði verið tilkynnt stolið og við frekari rannsókn kom í ljós aðþað var falsað að hluta. Í skýrslutöku hjá lögreglu 10. mars sl. kvaðst ákærðihafa komið frá Mílanó á Ítalíu með millilendingu í París, en þaðan hefði hannhaldið til Íslands. Þá kom fram hjá ákærða að hann hefði stöðu flóttamanns áÍtalíu og ætti skilríki hælisleitanda þar, en hann hefði dvalið á Ítalíu ífjóra mánuði. Þá kvaðst ákærði einnig hafa sótt um hæli í Sviss. Fyrir liggurað ákærði hefur ekki sótt um hæli sem flóttamaður hér á landi. Ákærði gaf sigekki fram við stjórnvöld við komu sína til landsins og hefur ekki fært gildarástæður fyrir því að hafa ekki gert það eða fyrir ólöglegri komu sinni hingaðtil lands.Samkvæmt framangreinduhefur ákærði haft viðkomu í nokkrum löndum Evrópu á för sinni til Íslands oghafði hann dvalið á Ítalíu í fjóra mánuði og öðlast þar stöðu flóttamanns áðuren hann kom hingað til lands. Ákærði var því ekki að koma til landsins beintfrá landsvæði þar sem lífi hans, heilsu eða frelsi var ógnað, sbr. 32. gr. laganr. 80/2016 um útlendinga, þannig að leiða eigi til refsileysis. Hefur ákærðiþví unnið sér til refsingar.Við ákvörðun refsingarer litið til þess að ákærði hefur gengist við broti sínu og veriðsamvinnuþýður. Þá er litið til þess að ekkert liggur fyrir um það að ákærðihafi áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Með hliðsjón af framangreindu ogáralangri dómaframkvæmd þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30daga. Til frádráttar refsingunni komi með fullri dagatölu gæsluvarðhald semákærði hefur sætt frá 10. mars 2017.Ákærði greiði ísakarkostnað þóknun skipaðs verjanda síns, Theódórs Kjartanssonar hdl., semþykir hæfilega ákveðin 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttirdómstjóri.Dómsorð:Ákærði, SathiyarupanNagarja, sæti fangelsi í 30 daga, en til frádráttar refsingunni komigæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 10. mars 2017.Ákærði greiði ísakarkostnað þóknun skipaðs verjanda síns, Theodórs Kjartanssonar hdl., 200.000krónur. |
Mál nr. 66/2016 | Brot gegn valdstjórninni Líkamsárás Ávana- og fíkniefni Upptaka Einkaréttarkrafa | B var sakfelldur fyrir tvö brot gegn valdstjórninni samkvæmt 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Annars vegar fyrir að hafa vopnaður hnífi veist með ofbeldi og hótunum um ofbeldi að tveimur lögreglumönnum við skyldustörf en fyrir þá háttsemi var B einnig sakfelldur fyrir tilraun til líkamsárásar með hættulegu tæki samkvæmt 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Hins vegar fyrir að hafa síðar sama dag veist með hótunum að tveimur öðrum lögreglumönnum við skyldustörf. Þá var B sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 4,09 grömm af maríhúana og 2 kannabisplöntur og fyrir að hafa um nokkurt skeið ræktað greindar plöntur.Var refsing B ákveðin níu mánaða fangelsi en fullnustu sex mánaða hennar var frestað skilorðsbundið í tvö ár og nánar tilgreindir munir gerðir upptækir. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. janúar2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins erþess krafist að refsing ákærða verði þyngd.Ákærði krefst þess aðrefsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfumverði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af þeim, en að þvífrágengnu að þær verði lækkaðar. Brotaþolar, A og B,krefjast þess að ákærða verði gert að greiða þeim, hvorum um sig, 300.000krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.Með vísan til forsendnahins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.Ákærði verður dæmdur tilað greiða brotaþolum, hvorum um sig, 100.000 krónur í málskostnað við að haldakröfum sínum fram fyrir Hæstarétti, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 ummeðferð sakamála.Ákærða verður gert aðgreiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðsverjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og ídómsorði greinir.Dómsorð:Héraðsdómur skal veraóraskaður.Ákærði, Bradley JamesHouldcroft, greiði brotaþolum, A og B, hvorum um sig, 100.000 krónur ímálskostnað fyrir Hæstarétti.Ákærði greiði allanáfrýjunarkostnað málsins, 540.898 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjandasíns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 5. janúar 2016.IMál þetta, sem dómtekiðvar 4. desember sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 1.september 2015 á hendur ákærða; „Bradley James Houldcroft, kennitala [...], Silfurgötu8a, Ísafirði,I.fyrir fíkniefnalagabrot, með því aðhafa laugardaginn 12. júlí 2014, að heimili sínu, Silfurgötu 8a á Ísafirði,haft í vörslum sínum tvær kannabisplöntur, og hafa um nokkurt skeið fram tilþess dags ræktað greindar plöntur, en lögregla fann plönturnar við húsleit.II.fyrir fíkniefnalagabrot, með því aðhafa að morgni mánudagsins 27. október 2014, að heimili sínu, Silfurgötu 8a áÍsafirði, haft í vörslum sínum 4,09 grömm af maríhúana, sem lögregla fann viðhúsleit.Teljast báðir ákæruliðirvarða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr.lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 1. og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr.reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001,sbr. reglugerð nr. 789/2010 og 513/2012.Þess er krafist að ákærðiverði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er krafistupptöku á tveimur kannabisplöntum og 4,09 grömmum af maríhúana, með vísan til6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni. Einnig er krafistupptöku á hitablásara, lampa og tveimur ljósum (skv. munaskrá nr. 104919), semlögregla lagði hald á í máli nr. 018-2014-3089, og grammavog, mulningskvörn ogþremur plastpokum (skv. munaskrá nr. 106988), sem lögregla lagði hald á í málinr. 018-2014-4859, með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- ogfíkniefni.“Meðákæru ríkissaksóknara 14. október 2015 var ákærði ákærður fyrir eftirfarandi„brot framin á Ísafirði:.Brotgegn valdstjórninni og tilraun til stórfelldrar líkamsárásar, með því að hafaaðfaranótt mánudagsins 17. nóvember 2014, að Silfurgötu 8a, vopnaður hnífi,veist með ofbeldi og hótunum um ofbeldi að lögreglumönnunum A og B, sem voruvið skyldustörf, með því að hóta ítrekað að stinga þá með hnífi, þar með taliðí andlitið, beina hnífi ógnandi að þeim og leggja ítrekað til þeirra meðhnífnum. 2.Brotgegn valdstjórninni, með því að hafa síðar sama dag, á Fjórðungssjúkrahúsinu,Torfnesi, veist með hótunum um ofbeldi að lögreglumönnunum C og D, sem voru viðskyldustörf, með því að hóta að nefbrjóta þá og steyta hnefann ógnandi að D. Teljast brot þessi varðavið 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr.101/1976 og 1. gr. laga nr. 25/2007, og telst brot samkvæmt 1. ákærulið aukþess varða við 2. mgr. 218. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga.Þess er krafist að ákærðiverði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“Í ákæru er getið umeinkaréttarkröfu A, kennitala [...], en hann krefst þess að ákærða verði gertað greiða honum skaðabætur að fjárhæð 300.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr.laga nr. 38/2001 frá 17. nóvember 2014 þar til mánuður er liðinn frá birtingubótakröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 fráþeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiðabrotaþola málskostnað, auk virðisaukaskatts, að mati dómsins vegnalögmannsaðstoðar við að hafa bótakröfuna uppi.Einnig er í ákæru getiðum einkaréttarkröfu B, kennitala [...], en hann krefst þess að ákærða verðigert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 300.000 krónur með vöxtum samkvæmt8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. nóvember 2014 þar til mánuður er liðinn frábirtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr.38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gertað greiða brotaþola málskostnað, auk virðisaukaskatts, að mati dómsins vegnalögmannsaðstoðar við að hafa bótakröfuna uppi.Við aðalmeðferð málsinsvar, af hálfu ákæruvalds, fallið frá kröfu um upptöku á hnífi sem fram kom íákæru ríkissaksóknara frá 14. október sl. Afhálfu ákærða er þess krafist að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lögleyfa og að bótakröfum verði aðallega vísað frá dómi en til vara að bætur verðilækkaðar. Þá er ekki gerð athugasemd við upptökukröfu. Loks er gerð krafa um aðmálsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða og útlagður kostnaður verjandans verðigreiddur úr ríkissjóði.IIÁkæra lögreglustjórans á Vestfjörðum, dagsett 1. september 2015,ákæruliður ISamkvæmt skýrslu lögregluvar framkvæmd húsleit á heimili ákærða laugardaginn 12. júlí 2014 og fundust þátvær kannabisplöntur í ræktun. Gögn málsins bera með sér að plönturnar hafiverið í skáp í svefnherbergi ákærða. Við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndiákærði að hafa átt plönturnar og hafa ræktað þær og hafi efnið verið ætlað tileigin nota. Meðal málsgagna er ljósmynd af þeim plöntum sem voru haldlagðar. Þáliggur fyrir efnaskýrsla tæknideildar lögreglu þar sem fram kemur að plönturnarhafi verið rannsakaðar og hafi þær reynst innihalda kannabisefni.Framburður ákærða og vitna fyrir dómiÁkærði kvaðst hafa reyntað rækta kannabisplöntur heima hjá sér um tíma fram til 12. júlí 2014 en ekkitekist. Ætlunin hafi verið að rækta plönturnar til eigin neyslu. Hann sagði aðsér hafi allan tímann verið ljóst að plönturnar væru ónothæfar til neyslu.Aðspurður af hverju hann hafi ekki verið búinn að losa sig við plönturnarkvaðst hann í rauninni ekki hafa vitað hvort þetta væru karlkynsplöntur, það erplöntur sem framleiða hamp. Hann kvaðst hafa geymt plönturnar inni í klæðaskápþar sem hann hafi lesið það á netinu að þar væru bestu aðstæðurnar hvað varðarhitastig, ljós og þess háttar en hafi ekki verið að fela þær þar.Þá sagði ákærði að þegarlögreglumennirnir komu í umrætt sinn hafi vinur hans, E, verið í heimsókn hjáhonum og hafi þeir óskað eftir að fá að tala við E og hafi ákærði samþykkt þaðog hleypt þeim inn. Þá hafi þeir spurt hvort þeir mættu leita á heimilinu enþví hafi ákærði svarað neitandi og spurt hvort þeir væru með húsleitarheimild.Þeir hafi sagt að þeir teldu sig ekki þurfa húsleitarheimild og hann hafi þáviljað hafa samband við lögmann sinn. Lögreglumaðurinn hafi orðið pirraður ogstrax ráðist á hann, skellt honum í gólfið og snúið handlegg hans aftur fyrirbak. Seinna hafi hann þurft að leita sér læknisaðstoðar vegna þess. Þá hafihann verið handjárnaður og settur í lögreglubifreið og þeir leitað á heimilihans. Ákærði kvaðst muna eftirað hafa undirritað leitarheimild eftir að lögreglumennirnir réðust á hann. Hannkvaðst hafa beðið um enska útgáfu af skjalinu þar sem hann hafi ekki skilið nógí íslensku til að skilja þetta skjal. Þá hafi honum verið sagt að hann yrðibara að undirrita þetta og var honum ekki leyft að tala við lögmann áður enhann undirritaði skjalið. Eina skiptið sem honum hafi verið heimilað að hafasamband við lögmann hafi verið annaðhvort rétt fyrir eða á meðan á skýrslutökustóð. Kvaðst ákærði muna atvik mjög vel og hafa verið allsgáður þetta kvöld.Ákærði kvaðst ekki hafa skilið orð af því sem fram kom á eyðublaðinu sem honumvar sýnt og var það ekki þýtt fyrir hann. Vitnið C lögreglumaðurkvaðst hafa komið að húsleit á heimili ákærða í umætt sinn. Upplýsingar hafi boristum að hugsanlega væri verið að selja efni þar. Lögreglumönnunum hafi veriðhleypt inn í sjónvarpsherbergi á annarri hæð þar sem ákærði talaði við þá oghafi þeir þá fundið megna kannabislykt. Þeir hafi útskýrt fyrir ákærða afhverju þeir væru komnir. Hafi ákærða verið kynnt að ef hann heimilaði ekki leitmundu þeir tryggja vettvanginn og óska eftir úrskurði dómara um húsleit. Ákærðivar mjög ósáttur við þetta og reyndi að vísa þeim út en var á endanum færður útí lögreglubifreið. Vitnið kvaðst hafa verið viðstatt þegar fengin varleitarheimild hjá ákærða og sagði að samskiptin við ákærða hafi að mestum hlutaverið á ensku og hafi ákærða verið ljóst hvað hann var að undirrita. Viðleitina hafi ákærði vísað á tvær kannabisplöntur. Vitnið kvaðst ekki minnastþess að ákærði hafi óskað eftir því að fá að tala við lögmann. Þá hafi ákærðaverið kynnt réttarstaða sín þegar hann var handtekinn. Vitnið Flögregluvarðstjóri sagði lögreglu hafa fengið upplýsingar um að það væri maðurá heimili ákærða sem hefði verið að koma þangað með fíkniefni. Þeir fóru þá áheimili ákærða sem bauð þeim inn til að tala við viðkomandi og þá hafi þeirfundið greinilega kannabislykt í húsinu. Ákærði hafi ekki verið tilbúinn til aðleyfa þeim að leita en að lokum samþykkt leit og hafi fundist hjá honum tværkannabisplöntur inni í skáp og kvaðst hann minna að ákærði hafi bent á þær.Ákærði hafi verið handtekinn eftir að hann neitaði að heimila leitina en hafi,þegar hann var kominn út í lögreglubifreið, sagt að hann væri tilbúinn að heimilahúsleit. Vitnið kvaðst ekki muna hvort hann hafi séð ákærða undirritahúsleitarheimild. Vitnið sagði að samskiptin við ákærða hafi aðallega fariðfram á ensku og gerði ráð fyrir að ákærða hafi verið veittar leiðbeiningar umréttarstöðu sína en ekki muna sérstaklega eftir því. Þá kvaðst hann ekki munaeftir því hvort ákærði óskaði eftir því að tala við lögmann.Vitnið G lögreglumaðursagði lögreglu hafa borist tilkynning um að heima hjá ákærða væri maður aðselja fíkniefni. Þeir hafi farið heim til ákærða til að ræða við viðkomandi oghafi ákærði hleypt þeim inn og þeir hafi þá fundið megna kannabislykt og þáóskað eftir að fá að leita. Ákærði hafi fyrst neitað að heimila leit en síðanskipt um skoðun. Þá sagði vitnið að útskýrt hafi verið fyrir ákærða hvað kæmifram á eyðublaðinu fyrir leitarheimildina.Vitnið H kvaðst hafaleigt hjá ákærða þegar atvik gerðust. Hann hafi vitað að ákærði var með plönturinni í skáp og neytti kannabis á þessum tíma og taldi að ræktunin hafi veriðtengd þeirri neyslu. Vitnið Irannsóknarlögreglumaður staðfesti að hafa komið að gerð efnaskýrslu vegnamálsins. Aðspurður um nákvæmni rannsóknarinnar með tilliti til þess hvort þaðhafi fundist virkt THC-efni í plöntu eða ekki sagði vitnið að um væri að ræðalitarpróf sem gefi svörun við því hvort það sé THC, þ.e. kannabis, í plöntu, ensegi ekkert um styrkleikann. Vitnið kvaðst ekki vita hvort litaprófið gefisamsvarandi svörun ef um hampplöntu er að ræða. NiðurstaðaÁkærði neitar söksamkvæmt I. hluta ákæru lögreglustjórans. Hann viðurkenndi fyrir dómi að hafaátt og ræktað plönturnar og að þær hefðu verið í skáp í herbergi hans og er þaðí samræmi við framburð vitnisins H. Þá staðfestu lögreglumennirnir C og F íframburði sínum fyrir dómi að ákærði hefði vísað á plönturnar þar sem þær voruí skáp í herbergi hans. Ákærði byggir sýknukröfusína á því að húsleitin hafi verið ólögmæt. Hann hafi ekki veitt heimild tilhúsleitar en hann hafi ekki skilið skjalið sem lögreglan lét hann undirrita íþví skyni að heimila leit og honum hafi ekki verið kynnt réttarstaða sín ogekki fengið að tala við lögmann þegar hann óskaði þess. Framangreint er íandstöðu við framburð þeirra lögreglumanna sem voru á vettvangi en þeir bárum.a. um að hafa veitt ákærða allar leiðbeiningar á ensku, sem er móðurmál hans.Er því þessari vörn ákærða hafnað.Samkvæmt framburði ákærðavar ætlun hans sú að rækta kannabisplöntur til eigin neyslu. Hann byggir vörnsína á því að plönturnar hafi ekki innihaldið kannabis, þannig að með ræktunþeirra hafi ekki verið framleitt efni sem sé nothæft til neyslu. Ákærði kvaðsthafa vitað þetta og kvað ræktunina hafa verið einhvers konar tilraun hjá sér.Fyrir liggur niðurstaða litarprófs sem framkvæmt var af tæknideild lögreglu semstaðfestir að kannabis hafi verið í plöntunni þó svo að ekki liggi fyrir hvervar styrkleiki þess. Þá staðfesti vitnið I rannsóknarlögreglumaður, semframkvæmdi rannsóknina, að virkt efni kannabis, THC, hafi mælst í plöntunum.Hefur framburður vitnisins um að hann geti ekki sagt til um það hvort hampplantagæfi sömu niðurstöðu á litarprófi ekki áhrif við mat á framangreindriniðurstöðu litarprófsins. Eftir þessu er sú vörn ákærða að plönturnar hafi ekkiinnihaldið kannabis haldlaus. Með vísan til allsofangreinds telur dómurinn nægilega sannað að ákærði hafi haft í vörslum sínumog ræktað tvær kannabisplöntur og verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemisem lýst er í fyrsta lið ákærunnar og er háttsemi hans þar rétt heimfærð tilrefsiákvæða.IIIÁkæra lögreglustjórans á Vestfjörðum, dagsett 1. september 2015,ákæruliður IIVið aðalmeðferð málsinsviðurkenndi ákærði sök hvað varðar II. hluta ákæru lögreglustjórans. Ummálavaxtalýsingu er skírskotað til ákæru. Játning ákærða fær fulla stoð ígögnum málsins. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærðihefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans réttheimfært til refsiákvæða í ákæru. IVÁkæra ríkissaksóknara, dagsett 14. október 2015, fyrsti og annarákæruliðurSamkvæmt skýrslu lögreglubarst tilkynning klukkan 03.35 um að ákærði væri í sjálfsvígshugleiðingum oghafi sent SMS-skilaboð til vitnisins J og sagt að hann væri búinn að skaða sigog ætlaði að taka eigið líf. Var talið að ákærði væri á heimili sínu aðSilfurgötu 8a á Ísafirði. Lögreglumennirnir A og B fóru á heimili ákærða, semopnaði dyrnar til hálfs. Sáu lögreglumenn að hann var blóðugur á báðumupphandleggjum og hélt á hnífi í vinstri hendi sem hann reyndi að leyna fyriraftan bak. Ákærða var kynnt ástæða afskipta lögreglu á íslensku og ensku oghann beðinn um að leggja frá sér hnífinn og honum boðin aðstoð vegna áverkanna.Samkvæmt skýrslu lögreglu æstist ákærði við afskipti lögreglu og reyndi að lokadyrunum en annar lögreglumannanna, A, hafi náð að setja fót milli stafs oghurðar. Lögreglumennirnir hafi tekið upp varnarúða og kylfur og skorað á ákærðaað leggja frá sér hnífinn, annars yrðu varnarvopnin notuð, en ákærði varð ekkivið þessum tilmælum. Ákærði hafi ítrekað hrópað að hann ætlaði að stingalögreglumennina og að fyrsti lögreglumaðurinn yrði stunginn í andlitið.Varnarúði hafi þá verið notaður á ákærða og lenti úðinn á andliti hans. Við þaðhafi ákærði orðið æstari og ítrekað hótun sína. Á meðan á þessu stóð hafilögreglumenn orðið varir við að annar einstaklingur var inni í húsinu en gátuekki áttað sig á aðstæðum hans. Ítrekað var skorað á ákærða að leggja frá sérhnífinn en hann varð ekki við þeim fyrirmælum og var þá úðað á hann varnarúða áný. Skyndilega stökk ákærði út og réðst að lögreglumönnunum með hnífinn íútréttri vinstri hendi sem hann sveiflaði. Við þessa árás hafilögreglumennirnir hörfað frá dyrunum og beitt fyrir sig kylfum. Gerði ákærðiítrekaðar tilraunir til að stinga lögreglumennina og einnig sveiflaði hannhnífnum í áttina að lögreglumönnunum. Hafi atlaga ákærða fyrst beinst að öðrumlögreglumanninum en síðan hinum. Voru lögreglumennirnir klæddir hnífavestum ogbeindi ákærði árás sinni sérstaklega að andlitssvæðum þeirra. Beittulögreglumenn kylfum á vinstri hlið og vinstri hönd ákærða og hörfaði hann inn íhúsið á ný, enn vopnaður hnífnum, og lokaði dyrum. Var þá kallað eftir fleirilögreglumönnum á vettvang auk þess sem ákvörðun var tekin um að lögreglumennmyndu vopnast skotvopnum til neyðarvarnar. Hafi þeir vopnast Glock-skammbyssumog voru þær vel sýnilegar í hulstrum á lærum lögreglumanna. Á meðan hafi vitniðH komið út úr húsinu og afhent lögreglu hníf ákærða. Þá kom einnig á vettvangvitnið J og ræddi hann við ákærða í síma og kom ákærði skömmu síðar út úrhúsinu og var handtekinn. Samkvæmt skýrslum lögreglumannannaC og D fóru þeir með ákærða á slysadeild að morgni mánudagsins 17. nóvember2014, vegna þeirra atvika sem gerðust um nóttina. Þegar lokið var að meðhöndlaákærða hafi þeir tilkynnt honum að þeir mundu fara með hann aftur álögreglustöð og hafi ákærði neitað því. Kvaðst hann nefbrjóta þann lögreglumannsem mundi reyna að færa hann á lögreglustöð. Samkvæmt skýrslu D steytti ákærðihnefann í áttina að honum um leið og hann lét þessi orð falla.Ákærði gaf fyrst skýrsluvegna málsins hjá lögreglu 24. nóvember 2014. Hann lýsti því þá að hann hafiopnað dyrnar þegar lögreglumennirnir komu en ekki viljað fá þá inn. Þeir hafiúðað á hann piparúða tvisvar sinnum og lamið hann með kylfu og hafi handleggurhans brotnað á fjórum stöðum. Ákærði sagði það „kjaftæði“ að hann hafi hótaðþví að stinga lögreglumenn í andlit, þeir hafi ráðist á hann. Þegar ákærða varsýndur haldlagður hnífur kvaðst hann hafa verið með þennan hníf um nóttina oghafa skaðað sig með honum. Önnur skýrsla var tekinaf ákærða 16. júlí 2015. Var þá borið undir hann hvort hann hafi hótaðlögreglumönnum sem fóru með hann á slysadeild til aðhlynningar um morguninn.Ákærði kvaðst ekki hafa verið á góðum stað þegar hann fór á sjúkrahúsið, hannhafi verið kvalinn og hræddur. Hann kvaðst ekki hafa ætlað að geralögreglumönnunum mein og kannaðist ekki við að hafa hótað þeim.Einnig liggja fyrir eiginskýrslur vitnanna F og K lögregluvarðstjóra og A, C og D lögreglumanna ogframburðarskýrsla vitnanna H, L, J og M en ekki er talin ástæða til að rekja efniþeirra. Þá liggur fyrir ljósmyndaf haldlögðum hnífi, blóðtökuvottorð þar sem fram kemur að blóðsýni var tekiðúr ákærða klukkan 10.19 að morgni 17. nóvember, matsgerð RannsóknastofuHáskólans í lyfja- og eiturefnafræði þar sem fram kemur að niðurstaðaalkóhólrannsóknar blóðsýnis frá ákærða var 1,26‰ og ljósmyndir af áverkum áákærða. Loks liggur fyrir læknisvottorð vegna ákærða, dagsett 10. febrúar 2015og kemur þar fram að ákærði hafi verið brotinn á þremur fingrum og framhandleggvinstri handar, með bólgu og mar á miðjum framhandlegg og mar á vinstriupphandlegg.Framburður ákærða og vitna fyrir dómiÁkærði kvaðst hafa neyttáfengis í umrætt sinn og hafa verið með sjálfsvígshugsanir og hafa sent vinisínum, J, SMS-skilaboð þar sem það hafi komið fram. J hafi svarað og sagt aðhann ætlaði að senda lögreglu til hans og það hafi ákærði ekki viljað, endaorðið fyrir árásum af hendi lögreglu áður. Hann kvaðst halda að hann hafidottið í tröppunum þegar hann fór til dyra og á sama tíma hafi H, sem þá gistihjá honum, einnig verið að fara til dyra. Þegar hann opnaði dyrnar hafilögreglumenn verið fyrir utan og afþakkaði hann aðstoð þeirra og lokað dyrunum.Kvaðst hann halda að þeir hafi síðan bankað aftur og hann opnað.Lögreglumennirnir hafi viljað koma inn á heimilið en hann hafi neitað því ogþegar hann hafi ætlað að loka dyrunum setti annar lögreglumannanna fót millistafs og hurðar þannig að hann gat ekki lokað. Kvaðst ákærði halda að hann hafiþá beitt annarri hendi með því að ýta honum frá og síðan lokað dyrum. Það næstasem hann muni er að hann var laminn, í handlegg og brjóstkassa og úðað síðan áhann tvisvar sinnum. Síðan hafi honum tekist að ýta þeim út og loka dyrunum oghafi hann þá fundið fyrir sviða í andliti og augum. H hafi svo afhent lögreglumönnunumhnífinn. Síðan hafi J, sem var fyrir utan, hringt í hann og beðið hann að komaút og sagði að lögreglan væri þarna og hafi hann farið út, og þá haldið höndumuppi til að sýna að hann væri óvopnaður. Hann hafi síðan verið settur ífangaklefa þar sem hann hafi verið í sex klukkustundir. Það hafi verið blóð útium allt í klefanum, hann hafi sviðið í andlit og hendur vegna úðans og veriðtilfinningalaus bæði í vinstri hendi og vinstri handlegg. Þar hafi verið tekiðúr honum blóð og seint morguninn eftir hafi verið farið með hann á sjúkrahúsiðþar sem læknar sögðu honum að hann væri úr liði á þremur fingrum. Kvaðst hannminna að lögreglumennirnir C og D hafi haldið honum á meðan læknirinn settihann í lið aftur. Síðan hafi verið teknar röntgenmyndir og í ljós kom að hannvar handleggsbrotinn og brotinn á þremur stöðum á fingrum. Síðan var farið meðhann aftur í fangaklefa. Kvaðst ákærði telja aðhann hafi verið með hníf í hægri hendi þegar hann opnaði dyrnar þar sem hannhafði verið að skera sig í vinstri handlegg þegar lögreglan kom. Hann kvaðstlítið muna eftir þessari nótt og hafi hann verið mjög ölvaður. Hann kvaðst ekkiminnast þess að hafa reynt að halda því leyndu fyrir lögreglumönnunum að hannhéldi á einhverju eða að lögregla hafi skipað honum að leggja eitthvað frá sér.Ákærði kvaðst ekki muna hvort öll samskipti hafi farið fram á ensku en gerðiráð fyrir því og kvaðst ekki minnast þess að hann hafi ekki skilið þá. Þákvaðst hann hvorki hafa orðið var við að þeir væru með kylfu eða úða fyrr en hannvar laminn. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa sagt neitt ógnandi viðlögreglumennina eða að hafa hótað þeim. Ákærði sagði að H hefði sagt honum aðhann hafi verið nálægur þegar atvik áttu sér stað milli ákærða og lögreglu enhann hafi verið innandyra á ganginum. Ákærði kvaðst ekki hafa beitt hnífi gegnlögreglumönnunum þessa nótt heldur einungis notað hann til að skera sjálfansig. Borin var undir ákærða ljósmynd af hnífi og kvaðst hann gera ráð fyrir aðþetta væri sá hnífur sem hann hafi notað til að skera sig.Ákærði kveðst verahræddur við lögreglu vegna áreitni hennar og þar sem lögreglumenn hafimargsinnis ráðist á hann og hafi hann áður þurft að leita sér læknishjálparvegna þess. Þá fylgist lögregla með honum. Ákærði kvaðst ekki telja að hannhafi beitt lögreglumennina ofbeldi og sagði að allir þeir áverkar sem hann hafihlotið væru varnaráverkar en hafi hann beitt ofbeldi sé það vegna þess að hannhafi verið mjög óttasleginn. Ákærði kvaðst ekki muna eftir að hafa hótað þvíítrekað að stinga lögreglumennina með hnífi, þar með talið í andlitið. Ákærðisagði að það fyrsta sem hann muni sé að lögreglumennirnir börðu hann með kylfuþar sem hann stóð í ganginum fyrir innan aðaldyrnar. Hann kvaðst halda að hannhafi beðið þá að hætta, hafi öskrað og hafi lyft vinstri hendi í varnarstöðufyrir framan andlitið. Þeir hafi barið hann í vinstri framhandlegg og vinstramegin á brjóstkassa. Á meðan hafi þeir sprautað úða tvisvar sinnum undirframhandlegg hans í andlitið. Ákærði kvaðst verarétthentur. Aðspurður um þann þátt í ákæru að hann hafi beint hnífi ógnandi aðlögreglumönnunum og lagt ítrekað til þeirra með hnífnum kvaðst ákærði ekki munaeftir því. Hann kvaðst telja að hann hafi verið með hnífinn í hægri hendi ogþví hefði hnífurinn ekki átt að vera í sjónlínu lögreglumannanna þegar hannopnaði dyrnar. Ákærði sagði að erfitt sé að opna lásinn á dyrunum og hann haldiað hann hafi aflæst dyrunum með vinstri hendi en notað hægri höndina samtímis áhurðarhúninn. Hafi hann um leið haft hnífinn í hægri hendi hefur þetta ekkiverið auðvelt en mögulegt. Þá sagði ákærði að áður en þessi atvik gerðust hafihann þjáðst af kvíðaröskun og fengið lyf við því. Þá þjáist hann nú afsvefnvandamálum og fái kvíðaköst. Þá hafi hann lokað sig af á heimili sínu, frávinum sínum. Ákærði kvaðst muna eftirþví að hafa farið í læknisskoðun á sjúkrahúsinu. Hann hafi þá verið þreyttur ogóttasleginn og fundið til mikils sársauka og enn fundið fyrir áhrifumvarnarúðans. Hann kvaðst telja að hann hafi verið samvinnuþýður við lögreglu. Hannkvaðst ekki vita hvort hann hafi sagt eitthvað ógnandi við lögreglumennina eðahótað að nefbrjóta þá. Aðspurður hvort hann hafi steytt hnefa í átt aðlögreglumanni á sjúkrahúsinu kvaðst hann gera ráð fyrir að það hafi gerst enþað hafi þá verið með þeirri hendi sem ekki var örkumluð. Þeir hafi sagt viðhann að hann yrði að fara aftur niður á stöð og það hafi hann ekki viljað. Hannkvaðst halda að hann hafi lyft hægri hendi þar sem þeir héldu honum föstum.Hann viti ekki hvort hann hafi kreppt hnefann. Ákærði kvaðst telja að konan sembúi handan götunnar, vitnið L, hafi ekki getað séð það sem gerðist heima hjáhonum þar sem þetta gerðist innandyra. Þá benti ákærði á að þegar þetta gerðisthafi lögreglumenn fyllt út í dyrnar á heimili hans og hafi hún einungismögulega getað séð aftan á þá. Vitnið Blögregluvarðstjóri sagði að í umrætt sinn hafi verið óskað eftir aðstoðlögreglu að Silfurgötu 8a þar sem einstaklingur hafi verið ísjálfsvígshugleiðingum. Hann og vitnið A hafi farið þangað og þegar ákærði kom tildyra hafi hann verið með hníf í vinstri hendi, sem hann hafi reynt að felafyrir þeim fyrir aftan bak, og var hann skorinn á handleggjunum. Síðan fór þaðekki milli mála að ákærði var með hníf en þá hafi hann verið kominn með höndinaniður með lærinu. Þeir hafi boðið honum aðstoð en ákærði ekki þegið hana. Þeirhafi skorað á ákærða að leggja frá sér hnífinn á meðan hann talaði við þá enhann ekki gert það. Ákærði hafi orðið æstur þannig að þeir hafi tekið uppkylfur og varnarúða. Þeir hafi sagt ákærða að ef hann legði ekki frá sérhnífinn yrði þessum búnaði beitt. Á sama tíma hafi þeir báðir heyrt íeinhverjum einstaklingi inni í íbúðinni sem hafi líka skorað á ákærða að leggjafrá sér hnífinn sinn. Vitnið kvaðst hafa verið fyrir aftan A sem hafi staðið nærdyrunum. Þetta hafi svo þróast í það að A sprautaði framan í ákærða úða ogvitnið síðan einnig. Þá hafi ákærði opnað dyrnar og ráðist að þeim með hnífinná lofti, fyrst að A, síðan vitninu. Þeir hafi náð að verja sig með kylfunum enátök hafi orðið við ákærða fyrir utan en síðan hafi ákærði hörfað aðinnganginum og farið inn í anddyrið. A hafi farið á eftir honum og stigið innfyrir þröskuldinn og reynt að ná af honum hnífnum með kylfunni en síðan hafiþeir bakkað út og ákærði þá lokað dyrunum. Vitnið hafi þá kallað á fleiri lögreglumenn og tekiðákvörðun um að vopnast. Hann hafi ásamt tveimur öðrum stillt sér upp fyrirframan húsið. J hafi þá komið og hafi hann hringt í ákærða sem kom út skömmuseinna. Í millitíðinni hafði sá einstaklingur sem var inni með ákærða, H, komiðút með hnífinn og afhent A. Þeir hafi gefið ákærða fyrirmæli um að sleppahnífnum bæði á ensku og á íslensku en ákærði hafi ekki sleppt honum og sagði aðhann mundi ráðast á þá lögreglumenn sem kæmu inn og stinga þá í andlitið.Ástandið á ákærða hafi stigmagnast og hafi hann sífellt orðið æstari og virtistekki taka því vel að lögregla væri komin á staðinn.Vitnið kvaðst hafa reyntað varna því að ákærði lokaði dyrunum með því að setja fótinn inn fyrirþröskuldinn. Þeir voru þá búnir að heyra að annar aðili væri í húsinu, sem þeirvissu ekki hver var, né heldur hver væri hans staða eða ástand og vildu komastað því. Fyrirmælin til ákærða um að leggja frá sér hnífinn hafi verið ítrekuðog honum sagt að annars yrði varnarbúnaði beitt. Þeir hafi fljótlega tekið uppkylfur og hafi haldið þeim í hárri viðbragðsstöðu. Þá séu úðabrúsarnir um 20 smlangir og þeim hafi verið beint að ákærða og honum sagt að þeir væru komnir meðþetta upp og myndu nota þetta. Kvaðst hann telja að ákærði hafi áttað sig á þvíað þeir væru með þessi vopn en hann hafi ekki sýnt nein viðbrögð og ekki róast.Ákærði hafi sagt við þá að fyrsti lögreglumaðurinn sem kæmi inn í húsið yrðistunginn í andlitið. Þetta hafi hann sagt tvisvar eða þrisvar sinnum á ensku oghafi hann verið æstur þegar hann sagði þetta. Þeir hafi verið á verði eftir aðþessi orð féllu og hafi ekkert sótt á ákærða. Varnarúða hafi verið beitt áákærða þegar búið var að skora á hann að leggja frá sér hnífinn og þegar þeirheyrðu í öðrum einstaklingi inni í íbúðinni. Úðanum hafi fyrst verið beitteftir að ákærði hótaði að stinga þá í andlitið. Markmiðið með því var aðafvopna ákærða en hann hafi haldið áfram með þessa hótun eftir að úðanum varbeitt. Ákærði hafi síðan komið út úr húsinu með hnífinn á lofti og hafi þeir þábakkað frá útidyrunum. Eitt þrep sé niður að dyrunum og hafi vitnið rekiðhælinn í það og misst jafnvægið og dottið aftur fyrir sig. Þá hafi ákærðiráðist í áttina að Asem hafi náð að slá ákærða sem hafi þá snúið sér að vitninuog ráðist á hann með hnífinn á lofti og reynt að stinga hann og beindi hnífnumí áttina að andliti hans. Vitnið kvaðst hafa náð að verja sig með kylfunni ogslegið ákærða með henni. Ákærði hafi þá bakkað í áttina að innganginum, ennþámeð hnífinn í hendi. A hafi þá sótt í áttina að honum, ákærði farið inn íanddyrið og hafi A stigið öðrum fæti inn fyrir þröskuldinn og hafi ætlað aðreyna að ná hnífnum af ákærða með kylfunni en ákærði hafi ekki sleppt hnífnumog hafi þeir síðan bakkað út.Vitnið kvaðst hafa séðákærða veitast að A með hnífinn á lofti í áttina að andlitinu á A og því svæði.Þeir hafi verið í hnífavestum sem hafi verið sýnileg. Vitnið sagði aðhnífsblaðið hafi staðið niður úr hnefa ákærða. Árás ákærða hafi verið mjögkröftug og ofsafengin og hafi vitnið virkilega óttast um líf sitt á þessumtímapunkti. Þá sagði vitnið að þegar ákærði beindi hnífnum í áttina að andliti Ahafi A bakkað frá honum og hafi síðan getað haldið honum frá með kylfunni.Vitnið hafi svo náð jafnvæginu og komið til baka og náð einnig höggi á ákærða.Þegar ákærði beindi hnífnum að andliti A hafi A náð að sveigja eða beygja sigfrá og hafi svo bakkað og náð svo að beita kylfunni. Vitnið kvaðst hafa slegiðákærða tvö, þrjú högg með kylfunni, eitt hafi lent á framhandlegg og annað áupphandlegg. Höggin hafi farið í ákærða þeim megin sem hann hélt á hnífnum.Vitnið sagði þá hafa verið yfirvegaða í samskiptum sínum við ákærða miðað viðaðstæður og sagði ákærða hafa verið mjög æstan þegar hann réðst á þá. Kvaðsthann hafa upplifað þetta sem lífshættulega árás á þá báða. Vitnið sagði ákærðahafi verið með hnífinn í vinstri hendi. Þá staðfesti vitnið að ákærði hafihótað því að stinga þá í andlitið og lagt til þeirra í áttina að andliti enekki ógnað þeim á annan hátt með hnífi. Vitnið sagði að sér hefði liðið mjögilla eftir þetta en ekki leitað sér sérfræðiaðstoðar. Vitnið A lögreglumaðursagði lögreglu umrætt sinn hafa borist tilkynning um mann sem væri að veita séráverka. Hann hafi farið á vettvang ásamt vitninu B og þegar ákærði kom til dyrahafi hann virst vera í miklu uppnámi. Vitnið kvaðst hafa staðið nær dyrunum enB verið fyrir aftan hann og hafi hann séð yfir öxl vitnisins. Kvaðst vitniðgera ráð fyrir að ákærði hafi opnað dyrnar með hægri hendi þar sem vinstri höndhans hafi verið fyrir aftan bak. Hafi ákærði beygt sig fram þegar hann opnaðidyrnar og hafi vitnið ekki séð nema 2/3 hluta af líkama ákærða og þá vinstri hliðhans þar sem ákærði hafi að hluta til verið bak við dyrnar. Þeir hafi reynt aðtala við ákærða en vitnið hafi fljótlega séð að hann var með hníf í hendinni oghafi hann sagt B frá því. Síðan hafi vitnið tekið upp varnarúða og sagt ákærðaítrekað, á íslensku, að setja hnífinn frá sér. Ákærði hafi fljótlega farið aðhóta því að stinga þann lögreglumann sem fyrst kæmi inn, í hausinn eðaandlitið, og síðan hafi þeir fengið margar hótanir frá honum, á ensku. Þá hafivitnið farið að skipa ákærða fyrir á ensku og á íslensku. Þá hafi hann hótaðþví að nota úðann ef hann mundi ekki leggja hnífinn frá sér. Ákærði hafi ekkiorðið við því og hafi vitnið á endanum notað úðann á hann og kvaðst hann haldaað B hafi einnig notað úðann á ákærða á svipuðum tíma og hafi þetta ekki virsthafa mikil áhrif á ákærða. Vitnið kvaðst svo hafa tekið upp kylfuna og hótaðákærða því að hann myndi beita henni en ákærði legði ekki hnífinn frá sér.Ákærði hafi skyndilega lokið upp dyrunum og komið út á móti honum með vinstrihöndina á lofti og reyndi að stinga í áttina að vitninu. Vitnið kvaðst hafabakkað mjög hratt til baka og til vinstri og reynt að komast undan hendiákærða. Ákærði hafi verið með „stingandi hreyfingu“ í áttina að honum og hafimarkmið hans verið að stinga í efri hlutann á líkama vitnisins, í brjóstkassannog ofar. Kvaðst hann hafa rétt náð að komast undan högginu og kvaðst telja aðsú hnífsstunga hefði hafnað einhvers staðar í efri hluta hans. Vitnið kvaðsthafa bakkað strax og í sömu andrá byrjað að beita kylfunni á ákærða tvisvar eðaþrisvar sinnum. Markmið hans hafi verið að reyna að hitta hann einhvers staðarí höndina og í efri hluta búksins. Vitnið kvaðst hafa verið með vinstri fótinnmilli stafs og hurðar og komið þannig í veg fyrir að ákærði gæti lokað dyrunumþegar ákærði skyndilega lauk þeim upp. Hann hafi þurft að bakka og hafi þvíekki getað farið hratt yfir og því hafi hann farið til vinstri til að reyna aðkomast undan höggunum. Vitnið sagði hnífinn hafa komið niður úr hnefa þegarákærði stakk í áttina til hans og hafi handarhreyfingin verið niðurvísandi oghandleggur farið niður. Ákærði hafi síðan sveiflað hnífnum í áttina að B semvar fyrir aftan vitnið. Vitnið hafi þá strax komið að hægri hlið ákærða, semhafi snúið að honum, og beitt kylfunni á hægri hlið ákærða sem fór þá á grúfutil að verja höndina fyrir kylfuhöggunum. Hann hafi síðan snúið sér til vinstriog farið í hring og þá enn verið með hnífinn í hendinni. Framhlið ákærða hafiþá snúið að húsveggnum. Ákærði hafi sett höndina á undan sér, með hnífinn íhendinni, og hafi virst vera að þreifa eftir dyrunum. Þá hafi vitnið slegiðkylfunni þvert yfir höndina á ákærða og hafi hann verið að reyna að hitta ámiðbik handarbaksins en hafi greinilega hitt puttana á honum, fyrir ofankjúkur. Ákærði hafi engu að síður náð að halda áfram á hnífnum. Ákærði hafi svoætlað að fara inn og hafi vitnið ætlað að fara á eftir honum og komist innfyrir dyrnar með hægri hliðina en varð svo frá að hverfa. B hafi þá tekiðákvörðun um að þeir mundu vopnast og kallaði út meiri mannskap og náði ískotvopn. Vitnið kvaðst hafa orðið vart við skugga einhvers við vinstri hliðákærða þegar þeir töluðu við hann áður en hann fór út og hafi viðkomandi talaðrólegri röddu við ákærða. Ákærði afhenti síðan þessum manni hnífinn og kom hannút og afhenti lögreglu hnífinn. Þeir hafi svo stillt sér upp fyrir utan húsiðog kvaðst vitnið þá hafa verið hrætt um að ákærði mundi koma hlaupandi út meðhníf. Vitnið J hafi síðan komið og hafi hann hringt í ákærða og hafi náð að fáákærða til að koma út og hafi ákærði verið rólegur þegar hann var handtekinn.Þá sagði vitnið að þegarákærði hafi beint athygli sinni að B og lagt til hans með hnífnum hafi vitniðörugglega beitt kylfunni að lágmarki tvisvar sinnum, áður en ákærði snéri sérundan. Þá hafi hann beitt kylfunni einu sinni þegar ákærði var búinn að snúasér í hálfhring og einu sinni eftir það. Þá sagði vitnið að þegar þeir komuupphaflega að dyrunum á heimili ákærða hafi hann aldrei órað fyrir því að þettamundi gerast og hafi þeir ekki verið undir það búnir að lenda í hnífaárás oghafi brugðið mikið. Sé þetta að hluta ástæða þess að vitnið hafi ákveðið aðhætta að vinna sem lögreglumaður. Kvaðst vitnið telja að hann hafi aldrei fyrrverið í eins mikilli hættu. Nánar aðspurður kvaðstvitnið telja að þegar ákærði opnaði dyrnar hafi B haft víðara sjónarhorn til aðsjá hvort ákærði væri með eitthvað í hendinni sem hann var með fyrir aftan bakþegar hann opnaði dyrnar. Þá kvaðst hann vera viss um að ákærði var með hnífinní vinstri hendi. Ákærði hafi öskrað ítrekað á þá að hann ætlaði að stingalögreglumann í höfuðið eða andlitið. Þegar ákærði var utandyra hafi vitniðreynt að beina höggunum með kylfunni eins ofarlega og hann gat og að síðunni áhonum til að hafa áhrif á höndina sem hann notaði til að leggja til hans meðhnífnum með niðurvísandi handarhreyfingu. Hann kvaðst ekki vita alltaf hvarhann hitti en telja að höggþungi hans hafi ekki verið mikill. Ákærði hafi ekkiverið með hnífinn í hægri hendi en hann hafi með þessu verið að reyna að fá hanntil þess að hætta að leggja með hnífnum með vinstri hendi í áttina að B en súhönd hafi snúið frá vitninu og hafi hann því ekki haft aðgang að henni. Þá hafiákærði sett vinstri höndina yfir höfðuð sér til að verja sig. Kvaðst vitniðtelja að ákærði hafi upphaflega notað hægri höndina til að opna dyrnar og lokaog þess vegna hafi hann verið með hnífinn í vinstri hendi. Kvaðst hann halda aðákærði hafi ekki haft tóm til að skipta um hönd. Þegar ákærði var að ráðast að Bhafi hann snúið hægri hlið að vitninu og þá skýlt sér með hægri hendinni þegarvitnið lagði til hans með kylfunni. Síðan hafi hann séð hnífinn í hendinni ogþá slegið til handarinnar og var þá viss um að hnífurinn mundi fara en þaðgerðist ekki. Þegar ákærði kom út með hnífinn og reyndi að stinga hann fannsthonum ákærði vera að reyna að stinga hann í efri hluta líkamans. Það hafi veriðmesta mildi, eins og hann upplifði þetta, að hann náði að komast undan högginu.Ákærði hafi reynt að stinga niður og hefði vitnið ekki bakkað hefði höggið hafnaðeinhvers staðar í efri hluta líkamans. Hann sé þá að tala um andlit, höfuð ogefri hluta líkamans, sérstaklega hægra megin. Vitnið C lögreglumaðurkvaðst hafa komið að málinu þegar ákærði var að koma út. Ákærði hafi þá virkaðölvaður og í andlegu ójafnvægi. Þegar tekið var blóðsýni úr ákærða í fangaklefahafi hann byrjað að vera með ógnandi tilburði og hótað að stinga vitnið meðsprautunál. Síðar hafi vitnið, ásamt D, farið með ákærða á sjúkrahúsið og varvitnið viðstatt skoðun á ákærða. Þar hafi ákærði endalaust verið að hreyta ílögreglumennina. Þegar ákærða var sagt, að skoðun lokinni, að hann þyrfti aðfara aftur með þeim hafi hann neitað og sagt að hann mundi nefbrjóta hvern þannsem mundi reyna að taka hann og hafi ákærði beint þessu að honum og vitninu D.Þeir hafi þá tekið snögglega hvor í sína höndina á ákærða og leitt hann út íbifreiðina og hafi hann róast niður á leiðinni. Þá hafi hann samfara þessarihótun kreppt hnefa og sett sig í stellingar til þess að vera tilbúinn til aðtaka á móti þeim. Þessi kreppti hnefi hafi frekar beinst að D en vitninu þar semD hafi staðið við hægri hönd ákærða sem þá var kominn í fatla á vinstri hendi.Samskipti þeirra við ákærða hafi farið fram á ensku. Vitnið Klögregluvarðstjóri kvaðst hafa heyrt hluta af símtali J við ákærða. Hann kvaðsthafa heyrt J segja við ákærða, á ensku, eitthvað á þá leið: „Þú reyndir aðstinga þá.“ Vitnið Flögregluvarðstjóri kvaðst hafa orðið var við að J var við heimili ákærða þegarvitnið kom þangað. J hafi verið að tala við ákærða í síma og verið að reyna aðfá hann til að koma út. Stuttu síðar hafi ákærði komið út og hafi hann þá veriðrólegur en virst vera ölvaður. Vitnið D lögreglumaðurkvaðst hafa haft afskipti af ákærða í fangaklefa áður en farið var með hann ásjúkrahúsið. Hann hafi verið rólegur í upphafi en varð svo æstur og vildi faraá sjúkrahúsið til skoðunar. Hann og vitnið C hafi fylgt ákærða á sjúkrahúsið.Þar hafi hann sýnt mikinn mótþróa og hafi ekki viljað hafa lögreglumenninaviðstadda þegar læknir skoðaði hann. Ákærði hafi allan tímann talað um að hannætlaði ekki að fara með þeim aftur á lögreglustöð. Vitnið sagði ákærða hafasagt, á ensku, að hann ætlaði að berja þann sem myndi snerta sig og brjóta áhonum nefið og steytti hnefa í áttina að vitninu. Þeir hafi þá tekið hann ílögreglutök og leitt hann út af sjúkrahúsinu og út í lögreglubifreið. Vitniðsagði að hann hafi talið ákærða vera ógnandi þegar hann viðhafði þessi ummæliog hafi þeir talið að full ástæða væri til að taka hann í tök. Þetta hafi gersteftir að læknisskoðun var lokið og þeir hafi ætlað að flytja hann aftur álögreglustöð. Vitnið hafi staðið hægra megin við ákærða sem hafi sagt: „Sá semsnertir mig, ...ég fer ekki aftur á lögreglustöð, ...snertir mig ég brýt áhonum nefið.“ Síðan hafi ákærði sett hnefann krepptan á loft. Á þessum tímahafi ákærði verið kominn með umbúðir um aðra höndina og hafi hann kreppt þáhönd sem ekki var með umbúðir.Vitnið L kvaðst hafavaknað aðfaranótt mánudagsins 17. nóvember 2014 við mannamál. Síðan hafi húnheyrt sagt: „Leggðu frá þér hnífinn,leggðu frá þér hnífinn. Put down the knive Brad.“ Henni hafi brugðið við þettaog þá litið út um gluggann og séð tvo lögreglumenn standa við hús ákærða. Annarþeirra hafi verið að biðja ákærða um að leggja frá sér hnífinn. Hún hafi þáhætt að fylgjast með atvikum en nokkrum mínútum seinna heyrt aðlögreglumaðurinn var enn að segja: „Leggðu frá þér hnífinn.“ Ákærði hafi þásagt: „I will stab you. I will focking stab you.“ Síðan hafi ákærði ráðist tilatlögu eða stokkið út með eitthvað í hendinni „sem fer upp“. Þá hafi annarlögreglumaðurinn dottið en hinn slegið ákærða með kylfu í höndina. Ákærði hafisvo farið aftur inn og þeir eitthvað reynt að tala við hann og reynt að banka.Síðan hafi fleiri lögreglumenn komið og hafi þeir verið í fullum skrúða, það ermeð skjöld og hjálm. Þeir hafi reynt að tala við ákærða og biðja hann að komaút en engin viðbrögð fengið. Á einhverjum tímapunkti hafi vitnið H, sem einnigbjó þarna, komið út. Einnig hafi vitnið J hjálpað lögreglu að tala við ákærða.Hann hafi hvatt ákærða til að koma út og hafi það verið fyrir hans tilstuðlansem ákærði kom út. Vitnið kvaðst hafa verið statt í svefnherbergi sínu þegarþað heyrði þetta og sá. Það herbergi snúi að götunni og hafi hún verið meðgalopinn gluggann og hafi heyrt mjög greinilega. Kvaðst vitnið halda að áttaeða tíu metrar hafi verið þaðan að staðnum þar sem atvik gerðust og þessa nótthafi verið gott veður og logn.Vitnið kvaðst muna aðákærði sagði: „I will stab you in the face.“ Þá kvað vitnið halda að þessiummæli hafi komið þrisvar fram hjá ákærða. Lögreglumaðurinn hafi sagt ákærða aðleggja frá sér hnífinn og þá nefnt nafn ákærða og þá hafi ákærði hótað þessu.Vitnið kvaðst ekki hafa horft á atvikin allan tímann heldur kíkt af og til oghafi fundist þetta vera óþægilegt. Aðspurt sagði vitnið að miðað við það semhún heyrði hafi ákærði virst vera svolítið æstur og örvæntingarfullur og hafihún fundið til með honum. Kvaðst hún hafa verið hissa á því hvaðlögreglumennirnir sögðu ákærða oft að leggja frá sér hnífinn. Hafi hennifundist lögregla og vinir ákærða vinna vel saman í málinu. Ákærði hafi svokomið út, kropið niður og sett hendur upp fyrir höfuð, eins oglögreglumennirnir sögðu honum að gera, og hreytti blótsyrðum í lögreglu. Vitniðkvaðst ekki muna hvora höndina ákærði hafi verið með á lofti þegar hannveittist að lögreglumönnunum. Aðspurt um lýsingu í umrætt sinn sagði vitnið aðþað hafi verið ljós úti, en það myndi ekki hvort anddyrið hjá ákærða hafi veriðsérstaklega upplýst en kvaðst ekki minnast þess að hún hafi átt í vandræðum meðað sjá vegna myrkurs.Vitnið J sagði ákærða,sem sé vinur hans, hafa verið illa haldinn aðfaranótt 17. nóvember 2014, búinnað drekka mikið og var þungur og hafi vitnið talið sér trú um að hann væri aðreyna að taka líf sitt. Hann hafi því beðið lögreglu um aðstoð og tók fram aðhann vildi að þeir færu óeinkennisklæddir þar sem ákærði vantreysti lögreglu.Hann kvaðst hafa reynt að vera sem mest í símasambandi við ákærða því að þávissi hann að ákærði væri á lífi, en eftir einhvern tíma hafi ákærði hætt aðsvara honum og þá hafi vitnið hlaupið út. Þegar hann kom að heimili ákærða hafilögregla verið þar. Vitnið kvaðst hafa hringt í ákærða þegar hann var fyrirutan heimili ákærða og hafði hann þá ekki upplýsingar um hvað hafði gerst áundan en vissi þó að það höfðu verið átök. Hafi hann á endanum fengið ákærðatil að koma út og var viðstaddur þegar ákærði kom út úr húsinu og lögreglanhandtók hann. Aðspurður um ástand lögreglumannanna almennt sagði vitnið þá hafaverið „tilbúna í þetta“ og æsta í að fá að gera eitthvað. Vitnið N læknir kvaðsthafa komið á lögreglustöðina um morguninn til að taka blóðprufu af ákærða semþá var í klefa. Ákærði var greinilega reiður og í miklu uppnámi og leið illa.Vitnið kvaðst strax hafa séð að ákærði var slasaður, brotinn á a.m.k. tveimurfingrum og framhandlegg, en ekkert vandamál hafi verið að taka úr honumblóðprufu. Vitnið sagði að brotin hafi sem slík ekki verið hættuleg heilsuákærða þótt það sé auðvitað sárt að vera brotinn. Vitnið H kvaðst hafa búiðhjá ákærða þegar atvik gerðust. Hann hafi heyrt þegar bankað var á dyrnar og þáfarið fram og séð ákærða á leið til dyra og séð hann detta niður stigann. Síðanhafi ákærði opnað og fyrir utan voru lögreglumenn sem voru að athuga með hann.Þeir sjá að ákærði er með hníf og öskra á hann að láta hnífinn niður. Svoverður einhver ágreiningur milli þeirra og ákærða. Síðan verða áflog og ákærðistekkur út um dyrnar en vitnið hafi þá verið búið að snúa sér frá. Ákærði komisíðan til baka inn og reyndi að loka dyrunum en þá hafi lögreglumaður komið áeftir honum og farið að lemja ákærða með kylfu í vinstri höndina en ákærði hafiþá haldið á hnífnum í hægri hendi. Vitnið kvaðst hafa heyrt beinin í ákærðabrotna. Á endanum hafi ákærði náð að koma lögreglumanninum út aftur og lokadyrunum. Þá hafi bæði verið búið að lemja ákærða og úða á hann piparúða. Vitniðhafi þá róað ákærða niður og tekið hnífinn af honum og komið til lögreglu.Lögreglumaður hafi spurt vitnið hvort það væru fleiri vopn í húsinu og hafihann sagt þeim að ákærði væri í eldhúsinu en hann hafi ekki talið að ákærðimundi nota það sem þar var. Lögreglumennirnir hafi svo vikið frá en þá hafi J,vinur ákærða, komið og hann hafi á endanum náð að sannfæra ákærða um að komaút. Vitnið sagði ákærða hafa verið vel ölvaðan og í algjöru uppnámi, en kvaðstekki hafa séð áverka á ákærða fyrr en lögreglumennirnir nefndu hníf og hafihann þá einnig séð hnífinn. Um var að ræða vasahníf með 4-5 sm blaði og héltákærði hnífnum útréttum niður með síðu þegar lögregla sagði honum að sleppahnífnum. Hann kvaðst hafa heyrt ákærða segja einu sinni áður en hann stökk út:„If you come in here I will stab you in the face“. Vitnið kvaðst hafa snúið sérfrá ákærða og lögreglumönnunum en þá heyrt skarkala og litið aftur við og þáhafi ákærði verið að stökkva út en vitnið hafi ekki séð hvað gerðist þar. Hannkvaðst hafa heyrt að lögreglumennirnir hafi verið að reyna að halda ákærða frásér og heyrt þá gefa ákærða fyrirmæli um að setja niður hnífinn. Ákærði hafialltaf verið að útskýra af hverju hann væri með hníf, það væri af því að hannværi að meiða sig, en lögreglumennirnir hafi alltaf gripið fram í. Aðspurðurhvort ákærði hafi verið ógnandi í garð lögreglu svaraði vitnið „jú“ og sagði aðákærði hafi ekki verið hress með að þeir væru þarna. Vitnið kvaðst ekki hafaséð ákærða beina hnífi að lögreglumönnunum en kvaðst hafa séð lögreglumenn notaúða á ákærða og hafi þeir sprautað á hann þegar hann reyndi að loka á þá.Vitnið sagði lögreglumennina alltaf hafa talað íslensku við ákærða. Vitniðkvaðst ekki hafa verið í neinni hættu þegar atvik gerðust og taldi ekki aðlögregla hafi haft ástæðu til að ætla að hann væri í hættu en hann hafi staðiðvið hlið ákærða í dyragætt þegar ákærði opnaði og hafi lögreglumennirnir séð hannvel allan tímann. Hann hafi verið hægra megin við ákærða séð frálögreglumönnunum. Vitnið sagði að sér hafi fundist lögreglumennirnir veraæstir. Aðspurt kvaðst vitnið telja að ákærði hafi fengið 5-6 högg og þau hafikomið öll frá sama lögreglumanni eftir að ákærði var kominn inn aftur. Sú höndákærða sem hann var með hnífinn í var þá á bak við dyrnar. Aðspurt sagði vitniðað ljós hafi logað í anddyri og á gangi auk þess sem það hafi logað á útiljósi.Aðspurt á hvaða tímapunkti vitnið hafi snúið sér frá ákærða og lögreglumönnunumanddyrinu sagði vitnið að þá hafi lögreglumennirnir verið búnir að segja ákærðaað setja hnífinn niður og ákærði verið búinn að hóta þeim. VitniðO læknir kvaðst hafa séð ákærða á slysadeild um klukkan tíu um morguninn.Ákærði hafi fyrst verið æstur en hafi fljótlega róast og bar merki þess að veraundir áhrifum áfengis eða vímuefna. Ákærði var slasaður, með mar á brjóstkassa,upphandlegg og framhandlegg, brotinn á framhandleggsbeini og þremur langfingrumvinstri handar og með húðrispur á báðum framhandleggjum. Vitnið P læknir kvaðsthafa komið í fangageymslu til ákærða. Hann sagði að útkallið hafi verið sérminnisstætt. Stemmningin á lögreglustöðinni hafi verið þannig að það virtistsem öllum sem komu að málinu hafi verið mjög brugðið. Því sem gerðist hafiverið lýst fyrir honum og virtust þeir sem fóru heim til ákærða til að aðstoðahann hafa upplifað mikla ógn. Vitninu fannst ástand ákærða ekki vera í samræmivið þessa forsögu. Hann var talsvert ölvaður og hafi gert að gamni sínum viðvitnið eiginlega allan þann hátt í klukkutíma sem vitnið var hjá honum. Þettahafi virkað undarlega á vitnið. Vitnið kvaðst hafa metið það svo að það væriliðhlaup í fingrum ákærða, sem svo reyndist vera brot, en seinna kom einnig íljós að hann var brotinn á handlegg. Vitnið sagði ákærða ekki hafa verið þjáðan.Niðurstaða fyrsta ákæruliðar ákæru ríkissaksóknaraÁkærði neitar söksamkvæmt fyrsta ákærulið ákæru ríkissaksóknara. Byggir ákærði vörn sína á þvíað lögregla hafi að æst ákærða upp með þeim afleiðingum að hann hafi misststjórn á skapi sínu en aðrar leiðir hafi verið færar til að nálgast hann. Þátelur ákærði að ekki verði byggt á framburði lögreglumannanna þar sem þeir hafiá sama tíma og þeir gáfu framburð sinn verið sjálfir undir kæru vegna sömuatvika. Bæði af framburði ákærða og vitna, og samkvæmt niðurstöðu rannsóknar áblóðsýni sem tekið var um fimm klukkustundum síðar, má ráða að ákærði varverulega ölvaður þegar atvik gerðust. Framburður hans bendir til þess að hannmuni glefsur úr atburðarásinni. Hann kvaðst minnast þess að hafa verið með hnífog að lögregla hafi beitt á hann úða og kylfum og að hann hafi ekki viljað fálögreglu inn heima hjá sér. Þá bendir bæði framburður ákærða og vitna til þessað andlegt ástand ákærða hafi verið slæmt þegar atvik gerðust. Ákærði kvaðsttelja að hann hafi haft hnífinn í hægri hendi þegar atvik gerðust og rökstuddiþað með því að hann hefði verið að skera sig á vinstri hendi þegar lögregla komog taldi að hnífurinn hafi ekki átt að vera í sjónlínu þegar dyrnar voruopnaðar. Fær þessi framburður ákærða stuðning í framburði vitnisins H en er íandstöðu við framburð lögreglumannanna A og B sem báru um að ákærði hafi hafthnífinn í hægri hendi. Af ljósmyndum af vettvangi má ráða að útidyrnar áheimili ákærða hafi opnast til hægri séð frá þeim sem er innandyra. Samrýmistþessi framburður ákærða því illa aðstæðum þar sem ólíklegt er að lögreglumennhefðu séð hnífinn þegar ákærði opnaði dyrnar hafi hann haft hann í hægri hendi.Vitnin A, B og H eru hins vegar sammála um að lögreglumennirnir hafi fljótlegaséð hnífinn. Með vísan til þess telur dómurinn sannað að ákærði hafi verið meðhníf í vinstri hendi þegar atvik gerðust en ekkert er fram komið sem bendir tilþess að hann hafi á einhverjum tímapunkti fært hann á milli handa sinna. Framburður vitnanna B ogA fyrir dómi um atvik er skýr og stöðugur og í samræmi við þær lýsingar semkoma fram í skýrslum þeirra á rannsóknarstigi. Þeir lýstu því að ákærði hefðikomið til dyra og þeir þá séð að hann var með hníf í vinstri hendi sem hannupphaflega reyndi að fela á bak við sig. Þeir lýstu því að þeir hafi ítrekaðgefið ákærða fyrirmæli um að setja hnífinn frá sér og þegar ákærði hafi ekkihlýtt þeim fyrirmælum hafi þeir sagt honum að ella mundu þeir beita á hann varnarúðaog kylfum. Þeir hafi beitt úðanum eftir að ákærði hótaði að stinga þá íandlitið. Þá hafi ákærði stokkið út og reynt að stinga lögreglumennina, fyrst Aog síðan B, en hörfað inn eftir að lögreglumenn beittu kylfum á hann. Báðirlögreglumennirnir báru um að þeir teldu að ákærði hafi beint hnífslagi sínu íáttina að efri hluta líkama þeirra en þeir hafi náð að forða sér undan því. Þaðhafi ákærði gert þannig að hann reiddi vinstri höndina upp og hafi hnífurinnstaðið úr hnefa hans og hafi hann látið höndina ganga niður eftir því sem hannreyndi að stinga þá. Lögreglumennirnir báru einnig um þessa háttsemi ákærðagagnvart hvor öðrum. Þá upplifðu þeir báðir atlöguna sem alvarlega og að þeirhafi naumlega sloppið undan hnífslögum ákærða. J hafi bakkað og fært sig tilvinstri til að forða sér frá lagi ákærða en B hafi beygt sig auk þess sem þeirhafi beitt kylfunum.Framburðurlögreglumannanna fær stoð í framburði vitnisins L en hún bar um að hún hafi séðatvik frá glugga á heimili sínu sem er skammt frá heimili ákærða og þá séðlögreglumennina bakka undan ákærða þegar hann kom út úr anddyrinu, með eitthvaðí hendi, og hafi þá annar lögreglumannanna dottið. Þá hafi hún heyrt ákærðaítrekað hóta því að stinga þá, m.a. í andlit. Er framburður L í fullu samræmivið framburð lögreglumannanna svo langt sem framburður hennar nær. Þá barvitnið H einnig um að hafa heyrt ákærða hóta lögreglumönnunum á sama hátt, séðákærða stökkva út um dyrnar og heyrt lögreglumennina segja við ákærða, þegarhann var úti, að setja hnífinn niður og sagði að þá hafi lögreglumennirnirverið að halda ákærða frá sér. Skömmu síðar hafi ákærði verið kominn til baka íanddyrið, og var þá enn með hnífinn, og lögreglumennirnir hafi svo komið áeftir honum og hafi annar þeirra þá beitt kylfu á ákærða. Eins og á stendur verðurekki talið að það rýri trúverðugleika lögreglumannanna B og A að þeir vorukærðir fyrir ólögmæta valdbeitingu vegna sömu atvika en mál það var fellt niður15. apríl 2015. Telja verður sannað með framburði lögreglumannanna, sem færstoð í framburði vitnanna L og H, að ákærði hafi reynt að stingalögreglumennina með hnífi í efri hluta líkama þeirra en ósannað að ákærði hafilagt oftar en einu sinni til hvors þeirra. Þá telst sannað með framburðiframangreindra aðila að ákærði hafi hótað lögreglumönnunum ítrekað að stinga þáí m.a. andlitið. Ekki liggur hins vegar fyrir að ákærði hafi beint hnífiógnandi að lögreglumönnunum utan þess þegar hann reyndi að stinga þá en afframburði lögreglumannanna og vitnisins H verður helst ráðið að ákærði hafifram að þeim tíma fyrst haft hnífinn fyrir aftan bak en síðan niður með síðu.Verður ákærði því sýknaður af þeim hluta ákærunnar. Í ákæru er háttsemiákærða talin varða við 2. mgr. 218. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaganr. 19/1940 og 1. mgr. 106. gr. sömu laga. Með þeirri háttsemi sinni að beinahnífslagi í áttina að lögreglumönnunum verður að telja að ásetningur ákærðahafi staðið til þess að valda þeim líkamstjóni. Hnífur sá sem ákærði beitti íatlögunni var með um 5 sm löngu blaði. Telja verður að hann sé hættulegt tæki ískilningi 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Í ákæru er verknaðnum, hvaðvarðar brot gegn 2. mgr. 218. gr., lýst sem tilraunarverknaði, sbr. 20. gr.almennra hegningarlaga. Engir áverkar hlutust af atlögum ákærða og verður aðtelja mildi að lögreglumönnunum tókst að víkja sér undan hnífslagi ákærða. Þáliggur fyrir að lögreglumennirnir voru að sinna starfi sínu þegar ákærðiveittist að þeim og að ákærða var ljóst að um lögreglumenn var að ræða. Meðvísan til alls framangreinds telur dómurinn sannað að ákærði hafi gerst sekurum þá háttsemi sem lýst er í fyrsta ákærulið að því undanskildu sem hér aðframan er rakið. Eru brot ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Niðurstaða annars ákæruliðar ákæru ríkissaksóknaraÁkærði neitar söksamkvæmt öðrum ákærulið ákæru ríkissaksóknara og byggir hann vörn sína á því aðósannað sé að hann hafi framið brotið. Framburð ákærða er helst hægt að skiljasvo að hann muni ekki hvort hann hafi sýnt af sér þá háttsemi sem hann erákærður fyrir en skýrt kom fram í framburði hans að hann var ósáttur við þá ætlunlögreglumannanna að flytja hann á ný á lögreglustöð af sjúkrahúsinu. Þá lýstihann mikilli vanlíðan sinni í umrætt sinn. Einnig bendir framburður vitna tilþess að ákærði hafi verið ölvaður og í uppnámi þessa nótt og hafi hannsérstaklega tekið afskipti lögreglumannanna illa upp. Í ákæru er brot ákærðatalið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Framburðurlögreglumannanna D og C er samhljóða um að ákærði hafi, á sjúkrahúsinu, hótaðað nefbrjóta þá og að ákærði hafi samhliða steytt hnefa í átt að D Sú lýsingvitnanna styður það að ætlun ákærða hafi með því verið sú að ógnalögreglumanninum enn frekar eða leggja áherslu á hótunina. Þá bar D um að hannhafi talið þessa hegðun ákærða ógnandi. Fyrir liggur að lögreglumennirnir voruað sinna starfi sínu í umrætt sinn og að ákærða var ljóst að um lögreglumennvar að ræða. Þrátt fyrir þær aðstæður sem ákærði var í þegar atvik gerðust,þ.e. hann var slasaður á sjúkrahúsi, í haldi lögreglu, verður með vísan tilástands hans og þeirra atvika sem á undan gerðust að ætla að hegðun hans hafiverið til þess fallinn að valda ótta hjá lögreglumönnunum. Með vísan tilframangreinds telur dómurinn sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemisem lýst er í öðrum ákærulið og er brot ákærða réttilega heimfært tilrefsiákvæða í ákæru.VÁkærði er fæddur árið1980. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur hann ekki áður verið dæmdurtil refsingar. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106.gr. og 2. mgr. 218. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Umákvörðun refsingar fer eftir refsimörkum 2. mgr. 218. gr. almennrahegningarlaga. Brot þau sem ákærði er ákærður fyrir í ákæru ríkissaksóknara oghefur nú verið sakfelldur fyrir eru alvarleg og beinast að lögreglumönnum semvoru að sinna skyldustörfum sínum sem fólust upphaflega í því að veita ákærðaaðstoð vegna vanlíðunar hans. Ákærði lýsti því ítrekað fyrir dómi að hannóttaðist lögreglu. Af framburði vitna má ráða að ákærði var í miklu uppnámiþessa nótt og virðist sem hann hafi verið kominn í það ástand áður en afskiptilögreglu byrjuðu og lítur dómurinn til þess við ákvörðun refsingar, sbr. 7.töluliður 1. mgr. 70. gr. laganna. Auk framangreinds er einnig við ákvörðunrefsingar litið til 77. gr. almennra hegningarlaga, þess að ákærði er meðhreint sakavottorð og alvarleika og umfangs þeirra brota sem ákærði hefur veriðsakfelldur fyrir, sbr. 1. og 3. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.Með hliðsjón af þeirri háttsemi sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrirþykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði en fresta skalfullnustu sex mánaða af refsingunniog falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr.almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.Með vísan til 6. og 7.mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni eru gerð upptæk tilríkissjóðs tvær kannabisplöntur, 4,09 grömm af maríhúana, hitablásari, lampi ogtvö ljós (skv. munaskrá nr. 104919), grammavog, mulningskvörn og þrírplastpokar (skv. munaskrá nr. 106988).VIÍ ákæru er getið umbótakröfur A og B, hvor að fjárhæð 300.000 krónur auk vaxta oglögmannskostnaðar. Bótakrefjendur byggja kröfu sína á 26. gr. skaðabótalaga nr.50/1993 og vísa til þess að um sé að ræða ólögmæta meingerð gegn þeim sem unninhafi verið af ásetningi og valdið þeim miska, sbr. b-lið ákvæðisins. Ákærðibyggir vörn sína á því að bótakrefjendur hafi, sem lögreglumenn, þurft að takaákveðnum áföllum í starfi. Er því hafnað að slík sjónarmið eigi, eins og ástendur, að leiða til sýknu ákærða af bótakröfum. Árás ákærða á bótakrefjendurvar alvarleg og mildi var að ekki hlaust af líkamstjón. Þá lýstu þeir því báðirað þeir hafi talið sig vera í bráðri hættu þegar ákærði lagði til þeirra meðhnífnum. Þá var ákærði áður búinn að hóta atlögunum. Telur dómurinn að skilyrðibóta samkvæmt 26. gr. séu fyrir hendi og verður ákærði því dæmdur til að greiðabótakrefjendum, hvorum um sig, 150.000 krónur í miskabætur auk vaxta eins ognánar greinir í dómsorði. Bótakrafa var fyrst birt fyrir ákærða viðþingfestingu málsins 21. október 2015 og miðast upphafstími dráttarvaxta viðþað tímamark, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá greiðiákærði bótakrefjendum hvorum um sig 120.000 krónur vegna lögmannsaðstoðar, aðmeðtöldum virðisaukaskatti.VIIEftir úrslitum málsins,sbr. 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, ber að dæma ákærðatil greiðslu alls sakarkostnaðar, samtals 958.913 krónur. Til sakarkostnaðarteljast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonarhrl., sem eru hæfilega ákveðin 800.000 krónur, og hefur þá verið tekið tillittil virðisaukaskatts, útlagður kostnaður verjandans, 89.574 krónur, og annarsakarkostnaður er til féll vegna rannsóknar málsins samkvæmt yfirliti ákæruvalds,69.339 krónur. Vegna anna dómara hefuruppkvaðning dómsins dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga ummeðferð sakamála. Af hálfu dómara og málflytjenda var ekki talin þörf á aðmálið yrði flutt að nýju.Af hálfu ákæruvaldsflutti mál þetta Daði Kristjánsson saksóknari.Dóm þennan kveður uppSigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.D Ó M S O R Ð:Ákærði, Bradley JamesHouldcroft, sæti fangelsi í níu mánuði en fresta skal fullnustu sex mánaða af refsingunni og fallihún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennrahegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.Upptækt er gert tilríkissjóðs tvær kannabisplöntur, 4,09 grömm af maríhúana, hitablásari, lampi,tvö ljós, grammavog, mulningskvörn og þrír plastpokar.Ákærðigreiði allan sakarkostnað málsins, 958.913 krónur, þar með talin málsvarnarlaunskipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 800.000 krónur, ogferðakostnað verjandans, 89.574 krónur.Ákærði greiði A 150.000krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. nóvember2014 til 21. nóvember 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömulaga frá þeim degi til greiðsludags, og 120.000 krónur í málskostnað.Ákærði greiði B 150.000krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. nóvember2014 til 21. nóvember 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömulaga frá þeim degi til greiðsludags, og 120.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 342/2007 | Líkamsárás Skaðabætur | H var gefið að sök að hafa slegið A með glerflösku í andlitið, en við þetta hefði flaskan brotnað með þeim afleiðingum að A hlaut tvo alldjúpa skurði fyrir ofan vinstra auga. Fyrir Hæstarétti var því lýst af hálfu H að hann undi niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu að öðru leyti en því að hann neitaði að hafa slegið A í andlitið með glerflösku. Með vísan til framburðar tveggja vitna og vottorð læknis var talið sannað að H hefði slegið A með glerflösku. Hins vegar þar sem aðeins annað vitnið bar að flaskan hefði brotnað þótti það ósannað. H var ekki talinn eiga sér neinar málsbætur og þegar þess var gætt að hann hefði neitað öllum sakargiftum við rannsókn málsins og fyrir héraðsdómi var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að H yrði gert að greiða A skaðabætur og sæta fangelsi í sex mánuði. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. júní 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða A 390.921 krónu með vöxtum eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi. Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og bætur lækkaðar. Fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu ákærða að hann uni niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu að öðru leyti en því að hann neiti að hafa slegið A í andlitið með glerflösku. Í ákæru er því lýst að flaskan hafi brotnað við atlögu ákærða. Ekki er öðru til að dreifa um það en framburði eins vitnis. Telst þetta því ósannað. Með þessari athugasemd verður fallist á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða. Hann á sér engar málsbætur og neitaði öllum sakargiftum við rannsókn málsins og fyrir héraðsdómi. Að þessu gættu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Ákærði, Halldór Egill Kristjánsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 331.884 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur. Mál þetta, sem dómtekið var 7. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 13. desember 2006 á hendur Halldóri Agli Kristjánssyni, kt. 170376-5799, Andrésbrunni 14, Reykjavík, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 20. apríl 2006, á veitingastaðnum Hressingarskálanum í Austurstræti, Reykjavík, slegið A með glerflösku í andlitið, en við þetta brotnaði flaskan með þeim afleiðingum að A hlaut tvö 2 sm löng og alldjúp skurðsár á vinstri augabrún og varð að sauma hvort sár með 6 til 7 sporum. Þetta er talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 390.921 króna auk vaxta frá 20. apríl 2006, en síðan dráttarvaxta frá 2. desember 2006 til greiðsludags, samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001. Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði felldur á ríkissjóð. Samkvæmt skýrslu lögreglu var lögreglumaður á vakt á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss aðfaranótt fimmtudagsins 20. apríl 2006. Fram kemur að kl. 06.28 hafi A kom á deildina. Í skýrslunni er rakið að A hafi verið blóðugur og með tvo skurði fyrir ofan vinstra auga. Þá hafi augað verið bólgið. Hefur lögreglumaður skráð eftir A að hann hafi verið á dansgólfi veitingastaðarins Hressingarskálans í Austurstræti í Reykjavík. Með honum á dansgólfinu hafi verið bróðir A, kona bróður síns og vinkona hennar. Hafi A ekki vitað fyrr en maður hafi gengið að honum og slegið hann einu sinni. Hafi A ekki verið viss um hvort maðurinn hafi verið með flösku í hendi eða hvort maðurinn hafi einungis notað hnefa. Eftir höggið hafi fólk á staðnum gengið á milli þeirra. Hafi A lýsti því að hann hafi þekkt árásarmanninn sem Halldór, ákærða í máli þessu, eiganda tiltekins fyrirtækjareksturs. Ekki hafi A vitað af hverju nefndur Halldór hafi slegið sig. A mætti á lögreglustöð næsta dag og lagði fram kæru á hendur ákærða. Við það tækifæri greindi A svo frá að hann hafi farið á veitingastaðinn Hressingarskálann í Austurstræti aðfaranótt fimmtudagsins 20. apríl 2006. Með honum í för hafi verið bróðir A og kona bróður A. A kvaðst hafa neytt áfengis þessa nótt en ekki hafa verið ofurölvi. Á dansgólfi staðarins hafi A hitt fyrir ákærða. Kvaðst A hafa þekkt hann þar sem ákærði hafi verið meðeigandi að fyrirtæki sem A hafi nýtt sér í sambandi við rekstur á eigin fyrirtæki. Kvað A þau viðskipti hafa verið án vandkvæða og A ekki kunnugt um nein ágreiningsmál vegna þeirra. Hafi A kastað kveðju á ákærða á dansgólfinu og spurt hann hvernig gengi. Um klukkustund hafi liðið frá því A hafi komið inn á staðinn þar til hann hafi orðið fyrir árásinni. Hafi hann verið búinn að dansa nokkrum sinnum á dansgólfinu og þá m.a. við B. A hafi síðan staðið úti í horni á dansgólfinu og snúið að bróður sínum. Hafi ákærði þá komið á vinstri hlið A og hafi hann slegið A þungt högg á höfuðið, líklegast með flösku. Höggið hafi lent vinstra megin á enni við augabrún. Einungis hafi verið um eitt högg að ræða. Sprungið hafi fyrir og mikið blætt. Hafi ákærði verið rifinn frá af einhverju fólki á staðnum. Ekki kvaðst A vita hvað orðið hafi af ákærða. Hafi B, sem ekki hafi verið búin að drekka áfengi, ekið A upp á slysadeild. Á slysadeild hafi allmörg spor verið tekin til að loka tveim sárum við vinstri augabrún A. Er fært í skýrsluna að A sé við skýrslugjöfina með sáraumbúðir við augað og með áberandi glóðarauga. Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu fimmtudaginn 2. nóvember 2006. Eftir að honum hafði verið kynnt kæruefnið kvaðst ákærði ekki kannast við umrætt atvik ,,í fljótu bragði, en það er langt síðan þetta var.” Kvaðst ákærði muna eftir að hafa farið nokkrum sinnum á veitingastaðinn Hressingarskálann í Austurstræti, en ekki kvaðst ákærði kannast við að hafa lent í átökum við neinn. Undir ákærða var borin lýsing er A og vitni gáfu á atvikum hjá lögreglu. Kvaðst hann eftir sem áður ekki kannast við atvikið. Er undir hann var borin lýsing B á atvikum hjá lögreglu, þar sem hún bar m.a. að ákærði hafi lamið A, kvaðst ákærði ekki hafa farið út með henni. Fyrir dómi greindi ákærði svo frá að hann kannaðist við að hafa verið á veitingastaðnum Hressingarskálanum í Austurstræti í Reykjavík aðfaranótt fimmtudagsins 20. apríl 2006. Kvaðst ákærði muna talsvert eftir atvikum þessarar nætur. Hann hafi ekki lamið A í andlitið með flösku, svo sem honum væri gefið að sök, né hafi hann séð einhverja aðra gera slíkt hið sama. Ákærði kvaðst hafa komið á veitingastaðinn um kl. 2.00 um nóttina, en honum samferða hafi verið B og C. Þá kvaðst ákærði kannast við A, en ákærði hafi einhverju sinni unnið verk fyrir A. Einnig kvaðst ákærði vita hver D, bróðir A væri. Kvaðst ákærði muna eftir að hafa hitt A stutt á staðnum og hafi engin leiðindi verið á milli þeirra. Kvaðst ákærði hafa yfirgefið staðinn um kl. 4.00 til 4.30 um nóttina. Ákærði kvaðst hafa verið ölvaður um nóttina. Hafi hann dansað eitthvað inni á staðnum. Þá hafi hann hitt tiltekna kunningja sína á staðnum, þá F, G og H. Kvaðst ákærði ekki hafa munað eftir kvöldinu er hann hafi gefið lögregluskýrslu vegna málsins, en hafa rifjað það upp eftir að málið hafi komið fyrir dóminn. Væri það ástæða þess hvernig hann hafi borið við skýrslugjöf hjá lögreglu. A bar fyrir dómi um atvik í aðalatriðum með sama hætti og er hann haf skýrslu hjá lögreglu. Kvaðst A hafa verið að dansa við B á dansgólfinu um nóttina. Hafi hann drukkið áfengi þessa nótt en ástand hans samt sem áður verið eðlilegt. Hafi ákærði gengið að A og slegið hann í höfuðið. Á þeirri stundu hafi A snúið að hálfu að bróður sínum og að hálfu á móti ákærða, sem hafi komið aðvífandi. Hafi A séð ákærða rétt áður en ákærði hafi slegið A. Um hafi verið að ræða eitt högg og hafi A ekki tekið eftir því hvort flaska hafi verið notuð. Hann hafi hins vegar séð gler er hann hafi snúið sér að ákærða. Hafi A fallið í gólfið við höggið. Bróðir A hafi þá ætlað að rjúka í ákærða. Því hafi hins vegar verið afstýrt. Ákærði hafi horfið á brott og B ekið A, D og E á slysadeild. A kvaðst ekki hafa þekkt B fyrir þennan atburð. Hafi hann verið frá vinnu eftir atburðinn, en hann hafi fengið tvo slæma skurði á höfuðið. Sárið grói vel, en lýtalæknir hafi greint A frá því að ekkert væri unnt að aðhafast varðandi skurðina fyrr en ári eftir að áverkinn hafi komið til. D kvaðst hafa verið að skemmta sér umrætt sinn með kærustu sinni, E, og bróður sínum. Hafi D drukkið áfengi um kvöldið og nóttina en ekki orðið mjög ölvaður. Á veitingastaðnum Hressingarskálanum hafi D séð mann er hann hafi kannast við. Viðkomandi hafi verið að vinna hjá tilteknu fyrirtæki sem hafi tekið að sér verk á vinnustað A. D hafi ekkert rætt við manninn, einungis kastað kveðju á hann, en A heilsað honum og rætt lítillega við hann. D, A og E hafi einhverju síðar verið á dansgólfinu og verið búin að vera þar um stund. Hafi vinkona mannsins, B, dansað við D og A. Þá hafi viðkomandi maður komið aðvífandi og slegið A í höfuðið með flösku sennilega undan bjór sem maðurinn hafi verið með í hendi. Um hafi verið að ræða eitt högg. Hafi atburðarásin átt sér stað beint fyrir framan D og hann séð hana mjög vel. Kvaðst D þegar hafa snúið sér að manninum, en þá hafi E gengið á milli þeirra. Auk þess hafi vinir mannsins gripið í manninn og leitt hann í burtu. Þá hafi hann séð hvar A hafi hallað sér upp að vegg og haldið um höfuðið. Eftir árásina hafi maðurinn staðið rétt utan við dansgólfið en stuttu síðar látið sig hverfa. B hafi í framhaldinu ekið A, D og E upp á slysadeild. B hafi verið að skemmta sér á veitingastaðnum ásamt árásarmanninum og vitað full deili á honum. B kvaðst hafa verið að skemmta sér umrætt kvöld ásamt vinafólki sínu, þeim C og ákærða. Hafi þau farið á nokkra skemmtistaði um kvöldið og nóttina og síðan farið á Hressingarskálann. Kvaðst B ekki hafa drukkið áfengi þetta kvöld, en hún hafi ekið bifreið um kvöldið. Er þau hafi verið búin að vera inni á veitingastaðnum Hressingarskálanum í stuttan tíma hafi hún og C farið á dansgólfið. Stuttu síðar hafi ákærði komið þangað einnig. Á dansgólfinu hafi hún hitt D, E og A. Hafi hún rætt nokkuð við þau og C orðið pirruð við það. Þá hafi C og ákærði farið að ,,kýta” eitthvað og hafi B þá snúið sér við og dansað áfram við D, E og A. Á einum tímapunkti hafi hún séð C benda ákærða á A með fingri. Hafi hún því næst séð ákærða ganga að A, taka upp tvær flöskur undan bjór, og hafi hann reitt þær til höggs og slegið A. Hafi ákærði misst eina flöskuna en hin hafi hafnað í andliti A. Hafi hún strax séð að A hafi verið með skurð í andliti og hafi fossblætt úr honum. A hafi gripið strax um andlitið og hnigið niður. Ákærði hafi gengið út af staðnum strax eftir höggið og C fylgt honum eftir. Hafi B ekki farið með honum og C þar sem henni hafi ekki fundist það rétt sem ákærði hafi gert. Hafi B séð allt sem fram hafi farið á milli ákærða og A og hafi árásin verið með öllu tilefnislaus. Eftir þetta hafi hún, ásamt A, D og E, farið upp á slysadeild. Hafi B ekið þeim þangað. Allan þann tíma hafi C verið að reyna að hringja í B, en hún ekki viljað taka það símtal. Á slysadeild hafi hún loks svarað C, sem hafi spurt hana hvað hún væri að gera. Hafi hún tjáð henni að hún hafi ekið A á slysadeild. E kvaðst umrædda nótt hafa verið að skemmta sér með D og A. Þau, ásamt stúlku að nafni B, hafi verið á dansgólfi veitingastaðarins Hressingarskálans. Hafi henni verið litið yfir til A og þá séð hvar flaska hafi lent á andliti hans. Höggið hafi greinilega verið þungt og hafi A gripið um andlitið. Kvaðst E ekki viss um hvort flöskunni hafi verið hent í andlit A eða hvort hann hafi verð laminn með henni. Hafi hún ekki séð árásarmanninn fyrr en rétt eftir að A hafi fengið flöskuna í andlitið. Þá hafi árásarmaðurinn staðið rétt hjá þeim. Hafi hún gengið á milli mannsins og D til að varna því að til frekari átaka kæmi. Hafi maðurinn látið sig hverfa mjög fljótlega. B hafi síðan ekið þeim upp á slysadeild þar sem A hafi verið skoðaður og gert að sárum hans. C kvaðst einungis einu sinni hafa farið út að skemmta sér með B og ákærða. Hafi þau farið á veitingastaðinn Hressingarskálann. Þar hafi hún, ákærði og B verið að dansa saman. Ákærði hafi þar hitt einhverja vini sína. B hafi á einhverjum tíma horfið. Eftir það hafi þau farið á veitingastaðinn Gauk á Stöng. Hafi C ekki séð ákærða lenda í átökum þetta kvöld. Hafi hún þó ekki séð ákærða í einhverja stund á meðan hún hafi verið að dansa. F, G og H kváðust hafa hitt ákærða á veitingastaðnum Hressingarskálanum aðfaranótt fimmtudagsins 20. apríl 2006. Kváðust þeir hafa komið á staðinn um kl. 2.00 um nóttina og verið þar í um eina til eina og hálfa klukkustund. Hafi þeir allir, sem og C, setið við borð og drukkið áfengi. Ekki kváðust þeir hafa séð ákærða æsa sig eða lenda í átökum þessa nótt. Hann hafi að mestu leyti verið með þeim, þó svo hann og þeir hafi farið á barinn eða á snyrtinguna. Þá hafi ákærði sennilega fari að dansa á einhverjum tíma. Þeir hafi farið með ákærða út af staðnum síðar um nóttina og þau öll farið á veitingastaðinn Gauk á Stöng. Theodór Friðriksson læknir staðfesti læknisvottorð er frá honum stafar og er í rannsóknargögnum málsins. Theodór kvað erfitt að fullyrða eftir hvað sár á höfði A hafi verið. Það hafi þó getað komið heim og saman við sögu sjúklings. Sárið hafi verið eins og eftir þungt högg. Gæti höggið hafa verið eftir hnefa eða flösku. Niðurstaða: Ákærði neitar sök og kveðst ekki hafa veitt A þá áverka er um getur í ákæru. Í máli þessu liggur fyrir framburður nokkurra aðila sem telja sig hafa verið vitni að atburðinum. A kveður sig hafa borið kennsl á ákærða, auk þess sem B, sem vel þekkti ákærða og var að skemmta sér með honum þessa nótt, hefur fullyrt að ákærði hafi veist að A á veitingastaðnum. Þá liggur fyrir framburður D, sem einnig fullyrti að hann hafi kannast við ákærða frá fyrri tíð. Framburður þessara þriggja vitna er á einn veg um að ákærði hafi veist að A þessa nótt og valdið honum áverkum. A hefur sjálfur ekki getað fullyrt hvort ákærði hafi verið með flösku í hendi er hann hafi slegið A, en borið að hann hafi séð gler í hendi ákærða rétt í þann mund er hann hafi slegið sig. B og D fullyrða hins vegar að ákærði hafi verið með flösku í hendi við atlöguna. Framburður B er einkar áreiðanlegur þar sem hún var ekki undir áhrifum áfengis þessa nótt, auk þess sem hún var í vináttutengslum við ákærða. Áverkar A samkvæmt ákæruskjali eru í samræmi við læknisvottorð sem ritað hefur verið eftir að A leitaði á slysadeild Landspítala háskjólasjúkrahúss í framhaldi af árásinni. Þegar virt eru þessi atriði sem hér að framan eru rakin er að mati dómsins sannað að ákærði hafi valdið A þeim áverkum er um getur í ákæru. Fær framburður ákærða og annarra vitna þessu ekki haggað, enda áttu flest hin vitnin ekki órofna samverustund með ákærða á veitingastaðnum þessa nótt. Þá verður ekki fram hjá því litið að framburður ákærða í málinu hefur verið nokkuð á reiki. Vildi hann ekki kannast við að hafa verið að skemmta sér með B er tekin var af honum lögregluskýrsla eða að hafa hitt A á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur. Fyrir dómi mundi ákærði þetta skýrt og bar þá á annan veg. Dregur þetta nokkuð úr trúverðugleika framburðar hans. Í ljósi þess að ákærði beitti flösku sem vopni var árásin sérstaklega hættuleg. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Ákærði er fæddur í mars 1976. Á árunum 1997 til 2000 var hann þrisvar sinnum dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Þá gekkst hann tvisvar sinnum undir sáttir fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni annars vegar og umferðarlögum hins vegar. Á árinu 2004 gekkst ákærði undir sátt vegna ölvunaraksturs. Hann gekkst undir viðurlagaákvörðun á árinu 2005 fyrir samskonar brot. Loks gekkst hann undir sátt 13. júlí 2006 fyrir akstur sviptur ökurétti. Brot ákærða í þessu máli var framið áður en ákærði gekkst undir síðastgreindu sáttina. Ber því að tiltaka refsingu eftir 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. laganna. Árás ákærða á A var með öllu tilefnislaus. Var hún fyrirvaralaus, harkaleg og gat leitt til mjög alvarlegra varanlegra meiðsla. Á ákærði sér engar málsbætur. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Í ljósi framgöngu ákærða umrætt sinn verður refsingin ekki bundin skilorði. Af hálfu A hefur verið krafist skaðabóta að fjárhæð 390.921 króna, auk vaxta. Er krafist miskabóta að fjárhæð 300.000 krónur, útlagðs kostnaðar að fjárhæð 23.400 krónur og kostnaðar við lögmannsaðstoð að fjárhæð 67.521 króna. Um miskabótakröfu er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þess að A hafi orðið fyrir töluverðum meiðslum vegna tilhæfulausrar árásar. Hafi hann þurft að taka sér frí frá vinnu til að jafna sig eftir árásina. Hafi hann verið mjög kvalinn og þurft að jafna sig bæði líkamlega og andlega. Árás ákærða á A var til þess fallin að valda honum miska. Eru bætur vegna háttseminnar hæfilega ákveðnar 250.000 krónur. Að því er varðar kröfu um bætur vegna útlagðs kostnaðar þá hafa verið lögð fram gögn vegna læknisvottorðs. Þá hefur verið lagt fram afrit af kvittun vegna fatnaðar. A fullyrðir að skyrta, bindi og skór hafi eyðilagst vegna blóðs. Er þessi kröfuliður að mati dómsins fullnægjandi rökstuddur og verður allur tekinn til greina. Niðurstaða alls þessa er því sú að ákærði greiði skaðabætur að fjárhæð 273.400 krónur. Um vexti fer sem í dómsorði greinir. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða A kostnað sem hann hefur haft af því að halda fram kröfu sinni, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 með áorðnum breytingum. Lögmannskostnaður telst hæfilega ákveðinn 60.000 krónur. Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglustjóra. Þá greiði hann málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, að viðbættum virðisaukaskatti, með þeim hætti er í dómsorði greinir. Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Karl Ingi Vilbergsson fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn. D ó m s o r ð: Ákærði, Halldór Egill Kristjánsson, sæti fangelsi í 6 mánuði. Ákærði greiði A, 273.400 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 20. apríl 2006 til 2. desember 2006, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags og 60.000 krónur í lögmannskostnað. Ákærði greiði 284.660 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Herdísar Hallmarsdóttur héraðsdómslögmanns 258.960 krónur. |
Mál nr. 8/1999 | Kærumál Gjaldþrotaskipti Leigusamningur | Eigendur jarðarinnar V sömdu við L um aðstöðu fyrir fiskeldisstöð, m.a. um leigu á landi og var samningstíminn 25 ár. Tveimur árum síðar var bú L tekið til gjaldþrotaskipta. Nokkru síðar var undirritaður kaupsamningur milli M og þrotabús L þar sem seld var fiskeldisstöðin og allt sem fylgdi, þar með talin lóðaleiguréttindi, voru kaupin miðuð við þann dag sem bú L var tekið til gjaldþrotaskipta. Eigendur V töldu að þrotabúi L hefði aðeins verið heimilt að framselja réttindi L samkvæmt samningi við eigendur V en ekki skyldur og töldu að leita hefði þurft eftir samþykki þeirra. Kröfðust þeir þess að kröfur þeirra um leigugreiðslur yrðu samþykktar sem búskröfur í þrotabú L. Talið var að í upphaflegum samningi eigenda V við L hefði verið skýlaus heimild til handa L til að framselja leiguréttindi sín á hendur eigenda V án samþykkis þeirra og að M hafi tekið yfir bæði réttindi og skyldur hins upphaflega leigutaka gagnvart landeigendum. Því var því hafnað að þrotabú L væri áfram skuldbundið gagnvart eigendum V og ekki fallist á það að búskrafa á hendur þrotabúinu hefði stofnast. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 1998, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. janúar 1999. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. desember 1998, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu, sem sóknaraðilar hafa lýst við gjaldþrotaskipti varnaraðila. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að viðurkennd verði krafa þeirra á hendur varnaraðila með stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 82. gr. laga nr. 3/1878 um skipti á dánarbúum og félagsbúum, o.fl., svo sem þeim var breytt með 2. gr. laga nr. 32/1974, sbr. 2. mgr. 189. gr. laga nr. 21/1991, aðallega að fjárhæð 69.257.638 krónur, en til vara 40.767.400 krónur. Þá krefjast sóknaraðilar dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilteknum fjárhæðum til greiðsludags, í aðalkröfu frá 1. október 1990, en í varakröfu frá 1. október 1994. Sóknaraðilar krefjast ennfremur málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en til vara að krafa sóknaraðila verði lækkuð og hafnað þeirri stöðu í réttindaröð, sem þau krefjist. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila. Í úrskurði héraðsdómara er tekið upp orðrétt ákvæði 2. mgr. 15. gr. samnings sóknaraðila við Lindalax hf. 23. október 1987. Í ákvæðinu fólst skýlaus heimild handa varnaraðila til að framselja leiguréttindi sín á hendur sóknaraðilum án samþykkis þeirra, en af sjálfu leiðir að sú heimild tók einnig til aðilaskipta að skyldum Lindalax hf. sem leigutaka. Þessi heimild sætir ekki takmörkunum af almennum reglum um aðilaskipti að gagnkvæmum samningi. Með þessari athugasemd verður niðurstaða hins kærða úrskurðar um að hafna kröfu sóknaraðila staðfest með vísan til forsendna hans. Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 665/2006 | Kærumál Dánarbú Skipti Erfðaskrá | Við einkaskipti á dánarbúi A kom upp ágreiningur hvort arfur, sem honum hafði tæmst fyrir lát hans, skyldi renna til bréferfingja hans eða lögerfingja. Vísað var til þess að á þeim tíma sem erfðaskrá A var gerð hafði honum ekki tæmst þessi arfur og með erfðaskránni ráðstafaði hann ekki þeim eignum, sem hann kynni að eignast síðar. Var því talið að við skipti á dánarbúi A skyldu þeir fjármunir, sem hér um ræðir, renna til lögerfingja hans. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 29. nóvember 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að arfur, sem tæmdist A heitnum eftir nafngreinda systur hans, skuli við einkaskipti á dánarbúi A renna til sóknaraðila í skjóli erfðaskrár hans frá 23. janúar 2003. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst að arfur þessi falli í hans hlut, hnekkt verði ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og varnaraðilum gert að greiða honum kærumálskostnað. Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, X, greiði varnaraðilum, B, C, D og E, samtals 150.000 krónur í kærumálskostnað. I. Krafa sóknaraðila barst dóminum 2. maí 2006. Málið var þingfest 6. júní sl. og tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi 2. nóvember sl. Sóknaraðili er X, [kt. og heimilisfang]. Varnaraðilar eru B, [kt. og heimilisfang], C, [kt. og heimilisfang], D, [kt. og heimilisfang] og E, [kt. og heimilisfang]. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að 3. grein erfðaskrár A verði túlkuð þannig að allir fjármunir í dánarbúi A renni til sóknaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins. Varnaraðilar krefjast þess að viðurkennt verði að við skipti á dánarbúi A, [kt.], sem látist hafi [...] 2004, skuli fjármunir sem hinn látni erfði eftir systur sína, F, renna til varnaraðila sem lögerfingja hans. Ennfremur krefjast ofangreindir varnaraðilar þess að sóknaraðila verði gert að greiða þeim málskostnað samkvæmt mati dómsins. G, [kt. og heimilisfang], hálfsystir A heitins, hefur ekki látið málið til sín taka II. Málavextir Málavextir eru þeir að hinn 23. janúar 2003 gerði A erfðaskrá, sem hann undirritaði í viðurvist tveggja votta sama dag og var erfðaskráin færð inn í gerðabók lögbókanda á Eskifirði hinn 6. mars 2003. Í 1. grein erfðaskrárinnar er mælt fyrir um sölu fasteignar hans til nafngreinds manns á ákveðnu verði, hafi hann áhuga á því að kaupa hana, en að öðrum kosti skuli selja hana á frjálsum markaði og söluverðið í báðum tilfellum ganga til sóknaraðila. Í 2. grein erfðaskrárinnar er mælt fyrir um sölu bifreiðar og að andvirði hennar skuli ganga til sóknaraðila. Í 3. grein erfðaskrárinnar segir orðrétt: “Innistæður mínar, sparifé, á bókum í Landsbanka Íslands hf. skal ganga til [X].” Loks er 4. grein erfðaskrárinnar svohljóðandi: “[H], [kt. og heimilisfang], fel ég hér með að sjá um búskipti eftir mig ef hann verður bær til þess eftir minn dag. Öðrum eignum mínum en að ofan greinir, innibúi mínu og persónulegum munum, fel ég [H] að ráðstafa.” Í október 2004 hafði norsk lögfræðistofa samband við A vegna leyfis til einkaskipta og væntanlegs arfs eftir alsystur hans, F. Veitti A heimild fyrir sitt leyti til einkaskipta á dánarbúi hennar í október 2004. Ekki mun hafa legið fyrir á þessum tíma hversu mikils arfs var að vænta eftir F. Erfðaskrá A var ekki breytt vegna þessa, en A lést í umferðarslysi skömmu síðar eða 4. nóvember 2004. Hinn 29. júní 2005 var sóknaraðila veitt leyfi til einkaskipta á dánarbúi A og var Bjarna G. Björgvinssyni lögmanni falið að annast skiptin á dánarbúinu. Arfurinn úr dánarbúi F var greiddur út til lögerfingja hennar hér á landi hinn 15. september 2005 og nam hlutur dánarbús A 6.098.400 krónum. Í ljósi þess að arfur A eftir systur hans F hafði ekki verið hluti af innistæðu á bók hans í Landsbanka Íslands við gerð erfðaskrárinnar þótti upp kominn vafi um túlkun 3. greinar erfðaskrárinnar. Sendi umboðsmaður sóknaraðila því lögerfingjum A heitins bréf dags. 25. janúar 2006 þar sem þeim var kynntur þessi vafi og óskað eftir afstöðu þeirra til þess hvort þau kölluðu eftir arfi úr dánarbúi A vegna arfshluta dánarbúsins eftir F. Svar barst frá umboðsmanni G, hálfsystur A, í febrúar 2005 þar sem fram kemur að hún muni ekki gera tilkall til arfs úr dánarbúi A. Einnig barst bréf frá umboðsmanni varnaraðila, sem eru börn I heitins, bróður A, þar sem þau lýstu tilkalli í arfshluta A eftir systur hans F sem lögerfingjar. III. Málsástæður Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að túlka verði erfðaskrá A með hliðsjón af því að vilji hans hafi ótvírætt verið sá að öll peningaleg verðmæti í hans eigu rynnu til sóknaraðila. Hafi það verið staðfest af H, útibússtjóra Landsbanka Íslands á [...], sem hafi verið A heitnum til aðstoðar varðandi fjármál hans og fleira. Í erfðaskránni séu tilgreind sérstaklega þau peningalegu verðmæti, sem renna eigi til sóknaraðila og hafi A ekki átt önnur peningaleg verðmæti á þeim tíma. Fyrir andlát sitt hafi A haft vitneskju um að skipta ætti dánarbúi systur hans í Noregi en ekkert hafi legið fyrir á þeim tíma um eignastöðu þess eða arfshluta. Sóknaraðili telji að ætlun A hafi verið sú að arfshlutinn rynni inn á bankabók hans í Landsbankanum á [...] og að fara ætti með arfinn frá Noregi, sem fallinn hafi verið fyrir andlát A, með sama hætti og aðra fjármuni hans, þ.e. að hann skyldi renna til sóknaraðila í samræmi við 3. grein erfðaskrárinnar. Um lagarök vísar sóknaraðili til VI. kafla erfðalaga nr. 8/1962 og almennra túlkunarreglna. Þá er vísað til 90. gr. og 123. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Varnaraðilar kveðst byggja kröfu sína á 3. mgr. 3.gr. erfðalaga nr. 8/1962. Þeir benda á að A hafi haft heimild til að ráðstafa öllum eignum sínum með erfðaskrá samkvæmt 34. gr. erfðalaga, enda hafi hann ekki látið eftir sig skylduerfingja, sbr. 35. gr. sömu laga. Erfðaskrá hins látna hafi hins vegar ekki náð til allra eigna hans. Varnaraðilar telji augljóst að efni erfðaskrár hins látna hafi verið í samræmi við raunverulegan vilja hans og að skráin hafi þess vegna hvorki orðið annars efnis en til var ætlast vegna misritunar né misskilnings af neinu tagi. Séu því ekki efni til að túlka hana sóknaraðila í vil á grundvelli 37. gr. erfðalaga, en það lagaákvæði veiti þröngt svigrúm til að túlka erfðaskrár í samræmi við arfleiðsluvilja hins látna ef unnt er að staðreyna hann. Fyrir liggi arfleiðsluvottorð tveggja votta, sem báðir hafi staðfest með áritun sinni á erfðaskrána að A hafi staðfest að erfðaskráin hefði að geyma vilja hans. Ljóst megi vera að sóknaraðili hefði engan arf hlotið úr dánarbúi hans ef arfleiðsluvilji hans hefði ekki verið staðfestur með þessum ótvíræða og lögformlega hætti. Vilji A til að láta arfinn úr dánarbúi F renna til sóknaraðila hafi ekki verið staðfestur með þessum hætti og hann falli ekki undir neitt ákvæði erfðaskrárinnar. Telji varnaraðilar að af þeirri ástæðu eigi þessi eign að falla til lögerfingja hans samkvæmt 3. mgr. 3. gr. erfðalaga. IV. Niðurstaða Eins og fram hefur komið gerði A erfðaskrá í votta viðurvist hinn 23. janúar 2003, sem færð var inn í gerðabók lögbókanda á [...] hinn 6. mars sama ár. Með erfðaskránni ráðstafaði A meginþorra eigna sinna til sóknaraðila en nafngreindum manni, H, var falið að ráðstafa innbúi og persónulegum munum hans. Óumdeilt er að A var heimilt að ráðstafa öllum sínum eigum með erfðaskrá enda lét hann ekki eftir sig neina skylduerfingja, sbr. 34. og 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Óumdeilt er að í október 2004 hafði norsk lögmannsstofa samband við A vegna leyfis til einkaskipta og væntanlegs arfs eftir alsystur hans F, sem búið hafði í Noregi og látist 18. mars sama ár. Þá er óumdeilt að A veitti leyfi sitt til einkaskipta á dánarbúi systur sinnar í október 2004. Ennfremur er óumdeilt að á þeim tíma hafi ekki legið fyrir hversu mikils arfs væri að vænta eftir systur hans. Þá liggur fyrir að A gerði engar breytingar á erfðaskrá sinni vegna þessa, en hann lést skömmu síðar eða 4. nóvember 2004. Tæpu ári síðar eða 15. september 2005 var arfur eftir F greiddur út og komu rúmlega 6 milljónir króna í hlut dánarbús A. Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort fjármunir þeir, sem runnu í dánarbú A úr dánarbúi systur hans F eigi að renna til lögerfingja hans í samræmi við lögerfðareglur erfðalaga, enda taki erfðaskráin ekki til þessara fjármuna, eða hvort skýra beri 3. grein fyrrgreindrar erfðaskrár og erfðaskrána í heild með þeim hætti að vilji A hafi ótvírætt staðið til þess að öll peningaleg verðmæti hans rynnu til sóknaraðila þar á meðal arfur, sem honum hafði tæmst í Noregi áður en hann féll frá en hafði ekki komið til útgreiðslu. Fyrir dóminn komu J, forstöðumaður sóknaraðila og H, útbússtjóri Landsbanka Íslands hf. á [...]. Bar J um það að A hefði oft haft á orði að hann vildi að allar eigur hans rynnu til sóknaraðila. Fyrir dóminn kom einnig H en hann aðstoðaði A við gerð erfðaskrárinnar. Hann sagði að A hefði tekið það sérstaklega fram við sig að það væri einlægur vilji hans að allar eigur hans rynnu til sóknaraðila. Það er meginregla í íslenskum erfðarétti að við skýringu á erfðaskrám beri að leitast við að staðreynda þann vilja arfleiðanda, sem fram kemur í erfðaskrá hans eða sannað þykir að hafi vakað fyrir honum við gerð hennar. Ljóst er að með erfðaskránni ráðstafaði A öllum þáverandi eigum sínum, þ.e. fasteign, bifreið og sparifé í Landsbanka Íslands, en eftirlét nafngreindum manni að ráðstafa innbúi og öðrum persónulegum munum. Á þeim tíma sem erfðaskráin var gerð hafði honum hins vegar ekki tæmst arfur eftir systur sína í Noregi og með erfðaskránni ráðstafaði hann ekki eignum, sem hann kynni að eignast síðar. Þá er og til þess að líta að í 3. grein erfðaskrárinnar er sérstaklega tekið fram að innistæður á bókum í Landsbanka Íslands, sem renna skuli til sóknaraðila, sé sparifé. Í ljósi alls framangreinds verður ekki talið að erfðaskráin taki til þeirra fjármuna, sem komu í hlut dánarbúsins eftir F og hefur arfleiðsluvilji A hvað þessa fjármuni varðar því ekki verið staðfestur með lögformlegum hætti. Ber því að fallast á það með varnaraðilum að við skipti á dánarbúi A skuli fjármunir, sem hann erfði eftir systur sína F renna til lögerfingja hans. Sóknaraðili greiði varnaraðilum 250.000 krónur í málskostnað og er þar með talinn virðisaukaskattur Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri kveður upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Kröfum sóknaraðila, X, er hafnað. Við skipti á dánarbúi A, [kt.], sem lést [...] 2004, skulu fjármunir sem hinn látni erfði eftir systur sína, F, renna til lögerfingja eftir lögerfðareglum. Sóknaraðili greiði varnaraðilum, B, C, D og E, 250.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur. |
Mál nr. 558/2012 | Kærumál Gæsluvarðhald Útlendingur | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sbr. 18. gr. laga nr. 86/2008, og a. og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. ágúst 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. ágúst 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. ágúst 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 60/2010 | Kærumál Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að varnaraðila, X, fæddum [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan framsalsmál hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 16. febrúar nk. kl. 16:00. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan framsalsmál hans er til meðferðar, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 16. febrúar 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara honum verði gert að sæta farbanni þann tíma sem í úrskurðinum greinir. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Nú er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál þar sem varnaraðili hefur krafist þess að ákvörðun dómsmálaráðherra 11. desember 2009 um að verða við beiðni brasilískra yfirvalda um framsal varnaraðila verði felld úr gildi. Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 11. september 2009 á grundvelli 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, nú síðast samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2010. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 681/2016 | Fjármálafyrirtæki Gengistrygging Skuldabréf Ógilding samnings | G krafði Í hf. um endurgreiðslu nánar tilgreindrar fjárhæðar sem hann taldi sig hafa ofgreitt á grundvelli skuldabréfs sem hann gaf út til forvera Í hf. Greindi aðila á um hvort lánið hefði verið í íslenskum krónum bundið ólögmætri gengistryggingu eða lán í erlendum myntum. Samkvæmt yfirskrift skuldabréfsins var það í erlendum gjaldmiðlum og var fjárhæð skuldarinnar þar tilgreind í þremur erlendum myntum, sem fram kom að væru jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Var því talið að form og efni skuldabréfsins bæri það ótvírætt með sér að lánið væri í erlendri mynt. Að því gættu gæti útborgun lánsins eða endurgreiðsla þess engu breytt. Var Í hf. því sýknað af kröfu G. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.Áfrýjandi skautmálinu til Hæstaréttar 4. október 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gertað greiða sér 15.472.991 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. febrúar 2014 til greiðsludags. Þákrefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms og skírskotun til dómsHæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011, auk fjölmargra dóma réttarins semgengu í kjölfarið, verður dómurinn staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti einsog í dómsorði greinir.Dómsorð:Héraðsdómur skal vera óraskaður.Áfrýjandi, Gunnar Ingi Gunnarsson,greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrirHæstarétti. Dómur HéraðsdómsReykjavíkur miðvikudaginn 6. júlí 2016 Mál þetta, semdómtekið var hinn 1. júní sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrirdómþinginu af Gunnari Inga Gunnarssyni, Vatnsstíg 21, Reykjavík, á hendurÍslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 19.maí 2015. Dómkröfur stefnandaeru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 15.472.991 krónu,ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr.38/2001, frá 3. febrúar 2014 til greiðsludags.Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, auk virðisaukaskattsá málflutningsþóknun. Dómkröfur stefnda eruþær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdurtil að greiða honum málskostnað, að skaðlausu. Gætt var ákvæða 115.gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.II Málavextir eru þeirað hinn 6. september 2007 undirritaði stefnandi veðskuldabréf til handa Glitnibanka hf. Veðskuldabréfið baryfirskriftina: „Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Þá sagði í skuldabréfinu: „Undirritaðurútgefandi viðurkennir með undirritun sinni á skuldabréf þetta að skulda Glitnibanka hf. ... eftirfarandi erlendar fjárhæðir eða jafngildi þeirra í öðrumerlendum myntum eða mynteiningum, sem birtar eru í almennri gengistöflu Glitnisbanka hf., eða í íslenskum krónum:“Síðan eru í skuldabréfinufjárhæðir lánsins tilgreindar 51.791 svissneskur franki, 5.126.955 japönsk jenog 31.438 evrur og jafnvirði þeirra fjárhæða þann 31. ágúst 2007, sagt8.274.000 krónur. Vextir samkvæmtskuldabréfinu eru tilgreindir LIBOR-vextir og EURIBOR-vextir, en lánshluti ííslenskum krónum skyldi vera REIBOR-vextir, en samkvæmt ákvæði skuldabréfsinsvar heimilt að myntbreyta láninu.Höfuðstóll lánsins skyldi endurgreiddur 1. október 2012, en vextirskyldu greiddir mánaðarlega í 60 mánuði, í fyrsta sinn 1. október 2007. Ágreiningslaust er að fjárhæð lánsins vargreidd út í íslenskum krónum. Stefnandi veittiGlitni banka hf. heimild til að skuldfæra íslenskan krónureikning sinn fyrirvöxtum á gjalddaga þeirra og sama gerði stefndi eftir að hann eignaðistlánið. Á árinu 2011 skipti stefndiláninu upp í þrjú lán með þremur lánsnúmerum. Stefnandi kveðurtildrög þess að hann undirritaði umþrætt veðskuldabréf hafa verið þau, að hannog eiginkona hans hafi keypt fasteignina Norðurgötu 6 og 8, Tjarnarbyggð,Árborg, þann 14. september 2007.Kaupverðið hafi verið 10.342.020 krónur.Kaupendur hafi skuldbundið sig til að greiða kaupverðið, annars vegarmeð peningum við undirskrift, alls 2.068.020 krónur, og hins vegar meðpeningum, 8.274.000 krónum, við útborgun láns frá Glitni banka hf. Við undirritunkaupsamnings hafi annars vegar legið fyrir lánsumsókn frá stefnanda til Glitnisbanka hf., sem seljandi hafi veitt skilyrt veðleyfi fyrir, og hins vegarveðskuldabréf undirritað 6. september 2007. Í veðleyfinu, sem varundirritað af Glitni banka hf., sagði að Brúarbyggð ehf., sem var seljandifasteignarinnar, veitti stefnanda heimild til að veðsetja Norðurgötu tiltryggingar gengistryggðu veðskuldabréfi að fjárhæð 8.274.000 krónur. Síðan sagði í veðleyfinu: „Veðheimildin erveitt með því skilyrði að Glitnir banki hafi greiði allt andvirði lánsins aðfrádregnum kostnaði bankans inn á reikning nr. 101375 bnr. 0586, hb. 14 þegarveðskuldabréfinu hefur verið þinglýst.Eigandi reikningsins er Brúarbyggð ehf., kt. 530306-1270.“ Glitnir banki greiddilánið hins vegar inn á íslenskan krónureikning stefnanda og kveðst stefnandihafa millifært féð til Brúarbyggðar ehf. Stefnandi skrifaðistefnda bréf þann 22. júní 2010, þar sem hann benti stefnda á aðlánssamningurinn væri, í ljósi dóma Hæstaréttar, bundinn ólögmætrigengistryggingu. Stefnandi krafðistendurútreiknings lánsins. Í 1. málslið ákvæðisX til bráðabirgða í lögum nr. 151/2010, sbr. 2. gr. þeirra laga, um breytingu álögum nr. 38/2001, sagði að hafi húsnæðislán til neytenda verið greitt út ííslenskum krónum eða umbreyting úr erlendum myntum verið hluti af viðkomandilánssamningi, en endurgreiðsla skuldarinnar miðast að einhverju leyti við gengierlendra gjaldmiðla, færi um uppgjör vegna ofgreiðslu og framtíðarskilmálaskuldbindingarinnar eftir því sem greinir í 18. gr. laganna. Í nefndu bráðabirgðaákvæði segir jafnframt aðafmörkun þeirra skuldbindinga sem falla undir ákvæðið skuli vera í samræmi viðskilyrði ákvæðis B-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, en þar er ítengslum við vaxtabætur vikið að lánum „sem tekin hafa verið vegna kaupa eðabyggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þar með talin kaup á búseturéttisamkvæmt lögum nr. 66/2003 og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúðsamkvæmt eldri lögum“. Samkvæmt 2. mgr.B-liðar 68. gr. laganna er það skilyrði þess að vaxtagjöld geti myndað rétt tilvaxtabóta að um sé að ræða fasteignaveðlán til a.m.k. tveggja ára eða lán viðlánastofnanir með sjálfskuldarábyrgð til a.m.k. tveggja ára enda séu láninsannanlega til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Stefndi telur að umrædd skuldbinding hafiekki fullnægt þessum áskilnaði um húsnæðislán „til eigin nota“. Stefndi bauðstefnanda upp á úrræði til lækkunar skuldbindingarinnar, svo sem aðskuldbindingin yrði reiknuð í íslenskar krónur miðað við sölugengiundirliggjandi mynta þann 29. september 2008, en stefnandi hafnaði því, þar semhann taldi skuldbindinguna vera í íslenskum krónum, gengistryggða. Stefnanda stóð og til boða að lánið yrðiendurreiknað, að því er stefndi segir umfram skyldu, eftir þeirri aðferðafræðisem lög nr. 151/2010 mæltu fyrir um, þ.e. líkt og um skuldbindingu í íslenskumkrónum væri að ræða, sem bæri vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr.38/2001, en stefnandi hafnaði því. Framangreindskuldbinding var ávallt í skilum fram að lokagjalddaga lánsins, en þá inntistefnandi hvorki af hendi áfallna vexti né höfuðstól. Stefndi kveðst ekki bera brigður á, hafiskuldbindingin á annað borð verið í íslenskum krónum, að stefnandi verði ekkikrafinn um vangreidda vexti, þ.e. samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr.38/2001, fyrir þegar greidd vaxtatímabil. Skuld samkvæmtumdeildu skuldabréfi fór í innheimtuferli, sbr. innheimtubréf, greiðsluáskorunog beiðni um nauðungaruppboð, sbr. einnig annað innheimtubréf, þar sem framkomi til viðbótar við fyrra innheimtubréf, að stefndi taldi til veðréttinda ífasteign stefnanda, og eiginkonu hans, að Miðleiti 12, Reykjavík, á grundvellitryggingarbréfs, upphaflega útgefnu í febrúar 2005, þar sem fram kemur að þaðsé til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum ogfjárskuldbindingum, en veðréttur samkvæmt þessu tryggingarbréfi var færður yfirá fasteignina að Miðleiti 12. Stefnandi ogeiginkona hans vildu selja umrædda eign, en stefndi var ekki reiðubúinn aðaflétta veðböndum. Stefndi kveður aðuppreiknuð staða tryggingarbréfsins hafi verið 23.890.269 krónur, nema þvíaðeins að stefnandi myndi greiða hina umþrættu skuld. Stefnandi brást þá við með því að gefa útávísun að fjárhæð 8.274.000 krónur, eða það sem hann hafði talið réttahöfuðstólsfjárhæð þegar skuldbindingin var á gjalddaga. Stefnandi innti síðan af hendifullnaðargreiðslu, þ.e. 15.472.991 krónu til viðbótar fyrri fjárhæð, eðasamtals 23.746.991 krónu. Kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda miðast viðþað að þessi greiðsla hafi verið umfram skyldu.III Stefnandi byggirkröfu sína á því, að Glitnir banki hf. hafi aldrei veitt honum lán í erlendumgjaldmiðli/-um, og að stefndi, sem leiði rétt sinn á hendur stefnanda fráGlitni banka hf., hafi aldrei eignast aðra og hærri kröfu á hendur stefnandasamkvæmt veðskuldabréfinu frá 6. september 2007, en að hámarki 8.274.000krónur, sem hafi verið á gjalddaga 1. október 2012. Stefnandi bendir á aðGlitnir banki hf. hafi hvorki gert né getað gert löglegan lánssamning viðstefnanda um lán í erlendum myntum þann 6. september 2007. Lánið sem Glitnir banki hf. hafi veittstefnanda hafi verið veitt á Íslandi af íslensku fjármálafyrirtæki. Stefnandi hafi notað lánsféð til kaupa áfasteignum hér á landi af íslenskum aðila.Til viðskipta, eins og þeirra sem lánið hafi verið veitt til, hafiGlitnir banki hf. aldrei getað veitt lán í öðrum gjaldmiðli en íslenskumkrónum, enda sé íslensk króna lögeyrir Íslands, og eini gjaldmiðillinn semGlitnir banki hf. hafi getað, einn og óstuddur, veitt lán í. Til lánveitinga í lögeyri annarra ríkja eðaríkjasambanda hefði Glitnir banki hf. þurft aðkomu banka í því ríki eða innanþess ríkjasambands, sem notaði þann lögeyri sem Glitnir banki hf. hafi látiðlíta út fyrir að samið hefði verið um að veita stefnanda lánið í. Til lánveitingar ílögeyri annarra ríkja eða ríkjasambanda hefði Glitnir banki hf. þurft aðkomubanka í því ríki eða innan þess ríkjasambands, sem notaði þann lögeyri semGlitnir banki hf. hafi látið líta út fyrir að samið hefði verið um að veitastefnanda lánið í. Stefnandi hefði þáorðið að eiga bankareikning hjá erlendum banka eða bönkum til að taka viðláninu í þeim gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, sem lánið hefði verið greitt útí. Slíka bankareikninga hafi stefnandiekki getað stofnað hjá Glitni banka hf.Stefnandi hafi hvorki verið í beinu né óbeinu sambandi við banka íSviss, Japan eða einhverju ríkja Evrópusambandsins, sem noti evru sem lögeyri,þegar hann hafi samið við Glitni banka hf. um lántöku í september 2007. Enginn erlendurgjaldeyrir hafi því komið við sögu þegar Glitnir banki hf. hafi greittstefnanda út andvirði veðlánsins þann 21. september 2007. Glitnir banki hf. hafi greitt íslenskarkrónur inn á íslenskan krónureikning stefnanda, enda hafi Glitnir banki hf.ekki getað efnt lánsloforð sitt gagnvart stefnanda á neinn annan hátt. Engu breyti hér um þó að starfsmenn Glitnisbanka hf. hafi búið til skjöl í tengslum við útborgun lánsins þess efnis, aðtil útgreiðslu væru svissneskir frankar, japönsk jen og evrur og að gjaldmiðlumþessum hefði verið skipt fyrir íslenskar krónur. Einu peningarnir sem Glitnir banki hf. hafilánað stefnanda hafi verið íslenskar krónur.Glitnir banki hf. hafi ekki einu sinni farið þá leið við útgreiðslulánsins til stefnanda, að leggja meint lánsfé í erlendum gjaldmiðlum inn áinnlenda gjaldeyrisreikninga, höfuðbók 38, eins og oft hafi verið tíðkað áárunum eftir gildistöku laga nr. 38/2001, sem lagt hafi bann viðgengistryggingu lána í íslenskum krónum.Það vinnulag fjármálafyrirtækja og málatilbúnaður lögmanna þeirra hafiruglað dómstóla í ríminu á árinu 2011.Því þá hafi dómstólar allt í einu farið að telja að það skipti einhverjumáli inn á hvers konar innlánsreikning hjá lánveitanda lánsféð hefði verið lagtvið útborgun þess. Þessi rangimálatilbúnaður, sem einkum hafi verið viðhafður af hálfu hinna þriggja nýjufjármálafyrirtækja, sem Fjármálaeftirlitið hafi komið á fót í október 2008,hafi leitt til þess að sumar lánveitingar í íslenskum krónum hafi verið taldarí erlendum gjaldmiðlum, án þess að vera það.Innlendir gjaldeyrisreikningar séu ekki til í þeirri merkingu að á þeimsé varðveittur gjaldeyrir. Innlendirgjaldeyrisreikningar geymi íslenskar krónur, eins og allir aðririnnlánsreikningar í íslenskum viðskiptabönkum og sparisjóðum. Vegna þess skipti engu fyrir úrslit málsþessa, hvaða niðurstöðu Hæstiréttur hafi komist í máli nr. 524/2011, eins oghaldið sé fram í bréfi stefnda til stefnanda, dagsettu 30. maí 2013. Með bréfi þessu hafi stefndi tilkynnt stefnandaað hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að lán Glitnis banka hf. tilstefnanda, 6. september 2007, hefði verið í erlendum gjaldmiðlum en ekkigengistryggt. Stefndi hefði þá þegargjaldfellt veðskuldabréfið frá 6. september 2007 og krafist nauðungaruppboðs áNorðurgötu. Stefnandi byggirjafnframt á því að uppgjör veðskuldarinnar samkvæmt umþrættu veðskuldabréfihafi verið ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju í skilningi 36. gr.laga nr. 7/1935. Einnig að lánið hafiverið ósamrýmanlegt eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum og venjum áfjármálamarkaði, í skilningi 1. mgr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr.161/2002 og 9. gr. reglna um eðlilega og heilbrigða viðskiptahættifjármálafyrirtækja. Lánið hafi veriðósamrýmanlegt ákvæðum þágildandi laga nr. 107/2009 og leiði til ólögmætrarauðgunar stefnda, fái hann haldið þeim 15.472.991 krónu, sem honum hafi tekistað hafa af stefnanda við uppgjör á kröfu samkvæmt umdeildu veðskuldabréfi, meðþví að bera fyrir sig við innheimtu veðskuldabréfsins önnur og ótengdveðréttindi í Miðleiti 12, Reykjavík, sem stefnandi hafi veitt Glitni bankahf., vegna annarra og óskyldra skuldbindinga, þann 22. febrúar 2005, og lönguhafi verið gerðar upp, og með því knúið fram loforð af hálfu stefnanda þann 7.ágúst 2013 um greiðslu á 23.890.269 krónum, vegna veðláns upphaflega aðhöfuðstól 8.274.000 krónur, sem verið hafi á gjalddaga 1. október 2012. Stefnandi bendir á aðGlitnir banki hf. hafi komist í greiðsluþrot 7. október 2008, líkt ogLandsbanki Íslands hf. og Kaupþing banki hf. nokkru síðar. Til að bregðast við yfirvofandi hrunifjármálakerfisins hafi Alþingi sett lög nr. 125/2008, svokölluð neyðarlög, semfengið hafi Fjármálaeftirlitinu nánast alræðisvald yfir hinu fallandiviðskiptabankakerfi, og heimild til að stofna nýja banka fyrir hönd ríkissjóðsá grunni þeirra föllnu banka. Samkvæmtstjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008 hafi stefndieignast bróðurpart lánasafns Glitnis banka hf., þ. á m. umdeiltveðskuldabréf. Sama dag hafiFjármálaeftirlitið sett fram forsendur fyrir skiptingu efnahagsreikningaþrotamannanna. Við yfirfærslu hafi áttað miða við gengi gjaldmiðla 30. september 2008. Samkvæmt forsendum Fjármálaeftirlitsins hafiátt að flytja útlán til viðskiptavina Glitnis banka hf. til stefnda, aðundanskildum tilteknum lánum, á bókfærðu verði að teknu tilliti til áætlaðraafskrifta einstakra útlána. Samkvæmtstofnefnahagsreikningi stefnda, sem Fjármálaeftirlitið hafi látið vinna ogdagsettur sé 14. október 2008, hafi verðmæti yfirfærðra útlána strax verið færtniður um 40% eftir að þau hefðu verið umreiknuð í íslenskar krónur. Samkvæmt því sem stefndi hafi upplýst ígögnum sem hann hafi afhent stefnanda hafi óskert krafa Glitnis banka hf. áhendur stefnanda verið að fjárhæð 13.999.898 krónur þegar Fjármálaeftirlitiðhafi ákveðið að flytja hana frá Glitni banka hf. til stefnda. Að teknu tilliti til 40% niðurfærslu hafikrafan, sem stefndi hafi eignast á hendur stefnanda samkvæmt umdeilduveðskuldabréfi, að hámarki verið 8.399.939 krónur, jafnvel lægri, þar semsannvirði hennar hafi ekki verið metið. Í stjórnvaldsákvörðunFjármálaeftirlitsins, um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. tilstefnda, hafi sagt um mat á eignum og uppgjöri milli þrotabankans og stefnda,að stofnunin myndi skipa viðurkenndan matsaðila til að meta sannvirði eigna ogskulda, sem ráðstafað væri frá Glitni banka hf. til stefnda. Að því mati loknu hafi átt að fara framuppgjör stefnda og þrotabankanna. Fjármálaeftirlitiðhafi ráðið Deloitte LLP til að vinna matið.Mat Deloitte LLP á sannvirði eigna og skulda hafi legið fyrir í apríl2009. Meðan Deloitte LLP hafi unniðmatið á sannvirði lánasafns Glitnis banka hf. hafi fyrstu dómar í héraðigengið, þar sem því hafi verið slegið föstu að tiltekin lán fjármálafyrirtækja,sem veitt hefðu verið eftir gildistöku laga nr. 38/2001 geymdu ólögmætagengistryggingu. Þessi staðreynd, ásamtþví að í aðdraganda efnahags- og gjaldeyrishruns í október 2008 hafi verðerlendra gjaldmiðla hækkað um rösk 100% og gengisfallið ásamt öðru valdiðóðaverðbólgu samtímis því sem verð eigna hafi hrapað, hafi leitt til þess aðsannvirði lánasafns Glitnis banka hf. hafi verið metið mjög lágt. Mat Deloitte LLP hafi aldrei verið gertopinbert. Sannvirði lánanna virðist hinsvegar hafa verið svo lágt, að mati Deloitte LLP, að stjórn stefnda hafi kosiðað nefna lánin sem færð hafi verið yfir „deep discount loans“ upp á enska tunguí ársreikningi stefnda fyrir rekstrarárið 2009, sem birtur hafi verið á fyrrihluta árs 2010. Flest fyrirtæki ogmikill fjöldi einstaklinga og heimila í landinu hafi verið í eigna- ogskuldalegu uppnámi á árinu 2009 og fjármálafyrirtæki hafi ekki vitað hvaðakröfur þau ættu í raun. Stefnandi ogstefndi hafi ekki verið nein undantekning þar á. Ríkisstjórnin hafi ákveðið að reyna að taka áþessum vanda með því að leggja fyrir Alþingi frumvarp um aðgerðir í þágueinstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka og gjaldeyrishrunsins. Alþingi hafi samþykkt frumvarpið, sem lög nr.107/2009 og tóku þau gildi 31. október 2009.Vilji Alþingis hafi staðið til þess, að við endurskipulagningu skuldaeinstaklinga, heimila og fyrirtækja skyldu nýju bankarnir horfa til þeirravarúðarniðurfærslna sem gerðar hefðu verið við flutning lánasafnanna fráþrotabönkunum til nýju bankanna. Ságalli hafi þó verið á þessari gjöf Njarðar að stefnda og öðrumfjármálafyrirtækjum hafi verið falið vald til að setja reglur um framkvæmdlaganna, sem í raun hafi verið ólögmætt valdaframsal. Hafi það komið í bakið á skuldurunum, sem ílitlu hafi notið þeirrar skjaldborgar sem lögunum hafi verið ætlað að slá umhagsmuni þeirra. Stefnandi kveðurstefnda að einhverju leyti hafa tekið tillit til laga nr. 107/2009 varðandiinnheimtu lána sem flutt hefðu verið til hans.Þegar komið hafi verið fram á árið 2011, og Alþingi hafi sett ný lög nr.151/2011 vegna dóms Hæstaréttar 16. september 2010 í máli 471/2010, hafistefndi boðið stefnanda að gera veðskuldabréfið frá 6. september 2007 upp meðgreiðslu á 13.999.898 krónum. Hafistefndi boðist til að lána stefnanda fjárhæðina til 15 ára með veði íNorðurgötu. Greiða hafi átt af nýjaláninu mánaðarlega, í fyrsta sinn 1. desember 2011. Stefnandi kveðst ekki hafa gengið að þessuþar sem lokagjalddagi umþrætts veðskuldabréfs hefði ekki verið fyrr en 1.október 2012, auk þess sem það hafi verið staðföst afstaða hans aðveðskuldabréfið hefði að geyma ólögmæta gengistryggingu. Stefnandi kveðst hafa greitt vexti afumþrættu veðskuldabréfi, eins og um hafi verið samið, og boðist reglulega tilþess að greiða höfuðstól bréfsins. Hafihann m.a. staðfest getu sína til greiðslu höfuðstóls veðskuldabréfsins íoktóber 2012 með því að afhenda stefnda bankaávísun, sem stefndi hafi endursentþar sem útgefandi ávísunarinnar hefði sett ranga kennitölu. Stefndi hafigjaldfellt veðskuldabréfið þann 7. mars 2013 og talið sig þá eiga kröfu áhendur stefnanda að höfuðstólsfjárhæð 21.222.038 krónur. Sú krafa hafi byggt á ákvæði í skuldabréfinuþess efnis að kröfuhafa væri heimilt að umreikna skuldina í lok gjaldfellingardagsí íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi á þeim myntum sem skuldinsamanstæði af. Stefndi hafi loksfallist á, þann 7. ágúst 2013, að hann myndi láta aflétta tryggingarbréfinu afMiðleiti 12, Reykjavík, gegn því að stefnandi greiddi inn á reikning stefnda23.890.269 krónur. Í lok nóvember hafistefndi fallist á að veita skilyrt veðleyfi gegn greiðslu á 15.686.599 krónum,sem stefnandi ætti að fá við afsal. Viðuppgjör kaupanna við afsal hafi komið í hlut stefnanda 15.472.991 króna, semgengið hafi til stefnda, sem þegar hefði fengið greiddar 8.274.000 krónur. Stefndi, sem hafieignast með verulegum afslætti verðtryggða kröfu, upphaflega að höfuðstól8.274.000 krónur, samkvæmt umþrættu veðskuldabréfi, hafi, með bolabrögðum,knúið fram greiðslu höfuðstóls, að fjárhæð 22.841.508 krónur, auk dráttarvaxtaog kostnaðar. Krefst stefnandi þess aðuppgjöri veðskuldarinnar verði vikið til hliðar og stefndi dæmdur til aðendurgreiða stefnanda 15.472.991 krónu, þar sem það hafi verið ósanngjarnt ískilningi 36. gr. laga nr. 7/1936, í ljósi efnis veðskuldabréfsins semuppgjörið hafi tekið til, stöðu samningsaðila bæði við lánveitinguna 2007 oguppgjörið 2013/2014, og þeirra atvika sem leitt hafi til þess að stefndieignaðist veðskuldabréfið. Þegar stofnað hafiverið til skuldarinnar af hálfu stefnanda, í september 2007, hafi hann verið aðleita eftir hagstæðustu lánakjörum hjá viðskiptabanka sínum, þegar hann hafisamið um að taka veðlán að fjárhæð 8.274.000 krónur til fimm ára. Starfsmenn viðskiptabanka stefnanda hafitalið bestu lánakjörin haustið 2007 vera fólgin í gengistryggðu krónuláni. Þeirri ráðleggingu hafi stefnandi tekið, semhafi reynst honum kostnaðarsöm. Starfsmenn Glitnisbanka hf. hafi kosið að kalla lánasamninginn „Veðskuldabréf í erlendumgjaldmiðlum“. Lánasérfræðingur Glitnisbanka hf. og lögfræðingar bankans hafi vitað eða mátt vita árið 2007 að Glitnirbanki hf. gæti ekki veitt lán í erlendum gjaldmiðlum. Heitið á lánasamningi bankans við stefnandahafi því í raun verið merkingarlaust, að öðru leyti en því að um veðskuldabréfhafi verið að tefla, sem hafi veitt lánveitanda og síðari eigendum þess rétttil að fullnusta kröfuna samkvæmt skuldabréfinu yrði hún ekki greidd, ánundangengins dóms og aðfarar, sbr. 17. lið skilmála veðskuldabréfsins. Þann rétt hafi stefndi nýtt sér þann 10. maí2013 þegar hann hafi krafist nauðungaruppboðs á hinum veðsettu eignum. Stefnandi telur þaðengu skipta fyrir rétt stefnda gagnvart sér, að í veðskuldabréfinu, sem hafiverið í stöðluðu formi Glitnis banka hf. og einhliða samið af starfsmönnumbankans, hefði verið að finna yfirlýsingu stefnanda um að hann viðurkenndi meðundirritun sinni á veðskuldabréfið að skulda Glitni banka hf. 51.791svissneskan franka, 5.126.955 japönsk jen og 31.438 evrur. Til að stefnandi gæti skuldað Glitni bankahf. framangreindar fjárhæðir, og síðar stefnda, hafi Glitnir banki hf. þurft aðhafa verið bær um að lána tilgreindar fjárhæðir. Glitnir banki hf. hafi ekki getað það og þarmeð hafi skuldayfirlýsingin misst marks.Túlka verði efni veðskuldabréfsins með hliðsjón af því að Glitnir bankihf. hafi getað það og mátt þegar bankinn hafi veitt lánið. Hefði Glitnir banki hf. verið bær um að lánaframangreinda erlenda gjaldmiðla hefði ekki þurft að taka það fram í veðskuldabréfinuað fjárhæðirnar væru jafnvirði 8.274.000 króna. Þá verði að horfa tilþess að stefnandi hafi einnig skrifað undir að skuld hans við Glitni banka hf.,samkvæmt veðskuldabréfinu, gæti verið í íslenskum krónum, sem bæriREIBOR-vexti. Þetta hafi verið í samræmivið þá staðreynd að stefnandi hafi sótt um lán að fjárhæð 8.274.000krónur. Glitnir banki hf. hafi lofaðstefnanda að lána þá fjárhæð gegn veði í fasteignum, sem stefnandi hafi veriðað kaupa. Í veðleyfinu, sem seljandieignanna hafi veitt og stefnandi ásamt starfsmönnum Glitnis banka hf. hafiundirritað, hafi skuld stefnanda við Glitni banka hf. verið lýst þannig að umværi að ræða gengistryggt veðskuldabréf Glitnis banka hf., að fjárhæð 8.274.000krónur. Með vísan tilframangreinds hafi Glitnir banki hf. aðeins eignast kröfu á hendur stefnanda aðfjárhæð 8.274.000 krónur hinn 6. september 2007. Höfuðstóll þeirrar kröfu hafi verið ágjalddaga 1. október 2012. Stefnandihafi boðið fram greiðslu höfuðstóls og vaxta til lúkningar skuldinni semstefnandi hafi ekki verið til viðræðna um.Glitnir banki hf. hafi skuldfært reikning stefnanda fyrir vöxtum áumsömdum gjalddögum þeirra meðan bankinn hafi starfað og teljist þaðfullnaðargreiðsla þeirra vaxta. Hið samahafi stefndi gert, er hann hafi eignast veðskuldabréfið með miklum afslættieftir að viðskiptabankakerfið hafi verið komið í þrot. Stefnandi byggir og áþví að fái stefndi haldið þeim 15.472.991 krónu sem hann hafi knúið fram,auðgist hann sem nemi þeirri fjárhæð, á kostnað stefnanda. Sú auðgun sé í andstöðu við yfirlýst markmiðmeð setningu neyðarlaganna og laga nr. 107/2009. Lög þessi hafi verið sett til að sláskjaldborg um einstaklinga, heimili og fyrirtæki, sem staðið hafi frammi fyrirfjárkröfum fjármálafyrirtækja, sem komin hafi verið í þrot, fjárkröfum sem hafiverið langt umfram það sem nokkurn hafi órað fyrir þegar til þeirra hafi veriðstofnað. Stjórnvöld hafi ákveðið að takakröfurnar af lögmætum eigendum þeirra, meta þær til sannvirðis, greiða fyrrumeiganda það, og fá þær í hendur nýjum eigendum.Þessir nýju eigendur hafi mátt og átt að innheimta kröfurnar meðhliðsjón af metnu sannvirði þeirra, en það hafi stefndi ekki gert. Um lagarök vísarstefnandi til laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, laga umfjármálafyrirtæki, nr. 161/2001, laga um samningsgerð, umboð og ógildalöggerninga, nr. 7/1936, laga nr. 107/2009, laga um vexti og verðtryggingu, nr.38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, laga nr. 38/2014, um fyrningu, og til ákvæðanr. XIV í lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, varðandi fyrningukrafna vegna ólögmætrar gengistryggingar. Kröfu um málskostnaðbyggir stefnandi á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kröfu umvirðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, umvirðisaukaskatt.IV Stefndi byggirsýknukröfu sína á því að hin umdeilda skuldbinding sé um gilt lán í erlendumgjaldmiðlum. Í fyrsta lagi sé fyrirsögnþess: „Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“.Í annan stað séu lánsfjárhæðir, þ.e. höfuðstólsfjárhæð skuldbindingastefnanda, samkvæmt orðalagi skuldabréfsins, fyrst tilgreindar í þremurerlendum gjaldmiðlum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum, og síðanjafnvirði lánsins í íslenskum krónum. Íþriðja lagi séu vextir samkvæmt skuldabréfinu LIBOR- og EURIBOR-vextir, tilsamræmis við það að um erlent lán sé að ræða.Tilvísun til REIBOR-vaxta taki ljóslega mið af því að stefnandi hafigetað stofnað til skuldbindingar í íslenskum krónum samkvæmt bréfinu, svo sem ágrundvelli myntbreytingar, sbr. 7. og 8. gr. skuldabréfsins. Af ofangreindu leiði, bæði um einstök atriðiog að samanlögðu, að umrædd skuldbinding teljist ótvírætt vera í erlendumgjaldmiðlum. Stefndi mótmælir þvísérstaklega, að fyrirrennari hans hafi talið skuldbindinguna vera annars efnis,þ.e. í íslenskum krónum gengistryggða, auk þess sem slíkt verði ekki ráðið afefni skuldabréfsins. Í þessu samhengihafi og tilvísun stefnanda til skilyrtrar veðheimildar, þar sem rætt sé umgengistryggt lán, enga þýðingu, en umrætt skjal stafi hvorki frá lánveitanda négeti það ráðið efni skuldabréfsins sem slíks. Raunar sé það svo aðHæstiréttur Íslands hafi margsinnis slegið því föstu, þ. á m. í máli þar semsjö dómarar hafi tekið sæti, að skuldbinding sem þessi sé í erlendumgjaldmiðlum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 524/2011 og einnig t.d. í máli nr.446/2013, en þar hafi beinlínis verið ráðgert að efndir aðalskyldu lántaka færufram í íslenskum krónum. Stefndi vísarog til dóms Hæstaréttar í máli nr. 835/2014, þar sem niðurstaðan hafi verið ásama veg. Stefndi bendir á aðHæstiréttur hafi margsinnis slegið því föstu að sé tilgreiningskuldbindingarinnar í erlendum gjaldmiðlum, þ.e. höfuðstólsfjárhæðar, skýrlegagetið, sé um að ræða gilda skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum. Þurfi þá ekki að líta til þess með hvaðahætti efndir aðalskyldna hafi farið fram.Að þessu leyti sé málatilbúnaður stefnanda haldlaus, þ.e. form og efniskuldabréfsins beri það skýrlega með sér að vera í erlendum gjaldmiðlum. Þegar um sé að ræða skuldabréf fari fjarriþví, m.a. með hliðsjón af eðli þeirra, að kaupandi skuldabréfsins þurfi að innaaf hendi greiðslu beinlínis eftir efni samnings (in natura), sem svari tilskuldaviðurkenningarinnar. Um slíkt hafiútgefandi og kaupandi skuldabréfs þvert á móti algjört sjálfdæmi. Þá sé og að því að gæta að þótt efndir aðalskyldnaaðila hafi farið fram í íslenskum krónum, í þeim skilningi að erlendirgjaldmiðlar hafi ekki formlega skipt um hendur, fái það engu breytt um það aðöll meðferð skuldbindinga af þessum toga sé með þeim hætti að um skuldbindinguí erlendum gjaldmiðlum sé að ræða, sbr. m.a. greiðsluseðla og kvittanir vegnalánsins. Stefndi bendir á aðtilvísun stefnanda til þess að íslenska krónan sé lögeyrir hér á landi, sbr.lög nr. 87/1992, og því geymi innlendir gjaldeyrisreikningar íslenskar krónur,og til þess að stefnandi hefði getað stofnað til skuldbindingar í hinum umsömduerlendu gjaldmiðlum hefði hann þurft að eiga bankareikninga í þeim íheimalöndum hinna umsömdu gjaldmiðla, fari í bága við skýr dómafordæmiHæstaréttar, sbr. t.d. dóma réttarins í málum nr. 337/2015, 577/2014, 558/2014,466/2014, 409/2014, 90/2014, 57/2014, 25/2014, 26/2014, 187/2014, 498/2013,446/2013, 337/2013, 715/2012, 66/2012, 467/2011, 50/2012 og 3/2012, en í öllumtilvikum hafi lánsskuldbindingar gagnvart innlendum fjármálafyrirtækjum veriðtaldar í erlendum myntum. Stefndi byggirá því að af ákvæðum laga nr. 38/2001 leiði að engar takmarkanir séu álánveitingum innlendra lánastofnana í erlendum myntum. Um þá lögskýringu vísar stefndi meðal annarstil tilvísaðra dóma, sérstaklega í málum nr. 92/2010 og 153/2010. Stefndi telur aðmálatilbúnaður stefnanda hér að lútandi sé í andstöðu við eðli bankastarfsemiog innlánsreikninga, þ. á m. sé sá greinarmunur sem stefnandi geri ákrónureikningum og gjaldeyrisreikningum, og leiði raunar af sér ómöguleikaþegar erlend lán séu annars vegar, nema því aðeins að lánveitingin faribeinlínis fram fyrir tilstuðlan banka í heimalandi viðkomandi gjaldmiðils, semhafi ekki, a.m.k. hingað til, verið talin raunin í bankastarfsemi, þ. á m.alþjóðlegri. Þá fái það engan veginnstaðist að halda því fram að málatilbúnaður lögmanna innlendrafjármálafyrirtækja hafi ruglað dómstóla í rýminu á árinu 2011, eins ogstefnandi haldi fram. Við úttekt áinnstæðu eigi innstæðueigandi að jafnaði rétt á að fá afhenta t.d. seðla íviðkomandi gjaldmiðli, sem hafi þá sömu réttarstöðu, eða að úttekt fari frammeð samningi um sölu viðkomandi gjaldmiðils samhliða úttekt. Allar framangreindar ráðstafanir feli í sérað innstæðueigandi geti nálgast innstæðuna í viðkomandi gjaldmiðli og þannigfengið efndir á skuldbindingu innlánsstofnunar.Við þessar aðstæður teljist fé í erlendum gjaldmiðlum í reynd hafa skiptum hendur í þeim skilningi sem hér skipti máli, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr.66/2012. Ummæli á borð við þau að„enginn erlendur gjaldeyrir komi því við sögu“ feli og í sér ofureinföldun afhálfu stefnanda, enda erlendu lánsfjárhæðirnar í reynd færðar til andvirðis ííslenskar krónur sem stefnandi fái síðan til ráðstöfunar. Þess utan hafi umfjöllun um þetta atriði, meðtilliti til eðlis skuldaskjalsins, enga þýðingu fyrir úrlausn sakarefnisins. Þegar af þeirriástæðu að um gilda skuldbindingu sé að ræða fái málatilbúnaður stefnanda, um aðþað sé andstætt lögum nr. 7/1936, lögum nr. 161/2002, sbr. reglugerð nr.670/2013, og lögum nr. 107/2009, ásamt því að það leiði til ólögmætrar auðgunarfái stefndi „haldið þeim 15.472.991 krónum, sem honum tókst að hafa afstefnanda við uppgjör kröfu“ , ekki staðist, enda leiði af honum að hliðra eigilögmætri og gildri fjárskuldbindingu í andstöðu við meginreglur fjármuna- ogsamningaréttar. Þá beri gögn málsinsskýrlega með sér að stefndi hafi ítrekað, umfram skyldu, boðið stefnanda upp áúrræði ýmiss konar, sem hann hafi hins vegar ítrekað kosið að hafna, og verðistefnandi að bera af því allan halla. Íþessu ljósi skjóti það skökku við að stefnandi haldi því fram aðviðskiptahættir stefnda séu ekki í samræmi við góðar viðskiptavenjur. Þannig sé ekki um það að ræða að stefndi hafiknúið fram „með bolabrögðum“ greiðslur umræddrar skuldbindingar, nema síður sé. Tilvísanir stefnandatil stjórnvaldsákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008, geti ogengu breytt með tilliti til úrlausnarefnisins.Hvorki leiði af henni né lögum og hvað þá almennum reglum kröfuréttar,að „verðmat“ á framseldum kröfuréttindum á milli framseljanda og framsalshafasé bindandi í lögskiptum framsalshafa og skuldara. Sama sé að segja um bókfært virði ístofnefnahagsreikningi eða viðlíka. Umhafi verið að ræða mat á heildarvirði lánasafna, en ekki einstökum lánum semslíkum, og því engan veginn unnt að heimfæra reiknuð afföll upp á einstök láneða fallast á fast hlutfall afsláttar fyrir hvern lántaka á þeim grunni. Í samræmi við framangreint muni stefndi ekkiverða við áskorun stefnanda um að upplýsa um hvert hafi verið metið sannvirðilánasafns Glitnis banka hf. til einstaklinga við færslu þess þann 14. október2008 frá Glitni banka hf. til stefnda, en stefnandi geti fengið aðrar þærupplýsingar, sem hann hafi óskað eftir í stefnu, t.d. úr ársreikningum stefnda,sem þess utan séu þýðingarlausar fyrir úrlausn sakarefnisins og verði því ekkiafhentar. Stefndi hafnar þvísem röngu og ósönnuðu og auk þess vanreifuðu, að hann hafi brotið gegn lögumnr. 107/2009. Stefndi hafnar því aðlögin feli í sér ólögmætt valdframsal Alþingis, eins og stefnandi haldi fram ístefnu, auk þess sem það sé þýðingarlaust fyrir úrlausn sakarefnisins. Skilyrðum óréttmætrar auðgunar geti í ljósiframangreinds, ekki talist fullnægt. Stefndi telur aðfjárkrafa stefnanda, sem virðist samanstanda af þeim fjármunum, öðrum enreglulegum vaxtagreiðslum, sem stefnandi hafi innt af hendi, að frádregnu þvísem stefnandi telji sig að réttu lagi hafa átt að greiða, þ.e. 23.746.991 kr. –8.274.000 kr., samtals 15.472.991 króna, sem sé stefnukrafan, taki ekki mið afþví að stefnandi hafi skuldað vexti á lokagjalddaga lánsins, og standist þvíekki. Þá sé upphafstíma dráttarvaxtamótmælt, og hljóti hann að miðast í fyrsta lagi við þingfestingardag. Þá bendir stefndi áað áhöld hljóti að vera um það hvort málatilbúnaður stefnanda, um að uppgjöriaðila sé vikið til hliðar og stefndi dæmdur til endurgreiðslu tilgreindrarfjárhæðar, standist, enda sé grundvöllur málatilbúnaðar stefnanda að þessuleyti ekki alls kostar skýr, þ. á m. um hvort byggt sé á reglum um endurheimtu ofgreiddsfjár eða ógildingarreglum samningaréttar, eða eftir atvikum hvorum tveggja, oghvernig slíkt fari á annað borð saman. Um lagarök vísarstefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum,og almennra reglna fjármunaréttarins. Kröfu um málskostnaðbyggir stefndi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.V Í málinu greiniraðila á um hvort lán sem stefnandi tók 6. desember 2006 hjá Glitni banka hf.,sem stefndi leiðir rétt sinn frá, hafi verið í íslenskum krónum og bundið gengierlendra mynta með þeim hætti að í bága færi við 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr.38/2001, eða hvort um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum. Eins og greinir íforsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2020 og 153/2010 ferskuldbinding í erlendum gjaldmiðlum ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2.gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt þeim erhins vegar óheimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að þaðsé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausná því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendumgjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms ogmeginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skipti einkum máli hvernigsjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim efnum.Lánið var veitt með því að stefnandi gaf útskuldabréf, sem bar yfirskriftina „Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Þá sagði í skuldabréfinu: „Undirritaðurútgefandi viðurkennir með undirritun sinni á skuldabréf þetta að skulda Glitnibanka hf. ...CHF 51.791 ... JPY 5.126.955 ... EUR 31.438 ... jafnvirði ííslenskum krónum þann 31.08.2007 8.274.000“.Efni skuldabréfsins hefur verið nánar lýst hér að framan. Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eðaíslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla hefur Hæstiréttur fyrstog fremst lagt til grundvallar skýringar á texta þeirrar skuldbindingar semlántaki hefur gengist undir.Eins og að framan greinir var um að ræða skuldreista á skuldabréfi, sem samkvæmt yfirskrift þess var í erlendum gjaldmiðlumog þar sem fjárhæð skuldarinnar var skýrlega tilgreind í þremur erlendummyntum, sem sagt var að væru jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskumkrónum. Form og efni skuldaskjalsins barþví ótvírætt með sér að um væri að ræða lán í hinum tilgreindu erlendumyntum. Að því gættu gat útgreiðslalánsins eða endurgreiðsla skuldarinnar engu breytt, sbr. dóma Hæstaréttar ímálum nr. 446/2013 og 653/2015.Með vísan til þess var um að ræða lán í erlendumgjaldmiðlum og ákvæði þess ekki í andstöðu við fyrirmæli VI. kafla laga nr.38/2001. Þá geta vangaveltur stefnanda um eðli gjaldeyrisreikninga semog að lögeyrir Íslands sé íslensk króna engu breytt um eðliskuldbindingarinnar. Þar sem komisthefur verið að þeirri niðurstöðu að um lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum hafiverið að ræða, sem stefnanda bar skylda til að greiða verður ekki séð hvernigákvæði laga nr. 161/2002 eða laga nr. 107/2009 geti leitt til þess að lániðteljist ólögmætt eða að víkja beri til hliðar fyrrgreindu skuldabréfi ágrundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 eða að greiðsla stefnanda til stefnda ágrundvelli fyrrgreinds samnings leiði til ólögmætrar auðgunar stefnda og eruþær málsástæður hans haldlausar. Ber því þegar af þeimsökum að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Eftir þessariniðurstöðu ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykirhæfilega ákveðinn 900.000 krónur, og hefur þá verið litið tilvirðisaukaskattsskyldu stefnda. Hervör Þorvaldsdóttirhéraðsdómari kvað upp dóm þennan.D Ó M S O R Ð: Stefndi, Íslandsbankihf., er sýkn af kröfum stefnanda, Gunnars Inga Gunnarssonar. Stefnandi greiðistefnda 900.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 423/2014 | Verksamningur Uppgjör Ógilding samnings | Árið 2006 samdi V við M og H ehf. um vinnu við gerð Héðinsfjarðarganga. Var verkaskipting M og H ehf. í grófum dráttum þannig að M myndi annast vinnu við jarðgöng og H ehf. jarðvegsvinnu, vega- og brúargerð. Samkvæmt samkomulagi M og H ehf. skyldi hvor aðili um sig fá greiðslu fyrir þá hluta verksins sem hann sæi um samkvæmt nánar tilgreindri tilboðsskrá og í samræmi við umfang þeirra verkhluta sem þar kæmi fram. Frá því að framkvæmdir hófust höfðu M og H ehf. haft uppi ýmsar kröfur, hvor á hendur öðrum, vegna verkþátta sem þeir töldu sig hafa unnið en ekki fengið greitt fyrir úr hendi V, meðal annars vegna þess að umsaminni verkaskiptingu þeirra hefði ekki verið fylgt. Þá bættist einnig við ágreiningur hvernig skipta bæri þeirra á milli verðbótum sem til stóð að semja um við V vegna lækkunar gengis íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum árið 2008. Í september 2009 var undirritað samkomulag við V um viðbótarverðbætur til málsaðila vegna nánar greindra verkþátta, auk þess sem M og H ehf. gerðu sín á milli samkomulag, Viðauka 2, um breytingu á upphaflegum samstarfssamningi sínum. Í Viðauka 2 var meðal annars kveðið á um að M myndi greiða H ehf. 50.000.000 krónur „sem lúkningu á öllum hugsanlegum kröfum“ hvors aðila á hendur hinum, hvernig standa skyldi að greiðslu hinna umsömdu viðbótarverðbóta til hvors aðila um sig og hvernig nánar tilgreindir óunnir verkþættir skyldu afgreiðast. Árið 2012 höfðaði H ehf. mál gegn M til heimtu greiðslu vegna ellefu nánar greindra atriða sem H ehf. kvað stafa af framkvæmd verksins og væru óháð Viðauka 2. Þá krafðist H ehf. þess að tiltekin ákvæði viðaukans yrðu dæmd ógild eða þeim vikið til hliðar á grundvelli III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í dómi Hæstaréttar var talið að H ehf. hefði ekki fært fyrir því viðhlítandi sönnur að umþrætt ákvæði viðaukans hefðu verið svo ósanngjörn að víkja bæri þeim til hliðar samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, að undanskildri einni grein þess þar sem báðir aðilar afsöluðu sér hvor gagnvart öðrum kröfum sem ekki voru komnar fram eða ekki hefði risið ágreiningur um þeirra á milli við samningsgerðina. Var talið að það ákvæði hefði falið í sér svo víðtækt afsal á réttarvernd hvors þeirra um sig gagnvart hinum að líta bæri framhjá því við úrslausn málsins. Þá tók Hæstiréttur til greina fimm af fyrrgreindum ellefu kröfuliðum H ehf. en M var sýknað af hinum sex. Loks var H ehf. sýknað af gagnkröfum M til skuldajafnaðar á móti kröfum H ehf. Samkvæmt öllu framansögðu var M gert að greiða H ehf. samtals 62.189.924 krónur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. júní 2014. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að krafan verði lækkuð og málskostnaður falli niður á báðum dómstigum. Dómsorð: Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. mars 2014. Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 5. desember og síðar endurteknum málflutningi föstudaginn 28. febrúar, er höfðað 26. mars 2012 af Háfelli ehf., Skeifunni 11, Reykjavík, á hendur Metrostav a.s., Kozeluzská 2246, Prag, Tékklandi en með útibú á Aðalgötu 24, Siglufirði. I Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu 537.116.519 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 29.695.893 frá 10. nóvember 2009 til 15. janúar 2010, af 104.798.363 krónum frá þeim degi til 13. júlí 2010, af 179.671.162 krónum frá þeim degi til 1. október 2010 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar samkvæmt mati dómsins. Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi. Til vara krefst hann þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Þá krefst stefndi þess, komi til þess að kröfur stefnanda verði að einhverju leyti teknar til greina, að stefnandi þurfi að þola lækkun þeirra vegna skuldajöfnuðar. Verða gagnkröfur stefnda raktar sérstaklega í kafla um málsástæður hans, en stefnandi hafnar öllum gagnkröfum sem röngum og ósönnuðum. II Í október 2005 auglýsti Vegagerðin, sem verkkaupi, forval verktaka um gerð Héðinsfjarðarganga, en til þeirra teljast göng milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar og milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar. Skyldi verkinu verða lokið 10. desember 2009. Hinn 2. desember 2005 gerðu stefnandi og stefndi með sér samkomulag um samstarf um boð í verkið. Gerðu þeir með sér samning undir heitinu Joint venture agreement, í íslenskri þýðingu „Samkomulag um samstarfsverkefni“, en síðar hafa þeir samið um tvo viðauka þann samning. Sá fyrri, sem hér verður nefndur Viðauki I, var gerður 20. maí 2006, sama dag og aðilar skrifuðu undir verksamning við Vegagerðina. Hinn síðari, sem nefndur verður Viðauki II, var gerður í Prag 24. september 2009, en sama dag skrifuðu aðilar undir sérstakt samkomulag við Vegagerðina, sem síðar verður rakið. Samkvæmt Samkomulaginu skyldi stefndi annast vinnu við jarðgangagerð en stefnandi sjá um landmótun, vegagerð og brú. Eins og áður segir skiluðu aðilar sameiginlegu tilboði í verkið. Reyndist það lægsta boð, 5.739.412.688 krónur auk verðbóta, og tilkynnti Vegagerðin hinn 4. maí 2006 að hún hygðist semja við þá um framkvæmdina. Hinn 12. maí 2006 sömdu aðilar um að stefnandi kæmi upp aðstöðu á framkvæmdasvæðinu. Segir þar meðal annars: „Háfell will arrange full equipment of both camp sites for needed time“. Hinn 20. maí 2006 var undirritaður verksamningur Vegagerðarinnar og aðila um gerð Héðinsfjarðarganga. Er ekki deilt um að hlutur stefnanda í tilboðsfjárhæðinni hafi verið 1.869.987.907 krónur en hlutur stefnda 3.869.424.781 króna. Til að sjá um sameiginlega reikningsgerð vegna verkefnisins stofnuðu aðilar einkahlutafélagið Metrostav-Háfell ehf. Sama dag gerðu aðilar með sér Viðauka I. Í íslenskri þýðingu hans, sem liggur fyrir í málinu, segir meðal annars í grein IV-5 að hvor aðili skuli framkvæma verk sín „í samræmi við viðkomandi hluta hvors um sig af umfangi verksins“ samkvæmt verksamningnum og skuli hvorugum heimilt að skuldbinda eða gjaldfæra á reiknings hins án sérstaks leyfis. Var með viðaukanum breytt þeirri skipan, sem aðilar höfðu samið um í upphaflegum samstarfssamningi sínum, en þar hafði verið gert ráð fyrir hagnaði eða tapi yrði skipt þannig að 75% kæmu í hlut stefnda en 25% í hlut stefnanda. Þá var í viðaukanum kveðið á um að hvor aðili fengi 10% hlut í hugsanlegri verðhækkun sem hinn aðilinn fengi greidda, ef samið yrði um slíkt við Vegagerðina. Framkvæmdir á verkstað hófust í júní 2006 og segir í framkvæmdaskýrslu að Siglufjarðarmegin hafi vinna við gangagerð hafist 30. september það ár en gangasprengingar Ólafsfjarðarmegin 1. nóvember. Gangagröftur hafi farið rólega af stað en í árslok 2006 hafi göngin verið orðin 588 metrar Siglufjarðarmegin en 296 metrar Ólafsfjarðarmegin. Gangagröftur hafi farið vel af stað á árinu 2007 og gengið ágætlega til vors en gera hafi þurft hlé Ólafsfjarðarmegin í sjö vikur í apríl og maí vegna skorts á búnaði til bergþéttinga og vinnu við bergþéttingar. Í árslok 2007 hafi göngin Siglufjarðarmegin verið orðin 3.109 metrar en 2.139 metrar Ólafsfjarðarmegin. Á árinu 2008 hafi gengið almennt vel frá Siglufirði til Héðinsfjarðar og þar sprengt í gegn í mars. Gangagröftur frá Héðinsfirði til Ólafsfjarðar hafi hafist í maí og í árslok hafi þar verið búið að sprengja 1.721 metra. Mun hægar hafi gengið frá Ólafsfirði til Héðinsfjarðar vegna vatnsinnrennslis og bergþéttingar en síðari hluta ársins hafi þó gengið betur og í árslok verið búið að sprengja 4.368 metra frá Ólafsfirði. Hinn 29. janúar 2009 hafi greftri verið hætt frá Héðinsfirði en hlé gert frá Ólafsfirði um miðjan janúar vegna fækkunar starfsmanna en hafist handa að nýju í febrúar. Hinn 9. apríl 2009 hafi verið sprengt í gegn. Hafi gangagreftri lokið tíu mánuðum síðar en gert hafi verið ráð fyrir í upphaflegri áætlun verktaka. Bergstyrkingar hafi hafist vorið 2008 og staðið yfir með hléum þar til þeim hafi verið lokið í júní 2009. Vinna við vegagerð Siglufjarðarmegin hafi staðið yfir sumrin 2006 til 2009 en í Héðinsfirði um sumrin 2008 og 2009 og vegagerð þar lokið í júlí 2010. Ólafsfjarðarmegin hafi verið unnið í vegfyllingum á árinu 2007 og haustið 2009 og aðalvegur malbikaður í september 2010. Vinna við vegagerð og lagnavinnu í göngum hafi hafist vorið 2009 og staðið með hléum til hausts 2010. Vinna við uppsetningu vatnsklæðninga hafi hafist haustið 2009 og verið að mestu lokið í júlí 2010. Vinna undirverktaka við uppsetningu rafbúnaðar í göngin hafi hafist í apríl 2010 og staðið út árið. Göngin hafi verið malbikuð í júlí og september 2010 og 2. október það ár hafi þau verið opnuð almennri umferð. Í framkvæmdaskýrslunni segir að upphaflega hafi verkinu átt að ljúka í desember 2009 en vegna mikilla tafa af völdum vatnsaga í göngum hafi snemma orðið ljóst að það myndi ekki takast. Verktíminn hafi þrisvar verið framlengdur, fyrst til 17. júlí 2010, síðan til 30. september 2010 og loks hafi verktími fyrir lúkningu rafbúnaðar verið framlengdur til desember 2010. Afar hægt hafi gengið að ljúka öllum rafbúnaðarmálum og hafi ekki tekist fyrr en í apríl 2011. Frágangi utan ganga hafi verið lokið í maí og júní 2011. Aðilar eru sammála um að þróun gengis íslensku krónunnar hafi á árinu 2008 verið þeim báðum mjög óhagstæð. Hinn 8. desember 2008 skrifuðu aðilar Vegagerðinni sameiginlegt bréf þar sem þeir lýstu þeim sjónarmiðum að fall krónunnar hafi verið það mikið að mikilvægar forsendur verksamningsins hafi brostið. Bréfið er á ensku en í íslenskri þýðingu þess, sem liggur fyrir í málinu, segir meðal annars „að sú lögfræðilega meginregla sem fram [komi] í 36. grein laga nr. 7/1936, auk meginreglna um óviðráðanleg atvik (e. Force Majeure), skapi lagalegan grundvöll til að samningnum sé vikið til hliðar.“ Er í bréfinu vísað til dómafordæmis sem aðilar segja vera til stuðnings því að þeir fái greiddar „skaðabætur vegna óhóflegrar gengisrýrnunar.“ Í málinu liggur óundirritað minnisblað vegna viðræðufundar Vegagerðarinnar og hins sameiginlega félags aðila, Metrostav-Háfells ehf., sem fram hafi farið 14. til 16. janúar 2009. Segir þar að Vegagerðin sé reiðubúin að leggja til við samgönguráðherra að gerður verði sérstakur viðauki við verðlagsákvæði verksamningsins, sem gilda muni fyrir reikninga vegna vinnu eftir 1. september 2008, við tilboðsliði sem snúi að ráðstöfunum gegn vatnsaga í báðum göngum og gangamunnum, greftri í jarðgöngum, bergboltum, borun og bergþéttingu, vatnsklæðningu og frostvörnum, og rafbúnaði. Skuli viðaukinn taka til 80% af þessum liðum og skuli þar greiddar verðbætur samkvæmt sérstakri reiknireglu sem tilgreind sé í minnisblaðinu. Þá segir í minnisblaðinu að hvor aðili geti sagt þessum viðauka upp, verði „verulegar breytingar á gengi íslensku krónunnar gagnvart evru frá meðalgengi janúarmánaðar 2009“. Skilyrði samkomulags í þessa veru sé að verkinu verði lokið að öllu leyti í samræmi við verksamninginn og þar á meðal sé að ljúka gerð vatnsklæðninga og frostvarna. Að lokum er tekið fram í minnisblaðinu að þetta sé „hugmynd að lausn“ og sett fram „án viðurkenningar á sjónarmiðum verktaka er snúa að því að fall gengis íslensku krónunnar feli í sér Force Majeure atvik eða réttlæti ógildingu samnings að einhverju leyti skv. 36. gr. samningalaga.“ Í málinu liggja tölvubréf milli forsvarsmanns stefnanda og vegamálastjóra 20. apríl 2009. Forsvarsmaður stefnanda skrifar vegamálastjóra þann dag og segir meðal annars: „Í framhaldi af samtali okkar á föstudaginn langaði mig að óska eftir að fá nánari upplýsingar um það sem í boði er í væntanlegu samkomulagi og við ræddum lítillega í símanum. Eins og þú veist eru verkþættir þarna með sem tilheyra okkur og því þarf ég að fá tækifæri til að skoða það sem lagt er til þess [sic] að geta fallist á það. Þá eru önnur atriði sem snúa að samkomulagi á milli verktaka sem við þurfum að fá tækifæri til að ræða í okkar hópi.“ Þessu bréfi svarar vegamálastjóri sama dag og segir meðal annars að æskilegt sé „að geta undirbúið hugsanlegt samkomulag sem mest þessa viku“. Þá segir einnig í bréfinu: „Það er í raun ekki verið að ræða neitt nýtt sem þið ekki þekkið úr fyrri viðræðum, ég er aðeins að reyna að finna útúr því óformlega (með vitund og vilja fjármála) hvort hægt er að loka þessu á þennan hátt. Ekkert af þessu á að fara í opinbera umræðu, og alls ekki að verið sé að fjalla um verðbætur vegna gengisfalls, hugsanlegt samkomulag myndi amk að hluta verða skýrt með að verið sé að bæta aðra hluti:“ og eru síðan talin upp fjögur atriði: „Greiða bætur í samræmi við formúluna, sem mér skilst að gefi ca 570 m.kr. fyrir síðasta ár og þá ca 180 m.kr. fyrir restina, miðað við gengi Evru 145 og verðbólguspá Seðlabanka. Rafbúnaður er einn af þáttunum í formúlunni.“, „Engar frekari bætur eða claim vegna vatns, vatns- og frostvarna, jarðfræði o.s.frv.“, „Verktaki tryggi að hann muni klára verkið.“ og „Tryggja verður að verktaki geti ekki bara hirt bætur og síðan horfið úr verkinu.“ Í málinu liggur tölvubréf forsvarsmanns stefnanda, Jóhanns Gunnars Stefánssonar, til stefnda, sent 21. september 2009. Efni þess er í upphafi sagt vera tillaga um samningslausn. Í íslenskri þýðingu bréfsins segir að allt frá árinu 2007 hafi komið upp ýmis ágreiningsmál milli aðila, sum hafi verið leyst en önnur ekki. Segir svo: „Eftir nýgert sameiginlegt samkomulag okkar við umbjóðandann um bótaformúlu fyrir eftirstöðvar verksins, tel ég það vera í þágu beggja félaganna þegar ég segi að nú er brýnna en nokkru sinni fyrr að leysa óleyst ágreiningsmál fyrri tíðar, sem og núverandi. Við þurfum líka að finna leið til að forðast möguleika á svipuðum aðstæðum það sem eftir lifir verksins. Í þessum tilgangi hefur þú boðið okkur að koma til Prag til að ganga frá samningi milli félaganna fyrir undirskrift bótasamningsins við umbjóðandann sem fara á fram næsta fimmtudag 24/9. Við höfum velt þessu fyrir okkur og viljum leggja til eftirfarandi tillögu að endanlegu uppgjöri félaganna á ÖLLUM óloknum ágreiningsmálum, ÖLLUM yfirstandandi deilumálum, ÖLLUM hugsanlegum síðari málum sem tengjast verklokum. Þessi tillaga er gerð með opnum huga og er hugsuð sem lausn. Hún er byggð á viðræðum okkar til þessa, bæði tilboðum okkar að lausn og tillögu þinni, breytingu nr. 2. Við sjáum möguleika á hreinum og traustum vettvangi fyrir félög okkar til að einbeita okkur að eftirstöðvum verksins, hafandi leyst öll fyrri ágreiningsmál farsællega. Með þessu vinnum við saman og í samvinnu að sameiginlegum hagsmunum okkar um að ljúka verkinu í tæka tíð í þágu beggja aðila og verkefnisins. Það er okkar einlæg von að þetta geti leitt til ásættanlegs samnings okkar í millum á grundvelli virðingar og einlægni. Viðsamlegast skoðaðu þennan lista og hafðu samband við mig með hugmyndir þínar að loknum lestri hans. Samningur Aðilarnir gera samning þar sem MTS greiðir Háfelli umsamda upphæð við undirskrift sem fulla greiðslu. Að því samþykktu, samþykkir Háfell og lýsir yfir eftirfarandi fyrir eftirstöðvar verksins: Háfell hættir við fyrirhugaða fyrirlagningu málsins fyrir gerðardóm. Háfell gerir enga kröfu um greiðslu frá Metrostav vegna neinnar útgefinnar eða óútgefinnar kröfu, um málefni fram að undirskrift þessa samnings, þar á meðal: a. hækkað verð fyrir lið 100. b. hækkað verð fyrir lið 106. c. fyrirhugaður samningur sendur okkur í júlí ásamt fyrirhuguðum hlut í eingreiðslu. d. Eingreiðslubætur umbjóðenda eða hluti í þeim. e. allir útreikningar tengdir formúlunni í samningnum við umbjóðanda sem undirritaður var 24/9. f. samþykkt framlenging á verktíma til 30. september [2010] í samningnum við umbjóðanda 24/9. g. allar útgefnar kröfur eða fyrri samningar. h. allar framlagðar kröfur eða útgefnar af fyrri eigendum. i. R&D (vegir og skurðir) vinna við Siglu-göng, þar á meðal fleygun, mælingar, o.s.frv. j. skemmd jarðýta k. óleystur vélakostnaður l. skemmdur krossviður á mótum. m. ónýttar vistarverur. n. núverandi listi yfir frávik. o. 90/10 reglan í JV-samningnum eða breytingar hans þar á meðal grein 4.11. p. ófullnægjandi flokkun efnis. q. allar skemmdir eða tafir fyrir undirritun samningsins við umbjóðandann 24/9. r. kostnaður vegna PM stöðu. s. allur kostnaður eða vextir vegna ofangreindra atriða. t. Viðbótarfylling utan við teikningu. u. ... Að þessu samþykktu samþykkir Metrostav og lýsir eftirfarandi yfir vegna eftirstöðva verksins. Metrostav mun ekki krefjast neinnar greiðslu frá Háfelli sem tengist neinni útgefinni eða óútgefinni kröfu vegna mála fram að dagsetningu þessa samnings, þar á meðal: a. allar útgefnar kröfur eða fyrri samningar. b. allt tjón eða tafir sem orðið hafa fyrir undirskrift samningsins við umbjóðandann 24/9. c. hækkað verð móta. d. núverandi frávikatafla. e. kostnaður vegna PM stöðunnar. f. ... Að þessu samþykktu samþykkja báðir aðilar og lýsa yfir eftirfarandi vegna eftirstöðva verksins: 1. Aðilarnir samþykkja að til að forðast allar mögulegar deilur þeirra í millum í framtíðinni, ógilda aðilarnir hér með, án endurnýjunar allt ákvæði hluta IV.12 í breytingu nr. 1. Aðilarnir taka einnig fram, að hlutfallið samkvæmt hluta IV.2 í samreksturssamningnum gildir ekki um tap og/eða hagnað aðilanna frá fullnustu verksins. 2. Allar fjárkröfur og kröfur tengdar uppfyllingu verksamningsins verða gerðar sérstaklega af hálfu hvors aðila. Allar greiðslur Vegagerðarinnar vegna krafna og aukavinnu eða aðrar síðari fjárkröfur og kröfur aðila gagnvart umbjóðandanum skulu vera eingöngu fyrir viðkomandi aðila sem gerir slíka kröfu. Hvor aðili um sig heldur að fullu mögulegri greiðslu frá umbjóðanda í því formi sem hún kann að vera. 3. Aðilarnir skuldbinda sig til að vinna saman ef þörf krefur til að fylgja kröfunum eftir og kröfum vegna aukavinnu aðilanna til þessa, sem og öðrum fjárkröfum og kröfum aðilanna í framtíðinni gagnvart Vegagerðinni. 4. Við borun fyrir WFP-kerfisbolta, borar MTS einnig holur fyrir rafmagnsstiga án aukakostnaðar fyrir Háfell. Háfell sér um allan kostnað við uppsetningu boltanna, mælingavinnu, merkinga[r], bolta og uppsetningar. 5. Háfell lýsir yfir að það hefur engar kröfur á hendur Metrostav vegna samreksturssamningsins eða breytingar nr. 1 á honum, sérsamningsins og/eða í tengslum við neinn þeirra og/eða í tengslum við framkvæmd verksins fram til gerðardags ofangreinds samnings og afsalar sér öllum slíkum mögulegum kröfum. 6. Metrostav lýsir yfir að það hefur engar kröfur á hendur Háfell vegna samreksturssamningsins eða breytingar nr. 1 á honum, sérsamningsins og/eða í tengslum við neinn þeirra og/eða í tengslum við framkvæmd verksins fram til gerðardags ofangreinds samnings og afsalar sér öllum slíkum mögulegum kröfum. 7. Báðir aðilar muni vinna náið saman að áætlanagerð og munu verða við kröfum hvors um sig eins og auðið er til að forðast frekari drátt á verkinu og möguleg févíti umbjóðandans. 8. ... “ Þá eru í bréfinu talin upp „nokkur önnur atriði“ sem ekki þykir ástæða til að rekja sérstaklega. Í Prag hinn 24. september 2009 skrifuðu aðilar undir samkomulag um breytingu á samstarfssamningi sínum. Samkomulag þetta er hér nefnt Viðauki 2, en hafði í enskri frumútgáfu sinni yfirskriftina „Amandmend No. 2 to Joint Venture Agreement concluded on 2nd December 2005“. Íslensk þýðing viðaukans liggur fyrir í málinu og er hér vísað til hennar. Í inngangi viðaukans segir meðal annars að þar sem aðilar hafi mismunandi skoðanir á túlkun upphaflegs samkomulags, Viðauka 1 og fleiri atriðum, sem og „um deilingu hugsanlegra greiðslna frá Vegagerðinni umfram verð verkefnisins sem er tilgreint í verksamningnum“ geri aðilar þessar breytingar sem feli í sér „eftirfarandi samkomulag um vinsamlega lausn núverandi stöðu.“ Samkvæmt Viðauka 2 skal stefndi greiða stefnanda 50 milljónir króna og virðisaukaskattur innifalinn, „sem lúkningu á öllum hugsanlegum kröfum Háfells gagnvart Metrostav og Metrostavs gagnvart Háfelli“. Þá eru í Viðauka 2 felld úr gildi ákvæði Viðauka 1 um að báðir aðilar beri ábyrgð á tjóni af hálfu þriðja aðila eða náttúruhamförum, og um að hvor aðili skuli eignast 10% hlut í þeirri verðhækkun einstakra verkhluta sem hinn aðilinn kann að fá samþykkta hjá Vegagerðinni. Í Viðaukanum segir að sama dag hafi verið undirritað samkomulag beggja aðila og Vegagerðarinnar. Samkvæmt því samkomulagi skuli „Vegagerðin greiða fjárhæð ISK 719.475.162 að VSK meðtöldum til að leiðrétta verðaðlögunarformúlu vegna verkefna Metrostav og ISK 824.838 að VSK meðtöldum vegna verkefna Háfells.“ Verði þessar fjárhæðir greiddar með afborgunum inn á reikning sameiginlegs félags aðila og þaðan skuli svo tafarlaust millifæra 824.838 krónur á reikning stefnanda og 719.475.162 á reikning stefnda. Allar frekari greiðslur samkvæmt samkomulaginu við Vegagerðina skuli greiðast á reikning stefnda „ef slíkar greiðslur tengjast verkefnum Metrostavs, og inn á [...] bankareikning Háfells ef slíkar greiðslur tengjast verkefnum Háfells.“ Þá segir í Viðaukanum að stefndi setji fram pöntun til stefnanda um vinnu við að „fjarlægja bráðabirgðaveg í Ólafsgöngunum að Kleifarhrúgu og fylla upp í og bergskera prófíl Ólafsganga til þess að þau verði í samræmi við fræðilegu línuna sem tilgreind var í útboðsgögnunum“. Hafi aðilar samið um að „fast lokaverð [...] fyrir verkefni sem Háfell sér um fyrir Metrostav“ sé alls 65 milljónir króna að virðisaukaskatti meðtöldum. Í greiðsluskilmála-kafla Viðaukans segir að stefndi skuli greiða stefnanda alls 115 milljónir króna, þar af 80 milljónir króna innan viku frá undirritun, 20 milljónir innan viku frá því að stefndi hafi fengið 250 milljónir króna vegna samkomulagsins við Vegagerðina og stefnandi hefur hafið framkvæmdir í þágu stefnda. Loks skal greiða 15 milljónir króna fyrir 15. janúar 2010 eða innan viku frá móttöku stefnda á 235.300.000 krónum, eftir því hvort yrði fyrr, og lok þeirra verkefna sem stefnandi ynni í þágu stefnda. Sama dag, 24. september 2009, undirrituðu Vegagerðin og Metrostav-Háfell ehf. samkomulag um „viðbætur við verksamning aðila um Héðinsfjarðargöng frá 20. maí 2006.“ Í upphafi samkomulagsins segir að aðilar séu „sammála um að verðbætur samkvæmt gildandi verksamningi endurspegli þann kostnaðarauka sem orðið [hafi] á öðrum þáttum verksins en ráðstöfunum gegn vatnsaga í göngum, greftri jarðganga, bergboltum, borun og bergþéttingu, vatnsklæðningum og frostvörnum og rafbúnaði. Vegna lækkandi gengis íslensku krónunnar [sé] samkomulag um að bæta tjón verktaka vegna vinnu við ofangreinda þætti frá upphafi verksins fram til 30. júní 2009 með greiðslu að upphæð kr. 720.300.000 með virðisaukaskatti, sem [komi] til viðbótar þegar greiddum verðbótum skv. samningi. Af þessari fjárhæð [séu] kr. 719.475.162 af [sic] vegna verka sem unnin hafa verið af Metrostav a.s. og kr. 824.838 vegna verka sem unnin [hafi] verið af Háfell [sic] ehf.“ Í samkomulaginu kemur fram að öllu verkinu skuli lokið 30. september 2010 en eftir þann tíma reiknist dagsektir. Náist þessi verklok og verktaki uppfylli skyldur sínar gefi tafir á verkinu, miðað upphaflega verkáætlun, Vegagerðinni ekki rétt til tafabóta. Með samkomulaginu og hluti af því er fylgiskjal sem ber yfirskriftina matsaðferð. Segir þar að matsaðferðin gildi fyrir 80% af tilboðsliðum er snúi að ráðstöfunum gegn vatnsaga í göngum, greftri í jarðgöngum, bergboltum, borun og bergþéttingu, vatnsklæðningum og frostvörnum og rafbúnaði. Eru svo skilgreind þau viðmið sem notuð séu við „mat á því hvort og hversu mikið kostnaður við ofangreinda tilboðsliði hefur breyst miðað við verðlagsákvæði verksamnings“. Hinn 16. nóvember 2009 sendi Jóhann Gunnar Stefánsson, sem þá var framkvæmdastjóri stefnanda, tölvubréf til forsvarsmanns stefnda. Í íslenskri þýðingu þess, sem liggur fyrir í málinu, segir meðal annars: „Með því að ná samkomulagi í Prag var verið að gera upp eldri mál en í okkar huga fól það aðallega í sér samkomulag um ný atriði með greiðslu fyrir. Það var einnig samþykkt að aðilar myndu ekki gera neinar kröfur hvor á annan á grundvelli mála sem komu til áður en samkomulagið var gert, ef ég man rétt. Í okkar huga náðum við sama og engu fram í þessu samkomulagi án þess að samþykkt væri viðbótarvinna fyrir það. Og ef þú hugsar út í það, af öllum þeim milljörðum króna sem verkkaupinn hefur greitt verktakanum, þá hefur smávægilegur hluti þess endað hjá okkur þrátt fyrir vitneskju um mikið tap. Ég veit ekki hvað þú ert að vísa til með þínum jákvæðu tölum þar sem að eru engin slík mál sem eru óútkljáð. Við erum ekki og vorum ekki fyllilega sáttir við samkomulagið sem gert var í Prag eins og ég sagði þér í Prag. Við vorum í mjög þröngri stöðu og urðum jafnvel fyrir hótunum af hálfu lögfræðingsins og undir mjög miklu álagi alveg fram á síðustu mínútu þegar við vorum þar, eins og þú veist mætavel. Við gáfum mikið eftir fyrir lítið. En það er eitthvað sem við verðum að læra að lifa með, að vera ekki betri samningamenn. Við stóðum frammi fyrir taktík sem við höfðum hvorki getu né fjárhagslega burði til að ráða við.“ Matsgerð Með matsbeiðni, dagsettri 9. júní 2011, fór stefnandi fram á að dómkvaddur yrði maður til að meta kostnað, tjón og nauðsyn úrbóta, sem stefnandi kvað hafa orðið við gerð ganganna vegna vanefnda stefnda. Fyrir héraðsdómi mótmælti stefndi því að slík dómkvaðning færi fram, meðal annars með þeim rökum að íslenskir dómstólar ættu ekki lögsögu í málinu heldur tékkneskir. Héraðsdómur féllst á dómkvaðningu en stefndi kærði þá niðurstöðu til Hæstaréttar Íslands sem í dómi sínum í máli nr. 619/2011, sem upp var kveðinn 8. desember 2011, komst að þeirri niðurstöðu að hin umbeðna dómkvaðning skyldi fara fram. Viku síðar voru verkfræðingarnir Ásmundur Ingvarsson og Pálmi Ragnar Pálmason dómkvaddir til matsstarfa. Upphaflega voru matsspurningar þrettán en með bréfi dags. 29. mars 2012 fór stefnandi fram á að matsmenn létu fjórum spurninganna ósvarað. Matsspurningar og svör matsmanna eru á þessa leið: Var matsbeiðanda nauðsynlegt að vatnsræsa göngin frá 1. júní 2009 til verkloka? Ef svo í hvaða mæli? Matsmenn segjast álíta að „matsbeiðanda hafi verið nauðsynlegt að gera ráðstafanir gegn vatnsaga þann tíma sem hann vann einn í göngunum. Á hinn bóginn hafa matsmenn ekki nauðsynleg gögn [til þess að] meta umfang viðkomandi ráðstafnana.“ Hver er áætlaður kostnaður við að fleyga fyrir brunnum og þverunum í göngunum? Matsmenn segja ekkert liggja fyrir í þeim gögnum sem þeir hafi undir höndum um ástand ganga, en hitt sé einhlítt að verkið skyldi vinna. Matsmenn hafi ekki haft tök á að staðreyna verkmagnið en til „viðmiðunar við úrlausn þessa matsliðar hafa matsmenn reiknað kostnað við að fleyga meðaldjúpan og breiðan skurð í gangagólfi. Matsmenn hafa áætlað kostnað við annars vegar að fleyga rás í gangagólf miðað við hönnunarsnið og hins vegar við að fleyga fyrir mismunandi djúpum brunnum. Niðurstöðurnar eru meginatriðum í góðu samræmi við þann kostnað sem matsbeiðandi tiltekur og krefst úr hendi matsþola fyrir verkþættina [þ.e.a.s.] kr. 5.420.960 [...]. Þó álíta matsmenn miðað við þau átta mældu þversnið á fskj. 20 með matsbeiðni að heildarlengd sé ofreiknuð og telja réttara að miða við 8 m í hverri þverun en ekki 12 m þar sem líkur séu á að gólfið hafi verið nær réttri dýpt vinstra megin í þversniðinu þegar horft er með hækkandi lengd [...]. Matsmenn áætla að líklegur kostnaður vegna fleygunar fyrir brunnum og þverunum sé um kr. 3.790.240 miðað við að hver þverun sé um 8 metrar en ekki 12 eins og miðað er við í kröfu matsbeiðanda.“ Hver er áætlaður kostnaður við að þvo hvern rúmmetra af unnu efni? Matsmenn segja að ekki verði einhlítt ráðið af gögnum að þurft hafi að þvo allt efnið. Á hinn bóginn séu líkur á því að ekki hefði verið ráðist í efnisþvottinn án kröfu. Matsmenn segjast hafa leitað upplýsinga hjá tveimur verktökum er fáist við þvott fyllingarefna auk þess að meta kostnaðinn eftir kostnaðarlíkani Verkíss og Landsvirkjunar. Telji matsmenn hæfilegan kostnað við að þvo hvern rúmmetra unnins efnis vera 230 krónur. Hver er áætlaður kostnaður við að staðsetja, bora upp og líma inn með tveggja þátta lími hvern bolta? Matsmenn segja að sér sé ókunnugt um hvaða boltalengd hafi verið notuð á hverjum stað og hversu margir boltar af hverri gerð hafi alls verið notaðir í göngunum. Þá sé þeim einnig ókunnugt um hvort styttri boltar hafi verið notaðir til þess að hengja upp kapalstiga, sem þeim þó sýnist eðlilegt þar sem aðrir boltar hafi verið fyrir. Matsmenn segjast ekki geta gefið upp líklegt raunvirði hvers innsteypts bolta, meðal annars vegna þess að sami kostnaður sé við að flytja mannskap og tæki á boltastað hvort sem um sé að ræða til dæmis tveggja metra eða fjögurra metra bolta. Matsmenn segjast geta sér til, samkvæmt meðalgildum um kostnað vegna hvers metra, að innlímdir boltar kosti um 3.500 krónur metrinn. Hver er áætlaður kostnaður við að fjarlægja lagnir á 17 stöðum samkvæmt lista eftirlitsins úr gangagólfinu? Matsmenn segjast ekki hafa gögn sem þurfi til að meta þennan verkþátt til kostnaðar að öðru leyti en því að reikna með að um sé að ræða bráðabirgðalagnir sem einfalt sé að safna saman, setja á bifreið, flytja á brott og farga. Sé reiknað með að magn pípna hafi verið þannig að ein ferð á bifreið hafi getað flutt pípur frá tveimur eða þremur stöðvum telji matsmenn hæfilegan kostnað vegna fjarlægingar pípna nema um 500.000 krónum. Hver er áætlaður heildarkostnaður við að fjarlægja þær raflagnir sem stefndi hafði sett upp en skilið eftir? Matsmenn segja að á fylgiskjali komi fram fjöldi vinnustunda sem það hafi tekið menn og tæki að fjarlægja vinnuraflagnir sem stefndi hafi komið fyrir í göngum. Á skjalinu sé heildarkostnaður stefnanda vegna þessa talinn hafa verið 3.067.040 krónur og telji matsmenn það eðlilegt. Hver er áætlaður kostnaður við að reka þær vinnubúðir sem matsbeiðandi og matsþoli nýttu sér á verktíma? Matsmenn segjast hafa farið þá leið að meta hæfilegt leiguverð fyrir hvern fermetra sem nýttur hafi verið undir vinnubúðir. Þeir hafi ekki litið til orkukostnaðar en svar þeirra verður skilið þannig að reikningar fyrir orkunotkun hafi ekki legið fyrir þeim. Matsmenn segjast álíta að hæfilegt leiguverð vinnubúða þeirra sem stefnandi hafi lagt til hafi verið um 600 krónur á mánuði fyrir hvern fermetra. Hver er áætlaður kostnaður við mánaðarlegan rekstur á þeim skrifstofum sem aðilar og Vegagerðin nýttu sér? Matsmenn svara á sömu forsendum og spurningu um rekstrarkostnað vinnubúða og segjast álíta hæfilegt leiguverð fyrir skrifstofurnar hafa verið um 700 krónur á mánuði fyrir hvern fermetra. Hver er áætlaður mánaðarlegur kostnaður stefnanda við að reka þær skemmur sem stefndi nýtti sér á verktímanum? Matsmenn segjast svara á sömu forsendum og spurningu um rekstrarkostnað vinnubúða og telja hæfilegt leiguverð fyrir skemmur sem stefnandi hafi lagt til vera um 400 krónur á mánuði fyrir hvern fermetra. Hver eru eðlileg vikmörk hönnunarlína við gerð jarðganga eins og þau sem um ræðir, miðað við þá graftaraðferð sem stefndi notaði? Matsmenn segja að vikmörk við gangasprengingu ráðist „af allmörgum breytistærðum, jarðfræðilegum, framkvæmda(tækni)legum og mannlegum.“ Matsmenn telji almenn vikmörk, sem skilgreind hafi verið í sérverklýsingu verksins, eðlileg „þótt vissulega megi færa rök fyrir því að við sérstakar jarðfræðilegar aðstæður muni erfitt eða ógerlegt að fylgja þeim út í hörgul“, en sérreglur hafi gilt um jarðfræðilegar aðstæður. Gröftur umfram vikmörkin væri yfirgröftur, „þótt slíkur geti verið af ýmsum ástæðum“. Matsmenn segjast ekki hafa haft „viðhlítandi gögn um hvernig gangasprengingarnar gengu fyrir sig, þ.m.t. borholumynstur, borholudýpt og fláa, sprengimynstur, hleðslu við hverjar einstakar aðstæður“ og geti þeir því ekki metið þær sem slíkar. Einu upplýsingar sem matsmenn hafi í því tilliti taki til um 30 metra kafla og hafi sprengt þversnið þar verið að meðaltali um 11,2 rúmmetrar á hvern gangametra. Svar matsmanna við spurningunni er að þeir álíti „þau vikmörk sem urðu í reynd við gangagröftinn nokkuð umfram það sem við mátti að óreyndu búast.“ Hvert er sanngjarnt einingaverð í rúmmetrum, á grunnverði samnings aðila, fyrir að fylla til hliðar utan hönnunarmarka? Matsmenn segja að þá og því aðeins eigi eitt tiltekið verð við „að inn í það sé vegin meðalvegalengd og meðalmagn sem flytja þurfti þá vegalengd frá viðkomandi efnisbing og þá gert ráð fyrir að aðstæður til ámoksturs og annað sem verkliðnum tengist hafi verið svipað í öllum efnisbingjum.“ Matsmenn hafi ekki haft tök á að verðleggja þetta sérstaklega þar sem þeir hafi ekki þekkt dreifingu, „hvaðan efnið kom á hvern stað í göngunum“. Hins vegar hafi þeir áætlað kostnað við að moka á flutningabifreið og flytja hvern rúmmetra einn kílómetra. Niðurstaðan sé sú að eðlilegt sé að gera ráð fyrir að sá kostnaður sé 250 krónur. Sé þá ótalinn kostnaður við að koma fyllingunni fyrir eins og áskilið sé í verkgögnum. Miðað við 0,8 kílómetra meðalflutningsleið í Siglufjarðargöngum og 1,6 kílómetra í Ólafsfjarðargöngum sé sanngjarnt einingarverð fyrir hvern rúmmetra um 500 krónur í Siglufjarðargöngum og um 600 krónur í Ólafsfjarðargöngum. Hversu mikið magn efnis mátti áætla að út úr göngunum kæmi samkvæmt hönnunargögnum? Matsmenn vísa til þess að í „magnskrá sem er í „3. hefti tilboðsform“ kemur fram í kafla 8.09 gröftur í jarðgöngum undir liðum 76 og 7 að áætlað magn af föstu bergi sem komi út úr göngunum sé 583.000“ rúmmetrar. Hversu mikið magn efnis er áætlað að hafi raunverulega komið út úr göngunum? Matsmenn segjast ekki hafa viðhlítandi gögn um hvernig gangasprengingar hafi gengið fyrir sig, þar með talin borholumynstur, borholudýpt og flái, sprengimynstur og hleðsla við hverjar einstakar aðstæður og geti því ekki metið þær sem slíkar, eins og farið sé fram á. Einu upplýsingarnar sem þeir hafi taki til þrjátíu metra kafla í göngunum. Þversniðsmælingar á þeim kafla sýni göngin í átta stöðvum eftir sprengingu. Segjast matsmenn miða við að meðaltal umframfleygunar á þeim stöðum gefi raunhæfa mynd af þeim hluta ganganna sem matsmenn hafi ekki mælingu um. Segjast matsmenn áætla að 698.320 rúmmetrar af föstu efni hafi komið út úr göngunum. Hver er áætlaður samanlagður aukinn kostnaður matsbeiðanda vegna mismunar þess magns sem ætla má að hafi komið úr göngunum og þess magns sem samkvæmt hönnunargögnum mátti ætla að kæmi úr göngunum? Matsmenn segjast telja að samanlagður kostnaður matsbeiðanda vegna ámoksturs og flutningskostnaðar þeirra 115.320 rúmmetra sem séu umfram þá 583.000 rúmmetra sem getið sé í verkgögnum sé hæfilega áætlaður um 42.322.440 krónur. Ágreiningur aðila er margháttaður. Í fyrsta lagi deila þeir um gildi einstakra ákvæða Viðauka 2, sem skrifað var undir í Prag hinn 24. sepember 2009. Stefnandi vill að tilteknum ákvæðum hans verði vikið til hliðar og í framhaldi af því verði meðal annars ákveðið að stefnandi fái hlutdeild, 229.671.162 krónur en nánar greindar lægri fjárhæðir til vara, í þeim gengisbótum frá Vegagerðinni sem komið hafi í hlut stefnda samkvæmt samkomulagi aðila og Vegagerðarinnar sem einnig var gert þann dag. Þá krefst stefnandi þess að fá greiddar 64.139.586 krónur sem hlutdeild í verðhækkun efna í efnaefju og en tiltekna lægri fjárhæð til vara, og 18.207.210 krónur vegna þvotts á fyllingarefni. Aðrar kröfur stefnanda, alls 225.321.093 krónur, snúa að kostnaði sem hann hafi orðið fyrir við framkvæmdina en eigi rétt á greiðslu fyrir úr hendi stefnda. Verða þær raktar í næsta kafla. Stefndi telur íslenska dómstóla ekki hafa lögsögu í þrætum um gildi umrædds Viðauka 2, en að því frágengnu krefst stefndi þess að viðaukinn haldi að fullu gildi sínu. Þar með verði meðal annars óbreytt skipting greiðslu Vegagerðarinnar til aðila sem samið var um 24. september 2009. Þá hafnar stefndi öllum öðrum greiðslukröfum stefnanda, en hefur jafnframt uppi kröfur til skuldajafnaðar verði á einhverjar kröfur stefnanda fallist. Gagnkröfur stefnda verða nánar raktar í IV. kafla. Stefndi hefur hins vegar ekki uppi gagnkröfur til sjálfstæðs dóms. III Stefnandi segir sig og stefnda hafa hinn 2. desember 2005 samið um að bjóða í gerð Héðinsfjarðarganga. Hafi frá upphafi verið ákveðið að stefndi yrði leiðandi aðili í samstarfinu enda væri stefndi stórt verktakafyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða með mikla reynslu af jarðgangagerð, en stefnandi þar reynslulaus þótt verið hefði öflugt fyrirtæki í vegagerð á Íslandi. Stefnandi segir að frá vori og fram á haust 2008 hafi gengi krónunnar tekið að falla gagnvart erlendum gjaldmiðlum og hafi það valdið verktökunum verulegu fjártjóni. Í lok september hafi stefndi unnið um 85% af verkþáttum sínum en stefnandi einungis um 27% af sínum. Snemma árs 2009 hafi aðilar hafið viðræður við Vegagerðina um gengisbætur en treglega gengið. Í apríl 2009 hafi stefndi hótað að ganga frá verkinu ef krafa hans um gengisbætur næði ekki fram að ganga. Það hefði orðið til þess að verkið yrði boðið út að nýju og alls óvíst að stefnandi kæmi aftur að verkinu að því útboði loknu. Vegna ágreinings um gengisbætur og um uppsetningu vatns- og frostvarna hafi stefndi takmarkað umsvif sín á verkstað mjög verulega. Hafi þetta haft mjög slæmar afleiðingar fyrir stefnanda, sem hafi lagt í mikla fjárfestingu vegna verksins en átt eftir að innheimta meginhluta tekna sinna af því. Hafi fjárhagsstaða stefnanda því verið mjög erfið og versnað enn með frekari töfum. Hafi stefnda verið vel kunnugt um þetta. Þá hafi verið ljóst að hyrfi stefndi frá verkinu yrði stefnandi gjaldþrota og eigendur stefnanda, sem hafi verið í miklum persónulegum skuldbindingum, yrðu fyrir miklu fjártjóni. Stefnandi segir að Vegagerðin hafi að lokum fallist á að greiða 720.300.000 króna viðbótargreiðslur vegna gengisfallsins og hafi verið gert samkomulag þess efnis hinn 24. september 2009. Vegagerðin hafi hins vegar ekki viljað gefa almennt fordæmi fyrir gengisbótum á íslenskum verktakamarkaði og talið mikilvægt að greiðslan yrði til málamynda sögð greidd vegna verkþátta sem varði gangagerð. Því hafi 719.475.162 krónur verið greiddar til stefnda vegna verka á sviði gangagraftar, en einungis 824.838 krónur til stefnanda. Stefndi hafi gert það að skilyrði fyrir því að hefja vinnu að nýju, að stefnandi afsalaði sér þeim hluta gengisbótanna sem hann hafi átt réttmætt tilkall til. Í ljósi hinnar erfiðu stöðu stefnanda hafi hann ekki átt annan kost en að ganga að skilmálum stefnda og hafi það verið gert hinn 24. september 2009 í höfuðstöðvum stefnda í Prag, með samkomulagi sem nefnt hafi verið Viðauki 2. Samningur við Vegagerðina um gengisbætur hafi verið undirritaður um leið og stefnandi hafi verið búinn að rita undir viðaukann. Hafi viðaukinn verið stefnanda sérlega óhagstæður og ljóst að með honum hafi stefnandi afsalað sér verulegum fjármunum. Stefnandi segir að stefndi hafi borið því við að íslenskir dómstólar hafi ekki lögsögu um ágreining aðila. Í máli þeirra um dómkvaðningu matsmanna hafi Hæstiréttur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að leggja matsbeiðnina fyrir íslenska dómstóla, meðal annars með vísan til 1. mgr. 5. gr. Lúganósamningsins, sem upphaflega hafi verið veitt lagagildi hér á landi með lögum nr. 68/1995. Í þessu hæstaréttarmáli, nr. 619/2011, hafi stefndi haldið því fram að 2. tl. 22. gr. Lúganósamningsins hindraði lögsögu íslenskra dómstóla í málinu, en grein þessi fjalli um stofnskrár félaga. Tilvísunin hafi hins vegar ekki átt við, þar sem hvorki hafi verið deilt um stofnskrá aðila né gildi ákvarðana fyrirsvarsmanna þeirra. Sömu sjónarmið eigi við um það mál sem hér sé til úrlausnar. Þá kveðst stefnandi árétta að þrátt fyrir að sameiginlegt félag hafi verið stofnað um reikningsgerð í verkinu hafi tveir sjálfstæðir aðilar unnið verkið. Stefnandi segir málið höfðað fyrir héraðsdómi Norðurlands eystra á grundvelli varnarþingsreglu 35. gr. laga nr. 91/1991, sem mæli fyrir um að mál til efnda á eða lausnar undan löggerningi, eða vegna vanefnda eða rofa á honum, megi sækja í þeirri þinghá þar sem átt hafi að efna hann eftir hljóðan hans, tilætlun aðila eða réttarreglum. Þá reki stefndi útibú á Siglufirði með vísan til 1. mgr. 33. gr. sömu laga. Stefnandi segist vísa til 34. gr. laganna þar sem framkvæmd þeirra samninga sem liggi kröfum stefnanda til grundvallar hafi falið í sér mannvirkjagerð hér á landi og séu mannvirkin varanlega skeytt við íslenska jörð. Segir stefnandi að með vísan til þessa og ákvæði 1. mgr. 43. gr. laga nr. 91/1991 sé málinu stefnt fyrir þennan dómstól. Stefnandi segist byggja þær kröfur, sem séu komnar til vegna verkframkvæmdarinnar og séu í ellefu töluliðum, á samnings- og kröfuréttarsambandi við stefnda. Aðilar hafi gert með sér samninga sem stefndi hafi vanefnt og þannig valdið stefnanda tjóni. Byggi stefnandi því á almennum reglum kröfu-. skaðabóta- og samningaréttar um rétt til efndabóta. Geri stefnandi kröfu um að fá greitt fyrir vinnuframlag sitt og vera þannig eins settur og ef samningarnir hefðu verið efndir. Þar sem vafi kunni að vera um efni samnings aðila byggi stefnandi kröfu sína á þeirri meginreglu kröfuréttar að sanngjarnt endurgjald skuli greitt fyrir vinnuframlag. Einnig sé byggt á grein IV.11 í Viðauka 1, en þar komi fram að hvorugur aðili skuli valda hinum tjóni og jafnframt um skyldu hvors til að bæta hinum það tjón sem hann valdi honum. Byggi stefnandi þannig einnig á skaðabótareglum innan samninga. Eins og áður segir kveðst stefnandi gera í ellefu töluliðum kröfur sem séu vegna verkframkvæmdarinnar og byggðar á samnings- og kröfuréttarsambandi aðila. Þær telur hann upp svo: 1. Vegna vinnubúða, 17.915.927 krónur. 2. Vegna skemma og skrifstofa, 14.044.035 krónur. 3. Vegna vinnu- og vöruskiptalista, 6.487.739 krónur. 4. Vegna ráðstafana gegn vatnsaga, 92.058.800 krónur. 5. Vegna umframmagns efnis til móttöku, 15.676.495 krónur. 6. Vegna hliðarfyllinga umfram hönnunarmörk, 54.538.259 krónur. 7. Vegna fleygunar vegna brunna og þverana, 8.059.341 króna. 8. Vegna bolta vegna kapalstiga, 5.254.801 króna. 9. Vegna fjarlægingar pípna, 770.056 krónur. 10. Vegna fjarlægingar raflagna, 4.565.240 krónur. 11. Vegna endurfyllingar drenmalar, 5.950.400 krónur. Verður nú rakið það sem stefnandi kveðst byggja hvern þessara liða á. Vegna vinnubúða Stefnandi segir að samkvæmt útboðsgögnum hafi verkkaupi átt að greiða fyrir uppsetningu og niðurrif vinnubúða. Fyrir þessa verkþætti hafi verið greitt með ósundurliðaðri upphæð sem hafi skipst þannig, að eftir að uppsetningu hafi verið lokið hafi 80% verið greidd en fimmtungur eftir að aðstaðan hafi verið tekin niður og flutt brott. Rekstur vinnubúðanna hafi hins vegar verið greiddur af verktökum sjálfum og hafi þeir því þurft að hafa reksturinn innifalinn í einingarverði sínu. Aðilar hafi sín á milli samið um að stefnandi myndi reka búðirnar en stefndi greiða sanngjarnt gjald fyrir ákveðin afnot af aðstöðunni og þannig greiða sinn hlut í kostnaðinum. Í samkomulagi aðila hafi verið gengið út frá þeirri forsendu að sextíu starfsmenn stefnda yrðu í vinnubúðum á báðum stöðum á meðan gröftur og styrking jarðganga stæði yfir en eftir það yrðu tíu starfsmenn til verkloka. Stefndi hafi síðar óskað eftir fjölgun í sjötíu manns fram yfir gröft og styrkingar og þrjátíu og fimm starfsmenn frá þeim tíma til verkloka. Stefnandi hafi upphaflega boðist til að reka gistiaðstöðu og mötuneyti gegn greiðslu 1.400 króna fyrir gistingu og 2.900 króna fyrir fæði fyrir hvern mann á sólarhring. Stefndi hafi ákveðið að sjá sjálfur um fæði fyrir starfsmenn sína og hafi endanlegt verð orðið 1.170 krónur án virðisaukaskatts á sólarhring fyrir gistingu með uppbúnum rúmum. Þetta gjald hafi verið reiknað út frá raunkostnaði stefnanda við að halda úti vinnubúðunum og tekið hafi verið mið af fjölda starfsmanna sem stefndi hafi gefið upp að myndu gista í búðunum á hans vegum. Hafi gjaldið því átt að standa straum af kostnaði stefnanda við vinnubúðirnar. Hinn 23. desember 2008 hafi aðilar samið við Vegagerðina um framlengingu verksins og hafi starfsemi vinnubúðanna framlengst af þeim sökum. Það hafi hins vegar gerst án þess að stefnandi fengi tekjur af starfsmönnum stefnda á tímabili framlengingarinnar. Hafi því brostið þær forsendur sem hafi verið til grundvallar áætluðu daggjaldi sem stefnda hafi borið að greiða. Stefnandi hafi á sama tíma þurft að halda úti rekstri vinnubúðanna mun lengur en áætlanir hafi gert ráð fyrir, án þess að fá sanngjarnar tekjur frá stefnda. Telji stefnandi stefnda rétt og skylt að taka þátt í þeim viðbótarkostnaði sem fallið hafi til vegna framlengingar verksins. Stefnandi segist hafa getað takmarkað tjón sitt með því að koma undirverktökum fyrir í hluta búðanna frá janúar og út júlí árið 2010 og komi greiðslur frá þeim til frádráttar kröfunni á stefnda. Stefnandi segir að með gerð Viðauka 2, hinn 24. september 2009, hafi öllum kröfum sínum á hendur stefnda við það tímamark verið lokið með eingreiðslu og geri stefnandi því kröfu til að stefndi taki þátt í viðbótarrekstrarkostnaði vinnubúða sem til hafi fallið frá og með 1. október 2009 og út september 2010, samtals 17.915.927 krónur. Séu 3.625.088 krónur vegna 24,5% virðisaukaskatts og 6.038.087 króna verðbætur innifaldar og sé miðað við þrjátíu og fimm starfsmenn í þrjátíu nætur á mánuði, alls 1.050 gistinætur. Frá séu dregnar alls 2.358.720 krónur vegna greiðslna frá undirverktaka og er það nánar sundurliðað á mánuðina janúar til og með júní 2010. Stefnandi segist byggja kröfu sína á að forsendur umsamins daggjalds hafi brostið vegna breyttra aðstæðna og til að efna samning aðila þurfi stefndi að greiða sem nemi áætlaðri notkun sinni á meðan á rekstri vinnubúðanna hafi staðið. Þá kveðst stefnandi byggja á almennum reglum fjármunaréttar um sanngjarnt endurgjald fyrir sinn hlut í rekstrarkostnaði. Ósanngjarnt sé að stefnandi beri einn allan aukinn rekstrarkostnað af búðunum. Vegna skemma og skrifstofa Stefnandi segist hafa tekið að sér uppsetningu skemma og skrifstofa á sömu forsendum og vegna vinnubúðanna, þeim að stefndi greiddi ákveðið gjald gegn því að stefnandi tryggði honum ákveðna aðstöðu á verktíma. Það gjald hafi verið miðað við kostnað við aðstöðuna. Aðilar hafi hinn 12. maí 2006 gert með sér samkomulag til nánari skýringar á verkliðum 1 og 2. Hafi skemmurnar átt að vera 300 fermetra dúkskemmur, tvær á hvorum stað, en vegna eindreginna óska stefnda hafi önnur skemman á hvorum stað verið stækkuð í 600 fermetra. Ekki hafi verið samið sérstaklega um rekstrarkostnað af skemmunum en þar sem einungis stefndi hafi nýtt þær verði að telja rétt að hann beri kostnað af rekstri þeirra. Kveðst stefnandi telja þátt stefnda í leigu stórrar skemmu vera 301.200 krónur á mánuði, en 150.600 krónur fyrir litla skemmu. Sé virðisaukaskattur innifalinn. Vegna stórrar skemmu á Siglufirði krefjist stefnandi 2.409.600 króna fyrir október 2009 til júní 2010, fyrir stóra skemmu á Ólafsfirði krefjist stefnandi 2.710.800 króna fyrir tímabilið október 2009 til júlí 2010 og fyrir litla skemmu á Ólafsfirði fyrir tímabilið október 2009 til október 2010 krefjist hann 1.807.200 króna. Þá krefjist hann 48,76% verðbóta til verkloka, alls 3.377.898 króna. Krefjist stefnandi því 10.305.498 króna vegna skemma, og þar af séu 2.027.990 krónur vegna 24,5% virðisaukaskatts. Stefnandi segir að stefnda hafi borið að standa straum af rekstri skrifstofa sem stefnandi hafi lagt til með sama hætti og skemmurnar. Stefnandi hafi reist fullbúnar skrifstofur á Siglufirði, samtals 183 fermetra að flatarmáli. Stefndi og verkkaupi hafi notað þær en stefnandi sjálfur leigt gömlu flugstöðina á Siglufirði og notað sem skrifstofu og aðstöðu fyrir starfsemi sína. Á Ólafsfirði hafi stefnandi reist samtals 221 fermetra fullbúnar skrifstofur sem notaðar hafi verið að mestu af stefnda og verkkaupa, en ein skrifstofa verið fyrir sameiginlegan verkefnisstjóra aðila. Rekstrarkostnaður skrifstofanna hafi ekki verið innifalinn í verkþáttum stefnanda og ekki samið um hann sérstaklega. Því verði að telja að stefndi skuli bera þann kostnað sem til hafi fallið vegna notkunar hans á húsnæðinu. Stefnandi segist reikna hlut stefnda í rekstrarkostnaði eins og um leigu væri að ræða og miða við 753 krónur fyrir fermetrann. Á Siglufirði hafi stefndi haft 36,95 fermetra skrifstofu til verkloka en á Ólafsfirði hafi hann hafi 112,5 fermetra til afnota til 1. júlí 2010 en þá hafi stefnandi flutt hluta af starfsemi sinni í húsnæðið. Eftir þann tíma hafi stefndi haft 45 fermetra af húsnæðinu til afnota. Þá sé stefndi krafinn um þátttöku í rekstrarkostnaði skrifstofu verkkaupa að tveimur þriðjuhlutum, eða í sömu hlutföllum og verkið hafi skipst milli aðila. Á Siglufirði hafi eftirlit verkkaupa haft 73,89 fermetra en á Ólafsfirði 112,5 fermetra. Krefjist stefnandi 361.699 króna vegna skrifstofupláss stefnda á Siglufirði, 519.302 króna vegna hluta stefnda í skrifstofu verkkaupa á Siglufirði, 762.417 og 135.540 króna vegna skrifstofupláss stefnda á Ólafsfirði og 734.175 vegna hluta stefnda í skrifstofu verkkaupa á Ólafsfirði. Loks krefjist hann 1.225.404 króna vegna 48,76% verðbóta til verkloka. Þar sem öllum þá útistandandi kröfum stefnanda á hendur stefnda hafi verið lokið með eingreiðslu 24. september 2009 séu kröfur þessar miðaðar við þann kostnað sem fallið hafi til frá og með 1. október 2009. Vegna vinnu- og vöruskiptalista Stefnandi segir að aðilar hafi frá upphafi framkvæmda haldið vöruskiptalista í því skyni að fækka útgáfu reikninga sín á milli. Hafi átt að færa á listann þau verk sem hvor aðili ynni fyrir hinn og gera upp reglulega. Framan af hafi þetta gengið vel en eftir að stefndi hafi minnkað umsvif sín í verkinu hafi ekki tekist að fá hann til að ljúka uppgjöri. Við verklok hafi sjö liðir verið óuppgerðir af hálfu stefnda. Stefnandi hafi séð um að moka afgangi af sprautusteypu og yfirbreiðslu út úr göngunum fyrir stefnda. Þá hafi verið óuppgerður fæðiskostnaður vegna starfsmanna stefnda í vinnubúðum, stefnandi hafi fært háspennustrengi stefnda til í veggöngum, stefnandi hafi útvegað stefnda vinnu rafvirkja og gert við öryggiskerfi sem starfsmenn stefnda hafi unnið skemmdir á. Vatnsmælingar í göngum hafi verið gerðar í þágu beggja og sé krafist greiðslu helmings kostnaðar vegna þeirra. Þá séu óuppgerð tækjaleiga vegna vinnuvéla sem stefndi hafi notað, útlagður kostnaður vegna pallaefnis, helmingshlutdeild stefnda í sorphirðu á framkvæmdasvæði, viðbótarkostnaður vegna kapalstiga og rafmagnskostnaður sem stefnandi hafi lagt út fyrir borvagn stefnda. Stefndi segir að þegar 24,5% virðisaukaskattur sé meðtalinn krefjist hann 4.214.549 króna vegna þrifa, 345.323 króna vegna sorphirðu á Ólafsfirði, 1.494.000 króna vegna viðbótarkostnaðar vegna kapalstiga og 300.458 króna vegna rafmagnskostnaðar vegna borvagns. Séu hér gerðar kröfur sem fallið hafi til eftir eingreiðsluna 24. september 2009. Vegna ráðstafana gegn vatnsaga Stefnandi segir að í verkliðnum ráðstafanir gegn vatnsaga hafi falist vatnsvarnir í göngum frá upphafi verks til loka. Til að hægt væri að vinna í göngunum hafi þurft að verja vinnusvæði fyrir vatnsaga og veita úr þeim því vatni sem hafi komið úr berginu og tryggja virkni olíu- og setskilja. Þá hafi þurft að tryggja að ekki yrðu skemmdir vegna flóða. Þetta hafi verið gert með því að viðhalda rennslisleiðum vatns og fylgjast með skiljum og hreinsa eftir þörfum. Stefnandi segir að samkvæmt fylgiskjölum 1 og 2 við Viðauka nr. 1, dags. 20. maí 2006, hafi verkþáttur 8.01, verkliður 03 vegna Siglufjarðarganga og verkliður 04 vegna Ólafsfjarðarganga verið á verksviði stefnda. Í sérlýsingu verksins hafi sagt meðal annars að innifaldar í greiðsluliðnum væru ráðstafanir gegn vatnsaga frá upphafi verks til loka þess. Taki þessi verkþáttur því ekki aðeins til þeirra vatnsvarna sem stefndi hafi þurft að viðhalda vegna eigin vinnu í göngunum heldur allra ráðstafana til að stýra eða beina vatni frá vinnusvæði og fjarlægja það, allt til verkloka. Einnig hafi allur annar kostnaður vegna vatnsaga eða skorts á vatnsvörnum verið innifalinn í einingarverðinu. Verkkaupi hafi greitt stefnda fyrir vatnsvarnir með fimm jöfnum greiðslum fyrir fimm tilgreind tímabil, fimmtung þegar gröftur gangaenda hafi verið hafinn, fimmtung þegar lokið hafi verið greftri helmings gangahluta, fimmtung þegar gangahlutar hafi tengst með gegnumbroti. Tvær síðustu greiðslurnar hafi verið inntar af hendi þegar vinnu við vatnsklæðningar hafi lokið, hin fyrri í lok ágúst 2010 og hin síðari um miðjan september 2010. Stefnandi segist hafa gert athugasemdir við útfærslu bráðabirgðavatnsvarna og bent á að tjón hlytist af ónógum vatnsvörnum. Vorið 2009 hafi farið að bera á því að stefndi sinnti verkliðnum illa og allt viðhald vatnsvarna væri með minnsta móti. Stefnandi hafi snemma gert athugasemdir við athafnaleysi stefnda og í júní 2009 hafi verið komið svo að stefndi hafi með öllu verið hættur að sinna þessum verklið. Á samráðsfundi verktaka hinn 14. júlí 2009 hafi stefnandi óskað eftir því við stefnda að vatnsvörnum yrði komið í nægjanlega gott ástand áður en jarðgangastarfsmenn stefnda hyrfu af vettvangi, þannig að vinna stefnanda við lagnir og vegagerð gæti farið fram með eðlilegum hætti. Á næsta samráðsfundi, hálfum mánuði síðar, hafi stefndi lýst yfir því að engar ráðstafanir um vatnsvarnir yrðu gerðar fyrr en samkomulag hefði verið gert við verkkaupa um varanlega útfærslu vatnsklæðninga. Stefnandi þyrfti því að koma fyrir vatnsvörnum á eigin kostnað. Stefnandi hafi bent á að af þessu hlytust viðbótarkostnaður og tafir. Stefndi hafi lýst yfir að hann myndi greiða þennan kostnað ef ekki kæmi til sérstakrar greiðslu verkkaupa. Stefnandi segist hafa sinnt vatnsvörnum á síðustu tveimur tímabilunum af fimm, til að lágmarka tjón allra aðila af brotthvarfi stefnda og tryggja að undirverktakar á vinnusvæðinu gætu haldið áfram störfum, en með athafnaleysi sínu hafi stefndi vanefnt bæði samstarfssamning aðila og Viðauka 1. Stefnandi segir stefnda hafa fengið greitt fyrir allan verkþáttinn samkvæmt samningi, þar með hafi hann fengið 92.058.800 krónur fyrir varnir gegn vatnsaga á því tímabili sem stefnandi hafi sannanlega séð um þær. Stefnandi krefjist því greiðslu fyrir vinnu sína auk dráttarvaxta frá 1. október 2010 er verkinu hafi lokið og aðilar hafi samið um að útkljá útistandandi kröfumál. Stefnandi segist krefjast 92.058.800 króna sem sé sú fjárhæð sem stefndi hafi tekið við frá verkkaupa á fjórða og fimmta tímabili. Verkþátturinn hafi tekið viðbótargengisbótum samkvæmt samningi við Vegagerðinni 24. september 2009 og krefjist stefnandi þeirra bóta, enda hafi hann séð um verkliðinn á þeim tíma sem hann hafi verið gengisbættur. Sérstaklega beri að árétta að þessar gengisbætur standi óháðar kröfu stefnanda um hluta gengisbótanna sem stefndi hafi fengið greiddan á grundvelli samkomulagsins 24. september 2009. Vegna umframmagns efnis til móttöku Stefnandi segir að samkvæmt samkomulagi hafi hann átt að „fá 80 krónur á grunnverði samnings fyrir móttöku og frágang á hverjum rúmmetra af gröfnu efni úr göngunum.“ Stefnandi hafi fengið greitt fyrir vinnuna samkvæmt magntölum sem fram hafi komið í framvinduskjali sem verkeftirlit hafi samþykkt. Í ljós hafi komið að magn efnisins úr göngunum hafi orðið töluvert meira en áætlanir hafi gert ráð fyrir. Ástæða þess sé sú að stefndi hafi sprengt göngin víðari en útboðsgögn hafi kveðið á um. Yfirbrot í göngunum, umframmagn efnis sem sprengt hafi verið og fjarlægt úr göngunum, sé áætlað 131.726 rúmmetrar sem sé um 22,8% umfram það magn sem gert hafi verið ráð fyrir við tilboðsgerð. Stefndi hafi hins vegar ekki gert stefnanda grein fyrir yfirbroti við sprengingar, sem stefnda hafi þó verið kunnugt um. Hafi stefnandi því ekki getað innheimt tekjur fyrir móttöku þessarar magnaukningar. Stefnandi segir það meginreglu í samstarfssamningi aðila að hvorugur skuli valda hinum tjóni. Þá gildi í samskiptunum einnig meginreglur samningaréttar um gagnkvæma tillitsskyldu og góða trú. Stefnandi hafi ekki haft sérþekkingu á sviði jarðgangagerðar og hafi hann því sérstaklega óskað eftir því á upphafsstigi samstarfs að stefndi tæki mið af því og gætti jafnframt hagsmuna stefnanda vegna þess. Þá hafi stefndi verið leiðandi aðili samstarfsins. Hafi stefnandi einungis getað gert ráð fyrir að flytja magn efnis í samræmi við magntöluskrá og hafi hann miðað einingaverð sín við það. Verkkaupi hafi ekki greitt fyrir efnislosun utan hönnunarmarka eins og tilgreint sé í lið 76 c) í sérverklýsingu útboðsgagna og hafi stefnandi lagt í töluverða vinnu við móttöku og frágang efnis frá stefnda án þess að fá greitt fyrir, Móttaka efnis umfram skilgreind hönnunarmörk teljist til viðbótarverka stefnanda fyrir stefnda, sem stefnanda beri að fá sérstaklega greitt fyrir. Stefnandi segir að stefndi hafi haldið utan um mælingar á göngunum og búið yfir upplýsingum um að töluvert umframmagn efnis kæmi úr þeim. Þau gögn hafi verið unnin jafnóðum og göngin hafi verið grafin. Stefndi hafi ekki deilt þessum upplýsingum með stefnanda. Vorið 2009 hafi stefnandi óskað eftir gögnum frá stefnda með mælingum á þversniði ganganna vegna vinnu stefnanda við tengingu vegskála við berg. Svör stefnda hafi verið á þá leið að stefnandi gæti keypt þessi gögn af stefnda á ellefu milljónir króna. Hafi stefnanda verið mjög brugðið við þessi svör en þau staðfesti þau viðhorf sem hafi verið ríkjandi hjá stefnda um samskipti og gagnkvæma virðingu aðila í samstarfinu, þvert á hugmyndir stefnanda og samningsákvæði aðila. Stefnandi segir að krafa sín um greiðslu fyrir móttöku umframmagns efnis hafi ekki verið komin fram fyrir gerð Viðauka 2 hinn 24. september 2009 og sé krafan því óháð gildi viðaukans. Stefndi hafi við gerð viðaukans vitandi vits leynt upplýsingum um raunstærð ganganna og hafi stefnandi því ekki getað vitað að hann þyrfti að taka við meira magni en útboðsgögn hafi gert ráð fyrir. Stefnandi segist krefjast 15.676.495 króna vegna þessa og sundurliðar það svo að umframmagn hafi numið 131.726 rúmmetrum og hann krefjist 80 króna fyrir rúmmetrann, og auk þess krefjist hann 5.138.383 króna verðbóta, 48,76% til verkloka. Stefnandi segir að yfirbrot stefnda hafi leitt af sér beinan kostnað fyrir stefnanda. Hann geri því kröfu um að fá kostnað sinn vegna móttöku umframmagns greiddan úr hendi stefnda. Vegna hliðarfyllinga umfram hönnunarmörk Stefnandi segir útboðsgögn áskilja að ljóst steinefni sé sett utan vegstæðs og upp að berginu innan ganganna. Stefnandi hafi lagt fram verklagslýsingu fyrir lagnavinnu á verkfundi 4. mars 2009 og komi þar fram að fylla þurfi út í vegg og yfir kapla. Sé þar átt við staðsetningu veggja jarðganganna miðað við skilgreind hönnunarmörk graftar. Sé þeim lýst nákvæmlega á teikningum. Stefnandi segir að vinna sín við hliðarfyllingar hafi farið fram frá vori 2009 til verkloka. Stefnandi hafi fengið kostnað sinn við fyllingarefni í skurðum og á hliðarsvæðum greiddan sem hluta af einingarverði lagnavinnu, verkliðir 180 til og með 187, en aðeins hafi verið greitt samkvæmt skilgreindum hönnunarmörkum graftar. Við greiðslu fyrir verkliðina hafi verið miðað við þá hæð og breidd sem gert hafi verið ráð fyrir í upphafi en ekki raunstærð ganganna sem hafi orðið stærri vegna yfirbrots stefnda. Þar sem göngin hafi verið sprengd of víð hafi þurft meira efni í fyllingar utan skilgreindra hönnunarmarka sem útboðsgögn og greiðsluskylda verkkaupa hafi miðast við. Verulegur kostnaður hafi fallið á stefnanda vegna aukningar þess magns sem þurft hafi til fyllinga af þessum sökum. Stefnandi segir að þar sem stefndi hafi einhliða ákveðið að yfirsprengja göngin og án þess að upplýsa stefnanda um það hafi stefnandi orðið fyrir töluverðu tjóni í formi aukinnar vinnu og efniskostnaðar. Því hefði hann ekki orðið fyrir ef stefndi hefði uppfyllt samningsskyldur sínar og sprengt göngin í samræmi við útboðslýsingu. Aðilar hafi borið upplýsingar- og trúnaðarskyldu hvor við annan en stefndi ekki staðið við þær gagnvart stefnanda í þessum efnum og það leitt til fjártjóns stefnanda. Stefnandi segist krefjast þess að stefndi bæti sér þann kostnað sem hann hafi orðið fyrir vegna þess að meira efni hafi þurft í hliðarfyllingar í víðari göngum en hann hafi mátt gera ráð fyrir og fengið greitt fyrir frá verkkaupa. Einingarverðið sé samsett verð fyrir efni og vinnu fyrir hvern lengdarmetra af blandaðri fyllingu sem bæst hafi við. Innifalin séu skurðgröftur, efnisvinnsla sands og drenmalar, vinna við söndun undir pípur, drenmöl ofan á pípur, síudúkur, flutningur röra og niðurlagnar, öryggisráðstafanir, ljóst steinefni á yfirborð drenmalar og virðisaukaskattur. Hliðarfyllingarnar skiptist í tvennt, annars vegar hafi verið fyllt við stofnlögn og hins vegar í veituskurði. Í kröfu sinni segist stefnandi ætíð gera kröfu um einingarverðið 3.080 krónur fyrir rúmmetrann. Vegna stöðvanúmera 2410 til 5000 krefjist hann 9.194.148 króna, en magn vegna stofnlagnar hafi verið 1.808 rúmmetrar en 1.177 vegna veituskurða og því sé krafist 9.194.148 króna vegna þessara stöðvanúmera. Vegna númeranna 5010 til 6040 sé krafist 3.133.971 krónu, en magn vegna stofnlagnar hafi verið 587 rúmmetrar en 430 rúmmetrar vegna veituskurða. Vegna númeranna 6925 til 8790 sé krafist 6.780.089 króna en magn vegna stofnlagnar hafi verið 1.318 rúmmetrar en 883 rúmmetrar vegna veituskurða. Vegna númeranna 8800 til 10990 krefjist hann 8.179.804 króna en magn vegna stofnlagnar hafi verið 1.614 rúmmetrar en vegna veituskurða 1.042 rúmmetrar. Þá krefjist hann 9.373.899 króna en magn vegna stofnlagnar hafi verið 1.917 rúmmetrar en vegna veituskurða 1.126 rúmmetrar. Loks krefjist stefnandi 17.876.348 króna vegna 48,76% verðbóta til verkloka. Alls krefjist stefnandi því 54.538.258 króna vegna viðbótarkostnaðar við hliðarfyllingar vegna yfirsprenginga stefnda, en þar af séu 10.732.428 krónur vegna 24,5% virðisaukaskatts. Stefnandi segist byggja á því að viðaukasamningur aðila 24. september 2009 eigi ekki við um þessa kröfu þar sem hún hafi komið til eftir gerð samningsins. Stefndi hafi leynt stefnanda því að göngin væru of víð og hafi stefnandi því ekki getað vitað að meira efni þyrfti til hliðarfyllinga fyrr en við lok vinnu sinnar við þær. Vegna fleygunar vegna brunna og þverana Stefnandi segir að liður 77, gröftur utan hönnunarmarka, hafi verið verkþáttur á verksviði stefnda og kveðst þar vísa til fylgiskjals með Viðauka 1. Stefnandi segir að í verkþættinum hafi meðal annars falist að fleyga fyrir brunnum og þverunum lagna. Brunnarnir hafi verið 69, þar af tuttugu sandfangsbrunnar sem risti dýpra en hefðbundnir brunnar. Þveranirnar hafi verið 182 talsins og hver þeirra tólf metra löng. Stefnandi hafi annast fleygun frá hausti 2009 og fram á vor 2010 en stefndi hafi ekki fallist á að greiða stefnanda fyrir vinnuna. Stefndi hafi hins vegar þegið greiðslur fyrir vinnuna úr hendi verkkaupa. Stefnandi segist krefjast 4.892.160 króna fyrir drenþveranir og sundurliðar það svo að þær hafi alls numið 2.184 metrum og einingarverð hvers sé 2.240 krónur. Stefnandi krefjist 232.200 króna vegna 60 cm sandfangsbrunna, en þeir hafi verið átján talsins og einingarverðið sé 12.900 krónur. Stefnandi krefjist 51.600 króna vegna 100 cm sandfangsbrunna sem hafi verið tveir og einingarverð hvors 25.800 krónur. Stefnandi krefjist 245.000 króna vegna veitubrunna en þeir hafi verið 49 og einingarverðið 5.000 krónur. Loks krefjist stefnandi 2.638.381 krónu vegna 48,67% verðbóta til verkloka. Alls krefjist stefnandi því 8.059.341 krónu vegna fleygunar vegna brunna og þverana, og þar af séu 1.585.975 krónur vegna 24,5% virðisaukaskatts. Vegna innlímdra bolta vegna kapalstiga Stefnandi segir að á lokastigi tilboðsvinnu hafi komið í ljós að tilboð undirverktaka í raflagnavinnu hafi ekki falið í sér að boraðir yrðu boltar fyrir strengstiga. Raflagnaverktakinn hafi óskað eftir því að sá aðili, sem annaðist borun fyrir bergbolta, myndi einnig annast uppborun bolta fyrir strengstiga. Hafi aðilar því ákveðið að skipta uppsetningu bolta milli sín með þeim hætti að stefnandi legði út efnið en stefndi myndi bora fyrir boltunum og líma þá upp. Þessi samningur hafi verið gerður munnlega milli forsvarsmanna aðila. Samkvæmt teikningum hafi boltarnir verið 4.948 og skipst eftir nánar tilgreindum verkliðum. Stefnandi segir að þegar aðilar hafi gert með sér Viðauka 2 um haustið 2009 hafi þeir aftur samið um að stefndi annaðist þennan verkþátt stefnanda á þeim svæðum þar sem stefndi þyrfti sjálfur að líma inn bolta vegna vatnsklæðninga. Reyndin hafi orðið sú að þrátt fyrir að tvívegis hafi verið samið um að stefndi annaðist borunina hefði stefnandi sjálfur neyðst til að sjá um framkvæmdina án nokkurs vinnuframlags frá stefnda. Stefnandi hafi annast framkvæmdina annars vegar með því að að semja sérstaklega við Vegagerðina um að fá að nota þá bolta sem þegar hefðu verið settir upp vegna vatnsklæðningar á blautum svæðum í göngunum en hins vegar hefði stefnandi sjálfur borað upp alla bolta á þurrum svæðum í göngunum. Komi þetta meðal annars fram í fundargerð samráðsfundar, dagsettri 26. nóvember 2009. Vinnuframlag stefnda í fyrirhuguðum vinnuskiptum hafi því ekkert verið. Stefnandi segist krefjast þess að fá kostnað sinn við verkþáttinn greiddan að viðbættum verðbótum til verkloka, samtals 5.254.801 krónu. Þar af séu 1.034.077 krónur vegna 24,5% virðisaukaskatts. Kröfuna segist stefnandi sundurliða svo að 870.400 krónur séu vegna mælinga og útsetningar, sem tekið hafi 80 klukkustundir og einingarverð sé 10.880 krónur, 880.000 krónur séu vegna borunar sem tekið hafi 160 klukkustundir og einingarverðið sé 5.500 krónur, 1.056.000 krónur séu vegna innlímingar bolta sem tekið hafi 192 klukkustundir og einingarverðið sé 5.500 krónur og hann krefjist 1.080.000 króna vegna tveggja þátta líms. Loks krefjist stefnandi 1.368.401 krónu vegna 48,76% verðbóta til verkloka. Vegna fjarlægingar pípna Stefnandi segir að samkvæmt fyrirmælum eftirlitsmanna Vegagerðarinnar frá 27. maí 2010 hafi reynst nauðsynlegt að taka upp bráðabirgðavatnsvarnir, sem stefndi hafi sett í vegfyllingu í göngum á meðan á greftri hefði staðið. Þessi framkvæmd hafi því tvímælalaust verið hluti verkþáttar sem stefndi hafi átt að annast og hafi borið ábyrgð á. Stefnandi hafi hins vegar tekið þetta að sér í samráði við fulltrúa stefnda, enda hafi stefndi verið með afar takmarkaða starfsemi á svæðinu þegar þarna hafi verið komið sögu. Þrátt fyrir þetta hafi stefndi ekki fengist til að greiða stefnanda fyrir verkið. Stefnandi segir að til að grafa upp lagnir á hverjum stað hafi þurft vörubíl og hjólavél í hálfa klukkustund, vélamann og tvo verkamenn í eina og verkstjóra. Alls hafi þurft að grafa upp lagnir á 17 stöðum víðs vegar um göngin og sé krafa stefnanda þannig reiknuð að fundinn sé kostnaður stefnanda við að grafa upp lagnir á hverjum stað og sá kostnaður margfaldaður með 17. Kostnaður á hverjum stað hafi numið 30.450 krónum sem sundurliðist svo að kostnaður við vörubifreið hafi numið 12.370 krónum, við hjólavél 14.290 krónum, við vélamann 5.560 krónum, við verkamenn 5.560 krónum og við verkstjóra 6.000 krónum. Margfaldað með 17 sé kostnaðurinn 517.650 krónur en auk þess krefjist stefnandi 252.406 króna vegna 48,76% verðbóta til verkloka. Alls krefjist stefnandi því 770.056 króna vegna þessa verkþáttar, en þar af séu 151.537 krónur vegna 24,5% virðisaukaskatts. Vegna fjarlægingar raflagna Stefnandi segir að stefnda hafi samkvæmt útboðsgögnum borið að útvega rafmagn í göngunum út verktímann. Á samræmingarfundi aðila, sem fram hafi farið 26. nóvember 2009, hafi fulltrúi stefnda hins vegar tilkynnt að raflagnir verksins yrðu fjarlægðar samhliða uppsetningu vatnsklæðninga og hafi stefndi tekið þá ákvörðun án nokkurs samráðs við stefnanda. Afleiðing þessa hefði orðið rafmagnsleysi í göngunum út verktímann, en stefnandi hafi engan veginn getað verið án rafmagns vegna þeirra verkþátta sem hann hafi þá átt eftir að vinna í göngunum. Hafi stefnandi því lagt áherslu á að stefnandi sinnti skyldum sínum vegna raflagna allt til verkoka samkvæmt verklýsingu, en án árangurs. Hafi sú ástæða verið gefin að undirverktaki stefnda hygðist nota rafstöðvar við sína vinnu og stefndi hefði því engin not fyrir rafmagnsdreifikerfið í göngunum. Hafi aðilar því gert samkomulag um að „stefnandi tæki að sér rekstur rafkerfisins frá 1. janúar 2010 gegn því að taka það niður að verktíma loknum“. Rafkerfið hafi hangið uppi í göngunum í um fimm metra hæð og hafi stefnandi ekki haft ástæðu til að ætla annað en raflagnirnar væru vel á sig komnar. Fljótlega eftir að stefnandi hafi tekið við kerfinu hafi undirverktaki stefnda hafið uppsetningu vatnsvarna og sprautusteypu. Við þá framkvæmd hafi rafkerfið verið fært niður og raflagnirnar látnar liggja á jörðinni til að auðvelda uppsetningu vatnsklæðninga og vinnu við sprautusteypu. Hafi þá meðal annars komið í ljós að stáltrefjar sem notaðar væru í sprautusteypu hefðu stungist gegn um ytra byrði raflagnanna og það skapað lífshættulegar aðstæður fyrir þá sem koma þyrftu nálægt lögnunum. Sprautusteypa og íblöndunarefni hennar væru eingöngu notuð af stefnda og undirverktökum hans og því ljóst að tjónið á lögnunum væri ekki af völdum stefnanda. Vegna þessa og bleytunnar sem hafi verið í göngunum hafi stefnandi þurft að taka rafkerfið niður í heild sinni tafarlaust, án þess að geta hagnýtt sér það. Hafi það verið sjálfsögð og eðlileg forsenda stefnanda fyrir samkomulaginu að rafkerfið væri nothæft og laust við sérlega hættulega galla. Ljóst sé að á stefnanda hafi fallið kostnaður við að taka niður rafkerfi án þess að stefnandi hafi notið nokkurs hagræðis af kerfinu. Vegna þessa sé samkomulagið úr gildi fallið og beri stefnda því að greiða stefnanda útlagðan kostnað vegna þessa verkþáttar. Kveðst stefnandi krefjast 1.206.520 króna vegna 217 klukkustunda vinnu rafvirkja en klukkustundarverðið sé 5.560 krónur, sömu fjárhæðar fyrir jafn langa vinnu verkamanns á sama klukkustundarverði, 222.400 króna vegna 40 klukkustunda vinnu vélamanns á sama klukkustundarverði og 431.600 króna vegna 40 klukkustunda leigu á skotbómulyftara fyrir 10.790 krónur á klukkustundina. Loks krefjist stefnandi 1.498.200 króna vegna 48,76% verðbóta til verkloka og alls 4.565.240 króna vegna þessa þáttar, og sé þar af 898.381 króna vegna 24,5% virðisaukaskatts. Vegna hreinsunar og endurfyllingar drenmalar Stefnandi segir að eftirlitsmenn verkkaupa hafi í apríl 2010 krafist þess að steypufrákast, sem safnast hefði saman í drenmöl í göngunum, yrði hreinsað. Starfsmenn fyrirtækisins Finns ehf. hefðu valdið tjóni á drenefninu en einnig á fráveitulögnum og brunnum við vinnu sína í göngunum. Finnur ehf. hafi verið undirverktaki Vatnsklæðninga ehf., undirverktaka stefnda. Stefnandi hafi tilkynnt stefnda um þetta og stefndi sagst myndu reikna út einingarverð fyrir hreinsunina og endurfyllingu malarinnar í samráði við Vatnsklæðningar ehf. og senda til stefnanda. Þrátt fyrir þetta hafi stefnandi hvorki fengið greitt fyrir vinnslu og endurfyllingu drenefnisins né bætur fyrir tjón á fráveitukerfi sem stefnandi hafi þurft að bæta verkkaupa. Þar sem undirverktaki á ábyrgð stefnda hafi valdið tjóninu og við verkþátt sem stefnda hafi borið að framkvæma, beri stefndi ábyrgð á þeim kostnaði sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna verkþáttarins. Stefnandi líti svo á að samkomulag hafi verið milli aðila um að stefnandi bætti úr göllum á verkinu fyrir reikning stefnda. Stefnandi byggi kröfu sína á því að stefndi beri ábyrgð á verkþættinum og beri því ábyrgð af kostnaði sem falli til vegna hans. Stefnandi segir að við hreinsun á frákasti vegna sprautusteypu hafi verið fjarlægðir um þúsund rúmmetrar, 10 til 32 mm, og burðarlagsefni, allt að 53 mm. Einingarverð rúmmetra ljósrar drenmalar sé 3.200 krónur en rúmmetra efnis í forbrot 800 krónur. Sé því krafist fjögurra milljóna króna auk 1.950.400 króna vegna 48,76% verðbóta til verkloka, alls 5.950.400 krónur og þar af séu 1.170.962 krónur vegna 24,5% virðisaukaskatts. Þá kveðst stefnandi gera kröfur vegna viðaukasamnings aðila nr. 2, frá 24. september 2009. Vegna viðaukasamnings nr. 2 almennt Stefnandi segist byggja á því að tiltekin ákvæði viðaukasamningsins nr. 2 teljist ógild eða að víkja beri þeim til hliðar. Sé ósanngjarnt í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 af stefnda að bera þau fyrir sig. Þá telji stefnandi jafnframt óheiðarlegt að stefnda að bera tiltekin ákvæði samkomulagsins fyrir sig, í skilningi 33. gr. laganna. Jafnframt séu kröfur stefnanda reistar á 29. til 32. gr. laganna auk ólögfestra reglna samningaréttar um rangar og brostnar forsendur. Stefnandi segir að frá upphafi viðræðna aðila um uppgjör á árinu 2009 hafi stefnandi viljað að semja um kröfur sínar á hendur stefnda, en þær hafi þá numið um 130 milljónum króna. Stefndi hafi hins vegar neitað að gera upp þessar kröfur nema samið yrði um heildaruppgjör allra krafna aðila. Viðaukasamkomulag nr. 2 hafi því eftir orðalagi sínu tekið til allra krafna sem upp hefðu verið komnar og legið fyrir við gerð þess, þó að verkliðum væri ekki lokið og ógerlegt að reikna út umfang einstakra krafna þá. Hafi samkomulagið því falið í sér of víðtækt afsal kröfuréttinda stefnanda. Stefnandi segir að samningaviðræður aðila hafi að mestu farið fram með tölvubréfum og símtölum sumarið 2009, en endanleg gerð og undirritun samkomulagsins hafi farið fram í höfuðstöðvum stefnda í Prag 24. september 2009. Þangað hafi stefnandi farið með það markmið að semja um nánar tilgreindar útistandandi kröfur á hendur stefnda, en við samningaborðið hafi orðið ljóst að stefndi væri ekki tilbúinn að taka þátt í eiginlegum samningaviðræðum. Þess í stað hafi stefndi sett stefnanda afarkosti sem stefnandi hafi verið nauðbeygður til að ganga að. Stefndi hafi krafist þess að stefnandi félli frá öllum kröfum um hlutdeild í gengisbótum frá verkkaupa en samkomulag um gengisbætur hafi verið undirritað sama dag og á sama fundi. Stefndi hafi ítrekað þá afstöðu sína að ef hann fengi ekki nær allar gengisbæturnar í sinn hlut gengi hann frá verkinu óloknu. Þá hafi stefnanda verið gert ljóst að undirritaði hann ekki viðaukasamkomulagið yrði ekki ritað undir samkomulag við verkkaupa um greiðslu gengisbóta. Sú atburðarás hefði leitt til þess að Vegagerðin byði verkið út að nýju. Slíkt hefði ekki haft mikil áhrif á hag stefnda þar sem stefndi hefði þegar lokið meirihluta verkþátta sinna og fengið greitt fyrir. Á hinn bóginn hefði stefnandi verið búinn að leggja í miklar fjárfestingar vegna verkefnisins án þess að hafa fengið nema að litlu leyti greitt fyrir vinnu sínu, þar sem flestir verkþættir stefnanda hafi þá verið óunnir og ógreiddir. Stefnandi segir að hefði stefndi gengið frá verkinu, eins og hann hafi hótað, hefði það leitt til gjaldþrots stefnanda og forsvarsmanna hans, sem hafi verið persónulega ábyrgir fyrir þeim skuldum sem hafi stofnast við rekstur fyrirtækisins. Hafi stefnda verið vel kunnugt um þessa stöðu og aðstöðumun aðila að þessu leyti. Hafi stefndi tekið meðvitaða ákvörðun um að nýta sér þetta til auðgunar á kostnað stefnanda. Stefnandi segir að fram komi í ákvæði nr. 1.3 í samningsviðaukanum að aðilar hafi haft mismunandi skoðanir á túlkun nokkurra ákvæða fyrri samninga og að viðaukanum sé ætlað að leysa þann ágreining. Hið rétta sé að tiltekin samningsákvæði hafi tryggt stefnanda rétt til hlutdeildar í viðbótartekjum stefnda við verkið. Þau ákvæði hafi verið orðin stefnda þyrnir í augum þar sem viðbótartekjur hans hafi verið orðnar töluverðar og fyrirsjáanlegt að þær ykjust enn frekar við gerð samnings um gengisbætur. Hafi stefndi því notað tækifærið sem hafi gefist við samningsumleitan stefnanda um lúkningu nokkurra tiltekinna krafna, til að knýja stefnanda til að samþykkja að nema þessi ákvæði úr gildi. Enn hafi verið í gildi sú hótun að ritaði stefnandi ekki undir samningsviðaukann gengi stefndi frá verkinu með fyrrgreindum afleiðingum. Stefnandi segist telja að stefndi geti ekki borið fyrir sig ákvæði 2.1-2.2, 3.4 og 4.2-4.3 í viðaukasamkomulaginu varðandi uppgjör þeirra krafna stefnanda sem snúi að hlutdeild stefnanda í gengisbótum, hlutdeild stefnanda í verðhækkun efna í efnaefju og þvotti á fyllingarefnum til vinnslu í burðarlögum, og segir að bæði væri óheiðarlegt og ósanngjarnt af hans hálfu að bera þau fyrir sig. Samningsákvæðin hljóti að teljast óskuldbindandi og því beri að víkja samningsviðaukanum til hliðar að því marki sem ákvæði hans standi því í vegi að stefnandi fái fullnustu krafna sinna. Kveðst stefnandi vísa í þessu sambandi til 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936. Stefnandi segir að þegar litið sé til efnis samningsákvæðanna, með hliðsjón af kröfum stefnanda, sjáist að þau séu bersýnilega ósanngjörn. Með gerð þeirra hafi stefnandi verið nauðbeygður til að afsala sér töluverðum fjármunum án þess að fá nokkuð í staðinn. Þá sé ljóst að staða aðila við samningsgerð hafi verið ójöfn. Stefnandi hafi engra kosta átt völ en stefndi yfir að ráða mikilli þekkingu, sérfræðiráðgjöf og upplýsingum sem hann hafi leynt stefnanda. Jafnframt sé ljóst að hagnaður stefnda eftir samningsgerð hafi orðið mun meiri en stefnandi hafi mátt gera sér grein fyrir þá. Séu þannig öll skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 uppfyllt til að víkja ákvæðum samningsviðaukans til hliðar með þeim hætti að stefnandi fái sanngjarna umsamda greiðslu fyrir tiltekna hlutdeild sína í verkframkvæmdinni. Stefnandi segir að með hliðsjón af efni samningsviðaukans, stöðu aðila við samningsgerð og atvika að öðru leyti telji hann skilyrði ógildingar uppfyllt. Þá kveðst hann byggja á 29. til 31. gr. sömu laga og ólögfestum reglum samningaréttar um rangar og brostnar forsendur. Krafa stefnanda um hlutdeild í gengisbótum Stefnandi segir að allt frá ágúst 2008 hafi átt sér stað samningaumleitanir við verkkaupa um að verkið yrði gengisbætt vegna lækkunar gengis krónunnar. Hafi báðir aðilar orðið fyrir verulegu fjárhagstjóni á þeim tíma. Ritað hafi verið undir samkomulag við verkkaupa um viðbótargreiðslu við verksamning 24. september 2009, sama dag og samningsviðaukinn hafi verið gerður. Stefndi hafi fullyrt að ekki yrði samið við verkkaupa um gengisbætur nema stefnandi hefði áður undirritað samningsviðaukann. Stefnandi segist telja sig eiga rétt á 32% hlutdeild í heildargengisbótum verksins. Viðbótargreiðslu verkkaupa hafi verið ætlað að bæta það tjón sem verktakarnir hafi orðið fyrir vegna gengislækkunar krónunnar en þá hafi stefndi verið búinn að vinna stærstan hluta verkþátta sinna og fengið greitt fyrir, en stefnandi átt sína verkþætti eftir að mestu. Því hafi það í raun verið stefnandi ekki stefndi sem gengisfallið hefði bitnað helst á, á meðan á framkvæmdum hafi staðið. Niðurstaðan hafi orðið sú að stefndi hafi fengið bætt tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir. Stefnandi segist gera kröfu um að stefndi greiði stefnanda rétta hlutdeild í gengisbótum miðað við framlag aðila til verksins í heild. Hluti stefnanda í samningsverkinu hafi verið 32% og krefjist stefnandi því 32% gengisbótanna úr hendi stefnda, að frádregnum þeim 824.838 krónum sem stefnandi hafi fengið í sinn hlut. Krefjist stefnandi því 229.671.162 króna úr hendi stefnda, en heildargreiðsla verkkaupa hafi numið 720.300.000 krónum. Stefnandi segir að samkvæmt IV. gr. 7 í Viðauka 1 hafi aðilar borið ábyrgð á þeim óvænta kostnaði eða tjóni sem hlytist af verkefninu og stofnað hafi verið til í þeim tilgangi að þjóna almennum hagsmunum verkefnisins. Hafi sá kostnaður átt að skiptast milli stefnanda og stefnda í hlutföllunum 32%-68% og þar sem aðilar hafi skipt utanaðkomandi kostnaði og tjóni í þessum hlutföllum megi álykta að þeir eigi að njóta tekjuaukningar í sömu hlutföllum. Stefnandi segist byggja á sem málsástæðu til vara að hann eigi að minnsta kosti tilkall til 15,63% gengisbótanna. Samningar aðila frá 24. september 2009, annars vegar við Vegagerðina og hins vegar þeirra sjálfra á milli, hafi tekið mið af stöðu verksins hinn 1. júlí 2009. Á þeim tíma hafi sem samningurinn hafi verið gerður hafi heildarhlutfall stefnanda í samningsverkinu, þeim hluta verksins sem þá hafi verið lokið, verið 15,63% en stefnda 84,37%. Hlutfallið sé fundið með því að reikna verkstöðu hvors aðila um sig á þessum tíma. Segir stefnandi að krafa sín samkvæmt þessum forsendum nemi 112.582.890 krónum, en 824.838 krónur sem stefnandi hafi fengið í sinn hlut dragist frá þeirri fjárhæð. Stefnandi segist byggja á sem málsástæðu til þrautavara að hann eigi tilkall til að minnsta kosti tíunda hluta gengisbótanna. Segist hann byggja á því að ákvæði 3.1 sé óskuldbindandi og beri að víkja því til hliðar. Því telji stefnandi að ákvæði þau í Viðauka 1, sem ákvæði 3.1 í Viðauka 2 felli niður, gildi enn um skipti aðila. Þeirra á meðal sé grein IV.12, en samkvæmt henni eigi hvor aðili málsins rétt til 10% hlutdeildar í viðbótargreiðslum hins. Stefndi hafi fengið greiddar 719.475.162 krónur en stefnandi 824.838 krónur og mismunur á 10% hlutdeild hvors um sig í greiðslum hins nemi 71.865.032 krónum sem sé þrautavarakrafa stefnanda um hlutdeild í gengisbótum. Stefnandi segist byggja á því sem málsástæðu til ýtrustu þrautavara að hann eigi tilkall til hluta í gengisbótum sem miðist við vinnu aðila við þá verkliði sem tekið hafi gengisbótum. Verði ekki fallist á aðrar málsástæður stefnanda um hlutdeild í gengisbótum byggi hann á því að skipting bótanna hafi farið fram á röngum forsendum. Við útreikning gengisbóta hafi verið tekið mið af tilteknum verkliðum og þeir verðbættir í ákveðnu hlutfalli af heildargreiðslum sem verkkaupi hafi innt af hendi fyrir þá. Meginþorri þeirra hafi verið á sviði stefnda og hann því fengið nær allar gengisbæturnar í sinn hlut, þrátt fyrir að þeim hafi verið ætlað að bæta allt samningsverkið. Þrátt fyrir það hafi verið litið fram hjá vinnu stefnanda við einn verkliðinn sem tekið hafi gengisbótum, en stefnandi hafi unnið fyrir rúmar 46 milljónir króna af verkþætti 8.09. Hafi stefnandi alls unnið fyrir 50.896.823 krónur af þeim 3.641.608.442 króna heildargreiðslum sem tekið hafi gengisbótum. Hafi stefnandi því í raun unnið um 1,398% af gengisbættu verkliðunum og því með réttu átt að fá sama hlutfall þeirra gengisbóta sem greiddar hafi verið út á grundvelli samkomulags við Vegagerðina. Rétt skipting samkvæmt vinnuframlagi aðila hefði samkvæmt þessu leitt til þess að 10.067.250 krónur rynnu til stefnanda í stað 824.838 krónur. Stefnandi segist ekki hafa fengið færi á að leiðrétta skiptingu gengisbóta við samningsgerðina í Prag. Stefndi hafi gert stefnanda ljóst að ritaði stefnandi ekki fyrirvaralaust undir báða samningana myndi stefndi ganga frá verkframkvæmdinni. Segist stefnandi hér krefjast 10.067.250 króna að frádregnum 824.838 krónum og því alls 9.242.412 króna. Krafa stefnanda um hlutdeild í verðhækkun efna í efnaefju Stefnandi segir að í kafla 8.12 í sérverklýsingu verksins sé fjallað um borun og bergþéttingu og komi þar fram að bora þurfi holur til þéttingar eða styrkingar bergs þar sem hætta sé talin á vatnsleka. Til að þétta bergið hafi svokallaðri efnaefju verið dælt í holurnar. Verkliður 100 hafi tekið til blöndunar, hrærslu og ídælingar efjunnar, það sé allrar vinnu við efjuna á verkstað. Verkliður 106 hafi falið í sér kostnað vegna öflunar efna í efjuna, meðhöndlun, flutning, geymslu og fleira, það sé allan kostnað við kaup á efnunum og við að koma þeim á verkstað. Stefnandi segir að samkvæmt útboðsgögnum hafi einungis verið reiknað með að þörf væri á að afla 400 kg af þeim efnum sem notuð yrðu í efnaefju, en raunin hafi orðið sú að notuð hafi verið 632.924 kg af efnum. Þegar stefnda hafi orðið ljóst að mikil aukning yrði á magni efnanna hafi hann gert kröfu um hækkun einingaverðs fyrir þau, hinn 15. október 2007. Eftirlitsaðilar verkkaupa hafi samþykkt kröfuna og hafi verið miðað við nýtt einingaverð, 754 kr. fyrir kg í stað 46 króna. Stefnandi segir að í ljósi ákvæðis IV.12 í viðauka 1 um 10% hlutdeild hvors aðila í viðbótarkröfum hins hafi hann gert kröfu á hendur stefnda í lok árs 2007 um hlutdeild í hækkuðum greiðslum fyrir verklið 106. Hafi sú krafa frá upphafi mætt „mótstöðu af hálfu stefnda“ og ljóst verið að stefndi hafi ekki haft neinn hug á að deila með stefnanda aukinni innkomu vegna verkþáttarins. Hafi meðal annars verið haldnir tveir fundir þar sem málið hafi verið rætt. Á hinum fyrri hafi stefndi lofað að útbúa tillögu um úrlausn málsins en ekkert hafi orðið úr því. Á síðari fundinum, 4. apríl 2008, hafi stefnandi krafist 10% hlutar af mismuni nýrra og eldra verðs efnanna þar sem mismunurinn teldist verðhækkunarkrafa í skilningi ákvæðis IV.12 í Viðauka 1. Stefnandi segir að viðbrögð stefnda hafi verið þau að verðmismunurinn gæti ekki talist verðhækkunarkrafa í skilningi Viðauka 1, þar sem stefndi hefði ekki hagnast á verkþættinum. Vegna þvotts á fyllingarefni til vinnslu í burðarlag Stefnandi segir að í samningi um einstök atriði, sem dagsettur hafi verið 20. mars 2006, hafi aðilar ákveðið að stefndi skyldi flytja allt efni úr göngum og að stefnandi tæki síðan við efninu í vegfyllingum og á tippsvæðum, svokölluðum „námum“. Flokkun efnis hafi verið hluti verkliðar nr. 76 og þar lögð áhersla á að efni væri flokkað til nota meðal annars í efra og neðra burðarlag. Kveðst stefnandi vísa til þess að á samráðsfundi verktaka hinn 7. febrúar 2007 hafi verið ákveðið að jarðfræðingur stefnda annaðist flokkun efnis úr göngunum. Stefnandi segist hafa farið fram á það við stefnda að losun efnis af mismunandi gæðum færi fram á ákveðnum stöðum á tippsvæðum samkvæmt nánari skilgreiningu til að uppfylla skilyrði útboðsgagna um efnisflokkun. Í bréfi verkefnisstjóra stefnanda frá 14. desember 2006 megi sjá að stefndi hafi ekki gert ráðstafanir til að verða við því. Með tölvubréfi til stefnda í mars 2009 hafi verið ítrekað að flokkunin væri ekki fullnægjandi og á milli þessara samskipta hafi bæði stefnandi og Vegagerðin margoft ítrekað tilmælin, án þess að stefndi breytti aðferðum sínum. Sýni þetta að stefndi hafi engan áhuga haft á því að hámarka skilvirkni og hagkvæmni samstarfsins á verktímanum, heldur einungis eigin hagnað. Af þessum sökum hafi stefnanda verið nauðsynlegt að skilja fínefni úr burðarlagsefnum með því að „þvo“ þau. Hafi stefnandi gert samning við Skútaberg ehf. um mölun efnanna en nauðsynlegt hafi reynst að þvo nær allt burðarlagsefni vegna ónógrar flokkunar. Sundurliðar stefnandi kostnað af þvottinum svo, að úr Siglufjarðargöngum hafi þurft að þvo 17.931 rúmmetra, kostnaður vegna hvers hafi numið 323 krónum, og því samtals 5.791.713 krónur. Úr Ólafsfirði hafi þurft að þvo 7.605 rúmmetra, kostnaður vegna hvers hafi numið 323 krónum, og því alls 2.456.415 krónur. Úr Héðinsfirði hafi þurft að þvo 22.618 rúmmetra, kostnaður vegna hvers hafi numið 323 krónum og því alls 7.305.614 krónur. Grunntala vísitölu samningsins hafi verið 440,9 stig en við verklok hafi vísitalan verið 516,1 stig og taki krafa stefnanda því 17,06% verðbótum til verkloka, alls 2.653.468 krónum. Stefnandi segir að með gerð Viðauka 2, hinn 24. september 2009, hafi aðilar samið um lúkningu allra framkominna krafna stefnanda á hendur stefnda sem rót hafi átt að rekja til atvika fyrir það tímamark. Samkvæmt orðalagi viðaukans taki hann aðeins til þeirra krafna sem fram hafi verið komnar við samningsgerðina en á þeim tíma hafi allt verið óvíst um magn þess efnis sem flokka þyrfti vegna vanefnda stefnda og umfangs verkefnisins. Krefjist stefnandi því þess að fá kostnað sinn af þvottinum endurgreiddan, alls 18.207.210 krónur með verðbótum frá verklokum. Þar af séu 3.582.944 krónur vegna 24,5% virðisaukaskatts. Aðilar hafi samið um að geyma viðræður um útistandandi kröfumál fram yfir verklok. Þar sem stefndi hafi ekki sinnt boði stefnanda um að standa honum skil á þessari kröfu eða semja um nýjan gjalddaga sé gerð krafa um dráttarvexti frá verklokum, 1. október 2010. Vegna vaxta og verðbóta Stefnandi segir að eftir undirritun Viðauka 2, hinn 24. september 2009, hafi aðilar slíðrað sverðin að sinni, í þeim tilgangi að ljúka verkinu eins fljótt og kostur væri, enda hafi það verið nauðsynlegt. Aðilar hafi gert munnlegt samkomulag um að fara yfir útistandandi kröfumál sín að verki loknu. Við verklok hafi stefndi hins vegar ekki sinnt beiðni stefnanda um uppgjör þar sem stefndi hafi virst líta svo á að öllum hugsanlegum kröfum hefði lokið með gerð Viðauka 2. Stefnandi segist líta svo á að stefndi hafi lofað „að leggjast yfir stöðuna að verki loknu“ og jafngildi það því að samið hafi verið um gjalddaga krafna við það tímamark. Miðist krafa stefnanda um dráttarvexti því við verklok 1. október 2010 en þá hafi stefnda borið að gera upp skuldir sínar við stefnanda. Stefnandi segir að eina krafan sem ekki hafi átt að gera upp að verki loknu hafi verið krafa stefnanda um hlutdeild í gengisbótum. Samið hafi verið um gengisbætur samhliða Viðauka 2 og hafi bæturnar verið greiddar út í þrennu lagi, fyrsta greiðsla 1. nóvember 2009, önnur greiðsla 27. janúar 2010 en þriðju hafi lokið 13. júlí 2010. Stefnandi kveðst byggja á því að hlutdeild sín í gengisbótum hafi gjaldfallið samhliða greiðslum frá verkkaupa til stefnda. Hlutur sinn í útborgun gengisbóta 10. nóvember 2009 hafi numið 79.695.893 krónum, hlutur sinn í gengisbótum 15. janúar 2010 hafi numið 75.102..470 krónum og hlutur sinn í gengisbótum 13. júlí 2010 hafi numið 74.872.799 krónum. Stefnandi segist krefjast verðbóta á grunnverð krafna sinna á hendur stefnda. Aðilar hafi í sameiningu gert verksamning við verkkaupa. Allir samningar aðila hafi snúið að því að uppfylla hann. Þegar tvö fyrirtæki eigi í miklu og nánu samstarfi þar sem reynt sé að ljúka framkvæmdum fyrir tiltekinn tíma sé óhjákvæmilegt að hvort vinni verk fyrir annað, eins og ljóst sé að aðilar hafi gert að einhverju marki. Samningur aðila við Vegagerðina sé verðbættur með byggingarvísitölu eins og Hagstofa Íslands reikni hana, að frádreginni 3% árlegri hækkun. Þegar aðilar reikni endurgjald sín á milli frá grunneiningaverði samnings við verkkaupa, eða öðru einingaverði sem samið hafi verið um, sé rétt að reikna verðbætur á þau eins og verkkaupi greiði út, en að öðrum kosti myndi hvor aðili hagnast á því að óska eftir að hinn vinni einstaka verkþætti, þar sem verðbæturnar sætu eftir hjá þeim sem komi verkþáttunum af sér. Sama eigi við um einingaverð frá miðjum verktíma, rétt sé að bæta þar við verðbótum frá þeim tíma sem verðið sé reiknað út og til verkloka. Stefnandi segir að kröfur sínar séu settar fram miðað við álag verðbóta hinn 1. október 2010 er aðilum hafi borið að gera upp ágreiningsmál sín. Grunnvísitala samnings hafi verið 316,7 stig í janúar 2006 en 516,1 stig í október 2010. Vegna annarra krafna Stefnandi segir að krafa sín um málskostnað sé byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 en vegna varnarþings sé vísað til 1. mgr. 33. gr. laganna. Ljóst sé að útibú stefnda hafi aðeins verið stofnað vegna þessa verkefnis og allar kröfur stefnanda eigi rót sína að rekja til þess. IV Stefndi segist gera alvarlegar athugasemdir við lýsingu stefnanda á málsatvikum, einkum að því er varði lýsingu á framvindu verksins svo og efni og áhrifum einstakra samninga sem aðilar hafi gert sín í milli og við verkkaupann svo og aðstæðum sem hafi legið þeim til grundvallar. Stefndi segir að meginsamningur málsaðila um form á samstarfi sínu um tilboð á verkframkvæmd hafi verið gerður 2. desember 2005 í Prag. Þessi samningur hafi stöðu stofnsamnings hins formbundna samstarfs aðila og við hann hafi verið gerðir tveir viðaukar, hinn fyrri 20. maí 2006 þar sem í grundvallaratriðum hafi verið vikið frá hlutfallslegum og sameiginlegum efndum samnings við Vegagerðina sem gerður hafi verið sama dag. Þess í stað hafi verið ákveðið að hvor aðili um sig bæri einn ábyrgð og áhættu af þeim verkþáttum sem hann skyldi annast samkvæmt nákvæmri skiptingu í viðauka eitt með nefndum samningi, og það eins þótt aðilar væru gagnvart verkkaupa sameiginlega ábyrgir fyrir efndum verksamningsins. Með þessari breytingu hafi verið upphafin fyrri skipan þar sem aðilar hafi átt að skipta með sér hagnaði og tapi í tilgreindum hlutföllum. Kveðst stefndi mótmæla sem órökstuddum og röngum ályktunum og fullyrðingum stefnanda um hlutfallslegan rétt hans til tekna af verkinu. Stefndi kveðst mótmæla fullyrðingum stefnanda þess efnis að tafir í gangagreftri hafi valdið því að stefnandi hafi ekki náð þeirri framleiðslu sem hann hafi ætlað og að óheppilega mikið hafi verið ógert af verki stefnanda þegar greftri styrkingu og vatnsvörn ganganna hafi verið lokið. Þá sé því mótmælt að tafir sem sannanlega hafi stafað af ófyrirséðum erfiðum jarðfræðilegum aðstæðum hafi verið stefnda að kenna. Slíkar ásakanir séu tilhæfulausar með öllu sem best sjáist af því að verkkaupinn, Vegagerðin, hafi fallist á verulega framlengingu verktíma vegna þessara aðstæðna. Stefndi segir að gengisfall íslensku krónunnar á árinu 2008 og þá ekki síst eftir september það ár hafi valdið því að forsendur hafi brostið fyrir tilboði aðila, sérstaklega stefnda sem hafi staðið að jarðgangagerðinni með erlendum starfsmönnum. Hafi kostnaður hans nær allur verið í erlendri mynt því bæði vinnuafl og aðföng hafi verið greidd í henni. Aðilar hafi ritað Vegagerðinni bréf 23. október 2008 og lýst þessum sjónarmiðum og bent á að um 60% vantaði uppá að verðbótaákvæði samningsins bættu erlendan kostnað verktaka. Forsendur samningsins væru í grundvallaratriðum brostnar. Með bréfi 8. desember 2008 hafi þeir áréttað að erlendur kostnaður verktaka hafi hækkað um nær 150% frá því sem verið hefði í janúar 2006 miðað við gengi evru en 138% miðað við hækkun gengisvísitölu íslenskrar krónu. Hafi þeir bent á að kostnaður við jarðgangagerðina væri nær alfarið af erlendum toga og þá mestur í evrum. Hafi þeir lýst þeirri afstöðu að þetta gengisfall jafngilti forcemajeure sem myndi leyfa verktaka að hverfa frá verkinu ef ekki fyndist viðunandi lausn. Hafi stefnandi og stefndi staðið sameiginlega að þessari yfirlýsingu. Hafi þannig frá upphafi legið fyrir staðfesting stefnanda á því að hann teldi aðstæður leyfa verktaka að hverfa frá verkinu. Sé því mótmælt þeirri staðhæfingu í stefnu að það hafi falið í sér ólögmæta hótun gagnvart stefnanda að stefndi vekti athygli verkkaupa á þeim möguleika að hann kynni að vera neyddur til að ganga frá verkinu. Stefndi segir að í hönd hafi farið tímafrekar viðræður þar sem bæði hafi verið fjallað um það hvernig bæta mætti verktökum þau áhrif gengisfallsins sem telja mætti íþyngjandi umfram það sem almennt gerðist í innlendri verkframkvæmd og bætt með byggingarvístölu. Jafnframt hafi verið fjallað um álitaefni um högun vatnsklæðningar og frostvarna sem stefndi hafi talið að stæðist ekki hinn mikla vatnsaga sem hafi reynst vera í hluta ganganna einkum næst Ólafsfirði. Hafi svo farið að verkkaupinn aflétti ábyrgðarkröfu á þeim hlutum klæðningarinnar jafnframt því sem samið hafi verið um uppsetningu sérstakra stálhlífa undir vatnsklæðningunni þar sem þess hafi gerst þörf. Hafi viðræðum aðila við Vegagerðina um þessi efni lokið með samningi hinn 24. september 2009. Hinn sama dag hafi aðilar undirritað nýjan viðauka nr. tvö við samstarfssamning sinn. Samningnum hafi verið ætlað að setja niður ágreiningsmál sem upp hafi komið á milli aðila m.a. um túlkun á efni við samning nr. eitt, svo og um ýmis uppgjörsmál vegna vinnu og útgjalda hvors um sig og í þágu hins, svo og þær kröfur sem aðilar hafi talið sig eiga hvor á annan. Hafi ætlan aðila verið sú að setja niður allar deilur sín í milli um alla verkframkvæmdina fram til samningsdags. Hvor aðili hafi haft uppi kröfur á hinn en niðurstaðan orðið sú að stefndi greiddi stefnanda eina fjárhæð 50 milljónir króna með virðisaukaskatti, til lúkningar öllum kröfum þeirra í milli, hverju nafni sem nefnst hafi og rót sína ætti að rekja til verkframkvæmdarinnar eða samninga aðila til samningsdags. Þá hafi verið kveðið nánar á um fyrirkomulag á streymi greiðslna frá verkkaupa til verktaka m.a. varðandi greiðslur samkvæmt samkomulagi við verkkaupa um bætur vegna áhrifa gengisfalls á kostnað við þá verkliði sem að mati verkkaupa og aðila hefðu hæst kostnaðarhlutfalli í erlendri mynt. Þá hafi verið samið um að stefnandi tæki að sér tilteknar framkvæmdir fyrir stefnda. Stefndi segir að sér hafi komið mjög í opna skjöldu þegar sér hafi borist órökstudd kröfugerð stefnanda dagsett 28. janúar 2011 þar sem hann hefði talið að megin ágreiningsefni aðila hefðu verið sett niður með samkomulagi þeirra 24. september 2009. Stefndi hafi þegar mótmælt þessu með bréfum 3. og 7. febrúar 2011, jafnframt því sem hann hafi tilkynnt að hann teldi sig eiga verulegar kröfur á hendur stefnanda og áskilið sér rétt til að skuldajafna þeim móti hvers kyns kröfum stefnanda. Stefndi segist mótmæla því að lagastoð sé fyrir því að stefnandi fái framgengt þeim kröfum sínum að vera óbundinn af ákvæðum greina 2.1 til 2.2., 3.1., 3.4 og 4.2 til 4.3 í viðaukasamningnum. Efnislega feli krafa stefnanda í sér kröfu um að viðaukasamningurinn við stofnsamning lögformlegs samstarfs aðila verði dæmdur ólögmætur. Stefndi segist mótmæla því að Héraðsdómur Norðurlands eystra eigi lögsögu um lögmæti stofnsamnings hins lögbundna samstarfs aðila eða síðari breytinga á honum, þ.m.t. viðaukasamningi nr. tvö. Segir stefndi þetta skýrast af því að staða aðila og réttindi byggi á samstarfssamningnum frá 2. febrúar 2005 með síðari breytingum. Samstarfssamningurinn hafi verið undirritaður í Prag í Tékklandi 2. desember 2005 og sé þar skýrt tiltekið í grein IV.1 að hið formbundna samstarf aðila, á ensku Joint venture, eigi aðsetur sitt í Prag í Tékklandi í höfuðstöðvum stefnda sem leiðanda aðila samstarfsins. Samningurinn kveði að öðru leyti ekki sérstaklega á um það hvaða lög skuli gilda um túlkun hans né hvar ágreiningsmáls sem af honum kunni að rís skuli fara fyrir dóm. Stefndi segist líta svo á að þar sem í samningnum sé tiltekið að aðsetur samstarfsins sé í Prag þá leiði af því að um samstarfssamninginn gildi tékknesk lög og allar deilur aðila sem kunni að rísa um gildi samstarfssamningsins með áorðnum breytingum, þ.m.t. Viðauki 2, heyri undir lögsögu dómstóls í Prag í Tékklandi. Stefndi segist á hinn bóginn engar efasemdir hafa um lögsögu Héraðsdóms Norðurlands eystra hvað varði ágreining um lögskipti málsaðila við framkvæmd þeirra á verksamningi um gerð Héðinsfjarðarganga varðandi allar aðrar málsástæður en þá er snúi að kröfu stefnanda um ógildingu framangreinds stofnsamnings. Segist stefndi telja að stefnandi ætti að taka undir þessi sjónarmið enda tæki hann ella á sig mikla áhættu varðandi aðfararhæfi dóms sem ganga kynni um þetta álitaefni í bága við þá varnarþingsreglu sem stefndi segist telja að eigi við um álitaefni um gildi eða ógildi stofnsamnings aðila. Stefndi segist vísa til 22. gr. samnings um dómsvald og viðurkenningu á fullnustu dóma í einkamálum Lugano samninginn. Samningi þeim hafi verið veitt lagagildi með lögum nr. 7/2011. Stefndi segist byggja á því að lögskipti málsaðila séu byggð á samstarfssamningi þeirra en úrlausn um gildi hans eigi samkvæmt þessu ákvæði Lugano samningsins undir dómstól í því ríki þar sem félagsskapur þeirra eigi heimili. Stefndi segist telja að dómur Hæstaréttar í máli nr. 619/2011 hafi ekki skorið úr um það hvort leggja megi ágreining um gildi einstakra ákvæða í breytingum á stofnsamningi fyrir íslenskan dómstól. Dómurinn hafi einungis staðfest að álitaefni um gildi samningsins girði ekki fyrir það að stefnandi fengi á eigin áhættu dómkvadda matsmenn til að freista sönnunar um efnisþætti sem hann síðar vildi byggja á. Stefndi segir að komist dómur allt að einu að þeirri niðurstöðu að hann eigi lögsögu í málinu vilji hann koma eftirfarandi málsástæðum á framfæri. Stefndi segist mótmæla því sem röngu og ósönnuðu að hann hafi beitt stefnanda nauðung, svikum eða misneytingu eða með öðrum hætti staðið óheiðarlega að samskiptum við stefnanda, svo sem stefnandi haldi fram. Engin þeirra ásakana eigi við rök að styðjast enda sé vandséð og órökstutt hvernig tilvitnuð ákvæði laga nr. 7/1936 geti átt við um samskipti tveggja öflugra lögaðila sem saman hafi staðið að verkframkvæmd og samið um úrlausnarefni því tengd sín í milli til hagsbóta fyrir báða. Stefndi segir að stefnandi heimfæri ekki einstök atvik máls undir þau ákvæði samningalaga sem hann vísi til í stefnu og sé stefnda af þeim sökum óhægt að bregðast við þeim málsástæðum með öðru en að mótmæla þeim sem ósönnuðum og óviðeigandi. Segist stefndi telja kröfugerðina vanreifaða að þessu leyti í skilningi e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi segist mótmæla því að stefnandi hafi ekki mátt áætla umfang þeirra hagsmuna sem um hafi verið fjallað í uppgjöri málsaðila samkvæmt viðaukasamningi 2, þannig að skuldbinding hans sé ógildanleg af þeim sökum. Stefnandi hafi lagt verkinu til verkefnisstjóra sem annast hafi öll formleg samskipti við fulltrúa verkkaupa og hafi stefnandi þegar af þeirri ástæðu haft mjög nákvæma yfirsýn um stöðu verksins og hlut beggja verktakanna. Þannig hafi stefnanda verið vel ljóst að göngin væru nokkuð víðari en hönnunarsnið hafi tilgreint að lágmarki. Þá sé kröfubréf stefnanda til stefnda skýr staðfesting á vitneskju stefnanda um þau efni sem hann geri nú kröfu um, en umræddur samningur hafi tekið til. Stefndi segir að stefnandi hafi ítrekað átt frumkvæðið að því að bjóða stefnda að taka yfir verkefni sín samkvæmt verklið 8.13, vatns- og frostvörnum. Hafi hann jafnframt lýst sig reiðubúinn til að falla frá öllum kröfum á stefnda gegn samningi þar um. Segir stefndi telja þau ummæli vera skýra sönnun þess að stefnandi hafi þá ekki talið sig skorta upplýsingar um það hvaða kröfur hann ætti á stefnda. Hafi stefnandi þannig haft væntingar um að hann eða félag sem hann réði yfir fengi í kjölfar samninga frá 24. september 2009 samið við stefnda um að annast fyrir hann uppsetningu vatns- og frostvarna. Hafi formaður stjórnar og framkvæmdastjóri stefnanda í því skyni stofnað til félagsins Vatnsklæðning ehf. ásamt þriðja manni. Það félag hafi hinn 29. desember 2009 gert undirverktakasamning við stefnda um framkvæmd þessa verkþáttar. Hafi eigendur stefnanda átt tvo/þriðju hluta félagsins. Hafi þannig að fullu gengið eftir væntingar eigenda og forsvarsmanna stefnanda um það að fá í sinn hlut stærri hlut verkefnisins við Héðinsfjarðargöngin en áður hafi verið um samið, enda tækjust samningar með þeim hætti sem lagt hafi verið til í bréfi forsvarsmanns stefnanda. Stefndi segist mótmæla fullyrðingum um það að stefnandi hafi haldið til fundar við sig í Prag 24. september 2009 með það að markmiði að semja um kröfur sínar, en hafi þess í stað verið stillt frammi fyrir úrslitakostum. Sú staðhæfing sé bæði röng og stangist í grundvallaratriðum á við staðreyndir málsins eins og þær birtist í tillögu forsvarsmanns stefnanda í skeyti dagsettu 21. september 2009. Þær vitni skýrt um það að stefnandi hafi þá þegar fallið frá öllum hugleiðingum um að hann gæti gert kröfu um hlutdeild í sérstökum verðbótum af verkliðum stefnda. Þar leggi stefnandi fram grunn að því samkomulagi sem þremur dögum síðar hafi verið undirritað sem Viðauki 2 á fundi aðila í Prag. Það samkomulag hafi átt sér langan aðdraganda og verið að verulegu leyti komið á fyrir fundinn. Fullyrðingar um svik, nauðung eða misneytingu í tengslum við samningsgerðina séu haldlausar og þeim mótmælt. Þá sé því einnig mótmælt að nokkurar þær aðstæður hafi verið uppi við samningsgerðina sem geri það óheiðarlegt af stefnda að ætlast til þess að stefnandi sé bundinn við samninginn þannig að ákvæði 33. gr. laga 7/1936 geti átt við. Báðir aðilar hafi sett fram kröfur á hinn sem samkomulag hafi náðst um með nettógreiðslu stefnda til stefnanda. Báðir aðilar hafi haft af því ríka hagsmuni að setja niður deilur sín í milli og forðast tímafrek og kostnaðarsöm málaferli um kröfur sem hvor gerði á annan, auk þess sem slíkur ágreiningur hefði getað teflt verkframkvæmdinni í tvísýnu. Megi raunar leiða að því líkur að eins og stefnandi segi að fjárhag sínum hafi verið háttað og staðfest hafi verið með stórfelldum vanskilum hans við birgja meðan á verkframkvæmdinni hafi staðið þá hafi fjárhagsleg áhætta stefnda af stöðvun verksins í reynd verið stórum meiri en stefnanda hefðu málsaðilar hrakist af verkinu. Leiði það einnig af sameiginlegri ábyrgð aðila af verkframkvæmdinni þar sem verkkaupinn hafi átt þess kost að sækja stefnda um bætur fyrir vanefnd beggja af verksamningnum. Stefndi segist mótmæla því, að sú afstaða hans að skipting tekna af kröfuliðum skv. gr. IV-12 í Viðauka 1, ætti ekki að ná til uppbótargreiðslna á kostnaði á borð við verðbætur, gengisbætur eða hækkun á ófyrirséðum kostnaði, heldur eingöngu til aukningar á tekjuskapandi verkefnum, hafi með einhverjum hætti verið ólögmæt. Hvorugur aðili hafi átt kröfu um hlutdeild í sérstökum greiðslum sem ætlað hafi verið að mæta ófyrirséðum útgjöldum verktaka, á borð við uppbætur vegna gengistaps, ef það leiddi til tjóns fyrir samstarfsaðilann. Tilgangur ákvæðisins hafi aldrei verið verið að tjón annars yrði ábati hins heldur hafi því einungis verið ætlað að taka til tekna af kröfuliðum vegna viðbótarverkefna en ekki tjónabóta eða verðbóta verðlagshækkunar á kostnaðarliðum. Hafi stefnanda verið þetta fullljóst og hann því reynst fús til að fella ákvæðið úr samningi aðila og festa enn rækilegar í sessi þann grundvöll samstarfsins sem fram komi í Viðauka 1, 11 gr. IV.-5, að hvor aðili skuli ábyrgur fyrir sínum hluta verksins. Það hafi verið gert með nýju ákvæði í Viðauka 2, gr. 3.2. þar sem hert hafi verið á því að allar greiðslur og kröfur fyrir vinnu hvors um sig skyldu innheimtar fyrir þann aðila og greiddar honum að fullu án nokkurrar hlutdeildar hins. Hafi stefnandi ekki krafist ógildingar þessa ákvæðis, sem þó hafi legið til grundvallar greiðslum Vegagerðarinnar á sérstökum uppbótum vegna gengisfalls samkvæmt samningi aðila við Vegagerðina 24. september 2009, þar sem við það hafi verið miðað að uppbæturnar kæmu í hlut þess sem unnið hefði hvern verkþátt. Stefndi segist mótmæla því sérstaklega að nokkuð hafi hallað á stefnanda við undirbúning að samningnum 24. september 2009. Hafi stefnandi sumarið 2009 notið ráðgjafar frá lögmannsstofunni Mörkinni, sem m.a. hafi ritað stefnda bréf f.h. stefnanda vegna ágreiningsmála aðila. Þá sé því eindregið mótmælt að stefnandi hafi á einhverju stigi máls mótmælt því að ganga til samninga við Vegagerðina eða undirrita áður greindan samning við hana, hvað þá að hann hafi verið beittur nauðung til þess. Þá sé því einnig mótmælt að stefndi hafi nokkru sinni gert það að skilyrði fyrir því að hefja vinnu við lokaáfanga verksins eftir 24. september 2009 að stefnandi undirritaði viðaukasamning II. Séu ásakanir um það ámælisverðar, ósannar og rangar. Stefndi kveðst enn fremur vísa til þess að stefnandi hafi með undirskrift sinni samþykkt allar greiðslur á bankareikningi, sem innheimtar hafi verið samkvæmt samkomulaginu við Vegagerðina og greiddar hafi verið hvorum verktaka fyrir sig samkvæmt ákvæðum þess samnings og viðaukasamningsins nr. II. Hafi slíkt samkomulag verið áskilið, sbr. gr. V.2. og V.3. í Viðauka I. Hafi stefnanda þá verið í lófa lagið að gera fyrirvara um réttmæti greiðslnanna hefði hann þá talið einhvern vafa leika á lögmæti nýgerðra samninga milli aðila og Vegagerðarinnar. Þá hafi stefnandi sjálfur gefið út reikninga á hendur stefnda, skv. ákvæðum í viðaukasamningnum. Við innheimtu á þessum reikningum hafi stefnandi enga fyrirvara gert um lögmæti samningsins sem legið hafi til grundvallar útgáfu reikninganna. Með þeim hætti hafi hann í verki staðfest að hann hefði enga fyrirvara um skuldbindingargildi og lögmæti samningsins. Loks hafi stefnandi tekið þátt í gerð og raunar fullbúið alla reikninga á hendur Vegagerðinni fyrir verkhluta beggja verktakanna án þess að gera á nokkru stigi athugasemdir gagnvart stefnda um framsetningu hans á reikningslegum upplýsingum fyrir hans hluta verksins samkvæmt samningum aðila. Hann hafi skipt upp útgefnum reikningum á verkkaupann eftir upplýsingum hvors verktaka um sig um eigið vinnuframlag og leitað staðfestingar fulltrúa stefnda á skiptingunni. Hafi enda verið krafist staðfestingar beggja félaganna á réttmæti skiptingar á greiðslum frá verkkaupa svo viðskiptabanki Metrostav Háfells ehf. heimilaði greiðslur út af reikningi félagsins til málsaðila. Stefndi kveðst telja að fyrirvaralaus framkvæmd stefnanda á samningunum hafi falið í sér áréttingu og samþykki hans við efni þeirra. Hafi stefnanda ella borið að gera fyrirvara af sinni hálfu hygðist hann halda uppi frekari kröfum á hendur stefnda um hlutdeild í tekjum hans samkvæmt reikningunum. Hugsanlegur kröfugrundvöllur af hálfu stefnanda, svo fjarlægur sem hann annars væri, hljóti þegar af þessum ástæðum að teljast brott fallinn vegna tómlætis. Stefndi kveðst mótmæla ásökunum um að hann hafi nýtt sér bága fjárhagsstöðu stefnda til að áskilja sér hagsmuni, sem honum hafi ekki borið. Ásökunin sé fjarri lagi, enda sé hið gagnstæða rétt að stefndi hafi lagt sig fram um að aðstoða stefnanda við að standa við sinn hluta skuldbindinga hans að verksamningum. Hafi stefndu raunar lánað stefnanda fé, 30 milljónir króna hinn 15. apríl 2010, til greiðslu 30. júní sama ár og þá án vaxta, til að gera stefnanda kleift að halda áfram verki sínu. Kveðst stefndi telja ljóst að enginn lagalegur grundvöllur sé fyrir ógildingarkröfu stefnanda á tilgreindum ákvæðum viðaukasamningsins og hljóti stefnandi því að vera bundinn af honum eftir grunnreglu réttarríkisins um að samninga beri að halda. Vegna kröfu um hlutdeild í gengisbótum Stefnandi segir að með samningi hafi Vegagerðin sem verkkaupi komið til móts við rökstuddar kröfur aðila þar sem þess hafi verið krafist að tjón verktaka vegna stórfelldar hækkunar á erlendum kostnaðarliðum yrði bætt sérstaklega, þar sem verðbótaákvæði samningsins hafi ekki gert það. Vegagerðin hafi fallist á að reikna verðbætur skv. tiltekinni reiknireglu á þá verkliði þar sem erlendur kostnaður væri hærra hlutfall en svo að breytingar á byggingarvísitölu hafi endurspeglað raunverulega kostnaðarþróun. Hafi Vegagerðin þegar í janúar 2009 lagt fram tillögu þar sem þeir verkliðir hafi verið tilgreindir sem verðbættir yrðu sérstaklega vegna þessa. Hafi verið samkomulag um að þetta ætti við um alla vinnu verktaka að jarðgangagerðinni, þ.e. verkefni stefnda og um verkþátt 8.25 rafbúnað, sem hafi verið verkefni stefnanda. Hafi verið reiknuð út eingreiðsla vegna vinnu að þessum verkþáttum fyrir liðinn tíma fram að 30. júlí 2009, en eftir það skyldu allir reikningar vegna þessara verkþátta reiknaðir upp miðað við þetta nýja verðbótaákvæði. Heildarfjárhæð þessara sérstöku verðbóta fyrir liðinn tíma hafi numið 720.300.000 krónum. Hafi hún skipst milli málsaðila í samræmi við útgefna reikninga fyrir unnin verk hvors um sig að hinum tilgreindu verkþáttum, sem njóta skyldu framangreindra verðbóta. Þetta sé áréttað í 1. gr. samnings aðila og Vegagerðarinnar þar sem segi að 719.475.162 krónur skuli greiða stefnda „vegna verka sem unnin hafi verið af Metrostav a/s.“ og 824.838 krónur skuli greiða stefnanda „vegna verka sem unnin hafi verið af Háfelli h.f.“ Þessar greiðslur hafi þannig verið ákveðnar á málefnalegum grundvelli og eingöngu tekið mið af vinnu hvors aðila um sig að þeim verkefnum sem hafi haft hæst kostnaðarhlutfall í erlendri mynt og fullt samkomulag hafi verið um að verðbæta skyldi sérstaklega af þeim ástæðum. Hafi aðilar staðfest þessa niðurstöðu samhliða í grein 4.3 í viðaukasamningi II. Stefnandi segir að sérstakar verðbætur fyrir þegar unnin verk fram til 30. júní 2009 hafi verið greiddar í þrennu lagi og hafi Vegagerðin greitt inn á sameiginlegan reikning málsaðila, en aðilar síðan gefið út sameiginleg greiðslufyrirmæli um útgreiðslu hvors aðila um sig í samræmi við tilkall þeirra eins og verðbætur hafi skipst eftir vinnuframlagi hvors um sig. Hafi verið fullt samkomulag um þetta eins og greiðslufyrirmæli aðila til banka vitni um. Liggi þar fyrir bein staðfesting stjórnarformanns stefnanda í orðsendingu 4. nóvember 2009 um að þessar fjárhæðir hafi verið reiknaðar og endurreiknaðar og séu réttar. Stefndi segir, að þrátt fyrir þessar skýru forsendur sem séu fyrir greiðslu vegna gengistaps í vinnu fram til 30. júlí 2009 haldi stefnandi því fram í málavaxtalýsingu að samningurinn hafi verið til málamynda og að ákvæði hans um að reikna eingöngu gengisbætur á þá verkhluta þar sem gengisáhrifin hafi verið mest hafi verið dulbúningur á almennri hækkun verðbóta í verkinu. Kveðst stefndi mótmæla þessari málsástæðu sem rangri og benda á að ekkert í gögnum málsins færi að því líkur, hvað þá sönnur, að þessi fullyrðing stefnanda eigi við rök að styðjast. Stefndi segist andmæla því að riftun á tilteknum ákvæðum í viðaukasamningi aðila geti lagt grunn að lögmætum kröfum stefnanda um hlutdeild í verðbótum sem greiddar hafi verið stefnda skv. samningi aðila og Vegagerðarinnar. Réttur stefnda til verðbótanna hafi sem fyrr segi stofnast með þeim samningi, en ekki viðaukasamningnum, sem riftunarkrafan beinist að. Grundvöllur að útreikningi á hlutdeild hvors verktaka um sig í hinum sérstöku gengistengdu verðbótum fyrir tímabilið fram til 30. júní 2009 hafi ráðist af vinnu hvors um sig að þeim verkliðum, sem hafi verið taldir hafa haft hæst hlutfall kostnaðar í erlendum gjaldmiðlum. Hafi aldrei komið annað til greina en að sá verktaki sem unnið hafi og kostað umrædda verkliði nyti umsaminna verðbóta vegna vinnu við þá. Sé því rakalaust og rangt sem haldið sé fram í stefnu, að stefnandi og stefndi hafi vélað um skiptingu verðbóta á fundi sínum í Prag 24. september 2009 og hvað þá að stefndi hafi þar knúið stefnanda til að afsala sér rétti til hinna sérstöku gengistryggðu verðbóta. Forsendur fyrir útreikningi þeirra hafi þá fyrir löngu verið lagðar í samskiptum aðila og Vegagerðarinnar og hafi verið staðfestar með undirritun allra aðila þann sama dag. Stefndi segir að réttur sinn til umræddra greiðslna sé skýrlega grundvallaður með samningi aðila við Vegagerðina. Hafi stefnandi engar kröfur haft uppi um riftun ákvæða í þeim samningi, enda hafi hann þá þurft að stefna Vegagerðinni til að þola þá niðurstöðu. Krafa stefnanda um hlutdeild í verðbótagreiðslum til stefnanda, þvert á efnisreglu samningsins við Vegagerðina, sé hins vegar byggð á órökstuddum málatilbúnaði og með riftanleika tiltekinna ákvæða viðauka II. Þar sé fyrir reglu sakir tekið upp ákvæði úr samningnum við Vegagerðina, sbr. grein 3.4, og því haldið til haga hvernig streymi á þeim greiðslum, sem og öðrum sem síðar myndu til falla við framkvæmdina, yrði háttað um reikninga MEHA ehf. til viðkomandi verktaka. Þessi ákvæði skapi hvorugum aðila rétt til greiðslu frá Vegagerðinni, sem ákveðin hafi verið í öðrum samningi. Riftun þeirra hefði því engin áhrif á rétt stefnanda til greiðslna skv. samningnum við Vegagerðina. Sá réttur væri eftir sem áður takmarkaður við þá verkliði, sem aðilinn hefði unnið að og þar til greinda fjárhæð. Stefndi kveðst hafna öllum kröfum sem lúti að því að stefnandi eigi einhvern frekari rétt til sérstakra verðbóta, gengisbóta, en samningur aðila og Vegagerðarinnar hafi kveðið á um, hvað þá að stefnandi eigi slíkan rétt á hendur stefnda. Leiði þetta þegar af því að stefnandi hafi undirritað, án nokkurs fyrirvara, samninginn við Vegagerðina, sem tiltaki nákvæmlega útreikninga áfallinna verðbóta fyrir liðinn tíma fyrir þá verkþætti sem hvor aðili hafði unnið og verðbæta skyldi sérstaklega skv. samningnum. Hafi stefnandi þar fyrirgert rétti til þess að hafa síðar uppi kröfur um aðra skipun gengisbóta. Þá kveðst stefndi vísa til viðaukasamnings II þar sem í grein 3.4 sé staðfest að samkomulag sé um útreikning og forsendur á greiðslu gengisbóta. Þá kveðst stefndi benda á að þessi ákvæði um skiptingu verðbóta fyrir liðinn tíma séu sjálfstæð og sérstök og yrði því eftir viðurkenndum lögskýringaleiðum ekki haggað með túlkun á almennum ákvæðum samstarfssamnings aðila, sem stefndi kveðst auk þess telja að stefnanda hafi ekki tekist. Hér gangi hið sérstaka framar hinu almenna. Stefndi segist hafna kröfu stefnanda samkvæmt því sem stefnandi segi sína megin málsástæðu og byggi á því að aðilar hafi staðið saman að verkinu með 32% óskipta hlutdeild stefnanda. Stefnandi vísi til stuðnings þessari kröfu til ákvæðis V-1 í Viðauka I við stofnsamning samstarfsins, sem segi til um það hver séu eignarhlutföll aðila í einkahlutafélagi því, sem þeir hafi stofnað til að annast sameiginleg samskipti við verkkaupa. Hafi það verið eina hlutverk félagsins eins og raunar sé staðfest í málatilbúnaði stefnanda. Hafi umsvif félagsins verið takmörkuð við þóknun sem svarað hafi til 0,25% af innheimtum reikningum. Ákvæðið lúti því ekki að tekjuskiptingu í verkinu, um það efni fjalli grein IV-5 og kveði skýrt á um að aðilar framkvæmi hvor sinn hluta verksins á eigin ábyrgð og áhættu. Hafi ákvæðið verið tekið inn í samning aðila eftir eindregin tilmæli stefnanda þar um. Þaðan af síður verði gagnályktað af ákvæði IV-7 um sameiginlega ábyrgð á kostnaði vegna ófyrirséðs kostnaðar sem til sé stofnað til varnar sameiginlegum hagsmunum verktakanna, auk þess sem sú ábyrgð hafi verið skilyrt fyrir samkomulagi beggja aðila í hverju tilviki. Sú skipan um skiptaábyrgð á verkframkvæmdinni, þ.e. að hvor aðili innheimti fyrir sinn hluta verksins eftir verkframvindu án þess að nokkuð af þeim tekjum kæmu í hlut hins, hafi svo verið áréttuð með gr. 3.2. í Viðauka 2 sem stefnandi hafi ekki hreyft athugasemdum við. Ákvæði 1. gr. samnings við Vegagerðina og grein 3.3. og 4.2. í Viðauka 2 leiði beint að þessari grundvallarreglu í samskiptum aðila. Krafa stefnanda um hlutdeild í gengisbótum stefnda verði því ekki leidd af ákvæðum samstarfssamnings aðila með síðari breytingum og sé rakalaus með öllu. Stefndi kveðst hafna því að stefnandi hafi fært nokkur lagarök eða málsástæður sem styðji kröfu um að víkja beri til hliðar þeim meginsjónarmiðum sem legið hafi til grundvallar samningi aðila og Vegagerðarinnar um bætur vegna vinnu við þá verkliði sem að mati aðila hefðu haft hæst hlutfall erlends kostnaðar. Ekkert nýtt hafi verið fært fram til stuðnings því að stefnanda hafi borið sérstakar bætur vegna áhrifa gengisfalls krónunnar vegna vegavinnu og byggingarvinnu sem hann hafi framkvæmt með innlendum starfsmönnum sínum umfram það sem verðbótaákvæði samningsins sjálfs hafi bætt. Þaðan af síður sé rökstutt á hvaða grunni hann fengi krafið stefnda um slíkar bætur. Sé krafa hans um hlutdeild í tjónabótum stefnda vegna vinnu við aðra liði en þá sem samningurinn um gengisbætur hafi tekið til algjörlega órökstudd og án lagastoðar. Stefndi kveðst sérstaklega mótmæla fullyrðingum um að stefnandi hafi ekki notið gengisbóta á þá verkliði sem honum hafi tilheyrt. Viðurkennt hafi verið að verkliður 8.25 hefði það hátt hlutfall erlendra aðfanga að réttlæti sérstakar uppbætur þótt vinnuliðurinn væri allur greiddur í íslenskum krónum. Stefnandi hafi raunar síðan samið um þennan lið frá grunni, hafi sá samningur einn og sér fært stefnanda hækkun á verkþættinum um 51% á föstu verði eða um nær 300 milljónir króna. Sé því fráleitt af stefnanda að halda því fram að hann hafi verið vanhaldinn í skiptum sínum við verkkaupa um bætur vegna hækkunar á gengi erlendra myntar í verkliðum þar sem þau áhrif hafi vegið þungt. Stefndi kveðst hafna því að stefnandi eigi tilkall til 10% hlutdeildar í útreiknuðum gengisbótum þegar af þeirri ástæðu að það ákvæði sem stefnandi segist byggja kröfur sínar á hafi verið fellt úr samningum aðila samkvæmt gr. 3.1 í Viðauka 2. Stefndi segist byggja á til vara að hefði einstakt ákvæði verið í gildi í skiptum aðila þá hefði það aldrei tekið til verðbótaákvæða samningsins, hvorki samkvæmt upphaflegum verksamningi sem mælt hafi fyrir um verðbætur samkvæmt byggingarvísitölu né viðauka við það vegna gengisbóta sem hafi samkvæmt eðli sínu verið til að bæta hliðstætt tjón af völdum verðhækkunar. Hafi enda aldrei komið til álita í skiptum verktakanna að skipta verðbótum sem greiddar hafi verið á verkliði, heldur hafi þær eðlilega fallið óskiptar í hlut þess sem kröfu hafi átt til endurgjalds fyrir unnið verk. Ef skipta hefði átt tjónabótum vegna verðlagsbreytinga í hlutföllum eins og stefnandi byggi á þá hefði það leitt til þess að tjónþoli fengi ekki tjón sitt bætt nema að hluta en samstarfsaðili hefði auðgast sem því svaraði. Hafi slíkt aldrei verið efni þessa samningsákvæðis. Vorið 2009 hafi stefnandi haldið því fram að hann ætti slíka hlutdeild í gengisbótum stefnda en stefnandi hafi fallið frá þeim hugmyndum í undanfara samninganna 24. september 2009. Stefndi segist hafna kröfu um greiðslu á meintri hlutdeild stefnanda í gengisbótum vegna vinnu hans við jarðgangagerð. Stefnandi hafi tekið að sér samkvæmt samningi við stefnda að taka við útgröfnu efni úr göngunum. Hafi stefnandi þar haft stöðu undirverktaka og fengið greitt fyrir samkvæmt almennu einingaverði samningsins. Hafi stefnandi enda nýtt innlenda starfsmenn til verksins. Hafi verið ljóst að hlutfall kostnaðar hans í erlendri mynt af þessu verki hafi verið langt undir viðmiðun fyrir gengisbótum samkvæmt samningi við Vegagerðina. Þá hafi stefnandi samþykkt útreikning Vegagerðarinnar á gengisbótum til handa stefnda og jafnframt fallið frá hugsanlegum kröfum í þennan greiðslulið. Við það bætist að stefnandi hafi ekki fyrr hreyft þessari kröfu og hafi gert fyrirvaralausa reikninga á hendur stefnda fyrir þjónustuna. Þegar af þeirri ástæðu væri meint krafa hans því fallin niður fyrir tómlæti. Sé enginn grundvöllur fyrir þessum kröfum stefnanda. Vegna kröfu um hlutdeild í greiðslu vegna hækkunar einingaverðs efnaefju Stefndi segist hafna kröfum samkvæmt þessum kröfulið, enda stafi þær allar af samskiptum aðila fyrir 24. september 2009 sem að stefnandi hafi skilyrðislaust fallið frá með gerð viðaukasamnings tvö og samhliða því að stefndi hafi greitt honum 50 milljónir króna að meðtöldum virðisaukaskatti sem heildargreiðslu til lúkningar öllum útistandandi ágreiningsmála og mögulegra deilumála sem að rót hafi átt fyrir samningsgerðina. Sé þegar af þessari ástæðu enginn grundvöllur fyrir kröfunni. Stefndi segist hafna því að stefnandi eigi að vera óbundinn af viðaukasamningi tvö að því er varði kröfur um hlutdeild í meintum hagnaði af verklið 106 af þeirri ástæðu að honum hafi verið ókunnugt um umfang umdeildra hagsmuna. Stangist það á við staðreyndir málsins sem sýni að stefnandi hafi vel þekkt hvaða fjárhæð Vegagerðin hefði greitt vegna þessa. Upphafleg krafa stefnanda hafi verið um 10% hlutdeild í hækkun á greiðslum á grunnmæli samningsins og geti því aldrei orðið hærri en 47,5 milljónir. Samningur um helmingshlutdeild í áætluðum 4% hagnaði hafi því hlotið að takmarkast við þá upphæð að hámarki. Stefnandi hafi því verið vel vitandi um umfang þessara hagsmuna við gerð viðaukasamnings tvö. Stefndi segir að stefnandi byggi kröfu sína á staðhæfingum um það að samkomulag hafi orðið með aðilum 4. apríl 2008 þess efnis að hann myndi njóta helmings af hagnaði af verklið 106 sem sé efnisliður efnasambands sem notað sé til bergþéttinga. Hafi stefndi þá talið sig njóta um 4% hagnaðar af liðnum eftir að verkkaupi hafi fallist á verulega hækkun á einingaverði fyrir þéttiefnið. Hafi stefndi samkvæmt þessu greitt 4.387.753 krónur til stefnanda. Virðist stefnandi nú byggja kröfur sínar um frekari greiðslur á meintu þegjandi samþykki stefnda við því að samkomulag um skiptingu hagnaðar á þessum lið hafi haldið gildi sínu þvert á ákvæði viðaukasamningsins frá 24. september 2009. Þeim staðhæfingum mótmæli stefndi sem röngum. Þótt stefndi hafi sýnt stefnanda þá kurteisi að láta honum í té gögn og sjónarmið sem varðað hafi löngu liðin lögskipti þá hafi ekki falist í því viðurkenning á því að krafa væri til staðar sem hún ekki sé. Engin slík viðurkenning hafi verið gefin og sé gagnstæðum fullyrðingum mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Stefndi segir að jafnvel þótt samkomulag þetta hafi haldið gildi sínu, sem væri þvert á ákvæði viðaukasamnings tvö, þá myndi það ekki leiða til þess að stefnandi ætti fjárkröfu á hendur stefnda. Sé það vegna þess að enginn hagnaður hafi orðið af verkliðnum heldur tap og hafi greiðsla stefnda til stefnanda verið byggð á rangri forsendu af hagnaði á verkinu. Stefndi segir að tekjur af verkliðnum hafi verið alls 575.796.885 krónur sem sundurliðist svo að 477.225.578 krónur hafi verið færðar af grunnverði samnings en 98.571.307 krónur vegna verðbóta. Kostnaður af verkliðnum hafi alls numið 480.133.155 krónum án virðisaukaskatts og sundurliðar stefndi hann svo að 346.243.961 króna hafi verið kaup eða efni í efnaefju, 40.336.103 krónur flutningskostnaður, 18.483.347 krónur annar efniskostnaður, tækjakostnaður hafi numið 24.004.109 krónum, aðkeypt þjónusta og eigin meðferð 32.598.975 krónum og reiknaður 4% umsýslukostnaður 18.466.660 krónum, virðisaukaskattur hafi numið 117.632.623 krónum og heildarkostnaður með virðisaukaskatti 597.764.417. Tap af verkliðnum hafi því numið 21.967.847 krónum. Segist stefndi mótmæla útreikningum stefnanda og afkomu hans af verkliðnum sem röngum og órökstuddum, þannig sé útreikningur stefnanda á verðbótum af verkliðnum rangur og ekki í samræmi við útreikning mánaðarlegra verðbóta sem fylgt hafi reikningum aðila. Valdi þessi skekkja því að stefnandi oftelji tekjur stefnda af verkliðnum um 10 milljónir króna. Stefndi segist vísa til þess að í sérverkalýsingu vega a-liðar verkliðs 106 sé tekið fram að verkliðurinn innifeli allt efni og vinnu vegna öflunar efna til efnaefjugerðar og notkunar þeirra og skuli innifela allan kostnað við útvegun, meðhöndlun, flutning, notkun, geymslu og prófun efnanna, auk annars ótilgreinds kostnaðar við notkun þessara efna. Af þessu leiði að mati stefnda að allur sértækur kostnaður sem til falli við notkun þessara efna skuli greiðast af þessum verklið en ekki af verklið 100 eins og stefnandi haldi fram. Stefndi segist ekki hafa fært til gjalda á þennan verklið vinnu eigin starfsmanna eða kostnað af búnaði sem nýttur hafi verið við alla almenna bergþéttingu, heldur eingöngu kostnað sem sérstaklega hafi fallið til vegna notkunar efnaefju. Þar undir hafi fallið kostnaður af störfum ráðgjafa sem og kostnaður af sérhæfum búnaði frá framleiðanda efnaefjunnar, bæði til þéttingar og inndælingar. Stefndi segist telja augljóst af málatilbúnaði stefnanda að hann hafi sem vonlegt sé ekki haft tæmandi yfirlit um kostnað stefnda af verkliðnum og hafi fulltrúar hans m.a. þrætt fyrir að hann hafi keypt efni frá Impregilo S.p.A. sem hér hafi verið við störf á sama tíma. Sé reikningur Impregilo að fjárhæð rúmlega 400.000 evrur, lagður fram í málinu ásamt yfirliti um tekjur og gjöld af verkliðnum og sundurliðun á kaupum á aðföngum frá stærstu birgjum, annars vegar á efnum og búnaði frá Minova Bohemia og Impregilo, en hins vegar frá þjónustuveitendum. Þá segir stefndi að svo sýnist sem stefnandi hafi ekki þekkt til þess að stefndi hafi leigt húsnæði á Ólafsfirði við geymslu á efnasamböndum samkvæmt þessum verklið og haft af því kostnað. Stefndi segist benda á að af rúmlega 480 milljóna króna kostnaði auk virðisaukaskatts standi reikningar fyrir öllum útlögðum kostnaði, þar við bætist reiknaður kostnaður stefnda af meðhöndlun efnanna, viðtöku þeirra og flutningi innan svæðis, svo og rýrnun þeirra. Þessi kostnaður sé reiknaður sem jafnvirði 6% álags á kostnaðarverð aðfanga eða samtals 20.774.638 krónur. Þá sé reiknað með 4% kostnaði, 18.660.660 krónum sem hlutdeild í skrifstofukostnaði við utanumhald við innkaup, flutninga, varðveislu o.s.frv. Kveðst stefndi telja þessa kostnaðarliði afar hóflega áætlaða og að fráleitt sé að horfa fram hjá þeim við útdeilingu og afkomu verkþáttarins. Hann telji raunar að í bréfi aðila sem undirritað hafi verið af fulltrúa stefnanda til fulltrúa verkkaupa þar sem leitað hafi verið eftir umræddri hækkun á einingaverði efnaefjunnar felist fyrirfarandi samþykki með þeim útreikningsmáta, enda sé miðað við að álag verktakans á innkaupsverð að meðtöldum flutningskostnaði sé 17%. Af því megi sjá að það 10% álag sem stefndi reikni sér sem kostnaðarhlutdeild sé langt innan þeirra marka sem ætlað hafi verið. Jafnvel þótt kostnaður stefnda af framangreindum þáttum væri aðeins metinn 6% þá myndi það ekki breyta þeirri megin niðurstöðu að verkliðurinn stæði í járnum með um tveggja milljóna króna hagnaði og það áður en litið væri til greiðslu stefnda til stefnanda á 4.278.753 krónum. Sé því sama hvar borið sé niður stefnandi eigi ekki rétt til frekari greiðslu úr hendi stefnda vegna vinnu stefnda að verklið 106, þvert á móti hafi stefnanda verið ofgreitt. Þá kveðst stefndi mótmæla því að stefnandi geti undir nokkurum kringumstæðum krafist gengisbóta á kröfu sem hann kynni, þvert á væntingar stefnda, að fá dæmdar samkvæmt þessum lið kröfugerðar sinnar. Því valdi í fyrsta lagi það að hann hafi undirritað án nokkurs fyrirvara samkomulagið við Vegagerðina um skiptingu gengisbóta sem réttilega hafi ákvarðað stefnanda bætur fyrir jarðgangagröftinn eins og þar sé tilgreint. Hafi stefnandi með þessum atbeina sínum fyrirgert öllum kröfum af sinni hálfu um hlutdeild í umræddum bótum. Sé málsástæða þessi ennfremur studd ákvæðum 3.2, sbr. 3.4 í viðaukasamningi tvö. Að öðru leyti kveðst stefndi vísa til málsástæðna og lagaraka sem áður hafi verið færð fram og varði kröfur stefnanda um greiðslur sérstakra verðbóta vegna gengisfalls. Stefndi kveðst loks mótmæla varakröfum stefnanda í þessum lið með vísan til þess að Viðauki 2 hafi fellt úr gildi tilvitnað ákvæði um skiptingu tekna af kröfum. Þá kveðst stefndi ennfremur mótmæla sérstaklega þeirri forsendu stefnanda að stefnandi geti átt kröfu um hlutdeild í verðbótum af þessum verklið. Engin ákvæði, hvorki í fyrri né síðari samningum aðila, mæli fyrir um skiptingu verðbóta af verkliðum sem hlutaðeigandi aðili hafi haft með höndum. Vegna þvotts á fyllingarefnum Stefndi segist hafna því að nokkur ákvæði í samningi aðila eða verksamningi leiði fram þá niðurstöðu að stefndi hafi undirgengist ábyrgð gagnvart stefnanda á því að gæði útgrafins efnis úr göngunum yrðu slík að óþarft yrði að þvo það til að ná tilskildum gæðum. Ekkert í útboðsgögnum eða samskiptum aðila gefi slíka ábyrgð til kynna, enda hefði stefndi aldrei átt þess kost að ábyrgjast slík gæði. Segir stefndi að hefði stefnandi talið unnt að flokka betur það efni sem úr göngunum hafi komið hefði það staðið stefnanda næst að láta starfsmenn sína, sem tekið hafi við efni á haugsvæðum, mæla fyrir um flokkun einstakra farma. Það hafi stefnandi ekki gert og hljóti sjálfur að bera ábyrgð á afleiðingum þess. Þótt stefndi hafi reynt að hafa útkeyrslu efnis út göngunum þannig að betra efni væri haldið til haga þá hafi aldrei verið á hans færi að ábyrgjast gæði útgrafins efnis. Flokkunin hafi verið erfið þar sem mikið hafi verið um innskot í berginu, einkanlega þar sem hiti hafi verið í því. Þá segir stefndi að engin sönnun liggi fyrir í málinu á því að nauðsynlegt hafi verið að þvo allt það efni sem stefndi hafi látið undirverktaka sinn þvo og þaðan af síður sé sannað að nákvæmari flokkun efnis úr göngunum hefði gert slíkan þvott óþarfan eða þá sönnun á því hver þvottaþörfin hefði minnst getað orðið við bestu aðstæður. Sé krafa stefnanda vanreifuð að þessu leyti og sé henni mótmælt með vísan til þess. Stefndi kveðst benda á að greftri jarðganga hafi lokið 9. apríl 2009 þegar Ólafsfjarðargöng hafi opnast. Ábendingar stefnanda frá 24. mars, rúmum hálfum mánuði áður, um það hvar setja skyldi besta efnið hafi því augljóslega verið alltof seint fram komnar til að geta haft nokkur áhrif. Vísun stefnanda til þessarar orðsendingar sinnar staðfesti að hann hafi staðið illa að umsjón með efnisvinnslu þar sem um 98% af greftri hafi þá þegar verið lokið. Stefndi segist ennfremur vísa til greinar 2.1. og 2.2 í Viðauka 2 til staðfestingar á því að stefnandi hafi með samningi og gegn greiðslu fallið frá öllum kröfum sem rót hafi átt að rekja til verkframkvæmdarinnar og samninga aðila fram til 24. september 2009. Krafa stefnanda um kostnað af þvotti jarðefna sem nýta skyldi til framleiðslu á möluðu efni með mismunandi kornastærð sé einvörðungu studd því að flokkun útgrafins efnis hafi verið lakari en stefnandi hefði kosið. Stefndi segir að sú flokkun hafi öll átt sér stað meira en fimm mánuðum fyrir samningsdag og hafi stefnandi því vitað nákvæmlega hvernig þeirri afhendingu hafi verið háttað þegar hann hafi samið um viðaukasamninginn m.a. annars um þetta tilefni. Komi enda fram á reikningi sem liggi fyrir í málinu að stefnandi hafi þá þegar samið um og greitt fyrir þvott á slíku efni. Sé fráleitt að stefnandi hafi ekki verið sér meðvitaður um tilefni þeirrar kröfu sem hann haldi fram undir þessum lið. Loks kveðst stefndi mótmæla kröfufjárhæð samkvæmt þessum lið sérstaklega, bæði þar sem allt sé ósannað um það hversu mikið hafi þurft að þvo efni, en einnig með vísan til matsgerðar sem dragi fram að stefndi hafi greitt stórum meira fyrir þjónustu undirverktaka síns en eðlilegt hafi mátt telja. Vegna vinnubúða, skemma og skrifstofa Stefndi segir að samkvæmt samningi aðila hafi stefnanda borið að koma upp aðstöðu á verkstað, meðal annars fyrir gistingu og mötuneyti, sbr. skiptingu verkliða samkvæmt fyrsta samningsviðauka. Tilboð stefnanda í þá verkliði hafi verið 122 milljónir króna fyrir hvort athafnasvæðið, eða 244 milljónir króna samtals fyrir þau bæði. Stefnandi hafi upphaflega miðað við að bjóða 158 milljónir í þennan lið, en lækkað hann í fyrrgreinda fjárhæð og nemi lækkunin 22,78%. Hafi tilboðsverð í þennan verkhluta ekki einungis tekið mið af stofnkostnaði við vinnubúðirnar heldur einnig af kostnaði við uppsetningu og niðurtöku, viðhaldi, hverskyns lagna og tenginga við veitukerfi, sem og samgöngum og sorphirðu. Stefndi segir að í samkomulagi frá 12. maí 2006 sé sérstaklega tiltekið að stefnandi skuli greiða fyrir rafmagn og þrif á bæði vinnubúðum og hóteli. Stefndi kveðst mótmæla fullyrðingum stefnanda um það að nokkur ákvæði samninga þeirra í milli hafi falið í sér ábyrgð á því að stefndi keypti þjónustu af stefnanda af tilteknu umfangi allt til enda verks. Enginn slíkur samningur hafi verið gerður og rangt sé að stefndi hafi á nokkru stigi gefið út að tiltekinn fjöldi starfsmanna hans myndi gista í vinnubúðum út verktíma stefnanda. Hið rétta sé að stefnandi hafi tekið að sér samkvæmt samkomulagi að sjá stefnda fyrir aðstöðu svo lengi sem þörf væri á, sem hafi á ensku verið orðið „for needed time“. Kveðst stefndi mótmæla þýðingu þess orðalags með orðinu „tímanlega“ sem augljóslega rangri. Blasi við að stefndi hefði aldrei skuldbundið sig til kaupa á þjónustu í vinnubúðum fyrir fjölda starfsmanna fram yfir þann tíma er þeir mundu starfa að verkefninu. Leiði það þegar af þeirri staðreynd að verkþáttum stefnda samkvæmt umsaminni skiptingu hafi hlotið að ljúka mörgum mánuðum áður en stefnandi mundi ljúka frágangi vega og rafbúnaði í göngunum. Stefndi segir að í málatilbúnaði stefnanda felist efnislega að stefndi eigi að hafa samið um að greiða fast gjald fyrir þjónustu í vinnubúðum óháð nýtingu þeirra á hverjum tíma. Þessu kveðst stefndi mótmæla sem ósönnuðu og röngu. Reikningar sem stefnandi hafi gert stefnda fyrir þjónustuna beri enda með sér að greitt hafi verið fyrir hverja gistinótt sem sé í samræmi við niðurstöðu samninga aðila þar um. Stefnandi hafi innheimt gistikostnað eftir sömu reglu allan verktímann, samningurinn hafi af stefnda hálfu verið gerður í því trausti að stefnandi hafi tilsvarandi kostnað sem hann fengi ekki greiddan með öðrum hætti. Svo hafi þó ekki reynst vera. Þá kveðst stefndi mótmæla sem rangri fullyrðingu stefnanda að einingaverð þetta hafi verið grundvallað á útreikningi raunkostnaðar. Svo hafi ekki verið og hafi framkvæmdastjóri stefnanda staðfest það með tölvubréfi hinn 16. nóvember 2009. Það hafi fyrst verið 30. janúar 2009 sem fulltrúi stefnanda hafi sent yfirlit um áætlaðan kostnað við rekstur vinnubúða í Ólafsfirði í tilefni af kröfum stefnanda um greiðslur fyrir þjónustu sem ekki hafi verið þörf fyrir. Stefndi kveðst hafa mótmælt þeim útreikningum og talið augljóst að þar væri tilfærður kostnaður sem stefndi hefði þegar fengið greiddan, samkvæmt verklið 8.01, þ.e.a.s. sorphirða og viðhald, rafmagn og hiti. Þá hafi engin fylgiskjöl verið lögð fram til stuðnings yfirlitinu sem stefndi telji efnislega rangt og fari nærri því að telja tvöfaldan raunkostnað stefnda af þjónustunni. Þannig sé enginn talnalegur grundvöllur lagður í stefnunni fyrir því að stefndi eigi að greiða eitthvað tiltekið hlutfall af raunkostnaði af rekstri vinnubúða. Að því leyti sé krafan vanreifuð svo ekki verði komið við vörnum með viðhlítandi hætti um tölulegan grundvöll málsins. Stefndi segir að stefnandi virðist byggja kröfu sína að hluta til á því að framlenging verktíma sem leitt hafi af töfum í verkinu og staðfest hafi verið með samningi 5. nóvember 2008, gefi honum tilefni til að krefja samstarfsaðila sinn um kostnað vegna framlengingar á starfsemi vinnubúða sem þessari framlengingu nemi. Hér hafi verið um að ræða lengingu verktíma um 219 daga eða rúma 7 mánuði. Stefnandi hafi af þessu tilefni engar kröfur gert á hendur Vegagerðinni um greiðslu kostnaðar sem leiða myndi af lengri rekstrartíma vinnubúða en áætlað hafi verið, né heldur fyrirvara um slíkar kröfur. Segir stefndi að stefnanda hefði þó verið í lófa lagið að koma slíkum kröfum að við samningsgerðina. Stefndi segir að stefnandi hafi síðar, í nafni Metrostav-Háfells ehf., sett fram margvíslegar kröfur á hendur Vegagerðinni, meðal annars um bætur vegna framlengingar verktímans samkvæmt fyrrgreindum samningi og samkvæmt samningi 24. september 2009. Hafi Vegagerðin hafnað kröfunum m.a. með vísan til þess að stefnandi hafi staðið að áður töldum tveimur samningum um uppgjör og framlengingu verktíma án nokkurs fyrirvara af sinni hálfu. Þá hafi stefnandi staðið að þriðja samningnum við Vegagerðina 30. desember 2009 þar sem hann hafi beinlínis með skýru orðalagi fallið frá hverskyns kröfum sem hann hefði áður sent fram um bætur vegna framlengingar verktíma. Eigi hann þannig engar kröfur á hendur Vegagerðinni vegna tafa á verkinu. Stefndi segir að augljóst virðist að engin ákvæði laga eða samninga leiði til þess að stefndi verði gerður ábyrgur fyrir kröfum sem stefnandi hafi sjálfur ýmist samið um eða fyrirgert með öðrum hætti í samskiptum sínum við verkkaupa. Loks kveðst stefndi byggja mótmæli sín við þessum kröfulið varðandi vinnubúðir á því að sú framlenging á rekstri vinnubúða sem stefnandi vísi til hafi alfarið átt rót að rekja til tafa á verkinu sem til hafi verið komnar við gerð viðaukasamnings tvö hinn 24. september 2009. Falli meint kröfutilefni því vafalaust undir ákvæði í grein 2.1, 2.2. og 4.3 í viðaukasamningnum, er feli í sér fortakslaust afsvar af öllum kröfum af þeim toga sem hér sé vísað til. Stefndi segir að auk þeirra málsástæðna sem hann hafi rakið standi ákvæði þessa viðaukasamnings með ótvíræðum hætti í vegi þess að stefnandi fái krafið stefnda um þá fjármuni sem tilteknir séu í kröfuliðnum. Stefndi kveðst mótmæla öllum kröfum stefnanda að því er varðar skemmur. Samkvæmt verklið 8.01 skyldi stefnandi sjá um aðstöðu á verkstað þ.m.t. skemmur eins og nánar sé rakið í samkomulagi aðila 12. maí 2006 sem gert hafi verið viku fyrir undirritun verksamnings. Þá kveðst stefndi vísa til sundurliðunar vegna tilboðs í verklið 8.01 sem stafi frá stefnanda. Samkvæmt því hefði stefnandi upphaflega miðað við að kostnaður af skemmum á hvorum verkstað yrði 13,6 milljónir króna, sem hafi svarað eftir lækkun við tilboðsgerð til 10.500.200 króna. Stefnandi hafi reynst vanmeta gróflega kostnað af kaupum á skemmum fyrir verkefnið og hafi svo farið að stefndi hafi sjálfur keypt skemmurnar, flutt þær til landsins og á verkstað og sett þær upp. Kostnaður stefnda af þessu hafi verið 30.565.655 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Hafi stefnandi reynst ófáanlegur til að endurgreiða þennan kostnað og aðeins greitt stefnda 21,5 milljónir fyrir skemmurnar eða sem hafi svarað upphaflegri áætlun hans af kostnaði við skemmurnar að teknu tilliti til lækkunar við endanlega tilboðsgerð. Stefndi segir að skemmurnar hafi skemmst í vondu veðri og hafi stefndi orðið að klæða þær með nýju bárujárni, hafi kostnaður af því numið 13.019.373 krónum auk virðisaukaskatts og hafi stefnandi engan þátt tekið í því, þótt honum hafi borið að halda skemmum og skýlum við og hafi í umsömdu einingaverði einmitt gert ráð fyrir kostnaðarviðhaldi. Samtals hafi stefndi kostað til 46.989.268 krónum til uppbyggingar á skemmunum og fengið endurgreitt frá stefnanda 21.540.886 krónur, hafi hann því setið uppi með óbættan kostnað að fjárhæð 25.584.382. Stefndi segir að stefnandi hafi að verki loknu selt skemmurnar og hafi ekki boðið stefnda eðlilega hlutdeild í söluandvirðinu þótt hann hafi greitt meira en helming alls stofnkostnaðar í skemmunum. Segir stefndi að með vísan til þessa sé fjarstæðukennt að stefnandi telji sér heimilt að krefja stefnda um leigu fyrir afnot af skemmum og skýlum sem verkkaupi og stefndi hafi greitt að fullu, en stefnandi ekkert lagt til. Kveðst stefndi telja augljóst að framlög verkkaupa til aðstöðusköpunar samkvæmt verkliðum eitt og tvö hefðu átt að gagnast báðum aðilum án þess að stefnandi fengi krafið stefnda um leigugjald af þeirri aðstöðu. Kröfu þar um sé því mótmælt sem tilhæfulausri og vanreifaðri. Stefndi kveðst mótmæla kröfum um greiðslu rekstrarkostnaðar sem rangri þar sem eini rekstrarkostnaðurinn tengdur skemmunum hafi verið rafmagn og hiti sem stefndi hafi greitt sjálfur. Krafan eigi sér því engan grundvöll, hvorki í samningum aðila né lagareglum og sé auk þess svo vanreifuð efnislega að ógerlegt sé að leggja mat á efni hennar umfram það sem gert hafi verið og rakið hefur verið. Kveðst stefnandi telja kröfuliðinn ekki uppfylla grunnreglu 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýrleika málsástæðna. Stefndi kveðst mótmæla ályktunum matsmanna í matsgerð um ætlað leiguverð hliðstæðra skemma sem séu málinu óviðkomandi þar sem svör matsmanna lúti með engum hætti að ætluðum rekstrarkostnaði stefnda af skemmunum. Eigi þau mótmæli með sama hætti við um kröfur vegna vinnubúða og skrifstofa. Kveðst stefndi skora á stefnanda að leggja fram gögn því til stuðnings að hann hafi haft einhvern kostnað af skemmunum umfram það sem hann hafi fengið greitt af verklið 8.01 og að teknu tilliti til söluverðs skálanna sem stefnandi hafi tileinkað sér. Stefndi kveðst mótmæla kröfulið er snúi að skrifstofum og telja stefnanda í engu hafa sýnt fram á greiðsluskyldu stefnda. Líkt og um skýlin hafi stefnandi tekið að sér að sjá um skrifstofuaðstöðu fyrir verktaka og verkkaupa út verktímann og fengið til þess greiðslur samkvæmt verklið 8.1 eitt og tvö. Hafi kostnaður hans af þeim verkþætti því verið greiddur af verkkaupa og gildi þar einu hvort hann hafi keypt einingar til að setja upp á verkstað eða leigt afnot af húsnæði í því skyni, hvort tveggja hafi verið greitt af áðurtöldum verklið sem m.a. skyldi standa straum af uppsetningu og rekstri á skrifstofuaðstöðu fyrir aðila og verkkaupa meðan á verkinu stæði. Sé því enginn grundvöllur fyrir kröfu stefnanda á hendur stefnda um greiðslu leigu af nokkrum toga fyrir umrædda aðstöðu og sé tilvísun í leigusamning kröfu hans með öllu óviðkomandi. Þá kveðst stefndi mótmæla því að sér hafi borið að greiða einhvern tiltekinn rekstrarkostnað vegna notkunar skrifstofuaðstöðu, og kveðst hann einnig mótmæla fullyrðingum í stefnu um afnotatíma og stærð húsnæðis sem hann hafi nýtt, sem óstaðfestum og röngum. Óljóst sé hvort krafist sé leigu fyrir afnot af húsnæði eða endurgreiðslu á útlögðum kostnaði við daglegan rekstur. Hafi stefnandi enda engin gögn lagt fram til stuðnings kröfu sinni sem sé af þeim sökum algjörlega vanreifuð. Kveðst stefndi skora á stefnanda að leggja fram gögn til stuðnings fullyrðingum um að hann hafi haft kostnað við rekstur af skrifstofu í verkinu umfram það sem hann hafi fengið greitt fyrir af verkliðum eitt og tvö. Þá kveðst stefndi mótmæla því að hann hafi átt að bera 2/3 hluta kostnaðar af aðstöðu fyrir eftirlitsaðila, engin ákvæði í samningum aðila leiði til þeirrar niðurstöðu enda hafi sú aðstaða verið greidd af verkkaupa samkvæmt verkhluta 8.01, liðum eitt og tvö. Vegna vinnu og vöruskiptalista. Stefndi segir að við verklok hafi fáeinir kostnaðarliðir verið milli aðila þar sem ýmist hafi verið orðið samkomulag um eða átt eftir að ná niðurstöðu um hver bera skyldi kostnaðinn. Hinn 13. desember 2010 hafi stefndi sent stefnanda lista yfir slík mál eins og hann hafi talið þau standa. Samkvæmt því hafi stefnandi skuldað stefnda 1.607.545 krónur, en stefndi skuldað stefnanda 476.900 krónur. Stefnandi hafi þá um hæl sent fjölda nýrra kröfuliða, en staðfest um leið áður taldar kröfur stefnda á hann sjálfan. Stefnukröfur stefnanda undir þessum lið eigi það sammerkt að stefndi hafi hafnað greiðsluskyldu. Stefndi kveðst andmæla kröfu er lúti að þrifum þegar af þeirri ástæðu að hann hafi ekki beðið um þá þjónustu heldur muni félagið Vatnsklæðning ehf. hafa samið um það við stefnanda að annast hreinsun eftir uppsetningu á vatns- og frostvörnum. Kröfunni hefði því átt að beina að því félagi. Beri því að sýkna stefnda sökum aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91, 1991. Auk þess kvaðst stefndi telja áætlaðan umkrafinn kostnað óhóflegan miðað við umfang hreinsunarstarfs. Stefndi kveðst hafna greiðsluskyldu vegna sorphirðu úr Ólafsfjarðargögnum í ágúst og september 2010. Á þeim tíma hafi undirverktaki hans, Vatnsklæðning ehf., tekið við öllum framkvæmdum hans í göngunum, þ.e. vatns- og frostvörnum og því borið ábyrgð á losun úrgangs sem til hafi fallið. Hafi fyrirtækið fengið greitt fyrir það. Stefnandi hafi verið beinn þátttakandi í þessari verkskipan með aðild sinni að samkomulagi um samhæfingu verka og geti því ekki borið við ókunnugleika um það frá hverjum umræddur úrgangur hafi stafað. Stefndi mótmælir því að hann hafi tekið að sér uppsetningu á kapalstiga fyrir stefnanda í útskotum á blautum svæðum ganganna þar sem stefnandi hafi fengið leyfi verkkaupa til að nýta bolta sem settir hafi verið upp til að bera vatns- og frostvarnir. Fram komi í fundargerð samráðsfundar aðila að stefnandi hafi sótt fast að fá að nýta festibolta vatns- og frostvarna, en haldi því jafnhliða fram að stefnda bæri samkvæmt Viðauka 2 að bora holu fyrir hann á blautum svæðum jafnvel þar sem ekki hafi verið þörf fyrir uppsetningu vatnsvarna. Stefndi segist hafa frá öndverðu hafnað þessari kröfu og stutt þá afstöðu með vísan til orðalags gr. 4.5 í samningi þar sem segi í íslenskri þýðingu að stefndi muni bora fyrir festingum kapalstiga einungis á þeim stöðum þar sem varnarkerfi gegn vatni og frosti hafi verið sett upp af stefnda. Kveðst stefndi telja texta þennan einhlítan um að sér hafi verið óskylt að annast borun fyrir festingum utan þessara svæða. Stefnandi hafi einn og sjálfur borið áhættuna af því að hann kynni að þurfa að setja upp festingar víðar en hann hafi áætlað og ekkert í samningum aðila færi stefnda greiðsluskyldu af þeim kostnaði sem stefnandi krefjist undir þessum kröfulið. Stefndi kveðst til vara mótmæla fjárhæð kröfunnar þar sem svo virðist sem stefnandi innifeli í kröfulið sínum kostnað á efniskaupum fyrir yfir 903.000 krónur með virðisaukaskatti sem aldrei hefði fallið undir þetta samkomulag. Vegna ráðstafana gegn vatnsaga Stefndi kveðst hafna kröfum stefnanda um greiðslur vegna ráðstafana gegn vatnsaga samkvæmt verkliðum þrjú og fjögur. Þessir liðir hafi verið hluti af verki stefnda. Stefndi kveðst mótmæla því að nokkrar líkur, hvað þá sönnun, hafi verið færð að því að stefnandi hafi í verki yfirtekið umrædda verkþætti eða með öðrum hætti öðlast rétt til einstakra áfangagreiðslna sem stefnda hafi borið og fengið greiddar í samræmi við skiptingu verkliða aðila í milli. Þá mótmæli stefndi því að ákvæði um greiðsludreifingu fyrir verkliðina endurspegli umfang þessa verkefnis á einstökum tímabilum milli verkáfanga sem hafi verið til viðmiðunar fyrir hluta greiðslum samkvæmt þessum verklið. Ekkert slíkt samhengi hafi verið fyrir hendi, enda hafi verð verið ákveðið ein heild, ósundurgreint hvað varðað hafi einstaka kostnaðarþætti eða tímabíl. Stefndi segir að stefnandi virðist byggja á því að endurgjald samkvæmt þessum verklið hafi fyrst og fremst verið fyrir það að tryggja rennsli vatns út úr göngum. Þetta hafi þá aðeins verið hluti þess sem verkliðirnir hafi tekið til, þannig skyldi vatn sem streymdi úr göngum hreinsað af spilliefnum og síðan veitt í burtu. Þennan þátt hafi stefnandi átt að annast samkvæmt 5. tl. samkomulags málsaðila frá 12. maí 2006. Stefnandi hafi þó sinnt því í engu og hafi stefndi greitt kostnað af olíuskiljun og haft umsjón með þeim allt til 17. september 2009 þegar verkkaupi hafi fengið leyfi Umhverfisstofnunar fyrir því að láta vatn úr Ólafsfjarðargöngum renna óhreinsað til sjávar. Stefndi kveðst mótmæla sérstakri staðhæfingu í stefnu þess efnis að stöðug þörf hafi verið á aðgæslu og aðgerðum til að verja vinnusvæðið fyrir flóðahættu. Því hafi farið víðs fjarri og eina hættan á flóðum verið samfara gangagreftrinum sjálfum þegar sprengt hafi verið inn í stórar vatnsæðar. Þannig hafi einu sinni flætt um unnið svæði í Ólafsfjarðargöngum í júlí 2008 þegar komið hafi verið að ófyrirséðum stórum vatnsæðum og vatnsinnstreymi orðið yfir 600 sekúndulítrar. Tjón hafi orðið á vegum í og utan ganga og verið gert við þá á kostnað verkkaupa enda um ófyrirséðar jarðfræðilegar aðstæður að tefla. Eftir að greftri hafi lokið hafi vatnsrennslið verið stöðugt eða fallandi og hætt á flóðum því hverfandi. Eðli málsins samkvæmt hafi starfsmaður stefnda verið við störf alla daga sem grafið hafi verið í göngum og ekki þurft á aðstoð stefnanda að halda til að sjá um vatnsræsingu ganganna. Stefndi segir að þegar lokastyrkingu ganganna hafi verið lokið í byrjun júlí 2009 og niðurstöðu beðið um það hvernig vatnsvörnum yrði endanlega háttað, hafi verið komið fyrir sérstökum stálplötum til að taka við mesta innflæðinu og til varnar vatns- og frostvarnarklæðningu. Hafi þá mjög fækkað í starfsliði stefnda á svæðinu. Þá hafi vatnið runnið í göngum í föstum rásum og um bráðabirgðapípur þar sem þörf hafi verið á um göngin og hafi sá umbúnaður ekki þarfnast sérstakar íhlutunar. Þá hafi allan tímann einhver starfsmanna stefnda verið á staðnum og fylgst með ástandi vatnsvarna og hafi getað gripið inn í ef að ástæða hafi verið til. Sé því rangt að stefndi hafi á einhverju stigi yfirgefið verkið og ekki fylgt eftir skyldum sínum hvað varði umsjón með flæði vatns úr göngunum. Stefndi kveðst mótmæla því að skipulag verksins hafi kallað á stöðugt vinnuframlag af hans hálfu við að standa að vatnsræsingu ganganna allt fram að afhendingardegi, svo sem stefndi segir stefnanda virðast byggja á. Það sé rangt enda hafi stefnandi átt að koma upp varanlegum búnaði fyrir vatnsræsingu ganganna með uppsetningu brunna og niðurfalla og drenlagna sem allt skyldi tengjast með pípum sem flyttu vatn úr göngunum. Hafi þessu átt að vera lokið töluvert fyrir afhendingu verksins og hafi sú orðið raunin. Um leið hafi þörfin fyrir bráðabirgðaráðstafanir samkvæmt verkliðum þrjú og fjögur horfið Stefndi segir að í verklýsingu einstakra verkliða í verkhluta 8.21 um veg í jarðgöngum og skálum sé skýrt tekið fram að öll vinna við verkliðina sé innifalin. Eigi þetta eins við um vinnu við að veita vatni um hjáveitu fram hjá vinnusvæði verktaka hverju sinni og aðra vinnu við framkvæmd þessa verkþáttar. Hafi stefnandi því enga kröfu átt á hendur stefnda um að hann fylgdi honum eftir með mannskap og tæki til að veita frá honum vatni meðan á þessari vinnu hans hafi staðið. Skylda hans hafi verið að sjá um vatnsræsingu ganganna í heild sinni en ekki bráðabirgðaúrræði tengd framkvæmd verka stefnanda. Varanleg lausn á vatnsræsingu ganganna hafi verið kjarni í verklið 8.21 sem stefnandi hafi haft á sinni könnu og hafi átt að ljúka löngu fyrir afhendingu. Krafa stefnanda á hendur stefnda um greiðslur fyrir vatnsvarnir eftir að varanlegt kerfi til að sjá fyrir vatnsræsingu ganganna hafi verið komið fyrir sé því í besta falli tilefnislaus. Stefndi segir stefnanda láta hjá líða að nefna að hinn 24. september 2009 hafi stefnandi skuldbundið sig til að annast vatnsræsingu í Ólafsfjarðargöngum sem lið í því að hann hafi tekið að sér fyrir tiltekið verð að annast lokagröft og fleyganir fyrir stefnda, sbr. gr. 4.5, sbr. gr. 4.4. í viðaukasamningi aðila. Hafi endurgjald fyrir þetta verkefni verið ákveðið með eingreiðslu í peningum og vinnuskiptum þar sem stefndi skyldi sjá stefnanda fyrir boruðum holum á svokölluðum „blautum svæðum“ þar sem vatnsvarnaklæðning skyldi sett upp. Svo hafi farið að stefnandi hafi fengið samþykki verkkaupa við því að nýta festibolta vatnsklæðninga í stað þess að setja upp eigin festingar. Hafi sú lausn verið honum mun hagfelldari og hafi hann þá fallið frá því og óskað þess að stefndi boraði holurnar. Sú ákvörðun hafi verið stefnanda og hafi ekki skapað honum nýjan rétt á hendur stefnda. Stefndi segir að þetta verkefni sem stefnandi hafi tekið að sér fyrir stefnda hafi verið eðlilegt framhald af hliðstæðu verki sem stefnandi hafi annast fyrir stefnda í Siglufjarðargöngum þar sem hann hafi tekið að sér að rétta af gangagólfið og skila því í áskilinni hæð samkvæmt hönnunarforsendum svo og að grafa fyrir lögnum að hluta til. Hafi það verið eðlilegur og óhjákvæmilegur hluti þess verks að veita vatni frá vinnusvæði hverju sinni eftir þörfum og í úrfallsrásir allt þar til varanlegar lagnir sem stefnandi skyldi leggja tækju við. Hafi því engum vafa verið undirorpið að stefnandi skyldi sjá um vatnsræsingu í Ólafsfjarðargöngum eftir 24. september 2009 fyrir stefnda uns varanlegar lagnir sem hann skyldi sjá um tækju við. Stefndi kveðst sérstaklega mótmæla í þessu sambandi að hann hafi með einhverjum hætti framselt greiðslurétt vegna umræddra verkliða fyrir stefnanda. Enginn slíkur samningur hafi verið gerður og Metrostav-Háfell ehf. hafi greitt án nokkurs fyrirvara af hálfu stefnanda áfram til stefnda þá fjármuni sem innheimtir hafi verið af verkkaupa samkvæmt verkliðum þrjú og fjögur eins og samningar aðila hafi staðið til. Þá kveðst stefndi benda á að kröfugerð stefnanda virðist byggð á þeim misskilningi að greiðslur samkvæmt verkliðum þrjú og fjögur hafi verið inntir af hendi samtímis. Þetta sé rangt, einungis lokagreiðslan hafi verið innt af hendi fyrir bæði göngin. Þá kveðst stefndi mótmæla því að tilfallandi umkvartanir stefnanda staðfesti að hann hafi með einhverjum hætti yfirtekið umrædda verkliði þannig að hann öðlist rétt til ákveðinna greiðslna. Því sé sérstaklega mótmælt að stefnanda hafi verið skylt samkvæmt verklið fjögur að setja upp plötur í gangaloft til að beina vatni frá vinnusvæðum þar sem leki hafi verið í göngum svo sem stefnandi virðist hafa gert kröfu um. Það verkefni hafi undir átt undir verkhluta 8.13 og verið algjörlega óviðkomandi verklið þrjú, en stefndi segir að svo virðist sem stefnandi vísi til þessara liða jöfnum höndum. Hafi stefnanda sjálfum borið að sjá sér fyrir þeim bráðabirgðavörnum gegn úrkomu úr gangalofti sem stefnandi hafi talið nauðsyn á og hafi stefnandi enga kröfu átt um þá vinnu á hendur stefnda. Þá kveðst stefndi ennfremur vísa til þess að það hafi fyrst verið með og í kjölfar samnings um gengisbætur að samkomulag hafi orðið við Vegagerðina um nákvæma útfærslu vatnsklæðningar m.a. með stálplötum sem settar skyldu í gangaloft undir klæðningu til að taka við mesta innstreyminu. Ekki hafi verið gert ráð fyrir þeim búnaði í útboðslýsingu og hafi stálplöturnar því verið aukaverk sem greitt hafi verið sérstaklega fyrir. Hafi því aldrei getað komið til þess að stefndi setti upp þann búnað í göngum áður en samkomulag hafi orðið þar um við verkkaupa. Ekkert liggi fyrir um það að stefnandi hafi komið upp sérstökum tímabundnum hlífum fyrir vatnsstreymi úr gangalofti og engin krafa gerð um endurgreiðslu slíks kostnaðar. Loks kveðst stefndi benda á að verkkaupi hafi gert breytingu á umfangi og gerð vatnslagna á því svæði Ólafsfjarðarganga þar sem vatnsagi hafi verið mestur á fyrstu þremur kílómetrunum frá gangamunna í Ólafsfirði. Hafi verkkaupi samið við stefnanda um að setja niður 500 og 600 mm steinrör í stað plastpípna eins og útboð hafi verið miðað við. Hafi verið samið um þetta sem aukaverk sem stefnandi hafi annast og hafi vatnsvarnir á vinnusvæðinu verið hluti nýs verðs. Leiði af því að stefnandi hafi fengið sérstaklega greitt fyrir vatnsvarnir á þessum erfiðasta hluta ganganna óháð því sem hann hafi áður samið um við stefnda. Vegna móttöku útgrafins efnis Stefndi kveðst hafna kröfum stefnanda um greiðslur fyrir móttöku efnis úr jarðgöngum. Kveðst hann styðja þá afstöðu við þrjár málsástæður. Í fyrsta lagi að stefnandi hafi samkvæmt samkomulagi um einstök atriði 1. liðar, átt aðild sem undirverktaki stefnda að því að bjóða í verkliðinn þar sem sagt sé skýrt að verkþáttur 8.9, verkliður 76, innifeli 80 krónur á rúmmetra fyrir móttöku á 578 þúsund rúmmetrum af aðfluttu efni. Hafi stefnandi þannig frá öndverðu undirgengist, sem undirverktaki, þá áhættu sem falist hafi í verkliðnum með sama hætti og stefndi og því verið rétt að taka við útgröfnu efni samkvæmt tilgreiningu í verkliðnum í útboðsgögnum. Stefndi segir að það sé í samræmi við venjur í jarðvinnuverkum að gefa upp magntölur í einingarskrám fyrir jarðgangagerð og útgröft á föstu efni þannig að eingöngu sé miðað við útreiknað rúmtak samkvæmt hönnunarlínum og verktaka þannig eftirlátið að meta það magn sem leiði af óhjákvæmilegu yfirbroti. Hafi þeirri venju verið fylgt í útboðinu. Öllum hlutaðeigandi aðilum hafi mátt vera það ljóst að til þess að ná alls staðar lágmarki í þversniði ganganna hlyti breidd þeirra að verða umfram þessi lágmörk þó ekki væri af öðrum ástæðum en hafi leitt af þeirri bor- og sprengitækni sem beitt hafi verið. Af því hafi leitt að magn útgrafins efnis yrði alltaf að verða umfram tilgreint viðmið. Hafi verktakarnir, stefndi og stefnandi, hvor um sig borið ábyrgð og áhættu af þessu viðbótarmagni að því er sinn verkþátt hafi varðað. Stefndi kveðst mótmæla því að sprengibreidd ganganna hafi orðið umfram það sem vænta hafi mátt þannig að hann beri ábyrgð á ófyrirséðu yfirbroti gagnvart stefnanda. Útboðsskilmálarnir hafi miðað við að engar aukagreiðslur kæmu til vegna yfirbrots allt að 60 cm út fyrir hönnunarmörk og þannig staðfest að slík frávik væru innan eðlilegra marka. Niðurstöður mælinga á breidd ganganna gefi einnig til kynna að þversnið þeirra hafi verið innan þessar marka eða nálægt þeim og þá með þeim afleiðingum að útgrafið efni muni hafa verið umfram það sem tilgreint hafi verið í einingaverðskrá og allt að þeim mun sem stefnandi hafi áætlað. Af því leiði að magn útgrafins efnis kunni að hafa farið nærri því sem stefnandi hafi ályktað án þess að í því felist óeðlilegt frávik frá því sem vænta hafi mátt. Ályktun stefnanda um magn útgrafins efnis svari til tæplega 12 m² aukningar á flatarmáli þversniðs ganganna að meðaltali, en það svari aftur til þess að grafið hafi verið u.þ.b. 60 cm út fyrir hönnunarmörk. Þessar tölur séu í samræmi við mörk fyrir tæknilegt yfirbrot, ekki jarðfræðilegt, yfirbrotsmörk sem sýni gögn og framangreindar tölur þannig að yfirbrot við gangagerðina hafi verið í samræmi við það sem verkkaupi hafi talið að vænta mætti miðað við aðstæður á verkstað. Hafi enda engar athugasemdir komið frá verkkaupa um að óeðlileg frávik væru í útgreftri ganganna miðað við hönnunarmörk. Stefndi kveðst benda á vegna matsskýrslu að matsmenn láti ekki í ljós álit á því hver teljist eðlileg vikmörk grafinna jarðganga frá hönnunarlínu. Þeir reikni út að miðað við gefna mælipunkta hafi þversnið ganga að meðaltali verið 11,2 m² stærra en tilskilið lágmark sé í hönnunarforsendum og telji það nokkuð umfram það sem við hafi mátt búast að óreyndu. Í þessari ályktun matsmanna felist staðfesting á því að búast hafi mátt við því að grafið þversnið yrði umfram teiknað þversnið, en engin leiðbeining fylgir um það hverju þar muni. Kveðst stefndi með vísan til þessa mótmæla því að nokkuð verði byggt á útreikningum matsmanna af magntölum og kostnaði, sem leitt hafi af ályktun þeirra um að göngin hafi verið grafin eitthvað víðari en vænta hafi mátt, auk þess sem svör matsmanna við spurningum hér að lútandi séu ekki við matsspurningunum. Þá kveðst stefndi mótmæla því að lokauppgjör milli málsaðila miðað við 24. september 2009 hafi ekki tekið til andlags þessa kröfuliðar þar sem stefnanda hafi ekki verið um hann kunnugt þegar samningurinn hafi verið gerður. Sé þó í gr. 2.1., 2.2. og 4.3, nákvæmlega tiltekið að með einni lokagreiðslu séu uppgerðar allar kröfur málsaðila hvors á annan sem stafi af framkvæmd verksins fram til samningsdags. Sé enda haldlaust fyrir stefnanda að halda því fram að hann hafi unnið að verkefninu um þriggja ára skeið og að mestu lokið við pípulögn og hliðarfyllingar í Siglufjarðargöngum án þess að veita því athygli að göngin væru að jafnaði nokkru breiðari en hönnunarmörk hafi tilgreint. Sé það þeim mun ótrúlegra þar sem stefnandi hafi lagt til verkefnisstjóra allan verktímann og hafi hann tekið virkan þátt í verkfundum þar sem verktaki hafi mánaðarlega lagt fyrir fulltrúa verkkaupa nákvæmar upplýsingar um jarðgangagerðina, m.a. mælingu á þversniði eftir hverja sprengingu. Hafi verkefnisstjórinn hlotið að kynna sér þessi gögn svo mikilvægur sem framgangur gangavinnslunnar hafi verið við verkið í heild. Þá vitni tölvubréf stefnanda frá 21. ágúst 2009 beinlínis um vitneskju hans í þessu efni. Þá komi skýrt fram í fundargerð samráðsfundar nr. 15 að stefnandi hafi lokið mælingu á vegstæði og fyrir lagnaskurðum. Hafi honum þá hlotið að vera ljóst að göngin væru grafin nokkuð umfram hönnunarmörk. Segir stefndi að stefnandi hafi þannig frá upphafi haft allar forsendur til að meta frávik í umfangi ganga miðað við hönnunarmörk og því allar forsendur til að setja um þetta efni fyrirvara í samningi sínum við stefnda teldi hann sig eiga kröfu um viðbótargreiðslu af verklið 76, vegna yfirbrots umfram þau mörk. Það hafi stefnandi ekki gert og vitni það um sameiginlegan skilning málsaðila á því, þeir hafi hvor um sig borið ábyrgð á sínum hluta af verki 76, þ.m.t. á kostnaði sem leitt hafi af óhjákvæmilegu og eðlilegu yfirbroti. Vegna hliðarfyllinga umfram hönnunarmörk Stefndi segist hafna kröfu stefnanda um viðbótargreiðslu vegna hliðarfyllinga umfram hönnunarmörk og vísa því til stuðnings til sömu málsástæðna og fram séu færðar varðandi móttöku útgrafins efnis. Stefndi segist árétta að sú bortækni sem beitt hafi verið og byggð sé á því að boraðar séu fimm metra langar holur með borvagni sem beiti fleiri borkrónum samtímis kalli á að borstefna víki aðeins frá beinni línu. Af þessum sökum sé óhjákvæmilegt að sprengt þversnið verði víðara við enda borkjarna en upphaf. Stefndi segist telja að gögn sem afhent hafi verið matsmönnum sem skipaðir hafi verið að tilhlutan stefnanda staðfesti að yfirbrot umfram hönnunarmörk hafi að jafnaði verið innan við 60 cm. Stefndi kveðst mótmæla því að stefnandi megi gera ráð fyrir því að sama frávik á hönnunarlínu hafi verið á mörkum gangaveggja og gangagólfs og almennt reyndist á gangasniðinu. Af bortækni hafi leitt að svo hafi aldrei getað orðið því fáar holur séu boraðar niður undir gólfinu, hafi því iðulega þurft að fleyga úr berginu og jafnvel sprengja til að ná lágmarksbreidd fyrir lagnaskurði. Af þessu leiði að þörf fyrir fyllingu að bergstáli umfram hönnunarlínu hafi verið miklum mun minni en ætla mætti af mælingum sem teknar hafi verið ofar í gangaveggnum. Ályktunum stefnanda um fyllingarþörf út frá vídd ganga ofan við vegstæði sé því mótmælt sem ósönnuðum og haldlausum. Stefndi kveðst byggja á að stefnanda hafi frá öndverðu mátt vera ljóst að með þeirri tækni sem beitt hafi verið væri ógerningur að takmarka breidd ganganna við lágmarksbreidd samkvæmt hönnunarlínu. Til að ná því marki hafi þau óhjákvæmilega orðið að vera víðari til jafnaðar. Hafi stefnandi því hlotið að reikna með fyllingum umfram hönnunarmörk. Álitaefnið sé þá eitt hvort yfirbrot sé meira en vænta hafi mátt. Stefndi segist telja svo ekki vera. Stefndi kveðst mótmæla því að nokkur ákvæði samninga aðila verði túlkuð á þann veg að hann hafi ábyrgst gagnvart stefnanda að göngin yrðu grafin nákvæmlega í samræmi við hönnunarmörk, þannig að stefnandi mætti byggja boð sitt á því að ekkert frávik yrði þar á. Engin slík ábyrgð hafi verið gefin, enda af verktæknilegum ástæðum ógerlegt. Þaðan af síður hafi hvílt sérstök tilkynningarskylda á stefnda gagnvart stefnanda um að kynna honum formlega niðurstöðu mælinga á sprengdu sniði ganganna eftir því sem verkinu hafi undið fram. Hafi stefnandi m.a. fyrir milligöngu staðarstjóra síns haft milliliðalausan aðgang að mælingum og verið skylt að fylgjast með framvindu verksins í heild sinni. Hafi hann enda ekki heldur tíðkað að senda samstarfsaðila sínum formlegar tilkynningar um framvindu þeirra verkþátta sem hann hafi haft með höndum og staðfest þannig í verki að engra slíkra tilkynninga hafi verið krafist um reglubundna framvindu í verkinu. Stefndi kveðst einnig mótmæla því að stefnandi hafi mátt færa ábyrgð á meintri vanþekkingu sinni á eðli jarðgangagerðar yfir á stefnda, þannig að hann þyrfti að bera fjárhagslega áhættu af því ef þekkingarskortur stefnanda ylli því að hann vanáætlaði einhverja þætti í þeim verkliðum sem hann einn hafi borið ábyrgð á. Stefndi segist hafna þeirri málsástæðu stefnanda að viðaukasamningur aðila nr. tvö eigi ekki við um þennan kröfulið, þar sem stefnandi hafi ekki vitað um breidd ganganna og því ekki haft umrædda kröfu í huga þegar hann hafi samþykkt lokauppgjör milli aðila hinn 24. september 2009, þar sem öllum kröfum vegna verksins fram að þeim tíma hafi verið lokið með eingreiðslu. Þessi málsástæða geti þó með engu móti átt við um þennan kröfulið þegar af þeirri ástæðu að við undirritun samningsins hafi stefnandi því sem næst lokið við frágang lagnaskurða í Siglufjarðargöngum, nær lokið lagningu stofnlagna fyrir fráveituvatn í Siglufjarðargöngum og verið langt kominn með lagningu drenvatnslagna. Honum hafi því verið allar stærðir kunnugar, a.m.k. í Siglufjarðargöngum þegar samningurinn hafi verið gerður. Stefndi segir að stefnandi hafi haft frumkvæði að því að hann fengi að annast gröft og lagnaskurði fyrir stefnda í Siglufjarðargöngum og kveðst stefndi þar vísa til fundargerðar frá samráðsfundi 22. október 2008. Stefnandi hafi einnig tekið að sér að rétta af gangagólfið að hönnunarmörkum fyrir stefnda og gert nauðsynlegar mælingar í því sambandi og kveðst stefndi þar vísa til fundargerðar frá 24. febrúar 2009. Samkomulag um einingaverð fyrir þessa vinnu hafi verið staðfest á fundi aðila 4. febrúar 2009, hafi stefnandi þannig séð um umtalsverðan hluta þessarar vinnu fyrir stefnda í Siglufjarðargöngum. Á fundi aðila 3. apríl 2009 hafi verið samkomulag um að stefnandi gerði tillögu að verði fyrir verkið og hafi nokkru síðar orðið samkomulag um fjárhæð sem stefnandi hafi innheimt með reikningi dagsettum 24. apríl 2009. Stefnandi hafi síðan sjálfur átt frumkvæðið að því að taka sama verk að sér í Ólafsfjarðargöngum og kveðst stefndi þar vísa til bókunar í fundargerð 28. júlí 2009. Í framhaldi af þessari ósk stefnanda hafi verið samið um það að hann annaðist þennan verkþátt fyrir stefnda í Ólafsfjarðargöngum, sbr. ákvæði í gr. 4.4 í viðaukasamningi tvö. Stefndi segir að sú málsástæða, að vankunnátta um ætlaða kröfu vegna umfangs fyllinga valdi því að stefnandi teljist óbundinn af samningi sínum um uppgjör allra krafna og kröfutilefna verktaka sín í milli fram til samningsdags, fái þannig ekki staðist hvað Siglufjarðargöngin varði. Stefnandi hafi þá vitað nákvæmlega hver vídd ganganna hefði verið í veg- og skurðstæði eftir að hafa annast stóran hluta af hreinsun og fleygun lagnaskurðanna sjálfur og hafi því haft glögga mynd af því hvaða magn fyllingarefna þyrfti til að koma. Þar sem nákvæmlega sömu forsendur hafi átt við um Ólafsfjarðargöng gildi hið sama um kröfugerð stefnanda vegna fyllinga í þeim hluta ganganna. Hafi stefnandi enda ekki haldið því fram að umfang veg- og lagnaskurða hafi þar verið með öðrum hætti. Stefnandi hafi samið um uppgjör allra krafna, þ.m.t. þær sem hér sé gerð krafa um og sé skuldbundinn af þeim samningi eftir grundvallarreglum laga um skuldbindingargildi samninga. Stefndi kveðst að endingu byggja á því til þrautavara að stefnandi hafi fyrirgert hverjum þeim rétti sem hann kynni að hafa átt samkvæmt þessum lið með tómlæti, með því að hafa á engu stigi framkvæmdanna gert kröfur eða lýst fyrirvara um uppgjör í skiptum sínum við stefnda um þau efni sem hann hafi hér gert kröfur um. Vegna fleygunar, vegna brunna og þverana Stefndi segist hafna kröfu um greiðslu vegna kostnaðar vegna fleygunar fyrir brunnum og þverana lagna, en hvort tveggja hafi verið hluti af verkþætti 8.21. sem stefnandi hafi haft með höndum, sbr. tilgreinda skiptingu í viðauka eitt. Hafi framkvæmd þessa verkþáttar því verið stefnda með öllu óviðkomandi. Stefndi segir að verkþáttur 8.21 samanstandi af mörgum verkliðum, t.d. verkliðum 188, 189 og 190, sem lúti að niðursetningu tengibrunna. Í öllum þessum liðum segi svo í F lið „um greiðslur vegna fleygunar umfram kennisnið jarðganga er vísað til kaflans gröftur í jarðgöngum, gröftur utan hönnunarmarka“. Verkliðurinn „gröftur utan hönnunarmarka“ sé nr. 77 og hafi hann átt að standa undir kostnaði við gröft umfram hönnunarmörk á borð við það sem stefnandi kveðst hafa framkvæmt m.a. fyrir lögnum og lagnabrunnum. Samkvæmt einingaskrá tilboðsins hafi verið miðað við að umfang graftar utan hönnunarmarka gæti orðið allt að 5.000 m³. Stefndi hafi sjálfur aðeins gefið út reikninga fyrir 784 m³, hafi þannig yfir 80% af greiðsluheimildum samkvæmt verkliðnum verið ónýtt við lok verks, þetta hafi stefnanda hlotið að vera ljóst þar sem verktakar hafi staðið sameiginlega að reikningsgerð gagnvart verkkaupa. Stefndi segir að þótt umræddur verkliður sé færður sem hluti af verki stefnda þá sé augljóst að stefnandi hafi þurft að gera kröfur um greiðslu samkvæmt verkliðnum, hafi hann þurft að fleyga fyrir brunnum og lögnum niður fyrir hönnunarmörk og viljað fá greiðslur fyrir það verk. Hafi hann látið það farast fyrir og gefið út lokareikning gagnvart verkkaupa án fyrirvara um heimtu greiðslu samkvæmt þessum verklið þá sé hann einn ábyrgur fyrir því tjóni sem það kunni að hafa bakað honum. Engin ákvæði laga eða samninga aðila færi honum rétt til að krefja stefnda um greiðslur sem hann að réttu hefði átt að koma fram með við reikningsgerð verktaka gagnvart verkkaupa og fá greitt með eðlilegum venjubundnum hætti samkvæmt því. Loks kveðst stefndi mótmæla fjárhæð kröfu stefnanda samkvæmt þessum kröfulið sem alltof hárri og órökstuddri. Vegna innlímdra bolta vegna kapalstiga Stefndi kveðst hafna kröfum stefnanda samkvæmt þessum kröfulið enda eigi þær sér enga stoð í gögnum málsins. Stefndi kveðst mótmæla sérstaklega sem röngum og ósönnuðum fullyrðingum um að hann hafi á nokkru stigi máls undirgengist að bora og festa upp festibolta fyrir lagnagrind sem festa skyldi í loft ganganna samkvæmt verkþætti 8.25 sem verið hafi á ábyrgð stefnanda samkvæmt umsaminni skiptingu. Þá sé því jafnframt mótmælt að stefndi hafi í viðaukasamningi nr. tvö undirgengist að bora og líma upp bolta fyrir stefnanda á svokölluðum „blautum svæðum“ þ.e. þar sem setja skyldi upp vatnsklæðningu. Hið rétta sé að stefndi hafi lofað að bora holur fyrir stefnanda í þessu skyni samhliða því að hann boraði fyrir festingum fyrir vatnsklæðningu, sbr. hér gr. 4.4 við viðaukasamningi tvö. Það sé hvergi rætt um límingu á boltum. Stefndi segir að svo hafi farið að verkkaupi hafi fallist á að heimila samnýtingu festibolta fyrir vatnsklæðningu og lagnagrind. Hafi það sparað stefnanda umtalsverðar fjárhæðir, bæði kaup á boltum og lími sem og vinnu við að festa boltana. Kveðst stefndi mótmæla því að sú lausn, svo miklu hagfelldari sem hún hafi verið stefnanda, hafi með einhverjum hætti vakið upp kröfu af hans hálfu á hendur stefnda. Sú framsetning eigi sér enga stoð í gögnum málsins og sé kröfunni alfarið mótmælt. Til var sé lögð áhersla á að skuldbinding stefnda hafi aðeins náð til þess að bora umræddar holur. Vegna fjarlægingar pípna Stefndi kveðst hafna kröfu um að bera kostnað af því að fjarlægja plaströr sem á vinnslustigi ganganna hafi verið lögð í grunna skurði í gangagólf til að fyrirbyggja að vatn flæddi um vegstæði og torveldaði umferð um göngin. Stefnandi hafi sjálfur haft með höndum verkþátt 8.21, vegagerð í göngum, og borið samkvæmt honum að annast undirbyggingu vegarins, fjarlægja efni sem ekki hafi hentað í vegstæðinu og flytja nýtt efni sem stæðist kröfur samkvæmt verklýsingu. Óverulegur hluti þessa verkefnis hafi að mati stefnda verið að taka umrædd plaströr úr vegstæðinu og fylla í með nýju efni. Að þeirri vinnu hafi stefndi enga aðkomu átt utan það að honum hafi borið að skila gangagólfi í réttri hæð miðað við hönnunarmörk. Hann hafi samið um það við stefnanda að hann annaðist það verkefni í Ólafsfjarðargöngum, þar hafi verið þorri þeirra plastlagna sem kröfuliðurinn hafi snúist um og telji stefndi að stefnanda hafi einnig samkvæmt umræddu samningsákvæði borið að fjarlægja pípurnar á sinn kostnað. Stefndi kveðst mótmæla talnalegum forsendum kröfunnar sem ósönnuðum. Vegna fjarlægingar raflagna Stefndi kveðst hafna kröfu um greiðslu vegna fjarlægingar raflagna þegar af þeirri ástæðu að stefnandi hafi með samningi undirgengist að gera það sjálfur. Forsaga þessa máls sé sú að þegar stefndi hafi lokið verki sínu við gangagröftinn og hugað að undirbúningi að uppsetningu vatns- og frostvarna og sprautusteypu veggja þá hafi hann ætlað að taka niður rafkerfi ganganna, enda nauðsynlegt þar sem strengir og vinnuljós hafi legið eftir gangaloftinu endilöngu. Stefnandi hafi tekið þeim áformum illa og talið sér mikilvægt að hafa áfram afnot af rafkerfinu. Hafi stefndi fallist á eindregin tilmæli hans um að fá yfirtekið kerfið gegn því að hann sæi þá um að fjarlægja það. Um þetta hafi verið samkomulag sem staðfest hafi verið með póstsendingum 10. febrúar 2010. Sé raunar ekki um það deilt heldur hitt hvort stefnandi fái krafið stefnda um ósannaðan kostnað af því að fjarlægja rafstrengi kerfisins. Stefndi segist byggja á því að stefnandi hafi að eigin frumkvæði knúið á um að fá yfirtekið rafkerfið gegn því að sjá um niðurtekt þess á sinn kostnað. Sé hann skuldbundinn af þessum samningi og ekkert í aðdraganda hans eða því sem á eftir hafi farið færi honum kröfurétt á hendur stefnda. Stefnandi hafi sjálfur haft rafvirkja í sinni þjónustu sem þekkt hafi kerfið og ástand þess og vitað um áherslu stefnda á að fjarlægja það og nýta þess í stað færanlega lýsingu til enda verks. Með vísan til þessa sé því mótmælt að ástand rafkerfisins hafi verið lakara en stefnandi hafi mátt búast við. Hann hafi sjálfur tekið á sig áhættu af því hvort kaup hans á rafkerfinu reyndust honum hagkvæm eða ekki. Þá segir stefndi að jafnvel þótt aðstæður þættu hafa verið með þeim hætti að stefnandi teldist hafa átt riftunarrétt á kaupunum þá væri sú málsástæða haldlaus því stefnandi hafi aldrei beint neinum riftunaryfirlýsingum til stefnda og hefði það þó verið eina lögmæta leið hans til að fá brigðað kaupunum. Stefndi segist hafna því að hann verði gerður ábyrgur fyrir kostnaði af að fjarlægja lagnir enda sé allt ósamið um kostnað við það. Segist stefndi telja hann stórlega ýktan og mótmæla framlögðum útreikningum sem röngum og óstaðfestum og benda auk þess á að engra gagna njóti við um það hvaða verði stefnandi hafi selt kaplana á en verðmæti innihalds þeirra sé talið umtalsvert sem hlutfall af kostnaði við niðurtöku. Vegna hreinsunar og endurfyllingar drenmalar Stefndi kveðst hafna greiðsluskyldu af þeim kröfulið þegar af þeirri ástæðu að kröfunni hafi átt að beina að Vatnsklæðningu ehf. sem hafi annast klæðningar og ásprautun sem kallað hafi á nokkra hreinsunarvinnu af hálfu stefnanda. Stefndi segist mótmæla umfangi kröfunnar sem algjörlega ósönnuðu og benda á að stefnandi hafi ekki talið kröfur samkvæmt þessum kröfulið upp meðal útistandandi mála þegar hann hafi endurunnið lista yfir útistandandi kröfur milli aðila og sent stefnda hinn 17. desember 2010. Hafi stefndi af því mátt álykta að ekki væri um frekari kröfur af hálfu stefnda að ræða vegna hreinsunarstarfs og áfyllingar á drenmalarlag. Hafi enda legið beint við að ætla að stefnandi hafi fallist á röksemdir hans í orðsendingu frá 15. júlí 2010 þar sem hann hafi m.a. bent á að stefnandi hefði allt að einu orðið að hreinsa malarlagið þannig að frákast af sprautusteypu hafi ekki verið einasta tilefni hreinsunarinnar. Stefndi segist telja blasa við að stefnandi hafi ekki átt kröfu um endurgreiðslu af hreinsunarstarfa sínum sem honum hafi borið að inna af hendi vegna eigin framkvæmda, hvorki úr hendi stefnda né undirverktaka hans, Vatnsklæðningar ehf. Hafi einhver slík skylda verið fyrir hendi hafi kostnaður þar af sem sannanlega hefði tilheyrt verkliðum sem stefndi hafi verið ábyrgur fyrir verið óverulegur og fjarri því sem stefnandi krefji um, þar sem stefnandi hafi engar sönnur fært fram fyrir grundvelli kröfu sinnar eða umfangi beri að sýkna stefnda af þessum kröfum. Vegna kröfu um vexti og verðbætur. Áskilnaður vegna fyrningar Stefndi kveðst mótmæla kröfum stefnanda um vexti og verðbætur og hafna því að lagaskilyrði séu fyrir kröfum stefnanda eins og þær séu fram settar. Kveðst stefndi raunar telja að framsetning á þessum kröfulið sé með þeim hætti að ekki samræmist lágmarkskröfu e-liðar 80. gr. laga nr. 91, 1991 um skýrleika í framsetningu um málsástæðu. Stefndi kveðst mótmæla því að nokkur lagalegur grundvöllur sé fyrir kröfum stefnanda um að fá dæmdar verðbætur samkvæmt ákvæðum verksamnings málsaðila við vegagerðina á margháttaðar kröfur sínar á hendur stefnda. Sé því mótmælt að stefndi hafi nokkru sinni undirgengist að verðbæta verkefni sem stefnandi kynni að taka að sér fyrir hann eftir þeim ákvæðum. Samningar aðila um endurgjald fyrir gagnkvæma þjónustu hafi eðli málsins samkvæmt verið á föstu verði nema annað væri sérstaklega tekið fram. Hafi stefnandi raunar haft afar skýra sýn á þessa staðreynd og hafnað því í orðsendingu til stefnda 12. desember 2008. Þar bendi hann réttilega á að engin ákvæði séu í samningum með aðilum um verðbætur á kröfur eða samninga milli málsaðila. Stefndi hafi fallist á sjónarmið stefnanda um þetta efni og hafi samskipti aðila sín á milli alfarið byggst á því að ekki sé um verðbætur að ræða í skiptum aðila. Gildi það eins um alla kröfuliði stefnanda og það því fremur að kröfur stefnanda séu ekki byggðar á einingaverði verksamnings heldur útreikningum eða mati stefnanda á kostnaði þannig að verðbótaákvæði samningsins geti þegar af þeirri ástæðu ekki átt þar við. Þá sé engin lagastoð fyrir kröfu um verðbætur frá ótilteknum gjalddögum meintra krafna til lokaverks. Sé kröfum stefnanda um verðbætur því alfarið hafnað enda eigi þær sér enga lagastoð. Stefndi segist hafna því að hann hafi nokkurn tímann undirgengist greiðsluskyldu gagnvart stefnanda á nokkrum af þeim kröfuliðum sem hann hafi uppi í málinu, þaðan af síður hafi stefndi samþykkt gjalddaga slíkra krafna. Þá hafi það fyrst verið við þingfestingu stefnu að hann hafi fengið í hendur rökstuðning stefnanda fyrir kröfum hans. Þegar af þeim sökum sé kröfu um dráttarvexti mótmælt enda þunginn af kröfum stefnanda fyrst settur fram með stefnu þessari. Kæmi til þess að greiðsluskylda yrði viðurkennd að einhverjum hluta telur stefndi að dráttarvexti eigi fyrst að dæma frá dómsuppsögu eða því frágengnu og til vara frá einum mánuði frá þingfestingu. Stefndi kveðst mótmæla öllum kröfum stefnanda að því leyti sem þær sæki ætlað kröfutilefni til tímabilsins fyrir 29. mars. 2008 þar sem allar kröfur stefnanda eigi það sammerkt að fyrnast á fjórum árum samkvæmt ákvæðum 3. gr. laga nr. 150/2007. Gagnkröfur til skuldajafnaðar Stefndi kveðst gera nokkrar gagnkröfur til skuldajafnaðar, fari svo að fallist verði á kröfur stefnanda að nokkru leyti. Stefndi segist hafa keypt skemmurnar sem nýttar hafi verið á vinnusvæðinu og greiða hafi átt af verklið 8.01 1 og 2. Stefndi hafi kostað uppsetningu þeirra, klætt þær nýjum bárujárnsplötum og kostað 16.339.313 krónum til þess. Heildarkostnaður stefnda af þessu hafi numið 46.887.065 krónum með virðisaukaskatti en stefnandi hafi aðeins fallist á að endurgreiða 21.504.886 krónur og þannig hafi 25.382.189 krónur staðið eftir ógreiddar, sem hafi svarað til 54,13% af heildarstofnkostnaði skemmanna. Við verklok hafi stefnandi selt skemmurnar og ekki staðið stefnda skil á neinum hluta söluverðsins. Stefndi kveðst krefjast þess að stefnandi upplýsi um söluverð skemmanna og standi sér skil á þeirri hlutdeild þess sem svari til 54,13% framlags stefnda til byggingarkostnaðar þeirra. Til vara segist stefndi krefjast þess að stefnandi endurgjaldi honum verðmæti bárujárnsklæðningar sem hann hafi sett á skemmurnar en stefnandi slegið eign sinni á við söluna, 13.019.373 krónur auk virðisaukaskatts, samtals 16.339.313 krónur með virðisaukaskatti. Þá segist stefndi krefjast 2.082.101 krónu vegna kostnaðar sem hann hafi haft af því að endurkveðja tvo menn, Ermin Stalík og Pavel Ceclis, til starfa í ágúst 2010. Stefndi segist hafa neyðst til þess að hafa fulltrúa sína á svæðinu eftir að verkefnum þeirra hafi átt að vera lokið. Stefndi hafi mátt gera ráð fyrir því að öllum verkþáttum sínum yrði lokið um miðjan júlí en það hafi ekki gengið eftir, vegna tafa sem stefnandi beri ábyrgð á. Þá krefst hann 1.987.836 króna vegna tapaðrar framlegðar vegna starfa þessara manna, vegna þess að greindar tafir á verkframkvæmdinni hafi svipt hann færi á að nýta þá í öðrum og tekjuskapandi verkefnum þá þrjá mánuði sem þeir hafi verið bundnir af verktöfum af völdum stefnanda. Stefndi segir að fari svo að nánar greind ákvæði í Viðauka 2 verði dæmd óskuldbindandi fyrir aðila geri hann sérstakar gagnkröfur til skuldajafnaðar. Stefndi segir að forsenda fyrir greiðslu sinni á 50 milljónum króna með virðisaukaskatti hafi verið að með henni væri lokið öllum eldri deilum aðila. Bresti sú forsenda sín krefjist hann þess að sú fjárhæð komi að fullu gegn kröfum stefnanda, með dráttarvöxtum frá greiðsludegi til viðmiðunardags vaxta fyrir dómkröfu stefnanda. Stefndi segir að tafir á uppbyggingu aðstöðu samkvæmt verkliðum 1 og 2 og undirbúningi bergstáls fyrir gangagerð, sem stefnandi hafi átt að annast, hafi valdið því að upphaf gangagraftar hafi dregist. Þessi töf hafi numið 63 dögum í Ólafsfjarðargöngum og 13 dögum í Siglufjarðargöngum og ekki hafi tekist að vinna þær upp. Beri stefnandi ábyrgð á þessum töfum. Daglegur tafakostnaður hafi numið 1.829.425 krónum og á þeim grunni meti stefndi tjón sitt á 98.788.950 krónur án virðisaukaskatts en 123.980.132 krónur með virðisaukaskatti, og krefji stefndi stefnanda um þá fjárhæð. Stefndi segist byggja á því að tafir á undirbúningi aðstöðu sem stefnandi hafi verið ábyrgur fyrir hafi valdið því að fyrstu þrjá mánuði verktímans hafi stefndi neyðst til að láta starfsmenn sína sinna ýmsum þáttum undirbúnings aðstöðu sem stefnandi hafi átt að vera búinn að ljúka samkvæmt samkomulagi aðila og samþykktri verkáætlun. Þátttaka í aðstöðusköpun og ófullnægjandi aðstaða hafi dregið framleiðni almennt niður og telji stefndi að fyrstu þrjá mánuði verktímans hafi þessar aðstæður, sem stefnandi hafi borið ábyrgð á, valdið því að framgangur verka stefnda hafi verið þriðjungi minni en ella hafi verið. Meti hann það til þrjátíu daga tafa og fjárhagsleg áhrif svari til þess sem málsaðilar og Vegagerðin hafi samið um sem tafabætur. Hafi stefndi orðið fyrir tjóni sem nemi 68.877.851 krónu að virðisaukaskatti meðtöldum og geri hann kröfu um þá fjárhæð. Stefndi segist hafa lagt út fyrir kostnaði af leigu íbúðar fyrir staðarstjóra stefnanda, sem stefnandi hafi að réttu lagi átt að greiða. Kveðst stefndi krefja stefnanda vegna þessa um 1.754.462 krónur með virðisaukaskatti. Stefndi segist krefja stefnanda um endurgreiðslu fyrirframgreiðslu vegna aukins kostnaðar stefnanda við undirbúning bergstáls fyrir gangamunna í Héðinsfirði að vestanverðu, en sá verkliður hafi verið á ábyrgð stefnanda. Stefnandi hafi ekki fengið hljómgrunn fyrir kröfum á hendur Vegagerðinni vegna verksins. Stefndi hafi greitt stefnanda þessa fjárhæð, 13 milljónir króna, til að greiða fyrir framvindu verksins. Vegagerðin hafi síðar fallist á að greiða upp í þennan kostnað en sú greiðsla hafi runnið til stefnanda sem hafi ekki endurgreitt stefnda neitt af því fé sem hann hafi lagt honum til og hafi sjálfur litið á sem fyrirframgreiðslu. Stefndi segist engan vafa telja á að stefnandi hafi sjálfur átt að bera kostnaðinn af framkvæmd verkþáttarins og áhættuna af því ef hann þyrfti vegna hennar að leggja í ófyrirséðan kostnað sem óvíst væri að Vegagerðin féllist á að greiða. Segist stefndi því krefjast skuldajöfnunar með framangreindri kröfu að fjárhæð þrettán milljónir króna að virðisaukaskatti meðtöldum. Stefndi segist krefja stefnanda um endurgreiðslu ætlaðrar hlutdeildar í verklið 106, og nemi hún 4.387.751 krónu að virðisaukaskatti meðtöldum, en greiðslan hafi verið skilyrt því að af verkliðnum yrði hagnaður sem gæti komið til skipta milli aðila. Forsendur greiðslunnar hafi brostið þegar tap hafi orðið á verkliðnum. Beri stefnanda því að endurgreiða greiðslu þessa á grundvelli sjónarmiða um óréttmæta auðgun og brostnar forsendur, en einnig samanber 36. gr. samningalaga. Stefndi segist sjálfur hafa orðið að sjá fyrir hreinsun á vatni sem runnið hafi út úr göngunum, þar sem stefnandi hafi ekki sinnt því, sem hann hafi þó tekið að sér. Hafi kostnaður stefnda af þessu numið 3.787.775 krónum að virðisaukaskatti meðtöldum. Beri stefnanda að endurgreiða þessa fjárhæð og sé krafist skuldajafnaðar. V Fyrir dómi gáfu Skarphéðinn Ómarsson og Ales Richter aðilaskýrslu fyrir stefnanda og stefnda. Þá komu til vitnisburðar Björn Arngríms Harðarson, Jóhann Gunnar Stefánsson, Magnús Jónsson, Petr Prochazka, Dana Corinková og Pálmi Ragnar Pálmason. Tengsl vitna við aðila málsins eru mjög misjöfn. Jóhann Gunnar Stefánsson er ásamt Skarphéðni Ómarssyni eigandi stefnanda og var framkvæmdastjóri félagsins. Magnús Jónsson tæknifræðingur hafði það hlutverk á vegum stefnanda að leita samstarfsaðila og eftir að hann fannst stóð Magnús „að tilboði fyrir íslenska hlutann“ og var verkefnisstjóri verksins fram að áramótum 2007 til 2008, en kom svo aftur að verkinu um áramótin 2010 til 2011 og fylgdi því til loka. Petr Prochazka er á hinn bóginn starfsmaður stefnda og var fulltrúi forstjóra þess við verkið frá lokum ársins 2008. Dana Corinková er lögmaður í Tékklandi og starfaði sem slíkur í þágu stefnda. Þeir Björn Arngríms Harðarson og Pálmi Ragnar Pálmason teljast hins vegar ótengdir aðilum. Björn var yfirmaður framkvæmdaeftirlits með framkvæmdinni fyrir hönd Vegagerðarinnar en Pálmi er annar dómkvaddra matsmanna í málinu. VI Vitnið Björn Arngríms Harðarson kvaðst hafa verið yfirmaður eftirlits með allri framkvæmdinni, fyrir hönd Vegagerðarinnar. Hefði það gegnt slíku hlutverki við marga jarðgangagerð. Vitnið sagði Vegagerðina hafa fengið frá verktaka reglulegar mælingar um gangagröftinn og alltaf vitað hvernig göngin væru grafin. Hefði verkkaupanum ekki fundist sem þau væru grafin óeðlilega víð, en sprengiáætlun væri háð samþykki verkkaupa. Komið hefði til yfirbrots þar sem berg hefði verið mjög lélegt og hreinlega hrunið niður, en þetta hefðu verið undantekningar sem verktaka væri ekki kennt um. Venja væri að borholurnar stefndu aðeins út á við, þannig að yfirleitt yrðu göngin víðari fjær borvélinni en næst henni. Vitnið sagði að alveg væri útilokað að ná alls staðar lágmarks hönnunarsniði og fara aldrei út fyrir það. Berg brotnaði með ólíkum hætti eftir ástandi sínu og gerð. Þær hönnunarmagntölur sem menn notuðu í upphafi væri reiknaðar sem fast berg, en miðað við hönnunarsnið. En síðan yrði „náttúrulega alltaf yfirbrot, það sem við köllum eðlilegt yfirbrot. Og þar af leiðandi kemur náttúrulega mun meira út úr göngunum heldur en samsvarar föstu efni sem er akkúrat á hönnunarsniðinu.“ Verktaki hefði ákveðið svigrúm, „hvar hann borar miðað við hönnunarsniðið“, en svo yrði hann að áætla sjálfur „þennan yfirmassa sem þarf að taka út úr göngunum, en það er alltaf töluvert meira sem er tekið út heldur en hönnunartölurnar sýna.“ Kvaðst vitnið telja að þetta væri almennt þekkt meðal þeirra verktaka sem störfuðu í „þessum veggangageira.“ Vitnið var spurt um breyttar hönnunarforsendur fyrir vatnslögn í Ólafsfjarðargöngum, þar sem 3,1 kílómetri hefði verið settur í steinrör. Í tilboði verktakans væri liðurinn „vatn“ og sagði vitnið að þar væri átt við umsjón vatns, á meðan á verki stæði. Vitnið var spurt um verklið er snýst um hliðarfyllingar. Kvað vitnið nær sjálfgefið að ef göng væru sprengd víðari en hönnunarmörk segðu til um, þyrfti meiri fyllingu í vegaxlirnar. Sagðist vitnið telja líklegt að í þessu verki hefði þar orðið töluverð aukning þar sem alltaf væri „reiknað út frá hönnunarþversniðunum sem eru náttúrulega alveg lágmarks þversnið og svo verður þetta alltaf stærra og þá fer náttúrulega meira magn og þetta er mjög algengt að verktakar vanmeti, einmitt þetta, það er að segja magn af drenmöl meðfram gangaveggjum.“ Vitnið var spurt hvort það teldi meira yfirbrot hafa orðið í þessum göngum en venjulegt væri. Kvað það „svolítið erfitt að fullyrða um það“ en hér hefði verið „svona almennt vel sprengt“ og sagðist vitnið þar eiga við að sprengt hefði verið „þokkalega vel út fyrir hönnunarlínuna til þess einmitt að reyna að halda svokölluðu undirbroti í lágmarki og ... það er alfarið í höndum verktakans hversu naumur hann ætlar að vera á þessu, ef hann fer vel út fyrir þá er hann öruggur um að hann er með mjög lítið undirbrot en ef hann er mjög lítið út fyrir hönnunarlínuna þá getur hann verið með ansi mikið undirbrot.“ Almennt sé verkkaupi frekar hlynntur því að borað sé aðeins út fyrir, en innan skynsamlegra marka þó. Verktakar fengju ekki greitt fyrir yfirbrot nema þau væru af jarðfræðilegum toga, ef mjög slæmt berg kæmi stjórnlaust. Vitnið sagði að kvartað hefði verið yfir sprautusteypuslettum í göngunum og að þrifum á þeim væri áfátt. Vitnið kvaðst telja að breytilegt hefði verið hverjir hefðu séð um að þrífa þetta, hvort það hefðu verið menn frá „vatnsklæðningagenginu“ eða frá stefnanda. Vitnið sagði að komið hefði fyrir að þurft hefði að fleyga fyrir brunnum og þverunum. Þegar þurft hefði að fleyga fyrir þverunum hefði það verið vegna þess að gólfið hefði ekki verið sprengt nægilega djúpt. Vitnið sagðist ekkert hafa komið að samningsgerð verktakanna og Vegagerðarinnar vegna samningsins 24. september 2009, og ekkert vita um hann nema um „þetta almenna markmið með þessum gengisbótasamningum, að ég vissi náttúrulega það að menn voru að reyna sem sagt að bæta verktökum upp tjón vegna gengisbreytinga vegna erlends kostnaðar, það var svona meginþemað“. Vitnið sagði að „þeir jarðgangaverktakar sem hafa gert svona áður að þeir eiga að vita það að það þarf alltaf mun meira fyllingarmagn í vegaxlir heldur en hönnunargögnin sýna og [...] reyndur jarðgangaverktaki hann, hann hefði átt, mátt ætla mun meira magn heldur en hönnun gerði ráð fyrir.“ Vitnið var spurt um notkun efnaefju sem félli undir verklið 101 og hvort það liti svo á að það endurgjald sem verktaki fengi samkvæmt þeim lið væri til þess að mæta kostnaði hans af því sem hann skildi eftir og eyddi í berginu við framkvæmdina. Sagði vitnið að „í stórum dráttum“ væri það svo, en hins vegar væri það ekki aðeins efnaefjan sem færi inn, heldur ýmis búnaður sem í mörgum tilfellum væri einnota, og myndi verktakinn setja þann kostnað annað hvort á þennan verklið eða þá annan verklið sem tengdist efnaefjunni og snerist um hrærslu eða ídælingu. Vitnið sagði, spurt um samkomulag sem Vegagerðin hefði gert við sameiginlegt félag verktakanna í desember 2009, um 75 milljóna eingreiðslu frá Vegagerðinni til félagsins vegna óþæginda af lengingu verktíma í Héðinsfirði, að eftir því sem vitnið myndi best hefði „þessi peningur [verið] eyrnamerktur [stefnanda] af hálfu verkkaupans.“ Vitnið Pálmi Ragnar Pálmason staðfesti matsgerð sína og Ásmundar Ingvarssonar. Vitnið sagði að hér á landi væru jarðfræðilegar aðstæður þannig að alltaf hryndi úr bergi sem verið væri að sprengja við garðgangagerð. Þyrfti verktaki því að jafnaði að gera ráð fyrir að meira kæmi út af efni í föstu formi en tilgreint væri í magnskrá. VII Hinn 24. september 2009 gerðu aðilar samkomulag um nýjar breytingar á áður gerðum samningi sínum með áorðnum breytingum. Með þessu samkomulagi, Viðauka 2, var meðal annars ákveðið að öllum fyrri þrætum aðila skyldi lokið með einni greiðslu stefnda til stefnanda og kveðið á um skiptingu þess fjár sem Vegagerðin greiddi verktökunum samkvæmt samkomulagi sem gert var sama dag. Stefnandi vill að tilteknum ákvæðum samkomulagsins verði vikið til hliðar en stefndi segir dómstólinn ekki hafa lögsögu yfir samkomulaginu heldur eigi það undir tékkneska dómstóla. Samkvæmt 22. gr. Lúganó-samningsins um dómsvald og viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, sbr. lög nr. 7/2011, skal lögsaga í málum um gildi stofnskrár félaga, ógildi þeirra eða slit eða annarra lögpersóna eða samtaka manna eða lögpersóna eða um gildi ákvarðana fyrirsvarsaðila þeirra, vera hjá dómstólum í því ríki þar sem félagið, lögpersónan eða samtökin hafa aðsetur. Stefndi vísar til þessa. Þeir samningar sem hér eiga í hlut snúast fyrst og fremst um hvernig aðilar hagi samstarfi sínu og hvernig þeir skipti milli sín greiðslum sem berist frá Vegagerðinni til sameiginlegs félags þeirra, vegna framkvæmda við gerð Héðinsfjarðarganga. Þykir ekki hafa verið leitt í ljós að samningnum verði jafnað til stofnskrár félaga í skilningi umræddrar 22. greinar Lúganó-samningsins. Verður ekki fallist á að sú grein færi lögsögu máls þessa undan íslenskum dómstólum til tékkneskra. Verður að telja að ágreiningur aðila í þessu máli eigi allur undir íslenska dómstóla. Fyrir dómi lýsti Skarphéðinn Ómarsson því að fyrir stefnanda og forsvarsmenn hans hafi það skipt öllu að tryggja að ekki yrði horfið frá verkinu. Stefndi hefði getað gert slíkt „en við vorum með allt undir í því að þurfa að fá að klára þetta verk“. Dómurinn telur enga ástæðu til að efast um að hefði stefndi dregið sig úr gerð ganganna haustið 2009 hefði það haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir fjárhag stefnanda og forsvarsmanna félagsins. Ekki verður fram hjá því horft að með bréfi til Vegagerðarinnar, 8. desember 2008, lýsti sameiginlegt félag aðila því yfir að það teldi gengisþróunina jafngilda force majeure og skapa lagalegan grundvöll fyrir því að verksamningnum yrði vikið til hliðar. Verður að líta svo á að þarna hafi verið lýst sameiginlegri skoðun stefnanda og stefnda. Forsvarsmaður stefnanda skrifaði stefnda bréf 21. september 2009 og varpaði þar fram hugmynd að samkomulagi, vegna fyrirhugaðs fundar í Prag. Í bréfinu er ekki fjallað um einstakar fjárhæðir en að öðru leyti virðist talsverður samhljómur með samkomulagshugmyndinni í bréfinu og svo niðurstöðunni sem skrifað var undir hinn 24. september. Ekki verður komist hjá því að líta svo á að með samkomulagi aðila sem gert var 24. september 2009 hafi stefnandi og forsvarsmenn hans náð meginsamningsmarkmiði sínu, sem var að stefndi hyrfi ekki frá verkinu, en telja verður að stefnandi hafi með bréfi sínu 8. desember 2008 tekið undir að stefndi hafi átt þess kost. Auk þess fékk stefnandi í sinn hlut eingreiðslu sem nam fimmtíu milljónum króna með virðisaukaskatti og samið var um tiltekin verk sem stefnandi myndi vinna fyrir stefnda gegn greiðslu. Tölvubréf framkvæmdastjóra stefnanda til stefnda 16. nóvember 2009 verður skilið þannig að stefnandi hafi þá litið svo á að í október hafi verið gert gilt samkomulag sem vinna beri eftir. Reikningar aðila til sameiginlegs félags þeirra, vegna þeirra greiðslna sem samið var um í Prag, voru umyrðalaust greiddir. Þegar horft er á framanritað þykir stefnanda ekki hafa tekist sönnun þess að ósanngjarnt eða ótilhlýðilegt sé af stefnda að bera fyrir sig ákvæði viðaukasamningsins og verður kröfum um að einstökum ákvæðum hans verði vikið til hliðar hafnað. Í ljósi þeirrar niðurstöðu verður að hafna kröfum stefnanda sem snúa að því hann fái úr hendi stefnda hluta af þeim fjármunum sem komu í hlut stefnda samkvæmt samningum þeim sem gerðir voru 24. september 2009. Á það við um aðal-, vara- og þrautavarakröfu stefnanda að þessu leyti. Um þrautaþrautavarakröfuna er það að segja, að aðilar sömdu í Prag um nákvæma skiptingu greiðslnanna frá Vegagerðinni, sameiginlegt félag þeirra greiddi samkvæmt því áfram til aðilanna það fé sem kom frá Vegagerðinni og bréf forsvarsmanns stefnanda til stefnda í nóvember 2009 verður ekki skilið öðruvísi en stefnandi líti svo á að í gildi sé bindandi samkomulag um þessi atriði. Þá liggja fyrir í málinu útprentuð tölvusamskipti aðila frá 4. nóvember 2009. Þann dag skrifar Skarphéðinn Ómarsson bréf á nokkra viðtakendur, þar á meðal Ales Richter, og segir þar meðal annars í íslenskri þýðingu: „Hæ öll Vinsamlegast staðfestið skiptingu upphæðarinnar 250.000.000 ÍKR sem hér segir: Reikningur nr. [...] til Metrostav 249.175.162 ÍKR Reikningur nr. [...] til Háfell ehf. 824.838 ÍKR“. Þessu bréfi svarar Ales Richter og segir þar meðal annars í íslenskri þýðingu: „Hæ, Skarphéðinn 1. Hefurðu aðgætt hvort upphæð þín, 824.838 ÍKR er rétt? Útreikningurinn var gerður í flýti á fundinum í Rvk.“ Þessu bréfi svarar Skarphéðinn Ómarsson með öðru bréfi og þar segir meðal annars í íslenskri þýðingu: „Hæ, Ales 1. Talan er rétt, hún var endurreiknuð í Prag sl. september.“ Með vísan til framanritaðs þykja síðari sjónarmið um að tiltekið vinnuframlag stefnanda hafi verið vanmetið og þar með hlutdeild stefnanda í greiðslunum sem nemur þrautaþrautavarakröfunni of seint fram komin til að stefnandi geti byggt rétt á þeim. Verður þrautaþrautavarakröfunni því hafnað. Víkur þá sögunni að öðrum kröfum stefnanda og eftir atvikum gagnkröfum stefnda. Stefndi ber fyrir sig, vegna nokkurra krafna, að sýkna beri sig vegna aðildarskorts þar sem stefnanda hefði borið að beina kröfu sinni að fyrirtækinu Vatnsklæðningu ehf. en ekki stefnda. Þær kröfur eru allar vegna atriða þar sem umrætt fyrirtæki var undirverktaki stefnda. Stefndi verður ekki talinn hafa firrt sig ábyrgð á þeim verkum sem voru á hans ábyrgð í heildarframkvæmdinni þótt hann kunni að hafa samið við undirverktaka um að annast hluta þeirra. Er stefnda réttilega stefnt í öllum þessum tilvikum, en með þeirri niðurstöðu er engin afstaða tekin til hugsanlegs réttar stefnda á hendur Vatnsklæðningu ehf. eftir atvikum. Vinnubúðir Stefnandi krefst greiðslu á 17.915.927 krónum vegna vinnubúða samkvæmt breyttri kröfugerð við málflutning. Er þetta rekstur vinnubúða frá 1. október 2009 til september 2010 með virðisaukaskatti og verðbótum. Uppsetning og niðurtekt vinnubúðanna var hluti af samningi við verkkaupa. Aftur á móti skyldu samningsaðilar innifela rekstur þeirra í öðrum liðum. Samkomulag var um að málsaðilar sæju um fæði fyrir sína menn en stefnandi sæi um rekstur vinnubúðanna. Samið var um að stefndi greiddi stefnanda 1.170 krónur á mann á dag án virðisaukaskatts, miðað við sína starfsmenn sem nýttu aðstöðuna. Um er að ræða ágreining um þessar greiðslur eftir 1. október 2009 og megin ástæða þessa er hin mikla framlenging á verktíma og fer stefnandi hér fram á sambærilega hlutdeild í rekstri vinnubúða og í fyrri hluta verksins, það er fyrir 1. október 2009 en þá var greitt af 35 mönnum í 30 daga í mánuði yfir þann verktíma. Á viðbótartímanum október 2009 til september 2010 reiknar stefnandi með sama starfsmannafjölda hjá stefnda. En þegar komið var að þessum tímamörkum, það er 1. október 2009, jókst hins vegar starfsmannafjöldi stefnanda en starfsmannafjöldi stefnda minnkaði. Á þessum verktíma var stærstur hluti mannafla á staðnum á vegum stefnanda og nýtti hann því vinnubúðirnar einkum fyrir sína starfsmenn. Auk þess átti verðkrafa vegna aukins kostnaðar við vinnubúðir vegna lengri verktíma að hafa beinst að verkkaupa. Samkvæmt samningi aðila skyldi stefnandi „arrange full equipment of both camp sites for needed time“, en það ákvæði verður ekki skilið þannig að stefnda beri að ábyrgjast notkun og greiðslur fyrir vinnubúðirnar allt til verkloka. Verður ekki talið að stefndi hafi skuldbundið sig til að greiða fyrir rekstur búðanna, umfram þau not sem hann sjálfur hafði af búðunum vegna starfsmanna sinna. Verður þessi krafa stefnanda því ekki tekin til greina. Skemmur og skrifstofur Stefnandi krefst greiðslu á 10.305.498 króna vegna geymslna og 3.738.537 króna vegna skrifstofurýmis, alls 14.044.035 króna Stefnandi átti að sjá fyrir aðstöðu á verkstað, það er skemmum og skýlum. Stefnandi fékk greitt fyrir það samkvæmt samningi við verkkaupa. Stefndi bauðst til að annast kaup á skemmunni fyrir stefnanda þar að hann taldi sig ná góðum samningi um skemmurnar. Stefnandi greiddi síðan stefnda samkvæmt verði skemmanna í tilboði aðila. Þá urðu skemmurnar fyrir rokskemmdum sem stefndi bætti úr, enda kom í ljós að þær voru ekki gerðar fyrir íslenska veðráttu. Það er því ljóst að stefnandi átti skemmurnar og eðlilegt að stefndi bætti fokskemmdir á þeim þar sem þær uppfylltu ekki íslenska álagsstaðla og stefndi var ábyrgur fyrir kaupunum. Eins og í lið 1 er hér um að ræða ágreining vegna skemmanna eftir 1. október 2009 til verkloka. Það sama gildir hér eins og segir um vinnubúðir. Skemmurnar voru á þessum tíma einkum notaðar af stefnanda og ef gera ætti kröfu til aukins kostnaðar vegna lengri verktíma hefði átt að beina slíkri kröfu til verkkaupa. Það var ekki gert. Verður ekki fallist á þá kröfu sem stefnandi hefur hér gert á hendur stefnda. Þá gerir stefnandi einnig kröfu til þess að stefndi greiði 2/3 hluta rekstrarkostnaðar skrifstofurýmis eftir 1. október 2009 til verkloka, samtals 3.738.537 krónur. Hér er átt við skrifstofukostnað eftir 1. október 2009 til verkloka og gerir stefndi kröfu til að stefndi greiði 2/3 hluta af þeim kostnaði eða ámóta hlutfall og er milli aðila í heildarverkinu. Hér gildir það sama og áður segir, að mannafli stefnda í verkinu á þessum tíma var mun minni en mannafli stefnanda. Þá var ekki gerð krafa varðandi lengri notkun á skrifstofurýmum úr hendi verkkaupa þegar samið var um lengri verktíma og verður stefnandi að bera halla af því, en hann átti og rak skrifstofuhúsnæðið. Þessari kröfu á hendur stefnda verður hafnað. Vinnu- og vöruskiptalisti Samkvæmt endurskoðuðum vinnu- og vöruskiptalista í endanlegri kröfugerð lítur listinn þannig út: Þrif og útmokstur úr göngum 4.214.549 krónur. Undirverktaki á vegum stefnda sá um sprautusteypu í göngunum. Stefnandi sá um að fjarlægja sprautusteypu sem féll niður og fjarlægja yfirbreiðslur fyrir stefnda og fyrir það ber að greiða og þykja ekki hafa komið fram haldbær rök fyrir því að upphæðin sé ósanngjörn. Þessi krafa verður tekin til greina. Sorphirða á Ólafsfirði helmingshlutur 345.323 krónur Hér er um að ræða hluta af rekstrarkostnaði vinnubúða og skemma sem stefndi annaðist. Stefnandi gerði ekki kröfu til aukins kostnaðar vegna þessa þegar verktími var framlengdur. Verður stefndi sýknaður af þessari kröfu stefnanda. Viðbótarkostnaður vegna kapalstiga, 1.404.877 krónur Vegna breytinga á skúmsvæðinu þurfti að gera breytingar á kapalstigum sem stefndi sá um. Samkvæmt reikningi er sá kostnaður kr. 1.404.877. Verður sú krafa stefnanda tekin til greina. Rafmagnskostnaður vegna borvagns, aukakostnaður 300.458 krónur Þessi borvagn var á vegum stefnda og er krafa stefnanda studd nægum gögnum og verður tekin til greina. Verða því samkvæmt framansögðu teknar til greina kröfur að fjárhæð 5.919.884 krónur vegna þessa liðar, vinnu- og vöruskipta. Ráðstafanir gegn vatnsaga Ráðstafanir vegna vatnsaga í jarðgöngunum meðan á framkvæmdum stendur eru verkliðir 3 og 4 í tilboðsskrá og voru þeir liðir verkefni stefnda. Þar sem greiðslum vegna þessa er dreift yfir allt verktímabilið er ljóst að reiknað er með vinnu við þennan verkþátt allt til loka verksins. Eftir að stefndi lauk við lokastyrkingu ganganna 18. júní 2009 fór meginhluti starfsmanna hans frá verkinu og mun hann þá í litlu sem engu hafa sinnt ráðstöfunum vegna vatnsaga. Stefndi ber fyrir sig að stefnandi hafi í Prag hinn 24. september 2009 samið um að taka að sér vatnsræsingu í Ólafsfjarðargöngum. Það skiptir ekki máli hér, en ráðstafanir gegn vatnsaga voru nauðsynlegar bráðabirgðaaðgerðir svo vinna mætti að öðrum verkþáttum og eiga ekkert skylt við vatnsræsingu í Ólafsfjarðargöngum. Greitt var fyrir þennan verklið með fimm jöfnum greiðslum þar sem greiðslur gjaldféllu við ákveðna áfanga í verkinu og tvær þær síðustu voru þegar vinnu við vatnsklæðningar átti að vera lokið og við verklok. Stefndi var að mestu horfinn frá verkinu þegar tvær síðustu greiðslurnar gjaldféllu, þó voru á vegum stefnda undirverktakar sem sáu um ákveðna framkvæmdaþætti einkum við vatnsklæðningar og vatnsþéttingar. Stefnandi gerir kröfu til þess að stefndi greiði sér þessar greiðslur með verðbótum og er krafan 92.058.800 krónur. Stefndi fór fram á mat dómkvaddra matsmanna um ýmis atriði er varða þetta mál, þ.e. vatnsvarnir. M.a. er spurning 3 í matsbeiðni þannig: „Var matsbeiðanda nauðsynlegt að vatnsræsa göngin frá 1. júní 2009 til verkloka? Ef svo er í hvaða mæli?“. Því svöruðu matsmenn svo: „Matsmenn álíta því að matsbeiðanda hafi verið nauðsynlegt að gera ráðstafanir gegn vatnsaga þann tíma sem hann vann einn í göngunum. Á hinn bóginn hafa matsmenn ekki nauðsynleg gögn t.þ.a. meta umfang viðkomandi ráðstafana.“ Á verkfundi sem stefnandi og stefndi héldu á Siglufirði 14. júlí 2009 segir: „Áður en verkamenn MTS yfirgefa svæðið þarf að setja upp bráðabirgðahlífðarbúnað vegna vatnsinnflæðis til þess að hægt sé að vinna að veginum.“ Fyrir liggur að stefndi setti ekki upp slíkan búnað. Það liggur því fyrir að stefnandi varð fyrir aukakostnaði vegna vatnsaga eftir að stefndi fór að mestu af svæðinu. Af framansögðu sést að stefndi sá að mestu um vatnsvarnir eftir 18. júní 2009. Aftur á móti er ljóst að á þeim tíma var sá verkþáttur mun viðaminni en áður. Skiptingin í fimm 20% tímabil í greiðslum er tilviljunarkennd en sýnir þó að vatnsvarnir eiga sér stað út allt tímabilið. Í skýrslu eftirlitsaðila Geotek kemur fram að vatnsmagn í Ólafsfjarðargöngunum einkum frá hábungu að Ólafsfirði hafi verið mun meira en reiknað var með og því hafi þurft að stækka afrennslislögnina á þessu svæði úr 400 mm í 500 mm og 600 mm, en 600 mm pípur flytja rúmlega 100% meira vatnsmagn en 400 mm. Vinna við lagnir þessar var unnin í lok árs 2009 og allt til loka verksins. Þá kemur einnig fram í skýrslu Geotek að vinna við vatnsklæðningar og vatnsþéttingar hafi farið fram frá miðju ári 2009 og allt til verkloka. Ráðstafanir gegn vatnsaga hafa að hluta til fylgt sama tímaramma. Af þessu sést að ráðstafanir gegn vatnsaga hafa farið fram á öllu umræddu tímabili þ.e. frá 18. júní 2009 og allt til verkloka. Þegar á allt framangreint er horft verður þáttur stefnanda í þessum verkþætti á tímabilinu metinn að álitum einn þriðji, og er sú skipting sambærileg við skiptingu heildarverksins. Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af framvinduskýrslum verksins er það mat dómsins að hlutdeild stefnda í ráðstöfun gegn vatnsaga eftir 18. júní 2009 sé 1/3 hluti af áðurnefndum reikningi, eða 30.686.266 krónur, og verður stefndi dæmdur til greiðslu þeirrar fjárhæðar. Umframmagn efnis til móttöku Samkvæmt samkomulagi átti stefndi að fá 80 kr/m3 fyrir móttöku og frágang á hverjum rúmmetra af efni úr göngunum. Stefnandi telur magn efnis 22,8% umfram það magn sem gert var ráð fyrir við tilboðsgerð. Samkvæmt útboðsgögnum er miðað við fast efni og ákveðnar hönnunarlínur og verktaki þannig látinn meta sjálfur óhjákvæmilegt umframmagn vegna yfirbrots. Aðeins er greitt fyrir yfirbrot með 10% af verði í gangagrefti þar sem um er að ræða samþykkt svokallað jarðfræðilegt yfirbrot samkvæmt útboðsgögnum, grein 8.09 (liður 77). Fyrir dómi sagði vitnið Björn Arngríms Harðarson að útilokað væri að ná alls staðar lágmarkshönnunarsniði. Alltaf yrði yfirbrot og úr göngum kæmi meira af föstu efni en hönnunarsnið segði til um. Taldi vitnið þetta almennt á vitorði verktaka sem störfuðu „í þessum veggangageira“, og telur dómurinn enga ástæðu til að draga það álit vitnisins í efa. Verði að ætlast til þess að verktökum, er standa að boði í verk af þessu tagi, sé ljóst að þeir verða að búast við eðlilegu yfirbroti. Miði þeir áætlanir sínar að þessu leyti við hönnunarsniðið eitt, verði þeir sjálfir að bera það tjón sem af því leiði. Stefnandi og stefndi buðu sameiginlega í verkið og stefnanda átti að vera kunnugt um að umframmagn væri innifalið í einingarverðinu. Dómurinn álítur að ekki hafi verið sýnt fram á að umframmagn efnis hafi verið óeðlilega mikið í verkinu. Þá er á það að horfa að við samningsendurskoðunina 24. september 2009 gerði stefnandi ekki fyrirvara um uppgjör á umframmagni vegna gangasprenginga, þó honum hefði á þeim tíma, þar sem hann var hluti af stjórnendum verksins, átt að vera ljóst að um nokkurt umframmagn væri að ræða. Við þá samningsgerð var samið um að eldri mál væru uppgerð. Þegar á framanritað er horft verður krafa stefnanda að þessu leyti ekki tekin til greina. Hliðarfylling umfram hönnunarmörk Dómurinn álítur að stefnandi hafi átt að gera sér grein fyrir að ákveðið yfirbrot yrði í framkvæmdinni. Matsmenn orðuðu svar við fyrirspurn er þetta varðar þannig: „Matsmenn álíta þau vikmörk sem urðu í reynd við gangagröftinn nokkuð umfram það sem við mátti að óreyndu búast.“ Verður þetta svar skilið þannig að ekki hafi verið verulegt frávik að ræða. Einingarverð er l m í rörum, allt efni og fyllingar innifalið. Þegar viðaukasamningurinn 24. september 2009 var gerður var lagnavinna í Siglufjarðargöngum komin vel á veg þannig að forsvarsmenn stefnanda áttu auðveldlega að geta gert sér glögga mynd af umfangi verksins og þar sem Ólafsfjarðargöngin voru unnin á sama hátt og forsvarsmenn stefnanda höfðu fylgst með þeirri vinnu verður að líta svo á að þar sem þeir gerðu ekki fyrirvara um þetta atriði við samningsgerðina 24. september 2009 hafi þeir fyrirgert hugsanlegum rétti sínum varðandi umrædda kröfu. Verður krafa stefnanda að þessu leyti ekki tekin til greina. Fleygun vegna brunna og þverana Gröftur innan hönnunarmarka var verkþáttur stefnda og ber honum að greiða stefnanda fyrir þá vinnu. Verkið var unnið frá hausti 2009 til vors 2010. Tilboðsliður þessi var á verksviði stefnda og ef misfarist hefur að gera reikning á verkkaupa fyrir hluta þessara vinnu er það á ábyrgð stefnda. Matsmenn meta kostnað við þennan verkþátt 3.790.240 krónur og miða við hverja þverun 8 m en ekki 12 m eins og segir í matsbeiðninni. Niðurstöðu matsmanna hefur ekki verið hnekkt og má á hana fallast. Verður stefnda gert að greiða stefnanda 3.790.240 krónur vegna þessa kröfuliðar. Boltar vegna kapalstiga Með viðauka 2, í september 2009, sömdu aðilar um að stefndi sæi um alla borun fyrir bergbolta á blautum svæðum. Áður munu þeir hafa samið um það að stefndi skyldi sjá um allar boranir og innlímingu bolta en stefnandi um efnisútvegun. Heildarfjöldi bolta er um 4.948 stk., þar af 1.570 stk. á þurrum svæðum og 3.378 stk. á blautum svæðum. Stefndi sá ekki um þessa vinnu á blautum svæðum og ber því að greiða stefnanda fyrir þá vinnu. Á þeim svæðum var stefndi að bora og líma upp festibolta vegna vatnsklæðningar og verður í því ljósi að telja eðlilegt að álíta að eins hafi átt að vera með þessa vinnu, sem var á sama svæði. Stefnandi lagði aftur á móti til boltana. Verður krafa stefnanda tekin til greina að því leyti að stefnda verður gert að greiða stefnanda 3.587.453 krónur, (5.254.801 x 3.378/4.948 = 3.587.453). Fjarlæging pípna Stefndi skildi eftir hluta af bráðabirgðavatnslögnum í göngunum þegar hann hafði að mestu lokið sínum verkþætti þar. Verkkaupi fór fram á að þessar lagnir yrðu fjarlægðar. Það, að skila fyllingu í göngunum í viðurkenndu ástandi að mati verkkaupa, var verkefni stefnda. Dómkvaddir matsmenn mátu þennan kostnað 500.000 krónur, því mati hefur ekki verið hnekkt og telur dómurinn að byggja megi á því. Verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda þá fjárhæð. Fjarlæging raflagna, krafa stefnanda 4.565.240 krónur Samkvæmt útboðsgögnum og samningi milli aðila átti stefndi að útvega rafmagn í göngunum út verktímann. Á fundi aðila 26. september 2009 tilkynnti stefndi þó að hann myndi fjarlægja raflagnir (vinnulýsingu) samhliða uppsetningu vatnsvarna. Slíkt taldi stefnandi að hefði verið óviðunandi vegna vinnu stefnanda við þá verkþætti sem hann átti eftir að vinna í göngunum. Varð þá að samkomulagi að stefnandi tæki að sér rekstur rafkerfisins frá 1. janúar 2010 og tæki það niður í verklok. Við þá vinnu sem fór í hönd hjá stefnanda við sprautusteypu og uppsetningu á vatnsvarnarklæðningu, var það illa farið með raflagnirnar, sem voru iðulega látnar liggja á gólfi ganganna, að þær voru ónýtar og lífshættulegar eftir þessa framkvæmd og því þurfti stefnandi að fjarlægja kerfið og farga því. Fyrirheit stefnanda um að taka niður kerfið á eigin kostnað í verklok verður talið bundið því að kerfið hefði áður komið honum að eðlilegum notum. Eins og atvikum er háttað verður ekki talið að stefnanda hafi verið nauðsyn að beina sérstakri riftunaryfirlýsingu að stefnda viðvíkjandi samkomulagi þeirra um rafkerfið. Matsmenn meta þetta sem eðlilegan kostnað hjá stefnanda og hefur því ekki verið hnekkt. Telur dómurinn að byggja megi á því og verður stefndi dæmdur til að greiða 4.565.240 krónur vegna þessa kröfuliðar. Endurfylling drenmalar Í apríl 2011 gerði verkkaupi kröfu um að steypufrákast vegna sprautusteypu sem hefði safnast í drenmöl í göngunum yrði hreinsað, þ.e. fjarlægt og sett nýtt og hreint efni í staðinn. Stefnandi reiknar með að um hafi verið að ræða u.þ.b. 1.000 rúmmetra af drenefni og annað eins af burðarlagsefni. Eftirlitsaðili talar um að veruleg hreinsun sé nauðsynleg einkum á lægri vegkantinum. Verður að telja það sannað og þykir mega byggja á mati stefnanda á efnismagni. Verktakar sem ollu umræddum spjöllum voru undirverktakar þeirra er sáu um vatnsklæðningarnar sem aftur voru undirverktakar hjá stefnda. Skemmdir þessar eru því á ábyrgð stefnda. Dómurinn metur magn og verðlagningu kröfu þessarar eðlileg og verður stefndi dæmdur til greiðslu 5.950.400 króna vegna þessa liðar. Aðrar kröfur stefnanda. Hlutdeild í verðhækkun efna í efnaefju Með gerð Viðauka 2 afsalaði stefnandi sér rétti til hlutdeildar í hagnaði af nýjum framkvæmdaliðum. Eins og áður segir verður gildi Viðaukans ekki haggað í máli þessu og verður þessari kröfu stefnanda því hafnað. Þvottur á fyllingarefni Með Viðauka 2 sömdu aðilar um að allar kröfur sem rekja mætti til framkvæmda fyrir 24. september 2009 væru uppgerðar. Á þeim tíma var lokið akstri efnis út úr göngunum þannig að stefnandi átti á þeim tíma að gera sér grein fyrir gæðum fyllingarefnisins. Stefnandi gerði engan fyrirvara varðandi gæði efnisins við samningsgerðina og verður að bera hallann af því. Umræddri kröfu verður því hafnað. Alls verða því teknar til greina kröfur stefnanda að fjárhæð 54.999.483 krónur. Kröfur stefnanda, sem teknar hafa verið til greina, eru vegna atvika sem orðið hafa eftir 24. september 2009 og voru því ófyrndar er mál þetta var höfðað. Víkur þá sögu að gagnkröfum stefnda. Stefndi gerir í fyrsta lagi kröfu um 25.382.189 krónur en til vara 16.339.313 krónur vegna skemma og viðgerða á þeim. Við upphaf verks gerðu aðilar samkomulag um gerð aðstöðu, þar á meðal að byggja fjórar 300 m² skemmur. Samkomulag þetta er dagsett 12. maí 2006 og tók stefnandi að sér þessa verkþætti. Stefnandi reiknaði með því að nota íslenskar límtrésskemmur með yleiningum, hannaðar miðað við íslenska álagsstaðla. Stefndi óskaði eftir því við stefnanda að hægt yrði að stækka skemmurnar. Stefnandi taldi það hægt ef stefndi greiddi viðbótarkostnað vegna þess. Var ákveðið að reyna að fá stærri skemmur fyrir óbreytt eða lítið breytt verð og var samþykkt að stefndi fengi tilboð í norskar skemmur sem reynsla hafi verið af á Íslandi og sem uppfylltu þessar kröfur og væru á verði sem aðilar gætu sætt sig við, og að stefnandi myndi greiða stefnda vegna þess 13,4 milljónir króna. Stefndi sá um þessi kaup en keypti ekki norsku skemmurnar heldur tékkneskar skemmur sem reyndust ekki uppfylla íslenska álagsstaðla, hvorki gaflar, hurðir né dúkur sem var á þeim gerðu það samkvæmt verkfræðiúttekt sem gerð var á þeim eftir að þær urðu fyrir verulegar skemmdum í hvassviðri á Siglufirði haustið 2006. Stefndi greiddi fyrir lagfæringar og styrkingar á skemmunum. Samkomulag var um að stefnandi greiddi stefnda 21.504.886 krónur vegna þessara viðskipta og var það gert 21. júní 2007. Samkvæmt upphaflega samkomulagi og samkomulaginu 21. júní 2007 átti stefnandi skemmurnar. Viðgerðarkostnað bar stefnda að greiða þar eð hann seldi vöru sem uppfyllti ekki íslenska staðla og auk þess voru öll ágreiningsmál frá þessum tíma afgreidd með Viðauka 2, dags. 24. september 2009. Þessari gagnkröfu stefnda verður því hafnað. Þá gerir stefndi gagnkröfur sem hann kveðst styðja við að eftir september 2009 hafi verktafir orðið af völdum stefnanda. Stefndi telur sig hafa neyðst til að hafa hluta af starfsmönnum sínum lengur á svæðinu en til hafi staðið. Hann kveðst hafa reiknað með að störfum þeirra yrði alveg lokið í júlí 2010 en vegna þessa dráttar á verkinu hafi hann neyðst til að kalla tvo nafngreinda starfsmenn á svæðið og hafa þá þar til loka september 2010 og hafa hlotið af þessu bæði kostnað og tapaða framlegð. Stefndi gerði samkomulag við verkkaupa um framlengingu verksins til 30. september 2010. Verkþættir stefnda gengu hægar fyrir sig en áætlað var. Þannig lauk hann ekki uppsetningu vatnsklæðningar fyrr en degi fyrir opnunardag ganganna. Stefndi hóf ekki uppsetningu vatnsklæðningar fyrr en í lok árs 2009 og tafði sú seinkun alla vinnu við lokaframkvæmd ganganna. Auk þess var stefndi eins og áður segir með önnur verk á sínum snærum eftir 24. september 2009 til verkloka, og var einnig ábyrgur sem aðalverktaki verksins. Því var ekki óeðlilegt að stefndi sinnti þessum málum og hefði starfsmenn til þess. Með vísan til framanritaðs verður ekki talið að stefndi hafi sýnt fram á að hann eigi gagnkröfur á stefnanda að þessu leyti og verður þeim hafnað. Aðrar gagnkröfur stefnda voru gerðar til meðferðar í því tilviki ef fallist yrði á kröfu stefnanda um að einstökum ákvæðum Viðauka 2 yrði vikið til hliðar. Svo fór ekki og verða þær gagnkröfur því ekki teknar til frekari umfjöllunar í þessum dómi. Stefnandi hefur í málinu gert þær dráttarvaxtarkröfur sem raktar voru. Ekki verður fallist á að sýnt hafi verið fram á að kröfur hans hafi gjaldfallið við verklok svo sem hann byggir á. Eins og málið er vaxið verða dráttarvextir ákveðnir frá þeim tíma er mál var höfðað, 26. mars 2012. Á hinn bóginn verður fallist á með stefnanda að verðbætur til verkloka eigi að vera innifaldar í þeim liðum sem fallist hefur verið á og hefur verið litið til þeirra í einstökum kröfuliðum hér að framan. Stefnda verður gert að greiða stefnanda málskostnað, sem með vísan til málavaxta, dómkrafna og málsúrslita ákveðst átta milljónir króna. Af hálfu stefnanda flutti málið Bjarki Þór Sveinsson hdl. en af hálfu stefnda Þórarinn V. Þórarinsson hrl. Mál þetta dæma héraðsdómararnir Þorsteinn Davíðsson og Erlingur Sigtryggsson og Vífill Oddsson verkfræðingur. D Ó M S O R Ð Stefndi, Metrostav a/s, greiði stefnanda, Háfelli ehf., 54.999.483 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. mars 2012 til greiðsludags og átta milljónir króna í málskostnað. |
Mál nr. 121/2003 | Vinnuslys Skaðabætur Gjafsókn | S, starfsmaður H, skrikaði fótur í lausum tröppum, sem komið hafði verið fyrir við færiband. Féll S á verksmiðjugólfið og slasaðist. Fallist var á það með H að óhapp hefði valdið slysinu og það yrði ekki rakið til vanbúnaðar á þeirri aðstöðu sem starfsmenn þurftu að notast við. Var H sýknaður af kröfum S. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. apríl 2003. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiða sér 4.176.316 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 8. júlí 1999 til 24. ágúst 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. september 2001 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun á 492.853 krónum þann 14. febrúar 2002. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt fyrir báðum dómstigum. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður. Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu. Svo sem rakið er í héraðsdómi varð áfrýjandi fyrir vinnuslysi 9. júlí 1999 í rækjuverksmiðju stefnda á Hólmavík. Hafði hún farið upp í lausar tröppur, sem komið var fyrir við færiband, til að losa um rækju, sem safnaðist fyrir á bandinu. Á leið niður tröppurnar aftur skrikaði áfrýjanda fótur er hún stóð í öðru þrepi þeirra og hugðist stíga niður á fyrsta þrepið. Féll hún við það á verksmiðjugólfið og slasaðist. Verður fallist á með stefnda að óhapp hafi valdið slysinu og að það verði ekki rakið til vanbúnaðar, sem áfrýjandi telur hafa verið á þeirri aðstöðu, sem starfsmenn þurftu að notast við til að komast að umræddum stað á færibandinu. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Stefaníu Andrésdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur. Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi þann 7. janúar 2003, er höfðað með stefnu útgefinni 16. október 2001 og var málið þingfest þann 27. nóvember 2001. Stefnandi málsins er Stefanía Andrésdóttir, kt. 130230-4589, Hafnarbraut 35, Hólmavík. Stefndi er Hólmadrangur ehf. kt. 450400-2620, Höfðagötu 3, Hólmavík. Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu. Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 4.176.316,00 með vöxtum skv. 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 8. júlí 1999 til 24. ágúst 2001, en með dráttarvöxtum skv. III. og IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 13. september 2001 til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 492.853, sem greiddar voru stefnanda þann 14. febrúar 2002 úr atvinnuslysatryggingu. Loks er krafist málskostnaðar samkvæmt mati réttarins auk álags er nemi virðisaukaskatti eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál. Dómkröfur stefnda eru þær, aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hennar hendi að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður. Af hálfu réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf. eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur, enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu. Málsatvik: Stefnandi hafði starfað í áratugi hjá stefnda við rækjuvinnslu í rækjuverksmiðju stefnda á Hólmavík. Í lögregluskýrslu, sem stefnandi gaf 3. október 2000, skýrði hún svo frá, að fimmtudaginn 8. júlí 1999 hafi stefnandi hafið vinnu sína að morgni og unnið við vigtun á frosinni rækju, sem kom á færibandi úr lausfrysti. Við enda færibandsins var ryðfrí plata, sem vísaði rækjunni niður á annað færiband, sem lá hornrétt frá fyrra færibandinu, þar sem vatni var úðað yfir rækjuna, áður en hún fór í annan frysti, en þaðan fór rækjan loks til áfram til pökkunar. Að sögn stefnanda hafi ryðfría platan fyrst á morgnana verið rök eða blaut og vildi rækjan þá festast við plötuna og ef ekki var fylgst vel með hafi endi bandsins fyllst og rækjan hrunið á gólfið. Stefnandi sagði, að við endann á færibandinu sé höfð trappa sem sé notuð í þeim tilgangi að fara upp í og hreinsa frá plötunni. Tröppu þessari er í málinu lýst sem "A" tröppu, sem stendur á fjórum fótum og er úr áli. Á myndum, sem eru í málinu, má sjá, að í tröppunni eru fimm þrep auk sjötta þrepsins, sem er eins konar pallur efst. Stefnandi sagðist þennan morgun hafa séð rækjuna hrúgast upp við plötuna og því hafi hún farið upp í tröppuna og hreinsað frá plötunni. Þetta hafi hún oft gert og hafi hún ávallt þurft að fara upp í fjórða þrep tröppunnar til þess að geta hreinsað frá plötunni. Stefnandi sagði, að hinum megin við færibandið sé vinnupallur, sem hægt sé að fara upp á til þess að hreinsa frá plötunni, en það sé lengri leið og torfærari frá vinnustað mættu í salnum og því hafi trappan verið notuð. Stefnandi sagðist hafa verið á leið niður úr tröppunni er hún hafi runnið til og misst fótfestu með þeim afleiðingum að hún hafi fallið úr tröppunni og niður á steingólfið. Fyrir dómi lýsti stefnandi slysinu á þann veg, að hún hefði farið upp í tröppuna og hreinsað rækjuna af pallinum og hafi hún að því loknu verið að fara niður tröppuna. Stefnandi taldi, að hún hefði verið að fara úr þriðja þrepi og niður á annað þrep, er hún hafi annað hvort runnið fram af þrepinu, eða ekki náð að stíga á það. Hún hefði talið sig vera að stíga niður á fyrsta þrepið og því sleppt taki, sem hún hafði á handfangi efst á tröppunni, um leið og hún steig niður. Stefnandi sagði, að þetta hafi ekki orðið fyrir það, að trappan hafi runnið til á gólfinu, eða neitt það hafi verið á þrepinu, sem hafi gert það hált. Hún sagðist hafa verið með gúmmískó á fótum. Hún sagði, að bleyta hefði verið á gólfinu, en ekki á tröppunni, nema þá bleyta, sem þangað hefði borist með skóm hennar. Fyrir dóm kom Konráð Einarsson,verkstjóri stefnda, þegar slysið varð. Hann upplýsti, að pallur sá, sem nefndur var í lögreglurannsókn og víðar í málinu, og gert er ráð fyrir, að stefnandi hefði heldur átt að nota til að vinna það verk, sem um ræðir í málinu, hafi í raun verið ónothæfur til þess, vegna þess að ekki hefði verið hægt að ná til þess að hreinsa rækjuna af færibandinu af þeim palli. Fulltrúi Vinnueftirlits kom á slysstað þann 12. júlí 1999. Í skýrslu þess segir m.a.: „Niðurstaða rannsóknar var að orsök slyssins væri að notaður var laus stigi á hálu gólfi.” Við slysið hlaut stefnandi brot á hægra lærleggshálsi. Hún var send til meðferðar á Sjúkrahús Akraness og var samdægurs gerð skurðaðgerð, beinbrotið fært í betri skorður og neglt með tveimur nöglum. Með því að brotið hafðist ekki nógu vel við, var ákveðið að gera gerviliðsaðgerð í hægri mjöðm og var hún gerð 16. apríl 2000. Að sögn í áverkavottorði útskrifaðist hún í góðu ástandi þann 24. 02. 2000. Önnur hvor þessara dagsetninga hlýtur að vera röng, og eru mestar líkur á að það sé sú seinni, sem virðist, eftir örorkumatinu eiga að vera 28. apríl 2000. Gerviliðsaðgerðin í hægri mjöðm virtist hafa gengið vel, en versnandi óþægindi voru af slitgigt í hægra hné. Vegna þessa var stefnandi tekin inn á sjúkrahús Akraness 29. mars 2001 og gerð gerviliðsaðgerð í hægra hné. Stefnandi útskrifaðist af sjúkrahúsinu þann 17. apríl 2001. Dr. Halldór Baldursson, bæklunarlæknir, mat örorku stefnanda og varð niðurstaða hans þessi: Matsorð skv. skaðabótalögum: Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. telst 100% frá 8. júlí 1999 til 28. febrúar 2000 og 50% frá 1. mars 2000 til 30. júní 2001. Þjáningabætur skv. 3. gr.: Tjónþoli telst hafa verið veik í skilningi skaðabótalaganna frá 8. júlí 1999 til 30. júní 2001, þar af rúmföst 8. júlí 1999 til 16. júlí 1999, 16. apríl 2000 til 28. apríl 2000 og 28. mars 2001 til 17. apríl 2001. Varanlegur miski skv. 4. gr. telst 18%. Varanleg örorka skv. 5. gr. telst 25%. Málsástæður stefnanda: Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að stefndi beri ótvíræða bótaábyrgð á vinnuslysi stefnanda. Grundvallist sú ábyrgð á reglum skaðabótaréttar um ábyrgð atvinnurekanda á vanbúnaði á vinnustað og á ófullnægjandi verkstjórn. Á því sé byggt, að aðbúnaður starfsmanna stefnda hafi verið óforsvaranlegur. Eins og fram komi í umsögn Vinnueftirlitsins hafi ekki verið notaður forsvaranlegur búnaður til að standa á við þrif á vélum og böndum, en niðurstaða Vinnueftirlitsins sé, að slysið hafi orsakast af því, að notaður hafi verið laus stigi á hálu gólfinu. Trappan hafi verið höfð við enda færibandsins og hafi hún almennt verið notuð af starfsmönnum stefnda til þess að hreinsa af plötunni. Stefnandi hafi unnið verk sitt á hefðbundinn hátt eins og venja hafi staðið til. Stefndi hefði með einföldum hætti getað afstýrt slysinu með því að koma fyrir föstum palli með föstum tröppum. Sú leið, sem stefndi bar eftir slysið, að stefnandi hefði átt að fara hafi verið ógreiðfær, þar sem fara hafi þurft undir færibandið til að hreinsa frá plötunni. Í aðalmeðferð hafi komið fram, að hjá verkstjóra stefnda, í raun hafi ekki verið gerlegt að hreinsa plötuna af þeim palli, sem talið var, að stefnandi hefði átt að nota. Hafi þannig ekki verið unnt að vinna verkið öðru vísi en því, að koma fyrir vanbúnum tröppum á hálu gólfinu, sem hafi svo orðið til þess, að stefnandi féll í umrætt sinn. Þá byggir stefnandi á því, að rekja megi slys hennar til ófullnægjandi verkstjórnar á vinnustað. Í svari verkstjóra stefnda til réttargæslustefnda komi fram, að tíðkast hafi að nota lausa tröppu. Ennfremur hafi komið fram, að aðferð þessi hafi verið verkstjóra kunn og hann hafi látið verklag þetta viðgangast um árabil. Sé af framansögðu ljóst, að verkstjórn hafi að þessu leyti verið ábótavant og beri stefndi bótaábyrgð vegna þess, enda felist það í húsbóndavaldi stefnda að ráða hvernig verk í hans þágu eru unnin og að óþarfa hættu sé afstýrt, skv. 21. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Athafnaleysi verkstjóra varðandi notkun starfsmanna á umræddum tröppum leiddi til tjóns stefnanda, en miðað við niðurstöðu Vinnueftirlitsins hafi hættan af umræddu verklagi verið augljós. Auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir slysið með afgerandi og virkri verkstjórn. Verði stefndi að bera ábyrgð á athafnaleysi verkstjóra að þessu leyti. Krafa stefnanda er í samræmi við niðurstöðu örorkumats og gildandi útreikningsreglur skaðabótalaga. Stefnandi var 69 ára á tjónsdegi. Laun stefnanda árið 1998 að fjárhæð kr.1.60820 lögð til grundvallar tímabundnu örorkutjóni. Þá hafi verið fundin meðallaun stefnanda næstu þrjú árin áður en slys varð skv. skattframtölum stefnanda 1997-1999, vegna tekna áranna 1996-1998 að viðbættu 6 lífeyrissjóðsframlagi. Þegar ekki hafi verið að vænta frekari bata, þann 30. júní 2001 hafi stefnandi verið 71 árs og 138 daga gömul. Samkvæmt því sé stuðst við stuðulinn 1,545 við útreikning á varanlegu örorkutjóni stefnanda. Lánskjaravísitala hafi verið 3728 stig á tjónsdegi, 4135 stig þegar ekki var frekari bata að vænta en 4229 stig þegar krafan hafi verið reiknuð. Samkvæmt þessu sundurliðast krafa stefnanda þannig: Þjáningabætur (batnandi 722 dagar, þar af rúmföst í 43 daga) 1680*43 dagar)+(900*679 dagar) kr. 683.340 Miskabætur (18%*4.123.500) kr. 742.230 Tímabundið atvinnutjón (1.680.200*236/365)+(1.608.200*486/365*50%) kr. 2.110.487 Varanleg örorka (1.494.472*(4135/3728)* 1,545* 25%) kr. 640.259 Samtals kr. 4.176.316 Þann 14. febrúar 2002 fékk stefnandi greiddar örorkubætur kr. 480.384 ásamt vöxtum kr. 12.469 frá réttargæslustefnda úr atvinnuslysatryggingu vegna slyssins og er í kröfugerð gert ráð fyrir, að þessi fjárhæð sé dregin frá bótakröfu.. Málsástæður stefnda: Sýknukrafa stefnda, Hólmadrangs ehf. er á því reist, að ekkert sé við hann eða starfsmenn hans að sakast um slysið, sem alfarið sé að rekja til óhappatilviljunar eða óaðgæslu stefnanda sjálfrar. Slysið hafi ekki hlotist af því, að stefnandi hafi notað áltröppuna sem slíka til að standa í við hreinsun plötunnar á færibandinu í stað vinnupallsins sem fyrir var, enda hafi áltrappan ekki runnið til á gólfinu og valdið fallinu, heldur hafi slysið hlotist af því, að stefnandi hafi sjálf runnið til og hrasað í neðsta þrepi tröppunnar, þegar hún hafi verið að fara niður að verki loknu og fallið af þeim sökum á gólfið. Hefði hún allt eins getað runnið til og hrasað á niðurleið í þrepum fastrar tröppu eða stiga niður af föstum vinnupalli. Hafi þannig engum sköpum skipt um óhappið, hvort notuð var laus áltrappa eða fastur stigi. Sé þannig rangt sem segir í umsögn Vinnueftirlitsins, „að orsök slyssins væri að notaður var laus stigi á hálu gólfi.” Séu heldur ekki færð nein rök fyrir þeirri fullyrðingu í umsögninni. Sé alls ósannað, að áltrappan sem slík sé slyssvaldurinn. Þá hafi verið ósaknæmt af stefnda og verkstjórum hans að láta átölulaust, eða hindra ekki að stefnandi og annað starfsfólk notaði áltröppuna við hreinsun plötunnar á færibandinu. Sé notkun áltröppu ekki hættuleg né banni nokkur lög eða reglur notkun áltrappa, hvorki almennt né í rækjuverksmiðjum eins og hjá stefnda. Sé alls ósannað að „athafnaleysi verkstjóra varðandi notkun starfsmanns á umræddum tröppum ” hafi leitt til tjóns stefnanda. Hafi stefnandi verið 69 ára að aldri, alvön fiskvinnslu, vinnustað stefnda og búnaðinum þar og hafði margoft notað áltröppuna við hreinsun rækju frá plötunni á færibandinu. Hafi stefnanda því verið mæta vel ljóst, hvað hún var að gera og séu því engin efni til skaðabótaábyrgðar stefnda á slysinu. Varakrafa stefnda er á því byggð, að skipta beri sök í málinu og stórlækka stefnukröfur, sem mótmælt er sem of háum. Um sök aðila hefur þegar verið rætt, en sök stefnanda sé fólgin í því að gæta sín ekki í áltröppunni á leiðinni niður að verki loknu með þeim afleiðingum að hún rann til í neðstu tröppunni, hrasaði og féll. Sé því ljóst, að stefnandi sjálf sé frumvaldur að slysinu. Örorkumati dr. Halldórs Baldurssonar er ekki mótmælt. Hins vegar er einstökum kröfuliðum í kröfugerð stefnanda mótmælt sem of háum. Krafa um þjáningabætur sé langt umfram hámarksviðmiðun 3. gr. skaðabótalaga og beri að lækka þegar af þeirri ástæðu auk þess sem þjáningatími hafi orðið lengri en ella sökum slitgigtar í liðum stefnanda sem óviðkomandi séu slysinu. Þá sé krafa um tímabundið tjón miðuð við meðaltekjur næstu þriggja ára fyrir slys, en ekki þeirra rauntekna, sem stefnandi mundi hafa haft ef ekkert slys hefði orðið. Beri því skv.dómvenju að hafna þessum kröfulið. Þá eigi að koma til frádráttar skaðabótum skv. lögum og kjarasamningi, bætur úr samningsbundinni atvinnuslysatryggingu, bætur frá almannatryggingum og einnig hugsanlega frá lífeyrissjóði og sjúkrasjóði. Kröfu um dráttarvexti sé andmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. Niðurstaða: Enginn sjónarvottur var að slysi stefnanda þann 8. júlí 1999 og verður að leggja til grundvallar frásögn stefnanda sjálfrar um atvik að slysinu. Fram hefur komið í þeirri frásögn, að stefnandi hefði lokið því verki að hreinsa rækju af plötu þeirri, sem um ræðir í málinu. Hafi hún verið á leið niður tröppuna. Hún hafi haldið í málmboga, sem stendur upp úr tröppunni og verið að stíga úr þriðja þrepi niður í annað þrep, þegar henni skrikar fótur eða hún hitti ekki fæti sínum á þrepið, henni var ekki ljóst, hvort gerðist, um leið og hún sleppti hendi af boganum. Ljóst er af þessari frásögn stefnanda, að slysið hefur ekki orðið við framkvæmd þess verks að hreinsa rækjuna af plötunni. Þá kom það skýrt fram hjá stefnanda, að hvorki hafi trappan hreyfst á gólfinu, né hafi verið neitt það á þrepinu, sem olli því, að henni hafi skrikað fótur. Verður þá ekki fallist á það álit Vinnueftirlitsins, að orsök slyssins megi rekja til þess að notaður hafi verið laus stigi á hálu gólfi. Þegar litið er til þess framburðar stefnanda, að hún hefði talið sig vera að stíga niður á fyrsta þrepið og því sleppt taki, sem hún hafði á handfangi efst á tröppunni, um leið og hún steig niður, verður ekki hjá því komist, að telja, að stefnandi hafi sýnt af sér nokkurt gáleysi, er hún fór niður stigann. Ekki hefur verið sýnt fram á, að rekja megi slysið að neinu leiti til skorts á eða mistaka við verkstjórn af hálfu stefnda. Þá hefur ekki verið sýnt fram á, að neitt hafi verið að athuga við tröppuna, eða að hættueiginleikar hennar umfram þá hættu, sem almennt stafar af stigum, hafi valdið slysinu. Verður með vísan til ofangreinds að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu. Gjafsóknarkostnaður kr. 358.699 greiðist úr ríkissjóði, þar af kr. 58.699 í útlagðan kostnað og kr. 300.000 í málsóknarlaun til talsmanns stefnanda, Ástráðs Haraldssonar, hrl. Dóm þennan kveður upp Logi Guðbrandsson, héraðsdómari. D Ó M S O R Ð: Stefndi, Hólmadrangur ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda Stefaníu Andrésdóttur, í máli þessu. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 358.699, greiðist úr ríkissjóði, þar af málssóknarlaun talsmanns stefnanda, Ástráðs Haraldssonar, hrl. kr. 300.000. |
Mál nr. 192/2004 | Samningur Verkkaup | H hf. tók að sér hugbúnaðargerð og tengd verkefni fyrir Í ehf. Í samningi aðila var meðal annars kveðið á um vinnu við nánar skilgreind verkefni í 2.400 klukkustundir, en að því loknu mátti segja upp samningnum fyrirvaralaust. Eftir að umræddu marki var náð sendi Í ehf. tilkynningu 30. júní 2003 til H hf. þar sem kom fram að ekki yrði af frekari kaupum á þjónustu af H hf. „að svo stöddu“. Engu að síður var ákveðið á fundi í byrjun júlímánaðar sama árs að H hf. ynni áfram að verkefnum fyrir Í ehf. fram til 18. sama mánaðar. Í kjölfarið reis ágreiningur um skil á verkum, þar á meðal um svonefnda skjölun, og uppgjör vegna þeirra. Talið var ósannað að H hf. hafi lofað að ljúka við umrædda skjölun. Jafnframt var ekkert talið komið fram um að H hf. hafi haldið eftir gögnum sem Í ehf. ætti rétt til. Meðal annars í ljósi ákvæða í samningi aðila um verkskil við uppsögn var það talið standa Í ehf. nær að tryggja sér sönnun um að félagið hafi aðeins óskað eftir sumum verkefnunum sem H hf. skilaði, en ekki öðrum. Það hafi Í ehf. ekki gert. Þess vegna bæri Í ehf. að standa H hf. skil á greiðslu fyrir þau verk sem félagið innti af hendi eftir fundinn í byrjun júlímánaðar, en ekkert hafi komið fram annað en að þau hafi verið fullnægjandi. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. maí 2004. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður að svo stöddu af kröfu stefnda, en til vara að honum verði gert að greiða stefnda 1.809.743 krónur. Hann krefst í báðum tilvikum málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Að því frágengnu krefst hann þess að krafa stefnda verði lækkuð og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt ný gögn, meðal annars matsgerð Heimis Þórs Sverrissonar lektors í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík 19. maí 2004 um nánar tilgreind atriði varðandi skjölun tölvugagna og afhendingu þeirra. I. Eins og rakið er í héraðsdómi tók stefndi að sér tölvuforritun og tengd verkefni fyrir áfrýjanda. Um var að ræða hönnun og þróun á sérhæfðri leitarvél vegna starfsemi áfrýjanda. Með samningi 20. júlí 2001 sömdu aðilar um vinnu við nánar skilgreind verkefni í 2.400 klukkustundir. Kveðið var á um að gjald fyrir hverja vinnustund starfsmanns stefnda skyldi vera 25 bandaríkjadalir, en verkið skyldi unnið á Indlandi. Voru í samningnum ákvæði um framkvæmd verksins, verkáætlanir, hugverkaréttindi og önnur atriði. Samkvæmt 8. gr. samningsins var ekki unnt að segja honum upp fyrr en 2.400 vinnustundum væri náð, en eftir þann tíma var samningurinn uppsegjanlegur án sérstaks uppsagnarfrests. Þá var kveðið á um að kæmi til uppsagnar bæri stefnda þó að ljúka og skila þeim verkum sem áfrýjandi hefði þegar pantað og skilgreind hefðu verið í verkáætlunum. Að sama skapi var áfrýjanda skylt að greiða fyrir unnin verk sem skilað hefði verið og teldust „móttökuhæf“, en ógreidd við uppsögn. Áfrýjandi hélt áfram að kaupa vinnu af stefnda eftir að framangreindum lágmarksfjölda vinnustunda hafði verið náð og greiddi fyrir samkvæmt samningnum. Auk vinnu við forritun á Indlandi annaðist starfsmaður stefnda á Íslandi aðlögun forrita að tölvukerfum áfrýjanda og fyrir þá vinnu mun áfrýjandi hafa greitt stefnda 8.500 krónur fyrir hverja klukkustund. Í árslok 2002 mun áfrýjandi hafa gripið til ýmissa aðgerða til hagræðingar í rekstri sínum, meðal annars sagði hann upp starfsfólki og samningum um kaup aðfanga. Vegna þessa komust málsaðilar að samkomulagi um breytingar á umræddum samningi, en hins vegar ber þeim ekki að öllu leyti saman um í hverju þær fólust. Áfrýjandi heldur því fram að stefnda hafi verið gert ljóst að miklar líkur væru á að til þess kæmi að hætt yrði að kaupa þjónustu stefnda og að hann hafi sett stefnda það skilyrði fyrir áframhaldandi samstarfi að greiðslur til stefnda fyrir vinnu á árinu 2003 næmu ekki hærri fjárhæð en 28.000.000 krónum. Áætlað hafi verið að stefndi myndi ljúka vinnu í síðasta lagi í september 2003 og haga framkvæmdum þannig að mest yrði unnið í janúar til maí þess árs. Samkvæmt áætlun aðila skyldi stefndi vinna verkefni fyrir fjárhæð er svaraði til 3.571.677 króna í hverjum mánuði tímabilið janúar, febrúar og mars 2003, 3.166.983 króna í hverjum mánuði fyrir apríl, maí og júní sama árs, en 2.511.216 króna fyrir júlí, ágúst og september sama árs. Stefndi heldur því fram að samkomulag aðila hafi falið í sér tímabundinn afslátt af vinnu hans sem næmi 30% frá fyrri samningi aðila jafnframt því sem vinnan myndi dragast saman. Í gögnum málsins er að finna drög að samningi sem fyrirsvarsmaður stefnda sendi áfrýjanda 13. janúar 2003 þar sem miðað var við að áfrýjandi greiddi stefnda fyrir tímabilið janúar til september 2003, eins og að framan er rakið. Kæmi til vinnu stefnda á tímabilinu frá október til loka desember það ár skyldi greitt tímagjald samkvæmt upphaflegum samningi vegna vinnu á Indlandi en 8.500 krónur vegna vinnu á Íslandi. Ekki komst á skriflegur samningur um þessi atriði, en stefndi mun eigi að síður hafa unnið í janúar, febrúar og mars 2003 samkvæmt samningsdrögunum, en reikningur hans fyrir vinnu í apríl nam hins vegar hærri fjárhæð en þar greinir. Áfrýjandi greiddi þann reikning líkt og fyrri reikninga og sendi stefnda jafnframt tölvubréf 13. maí 2003 þar sem gert var ráð fyrir auknum greiðslum í apríl og maí 2003 en að greiðslur fyrir ágúst og september það ár skyldu lækka að sama skapi. Með svarbréfi stefnda sama dag var sú áætlun samþykkt. Með bréfi 30. júní 2003 tilkynnti áfrýjandi hins vegar að ekki yrði af frekari kaupum á þjónustu stefnda „að svo stöddu.“ Í kjölfar þess bréfs áttu fulltrúar aðila þó fund um tilgreind verk sem ekki hafði verið lokið af hálfu stefnda. Ekki er upplýst nákvæmlega hvenær sá fundur var haldinn, en aðilar eru sammála um það hafi verið 8., 9. eða 10. júlí 2003. Á þeim fundi mun hafa orðið að samkomulagi að stefndi ynni áfram að verkefnum fyrir áfrýjanda til 18. þess mánaðar, en eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi eru aðilar hvorki sammála hvaða verkefni var um að ræða né hver þóknun skyldi vera fyrir verkin. Stefndi lauk skilum á tilteknum verkum 24. þess mánaðar og gerði áfrýjanda hinn umþrætta reikning 31. júlí 2003 í samræmi við ákvæði samningsins 20. júlí 2001. II. Deila málsaðila stendur um hvort stefndi hafi skilað gallalausum verkum og einnig hvort hann hafi skilað og krafist greiðslu fyrir verk, sem hann hafi ekki verið beðinn um að ljúka, en jafnframt látið hjá líða að vinna að svonefndri skjölun sem samið hafi verið um að hann ynni. Þá er deilt um hvort stefnda sé rétt að krefjast þóknunar samkvæmt samningnum 20. júlí 2001 fyrir vinnu eftir uppsögn hans, eða hvort hann hafi að því leyti átt að taka mið af síðara samkomulagi aðila. Áfrýjandi reisir aðalkröfu sína á því að stefndi hafi látið hjá líða að afhenda svokallaða skjölun sem innihéldi yfirlit og hönnunarlýsingu hugbúnaðarkerfisins og lýsingar á klösum og samvirkni þeirra í kerfinu. Um það vísar áfrýjandi til verkbeiðna sem hann setti fram 27. júní 2003 og tölvubréfs stefnda sama dag þar sem fram kemur að verkbeiðnir voru mótteknar. Þá bendir áfrýjandi á að tölvubréfi hans til stefnda 29. ágúst 2003, með ósk um skil á þessum tilgreindu verkum, hafi fyrirsvarsmaður stefnda svarað sama dag með svofelldum orðum: „Það er í eðli málsins sjálfsagt að skila öllum skjölum og kóða sem til eru og jafnvel útbúa þau sem á vantar. Sorglega staðan er nú samt sú að samskipti fyrirtækjanna eru í höndum lögfræðinga og ég tel eðlilegt að þeir nái samkomulagi áður en áfram er haldið. ...“ Telur áfrýjandi þetta svar ekki verða skilið öðruvísi en svo að stefndi hafi annað hvort skjölunina undir höndum og neiti að afhenda hana eða hafi ekki unnið þau verk sem áfrýjandi hafi sannanlega beðið um. Áfrýjandi vísar og til þess að á þeim tíma, er hann setti fram beiðni um þessi verk, hafi samningurinn 20. júlí 2001, með síðari breytingum, enn verið í gildi. Þá kveður áfrýjandi umbeðna skjölun vera skilyrði þess að hugbúnaðargerðin nýtist honum til fulls og vísar í því sambandi til framlagðrar matsgerðar fyrir Hæstarétti og framburðar matsmanns. Samkvæmt þessu sé sá tími ókominn sem stefndi verði krafinn um greiðslu. Af hálfu stefnda er því haldið fram að skjölun hafi borist í tal á umræddum fundi, sem haldinn var í byrjun júlí 2003, en einungis hafi verið rætt um að stefndi annaðist lágmarksskjölun, enda ekki unnt að vinna að ítarlegri skjölum eins og verkbeiðnir áfrýjanda kváðu á um, þar sem þær hefðu verið settar fram aðeins þremur dögum áður en áfrýjandi sagði upp samningnum. Samkvæmt gögnum málsins og framburði hins dómkvadda manns var hin sérstaka skjölun, sem verkbeiðnir áfrýjanda lutu að, umfangsmikil og fyrirséð að stefndi væri ekki í stakk búinn til að ljúka við hana á þeim skamma tíma sem honum gafst til verkskila í samræmi við verkbeiðnir sem honum höfðu borist nokkrum dögum áður en áfrýjandi sagði samningi aðila upp. Af því sem fram er komið í málinu verður heldur ekki ráðið að stefndi hafi byrjað að vinna að skjölun á þeim tíma. Framburður starfsmanna aðila, sem voru á fundi þeim sem haldinn var í byrjun júlí 2003, er rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Þeim bar ekki saman um hvaða verk stefndi tók þá að sér að vinna. Áfrýjandi tiltekur sjö verk, auk skjölunar, en stefndi þau verk sem langt hafi verið komin og unnt hafi verið að ljúka fyrir 18. júlí 2003. Verður ekki fullyrt frekar um efni fundarins í júlí 2003 og hefur áfrýjanda ekki tekist að sanna að þar hafi stefndi lofað að ljúka umbeðinni skjölun. Þá er ekkert fram komið í málinu sem leiðir í ljós að stefndi haldi eftir gögnum sem áfrýjandi á rétt til. Samkvæmt framanrituðu eru engin efni til að fallast á aðalkröfu áfrýjanda. Eins og áður greinir sagði áfrýjandi upp samningi aðila án fyrirvara í lok júní 2003, vegna atvika er hann vörðuðu, en óskaði jafnframt eftir því að stefndi ynni áfram að tilgreindum verkefnum, sem aðilar eru þó ekki sammála um hver verið hafi. Fyrir liggur að þau verk sem stefndi innti af hendi í kjölfar fundarins höfðu verið í vinnslu samkvæmt verkbeiðnum frá áfrýjanda. Verður því ekki annað séð en að verk stefnda eftir það hafi verið í samræmi við áðurnefnda 8. gr. samningsins 20. júlí 2001 um verkskil við uppsögn, en síðari breytingar á samningnum tóku ekki til þess ákvæðis. Því stendur það áfrýjanda nær að tryggja sér sönnun um að hann hafi óskað eftir sumum verkum sem skilað var, en ekki öðrum, sem einnig voru samkvæmt fyrri verkbeiðnum hans. Það hefur áfrýjandi ekki gert og verður hann því að standa stefnda skil á greiðslu fyrir þau verk sem stefndi innti af hendi í kjölfar fundar aðila í byrjun júlí 2003. Samningssamband aðila grundvallaðist á samningnum 20. júlí 2001, en samkvæmt framansögðu höfðu í ársbyrjun 2003 að beiðni áfrýjanda verið gerðar breytingar á tilteknum þáttum hans, er lutu aðallega að greiðslum til handa stefnda og umfangi verksins vegna hluta ársins 2003. Voru þær breytingar ekki með formlegum hætti, en ljóst er að í kjölfar þeirra urðu greiðslur til handa stefnda lægri en áður hafði verið og eru aðilar sammála um að svo hafi átt að vera að minnsta kosti til loka september 2003. Af málatilbúnaði aðila verður ekki talið að ákvörðun hafi verið tekin um að vinnu stefnda skyldi ljúka í septemberlok 2003. Samkvæmt samningsdrögum stefnda 13. janúar 2003 gerði hann ráð fyrir að eftir þann tíma myndu greiðslur vera í samræmi við það sem verið hafði á árunum 2001 og 2002. Er hinn umþrætti reikningur samkvæmt því sem þá hafði tíðkast. Með því að áfrýjandi sagði upp samningi aðila féll úr gildi síðara samkomulag um tiltekna verktilhögun til septemberloka 2003 gegn lækkun endurgjalds. Þá er ekkert fram komið í málinu annað en að þessi verk hafi verið fullnægjandi. Þegar allt þetta er virt verður áfrýjanda gert að greiða kröfu stefnda. Samkvæmt framanrituðu en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Íslensk erfðagreining ehf., greiði stefnda, Hreimi hf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2004. Mál þetta, sem dómtekið var 29. janúar 2004, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hreimi ehf., kt. 600901-3110, Lynghálsi 10, Reykjavík, gegn Íslenskri erfðagreiningu ehf., kt. 691295-3549, Sturlugötu 8, Reykjavík, með stefnu sem þingfest var á dómþingi 18. september 2003 er þá var sótt af hálfu stefnda. Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði gert að greiða honum 5.365.547 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 31. ágúst 2003 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins. Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður að svo stöddu. Til vara krefst hann þess að sér verði gert að greiða stefnanda 1.455.217 kr. með dráttarvöxtum frá dómsuppsögu. Í báðum tilvikum verði stefnanda gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu. Til þrautavara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður. Helstu málavextir eru að Bjarni Hákonarson og stefndi gerðu með sér „samstarfssamning um hugbúnaðargerð" 20. júlí 2001. Um inntak samstarfsins segir í fyrstu grein samningsins: BH tekur að sér forritun og tengd verkefni fyrir ÍE samkvæmt beiðnum ÍE (e. work for hire). ÍE skuldbindur sig til þess að panta verk sem nema a.m.k. 2.400 klukkustunda vinnu á fyrstu 3 mánuðum samningstímans og skal þeim skilað eigi síðar en á fyrstu 6 mánuðum hans. Um framkvæmdanefnd, verkáætlanir, skil og móttöku verka segir í annarri grein samningsins: BH og ÍE skulu setja saman framkvæmdanefnd sem skipuð verður jafn mörgum fulltrúum frá BH og ÍE. ... Fulltrúar ÍE í framkvæmdanefndinni skulu setja fram beiðnir um framkvæmd einstakra verka og verkáfanga á grundvelli samstarfssamningsins. Í framhaldinu skal framkvæmdanefndin gera verkáætlanir sem tilgreina skulu fjölda tíma sem ætlað er að tilgreind verk og einstakir verkþættir taki, skilatíma verk/verkþátta, gæðakröfur, prófanir, prófunartíma og slík atriði. Verkáætlun sem samþykkt hefur verið af báðum samningsaðilum í framkvæmdanefnd telst bindandi fyrir aðila hvað varðar tímafjölda sem verki er ætlað að taka. Hvorum samningsaðila um sig skal þó heimilt að óska endurskoðunar ef tímafjöldi áætlaður hefur verið [eða] reynist bersýnilega of- eða vanáætlaður. ÍE telst hafa móttekið verk þegar prófun hefur farið fram án þess að athugasemdir komi fram. Athugsemdir um að verk sem BH hefur skilað uppfylli ekki gæðakröfur skulu koma fram eins fljótt og kostur er og eigi síðar en 14 dögum eftir að verki hefur verið skilað. Í athugsemdum skal tilgreina þá galla sem ÍE telur vera á verkinu. Um greiðslur segir í fimmtu grein samningsins: ÍE greiðir BH fyrir unnin verk/verkþætti í samræmi við verkáætlanir sem samþykktar haf verið í framkvæmdanefnd, sbr. 2. gr. Einingarverð er 25 USD pr. klst. og nemur heildargreiðsla fyrir 2.400 vinnustundir því samtals 60.000 USD. ... BH skal gera ÍE reikning þegar verki/verkþætti er skilað. Gjalddagi skal vera 30 dögum síðar, enda hafi ÍE á þeim tíma móttekið verk án athugsemda. ÍE skal greiða gjaldfallna reikninga um leið og bætt hefur verið úr ágalla með fullnægjandi hætti og verk hefur verið móttekið. Um gildistíma og uppsögn segir í áttundu grein samningsins: Samningur þessi er óuppsegjanlegur þangað til verkum sem nema 2.400 einingum hafa verið móttekin af ÍE. Eftir þann tíma er samningurinn uppsegjanlegur og tekur uppsögn gildi þegar í stað. Þrátt fyrir uppsögn ber BH skylda til þess að ljúka og skila þeim verkum sem ÍE hefur þegar pantað og skilgreind hafa verið í verkáætlunum sbr. 2. gr. Að sama skapi ber ÍE skylda til að greiða fyrir verk sem unnin hafa verið og skilað að beiðni ÍE sbr. 2. gr. og eru móttökuhæf, en ógreidd við uppsögn. ÍE skuldbindur sig til að kaupa af BH a.m.k. 2.400 útseldar klst. á fyrstu 6 mánuðunum frá gildistöku samningsins, enda verði verkframvinda, gæði og skil verka og verkþátta fullnægjandi og í samræmi við verkáætlanir, sbr. 2. gr. Er einkahlutafélagið Hreimur var stofnað yfirtók það réttindi og skyldur Bjarna Hákonarsonar samkvæmt framangreindum samningi. Af hálfu stefnda er staðhæft að stefndi hafi þegar á árinu 2002 keypt vinnu af stefnanda sem nam 2.400 einingum. Er því ekki andmælt af hálfu stefnanda. Af hálfu stefnda segir að undir árslok 2002 hafi verið nauðsynlegt að grípa til ýmissa hagræðingaraðgerða í rekstri félagsins. Í því skyni hafi stefndi þurft að segja upp starfsfólki innan fyrirtækisins, segja upp samningum við birgja og draga stórlega úr aðkeyptri þjónustu, þ. á m. kaupum á hugbúnaðarþróun frá stefnanda, en markmið stefnda hafi verið að skera niður aðkeypta vinnu við verkefni eins hratt og kostur væri. Í viðræðum aðila segir af hálfu stefnda, að stefnanda hafi verið tjáð að miklar líkur væru á því að verkefni stefnanda yrði alveg skorið niður vegna sparnaðaraðgerða í rekstri stefnda. Hafi stefndi sett það skilyrði fyrir áframhaldandi vinnu stefnanda fyrir stefnda að andvirði vinnu árið 2003 yrði aldrei meira en 28.000.000 kr., sem hafi verið verulegur niðurskurður frá fyrra ári. Áætlað hafi verið að stefnandi myndi ljúka vinnu í síðasta lagi í september 2003 og haga framkvæmd þannig að mest yrði unnið frá janúar til maí 2003 og á þeim tíma myndu 15-20 starfsmenn stefnanda vinna við verkefnið, en eftir þann tíma yrði verulega dregið úr vinnu stefnanda, þar sem vera kynni að stefndi þyrfti að skera verkefnið enn frekar niður. Af hálfu stefnda segir að aðilar hafi ráðgert að stefnandi myndi vinna verkefni sem stefndi bæði um fyrir fjárhæð sem svaraði til 3.571.677 kr. í hverjum mánuði fyrir vinnu 20 starfsmanna frá janúar til mars. Þá myndi stefndi greiða 3.166.983 kr. fyrir vinnu 15 starfsmanna stefnanda hvern mánuð tímabilið apríl, maí og júní 2003, en fyrir tímabilið júlí, ágúst og september 2003 hafi verið áætlað að stefndi myndi greiða 2.511.216 kr. fyrir hvern mánuð fyrir vinnu 10 starfsmanna stefnanda. Fyrir liggur að 13. janúar 2003 sendi framkvæmdastjóri stefnanda samningsdrög til Arndísar Sverrisdóttur starfsmanns stefnda með tölvupósti. Í tölvupósti framkvæmdastjóra stefnanda segir: Ég setti saman drög að samning fyrir þetta ár í samræmi við okkar viðræður. Þarna vantar grein sem var í fyrri samningi sem fjallar um meðferð ágreiningsmála. Að öðru leyti tel ég að þessi samningur sé eins og við ræddum. Í 4. mgr. 4. gr. samningsdraganna segir að á tímabilinu október til loka desember 2003 geti stefndi óskað eftir frekari þjónustu stefnanda og sé samkomulag um það að stefndi greiði fyrir þá þjónustu samkvæmt tímagjaldi stefnanda. Samningsdrögin frá framkvæmdastjóra stefnanda voru ekki undirrituð af stefnda. Af hálfu stefnda segir að framkvæmdastjóra stefnanda hafi verið tjáð að stefndi gæti ekki skuldbundið sig til þess með nýjum samningi að panta og greiða fyrir þá vinnu sem tilgreind var í áætlun aðila, þar sem miklar líkur væru á því að haldið yrði áfram að skera niður í rekstri stefnda á árinu 2003 og yrði þá stefndi að leggja verkefnið og áætlun aðila með öllu niður. Er því haldið fram að stefnandi hafi látið sér lynda að samningsdrögin voru ekki undirrituð og sætt sig við þá óvissu sem var um framtíð verkefnisins hjá stefnda með því að vinna áfram að verkefninu í samræmi við áætlun aðila. Fyrir liggur að stefnandi gerði stefnda reikninga í samræmi við áætlun aðila fyrir mánuðina janúar, febrúar og mars 2003. Í maí 2003 gerði stefnandi stefnda reikning fyrir vinnu vegna apríl 2003 að fjárhæð 3.331.830 kr. Af hálfu stefnda segir að strax hafi verið gerðar athugasemdir við að reikningurinn væri ekki í samræmi við áætlaða greiðslu fyrir apríl 2003, hann væri 405.519 kr. hærri en áætlunin segði til um. Eftir nokkrar viðræður hafi þó verið ákveðið af Hákoni Guðbjartssyni, starfsmanni stefnda, að greiða fjárhæð reikningsins gegn því að áætlaðir reikningar fyrir vinnu stefnanda lækkuðu um samsvarandi fjárhæð fyrir ágúst og september 2003. Fyrir liggur að framkvæmdastjóra stefnanda var sendur tölvupóstur þann 13. maí 2003 um þetta. Segir af hálfu stefnda að tölvupóstinum hafi jafnframt fylgt leiðrétting á áætlun aðila frá janúar 2003 þar sem fjárhæðir áætlaðra reikninga, sem stefndi gerði ráð fyrir að greiða stefnda fyrir ágúst og september 2003, voru lækkaðar samsvarandi hækkun á reikningi stefnanda fyrir apríl 2003. Reikningar stefnanda fyrir maí og júní 2003 hafi hins vegar verið í samræmi við áætlun aðila. Af hálfu stefnda segir að í júní 2003 hafi stefndi þurft að grípa til enn frekari niðurskurðar í rekstri sínum. Ákveðið hafi verið að segja samningi við stefnanda upp þegar í stað samkvæmt heimild í 8. gr. samstarfssamnings aðila um hugbúnaðargerð frá 20. júlí 2001. Af hálfu stefnda segir að í framhaldi af uppsögn stefnda á samningi aðila hafi framkvæmdastjóri stefnanda óskað eftir því að Hákon Guðbjartsson, framkvæmdastjóri upplýsingasviðs stefnda, Þorvaldur Arnarson, tæknilegur framkvæmdastjóri stefnanda, og Bjarni Hákonarson, framkvæmdastjóri stefnanda, hittust á fundi og færu yfir verkið eins og það var statt við uppsögn stefnda á samningi aðila. Á fundinum hafi framkvæmdastjóri stefnanda sótt stíft að vinna áfram við verkið, þrátt fyrir að stefndi hafði lýst skýrum vilja sínum til þess að leggja verkefnið niður þegar í stað með uppsögn sinni þann 30. júní 2003. Hafi stefnandi óskað eftir því að fá að klára tiltekin verkefni og hafi stefndi samþykkt að stefnandi ynni tiltekin verkefni, sem stefndi valdi, og að þóknun stefnanda fyrir þau afmörkuðu verkefni, yrði hlutfall af áætlaðri þóknun stefnanda fyrir vinnu í júlí 2003, sem hafði verið áætluð 2.511.216 kr. miðað við allan júlímánuð 2003. Stefnandi skyldi þannig fá greiðslu sem næmi 1.455.217 kr. Fyrir fjárhæðina skyldi stefnandi ljúka verkefnum, sem átti að klára fullprófuð fyrir 18. júlí 2003, en um ákveðin tilgreind verkefni hafi verið að ræða. Jafnframt hafi stefnandi átt að skila stefnda skjölun með svokölluðum editor hluta hugbúnaðarins. Ákveðið hafi verið að tveir starfsmenn stefnanda skyldu vinna að skjöluninni í eina viku og skyldi greiðsla fyrir þá vinnu vera innifalin í framangreindri fjárhæð. Að lokum hafi verið ákveðið að önnur verk, sem stefnandi ynni að, félli niður þá þegar. Stefnandi krafði stefnda með reikningi, dags. 31. júlí 2003, um fjárhæð 4.309.676 kr. án virðisaukaskatts, en þar er innheimt fyrir 1.941 klukkustunda vinnu af hálfu starfsmanna stefnanda. Af hálfu stefnda segir að athugasemdir hafi þegar í stað verið gerðar við reikning stefnanda og jafnframt hafi honum verið gerð grein fyrir því að fjárhæð hans væri langt frá samkomulagi aðila frá júlí 2003. Reikningur stefnanda væri ekki í neinu samræmi við samkomulag aðila, en reikningur stefnanda hafi verið um 2.854.459 kr. hærri en um hafði verið samið. Samkvæmt samkomulagi aðila hefði reikningurinn átt að vera 1.455.459 kr. Farið hafi verið fram á að reikningi stefnanda yrði breytt í samræmi við samkomulag aðila en stefnandi hafi hafnað því og ekki fengist til að leiðrétta hann. Hafi stefnandi þá neitað að afhenda stefnda skjölin með „editor" hluta hugbúnaðarins nema stefndi greiddi umkrafða fjárhæð að fullu. Af hálfu stefnda hafi þá verið ákveðið að halda greiðslu að fjárhæð 1.455.459 kr., sem hann hafi áður verið tilbúinn að greiða, enda hafi það verið ákvörðunarástæða hjá stefnda við samþykki á kaupum viðbótarverka að skjölin fylgdu með svo að síðar væri hægt að ganga til áframhaldandi vinnu við þau þegar fjárhagslegt svigrúm gæfist. Stefnandi byggir á því að hafa tekið að sér vinnu fyrir stefnda og beri honum því að fá greitt fyrir þá vinnu við framvísun reiknings. Í gildi hafi verið ákveðinn samningur milli aðila, sem hafi verið breytt tímabundið í desember 2002 að ósk stefnda, og hafi breytingin átt að gilda fyrir níu fyrstu mánuðina á árinu 2003. Eftir það hafi átt að gilda sá taxti, sem áður hafði verið unnið eftir. Þrátt fyrir ákvörðun forstjóra stefnda 30. júní 2003 hafi stefndi óskað eftir að stefnandi lyki við gerð ákveðinna breytinga, prófana og fleira í júlí það ár. Hvorki hafi verið farið fram á að stefnandi gæfi sérstakan afslátt á vinnu sinni eftir mánaðamótin júní/júlí né samið um sérstök kjör. Reist er á því að beiðni hafi legið fyrir frá stefnda um þá vinnu sem hér um ræðir. Stefnda hafi verið gerður reikningur í samræmi við þau kjör, sem gilt hefðu áður en gengið var til móts við tilmæli stefnda í desember 2002, enda sé stefnandi óbundinn af veitingu afsláttar fyrir vinnu sína. Almennur sérfræðingstaxti hjá tölvufyrirtækjum hér á landi sé um 9.000 kr. en taxti stefnda innan við 2.000 kr. Á það er bent að stefnandi hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna riftunar á samningi aðila. Stefnandi hafi gert samning um vinnu á Indlandi um verk fram í september 2003 vegna hugbúnaðargerðar fyrir stefnda. Hann eigi rétt á greiðslu í samræmi við umsaminn taxta, sem ekki taki mið af áðurgreindum tímabundnum breytingum á honum. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki afhent honum gögn um hugbúnaðargerðina, sem unnin voru fyrir stefnda í júlí 2003, en ekki hafi sérstaklega verið samið um að stefndi ætti að inna greiðslu af hendi að fyrra bragði. Verkkaupa sé ekki skylt að greiða fyrir verk, nema fá samtímis umráð þess, sem greiðslu er krafist fyrir. Þar sem sá tími sé þannig ókominn, sem stefndi verði krafinn um greiðslu fyrir störf stefnanda í þágu stefnda í júlí 2003, beri að sýkna stefnda að svo stöddu, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Þá er byggt á því að uppsögn stefnda á samstarfssamningi aðila um hugbúnaðargerð frá 20. júlí 2001 sé lögmæt, sbr. ákv. 8. gr. samningsins. En af hálfu stefnda er talið að samningur aðila frá 20. júlí 2001 hafi verið í fullu gildi milli aðila þar til honum var sagt upp af hálfu stefnda 30. júní 2003. Aðilar hafi komist að samkomulagi í janúar 2003 um að verkefni stefnanda skyldi lokið í síðasta lagi í september sama ár. Með öðrum orðum hafi stefnanda í janúar 2003 verið fullkunnugt um að stefndi var að leggja verkefnið niður til að hagræða rekstri sínum. Í samkomu-lagi aðila í janúar 2003 hafi falist að stefnandi samþykkti að vinna að verkefninu á grundvelli áætlunar, sem náð gæti til loka september 2003, þó með þeim fyrirvara að stefndi gæti lagt verkefnið niður fyrr með því að segja samstarfi aðila upp með heimild í 8. gr. samnings aðila frá 20. júlí 2001. Stefnandi hafi samþykkt þessa ráðagerð og hagað vinnu sinni og reikningagerð eftir áætlun aðila svo sem reikningar hans gefa til kynna. Hafi stefnanda verið fullkunnugt um ætlun stefnda að leggja verkefni stefnanda endanlega niður eftir september 2003. Vísað er til þess að eftir uppsögn á samningi aðila 30. júní 2003 hafi stefndi eingöngu farið fram á að stefnandi ynni að tilteknum verkefnum fyrir stefnda svo sem fram komi í gögnum málsins. Stefnandi hafi átti að skila þessum verkefnum til stefnda fullkláruðum og prófuðum fyrir 18. júlí 2003 í samræmi við áætlun sem aðilar hefðu samþykkt að vinna eftir. Öll önnur verk skyldu lögð niður. Fyrir þessa vinnu skyldi stefnandi fá greiðslu að fjárhæð 1.455.217 kr. sem sé hlutfall af áætlaðri heildarþóknun sem aðilar höfðu áætlað fyrir júlímánuð 2003 mánuði fyrr. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi farið langt út fyrir verkbeiðni stefnda og unnið verk sem hann hafi ekki verið beðinn um að vinna og hafði enga heimild haft til að vinna. Hafi stefnandi lagt fram skjal, sem hann segi vera skrá yfir umbeðin verk af hálfu stefnda. Stefndi mótmæli þessu skjali. Þar sé þó að finna 7 verkliði, sem stefndi viðurkennir að hafa beðið um, en þar sé jafnframt að finna 7 verkliði, sem stefndi bað aldrei um að unnir yrðu. Stefndi mótmælir verk- og vinnustundabókhaldi stefnanda sem stefnandi leggur fram til stuðnings kröfu sinni. Þar sé meðal annars að finna tímaskráningu fyrir 516,85 klukkustundum í aðra verkliði en stefndi bað stefnanda um að vinna. Af þeim klukkustundum séu 228,25 klukkustundir skráðir á verkliðinn „SDL Internal Work” sem stefndi hafi sannarlega aldrei beðið um. Raunar sé með öllu ósannað að stefnandi hafi í raun unnið þá vinnu sem þar er tilgreind. Stefnandi hafi vitað að stefndi var með uppsögn samnings milli aðila að skera verkefnið hraðar niður en upphaflega var áætlað og vissi eða mátti vita að hann hefði hvorki samþykki frá stefnda né heimild með öðrum hætti til að vinna verkefni, sem stefndi bað ekki sérstaklega um. Stefnanda hefði borið að leita eftir skýru samþykki stefnda um heimild til að vinna umfram þá beiðni sem stefndi lagði fram. Stefndi kveðst byggja á þeirri meginreglu verktakaréttar að verktaka sé skylt að leita eftir ótvíræðu samþykki verkkaupa, ráðist hann í verk, sem verkkaupi hefur ekki gefið skýr fyrirmæli um að vinna skuli. Í ljósi þess sem á undan hafði gengið hafi stefnanda mátt vera ljóst að hann yrði að leita eftir skýru samþykki stefnda um að vinna verkefni, sem ekki voru hluti af verkbeiðni stefnda. Þá er þeirri staðhæfingu stefnanda mótmælt að stefndi hafi ekki farið fram á sérstakan afslátt af vinnu í júlímánuði 2003. Forsenda fyrir því, að stefnandi ynni meira fyrir stefnda hluta júlímánaðar, hafi ótvírætt verið sú, að heildarþóknun fyrir júlímánuð 2003 yrði ekki hærri en 1.455.217 kr. Þetta hafi stefnandi samþykkt. Umdeildur reikningur stefnanda nemi því hærri fjárhæð en aðilar höfðu samið um fyrir verk stefnanda í þágu stefnda. Þá mótmælir stefndi jafnframt þeirri fullyrðingu stefnanda að stefndi hafi ekki gert athugasemdir við tímafjölda, sem stefnandi kveðst hafa unnið við verkefnið. Stefndi hafi mótmælt reikningi stefnanda um leið og tilefni gafst. Vísar stefndi sérstaklega til þess stutta tíma sem leið frá því að reikningur barst þar til stefna var birt. Hafi stefnda þannig ekki gefist ráðrúm til að leggja fram skriflegar athugasemdir um bæði tímafjölda og gæði vinnu stefnanda fyrr en í greinargerð sinni. Þá er því jafnframt mótmælt að ekkert sé við gæði á verkum stefnanda að finna. Í ljós hafi komið að tilteknir verkþættir, sem stefndi bað stefnanda að vinna, virka ekki í samræmi við verkbeiðnir stefnda. Hlutar af verkum, sem stefndi bað stefnanda að vinna, séu með þeim hætti gallaðir. Framkvæmdastjóri stefnanda, Bjarni Hákonarson, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að stefnandi hafi hafið störf fyrir stefnda í júlí 2001. Hann sagði að gerður hafi verið samningur við stefnda um 2.400 tíma vinnu og lokið hafi verið við vinnu þessa tíma í nóvember sama ár, en þá hafi stefndi óskað eftir frekara vinnu-framlagi af hálfu stefnanda. Hafi stefnandi orðið við því og samkomulag orðið um óbreyttan samning að öðru leyti. Upp úr áramótum 2002/2003, sagði Bjarni, að samkomulag hafi orðið með aðilum um að stefnandi legði til ákveðinn fjölda starfsmanna fyrir ákveðna greiðslu hvern mánuð, janúar til september, að báðum mánuðum meðtöldum. Þá greindi hann frá því, að eftir að forstjóri stefnda lýsti því yfir í bréfi, dags. 30. júní 2003, að stefndi væri hættur frekari þjónustukaupum af stefnanda, hafi Hákon Guðbjartsson, forstöðumaður tölvudeildar stefnda, óskað eftir fundi aðila. Bjarni kvaðst sjálfur ekki hafa sótt fundinn, en af hálfu stefnanda hefði sótt fundinn Þorvaldur Arnarson, tæknilegur framkvæmdastjóri stefnda, og Kamal, indverskur starfsmaður stefnda, en Hákon af hálfu stefnanda. Fundurinn hafi verið haldinn á tímabilinu 10. til 12. júlí, aðallega til að ákveða hvaða verkefnum væri unnt að ljúka. Bjarni sagði að Hákon hafi verið í „pressu" með að ljúka verkefnunum 15. júlí en síðar hafi verið ákveðið að skiladagur yrði 18. þ.m. Bjarni sagði að ekki hafi verið rætt sérstaklega um það, hvað stefndi átti að greiða fyrir vinnu stefnanda í júlí. Bjarni hafnaði staðhæfingu stefnda um að stefnandi hafi sótt stíft að vinna áfram við verkið. Þá andmælti hann sérstaklega að stefnandi hafi haldið eftir gögnum eða „skjölun" vegna stefnda, sem stefndi hefði ekki fengið, enda hafi stefnandi engan hag haft af slíku. Þá er samningslokum hafði verið flýtt - þ.e. er ákveðið var af forstjóra stefnda að ekki yrði unnið fyrir stefnda eins og gert hafði verið ráð fyrir frá júlí til loka september - sagði Bjarni, að þá hafi valið hugsanlega verið að reikna laun stefnanda fyrir verkið í júlí eftir óbreyttum skriflegum samningi aðila eða samkvæmt samkomulagi aðila frá áramótunum 2002/2003. Rætt hafi verið um, að þegar föstum mánaðargreiðslum lyki samkvæmt samkomulaginu, yrði aftur farið á tímagjaldið, hvort sem um væri að ræða samninginn eða samkomulagið. Vinna stefnanda í júlí hafi ekki verið full mánaðarvinna heldur hlutavinna til að ljúka verkefnum, þannig að hann hafi raunar ekki getað miðað við annað en tímagjald samkvæmt óbreyttum skriflegum samningi aðila við reikningsgerðina fyrir vinnuna í júlí. Bjarni kvaðst hafa farið með umdeildan reikning til Hákonar. Hafi hann strax tjáð honum að hann hefði ekki átt von á svona háum reikningi. Bjarni sagði að ekki hafi verið gengið frá skriflegum samningi milli aðila um samkomulagið um breytinguna, sem varð upp úr áramótum 2002/2003, á greiðslum stefnanda fyrir þjónustu stefnda. Hákon Guðbjartsson, framkvæmdastjóri upplýsingasviðs stefnda, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að Arndís Sverrisdóttir, starfsmaður stefnda, hafi séð um samband stefnda við stefnanda. Hann sagði að um áramótin 2002/2003 hafi orðið breyting á samskiptum aðila á þann veg að skorinn hafi verið niður kostnaður stefnanda við hugbúnaðargerð, sem var unnin erlendis, um helming. Hann sagði að ákveðið hefði verið að miða greiðslur til stefnanda á þessu ári við helming þeirrar fjárhæðar, sem greidd hefði verið stefnanda árið 2002. Þannig hafi verið miðað við að vinna stefnanda mætti ekki kosta meira. Hann sagði að samningur aðila frá 2001 hafi haldið gildi sínu varðandi ábyrgðir og uppsagnaratriði. Svo hefði verið litið á að þessi samningur væri sá eini sem gilti milli aðila. Frá því í janúar til loka júní 2003, sagði Hákon, að unnið hefði verið eftir framangreindri áætlun. Af hálfu stefnda hafi stefnanda verið kynnt hvaða hugbúnaðargerðar væri óskað og hvað hún mætti kosta. Reikningar frá stefnda hefðu borist í samræmi við þetta þar til í maí, en þá hafi komið reikningur sem fór út fyrir þennan ramma. Var athugsemd gerð við það. Sæst hafi verið á að greiða þann reikning en lækka þá greiðslur fyrir næstu mánuði frekar en ráðgert hafði verið. Lækkaður hafi verið áætlaður kostnaður fyrir ágúst og september, sem nam þeirri fjárhæð, sem kostnaður fyrir maí fór fram úr áætlun. Hákon sagði að ákveðið hefði verið af hálfu stefnda að skera niður kostnað fyrirtækisins enn meira en áætlað hafi verið í byrjun árs 2003. Algerlega yrði hætt hugbúnaðargerð erlendis. Hafi hann tjáð Bjarna að ekki yrði af frekari kaupum. Jafnframt hafi Bjarna verið tilkynnt þetta bréflega af forstjóra stefnda. Hann sagði að Bjarni hafi þá sótt fast að haldinn yrði fundur þar sem farið væri yfir það, hvort ekki væri tök á að stefnandi fengi að starfa eitthvað áfram fyrir stefnda. Þar sem áður hefði verið óformlega miðað við, að stefnandi starfaði fyrir stefnda fram í september þetta ár, kvaðst hann hafa fallist á að hitta hann og fara yfir þau verkefni, sem voru í gangi fyrir stefnda hjá stefnanda, og athuga hvort ekki væru einhver verkefni, sem hægt væri að vinna í júlí, til að milda þá ákvörðun stefnda að hætta viðskiptum við stefnanda og sömuleiðis til að ganga betur frá þeim verkum sem voru í gangi. Kvaðst Hákon hafa átt fund með Bjarna og Þorvaldi Arnarsyni, þar sem hann hafi gert þeim grein fyrir, að hann væri tilbúinn til að láta stefnanda vinna ákveðin verkefni til viðbótar, en þau yrðu að vera samkvæmt áætlun sem í gangi hefði verið og þar með um hvað greitt yrði fyrir marga tíma. Þannig hafi á fundinum verið ákveðin þau verkefni, sem unnt væri að ljúka fyrir miðjan júlí, og ákveðið að annað yrði ekki unnið. Hafi hann tjáð þeim að heildarkostnaður fyrir verkið þennan mánuð mætti ekki nema hærri fjárhæð en áætlaður tímafjöldi gæfi tilefni til. Eina undantekningin, sem gera átti frá þessu, hafi verið sérstök skjölun á editor-hluta í kerfinu að beiðni stefnda, en þessi tilmæli af hálfu stefnda hafi raunar verið ástæðan fyrir því, að í stað þess að miða við miðjan júlí, hafi verið ákveðið að fjölga verkdögum til 18. júlí. Hann sagði hér hafa verið um sjö verkliði að ræða, allt verkliðir, sem ljóst var að ættu að klárast fyrir miðjan mánuðinn. Á fundinum hafi orðið samkomulag um þetta. Aðspurður kvað Hákon stefnda ekki hafa gert athugsemdir við gæði verka eða tímaskráningu stefnanda frá því í júlí 2001 til áramóta 2002/2003 umfram það sem eðlilegt mátti teljast. Forsvarsmenn stefnda hafi verið sáttir við vinnu stefnanda. Aðspurður kvað hann að verið gæti að Bjarni Hákonarson hafi ekki verið á fundinum þar sem rætt var um hvað verkefni stefnanda væri heimilt að vinna fyrir stefnda í júlí 2003. Það sem skipti máli hafi verið að Bjarni bað um að fundurinn yrði haldinn. Á þessum fundi hafi verið farið yfir verkliði, en það hafi verið Þorvaldur, sem hafi séð um að fjalla um þá fyrir stefnanda. Aðspurður kvaðst hann aldrei hafa rætt við Þorvald um fjármál, en hann hafi tekið það fram á fundinum, að einungis ætti að vinna að þeim verkefnum, sem áður hafði verið ákveðið að lokið yrði um miðjan mánuðinn. Hákon sagði að Þorvaldur hafi komið með lista á fundinn, sem sýndi þau verkefni, sem staðið hefði til að unnin yrðu fyrir stefnda, og hvenær áætlað hefði verið að skila þeim. Sú venja hefði myndast að skila verkefnum á hálfs mánaðar fresti. Þorvaldur hafi sýnt honum, hvaða verkefni áttu að klárast um miðjan mánuðinn, og þau, sem áætlað hafði verið að ljúka síðar. Einungis hefðu verið valin þau verkefni sem áætlað var á listanum að lyki um miðjan mánuðinn. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa undir höndum þennan lista. Hann kvað Þorvald hafa merkt inn á listann, hvaða verkefnum átti að ljúka í samræmi við það, sem hann hafi lagt fyrir Þorvald að einungis yrði unnið að. Þorvaldur Sigurður Arnarson, tæknilegur framkvæmdastjóri stefnanda, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að eftir að forstjóri stefnda sagði upp samningi aðila hafi Hákon óskað eftir fundi við stefnanda. Fundur hafi líklegast verið haldinn 8. júlí. Fundinn hefðu sótt af hálfu stefnanda, hann sjálfur ásamt öðrum starfsmanni stefnanda, Kamal að nafni, en Hákon af hálfu stefnda. Rætt hafi verið um hvernig hagað skyldi viðskilnaði aðila varðandi verkefni, sem stefnandi var að vinna að fyrir stefnda er samstarfssamningi aðila um hugbúnaðargerðina var sagt upp af hálfu stefnda. Þorvaldur sagði að á fundinum hafi verið rætt um allt sem var í gangi. Hann hafi komið með lista á fundinn yfir þau verkefni sem voru í gangi. Komist hefði verið að þeirri niðurstöðu að nýta bæri tímann til 18. júlí til að bjarga því sem bjargað yrði af hugbúnaðargerðinni. Lokið yrði með öðrum orðum þeim verkum, sem hægt væri að ljúka á þessum tíma. Auðkennd hefðu verið á fundinum þau verkefni sem mikilvægust voru. Kvað Þorvaldur að ákveðið hefði verið að hann kannaði hvar verkefnin væru á vegi stödd enda eðlilegast að ljúka þeim sem lengst voru komin, en hætta við þau sem ekki var byrjað á, eða stutt á veg komin. Aðspurður andmælti Þorvaldur að Hákon hafi lagt fyrir hann að einungis yrði unnið að tilgreindum sjö verkefnum og engum öðrum. Hann sagði að rætt hefði verið um að líta yrði til þess á hvaða stigi hvert verkefni væri og hvernig því væri að öðru leyti háttað, áður en ákvörðun yrði tekin, hvort hætta ætti við það. Hann mótmælti því að Hákon hefði sagt honum að verkin í júlí mættu ekki kosta meira en næmi helming greiðslu fyrir verkin í júní. Fjármál hefðu ekki verið rædd. Arndís Inga Sverrisdóttir, starfsmaður stefnda, gaf símleiðis skýrslu fyrir rétti. Hún sagði m.a. að hún hafi starfað sem tengiliður við stefnanda og starfsemi hans fyrir stefnda á Indlandi, tekið á móti „kóða" frá þeim og séð um samskiptin. Henni hafi verið falið að fara yfir reikninga frá stefnanda með tilliti til þess að þeir væru í samræmi við samkomulag aðila frá því í janúar 2003. Reikningarnir hefðu verið í samræmi við samkomulagið janúar, febrúar og mars, en reikningurinn í apríl hafi ekki verið í samræmi við samkomulagið. Reikningurinn í apríl hafi verið sömu fjárhæðar og fyrri reikningar en átti að vera lægri. Athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu stefnda og samkomulag orðið um að leiðrétta þetta með ákveðnum hætti þannig að er upp væri staðið í lok september, væri heildargreiðsla samanlagt fyrir alla mánuðina frá áramótum sú sama og samið hefði verið um í janúar 2003. Niðurstaða: Hákon Guðbjartsson framkvæmdastjóri, sem verið hefur í fyrirsvari fyrir stefnda í þessu máli og undirritaði fyrir hönd stefnda samstarfssamning aðila um hugbúnaðargerð 20. júlí 2001 og stóð jafnframt að munnlegu samkomulagi með aðilum um áramótin 2002/2003 um breytingu á samskiptum aðila, tjáði fyrir réttinum, að að undanskildum þeim breytingum sem urðu á samskiptum aðila um áramótin 2002/2003, hafi samningur aðila frá 20. júlí 2001 verið í gildi milli þeirra. Með bréfi, dags. 30. júní 2003, var samningi þessum sagt upp af forstjóra stefnda. Ekki er upplýst hvenær bréf þetta barst fyrirsvarsmönnum stefnanda. Framkvæmdastjóri stefnanda sagði fyrir réttinum að fundur hefði verið haldinn með aðilum á tímabilinu 10. til 12. júlí 2003, m.a. út af uppsögninni. Þorvaldur Sigurður Arnarson, tæknilegur framkvæmdastjóri stefnanda, sem sótti fundinn, sagði hins vegar, að líklegt væri að fundurinn hafi verið haldinn 8. júlí 2003. Gera verður því ráð fyrir að uppsögnin hafi borist stefnanda á tímabilinu 30. júní til 8. júlí 2003. Í áttundu grein samningsins frá 20. júlí 2001 segir m.a. um gildistíma og uppsögn: Eftir þann tíma [þ.e. er stefndi hafði móttekið 2.400 einingar, sem ekki er deilt um að stefndi hafi gert] er samningurinn uppsegjanlegur og tekur uppsögn gildi þegar í stað. Þrátt fyrir uppsögn ber BH [nú stefnandi] skylda til þess að ljúka og skila þeim verkum sem ÍE [stefndi] hefur þegar pantað og skilgreind hafa verið í verkáætlunum sbr. 2. gr. Að sama skapi ber ÍE skylda til að greiða fyrir verk sem unnin hafa verið og skilað að beiðni ÍE sbr. 2. gr. og eru móttökuhæf, en ógreidd við uppsögn. Ekki liggja fyrir í málinu nein gögn um framkvæmd annarrar greinar samnings aðila, sem fjallar um framkvæmdanefnd, verkáætlanir, skil og móttöku verka, en greinin er orðrétt rakin hér að framan í lýsingu málavaxta. Verkáætlanir í samræmi við samningsákvæðið hefði mátt hafa að leiðarljósi um samskipti aðila síðustu mánuði fyrir uppsögn samningsins. Hins vegar liggur fyrir í málinu að Hákon Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá stefnda, vildi ekki verða við tilmælum stefnanda um skriflega breytingu á samningi aðila um áramótin 2002/2003, enda þótt tímabundnar breytingar á samningi aðila hefðu þá verið gerðar að frumkvæði hans. Aðila greinir á um hvað fram fór á fundi, sem haldinn var með aðilum eftir uppsögn samnings þeirra í júlí 2003 og hvort Bjarni Hákonarson hafi með öðrum sótt fundinn af hálfu stefnanda. En skrifleg fundargerð liggur ekki fyrir. Óumdeilt er þó að samkomulag varð um að stefnandi ynni áfram að verkefnum fyrir stefnda til 18. sama mánaðar. Hákon kvaðst hafa lagt fyrir Bjarna og Þorvald að láta vinna sjö verkliði, sem ljóst hefði verið að ljúka mætti við fyrir miðjan mánuðinn, fyrir þóknun, sem miðuð væri við 18 daga tímagjald í hlutfalli af áætlaðri þóknun stefnanda fyrir vinnu í júlí 2003 að fjárhæð 2.511.216 kr. er gerir 1.455.217 kr. Af hálfu stefnanda er hins vegar haldið fram að Bjarni hafi ekki sótt þennan fund. Þorvaldur Sigurður Arnarson, er fundinn sótti að hálfu stefnanda, sagði fyrir réttinum, að komist hefði verið að þeirri niðurstöðu að nýta bæri tímann til 18. júlí til að bjarga því sem bjargað yrði af hugbúnaðargerðinni. Hann mótmælti því að Hákon hefði lagt fyrir hann að einungis yrði unnið að ákveðnum sjö verkefnum og engum öðrum. Þá mótmælti hann því að fjármál hefðu verið rædd á fundinum. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki afhent honum öll gögn um hugbúnaðargerðina, sem stefnandi hafi unnið fyrir stefnda í júlí 2003. Þessu er andmælt af hálfu stefnanda, sem staðhæfir að hafa ekki haldið eftir slíkum gögnum. Þar sem ekkert liggur fyrir í málinu sem sýnir að stefnandi haldi gögnum, sem hann vann fyrir stefnda í júlí 2003, verður gegn andmælum stefnanda ekki fallist á þessa málsástæðu stefnda. Með tilkynningu forstjóra stefnda um, að stefndi væri hættur frekari þjónustukaupum af stefnanda, var samningi aðila sagt upp í samræmi við ákvæði 8. gr. samningsins. Með öðrum orðum var samningurinn fyrirvaralaust felldur niður. Upp frá því lá raunar ekkert skriflegt fyrir um það, hvernig staðið yrði að viðskiptum aðila í framtíðinni, hvað greiða bæri fyrir verkefni, sem stefndi hugsanlega fæli stefnanda að vinna, hvernig þau skyldu unnin, hvenær skilað, hvaða gæðakröfur væru gerðar o.s.frv. Gegn andmælum stefnanda hefur stefndi ekki sannað að hafa einungis falið stefnda að vinna ákveðin sjö verkefni gegn ákveðnu gjaldi eftir uppsögn stefnda á samstarfssamningi aðila um hugbúnaðargerð. Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á að umkrafin greiðsla sé ósanngjörn miðað við eðli hugbúnaðargerðar, er stefnandi vann fyrir hann í júlí 2003, og gæði hennar að öðru leyti. Samkvæmt framangreindu verður fallist á kröfur stefnanda. Rétt er að stefndi greiði stefnanda málskostnað, svo sem nánar er kveðið á um í dómsorði. Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn. DÓMSORÐ: Stefndi, Íslensk erfðagreining ehf., greiði stefnanda, Hreimi ehf., 5.365.547 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. ágúst 2003 til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 39/2022 | Kærumál Jörð Fasteign Samlagsaðild Kröfugerð Viðurkenningarkrafa Frávísunarúrskurður Landsréttar staðfestur | Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli AJ á hendur K, K ehf., M, R og AB var vísað frá héraðsdómi. Ágreiningur málsins laut einkum að afmörkun jarðarinnar Dalbæjar 1, sem er í eigu AJ, gagnvart jörðunum Dalbær 2 og Dalbær 3 og nýtingu jarðarinnar. Með fyrri kröfu sinni krafðist AJ viðurkenningar á því að Dalbæ 2 og Dalbæ 3 tilheyrði leiguland úr Dalbæ 1 innan nánar tilgreindra merkja og beindi kröfunni að öllum varnaraðilum. Með seinni viðurkenningarkröfu AJ á hendur sömu aðilum var þess krafist að nánar tiltekið landsvæði tilheyrði Dalbæ 1 en að Dalbær 2 og Dalbær 3 ættu þar óskiptan beitarrétt að einum þriðja á móti Dalbæ 1, í samræmi við byggingarbréf 12. desember 1950. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að þar sem krafa AJ á hendur hverjum varnaraðila væri samhljóða hafi verið ástæðulaust að tiltaka sérstaklega hvers væri krafist með endurtekningu sömu orða fyrir hvern varnaraðila um sig. Var því ekki fallist á að 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála leiddi til frávísunar kröfunnar á þeim grundvelli. Hins vegar var talið að kröfugerð AJ uppfyllti ekki áskilnað d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um ákveðna og skýra kröfugerð. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júní 2022 en kærumálsgögn bárust réttinum 4. júlí 2022. Kærður er úrskurður Landsréttar 10. júní 2022 þar sem kröfum sóknaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka kröfur hennar til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.4. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum hverjum fyrir sig kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.Ágreiningsefni5. Ágreiningur málsins lýtur einkum að afmörkun jarðarinnar Dalbæjar 1 gagnvart jörðunum Dalbær 2 og Dalbær 3 og nýtingu jarðarinnar en sóknaraðili er þinglýstur eigandi Dalbæjar 1. Fyrir Hæstarétti krefst sóknaraðili þess að felldur verði úr gildi úrskurður Landsréttar þar sem viðurkenningarkröfum hennar var vísað frá héraðsdómi. Annars vegar var þar vísað frá kröfu hennar um að Dalbæ 2 og Dalbæ 3 tilheyrði leiguland úr jörðinni Dalbæ 1 innan tiltekinna merkja á þeim grundvelli að ekki væru uppfyllt skilyrði samlagsaðildar eftir 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Hins vegar kröfu hennar um að Dalbæ 1 tilheyrði nánar tiltekið landsvæði og að Dalbær 2 og Dalbær 3 ættu þar óskiptan beitarrétt að einum þriðja á móti Dalbæ 1 í samræmi við efni byggingarbréfs 12. desember 1950. Þeirri kröfu var vísað frá héraðsdómi þar sem hún þótti ekki fullnægja áskilnaði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.Málsatvik6. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var jörðin Dalbær upphaflega ein Miðfellsjarða í Hrunamannahreppi. Sameiginlegt landamerkjabréf var gert fyrir jarðirnar 3. júní 1885 og þinglesið 10. sama mánaðar. Með landskiptagerð fyrir Miðfellsjarðir árið 1914 fékk Dalbær í sinn hlut austasta hluta landsins innan nánar tiltekinna merkja.7. Magnús Guðmundsson fékk afsal fyrir Dalbæ frá föður sínum, Guðmundi Guðmundssyni, 17. desember 1930. Þar var Guðmundi og Páli, syni hans og bróður Magnúsar, áskilin ábúð hvor á sínum helmingi jarðarinnar. Eftir andlát Guðmundar árið 1938 bjó Páll áfram á jörðinni. Magnús byggði síðar Brynjólfi Geir, syni Páls, fjórðung jarðarinnar með byggingarbréfi 12. desember 1950. Þar sagði að fjórðungur jarðarinnar væri byggður honum til löglegrar erfðaábúðar til stofnunar nýbýlis. Merkjum var þar lýst auk þess sem nýbýlið skyldi hafa beitiland á nánar tilteknu landi. Ekki munu hafa farið fram formleg landskipti af þessu tilefni. Árið 1951 samþykkti ráðherra að nýbýlið fengi nafnið Dalbær 2. 8. Með yfirlýsingu 2. apríl 1957 var jörðin Dalbær 1 gerð að ættaróðali. Þar sagði að Magnús legði óðalinu til allt land jarðarinnar og það sem hann ætti í íbúðarhúsinu en að Páll legði til íbúðarhúsið að öðru leyti og öll önnur hús og mannvirki jarðarinnar. Jafnframt kom þar fram að yfirlýsingin tæki „að sjálfsögðu að engu leyti til býlisins Dalbær II“. Skyldi Páll vera fyrsti óðalseigandi jarðarinnar. Páll lést árið 1966. Jóhann, sonur Páls, fékk óðalsafsal 14. desember 1969 fyrir Dalbæ 1 en hann hafði búið ásamt Magnúsi og Páli á jörðinni og tekið við búrekstri árið 1964. Jóhann lést árið 1987 og tóku fjögur barna hans, þeirra á meðal sóknaraðili, við jörðinni sem síðar var leyst úr óðalsböndum 28. nóvember 1989. Sóknaraðili keypti jörðina af systkinum sínum árið 1997 og er þinglýstur eigandi hennar.9. Magnús Guðmundsson lést árið 1974. Hann var þinglýstur eigandi Dalbæjar 2 allt fram til þess að Brynjólfur Geir fékk eignardóm fyrir Dalbæ 2 með dómi Héraðsdóms Suðurlands 4. maí 1994. Brynjólfur Geir lést árið 2003 og situr ekkja hans, varnaraðilinn Kristjana, í óskiptu búi eftir eiginmann sinn. Hún er þinglýstur eigandi Dalbæjar 2 á grundvelli búsetuleyfis 27. október 2003.0. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að Brynjólfur Geir hafi afsalað syni sínum, varnaraðilanum Magnúsi Páli, 7.500 fermetra lóð úr landi jarðarinnar Dalbæjar 2 til byggingar íbúðarhúss með samningi 21. ágúst 1980, en hann hafði tekið við ábúð á hluta hennar sama ár. Með kaupsamningi og afsali 1. október 1993 seldi Brynjólfur Geir Dalbæ 2 til varnaraðilans Magnúsar Páls að undanskildum nánar tilteknum spildum og húsum. Varnaraðilanum Magnúsi Páli var auk þess veitt leyfi ráðherra 3. desember 1993 til að stofna nýbýlið Dalbær 3 úr hluta af landi Dalbæjar 2. Með afsali 15. desember 2003 afsalaði varnaraðilinn Kristjana til varnaraðilans Magnúsar Páls eignarhlutum sem voru undanskildir í fyrrgreindum kaupsamningi og voru þeir í kjölfarið sameinaðir Dalbæ 3. 1. Brynjólfur Geir afsalaði 14. nóvember 1999 1,3 hektara frístundabyggð úr landi Dalbæjar 2 til varnaraðilans Önnu Brynjólfsdóttur og var deiliskipulag vegna svæðisins samþykkt 5. maí 2000 af sveitarstjórn Hrunamannahrepps. Sama ár var frístundabyggðinni skipt út úr landi Dalbæjar 2 með samþykki ráðherra. Sveitarstjórn Hrunamannahrepps samþykkti einnig deiliskipulag 20,3 hektara frístundabyggðar á spildu úr landi Dalbæjar 3 árið 2007, svonefnda Markaflöt. Frístundabyggðinni var skipt út úr landi Dalbæjar 3 með samþykki ráðherra 8. febrúar 2016. Þinglýstur eigandi hennar er varnaraðilinn Klettholt ehf. sem er að öllu leyti í eigu varnaraðilans Magnúsar Páls. Þá afsöluðu varnaraðilarnir Magnús Páll og Rut 26. maí 2004 hluta af Dalbæ 3 til varnaraðilans Klettholts ehf., en félagið afsalaði þeim 14. maí 2006 íbúðarhúsi sem það hafði fengið með fyrrgreindu afsali. Árið 2014 var svo 2.400 fermetra spildu, Ketilhólum 2, skipt úr Dalbæ 2 og er varnaraðili Kristjana þinglýstur eigandi hennar.NiðurstaðaUm samlagsaðild2. Með fyrri kröfu sinni krefst sóknaraðili viðurkenningar á því að Dalbæ 2 og Dalbæ 3 tilheyri leiguland úr Dalbæ 1 innan nánar tilgreindra merkja. Viðurkenningarkröfunni er beint að öllum varnaraðilum. Með seinni viðurkenningarkröfu sóknaraðila á hendur sömu aðilum er þess krafist að nánar tiltekið landsvæði tilheyri Dalbæ 1 en að Dalbær 2 og Dalbær 3 eigi þar óskiptan beitarrétt að einum þriðja á móti Dalbæ 1, í samræmi við byggingarbréf 12. desember 1950.3. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að beina kröfu að fleiri en einum ef dómkröfur eiga rót að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Með því er veitt ákveðið réttarfarshagræði sem fæst af því að þurfa ekki að reka mörg mál og endurtaka í lítt breyttri mynd lýsingu málsatvika og málsástæðna sem reist eru á sömu eða líkum sönnunargögnum.4. Af því sem rakið hefur verið er ljóst að málatilbúnaður sóknaraðila á hendur varnaraðilum er reistur á fyrrgreindu byggingarbréfi 12. desember 1950 og að varnaraðilar leiði allir rétt sinn frá því. Var sóknaraðila því heimilt að beina dómkröfum sínum að þeim öllum á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 enda grundvallast málatilbúnaður sóknaraðila á að dómkröfur á hendur varnaraðilum verði raktar til sama löggernings í skilningi ákvæðisins og verður ekki séð að vörnum hafi verið áfátt af þeim sökum.5. Af orðalagi 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 má ráða að þegar þessarar heimildar er neytt verður að beina sérstakri kröfu að hverjum og einum varnaraðila. Varðar það frávísun máls af sjálfsdáðum sé þess ekki gætt og má um það vísa til dóms Hæstaréttar 20. nóvember 2012 í máli nr. 644/2012. Hér er þess þó að gæta að krafa sóknaraðila á hendur hverjum varnaraðila um sig var samhljóða. Af þeim sökum var ástæðulaust að tiltaka sérstaklega hvers krafist væri af hendi sóknaraðila með endurtekningu sömu orða fyrir hvern varnaraðila um sig. Nægði í þeim efnum að þetta væri gert í eitt skipti fyrir alla varnaraðila, sbr. dóm Hæstaréttar 29. apríl 2014 í máli nr. 240/2014. Verður því ekki fallist á að ágalli sé á kröfugerð sóknaraðila að þessu leyti sem varðað geti frávísun málsins.Um kröfugerð sóknaraðila6. Meginskilyrði þess að dómstólar leysi úr sakarefni er að það skipti máli fyrir stöðu aðila að lögum að fá dóm um það. Þannig verður sá sem höfðar mál að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sína og verður úrlausn um það að hafa raunhæft gildi fyrir réttarstöðu hans. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili sem hefur lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands leitað viðurkenningardóms um kröfu sína. Af d-lið 1. mgr. 80. gr. laganna leiðir að kröfugerð í slíkri málsókn verður að taka til viðurkenningar á tilteknum réttindum. 7. Sóknaraðili hefur hagað kröfugerð sinni með þeim hætti að í fyrri viðurkenningarkröfu felst krafa um viðurkenningu „leigulands“ á jörð hennar Dalbæ 1 varnaraðilum til handa án þess að lýsa með nokkru móti inntaki þess réttar sem byggt er á af hálfu sóknaraðila að hvíli á erfðafestu samkvæmt byggingabréfi 12. desember 1950. Með seinni viðurkenningarkröfu sinni krefst sóknaraðili þess að jarðirnar Dalbær 2 og Dalbær 3 eigi óskiptan beitarrétt að einum þriðja hluta á móti Dalbæ 1 á nánar tilteknum hluta jarðarinnar, sem að öðru leyti „tilheyri“ Dalbæ 1, án þess að nánari grein sé gerð fyrir hvaða eignarréttarlegu réttindi felist í því og jafnframt samhengi þeirrar kröfu við fyrri viðurkenningarkröfu sóknaraðila. 8. Kröfugerð sóknaraðila í þessu horfi uppfyllir ekki áskilnað d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um ákveðna og skýra kröfugerð. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að vísa málinu í heild frá héraðsdómi á þeim grundvelli.9. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur.Sóknaraðili greiði varnaraðilum, Kristjönu Sigmundsdóttur, Klettholti ehf., Magnúsi Páli Brynjólfssyni, Rut Sigurðardóttur og Önnu Brynjólfsdóttur, hverju fyrir sig 50.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=bb2da3ab-0354-4efb-86da-e660154cc884&verdictid=968bdf53-0c13-4405-9518-5a17e11b63f8 |
Mál nr. 137/2017 | Kærumál Samningur Lán Handveð Hlutafélag Tómlæti | Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A ehf. um að viðurkennt yrði að nánar tilgreindir löggerningar félagsins væru ógildir. Hafði A ehf. lýst kröfunni við slit E ehf. 16. ágúst 2012 en henni verið hafnað. Fyrir lá að ákvörðun hafði verið tekin á hluthafafundi A ehf. 18. janúar 2011 um að höfða mál á hendur E ehf. til ógildingar gerninganna. Í dómi Hæstaréttar kom fram að eftir meginreglu kröfuréttar, sem meðal annars byggi að baki ákvæði 1. mgr. 32. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. og annan málslið 3. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, gæti annar samningsaðili glatað rétti til að bera fyrir sig vanefnd eða annað réttarbrot viðsemjanda síns ef athugasemdum væri ekki hreyft af slíku tilefni án ástæðulauss dráttar. Að jafnaði féllu réttaráhrif samninga og annarra löggerninga niður með afturvirkum hætti við ógildingu þeirra og væri því um að tefla úrræði sem leitt gæti til mikillar röskunar, ekki aðeins fyrir aðila að slíkum gerningum heldur fyrir viðskiptalífið í heild. Sérstaklega ætti þetta við um gerninga sem gætu gengið kaupum og sölum eða yrðu settir öðrum að veði til tryggingar efndum í viðskiptum. Væri því rík ástæða til að krafa um ógildi slíkra gerninga væri höfð uppi án ástæðulausrar tafar. Var talið að þegar hluthafafundur samþykkti á fyrrnefndum fundi að höfða mál á hendur E ehf. hefði borið að höfða málið án ástæðulauss dráttar. Ekki stoðaði fyrir A ehf. að bera því við gagnvart E ehf. og AA ehf. að stjórn A ehf. hefði látið það undir höfuð leggjast að framfylgja samþykktinni. Þá hefði sala E ehf. á bankarekstri sínum 11. apríl 2011 samhliða því að veita kaupandanum veð í kröfum sínum á hendur A ehf. gefið þeim síðastnefnda sérstakt tilefni til að höfða án frekari undandráttar mál til ógildingar löggerninganna í samræmi við samþykkt hluthafafundarins. Auk þess hefði fyrirsvar og eignarhald á E ehf. þá breyst frá því sem áður hafði verið. Þrátt fyrir þessar breyttu aðstæður hefði A ehf. ekki gert reka að kröfum sínum fyrr en með kröfulýsingu sinni þegar liðið var meira en eitt og hálft ár frá samþykkt hluthafafundarins. Var því talið óhjákvæmilegt að líta svo á að A ehf. hefði glatað fyrir tómlæti rétti sínum til að hafa kröfurnar uppi. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, GretaBaldursdóttir og Karl Axelsson.Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2017, enkærumálsgögn bárust réttinum 9. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur9. febrúar 2017 þar sem leyst var úr ágreiningi um viðurkenningu kröfu semsóknaraðili lýsti við slit varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. Kæruheimilder í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr.102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Sóknaraðili krefst þess að viðurkenntverði að eftirtalin viðskipti séu ógild: Lánssamningur milli EA fjárfestingarfélagsehf., sem þá hét MP Banki hf., og sóknaraðila 28. september 2009 að fjárhæð442.011.457 krónur, tvær handveðsyfirlýsingar sóknaraðila til handa EAfjárfestingarfélagi ehf. sama dag, yfirtaka sóknaraðila 30. sama mánaðar á lánssamningi,sem áður hafði verið gerður milli EA fjárfestingarfélags ehf. og Orange InternationalInvestment Ltd. að fjárhæð 2.999.980 bandaríkjadalir, lánssamningur 27.nóvember 2009 milli EA fjárfestingarfélags ehf. og sóknaraðila að fjárhæð650.161.425 krónur, þrjár handveðsyfirlýsingar sóknaraðila til handa EAfjárfestingarfélagi ehf. sama dag, kaup sóknaraðila á hlutabréfum í AuroraHolding hf. 30. sama mánaðar að nafnverði 4.600.000 krónur, yfirlýsing 30.desember 2009 þar sem sóknaraðili setti EA fjárfestingarfélagi ehf. að handveðihlutabréf í Vostok Holding Netherlands BV og loks samkomulag 14. janúar 2011 milliEA fjárfestingarfélags ehf. og sóknaraðila um breytingar á lánskjörum samkvæmtáðurgreindum samningum 28. september og 27. nóvember 2009. Þá krefstsóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.Varnaraðilinn EA fjárfestingarfélagehf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.Varnaraðilinn Avenue A ehf. krefstaðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að höfuðstóll hvorslánssamnings milli varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. og sóknaraðila 28. september og27. nóvember 2009 verði lækkaður. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.ISamkvæmt gögnum málsins var sóknaraðili stofnaður 2. mars 2006, upphaflegasem hlutafélag, en var í júlí 2011 breytt í einkahlutafélag. Samkvæmtstofnsamningi var hlutaféð í upphafi 520.000.000 krónur og skiptist það þannigmilli stofnenda: Margeir Pétursson ehf. 65.000.000 krónur eða 12,5% afhlutafénu, MP Fjárfestingarbanki hf., nú varnaraðilinn EA fjárfestingarfélagehf., 65.000.000 krónur eða 12,5%, FSP Holding ehf. 130.000.000 krónur eða 25%,Guðmundur A. Birgisson 65.000.000 krónur eða 12,5%, Saxbygg ehf. 65.000.000krónur eða 12,5%, Fasteignafélagið Ósland ehf. 65.000.000 krónur eða 12,5% ogVostok Holdings ehf. 65.000.000 krónur eða 12,5%. Stjórnarformaður sóknaraðilavar Sigfús B. Ingimundarson og meðal stjórnarmanna var Margeir Pétursson semjafnframt var framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Hinn 3. janúar 2008 var hlutafé sóknaraðila hækkað í 1.000.000.000krónur. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2008 var eign stærstuhluthafa þess sem hlutfall af heildarhlutafé eftirfarandi: FSP Holding ehf.27%, Margeir Pétursson ehf., MP Banki hf., nú varnaraðilinn EAfjárfestingarfélag ehf., og Vostok Holdings ehf. 13,5% hjá hverjum þeirra um sigog Saxbygg ehf. 12,5%. Eftir ársreikningi sóknaraðila fyrir árið 2009 var þessihlutafjáreign óbreytt, að öðru leyti en því að hlutafé MP Banka hf. hafði aukistí 20% af heildarhlutafé félagsins. Á yfirliti yfir hluthafa í sóknaraðila 12.janúar 2011 kom fram að eigendur hlutafjár í félaginu væru eftirtaldir: FSPHolding ehf. 270.000.000 krónur eða 27% af hlutafénu, Dexter Fjárfestingar ehf.67.500.000 krónur eða 6,75%, Fari ehf. 67.500.000 krónur eða 6,75%, MP Banki hf.470.000.000 krónur eða 47% og Icarus ehf., áður Saxbygg ehf., 125.000.000krónur eða 12,5%. Samkvæmt skráningu í hlutafélagaskrá 30. september 2009 varSigfús B. Ingimundarson enn stjórnarformaður sóknaraðila og Margeir Pétursson stjórnarmaðurauk þess að vera framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Þá kom fram í tilkynningutil hlutafélagaskrár 28. júlí 2010 að Einar S. Hálfdánarson hafi tekið við semstjórnarformaður félagsins, en Margeir sæti áfram í stjórn og væri framkvæmdastjóriog prókúruhafi þess.Meðal gagna málsins eru upplýsingar úr hlutafélagaskrá um nokkra af fyrrgreindumhluthöfum í sóknaraðila. Samkvæmt þeim var Margeir Pétursson stofnandi MargeirsPéturssonar ehf. og Hraunbjarg ehf. stofnandi Vostok Holdings ehf. StjórnarformaðurVostok Holdings ehf. var Sigfús B. Ingimundarson, en Margeir sat í stjórnfélagsins og var að auki framkvæmdastjóri og prókúruhafi þess. Meðal stofnendaHraunbjargs ehf. voru Dexter Fjárfestingar ehf., Fari ehf. og MP Banki hf. Stjórnarformaðurþess félags var Einar S. Hálfdánarson. Dexter Fjárfestingar ehf. var meðalannarra stofnað af Jóni og Sigurði Gísla Pálmasonum. Var Sigurður Gíslistjórnarformaður félagsins og prókúruhafi, en áðurnefndur Sigfús framkvæmdastjóriog jafnframt prókúruhafi þess. Þá voru meðal stofnenda Fara ehf. þeir Jón ogSigurður Gísli. Var Jón stjórnarformaður þess félags og prókúruhafi, en Sigfúsframkvæmdastjóri og prókúruhafi þess.Samkvæmt skráningu í hlutafélagaskrá 30. september 2009 var MargeirPétursson stjórnarformaður MP Banka hf., nú varnaraðilans EAfjárfestingarfélags ehf., og jafnframt prókúruhafi félagsins ásamtframkvæmdastjóra þess, Gunnari Karli Guðmundssyni. Þá sátu Sigfús B.Ingimundarson og Sigurður Gísli Pálmason í stjórn félagsins. Einnig kom þarfram að bæði Margeir og samnefnt einkahlutafélag hans hafi verið meðal fimmstofnenda félagsins. Samkvæmt hlutafélagaskrá voru Margeir og Sigurður Gíslihorfnir úr stjórn félagsins 23. desember 2010, en Sigfús sat þar áfram. Þá varMargeir ekki lengur prókúruhafi þess. Í dómi Hæstaréttar 16. maí 2012 í málinr. 593/2011 er fjallað um eignarhald á MP Banka hf. á þeim tíma sem hér umræðir. Samkvæmt því, sem þar segir, áttu Hraunbjarg ehf. og önnur félög, semMargeir Pétursson, Sigfús B. Ingimundarson og Jón og Sigurður Gísli Pálmasynirstýrðu og áttu að stórum hluta, samtals 66,1% hlutafjár í MP Banka hf. íársbyrjun 2010. Eftir að bankastarfsemi félagsins var seld til nb.is-sparisjóðshf., nú MP banka hf., sem mun hafa verið 1. apríl 2011, hafði eignarhaldið hinsvegar breyst þannig að eignarhlutur umræddra félaga í EA fjárfestingarfélagi hf.,eins og félagið hét í lok þess mánaðar, var þá orðinn hverfandi í samanburðivið það sem áður hafði verið.IIÍ hinum kærða úrskurði er gerð greinfyrir áðurgreindum löggerningum sem gerðir voru haustið 2009 og krafasóknaraðila lýtur að. Lánssamningarnir 28. september og 27. nóvember það ármilli varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf., sem þá hét MP Banki hf., ogsóknaraðila voru undirritaðir af þremur stjórnarmönnum þess síðarnefnda, þeirraá meðal Sigfúsi B. Ingimundarsyni og Margeiri Péturssyni. Aðrir gerningar, semhér um ræðir, voru flestir undirritaðir af þeim sömu fyrir hönd sóknaraðila, íeinu tilviki af Sigfúsi sem stjórnarformanni hans, í öðru af Margeiri semframkvæmdastjóra og í því þriðja af honum ásamt öðrum stjórnarmanni. Þá tókuþeir Sigfús og Margeir væntanlega sameiginlega ákvörðun um kaup sóknaraðila áhlutabréfum í Aurora Holding hf. 30. nóvember 2009 á grundvelli umboðs sem þeimvar veitt á fundi í stjórn hans 9. október sama ár. Á þeim fundi voru mættir fjóriraf fimm stjórnarmönnum sóknaraðila, þeirra á meðal Sigfús og Margeir. Samkvæmtfundargerð gerðu þeir tveir „grein fyrir hugmyndum um að nýta eiginfjárhlutfallfélagsins til fjárfestinga, sérstaklega á meðan lítið væri að gerast ífasteignamálum félagsins.“ Síðan var fært til bókar: „Með vísan til þess samþykkistjórn að veita framkvæmdastjóra og formanni stjórnar heimild til eftirfarandiráðstafana: Kaup á eignarhlut Vostok Holdings Netherlands B.V. fyrir allt að 2m. EUR. Kaup á vaxtaberandi eignum í A-Evrópu fyrir allt að 3,5 m. EUR.Samhliða samþykki stjórn félagsins lántöku vegna ofangreindra fjárfestinga semog veðsetningu á eignum félagsins vegna þeirra. Þá var stjórnarformanni ogframkvæmdastjóra einnig veitt umboð til að semja um, samþykkja, undirrita ogganga frá nauðsynlegum skjölum, þ.m.t. kaupsamningnum, lánssamningum ogveðskjölum, vegna framangreindra fjárfestinga.“ Í fundargerðinni kom ekki framað þeir samningar og önnur viðskipti, sem um var rætt, yrðu gerð við MP Bankahf., en með hliðsjón af öðrum gögnum málsins liggur ljóst fyrir að sú varraunin, enda ekki um það deilt milli málsaðila.Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði ritaði stjórn FSP Holding ehf.bréf til stjórnarformanns sóknaraðila 13. september 2010 í tilefni þess að húnhefði verið upplýst um þær ráðstafanir sem gerðar höfðu verið haustið 2009 ogmál þetta snýst fyrst og fremst um. Með bréfi 27. sama mánaðar krafðist stjórn FSPHolding ehf. þess að boðað yrði til hluthafafundar í sóknaraðila, þar á meðaltil að ræða ákvörðun stjórnar hans „um að kaupa af MP Banka hf. bundin innlán íBank Lviv og hlut í félaginu Vostok Holdings Netherlands BV“. Einnig hugsanlegaskaðabótaábyrgð stjórnarmanna í sóknaraðila, sem staðið hefðu að umræddumráðstöfunum, og hvort krefjast ætti opinberrar rannsóknar á störfum stjórnarinnar.Í samræmi við kröfu þessa hluthafa í sóknaraðila var boðað til hluthafafundur íhonum 19. nóvember 2010. Í fundarboðinu kom fram að þar ætti meðal annars aðfjalla um ógjaldfærni sóknaraðila í kjölfar gjaldfellingar MP Banka hf., núvarnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf., á skuldbindingum hans gagnvartbankanum, en innheimtuaðgerðir væru þegar hafnar. Á fundinum þar sem mættir vorufulltrúar allra hluthafanna var felld tillaga um að hnekkja með dómi ýmsum afþeim ráðstöfunum, sem að framan greinir, en hins vegar samþykkt að fram skyldi farasérstök rannsókn á þeim á grundvelli XI. kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög.Svo sem áður greinir voru 14. janúar 2011 gerðar breytingar á skilmálumþeirra lánssamninga, sem gerðir höfðu verið milli MP Banka hf., núvarnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf., og sóknaraðila 28.september og 27. nóvember 2009. Eftir samkomulagi aðilanna, sem Einar S.Hálfdánarson, þáverandi stjórnarformaður sóknaraðila, ritaði undir af hanshálfu, var höfuðstóll fyrra lánsins hækkaður úr 442.011.457 krónum í485.858.994 krónur og þess síðara úr 650.161.425 krónum í 701.668.658 krónur.Hinn nýi höfuðstóll var í báðum tilvikum miðaður við upphaflegan gjalddagalánanna, 15. júlí 2010, jafnframt því sem samið var um að gjalddagi þeirraskyldi vera 26. ágúst 2014.Hinn 18. janúar 2011 var haldinnhluthafafundur í sóknaraðila þar sem mættir voru fulltrúar allra hluthafanna,þeirra á meðal Gunnar Karl Guðmundsson, framkvæmdastjóri varnaraðilans EAfjárfestingarfélags ehf. sem þá hét MP Banki hf. Fyrir fundinum lá tillagaþrotabús Icarusar ehf., áður Saxbyggs ehf., sem borin var upp af skiptastjórabúsins „um að hluthafafundur í Austurbraut hf. samþykki að höfða skuli mál áhendur MP Banka hf. ... til að fá eftirtaldar ráðstafanir dæmdaróskuldbindandi, felldar úr gildi eða hnekkt með öðrum hætti: 1. KaupAusturbrautar hf. á innlánum í Bank Lviv á árinu 2009 af MP Banka hf., aðfjárhæð nálægt kr. 450.000.000. 2. Kaup í Vostok Holdings Netherlands B.V. áárinu 2009 af MP Banka hf. á 4,7% hlut í félaginu ... 3. Gerð tveggjalánssamninga við MP Banka hf. á árinu 2009.“ Þar sem tillagan fjallaði um aðhöfða skyldi mál á hendur MP Banka hf. tók bankinn sem hluthafi ekki þátt íatkvæðagreiðslu um hana. Var tillagan samþykkt með atkvæðum fulltrúa FSPHolding ehf. og þrotabús Icarusar ehf., en fulltrúar Dexter Fjárfestinga ehf.og Fara ehf. greiddu atkvæði gegn henni. Síðan var skráð í fundargerðhluthafafundarins: „Stjórn félagsins upplýsir að með samþykkt tillögunnarfælust fjárskuldbindingar sem félagið hefur ekki burði til að standa undir.Stjórnin óskaði þess að flutningsmaður upplýsti hvort hann vilji taka að sér aðflytja málið gegn fastri þóknun sem greiðist einungis ef málið vinnst.“ Færtvar til bókar að skiptastjóri þrotabús Icarusar ehf. hafi tekið til máls ogsagst „tilbúinn að taka það til skoðunar.“Með samningi 1. apríl 2011 munvarnaraðilinn EA fjárfestingarfélag ehf., sem bar enn heitið MP Banki hf., hafaselt nb.is-sparisjóði hf. allan bankarekstur sinn hér á landi og í Litháen auknánar tilgreindra eigna. Samdægurs og til tryggingar skilvísri og skaðlausrigreiðslu varnaraðilans á öllum skuldum hans og skuldbindingum við sparisjóðinnvar honum veitt veð í kröfum varnaraðilans á hendur sóknaraðila samkvæmtlánssamningunum frá 28. september og 27. nóvember 2009. Samhliða var Einari S.Hálfdánarsyni, stjórnarformanni sóknaraðila, tilkynnt um veðsetninguna fyrirhans hönd. Með samningi 21. mars 2013 framseldi veðhafinn, sem þá hét orðið MPbanki hf., varnaraðilanum Avenue A ehf. umrædda veðkröfu á hendur EAfjárfestingarfélagi ehf., og samþykkti slitastjórn félagsins framsal kröfunnarfyrir sitt leyti.Hinn 8. desember 2011 kærðiskiptastjóri þrotabús Icarusar ehf. þá Margeir Pétursson og Sigfús B.Ingimundarson fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 vegnahinna umræddu ráðstafana til embættis sérstaks saksóknara. Með bréfi saksóknara16. maí 2014 var tilkynnt að málið hafi verið fellt niður.Með úrskurði héraðsdóms 1. júní 2012var varnaraðilinn EA fjárfestingarfélag ehf. tekinn til slita. Sóknaraðililýsti kröfu þeirri, sem hér er til úrlausnar, á hendur varnaraðilanum meðkröfulýsingu 16. ágúst 2012.IIIEins og áður greinir krefstsóknaraðili ógildingar á nánar tilteknum löggerningum, sem gerðir voru fyrirhans hönd haustið 2009, svo og á samkomulaginu 14. janúar 2011 sem fól í sérbreytingar á lánskjörum samkvæmt samningum hans við varnaraðilann EAfjárfestingarfélag ehf. frá 28. september og 27. nóvember 2009, en varnaraðilinnstarfaði þá og fram í júlí 2011 sem hlutafélag. Til stuðnings því að kröfusóknaraðila skuli hafnað vísa varnaraðilar meðal annars til þess að hann hafisýnt af sér slíkt tómlæti við að krefjast ógildingar gerninganna gagnvart EA fjárfestingarfélagi ehf. frá því aðtekin var ákvörðun um að höfða mál í því skyni á hluthafafundi sóknaraðila 18.janúar 2011 að hann hafi fyrirgert rétti til þess.Samkvæmt 72. gr. laga nr. 2/1995 mega stjórnarmaður eðaframkvæmdastjóri hlutafélags ekki taka þátt í meðferð máls um samningsgerðmilli félagsins og þriðja manns ef þeir hafa þar verulegra hagsmuna að gæta semkunna að fara í bága við hagsmuni félagsins. Er stjórnarmanni ogframkvæmdastjóra skylt að upplýsa um slík atvik.Þegar fundur var haldinn í stjórnsóknaraðila 9. október 2009 var Margeir Pétursson sem fyrr segirstjórnarformaður varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. og jafnframtprókúruhafi þess og þá átti Sigfús B. Ingimundarson jafnframt sæti í stjórnþess. Að auki áttu félög, sem þeir tveir ásamt Jóni og Sigurði Gísla Pálmasonumstýrðu og áttu að stórum hluta, meirihluta hlutafjár í varnaraðilanum. Þráttfyrir að Margeir og Sigfús hafi setið í stjórn hans og haft þar verulegrahagsmuna að gæta, sem augljóslega kunnu að fara í bága við hagsmunisóknaraðila, tóku þeir báðir þátt í umfjöllun á stjórnarfundinum um gerðsamninga við varnaraðilann og það, sem meira er, veittu með fulltingi annarrastjórnarmanna, sem fundinn sátu, sjálfum sér umboð til að ganga til samninga ogeiga önnur viðskipti við hann. Var hér um að ræða skýlaust brot af hálfu þeirratveggja á 72. gr. laga nr. 2/1995 án tillits til efnis þeirra samninga og annarralöggerninga sem þeir komu að fyrir hönd sóknaraðila haustið 2009.Þegar tekin er afstaða til fyrrgreindrarmálsástæðu varnaraðila verður hins vegar ekki framhjá því litið að Margeir varhorfinn úr stjórn varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. í árslok 2010 ogvar ekki lengur prókúruhafi hans. Einnig virðist svo sem eignarhlutur þeirrafélaga, sem Margeir, Sigfús, Jón og Sigurður Gísli réðu yfir, í varnaraðilanumhafa farið minnkandi um þetta leyti, að minnsta kosti var hluturinn orðinnhverfandi í lok apríl 2011 í samanburði við það sem áður hafði verið.2Eftir meginreglum kröfuréttar, sem meðal annars búa að baki ákvæði 1.mgr. 32. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. og annan málslið 3. mgr.32. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, geturannar samningsaðili glatað rétti til að bera fyrir sig vanefnd eða annaðréttarbrot viðsemjanda síns ef athugasemdum er ekki hreyft af slíku tilefni ánástæðulauss dráttar, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 28. janúar 2014 í málinr. 719/2013. Eins og tekið er fram í hinum kærða úrskurði falla réttaráhrifsamninga og annarra löggerninga að jafnaði niður með afturvirkum hætti viðógildingu þeirra og er því um að tefla úrræði, sem leitt getur til mikillarröskunar, ekki aðeins fyrir aðila að slíkum gerningum heldur fyrirviðskiptalífið í heild. Sérstaklega á þetta við um gerninga sem geta gengið kaupumog sölum eða verða settir öðrum að veði til tryggingar efndum í viðskiptum. Þvíer rík ástæða til að krafa um ógildi slíkra gerninga sé höfð uppi ánástæðulausrar tafar.Ekki verður annað ráðið af málsgögnum en að þeir löggerningar, semsóknaraðli krefst ógildingar á og gerðir voru haustið 2009, hafi allir veriðefndir eftir efni sínu að öðru leyti en því að sóknaraðili lét hjá líða aðgreiða lánin tvö, sem hann tók hjá varnaraðilanum EA fjárfestingarfélagi ehf.,á umsömdum gjalddaga, 15. júlí 2010. Með samkomulagi aðilanna 14. janúar 2011var skilmálum lánanna breytt, þar á meðal var samið um að gjalddagi þeirraskyldi vera 26. ágúst 2014. Þar sem þetta var gert án fyrirvara af hálfusóknaraðila gaf það viðsemjanda hans ástæðu til að ætla að hann liti svo á aðlánssamningarnir væru gildir og hann ætlaði sér að standa við þá fyrir sittleyti. 3Í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 2/1995 er svofyrir mælt að hluthafafundur fari með æðsta vald í málefnum hlutafélagssamkvæmt því sem lög og samþykktir þess ákveða. Í samræmi við þetta ákvæði erfélagsstjórn skylt að fara eftir fyrirmælum hluthafafundar í störfum sínum,nema hún telji þau brjóta í bága við lög eða félagssamþykktir, sbr. 2. mgr. 76.gr. laganna. Að öðrum kosti geta stjórnarmenn bakað sér skaðabótaábyrgð eftir1. mgr. 134. gr. þeirra. Þá segir í 85. gr. laganna að boða skuli tilaukafundar í hlutafélagi ef hluthafar, sem ráða yfir minnst 1/20 hlutafjárinsenda sé ekki lægra mark ákveðið í félagssamþykktum, krefjast þess skriflega oggreina fundarefni. Samþykktir sóknaraðila breyta ekki stöðu hluthafafundar fráþví sem kveðið er á um í lögum nr. 2/1995.Þegar hluthafafundurí sóknaraðila samþykkti 18. janúar 2011, að undangenginni umfjöllun áhluthafafundi 19. nóvember 2010, að höfða mál á hendur varnaraðilanum EAfjárfestingarfélagi ehf. til að fá tilteknar „ráðstafanir dæmdaróskuldbindandi“, sem meðal annars voru fólgnar í gerð lánssamninganna tveggja 28.september og 27. nóvember 2009, bar samkvæmt framansögðu að höfða málið ánástæðulauss dráttar. Ekki stoðar fyrir sóknaraðila að bera því við gagnvartvarnaraðilum að stjórn hans hafi látið undir höfuð leggjast að framfylgjasamþykktinni. Í fyrsta lagi lýsti stjórnin því þegar yfir á fundinum að húnteldi félagið ekki hafa fjárhagslega burði til að reka málið, en það hefði áttað gefa þeim hluthöfum, sem að samþykktinni stóðu, tilefni til að gefastjórninni fyrirmæli um að höfða málið engu að síður, að viðlagðri ábyrgð, sbr.1. mgr. 80. gr. og 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995, eða samþykkja ella að felaöðrum að gera það. Slíkt hefði mátt gera þegar á fundinum sjálfum eða á öðrumhluthafafundi sem hluthafarnir hefðu samkvæmt 85. gr. laganna getað krafist aðboðað yrði til. Í annan stað óskaði stjórnin eftir því á umræddum hluthafafundiað skiptastjóri þrotabús Icarus ehf. tæki að sér að flytja málið gegn þóknunsem einungis greiddist ef málið ynnist. Bókað var eftir skiptastjóranum að hannværi „tilbúinn að taka það til skoðunar“ án þess að séð verði af gögnum málsinsað hann hafi skýrt stjórninni frá endanlegri afstöðu sinni til þessararmálaleitunar hennar.Salavarnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. á bankarekstri sínum tilnb.is-sparisjóðs hf. 1. apríl 2011 samhliða því að veita honum veð í kröfumsínum á hendur sóknaraðila gaf þeim síðastnefnda sérstakt tilefni til að höfða ánfrekari undandráttar mál til ógildingar löggerninganna í samræmi við samþykkthluthafafundarins 18. janúar sama ár, ekki síst þar sem sú samþykkt var íandstöðu við afstöðu sóknaraðila þegar skilmálum lánanna tveggja var breyttfjórum dögum fyrr. Eins og áður greinir var Margeir Pétursson þá ekki lengur ífyrirsvari fyrir varnaraðilann EA fjárfestingarfélag ehf. og eignarhald áfélaginu hafði gerbreyst frá því sem áður hafði verið.Þráttfyrir þessar breyttu aðstæður verður ekki séð að sóknaraðili hafi gert reka aðkröfum þeim, sem hann gerir nú á hendur varnaraðilanum EA fjárfestingarfélagiehf., fyrr en með kröfulýsingu sinni 16. ágúst 2012 þegar liðið var meira eneitt og hálft ár frá samþykkt hluthafafundarins 18. janúar 2011. Með vísan tilþess er óhjákvæmilegt að líta svo á, svo sem héraðsdómur gerði, að sóknaraðilihafi glatað fyrir tómlæti rétti sínum til að hafa þær kröfur uppi og verðurhinn kærði úrskurður því staðfestur.Aðvirtum málsatvikum er rétt að kærumálskostnaður falli niður.Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur.Kærumálskostnaður fellur niður. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9.febrúar 2017.Máliþessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsinsmeð bréfi slitastjórnar varnaraðila, EA fjárfestingarfélags ehf., Ármúla 13a,Reykjavík, áritað um móttöku í héraðsdómi 7. júní 2013. Um lagagrundvöll vísaðislitastjórn til 120., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.,sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Sóknaraðili erAusturbraut ehf.,Skipholti 50d, Reykjavík. Með dómi Hæstaréttar 19. febrúar 2014 var Avenue Aehf., heimiluð meðalganga til varnar.Máliðvar tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð fimmtudaginn 30. nóvember 2016,en vegna anna dómsformanns var úrskurður ekki kveðinn upp innan lögmæltratímamarka. Málið var því endurflutt 2. febrúar sl. og tekið til úrskurðar aðnýju þann dag. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að eftirfarandi viðskipti séuógild: Lánssamningur milli varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf., þá MP Banka hf., og sóknaraðila 28. september 2009 að fjárhæð 442.011.457 krónur.Tvær handveðsyfirlýsingar sóknaraðila til handa sama varnaraðila 28. september 2009, þar sem annars vegar var sett að veði allt hlutafé í Torpedo Leisure Ltd., skráð á Englandi, og hins vegar allt hlutafé í Pivnichbudinvest, skráð í Úkraínu.Yfirtaka sóknaraðila á lánssamningi milli sama varnaraðila og Orange International Investment Ltd. (OIIL) með lánssamningi 30. september 2009 að fjárhæð 2.999.980 bandaríkjadalir.Lánssamningur milli sama varnaraðila og sóknaraðila 27. nóvember 2009 að fjárhæð 650.161.425 krónur.Þrjár handveðsyfirlýsingar sóknaraðila til handa sama varnaraðila 27. nóvember 2009, þar sem sú fyrsta fjallar um alla fjármálagerninga sóknaraðila á geymslusafni hjá varnaraðila; önnur lýtur að hlutabréfum í Aurora Holding hf. og og sú þriðja lýtur að lánssamningum við OIIL.Kaup sóknaraðila á hlutabréfum í Aurora Holding hf. 30. nóvember 2009 að nafnverði 4.600.000 krónur.Handveðsyfirlýsing („Pledge of Collateral„) 30. desember 2009 um hlutabréf í Vostok Holding Netherlands BV.Tvær skilmálabreytingar 14. janúar 2011, annars vegar vegna lánssamnings 28. september 2009 að fjárhæð 442.011.457 krónur og hins vegar vegna lánssamnings 27. nóvember 2009 að fjárhæð 650.161.425 krónur.Sóknaraðilikrefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila. Varnaraðilarkrefjast sýknu af öllum kröfum sóknaraðila auk málskostnaðar.Meðúrskurði 5. september 2014 var kröfu varnaraðilans Avenue A ehf. umniðurfellingu málsins vegna útivistar hafnað.HelstuágreiningsefniVarnaraðilinnEA fjárfestingarfélag ehf. (hér eftir einnig vísað til sem „varnaraðilans EA“),sem starfaði undir heitinu MP Fjárfestingarbanki hf. og undir heitinu MP Bankihf. frá 21. nóvember 2008 var tekinn til slita 1. júní 2012 að kröfu stjórnar ágrundvelli 4. töluliðar 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 umfjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Sóknaraðili lýsti kröfu viðslitin 16. ágúst 2012, þar sem þess var efnislega krafist að viðurkennt yrði aðsömu löggerningar og vísað er til í kröfugerð væru ógildir, en einnig varkrafist skaðabóta. Áður, eða 14. sama mánaðar, hafði Nb.is-sparisjóður hf. (semsíðar fékk heitið MP banki hf.) lýst veðkröfu við slitin á grundvelliyfirlýsingar 1. apríl 2011, þar sem téður varnaraðili hefði veitt sparisjóðnumveð í kröfum sínum gegn sóknaraðila samkvæmt lánssamningum 28. september 2009og 27. nóvember þess árs. Með samningi 21. mars 2013 framseldi sparisjóðurinn(sem þá hét MP banki hf.) varnaraðilanum Avenue A ehf. (hér eftir einnig vísaðtil sem „varnaraðilans Avenue A“) umrædda veðkröfu, en áður hafði slitastjórnvarnaraðilans samþykkt framsal kröfunnar fyrir sitt leyti. Slitastjórnvarnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. hafnaði fyrrgreindri kröfuvarnaraðilans Austurbrautar ehf. og þar sem ágreiningur aðila varð ekki jafnaðurvar málinu beint til héraðsdóms eftir 171. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr.120. gr. þeirra laga. Svo sem áður greinir var varnaraðilanum Avenue A ehf.heimiluð meðalganga til varnar í málinu með dómi Hæstaréttar 19. febrúar 2014.Efnislegurágreiningur aðila snýr að gildi þeirra löggerninga sem vísað er til í kröfugerðsóknaraðila og lutu að lögskiptum hans og varnaraðilans EA fjárfestingarélagshf. haustið 2009. Er í meginatriðum annars vegar um að ræða kaup eða yfirtökusóknaraðila á láni til Orange International Investment UK Ltd. Company (héreftir vísað til sem „OIIL“) sem veitt hafði verið til þess að fjármagna innlánþess félags til Bank Lviv, Úkraínu, fyrir jafnvirði u.þ.b. þrjár milljónirbandaríkjadala. Hins vegar er um að ræða kaup á félaginu Aurora Holding hf. Íbáðum tilvikum voru kaup sóknaraðila fjármögnuð með lánum frá varnaraðilanum EAí íslenskum krónum, svo sem nánar er rakið síðar. Ímeginatriðum byggir sóknaraðili á því, gegn mótmælum varnaraðila, að þeir mennsem undirrituðu téða löggerningar fyrir hönd sóknaraðila hafi ekki haft tilþess heimildir eða hafi með ráðstöfunum sínum brotið með öðrum hætti gegnákvæðum hlutafélagalaga, almennra hegningarlaga og samningalaga. Í tengslum viðþessar málsástæður greinir aðila á um hvort umrædd viðskipti hafi verið eðlilegog arðbær eða til þess fallin að þjóna hagsmunum sóknaraðila. Liggur fyrir umþennan síðargreinda þátt málsins matsgerð dómkvaddra matsmanna sem aflað var aðbeiðni sóknaraðila og sérstök grein er gerð fyrir síðar.Aðilagreinir á um málsatvik í ýmsum atriðum, svo og niðurstöður dómkvaddramatsmanna, svo sem fram kemur í umfjöllun um helstu málsástæður þeirra oglagarök.Yfirlitum málsatvikSóknaraðilivar stofnaður 2. mars 2006. Hlutafé var í upphafi 520.000.000 króna og skiptistþannig:MargeirPétursson ehf. kr. 65.000.000 eða 12,5%MP fjárfestingarbanki hf. kr. 65.000.000 eða 12,5%FSP Holding ehf. kr. 130.000.000 eða 25,0%Guðmundur A. Birgisson kr. 65.000.000 eða 12,5%Saxbygg ehf. kr. 65.000.000 eða 12,5%Fasteignafélagið Ósland ehf. kr. 65.000.000 eða 12,5%Vostok Holdings hf. kr. 65.000.000 eða 12,5%VarnaraðilinnEA fjárfestingarfélag ehf., sem þá starfaði undir heitinu MP fjárfestingarbankihf., var þannig meðal stofnenda sóknaraðila og átti við stofnun þess 12,5%hlutafjár félagsins. Tilgangur sóknaraðila var fjárfestingar í fasteignum íAustur – og Mið Evrópu, rekstur og eignarhald á erlendum eignarhaldsfélögum,rekstur fasteigna, ávöxtun fjármuna og annar skyldur rekstur. Margeir Péturssonvar framkvæmdastjóri sóknaraðila, með prókúruumboð, auk þess að verameðstjórnandi en fulltrúar allra hluthafa áttu mann í stjórn. Áhluthafafundi 3. janúar 2008 var hlutafé sóknaraðila aukið í einn milljarðkróna og er þá einkahlutafélag Margeirs Péturssonar tilgreint með 13,5%eignarhlut og varnaraðilinn EA með 13,5%. Vostok Holdings ehf. sem var í eigu ívarnaraðilans EA er tilgreint með 13,5% og Saxbygg ehf. með 12,5% hlut. Samkvæmtársreikningi 2008 nam eigið fé félagsins í árslok 987.467.232 krónum. Eignirvoru 1.231.181.827 krónur, þar af námu langtímafjárfestingar 1.191.047.153krónum. Stóð þar að langmestu leyti að baki eign á dótturfélögunumPivnichBoudinvest Ltd. í Úkraínu og Torpedo Leisure Ltd. í Bretlandi. Samkvæmtgögnum málsins samanstóð verðmæti fyrrnefnda félagsins fyrst og fremst af safnifasteigna í Úkraínu en síðarnefnda félagið átti einnig að hafa með höndumfjárfestingar í verðbréfum í Austur Evrópu. Skuldir sóknaraðila námu243.714.395 krónum, þar af eru skammtímaskuldir taldar nema 233.337.422 krónum.Samkvæmt greinargerð varnaraðilans Avenue A og öðrum gögnum málsins var hér umað ræða yfirdráttarlán frá varnaraðilanum EA þar sem vextir voru að uppistöðu12,075%. Samkvæmtgreinargerð varnaraðilans Avenue A hafði skuldum sóknaraðila verið breytt úr bandaríkjadölumí íslenskar krónur í desember 2008. Segir þar að þetta hafi verið í samræmi viðþá stefnu stjórnenda að kjósa skuldsetningu í innlendri mynt fremur enerlendri, en slík stefna hafi verið tíðkanleg í íslensku viðskiptalífi á þessumtíma sökum aðstæðna hér á landi, þ.á m. gjaldeyrishafta. Síðsumars 2009 hafistaða sóknaraðila verið orðin þannig að félagið átti í gegnum dótturfélög sínfasteignir í Úkraínu sem höfðu orðið nánast óseljanlegar eftir efnahagshruniðsem varð þar í landi veturinn 2008 til 2009 og leiddi meðal annars tilverulegrar gengislækkunar og gjaldeyrishafta. Sóknaraðili hafi skuldaðvarnaraðilanum EA 306.614.293 krónur þegar lánssamningurinn 28. september 2009var gerður svo sem nánar greinir síðar. Þótt eiginfjárstaða félagsins hafiverið góð hafi lausafjárstaðan því verið slæm og greiðsluþrot blasað við, endaekki fyrirsjáanlegt hvernig félagið gæti innt af hendi greiðslur með því aðlosa eignir eða veðsetja þær. Er sérstaklega vísað til þess að ekki hafi tekistað selja fasteign að Sofievska götu númer 19 í Kænugarði í Úkraínu sem hafiverið ein verðmætasta eign dótturfélags sóknaraðila. Varnaraðilarlýsa atvikum svo að viðskipti aðila haustið 2009 hafi falið í sér aðsóknaraðili keypti annars vegar vaxtaberandi eignir í erlendri mynt af bankanumog hins vegar hluti í Aurora Holding hf. sem gert var ráð fyrir að breyttist íerlenda hlutabréfeign óháða íslenskum gjaldeyrishöftum, þ.e. hluti í VostokHolding Netherlands BV. Sóknaraðili hafi með þessu öðlast möguleika á gengishækkuneigna sinna miðað við íslenska krónu, við þær aðstæður að gengi íslenskukrónunnar myndi lækka, auk þess að fá vaxtatekjur af erlendu láni til OIIL.Einnig hafi lánssamningarnir falið í sér endurfjármögnum skammtímaskuldasóknaraðila.Lánssamningurvarnaraðilans EA við OIIL Hinn18. apríl 2007 var gerður lánssamningur milli varnaraðilans EA og breskafélagsins Orange International Investment UK Ltd. Company (þ.e. „OIIL“) sem varað fullu í eigu varnaraðilans. Samkvæmt samningnum lánaði varnaraðilinn OIIL3.000.000 bandaríkjadali sem nota skyldi ,,... til að leggja fram sem innstæðuí Bank Lviv ...“. Um var að ræða innstæðu í úkraínskum banka sem var ímeirihlutaeigu varnaraðila og aðilum honum tengdum. Afrit af samningi uminneign („Deposit Account“) í bandaríkjadölum 25. apríl 2007 milli Bank Lviv ogOIIL er sagt fylgiskjal lánssamningsins, en sá samningur hefur ekki veriðlagður fram. Lánið sem var til eins árs, skyldi OIIL endurgreiða varnaraðilanumá gjalddaga þess 24. apríl 2008 og vextir voru ákveðnir 3 mánaða LIBOR-vextirfyrir bandaríkjadali með 3,5% álagi, en þar af nam þóknun OIIL til lánveitanda0,5% fjárhæðarinnar. Undir samninginn rituðu Jóhann Tómas Sigurðssonstarfsmaður varnaraðila f.h. varnaraðilans EA, en þeir Karl Konráðsson og MargeirPétursson f.h. lántaka. Til tryggingar réttum efndum samningsins var vísað tilrammasamnings milli aðila en sá samningur hefur ekki verið lagður fram ímálinu. Svo sem síðar greinir liggur því ekki ljóst fyrir hvort umrædd inneignOIIL hjá Bank Lviv hafði stöðu víkjandi láns eða ekki. Í gögnum málsins kemurfram að ástæða þess að varnaraðilinn EA notaði dótturfélag sitt til umræddrarráðstöfunar var sú að milli Bretlands og Úkraínu var á þessum tíma í gilditvísköttunarsamningur.Hinn25. ágúst 2009 var gerður lánssamningur að nýju milli varnaraðilans EA og OIILsem mun hafa falið í sér framlengingu á fyrri lánssamningi þar sem varnaraðililánaði OIIL 2.999.980 USD til þess að leggja fram sem innstæðu í Bank Lviv.Vaxtagjalddagar lánsins skyldu vera 60 talsins og greiðast í fyrsta sinn þann1. september 2009, en lokagjalddagi lánsins skyldi vera 25. ágúst 2014.Vaxtaálag var hækkað í 12% álag á LIBOR vexti en þar af var 0,50% lántökugjaldOIIL til lánveitanda. Um tryggingar fyrir réttum efndum lánsins var sem fyrrvísað til áðurnefnds rammasamnings.Viðskiptisóknaraðila og EA tengd lánssamningi 28. september 2009 Hinn 28. september 2009 vargerður sá lánssamningur milli sóknaraðila og varnaraðilans EA sem vísað er tilí fyrsta tölulið kröfugerðar sóknaraðila. Með samningnum lánaði varnaraðilinnsóknaraðila 442.011.457 krónur, sem greiða skyldi í einu lagi, ásamt áföllnumvöxtum 15. júlí 2010. Ekki er um það deilt að samningurinn var gerður vegnakaupa sóknaraðila á fyrrgreindri kröfu varnaraðilans á hendur OIIL sem gert varráð fyrir að yrði framseld sóknaraðila í kjölfar samningsins. Samkvæmt samningnum námuársvextir 12,4% og lántökugjald 0,25%. Vexti skyldi reikna frá útborgunardegilánsins sem tilgreindur var 30. september 2009. Sóknaraðili skyldi afhendavarnaraðilanum þrjár handveðsyfirlýsingar þar sem settir yrðu að veði hlutirsóknaraðila í Torpedo Leisure Ltd. í Bretlandi og Pivnichbudinvest í Úkraínu,sem og krafa sóknaraðila gegn OIIL sem sögð var vera að fjárhæð 3.031.689bandaríkjadalur. Undirsamninginn rituðu fyrir hönd sóknaraðila þeir Margeir Pétursson, Sigfús B.Ingimundarson og Gunnar Árnason, en Árni Maríusson og Thomas Skov Jenssenskrifuðu undir fyrir hönd varnaraðilans. Margeir Pétursson var jafnframtstjórnarformaður varnaraðilans, svo sem áður greinir, en Sigfús B.Ingimundarson sat einnig í stjórn hans. Ímálinu liggja fyrir tvær handveðsyfirlýsingar með sömu dagsetningu ogáðurgreindur lánssamningur, eða 28. september 2009, sem lúta annars vegar aðveðsetningu alls hlutafjár í félaginu Torpedo Leisure Ltd. og hins vegarveðsetningar alls hlutafjár í félaginu Pivnichbudinvest. Munu þetta vera þæryfirlýsingar sem vísað er til í öðrum lið í kröfugerðar sóknaraðila. Þótt ekkisé um það deilt að handveðsyfirlýsingarnar hafi verið gefnar út í tilefni afáðurgreindum lánssamningi eru þær samkvæmt orðum sínum til tryggingar greiðsluá öllum skuldum sóknaraðila við varnaraðilann. Svo sem síðar er rakið ítengslum við málsástæður og lagarök aðila telja varnaraðilar að umrædd handveðhafi ekki einungis átt að standa til tryggingar lánssamningnum 28. september2009 heldur einnig annarra skulda sóknaraðila við varnaraðilann EA.Ímálinu liggur fyrir lánssamningur 30. september 2009 milli sóknaraðila og OIILþar sem fyrrnefnda félagið lánar hinu síðarnefnda 2.999.980 bandaríkjadali íþví skyni að hið síðarnefnda geti keypt inneign hjá Bank Lviv. Er í samningnumvísað til fyrrnefnds rammasamnings sem ekki liggur fyrir í málinu. Ekki er umþað deilt að með þessu hafi sóknaraðili tekið yfir áðurlýstan samningvarnaraðilans EA við OIIL, en í samningnum er tekið fram að tiltekinn samningurBank Lviv og OIIL dagsettur 25. ágúst 2009 eigi að vera viðauki hans. Er ígögnum málsins miðað við að hér sé um að ræða sama samning milli varnaraðilansEA og OIIL 25. ágúst 2009 og áður er lýst.Upphafsdagursamningsins samkvæmt ákvæðum samningsins er sagður vera 25. ágúst 2009 enlokadagur 25. ágúst 2014. Vextir skyldu vera 12 mánaða LIBOR vextir ásamt 12%álagi og skyldi greiða með 60 afborgunum, í fyrsta sinn þann 1. september 2009,en þar af skyldi 0,5% vera þóknun til OIIL. Fyrir hönd sóknaraðila ritaðiMargeir Pétursson undir samninginn, en Karl Konráðsson fyrir hönd OIIL en hannmun jafnframt hafa verið starfsmaður varnaraðilans EA. Ískýringarbréfi (,,Explanation Letter“) sem er fylgiskjal með lánssamningisóknaraðila og OIIL kemur fram að einnig hafi verið gerður samningur millisóknaraðila og varnaraðilans EA um að sóknaraðili tæki yfir þrjú innlán(„deposits“) hjá OIIL hinn 30. september 2009 sem tilgreind eru í úkraínskumgjaldmiðli, hryvnum (UAH). Undir skjalið rita Margeir Pétursson f.h.Austurbrautar hf., en Karl Konráðsson af hálfu OIIL. Í málinu er ekki deilt umtéð þrjú innlán sem ekki er ástæða til að gera nánari grein fyrir.Afhálfu sóknaraðila er þessum lögskiptum lýst þannig í hnotskurn aðfyrirsvarsmenn sóknaraðila hafi samþykkt skammtímalántöku hjá varnaraðilanum EAað fjárhæð 442.011.457 krónur, þ.e. lánmeð gjalddaga 9 mánuðum síðar, en lánsfénu í raun verið varið til kaupa ábundnum innlánum í Bank Lviv af varnaraðilanum. Innlánin hafi hins vegar veriðbundin til 25. ágúst 2014. Sem fyrr er vísað til þess að Margeir Pétursson hafiverið stjórnarformaður varnaraðilans samhliða því að vera stjórnarmaður ogframkvæmdastjóri sóknaraðila. Margeir hafi farið með 35% eignarhlut ívarnaraðilanum, persónulega og í gegnum einkahlutafélag sitt, Margeir Péturssonehf. Sigfús B. Ingimundarson hafi setið í stjórn varnaraðilans og jafnframtverið stjórnarformaður sóknaraðila, auk þess að sitja í stjórn Dexterfjárfestinga ehf., sem á þessum tíma hafi farið með ríflega 25% eignarhluta ívarnaraðilanum. Sigurður Gísli Pálmason og bróðir hans Jón Pálmason hafijafnframt setið í stjórn varnaraðilans. Karl Konráðsson hafi veriðstjórnarmaður í OIIL og starfsmaður varnaraðilans.Afhálfu varnaraðila er bent á að vextir af skuldinni við varnaraðilann EA hafinumið 137.463.084 krónum. Ef við það sé bætt 43.847.537 sem séu áfallnir enógreiddir vextir séu það samtals 181.310.621 króna. Á móti því komi aðsóknaraðili hafi getað tekjufært vexti að fjárhæð 198.300.292 krónur afkröfunum á hendur OIIL og nemi mismunurinn því 16.989.671 krónu sem séunettóvaxtatekjur sóknaraðila.Umfjöllunstjórnar sóknaraðila um viðskipti aðilaAðilardeila um hvort samningurinn hafi verið gerður með samþykki stjórnarsóknaraðila. Af hálfu allra aðila er vísað til fundargerðar stjórnarfundarsóknaraðila 9. október 2009 en svo sem áður er rakið byggja varnaraðilar á þvíað téður lánssamningur 28. september 2009 og löggerningar honum tengdir hafiekki verið gerðir í reynd fyrr en eftir þennan fund og gerningarnir þádagsettir aftur í tímann.Ífundargerðinni 9. október 2009 kemur fram að lögð hafi verið fram og samþykktsú tillaga framkvæmdastjóra félagsins Margeirs Péturssonar og Sigfúsar B.Ingimundarsonar, formanns stjórnar, þess efnis að ,,... nýta eiginfjárhlutfallfélagsins til fjárfestinga, sérstaklega meðan lítið væri að gerast ífasteignamálum félagsins.“ Með vísan tilþess var lagt til að stjórn veitti framkvæmdastjóra og formanni stjórnarheimild til kaupa á eignarhlut í félaginu Vostok Holding Netherlands BV fyrirallt að 2 m. EUR og kaupa á ,,vaxtaberandi eignum í A-Evrópu fyrir allt að 3,5m. EUR.“ Samhliða myndi stjórn félagsinssamþykkja lántöku vegna ofangreindra fjárfestinga sem og veðsetningu á eignumfélagsins vegna þeirra. Þá myndi stjórnarformanni og framkvæmdastjóra einnigverða veitt umboð til að semja um, samþykkja, undirrita og ganga fránauðsynlegum skjölum, þ.m.t. kaupsamningum, lánssamningum og veðskjölum, vegna framangreindrafjárfestinga og skyldu stjórnarformaður og framkvæmdastjóri fara saman meðframangreinda heimild. Tillaga þessi var samþykkt eins og hún var lögð framsamkvæmt því sem ráðið verður af fundargerðinni.Afhálfu varnaraðila er á því byggt að lánssamningurinn 28. september 2009 hafiekki verið gerður í reynd fyrr en eftir að hann hafi verið ítarlega kynntur áumræddum stjórnarfundi. Samningurinn hafi verið dagsettur afturvirkt líkt ogupplýsingar úr kerfum varnaraðilans EA sýni fram á. Er í þessu sambandi vísaðtil skýrslu Ernst & Young sem unnin var að beiðni slitastjórnarvarnaraðilans EA þar sem fram kemur að téð lán hafi ekki verið fært inn í bækursóknaraðila fyrr en í byrjun desember 2009 og sömu upplýsingar sé að finna í„Libra Loan-kerfi“ sóknaraðila. Ekkert í gögnum sóknaraðila bendi til þess aðlánið hafi verið veitt fyrr en eftir fyrrnefndan stjórnarfund 9. október 2009.Einnig er vísað til þess að stjórn sóknaraðila hafi verið sammála um að hérværi um að ræða gott tækifæri fyrir félagið, annars vegar með vísan til þess aðúr rættist í Úkraínu og hins vegar ef gengi krónunnar myndi lækka. Hafistjórnarmönnunum Margeiri Péturssyni og Sigfúsi B. Ingimundarsyni verið veittumboð til að ganga frá málinu, líkt og fram komi í fundargerðinni.Viðskiptisóknaraðila og varnaraðilanum EA tengd lánssamningi 27. nóvember 2009 Hinn27. nóvember 2009 var gerður sá lánssamningur sem vísað er til í fjórða liðkröfugerðar sóknaraðila. Samkvæmt samningnum lánar varnaraðilinn EA sóknaraðila650.161.425 krónur með 0,25% lántökugjaldi. Lánið sem ætlunin var að yrði tilsjö og hálfs mánaðar, með gjalddaga 15. júlí 2010, skyldi bera 12,4% ársvextisem reiknast skyldu frá útborgunardegi lánsins. Ekki er um það deilt að lániðvar veitt til kaupa á 13,8% hlut í félaginu Aurora holding hf. svo og tilfjármögnunar yfirdráttarskuldar sóknaraðila hjá varnaraðilanum EA. Segir ígreinargerð sóknaraðila að fyrir viðskiptin hafi varnaraðilinn EA átt ríflega60% hlutafjár í Aurora Holding. Í greinargerðum aðila koma fram nokkuðmismunandi fjárhæðir þeirrar yfirdráttarskuldar sem áður ræðir en ágreiningurum það atriði þykir ekki hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins.Samkvæmtlánssamningnum átti sóknaraðili að afhenda varnaraðilanum fimmhandveðsyfirlýsingar til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu lánsins.Þar af voru þrjár handveðsyfirlýsingar þær sömu og vísað var til í áðurlýstumlánssamningi 28. september 2009. Auk þess skyldi gefin út yfirlýsing um handveðí téðum 13,8% hlut í Aurora Holding hf. svo og öllum fjármálagerningumsóknaraðila hjá varnaraðila. Undir samninginn rituðu fyrir hönd sóknaraðilaþeir Margeir Pétursson, Sigfús B. Ingimundarson og Gunnar Árnason, en ÁrniMaríusson og Thomas Skov Jensen skrifuðu undir fyrir hönd varnaraðila.Ísamræmi við lánssamninginn var í fyrsta lagi gefin út handveðsyfirlýsing tilhanda varnaraðilanum EA, þar sem honum er sett að veði, til tryggingar öllumskuldbindingum sem félagið ætti að hafa gagnvart varnaraðila, allirfjármálagerningar sem sóknaraðili ætti og myndi eignast og varðveittir væru ágeymslusafni hans hjá varnaraðila eins og staða safnsins væri á hverjum tíma.Sambærileg yfirlýsing var gefin út sama dag þar sem varnaraðilanum var sett aðveði 13,8% hlutafjár í félaginu Aurora Holding hf., að nafnverði 4.600.000 evra.Undir skjölin rituðu Margeir Pétursson og Gunnar Árnason. Hinn27. nóvember 2009 gaf sóknaraðili einnig út handveðsyfirlýsingu, til handavarnaraðila, þar sem bankanum voru settar að veði fjórar kröfur sem sóknaraðilivar sagður eiga á hendur OIIL og sóknaraðili hafði yfirtekið: 1) Krafa aðfjárhæð UAH 1.733.129 skv. lánssamningi nr. 70, dags. 26.10.2006; 2) krafa aðfjárhæð UAH 2.230.154 skv. lánssamningi nr. 90, dags. 23.7.2008; 3) krafa aðfjárhæð UAH 517.901 skv. lánssamningi nr. 140, dags. 23.7.2008; 4) krafa aðfjárhæð USD 2.031.689 skv. lánssamningi nr. 220., dags. 25.08.2009. Undiryfirlýsinguna rituðu Margeir Pétursson, Sigfús B. Ingimundarson og GunnarÁrnason.Þann30. nóvember 2009 keypti sóknaraðili téð hlutabréf í Aurora Holding hf. að nafnvirðiEUR 4.600.000 fyrir upphæðina 1.886.000 evrur. Af hálfu sóknaraðila er vísaðtil þess að kaupin hafi miðast við gengið 0,41 evru fyrir hlut til samræmis viðkvittun fyrir viðskiptunum sem liggur fyrir í málinu. Af hálfu varnaraðila erhins vegar lögð áhersla á að kaupin á Aurora Holding hf. hafi miðað við innravirði félagsins samkvæmt reikningum þess frá 31. ágúst 2009. Í árslok 2010 hafiþetta innra virði verið lækkað niður í 0,34 þegar nýtt uppgjör var gert og hafikaupverðið verið lækkað 23. desember 2010 sem þessu nam auk þess sem veitturhafi verið afsláttur á þjónustugjöldum. Skuld Austurbrautar við varnaraðilannEA hafi þannig verið lækkuð um 59.087.000 krónur með sérstöku samkomulagiundirrituðu þennan dag. Jafnframt er bent á að upphaflegt viðmiðunarverð, 0,41fyrir hlut, hafi verið það sama og í viðskiptum varnaraðilans EA um hlutinanokkrum vikum áður.FélaginuAurora Holding hf. var slitið í árslok 2009 og voru eignir þess færðar inn íVostok Holdings BV. Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að samkvæmtúthlutunargerð fyrir Aurora Holding hf. hafi hluthafar í félaginu fengið hlutií Vostok Holding Netherlands BV sem nam því sem íslenska félagið, AuroraHolding hf., hafði lagt inn í hollenska félagið Vostok BV. Hafi þetta legiðfyrir þegar gengið var frá kaupum sóknaraðila á hlutum í Aurora Holding hf.Samkvæmt úthlutunargerðinni hafi 0,34 evrur átt að koma til greiðslu fyrirhverja evru hlutafjár í Aurora Holding hf. Gengi bréfanna hafi þannig lækkað um0,07 evrur á hlut á þeim mánuði sem liðið hafði frá kaupum sóknaraðila áhlutunum. Líkt og áður greinir er þessu mótmælt af hálfu varnaraðila og vísaðtil þess að kaupverðið til sóknaraðila hafi verið leiðrétt af hálfuvarnaraðilans EA. Samkvæmtfundargerð hlutahafafundar Aurora Holding hf. 30. desember 2009 nam eigið féVostok Holding Netherlands BV 33.844.850 evrum og nam heildarhlutur AuroraHolding í Vostok BV 11.459.634 evrum en aðrir hlutir voru sagðir tilheyraVostok Holding hf. Á fundinum kom fram að Vostok Holding hf. hefði haldið áhlutum í félaginu New Progress Holding Ltd. fyrir hönd hinna þriggja hluthafaþess, en kröfur þessara aðila á Vostok hf. myndu jafnframt breytast í hlutafé íVostok Holding Netherlands BV og þeir þar með ganga inn í félagið. Undirfundargerðina rita Sigfús B. Ingimundarson og Karl Konráðsson. Samkvæmt þessuvoru íslensku eignarhaldsfélögin Aurora Holding hf. og Vostok Holding hf. leystupp og hluthafar þeirra urðu beinir hluthafar í hollenska félaginu VostokHoldings BV. Það félag var móðurfélag New Progress Holding sem átti á þessumtíma nær allt hlutafé í Bank Lviv. Meðhandveðsyfirlýsingu, (e. Pledge of Collateral) 30. desember 2009 voru hlutirsóknaraðila í hollenska félaginu Vostok Holding Netherlands BV settirvarnaraðila að veði, sagðir að nafnvirði 1.581.005 evrur. Undir veðsamninginnrita Margeir Pétursson, Sigfús B. Ingimundarson og Gunnar Árnason. Sama dagskrifaði Margeir Pétursson undir tilkynningu fyrir hönd sóknaraðila þar semstjórn hollenska félagsins var tilkynnt um veðsetninguna.Atvikmálsins eftir árslok 2009Samkvæmtársreikningi sóknaraðila fyrir árið 2009 hafði hluthafalisti félagsins breystað því marki að hlutur varnaraðilans EA hafði hækkað úr 13,5% í árslok 2008 í20% í árslok 2009. Samkvæmt ársreikningi sóknaraðila fyrir árið 2009 var eigiðfé félagsins 841.735.920 krónur. Eignir félagsins námu alls 1.965.529.768krónum og skuldir 1.123.793.848 krónum. Í ársreikningnum kemur fram að skuldirfélagsins hafi að nær öllu leyti verið skammtímalán frá hluthöfum, þ.e.varnaraðilanum EA, á gjalddaga 2010. Til tryggingar lánunum væru nær allareignir sóknaraðila að verðmæti 1.920 milljónir. Meðbréfi 13. september 2010 ritaði stjórn FSP Holding ehf., eins hluthafa ísóknaraðila, bréf til Einars S. Hálfdánarsonar sem þá hafði tekið við stjórnarformennskuí félaginu. Tilefnið var að stjórn hluthafans hafði þá verið upplýst um þærráðstafanir og ákvarðanir stjórnar sóknaraðila sem áður er lýst. Kom fram aðstjórn FSP Holding ehf. teldi þær ámælisvarðar og til þess fallnar að valdasóknaraðila tjóni. Þar var þess jafnframt krafist að stjórn sóknaraðila ogeinstakir stjórnendur sem að nánar tilgreindum ráðstöfunum komu, gerðu þegarráðstafanir til að rétta hag félagsins og forða því frá yfirvofandi tjóni semaf ráðstöfunum þeirra leiddi. Með bréfi 27. sama mánaðar krafðist stjórn FSPHolding ehf. þess að boðað yrði til hlutafafundar í sóknaraðila. Þess varkrafist að fjallað yrði um þá ákvörðun stjórnar að kaupa bundin innlán í BankLviv af varnaraðila sem og hlut í félaginu Vostok Holding BV. Þá var þesskrafist að rædd yrði hugsanleg skaðabótaábyrgð stjórnarmanna sóknaraðila semstóðu að umræddum ráðstöfunum. Einnig var þess krafist að tekin yrði tilumfjöllunar ákvörðun um málshöfðun sem og ákvörðun um hvort krefjast bæriopinberrar rannsóknar á störfum stjórnar félagsins. Hinn19. nóvember 2010 var haldinn hluthafafundur hjá sóknaraðila í samræmi viðkröfu fyrirsvarsmanna FSP Holding ehf. Þar var borin upp tillaga þess efnis aðfella úr gildi eða fá með öðrum hætti hnekkt þeim ráðstöfunum stjórnarfélagsins sem áður greinir. Þá var lagt til að leitast yrði við að fáráðstöfununum hnekkt með dómi. Eftir að fjallað hafði verið um tillöguna varhún felld. Á fundinum var jafnframt borin undir atkvæði tillaga um að sérstökrannsókn skv. XI kafla hlutafélagalaga færi fram á sömu ráðstöfunum og var sútillaga samþykkt með öllum greiddum atkvæðum en aðrir sátu hjá. Hinn 9.desember 2010 var, að kröfu eins hluthafa, þrotabús Icarusar (áður Saxbyggehf.), aftur boðað til hluthafafundar í sóknaraðila. Var þess krafist að greiddyrðu atkvæði um tillögu hluthafans þess efnis að höfða mál á hendurvarnaraðilanum EA til að fá þeim ráðstöfunum hnekkt sem fólust í kaupumfélagsins á innlánum í Bank Lviv árið 2009, kaup á 4,7% hlut í Vostok HoldingsNetherlands BV sem og gerð tveggja lánssamninga árið 2009. Tillagan var ekkiborin undir atkvæði, en af hálfu stjórnarformanns sóknaraðila var lögð frambókun þess efnis að þegar hefði verið úrskurðað um það sem í bókuninni kæmifram. Var það samþykkt af hálfu Margeirs Péturssonar og Einars S.Hálfdánarsonar gegn atkvæði Matthíasar Björnssonar. Á fundinum voru Einar S.Hálfdánarson formaður félagsins, Matthías Björnsson sem og Margeir Péturssonsem tók þátt í gegnum fjarfundarbúnað. Hinn14. janúar 2011 voru undirrituð skjöl sem bæði bera heitið skilmálabreyting ogeru sögð fela í sér breytingar á lánakjörum vegna fyrrgreindra lánssamninga.Samkvæmt skilmálabreytingunum var gjaldföllnum afborgunum og vöxtum bætt viðhöfuðstól þeirra, gjalddögum beggja lána frestað til 26. ágúst 2014, ogvaxtakjörum breytt og skyldu eftirleiðis vera þriggja mánaða REIBOR vextir aðviðbættu 3% vaxtaálagi, sem greiðast skyldu á þriggja mánaða fresti, í fyrstasinn þann 15. janúar 2010. Í ársbyrjun 2011 var hlutaskrá í sóknaraðila með eftirfarandihætti:FSPHolding ehf. kr. 270.000.000 eða 27,0%Fari ehf. kr. 67.500.000 eða 6,75%Dexter fjárfestingar ehf. kr. 67.500.000 eða 6,75% MP Banki hf. kr. 470.000.000 eða 47,0%Þb. Icarusar ehf. kr. 125.000.000 eða 12,5%Hinn18. janúar 2011 var á ný haldinn hluthafafundur í sóknaraðila þar sem mættirvoru fulltrúar allra hluthafa auk Matthíasar Björnssonar stjórnarmannsfélagsins. Á fundinum var fjallað um og samþykkt sú tillaga sem lögð hafðiverið fram fyrir fundinn 9. desember 2010 af hálfu hluthafans þrotabús Icarusarhf. þess efnis að höfða skyldi mál á hendur varnaraðila til þess að fá dæmdaróskuldbindandi, felldar úr gildi eða hnekkt með öðrum hætti þeim ráðstöfunumsem áður hefur verið lýst og fjallað um. Tillagan var samþykkt með atkvæðumþrotabús Icarusar hf. og FSP Holding ehf. Varnaraðili tók ekki þátt íatkvæðagreiðslunni með vísan til 3. mgr. 82. gr. hlutafélagalaga en eigendurDexter fjárfestinga ehf. og Fara ehf. greiddu atkvæði á móti tillögunni. Ekkivarð af málssókninni og liggja ástæður þess ekki fyrir í málinu.Meðkaupsamningi 1. apríl 2011 var allur bankarekstur varnaraðilans EA, sem þá hétenn MP banki hf., á Íslandi og í Litháen auk fleiri eigna seldur tilNB.is-sparisjóðs hf. Nafni varnaraðila var því breytt en kaupandinn,NB.is-sparisjóður tók í framhaldinu upp nafnið MP banki hf. Sinnti varnaraðilieftir það eingöngu þeim hluta starfsemi bankans er laut að erlendumfjárfestingum. Í september 2011 hætti varnaraðilinn loks allri leyfisskyldristarfsemi og skilaði inn starfsleyfi sínu til reksturs fjármálafyrirtækis tilFjármálaeftirlitsins. Meðkæru dags. 8. desember 2011 kærði skiptastjóri þrotabús Icarusar ehf. sem einnhluthafa sóknaraðila, þá Margeir Pétursson og Sigfús B. Ingimundarson tilembættis sérstaks saksóknara. Tilefni kærunnar voru þeir gerningar semkröfugerð sóknaraðila lýtur að og áður er lýst. Með bréfi sérstaks saksóknara16. maí 2014 var tilkynnt um niðurfellingu málsins. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum1. júní 2012 var bú varnaraðilans EA tekið til slitameðferðar og lýstisóknaraðili kröfu í búið með kröfulýsingu 16. ágúst 2013, svo sem áður greinir.Viðaðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi Björn Ingi Sveinsson, verkfræðingurog fyrrverandi stjórnarmaður varnaraðilans EA, Karl Konráðsson, sjálfstættstarfandi, fyrrverandi stjórnarmaður OIIL og varnaraðila EA, Birgir ÞórRunólfsson, dómkvaddur matsmaður, Hrólfur Þór Valdimarsson viðskiptafræðingur,Jón Atli Kristjánsson, dómkvaddur matsmaður.Ískýrslu Björns Inga Sveinssonar kannaðist hann við að hafa setið stjórnarfundvarnaraðila EA 9. október 2009 og hafa tekið þátt í þeim ákvörðunum sem getiðer um í fundargerð og áður greinir. Hann kvaðst hins vegar hafa komist að þvísíðar að hluti af þeim ráðstöfunum sem voru samþykktar hefðu þegar veriðframkvæmdar og hefði fundurinn því verið „sýndarfundur“ til þess að samþykkjagerðan hlut. Málið hafi verið kynnt þannig að verið væri að þjóna hagsmunumsóknaraðila þannig að eignir hans væru nýttar til tekjuöflunar.Matsgerð dómkvaddra matsmanna 14.desember 2015 Á dómþingi 9. mars 2015 voruhagfræðingarnir Jón Atli Kristjánsson og Ragnar Árnason kvaddir, að beiðnisóknaraðila, til að framkvæma mat vegna þeirra viðskipta sem áður greinir.Birgir Þór Runólfsson dósent við Háskóla Íslands var síðar dómkvaddur í staðRagnars. Eftirfarandi spurningum var beint til matsmanna: „Spurning1. Hvað má ætla að væri söluverðmæti til þriðja aðila á eftirtöldum eignum, semsóknaraðili er sagður hafa eignast í viðskiptum við varnaraðila, EA fjárfestingarfélagehf. og nú er krafist að dæmd verði ógild m.v. þær dagsetningar er á eftirgreinir.Spurning1a. Krafa á hendur Orange International Investments (UK) Ltd. skv. samningi nr.USD-2009-009-0030, [...] m.v. 30.9.2009.Spurning1b. Væntanlegur 4,67% hlutur í Vostok Holding Netherlands B.V. [...] þann30.11.2009.Spurning2. Hversu áhættusöm voru framangreind viðskipti fyrir Austurbraut að teknutilliti til þess hvernig kaupin voru fjármögnuð og í hverju fólst áhættan?Spurning3. Hvert var verðmæti hlutabréfa í sóknaraðila, rekstrarhæfi ogframtíðarhorfur:Þann 27.9.2009Þann 1.10.2009Þann 1.12.2009“Í matsgerð er meginniðurstöðum matsmanna lýst á eftirfarandi hátt:„Spurning 1a. Svar:Það er matsniðurstaða, að söluverð kröfunnar sé að hámarki 50% af nafnverði hennar eða um USD 1.500.000 (og USD 250.000 að auki þegar líka er tekið tillit til samninganna þriggja í UAH). Byggir það mat á sanngirnismati, þar sem hægt er að meta söluverðið mjög lágt og á hinn bóginn með litlum afföllum.Spurning 1b. Svar:Það er matsniðurstaða, að erfitt er að finna kaupanda að þessum hlut. Ef hann finnst er virði hans á matsdegi 10.12.2009, kr. 95-145 millj. m.v. endurmetna eignastöðu VHN.Spurning 2. Svar:Það er matsniðurstaða, að með þeim lántökum og fjárfestingum Austurbrautar sem farið var í á haustmánuðum 2009, var tekin mikil áhætta. Í hverju fólst hún er spurt? Staða félagsins 27.9.2009 sýnir jákvætt eigið fé, þrátt fyrir verðfall fasteignafjárfestinganna. Félaginu er síðan steypt í miklar skuldir og allt eigið fé þess sett í áhættufjárfestingar og ofmetnar eignir. Líta má svo á, að stjórnendur félagsins, sem einnig eiga margháttaða aðra hagsmuni í Úkraínu, láti þá hagsmuni ráða för. Langtíma fjárfesting er fjármögnuð með skammtíma lánum. Fátt bendir til þess að hægt sé að greiða lánin á gjalddaga. Ekkert er heldur í gögnum málsins um að vilyrði sé um að umrædd lán verði framlengd. Spurning 3. Svar:Það er matsniðurstaða, m.v. stöðuna 27.9.2009 að:Verðmæti félagsins gæti legið á verðbilinu 207-385 millj. kr., líklegast þó í neðri mörkum. Það er mögulegt á þessum tíma að selja hlutabréf í félaginu, félagið er rekstrarhæft og á sér framtíð. Það þarf að semja um 300 millj. kr. yfirdráttarheimild til tíma sem viðráðanlegur er. Það er matsniðurstaða, m.v stöðuna 31.12.2009 (sem nálgun við 1.12.2009)Eigið fé hefur minnkað. Endurmetið eigið fé Austurbrautar er 31.12.2009 neikvætt um 242 millj. kr. m.v. neðri mörk en jákvætt um 316 millj. kr. m.v. efri mörk. Neðri mörkin byggja á endurmati hinna umdeildu fjárfestinga, en efri mörkin miða við að bókfært virði þeirra í árslok standi óbreytt. Eignir duga ekki fyrir skuldum, og allar eignir félagsins eru veðsettar í topp. Eftir situr órekstrarhæft félag, sem á sér líklega ekki aðra framtíð en að sameinast eða vera samrekið einhverju öðru félagi hópsins. Hlutabréfin eru einnig verðlaus sem söluvara til 3ja manns, með fyrrgreindum rökum. Hinar umdeildu fjárfestingar féllu eflaust að hagsmunum „fyrirtækjahópsins“, en ekki sem söluvara til þriðja aðila.Hvers vegna er Austurbraut, þ.e. allt hlutafé, ekki söluvara til 3ja manns í árslok 2009:Án samninga við MP banka um skuldir félagsins, eins og þær stóðu í árslok 2009, var félagið ekki rekstrarhæft fyrirtæki („going concern“). Engar áætlanir lágu fyrir um reksturinn til einhverrar framtíðar. Á opnum markaði hefði væntanlegur kaupandi gert eða krafist áreiðanleikakönnunar („due diligence“) á félögum tengdum kröfunum og á Austurbraut. Slíkt mat hefði verið erfitt, kostnaðarsamt og óvíst með útkomu. Kaupendahópur var örugglega ekki heldur stór. Eignir Austurbrautar tengjast allar Úkraínu og Austur-Evrópu. Ekki þarf að fjölyrða um stöðuna þar. Líklegasti kaupandi gat t.d. verið vogunarsjóður, sem sérhæfði sig í Austur-Evrópu eða þekkti vel til þar.“Af hálfu sóknaraðila og varnaraðilans EA eru ekki gerðar athugasemdir við niðurstöður matsmanna. Varnaraðilinn Avenue A hefur hins vegar gert ýmsar athugasemdir við matið sem hann telur eiga að leiða til þess að það verði ekki lagt til grundvallar. Í fyrsta lagi telur varnaraðilinn Avenue A að ýmsir gallar hafi verið á málsmeðferð matsmanna. Er vísað til þess að matsmaður hafi myndað sér skoðun á fjárhagsstöðu Bank Lviv, hækkun hlutafjár Bank Lviv, meintri þynningu minnihluta hluthafa í Bank Lviv og öðru því sem Bank Lviv varðar með skoðun á gögnum á Netinu sem hafi verið á úkraínsku og hafi „Google translate“ verið notað til þýðingar. Þessi gögn hafi heldur ekki verið borin undir aðila. Telur varnaraðilinn að matsmenn hafi misskilið téð gögn en þau hafi haft úrslitaáhrif á afstöðu matsmanna til verðmætis eigna sem matið taki til. Matsmenn hafi þrátt fyrir þetta hafnað því að leiðrétta matið. Varnaraðilinn Avenue A telur einnig að á matinu séu ýmsir efnisgallar. Í fyrsta lagi hafi matsspurningar snúið að verðmæti hlutabréfa en ekki verðmæti þess fyrirtækis sem hér átti í hlut. Ótækt sé að láta íslenska matsmenn leggja mat á verðmæti fyrirtækis í erlendu ríki svo sem Úkraínu. Varnaraðilinn bendir einnig á matsmenn hafi ekki tekið tillit til þess að ekki kom til greina af hálfu viðskiptabanka sóknaraðila, varnaraðilans EA, að framlengja lán fyrirtækisins að óbreyttu. Einnig hafi matsmenn gert þá villu að telja að tilteknar tekjur dótturfélags sóknaraðila væru 2 til 3 milljónir bandaríkjadala þegar þessar tekjur voru í reynd í úkraínskum hryvnum. Staða sóknaraðila hafi því verið mun verri en matsmenn leggi til grundvallar. Varnaraðilinn Avenue A bendir einnig á að villu matsmanna varðandi hlutafjáraukningu í Bank Lviv. Matsmenn dragi ranglega þá ályktun af hlutafjáraukningunni að það hlutafé sem eftir stóð hafi verið talið verðlaust. Matsmenn hafi hins vegar ekki tekið tillit til þess að meirihlutaeigendur í úkraínska bankanum hafi með þessu keypt nokkra litla hluthafa út. Matsmenn hafi einnig ekki tekið tillit til hlutafjáraukningarinnar við mat á eignum Bank Lviv sem ekki hafi enn verið staðfest og því óskráð þegar viðskipti aðila fóru fram. Sóknaraðili hafi þannig verið að kaupa innlán í banka sem nýbúið var að fjármagna. Allt þetta leiði til þess að verðmæti Bank Lviv hafi verið stórlega vanmetið.Varnaraðilinn Avenue bendir einnig á að matsmenn gefi sér kolrangar forsendur um eignarhald á félagsins Ukrapteka Limited sem leiði til þess að þeir telji að ábyrgð Vostok Holding Netherlands BV sé í þágu þriðja manns en ekki dótturfélags og eigi því að leiða til 2,7 til 4,5 milljóna króna lækkunar á virði Vostok Holding Netherlands BV. Í matsgerð komi fram að matsmenn hafi litlar upplýsingar um félagið MP Pensions Funds Baltics sem allar séu þó í vörslum varnaraðilans EA. Að svo búnu sé félagið metið til fjarstæðukennds hrakvirðis. Svipað megi segja um félagið Litís þótt villan sem af því leiði sé ekki jafn bagaleg. Öllu meinlegri villur lúti að virði dótturfélags Vostok Holding Netherlands BV, Highcastle Holdings Ltd. á Kýpur. Þar hafi matsmenn stuðst við ranga útgáfu af ársreikningi þar sem 1,2 milljóna evra villu á eigin fé hafi verið að finna. Í matsgerðinni sé einnig villa sem nemi 1,7 til 2,6 milljónum dollara á ári hvað tekjur sóknaraðila varðar. Að lokum virðist matsmenn hafa gefið sér að aðrir hagsmunir en sóknaraðila hafi ráðið för án þess að það sé stutt gögnum. Þessi skoðun þeirra liti matsgerðina þannig að efast megi um að matsmennirnir hafi verið óvilhallir og geti talist óaðfinnanleg vitni.Helstu málsástæður og lagarök sóknaraðila Sóknaraðili reisir kröfur sínar á eftirfarandi málsástæðum sem hann telur hverja um sig geta staðið sjálfstætt. Í fyrsta lagi hafi viðskiptin í heild og hver einstakur löggerningur sem vísað sé til í kröfugerð verið óskuldbindandi þar sem þeir, er undirrituðu þá, voru ekki til þess bærir og höfðu auk þess ekki heimild til slíks. Um heimildarskortinn hafi viðsemjandanum, varnaraðilanum EA, verið fullkunnugt. Um þetta er vísað til 2. mgr. 67. gr., 72. gr. 76. gr. og 77. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995. Er þessu til stuðnings bent á að heilinn á bakvið viðskiptin hafi verið Margeir Pétursson stjórnarformaður varnaraðilans á þeim tíma og Sigfús B. Ingimundarson stjórnarmaður. Hafi þeir hlutast til um gerningana án aðkomu stjórnar en einnig verið vanhæfir í skilningi framangreindra ákvæða laga um hlutafélög. Því hafi 77. gr. laganna átt við. Sóknaraðili telur að viðskiptin hafi verið félaginu til skaða og til þess fallin að koma því á kné, varnaraðilanum og tengdum aðilum til hagsbóta. Stjórn sóknaraðila hafi enga aðkomu haft að löggerningunum og sú tillaga sem samþykkt hafi verið á fundi stjórnar þann 9. október 2009 hafi ekkert haft með þessi viðskipti að gera sem þegar höfðu verið framkvæmd og til stóðu. Af orðfæri hennar sé ljóst að tilgangurinn hafi verið að búa til texta sem menn gætu síðar með útúrsnúningi haldið fram að næði til viðskiptanna þótt svo væri ekki. Orðfærið miðist við að vera svo almennt að ekki komist upp um athæfið á stjórnarfundi eða hluthafafundi. Hvorki það sem áður hafði verið framkvæmt né það sem til stóð. Hefði þetta verið réttilega á borði stjórnar hefðu téðir Margeir og Sigfús þurft að víkja af fundi vegna hagsmunaárekstra. Sóknaraðili telur að tilgangur viðskiptanna hafi verið að hygla varnaraðilanum EA með því að koma „súrum“ eignum á yfirverði til sóknaraðila og gegn tryggingum í öllum eignum hans og hækka CAD-hlutfall varnaraðilans, en varnaraðilinn hafi verið í vandræðum með eiginfjárhlutfall sitt. Varnaraðilinn hafi þannig ekki getað lánað Bank Lviv, sem var í reynd í hans eigu, sjálfur eða í gegnum OIIL heldur þurft að leita annarra leiða. Í munnlegum málflutningi var vísað til þess að hálfu sóknaraðila að atvik málsins beri með sér að varnaraðilanum hafi legið á að koma þessari ráðstöfun í bækur bankans fyrir lok þriðja ársfjórðungshluta 2009. Sóknaraðili telur kaupin á hlutum Austurbrautar í Aurora hf. á genginu 0,41 hafa verið gerð á yfirverði. Telur sóknaraðili þetta sannað með matsgerð dómkvaddra matsmanna. Með þessu hafi varnaraðilinn vitað eða mátt vita að hann væri með þessu að hafa fé af sóknaraðila. Verði að meta öll viðskiptin ógild þegar slíkum brögðum sé beitt. Ekki liggi fyrir hvort varnaraðilinn hafi átt þessi verðmæti að öllu leyti sjálfur þegar hann afréð viðskiptin eða hvort hann eignaðist þau skömmu áður eða eignaðist þau gagngert til endurselja sóknaraðila. Í annan stað telur sóknaraðili að viðskiptin í heild og hver löggerningur um sig geti ekki haft réttaráhrif eða skapað lögvarðar kröfur þar sem þeir séu þáttur í refsiverðu athæfi. Sóknaraðili telur þannig að þær ráðstafanir sem krafist er ógildingar á hafi verið gerðar á grundvelli umboðssvika, sbr. 249. gr. almennra hegningarlaga. Fullframning umboðssvika miðist við misnotkun aðstöðu líkt og hér hafi verið lýst, nánar tiltekið við ólögmæta ráðstöfun fjárverðmæta eða ólögmæta fjáröflun, m.a. með undirritun fjárskuldbindinga sbr. þá lánssamninga sem áður greinir. Ljóst megi vera að skuldbindingar þær sem undirritaðar voru í nafni sóknaraðila fólu í sér verulega fjártjónsáhættu fyrir sóknaraðila og hluthafa hans. Að því marki sem hið refsiverða athæfi verði ekki fellt undir umboðssvik er á því byggt að um sé að ræða brot á 247. gr. hegningarlaga og verknaðurinn hafi falið í sér að dregið var fé sóknaraðila. Í þriðja lagi byggir sóknaraðili kröfur sínar á því að löggerningarnir hafi verið ógildir samkvæmt ákvæðum samningalaga nr. 7/1936. Í fyrsta lagi á grundvelli svika, sbr. 30. gr. laganna. Gerningarnir sem eigi að hafa verið gerðir þann 28. september 2009 og 30. sama mánaðar hafi verið undirritaðir án þess að haldinn væri stjórnarfundur í sóknaraðila og án vitundar allra stjórnarmanna félagsins. Þegar stjórnarfundurinn hafi verið haldinn í Austurbraut 9. október 2009 hafi stjórnarmennirnir Margeir og Sigfús leynt því með sviksamlegum hætti að þegar væri búið að framkvæma hluta af þeim gerningum sem umboð átti að veita til að gera á fundinum sem og því að fjármunir yrðu notaðir til að borga fyrir hagsmuni í Vostok Holdings Netherlands BV á alltof háu gengi miðað við gengi Bank Lviv. Varðandi það síðastnefnda þá teljist löggerningurinn í heild hafa verið gerður vegna slíkra svika nema annað sannist. Þá hafi viðsemjendur sóknaraðila haft vitneskju um atvik sem fyrir hendi voru þegar kaupin í Aurora Holding hf. voru gerð. Þannig hafi Margeir og Sigfús getað séð það fyrir að hlutabréfin sem keypt voru í félaginu Aurora myndu lækka en Sigfús hafi verið stjórnarformaður Aurora Holding hf., en varnaraðili EA og einkahlutafélag Margeirs Péturssonar, Hraunbjarg ehf. hafi verið stærstu hluthafar Aurora. Sóknaraðili vísar til þess að honum sé ekki kunnugt um að neitt verðmat hafi legið til grundvallar kaupverðinu á hlutunum. Verði talið að vegna vitneskju þeirra, sem undirrituðu skjöl fyrir hönd sóknaraðila, falli hluti viðskiptanna ekki undir svikahugtakið er á því byggt að jafna megi athæfinu til svika en ella að ólögfestar reglur kröfuréttarins um athæfi sem þetta leiði til sömu niðurstöðu. Með vísan til framangreinds verði einnig að telja að löggerninginn megi ógilda á grundvelli 33. gr. samningalaga enda afar óheiðarlegt að byggja á honum með vísan til alls sem fram hefur komið. Að lokum er á því byggt að beita eigi 36. gr. laganna af öllum þeim ástæðum sem að framan eru nefndar og ógilda alla löggerninganna.Helstu málsástæður og lagarök varnaraðila Málsástæður og lagarök varnaraðila fara saman að því frátöldu að varnaraðilinn EA hefur ekki mótmælt niðurstöðu matsmanna í áðurgreindri matsgerð. Hefur verið gerð grein fyrir athugasemdum og mótmælum varnaraðilans Avenue A vegna matsgerðarinnar hér að framan. Reisa báðir aðilar þannig varnir sínar á því að löggerningarnir sem taldir eru upp í kröfugerð sóknaraðila séu gildir og skuldbindandi fyrir sóknaraðila. Að því er varðar lánssamninginn 28. september 2009 er vísað til þess að samningurinn hafi verið gerður vegna kaupa sóknaraðila á kröfum á hendur OIIL sem endurspegluðu innlán í úkraínska bankanum Bank Lviv. Greiddir vextir af láninu hafi verið 137.463.084 krónur. Ef við það sé bætt 43.847.537 sem séu áfallnir en ógreiddir vextir séu það samtals 181.310.621 króna. Á móti því komi að sóknaraðili hafi getað tekjufært vexti að fjárhæð 198.300.292 krónur og sé mismunur á vaxtagjöldum og vaxtatekjum því 16.989.671 króna sem séu nettóvaxtatekjur sóknaraðila. Auk þess megi vænta að sóknaraðili fái gengishagnað af viðskiptunum. Væri áfallinn gengismunur á kröfurnar reiknaður miðað við fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands væru nettóvaxtatekjur 174.267.532 krónur. Kaup á kröfunum á hendur OIIL hafi því reynst sóknaraðila vel og það sé enn mikil hagnaðarvon í þeim. Til viðbótar er bent á það að lánssamningurinn hafi verið á góðum kjörum fyrir sóknaraðila og til dæmis aðeins með 0,25% lántökugjaldi. Varnaraðilar mótmæla því sem haldið er fram af sóknaraðila að lánssamningurinn hafi verið gerður án samþykkis stjórnar sóknaraðila. Hið sanna sé að hann hafi ekki verið undirritaður fyrr en eftir stjórnarfundinn 9. október 2009. Sama sýni yfirlit úr Libra Loan lánakerfi varnaraðilans. Það hafi heldur ekki verið fyrr en á fundi lánanefndar EA 16. október 2009 sem lánveitingin var samþykkt en fundargerð af fundinum liggi fyrir í málinu. Lögskipti aðila hafi að hluta til verið miðuð við lok þriðja ársfjórðungs ársins 2009 (lok septembermánaðar það ár). Sóknaraðili hafi hagnast af því að dagsetning samninganna væri fyrr í tíma með því að njóta vaxtatekna af hinum keyptu kröfum. Að því er varðar handveðsyfirlýsingar frá 28. september 2009 vísa varnaraðilar til þess að sóknaraðili hafi skuldað varnaraðilanum EA um 300 milljónir króna í yfirdrátt sem voru gjaldfallnar. Nauðsynlegt hafi verið að sóknaraðili legði fram tryggingar vegna þessa en að öðrum kosti hafi greiðsluþrot blasað við. Um yfirtöku sóknaraðila á lánssamningnum milli varnaraðilans EA og OIIL vísa varnaraðilar í fyrsta lagi til þess að allar skýringar skorti á þessum kaupum af hálfu sóknaraðila. Sóknaraðili hafi t.a.m. yfirtekið einn lánssamning við OIIL til viðbótar en engar skýringar séu á því hvers vegna ekki sé einnig krafist ógildingar á þeim viðskiptum. Hvað sem þessu líði hafi kaup sóknaraðila reynst ábátasöm svo sem áður er lýst. Að því er varðar lánssamninginn 27. nóvember 2009 er vísað til þess að samningurinn hafi upphaflega verið að fjárhæð 650.161.425 krónur en höfuðstóll lækkaður um 59.087.000 krónur með samkomulagi 23. desember 2010. Lánssamningur hafi verið gerður í tvennum tilgangi. Annars vegar til fjármögnunar á yfirdráttarskuld sóknaraðila sem hafi numið 306.614.293 krónum. Hins vegar vegna kaupa sóknaraðila á hlutum í Aurora Holding hf. Kaupin hafi verið gerð á genginu 0,41 sem miðaðist við innra virði félagsins samkvæmt reikningum þess gerðum 31. ágúst 2009. Um næstu áramót þar á eftir hafi Aurora Holding hf. verið slitið og samkvæmt uppgjöri félagsins sem var gert af því tilefni hafi innra virði félagsins þá verið búið að lækka. Þess vegna hafi höfuðstóll lánssamningsins verið lækkaður með samkomulaginu 23. desember 2010. Til viðbótar hafi varnaraðilinn EA veitt sóknaraðila afslátt af þjónustugjöldum sem nam 15.000.000 króna. Leiðrétt kaupverð hluta í Aurora Holding hf. að teknu tillit til afsláttar hafi því numið 269.460.132 krónum og miðast við 0,34 eða sama gengi og stuðst var við við slit Aurora Holding hf. Ágreiningslaust sé að þetta gengi hafi ekki verið of hátt. Ef fallist yrði á kröfu um ógildingu kaupanna benda varnaraðilar á að ekki komi til greina að ógilda lánssamninginn í heild sinni heldur aðeins lækka fjárhæðina niður í 306.614.293 krónur sem svarar til áðurgreinds yfirdráttar. Að því er varðar handveðsyfirlýsingar 27. nóvember 2009 um fjármálagerninga á geymslusafni hjá varnaraðila benda varnaraðilar á að í hinu veðsetta geymslusafni séu engin verðmæti. Skorti því lögvarða hagsmuni af ógildingu yfirlýsingarinnar. Krafan sé að öðru leyti órökstudd. Vegna handveðsyfirlýsingar um hlutabréf í Aurora Holding hf. vísa varnaraðilar til þess að fullkomlega eðlilegt hafi verið að seljandi hlutabréfa í Aurora Holding hf. hafi fengið veð í hinu selda þar sem lánað var fyrir kaupverðinu. Sama eigi við um handveðsyfirlýsingu í kröfum á hendur Orange International Investments Ltd. Hvað viðvíkur handveðsyfirlýsingu (Pledge of Collateral) um hlutabréf í Vostok Holding Netherlands BV 30. desember 2009 vísa varnaraðilar til þess að við slit Aurora Holding hf. hafi félagið engar aðrar eignir átt en hluti í téðu félagi. Þegar sóknaraðili hafi keypt hlutina í Aurora Holding hf. af varnaraðilanum EA hafi legið fyrir að slitin myndu fara fram með þessum hætti. Hlutirnir í Vostok Holding Netherlands BV. hafi því komið í stað hinna keyptu hluta og frá upphafi legið fyrir að svo myndi verða. Yfirlýsingin um veð í Vostok Holdings Netherlands BV. eigi því að halda gildi sínu af sömu ástæðu og yfirlýsingin um veð í hlutum í Aurora Holding hf. Að því snertir samkomulag milli sóknaraðila og varnaraðilans EA frá 14. janúar 2011 um breytingar á lánakjörum o.fl. vísa varnaraðilar til þess að krafa sóknaraðila sé alfarið órökstudd og illskiljanleg. Samkomulagið, sem raunar samanstandi af tveimur skilmálabreytingum, hafi verið til hagsbóta fyrir sóknaraðila. Auk þess séu þessar skilmálabreytingar órjúfanlegur hluti af samkomulagi 23. desember 2010 sem sóknaraðili vísi ekki til. Með þessu hafi fjárhæð lánanna verið lækkuð, þóknanir lækkaðar og lengt í lánunum með því að færa gjalddaga þeirra fram um meira en fjögur ár. Hvað varðar málsástæður sóknaraðila byggðar á ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög telja varnaraðilar að 2. mgr. 67. gr. laganna geti ekki átt við þar sem sóknaraðili og varnaraðilinn EA hafi aldrei verið móður- og dótturfélag. Varnaraðilinn hafi aldrei farið með með meirihluta atkvæða í félaginu og félögin aldrei myndað samstæðu. Þegar af þessari ástæðu eigi 2. mgr. 67. gr. laganna ekki við. Því er mótmælt sem röngu og ósönnuðu að skilyrði ákvæðis 72. gr. laganna séu uppfyllt. Ekkert hafi farið fram þar sem stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri höfðu verulegra hagsmuna að gæta sem fóru í bága við hagsmuni félagsins. Þvert á móti hafi sóknaraðili hagnast á viðskiptunum og eigi enn mikla hagnaðarvon. Hafi viðskiptin því verið í samræmi við hagsmuni sóknaraðila. Varnaraðilar telja einnig að þótt skilyrði ákvæðisins væru uppfyllt gæti það einungis leitt til ábyrgðar framkvæmdastjóra og stjórnarmanna en ekki ógildis umræddra löggerninga. Það sé augljóslega ekki tilgangur ákvæðisins að valda ógildingu þeirra ráðstafana sem ákvæðið fjallar um heldur mæla fyrir um ábyrgð stjórnenda. Að því er snertir 76. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Enginn hafi gert nokkuð það sem var til þess fallið að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna. Þvert á móti hafi sóknaraðili hagnast á áðurlýstum viðskiptum. Varnaraðilar vísa til þess að í 1. mgr. 77. gr. komi fram sú meginregla að ef sá sem kemur fram fyrir hönd félags samkvæmt 74. til 75. gr. geri löggerning fyrir hönd þess bindi sá löggerningur félagið. Því er mótmælt sem röngu og ósönnuðu að undantekningarreglur 1. og 2. töluliðar 1. mgr. 77. gr. hfl. eigi við í málinu. Ljóst sé af orðalagi ákvæðisins að þetta séu undantekningarreglur enda sé notað orðið „nema“. Með orðalaginu „takmarkanir“ sé auk þess ekki vísað til framangreindra ákvæða 2. mgr. 67. gr., 72. gr. og 76. gr. laganna sem sóknaraðili vísi til. Þótt þessi ákvæði ættu við myndi 1. töluliður 1. mgr. 77. gr. laganna þar af leiðandi ekki valda ógildingu hinna umdeildu löggerninga. Að því er snertir 2. tölulið 1. mgr. 77. gr. sé ekkert þriggja skilyrða ákvæðisins uppfyllt. Í fyrsta lagi hafi þeir sem komu fram fyrir hönd sóknaraðila hvergi farið út fyrir heimildir sínar. Í öðru lagi, liggi engin sönnun fyrir um að þeir hafi vitað eða mátt vita um hinn meinta heimildarskort og í þriðja lagi geti ekki talist ósanngjarnt að viðsemjandinn haldi fram rétti sínum. Varnaraðilinn EA hafi veitt sóknaraðila yfirdrátt, selt honum hlutafé og kröfu og beri að fá greitt fyrir það. Varnaraðilar vísa því á bug að 249. gr. almennra hegningarlaga eigi við. Ekkert sé komið fram sem bendi til þess að fyrirsvarsmenn sóknaraðila hafi misnotað aðstöðu sína. Það sé rangt að þeir hafi undirritað gerninga án samþykkis stjórnar þó löggerningar hafi verið dagsettir miðað við lögskiptadag og það sé einnig óumdeilt að gengi við kaup á hlutum í Aurora Holding hf. hafi ekki verið of lágt. Af sömu ástæðum eigi 249. gr. sömu laga á ekki við. Að því er snertir málsástæður byggðar á lögum nr. nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga (samningalaga) mótmæla varnaraðilar því, í fyrsta lagi, að gerningarnir hafi verið gerðir sviksamlega. Gerningarnir hafi ekki verið undirritaðir fyrr en eftir stjórnarfundinn 9. október 2009 þar sem viðskiptin voru samþykkt svo sem áður er rakið. Þá er því mótmælt að gengi hafi verið of hátt í viðskiptum með hlutabréf í Aurora Holding hf. eða upplýsingum hafi verið leynt í þeim viðskiptum. Varnaraðilar telja ekki að skilyrðum 33. og 36. gr. samningalaga sé fullnægt. Engin atvik hafi verið fyrir hendi þegar löggerningarnir komu til vitundar varnaraðilans EA eða sóknaraðila sem ættu að leiða til þess að talið yrði óheiðarlegt að bera löggerningana fyrir sig. Sóknaraðili geri auk þess litla tilraun til að rökstyðja hvers vegna hann vísi í ákvæði 33. gr. laganna. Sama sé að segja um ákvæði 36. gr. samningalaga. Enginn rökstuðningur eða sannanir liggi fyrir um að það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera löggerningana fyrir sig. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skuli meðal annars líta til atvika sem síðar komu til. Verði þá væntanlega að líta til þess ávinnings sem sóknaraðili hafi haft af viðskiptunum en það leiði tæplega til þess að gerningarnir séu ógildir. Bæði þessi ákvæði séu undantekningarákvæði sem beri að túlka þröngt og beita sparlega. Jafnvel þó að þeim yrði beitt yrði að gæta meðalhófs og ógilda aðeins þá hluta löggerninganna sem teldust ósanngjarnir. Lánssamningurinn frá 27. nóvember 2009 sé að miklu leyti vegna yfirdráttarskuldar og engin ástæða sé til að ógilda samninginn í heild sinni. Varnaraðilar byggja einnig á því að sóknaraðili hafi sýnt af sér tómlæti við að hafa kröfur sínar uppi. Sóknaraðili hafi fengið heimild til málsóknar á hluthafafundi 18. janúar 2011, en ekki lýst kröfu í slitabú varnaraðilans EA fyrr en einu ári og sjö mánuðum síðar. Niðurstaða Í málinu liggur fyrir fundargerð sóknaraðila 9. október 2009 sem áður er lýst. Með skýrslu Björns Inga Sveinssonar, fyrrverandi stjórnarmanns sóknaraðila, sem sat umræddan fund verður að leggja til grundvallar að þau viðskipti, sem áður er grein gerð fyrir, hafi verið kynnt, þau komið til umfjöllunar á fundinum og stjórnin veitt samþykki sitt fyrir þeim. Fær sú niðurstaða einnig stoð í öðrum gögnum málsins sem sýna að umræddir löggerningar, þ.á m. lánssamningurinn 28. september 2009, hafi ekki komið til framkvæmda fyrr en eftir téðan stjórnarfund þótt þeim væri ætlað að miðast við fyrra tímamark og lok þriðja ársfjórðungs í rekstri varnaraðilans EA. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu sóknaraðila að ákvörðun um téð viðskipti hafi verið án samþykkis stjórnar sóknaraðila og án nægilegrar heimildar af þeim sökum. Á 1. töluliður 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög þar af leiðandi ekki við. Af sömu ástæðu getur ákvæði 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ekki haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Þá telur dómurinn haldlausa málsástæðu sóknaraðila byggða á 247. gr. hegningarlaga.Skýra verður 2. tölulið 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 á þá leið að þar sé vísað til formlegra takmarkana á heimildum fyrirvarsmanna hlutafélaga, svo sem ákvarðana stjórnar eða hluthafafundar þar sem nánar er fjallað um tilteknar heimildir fyrirsvarsmanna félags. Verður ákvæðið því ekki skýrt svo rúmt að þar sé vísað til ráðstafana fyrirsvarsmanna hlutafélags sem teljast ólögmætar af öðrum ástæðum, svo sem vegna þess að þeir mega ekki taka þátt í meðferð máls samkvæmt 72. gr. laganna eða vegna þess að ákvörðun er til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum eða þriðja manni ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað félagsins. Getur ógilding þeirra ráðstafana, sem vísað er til í kröfugerð sóknaraðila, því ekki stuðst við 2. tölulið 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995.AÁður hefur verið lýst þeim viðskiptum sem tengdust lánssamningum sóknaraðila við varnaraðilann EA dagsettum 28. september og 27. nóvember 2009. Þá hefur verið gerð grein fyrir niðurstöðum dómkvaddra matsmanna um söluverðmæti þeirra hagsmuna sem sóknaraðili keypti af varnaraðilanum og þeirri áhættu sem í þeim fólust fyrir sóknaraðila auk þróunar verðmætis hlutabréfa sóknaraðila, rekstrarhæfis og framtíðahorfa. Þótt af hálfu varnaraðilans Avenue A hafi verið bent á ákveðna annmarka við meðferð matsmálsins, einkum þá að aðilar hafi ekki átt þess kost að tjá sig um tiltekin gögn sem matsmenn studdust við, telur dómurinn ekki fram komið að þessir annmarkar hafi verið verulegir, eða haft áhrif á meginniðurstöður matsmanna um matsatriði, svo að máli skipti. Geta þessir annmarkar því ekki leitt til þess að litið verði fram hjá matinu við úrlausn málsins. Af hálfu varnaraðilans Avenue A er rökstuðningi og niðurstöðum dómkvaddra matsmanna einnig mótmælt efnislega í fleiri atriðum. Í fyrsta lagi er bent á að innlán í Bank Lviv hafi verið vanmetin, meðal annars með vísan til þess að miðað hafi verið við gengið 0,65 í viðskiptum varnaraðilans EA og slitabús Landsbanka Íslands hf. á svipuðum kröfum nokkru fyrir viðskiptin. Eins og málið liggur fyrir telur dómurinn að leggja verði til grundvallar, líkt og gert er í matsgerð dómkvaddra matsmanna, að þau innlán sem sóknaraðili tók í reynd yfir frá varnaraðilanum EA hafi falið í sér víkjandi kröfur. Er þá einnig litið til þess að umrætt atriði réðst af rammasamningi varnaraðilans EA og OIIL sem varnaraðilinn EA hefur ekki lagt fram. Þegar litið er til þessa atriðis, svo og tímalengdar lánsins til OIIL, umsaminna vaxta og erfiðra aðstæðna Bank Lviv, telur dómurinn að fallast verði á þá meginniðurstöðu matsmanna að raunverulegt söluverðmæti hinnar framseldu kröfu miðað við 30. september 2009 hafi verið mun lægra en gert var í viðskiptum aðila og jafnvel einungis numið helmingi af nafnverði hennar. Fyrir liggur að í rökstuðningi dómkvaddra matsmanna eru tekjur Pivnichbudinvest, dótturfélags sóknaraðila, ranglega sagðar vera 2-3 milljónir bandaríkjadala en ekki úkraínskrar hryvnur. Þessi villa hefur hins vegar ekki þýðingu um svör matsmanna við fyrstu spurningu í matsbeiðni sem lýtur að verðmæti þess innláns sem sóknaraðili tók yfir. Sama á við um athugasemdir varnaraðilans við verðmæti eigna dótturfélaga sóknaraðila. Hins vegar koma þau til skoðunar þegar afstaða er tekin til þess hver fjárhagsstaða sóknaraðila var við hin umdeildu viðskipti og þá hvort viðskiptin gátu talist þjóna hagsmunum sóknaraðila.Af hálfu varnaraðila hefur því verið haldið fram að sóknaraðili hafi staðið illa fjárhagslega haustið 2009 og greiðsluþrot blasað við honum. Að mati dómsins er nægilega fram komið í málinu að stór hluti eignasafns sóknaraðila á þessum tíma var illseljanlegur vegna aðstæðna í Úkraínu. Eins blasti við að sóknaraðili þurfti á fjármögnun að halda til þess að greiða skuldir sínar við varnaraðilann EA. Þrátt fyrir þetta liggur einnig fyrir að eiginfjárstaða sóknaraðila var sterk samkvæmt bókum félagsins. Er því ósannað að umrædd viðskipti hafi verið óhjákvæmileg til þess að bjarga sóknaraðila frá greiðsluþroti eða þjónað með öðrum hætti hagsmunum fyrirtækisins við þessar aðstæður. Að mati dómsins hagga athugasemdir varnaraðilans um greiðslufærni sóknaraðila haustið 2009 því ekki meginniðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna.Af hálfu varnaraðilans Avenue A eru ýmsar athugasemdir gerðar við niðurstöðu matsmanna um verðmæti 4,67% hlutar í Vostok Holding Netherlands BV. Að því er snertir lækkun á gengi hlutabréfa félagsins í lok ársins 2010, frá því sem miðað var við í samningi sóknaraðila og varnaraðilans EA, telur dómurinn að líta verði til þess að um var að ræða seinni tíma ákvörðun varnaraðilans sem ekki lá fyrir þegar afstaða var tekin til kaupanna á fundi sóknaraðila 9. október 2009. Fellst dómurinn því ekki á að niðurstaða matsmanna um verðmæti hlutarins miðað við 30. nóvember 2009 hafi verið hrakin á þessum grundvelli. Þá telur dómurinn ekki að önnur atriði sem varnaraðilinn Avenue A hefur bent á haggi þeirri meginniðurstöðu matsmanna að um hafi verið að ræða hlutabréf sem erfitt var að finna kaupendur að á þeim tíma sem hér um ræðir.BSamkvæmt 72. gr. laga nr. 2/1995 skal stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri meðal annars ekki taka þátt í meðferð máls um samningsgerð milli félagsins og þriðja manns ef þeir hafa þar verulegra hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni félagsins. Jafnframt segir í ákvæðinu að stjórnarmanni og framkvæmdastjóra beri skylda til að upplýsa um slík atvik. Ekki er um það deilt að framkvæmdastjóri sóknaraðila, Margeir Pétursson, var jafnframt stjórnarformaður varnaraðilans EA, auk þess sem stjórnarformaður sóknaraðila, Sigfús B. Ingimundarson, sat í stjórn varnaraðilans. Jafnframt er óumdeilt að nefndur Margeir var persónulega einn aðaleigenda varnaraðilans EA í gegnum félög sem hann átti hluti í. Eins og stærð og stöðu umræddra tveggja fyrirtækja var háttað á þeim tíma sem hér um ræðir telur dómurinn að leggja verði til grundvallar að nefndir tveir menn hafi fyrst og fremst leitast við að gæta hagsmuna varnaraðilans EA sem þeir voru einnig í fyrirsvari fyrir. Var það þar af leiðandi ósamrýmanlegt fyrirmælum 72. gr. laga nr. 2/1995 að nefndir menn tækju þátt í ákvörðun um gerð samnings varnaraðilans við sóknaraðila, sem laut að verulegum hagsmunum þess síðarnefnda, án þess að upplýst væri hvaða hagsmuni varnaraðilinn EA hefði af viðskiptunum og með hvaða hætti væri tryggt að hagsmuna sóknaraðila væri gætt þrátt fyrir tengsl varnaraðilans við þau fyrirtæki sem samningarnir lutu að. Á hinn bóginn lágu tengsl fyrrgreindra manna við varnaraðilann EA í augum uppi og hlutu því að vera bæði öðrum stjórnarmönnum, svo og hluthöfum ljós, svo sem nánar er vikið að síðar. Einnig liggur fyrir að sóknaraðili átti í margvíslegum viðskiptum við varnaraðilann EA sem mun hafa verið helsti viðskiptabanki fyrirtækisins. Svo sem áður greinir liggur fyrir í málinu að umrædd viðskipti voru kynnt á stjórnarfundi 9. október 2009 og umræddum mönnum þá veittar heimildir til að ganga til samninga við varnaraðilann EA. Öðrum stjórnarmönnum var einnig í lófa lagið að krefjast frekari upplýsinga um viðskiptin, bæði þá og síðar, ekki síst með hliðsjón af tengslum félaganna. Verður því ekki á það fallist að stjórn sóknaraðila hafi vísvitandi verið blekkt til að veita heimildir til þeirra ráðstafana sem hér um ræðir, þannig að ákvæði 30. eða 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 3. gr. laga nr. 11/1986, eigi við. Hvað sem þessu líður telur dómurinn, að virtum niðurstöðum dómkvaddra matsmanna, að þau viðskipti sem hér um ræðir hafi ekki getað helgast af viðskiptalegum hagsmunum sóknaraðila. Dómurinn telur í sjálfu sér ekki ástæðu til að efast um þá fjárfestingarstefnu sóknaraðila, sem varnaraðilar vísa til, að taka hafi átt stöðu gegn íslensku krónunni með því að fjárfesta í erlendum eignum fyrir lánsfé í íslenskum krónum. Slík stefna, svo og áðurlýstir fjárhagserfiðleikar sóknaraðila, geta hins vegar hvorki útskýrt það verð sem sóknaraðili greiddi fyrir yfirtekin lán OIIL og þá áhættu sem því fylgdi að taka lán til skamms tíma til fjárfestingar í víkjandi og bundnu innláni í hinum úkraínska banka. Með sambærilegum hætti telur dómurinn að varnaraðilar hafi ekki fært að því rök, gegn niðurstöðum dómkvaddra matsmanna, hvernig skuldsett fjárfesting á hlutabréfum í Vostok Holding Netherlands BV gat þjónað hagsmunum sóknaraðila á sama tíma og greiðslugeta félagsins var ótrygg. Fær sú niðurstaða einnig stoð í niðurstöðum dómkvaddra matsmanna um þróun á verðmæti hlutabréfa, rekstrarhæfi og framtíðarhorfum sóknaraðila. Samkvæmt þessu telur dómurinn sannað að áðurgreindur framkvæmdastjóri sóknaraðila og stjórnarmaður hafi tekið þátt í ákvörðunum um gerð samninga sóknaraðila og varnaraðilans EA sem kunnu fyrirsjáanlega að fara í bága við hagsmuni þess fyrrnefnda. Gildir einu í því sambandi þótt ekki liggi fyrir með vissu í hverju hagsmunir varnaraðilans EA fólust af umræddum gerningum, svo sem hvort fyrirsvarsmenn hans leituðust við að bæta eiginfjárstöðu bankans.Verður því einnig að fallast á það með sóknaraðila að með athöfnum sínum hafi umræddir menn tekið þátt í því að afla ákveðnum aðilum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað félagsins og annarra hluthafa sem ekki tengdust varnaraðilanum EA, sbr. 76. gr. laganna. Einnig verður á það fallist með sóknaraðila að ganga verði út frá því að fyrirsvarsmenn varnaraðilans EA hafi verið grandsamir um raunverulegt eðli þeirra ráðstafana sem hér var um að ræða. Eins og málið liggur fyrir kemur því til skoðunar hvort brot á fyrrgreindum ákvæðum geti leitt til ógildingar framangreindra viðskipta, að hluta eða í heild, líkt og kröfugerð sóknaraðila gerir ráð fyrir. CMeð ógildi löggernings falla réttaráhrif hans, að hluta eða í heild, niður frá upphafi með þeim afleiðingum að greiðslum er ætlað að ganga til baka. Þegar um er að ræða viðvarandi löggerninga eða löggerninga sem þegar hafa komið til framkvæmda er ljóst að um er að ræða sérlega viðurhlutamikið úrræði sem leitt getur til röskunar hagsmuna samningsaðila. Er því almennt viðurkennt að sá sem hyggst bera ógildingarástæðu löggernings fyrir sig þurfi að gera það án ástæðulausrar tafar, sbr. til hliðsjónar 2. málslið 3. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 2. gr. laga nr. 11/1986. Á þetta því frekar við þegar um er að ræða löggerninga sem ganga kaupum og sölum, eða notaðir eru til tryggingar í lögskiptum við þriðja mann. Til samræmis við þessi grunnrök er í 96. gr. laga nr. 2/1995 kveðið á um þriggja mánaða málshöfðunarfrest vegna ákvarðana hluthafafundar sem hluthafi, stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri telur að teknar hafi verið með ólögmætum hætti, sbr. 95. gr. laganna. Þótt slíkan málshöfðunarfrest sé ekki að finna um ákvarðanir stjórnar hlutafélags eða framkvæmdastjórnar er allt að einu ljóst að gera verður ríkar kröfur um að hluthafar bregðist eins fljótt og kostur er við ákvörðunum þessara aðila sem þeir vilja fella úr gildi.Líkt og áður greinir telur dómurinn nægilega fram komið að umrædd viðskipti hafi verið kynnt á stjórnarfundi sóknaraðila 9. október 2009 en allir hluthafahópar áttu mann í stjórn félagsins. Jafnframt verður að miða við að öllum stjórnarmönnum, svo og hluthöfum, hafi mátt vera ljós náin tengsl framkvæmdastjórans Margeirs Péturssonar og stjórnarmannsins Sigfúsar B. Ingimundarsonar við varnaraðilann EA. Þrátt fyrir þetta liggur ekki fyrir að aðrir stjórnarmenn á fundinum hafi haft uppi athugasemdir eða mótmæli við umrædd viðskipti eða óskað eftir því að fylgjast með nánari framkvæmd þeirra á fundinum eða í kjölfar hans. Svo sem áður greinir um niðurstöður dómkvaddra matsmanna versnaði eiginfjárstaða sóknaraðila verulega í árslok 2009. Þetta virðist þó ekki hafa orðið tilefni til þess að stjórnarmenn, eða hluthafar sem stóðu þeim að baki, gerðu athugasemdir eða hefðu uppi mótmæli við téðum ráðstöfunum á þessum tíma.Eins og málið liggur fyrir verður því að leggja til grundvallar að það hafi fyrst verið með bréfi stjórnar FSP Holding ehf. 27. september 2010 að gerðar voru athugasemdir við þau viðskipti sem hér um ræðir, en þá hafði varnaraðilinn EA hafið innheimtuaðgerðir gagnvart sóknaraðila. Bréfinu var fylgt eftir á hluthafafundi 19. nóvember þess árs og kom þá fram tillaga um að téðum ráðstöfunum yrði hnekkt. Þótt tillögunni væri hafnað á fundinum verður ekki að séð að einstakir hluthafar hafi talið það tilefni til þess að hafa uppi kröfur um ógildingu. Sama á við þegar sú rannsókn samkvæmt XI. kafla laga nr. 2/1995, sem samþykkt var á fundinum, rann út í sandinn. Samkvæmt gögnum málsins var gerð skilmálabreyting á umræddum lánssamningum 14. janúar 2011 með samþykki sóknaraðila. Þá liggur fyrir yfirlýsing varnaraðilans EA um veðsetningu krafnanna til þriðja aðila 1. apríl 2011.Að mati dómsins var því rík ástæða fyrir aðra stjórnarmenn, eða þá hluthafa sem stóðu að baki kjöri þessara stjórnarmanna, til að hafa uppi mótmæli, svo og kröfu um ógildingu ef henni var að skipta, vegna fyrrgreindra viðskipta svo fljótt sem verða mátti. Slík krafa kom hins vegar ekki fram fyrr en á hluthafafundi 18. janúar 2011 án þess að framhald yrði á málinu. Hvað sem líður kæru þrotabús Icarusar ehf. til sérstaks saksóknara vegna viðskiptanna 8. desember 2011 verður því að leggja til grundvallar að afdráttarlaus krafa um að téðar ráðstafanir yrðu felldar úr gildi hafi ekki komið fram fyrr en með kröfulýsingu sóknaraðila 16. ágúst 2012. Var þá liðið hátt á þriðja ár frá því að ákvörðun var tekin um þær á stjórnarfundi haustið 2009. Var þá löngu liðinn gjalddagi lánanna, sem hafði verið skilmálabreytt með samþykki sóknaraðila, auk þess sem lánin höfðu verið nýtt til veðsetningar af hálfu varnaraðilans EA. Með hliðsjón af eðli þeirra samninga sem áður ræðir og aðstæðum við gerð þeirra er það álit dómsins að sóknaraðili hafi sýnt af sér slíkt aðgerðarleysi að hann hafi fyrirgert rétti til að hafa uppi kröfu um ógildingu þeirra ráðstafana sem hann vísar til í kröfugerð sinni. Myndi sú niðurstaða einnig eiga við um málsástæður sóknaraðila byggðar á 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, ef á þær yrði fallist.Samkvæmt framangreindu verður kröfum sóknaraðila hafnað. Í ljósi atvika málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.Af hálfu sóknaraðila flutti málið Einar Gautur Steingrímsson hrl.Af hálfu varnaraðilans EA flutti málið Björn Bergsson hrl.Af hálfu varnaraðilans Avenue A flutti málið Magnús Óskarsson hrl.Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt Ásmundi Helgasyni héraðsdómara og Gylfa Magnússyni dósent í viðskiptafræði.Ú R S K U R Ð A R O R ÐÖllum kröfum sóknaraðila, Austurbrautar hf., gegn EA fjárfestingarfélagi hf. og Avenue A ehf., er hafnað. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 726/2014 | Lánssamningur Gengistrygging Sveitarfélög Ógilding samnings Brostnar forsendur | Talið var að tveir lánssamningar milli L og sveitarfélagsins F væru um lögmæta skuldbindingu í erlendum myntum. Þá var því hafnað að reglur um brostnar forsendur gætu haft áhrif á gildi samninganna þar sem talið var ósannað að það hefði verið ákvörðunarástæða F að gengisþróun yrði á tiltekinn veg. Skilyrði ógildingar samninganna á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga voru heldur ekki talin uppfyllt sökum þess að ekki væri fram komið í málinu um að upplýsingaskyldu L hefði verið ábótavant og ekki fallist á að aðstöðumunur milli aðila leiddi til annarrar niðurstöðu. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 23. september 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 5. nóvember það ár og áfrýjaði hann öðru sinni 12. sama mánaðar samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áfrýjandi krefst viðurkenningar á því að skuld hans við stefnda 3. september 2012 vegna tveggja tilgreindra lánssamninga hafi samtals verið aðallega að fjárhæð 420.715.202 krónur, til vara 451.650.338 krónur, en að því frágengnu 656.925.525 krónur. Verði ekki á það fallist krefst áfrýjandi viðurkenningar þess að umræddir lánssamningar séu bundnir ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með lögum nr. 150/2006 um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga var rekstrarformi sjóðsins breytt. Hefur stefndi tekið við þeim réttindum og skyldum Lánasjóðs sveitarfélaga sem á reynir í þessu máli. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2014. Mál þetta, sem höfðað var með stefnu birtri 12. mars 213, var dómtekið 26. maí sl. Stefnandi er Sveitarfélagið Fjarðabyggð, Hafnargötu 2 á Reyðarfirði. Stefndi er Lánasjóður Sveitarfélaga, Borgartúni 30 í Reykjavík. Aðalkrafa stefnanda er að viðurkennt verði að skuld stefnanda við stefnda hafi þann 3. september 2012 verið 276.644.202 kr. vegna lánssamnings 32/2006 og 144.071.000 kr. vegna lánssamnings 42/2006 eða samtals 420.715.202 kr. Varakrafa stefnanda er að viðurkennt verði að skuld stefnanda við stefnda hafi þann 3. september 2012 verið 292.237.671 kr. vegna lánssamnings 32/2006 og 159.412.667 kr. vegna lánssamnings 42/2006 eða samtals 451.650.338 kr. Fyrsta þrautavarakrafa stefnanda er að viðurkennt verði að skuld stefnanda við stefnda hafi þann 3. september 2012 verið 427.038.322 kr. vegna lánssamnings 32/2006 og 229.887.203 kr. vegna lánssamnings 42/2006 eða samtals 656.925.525 kr. Önnur þrautavarakrafa stefnanda er að viðurkennt verði að lánssamningar aðila 32/2006 og 42/2006 , dagsettir 4. september 2006 séu bundnir ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í þriðju þrautavarakröfu krefst stefnandi þess að ógilt verði eftirtalin ákvæði lánssamninga milli stefnda sem lánveitanda og stefnanda sem lántaka: Ákvæði greinar 2.1 í lánssamningi 32/2006 um að lánaðar verði „EUR 6.000.000 sexmilljónir“. Eftirtalin orð í grein 3.1 í lánssamningi 32/2006 „eða 157.894,74 EUR hver“ og „3.157.894,68 EUR“. Ákvæði greinar 2.1 í lánssamningi 42/2006 um að lánaðar verði „USD 3.800.000 þrjármilljónirogáttahundruðþúsund“. Eftirtalin orð í grein 3.1 í lánssamningi 42/2006 „100.000 USD hver“ og „2.000.000 USD“. Í fjórðu þrautavarakröfu krefst stefnandi viðurkenningar á því að skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986 um að víkja til hliðar að hluta eða breyta lánssamningum 32/2006 og 42/2006 milli stefnda sem lánveitanda og stefnanda sem lántaka séu til staðar. Þess er jafnframt krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað. Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að þriðju og fjórðu þrautavarakröfu stefnanda verði vísað frá dómi og stefndi sýknaður af öðrum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda. Með úrskurði dómsins 26. nóvember 2013 var fallist á kröfu stefnda um frávísun þriðju og fjórðu þrautavarakröfu stefnanda. Atvik máls og ágreiningsefni Á árinu 2006 tók stefnandi lán hjá stefnda til að framkvæmda. Lánssamningarnir eru tveir, báðir undirritaðir 4. september 2006. Samningarnir eru samhljóða varðandi annað en lánsfjárhæðina. Í samningi nr. 32/2006 er lánsfjárhæðin 6.000.000 evra en í samningi nr. 42/2006 er fjárhæðin 3.800.000 Bandaríkjadalir. Samhliða samningsgerðinni undirritaði bæjarstjóri stefnanda óútfylltar beiðnir um útborgun lánanna. Á forsíðu beggja lánasamninganna er handritað annars vegar EUR og hins vegar USD, en prentaður texti á forsíðu tekur ekki annað fram en að um lánssamning sé að ræða, númer hans og nöfn samningsaðila. Lánsfjárhæð er í grein 2.1 í samningunum tilgreind í viðkomandi mynt og þar kemur fram að útborgun sé í einu lagi eigi síðar en fimm bankadögum eftir að beiðni lántaka um útborgun lánsins berst lánveitanda. Í grein 2.3 kemur fram að tilgangur lánanna sé að fjármagna framkvæmdir samkvæmt fjárhagsáætlun stefnanda árið 2006. Endurgreiða beri lánin með 19 afborgunum, þar af 18 jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti sem samtals nema ríflega helmingi lánsfjárhæðarinnar en afganginn skuli greiða í einu lagi á 19. gjalddaganum, sbr. 3. gr. samninganna. Fjárhæð endurgreiðslna er tilgreind í sömu mynt og lánsfjárhæðin. Vextir samkvæmt 4. gr. samninganna eru annars vegar EURIBOR + 0,13% álag á lánið í evrum og LIBOR + 0,13% álag á lánið í Bandaríkjadölum. Vextir eru breytilegir. Til tryggingar lánunum setti stefnandi, með heimildi í 73. gr. laga nr. 45/1998, tekjur sínar, þ.e. framlög úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga og útsvarstekjur sbr. 5. gr. samninganna. Komi til vanskila er stefnda heimilt á grundvelli ákvæðis sömu greinar að ganga að framangreindum tekjum án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar, sbr. einnig ákvæði reglugerðar nr. 123/2006. Lánin voru greidd út þann 1. september 2006 í viðkomandi myntum. Á skjöl, sem undirrituð voru af því tilefni, eru handritaðar upplýsingar um fjárhæð lánanna og viðmiðunargengi í íslenskum krónum. Á tímabilinu fram að 11. september 2006 skipti stefnandi lánsfjárhæðinni í íslenskar krónur. Endurgreiðslur virðast í öllum tilvikum nema einu, þann 1. september 2007, hafa verið inntar af hendi í íslenskum krónum. Greitt var af lánunum á sex mánaða fresti í samræmi við samningsskilmála. Síðasta afborgun fyrir málshöfðun þessa var innt af hendi í september árið 2012. Stefndi, sem er í eigu sveitarfélaga, þ. á m. stefnanda, tók lán erlendis í sömu myntum og hann lánaði stefnanda til að fjármagna lánin til hans. Í útlánareglum stefnda, samþykktum 2. febrúar 2005, er kveðið á um að útlánavextir af endurlánafé skuli vera með 0,05% álagi á vaxtakostnað sjóðsins. Ágreiningur reis milli aðila um lögmæti lánanna. Í bréfaskiptum í júní 2012 lýstu aðilar sjónarmiðum sínum í þessu efni. Telur stefnandi að lánin séu lán í íslenskum krónum sem bundin eru með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla og beri því að endurreikna þau í samræmi við fordæmi Hæstaréttar þar að lútandi. Þá leiði sjónarmið um brostnar forsendur og grunnrök 36. gr. laga nr. 7/1936 einnig til þess að ósanngjarnt sé að hann einn beri gengisáhættu lánanna. Sjónarmið stefnda er það að lánin séu fullkomlega lögmæt og hefur hann hafnað öllum kröfum um endurútreikning þeirra. Ágreiningur þessi er ástæða málaferla nú. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, gaf aðilaskýrslu fyrir dómi og sömu leiðis Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri stefnda. Í skýrslu Páls kom fram að hann hefði gegnt stöðu fjármálstjóra hjá stefnda þegar umdeild lán voru tekin. Við undirbúning lántökunnar hafi verið skoðaðir ýmsir lánamöguleikar og hliðsjón höfð af heildarskuldbindingum sveitarfélagsins, hlutfalli innlendra og erlendra lána og áætlunum um tekjur á lánstímanum. Aðspurður af hverju lán með þessum skilmálum hefði verið tekið svaraði hann því til að það hefði verið til að lágmarka fjármagnskostnað. Hann staðfesti að hafa gert greiðsluáætlun vegna lánanna og sent stefnda. Í greiðsluáætluninni sé miðað við gengi viðkomandi gjaldmiðla á þeim tíma sem áætlunin var gerð. Hann sagði þó að alltaf hefði verið gert ráð fyrir einhverjum gengisbreytingum og óvissan af því kunn en engan hefði órað fyrir að hún yrði jafnmikil og raun varð á. Þá kvaðst hann ekki geta fullyrt að stefnda hafi mátt vera ljóst að tiltekin gengisþróun væri forsenda lántökunnar. Hann einfaldlega myndi ekki nákvæmlega hvað þeim fór á milli. Þá sagði hann að forsvarsmaður stefnda hefði sent honum drög að bókun bæjarráðs þar sem lánveitingin var heimiluð. Í bókuninni kemur fram að bæjarráð samþykki að taka allt að 800.000.000 kr. lán hjá stefnda í erlendri mynt. Þá heimilaði ráðið að lánið yrði í upphafi að hluta eða í heild í íslenskum krónum enda yrði því breytt í lán í erlendum myntum ekki síðar en 1. október þ.á. Jafnframt kemur fram í bókuninni að tekjur sveitarfélagsins muni standa til tryggingar láninu sbr. heimild í 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og að lánið sé tekið til framkvæmda á vegum sveitarfélagsins, sbr. 2. gr. laga um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 136/2004. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi byggir kröfur sínar á þremur meginmálsástæðum. Í fyrsta lagi að lánasamningarnir hafi verið með ólögmætri gengistryggingu, í öðru lagi að veruleg forsenda stefnanda hafi brostið fyrir lánssamningunum sem leiði til ógildingar þeirra að hluta og í þriðja lagi að fyrir hendi séu skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, til að víkja samningsákvæði til hliðar eða breyta því. Í aðalkröfu er farið fram á að viðurkennt verði að staða skuldbindinga stefnanda samkvæmt lánssamningum 32/2006 og 42/2006 við stefnda hafi þann 3. september 2012 hafi verið 420.715.202 kr. og er byggt á útreikningi frá KPMG og gert ráð fyrir því að sjónarmið um gildi fullnaðarkvittana vegna hverra afborgana eigi við, samanber dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012. Í varakröfu er byggt á útreikningum miðað við að lánin hafi borið vexti skv. 4. gr. sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001 frá gildistöku laga nr. 151/2010 en fram að gildistöku laganna, eða til og með gjalddaga þann 1. september 2010, hafi greiðslur stefnanda vegna vaxta verið fullnaðargreiðslur og því skuli draga höfuðstólsgreiðslur frá skuld í íslenskum krónum. Í þrautavarakröfu er þess krafist að sanngirnismati verði beitt og eftirstöðvar lánssamninganna metnar þannig að aðilar skipti að jöfnu á milli sín þeirri hækkun sem orðið hefur á lánunum vegna gengisbreytinga. Til nánari stuðnings þessari málsástæðu vísar stefnandi til þess að lánið hafi verið tekið til að sinna lögbundnum verkefnum sveitarfélags, það hafi verið tryggt með veði í tekjum stefnanda í íslenskum krónum sem hafi veitt stefnda aukna réttarvernd. Stefndi sjálfur hafi talið lánið gengistryggt í umfjöllun í ársreikningi sínum árið 2006. Báðir aðilar hafi nálgast viðfangsefnið þannig að verið væri að lána ákveðna upphæð í íslenskum krónum, að veðið væri tekjur í íslenskum krónum og að endurgreiðsla yrði með íslenskum krónum. Það hafi verið raunverulegt inntak samnings aðila. Meginreglan hafi verið sú að endurgreiðslur yrðu í íslenskum krónum, nema beiðni kæmi fram um annað frá stefnanda. Samningarnir séu því í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Sé fallist á það byggir stefnandi á því að reikna beri eftirstöðvar lánsins í samræmi við dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 og miði aðalkrafan við það. Verði ekki fallist á að um ólögmætt gengistryggt lán sé að ræða byggir stefnandi í öðru lagi á því að að ógilda beri samning aðila á grundvelli reglna kröfuréttar um brostnar forsendur. Sú forsenda hafi brostið, að endurgreiðsla lánsins í íslenskum krónum yrði í samræmi við áætlun sem gerð var við lántökuna. Sú forsenda hafi verið veruleg og verið ákvörðunarástæða sem stefnda hafi verið ljós auk þess sem sanngjarnara sé að leggja áhættuna af henni á stefnda. Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að víkja beri samningi aðila til hliðar að hluta eða breyta þannig að ákvæði um endurgreiðslu verði ógilt og í staðinn fari um endurgreiðslu með sama hætti og ef lánið hefði verið með ólögmætri gengistryggingu eða þannig að miðað verið við stöðu lánsins 3. september 2012. Vísar stefnandi til 36. gr. laga nr. 7/1936 til stuðnings þessari málsástæðu. Byggir hann á því að það sé bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera lánssamningana fyrir sig með þeim hætti sem stefndi gerir. Til frekari rökstuðnings vísar stefnandi til fjárhæðar lánsins, þess að hann hafi eingöngu tekjur í íslenskum krónum, lánið sé tryggt með öruggu veði í tekjum stefnanda, augljós aðstöðumunur sé á aðilum stefnda í hag, auk þess sem stefndi hafi samið lánsskilmálana og þess gengishruns krónunnar sem kom til eftir samningsgerðina. Jafnframt vísar hann til laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti og nú laga 108/2007 um sama efni, sem og þeirra Evrópureglna sem þessir lagabálkar byggja á varðandi þær kröfur sem eðlilegt sé að gera til stefnda sem fjármálafyrirtækis. Stefnandi byggir á því að ástæða þess að lánssamningar aðila hafi verið tengdir við þróun erlendra gjaldmiðla hafi verið sú að vaxtakjör yrðu ella óásættanleg, þ.e. að vaxtakjör í samræmi við 4. og 10. gr. vaxtalaga 38/2001 væru óásættanleg. Eins og gögn málsins beri með sér hafi staða lánanna samkvæmt útreikningi stefnda, eftir greiðslu gjalddaga 1. september 2012, verið ríflega 986 milljónir króna eða 124 milljónum hærri en ef þessi útreikningur sem aðilar beinlínis vildu komast hjá væri lagður til grundvallar. Sé fallist á að forsendur hafi brostið með þeim afleiðingum að ákvæði um erlenda gjaldmiðla í lánssamningunum séu ógild, þá sé byggt á því að dómur geti kveðið upp úr um það hvaða kjör miða skuli við á grundvelli 36. gr. samningalaga. Við slíkt mat beri að horfa til aðalkröfu og varakröfu annars vegar og stöðu lánssamninga 32/2006 og 42/2006 ef þeir eru reiknaðir með vöxtum skv. 4. og 10. gr. vaxtalaga 38/2001 hins vegar. Síðan sé eðlilegt að skipta áhættunni af þessari ófyrirsjáanlegu þróun á milli aðila að teknu tilliti til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Í fyrstu þrautavarakröfu byggir stefnandi á því að sanngirnismat eigi að leiða til þess að þessari áhættu sé skipt milli aðila að jöfnu, hafi ekki verið fallist á fyrri kröfur, og eftirstöðvar lánsins teljist samkvæmt því vera 656.925.525 krónur. Önnur þrautavarakrafan er sett fram sem viðurkenningarkrafa á grundvelli sömu málsástæðna og koma fram í aðalkröfu fari svo að dómurinn fallist á málsástæður að baki aðalkröfu en telji ekki unnt að fallast á þá útreikninga sem lagðir eru til grundvallar þeirri kröfu. Um málskostnaðarkröfu stefnanda vísast til 130. gr. og annarra ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að lán stefnanda hafi verið lögmæt lán í erlendum myntum. Í öðru lagi séu skilyrði almennra reglna samningaréttar um brostnar forsendur ekki fyrir hendi. Í þriðja lagi eigi 36. gr. samningalaga ekki við í málinu. Loks, í fjórða lagi, séu gerðar athugasemdir við fjárhæð einstakra krafna stefnanda, einkum hvað varðar sjónarmið um gildi fullnaðarkvittana. Eigi þessar málsástæður við um allar kröfur stefnanda. Líta beri til raunverulegs inntaks samninganna og taka mið af þeirri meginreglu samningaréttar að aðilum sé frjálst að ákveða inntak samninga sinna. Af þessum ástæðum geti það ekki ráðið úrslitum í málinu þótt orðið gengistrygging hafi komið fyrir í skýringum við ársreikning stefnda fyrir árið 2006. Sé það raunar svo að hugtökin erlend lán og gengistryggð lán hafi verið notuð jöfnum höndum í ársreikningnum. Raunverulegt inntak samninga aðila komi fram í 2.1 gr. þeirra, þar sem stefnandi skuldbindi sig til að taka að láni og stefndi að lána tilgreindar fjárhæðir í tilteknum erlendum gjaldmiðlum. Lánsfjárhæðin hafi því verið tilgreind í erlendum gjaldmiðlum og stefnandi fengið afhent lánsféð í erlendri mynt. Raunverulegar efndir samningsins hafi því verið í samræmi við inntak hans. Því eigi VI. kafla laga um vexti og verðtryggingu ekki við í málinu og nægi hvort þessara atriða eitt og sér til að lánin teljist vera í erlendri mynt með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar. Til viðbótar þessu veiti öll samskipti aðila í aðdraganda samningsgerðarinnar, auk bókunar bæjarráðs stefnanda, skýrar vísbendingar um að ávallt hafi staðið til að taka lán í erlendum gjaldmiðlum. Jafnframt sé gjaldmiðill viðkomandi láns tilgreindur á forsíðu hvors samnings fyrir sig. Að lokum séu vextir samkvæmt lánssamningunum til samræmis við það að um erlent lán sé að ræða tilgreindir LIBOR- og EURIBOR-vextir. Geti að mati stefnda enginn vafi leikið á því að um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum hafi verið að ræða. Fái þau atriði sem rakin séu í stefnu ekki haggað því. Stefndi byggir einnig á því að almennar reglur samningaréttar um brostnar forsendur eigi ekki við í málinu. Í stefnu sé á því byggt að það hafi verið forsenda stefnanda fyrir töku lánanna frá stefnda „að höfuðstóll lánsins og endurgreiðslur væri í samræmi við þær áætlanir sem gerðar voru þar um við lántökuna“. Framangreind áætlun sé skjal sem stefnandi hafi útbúið þar sem sett sé fram greiðsluáætlun, jafnt í viðkomandi erlendum myntum sem íslenskum krónum. Í sjálfum samningum aðila, gr. 3.1, komi síðan fram skýr greiðsluáætlun í þeim erlendu gjaldmiðlum sem lánin samanstóðu af. Bæði höfuðstóll lánsins og endurgreiðslur hafi verið í samræmi við greiðsluáætlun í erlendum myntum, jafnt þá skýru greiðsluáætlun sem fram komi í gr. 3.1 lánssamninganna sjálfra, sem í greiðsluáætluninni sem stefnandi hafi sjálfur gert. Verði umfjöllun stefnanda því ekki skilin á annan veg en þann að það hafi verið forsenda stefnanda fyrir töku lánanna að gengi íslensku krónunnar gagnvart viðkomandi erlendu myntum héldist óbreytt út lánstímann. Þessu hafnar stefndi alfarið og telur þennan málatilbúnað ótrúverðugan. Engin skilyrða fyrir ógildingu á grundvelli brostinna forsendna séu uppfyllt. Stefnanda hafi verið fullkunnugt um mögulegar gengissveiflur íslensku krónunnar og sé því hafnað að forsenda lántökunnar hafi verið að gengi hennar héldist óbreytt út samningstímann og einnig því að það hafi verið ákvörðunarástæða hans fyrir gerð þeirra. Þvert á móti hafi ákvörðunarástæðan að öllum líkindum verið sú að mun hagstæðari kjör hafi boðist á lánum í erlendum gjaldmiðlum en í íslenskum krónum á þessum tíma. Stefnandi hafi valið að taka áhættu sem fylgi slíkum lánum gegn því að fá mun betri kjör. Þar sem óbreytt gengi íslensku krónunnar geti ekki hafa verið forsenda stefnda fyrir lántökunni, hvað þá ákvörðunarástæða, beri þegar af þeirri ástæðu að hafna þessari málsástæðu stefnanda. Af sömu ástæðum geti stefnda ekki hafa verið þessi ætlaða ákvörðunarástæða ljós. Loks geti það ekki talist sanngjarnara að leggja áhættuna af ætluðum forsendubresti á stefnda fremur en stefnanda. Stefndi sé í eigu sveitarfélaga landsins og sé hlutverk hans að endurlána til þeirra lánsfé sem stefndi sjálfur taki að láni. Sé tilgangur þessa fyrirkomulags m.a. sá að auðvelda sveitarfélögum, líkt og stefnanda, að eiga kost á betri lánskjörum á innlendum og erlendum lánsfjármörkuðum. Stefnandi sé meðal eigenda stefnda og ætti eðli máls samkvæmt að vera fullkunnugt um þetta eðli starfsemi hans. Stefndi hafi tekið erlend lán sérstaklega til að fjármagna lánveitinguna til stefnanda, líkt og rakið hafi verið að framan. Stefnandi þurfi að standa full skil á þessum lánum. Þar af leiðandi sé því alfarið hafnað sem röngu að tjón stefnda af því að fallist yrði á kröfur stefnanda nemi aðeins lægri ávöxtun, eins og staðhæft sé af hálfu stefnanda. Þvert á móti muni tap stefnanda nema verulegum fjárhæðum. Yrði slík niðurstaða ekki sanngjörn í garð stefnda í ljósi framangreinds hlutverks hans, og þeirrar staðreyndar að hann hafi aðeins tekið 0,05% vaxtamismun á lánveitingunni, til að standa undir eigin rekstri. Stefndi mótmælir því einnig að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnda að bera samninga fyrir sig. Stefnandi hafði val um það hvernig lán hann tæki. Honum hafi staðið til boða lán í íslenskum krónum eða erlendum myntum og honum hafi verið ljós mismikil áhætta sem fylgdi lántöku. Þá feli krafa stefnanda í sér afar lága raunvexti af láninu miðað við vísitölu krónunnar. Engin sanngirnisrök mæli með því að viðurkenna slík lánskjör. Stefnandi sé stórt sveitarfélag með greiðan aðgang að sérfræðiþekkingu. Hann hafi tekið upplýsta ákvörðun um að velja áhættumeiri leiðina gegn lægri vöxtum, eftir að hafa kannað rækilega þá kosti sem í boði voru. Stefndi sé hins vegar í raun ekkert annað en milligönguaðili, sem hafi gefið stefnda kost á greiðari aðgangi að erlendum lánsfjármörkuðum á betri kjörum en hann hefði notið ella. Stefndi muni þurfa að standa full skil á lánum sem hann hafi tekið til að fjármagna lán til stefnanda. Í ljósi þessa yrði það gríðarlega ósanngjarnt að hann bæri mikið tap af þessu milligönguhlutverki sínu. Það sé því bæði eðlilegt og sanngjarnt að stefnandi endurgreiði lánsféð með umsömdum hætti, rétt eins og stefndi þurfi að gera. Með vísan til alls framangreinds beri því að sýkna stefnda af öðrum kröfum stefnanda en krafist er frávísunar á. Þá mótmælir stefndi forsendum útreikninga stefnanda. Verði fallist á að samningarnir feli í sér ólögmæta gengistryggingu verði að líta með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð og miða við að skuldin beri vexti frá upphafi sem taki mið af 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 sem beri að leiðrétta með hliðsjón af þeirri meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum aðila, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Sjónarmið um gildi fullnaðarkvittana eigi ekki við í málinu. Í öllu falli beri lánið framangreinda vexti frá 16. júní 2010, þar sem stefnandi geti ekki talist hafa verið í afsakanlegri lögvillu frá þeim tíma. Þá mótmælir stefndi þeirri staðhæfingu stefnanda að augljós aðstöðumunur sé á milli aðila. Stefndi sé ekki viðskiptabanki eða fjármálafyrirtæki á almennum markaði heldur starfi eingöngu á grundvelli lögbundins hlutverks síns. Stefndi hafi verið opinber stofnun þegar lánið hafi verið veitt og hafi verið bundinn af takmörkuðu starfsleyfi, lögbundnum tilgangi sínum og samþykktum sem eigendur samþykktu, þar með talið stefnandi. Það sé því ekki augljós aðstöðumunur á lánveitanda og lántaka í umræddum viðskiptum aðila máls þessa. Öll framangreind sjónarmið leiði jafnframt til þess að almennar reglur um brostnar forsendur eða 36. gr. samningalaga geti ekki gert það að verkum að stefnandi fái lán í íslenskum krónum á afar lágum erlendum vöxtum. Geti það aldrei hafa verið forsenda eða ákvörðunarástæða stefnanda fyrir lántökunni. Telja yrði ósanngjarnt að samningsvextir stæðu óhaggaðir, yrðu lánin af einhverjum ástæðum talin í íslenskum krónum. Varakrafa stefnanda grundvallast á því að stefnda sé heimilt að reikna vexti á lánssamninga aðila skv. 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 frá gildistöku laga nr. 151/2010. Líkt og rakið hafi verið hér að framan byggir stefndi á því, verði af einhverjum ástæðum talið að um íslenskt lánsfé hafi verið að ræða, að það beri slíka vexti frá upphafi. Í öllu falli beri það slíka vexti frá 16. júní 2010, enda hafi stefnandi ekki getað verið í afsakanlegri lögvillu frá þeim tíma, sbr. bréfaskrif stefnanda. Ber því að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda. Stefndi mótmælir því að sanngirnisrök mæli með því að fyrsta þrautavarakrafa stefnanda verði tekin til greina. Þvert á móti yrði afar ósanngjarnt að hann bæri tap af því milligönguhlutverki sínu sem lýst hefur verið hér að framan, þ.e. að veita stefnanda aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum á betri kjörum. Stefndi muni þurfa að endurgreiða það lán sem hann tók til að endurlána stefnanda að fullu. Þá leiði af því að sé um að ræða ólögmæta gengistryggingu, beri að líta fram hjá ákvæðum samninganna um vexti, enda ákvæðin í órjúfanlegum tengslum við gengistrygginguna, sbr. fjölda dóma Hæstaréttar þar að lútandi, og miða þess í stað við Seðlabankavexti. Með því að miða við slíka vexti væri stefnandi að fá íslenskt lánsfé á lægstu mögulegu vöxtum á hverjum tíma. Það virðist hins vegar ekki duga stefnanda í þrautavarakröfu, heldur vilji hann ganga lengra og miða stöðu lánsins miðja vegu frá þeirri fjárhæð og fjárhæð lánsins miðað við samningsvexti. Stefndi fái ekki séð hvernig slík kröfugerð samræmist þessari dómaframkvæmd Hæstaréttar. Þá fái stefndi ekki séð hvaða sanngirnissjónarmið eiga að leiða til þeirrar niðurstöðu að stefnandi fái lánsfé á tvöfalt betri kjörum en þau bestu sem buðust hverju sinni. Beri því að sýkna stefnda af þrautavarakröfu stefnanda. Krafa stefnda um málskostnað er reist á 129. gr., 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991. Forsendur og niðurstaða dóms Stefnandi byggir málatilbúnað sinn í fyrsta lagi á því að lán sem hann tók hjá stefnanda á árinu 2006 hafi verið lán í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Stefndi heldur því fram að lánið hafi verið löglegt lán í erlendum gjaldmiðlum. Fjöldi dóma liggur fyrir þar sem reynt hefur á framangreint álitaefna. Hefur Hæstiréttur í dómum sínum fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta lánssamnings þar sem lýst er skuldbindingunni sem lántaki tekst á hendur. Koma önnur atriði tengd samningsgerðinni þá fyrst til skoðunar ef samningsákvæðin sjálf taka ekki af vafa um þetta atriði. Af mörgum dómum um þetta efni má nefna dóma réttarins í málum nr. 524/2011, 337/2013 og 602/2013. Umdeild lán eru í lánasamningum sögð vera í tilgreindum erlendum myntum, fjárhæð þeirra er tilgreind í þeim myntum án þess að tilgreint sé jafnvirði þess í íslenskum krónum. Þá eru vextir tilgreindir sem EURIBOR- eða LIBOR-vextir með tilteknu álagi. Afborganir og vextir voru reiknaðir af lánunum í erlendum myntum á greiðsluseðlum í samræmi við ákvæði samningsins þar að lútandi og staða lánanna sömuleiðis tilgreind í þeim myntum. Engar vísbendingar eru í öðrum skjölum tengdum lánveitingunni sem benda til annars en að um erlend lán sé að ræða. Þá er ekki fallist á það með stefnanda að framkoma aðila í aðdraganda samningsgerðarinnar sýni fram á að ætlunin hafi verið að taka lán í íslenskum krónum. Þvert á móti verður ekki annað ráðið af gögnum málsins og aðilaskýrslu forsvarsmanns stefnanda fyrir dómi en að ætlunin hafi verið sú að taka lán í erlendri mynt. Í þessu sambandi skiptir tilgangur lántökunnar ekki máli og heldur ekki sú staðreynd að tekjur stefnanda voru í íslenskum krónum og þar með einnig veð stefnda. Umdeild lán eru samkvæmt framansögðu lán í erlendum myntum og breytir það ekki þeirri niðurstöðu þótt stefndi hafi greitt afborganir í íslenskum krónum. Þá er hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að reglur um brostnar forsendur samninga geti haft áhrif á gildi lánasamninganna. Af málatilbúnaði stefnanda verður ekki annað ráðið en að þær forsendur sem hann byggir á að hafi brostið, með þeim afleiðingum að ógilda eigi samninga aðila, séu þær að gengi íslensku krónunnar hafi fallið meira en hann gerði ráð fyrir. Ekki er um það deilt að gengi krónunnar féll gríðarlega. Á hinn bóginn er ósannað að það hafi verið forsenda eða ákvörðunarástæða stefnanda að gengisþróun yrði með tilteknum hætti og að stefnda hafi mátt vera ljós sú forsenda þegar samningar voru gerðir. Af framlögðum gögnum má ráða að stefnandi hafi tekið ákvörðun um lánskjör með hliðsjón af lánakjörum á markaði og metið eða átt að meta áhættu og ávinning af mismunandi lánakjörum sem honum stóðu til boða. Verður því að líta svo á að gengisþróun hafi verið áhætta sem stefnandi tók en ekki forsenda sem leitt geti til ógildingar samkvæmt reglum kröfuréttar um brostnar forsendur samninga. Ekki verður séð að greiðsluáætlun stefnanda, sem hann sendi stefnda 28. ágúst 2006, hafi þýðingu í þessu sambandi en í umræddri greiðsluáætlun eru afborganir lánsins umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við tiltekið gengi sem er nálægt gengi viðkomandi gjaldmiðla á lántökudegi. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 geti leitt til ógildingar samninga aðila að hluta eða í heild. Byggir sú niðurstaða á því að stefnanda hafi verið eða mátt vera kunnugt um eðli þeirrar áhættu sem erlend lán fela í sér. Ekkert er fram komið í málinu um að stefnandi hafi ekki búið yfir fullnægjandi upplýsingum um eðli og áhættu af lántöku í erlendri mynt eða að minnsta kosti verið í aðstöðu til að afla sér slíkra upplýsinga. Stefnandi hafði tök á að meta, eftir atvikum með aðstoð sérfræðinga, hvort sú áhætta væri ásættanleg. Jafnframt verður, með hliðsjón af skyldum og ábyrgð stjórnenda sveitarfélags, ekki fallist á að aðstöðumunur milli aðila eigi að leiða til annarrar niðurstöðu. Þá er stefnandi sjálfur einn eigandi stefnda og mátti honum af þeim sökum vera ljóst að lánveitingar stefnda til hans voru fjármagnaðar með erlendum lántökum hans. Sanngirnisök mæla því ekki með því að áhætta stefnanda verði lögð á stefnda. Með framagreindum rökstuðningi verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað. Með hliðsjón af umfangi málsins og hagsmunum sem deilt er um er hann hæfilega ákveðinn 800.000 kr. Ingibjörg Þorsteinsdóttir kvað upp þennan dóm. D ó m s o r ð : |
Mál nr. 492/2010 | Líkamsárás Fyrning | X var ákærður fyrir líkamsárás, sbr. 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa skallað og slegið A í andlitið með þeim afleiðingum að tvær tennur losnuðu. Í héraði var X sakfelldur samkvæmt ákæru og Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms um að ákærðu hefði gerst sekur um þá háttsemi sem lýst var í ákæru. Hæstiréttur vísaði meðal annars til þess að rannsókn málsins hefði hafist sama dag og brotið var framið, 10. febrúar 2008, og verið haldið fram óslitið til 24. júní 2008. Ákæra var hins vegar ekki gefin út fyrr en 4. maí 2010 og hún birt 20. sama mánaðar. Upphaf fyrningarfrests miðaðist við upphaf rannsóknar og tilraunir lögreglu til sáttaumleitunar á tímabilinu breyttu þar engu um. Var brot ákærða fyrnt er málið var höfðað og yrði honum því ekki refsað fyrir háttsemi sína. Þá var skaðabótakröfu A vísað frá héraðsdómi. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. ágúst 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd. Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins og skaðabótakröfu A. Til vara krefst hann þess að refsing falli niður en að því frágengnu að hún verði milduð. Til vara krefst hann einnig lækkunar á skaðabótakröfunni. Af hálfu A hefur ekki verið krafist endurskoðunar á úrlausn héraðsdóms um skaðabætur. Í héraðsdómi kemur fram að vitnið B hafi borið að ákærði hafi skallað A, en vitnið bar einnig að ákærði hefði í framhaldi af því slegið A hnefahögg. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru. Háttsemi ákærða er heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot samkvæmt því ákvæði varðar sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum eða 1 ári ef háttsemin er sérstaklega vítaverð. Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laganna fyrnist sök manns á 2 árum, þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 1 árs fangelsi eða refsing sú, sem til er unnið, fer ekki fram úr sektum. Brot ákærða var framið 10. febrúar 2008. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu komu tveir lögreglumenn á vettvang eftir tilkynningu um líkamsárásina. Þar skýrði A frá því að ákærði hefði verið árásarmaðurinn og sýndi hann lögreglu áverka sína. Lögregla hafði upp á ákærða skömmu síðar. Um samskipti ákærða og lögreglu bókar sá lögreglumaður sem skýrsluna gerði: „Ég gaf mig á tal við hann og ræddi við hann í lögreglubifreiðinni. Ég kynnti X ástæðu afskipta okkar og spurði hann út í málið. X sagðist ekki kannast við manninn og að hann hefði ekki kýlt í andlit hans eins og hann héldi fram. Eftir að hafa fengið persónuupplýsingar frá X var honum sleppt ....“ Í skýrslunni er X nefndur árásaraðili. Þar segir einnig að A muni leggja fram kæru til lögreglu. A fékk fyrstu læknismeðferð þennan sama dag samkvæmt vottorði Rolfs Hanssonar tannlæknis 12. febrúar 2008. A kærði til lögreglu 7. apríl 2008 og var ákærði yfirheyrður 24. júní 2008 auk þess sem þann dag voru teknar skýrslur af vitnum gegnum síma. Lögregla hafði svo símsamband við ákærða 2. september 2008 og innti hann eftir því hvort hann væri fús til að „leysa málið í sáttamiðlun“, sbr. nú b. lið 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði kvaðst fús til þess og hafði lögregla í kjölfarið símsamband við A sem lýsti einnig vilja sínum til slíkrar afgreiðslu málsins, en þó ekki fyrr en hann hefði fengið mat tannlæknis um hugsanlegar varanlegar tannskemmdir. Samkvæmt skýrslu lögreglu 15. október 2008 var ítrekað gengið eftir því að A skilaði þessum gögnum, svo unnt væri að halda sáttafund, en án árangurs. Var þá litið svo á að hann væri ekki samþykkur því að málið færi í þennan farveg. Samkvæmt skýrslu lögreglu 8. janúar 2010 var þó 8. desember 2009 enn á ný reynt að koma á sáttafundi en ákærði hafnaði alfarið framkominni skaðabótakröfu A. Ákæra var svo gefin út 4. maí 2010 og hún birt 20. sama mánaðar. Fyrningarfrestur brots ákærða telst frá þeim degi, er refsiverðum verknaði hans lauk, sbr. 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 4. mgr. 82. gr. laganna rofnar fyrningarfrestur þegar rannsókn sakamáls hefst fyrir rannsóknara gegn manni sem sakborningi. Í málum, sem lögreglan má samkvæmt lögum ljúka með sátt, rofnar fyrningarfrestur þegar lögreglan sakar mann um brot og kynnir honum sáttaboð. Samkvæmt 2. málslið 5. mgr. greinarinnar rýfur rannsókn samkvæmt 4. mgr. ekki fyrningarfrest ef rannsóknari hættir henni eða hún stöðvast um óákveðinn tíma með þeim fyrirvara að sakborningur hafi ekki komið sér undan rannsókninni. Eins og að framan er rakið hófst rannsókn sama dag og brot var framið, eða 10. febrúar 2008 er lögregla bar sakargiftir undir ákærða. Ekki varð hlé á rannsókninni fram til 24. júní 2008. Eftir þann dag og þar til ákæra var birt telst rannsókn málsins hafa stöðvast í skilningi 5. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Hvorki eru lagaskilyrði fyrir því að líta svo á að framangreindar tilraunir við að koma á sátt milli ákærða og brotaþola breyti þessari niðurstöðu né verður ráðið að ákærði hafi reynt að koma sér undan rannsókn. Samkvæmt framansögðu miðast því upphaf fyrningarfrests við 10. febrúar 2008 og var brot ákærða fyrnt er málið var höfðað rúmlega tveimur árum síðar. Verður ákærða því ekki refsað fyrir háttsemi sína, sbr. 6. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður skaðabótakröfu A vísað frá héraðsdómi samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008. Með vísan til 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 verður sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, sbr. og 1. mgr. 220. gr. laganna, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, X, er sýkn af refsikröfu ákæruvalds. Skaðabótakröfu A er vísað frá héraðsdómi. Ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óröskuð þó þannig að kostnaðurinn skal greiðast úr ríkissjóði. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2010. Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 15. júní sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 4. maí 2010, á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 10. febrúar 2008, utandyra við veitingastaðinn Sólon, Ingólfsstræti í Reykjavík, skallað og slegið A í andlitið með þeim afleiðingum að tvær tennur losnuðu. Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða honum skaða- og miskabætur að fjárhæð 1.192.975 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá árásardegi, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá 19. apríl 2009 til greiðsludags. Verjandi ákærða krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, til vara að refsing verði látin niður falla, en til þrautavara að honum verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er þess aðallega krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að bótakrafa verði lækkuð verulega. Loks er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði. Málsatvik Mánudaginn 7. apríl 2008 mætti A til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna líkamsárásar sem hefði átt sér stað laust fyrir klukkan 6 að morgni 10. febrúar utan við veitingastaðinn Prikið í Bankastræti. Sagðist A hafa verið að skemmta sér á veitingastaðnum og verið utandyra að reykja. Þar hefði hann hitt ákærða og sagt við hann að „Breiðholt væri alvöru, en Árbærinn væri hálfvegis“, en hann hefði vitað að ákærði byggi í Árbæjarhverfi. Rétt eftir að hann hefði sagt þetta hefði ákærði orðið brjálaður. Sagðist hann hafa gengið á brott frá ákærða, en ákærði fylgt honum eftir og náð honum í Ingólfsstræti. Hefði hann sagt við ákærða að hann væri á leiðinni heim og „vildi ekkert kjaftæði“. Ákærði hefði þá þrifið í bringu hans, dregið hann að sér, skallað hann og slegið hann eitt högg í andlitið. Hefði skallahöggið verið svo þungt að hann hefði hálfvankast á eftir. B, sem þarna var staddur, hefði fjarlægt ákærða eftir þetta, en síðan hefði lögreglumenn borið að og rætt við þá ákærða. A hefði verið ekið á slysadeild, en þar hefði honum verið bent á að leita til tannlæknis, sem hann hefði gert í framhaldinu. Í vottorði Rolfs Hanssonar tannlæknis, dagsettu 12. febrúar 2008, kemur fram að A hafi leitað til hans 10. febrúar vegna áverka á tönnum sem hann hefði hlotið fyrr um daginn. Hefði A verið aumur í framtönnum vinstra megin í efri gómi og framtönnum neðri góms. Röntgenmyndir hefðu sýnt víkkað rótarslíður tanna #21 og #22 og hefði klínísk skoðun gefið til kynna að tennurnar væru lausar. Tönn #22 hefði gengið niður og inn svo að bit var ekki eðlilegt. Hefði tönnum verið komið fyrir á réttan stað og þær spengdar, en tíminn myndi leiða í ljós hverjar varanlegar afleiðingar yrðu. Ekki væri ósennilegt að nauðsynlegt yrði að rótfylla báðar tennurnar. Í skýrslu sem Ingólfur Már Ingólfsson lögreglumaður, sem kom á vettvang í umrætt sinn, hefur ritað kemur fram að tilkynning hafi borist kl. 5:51 um að maður hefði verið laminn fyrir utan veitingastaðinn Sólon í Bankastræti. Á vettvangi hefði A gefið sig fram við lögreglumenn og hefði hann verið með sár í munni eða munnvikum. Hefði hann nefnt ákærða sem hann sagði hafa slegið sig í andlitið án nokkurs tilefnis. Hefði A sagt að ákærði væri tónlistarmaður, „rappari“, og hefðu þeir verið að ræða eitthvað sem því tengdist inni á veitingastaðnum Prikinu þegar árásin átti sér stað. Lögreglumenn hefðu komið auga á ákærða þar sem hann var á gangi ásamt fleira fólki neðarlega í Bankastræti. Ræddu lögreglumenn við ákærða sem sagðist ekki kannast við A og hefði hann ekki kýlt hann í andlit. Hefði ákærði verið látinn laus eftir þetta, en A ekið á slysadeild. Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 24. júní 2008. Sagðist hann hafa verið að skemmta sér á veitingastaðnum Prikinu nóttina sem um ræðir. Hann hefði farið út af veitingastaðnum og beðið eftir unnustu sinn, sem einnig var á leið út. Þarna fyrir utan hefði hann hitt pilta sem hann hefði ekki þekkt neitt og hefðu þeir farið að rífast við hann, en ekki myndi hann tildrög þess. Á meðan á rifrildinu stóð hefði annar piltanna skyndilega kýlt hann í andlitið og hefði hann þá kýlt piltinn til baka. Ákærði sagðist ekki minnast þess að hafa skallað piltinn. Þetta hefði atvikast mjög hratt. Vel gæti verið að hann hefði skallað hann, en það hefði þá gerst í hita leiksins. Samkvæmt skýrslu lögreglu, dagsettri 15. október 2008, samþykktu ákærði og A að málinu yrði vísað til sáttameðferðar, en A gerði fyrirvara um að áður yrði fengið mat tannlæknis á endanlegum afleiðingum tannáverka. Gögn um þetta bárust hins vegar ekki frá A og var þá litið svo á að hann væri ekki reiðubúinn að taka þátt í sáttafundi. Samkvæmt skýrslu lögreglu 8. janúar 2010 var á ný reynt að vísa málinu til sáttameðferðar. Er ákærða var kynnt að krafist yrði 600.000 króna í skaðabætur hafnaði hann hins vegar að ljúka málinu með þeim hætti. Ákærði neitaði sök fyrir dómi. Við aðalmeðferð málsins sagðist hann hafa verið á veitingastaðnum Prikinu í umrætt sinn. Hefði hann verið á heimleið og beðið eftir samferðarfólki sínu utan dyra þegar til hans hefðu komið tveir menn sem hann þekkti ekki, en vissi nú að voru A og B. Hefðu þeir veist að honum með orðum og hann svarað fyrir sig. Þá hefði A slegið hann hnefahögg í auga svo að hann hlaut glóðarauga. Eftir þetta hefðu orðið áflog á milli þeirra A og hefðu þeir „glímt eitthvað“, en B hefði svo gripið í A og fært hann frá. Ákærði lýsti áflogunum nánar þannig að hann hefði verið kýldur og hefði hann slegið hnefahögg til baka. Eftir það hefði þeim lent saman, en hann teldi ekki að fleiri högg hefðu gengið á milli. Spurður hvort hann hefði skallað A sagði ákærði að ef svo væri hefði það gerst á meðan á glímutökum þeirra stóð, en ekki eins og lýst væri í ákæru. Vitnið A sagðist hafa verið að skemmta sér á veitingastaðnum Prikinu. Hann hefði verið utan dyra á reykingasvæði og þá sagt í gríni við ákærða eitthvað á þá leið að „Árbærinn væri hálfvegis, en Breiðholt væri málið“. Ákærði hefði tekið þessu illa og starað á sig. A sagðist hafa gengið í burtu og verið að tala í farsíma, þegar hann hefði veitt því athygli að ákærði stóð hinum megin við götuna og starði á hann. Sagðist hann hafa kallað til ákærða: „Hvað viltu maður ég er ekki með neitt vesen við þig“, eða eitthvað í þeim dúr. Hann hefði svo snúið sér við, en ekki vitað fyrr en ákærði kom að honum, greip í brjóst hans og skallaði hann og kýldi í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll í götuna. Hefði ákærði verið færður á brott eftir þetta. A sagðist hafa hlotið nokkra áverka á tönnum við atlöguna. Vinstri framtönn í efri gómi hefði gengið inn í næstu tönn við hliðina og framtönn í neðri gómi losnað og skekkst. Þá hefði hann fengið skurð á augabrún. A neitaði alfarið að hafa slegið ákærða áður en hann veittist að honum. Hann hefði borið hendur upp fyrir höfuð þegar þetta gerðist til að sýna að hann vildi ekki slást. A sagðist kannast við ákærða, sem væri tónlistarmaður og tók fram að hann væri sjálfur úr Breiðholtshverfi og vissi að ákærði væri úr Árbænum. Vitnið C sagðist hafa verið á veitingastaðnum Prikinu með A, B og fleirum. Hann hefði komið að A þar sem hann var staddur úti í reykingaporti og hefðu þeir ákærði verið að rífast. Skömmu síðar hefðu þeir yfirgefið veitingastaðinn og hefði ákærði þá komið að, rifið í öxlina á A, sem hefði snúið sér við og hefði ákærði þá skallað hann í andlitið og kýlt hann einu sinni eða tvisvar. Hefði A fallið upp að vegg við þetta. Ákærði hefði verið rifinn frá A og hefði lögreglan komið á vettvang skömmu síðar. C sagðist ekki hafa heyrt orðaskipti milli ákærða og A í reykingaportinu. Vitnið B sagði ákærða og A hafa verið að rífast inni á veitingastaðnum Prikinu og hefði það snúist eitthvað um Árbæ og Breiðholt. A hefði ætlað að ganga í burtu, en ákærði þá kallað til hans. Hefði A snúið sér við, en ákærði þá gripið í hann og skallað hann niður svo að hann féll upp að vegg veitingastaðarins. Hann hefði dregið ákærða í burtu áður en hann næði að kýla A aftur. B sagði A hafa haldið höndum sínum á lofti þegar ákærði gekk að honum og hefði hann spurt ákærða hvað hann ætlaði að gera, en þá verið skallaður. Hann hefði aldrei séð A slá frá sér á meðan á þessu stóð. Vitnið D sagðist hafa verið á veitingastaðnum Prikinu og hefði hann komið að ákærða þar sem hann stóð við innganginn og var að þræta við tvo menn. Hefðu mennirnir gengið að ákærða og veist að honum, en verið stíað í sundur af viðstöddum. Þetta hefði gerst mjög hratt og lögreglan fljótlega komið á vettvang. D sagðist ekki hafa séð nákvæmlega hvað gerðist þegar mennirnir stóðu saman eins og hann hefði lýst. Hann hefði séð þá hvorn ofan í öðrum og síðan séð að ákærði var blóðugur. Þar sem ákærði stóð neðar í götunni en mennirnir hefði hann talið að þeir hefðu átt frumkvæði að átökunum. Niðurstaða Ákærði neitar sök. Hann viðurkennir að hafa slegið A einu hnefahöggi í andlit, en hefur borið að A hafi slegið hann fyrst. Þá hefur ákærði borið að hann muni ekki eftir því að hafa skallað A, en ef eitthvað slíkt hafi gerst hafi það verið á meðan þeir tókust á í glímutökum, en ekki með þeim hætti sem lýst er í ákæru. A hefur lýst því að ákærði hafi skallað hann og slegið í andlit hans í umrætt sinn. Vitnið C sagðist hafa séð ákærða skalla A í andlitið og slá hann einu eða tveimur hnefahöggum. Þá bar B að hann hefði séð ákærða skalla A og sagðist vitnið hafa fjarlægt ákærða áður en hann næði að veita A frekari högg. Vitnunum þremur bar saman um að A hafi ekki slegið ákærða, eins og ákærði hefur borið um. Sem fyrr greinir játar ákærði að hafa slegið A hnefahöggi í andlit. Með því og að öðru leyti með vísan til framburðar framangreindra vitna telst sannað að hann hafi veist að A með þeim hætti sem lýst er í ákæru og valdið honum þeim áverkum sem þar greinir og staðfestir eru með vottorði tannlæknis. Framburður ákærða um að A hafi slegið hann í aðdraganda atlögunnar fær ekki stoð í framburði vitna eða gögnum málsins að öðru leyti og er honum hafnað. Breytir vætti C engu þar um, en fram kom hjá vitninu að hann hefði ekki séð nákvæmlega hvað gerðist á milli mannanna, sem hefðu staðið þétt saman. Telst háttsemi ákærða rétt færð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði krefst aðallega sýknu vegna þess að sök á hendur honum sé fyrnd. Brot samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga varða fangelsi allt að einu ári og fyrnast því á tveimur árum, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Verður talið að fyrningarfrestur hafi, samkvæmt 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga, rofnað þegar ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 24. júní 2008 vegna gruns um að hafa framið brotið. Ákæra var gefin út á hendur ákærða 4. maí 2010 og málið þingfest 26. sama mánaðar. Var sök ákærða þá ófyrnd samkvæmt framansögðu og verður ekki fallist á sýknukröfu ákærða af þessari ástæðu. Þá krefst ákærði sýknu þar sem háttsemi hans hafi réttlæst af neyðarvörn, sbr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Ekkert er komið fram í málinu sem bendir til þess atlaga ákærða hafi verið nauðsynleg til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás, svo sem í 12. gr. almennra hegningarlaga greinir og er hafnað vörn ákærða á þeim grunni. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru. Ákærði er fæddur í [...]. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á refsingu. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að árás hans á A var harkaleg, þar sem hann veitti A skalla- og hnefahögg í andlit svo að hann hlaut allnokkra áverka af. Þótt fram sé komið að áður hafi komið til einhverra orðaskipta á milli ákærða og A var aðdragandi atlögunnar engan veginn með þeim hætti að til málsbóta horfi fyrir ákærða samkvæmt 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn verður litið til þess að langt er liðið frá því er brotið var framið og hafa ekki fengist viðeigandi skýringar á þeim drætti sem orðið hefur á lögreglurannsókn málsins. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, en rétt þykir að ákveða að fresta skuli framkvæmd refsingarinnar og að hún falli niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. A hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.192.975 krónur með vöxtum, sem sundurliðast þannig: Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða, sbr. a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, sem þykja hæfilega ákveðnar 250.000 krónur. Jafnframt verða brotaþola dæmdar bætur vegna kostnaðar við að halda fram bótakröfu sinni, en í samræmi við viðmiðunarreglur dómstólaráðs er fjárhæð þeirra ákveðin 125.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Meðal gagna málsins er staðfesting á greiðslu brotaþola til AB tannlæknastofu 13. nóvember 2009, vegna röntgenmyndatöku o.fl., að fjárhæð 9.650 krónur. Kröfu um skaðabætur vegna áætlaðs tannlæknakostnaðar fylgja ekki önnur gögn og verða brotaþola ekki dæmdar frekari bætur en sem útlögðum kostnaði nemur. Skaðabætur beri vexti sem í dómsorði greinir. Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Árna Helgasonar hdl., 351.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Ragna Bjarnadóttir aðstoðarsaksóknari. Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð: Ákærði, X, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði greiði A skaðabætur að fjárhæð 385.150 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. febrúar 2008 til 26. júní 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Árna Helgasonar hdl., 351.400 krónur. |
Mál nr. 8/2019 | Leigusamningur Jörð Erfðafesta Byggingarbréf Uppsögn Riftun Frávísun frá héraðsdómi | Ágreiningur í málinu laut að því hvort B hefði verið heimilt að segja upp afnotaréttinum Á yfir jörðinni Kleifum, sem B átti grunneignarréttindi að, og krefjast þess að hún viki af jörðinni og afhenti B umráðin gegn greiðslu. Deildu aðilar um hvort skilyrði hefðu verið til uppsagnarinnar af hálfu B og ef svo væri hvort uppsögnin hefði náð til alls lands jarðarinnar eða einungis hluta hennar. Reisti B heimild sína til jarðarinnar annars vegar á fjórum erfðaleigusamningum sem gerðir voru á árunum 1932 til 1939 og hins vegar á byggingarbréfi frá 1951. Lýsing byggingarbréfsins á merkjum Kleifa náði að verulegu leyti bæði til þess lands jarðarinnar sem leigt var með erfðaleigusamningunum og byggingarbréfinu en B sagði upp ábúð á jörðinni á árunum 2009 og 2011 einungis með vísun til byggingarbréfsins. Talið var að þegar litið væri til þess hversu ríkan rétt erfðaleigusamningar veittu leigutökum og að hvergi í byggingarbréfinu væri þess getið að það felldi niður erfðaleigusamningana fjóra hefði B ekki fært sönnur á að það hefði verið tilætlun samningsaðila að byggingarbréfið leysti erfðaleigusamningana af hólmi. Hefði afsal svo ríks réttar þurft að koma fram með skýrum og ótvíræðum hætti í byggingarbréfinu. Að fenginni þeirri niðurstöðu var talið að krafa B, ef rétt reyndist, gæti einungis tekið til þess að Á yrði gert að víkja af þeim hluta jarðarinnar sem byggingarbréfið tók til en ekki jörðinni allri eins og krafa B tók mið af. Vegna þessa misræmis í málatilbúnaði B var málinu vísað frá héraðsdómi. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason,Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. janúar 2019 að fengnuáfrýjunarleyfi. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar á öllumdómstigum.Stefndi krefst þess að dómur Landsréttar verði staðfestur og áfrýjandagert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.IJörðin Kleifar sem er innan marka Blönduóssbæjar hefur samkvæmt gögnummálsins sérstakt land- og fastanúmer. Í málinu er ágreiningslaust að stefndi ereigandi að grunneignarrétti þess lands sem jörðin nær til og að réttindiáfrýjanda yfir henni séu afnotaréttindi. Á hinn bóginn er ágreiningur um heimildstefnda til að segja afnotaréttindum áfrýjanda upp og krefjast þess að hún víkiaf jörðinni og þeim mannvirkjum sem þar eru, fjarlægi þaðan eigur sínar ogafhendi stefnda umráðin gegn greiðslu samkvæmt mati úttektarmanna. Greiniraðila í því sambandi á um hvort skilyrði hafi verið til uppsagnarafnotaréttindanna af hálfu stefnda og ef svo er hvort uppsögnin hafi náð tilalls lands jarðarinnar eða einungis hluta hennar. Heimild sína til Kleifa reisir áfrýjandi annars vegar á fjórum erfðaleigu-eða erfðafestusamningum sem faðir hennar, Kristinn Magnússon kaupmaður, ogSteingrímur Davíðsson barnaskólakennari gerðu hvor í sínu lagi viðBlönduóshrepp á fjórða áratug síðustu aldar. Var Kristinn afnotahafi samkvæmttveimur samninganna og Steingrímur samkvæmt öðrum tveimur og tóku samningarnirfjórir samtals til 7,39 hektara lands. Í mars 1949 seldi Steingrímur ogafsalaði Kristni réttindum sínum samkvæmt þeim erfðaleigusamningum sem hann hafðigert og naut Kristinn eftir það einn réttinda samkvæmt samningunum fjórum. Hinsvegar reisir áfrýjandi heimild sína til jarðarinnar á byggingarbréfi fráseptember 1951 til handa Kristni til stofnunar nýbýlis en hið leigða landsamkvæmt þeim samningi var 12 hektarar að stærð. Af þessu leiðir að land Kleifaværi samtals 19,39 hektarar að stærð ef miðað yrði við samanlagt flatarmállands samkvæmt erfðaleigusamningunum fjórum og byggingarbréfinu. Fyrir liggursamkvæmt gögnum málsins að framangreindum heimildarskjölum var þinglýst.Um árið 1970 var unnið að breikkun Svínvetningabrautar og munu þá hafaverið teknir 1,29 hektarar af landi Kleifa sem varð eftir það 18,1 hektari aðstærð. IIEkki er um það ágreiningur í málinu að Steingrímur Davíðsson og KristinnMagnússon hófu þegar á árinu 1932 framræslu og ræktun þess lands semerfðaleigusamningarnir náðu til og voru lóðirnar girtar fjárheldri girðingu ísamræmi við efni samninganna. Eftir framsal erfðaleiguréttindanna á árinu 1949frá Steingrími hóf Kristinn að byggja álandinu og í lok þess árs munu hafa verið risin á landinu fjárhús fyrir 70 ær,hesthús fyrir 12 hesta, þurrheyshlaða og verkfærageymsla, en bygging íbúðarhússhófst á árinu 1950. Útihúsin voru reist á þeirri spildu sem Kristinn fékk áerfðaleigu á árinu 1932 en íbúðarhúsið á spildunni sem Steingrímur tók áerfðaleigu árið 1938. Bróðir áfrýjanda, Magnús Kristinsson, tók við búskap á Kleifum að föðurþeirra látnum í nóvember 1979 og bjó þar ásamt móður þeirra allt til andlátshennar í júní 1993. Eftir það bjó Magnús einn að Kleifum þar til hann lést ínóvember árið 2000. Árið 1994 kom upp riða á Kleifum og var allt fé þar þáskorið og greiðslumark jarðarinnar selt ári seinna með samþykki stefnda.Áfrýjandi tók við réttindum þeim er faðir hennar átti yfir Kleifum fyrir erfðirog með kaupum árið 2001 á réttindum systur sinnar sem var samerfingi hennar. Fráþeim tíma er fé var slátrað vegna riðu munu öll tún á Kleifum hafa verið sleginog hey þar hirt á hverju ári auk þess sem jörðin mun meðal annars hafa veriðnýtt til hrossabeitar og ræktunar. IIIFyrsti erfðaleigusamningurinn sem áfrýjandi samkvæmt framansögðu reisir réttsinn til Kleifa á var gerður 1. apríl 1932 milli hreppsnefndar Blönduósshreppsog Steingríms Davíðssonar. Samningurinn kvað á um að hreppurinn seldiSteingrími á erfðaleigu 1,7 hektara ræktunarland sem „liggur í mýrinni fyrirnorðaustan Klyfakot. Takmörk eru: Skurður, sem þegar er gerður að sunnan ogaustan, girðingin að vestan og lóð Kristins Magnússonar að norðan eða norðvestan.“Í 2. grein samningsins kom fram að lóðin væri „leigð til óákveðins tíma frá 1.janúar 1932 að telja, með rjetti leigutaka til að selja eða veðsetjaafnotarjett sinn á lóðinni ásamt húsum og öðrum mannvirkjum sínum á henni áþann hátt, sem ekki kemur í bága við þetta brjef.“ Í framhaldi af þessu sagðimeðal annars: „3. Á lóðinni má leigutaki byggja fjenaðarhús, heyhlöður ogáburðarhús eftir þörfum, en verði þar reistar aðrar byggingar, skal greiðaleigusala fyrir það sjerstakt gjald, miðað við leigu húsgrunna (byggingarlóða)á staðnum ... 4. Í afgjald af lóðinni skal leigutaki greiða sveitarsjóðiBlönduóshrepps 31. október ár hvert kr. 25,50 ... Sami gjalddagi verður áhúsgrunnaleigu, ef til kemur samkvæmt 3. gr. 5. Lóðin skal vera fullgirt með gildrifjárheldri girðingu og þurkuð, innan tveggja ára frá 1. jan. 1932 að telja, ogtalið frá sama tíma skal hún vera fullræktuð á 10 árum, enda sje minnst 1/8hluti ræktaður á ári hverju árin 34-42. Að öðrum kosti fellur landið aftur tileiganda (leigusala), án þess að nokkuð greiðist fyrir það, sem unnið kann aðhafa verið að ræktun þess eða þurrkun. Óheimilt er leigutaka mótak íræktunarlóðinni, nema sjerstakt samþykki leigusala komi til. 6. Lóðin stendurávalt sem trygging, lögveð, fyrir skilvísri og skaðlausri greiðslulóðarleigunnar, og gengur það fyrir öllum öðrum kröfum en sköttum tilRíkissjóðs.7. Að öllu öðru en því, er fyrir er mælt í brjefi þessu, fer umskyldur og rjettindi leigutaka og leigusala samkvæmt landslögum þeim, er núgilda eða síðar verða sett.“ Annar erfðaleigusamningurinn var gerður 19. apríl 1932 milli hreppsnefndarBlönduósshrepps og Kristins Magnússonar. Samningurinn var um erfðaleigu áræktunarlandi til óákveðins tíma og sagði þar að lóðin væri „að stærð 3,4hektarar. Hún er í mýrinni fyrir norðaustan Klifakot. Liggur á milli lóðarSteingríms Davíðssonar að suðaustan og há bakkan við Blöndu að norðvestan.(Undir bakkinn fylgir ekki). Að norðaustan er skurður, að suðvestan girðing.“ Árlegtendurgjald fyrir afnot landsins skyldi vera 51 króna en að öðru leyti varsamningur þessi orðrétt samhljóða samningnum við Steingrím Davíðsson frá 1.apríl 1932. Þriðji erfðaleigusamningurinn var gerður 3. janúar 1938. Með honum seldi hreppsnefndBlönduósshrepps Steingrími Davíðssyni á erfðaleigu til óákveðins tíma ræktunarland„að stærð 0,69 hektarar. Hún takmarkast af: túnslóð Kristins Magnússonar aðaustan, vestan af túnslóð Zoph. Zophaníassonar, norðan af Blöndu og sunnan afgirðingu er liggur beina línu frá túnshliði Kr. Magnússonar í Klyfakotslæk, þarsem hann gengur lengst í suður.“ Árlegt endurgjald fyrir landsafnotin skyldivera 10,35 krónur en að öðru leyti var samningurinn orðrétt samhljóða samningunumtveimur frá 1932. Fjórði erfðaleigusamningurinn var gerður 15. júlí 1939 en með honum seldihreppsnefnd Blönduósshrepps Kristni Magnússyni á erfðaleigu til óákveðins tíma ræktunarland„að stærð 1,6 hektarar. Hún takmarkast af túnlóð Kristins Magnússonar að vestan,að sunnan og austan er ræktað land, en að norðan er Blanda.“ Árlegt endurgjaldskyldi vera 24 krónur en að öðru leyti var samningurinn orðrétt samhljóðaframangreindum þremur erfðaleigusamningum. Steingrímur Davíðsson afsalaði Kristni Magnússyni 27. mars 1949 túni sínu„að stærð 1,7 hektarar samkvæmt lóðarsamningi dagsettum 1. apríl 1932, ogeinnig lóð mína á Klyfakoti 0,69 hektarar samkvæmt lóðarbréfi útgefnu 3. jan.1938. Lóðirnar seljast með girðingum og öðrum mannvirkjum, og í því ástandi erþær nú eru. Verð lóðanna beggja er kr. 6000,oo – sex þúsund krónur, og er þegargreitt. Kaupandi greiðir frá þessum degi skatta og skyldur af eigninni og nýturallra réttinda frá sama tíma.“ Eftir þetta naut Kristinn afnotaréttar samkvæmtöllum framangreindum erfðaleigusamningum sem tóku samtals til 7,39 hektaralands. Á fundi hreppsnefndar Blönduósshrepps 11. júní 1949 var samþykkt að verðavið beiðni Kristins Magnússonar um að hann fengi „viðbótarræktunarlóð upp hjáKlifakoti að stærð ca. 4 hektarar. Hyggst Kristinn að koma þarna upp nýbýli, entil þess þarf minnst 12 hektara lands samkv. lögum, en nú þegar hefur hannþarna um 8 hektara ræktaðs lands.“ Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvortsamningur var nokkru sinni gerður um þessa viðbótarræktunarlóð eða hvers efnisen hafi þessi úthlutun gengið eftir í samræmi við samþykkt hreppsnefndar hefðiKristinn eftir það notið afnotaheimildar að 11,39 hekturum lands í eiguhreppsins.Meðal gagna málsins er bréf nýbýlanefndar Austur-Húnavatnssýslu tilNýbýlastjórnar ríkisins í ágúst 1949 og var það ritað í „tilefni af nýbýli, semhr. Kristinn Magnússon á Blönduósi hefur fyrirhugað að stofna á rústumKlifakots í Blönduóshreppi“. Sagði í niðurlagi bréfsins að nefndin mælti „mjögeindregið með því, að hr. Kristinn Magnússon njóti til þessarar býlisstofnunarfullra hlunninda samkvæmt lögum nr. 35 frá 23. apr. 1946, um landnám ognýbyggðir.“ Þá er einnig meðal gagna málsins ljósrit úr spjaldskráNýbýlastjórnar ríkisins um nýbýlið Kleifar. Er nýbýlið þar sagt nr. 114, hafa veriðsamþykkt 15. janúar 1950, eigandi þess sé Kristinn Magnússon, ábúð hans séerfðaábúð en landstærðar nýbýlisins var þar ekki getið. IVMeð byggingarbréfi 26. september 1951 byggði oddviti BlönduósshreppsKristni Magnússyni „til löglegrar erfðaábúðar hluta af landi Blönduósshrepps,til stofnunar nýbýlis, með tilgreindum réttindum, sem lýst er í 2. gr. þessasamnings. Erfðaábúðarsamningur þessi tekur gildi frá þeim degi að telja, semhann er undirritaður, og er gerður samkv. lögum nr. 116, 30. des. 1943, umættaróðal og erfðaábúð.“ Í 1. grein byggingarbréfsins sagði að landið værileigt til stofnunar nýbýlis sem byggt yrði samkvæmt lögum nr. 35/1946 umlandnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, og væri erfðaábúðarhafi í einuog öllu háður skyldum og fyrirmælum þeirra laga og reglugerðar um stofnunnýbýlisins. Í 2. grein byggingarbréfsins kom fram að áðurnefnt nýbýlisland væri 12hektarar að stærð og var mörkum þess nánar lýst. Um þau sagði: „SV takmörkineru Svínvetningabraut. – NV takmörkin eru: a) Girðingin meðfram túniZóphóníasar Zóphóníassonar frá Svínvetningabraut að Blöndu, b) Blanda fránefndri girðingu að norðurenda girðingarinnar sem liggur frá Blöndu upp ámelhólinn austan Kleifakotstúnsins. NA. takmörkin eru: a) Nýnefnd girðing, þaðsem hún nær, b) Lína, sem hugsuð er sjónhending úr suðurenda hennar austur ínorðurendann á miðskurðinum, sem nú þversker Kleifakotsmýrina – annan skurðaustan frá - , c) Umræddur skurður upp að skurðinum, sem liggur vestur meðbrekkunni sunnan Kleifakotsmýrarinnar. SA takmörkin eru: a) Skurðurinn niðurmeð brekkunni og ræður hann að girðingu þeirri, sem liggur sunnan túnsins,beina línu að Svínvetningabraut, b) Síðastnefnd girðing að brautinni.“ Þá sagðieinnig í 2. grein að landið væri leigt með þeim réttindum að ábúandi nýbýlisinshefði beitarréttindi í landi Blönduósshrepps fyrir búfénað sinn „samkvæmtreglum um notkun beitilandsins, sem nú eru, eða settar verða.“ Samkvæmt 3. grein byggingarbréfsins skyldi eftirgjald jarðarinnar vera 3%af fasteignamatsverði landsins eins og það yrði metið þegar erfðaábúandi fengiþað til umráða. Í 4. grein kom fram að eftirgjaldið skyldi greiðast í peningumfyrir 15. október ár hvert og samkvæmt 6. grein skyldi erfðaábúandi greiða allaskatta og skyldur sem hvíldu á jörðinni og mannvirkjum hennar „er á hana verðalagðar, sem gjaldstofn, samkvæmt þeim lögum, sem eru í gildi, eða seinna verðasett, án nokkurs endurgjalds af landsdrottni.“ Í 7. grein byggingarbréfsins sagðiað jörðin væri leigð til búrekstrar og væri önnur notkun landsins því aðeinsheimil að samþykki Nýbýlastjórnar ríkisins kæmi til. Ekki mætti selja eðaráðstafa í varanlega leigu neinum hluta lands undan jörðinni án samþykkislandsdrottins og Nýbýlastjórnar ríkisins. Samkvæmt 8. grein naut erfðaábúandiréttar til að veðsetja landið með húsum þeim og mannvirkjum sem hann ættisjálfur á því fyrir þeim lánum sem hann tæki samkvæmt lögum um landnám,nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum. Í 9. grein byggingarbréfsins sem varlokaákvæði þess sagði að um réttindi og skyldur erfðaábúanda að öðru leyti færi„samkvæmt lögum nr. 116 frá 30. desember 1943, um ættaróðal og erfðaábúð, svoog lögum nr. 87, frá 19. júní 1933, að því er tekur til meðferðar jarðar og annarser við á. Ennfremur samkvæmt lögum nr. 35 frá 29. apríl 1946, um landnám,nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, að því er tekur til ákvæða um veðsetningujarðar fyrir lánum úr byggingarsjóði.“ Undir byggingarbréfið ritaði KristinnMagnússon sem samþykkur og skuldbatt sig til að halda það í öllum greinum. VÁ árinu 2004 áttu dóttir áfrýjanda og tengdasonur fund með bæjarstjórastefnda þar sem viðraðar munu hafa verið hugmyndir um búrekstur,veitingarekstur og fleira á Kleifum auk hugmynda um að breyta fjárhúsum ílistamannaíbúðir. Þá mun eiginmaður áfrýjanda ásamt dóttur þeirra og tengdasynihafa átt fund með bæjarstjóra um sama efni haustið 2009 og hugsanleganmenningartengdan ferðaþjónustubúskap. Með bréfi bæjarstjóra stefnda 22. desember 2009 til áfrýjanda sagðibærinn „upp byggingabréfi dags. 26. september 1951, sem tekur til jarðarinnarKleifa í landi Blönduóssbæjar, landnúmer 144799, samkvæmt heimild í ábúðarlögumnr. 80/2004.“ Með bréfi til stefnda 10. júní 2011 mótmælti áfrýjandi uppsögninnisem hún kvað vera markleysu og óskuldbindandi fyrir sig. Benti áfrýjandi í þvísambandi á að erfðaleigusamningunum fjórum yrði ekki sagt upp og hvaðbyggingarbréfið frá 1951 varðaði teldi áfrýjandi að Blönduósbær hefði meðathugasemdalausri framkvæmd til margra ára ótvírætt samþykkt að á Kleifum yrðiekki stundaður landbúnaður samkvæmt 12. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004. Þá vaktiáfrýjandi sérstaka athygli á því að engar ástæður væru gefnar fyrir uppsögninniog almenn tilvísun til ábúðarlaga gæti ekki verið grundvöllur uppsagnarerfðaábúðar samkvæmt byggingarbréfinu. Erindi áfrýjanda svaraði stefndi með bréfi 30. júní 2011. Þar kom fram aðfallist væri á með áfrýjanda að rétt hefði verið að tilgreina ástæður uppsagnarí bréfinu 22. desember 2009 og að engin almenn uppsagnarheimild væri í ábúðarlögumá erfðaábúð. Þá sagði að það væri „ótvírætt mat jarðareiganda ogsveitarstjórnar að ábúendur hafi vanrækt verulega skyldur sínar samkvæmtábúðarlögum og að jarðareiganda sé því heimilt að segja upp ábúð. Þær skyldursem vanræktar hafa verið eru einkum skv. 12. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 ogvarða skyldu ábúanda að hafa fasta búsetu á ábúðarjörð sinni og að þar skulistundaður landbúnaður. Engin formleg umsókn hefur borist sveitarstjórn eðajarðareiganda um undanþágu frá þessum ótvíræðu skyldum ábúanda. Hér með er þvíumbjóðendum þínum sagt upp ábúð að nýju með 6 mánaða fyrirvara frá móttökubréfs þessa og með vísan til 37. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004. Byggist uppsögnþessi á vanrækslu ábúenda á skyldum sínum skv. 12. gr. sömu laga og áður erunefndar.“ Áfrýjandi sendi stefnda bréf 17. ágúst 2011 þar sem uppsögninni var enn mótmælt.Ítrekaði áfrýjandi það sjónarmið sitt að erfðaleigusamningunum yrði ekki sagtupp og að stefndi „hafi með vitneskju sinni, athafnaleysi, hugmyndavinnu ogannarri samvinnu sinni við ábúendur ótvírætt samþykkt þau afleiddu notjarðarinnar sem jörðin hefur m.a. verið að hluta nýtt til á undanförnum árum.Vísast í því efni til þess að sveitarstjórn var þegar í kjölfar riðuveikiþeirrar er upp kom árið 1994 ljóst að að jörðin yrði að öllum líkindum tekintil breyttrar nýtingar frá því sem áður hafði verið og var Blönduósbær m.a.viðriðinn þá hugmyndavinnu á árunum á eftir. Telur umbjóðandi minn að sveitarstjórnhafi í verki og ótvírætt veitt samþykki skv. 12. gr. jarðalaga nr. 80/2004fyrir því að á jörðinni væri ekki á öllum stundum stundaður formlegurlandbúnaður. Með sömu rökum telur umbjóðandi minn að Blönduósbær hafi í verkiótvírætt veitt samþykki sitt fyrir því að ábúandi hefði ekki á öllum stundumfasta búsetu á jörðinni ... Verði litið svo á að samþykki sveitarstjórnar hafiekki verið fyrir hendi og umbjóðandi minn hafi af þeim sökum vanefnt skyldursínar skv. 12. gr. hafi sveitarstjórn sem stjórnvaldi borið að áminnaumbjóðanda minn um slíka mögulega vanefnd og veita honum frest til úrbóta.“ Ennítrekaði áfrýjandi mótmæli sín við uppsögninni í bréfi 22. febrúar 2012 ogvísaði þar til þess sem fram hefði komið í bréfum hennar til stefnda 10. júníog 17. ágúst 2011. Stefndi ítrekaði kröfu sína um að áfrýjandi viki af jörðinnimeð bréfi 3. nóvember 2014 sem áfrýjandi andmælti með bréfi 19. sama mánaðar. Stefndi höfðaði mál þetta 20. september 2017 til að fá áfrýjanda dæmdantil að víkja af jörðinni.VIEins og áður segir er ágreiningslaust að stefndi fari með grunneignarréttað landi jarðarinnar Kleifa og að réttindi áfrýjanda yfir henni séuafnotaréttindi. Stærð Kleifa var samkvæmt framansögðu upphaflega 19,39 hektararen er nú samkvæmt skráningu Þjóðskrár Íslands 18,1 hektari. Afnotaréttindi áfrýjandaeiga rætur sínar í tveimur tegundum afnotasamninga, annars vegar íerfðaleigusamningunum fjórum sem gerðir voru á fjórða áratug síðustu aldar, oghins vegar í byggingarbréfinu frá árinu 1951. Stefndi sagði áfrýjanda upp ábúðá Kleifum á árunum 2009 og 2011 með vísun til byggingarbréfsins eingöngu svosem áður er rakið. Samkvæmt því verður við úrlausn um dómkröfu stefnda fyrst aðtaka afstöðu til þess hvort líta beri svo á að með undirritun byggingarbréfsinshafi þáverandi afnotahafi Kleifa fallið frá rétti sínum samkvæmt erfðaleigusamningunummeð þeim áhrifum að eftirleiðis skyldi byggingarbréfið eitt gilda í lögskiptumleigusala og leigutaka um afnotin.Áður hefur verið gerð grein fyrir efni afnotasamninganna sem um ræðir ímálinu. Erfðaleigusamningarnir fjórir, sem eru ein tegund svokallaðragrunnleigusamninga, veittu leigutakanum afnotarétt að 7,39 hekturum lands. Byggingarbréfið,sem samkvæmt efni sínu telst einnig til grunnleigusamninga, veitti leigutakanumafnotarétt að 12 hekturum lands. Erfðaleigusamningarnir voru samkvæmt orðumsínum gerðir til óákveðins tíma, og í byggingarbréfinu var tekið fram að umræddir12 hektarar væru byggðir til erfðaábúðar og gerðir samkvæmt lögum um ættaróðalog erfðaábúð. Af þessu leiðir eðli máls samkvæmt að byggingarbréfið var einnigótímabundið, enda gat réttur eftir því að öðrum kosti ekki erfst eftir þeimreglum sem um þá erfðaábúð giltu. Í milli samningstegundanna skildi á hinnbóginn með því að heimildir afnotahafa til hagnýtingar og ráðstöfunar lands samkvæmtbyggingarbréfinu voru þrengri en heimildir samkvæmt erfðaleigusamningunum ogendurgjaldið fyrir afnotin var ákveðið á mismunandi grunni. Þá var það og ólíktmeð þessum samningstegundum að í erfðaleigusamningunum var með almennum hættitekið fram að auk ákvæða þeirra færi um réttindi og skyldur leigutaka ogleigusala „samkvæmt landslögum þeim, er nú gilda eða síðar verða sett“ en íbyggingarbréfinu var vísað til nánar tilgreindra laga um ættaróðal ogerfðaábúð, ábúðarlaga og laga um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar ísveitum.Þótt leigutakar samkvæmt erfðaleigusamningum njóti réttinda sinna ískjóli þeirra sem eiga grunneignarrétt að því landi sem um ræðir, veita slíkirsamningar leigutökum til muna víðtækari hagnýtingar- og ráðstöfunarrétt yfir fasteignumen aðrir afnotasamningar gera almennt. Er í reynd flest líkt með þeim heimildumyfir fasteignum sem erfðaleigusamningar veita leigutökunum og þeim heimildumsem handhafar beins eignarréttar að fasteignum njóta. Ef litið er sérstaklegatil erfðaleigusamninganna fjögurra voru, auk ákvæða um greiðslu endurgjaldsfyrir afnotin, einu takmarkanirnar á heimildum leigutaka þær að á honum hvíldigirðingar- og ræktunarskylda og honum var án samþykkis leigusala óheimilt aðtaka mó í leigulandinu. Að öðru leyti naut leigutakinn allra þeirra heimildayfir hinu leigða sem handhafar beins eignarréttar yfir fasteignum njóta almennttil hagnýtingar og ráðstöfunar eignar sinnar. Þegar til þessa er litið og þaðhaft í huga, að hvergi í byggingarbréfinu frá 1951 var þess getið að það felldiniður erfðaleigusamningana fjóra, verður stefndi ekki talinn hafa fært sönnur áað það hafi verið tilætlun samningsaðila að byggingarbréfið leysti erfðaleigusamninganaaf hólmi. Verður við skýringu byggingarbréfsins að leggja til grundvallar aðafsal svo ríks réttar sem erfðaleigusamningarnir veittu hefði þurft að koma meðskýrum og ótvíræðum hætti fram í byggingarbréfinu. Stóðu hvorki ákvæðiþágildandi laga né grunnreglur eignarréttar því í vegi að tvær tegundirafnotasamninga gætu með þessum hætti staðið að baki afnotaheimildum um eina ogsömu jörðina. Í því ljósi fær það þessari niðurstöðu ekki breytt að lýsingbyggingarbréfsins á merkjum Kleifa náði að minnsta kosti að verulegu leyti bæðitil þess lands jarðarinnar sem leigt var með erfðaleigusamningunum ogbyggingarbréfinu en til þess verður einnig að líta að augljóst mátti vera aðlandið innan þessara merkja væri talsvert stærra en þeir 12 hektarar sembyggingarbréfið var gert um. Að fenginni þeirri niðurstöðu að byggingarbréfiðhafi ekki haggað við gildi erfðaleigusamninganna er næst til þess að líta aðuppsögn stefnda á ábúð áfrýjanda var eins og fyrr segir einvörðungu reist ávanefndum hennar samkvæmt byggingarbréfinu, sem tók samkvæmt efni sínu til 12hektara af landi jarðarinnar. Dómkrafa stefnda í málinu tekur á hinn bóginn miðaf því að áfrýjanda verði gert að víkja af jörðinni allri, sem nú er 18,1hektari að stærð samkvæmt skráningu Þjóðskrár Íslands, og afhenda stefnda jörðinaásamt mannvirkjum sem á henni eru. Án tillits til þess hvort við rök eigi aðstyðjast, að áfrýjandi hafi vanefnt svo skyldur sínar samkvæmt byggingarbréfinuað riftun varði, á þeim grundvelli sem stefndi heldur fram, felst í kröfugerðstefnda að ekki er samræmi milli hennar og þeirrar málsástæðu sem krafan erreist á. Gæti krafa á þeim grundvelli, ef rétt reyndist, einungis tekið tilþess að áfrýjanda yrði gert að víkja af þeim hluta jarðarinnar sembyggingarbréfið tók til en óhjákvæmilegt yrði að lýsa mörkum þess jarðarhluta íkröfugerð. Vegna þessa misræmis í málatilbúnaði stefnda verður að vísa málinufrá héraðsdómi.Eftir framangreindum úrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjandamálskostnað á öllum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og ídómsorði greinir. Dómsorð:Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.Stefndi, Blönduósbær, greiði áfrýjanda, Ásdísi Kristinsdóttur, samtals3.000.000 krónur í málskostnað í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti.DómurLandsréttar 14. desember 2018.Mál þetta dæma Landsréttardómararnir KristbjörgStephensen, Ragnheiður Bragadóttir og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.Málsmeðferð og dómkröfuraðila. Áfrýjandi skautmálinu til Landsréttar 11. apríl 2018. Áfrýjað er dómiHéraðsdóms Norðurlands vestra 21. mars 2018 í málinu nr. E-41/2017.2. Áfrýjandi krefstþess aðallega að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og að hún verði sýknuð afkröfum stefnda. Til vara, verði héraðsdómur staðfestur, að stefnda verði gertað greiða áfrýjanda verðbætur og vexti á dæmdar bætur, þannig að fjárhæðinverði bundin vísitölu neysluverðs frá dagsetningu niðurstöðu landsúttektarmanna1. september 2017, miðað við 444,6 stig til greiðsludags og að sú fjárhæð berivexti samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá sama tíma tilgreiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.3. Stefndi krefststaðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað og málskostnaðar fyrirhéraðsdómi og Landsrétti. Niðurstaða 4. Stefndi lagði fyrirLandsrétt endurrit fundargerðar hreppsnefndar Blönduóshrepps frá 11. júní 1949þar sem eftirfarandi er bókað: „Þá var samþykkt að verða við beiðni KristinsMagnússonar um það að hann fái viðbótarræktunarlóð upp hjá Kleifakoti að stærðca. 4 ha. Hyggst Kristinn […] koma þarna upp nýbýli, en til þess þarf minnst 12ha. lands, samkv. lögum, en nú þegar hefur hann þarna um 8 ha. ræktaðs lands.“5. Samkvæmt 36. gr.laga nr. 35/1946 um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum skyldinýbýli hafa minnst 12 hektara lands, sem væri vel fallið til túnræktar, auknægilegs beitilands eða önnur landgæði, sem að dómi nýbýlastjórnar væru ígildiþess. Kristinn Magnússon, sem áfrýjandi leiðir rétt sinn frá, ritaði undirbyggingarbréf um tólf hektara lands 26. september 1951 til erfðaábúðar, aukbeitarréttar í landi stefnda. Í 2. gr. byggingarbréfsins er mörkum hins leigðalands lýst. Fallist verður á með héraðsdómi að eldri erfðaleigusamningar náðu,að minnsta kosti að hluta til, til sama lands og lýst er í byggingarbréfinu.Mörk landsins að norðaustan- og austanverðu, eins og áfrýjandi hefur dregið þauupp á korti er hann lagði fyrir Landsrétt, samræmast á hinn bóginn ekki mörkum,eins og þeim er lýst í byggingarbréfinu. 6. Byggingarbréfinuvar þinglýst 1. nóvember 1951 og verður nýbýlið, 12 hektarar að stærð eins ogsegir í fasteignabók, fyrst talið stofnað frá og með þeim degi. Óstaðfest gagn,sem áfrýjandi kveður vera endurrit úr skrá nýbýlastjórnar, þar sem dagsetningin15. janúar 1950 er færð inn í reit sem merktur er „Samþykkt“ og áfrýjandi segirvera samþykktan stofndag nýbýlis að Kleifum, fær ekki breytt þeirri niðurstöðu.Er þar meðal annars til þess að líta að í 1. gr. byggingarbréfsins kemur framað landið sé leigt Kristni til stofnunar nýbýlis og að það er fyrst meðundirritun byggingarbréfsins 26. september 1951, sem hann hafði yfir að ráðanægu jarðnæði svo uppfyllt væru skilyrði 36. gr. laga nr. 36/1946, tilstofnunar nýbýlis. 7. Með ritun sinniundir byggingarbréfið samþykkti Kristinn byggingarbréfið og skuldbatt sig tilað halda það í öllum greinum eins og þar segir. Í 9. gr. byggingarbréfsinskemur meðal annars fram að um réttindi og skyldur erfðaábúanda fari samkvæmtlögum nr. 116/1943 um ættaróðal og erfðaábúð. Með hliðsjón af framangreinduákvæði, 1. gr. sama byggingarbréfs og fundargerð hreppsnefndar frá 11. júní1949 verður því slegið föstu að með framangreindri undirritun sinni hafiKristinn tekið á leigu af stefnda til erfðaábúðar þá tólf hektara lands, sembyggingarbréfið nær til, í því skyni að stofna þar nýbýli í samræmi við lög nr.35/1946 um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum. Verður þá jafnframtað leggja til grundvallar að með gerð þessa leigumála hafi Kristinn fallið frárétti til erfðafestu samkvæmt eldri erfðaleigusamningum við stefnda, að þvímarki sem land, er þeir náðu til, lá innan marka þess lands er byggingarbréfiðnær til.8. Að þessu gættu ogað öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hannstaðfestur.9. Rétt þykir að hvoraðila beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Landsrétti.Dómsorð:Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti fellur niður.SératkvæðiVilhjálms H. Vilhjálmssonar. Ég er ósammála meirihluta dómenda um forsendur ogniðurstöðu.2. Um málsatvik og helstu ágreiningsefni málsins vísast til hins áfrýjaðadóms.3. Þar er rakið að á árunum 1932 til 1939 gerði stefndi fjóra ótímabundnaerfðaleigusamninga við nafngreinda einstaklinga um leigu á landspildum í eiguhreppsins. Spildur þessar eru vestanBlöndu á móts við Hrútey, í og við land Kleifakots. Samtals munu spildurnarhafa verið 7,39 hektarar að stærð. Lega landsins er ekki umdeild og heldur ekkieignarhald áfrýjanda að því. Þá er einnig óumdeilt að Kristinn Magnússon, faðiráfrýjanda hóf búskap á þessu landi, ræktaði tún og reisti gripahús á landinusamkvæmt fyrirliggjandi skýrslu um „jarðabætur og byggingar“ dagsettri ídesember 1949. Nefndi hann býlið Kleifar og var það viðurkennt 15. janúar 1950sem nýbýli úr Blönduóss og Hnjúkalandi af Nýbýlastjórn ríkisins sem nýbýli nr.114.4. Stefndi hefur eigi sagt upp fyrrnefndum erfðaleigusamningum. Áfrýjandi, eða fyrri eigendur hafa ekki gefiðeftir rétt sinn til þeirra og eru samningarnir því enn í fullu gildi Nýtur áfrýjandi því allra þeirra réttindasem þeim fylgja, þar með talinlóðarréttindi í landi Kleifa.5. Hinn 26. september 1951 gafstefndi út byggingarbréfið um 12 hektara landspildu þá sem mál þettasnýst um. Varð þá land Kleifa 19.39 hektarar og stóð svo þar til Vegagerðríkisins tók sneið af landinu eignarnámi fyrir einhverjum árum til breikkunarSvínvetningabrautar. Samkvæmt Þjóðskrá heitir jörðin Kleifar, fastanúmer213-6580, landnúmer 144799 og er ræktað land jarðarinnar nú 18,1 hektari, bæði samkvæmt Þjóðskrá og álagningarseðlistefnda um álögð fasteignagjöld ársins 2017. 6. Samkvæmt ljósriti úr veðmálabókum fyrir Kleifar er getið, sem eignarheimildar að fasteigninni,12 ha lands til erfðaábúðar og einnig tveggja túnlóða „sameinaðar Kleifum“ eins og þar segir orðrétt. 7. Af þessu er ljóst að réttindi áfrýjanda yfir jörðinni Kleifar, 213-6580, eiga rætur sínarvíðar en í byggingarbréfinu frá 1951 og ná yfir alla fasteignina, 12 hektaranasamkvæmt byggingarbréfinu og erfðaleigusamningunum ótímabundnu, nú samtals 18.1hektari.8. Riftunarkrafa stefnda á byggingarbréfinu nær eingöngu til þeirra 12hektara, en ekki annarra hluta jarðarinnar sem áfrýjandi hefur umráð yfir ogekkert í dómkröfum stefnda eða hinum áfrýjaða dómi útskýrir af hvaða hlutajarðarinnar áfrýjanda er skylt að víkja.9. Dómkröfur í málinu eru því of víðtækar, en með uppkvaðningu slíks dómsværi áfrýjanda án frekari formála skyltað víkja af jörðinni Kleifum, fastanúmer 213-6580, Blönduósi og af mannvirkjumsem þar eru, sem og af spildunum semáfrýjandi er með erfðaleigusamninga um ogeru hluti fasteignarinnar.0. Stefndi hefur þannig ekki sýnt fram á að hann eigi nein þau réttindiyfir þeim hluta lands jarðarinnar Kleifa, 213-6580, sem erfðaleigusamningarnir ná yfir, og getaleitt til þess að fallist verði á dómkröfur hans.1. Héraðsdómur féllst á kröfu stefnda um riftun byggingarbréfsins og þaurök hans að áfrýjandi hefði brotið ákvæði þess með því að starfrækja ekkibúskap að Kleifum eftir 1994 og eiga þar ekki lögheimili.2. Hvort tveggja hefur forsvarsmönnum stefnda verið ljóst um árabil ánþess að aðhafast nokkuð. Þegar stefndi rifti byggingarbréfinu 22. desember 2009voru liðin 15 ár frá því búskap lauk að Kleifum vegna riðuveiki sem upp kom ájörðinni. Fyrr en árið 2009 hafðistefndi aldrei gert neinar athugasemdir um vöntun á búskap eða stopula búsetu ájörðinni, eins og áfrýjandi hefur bent á í bréfum sínum til stefnda eftiruppsögnina og vísað er til í greinargerð í héraði3. Stefndi hefur því sýnt af sér verulegt tómlæti við að gæta réttar sínssamkvæmt fyrrnefndu byggingarbréfi og þar með gefið áfrýjanda tilefni til aðætla að hann gæti áfram nýtt réttindi sín samkvæmt byggingarbréfinu ogerfðaleigusamningunum en réttindi áfrýjanda yfir landi Kleifa virðast núsamofin í þessum eignarheimildum.4. Ber því að sýkna áfrýjanda af kröfum stefnda og dæma stefnda til aðgreiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 21. mars 2018.IMál þetta, semtekið var til dóms 6. febrúar sl., var höfðað 20. september 2017.Stefnandi erBlönduósbær, Hnjúkabyggð 33, Blönduósi.Stefnda er ÁsdísKristinsdóttir, Kleifarvegi 8, Reykjavík.DómkröfurStefnandi krefstþess að stefndu verði gert að víkja af jörðinni Kleifum, Blönduósi, fastanúmer213-6850, og af mannvirkjum á jörðinni, fjarlægja eigur sínar og afhendastefnanda umráðin, innan 15 daga frá uppkvaðningu dóms gegn því að stefnandigreiði stefndu 27.066.922 krónur að frádregnum 2.289.976 krónum. Þá krefststefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.Stefnda krefstsýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi samkvæmtmálskostnaðarreikningi. IIAtvik málsÁ árunum 1932 til1939 voru gerðir fjórir erfðaleigusamningar milli Blönduóshrepps og KristinsMagnússonar og Steingríms Davíðssonar, tveir við hvorn aðila, um leigu á landií eigu hreppsins. Í samningunum er legu og stærð landsins lýst auk þess sem þarer kveðið á um heimild leigutaka til að reisa þar fénaðarhús, heyhlöður ogáburðarhús eftir þörfum. Samtals var hið leigða land samkvæmt samningunum 7,39hektarar. Í marsmánuði 1949 selur Steingrímur Davíðsson Kristni Magnússyniréttindi sín samkvæmt þeim tveimur samningum sem hann hafði gert viðBlönduóshrepp.Með byggingarbréfidagsettu 26. september 1951 fékk Kristinn Magnússon 12 hektara spildu af landiBlönduóshrepps til erfðaábúðar. Í byggingarbréfinu er merkjum landsins lýst aukþess sem þar kemur fram að landið sé leigt til stofnunar nýbýlis er byggt verðisamvæmt lögum nr. 35/1946 um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum. Þáer tekið fram að erfðaábúðarhafi sé í einu og öllu háður skyldum og fyrirmælumtéðra laga og reglugerðar um stofnun nýbýlisins. Þá er í bréfinu mælt fyrir umað jörðin sé leigð til búrekstrar en önnur notkun landsins sé háð samþykkinýbýlastjórnar. Auk þessa eru í bréfinu ákvæði um eftirgjald og greiðslu þesso.fl.Kristinn Magnússonreisti á landi því sem hann hafði til umráða, sem nú heitir Kleifar, íbúðarhús,fjárhús og fleiri byggingar sem nauðsynlegar voru til búskapar á jörðinni enhann stundaði þar búskap með sauðfé til ársins 1994 en það ár kom upp riða ogvar sauðfénu fargað. Kristinn Magnússon bjó áfram á Kleifum til ársins 2000 erhann lést og síðan þá hefur ekki verið föst búseta að Kleifum. Stefnda, sem erdóttir Kristins Magnússonar, hefur tekið við réttindum þeim er Kristinn átti aðKleifum fyrir erfð og með kaupum á réttindum systur sinnar sem var samerfingihennar.Með bréfi dagsettu22. desember 2009 sagði stefnandi upp byggingarbréfi/ ábúðarsamningi frá 1951.Af hálfu stefndu var uppsögninni mótmælt. Samningnum var á ný sagt upp meðbréfi dagsettu 30. júní 2011 og þar tilgreint að ástæða uppsagnarinnar væri súað ekki væri búseta að Kleifum og þar væri enginn búskapur stundaður og vísað í12. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004. Síðari uppsögninni var einnig andmælt af hálfustefndu. Eftir uppsögn samningsins á árinu 2011 óskaði stefnandi eftir úttekt ájörðinni og fór hún fram í október 2012 og var skýrslu um þá úttekt skilað íjanúar 2013. Eftir að úttektin lá fyrir ræddu aðilar um málefni jarðarinnar enþær viðræður skiluðu ekki árangri. Hinn 22. júní 2017 óskaði stefnandi á nýeftir mati landsúttektarmanna og skiluðu þeir mati sínu 1. september sl. IIIMálsástæður og lagarök. Stefnandi byggir á því að hannsem réttur og löglegur eigandi jarðarinnar eigi heimtingu á því að fá umráðeignar sinnar gegn greiðslu til stefnda samkvæmt mati landsúttektarmanna. Af hálfu stefnanda er því haldiðfram að uppsögn ábúðarsamningsins hafi verið lögmæt en hún hafi aðallega byggstá 12. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004, sbr. 37. gr. sömu laga. Á Kleifum hafi ekkiverið föst búseta í fjölda ára og þar hafi ekki verið stundaður landbúnaður fráárinu 1995 þegar ærkvóti var seldur frá jörðinni með samþykki stefnanda.Stefnda hafi því verulega vanrækt skyldur sínar samkvæmt ábúðarlögum ogsamningi aðila frá 26. september 1951. Stefnandi heldur því fram aðfullyrðingar stefndu, sem fram koma í greinargerð hennar, í þá veru aðbyggingarbréfið nái ekki til þess lands sem byggingar jarðarinnar standi á, séurangar. Í þessu sambandi vísar stefnandi til þess að samkvæmt byggingarbréfinuséu norðvesturtakmörk landsins girðingin meðfram túni ZóphoníasarZóphoníasarsonar frá Svínvetningabraut að Blöndu. Samkvæmt bréfinu séu allarbyggingar jarðarinnar innan þess lands sem sett var í erfðaábúð með byggingarbréfinu.Af hálfu stefnanda er á því byggt að framlagt kort sýni með skýrum hætti landþað sem byggingarbréfið nær til. Einnig er á því byggt af hálfustefnanda að hafi eldri erfðaleigusamningar eða leigusamningar verið til staðarum sama landsvæði hafi þeir fallið úr gildi þegar byggingarbréfið varundirritað. Í þessu sambandi vísar stefnandi til þess að yngri samningar gangifyrir eldri samkvæmt meginreglum samninga- og leiguréttar og eðli málssamkvæmt. Ef eldri samningar falli ekki úr gildi séu til fleiri en einnsamningur um sama landsvæði. Þá vísar stefnandi til þess aðmeð byggingarbréfinu hafi ábúandi jarðarinnar fengið margvísleg réttindi semhann naut ekki samkvæmt eldri samningum. Með tilkomu byggingarbréfsins hafiverið hægt að stofna lögbýli á landinu og þá gaf það rétt til styrkja tiluppbyggingar á lögbýlinu, m.a. nýbýlastyrkja. Með nýjum samningi, þ.e.byggingarbréfi, hlaut leigutakinn því margvísleg réttindi sem hann áður ekkinaut og í þessu sambandi verði ekki bæði haldið og sleppt. Eldri samningar hafiverið um ræktunarland en í slíkum samningum hafi almennt ekki verið gert ráðfyrir byggingu íbúðarhúsa né fastri búsetu. Auk þess hafi stefndi ekki lagtfram neinar upplýsingar um þessar lóðir né staðsetningu þeirra og hann berisönnunarbyrði fyrir því að þær skarist við landið sem lýst er íbyggingarbréfinu. Stefnandi byggir á því að hannhafi með samþykki á sölu á greiðslumarki frá jörðinni á árinu 1995 lagt framlagtil jarðarinnar. Hann hafi samþykkt að greiðslan færi til ábúanda jarðarinnaren þetta framlag beri stefnanda að fá metið og dregið frá matsvirði eignastefndu við ábúðarlok. Selt hafi verið frá jörðinni 128,8 ærgilda greiðslumarkog þáverandi ábúandi hafi fengið greiddar 708.400 krónur í janúar 1996.Stefnandi telur að honum sé að lágmarki rétt að reikna þá fjárhæð upp miðað viðbyggingarvísitölu, og að teknu tilliti til þeirrar vísitölu í janúar 1996 ogsvo í ágúst 2017 nemi uppreiknuð fjárhæð 2.289.976 krónum. Þessa fjárhæð beriað draga frá við uppgjör við stefndu. Stefnandi heldur því fram að íábúðarlögum hafi verið gert ráð fyrir því að framlög skyldu endurgreidd við lokábúðar og í þessu sambandi vísar stefnandi til sjónarmiða sem fram koma í dómiHæstaréttar Íslands í máli nr. 4/2007. Varðandi fjárhæð þá sem stefnandi telursér rétt að greiða stefndu vísar hann til matsgerðar og úttektarskýrslulandsúttektarmanna sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að alls bæri að greiða27.066.922 krónur fyrir það land sem ábúðarsamningurinn nær til, að frádregnumkvóta eða greiðslumarki sem kunni að hafa verið selt frá jörðinni en slíkréttindi tilheyri jörðinni en ekki ábúanda hennar sem hafi á sínum tíma fengiðsamþykki stefnanda til sölu á greiðslumarkinu. Hvað lagarök varðar vísarstefnandi til meginreglna samningaréttar um túlkun samninga, ábúðarlaga,jarðalaga og meginreglna eigna- og leiguréttar. Varðandi varnarþing vísarstefnandi til 34. gr. laga um meðferð einkamála og þá er krafa um málskostnaðreist á 129. og 1. mgr. 131. gr. sömu laga. Af hálfu stefndu er á því byggtað með fjórum samningum á árunum 1932 til 1939 hafi samtals 7,39 hektarar landsverið seldir á erfðaleigu til óákveðins tíma en réttindi samkvæmt þessumsamningum tilheyri henni. Síðar, 26. september 1951, hafi stefnandi og faðirhennar gert byggingarbréf um 12 hektara lands og þá hafi land Kleifa samtalsverið 19,39 hektarar að stærð. Fyrir nokkrum árum hafi lítill hluti landsinsverið tekinn af Vegagerðinni undir veg og því sé land jarðarinnar í dagsamkvæmt skráningu Þjóðskrár 18,1 hektari að stærð. Stefnda byggir áþví að erfðaleigusamningarnir sem gerðir hafi verið til óákveðins tíma séu enní gildi enda sé ekki hægt að segja þeim upp. Erfðafesta sé í eðli sínuóuppsegjanlegt leiguform þar sem einstaklingi sé veittur framseljanlegur rétturtil að nýta land og rétturinn erfist eins og aðrar eignir. Í raun séu réttindinsvo rík að þau liggi nærri eignarrétti en leigurétti. Stefnda heldur þvífram að hún hafi sýnt fram á að hún sé þinglýstur eigandi jarðarinnar Kleifasem í dag sé talin 18,1 hektari að stærð. Allar byggingar á jörðinni hafi veriðbyggðar áður en byggingarbréfið var gefið út og nýbýli hafi verið stofnað ájörðinni í janúar 1950, tæpum tveimur árum áður en byggingarbréfið varundirritað. Allar byggingar á jörðinni standi á landi sem Kristinn Magnússonátti samkvæmt áðurgreindum erfðaleigusamningum en réttindum samkvæmt þeimsamningum geti stefnandi ekki sagt upp. Að mati stefndu erýmislegt óljóst varðandi gerð byggingarbréfsins en ljóst að það fullnægi ekkikröfum sem gerðar eru til byggingarbréfa í ábúðarlögum. Hafa verði í huga aðefni bréfsins er einhliða samið af stefnanda og túlka verði efni þess í þvíljósi en stefnda bendir á að merkjalýsing bréfsins virðist taka til landsinsalls, þ.e. þess 7,39 hektara lands sem Kristinn Magnússon átti fyrir oglögbýlið stóð á og svo þeirra 12 hektara sem byggingarbréfið tekur til. Stefnda andmælirhugmyndum stefnanda í þá veru að erfðaleigusamningarnir fjórir hafi fallið úrgildi þegar byggingarbréfið var undirritað þar sem þeir hafi verið á milli sömuaðila og um sama land. Stefnda segir þessar hugmyndir stefnanda tilhæfulausarenda órökstuddar og ekkert bendi til að þær séu réttar. Í þessu sambandi nefnirstefnda að erfðaleigusamninganna sé í engu getið í byggingarbréfinu og þarhvergi nefnt að eldri samningar skuli falla úr gildi. Þá vísar stefnda til þessað byggingarbréfið taki eingöngu til 12 hektara lands en eftir undirritun þesshafi land Kleifa verið talið 19,39 hektarar sem sé samanlögð stærð landannasamkvæmt leigusamningunum fjórum og byggingarbréfinu. Þessu til viðbótar hafiKristinn Magnússon þegar verið búinn að stofna nýbýli á landinu og átt allarbyggingar á jörðinni á þeim tíma sem byggingarbréfið var gert og því hafi engarbyggingar fylgt landinu frá landsdrottni svo sem áskilið er í ábúðarlögum.Stefnda heldur því fram að samningurinn sé ranglega nefndur byggingarbréf enmeð samningnum hafi í raun átt sér stað leiga á viðbótarlandi sem hafi veriðselt á erfðaleigu. Þetta leiði svo til þess að ákvæði ábúðarlaga eigi ekki viðum samninginn. Þá bendir stefnda á að ef til stóð að eldri samningar félluniður við gerð byggingarbréfsins sé ljóst að land Kleifa væri 12 hektarar aðstærð en ekki 19,39 og síðar 18,1 hektari eftir að hluti landsins var tekinnundir vegstæði.Af hálfu stefndu erá því byggt að allar byggingar jarðarinnar standi á landi sem um voru gerðirerfðaleigusamningar á sínum tíma. Þeim hafi ekki og verði ekki sagt upp afstefnanda. Af þeim sökum sé ekki unnt að víkja stefndu af landinu sem sé hennareign. Stefnda vísar til ákvæða 1. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 en þar komi framað lögin gildi um ábúð á jörðum og jarðarhlutum en ekki um leigu á landi ogfasteignum nema sérstaklega sé um það samið. Ábúð sé skilgreind í 2. mgr. 2.gr. laganna sem afnotaréttur af jörð eða jarðahlutum til búrekstrar eða annarsatvinnurekstrar á sviði landbúnaðar. Erfðaleigusamningarnir hafi allir veriðgerðir um ræktunarland án kvaðar um að leigutaki stundaði þar búrekstur eðalandbúnað, eingöngu skylda til að girða landið, þurrka það og rækta. KristinnMagnússon hafi sjálfur ákveðið að stofna nýbýli á landinu og það hafi veriðhans eign. Kristinn hafi því aldrei verið leiguliði á eigin jörð eða ábúandi ískilningi ábúðarlaga. Þetta leiði til þess að byggingarbréfið frá 1951 getiekki tekið til þessa lands eða þessa lögbýlis. Stefnda mótmælirþví að byggingarbréfið sé í raun byggingarbréf í skilningi ábúðarlaga þráttfyrir heiti þess og ábúðarlög gildi ekki um samkomulag það sem gert var meðbréfinu. Í ábúðarlögum nr. 8/1951 sem tóku gildi 1. janúar það ár er skilyrðiað við ábúðarskipti á jörð séu gæði jarðarinnar tekin út af úttektarmönnum oggæði hennar skráð en það hafi ekki verið gert. Í 11. gr. laganna kemur fram aðlandsdrottni sé skylt að láta nauðsynleg bæjar- og peningahús fylgja leigujörðsinni en svo hafi ekki verið í þessu tilfelli. Í 1. gr. laganna komi fram aðjörð í skilningi laganna skuli að minnsta kosti geta framfleytt níu kúgildum ení þessu máli sé ósannað að svo sé. Þetta leiði allt til þess að ekki hafi veriðum erfðaleigu á jörð eða jarðnæði í skilningi ábúðarlaga að ræða heldurerfðaleigu á landspildu sem ábúðarlögin taki ekki til.Stefnda vísareinnig til þess að hún hafi mótmælt uppsögn stefnanda á sínum tíma og ítrekarandmæli sín við þeirri uppsögn. Þá bendir stefnda á að stefnandi hafi óskaðeftir úttekt á jörðinni sem síðar hafi farið fram en stefnda hafi gertathugasemdir við lögmæti úttektarinnar og telur niðurstöðu hennar ekki bindandifyrir sig. Bendir stefnda á að úttektin nái til alls lands jarðarinnar, þ.e.18,1 hektara svo og allra bygginga og mannvirkja á jörðinni. Uppsögn stefnandaá landinu taki hins vegar eingöngu til þeirra 12 hektara sem byggingarbréfiðnær til og því sé úttektarskýrslan markleysa. Fari svo að stefnduverði gert að víkja af jörðinni gegn greiðslu bóta frá stefnanda í samræmi viðniðurstöðu landsúttektarmanna hafnar stefnda því að frá bótum til hennar skulidraga greiðslu sem Kristinn Magnússon fékk greiddar fyrir fullvirðisrétt ísauðfé að fjárhæð 708.400 krónur. Heldur stefnda því fram að réttur þessi hafiverið eign Kristins en ekki stefnanda. Þá hafi stefnandi aldrei krafið Kristineða síðari eigendur jarðarinnar um greiðslu þessa fjár og því hafi stefnandiglatað rétti sínum vegna fyrningar og/eða tómlætis, hafi stefnandi átt rétt tilendurgreiðslu. Fallist dómurinn á rétt stefnanda til frádráttar vegnaframlagsins mótmælir stefnda því að fjárhæðin skuli framreiknuð með því aðbinda hana vístölu eða leggja við hana vexti. IVNiðurstaðaÍ máli þessu krefststefnandi þess að stefndu verði gert að víkja af jörðinni Kleifum ogmannvirkjum sem á jörðinni eru og fjarlægja eigur sínar og afhenda stefnandaumráð jarðarinnar gegn greiðslu ákveðinnar fjárhæðar. Krafa stefnanda tekureingöngu til þess landsvæðis sem lýst er í byggingarbréfi sem ítrekað hefurverið getið og gefið var út á árinu 1951. Er því eingöngu hér til úrlausnarágreiningur um landsvæðið sem lýst er í byggingarbréfinu en annað land semstefnda kann að hafa haft afnot af er ekki til umfjöllunar hér. Stefnandi ogKristinn Magnússon undirrituðu síðla árs 1951 byggingarbréf og er legu og stærðlandsins, sem sagt er vera 12 hektarar, lýst í bréfinu. Þar er tekið fram aðnorðvesturmörk séu girðingin meðfram túni Zóphóníasar Zóphóníassonar fráSvínvetningabraut að Blöndu. Blanda frá nefndri girðingu að norðurendagirðingarinnar sem liggur frá Blöndu upp á melhólinn austan Kleifarkotstúnsins.Síðan er því lýst hvernig merkin eru dregin til baka að Svínvetningabraut. Af kortum sem lögðhafa verið fram í málinu má sjá hvar tún Zóphóníasar liggur en allar byggingará Kleifum liggja nærri því túni og þannig í norðvesturhorni landsins. Ekkiverður annað ráðið af lýsingu merkja í erfðaleigusamningunum en að landið semþeir ná til sé innan merkja þeirra sem lýst er í byggingarbréfinu. Upphaf byggingarbréfsinser svohljóðandi: „Oddviti Blönduósshrepps GJÖRIR KUNNUGT : Að ég byggi hr.Kristni Magnússyni, til heimilis á Blönduósi, til löglegrar erfðaábúðar hlutaaf landi Blönduósshrepps, til stofnunar nýbýlis, með tilgreindum réttindum, semlýst er í 2. gr. þessa samnings.Erfðaábúðarsamningurþessi tekur gildi frá þeim degi að telja, sem hann er undirritaður, og ergerður samkv. lögum nr. 116, 30. des. 1943, um ættaróðal og erfðaábúð.. gr.Landið, meðtilgreindum réttindum, er leigt til stofnunar nýbýlis, er byggt verður samkv.lögum nr. 35, 29. apríl 1946, um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar ísveitum, og er erðaábúðarhafi í einu og öllu háður skyldum og fyrirmælum téðralaga og reglugerðar um stofnun nýbýlisins.“ Byggingarbréfið bersamkvæmt framanrituðu með sér að það er gert í þeim tilgangi að á landinu verðistofnað nýbýli og er ábúandi skyldur til að fara eftir tilmælum tilvitnaðralaga. Er því ljóst að áður hafði ekki verið stofnað nýbýli á landinu þráttfyrir að í gögnum málsins megi finna skjal þar sem segir að stofnun nýbýlis þarhafi verið samþykkt 15. janúar 1950.Meðbyggingarbréfinu og stofnun nýbýlis að Kleifum fékk Kristinn Magnússon aukinréttindi en samkvæmt lögum um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitumnr. 35/1946 fylgdu stofnun nýbýlis allnokkur réttindi, svo sem til styrkjavegna nýbýlisins svo og lána á góðum kjörum en slík réttindi fylgdu ekkilandspildum þeim er hann hafði á leigu. Verður því fallist á með stefnanda aðvið gerð byggingarbréfsins hafi erfðaleigusamningar milli Kristins Magnússonarog stefnanda fallið niður en byggingarbréfið nær yfir land það semerfðaleigusamningarnir tóku til líkt og áður er vikið að og viku eldrierfðaleigusamningar eðli máls samkvæmt fyrir nýjum samningi um sama land. Ekkiskiptir hér máli þótt ekki sé minnst á erfðaleigusamningana í byggingarbréfinu.Ekki eru efni til að fallast á með stefndu að byggingarbréfið uppfylli ekkiskilyrði sem gerð eru til slíkra bréfa samkvæmt ábúðarlögum og að túlka verðiefni þess í því ljósi að það sé einhliða samið af stefnanda líkt og stefndaheldur fram.Meðbyggingarbréfinu var Kristni Magnússyni byggð jörðin til stofnunar nýbýlis.Stofnun nýbýlis felur í sér að ekki var áður búið á landi því sem leigt er ogþví engar byggingar þar í eigu landsdrottins. Er því ekki fallist á þámálsástæðu stefndu að ábúðarlög geti ekki tekið til landsins sökum þess aðlandinu hafi ekki fylgt bæjar- og peningahús, úttekt hafi ekki farið fram o.fl.Í byggingarbréfinu er vísað til þeirra laga sem um samninginn gilda. Auk þeirralaga sem áður er getið nr. 116/1943 og 35/1946 giltu um samninginn lög um ábúðnr. 87/1933, sbr. 9. gr. samningsins. (Lög þessi voru þó úr gildi fallin en nýlög um ábúð, nr. 8/1951, tóku gildi 1. janúar 1951.) Eftir að KristinnMagnússon hafði fengið landið byggt sér, stofnað þar nýbýli og reist þaríbúðarhús giltu ákvæði ábúðarlaga um samning hans og stefnda, sbr. áðurnefnda9. gr. byggingarbréfsins. Óumdeilt er aðbúskapur hefur ekki verið stundaður að Kleifum í meira en tvo áratugi ogstefnda á þeim tíma ekki átt þar lögheimili. Hefur stefnda því verulega vanefntskyldur sínar samkvæmt 12., sbr. 37., gr. núgildandi ábúðarlaga nr. 80/2004 ensamsvarandi skyldur ábúanda voru í eldri lögum um sama efni, allt frá lögum umábúð nr. 87/1933. Stefnanda var því heimilt að segja stefndu upp ábúðinnisamkvæmt byggingarbréfinu. Uppsögn leigusamnings er einkaréttarlegs eðlis ogeiga ákvæði stjórnsýslulaga ekki við um slíka uppsögn líkt og stefnda vísar tilí gögnum málsins. Með hliðsjón af þvísem að framan er rakið er krafa stefnanda um að stefndu verði gert að víkja afjörðinni Kleifum tekin til greina. Að ósk stefnandavar jörðin Kleifar tekin út af úttektarmönnum í samræmi við ákvæði 39. gr.ábúðarlaga. Þeir skiluðu úttektarskýrslu sinni 1. september 2017 og staðfestumat sitt fyrir dóminum. Engin efni eru til annars en að leggjaúttektarskýrsluna til grundvallar við ákvörðun á greiðslu frá stefnanda tilstefndu enda hefur stefnda ekki fært fram gild rök fyrir því að svo skuli ekkigert. Landsúttektarmennirnir mátu sérstaklega það land sem byggingarbréfiðtekur til og þau mannvirki sem á því eru og síðan land þar fyrir utan.Stefnandi miðar stefnukröfur sínar við niðurstöðu matsins fyrir svæðið semfellur undir byggingarbréfið.Ekki er um þaðdeilt að Kristinn Magnússon fékk á sínum tíma greiddar til sín 708.400 krónabætur sem komu til vegna sölu á greiðslumarki jarðarinnar eftir að riða kom þarupp. Stefnandi krefst þess að fjárhæðin, framreiknuð miðað viðbyggingarvísitölu, dragist frá þeirri upphæð sem honum ber að greiða stefndu.Ekkert liggur fyrir í málinu um það með hvaða hætti ákveðið var að KristinnMagnússon fengi þessa fjárhæð til sín en ekki stefnandi sem landeigandi enstefnandi veitti samþykki sitt fyrir sölu greiðslumarksins. Stefnandi bersönnunarbyrði fyrir því að fjárhæðin hafi verið framlag til jarðarinnar semhann ætti þá rétt á að fá endurgreitt við ábúðarlok. Engin gögn hafa verið lögðfram í þá veru að stefnandi hafi litið á greiðsluna sem framlag til jarðarinnarog engin gögn eru til staðar um afstöðu Kristins Magnússonar til greiðslunnar.Verður því ekki fallist á með stefnanda að honum sé heimilt að draga nokkuð fráþeirri fjárhæð sem landsúttektarmenn ákváðu.Með hliðsjón afmálsatvikum öllum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Af hálfu stefnandaflutti málið Stefán Ólafsson lögmaður en af hálfu stefndu Benedikt Ólafssonlögmaður.Halldór Halldórssonhéraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 115. gr. laga ummeðferð einkamála. Dómsorð:Stefndu, ÁsdísiKristinsdóttur, er skylt að víkja af jörðinni Kleifum, fastanúmer 213-6580,Blönduósi, og af mannvirkjum sem þar eru, fjarlægja eigur sínar og afhendastefnanda, Blönduósbæ, umráð jarðarinnar innan 15 daga frá uppkvaðningu dómsþessa.Stefnandi greiðistefndu 27.066.922 krónur.Málskostnaðurfellur niður. |
Mál nr. 411/2007 | Samkeppni Stjórnsýsla | SÍ kvartaði til S vegna þess að Tryggingastofnun ríkisins hafði samið við geðlækna um að greiða hluta af kostnaði sjúklinga af sérfræðiþjónustu þeirra, en hafði ekki fengist til að taka þátt í kostnaði sjúklinga við meðferð hjá sálfræðingum. Komst S að þeirri niðurstöðu að þetta hefði skaðleg áhrif á samkeppni og færi gegn markmiðum samkeppnislaga. Beindi S fyrirmælum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að gengið yrði til samninga við klíníska sálfræðinga. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi þessa ákvörðun úr gildi. SÍ krafðist þess að úrskurður áfrýjunarnefndarinnar yrði felldur úr gildi. Talið var að samkeppnislög væru almenn lög sem yrðu að víkja fyrir ósamrýmanlegum ákvæðum sérlaga. Í þágildandi lögum um heilbrigðisþjónustu væri að finna heimild til að taka afstöðu til þess hvers konar þjónusta yrði veitt sjúkratryggðum með greiðslum úr almannatryggingum, í hvaða mæli og frá hverjum. Var S því ekki talið heimilt með stoð í b. lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 að grípa til aðgerða á þann hátt sem ákvörðun þess tók til. Var kröfum SÍ því hafnað. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 11. september 2007. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sér verði dæmdur í héraði og fyrir Hæstarétti. I. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi bar gagnáfrýjandi upp erindi 31. október 1997 við samkeppnisráð, sem laut meðal annars að því hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993 með því að Tryggingastofnun ríkisins hafi samið við geðlækna um að greiða hluta af kostnaði sjúklinga af sérfræðiþjónustu þeirra, þar á meðal svokallaðri samtalsmeðferð, en á hinn bóginn ekki fengist til að taka þátt í kostnaði sjúklinga af sams konar meðferð hjá sálfræðingum. Í áliti samkeppnisráðs 12. febrúar 1999 var komist að þeirri niðurstöðu að svo veruleg skörun væri á þjónustu þessara tveggja stétta við sjúklinga þegar fengist væri við „meðferð á geðrænum vandamálum sem ekki eru lyfjatengd“ að líta yrði svo á að þær störfuðu á sama markaði. Færi gegn markmiðum samkeppnislaga að tryggingastofnun hafi samið við geðlækna um greiðsluþátttöku vegna kostnaðar sjúkratryggðra, en ekki við svokallaða klíníska sálfræðinga. Þeim tilmælum var því beint til heilbrigðisráðherra að hafa hliðsjón af þessu og beita sér fyrir breytingu laga, ef nauðsyn bæri til, svo að unnt yrði að ganga til samninga við þá síðastnefndu um greiðsluþátttöku vegna þjónustu þeirra við sjúkratryggða. Með 15. gr. laga nr. 74/2002 var meðal annars gerð sú breyting á ákvæðum 36. gr. þágildandi laga um almannatryggingar nr. 117/1993 að bætt var við 3. mgr. heimild handa ráðherra til að ákveða með reglugerð að „veita skuli hjálp við nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir ... hjá öðrum sérfræðingum á heilbrigðissviði en sérfræðilæknum.“ Óumdeilt er að þessarar heimildar hafi ekki verið neytt til að setja reglur um þátt almannatrygginga í greiðslu fyrir þjónustu sálfræðinga við sjúkratryggða og að samningur hafi heldur ekki verið gerður við gagnáfrýjanda um það efni. Sá síðastnefndi bar af þeim sökum upp á nýjan leik kvörtun til samkeppnisráðs 3. febrúar 2005, þar sem krafist var að það gripi til aðgerða með ákvörðun á grundvelli b. liðar 1. mgr. 17. gr. þágildandi samkeppnislaga gagnvart heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og Tryggingastofnun ríkisins til að tryggja að gengið yrði til samninga við klíníska sálfræðinga, svo sem mælst hafði verið til í fyrrnefndu áliti 12. febrúar 1999. Í ákvörðun 11. október 2005 komst aðaláfrýjandinn Samkeppniseftirlitið, sem þá hafði tekið við hlutverki samkeppnisráðs eftir ákvæðum samkeppnislaga nr. 44/2005, að þeirri niðurstöðu að ákvörðun heilbrigðisyfirvalda um að semja ekki við klíníska sálfræðinga um þátttöku hins opinbera í kostnaði sjúkratryggðra af geðheilbrigðisþjónustu hefði skaðleg áhrif á samkeppni og færi gegn markmiðum samkeppnislaga, sbr. 1. gr. þeirra. Enn fremur beindi aðaláfrýjandinn þeim fyrirmælum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra með heimild í b. lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga að hann sæi til þess að gengið yrði til samninga um þetta efni við klíníska sálfræðinga. Ráðherra kærði þessa ákvörðun til áfrýjunarnefndar samkeppnismála 7. nóvember 2005. Með úrskurði hennar 5. janúar 2006 var ákvörðunin felld úr gildi. Gagnáfrýjandi höfðaði mál þetta 29. júní 2006 og krafðist þess annars vegar að úrskurður áfrýjunarnefndarinnar yrði felldur úr gildi, en hins vegar að staðfest yrði með dómi ákvörðun aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins 11. október 2005. Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á fyrrgreindu kröfuna, sem gagnáfrýjandi gerði, en þeirri síðargreindu var á hinn bóginn vísað frá héraðsdómi. Það ákvæði dómsins var ekki kært til Hæstaréttar og unir gagnáfrýjandi við niðurstöðu héraðsdóms um annað en málskostnað. II. Samkvæmt b. lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga, sem er efnislega samhljóða b. lið 1. mgr. 17. gr. eldri laga um sama efni nr. 8/1993, getur aðaláfrýjandinn Samkeppniseftirlitið gripið til aðgerða gegn athöfnum opinberra aðila að því marki, sem þær kunna að hafa skaðleg áhrif á samkeppni, að því tilskildu að sérlög hafi ekki að geyma sérstakar reglur um heimild eða skyldu til slíkra athafna. Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 5. janúar 2006, sem mál þetta varðar, komst meiri hluti hennar að þeirri niðurstöðu að 3. mgr. 42. gr. þágildandi laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, sbr. 1. gr. laga nr. 154/2001, hefði ótvírætt að geyma sérstök fyrirmæli, sem gengju framar ákvæðum samkeppnislaga, svo sem ráðgert væri í b. lið 1. mgr. 16. gr. þeirra. Af þeim sökum brysti samkeppnisyfirvöld heimild til þeirra afskipta, sem fólust í ákvörðun aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins 11. október 2005. Samkeppnislög verða sem almenn lög að víkja fyrir ósamrýmanlegum ákvæðum sérlaga, en að því verður að gæta að í þessu sambandi standa samkeppnislög ekki þannig meðal réttarheimilda að ríkari kröfur verði gerðar en endranær til skýrleika ákvæða í sérlögum svo að þau gangi þeim fyrrnefndu framar. Í 3. mgr. 42. gr. laga nr. 97/1990 var mælt fyrir um að ráðherra markaði stefnu um forgangsröðun verkefna á sviði heilbrigðisþjónustu, svo og að honum væri heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja þeirri stefnu, stuðla að aukinni hagkvæmni og tryggja gæði þeirrar þjónustu. Með því að fjallað var í þessu ákvæði um forgangsröðun var sýnilega gengið út frá því að á sviði opinberrar heilbrigðisþjónustu yrði af fjárhagslegum ástæðum að leggja rækt við viss verkefni á kostnað annarra, sem ýmist yrði ekkert sinnt eða ekki í sama mæli. Vald til að ákveða þessa forgangsröðun var lagt í hendur ráðherra og honum veitt heimild til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að fylgja eftir ákvörðun sinni. Í þeirri heimild fólst óhjákvæmilega að taka meðal annars afstöðu til þess hvers konar þjónusta yrði veitt sjúkratryggðum með greiðslum úr almannatryggingum, í hvaða mæli það skyldi gert og frá hverjum hennar yrði aflað. Af þessum sökum var í skilningi b. liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga að finna heimild í sérlögum til athafna, sem leiddi til þess að aðaláfrýjandanum Samkeppniseftirlitinu var óheimilt að grípa til aðgerða til að sporna við þeim á þann hátt, sem ákvörðunin 11. október 2005 tók til. Þegar af þessari ástæðu verða aðaláfrýjendur sýknaðir af kröfu gagnáfrýjanda. Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Aðaláfrýjendur, Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið, eru sýknir af kröfu gagnáfrýjanda, Sálfræðingafélags Íslands. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2007. Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 17. apríl sl., er höfðað með stefnu, sem birt var stefndu 29. júní 2006. Stefnandi er Sálfræðingafélag Íslands, Borgartúni 6, Reykjavík. Stefndu eru Samkeppniseftirlitið, Rauðarárstíg 10, Reykjavík og íslenska ríkið. Dómkröfur stefnanda eru: Að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála, dagsettur 5. janúar 2006, í málinu nr. 19/2005, Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gegn Samkeppniseftirlitinu verði ógiltur. Að staðfest verði með dómi að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli nr. 8/2005 frá 11. október 2005, Kvörtun Sálfræðingafélags Íslands vegna synjunar heilbrigðisyfirvalda um að semja um greiðsluþátttöku í kostnaði sjúkratryggðra við sálfræðimeðferð, sé í gildi, en ákvörðunarorðið er svohljóðandi: „Sú ákvörðun heilbrigðisyfirvalda að semja ekki við klíníska sálfræðinga um greiðsluþátttöku hins opinbera í kostnaði sjúkratryggðra af geðheilbrigðisþjónustu hefur skaðleg áhrif á samkeppni og fer gegn markmiði samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 1. gr. laganna. Með heimild í b.-lið 16. gr. samkeppnislaga beinir Samkeppniseftirlitið þeim fyrirmælum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að hann sjái til þess að gengið verði til samninga við sjálfstætt starfandi klíníska sálfræðinga um greiðsluþátttöku hins opinbera í kostnaði sjúkratryggðra við geðheilbrigðisþjónustu klínískra sálfræðinga.“ Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu, in solidum, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins. Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað að mati dómsins. Málsatvik og ágreiningsefni Árið 1997 kvartaði stefnandi undan því við Samkeppnisstofnun að Tryggingastofnun ríkisins tæki þátt í kostnaði sjúklinga við geðlæknisþjónustu, en ekki sálfræðiþjónustu. Sálfræðingar væru ekki með samning við stofnunina og því greiddi hún ekki hluta af gjöldum sjúklinga vegna sálfræðiþjónustu. Í áliti nr. 2/1999, 12. febrúar 1999, komst samkeppnisráð að þeirri niðurstöðu að svo mikil skörun væri á þjónustu geðlækna og klínískra sálfræðinga, þegar um væri að ræða meðferð á geðrænum vandamálum sem ekki væru lyfjatengd, að líta yrði svo á að þeir störfuðu á sama markaði. Þar sem Tryggingastofnun hefði aðeins samið við geðlækna um greiðsluþátttöku vegna kostnaðar sjúkratryggðra, en ekki klíníska sálfræðinga, takmarkaði það samkeppni þeirra á milli og færi gegn markmiðum samkeppnislaga, sbr. 1. gr. þeirra. Beindi samkeppnisráð þeim tilmælum til heilbrigðisráðuneytisins að beita sér fyrir því að lagaheimildar yrði aflað, ef nauðsyn bæri til, svo hægt væri að ganga til samninga við klíníska sálfræðinga um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar í kostnaði sjúkratryggðra við heimsókn til þeirra. Að fengnu áliti samkeppnisráðs taldi stefnandi að ráðuneytið myndi beita sér fyrir því að gengið yrði til samninga við sálfræðinga um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins, en af því varð ekki. Því leitaði stefnandi á ný til samkeppnisyfirvalda vegna málsins og með kvörtun til Samkeppnisstofnunar 3. febrúar 2005 fór hann þess á leit við samkeppnisráð að málið yrði tekið til nýrrar meðferðar. Taldi stefnandi að með því að ganga ekki til samninga við klíníska sálfræðinga hefði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Tryggingastofnun ríkisins viðhaldið samkeppnishamlandi ástandi á sviði viðtalsmeðferðar, sem meðferðarúrræðis við geðrænum vandamálum. Þetta hefði gert það að verkum að samkeppni milli geðlækna og klínískra sálfræðinga væri áfram takmörkuð. Í kvörtuninni var þess krafist að samkeppnisráð gripi til aðgerða gegn stefnda, íslenska ríkinu, þar sem aðgerðir/aðgerðaleysi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hefði skaðleg áhrif á samkeppni. Samkeppniseftirlitið tók ákvörðun um kvörtun stefnanda 11. október 2005 og varð niðurstaðan sú er fram kemur í ákvörðunarorðum seinni liðar kröfugerðar stefnanda í máli þessu. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi og lagt fyrir Samkeppniseftirlitið að taka málið til meðferðar að nýju. Með úrskurði 5. janúar 2006 felldi áfrýjunarnefnd samkeppnismála ákvörðun Samkeppniseftirlitsins úr gildi. Niðurstaða meirihluta nefndarinnar var á því reist að ákvæði 3. mgr. 42. gr. laga um heilbrigðisþjónustu hefði ótvírætt að geyma sérstök fyrirmæli sem gengju framar ákvæðum samkeppnislaga. Því væri heilbrigðisráðherra heimilt að meta hvort hann mælti fyrir um að gengið skyldi til samninga um þátttöku sjúkratrygginga í meðferð sjúkratryggðra manna, sem gengju til klínískra sálfræðinga eða ekki. Þá taldi nefndin að Samkeppniseftirlitinu hafi, með vísan til b. liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, ekki verið heimilt að grípa til aðgerða gegn athöfnum opinberra aðila að því marki sem þær kynnu að hafa skaðleg áhrif á samkeppni og að því tilskildu að „sérlög hafi ekki að geyma sérstakar reglur um heimild eða skyldu til slíkra athafna“, eins og segir í tilvitnuðu ákvæði. Að fenginni þessari niðurstöðu þyrfti nefndin því ekki að leysa úr því hvort afstaða ráðherrans hefði eða hefði ekki skaðleg áhrif á hugsanlegan samkeppnismarkað á umræddu sviði. Minnihluti áfrýjunarnefndar taldi að samkeppnisyfirvöld hefðu tvímælalaust heimild til að hlutast til um ákvarðanir allra stjórnvalda, ef ákvarðanir þeirra hefðu skaðleg áhrif á samkeppni, svo framarlega sem sérlög hefðu ekki að geyma sérstakar reglur um heimild eða skyldu til slíkra athafna. Gera yrði þá kröfu til sérlaga að ákvæði þeirra væru skýr og fælu í sér afdráttarlausar og sérgreindar heimildir til frávika frá samkeppnislögum. Þá taldi minnihlutinn að ráðherra gæti beitt því valdi sem honum væri veitt með 3. mgr. 42. gr. laga um heilbrigðisþjónustu á þann hátt að ekki væri gengið gegn samkeppnislögum. Með vísan til þessa og röksemda í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins taldi minnihluti áfrýjunarnefndar að staðfesta bæri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Málástæður og lagarök stefnanda Dómkröfur stefnanda lúta að því að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála verði felldur úr gildi þannig að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins standi óbreytt. Á því er byggt að stefndi, íslenska ríkið, hafi raskað samkeppni á þjónustumarkaði með því að semja við geðlækna, en ekki klíníska sálfræðinga, um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna viðtalsmeðferðar sjúkratryggðra og að ekki sé fyrir hendi skýr lagaheimild fyrir þeim samkeppnishömlum sem aðgerðir eða aðgerðaleysi heilbrigðisráðuneytisins hafi í för með sér. Því séu uppfyllt þau skilyrði sem b. liður 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga setji fyrir því að Samkeppniseftirlitið geti gripið til aðgerða gegn athöfnum opinberra aðila. Við mat á því hvort um röskun á samkeppni sé að ræða telur stefnandi að skoða þurfi viðkomandi markað og um leið hvort sjálfstætt starfandi geðlæknar og sjálfstætt starfandi klínískir sálfræðingar starfi á sama markaði. Þá þurfi að skera úr um hvort staðganga í skilningi samkeppnislaga sé á milli þjónustu þessara tveggja hópa sérfræðinga. Stefnandi telur að meginmunurinn á meðferð geðlækna og klínískra sálfræðinga felist í því að geðlæknar hafi heimild til að ávísa lyfjum en sálfræðingar ekki. Þegar um sé að ræða meðferð við geðrænum sjúkdómum og vandamálum, sem ekki feli í sér lyfjagjöf, svo sem kvíðavandamálum, vægari þunglyndisvandamálum og samskiptaerfiðleikum, t.d. í fjölskyldu, beiti klínískir sálfræðingar og geðlæknar að verulegu leyti sams konar úrræðum og stundi jöfnum höndum slíka sjúklinga, enda hafi báðir að hluta til lært sömu viðtalsmeðferð. Geðlæknar og klínískir sálfræðingar vinni oft saman í teymi við meðferð geðrænna sjúkdóma og vandamála, þar sem nánast hver gangi í annars starf. Samkeppnismarkaðurinn sé þjónustumarkaður fyrir viðtalsmeðferð við geðrænum vandamálum og á þeim markaði sé því um fullkomna staðgöngu að ræða á milli geðlækna og klínískra sálfræðinga, í skilningi samkeppnislaga. Rekstrarlegt umhverfi klínískra sálfræðinga og geðlækna á þessum markaði sé í flestu tilliti sambærilegt, nema þegar komi að þátttöku hins opinbera í kostnaði sjúkratryggðra af viðtali við þessa tvo starfshópa, en þar ríki ekki samkeppnislegur jöfnuður milli þeirra. Greiðsluþátttaka hins opinbera í kostnaði við meðferð hjá öðrum hópnum en ekki hinum sé til þess fallin að takmarka aðgang klínískra sálfræðinga að þeim markaði, sem bæði geðlæknar og klínískir sálfræðingar starfi á. Það sé grundvallaratriði í samkeppnislögum að aðilar standi sem jafnast að vígi á samkeppnismarkaði og að þeir hafi sem jöfnust tækifæri. Stefnandi byggir einnig á því að heilbrigðisþjónusta og veiting hennar falli almennt séð undir gildissvið samkeppnislaga. Megi þar um vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 101/1998; Íslenska ríkið gegn Árna Ingólfssyni og gagnsök. Þó verði að hafa í huga að samkeppnislög séu almenn lög sem ætlað sé að efla virka samkeppni í þeirri atvinnustarfsemi sem falli undir lögin. Sérlög gangi hins vegar framar ákvæðum samkeppnislaga ef sérlögin hafi að geyma ósamrýmanleg ákvæði á gildissviði laganna. Að áliti stefnanda taka samkeppnislög bæði til stjórnvalda/opinberra aðila sem stunda atvinnurekstur og til aðgerða stjórnvalda/opinberra aðila sem ekki fela í sér atvinnurekstur í skilningi samkeppnislaga. Varðandi stjórnvöld sem stundi atvinnurekstur beri að líta til 2. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, en þar segi að lögin taki til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu, án tillits til þess hvort hún sé rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum. Í 1. tl. 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga sé atvinnurekstur skilgreindur með þeim hætti að um sé að ræða hvers konar atvinnustarfsemi, óháð formi eignarhalds og án tillits til þeirrar vöru, þjónustu eða réttinda sem verslað eða sýslað er með gegn endurgjaldi. Í 2. tl. 1. mgr. 4. gr. laganna sé hugtakið fyrirtæki skilgreint sem einstaklingur, félag, opinberir aðilar og aðrir sem stundi atvinnurekstur. Af þessu sé ljóst að stjórnvald sem hafi með höndum einhverja tegund af atvinnurekstri teljist almennt séð vera fyrirtæki í skilningi samkeppnislaga. Sé stjórnvald fyrirtæki í þessum skilningi sé enginn greinarmunur að lögum gerður á því og öðrum fyrirtækjum, sem falli undir ákvæði samkeppnislaga. Ef stjórnvald teljist hins vegar ekki stunda atvinnurekstur, sé ekki fyrirtæki í skilningi samkeppnislaga, falli samkeppnishömlur sem leiði af eða tengist stjórnsýslu þess ekki undir bannreglur samkeppnislaga. Slíkar samkeppnishömlur gætu hins vegar komið til skoðunar samkeppnisyfirvalda með tvenns konar hætti. Í fyrsta lagi gæti Samkeppniseftirlitið beint áliti til viðkomandi stjórnvalds á grundvelli c. liðar 1. mgr. 8. gr. og/eða 18. gr. samkeppnislaga, ef samkeppnishömlurnar styddust við skýra lagastoð. Slíkt álit væri ekki bindandi að lögum. Ef hins vegar samkeppnishömlur ættu sér ekki skýra lagastoð gæti Samkeppniseftirlitið beint bindandi fyrirmælum til stjórnvalds á grundvelli b. liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga. Slík fyrirmæli eða aðgerðir gætu falið í sér hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar væru til að bregðast við athöfnum opinberra aðila sem kynnu að hafa skaðleg áhrif á samkeppni, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna. Telur stefnandi að tilvitnuð ákvæði samkeppnislaga beri það ótvírætt með sér að Samkeppniseftirlitið hafi m.a. það hlutverk að lögum að gæta þess að hliðsett stjórnvöld raski ekki samkeppni í stjórnsýslu sinni, enda sé það sérstaklega tekið fram í c. lið 1. mgr. 8. gr. laganna. Stefnandi telur ljóst að markmiðið með lögfestingu 3. mgr. 42. gr. laga um heilbrigðisþjónustu hafi verið að veita heilbrigðisyfirvöldum auknar heimildir til þess að stýra innkaupum og veitingu á heilbrigðisþjónustu. Í þessu máli hafi heilbrigðisráðherra ákveðið að kaupa tiltekna þjónustu af einum hópi sérfræðinga, en hafnað því að semja við annan hóp sérfræðinga, sem veitt geti sambærilega þjónustu. Báðir hóparnir séu einkaaðilar, en þeim sé mismunað að þessu leyti. Því þurfi að ganga úr skugga um hvort ákvæðið heimili heilbrigðisráðherra slíka samkeppnishamlandi mismunun. Að dómi stefnanda er umrætt ákvæði almennt orðað og veitir ekki ráðherra heimild til þess að mismuna keppinautum. Hafa verði í huga að það sé grundvallaratriði í samkeppnislögum að keppinautar standi sem jafnast að vígi og hafi sem jöfnust tækifæri. Þegar um sé að ræða samkeppnishamlandi mismunun verði að gera sérstaklega ríkar kröfur um að ákvæði sérlaga veiti fullnægjandi heimildir. Telur stefnandi engan vafa leika á því að ákvæði 3. mgr. 42. gr. laga um heilbrigðisþjónustu uppfylli ekki þær kröfur. Við afmörkun á efni sérlaga verði einnig að líta til þess hver hafi verið vilji löggjafans með setningu reglunnar. Við skoðun á nefndaráliti heilbrigðis-og trygginganefndar Alþingis megi draga þá ályktun að vilji löggjafans hafi ekki staðið til þess að heilbrigðisráðherra gæti á grundvelli ákvæðisins mismunað keppinautum. Jafnframt hafi löggjafinn ætlast til þess að samkeppnisyfirvöld hefðu eftirlit með aðgerðum heilbrigðisráðherra og beittu valdheimildum sínum gagnvart honum ef formskilyrði samkeppnislaga væru uppfyllt í viðkomandi máli. Til stuðnings málskostnaðarkröfu vísar stefnandi til 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málsástæður og lagarök stefndu A. Málsástæður Samkeppniseftirlitsins. Krafa Samkeppniseftirlitsins um sýknu er á því reist, að enda þótt ákvæði samkeppnislaga nái til heilbrigðisþjónustu, feli 3. mgr. 42. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu ekki einasta í sér heimild fyrir heilbrigðisráðherra til að taka ákvörðun um hvaða aðilar veiti heilbrigðisþjónustu, eins og hún sé skilgreind í 2. mgr. 1. gr. þeirra laga, heldur einnig hvort hið opinbera taki þátt í að greiða kostnað sjúkratryggðra við þjónustu klínískra sálfræðinga. Með lögum nr. 154/2001 um breyting á lögum nr. 97/1990 hafi verið stefnt að því að auka svigrúm heilbrigðisyfirvalda til ráðstafana af þeim toga sem hér um ræði. Í því sambandi sé vísað til athugasemda með frumvarpi til fyrrgreindra breytingalaga, þar sem m.a. komi fram að nauðsynlegt sé „að tryggja að heilbrigðisyfirvöld geti stýrt því hve mikla heilbrigðisþjónustu af tiltekinni tegund þau vilja kaupa, fyrir hvaða verð og hvar slík heilbrigðisþjónusta skuli veitt.“ Enn fremur komi þar fram að mikilvægt sé „að fagleg rök og hagkvæmni ráði því hvar þjónusta er veitt en ekki ákvarðanir einstakra heilbrigðisstarfsmanna eða hópa.“ Með vísan til þessa byggir Samkeppniseftirlitið á því að ráðherra geti ákveðið að hið opinbera taki aðeins þátt í að greiða kostnað vegna þjónustu geðlækna en ekki klínískra sálfræðinga. Þá bendir stefndi, Samkeppniseftirlitið, á að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi í úrskurði sínum ekki tekið afstöðu til þess hvort ákvörðun ráðherra hafi haft skaðleg áhrif á samkeppni. Yrði fallist á fyrri kröfu stefnanda gæti dómurinn því ekki fjallað um þá málsástæðu stefnanda, sbr. 40. gr. samkeppnislaga. B. Málsástæður íslenska ríkisins. Stefndi, íslenska ríkið, byggir sýknukröfu sína á því að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála sé í samræmi við lög og ekkert tilefni sé til að ógilda hann. Þá mótmælir hann því einnig til stuðnings sýknukröfu að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 11. október 2005 verði ljáð gildi. Að dómi stefnda hefur ákvæði 3. mgr. 42. gr. laga um heilbrigðisþjónustu að geyma sérstök fyrirmæli um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu, sem ganga framar ákvæðum samkeppnislaga, eins og lagt sé til grundvallar í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar. Af þessu leiði að heilbrigðisráðherra hafi fulla heimild til þess að ákveða hvort, hvenær og hvernig þátttöku sjúkratrygginga í sálfræðiþjónustu verði háttað, og það án tillits til ákvarðana Samkeppniseftirlits eða ákvæða samkeppnislaga. Byggir stefndi á því að ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 og heimildir laga nr. 117/1993, meðal annars um það til hvers sjúkratryggingar nái í ljósi 3. mgr. 42. gr. fyrrnefndu laganna, skoðist sem sérlög gagnvart samkeppnislögum. Taki sú breyting sem varð á 36. gr. almannatryggingalaga með lögum nr. 74/2002 alfarið mið af þeirri grundvallarreglu um forgangsröðun í 3. mgr. 42. gr. laga nr. 97/1990. Þannig víki samkeppnislög fyrir ákvæðum laga um heilbrigðisþjónustu og almannatryggingar. Samkeppniseftirlitinu hafi því ekki verið heimilt að grípa til aðgerða á grundvelli b. liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga. Stefndi áréttar að heilbrigðisráðherra hafi að lögum víðtækar heimildir til að ákveða skipulag heilbrigðisþjónustu og til að forgangsraða verkefnum. Nefnt ákvæði 3. mgr. 42. gr. laga nr. 97/1990 sé í samræmi við það og vilja löggjafans, sem fram komi í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 154/2001. Komi þar fram að nauðsynlegt sé að tryggja að heilbrigðisyfirvöld geti stýrt því hve mikla heilbrigðisþjónustu af tiltekinni tegund þau vilji kaupa, fyrir hvaða verð og hvar slík þjónusta skuli veitt. Þar segi einnig að mikilvægt sé að fagleg rök og hagkvæmni ráði því hvar þjónusta sé veitt en ekki ákvarðanir einstakra heilbrigðisstarfsmanna eða hópa. Núverandi fyrirkomulag byggi á þessum sjónarmiðum og hafi löggjafinn lagt það í hendur heilbrigðisyfirvalda að meta hvernig þeim árangri sem að sé stefnt verði best náð. Ákvæði, sem mæli fyrir um forgangsröðun, feli á sinn hátt í sér tiltekna mismunun, en í þessu tilviki sé hún lögmæt og málefnaleg og snúist um að forgangsraða hagsmunum og þörfum sjúkra og þeirra sem á heilbrigðisaðstoð þurfi að halda. Að mati stefnda veiti ákvæðið ótvíræðar heimildir sem ákvæði samkeppnislaga fái ekki hnikað. Að áliti stefnda er gildissvið samkeppnislaga afmarkað með þeim hætti að samkvæmt 2. gr. laganna taki þau til hvers konar atvinnustarfsemi. Í 4. gr. þeirra sé atvinnurekstur skilgreindur sem hvers konar atvinnustarfsemi, óháð formi eignarhalds og án tillits til þeirrar vöru, þjónustu eða réttinda sem verslað eða sýslað sé með gegn endurgjaldi. Opinberir aðilar og stjórnvöld geti haft áhrif á samkeppni með ákvörðunum sínum og fyrirmælum, þótt þau stundi ekki atvinnustarfsemi í skilningi samkeppnislaga. Í samkeppnislögum sé hins vegar ekki gert ráð fyrir öðrum afskiptum samkeppnisyfirvalda af stjórnvöldum en þeim sem getið sé um í 18. gr. laganna. Í greininni sé mælt fyrir um að þegar samkeppniseftirlitið álíti að ákvæði laga eða stjórnvaldsfyrirmæla stríði gegn markmiði laganna og torveldi samkeppni í viðskiptum skuli vekja athygli ráðherra á því. Þetta sé sá vettvangur sem samkeppnisyfirvöldum sé einkum ætlaður gagnvart opinberum aðilum þegar komi að ákvæðum laga eða stjórnvaldsfyrirmæla. Í 3. mgr. 36. gr. laga nr. 117/1993 sé að finna heimild til ráðherra til að setja reglugerð og gætu samkeppnisyfirvöld væntanlega einnig nýtt sömu heimild til að láta ráðherra í té álit sitt vegna stjórnvaldsákvarðana. Samkeppnislög heimili hins vegar ekki yfirvöldum þeirra mála að beina fyrirmælum til ráðherra eða ráðuneyta um hvernig þeim beri að haga stjórnvaldsákvörðunum sínum eða hvers efnis tiltekin stjórnvaldsfyrirmæli skuli vera á þessu sviði. Telur stefndi það ranga skýringu á ákvæði c. liðar 8. gr. samkeppnislaga að þar sé um slíka heimild að ræða. Stefndi byggir einnig á því að b. liður 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga feli ekki í sér heimild til afskipta af ákvörðun um það hvort samið verði við klíníska sálfræðinga vegna greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Meginatriði málsins sé hvort sjúkratryggingar taki til þjónustunnar, en ekki það hvort samið verði við tiltekna heilbrigðisstétt. Áður en ákvörðun yrði tekin um slíkan samning þyrfti lagaheimild, fjárlagaheimild og sérstaka ákvörðun ráðherra um að sjúkratryggingar tækju til sálfræðiþjónustu. Ákvörðun um þessa þætti eigi undir löggjafann og heilbrigðisráðherra, meðal annars á þann hátt að heilbrigðisráðherra marki stefnu um forgangsröðun í heilbrigðismálum og gangi slík ákvæði augljóslega framar samkeppnislögum. Afskipti samkeppnisyfirvalda á grundvelli b. liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga séu háð því skilyrði að athöfn þess opinbera aðila sem í hlut eigi sé þáttur í atvinnustarfsemi á hans vegum. Slíku sé ekki til að dreifa og því heimili ákvæðið ekki Samkeppniseftirlitinu að hafa afskipti af ákvörðun heilbrigðisráðherra, svo sem gert var. Tekur stefndi fram að hann geti ekki fallist á að með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 101/1998 sé því slegið föstu að heilbrigðisþjónusta falli almennt undir gildissvið samkeppnislaga, enda sé í dóminum sleginn mikilvægur varnagli að því leyti sem leiði af sérákvæðum um heilbrigðisþjónustu, eins og hér eigi við. Þá byggir stefndi á því að ekki sé unnt að líta svo á að sjálfstætt starfandi geðlæknar og sjálfstætt starfandi klínískir sálfræðingar starfi á sama markaði. Þótt sálfræðingar hafi ekki heimild til að meðhöndla sjúklinga með lyfjameðferð og ávísa lyfjum, hljóti meginatriðið að vera að í öðru tilvikinu sé um að ræða læknismeðferð en ekki hinu. Einungis læknar hafi tilskilda þekkingu, vísindalega eða á grundvelli laga, til að meta og greina sjúkdóma, meðal annars með tilliti til þess hvort lyfjameðferðar sé þörf eða ekki. Menntun lækna og sálfræðinga, sem og viðfangsefni þeirra og meðferðir, séu einnig gjörólíkar. Eigi þetta stuðning í umsögn formanns Geðlæknafélags Íslands, sem fyrir liggi í málinu og tekin sé saman fyrir hönd stjórna þess og Félags sjálfstætt starfandi geðlækna. Hafi stefnandi ekkert fært fram í málinu sem fái hnekkt þessari umsögn, aðeins gert að sínum þær röksemdir samkeppnisyfirvalda að sá einn sé munur á stéttunum tveimur að læknar megi ávísa lyfjum en sálfræðingar ekki, án þess að séð verði á grundvelli hvaða upplýsinga eða rannsókna Samkeppniseftirlitið mótaði eða setti fram slíka fullyrðingu. Að sami skapi sé ekkert í rökstuðningi Samkeppniseftirlitsins, sem stutt geti þá fullyrðingu stefnanda að staðganga sé á milli meðferðar hjá klínískum sálfræðingum og lyfjalausri meðferð hjá geðlæknum. Þá telur stefndi að óraunhæft sé að leggja til grundvallar að til sé þjónustumarkaður fyrir viðtalsmeðferð við geðrænum vandamálum, í skilningi samkeppnislaga. Loks byggir stefndi á því að skipulag heilbrigðisþjónustu á grundvelli laga um hana geri ekki ráð fyrir að heilbrigðisstéttir séu í innbyrðis verðsamkeppni. Allir læknar innan tiltekinnar sérgreinar fái þannig greitt það sama fyrir þjónustu sína frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli samninga samtaka þeirra og samninganefndar heilbrigðisráðherra. Gjöldin sem sjúklingar borgi vegna komu á stofu séu síðan ákvörðuð með reglugerð. Þannig ríki ekki verðsamkeppni. Engar reglur eða samræmd verð gildi um sálfræðiþjónustu og nái sjúkratryggingar ekki til hennar. Því megi segja að þar geti ríkt verðsamkeppni. Sú samkeppni myndi þverra ef heilbrigðisráðherra mælti fyrir um að samninganefnd semdi við klíníska sálfræðinga um greiðsluþátttöku. Slík fyrirmæli gengju gegn ákvæðum samkeppnislaga. Til stuðnings málskostnaðarkröfum sínum vísa stefndu báðir til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Niðurstaða Með vísan til 1. mgr. 2. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 1. tl. 1. mgr. 4. gr. sömu laga, ber að fallast á það með stefnanda að heilbrigðisþjónusta sé í eðli sínu atvinnustarfsemi sem almennt falli undir gildissvið samkeppnislaga. Hafa ber þó í huga að samkeppnislögin eru almenn lög og ganga sérlög, þ.m.t. á sviði heilbrigðisþjónustu, þeim framar, ef sérlögin hafa að geyma ósamrýmanleg ákvæði á gildissviði laganna. Í máli þessu gerir stefnandi þá kröfu að ógiltur verði úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í málinu nr. 19/2005, Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gegn Samkeppniseftirlitinu. Með þeim úrskurði var felld úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2005, er varðaði kvörtun Sálfræðingafélags Íslands vegna synjunar heilbrigðisyfirvalda um að semja um greiðsluþátttöku í kostnaði sjúkratryggðra við sálfræðimeðferð. Niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála í umræddu máli var á því reist að ákvæði 3. mgr. 42. gr. laga um heilbrigðisþjónustu hefði að geyma sérstök fyrirmæli sem gengju framar ákvæðum samkeppnislaga. Á grundvelli þess ákvæðis hefði heilbrigðisráðherra því heimild til að meta hvort gengið skyldi til samninga við klíníska sálfræðinga um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna meðferðar sjúkratryggðra manna sem eftir þjónustu þeirra leituðu. Af þeirri ástæðu, og með vísan til orða b. liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga, hafi Samkeppniseftirlitið brostið heimild til þeirra afskipta af málinu, sem birtust í ákvörðun þess. Af því leiddi að áfrýjunarnefnd taldi ekki þörf á að leysa úr því hvort afstaða ráðherrans hefði eða hefði ekki skaðleg áhrif á hugsanlegan samkeppnismarkað á því sviði. Með lögum nr. 154/2001 var sú breyting gerð á lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu að við 42. gr. þeirra bættust þrjár nýjar málsgreinar. Við úrlausn ágreinings málsaðila skiptir að mati dómsins einkum máli hvernig skýra beri ákvæði 3. mgr. 42. gr., sem hljóðar þannig: „Ráðherra markar stefnu um forgangsröðun verkefna í heilbrigðisþjónustu. Ráðherra er heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja stefnu um forgangsröðun, stuðla að aukinni hagkvæmni og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu.“ Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi til umræddra laga kemur fram að tilgangur frumvarpsins sé að gera heilbrigðisyfirvöldum kleift að vinna að markmiðum heilbrigðisáætlunar, m.a. varðandi forgangsröðun verkefna, um leið og nauðsynlegt sé að tryggja að heilbrigðisyfirvöld geti stýrt því hve mikla heilbrigðisþjónustu af tiltekinni tegund þau vilji kaupa, fyrir hvaða verð og hvar hún skuli veitt. Erfitt hafi reynst að framfylgja markmiðum heilbrigðisyfirvalda varðandi forgangsröðun, enda hafi magn og tegund þjónustunnar oft ráðist af öðrum sjónarmiðum. Er þar sérstaklega nefnd sérfræðiþjónusta utan stofnana, sem hafi að talsverðu leyti ráðist af fjölda sérfræðinga á viðkomandi sviðum og því hvort þeir kjósi að veita þjónustuna innan eða utan stofnana. Þá er tekið fram að mikilvægt sé að fagleg rök og hagkvæmni ráði því hvar þjónusta er veitt, en ekki ákvarðanir einstakra heilbrigðisstarfsmanna eða hópa. Jafnframt segir þar að með vísan til þessa geti ráðherra hafnað greiðsluþátttöku í þjónustu sem fari í bága við framangreind markmið. Í nefndaráliti heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis um frumvarpið er m.a. tekið fram að ákvæði frumvarpsins komi ekki í veg fyrir beitingu samkeppnislaga í atvinnustarfsemi á sviði heilbrigðisþjónustu og að allar ákvarðanir ráðherra, byggðar á hinu nýja ákvæði, verði að vera í samræmi við lög, þ.m.t. samkeppnislög, svo og meginreglur stjórnsýsluréttar, þ.á m. jafnræðisreglur og meðalhófsreglur. Við þetta er því bæta, að með lögum nr. 74/2002 og lögum nr. 91/2004 var nýjum málslið bætt við 3. mgr. 36. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, svohljóðandi: „Jafnframt er ráðherra heimilt í reglugerð að ákveða að veita skuli hjálp við nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir skv. b.-lið 1. mgr. hjá öðrum sérfræðingum á heilbrigðissviði en sérgreinalæknum.“ Þessi reglugerð hefur ekki verið sett. Við skýringu 3. mgr. 42. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 verður að hafa í huga hver tilgangur löggjafans hafi verið með setningu ákvæðisins. Jafnframt verður að gera þá kröfu að ákvæði, sem geymir sérstök fyrirmæli sem víkja til hliðar ákvæðum samkeppnislaga, sé bæði skýrt og feli í sér fullnægjandi og ótvíræðar heimildir til slíkra frávika. Þótt ákvæðið veiti heilbrigðisráðherra víðtækar heimildir til stefnumörkunar og forgangsröðunar í heilbrigðisþjónustu verður ekki séð að vilji löggjafans hafi staðið til þess að útiloka einn eða fleiri hópa heilbrigðisstarfsmanna frá samkeppni á sviði heilbrigðisþjónustunnar eða mismuna keppinautum á sama sviði þeirrar þjónustu. Færi slíkt ekki aðeins í bága við markmið ákvæðisins um aukna hagkvæmni, heldur einnig jafnræðisreglur stjórnsýsluréttar. Slík ákvörðun væri um leið í ósamræmi við stefnumörkun tilvitnaðs heimildarákvæðis 3. mgr. 36. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Hins vegar fer ekki milli mála að 3. mgr. 42. gr. laga um heilbrigðisþjónustu veitir ráðherra heimild til þess að stýra magni og tegund heilbrigðisþjónustunnar, á hvaða verði hún skuli keypt og hvar hún skuli veitt. Með vísan til ofanritaðs og eins og máli þessu er háttað er ekki á það fallist með stefndu að fyrirmæli 3. mgr. 42. gr. laga um heilbrigðisþjónustu veiti ein og sér heilbrigðisráðherra heimild til þess að útiloka sjálfstætt starfandi klíníska sálfræðinga frá samningum um greiðsluþátttöku hins opinbera í kostnaði sjúkratryggðra vegna geðheilbrigðisþjónustu, enda samrýmist slíkir samningar að öðru leyti markmiðum ákvæðisins. Að þeirri niðurstöðu fenginni fellst dómurinn ekki á þau rök áfrýjunarnefndar samkeppnismála að b. liður 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 girði fyrir að Samkeppniseftirlitið geti gripið til þeirra aðgerða sem birtust í ákvörðun þess, nr. 8/2005, og dagsett er 11. október 2005. Ber því að fallast á kröfu stefnanda um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála, nr. 19/2005, dagsettur 5. janúar 2006, verði ógiltur. Í máli þessu gerir stefnandi einnig kröfu um að staðfest verði með dómi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli nr. 8/2005 frá 11. október 2005. Með þeirri ákvörðun komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun heilbrigðisyfirvalda að semja ekki við klíníska sálfræðinga um greiðsluþátttöku hins opinbera í kostnaði sjúkratryggðra af geðheilbrigðisþjónustu hefði skaðleg áhrif á samkeppni og færi gegn markmiði samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 1. gr. laganna. Með heimild í b. lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga beindi Samkeppniseftirlitið þeim fyrirmælum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að hann sæi til þess að gengið yrði til samninga við sjálfstætt starfandi klíníska sálfræðinga. Málsástæður stefnanda í þessum kröfulið eru á því reistar að stefndi, íslenska ríkið, hafi raskað samkeppni á þjónustumarkaði með því að semja við geðlækna, en ekki klíníska sálfræðinga um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna viðtalsmeðferðar. Fullyrt er að klínískir sálfræðingar og geðlæknar starfi á sama samkeppnismarkaði þegar um sé að ræða meðferð við geðrænum vandamálum, sem ekki feli í sér lyfjagjöf. Samkeppnismarkaðurinn sé þjónustumarkaður fyrir viðtalsmeðferð og hafi báðir að hluta til lært sömu viðtalsmeðferðina. Um fullkomna staðgöngu sé því að ræða þeirra á milli, í skilningi samkeppnislaga. Að undanskildu áliti samkeppnisráðs í máli nr. 2/1999, ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli nr. 8/2005 og bréfi Geðlæknafélags Íslands og Félags sjálfstætt starfandi geðlækna til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins 3. nóvember 2005 er í máli þessu engum öðrum gögnum til að dreifa, sem rennt geti stoðum undir kröfugerð og málsástæður stefnanda í þessum kröfulið. Að því leyti þykir málatilbúnaði stefnanda svo ábótavant að ekki verður hjá því komist að vísa þeirri kröfu frá dómi, sbr. d. og e. liður 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir eftir atvikum rétt að aðilar málsins beri sjálfir hver sinn kostnað af málsókninni. Dóminn kvað upp Ingimundur Einarsson héraðsdómari. D Ó M S O R Ð: Ógiltur er úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála, dagsettur 5. janúar 2006, í málinu nr. 19/2005, Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gegn Samkeppniseftirlitinu. Kröfu stefnanda, Sálfræðingafélags Íslands, um að staðfest verði með dómi að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli nr. 8/2005 frá 11. október 2005 sé í gildi, er vísað frá dómi. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 462/2000 | Kærumál Frávísunarúrskurður felldur úr gildi Res Judicata Kröfugerð Stefna | Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu Þ þess efnis að íslenska ríkinu yrði gert að draga til baka uppsögn hennar úr starfi á árinu 1992. Fyrir lá að Þ hafði í tveimur fyrri málum vegna uppsagnarinnar krafist greiðslu tiltekinna fjárhæða í skaðabætur. Taldi Hæstiréttur að þótt öll málin þrjú ættu sameiginlega þann grundvöll að Þ teldi uppsögnina hafa verið ólögmæta, fengi það því ekki breytt að í þessu máli væri ekki í skilningi fyrri málsliðar 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um að ræða sama sakarefni og í fyrri málunum. Málinu yrði því ekki vísað frá dómi á grundvelli síðari málsliðar sama lagaákvæðis. Þ, sem flutti málið sjálf, var ekki lögfræðingur að mennt og varð ekki ráðið af gögnum málsins að henni hefði verið leiðbeint um lagfæringar á orðalagi dómkrafna. Kröfu um frávísun vegna annmarka á kröfugerð Þ var því einnig hafnað. Þá var eigi heldur fallist á það með íslenska ríkinu að vísa bæri málinu frá dómi með vísan til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Frávísunarúrskurður héraðsdóms var því felldur úr gildi. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2000, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Líta verður svo á að sóknaraðili krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað. I. Í héraðsdómsstefnu greinir sóknaraðili frá þeim atvikum að málinu að hún hafi tekið til starfa á rannsóknarstofu Hollustuverndar ríkisins á árinu 1983 og verið þar lausráðin við vinnu með nánar tilgreindum hléum í tengslum við nám þar til í lok árs 1987, þegar hún hafi orðið fastráðin. Á árunum 1988 og 1989 hafi aftur orðið hlé á störfum hennar vegna áframhaldandi náms, en í byrjun árs 1990 hafi hún tekið við starfi deildarstjóra. Á árinu 1991 hafi félagsmenn í stéttarfélagi sóknaraðila tekið sig saman um að láta sig vanta einn dag frá vinnu sökum veikinda, en þetta hafi verið liður í mótmælum háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna vegna setningar bráðabirgðalaga varðandi launakjör þeirra. Þetta hafi sóknaraðili látið hjá líða, en tveir nánar tilgreindir samstarfsmenn hennar hafi orðið varir við að hún væri við vinnu umræddan dag. Eftir það hafi yfirmenn sóknaraðila hafið „bréfaskipti við hana og þótt hún hagaði störfum sínum og samskiptum við yfirmenn og samstarfsfólk samkvæmt bestu vitund var henni sagt upp fyrirvaralaust með bréfi dags. 25. september 1992.” Í málinu krefst sóknaraðili þess að varnaraðili verði dæmdur „til að draga uppsagnarbréf til baka”, en með tilvitnuðum orðum er vísað til bréfsins, sem hér að framan var getið. II. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðili tvívegis áður höfðað mál í tilefni af fyrrnefndri uppsögn 25. september 1992 á starfi hennar hjá Hollustuvernd ríkisins. Fyrra dómsmálið var höfðað 3. nóvember 1993 á hendur ríkissjóði og krafðist sóknaraðili þess að hann yrði dæmdur til að greiða sér 960.000 krónur í skaðabætur vegna uppsagnarinnar, sem hún taldi í raun hafa verið ólögmæta brottvikningu úr starfi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 1994 var stefndi í málinu sýknaður af kröfu sóknaraðila. Þeim dómi var ekki áfrýjað til Hæstaréttar. Síðara málið höfðaði sóknaraðili 19. apríl 1999 gegn Hollustuvernd ríkisins og krafðist 45.540.720 króna í skaðabætur vegna sömu uppsagnar úr starfi. Stefndi í málinu krafðist með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 að því yrði vísað frá dómi. Var fallist á þá kröfu í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 1999, sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 26. sama mánaðar. Krafa sóknaraðila í þessu máli er sem fyrr segir um að varnaraðila verði gert að draga til baka umrædda uppsögn. Kröfur hennar í fyrrnefndum dómsmálum voru hins vegar um greiðslu tiltekinna fjárhæða í skaðabætur. Þótt öll málin þrjú eigi sameiginlega þann grundvöll að sóknaraðili telji uppsögnina hafa verið ólögmæta, fær það því ekki breytt að þegar vegna kröfugerðar hennar í málinu nú er ekki í skilningi fyrri málsliðar 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um að ræða sama sakarefni og í fyrri málunum tveimur. Verður málinu því ekki vísað frá dómi á grundvelli síðari málsliðar sama lagaákvæðis. III. Í málinu leitar sóknaraðili sem fyrr segir dóms um skyldu varnaraðila til að draga til baka bréf 25. september 1992 um uppsögn hennar úr starfi. Þótt sóknaraðili hafi kosið að orða kröfu sína á þennan hátt, verður ekki annað séð en að krafan lúti í reynd að því að fá uppsögnina fellda úr gildi. Sóknaraðili, sem sækir málið sjálf, er ekki lögfræðingur að mennt. Verður ekki ráðið af gögnum málsins hvort henni hafi verið leiðbeint um lagfæringar á orðalagi dómkrafna. Eru því ekki efni að til að fallast á með varnaraðila að vísa verði málinu frá dómi vegna annmarka á kröfugerð sóknaraðila. Héraðsdómsstefna í málinu fullnægir að efni til þeim skilyrðum, sem greinir í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Er því ekki ástæða til að vísa málinu frá dómi vegna galla á stefnunni, svo sem varnaraðili hefur haldið fram. Samkvæmt framansögðu verður að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af þessum þætti þess á báðum dómstigum. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og er lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 69/2007 | Vanreifun Frávísun frá héraðsdómi | K hf. krafði B um greiðslu eftirstöðva skuldabréfs, sem B hafði gengist í einfalda ábyrgð á, ásamt bankakostnaði. Misræmi var milli gagna málsins og málflutnings K hf. fyrir Hæstarétti um hvenær bréfið hefði verið gjaldfellt. Þá lá ekki fyrir sundurliðun og útreikningur á eftirstöðvum skuldabréfsins, en það bar ekki sjálft með sér hverjar eftirstöðvar þess hefðu verið. Krafa K hf. um bankakostnað var heldur ekki sundurliðuð eða studd gögnum. Þóttu kröfur K hf. því svo vanreifaðar að ekki væri unnt að leggja á þær dóm og var málinu því vísað frá héraðsdómi án kröfu. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. febrúar 2007. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 539.066 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann bankakostnaðar að fjárhæð 19.465 krónur auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Í greinargerðum stefnda fyrir héraðsdómi og Hæstarétti er krafist sýknu þar sem krafa áfrýjanda sé vanreifuð enda sé hún hvorki sundurliðuð né grein fyrir því gerð hvernig hún sé út reiknuð. Þar sem vanreifun leiðir til frávísunar kemur þessi málsástæða ekki til úrlausnar varðandi sýknukröfu stefnda. Það kemur hins vegar til athugunar Hæstaréttar hvort annmarkar séu á málshöfðun áfrýjanda í héraði sem valda eigi frávísun frá héraðsdómi án kröfu. Í stefnu er krafa málsins að fjárhæð 539.066 krónur sögð vera eftirstöðvar skuldabréfs sem stefndi gekkst upphaflega í einfalda ábyrgð á með samþykkt hreppsnefndar Borgarfjarðarhrepps 17. mars 1997. Stefndi samþykkti síðan á ný ábyrgð sína vegna breytinga á greiðsluskilmálum skuldabréfsins 2. maí 2000. Með úrskurði Héraðsdóms Austurlands 26. nóvember 2003 var bú útgefanda skuldabréfsins tekið til gjaldþrotaskipta. Ekki fékkst neitt greitt úr búinu upp í kröfur áfrýjanda. Í málinu liggur fyrir bréf frá áfrýjanda til stefnda 17. desember 2003 þar sem stefndi er krafinn um greiðslu gjaldfallinnar afborgunar auk áfallins kostnaðar. Í málflutningi fyrir Hæstarétti kom aftur á móti fram að krafa áfrýjanda um gjaldfellingu skuldabréfsins væri miðuð við 1. nóvember 2003. Í málinu liggur ekki fyrir sundurliðun og útreikningur á hinum umkröfðu eftirstöðvum skuldabréfsins. Þá hafa afborganir af skuldabréfinu heldur ekki verið færðar á það sjálft í samræmi við fyrirmæli 1. gr. tilskipunar frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf. Skuldabréfið ber því ekki sjálft með sér hverjar eftirstöðvar þess eru. Þá gerir áfrýjandi kröfu um greiðslu bankakostnaðar að fjárhæð 19.465 krónur. Í málinu liggur ekki fyrir sundurliðaður útreikningur á þessum kostnaði með vísan til ákvæða skuldabréfsins og að öðru leyti þeirra heimilda sem hann er byggður á. Fyrir Hæstarétti gaf lögmaður áfrýjanda þá skýringu að hluti þessa kostnaðar væri þóknun innheimtufyrirtækis sem hefði reynt að innheimta kröfuna. Í málinu eru engin gögn er styðja þetta eða fela í sér sundurliðun á þeim kostnaði sem þannig hefur fallið til. Samkvæmt því, sem að framan greinir, eru kröfur áfrýjanda svo vanreifaðar að dómur verður ekki á þær felldur. Verður að þessu virtu ekki komist hjá því að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu. Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Málinu er vísað frá héraðsdómi. Áfrýjandi, Kaupþing banki hf., greiði stefnda, Borgarfjarðarhreppi, samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Mál þetta, sem var dómtekið 6. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Austurlands af Kaupþingi banka hf., Fagradalsbraut 11, Egilsstöðum, á hendur Borgarfjarðarhreppi, Höfn, Borgarfirði eystri, með stefnu þingfestri 18. febrúar 2006. Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 539.066 kr. ásamt dráttarvöxtum, frá 1. nóvember 2003 til greiðsludags. Auk þess er krafist bankakostnaðar að fjárhæð 19.465 kr. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Málavextir. Hinn 19. mars 1997 gaf Álfasteinn ehf. út til stefnanda skuldabréf að fjárhæð 2.000.000 kr. Samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins skyldi Álfasteinn ehf. endurgreiða skuldina með 60 afborgunum á 5 árum, í fyrsta sinn 1. júlí 1997. Lánið bar vexti frá 19. mars 1997 skv. ákvörðun bankans á hverjum tíma, en við útgáfu bréfsins voru þeir 9,85%. Stefndi tókst á hendur einfalda ábyrgð með undirritun sinni á bréfið. Hinn 2. maí 2000 var skilmálum fyrrgreinds skuldabréfs breytt. Samkvæmt þeirri yfirlýsingu skyldi Álfasteinn ehf. greiða stefnanda eftirstöðvar skuldarinnar 1.548.467,40 kr. á 5 árum, þ.e. með 40 afborgunum, átta á ári auk 16 vaxtagjalddaga sem greiðast skyldu þá mánuði sem ekki var greidd afborgun. Lánið bar nú vexti frá 1. maí 2000 skv. ákvörðun bankans á hverjum tíma, en við samþykkt skuldbreytingarinnar voru þeir 9,95%. Eftirstöðvar skuldabréfsins, er það fór í vanskil hinn 1. nóvember 2003, voru 504.848 kr. Áfallnir samningsvextir þann dag voru 34.218 kr. og bankakostnaður 19.465 kr. eða samtals 558.531 kr. sem er stefnufjárhæðin. Bú Álfasteins ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Austurlands uppkveðnum hinn 26. nóvember 2003 og lauk skiptum á búinu 8. júlí 2004. Ekki fékkst greitt upp í almennar kröfur við skipti á búi Álftasteins ehf. Málsástæður og lagarök stefnanda. Í upphafi tekur stefnandi fram að þegar skilmálum bréfsins var breytt árið 2000 voru greiðslur af skuldabréfinu í verulegum vanskilum og var það mat manna, jafnt fulltrúa skuldara, kröfuhafa og ábyrgðarmanns, að farsælast væri að framlengja ákvæði skuldabréfsins til þess að forða aðalskuldara frá greiðsluþroti. Eftir skilmálabreytinguna hefur aðalskuldari alls greitt 1.629.802 kr. Stefnandi kveðst hafa gert það að skilyrði fyrir framlengingu lánsins að ábyrgð stefnda héldist enda um einu tryggingu efnda sem veitt var. Skilmálabreytingin var sem áður sagði gerð árið 2000. Þágildandi 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga hljóðaði svo: „Eigi má binda sveitarsjóð í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins.“ Stefnandi telur að stefnda hafi þrátt fyrir þetta orðalag verið heimilt að gera umræddar breytingar á þeim skuldbindingum sem hann hafði þá þegar gengist undir. Í því sambandi bendi stefnandi á að framlenging lánsins var gerð eftir mikil vanskil af hálfu aðalskuldara og í þeim tilgangi einum að forða aðalskuldara frá greiðsluþroti sem hefði leitt til að ábyrgð stefnda yrði virk, enda er ábyrgð hans eina tryggingin sem gefin var fyrir greiðslu bréfsins. Einungis sú fullvissa sem fólst í ábyrgð stefnda kom í veg fyrir að greiðsluskylda hans yrði virk strax í kjölfar vanskila aðalskuldara árið 2000. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 45/1998 eru nefndar tvær ástæður fyrir því að heimild sveitarfélaga til að gangast í einfalda ábyrgð gegn tryggingu sem metin hefur verið gild var felld út. Fyrri ástæðan er hættan á að raskað sé jafnræði fyrirtækja og samkeppnisstöðu þegar veittar eru slíkar ábyrgðir og 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, en þessi rök eiga augljóslega fyrst og fremst við um stofnun nýrra ábyrgða en ekki þegar eldri ábyrgðir eru framlengdar til að forða því að kröfur falli á ábyrgðaraðila. Hin ástæðan er að slæm reynsla hafi verið af þessu ákvæði og það hafi í ýmsum tilvikum stuðlað að áföllum í fjármálum einstakra sveitarfélaga. Það getur því ekki samræmst vilja löggjafans að takmarka heimildir sveitarfélaganna til að semja sig frá því að kröfur samkvæmt eldri ábyrgðum séu gjaldfelldar og beint að þeim. Hinu stefnda sveitarfélagi hlýtur að hafa verið heimilt að forðast áfall í fjármálum sínum með því að samþykkja umrædda skilmálabreytingu og framlengja þannig ábyrgð sína enda var framkvæmd skuldbreytingarinnar þegar á heildina er litið sveitarfélaginu í hag. Stefnandi bendir einnig á, að allur vafi um gildi ábyrgðarinnar hljóti að vera túlkaður honum í hag. Það sé eðlilegra að áhættan liggi fremur hjá þeim sem veitir ábyrgðina en þeim sem veitir henni viðtöku. Jafnframt telur stefndi að hagsmunum skuldara og viðskiptalífsins almennt sé kastað fyrir róða ef kröfuhafi ætti að tapa rétti með því að koma til móts við óskir skuldara og ábyrgðarmanna um rýmkun á greiðslufresti. Sé litið svo á að samþykkt stefnda á umræddri skilmálabreytingu sé ógild ber sveitarfélagið samt sem áður ábyrgð samkvæmt upphaflegri ábyrgðaryfirlýsingu sinni. Sé undirritun sveitarfélagsins ógild er hún ógild frá upphafi, sbr. Hrd. nr. 168/1999, og hefur því engin áhrif á upphaflegar skuldbindingar stefnda. Sé hið upphaflega skuldabréf uppreiknað, miðað við greiddar innborganir og þá skilmála er giltu um samband stefnda, stefnanda og aðalskuldara bréfsins, er stefndi undirritaði ábyrgðaryfirlýsingu sína, eru eftirstöðvar þess nú, við útgáfu stefnu þessarar, 1.000.480 kr., sbr. framlagða útreikninga og er það sú fjárhæð sem stefndi hefur gengist undir að ábyrgjast skv. undirritun sinni á umrætt skuldabréf. Því er ljóst að stefnufjárhæðin rúmast innan ábyrgðar stefnda skv. upphaflegri ábyrgðaryfirlýsingu hans. Samkvæmt 4. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, fyrnist ábyrgðaryfirlýsing á fjórum árum. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. sömu laga hefst fyrningarfrestur kröfu samkvæmt einfaldri ábyrgðarskuldbindingu á gjalddaga aðalkröfunnar. Það er því ljóst að ábyrgð stefnda samkvæmt eldri ábyrgðaryfirlýsingu sinni er enn í fullu gildi og ófyrnd. Um lagarök er vísað til meginreglna samningsréttarins um skuldbindingagildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fá m.a. stoð í lögum nr. 7/1936. Einnig er vísað til vanefndaákvæða bréfsins sjálfs. Varðandi fyrningu ábyrgðaryfirlýsingarinnar er vísað til 4. tl. 3. gr. og 3. mgr. 5. gr. laga. nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Málið er rekið skv. 17. kafla laga 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing vísast til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991. Málsástæður og lagarök stefnda. Stefndi byggir kröfu um sýknu á því að ógilt sé samþykki stefnda dags. 2. maí 2000 fyrir samkomulagi Álftasteins ehf. og stefnanda um breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfs útg. 19. mars 1997. Samkvæmt 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1988, sem voru í gildi þegar skilmálum skuldabréfsins var breytt, var sveitarfélaginu óheimilt að gangast í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. Um var að ræða fortakslaust bann við veitingu ábyrgða í þágu annarra en stofnana sveitarfélagsins. Stefnda var því í maí 2000 ekki heimilt að samþykkja sem ábyrgðaraðili skilmálabreytingu skuldabréfsins en í þeirri skilmálabreytingu fólst að lán sem var með lokagjalddaga þann 1. júní 2002 var framlengt og lokagjalddagi ákveðinn þann 1. júní 2005. Stefndi bendir á að með skilmálabreytingunni var gerður nýr lánasamningur milli Álfasteins ehf. og stefnanda og var stefnda óheimilt að takast á hendur einfalda ábyrgð á efndum Álfasteins ehf. samkvæmt þeim nýja samningi. Stefndi ber því ekki einfalda ábyrgð á skuldbindingum Álfasteins ehf. samkvæmt samningi Álfasteins ehf. og stefnanda þann 2. maí 2000. Stefndi bar aðeins einfalda ábyrgð á skuldbindingum Álfasteins ehf. samkvæmt skuldabréfi útg. þann 19. mars 1997 og takmarkaðist einföld ábyrgð stefnda við þá skilmála sem greindir eru í því skuldabréfi. Stefndi ábyrgðist því aðeins endurgreiðslu Álfasteins ehf. á fjárhæð skuldabréfsins á tímabilinu 1. júlí 1997 til 1. júní 2002. Stefndi byggir á því að yfirlýsing hans um einfalda ábyrgð á endurgreiðslu skuldabréfsins hafi fallið úr gildi með því að Álfasteinn ehf. og stefnandi sömdu um nýja greiðsluskilmála, enda féllu úr gildi með því samkomulagi skilmálar skuldabréfsins um endurgreiðslu lánsins. Þá hafi fyrri yfirlýsing um einfalda ábyrgð fallið úr gildi eftir að liðinn var sá tími sem ábyrgðin skyldi vara, þ.e. í 5 ár eða til 1. júní 2002. Í stefnu er á því byggt af hálfu stefnanda að það hafi ekki áhrif á skuldbindingar stefnda skv. upphaflegum ákvæðum skuldabréfsins enda þótt samþykki stefnda á skilmálabreytingu verði metið ógilt. Þessu er mótmælt af hálfu stefnda. Stefndi telur að einföld ábyrgð hans á greiðslu skuldabréfs útg. 19. mars 1997 rakni ekki við þrátt fyrir að ógilt sé samþykki stefnda á skilmálabreytingu skuldabréfsins sem ábyrgðaraðili. Með skilmálabreytingunni féll úr gildi samningur aðila um greiðsluskilmála og getur fyrri samningur, sem niður var fallinn, ekki tekið gildi að nýju gagnvart stefnda en ekki milli aðila samningsins, Álfasteins ehf. og stefnanda. Í stefnu fullyrðir stefnandi að eftirstöðvar skuldabréfsins skv. upphaflegum skilmálum þess séu 1.000.480 kr. hinn 7. febrúar 2006 og kveður stefnandi það ljóst ,,að stefnufjárhæðin rúmast innan ábyrgðar stefnda skv. upphaflegri ábyrgðaryfirlýsingu hans.“ Stefndi mótmælir þessu sem röngu og órökstuddu. Stefndi bendir á að stefnandi byggi kröfu sína á hendur stefnda alfarið á samkomulagi um breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfsins og byggir stefnandi ekki kröfur sínar á hendur stefnda á upphaflegum greiðsluskilmálum skuldabréfsins. Verði niðurstaða dómsins sú að ógilt sé samþykki stefnda á skilmálabreytinguna ber því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda, enda byggist krafan aðeins á fyrrgreindri skilmálabreytingu, eins og fyrr greinir. Verði hins vegar talið að við kunni að rakna ábyrgð stefnda skv. upphaflegum skilmálum skuldabréfsins og að sú krafa rúmist innan kröfugerðar stefnanda er á því byggt að krafa stefnanda á hendur stefnda skv. upphaflegum skilmálum skuldabréfsins sé fyrnd. Þá er á því byggt að ábyrgð stefnda hafi fallið niður að loknum 5 ára lánstíma og að krafa skv. upphaflegum skilmálum sé órökstudd og í raun vanreifuð. Því beri að sýkna stefnda af kröfunni. Stefndi leggur áherslu á að skv. upphaflegum skilmálum skuldabréfsins skyldi endurgreiða skuldina með 60 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn þann 1. júlí 1997 og í síðasta sinn þann 1. júní 2002. Þegar stefna var birt fyrir stefnda í febrúar 2002 voru a.m.k. fyrndar kröfur skv. skuldabréfinu er féllu í gjalddaga til og með 1. febrúar 2002, sbr. 4. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905. Þá byggir stefndi kröfu um sýknu á því að krafa stefnanda sé vanreifuð. Stefndi bendir á að stefnandi sundurliði í stefnu ekki kröfu og geri ekki grein fyrir því hvernig krafan er reiknuð. Um lagarök vísar stefndi til reglna samninga- og kröfuréttar, til sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og jafnframt eldri sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, til fyrningarlaga nr. 14/1905. Krafa um málskostnað styðst við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991. Forsendur og niðurstöður. Óumdeilt er í málinu að stefndi, sem er sveitarfélag, hafði samkvæmt 89. gr. laga nr. 8/1986 heimild til að takast á hendur ábyrgð á láni hinn 19. mars 1997 samkvæmt skuldabréfi að fjárhæð 2.000.000 kr. Ágreiningurinn lýtur aftur á móti að ábyrgð stefnda, sveitarfélagins, þegar breyting varð á greiðsluskilmálum skuldabréfsins hinn 2. maí 2000. Á baksíðu skuldabréfs frá 19. mars 1997, sem liggur frammi í málinu, stendur: „Viðfestur viðauki er hluti þessa skjals. Breyting greiðsluskilmála dags. 02.05.00 Vanskilum bætt við höfuðstól. Reiknaðir samningsvextir. Bréfið greiðist með 40 afborgunum í júní til janúar ár hvert þess á milli greiðast vextir.“ aðalskuldara Undir þessa yfirlýsingu rita forsvarsmenn útibús Búnaðarbankans á Egilsstöðum. Skilmálabreytingin frá 2. maí 2005 fól í sér breytingu á lánstímanum, því samkvæmt skuldabréfinu var lokagjalddaginn 1. júní 2002, en með skilmálabreytingunni var lokagjalddaginn ákveðinn 1. júní 2005. Þá myndaðist nýr höfuðstóll, þar sem vanskilum var bætt við eldri höfuðstól. Dómurinn lítur því svo á að hér sé um svo veigamiklar breytingar á skilmálum að ræða, að nýr lánssamningur hafi orðið til. Stefndi, sveitarfélagið, samþykkti ofangreindar skilmálabreytingar sem ábyrgðaraðili 2. maí 2000, en samkvæmt 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er sveitarfélagi óheimilt að gangast í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. Lítur dómurinn því svo á, að undirritun stefnda á skilmálabreytinguna hinn 2. maí 2000 bindi ekki stefnda. Með því að með skilmálabreytingunni varð til nýr lánssamningur á milli stefnanda og forsvarsmanns Álfasteins ehf., í stað hins eldri, þá geti stefnandi ekki byggt á þeirri ábyrgð sem stefndi veitti með undirritun sinni á skuldabréfið hinn 19. mars 1997. Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu. Rétt þykir með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 að stefnandi greiði stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 kr. Af hálfu stefnanda flutti málið Ragnar Baldursson hdl. Af hálfu stefnda flutti málið Þorsteinn Einarsson hrl. Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. Stefndi, Borgarfjarðarhreppur, skal vera sýkn af kröfu stefnanda, Kaupþings banka hf. Stefnandi greiði stefnda 200.000 kr. í málskostnað. |
Mál nr. 112/2015 | Fjármálafyrirtæki Verðbréfaviðskipti Afleiðusamningur Ógilding samnings Brostnar forsendur | G hf. höfðaði mál gegn E ehf. til heimtu greiðslu samkvæmt tveimur afleiðusamningum, annars vegar um framvirk skuldabréfakaup og hins vegar skiptasamning. Í ljósi viðurkenningar E ehf. á réttmæti síðargreindu kröfunnar var hún tekin til greina. Ágreiningur aðila laut einkum að gildi fyrri samningsins og hvort hann gæti verið grundvöllur dómkröfu G hf. Fyrir lá að fyrirsvarsmenn E ehf. höfðu undirritað almenna skilmála markaðsviðskipta G hf. og átt frumkvæðið að viðskiptunum. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 513/2011 og samskiptum aðila við framlengingar samningsins á nánar tilgreindu tímabili var það ekki talið koma að sök að E ehf. hefði ekki undirritað endanlegan samning þeirra sem G hf. reisti kröfu sína á. Þá var talið að hefði E ehf. ekki kynnt sér efni undirliggjandi skuldabréfs yrði félagið að bera áhættuna af því sem fagfjárfestir. Samkvæmt framansögðu var talið að G hf. hefði tekist að sýna fram á að komist hefði á samningur við E ehf. og hvert efni hans væri. Að virtum lögskiptum aðila og almennum reglum fjármunaréttar var talið að E ehf. hefði ekki sinnt þeirri skyldu sinni að eiga frumkvæði að efndum samningsins eftir gjalddaga hans í nóvember 2008. Þá hefði G hf. verið heimilt að skuldajafna greiðslum samkvæmt samningnum eftir að hann hafði verið vanefndur af E ehf. Loks var hvorki fallist á með E ehf. að víkja ætti samningnum til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga né á grundvelli óskráðra réttarreglna um brostnar forsendur. Var E ehf. því gert að greiða G hf. hina umkröfðu fjárhæð. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. febrúar 2015. Hann krefst sýknu „af öllum kröfum stefnda öðrum en um greiðslu höfuðstóls vaxtaskiptasamnings áfrýjanda og stefnda sem auðkenndur er IRS 3051, að fjárhæð 13.666.670 krónur, auk vaxta af þeim höfuðstól.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Í niðurstöðum héraðsdóms segir ranglega að áfrýjandi hafi 12. ágúst 2008 sett tryggingu fyrir viðskiptum við stefnda að fjárhæð 391.000.000 evrur, en af gögnum málsins er ljóst að sú trygging var þessarar fjárhæðar í krónum. Í málflutningi fyrir Hæstarétti voru aðilarnir sammála um að ranghermt væri í niðurstöðum hins áfrýjaða dóms að kveðið væri svo á í afleiðusamningi þeirra að viðskiptamaður „væri beðinn um að hafa samband við miðlara tveimur virkum bankadögum fyrir gjalddaga til að ljúka samningi.“ Það fær því ekki breytt að eftir almennum reglum fjármunaréttar hvíldi á áfrýjanda að eiga frumkvæði að efndum samnings síns við stefnda. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Eignarhaldsfélag RS ehf., greiði stefnda, Glitni hf., 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2014. Mál þetta, sem var dómtekið 3. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Glitni hf., Sóltúni 26, Reykjavík á hendur Eignarhaldsfélaginu RS ehf., Klapparstíg 29, Reykjavík, með stefnu birtri 12. nóvember 2012. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru: Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 5.474.701.040 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 388.889 kr. frá 22. október 2008 til 29. október 2008, og frá þeim degi af 777.778 kr. til 5. nóvember 2008, og frá þeim degi af 1.166.667 kr. til 12. nóvember 2008, og frá þeim degi af 1.555.556 kr. til 18. nóvember 2008, og frá þeim degi af 5.462.589.926 kr. til 19. nóvember 2008, og frá þeim degi af 5.462.978.815 kr. til 26. nóvember 2008, og frá þeim degi af 5.463.367.704 kr. til 3. desember 2008, og frá þeim degi af 5.463.756.593 kr. til 10. desember 2008, og frá þeim degi af 5.464.145.482 kr. til 17. desember 2008, og frá þeim degi af 5.464.534.371 kr. til 29. desember 2008, og frá þeim degi af 5.465.201.038 kr. til 31. desember 2008, og frá þeim degi af 5.465.312.149 kr. til 7. janúar 2009, og frá þeim degi af 5.465.701.038 kr. til 14. janúar 2009, og frá þeim degi af 5.466.089.927 kr. til 21. janúar 2009, og frá þeim degi af 5.466.478.816 kr. til 28. janúar 2009, og frá þeim degi af 5.466.867.705 kr. til 4. febrúar 2009, og frá þeim degi af 5.467.256.594 kr. til 11. febrúar 2009, og frá þeim degi af 5.467.645.483 kr. til 18. febrúar 2009, og frá þeim degi af 5.468.034.372 kr. til 25. febrúar 2009, og frá þeim degi af 5.468.373.261 kr. til 4. mars 2009, og frá þeim degi af 5.468.812.150 kr. til 11. mars 2009, og frá þeim degi af 5.469.201.039 kr. til 18. mars 2009, og frá þeim degi af 5.469.589.928 kr. til 25. mars 2009, og frá þeim degi af 5.469.978.817 kr. til 1. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.470.367.706 kr. til 8. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.470.756.595 kr. til 15. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.471.145.484 kr. til 22. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.471.534.373 kr. til 29. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.471.923.262 kr. til 6. maí 2009, og frá þeim degi af 5.472.312.151 kr. til 13. maí 2009, og frá þeim degi af 5.472.701.040 kr. til 20. maí 2009, og frá þeim degi af 5.473.089.929 kr. til 27. maí 2009, og frá þeim degi af 5.473.478.818 kr. til 3. júní 2009, og frá þeim degi af 5.473.867.707 kr. til 10. júní 2009, og frá þeim degi af 5.474.256.596 kr. til 18. júní 2009, og frá þeim degi af 5.474.701.040 kr. til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 5.820.526.040 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 388.889 kr. frá 22. október 2008 til 29. október 2008, og frá þeim degi af 777.778 kr. til 5. nóvember 2008, og frá þeim degi af 1.166.667 kr. til 12. nóvember 2008, og frá þeim degi af 1.555.556 kr. til 18. nóvember 2008, og frá þeim degi af 5.808.414.926 kr. til 19. nóvember 2008, og frá þeim degi af 5.808.803.815 kr. til 26. nóvember 2008, og frá þeim degi af 5.809.192.704 kr. til 3. desember 2008, og frá þeim degi af 5.809.581.593 kr. til 10. desember 2008, og frá þeim degi af 5.809.970.482 kr. til 17. desember 2008, og frá þeim degi af 5.810.359.371 kr. til 29. desember 2008, og frá þeim degi af 5.811.026.038 kr. til 31. desember 2008, og frá þeim degi af 5.811.137.149 kr. til 7. janúar 2009, og frá þeim degi af 5.811.526.038 kr. til 14. janúar 2009, og frá þeim degi af 5.811.914.927 kr. til 21. janúar 2009, og frá þeim degi af 5.812.303.816 kr. til 28. janúar 2009, og frá þeim degi af 5.812.692.705 kr. til 4. febrúar 2009, og frá þeim degi 5.813.081.594 kr. til 11. febrúar 2009, og frá þeim degi af 5.813.470.483 kr. til 18. febrúar 2009, og frá þeim degi af 5.813.859.372 kr. til 25. febrúar 2009, og frá þeim degi af 5.814.248.261 kr. til 4. mars 2009, og frá þeim degi af 5.814.637.150 kr. til 11. mars 2009, og frá þeim degi af 5.815.026.039 kr. til 18. mars 2009, og frá þeim degi af 5.815.414.928 kr. til 25. mars 2009, og frá þeim degi af 5.815.803.817 kr. til 1. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.816.192.706 kr. til 8. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.816.581.595 kr. til 15. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.816.970.484 kr. til 22. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.817.359.373 kr. til 29. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.817.748.262 kr. til 6. maí 2009, og frá þeim degi af 5.818.137.151 kr. til 13. maí 2009, og frá þeim degi af 5.818.526.040 kr. til 20. maí 2009, og frá þeim degi af 5.818.914.929 kr. til 27. maí 2009, og frá þeim degi af 5.819.303.818 kr. til 3. júní 2009, og frá þeim degi af 5.819.692.707 kr. til 10. júní 2009, og frá þeim degi af 5.820.081.596 kr. til 18. júní 2009, og frá þeim degi af 5.820.526.040 kr. til greiðsludags, gegn afhendingu á skuldabréfi, útgefnu af Credit Suisse International, með auðkennið KAUPCDS 12, að nafnverði 30.000.000 evra. Til þrautavara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 5.474.701.040 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 388.889 kr. frá 22. október 2008 til 29. október 2008, og frá þeim degi af 777.778 kr. til 5. nóvember 2008, og frá þeim degi af 1.166.667 kr. til 12. nóvember 2008, og frá þeim degi af 1.555.556 kr. til 18. nóvember 2008, og frá þeim degi af 5.462.589.926 kr. til 19. nóvember 2008, og frá þeim degi af 5.462.978.815 kr. til 26. nóvember 2008, og frá þeim degi 5.463.367.704 kr. til 3. desember 2008, og frá þeim degi af 5.463.756.593 kr. til 10. desember 2008, og frá þeim degi af 5.464.145.482 kr. til 17. desember 2008, og frá þeim degi af 5.464.534.371 kr. til 29. desember 2008, og frá þeim degi af 5.465.201.038 kr. til 31. desember 2008, og frá þeim degi af 5.465.312.149 kr. til 7. janúar 2009, og frá þeim degi af 5.465.701.038 kr. til 14. janúar 2009, og frá þeim degi af 5.466.089.927 kr. til 21. janúar 2009, og frá þeim degi af 5.466.478.816 kr. til 28. janúar 2009, og frá þeim degi af 5.466.867.705 kr. til 4. febrúar 2009, og frá þeim degi af 5.467.256.594 kr. til 11. febrúar 2009, og frá þeim degi af 5.467.645.483 kr. til 18. febrúar 2009, og frá þeim degi af 5.468.034.372 kr. til 25. febrúar 2009, og frá þeim degi af 5.468.373.261 kr. til 4. mars 2009, og frá þeim degi af 5.468.812.150 kr. til 11. mars 2009, og frá þeim degi af 5.469.201.039 kr. til 18. mars 2009, og frá þeim degi af 5.469.589.928 kr. til 25. mars 2009, og frá þeim degi af 5.469.978.817 kr. til 1. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.470.367.706 kr. til 8. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.470.756.595 kr. til 15. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.471.145.484 kr. til 22. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.471.534.373 kr. til 29. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.471.923.262 kr. til 6. maí 2009, og frá þeim degi af 5.472.312.151 kr. til 13. maí 2009, og frá þeim degi af 5.472.701.040 kr. til 20. maí 2009, og frá þeim degi af 5.473.089.929 kr. til 27. maí 2009, og frá þeim degi af 5.473.478.818 kr. til 3. júní 2009, og frá þeim degi af 5.473.867.707 kr. til 10. júní 2009, og frá þeim degi af 5.474.256.596 kr. til 18. júní 2009, og frá þeim degi af 5.474.701.040 kr. til greiðsludags, gegn afhendingu á skuldabréfi, útgefnu af Credit Suisse International, með auðkennið KAUPCDS 12, að nafnverði 30.000.000 evra. Í öllum tilvikum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins að teknu tilliti til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur. Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær að hann krefst lækkunar á kröfum stefnanda sem nemur 5.491.666.040 krónum að höfuðstól og lækkunar á dráttarvaxtakröfu stefnanda sem nemur kröfu hans um dráttarvexti af fyrrgreindum höfuðstól. Til vara krefst stefndi frávísunar á kröfu stefnanda vegna framvirks skuldabréfasamnings með auðkennið FS 08081907 að höfuðstól 5.477.999.370 kr. Þá krefst stefndi þess að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda. I Mál þetta varðar tvo samninga. Annars vegar samning um framvirk skuldabréfakaup, sem auðkenndur er FS080819807 og hins vegar skiptasamning sem auðkenndur er IRS 3051. Stefndi hefur viðurkennt réttmæti skiptasamningsins. Upphaf málsins varðandi fyrri samninginn er að rekja til þess að hinn 15. október 2007 sendir Sveinn Biering Jónsson tölvupóst til starfsmanns stefnanda og óskar eftir því að hann prenti út skilmála skuldabréfsins KAUPCDS 12 og hitti hann á fundi. Stefndi hafði fengið upplýsingar um skuldabréf þetta hjá Kaupþingi og óskaði hann eftir því að stefnandi fjármagnaði kaup sín á því. Fjármögnunin gekk eftir og gerðu málsaðilar hinn 30. október 2007 með sér samning um framvirk verðbréfaviðskipi, auðkenndan sem FS13129. Sá samningur er óundirritaður en óumdeildur hjá málsaðilum. Þar kemur meðal annars fram að afhendingadagur sé 20. desember 2007, markaðsverð í upphafi 30.000.000 evra og tegund skuldabréfs KAUPCDS12. Framangreindur samningur rann sitt skeið og í stað þess að tilvísað skuldabréf væri afhent og kaupverð þess greitt á afhendingardegi samkvæmt samningnum, var gerður nýr samningur sem í raun framlengdi hinn fyrri með því að skyldur aðila á afhendingardegi fyrri samnings færðust yfir í nýja samninginn sem upphafsstaða. Að öðru leyti var nýi samningurinn sams konar og sá gamli. Þegar nýi samningurinn rann sitt skeið var gerður enn einn með sama hætti og síðan koll af kolli uns samningarnir voru í allt orðnir sjö. Fyrstu þrír samningarnir báru heitið „Samningur um framvirk verðbréfaviðskipti“, en þeir síðustu fjórir „Samningur um framvirk skuldabréfaviðskipti“. Allir vísuðu samningarnir til undirliggjandi skuldabréfa eða tegundar skuldabréfa. Lauk þessari röð samninga á afhendingardegi samkvæmt þeim síðasta hinn 18. ágúst 2008. Þessir samningar eru ágreiningslausir. Hinn 18. ágúst 2008 var skuldbindingum skuldajafnað og þær færðar yfir í samning FS08081907, sem var með afhendingardag (gjalddaga) 18. nóvember 2008. Eftir gerð síðastnefnda samningsins var ítrekað óskað eftir frekari tryggingum sem stefndi varð við. Hinn 7. október 2008 var stefnanda skipuð skilanefnd og slitastjórn hinn 19. febrúar 2009. Stefndi lýsti kröfu í bú stefnanda hinn 21. nóvember 2009. Stefnandi sendi nokkur innheimtubréf og áskoranir skv. 5. tl. 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991. Stefna málsins var síðan birt 12. nóvember 2012. II Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því, að stefndi hafi haft reynslu og þekkingu á verðbréfaviðskiptum. Hann hafi verið flokkaður sem fagfjárfestir sem njóti ekki sömu fjárfestaverndar og almennir fjárfestar skv. II. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Stefndi hafi átt í fjölmörgum og umsvifamiklum afleiðu- og gjaldeyrisviðskiptum hjá stefnanda, sem rakin séu í stefnu málsins, og þá hafi framkvæmdastjóri stefnda einnig átt í umtalsverðum viðskiptum erlendis. Stefnandi byggir á því að sé tekið tillit til umsvifa viðskipta stefnda, sem rakin séu í stefnu, reynslu og þekkingar stefnda og fyrirsvarsmanna félagsins á fjárfestingarstarfsemi, þá búi stefndi yfir reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu sem hafi gert honum fært að taka upplýstar ákvarðanir í viðskiptum hans og stefnanda og meta þá áhættu sem þeim viðskiptum fylgdi. Í öðru lagi byggir stefnandi á því að efnahagsumhverfið á Íslandi á þessum tíma skipti máli varðandi ábyrgð stefnda. Hallað hafi undan fæti og eru í stefnu raktar niðurstöður matsfyrirtækja á lánshæfiseinkunnum íslenska ríkisins og bankanna. Stefnandi telur að stefnda hafi mátt vera það ljóst að alþjóðlegir markaðir væru erfiðir og að áhættan samfara umþrættum viðskiptum málsaðila væri þar af leiðandi meiri en ella. Þrátt fyrir dekkri horfur í rekstri íslenskra banka og íslensku efnahagslífi hafi stefndi kosið að veðja á stærsta fjármálafyrirtækið á Íslandi þegar við blasti það mat erlendra aðila að efnahagsútlitið og staða innlendra fjármálafyrirtækja færi versnandi. Stefndi hafi kosið að nota afleiðusamninga í þeim tilgangi sem hann hafi keypt framvirkt af stefnanda og því sætt sig við þá mótaðilaáhættu sem í því hafi falist. Stefnda hafi þannig ekki getað dulist að áhætta hafi verið fólgin í gerð afleiðusamninganna. Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að Jón Snorrason, stjórnarformaður, prókúruhafi og eigandi stefnda, og Sveinn Biering Jónsson, meðstjórnandi, framkvæmdastjóri, prókúruhafi og eigandi stefnda, undirrituðu almenna skilmála vegna markaðsviðskipta Glitnis banka hf., svokallaða markaðsskilmála stefnanda. Í inngangi skilmálanna segir orðrétt: „Skilmálarnir lýsa því réttarsambandi sem er á milli bankans og viðskiptamanns vegna markaðsviðskipta, hvernig samningar og boðskipti fara fram, hvaða kröfur bankinn setur um tryggingar fyrir viðskiptum og við hvaða aðstæður bankanum er heimilt að gjaldfella samninga o.fl. Skilmálunum er einnig ætlað að undirstrika að viðskiptamaður hafi gert sér grein fyrir eðli þeirra samninga sem falla undir skilmálana og þeirri áhættu sem þeim fylgir“. Samkvæmt 1. gr. skilmálanna gilda þeir um öll markaðsviðskipti milli samningsaðila, svo sem um gjaldeyris- og afleiðuviðskipti, hvernig svo sem til þeirra sé stofnað. Samkvæmt 2. gr. skilmálanna átti stefndi ekki einhliða kröfu á það gagnvart stefnanda að einstakir samningar yrðu gerðir. Samþykki stefnanda þurfti fyrir gerð allra samninga. Stefnandi áskildi sér rétt til að krefjast trygginga vegna viðskipta aðila samkvæmt 3. gr. Þar sé jafnframt mælt fyrir um tímamörk og tilkynningar. Samkvæmt 4. gr. skilmálanna samþykktu aðilar að við gjaldfellingu væri heimilt að beita skuldajöfnuði milli allra samninga sem heyrðu undir skilmálana, þannig að hagnaður og tap hvors aðila um sig yrði gert upp í einu lagi. Við skuldajöfnun var heimilt að umreikna allar skuldbindingar yfir í íslenskar krónur. Þá samþykktu aðilar samkvæmt sömu grein, að kominn væri á skriflegur samningur um að skyldur þeirra samkvæmt afleiðu skyldu jafnast hver á móti annarri, með skuldajöfnuði, við endurnýjun eða við vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti og að samningurinn héldi gildi sínu að fullu þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, sbr. ákvæði V. kafla laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 (áður III. kafla eldri laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003). Samkvæmt 5. gr. skilmálanna hafi stefndi samþykkt að stefnanda væri heimilt að leggja fram hljóðrituð símtöl í dómsmáli milli aðila ef upp kæmi ágreiningur um hvað aðilum fór á milli, svo sem um forsendur og/eða framkvæmd viðskipta. Samkvæmt 8. gr. skilmálanna hafi stefndi lýst því yfir að honum væri ljóst að þau viðskipti sem hann kynni að eiga við deild markaðsviðskipta stefnanda gætu verið „sérstaklega áhættusöm“ og að honum bæri að afla sér ráðgjafar utanaðkomandi sérfræðinga teldi hann hennar þörf. Auk þess sem tekið sé fram að stefndi geri sér grein fyrir því að í viðskiptum hans við stefnanda felist ekki viðskiptavakt þess síðarnefnda. Af því leiði að stefnandi ábyrgist hvorki tilkynningar til stefnda um stöðu samninga né lokun þeirra við ákveðin mörk. Samkvæmt umræddu samningsákvæði sé skýrt að ábyrgð á því að fylgjast með stöðu og þróun þeirra samninga sem hann hafi gert við stefnanda hvíldi hjá stefnda sjálfum. Þá sé í sömu grein áréttað að álit starfsmanna stefnanda á tilteknum viðskiptum sé eingöngu byggt á skoðunum viðkomandi starfsmanns stefnanda á þeim tíma og það geti tekið breytingum án fyrirvara. Þá segir að þar sem markaðsaðstæður geti breyst á mjög skömmum tíma geti stefnandi ekki ábyrgst að unnt sé að afgreiða beiðni stefnda á umbeðnu gengi. Samkvæmt 10. gr. almennra skilmála stefnanda fyrir markaðsviðskipti gilda, eftir því sem við á, almennir skilmálar fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga útgefnir af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða, 1. útgáfa, febrúar 1998 (hér eftir „SFF-skilmálarnir“). Að lokum hafi stefndi staðfest með undirritun markaðsskilmála stefnanda að hann hafi móttekið bæði þá skilmála sem og SFF-skilmálana. Efnisskipan SFF-skilmálanna sé þannig háttað að í fyrri hluta sé kveðið á um almenna skilmála um framvirk gjaldmiðlaviðskipti í sex greinum og í síðari hluta sé kveðið á um almenna skilmála fyrir skiptasamninga í 12 greinum. Þá séu ýmis hugtök skilgreind og skýrð sem notuð séu í afleiðusamningum aðila. Ákvæði um vanefndir séu í 3. gr. fyrri hluta þessara skilmála en í 9. gr. síðari hluta þeirra og séu ákvæðin efnislega samhljóða. Í gr. 3.1 og 9.1 sé kveðið á um heimild samningsaðila til að rifta samningi, greiði gagnaðili ekki á gjalddaga eða vanefni ákvæði samnings aðila verulega, að undangenginni áskorun um efndir. Í 2. mgr. gr. 3.1 í fyrri hluta er samningsaðila heimilað að halda eftir greiðslu við fyrirsjáanlega vanefnd gagnaðila. Í gr. 3.2 í fyrri hluta og gr. 9.2 í síðari hluta séu ákvæði um úrræði samningsaðila vegna vanefnda hins á öðrum samningum aðila eða samningum hans við þriðja aðila. Samkvæmt þessum ákvæðum sé öðrum samningsaðila heimilt að rifta öllum afleiðusamningum við gagnaðila, sem ekki innir af hendi greiðslu samkvæmt einhverjum samningi sem leggur á hann greiðsluskyldu, hafi sá samningur verið gjaldfelldur vegna þess eða slíkum samningi hafi verið rift eða hann gjaldfelldur vegna annarra vanefnda. Þá séu í gr. 3.3 og gr. 9.3 ákvæði um heimild til riftunar allra afleiðusamninga milli aðila, meðal annars ef árangurslaust fjárnám er gert hjá öðrum samningsaðila, hann leitar nauðasamninga eða honum er skipt í tvö eða fleiri félög. Það sé skilyrði riftunar, samkvæmt framangreindum SFF-skilmálum, að riftun sé tilkynnt skriflega. Stefndi hafi ekki rift þeim afleiðusamningum sem krafa stefnanda byggir á, heldur kosið að halda þeim opnum. Ekkert í samningum aðila geri ráð fyrir því að skuldbinding samkvæmt þeim falli niður. Ákvæði um dráttarvexti séu í 2. gr. fyrri hluta SFF-skilmálanna en í 8. gr. síðari hluta þeirra. Þar segir í 1. mgr. 2. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr., orðrétt: „Standi samningsaðili ekki skil á greiðslu á afhendingardegi ber honum að greiða hinum samningsaðilanum dráttarvexti af þeirri upphæð sem er í vanskilum frá afhendingardegi til greiðsludags. Um dráttarvexti í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðli fer samkvæmt ákvæðum vaxtalaga“. Þá segir í 2. mgr. 2. gr., sbr. 2. mgr. 8. gr., orðrétt: „Sá samningsaðili sem ekki er í vanskilum getur ákveðið að umreikna upphæð sem í vanskilum er í erlendum gjaldmiðli í ISK og reikna þá dráttarvexti af upphæðinni í ISK skv. 1. mgr.“ Í gr. 1.4.2 í SFF-skilmálunum fyrir skiptasamninga segir orðrétt: „Ef samningsaðilar eru skuldbundnir til að inna greiðslur af hendi til hvors annars á sama bankadegi, í sama gjaldmiðli og samkvæmt sama samningi, skal greiðslunum skuldajafnað þannig að sá samningsaðili sem á að greiða hærri upphæð greiðir mismuninn til hins.“ Í fjórða lagi tekur stefnandi fram að krafa hans að höfuðstólsfjárhæð 5.474.701.040 kr. hafi stofnast á grundvelli eftirfarandi tveggja samninga: Annars vegar samningi um framvirk skuldabréfaviðskipti, sem auðkenndur er FS08081907, samningsdagur 18. ágúst 2008 og endanlegur afhendingardagur (lokadagur) 18. nóvember 2008. Við lok samnings (á afhendingardegi hinn 18. nóvember 2008) bar stefnda að greiða 33.372.755 evrur gegn því að stefnandi afhenti skuldabréf, útgefið af Credit Suissee International (KAUP CDS 12), að nafnverði 30.000.000 evra á genginu 1,112425. Undirliggjandi skuldabréf sé svokallað afleiðutengt skuldabréf. Bréfið sé sambærilegt við hefðbundið skuldabréf að því leyti að það greiði út vexti á ákveðnum vaxtagjalddögum og skuli greiða höfuðstól þess á lokadegi, þó að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Afleiðutengingin fólst bæði í vaxtahlutanum og höfuðstólsgreiðslunni í lokin, þar sem greiðsluskylda hvors hluta fyrir sig var tengd skuldatryggingaálagi Kaupþings banka hf. Skuldabréfinu var stillt upp þannig að hækkun skuldatryggingaálagsins hafði neikvæð áhrif á ávöxtun skuldabréfsins og öfugt. Vaxtagreiðslu bréfsins var þannig háttað að vaxtagjalddagar voru á sex mánaða fresti og var vaxtagreiðsla ákvörðuð þannig að hún gat að hámarki verið sex mánaða EURIBOR-vextir + 900 punkta (9%) álag (á ársgrundvelli) svo lengi sem skuldatryggingaálag Kaupþings banka héldist fyrir neðan 200 punkta (2%). Ef skuldatryggingaálag Kaupþings færi yfir 200 punkta (2%) á einhvernum tíma innan hvers sex mánaða vaxtatímabils byrjuðu vaxtagreiðslurnar að skerðast. Til að ákvarða skerðingu vaxtagreiðslnanna á hverjum vaxtagjalddaga voru þær margfaldaðar með hlutfalli sem nam fjölda daga frá og með fyrsta degi hvers vaxtatímabils til lokadags hvers vaxtatímabils þar sem skuldatryggingaálagið var yfir 200 punktum (2%) á móti fjölda daga hvers vaxtatímabils (sem var alltaf ákveðið sex mánuðir). Á sambærilegan hátt hafði hækkun á skuldatryggingaálagi Kaupþings neikvæð áhrif á útgreiðslu höfuðstóls á lokagjalddaga skuldabréfsins. Lokagreiðsla (e. redemption amount) var ákvörðuð þannig að frá nafnvirði bréfsins var dregin upphæð sem nam nafnvirði bréfsins margfölduðu með eftirfarandi: einum mínus hlutfallinu fjöldi daga yfir líftíma skuldabréfsins þar sem skuldatryggingaálag Kaupþings var undir 200 punktum (2%) á móti fjölda daga frá og með upphafsdegi til lokadags skuldabréfsins (samtals fimm ár). Útgreiðsla á vöxtum og höfuðstól var þó háð því að Kaupþing banki hf. myndi standa við allar sínar skuldbindingar. Ef innan líftíma skuldabréfsins yrði atburður sem leiddi til greiðslufalls Kaupþings (e. credit event), eins og hann er skilgreindur í skilmálum skuldabréfsins, þá yrði kaupandi skuldabréfsins bæði af vöxtum (áföllnum og framtíðarvöxtum) og lokagreiðslu bréfsins. Á endanlegum afhendingardegi, 18. nóvember 2008, var gengi framangreinds skuldabréfs KAUPCDS 12, 0,06625. Þetta jafngildir því að á afhendingardegi skyldi stefndi afhenda stefnanda 33.372.755 evrur gegn því að stefnandi afhenti honum skuldabréf, útgefið af Credit Suissee International, að nafnverði 30.000.000 evra á genginu 0,06625, samtals að verðmæti 1.987.500 evrur. Stefnandi hefur skuldajafnað greiðsluskyldu sinni á framangreindu skuldabréfi gagnvart skyldu stefnda til afhendingar og eftir stendur nettótalan 31.385.255 evrur (33.372.755-1.987.500) sem samsvarar 5.461.034.370 kr. m.v. miðgengi Seðlabanka Íslands á lokadegi samningsins (33.385.255 x 174). Samningur með auðkennið FS08081907 á sér langa forsögu, en hann hafði verið framlengdur sjö sinnum. Þegar um sé að ræða framlengingu/endurnýjun samninga, þá endurspeglar markaðsgengi í þeim samningum ekki markaðsgengi á samningstíma. Ástæðan sé sú að hverjum samningi sem endurnýjaður/framlengdur var, var lokað á gjalddaga og nýr sjálfstæður samningur stofnaður bæði að formi og efni. Hinn nýi samningur hófst þannig í nettó tapstöðu fyrir stefnda, sem nemur nettun (uppgjöri) skuldbindinga fyrri samnings. Um sé að ræða sömu aðferð við nettun/skuldajöfnun og liggur til grundvallar kröfugerð stefnanda, nema greiðsla eigi sér stað með opnun nýs samnings í skuld. Skýrir þetta hvers vegna markaðsgengi í upphafi í ofangreindum samningum á samningsdegi endurspeglar ekki nauðsynlega markaðsgengi viðkomandi skuldabréfs á þeim degi. Við endurnýjun/framlengingu afleiðusamnings hafi stefndi viðurkennt að hann væri tilbúinn til þess að greiða tap af viðskiptunum í hvert sinn, þó svo að greiðslan hafi verið í öðru formi en greiðslu reiðufjár. Með öðrum orðum hafi stefndi þurft að greiða stefnanda mismuninn á framvirku gengi undirliggjandi skuldabréfs og markaðsverði á hverjum gjalddaga, til þess að fá samþykkta endurnýjun (framlengingu). Framlengingar aðila hafi átt sér stoð í 4. gr. markaðsskilmála stefnanda og með heimild í V. kafla laga nr. 108/2007. Heimildin taki til þess þegar samningar séu skuldajafnaðir eða endurnýjaðir eða við vanefnd. Það sé tvíhliða samningur um skuldskeytingu milli aðila, þar sem gagnkvæmar kröfur og skuldbindingar eru sjálfkrafa sameinaðar (e. amalgamated) á þann hátt að með þessari skuldskeytingu sé fastsett ein ákveðin nettófjárhæð í hvert sinn sem skuldskeyting eigi sér stað og þannig skapaður einn nýr lagalega bindandi samningur sem gerir upp eldri samninga aðila (e. novation). Sérhver afleiðusamningur aðila, hvort sem aðilar hafi gert upp eldri samning(a) með honum eða ekki, beri sjálfstætt auðkenni óháð fyrri samningum og hver samningur standi sjálfstæður í þeim skilningi að skuldbinding samkvæmt honum ráðist að fullu af texta hans sjálfs án tilvísana til fyrri samninga. Samkvæmt hverjum samningi sé síðan skuldbinding um að efna hann á gjalddaga með greiðslu. Stefnandi efndi framangreinda samninga á afhendingardegi með skuldajöfnuði eins og honum hafi verið heimilt á grundvelli samninga aðila og fjallað er um síðar. Einkenni afleiðusamninga af þeim toga sem aðilar gerðu sín á milli sé, að með þeim gangist annar samningsaðili undir að kaupa og hinn að selja (afhenda) tiltekin verðmæti, í þessu tilviki skuldabréf, á fyrir fram ákveðnu verði og tíma, annaðhvort til að eyða áhættu í viðskiptum eða til spákaupmennsku, þar sem veðjað sé á tiltekna þróun fram að gjalddaga. Í afleiðusamningum aðila, sé það þannig að samningurinn feli í sér tap fyrir annan aðilann og samsvarandi hagnað fyrir hinn við uppgjörið. Stefnandi byggði heimild sína til skuldajöfnunar á 4. gr. almennra skilmála stefnanda fyrir markaðsviðskipti, sem stefndi hafði samþykkt. Skilmálarnir geri ráð fyrir því að ef afleiðuviðskipti eru ekki gerð upp samkvæmt efni sínu á gjalddaga og þar með vanefnd þá skulu skyldur aðila samkvæmt hverri afleiðu jafnast hver á móti annarri með skuldajöfnun við vanefndina. Stefnandi jafnar því skuldbindingum aðila saman á afhendingardegi/lokadegi samningsins, þegar vanefnd hefur átt sér stað. Stefnandi byggir heimild sína til skuldajöfnunar jafnframt á almennum reglum kröfuréttar um skuldajöfnun samrættra krafna, líkt og hér eigi við. Samkvæmt þeim skuli skuldajöfnun miðast við gjalddaga skuldbindinga. Þar sem um samrættar kröfur sé að ræða sé ekki þörf á sérstakri skuldajafnaðaryfirlýsingu, heldur sé hin lægri skuldbinding dregin frá hinni hærri og eftir stendur nettó tala. Heimild stefnanda til að umreikna kröfuna yfir í íslenskar krónur á gjalddaga byggist á heimild í 4. og 7. gr. almennra skilmála stefnanda fyrir markaðsviðskiptum og 2. mgr. 2. gr. SFF-skilmálanna. Við umreikning fjárhæða í íslenskar krónur sé notast við skráð gengi Seðlabanka Íslands. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands skuli notast við það gengi til viðmiðunar í samningum og dómsmálum þegar önnur gengisviðmiðun sé ekki sérstaklega tiltekin. Í annan stað byggir krafa stefnanda á vaxtaskiptasamningi sem auðkenndur er IRS 3051, með samningsdag 21. desember 2007 og lokadag 18. júní 2009. Samningurinn felur í sér skyldu stefnda til að greiða 0,20% vexti af 10.000.000.000 kr., vikulega, frá og með 3. janúar 2008 til og með 18. júní 2009. Fyrir liggur að allar greiðslur framangreinds samnings, til þess er hann gjaldféll 22. október 2008 hafa verið gerðar upp. Frá þeim tíma hafa gjaldfallið samtals 13.666.670 kr. sem nánari grein er gerð fyrir í stefnu málsins. Vaxtaskiptasamningurinn hafi verið gerður hinn 21. desember 2007. Hafi afrit hans verið sent í tölvupósti til starfsmanns stefnda hinn 4. febrúar 2008 og óskað eftir því að hann yrði undirritaður. Undirritun hafi ekki borist og hafi stefnandi ítrekað beiðni sína um undirritun í tölvuskeytum dags. 15. júlí 2008 og 13. ágúst 2008. Yfirlit vegna viðskiptanna hafi jafnframt verið send starfsmanni stefnda hinn 12. ágúst 2008 auk þess sem vaxtagreiðslur hafi verið skuldfærðar af reikningi stefnda vikulega og kvittanir þess efnis sendar starfsmanni stefnda með tölvupósti. Í fimmta lagi tekur stefnandi fram að réttindi og skyldur aðila samkvæmt afleiðusamningum séu gagnkvæm. Uppgjör slíkra samninga feli í sér tap fyrir annan aðilann og samsvarandi hagnað fyrir hinn, að því gefnu að aðilar hafi ekki varið sig áhættu með gerð annarra afleiðusamninga. Kröfur aðila samkvæmt afleiðusamningunum tveimur séu samkvæmt gagnkvæmum samningum og séu þær kröfur samrættar, en um það hugtak vísast til 27. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnandi hafi efnt greiðsluskyldu sína samkvæmt framangreindum samningum í formi skuldajöfnunar, sbr. að framan, og eftir standi skuld stefnda. Til tryggingar efndum hafi stefndi sett að handveði öll verðbréf sín í vörslu stefnanda á hverjum tíma á vörslureikningi nr. 67621, sbr. framlagða handveðsyfirlýsingu. Einnig hafi stefndi sett að handveði innistæður allra peningamarkaðslána hjá stefnanda eins og þær séu á hverjum tíma, sbr. framlagða handveðsyfirlýsingu. Við greiðsluskyldu stefnda, eftir skuldajöfnuð, leggist við dráttarvextir frá hverjum gjalddaga til greiðsludags í samræmi við ákvæði c-liðar 7. mgr. 7. gr. markaðsskilmálanna, 2. gr. SFF-skilmálanna, sem og 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Dráttarvextirnir reiknast í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndarálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Sé framangreint í samræmi við kröfugerð stefnanda. III Stefndi gerir ekki athugasemd við kröfur stefnanda á grundvelli skiptasamnings sem auðkenndur er IRS 3051. Varðandi samninginn um framvirk skuldabréfaviðskipti byggir stefndi á eftirfarandi málsástæðum. Í fyrsta lagi á því að samningurinn hafi aldrei komist á, það er að stefndi hafi aldrei gert þann samning. Svo sem Hæstiréttur hafi slegið föstu og stefnandi réttilega getið um í stefnu, sé sérhver afleiðusamningur sem gerður sé í röð slíkra samninga með endurteknum framlengingum, sjálfstæður samningur, bæði að efni og formi. Um hvern þessara samninga gildi því almennar réttarreglur samninga- og kröfuréttar um það hvenær samningur telst kominn á og um sönnunarbyrði þess sem byggja vilji á samningi fyrir tilvist hans og efni. Almennt séu ekki gerðar sérstakar formkröfur til samninga að íslenskum rétti. Hins vegar sé sú aðstaða stundum uppi að lög eða samningar kveði á um að einstakir samningar eða samningstegundir skuli aðeins gerð á tilteknu formi. Þegar lög eða samningar kveði á um að samningar skuli gerðir skriflega sé markmiðið oftar en ekki að lágmarka vafa um tilvist og efni samninga vegna eðlis þeirra lögskipta sem um sé að ræða. Stefnandi og stefndi hafi einmitt gert með sér slíkan samning í formi almennra skilmála vegna markaðsviðskipta. Markaðsviðskipti séu í eðli sínu flókin og oft miklir hagsmunir í húfi. Því skipti miklu máli að enginn vafi leiki á því um hvað aðilar séu að semja, enda geti hagsmunir aðila beðið stórtjón af öðru og viðskiptalífið væri í talsverðu uppnámi ef óvissa ríkti frá degi til dags um tilvist og efni slíkra viðskipta. Afleiðusamningar, t.a.m. samningar um framvirk skuldabréfaviðskipti, séu flóknustu gerningarnir innan sviðs markaðsviðskipta á meðan stundarviðskipti, þ.e. samningar um að kaupa eða selja strax, t.d. gjaldmiðla eða verðbréf, teljist til hinna einfaldari. Í 2. mgr. 2. gr. almennu skilmálanna segir: „Um framkvæmd einstakra markaðsviðskipta, sem gerð eru á grundvelli skilmála þessara skulu gerðir skriflegir samningar þar sem kveðið er nánar um sérgreinda skilmála, lánskjör og endurgreiðslu.“ Í 3. mgr. 2. gr. sé enn fremur kveðið á um það hvernig viðskiptamaður skuli senda stefnanda beiðni um viðskipti og svo hnykkt á því að „[a]llir samningar skuli staðfestir skriflega“. Þá sé tilgreind í 3. mgr. undantekning frá reglunni um að samningar skuli vera skriflegir, en þar segi að stefnandi staðfesti viðskipti einhliða þegar um sé að ræða stundarviðskipti með gjaldeyri eða verðbréf. Í tilviki slíkra stundarviðskipta teljist viðskiptamaður hafa samþykkt viðskiptin ef hann gerir ekki athugasemd innan þriggja daga frá því að stefnandi sendi bréf til hans með slíkri staðfestingu. Geri viðskiptamaður athugasemd við slíka staðfestingu stundarviðskipta, skuli m.a. hljóðritun gilda sem sönnun fyrir skilmálum viðskipta. Enginn vafi leiki á því að samkvæmt almennu skilmálunum beri að gera samninga um framvirk skuldabréfaviðskipti skriflega, þ. á m. þann samning um framvirk skuldabréfaviðskipti sem stefnandi byggi kröfu sína á. Í því að samningur sé gerður skriflega felist að efni samningsins sé ritað á blað og að samningsaðilar staðfesti samningstexta með undirritun. Í viðauka I við almennu skilmálana sé þar tilgreindum forsvarsmönnum stefnda veitt heimild til að eiga viðskipti við stefnanda í samræmi við almennu skilmálana og rita undir samninga fyrir hönd stefnda. Skemmst sé frá því að segja að hvorki tilgreindir forsvarsmenn né nokkur annar á vegum stefnda hafi undirritað samninginn sem stefnandi byggir á. Þeir sjö samningar um framvirk skuldabréfaviðskipti/verðbréfaviðskipti sem stefnandi og stefndi hafi gert á tímabilinu 31. október 2007 til 18. júlí 2008 hafi sumir verið gerðir skriflega í samræmi við ofangreindar formkröfur en aðrir ekki. Sumir þeirra hafi verið gerðir með fyrir fram samþykki stefnda en aðrir aðeins samþykktir af honum eftir á. Þeir samningar sem ekki hafi verið gerðir skriflega eigi það þó allir sameiginlegt að óumdeilt sé að stefndi hafi samþykkt þá með einum eða öðrum hætti. Þannig hafi aldrei reynt á afleiðingar þess að samningarnir væru ekki gerðir með réttum hætti samkvæmt hinum almennu skilmálum. Því fari að sjálfsögðu fjarri að skapast hafi einhver venja þess efnis að stefnandi og stefndi gerðu samninga um framvirk skuldabréfaviðskipti með öðrum hætti en skriflegum, enda séu samningar nr. 4 og 5, í miðri röð samninganna, gerðir kórrétt samkvæmt formkröfum hinna almennu skilmála þó svo að þrír samningar fyrir og tveir eftir séu það ekki. Stefndi hafnar því hins vegar algerlega að hafa nokkru sinni gert þann samning sem krafa stefnanda byggir á. Á þeim tíma sem hann eigi að hafa verið gerður, 18. ágúst 2008, hafði stefndi tekið um það ákvörðun að gera ekki fleiri samninga um framvirk skuldabréfaviðskipti við stefnanda. Stefndi hafði á þeim tíma orðið verulegar efasemdir um að fyrri samningar væru skuldbindandi fyrir hann. Þá hafi stefndi aðeins séð fram á að staða hans héldi áfram að versna við frekari framlengingu, væru fyrri samningar á annað borð skuldbindandi fyrir hann. Stefnandi hafi ekki framvísað skriflegum samningi um þau meintu viðskipti sem hann byggi kröfu sína á sem sé skilyrði fyrir því að telja samning kominn á samkvæmt almennu skilmálum hans sjálfs. Í öllu falli verði að telja að vilji hann byggja á því að umrædd viðskipti hafi komist á, án þess að geta lagt fram skriflegan samningi, beri hann sérstaklega ríka sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni í ljósi þeirra formkrafna sem hann hafi samið um í stöðluðum skilmálum sem hann hafi sjálfur samið. Stefnandi hafi hins vegar engum gögnum framvísað sem sannað geti að stefndi hafi gert eða viljað gera þann samning sem hann byggir á. Af framangreindum sökum sé sú niðurstaða óhjákvæmileg að stefnandi og stefndi hafi engan samning gert með sér um framvirk skuldabréfaviðskipti hinn 18. ágúst 2008. Fallist dómurinn ekki á ofangreinda málsástæðu, heldur stefndi því fram að aldrei hafi komist á samningur þess efnis sem stefnandi haldi fram. Hann hafi aldrei séð undirliggjandi skuldabréf. Skuldbindingar stefnda samkvæmt meintum samningi séu svo óljósar að ekki sé unnt að telja samning kominn á yfirleitt. Sá meinti samningur sem stefnandi byggi á beri titilinn „Samningur um framvirk skuldabréfaviðskipti“. Samkvæmt honum selji stefnandi „viðskiptamanni framanskráð skuldabréf á afhendingardegi“. Eina skuldabréfið sem vísað sé til framar í samningstextanum, eða samningstextanum yfirleitt, sé svokallað „undirliggjandi skuldabréf“ sem sé tilgreint sem „KAUPCDS 12“. Enga frekari útlistun sé að finna á skuldabréfinu í samningstextanum og engin fylgiskjöl eru með samningseyðublaðinu. Skuldabréfið sé ekki skráð og engin leið fyrir stefnda né neinn annan að kynna sér efni þess í opinberum gögnum á grundvelli tilgreiningarinnar. Allir þeir samningar sem stefnandi nefni í stefnu og sé að finna í dskj. 52 til 58 séu eins að þessu leyti, nema hvað í sumum þeirra er talað um „tegund skuldabréfa“ en ekki undirliggjandi skuldabréf. Ofangreind tilgreining, þ.e. að „undirliggjandi skuldabréf“ eða „tegund skuldabréfa“ sé KAUPCDS 12, sé eina lýsingin á því sem stefndi á að hafa skuldbundið sig til að kaupa fyrir 32.182.676 evrur einum mánuði síðar! Hinn 18. ágúst 2008 hafi framangreind fjárhæð jafngilt tæpum fjórum milljörðum íslenskra króna og hinn 18. nóvember 2008 meira en fimm og hálfum milljarði íslenskra króna. Þegar stefndi hafi gert fyrri samningana, hafi hann staðið í þeirri trú að hann væri að gera samning um framvirk kaup á skuldabréfi tiltekins efnis, enda sé fyrirsögn flestra samninganna „Samningur um framvirk skuldabréfaviðskipti“ og vísað til þess að stefnandi muni selja honum skuldbréf. Stefndi hafi aldrei séð undirliggjandi fjármálagerning og reitt sig á frásögn starfsmanna stefnanda af efni hans. Hann hafi ekki getað ráðið annað af þeim frásögnum en að um skuldabréf væri að ræða. Þegar stefnandi leggi fram gögn sín í þessu máli og útlistun á því sem hann haldi fram að sé sá fjármálagerningur sem hann hafi selt stefnda framvirkt, komi á daginn að alls ekki sé um að ræða skuldabréf, heldur flókna afleiðu. Í ljósi ofangreinds liggi fyrir að stefnandi og stefndi hafi haft gerólíkar hugmyndir um það hvert væri efni þess samnings sem stefnandi haldi fram að hann hafi gert við stefnda. Af því leiði að þeir gátu ekki haft nauðsynlegan gagnkvæman vilja til þess að skuldbinda sig og því hafi aldrei stofnast samningur þeirra á milli. Í þriðja lagi heldur stefndi því fram, að söluandlagið samkvæmt samningunum um framvirk skuldabréfaviðskipti hafi verið gallað, að hann hafi mátt halda eftir greiðslum sínum og eigi rétt á afslætti sem nemi 100% kaupverðs. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup skal söluhlutur, hvað varðar tegund, magn, gæði, aðra eiginleika og innpökkun, fullnægja þeim kröfum sem leiða af samningi. Fullnægi hann ekki þeim kröfum, teljist hann gallaður samkvæmt niðurlagsmálsgrein 17. gr. Ekki verði um það deilt að lögin gildi um verðbréf eins og skýrt komi fram í skýringum við 1. gr. laganna í greinargerð. Ekki verði heldur um það deilt að skuldabréf séu verðbréf. Sá samningur sem stefnandi byggi á hafi fjallað um sölu á skuldabréfi framvirkt. Þannig hafi stefnandi lofað að selja stefnda skuldabréf þann 18. nóvember 2008 gegn þar tilgreindri greiðslu. Á því hafi verið byggt í íslenskum rétti aðskuldabréf sé skrifleg yfirlýsing, þar sem útgefandinn viðurkenni einhliða og skilyrðislaust skyldu sína til að greiða ákveðna peningagreiðslu. Ef greiðsluskyldan sé með einhverjum hætti óákveðin er ekki um skuldabréf að ræða. Við framlagningu gagna af hálfu stefnanda í máli þessu sé komið á daginn að sú vara sem stefnandi hafi lofað að selja stefnda samkvæmt samningnum sé alls ekki skuldabréf heldur flókin afleiða. Þar sé um að ræða vöru af allt öðrum toga og gerólíks eðlis. Þannig sé ljóst að söluhluturinn í skilningi 1. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2000, sem var tilgreindur sem skuldabréf, fullnægði hvað tegund og eiginleika varði engan veginn þeim kröfum sem af samningnum leiði og teljist þ.a.l. gallaður. Vegna ofangreinds galla sem ekki hafi verið bætt úr og ekki sé unnt að bæta úr eins og málum sé komið, telur stefndi að hann hafi haft og hafi enn rétt til að halda eftir greiðslu sinni og eigi rétt á 100% afslætti af kaupverði samkvæmt þeim samningi sem stefnandi byggi á. Sú vara sem gögn málsins bendi til að stefnandi hafi ætlað að selja honum hafi aldrei getað haft eiginleika skuldabréfs og tryggt honum án skilyrða endurgreiðslu. Hún hefði því verið honum gagnslaus sem slík. Fallist dómurinn ekki á ofangreindar málsástæður heldur stefndi því fram í fjórða lagi, að stefnandi hafi gerst sekur um afhendingardrátt með því að afhenda honum aldrei það skuldabréf sem hann haldi fram að stefndi hafi keypt af honum framvirkt. Stefnanda hafi borið að efna samninginn in natura á afhendingardegi 18. nóvember 2008. Stefnda hafi því verið og sé enn heimilt að halda eftir greiðslu sinni samkvæmt þeim samningi um framvirk skuldabréfaviðskipti sem um er deilt. Stefnanda hafi aldrei verið heimilt að skuldajafna/netta skuldbindingar aðila samkvæmt þeim samningi sem hann byggi á, eins og hann haldi fram. Hann hafi heldur enga heimild haft til að meta til krónutölu eigin skuldbindingar, heldur hafi hann einfaldlega átt að afhenda það skuldabréf sem samningurinn varði. Enga viðeigandi nettunarheimild sé að finna í samningnum sjálfum né í almennum skilmálum stefnanda vegna markaðsviðskipta. Þau ákvæði um nettun sem þó sé að finna í almennu skilmálunum eigi það sameiginlegt að eiga ekki við eins og á standi í máli þessu. Í fyrsta lagi séu engin almenn ákvæði um nettun eða heimild til nettunar á gjalddögum höfuðstóls eða vaxta að finna í almennu skilmálunum, en það sé á slíkri nettun á gjalddögum sem stefnandi byggir. Í öðru lagi kveður 1. mgr. 4. gr. almennu skilmálanna ótvírætt á um það að nettun komi aðeins til álita hafi skuldbindingar viðskiptamanns verið gjaldfelldar á grundvelli 7. gr. skilmálanna. Þannig fari ekki á milli mála að ákvæði 1. mgr. 4. gr. eiga aðeins við um gjaldfellingu á grundvelli þeirrar greinar en ekki þeim grundvelli að efndadagur skuldbindinga renni upp af öðrum sökum, svo sem vegna þess að gjalddagi vaxta eða höfuðstóls sé runninn upp á grundvelli ákvæða samnings. Ekki verði séð að stefnandi haldi því nokkurs staðar fram í stefnu sinni að sá samningur um framvirk skuldabréfakaup sem stefnandi byggi kröfur sínar á hafi nokkru sinni verið gjaldfelldur á grundvelli 7. gr. almennu skilmálanna. Hann hafi heldur ekki lagt fram nein gögn þar að lútandi. Verði því að leggja til grundvallar að óumdeilt sé að slík gjaldfelling hafi aldrei átt sér stað. Það að samningurinn hafi aldrei verið gjaldfelldur á grundvelli 7. gr. almennu skilmálanna eigi sér enn fremur stoð í því að stefnandi aðhafðist ekkert það sem almennu skilmálarnir leggi honum á herðar hygðist hann gjaldfella á grundvelli þeirrar greinar: (a) Samkvæmt 7. gr. almennu skilmálanna hafi stefnanda borið að tilkynna stefnda með þeim hætti sem greinir í 3. gr. c ef samningurinn hefði verið gjaldfelldur eða verið lokað vegna verulegra vanefnda. Engin slík tilkynning hafi nokkru sinni borist stefnda. (b) Samkvæmt 7. gr. almennu skilmálanna hafi stefnanda einnig borið að annast útreikning á hagnaði eða tapi stefnda af samningnum og senda stefnda þann útreikning eigi síðar en 15 dögum eftir gjaldfellingu samningsins. Engin slík tilkynning hafi borist stefnda. Af framangreindu sé ljóst að það skilyrði 1. mgr. 4. gr. almennu skilmálanna fyrir því að stefnandi mætti netta kröfur hans og stefnda, að skuldbindingar stefnda hafi verið gjaldfelldar samkvæmt 7. gr. skilmálanna, hafi aldrei verið uppfyllt og honum því ekki heimil nettun. Teldi dómurinn þrátt fyrir ofangreint að skilyrði 1. mgr. 4. gr. almennu skilmálanna um gjaldfellingu samkvæmt 6. gr. skilmálanna hafi verið uppfyllt, verði því með engu móti haldið fram að skuldajöfnun samkvæmt 1. mgr. 4. gr. hafi nokkru sinni átt sér stað. Hafi skilyrði nettunar annars verið fyrir hendi, hafi stefnanda aðeins verið heimilt en ekki skylt að beita nettun. Af því leiði að stefnandi hafi þurft að taka einhverja ákvörðun um að beita nettunarrétti sínum, enda kveði 1. mgr. 4. gr. á um það að stefnandi hafi aðeins getað nettað kröfur sínar og stefnda að undangenginni sannanlegri tilkynningu um vanefnd og fyrirhugaða skuldajöfnun. Engin slík tilkynning hafi borist stefnda og sé því fullljóst að skuldbindingar aðila hafi aldrei verið nettaðar á grundvelli 1. mgr. 4. gr. almennu skilmálanna. Skuldajöfnuður á grundvelli almennra reglna kröfuréttarins taki aldrei gildi fyrr en honum hafi verið lýst yfir. Hafi ekki um annað verið samið eða sérstök lagaákvæði mæli fyrir um annað er skuldajafnaðaryfirlýsing því forsenda einhliða skuldajöfnunar. Stefnandi hafi aldrei beint til stefnda slíkri yfirlýsingu. Ákvæði almennra skilmála fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti sem stefnandi vísi til í stefnu sinni eigi ekki við hér, enda sé í máli þessu deilt um framvirk skuldabréfaviðskipti, ekki framvirk gjaldmiðlaviðskipti. Til þess að geta nettað skuldbindingar aðila samkvæmt þeim samningi um framvirk skuldabréfaviðskipti sem um sé deilt hafi stefnandi einnig þurft að hafa heimild til að verðmeta einhliða skyldu sína til afhendingar skuldabréfsins en slíka heimild hafi hann ekki haft. Í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup segir að sé hlutur ekki afhentur eða sé afhentur of seint og ekki sé kaupanda um að kenna eða atvikum sem hann varði geti kaupandi krafist efnda, riftunar og skaðabóta ásamt því að halda eftir kaupverðinu. Jafnframt segir að réttur kaupanda til skaðabóta falli ekki niður þótt hann setji fram aðrar kröfur eða ekki sé unnt að halda slíkum kröfum fram. Stefnanda hafi borið samkvæmt þeim samningi sem hann byggir á að afhenda stefnda það skuldabréf sem samningurinn hafi kveðið á um að hann keypti framvirkt. Það hafi hann ekki gert og aldrei boðist til að afhenda það. Því hafi stefnda verið og sé enn heimilt að halda eftir sinni greiðslu. Stefnandi eigi því ekki kröfu á hendur stefnda á grundvelli samningsins og muni ekki eignast hana þar sem hann geti ekki afhent neitt skuldabréf. Fallist dómurinn ekki á ofangreindar málsástæður, heldur stefndi því fram í fimmta lagi að þar sem stefnandi hafi aldrei áformað að selja honum skuldabréf heldur flókna afleiðu hafi forsendur þess samnings sem stefnandi byggi á brostið. Aðalefni þess samnings um framvirk skuldabréfaviðskipti sem stefnandi byggi á sé að sjálfsögðu það að til hafi staðið að hann seldi og stefndi keypti skuldabréf á afhendingardegi. Nú liggi fyrir að ekki hafi neinu skuldabréfi verið til að dreifa og að stefnandi hafi aldrei stefnt að því að selja stefnda neitt slíkt. Það hafi að sjálfsögðu verið ákvörðunarástæða af hálfu stefnda að hann væri að kaupa skuldabréf af seljanda og þetta hafi stefnanda mátt vera ljóst, enda hafi hann skrifað hann samninginn. Stefndi heldur því fram að samningur sá er stefnandi byggi á sé ógildur frá upphafi á grundvelli almennra reglna samningaréttarins um brostnar forsendur, enda séu öll skilyrði slíkrar ógildingar uppfyllt. Jafnframt telur stefndi að víkja eigi samningnum til hliðar í heild sinni á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Byggist það bæði á atvikum sem hafi verið fyrir hendi við samningsgerðina og atvikum sem síðar hafi komið til. Í fyrsta lagi sé ljóst að við samningsgerðina hafi stefnandi ekki átt skuldabréf sem hann hafi getað selt stefnda framvirkt samkvæmt samningnum. Í öðru lagi liggi fyrir að stefnandi hafi heldur ekki átt slíkt skuldabréf á afhendingardegi. Ekkert liggi reyndar fyrir um að stefnandi eigi slíkt skuldabréf í dag. Telji dómurinn að stefnandi geti byggt kröfu á samningnum um framvirk skuldabréfakaup, gerir stefndi eftirfarandi kröfur til skuldajafnaðar gegn hverri þeirri fjárhæð sem dómurinn kunni að dæma stefnanda í máli þessu: A. Stefndi gerir kröfu um skaðabætur á grundvelli galla sem séu jafnháar hverri þeirri kröfu sem stefnandi kunni að fá dóm fyrir. Sú fjárhæð hafi samsvarað tjóni stefnda vegna gallans. Um rökstuðning fyrir þeirri kröfu vísast að öðru leyti til þess sem að ofan er sagt í greinargerð þessari um galla á greiðslu stefnanda. B. Stefndi krefst skaðabóta úr hendi stefnanda vegna saknæmrar háttsemi starfsmanna hans í tengslum við gerð samningsins um framvirk skuldabréfaviðskipti. Starfsmenn hans hafi undirritað samninga um sölu á skuldabréfi sem ekki hafi verið til á samningsdegi og sem fyrir lægi að ekki yrði til á afhendingardegi. Þessi háttsemi feli í sér gáleysi eða jafnvel ásetning af hálfu stefnanda sem leitt hafi til hvers þess tjóns sem stefnandi kunni að verða fyrir vegna þess að dómurinn telji hann eiga að greiða stefnanda fjárkröfu á grundvelli samningsins. Fjárhæð skaðabótakröfu stefnda sé nákvæmlega jafn há og sú fjárhæð sem dómurinn kunni að telja að honum beri að greiða stefnanda vegna samningsins, enda samsvari hún þá tjóni hans. Til vara krefst stefndi frávísunar á kröfu stefnanda vegna framvirks skuldabréfasamnings með auðkennið FS 08081907 að höfuðstól 5.477.999.370 kr. Verði ekki fallist á ofangreindar málsástæður, heldur stefndi því fram að jafnvel þó svo að stefnandi hefði haft nettunarheimild og mátt meta skyldur stefnda samkvæmt hinum framvirka skuldabréfasamningi til fjár, þá geti krafa hans á hendur stefnda á grundvelli samningsins aldrei numið hærri fjárhæð en sannanlegum mismun á skuldbindingum hans og stefnanda efndabótum. Stefnandi hafi engan reka gert að því að rökstyðja mat sitt á fjárhæð skuldbindingar sinna samkvæmt samningnum og þ.a.l. heildarkröfufjárhæðina. Hann fullyrði að gengi þess sem hann kallar skuldabréf hafi verið 0,063 á afhendingardegi án þess að færa fyrir því nokkur rök. Af þeim sökum sé krafa hans algerlega vanreifuð og beri að vísa henni frá dómi. IV Stefnandi krefst greiðslu samkvæmt tveimur afleiðusamningum. Annars vegar er það samningur IRS 3051 að fjárhæð 13.666.670 kr. Stefndi hefur fyrir dómi viðurkennt réttmæti kröfu þessarar, þó að hann hafi ekki tekið tillit til þess í dómkröfum sínum. Í ljósi viðurkenningar stefnda á réttmæti kröfunnar er hún því tekin til greina. Ber stefnda því að greiða stefnanda 13.666.670 kr. að viðbættum dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, svo sem greinir í dómsorði. Verður þá vikið að kröfu stefnanda sem auðkennd er FS08081907. Hinn 26. október 2007 tilkynnti stefnandi að stefndi væri flokkaður sem fagfjárfestir og hefur það ekki sætt andmælum stefnda. Hinn 14. maí 2007 undirrituðu Jón Snorrason, stjórnarformaður, prókúruhafi og eigandi stefnda, og Sveinn Biering Jónsson, meðstjórnandi, framkvæmdastjóri, prókúruhafi og eigandi stefnda, almenna skilmála vegna markaðsviðskipta Glitnis banka hf. Skilmálunum er meðal annars ætlað að undirstrika að viðskiptamaður hafi gert sér grein fyrir eðli þeirra samninga sem falla undir skilmálana og þeirri áhættu sem þeim fylgir. Samkvæmt 1. gr. skilmálanna gilda þeir um öll markaðsviðskipti milli samningsaðila, svo sem um gjaldeyris- og afleiðuviðskipti, hvernig svo sem til þeirra er stofnað. Samkvæmt 2. gr. skilmálanna átti stefndi ekki einhliða kröfu gagnvart stefnanda um að einstakir samningar yrðu gerðir. Samþykki stefnanda þurfti fyrir gerð allra samninga. Samkvæmt 4. gr. skilmálanna samþykktu aðilar að við gjaldfellingu væri heimilt að beita skuldajöfnuði milli allra samninga sem heyrðu undir skilmálana, þannig að hagnaður og tap hvors aðila um sig yrði gert upp í einu lagi. Við skuldajöfnun var heimilt að umreikna allar skuldbindingar yfir í íslenskar krónur. Samkvæmt 8. gr. skilmálanna hafi stefndi lýst því yfir að honum væri ljóst að þau viðskipti sem hann kynni að eiga við deild markaðsviðskipta stefnanda gætu verið sérstaklega áhættusöm og að honum bæri að afla sér ráðgjafar utanaðkomandi sérfræðinga teldi hann hennar þörf. Auk þess sem tekið sé fram að stefndi geri sér grein fyrir því að í viðskiptum hans við stefnanda felist ekki viðskiptavakt þess síðarnefnda. Af því leiði að stefnandi ábyrgist hvorki tilkynningar til stefnda um stöðu samninga né lokun þeirra við ákveðin mörk. Samkvæmt umræddu samningsákvæði sé það skýrt að ábyrgð á að fylgjast með stöðu og þróun þeirra samninga sem hann hafi gert við stefnanda hvíldi hjá stefnda sjálfum. Þá sé í sömu grein áréttað að álit starfsmanna stefnanda á tilteknum viðskiptum sé eingöngu byggt á skoðunum viðkomandi starfsmanns stefnanda á þeim tíma og það geti tekið breytingum án fyrirvara. Þá segir að þar sem markaðsaðstæður geti breyst á mjög skömmum tíma geti stefnandi ekki ábyrgst að unnt sé að afgreiða beiðni stefnda á umbeðnu gengi. Samkvæmt 10. gr. almennra skilmála stefnanda fyrir markaðsviðskipti gilda, eftir því sem við á, almennir skilmálar fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga útgefnir af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða, 1. útgáfa, febrúar 1998 svokallaðir „SFF skilmálarnir“. Að lokum hafi stefndi staðfest með undirritun markaðsskilmála stefnanda að hann hafi móttekið bæði þá skilmála sem og SFF-skilmálana. Eins og rakið er í málavaxtalýsingu átti stefndi frumkvæðið að þessum viðskiptum við stefnanda. Stefndi hafði fengið upplýsingar hjá Kaupþingi um skuldabréfið KAUPCDS 12 og óskaði eftir því að stefnandi fjármagnaði kaup sín á því. Þannig gerðu aðilar upprunalega með sér samning með auðkennið FS07103129, samningsdagur 31. október 2007 og endanlegur afhendingardagur (lokadagur) hinn 20. desember 2007. Í stað uppgjörs á endanlegum afhendingardegi voru skyldur samningsins framlengdar í nýjan samning með auðkennið FS07122020 með samningsdag 20. desember 2007 og endanlegan afhendingardag 18. janúar 2008. Í stað uppgjörs á endanlegum afhendingardegi þess samnings voru skyldur samningsins framlengdar í nýjan samning með auðkennið FS08011809 með samningsdag og endanlegan afhendingardag 18. febrúar 2008. Í stað uppgjörs á endanlegum afhendingardegi þess samnings voru skyldur samningsins framlengdar í nýjan samning með auðkennið FS08021829 með samningsdag 18. febrúar 2008 og endanlegan afhendingardag 18. mars 2008. Í stað uppgjörs á endanlegum afhendingardegi þess samnings voru skyldur samningsins framlengdar í nýjan samning með auðkennið FS08031839, samningsdagur 18. mars 2008 og endanlegur afhendingardagur 20. júní 2008. Í stað uppgjörs á endanlegum afhendingardegi þess samnings voru skyldur samningsins framlengdar í nýjan samning með auðkennið FS08063015, samningsdagur 20. júní 2008 og endanlegur afhendingardagur 18. júlí 2008. Í stað uppgjörs á endanlegum afhendingardegi þess samnings voru skyldur samningsins framlengdar í nýjan samning með auðkennið FS08072917, samningsdagur 18. júlí 2008 og endanlegur afhendingardagur 18. ágúst 2008. Í stað uppgjörs á endanlegum afhendingardegi þess samnings voru skyldur þess samnings framlengdar inn í nýjan samning með auðkennið FS08081907. Ágreiningur málsins lýtur að þessum samningi. Samningur FS08081907 var ekki undirritaður af stefnda, en tveir áðurgreindra samninga höfðu verið undirritaðir af stefnda. Stefndi heldur því fram að samningur FS080801907 hafi aldrei komist á þar sem undirritun vantar. Samkvæmt dómum Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 513/2011 Landsbanki Íslands hf. gegn Dynjanda ehf. og í málinu nr. 92/2011 SPB gegn Þorgilsi Einari Ámundssyni, ræðst gildi samnings ekki einvörðungu af því hvort hann sé undirritaður. Sé hann óundirritaður, verður sá er vill byggja rétt sinn á honum, að sýna fram á að aðilar hafi gert með sér samning þess efnis sem hann heldur fram. Af framlögðum tölvuskeytum frá fyrirsvarsmanni stefnda verður ekki annað ráðið en hann hafi ætlað að halda viðskiptunum til gjalddaga KAUPCDS 12 þ.e. 20. desember 2012. Endanlegur afhendingardagur næsta samnings á undan FS08081907 var 18. ágúst 2008. Hinn 12. ágúst 2008 leggur stefndi fram viðbótartryggingar upp á 391 milljón evra. Þar koma meðal annars fram áhyggjur stefnda af stöðunni, en samt sem áður telur hann að binda megi innlánið í sex mánuði. Ekkert bendir til annars en að stefndi hafi talið samninginn gilda. Ágreiningurinn varðar samning FS08081907 með afhendingardag 18. nóvember 2008. Hinn 28. ágúst 2008 setur stefndi viðbótartryggingu um 1.250 milljónir króna. Hinn 5. september 2008 óskar stefndi eftir stöðunni á KAUPCDS 12 samningnum þann dag. Hinn 1.-6. október 2008 er unnið að því að setja félag í eigu stefnda, Metrobet ltd., að veði vegna viðskiptanna. Þá er tryggingakall fyrir 2.000 milljónum króna hinn 6. október 2008 án þess að andmæli komi frá stefnda og hinn 7. október 2008 óskar stefndi eftir stöðu samnings þann dag. Engin andmæli koma frá stefnda um gildi samningsins FS08081907. Þá heldur stefndi því fram að samningurinn hafi ekki komist á þess efnis sem stefnandi heldur fram með því að hann hafi aldrei séð undirliggjandi skuldabréf sem vísað sé til í samningstextanum og taldi það annars efnis en stefnandi heldur fram. Hér er til þess að líta að stefndi bar sig upp við stefnanda vegna þessa undirliggjandi skuldabréfs KAUPCDS 12 sem hann fékk upplýsingar um hjá Kaupþingi. Stefndi óskaði eftir því að stefnandi fjármagnaði kaup hans á því. Telja verður að stefnda hafi verið fullkunnugt um efni bréfsins og vitað í hvers konar viðskipti hann væri að fara, samanber fyrirliggjandi símtöl starfsmanns stefnanda og fyrirsvarsmanns stefnda, þar sem hann lýsti því meðal annars yfir að hann „hefði trú á íslensku bankakerfi“ og þetta væri „heitasta trade landsins“, en símtöl þessi áttu sér stað 16. og 19. október 2007. Stefndi er, eins og að framan greinir, fagfjárfestir og á honum hvíla ríkar skyldur. Hafi hann ekki séð skuldabréfið er það á hans áhættu. Skuldabréf þetta hefur þó verið undirliggjandi í öllum samningunum, þ.e. allt frá 31. október 2007 er fyrsti samningurinn var gerður og hefur stefndi fallist á réttmæti allra þeirra samninga. Því verður ekki fallist á að þá málsástæðu stefnda að hann hafi aldrei séð undirliggjandi skuldabréf, talið það annars efnis en það hafi verið, eða verið haldið galla. Að virtu öllu framangreindu þykir stefnandi hafa sýnt fram á að komist hafi á milli aðila afleiðusamningur sá er málið snýst um og þess efnis sem stefnandi heldur fram. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi gerst sekur um afhendingadrátt með því að afhenda honum aldrei það skuldabréf sem hann haldi fram að stefndi hafi keypt af honum framvirkt. Stefnanda hafi borið að efna samninginn in natura á afhendingardegi, 18. nóvember 2008. Stefnda hafi því verið og sé enn heimilt að halda eftir greiðslu sinni samkvæmt þeim samningi um framvirk skuldabréfaviðskipti sem um er deilt. Á þessa málsástæðu stefnda er ekki fallist. Í afleiðusamningi málsaðila var tekið fram að viðskiptamaður væri beðinn um að hafa samband við miðlara tveimur virkum bankadögum fyrir gjalddaga til að ljúka samningi. Að þessu gættu og að virtum lögskiptum aðila að öðru leyti bar stefnda að eiga frumkvæði að efndum samningsins með því að bjóða þær fram af sinni hálfu eða eftir atvikum óska eftir framlengingu á samningum, ef það á annað borð kom til greina af hálfu stefnanda. Þessari skyldu sinnti stefndi ekki og því vanefndi hann samninginn eftir að hann féll í gjalddaga 18. nóvember 2008. Í afleiðusamningi aðila var tekið fram að almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti stefnanda giltu en þeir voru eins og áður segir undirritaðir af stefnda 14. maí 2007. Í síðari málsgrein 4. gr. skilmála stefnanda kemur fram að viðskiptamaður samþykkti að kominn væri á skriflegur samningur við bankann í samræmi við III. kafla laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, sbr. nú V. kafla laga nr. 108/2007 um sama efni, um að skyldur þeirra samkvæmt afleiðusamningum skyldu jafnast hver á móti annarri með skuldajöfnuði við endurnýjun eða við vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti, og að samningurinn skyldi halda gildi sínu að fullu þrátt fyrir ákvæði 91. gr. og 100. gr. laga nr. 21/1991. Af þessu ákvæði leiðir að stefnanda var heimilt að skuldajafna greiðslum samkvæmt afleiðusamningunum eftir að þeir höfðu verið vanefndir af hálfu stefnda, samanber til dæmis dóma Hæstaréttar í málunum nr. 212/2012 Þb. Flugvals gegn Glitni hf. og 11/2014 Toppfiskur gegn Glitni hf. Þótt ekki hafi verið þörf á, þá lýsti stefnandi yfir gjaldfellingu bréfsins og skuldajöfnuði samanber bréf stefnanda 23. september 2010. Þá var um samrættar kröfur að ræða og heimildin til skuldajafnaðar leiðir jafnframt af almennum reglum kröfuréttar, enda hefur ekki verið vikið frá þeim reglum í þessu tilliti með samningi aðila. Eins og atvikum máls þessa er háttað, sem og vegna þess að stefndi er fagfjárfestir, eru málsástæður stefnda um brostnar forsendur sem og að víkja eigi samningnum til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, haldlausar. Þá liggur það fyrir í málinu að umrætt skuldabréf hafi verið til á afhendingardegi og er ekki tilefni til að vefengja þá yfirlýsingu. Með vísan til þess sem að framan greinir á stefndi ekki skaðabótakröfu á hendur stefnanda og er skuldajafnaðarkröfu stefnda, skv. 1. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála, hafnað. Niðurstaða málsins er því sú að aðalkrafa stefnanda er tekin til greina. Vegna samnings sem auðkenndur er FS08081907 ber stefnda að greiða stefnanda 5.461.034.370 kr. og vegna samnings IRS 3051 ber stefnda að greiða stefnanda 13.666.670 kr. eða samtals 5.474.701.040 kr. Stefndi hefur lýst því yfir að ekki sé deilt um útreikning kröfunnar. Stefnda ber að greiða dráttarvextir skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu svo sem greinir í dómsorði. Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað eins og hann er tilgreindur í dómsorði. Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. DÓMSORÐ Stefndi, Eignarhaldsfélagið RS ehf. greiði stefnanda, Glitni hf., 5.474.701.040 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 388.889 kr. frá 22. október 2008 til 29. október 2008, og frá þeim degi af 777.778 kr. til 5. nóvember 2008, og frá þeim degi af 1.166.667 kr. til 12. nóvember 2008, og frá þeim degi af 1.555.556 kr. til 18. nóvember 2008, og frá þeim degi af 5.462.589.926 kr. til 19. nóvember 2008, og frá þeim degi af 5.462.978.815 kr. til 26. nóvember 2008, og frá þeim degi af 5.463.367.704 kr. til 3. desember 2008, og frá þeim degi af 5.463.756.593 kr. til 10. desember 2008, og frá þeim degi af 5.464.145.482 kr. til 17. desember 2008, og frá þeim degi af 5.464.534.371 kr. til 29. desember 2008, og frá þeim degi af 5.465.201.038 kr. til 31. desember 2008, og frá þeim degi af 5.465.312.149 kr. til 7. janúar 2009, og frá þeim degi af 5.465.701.038 kr. til 14. janúar 2009, og frá þeim degi af 5.466.089.927 kr. til 21. janúar 2009, og frá þeim degi af 5.466.478.816 kr. til 28. janúar 2009, og frá þeim degi af 5.466.867.705 kr. til 4. febrúar 2009, og frá þeim degi af 5.467.256.594 kr. til 11. febrúar 2009, og frá þeim degi af 5.467.645.483 kr. til 18. febrúar 2009, og frá þeim degi af 5.468.034.372 kr. til 25. febrúar 2009, og frá þeim degi af 5.468.373.261 kr. til 4. mars 2009, og frá þeim degi af 5.468.812.150 kr. til 11. mars 2009, og frá þeim degi af 5.469.201.039 kr. til 18. mars 2009, og frá þeim degi af 5.469.589.928 kr. til 25. mars 2009, og frá þeim degi af 5.469.978.817 kr. til 1. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.470.367.706 kr. til 8. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.470.756.595 kr. til 15. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.471.145.484 kr. til 22. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.471.534.373 kr. til 29. apríl 2009, og frá þeim degi af 5.471.923.262 kr. til 6. maí 2009, og frá þeim degi af 5.472.312.151 kr. til 13. maí 2009, og frá þeim degi af 5.472.701.040 kr. til 20. maí 2009, og frá þeim degi af 5.473.089.929 kr. til 27. maí 2009, og frá þeim degi af 5.473.478.818 kr. til 3. júní 2009, og frá þeim degi af 5.473.867.707 kr. til 10. júní 2009, og frá þeim degi af 5.474.256.596 kr. til 18. júní 2009, og frá þeim degi af 5.474.701.040 kr. til greiðsludags og 1.500.000 kr. í málskostnað. |
Mál nr. 449/2000 | Líkamsárás Hegningarauki | S var gefið að sök að hafa veist að M með þeim afleiðingum að hann varð fyrir talsverðum áverkum og hlaut meðal annars beinbrot á kjálka og fingri. S neitaði staðfastlega sakargiftum. Með hliðsjón af framburði vitna og gögnum sem lágu fyrir þótti sannað að S hefði valdið M þeim áverkum sem hann varð fyrir. Var S því dæmdur til fangelsisrefsingar. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. desember 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur. Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara að refsing verði milduð frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi. Í málinu er ákærði borinn sökum um að hafa á nánar tiltekinn hátt gerst sekur um líkamsárás 20. nóvember 1999. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæðis. Eins og greinir í héraðsdómi hlaut ákærði dóm 17. apríl 2000 vegna umferðarlagabrota og var refsing hans í þessu máli því réttilega ákveðin sem hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í sakavottorði ákærða, sem lagt var fram í Hæstarétti, kemur fram að hann hlaut aftur dóm fyrir umferðarlagabrot 28. apríl 2000, en frá þeim dómi var ekki greint í sakavottorði, sem lá fyrir í héraði. Refsingu hans nú verður jafnframt að ákveða sem hegningarauka við þann dóm. Að þessu gættu og með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða, svo og um sakarkostnað. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Ákærði, Sigurður Stefán Almarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur. Héraðsdómur Reykjavíkur 17 apríl 2000. I. Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík 9. maí 2000 á hendur ákærða, Sigurði Stefáni Almarssyni, kt. 300856-5519, Baldursgötu 31, Reykjavík “fyrir líkamsárás með því að hafa, að morgni laugardagsins 20. nóvember 1999, veist að Magnúsi Torfa Sighvatssyni, kt. 190844-2699, á heimili sínu á 2. hæð að Baldursgötu 31, Reykjavík, slegið hann hnefahögg í andlitið, snúið upp á hendur hans og er Magnús Torfi gekk niður stiga að útidyrum hússins, hrint honum niður stigann með þeim afleiðingum að Magnús Torfi hrasaði niður stigann og loks slegið Magnús Torfa mörg hnefahögg í andlitið þar sem hann lá við útidyr. Hlaut Magnús Torfi við árásina opið beinbrot á neðri kjálka, skurði í neðri vör og beinbrot á baugfingri. Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981. Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.” Ákærði krefst þess aðallega að hann verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvalds í máli þessu, en til vara, komi til sakfellingar, að dæmd verði vægasta refsing sem lög framast leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Verjandi ákærða krefst málsvarnarlauna sér til handa. II. Málavextir. Laugardaginn 20. nóvember 1999 kl. 7.29 fóru lögreglumenn að Baldursgötu 31 í Reykjavík, en þaðan hafði ákærði hringt og óskað eftir aðstoð vegna manns, sem dottið hefði niður stiga þar innandyra. Er lögregla kom á vettvang kom ákærði til dyra og sáu lögreglumenn hvar Magnús Torfi Sighvatsson lá á gólfinu innan við dyrnar. Lá Magnús á bakinu og sneri höfðinu að ofni, sem þar var. Fatnaður hans var úr lagi genginn þannig að sást í beran brjóstkassann og var hann nokkuð blóðugur í andliti við munn og nef. Auk þess voru litlir skurðir á augnlokum hans, einn skurður á hvoru augnloki. Fram kom á vettvangi að Magnús Torfi væri nýkominn úr lýtaaðgerð. Blóð var sjáanlegt á mottu við útidyrnar og á vegg í stigagangi á móts við þriðju tröppu neðan frá. Vitnið, Elfa Björnsdóttir, var hjá Magnúsi og var hann með meðvitund. Var hann fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild og fylgdi vitnið, Elfa, honum í sjúkrabifreiðinni. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að Baldursgata 31 sé fjölbýlishús, tvær hæðir og kjallari. Ákærði búi á efri hæðinni ásamt sambýliskonu sinni, vitninu Berglindi Guðmundsdóttur. Á milli hæða sé teppaklæddur, nokkuð brattur stigi, sem liggi í boga. Sextán tröppur séu í stiganum frá pallinum á efri hæðinni niður á pallinn þar sem Magnús lá, en stiginn liggi síðan áfram niður í kjallara. Þá sé handrið á stiganum. Í lögregluskýrslu segir að gengið sé inn í íbúð ákærða og Berglindar af stigapallinum og sé þá komið inn í stórt hol eða gang. Þar á vinstri hönd hafi verið sófi, tveir stólar og hringlaga sófaborð. Í sófanum hafi Berglind legið og sofið ölvunarsvefni. Á borðinu og á gólfinu við það hafi verið glös og áfengis- og bjórflöskur. Einnig hafi þar verið lyf, Mogadon og Voltaren Rapid. Gat hafi verið á vinstri buxnaskálm Berglindar og hún með áverka við vinstra hné. Ákærði hafi verið áberandi ölvaður eða undir áhrifum lyfja og hafi hann verið bæði valtur á fótum og þvoglumæltur. Hafi ákærði verið ber að ofan og hvorki blóð né áverka að sjá á honum. Ákærði hafi verið rólegur og kurteis í framkomu. Í frumskýrslu lögreglu segir að ákærði hafi viðurkennt á vettvangi að hafa verið í átökum við Magnús Torfa og að átökin hefðu bæði átt sér stað í íbúðinni rétt áður og á Bergstaðastræti fyrr um nóttina. Ákærði hafi tekið fram að fyrra bragði að hann hefði ekki hrint Magnúsi niður tröppurnar heldur hefði Magnús hrasað sjálfur vegna ölvunar. Magnús hefði þá verið að fara. Þá er haft eftir ákærða að hann, Berglind og Magnús, en þau þekktust öll, hefðu verið á gangi á Bergstaðastræti fyrr um nóttina og hefði Magnús þá ráðist á Berglindi og hrint henni í götuna með þeim afleiðingum að Berglind hefði fengið áverka á vinstra fæti. Ákærða hefði ekki líkað þetta og því aðeins tekið á Magnúsi. Eftir það hefði Magnús horfið, en hann sjálfur og Berglind farið heim. Ákærði sagði að Magnús hefði fyrir stuttu komið á Baldursgötu 31 ásamt Elfu, sem ekki hefði verið með þeim fyrr um nóttina. Ákærði hefði ekki verið ánægður með komu Elfu. Hefði hann tekið aðeins í Magnús þarna inni og vísað honum og Elfu síðan út. Ákærði hefði staðið aðeins niðri í stiganum þegar Magnús hrasaði, en Magnús hefði þá verið kominn niður í miðjan stigann. Magnús hefði fyrst dottið utan í vegginn og farið síðan kollhnís niður stigann. Eftir að hafa rætt við ákærða á vettvangi fóru lögreglumenn á slysadeild og var þar tjáð að svo liti út að Magnús væri mikið slasaður. Ekki var rætt við Magnús á slysadeild vegna ástands hans, en að beiðni lögreglu var tekið blóðsýni úr honum þar sem frá vitum hans lagði áfengisþef. Á slysadeild hafði lögregla hins vegar tal af vitninu, Elfu Björnsdóttur. Kvað hún Magnús hafa hringt í sig um nóttina og sagt sér að ákærði hefði lamið hann illa á Bergstaðastræti fyrr um nóttina og hefði hann óskað eftir nærveru hennar. Elfa kvaðst hafa tekið leigubíl heim til Magnúsar og þaðan hefðu þau bæði farið að Baldursgötu 31 og hitt þar Berglindi og ákærða. Þau hefðu öll sest niður í holinu inn af útidyrum íbúðarinnar. Samkynhneigð hefði borist í tal milli þeirra ákærða og Magnúsar, en Magnús væri samkynhneigður, og í framhaldi af því tali hefðu átök hafist þeirra á milli. Kvaðst Elfa hafa verið frammi á stigagangi og séð ákærða hrinda Magnúsi niður stigann. Að svo búnu ákvað lögregla að fara aftur að Baldursgötu 31 til að rannsaka og ljósmynda vettvang og handtaka ákærða. Í íbúð ákærða og Berglindar voru öll ljós slökkt og hvorki síma né dyrabjöllu svarað. Lögregla fór aftur á staðinn kl. 13.18 sama dag og var þá hleypt inn. Virtust ákærði og Berglind þá nývöknuð. Þau heimiluðu lögreglu að skoða og ljósmynda vettvang. Þá voru tekin sýni af blóðinu á veggnum og mottunni. Ákærði kvaðst reiðubúinn til að fylgja lögreglu á lögreglustöð til skýrslutöku. Ekki reyndist þó unnt að taka af honum formlega skýrslu þar sem hann virtist enn undir áhrifum áfengis eða lyfja. Var hann því vistaður í fangaklefa. Berglind kvaðst ekki tilbúin til formlegrar skýrslutöku vegna ástands síns. Hún kvaðst ekkert geta tjáð sig um umrætt atvik á heimili hennar þar sem hún hefði líklega verið sofnuð ölvunarsvefni í sófanum þegar það hefði átt sér stað. Í málinu liggur frammi vottorð Jóns Baldurssonar, yfirlæknis á slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur, en vottorðið er ritað skömmu eftir komu Magnúsar Torfa þangað eða þann 20. nóvember 1999. Í vottorðinu segir m.a.: “Magnús kom með sjúkrabifreið á slysa- og bráðamóttöku SHR í morgun 20.11. 1999 kl. 7.59, vottorð þetta er ritað kl. 10:00 sama dag. Ástæða komunnar var ofbeldi sem hann hafði orðið fyrir og nafngreindi hann árásarmanninn sem Sigurð Stefán Almarsson, þekktan undir nafninu “Malagafanginn”. Samkvæmt sögunni mun ofbeldi einkum hafa verið fólgið í margendurteknum hnefahöggum í andlit en einnig var Magnúsi hent niður stiga í húsi. Við komu hingað kvartar hann einkum um verk í kjálkanum og andlitinu og auk þess í bakinu. Þá hefur hann einnig meiðst á vi. baugfingri og kveðst hafa verið kýldur þar. Ekki kemur fram í sögunni, að hann hafi rotast við áverkana. Hins vegar mun hann nýlega hafa verið í lýtaaðgerð hjá Jens Kjartanssyni, lýtalækni og þá gerð á honum andlitslyfting báðum megin. Við fyrstu skoðun koma í ljós áverkar á ýmsum stöðum. Tæplega 2 cm skurður er utanhallt í efra augnloki báðum megin. Í miðri efri vör er skurður aðallega að innanverðu. Í neðri góm eru lausar tennur og vaknar grunur um, að neðri kjálkinn kunni að vera brotinn en það hefur ekki tekist að staðfesta enn miðað við rtg. myndatöku. Maðurinn er dálítið drafandi í tali og áberandi áfengislykt úr vitum. Við hæ. eyrnasnepil er sár, rúmlega 1 cm langt. Í brjóstkassanum eru talsverð eymsli neðarlega vi. megin og eru þau bæði bein og óbein og vaknar því grunur um brot á rifbeinum þar. Lungnahlustun er hins vegar jöfn báðum megin og rtg. mynd af og (svo) lungum sýnir ekki áberandi merki um lungnaáverka en rtg. læknir á eftir að lesa úr þessum myndum. Við rót vi. baugfingurs er djúpur skurður lófamegin og nær nánast hálfhring utan um fingurrótina. Við komu er greinilegt brak, los og skekkja á nærkjúkunni nærlægt og er gerð gróf rétting á þessu broti strax við komu. Rtg. mynd staðfestir síðan, að brot er nærlægt í nærkjúkunni. Ljóst er að við fyrstu athugun hafa greinst ýmsir áverkar, sem gætu vel samrýmst alvarlegu ofbeldi. Rétt er að taka fram, að eftir er að gera ýmsar rannsóknir á sjúklingnum og því ekki útilokað, að fleiri áverkar eigi eftir að koma í ljós hjá honum.” Þá liggur frammi í málinu áverkavottorð fyrir Magnús Torfa ritað að beiðni lögreglu 24. nóvember 1999 af Guðmundi Ásgeiri Björnssyni, sérfræðingi í kjálka og munnholssjúkdómum. Í því segir eftirfarandi: “Magnús var lagður hér inn á spítalann 20. nóvember 1999. Samkvæmt hans framburði hafði hann lent í áflogum og verið hrint niður stiga. M.a. leiddi þetta til opins beinbrots á neðri kjálka um stæði augntannar 3/3. Magnús fór síðan í aðgerð 22. nóvember 1999 þar sem brot var spengt saman. Brotnað hefur úr augntönn 1/3 gómmegin og forjaxl 2/4 vararmegin. Magnús er enn í meðhöndlun vegna þessara áverka og á þessari stundu er ekki fyrirséð um endanlegan bata. Í stuttu máli getur undirritaður ekki staðfest að áverkar á kjálkum eða tönnum séu eftir fall eða líkamsárás.” Samkvæmt vottorði Rannsóknarstofu í lyfjafræði 23. nóvember 1999 var magn alkóhóls í blóði Magnúsar Torfa Sighvatssonar 2,88 og að reiknuðu 0,15 fráviki var endanleg niðurstaða rannsóknarinnar 2,73. Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum. Ákærði neitaði sök. Hann kvað Magnús Torfa hafa hringt í Berglindi sambýliskonu sína og sagt henni að hann væri á leið niður í bæ til að ná í föt í viðgerð hjá konu í næsta húsi við þau ákærða og Berglindi. Hefði hann spurt hvort hann mætti ekki kíkja við hjá þeim og fá sér í glas með þeim. Það hefði verið auðsótt mál. Ákærði kvað Magnús hafa sótt fötin og komið síðan til þeirra Berglindar og þau drukkið saman vodkaflösku, sem Magnús hefði komið með með sér. Eitthvað hefði samkynhneigð komið til umræðu og hefði Magnús haldið því fram að ákærði væri samkynhneigður. Síðar um nóttina hefðu þau farið á skemmtistaðinn Spotlight, en áður hefði þeim verið vísað frá skemmtistaðnum Grandrokki vegna ölvunar Magnúsar. Á Spotlight hefði Magnús haldið áfram að vera með “sóðakjaft”, eins og ákærði orðaði það, hann hefði ýtt við ákærða og hellt yfir hann vínglasi. Hefði ákærði þá fengið nóg og farið út og Berglind á eftir honum. Magnús hefði komið hlaupandi á eftir þeim þar sem þau voru á Bergstaðastrætinu, hann ýtt á Berglindi, sem hefði dottið, og Magnús síðan dottið um fæturna á Berglindi. Ákærði kvaðst hafa dröslað Magnúsi ofan af Berglindi og einhver strákur hefði komið þarna að, sem hefði hjálpað Berglindi á fætur. Því næst hefði Magnús hlaupið í burtu. Síðar um nóttina hefði Elfa Björnsdóttir hringt heim til þeirra Berglindar og spurt hvort hún mætti koma í heimsókn og þau sagt að það væri í lagi. Þegar Elfa hefði komið á Baldursgötuna hefði Magnús verið með henni og sagst vera kominn til að ná í föt, sem hann hefði gleymt hjá þeim. Hefði ákærði sagt Magnúsi að hann fengi ekki fötin fyrr en hann væri búinn að borga buxur Berglindar. Hefðu þau þrasað heillengi út af fötum Magnúsar og að lokum hefði ákærði verið búinn að fá nóg af þessu “kjaftæði” og “hommakjaftæði”, eins og ákærði orðaði það, og hefði hann beðið þau um að fara. Ákærði kvað Elfu hafa gengið strax niður stigann en Magnús haldið áfram að tuða um fötin. Þegar ákærði hefði staðið upp hefði Magnús gengið út. Ákærði kvaðst hafa staðið í dyrunum á stigapallinum á meðan Magnús gekk niður stigann. Elfa hefði hins vegar staðið í miðjum hringnum á stiganum. Magnús hefði hlaupið niður stigann og hefði hann annað hvort rekið sig í fótinn á Elfu eða Elfa brugðið fyrir hann fæti, a.m.k. kosti hefði Magnús hlaupið hraðar niður stigann eftir það og stutt sig við handriðið. Ákærði kvaðst ekki hafa séð Magnús detta en hann hefði heyrt mikinn skell í hurðinni. Hefði hann haldið að Magnús væri að sparka í hurðina og hefði ákærði þá farið fram og litið niður stigapallinn og séð Magnús “leka niður með hurðinni”. Ákærði kvaðst hafa farið beint í símann og hringt í neyðarnúmerið 112. Á meðan ákærði hefði verið í símanum hefði lögreglan komið og ákærði farið niður og opnað fyrir henni. Aðspurður kvað ákærði engin átök hafa átt sér stað á milli þeirra Magnúsar í íbúðinni. Ákærði kannaðist hvorki við að hafa slegið Magnús mörgum sinnum í andlit og háls á meðan hann sat í sófanum né að hafa snúið upp á hönd Magnúsar. Þá kannaðist ákærði ekki við að hafa hrint Magnúsi niður stigann eða að hafa haldið áfram að berja hann þar sem hann lá við útidyrnar. Aðspurður kvað ákærði Magnús hafa verið rispaðan í andliti eftir fallið á Bergstaðastræti fyrr um kvöldið og hefði blætt úr honum. Hefði Magnús dottið beint á andlitið í götuna. Ákærði var spurður út í það atriði í frumskýrslu lögreglu þar sem sagt er að ákærði hefði viðurkennt að hafa verið í átökum við Magnús og að átökin hefðu átt sér stað í íbúðinni og á Bergstaðastræti fyrr um nóttina. Ákærði kvað það geta verið að hann hefði tekið í öxlina á Magnúsi til að lyfta honum upp úr sófanum og koma honum út. Magnús hefði verið svo drukkinn að hann hefði varla getað gengið. Hefði hann setið í sófanum og verið farinn að klína blóði í hann. Þá hefði Elfa löngu verið farin niður stigann, en Magnús haldið áfram að tuða um fötin. Þá kannaðist ákærði við það atvik, sem fram kemur í skýrslu hans hjá lögreglu 21. nóvember 1999, að þegar ákærði hefði gengið að Magnúsi til að taka hann úr sófanum hefði Magnús sparkað í ákærða og ákærði þá snúið aðeins upp á fót Magnúsar. Einnig kannist ákærði við að hafa slegið Magnús í höfuðið með regnhlíf á Bergstaðastræti. Hefðu þetta verið einu átökin, sem átt hefðu sér stað þarna um kvöldið. Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 21. nóvember 1999 og bar í megindráttum á sömu leið fyrir lögreglu og hér fyrir dómi. Kvaðst ákærði hafa beðið Magnús að koma sér út, gengið að honum og ætlað að taka hann úr sófanum, en þá hefði Magnús sparkað í ákærða. Ákærði sagðist þá hafa tekið í löppina á Magnúsi og snúið aðeins upp á hana. Hefði hann sleppt þegar Magnús hefði farið að kveinka sér. Magnús hefði þá staðið upp og gengið niður stigann og Elfa farið á eftir honum. Ákærði kvaðst hafa staðið efst í stigapallinum og hefði hann tekið eftir því að Magnúsi hefði skrikað fótur, farið fram fyrir sig og skollið á útidyrahurðina. Í skýrslu, sem ákærði gaf hjá lögreglu 17. febrúar 2000, kemur fram að þar sem ákærði hefði staðið efst á stigapallinum hefði hann séð að Magnús rakst utan í Elfu og datt niður stigann. Ákærði neitaði því að hafa hringt í vitnið, Elfu, og reynt að hafa áhrif á framburð hennar. Vitnið, Magnús Torfi Sighvatsson, kvað Berglindi hafa hringt í sig umrætt kvöld og beðið sig um að koma. Áður en hann fór heim til ákærða og Berglindar kvaðst hann hafa náð í föt í viðgerð á Freyjugötu. Síðar um kvöldið hefði verið ákveðið að fara á skemmtistað og hefðu .þau endað á skemmtistaðnum Spotlight á Hverfisgötu þar sem þau hefðu fengið sér í glas. Þaðan hefðu þau síðan gengið áleiðis heim til þeirra Berglindar og ákærða, en Magnús kvaðst hafa ætlað að ná í fyrrnefndan fatapoka og hringja þaðan á leigubíl. Er þau hefðu verið á gangi eftir Bergstaðastræti hefði ákærði dregist aftur úr. Hefði hann rifið veski úr rassvasa vitnisins og hent vitninu til þannig að það hefði lent á Berglindi og síðan á vegg. Hefði sprungið fyrir á augum vitnisins þannig að byrjað hefði að fossblæða. Þá hefði ákærði rifið af vitninu gullkeðjur, sem það hefði verið með um hálsinn og hlaupið að svo búnu afsíðis. Ákærði hefði síðan komið til baka og hent veskinu í vitnið. Þá hefði ákærði að svo búnu ráðist á vitnið og þjarmað að því. Ákærði hefði hætt þegar vegfaranda hefði borið að og hefði vitnið þá komist undan og hlaupið alblóðugt niður á Laugaveg. Aðspurt kvaðst vitnið hafa verið nýkomið úr lýtaaðgerð og hefðu skurðirnir verið grónir en mjög viðkvæmir. Að öllum líkindum hefðu skurðir vegna aðgerðarinnar sprungið þarna upp og því hefði vitnið verið alblóðugt. Þá kvaðst vitnið hafa fundið fyrir miklum kvölum yfir brjóstið og það geri því ráð fyrir að það hafi rifbeinsbrotnað við þessi átök. Vitnið kvaðst hafa komist niður á Laugaveg eins og fyrr greinir og náð þar í leigubíl og farið heim til sín. Þar hefði hann hringt í vinkonu sína, Elfu Björnsdóttur, þar sem það hefði verið miður sín vegna framangreinds. Elfa hefði komið og eindregið viljað fara heim til þeirra ákærða og Berglindar til að freista þess að fá peningana, skartgripina og fatapokann til baka. Hefðu þau tekið leigubíl á Baldursgötu og látið bílinn bíða á meðan þau fóru upp í íbúð þeirra ákærða og Berglindar. Þegar þau hefðu komið upp í holið hefðu þau sest niður við borðið í holinu og farið að ræða saman. Talið hefði sveigst að ætlaðri samkynhneigð ákærða. Hefðu ákærði og Berglind farið að rífast og í framhaldi af því hefði ákærði ráðist á vitnið þar sem það sat í sófanum og þjarmað að andliti þess. Vitnið var spurt hvað það ætti við með orðinu “þjarma” og kvaðst vitnið eiga við að ákærði hefði barið, slegið og “djöflast”. Kvaðst vitnið hafa borið hendur fyrir andlit sér, en þá hefði ákærði þrýst fingrum hans aftur og snúið upp á höndina þannig að hún hefði lent aftur fyrir bak og einn fingurinn brotnað. Við þessi átök hefði vitnið komist skríðandi fram á stigapallinn. Elfa hefði reynt að ganga á milli en ekki tekist það og hefði hún hlaupið á undan niður stigann. Svo sem fyrr greinir kvaðst vitnið hafa komið skríðandi fram á stigapallinn og hefði ákærði verið hálfpartinn ofan á vitninu. Vitninu hefði tekist að hífa sig upp á handriðinu efst í stiganum og í þann mund hefði ákærði annað hvort sparkað eða ýtt við vitninu þannig að það hefði henst niður stigann. Elfa hefði staðið fyrir neðan í stiganum og hefði hún tekið af sér fallið að einhverju leyti, en vitnið hefði þó farið niður allan stigann og ákærði komið á eftir. Vitnið kvaðst hafa lent við útidyrnar og þar hefði ákærði haldið áfram að sparka í vitnið og berja það. Vitnið kvað ákærða hafa sparkað í andlitið á sér og brjóstið. Við þetta hefði vitnið misst meðvitund og ekki rankað við sér fyrr en á sjúkrahúsinu. Vitnið kvaðst gera ráð fyrir að það hefði kjálkabrotnað þegar ákærði sparkaði í það við útidyrnar án þess þó að geta fullyrt um það. Vitnið kvaðst ekki geta útilokað að það hefði fengið skurði á neðri vör eftir átökin á Bergstaðastræti því það hefði verið alblóðugt í andliti eftir þau. Lögregla átti viðtal við vitnið á gæsludeild slysadeildar 20. nóvember kl. 14.00. Er þar haft eftir vitninu að á Bergstaðastræti á leið heim til ákærða og Berglindar hafi ákærði alveg upp úr þurru farið að kýla vitnið í andlitið nokkrum sinnum og hefði vitnið þá dottið í götuna. Hugsanlegt væri að hann hefði þá rekist utan í Berglindi og hún dottið. Ungur maður hefði komið þarna að og hefði ákærði þá hætt. Ákærði hefði hins vegar tekið seðlaveskið af vitninu og hlaupið með það í burtu en komið síðar og hent veskinu í vitnið. Vitnið skýrði frá því, sem síðar gerðist, á sömu lund og að ofan greinir. Í framhaldi af rifrildi ákærða og Berglindar hefði ákærði ráðist á vitnið og slegið það í andlitið. Hefði ákærði rifið vitnið upp úr sófanum og látið höggin dynja á andliti þess. Vitnið hefði sett fyrir sig hendurnar til þess að verja andlit sitt og hörfað í áttina að stigapallinum. Þegar vitnið hefði verið komið niður nokkrar tröppur hefði Sigurður sparkað í vitnið þannig að það hefði dottið niður stigann og hafnað á stigapallinum fyrir framan útidyrahurðina. Sagði vitnið að Elfa hefði verið komin úr holinu fram á stigapallinn þegar ákærði hefði sparkað í vitnið, en vitnið kvaðst ekki vita nákvæmlega hvar hún stóð. Berglind hefði verið inni í holinu. Vitnið kvaðst ekki hafa misst meðvitund, en það hefði verið mjög kvalið. Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 29. nóvember 1999. Skýrði vitnið frá atburðinum á þann hátt að þau Berglind hefðu gengið á undan ákærða og verið að spjalla. Ákærði hefði hrint Magnúsi þannig að hann hefði dottið utan í Berglindi og hefðu þau tvö dottið í götuna. Þá hefði ákærði tekið seðlaveski úr rassvasa vitnisins, farið afsíðis, en komið síðar og hent veskinu í vitnið. Að svo búnu hefði ákærði slegið vitnið í andlitið. Vitnið lýsti því sem síðar gerðist á sama veg og áður. Hvað varðar átökin á heimili ákærða sagði vitnið að talið hefði sveigst að samkynhneigð og hefði vitnið haldið því fram að ákærði væri samkynhneigður. Upp hefði hafist rifrildi með ákærða og Berglindi. Hefði ákærði þá ráðist á vitnið og snúið upp á hendur þess og fett upp á fingur þess. Hefði hann keyrt hann í gólfið upp við einhvern ofn eða eitthvað, sem hefði verið hart viðkomu. Ákærði hefði síðan tekið vitnið upp og farið með það fram og hent því niður stigann. Hefði vitnið rúllað niður stigann. Ákærði hefði haldið áfram að hamast á vitninu þarna niðri, eins og það er orðað í lögregluskýrslu. Þá hefði hann sparkað í bakið á vitninu. Vitnið gaf skýrslu á ný hjá lögreglu á árinu 2000, líklega 4. maí, en dagsetning skýrslunnar er ekki ljós. Vitnið skýrði á sömu lund og fyrr frá aðdraganda ætlaðra átaka í sjónvarpsholinu. Ákærði og Berglind hefðu farið að rífast og ákærði í framhaldi af því ráðist á vitnið. Hefði hann slegið vitnið í andlitið (vitnið mundi ekki hversu oft). Þá hefði ákærði snúið upp á vinstri höndina og fett fingurna aftur með þeim afleiðingum að baugfingur hefði brotnað. Ákærði hefði rifið vitnið upp úr sófanum og tekist að ná vitninu undir sig. Vitnið hefði dottið á gólfið og lent með höfuðið utan í einhverju hörðu, hugsanlega ofni. Vitnið sagði að sér hefði tekist að krafla sig fram á stigapallinn með ákærða yfir sér og hefði hann haldið vinstri hendi fyrir aftan bak. Vitnið kvaðst ekki vera meðvitað um það hvað hefði gerst nákvæmlega eftir það, þ.e.a.s. hvort vitninu hefði tekist að standa upp sjálfu eða hvort ákærði hefði togað hann upp. Sagði vitnið að það hefði verið ýtt aftan á það með þeim afleiðingum að það hefði dottið niður stigann. Sagðist vitnið hafa verið á stigapallinum þegar því var ýtt. Vitninu var bent á misræmi, sem væri á framburði hans annars vegar í viðtalsskýrslu 20. nóvember 1999 og framburðarskýrslu hans hjá lögreglu 29. nóvember 1999. Kvað hann framburð sinn frá 29. nóvember réttan og hefði hann gefið aðeins nákvæmari lýsingu á atburðinum hér að ofan. Vitnið sagði að þegar það hefði legið fyrir neðan stigann hefði ákærði komið og sparkað í vitnið. Hefði vitnið legið þarna í einum kút og myndi það ekki hvar ákærði sparkaði í hann. Þá kvaðst vitnið ekki vita hvort ákærði kýldi það, en það hefði a.m.k. fundið fyrir höggum. Hefði hann verið hálfrænulaus af kvölum. Hefði vitnið heyrt í Elfu í fjarska, gargandi, en það hefði ekki vitað hvar hún hefði staðið. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna hvort Elfa stóð á stigapallinum ásamt ákærða. Þegar vitnið var innt nánar út í það sagði það að það væri eins og því fyndist að Elfa hefði verið fyrir framan vitnið, þ.e.a.s. niðri í stiganum, þegar vitninu var ýtt niður stigann. Vitnið, Elfa Björnsdóttir, kvað Magnús hafa hringt í sig umrædda nótt og tjáð sér að hann hefði orðið fyrir árás. Einnig hefðu verið teknar af honum gullfestar og peningar. Kvaðst vitnið hafa tekið leigubíl heim til Magnúsar og hefði Magnús verið miður sín yfir því sem gerst hafði. Aðspurt kvaðst vitnið enga áverka hafa séð á Magnúsi og hann hefði ekki verið blóðugur. Þeim Magnúsi hefði talast svo til að þau færu til Berglindar og ákærða og sæktu þessa hluti, sem Magnús taldi sig eiga hjá þeim. Hefðu þau tekið leigubíl að Baldursgötu og látið hann bíða fyrir utan þar sem þau hefðu ætlað að stoppa stutt við. Hún kvað allt hafa farið friðsamlega fram til að byrja með en síðan hefðu hafist átök, sem byrjað hefðu uppi í stofunni og síðan færst niður stigann. Vitnið kvaðst ekki muna hver tildrög átakanna voru, en þegar það var innt eftir því hvort umræða um samkynhneigð hefði komið af stað ósætti og síðar átökum, kvað vitnið það rétt vera. Aðspurt kvaðst vitnið hafa verið undir áhrifum áfengis, en þó ekki verið mjög drukkið. Þegar vitnið var innt eftir því hver hefði byrjað átökin og beðið að lýsa því hvernig þau þróuðust kvaðst vitnið ekki geta lýst því í smáatriðum. Kvaðst vitnið ekki geta svarað því hver hefði byrjað átökin. Þau hefðu setið í sófa og á stólum í holinu. Þar hefðu áflogin byrjað, eins og vitnið orðaði það, og síðar færst fram á stigapall og niður stigann. Þar hefði ákærði barið Magnús, en vitnið kvaðst ekki hafa tekið eftir því hvar höggin lentu. Hún staðfesti það, sem fram kemur í framburðarskýrslu hennar hjá lögreglu 21. nóvember 1999, að Magnús hefði borið á ákærða að hann væri samkynhneigður og að ákærði hefði orðið reiður. Vitnið og Magnús hefðu setið í sófanum, en ákærði og Berglind í stólunum gegnt sófanum. Ákærði hefði setið á ská á móti Magnúsi og Magnús hefði setið næst hurðinni að stigaganginum. Vitnið staðfesti einnig að ákærði hefði staðið upp og byrjað að slá Magnús mörgum sinnum í andlit og háls og látið höggin dynja í andlit og á háls Magnúsar þar sem hann sat í sófanum. Síðan hefði Magnús náð að standa upp og ákærði þá tekið hálstak á Magnúsi og dregið hann fram á stigaganginn. Vitnið hefði sagt við Magnús að þau skyldu forða sér og vitnið farið á undan niður stigann. Vitnið kvaðst hafa staðið í miðjum stigapallinum þegar þeir ákærði og Magnús hefðu komið fljúgandi niður stigann, eins og vitnið orðaði það. Fyrst hefði Magnús komið niður stigann og ákærði á eftir. Þegar vitnið var innt eftir því hvernig það hefði viljað til að Magnús kom fljúgandi niður stigann svaraði vitnið: “Ég býst við að honum hafi verið hrint.” Kvaðst vitnið ekki hafa séð að honum hefði verið hrint. Magnús hefði aðeins lent á henni, en ekki alvarlega. Magnús hefði lent niðri við útidyr þar sem átökin hefðu haldið áfram. Ákærði hefði komið á eftir Magnúsi, slegið hann og tekið hann kverkataki. Vitnið kvaðst ekki hafa séð að ákærði sparkaði í Magnús. Vitninu var kynntur framburður þess hjá lögreglu þar sem haft er eftir vitninu að Magnús hefði verið á leið niður stigann og verið staddur rétt fyrir ofan miðju stigans þegar ákærði hefði hrint honum þannig að Magnús hefði hrasað niður stigann. Kvaðst vitnið muna eftir þessu, en kvaðst þó ekki hafa séð hvernig ákærði hrinti Magnúsi. Vitnið var þessu næst spurt að því hvort það teldi að Magnúsi hefði verið hrint og svaraði vitnið því svo til: “Ég tel ekkert að honum hafi verið hrint; honum var hrint.” Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa séð hvernig ákærði hrinti Magnúsi. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa orðið vitni að atviki, sem gæti skýrt brot á baugfingri Magnúsar. Var þá borið undir vitnið atriði í skýrslu þess hjá lögreglu 20. nóvember 1999 þar sem eftir vitninu er haft að það hafi séð að ákærði tók um baugfingur hægri handar á Magnúsi og sveigði fingurinn aftur. Kvaðst vitnið þá muna eftir þessu, en það hefði verið búið að gleyma þessu atviki. Aðspurt kvað vitnið að umrætt atvik hefði sennilega átt sér stað niðri í gangi eða niðri við útidyrahurð, eins og vitnið orðaði það. Undir vitnið var borið atriði í lögregluskýrslu frá 20. nóvember 1999 þar sem haft er eftir vitninu að ákærði hefði gengið með Magnús að stiganum og hent honum niður. Jafnframt að Magnús hefði rúllað niður stigann og steinrotast. Kvað vitnið þetta ekki rétt eftir sér haft. Þá var borið undir ákærðu atriði í lögregluskýrslu frá 21. nóvember 1999 þar sem haft er eftir vitninu að Magnús hefði verð staddur rétt fyrir ofan miðju stigans þegar ákærði hefði hrint Magnúsi þannig að hann hefði hrasað niður stigann. Kvaðst vitnið telja að þetta væri rétt. Vitnið kvaðst hafa reynt að rífa ákærða ofan af Magnúsi þar sem hann lá við útidyrahurðina og sagðist hafa kallað upp til Berglindar og beðið hana um að hringja á sjúkrabíl. Þegar vitninu var bent á að í frumskýrslu lögreglu kæmi fram að ákærði hefði hringt á lögreglu, sagði vitnið að sér fyndist endilega að Berglind hefði hringt, en vel gæti verið að ákærði hefði séð um að hringja. Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 20. nóvember 1999 kl. 10.41. Um átökin á heimili ákærða sagði vitnið að Magnús hefði borið á ákærða að hann væri laumuhommi og hefði ákærði þá snöggreiðst og ráðist á Magnús. Hefði hann tekið Magnús upp úr sófanum og tekið um hálsinn á honum að framanverðu. Sagðist vitnið hafa séð ákærða taka um um baugfingur hægri handar á Magnúsi og hefði hann sveigt fingurinn aftur. Ákærði hefði gengið með Magnús að stiganum og hent honum niður. Hefði Magnús rúllað niður stigann og steinrotast. Óskaði vitnið eftir því að skýrslutöku væri frestað þar sem vitnið væri í sjokki og aðframkomið af þreytu. Vitnið gaf skýrslu á ný hjá lögreglu daginn eftir kl. 10.00. Vitnið kvað Magnús hafa verið nýkominn úr lýtaaðgerð og því með ör fyrir ofan bæði augnlokin. Hins vegar hefði Magnús verið með bólgnar varir og með áverka við nef og undir augum eftir átökin á Bergstaðastræti. Um átökin í stofunni að Baldursgötu sagði vitnið að Magnús hefði ýjað að því að ákærði væri samkynhneigður og að ákærði hefði orðið reiður. Hefði ákærði staðið upp og byrjað að slá Magnús mörgum sinnum í andlit og á háls Magnúsar þar sem hann sat í sófanum. Magnús hefði náð að standa upp og hefði ákærði þá tekið hann hálstaki og dregið hann út á stigaganginn. Þegar ákærði hefði verið búinn að draga Magnús að stiganum hefði hann sleppt takinu á honum. Kvaðst vitnið þá hafa sagt við Magnús: “Forðum okkur”. Sagðist hún hafa verið komin á undan Magnúsi niður stigann og verið stödd í miðjum stiganum og horft í átt til Magnúsar og ákærða, sem þá hefðu verið staddir efst í stiganum. Hefði Magnús byrjað að ganga niður stigann og verið staddur rétt fyrir ofan miðju stigans þegar ákærði hefði hrint Magnúsi þannig að hann hefði hrasað niður stigann. Sagði vitnið að hann hefði í fyrstu rúllað niður þangað sem vitnið stóð. Þar hefði Magnús lent á fótunum alveg klesst upp við vegginn, en misst aftur jafnvægið og fallið áfram niður stigann og að lokum hafnað við útidyrahurðina. Ákærði hefði fylgt á eftir og haldið áfram að berja á Magnúsi þar sem hann lá á gólfinu við útidyrahurðina. Hefði ákærði slegið Magnús í andlitið og einnig tekið hann hálstaki. Ákærði hefði alltaf slegið Magnús með krepptum hnefa og alltaf slegið hann í andlitið. Vitnið kvaðst hafa kallað á Berglindi og beðið hana um að hringja á lögreglu. Hefði ákærði þá hætt að berja á Magnúsi og farið upp í íbúðina. Ákærði hefði verið í buxum en ber að ofan þegar hann réðst á Magnús. Vitnið, Berglind Guðmundsdóttir, sambýliskona ákærða, kvað Magnús Torfa hafa komið á heimili þeirra ákærða umrætt kvöld. Hefði hann komið með vínflösku með sér og boðið þeim í glas. Síðar um nóttina hefðu þau ákveðið að fara á skemmtistað. Magnúsi hefði verið meinaður aðgangur að skemmtistaðnum Grandrokki vegna ölvunar og hefðu þau því farið á skemmtistaðinn Spotlight. Sagði vitnið að Magnúsi hefði verið vísað út af þeim stað. Einnig hefðu þau ákærði farið út af staðnum og gengið áleiðis heim til sín. Hefði Magnús elt þau og rætt um samkynhneigða karlmenn. Sagðist vitnið hafa sagt við Magnús að nú væri komið nóg af þessu “hommakjaftæði” og hefði Magnús þá hrint vitninu þannig að það hefði dottið í götuna og gat komið á buxur þess. Vitnið kvað Magnús hafa ýtt á öxlina á vitninu og dottið ofan á sig, hvort sem það hefði verið viljandi eða óviljandi. Eftir fallið hefði Magnús verið blóðugur. Eftir þetta hefðu leiðir skilist með þeim Magnúsi. Síðar um nóttina hefði Magnús komið á heimili þeirra ákærða ásamt Elfu Björnsdóttur. Kvaðst vitnið halda að tilgangurinn með heimsókninni hefði verið sá að ná í fatapoka, sem Magnús hafði skilið eftir á Baldursgötunni. Ákærði hefði sagt Magnúsi að hann fengi ekki fötin nema hann borgaði vitninu buxurnar, sem skemmst hefðu. Hefði Magnús þá verið með einhvern ruddaskap og ákærði vísað þeim Elfu út. Eitthvert smávægilegt rifrildi hefði átt sér stað og hefði ákærði snúið upp á löppina á Magnúsi og sagt honum að hunska sér út. Engin átök eða slagsmál hefðu hins vegar átt sér stað og ekki kvaðst vitnið hafa séð ákærða grýta Magnúsi út, eins og vitnið orðaði það. Þá kvaðst vitnið ekki hafa séð ákærða kýla Magnús í íbúðinni. Vitnið kvaðst hafa setið í sófanum í holinu þegar Magnús gekk niður stigann á leiðinni út og datt. Þá kvað vitnið ákærða hafa staðið í dyrunum allan tímann. Vitnið kvaðst hafa legið í sófanum í holinu og á móti sófanum sé stór spegill, sem hefði gert vitninu kleift að fylgjast með því, sem fram fór í dyrunum fram á stigapallinn. Vitnið kvaðst hafa verið í holinu allan tímann og það hefði dormað á meðan beðið var eftir sjúkrabílnum. Vitnið kvað ákærða hafa hringt á lögreglu og sjúkrabíl. Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 21. nóvember 1999. Skýrði það í megindráttum á sömu lund frá aðdraganda átakanna á Bergstaðastræti og hér fyrir dómi. Vitnið skýrði svo frá atburðinum á Bergstaðastræti að Magnús hefði tekið um háls vitnisins að framanverðu og síðan ýtt á bak þess þannig að það hefði dottið í götuna. Hefði vitnið meiðst á hné, hálsi og höfði og buxur þess skemmst. Kvað vitnið að fokið hefði í ákærða og hefði hann tuskað Magnús aðeins til og togað í hárið á honum þannig að hárkolla hefði farið af Magnúsi. Síðar um nóttina hefðu Magnús og Elfa komið heim til þeirra ákærða. Hefði Magnús heimtað að fá fötin sín, en ákærði sagt við hann að þau fengi hann ekki fyrr en hann borgaði buxur vitnisins, sem skemmst hefðu. Magnús hefði neitað að borga buxurnar og hefði ákærði þá beðið þau Magnús og Elfu að fara út. Magnús og Elfa hefðu byrjað að “garga og góla” þarna, eins og vitnið orðaði það, en ákærði hefði þá ýtt Magnúsi að stigapallinum. Kvaðst vitnið hafa legið á sófanum og því ekki séð hvað gerðist frammi. Sagðist það hafa heyrt einhverja dynki og síðan einhver æ og ó og heyrt Elfu segja: “Reyndu að standa í lappirnar.” Vitnið kvaðst ekki hafa farið fram, það hefði sofnað í sófanum og vaknað þegar lögreglan hefði verið farin. Vitnið var innt eftir því hvort einhver átök hefðu átt sér stað í sjónvarpsholinu áður en Magnús og Elfa fóru. Kvað vitnið nei við, hann hefði aðeins ýtt þeim fram á stigapallinn, eins og haft er eftir vitninu í lögregluskýrslu. Niðurstaða: Atburður sá, er um ræðir í máli þessu, átti sér stað undir morgun í íbúð ákærða og vitnisins, Berglindar Guðmundsdóttur. Ekki eru aðrir til frásagnar um viðskipti þeirra ákærða og Magnúsar Torfa Sighvatssonar í íbúðinni en þeir sjálfir og vitnin, Elfa Björnsdóttir og Berglind Guðmundsdóttir, sambýliskona ákærða. Hún kveðst þó ekki hafa orðið vitni að því er Magnús féll niður títtnefndan stiga. Fram hefur komið að ákærði, og framangreind vitni voru öll undir áhrifum áfengis og samkvæmt alkóhólrannsókn á blóðsýni úr vitninu Magnúsi var hann afar drukkinn. Ákærði hefur staðfastlega neitað sakargiftum í máli þessu. Nokkurt ósamræmi er á frásögn vitnisins, Berglindar, á atvikinu á Bergstaðastræti hjá lögreglu og hér fyrir dómi. Hjá lögreglu lýsti vitnið atvikinu á þann veg að Magnús hefði ráðist á vitnið, tekið um háls þess að framanverðu og síðan ýtt á bak þess þannig að það hefði dottið í götuna. Hér fyrir dómi var lýsing vitnisins á sama atviki hins vegar sú, að Magnús hefði hrint sér með því að ýta á öxlina á vitninu og dottið síðan ofan á vitnið, hvort sem það hefði verið viljandi eða óviljandi eins og vitnið orðaði það. Hjá lögreglu lýsti vitnið atburðinum í íbúðinni á þann hátt að ákærði hefði beðið þau Magnús og Elfu að fara út, þau farið að garga og góla, eins og það er orðað í lögregluskýrslu, og hefði ákærði þá ýtt þeim fram á stigapallinn. Kvaðst vitnið hafa legið í sófanum og því ekki séð hvað gerðist frammi. Hér fyrir dómi sagði vitnið að þeim Elfu og Magnúsi hefði verið vísað út úr íbúðinni með því að þeim hefði verið sagt að hunska sér út. Engin átök hefðu hins vegar átt sér stað. Þó mundi vitnið eftir því að ákærði hefði snúið upp á fótinn á Magnúsi og sagt honum að koma sér út. Það hefði hins vegar ekki séð ákærða grýta Magnúsi út, eins og vitnið orðaði það. Þá kvaðst vitnið hafa séð ákærða standa á stigapallinum allan tímann. Vitnið hefði legið í sófanum í holinu og á móti honum væri stór spegill, sem gerði þeim, sem lægi í sófanum, kleift að sjá fram á stigapallinn. Umræddur spegill kemur ekki fram á ljósmyndum, sem lögregla tók á vettvangi. Dómari gekk á vettvang ásamt aðilum og kom þá í ljós að á veggnum á móti sófanum úti í horni er fremur mjór spegill. Til þess að sjá fram á stigapallinn úr sófanum verður viðkomandi hins vegar að fara alveg út í hornið á móti. Á ljósmyndum lögreglu kemur hins vegar fram að er þær voru teknar var sófinn um það bil 20 til 30 cm frá veggnum og lítið borð á milli sófa og veggjar. Fram hefur komið að vitnið var undir áhrifum áfengis í umrætt sinn og er lögregla kom á staðinn lá vitnið í sófanum og svaf ölvunarsvefni. Vitnið hefur því verið afar drukkið þegar hér var komið sögu. Í ljósi ofangreinds og þess að vitnið er sambýliskona ákærða þykir framburður þess ekki trúverðugur. Nokkurt ósamræmi er á framburði ákærða fyrir dómi og hjá lögreglu. Fyrir dómi bar ákærði um það að Magnús hefði annað hvort rekið sig í fótinn á Elfu eða Elfa brugðið fyrir hann fæti þegar Magnús hljóp niður stigann, en slíkt kemur ekki fram í skýrslu hans hjá lögreglu 21. nóvember 1999. Þar segir hins vegar að Elfa hafi gengið á eftir Magnúsi niður stigann. Hafi hann tekið eftir því að Magnúsi skrikaði fótur, fór fram fyrir sig og skall á útidyrahurðina. Þá bar ákærði um það í fyrsta skipti fyrir dómnum að Elfa hefði hvatt til þess, eftir að Magnús datt niður stigann, að þau sendu hann heim í leigubíl en skiptu á milli sín 50.000 krónum úr seðlaveski Magnúsar. Þykir þetta ótrúverðugt í ljósi framburðar Magnúsar hér fyrir dómi. Vitnið, Elfa Björnsdóttir, átti sem fyrr greinir í nokkrum erfiðleikum með að skýra sjálfstætt frá atburðum hér fyrir dómi. Hún staðfesti það, sem er eftir henni haft í lögregluskýrslum, og er framburður hennar fyrir dómi ekki í ósamræmi við framburð hennar hjá lögreglu í meginatriðum þótt vitnið virtist eiga í erfiðleikum með að rifja upp atburðarásina fyrir dómnum og greina frá henni í smáatriðum. Framburður vitnisins, Magnúsar Torfa Sighvatssonar, hér fyrir dómi er í öllum meginatriðum í samræmi við skýrslur vitnisins hjá lögreglu 29. nóvember 1999 og á árinu 2000. Í vottorði yfirlæknis á slysadeild, sem ritað er að beiðni lögreglu um tveimur tímum eftir komu vitnisins þangað er haft eftir vitninu að það hefði orðið fyrir árás af hálfu ákærða og er hann nafngreindur. Enn fremur er haft eftir vitninu að ofbeldið hefði einkum verið fólgið í margendurteknum hnefahöggum í andlit, en einnig hefði því verið hent niður stiga í húsi. Þá tók lögregla stutta skýrslu af vitninu á slysadeild skömmu eftir hádegi 20. nóvember 1999. Er sú skýrsla einnig í samræmi við síðari skýrslur vitnisins hjá lögreglu og framburð vitnisins fyrir dómnum, en þar greinir vitnið þó hvorki frá því að ákærði hafi snúið upp á baugfingur þess né frá áframhaldandi líkamsmeiðingum ákærða við útidyrahurð. Við mat á henni ber að hafa í huga að hún er tekin skömmu eftir komu vitnisins á slysadeild, en þangað kom vitnið stórslasað, og skýrslan er ekki undirrituð af vitninu. Skýrslur vitnisins hjá lögreglu og framburður þess hér fyrir dómi er einnig í stórum dráttum í samræmi við framburð vitnisins, Elfu, fyrir lögreglu og hér fyrir dómi. Með vísan til ofangreinds þykir framburður fyrrgreindra vitna trúverðugur. Fram hefur komið hjá vitnunum, Magnúsi og Elfu, að er þau komu á heimili þeirra ákærða og Berglindar umrædda nótt hafi Magnús haldið því fram að ákærði væri samkynhneigður. Hafi ákærði reiðst Magnúsi vegna þessara ummæla og deilur og rifrildi upphafist með þeim fjórum. Á þetta sér einnig stoð í framburði ákærða og vitnisins, Berglindar, hér fyrir dómi. Vitnið, Magnús, hefur borið um það að í framhaldi þessa hafi ákærði ráðist á vitnið þar sem það hafi setið í sófanum og byrjað að berja það og slá í framan. Hafi vitnið borðið hendur fyrir andlit sér, en þá hafi ákærði þrýst fingrum hans aftur og snúið upp á höndina þannig að hún hefði lent aftur fyrir bak og einn fingurinn brotnað. Vitnið, Elfa, staðfesti hér fyrir dómi það sem fram kemur í skýrslu hennar hjá lögreglu að ákærði hefði, er deildur upphófust vegna dylgna Magnúsar um samkynhneigð ákærða, staðið upp og byrjað að slá Magnús mörgum sinnum í andlit og háls og látið höggin dynja í andlit og á háls hans þar sem hann sat í sófanum. Jafnframt staðfesti vitnið að hafa séð ákærða taka um baugfingur á Magnúsi og sveigja fingurinn aftur. Vitnið, Magnús, hefur lýst því að hann hafi komist skríðandi fram á stigapall með ákærða yfir sér og hafi þar náð að rísa á fætur. Þar sem vitnið hafi verið statt efst í stiganum hafi hann fundið að sér hafi verið ýtt eða að sparkað hafi verið í hann, þannig að hann hafi henst niður stigann. Vitnið, Elfa, hefur lýst því að ákærði hafi tekið Magnús hálstaki og dregið hann út á stigapallinn. Hafi vitnið þá sagt við Magnús að þau skyldu forða sér og farið niður stigann. Hafi vitnið staðið í miðjum stigaganginum þegar það hefði séð Magnús koma fljúgandi niður stigann og ákærða á eftir. Kvaðst vitnið ekki hafa séð hvernig ákærði hrinti Magnúsi, en að það hafi séð að Magnúsi var hrint niður stigann. Fram hefur komið að vitnið, Berglind, sat í sófanum í sjónvarpsholinu á meðan þessu fór fram, en ákærði hefur viðurkennt að hafa staðið á stigapallinum þegar Magnús hrasaði niður stigann. Fram kom hjá ákærða og vitninu, Berglindi, fyrir dómnum að ákærði hefði vísað þeim Magnúsi og Elfu út úr íbúðinni, en þau ekki farið strax og sagði ákærði að Magnús hefði haldið áfram að tuða um fötin. Þá viðurkenndi ákærði að hafa tekið í öxlina á Magnúsi til að lyfta honum upp úr sófanum og koma honum út þar sem Elfa hefði verið farinn niður stigann fyrir löngu. Hefði Magnús risið á fætur en verið svo drukkinn að hann hefði varla staðið í fæturna. Þykir þessi framburður styðja framburð vitnanna, Magnúsar og Elfu, að ákærði hafi beitt valdi til að vísa Magnúsi út úr íbúðinni. Ósamræmi er á lýsingu ofangreindra vitna á ætluðum áframhaldandi barsmíðum ákærða á vitninu, Magnúsi, við útidyrahurð. Vitnið, Elfa, hefur borið fyrir lögreglu og hér fyrir dómi að Magnús hafi lent við útidyrahurð og þar hafi ákærði haldið áfram að berja Magnús og slá. Hafi ákærði slegið Magnús og tekið hann kverkataki. Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa séð ákærða sparka í Magnús. Vitnið, Magnús, hefur hins vegar haldið fram að ákærði hafi haldið áfram að sparka í vitnið og berja það þar sem það lenti við útidyrnar. Hafi ákærði sparkað í andlit og brjóst á vitninu þar til vitnið missti meðvitund og hefði það ekki rankað við sér fyrr en á sjúkrahúsinu. Í skýrslu þeirri, sem vitnið gaf fyrir lögreglu 20. nóvember 1999 sagðist vitnið hins vegar ekki hafa misst meðvitund, en það hefði verið mjög kvalið og í skýrslu vitnisins hjá lögreglu 29. nóvember s.á. sagðist vitnið hafa verið hálfrænulaust af kvölum í umrætt sinn. Í frumskýrslu lögreglu segir að er hún kom á vettvang hafi ákærði opnað útidyr hússins fyrir lögreglu og sjúkraflutningamönnum. Hafi Magnús legið á gólfinu fyrir innan dyrnar, nokkuð blóðugur í andliti við munn og nef. Þá hafi verið sjáanlegt blóð á mottu við útidyr og á vegg í stigagangi. Nokkuð virðist því hafa blætt úr vitninu, Magnúsi, eftir að það lenti við útidyrnar. Í frumskýrslu segir að ákærði hafi verið ber að ofan og hvorki blóð né áverka að sjá á honum. Þykir það ekki benda til þess að ákærði hafi tekið á vitninu við útidyrnar. Þá segir í skýrslunni að Magnús hafi verið með meðvitund og hafi hann beðið Elfu um að hjálpa sér heim því þangað vildi hann fara og ekkert annað. Er þetta í ósamræmi við framburð vitnisins hér fyrir dómi um að það hefði misst meðvitund við barsmíðar ákærða við útidyr og ekki rankað við sér fyrr en á sjúkrahúsinu. Í vottorði yfirlæknis á slysadeild, sem ritað er að beiðni lögreglu um tveimur tímum eftir komu vitnisins þangað er haft eftir vitninu að það hefði orðið fyrir árás af hálfu ákærða og er hann nafngreindur. Enn fremur er haft eftir vitninu að ofbeldið hefði einkum verið fólgið í margendurteknum hnefahöggum í andlit, en einnig hefði því verið hent niður stiga í húsi. Með vísan til ofangreinds og framburðar vitnanna, Magnúsar og Elfu, þykir sannað, þrátt fyrir að ákærði hafi staðfastlega neitað sakargiftum, að hann hafi veist að Magnúsi í íbúðinni að Baldursgötu, slegið hann hnefahögg í andlitið og snúið upp á hendur hans, eins og greinir í ákæru. Þá þykir enn fremur sannað með framburði ofangreindra vitna að ákærði hafi hrint Magnúsi er hann gekk niður niður stiga að útidyrum hússins með þeim afleiðingum að hann hrasaði niður stigann. Með hliðsjón af fyrrgreindu ósamræmi, sem er á framburði vitnanna, Magnúsar og Elvu, um ætluð átök við útidyrahurð og því, sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu, þykir hins vegar ósannað að ákærði hafi slegið Magnús Torfa mörg hnefahögg í andlitið þar sem hann lá við útidyr. Ákærði bar hér fyrir dómi að Magnús hefði verið rispaður í andliti eftir fallið á Bergstaðastræti fyrr um kvöldið og að blætt hefði úr honum. Vitnið, Elfa, kvaðst hins vegar enga áverka hafa séð á Magnúsi þegar hún kom heim til hans um nóttina og hann hefði ekki verið blóðugur. Vitnið, Berglind, kvað Magnús hafa verið blóðugan eftir fallið á Bergstaðastræti. Vitnið, Magnús, bar fyrir dómnum að skurðir fyrir ofan augu eftir lýtaaðgerð hefðu að öllum líkindum rifnað upp við átökin á Bergstaðastræti og hefði það verið alblóðugt á eftir. Þá kvaðst vitnið ekki geta útilokað að hann hefði fengið skurði á neðri vör eftir fyrrgreind átök. Með vísan til framangreinds þykir ósannað að Magnús hafi hlotið skurði á neðri vör eftir átökin í íbúðinni á Baldursgötu. Verknaður ákærða var til þess fallin að valda þeim áverkum, sem Magnús bar að öðru leyti við komu hans á slysadeild, enda segir í vottorði Jóns Baldurssonar yfirlæknis á slysadeild, sem ritað var tveimur tímum eftir komu Magnúsar á slysadeild, að við fyrstu athugun hafi greinst ýmsir áverkar, sem vel gætu samrýmst alvarlegu ofbeldi. Í læknisvottorði Guðmundar Ásgeirs Björnssonar, sérfræðings í kjálka- og munnholssjúkdómum, segir hins vegar að hann geti ekki staðfest hvort áverkar á kjálkum eða tönnum væru eftir fall eða líkamsárás. Með vísan til framangreindra vottorða þykir sannað að Magnús hafi við líkamsárás ákærða og fallið niður títtnefndan stiga hlotið opið beinbrot á neðri kjálka og beinbrot á baugfingri. Háttsemi ákærða er rétt færð til refsiákvæðis í ákæru. Sakarferill ákærða er langur og nær allt aftur til ársins 1973. Hefur ákærði sætt viðurlögum m.a. fyrir áfengislagabrot, umferðarlagabrot, þjófnað, fjársvik, skjalafals, líkamsárás, eignaspjöll, nytjastuld og ólögmæta meðferð fundins fjár. Sakarferill ákærða er samfelldur. Hinn 5. nóvember 1992 var ákærði dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir fjársvik. Hinn 23. febrúar 1995 var ákærði dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot og var jafnframt sviptur ökurétti ævilangt frá sama degi. Hinn 13. ágúst 1996 fékk ákærði reynslulausn í eitt ár á eftirstöðvum refsingar, 61 degi. Hinn 14. september 1998 gekkst ákærði undir greiðslu sektar vegna fíkniefnalagabrots og 1. júní 1999 var ákærði dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í tvö ár fyrir ólögmæta meðferð fundins fjár. Síðast var ákærði dæmdur í 4 mánaða fangelsi hinn 17. apríl sl. fyrir ölvun við akstur og akstur án ökuréttar og var dómurinn frá 1. júní 1999 dæmdur með. Jafnframt var ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá sama tíma. Brot það, sem ákærði er nú sakfelldur fyrir, framdi hann áður en dómurinn frá 17. apríl sl. gekk og ber því að dæma ákærða hegningarauka, sbr. 78. gr. alm. hegningarlaga. Árás ákærða og sú háttsemi hans að hrinda Magnúsi niður stigann var fólskuleg, sérstaklega með hliðsjón af því hversu drukkinn Magnús var. Þá eru afleiðingar árásarinnar alvarlegar, m.a. opið beinbrot á kjálka. Með hliðsjón af framangreindu og sakarferli ákærða þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Georgssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 100.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Lúðvíks Emils Kaaber hdl., sem þykir hæfileg að fjárhæð 60.000 krónur vegna starfa réttargæslumanns á rannsóknarstigi málsins og við meðferð málsins fyrir dómi. Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna veikinda dómara og embættisanna. Ragnheiður Bragadóttir settur héraðsdómari kvað upp dóminn. Dómsorð: Ákærði, Sigurður Stefán Almarsson, sæti fangelsi í sex mánuði. Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Georgssonar hrl., að fjárhæð 100.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Lúðvíks Emils Kaaber hdl, að fjárhæð 60.000 krónur. |
Mál nr. 303/2011 | Kærumál Þinglýsing Fasteign | Ó kærði úrskurð héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun þinglýsingastjóra og lagt fyrir hann að afmá tiltekin skjöl úr þinglýsingabókum. Með samningi 27. maí 1997 leigði S Ó spildu undir hús og var samningnum þinglýst 4. júní 1997. Síðar kom í ljós að spildan lá innan merkja jarðarinnar B, sem H ehf. var þinglýstur eigandi að, svo sem þau voru mörkuð með dómi Hæstaréttar 7. október 2010 í máli nr. 569/2009. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, sagði m.a. að S hefði brostið þinglýsta heimild til að ráðstafa lóð úr landi B. Hefði þinglýsingastjóra borið að vísa lóðarleigusamningnum 27. maí 1997 frá þinglýsingu og úr því yrði ekki bætt með því að skrá athugasemd í þinglýsingabók. Var engu talið breyta þó langt væri um liðið frá því samningnum var þinglýst enda væri réttur til að krefjast leiðréttingar samkvæmt 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 ekki bundinn ákveðnum tímamörkum. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 2. maí 2011, þar sem felld var úr gildi ákvörðun þinglýsingastjórans í Stykkishólmi 10. janúar 2011 og lagt fyrir hann að afmá „eftirfarandi skjöl úr þinglýsingarbókum: a) lóðarleigusamning 27. maí 1997 milli Snæfellsbæjar og varnaraðila Ólínu Gunnlaugsdóttur, b) veðskuldabréf til Ferðamálasjóðs 23. júní sama ár, c) veðskuldabréf til varnaraðila Arion banka hf. 20. október 2010 og d) tryggingabréf 18. nóvember 2007 til Sparisjóðs Mýrasýslu.“ Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og framangreind ákvörðun þinglýsingastjóra staðfest. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðili verði dæmdur til að greiða kærumálskostnað. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Ólína Gunnlaugsdóttir, greiði varnaraðila, Hótel Hellnum ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað. |
Mál nr. 633/2013 | Fasteignakaup Galli Riftun Skaðabætur Fasteignasala | EG höfðaði mál gegn G, D, EV og F ehf. vegna ætlaðra galla á fasteign sem EG hafði keypt af G og D. Fasteignasalinn EV hjá fasteignasölunni F ehf. hafði séð um söluna. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að eignin hefði verið gölluð þar sem D og G höfðu fyrir söluna ráðist í framkvæmdir sem ollu tjóni á eigninni vegna þess að frágangur þeirra var ófullnægjandi. Á hinn bóginn var ekki fallist á með EG að ástand málningar, glugga eða svalahurðar hefði falið í sér galla. Kröfum EG um riftun eða ógildingu viðskiptanna var hafnað. G og D voru sýknuð af kröfu um skaðabætur með vísan til 2. mgr. 25. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda hafði EV starfsábyrgðartryggingu sem tók til tjónsins og atvik voru ekki á þann veg sem mælti fyrir um í 2. mgr. 19. gr. sömu laga. Var EV og F ehf. því gert að greiða EG skaðabætur vegna úrbóta á fasteigninni. | Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari. Aðaláfrýjendurnir Díana Jóhanna Svavarsdóttir og Guðmundur Þ. Eyjólfsson skutu málinu til Hæstaréttar 26. september 2013. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda en til vara að fjárkröfur verði lækkaðar. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Aðaláfrýjendurnir Erna Valsdóttir og F.K. Reykjavík ehf. skutu málinu til Hæstaréttar 25. október 2013. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þau að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að öðru leyti en því að tildæmd fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá dómsuppsögudegi í Hæstarétti til greiðsludags og málskostnaður verði lækkaður auk þess sem aðaláfrýjendum verði dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 3. október 2013. Hún krefst þess aðallega að staðfest verði riftun 4. september 2009 á kaupsamningi hennar og aðaláfrýjendanna Guðmundar og Díönu 21. febrúar 2008 um fasteignina að Ásgarði 131 í Reykjavík. Til vara er þess krafist að kaup samkvæmt umræddum samningi verði ógilt. Í báðum tilvikum er þess krafist að aðaláfrýjendum verði sameiginlega gert að greiða gagnáfrýjanda 30.032.401 krónu með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 af 3.500.000 krónum frá 21. febrúar 2008 til 1. maí sama ár, af 8.500.000 krónum frá þeim degi til 5. júní sama ár, af 27.000.000 krónum frá þeim degi til 23. júní sama ár, af 29.000.000 krónum frá þeim degi til 4. október 2009 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 30.032.401 krónu frá þeim degi til greiðsludags gegn afhendingu fasteignarinnar til aðaláfrýjenda. Að því frágengnu krefst gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjendur verði sameiginlega dæmd til að greiða sér 8.718.940 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. apríl 2011 til greiðsludags. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi hefur stefnt Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti. I Árið 2006 keyptu aðaláfrýjendurnir Díana og Guðmundur raðhús að Ásgarði 131 í Reykjavík og fengu þau eignina afhenta þá um haustið. Nokkru síðar brutu þau gat á vegg jarðhæðar hússins og hófust handa við að grafa jarðveg úr holrými í grunni hússins í því skyni að innrétta frístundaherbergi. Eftir að mikið magn jarðvegs hafði verið grafið úr rýminu var hætt við þessi áform og rýminu lokað með því setja trégrind í gatið og klæða hana með plasti og gifsplötum. Þegar aðaláfrýjendurnir Díana og Guðmundur höfðu búið í eigninni í tæplega eitt og hálft ár ákváðu þau að selja hana. Fólu þau fasteignasölunni Fasteignakaup að annast söluna, en sú fasteignasala hafði einnig haft milligöngu þegar þau keyptu eignina. Fasteignasalan var rekin af aðaláfrýjandanum F.K. Reykjavík ehf. og þar starfaði aðaláfrýjandinn Erna. Hún er löggiltur fasteignasali og var með starfsábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda. Fasteignasalan tók saman söluyfirlit og þar kom meðal annars fram að þak væri nýlegt og málað fyrir um tveimur árum. Einnig sagði að skolp- og raflagnir væru nýlegar, auk þess sem gert hefði verið við múr og húsið málað fyrir um fjórum árum. Þá var tekið fram að ekki væri kunnugt um galla á eigninni. Hinn 21. febrúar 2008 gerði gagnáfrýjandi kaupsamning við aðaláfrýjendurna Díönu og Guðmund um húsið. Í kaupsamningnum kom meðal annars fram að gagnáfrýjanda væri kunnugt um leka í glugga á suðurhlið sem aðaláfrýjendurnir myndu láta gera við fyrir afhendingu hússins, en gagnáfrýjandi tæki að sér að laga skemmdir sem hugsanlega hefðu orðið á parketi vegna lekans. Kaupverðið var 29.000.000 krónur og fékk gagnáfrýjandi eignina afhenta 26. apríl 2008. Afsal fyrir eigninni var gefið út 23. júní sama ár. Í fyrrgreindu söluyfirliti var ekki vikið að því að jarðvegur hefði verið grafinn úr holrými í grunni hússins, en ágreiningslaust er að gagnáfrýjanda var greint frá því fyrir kaupin án þess þó að hún ætti kost á að kanna rýmið þegar hún skoðaði eignina. Skömmu eftir að gagnáfrýjandi hafði fengið eignina afhenta taldi hún sig verða vara við ólykt í húsnæðinu. Hún mun hafa rætt þetta við aðaláfrýjandann Ernu auk þess sem þetta bar á góma við útgáfu afsals fyrir eigninni. Þegar gagnáfrýjandi hófst handa við að skipta um eldhúsinnréttingu í júlí 2008 og laga þurfti frágang lagna kom í ljós að frárennsli úr eldhúsinu lá niður í holrýmið undir því. Var barkarör úr plasti þrætt um steinrör sem lá lóðrétt í holrýminu og var mölbrotið. Af þessu tilefni var holrýmið opnað af pípulagningarmanni til að lagfæra lögnina. Kostnaður við það verk nam 173.141 krónu. Í ódagsettri yfirlýsingu frá pípulagningarmanninum kom fram að mikill raki hefði verið í holrýminu og skolplykt. Með tölvubréfi 15. ágúst 2008 til aðaláfrýjandans Ernu var tekið fram að gagnáfrýjandi teldi að losa þyrfti mold úr holrýminu en lyktin frá því væri óbærileg auk þess sem vart hefði orðið við skordýr í húsinu. Var óskað eftir skjótum viðbrögðum af þessu tilefni. Þessum tilmælum kom fasteignasalinn áfram til aðaláfrýjendanna Díönu og Guðmundar sem lýstu því yfir með tölvubréfi 23. sama mánaðar að þau væru reiðubúin til viðræðna þótt þau teldu sér ekki skylt að bregðast við kvörtun gagnáfrýjanda. Aðaláfrýjendunum Díönu og Guðmundi var tilkynnt með bréfi 10. nóvember 2008 að gagnáfrýjandi hygðist afla matsgerðar um það sem hún teldi galla á eigninni til undirbúnings málshöfðunar á hendur þeim. Með matsbeiðni 9. febrúar 2009 var óskað dómkvaðningar matsmanns. Var það gert 3. apríl sama ár og Helgi S. Gunnarsson byggingarverkfræðingur fenginn til verksins. Hann skilaði matsgerð sinni 8. júlí það ár en niðurstöður hennar og kostnaður við úrbætur er rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Með bréfi lögmanns gagnáfrýjanda 4. september 2009 var lýst yfir riftun á kaupunum og krafist skaðabóta úr hendi aðaláfrýjenda. Þeirri kröfu höfnuðu aðaláfrýjendurnir Díana og Guðmundur með bréfi 29. sama mánaðar en lýstu sig reiðubúin til viðræðna um sættir. Aftur á móti féllst réttargæslustefndi á með bréfi 7. desember sama ár að fasteignasali hefði bakað sér bótaskyldu gagnvart gagnáfrýjanda vegna ófullnægjandi upplýsinga um holrými í grunni hússins. Að öðru leyti var bótaskyldu hafnað. Enda þótt réttargæslustefndi teldi bótaskyldu vera fyrir hendi vegna holrýmisins var synjað um að greiða skaðabætur úr starfsábyrgðartryggingu fasteignasala sökum þess að gagnáfrýjandi hefði rift kaupunum. Þessu til stuðnings var bent á það að ekki væri hægt að krefjast bóta vegna kostnaðar við að bæta úr galla á eigninni ef kaupin gengju til baka og henni yrði skilað. Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi höfðaði gagnáfrýjandi mál 10. desember 2009 á hendur aðaláfrýjendum, en því máli var að hluta til vísað frá dómi með úrskurði héraðsdóms 21. október 2011. Var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar 2. desember sama ár í máli nr. 597/2011. Í kjölfarið var málið fellt niður og það mál sem hér er til úrlausnar höfðað. Undir rekstri fyrra málsins óskuðu aðaláfrýjendurnir Díana og Guðmundur eftir yfirmati vegna holrýmisins í grunni hússins. Voru dómkvaddir byggingarverkfræðingarnir Hálfdán Þórir Markússon og Kristinn Tanni Hannesarson og skiluðu þeir mati sínu 14. ágúst 2010. Þá óskaði gagnáfrýjandi eftir mati 19. janúar 2011 á því hvort húsnæðið teldist íbúðarhæft og til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa til að ráða bót á því. Skömmu áður en gagnáfrýjandi óskaði eftir því mati, eða í desember 2010, hafði hún flutt úr húsnæðinu þar sem hún taldi sig ekki geta búið í því vegna þeirra aðstæðna sem þar hefðu skapast. Voru dómkvödd þau Helgi S. Gunnarsson, sem skilað hafði áðurnefndri matsgerð, og dr. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur. Skiluðu þau mati sínu 11. apríl 2011. Niðurstöður þessara matsgerða eru raktar í héraðsdómi. II Samkvæmt 18. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup telst fasteign gölluð ef hún stenst ekki þær kröfur um gæði, búnað og annað sem leiðir af lögunum eða kaupsamningi. Notuð fasteign telst þó ekki gölluð nema ágallinn rýri verðmæti hennar svo nokkru varði eða seljandi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Þá segir í a. lið 1. mgr. 19. gr. laganna að fasteign teljist gölluð ef hún hentar ekki til þeirra nota sem sambærilegar eignir eru venjulega notaðar til. Ef kaupandi fasteignar hefur ekki fengið þær upplýsingar um eignina sem seljandi vissi eða mátti vita um og kaupandi hafði réttmæta ástæðu til að ætla að hann fengi telst fasteign gölluð. Þetta gildir þó aðeins ef skortur á upplýsingum hefur haft áhrif á gerð eða efni kaupsamnings, sbr. 26. gr. laganna. Þá getur kaupandi ekki borið fyrir sig galla á fasteign sem hann þekkti til eða átti að þekkja til þegar kaupsamningurinn var gerður, sbr. 1. mgr. 29. gr. laganna. Í upphaflegri matsgerð 8. júlí 2009 var komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri, þegar rými af þessu tagi væri útbúið, að loka jarðvegsyfirborði þegar um lífrænan jarðveg væri að ræða og loftræsa rýmið mjög vel. Einnig þyrfti að loka rými frá íbúðarrými með „algerlega loft og rakaþéttri lokun“. Ekkert af þessu hefði verið fyrir hendi en þá myndaðist mikill raki og ólykt vegna rotnunar og lífrænna efna sem skapi kjöraðstæður fyrir hin ýmsu skordýr sem auðveldlega geti borist um húsið. Taldi matsmaðurinn að á nokkrum mánuðum gæti skapast þannig aðstæður að aðliggjandi rými yrðu óíbúðarhæf. Einnig kom fram í matsgerðinni að um væri að ræða mikið inngrip í burðarvirki hússins. Í yfirmatsgerð 14. ágúst 2010, sem laut eingöngu að holrýminu, var einnig komist að þeirri niðurstöðu að loftræsa þyrfti holrýmið, en við það myndi ólykt hverfa að mestu eða öllu leyti. Jafnframt þyrfti að loka milli íbúðarrýmis og útgrafins rýmis þannig að það væri raka- og loftþétt. Þá kom fram, eins og í undirmati, að lífrænn jarðvegur, raki og rotnun skapaði kjöraðstæður fyrir skordýr en útloftun hefði gagnstæð áhrif. Enn fremur sagði í yfirmatinu að frágangur aðaláfrýjendanna Díönu og Guðmundar hefði verið með öllu ófullnægjandi. Steyptar frárennslislagnir sem þau grófu frá hefðu engan veginn verið gerðar til að vera án jarðvegsstuðnings og því síður til að standa lóðrétt án stuðnings. Aftur á móti töldu yfirmatsmenn að plata yfir útgröfnu rými og sökkulveggir réðu við aukið álag í kjölfar útgreftrar. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi tók annar matsmaður fram að þessi niðurstaða væri vafalaus, enda hefðu forsendur verið valdar af varfærni og því væri styrkur burðavirkis trúlega meiri en miðað væri við í matsgerðinni. Að virtu því sem hér hefur verið rakið verður fallist á með héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að framkvæmdir þær sem aðaláfrýjendurnir Díana og Guðmundur réðust í hafi haft þau áhrif að raki jókst í holrýminu þar sem ekki var gripið til ráðstafana til að loftræsa það. Þetta skóp gróðrarstíu fyrir lífverur sem gat valdið tjóni á eigninni ef hún var ekki loft- og rakaþétt, en frágangur aðaláfrýjendanna á rýminu var einnig ófullnægjandi að því leyti. Eignin var því gölluð í þessu tilliti og verður það virt aðaláfrýjendunum til sakar hvernig þau stóðu að verki við framkvæmdina í holrýminu. Gagnáfrýjandi heldur því einnig fram að fasteignin hafi verið gölluð vegna þakglugga, glugga og svalahurðar á suðurhlið svo og málningar hússins. Um þakgluggann sagði í matsgerðinni 8. júlí 2009 að augljóst væri af frágangi hans innanhúss að ekki hefði verið gengið frá honum að fullu við þakskipti og lekamerki væru greinileg á trékarmi glugga og máluðum flötum við hann. Þá sagði í matsgerðinni að ráða mætti af útliti hússins að það hefði ekki verið málað nokkuð lengi, fram væru komnir ryðblettir víða og málning farin að flagna af útveggjum, auk þess sem sjá mætti nokkrar steypuskemmdir. Þar sem gagnáfrýjanda mátti vera ljóst þetta ástand eignarinnar þegar hún skoðaði hana verður þetta ekki talinn galli við kaupin. Skiptir þá ekki máli þótt ranglega hafi sagt í söluyfirliti að húsið hefði verið málað fyrir fjórum árum, enda má gera ráð fyrir að þess sé ekki langt að bíða að ráðast þurfi í reglulegt viðhald sem þetta þótt ekki væri lengri tími liðinn. Hvað varðar glugga og svalahurð á suðurhlið sagði í matsgerðinni að ekki hefði leynt sér á síðustu árum að komið væri að gagngerum endurbótum, en ráða mætti af ástandinu að gluggi og hurð væru upprunaleg. Þetta mátti gagnáfrýjanda því einnig vera ljóst við skoðun hennar á eigninni og verður ástand eignarinnar að þessu leyti ekki heldur talinn galli. Breytir engu í því tilliti þótt aðaláfrýjendurnir Díana og Guðmundur hafi í kaupsamningnum 21. febrúar 2008 tekið að sér að lagfæra leka í glugga á suðurhlið, enda verður ekki talið að í því hafi falist skuldbinding um að skipta um gluggann. Þá hefur ekki verið leitt í ljós að aðgerðir aðaláfrýjendanna til að gera við lekann hafi verið ófullnægjandi. III Gagnáfrýjandi krefst þess að staðfest verði riftun hennar á kaupum fasteignarinnar en til vara að kaupin verði ógilt. Eins og rakið er í næsta kafla hér á undan var fasteignin gölluð að því er varðaði holrými í grunni hússins en að öðru leyti hefur ekki verið fallist á það með gagnáfrýjanda að eignin hafi verið gölluð. Í matsgerð 8. júlí 2009 er kostnaður vegna endurbóta á holrýminu talinn nema samtals 885.800 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti. Í yfirmatsgerð 14. ágúst 2010 er kostnaður við úrbætur á rýminu talinn nema 1.100.000 krónum með virðisaukaskatti. Loks er talið í matsgerð 11. apríl 2011 að kostnaður við að hreinsa húsnæðið og innanstokksmuni, lagfæra holrýmið og skipta um gólfefni í húsinu hafi numið samtals 3.714.000 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti. Svo sem áður getur var kaupverð fasteignarinnar 29.000.000 krónur. Þá er til þess að líta að í matsgerðinni 8. júlí 2009 var talið að skipuleggja mætti vinnu við endurbætur yfir lengri tíma á þann hátt að ganga mætti frá í dagslok þannig að búseta þyrfti ekki að raskast verulega. Þótt í matsgerðinni 11. apríl 2011 sé gert ráð fyrir nokkuð umfangsmeiri framkvæmdum verður það ekki talið hafa teljandi áhrif við mat á umfangi og eðli vanefndarinnar. Þá verður ekki talið að aðaláfrýjendurnir hafi beitt svikum við kaupin enda liggur fyrir að gagnáfrýjanda var fyrir þau greint frá því að grafið hafði verið úr holrýminu. Þótt þær upplýsingar hafi verið ófullnægjandi og hún hafi ekki átt þess kost að kanna rýmið við venjubundna skoðun eignarinnar verður ekki litið svo á að það hafi verið gert í því skyni að blekkja í lögskiptum. Að öllu þessu virtu verður ekki fallist á með gagnáfrýjanda að fullnægt sé skilyrði riftunar að um verulega vanefnd hafi verið að ræða, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 40/2002. Kröfu um riftun verður því hafnað. Jafnframt verður hafnað kröfu um að kaupsamningurinn verði ógiltur vegna svika. Þá eru aðrar ástæður sem gagnáfrýjandi hefur teflt fram til stuðnings þeirri kröfu haldlausar með öllu. Af þessu leiðir að ekki þarf að taka afstöðu til bótakrafna á hendur aðaláfrýjendum sem reistar eru á riftun eða ógildingu samningsins. IV Að frágenginni kröfu um riftun eða ógildingu kaupsamnings krefst gagnáfrýjandi skaðabóta á efndagrundvelli úr hendi aðaláfrýjendanna Díönu og Guðmundar. Samhliða krefst hún skaðabóta úr hendi aðaláfrýjendanna Ernu og F.K. Reykjavík ehf. með vísan til reglna skaðabótaréttar um ábyrgð sérfræðinga og vinnuveitandaábyrgð. Af hálfu þeirra er viðurkennd bótaábyrgð vegna ófullnægjandi upplýsinga við sölu fasteignarinnar um holrýmið í grunni hússins. Þegar fleiri bera skaðabótaábyrgð vegna sama tjóns gildir sú regla að ábyrgðin er óskipt gagnvart tjónþola nema annað leiði af lögum eða óskráðum reglum. Svo sem áður greinir var aðaláfrýjandinn Erna með starfsábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda. Samkvæmt 1. málslið 2. mgr. 25. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 gilda ákvæði 1. og 2. mgr. 19. gr. laganna ef ábyrgðartrygging eins eða fleiri hinna bótaábyrgu tekur til tjónsins og gildir það án tillits til þess hvort um er að ræða skaðabætur innan eða utan samninga. Af þessu leiðir að skaðabótaréttur stofnast ekki vegna tjóns sem ábyrgðartrygging nær til nema atvik séu á þann veg sem greinir í 2. mgr. 19. laganna. Af þeim atriðum sem þar eru tilgreind reynir í málinu á hvort tjónið verði rakið til ásetnings eða stórfellds gáleysis aðaláfrýjendanna Díönu og Guðmundar. Eins og áður greinir verður það virt þessum aðaláfrýjendum til sakar hvernig þau stóðu að framkvæmdum í holrýminu. Aftur á móti er þess að gæta að þau greindu gagnáfrýjanda frá framkvæmdinni fyrir kaupin í því skyni að benda á möguleika til að stækka íbúðarrýmið með því að halda áfram framkvæmdum. Að þessu virtu verður ekki talið að þessir aðaláfrýjendur hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi þannig að bótaábyrgð hafi stofnað þrátt fyrir ábyrgðartryggingu eins af þeim bótaábyrgu. Samkvæmt þessu verða aðaláfrýjendurnir Díana og Guðmundur sýknuð af kröfu gagnáfrýjanda. Aðrir aðaláfrýjendur hafa ekki borið fyrir sig þessa málsástæðu. Aðaláfrýjendurnir Erna og F.K. Reykjavík ehf. hafa fallist á kröfu gagnáfrýjanda um bætur vegna úrbóta á holrýminu að fjárhæð 1.118.000 krónur samkvæmt matsgerðinni 11. apríl 2011. Þá hafa þau samþykkt bætur að fjárhæð 173.141 króna vegna lagfæringar á lögnum frá eldhúsi. Loks hafa þau fallist á þá matsliði, sem beinlínis varða hreinsun og frágang í holrýminu, að fjárhæð 399.000 krónur og telja að þeim verði eftir atvikum gert að greiða hlutfallslegan kostnað samkvæmt matsliðum vegna aðstöðu og undirbúnings og frágangs í verklok, samtals 78.100 krónur. Með hinum áfrýjaða dómi var tekin til greina krafa að fjárhæð 122.835 krónur vegna rangra upplýsinga í söluyfirliti um hvenær húsið hefði verið málað að utan. Með áfrýjun sinni gera aðaláfrýjendurnir ekki kröfu um að þessi bótaliður verði endurskoðaður. Að þessu slepptu mótmæla aðaláfrýjendurnir frekari kröfum gagnáfrýjanda og andmæla jafnframt upphafstíma dráttarvaxta eins og hann var ákveðinn með hinum áfrýjaða dómi. Þegar gagnáfrýjandi skipti um eldhúsinnréttingu í júlí 2008 þurfti að laga lögn frá eldhúsi sem liggur um holrýmið. Við þá framkvæmd var nauðsynlegt að opna milli rýmisins og inn í húsið um þann vegg sem aðaláfrýjendurnir höfðu áður brotið. Kom þá í ljós hvernig umhorfs var í rýminu. Í kjölfarið var óhjákvæmilegt að aðgangur væri að rýminu meðan aflað var matsgerða, en auk þess verður ráðið af gögnum málsins að lagnir liggja frá því ekki aðeins upp í eldhús heldur einnig inn í rafmangstöflu og þvottahús. Eftir að gagnáfrýjandi hafði aflað matsgerðar 8. júlí 2009 var af hálfu réttargæslustefnda fallist á bótaskyldu vegna holrýmisins með bréfi 7. desember sama ár. Þá fyrst gat komið til álita að gagnáfrýjanda bæri að bregðast við með því að grípa til viðeigandi ráðstafana vegna holrýmisins. Er þá einnig haft í huga að fram kom í matsgerðinni að á nokkrum mánuðum gæti skapast þannig aðstæður að óíbúðarhæft væri í eigninni og því mátti gagnáfrýjandi ætla að hún hefði einhvern tíma til stefnu. Að þessu gættu verður ekki talið að hún hafi vanrækt skyldu sína samkvæmt 1. mgr. 60. gr. laga nr. 40/2002 til að grípa til aðgerða til að takmarka tjónið eftir að holrýmið var opnað og fram til ársloka 2009 þannig að henni verði gert að bera sjálf einhver hluta þess tjóns sem varð á því tímabili. Í matsgerðinni 11. apríl 2009 kom fram að mikið var um myglusveppi á mylsnu og brotum af gifsplötum sem lágu á blautu yfirborði jarðvegs í holrýminu í grunni hússins. Einnig hefðu fundist merki um að gró hefðu borist út úr rýminu og hafnað á undirlagi parkets. Þá kom fram að í öllu íbúðarrýminu væri ryk, sem að hluta til væri smádýraskítur gerður úr gróum og sveppaþráðum, og að í rykinu væru gró myglusveppa sem ætla mætti að hefðu vaxið í íbúðarrýminu eða holrýminu og borist um allt húsið með smádýrum eða lofti. Enn fremur sagði í matsgerðinni að raki í öllu húsinu væri óvenjulega mikill. Því réði hátt rakastig og vatnsálag í holrýminu, en því fylgdi mikil hætta á vexti myglusvepps. Um ástand hússins var komist að þeirri niðurstöðu að það fullnægði ekki reglum um hollustuhætti, væri heilsuspillandi og óíbúðarhæft. Jafnframt sagði að líkur væru á „að ástand hafi verið þannig í nokkurn tíma eða frá því að opnað var inn í hið útgrafna rými og aðstæður sköpuðust til hinnar miklu rakamyndunar í íbúðinni.“ Í skýrslu annars matsmannsins fyrir héraðsdómi, dr. Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur sveppafræðings, kom fram að mjög erfitt væri að loka af holrými af þessu tagi þannig að slík mengun bærist ekki um húsið, en þá þyrfti rýmið að vera algerlega loftþétt. Þá sagði hún að það tæki ekki langan tíma fyrir myglusveppi af verstu tegund fyrir hýbýli að vaxa við þessar aðstæður þannig að þeir fjölguðu sér, eða um tvær til þrjár vikur. Til úrbóta á fasteigninni var í umræddri matsgerð talið nauðsynlegt að koma í veg fyrir rakamyndun á jarðhæð, fjarlægja lífræn jarðefni og klæðningar í holrýminu og hreinsa allt húsnæðið ásamt innanstokksmunum með sótthreinsandi efnum. Jafnframt var talið að endurnýja þyrfti gólfefni. Að því virtu sem hér hefur verið rakið um mengunina í húsnæðinu og eðli hennar verður talið nægjanlega í ljóst leitt að kostnaður við þessar úrbætur verði rakinn til tjóns á eigninni vegna holrýmisins sem hafi orðið fyrir árslok 2009. Af því leiðir að gagnáfrýjanda verður ekki gert að bera hluta af þessu tjóni sjálf vegna þess að hún hafi vanrækt að grípa til viðeigandi ráðstafana til að takmarka tjónið. Samkvæmt þessu verður aðaláfrýjendunum Ernu og F.K. Reykjavík ehf. gert að öllu leyti að greiða gagnáfrýjanda skaðabætur vegna kostnaðar samkvæmt matsgerðinni, en hann sundurliðast í úrbætur vegna holrýmisins að fjárhæð 1.118.000 krónur, hreinsun húsnæðisins, 873.000 krónur, hreinsun innanstokksmuna, 713.000 krónur, og endurnýjun gólfefnis, 1.010.000 krónur, eða samtals 3.714.000 krónur. Til frádráttar koma 344.830 krónur, en sú fjárhæð svarar til virðisaukaskatts vegna vinnuliða sem fæst endurgreiddur. Samtals verður því aðaláfrýjendunum gert að greiða gagnáfrýjanda 3.369.170 krónur. Þá bætist við fjárhæðina 173.141 króna vegna viðgerðar á lögn í holrýminu frá eldhúsi og 122.835 krónur vegna málningar utanhúss, en aðaláfrýjendurnir andmæla ekki þeim bótaliðum. Þá krefst gagnáfrýjandi bóta vegna skerts notagildis og afnotataps eignarinnar. Til stuðnings þeim kröfuliðum hefur hún vísað til könnunar Neytendasamtakanna á leiguverði og kostnaðar sem hún hefur haft af eigninni, þar með talið vegna afborgana af veðskuldum sem hvíla á henni. Krafa um bætur vegna afnotamissis verður ekki reiknuð út á þessum grundvelli og því verða þessir kröfuliðir ekki teknir til greina. Samkvæmt framansögðu verður aðaláfrýjendunum Ernu og F.K. Reykjavík ehf. gert að greiða gagnáfrýjanda samtals 3.665.146 krónur. Samhliða kröfu um riftun eða ógildingu á kaupsamningi um fasteignina hafði gagnáfrýjandi uppi fjárkröfur á hendur aðaláfrýjendum, en að langstærstum hluta svöruðu þær til kaupverðs eignarinnar. Sú krafa hennar á hendur aðaláfrýjendunum Ernu og F.K. Reykjavík ehf. er haldlaus. Þá er þess að gæta krafa um skaðabætur, sem svaraði til kostnaðar við að bæta úr galla á eigninni, gat ekki komi til álita ef fallist yrði á kröfu um riftun eða ógildingu, en við svo búið lá fyrir að þessir áfrýjendur yrðu að öllu eða verulegu leyti sýknaðir af kröfum gagnáfrýjanda. Með þessum málatilbúnaði sínum girti gagnáfrýjandi því fyrir að krafan yrði efnd á þeim grundvelli. Með vísan til 7. gr. laga nr. 38/2001 verða dráttarvextir því reiknaðir af kröfu gagnáfrýjanda frá dómsuppsögu hér fyrir dómi til greiðsludags. Eftir þessum úrslitum verður aðaláfrýjendunum Ernu og F.K. Reykjavík ehf. gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði. Að öðru leyti fellur málskostnaður niður. Dómsorð: Aðaláfrýjendurnir Díana Jóhanna Sveinsdóttir og Guðmundur Þ. Eyjólfsson eru sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, Ernu Grétu Garðarsdóttur. Aðaláfrýjendurnir Erna Valsdóttir og F.K. Reykjavík ehf. greiði gagnáfrýjanda 3.665.146 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá uppsögu dóms þessa til greiðsludags. Aðaláfrýjendurnir Erna og F.K. Reykjavík ehf. greiði gagnáfrýjanda samtals 3.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Að öðru leyti fellur málskostnaður niður. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2013. Mál þetta, sem dómtekið var 22. maí síðastliðinn, var höfðað með birtingum stefnu 1. maí og 10. maí 2012 af Ernu Grétu Garðarsdóttur, Ásgarði 131, Reykjavík á hendur Guðmundi Þ. Eyjólfssyni, Rauðagerði 14, Reykjavík, Díönu Jóhönnu Svavarsdóttur, Rauðagerði 14, Reykjavík, Ernu Valsdóttur, Flókagötu 67, Reykjavík, F.K. Reykjavík ehf., Ármúla 15, Reykjavík og til réttargæslu Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík til riftunar fasteignarkaupa, ógildingar, afsláttar eða skaðabóta vegna galla á fasteign. Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að staðfest verði riftun stefnanda Ernu Grétu Garðarsdóttur á kaupsamningi hennar og stefndu Guðmundar Þ. Eyjólfssonar og Díönu Jóhönnu Svavarsdóttur 21. febrúar 2008 um fasteignina að Ásgarði 131 í Reykjavík, sem lýst var yfir í bréfi 4. september 2009. Til vara er þess krafist að kaup stefnanda og stefndu samkvæmt greindum kaupsamningi verði ógilt. Þá er þess krafist að stefndu Guðmundi Þ. Eyjólfssyni og Díönu Jóhönnu Svavarsdóttur verði gert að endurgreiða stefnanda kaupverðið og þau dæmd óskipt með stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. til að greiða stefnanda 30.032.401 kr. með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 3.500.000 kr. frá 21. febrúar 2008 til 1. maí sama ár, af 8.500.000 kr. frá þeim degi til 5. júní sama ár, af 27.000.000 kr. frá þeim degi til 23. júní sama ár, af 29.000.000 kr. frá þeim degi til 4. október 2009 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. sömu laga af 30.032.401 kr. frá þeim degi til greiðsludags gegn afhendingu fasteignarinnar til stefndu. Til vara er þess krafist að stefndu Guðmundur Þ. Eyjólfsson, Díana Jóhanna Svavarsdóttir, Erna Valsdóttir og F.K. Reykjavík ehf. verði dæmd óskipt til að greiða stefnanda 8.718.940 kr. auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. apríl 2011 til greiðsludags. Bæði í aðal- og varakröfu er þess krafist að stefndu Guðmundur Þ. Eyjólfsson, Díana Jóhanna Svavarsdóttir, Erna Valsdóttir og F.K. Reykjavík ehf. verði dæmd óskipt til að greiða stefnanda málskostnað, þar með talinn matskostnað, að skaðlausu að mati dómsins eða síðar framlögðum málkostnaðarreikningi að meðtöldum virðisaukaskatti. Til réttargæslu er stefnt Tryggingamiðstöðinni hf. þar sem úrslit málsins geti varðað réttargæslustefnda nokkru vegna starfsábyrgðartryggingar sem stefndu Erna Valsdóttir löggiltur fasteignasali og F.K. Reykjavík ehf. hafa hjá réttargæslustefnda, sbr. 1. mgr. 21. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en á þessu stigi nýtir stefnandi ekki heimild í 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga til að krefjast bóta beint frá félaginu. Stefndu Guðmundur Þ. Eyjólfsson og Díana Jóhanna Svavarsdóttir krefjast þess aðallega að verða sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefjast stefndu þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega að fjárhæð. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnandi greiði stefndu málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðaryfirliti, að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Stefndu Erna Valsdóttir og F.K. Reykjavík ehf. krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað að skaðlausu að mati dómsins. Til vara er krafist verulegrar lækkunar á stefnufjárhæð og að málskostnaður verði látinn niður falla. Að því marki sem bætur kunna að verða tildæmdar er þess krafist að þær beri dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá endanlegum dómsuppsögudegi til greiðsludags. Af hálfu réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. eru engar kröfur gerðar, enda engum kröfum að honum beint. Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar málsins og fyrirsvarsmaður aðila skýrslur. Fyrir dóminn komu einnig matsmenn og fleiri sérfróð vitni auk annarra vitna. Dómurinn gekk á vettvang að viðstöddum öllum málsaðilum og lögmönnum þeirra og einum hinna dómkvöddu matsmanna. Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna Með kaupsamningi 21. febrúar 2008 keypti stefnandi, Erna Gréta Garðarsdóttir, húseignina Ásgarð 131 í Reykjavík af stefndu Guðmundi Þ. Eyjólfssyni og Díönu Jóhönnu Svavarsdóttur. Stefnandi keypti eignina á 29.000.000 króna og skyldi hún samkvæmt kaupsamningi afhent 29. apríl 2008, en afhending varð þremur dögum fyrr. Afsal fyrir eigninni var gefið út 23. júní 2008. Fasteignasalan Fasteignakaup, sem starfrækt var af stefnda F.K. Reykjavík ehf., annaðist sölu á fasteigninni, en félagið var í meirihlutaeigu stefndu Ernu Valsdóttur, sem er löggiltur fasteignasali. Í söluyfirliti sem lá kaupunum til grundvallar kemur fram að eignin hafi verið skoðuð 16. ágúst 2007 af Guðmundi Valtýssyni af hálfu fasteignasölunnar Fasteignakaupa, sem einnig hafði haft milligöngu um kaup stefndu Guðmundar og Díönu á eigninni einu ári áður, í ágúst 2006. Í söluyfirlitinu kemur fram að allar upplýsingar í því séu byggðar á opinberum gögnum og upplýsingum seljenda og að þær séu ekki á ábyrgð fasteignasalans. Um galla segir að þeir séu engir sem starfsmönnum fasteignasölunnar sé kunnugt um. Eigninni, sem er endaraðhús, er lýst, m.a. varðandi stærð, byggingarár (1960), herbergjaskipan, innréttingar og efni á gólfum og veggjum. Þar segir m.a. að vatns- og frárennslislagnir séu síðan húsið var byggt. Enn fremur segir að skólplagnir hafi verið nýlegar og að gert hafi verið við múr og húsið málað, að sögn eigenda, fyrir um það bil fjórum árum. Kjallara hússins er í söluyfirlitinu lýst þannig að þar sé þvottahús og einnig sé gott herbergi í kjallara, tilvalið fyrir unglinginn. Ekki var í söluyfirlitinu minnst á holrými undir eldhúsi eða möguleika á stækkun kjallarans þótt eigendur hefðu um þær mundir sem eignin var skoðuð fyrir sölu staðið þar í framkvæmdum. Stefnandi skoðaði eignina tvisvar og við skoðun munu seljendur og Guðmundur Valtýsson hafa upplýst stefnanda um að seljendur hefðu brotið hurðargat í kjallara hússins og verið byrjuð að moka jarðvegi út úr holrými í grunni hússins til að útbúa viðbótarrými í kjallaranum. Þau hafi hins vegar ekki lokið verkinu, lokað gatinu með plötu og ekki ætlað að aðhafast frekar. Ekki mun annað hafa verið upplýst um þessa framkvæmd við skoðun en að þarna væri möguleiki til stækkunar hússins. Stefnandi mun ekki hafa látið í ljósi í tengslum við kaupin neinar væntingar um stækkun hússins og einskis spurt af þessu tilefni. Í kaupsamningi um eignina er þess getið að kaupanda sé kunnugt um leka í glugga á suðurhlið sem seljandi geri við fyrir afhendingu hússins, en þær skemmdir sem hugsanlega hafi orðið á parketi vegna lekans geri kaupandi við. Aðrar sérstakar athugasemdir voru ekki gerðar í kaupsamningnum. Eftir afhendingu eignarinnar varð stefnandi vör við ólykt í húsinu, sem versnaði í hlýju veðri. Hún kvartaði undan þessu við fasteignasalann en seljendur könnuðust ekki við að hafa orðið ólyktar varir meðan þau bjuggu í húsinu og var það ítrekað við afsalsgerð 23. júní 2008. Þegar stefnandi hugðist skipta um eldhúsinnréttingu í byrjun júlí 2008 kom í ljós að frárennsli úr eldhúsi lá niður í holrýmið undir eldhúsinu og að laga þurfti frágang lagna þar. Að höfðu samráði við Ernu Valsdóttur fasteignasala fékk stefnandi pípulagningamann frá Súperlögnum til að gera við lagnirnar, en Erna Valsdóttir og Guðmundur Valtýsson komu á staðinn og litu á aðstæður. Fasteignasalinn hafði samband við húsfélagið vegna ástands lagnanna. Í yfirlýsingu frá húsfélaginu 2. september 2008 kemur m.a. fram að árið 2001 hafi skolplagnir í grunni verið endurnýjaðar þannig að dregið hafi verið í steinrör í grunni hússins án þess að grafa þau upp. Viðræður og samskipti stefnanda og seljenda eignarinnar fyrir milligöngu Ernu Valsdóttur leiddu ekki til samkomulags um greiðslu kostnaðar vegna lagfæringar á lögnum í holrýminu. Stefnandi greiddi reikning Súperlagna að fjárhæð 173.141 króna 25. ágúst 2008. Af hálfu stefnanda var í tölvupósti til fasteignasala, 15. ágúst 2008, upplýst um þennan kostnað vegna viðgerða lagnanna, en auk þess þyrfti að losa út moldina í rýminu og aukinn kostnaður yrði því samfara. Stefndi Guðmundur Eyjólfsson hafnaði því með tölvupósti til þáverandi lögmanns stefnanda 23. ágúst 2008 að greiða kostnað vegna efnis og endurnýjunar pípulagna en kvað þau hjón vera tilbúin að koma að þessu máli á einhvern hátt þótt þau teldu sig ekki hafa neinar skyldur til þess. Að frátalinni þessari viðgerð á pípulögninni hafa engar ráðstafanir verið gerðar til að lagfæra holrýmið eða loka því varanlega. Málsaðilar hafa deilt um og deila enn um ábyrgð á ástandi holrýmisins. Deilt er um kostnað vegna nauðsynlegra lagfæringa á því og um ábyrgð á afleiðingum þess að lagfæringar hafa ekki verið gerðar, en húsið er nú talið óíbúðarhæft vegna smitunar myglu og annarra örvera frá ófrágengnu rýminu. Mál þetta snýst að mestu um þennan ágreining. Áður en vikið verður að málsástæðum aðila í málinu verður greint frá framvindu deilunnar þar til mál þetta var höfðað. Með bréfi 10. nóvember 2008 tilkynnti lögmaður stefnanda seljendum þá fyrirætlan sína að óska dómkvaðningar matsmanns til grundvallar bótakröfu/afsláttarkröfu vegna galla á fasteigninni. Í beiðni um dómkvaðningu matsmanns 9. febrúar 2009 segir að matinu sé ætlað að sannreyna galla á hinu selda og vera til stuðnings riftunar-, bóta og/eða afsláttarkröfum matsbeiðanda á hendur matsþolum. Matsmaður var dómkvaddur 3. apríl 2009 til að meta nánar tilgreind sjö atriði sem tengdust ástandi fasteignarinnar. Byggði stefnandi matsbeiðni aðallega á því að frágangur holrýmisins og lagna þar hafi verið ófullnægjandi og að fasteignin hafi því verið gölluð við afhendingu. Auk þess hafi aðrir gallar komið í ljós á eigninni, leki á þakglugga og svalahurð og að lengra hafi verið liðið frá viðgerð og málningu á þaki og húsinu að utan en fram komi í söluyfirliti. Ofnar hitni illa og ofnar hafi bilað í stofu og í svefnherbergi á efri hæð og hafi í báðum tilvikum komið í ljós að silfurskottur og bjöllur hafi verið á kreiki undir gólfefnum. Í matsgerð 8. júlí 2009 komst matsmaðurinn, sem er húsasmíðameistari og byggingarverkfræðingur, að þeirri niðurstöðu að kostnaður við að bæta úr fimm nánar tilgreindum atriðum næmi samtals 1.770.000 krónum miðað við verðlag í júní 2009. Stærsti einstaki matsliðurinn varðaði holrými í grunni hússins og nam hann 885.800 krónum. Um þann lið sagði í matinu að augljóst væri að frágangur lagna eftir að grafið hafi verið út úr rýminu hefði verið ófullnægjandi og rangur, lagnir eða upphengi þeirra hafi ekki tekið mið af því að þær ættu að vera óvarðar og frístandandi. Telja verði lokun rýmisins ábótavant og ekki um hefðbundinn eða viðurkenndan frágang að ræða. Þá kemur fram í matsgerðinni að ekki hafi verið sótt um leyfi til breytinga á eigninni hjá embætti byggingarfulltrúa og útgröftur rýmisins hafi því verið óheimill. Um sé að ræða mikil inngrip í burðarvirki hússins, sem mikilvægt sé að leiðrétta með viðeigandi aðgerðum. Með bréfi til allra stefndu 4. september 2009 var af hálfu stefnanda lýst yfir riftun kaupanna og bóta krafist vegna alls tjóns og kostnaðar er af vanefndum kaupsamningsins hefði leitt. Riftunarkröfunni var hafnað af hálfu seljenda, sem lýstu sig þó reiðubúna til viðræðna um mögulegar sættir. Stefnandi ítrekaði riftunarkröfu sína en sættir náðust ekki við stefndu Guðmund og Díönu. Af hálfu réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðvarinnar var bréfinu svarað af hálfu stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavíkur ehf., með símbréfi til lögmanns stefnanda 7. desember 2009. Þar var viðurkennd ábyrgð stefndu fasteignasalans og fasteignasölunnar á þeim lið í matsgerðinni er varðaði holrýmið í grunni hússins, hins vegar gæti ekki komið til greiðslu bóta af þeim sökum meðan stefnandi héldi til streitu kröfu sinni um riftun. Stefnandi höfðaði mál 10. desember 2009 gegn sömu aðilum og stefnt er í máli þessu og krafðist riftunar kaupanna og viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefndu vegna alls þess tjóns sem stefnandi hefði orðið fyrir. Fjárhæð krafna var byggð á niðurstöðu framangreindrar matsgerðar auk þess sem gerð var krafa vegna afnotamissis fasteignarinnar, skerts notagildis hennar og útlagðs kostnaðar vegna viðgerða á pípulögn. Málið hlaut ekki efnislega úrlausn. Aðalkröfu stefnanda og kröfu hennar í framhaldssök var vísað frá héraðsdómi með úrskurði 21. október 2011, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 2. desember 2011. Stóð þá eftir varakrafa hennar í frumsök. Með úrskurði héraðsdóms 9. desember 2011 var málið fellt niður að kröfu stefnanda og úrskurðað um málskostnað. Að beiðni stefndu, Guðmundar og Díönu, voru undir rekstri málsins dómkvaddir tveir matsmenn, báðir byggingarverkfræðingar, til að taka til yfirmats þann lið í undirmatsgerðinni sem varðaði holrými í grunni hússins. Í niðurstöðu matsgerðar þeirra 14. ágúst 2010 var talið að kostnaður við úrbætur vegna þessa matsþáttar næmi 1.100.000 krónum. Í yfirmatinu var tekið undir það sem fram hafði komið í fyrri matsgerð varðandi tillögur til úrbóta, að öðru leyti en því sem varðar burðarvirki hússins. Samkvæmt útreikningum yfirmatsmanna ráði plata yfir útgröfnu rými og sökkulveggir við aukið álag í kjölfar útgraftar. Breytingin sé þó þess eðlis að hönnuðir verði að yfirfara hana og útbúa þurfi teikningar sem sýni útgröft þannig að hægt sé að sækja um leyfi fyrir framkvæmdinni til byggingaryfirvalda. Stefnandi mun hafa flutt úr húsinu sökum heilsuspillandi aðstæðna í desember 2010. Þá hafði stefnandi fengið líffræðing til að skoða húsið með tilliti til raka, myglu og annarra örvera. Í skýrslu líffræðingsins 18. október 2010 sagði að húsnæðið væri heilsuspillandi. Þar kom fram að í rýminu undir eldhúsinu hafi verið heilsuspillandi skilyrði allt frá því að hagstæðar aðstæður fyrir rakasæknar lífverur hafi skapast og að viðvarandi raki safnist fyrir í kjallara. Að beiðni stefnanda voru dómkvaddir tveir matmenn, byggingarverkfræðingur og sveppafræðingur, 19. janúar 2011 til að meta sex atriði varðandi ástand fasteignarinnar sem fyrri matsgerðir höfðu ekki tekið til. Lutu matsatriði m.a. að raka í húsinu, pöddum, myglusveppum og hreinsun á innanstokksmunum og lífrænum byggingarefnum innandyra af örverum og myglusveppum. Í niðurstöðu matsgerðar 11. apríl 2011 var talið að húsnæðið væri heilsuspillandi og óíbúðarhæft og að kostnaður við nauðsynlegar úrbætur til að gera það íbúðarhæft næmi samtals 3.001.000 krónum á verðlagi í mars 2011. Kostnaður við hreinsun innanstokksmuna var metinn 713.000 krónur. Mál þetta var höfðað með nýrri stefnu og þingfest 15. maí 2012. Með stefnu voru lögð fram þau gögn og matsgerðir sem aflað hafði verið í fyrra málinu. Gagnaöflun í máli þessu var lýst lokið 21. nóvember 2012 og aðalmeðferð þess ákveðin 28. febrúar 2013, sem síðan var frestað tvisvar, fyrst til 12. apríl sl. og loks til 22. maí sl. Í máli þessu er deilt um hvort það ástand sem eignin var í við afhendingu miðað við það sem upplýst var um við kaupin teljist slíkur galli á eigninni að riftun kaupanna hafi verið heimil og hvort kaupin megi ógilda vegna forsendubrests. Þá er deilt um hvort afsláttar megi krefjast af kaupverði og hvort skaðabótaskylda sé fyrir hendi vegna galla á eigninni, hver eða hverjir beri þá bótaábyrgð og hvert tjónið sé. Aðila greinir á um það hvort stefnandi hafi gætt aðgæsluskyldu við kaupin og síðar skyldu til að takmarka tjón sitt. Loks er deilt um fjárhæðir krafna, dráttarvexti og málskostnað. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi byggir aðalkröfu sína um staðfestingu riftunar á því að sökum ágalla á eigninni hafi eignin ekki hentað til þeirra afnota sem íbúðir séu venjulega notaðar til. Seljendum hafi verið eða mátt vera það kunnugt þegar kaupsamningur hafi verið gerður. Eignin hafi verið gölluð í skilningi 18. gr. og 1. mgr. a-liðar 19. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup á þeim tíma sem áhættan af eigninni hafi flust til stefnanda við afhendingu hennar, 26. apríl 2008, sbr. 12. gr. og 20. gr. laganna. Ágallarnir rýri verðmæti eignarinnar svo nokkru varði og seljendur hafi einnig sýnt af sér saknæma háttsemi. Eignin teljist gölluð þó svo að gallarnir eða afleiðingar þeirra hafi komið í ljós síðar. Seljendur beri ábyrgð á þeim göllum og orsakir gallanna verði raktar til vanefnda seljenda. Gallarnir, sem eignin hafi reynst haldin, teljist veruleg vanefnd. Af þeim sökum hafi stefnandi átt lögvarinn rétt til að rifta kaupunum. Þeir gallar séu stórfelldir og alvarlegir. Eignin hafi við kaupin ekki staðist kröfur um gæði, búnað og annað sem leiði af lögum um fasteignakaup og kaupsamningnum. Stefnandi hafi því getað rift kaupsamningnum á grundvelli 1. mgr. 42. gr. laganna, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Seljendur hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi eða framferði sem stríði með öðrum hætti gegn heiðarleika og góðri trú með ýmist ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um kosti eignarinnar og galla. Í söluyfirliti fasteignasalans hafi engra galla eða ókosta verið getið á eigninni og ljósmyndir fasteignasölunnar til sölukynningar á henni hafi aðeins sýnt hlýlega, aðlaðandi og vel útlítandi íbúð, með gólfefni, glugga og hurðir í lagi. Hvorki hafi af hálfu seljenda né fasteignasölunnar heldur komið nokkuð fram um að á einhvern hátt væri áfátt ástandi eignarinnar, búnaði, eiginleikum eða notagildi eins og fasteignir eigi almennt að hafa. Eignin hafi ekki borið annað með sér, hvorki við skoðun stefnanda fyrir kaupin né við afhendingu hennar 26. apríl 2008. Þá hafi íbúðin verið mjög hrein og vel útlítandi. Hún hafi ekki borið nein merki galla, svo sem raka, ólyktar, óþrifnaðar eða meindýra og engar upplýsingar um slíka ókosti við eignina hafi komið fram af þeirra hálfu. Því hafi stefnandi mátt treysta þeim upplýsingum sem réttum og hafa réttmætar væntingar um að ekki skorti á að eignin væri í eðlilegu og góðu ástandi. Vegna riftunar sinnar eigi stefnandi rétt á að endurkrefja seljendur um greiðslur kaupverðs, sem hún hafi innt af hendi, gegn afhendingu eignarinnar til seljenda samkvæmt 3. mgr. 42. gr., sbr. 3. mgr. 33. gr. laga um fasteignakaup. Uppfyllt sé það skilyrði riftunar samkvæmt 3. mgr. 32. gr., sbr. 3. mgr. 42. gr. laganna að fasteignin hafi ekki rýrnað, skemmst eða farist meðan stefnandi hafi borið áhættu af henni. Verði talið að svo sé þá séu orsakir þess tilviljunarkenndir atburðir eða aðrar ástæður, sem stefnandi beri ekki ábyrgð á, eða atvik sem orðið hafi áður en hún varð eða mátti verða vör við þær aðstæður sem riftun sé reist á, þ.e. einkum inngripið í burðarvirki hússins og útgröfturinn úr grunni þess. Stefnandi lýsi því yfir að teljist fasteignin hafa rýrnað eða skemmst vegna atvika, sem séu á hennar áhættu, sem stefnandi telji reyndar alls ekki vera, muni hún bæta seljendum réttmæta kröfu um skaðabætur og vexti vegna slíkrar verðrýrnunar eða setja tryggingu fyrir henni. Upplýsingar af hálfu fasteignasalans og seljenda hafi ekki aðeins verið ófullnægjandi heldur beinlínis rangar. Seljendur hafi þagað um stórfellda ókosti eignarinnar eftir að stefnandi hafi fengið eignina afhenta og kvartað yfir megnri ólykt, skolp- og rotnunarlykt í húsinu. Hvorki þá né við afsalsgerð hafi seljendur kannast við ólykt í húsinu eða af hverju hún gæti stafað. Hafi stefnda Erna Valsdóttir veitt seljendum siðferðislegan stuðning í þessu sambandi með því að segja við stefnanda að þau væru heiðarlegt fólk í stað þess að gæta hagsmuna stefnanda, liðsinna henni og rannsaka hverju þetta sætti. Fyrsta og eina skiptið, sem einhverra ókosta eignarinnar hafi verið getið hafi verið í kaupsamningnum um að kaupanda væri kunnugt um leka í glugga á suðurhlið. Gallar á eigninni hafi hins vegar reynst fleiri og þeir stórvægilegir og þá sérstaklega að því er varði holrýmið, sem séu mjög alvarlegir, óvenjulegir og sérstakir. Seljendur hafi leynt stefnanda vitneskju sinni um hið raunverulega, óforsvaranlega og meingallaða ástand á afrennslislögnum og skolplögnum í umræddu holrými, sem sannreynt hafi verið með aðkomu Súperlagna ehf. Einu upplýsingarnar, sem stefnanda hafi verið veittar um þetta holrými, hafi verið við skoðun eignarinnar fyrir kaupin en þá hafi seljendur tjáð stefnanda að þau hefðu verið byrjuð að grafa út úr umræddu holrými til að nýta það sem viðbótar íbúðarhúsnæði. Þau hafi hætt við það og ákveðið að selja húsið, sem þau höfðu þá átt í tiltölulega skamman tíma, þar sem það væri hvort eð er of lítið fyrir þau. Lýsi seljendur því yfir í greinargerð sinni í fyrra dómsmáli að þau hafi kynnt stefnanda þetta rými sem tækifæri til stækkunar fasteignarinnar. Seljendur hefðu hins vegar lokað gatinu, sem þau hefðu gert á burðarvegg að þessu rými, og gengið þannig frá lokun þess að ekkert hafi borið á því að þar hefði verið brotið úr veggnum. Engar upplýsingar hafi seljendur hins vegar gefið um það alvarlega inngrip, sem falist hafi í þessum framkvæmdum og hafi verið óheimilar nema að fengnu byggingarleyfi, né heldur um hið óforsvaranlega og meingallaða ástand afrennslislagnanna og skolplagnanna í holrýminu. Eigi hafi seljendur heldur skýrt stefnanda frá þeim miklu ókostum fyrir gæði eignarinnar, sem í þeim hafi falist, þar með talið óþverranum í þessu holrými og út frá því í íbúðarrýminu og hafi leynt stefnanda þeirri vitneskju sinni. Af þessu hafi leitt að mjög líflegt, viðvarandi og viðbjóðslegt skordýralíf, sem komi frá þessu holrými, hafi verið í húsinu allt frá kaupunum með viðeigandi óhugnaði og óþægindum fyrir stefnanda og aðra íbúa. Af þessum sökum hafi stefnandi ekki getað nýtt eignina svo sem hún hafi mátt gera ráð fyrir vegna þeirra óþæginda, sem þessu skordýrafári og ólykt fylgi. Varðandi þá galla, sem eignin hafi verið haldin við kaupin, vegi þyngst að með rofi burðarveggjar í kjallara og síðan umræddum útgreftri hafi seljendur ráðist í framkvæmdir, sem verið hafi með öllu óheimilar, og ekki upplýst stefnanda um þær. Skylt hafi verið að sækja skriflega um og fá byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni, en það hafi seljendur ekki gert. Framkvæmdin hafi því verið óheimil og í hana ráðist án þess að nauðsynleg og þýðingarmikil hönnunargögn væru unnin af til þess bærum löggiltum hönnuðum og sérfræðingum og þau lögð fyrir byggingarnefnd. Hafi þessi óleyfisframkvæmd síðan haft þær alvarlegu afleiðingar í för með sér að íbúðarhúsið hafi orðið heilsuspillandi og óíbúðarhæft og stefnandi neyðst til að flytja úr því. Hafi húsnæðið valdið stefnanda heilsutjóni eða í öllu falli stefnt heilsu hennar í hættu meðal annars vegna raka, skordýrafárs og myglusveppagróðurs, sbr. 16. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2012. Stefnandi byggi á því að sannað sé með matsgerð 8. júlí 2009 að með óleyfisframkvæmdinni hafi verið um að ræða mikil inngrip í burðarvirki hússins, þ.e. undirstöður, plötu undir eldhúsi og veggi í kjallara. Mjög mikilvægt sé að leiðrétta þetta inngrip með viðeigandi aðgerðum, þ.e. með því að styrkja veggi, plötu og undirstöður. Þessu hafi ekki verið hnekkt með yfirmatsgerð 14. ágúst 2010, enda hafi yfirmatsmenn gert þann mikla fyrirvara að niðurstaða þeirra um að platan yfir útgrafna rýminu og sökkulveggirnir ráði við aukið álag í kjölfar útgraftarins sé ekki augljós og breytingin þess eðlis að hönnuðir verði að yfirfara hana og sannreyna áhrif og afleiðingar. Útbúa þurfi teikningar sem sýni útgröft þannig að hægt sé að sækja um leyfi fyrir framkvæmdinni til byggingaryfirvalda. Byggi stefnandi á því að íbúðin hafi af völdum óleyfisframkvæmdar orðið heilsuspillandi og óíbúðarhæf, meðal annars vegna raka og óværu í henni, að eignin uppfylli ekki þá grundvallarkosti, sem seljendur beri alltaf ábyrgð á að fasteign hafi, vegna inngrips í burðarvirki eignarinnar. Eignin hafi því hvorki við kaupin né síðar uppfyllt þau grundvallarskilyrði sem leidd verði af 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 40/2002 og sé því gölluð í þeim lagaskilningi. Það hafi seljendur vitað eða mátt vita og einnig stefnda Erna, en milliganga hennar um kaupin hafi verið í skjóli laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Á þeim öllum hafi hvílt rík upplýsingaskylda um að eignina skorti þessa mikilvægu grundvallarkosti og ráðast þyrfti í umfangsmiklar framkvæmdir til að bæta úr þeim. Fasteignin teljist gölluð þar sem stefnandi hafi ekki fengið þær upplýsingar um hana, sem seljendur og stefnda Erna vissu eða máttu vita um og stefnandi hafði réttmæta ástæðu til að ætla að hún fengi, sbr. 26. gr. laga nr. 40/2002. Upplýsingar um eignina hafi einnig verið rangar, sbr. 27. gr. sömu laga. Ókostir hennar hafi hvorki verið í samræmi við upplýsingar þær sem seljendur, eða þeir sem komið hafi fram fyrir þeirra hönd, þar með talin stefnda Erna, fasteignasalan og starfsmenn hennar, hafi veitt stefnanda né heldur þær upplýsingar sem veittar hafi verið í auglýsingum, söluyfirliti eða öðrum sölu- eða kynningargögnum um hana. Þá hafi upplýsingar sem seljendur hafi veitt stefnanda verið beinlínis blekkjandi og leiðandi þegar þeir hafi sagt stefnanda frá umræddu holrými sem tækifæri til stækkunar fasteignarinnar. Seljendur, stefnda Erna og starfsmenn fasteignasölunnar hafi því með þessu ekki aðeins sýnt af sér saknæma heldur sviksamlega háttsemi eða í öllu falli stórkostlegt gáleysi eða framferði, sem stríði með öðrum hætti gegn heiðarleika og góðri trú, með ýmist ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um kosti eignarinnar og galla. Samkvæmt heildstæðu mati séu vanefndir seljenda verulegar og skilyrði riftunar samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 40/2002 því uppfyllt. Stefnandi staðhæfi að réttar og fullnægjandi upplýsingar um þá galla, sem sannreynt hafi verið að eignin sé haldin, séu þess eðlis að augljóst sé að þær hefðu haft áhrif á gerð og efni kaupsamnings stefnanda og seljenda. Þær hafi hins vegar ekki verið veittar og ekki verið skýrlega leiðréttar í tæka tíð, hvorki af hálfu seljenda né stefndu Ernu og fasteignasölunnar Fasteignakaupa. Á því leiki enginn vafi að stefnanda hefði aldrei komið til hugar að kaupa þessa fasteign né heldur halda áfram greiðslum kaupverðs og taka við afsali fyrir eigninni með yfirlýsingu um að hann sætti sig við ástand hennar við afhendingu hefðu réttar og fullnægjandi upplýsingar verið veittar. Leggi stefnandi áherslu á riftunarkröfunni til stuðnings að hún hafi engar upplýsingar fengið frá stefndu Ernu, löggilta fasteignasalanum eða starfsmönnum hans og fasteignsölunnar Fasteignakaupa, hvorki fyrir gerð kauptilboðs eða kaupsamnings né heldur við framkvæmd hans og greiðslu kaupsamningsgreiðslna og gerð afsals, um að fasteignin væri eða kynni að vera haldin hinum alvarlegu og sérstöku göllum vegna nefnds veggjarbrots seljenda eða útgraftarins. Þeir aðilar hafi ekki veitt stefnanda neinar ábendingar eða ráð, eins og þeim hafi borið að gera, um að gæta að sér í kaupunum vegna þessa og hafi ekki ráðið stefnanda, sem sé fákunnandi um fasteignir og fasteignaviðskipti, frá þeim né heldur að hverfa frá þeim síðar er upplýsingar um þetta inngrip, ólyktina og skordýrafárið hafi komið betur fram. Öll afstaða þeirra í samskiptum við stefnanda vegna umkvartana hennar beri þess skýr merki að hjá þeim hafi hagsmunir seljenda verið í fyrirrúmi, seljendanna sem hafi greitt þeim sölulaunin, og þeir hafi í engu gætt hagsmuna stefnanda. Byggi stefnandi á því að þessi vanræksla fasteignasalans og starfsmanna hans sé saknæm háttsemi og hafi sömu þýðingu sem vanefnd seljenda sjálfra gagnvart stefnanda að þessu leyti. Stefnandi byggi á því að ekki verði með sanngirni ætlast til þess að hún sé bundin við kaupin og að í alla staði sé sanngjarnt og eðlilegt að seljendur þurfi að þola riftun kaupanna. Við mat á þeim hagsmunum stefnanda sé lögð áhersla á að eignin hafi reynst svo gölluð að hún hafi verið óíbúðarhæf og heilsuspillandi að minnsta kosti lengst af eða jafnvel alveg frá því hún var hafi verið afhent stefnanda. Með því hafi brostið meginforsenda stefnanda fyrir kaupunum og sú ákvörðunarástæða að eignast húsnæði sem væri hæft til íbúðar og í lögbundnu ástandi en ekki húsnæði sem væri haldið slíkum göllum að hún neyddist til þess að fara í byggingarframkvæmdir til að vinna bug á þeim. Þær forsendur séu eða eigi að vera öllum seljendum kunnar og um þær forsendur stefnanda hafi seljendur vitað eða mátt vita og að vanefnd þeirra hefði veruleg áhrif á hagsmuni stefnanda. Allt hafi þetta valdið stefnanda slíkum óþægindum að grundvallarmunur sé á þeirri stórgölluðu greiðslu, sem hún hafi fengið með afhendingu íbúðarinnar og því sem hún hafi átt rétt á fá í hendur samkvæmt kaupsamningnum, þ.e. hæfa, góða og gallalausa eign til íbúðar. Því sé því haldið fram að staðfesta beri riftun kaupanna. Til stuðnings kröfu um ógildingu kaupanna vísi stefnandi til málavaxta og þess rökstuðnings, sem fram komi í kröfunni um staðfestingu riftunarinnar. Verði ekki fallist á að stefnanda hafi verið heimilt að rifta kaupunum sé þess krafist og á því byggt að kaupin verði ógilt á grundvelli ólögfestra reglna um rangar og brostnar forsendur eða á grundvelli ákvæða 30. gr., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Vegna galla og óleyfisframkvæmda seljenda í umræddu holrými hafi brostið sú verulega grundvallarforsenda stefnanda að eignin væri í lögboðnu ástandi og stefnandi gæti nýtt hana til venjulegra nota til íbúðar án nauðsynlegra byggingarframkvæmda. Þetta hafi verið ákvörðunarástæða stefnanda fyrir kaupunum og seljendum ljós, stefnandi hafi verið að kaupa íbúðina til íbúðar fyrir sig og fjölskyldu sína. Ekkert efni hafi verið til þess að stefnandi gerði þessa sjálfgefnu ástæðu að sérstöku, upplýstu eða tilgreindu skilyrði fyrir samningsgerðinni og kaupunum, enda óhjákvæmileg og ófrávíkjanleg forsenda kaupanna að fasteignin stæðist þær kröfur um gæði, búnað og annað sem leiði af lögum og kaupsamningnum. Það sé knýjandi nauðsyn vegna hagsmuna stefnanda að kaupin verði ógilt og það sé ekki ósanngjarnt í garð stefndu Guðmundar og Díönu, eins og háttað sé öllum atvikum og huglægri afstöðu þeirra. Því beri að ógilda kaupsamninginn á grundvelli ólögfestra reglna samningaréttar um brostnar forsendur þar sem veruleg forsenda fyrir kaupunum og ákvörðunarástæða stefnanda fyrir þeim hafi brostið. Stefndu hafi beitt stefnanda grófum svikum og blekkingum í því skyni að fá hana til að gera við sig umræddan kaupsamning og halda áfram efndum hans með síðari kaupverðsgreiðslum. Ógilda beri kaupsamninginn sjálfstætt á grundvelli 30. gr. laga nr. 7/1936 og einnig á grundvelli 33. gr. laganna, þar sem það yrði talið óheiðarlegt af seljendum að bera fyrir sig að hann væri gildur. Stefnandi byggi einnig á því að kaupsamningnum beri að víkja til hliðar í heild á grundvelli 36. gr. laganna þar sem það sé, eins og öllum atvikum sé háttað, ósanngjarnt af seljendum eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Efni samningsins um gallalausa greiðslu stefnanda á móti stórgallaðri og í raun ósamningshæfri greiðslu seljenda með fasteigninni að Ásgarði 131 sé ótækt og bersýnilega ósanngjarnt. Staða stefnanda, sem verið hafi fákunnandi um fasteignaviðskipti, hafi verið veik á móti stöðu seljenda, sem einir hafi notið atbeina og aðstoðar stefndu Ernu og fasteignasölunnar en stefnandi hafi engrar aðstoðar notið. Fjárkröfu sína í aðalkröfu, 30.032.401 krónu, sundurliðar stefnandi þannig: Kaupverð fasteignarinnar kr. 29.000.000 Kostnaður vegna þinglýsingargjalds kr. 1.350 og stimpilgjalds kr. 105.120 vegna kaupsamnings og umsýslugjalds kr. 43.575 „ 105.045 Þinglýsingargjald vegna afsals „ 1.350 Lántökugjald kr. 14.000 og veðbókarvottorð kr. 1.000 vegna láns kr. 1.400.000 til greiðslu kaupverðs „ 15.000 Stimpilgjald 1,5% vegna sama kr. 21.000 og þinglýsingagjald kr. 1.350 „ 22.350 Lántökugjald kr. 78.200, stimpilgjald kr. 69.000 og skjalagerð kr. 3.900 vegna láns kr. 4.600.000 til greiðslu kaupverðs „ 151.100 Þinglýsingargjald vegna sama kr. 1.350 „ 1.350 Reikningur Súperlagna ehf. 17. ágúst 2008 „ 173.141 Kaupverð eldhúsinnréttingar 8. ágúst 2008 „ 259.665 Uppsetning eldhúsinnréttingar ágúst 2008 „ 232.000 Sjálfsábyrgð v/vatnstjóns á gólfdúk, hljómflutningstækjum og fata- skáp 15. ágúst 2008 „ 15.400 Sama „ 56.000 Samtals kr. 30.032.401 Krafan á hendur seljendum, stefndu Guðmundi og Díönu, um endurgreiðslu kaupverðs 29.000.000 króna, sé reist á 1., sbr. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 40/2002 og almennum reglum kröfuréttar og samningaréttar um skil á greiðslum við ógildingu samnings. Krafan að öðru leyti, 1.032.401 króna, sé skaðabótakrafa byggð á sakarreglunni, reglunni um samningsábyrgð og öðrum bótareglum fasteignakauparéttar vegna tjóns, sem stefnandi hafi orðið fyrir við það að stefndu hafi með saknæmri háttsemi vanefnt kaupsamninginn svo að honum verði rift eða hann ógiltur. Eigi stefnandi því lögvarinn rétt til bóta, efnda- og/eða vangildisbóta úr hendi stefndu þannig að hún verði eins sett og kaupsamningurinn hefði aldrei verið gerður. Þar á meðal séu ofangreindir kostnaðarliðir vegna þinglýsingar- og stimpilgjalda og annars tilheyrandi kostnaðar vegna kaupsamnings, afsals og lánaskjala og umsýslugjalds til stefndu vegna kaupanna og greiðslu kaupverðs. Reikningur Súperlagna ehf. sé vegna bráðnauðsynlegra úrbóta, sem stefnandi hafi orðið að ráðast í vegna galla á lögnum í holrýminu. Reikningurinn hafi verið metinn réttur í matsgerð og vinna og verðlagning í honum innan eðlilegra marka. Tjón vegna sjálfsábyrgðar sé vegna vatnsleka úr ofnum vegna galla á þeim, en tjónið hafi að öðru leyti verið bætt úr vátryggingu stefnanda hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. Í kaupverði eldhúsinnréttingar og uppsetningu hennar séu fólgnar endurbætur á fasteigninni sem auki verðgildi hennar stefndu til hagsbóta, en séu stefnanda að sama skapi að tjóni og stefndu beri að bæta sem hluta af skilum á greiðslum kaupsamningsaðila. Krafan á hendur stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. sé byggð á sakarreglunni og ströngum bótareglum skaðabótaréttar um ábyrgð sérfræðinga. Byggt sé á reglum um skaðabótaskyldu, sem og reglum um vinnuveitandaábyrgð, og um stranga ábyrgð fasteignasala sem sérfræðings á verkum sínum og starfsmanna sinna, sbr. 27. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Þessar ströngu ábyrgðarreglur taki mið af þeim reglum og venjum, sem gildi um fasteignamiðlun og þeirri þekkingu sem viðkomandi búi yfir á þeim tíma sem atvik eigi sér stað. Sé á því byggt að þessi stefndu hafi vanrækt verulega skyldur sínar og brotið lagareglur sem um fasteignasala gilda. Hafi þeim því orðið á mistök vegna gáleysis sem valdið hafi stefnanda þessu tjóni. Tjóninu hafi bæði valdið að í söluyfirliti fasteignasölunnar, sem stefndu hafi verið skylt að gera í samræmi við fyrirmæli 10. og 11. gr. nefndra laga, hafi hvorutveggja verið rangar og ófullnægjandi upplýsingar og löggilti fasteignasalinn, stefnda Erna, hafi vanrækt að skoða eignina sjálf. Einnig hafi stefnda vanrækt að semja rækilegt yfirlit um þau atriði, sem skipt gætu máli við sölu eignarinnar, sbr. 1. mgr. 10. gr. nefndra laga infine. Með því hafi stefnda brotið alvarlega gegn starfsskyldum sínum samkvæmt almennum reglum og venjum á þessu sviði, enda sé það eitt helsta hlutverk fasteignasala að sjá til þess að réttar upplýsingar um eign liggi fyrir við sölu. Sé á því byggt að bótaskylda stefndu sé viðurkennd vegna ónógrar upplýsingagjafar til stefnanda. Því sé og haldið fram að stefnda hefði með því að skoða eignina vandlega sjálf og grafast fyrir um ástand hennar við seljendur við gerð söluyfirlitsins, átt að hafa næga vitneskju um inngrip og óleyfisframkvæmdir seljenda við eignina og upplýsa stefnanda um það ástand eignarinnar og ókosti í söluyfirliti eða með öðrum hætti fyrir kaupin. Því hafi stefnda ekki gætt þess vandlega að fram kæmu í söluyfirliti öll grundvallaratriði um eiginleika og ástand eignarinnar, sem ásamt skoðun kaupanda á eign þegar við á, megi ætla að gæti verið grundvöllur ákvörðunar kaupanda um hvort hann kaupi eignina og hvaða verð hann sé tilbúinn að greiða fyrir hana, sbr. 1. mgr. 11. gr. nefndra laga og einnig c- og j-lið 2. mgr. 11. gr. laganna. Því sé einnig haldið fram að stefndu hafi ekki, eftir að kaupin hafi verið ráðin og eignin afhent stefnanda, brugðist með fullnægjandi hætti við kvörtunum stefnanda um ólykt og skordýrafár í húsinu. Þau hafi vanrækt það sem þeim hafi þó borið að gera, þ.e. að framkvæma af þessum gefnu tilefnum sjálfstæða skoðun á eigninni og ástandi hennar gagnvart byggingar- og heilbrigðisreglum og gera stefnanda grein fyrir eðli og umfangi þeirra galla, enda beri fasteignasala samkvæmt 15. gr. laga nr. 99/2004 að liðsinna bæði kaupanda og seljanda og gæta réttmætra hagsmuna þeirra. Þau hafi hvorki liðsinnt báðum aðiljum, seljendum og kaupanda, jafnt né gætt réttmætra hagsmuna stefnanda og með því brotið gegn starfsskyldum sínum samkvæmt 15. gr. nefndra laga. Sé þessi háttsemi stefndu Ernu ótvírætt saknæm og beri hún og stefnda F.K. Reykjavík ehf. því skaðabótaábyrgð á því tjóni, sem stefnandi hafi orðið fyrir af þessum sökum. Stefnandi vísi einnig til þess og ítreki að bótaskylda stefndu vegna ónógrar upplýsingagjafar gagnvart kaupanda vegna holrýmis í grunni hússins sé viðurkennd í símbréfi réttargæslustefnda. Stefnandi byggi á því að vanræksla stefndu Ernu hafi orðið henni til verulegs tjóns sem nemi öllu kaupverði fasteignarinnar og bótaskylda stefndu Ernu og F.K. Reykjavík ehf. sé sjálfstæð gagnvart stefnanda og óháð riftun eða ógildingu kaupsamningsins, þar sem kaupin hafi orðið ekki síst vegna saknæmrar vanrækslu stefndu Ernu á starfsskyldum sínum gagnvart stefnanda. Sönnunarbyrði fyrir hinu gagnstæða hvíli á stefndu, sbr. hinar ströngu reglur um sérfræðiábyrgð. Stefnandi hafi ekki sýnt af sér neina saknæma háttsemi, svo sem með því að vanrækja aðgæsluskyldu sína við skoðun á fasteigninni. Þótt gerð sé sú dómkrafa að stefndu Erna og F.K. Reykjavík ehf. verði dæmd óskipt til greiðslu fjárkröfunnar 30.032.401 kr. með seljendum sé krafan á hendur þeim fyrstnefndu gerð óháð því hvort greiðsluskylda seljenda verði tekin til greina. Á því sé byggt að stefndu Erna og F.K. Reykjavík ehf. séu greiðsluskyld gagnvart stefnanda óskipt með seljendum þótt ekki sé á sama lagagrunni og því sé sú krafa gerð. Það komi síðan í hlut allra stefndu sjálfra innbyrðis hvernig fari um ráðstöfun fasteignarinnar, sem við riftun eða ógildingu kaupsamningsins gangi til baka til seljenda, nema stefndu og réttargæslustefndi vilji ákveða annað. Krafist sé vaxta af 30.032.401 krónu samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og einstökum greiðslum kaupverðs frá greiðsludögum kaupverðsgreiðslna og dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. sömu laga frá 4. október 2009 af öðrum kröfuliðum og kröfunni í heild, en þá hafi mánuður verið liðinn frá dagsetningu kröfubréfs, stefnanda 4. september 2009, og riftunaryfirlýsingu. Varakrafa stefnanda um skaðabætur á hendur öllum stefndu og/eða afslátt á hendur stefndu Guðmundi og Díönu sé reist á öllum þeim sömu málsástæðum og aðalkrafan. Á hendur seljendum, stefndu Guðmundi og Díönu, sé varakrafan einnig reist á bótareglum fasteignakauparéttar um skaðabætur bæði fyrir beint og óbeint tjón, samningsábyrgð vegna vanefnda seljenda á samningsskyldum sínum, þ.e. hinni afar ströngu stjórnunarábyrgð sem sé í eðli sínu hlutlæg ábyrgð, sbr. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 40/2002. Varakrafan sé einnig byggð á bótareglum 2. mgr. 43. gr., þar sem gallar og tjón stefnanda af þeim sökum samkvæmt matsgerðum og öðrum gögnum verði rakin til saknæmrar háttsemi seljenda. Fasteignin hafi ekki við kaupsamningsgerð verið í samræmi við ábyrgðaryfirlýsingar seljenda, sem fólgnar hafi verið í söluyfirliti, staðhæfingum seljenda og fasteignasölunnar um að eignin væri engum ókostum haldin og yfirlýsingu í greinargerð seljenda í fyrra dómsmáli um að viðbót við íbúðarrýmið mælti með nýtingu holrýmisins. Varakrafan á hendur stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. sé reist á öllum þeim sömu rökum sem greini í aðalkröfu. Allt það tjón sem varakrafan standi saman af sé afleiðing af saknæmri háttsemi þeirra og annarra starfsmanna fasteignasölunnar. Varakrafan byggi á niðurstöðum matsgerða og sundurliðist þannig: 1.1. Samkvæmt matsgerðum, sbr. nánar hér að neðan kr. 3.345.200 1.2. Frádráttur vegna virðisaukaskatts af vinnulið kr. 387.401 1.3. Hreinsun innanstokksmuna kr. 713.000 1.4. Afnotatap á viðgerðartíma kr. 150.000 2. Reikningur Súperlagna ehf. kr. 173.141 3. Skert notagildi eignarinnar til íbúðar maí 2008 til nóvember 2010 31 mánuður x kr. 75.000 kr. 2.325.000 4. Ekkert notagildi eignarinnar, þar sem stefnandi varð að flytja úr íbúðinni, en þá lá fyrir að hún væri ekki íbúðarhæf og heilsu- spillandi að búa í henni 16 mánuðir frá og með desember 2010 x kr. 150.000 kr 2.400.000 Samtals kr. 8.718.940 Verkþáttur: Efni og tæki Vinna Alls Samkvæmt frummatsgerð, verðlag júní 2009: Þakgluggi 3.000 6.500 Svalahurð og gluggi 75.000 120.000 Málning utanhúss hlutdeild Ásgarðs 131 56.700 83.000 kr. 344.200 Holrými í grunni hússins og fleira skv. viðbótarmatsgerð, verðlag mars 2011: Matsliður E, hluti 1. Hreinsa rými húss eins og lýst er í matslið C: Aðstaða og undirbúningur 25.000 31.000 Fjarlægja og farga öllum lífrænum jarðveg úr útgröfnu rými sem og steyptar lagnir sem liggja lausar í jörðu 70.000 164.000 Fjarlægja og farga trévirki við hurðargat, gifs og tréklæðningum á vegg er snýr að útgröfnu rými 17.000 72.000 Veggi, loft og aðra byggingarhluti í útgröfnu rými þarf að bursta upp og hreinsa með sótthreinsandi efnum þannig að yfirborð verði hreint og laust við sveppi 15.000 61.000 Fjarlægja þarf og farga öllum lausum gólfefnum sem eftir er 10.000 72.000 Veggi, loft, gólf, innréttingar og hurðir þarf að hreinsa með þar til gerðum kemiskum hreinsiefnum 45.000 205.000 Frágangur í verklok, þ.m.t. fjarlægja rusl og farga 25.000 61.000 kr. 873.000 Matsliður E, hluti 2. Holrými í grunni hússins: Aðstaða og undirbúningur 30.000 37.000 Hönnun teikningar, umsókn um byggingarleyfi og úttektir. 35.000 181.000 Loka jarðvegsyfirborði með rakavarnarlagi og steyptri botnplötu 120.000 82.000 Koma fyrir útloftun frá rými, loka opum á sökkli 120.000 129.000 Einangra gólfplötu og veggi 60.000 78.000 Loka rými með fullnægjandi hætti, t.d. þéttri hurð 65.000 136.000 Frágangur í verklok þ.m.t. fjarlægja rusl og farga 25.000 20.000 kr. 1.118.000 Matsliður E, hluti 3. Gólfefni hússins: Aðstaða og undirbúningur 15.000 27.000 Gólfefni í stiga og kjallara 120.000 86.000 Gólfefni á 1. hæð, eldhús og stofu 260.000 120.000 Gólfefni á efri hæð 240.000 121.000 Frágangur í verklok þ.m.t. fjarlægja rusl og farga 7.000 14.000 kr. 1.010.000 Samtals kr. 1.438.700 kr. 1.906.500 kr. 3.345.200 Virðisaukaskattur sé innifalinn í öllum liðum. Virðisaukaskattur vegna vinnuliðar kr. 1.906.500 við viðgerðir á fasteigninni fáist endurgreiddur að fullu og nemi sú fjárhæð kr. 387.401 og komi að fullu til frádráttar heildarfjárhæðinni kr. 3.345.200. Afreiknuð séu 20,32% og miðað við að innifalinn virðisaukaskattur sé 25,5%, þó hann sé að hluta 24,5%. Fjárhæð kröfuliðar 1.1. kr. 3.345.000 samanstandi alfarið af kostnaði við nauðsynlegar úrbætur á göllum á eigninni og sé því beint tjón. Matsliður B. Hreinsun innanstokksmuna (kröfuliður 1.3): Aðstaða og undirbúningur 15.000 20.000 Fjarlægja alla innanstokksmuni s.s. húsgögn, húsbúnað og lausamuni, koma þeim fyrir í geymsluhúsnæði þar sem að- staða er til hreinsunar 135.000 93.000 Hreinsa muni með því að ryksuga og rykhreinsa. Þurrka skal af munum og þvo með sótthreinsiefnum 25.000 164.000 Allt tau s.s. gluggatjöld, mottur, laus teppi o.s.frv. þarf að þvo eða hreinsa 55.000 82.000 Flytja muni á staðinn aftur og koma fyrir 37.000 87.000 713.000 Samtals kr. 713.000 Stefnandi byggi á því að þetta tjón á innanstokksmunum sé bein og sennileg afleiðing af þeim göllum, sem eignin sé haldin, meðal annars af völdum áhrifa frá rakanum og sveppagróðrinum. Sé því haldið fram að það sé einnig beint tjón, en til vara sé byggt á því að ella beri að bæta það sem óbeint tjón samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga nr. 40/2002 og d-lið 2. mgr. 59. gr., þar sem um sé að ræða hluti sem notaðir séu í beinu sambandi og nánum tengslum við afnot fasteignarinnar. Leggi stefnandi áherslu á að ekki sé unnt að draga nein skörp skil milli beins og óbeins tjóns. Krafan um bætur vegna afnotataps á viðgerðartíma 150.000 krónur sé reist á því að flytja verði úr húsnæðinu meðan úrbætur á fasteigninni og innanstokksmunum samkvæmt matsgerðum séu framkvæmdar. Byggi stefnandi á því að þær taki að minnsta kosti einn mánuð og afnotatapi þessarar fjárhæðar sé stillt í hóf. Sé þessi kröfuliður öðrum þræði reistur á b-lið 2. mgr. 59. gr. laga nr. 40/2002 þar sem þetta tjón verði rakið til þess að fasteignin komi ekki að þeim notum sem með réttu hafi verið stefnt að með kaupum hennar. Kröfuliðir að upphæð 2.325.000 krónur vegna skerts notagildis eignarinnar og 2.400.000 krónur vegna einskis notagildis eignarinnar séu reistir á sömu rökum. Þessu til stuðnings vísi stefnandi til þess að allt frá því stefnandi hafi fengið eignina afhenta 26. apríl 2008 hafi verið mjög slæmt ástand í húsinu vegna raka, skorkvikinda og ólyktar.Þegar í tölvubréfi lögmanns stefnanda, sem þá hafi gætt hagsmuna stefnanda vegna þessa máls, 15. ágúst 2008 hafi verið óskað eftir skjótum viðbrögðum seljenda sérstaklega í ljósi þess að ástand eignarinnar væri að verða með þeim hætti að ekki væri langt í það að eignin verði óíbúðarhæf. Þá komi fram í matsgerð 8. júlí 2009 að verði ekki gengið frá rýminu þá myndist þar mikill raki og ólykt vegna rotnunar lífrænna efna sem skapi kjöraðstæður fyrir ýmis skorkvikindi sem auðveldlega geti ferðast um húsið. Á nokkrum mánuðum geti skapast þannig aðstæður að óíbúðarhæft verði í aðliggjandi rýmum. Stefnandi hafi veikst, fengið öndunarfærasýkingar og læknir sem hún hafi fengið heim til sín frá Læknavaktinni hafi gert alvarlegar athugasemdir við ástandið í húsinu. Hún hafi þurft að flytja úr því þar sem það væri heilsuspillandi. Staðfest sé með skýrslu sérfræðings og Húss og heilsu ehf., bréfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, vottorði sálfræðings, vottorði læknis og síðari matsgerð að húsið hafi allt frá því stefnandi hafi fengið það afhent 26. apríl 2008 verið óhæft til íbúðar og heilsuspillandi. Hafi það af þessum sökum orðið óbærilegt fyrir stefnanda að búa í húsinu og hafi hún flutt úr því um miðjan desember 2010. Geri stefnandi kröfu til bóta vegna algers afnotataps af eigninni frá þeim tíma, en aðeins að hálfu fyrir þann tíma frá afhendingu. Til stuðnings mánaðarlegri viðmiðunarfjárhæð, 150.000 krónum, vísi stefnandi til könnunar Neytendasamtakanna á leiguverði og þess kostnaðar, sem stefnandi beri og hafi borið af eigninni þennan tíma vegna afborgana af lánum sem tekin hafi verið vegna kaupanna og vegna fasteignagjalda brunatryggingariðgjalda af eigninni. Þessi gögn staðfesti að kröfum vegna afnotatapsins sé mjög í hóf stillt þar sem stefnandi hafi ekki haft afnot af eigninni en borið mikil útgjöld vegna hennar. Ekki geti eins og öllum atvikum sé háttað talist óvarlegt að ákvarða henni þessar bætur að álitum þar sem vandasamt kunni að vera að sanna fjárhæð tjónsins. Fari svo ólíklega að ekki verði fallist á bótaábyrgð stefndu á framangreindum bótagrundvelli sé á því byggt að stefnandi eigi rétt til afsláttar af kaupverði eignarinnar úr hendi seljenda, stefndu Guðmundar og Díönu, samkvæmt 41. gr. laga nr. 40/2002 í samræmi við framangreindan kostnað samkvæmt matsgerðum af því að bæta úr þeim göllum sem eignin sé haldin, samtals að fjárhæð 3.280.940 kr. (3.345.20 387.401 + 150.000 + 173.141). Krafist sé vaxta í varakröfu af dæmdri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. apríl 2011 til greiðsludags. Upphafstími dráttarvaxta miðist við að mestur hluti varakröfunnar sé byggður á verðlagi í mars 2011 samkvæmt matsgerð og með því sé ekki hallað á stefndu. Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttarins, fasteignakauparéttarins og meginreglna laga um fasteignakaup nr. 40/2002, svo sem 18. gr., 19. gr., 26. gr., 27. gr., 3. mgr. 29. gr., 32. gr., 2. mgr. 33. gr., 37. gr., 41. gr., 42. gr. og 43. gr. Vísað sé til laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa nr. 99/2004, svo sem 10. 16. gr., og reglugerðar um samninga um þjónustu fasteignasala og söluyfirlit nr. 939/2004, einkum II. kafla. Vísað sé til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, svo sem 43. og 44. gr. og annarra ákvæða IV. kafla, og byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Vaxtakröfuna reisi stefnandi á ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkröfuna styðji stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr., en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili. Málsástæður og lagarök stefndu Guðmundar Þ. Eyjólfssonar og Díönu Jóhönnu Svavarsdóttur Stefndu Guðmundur og Díana byggja aðal- og varakröfu sína á því að hvorki séu til staðar skilyrði riftunar né ógildingar, né heldur skilyrði til skaðabóta. Þegar stefndu hafi afhent stefnanda fasteignina hafi hún staðist allar þær kröfur um gæði, búnað og annað, sem af fasteignakaupalögum og kaupsamningi aðila hafi leitt. Stefndu hafni öllum fullyrðingum stefnanda um galla á hinni seldu fasteign. Hún hafi verið seld í því ástandi sem hún var í við kaupin. Stefndu bendi á að samkvæmt 2. málslið 18. gr. fasteignakaupalaga teljist notuð fasteign ekki gölluð, nema ágallinn rýri verðmæti hennar svo nokkru varði eða seljandi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Hvorugt skilyrðið sé uppfyllt í þessu máli. Stefndu neiti því að hafa sýnt af sér saknæma háttsemi við kaupin, því síður að hafa beitt stefnanda svikum. Stefnanda hafi ekki tekist sönnun um hið gagnstæða en sönnunarbyrðin hvíli á stefnanda. Stefndu hafi engu leynt sem varði kaupin þegar þau hafi verið gerð. Þau hafi upplýst stefnanda öðru fremur um allt það sem þau hafi talið að væri ábótavant og höfðu orðið vör við það rúmlega ár sem fasteignin hafi verið í eigu þeirra. Ávirðingum stefnanda í garð stefndu um óheiðarleika, gróf svik eða blekkingar sé vísað á bug. Þá hafi engir þeir ágallar verið á eigninni við afhendingu að þeir teljist hafa rýrt verðmæti hennar verulega. Um sé að ræða tæplega hálfrar aldar gamla fasteign og hafi stefnanda verið fullkunnugt um aldur hennar og ástand. Kaupendur eldri eigna verði ávallt að gera ráð fyrir því að ýmislegt kunni að þarfnast viðhalds og að ákveðin frávik á gæðum séu til staðar. Enda þótt einhver gæðafrávik hafi verið á fasteigninni við afhendingu teljist þau ekki til galla. Stefndu bendi í þessu sambandi á þá aðgæslu- og skoðunarskyldu sem hvíli á kaupanda samkvæmt 29. gr. fasteignakaupalaga en sú skylda sé sérstaklega rík þegar um sé að ræða eldri fasteignir. Stefnandi geti þess vegna ekki borið fyrir sig atriði sem honum hafi verið kunnugt um eða mátt vera kunnugt um við kaupin. Í athugasemdum við 26. gr. frumvarps þess sem orðið hafi að lögum um fasteignakaup sé tiltekið að aðgæsluskylda kaupanda takmarki upplýsingaskyldu seljanda þannig að seljandi eigi ekki að þurfa að upplýsa um augljós atriði. Stefnandi hafi engar formlegar athugasemdir gert við ástand fasteignarinnar þá tvo mánuði sem liðið hafi frá afhendingu hennar og fram að afsalsgerð. Stefnandi hafi engan fyrirvara gert við greiðslu lokagreiðslunnar eða haft uppi formlegar athugasemdir við gæði fasteignarinnar þá. Stefndu hafni riftunarkröfu stefnanda en skilyrði riftunar sé að um verulega vanefnd sé að ræða. Ljóst sé að það skilyrði sé langt því frá uppfyllt. Skilyrðum skaðabótaábyrgðar sé heldur ekki fullnægt. Bæði sé hlutfall meints tjóns stefnanda af kaupverði fasteignarinnar lágt en auk þess liggi fyrir að stefndu hafi ekki sýnt af sér saknæma háttsemi eða beitt stefnanda svikum. Stefnandi hafi krafist þess til vara í aðalkröfu sinni að kaup aðila verði ógilt. Sú krafa sé reist á ólögfestum reglum um rangar og brostnar forsendur og ógildingarreglum 30., 33., og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndu hafni öllum sjónarmiðum stefnanda um að ógildingarreglur samningaréttar eigi við í málinu. Sé sú afstaða studd sömu rökum og að framan séu rakin. Þyki þó ástæða til að árétta nokkur atriði í þessu sambandi. Engar forsendur hafi brostið fyrir kaupum stefnanda. Því sé jafnframt hafnað að fasteignin hafi ekki verið í lögboðnu ástandi vegna meintra galla eins og stefnandi hafi haldið fram. Fasteignin að Ásgarði 131 sé notuð fasteign og hafi stefnandi þess vegna mátt gera ráð fyrir því að hún kynni að þarfnast viðhalds. Stefndu vísi brigslum stefnanda í þeirra garð um gróf svik og „misferli gagnvart öryggis- og heilnæmiskröfum byggingar- og heilbrigðislöggjafar“ vegna meintra óleyfisframkvæmda á bug. Stefndu mótmæli því einnig sem ósönnuðu að þau hafi ein notið „atbeina og aðstoðar stefndu Ernu og fasteignasölunnar en stefnandi engrar“. Ekkert bendi til þess að svo hafi verið. Loks hafi stefnanda ekki tekist að sýna fram á orsakatengsl milli meints heilsutjóns síns og ætlaðrar bótaskyldrar háttsemi stefndu eða að tjónið sé afleiðing þeirrar háttsemi. Þær matsgerðir sem liggi fyrir í málinu lýsi aðeins kostnaði við ýmsar endurbætur og lagfæringar á fasteigninni en staðfesti enga galla. Þótt kostnaður kunni að vera metinn meiri eftir því sem líður frá kaupum og að fleira þarfnist viðhalds sé ekki um galla að ræða. Sérstök ástæða sé til að vísa til meginreglu fasteignakauparéttar um að áhætta af fasteign flytjist yfir til kaupanda við afhendingu eignar, sbr. 1. mgr. 12. gr. fasteignakaupalaga. Það meinta ástand á eigninni sem stefnandi fjalli um í löngu máli í stefnu megi rekja til stefnanda sjálfs. Liðin séu meira en fjögur ár frá kaupum stefnanda á fasteigninni. Lungann af þeim tíma hafi ekki verið búið í eigninni og stefnandi ekki hirt um hana. Stefndu bendi á að umfang meints tjóns stefnanda samkvæmt frum- og yfirmatsgerð hafi numið um tveimur milljónum króna. Hlutfall meintra ágalla hafi síður en svo rýrt verðgildi eignarinnar svo nokkru varði. Engin skilyrði séu því til riftunar. Síðar til komið ástand á fasteigninni, sem rekja megi til stefnanda, breyti engu um það. Það væri mjög óeðlilegt ef kaupandi fasteignar eignaðist ríkari rétt með aðgerðaleysi sínu. Stefndu telji meðal annars af þessari ástæðu að líta verði fram hjá viðbótarmatsgerð í málinu. Verði hins vegar litið svo á að um slíka ágalla á eigninni hafi verið að tefla að stefndu beri á þeim ábyrgð byggja stefndu á því að stefnandi hafi ekki gætt að tjónstakmörkunarskyldu sinni. Í 60. gr. fasteignakaupalaga séu ákvæði sem mæli fyrir um skyldu tjónþola til þess að gera ráðstafanir sem telja megi sanngjarnar til þess að takmarka tjón sitt. Geri tjónþoli það ekki verði hann sjálfur að bera þann hluta tjóns síns sem af því leiði. Stefnandi hafi ekki gripið til neinna ráðstafana til að bregðast við því ástandi sem virðist hafa skapast í kjölfar þess að hún hafi opnað inn í holrýmið í tengslum við framkvæmdir um mitt ár 2008. Þrátt fyrir áskoranir stefndu til stefnanda um að grípa til aðgerða hafi það ekki verið gert, sbr. t.d. áskorun í þinghaldi 19. janúar 2011. Af þeirri ástæðu einni geti stefndu ekki borið ábyrgð á tjóni eða kostnaði sem kunni að hafa hlotist af því. Byggt sé á því að sú háttsemi stefnanda að synja stefndu um að framkvæma úrbætur á holrými hafi verið ólögmæt. Yfirlýsingar stefndu um að vilja bæta úr ágallanum, án þess að í því fælist viðurkenning á bótaskyldu, bæði í ágúst 2008 og í þinghaldi í hinu niðurfellda máli 17. desember 2010, hafi frestað rétti stefnanda til að hafa uppi vanefndaúrræði. Enn fremur hafi stefnandi glatað rétti sínum til að hafa uppi kröfu um riftun vegna rýmisins, eða atriða sem má rekja til þess, þar sem hún hafi synjað stefndu um að láta fara fram úrbætur, sbr. 4. mgr. 39. gr. fasteignakaupalaga. Jafnframt vísi stefndu til 3. mgr. 32. gr. laganna hvað þetta áhræri. Samkvæmt ákvæðinu verði riftun ekki fram komið hafi fasteign rýrnað, skemmst ellegar farist meðan kaupandi beri ábyrgð á henni. Ef skylda til greiðslu skaðabóta þyki vera fyrir hendi vegna rangra upplýsinga í söluyfirliti, byggi stefndu á því að meðstefnda Erna Valsdóttir, persónulega og fyrir hönd F.K. Reykjavík, beri ein ábyrgð á þeim röngu upplýsingum. Stefndu hafi gengið út frá því að þær upplýsingar sem settar hafi verið í söluyfirlitið væru réttar enda hafi þau hvorki haft tilefni né tök á því að sannreyna þær. Verði litið svo á að öll hinna stefndu í málinu beri skaðabótaskyldu óskipt gagnvart stefnanda bendi stefndu á að ekki geti stofnast til skaðabótaskyldu þeirra, þ.e. Guðmundar og Díönu, þar sem grundvöllur ábyrgðar meðstefndu, Ernu Valsdóttur, sé 2. mgr. 25. gr., sbr. 1. mgr. 19. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þar sem stefnda Erna sé með ábyrgðartryggingu. Af þeim sökum verði að sýkna stefndu af skaðabótakröfum stefnanda. Stefndu geri athugasemdir við þau atriði sem dómkröfur stefnanda byggjast á. Meintur galli vegna holrýmis í kjallara fasteignarinnar sé stærsti kostnaðarliðurinn samkvæmt fyrirliggjandi matsgerðum dómkvaddra matsmanna. Stefndu árétti að þau hafi í engu leynt stefnanda um rýmið. Þau hafi kynnt það fyrir stefnanda sem möguleika á stækkun fasteignarinnar en stefndu hefðu kynnt sér svipaðar framkvæmdir í nærliggjandi fasteignum. Stefndu hafni því að um sé að ræða verulegt inngrip í burðarvirki fasteignarinnar. Framkvæmdir þeirra í holrýminu hafi hvorki valdið inngripi í burðarvirki né aukið á eða valdið moldar- eða rotnunarlykt. Þegar stefndu hafi opnað rýmið hafði jarðvegur sigið verulega og hafi því verið bæði loft, án ræstingar, inni í rýminu, en jafnframt hafi stuðningur við gólfplötu í eldhúsi þá enginn verið. Að auki beri myndir úr nærliggjandi fasteignum með sér að sambærilegar framkvæmdir hafi ekki haft áhrif á burðarvirki. Stefndu leggi áherslu á að þegar þau hafi lokað rýminu hafi lagnir verið óhreyfðar og að mestu huldar jarðvegi, stuðningur við þær hafi því verið nægur. Jafnframt hafi þau ekki orðið vör við neina moldar- eða rotnunarlykt eftir að rýminu hafi verið lokað. Stefndu telji að skemmdir á lögnum í rýminu megi rekja til framkvæmda stefnanda í eldhúsi. Rýmið sjálft eða tilvist þess sé því ekki galli á fasteigninni. Af matsgerðum 8. júlí 2009 og 11. apríl 2011 megi ljóst vera að opnun holrýmisins sé meginástæða þess ástands sem þar sé lýst. Rýmið hafi verið opnað í tengslum við framkvæmdir stefnanda í eldhúsi og á því beri stefnandi ábyrgð. Því hefði mátt ætlast til þess af stefnda, af fullri sanngirni, að rýminu yrði lokað að nýju, hvort sem væri til bráðabirgða eða að fullu. Því sé hins vegar ekki að heilsa. Stefnandi hafi þvert á móti sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að hafa haft rýmið opið í fjögur ár án aðgerða, sem hæfilegar hefði mátt telja, til að takmarka óæskileg áhrif þess á aðra hluta fasteignarinnar. Þrátt fyrir að fallist yrði á ábyrgð stefndu á holrýminu verði afleiðingum þess að rýmið hafi staðið opið ekki varpað yfir á þau. Stefndu vísi í þessu tilliti til skyldu aðila að fasteignakaupum til að takmarka tjón sitt með hæfilegum aðgerðum. Stefndu hafi boðið fram úrbætur, en stefnandi hafi komið í veg fyrir slíkt með haldlausri riftunarkröfu. Þar að auki hafi stefnandi sýnt af sér fullkomið og ámælisvert andvaraleysi gagnvart afleiðingum þess að rýmið hafi staðið opið. Á því verði stefnandi þess vegna að bera sjálf ábyrgð. Öllum kröfuliðum sem eigi rætur að rekja til þess ástands sem stefnandi hafi sjálf skapað með athöfnum sínum og athafnaleysi sé því vísað á bug. Þeir séu helstir, gólfefni og hreinsun innanstokksmuna. Þó svo að reikningur Súperlagna ehf. hafi litla þýðingu varðandi hlutfall meintra ágalla hafni stefndu honum og byggi á því að sá kostnaður hafi hlotist af framkvæmdum stefnanda við nýja eldhúsinnréttingu. Stefndu hafni kostnaðarliðum stefnanda vegna skerts notagildis eignarinnar til íbúðar og afnotataps á viðgerðartíma með sömu rökum og að framan greini. Að auki hafi stefnandi ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir þeim. Fjárhæðirnar sem byggt sé á séu ekki studdar haldbærum gögnum. Verði fallist á ábyrgð stefndu í málinu sé vísað til ákvæðis 1. mgr. 43. gr. fasteignakaupalaga varðandi skert notagildi sem stefnandi telji til tjóns í skaðabótakröfu sinni. Í ákvæðinu sé kveðið á um að ekki verði krafist bóta vegna óbeins tjóns skv. 59. gr. laganna, svo sem vegna þess að fasteign komi ekki að ætluðum notum, sé fasteign haldin göllum. Stefnandi verði sjálf að bera ábyrgð á þessum atriðum. Kröfuliðir sem varði glugga hússins, þar með talin þakglugga og svalahurð, séu ekki á ábyrgð stefndu. Í frummatsgerð sé aðeins kostnaði við endurbætur lýst en ekki fjallað um það hvort um ágalla sé að ræða. Þessum atriðum mótmæli stefndu. Ummerki leka við stofuglugga og svalahurð hafi verið mjög sýnileg við skoðun og hafi stefndu bent stefnanda sérstaklega á þörf á lagfæringum á gólfefni enda hafi stefndu tekið upplýsingaskyldu sína alvarlega. Í kaupsamningi aðila segi: „Kaupanda er kunnugt um leka í glugga við suðurhlið sem seljandi gerir við fyrir afhendingu hússins, þær skemmdir sem hugsanlega hafa orðið á parketi vegna lekans gerir kaupandi við.“ Stefndu hafi fengið viðurkenndan verktaka til að gera viðeigandi lagfæringar og hafi þannig verið komið í veg fyrir lekann. Stefndu byggi á því að aldrei hafi verið rætt eða samið um að skipt yrði um glugga eða hurðir. Í matsgerð segi að ekki hafi leynt sér síðustu árin að komið væri að endurbótum á gleri og gluggum og hafi það því verið augljóst við skoðun. Hvað málningu og ástand steypu fasteignarinnar að utan snerti byggi stefndu á því að þau hafi hvorki vitað né mátt vita að textinn væri rangur. Meðstefnda, Erna Valsdóttir, hafi áður selt stefndu fasteignina á sínum tíma og hafi þá sami texti verið í söluyfirliti. Textanum hafi verið haldið inni í söluyfirliti og hafi stefndu gengið út frá því að það sem þar kæmi fram væri rétt enda hafi þau ekki vitað betur. Engu að síður leggi stefndu í þessu sambandi áherslu á að um 700.000 kr. hafi verið í viðhaldssjóði raðhúsalengjunnar þegar fasteignin hafi verið seld og kostnaður við að gera viðeigandi úrbætur dreifist á alla hluta raðhúsalengjunnar skv. lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Mögulegur kostnaður stefnanda vegna viðeigandi úrbóta sé því hverfandi. Skýrslur og vottorð sem stefnandi hafi aflað einhliða, án nokkurrar aðkomu stefndu hafi enga þýðingu í málinu. Þá komi vottorð um líkamlega og andlega heilsu stefnanda ágreiningi aðila um fasteignakaup ekki við. Varakröfu sinni til stuðnings vísa stefndu til röksemda sinna fyrir sýknukröfu. Hvað sem öðru líði verði einnig að horfa til þess að þau geti ekki borið ein ábyrgð á tjóni stefnanda. Meðstefnda Erna og F.K. Reykjavík ehf. verði að axla jafnríka ábyrgð vegna ætlaðs gáleysis. Þá verði stefnandi sjálf að bera meirihluta sakar enda ljóst að hún hafi ekki sinnt skoðunar- og aðgæsluskyldum sínum og hafi með öllu vanrækt tjónstakmörkunarskyldu sína. Jafnframt telji stefndu að við afhendingu hafi stefnanda verið kunnugt um mörg þeirra atriða sem hún hafi síðar borið fyrir sig sem galla. Þá sé einnig á því byggt af hálfu stefndu að kröfur stefnanda séu tölulega of háar. Stefndu vefengi fjárhæðir í matsgerðum varðandi kostnað og úrbætur. Fari svo að fallist verði á kröfur stefnanda sé kröfum um dráttarvexti í öllum tilvikum mótmælt. Í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 4. september 2009, hafi hvergi nærri verið lagðar fram nægilegar upplýsingar um fjárhæð bóta. Einungis hafi verið skorað á stefndu að ganga til samninga við stefnanda um uppgjör á því tjóni sem stefnandi hafi talið meintar vanefndir stefndu hafa valdið sér. Endanleg kröfugerð stefnanda hafi ekki legið fyrir fyrr en með stefnu í þessu máli. Kröfur stefnanda geti í fyrsta lagi borið dráttarvexti frá því að mánuður hafi verið liðinn frá höfðun málsins, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Öllum dómkröfum, málsástæðum og öðrum rökum stefnanda sé mótmælt. Um lagarök vísist til meginreglna samningaréttar, kröfuréttar og fasteignakauparéttar. Vísað sé til laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa og laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Einnig sé vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 19. og 25. gr. laganna. Krafa stefndu um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé gerð krafa um virðisaukaskatt á tildæmdan málskostnað en stefndu séu ekki virðisaukaskattskyldir aðilar. Um greiðslu virðisaukaskatts á tildæmdan málskostnað sé vísað til laga nr. 50/1988. Málsástæður og lagarök stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. og réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. Af hálfu stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. sé bent á að í aðalkröfu hafi stefnandi uppi þá kröfu að staðfest verði riftun á kaupsamningi hennar og seljenda um húseignina að Ásgarði 131 og að öllum stefndu verði gert að greiða stefnanda óskipt 30.032.401 krónu ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Þar af nemi krafa um greiðslu kaupverðsins 29.000.000 króna, en eftirstöðvarnar, 1.032.401 krónu, kveði stefnandi vera útlagðan kostnað í tengslum við fasteignakaupin og viðgerðir og endurbætur á eigninni eftir að hún hafi tekið við henni. Beinist riftunarkrafan að seljendum á grundvelli 1. mgr. 42. laga um fasteignakaup nr. 40/2002 og krafa um endurgreiðslu kaupverðs, 29.000.000 króna, á 1. og 2. mgr. 33. gr., sbr. 3. mgr. 42. gr. laganna, en að öðru leyti á sakarreglunni. Gagnvart stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. sé krafan sögð byggjast á sakarreglunni og „ströngum bótareglum skaðabótaréttar um ábyrgð sérfræðinga“ og sé í þeim efnum vísað til 27. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Af hálfu þessara stefndu sé því alfarið vísað á bug að skilyrði riftunar kaupsamnings séu yfir höfuð fyrir hendi. Stefnanda hafi orðið ljóst, strax í kjölfar þess að hún hafi látið opna inn í holrýmið, að frágangur þar hafi ekki verið með fullnægjandi hætti. Þá hafi verið unnt með skjótum og tiltölulega ódýrum hætti að bregðast við ástandinu og koma í veg fyrir frekari afleiðingar. Framkvæmdir við að loka rýminu séu afmarkaðar við lítið svæði í kjallara hússins, þær hefðu tekið um 20 daga og stefnandi hefði ekki þurft að flytja út á meðan. Þetta komi skýrlega fram í matsgerð 8. júlí 2009. Þá sé staðfest með yfirmatsgerð að útgröfturinn úr rýminu hafi í engu raskað undirstöðum eða burðarvirki hússins. Af þeim sökum sé það álit yfirmatsmanna að ekki væri þörf á að styrkja gólfplötu yfir rýminu eða undirstöður í því eins og lagt hafi verið til í undirmatsgerð. Engir fyrirvarar séu í yfirmatsgerðinni varðandi þessa niðurstöðu. Staðhæfingar stefnanda um annað séu væntanlega á misskilningi byggðar. Því sé mótmælt sem algerlega ósönnuðu að hér hafi verið um verulega vanefnd að ræða sem fullnægi skilyrðum laga svo rifta megi kaupsamningi. Nánar um það að skilyrði riftunar séu ekki fyrir hendi sé vísað til málsástæðna og lagaraka í greinargerð seljenda, stefndu Guðmundar Þ. Eyjólfssonar og Díönu J. Svavarsdóttur. Hvað varði bótaskyldu stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. byggi stefnandi á því að vanræksla stefndu Ernu hafi orðið stefnanda til verulegs tjóns sem nemi öllu kaupverði fasteignarinnar og bótaskylda þeirra sé sjálfstæð og óháð riftun eða ógildingu kaupsamningsins. Þessu sé harðlega mótmælt sem fráleitu með öllu auk þess sem bótakrafa af þessu tagi hafi ekki nokkra lagastoð. Þótt stefnandi hafi uppi riftunarkröfu á hendur seljendum sé af og frá að kaupverð eignarinnar geti talist tjón sem hún geti krafist í formi skaðabóta úr hendi stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. Krafan, eins og hún sé sett fram, sé algerlega órökstudd og ekkert í gögnum málsins gefi til kynna að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni sem nemi kaupverðinu, en það sé nauðsynleg forsenda þess að stefnandi geti átt skaðabótakröfu á hendur þeim vegna kaupverðsins, sbr. 27. gr. laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Kröfu þessari beri því alfarið að hafna. Verði jafnframt að telja kröfu stefnanda er svari til kaupverðs eignarinnar vanreifaða og ekki studda nægilegum sönnunargögnum eins og áskilið sé, sbr. meðal annars e-, f- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa stefnanda um riftun virðist að miklu leyti byggjast á því að framkvæmdir seljenda í holrými í kjallara hússins hafi leitt til þess að íbúðin hafi orðið heilsuspillandi og óíbúðarhæf og hún hafi því neyðst til að flytja úr henni. Í síðustu matsgerðinni, frá 11. apríl 2011, komi fram að hið heilsuspillandi ástand íbúðarinnar hafi verið þannig í nokkurn tíma eða frá því opnað hafi verið inn í hið útgrafna rými og aðstæður hafi skapast til hinnar miklu rakamyndunar í íbúðinni. Ljóst sé að stefnandi hafi látið opna leið inn í rýmið í tengslum við endurbætur á afrennslislögnum í eldhúsi er hún hafi ráðist í að taka það í gegn um mitt ár 2008 eftir að hún fékk eignina afhenta. Hafi þá meðal annars verið tekin gifsplata sem hafði verið felld inn í hurðargat á vegg í kjallaranum sem legið hafi að holrýminu. Stefnandi hafi síðan aldrei látið loka rýminu með viðunandi hætti, en hún muni svo hafa flutt úr húsnæðinu í desember 2010. Stefnanda hafi mátt vera það ljóst frá upphafi að raki og skordýr bærust um íbúðina frá holrýminu og að engin breyting yrði í þeim efnum fyrr en rýminu yrði lokað aftur á fullnægjandi hátt. Stefnandi hafi því brugðist þeim skyldum sínum samkvæmt reglum skaðabótaréttarins að takmarka tjónið, sbr. og 1. mgr. 60. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Verði ekki betur séð en húsnæðið hafi orðið heilsuspillandi og óíbúðarhæft vegna þess að stefnandi hafi ekki sinnt lögmæltri tjónstakmörkunarskyldu sinni. Undir rekstri hins fyrra dómsmáls hafi ítrekað verið skorað á stefnanda að bæta úr, en því hafi ekki verið sinnt. Það sé því fyrst og síðast við stefnanda sjálfa að sakast að íbúðin sé komin í það ástand að hún teljist heilsuspillandi og óíbúðarhæf. Ábyrgð á ástandi eignarinnar eins og það kunni að vera nú geti hún því ekki varpað yfir á stefndu. Af þessu leiði að ekki sé unnt að líta til ástands eignarinnar á árinu 2011, hvað þá síðar, þegar lagt sé mat á það hvort um galla hafi verið að ræða á eigninni sem teljist hafa verið veruleg vanefnd á því tímamarki þegar seljendur hafi afhent stefnanda eignina í apríl 2008. Sé víðsfjarri að eignin hafi þá verið haldin slíkum galla að skilyrði riftunar kaupsamnings hafi verið fyrir hendi. Þar sem skilyrði riftunar séu ekki fyrir hendi sé heldur ekki grundvöllur fyrir eftirstöðvum aðalskaðabótakröfunnar, það er að segja 1.032.401 krónu. Í því sambandi skuli og sérstaklega tekið fram að sjálfsábyrgðir að fjárhæð 15.400 krónur og 56.000 krónur séu til komnar að því er virðist vegna tjónsatvika sem rekja megi til bilana í miðstöðvarofnum eftir að stefnandi hafi fengið eignina afhenta. Ekkert liggi fyrir um það að stefndu hafi vitað eða mátt vita við gerð söluyfirlits eða að öðru leyti í tengslum við aðkomu þeirra að söluferlinu að bilun í ofnum væri yfirvofandi. Þau geti því ekki borið ábyrgð á þessum kröfuliðum. Verði samkvæmt framangreindu ekki hjá því komist að sýkna stefndu Ernu og F.K. Reykjavík ehf., af þeim kröfum sem stefnandi hafi uppi gagnvart þeim í aðalkröfu. Á víð og dreif í stefnu sé að finna ávirðingar í garð stefndu Ernu og af þeim dregnar ályktanir sem séu allt í senn rangar, ósannaðar og ómaklegar. Hjá því verði ekki komist að mótmæla þeim harðlega. Þannig sé því borið við að stefnda Erna hafi haft á orði við stefnanda að seljendur væru heiðarlegt fólk og þeir könnuðust ekki við neina ólykt í húsinu. Hafi stefnda Erna með þessu veitt seljendum siðferðilegan styrk og öll afstaða hennar og annarra starfsmanna fasteignasölunnar í samskiptum við stefnanda hafi borið þess merki að hjá þeim hafi hagsmunir seljenda, sem hafi greitt þeim sölulaunin, verið í fyrirrúmi en hagsmuna stefnanda hafi í engu verið gætt. Hafi staða stefnanda verið veik á móti stöðu seljenda sem hafi notið einir atbeina og aðstoðar stefndu Ernu og fasteignasölunnar en stefnandi engrar. Hafi viðbrögð stefndu Ernu og starfsmanna fasteignasölunnar við kvörtunum eftir að kaupin voru gerð verið ófullnægjandi og aðilum hafi ekki verið liðsinnt jafnt né réttmætra hagsmuna stefnanda verið gætt og með því hafi verið brotið gegn ákvæðum 15. gr. laga nr. 99/2004. Þessu öllu sé vísað á bug sem staðleysu. Stefnda Erna sem og aðrir starfsmenn fasteignasölunnar hafi í hvívetna gætt hagsmuna beggja aðila, stefnanda jafnt sem seljenda. Það sé hrein firra að halda því fram að ummæli stefndu Ernu um heiðarleika seljenda hafi verið sett fram í því skyni að fá stefnanda með einhverju móti til að falla frá kvörtunum eða kröfum vegna galla sem hún hafi talið vera á hinni seldu eign. Eftir að stefnandi hafi kvartað við stefndu Ernu vegna ólyktar í húsinu hafi stefnda Erna reynt eins og í hennar valdi hafi staðið að miðla málum þannig að stefnandi fengi einhverja úrlausn, en án árangurs. Á engan hátt hafi verið sýnt fram á að stefnda Erna eða aðrir starfsmenn fasteignasölunnar hafi átt að bregðast öðruvísi við kvörtunum stefnanda en þau hafi gert. Þá hafi verið staðhæft að stefnda Erna og starfsmenn fasteignasölunnar ásamt seljendum hafi með sviksamlegri háttsemi, eða í öllu falli stórkostlegu gáleysi eða framferði sem stríði gegn heiðarleika og góðri trú, að því er virðist veitt ófullnægjandi eða rangar upplýsingar um kosti eignarinnar og galla. Að auki er því haldið fram að allir stefndu, hafi beitt stefnanda grófum svikum og blekkingum í því skyni að fá hana til að gera kaupsamning um húseignina að Ásgarði 131 og efna hann. Sakargiftir af þessu tagi eiga sér enga stoð í gögnum málsins. Er öldungis fráleitt að ábyrgð stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. verði með einhverju móti reist á röngum og ósönnuðum sakargiftum eins og hér um ræði. Á sama hátt sé vísað á bug sem röngu og ósönnuðu að skjala- og samningsgerð af hálfu stefndu Ernu og annarra starfsmanna fasteignasölunnar hafi verið áfátt þannig að bótaréttur stefnanda verði á því reistur. Í öllum málatilbúnaði sínum, einkum þó stefnu, geri stefnandi mikið úr umfangi og alvarleika ástands húsnæðisins af völdum holrýmisins, bæði hvað varði frágang þess og örverur og skordýr sem hafi fundist í húsinu. Séu í þessum efnum notuð í miklum mæli gildishlaðin lýsingarorð og atvikum öllum lýst á yfirdrifinn hátt. Slíkar lýsingar á húsnæðinu og málsatvikum að öðru leyti eigi sér ekki nokkra stoð í gögnum málsins, svo sem fyrirliggjandi matsgerðum. Hið sama gildi um lýsingar á heilsufari stefnanda. Framlögð gögn um bágt heilsufar stefnanda hafi enga þýðingu í máli þessu og því sé eindregið mótmælt sem röngu og ósönnuðu að bágt heilsufar hennar megi rekja til ástands húseignarinnar. Beri því óhjákvæmilega að horfa fram hjá öllum framangreindum atriðum í málatilbúnaði stefnanda við mat á því hvort húseignin hafi verið haldin galla, sem teljist veruleg vanefnd í skilningi 1. mgr. 42. gr. laga nr. 40/2002, þegar stefnandi hafi fengið hana afhenta. Varðandi aðalkröfu stefnanda á hendur stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf., sem og varakröfu á hendur þeim, sé vakin athygli á því að vátryggingarvernd þeirra takmarkist við vátryggingarfjárhæðina samkvæmt lögmæltri starfsábyrgðartryggingu, sem stefndi F.K. Reykjavík ehf. hafi haft í gildi hjá réttargæslustefnda, en vátryggingarfjárhæðin nemi 7.825.000 krónum. Varakröfu stefnanda sé mótmælt sem allt of hárri og beri að lækka hana verulega. Vikið sé þannig að einstökum liðum í varakröfu stefnanda. Frágangur og lokun holrýmis í grunni hússins Réttargæslustefndi hafi á sínum tíma fallist á greiðslu bóta samkvæmt upphaflegri matsgerð frá júlí 2009 vegna frágangs og lokunar holrýmisins. Á sömu forsendum hafi einnig verið fallist á greiðslu kostnaðar vegna viðgerðar á frárennslislögnum í rýminu samkvæmt fyrirliggjandi reikningi Súperlagna ehf. að fjárhæð 173.141 króna. Samkvæmt viðbótarmatsgerð dómkvaddra matsmanna 11. apríl 2011, sem stefnandi byggi nú kröfur sínar á nemi þessi liður til úrbóta á húseigninni 1.118.000 krónum (matsliður E, hluti 2). Ekki sé talin ástæða til að gera sérstakar athugasemdir við kröfu stefnanda sem byggist á þessum kröfulið. Einnig séu undir hluta 1 í matslið E þrír liðir sem beinlínis varði hreinsun og frágang í holrýminu, þ.e. fjarlæging og förgun jarðvegs 234.000 krónur, fjarlæging og förgun trévirkis o.fl. við hurðargat 89.000 krónur og hreinsun á veggjum o.fl. í holrýminu 76.000 krónur, eða samtals 399.000 krónur. Eftir atvikum megi einnig fallast á greiðslu þessara liða auk hlutfallslegs kostnaðar (55%) vegna aðstöðu og undirbúnings og frágangs í verklok eða 78.100 krónur ((56.000 + 86.000) x 55%). Að öðru leyti geti stefndu Erna Valsdóttir og F.K. Reykjavík ehf. ekki borið ábyrgð á þeim kröfum sem stefnandi hafi uppi í varakröfu sinni. Þakgluggi Frágangur á þakglugga hafi átt að blasa við stefnanda við eðlilega skoðun á eigninni, svo og ummerki sem sést hafi vegna leka. Sé af og frá að stefnandi geti haft uppi bótakröfur á hendur stefndu vegna ásigkomulags gluggans. Svalahurð og gluggi Eins og fram komi í kaupsamningi hafi stefnandi vitað um leka í glugga á suðurhlið hússins. Samkvæmt samningnum hafi seljendur tekið að sér að annast viðgerð á glugganum en stefnandi hafi hins vegar tekið á sig það tjón sem kunni að hafa orðið á gólfefnum (parketi) af völdum lekans. Engum vafa sé undirorpið að stefndu geti ekki með nokkru móti borið ábyrgð á þeim kröfum sem stefnandi hafi uppi af þessu tilefni. Ef kröfu þessa megi rekja til þess að seljendur hafi að einhverju leyti vanefnt samningsskyldur sínar í þessum efnum þá beri stefndu heldur ekki ábyrgð á þeim vanefndum. Þá segi í matsgerð að ástand svalahurðar og glugga hafi ekki leynt sér síðustu árin og komið sé að gagngerum endurbótum á gleri og gluggum. Það hafi því ekki átt að dyljast stefnanda að komið hafi verið að því að ráðast í endurbætur á þessum hlutum hússins. Hér verði og að hafa hugfast að umrædd húseign hafi verið 48 ára gömul og því viðbúið að ýmsir hlutar hennar þörfnuðust reglubundinnar endurnýjunar vegna aldurs og slits. Sé því hafnað með öllu að stefnandi geti átt skaðabótakröfu á hendur stefndu vegna endurbóta á gluggum, gleri og svalahurð í stofu. Málning utanhúss Við gerð söluyfirlits, sem útbúið hafi verið í tengslum við söluna, hafi verið haft að fyrirmynd eldra söluyfirlit sem útbúið hafði verið er seljendur hafi keypt eignina, en það hafi grundvallast á upplýsingum fengnum frá fyrri eigendum. Við gerð síðara yfirlitsins hafi seljendur ekki séð ástæðu til að breyta þeim upplýsingum sem í því hafi verið. Stefnda Erna hafi mátt treysta því að seljendur hefðu á þeim tíma sem þau höfðu búið í húsinu sannreynt að upplýsingarnar væru réttar. Stefndu Erna Valsdóttir og F.K. Reykjavík ehf. geti því ekki borið ábyrgð ef upplýsingar í söluyfirlitinu, sem byggðar hafi verið á upplýsingum frá seljendum, reynist ekki réttar. Þótt komið hafi fram í söluyfirlitinu að gert hafi verið við múr og húsið málað að sögn seljenda fyrir um það bil fjórum árum sé því mótmælt sem ósönnuðu með öllu að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni af þessum sökum. Af útliti hússins, eins og því sé lýst í matsgerð hins dómkvadda matsmanns, hefði stefnandi mátt sjá að þurft hefði að mála húsið innan skamms tíma og eftir atvikum lagfæra steypu- og ryðskemmdir. Þetta hefði stefnandi miklu fremur séð af útlitinu einu saman en af því sem greint hefði verið frá í söluyfirliti um það hvenær slíkar endurbætur hefðu síðast farið fram. Þótt einhverrar ónákvæmni kunni að hafa gætt í söluyfirlitinu að þessu leyti sé fráleitt að það eitt geti verið grundvöllur skaðabótakröfu á hendur stefndu. Þá hafi seljendur upplýst að um 700.000 krónur hafi verið til staðar í sérstökum viðhaldssjóði allrar raðhúsalengjunnar. Það geti því aldrei orðið nema að mjög svo óverulegu leyti sem viðgerðar- og málningarframkvæmdir utanhúss verði fjármagnaðar með framlagi af hálfu stefnanda og alls ekki meira en eðlilegt og sanngjarnt geti talist fram að þeim tíma er húseigendur ákveði að ráðast í þær framkvæmdir sem hér um ræði. Kröfu stefnanda um bætur vegna kostnaðar við endurbætur utanhúss beri því að hafna. Gólfefni Kröfu stefnanda um bætur vegna gólfefna, samtals 1.010.000 krónur, virðist að töluverðu leyti mega rekja til atvika er ofnar (loftkranar) hafi bilað annars vegar í stofu og hins vegar í svefnherbergi á efri hæð. Hér sé um að tefla atvik sem hafi orðið eftir að sala eignarinnar átti sér stað. Af gögnum málsins verði ekki betur séð en tjón sem af þessu hafi hlotist hafi þegar verið bætt úr húseigendatryggingu sem stefnandi hafði keypt hjá Vátryggingafélagi Íslands hf., að minnsta kosti að stærstum hluta. Við gerð söluyfirlits og skoðun á eigninni af hálfu fasteignasölunnar hafi ekki verið nokkur leið að átta sig á að bilun í ofnunum væri í vændum. Ábyrgð vegna tjóns sem af þessu hafi hlotist verði því ekki felld á stefndu Ernu eða F.K. Reykjavík ehf. Enn fremur hafi stefnandi tekið á sig samkvæmt kaupsamningi tjón á parketi af völdum leka í glugga í suðurhlið hússins. Ekki verði heldur séð að tekið hafi verið tillit til þessa í kröfugerð stefnanda. Krafan sé vanreifuð að þessu leyti og beri alfarið að hafna henni. Að því leyti sem þessi kröfuliður byggi á því að gólfefni hafi eyðilagst af völdum raka og myglusvepps verði að horfa til þess, að tjón af þessum sökum verði einungis rakið til atvika sem stefnandi beri ein alla ábyrgð á þar sem hún hafi látið undir höfuð leggjast að gæta lögmæltrar tjónstakmörkunarskyldu sinnar. Stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. hafni því allri ábyrgð á tjóni stefnanda vegna endurnýjunar á gólfefnum í húsnæðinu. Flutningur úr húsi á viðgerðartíma Í upphaflegri matsgerð hins dómkvadda matsmanns, komi skýrt fram að endurbætur og viðgerðir á holrýminu geti farið fram án þess að stefnandi þurfi að flytja úr húsinu. Í ljósi þessa og tjónstakmörkunarskyldu stefnanda sé engin stoð fyrir kröfu hennar um afnotatap á viðgerðartíma að fjárhæð 150.000 krónur. Beri því að hafna henni. Skert notagildi húseignarinnar Þrátt fyrir þá ágalla á eigninni sem tíundaðir séu í fyrirliggjandi matsgerðum dómkvaddra matsmanna sé með öllu ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni vegna skerts notagildis eignarinnar til íbúðar. Þá verði heldur ekki fram hjá því litið að skert notagildi eignarinnar, að því marki sem það kann að hafa verið fyrir hendi, verði alfarið rakið til þess að stefnandi hafi ekki sinnt tjónstakmörkunarskyldu sinni. Af þeirri ástæðu beri einnig að hafna þessari kröfu stefnanda. Ekkert notagildi eignarinnar, hreinsun innanstokksmuna o.fl. Kröfur stefnanda vegna þess að hún hafi ekki notað íbúðina frá desember 2010, samtals að fjárhæð 2.400.000 krónur, vegna hreinsunar á innanstokksmunum að fjárhæð 713.000 krónur, svo og kröfur vegna fjarlægingar og förgunar á lausum gólfefnum og hreinsunar á veggjum o.fl., samtals að fjárhæð 332.000 krónur (82.000 + 250.000), sem getið er í hluta 1 undir matslið E í viðbótamatsgerðinni frá 11. apríl 2011, eigi það allar sammerkt að þær verði alfarið raktar til þess að stefnandi hafi um árabil engar ráðstafanir gert til að loka margnefndu holrými í kjallara hússins þannig að allan þennan tíma hafi raki, skordýr og ólykt átt greiða leið um húsið. Kröfuliðir þessir séu því einnig til komnir sökum þess að stefnandi hafi með grófum og alvarlegum hætti hunsað lögmælta tjónstakmörkunarskyldu sína. Það sé því með öllu útilokað að stefndu Erna Valsdóttir og F.K. Reykjavík ehf. geti borið ábyrgð á þessum kröfuliðum og beri því að hafna þeim að öllu leyti. Vextir Kröfu stefnanda um upphafstíma dráttarvaxta sé eindregið mótmælt. Þótt bótakrafa stefnanda hafi að hluta verið viðurkennd strax með símbréfi réttargæslustefnda hinn 7. desember 2009 sé stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf., sem og réttargæslustefnda, í reynd ómögulegt að greiða hinar viðurkenndu bótakröfur á meðan stefnandi haldi til streitu aðalkröfu sinni um riftun, þar sem greiðsla skaðabótanna geti aldrei farið saman við riftunina og þau réttaráhrif sem hún hafi í för með sér. Þessi ómöguleiki á greiðslu skaðabótanna sé því alfarið á áhættu stefnanda. Meðan svo sé ástatt geti ekki komið til þess að kröfurnar beri dráttarvexti, sbr. 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Að óbreyttri kröfugerð stefnanda geti þær bótakröfur, sem hún kunni að eiga á hendur stefndu, því ekki borið dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi frá endanlegum dómsuppsögudegi að telja, sbr. síðari málslið 9. gr. laga nr. 38/2001. Málskostnaður Málskostnaðarkröfur stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf., bæði í aðalkröfu og varakröfu, séu reistar á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Forsendur og niðurstaða Að virtum gögnum málsins og því sem fram hefur komið við aðalmeðferð þess í skýrslum aðila, sérfróðra vitna og annarra vitna og við vettvangsgöngu telur dómurinn málsatvik upplýst. Greint verður í upphafi frá því helsta sem fram kom fyrir dóminum um holrými undir eldhúsi áður en fjallað verður um kröfur aðila og leyst úr þeim. I. Málsatvik varðandi holrými undir eldhúsi Stefndi Guðmundur bar fyrir dóminum að hann hefði ákveðið þegar hann bjó í húsinu að kanna möguleika á að stækka það með því að grafa út rými undir eldhúsi. Hann hafi fengið fyrirtæki til að saga hurðargat í vegg í kjallara og hafi síðan sjálfur með aðstoð fjögurra manna hafist handa við að grafa rýmið út. Þeir hafi unnið að því þrjár helgar áður en hann ákvað að hætta við verkið, sem þá hafði kostað hann um það bil 150.000 krónur. Lýsti hann aðstæðum þannig í rýminu við opnun þess að efst hafi verið um það bil 15 cm holrúm undir gólfplötu eldhúss og að jarðvegurinn hafi verið þurr efst, eins og ryk, en þegar neðar hafi dregið hafi tekið við möl og mold og þetta hafi verið blautt neðan til. Þeir hafi í raun verið að grafa inn í hlíðina sem húsið stendur í og þetta hafi verið eins og að opna blómabeð með tilheyrandi lífríki. Þeir hafi komið niður á harðan jökulmel og hann hafi þá ákveðið að loka rýminu án þess að ljúka útgreftrinum. Trégrind hafi verið sett í hurðargatið, plast, einangrun og plata úr krossviði og loks lokað með gifsi, sparslað að utan og málað yfir. Stefndi Guðmundur bar fyrir dóminum að ekki hefði verið hreyft við steinrörum eða pípulögnum inni í rýminu. Hann kvaðst hafa vitað að sækja þyrfti um leyfi fyrir framkvæmd af þessu tagi en hann hafi ekki gert það þar sem hann hafi ákveðið að hætta við framkvæmdina, að minnsta kosti að svo stöddu. Guðmundur kvaðst hafa gert sér grein fyrir því að til að bakka út úr þessum framkvæmdum hefði þurft að dæla jarðvegi inn aftur og múra í hurðargatið. Gerði hann ráð fyrir að það myndi kosta um það bil 200.000 krónur. Hinn möguleikinn hefði verið að ljúka framkvæmdinni og reiknaði Guðmundur með því að það gæti kostað um fimm milljónir króna, en til þess að unnt væri að nota rýmið þyrfti að setja dren fyrir jarðvatn og loftræstingu. Guðmundur kvaðst ekki hafa menntun í húsbyggingum, en hann kunni þó vel að halda á hamri og hafi meðal annars fengið verðlaun fyrir að gera upp gamalt hús. Framburður stefnda Guðmundar fyrir dóminum var nokkuð reikull um það hvenær sumars 2007 hann hefði hafist handa við útgröft í holrýminu, hvenær því hafi verið lokað og hvers vegna. Fyrir liggur að söluskoðun Guðmundar Valtýssonar af hálfu stefndu fasteignasölunnar fór fram 15. ágúst 2007 og þá hafði rýminu þegar verið lokað og gengið þannig frá að vart sáust misfellur á veggnum sem rofinn var. Stefnandi bar fyrir dóminum að hún hefði skoðað eignina tvisvar sinnum áður en kaupin gerðust, en reitt sig á upplýsingar um eignina í söluyfirliti og þær upplýsingar sem fasteignasali og eigendur veittu við skoðun. Upplýst var við skoðun að rými væri bak við gifsvegg í kjallara þar sem stækka mætti íbúðina, en það kom ekki fram í söluyfirliti og var ástand rýmisins ekki rætt frekar við skoðun. Það var ekki fyrr en eftir að afsal hafði verið gefið út og endurbætur í eldhúsi hófust að í ljós kom í hvaða ástandi hafði verið skilið við rýmið undir eldhúsinu. Stefnandi, sem lét þegar gera við lagnir í rýminu og leitaði til seljenda um þátttöku í kostnaði við lagfæringar, bar fyrir dóminum að hún hefði ekki haft bolmagn til frekari viðgerða fyrir eigin reikning. Skýringar stefndu Ernu Valsdóttur fasteignasala fyrir dóminum á því að framkvæmdanna hafi ekki verið getið á söluyfirliti um eignina voru þær að ekki hafi verið unnt að skoða rýmið að innan en það hafi litið vel út að utan og stefndi Guðmundur hefði upplýst að vel hefði verið gengið frá. Þetta hafi ekki verið talinn sérstakur kostur við eignina og því hafi sölumaður ákveðið að ekki þyrfti að geta framkvæmdanna. Hún hafi staðfest söluyfirlitið athugasemdalaust og það hefðu seljendur líka gert. Við afsal hafi hún tekið upp umræðu um kvörtun stefnanda um skrýtna lykt í vaskaskáp, sem seljendur hafi ekki kannast við hvorki þá né áður og hefðu þau ekki minnst á holrýmið af þessu tilefni. Upplýst hafi verið við afsalsgerðina að stefnandi ætlaði að skipta um eldhúsinnréttingu á næstunni og hafi orð fallið þannig að orsök ólyktar kæmi betur í ljós við endurnýjun á vaski og fleiru. Stefnda Erna hafi ekki talið ástæðu til að ráðleggja stefnanda að halda eftir greiðslum af kaupverði þar sem hún gerði ráð fyrir að hægt yrði að leita til seljenda síðar ef á þyrfti að halda, enda væru þau borgunarfólk. Stefnda Erna lýsti aðkomunni, þegar rýmið hafði verið opnað, þannig fyrir dóminum að þar hafi verið moldarlykt, stór pollur á gólfi og augljóslega hefði eitthvað lekið þangað inn. Hún hafi þá ráðlagt stefnanda að láta laga þetta strax, hún hafi reynt að greiða fyrir samningum og ráðlagt stefndu Guðmundi og Díönu að greiða að minnsta kosti reikning Súperlagna vegna viðgerða á pípulögn. Seljendur hafi ekki talið sig bera ábyrgð og ekki viljað greiða reikninginn. Stefndi Guðmundur, sem er viðskiptafræðingur, bar fyrir dóminum að hann hefði haldið að það væri almennt ekki gert eftir að búið væri að selja. Þau hjón hafi því ekki boðið úrbætur og hafi ekki séð neina sök hjá sér. Þau hafi þó lýst sig tilbúin til viðræðna og til að greiða hluta reiknings Súperlagna, en ekki alla fjárhæðina. Reikningurinn er að fjárhæð 173.141 króna. Stefnda Erna Valsdóttir bar fyrir dóminum að ljóst hefði orðið á ákveðnum tímapunkti að lögmenn kaupanda og seljenda yrðu að leysa úr málinu. II. Krafa um riftun Samkvæmt 18. gr. laga um fasteignakaup, nr. 40/2002, telst fasteign gölluð ef hún stenst ekki þær kröfur um gæði, búnað og annað sem leiðir af lögunum og kaupsamningi. Notuð fasteign telst þó ekki gölluð, nema ágallinn rýri verðmæti hennar svo nokkru varði eða seljandi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 19. gr. laganna telst fasteign gölluð ef hún hentar ekki til þeirra afnota sem sambærilegar eignir eru venjulega notaðar til. Við mat á því hvort fasteign telst gölluð segir í 20. gr. laganna að miða skuli við það tímamark er hún flyst yfir í áhættu kaupanda, sem í þessu máli var við afhendingu eignarinnar 26. apríl 2008. Um galla getur þó verið að ræða þótt hann eða afleiðingar hans komi í ljós síðar. Seljandi ber ábyrgð á galla, sem fram kemur síðar, ef orsakir gallans eru vanefndir af hans hálfu. Samkvæmt 26. gr. laga um fasteignakaup telst fasteign gölluð ef kaupandi hefur ekki fengið þær upplýsingar um hana sem seljandi vissi eða mátti vita um og kaupandi hafði réttmæta ástæðu til að ætla að hann fengi. Þetta gildir þó aðeins ef það hefur haft áhrif á gerð eða efni kaupsamnings að upplýsingarnar voru ekki veittar. Þá telst fasteign gölluð samkvæmt 27. gr. sömu laga ef hún er ekki í samræmi við upplýsingar sem seljandi, eða þeir sem koma fram fyrir hans hönd, hafa veitt kaupanda. Hið sama á við ef fasteignin er ekki í samræmi við upplýsingar sem veittar eru í auglýsingum, söluyfirliti eða öðrum sölu- eða kynningargögnum. Það á þó aðeins við ef upplýsingar hafa haft áhrif á gerð eða efni kaupsamnings og þær eru ekki skýrlega leiðréttar í tæka tíð. Þótt fasteignakaup séu gerð með þeim skilmálum að eign sé seld „í því ástandi sem hún er og kaupandi hefur kynnt sér“ eða með sambærilegum almennum fyrirvara telst hún samt gölluð ef ákvæði 26. og 27. gr. eiga við. Fasteignin telst einnig gölluð, þótt hún sé seld með framangreindum skilmálum, ef ástand hennar er til muna lakara en kaupandi hafði ástæðu til að ætla miðað við kaupverð hennar eða atvik að öðru leyti Samkvæmt 42. gr. laganna getur kaupandi rift kaupsamningi ef galli telst veruleg vanefnd. Tilkynni kaupandi seljanda ekki um riftun innan sanngjarns frests frá því að hann vissi eða mátti vita um galla glatar kaupandi rétti til riftunar, nema seljandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi eða framferði hans stríði að öðru leyti gegn heiðarleika og góðri trú. Að því er varðar þau vandamál sem tengjast holrými undir eldhúsi telur dómurinn að eftir framkvæmdir við lagnir á vegum húsfélagsins á árinu 2001 og þar til stefndi Guðmundur Eyjólfsson hóf þar framkvæmdir á árinu 2007, hafi ástand í holrýminu verið með þeim hætti að jarðvatn hafi seytlað gegnum útvegg og óvirkt frárennslisrör inn í lek steinrör og þaðan út í jarðveginn sem umlukti þau. Styður dómurinn þá ályktun við lýsingar verktakans, sem bar vitni með símaskýrslu fyrir dóminum og við framburð stefnda Guðmundar og vitnis sem aðstoðaði hann við útgröftinn, að jarðvegurinn í holrýminu hafi verið þurr að ofanverðu en þéttur, rakur og harður neðar. Telur dómurinn ekki líklegt að það ástand óhreyft hefði haft í för með sér tjón á húseigninni. Þegar stefndi Guðmundur gróf út úr holrýminu fjarlægði hann þar með þann stuðning og þéttingu sem jarðvegurinn hafði veitt steinrörunum. Vegna breytinga sem þetta olli á rakaástandi rýmisins hefði þurft að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að rýmið væri loftræst eftir að því hafði verið lokað aftur, eins og nánar greinir í matsgerðum. Þessar aðstæður skópu gróðrarstíu fyrir þær lífverur sem valdið hafa tjóni í allri eigninni þannig að hún er nú talin óíbúðarhæf. Telja verður að tjónið sem af þessu hefur hlotist megi rekja til þeirra aðgerða stefnda Guðmundar, að loka rýminu án þess að ganga fyrst frá því á tryggilegan og faglegan hátt. Hann upplýsti fyrir dóminum að hann hefði ekki leitað aðstoðar sérfróðra aðila enda hefði hann sjálfur nokkra þekkingu á sviði húsbygginga. Ástand rýmisins eins og skilið var við það telur dómurinn án nokkurs vafa vera galla á eigninni. Ekki var upplýst um rýmið í söluyfirliti og upplýsingar um að ekki hefði verið gengið frá því með varanlegum hætti voru ekki veittar við skoðun. Stefndi Guðmundur lokaði rýminu í ástandi sem honum gat ekki leynst og hefur viðurkennt að hafa vitað, að væri ófullnægjandi til frambúðar. Bauð hann eignina til sölu að því er virðist í beinu framhaldi af lokun rýmisins án þess að gæta þess að framkvæmdanna væri getið á söluyfirliti, sem samþykkt var af stefndu Díönu af hálfu þeirra beggja. Með því að upplýsa stefnanda ekki við skoðun eignarinnar um ástand lagna, blauta mold og frágang í rýminu, verður talið að hann hafi af stórkostlegu gáleysi og því með saknæmum hætti brotið gegn lögbundnum skyldum sínum sem seljanda til að veita upplýsingar um eignina. Þessar upplýsingar eru af því tagi sem tilteknar eru í 26. gr. laga um fasteignakaup, að seljandi hafi mátt vita að kaupandi hefði réttmæta ástæðu til að ætla að hann fengi og að þær hefðu að öllum líkindum áhrif á gerð og efni kaupsamnings. Aðalkrafa stefnanda er á því reist að gallar þeir sem á húseigninni eru uppfylli skilyrði 42. gr. laga um fasteignakaup um verulega vanefnd og því megi rifta kaupunum. Við mat á því hvort galli telst veruleg vanefnd verður að líta til ástandsins á þeim tíma þegar áhætta af eign færist frá seljanda til kaupanda, að teknu tilliti til ákvæða 20. gr. laganna þar sem segir að seljandi beri ábyrgð á galla, sem fram kemur síðar, ef orsakir gallans eru vanefndir af hans hálfu. Í máli þessu er ljóst að gallinn sem riftunarkrafan er aðallega byggð á, kom fram eftir að áhættan af eigninni færðist til kaupanda, eða rúmlega tveimur mánuðum eftir afhendingu, þegar stefnandi hugðist skipta um eldhúsinnréttingu. Riftunarkrafa stefnanda er studd þeirri málsástæðu að húsið hafi ekki haft þann áskilda kost að vera íbúðarhæft. Til að leysa úr kröfu stefnanda um riftun þarf að leggja mat á það hvernig ástand eignarinnar hafi verið þegar stefnandi varð gallans vör. Dómurinn telur sannað að ólykt frá rýminu hafi borist upp í eldhúsið gegnum vaskaskáp og að ekki sé útilokað að þá hafi jarðvegspöddur svo sem ranabjöllur náð að finna sér bólfestu víðar í húsinu, auk þess sem þar hafi verið silfurskottur. Samkvæmt gögnum málsins verða heilsuspillandi aðstæður í eigninni nú raktar til þess að holrými í kjallara hafi verið opnað og ekki verið lokað aftur með forsvaranlegum hætti. Í matsgerð 11. apríl 2011, sem hinir dómkvöddu matsmenn staðfestu fyrir dóminum, kemur fram að við skoðun þeirra uppfyllti húsnæðið ekki reglur um hollustuhætti, það hafi verið heilsuspillandi og ekki íbúðarhæft. Líkur væru á að ástandið hefði verið þannig í nokkurn tíma eða frá því að opnað hafi verið inn í hið útgrafna rými og aðstæður hafi skapast til hinnar miklu rakamyndunar í íbúðinni. Dómurinn telur að orsakir þess að húsið varð síðar óíbúðarhæft megi rekja til aðgerða stefnda Guðmundar í holrýminu og þess hvernig hann skildi við það. Ósannað er þó hvort aðstæður til rakamyndunar hefðu orðið þannig í húsinu að hinar heilsuspillandi aðstæður hefðu getað myndast síðar ef rýmið hefði ekki verið opnað aftur. Dómurinn telur ekki sennilegt að mygla eða aðrar heilsuspillandi örverur hafi náð að dreifa sér frá rýminu um húsið á tímabilinu frá því stefndi Guðmundur lokaði rýminu þar til stefnandi opnaði það til að lagfæra lagnir. Húsið telst því hafa verið íbúðarhæft við afhendingu, en ástand þess breyttist frá því að vera gallað til þess að verða óíbúðarhæft á einhverju tímamarki eftir að rýmið var opnað og stefnandi varð gallans vör. Það leiðir af framangreindu að riftun kaupanna verður ekki á því byggð að eignin hafi ekki haft þann áskilda kost, að vera íbúðarhæf, þegar gallinn kom í ljós. Af hálfu stefnanda er einnig á því byggt að framkvæmdir stefnda Guðmundar hafi verið ólögmætar þar sem hann gætti ekki að því að afla lögboðinna heimilda fyrir þeirri breytingu á húsinu sem í útgreftri fólst. Það er álit dómsins að á því stigi sem útgreftrinum var hætt hafi ekki verið um inngrip í burðarvirki hússins að ræða. Tekur dómurinn þar með undir mat yfirmatsmanna 14. ágúst 2010, sem hnekkja matsgerð 8. júlí 2009 um það atriði, að með útgreftrinum hafi ekki verið vegið að burðarvirki hússins. Ef haldið hefði verið áfram með framkvæmdina, eins og til stóð til að nýta rýmið til stækkunar hússins, hefði þurft að afla tilskilinna leyfa fyrir breytingum á húsinu. Riftun kaupanna verður ekki byggð á þeirri málsástæðu stefnanda að um óleyfisframkvæmd hafi verið að ræða. Ástand hússins á fyrrgreindum tíma í byrjun júlí 2008 verður samkvæmt framansögðu talið gallað. Í málsgögnum og með framburði sérfróðra vitna hefur mat verið lagt á kostnað við úrbætur á rýminu sjálfu, eins og það var á nefndum tíma, þannig að frágangur væri forsvaranlegur og frekari tjóni á eigninni afstýrt. Í matsgerð 8. júlí 2009 var þessi viðgerð talin kosta 885.800 krónur og að hún tæki um það bil 20 daga og ætti ekki að hafa veruleg áhrif á búsetu á efri hæðum hússins. Kostnaðarmat viðgerða í yfirmatsgerð 14. ágúst 2010 er 1.100.000 krónur. Í matsgerð 11. apríl 2011 er allur kostnaður við lagfæringar til að íbúðin geti talist íbúðarhæf, miðað við ástand hennar þá, metinn 3.001.000 krónur. Þar af telst kostnaður við þær aðgerðir, sem nægt hefðu til að lagfæra gallann í holrýminu og koma í veg fyrir frekara tjón, hefði verið ráðist í þær á fyrrgreindum tíma á árinu 2008, nema 1.768.241 krónu. Kaupverð eignarinnar var 29 milljónir króna. Með hliðsjón af umfangi umræddra annmarka á eigninni þegar þeir komu í ljós eftir afhendingu hennar verður ekki talið að um svo verulega vanefnd hafi verið að ræða að stefnandi hafi átt rétt á að rifta kaupunum. Verður því að hafna aðalkröfu stefnanda um riftun kaupanna. III. Krafa um ógildingu kaupanna Krafa stefnanda um að kaupin verði ógilt byggist á því að ógilda beri kaupsamninginn sjálfstætt á grundvelli 30. gr. laga nr. 7/1936 og einnig á grundvelli 33. gr. laganna, þar sem það yrði talið óheiðarlegt af seljendum að bera hann fyrir sig vegna þeirra óleyfisframkvæmda við húsið, sem fyrir hendi hafi verið þegar kaupsamningurinn var gerður. Kaupsamningnum beri að víkja til hliðar í heild á grundvelli 36. gr. laganna þar sem það sé eins og öllum atvikum sé háttað ósanngjarnt af seljendum eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Stefndu hafi beitt stefnanda grófum svikum og blekkingum í því skyni að fá hana til að gera við sig umræddan kaupsamning og halda áfram efndum hans með síðari kaupverðsgreiðslum. Fyrir liggur að stefndu upplýstu stefnanda um tilvist rýmisins við skoðun en ekki um ástand þess. Með því brutu stefndu gegn skyldum sínum samkvæmt 26. gr. laga um fasteignakaup og sýndu af sér stórkostlegt gáleysi. Þeirri háttsemi verður þó ekki jafnað til svika og blekkinga, en stefnandi hefur engar sönnur fært að því að beitt hafi verið sviksamlegum blekkingum við gerð kaupsamningsins, þannig að skilyrði séu til að ógilda samninginn á þessum grundvelli. Til stuðnings kröfu um ógildingu vísar stefnandi til málsástæðna sinna um kröfu um riftun og byggir á því að forsendur hafi brostið fyrir kaupunum vegna þess að húsið sem ljóst var að keypt hafi verið til íbúðar sé óíbúðarhæft. Stefnandi vísar til reglna samningaréttar um brostnar forsendur en hefur ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að húsið hafi verið óhæft til íbúðar þegar kaupsamningur var gerður. Við úrlausn málsins verður að byggja á þeim lögfestu sérstöku reglum sem um fasteignakaup gilda og þeim vanefndaúrræðum sem þau heimila, enda verður að telja að forsendusjónarmið samningaréttar, að því marki sem þau eiga við um fasteignakaup, felist í þeim lagareglum. Á þeim grundvelli er fjallað um þessar málsástæður varðandi riftunarkröfu hér að framan. Með vísun til þess sem þar segir verður kröfu um ógildingu kaupanna á grundvelli laga nr. 7/1936 og ólögfestra reglna samningaréttar einnig hafnað. IV. Fjárkröfur í aðalkröfu Af framangreindri niðurstöðu um kröfur um riftun og ógildingu kaupanna leiðir að hafnað er kröfu stefnanda um endurgreiðslu kaupverðs og vaxta af því. Af sömu ástæðum er hafnað kröfum stefnanda um greiðslu kostnaðar vegna þinglýsingar, stimpilgjalda og lántökugjalda. Í aðalkröfu eru einnig gerðar fjárkröfur vegna kaupa stefnanda á eldhúsinnréttingu og uppsetningu hennar. Þar sem ekki er fallist á að eigninni verði skilað samkvæmt framansögðu verður þessum kröfum á hendur stefndu hafnað. Þá eru í aðalkröfu gerðar kröfur um greiðslur vegna sjálfsábyrgðar á tjóni sem stefnandi hefur fengið bætt að öðru leyti frá Vátryggingafélagi Íslands hf. Þessar greiðslur komu til vegna bilunar í miðstöðvarofnum sem urðu í október 2008, eftir að áhættan af hinni seldu eign fluttist til kaupanda. Í matsgerð 8. júlí 2009 kemur fram að ástand og virkni ofna og lagna sé í eðlilegu samræmi við aldur og gerð byggingar. Leki frá miðstöðvarofnum eftir að stefnandi tók við eigninni verður með vísun til þess ekki talinn galli sem stefndu beri ábyrgð á og verður kröfum vegna tjóns af völdum bilunar í miðstöðvarofnum eftir afhendingu eignarinnar því hafnað. Loks er í aðalkröfu gerð krafa um greiðslu reiknings Súperlagna að fjárhæð 173.141 króna. Málatilbúnað stefnanda verður að skilja þannig að þessi krafa sé hluti af kröfu á hendur stefndu Guðmundi og Díönu um vangildisbætur í aðalkröfu. Þar sem ekki hefur verið fallist á kröfur um riftun eða ógildingu kaupsamningsins kemur þessi kröfuliður ekki til greina í aðalkröfu. Í varakröfu um skaðabætur eða afslátt er einnig gerð krafa um greiðslu þessa reiknings og verður tekin afstaða til hennar á þeim grundvelli í umfjöllun um varakröfu. V. Varakrafa á hendur seljendum um skaðabætur eða afslátt Ef fasteign er gölluð getur kaupandi krafist afsláttar samkvæmt 41. gr. laga um fasteignakaup. Samkvæmt 43. gr. laganna getur kaupandi krafist skaðabóta ef fasteign er gölluð. Skaðabóta má krefjast vegna annars tjóns en óbeins tjóns þótt seljandi hafi ekki sýnt af sér saknæma háttsemi. Ef galla eða tjón má rekja til saknæmrar háttsemi seljanda getur kaupandi krafist skaðabóta bæði fyrir beint og óbeint tjón. Í 59. gr. laga um fasteignakaup er nánar tilgreint hvað telja beri beint og óbeint tjón. Óbeint tjón er meðal annars tjón sem rekja má til þess að fasteign kemur ekki að þeim notum sem með réttu var stefnt að. Venjulegar ráðstafanir sem bæta eiga úr því að fasteign er gölluð og ráðstafanir sem takmarka annað tjón en óbeint tjón teljast beint tjón, sbr. 3. mgr. 59. gr. laganna. Þegar er fram komið að dómurinn telur stefnda Guðmund hafa með saknæmum hætti brotið gegn lögbundnum skyldum sínum sem seljanda fasteignar með því að leyna stefnanda mikilvægum upplýsingum um ástand holrýmisins. Stefnda Díana samþykkti söluyfirlit fyrir hönd þeirra beggja. Hún var viðstödd skoðun stefnanda á eigninni í tvígang án þess að upplýsa neitt frekar um frágang rýmisins og braut með því gegn skyldu sinni sem seljanda fasteignar samkvæmt 26. gr. fasteignakaupalaga. Bera bæði Guðmundur og Díana skaðabótaábyrgð vegna þessa galla á eigninni á grundvelli saknæmrar háttsemi. Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga um fasteignakaup getur seljandi boðist til að bæta úr galla og er kaupanda þá skylt að una því ef úrbætur hafa ekki í för með sér slík óþægindi fyrir hann að ósanngjarnt megi telja. Staðfest er með matsgerð að ekki hefði verið nauðsynlegt að flytja úr húsinu meðan úrbætur væru gerðar í kjallara. Stefndu Guðmundur og Díana áttu þess kost að bæta úr gallanum þegar hann kom í ljós. Upplýst er að stefnandi krafðist úrbóta þegar gallinn kom fram, en samkvæmt 3. mgr. 39. gr. skyldu úrbætur þá fara fram innan hæfilegs tíma. Fyrir liggur að stefndu Guðmundur og Díana hvorki neyttu heimildar sinnar til úrbóta né urðu við kröfum stefnanda um að úrbætur yrðu gerðar. Í greinargerð þessara stefndu er því haldið fram að stefnandi hafi synjað þeim um að framkvæma úrbætur, sem þau hafi lýst yfir að þau vildu gera án viðurkenningar á bótaskyldu. Sú synjun standi í vegi fyrir rétti stefnanda til að hafa uppi vanefndaúrræði. Fullyrðing um synjun stefnanda á því að stefndu bættu úr gallanum þykir þó ekki eiga sér stoð í gögnum málsins. Upplýst er að vilji og tilboð þessara stefndu um úrbætur náðu ekki lengra í ágúst 2008 en samþykki til viðræðna um bætur sem væru lægri en fyrirliggjandi reikningur vegna pípulagna, að fjárhæð 173.141 króna. Bókun lögmanna allra stefndu í þinghaldi 17. desember 2010 í fyrra dómsmáli, um vilja stefndu til að inna af hendi bætur vegna lagfæringa á holrými samkvæmt þeim gögnum sem þá lágu fyrir, án viðurkenningar á bótaskyldu, verður ekki talin fullnægja þeim lagaskilyrðum að umkrafðar úrbætur skuli fara fram innan hæfilegs tíma. Í sama þinghaldi var upplýst að stefnandi hefði flutt úr húsnæðinu sökum heilsuspillandi aðstæðna þar. Engin gögn liggja fyrir um að tilboð um tiltekna fjárhæð bóta eða tilteknar aðgerðir til úrbóta hafi verið gerð af hálfu þessara stefndu, hvorki þá né síðar. Stefndu vísa til 60. gr. laga um fasteignakaup um skyldu stefnanda til að takmarka tjón sitt með hæfilegum aðgerðum, sem hún hafi ekki gert og því þurfi hún sjálf að bera tjón sitt af þeirri framvindu sem varð á rýrnun eignarinnar eftir að holrýmið var opnað. Þessu til stuðnings er vísað til þess að skorað hafi verið á stefnanda að takmarka tjón sitt í þinghaldi í málinu 19. janúar 2011. Þótt fallast megi á það með stefndu, að tjón stefnanda hafi orðið mun meira vegna gallans af því að ráðstafanir voru ekki gerðar til að loka rýminu með forsvaranlegum hætti áður en mygla og örverur náðu að dreifa sér um húsið þar til það varð óíbúðarhæft, verður ekki fram hjá því litið að stefndu, sem bera bótaábyrgð vegna gallans höfðu átt þess kost að gera sjálf þessar úrbætur. Af hálfu stefndu Guðmundar og Díönu er því haldið fram að þeim hafi verið gert ókleift að bæta tjón vegna gallans vegna haldlausrar riftunarkröfu stefnanda. Af hálfu stefnanda var þó í upphafi aðeins krafist bóta eða afsláttar sem næmi nauðsynlegum lagfæringum, fyrst í ágúst 2008 og síðar í bréfi lögmanns stefnanda 10. nóvember 2008, þar sem meðal annars var boðað að til grundvallar bótakröfu/afsláttarkröfu væri fyrirhugað að óska dómkvaðningar matsmanns. Þessar kröfur og umleitanir stefnanda voru kröfur um úrbætur í skilningi 3. mgr. 39. gr. laga um fasteignakaup, en krefjist kaupandi slíkra úrbóta á galla skulu þær fara fram innan hæfilegs tíma. Stefndu urðu ekki við þessum kröfum stefnanda um bætur eða úrbætur. Það var ekki fyrr en með matsbeiðni í febrúar 2009, sem fyrst var minnst á mögulega riftunarkröfu af hálfu stefnanda. Niðurstaða matsins lá fyrir 8. júlí 2009, en riftun var lýst yfir með bréfi 4. september 2009, rúmlega einu ári eftir að kröfur um bætur til úrbóta voru gerðar. Að framangreindu virtu verður ekki fallist á að stefnandi hafi með riftunarkröfu sinni komið í veg fyrir að seljendur gætu bætt úr gallanum og hún verði af þeim sökum sjálf að bera þann hluta tjóns síns sem hlotist hefur af þeim drætti sem orðinn er á því að nauðsynlegar lagfæringar verði gerðar á þeim galla sem á eigninni var þegar hún tók við henni. Kaupandi getur krafist skaðabóta vegna kostnaðar sem hann hefur haft af úrbótum ef seljanda er skylt að bæta úr galla en gerir það ekki, sbr. 4. mgr. 39. gr. fasteignakaupalaganna. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga um fasteignakaup getur kaupandi krafist skaðabóta bæði fyrir beint og óbeint tjón ef galla eða tjón má rekja til saknæmrar háttsemi seljanda. Svo sem að framan greinir er bótaábyrgð stefndu Guðmundar og Díönu vegna gallans í holrýminu byggð á saknæmri háttsemi þeirra. Þeim ber því að bæta allt tjón stefnanda, sem sannanlega hefur af þessum galla hlotist, bæði beint tjón og óbeint tjón. Stefndu Guðmundur og Díana mótmæla öllum fjárhæðum í bótakröfu sem of háum tölulega og vefengja fjárhæðir í matsgerðum. Vefenging fjárhæða í matsgerðum er ekki studd neinum rökum og þeim matsgerðum sem fyrir liggja í málinu hefur ekki verið hnekkt að þessu leyti. Verða niðurstöður matsgerða um fjárhæðir einstakra kostnaðarliða því lagðar til grundvallar við úrlausn málsins. Í varakröfu stefnanda er krafist bóta með vísun til matsgerðar 8. júlí 2009 vegna svalahurðar og glugga að fjárhæð 195.000 krónur, vegna þakglugga að fjárhæð 9.500 krónur og vegna málningar utanhúss að fjárhæð 139.700 krónur. Byggt er á því að um galla sé að ræða á eigninni sem ekki hafi verið upplýst um við skoðun. Samkvæmt 29. gr. laga um fasteignakaup getur kaupandi fasteignar ekki borið fyrir sig galla sem hann þekkti til eða átti að þekkja til þegar kaupsamningur var gerður. Í því felst að seljandi verður ekki krafinn bóta vegna galla sem kaupandi mátti sjá við hefðbundna skoðun. Varðandi svalahurð og glugga verður að líta til þess að í kaupsamningi var sérstaklega tekið fram að seljandi myndi fyrir afhendingu hússins gera við leka í glugga á suðurhlið hússins, þar sem svalahurðin og glugginn eru sem matsgerðin tekur til. Í matsgerðinni kemur fram að svalahurð og gluggar beri þess merki að vera óþétt, fúin að hluta og hluti glers ónýtur. Ástand hurðar og glugga hafi ekki leynt sér síðustu árin og komið sé að gagngerum endurbótum á gleri og gluggum. Þegar litið er til þessarar lýsingar í matsgerð verður ekki séð að viðgerð sú sem seljendur tóku að sér að framkvæma samkvæmt kaupsamningi, þ.e. að laga lekann, hafi tekist. Verða stefndu því í samræmi við samningsskuldbindingu sína að bera ábyrgð á kostnaði af viðgerð í samræmi við matsgerð, 195.000 krónur, en virðisaukaskatt af vinnulið, 24.384 krónur, ber að draga frá tildæmdri bótafjárhæð, eins og greinir í dómkröfu. Um þakglugga segir í matsgerð að af frágangi innanhúss sé augljóst að ekki hafi verið gengið frá honum að fullu, glugganum sé lokað með krossviðarplötum skrúfuðum í opnanlegt fag og karm og stormjárn og krækjur vanti til að loka glugganum fyllilega. Augljós lekamerki séu á trékarmi glugga og máluðum flötum við glugga. Verður með vísun til matsgerðarinnar að telja að ástand þakgluggans hafi verið sýnilegt við hefðbundna skoðunog sýkna stefndu af kröfu stefnanda um bætur vegna hans. Krafa stefnanda um skaðabætur vegna málningar utanhúss er byggð á því að í söluyfirliti um eignina segi að húsið hafi verið málað fyrir um það bil fjórum árum, en síðar hafi komið í ljós í yfirlýsingu húsfélagsins 2. september 2008 að það hafi verið málað árið 2001, eða sjö árum fyrir kaupin. Stefndu Guðmundur og Díana vísa til þess að meðstefndu beri ábyrgð á þessum upplýsingum í söluyfirliti þar sem upplýsingarnar séu þær sömu og meðstefndu hafi veitt þeim sjálfum við kaup þeirra á eigninni og þau hafi ekki vitað betur. Í matsgerð kemur fram að af útliti utanhúss megi ráða að húsið hafi ekki verið málað nokkuð lengi. Fallast má á að stefndu Guðmundur og Díana hafi ekki haft frekari vitneskju um það hvenær húsið hafi verið málað en þær upplýsingar sem þau hafi fengið frá fasteignasalanum þegar þau keyptu húsið. Þau verða því sýknuð af kröfu um bætur vegna þessara röngu upplýsinga í söluyfirliti. Kröfum um skaðabætur úr hendi þessara stefndu vegna þakglugga og málningar, samtals 149.200 krónur, að frádregnum virðisaukaskatti af vinnulið, er hafnað með vísun til framangreinds. Að öðru leyti er varakrafa stefnanda um bætur eða afslátt byggð á tjóni sem stefnandi rekur til gallans í holrými undir eldhúsi. Krafan er samsett af nokkrum mismunandi liðum. Í fyrsta lagi útlagður kostnaður, þá kostnaður sem byggist á matsliðum og fjárhæðum í matsgerðum og loks áætlaður kostnaður vegna afnotataps og skerts notagildis eignarinnar. Útlagður kostnaður stefnanda er margnefndur reikningur Súperlagna sem stefnandi greiddi 25. ágúst 2008 að fjárhæð 173.141 króna. Hafna verður þeirri málsástæðu stefndu að reikningurinn sé tilkominn vegna framkvæmda stefnanda við eldhúsinnréttingu. Kostnaðurinn er bein afleiðing ófullnægjandi frágangs lagna í holrými, en í ljós kom að frárennslisbarki frá eldhúsi var þar laus í brotnu steinröri sem engan stuðning hafði frá jarðvegi eða öðrum festingum. Það er galli sem stefndu bera bótaábyrgð á og er fallist á skyldu stefndu til að greiða þennan reikning. Svo sem fram er komið hefur kostnaðarmati í matsgerðum ekki verið hnekkt og byggt er á þeim fjárhæðum sem þar koma fram við úrlausn málsins. Þá verður einnig byggt á mati dómkvaddra matsmanna 11. apríl 2011 um það hvaða aðgerðir séu nauðsynlegar til að lagfæra gallann á eigninni og þær afleiðingar hans sem síðar hafa komið fram til að gera eignina íbúðarhæfa á ný, hverjar afleiðingarnar séu og hvað lagfæringar kosti. Matsgerðinni hefur ekki verið hnekkt að þessu leyti. Kostnaður sem í þessari matsgerð er tiltekinn vegna gólfefna, matsliður E, hluti 3, er vegna endurnýjunar á öllum gólfefnum í húsinu vegna sveppamengunar, þar með talið þeim gólfefnum sem áður hafði verið gert við á vegum Vátryggingafélags Íslands hf. eftir vatnstjón frá miðstöðvarofnum, sem fjárkröfur í aðalkröfu taka til vegna sjálfsábyrgðar stefnanda. Þessi matsliður tekur ekki til þess tjóns sem áður hefur verið bætt. Nánar eru þessir liðir matsliður E, hluti 1, Hreinsa rými húss eins og lýst er í matslið C, samtals 873.000 krónur, matsliður E, hluti 2, Holrými í grunni hússins, samtals 1.118.000 krónur, matsliður E, hluti 3, Gólfefni hússins, samtals 1.010.000 krónur og matsliður B, Hreinsun innanstokksmuna, samtals 713.000 krónur. Þessi kostnaður er alls 3.714.000 krónur, þar af er kostnaður vegna vinnu í matsliðum E við endurbætur á húsnæðinu 1.697.000 krónur, en virðisaukaskatt af þeim vinnuliðum, 344.830 krónur, ber að draga frá tildæmdri bótafjárhæð, eins og greinir í dómkröfu. Að teknu tilliti til þessa frádráttar verður stefndu Guðmundi og Díönu gert að greiða stefnanda 3.369.170 krónur í skaðabætur vegna þessara matsliða. Vegna áætlaðs kostnaðar vegna afnotataps eða skerts notagildis eignarinnar setur stefnandi fram þrjár aðskildar kröfur. Í fyrsta lagi er gerð krafa um bætur fyrir afnotatap á viðgerðartíma, þá er gerð krafa um bætur fyrir skert afnot þann 31 mánuð sem hún bjó í húsinu og loks er gerð krafa um bætur fyrir afnotatap í sextán mánuði, frá því stefnandi flutti úr húsinu þar til mál þetta var höfðað. Miðar stefnandi við að fjártjón hennar vegna afnotataps í einn mánuð nemi 150.000 krónum, en krafa um skert afnot húsnæðis í 31 mánuð er miðuð við helming þeirrar fjárhæðar eða 75.000 krónur á mánuði. Stefnandi hefur lagt fram upplýsingar frá neytendasamtökunum um meðalleiguverð á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt þremur könnunum. Í febrúar 2010 var meðalverð á fermetra í sambærilegri eign 1.066 krónur eða 122.590 krónur fyrir 115 m², en Ásgarður 131 er 115 m². Í júlí 2010 var verðið á m² 1.253 krónur eða 144.095 krónur fyrir 115 m² eign. Meðalverð á m² í febrúar 2011 var 1.178 krónur eða 135.470 krónur fyrir 115 m² eign. Meðaltal þessara fjárhæða, sem stefnandi hefur sjálf lagt fram gögn um, er 134.052 krónur. Verður miðað við að þá fjárhæð þurfi stefnandi að greiða fyrir mánaðarlega leigu á húsnæði sambærilegu við Ásgarð 131. Til stuðnings kröfu um hærra mánaðarlegt tjón en sem nemur framangreindu leiguverði vísar stefnandi til kostnaðar vegna lögboðinna gjalda af eigninni og afborgana af lánum. Það fjárhagstjón sem stefnandi þarf að færa sönnur á að hún beri vegna afnotataps felst í því að þurfa að greiða fyrir afnot af öðru húsnæði. Ekki verður séð að það tjón aukist eða leiguverð hækki þótt stefnandi greiði áfram af eign sinni. Málsástæðum sem tengja tjón stefnanda af afnotatapi hússins við afborganir hennar eða gjöld af eigin eign er hafnað. Að því er varðar kröfuliðinn afnotatap á viðgerðartíma miðar stefnandi við að úrbætur á fasteigninni taki að minnsta kosti einn mánuð. Þessi áætlun styðst ekki við nein gögn og ekki verður séð að í matsgerð 11. apríl 2011 hafi mat verið lagt á áætlaðan viðgerðartíma. Í matsgerð 8. júlí 2009 var viðgerðartími holrýmis áætlaður 20 dagar og verður því miðað við að afnotatap á viðgerðartíma nemi tveimur þriðju af mánaðarleigu samkvæmt framansögðu, eða 89.368 krónum. Fallist er á að stefndu beri að bæta stefnanda það fjártjón sem af því hlýst að geta ekki flutt í húsið fyrr en þeirri viðgerð er lokið, en viðgerðin telst bein afleiðing af þeim atburðum sem stefndu bera bótaábyrgð á. Verða stefndu Guðmundur og Díana því dæmd til að greiða stefnanda 89.368 krónur vegna þessa liðar. Til stuðnings kröfu um bætur fyrir fjártjón vegna skertra afnota af eign í 31 mánuð tiltekur stefnandi þau rök að slæmt ástand hafi verið í húsinu frá afhendingu þess þar til hún flutti út í desember 2010. Stefnandi telur ekki óvarlegt að ákvarða bætur að álitum þar sem vandasamt kunni að vera að sanna fjárhæð tjónsins og krefst 75.000 króna í bætur fyrir hvern mánuð sem hún bjó í húsinu. Á það er fallist að vandasamt geti verið að sanna að skert afnot meðan stefnandi bjó í húsinu hafi leitt til tjóns, enda hefur henni ekki tekist það og ekki fært sönnur á neitt fjártjón. Bætur verða ekki ákvarðaðar að álitum vegna skertra afnota af fasteigninni eins og málatilbúnaði stefnanda er háttað og sýkna ber því stefndu af kröfu um greiðslu skaðabóta vegna skertra afnota af eigninni í 31 mánuð. Krafa stefnanda um bætur fyrir fjártjón vegna afnotamissis í sextán mánuði, frá því hún flutti úr húsinu í desember 2010, er á því byggð að húsið hafi verið og sé enn óíbúðarhæft. Þykja fullar sönnur hafa verið færðar að því í málinu að svo sé og hafi verið á því tímabili sem þessi krafa tekur til. Það ástand verður talið bein afleiðing af því ástandi sem stefndu Guðmundur og Díana teljast bera ábyrgð á samkvæmt framansögðu. Verður því fallist á að þessum stefndu beri að greiða stefnanda bætur sem nemi fyrrgreindri reiknaðri leigufjárhæð sem er 134.052 krónur á mánuði í þá sextán mánuði sem krafist er í stefnu, samtals 2.144.832 krónur. Afsláttur verður ekki dæmdur til viðbótar skaðabótum vegna galla á holrými og vanefnda á viðgerðum á leka í glugga. Afslætti er hafnað að því leyti sem krafan byggðist á atriðum sem ekki teljast gallar sem seljendur beri ábyrgð á samkvæmt framansögðu, þ.e. þakglugga og málningu utanhúss. VI. Kröfur á hendur stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. Kröfur stefnanda á hendur stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. byggjast á lögum nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa og reglum skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð. Samkvæmt 11. gr. laganna skal fasteignasali gæta þess vandlega að á söluyfirliti komi fram öll grundvallaratriði um eiginleika og ástand eignar sem ásamt skoðun kaupanda á eign megi ætla að geti verið grundvöllur ákvörðunar hans um hvort hann kaupir eign og hvaða verð hann er tilbúinn að greiða fyrir hana. Samkvæmt 12. gr. laganna skal fasteignasali sjálfur afla upplýsinga sem fram eiga að koma í söluyfirliti. Fasteignasali ber samkvæmt 27. gr. laganna ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmenn hans valda í störfum sínum af ásetningi eða gáleysi og gilda reglur skaðabótaréttar um sakarmat og sönnun. Stefndu Erna Valsdóttir og F.K. Reykjavík ehf. eru í aðalkröfu krafin um skaðabætur að fjárhæð 30.032.401 króna, sem nemur kaupverði eignarinnar, sem krafist er að beri vexti, auk annars kostnaðar vegna tjóns sem hlotist hafi af hlutdrægni þeirra og vanrækslu sem hafi sömu þýðingu og vanefnd seljanda. Málsástæðum stefnanda sem lúta að því að fasteignasalan hafi bakað kaupanda tjón með því að draga taum seljenda en sinna ekki þeirri skyldu sinni að aðstoða kaupanda að sama skapi hefur verið mótmælt af hálfu stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. Ekkert í gögnum málsins eða upplýsingum um málsatvik eftir afhendingu eignarinnar styður þessar ásakanir um hlutdrægni af hennar hálfu eða um saknæma háttsemi sem valdið hafi stefnanda því tjóni sem í aðalkröfu greinir. Fjárkrafan er hvorki studd viðhlítandi gögnum né lagarökum um ábyrgð þessara stefndu á henni og verða þessi stefndu þegar af þeirri ástæðu sýknuð af aðalkröfu stefnanda. Af hálfu stefnanda er á því byggt að fasteignasalinn og fasteignasalan hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögunum að því er varðar frágang söluyfirlits eins og atvikum var háttað um upplýsingagjöf varðandi margnefnt holrými undir eldhúsi. Stefndu hafa ekki mótmælt því að mistök hafi verið gerð af þeirra hálfu að þessu leyti, enda eru ákvæði laganna skýr og bótaskyldan ótvíræð að skilyrðum laganna uppfylltum. Á þeim grundvelli var 7. desember 2009 viðurkennd af þeirra hálfu bótaábyrgð vegna ónógrar upplýsingagjafar gagnvart kaupanda vegna holrýmis í grunni hússins og vísað til matsliðar í fyrirliggjandi matsgerð. Bætur vegna gallans yrðu þó ekki greiddar meðan óvíst væri um afdrif riftunarkröfu stefnanda. Væri riftun kaupanna gagnvart seljendum lögmæt ætti stefnandi að losna við eignina og endurheimta kaupverðið og ætti þá ekki rétt á skaðabótum á grundvelli kostnaðar við úrbætur eða lagfæringar á göllum úr hendi fasteignasala að auki. Fallast verður á að það hefur ekki verið á valdi stefndu Ernu Valsdóttur og fasteignasölunnar að verða við kröfu stefnanda um riftun kaupanna eða ógildingu þeirra eða hafa áhrif á afstöðu seljenda eignarinnar til þessara krafna. Kröfum stefnanda um úrbætur, bætur eða afslátt áður en til riftunar kom var í upphafi aðeins beint að seljendum en síðar var kröfum beint að fasteignasala. Fallist er á þá málsástæðu, að þegar krafa um riftun var komin fram, gat það talist réttmætt að bíða með að greiða bætur þar til niðurstaða lægi fyrir um hana. Í niðurstöðu dómsins hér að framan um aðalkröfu á hendur Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. er málsástæðum um bótaskyldu vegna saknæmrar hlutdrægni fasteignasala og ábyrgðar á tjóni stefnanda á þeim grundvelli hafnað. Bótaskylda Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. gagnvart stefnanda er byggð á því að ekki var vandað til þess að afla upplýsinga um eignina og gera rétt og uppfært söluyfirlit um eignina, en gáleysi er nægilegt til að bótaskylda stofnist vegna slíkra atvika. Ekki verður séð að sú vanræksla hafi komið til af hlutdrægni eða hafi með nokkrum hætti komið stefndu Guðmundi og Díönu til góða, nema síður sé. Grundvöllur skaðabótakröfu gagnvart seljendum og fasteignasala er á ólíkum grunni reistur, annars vegar er um að ræða bótaábyrgð innan samninga og hins vegar skaðabótaábyrgð utan samninga. Niðurstaða um bótaábyrgð seljenda á því tjóni stefnanda vegna ástands eignarinnar sem rekja má til gallans sem þau bera ábyrgð á veldur því ekki sjálfkrafa að ábyrgð fasteignasala sé sú hin sama. Rakið hefur verið með hvaða hætti annars vegar fasteignasali og hins vegar seljendur hafa brugðist við kröfum um úrbætur og í hvaða aðstöðu aðilar hafa verið til að hafa áhrif á framvindu mála að því er varðar versnandi ástand eignarinnar. Að því virtu verður bótaábyrgð vegna þess viðbótartjóns sem orðið er á eigninni vegna dráttar á úrbótum, sem rekja má til málaferla seljenda og kaupanda sem stefndu Erna Valsdóttir og F.K. Reykjavík ehf. verða ekki talin bera ábyrgð á, ekki lögð á þessi stefndu. Verður bótaábyrgð þessara stefndu vegna holrýmis því takmörkuð við þann kostnað sem samkvæmt matsgerð 11. apríl 2011 hlýst beinlínis af úrbótum vegna gallans sem var á umræddu holrými við afhendingu eignarinnar. Bótaábyrgð sína og kröfu stefnanda sem byggist á þessum kröfuliðum, þ.e. kostnað samkvæmt matsgerð 1.768.241 króna að frádregnum virðisaukaskatti á vinnuliði, 161.056 krónur, alls 1.607.185 krónur, hafa þessi stefndu viðurkennt í greinargerð sinni og boðist til að greiða þegar skilyrði til þess skapast. Þeir matsþættir sem hér um ræðir eru kostnaður vegna viðgerðar á frárennslislögnum í rýminu samkvæmt fyrirliggjandi reikningi Súperlagna ehf. að fjárhæð 173.141 króna, matsliður E, hluti 2, í matsgerð 11. apríl 2011, vegna frágangs og lokunar holrýmisins 1.118.000 krónur og þrír liðir undir hluta 1 í matslið E í sömu matsgerð sem beinlínis varða hreinsun og frágang í holrýminu, þ.e. fjarlæging og förgun jarðvegs 234.000 krónur, fjarlæging og förgun trévirkis o.fl. við hurðargat 89.000 krónur og hreinsun á veggjum o.fl. í holrýminu 76.000 krónur, eða samtals 399.000 krónur auk hlutfallslegs kostnaðar vegna aðstöðu og undirbúnings og frágangs í verklok eða 78.100 krónur. Að hluta til er um sömu matsliði að ræða og seljendur, stefndu Guðmundur og Díana, teljast einnig bera bótaábyrgð á hér að framan. Þau hafa með vísun til 2. mgr. 25. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 haldið því fram að við þessar aðstæður beri að sýkna seljendur af slíkum kröfum, vegna þess að stefndu Erna Valsdóttir og F.K. Reykjavík ehf. hafa ábyrgðartryggingu. Þegar 1. tl. 2. mgr. 19. gr. skaðabótalaga á við og tjóni er valdið af ásetningi eða stórfelldu gáleysi, ber þó ekki skilyrðislaust að taka tillit til ábyrgðartrygginga með þeim hætti sem stefndu Guðmundur og Díana halda fram, sbr. 2. ml. 2. mgr. 25. gr. laganna. Með vísun til þess er þessum málsástæðum hafnað og verða allir stefndu dæmdir óskipt til að greiða stefnanda bætur vegna þessara þátta. Fasteignasali ber samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 99/2004 ábyrgð á því ef upplýsingar í söluyfirliti reynast rangar eða ófullnægjandi, enda sé um að kenna gáleysi hans. Gerðar eru bótakröfur á hendur stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. vegna meintra galla á svalahurð og glugga á suðurhlið og á þakglugga, auk krafna vegna rangra upplýsinga í söluyfirliti um málningu utanhúss. Vísast til þess sem fyrr segir um þessi atriði, að lekamerki við þakglugga voru sýnileg við skoðun og þess að sérstaklega var fjallað um leka í glugga á suðurhlið í kaupsamningi. Verður fasteignasalinn ekki talinn bera bótaábyrgð þótt sýnilegs ófullnægjandi frágangs þakglugga hafi ekki verið getið í söluyfirliti sem galla á eigninni og fasteignasali ber ekki ábyrgð á vanefndum seljenda á fullnægjandi viðgerðum sem lofað var í kaupsamningi. Á hinn bóginn verður að telja fasteignasalann bera skaðabótaábyrgð á tjóni sem hlýst af því að rangar upplýsingar voru veittar í söluyfirliti um það hvenær húsið var málað að utan. Fasteignasala ber sjálfum samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laganna að afla þeirra upplýsinga sem koma eiga fram í söluyfirliti og dugir honum ekki að bera fyrir sig að upplýsingarnar hafi verið fengnar frá seljendum eða fyrri eigendum til að firra sig ábyrgð á upplýsingum í söluyfirliti sem afla ber frá frá húsfélagi í fjöleignarhúsi. Verða þessi stefndu því talin bera skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna vanrækslu á þeim skyldum sínum að veita réttar upplýsingar um eignina á söluyfirliti eða með öðrum hætti varðandi málningu utanhúss. Hlutdeild stefnanda í viðhaldssjóði raðhúsalengjunnar breytir engu um bótaábyrgð þessara stefndu og er málsástæðum þeirra þar að lútandi hafnað. Tjón stefnanda vegna þessa liðar er metið 139.700 krónur í matsgerð 8. júlí 2009, en því mati hefur ekki verið mótmælt af hálfu þessara stefndu eða hnekkt. Frá fjárhæðinni ber að draga 16.865 krónur, sem er virðisaukaskattur af vinnulið, til samræmis við dómkröfur stefnanda. VI. Niðurstaða um fjárhæðir bóta, dráttarvexti og málskostnað Stefndu Guðmundur og Díana verða samkvæmt framansögðu dæmd til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 5.947.127 krónur. Þar af ber þeim að greiða stefnanda 1.607.185 krónur óskipt með stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. Bótafjárhæðin er samtala kostnaðar vegna svalahurðar og glugga og galla í holrými og afleiðinga hans samkvæmt matsgerðum, að frádregnum virðisaukaskatti á vinnuliði, samtals 3.539.786 krónur, reikningur Súperlagna 173.141 króna og bætur vegna afnotataps samtals 2.234.200 krónur. Stefndu Erna Valsdóttir og F.K. Reykjavík ehf. verða ein dæmd til að greiða stefnanda 122.835 krónur vegna málningar utanhúss, sem er kostnaður samkvæmt matsgerð að frádregnum virðisaukaskatti á vinnulið. Þessi stefndu verða einnig dæmd til að greiða stefnanda 1.607.185 krónur óskipt með stefndu Guðmundi og Díönu vegna galla í holrými. Stefnandi krefst dráttarvaxta samkvæmt 6. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu á dæmdar fjárhæðir í varakröfu frá 1. apríl 2011 og byggir á því að mestur hluti varakröfunnar sé byggður á verðlagi í mars 2011. Allir stefndu hafa mótmælt þessum upphafsdegi dráttarvaxta. Í fyrri málslið 9. gr. vaxtalaga segir að skaðabótakröfur skuli bera dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Af hálfu stefndu Guðmundar og Díönu er með vísun til þessa málsliðar mótmælt kröfum um dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi að liðnum mánuði frá höfðun máls þessa þar sem endanleg kröfugerð stefnanda hafi ekki legið fyrir fyrr en með stefnu í þessu máli. Í síðari málslið 9. gr. vaxtalaga segir að dómstólar geti þó, ef sérstaklega stendur á, ákveðið annan upphafstíma dráttarvaxta. Stefndu Erna Valsdóttir og F.K. Reykjavík ehf. mótmæla kröfum um dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi við dómsuppsögu. Auk síðari málsliðar 9. gr. vaxtalaga vísa þau til 7. gr. vaxtalaga þar sem segir að ef atvik, sem varði kröfuhafa og skuldara verði ekki um kennt, valdi því að greiðsla fari ekki fram, skuli ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verði af þessum sökum. Telja þessi stefndu ómöguleika þeirra á greiðslu skaðabótanna vegna riftunarmálsins alfarið vera á áhættu stefnanda. Fallist hefur verið á það með þessum stefndu að réttmætt gat talist að bíða með uppgjör bóta meðan leyst væri úr riftunarkröfu stefnanda gagnvart seljendum af þeim ástæðum sem stefndu bera fyrir sig. Viðurkenning bótaábyrgðar á ákveðnu tímamarki og yfirlýsing greiðsluvilja hafði þau áhrif að þau verða ekki talin bera bótaábyrgð á frekara tjóni á eigninni en þá var orðið. Það verður þó ekki fallist á að sömu rökum verði beitt um upphafstíma dráttarvaxta, enda hafi þessum stefndu ekki verið ómögulegt að greiða stefnanda bætur á því tímamarki eða síðar, þótt þau hafi kosið að bíða með uppgjör bótanna. Þessi stefndu hafa ekki sýnt fram á að svo sérstaklega standi á um þessar kröfur að beita beri undantekningarreglu síðari málsliðar 9. gr. vaxtalaga um annan upphafstíma dráttarvaxta en mælt er fyrir um að gilda skuli almennt um skaðabótakröfur samkvæmt fyrri málslið greinarinnar, að upphafstími sé að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Þegar meta skal hvenær þessi skilyrði voru fyrir hendi í þessu máli verður ekki litið fram hjá því að stefnandi hefur áður höfðað mál gegn öllum stefndu vegna sömu atvika. Lauk því máli 9. desember 2011, með úrskurði um málskostnað, í kjölfar dóms Hæstaréttar sem staðfesti frávísun meginhluta málsins frá héraðsdómi. Var frávísunin á því byggð að aðalkrafa stefnanda væri svo óskýr að hún yrði ekki tekin óbreytt upp í dómsorði og að málatilbúnaður stefnanda væri svo óljós og óskýr að hann fullnægði ekki kröfum einkamálalaga til að efnisdómur yrði lagður á málið. Þykir því ljóst að skilyrði 9. gr. vaxtalaga um skýrleika kröfugerðar, að þær upplýsingar liggi fyrir sem þörf sé á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, hafi ekki verið fyrir hendi mánuði fyrir 1. apríl 2011, sem er sá dagur sem stefnandi krefst að dráttarvextir verði reiknaðir frá. Fallist er á það með stefndu Guðmundi og Díönu að endanleg kröfugerð stefnanda hafi ekki legið fyrir fyrr en með stefnu í þessu máli. Að því virtu verður upphafsdagur dráttarvaxta af öllum dæmdum fjárhæðum í málinu 10. júní 2012, en þann dag var mánuður liðinn frá því mál þetta var höfðað. Með vísun til úrslita málsins og 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála verða stefndu Guðmundur Þ. Eyjólfsson, Díana Jóhanna Svavarsdóttir, Erna Valsdóttir og F.K. Reykjavík ehf. dæmd óskipt til að greiða stefnanda málskostnað. Til málskostnaðar, sbr. 129. gr. laga um meðferð einkamála, telst útlagður kostnaður vegna öflunar sönnunargagna sem byggt er á í málinu, auk málflutningsþóknunar lögmanns stefnanda, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun, en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyld. Málskostnaður vegna þessara þátta er tiltekinn í einu lagi og telst hæfilega ákveðinn 2.900.000 krónur. Dóminn kvað upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari og meðdómsmennirnir Ásmundur Ingvarsson byggingarverkfræðingur og múrarameistari og Björn Marteinsson verkfræðingur og arkitekt. Dómsformaður tók við meðferð málsins 2. apríl 2013. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. D Ó M S O R Ð: Stefndu Guðmundur Þ. Eyjólfsson og Díana Jóhanna Svavarsdóttir greiði stefnanda Ernu Grétu Garðarsdóttur skaðabætur að fjárhæð 5.947.127 krónur, þar af óskipt með stefndu Ernu Valsdóttur og F.K. Reykjavík ehf. 1.607.185 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. júní 2012 til greiðsludags. Stefndu Erna Valsdóttir og F.K. Reykjavík ehf. greiði stefnanda Ernu Grétu Garðarsdóttur skaðabætur að fjárhæð 1.730.020 krónur, þar af óskipt með stefndu Guðmundi Þ. Eyjólfssyni og Díönu Jóhönnu Svavarsdóttur 1.607.185 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. júní 2012 til greiðsludags. Stefndu Guðmundur Þ. Eyjólfsson, Díana Jóhanna Svavarsdóttir, Erna Valsdóttir og F.K. Reykjavík ehf. greiði stefnanda Ernu Grétu Garðarsdóttur 2.900.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. |
Mál nr. 264/2015 | Líkamstjón Skaðabætur Örorkumat | A krafðist skaðabóta úr hendi T hf. vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir er hann starfaði sem verkamaður. Laut deila aðila að því hvaða árslaunaviðmið skyldi leggja til grundvallar við útreikning bóta til A fyrir varanlega örorku. Hafði uppgjör þegar farið fram með fyrirvara af hálfu A þar sem miðað var við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en A hélt því fram í málinu að ákvarða ætti laun hans eftir 2. mgr. sömu greinar. Fyrir lá að A hafði unnið í um 20 ár við landbúnaðarstörf í […] áður en hann kom til Íslands en í tæpa 10 mánuði hér á landi við byggingarvinnu er slysið varð. Ágreiningslaust var að laun A þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag höfðu verið lægri en lágmarkslaun samkvæmt framangreindu lagaákvæði. Talið var að A hefði ekki sýnt fram á að svo óvenjulegar aðstæður hefðu verið fyrir hendi að rétt væri að miða við annan mælikvarða á líklegar framtíðartekjur hans en lágmarksviðmið skaðabótalaga, enda yrði af framburði A fyrir dómi og öðrum gögnum málsins ráðið að hann hefði á slysdegi ekki markað sér ákveðinn starfsvettvang á Íslandi. Var T hf. því sýknaður af kröfum A. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. apríl 2015. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 6.469.266 krónur, til vara 6.008.485 krónur en að því frágengnu 5.468.679 krónur, í öllum tilvikum með 4,5% ársvöxtum frá 22. maí 2012 til 16. nóvember 2013 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði án tillits til gjafsóknar sem honum var þar veitt og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ágreiningsefni málsins lýtur að því hvaða árslaunaviðmið skuli leggja til grundvallar við útreikning skaðabóta til áfrýjanda fyrir varanlega örorku. Aðalkrafa áfrýjanda felur í sér að miða beri við uppreiknuð laun sín tímabilið 1. október 2007 til og með 23. júlí 2008, til vara meðaltekjur verkamanna árið 2008 en að því frágengnu uppreiknuð laun sín tímabilið 1. október 2007 til og með 23. júlí 2008 að frádregnum orlofsgreiðslum. Stefndi telur að bætur áfrýjanda eigi að miðast við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Áfrýjandi hafði unnið í um 20 ár við landbúnaðarstörf í […] er hann kom til Íslands árið 2007 og hóf þá að vinna í byggingariðnaði. Hann hafði á slysdegi 23. júlí 2008 unnið í tæpa tíu mánuði við byggingarvinnu. Ágreiningslaust er að laun áfrýjanda þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag voru lægri en lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Spurður fyrir héraðsdómi hvort hann hafi haft í hyggju að setjast hér að kvaðst hann í fyrstu hafa þurft að aðlagast samfélaginu og hann hafi verið óöruggur um hvort hann vildi vera hér áfram eða ekki. Hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að svo óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans en lagður er til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi, enda verður af framangreindu og af öðrum gögnum málsins ráðið að hann hafi á slysdegi ekki markað sér ákveðinn starfsvettvang á Íslandi. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en málskostnað. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 166. gr. sömu laga er rétt að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2015. Mál þetta sem dómtekið var 15. desember 2014 var höfðað 14. apríl s.á. af hálfu A, til heimilis að […], en með lögheimili að […], á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24 í Reykjavík. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.469.266 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 22. maí 2012 til 16. nóvember 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.008.485 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 22. maí 2012 til 16. nóvember 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.468.679 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 22. maí 2012 til 16. nóvember 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts úr hendi stefnda að skaðlausu, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Þá krefst stefndi þess að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað samkvæmt mati dómsins. Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna Stefnandi varð fyrir vinnuslysi 23. júlí 2008 þegar hann starfaði sem ófaglærður verkamaður hjá Byggingafélaginu B ehf. Stefnandi hafði þá starfað hjá fyrirtækinu og hjá fyrirtækinu C ehf. frá 1. október 2007 eða í samtals tæplega 10 mánuði, en hann kom til Íslands frá […] til þeirra starfa. Stefnandi hafði á starfstímanum fengið samtals 3.316.209 krónur í laun. B ehf. var með ábyrgðartryggingu hjá stefnda og sammæltust lögmenn aðila um að fela Guðjóni Baldurssyni lækni að meta tímabundna og læknisfræðilega örorku vegna líkamstjóns stefnanda. Var læknisfræðileg örorka metin 15%. Á grundvelli matsgerðarinnar greiddi stefndi stefnanda 2.000.992 krónur í bætur úr slysatryggingu launþega sem vinnuveitandi hans hafði hjá stefnda 28. janúar 2010. Afleiðingar slyssins voru einnig metnar 15% læknisfræðileg örorka af Sjúkratryggingum Íslands sem greiddu stefnanda bætur að fjárhæð 838.249 krónur. Stefndi taldi að rekja mætti slysið að nokkru til eigin sakar stefnanda og var ágreiningi aðila um það skotið til úrskurðarnefndar um vátryggingamál. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að stefndi væri greiðsluskyldur sem næmi helmingi tjóns stefnanda. Stefnandi höfðaði mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda og með réttarsátt viðurkenndi stefndi greiðsluskyldu úr ábyrgðartryggingu B ehf., sem næmi 60% af tjóni stefnanda, en stefnandi bæri 40% tjónsins sjálfur. Aðilar fólu Guðjóni Baldurssyni lækni og Jörundi Gaukssyni hdl. að vinna matsgerð um afleiðingar slyssins samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Varanlegur miski var metinn 15% og varanleg örorka 15%. Gengið var frá uppgjöri skaðabóta á grundvelli matsgerðarinnar og við útreikning bóta fyrir varanlega örorku var byggt á 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 (skbl.) um lágmarkslaun. Lögmaður stefnanda tók við greiðslu skaðabótanna 14. desember 2011 með fyrirvara vegna meints vanmats í örorkumatsgerð dags. 31.8.2011 og með áskilnaði um að koma að frekari kröfum á seinni stigum lútandi að öllum bótaþáttum. Þá var tekjuviðmiði til grundvallar útreiknings á varanlegri örorku sérstaklega mótmælt. Stefnandi óskaði eftir því að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta afleiðingar slyssins og voru þeir Sveinbjörn Brandsson bæklunarskurðlæknir og Ingvar Sveinbjörnsson hrl., dómkvaddir í því skyni. Í matsgerð þeirra er varanlegur miski stefnanda metinn til 35 stiga og varanleg örorka 35%. Með bréfi, dags. 16. október 2013, gerði stefnandi kröfu um greiðslu úr ábyrgðartryggingu B ehf. hjá stefnda á grundvelli niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna. Krafa stefnanda um frekari viðbótarbætur fyrir varanlega örorku tók mið af þeim tekjum sem stefnandi hafði aflað sér eftir að hann hóf störf á Íslandi. Stefndi hafnaði þeirri kröfu og greiddi stefnanda á ný viðbótarskaðabætur í desember 2013 miðað við lágmarkslaunaviðmið skaðabótalaga úr launþegatryggingu B ehf. á grundvelli matsgerðarinnar. Lögmaður stefnanda undirritaði skaðabótakvittunina með fyrirvara um metnar afleiðingar og tekjuviðmið stefnda til grundvallar útreikningi á varanlegri örorku. Þann 3. desember 2013 greiddu Sjúkratryggingar Íslands stefnanda viðbótargreiðslu að fjárhæð 1.797.499 krónur þar sem fallist var á niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna um auknar afleiðingar slyssins. Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það tekjuviðmið sem stefndi notaði í tveimur fyrirliggjandi uppgjörum á varanlegri örorku, skv. 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en greiddar viðbótarbætur í desember 2011 og í desember 2013 samkvæmt þeim uppgjörum munu vera samtals 2.666.448 krónur. Stefnandi telur að sú ákvörðun stefnda að miða uppgjör skaðabóta fyrir varanlega örorku við lágmarksviðmið skaðabótalaga um tekjur sé ekki rétt og að þess í stað skuli taka mið af þeim tekjum sem stefnandi hafði haft á Íslandi síðustu mánuðina fyrir slys. Stefnandi kom fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi hafi orðið fyrir vinnuslysi þann 23. júlí 2008 hjá þáverandi vinnuveitanda sínum B ehf. Fyrirtækið hafi verið úrskurðað gjaldþrota 20. júlí 2011 og sé málshöfðun þessari því eingöngu beint að Tryggingamiðstöðinni hf. (stefnda) með vísan til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga, þar sem B ehf. hafi haft ábyrgðartryggingu í gildi hjá stefnda fyrir atvinnurekstur sinn þegar slysið hafi orðið. Byggt sé á því í máli þessu að aðstæður stefnanda fyrir slysdag hafi verið svo óvenjulegar að um mat á árslaunum hans til útreiknings á bótum vegna varanlegrar örorku geti ekki farið samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 (hér eftir skbl.). Meðalatvinnutekjur stefnanda síðustu þriggja ára fyrir slys séu ómarktækar þar sem að á því tímabili hafi orðið miklar sveiflur og breytingar á tekjum og atvinnuhögum stefnanda. Í ljósi þess hvert meginmarkmið skaðabótalaga sé, þ.e. að tryggja tjónþola fullar bætur fyrir raunverulegt tjón hans telji stefnandi rétt að ákvarða árslaun sín sérstaklega og í því sambandi beri að líta til reglu 2. mgr. 7. gr. skbl. Útreikningar samkvæmt 3. mgr. þeirrar lagagreinar, eins og stefndi hafi gert varanlegu örorkuna upp, gefi ekki rétta og raunhæfa mynd af áætluðum framtíðartekjum stefnanda. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. skbl. setji þrjú skilyrði fyrir því að árslaun skuli ákveðin sérstaklega. Í fyrsta lagi að aðstæður hafi verið óvenjulegar, í öðru lagi að árslaun, sem meginreglan miði við, geti ekki talist réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur tjónþola og í þriðja lagi að annar mælikvarði sé til staðar og sé réttari við mat á líklegum framtíðartekjum hans. Öll skilyrði lagaákvæðisins séu uppfyllt þannig að unnt sé að beita því í máli þessu og ekki séu rök til að skýra ákvæðið þröngt með hliðsjón af lögskýringargögnum. Í frumvarpi til laga um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996 sé þess til að mynda getið að launatekjur liðinna ára séu oftast góð vísbending um launatekjur komandi ára en það eigi þó ekki alltaf við. Þannig séu launatekjur liðinna ára ekki góður mælikvarði hafi breytingar orðið á högum tjónþola skömmu áður en slys verði eða þegar fullyrða megi að slíkar breytingar standi fyrir dyrum. Í greinargerð með 6. gr. frumvarpsins, sem orðið hafi að lögum nr. 37/1999, sé tekið dæmi um tjónþola sem hafi skipt um starf þannig að breyting hafi orðið á tekjum. Stefnandi sé fæddur í […] árið 1967. Í […] hafi hann lokið grunnskólaprófi og unnið eftir það sem vinnumaður á bóndabæ í um 20 ár. Stefnandi sé kvæntur og eigi […] börn. Hann hafi flust til Íslands árið 2007 og hafið störf hér á landi í október sama ár. Óumdeilt sé að tekjur stefnanda í […] áður en hann hafi flust til Íslands séu undir lámarkstekjuviðmiðun skbl. Þegar slysið hafi orðið hafði stefnandi unnið á Íslandi í um 10 mánuði og hafi haft umtalsvert hærri tekjur en hann hafi haft í […]. Af þeirri ástæðu sé ekki unnt að miða við 1. mgr. 7. gr. skbl. um tekjuviðmið til útreiknings varanlegrar örorku. Ekki sé unnt að beita 3. mgr. 7. gr. skbl. við útreikning bóta, enda myndi slík aðferðafræði beinlínis ganga í berhögg við tilgang og markmið skaðabótalaga, sem sé að bæta tjónþola tjón sitt að fullu. Til þess að mögulegt sé að bæta stefnanda tjónið að fullu verði að miða við þær árstekjur sem gefi réttan mælikvarða á áætlaðar framtíðartekjur og þeim mælikvarða verði aðeins náð með beitingu 2. mgr. 7. gr. skbl. Tilgangur 3. mgr. 7. gr. skbl. sé að gefa mælikvarða á hugsanlegar framtíðartekjur þegar enginn annar mælikvarði sé til staðar. Þannig beri að beita 3. mgr. 7. gr. skbl. um þá sem engar eða óverulegar launatekjur hafi. Hins vegar sé það svo, að þegar til staðar sé tekjusaga sem hægt sé að miða við, þá beri að miða við hana. Sé tekjusaga hins vegar ekki nægilega löng til þess að unnt sé að beita 1. mgr. 7. gr. skbl. beri að meta árslaun sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna. Beiting 2. mgr. 7. gr. sé mun líklegri til þess að gefa réttan mælikvarða á líklegar framtíðartekjur stefnanda en beiting 3. mgr. 7. gr. laganna. Þar sem til staðar séu upplýsingar um tekjur á Íslandi fyrir slys sé í raun óheimilt að beita 3. mgr. 7. gr. laganna. Stefnandi sé enn búsettur og starfandi á Íslandi eins og hann hafi verið allar götur síðan hann hafi flust hingað til lands árið 2007. Stefnandi fyrirhugi enn fremur að flytja eiginkonu sína og […] yngri börn sín hingað til lands þannig að þau muni búa saman hér á landi áður en langt um líði. Kröfur stefnanda taki mið af örorkumatsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, dags. 4. september 2013 og af því að tekjuviðmið reiknist samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skbl. Varanleg örorka stefnanda hafi verið metin 35% og stöðugleikadagur talinn 22. maí 2012. Endanleg aðalkrafa stefnanda taki mið af uppreiknuðum tekjum hans árin 2007 og 2008 og miðað sé við þær tekjur sem stefnandi hafi sannanlega verið farinn að afla sér eftir að hann hafi hafið störf á Íslandi. Tekjur stefnanda fyrir tímabilið 1. október 2007 til 23. júlí 2008, sbr. staðgreiðsluyfirlit 2007 og 2008 hafi verið eftirfarandi: Laun stefnanda fyrir 92 daga árið 2007 (október, nóvember og desember) hafi verið samtals 1.110.047 krónur, sem séu uppreiknaðar til 365 daga, samtals 4.403.991 krónur. Fjárhæðin sé síðan framreiknuð miðað við meðaltalslaunavísitölu árið 2007 til stöðugleikadags í maí 2012 og nemi þá 5.974.578 krónum (4.403.991 x 432,9/319,1). Laun stefnanda fyrir 174 daga árið 2008 (janúar, febrúar, mars, apríl, júní og 23 daga í júlí) hafi verið samtals 2.015.952 krónur, sem séu uppreiknaðar til 365 daga samtals 4.228.865 krónur. Fjárhæðin sé síðan framreiknuð miðað við meðaltalslaunavísitölu 2008 til stöðugleikadags í maí 2012 og nemi þá 5.306.306 krónum (4.228.865 x 432,9/345). Viðmiðunarfjárhæðin nemi 6.091.677 krónum eftir að tekið hafi verið tillit til 8% mótframlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð (5.974.578 + 5.306.306 / 2 x 1,08). Aldursstuðull stefnanda sé 9,244 enda hafi hann verið 45 ára og 31 dags gamall þegar batahvörf hafi orðið. Heildargreiðsla stefnda til stefnanda er hér skipti máli samkvæmt uppgjörum í desember 2011 og desember 2013 sé eftirfarandi: Þjáningabætur (339.510 + 55.250) kr. 394.760,- Varanlegur miski (1.388.325 + 1.998.300) kr. 3.386.625,- Varanleg örorka (3.653.199 + 5.273.702) kr. 8.926.901,- Bætur úr slysatr. launþega (2.000.992 + 3.100.800) kr. -5.101.792,- Greitt af Tr.stofn. og Líf.sj. (838.249 + 1.797.499) kr. -2.635.748,- Eigin sök tjónþola (40%) kr. - 1.988.298,- Eigin áhætta kr. - 316.000,- SAMTALS kr. 2.666.448,- Aðalkrafa stefnanda, í stefnu eina krafa hans, er þar sundurliðuð þannig: Þjáningabætur kr. 394.760 Varanlegur miski kr. 3.386.625 Varanleg örorka (6.091.677 x 9,244 x 35%) kr. 19.709.012 Bætur úr slysatr. launþega kr. -5.101.792 Greitt af Tr.stofn. og Líf.sj. kr. -2.635.748 Eigin sök tjónþola (40%) kr. - 6.301.143 SAMTALS kr. 9.451.714 Stefnufjárhæðin var upphaflega 6.785.266 krónur (9.451.714 – 2.666.448). Við meðferð málsins breytti stefnandi kröfugerð sinni og féllst á frádrátt vegna eigin áhættu vátryggingartaka að fjárhæð 316.000 krónur. Endanleg aðalkrafa stefnanda sé því að fjárhæð 6.469.266 krónur. Varakrafa stefnanda taki mið af meðaltekjum verkamanna, samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands fyrir árið 2008. Mánaðarlaun hafi á þessum tíma verið að fjárhæð 360.000 krónur, sbr. upplýsingar á heimasíðu Hagstofunnar. Viðmiðunarlaunin séu framreiknuð miðað við meðallaunavísitölu 2008 til stöðugleikadags í maí 2012 ásamt því sem tekið sé tillit til 8% mótframlags vinnuveitanda, sbr.: 12 x 360.000 x 432,9/345 x 1,08 = 5.854.313 krónur. Bætur vegna varanlegrar örorku reiknist því með eftirfarandi hætti: 5.854.313 x 9,244 x 35% = 18.941.044 krónur. Varakrafan sé sundurliðuð þannig: Þjáningabætur kr. 394.760 Varanlegur miski kr. 3.386.625 Varanleg örorka (5.854.313 x 9,244 x 35%) kr. 18.941.044 Bætur úr slysatr. launþega kr. -5.101.792 Greitt af Tr.stofn. og Líf.sj. kr. -2.635.748 Eigin sök tjónþola (40%) kr. - 5.993.956 Eigin áhætta kr. - 316.000 SAMTALS kr. 8.674.933 Heildargreiðsla stefnda til stefnanda samkvæmt uppgjörum í desember 2011 og desember 2013 sé óumdeilanlega að fjárhæð 2.666.448 krónur og sé varakrafan því 6.008.485 krónur (8.674.933 – 2.666.448). Þrautavarakrafa sé sett fram telji dómurinn rétt að byggja á uppreiknuðum tekjum stefnanda árin 2007 og 2008 eins og aðalkrafan taki mið af en þó með þeirri breytingu að orlofsgreiðslur, 10,17% af tekjum stefnanda, séu dregnar frá. Viðmiðunarlaun aðalkröfu nemi 6.091.677 krónum, 10.17% af þeirri fjárhæð séu 5.529.343 krónur (6.091.677/1,1017). Það þýði að orlofsgreiðslur nemi 562.334 krónum af heildar viðmiðunarlaunum sé miðað við 12 mánuði. Í 5. mgr. 7. gr. orlofslaga nr. 30/1987 komi hins vegar fram að orlofslaun reiknist ekki af orlofslaunum. Orlofslaun sem til frádráttar komi nemi því 515.473 krónum (562.334/12 = 46.861 x 11). Viðmiðunartekjur í þrautavarakröfu nemi samkvæmt því 5.576.240 krónum (6.091.677 – 515.473). Bætur vegna varanlegrar örorku reiknist því þannig: 5.576.240 x 9,244 x 35% = 18.041.367 krónur. Þrautavarakrafan sé sundurliðuð þannig: Þjáningabætur kr. 394.760 Varanlegur miski kr. 3.386.625 Varanleg örorka (5.576.240 x 9,244 x 35%) kr. 18.041.367 Bætur úr slysatr. launþega kr. -5.101.792 Greitt af Tr.stofn. og Líf.sj. kr. -2.635.748 Eigin sök tjónþola (40%) kr. - 5.634.085 Eigin áhætta kr. - 316.000 SAMTALS kr. 8.135.127 Heildargreiðsla stefnda til stefnanda samkvæmt uppgjörum í desember 2011 og desember 2013 sé óumdeilanlega að fjárhæð 2.666.448 krónur og sé þrautavarakrafan því 5.468.679 krónur (8.135.127 – 2.666.448). Krafist sé vaxta af stefnufjárhæðinni skv. 16. gr. skbl. frá stöðugleikadegi, en dráttarvaxta skv. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 einum mánuði eftir að bótakrafa af hálfu stefnanda var sett fram þann 16. október 2013, sbr. 9. gr. sömu laga. Um aðild stefnda sé vísað til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Krafa stefnanda sé reist á skaðabótalögum nr. 50/1993 ásamt síðari breytingum (skbl.), aðallega 5.-7. gr. þeirra. Einnig sé byggt á almennum reglum skaðabótaréttar um fébótaábyrgð tjónvalds og rétt tjónþola til að fá allt tjón sitt bætt sem og á almennum reglum kröfuréttar. Krafa um vexti styðjist við 16. gr. skbl. Krafa um dráttarvexti styðjist við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 4. mgr. 5. gr. og 9. gr. sömu laga. Krafa um málskostnað styðjist við ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðji stefnandi við ákvæði laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing vísist til 1. mgr. 33. gr. eml. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi þegar fengið fullnaðargreiðslu skaðabóta á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993. Ágreiningslaust sé að stefnandi hafi fengið fullnaðarbætur fyrir atvinnutjón samkvæmt 2. gr. skbl., að stefnandi hafi fengið fullnaðargreiðslu fyrir þjáningarbætur samkvæmt 3. gr. skbl. og fyrir varanlegan miska samkvæmt 4. gr. skbl. Ágreiningslaust sé í dómsmálinu að varanleg örorka samkvæmt 5. gr. skbl. hafi verið metin 35%. Þá sé ágreiningslaust að þeir frádráttarliðir sem fram komi á skaðabótakvittunum vegna greiðslna úr slysatryggingu launþega, og frá Sjúkratryggingum Íslands séu réttir. Enn fremur sé ágreiningslaust að stefnandi skuli bera 40% tjónsins sjálfur. Ekki sé lengur deilt um það hvort heimilt hafi verið að draga frá bótum tjónþola eigin áhættu vátryggingartakans. Ágreiningurinn sé um það hvort bætur fyrir varanlega örorku skuli reiknaðar samkvæmt 1., 2. eða 3. mgr. 7 gr. skbl. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skbl. skulu árslaun til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku teljast meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðist við. Samkvæmt 2. mg. 7. gr. skbl. skuli árslaun metin sérstaklega séu óvenjulegar aðstæður fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur. Samkvæmt 3. mgr. skbl. skuli ekki miðað við lægri árslaun en tilgreind séu í töflu greinarinnar. Slysið hafi orðið í júlí 2008. Beri því samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. skbl. að miða við meðaltekjur stefnanda þrjú síðustu almanaksár fyrir þann dag sem slysið varð, þ.e. árin 2005, 2006 og 2007. Á þessum tíma mun stefnandi hafa unnið sem vinnumaður á bóndabæ í […]. Í stefnu, bls. 5, sé svohljóðandi staðhæfing: Óumdeilt er að tekjur stefnanda í […] áður en hann fluttist til Íslands eru undir lágmarstekjuviðmiðum skbl. Í fyrsta lagi hafi við uppgjör bóta fyrir varanlega örorku verið litið til þess að óumdeilt væri að tekjur stefnanda síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið hafi verið lægri en lágmarkslaunaviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Í öðru lagi hafi ekki getað komið til álita að miða við þær tekjur sem stefnandi hafi til skamms tíma haft við störf sín á Íslandi áður en slysið hafi orðið. Stefndi hafi lagt til grundvallar útreikningi sínum að stefnandi hefði dvalið og unnið mjög skamman tíma á Íslandi þegar hann hafi lent í slysinu, eða í um 10 mánuði. Allan þann tíma sem stefnandi hafi dvalið á Íslandi hafi fjölskylda hans dvalið í […]. Á báðum matsfundum, greini stefnandi frá því að hann hafi einvörðungu komið til Íslands til að vinna en hafi ekki ætlað sér að dvelja hér til langframa. Hann hafi flust til Íslands vegna meiri atvinnumöguleika en hyggist ekki setjast hér að. Stefndi telji að fullvíst sé að stefnandi hafi ekki í hyggju að starfa á Íslandi út starfsævina heldur sé um tímabundna dvöl að ræða. Ekki hafi verið sýnt fram á að framtíðarárslaun stefnanda hefðu orðið hærri en þau lágmarkslaun sem miðað er við í 3. mgr. 7. gr. skbl. Til stuðnings sjónarmiðum stefnda sé vísað til Hrd. 646/2009 og Hrd. 60/2011. Kröfur sínar byggi stefnandi á 2. mgr. 7. gr. skbl. þar sem kveðið sé á um að árslaun skuli metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Stefnandi þurfi að færa sönnur á að óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi hjá honum síðustu þrjú almanaksár fyrir tjónsatvik og að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans. Hvort tveggja skilyrða verði að vera uppfyllt. Litlar tekjur stefnanda við störf í […] þrjú síðustu árin fyrir slys verði með engu móti heimfærðar undir óvenjulegar aðstæður. Í riti sínu, Skaðabótaréttur, Reykjavík 2005, bls. 685-686, nefni höfundurinn Viðar Már Matthíasson, í dæmaskyni yfir óvenjulegar aðstæður, að tjónþoli hafi t.d. tekið sér ólaunað leyfi hluta af þeim tíma, sem notaður sé til viðmiðunar, t.d. annað foreldri, sem kjósi að vera heima hjá ungu barni, eða tjónþoli sem eytt hafi tíma í að endurmennta sig, til þess að búa sig undir annað starf. Þá gæti komið til tímabundið atvinnuleysi, veikindi o.fl. Óvenjulegar aðstæður séu því breytingar sem verði á högum tjónþola sem áður hafi haft tekjur eða störf sem réttara væri að taka mið af. Reglan um lágmarkslaun tryggi öllum tjónþolum, einnig þeim sem hafi litlar eða engar atvinnutekjur, af hvaða ástæðum sem það sé, lágmarksbætur vegna líkamstjóns. Þegar tjón stefnanda hafi verið gert upp í desember 2013 hafi lágmarksviðmið 3. mgr. 7. gr. skbl. verið 2.852.500 krónur. Meðallaunatekjur stefnanda þrjú árin eftir slysið, árin 2009-2011, séu verulega lægri en lágmarksviðmið skbl, sbr. framlögð skattframtöl stefnanda. Í stefnu sé reynt að sýna fram á að tekjur stefnanda hafi á tilteknu tímabili verið hærri en lágmarksviðmið skbl. Þá séu tekin laun stefnanda tiltekið tímabil, október 2007-júlí 2008, og þeim deilt upp í dagafjölda og það síðan heimfært á heilt ár. Dómkröfur stefnanda séu síðan settar fram á grundvelli þessa útreiknings. Viðmiðunartímabil það sem stefnandi byggi á, október 2007 til júlí 2008 hafi auk þess verið eitt mesta uppgangstímabil í íslensku efnahagslífi. Því hafi skyndilega lokið með hruni íslensks efnahags í október 2008. Af skattframtölum og staðgreiðsluyfirlitum megi sjá að þessir atburðir hafi haft veruleg áhrif á afkomu stefnanda og hafi hann t.d. verið atvinnulaus um tíma. Stefnandi hafi aldrei á þeim árum sem hann hafi dvalið á Íslandi haft árstekjur í námunda við það sem útreikningar dómkröfunnar miðist við. Skaðabótalögin heimili undir engum kringumstæðum ámóta reikningsaðferðir og stefnandi viðhafi. Þegar af þessum ástæðum beri að hafna útreikningum stefnanda. Stefndi telji enn fremur að útreikningur stefnanda sé mjög villandi enda engir launaseðlar lagðir fram honum til staðfestingar. Að óbreyttu telji stefndi að í launum hvers mánaðar sé orlofsgreiðsla sem nemi skv. kjarasamningi 10,17%. Gert sé ráð fyrir því að launþegi taki út orlofsgreiðsluna þegar hann fari í orlof og verði launalaus á meðan. Þessi staðhæfing fái stuðning í maílaunum stefnanda árið 2008, sem séu töluvert lægri en aðra mánuði. Orlofsárið hefjist í maí og þá hafi stefnandi getað tekið út orlofið og haldið til […], sem hann hafi væntanlega gert, og verið launalaus á meðan. Það nái ekki nokkurri átt að færa tekjur stefnanda ákveðið tímabil til 365 daga. Með útreikningi stefnanda sé í reynd verið að reikna með 13 mánuðum í árinu. Gera verði ráð fyrir því að stefnandi eins og aðrir launþegar taki sér orlof og beri að taka tillit til þess við alla útreikninga. Stefndi telji að tjón stefnanda sé að fullu uppgert og stefnandi eigi engar frekari kröfur á stefnda. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Stefndi vísi máli sínu til stuðnings til skaðabótalaga nr. 50/1993, sem og meginreglna skaðabótaréttarins og almennra reglna kröfuréttar. Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Niðurstaða Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal við ákvörðun skaðabóta vegna varanlegrar örorku að meginreglu leggja til grundvallar meðalatvinnutekjur tjónþola, að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs, þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag og skulu þær fjárhæðir framreiknaðar til samræmis við breytingar á launavísitölu til þess tíma, sem heilsufar tjónþola verður stöðugt. Hvorki skal þó reikna bæturnar út með tilliti til lægri atvinnutekna en greindar eru í 3. mgr. þessarar lagagreinar né hærri tekna en segir í 4. mgr. hennar. Frá framangreindri reglu 1. mgr. 7. gr. er gerð undantekning í 2. mgr. 7. gr., þar sem mælt er svo fyrir að árslaun skuli meta sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Í málinu heldur stefnandi því fram að skilyrði séu til að ákveða honum skaðabætur vegna varanlegrar örorku eftir framangreindri reglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt dómaframkvæmd ber tjónþoli, sem reisir kröfu um bætur á síðastnefndu lagaákvæði, sönnunarbyrði fyrir því að skilyrðum þess sé fullnægt og ber stefnanda því að sýna fram á að fyrir hendi séu óvenjulegar aðstæður og að annar mælikvarði sé réttari til að meta hverjar framtíðartekjur hans hefðu orðið og þá hvaða árslaun það séu sem teljast réttari mælikvarði á framtíðartekjur hans. Í skrifum fræðimanna um skýringu á orðunum óvenjulegar aðstæður í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og henni hefur verið beitt í dómaframkvæmd, kemur m.a. fram að þá sé átt við atvik á viðmiðunartímabili sem haft hafi þau áhrif að tekjur tjónþola verði ekki þær sem hann hafi að jafnaði haft eða hefði getað haft ef umrædd atvik hefðu ekki orðið. Þegar metið er hvort aðstæður stefnanda hafi verið óvenjulegar að þessu leyti er til þess að líta að hann kom haustið 2007 frá […] til Íslands til þess að afla hærri tekna en hann kveðst hafa átt kost á í […], en þar mun hann þá hafa unnið á sama vinnustað í 20 ár. Að þessu leyti voru aðstæður stefnanda óvenjulegar í tekjulegu tilliti þegar slysið varð þann 23. júlí 2008. Ekki verður þó ályktað af því einu að meðaltekjur stefnanda þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag hafi verið ómarktækar um líklegar tekjur hans í framtíðinni. Samkvæmt skattframtali stefnanda árið 2008 og yfirliti úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra voru tekjur stefnanda á árinu 2007 1.110.047 krónur, greiddar af C ehf. frá október 2007 til ársloka. Aðrar tölulegar upplýsingar liggja ekki fyrir í málinu um tekjur stefnanda á árunum 2005, 2006 og 2007, þ.e. síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið. Stefnandi lýsir því yfir í stefnu að tekjur hans, áður en hann kom til Íslands til vinnu á árinu 2007, hafi verið undir lágmarkstekjuviðmiði samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en ekki er upplýst um raunverulegar heildartekjur hans á viðmiðunartímabilinu. Samkvæmt skattframtali stefnanda árið 2009 voru launagreiðslur til hans á árinu 2008, frá C ehf. og B ehf. samtals 2.841.241 króna, þar með munu vera talin þriggja mánaða veikindalaun eftir slysið, sem varð í júlí það ár. Svo sem bent er á af hálfu stefnda voru aðstæður á Íslandi óvenjulegar þegar stefnandi kom hingað til lands, að því er varðar möguleika ófaglærðra til að afla hárra tekna við störf í byggingariðnaði. Ástand á vinnumarkaði átti eftir að gerbreytast á Íslandi skömmu eftir að slysið varð og m.a. var fyrirtækið sem stefnandi starfaði þá hjá, B ehf., úrskurðað gjaldþrota á árinu 2011. Stefnandi hefur starfað á Íslandi eftir slysið, en hefur dvalið með fjölskyldu sinni í […] í um það bil þrjá mánuði á ári að jafnaði. Stefnandi bar fyrir dóminum að hann hefði nú ákveðið að setjast að hér á landi, sem ekki hafi verið ætlun hans á þeim tíma sem slysið varð. Hann búi nú í parhúsi í […] ásamt sex öðrum, og geri sér vonir um að eiginkona hans og […] yngri börn þeirra, […] ára, sem enn búa í […] og hafa aldrei komið til Íslands, flyttu hingað til lands. Engin gögn liggja fyrir sem staðreyna að þær væntingar stefnanda verði að veruleika. Þær óvenjulegu aðstæður sem stefnandi vísar til í málinu valda því að síðustu mánuðina fyrir slysið var hann með hærri mánaðarlegar tekjur en hann mun að jafnaði áður hafa haft. Þessar óvenjulegu tekjur sem stefnandi aflaði á tímabilinu frá október 2007 til júlí 2008 verða, eins og á stendur, ekki taldar áreiðanlegur grundvöllur til að áætla framtíðartekjur hans, eins og stefnandi byggir kröfugerð sína aðallega á. Varakrafa stefnanda um útreikning bóta miðað við meðaltekjur verkamanna á Íslandi árið 2008 er ekki studd málsástæðum sem byggt verði á við úrlausn málsins, hún kom fyrst fram við aðalmeðferð málsins og andmælti stefndi grundvelli hennar í málflutningi. Stefndi hefur þegar greitt stefnanda bætur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og voru bótagreiðslur við lokauppgjör í desember 2013 miðaðar við 2.852.500 króna árslaun. Sú fjárhæð er hærri en hæstu árlegar raunverulegar launatekjur stefnanda samkvæmt þeim skattframtölum sem hann hefur lagt fram í málinu um tekjur sínar, bæði fyrir og eftir slysið, á árunum 2007 til og með 2012. Að öllu framangreindu virtu þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á það að það skilyrði sé fyrir hendi, til að beita reglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við ákvörðun skaðabóta fyrir varanlega örorku af völdum slyssins 23. júlí 2008, að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans, en sá að miða við lágmarkstekjur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar. Óumdeilt er að stefndi hefur þegar staðið stefnanda skil á slíkum bótum og verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu. Með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og niðurstöðu málsins verður stefnanda gert að greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans sem, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, er ákveðin 650.000 krónur. Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari. D Ó M S O R Ð Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A. Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 650.000 krónur. |
Mál nr. 48/2017 | Kærumál Nálgunarbann | Staðfest var ákvörðun lögreglustjóra um að X skyldi sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari ogDavíð Þór Björgvinsson og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.Varnaraðiliskaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. janúar 2017 sem barst réttinum ásamtkærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurðurHéraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2017 þar sem staðfest var ákvörðunsóknaraðila 16. sama mánaðar um að varnaraðili skuli sæta nánar tilgreindunálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 umnálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærðiúrskurðurverði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Fallist er á með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum a.liðar 4. gr. og 6. gr. laga nr. 85/2011 til að varnaraðila verði gert að sætanálgunarbanni. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðinverður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úrríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. nr. 88/2008 um meðferð sakamála,sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur.Þóknun verjanda varnaraðila, Guðmundar St.Ragnarssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úrríkissjóði. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2017 Lögreglustjórinná höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti þáákvörðun embættis lögreglustjóra frá 16. janúar sl. að X skuli sæta nálgunarbanni til 31.janúar nk. þannig að lagt sé bann við því að hann veiti börnum sínum, A, kt.[...], og B, kt. [...], eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í sambandvið þau á annan hátt. Ígreinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi nútil rannsóknar meint ofbeldi X, C og D gegn börnunum A og B. X og C séu foreldrarbarnanna en D eldri bróðir þeirra. Vegna rannsóknar málsins hafi verið teknarskýrslur af börnunum í Barnahúsi. Að auki liggi fyrir framburður E, eldrisystur barnanna, um ofbeldi framangreindra aðila gegn henni og börnunum svo ogönnur gögn. Fjölskyldan hafi búið öll saman að [...] í [...] þar til í haustþegar E hafi, að eigin sögn, flúið heimilið vegna ofbeldis. Ígreinargerðinni segir að upphaf málsins megi rekja til máls 007-2016-[...] þarsem E hafi kært X föður sinn og D bróður sinn fyrir áralangt ofbeldi gegn sér.Í málinu sé X undir sterkum grun um að hafa nefbrotið brotaþola og slegið hanameð fánastöng í líkamann svo hún hafi hlotið mikla áverka af en um fleiritilvik sé að ræða. Þá sé D sömuleiðis undir sterkum grun um ofbeldi á hendur E.Í tveimur skýrslum sem teknar hafi verið af E, 16. september sl. og aftur 12.janúar sl., lýsi hún einnig alvarlegu ofbeldi sem A og B hafi orðið fyrir afhálfu föður þeirra og D eldri bróður þeirra. Hún lýsi því að faðir þeirra sláibörnin með höndum, skóhorni, belti og inniskóm og viðvarandi ofbeldi sé á heimilinu.Þá verði yngri börnin sömuleiðis vitni að ofbeldi gegn öðrum á heimilinu. Barnaverndhafi rætt við A og B í skólum barnanna 6. desember sl. Hjá B komi fram að foreldrarhans hafi beitt hann ofbeldi með því að slá hann með höndum, inniskóm ogstundum með skóhorni úr járni. Hann hafi jafnframt greint frá því að eldribróðir hans, D, sem búi á heimilinu, hafi beitt hann ofbeldi með því að lemjahann, hrinda honum, kýla og sparka í hann. Þá hafi hann orðið vitni að ofbeldibróður síns gegn systur sinni. Í viðræðum við barnavernd hafi A ekki sagst hafaorðið fyrir ofbeldi af hálfu foreldra sinna en hún hafi orðið fyrir ofbeldi afD bróður síns. Ískýrslutöku fyrir dómi 16. janúar sl. hafi komið fram hjá B að bróðir hansbeitti hann ofbeldi og hann hafi orðið vitni að ofbeldi gegn systrum sínum áheimilinu. Ekki hafi verið unnt að ljúka skýrslutöku af B þar sem honum hafiliðið illa og óskað eftir að þurfa ekki að tjá sig frekar. Ljóst sé að þaðþurfi að taka aðra skýrslu af honum vegna málsins. Ískýrslutöku fyrir dómi 16. janúar sl. hafi A lýst því að hún hafi ítrekað orðiðfyrir ofbeldi af hálfu bróður síns og orðið vitni að ofbeldi hans gegnsystkinum sínum. A hafi kosið að tjá sig ekki um ofbeldi foreldra sinna en lýstþví að faðir hennar væri mjög skapstór maður. Það hafi verið ljóst afyfirheyrslunni yfir A að hún óttist föður sinn og hafi hún haft miklar áhyggjuraf því að ekki yrði unnt að tryggja öryggi hennar í málinu kysi hún að tjá sig.Það sé mat lögreglu að taka þurfi frekari skýrslu af A en það sé ekki unntfyrr en búið sé að tryggja öryggi hennar að mati lögreglu. Framkemur að meðal gagna málsins séu ljósmyndir af áverkum sem talið sé að A hafaorðið fyrir af hálfu föður síns þegar þau hafi verið stödd í Kosovo yfir jólin2016. Gögnin hafi borist lögreglu frá eldri systur barnanna, E. Að sögn E hafifaðir þeirra í þetta sinn slegið A með belti eða skóhorni. Íbókunarkerfi lögreglu séu nokkrar tilkynningar um læti eða ofbeldi á heimilikærða sem styðji framburð barnanna og systur þeirra um ofbeldi sem þau hafisætt eða orðið vitni að (sjá bókanir lögreglu í máli nr. 007-2015-[...] frá 12.maí 2015 og í máli nr. 007-2016-[...] frá 5. nóvember 2016). Framburðurbarnanna og E um meint ofbeldi hafi verið borinn undir kærðu. Þeir neiti báðirsök eða geri lítið úr þeim tilvikum sem borin hafi verið undir þá eða lýsi þeimá annan veg. Fram hafi komið hjá X að hann noti skóhorn til að hræða börnin oghafi danglað í þau með því. Hann kannist einnig við að öskra á börnin og hræðaþau. D hafi kannast við að hafa tekið A hálstaki og hent henni til en hann hafieingöngu hrætt B bróður sinn. Móðir barnanna, C, hafi einnig verið yfirheyrðvegna málsins. Hún neiti að hafa orðið vitni að ofbeldi X og D. Töluvertmisræmi sé þó milli framburðar þessara þriggja aðila og lýsi þau atvikum semborin hafi verið undir þau á ólíkan hátt. BarnaverndReykjavíkur hafi mánudaginn 16. janúar sl. ákveðið að vista börnin tímabundiðutan heimilis til 31. janúar nk. vegna alvarleika málsins. Það sé mat lögregluað brýnt sé að á sama tíma njóti börnin verndar fyrir frekara ofbeldi og áreitiföður þeirra og bróður. Rannsókn málsins sé enn á viðkvæmu stigi og þvímikilvægt að ekki sé hægt að hafa áhrif á framburð barnanna sem þurfi að ræðabetur við að mati lögreglu. Íljósi ofangreinds telji lögreglustjóri skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 uppfyllten X liggi undir rökstuddum grun um að hafa beitt A og B líkamlegu ofbeldi semtalið sé varða við ákvæði almennra hegningarlaga og barnaverndarlaga. Þá séþað talið mikilvægt að kærði setji sig ekki í samband við börnin meðan rannsóknmálsins sé enn á viðkvæmu stigi. Lögreglan telur ekki sennilegt að friðhelgibarnanna verði vernduð á annan og vægari hátt, eins og sakir standa.Niðurstaða: Lögreglarannsakar nú hvort systkinin A og B hafi verið beitt líkamlegu ofbeldi afhálfu bróður síns og föður. Fyrirdóminn hafa verið lögð rannsóknargögn í málinu. Dómurinn hefur horft á mynd- oghljóðupptökur af skýrslum sem B og A gáfu í Barnahúsi 16. janúar sl. sem ogmynd- og hljóðupptöku af skýrslu sem bróðir þeirra D gaf hjá lögreglu og jafnframthlýtt á hljóðupptökur af skýrslum sem foreldrar þeirra gáfu hjá lögreglu, samadag. Enn fremur hefur dómurinn lesið endurrit skýrslu sem E gaf hjá lögreglu,einnig þann dag og séð myndir af áverkum bæði hennar og A. Eftirað hafa kynnt sér öll þessi gögn telur dómurinn rökstuddan grun um að varnaraðili,X, hafi raskað friði brotaþola, barna sinna B og A, þannig að heimilt sé, tilþess að vernda friðhelgi þeirra á meðan að málið er í rannsókn, að banna honumað nálgast þau á því tímabili sem krafan tekur til. Ískýrslutöku í Barnahúsi greindu börnin nokkuð greiðlega frá ofbeldi af hálfu bróðursíns D. Hins vegar komu þau sér í lengstu lög undan því að svara öllum spurningumsem vörðuðu foreldra þeirra. Svörin voru ýmist á þá leið að þau gætu ekkimunað, vildu ekki tala um það núna, treystu sér ekki til að rifja það upp ogundanfærslur í þeim dúr. Ekki stóð þó á tárunum þegar reynt var að spyrja þauað því hvort foreldrar þeirra slægju til þeirra. Að mati dómsins er ekki vafiá því að þau hafa ekki þorað í Barnahúsi að greina frá öllu því sem þau hafaupplifað, hvorki af hendi bróður síns né foreldra sinna, meðal annars af óttavið afleiðingarnar þegar heim væri komið. Skýrslutökurnar sýna að þau hafabeyg bæði af föður sínum og bróður. Taka þarf skýrslu af bæði B og A aftur.Dómurinn fellst á það með lögreglustjóranum að nauðsynlegt sé að tryggja aðhvorki faðir þeirra né bróðir geti haft áhrif á þau þar til þau gefa skýrslu áný. Jafnframter tekið undir það mat lögreglustjóra að ekki þyki sennilegt að friðhelgibarnanna á rannsóknarstigi málsins verði vernduð á annan hátt en þennan. Þykjaþví uppfyllt skilyrði a-liðar 4. gr. og 6. gr. laga nr. 85/2011 til þess aðstaðfesta ákvörðun lögreglustjóra, 16. janúar sl., eins og nánar greinir íúrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka nálgunarbanninu skemmritíma. Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður uppþennan úrskurð.Ú R S K U R Ð A R O R Ð Staðfester sú ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, 16. janúar sl., að X, sæti nálgunarbanni til 31.janúar nk. þannig aðlagt er bann við því að X veiti börnum sínum, A, og B, eftirför, nálgist þau áalmannafæri eða setji sig í samband við þau á annan hátt. Þóknunverjanda varnaraðila, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., og réttargæslumannsbrotaþola, Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., 150.000 krónur til hvors skalgreidd úr ríkissjóði. |
Mál nr. 40/2023 | Kærumál Dánarbú Erfðaskrá Arfleiðsluheimild | Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem leyst var úr ágreiningi um gildi og túlkun erfðaskrár I þar sem hann ráðstafaði eignarhlut sínum í jörðinni P til sjö barnabarna sinna. Fyrir lá að verðmæti eignarinnar fór fram úr arfleiðsluheimild samkvæmt 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Þar sem fyrirmæli erfðaskrárinnar yrðu ekki framkvæmd samkvæmt efni sínu laut kjarni ágreinings aðila að því hverjar yrðu afleiðingar þess og hvort vilja arfleifanda yrði náð með öðru móti. Hæstiréttur vísaði til þess að við mat á erfðaráðstöfuninni yrði byggt á þeirri meginreglu íslensks erfðaréttar að skýra bæri erfðaskrá þannig að náð yrði vilja arfleifanda. Í niðurstöðu réttarins kemur fram að þegar orðalag erfðaskrárinnar, vitnisburður og önnur gögn málsins væru metin teldist sannað að markmið erfðaráðstöfunarinnar og meginforsendan fyrir gerð hennar hafi verið að stuðla að því að eignarhluti arfleifanda í jörðinni myndi áfram vera í eigu fjölskyldunnar. Hæstiréttur taldi að ekki yrði ályktað að það hafi verið skýr forsenda erfðaráðstöfunarinnar að barnabörn arfleifanda myndu erfa eignarhlutann sem eina heild en ella ekki. Í því sambandi var einnig talið skipta máli að yrði erfðaskráin aðeins framkvæmd að því marki sem heimilt væri innan arfleiðsluheimildar 35. gr. erfðalaga og jörðin dreifast á hendur bréferfingjanna sjö auk fjögurra barna arfleifanda yrði ekki séð að það græfi undan því markmiði hans að eignin héldist innan fjölskyldunnar. Aðalkröfu A um ógildingu erfðaskrárinnar var því hafnað. Var hinn áfrýjaði dómur staðfestur um að erfðaskráin yrði metin gild að því marki að barnabörn arfleifanda myndu erfa að jöfnu eignarhluta í jörðinni sem samsvarar 1/3 hluta eigna búsins og hann mátti ráðstafa samkvæmt 35. gr. erfðalaga. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júlí 2023 sem barst réttinum 13. sama mánaðar en kærumálsgögn bárust 19. þess mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 28. júní 2023 þar sem fallist var á þrautavarakröfu sóknaraðila um að erfðaskrá I 16. desember 2013 um ráðstöfun á eignarhluta hans í jörðinni P í […], ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber, þar með talin veiðiréttindi og íbúðarhús, til barnabarna hans skyldi lögð til grundvallar við dánarbússkipti hans að því er varðaði 1/3 hluta eigna sem hann mátti ráðstafa samkvæmt 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962.3. Sóknaraðili krefst þess aðallega að erfðaskráin verði metin ógild og ekki lögð til grundvallar við skipti eigna í dánarbúinu. Til vara að hún verði einungis metin gild að því er varðar 1/3 hluta jarðarinnar P óskiptrar ásamt öllu er jörðinni tilheyrir. Til þrautavara að erfðaskráin verði einungis metin gild að því er varðar 1/3 hluta eigna sem hinn látni mátti ráðstafa samkvæmt 35. gr. erfðalaga. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar á öllum dómstigum úr hendi varnaraðilanna B, C og D.4. Varnaraðilarnir B, C og D krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Aðrir varnaraðila hafa ekki látið málið til sín taka.Ágreiningsefni5. Málsaðilar deila um gildi og skýringu erfðaskrár I sem mælir fyrir um að barnabörn arfleifanda skuli taka að arfi eignarhluta hans í jörðinni P. Þar sem verðmæti eignarinnar fer fram úr því sem heimilt er að ráðstafa með erfðaskrá með tilliti til skylduerfingja, sbr. 35. gr. erfðalaga, lýtur ágreiningur aðila að því hvort erfðaskráin verði metin ógild og því ekki lögð til grundvallar við skipti eigna í dánarbúinu eða hún verði tekin til greina að hluta.6. Með úrskurði héraðsdóms var hafnað kröfu sóknaraðila um að erfðaskráin skyldi metin ógild en fallist á að hún skyldi lögð til grundvallar þannig að bréferfingjar skyldu erfa að jöfnu 1/3 hluta heildareigna arfleifanda á formi eignarhlutar hans í jörðinni. Í hinum kærða úrskurði Landsréttar 28. júní 2023 var sú niðurstaða staðfest að efni til.7. Að beiðni sóknaraðila var veitt leyfi til að kæra úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar 24. ágúst 2023, með ákvörðun réttarins nr. 2023-94, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um túlkun og gildi erfðaskráa meðal annars með hliðsjón af 35. gr. erfðalaga.Málsatvik8. I fæddist […] 1933 og lést […] febrúar 2020. Hann átti fjögur börn, J, L, K og A sem er sóknaraðili málsins. I átti sjö barnabörn og eru þau varnaraðilar málsins. Þrjú þeirra, B, C og D sem eru börn L, taka sem fyrr segir til varna en hin hafa ekki látið málið til sín taka. Sóknaraðili er barnlaus.9. I lét eftir sig erfðaskrá sem hann ritaði undir í viðurvist lögbókanda 16. desember 2013. Efni hennar er eftirfarandi:Barnabörn mín skulu erfa að jöfnu eignarhluta minn í jörðinni P í […] með öllu sem fylgir og fylgja ber og er ekkert undanskilið. Um er að ræða land, veiðiréttindi og íbúðarhús. Vilji minn stendur til þess að arfshluti barnabarna minna verði séreign þeirra ef til hjúskapar kemur. 0. Jörðin P er um 650 hektarar og á land að […]. Á henni stendur gamalt íbúðarhús. Jörðin var áður í eigu M, föður I, og hóf hann þar skógrækt. Var stofnað félag um skógrækt á jörðinni með samningi 15. september 1950 milli föður I, hans og alsystkina hans N og R. Við það tímamark var faðir I eigandi að 5/8 hluta jarðarinnar en hvert barna hans þriggja að 1/8 hluta. Í samningnum var meðal annars kveðið á um gerð kaupmála til að tryggja séreignarréttindi eigenda jarðarinnar gengju þeir í hjónaband, innbyrðis forkaupsrétt og innlausnarrétt við nánar tilgreindar aðstæður. Með samningi 2. maí 1968 ákváðu systkinin I, N og R sem þá höfðu erft eignarhluta föður síns að slíta sameign sinni og skipta jörðinni milli sín. Í gerðardómi frá 29. október sama ár svo og landskiptagerð frá 11. apríl 1969 var nánar lýst skiptingu og skilmálum hennar. Samkvæmt þessum gerningum varð eignarhlutur I 3/5 hlutar jarðarinnar og systkina hans tveggja 2/5 hlutar.1. Að beiðni K, sonar arfleifanda, var 8. júní 2020 aflað verðmats lögmanns og fasteignasala á eignarhlut I í P og nam það 80.000.000 króna.2. Dánarbú I var tekið til opinberra skipta 14. október 2020 að kröfu sona hans. Sóknaraðili og J bróðir hans rituðu bréf til skiptastjóra 29. sama mánaðar. Þar kröfðust þeir ógildingar á erfðaskrá föður síns þar sem hún færi fram úr arfleiðsluheimild 35. gr. erfðalaga enda væri verðmæti fasteignarinnar sem ráðstafað var til annarra en skylduerfingja umfram 1/3 hluta eigna búsins.3. Á fyrsta skiptafund 30. október 2020 mættu tveir lögmenn fyrir hönd allra erfingja. Þar var bókað að fundarmenn teldu líklegt að eignin sem tilgreind væri í erfðaskrá færi fram úr arfleiðsluheimild en það ætti eftir að koma í ljós miðað við verðmat og aðrar kröfur sem kynnu að vera í búinu. Þá var tekið fram að fundarmenn væru sammála um að álitaefni í tengslum við jörðina yrðu sett í bið.4. Hinn 16. desember 2021 var gert kauptilboð í eignarhluta dánarbúsins í P að fjárhæð 265.000.000 króna en skiptastjóri hafnaði því. Í verðmati fasteignasala á jörðinni 31. janúar 2022 var líklegt söluverð hennar talið vera 325.000.000 króna.5. Skiptastjóri boðaði til skiptafundar 20. maí 2022 til að ræða kröfu sóknaraðila um ógildingu erfðaskrárinnar. Var þar bókað um mótmæli þeirra þriggja varnaraðila sem nú hafa tekið til varna í málinu vegna þeirrar kröfu og jafnframt mótmælt hversu seint hún kæmi fram. Þá kom fram að samningaviðræður hefðu átt sér stað milli erfingja vegna þessa, auk þess sem tvö dómsmál hefðu verið rekin milli hluta lögerfingjanna sem myndu varpa ljósi á hverjir hagsmunir kynnu að vera fyrir erfingja búsins.6. Í fundargerð skiptafundar 30. maí 2022 með fulltrúum allra lögerfingja kom fram að skiptastjóri teldi að ekki myndi takast að jafna ágreining aðila um erfðaskrána og að hann myndi vísa ágreiningnum til héraðsdóms. Það gerði hann með bréfi 1. júní 2022.7. Svo sem fram kemur í úrskurði héraðsdóms sammæltust málsaðilar undir rekstri málsins um að eignarhlutur dánarbúsins í jörðinni P væri 300.000.000 króna virði. Aðrar helstu eignir búsins munu vera söluandvirði fasteignarinnar […] í Reykjavík að fjárhæð 59.431.301 króna eftir frádrátt áhvílandi lána og kostnaðar. Auk þess á dánarbúið kröfur á hendur dóttur I, L og syni hennar, varnaraðila C, samtals að fjárhæð ríflega 30.000.000 króna auk vaxta. Er ágreiningslaust með aðilum að verðmæti heildareigna dánarbúsins sé ríflega 387.000.000 króna en samkvæmt því nemur framangreint verðmæti jarðarinnar P 77,45% af því.Helstu málsástæður aðila8. Sóknaraðili byggir kröfu um ógildingu erfðaskrárinnar á því að arfleifandi hafi farið langt fram úr heimildum til að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá. Með henni hafi hann ráðstafað tæpum 78% af hreinni heildareign búsins en arfleiðsluheimild hans samkvæmt 35. gr. erfðalaga takmarkist við þriðjung eigna. Því skuli ekki byggt á erfðaskránni að neinu leyti við dánarbússkipti enda ekki unnt að framkvæma vilja arfleifanda í samræmi við hana. Það hafi verið forsenda við gerð erfðaskrárinnar að eignarhlutur hans í jörðinni P skyldi að öllu leyti verða eign barnabarna hans. Það sjáist meðal annars af þeim fyrirmælum að arfshluti barnabarnanna yrði séreign þeirra kæmi til hjúskapar en þannig hefði arfleifandi viljað tryggja eins og kostur væri að jörðin héldist í fjölskyldunni. Af vitnisburði J, bróður sóknaraðila, fyrir héraðsdómi sé ljóst að arfleifandi hafi haft áhyggjur af slæmri fjárhagsstöðu L dóttur sinnar og hafi óttast að stór hluti jarðarinnar kynni að renna til skuldheimtumanna hennar eftir hans dag. Þá hafi framburður L fyrir héraðsdómi um samskipti við föður sinn um erfðaskrána, leitt skýrlega í ljós vilja hans til að öll jörðin færi til barnabarnanna en ekki einungis hluti hennar. Erfðaskráin hafi því ekki haft þann tilgang að styðja þau fjárhagslega. Loks mótmælir sóknaraðili þeim forsendum hins kærða úrskurðar að sönnunarbyrði hvíli á honum um að vilji arfleifanda hefði staðið til annars en ráðstöfunar arfs til barnabarnanna hefði hann vitað að hann gæti ekki ráðstafað öllum eignarhlutanum til þeirra. Þvert á móti hljóti sönnunarbyrði um að byggja eigi á erfðaskránni með svo mjög breyttu efni að hvíla á varnaraðilum.9. Varnaraðilarnir B, C og D taka fram að þótt andmæli sóknaraðila við erfðaskránni hafi komið fram á fyrsta skiptafundi hafi hann að ástæðulausu dregið of lengi að fara í þetta ágreiningsmál í andstöðu við 47. gr. erfðalaga með miklum tilkostnaði fyrir aðra erfingja. Þau byggja á því að arfleifandi hafi við gerð erfðaskrárinnar viljað umbuna barnabörnum sínum og hann hafi talið að verðmæti eignarhluta hans í jörðinni væri innan heimildar 35. gr. erfðalaga. Þau mótmæla fullyrðingum sóknaraðila um að ekki sé hægt að framkvæma vilja arfleifanda með öðrum hætti en þeim að ógilda erfðaskrána í heild sinni. Niðurstaða hins kærða úrskurðar sé hin eina sanngjarna og eðlilega í málinu. Með því sé vilji afa þeirra virtur að því marki sem unnt sé og ekkert því til fyrirstöðu að barnabörnin, foreldrar þeirra og sóknaraðili eigi jörðina saman. Þá sé í dómaframkvæmd tilhneiging til að túlka erfðaskrár þar sem farið er fram úr arfleiðsluheimild með þeim hætti að færa hlutdeildina niður að leyfilegu marki. Þessir varnaraðilar mótmæla jafnframt ályktunum sóknaraðila af framburði L móður þeirra fyrir dómi en ekkert sem hún hafi sagt sé í andstöðu við skýrt orðalag erfðaskrárinnar. Þá hafna þeir vangaveltum sóknaraðila um að eina ástæðan fyrir gerð hennar hafi verið fjárhagsstaða móður þeirra.Niðurstaða20. Varnaraðilarnir B, C og D halda því fram að sóknaraðili hafi dregið úr hófi að setja fram kröfu um vefengingu erfðaskrárinnar fyrir dómi eftir að andmæli hans komu fram á skiptafundi og fyrirmæla 47. gr. erfðalaga hafi því ekki verið gætt. Af hálfu lögmanns þeirra kom fram við flutning málsins fyrir Hæstarétti að í málinu væri þó ekki byggt á tilgreindum lögfylgjum af þessu tilefni, svo sem að kröfur sóknaraðila væru fallnar niður. Koma athugasemdir þessar því ekki til frekari umfjöllunar.21. Í erfðalögum er ekki getið um hverjir geti átt aðild að vefengingu á erfðaskrá. Ljóst er að þeir sem standa til lögarfs hafa hagsmuni af niðurstöðu slíks máls. Í þessu sambandi nægir að einn lögerfingja setji fram slíka kröfu en teljist erfðaskrá ógild tapar hún gildi sínu engu að síður gagnvart öllum lögerfingjum. Þá ber að beina vefengingarkröfu að bréferfingjum, enda hafa þeir beinna hagsmuna að gæta af gildi hennar.22. Þegar fram kom á skiptafundi með fulltrúum allra lögerfingja 30. maí 2022 að sóknaraðili, einn fjögurra skylduerfingja I, hygðist vísa ágreiningi um gildi erfðaskrárinnar til dómstóla kusu systkini hans, sem jafnframt eru foreldrar varnaraðila, að standa ekki að þeirri kröfu með honum. Þá tóku þau ekki til varna í málinu til stuðnings bréferfingjum. Þótt úrslit málsins hafi þýðingu fyrir aðra skylduerfingja en sóknaraðila verður í ljósi þessa aðdraganda ekki talin þörf á aðild þeirra að málinu.23. Ágreiningslaust er að ráðstöfun eigna samkvæmt erfðaskrá I frá 16. desember 2013 er langt umfram arfleiðsluheimild hans vegna réttinda skylduerfingja og í andstöðu við 35. gr. erfðalaga um að óheimilt sé að ráðstafa meira en 1/3 hluta eigna með erfðaskrá. Verða fyrirmæli hennar því ekki framkvæmd samkvæmt efni sínu en kjarni ágreinings aðila lýtur að því hverjar verði afleiðingar þess og hvort vilja arfleifanda verði náð með öðru móti.24. Erfðalögin veita ekki svör við því hvernig leysa skuli úr ef ómögulegt reynist við dánarbúskipti að fullnægja fyrirmælum arfleifanda um að tiltekinni eign búsins skuli ráðstafa til bréferfingja. Þá vaknar sú spurning hvort allt að einu sé hægt að laga skiptin með einhverjum hætti að fyrirmælum erfðaskrárinnar, svo sem hvort réttur erfingja geti yfirfærst til jafngildis slíkrar eignar í peningum eða eftir atvikum hvort efna eigi arfleiðslu að því marki sem unnt er.25. Hafi arfleifandi ráðstafað hærri peningafjárhæð til bréferfingja en arfleiðslumörk heimila hefur verið litið svo á að fjárhæðin verði færð niður í þriðjung heildareigna sem heimilt er að ráðstafa. Sé um einstaklega ákveðna eign að ræða hefur fyllingarregla erfðaréttar almennt verið talin fela í sér að ákvæði erfðaskrár komi ekki til framkvæmda, til dæmis á þann veg að bréferfingi geti fengið eignina gegn greiðslu á því sem verðmæti fer fram úr heimilli ráðstöfun eða hann fái greitt andvirði eignar sé ekki unnt að afhenda hana samkvæmt fyrirmælum erfðaskrár. Má um það til hliðsjónar vísa til dóms Hæstaréttar 9. desember 1986 í máli nr. 180/1985 sem birtur er á bls. 1626 í dómasafni réttarins það ár. Þetta er þó ekki einhlítt en niðurstaðan ræðst fyrst og fremst af mati á þeirri erfðaráðstöfun sem fyrir liggur í hverju máli og atvikum öllum.26. Við það mat verður byggt á þeirri meginreglu íslensks erfðaréttar að skýra beri erfðaskrá þannig að náð verði þeim vilja arfleifanda sem þar kemur fram eða sannað þykir að fyrir honum hafi vakað við erfðaráðstöfun. Verður jafnframt að meta hver viðbrögð hans við breyttum aðstæðum hefðu orðið hefðu þau atvik verið þekkt við gerð erfðaskrárinnar. Birtist þessi meginregla meðal annars í 2. mgr. 67. gr. erfðalaga sem lýtur að mistökum við erfðaskrárgerð en við þær aðstæður skal framkvæma ákvæði erfðaskrár í samræmi við það sem raunverulega vakti fyrir arfleifanda verði auðið að staðreyna arfleiðsluviljann.27. Til að staðreyna vilja arfleifanda verður fyrst að líta til beinna orða erfðaskrár og leitast við að ráða af þeim hvað vakti fyrir honum. Verði vilji hans ekki ráðinn eða fengin skýr vísbending þar um ber að líta til annarra gagna og upplýsinga, svo sem samtala hans við lögmann eða aðra um efni erfðaskrárinnar, skjalfestra heimilda þar um eða eldri erfðaskráa hans sem að einhverju leyti hafa geymt sömu ráðstöfun.28. Orðalag erfðaskrárinnar er skýrt að því leyti að hún tekur til eignarhluta I í jörðinni P í […] með öllu sem henni fylgir, landi, veiðiréttindum og íbúðarhúsi. Þá leikur enginn vafi á því við hverja er átt með vísun erfðaskrárinnar til barnabarna arfleifanda sem eru sjö talsins og jafnframt að þau skyldu erfa þann hluta að jöfnu. Loks er lýst þeim vilja hans að þessi arfshluti barnabarna hans verði séreign þeirra komi til hjúskapar.29. Þar sem ekkert verður ráðið af þessum orðum um frekari vilja I að baki erfðaskránni eða afstöðu hans hefði hann vitað að hún yrði ekki framkvæmd samkvæmt efni sínu ber að kanna hvort önnur gögn málsins varpi ljósi á þann vilja og hvernig verði komist sem næst honum. Fyrir héraðsdómi gáfu tvö börn I skýrslu. Annars vegar bar J sonur hans að honum hefði ekki verið kunnugt um erfðaskrána. Hann lýsti samskiptum við föður sinn árin 2012 og 2013 og áhyggjum sem I hefði þá haft af fjárhagsvandræðum L dóttur sinnar, einkum að hún kynni að verða gjaldþrota og bankarnir myndu taka eignarhlut hennar í P upp í skuldir að honum látnum. Á þeim tíma hefði faðir hans nýlega gengist undir stóra hjartaaðgerð og vissi ekki hvort hann ætti langt eftir. Honum hefði verið mikið í mun að P héldist í ættinni þegar hann félli frá og velt fyrir sér ýmsum úrræðum, svo sem hvort gera mætti hana að ættaróðali eða setja í einhvers konar félag.30. Í framburði L dóttur I fyrir héraðsdómi kom fram að hann hefði sagt henni frá erfðaskránni um það leyti sem hún var gerð árið 2013 og þau rætt ástæður hennar. Faðir hennar hefði sagt að hann vildi halda jörðinni innan fjölskyldunnar en þættist viss um að bræður hennar myndu vilja selja sinn hlut í henni. Með því að arfleiða barnabörnin „algjörlega“ að P væri hægt að klippa út ættlið hennar og bræðranna í eignarhaldi jarðarinnar vegna líklegs ágreinings þeirra um verðmæti, skiptingu og mögulega sölu á eigninni.31. Skoða verður vitnisburð tveggja barna I, þeirra L og J, sem gáfu skýrslur við meðferð málsins fyrir héraðsdómi í því ljósi að þau eiga sem skylduerfingjar hans bæði hagsmuna að gæta af niðurstöðu um gildi erfðaskrárinnar og greinir á af hvaða ástæðum faðir þeirra gerði hana. Engu að síður er sá samhljómur í framburði þeirra að með erfðaskránni hafi I viljað tryggja að P yrði ekki seld eða tekin upp í skuldir heldur héldist áfram í eigu fjölskyldunnar. Verður sá vilji hans studdur öðrum gögnum málsins, svo sem tölvupóstum milli feðganna I og J á árunum 2012 og 2013. Þar komu meðal annars fram áhyggjur I af skuldastöðu dóttur sinnar, rætt var um möguleika á fyrir fram greiddum arfi til barna hans og mikilvægi þess að halda jörðinni í ættinni. Í tölvupósti frá J til föður síns frá 18. ágúst 2013 var rætt um afleiðingar þess fyrir fjórðung eignarhlutar L í P sem bankinn gæti gengið að ef bú hennar yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá var þar vikið að ráðgjöf sem I hefði fengið frá tilgreindum lögfræðimenntuðum mági sínum varðandi arfshluta L kæmi til fyrir fram greiðslu arfs til hennar.32. Þegar metið er orðalag erfðaskrárinnar, vitnisburður og önnur gögn málsins svo og forsaga um ráðstafanir arfleifanda til að tryggja eignarhald jarðarinnar í fjölskyldu hans telst sannað að markmið erfðaráðstöfunarinnar og meginforsendan fyrir gerð hennar hafi verið að stuðla að því að eignarhluti hans í jörðinni P yrði áfram í eigu fjölskyldunnar. Að fenginni niðurstöðu um hvað vakti fyrir arfleifanda ber að kanna hvort unnt sé að ná því markmiði með því að framkvæma fyrirmæli erfðaskrárinnar að því leyti sem heimilt er lögum samkvæmt. Verður þar fyrst að leita fanga um hvort finna megi skýra vísbendingu um þann vilja hans að forsenda fyrir erfðaráðstöfuninni væri að barnabörnin sjö myndu erfa jörðina sem eina heild, eins og sóknaraðili heldur fram. Jafnframt þarf að meta hvaða afleiðingar það hefði fyrir tilgang erfðaskrárinnar að jörðin erfðist bæði til skylduerfingja og barnabarna.33. Af því sem lýst er að framan verður ekki ályktað að það hafi verið skýr forsenda erfðaráðstöfunar I að barnabörn hans erfðu eignarhluta hans í jörðinni P sem eina heild en ella ekki. Í þessu sambandi skiptir einnig máli að verði erfðaskráin aðeins framkvæmd að því marki sem heimilt er innan arfleiðsluheimildar 35. gr. erfðalaga og jörðin P dreifist þannig á hendur bréferfingjanna sjö auk fjögurra barna I verður ekki séð að það grafi undan því markmiði arfleifanda að eignin haldist innan fjölskyldunnar. Þá fyrirbyggir áskilnaður I um að arfshluti barnabarnanna í jörðinni verði séreign þeirra komi til hjúskapar aðeins að arfshluti þeirra færist á annarra hendur í tengslum við hjúskaparslit en breytir ekki forræði þeirra á eignarhlutdeild sinni í sameigninni og ráðstöfunarrétti með sölu.34. Loks ber að líta til þess að í erfðaskránni eru engin fyrirmæli um hvort eða hvernig bréferfingjar skuli nýta jörðina og hvorki lagðar á kvaðir né önnur skilyrði sett fyrir því að þeir taki hana að arfi sem ekki yrði unnt að fullnægja nema eignin erfðist til þeirra sem heild. Að þessu leyti greinir mál þetta sig í grundvallaratriðum frá atvikum máls sem sóknaraðili hefur bent á til stuðnings aðalkröfu sinni, sbr. dóm Hæstaréttar 22. febrúar 1983 í máli nr. 121/1980 sem birtur er á bls. 381 í dómasafni réttarins það ár. Í því máli kom fram skýr forsenda í erfðaskrá að eign skyldi erfast sem heild til tiltekins bréferfingja í ákveðnu markmiði en ella renna til annars bréferfingja. Þá má einnig vísa til dóms Hæstaréttar í fyrrgreindu máli nr. 180/1985 en þar var tilkall bréferfingja til lands sem þeim var ánafnað í erfðaskrá háð skilyrðum um nýtingu þess í ákveðnum tilgangi.35. Að öllu þessu virtu verður hafnað aðalkröfu sóknaraðila um ógildingu erfðaskrár I. Við úrlausn um hvernig komist verði sem næst vilja hans ber að leitast við að efna arfleiðslufyrirmælin að því marki sem aðstæður leyfa. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi ber þá að líta til þess hámarks sem arfleifandi mátti ráðstafa samkvæmt 35. gr. erfðalaga sem er þriðjungur af eignum búsins, en ekki aðeins þriðjungur af eigninni sem erfðaskráin tekur til svo sem varakrafa sóknaraðila byggist á. Er varakröfu sóknaraðila því jafnframt hafnað.36. Því verður fallist á þrautavarakröfu sóknaraðila um að erfðaskráin verði metin gild að því marki að barnabörn I erfi að jöfnu eignarhluta í jörðinni sem samsvarar 1/3 hluta eigna búsins og hinn látni mátti ráðstafa samkvæmt 35. gr. erfðalaga. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest á þann hátt sem í dómsorði greinir.37. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilunum B, C og D kærumálskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.Dómsorð:Erfðaskrá I 16. desember 2013 um ráðstöfun á eignarhluta hans í jörðinni P í […], ásamt öllu sem henni fylgir og fylgja ber, til barnabarna hans skal lögð til grundvallar við skipti eigna í dánarbúi hans að því marki sem samsvarar 1/3 hluta eigna búsins.Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og kærumálskostnað eru staðfest.Sóknaraðili, A, greiði varnaraðilunum B, C og D hverju fyrir sig 300.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=82baf954-3dbb-4391-acb8-0da4b901fef6&verdictid=48f5789b-e74c-48ca-b4fa-49f8f2b163a1 |
Mál nr. 379/2002 | Kærumál Sakarefni Frávísunarúrskurður felldur úr gildi | H ehf. var hæstbjóðandi við nauðungarsölu á fiskverkunarhúsi. Átti H ehf. að greiða sýslumanni fjórðung söluverðsins til að boðið teldist samþykkt. Áður en til þess kom framseldi stjórnarformaður H ehf. boðið til G. Í kjölfarið innti G af hendi greiðsluna til sýslumanns sem samþykkti boðið. Á fundi stjórnar H ehf. var stjórnarformanninum bent á að atbeina tveggja stjórnarmanna væri þörf til að skuldbinda félagið. Leitaði H ehf. af þessu tilefni úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns en málinu var vísað frá þar sem krafan var of seint fram komin. Höfðaði H ehf. þá mál á hendur G og krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi ógildi framsals stjórnarformannsins til G. Brást hinn síðarnefndi við málsókninni með því að framselja boðið til F ehf. sem greiddi sýslumanni eftirstöðvar söluverðs fasteignarinnar og fékk gefið út afsal fyrir henni. H ehf. höfðaði þá sakaukasök á hendur F ehf. og krafðist þess að félaginu yrði gert að gefa sér afsal fyrir fasteigninni gegn nánar tiltekinni greiðslu. Héraðsdómari vísaði málinu frá. Hæstiréttur hafnaði því að ákvæði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála stæði í vegi fyrir sakaukasök H ehf. á hendur F ehf. Þá yrði að telja H ehf. hafa lögvarða hagsmuni um kröfu sína á hendur G, enda þótt félaginu kynni að vera nægilegt að gera efni þessarar dómkröfu að málsástæðu í sakaukasök sinni á hendur F ehf. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 24. júlí 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað. I. Samkvæmt gögnum málsins var á fundi stjórnar sóknaraðila 25. nóvember 2001 tekin ákvörðun um að heimila formanni hennar að gera tilboð í nafni félagsins allt að tiltekinni fjárhæð við nauðungarsölu á fasteign, sem auðkennd er í málinu sem „Fiskverkunarhús við Patrekshöfn, nyrðri lóð ehl. II“ á Patreksfirði. Neytti formaðurinn þessarar heimildar við uppboð 27. sama mánaðar, þar sem sóknaraðili varð hæstbjóðandi með boð að fjárhæð 11.000.000 krónur. Mun sóknaraðila hafa borið samkvæmt uppboðsskilmálum að greiða fjórðung söluverðsins 18. desember 2001 til að boðið teldist samþykkt. Í málatilbúnaði hans greinir frá því að hann hafi orðið að leita til sýslumannsins á Patreksfirði um greiðslufrest, sem hafi verið veittur til 19. sama mánaðar. Stjórnarformaður sóknaraðila gerði í nafni hans skriflegt samkomulag 19. desember 2001 við varnaraðilann Guðfinn Pálsson, þar sem kveðið var á um að sóknaraðili framseldi fyrrgreint boð sitt til varnaraðilans gegn nánar tilgreindri greiðslu, auk þess sem sóknaraðila var áskilin heimild til að taka tiltekna lausafjármuni, sem geymdir væru í hinu selda fiskverkunarhúsi. Samhliða þessu gerðu sömu menn sérstaka yfirlýsingu um framsal sóknaraðila á boðinu til varnaraðilans. Mun varnaraðilinn hafa síðan 20. sama mánaðar innt af hendi greiðslu til sýslumanns í samræmi við uppboðsskilmála og boðið þar með talist samþykkt. Stjórn sóknaraðila kom saman til fundar 20. desember 2001, þar sem formaður hennar kynnti framangreindar ráðstafanir. Samkvæmt fundargerð var formanninum þá bent á að mælt væri svo fyrir í samþykktum félagsins að atbeina tveggja stjórnarmanna væri þörf til að skuldbinda það. Af því tilefni kvaðst formaðurinn ekki hafa leitað samþykkis neins annars stjórnarmanns fyrir ráðstöfunum sínum. Að þessu fram komnu samþykkti stjórnin að hafna framsali formannsins á boði félagsins við áðurgreinda nauðungarsölu. Í framhaldi af þessu tilkynnti lögmaður sóknaraðila varnaraðilanum Guðfinni um samþykkt stjórnarinnar með bréfi 21. desember 2001. Kveður sóknaraðili þetta jafnframt hafa verið tilkynnt sýslumanni, auk þess sem honum hafi verið send greiðsla á því, sem sóknaraðila bar að inna af hendi samkvæmt boði sínu við nauðungarsöluna. Með bréfi 23. janúar 2002 leitaði sóknaraðili úrlausnar Héraðsdóms Vestfjarða um þá kröfu að ógilt yrði ákvörðun sýslumannsins á Patreksfirði 20. desember 2001 um að taka gilt framsal á boði sóknaraðila til varnaraðilans Guðfinns, svo og að lagt yrði fyrir sýslumann að samþykkja boð sóknaraðila. Aðilana greinir ekki á um að því máli hafi verið vísað frá héraðsdómi á þeirri forsendu að sóknaraðili hafi ekki borið fram kröfu sína innan frests, sem mælt er fyrir um í ákvæðum laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili höfðaði mál þetta 31. janúar 2002 á hendur varnaraðilanum Guðfinni og krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi ógildi framsals stjórnarformanns sóknaraðila á boði hæstbjóðanda við fyrrgreinda nauðungarsölu. Var málið þingfest fyrir Héraðsdómi Vestfjarða 13. febrúar 2002. Í málinu liggur fyrir yfirlýsing varnaraðilans Guðfinns 28. febrúar 2002, þar sem hann framseldi umrætt boð við nauðungarsölu til varnaraðilans Fasteignafélagsins Ránar ehf. Verður ráðið af gögnum málsins að síðastnefndur varnaraðili hafi sama dag greitt sýslumanni eftirstöðvar söluverðs eignarinnar og honum þá verið gefið út afsal fyrir henni, sem einnig var þinglýst sama dag. Sóknaraðili kveður sýslumann hafa endursent sér áðurnefnda greiðslu samhliða þessu. Sóknaraðili höfðaði sakaukasök í málinu með stefnu 11. mars 2002, sem þingfest var 10. næsta mánaðar. Með henni beindi sóknaraðili þeirri kröfu að varnaraðilanum Fasteignafélaginu Rán ehf. að félaginu yrði gert að gefa út til sóknaraðila afsal fyrir fasteigninni Fiskverkunarhús við Patrekshöfn, nyðri lóð ehl. II, gegn greiðslu á 11.000.000 krónum „auk innlánsvaxta“. Fyrir héraðsdómi kröfðust báðir varnaraðilar þess að málinu yrði vísað frá dómi. Héraðsdómari féllst á þá kröfu með hinum kærða úrskurði. II. Í málinu gerir sóknaraðili sem fyrr segir þá kröfu á hendur varnaraðilanum Fasteignafélaginu Rán ehf. að félagið verði dæmt til að gefa út afsal til sín fyrir fasteigninni, sem ágreiningur aðilanna stendur um, gegn greiðslu á 11.000.000 krónum. Slíka kröfu gat sóknaraðili ekki gert í máli, sem rekið yrði í tengslum við fyrrgreinda nauðungarsölu samkvæmt reglum 4. þáttar laga nr. 90/1991, og var henni heldur ekki hreyft í því máli, sem hann lagði fyrir Héraðsdóm Vestfjarða 23. janúar 2002 og áður er getið. Þegar af þeirri ástæðu getur ákvæði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 ekki staðið því í vegi að sóknaraðili beini þessari kröfu að varnaraðilanum Fasteignafélaginu Rán ehf. í almennu einkamáli, en engu breytir í því efni að sóknaraðili styðji hana við málsástæðu, sem lýtur að réttmæti gerða sýslumannsins á Patreksfirði við umrædda nauðungarsölu. Eins og áður greinir höfðaði sóknaraðili frumsök í máli þessu á hendur varnaraðilanum Guðfinni 31. janúar 2002. Á þeim tíma hafði sýslumaður ekki gefið út afsal fyrir fasteigninni, sem deilt er um. Verður heldur ekki ráðið af gögnum málsins hvort sýslumaður hafi á því tímamarki verið búinn að láta í ljós afstöðu til þess ágreinings, sem kominn var upp milli sóknaraðila og varnaraðilans Guðfinns um hvor þeirra væri með réttu kaupandi eignarinnar við nauðungarsöluna. Að því virtu hafði sóknaraðili lögvarða hagsmuni af því að leita dóms á hendur þessum varnaraðila um gildi framsalsins á boði sínu. Þótt atvik hafi eftir þetta þróast á þann veg að sóknaraðila kynni nú að vera nægilegt að gera efni þessarar dómkröfu að málsástæðu í sakaukasök sinni á hendur varnaraðilanum Fasteignafélaginu Rán ehf., gefur það í ljósi framangreinds ekki nægilegt tilefni til að vísa frá dómi kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilanum Guðfinni. Samkvæmt framangreindu eru ekki efni til að vísa máli þessu frá héraðsdómi. Verður því lagt fyrir héraðsdómara að taka það til efnismeðferðar. Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður óraskað. Sóknaraðili hefur ekki krafist kærumálskostnaðar og verður hann því ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður. Kröfur stefndu um frávísun þessa máls voru teknar til úrskurðar hinn 26. júní sl. Það höfðaði Höfin sjö ehf., Laugavegi 97, Reykjavík hinn 31. janúar sl., með stefnu á hendur Guðfinni Pálssyni, Aðalstræti 118a, Patreksfirði og hinn 10. apríl sl. með framhalds- og sakaukastefnu á hendur stefnda Guðfinni og Fasteignafélaginu Rán ehf., Aðalstræti 52, Patreksfirði. Stefndu krefjast þess að málinu verði vísað frá dómi og stefndu úrskurðaður málskostnaður úr hendi stefnanda. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfum stefndu verði hrundið. Hinn 27. nóvember sl. var Fiskverkunarhús við Patrekshöfn, nyrðri lóð ehl. II, Patreksfirði, seld nauðungarsölu á uppboði. Stefnandi var hæstbjóðandi. Átti að inna hluta söluverðsins af hendi hinn 18. desember, en stefnandi kveðst ekki hafa getað greitt fyrr en hinn 20. og hafa óskað eftir viðbótarfresti í bréfi til sýslumanns, en hann hafi skýrt fyrirsvarsmanni stefnanda frá því að greiðsla yrði að berast á skrifstofutíma hinn 19. desember, en ella yrði boði næstbjóðanda tekið. Hinn 19. desember sl. framseldi stjórnarformaður stefnanda réttindi stefnanda samkvæmt boðinu til stefnda Guðfinns. Var boðið samþykkt hinn 20. desember sl., eftir að stefndi Guðfinnur hafði greitt tilskilinn hluta söluverðsins til sýslumanns þann dag. Stefnandi telur sig ekki vera bundinn af samningi um framsal boðsins, sem stjórnarformaður hans stóð einn að, þar sem tvo stjórnarmenn þurfi til að skuldbinda stefnanda samkvæmt samþykktum hans. Tilkynnti lögmaður hans stefnda Guðfinni þetta með bréfi hinn 21. desember sl. og sendi sýslumanni afrit þess. Daginn áður hafði stefnandi sent sýslumanni 1. greiðslu söluverðsins, eftir því sem segir í bréfi sýslumanns til lögmanns stefnanda, þar sem einnig kemur fram að sýslumaður hafi skilað greiðslunni jafnharðan. Stefnandi kærði hinn 24. janúar sl. til héraðsdóms þá athöfn sýslumanns að taka gilt framsal á boði stefnanda til stefnda Guðfinns. Kærunni var vísað frá héraðsdómi. Sýslumaður gaf út afsal fyrir eigninni hinn 28. febrúar sl., til stefnda Fasteignafélagsins Ránar ehf., að undangengnu réttindaframsali til þess aðila frá stefnda Guðfinni. Efniskröfur stefnanda í þessu máli hljóða um viðurkenningu á ógildi framsals stjórnarformanns stefnanda til stefnda Guðfinns á réttindum stefnanda samkvæmt boði í greinda eign og stefnda Fasteignafélagið Rán ehf. verði dæmt til að gefa út afsal til stefnanda fyrir henni, gegn nánar greindri peningagreiðslu. Stefndi Guðfinnur styður frávísunarkröfu sína við það að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að viðurkenningarkrafan nái fram að ganga. Þá sé hún svo óskýr að varði frávísun, en eins og hún sé sett fram virðist vera gerð krafa um viðurkenningu á ógildanleika ráðstöfunar fyrirsvarsmanns stefnanda. Þá telur stefndi að eftir útgáfu afsals skipti ógildanleiki, eða ógilding nefnds framsals engu máli að lögum. Geti stefnandi ekki haggað samþykki boðsins með málsókn í almennu einkamáli, þar sem borið hafi að reka slíkt mál sem ágreiningsmál við nauðungarsölu. Ógildi upprunalegs framsals fái því ekki haggað við samþykki sýslumanns á boði stefnda Guðfinns og afsali hans til stefnda Fasteignafélagsins Ránar ehf. Stefndi Fasteignafélagið Rán ehf. kveðst byggja frávísunarkröfu sína á því að málsástæður stefnanda um ógildi framsals og atvik við nauðungarsölu hefði átt að hafa uppi í ágreiningsmáli við nauðungarsölu samkvæmt reglum laga nr. 90/1991. Krafa stefnanda sé byggð á atvikum við ráðstöfun eignarinnar við nauðungarsölu, þ.e. því að sýslumaður hefði átt að samþykkja boð stefnanda, en ekki stefnda Guðfinns, eða hefði samþykkt boð hins fyrrnefnda ef það hefði ekki verið framselt. Bendir stefndi á að stefnandi hafi greitt eftir samþykkisfrest. Þá tekur stefndi fram að málshöfðunarfrestir og sérstakt réttarfar ágreiningsmála við nauðungarsölu séu til þess ætlaðir að koma í veg fyrir að kaupendum verði haldið í óvissu löngu eftir að sölunni lýkur. Krafa stefnanda á hendur stefnda Fasteignafélaginu Rán ehf. um útgáfu afsals fyrir ofangreindri eign er efnislega á því reist að stefnandi hafi átt rétt til afsals fyrir henni úr hendi sýslumanns, þar sem framsal stjórnarformanns stefnanda á rétti stefnanda til eignarinnar hafi verið ekki skuldbindandi fyrir stefnanda. Sýslumaðurinn á Patreksfirði ákvað í verki að byggja á nefndu framsali frá stjórnarformanni stefnanda f.h. hans hönd, með því að taka við greiðslum frá stefnda Guðfinni, en hafna greiðslum frá stefnanda. Ekki verður séð að sýslumaður hafi verið krafinn um breytingu á þessari ákvörðun. Leitað var úrlausnar héraðsdóms um hana með skírskotun til 80 gr. laga nr. 90/1991, en krafa um úrlausn héraðsdóms sætti frávísun, þar sem hún var talin of seint fram komin. Stefndi Fasteignafélagið Rán ehf. fékk síðan afsal fyrir eigninni, á grundvelli réttindaframsals frá stefnda Guðfinni. Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 19/1991 ber að vísa máli frá dómi ef reka á það eftir reglum um meðferð ágreiningsmála vegna fullnustugerða. Ágreining um það hvort stefnandi fengi afsal úr hendi sýslumanns við nauðungarsöluna bar að leysa í máli sem yrði rekið samkvæmt reglum laga nr. 90/1991. Af þessu leiðir að stefndi Fasteignafélagið Rán ehf. verður ekki krafinn um afsal fyrir eigninni í þessu máli með skírskotun til þess að hann hafi ekki átt rétt til afsals úr hendi sýslumanns vegna betri réttar stefnanda. Samkvæmt þessu ber að vísa frá dómi kröfu stefnanda um skyldu stefnda til að gefa út afsal. Að svo komnu máli þykir ekki nægilega sýnt að stefnandi hafi af því lögvarða hagsmuni að fá leyst efnislega úr viðurkenningarkröfu sinni á hendur stefnda Guðfinni. Ber því einnig að vísa henni frá dómi. Eftir atvikum þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af rekstri þessa máls. Úrskurð þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri. Máli þessu er vísað frá dómi. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 39/2011 | Kærumál Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að dómþoli, X, kt. [...], [...], [...], verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hennar er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 14. apríl 2011, kl. 16.00. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. janúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á meðan mál hennar er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 14. apríl 2011, klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 212/2006 | Verðbréfaviðskipti Hlutabréf Tilkynning Kaupsamningur Umboð Traustfang Skaðabætur | Bankinn G gerði 3. febrúar 2004 samning við óstofnað félag í eigu E o.fl. vegna fyrirhugaðrar yfirtöku á ÞF. Stuttu síðar hófst starfsmaður bankans handa við kaup á hlutabréfum í ÞF. Hinn 12. og 13. febrúar áttu E og GU samtal við hluthafa úr svokölluðum F hópi, þar á meðal föður GW, og degi síðar gerði E tilboð um kaup á hlutum þeirra á genginu 6. Hinn 16. febrúar var E tilkynnt að hluthafar í hópnum vildu selja hluti sína á fyrrgreindu gengi og fól hann starfsmanni bankans G að annast frágang kaupanna. Átti starfsmaðurinn samdægurs símtöl við ýmsa hluthafa í F hópnum, þar á meðal föður GW sem kvaðst hafa heimild til að ljúka þessum viðskiptum fyrir hennar hönd. Hinn 17. febrúar keyptu E o.fl. hluti félagsins GR og tengdra aðila í ÞF á genginu 6,75. Í lok febrúar gerði bankinn G yfirtökutilboð fyrir hönd fyrrnefnds félags í hlutabréf annarra hluthafa í ÞF á sama gengi. GW krafðist greiðslu á fjárhæð sem svaraði til þess sem hún hefði fengið með sölu á hlutabréfum sínum á síðastnefndu gengi að frádregnu því sem hún fékk fyrir hlutabréfin við ráðstöfun þeirra 16. febrúar 2004. Krafan var aðallega reist á því að faðir hennar hefði ekki haft umboð til að ráðstafa hlutabréfum hennar, en til vara að E o.fl. bæri að bæta henni tjón, sem rakið verði til þess að markaðsverð bréfanna hefði orðið hærra sem þessu svarar ef gætt hefði verið réttra reglna við opinberar tilkynningar um ætluð kaup bankans G á hlutabréfum í ÞF, sem í reynd hafi verið kaup félags E o.fl. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að þótt að faðir GW, sem kom fram sem umboðsmaður hennar, hefði neitað að hafa haft til þess viðhlítandi heimild yrði að líta til þess að viðskiptum með hlutabréf hennar, sem voru rafrænt skráð, varð ekki lokið með yfirlýsingu hans, heldur þurfti að gera ráðstafanir til að bankanum G yrði kleift að taka við eignarskráningu hlutabréfanna sem reikningsstofnun kaupanda þeirra. Talið var að GW hefði ekki aflað nauðsynlegra gagna í tilefni af áskorun E o.fl. um að hún upplýsti hvernig hún hefði staðið að tilkynningu til reikningsbanka um sölu hlutafjárins og beiðni um að það yrði afhent bankanum G. Að því virtu var lagt til grundvallar að það hefði aðeins verið á færi hennar að veita nauðsynlegan atbeina til framsals hlutabréfanna með rafrænni skráningu í tengslum við ráðstöfun föður hennar. Hefði GW því að minnsta kosti veitt samþykki fyrir þessari ráðstöfun og væri því við hana bundin. Talið var óhjákvæmilegt að líta svo á að í málinu hefðu bankinn G og E o.fl. látið hjá líða að upplýsa réttilega öll atriði varðandi lögskipti þeirra í tengslum við kaup á hlutabréfum í ÞF eftir gerð samningsins 3. febrúar 2004. Án tillits til þess hvort ranglega hefði verið staðið að opinberum tilkynningum um kaup á hlutabréfum í ÞF var litið til þess að ekki síðar en 13. febrúar hefði helstu hluthöfum í F hópnum, þar á meðal föður GW og umboðsmanni, orðið kunnugt um að E o.fl. hefðu hug á að yfirtaka félagið með liðsinni bankans G. Hefði þessum hluthöfum mátt vera ljóst að bankinn hefði undanfarna daga staðið að verulegum kaupum á hlutabréfum í félaginu. Ef einhverju hefði getað skipt fyrir verð hlutabréfanna á markaði að þessi kaup hafi varðað E o.fl. frekar en ráðið varð af opinberum tilkynningum bankans var ekki talið að sú aðstaða hefði getað dulist umboðsmanni GW þegar hann samdi um gengi við sölu á hlutabréfum hennar. Þegar af þeirri ástæðu var ekki talið að hún gæti átt rétt til skaðabóta á þessum grunni. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. apríl 2006. Hún krefst þess að stefndu verði í sameiningu gert að greiða sér 5.494.424 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. mars 2004 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms hefur nöfnum tveggja stefndu verið breytt. Íslandsbanki hf. heitir nú Glitnir banki hf., en nafn Þorbjörns Fiskaness hf. er nú Þorbjörn hf. I. Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, munu tvö útgerðarfélög, Fiskanes hf. og Valdimar hf., hafa 30. júní 2000 verið sameinuð því þriðja, Þorbirni hf., og var þá nafni þess síðastnefnda breytt í Þorbjörn Fiskanes hf. Fram að þessu mun Þorbjörn hf. hafa verið skráð á aðallista Verðbréfaþings Íslands frá því síðla árs 1998 og hélst sú skráning eftir sameiningu félaganna, en eignarréttindi yfir hlutabréfum í hinu sameinaða félagi hafa verið skráð eftir ákvæðum laga nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Áfrýjandi og stefndu Eiríkur Tómasson, Gerður Tómasdóttir og Gunnar Tómasson munu við sameininguna hafa orðið hluthafar í Þorbirni Fiskanesi hf., sú fyrstnefnda á grundvelli fyrri hlutafjáreignar í Fiskanesi hf. en þau síðarnefndu sem hluthafar í Þorbirni hf. Áfrýjandi var í röðum meira en tuttugu hluthafa í sameinaða félaginu, sem í ýmsum gögnum málsins hafa í einu lagi verið nefndir Fiskaneshópurinn. Af gögnum málsins verður ráðið að hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf. hafi í árslok 2003 numið 1.112.763.089 krónum. Stefndu Eiríkur, Gerður og Gunnar munu hafa ráðið yfir 14,43% af hlutafénu, Grandi hf. og tengd félög samtals 27,89%, en áfrýjandi og tuttugu aðrir hluthafar í svokölluðum Fiskaneshópi alls 25,66%. Samkvæmt málatilbúnaði stefndu Eiríks, Gerðar og Gunnars munu sex hluthafar úr Fiskaneshópnum, sem áttu um 6,46% hlutafjár í félaginu, hafa sumarið 2003 boðið hluti sína til sölu á genginu 6, en án árangurs. Í janúar 2004 hafi síðan komið fram að hlutir Granda hf. og tengdra félaga væru til sölu. Að viðbættum öðrum hlutum, sem hafi á þeim tíma verið falir, hafi þessir stefndu talið að samtals væru til sölu meira en 40% hlutafjár í Þorbirni Fiskanesi hf., en ýmis önnur útgerðarfélög hefðu haft áhuga á að komast þar í ráðandi stöðu. Þessir stefndu hafi ákveðið að bregðast við þessu með því að leitast við að taka yfir félagið. Hinn 3. febrúar 2004 gerði stefndi Glitnir banki hf. samning við „óstofnað yfirtökufélag (Newco)“ í eigu stefndu Eiríks, Gerðar og Gunnars, bróður þeirra og föður. Í samningnum sagði meðal annars að hann væri gerður vegna fyrirhugaðra kaupa þessa félags á öllu hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf., að frátöldum hlutum eigenda þess og hlut í eigu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. Bankinn ætti að veita ráðgjöf „við yfirtökuferli þar sem settir verða upp yfirtökuskilmálar byggðir á upplýsingum frá fyrirsvarsmönnum Newco“ og um „uppsetningu á yfirtökufélagi og það ferli sem á sér stað í kjölfar kaupa Newco á öllum hlutabréfum í Þorbirni-Fiskanesi.“ Jafnframt átti bankinn að „vinna við tilboðsgerð, sem gert verður í nafni Íslandsbanka eða Newco og samningaviðræður við tilboðshafa“, auk þess að gera samninga við seljendur hlutabréfa, aðstoða nýja félagið við að útvega fé til að kaupa þau, hafa umsjón með skjalagerð og lokafrágangi yfirtöku og annast annað, sem varðaði yfirtökutilboð. Tekið var fram að bankinn bæri enga ábyrgð á því að þessi kaup tækjust eða fé yrði fengið til þeirra. Ef á hinn bóginn nýja félaginu, eigendum þess og Tryggingamiðstöðinni hf. tækist að eignast að minnsta kosti 51% hlutafjár í Þorbirni Fiskanesi hf. fengi bankinn nánar tiltekna þóknun, en ella ekkert í sinn hlut. Af hálfu hins stefnda banka var þessi samningur undirritaður af forstöðumanni svokallaðrar fyrirtækjaráðgjafar, Erni Gunnarssyni, ásamt öðrum starfsmanni innan sömu deildar hans, Einari Erni Ólafssyni. Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, hófst Einar Örn handa fáum dögum síðar við að leita eftir kaupum á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf. Í janúar 2004 höfðu hlutabréf í félaginu gengið kaupum og sölu á verðbréfamarkaði ýmist á genginu 4,90 eða 4,95, en fram til 11. febrúar hækkaði gengið í 5,50. Þann dag tilkynnti bankinn til Kauphallar Íslands að hann hefði aukið hlut sinn í Þorbirni Fiskanesi hf. úr 0,18% hlutafjár í 6,44%, sbr. 27. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, eins og þau hljóðuðu á þessum tíma. Bankinn tilkynnti 13. febrúar 2004 að hlutur hans væri orðinn 11,3% og 16. sama mánaðar að hann væri 16,93%. Að nokkru leyti virðast hlutabréf þessi hafa verið keypt af hluthöfum í Fiskaneshópnum, þar á meðal áfrýjanda, sem seldi bankanum 12. febrúar 2004 hlutabréf að nafnverði 2.000.000 krónur á genginu 5,67. Af framburði vitna, svo og stefndu Eiríks og Gunnars, verður ráðið að 12. og 13. febrúar 2004 hafi þeir síðastnefndu átt samtöl við nokkra helstu hluthafana í félaginu úr Fiskaneshópnum, þar á meðal föður áfrýjanda, og þessum hluthöfum þá orðið ljóst að þeir leituðu eftir því að taka félagið yfir með liðsinni hins stefnda banka. Hafi stefndi Eiríkur við það tækifæri boðist til að kaupa hlutabréf þessara hluthafa á genginu 5,67, sem hafi verið hafnað. Hinn 14. sama mánaðar hafi hann komið á framfæri boði til hluthafa í Fiskaneshópnum um að annaðhvort myndu hann og fjölskylda hans kaupa hluti hinna á genginu 6 eða selja þeim sína gegn sama verði. Í framhaldi af þessu hafi nokkrir fulltrúar hluthafa í Fiskaneshópnum, þar á meðal eiginmaður áfrýjanda, átt fundi um viðbrögð við þessu og meðal annars haft til athugunar hvort þessi hluthafahópur ætti að reyna að taka yfir Þorbjörn Fiskanes hf., en í því skyni munu þeir hafa átt viðræður við starfsmenn Landsbanka Íslands hf. Að morgni 16. febrúar 2004 hafi viðræður haldið áfram án þess að niðurstaða fengist, en síðdegis þennan dag hafi stefnda Eiríki verið tilkynnt að hluthafar í Fiskaneshópnum vildu selja hluti sína á genginu 6, þó með því skilyrði að þeir, sem áður hefðu selt hinum stefnda banka hlutabréf á genginu 5,67, fengju verðmuninn bættan. Stefndi Eiríkur hafi samþykkt þetta. Í framhaldi af því hafi hann tilkynnt Einari Erni Ólafssyni að kaupin væru ráðin og falið honum að annast frágang þeirra. Í málinu liggja fyrir endurrit af upptökum símtala, sem Einar Örn átti síðla dags 16. febrúar 2004 við sjö hluthafa í Fiskaneshópnum. Létu nokkrir þeirra í ljós að þeir hefðu umboð frá öðrum hluthöfum innan fjölskyldna sinna til að ráðstafa hlutum þeirra. Af hálfu hins stefnda banka er því haldið fram að Einar Örn hafi að auki átt samtöl við fleiri hluthafa í þessum hópi, sem upptökur hafi ekki verið gerðar af, en jafnframt hefur verið lögð fram skrifleg orðsending til hans frá einum öðrum hluthafa úr hópnum. Ekki liggur fyrir að Einar Örn hafi rætt við áfrýjanda, en meðal gagna málsins er upptaka af símtali hans við föður hennar, þar sem sá síðarnefndi kvaðst hafa heimild til að ljúka þessum viðskiptum meðal annars fyrir hennar hönd. Þá liggur fyrir kvittun bankans til áfrýjanda fyrir sölu á hlutabréfum hennar að nafnverði 7.325.899 krónur á genginu 6, svo og um ráðstöfun söluverðsins inn á tiltekinn bankareikning. Einnig hefur verið lögð fram samsvarandi kvittun vegna greiðslu til áfrýjanda á mismuninum á því verði, sem hún fékk 12. sama mánaðar fyrir áðurnefnd hlutabréf að nafnverði 2.000.000 krónur, og því, sem hún hefði fengið með sölu þeirra á genginu 6. Í málinu halda stefndu því fram að eftir að framangreindum viðskiptum lauk hafi samningur komist á um kaup nýs félags í eigu stefndu Eiríks, Gerðar og Gunnars og föður þeirra á þeim hlutum í Þorbirni Fiskanesi hf., sem hinn stefndi banki hafði eignast á þann hátt, sem áður greinir. Að morgni 17. febrúar 2004 tilkynnti bankinn svokölluðum regluverði félagsins, sbr. þágildandi 47. gr. laga nr. 33/2003, að hann hefði selt þessu nýja félagi allan hlut sinn í Þorbirni Fiskanesi hf., 16,93% af heildarhlutafénu að nafnverði 187.395.797 krónur, og að auki miðlað til nýja félagsins hlutabréfum að nafnverði 232.418.517 krónur eða 20,89% hlutafjárins. Í tilkynningunni kom fram að hlutirnir, sem miðlað var, hafi verið keyptir á genginu 6 og þeir, sem bankinn seldi, á genginu 5,90, en samkvæmt málatilbúnaði bankans svaraði þetta síðastnefnda gengi til þess, sem hann hafi sjálfur greitt fyrir þá hluti að teknu tilliti til hækkunar á verði í fyrri viðskiptum við hluthafa í Fiskaneshópnum. Regluvörður Þorbjörns Fiskaness hf. sendi síðan Kauphöll Íslands tilkynningu um þessi viðskipti fyrir hádegi 17. febrúar 2004 og gat þess þar að stefndu Eiríkur, Gerður og Gunnar ásamt fjárhagslega tengdum aðilum ættu orðið með þessu 52,15% hlutafjár í félaginu. Í framhaldi af þessu setti kauphöllin hlutabréf í félaginu á svokallaðan athugunarlista, þar sem skylt væri orðið að gera öðrum hluthöfum í félaginu yfirtökutilboð, sbr. VI. kafla laga nr. 33/2003. Samkvæmt aðilaskýrslu stefnda Eiríks fyrir héraðsdómi hafði hann átt samtal fyrri hluta febrúar 2004 við nafngreindan fyrirsvarsmann Granda hf. og leitað eftir kaupum á hlutabréfum félagsins í Þorbirni Fiskanesi hf. á genginu 5,67. Því boði hafi verið hafnað og jafnframt öðru, sem hann virðist hafa borið fram 14. febrúar 2004 um kaup á genginu 6. Að morgni 17. sama mánaðar, eftir kaup hlutabréfa af hluthöfum í Fiskaneshópnum, hafi stefndi Eiríkur falið Einari Erni Ólafssyni að leita samninga við Granda hf. um kaup á hlutum í eigu þess og tengdra félaga. Síðdegis þann dag hafi tekist samkomulag um kaup á þessum hlutum á genginu 6,75, en það verð hafi svarað til þess, sem Grandi hf. hafi á sínum tíma greitt fyrir kaup á hlutabréfunum í Þorbirni Fiskanesi hf. að viðbættum vöxtum. Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti einn stjórnarmanna í Þorbirni Fiskanesi hf., sem jafnframt átti sæti í stjórnum Granda hf. og tengdra félaga, regluverði fyrstnefnda félagsins að morgni 17. febrúar 2004 að síðastnefndu félögin hefðu í hyggju að selja hluti sína í því. Sala þessara hluta til nýja félagsins í eigu stefndu Eiríks, Gerðar og Gunnars og föður þeirra var síðan tilkynnt Kauphöll Íslands í lok sama dags. Í lok febrúar 2004 gerði hinn stefndi banki yfirtökutilboð fyrir þetta nýja félag, sem þá hafði verið stofnað og hlotið nafnið ÓK-1 eignarhaldsfélag ehf., í hlutabréf annarra hluthafa í Þorbirni Fiskanesi hf. og hljóðaði það á gengið 6,75. Á grundvelli þessa boðs hafði félagið eignast 1. apríl 2004 alls 91,99% hlutafjár í Þorbirni Fiskanesi hf., sem var tekið af skrá í Kauphöll Íslands næsta dag. ÓK-1 eignarhaldsfélag ehf. mun síðan hafa verið sameinað Þorbirni Fiskanesi hf. Með bréfi til hins stefnda banka 23. febrúar 2004 bar lögmaður fyrir hönd aðila í svokölluðum Fiskaneshópi, svo sem þar var komist að orði, fram erindi, þar sem meðal annars var greint frá því að einhverjir úr þessum hópi hafi fyrr í þeim mánuði selt bankanum hlutabréf í Þorbirni Fiskanesi hf., ýmist á genginu 5,67 eða 6, en það þætti „þó nokkur vafi leika á því að hve miklu leyti samningar um slíkt tókust“, einkum vegna þess að hlutabréf hafi verið færð af nöfnum einhverra þessara hluthafa án þess að samningar hafi verið gerðir um kaup bréfanna eða fullnægjandi umboð legið fyrir til að selja þau. Þess var krafist að „óumsamdar færslur með eignarhluti þeirra verði bakfærðar“, en að öðru leyti að bætt yrði það tjón, sem þessir hluthafar hefðu beðið með því að hafa ekki fengið sama gengi fyrir hlutabréf sín og síðar hafi verið greitt í viðskiptum tengdum yfirtöku á félaginu, eða 6,75. Þessu hafnaði bankinn með bréfi 15. mars 2004. Lögmaðurinn beindi því 30. sama mánaðar til annarra stefndu að leitað yrði lausnar á þessu, sem þeir höfnuðu 15. apríl 2004. Mál þetta var síðan höfðað 21. maí 2004. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi fallið frá aðalkröfu, sem hún gerði í framhaldssök í héraði, og krefst nú sem fyrr segir greiðslu á 5.494.424 krónum. Sú fjárhæð svarar til þess, sem áfrýjandi hefði fengið með sölu á hlutabréfum sínum í Þorbirni Fiskanesi hf. að nafnverði 7.325.899 krónur á genginu 6,75, að frádregnu því, sem hún fékk fyrir hlutabréfin við ráðstöfun þeirra 16. febrúar 2004, þar sem miðað var við gengið 6. Hér fyrir dómi reisir áfrýjandi kröfu sína aðallega á því að fullnægjandi heimild hafi ekki legið fyrir til að ráðstafa þessum hlutabréfum hennar, en til vara að stefndu beri að bæta henni tjón, sem rakið verði til þess að markaðsverð bréfanna hefði orðið hærra sem þessu svarar ef gætt hefði verið réttra reglna við opinberar tilkynningar um ætluð kaup hins stefnda banka á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf., sem í reynd hafi verið kaup félags stefndu Eiríks, Gerðar og Gunnars og föður þeirra. Skilja verður málatilbúnað áfrýjanda svo að hún hafi fallið frá öðrum málsástæðum, sem hún hélt fram í héraði og greint er frá í hinum áfrýjaða dómi, enda voru þær hvorki raktar í greinargerð hennar né munnlegum málflutningi fyrir Hæstarétti. II. Eins og áður segir liggur fyrir í málinu endurrit af upptöku, sem gerð var af símtali Einars Arnar Ólafssonar við föður áfrýjanda, Willard Fiske Ólason, síðdegis 16. febrúar 2004, en ekki hafa verið bornar brigður á að þar sé réttilega greint frá orðaskiptum þeirra. Í upphafi samtalsins staðfesti Willard að hann ætlaði að selja hlutabréf sín í Þorbirni Fiskanesi hf. á genginu 6 og gat þess einnig óspurður að það sama ætti við um „þessi börn mín líka“, sem hann kvað vera Dagbjart, Gísla og Guðrúnu. Hann spurðist sérstaklega fyrir um hvort ekki yrði greitt samkvæmt sama gengi fyrir hlutabréf, sem áður hafi verið búið að selja, og staðfesti Einar Örn að svo yrði, en fyrir liggur að bræður áfrýjanda höfðu eins og hún selt hinum stefnda banka nokkuð af hlutabréfum sínum 12. febrúar 2004 á lægra gengi en hér um ræðir. Einar Örn spurði síðan Willard hvort hann hefði heimild til að ganga frá kaupunum fyrir hönd barna sinna og tók hann tvívegis fram að svo væri, jafnframt því sem hann hefði heimild til að selja hlut eiginkonu sinnar, Valgerðar Gísladóttur. Samkvæmt gögnum málsins áttu þau Willard og Valgerður hlutabréf í félaginu samtals að nafnverði 47.359.054 krónur, en hlutur áfrýjanda var þegar hér var komið sögu að nafnverði 7.325.899 krónur og bræðra hennar annars vegar 6.825.899 krónur og hins vegar 5.000.000 krónur. Í símtalinu lét Einar Örn þess að öðru leyti getið að hann þyrfti að fá upplýsingar um bankareikninga „hjá öllu þessu fólki sem er að selja“ og að þau yrðu að hafa samband næsta dag við viðskiptabanka sinn „og biðja þá að færa ... leyfa okkur að sækja bréfin ... það heitir að færa bréfin á svokallað hlutlaust svæði.“ Þessu játti Willard og bætti Einar Örn því við að það ætti „í rauninni bara láta vita að við höfum keypt bréfin.“ Lauk síðan samtalinu með því að Willard kvaðst mundu veita Einari Erni upplýsingar um bankareikninga daginn eftir. Ekki liggur fyrir hvernig það kann að hafa verið gert, en ljóst er af framlögðum gögnum að kaupverð hlutabréfanna var 18. febrúar 2004 lagt inn á bankareikninga hvers þeirra fimm, sem að framan er getið. Áfrýjandi heldur því fram í málinu að faðir hennar hafi ekki haft umboð til að ráðstafa hlutabréfum hennar. Í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst faðir hennar ekki hafa rætt við börn sín áður en hann gaf þær yfirlýsingar við starfsmann hins stefna banka, sem áður eru raktar, en hann hafi talið „bara að þau mundu fylgja með.“ Þótt líta verði svo á að sá, sem kom fram gagnvart þessum stefnda sem umboðsmaður áfrýjanda, hafi með þessu neitað að hann hafi haft til þess viðhlítandi heimild, verður ekki horft fram hjá því að viðskiptunum með hlutabréf hennar, sem voru rafrænt skráð, varð ekki lokið með yfirlýsingu hans einni, heldur þurfti að auki að gera ráðstafanir til að hinum stefnda banka yrði kleift að taka við eignarskráningu hlutabréfanna sem reikningsstofnun kaupanda þeirra. Í málinu liggur fyrir yfirlýsing Verðbréfaskráningar Íslands hf. 12. ágúst 2004, þar sem segir eftirfarandi: „Það staðfestist hér með að einungis reikningsstofnun er heimilt að hafa milligöngu um eignarskráningar í verðbréfamiðstöð, sbr. 10. gr. laga ... nr. 131/1997 og 14. gr. reglug. nr. 397/2000. Í þessu felst m.a. að einungis reikningsstofnun er heimilt að færa eignir á hlutlaust svæði verðbréfamiðstöðvar og þá með heimild reikningseiganda. Tilstuðlan reikningsstofnunar viðkomandi eiganda hluta, sem eru rafrænt skráðir, þarf því til að afhenda eignir eigandans til annarrar reikningsstofnunar í gegnum hið hlutlausa svæði. Reikningsstofnun, sem ekki er reikningsstofnun viðkomandi eiganda, getur því ekki einhliða sótt eignir óviðkomandi aðila í verðbréfamiðstöð.“ Í greinargerð annarra stefndu en Glitnis banka hf., sem lögð var fram í héraðsdómi 30. september 2004, var skorað á áfrýjanda að upplýsa hvernig hún eða annar fyrir hennar hönd hefði staðið að tilkynningu „til reikningsbanka ... um sölu hlutafjárins og beiðni um að það verði afhent Íslandsbanka hf. með því að flytja það á hlutlaust svæði hjá Verðbréfaskráningu Íslands hf.“ Þessari áskorun sinnti áfrýjandi með því einu að leggja fram í upphafi þinghalds 10. janúar 2006, þar sem málið var til aðalmeðferðar, skjal, sem nefnt var yfirlit frá verðbréfaskráningu, en á grundvelli þess staðhæfir hún að hlutabréf sín í Þorbirni Fiskanesi hf. hafi um lengri tíma fyrir viðskiptin verið vistuð á svokölluðu hlutlausu svæði. Af skjali þessu verður ekki ráðið með vissu um þau atriði, sem áskorunin varðaði. Áfrýjanda hefði verið í lófa lagið að afla nauðsynlegra gagna um það efni, sem stefndu var ekki unnt að gera. Að þessu virtu verður við úrlausn málsins að leggja til grundvallar að ekki hafi verið á færi annarra en áfrýjanda að veita nauðsynlegan atbeina til framsals hlutabréfanna með rafrænni skráningu í tengslum við fyrrgreinda ráðstöfun föður hennar 16. febrúar 2004. Verður að líta svo á að það hljóti áfrýjandi að hafa gert og þannig að minnsta kosti veitt samþykki fyrir þessari ráðstöfun. Áfrýjandi er því við hana bundin. III. Samkvæmt 27. gr. laga nr. 33/2003, eins og þau hljóðuðu þegar atvik málsins gerðust, bar þeim, sem náði 5% af atkvæðisrétti eða nafnverði hlutabréfa í félagi, sem skráð var á skipulegum verðbréfamarkaði, eða margfeldi af því hlutfalli, að tilkynna það til verðbréfamarkaðarins og félagsins. Við ákvörðun um hvort slíku hlutfalli hafi verið náð bar ekki aðeins að horfa til hluta, sem hluthafinn átti sjálfur, heldur jafnframt til hluta, sem þannig var ástatt um, sem um ræddi í 28. gr. laganna. Í málinu heldur áfrýjandi því sem áður segir fram að í raun hafi hinn stefndi banki staðið að kaupum á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf. á tímabilinu frá 3. til 13. febrúar 2004 í þágu stefndu Eiríks, Gerðar og Gunnars, þótt hann hafi í orði kveðnu gert það í eigin nafni. Honum hafi því vegna síðastgreinds lagaákvæðis borið að haga tilkynningum um kaupin til samræmis við það, en þessi þrjú stefndu hafi þá þegar átt verulegan hlut í félaginu, auk þess að vera þar fruminnherjar, sem sérstakar reglur um tilkynningar giltu um, sbr. þágildandi 47. gr. laganna. Gegn þessu bera stefndu fyrir sig að kaup bankans á hlutabréfum í félaginu á þessu tímabili hafi með öllu verið í þágu og á áhættu hans, enda hafi í áðurnefndum samningi 3. febrúar 2004 hvorki verið mælt fyrir um rétt né skyldu annarra stefndu til að kaupa þessi hlutabréf. Af þeim sökum hafi bankinn staðið réttilega að opinberum tilkynningum um þessi viðskipti 11., 13. og 16. febrúar 2004. Í samningi stefnda Glitnis banka hf. 3. febrúar 2004 við Newco, félags í eigu stefndu Eiríks, Gerðar og Gunnars, föður þeirra og bróður, var sem fyrr segir mælt fyrir um að bankinn skyldi meðal annars sinna gerð tilboða í hlutabréf annarra hluthafa í Þorbirni Fiskanesi hf., hvort heldur „í nafni Íslandsbanka eða Newco“ og annast samningaviðræður við tilboðshafa. Rétt er að í samningnum var hvorki kveðið á um heimild né skyldu þessa nýja félags til að kaupa hlutabréf, sem bankinn kynni þegar að eiga eða myndi eignast af öðrum sökum eftir gerð samningsins. Í málatilbúnaði stefnda Glitnis banka hf. hefur því verið neitað með öllu að kaup hans á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf. hafi verið gerð í skjóli fyrrgreinds samningsákvæðis. Gegn þessari neitun er ekki sýnt að stefndu Eiríkur, Gerður og Gunnar eða félag í eigu þeirra hafi í raun verið kaupandi þessara hlutabréfa. Á hinn bóginn verður að líta til þess að fyrir héraðsdómi bar forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar bankans, Örn Gunnarsson, að sú deild stæði ekki að kaupum hlutabréfa, en hann hefði hér óskað eftir því við þá, sem færu með eigin viðskipti bankans, „að þeir mundu kaupa þessi bréf og þeir taka ábyrgðina á því og segja já eða nei.“ Af öðrum gögnum málsins verður þó ekki betur séð en að fyrrnefndur starfsmaður í fyrirtækjaráðgjöf bankans, Einar Örn Ólafsson, hafi í þeim viðskiptum með hlutabréf í Þorbirni Fiskanesi hf. á þessu tímabili, sem upplýsingar liggja fyrir um, átt samskipti við seljendur hlutabréfanna og komið þar fram af hálfu bankans, svo sem hann staðfesti jafnframt í framburði sínum fyrir héraðsdómi. Ekki verður séð hvernig þáttur þessa starfsmanns í viðskiptunum getur hafa samrýmst framlögðum verklagsreglum bankans frá 26. febrúar 2002 um „viðskipti starfsmanna með verðbréf, gjaldeyri og afleiður, kínaveggi og viðskipti bankans með eigin bréf“ ef hlutabréfakaupin voru í reynd gerð að öllu leyti í þágu og á áhættu hans. Auk þessa verður að gæta að því að þótt stefndu hafi haldið því fram að ekki hafi verið samið um kaup nýja félagsins á hlutabréfum bankans í Þorbirni Fiskanesi hf. fyrr en að afstöðnum viðskiptum með hlutabréf í eigu hluthafa í Fiskaneshópnum 16. febrúar 2004, þá liggur fyrir í málinu að stefndi Eiríkur samdi fyrir þann tíma um að ýmsum þessara hluthafa yrði bættur upp munurinn á gengi við kaup bankans á hlutabréfum af þeim á tímabilinu fram til 13. sama mánaðar. Getur þetta á engan hátt samrýmst því að stefnda Eiríki hafi verið þau kaup óviðkomandi. Að öllu þessu virtu er óhjákvæmilegt að líta svo á að í málinu hafi stefndu látið hjá líða að upplýsa réttilega öll atriði varðandi lögskipti þeirra í tengslum við kaup á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf. eftir gerð samningsins 3. febrúar 2004. Án tillits til þess að það, sem að framan greinir, kann að hafa valdið því að ranglega hafi verið staðið að opinberum tilkynningum, sem hinn stefndi banki lét frá sér fara 11., 13. og 16. febrúar 2004 um kaup á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf., verður að líta til þess, sem áður segir, að ekki síðar en 13. febrúar var að minnsta kosti helstu hluthöfunum í Fiskaneshópnum, þar á meðal föður áfrýjanda og umboðsmanni, Willard Fiske Ólasyni, orðið kunnugt um að stefndu Eiríkur, Gerður og Gunnar væru að leitast við að taka yfir félagið með liðsinni bankans. Þessum hluthöfum mátti vegna opinberra tilkynninga og viðskipta hluthafa í sínum röðum vera ljóst að bankinn hafði undanfarna daga staðið að verulegum kaupum á hlutabréfum í félaginu. Ef einhverju hefði getað skipt fyrir verð hlutabréfanna á verðbréfamarkaði að þessi kaup hafi varðað stefndu Eirík, Gerði og Gunnar frekar en ráðið varð af opinberum tilkynningum bankans gat sú aðstaða ekki dulist umboðsmanni áfrýjanda þegar hann samdi 16. febrúar 2004 um gengi við sölu á verulegum hluta í félaginu, þar á meðal hlutabréfum hennar. Þegar af þessari ástæðu getur áfrýjandi ekki átt rétt til skaðabóta úr hendi stefndu á þeim grunni, sem hér um ræðir. Samkvæmt framansögðu verður að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu stefndu af kröfu áfrýjanda. Í ljósi allra atvika er rétt að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Mál þetta, sem var dómtekið 11. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, með stefnu birtri 21. maí 2004. Framhaldsstefna var birt 7. apríl sl. og með henni var aukið við dómkröfur stefnanda. Stefnandi er Guðrún Willardsdóttir, Birkihæð 18, Garðabæ. Stefndu eru Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, Gunnar Tómasson, Vesturbraut 8a, Grindavík, Eiríkur Tómasson, Vesturbraut 8, Grindavík, Gerður Sigríður Tómasdóttir, Leynisbraut 4, Grindavík og Þorbjörn Fiskanes hf., Hafnargötu 12, Grindavík, áður ÓK-1 eignarhaldsfélag ehf., sama stað. Þorbjörn Fiskanes hf. yfirtók félagið ÓK-1 eignarhaldsfélag ehf., sbr. tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra 12. júlí 2004. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 29.816.409 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. apríl 2005 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndu verði gert að greiða stefnanda in solidum 5.494.424 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. mars 2004 til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu in solidum úr hendi stefndu að mati dómsins. Stefndi Íslandsbanki hf. krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar skv. mati dómsins. Stefndu, Gunnar Tómasson, Eiríkur Tómasson, Gerður Tómasdóttir og Þorbjörn Fiskanes hf., krefjast þess að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefndu, hverju fyrir sig, málskostnað að skaðlausu að mati réttarins. I. Málavextir. Í málinu deila tveir armar Þorbjörns Fiskaness hf., það eru stefnandi sem er hluti svonefnds Fiskaneshóps og stefndu, Gunnar, Eiríkur og Gerður Tómasarbörn, sem tilheyrðu Þorbjörnshópnum. Atvik málsins eiga sér stað frá 11. febrúar 2004 til 25. febrúar 2004, en til þess að fá heildstæða mynd af málinu ber einnig nauðsyn til að geta forsögu þess að nokkru. Hinn 30. júní 2000 sameinuðust þrjú rótgróin útgerðarfélög á Suðurnesjum, þ.e. Valdimar hf., Vogum, Fiskanes hf., Grindavík og Þorbjörn hf., Grindavík, þar sem Þorbjörn hf. var yfirtökufélag. Fékk hið sameinaða útgerðarfélag nafnið Þorbjörn Fiskanes hf. Þorbjörn hf. hafði verið skráður á aðallista Verðbréfaþings Íslands frá 10. nóvember 1998 og hélt hið sameinaða félag þeirri skráningu. Hinn 6. júní 2002 var gert samkomulag þeirra þriggja sem sameinuðust undir merkjum Þorbjarnar Fiskaness hf. um sölu á 20% af heildarhlutafénu til Afls fjárfestingarfélags hf. o.fl., þannig að hluthafarnir seldu allir sama hlutfall af hlutafé sínu. Fyrir átti Afl fjárfestingarfélag hf. 4% af hlutafé Þorbjarnar Fiskaness hf. Síðar eða 10. desember sama ár selur Afl fjárfestingarfélag hf. og samstarfsaðilar þeirra allt hlutafé sitt í Þorbirni Fiskanesi hf. til Granda hf. á 6.38 kr. pr/hlut. Þetta var gert með samþykki stjórnar og stærstu hlutahafa Þorbjörns Fiskaness hf., þ.m.t. Fiskaneshópsins. Sumarið 2003 fól einn af Fiskaneshópnum, Björgvin O. Gunnarsson, Landsbanka Íslands hf. að selja hlutafé sitt og fjölskyldu sinnar í Þorbirni Fiskanesi hf. á genginu 6. Var stefndu ásamt fleiri hluthöfum boðið þetta hlutafé til kaups, en ekki var áhugi á því að kaupa það á þessu gengi. Í byrjun árs 2004 keypti Grandi hf. allt hlutafé í HB hf., Akranesi. Eftir þau viðskipti var hlutur Granda hf., og tengdra félaga, í Þorbirni Fiskanesi hf. boðinn til sölu, eða samtals um 28% af heildarhlutafé félagsins. Að mati stefndu, Gunnars, Eiríks og Gerðar Sigríðar, voru á þessum tíma milli 40-50% af hlutafé félagsins til sölu. Hinn 3. febrúar 2004 gerðu stefndi, Íslandsbanki hf. annars vegar, og hins vegar Eiríkur, Gunnar, Gerður og Stefán Þorvaldur Tómasarbörn og faðir þeirra, Tómas Þorvaldsson, samning sín á milli, þannig að stefndi, Íslandsbanki hf., tók að sér að annast ráðgjöf til óstofnaðs félags (Newco). Samningurinn var gerður vegna fyrirhugaðra kaupa hins óstofnaða félags á öllu hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf. að frátöldum hluta fjölskyldu Tómasar Þorvaldssonar og Tryggingamiðstöðvarinnar. Þóknun stefnda fyrir þjónustuna var háð því að Newco og fjölskylda Tómasar Þorvaldssonar eignuðust a.m.k. 51% hlutafjár í Þorbirni Fiskanesi hf. Eftir gerð þessa samnings hóf Íslandsbanki hf. að kaupa hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf. og leita eftir kaupum hjá stærstu hluthöfum. Voru þessi kaup stefnda, Íslandsbanka hf., á hans eigin áhættu og ábyrgð og án samráðs við aðra stefndu. Fyrstu kaupin áttu sér stað 11. febrúar 2004. Stefndi Íslandsbanki keypti bréfin í eigin nafni á genginu 5,67 og tilkynnti Kauphöll Íslands hf. um þau viðskipti samdægurs. Eftir kaupin átti stefndi Íslandsbanki 6,44% heildarhlutafjár í Þorbirni Fiskanesi hf. Seinni hluta dags 12. febrúar og að morgni 13. febrúar ræddi stefndi, Gunnar Tómasson, við þrjá fulltrúa Fiskaneshópsins, þ.e. Björgvin O. Gunnarsson, Kristján Finnbogason, Dagbjart Einarsson og Willard Ólason, um áform fjölskyldu stefnda Gunnars um yfirtöku á félaginu. Nefndir fulltrúar vildu þá ekki selja á genginu 5,67. Föstudaginn 13. febrúar hélt stefndi Íslandsbanki hf. áfram kaupum á hlutum í Þorbirni Fiskanesi hf. og tilkynnti Kauphöll Íslands hf. þann dag, að hann hefði aukið hlut sinn í félaginu í 11,3% af heildarhlutafé. Eftir lokun Kauphallarinnar 13. febrúar tókust samningar um kaup á hlutafé þeirra sem komu úr hópi eigenda Valdimars hf. sem sameinast hafði Þorbirni hf. og Fiskanesi hf. á árinu 2000 og voru viðskiptin tilkynnt Kauphöllinni mánudaginn 16. febrúar. Eftir kaupin átti Íslandsbanki 16,93% af heildarhlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf. Laugardaginn 14. febrúar hækkuðu stefndu, Eiríkur, Gunnar og Gerður Sigríður, tilboð sitt í hlutabréf Fiskaneshópsins í 6. Þann dag fóru fram viðræður hjá fulltrúum Fiskaneshópsins. Á sunnudeginum hittust Ottó Hafliðason, fjármálastjóri Þorbjörns Fiskaness (tengdasonur Björgvins og Ingu), Ingi G. Ingason, B.S. í viðskiptafræði, (tengdasonur Willards og Valgerðar), Eiríkur Dagbjartsson, útgerðarstjóri Þorbjörns Fiskaness (sonur Dagbjarts og Birnu), Dagbjartur Willardsson, skrifstofumaður og Almar Sveinsson, starfsmaður Landsbanka sem var kunningi Dagbjarts. Áttu þeir bæði fund á starfsstöð Inga G. Ingasonar og í Landsbankanum að Laugavegi 77. Ástæðan var tilboð stefndu, Eiríks, Gunnars og Gerðar Sigríðar, og hugsanlegur mótleikur af þeirra hálfu. Að morgni 16. febrúar var fundur milli stefndu Eiríks og Gunnars annars vegar, og Ottós Hafliðasonar og Eiríks Óla Dagbjartssonar, hins vegar, þar sem þeir gera stefndu grein fyrir gangi mála hjá Fiskaneshópnum. Báðir þessi menn voru starfsmenn Þorbjörns Fiskaness. Þeir fengu frí frá vinnu þann dag til að vinna frekar í málum Fiskaneshópsins. Síðar þennan sama dag eða milli kl. 15 og 16 hafði Eiríkur Tómasson samband við Einar Örn Ólafsson, starfsmann stefnda Íslandsbanka, og tjáði honum að samkomulag hefði náðst við Fiskaneshópinn um kaup á þeirra hlut á genginu 6. Einnig varð samkomulag um að þeir í Fiskaneshópnum sem nýverið höfðu selt bréf sín á genginu 5,67 fengju gengið 6 fyrir þau. Eiríkur fól Einari Erni að hafa samband við Fiskaneshópinn og annast frágang kaupanna, jafnframt sem Einari var tjáð að hann mætti eiga von á hringingum frá þessum aðilum. Á tímabilinu frá kl. 16 til kl. 19 náði Einar Örn tali af nokkrum af fulltrúum Fiskaneshópsins og fékk frá þeim upplýsingar um bankareikninga og hlutafjáreign og gaf leiðbeiningar um hvernig standa ætti að afhendingu bréfanna. Flest samtalanna voru hljóðrituð og lögð fram í málinu. Í mörgum tilfellum sögðust viðmælendurnir hafa umboð frá öðrum hluthöfum. Fyrir liggur í málinu að 15 hluthafar af 21 samþykktu sölu hlutanna, ýmist beint eða samkvæmt umboði. Ekki liggur fyrir staðfest samþykki frá 6 einstaklingum en þeir voru allir með bréf sín vistuð hjá Landsbanka Íslands hf. Einhverjir þessara 6 einstaklinga ræddu hins vegar við Einar Örn í farsíma en ekki liggja fyrir upptökur af þeim samtölum. Stefnandi átti á þessum tíma hluti í Þorbirni Fiskanesi, að nafnverði 9.325.899 krónur. Stefnandi kveðst hafa selt hluti að fjárhæð 2.000.000 króna að nafnverði. Um nákvæma tímasetningu getur hún ekki fullyrt en samkvæmt staðfestingu stefnda Íslandsbanka munu viðskiptin hafa átt sér stað 12. febrúar 2004. Um sölu eftirstandandi hluta kveðst stefnandi hins vegar aldrei hafa átt orðastað við starfsmenn Íslandsbanka um sölu á þeim. Þá kveðst stefnandi aldrei hafa veitt neinum umboð til sölu þeirra. Þrátt fyrir það hafi hlutir stefnanda, 7.325.899 krónur að nafnverði, komist í hendur stefnda Íslandsbanka hf. sem hafi ráðstafað þeim til stefndu Eiríks, Gunnars og Gerðar á genginu 6. Stefnandi kveður óljóst hvenær eða hvernig þetta gerðist, en samkvæmt kvittun frá stefnda Íslandsbanka hf. mun þetta hafa átt sér stað 17. febrúar 2004. Tímasetning þessa innan dagsins er að öðru leyti óljós. Engin skýr eða skilmerkileg gögn liggja fyrir sem staðfesta tilvist samnings milli stefnanda og stefnda Íslandsbanka um sölu á hlutunum, tímasetningu slíkrar sölu eða gengi í þeim viðskiptum. Að morgni þriðjudagsins 17. febrúar 2004 útbjó stefndi, Íslandsbanki hf., tilkynningu fyrir stefndu, Gunnar, Eirík og Gerði Sigríði, um fyrirhugaða yfirtöku á Þorbirni Fiskanesi hf. Tilkynningin ásamt staðfestingu á sölu Íslandsbanka á bréfum í félaginu og miðlun hans á bréfum Fiskaneshópsins til Gunnars, Eiríks og Gerðar var send regluverði Þorbjarnar Fiskaness hf. Klukkan 9:25 voru viðskipti með bréf í Þorbirni Fiskanesi stöðvuð. Kl. 9:52 sendi Kristján Loftsson, fyrirsvarsmaður í Granda hf., Vogun hf. og Fiskveiðihlutafélaginu Venusi hf., tölvupóst til regluvarðar Þorbjarnar Fiskaness hf., þar sem gerð var grein fyrir því að umrædd þrjú félög hefðu í hyggju að selja hluti sína í Þorbirni Fiskanesi hf. og óskað var eftir afstöðu regluvarðar til viðskiptanna. Kl. 10:14 var samþykki regluvarðar veitt með tölvupósti til Kristjáns Loftssonar. Fjórum mínútum seinna eða kl. 10:18 tilkynnir stefndi Íslandsbanki hf. regluverði Þorbjörns Fiskaness um annars vegar sölu á hluta Íslandsbanka hf. í Þorbirni Fiskanesi, það er 16,93% og hins vegar um miðlun á 20,89% sem var þá hluti Fiskaneshópsins. Kl. 11:37 er birt tilkynning í Kauphöll Íslands hf. um áðurnefnd viðskipti þar sem fram kemur að stefndu hafi samið um kaup á rúmlega 37% af hlutafé félagsins og að fyrir hafi stefndu, Eiríkur, Gunnar og Gerður Sigríður, átt samtals um 14%. Samtals var því hlutur stefndu orðinn rúmlega 52%. Í kjölfar tilkynningarinnar færir Kauphöll Íslands hf. hlutabréf Þorbjarnar Fiskaness hf. á athugunarlista þar sem yfirtökuskylda hafði myndast í félaginu, sbr. tilkynningu sem birt var kl. 12:07 þann dag. Eftir kl. 15 sama daga náðist samkomulag milli stefndu og fyrirsvarsmanna Granda hf. um verð á hlutum Granda hf., Vogunar hf. og Fiskveiðihlutafélagsins Venusar hf. í Þorbirni Fiskanesi hf. Samkomulag varð um 6,75 krónu pr./hlut. Verðið á hverjum hlut svaraði að nokkru til kaupverðs Granda hf. á bréfunum nokkru áður (6.38 krónur pr./hlut) auk fjármagnskostnaðar þeirra vegna kaupanna frá kaupdegi. Viðskiptin voru tilkynnt til regluvarðar Þorbjarnar Fiskaness hf. og var Kauphöllinni send tilkynning kl. 16:30. Kl. 16:00 sama dag var birt flöggun vegna sölu Granda hf. á 24% hlut í Þorbirni Fiskanesi hf. Að morgni miðvikudagsins 18. febrúar birtist tilkynning þar sem fram kom að óstofnaða félagið hefði keypt hlutinn á genginu 6,75. Sama dag, þ.e. 18. febrúar, átti sér stað uppgjör hjá stefnda, Íslandsbanka hf., vegna viðskipta með bréf Fiskaneshópsins. Þar sem viðskiptin áttu sér stað eftir lok venjulegs vinnudags 16. febrúar voru þau skráð 17. febrúar og greiðsla innt af hendi 18. febrúar. Eftir kaup stefndu á hlutum Íslandsbanka og Fiskaneshópsins höfðu þau eignast meirihluta hlutafjár í Þorbirni Fiskanesi hf. Síðari kaup óstofnaða félagsins, sem síðar fékk nafnið ÓK-1 eignarhaldsfélag ehf., einkum af Granda hf., Vogun hf. og Fiskveiðifélaginu Venusi hf., leiddu til þess að stefndu, Eiríkur, Gunnar og Gerður Sigríður ásamt Tómasi Þorvaldssyni, voru orðnir eigendur að 85,78% af heildarhlutafé félagsins. Þennan sama dag eða um kl. 13:18 kvartar einn úr Fiskaneshópnum, Dagbjartur Willardsson, undan því í tölvupósti að greitt hafi verið hærra fyrir hlutina í Granda. Hinn 20. febrúar 2004, kl. 4:01 sendir Stefán Kristjánsson tölvupóst til Finns Stefánssonar hjá Íslandsbanka hf. og gerir fyrir sína hönd, systur og foreldra athugasemdir varðandi kaupin á hlutabréfunum. Athugasemdirnar lúta að því að efasemdir séu um að löglega hafi verið staðið að viðskiptunum og gerir hann fjárkröfu fyrir mismuninum á genginu 6 og 6,75. Einnig að viðskiptum með bréf í eigu föður hans að nafnverði 20 millj. króna sem sett voru að handveði hjá KB-banka hafi örugglega ekki komist á. Í þriðja lagi lúta athugasemdirnar að því að viðskiptin hafi átt sér stað án fullnægjandi umboða. Um mánaðamótin febrúar/mars 2004 var öðrum hluthöfum gert yfirtökutilboð í hlutafé þeirra á 6,75 kr. pr/hlut í samræmi við VI. og VII. kafla laga nr. 33/2003. Þann 1. apríl 2004 samþykkti Kauphöll Íslands hf. ósk stjórnar Þorbjarnar Fiskaness hf. um afskráningu og var félagið afskráð eftir lok viðskipta þann 2. apríl 2004. Með bréfi, dags. 23. febrúar 2004, setti lögmaður stefnanda fram kröfu á hendur stefnda Íslandsbanka hf. f.h. flestra þeirra sem tilheyrðu Fiskaneshópnum. Var því haldið fram að stefnda Íslandabanka hf. hafi skort heimild til að ráðstafa hluta bréfanna og þess krafist að færslur með þá eignarhluti yrðu bakfærðar. Þá var krafist bóta vegna meints tjóns annarra sem selt höfðu á genginu 6,0. Voru hæfilegar bætur taldar mismunur á genginu 6,0 og gengi í yfirtökutilboði, þ.e. 6,75. Þessum kröfum var alfarið hafnað 15. mars 2004 með bréfi forstöðumanns lögfræðideildar stefnda og grein gerð fyrir þeim viðskiptum sem um ræddi. Með bréfi lögmanns stefnanda 17. mars 2004 var óskað nánar tiltekinna upplýsinga og gagna en því bréfi var svarað 7. apríl 2004 og með tölvupósti forstöðumanns lögfræðideildar stefnda 23. apríl 2004. Stefndi Íslandsbanki hf. heyrði ekki frekar frá stefnanda fyrr en með birtingu stefnu í málinu. Aðrir stefndu fengu sent bréf 30. mars 2004 frá lögmanni stefnenda. Er í því bréfi engum sérstökum kröfum beint að þeim, en upplýst að stefndi Íslandsbanki hf. hafi ekki verið til viðræðu um lausn á málinu og leitað eftir því hvort stefndu vilji taka upp viðræður um lausn málsins. Var bréfi þessu svarað með bréfi 15. apríl 2004 og ekki talin ástæða til viðræðna. Það var svo með stefnu birtri 21. maí 2004 sem mál þetta er höfðað. Samkvæmt samþykkt hluthafafundar í stefnda ÓK-1 ehf. þann 12. júní 2004 var ákveðið að sameina félagið Þorbirni Fiskanesi hf. skv. fyrirliggjandi samrunaáætlun miðað við 1. janúar 2004. Hefur Þorbjörn Fiskanes hf. því tekið við aðild ÓK-1 ehf. II. Málsástæður og lagarök stefnanda. Skaðabótakrafan gegn stefndu er byggð á eftirfarandi málsástæðum. 1. óheimilli ráðstöfun hluta í eigu stefnanda í Þorbirni Fiskanesi hf., 2. röngum eða ófullkomnum tímasetningum tilkynningarskyldra viðskipta og annarra viðskipta, 3. brotum á reglum um tilkynningarskyldu innherja, 4. innherjasvikum og niðurbroti Kínamúra, 5. markaðsmisnotkun, 6. broti á trúnaðarskyldum gagnvart almennum hluthöfum. Um óheimila ráðstöfun hluta. Stefnandi byggir á því að fjármálafyrirtæki, sem ráðstafa hlutum viðskiptavina sinna, beri skylda til að tryggja sér skýrar og glöggar heimildir sem sýna m.a. að samningar um slíkt hafi tekist, hvenær það hafi gerst nákvæmlega og á hvaða gengi. Stefnandi heldur því fram, að stefnda Íslandsbanka hf. hafi verið óheimilt að ráðstafa hlutum stefnanda að nafnverði 7.325.899 krónur þann 17. febrúar 2004 til stefndu Gunnars, Eiríks og Gerðar f.h. óstofnaða félagsins. Til að slík yfirfærsla gæti löglega átt sér stað, hefði stefndi Íslandsbanki hf. þurft að tryggja sér skýra og glögga heimild til yfirfærslunnar. Það hafi stefndi Íslandsbanki ekki gert. Með yfirfærslunni hafi stefndi því ónýtt fyrir stefnanda þau verðmæti sem fólust í hlutunum í Þorbirni Fiskanesi gegn greiðslu á óviðunandi gengi, 6,00 kr. á hlut. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna samsvarar upplausnarverð félagsins genginu 10,07 á hlut í staðinn fyrir 6 krónur á hlut sem greitt var til stefnanda. Krafa stefnanda varðar hlut að nafnverði 7.325.899 krónur. Það þýðir að hefði hún fengið greitt miðað við upplausnarverð hefði hún fengið í sinn hlut sem nemur aðalkröfu í málinu. Til vara er gerð krafa um að verðmæti hlutanna hafi verið a.m.k. 6,75 og sé þá horft til viðskipta Granda hf. við stefndu Gunnar, Eirík og Gerði f.h. óstofnaða félagsins. Miðast varakrafa stefnanda við mismun á verðmæti hlutanna á genginu 6,00 og 6,75. Stefnandi beinir kröfum sínum að stefnda Íslandsbanka hf. sem framkvæmdar-aðila hinnar ólögmætu færslu. Þá beinir stefnandi kröfum sínum að stefndu Gunnari, Eiríki og Gerði á þeim forsendum að ráðstöfunin hafi farið fram að þeirra undirlagi, með þeirra þátttöku og hafi verið saknæm. Þau beri því in solidum ábyrgð á henni samkvæmt almennu sakarreglunni. Þá beinir stefnandi kröfum að ÓK-1 eignarhaldsfélagi ehf., nú Þorbirni Fiskanesi, á þeim grundvelli að félagið hafi axlað ábyrgð á ráðstöfuninni og skaðaverkinu samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um einkahlutafélög. Um tímasetningu viðskipta. Stefnandi byggir einnig á því að stefndi Íslandsbanki hf. hafi, þegar ráðstöfun á hlutum stefnanda hafi farið fram, vitað til þess að munnlegir samningar hafi tekist um að óstofnaða félagið keypti bréf Granda á genginu 6,75. Hafi slík vitneskja legið fyrir hefði stefnda bankanum átt að vera ljóst að stefnandi hefði aldrei selt á genginu 6. Við slíkar aðstæður hefði stefnandi nefnilega alltaf átt rétt til verðsins 6,75 í væntanlegu yfirtökutilboði samkvæmt VI. kafla laga um verðbréfaviðskipti, sbr. einkum 33. gr. Því hefði stefndi bankinn aldrei mátt framkvæma viðskiptin nema veita stefnanda sannanlega upplýsingar um þessa aðstöðu, sbr. 6. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Stefnandi beinir kröfum sínum að stefnda Íslandsbanka á þeim forsendum að bankinn hafi brotið gegn skyldum sínum með þessu. Þá beinir stefnandi kröfum sínum að stefndu, Gunnari, Eiríki og Gerði Sigríði, á þeim forsendum að ráðstöfunin hafi farið fram að þeirra undirlagi, með þeirra þátttöku og á saknæman hátt. Þau beri því ábyrgð á grundvelli almennu sakarreglunnar. Þá beinir stefnandi kröfum að ÓK-1 eignarhaldsfélagi ehf. nú Þorbirni Fiskanesi, á þeim grundvelli að félagið hafi axlað ábyrgð á ráðstöfuninni og skaðaverkinu samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um einkahlutafélög. Um brot á tilkynningarskyldu innherja. Samkvæmt 47. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 ber fruminnherja, áður en hann eða fjárhagslega tengdur aðili á viðskipti með verðbréf, að tilkynna um slíkt til regluvarðar. Regluverðinum ber svo að tilkynna um slík viðskipti samdægurs til kauphallar. Hugtakið viðskipti í þessum skilningi er rýmra en bara bein kaup eða sala á verðbréfum. Ýmiss konar óbeinir gerningar og þess vegna óformlegir, koma þar til álita. Þá geta fjárhagsleg tengsl verið margs konar milli aðila þannig að ákvæðið eigi við. Fjármálafyrirtæki sem hafa milligöngu um viðskipti bera sérstakar skyldur til að tryggja að eftir þessum reglum sé farið, sbr. 45. gr. laganna. Þá ber þeim sem kaupir hlut í félagi að tilkynna í hvert skipti sem eignarhald hans hækkar upp fyrir margfeldi af 5% hluta í félaginu. Við afmörkun þess eignarhalds skal ekki einungis litið til þeirra hluta sem viðkomandi aðili er skráður fyrir sjálfur. Þess í stað er m.a. litið til hluta sem annar aðili ræður yfir í eigin nafni fyrir hönd hins tilkynningarskylda. Formleg skráning á eignarhaldi hlutanna skiptir því ekki máli. Vísast um þetta til 27. og 28. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Stefnandi telur sýnt, að kaup Íslandsbanka á bréfum í Þorbirni Fiskanesi hafi verið í þágu stefndu, Gunnars, Eiríks og Gerðar, f.h. óstofnaða félagsins. Því til sönnunar má t.d. nefna að meðan á kaupum bankans stóð munu starfsmenn bankans hafa gefið það í skyn í símtölum að kaupin væru gerð í þágu viðskiptavinar bankans. Þá munu stefndu fruminnherjarnir hafa sagst í votta viðurvist standa á bak við kaupin. Þá má einnig leiða af greinarskrifum eins þeirra í Morgunblaðið að þau hafi byrjað að leita eftir slíkum kaupum um svipað leyti og Íslandsbanki hóf sín kaup. Eins benda tölvupóstbréf frá starfsmönnum bankans til þess að á bak við viðskiptin hafi staðið annar kaupandi en bankinn. Loks bendir aðkoma fyrirtækjaþróunar stefnda bankans að málinu til þess, að ekki hafi verið um að ræða eigin fjárfestingu bankans. Með slíkar fjárfestingar fer sérstök eining bankans sem er í rekstri og er upplýsingaflæðið aðskilið frá m.a. fyrirtækjaþróun. Það er gert til að koma í veg fyrir að eigin fjárfestingar bankans byggi viðskipti á trúnaðarupplýsingum frá viðskiptavinum bankans. Stefnandi heldur því fram að samkvæmt þessu megi telja sýnt að stefndu, Gunnar, Eiríkur, Gerður, og óstofnaða félagið hafi átt að tilkynna um viðskiptin jafnóðum, enda hafi þau verið gerð í þeirra þágu. Jafnframt megi ætla að fjárhagsleg tengsl hafi verið milli þessara stefndu og stefnda bankans vegna fyrirsjáanlegrar fjármögnunar kaupanna. Þá hafi stefndi Íslandsbanki hf., sem milligönguaðili um viðskiptin, átt að tryggja að slíkar tilkynningar væru sendar Kauphöll. Auk þess megi telja að stefndu, Gunnar, Eiríkur, Gerður, og óstofnaða félagið hafi átt að tilkynna í hvert sinn sem samanlögð hlutafjáreign þeirra, með hlutum bankans meðtöldum, hefði farið yfir margfeldi af 5%. Hefði því fyrsta tilkynningin átt að bera með sér yfirráð yfir 15% eignarhlut þessara aðila, í stað 5% eignarhlutar bankans. Stefnandi telur að tilkynningar af þessum toga hefðu aukið verulega þrýsting á verð bréfa í Þorbirni Fiskanesi til hækkunar. Hefðu slíkar tilkynningar verið gefnar hefði markaðurinn strax séð að í yfirtöku stefndi og verð hefði því að líkum hækkað. Þessi líklega verðhækkun hafi verið höfð af stefnanda með ólögmætum vinnubrögðum stefndu. Um innherjasvik og hrun Kínamúra. Stefnandi telur sýnt að stefndu hafi sammælst um að fremja innherjasvik. Samkvæmt 44. gr. laga um verðbréfaviðskipti er innherja óheimilt að eiga viðskipti, fyrir eigin reikning eða annarra, búi hann yfir innherjaupplýsingum. Þorbjörn Fiskanes birti 9 mánaða uppgjör sitt 4. nóvember 2003. Þegar Íslandsbanki hóf kaup sín á hlutum í félaginu 11. febrúar 2004 voru því liðnir rúmir þrír mánuðir frá því að félagið birti síðast upplýsingar um fjárhag sinn og rekstur. Í millitíðinni hafði Þorbjörn yfirtekið allt hlutafé í félaginu Kára GK 146 ehf. Var því fjárhagsstaða Þorbjarnar afar óljós öllum öðrum en innherjum í félaginu. Stefndu Gerður, Gunnar og Eiríkur hafi því búið yfir innherjaupplýsingum. Þegar þau keyptu hluti í félaginu við yfirtökuna hafi þau því framið innherjasvik. Stefnandi telur jafnframt að stefndi Íslandsbanki hf. hafi búið yfir innherjaupplýsingum þegar bankinn keypti hluti í Þorbirni. Í þeim efnum vísar stefnandi til þess að fyrirtækjaþróun Íslandsbanka sá um viðskiptin. Gera verður ráð fyrir að fyrirtækjaþróunin hafi aðstoðað stefndu, Gerði, Gunnar og Eirík, við fjármögnun kaupa þeirra á Þorbirni. Um milljarðafjármögnun hafi verið að ræða. Það verður því að gera ráð fyrir að viðræður um hana hafi staðið um nokkurn tíma. Í þeim viðræðum hafa að líkum borið á góma innherjaupplýsingarnar um stöðu félagsins. Verður því að ætla að fyrirtækjaþróunin hafi búið yfir innherjaupplýsingum um rekstur Þorbjarnar. Við þessar aðstæður var fyrirtækjaþróuninni óheimilt að hefja kaup á hlutum í félaginu á markaði. Í því fólust innherjasvik. Í þessu broti hafi stefndu, Gerður, Eiríkur, Gunnar, og óstofnaða félagið sýnilega tekið þátt og uppskorið afraksturinn af því. Bera stefndu því óskipta ábyrgð á þessu gagnvart stefnanda. Stefnandi bendir á 13. og 14. gr. laga um verðbréfaviðskipti og starfsreglur Íslandsbanka. Samkvæmt téðum lagaákvæðum og reglum er starfsmönnum fyrirtækjaþróunar Íslandsbanka óheimilt að eiga viðskipti í eigin reikning bankans. Helgast það af greiðum aðgangi starfsmanna fyrirtækjaþróunar að trúnaðaráformum viðskiptavina bankans og rekstrarupplýsingum. Af þessum ástæðum ber Íslandsbanka að tryggja, að engar upplýsingar berist frá fyrirtækjaþróun til þeirra aðila sem eiga viðskipti fyrir eigin reikning bankans. Eins ber bankanum að tryggja að engir starfsmenn fyrirtækjaþróunar eigi viðskipti fyrir reikning bankans. Þá ber bankanum að koma upp órjúfanlegum veggjum eða svonefndum Kínamúrum til að hindra upplýsingaflæði frá fyrirtækjaþróuninni til þeirra starfsmanna sem eiga viðskipti fyrir bankann sjálfan. Á fyrirkomulag viðskipta bankans að þessu leyti að vera svo öruggt, að „fyllsta trúverðugleika fjármálafyrirtækis sé gætt“, sbr. 1. tl. 14. gr. laganna. Telur stefnandi, að því fari fjarri að trúverðugleika hafi verið gætt hér. Væri það rétt að bankinn hafi átt þessi viðskipti fyrir eigin reikning fælist í því alvarlegt og skýrt brot á reglum bankans og 13. og 14. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Þá hefðu upplýsingar ekki lekið í gegnum Kínamúrinn, heldur hefði Íslandsbanki í raun látið sem múrinn væri hruninn eða einfaldlega ekki til. Er því fyllsta ástæða til tortryggni. Stefnandi telur að ef umræddar innherjaupplýsingar, sem viðskipti bankans í þágu stefndu, Gunnars, Eiríks og Gerðar, byggðu á, hefðu legið fyrir, þá hefði gengi hluta í Þorbirni a.m.k. verið 6,75, en stefndu voru tilbúnir að greiða það verð að gefnum umræddum innherjaupplýsingum. Í raun telur stefnandi að verðið hefði orðið enn hærra sbr. niðurstöðu matsgerðarinnar. Um markaðsmisnotkun. Samkvæmt 41. gr. laga um verðbréfaviðskipti er markaðsmisnotkun óheimil. Stefnandi telur sýnt, að með því að halda leyndu hverjir stóðu á bak við viðskiptin hafi allir stefndu valdið því að eftirspurn eftir bréfum í Þorbirni Fiskanesi væri gefin ranglega eða misvísandi til kynna. Það sama hafi allir stefndu gert með því að láta í það skína að bankinn stæði einn á bak við kaupin. Með þessu hafi stefndu valdið stefnanda tjóni sem svari til dómkrafnanna. Um brot á trúnaðarskyldum gagnvart almennum hluthöfum. Af 76. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 leiðir að stjórnendur félags bera trúnaðarskyldu gagnvart félagi og þar með gagnvart öllum hluthöfum. Stjórnendum er þannig óheimilt að notfæra sér aðstöðu sína til persónulegs ávinnings. Stefnandi telur atvik málsins sýna, að stefndu, Gunnar, Eiríkur og Gerður, hafi gefið Íslandsbanka, og eftir atvikum öðrum fjármögnunaraðilum, nákvæmar innherjaupplýsingar um fjárhag, rekstur og horfur Þorbjarnar Fiskaness frá birtingu 9 mánaða uppgjörsins. Þetta hafi þau getað gert vegna stöðu sinnar sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og varastjórnarmaður í Þorbirni Fiskanesi. Með þessu hafi þau getað samið um fjármögnun yfirtöku Þorbjarnar Fiskaness á hagstæðu verði. Þetta hafi þau ekki tilkynnt öðrum hluthöfum. Þetta hafi ekki verið gert í þágu annarra hluthafa heldur í þeirra eigin þágu. Þau hafi því notfært sér aðstöðu sína til persónulegs ávinnings og brotið gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart félaginu og öðrum hluthöfum. Á því beri þau bótaskyldu samkvæmt 134. gr. hlutafélagalaga og almennu sakarreglunni. Jafnframt telur stefnandi stefnda Íslandsbanka bera ábyrgð á þessu sem beinum þátttakanda í brotinu. Byggist það á almennu sakarreglunni. Um lagarök vísast til laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, laga um hlutafélög nr. 2/1995, laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, almennra varúðarskyldna banka og fjármálafyrirtækja og almennu sakarreglunnar. Þá vísast um dráttarvexti til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnaðarkröfu stefnanda vísast svo loks til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. III. Málsástæður og lagarök stefnda Íslandsbanka hf. Um óheimila ráðstöfun hluta. Varðandi þessa málsástæðu tekur stefndi fram, að sá starfsmaður stefnda sem sá um umrædd viðskipti, Einar Örn Ólafsson, náði ekki afriti af samtölum við alla seljendur í Fiskaneshópnum. Ekki liggur fyrir afrit af samtali við stefnanda. Fyrir liggur að starfsmaðurinn ræddi við föður stefnanda, Willard Fiske Ólason, í síma 16. febrúar 2004. Willard staðfesti í því sambandi eigin vilja, eiginkonu sinnar og barna, þar með talið stefnanda, til sölu á hlutum þeirra í Þorbirni Fiskanesi hf. Stefndi telur að fullnægjandi umboð hafi legið fyrir til þessarar ráðstöfunar og með ólíkindum sé að því skuli nú vera haldið fram af stefnanda, að faðir hennar hafi ekki haft umboð til þessarar ráðstöfunar. Ástæðu þess að ekki var talin þörf á sannanlegu umboði til þessara kaupa frá öllum seljendum var meðal annars að rekja til þess, að stefnda var um það kunnugt að seljendur höfðu í samningaferlinu komið fram sem heild og munnlegar staðfestingar höfðu borist frá forsvarsmönnum hópsins þess efnis að allir hefðu staðfest vilja til að selja hluti sína á genginu 6 til meðstefndu. Faðir stefnanda var einn þeirra forsvarsmanna. Samtöl Einars Arnar við fjölda einstaklinga innan hópsins gáfu auk þess fullt tilefni til að ætla að fullkomin samstaða væri innan hópsins um sölu til meðstefndu. Stefndi telur að viðskiptin hafi gengið hratt fyrir sig og staðfestingu á þeim hafi verið aflað á skömmum tíma eftir lok venjulegs vinnudags mánudaginn 16. febrúar 2004. Stefndi telur það skipta mestu máli að hann hafi ekki getað ráðstafað hlutum seljenda til meðstefndu án samþykkis þeirra fyrrnefndu. Bréfin voru vistuð hjá fjármálastofnunum sem rétt hafa til milligöngu um eignaskráningar í verðbréfamiðstöð skv. 10. gr. laga nr. 131/1997 um rafræna eignaskráningu verðbréfa, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 397/2000. Einungis reikningsstofnun sem eigandi hluta hefur gert samning við er heimilt að hafa milligöngu um eignaskráningar í verðbréfamiðstöð og framselja eignir hans inn á svokallað hlutlaust svæði verðbréfamiðstöðvar. Reikningsstofnun getur einungis flutt þá hluti sem eru á VS-reikningum í vörslu stofnunarinnar og þá með samþykki eiganda hlutanna. Af þessu leiðir að stefndi gat ekki einhliða sótt aðra hluti en þá sem voru í eigu aðila sem áttu VS-reikning í vörslu stefnda. Þetta er ástæða þess að í hljóðrituðum samtölum starfsmanns stefnda við seljendur var iðulega tekið fram að viðkomandi þyrfti að gera ráðstafanir til þess að færa bréfin inn á hlutlausa svæðið. Í tilviki stefnanda voru hlutabréfin vistuð á VS-reikningi í vörslu Verðbréfastofunnar hf. Stefndi gat því ekki ráðstafað bréfunum án atbeina eiganda þeirra og Verðbréfastofunnar hf. Í ljósi þess að bréfin reyndust laus til ráðstöfunar inni á hlutlausa svæðinu þegar á reyndi er augljóst að stefnandi hefur óskað eftir því við Verðbréfastofuna hf. að bréfin yrðu framseld inn á hlutlausa svæðið og bankinn orðið við þeirri beiðni. Með vísan til framangreinds telur stefndi sýnt að ómöguleiki hafi verið fyrir hendi til ráðstöfunar hluta stefnanda til meðstefndu ef ekki hefði komið til samþykki stefnanda og milliganga viðskiptabanka stefnanda, Landsbanka Íslands hf. Af því leiðir að krafa stefnanda um bætur á þeim grundvelli að ráðstöfunin hafi verið ólögmæt á sér enga stoð. Stefndi vísar jafnframt til þess að hafi hlutabréf stefnanda verið framseld af VS-reikningi hans hjá Verðbréfastofunni hf. í heimildarleysi, svo sem stefnandi virðist halda fram, þá verður tjón sem rekja mætti til slíkrar háttsemi einungis sótt til Verðbréfastofunnar hf. og/eða Verðbréfamiðstöðvar Íslands hf., sbr. 28. - 30. gr. laga nr. 131/1997. Þeirri kröfu verður ekki beint gegn stefnda. Auk tilvísunar til laga nr. 131/1997 og reglugerðar nr. 397/2000 samkvæmt framansögðu vísar stefndi til reglna Verðbréfaskráningar Íslands hf. og staðfestingar frá forstöðumanni lögfræðisviðs Verðbréfaskráningar Íslands hf. Um tímasetningu viðskipta. Stefndi mótmælir sem röngum fullyrðingum stefnanda að samningar hafi tekist við Granda hf. um kaup á hlut félagsins í Þorbirni Fiskanesi hf. áður en samningar tókust við stefnanda. Stefndi ítrekar tímaröð atvika eins og þau birtast í gögnum málsins og málavaxtalýsingu. Af þeirri lýsingu megi glöggt sjá að frá samningum með kaupum á bréfum stefnanda og annarra í Fiskaneshópnum, var gengið mánudaginn 16. febrúar. Tilkynnt var um viðskiptin til regluvarðar Þorbjarnar Fiskaness hf. og Kauphallar Íslands hf. strax að morgni þriðjudagsins 17. febrúar. Stefnda er ekki kunnugt um að neinir samningar hafi fyrir þann tíma tekist um kaup á hlutum Granda hf. Af tilkynningu Kristjáns Loftssonar, stjórnarmanns í Granda hf., til regluvarðar að morgni þriðjudagsins 17. febrúar um að félagið hyggist selja hluti sína í Þorbirni Fiskanesi hf. er ljóst að hlutunum hafði ekki verið ráðstafað á þeim tíma. Óskað er eftir afstöðu regluvarðar til væntanlegra viðskipta. Það er því fyrst eftir þetta tímamark sem viðskiptin áttu sér stað. Flöggun Granda hf. kl. 16:00 þennan sama dag staðfestir enn frekar að viðskiptin áttu sér ekki stað fyrr en síðar þennan sama dag. Stefndu telja framangreinda málsástæðu stefnanda alfarið reista á fullyrðingu sem samkvæmt framangreindu sé augljóslega röng. Ljóst er að stefndi fékk fyrst vitneskju um vilja Granda hf. til að selja hluti félagsins í Þorbirni Fiskanesi hf. síðari hluta þriðjudagsins 17. febrúar. Þegar af þeirri ástæðu ber að hafna þessari málsástæðu stefnanda. Þá ber jafnframt að líta til þess að stefndi var í þessum viðskiptum eingöngu milligönguaðili milli stefnanda og meðstefndu en keypti hvorki né seldi í eigin nafni. Ákvörðun um verð í viðskiptunum var því alfarið stefnanda og meðstefndu en ekki stefnda. Um brot á tilkynningarskyldu innherja. Stefndi bendir á að hann gerði samning við meðstefndu 3. febrúar 2004 þar sem stefndi tók að sér margvíslega aðstoð og ráðgjöf við meðstefndu í tengslum við fyrirhuguð kaup þeirra á hlutum í Þorbirni Fiskanesi hf. Sá samningur breytir engu um þá staðreynd að kaup stefnda á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf. voru í nafni og á áhættu stefnda. Í samningi stefnda við meðstefndu er ekki að finna ákvæði um kauprétt meðstefndu eða sölurétt stefnda og engum öðrum samningum var til að dreifa, hvorki munnlegum né skriflegum. Stefndi bar því alfarið áhættu af eigin kaupum og átti enga kröfu til þess að meðstefndu keyptu þá hluti síðar. Af þessu leiðir að stefnda var rétt og skylt að tilkynna um kaupin til Kauphallar Íslands hf. þegar verulegum eignarhlut var náð í skilningi 27. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Stefndi telur ljóst að ekki séu nokkrar forsendur til að túlka samning stefnda við meðstefnda frá 3. febrúar 2004 svo að meðstefndu hafi eftir gerð þess samnings átt að telja eignarhluta stefnda til síns eigin. Í 28. gr. laga um verðbréfaviðskipti eru talin upp í 9 töluliðum atriði sem líta ber til við afmörkun eignarhluta hvers hluthafa. Ekkert þeirra atriða sem þar eru upp talin eiga við um samningssamband stefnda og meðstefndu. Stefndi bendir á, að Fjármálaeftirlitið hafi tekið kaup stefnda á hlutum í Þorbirni Fiskanesi hf. og sölu á þeim hlutum til meðstefndu til skoðunar skömmu eftir að þau viðskipti áttu sér stað. Rannsókn Fjármálaeftirlitsins tók til þeirra samninga sem þarna lágu að baki, þar með ráðgjafarsamnings stefnda og meðstefndu, og þess hvort rétt hafi verið staðið að flöggunum vegna umræddra kaupa. Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins var sú að ekki væri ástæða til að grípa til neinna aðgerða og málinu var lokað í maí 2004. Vegna tilvísunar stefnanda til ákvæða 45. og 47. gr. laga um verðbréfaviðskipti tekur stefndi fram að með vísan til framangreinds leiki enginn vafi á því að meðstefndu stóðu réttilega að samskiptum við regluvörð vegna kaupa í Þorbirni Fiskanesi hf. og starfsmenn stefnda urðu einskis áskynja sem gaf ástæðu til að ætla að kaup meðstefndu færu í bága við ákvæði IX. kafla laga um verðbréfaviðskipti. Um innherjasvik og hrun Kínamúra. Stefndi hafnar þessari málsástæðu stefnanda. Stefndi telur fyrir það fyrsta ljóst að meðstefndu hafi ekki búið yfir neinum innherjaupplýsingum á þeim tíma sem hér skiptir máli. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga um verðbréfaviðskipti er með innherjaupplýsingum átt við „upplýsingar um útgefanda verðbréfa, verðbréfin sjálf eða önnur atriði sem ekki hafa verið gerðar opinberar en eru líklegar til þess að hafa áhrif á markaðsverð fjármálagerninga ef opinberar væru.“ Samkvæmt þessu þurfa upplýsingar um útgefanda verðbréfa að uppfylla tvenns konar skilyrði til að geta talist til innherjaupplýsinga, þ.e. í fyrsta lagi að þær hafi ekki verið gerðar opinberar og í öðru lagi að þær séu líklegar til að hafa áhrif á markaðsverð verðbréfanna ef opinberar væru. Stefnandi hefur sem fyrr segir vísað til þess að fjárhagsstaða Þorbjarnar Fiskaness hf. hafi verið afar óljós þar sem það hafi gerst frá níu mánaða uppgjöri að hlutafé í Kára GK 146 ehf. hafi verið yfirtekið. Stefndi tekur fram að í málinu liggi fyrir tilkynning Þorbjarnar Fiskaness hf. til Kauphallar Íslands hf., dags. 10. nóvember 2003, um kaup á öllu hlutafé í Kára GK 146 ehf. Í tilkynningunni er jafnframt gerð grein fyrir því að eign hins yfirtekna félags hafi verið nánar tilgreind aflahlutdeild og aflamark. Samkvæmt þessu liggur því fyrir að þau atvik sem stefnandi telur til marks um að stefndi hafi búið yfir innherjaupplýsingum höfðu verið gerð opinber löngu áður en til þeirra kaupa kom sem deilt er um í málinu. Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 34/1998 um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða telst opinber birting hafa átt sér stað þegar tilkynning er komin til kauphallar sem tekið hefur verðbréfin til opinberrar skráningar og hefur verið miðlað til kauphallaraðila í samræmi við reglur sem stjórn kauphallarinnar setur. Stefndi telur engan vafa leika á því, að kaupin á Kára KG 146 ehf. voru birt með fullnægjandi hætti. Þessu til viðbótar bendir stefndi á, að engar óvæntar breytingar urðu á afkomu Þorbjarnar Fiskaness hf. á þeim mánuðum sem liðu frá birtingu 9 mánaða uppgjörsins þar til þau viðskipti áttu sér stað sem deilt er um í málinu. Samanburður á 9 mánaða uppgjöri og ársreikningi staðfestir að engar breytingar urðu á afkomutölum til ársloka 2003 sem máli geta skipt í þessu sambandi. Hér má jafnframt benda á að þegar meðstefndu tilkynntu regluverði Þorbjarnar Fiskaness hf. 16. febrúar 2004 um að óstofnað félag í þeirra eigu myndi hugsanlega eiga viðskipti með hlutabréf í félaginu þá staðfesti regluvörður að hann sæi ekkert því til fyrirstöðu þar sem ekkert benti til að væntanlegt uppgjör yrði frábrugðið því sem fyrri uppgjör gáfu tilefni til að ætla. Þegar af þeirri ástæðu að meðstefndu bjuggu ekki á umræddum tíma yfir innherjaupplýsingum er ljóst að stefndi bjó ekki yfir neinum slíkum upplýsingum. Þá ber jafnframt að vekja athygli á því, að þeir starfsmenn stefnda sem stóðu að kaupum stefnda á hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf. eru ekki þeir hinir sömu og tóku ákvörðun um fjármögnun kaupa meðstefndu. Starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar, Einar Örn Ólafsson, annaðist þessi kaup stefnda. Fjármögnun kaupa meðstefndu annaðist hins vegar lánastjóri stefnda. Engar upplýsingar um rekstur Þorbjarnar Fiskaness hf. fóru á milli umræddra starfsmanna stefnda. Stefnandi vísar jafnframt til ákvæða 13. og 14. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Umræddum ákvæðum er ætlað að fyrirbyggja að fjármálafyrirtæki sem búa yfir innherjaupplýsingum um útgefendur verðbréfa geti nýtt þær upplýsingar til hagsbóta fyrir aðra viðskiptamenn eða eftir atvikum til eigin fjárfestinga. Í ljósi þess að stefndi bjó sannanlega ekki yfir neinum innherjaupplýsingum verður ekki séð að þessi lagatilvísun stefnanda hafi nokkra sjálfstæða þýðingu. Stefndi tekur fram, að hann hafi sett ítarlegar verklagsreglur sem ætlað er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í starfsemi bankans og draga úr hættu á að fyrirfram megi draga í efa óhlutdrægni starfsmanna við meðferð og afgreiðslu einstakra mála. Í reglunum er m.a. mælt fyrir um aðskilnað á milli deilda, þ.e. svokallaða Kínamúra. Þessar reglur hafa verið samþykktar af Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið kom á starfsstöð stefnda skömmu eftir viðskiptin með bréfin í Þorbirni Fiskanesi hf. og fór yfir samninga tengda þeim viðskiptum sem hér eru til umfjöllunar og sá ekki ástæðu til að gera athugasemdir við starfsaðferðir stefnda. Stefndi telur ljóst að starfsmenn bankans hafi í engu misnotað trúnaðarupplýsingar eða nýtt sér slíkar upplýsingar í ágóðaskyni fyrir bankann eða til að mismuna viðskiptavinum bankans. Um markaðsmisnotkun. Stefndi áréttar það sem áður hefur komið fram um að kaup á hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf. 11. og 13. febrúar hafi verið fyrir eigin reikning bankans og á hans áhættu. Fullyrðingar stefnanda um að meðstefndu hafi verið raunverulegir kaupendur eru rangar. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki byggt á því að stefndi hafi brotið gegn 41. gr. laga um verðbréfaviðskipti með því að veita markaðnum rangar upplýsingar. Stefndi vekur jafnframt athygli á því, að ákvörðun verðs í viðskiptum stefnanda og meðstefndu átti sér stað með samningsgerð þeirra á milli. Stefndi kom ekki að þeim gerningi á annan hátt en þann að sjá um frágang þeirra viðskipta, þ.e. með því að annast milligöngu um greiðslu fyrir hlutaféð og færslu hlutafjárins yfir á VS-reikninga meðstefndu. Vandséð er hvernig stefndi gat mögulega haft í frammi blekkingar gagnvart markaðnum eða stefnanda í þeim viðskiptum. Þá ber jafnframt að líta til þess að stefnanda var fullkomlega kunnugt um það hver gagnaðili í viðskiptunum var. Stefnandi getur ekki haldið því fram nú að hann hafi verið í einhverri villu um það hver kaupandi bréfanna var. Um brot á trúnaðarskyldum gagnvart almennum hluthöfum. Stefndi hafnar þessari málsástæðu og ítrekar þau sjónarmið að hvorki meðstefndu né starfsmenn stefnda hafi búið yfir innherjaupplýsingum þegar kaupin áttu sér stað. Fullyrðingar um að meðstefndu hafi nýtt sér einhverjar slíkar upplýsingar sem ekki hafi verið aðgengilegar öðrum til að kaupa hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf. á hagstæðu verði eiga að mati stefnda ekki við nokkur rök að styðjast. Stefndi telur þvert á móti að gengi í viðskiptum við stefnanda hafi verið hærra en stefnandi hefði mögulega getað fengið við sölu á markaði. Um umsamið verð í viðskiptunum og vitneskju stefnanda og annarra innan Fiskaneshópsins um verðmæti Þorbjarnar Fiskaness hf. vísast að öðru leyti til umfjöllunar hér á eftir. Stefndi mótmælir því sérstaklega að hann geti borið ábyrgð á meintum brotum meðstefndu gegn ákvæðum 76. gr. hlutafélagalaga. Til þess skortir öll skilyrði bótaábyrgðar á grundvelli almennu sakarreglunnar. Um málatilbúnað stefnanda og grundvöll bótakröfunnar. Stefndi telur að sýnt hafi verið fram á að hann hafi í engu brotið gegn réttarreglum í þeim viðskiptum sem hér eru til umfjöllunar. Þá telur stefndi að jafnvel þótt skilyrði um sök væri uppfyllt þá hafi skilyrði um orsakatengsl slíks réttarbrots og meints tjóns stefnanda ekki verið uppfyllt. Loks telur stefndi að gögn málsins styðji ekki á nokkurn hátt fullyrðingar stefnanda um að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna sölu hlutafjáreignar í Þorbirni Fiskanesi hf. Málflutningur stefnanda er að stórum hluta reistur á þeirri forsendu að stefndu í þessu máli hafi sammælst um að blekkja stefnanda og markaðinn í heild. Þannig hafi stefndi brotið gegn ýmsum ákvæðum laga með því að fara með kaup á hlutum í Þorbirni Fiskanesi hf. sem sín eigin þrátt fyrir að þau hafi í raun verið fyrir reikning meðstefndu. Jafnvel þótt gengið yrði svo langt að fallast að einhverju marki á þessa framsetningu stefnanda þá er með öllu ósannað að þessi meintu röngu skilaboð inn á markaðinn hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda. Engin gögn liggja fyrir í málinu sem styðja þá fullyrðingu stefnanda að rangar tilkynningar hafi leitt til minni eftirspurnar eða lægra verðs á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf. Stefndi bendir á það í þessu sambandi að gengi í Þorbirni Fiskanesi hf. hafi síðustu mánuði fram að kaupum meðstefndu legið í kringum 5. Áður hefur verið vikið að því að engin breyting varð á rekstri Þorbjarnar Fiskaness hf. síðustu mánuðina fyrir hin umþrættu viðskipti sem áhrif gat haft á verð hluta í fyrirtækinu. Allar upplýsingar um fyrirtækið sem máli gátu skipt við verðmat á fyrirtækinu voru opinberar á þeim tíma þegar viðskiptin áttu sér stað. Stefndi telur að einstaklingar innan Fiskaneshópsins hafi um nokkurn tíma fyrir viðskiptin freistað þess að selja hluti sína á markaði á gengi sem var ekki hærra en 6,0 en án árangurs. Stefnandi og aðrir innan Fiskaneshópsins voru ekki í neinni villu um það, þegar hlutaféð í Þorbirni Fiskanesi hf. var selt, hverjir stóðu að baki viðskiptunum. Forsvarsmenn Fiskaneshópsins sömdu beint við meðstefndu um gengi í viðskiptunum. Stefndi telur að faðir stefnanda, Willard Fiske Ólason, hafi komið að viðræðunum. Umtalsverðar samningaviðræður munu hafa átt sér stað og stefndi telur að leitað hafi verið ráðgjafar frá Landsbanka Íslands hf. um hugsanleg kaup hluthafa sem tilheyrðu Fiskaneshópnum á hlutum meðstefndu á sama gengi. Þær áætlanir gengu hins vegar ekki eftir og hópurinn í heild virðist hafa séð það sem betri kost að selja eigin hlut á því gengi. Í ljósi þessa aðdraganda og vitneskju stefnanda og annarra innan Fiskaneshópsins um hver kaupandi bréfanna var verður ekki á því byggt af hálfu stefnanda að hann hafi látið blekkjast af meintum villandi upplýsingum til markaðarins. Stefndi vísar í þessu sambandi m.a. til greina eins forsvarsmanna Fiskaneshópsins, Willards Fiske Ólasonar, sem birtust í Morgunblaðinu 15. mars og 4. apríl 2004. Í umræddum greinum er staðfest að fyrrum eigendur Fiskaness hafi frá upphafi viðskipta stefnda með bréf í Þorbirni Fiskanesi hf. vitað af samstarfi stefnda og meðstefndu. Þá er enn fremur vísað til þess að þessi sami hópur hafi vitað hver stóð á bak við kaup stefnda 11. og 13. febrúar, enda hafi meðstefndu gert grein fyrir því sjálfir. Samkvæmt þessu töldu fyrrum eigendur Fiskaness frá upphafi að meðstefndu stæðu að baki kaupum stefnda. Verði talið að tilkynningar stefnda til Kauphallar Íslands hf. um þessi viðskipti hafi verið rangar er ljóst að meðlimir Fiskaneshópsins geta ekki byggt bótakröfu á því að þeir hafi látið blekkjast af þessum tilkynningum. Vegna fullyrðinga stefnanda um að sala á genginu 6 hefði aldrei átt sér stað ef upplýsingar um gengi í viðskiptum við Granda hf. hefðu legið fyrir skal tekið fram að öllum hluthöfum í Fiskaneshópnum var það fullkomlega ljóst að líkur voru til þess að eignarhluti Granda hf. væri ekki falur nema á gengi sem væri hærra en 6. Til þess lágu ástæður sem ekki verða raktar hér en verða án efa upplýstar af meðstefndu. Þá telur stefndi jafnframt að Fiskaneshópurinn hafi kannað hvert líklegt verð á hlutum Granda hf. myndi verða þegar meðlimir hans könnuðu möguleika á að kaupa hlut meðstefndu. Stefndi telur lítt stoða fyrir stefnanda að krefjast bóta á þeim grunni að til viðskiptanna hefði ekki komið ef vitað hefði verið að Grandi hf. myndi selja á hærra gengi. Stefndi telur rétt að taka fram að aldrei hefði getað orðið af kaupum meðstefndu á hlut stefnanda og annarra innan Fiskaneshópsins á hærra gengi en 6,0, enda voru engar forsendur til kaupa á öllu hlutafé í félaginu á hærra gengi. Þá er ljóst að fjármögnun til kaupanna á slíku gengi hefði ekki fengist frá stefnda. Stefnandi seldi á gengi sem á þessum tíma var það hæsta sem í boði var. Hærra gengi í síðari viðskiptum verður ekki rakið til ólögmætra athafna stefnda eða meðstefndu. Stefnandi á enga kröfu til þess að annað verð gildi en um var samið. Að því er varðar þær málsástæður stefnanda sem lúta að meðferð innherjaupplýsinga þá liggur fyrir að jafnvel þótt talið yrði að einhverjar slíkar upplýsingar hafi verið fyrir hendi þá bjuggu einstaklingar innan Fiskaneshópsins yfir sömu upplýsingum, enda voru nokkrir þeirra fruminnherjar í félaginu. Stefnandi ásamt öðrum þeim sem höfðað hafa mál gegn stefnda komu fram sem einn hópur í samskiptum við stefndu. Vitneskja fruminnherja innan hópsins sem gegndu lykilhlutverki í samningaviðræðum við meðstefndu gerir það að verkum að því verður ekki haldið fram af stefnanda eða öðrum innan Fiskaneshópsins að þeir hafi ekki haft sömu forsendur og meðstefndu til að meta verðmæti hlutabréfa í Þorbirni Fiskanesi hf. Verði á annað borð talið að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti með aðkomu sinni að framangreindum viðskiptum telur stefndi ljóst samkvæmt framansögðu að ekki verði sýnt fram á að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem rakið verði til slíkra meintra brota. Engar forsendur eru til einkaréttarlegra krafna af því tagi sem stefnandi hefur sett fram. Í því tilviki að sannað teldist að stefndi hefði brotið gegn ákvæðum laganna kæmi einungis til álita að beita viðurlögum gegn stefnda eða eftir atvikum starfsmönnum félagsins. Sem fyrr segir hefur sú stofnun sem hefur með höndum eftirlit með starfsemi stefnda og hefur á að skipa fjölda sérfræðinga á þessu sviði ekki séð ástæðu til aðgerða vegna þeirra viðskipta sem hér hafa verið til umfjöllunar. Um framhaldsstefnu málsins. Í greinargerð stefnda í framhaldssök mótmælir stefndi því að upplausnar-andvirði Þorbjarnar Fiskaness hf. geti haft nokkra þýðingu í málinu. Í fyrsta lagi sé ljóst að verðmæti hlutafjár í sjávarútvegsfyrirtækjum ráðist ekki af upplausnarvirði þeirra heldur verðmyndun á markaði. Þorbjörn Fiskanes hf. hefði verið skráð á almennum hlutabréfamarkaði í rúm 6 ár þegar viðskiptin áttu sér stað. Aldrei á því tímabili hefði gengi bréfanna farið yfir 6 krónur á hvern hlut. Stefndi bendir á, að um viðskipti með hlutabréf sé að ræða og því eigi að leggja til grundvallar reynslu og upplýsingar sem liggja fyrir um slík viðskipti, en ekki eitthvert upplausnarverð. Stefndi bendir einnig á að stefnandi gat ekki knúið fram slit á félaginu til sölu eigna eða krafist innlausnar og átti enga kröfu, hvorki gegn stefndu né öðrum, á því að verðmæti hlutafjár hans í félaginu tæki mið af því að félaginu yrði slitið og allar eignir seldar. Stefndi mótmælir því að það mat sem fyrir liggur í málinu sé áreiðanlegur mælikvarði á verðmæti eigna Þorbjarnar Fiskaness hf., enda sé afar óljóst hvernig markaðurinn brygðist við svo umfangsmikilli eignasölu. Upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt og þess krafist að hann miðist við dómsuppsögu í héraði eða eftir atvikum Hæstarétti, enda hefur stefnandi enn ekki fært fram nein gögn sem sanna eða gera líklegt að hann hafi orðið fyrir fjártjóni af völdum stefnda. Málskostnaðarkrafan er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991. IV. Málsástæður og lagarök stefndu, Gunnars, Eiríks og Gerðar Tómasarbarna og Þorbjörns Fiskaness hf. Stefndu mótmæla öllum málsástæðum og lagarökum stefnanda. Þeir telja málsástæður stefnanda eiga það almennt sammerkt að þær séu byggðar á óljósum forsendum þar sem látið sé hjá líða að upplýsa um aðstæður eða atvik með fullnægjandi hætti. Þá tekur stefndi undir málsástæður meðstefnda eftir því sem þeir eiga samstöðu í málinu. Um óheimila ráðstöfun hluta. Stefndu telja málsástæður stefnanda að þessu leyti gott dæmi um málatilbúnaðinn og það hvernig leitast sé við að gefa ranga mynd af aðstæðum. Í lýsingu málavaxta í stefnu lýsir stefnandi atvikum um sölu sína þannig að hún hafi engin samskipti átt við Íslandsbanka hf. og engum veitt umboð til þess að selja hlutafé sitt og að það hafi verið með óljósum hætti hvar og hvernig hlutabréf hennar hafi komist í hendur meðstefnda Íslandsbanka hf. Stefndu gerðu síðdegis mánudaginn 16. febrúar samning um að kaupa allt hlutafé Fiskaneshópsins, þ.m.t. hlutafé stefnanda. Varð það niðurstaða þessara tveggja hópa hluthafa, fengin með samtölum fulltrúa þeirra. Kaupandi hlutabréfa stefnanda voru því stefndu fyrir hönd ÓK-1 ehf., sem þá var óstofnað. Samningur þessi náði til allra í Fiskaneshópnum, einnig þeirra sem þegar höfðu selt, en engum var þó skylt að selja. Þeir sem ekki vildu selja á þessu gengi eða vildu ekki selja af öðrum ástæðum gátu haldið bréfum sínum. Einn aðili úr Fiskaneshópnum, Eiríkur Óli Dagbjartsson, óskaði ekki eftir að selja og á hann enn sinn hlut í félaginu. Þeir sem hins vegar vildu samþykkja þennan samning og selja hlutabréf sín til stefndu á genginu 6 áttu að gera tvennt: Í fyrsta lagi að setja sig í samband við Íslandsbanka hf., sem annaðist viðskiptin fyrir hönd stefndu, til þess að gefa upp inn á hvaða reikning átti að greiða kaupverðið. Í öðru lagi að tilkynna þeim banka þar sem bréfin voru í vörslu, þ.e. þar sem þeir voru með svokallaðan VS-reikning, að bréfin væru seld og biðja viðkomandi banka um að afhenda hlutabréfin út á hlutlaust svæði þar sem Íslandsbanki hf. gæti sótt þau fyrir kaupanda þeirra. Þeirri málsástæðu stefnanda að samþykki hans fyrir sölunni sé ósannað nema hægt sé að leggja fram upptöku af samþykki hans eða önnur skrifleg gögn, er mótmælt sem rangri. Stefndi telur að hafa verði í huga að stefnandi var annar aðili viðskiptanna og gátu þau ekki átt sér stað án hans atbeina. Einnig verður að hafa í huga að um er að ræða viðskipti með viðskiptabréf þar sem hönd selur hendi. Sönnun fyrir viðskiptum með viðskiptabréf er handhöfn bréfsins, áritað um framsal, en ekki upptaka eða önnur gögn um að viðkomandi hafi samþykkt söluna á einhverju tilteknu gengi. Er þetta grundvallarregla í kröfurétti varðandi viðskiptabréf. Stefndu benda á að 3. september 2001 voru hlutabréf í Þorbirni Fiskanesi hf. ógild og í stað þeirra komu rafbréf skv. lögum nr. 131/1997 um rafræna eignaskráningu verðbréfa. Hlutabréf eru viðskiptabréf og rafrænt skráð hlutabréf eru það einnig. Umrædd hlutabréf (rafbréf) voru framseld til stefnda ÓK-1 ehf. með afhendingu reikningsstofnunar þar sem þau voru vistuð á VS-reikningi stefnanda, á bréfunum út á svokallað hlutlaust svæði hjá Verðbréfaskráningu Íslands hf. (VS) þar sem stefndi Íslandsbanki hf. færir þau á VS-reikning stefnda ÓK-1 ehf. Við lokafærslu hluta-bréfanna á reikning kaupanda, stefnda ÓK-1 ehf., þ.e. við skráningu þeirra á VS-reikning hans hjá Íslandsbanka hf., varð stefndi ÓK-1 ehf. réttur og lögmætur eigandi þeirra, sbr. 2. og 4. mgr. 16. gr. laga nr. 131/1997 um rafræna skráningu verðbréfa, með sama hætti og ef hann hefði móttekið réttilega framseld hlutabréf. Stefndu halda því fram, að eftir lokafærslu á hinu keypta hlutafé á VS-reikning ÓK-1 ehf. hjá Íslandsbanka hf., verði réttindi kaupanda yfir bréfunum, sem grandlauss framsalshafa, ekki vefengd, sbr. almennar reglur um framsal viðskiptabréfa, sbr. einnig 19. gr. laga nr. 131/1997. Stefnandi sé ekki að leita eftir ógildingu á framsali þeirra né byggi hann kröfurnar á þeim grunni, heldur krefst hann skaðbóta vegna þess sem hann telur hafa verið ólögmætar færslur á VS-reikningi hans. Sú krafa virðist byggjast á þeim misskilningi að meðstefndi Íslandsbanki hf. hafi fært hlutafé hans af VS-reikningi hans hjá Landsbanka Íslands hf. (sic) yfir til stefndu. Hið rétta er að aðeins reikningsstofnun gat fært hlutaféð af VS-reikningi, sbr. staðfestingu frá Verðbréfa-skráningu Íslands hf. dags. 12. ágúst 2004. Meðal annars vegna sérstöðu rafbréfa að þessu leyti, þ.e. að þau teljast framseld athugasemdalausu framsali við færslu reikningsstofnunar á þeim á milli VS-reikninga, er hlutlæg ábyrgð lögð á reikningsstofnanir á öllum færslum og breytingum á VS-reikningum, sbr. 29. gr. laga nr. 131/1997. Felst í ákvæðinu lögbundin ábyrgð og jafnframt aðild að kröfum vegna mistaka eða ósamþykktra færslna á reikningum í Verðbréfamiðstöðinni (VS-reikningar). Verði tjónið rakið til mistaka Verðbréfamiðstöðvar Íslands hf. þá ber hún ábyrgðina gagnvart stefnanda, sbr. 28. gr., eða þessir tveir aðilar í sameiningu skv. 30. gr. verði ekki skorið úr því hvar mistökin liggja. Aðrir verða ekki gerðir ábyrgir vegna „ólögmætra“ færslna af VS-reikningi stefnanda og er því um aðildarskort að ræða varðandi þessa kröfu, skv. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu telja því að málsástæður stefnanda á hendur stefndu í þessum lið séu einnig algerlega órökstuddar og virðist engin tilraun gerð til þess að færa minnstu rök fyrir þeim eða tengja meinta ólögmæta háttsemi stefndu við einhverja tiltekna háttsemi. Um tímasetningu viðskipta. Varðandi þessa málsástæðu telja stefndu nægilegt að vísa til umfjöllunar um málavexti og tilkynningar um viðskiptin til Kauphallarinnar. Stefnandi, sem hluti af Fiskaneshópnum, átti aðild að viðræðum um yfirtöku á Þorbirni Fiskanesi hf., helgina 14.-15. febrúar og allan mánudaginn 16. febrúar 2004. Stefndu telja óhætt að fullyrða að í þessari vinnu Fiskaneshópsins með Landsbanka Íslands hf. hafi verið eftir því leitað hvort bréf Granda hf. væru til sölu og hafi þau fengið upplýsingar um að svo hafi verið. Ef önnur svör hefðu fengist frá Granda hf. er ljóst að fundahöld hópsins með Landsbankanum í 3-4 daga hafi verið tilgangslítil, enda hefðu stefndu þá þegar tryggt sér yfirráð yfir félaginu. Þá áttu stefndu og fulltrúar Fiskaneshópsins í viðræðum á mánudeginum um það að annar hópurinn skyldi kaupa hinn út og var þá báðum ljóst að hlutur Granda var ekki inni í þeirri umræðu. Málsástæða stefnanda að þessu leyti er þannig ekki aðeins röng heldur að mati stefndu sett fram gegn betri vitund og því ámælisverð. Um tímasetningu þessara viðskipta nægir að öðru leyti að vísa til framlagðra gagna. Fyrir liggur endurrit af samtölum við ýmsa aðila í Fiskaneshópnum á tímabilinu 16-19 á mánudeginum 16. febrúar 2004 þar sem skýrt kemur fram að samningur um að stefndu kaupi hlutafé hópsins á genginu 6 liggur þá þegar fyrir. Það er svo á þriðjudagsmorguninn 17. febrúar 2004 sem fulltrúi Granda hf. og skyldra félaga óskar eftir heimild til þess að selja, vegna væntanlegra viðskipta, enda voru þá viðræður á milli aðila hafnar. Það er hins vegar ekki fyrr en kl.15:44 sem fulltrúi þessara seljanda sendir staðfestingu á því að viðskipti hafi átt sér stað, en þau höfðu þá komist á skömmu áður, en allur þriðjudagurinn 17. febrúar fór í það að ná niðurstöðu með Granda hf. og tengdum aðilum um verð og hver skyldi greiða kostnað vegna viðskiptanna. Um brot á tilkynningarskyldu innherja. Stefndi heldur því fram að réttilega hafi verið staðið að „flöggun“ á þessum tíma, enda voru kaup meðstefnda Íslandsbanka hf. á hlutabréfum á hans áhættu og ábyrgð. Af hálfu stefndu hefði ekki komið til greina að kaupa nefnd hlutabréf af Íslandsbanka hf. nema það leiddi til þess að markmið um 51% hlutafjáreign næðist, enda höfðu stefndu ekkert með það að gera að auka hlut sinn úr 14% í 30%. Slíkt hefði litlu breytt og að engu leyti bætt úr óvissu um eignarhald á félaginu eða varið stefndu gegn yfirtöku, svo sem var markmið þeirra með aðgerðum sínum. Kaup meðstefnda í febrúar voru einnig án sérstaks samráðs eða samþykkis stefndu og því ljóst frá upphafi að meðstefndi framkvæmdi þessi viðskipti á eigin ábyrgð. Í því sambandi skiptir ekki máli þótt gera megi ráð fyrir að hvatinn til viðskiptanna hafi verið sá að stuðla að því að markmið samnings aðila um yfirtöku næðu fram að ganga, þ.e. að bankanum tækist að koma á samningum um kaup stefndu á nægilega miklu hlutafé til að ná meirihluta í félaginu, enda þóknun bankans bundin því skilyrði. Þá bendir stefndi á að Fjármálaeftirlitið hafi tekið viðskiptin til rannsóknar og niðurstaðan hafi verið sú að réttilega hafi verið staðið að flöggun af hálfu meðstefnda, Íslandsbanka hf. Stefndu hafna einnig að skilyrði almennu sakarreglunnar um skaðabætur utan samninga geti verið fyrir hendi, þrátt fyrir að talið yrði að brotið hafi verið gegn ákvæðum um flöggun. Nægir þar að nefna skilyrði um orsök og sennilega afleiðingu milli hins saknæma verknaðar og tjónsins. Einnig telja stefnendur það ósennilega og ósannaða málsástæðu að það hefði leitt til hækkunar á umsömdu kaupverði á milli aðila, mánudaginn 16. febrúar 2004, ef það hefði verið flaggað vikunni fyrr að stefndu en ekki meðstefndi, Íslandsbanki hf., hefðu aukið hlut sinn í félaginu. Ætti enda að vera óumdeilt að þegar sá samningur var gerður hafi báðir aðilar vitað, þ.e. stefndu og Fiskaneshópurinn, af áætlunum hvor annars um tilraun til yfirtöku og því vandséð hvernig málsástæður stefnanda um flöggun ættu að hafa haft áhrif á þá niðurstöðu sem fékkst á milli aðila um verð. Um innherjasvik og hrun Kínamúra. Málsástæður stefnanda í þessum hluta telur stefndi vera afar sérkennilegar, þar sem stefndu eru sökuð um innherjasvik. Í innherjasvikum felst að aðili sem býr yfir innherjaupplýsingum noti þær með þeim hætti að brjóti gegn 44. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Í tilfelli stefnanda byggir hann á því að stefndu hafi annars vegar búið yfir innherjaupplýsingum og átt viðskipti á grundvelli þeirra og hins vegar að stefndu hafi miðlað slíkum upplýsingum til meðstefnda, Íslandsbanka hf., sem síðan hafi átt viðskipti á grundvelli þeirra. Málsástæða þessi er afar sérkennileg vegna þess að í henni eru engar innherjaupplýsingar tilteknar eða tilgreindar, heldur látið við það sitja að halda því fram að öðrum en innherjum hafi verið óljós staða félagsins. Það eru hins vegar engin rök fyrir fullyrðingum um innherjasvik. Rökin sem færð eru fram fyrir hinni óljósu stöðu eru annars vegar að félagið Kári GK-46 ehf. hafi verið keypt og hins vegar að langt hafi verð liðið frá birtingu 9 mánaða uppgjörs. Skilgreiningu á innherjaupplýsingum er að finna í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 33/2003. Stefndi bendir á að af skilgreiningu síðastnefnds ákvæðis megi sjá að engar „upplýsingar“, eða sú staðreynd að ekkert sérstakt sé að gerast í rekstri fyrirtækis, eru ekki innherjaupplýsingar. Það eru heldur ekki innherjaupplýsingar eða innherjasvik að eiga viðskipti með verðbréf þó að langt sé liðið frá birtingu síðasta uppgjörs, sbr. 44. gr. laga nr. 33/2003. Stefndu telja það einkennilegast við þessa málsástæðu, að nokkur tími er liðinn frá því að þessi viðskipti áttu sér stað og ársreikningur fyrir árið 2003 var birtur þann 31. mars 2004. Hafi því verið um það að ræða að óbirtar hafi verið einhverjar innherja-upplýsingar um félagið í febrúar 2004 þá hafa þær auðvitað þegar komið fram. Einnig benda stefndu á það að „Fiskaneshópurinn“ eigi „fulltrúa“ í stjórn, Rúnar Björgvinsson, og í hópi stjórnenda félagsins, þ.e. útgerðarstjóra, Eirík Óla Dagbjartsson, og fjármálastjóra, Ottó Hafliðason, sem starfa báðir enn hjá félaginu. Fulltrúum Fiskaneshópsins var því ekki síður ljóst en stefndu hvað væri að gerast í rekstri félagsins á þessum tíma eða réttara sagt, þessum aðilum var auðvitað fullljóst að ekkert sérstakt var að gerast í rekstrinum á þessum tíma, og því var ekki um neinar „innherjaupplýsingar“ að ræða. Viðskipti innherja eru háð sérstökum reglum sbr. 51. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Felast þessar reglur m.a. í því að innherjar þurfa að fá leyfi regluvarðar félagsins áður en þeir eiga viðskipti með hlutabréf í félaginu. Er regluverði óheimilt að veita leyfi fyrir viðskiptunum ef óbirtar eru upplýsingar sem áhrif geta haft á verðmæti hlutabréfanna, þ.e. ef innherjaupplýsingar eru fyrir hendi í félaginu. Eftir þessum reglum fóru stefndu og veitti regluvörður leyfi fyrir viðskiptum þeirra, sem og annarra innherja á þessum tíma, sem auðvitað staðfestir að engar innherjaupplýsingar hafi þá verið fyrir hendi. Hugmyndir stefnanda um að meðstefndi, Íslandsbanki hf., hafi fengið einhverjar innherjaupplýsingar vegna vinnu með stefndu í málinu eru auðvitað rangar. Í fyrsta lagi var ekkert að gerast í rekstri félagsins á þessum tíma, þannig að engar „innherja-upplýsingar“ voru til staðar. Í öðru lagi eru upplýsingar sem stjórnendur geta veitt við þessar aðstæður þær sömu og markaðurinn hefur yfir að ráða, þ.e. síðustu uppgjör og upplýsingar um breytingar á rekstri frá síðasta uppgjöri, s.s. kaup og sala eigna, og svo að lokum hvort nokkuð óvænt hafi gerst í rekstrinum sem geti haft áhrif á næsta uppgjör. Þessi atriði eru öll tilkynningaskyld og um þau tilkynnt, þ.e. varðandi uppgjör og breytingar á rekstri (t.d. kaup á Kára GK-46 ehf.) og ef óvæntar breytingar verða í rekstrarumhverfinu þá ber félaginu að senda frá sér tilkynningu um það, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 34/1998 um starfsemi kauphalla og skipulega tilboðsmarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 433/1999. Að öðru leyti er rekstrarumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja hvað varðar daglegan rekstur mjög opið og gagnsætt. Þar skipta mestu aflabrögð, verð á mörkuðum og gengi gjaldmiðla, en allt eru þetta opinberar upplýsingar. Um markaðsmisnotkun. Stefndu halda því fram að þessi málsástæða stefnanda sé sama marki brennd og margar fyrri, þ.e. að hún byggist á tilbúnum málavöxtum, í þessu tilfelli þeim að stefnandi hafi þegar hann seldi hlutafé sitt ekki vitað að stefndu væru kaupendur þess. Stefndu mótmæla þessu sem röngu, sbr. það sem áður hefur komið fram um málavexti, en einnig má vísa til Morgunblaðsgreinar Willards Ólasonar frá 4. apríl 2004. Um brot á trúnaðarskyldum gagnvart almennum hluthöfum. Stefndu er ekki kunnugt um að stefnandi hafi upplýsingar um viðskiptakjör þeirra hjá Íslandsbanka hf. og því telur stefndu vandséð á hvað grunni stefnandi treystir sér til þess að setja fram málsástæðu eða fullyrðingu sem þessa. Stefndu telja að hér sé aftur byggt á því að fyrir hendi hafi verið „innherjaupplýsingar“ í félaginu í febrúar 2004. Varðandi skilgreiningu á innherjaupplýsingum og um umfjöllun að þessu leyti vísast til þess sem fyrr segir. Þar fyrir utan gætu atvik sem þau sem stefnandi byggir á, þ.e. að hluthafi og stjórnandi í félagi semdi við viðskiptabanka sinn um góð kjör gegn veði í hlutafé í félaginu, með því að hann sannfærði viðskiptabankann um trausta stöðu félagsins eða hátt verð hlutabréfanna, aldrei talist brot gegn 76. gr. hlutafélagalaga. Vantar í þessu dæmi að uppfylla bæði meginskilyrði þess að brot geti verið til staðar skv. greininni. Er það vegna þess að hluthafinn/stjórnandinn kemur í því tilfelli ekki fram fyrir hönd félagsins eða misnotar heimild sína til að koma fram fyrir hönd þess og hann aflar sér ekki ávinnings á kostnað félagsins eða annarra hluthafa. Stefndu telja málsástæðu stefnanda að þessu leyti ekki aðeins efnislega ranga heldur falli „brotalýsing“ stefnanda ekki undir ákvæði þeirrar greinar sem vísað er til. Þá gerir stefnandi ekki sjálfstæða tilraun til að tengja kröfu sína um bætur við meint tjón af þessari ástæðu eða fjallar um grundvöll eða önnur skilyrði bótakröfunnar og því er hún stórlega vanreifuð. Stefndu telja það skyldu stefnanda skv. grein þessari að sýna fram á hver hafi verið ávinningur stefndu af lántökunni og að hvaða leyti sá ávinningur hafi verið á kostnað stefnanda sem hluthafa í félaginu. Um málatilbúnað stefnanda og grundvöll bótakröfunnar. Kröfur á hendur stefndu Eiríki, Gunnari og Gerði eru í nokkrum tilfellum settar fram með þeim hætti, að því er haldið fram að þau beri ábyrgð á meintri saknæmri háttsemi meðstefnda, Íslandsbanka hf., vegna þess að meðstefndi, Íslandsbanki hf. á að hafa framkvæmt hina saknæmu háttsemi að undirlagi og með þátttöku stefndu. Hins vegar er í engu þessara tilfella gerð tilraun til þess að sýna fram á eða færa sönnur fyrir hinni saknæmu háttsemi, heldur er látið nægja að setja þessa fullyrðingu fram. Stefndu mótmæla þessum málsástæðum og hafna því, að þau hafi stýrt meðstefnda, Íslandsbanka hf., til saknæmra verka eða tekið þátt í þeim. Þá byggja stefndu á því að sá sem krefst skaðabóta úr hendi annars aðila hafi sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði almennu sakarreglunnar séu uppfyllt og að ekki nægi í því sambandi órökstuddar og ósannar fullyrðingar, jafnvel þótt þær séu endurteknar. Kröfur á hendur stefnda ÓK-1 ehf. (nú Þorbirni Fiskanesi hf., eftir sameiningu) eru rökstuddar með tilvísun til 2. mgr. 10.gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Ákvæðið fjallar um yfirtöku á löggerningum eftir stofnun félagsins í samræmi við stofnsamning eða skv. ákvörðun félagsins sjálfs. Undir ákvæðið verður ekki fellt það tilvik að félagið eigi að takast á hendur ábyrgð á meintum skaðaverkum hluthafa þess, svo sem stefnandi byggir á. Málshöfðun á hendur félaginu er því algerlega tilefnislaus. Varðandi umfjöllun um tjón og bætur í málatilbúnaði stefnanda benda stefndu á að stefnandi byggi kröfur sína á almennum ólögfestum reglum skaðabótaréttarins um skaðbætur utan samninga. Í málsástæðum sínum reynir stefnandi yfirleitt að sýna fram á saknæmi tiltekinnar háttsemi en í engu tilfelli leitast hann við að sýna fram á að önnur skilyrði til greiðslu skaðabóta séu fyrir hendi, þ.e. að hin saknæma háttsemi hafi valdið stefnanda tjóni og að umrætt tjón sé hvort tveggja orsök og sennileg afleiðing hinnar saknæmu háttsemi. Telja stefndu þannig, að jafnvel þó svo fallist væri á að þau hafi sýnt af sér saknæma háttsemi, uppfylli málatilbúnaður stefnanda ekki skilyrði einkamálalaga til þess að hægt sé að dæma honum bætur vegna þeirrar háttsemi. Fyrir því vantar einfaldlega málsástæður og lagarök sem stefndu gætu tekið afstöðu til í vörn sinni. Verði talið að skilyrði séu fyrir því að dæma stefndu til greiðslu bóta er kröfum stefnanda mótmælt sem allt of háum og í því tilfelli er krafist lækkunar. Um framhaldsstefnu málsins. Í greinargerð sinni vegna framhaldsstefnunnar mótmæla stefndu því að metið upplausnarverð félagsins gefi einhverja vísbendingu um verð hlutafjár stefnanda og því hefur framlögð matsgerð enga þýðingu eða sönnunargildi að mati stefndu. Hefði stefnandi viljað fá mat á verðmæti hlutafjár síns var stefnanda í lófa lagið að óska eftir slíku mati. Er það alkunna að verð á hlutafé í stórum sjávarútvegsfélögum tekur ekki mið af upplausnarverði þeirra heldur væntum hagnaði af rekstri viðkomandi félags, svo sem almennt á við um önnur félög. Þá eru engin dæmi þess að stórt útgerðarfélag hafi verið leyst upp og allar eignir þess seldar og því eru spádómar um verð í svo umfangsmikilli eignarsölu ekki byggðir á reynslu eða raunhæfum dæmum. Einnig verður að líta til þess að hlutur stefnanda í Þorbirni Fiskanesi hf. var afar lítill og því átti stefnandi enga möguleika á því að knýja fram slit á félaginu og sölu eigna þess. Stefndu benda hins vegar á, að til séu ótal dæmi um sölu á hlutafé í stórum sjávarútvegsfélögum sem mörg hver hafi verið eða séu skráð á opinberum markaði. Í engu þeirra tilvika miðist verðið við upplausnarverð viðkomandi félags. Einnig liggja fyrir skráðar upplýsingar um öll viðskipti með hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf., sem var skráð á almennum hlutabréfamarkaði, í rúm 6 ár. Félögin Þorbjörn hf., Fiskanes hf. og Valdimar hf. sameinuðust þann 30. júní 2000. Á þeim degi var gengi hlutafjár í félaginu 5,45. Frá sameiningu þessara félaga til þess að stefnandi seldi hlutafé sitt var verðmæti þess á almennum markaði almennt á bilinu 4 5,5 og aldrei á þessum tíma fór markaðsvirði hlutafjárins yfir gengið 6. Um sennilegt markaðsvirði hlutafjár stefnanda liggja því hvort tveggja fyrir upplýsingar og reynsla af viðskiptum með hlutafé í félaginu. Byggja stefndu einnig á því að það sé almenn regla í skaðabótarétti að leggja til grundvallar reynslu liðins tíma við mat á líklegum missi hagnaðar í framtíðinni. Kröfu stefnanda um dráttarvexti er mótmælt og telja stefndu að ekki séu forsendur til þess að dæma dráttarvexti fyrr en frá dómsuppkvaðningu verði fallist á einhverjar kröfur stefnanda. Um málskostnaðarkröfu stefndu vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991. V. Forsendur og niðurstaða. Í málinu deila tveir armar eru stóðu að Þorbirni Fiskanesi hf. í Grindavík. Annars vegar eru það stefndu, Eiríkur, Gunnar og Gerður Sigríður Tómasarbörn, sem voru úr Þorbjörnsarminum og hins vegar stefnandi, sem tilheyrir Fiskaneshópnum. Hinn 3. febrúar 2004 gerði stefndi Íslandsbanki hf. samning við óstofnað yfirtökufélag nefnt Newco í eigu stefndu Eiríks, Gunnars, Gerðar Sigríðar og Stefáns Þorvaldar Tómassonar og Tómasar Þorvaldssonar. Samningurinn var gerður vegna fyrirhugaðra kaupa Newco á öllu hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf. nema hlutafé stefndu systkinanna og fjölskyldu þeirra og Tryggingamiðstöðvarinnar. Samningurinn varðaði ráðgjafarvinnu við yfirtökuferlið, vinnu við tilboðsgerð til hluthafa, samninga við seljendur, aðstoð við fjármögnun viðskiptanna og að annast framkvæmd yfirtöku-ferlisins. Samkvæmt samningnum átti engin áreiðanleikakönnun að fara fram og stefndi Íslandsbanki hf. tók enga ábyrgð á því, að áætlun um yfirtökuna tækist eða að unnt yrði að fjármagna yfirtökuna. Þóknun skyldi ekki greiðast Íslandsbanka nema Newco, stefndu systkinunum og fjölskyldu þeirra og Tryggingamiðstöðinni hf. myndi takast að eignast samanlagt a.m.k. 51% hlutafjár í Þorbirni Fiskanesi hf. Stefndi Íslandsbanki hf. hóf kaup á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf. og keypti þau í eigin nafni af þeim hluthöfum er þá vildu selja og án samráðs við aðra stefndu. Varðandi hlutabréf stefnanda og annarra í Fiskaneshópnum, þá voru þau ekki keypt af stefnda Íslandsbanka hf. heldur sá bankinn um að miðla þeim bréfum og var Newco kaupandi þeirra. Fiskaneshópurinn samanstendur af systkinunum, Birnu (eiginkonu Dagbjarts Einarssonar), Ingu Bjarney (eiginkonu Björgvins O. Gunnarssonar) og Willard Ólabörnum, mökum þeirra og börnum og svo Kristjáni Finnbogasyni, maka og börnum hans. Stefnandi málsins er dóttir Willard Ólasonar og eiginkonu hans. Þegar sú staða kom upp fimmtudaginn 12. febrúar 2004 að stefndu, Eiríkur, Gunnar og Gerður Sigríður, hefðu hug á því að yfirtaka Þorbjörn Fiskanes hf. talaði stefndi Gunnar við einn frá hverri fjölskyldu, þ.e. Björgvin O. Gunnarsson og Kristján Finnbogason og síðar um kvöldið við Dagbjart Einarsson. Daginn eftir talaði hann við Willard Fiske Ólason, föður stefnanda. Í kjölfar þessa fóru fram viðræður milli meðlima Fiskaneshópsins um það hvort þau ættu að selja og þá á hvaða gengi. Í upphafi var þeim boðið gengið 5,67 sem var hafnað og á laugardeginum var gengið 6 boðið, sem gilda átti líka um þá, sem þá þegar höfðu selt eitthvað af sínum bréfum. Áttu viðræður sér stað innan hverrar fjölskyldu. En einnig áttu fulltrúar frá fjölskyldum systkinanna þriggja fund í Landsbanka Íslands varðandi hugsanlegan mótleik af þeirra hálfu. Eiginmaður stefnanda tók þátt í þeim viðræðum. Þá liggur fyrir að hópurinn var í aðalatriðum samstilltur í gerðum sínum, því áhrif þeirra og völd í Þorbirni Fiskanesi hf. byggðust á því að þau héldu saman. Ljóst má vera að sá er seldi ekki yrði væntanlega áhrifalaus í fyrirtækinu. Á daginn kom að 21 meðlimur Fiskaneshópsins seldi hlutabréf sín. Frá septembermánuði 2001 voru öll hlutabréf í Þorbirni Fiskanesi hf. ógild og í stað þeirra komu rafbréf samkvæmt lögum nr. 131/1997 um rafræna eignaskráningu verðbréfa. Mismunandi var í hvaða reiknistofnun meðlimir Fiskaneshópsins höfðu VS-reikninga sína. Stefnandi átti á í byrjun febrúar 2004 hluti í Þorbirni Fiskanesi, að nafnverði 9.325.899 krónur. Stefnandi seldi hluti að fjárhæð 2.000.000 króna að nafnverði og var það selt á genginu 5.67. Þessi viðskipti áttu sér stað 12. febrúar 2004. Eftir þessa sölu var hlutur stefnanda að nafnverði 7.325.899 krónur. Í framburði sínum fyrir dómi kveðst stefnandi aldrei hafa átt orðastað við starfsmenn Íslandsbanka hf. um sölu á þessum hlut né veitt umboð til sölunnar. Hún kvað bréfin hafa verið á hlutlausa svæðinu í eitt til tvö ár og þá að hennar beiðni við KB banka því hún var að skipta um viðskiptabanka. Hún kvaðst ekki hafa haft samband við aðra hluthafa á þessu tímabili varðandi sölu á hlutabréfunum. Hún kvaðst ekki hafa fengið vitneskju um að í undirbúningi væri yfirtaka á félaginu. Hún kvaðst hafa vitað að á þessu tímabili hafi eiginmaður hennar átt fundi með öðrum er tengdust félaginu. Stefnandi kvaðst hafa haft samband við yfirmann markaðsviðskipta hjá Íslandsbanka þegar hún hafi fengið andvirði bréfanna inn á bankareikning sinn. Sá varð mjög hissa yfir þessu en ekkert frekar var aðhafst. Hún kannast við að hafa fengið leiðréttingu á þeim viðskiptum sem hún átti fyrr í mánuðinum, en sú leiðrétting hafi ekki verið að hennar beiðni. Hún kveðst ekki hafa gefið Íslandsbanka upp reikningsnúmer sitt, en þeir hafi haft það vegna fyrri sölunnar. Í framburði eiginmanns stefnanda, Inga G. Ingasonar, fyrir dómi kom fram, að hann hafi á föstudeginum fengið vitneskju um að Eiríkur Tómasson og fjölskylda hefðu hug á yfirtöku. Hann telur að tengdafaðir hans hafi haft samband við hann. Hann kvaðst hafa verið að vinna um helgina og Dagbjartur mágur hans, Eiríkur Dagbjartsson, Ottó Hafliðason og Almar Sveinsson hafi komið á fund til hans. Þeir ræddu um hvað væri að gerast í yfirtökunni og skoðuðu málið. Þeir fóru síðan á fund í Landsbankanum að Laugavegi 77. Hann kvaðst þá ekki hafa haft gögn eða forsendur til að reyna yfirtöku. Á mánudeginum hittust þeir ekkert en hann hafi heyrt að sumir í hópnum ætluðu að selja en aðrir ekki. Hann kvaðst hafa verið í sambandi við mág sinn á mánudeginum. Hann kvaðst ekki hafa rætt við konu sína því þau hafi ekki verið að hugsa um neina sölu á þessum tíma. Hann kannast ekki við neinn samning um leiðréttingu á fyrri sölunni. Hann sagði að bréfin hefðu verið á opnu svæði að þeirra beiðni í rúmt ár. Hann kveðst hafa haft samband við Óttar, forstöðumann hjá Íslandsbanka, þegar andvirði bréfanna var lagt inn á bankareikninginn og Óttar brugðist forviða við. Mætti kvaðst hafa óskað eftir því að fá bréfin til baka. Hlutabréfin komu ekki til baka og mætta minnir að hann hafi fengið bréf frá Íslandsbanka sem tilkynnti að þetta væri hluti af einhverjum kaupum. Hann er þó ekki viss. Það gat verið tölvupóstur, hann er ekki klár á því, en er viss um að hann hringdi í Íslandsbanka. Að mati dómsins er framburður stefnanda ótrúverðugur um að faðir hennar hafi ekki haft umboð frá henni. Framkoma stefnanda eftir söluna styður það að umboð hafi í raun legið fyrir, en stefnandi veitti viðtöku andvirði hlutabréfanna og algjörlega er ósannað að hún hafi gert athugasemdir þar að lútandi. Hefði stefnandi í raun ekki viljað selja bréfin hefði hún hreyft sannanlegum mótmælum og haldið kröfu sinni til streitu. Hér telur dómurinn einnig rétt að líta til þess, að eiginmaður stefnanda tók þátt í viðræðum þeim sem upplýst er að hafi átt sér stað helgina 14. og 15. febrúar 2004. Hann hefur auk þess sérþekkingu á sviði viðskipta. Dómurinn telur að stefnandi hafi haft vitneskju um það sem í gangi var og þá afstöðu sem meðlimir Fiskaneshópsins tóku, þ.e. að selja bréf sín og með því að gera ekki athugasemdir strax hafi hún í raun verið samþykk sölu. Þá telur dómurinn einnig ljóst, að ef stefnandi hefði alls ekki viljað selja bréf sín hefði hún gefið sig sérstaklega fram við lögmann Fiskaneshópsins, sem væntanlega hefði gert sérstakar athugasemdir eða kröfu fyrir hennar hönd í bréfi sínu til stefnda Íslandsbanka hf. 23. febrúar 2004. Þess í stað óskaði lögmaðurinn f.h. Fiskanes-hópsins eftir gögnum, en í bréfinu segir: „Vegna þeirrar óvissu sem ríkir um það hvort samningar hafi tekist um viðskipti í einstökum tilvikum, óska umbj. mínir eftir því að undirrituðum verði send fullnægjandi staðfestingar á öllum viðskiptum umbj. minna sem áttu sér stað á þessum tíma, eftir atvikum með endurritun símtala.“ Stefndi Íslandsbanki hf. veitti þessar upplýsingar og á grundvelli þeirra er krafa stefnanda sett fram í málinu. Þá ber einnig að líta heildstætt á þau viðskipti sem áttu sér stað. Ekki er hægt að líta fram hjá því, að Fiskaneshópurinn kom fram sem heild í viðskiptunum enda byggðust áhrif og völd í fyrirtækinu á því að einstaklingar innan hópsins stæðu saman. Þá virðist sem hver fjölskylda hafi átt sinn fulltrúa, en Gunnar Tómasson talaði við föður stefnanda er hann tilkynni um fyrirhuguð kaup stefndu og eiginmaður stefnanda tók þátt í viðræðum um hugsanleg viðbrögð Fiskaneshópsins við yfirtökunni. Þar af leiðandi telur dómurinn augljóst, að ef einhver innan hópsins hafi ekki ætlað að fylgja þeirri stefnu hópsins að selja bréfin, hefði viðkomandi aðili strax gert gangskör að því að leita réttar síns. Þá er hér einnig á að líta, að stefndi Íslandsbanki hf. hafði fengið upplýsingar frá Eiríki Tómassyni um að samningar hefðu tekist um kaup á öllu hlutafé Fiskaneshópsins og jafnframt beiðni um að Íslandsbanki hf. gengi frá þessum viðskiptum. Stefndu Eiríkur, Gunnar og Gerður halda því fram að hluti af þessu samkomulagi hafi verið að þeir aðilar sem höfðu selt bréf sín á genginu 5,67 fengju hærra gengi á þau og hefur því ekki verið mótmælt af stefnanda. Stefnandi hafði selt 2.000.000 króna að nafnverði og voru þau viðskipti því leiðrétt miðað við gengið 6. Úr því að stefnandi telur sig ekki hafa verið aðila að þessu samkomulagi bar henni að leiðrétta þá færslu sem hún fékk inn á reikning sinn vegna hennar. Vegna þessa samnings sem Eiríkur tjáði Íslandsbanka að náðst hefði við fulltrúa Fiskaneshópsins var haft samband við einstaklinga innan Fiskaneshópsins, þar á meðal föður stefnanda sem tjáði bankanum að hann og fjölskylda hans, þar á meðal stefnandi, myndu selja sín bréf. Stefndi Íslandsbanki hf. hefði ekki getað gengið frá viðskiptunum í þeim tilvikum er hlutabréfin voru vistuð á VS-reikningi í öðrum bankastofnunum, nema atbeini seljanda kæmi til. Í tilviki stefnanda voru bréf hennar vistuð á hinu svokallaða hlutlausa svæði. Stefnandi hafði veitt atbeina sinn til að bréfin yrðu vistuð þar og er það á ábyrgð stefnanda sjálfrar en ekki Íslandsbanka hf. Í ljósi alls þess sem að framan er rakið, hafnar dómurinn þeirri málsástæðu stefnanda að um óheimila ráðstöfun stefnda Íslandsbanka hf. á hlutum stefnanda í Þorbirni Fiskanesi hf. hafi verið að ræða. Þá er órökstutt á hvaða hátt um sé að ræða saknæma háttsemi hjá öðrum stefndu. Í öðru lagi byggir stefnandi á því að stefndi Íslandsbanki hf. hafi vitað um samning annarra stefndu við Granda hf. um kaup á þeirra hlutafé, á þeim tímapunkti er hann sá um miðlun á bréfum Fiskaneshópsins. Þessi fullyrðing stefnanda er að mati dómsins órökstudd. Þvert á móti liggja fyrir í málinu gögn er sýna að gengið var frá kaupum á hlutabréfum Fiskaneshópsins föstudaginn 16. janúar 2004, en kaupin á hlutabréfum Granda hf. áttu sér ekki stað fyrr en daginn eftir. Því er þessari málsástæðu stefnanda hafnað. Þá hafnar dómurinn því að um brot á tilkynningaskyldu hafi verið að ræða, en stefnandi virðist byggja á því að aðrir stefndu en Íslandsbanki hf. hafi keypt hlutabréfin í Þorbirni Fiskanesi fyrri hluta febrúar 2004. Fyrir liggur í málinu, bæði skjalfest svo og í framburði starfsmanna Íslandsbanka hf., að kaupin á hlutabréfunum á þessum tíma gerði stefndi Íslandsbanki hf. í eigin nafni og á eigin ábyrgð og ekki verður annað séð en stefndi Íslandsbanki hf. hafi réttilega staðið að „flöggun“ á þessum tíma. Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að um innherjasvik hafi verið að ræða hjá stefndu. Stefnandi nefnir til stuðnings fullyrðingu sinni, að Þorbjörn Fiskanes hf. hafi yfirtekið allt hlutafé í félaginu Kára GK 146 ehf. Því hafi fjárhagsstaðan verið öllum óljós öðrum en innherjum. Í 1. mgr. 43. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 er skilgreining á innherjaupplýsingum. Samkvæmt ákvæðinu þurfa upplýsingarnar um útgefanda verðbréfa að uppfylla tvenns konar skilyrði til þess að geta talist innherjaupplýsingar. Annars vegar að þær hafi ekki verið gerðar opinberar áður og hins vegar að þær séu líklegar til að hafa áhrif á markaðsverð bréfanna ef þær væru opinberar. Að mati dómsins uppfylla tilvitnuð viðskipti um yfirtöku á Kára GK 146 ehf. ekki þau skilyrði laga um verðbréfaviðskipti til að teljast innherjaupplýsingar. Fyrir liggur í málinu að yfirtakan var tilkynnt til Kauphallar Íslands hf. 10. nóvember 2003. Því var um birtar upplýsingar að ræða. Stefnandi hefur því ekki fært rök fyrir því að um innherjasvik hafi verið að ræða. Þar af leiðandi er málsástæðu stefnanda um innherjasvik og hrun Kínamúrsins hafnað. Þá hafnar dómurinn þeirri málsástæðu stefnanda að um markaðsmisnotkun hafi verið að ræða og að þar með hafi verið brotið gegn 41. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Málsástæða þessi er órökstudd og virðist byggja á þeim misskilningi að aðrir stefndu en Íslandsbanki hf. hafi staðið að kaupum á hlutabréfunum. Þá er þeirri málsástæðu einnig hafnað sem órökstuddri að um brot á trúnaðarskyldu gagnvart almennum hluthöfum hafi verið að ræða, en dómurinn telur, samanber hér að framan, að stefndu hafi ekki búið yfir innherjaupplýsingum. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur dómurinn að sýkna eigi alla stefndu af öllum kröfum stefnanda í málinu. Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað. Við ákvörðun hans ber að líta til þess málskostnaður sem ákveðinn var í málinu nr. E-5035/2004: Jón Gauti Dagbjartsson gegn stefndu þessa máls, en mál það varðar sömu viðskipti og hér eru til umfjöllunar. Málskostnaðurinn telst hæfilega ákveðinn 30.000 krónur til hvers stefnda, Eiríks Tómassonar, Gunnars Tómassonar og Gerðar Sigríðar Tómasdóttur, 25.000 krónur til stefnda Þorbjörns Fiskaness hf. og 100.000 krónur til stefnda Íslandsbanka hf. Af hálfu stefnanda flutti málið Kristinn Bjarnason hrl. Af hálfu stefnda Íslandsbanka hf. flutti málið Hörður Felix Harðarson hrl. Af hálfu stefndu, Eiríks Tómassonar, Gunnars Tómassonar, Gerðar Sigríðar Tómasdóttur og Þorbjörns Fiskaness hf., flutti málið Jóhannes Björnsson hrl. Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. Stefndu, Íslandsbanki hf., Eiríkur Tómasson, Gunnar Tómasson, Gerður Sigríður Tómasdóttir og Þorbjörn Fiskanes hf., eru sýknuð af kröfum stefnanda, Guðrúnar Willardsdóttur. Stefnandi greiði í málskostnað 30.000 krónur til hvers stefnda, Eiríks Tómassonar, Gunnars Tómassonar og Gerðar Sigríðar Tómasdóttur, 25.000 krónur til stefnda Þorbjörns Fiskaness hf. og 100.000 krónur til stefnda Íslandsbanka hf. |
Mál nr. 113/2008 | Vinnuslys Líkamstjón Örorka Skaðabætur Vextir Gjafsókn | H krafði B um skaðabætur vegna slyss sem hún var fyrir í vinnu sinni hjá B. Tildrög slyssins voru þau að H og önnur stúlka fluttu þungt vörubretti á hjólatrillu. Til að forða því að trillan lenti á viðskiptavini urðu þær breyta akstursstefnu trillunnar með þeim afleiðingum að H klemmdist. Óumdeilt er að þungi varningsins á vörubrettinu sem H flutti með trillunni milli staða í verslun B hefði verið u.þ.b. 1,6 tonn. Vitni báru að stúlkurnar hefðu áður flutt farm á milli staða í versluninni á trillunni. Stúlkurnar sögðu þó báðar fyrir dómi að ekki hefði fyrr verið um svo þungan farm að ræða. Talið var sannað með framburði H og samstarfsfólks hennar að stúlkurnar hefðu ekki fengið leiðbeiningar um það hvernig þær hefðu átt að bera sig að við flutninginn. B andmælti þeirri staðhæfingu H að þær hefðu fengið tilmæli um að fara með farminn á trillunni umrætt sinni. B byggði þó ekki á því að ætluð sök H hefði falist í því að hafa notað trilluna umrætt sinn, heldur eingöngu á því að stúlkurnar hefðu farið of hratt yfir. Sönnun um bein fyrirmæli umrætt sinn skipti því ekki máli við úrlausn málsins. Fallist var á með H að verkið hefði verið ofvaxið líkamlegu atgervi hennar og að það hefði verið andsætt a. og d. liðum 1. mgr. 62. gr. laga nr. 46/1980 að fela henni að vinna það. Samkvæmt þessu var B dæmt til að greiða H skaðabætur. Ekki var talið sannað að H og samstarfskona hennar hefðu sýnt af sér gáleysi með því að fara of hratt yfir með trilluna og var því ekki talið efni til að lækka bætur til H vegna eigin sakar. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Símon Sigvaldason héraðsdómari. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. febrúar 2008. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu gagnáfrýjanda og að málskostnaður verði í því tilviki felldur niður. Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 2. maí 2008. Hún krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 5.579.823 krónur með 4,5% ársvöxtum af 905.475 krónum frá 9. júní til 9. október 2004, en af 5.579.823 krónum frá þeim degi til 8. júní 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags allt að frádregnum greiðslum 768.089 krónum 23. febrúar 2006 og 737.167 krónum 25. apríl 2006. Þá krefst gagnáfrýjandi staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um gjafsóknarkostnað og málskostnað. Loks krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en gagnáfrýjanda var hinn 26. maí 2008 veitt gjafsókn vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti. Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Í málinu nýtur engra gagna um gerð trillunnar sem gagnáfrýjandi slasaðist við. Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi meðal annars stutt aðal- og varakröfur sínar með því að gagnáfrýjandi hefði getað beitt búnaði á trillunni til að láta vörubrettið falla niður á gólfið hefði trillan þá stöðvast þegar í stað. Hann byggði ekki á þessari málsástæðu í héraði. Ef hann hefði gert það og gagnáfrýjandi mótmælt henni hefði gefist tilefni til að afla gagna um gerð trillunnar að þessu leyti við meðferð málsins. Málsástæða sem að þessu lýtur telst nú of seint fram komin og kemur ekki til álita við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti. Aðila greinir ekki á um að þungi áburðarins á vörubrettinu, sem gagnáfrýjandi og samstarfsstúlka hennar fluttu með trillunni milli staða í verslun aðaláfrýjanda umrætt sinn, hafi verið um það bil 1,6 tonn. Gagnáfrýjandi og aðrir starfsmenn aðaláfrýjanda, sem komu fyrir dóm, báru að stúlkurnar hefðu áður flutt farm á milli staða í versluninni á trillunni. Stúlkurnar sögðu báðar fyrir dómi að ekki hefði fyrr verið um svo þungan farm að ræða. Gagnáfrýjandi hefur staðhæft að einhver hafi falið þeim að fara með farminn á trillunni umrætt sinn. Aðaláfrýjandi mótmælir þessu sem ósönnuðu. Hann hefur allt að einu byggt á því að algengt hafi verið að gagnáfrýjandi og starfsfélagi hennar hafi flutt vörur innan verslunarinnar á umræddri trillu. Hann hefur ekki byggt á því að ætluð sök gagnáfrýjanda felist í því að hafa notað trilluna umrætt sinn, heldur eingöngu á því að stúlkurnar hafi farið of hratt yfir. Samkvæmt þessu verður lagt til grundvallar að notkun stúlknanna á trillunni til flutnings á áburðarfarminum hafi verið í samræmi við tilætlun aðaláfrýjanda um það hvernig þær leystu starf sitt af hendi. Skiptir þá sönnun um bein fyrirmæli umrætt sinn ekki máli við úrlausn málsins. Við flutning á svo þungum farmi með hjólatrillu er augsýnilega hætta á að verulega líkamskrafta þurfi til að stöðva hana ef eitthvað óvænt hendir. Því verður fallist á með gagnáfrýjanda, sem var 17 ára gömul þegar slysið varð, að verkið hafi verið ofvaxið líkamlegu atgervi hennar og að það hafi verið andstætt a. og d. liðum 1. mgr. 62. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum að fela henni að vinna það. Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur um að aðaláfrýjandi beri skaðabótaábyrgð á tjóni gagnáfrýjanda. Bæði aðaláfrýjandi og vitnin Ingibjörg Anna Sigurðardóttir og Jón Örvar van der Linden notuðu í yfirheyrslum fyrir dómi orðið „gönguhraði“ um hraðann sem var á trillunni þegar slysið varð. Aðaláfrýjandi hefur ekki fært fram sönnur í málinu um að stúlkurnar hafi sýnt af sér gáleysi með því að fara of hratt yfir með trilluna. Eru því ekki efni til að lækka bætur til gagnáfrýjanda vegna eigin sakar. Aðaláfrýjandi mótmælir þeim hætti í dómsorði héraðsdóms og dómkröfum gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti að draga greiðslur örorkubóta úr slysatryggingu launþega og frá Tryggingastofnun ríkisins frá dæmdum skaðabótum miðað við greiðsludaga þessara bóta 23. febrúar og 25. apríl 2006. Byggir hann mótmælin á því að um greiðslur á hluta höfuðstóls kröfunnar hafi verið að ræða og beri því að draga þær frá höfuðstólnum áður en hann tekur að bera vexti. Krafa gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjanda er skaðabótakrafa sem byggist á því sjónarmiði að bæta beri fullt tjón gagnáfrýjanda. Ef fallist yrði á sjónarmið aðaláfrýjanda um þetta efni myndi það leiða til þess að gagnáfrýjandi nyti engra vaxta af þeim hluta kröfu sinnar sem samsvarar fjárhæð þessara greiðslna tímabilið frá tjónsdegi til nefndra greiðsludaga. Verður fallist á með gagnáfrýjanda að vextir samkvæmt kröfu hennar þetta tímabil teljist til fjárhagslegs tjóns hennar og að aðaláfrýjanda beri að bæta henni það. Aðilar deila ekki fyrir Hæstarétti um að upphafsdagur dráttarvaxta skuli vera sá sem greinir í dómsorði hins áfrýjaða dóms. Vaxtakröfu sína frá slysdegi til upphafsdags dráttarvaxtanna byggir gagnáfrýjandi á 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Aðaláfrýjandi fellst á réttmæti þessa háttar við vaxtakröfuna. Verður fallist á hann. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti ákveðst eins og í dómsorði greinir. Aðaláfrýjandi verður með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti í ríkissjóð svo sem kveðið verður á um í dómsorði. Dómsorð: Aðaláfrýjandi, Byko hf., greiði gagnáfrýjanda, Hönnu Bryndísi Heimisdóttur, 5.579.823 krónur með 4,5% ársvöxtum af 905.475 krónum frá 9. júní 2004 til 9. október 2004, en af 5.579.823 krónum frá þeim degi til 8. júní 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags allt að frádregnum greiðslum á 768.089 krónum 23. febrúar 2006 og 737.167 krónum 25. apríl 2006. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað og málskostnað eru óröskuð. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Antons Björns Markússonar hæstaréttarlögmanns, 600.000 krónur. Aðaláfrýjandi greiði 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð. I. Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 30. október sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Hönnu Bryndísi Heimisdóttur, Hólmatúni 3, Álftanesi, gegn Byko hf., Skemmuvegi 2a, Kópavogi, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, til réttargæslu, með stefnu áritaðri um birtingu í maí sl. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi Byko hf. verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.703.723 krónur ásamt vöxtum af 1.029.375 krónum frá 9. júní 2004 til 9. október 2004 og af 5.703.723 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2006 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati réttarins eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál. Þess er jafnframt krafist að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyld. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur á hendur réttargæslustefnda. Við aðalmeðferð málsins gerði stefnandi þær breytingar á kröfum sínum að frá framangreindum dómkröfum dregst innborgun Sjóvár-Almennra trygginga hf. að fjárhæð 768.089 krónur þann 23. febrúar 2006 og greiddar bætur Tryggingastofnunar ríkisins að fjárhæð 737.167 krónur þann 25. apríl 2006. Með bréfi dómsmálaráðherra dagsettu 22. júní 2006 var stefnanda veitt gjafsóknarleyfi vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi. Stefndi Byko hf. gerir þær dómkröfur aðallega hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða málskostnað. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður. Réttargæslustefndi gerir engar kröfur í málinu. II. Stefnandi lýsir málavöxtum þannig að þann 9. júní 2004 hafi hún orðið fyrir slysi við vinnu sína hjá Byko í Breiddinni í Kópavogi. Slysið hafi orðið með þeim hætti að stefnandi flutti á hjólatrillu vörubretti með áburði, um það bil 1,6 tonn að þyngd, inn á lager ásamt annarri ungri stúlku, Ingibjörgu Önnu Sigurðardóttur. Þegar viðskiptavinur hafi orðið á vegi þeirra, hafi stefnandi beygt trillunni til hægri til að rekast ekki utan í manninn. Stúlkurnar hafi hins vegar ekki náð að stöðva brettið sem hafi við það að stefnandi beygði, skollið utan í vegg á milli múrdeildar og kaffihorns verslunarinnar og stefnandi þá klemmst föst þar sem brettið þrýsti henni upp að veggnum. Stefnandi kveðst við slysið hafa orðið fyrir meiðslum á baki, hægri hendi og vinstri fæti. Samkvæmt framlögðu læknisvottorði Einars Hjaltasonar læknis á slysa- og bráðadeild Landspítala kom stefnandi á slysadeild kl. 18:09 þann 9. júní 2004 en tímasetning slyss er skráð kl. 17:50 sama dag. Stefnandi óskaði eftir afstöðu réttargæslustefnda til bótaskyldu stefnda og svaraði réttargæslustefndi fyrirspurn lögmanns stefnanda með tölvupósti 3. nóvember 2004 á þann veg að hann teldi stefnda enga bótaábyrgð bera á slysinu heldur yrði það rakið til óhapps og aðgæsluleysis stefnanda. Afleiðingar slyssins hafa verið metnar af Sigurjóni Sigurðssyni bæklunarlækni í matsgerð dagsettri 30. janúar 2006. Helstu niðurstöður hans eru að varanlegur miski stefnanda sé 15% og varanleg örorka 15%. Þá var það niðurstaða bæklunarlæknisins að stefnandi hafi ekki getað vænst frekari bata eftir 9. október 2004. Þann 1. febrúar 2006 var matsgerð ásamt kröfu send til réttargæslustefnda og þann 23. sama mánaðar gerði réttargæslustefndi upp umrætt slys úr slysatryggingu launþega, stefnanda, með greiðslu 768.089 króna vegna varanlegrar læknisfræðilegrar örorku. Stefndu kveða málsatvik vera að mestu leyti í samræmi við framangreinda lýsingu stefnanda að öðru leyti en því að stefnandi hafi tekið að sér að eigin frumkvæði að flytja vörubrettið en ekki fengið um það bein fyrirmæli frá yfirmönnum sínum. Stefnandi hafi flutt vörubrettið á hjólatrillu ásamt samstarfskonu sinni með þeim hætti að stefnandi hafi gengið á undan og dregið trilluna en Ingibjörg Anna hafi ýtt henni á undan sér. Þegar þær hafi komið fyrir horn hafi stefnandi séð viðskiptavin koma á móti þeim en þá hafi stúlkurnar verið á of miklum hraða til að stöðva trilluna. Stefnandi hafi því ekki náð að bregðast við með réttum hætti með því að beygja frá og stöðva trilluna. Hún hafi farið allt of hratt miðað við þann þunga sem var á trillunni og hafi Jón Örvar van der Linden, þáverandi verslunarstjóri stefnda, kallað á eftir stúlkunum og skipað þeim að hægja ferðina. Stefndi tilkynnti slysið til Vinnueftirlits ríkisins 11. september 2004 en starfsmenn Vinnueftirlitsins rannsökuðu það ekki sérstaklega. III. Af hálfu stefnanda er í fyrsta lagi á því byggt að stefndi Byko hf. beri fulla ábyrgð á slysinu. Samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og skaðabótalögum nr. 50/1993 eigi stefnandi rétt á fullum bótum úr hendi stefnda vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir. Um líkamstjón vísar stefnandi til matsgerðar Sigurjóns Sigurðssonar læknis. Í öðru lagi byggir stefnandi á því að vinnuaðstæður hafi ekki verið fullnægjandi. Stefnandi hafi verið látin vita að fara þyrfti með vörubrettið úr deildinni en það hefði áður verið fært um staðinn með hjólatrillu. Stefnandi hafi ásamt annarri stúlku framkvæmt verkið á þann hátt að önnur ýtti og hin hélt í handfang trillunnar. Þegar stefnandi hafi beðið hina stúlkuna um að hætta að ýta, hafi þær ekki ráðið við þyngd brettisins og slysið orðið. Ljóst sé að umrædd vinnubrögð séu ekki eðlileg þegar flytja þurfi þungan hlut á milli staða í verslun. Stefndi hafi brotið skyldur sínar samkvæmt lögum og reglum um öryggi á vinnustöðum með því að haga vinnuaðstæðum og verklagi með þessum hætti. Stefnandi, sem var ófaglærður starfsmaður, hafi ekkert haft um það að segja hvernig aðstæður á vinnustaðnum voru og hvaða verk henni voru falin. Stefndi hafi haft yfirumsjón með vinnustaðnum og hann því borið fulla ábyrgð á aðstæðum og verkstjórn gagnvart starfsmönnum sínum. Ljóst sé að þessum þáttum hafi verið verulega ábótavant. Stefnandi byggir í þriðja lagi á því að slys stefnanda megi rekja til saknæmrar háttsemi starfsmanns eða starfsmanna stefnda og stefndi beri því bótaábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Í fjórða lagi hafi leiðbeiningar- og aðgæsluskyldu stefnda verið verulega ábótavant. Hafi stefnandi einungis verið 17 ára þegar slysið varð og beri stefndi ábyrgð á því að hún og fleiri unglingar voru látnir vinna verk sem var ofvaxið líkamlegu og andlegu atgervi þeirra. Fyrir hendi hafi verið slysahætta sem gera hefði mátt ráð fyrir að unglingar gætu átt í erfiðleikum með að átta sig á eða forðast vegna andvaraleysis eða skorts á reynslu eða þjálfun. Stefndi hafi brotið gegn ákvæðum a- og d-liða 62. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum tengdum þeim. Stefndi hafi ekki gætt þess með fullnægjandi hætti að unglingum væru ekki falin slík hættuleg verk. Slysið verði rakið til þess að stefnanda var falið verk sem var ekki við hennar hæfi og það að henni var falið verkið, megi rekja til fyrrgreinds skorts á leiðbeiningum og aðgæslu af hálfu stefnda. Þá hafi eftirliti með störfum stefnanda verið ábótavant. Í fimmta lagi mótmælir stefnandi því að um óhappatilviljun hafi verið að ræða. Ástæða slyssins sé sú að stefnanda hafi verið falið verk sem henni var ofviða og hefði réttilega átt að fela það eldri og reynslumeiri starfsmönnum. Í lögum nr. 46/1980 sé skýrt kveðið á um að óheimilt sé að ráða ungmenni til vinnu sem unnin sé við slíkar aðstæður. Verði það að teljast saknæm háttsemi stefnda að hafa engu að síður ráðið ungmenni til þessara starfa og beri stefndi alfarið ábyrgð á því. Af þessu leiði að stefndi beri fulla ábyrgð á tjóni því sem stefnandi varð fyrir umrætt sinn og vísar stefnandi því alfarið á bug að hún hafi ekki sýnt nægilega aðgæslu eða að slysið megi rekja til eigin sakar hennar að einhverju leyti. Loks vísar stefnandi til þess að hvorki lögregla né Vinnueftirlit ríkisins hafi verið kölluð til þegar slysið varð eins og skylt sé lögum samkvæmt og beri því stefndi hallann af sönnunarskorti um aðstæður og tildrög slyssins. Stefnandi miðar dómkröfur sínar við að henni beri fullar skaðabætur úr hendi stefnda og að skaðabæturnar eigi að taka mið af framlagðri matsgerð þar sem fram komi að varanleg örorka hennar sé 15% og varanlegur miski 15%. Dómkröfurnar sundurliðast þannig: Frá dragist innborgun réttargæslustefnda þann 23. febrúar 2006 að fjárhæð 768.089 krónur auk þess sem bætur frá Tryggingastofnun ríkisins þann 25. apríl 2006 að fjárhæð 737.167 krónur dragist einnig frá kröfufjárhæðinni. Stefnandi kveður bætur fyrir varanlega örorku vera reiknaðar út á grundvelli lágmarkslauna samkvæmt skaðabótalögum. Þjáningabætur og bætur vegna varanlegs miska séu uppreiknaðar fram til 1. febrúar 2006 þegar örorkumat Sigurjóns Sigurðssonar læknis var sent til réttargæslustefnda og krafist var bóta úr slysatryggingu launþega vegna slyssins en skaðabótaskyldu hafi verið hafnað fyrir þann tíma. Krafist sé greiðslu vaxta vegna miska og þjáninga frá tjónsdegi þann 9. júní 2004 til 1. febrúar 2006 og vegna varanlegrar örorku frá stöðugleikapunkti þann 9. október 2004 til 1. febrúar 2006 en á þeim tíma hafi matsgerð Sigurjóns Sigurðssonar læknis verið send til réttargæslustefnda. Dráttarvaxta sé krafist samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra reglna skaðabótaréttar, þ.á m. reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Þá vísar stefnandi til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglna settum með stoð í lögunum. Um aðild stefnda Byko hf. er vísað til III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en aðild réttargæslustefnda er byggð á 21. gr. sömu laga. Um varnarþing vísar stefnandi til V. kafla einkamálalaga og um málskostnað til ákvæða 129. og 130. gr. laganna. Kröfu um virðisaukaskatt reisir stefnandi á ákvæðum laga nr. 50/1988, kröfu um vexti á 16. gr. skaðabótalaga og kröfu um dráttarvexti á vaxtalögum. IV. Stefndi Byko hf. byggir aðalkröfu sína um sýknu annars vegar á því að ósannað sé að tjónið megi rekja til saknæmrar háttsemi stefnda eða starfsmanna hans eða annarra atvika sem stefndi beri ábyrgð á en hins vegar á því að stefnandi verði sjálf að bera tjón sitt að fullu vegna eigin sakar. Byggir stefndi á því að orsök tjóns stefnanda hafi verið óhappatilviljun og/eða óaðgæsla hennar sjálfrar. Stefndi byggir á því að ósannað sé að tjón stefnanda megi rekja til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns. Mótmælir stefndi því að skilyrði séu til að víkja frá þeirri meginreglu og leggja sönnunarbyrðina á stefnda. Stefndi hafi tilkynnt slysið til Vinnueftirlits ríkisins 11. september 2004 en það hafi ekki komið á vettvang til að rannsaka slysið frekar. Geti stefndi enga ábyrgð borið á starfsháttum Vinnueftirlitsins og geti því ekki borið hallann af ætluðum sönnunarskorti um tildrög slyssins. Þá mótmælir stefndi því að hann beri hallann af því að hafa ekki tilkynnt um slysið fyrr en raun varð. Fyrir liggi að stefnanda var ekið á bráðamóttöku Landspítala strax eftir slysið en hún hafi mætt aftur til vinnu mánudaginn 14. júní 2004 og því aðeins verið frá vinnu í tvo daga. Hafi ekkert gefið stefnda ástæðu til að tilkynna fyrr um slysið þar sem ekkert benti til þess að stefnandi hefði orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni, sbr. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980. Þá hafi aðstæður á vinnustaðnum og tildrög slyssins verið að fullu upplýst og hefði það því engu breytt þótt tilkynning hefði borist Vinnueftirlitinu fyrr. Þar fyrir utan geti það ekki haft áhrif á sönnunarfærslu í málinu þótt tilkynning hafi ekki borist fyrr en 11. september 2004 þar sem Vinnueftirlitið mæti almennt ekki á vinnustaði til að rannsaka tildrög slysa ef nokkrir dagar líða frá slysi og þar til tilkynning um það berst. Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að vinnuaðstæður, verkstjórn og leiðbeiningar hafi verið ófullnægjandi. Ekkert sé óeðlilegt við það að vörubretti séu flutt til innan verslunar og lagers með hjólatrillum og hafi það viðgengist oft áður án vandkvæða og slysa. Um sé að ræða tiltölulega einfalt starf sem krefjist lítillar þekkingar eða reynslu. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi áður notað hjólatrilluna m.a. til þess að flytja vörubretti með áburði eins og komi fram í lögregluskýrslu sem tekin var af stefnanda. Stefnandi hafi því haft reynslu af þvílíkum flutningum á hjólatrillu og hefði hún aldrei gert athugasemdir við þessa tilhögun eða neitað slíkri vinnu sem henni hefði þó verið í lófa lagið að gera ef hún taldi vinnuaðstæður óforsvaranlegar. Engir aðrir starfsmenn stefnda hafi gert athugasemdir við þessa vinnuaðferð og hafi hún því síður en svo verið hættuleg eða til þess fallin að valda hættu. Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að stefnanda hafi verið falið af yfirmanni sínum eða verkstjóra að flytja vörubrettið umrætt sinn. Í lögregluskýrslu sem tekin var af stefnanda komi fram að hún hafi ekki fengið bein fyrirmæli um að færa brettið heldur hafi hún og Ingibjörg Anna ákveðið að færa það að eigin frumkvæði. Stefnanda hafi því ekki verið sérstaklega falið þetta verkefni. Þá mótmælir stefndi því að leiðbeiningar- og aðgæsluskyldu stefnda hafi verið ábótavant. Umrætt verk hafi ekki falið í sér flókna framkvæmd sem krafist hafi sérþekkingar eða sérstakrar reynslu. Þá mótmælir stefndi því sérstaklega að verkið hafi verið ofvaxið líkamlegu og andlegu atgervi stefnanda, sbr. a-lið 1. mgr. 62. gr. laga nr. 46/1980, eða að stefnandi hafi verið of ung til að sinna starfinu, sbr. d-lið 1. mgr. sömu lagagreinar. Ákvæði 63. gr. laganna eigi ekki við í þessu tilviki. Í ljósi þess að um mjög einfalt verk var að ræða og að stefnandi hafði áður leyst það af hendi, sé útilokað að fallast á að stefnanda hafi stafað sérstök hætta af starfinu. Þá beri einnig að líta til þess að stefnandi hafði starfað hjá stefnda í rúm tvö ár þegar slysið varð og því hafi hún haft töluverða starfsreynslu þrátt fyrir ungan aldur. Stefndi tekur fram að Jón Örvar van der Linden, þáverandi starfsmaður stefnda, hafi fyrirskipað stefnanda og Ingibjörgu Önnu að draga úr hraða þegar þær voru að flytja vörubrettið umrætt sinn en þær hafi ekki sinnt því. Þá hafi Magnús Andrésson, þáverandi aðstoðarverslunarstjóri, einnig ítrekað áminnt ungt starfsfólk stefnda, þ.á m. stefnanda, um að fara varlega með hjólatrilluna og nota hana alls ekki sem leiktæki. Reynt sé eftir fremsta megni að tryggja öryggi starfsmanna stefnda og takmarka slysahættu á vinnustaðnum og alltaf hafi verið brugðist við athugasemdum starfsmanna. Af framansögðu telur stefndi ljóst að ekki liggi annað fyrir en að aðbúnaður á vinnustaðnum hafi verið fullnægjandi og að ekki hefði verið fyrir hendi sérstök slysahætta ef stefnandi hefði gætt að sér eins og hún hafði verið hvött til. Slys stefnanda verði því alfarið rakið til óhappatilviljunar og/eða atvika sem stefndi geti ekki borið ábyrgð á. Stefndi byggir jafnframt á því að tjón stefnanda megi að öllu leyti rekja til aðgæsluleysis hennar sjálfrar. Hún hafi verið að flytja töluverðan þunga á hjólatrillu og hafi af þeim sökum borið að fara hægt og varlega enda ljóst að erfitt geti reynst að stöðva hjólatrillu þegar hún hefur náð miklum hraða ef þungi hennar er mikill og þetta hafi stefnanda mátt vera ljóst. Hún hafi engu að síður farið alltof geyst með trilluna þannig að hún hefði illa geta brugðist við þegar viskiptavinurinn birtist. Þegar litið sé til þess og framburðar Ingibjargar Önnu hjá lögreglu um að hún væri ekki viss um að karlmaður hefði getað komið í veg fyrir slys sem þetta, sé ljóst að hraðinn hafi verið umtalsverður og alltof mikill miðað við þungann á vörubrettinu. Stefndi bendir á að stefnanda hefði, í ljósi starfsreynslu sinnar og þekkingar, auk ítrekaðra tilmæla yfirmanna hennar um aðgæslu, mátt vera fullkunnugt um aðstæður og mátt vera ljóst að hún þyrfti að sýna aðgát við vinnuna. Af öllu framangreindu sé því ljóst að slysið og það tjón, sem stefnandi varð fyrir í kjölfarið, verði alfarið rakið til eigin sakar stefnanda. Varakröfu sína um verulega lækkun rökstyður stefndi með þrennum hætti. Í fyrsta lagi byggir hann á því að bætur beri að lækka verulega vegna eigin sakar stefnanda eins og áður er rakið. Í öðru lagi mótmælir stefndi kröfu stefnanda um þjáningabætur sem of hárri enda sýni gögn málsins að stefnandi var óvinnufær í tvo daga eftir slysið, þ.e. 10. og 11. júní 2004, en hún hafi mætt á ný til vinnu 14. sama mánaðar. Byggir stefndi á því að stefnandi geti aðeins talist veik í skilningi 3. gr. skaðabótalaga á því tímabili. Að þessu virtu sé því mótmælt að stefnandi geti átt rétt á þjáningabótum fyrir lengra tímabil en tvo daga og geti bæturnar því aðeins numið 2.100 krónum. Í þriðja lagi sé dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt frá fyrra tímabili en 8. júní 2007 þegar mánuður var liðinn frá því að kröfubréf stefnanda var sent stefnda, sbr. ákvæði 9. gr. vaxtalaga. Um lagarök vísar stefndi einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, gáleysi og eigin sök tjónþola, auk skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, og vaxtalaga nr. 38/2001. V. Ekki er í máli þessu deilt um afleiðingar slyss þess sem stefnandi varð fyrir 9. júní 2004. Hins vegar greinir aðila á um það hver eigi sök á slysinu og þá hefur stefndi einnig mótmælt viðmiðun stefnanda að því er varðar tímalengd á óvinnufærni hennar í kjölfar slyssins sem og upphafsdegi dráttarvaxta. Óumdeilt er að stefnandi, sem þá var 17 ára, varð fyrir tjóni þegar hún og Ingibjörg Anna, samstarfskona hennar, fluttu á hjólatrillu vörubretti með 1,6 tonni af áburði og stefnandi klemmdist við að breyta akstursstefnu hjólatrillunnar til að forða því að trillan lenti á viðskiptavini. Hjá stefnanda hefur komið fram að hún hafi unnið hjá stefnda með skóla og í sumarvinnu um tveggja ára skeið. Bæði stefnandi og Ingibjörg Anna kváðust fyrir dóminum margoft hafa flutt vörur á trillum en fullyrtu jafnframt að þær hefðu aldrei áður flutt svo þunga byrði sem raunin var umrætt sinn. Við skýrslutöku hjá lögreglu 5. apríl 2005 sagði stefnandi að hún hefði ekki fengið bein fyrirmæli um að færa brettið en að það hafi verið sagt að brettið þyrfti að fara úr árstíðadeildinni þar sem hún vann. Vitnið Ingibjörg Anna sagði við skýrslutöku hjá lögreglu 8. apríl 2005 að hún myndi hvorki hvort einhver hefði sagt þeim stefnanda að færa brettið né hvort það þyrfti að færa það. Bæði stefnandi og Ingibjörg Anna báru fyrir dóminum að þær hefðu fengið fyrirmæli um að flytja brettið án þess að þær gætu sagt til um það hver gaf þau. Lögregluskýrslur voru ekki teknar af stúlkunum fyrr en rúmum þremur ársfjórðungum eftir að slysið varð en fram er komið að stefndi tilkynnti Vinnueftirliti ríkisins ekki um atvikið fyrr en 11. september 2004. Telja verður að stefnda hafi borið að tilkynna slysið án ástæðulausrar tafar samkvæmt ákvæðum 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þótt ekki liggi fyrir hver gaf stúlkunum tveimur fyrirmæli um flutninginn umrætt sinn, verður að miða við lýsingu þeirra fyrir dóminum um að þær hafi fengið fyrirmæli, bein eða óbein, um að færa hið þunga áburðarbretti. Stúlkunum bar saman um að þær hefðu ekki fengið leiðbeiningar um það hvernig þær ættu að bera sig að við flutninginn og fær sá framburður stoð í vætti Jóns Örvars van der Linden, þáverandi aðstoðarverslunarstjóra, um að engum væri kennt sérstaklega á svokallaða vinnutjakka eða trillur þar sem talið væri að slík tæki væru einföld í notkun og að ungum starfsmönnum væri ekki heldur leiðbeint um að fara ekki hratt. Jafnframt kom fram hjá vitninu Magnúsi Andréssyni, fyrrverandi verslunarstjóra Byko hf., að starfsmenn fengju hvorki þjálfun né sérstaka kennslu þegar þeir hæfu störf. Með framangreindum framburði stefnanda og vætti vitna er í ljós leitt að stúlkurnar fengu ekki leiðbeiningar um flutninginn umrætt sinn. Fram kom hjá stefnanda að hún hefði unnið hjá stefnda í sumarleyfum og með skóla í tvö ár þegar slysið varð og kvaðst hún margoft hafa flutt vörubretti á trillum en hún hefði þó aldrei flutt svo mikinn þunga. Vitnið Ingibjörg Anna bar á sama veg um að hún hefði aldrei áður flutt svo þunga byrði með trillu. Hún kvað hafa verið mjög erfitt að koma trillunni af stað vegna þungans. Óumdeilt er að áburðurinn var 1,6 tonn að þyngd. Það starf, sem stefnandi vann umrætt sinn, er í senn einfalt en gat verið hættulegt ef ekki var gætt fyllstu varúðar. Þótt stefnandi hefði margoft notað hjólatrillu eins og þá, sem notuð var umrætt sinn, er það mat dómsins að með hliðsjón af ungum aldri stefnanda og óvenjulega þungum varningi sem flytja átti, að stefnda hafi sem vinnuveitanda stefnanda borið að gæta þess að þær stefnandi og Ingibjörg Anna fengju leiðbeiningar við umræddan flutning. Eins og áður er fram komið er óumdeilt að stefnandi varð fyrir tjóni þegar hún gat ekki stöðvað hjólatrilluna með þeim afleiðingum að stefnandi klemmdist milli trillunnar og veggjar. Í ljósi framanritaðs verður því að fallast á það með stefnanda að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni því sem stefnandi varð fyrir vegna slyssins. Samkvæmt vætti Jóns Örvars og Magnúsar, fyrrverandi starfsmanna stefnda, var hjólatrillan umrætt sinn á of miklum hraða miðað við þunga áburðarins sem á henni var. Einnig kom fram hjá Jóni Örvari að hann hefði kallað til þeirra stefnanda og Ingibjargar Önnu og sagt þeim að hægja ferðina. Í ljósi þessa verður fallist á það með stefnda að slysið megi að einhverju leyti rekja til aðgæsluleysis stefnanda sem hafi mátt gera sér nokkra grein fyrir því að við flutning svo þungrar vöru sem hér um ræðir, bæri að sýna sérstaka aðgæslu. Verður stefnanda því gert að bera tjón sitt vegna eigin sakar að 1/5 hluta. Ekki er ágreiningur með aðilum um mat á varanlegum miska að fjárhæð 901.275 krónur og varanlegri örorku að fjárhæð 4.674.348 krónur og verður því við þær fjárhæðir miðað. Hins vegar hefur stefndi mótmælt kröfu stefnanda um þjáningabætur sem of hárri með vísan til þess að hún eigi einungis rétt á þjáningabótum fyrir þá tvo daga sem hún var frá vinnu. Fallist er á það með stefnda að stefnandi á einungis rétt til þjáningabóta fyrir það tímabil sem hún telst óvinnufær í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Gögn málsins eru ekki á einn veg um óvinnufærni stefnanda í kjölfar slyssins. Í framlagðri matsgerð segir að við mat á tímabili þjáninga sé miðað við að ekki hafi orðið breytingar á líðan stefnanda um það bil 4 mánuðum eftir slysið og sé stöðugleikapunktur því miðaður við það tímamark. Niðurstaða læknisvottorðs frá því í desember 2004 er sú að stefnandi hafi verið óvinnufær í 10 daga eftir slysið. Við aðalmeðferð málsins kvaðst stefnandi hins vegar hafa mætt til vinnu aftur 2 dögum eftir slysið og fram kemur í gögnum málsins að veikindi voru skráð á hana í skráningarkerfi stefnda 10. og 11. júní 2004 og kemur þar jafnframt fram að stefnandi hafi komið til starfa mánudaginn 14. júní sama ár. Þá er í tilkynningu stefnda til Vinnueftirlits ríkisins dagsettri 11. september sama ár tiltekið að fjarverudagar stefnanda hafi verið fjórir og loks segir í tilkynningu stefnda til Sjóvár-Almennra trygginga hf. dagsettri 1. október sama ár að fjarvera vegna slyssins hafi verið 10. til 14. júní. Að þessu virtu verður talið að miða beri við síðastnefnd gögn, sem stafa frá stefnda sjálfum, og á stefnandi því rétt á þjáningabótum miðað við fjóra daga að fjárhæð 4.200 krónur. Samkvæmt framansögðu telst tjón stefnanda nema 5.579.823 krónum. Af því ber stefnda að greiða stefnanda 4/5 hluta eða 4.463.858 krónur. Kröfu stefnanda um vexti er ekki mótmælt og verður hún því tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði. Með vísan til ákvæða 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 verður krafa stefnanda um dráttarvexti tekin til greina frá 8. júní 2007 eins og nánar greinir í dómsorði. Frá dragast tvær innborganir, annars vegar innborgun Sjóvár-Almennra trygginga hf. að fjárhæð 768.089 krónur þann 23. febrúar 2006 og innborgun vegna bóta Tryggingastofnunar ríkisins að fjárhæð 737.167 krónur þann 25. apríl 2006. Í dómi þessum er ekki tekin afstaða til þess hvernig standa eigi að endanlegu uppgjöri á kröfu stefnanda. Er þar um til þess að líta að fyrir því er langvarandi venja að í dómi um peningakröfu, sem greidd hefur verið að hluta, sé látið við það sitja að kveða á um skyldu skuldara til að greiða upphaflegan höfuðstól kröfunnar með nánar tilgreindum vöxtum, án þes að mælt sé berum orðum fyrir um af hvaða fjárhæð þeir skuli reiknast á hverjum tíma, en allt að frádreginni einni eða fleiri innborgunum, sem hafi verið inntar af hendi á tilteknum dögum. Er þá gengið út frá því að við endanlegt uppgjör kröfunnar verði að öðru jöfnu farin sú leið að reikna út stöðu kröfunnar eins og hún var hverju sinni þegar innborganir voru inntar af hendi og þeim ráðstafað til að greiða fyrst áfallinn kostnað og vexti, en að þeim liðum frágengnum gangi þær til lækkunar á höfuðstól kröfunnar, sem borið geti vexti upp frá því. Má um þetta vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 230/2002. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hennar, Óðins Elíssonar hdl., sem telst hæfilega ákveðin 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagður kostnaður 29.550 krónur, skal greiddur úr ríkissjóði. Stefndi Byko hf. greiði 829.550 krónur í málskostnað sem rennur í ríkissjóð. Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D ó m s o r ð : Stefndi, Byko hf., greiði stefnanda, Hönnu Bryndísi Heimisdóttur, 4.463.858 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 af 724.380 krónum frá 9. júní 2004 til 9. október 2004 og af 4.463.858 krónum frá þeim degi til 8. júní 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 23. febrúar 2006 að fjárhæð 768.089 krónur og innborgun 25. apríl 2006 að fjárhæð 737.167 krónur. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hennar, Óðins Elíssonar hdl., 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagður kostnaður 29.550 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Stefndi Byko hf. greiði 829.550 krónur í málskostnað sem rennur í ríkissjóð. |
Mál nr. 287/2015 | Ærumeiðingar Málshöfðunarfrestur Skaðabætur Gjafsókn | Í málinu krafðist A þess að B yrði dæmd til refsingar fyrir að hafa viðhaft nánar tilgreind ummæli um sig í skýrslutökum hjá lögreglu og að B yrði gert að greiða sér miskabætur. Í forsendum héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að vísa bæri refsikröfum A frá dómi þar sem sá sex mánaða frestur sem kveðið er á um í 1. mgr. 29. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 til höfðunar einkarefsimáls hafði verið liðinn er málið var höfðað. Talið var að þótt þessa hefði ekki verið getið í dómsorði, eins og rétt hefði verið samkvæmt 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, yrði að líta svo á að héraðsdómur hefði vísað kröfunum frá dómi. Þar sem A hafði ekki leitað endurskoðunar á þessu ákvæði með kæru var talið að umræddar refsikröfur kæmu ekki til úrslausnar fyrir Hæstarétti. Um miskabótakröfu A sagði Hæstiréttur að höfði sá, sem sakaður hefði verið um kynferðisbrot en það mál verið fellt niður, meiðyrðamál á grundvelli þeirra ummæla einna, sem kærandi hefði látið falla hjá lögreglu, væri ótækt að sönnunarbyrðin yrði lögð á stefnda í slíku máli þar sem staðhæfing stæði gegn staðhæfingu um hvað raunverulega hefði gerst. Þess í stað yrði þegar svo stæði á að gera þá kröfu til stefnanda að hann leiddi líkur að því að ekki hefði verið tilefni til að setja fram ásakanirnar, auk þess sem stefndi hefði gert það gegn betri vitund. Talið var að A hefði ekki leitt líkur að slíku í máli þessu og var B því sýknuð. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 6. febrúar 2015. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 25. mars sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 20. apríl 2015. Áfrýjandi krefst þess að stefnda verði dæmd til refsingar, aðallega samkvæmt 235. gr. og 1. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara samkvæmt 234. gr. sömu laga, fyrir að hafa viðhaft nánar tilgreind ummæli um sig í skýrslutöku hjá lögreglu 24. janúar 2011, 17. ágúst sama ár og 21. september 2012. Þá krefst áfrýjandi þess að stefndu verði gert að greiða sér 5.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. janúar 2011 til 20. apríl 2013, en dráttarvöxtum eftir 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefnda krefst þess aðallega að refsikröfu áfrýjanda verði vísað frá Hæstarétti og hinn áfrýjaði dómur staðfestur að öðru leyti, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur. Þá krefst hún málskostnaðar hér fyrir dómi án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. Í forsendum hins áfrýjaða dóms er komist að þeirri niðurstöðu að vísa beri kröfum áfrýjanda um refsingu frá héraðsdómi þar sem frestur til að höfða mál til refsingar vegna áðurgreindra ummæla stefndu hafi verið liðinn þegar mál þetta var höfðað, sbr. 29. gr. almennra hegningarlaga. Þótt þessa sé ekki getið í dómsorði, eins og rétt hefði verið samkvæmt 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður litið svo á að með þessu hafi héraðsdómur vísað kröfunum frá dómi, svo sem lög stóðu til. Þar sem áfrýjandi leitaði ekki endurskoðunar á þessu ákvæði með kæru, sbr. j. lið 1. mgr. 143. gr. síðastgreindra laga, koma umræddar kröfur ekki til úrlausnar hér fyrir dómi. Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir bar stefnda fram kæru á hendur áfrýjanda þar sem hún sakaði hann um að hafa nauðgað sér þrisvar í desember 2010 og janúar 2011 á veitingastað sem hann átti og rak og þar sem hún starfaði á þeim tíma. Við skýrslutöku hjá lögreglu í tilefni af þeirri kæru og kæru áfrýjanda á hendur henni vegna rangra sakargifta í hans garð viðhafði stefnda þau ummæli sem krafist er miskabóta fyrir. Síðar afhenti áfrýjandi lögreglu hljóðupptöku af samtali sínu við stefndu sem mun hafa átt sér stað í bifreið hans og hann taldi að fæli í sér sönnun um að hún hefði gegn betri vitund borið hann röngum sökum. Í kjölfar þess að áfrýjandi kom upptökunni á framfæri við lögreglu var tekin skýrsla af stefndu 22. ágúst 2013 þar sem hún ítrekaði að áfrýjandi hefði nokkrum sinnum haft kynferðismök við sig án samþykkis síns. Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi við aðalmeðferð þessa máls kvaðst stefnda hafa verið hrædd við áfrýjanda og óttast um líf sitt þegar samtal þeirra hafi farið fram að hans frumkvæði. Að þessu virtu verður að líta framhjá því, sem fram kemur á framangreindri hljóðupptöku, þegar leyst er úr málinu. Höfði sá, sem sakaður hefur verið um kynferðisbrot en það mál verið fellt niður, meiðyrðamál á grundvelli þeirra ummæla einna, sem kærandi hefur látið falla hjá lögreglu, er ótækt að sönnunarbyrðin verði lögð á stefnda í slíku máli þar sem staðhæfing stendur gegn staðhæfingu um hvað raunverulega gerðist. Þess í stað verður þegar svo stendur á að gera þá kröfu til stefnanda að hann leiði líkur að því að ekki hafi verið tilefni til að setja fram ásakanirnar, auk þess sem stefndi hafi gert það gegn betri vitund. Samkvæmt því, sem áður er rakið, og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms hefur áfrýjandi ekki leitt líkur að slíku í máli því sem hér um ræðir. Verður héraðsdómur af þeim sökum staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð eins og nánar greinir í dómsorði. Gjafsóknarkostnaður stefndu hér fyrir dómi greiðist úr ríkissjóði, svo sem fram kemur í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, A, greiði 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður stefndu, B, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2014. I. Mál þetta, sem dómtekið var 13. október sl., er höfðað af A, [...], [...], á hendur B, [...], [...], með stefnu birtri 20. mars 2013. Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til refsingar fyrir að hafa gegn betri vitund viðhaft ærumeiðandi aðdróttanir um stefnanda, sem fólust í að stefnandi hefði þrívegis nauðgað henni og beitt konur ítrekað kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi, í skýrslutökum hjá lögreglu þann 24. janúar 2011, 17. ágúst 2011 og 21. september 2012 og þannig brotið gegn 234. gr., 235. gr. og 1. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna „með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. janúar 2011 til greiðsludags en að mánuði liðnum frá birtingu bótakröfu er krafist dráttarvaxta skv. 6. gr., sbr. 5. gr. til greiðsludags“. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins. Stefnda krefst þess að hún verði alfarið sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða henni málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og ekki væri um gjafsóknarmál að ræða. II. Hinn 24. janúar 2011 kærði stefnda stefnanda til lögreglunnar í Reykjavík fyrir að hafa þrisvar nauðgað sér á tímabilinu desember 2010 til janúar 2011 á veitingastaðnum [...] í [...]. Stefnandi var á þeim tíma eigandi veitingastaðarins [...], sem rak umræddan veitingastað, og var hann jafnframt framkvæmdastjóri staðarins. Stefnda mun á þeim tíma hafa starfað á veitingastaðnum en stefnandi skýrði svo frá í lögregluskýrslu að hún hefði þann starfa að „drekka áfengi með kúnnum“. Á grundvelli kæru stefndu féllst Héraðsdómur Reykjavíkur hinn 16. febrúar 2011 á beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að heimila húsleit á heimili stefnanda og á veitingastaðnum [...]. Fór húsleitin fram hinn 24. sama mánaðar auk þess sem stefnandi var handtekinn kl. 09.14 þann dag. Hald var lagt á tölvugögn við leitina meðal annars til athugunar á því hvort þar væri klámefni að finna, en fyrir liggur að ekkert slíkt fannst við þá skoðun. Að lokinni yfirheyrslu kl. 16.22 sama dag var stefnda sleppt úr haldi lögreglu. Eftir frekari skýrslutökur lögreglu og rannsókn málsins, meðal annars athugun á upptökum úr öryggismyndavélum veitingastaðarins, tilkynnti lögreglustjóri stefnanda, með bréfi, dags. 31. ágúst 2011, að ekki þætti lengur grundvöllur fyrir frekari rannsókn málsins og að henni hefði því verið hætt. Í framhaldi af því, eða með bréfi, dags. 2. desember sama ár, lagði stefnandi fram kæru hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á hendur stefndu og eiginmanni hennar fyrir rangar sakargiftir skv. 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ærumeiðingar skv. 236. gr. sömu laga. Var kæru þessari upphaflega vísað frá hinn 30. apríl 2012, með vísan til þess að það væri mat lögreglustjóra að ekki væru efni til að hefja lögreglurannsókn á hinum meintu brotum. Stefnandi kærði hins vegar þessa ákvörðun lögreglustjórans til ríkissaksóknara, sem felldi hana úr gildi með bréfi dags. 15. júní sama ár. Var þar lagt fyrir lögreglustjóra að taka skýrslur af kærðu í málinu og bera undir þau sakarefnið. Skýrsla var tekin hjá lögreglu af stefnanda sem kæranda þess máls hinn 14. september sama ár, þar sem hann áréttaði kæruna. Jafnframt lagði hann fram til sönnunar á sakleysi sínu vegna nauðgunarkærunnar skýrslu af manni, sem skýrt hefði frá því hjá lögreglu að eiginmaður stefndu hefði ætlað að kúga fimm milljónir króna út úr honum vegna málsins. Við skýrslutökur af stefndu 21. og 22. sama mánaðar neitaði hún sök og sagðist standa við sinn framburð sem hún hefði áður gefið hjá lögreglu um að stefnandi hefði nauðgað sér í þrígang á skrifstofu hans á umræddum veitingastað. Hefði hvorki eiginmaður hennar né nokkur annar haft áhrif á þann framburð. Með bréfi lögreglustjóra, dags. 2. nóvember 2012, tilkynnti hann aðilum á ný, með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að frekari rannsókn málsins hefði verið hætt. Kærði stefnandi þá ákvörðun til ríkissaksóknara með bréfi, dags. 16. sama mánaðar, en ríkissaksóknari staðfesti þá ákvörðun lögreglustjórans hinn 17. desember sama ár. Við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af báðum aðilum málsins og jafnframt vitnunum C, D, E, F og G. III. Stefnandi kveðst byggja dómkröfur sínar á því að stefnda hafi í samráði við eiginmann sinn reynt að setja á svið atburðarás í því skyni að valda stefnanda fjárhagslegu og persónulegu tjóni. Hafi hún með ummælum sínum hjá lögreglu gróflega vegið að stefnanda. Hún hafi borið stefnanda alvarlegum sökum, virðingu hans og æru til hnekkis. Sé því haldið fram að ummæli stefndu í heild eða í einstökum atriðum hafi falið í sér ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda og brotið gegn friðhelgi hans. Ummælin séu röng, sett fram gegn betri vitund og feli í sér brot gegn 235. gr. og 1. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga. Með ummælum sínum hafi stefnda komið því til leiðar að stefnandi hafi þurft að sæta frelsissviptingu og sitja undir ásökunum um að hafa framið brot sem varðað geti allt að 16 ára fangelsisvist. Misræmi, sem komið hafi fram í framburði stefndu hjá lögreglu, afhending fatnaðar til lögreglu sem hún hafi ekki klæðst þegar meint brot hafi átt að vera framin og lýsingar á áverkum sem ekki geti staðist bendi til þess að annarlegar hvatir hafi legið að baki þessum ásökunum hennar. Sé því hafnað að það leysi stefndu undan ábyrgð vegna ærumeiðinga að um sé að ræða ummæli sem höfð hafi verið uppi við skýrslutöku hjá lögreglu vegna nauðgunarkæru hennar, enda hefði hún og viðhaft þar ummæli um að stefnandi hefði ítrekað beitt aðrar konur kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi. Þá breyti heldur engu í þessu sambandi að ríkissaksóknari hafi ekki viljað ákæra stefndu fyrir rangar sakargiftir. Á því sé og byggt að með ummælum sínum hafi stefnda brotið freklega gegn friðhelgi einkalífs stefnanda, sem njóti verndar skv. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Feli brotin í sér ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda og því hafi stefnda fellt á sig miskabótaábyrgð, sbr. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. IV. Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að framburður hennar við skýrslutökur hjá lögreglu hafi verið sannleikanum samkvæmur. Kveðst hún hafa átt mjög erfitt með að segja frá þessum atburðum og kæra þá til lögreglu, einkum vegna þess að eiginmaður hennar og stefnandi hafi verið góðir vinir á umræddum tíma og hafi hún því ekki viljað særa eiginmann sinn með frásögn sinni. Eiginmaðurinn hafi hins vegar séð að henni leið mjög illa og hafi hann því farið með hana á bráðamóttöku Landspítalans þar sem hún hafi verið lögð inn. Í kjölfarið hafi hann farið með hana til Stígamóta þar sem hún hafi verið hvött til að kæra. Stefndu hafi hvorki verið ljúft né létt að segja frá þessum atburðum og beri skýrslur hennar hjá lögreglu því vitni, ásamt því að túlkunarerfiðleikar hafi leitt til talsverðs misskilnings og rangfærslna í skýrslunum. Staðfest sé með fyrirliggjandi vottorði frá yfirlækni geðdeildar Landspítalans, dags. 14. maí 2013, að stefnda hafi í þrígang legið inni á móttökugeðdeild spítalans. Hafi hún fyrst verið lögð þar inn [...] janúar 2011 og þá vegna sjálfsvígshættu og alvarlegra streituviðbragða í kjölfar nauðgana. Staðfesti læknirinn að stefnda hafi þá verið með veruleg einkenni um áfallastreituröskum. Fram komi og að stefnda hafi áfram verið með mikil einkenni og verið lögð þar inn á ný og verið inniliggjandi [...]-[...] febrúar það ár, auk þess að sækja sálfræðiviðtöl á geðdeildinni vegna þessara einkenna. Stefnda hafi loks verið inniliggjandi í þriðja sinn á móttökugeðdeild [...]-[...] september sama ár og þá verið í miklu uppnámi og alvarlegri sjálfsvígshættu. Bendi stefnda á að þá hafi henni nýlega verið tilkynnt um niðurfellingu málsins, sem hafi fengið verulega á hana. Ljóst sé að stefnda sé enn í mikilli vanlíðan vegna brota stefnanda gegn henni, sérstaklega þegar hún þurfi að rifja upp frásögn sína af þessum atburðum. Hafi komið fram hjá lækninum að slíkt sé dæmigert einkenni fyrir konur sem verði fyrir slíkum brotum og verði síðan að þola að frásögn þeirra sé ekki trúað. Við það bætist síðan í þessu máli að fullyrt sé að stefnda hafi skáldað frásagnir þessar, sagt ósatt til að sverta mannorð stefnanda og að þetta hafi verið samantekin ráð stefndu og eiginmanns hennar, trúlega í ávinningsskyni. Málsatvikalýsingum og málsástæðum stefnanda sé því alfarið mótmælt sem röngum, svo og orðalagi í stefnu, sem allt sé stefndu í óhag, auk þess að vera bæði rangt og villandi. Sérstaklega sé hafnað fullyrðingum stefnanda um að stefnda hafi gegn betri vitund viðhaft ærumeiðandi aðdróttanir um stefnanda í skýrslutökum hjá lögreglu er hún greindi frá nauðgunum og ofbeldi hans gagnvart sér og jafnframt kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi hans gagnvart öðrum konum. V. Niðurstöður Stefnandi gerir í fyrsta lagi þá dómkröfu að stefnda verði dæmd til refsingar fyrir að hafa þrívegis í skýrslutökum hjá lögreglu, gegn betri vitund, viðhaft ærumeiðandi aðdróttanir um stefnanda um að hann hefði þrívegis nauðgað henni og jafnframt beitt konur ítrekað kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi. Hafi stefnda með þessu brotið gegn 234., 235. og 1. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 242. gr. sömu laga getur sá einn sem misgert er við höfðað mál út af öðrum brotum skv. XXV. kafla almennra hegningarlaga en þeim sem sérstaklega eru tilgreind í 1. og 2. tl. ákvæðisins. Þar sem brot gegn framangreindum lagaákvæðum eru þar ekki tilgreind var stefnanda heimilt að höfða mál þetta sem einkarefsimál. Hins vegar kemur fram í 29. gr. sömu laga að heimild til að höfða einkamál til refsingar falli niður sé mál ekki höfðað áður en sex mánuðir eru liðnir frá því sá sem heimildina hefur fékk vitneskju um hinn seka. Eins og áður er fram komið var rannsókn lögreglu, sem hófst með kæru stefndu í janúar 2011 vegna meintrar nauðgunar stefnanda, felld niður hinn 31. ágúst það ár. Verður að telja að eigi síðar en þá teljist stefnanda hafa fengið „vitneskju um hinn seka“ í skilningi tilvitnaðs ákv. 29. gr. Var tilgreindur sex mánaða málshöfðunarfrestur því liðinn er mál þetta var höfðað hinn 20. mars 2013 og heimild stefnanda til að hafa uppi refsikröfu í einkamáli því niður fallin. Leiðir það til þess að vísa ber þessum kröfulið sjálfkrafa frá dómi. Stefnandi krefst þess í öðru lagi að stefndu verði gert að greiða honum miskabætur. Vísar hann hvað það varðar til þess að ummæli stefndu í skýrslum hennar hjá lögreglu hafi verið ósönn, óviðurkvæmileg og til þess fallin að varpa rýrð á stefnanda. Hafi hún með ummælum sínum brotið freklega gegn friðhelgi einkalífs hans, sem njóti verndar skv. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Feli brot þessi í sér ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda og hafi stefnda með því fellt á sig miskabótaábyrgð, sbr. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Eins og áður segir voru ummæli stefndu sem kröfur stefnanda lúta að sett fram við skýrslutökur hjá lögreglu. Fyrst vegna kæru hennar sjálfrar á hendur stefnanda fyrir nauðgun og síðan einnig vegna kæru stefnanda á hendur henni og eiginmanni hennar fyrir rangar sakargiftir og ærumeiðandi aðdróttanir. Eftir hefðbundna rannsókn lögreglu á atburðum, þar á meðal ítrekaðar skýrslutökur af aðilum, komust lögregluyfirvöld að þeirri niðurstöðu, með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, að hætta bæri frekari rannsókn málanna. Staðfesti ríkissaksóknari þá niðurstöðu vegna síðarnefndu kærunnar og er í niðurstöðu hans vísað til þess að stefnandi og stefnda, sem hafi haldið fast við sinn framburð um hvað gerst hafi á skrifstofunni umrætt sinn, væru ein til frásagnar um það hvað þar hefði gerst og standi því í raun orð gegn orði hvað það varði. Þá hafi stefnda fyrir sitt leyti gefið skýringar á hegðan sinni á þeim myndbandsupptökum sem liggi fyrir í málinu og sagt að stefnandi hefði skipað henni að haga sér eðlilega svo ekki vöknuðu grunsemdir hjá öðru starfsfólki. Stefnandi hefur lagt fram í máli þessu hljóðritun hans af samtali sem hann kveðst hafa átt við stefndu í bifreið hans, en þar komi fram staðfesting hennar á því að hún hafi ranglega sakað stefnanda um nauðgun. Óumdeilt er að upptaka þessi var gerð án vitneskju stefndu. Var upptakan afhent lögreglu og var stefnda í framhaldi yfirheyrð um innihald hennar án þess að það leiddi til neinnar breytingar á framburði hennar um málsatvik. Hefur hún og ítrekað hér fyrir dómi fyrri staðhæfingar sínar, er í upphafi leiddu til þess að hún kærði málið til lögreglu, og neitað staðhæfingum stefnanda um að þær væru tilefnislausar og gefnar gegn betri vitund. Í skýrslu vitnisins C við aðalmeðferð málsins kom fram að stefnda hefði oftar en einu sinni skýrt vitninu frá því að ásakanir stefndu á hendur stefnanda um nauðgun væru upplognar. Við mat á sönnunargildi þessa framburðar verður að horfa til þess að vitnið upplýsti við upphaf skýrslutökunnar að hún væri vinur stefnanda. Að virtu framangreindu, og þar sem frekari gögn til stuðnings staðhæfingum stefnanda eru ekki komin fram í málinu, verður ekki talið að fram sé komin sönnun um að umræddar staðhæfingar stefndu um stefnanda í skýrslum hennar hjá lögreglu hafi verið algjörlega að tilefnislausu og settar fram gegn betri vitund. Samkvæmt því getur tilgreindur framburður stefndu í lögregluskýrslum ekki orðið grundvöllur fyrir miskabótakröfu stefnanda og verður stefnda því sýknuð af henni. Stefnandi greiði í ríkissjóð 800.000 krónur í málskostnað. Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, sem ákveðst 800.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð: Stefnda, B, er sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu. Stefnandi greiði í ríkissjóð 800.000 krónur í málskostnað. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar 800.000 krónur. |
Mál nr. 190/2006 | Akstur sviptur ökurétti Nytjastuldur Vanaafbrotamaður | A var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. ágúst 2005 sakfelldur fyrir nytjastuld og fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti. Var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi. Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms gekk dómur í Hæstarétti 13. október 2005 vegna fjögurra héraðsdóma sem allir voru kveðnir upp fyrir hinn áfrýjaða dóm. Með dómi Hæstaréttar 13. október 2005 var ákærði dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar fyrir ýmis brot. Hið áfrýjaða mál var ekki sameinað máli því sem dæmt var í Hæstarétti 13. október 2005. Þegar allt framangreint var virt og hliðsjón höfð af 72., 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 taldi Hæstiréttur hæfilega refsingu A vera ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 14. september 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu. Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð. Með dómi þeim sem hér er til umfjöllunar og kveðinn var upp 19. ágúst 2005 var ákærði sakfelldur fyrir nytjastuld og fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti 10. maí 2005. Farið var með málið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Samkvæmt sakavottorði dagsettu 9. þessa mánaðar hafa eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms gengið þrír dómar. Fyrst í Hæstarétti 13. október 2005 vegna fjögurra héraðsdóma sem allir voru kveðnir upp fyrir hinn áfrýjaða dóm, hinn 20. desember 2004, 31. janúar 2005, 31. mars 2005 og 20. maí 2005. Með dómi Hæstaréttar var ákærði dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar fyrir að aka tíu sinnum sviptur ökurétti þar af tvisvar undir áhrifum annars vegar lyfja og hins vegar fíkniefna, sex þjófnaði, níu skjalafalsbrot, gripdeild, fjóra nytjastuldi, tvö fíkniefnabrot og akstur gegn einstefnu. Þá var ákærði dæmdur í héraði 7. júní 2006 fyrir brot gegn fíkniefna- og umferðalögum en ekki gerð sérstök refsing þar sem um var að ræða hegningarauka við framangreindan hæstaréttardóm. Loks var ákærði dæmdur í héraði 4. september 2006 til sex mánaða fangelsisrefsingar fyrir rán, líkamsárás, þjófnaði, nytjastuld, gripdeildir, tilraun til gripdeildar, fíkniefnabrot og akstur sviptur ökurétti. Í hinum áfrýjaða dómi er ekki getið héraðsdómsins frá 20. maí 2005, enda kom hann ekki fram á því sakavottorði sem þá lá fyrir. Í því máli hlaut ákærði þriggja mánaða fangelsi fyrir akstur sviptur ökurétti í fjögur skipti þar af einu sinni að auki undir áhrifum fíkniefna og í annað skipti gegn einstefnu, var í öllum tilvikunum um hegningarauka að ræða. Brot það sem hér er til meðferðar er framið fyrir þennan dóm frá 20. maí 2005, en hins vegar eftir þá dóma sem réðu því að refsingin þar var ákveðin sem hegningarauki. Brotaferill ákærða hefur verið samfelldur frá árinu 1996 og hefur hann margsinnis hlotið dóma fyrir brot eins og þau sem nú eru til meðferðar. Í dómi Hæstaréttar 13. október 2005 var refsing ákærða ákveðin með vísan til 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við málflutning í þessu máli fyrir Hæstarétti kom fram að átt hefði að sameina hið áfrýjaða mál því máli sem dæmt var í Hæstarétti 13. október 2005, en vegna fjarveru ákærða hefði birting áfrýjunarstefnunnar ekki tekist fyrr en 28. mars 2006. Þegar allt framangreint er virt og hliðsjón höfð af 72., 77. og 78. gr. almennra hegningalaga er refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Aðalsteinn Árdal Björnsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur. Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 6. júní sl. á hendur ákærða, Aðalsteini Árdal Björnssyni, kt. 280578-4289, Fífurima 1, Reykjavík, og Erni Sigfússyni, kt. 270658-6289, Hverfisgötu 61, Reykjavík, "fyrir umferðarlagabrot og nytjastuld, með því að hafa, þriðjudaginn 10. maí 2005, notað bifreiðina LL-042 í heimildarleysi og ekið henni til skiptis, ákærði Aðalsteinn sviptur ökurétti, um götur í Reykjavík, uns akstri lauk við gatnamót Réttarholtsvegar og Sogavegar. Þetta telst varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 og brot ákærða Aðalsteins að auki við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987. Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar." Með ákærða var saksóttur Örn Sigfússon, f. 1958, en fallið hefur verið frá ákæru á hendur honum. Málavextir Ákærði, Aðalsteinn Árdal, hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir. Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæðis. Ákærði á að baki talsverðan afbrotaferil. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til Arnar Clausen hrl., 45.000 krónur. Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn. DÓMSORÐ: Ákærði, Aðalsteinn Árdal Björnsson, sæti fangelsi í 6 mánuði. Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns Arnar Clausen hrl., 45.000 kr. |
Mál nr. 361/2003 | Verksamningur | B tók að sér fyrir G og S tilteknar breytingar á fiskiskipi samkvæmt tilboði. Gaf B út reikning fyrir tilboðsfjárhæðinni en að auki tvo reikninga vegna aukaverka. Greiddu G og S tilboðsfjárhæðina og hluta af reikningum B fyrir aukaverkin án þess að tengja þá greiðslu við tiltekna reikningsliði. Kom fyrst fram hjá þeim undir rekstri málsins að þeir viðurkenndu hluta aukaverkanna, en ekki þóttu þeir hafa skýrt með fullnægjandi hætti hver sérstaða þeirra reikningsliða sem þeir viðurkenndu væri gagnvart öðrum sem þeir viðurkenndu ekki. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um greiðsluskyldu G og S á reikningum B. Í málinu höfðu G og S uppi gagnkröfur vegna nánar tiltekinna galla sem þeir töldu hafa verið á verkinu. Þóttu kröfur þeirra ýmist ekki rökstuddar með fullnægjandi hætti eða studdar nægjanlegum gögnum og var þeim því hafnað. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 10. september 2003. Þeir krefjast þess að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 633.152 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. febrúar 2001 til 1. júlí sama ár, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I. Eins og greinir í héraðsdómi gerði stefndi áfrýjendum tilboð 31. október 1998 um að taka að sér verk við nánar tilteknar breytingar á fiskiskipi þeirra síðarnefndu, sem nú heitir Jón Valgeir ÍS 11, gegn greiðslu á samtals 3.744.000 krónum. Áfrýjendur tóku þessu tilboði og munu hafa komið skipinu til stefnda 27. nóvember 1998, en fengið það afhent á ný 19. ágúst 1999 að verki loknu. Í síðastnefndum mánuði gaf stefndi út reikning á hendur áfrýjandanum Snorra fyrir þeirri fjárhæð, sem tilboð stefnda hafði hljóðað á. Sagði í reikningnum að um væri að ræða breytingar á skipinu, vélbúnaði, tanki og raflögn samkvæmt tilboði. Í sama mánuði gerði stefndi annan reikning á hendur áfrýjandanum að fjárhæð 527.400 krónur fyrir vinnu í 293 klukkustundir við ýmis nánar tiltekin verk við skipið. Loks gaf stefndi út þriðja reikninginn á þann sama í september 1999, þar sem vísað var í fjórar tölusettar nótur og heildarfjárhæð þeirra sögð vera 1.328.050 krónur. Óumdeilt er að áfrýjendur greiddu stefnda í sex áföngum á tímabilinu frá 26. nóvember 1998 til 26. ágúst 1999 samtals 4.300.000 krónur vegna þessa verks eða 556.000 krónum meira en fjárhæð tilboðs hans frá 31. október 1998. Þeir hafa á hinn bóginn mótmælt því að standa í frekari skuld við stefnda vegna eftirstöðva reikninga hans, sem nema 1.299.450 krónum og eiga rætur að rekja til aukaverka við breytingar á skipinu. Mál þetta, sem stefndi höfðaði á hendur áfrýjendum til heimtu á heildarfjárhæð reikninga sinna, 5.599.450 krónum, að frádregnum áðurnefndum greiðslum, var þingfest fyrir héraðsdómi 11. janúar 2001. Fyrir héraðsdómi kröfðust áfrýjendur sýknu af dómkröfu stefnda með því að ekki hafi verið samið um aukaverk í tengslum við þær breytingar, sem hann tók að sér að gera á skipi þeirra, og fyrirvarar um greiðslu frekari verklauna hafi hvorki komið fram meðan á verkinu stóð né við afhendingu reiknings stefnda fyrir fjárhæð tilboðs hans. Hafi áfrýjendur því talið þann reikning gerðan til endanlegs uppgjörs vegna verksins. Auk þessa höfðuðu áfrýjendur gagnsök fyrir héraðsdómi 8. febrúar 2001 til heimtu skaðabóta að fjárhæð samtals 8.373.668 krónur vegna galla, sem þeir töldu vera á verki stefnda, og rekstrartjóns, sem rakið yrði til þessa og afhendingardráttar á verkinu. Kröfðust áfrýjendur þess að gagnkröfunni yrði eftir atvikum varið til skuldajafnaðar við fjárhæð, sem þeim kynni að vera gert að greiða stefnda í aðalsök í héraði. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi féllu áfrýjendur frá kröfuliðum um skaðabætur vegna rekstrartjóns og lækkuðu auk þess kröfu um bætur vegna galla á verki stefnda í 1.201.160 krónur. Mál þetta var dómtekið að lokinni aðalmeðferð í héraði 16. apríl 2003. Við uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms 10. júní 2003 var gætt ákvæða síðari málsliðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var krafa stefnda þar tekin að fullu til greina, en gagnkröfu áfrýjenda með öllu hafnað. Fyrir Hæstarétti hafa áfrýjendur lýst því yfir að þeir viðurkenni sex nánar tiltekna liði í kröfu stefnda um greiðslu fyrir aukaverk, samtals 1.194.000 krónur. Frá því telja áfrýjendur að draga eigi 70.000 krónur, en þá fjárhæð hafi stefndi sparað af verkþáttum innan tilboðs síns vegna aukaverka, sem komu að hluta í staðinn. Upp í mismuninn, 1.124.000 krónur, hafi áfrýjendur greitt fyrrnefndar 556.000 krónur og standi þá eftir sem inneign stefnda 568.000 krónur. Áfrýjendur hafa leiðrétt reikningsskekkju í gagnkröfu sinni um skaðabætur og lækkað hana þannig í 1.201.152 krónur. Telja þeir inneign stefnda eiga að koma þar til skuldajafnaðar, þannig að út komi fjárhæð dómkröfu þeirra fyrir Hæstarétti, 633.152 krónur. II. Reikningar stefnda vegna aukaverka við skip áfrýjenda voru sem fyrr segir samtals að fjárhæð 1.855.450 krónur og dagsettir í ágúst og september 1999, en ekki liggur nánar fyrir hvenær þeim var komið á framfæri við áfrýjendur. Af greiðslunum, sem þeir inntu af hendi á tímabilinu fram til 26. ágúst 1999, gengu sem áður segir alls 556.000 krónur upp í þessa reikninga stefnda. Því hefur ekki verið haldið fram undir rekstri málsins að áfrýjendur hafi með þessu gert upp tiltekna liði í reikningunum. Í bréfi til stefnda 23. mars 2000 komu fram mótmæli áfrýjenda við því að þeim bæri að standa skil á eftirstöðvum reikninga hans. Sagði þar meðal annars að áfrýjendur teldu „að svo stöddu ekki einsýnt að öll umrædd aukaverk hafi verið umbeðin, þau hafi farið fram eða að þau hafi ekki verið eða átt að vera innifalin í upphaflegu tilboði“. Þessu svaraði stefndi með bréfi 27. apríl 2000, þar sem hann meðal annars kvaðst taka fram að „öll aukaverk sem unnin voru við bátinn og aukabúnaður, sem í hann var settur var framkvæmt að beiðni eða með samþykki Snorra Jónssonar, ef frá er talinn stálkjölur sá, er ég setti undir bátinn og taldi nauðsynlegan vegna stöðugleika hans.“ Gerði stefndi í framhaldi af þessu grein fyrir helstu atriðunum í aukaverkunum ásamt því til samanburðar hvað innifalið hafi verið í einstökum liðum tilboðs hans. Því virðast áfrýjendur ekki hafa svarað fyrr en í máli þessu. Í þinghaldi í héraði 19. desember 2001 leituðu þeir dómkvaðningar matsmanns til þess meðal annars að láta uppi álit um hver væri „réttmæt fjárhæð verkkaups matsþola vegna þeirra aukaverka sem viðurkennd eru“, svo og að hve miklu leyti lækka ætti verkkaup vegna þátta í tilboði stefnda, sem fallið hafi niður vegna aukaverka. Lá þá fyrir að áfrýjendur viðurkenndu þá sex liði í kröfu stefnda vegna aukaverka, sem áður er getið og námu samtals 1.194.000 krónum. Í matsgerð 28. mars 2002 var komist að þeirri niðurstöðu að fjárhæð einstakra liða í kröfu stefnda vegna aukaverka, sem áfrýjendur viðurkenndu, væri ýmist réttmæt eða lægri en matsmaðurinn hefði talið eðlilega. Gat hann þess að þetta „undirverð“ kynni að geta skýrst af staðhæfingu stefnda á matsfundi um að tillit hafi verið tekið til liða, sem ráðgerðir voru í tilboði hans en ekki þurfti að leysa af hendi, þegar reikningar voru gerðir vegna aukaverka. Að þeirri skýringu frágenginni taldi matsmaðurinn að kostnaður stefnda af þessum verkliðum, sem féllu niður, hefði orðið 70.000 krónur. Í aðilaskýrslu stefnda fyrir héraðsdómi lýsti hann aðdragandanum að gerð tilboðs síns þannig að áfrýjandinn Snorri hafi rætt við sig í síma og beðið um áætlun um hvað endursmíð á skipinu Jóni Valgeiri myndi kosta. Hafi stefndi „skrifað niður ... tilboð um ákveðin verk“, sem hann hafi sent og fengið svo til baka áritað um samþykki af báðum áfrýjendum. Hafi verið vitað fyrir fram að tilboðið væri ekki tæmandi um það, sem gera þyrfti, og hafi stefndi því gefið áfrýjendum „verð í ákveðna hluti.“ Hafi stefndi ekki treyst sér til að gera tilboðið nákvæmara, enda hafi þá ekki legið ljóst fyrir hvað yrði gert. Hvorugur áfrýjenda kom fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar til að lýsa atvikum að þessu leyti. Eins og að framan greinir stóðu þeir í ágúst 1999 skil á hluta af fjárhæð reikninga stefnda vegna aukaverka, en tengdu þá greiðslu þó ekki á nokkurn hátt við tiltekna reikningsliði. Kom fyrst fram af þeirra hendi undir rekstri málsins að þeir viðurkenndu hluta aukaverkanna, en ekki hefur verið skýrt svo að viðhlítandi sé hver sérstaða þeirra liða sé í samanburði við þá, sem ekki eru viðurkenndir. Áfrýjendur leituðu ekki álits matsmanns, sem þeir fengu dómkvaddan samkvæmt áðursögðu, á því hvort liðirnir í reikningum stefnda, sem þeir hafa ekki viðurkennt, hefðu átt að teljast innifaldir í tilboði hans frá 31. október 1998 eða hver hefðu verið eðlileg verklaun fyrir þá. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem kveðinn var upp með sérfróðum meðdómsmönnum, verður staðfest niðurstaða hans um að áfrýjendum beri að greiða stefnda eftirstöðvar reikninga hans vegna aukaverka. III. Áfrýjendur telja sig sem fyrr segir eiga gagnkröfu á stefnda að fjárhæð samtals 1.201.152 krónur. Kröfu þessa skýra þeir á þann hátt að í fyrsta lagi hafi stefnda orðið á mistök við framkvæmd verksins, sem um ræðir í málinu, þar sem breytingar á skipi áfrýjenda hafi valdið því að rúmtala þess hafi hækkað, en af þeim sökum hafi staðið til að aflaheimildir þess yrðu felldar niður. Til að leysa þetta hafi áfrýjendur orðið að láta breyta skipinu í þilfarsskip, en kostnaður af því hafi numið 582.811 krónum. Í öðru lagi hafi verið gallar á frágangi stefnda á svokölluðum síðustokkum, en viðgerð þeirra hafi kostað 458.341 krónu. Í þriðja lagi hafi sjálfstýring, sem stefndi setti í skipið, reynst ónothæf, en samkvæmt matsgerðinni, sem áfrýjendur öfluðu fyrir héraðsdómi, sé kostnaður af nýrri 160.000 krónur. Varðandi fyrstnefnda liðinn í gagnkröfu áfrýjenda liggja fyrir í málinu ýmis gögn um mælingar á skipi þeirra, bæði frá því áður en stefndi vann að breytingum á því og eftir þann tíma. Í bréfi Fiskistofu til áfrýjandans Snorra 16. febrúar 2000 var vísað til upplýsinga frá Siglingastofnun um að skipið Jón Valgeir ÍS 11 hefði verið endurbyggt að verulegu leyti og rúmtala þess aukist um 1,5 m3. Samkvæmt 10. mgr. ákvæðis XXIII til bráðabirgða við lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða með áorðnum breytingum væri óheimilt að breyta skipi af þessum toga þannig að rúmtala þess ykist nema flutt væri á það veiðileyfi af öðru slíku skipi, sem væri fyrir þrefaldri rúmtölu stækkunarinnar. Veiðileyfi hafi ekki verið flutt á þennan hátt á skip áfrýjenda og væru því brostnar forsendur fyrir leyfi þess til veiða í atvinnuskyni. Var áfrýjendum veittur frestur til 1. mars 2000 til að gera athugasemdir vegna þessa eða fullnægja framangreindu skilyrði. Í málatilbúnaði áfrýjenda er sem fyrr segir á því byggt að þeir hafi orðið að bregðast við þessu með því að breyta skipinu og krefja þeir stefnda um greiðslu skaðabóta af þeim sökum. Ekki hafa komið fram viðhlítandi skýringar af hendi áfrýjenda á því hvers vegna orðið hafi að breyta skipinu fremur en að grípa til annarra úrræða vegna þeirra atvika, sem hér um ræðir, en í málatilbúnaði stefnda fyrir héraðsdómi er staðhæft að áfrýjendum hefði verið unnt að kaupa auknar veiðiheimildir fyrir skipið á 50.000 krónur fyrir hverja rúmlest. Þá er jafnframt til þess að líta að samkvæmt fundargerð frá matsfundi 7. mars 2002 benti matsmaður, sem dómkvaddur var sem fyrr segir að beiðni áfrýjenda, aðilunum á að upplýsingarnar frá Siglingastofnun, sem Fiskistofa hafi stutt framangreint erindi við, hafi fyrir „hrein mistök“ Siglingastofnunar verið rangar og leiðréttar við skoðun skipsins á Ísafirði í febrúar 2000. Um þetta atriði, sem matsmaðurinn ítrekaði í munnlegri skýrslu fyrir héraðsdómi, hafa áfrýjendur ekki aflað frekari gagna. Að öllu þessu virtu hafa þeir ekki fært haldbær rök fyrir þessum lið í kröfu sinni, sem verður því hafnað. Annar liðurinn í gagnkröfu áfrýjenda er sem fyrr segir reistur á því að gallar hafi verið á verki stefnda að því leyti að frágangur á síðustokkum á skipi þeirra hafi verið ófullnægjandi. Styðja áfrýjendur þetta við skýrslu starfsmanns Siglingastofnunar um skoðun á skipinu á Ísafirði 6. apríl 2000, en þá munu hafa staðið yfir framkvæmdir við breytingu þess í þilfarsskip og virðast síðustokkar um leið hafa verið endurgerðir. Af skýrslu þessari verður ekki ráðið svo að nægilegt sé hvaða annmarkar hafi átt að vera á verki stefnda, hvert umfang þeirra gæti hafa verið eða hvað gera hefði þurft til að ráða bót á þeim. Er þessi liður í kröfu áfrýjenda því ekki studdur viðhlítandi gögnum og verður honum hafnað. Þriðja liðnum í gagnkröfu áfrýjenda verður hafnað með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms. Samkvæmt framangreindu er gagnkröfu áfrýjenda á hendur stefnda hafnað með öllu. IV. Í héraðsdómsstefnu var byggt á því að krafa samkvæmt reikningum stefnda, samtals 5.599.450 krónur, hafi fallið í gjalddaga 1. janúar 2000. Áðurnefndar greiðslur áfrýjenda til stefnda á samtals 4.300.000 krónum höfðu allar verið inntar af hendi fyrir þann dag. Eru því engin efni til annars en að dæma stefnda eingöngu mismuninn á þeim fjárhæðum eða 1.299.450 krónur með dráttarvöxtum svo sem í dómsorði greinir. Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði. Dómsorð: Áfrýjendur, Guðjón Helgason og Snorri Jónsson, greiði í sameiningu stefnda, Baldri Halldórssyni, 1.299.450 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Áfrýjendur greiði í sameiningu stefnda samtals 850.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 10. júní 2003. Mál þetta, sem dómtekið var þann 16. apríl s.l., hefur Baldur Halldórsson, Hlíðarenda, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi gegn Guðjóni Helgasyni, Eyktarási 9, Reykjavík og Snorra Jónssyni, Fjarðarstræti 4, Ísafirði, með stefnu birtri 12. og 20. desember 2000. Með stefnu þingfestri þann 8. febrúar 2001 höfðuðu Guðjón Helgason og Snorri Jónsson gagnsakarmál gegn Baldri Halldórssyni. Dómkröfur stefnanda í aðalsök eru þær að aðalstefndu greiði honum kr. 5.599.450,- ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af þeirri fjárhæð frá 1. janúar 2000 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð kr. 4.300.000,-. Þá krefst aðalstefnandi málskostnaðar úr hendi aðalstefndu. Stefndu í aðalsök krefjast þess aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum aðalstefnanda. Til vara krefjast þeir þess að dómkröfur aðalstefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefjast aðalstefndu málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda. Endanlegar dómkröfur stefnenda í gagnsök eru þær að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða þeim kr. 1.201.160,- auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 25, 1987 frá 8. febrúar 2001 til 1. júlí s.á. en skv. lögum nr. 38, 2001 frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefjast gagnstefnendur höfuðstólsfærslu dráttarvaxta á 12 mánaða fresti skv. 12. gr. s.l., í fyrsta sinn þann 8. febrúar 2002. Þá krefjast gagnstefnendur málskostnaðar. Stefndi í gagnsök krefst sýknu af kröfum gagnstefnenda og að þeir verði dæmdir til að greiða honum málskostnað. Í máli þessu deila aðilar um efndir á verksamningi þeirra í milli um endurbætur á báti í eigu aðalstefndu. Aðalstefnandi hefur höfðað málið til heimtu endurgjalds fyrir það er hann kveður aukaverk við verksamninginn. Aðalstefndu byggja annars vegar á að þeim beri ekki að greiða meira en þeir hafa þegar gert fyrir nefnda verkþætti og hins vegar að verk aðalstefnanda hafi verið haldið göllum. Aðalstefnandi kveður kröfu sína í aðalsök vera þannig til komna að þann 31. október 1998 hafi tilboð hans í breytingar á bát í eigu aðalstefndu verið samþykkt. Tilboð hans í verkið hafi verið að fjárhæð kr. 3.744.000,-. Aðalstefnandi hafi í kjölfarið unnið verkið og afhent bátinn í ágúst 1999. Á verktímanum segir aðalstefnandi að við hafi bæst ýmis aukaverk og hafi gjald fyrir þau komið til viðbótar tilboðsupphæðinni. Þann 23. mars 2000 hafi lögmaður aðalstefndu sent aðalstefnanda bréf þar sem upphæð verklauna og framkvæmd verksins hafi verið mótmælt. Aðalstefnandi hafi svarað bréfinu 27. apríl s.á. og hafnað kröfum aðalstefndu í öllum megin atriðum og krafist greiðslu. Engin viðbrögð hafi orðið við þessu bréfi af hálfu aðalstefndu. Kröfur sínar í aðalsök segir aðalstefnandi byggja á þremur útgefnum reikningum er samtals nemi stefnufjárhæðinni. Til stuðnings kröfunum vísar aðalstefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga en reglan fái m.a. lagastoð í 5., 6. og 28. gr. laga nr. 39, 1922. Um gjalddaga kröfunnar kveðst aðalstefnandi einkum vísa til 12. gr. sömu laga. Gagnkröfur sínar í aðalsök og kröfur í gagnsök byggja aðalstefndu á því að gjaldtaka aðalstefnanda umfram tilboð og það sem aðalstefndu hafi þegar greitt sé í andstöðu við skriflegt og samþykkt tilboð aðalstefnanda sjálfs. Aðalstefndu hafi þegar greitt fyrir alla vinnu aðalstefnanda og gott betur. Fyrir liggi að aðalstefndu hafi greitt sem nemi kr. 556.000,- umfram samþykkt tilboð og sé þar um að ræða ríflega greiðslu fyrir þau aukaverk sem þeir hafi fallist á og þau verk sem aðalstefnandi hafi framkvæmt óumbeðið og hafi verið aðalstefndu til hagsbóta, ekki verið ónýt eða kallað á verulegar lagfæringar af hálfu aðalstefndu. Jafnframt byggja aðalstefndu á því að hluti þeirra meintu aukaverka sem aðalstefnandi segist hafa framkvæmt hafi aldrei farið fram. Þannig hafi aðalstefnandi t.d. krafist greiðslu fyrir tvo stóla í stýrishúsi en þar hafi hann eingöngu komið einum stól fyrir. Byggja aðalstefndu á að aðalstefnandi hafi viðurkennt þetta atriði, sbr. bréf hans til lögmanns aðalstefndu dags. 27. apríl 2000. Þá benda aðalstefndu á að sundurliðun hinna meintu aukaverka á dómskjölum nr. 5, 6 og 13 fjalli að talsverðu leyti um verk sem innifalin hafi verið í tilboði aðalstefnanda, t.d. sé í tilboðinu innifalin uppsetning og frágangur á rafkerfi, breyting á stýrishúsi, dekkun og frágangur lestarlúgu, frágangur borðstokka og frágangur á vélbúnaði. Ekki verði annað séð en aðalstefnandi geri í málinu kröfur um sérstakar greiðslur fyrir þessa verkþætti umfram umsamda greiðslu. Aðalstefndu segjast einnig byggja á því að aðalstefnandi, sem fagaðili, hljóti að bera hallann af óskýrum samningi, þ.e. hinu samþykkta tilboði. Aðalstefnandi hljóti að þurfa að sanna að umrædd og meint aukaverk hafi á annað borð verið framkvæmd. Aðalstefnanda hafi borið að geta þess sérstaklega að í tilboði hans fælist ekki öll sú vinna sem nauðsynleg var til þeirra endurbóta sem aðalstefndu óskuðu. Þá byggja aðalstefndu á því að um kröfur aðalstefnanda í málinu verði ekki fjallað á grundvelli 5. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39, 1922 þegar af þeirri ástæðu að fyrirliggjandi sé samþykkt tilboð, ígildi verksamnings milli aðila. Samið hafi verið fyrirfram um verkið og fjárhæð verklauna sem leiði til þess að stefnanda beri að sanna réttmæti kröfu sinnar. Aðalstefndu taka sérstaklega fram að í greiðslu þeirra á kr. 556.000,- umfram tilboðsfjárhæð felist engin viðurkenning á réttmæti kröfu aðalstefnanda í málinu. Aðalstefndu hafi greitt þessa fjárhæð fyrir þau aukaverk sem viðurkennt hafi verið af þeirra hálfu að fram hefðu farið eða ella verið þess eðlis að þau voru þeim til hagsbóta. Aðalstefndu byggja einnig á því að aðalstefnandi hafi í verulegum atriðum vanefnt verksamning aðila um endurbætur á umræddum báti. Verkið hafi verið haldið stórfelldum göllum. Vegna þeirra hafi aðalstefndu orðið fyrir miklum fjárútlátum. Þeir hafi þurft að greiða kostnað við krana sem nauðsynlegur hafi verið þegar báturinn hafi verið tekinn upp vegna viðgerða. Kostnaður hafi hlotist af sérstökum skoðunum Siglingastofnunar sem nauðsynlegar hafi verið og rekja megi beint til gallanna. Þá hafi aðalstefndu orðið að leggja í kosnað vegna plastviðgerða á bátnum, einkum algerra endurbóta á síðustokkum. Teikna hafi þurft bátinn upp á nýtt sökum þess að hann hafi verið of breiður og framkvæma hafi þurft hallaprófun á honum eftir áðurnefndar endurbætur á síðustokkum. Kostnaður hafi einnig fallið til vegna þessara aðgerða. Kröfur sínar í aðalsök segjast aðalstefndu byggja á almennum reglum fjármunaréttarins; kröfuréttar, samningaréttar og meginreglna um lausafjárkaup. Þá byggi aðalstefndu kröfur sínar jafnframt á ákvæðum laga nr. 39, 1922 um lausafjárkaup og laga nr. 7, 1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Kröfur sínar í gagnsök og mótmæli gegn kröfum stefndu í aðalsök byggir aðalstefnandi á því að samningur aðila hafi í raun verið um kaup í skilningi laga nr. 39, 1922 um lausafjárkaup. Aðalstefndu hafi verið að kaupa nýjan bát. Aðalstefnandi hafi lagt til allt efni og byggt hann frá grunni. Pöntun aðalstefndu á bátnum teljist því kaup í skilningi 2. gr. laga nr. 39, 1922. Viðskipti aðila séu að minsta kosti mjög kauparéttarleg í eðli sínu og því haldi aðalstefnandi því fram að beita eigi ákvæðum kaupalaga með lögjöfnun verði ekki fallist á að um kaup sé að ræða. Aðalstefnandi kveður viðskipti aðila verslunarkaup, sbr. 4. gr. laga nr. 39, 1922, þar sem báðir samningsaðilar séu atvinnurekendur er selji sínar vörur. Því er haldið fram af hálfu aðalstefnanda að kaupverðið hafi ekki verið fastákveðið nema að hluta og aðalstefndu verði því að greiða uppsett verð nema þeim takist að sanna að það teljist ósanngjarnt, sbr. 5. gr. laga nr. 39, 1922. Því hafi þeir hvorki haldið fram né reynt að sanna. Þá segi í 6. gr. laga nr. 39, 1922 að ef kaupandi í verslunarkaupum vilji mótmæla verði sem tilgreint sé í reikningi verði hann að gera það eins fljótt og hann fái því við komið ella verði hann að greiða reikninginn nema hann geti sannað að um lægra verð hafi verið samið eða reikningurinn sé bersýnilega ósanngjarn. Aðalstefndu hafi hins vegar ekki mótmælt reikningunum fyrr en rúmum sjö mánuðum eftir að þeir fengu þá í hendur. Þau mótmæli hafi augljóslega ekki verið sett eins fljótt fram og aðalstefndu var mögulegt. Aðalstefnandi segir að aðalstefndu hafi þurft að hafa uppi kröfur sínar vegna meintra galla innan ákveðinna fresta, sbr. 52. til 54. gr. laga nr. 39, 1922. Kvartanir hafi borist út af sjálfstýringu og hafi hún verið lagfærð. Við það tækifæri hafi ekki verið kvartað yfir öðru en sjáfstýringunni. Það hafi ekki verið fyrr en rúmum sjö mánuðum eftir afhendingu bátsins sem minnst hafi verið á frekari galla. Í greinargerð og gagnstefnu hafi síðan enn verið bætt við fullyrðingum um meinta galla. Aðalstefnandi segir að aðalstefndu hafi borið að koma með þessar athugasemdir strax en þar sem þeir hafi ekki gert það geti þeir ekki borið hina meintu galla fyrir sig, sbr. 52. gr. laga nr. 39, 1922. Aðalstefnandi kveður fráleitt að smíði heils báts hafi átt að felast í tilboði hans dags. 31. október 1998. Um þetta hafi verið rætt við aðalstefndu á meðan á verkinu stóð og rangt sé af þeim að halda öðru fram. Bendir aðalstefnandi á að stærsta verkið utan tilboðsins sé nýtt stýrishús en um það hafi aðalstefndu sérstaklega beðið. Svo hafi einnig verið með önnur verk. Þá bendir aðalstefnandi jafnframt á að í greinargerð sinni í aðalsök viðurkenni aðalstefndu að hafa óskað eftir aukaverkum. Sem dæmi um verk sem ekki hafi fallið undir tilboðið nefnir aðalstefnandi skipti á stýrishúsi og lagnir að vél. Vísar aðalstefnandi að öðru leyti til lista á dómskjali nr. 28, sundurliðun á kostnaði við verk utan tilboðs. Hann segir aðalstefndu alla tíð hafa verið ljóst að engin þeirra atriða sem fram komi á nefndu dómskjali hafi verið innifalin í tilboði þó þeir nú haldi öðru fram til að freista þess að komast hjá að borga fyrir bátinn. Aðalstefnandi segir ekkert liggja fyrir um það í málinu að aðalstefndu hafi verið knúðir til að dekka bátinn. Hins vegar liggi nokkuð ljós fyrir að það hafi alltaf verið ætlun aðalstefndu. Það sé hins vegar ekki réttmætt að krefja aðalstefnanda um kostnaðinn við þær breytingar. Aðalstefndu haldi því fram að báturinn hafi orðið 7 cm of breiður og láti eins og aðalstefnandi hafi breikkað bátinn upp á sitt einsdæmi. Hið rétta sé að aðalstefndu hafi sjálfir óskað eftir þessum breytingum. Aðalstefnandi hafi hins vegar stytt bátinn á móti svo hann stækkaði ekki í rúmlestum talið. Mótmælir aðalstefnandi því sérstaklega að nýi báturinn sem hann hafi smíðað fyrir aðalstefndu sé 7 cm breiðari en gamli báturinn. Hið rétta sé að nýi báturinn sé um 3-4 cm breiðari en sá gamli, sbr. m.a. staðfestingu skoðunarmanns Siglingastofnunar dags. 11. ágúst 1999. Aðalstefnandi kveður aðalstefndu ekki tiltaka hvaða reglur það séu sem valdið hafi því að þeir hafi neyðst til að kosta sérstaka dekkun á bátnum. Fullyrðir aðalstefnandi að engar reglur sé til sem segi að ef bátur sé 7,30 cm á lengd og 2,28 m breidd þá eigi hann að vera dekkaður. Það sé því algerlega úr lausu lofti gripið að krefjast þess af aðalstefnanda að hann greiði kostnað við að gera bátinn að þilfarsbáti. Þá bendir aðalstefnandi á að skv. upplýsingum frá Siglingastofnun hafi ekki verið hlutast til um það af eiganda bátsins að láta mæla hann upp á nýtt eftir að reglur breyttust um mælingar. Að endingu bendir aðalstefnandi á að aðalstefndu hafi stundað veiðar á nýja bátnum á veiðiári því sem lokið hafi 1. september 1999 og enn fremur að vori 2000 athugasemdalaust en það hafi verið áður en bátnum var breytt í þilfarsbát. Þetta hefði verið þeim ómögulegt ef þeir hefðu að boði opinberra aðila ekki mátt stunda veiðar á bátnum. Aðalstefnandi segir útreikninga sýna að nýi báturinn sé örlítið minni í rúmlestum talið en sá gamli. Mælibréfin séu hins vegar ekki rétt og hefðu aðalstefndu átt að láta leiðrétta skráningarlengd og skráningarbreidd bátsins. En þó aðalstefndu hafi látið það ógert hafi ekkert knúð þá til að dekka bátinn. Þeir hefðu einfaldlega getað keypt úreldingu, 1,2 rúmlestir á kr. 60.000,-. Hvað hina meintu galla að öðru leyti varðar kveður aðalstefnandi gagnaðila fljótlega eftir afhendingu hafa kvartað yfir því að sjálfstýring virkaði ekki. Aðalstefnandi hafi þá sent viðgerðarmann til að líta á sjálfstýringuna og hafi hún verið lagfærð. Í tilefni af aðfinnslum aðalstefndu hafi aðalstefnandi í bréfi dags. 27. apríl 2000 boðist til að taka sjálfstýringuna aftur ef hún væri enn gölluð, en engin viðbrögð hafi komið frá aðalstefndu vegna þessa. Aðalstefnandi segir þessa kröfu aðalstefndu vera með öllu órökstudda. Þá mótmælir aðalstefnandi fullyrðingum aðalstefndu um að einungis hafi verið einn stóll í stýrishúsi bátsins sem ósönnuðum. Hann mótmælir því einnig að báturinn hafi verið óstöðugur. Þessi fullyrðing aðalstefndu sé órökstudd og hafi engin gögn verið lögð fram henni til stuðnings. Hvað varðar kröfur aðalstefndu um að aðalstefnandi greiði kostnað þann er fram kemur á reikningum á dómskjölum nr. 15-22 og 24 tekur aðalstefnandi fyrst fram að þessar kröfur hafi hann ekki séð fyrr en þær voru settar fram fyrir dómi. Kröfurnar séu órökstuddar og allt of seint fram komnar. Efnislega kveður aðalstefnandi reikninga á dómskjölum nr. 15 og 16 vera vegna krana sem þurft hafi til að taka bátinn upp til viðgerða. Ekkert komi hins vegar fram kvaða viðgerðir hafi verið um að ræða og þá sé greiðsluskylda aðalstefnanda órökstudd með öllu. Reikningar á dómskjölum nr.17, 21, 22 og 24 séu að sögn aðalstefndu vegna sérstakrar skoðunar af hálfu Siglingastofnunar sem nauðsynlegar hafi verið og hafi verið bein afleiðing af göllum. Aðalstefnandi kveður kröfuna órökstudda með öllu og ekki sé tilgreint hvað stofnunin hafi verið að skoða og hvers vegna. Aðalstefnandi segir líklegast að Siglingastofnun hafi verið að skoða bátinn vegna breytinga á honum yfir í þilfarsbát. Kostnaður við það sé hins vegar í samræmi við framangreint alfarið aðalstefndu og aðalstefnanda óviðkomandi. Reikning á dómskjali nr. 18 segir aðalstefnandi vera vegna breytinga á bátnum í þilfarsbát. Í samræmi við framangreint beri aðalstefnandi enga ábyrgð á þessum kostnaði. Krafan sé röng, ósönnuð, of seint fram komin og að auki fallin niður vegna tómlætis og fyrningar. Reikningur á dómskjali nr. 19 sé vegna teiknivinnu. Það sama gildi um hann áður hafi verið sagt. Ósannað sé að breidd bátsins hafi orsakað nauðsyn þess að teikna bátinn upp. Ekki komi fram hvað hafi verið teiknað, ekki komi fram af hverju báturinn eigi að teljast of breiður, og þá of breiður fyrir hvað, hvaða reglur banni breidd hans, hverjar væru afleiðingar þess að báturinn teldist of breiður, hvaða opinberi aðili hafi krafist dekkunar o.s.frv. Kröfum um að aðalstefnandi greiði þennan reikning sé því hafnað sem órökstuddum og ósönnuðum. D Ó M S O R Ð : Aðalstefndu greiði aðalstefnanda kr. 700.000,- í málskostnað í aðalsök og gagnsök. |
Mál nr. 147/2005 | Gjaldþrotaskipti Riftun Sératkvæði | Leigugreiðslur fyrirtækisins M samkvæmt samningum við Í um leigu á tækjum voru í verulegum vanskilum er félagið fékk heimild til greiðslustöðvunar í desember 2002. Bú M var síðan tekið til gjaldþrotaskipta í nóvember 2003 og var frestdagur 19. desember 2002. Í júlí 2003 greiddi M skuld sína við Í með víxlum, samþykktum af þriðja manni, og skyldi ráðstafa víxilfjárhæðinni til greiðslu gjaldfallinna leiguskulda vegna notkunar tækjanna eftir frestdag. Fallist var á kröfu þrotabús M um riftun greiðslunnar á grundvelli ákvæða 1. mgr. 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Sératkvæði. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. mars 2005. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Fram er komið að áfrýjandi hafi yfirtekið rekstur Glitnis hf., sem gerði samninga við Móa hf., annars vegar 10. september 2001 um fjármögnunarleigu á vörubifreið og hins vegar 6. október 1999 um kaupleigu á dráttarvél og heyþyrlu. Í héraðsdómi kemur fram að beiðni Móa hf. um heimild til greiðslustöðvunar barst Héraðsdómi Reykjavíkur 19. desember 2002 og var fallist á hana með úrskurði 27. þess mánaðar. Þá var fyrirtækinu veitt heimild til að leita nauðasamnings með úrskurði 9. apríl 2003. Lauk þá greiðslustöðvun samkvæmt 2. tölulið 2. mgr. 23. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og við tók tímabil sem samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laganna er sambærilegt greiðslustöðvun. Við dóm Hæstaréttar 7. október 2003 í máli nr. 303/2003 var hafnað kröfu um staðfestingu nauðasamnings og féll þá endanlega niður heimildin til að leita nauðasamnings samkvæmt 6. tölulið 41. gr., sbr. 59. gr. laga nr. 21/1991. Bú Móa hf. var síðan tekið til gjaldþrotaskipta 5. nóvember 2003. Samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. og 4. mgr., 2. gr. sömu laga var frestdagur því 19. desember 2002, en umþrætt skuld var greidd eftir frestdag. Leigugreiðslur Móa hf. samkvæmt samningunum munu hafa verið í verulegum vanefndum er félagið fékk heimild til greiðslustöðvunar, en greiðsla sú sem stefndi krefst riftunar á fór fram 27. júlí 2003. Um var að ræða víxla samþykkta af þriðja manni með gjalddaga 17. september 2003 og átti víxilfjárhæðinni einungis að ráðstafa til greiðslu gjaldfallinna leiguskulda vegna notkunar tækjanna eftir frestdag. Fram er komið í málinu að búskröfur fengust ekki að fullu greiddar við gjaldþrotaskiptin og verður ekki séð að ráðstöfun sú sem leiddi til myndunar þeirrar fjárkröfu, sem krafist er riftunar á, hafi með einhverjum hætti verið samþykkt af aðstoðarmanni Móa hf. við á greiðslustöðvunartíma eða umsjónarmanni með nauðasamningsumleitunum, þrátt fyrir að Glitnir hf. hafi á þeim tíma haft vitneskju um hvernig komið var í fjármálum fyrirtækisins. Samkvæmt 40. gr. laga nr. 21/1991 breytir engu um niðurstöðu málsins það mat stjórnarformanns Móa hf. að þrotabúinu hafi verið nauðsynlegt í þágu rekstursins að nota þessi tæki eftir frestdag, enda ekki nægilega í ljós leitt að ráðstöfunin hafi verið nauðsynleg til að forðast tjón í skilningi 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991. Er þegar af þessum ástæðum fallist á kröfu stefnda um riftun á grundvelli ákvæða 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991. Ákvæði héraðsdóms um upphafstímamark dráttarvaxta verður staðfest með skírskotun til forsendna hans. Þá skal málskostnaðarákvæði héraðsdóms vera óraskað. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Íslandsbanki hf., skal greiða stefnda, þrotabúi Móa hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Jóns Steinars Gunnlaugssonar I. Svo sem lýst er í atkvæði meirihluta dómenda var frestdagur í þrotabúi Móa hf. 19. desember 2002. Ágreiningur aðila snýst um greiðslu Móa hf. 27. júlí 2003 til áfrýjanda, þar sem afhentur var víxill á hendur þriðja manni að fjárhæð 1.500.000 krónur. Áfrýjandi tók við víxli þessum sem greiðslu á skuld samkvæmt tveimur samningum við Móa hf. sem grein er gerð fyrir í atkvæði meirihlutans og kveður hann víxilinn hafa gengið til greiðslu á leigu sem féll til vegna leiguafnota þeirra muna, sem samningarnir greina, eftir frestdag og fram að greiðsludegi. Liggur fyrir að leigugjaldið fyrir afnot þeirra þetta tímabil nam nokkru hærri fjárhæð en víxilfjárhæðinni. II. Í 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið á um skilyrði þess að krefjast megi riftunar á greiðslu skuldar ef greitt er eftir frestdag. Eru þar talin upp þrjú tilvik þess að ekki sé unnt að gera slíka kröfu. Eitt þeirra er það sem hér reynir á, að nauðsynlegt hafi verið að greiða til að komast hjá tjóni. Þann 18. maí 2005, eða eftir að héraðsdómur gekk, var að ósk áfrýjanda tekin í Héraðsdómi Reykjavíkur skýrsla af Kristni Gylfa Jónssyni fyrrverandi stjórnarformanni Móa hf. Í framburði hans kom fram, að hinir leigðu lausafjármunir hafi verið notaðir við rekstur fyrirtækisins eftir frestdag og notkunin hafi verið nauðsynlegur liður í rekstrinum á þessu tímabili. Vörubifreiðin hafi verið notuð til að draga sérútbúna vagna fyrir kassa undir sláturkjúklinga frá uppeldisstöð í sláturhús. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti mótmælti stefndi því ekki að nauðsynlegt hafi verið að hafa tæki til að draga þessa vagna, en taldi að þetta hefði mátt leysa á annan hátt, án þess þó að skýrt væri nánar hver sú lausn hefði átt að vera og hvað hún hefði kostað Móa hf. Vitnið bar jafnframt að dráttarvélin og heyþyrlan hefðu verið notuð við að koma áburði, sem til féll í rekstrinum, á tún í eigu fyrirtækisins og hirða hey af túnunum. Af hálfu stefnda var við málflutning fyrir Hæstarétti talið líklegt að þessi tæki hefðu verið notuð á þennan hátt, þótt komast hefði mátt hjá því. Ekki var í þessu tilviki heldur skýrt nánar hvernig það hefði mátt gera og við hvaða kostnaði. Í málinu liggur fyrir, að hvorki aðstoðarmaður við greiðslustöðvun né umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum höfðu gefið yfirlýsingu um samþykki við því að hinir leigðu munir yrðu í leiguafnotum áfram eftir frestdaginn. III. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1991 getur skuldari, sem á í verulegum fjárhagsörðugleikum og vill freista þess að koma nýrri skipan á fjármál sín með aðstoð lögmanns eða löggilts endurskoðanda, sem hann hefur ráðið í því skyni, leitað heimildar til greiðslustöðvunar. Í 2. mgr. sömu greinar er meðal annars kveðið á um að skuldara, sem leitar þessarar heimildar, beri að gera grein fyrir hvernig hann hyggist leysa úr fjárhagsörðugleikum sínum með því að fá þessa heimild. Af þessum lagaákvæðum er ljóst, að heimild til greiðslustöðvunar hefur þann tilgang að gera skuldara í stakk búinn til að standa í skilum við lánardrottna sína, og miðar úrræðið því meðal annars að því að þjóna hagsmunum þeirra. Til þess að ná markmiðum greiðslustöðvunar er nauðsynlegt, að skuldara sé unnt að halda rekstri sínum áfram og hafa þá lánardrottnar að sínu leyti hag af því að svo sé. Miðað við skýrslu fyrrverandi stjórnarformanns Móa hf., sem fyrr var getið, verður nú að leggja til grundvallar að afnot Móa hf. af hinum leigðu tækjum hafi verið nauðsynleg til að unnt væri að halda rekstri félagsins áfram eftir frestdag og fram að því að bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta. Þegar lagt er mat á hvort greiðslan, sem um er deilt í málinu, hafi verið nauðsynleg til að komast hjá tjóni, verður að líta til þess, að áfrýjandi hafði heimild til að rifta samningunum um leigumunina og krefjast skila á mununum vegna vanskila á greiðslu þeirrar leigu sem til féll eftir frestdag. Verður ekki talið að 1. mgr. 22. gr. laga nr. 21/1991 standi í vegi fyrir slíkri heimild í tilviki gagnkvæmra samninga þar sem báðir samningsaðilar inna greiðslur sínar af hendi á sama tíma eftir að greiðslustöðvun hefst, enda væri þá verið að skylda viðsemjanda þess, sem greiðslustöðvunar nýtur, til að láta honum í té afnot af eignum sínum, án þess að njóta um leið þeirrar tryggingar í gagngjaldinu sem að jafnaði er forsenda fyrir samningum af þessu tagi. Ef viðsemjandinn teldist ekki njóta nefndra úrræða vegna vanefnda á leigugreiðslum á þessu tímabili væri í reynd verið að skylda hann til að láta viðkomandi rekstri og þá eftir atvikum öðrum lánardrottnum í té verðmæti, sem til þess væru fallin að bæta efnahag viðsemjandans og bæta þar með stöðu annarra lánardrottna ef og þegar til gjaldþrots kæmi. Verður ekki talið að slík skylda fái samrýmst meginreglum laga um vernd eignarréttinda. Riftun af hálfu áfrýjanda hefði valdið því, að Móar hf. hefðu þurft að afla sér þessara rekstrartækja annars staðar til þess að forða erfiðleikum í rekstrinum. Sérstaklega er þetta ljóst að því er snertir flutning kjúklinga til slátrunar í sláturhús. Verður ekki séð, hvernig unnt hefði verið að halda þessum rekstri áfram án þess að þessu verkefni væri sinnt. Af hálfu áfrýjanda hafa verið lögð fram gögn um að öflun rekstrartækjanna hjá öðrum hefði valdið fyrirtækinu meiri útgjöldum en nam greiðslu leigunnar til hans og þykir, eins og sönnunarbyrði um þetta atriði er háttað, mega leggja þetta til grundvallar. Með vísan til alls þessa tel ég að greiðsla leigunnar, sem um er deilt, hafi verið nauðsynleg til að komast hjá tjóni og skipti í því efni ekki máli, þó að greitt hafi verið í einu lagi 27. júlí 2003 leiga sem til hafði fallið frá frestdegi og fram á greiðsludaginn, þar sem líta verði á þetta tímabil sem eina heild í þessu samhengi. Riftun á greiðsludegi hefði raunar að auki valdið því að tækin hefðu ekki verið til notkunar í rekstrinum frá þeim degi og þar til honum var hætt við töku bús Móa hf. til gjaldþrotaskipta. IV. Riftunarreglur XX. kafla laga nr. 21/1991 hafa þann megintilgang að ónýta með afturvirkum hætti ráðstafanir sem skuldari hefur gert skömmu fyrir gjaldþrot í þeim tilgangi að mismuna lánardrottnum sínum. Verður að hafa þetta í huga við skýringu einstakra riftunarákvæða kaflans. Því fer fjarri að greiðsla sú, sem krafist er að rift verði í þessu máli, geti talist hafa verið innt af hendi í því skyni að gera hlut áfrýjanda betri en annarra lánadrottna. Má fremur segja að hún hafi haft þann tilgang að bæta hag þeirra. Leiða þessi sjónarmið, með hliðsjón af því sem að framan greinir, til þess að ákvæði 1. mgr. 139. gr. laganna verði ekki skýrð svo að leyfi riftun umræddrar greiðslu. Samkvæmt öllu framansögðu tel ég, að sýkna beri áfrýjanda af kröfu stefnda um riftun umræddrar greiðslu og dæma stefnda til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 500.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2005. I Mál þetta sem dómtekið var 1. mars sl. höfðaði þrotabú Móa hf., kt. 440788-1229, Hafnarstræti 20, Reykjavík gegn Glitni, kt. 490503-3230, Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu birtri 14. júlí 2004. Glitnir er deild í Íslandsbanka hf. og því var aðildinni breytt þannig að Íslandsbanki hf. er stefndi í máli þessu. Dómkröfur stefnanda eru þessar: 1. Að staðfest verði með dómi riftun greiðslu viðskiptaskuldar Móa hf. við stefnda að fjárhæð kr. 1.500.000. 2. Að stefndi verði dæmdur til þess að endurgreiða stefnanda kr. 1.500.000 ásamt dráttarvöxtum, skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2003 til greiðsludags. Einnig er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól skv. 12. gr. sömu laga á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. september 2004. 3. Að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi. Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. II Hinn 19. desember 2002 báðu Móar hf. um heimild til greiðslustöðvunar og var hún heimiluð með úrskurði héraðsdóms 27. desember 2002. Með úrskurði héraðsdóms 22. júní 2003 var staðfestur nauðasamningur Móa hf. við lánardrottna sína, en þeim úrskurði var hnekkt með dómi Hæstaréttar 7. október 2003. Svo fór að fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota 5. nóvember s.á. Í greinargerð stefnda segir að Glitnir og Móar hf. hafi um alllangt skeið, áður en til greiðslustöðvunarinnar kom, gert með sér samninga, ýmist um kaupleigu eða fjármögnunarleigu á flutningabifreiðum og ýmsum tækjum sem Móar hf. hafi notað í atvinnurekstri sínum. Í málinu hefur stefndi lagt fram samning um fjármögnunarleigu á Man vörubifreið árgerð 1997. Samningurinn er undirritaður 10. september 2001 og gildir hann til 14. október 2005 að lágmarki. Þá hefur stefndi lagt fram samning um kaupleigu á New Holland dráttarvél og heyþyrlu sem er undirritaður 6. október 1999 og gildir hann til 14. nóvember 2004. Á greiðslustöðvunartímanum greiddu Móar hf. ekkert samkvæmt framangreindum samningum til að byrja með. Samkvæmt yfirliti sem stefndi hefur lagt fram nam skuld Móa hf. við stefnda vegna vanskila á árinu 2003 samtals kr. 1.549.460 þann 15. júlí. Í samningunum eru ítarleg ákvæði um riftun, m.a. ef ekki er greitt á gjalddögum sem voru í hverjum mánuði. Í greinargerð stefnda kemur fram að í upphafi hafi stefndi ekki viljað grípa til riftunar samninganna, sem hefði verið íþyngjandi fyrir Móa hf. Þegar á árið leið hafi hann áformað riftun, en áður en til hennar kom hafi náðst samkomulag á milli Móa hf. og stefnda að víxill að fjárhæð kr. 1.500.000, samþykktur af þriðja manni, með gjalddaga 17. september 2003, yrði afhentur stefnda sem greiðsla 27. júlí 2003. Víxilfjárhæðinni hafi verið ráðstafað til greiðslu þeirra leiguskulda Móa hf. sem gjaldfallið hafi eftir frestdag. Samþykkjandi víxilsins er fyrirtækið Kentucy Fried Chicken. Stefnandi krefst riftunar á þessari greiðslu. III Vitnið Friðbjörn Björnsson, endurskoðandi og starfsmaður þb. Móa hf., kom fyrir dóminn og sagði að samkvæmt athugun sinni hefði skuld Móa hf. við stefnda numið kr. 8.124.642 áður en greitt hafi verið upp í hana með víxlinum. Á greiðslustöðvunartímanum hafi Móar hf. einnig greitt stefnda með peningum vegna leigusamninga, en aðeins í þetta eina skipti með víxli. Vitnið sagði að við skoðun á bókhaldi Móa hf. hafi komið í ljós að fyrirtækið hafi á greiðslustöðvunartímanum tekið við víxlum frá aðilum sem það hafi selt vörur og greitt síðan kröfuhöfum sínum með víxlunum. Viðskipti af þessu tagi hafi numið nær 400 milljónum króna samanlagt. Í skýrslu sem aðstoðarmaður skuldara, Sigmundur Hannesson hrl., gaf skiptastjóra 9. febrúar 2004 kemur fram að hann hafi verið aðstoðarmaður á tímabilinu frá 19. desember 2002 til 9. apríl 2003. Segir þar m.a. orðrétt: „Sigmundur segir að hafa beri í huga að viðskiptabanki félagsins (Búnaðarbanki Íslands) hafi stöðvað öll viðskipti félagsins sem gerði reksturinn mjög erfiðan. Rekstri félagsins varð því ekki haldið áfram án þess að bregða að nokkru út frá þeirri meginlínu sem annars gilti um greiðslur og daglega fjármálastjórnun. Þannig má nefna sem dæmi að frá í janúar 2003 voru stærstu viðskiptavinirnir settir í viðskipti með víxla og það var gert með vitund og samþykki bankans. Víxlum þessum var svo í nokkrum tilvikum ráðstafað sem greiðslu til annarra með skriflegu samþykki Sigmundar. Til eru uppáskriftir Sigmundar t.d. hvað varðar greiðslur Kaupáss með viðskiptavíxlum.“ IV Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á 134., 139. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann heldur því fram að hver þeirra ein og sér leiði til þess að rifta eigi víxilgreiðslunni. Endurgreiðslukröfuna byggir stefnandi á 1. mgr. 142. gr. laganna að því leyti sem riftunarkrafan er byggð á 134. gr., en á 3. mgr. 142. gr. að því er varðar riftun samkvæmt 139. og 141. gr. Stefnandi heldur því fram að víxill útgefinn af þriðja manni sé alltaf óvenjulegur greiðslueyrir í viðskiptum og svo hafi einnig verið í viðskiptum aðila málsins. Skuld Móa hf. við stefnda, sem safnast hafi upp á löngum tíma, hafi numið rúmum 8 milljónum þegar víxillinn var afhentur sem greiðsla upp í hana, en þetta hafi verið í eina skiptið sem stefndi hafi fengið víxilgreiðslu frá Móum hf. Aðstoðarmaður Móa hf. við greiðslustöðvun hafi ekki samþykkt þessa greiðslu. Samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 29. apríl 1999 (H 1999.1782) gildi hið sama um greiðslur með óvenjulegum greiðslueyri eftir frestdag og á síðustu 6 mánuðum fyrir hann. Þannig sé fullnægt þeim hlutlægu skilyrðum sem kveðið sé á um í 1. mgr. 134. laga nr. 21/1991. Þá heldur stefnandi því fram að greiðslan sé riftanleg samkvæmt 1. mgr. 139. gr. gjaldþrotalaga. Ljóst sé að krafa stefnda, sem greidd hafi verið með víxlinum, verði ekki greidd af þrotabúinu, en ekki sé einu sinni hægt að greiða búskröfur á hendur því. Ekkert sé komið fram sem bendi til þess að undantekningarákvæði 139. gr. eigi hér við. Stefndi hafi vitað um hvernig greiðslugetu Móa hf. var háttað og greiðslan hafi ekki verið nauðsynleg til þess að forða tjóni. Stefndi hafi hvorki rift samningunum né hótað riftun þeirra, enda hafi honum verið riftun óheimil samkvæmt 22. gr. laga nr. 21/1991. Ekki sé í ljós leitt að tæki þau sem samningarnir voru um hafi verið Móum hf. nauðsynleg til áframhaldandi rekstrar á greiðslustöðvunartímanum, og harla ólíklegt sé að svo hafi verið. Stefnandi heldur því og fram að víxilgreiðslan sé á ótilhlýðilegan hátt til hagsbóta fyrir stefnda á kostnað kröfuhafa í þrotabúi Móa hf. sem fái þeim mun minna upp í kröfur sínar verði greiðslunni ekki rift. Stefndi hafi vitað um ógjaldfærni Móa hf. þegar greiðslan fór fram. Þannig sé fullnægt skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 til riftunar. Af hálfu stefnda er því haldið fram skýra að beri 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 eftir orðanna hljóðan og samkvæmt því nái ákvæði hennar einungis til greiðslna með óvenjulegum greiðslueyri sem inntar hafi verið af hendi fyrir frestdag. Sá dómur Hæstaréttar sem vísað sé til af hálfu stefnanda geti ekki breytt skýrum texta lagagreinarinnar og verði greininni ekki beitt eins og stefnandi geri, hvorki með lögskýringu né lögjöfnun. Enda þótt á þá lögskýringu yrði fallist, að lagagreinin næði einnig til greiðslna með óvenjulegum greiðslueyri eftir frestdag, væri víxilgreiðslan til stefnda ekki riftanleg, því að ekki hafi verið um óvenjulegan greiðslueyri að ræða eins og málum var háttað. Upplýst sé að á greiðslustöðvunartímanum hafi víxilvelta Móa hf. numið um 400 milljónum króna, þ.e. fyrirtækið hafi tekið við víxlum sem greiðslu og síðan greitt með þeim, og hafi víxlarnir verið verulegur hluti af greiðslueyri fyrirtækisins. Þá hafi aðstoðarmaður við greiðslustöðvunina samþykkt að greiða mætti með víxlum. Stefndi heldur því og fram að Móar hf. hafi byrjað víxilviðskipti af þessu tagi fyrir frestdag. Þá telur stefndi að líta verði til þess að samþykkjandi víxilsins, Kentucy Fried Chicken, sé mjög traust fyrirtæki og því hafi víxillinn verið ígildi peninga í viðskiptunum. Málin horfi þannig við stefnda, sem sé stórt fjármálafyrirtæki, að víxlar séu venjulegur greiðslueyrir í viðskiptum. Þá byggir stefndi á því að þau tæki, sem samningar stefnda við Móa hf. náðu til, hafi verið fyrirtækinu nauðsynleg til þess að halda venjulegum rekstri áfram og forða þannig tjóni sem hefði bitnað á öllum kröfuhöfum fyrirtækisins. Samkvæmt riftunarákvæðum í samningnum hafi stefnda verið heimilt að rifta þeim vegna vanefnda á greiðslum. Samningarnir hafi verið gerðir fyrir frestdag og verið viðvarandi á greiðslustöðvunartímabilinu. Riftun slíkra samninga á greiðslustöðvunartíma sé heimil samkvæmt meginreglum leiguréttar um riftun. Bannákvæði 1. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 21/1991 hefðu því ekki getað komið fyrir riftun samninganna vegna vanskila. Víxilgreiðslan hafi hins vegar komið í veg fyrir að riftunarheimildum væri beitt. Þessi aðstaða sem uppi hafi verið geri það að verkum að undantekningarákvæði 1. og 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991, um heimild til að greiða skuld á greiðslustöðvunartíma til að forða tjóni og vegna nauðsynjar í atvinnurekstri þrotamanns, eigi hér við. Þegar svo sé skipti tegund greiðslunnar ekki máli eða hvort hún taldist venjulegur eða óvenjulegur greiðslueyrir í skilningi 134. gr. laganna. Stefndi heldur því fram að riftun víxilgreiðslunnar verði ekki byggð á 141. gr. laga nr. 21/1991 og vísar þar til þess sem að framan er sagt. Greiðslan hafi verið til þess að koma í veg fyrir riftun og hafi verið endurgjald fyrir verðmæti sem Móar hf. hafi nýtt til tekjuöflunar og verðmætaaukningar á greiðslustöðvunartímanum. Þannig hafi greiðslan leitt til hagsbóta fyrir alla kröfuhafa, en ekki til hagsbóta fyrir einn kröfuhafa á kostnað annars, og því ekki verið ótilhlýðileg. Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda. Hann heldur því fram að dráttarvexti eigi ekki að dæma frá fyrri tíma en þingfestingardegi málsins og aldrei fyrr en mánuði eftir að stefnandi sendi stefnda riftunarbréf. V Eins og að framan greinir byggir stefnandi riftunarkröfu sína á 134., 139. og 141. gr. laga nr. 21/1991 hverri fyrir sig. Þrátt fyrir orðalag í 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 verður að telja það gilda lögskýringu að ákvæði greinarinnar um greiðslu skuldar með óvenjulegum greiðslueyri gildi ekki aðeins um greiðslu fyrir frestdag heldur einnig eftir hann, og því á greiðslustöðvunartíma eftir því sem við getur átt, sé greiðslustöðvun fyrir hendi á annað borð. Í máli þessu er óumdeilt að víxilgreiðslan var innt af hendi 27. júlí 2003, og því eftir frestdag. Fyrirtækið hafði ekki áður, eftir því sem upplýst verður að telja, greitt samkvæmt samningunum við stefnda með víxlum, hvorki þeim sem fyrirtækið hafði samþykkt né þriðjamannsvíxlum. Greiðslan var því óvenjuleg í viðskiptum aðila í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991, og um það skiptir ekki máli þótt stefndi kunni að líta á víxla sem venjulegan greiðslueyri í þeim viðskiptum sem hann stundar. Þótt framangreind niðurstaða sé fengin þykir dómurinn verða, eins og hagar til í máli þessu, að taka afstöðu til þess hvort Móum hf. var heimilt að greiða skuldina vegna atvika sem fallið geta undir ákvæði 139. gr. laga nr. 21/1991. Óumdeilt er að sú skuld sem greidd var greiðist ekki af eignum þrotabúsins verði henni rift. Greiðslan gekk til þess að greiða afborganir af samningunum sem gjaldfallið höfðu fyrri hluta ársins 2003 og voru í vanskilum. Ekkert liggur fyrir um það að aðstoðarmaður skuldara á greiðslustöðvunartímanum hafi samþykkt þessa greiðslu. Þá verður að byggja á því að stefndi hafi á greiðsludegi vitað eða hlotið að vita að Móar hf. höfðu fengið greiðslustöðvun og að við hafði tekið nauðasamningur, sbr. 2. tl. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 21/1991, sem staðfestur var með úrskurði héraðsdóms 22. júlí 2003, og því fyrir þann tíma að greiðslan var innt af hendi. Úrskurðinum var síðar hnekkt með dómi Hæstaréttar 7. október 2003. Líta verður svo á að samkvæmt þessu hafi greiðslustöðvunin staðið allt til þess að bú Móa hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 5. nóvember 2003, sbr. 3. tl. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 21/1991. Sem fyrr segir var greiðslan samkvæmt þeim samningum sem gerðir höfðu verið um kaup eða leigu á vörubifreið, dráttarvél og heyþyrlu. Ekki liggja fyrir aðrar upplýsingar í málinu um rekstur Móa hf. en þær sem fram koma í úrskurði héraðsdóms frá 27. desember 2002, að samkvæmt vottorði Hagstofu Íslands sé tilgangur félagsins að reka alifuglabú, sláturhús, kjötvinnslu og skylda starfsemi. Í greinargerð stefnda er fullyrt að umrædd tæki hafi verið Móum hf. nauðsynleg vegna rekstursins, og þar sérstaklega tilgreind vörubifreiðin og dráttarvélin, og því hafi greiðslan verið heimil til þess að forða því tjóni sem leitt hefði af riftun samninganna. Nánari útlistun eða gögn um afnot þessara tækja og nauðsyn þeirra við búreksturinn hafa ekki komið frá stefnda og ekki er heldur upplýst að útilokað hafi verið að halda rekstrinum í viðunandi horfi án tækjanna á þeim tíma er greiðslan fór fram. Verður því gegn mótmælum stefnanda að telja ósannað að undantekningarákvæði í 1. og 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 eigi hér við. Eftir framansögðu ber að rifta greiðslu viðskiptaskuldar Móa hf. við stefnda samkvæmt 139. gr., sbr. 134. gr. laga nr. 21/1991, og að taka endurgreiðslukröfu stefnanda til greina. Stefnandi byggir riftunarkröfu sína einnig á 141. gr. laga nr. 21/1991. Að fenginni þeirri niðurstöðu sem að framan er lýst þykir ekki ástæða til þess að fjalla um þær málsástæður aðila málsins er varða þá lagagrein eða málsástæður aðila að öðru leyti. Stefndi hefur mótmælt upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda. Stefnandi sendi stefnda riftunarbréf dagsett 19. maí 2004 en gerir kröfu um að dráttarvextir verði dæmdir frá 1. ágúst árið 2003. Hér er um að ræða endurgreiðslukröfu og því fer um dráttarvexti af henni samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Með tilvísun til framangreindrar lagagreinar verður dráttarvaxtakrafa stefnanda tekin til greina frá 20. júní 2004. Málskostnaður sem stefndi greiði stefnanda er ákveðinn kr. 180.000 auk virðisaukaskatts. Friðgeir Björnsson héraðsdómari kvað upp dóminn. Dómsorð. Rift er greiðslu viðskiptaskuldar Móa hf. við stefnda, Íslandsbanka hf., með víxli að fjárhæð kr. 1.500.000. Stefndi greiði stefnanda, þrotabúi Móa hf., kr. 1.500.000 með dráttarvöxtum samkvæmt 3. kafla laga nr. 38/2001 frá 20. júní 2004 til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda kr. 180.000 í málskostnað auk virðisaukaskatts. |
Mál nr. 159/2002 | Vinnusamningur Uppsögn | Þ starfaði sem yfirmatreiðslumaður á Hótel Loftleiðum þegar fyrirtækið JT, sem tekið hafði við veitingastarfsemi á hótelinu, sagði honum upp starfi í desember 2000 með þriggja mánaða uppsagnarfresti miðað við mánaðamót. Aðilum bar saman um að uppsögnin hafi verið lögmæt og að JT hafi ekki óskað eftir vinnuframlagi Þ á uppsagnarfrestinum. Stóð ágreiningur aðila um það eitt hvort tekjur, sem Þ vann sér inn hjá öðrum á þessu tímabili, skyldu koma til frádráttar launakröfu hans úr hendi JT. Í niðurstöðu Hæstaréttar var vísað í fordæmi réttarins í dómasafni 1997, bls. 580, þar sem skorið hafði verið úr sambærilegu ágreiningsefni og talið, að laun Þ í uppsagnarfrestinum skyldu koma til frádráttar launakröfu hans úr hendi JT. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2002. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 945.420 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 315.140 krónum frá 31. janúar 2001 til 28. febrúar sama árs, af 630.280 krónum frá þeim degi til 30. mars 2001 og af 945.420 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá verði stefndi dæmdur til þess að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Áfrýjandi starfaði sem yfirmatreiðslumaður á Hótel Loftleiðum þegar stefndi sagði honum upp starfi 19. desember 2000 með þriggja mánaða uppsagnarfresti miðað við mánaðamót. Aðilum ber saman um að uppsögnin hafi verið lögmæt og að stefndi hafi ekki óskað eftir vinnuframlagi áfrýjanda á uppsagnarfrestinum. Stendur ágreiningur þeirra um það eitt hvort tekjur, sem áfrýjandi vann sér inn hjá öðrum á þessu tímabili, skuli koma til frádráttar launakröfu hans úr hendi stefnda. Hefur áður verið skorið úr sambærilegu ágreiningsefni fyrir Hæstarétti, sbr. dóm réttarins á bls. 580 í dómasafni 1997. Að virtu því fordæmi og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2002 Mál þetta var höfðað 31. maí 2001 og dómtekið 22. janúar 2002. Stefnandi er Þorvarður Óskarsson, kt. 190355-3659, Flúðaseli 70 í Reykjavík. Stefndi er J.T. veitingar ehf. kt. 510900-3670, Hótel Loftleiðum í Reykjavík. Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 945.420 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 315.140 krónum frá 31. janúar 2001 til 28. febrúar 2001, þá af 630.280 krónum til 30. mars 2001, en þá af 945.420 krónum til 1. júlí 2001, en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst jafnframt málskostnaðar. Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. I - Málsatvik og helstu ágreiningsefni Stefnandi, sem er matreiðslumaður, hóf störf á Hótel Loftleiðum á árunum 1993-1994. Stefndi tók við rekstri veitingarstarfsemi á Hótel Loftleiðum 1. október 2000. Stefnandi hafði starfað þar sem yfirmatreiðslumaður og veitingastjóri í meira en 7 ár og tók hann við stöðu yfirmatreiðslumanns hjá stefnda. Með bréfi stefnanda 19. desember 2000 var stefnda sagt upp störfum, frá og með þeim degi, með samningsbundnum fyrirvara. Jafnframt var í bréfinu tekið fram að vinnuframlags stefnanda væri ekki óskað á uppsagnartímanum. Þá var honum þakkað fyrir samstarfið og óskað alls hins besta í framtíðinni. Af hálfu stefnda er því haldið fram, að fljótlega eftir að hann hafi tekið yfir rekstur veitingarstarfseminnar hafi farið að bera á samstarfsörðugleikum milli stefnanda og nýrra stjórnenda. Hafi stefnandi starfað mjög sjálfstætt og ekki litið á nýja eigendur sem yfirmenn sína. Hafi hann m.a. haldið óbreyttum háttum á innkaupum aðfanga þrátt fyrir tilmæli um endurskoðun á því við hverja væri verslað. Þá hafi stefnandi komið og farið af vinnustað eins og honum hentaði og jafnvel ekki klæðst vinnufatnaði yfirmatreiðslumanns á vinnustaðnum. Óreiða hafi verið á reikningshaldi stefnanda varðandi viðskipti við veitingahúsið Apotek. Veitingahúsið hafi keypt brauð o.fl. af stefnda og fengið lánað hráefni úr eldhúsi. Hafi stefnandi átt að halda utan um þessi mál. Þegar útbúa hafi átt reikninga hafi upplýsingar verið af skornum skammti og úttektir virst hafa verið skrifaðar á laus blöð og miða. Hluti af miðunum hafi týnst og stefndi orðið fyrir tjóni af þeim sökum. Framangreint hafi leitt til þess að framkvæmdastjóri stefnda hafi rætt við stefnanda og boðið honum upp á samkomulag um starfslok. Það hafi stefnandi ekki þegið og stefndi þá ekki séð sér annað fært en að segja honum upp. Stefndi hafi viljað komast hjá frekari árekstrum og því sagt stefnanda skriflega upp með lög- og samningsbundnum fyrirvara, án þess að ástæða uppsagnar væri tilgreind. Ekki hafi verið óskað eftir því að stefnandi ynni út uppsagnarfrestinn þar sem ekki hafi verið búist við að samstarfið myndi batna. Með því að leysa stefnanda undan vinnuskyldu hafi honum verið gefið færi á því að ráða sig strax í aðra vinnu. Stefnandi kannast ekki við að samstarfsörðugleikar hafi verið milli hans og yfirstjórnenda og þeir ekki gefnir upp sem ástæða uppsagnar. Aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við störf hans og honum aldrei verið veitt áminning starfi. Honum hafi verið boðið að segja upp og hann ákveðið að hugsa málið. Þegar hann hafi svo mætt næst hafi honum verið tjáð munnlega að honum væri sagt upp störfum. Hafi hann þá óskað eftir því að fá skriflega uppsögn. Engin ástæða hafi verið gefin fyrir því að af hverju ekki væri óskað eftir því að hann ynni ekki uppsagnarfrestinn. Mánaðarlaun stefnanda hjá stefnda voru við uppsögn 366.560 krónur. Í lok desember 2000 fékk stefnandi útborgaðar 366.560 krónur en 51.420 krónur í lok janúar, febrúar og mars 2001. Lögmaður stefnanda sendi bréf 12. febrúar 2001 og krafði stefnda um greiðslu fullra launa í uppsagnarfresti vegna janúar. Í svarbréfi frá lögmanni Samtaka atvinnulífsins kom fram að stefndi teldi sig hafa vissu fyrir því að stefnandi hefði verið kominn í annað starf í janúar og bæri að draga laun í því starfi frá launum hans í uppsagnafresti. Lögmaður stefnandi mótmælti þessari túlkun í bréfi 10. mars 2001. Stefnandi sundurliðar kröfu sína á eftirfarandi hátt: Laun í janúar 2001, skv. vinnusamningi 366.560 krónur Útborgað í janúar 2001 51.420 krónur Skuld vegna janúar 2001 315.140 krónur Laun í febrúar 2001, skv. vinnusamningi 366.560 krónur Útborgað í febrúar 2001 51.420 krónur Skuld vegna febrúar 2001 315.140 krónur Laun í mars 2001, skv. vinnusamningi 366. 560 krónur Útborgað vegna mars 2001 51.420 krónur Skuld vegna mars 2001 315.140 krónur Samtals skuld 945.420 krónur II - Málsástæður og lagarök málsaðila Af hálfu stefnanda er á því byggt að vinnuréttarsamband málsaðila hafi verið virkt út uppsagnarfrestinn. Það hafi veitt hvorum aðila um sig rétt gagnvart hinum en um leið skapað hvorum aðila um sig skyldur. Stefnandi byggir á því að þrátt fyrir uppsögnina, sem ekki sé deilt um að hafi verið lögmæt, hafi skyldur vinnuréttarsambandsins haldið áfram út uppsagnarfrestinn. Því hafi skylda stefnda til greiðslu launa ekki fallið niður, enda hafi stefnandi ekki afþakkað laun sín. Stefnandi telur að túlka beri yfirlýsingu stefnda í uppsagnarbréfi, þess efnis að ekki sé óskað eftir vinnuframlagi stefnanda í uppsagnarfresti, með þeim hætti, að stefnanda hafi verið frjálst að verja uppsagnartíma sínum eins og hann sjálfur kaus, án þess að það hefði áhrif á réttarsamband hans við stefnda. Stefnandi byggir á því að í uppsagnarbréfinu hafi ekki falist áskilnaður um að stefnandi stundaði ekki launaða vinnu á uppsagnarfresti eða að laun frá öðrum í uppsagnarfresti kæmu til frádráttar launum frá stefnda. Stefnandi byggir á því að uppsagnarbréfið hafi einungis snúið að skyldum hans gagnvart stefnda þ. e. vinnuskyldunni, en ekki skyldu stefnda til greiðslu launa. Þá byggir stefnandi á því, að þótt stefndi hafi kosið að þiggja ekki vinnuframlag hans samkvæmt vinnusamningi og leysa hann þar með undan skyldum sínum, hafi það ekki leyst stefnda undan þeirri frumskyldu að greiða laun. Þá byggir stefnandi á því að í uppsagnarbréfi stefnda hafi falist loforð um að stefnandi væri leystur undan vinnuskyldu sinni og það loforð hafi ekki verið bundið því skilyrði eða fyrirvara, að stefnandi mætti ekki ráða sig í vinnu hjá öðrum þannig að það hefði áhrif á vinnusamning við stefnda hvað laun varðar. Stefnandi kveður kröfuna byggða á þeim rétti sem vinnusamningur aðila veiti en ekki sé byggt á því að um bætur vegna ólögmætrar uppsagnar sé að ræða. Vinnuréttarlegt samband aðila hafi ekki rofnað fyrr en að liðnum uppsagnarfresti, en í íslenskum rétti sé ekkert sem mæli því í mót að menn bindist í tveimur eða fleiri vinnuréttarsamningum, enda alsiða að menn auki tekjur sínar með því að starfa samtímis hjá tveimur eða fleiri atvinnuveitendum. Stefnandi telur það ekki standast að draga beri launagreiðslur frá öðrum vinnuveitanda frá launum í uppsagnarfresti á grundvelli sjónarmiða um skaðabætur. Hvorki stefndi né stefnandi hafi skaðast við uppsögnina. Stefnda hafi verið í lófa lagi að þiggja vinnuframlag stefnanda í uppsagnarfresti og stefnanda getað setið heima og þegið eingöngu laun frá stefnda. Það að stefnandi hafi kosið að auka tekjur sínar með vinnu í sínum frjálsa ráðstöfunartíma eigi ekkert skylt við bótarétt. Stefnanda hafi ekki verið skylt að leita sér að vinnu til að draga úr launaútgjöldum stefnda. Stefnandi byggir kröfu sína m.a. á ráðningarsamningi aðila og kjarasamningi og 2. gr. laga nr. 77/1933. Gerð er krafa um að tekið verði tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar. Stefndi mótmælir því málsástæðu, að stefnandi eigi rétt á óskertum launum í uppsagnarfresti. Það hafi ekki áhrif á skyldu stefnda að ekki hafi verið tekið fram í uppsagnarbréfi að laun frá öðrum kæmu til frádráttar launum frá stefnda. Gætt hafi verið þeirra lög- og kjarasamningsbundnu formskilyrða um að uppsögn skuli vera skrifleg. Ekki hafi verið þörf á að taka fram þær vinnuréttarlegu skyldur stefnanda, annars vegar að leita sér að annarri vinnu og hins vegar að laun á uppsagnartíma dragist frá launakröfu á hendur stefnda. Þá mótmælir stefndi því að hann hafi lofað að greiða stefnanda óskert laun, án vinnuframlags, út uppsagnartímann. Stefndi hafi sýnt annað í verki með því að draga frá áætluð laun frá öðrum launagreiðanda. Sú launafjárhæð hafi verið byggð á upplýsingum um markaðslaun matreiðslumanna í mötuneytum. Stefndi kveður þau laun sem stefnanda hafi verið greidd í janúar til mars 2001 hafa verið mismun þeirra launa sem stefnandi hafi haft hjá stefnda og þeirra launa sem greidd hafi verið í mötuneytum. Stefnandi hafi í janúar 2001 unnið í mötuneyti hjá Matvís og fleiri félögum en síðan farið að vinna í mötuneyti hjá Toyotaumboðinu. Samhliða hafi stefnandi unnið fyrir Frímúrararegluna. Af hálfu stefnda er því haldið fram að hann hefði skaðast við að þurfa að segja stefnanda upp störfum og greiða honum full laun þar sem stefndi hafi þurft að greiða tveimur yfirmatreiðslumönnum laun samtímis. Stefndi telur rétt til launa í uppsagnarfresti vera tryggingarrétt á sama hátt og rétt til forfallalauna vegna veikinda eða slysa. Þeir sem missi vinnu sína eigi á aðlögunartíma, sem sé uppsagnarfresturinn, að fá greidd laun eða mismun fyrri launa og launa í nýju starfi. Séu þeim með því tryggð sömu laun á uppsagnarfrestinum og þeir höfðu á fyrri vinnustað. Réttur til launa í uppsagnarfresti sé því ekki viðbót við laun frá öðrum vinnuveitanda eins og stefnandi virðist telja. Væri það ætlunin þyrftu að vera skýr ákvæði í kjarasamningum eða lögum um slíkt. Slík ákvæði séu t.d. í sjómannalögum, en þau gildi ekki um starfsmenn í landi. Stefndi telur sig hafa staðið stefnanda skil á því sem honum beri í uppsagnarfresti. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að greiðsla stefnda sé lægri en mismunur á þeim launum sem stefnandi hafði hjá stefnda og þess sem hann hafi haft í nýjum störfum mánuðina janúar til og með mars 2001. Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Stefndi krefst þess til vara, að hann verði einungis dæmdur til að greiða mismun á þeim launum sem stefnandi hafi haft hjá stefnda og þeim launum sem hann hafi haft annars staðar á meðan uppsagnarfrestur var að líða. Það hafi í raun alltaf staðið til boða og verið skilningur stefnda að stefnandi ætti að vera eins settur launalega séð út uppsagnarfrestinn eins og ekki hefði komið til uppsagnar. Hins vegar sé það ekki í samræmi við almennar reglur vinnuréttar að starfsmaður hagnist verulega á uppsögn. Væri það ætlunin þurfi það að koma skýrt fram í lögum eða kjarasamningum. Stefndi telur stefnandi hafa með bréfi 10. mars 2001 í raun neitað að upplýsa um laun hjá nýjum vinnuveitendum. Þá hafi stefnandi ekki fyrr en við aðalmeðferð sýnt fram á að eitthvað hafi vantað á að stefndi greiddi mismun þeirra launa sem stefnandi hafi haft hjá stefnda og þeirra launa sem hann hafi haft á öðrum vinnustöðum í janúar til febrúar 2001. Því sé þess krafist að dráttarvextir reiknist ekki fyrr en frá þingfestingardegi og að málskostnaður verði felldur niður. Af hálfu stefnda er m.a. byggt á kjarasamningi matreiðslumanna, 1. gr. laga nr. 55/1980, lögum nr. 77/1993 og meginreglum samninga- og vinnuréttar. III - Niðurstaða Ágreiningur aðila í máli þessu lýtur einkum að því hvort stefnda hafi verið rétt að draga frá launum stefnanda í uppsagnarfresti, þau laun sem hann fékk fyrir störf hjá öðrum á sama tímabili. Ekki er ágreiningur um að stefnanda bar þriggja mánaða uppsagnarfrestur samkvæmt gildandi kjarasamningi. Óumdeilt er að stefnanda var sagt upp störfum skriflega 19. desember 2000 með samningsbundnum fyrirvara. Í uppsagnarbréfinu var tekið fram að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi stefnanda frá og með dagsetningu bréfsins og á uppsagnartímanum. Engar ástæður voru þar tilgreindar fyrir uppsögn stefnanda og þykja síðari skýringar málsaðila á ástæðum og aðdraganda uppsagnarinnar engu skipta við úrlausn málsins. Verður að líta svo á að um lögmæta uppsögn hafi verið ræða og var stefnda það í sjálfsvald sett sem vinnuveitanda hvort hann óskaði eftir vinnuframlagi stefnanda. Það kaus hann að gera ekki. Óumdeilt er að krafa stefnanda er um endurgjald samkvæmt vinnusamningi en ekki bótakrafa. Það er meginregla í vinnurétti að hafi vinnuveitandi sagt starfsmanni upp með ólögmætum hætti er litið svo á að starfsmaðurinn eigi rétt á launum í uppsagnarfresti í samræmi við áunnin réttindi. Launin eru þá ígildi skaðabóta vegna ólögmætrar uppsagnar. Þá er það almenn regla í vinnurétti að vinnulaun sem starfsmaður aflar á uppsagnarfrestinum beri að draga frá bótakröfu á hendur vinnuveitanda. Stefnandi heldur því fram að þar sem um lögmæta uppsögn á vinnusamningi hafi verið að ræða komi reglur um skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar ekki til álita heldur verði stefndi að standa við sinn hluta vinnusamningsins þ.e. að greiða laun til loka uppsagnarfrests, óháð því hvort stefnandi hafi aflað sér tekna á þeim tíma. Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að sambærileg regla sé til staðar í vinnurétti um frádrátt tekna hjá nýjum vinnuveitanda hvort sem um lögmæta eða ólögmæta uppsögn er að ræða. Væri fallist á rök stefnanda væri réttarstaða vinnuveitanda sem segir starfsmanni sínum upp með lögmætum hætti lakari en réttarstaða þess sem segir starfmanni upp með ólögmætum hætti. Að sama skapi væri starfsmaður, sem sagt væri upp með ólögmætum hætti, verr settur en sá sem sagt er upp með lögmætum hætti. Sýnist það í hæsta máta óeðlileg niðurstaða og óásættanleg fyrir bæði launþega og vinnuveitendur. Við úrlausn málsins verður að hafa í huga það eðli uppsagnarfrests að hann er aðlögunartími fyrir bæði starfsmann og vinnuveitanda vegna breyttra aðstæðna í kjölfar uppsagnar. Báðir aðilar fá þá ráðrúm til að haga málum þannig að uppsögnin valdi þeim sem minnstri röskun. Í uppsagnarfrestinum ber vinnuveitanda að öðru jöfnu að greiða starfsmanninum laun þar til ráðningarsambandi þeirra lýkur við lok frestsins og starfsmanninum ber að inna af hendi störf sín í þágu vinnuveitandans. Óski vinnuveitandi ekki eftir vinnuframlagi starfsmannsins verður að líta svo á að stafsmanninum sé frjálst að nýta sér uppsagnarfrestinn á þann veg sem hann kýs, t.d. að hverfa til annarra starfa ef það hentar honum að þiggja starf sem býðst í uppsagnarfresti. Megintilgangur launa í uppsagnarfresti er að tryggja starfsmanninum sömu laun og hann áður naut á meðan á þessum aðlögunartíma stendur. Með hliðsjón af reglunni um frádrátt launa frá kröfu um bætur vegna ólögmætrar uppsagnar, eðlis uppsagnarfrests og þess tilgangs launagreiðslna í uppsagnarfresti að tryggja starfsmanni óskert laun til loka uppsagnarfrests, þykir eðlilegt að frá slíkum launagreiðslum dragist launatekjur í uppsagnarfresti, vegna starfa í þágu annars vinnuveitanda, sem hann hefði ekki getað unnið fyrir samhliða fyrra starfi sínu. Í uppsagnarbréfi því sem stefnandi fékk er eingöngu vísað til þess að stefnanda sé sagt upp með samningsbundnum fyrirvara og að ekki sé óskað eftir vinnuframlagi stefnanda á uppsagnartímanum. Uppsagnarbréfið verður því ekki túlkað sem óskilyrt loforð um greiðslu fullra launa á uppsagnartímanum. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hann þurfi ekki að sæta frádrætti frá kröfu um laun á uppsagnartímanum vegna starfa sinna hjá öðrum. Ekki hafi í uppsagnarbréfi ekki verið tilgreint að greiðsla launa í uppsagnarfresti væri háð því að hann nyti ekki tekna frá öðrum á sama tíma. Honum hafi því verið frjálst að nýta sér uppsagnarfrestinn að eigin vild og hann hafi kosið að afla sér tekna annars staðar. Styðst þessi niðurstaða að hluta við Hæstaréttardóm 1997, bls. 580. Ekki verður fallist á með stefnanda að stefndi hafi þurft að gera sérstakan áskilnað í uppsagnarbréfi um að vinnutekjur í þágu annars vinnuveitanda til loka uppsagnarfrests kæmu til frádráttar launum í uppsagnarfresti. Ekki verður heldur fallist á að í efni uppsagnarbréfsins felist loforð um greiðslu óskertra launa út uppsagnarfrestinn án tillits til launagreiðslna frá nýjum vinnuveitanda. Samkvæmt gögnum málsins starfaði stefnandi í mötuneyti MATVÍS í janúar og í mötuneyti P. Samúelssonar hf. í janúar, febrúar og mars. Laun stefnanda fyrir störf hjá þessum vinnuveitendum voru samtals 274.233 krónur í janúar 2001, 250.000 krónur í febrúar og 250.000 krónur í mars. Samkvæmt framlögðum gögnum, sem ekki hafa verið dregin í efa, var daglegur vinnutími stefnanda frá kl. 8.00 til 16.00 og því ljóst að stefnandi hefði ekki getað sinnt þessum störfum samhliða starfi sínu hjá stefnda. Stefnandi verður því að sæta frádrætti af kröfu um laun í uppsagnarfresti sem þessum launagreiðslum nemur. Þá er fram komið og stutt gögnum, sem ekki hafa verið vefengd, að stefnandi starfaði jafnframt í uppsagnarfrestinum sem matsveinn hjá Frímúrarareglunni og voru þau störf unnin eftir kl. 17.00. Ekki liggur fyrir að ráðningarsamningur stefnanda og stefnda hafi meinað stefnanda að drýgja tekjur sínar með vinnu í þágu annars vinnuveitanda utan reglulegs vinnutíma. Hvorugur aðili hefur lagt fram gögn um daglegan vinnutíma stefnanda hjá stefnda. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hann hefði getað sinnt þessu starfi samhliða starfi sínu hjá stefnda. Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að vinnutími yfirmatreiðslumanna sé lengri en frá kl. 8.00 til kl. 17.00. Með hliðsjón af sönnunaraðstöðu málsaðila þykir rétt að leggja til grundvallar að vinnuskyldur stefnanda í þágu stefnda hafi ekki verið svo miklar að hann hafi ekki haft svigrúm til að afla sér tekna af störfum í þágu annarra en stefnda. Með hliðsjón af framangreindu þykir rétt að laun stefnanda vegna starfa hjá Frímúrarareglunni, sem hann sinnti utan venjulegs dagvinnutíma, komi ekki til frádráttar kröfu á hendur stefnda um laun í uppsagnarfresti. Þessi laun voru 9.739 krónur í janúar, 99.431 króna í febrúar og 85.803 krónur í mars eða samtals 194.973 krónur. Samkvæmt gögnum málsins voru mánaðarlaun stefnanda hjá stefnda, auk orlofs, 366.560 krónur. Fyrir liggur að stefndi greiddi stefnanda í janúar, febrúar og mars 51.420 krónur og hafði þá verið dregin frá fjárhæð sem stefndi taldi markaðslaun matreiðslumanna í mötuneytum. Þegar tekið hefur verið tillit til þeirra greiðslna, sem samkvæmt framansögðu eiga að koma til frádráttar launum stefnanda í uppsagnarfresti og þeirra greiðslna sem hann hefur þegar fengið úr hendi stefnda, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 40.907 krónur (366.560-51.420-274.233) vegna janúar 2001, 65.140 krónur (366.560-51.420-250.000) vegna febrúar 2001 og 65.140 krónur (366.560-51.420-250.000) vegna mars 2001. Stefndi hefur krafist þess að dráttarvextir dæmist ekki fyrr en frá 12. nóvember þegar stefnandi lagði fram launaseðla vegna starfa sinna í uppsagnarfresti. Hann hafi ekki fyrr en þá orðið við beiðni lögmanns stefnda um upplýsingar þar að lútandi. Vísar stefndi þar um til bréfaskipta lögmanna aðila. Þau bréf liggja frammi í málinu. Verður ekki séð að lögmaður stefnda fari þar fram á slíkar upplýsingar hvað þá að þeim hafi verið neitað af hálfu lögmanns stefnanda. Er því fallist á dráttarvaxtakröfu stefnanda. Að þessu virtu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 171.187 krónur með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að stefndi greiði stefnanda hluta af kostnaði hans af málinu. Þykir hæfilegt að stefndi greiði stefnanda 100.000 krónur í málskostnað. Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Ásgeir Björnsson hdl. en af hálfu stefnda Jón H. Magnússon hdl. Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp dóminn. D Ó M S O R Ð Stefndi, J. T. veitingar ehf., greiði stefnanda, Þorvarði Óskarssyni, 171.187 krónur, með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 40.907 krónum frá 31. janúar 2001 til 28. febrúar 2001, þá af 106.047 krónum til 30. mars 2001, þá af 171.187 krónum til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 100.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 333/2008 | Fasteign Eignarréttur Þinglýsing Traustfang | S keypti árið 1988 ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum sumarbústaðarlóð í landi jarðarinnar H af P. S hélt því fram að kaupverðið hefði verið greitt, en P sagði að aðeins hluti þess hefði verið greiddur. Kaupsamningi aðila var ekki þinglýst, en eigendaskipti voru tilkynnt Fasteignamati ríkisins. S var skráð eigandi lóðarinnar hjá Fasteignamatinu til 19. maí 2006. Þann dag var P skráður og vísað til þinglýstrar eignarheimildar hans frá árinu 1987. P seldi N lóðina og var afsal afhent til þinglýsingar 27. júlí 2007. N seldi síðan E lóðina og var afsal þess efnis afhent til þinglýsingar 2. ágúst 2007. S höfðaði mál og krafðist þess að viðurkenndur yrði eignarréttur hennar að umræddri lóð. Héraðsdómur taldi að það ylti á 29. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 hvort S teldist hafa glatað rétti sínum til lóðarinnar, þar sem þinglýsingarbækur hefðu ekki geymt heimildir um réttindi hennar þegar E þinglýsti kaupsamningi sínum. Kæmi því aðeins til skoðunar hvort E hefði verið grandlaus um réttindi S er hún samdi við N og þinglýsti rétti þeim er hún taldi sig hafa fengið. Talið var að grandleysi E hefði ekki verið afsannað og því hefði hún með þinglýsingu réttar síns rýmt rétti S. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var upplýst að ákæra hefði verið gefin út á hendur P. Þar sem S hefði hvergi haldið því skýrlega fram gagnvart N og E að þau hefðu verið grandsöm um lögskipti S við P gætu afdrif sakamáls á hendur honum engu breytt í þessu máli. Var því með vísan til 29. gr. þinglýsingarlaga staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu P, N og E af kröfu S. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 2008 og krefst þess að viðurkenndur verði eignarréttur hennar að sumarbústaðarlóð nr. 93 í landi Hests í Grímsnesi með fastanúmer 168599 í landskrá fasteigna. Hún krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var upplýst að ákæra hafi verið gefin út 2. október 2009 á hendur stefnda Páli Skúlasyni fyrir að hafa brotið aðallega gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. sömu laga með því að hafa ráðstafað fyrrnefndri lóð til stefnda Núll sjö ehf. með afsali 21. maí 2007. Í málatilbúnaði áfrýjanda gagnvart stefndu Núll sjö ehf. og Elísabetu H. Guðmundsdóttur er því hvergi haldið skýrlega fram að þau hafi verið grandsöm um lögskipti áfrýjanda við stefnda Pál. Að þessu virtu geta afdrif sakamáls á hendur honum engu breytt í þessu máli og verður því með vísan til 29. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sýknu allra stefndu af kröfu áfrýjanda. Rétt er að hver aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað. Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2008. Mál þetta höfðaði Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir, kt. 090247-2639, Bræðraborgarstíg 13, Reykjavík, með stefnu birtri 22. júní 2007 á hendur Páli Skúlasyni, kt. 300740-2199, Prestastíg 9, Reykjavík. Með sakaukastefnu útgefinni 9. október 2007 var einnig stefnt til að þola dóm Elísabetu H. Guðmundsdóttur, kt. 170561-5469, Ekrusmára 7, Kópavogi, og Núll sjö ehf., kt. 540797-2269, Strandvegi 12, Garðabæ. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 6. mars sl. Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði eignarréttur hennar að sumarbústaðalóðinni nr. 93 í landi Hests í Grímsnesi, fastanúmer 168-599 í landsskrá Fasteignamats ríkisins. Þá krefst stefnandi málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu. Stefndi Páll Skúlason krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar. Stefndi Elísabet H. Guðmundsdóttir krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar. Stefndi Núll sjö ehf. krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar. Stefnandi og Haukur Haraldsson keyptu lóð nr. 93 í landi jarðarinnar Hests í Grímsnesi af stefnda Páli Skúlasyni. Kaupsamningur er dagsettur 5. ágúst 1988. Stefnandi og Haukur skildu síðar og sömdu þau svo um að lóðin kæmi í hlut stefnanda. Umsamið kaupverð var 300.000 krónur. Helming átti að greiða við undirritun samnings og síðan 150.000 krónur á þremur gjalddögum á árinu 1989. Stefnandi kvaðst fyrir dómi halda að þáverandi eiginmaður sinn hefði innt þessar greiðslur af hendi. Haukur kvaðst einnig halda að hann hefði greitt. Stefndi Páll Skúlason sagði fyrir dómi að greiddar hefðu verið 150.000 krónur er samningur var undirritaður, en síðan ekki meira. Þá hefði verið samið svo um að eiginmaður stefnanda, sem starfaði á auglýsingastofu, útvegaði auglýsingar í tímarit stefnda. Greiða hefði átt hluta kaupverðs með því móti, peningagreiðslan hefði enda verið lág. Haukur Haraldsson kannaðist ekki við þetta samkomulag í skýrslu sinni fyrir dómi. Engin skjöl um greiðslur hafa verið lögð fram í málinu, hvorki kvittanir né afrit tékka eða annarra greiðsluskjala. Kaupsamningi þessum var ekki þinglýst. Eigendaskipti voru tilkynnt Fasteignamati ríkisins og voru stefnandi og þáverandi eiginmaður hennar talin eigendur í skrám Fasteignamatsins. Greiddu þau fasteignagjöld af lóðinni. Í stefnu segir að ekki hafi borist greiðsluseðill fyrir fasteignagjöldum á árinu 2007. Hafði skráningu hjá Fasteignamati ríkisins þá verið breytt þannig að stefndi Páll Skúlason var skráður eigandi. Samkvæmt staðfestingu Fasteignamats ríkisins var stefnandi skráð eigandi lóðarinnar til 19. maí 2006. Þann dag var stefndi Páll Skúlason skráður og vísað til þinglýstrar eignarheimildar hans frá árinu 1987. Hinn 7. ágúst 2007 var stefnda Elísabet H. Guðmundsdóttir skráð eigandi í bókum Fasteignamatsins. Stefndi Páll seldi stefnda Núll sjö ehf. lóðina. Afsal er dagsett 21. maí 2007, en það var afhent til þinglýsingar 27. júlí. Stefndi Núll sjö ehf. seldi síðan stefndu Elísabetu H. Guðmundsdóttur lóðina. Afsal til hennar er dagsett 1. ágúst 2007, en það var afhent til þinglýsingar 2. ágúst. Að kröfu stefnanda lagði sýslumaðurinn á Selfossi lögbann á allar framkvæmdir á lóðinni þann 8. október 2007. Mál til staðfestingar lögbanni var höfðað fyrir Héraðsdómi Suðurlands. Málsástæður og lagarök stefnanda. Stefnandi byggir á því að hún hafi ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum keypt umrædda lóð af stefnda Páli Skúlasyni. Páll sé lögmaður og hafi sjálfur annast alla skjalagerð. Hún hafi við skipti milli sín og eiginmanns síns fengið lóðina í sinn hlut. Stefnandi kveðst hafa greitt öll opinber gjöld af lóðinni frá 1988 og talið hana til eignar á skattframtali. Þá hafi hún verið félagi í landeigendafélagi á svæðinu. Hún hafi ræktað landið og plantað þar trjám. Hún hafi talið nægilegt að skrá eignarhald sitt hjá Fasteignamati ríkisins. Stefnandi segir lögmann sinn hafa ritað stefnda Páli Skúlasyni bréf þann 10. maí 2007. Engin svör hafi hins vegar borist frá stefnda. Í sakaukastefnu sem þingfest var 18. október 2007 er því lýst að stefnandi hafi í ágústmánuði komist að því að verkframkvæmdir stóðu yfir á lóðinni. Hafi hún þá komist að því að sakaukastefndu höfðu fengið afsöl fyrir lóðinni. Stefnandi bendir á að stefndi Núll sjö hafi ekki þinglýst afsali sínu fyrr en í lok júlí, en samningurinn sé dagsettur 19. maí. Þá sé dagsetningin færð inn með sérstakri rithönd. Kveðst stefnandi telja að stefndi og lögmaður er kom að viðskiptum þessum hafi framið auðgunarbrot og kveðst hann hafa kært þá til lögreglu. Stefnandi vísar í sakaukastefnu sérstaklega til reglna um kaupfox í 14. kapítula Jónsbókar. Málsástæður og lagarök stefnda Páls Skúlasonar. Stefndi Páll Skúlason telur sig ekki eiga aðild að málinu með því að hann sé ekki eigandi umræddrar lóðar. Stefndi segir að af málatilbúnaði stefnanda megi ráða að hún telji sig eiga kröfu á hendur sér til afsals fyrir lóðinni. Séu þetta kröfuréttindi vegna fasteignakaupa og slík krafa fyrnist á tíu árum samkvæmt 2. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905. Krafan hafi verið gjaldkræf 1. apríl 1989 og sé því löngu fyrnd. Þá telur stefndi að kaupsamningi aðila hafi í reynd verið rift í lögskiptum þeirra með tómlæti kaupenda við að greiða eftirstöðvar kaupverðs og krefjast afsals. Þá beri að ógilda þennan meinta kaupsamning samkvæmt 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 með síðari breytingum. Loks vísar stefndi til þess að stefnandi hafi ekki lagt fram frumrit kaupsamnings. Hann kveðst heldur ekki hafa frumrit þessa samnings undir höndum. Kveðst hann telja hugsanlegt að samningnum hafi verið rift með því að frumrit hafi verið rifið. Stefndi vísar til III. og IV. kafla laga nr. 91/1991, almennra reglna kröfuréttar og samningalaga, eldri laga um lausafjárkaup nr. 39/1922 og laga nr. 14/1905 um fyrningu. Málsástæður og lagarök stefnda Núll sjö ehf. Stefndi fullyrðir að forsvarsmönnum félagsins hafi ekki orðið kunnugt um ætluð réttindi stefnanda til lóðarinnar fyrr en löngu eftir að afsali var þinglýst. Þeir hafi verið grandlausir er þeir festu kaup á eigninni og einnig þegar eignarheimildin var afhent til þinglýsingar. Stefndi telur sig ekki aðila að málinu og krefst sýknu samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Þá vísar stefndi til röksemda Páls Skúlasonar fyrir sýknukröfu. Auk ákvæða laga um meðferð einkamála vísar stefndi til þinglýsingarlaga, einkum 29. gr. og reglna samninga- og kröfuréttar. Málsástæður og lagarök stefndu Elísabetar H. Guðmundsdóttur. Stefnda segir að ekkert réttarsamband sé á milli sín og stefnanda. Henni verði því ekki gert að þola dóm þess efnis sem krafist sé. Stefnda kveðst vera réttur eigandi umræddrar lóðar. Hún hafi keypt hana af Núll sjö ehf., sem þá hafi verið þinglýstur eigandi. Sjálf hafi hún þinglýst afsali til sín. Stefnda kveðst hafa verið í góðri trú um eignarréttindi Núll sjö. Kröfum vegna afleiðinga þess að stefnandi þinglýsti ekki réttindum sínum verði ekki beint að sér. Þar sem stefnandi hafi ekki þinglýst rétti sínum haldi hann ekki gagnvart sér. Stefnda vísar til 1. mgr. 29. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Forsendur og niðurstaða. Stefnandi öðlaðist réttindi yfir umræddri lóð með samningi við stefnda Pál Skúlason. Ekki þarf að leysa úr því hér hvort stefnandi hafi staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt þeim samningi, en ósannað er að honum hafi verið rift. Stefnandi þinglýsti ekki samningi sínum. Stefndi Núll sjö ehf. keypti sömu lóð af stefnda Páli Skúlasyni og þinglýsti afsali sínu. Stefnda Elísabet keypti lóðina af Núll sjö ehf. og þinglýsti samningi sínum. Geymdu þinglýsingabækur þá ekki heimildir um réttindi stefnanda og veltur því á 29. gr. þinglýsingarlaga hvort stefnandi hafi glatað rétti sínum, en reglur Jónsbókar gilda ekki hér. Kemur þá aðeins til skoðunar hvort stefnda Elísabet H. Guðmundsdóttir hafi verið grandlaus um réttindi stefnanda er hún samdi við stefnda Núll sjö ehf. og þinglýsti rétti þeim er hún taldi sig fá. Fyrir dómi neitaði stefnda Elísabet því að hún hefði vitað um réttindi stefnanda. Sönnunargögn um að hún hafi vitað eða mátt vita af réttindum stefnanda hafa ekki verið lögð fram. Grandleysi hennar hefur því ekki verið afsannað. Því hefur hún með þinglýsingu réttar síns rýmt rétti stefnanda. Að svo vöxnu er ekki unnt að viðurkenna rétt stefnanda til lóðarinnar. Í samræmi við þessa niðurstöðu verður stefnanda gert að greiða stefndu Elísabetu H. Guðmundsdóttur 250.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti, stefnda Núll sjö ehf. 150.000 krónur, en rétt er að málskostnaður milli stefnanda og stefnda Páls Skúlasonar falli niður. Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Stefndu, Páll Skúlason, Núll sjö ehf. og Elísabet H. Guðmundsdóttir, eru sýknuð af kröfum stefnanda, Sigurbjargar Aðalsteinsdóttur. Stefnandi greiði stefndu Elísabetu H. Guðmundsdóttur 250.000 krónur í málskostnað. Stefnandi greiði stefnda Núll sjö ehf. 150.000 krónur í málskostnað. Málskostnaður fellur niður milli stefnanda og stefnda Páls Skúlasonar. |
Mál nr. 725/2009 | Sjómaður Laun Loforð Sératkvæði | Málavextir voru þeir að E var ráðinn til starfa á togara til einnar ferðar en var sagt upp störfum þegar tekin var ákvörðun um að selja skipið, skömmu áður en haldið var í ferðina. Kaupandi togarans hafði hug á að halda skipinu áfram til sömu veiða um einhvern tíma og bauð skipverjum, þ. á m. E, að halda skiprúmi sínu næstu veiðiferð. Með hliðsjón af 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 gaf H vilyrði um greiðslu meðallauna til skipverja út uppsagnarfrest óháð því hvort þeir færu veiðiferð með kaupanda togarans. E hlaut ekki greiðslu meðallauna í einnar viku uppsagnarfresti og höfðaði mál þetta af þeim sökum. Var talið að framangreint loforð H til skipverja hefði tekið til E og H gert að greiða E laun í uppsagnarfresti. Ekki var fyrir að fara fyrri starfsreynslu E á togaranum hjá H og varð því við útreikning meðallauna að taka mið af launum þeim sem E hafði af störfum hans um borð í skipinu eftir sölu þess. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Stefndi gerði út frystitogarann Engey RE 1 skipaskrárnúmer 2662. Á fyrstu mánuðum ársins 2007 var skipið gert út til síldar- og kolmunnaveiða. Áfrýjandi var ráðinn til starfa á skipinu með munnlegum ráðningarsamningi og er ágreiningslaust að sá samningur var til einnar ferðar. Þann 20. mars 2007, skömmu áður en sú ferð skyldi hefjast, seldi stefndi Samherja hf. skipið. Mun kaupandi þess hafa haft hug á að halda skipinu áfram til sömu veiða um einhvern tíma og hafa boðið skipverjum, þar á meðal stefnda, að halda skiprúmi sínu að minnsta kosti í næstu veiðiferð. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 á skipverji, þegar skip er selt öðrum innlendum útgerðarmanni, rétt á að krefjast lausnar úr skiprúmi og á þá samkvæmt 3. mgr. sömu greinar rétt til kaups í sex vikur nema uppsagnarfrestur sé skemmri tími. Samkvæmt því var ljóst að þeir úr skipshöfninni sem áttu þennan kost sáu sér lítinn hag í því að þiggja boð Samherja hf. um áframhaldandi skiprúm. Við þessar aðstæður átti Bergur Þorkelsson starfsmaður Sjómannafélags Íslands fund með starfsmannastjóra stefnda þar sem til umræðu var hvort stefndi væri tilbúinn til að borga laun í uppsagnarfresti til skipverja óháð því hvort þeir færu í næstu veiðiferð skipsins í eigu Samherja hf. Í framhaldi af þessum fundi sendi starfsmannastjóri stefnda starfsmanni sjómannafélagsins svohljóðandi tölvupóst 24. mars 2007: „Það tilkynnist hér með að HB Grandi mun greiða skipverjum Engeyjar meðallaun út sinn uppsagnarfrest, óháð því hvort þeir fari næstu veiðiferð með Engey eða ekki.“ Áfrýjandi mun hafa farið tvær veiðiferðir með skipinu í eigu Samherja hf., sem nú bar nafnið Kristina, og var lögskráður frá 27. mars til 15. maí 2007. II Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að ráðningarsamband hafi verið komið á milli aðila um að áfrýjandi færi í eina veiðiferð. Með sölu skipsins hafi ráðningu áfrýjanda verið slitið og eigi hann við þær aðstæður rétt til launa í uppsagnarfresti, sbr. fyrrgreind ákvæði 22. gr. sjómannalaga, sem sé ein vika samkvæmt 9. gr. sjómannalaga og ákvæði kjarasamnings. Í framangreindum tölvupósti stefnda 24. mars 2007 hafi falist staðfesting á samkomulagi Sjómannafélags Íslands og stefnda. Það hafi ekki verið skilyrt eða bundið við fastráðna skipverja og hafi því samkvæmt efni sínu tekið til áfrýjanda. Stefndi kveðst hafa ráðgert að senda skipið til annarra verkefna á fjarlægum miðum um mánaðarmótin apríl-maí 2007. Því hafi almennt verið búið að segja upp ráðningarsamningum skipverja og hafi þeir verið að vinna á uppsagnarfresti þegar skipið var selt. Við þær aðstæður sem upp hafi komið við fyrirvaralitla sölu skipsins hafi félagið vilja gera vel við þá sem unnið höfðu hjá útgerðinni og lýst því einhliða yfir að þeim sem voru að vinna í uppsagnarfresti yrði greitt óháð því hvort þeir þægju skiprúm hjá Samherja hf. Hafi vilyrði um þá greiðslu verið umfram skyldu. Hafi því vilyrði ekki verið beint til áfrýjanda. Áfrýjandi hafi þegið boð Samherja hf. um að halda ráðningu sinni og hafi hann eftir það ekki átt kröfu á stefnda. Stefndi andmælir því þó ekki að ef áfrýjandi hefði nýtt rétt sinn til lausnar úr skiprúmi samkvæmt 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga hefði uppsagnarfrestur hans verið ein vika. III Í fyrrgreindum tölvupósti stefnda 24. mars 2007 fólst loforð um greiðslu. Því var beint til Sjómannafélags Íslands í framhaldi af viðræðum við stefnda. Loforðið tók til að „greiða skipverjum Engeyjar“ og var samkvæmt orðalagi sínu hvorki bundið við fastráðna skipverja né þá sem þegar hafði verið sagt upp vegna fyrirhugaðra breytinga á útgerðarháttum skipsins. Efnislega fólst í loforðinu að skipverjum yrðu greidd meðallaun „út sinn uppsagnarfrest“ óháð því hvort þeir færu næstu veiðiferð. Ágreiningslaust sýnist vera að hefði áfrýjandi ekki þegið boð Samherja hf. og nýtt rétt sinn samkvæmt 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga til að krefjast lausnar úr skiprúmi hefði uppsagnarfestur hans samkvæmt 3. mgr. sömu greinar verið sjö dagar. Hann hafði því þá réttarstöðu gagnvart stefnda að loforðið tók efnislega til hans. Þá er ljóst að loforðið var til þess fallið fyrir áfrýjanda sem aðra skipverja að hafa áhrif á það hvort hann kaus að nýta sé framangreindan rétt til lausnar úr skiprúmi. Samkvæmt framansögðu tekur fyrrgreint greiðsluloforð stefnda til áfrýjanda. Í loforði stefnda fólst að skipverjum skyldu greidd meðallaun út sinn uppsagnarfrest. Er eðlilegt að skýra loforðið svo að þar sé átt við þau meðallaun sem til grundvallar hefðu verið lögð fyrir hvern skipverja við greiðslu launa á uppsagnarfresti vegna slita á ráðningarsamningi hans. Almennt er í þeim efnum miðað við laun viðkomandi skipverja vegna starfa um borð á tímabili fyrir slit ráðningarsamnings. Áfrýjandi var hins vegar í þann veginn að hefja störf og er því ekki um að ræða meðallaunaviðmiðun vegna starfa hans um borð fyrir sölu skipsins. Hann starfaði hins vegar um borð í 50 daga eftir söluna, en þá var skipinu haldið til hliðstæðra veiða og áður. Við þær aðstæður er eðlilegt að taka mið af meðallaunum hans á því tímabili, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 46/2001, sem birtur er í dómasafni réttarins 2001 á bls. 2963. Lögskráningardagar áfrýjanda falla saman við ráðningartíma hans. Í málinu liggur fyrir staðfest staðgreiðsluyfirlit skattstjórans í Reykjavík fyrir áfrýjanda er tekur til umrædds tímabils. Þar kemur fram að Samherji hf. greiddi áfrýjanda 1.488.394 krónur á árinu 2007. Verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 208.375 krónur og 16.670 krónur að auki vegna 8% lífeyrisframlags eða samtals 225.045 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir. Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Stefndi, HB Grandi hf., greiði áfrýjanda, Einari Birni Ólafssyni, 225.045 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. apríl 2007 til greiðsludags. Stefndi greiði áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Málsaðilar eru sammála um að úrslit málsins ráðist alfarið og eingöngu af skýringu á loforði því sem stefndi sendi með tölvupósti til Sjómannafélags Íslands 24. mars 2007 svohljóðandi: „Það tilkynnist hér með að HB Grandi mun greiða skipverjum Engeyjar meðallaun út sinn uppsagnarfrest, óháð því hvort þeir fari næstu veiðiferð með Engey eða ekki.“ Þá eru þeir einnig sammála um að loforðið fól í sér rétt skipverjum til handa sem þeir hefðu ekki notið ella og að það var einhliða af stefnda hálfu í þeim skilningi að hann vænti einskis endurgjalds frá þeim. Hinn 30. apríl 2007 sendi skrifstofustjóri Sjómannafélags Íslands tölvupóst til stefnda með ósk um könnun á rétti áfrýjanda og tveggja annarra manna, sem eins mun hafa staðið á um, og ekki hefðu „fengið greiddan uppsagnarfrestinn eins og hinir.“ Spurði hann hvort móttakandi tölvupóstsins gæti kannað þetta fyrir sig. Þessu svaraði starfsmannastjóri stefnda með tölvupósti sama dag. Þar segir meðal annars svo: „Allir þessir menn voru aðeins ráðnir til eins túrs allir fóru þeir Samherjatúrinn og [skipstjórinn] veit ekki betur en að þeir séu enn um borð. Þetta voru ekki fastráðnir starfsmenn HB Granda og teljum við okkur ekki þurfa að greiða þeim túr sem þeir fá hvort eð er greiddan frá Samherja.“ Samkvæmt þessu er ljóst að stefndi lét strax og tilefni kom upp í ljós þá túlkun á loforði sínu að það ætti ekki við áfrýjanda þar sem hann hefði ekki verið fastráðinn á skipið og hann hefði farið veiðiferðina sem hann hefði verið ráðinn til þó að farin hefði verið eftir að skipið var komið í eigu Samherja hf. Stefndi hefur meðal annars talið að með orðunum „út sinn uppsagnarfrest“ í hinum umdeilda tölvupósti hafi verið átt við þá skipverja sem sagt hafði verið upp og voru á uppsagnarfresti þegar stefndi seldi skipið. Þetta hafi ekki átt við um áfrýjanda sem einungis hafði verið ráðinn til einnar veiðiferðar og ekki hafði verið sagt upp. Þá telur stefndi að fyrirheitið um greiðslu meðallauna hafi alls ekki getað átt við um áfrýjanda. Ekki hafi verið um nein slík laun hans að ræða þar sem hann hafi alls ekki starfað hjá stefnda fram að hinni fyrirhuguðu veiðiferð. Þegar litið er til þess að loforð stefnda fól í sér rétt skipverjum til handa umfram skyldu stefnda, að í því fólst örlæti af hans hálfu í þeim skilningi að hann vænti ekki endurgjalds þeirra, að hann hefur gefið skýringar á loforði sínu sem vel rúmast innan orðalags þess og loks að hann gaf þær skýringar strax og eftir þeim var leitað, tel ég að rétt sé að leggja túlkun stefnda til grundvallar dómi í málinu. Samkvæmt því tel ég að staðfesta beri hinn áfrýjaða dóm, en dæma áfrýjanda til að greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2009. Mál þetta, sem dómtekið var 5. maí 2009, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Einari Birni Ólafssyni, kt. 230385-2549, Baughúsum 34, Reykjavík, gegn HB Granda hf., kt. 541185-0389, Norðurgarði, Reykjavík, með því að sótt var þing af hálfu aðila er málið var þingfest hinn 23. september 2008. Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 315.063 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 30. apríl 2007 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins. Til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður milli aðila verði felldar niður. Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því: Af hálfu stefnanda segir að stefndi hafi keypt frystitogarann Engey RE-1 í maí 2005 og gert skipið út allt fram í mars 2007 er skipið var selt Samherja hf. Síðustu veiðiferð skipsins í útgerð stefnda hafi lokið með löndun 17. mars 2007 og skipið afhent Samherja hf. hinn 22. mars 2007. Stefnandi hafi verið ráðinn ásamt tveimur öðrum skipverjum til einnar veiðiferðar á Engey RE-1, en með sölu stefnda á skipinu til Samherja hf. hafi stefndi rift ráðningu stefnanda og stefnandi þannig öðlast rétt á greiðslu meðallauna einnar viku á uppsagnarfresti skv. ákvæði greinar 1.11 í kjarasamningi milli Sjómannasambandi Ísland annars vegar og Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins hins vegar. Þá segir að ætlun Samherja hf. hafi verið að gera skipið út til veiða á erlendum miðum, en þó hafi verið fyrirhugað að halda áfram um sinn síldar- og kolmunnaveiðum svo sem stefndi hafði notað skipið. Fyrirsvarsmenn Samherja hf. hafi því óskað eftir að hluti áhafnar Engeyjar RE-1 héldu áfram störfum á skipinu við veiðar á síld og kolmunna. Skipverjum hafi hins vegar verið ljóst að héldu þeir áfram störfum á skipinu fyrirgerðu þeir rétti til launa frá stefnda á uppsagnarfresti. Í þessari stöðu hafi Sjómannafélag Íslands og stefndi, HB Grandi hf., komist að samkomulagi, hinn 24. mars 2007, um að útgerðin greiddi skipverjum Engeyjar RE-1 meðallaun á uppsagnarfresti óháð því hvort þeir færu í næstu veiðiferð með skipinu eða ekki. Stefnandi hafi verið einn þeirra sem hélt til veiða á skipinu í útgerð Samherja hf. Greint er frá því að sjómannafélagið hafi í tölvupósti, hinn 30 apríl 2007, krafist þess að umræddum þremur skipverjum, sem ráðnir voru af stefnda í túrinn sem ekki var farinn, yrðu greidd laun á uppsagnarfresti vegna sölu stefnda á Engey RE-1. Sama dag hafi starfsmannastjóri stefnda með bréfi staðfest að þremenningarnir hefðu verið ráðnir til að fara túrinn sem ekki var farinn, en haldið fram, að þeir hefðu ekki verið fastráðnir starfsmenn HB Granda hf. og því væri félaginu óskylt að greiða þeim laun á uppsagnarfresti þar sem þeir fengu túrinn greiddan frá Samherja hf. Sjómannafélagið hafi þá í tölvupósti til stefnda, hinn 2. maí 2007, áréttað samkomulag aðila frá 24. mars 2007; þremenningarnir ættu rétt á launum í eina viku á uppsagnarfresti þar sem þeir voru ráðnir á skipið er það var selt. Sama dag hafi í tölvupósti frá stefnda til sjómannafélagsins verið haldið fram - í fyrsta sinn að samkomulagið frá 24. mars 2007 næði aðeins til fastráðinna skipverja Engeyjar RE-1 og þar af leiðandi ekki til þremenninganna. Þeir hefðu fengið greiðslu vegna túrsins frá Samherja hf. og væri stefnda óskylt að greiða þeim laun á uppsagnarfresti. Af hálfu stefnda er málsatvikum lýst á þann veg að Engey RE-1 hafi í upphafi árs 2007 verið á síld- og kolmunaveiðum, en legið hafi fyrir að verkefni Engeyjar RE-1 yrðu önnur að lokinni vetrarvertíð. Af þeirri ástæðu hafi uppsagnir hafist á skipinu í janúar og febrúar eftir lengd uppsagnarfrests skipverja. Ætlað hafi verið að skipið færi til nýrra verkefna við strendur Afríku um mánaðamótin apríl/maí. En skömmu áður hafi stefndi fengið tilboð í skipið og selt það til Samherja hf., hinn 20 mars 2007, eða skömmu áður en síðasti túr þess hér á landi var fyrirhugaður af hálfu stefnda. Þá segir að áhöfn skipsins hafi almennt verið á uppsagnarfresti eða haldið til annarra starfa vegna fyrirhugaðra breytinga á rekstri skipsins þegar skipið var selt. Af þeirri ástæðu og vegna forfalla hafi tvo háseta vantað í síðustu veiðiferðina. Þess vegna hafi stefnandi einungis verið ráðinn til þess að fara þá ferð. Því er lýst að eftir kaupin hafi Samherji hf. haft hug á að halda áfram eitthvað lengur sömu veiðum og skipið var á og boðið öllum skipverjum að halda plássum sínum sem starfsmenn Samherja hf. og fara m.a. í næstu veiðiferð, sem þá hafði verið undirbúin. Hafi stefnandi einnig fengið slíkt boð þar sem hann hafði verið ráðinn til að fara í næstu ferð skipsins. Nokkrir starfsmenn stefnda hefðu hins vegar lýst því yfir að þeir hefðu lítinn hag af því að fara umrædda veiðiferð með Samherja hf. enda tryggðu 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 þeim rétt til þess að hætta við skipti á útgerðarmanni og fá laun á uppsagnarfresti, þá að hámarki í sex vikur. Við þessar aðstæður, segir af hálfu stefnda, að starfsmönnum stefnda sem voru á uppsagnarfresti, hafi verið tjáð, að þeir fengu greidd meðallaun á uppsagnarfresti hvort sem þeir tækju boði um ráðningu Samherja hf. á skipið eða ekki. Hafi stefndi þannig viljað sérstaklega launa þeim starfsmönnum sínum sem unnið höfðu hjá félaginu fyrir tryggð þeirra og bæta þeim að einhverju leyti þá röskun sem sala á skipinu hefði fyrir þá. Um hafi verið að ræða loforð um greiðslu umfram skyldu a.m.k. í þeim tilvikum þar sem viðkomandi starfsmenn tóku boði um ráðningu hjá Samherja hf. Þessa yfirlýsingu hafi starfsmannastjóri stefnda gefið í tölvupósti til Bergs Þorkelssonar, skrifstofustjóra Sjómannafélags Íslands, hinn 24. mars 2007. Í framhaldinu hafi í tölvupóstum milli sömu aðila inntak þessa vilyrðis stefnda verið skýrt nánar. Starfsmannastjóri stefnda hafi ekki haft stöðu til að gefa slíkt loforð en verið falið að kom því til skila og skýra það nánar þegar veittar upplýsingar um inntak loforðsins reyndust ekki nægilega skýrar. Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir er hann byggir á: Helstu málsástæður stefnanda eru að hann hafi verið ráðinn í eina veiðiferð á skipi stefnda þegar stefndi ákvað að selja skipið. Samkomulag hafi verið milli stefnda og Sjómannafélags Íslands, hinn 24. mars 2007, um að allir skipverjar Engeyjar RE-1 fengju laun á uppsagnarfresti vegna sölu á skipinu til Samherja hf. Það hafi ekki verið fyrr en um mánaðamótin apríl/maí 2007 sem stefndi hélt því fram að samkomulagið næði einvörðungu til fastráðinna skipverja. Með vísun til afdráttarlauss orðalags samkomulagsins, meginreglna samning- og vinnuréttar og greinar 11.1 í kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands annars vegar og Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins hins vegar eigi stefnandi rétt á að fá greidd meðallaun á einnar viku uppsagnarfresti vegna sölu stefnda á Engey RE-1. Samkomulag hafi verið milli stefnda og Sjómannafélagis Íslands um að miða útreikninga meðallauna skipverja á uppsagnarfresti við árstímabil frá og með lokum síðustu veiðiferðarinnar eða tímabilið 17. mars 2006 til 19. mars 2007. Hins vegar sé deilt um hvernig gera eigi meðallaun upp. Stefnandi byggir á því „að gera verði meðallaunin upp með því að deila heildarlaunum/stöðugildi háseta á umræddu árstímabili niður á lögskráningardaga háseta í skiprúmi á sama tíma. Eru meðallaun í uppsagnarfresti svo fundin út með því að margfalda launum pr. lögskráðan dag saman við fjölda daga stefnanda í uppsagnarfresti (7 dagar). Óhjákvæmilegt sé í tilviki stefnanda að miða við heildarlaun og lögskráningu í stöðu háseta á tímabilinu, enda ekki um það að ræða að miða við hans eigin laun og lögskráningu um borð í Engey RE-1.“ Þessi útreikningsaðferð sé í fullu samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar. Stefnandi vísar til þess að samkvæmt útreikningi sjómannafélags stefnanda á dskj. nr. 8 hafi heildarlaun háseta á viðmiðunartímabilinu 17. mars 2006 til 19. mars 2007 numið samtals 13.502.892 krónum. Samkvæmt lögskráningarvottorði hafi verið lögskráð í stöðu háseta á sama tíma í 324 daga. „Meðallaun pr. lögskráðan dag nema hér kr. 42.675 .- á dag. Meðallaun stefnanda í einnar viku uppsagnarfresti eigi samkvæmt þessu að nema kr. 291.725.- (41.675 * 7 = 291.725). Ofan á þá fjárhæð bætast 8% greiðsla , kr. 23.338.-, vegna tapaðra lífeyrisréttinda stefnanda. Samkvæmt þessu nemur krafa stefnda alls kr. 315.063.- [291.725 + 23.338 = 315.063].“ Um réttarheimildir vísar stefnandi til ákvæða sjómannalaga nr. 35/1985, til kjarasamninga SSÍ og LÍÚ, til dóma Hæstaréttar um uppsögn og riftun skipsrúmssamninga, einkum H.2001.1483, H.2002.4277, H.2002.4317 og H.2002.4379 til almennra reglna vinnu- og kröfuréttinda um greiðslu verklauna og launa í uppsagnarfresti. Um orlof er vísað til kjarasamninga og orlofslaga nr. 30/1987. Um tapaðar lífeyrisgreiðslur er vísað til H.2000.2064 og H.2002.3295. Helstu málsástæður stefnda og réttarheimildir er hann byggir á: Vísað er til þess að stefnandi var ráðinn til þess að fara ferð sem átti að verða síðasta ferð Engeyjar RE-1 í rekstri stefnda, HB Granda hf. Atvik hafi hins vegar orðið þannig að umrædd veiðiferð var ekki farin. Greint er frá því að nýr eigandi, Samherji hf., hafi tekið við skipinu og boðið m.a. stefnanda að halda ráðningu sinni á skipið og hafi stefnandi þáð það. Og staðhæft er að við svo búið hafi stefnandi ekki átt frekari kröfur á hendur stefnda og ekki komið til þess að stefndi þyrfti að segja stefnanda upp vegna sölu á skipinu. Áréttað er að í málatilbúnaði sínum haldi stefnandi því fram að samkomulag hafi orðið milli stefnda og Sjómannasambands Íslands um greiðslu á meðallaunum á uppsagnarfresti til starfsmanna stefnda sem stefnandi eigi að njóta. Ekkert samkomulag hafi verið gert við Sjómannasamband Íslands um þetta, heldur hafi stefndi einhliða lýst því yfir að hann myndi greiða skipverjum Engeyjar RE-1 meðallaun út sinn uppsagnarfrest óháð því hvort þeir færu í næstu veiðiferð eða ekki. Um hafi verið að ræða vilyrði stefnda um greiðslu til skipverjanna án skyldu, sem ekki hafi verið beint til stefnanda og ekki falið í sér samning, enda hafi stefndi ekki krafist endurgjalds. Þessu vilyrði hafi ekki verið beint til stefnanda, enda hafi hann þá hvorki verið skipverji á Engey RE-1 né á uppsagnarfresti. Þegar eftir því var leitað hafi inntak þessa vilyrðis verið nánar skýrt fyrir fulltrúa Sjómannasambands Íslands og sérstaklega tekið fram að þessu vilyrði hafi aðeins verið beint til þeirra sem fastráðnir voru hjá stefnda og næði hvorki til stefnanda né annarra sem ráðnir höfðu verið tímabundið til að fara síðustu veiðiferð skipsins. Í þessu sambandi er að auki bent á að áskilnaður stefnda um að miða greiðsluna við meðallaun viðkomandi geti aðeins átt við um þá sem voru áður á launum hjá stefnda. Byggt er á því að almennar reglur samningaréttar um gjafagerninga og önnur vilyrði um endurgjald beri að túlka í samræmi við vilja gefanda. Verði talið að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda vegna fyrrgreinds vilyrðis byggir stefndi á því að miða verði við meðallaun stefnanda síðasta árið. Stefnandi hafi ekki upplýst um laun og því sé ekki hægt að efna umrædda kröfu. Í þessu sambandi er vísað til þess að þeir skipverjar, sem fengu laun á grundvelli vilyrðisins, hefðu allir fengið greitt miðað við eigin meðallaun síðustu 12 mánuði eða styttri tíma ef þeir höfðu ekki verið í starfi í 12 mánuði. Það liggi því fyrir í framkvæmd hvert hafi verið inntak vilyrðis stefnda. Þá er einnig bent á að laun á uppsagnarfresti skv. 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 taki mið af meðallaunum viðkomandi starfsmanns í því skiprúmi sem hann var í áður en skipið var selt. Þessu til viðbótar staðhæfir stefndi að útreikningar á meðallaunum, sem lagðir hafa verið til grundvallar greiðslum skv. 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga og launum á uppsagnarfresti eftir að skip hefur verið selt, hafi í áratugi verið óumdeildir og ávallt hafi meðallaun verið reiknuð sem laun á dag, þ.e. mánaðarlaun eða heildarlaun fyrir tiltekið tímabil sé deilt með fjölda daga á tímabilinu. Allt til 12. desember 2002 hafi þessi aðferð við að reikna meðallaun verið óumdeild og ávallt notuð án undantekningar í dómum Hæstaréttar og þegar samið var um uppgjör utan réttar. Hinn 12. desember 2002 og svo aftur, hinn 19 desember 2002, hafi fallið í Hæstarétti dómar sem byggðust á því að meðallaun í uppsagnarfresti voru reiknuð sem meðallaun á lögskráningardag en ekki eins og áður hafði verið. Hvorki sé þó að finna í þessum dómum rök fyrir svo stórfelldri breytingu á útreikningi á meðallaunum né rök fyrir því að við útreikning bóta fyrir missi vinnutekna skipverja skuli ekki lengur leitast við að finna þá fjárhæð sem skipverji mátti vænta að hafa í tekjur á umræddu tímabili miðað við reynslu fyrri mánaða. Á hinn bóginn hafi, hinn 19. desember 2002, einnig fallið dómur í Hæstarétti, mál nr. 342/2002, þar sem byggt hafi verið á hefðbundnum útreikningi á meðallaunum og síðan hafi fallið dómar sem byggjast á sama grunni og engin stefnubreyting hafi orðið á þessum uppgjörum útgerða þrátt fyrir tvo tilgreinda dóma. Um það hvernig eigi að reikna meðallaun á dag ef reikna þarf laun fyrir hluta úr mánuði vísar stefndi einnig til 28. gr. sjómannalaga. Sama grunnregla gildi um meðaltalsútreikning hvort heldur um hluta úr mánuði eða lengri tími sé að ræða. Samkvæmt ákvæðinu sé skýrt að deila skuli mánaðarlaunum með 30 dögum. Niðurstaða: Bergur Þorkelsson, starfsmaður Sjómannafélags Íslands, bar fyrir rétti að hafa komið fram fyrir Sjómannafélag Íslands í viðræðum við stefnda, HB Granda hf., varðandi uppgjör á meðallaunum til skipverja Engeyjar RE-1 í mars á árinu 2007. Bergur sagði að skipið hafi verið selt skyndilega eftir að menn voru komnir í land. Skipið hafi verið í Færeyjum. Þá hafi sjómenn hringt í hann, en þeim hafði verið boðið að fara túr með Samherja sem var næsti túr; menn hafi verið mjög fljótir að sjá að þeir þénuðu það sama með því að sitja heima hjá sér í mánuð og að fara túrinn. Bergur kvaðst þá hafa haft samband við Öldu, starfsmannastjóra hjá Granda, og spurt hvort Grandi væri tilbúinn að borga uppsagnarfrestinn óháð hvort menn færu túrinn hjá Samherja eða ekki. Bergur sagði að fljótlega síðar hafi fundur verið haldinn á laugardegi hjá Granda og málin rædd. Síðan hafa Alda svarað honum með tölvupósti að þeir myndu borga uppsagnarfrestinn óháð hvort menn færu túrinn eða ekki. Vísað var til þess að tölvupóstur Guðrúnar Öldu Elísdóttur starfsmannastjóra, til hans [Bergs], hinn 24. mars 2007 sbr. dskj. nr. 12, segi: „Það tilkynnist hér með að HB Grandi mun greiða skipverjum Engeyjar meðallaun út sinn uppsagnarfrest, óháð því hvort þeir fari næstu veiðiferð með Engey eða ekki.“ Og spurt var hvað átt væri við með orðunum meðallaun út sinn uppsagnarfrest og hvort þetta hafi verið rætt eitthvað frekar. Bergur sagði að þetta hefði ekkert verið rætt á fundinum; ekkert hefði verið farið út í útreikninga. Bergur sagði að almennur skilningur hjá sjómannafélaginu varðandi meðallaun væru að það væri meðallaun stöðugildis sem ætti að endurspegla túrinn „hvað menn skyldu hafa haft í tekjur þennan uppsagnarfrest og það er sem við höfum alltaf haft hjá sjómannafélaginu“. Bergur kvaðst hafa ætlað að allir hásetar fengju sömu laun á uppsagnarfresti og að það tæki ekki einungis til fastráðinna starfsmanna. Bergur kvaðst hafa unnið hjá sjómannafélaginu frá árinu 2005 en verið í stjórn frá árinu 1987. Hann kvaðst hafa komið að uppgjörum við sjómenn vegna launa á uppsagnarfresti frá því að hann hóf störf hjá sjómannafélaginu, en eigin uppgjör sem sjómaður frá árinu 1987. Hann kvaðst ekki þekkja til að breytingar hafi orðið á þessum tíma í uppgjörsmálum eða hvernig menn reikna meðallaun, enda komi það hvergi sérstaklega fram í samningum eða lögum hvernig þessu skuli háttað. Stefnandi byggir á því að samkomulag hafi orðið milli stefnda og Sjómannafélags Íslands, hinn 24. mars 2007, um að allir skipverjar Engeyjar RE-1 fengju laun á uppsagnarfresti vegna sölu á skipinu til Samherja hf. Ekki liggur þó fyrir að samkomulag hafi orðið þennan dag á milli stefnda og Sjómannafélags Íslands. Í tölvupósti Guðrúnar Öldu Elísdóttur, starfsmannastjóra HB Granda hf., til Bergs Þorkelssonar, starfsmanns Sjómannafélags Íslands, hinn 24. mars 2007, segir: „Það tilkynnist hér með að HB Grandi mun greiða skipverjum Engeyjar meðallaun út sinn uppsagnarfrest, óháð því hvort þeir fari næstu veiðiferð með Engey eða ekki“, þ.e. einhliða yfirlýsing af hálfu starfsmannastjórans, án staðfestingar. Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi hafi haldið ráðningu sinni á skipinu, eftir að Samherji hf. tók við því, og farið sína fyrstu veiðiferð á skipinu sem starfsmaður Samherja hf. Ekki kom því til að þörf væri fyrir stefnda að segja stefnanda upp vegna sölu á skipinu. Samkvæmt framangreindu og að öðru leyti, með vísan til lagasjónarmiða og röksemda stefnda hér að framan, ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, en eftir atvikum er rétt að málskostnaður falli niður. Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn. DÓMSORÐ: Stefndi, HB Grandi hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Einars Björns Ólafssonar. Málkostnaður fellur niður. |
Subsets and Splits