source
stringlengths 710
1.19M
|
---|
Kapparnir tveir sem keppa til úrslita um heimsmeistaratitilinn í Formúlu 1 eiga það sameiginlegt að fjölskyldur þeirra hafa staðið að baki þeim gegnum súrt og sætt.
Bæði Lewis Hamilton og Felipe Massa hafa keppt i akstursíþróttum frá unga aldri og enn þann daginn í dag ferðast fjölskyldur þeirra með þeim víða um allan heim, þegar þeir keppa í kappakstri. Massa mun njóta þess að vera á heimavelli á Interlagos brautinni í Brasilíu þar sem þeir keppa til úrslita um meistaratitilinn. Hamilton er í sterkari stöðu þar sem hann hefur sjö stiga forskot.
"Fjölskylda hefur alltaf verið mér mikilvæg og hefur fylgt mér frá því ég var að keppa í kart kappakstri sem polli. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt að einkalífið sé traust og fjölskylduböndins sterk, svo árangur náist í vinnunni. Sama hvað fólk fæst við. Ég fer þó ekkert sérlega vel að ráðum móður minnar sem er alltaf að reyna að hægja á mér", sagði Massa. Besti vinur hans er Robert Smedley sem er jafnframt aðal tæknimaður hans í mótum hjá Ferrari.
Faðir Hamilton er jafnframt umboðsmaður hans. Anthony mætir á öll mót og gætir þess að sonurinn líði engan skort, innan eða utan brautar. "Það er augljóst að ég er alltaf með fjölskylduna með mér og finn fyrir stuðning þeirra. Þau hafa lagt mikið á sig svo ég gæti staðið í þeim sporum sem ég er í. Án þeirra hefði ég ekki náð svona langt", sagði Hamilton.
Báðir eru hrifnir af Intgerlagosbrautinni, en Massa var nánast alinn upp á brautinni á sínum yngri árum og sendist með mat á mótsstað áður en hann komst til vegs og virðingar innan Formúlu 1. Fyrstu æfingar keppnisliða eru í dag og verða æfingarnar tvær í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport kl. 11.55 og 15.55. Þrumuveðri er spáð fyrir kappaksturinn á sunnudag og blikur verða á lofti hvað veður varðar alla helgina. |
Ég hef undanfarnar vikur farið yfir kjördæmið þvert og endilangt frá Sandgerði að Höfn í Hornafirði. Með reglulegri viðkomu heima í Vestmannaeyjum. Ég hef þurft að fara hratt yfir og ekki náð að koma við á ölllum þeim stöðum sem ég hefði viljað í hverju bæjarfélagi, hvað þá að fara um sveitirnar.
Suðurkjördæmi er flennistórt, skemmtileg blanda af sjávarplássum og sveitum, rík af menningu og ótrúlega fjölbreyttu landslagi, með hverja náttúruperluna á fætur annarri. Atvinnulífið í kjördæminu er margbreytilegt og svæðið sjálft býður uppá ótal möguleika.
Atvinnuleysi hefur sett svip sinn á kjördæmið undanfarin ár og hefur Reykjanesið orðið verst úti að þessu sinni. Það hefur aldrei gefist vel að hafa öll eggin í sömu körfunni og það þurfa menn að hafa í huga þegar kemur að atvinnuuppbyggingu í kjördæminu.
Húsnæðis- og lánamál hvíla þungt á íbúum kjördæmisins. Á þeim málum þarf að taka. Aðildarviðræður við ESB þarf að klára, það er mikið sem liggur undir í kjördæmi þar sem sjávaútvegur og landbúnaður er fyrirferðarmestur. Það verður svo þjóðin sjálf sem kveður upp úrskurð um inngöngu á grundvelli samkomulagsins.
Á yfirreið minni um Suðurkjördæmi hef ég hitt ótal fjölda fólks og fengið margar góðar og gagnlegar ábeningar, fyrirspurnir, gagnrýni og hvatningu. Öllu þessu mun ég bæta í reynslusarpinn og nýta mér í framtíðinni, vonandi í umboði íbúa í Suðurkjördæmi
Guðrún Erlingsdóttir höfundur býður sig fram í 2. - 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar 16. - 17. nóvember n.k. |
Korkur: spunaspil
Titill: Tilraun til heimssköpunar
Höf.: Swooper
Dags.: 27. apríl 2007 14:28:02
Skoðað: 934
Ég virðist hafa einhverja óútskýranlega þörf fyrir að skapa campaign settings. Ég teikna reglulega kort, læt mér detta í hug töff nöfn á borgir og pæli í trúarbrögðum fyrir tilbúna heima í strætó eða annars staðar þegar dauður tími myndast. Ég ætla að prófa að gera þetta opinberlega núna, hér á Huga. Kannski hjálpar það mér við að sía góðar hugmyndir frá slæmum, kannski ekki. Þetta verður tilraun. Öll uppbyggileg komment, ábendingar og hugmyndir eru semsagt vel þegin.
Þessi heimur, ef hann verður einhvern tímann notaður, verður líklegast notaður fyrir breskan spilahóp sem ekki hefur verið settur saman ennþá. Ástæðan er að ég er að fara í nám til London næsta haust og missi þar með mestallt samneyti við minn eiginn hóp, og til að svala D&D-þörf minni mun ég líklega leita uppi nýjan hóp þar úti. Af þeim orsökum mun allur endanlegur flavour-texti vera ritaður á engilsaxnesku og ég bið þá sem kynnu að móðgast við að afsaka fyrirfram. Að lokum vil ég taka það fram að já, ég “stel” hugmyndum. Hugmyndum sem mér finnast góðar, stundum breyti ég þeim mikið og stundum ekki. Ég reyni þó mitt besta til að “stela” úr sem flestum áttum og bæta við góðum slatta af mínum eigin hugmyndum, svo að jafnvel þó að einhver þekki til einhvers sem ég nota sem fyrirmynd þá þekki þeir aldrei allt. Þetta verður jú aldrei opinberlega útgefið campaign setting á borð við FR eða Eberron svo ég slepp (vonandi) við kærur vegna plagíarisma. Allaveganna, here goes:
*Til að byrja með, heimurinn mun verða spilaður með standard issue D&D 3.5. Ég mun (reyna að) hafa aukabækurnar Expanded Psionics Handbook, Complete Warrior, Complete Arcane og Player's Handbook 2 sérstaklega í huga, og mögulega fleiri síðar eftir því sem ég kemst yfir þær (þá væntanlega helst Complete Divine, Complete Adventurer og mögulega Dragon Magic). Tome of Magic, sem ég á, finnst mér ekki henta þeim hugmyndum sem ég hef og því verður hún ekki með, frekar en flestar aukabækur gefnar út af öðrum en WotC.
*Pælingin er að hafa heiminn nógu generic til að sem flest geti átt sér stað þar. Þeir heimar sem ég hef skapað hingað til eru flestir of “þröngir”, þ.e.a.s. einhver element sem gert er ráð fyrir í kerfinu (t.d. PC race) eru ekki til staðar. Heimurinn sem ég er að DMa þessa dagana hefur t.d. ekkert PHB race nema humans, en notar einhver af raceunum úr XPH og eitt heimatilbúið race, ásamt furðulegum elementum eins og það að plánetan sem hann er á er bókstaflega að
brotna
. Þetta verður því, í grunninn, “klassískur” D&D heimur.
*Þá að smáatriðunum. Ég er búinn að skissa upp kort á pappír, en ég hef því miður ekki aðgang að skanna og kann ekkert á forrit á borð við PhotoShop svo að ég get ekki sýnt ykkur mynd af því, því miður. Það er allt of flókið að reyna að lýsa svona korti eitthvað nákvæmlega, svo í sem stystu máli:
C-laga landsvæði í kringum innhaf, fjallgarður skilur það af frá svæðum norðan af því, til vesturs er skagi suður úr norður-svæðinu sem nær um það bil hálfa leið niður C-ið, suðvestur úr C-inu er lítill skagi með frumskógi, suðurhluti C-sins er eyðimörk.
*
Kynþættir og þjóðir
:
Fyrir utan PHB-kynþættina ætla ég að hafa með fjóra úr XPH sem mér líkar vel við; Dromites, Duergar, Half-Giants (kalla þá Giantkin) og Thri-Kreen (sem verða ekki PC-race). Athugið að eftirfarandi eru einungis stuttar yfirlitslýsingar á kynþáttunum og ég mun koma með nákvæmari lýsingar með tíð og tíma.
Menn búa í sex mis-stórum löndum í kringum innhafið, auk þess sem ein þjóð byggir skagann til vesturs og ein býr að mestu á hafi úti.
A - Oriental keisaradæmi, sú sem byggir skagann til vesturs. Oriental classarnir (monk, samurai, wu jen, og síðar ninja og shugenja) sæma sér vel hér. Ég fæ orðið Murai upp í hausinn, ætla að kalla höfuðborgina þeirra það.
B - Riddaraþjóð sem byggir slétturnar frá háálfaskógunum(sjá neðar) austur að innhafinu. Góð samskipti við álfa, hálfálfar væru algengastir hér. Þurfa að eiga töluverð viðskipti við dverga vegna málmskorts. Höfuðborg þeirra mun heita Khalast og vera við mynni mikils fljóts sem rennur um landið.
C - Barbarar undir stjórn half-human half-red dragon sorcerors. Half-dragons, sorcerors, dragon shamans og allt þess háttar í hávegum haft – þeir sem sýna merki um psionic hæfileika eru hinsvegar drepnir um leið og það uppgötvast. Í nánustu fortíð hefur þessi þjóð ekki verið nágrönnum sínum til mikils ama þar sem þeir hafa verið of uppteknir við að slást innbyrðis, en nú er óvíst hvað þeir gera undir stjórn hins nýja warlords. Staðsettir rétt sunnan við dvergafjöllin, norðan við menn B og norðaustan við háálfaskógana. Bjuggu upprunalega norðan við dvergafjöllin en fluttust þaðan fyrir nokkrum öldum. Gætu verið andstæðingar PC-a eða vinveittir, eftir hópnum.
D – “The Sea-born”, eða Hinir Sæbornu, eins og mætti íslenska heitið. Heil þjóð fólks sem lifir og hrærist á hafi úti og á eyjum. Fólk af sumum ættbálkunum lifir jafnvel alla ævi án þess að stíga fæti á þurrt land. Sé þá fyrir mér mikið tattóveraða. Friðsælir, vilja sem minnst skipta sér af land-fólki.
E-H: Vantar hugmyndir.
Dvergar skiptast í 3-4 þjóðir.
A - Búa í fjöllum norður af skaganum til vesturs. Fluttust þangað fyrir löngu síðan vegna e-s konar óhagstæðra aðstæðna. Nota gulleitan málm í vopn og brynjur. Dökkir á hörund, svart hár og skegg. Jafnvel hálf-mongólskir í útlit. Keisaradæmi (lítið). Hafa Samurai sem favoured class í stað fighter. Nota mögulega axe daisho? Ef ekki, skipta út weapon familiarity á urgrosh og waraxe fyrir bastard sword.
B - Grádvergar (e. duergar) sem búa djúpt ofan í jörðinni. Mun líklegast nota psionic-útgáfuna af þeim eins og hún kemur fyrir í XPH í stað MM útgáfunnar.
C - Búa í fjallgarðinum norður af innhafinu. Frekar klassískir dvergar, kannski hef ég þá LN í stað hins týpíska LG. Gæti þurft að taka af þeim racial bónus gegn orkum og takmarka hann við goblinoids, þar sem orkar búa mun sunnar.
D - Veit ekki hvort ég hef þá með. Myndu búa í sama fjallgarði og dvergar C, en þurfa eitthvað til að aðgreina þá. Theocracy kannski?
Álfar skiptast í þrennt:
Háálfar búa í skógum við vesturströndina á C-laga meginlandinu.
Skógarálfar búa í frekar litlum skógi á tanga suðaustan við innhafið.
Svartálfar (drow) búa, líkt og grádvergarnir, djúpt ofan í jörðinni.
Gnómar búa í ríkjasambandi margra lítilla konung-, fursta-, keisara-, barón-, greifa- og hertogadæma suðaustur undir dvergafjallgarðinum. Titill þjóðhöfðingjans skiptir sjaldnast miklu máli, í rauninni kallar hver þeirra sig einfaldlega það sem honum finnst hljóma best. Tungumálið þeirra líkist welsku. Mér hefur alltaf fundist það passa við gnóma. Góðir handverksmenn, í flestum hinna mýkri iðna.
Halflings búa nær eingöngu í litlum friðsælum og gróðursælum dal rétt sunnan við gnómaríkin, og þar vilja þeir helst vera. Þeir hafa ekki mikil samskipti við umheiminn, þau einu eru smávægileg viðskipti við næstu gnómabyggðirnar. Að þessu leyti eru þeir mjög Tolkien-legir og í raun ekki þessir “venjulegu” D&D halflings sem er lýst sem flökkuþjóð og hafa ekki einu sinni hár á fótunum.
Orkar búa í frumskóginum á skaganum sunnan við háálfaskógana, handan við fjallgarð sem skilur hann frá umheiminum. Mestur tími þeirra fer í stríðsrekstur gegn eðlufólkinu sem deilir frumskóginum með þeim, en þó kemur fyrir að upp rísi orkahöfðingi sem leiðir ættbálk sinn og mögulega einhverja fleiri norður yfir fjöllin í leit að betra landi. Þeim er iðulega útrýmt fljótlega af ýmist mönnum, álfum eða risum, ef þeir þá komast alla leið. Einstaka ættbálkar hafa þó sloppið í gegn og lifa nú lítið betra lífi en áður í felum í skógum og hæðum á svæðinu vestan innhafsins.
Dromites búa syðst í eyðimörkinni og á grænum svæðum við suðurströndina í byggðum sem líkjast í sjón risavöxnum mauraþúfum. Þeir skeyta flestir litlu um heiminn norður af þeim og eyða mestum tíma sínum í að halda fjendum sínum, Thri-Kreen, frá fyrrnefndum mauraþúfum. Einstaka drómíti verður þó þreyttur á harkinu og endar í einhverri höfninni norður af eyðimörkinni.
Giantkin (=Half-Giants) búa á suðurströnd innhafsins og nyrst í eyðimörkinni, þar sem þeir eru með lítið en þrælskipulagt furstadæmi, stjórnað af yfirstétt sem kallast tarkanar. Þrælahald er löglegt og stutt, auk þess að fóðra grimman, gammhöfðaðan guð þeirra, Tass, með reglulegum blóðfórnum. Risarnir hafa mjög stirt samband við umheiminn, eina stundina versla þeir í mestu vinsemd með þær verðmætu vörur sem þeir hafa að bjóða, en aðra stundina gera þeir strandhögg í mennskum hafnarborgum og ræna fólki til að hneppa í þrældóm.
Þetta er allt sem ég er með í bili, meiru verður bætt við smám saman. Næst er ég að hugsa um að skoða pælingar um trúarbrögð.
---
Svör
---
Höf.: Exarch
Dags.: 1. maí 2007 15:53:58
Atkvæði: 0
Þetta er eins og hefur áður verið sagt frekar dæmigerður fantasíuheimur. Mjög lagaskiptur með mikið af svörtu og hvítu.
Ef þig langar að gera hann trúverðugri þarf að vera meira grátt. Minna af ‘þessi kynþáttur býr þarna’ og meira ‘þessi þjóð býr þarna.’
Til að gera krydda upp heimin er kannski hægt að minnast á hatur milli ættbálka manna sökum stríða sem hafa verið í gangi x lengi og eru það enn.
Þú gætir líka leikið þér að einhverju þema. Útskýra heiminn ekki sem landakort heldur með myndlíkingum og goðafræði.
Til dæmis í staðin fyrir að segja það sem þú segir um sjá fólkið, segja þá frekar (þar sem þetta er fyrir enska spilara þá mun ég segja þetta á ensku): “The Sea-born were not always as they are now, for once they ruled a mighty empire of justice and peace. But they did not make peace with the old gods, thinking themselves above religion and for that their empire was sunk into the ocean. Those who repented were spared, but only after they had almost drowned. Now their descendants carry the spirit of the sea in their blood, unwilling to traverse far from the isles that remain of their kingdom. They are marked by thin bright hair, pale skin and black eyes and celebrate Patrice, the Diva of the sea.”
Hvað með að gera half-elves að sýgaunum?
Hvað með að búa til Cimmerian ættflokk af mönnum, berserki sem neita að fylgja einum eða neinum, einsetumenn?
Mínar 2 krónur.
---
Höf.: Swooper
Dags.: 1. maí 2007 17:27:28
Atkvæði: 0
Ókei, svo ég svari þessu lið fyrir lið:
Þetta
Á
að vera dæmigerður fantasíuheimur. ^^ Svart og hvítt er mjög mikilvægur hluti af D&D, þar sem allir eru fastir við umdeilanlega gott alignment kerfi sem byggir á góðu, illu, reglu og óreiðu. Ég bendi hinsvegar á að þetta er bara yfirlit og endanlega niðurstaðan mun innihalda nóg af gráum svæðum, þó að það verði einhver svört og hvít líka. Til að nefna dæmi, þá verður eitt mennsku ríkjanna sem vantar inn í þetta yfirlit trúarríki með sterka prestastétt, paladin her og það sem því fylgir - en byggir landher sinn að miklu leyti á undead. How's that for a grey-zone? :p (Mig vantar bara pælingu fyrir eitt mennskt ríki í viðbót og mögulega eitt dvergneskt, þá mun ég bæta þeim öllum við í einu á upprunalega póstinn)
Vissulega verða stríð og deilur milli mannanna sem og milli annarra kynþátta. Ég vildi bara ná niður á blað hverjir væru þarna, áður en ég færi að pæla of mikið í pólitískum samskiptum, þau koma aðeins síðar.
Ástæðan fyrir því að ég útskýri þjóðirnar eins og ég geri er að goðafræðin er enn í mótun. Þetta er í rauninnni bara, eins og ég hef sagt, yfirlit yfir hvernig heimurinn ER í dag, sirka, ekki útskýring á hvers vegna hann er svona. Mér finnst hentugra að gera það eftirá, svo ég fari ekki að nota lógík sem leiðir mig að allt annari niðurstöðu en ég vil komast að, þú skilur.
Mér líkar við þessa pælingu hjá þér með Seaborn. Ég held að hún geti alveg smellpassað við þá goðafræði sem ég er að smíða (fyrri hlutinn af því ætti að koma hingað inn á næstu dögum).
Half elves… sígaunar? Hmm, gæti virkað. Ég á bara frekar erfitt með að sjá fyrir mér að kynblendingar hópi sig saman, í staðinn fyrir að blandast inn í annað hvort samfélagið. Það mætti hinsvegar alveg nota þetta, pæli betur í því. Takk fyrir hugmyndina.
Ég held hinsvegar að önnur þjóð af barbaric humans passi ekki inn, nóg að hafa þá sem fylgja hálf-drekanum.
---
Höf.: QCumber
Dags.: 7. maí 2007 19:29:58
Atkvæði: 0
Ég ætlaði að fara stinga uppá desert-dwelling cliché slave traders, en sá þá reyndar fyrir mér sem eitthvað psionic race. Flottir sem Giantkin samt. Skal samt reyna að láta mér detta eitthvað annað í hug. Umm mér finnst svoldið skrýtið að svona holy empire byggi heri sína á undead. Er það ekki svona dáldið taboo að vekja hina dauðu ef maður er t.d. paladin? En verður ábyggilega vel útfært hjá þér.
Lýst ágætlega á þetta og skal reyna að bæta við
Bætt við 7. maí 2007 - 19:35
Var ekki búinn að lesa niður :)
---
Höf.: Swooper
Dags.: 8. maí 2007 16:21:27
Atkvæði: 0
Jæja, takk fyrir viðleitnina samt ^^ Kortið er orðið mátulega fullt svo fleiri þjóðir eru líklega óþarfar, nema þú hafir góða hugmynd að dvergaþjóð. Útfærsluhugmyndir á því sem er komið eru vel þegnar, hinsvegar!
---
Höf.: QCumber
Dags.: 8. maí 2007 16:54:56
Atkvæði: 0
Legg hausinn í bleyti
---
|
Þótt ekki sé langt liðið á golfvertíðina 2007 eru þegar komnar til skrifstofu GSÍ 16 tilkynningar um holu í höggi. Einhverjir fleiri en þeir sem eru á listanum hér fyrir neðan hafa náð draumahögginu í ár, en ekki tilkynnt það á réttu eyðublaði til GSÍ. Á meðan að svo er, þá er afrekið ekki viðurkennt af Einherjaklúbbnum.
Allar reglur um hvað gera skal þegar einhver fer holu í höggi má finna á síðu Einherjaklúbbsins á www.golf.isog þar má einnig nálgast skjalið sem þarf að fylla út og senda til GSÍ. Það er einnig til undir SKJÖL í gögnum GSÍ á golf.is.
Á bls. 122 í Handbók kylfingsins frá í fyrra og einnig í Handbókinni, sem nú er að koma út, má finna upplýsingar um málið.
Þau sem hafa tilkynnt um holu í höggi í ár og fengið afrekið viðurkennt eru þessi:
Erna Jónsdóttir Gröndal NK. 31. mái. Nesvöllur. 2. braut.
Ingibjörg Ólafsdóttir GK. 29. maí. Hvaleyrarvöllur. 4. braut.
Ellert B. Schram NK. 25. maí. Nesvöllur. 5.braut.
Sigrún Bragadóttir GR. 18. maí. Korpúlfsstaðavöllur. 9. braut.
Gunnar Geir Gústafsson GV. 13. maí. Vestmannaeyjavöllur. 7. braut.
Valdís Þóra Jónsdóttir GL. 12. maí. Garðavelli. 8. braut.
Stefán Már Stefánsson GR. 10. maí. Grafarholtsvöllur. 2. braut.
Páll Þórir Hermannsson GR. 8. maí. Korpulfsstaðavöllur. 6. braut.
Birna Bjarnþórsdóttir GO. 6. maí. El Rompido Nor GC Spáni. 12. braut.
Ingvar Vigfússon GR.5. maí. Korpúlfsstaðavöllur. 6. braut.
Guðmundur Rúnar Hallgrímsson GS. 16. apríl. North Shore GC. Orlando Fl. 8. braut.
Björn Sveinbjörnsson GR. 9. apríl. Þorlákshafnarvöllur. 11. braut.
Halldór Ingi Hallgrímsson GKJ. 2. apríl. Hlíðavöllur. 1. braut.
Sigurður Friðriksson GS. 4. mars. Hólmsvelli. 8. braut.
Magdalena S. Þórisdóttir GS. 25. febrúar. Leisure GC Kenýa. 5. braut. Hrafn H. Oddsson GKG. 23. janúar. Bunga Raya GC Kuala Lumpur Malasíu. 5. braut.
www.kylfingur.is |
JÚNÍ
1. Akureyri Sumarsýning Minjasafnsins opnuð.
1.-31/8 Blönduós Listfengar hannyrðir á Heimilisiðnaðarsafninu.
5. Skagafjörður Alvöru dansleikur í Miðgarði kl. 22. Þrjár hljómsveitir leika fyrir dansi, Harmóniku-Bítlarnir og Spor úr Skagafirði, auk Nikolínu úr Dalasýslu. Félag harmónikuunnenda í Skagafirði.
12. Blöndustöð Opnun á myndlistarsýningu sem stendur til hausts. Myndir af kúm eftir Jón Eiríksson frá Búrfelli.
12.-13. Blönduós Smábæjarleikar í fótbolta.
12. Hrísey Gönguferð um eyna.
16. Mývatn Kórastefna við Mývatn, hátíðartónleikar í íþróttahúsinu Reykjahlíð kl. 15. Flutt verður óratórían Sköpunin eftir J. Haydn.
Flytjendur eru Sinfóníuhljómsveit Norðurlands ásamt hátíðarkór og einsöngvurum. Stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson.
17. Blönduós Hátíðardagskrá 17. júní.
18. -19. Mývatnsmaraþon
18.-20. Húnaver 2004 Árleg fjölskylduhátíð harmónikuunnenda í Húnaveri. Þetta verður í 8. skipti sem hátíðin er haldin og hefur hún notið sívaxandi vinsælda meðal áhugafólks um tónlist, dans og útilegu, Félög harmónikuunnenda í Húnavatnssýslum og Skagafirði.
19. Vatnsnes Fjöruhlaðborð Húsfreyjanna í Hamarsbúð, nú í níunda sinn. Heilmikil matarveisla og fjöldasöngur. Aðgangseyrir. Gönguferðir um Vatnsnesfjall og fjöruna í nágrenni Hamarsbúðar.
25.-26. Hofsós Jónsmessuhátíð annað árið í röð. Gönguferð, kjötsúpa, kvennareið, óvissuferð með börn og margt, margt fleira.
19. Akureyri Nonnaganga Gengið um söguslóðir rithöfundarins Jóns Sveinssonar.
23. Akureyri Jónsmessuhátíð í Kjarnaskógi.
25.-27. Húsavík Hvalahátíð
26. Hrísey Skeljahátíð. Hér fá landsmenn tækifæri til þess að kynnast bláskelinni sem einmitt er ræktuð við Hrísey. Boðið verður upp á smakk af bláskel í mismunandi réttum. Þá verða leiktæki á hátíðarsvæði Hríseyinga og dagskrá um daginn. Hægt að sigla út að bláskeljalínum og skoða hvernig ræktunin fer fram.
29. júní Siglufjörður Síldarhátíð, 100 ára afmælis minnst með vígslu á nýju safnahúsi, Bátahúsinu.
JÚLÍ
3.-4. Hvammstangi Þýskir dagar haldnir í þriðja sinn á vegum Þýsk-íslenska vináttufélagsins í Húnaþingi vestra.
7.-11. Siglufjörður Þjóðlagahátíð
8.-11. Sauðárkrókur Landsmót UMFÍ
11. Akureyri Íslenski safnadagurinn, safnasvæði Minjasafnsins lifnar við.
15.-18. Þórshöfn Kátir dagar Tónleikar, sundsprell, unglingadansleikur, dorgveiðikeppni, útimarkaður og fjölmargt fleira.
16.-18. Hrísey Fjölskylduhátíð fullveldisins í Hrísey. Þessa helgi taka Hríseyingar sér sjálfstæði og allir sem koma til eyjarnnar þessa helgi fá sérstakt vegabréf sem ber að sýna við komuna. Tónleikar og skemmtidagskrá. Hinar sívinsælu vitaferðir verða farnar á dráttarvélum en einnig verða leiktæki. Í Hrísey er tjaldsvæði, sundlaug, verslun, veitingastaðir og hákarlasafn svo fátt eitt sé nefnt.
16.-18. Hvammstangi Unglistahátíð
16.-18. Blönduós Fjölskylduhátíðin Matur og menning Leiktæki, trúðar og tónlistaratriði.
17. Sauðárkrókur Hafnardagur Skemmtun og fróðleikur á hafnarsvæðinu.
17. Gásar Líf færist í gamla verslunarstaðinn.
18. Laufás Heyannir
21.-25. Húnaþing Unglistahátíð
23.-25. Breiðamýri Harmónikuhátíð
23.-25. Siglufjörður 100 ára síldarafmæli og hátíðahöld. Síldarsöltun, bryggjuball, síldardansleikir. Móttökuathöfn á Ingvarsbryggju. Síldarréttir og meðlæti á ráðhústorgi og margt fleira.
29.-1/8 Siglufjörður Síldarævintýri Hátíðahöld vegna 100 ára afmælis. Skemmtidagskrá, síldarsöltun, bryggjuball, barnadagskrá, útidansleikir, dorgveiðikeppni og margt, margt fleira.
30.-1/8 Sauðárkrókur Unglingalandsmót UMFÍ
31.-2/8 Akureyri Ein með öllu, útiskemmtanir og listviðburðir.
31.-2/8 Siglufjörður Síldarævintýri
ÁGÚST
5.-7. Akureyri Django djassfestival.
5.-8. Hrafnagil Handverkshátíð
6.-7. Húsavík Mærudagar Bryggjuhátíð, strandbolti, þríþraut, tívolí, trúðar, hljómsveitir og fjölmargt fleira.
7. Dalvík Fiskidagurinn mikli Á fiskideginum mikla er fólki boðið í mat og allir geta smakkað. Fjölbreytt skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
7.-8. Bjarg/Miðfjörður Grettishátíð Kraftakeppni, leiðsögn um Bjarg, kvöldskemmtun og ýmislegt fleira.
13.-15. Ólafsfjörður Berjadagar-tónlistarhátíð í Ólafsfirði er orðin einn af föstum viðburðum sumarsins. Einnig verður dagskrá fyrir fjölskyldufólk og margt fleira.
15. Hólar í Hjaltadal Hólahátíð
21. Akureyri Nonnaganga
22. Blönduós Íslandsmeistaramót í torfæru.
28. Akureyri Draugagangur í Minjasafninu, upplestur á draugasögum í tilefni af menningarvöku Akureyrar. |
„Þegar rætt er um mikilvægi þess að standa vörð um störf, er það ekki úr lausu lofti gripið.“
Heimsfaraldurinn og sóttvarnaaðgerðir leggjast þyngst á ferðaþjónustu. Í alþjóðlegum samanburði eru fá ríki sem treysta eins mikið á ferðaþjónustu og Ísland. Nóg er að líta yfir íslenskar hagtölur til að átta sig á hversu alvarleg staðan er. Samdráttur í landsframleiðslu mælist nú meiri en í bankahruninu, atvinnuleysi hefur aldrei mælst hærra og nú stefnir í að 30 þúsund manns verði án atvinnu um áramótin.
Áhrif kreppunnar hér heima eru þung í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Því skýtur skökku við að laun á Íslandi séu ekki aðeins ein þau hæstu í heimi heldur séu launahækkanir mun hærri en þær sem við sjáum meðal flestra vestrænna ríkja.
Á öðrum ársfjórðungi hækkuðu laun hér á landi um 6,5% milli ára en til samanburðar hækkuðu laun að meðaltali um 1,9% á hinum Norðurlöndunum. Á sama tíma er atvinnuleysi hér eitt það hæsta í Evrópu. Ekki alls kostar ósvipað þeim atvinnuleysistölum sem við sjáum í syðri hluta álfunnar. Fyrir vinnuaflsfreka atvinnugrein eins og ferðaþjónustu kemur hár launakostnaður beint niður á áfangastaðnum Íslandi, sem er í beinni samkeppni um ferðamenn við önnur lönd.
Við vonum öll að sterkur efnahagsbati taki við þegar faraldurinn er á enda. Við vitum hins vegar að slíkur bati gerist ekki án vaxtar ferðaþjónustu. Þó að íslensk náttúra sé sú fallegasta í heimi, þá má finna náttúruperlur víða. Samkeppnin er hörð. Fleiri ríki ætla að treysta á uppgang ferðaþjónustu þegar faraldurinn líður undir lok.
Þegar rætt er um mikilvægi þess að standa vörð um störf, er það ekki úr lausu lofti gripið. Aðgerðir í þá veru munu skila okkur betri lífskjörum og tryggja fleirum vinnu, fyrr en ella. Það er ekki eftirsóknarverð staða að vera hálaunaríki með eitt hæsta stig atvinnuleysis meðal vestrænna ríkja. Hvernig sjáum við fyrir okkur að snúa þeirri stöðu við?
Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. |
Fyrir kosningar vorið 2009 lögðu framsóknarmenn áherslu á að leiðrétta bæri skuldir heimila og færðu rök fyrir því að sú aðgerð kæmi á endanum öllum til góða, bæði þeim sem skulduðu og þeim sem ekkert skulduðu.
Þolinmæði fólks gagnvart stökkbreyttum skuldum heimila, atvinnuleysi og forystuleysi í stjórnmálum er nú á þrotum. Framsóknarmenn hafa lagt fram fjölmörg þingmál um leiðréttingu skulda heimila og fyrirtækja, afnám verðtryggingar í áföngum og fleira. Meðal þeirra eru:
* Þingsályktun um aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs lögð fram í mars 2009, þingsályktun um almenna skuldaleiðréttingu lögð fram í maí 2009
*Þingsályktun um endurreisn íslensku bankanna þar sem m.a. er gert ráð fyrir afnámi verðtryggingar, lögð fram í júlí 2009
*Þingsályktun um almenna skuldaleiðréttingu lögð fram í október 2009
*Þingsályktun um vexti og verðtryggingu (hámarkshækkun verðtryggingar fjárskuldbindinga) lögð fram í október 2009
*Þingsályktun um ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluörðugleikum, lögð fram í október 2009
*Frumvarp um frestun nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála lagt fram í febrúar 2010 .
*Í júní 2010 er mælt fyrir þingsályktun um þjóðarsátt þar sem m.a. er lögð til skuldaleiðrétting.
Við þennan lista má svo bæta þingmálum sem þingmenn annarra flokka hafa lagt til en ekki náð fram að ganga. Af þessu má ráða að oft hafa stjórnvöld verið hvött til þess að grípa til almennra aðgerða en fram að þessu hefur ekki verið hlustað. Þingflokkur framsóknarmanna mun halda áfram að tala fyrir almennum aðgerðum þótt þvergirðingsháttur ríkisstjórnarinnar geri það að verkum að það kunni að vera of seint fyrir einhverja. Við munum nú sem fyrr taka þátt í þeim verkefnum er bæta hag heimila og fyrirtækja sama hvaðan tillögur í þeim efnum koma og mæla áfram fyrir tillögum í þeim anda sem hér hafa verið taldar upp. Eðlilegur rekstrargrundvöllur heimila og fyrirtækja er forsenda endurreisnar, fyrir því verður áfram barist. |
Vel á annað hundrað manns hafa mótmælt því að ekki sé boðið upp á heitan mat um helgar í Eirborgum í Grafarvogi. Formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni segir þetta vandamál víða og félagið muni fjalla um málið.
Frá og með næstu mánaðamótum munu íbúar í Eirborgum fá sendan mat til helgarinnar og þurfa þeir að sjá um að hita hann sjálfir, en hingað til hefur eldhúsið á staðnum verið opið um helgar. Um 120 undirskriftum var safnað þar sem þessu er mótmælt og er áskorun um að horfið verði frá þessu til meðferðar hjá Reykjavíkurborg, en borgin á aðild að Eir sem rekur Eirborgir. Ákvörðun um að hætta með heitan mat um helgar mun vera tekin í sparnaðarskyni. Formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni segir að framkvæmdastjóri félagsins hafi verið á fundi í Eirborgum þar sem þessi mál voru rædd og mikil ólga hafi verið.
„Það er náttúrulega víðar sem þetta er vandamál þannig að það verður að finna einhverja lausn gagnvart því fólki sem er að eldast hér í borginni, er á háum aldri eða veikt, að við getum tryggt að það lendi ekki í vandræðum með mat um helgar. Það verður bara að finna lausn á því“ segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.
Hún segir að líka þurfi að koma upplýsingum til fólks hvar það geti nálgast heitan mat í nágrenninu. Nefnd á vegum félagsins sé að skoða útsendan mat til fólks og matgæðin, enda sé þetta stór hluti af lífsgæðum fólks.
„Þetta mál fellur inn í þá nefnd og við munum ræða þetta þar. Er eitthvað sem við getum látið vita af eða ýtt við eða beðið um að sé kynnt betur. Við munum alveg örugglega gera það“, segir Þórunn. |
Þegar ég byrjaði að skrifa í Fréttablaðið fyrir tæpum 3 árum þá vissi ég að heilbrigðismál brenna á flestum okkar á einn eða annan hátt. Auðvitað höfum við mismunandi áherslur og hinn mikli aldursmunur sem er á lesendum blaðsins sýnir glögglega að það nær til mjög breiðs hóps. Mér fannst vanta að læknar tækju sig til og töluðu til fólksins á fræðandi hátt, þannig að það skildist. Ég hef fengið að heyra það að greinar mínar séu almenningi almennt ekki torlesnar og ritaðar á mannamáli, sem er gott því vonandi ná þær þannig því sem til var ætlast, að vekja umræðu og fræða. Þá hef ég fengið hrós fyrir skrifin sömuleiðis frá kollegum mínum í læknastétt og hefur mér þótt vænt um það, þó margir hafi undrast eljuna að nenna þessu í hverri viku.
Einhvern tímann var ég spurður að því hvers vegna ég hefði tekið mig til við þetta og svarið var einfaldlega að mig langaði til þess. Það voru ekki aðrir áhrifavaldar og sannarlega ekki að þetta væri hugsað sem stökkpallur út í pólitík eins og nokkrir hafa forvitnast um í gegnum liðin ár. Ég get þó upplýst um það að ég hafi verið beðinn að taka þátt bæði á sveitarstjórnarstiginu sem og í landsmálum af fleiri en einum flokki, en það hefur ekki höfðað til mín.
Þegar ég lagði af stað í þessa vegferð þá hafði ég nokkur markmið, í fyrsta lagi að ég myndi hafa algera stjórn á því hvað ég fjallaði um hverju sinni, þó ég hafi fengið býsna margar ábendingar um skemmtileg viðfangsefni og ritað um sum þeirra þá hef ég alltaf litið á þetta sem mjög mikilvægt atriði. Ég hef reynt að nálgast sjúkdóma og viðfangsefnin á þann hátt að tengja þau daglegu lífi fólks og fara ekki um of í smáatriði. Margt af því hefur verið um stærstu og alvarlegustu heilbrigðisvandamál okkar í dag eins og offitu, hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, krabbamein og þannig mætti lengi telja. Ég hef líka ritað um kynlíf og samlíf, hamingjuna, prump og hægðatruflanir svo eitthvað sé nefnt sem og blátt þvag. En svona að öllu gamni slepptu hafa þessir pistlar iðulega átt að hafa þann tilgang að fræða og benda á mögulegar lausnir.
Á sama tíma og þessar greinar hafa birst í Fréttablaðinu hefur mér verið vel tekið í útvarpinu, en ég hef mætt þangað vikulega eða verið í símasambandi til að ræða pistil gærdagsins um nokkuð langt skeið. Kann ég félögum mínum í Bítinu á Bylgjunni miklar þakkir fyrir góða viðkynningu og samveru á liðnum árum. Einhver sagði við mig að ég væri líklega eini læknirinn hérlendis sem hefði verið í öllum tegundum fjölmiðla samtímis, en stutt viðvera í sjónvarpi á síðasta hausti var skemmtileg tilbreyting.
Annað markmið með því að skrifa var að koma skilaboðum áleiðis um forvarnir sem ég tel að séu grundvallaratriði í tengslum við allt heilbrigði og þróun sjúkdóma. Þá einna helst að hvetja til og stuðla að andlegri vellíðan sem líklega er mikilvægari en flest annað. Af nógu hefur verið að taka og er ljóst að ég gæti skrifað í mörg ár til viðbótar um heilsu, sjúkdóma og lífsstíl því þar eru óþrjótandi efnistök. Nú kynnu sumir að halda að mér hafi verið sagt upp eða viðlíka á Fréttablaðinu, en svo er alls ekki. Fyrir þá sem ekki vita, þá kynnu þeir að undrast það að ég hef ekki verið með neinn samning og hef ekki þegið eina krónu í þóknun fyrir skrif eða viðveru í útvarpi hingað til, heldur hefur þetta verið gert af einskærum áhuga.
Það hlýjar manni þess vegna enn frekar um hjartaræturnar þegar ókunnugt fólk hrósar manni fyrir skrifin eða segist alltaf lesa pistlana á þriðjudögum. Ég hef verið afar þakklátur fyrir það og kann öllum þeim bestu þakkir sem hafa fylgt mér þessi tæpu 3 ár. Þessum kafla er lokið í bili, ég neita því ekki að það er tregablandið, en það var líka markmið í sjálfu sér að geta tekið þessa ákvörðun um að hætta þegar ég vildi og á mínum forsendum. Og nei, ég er ekki veikur eða að fara af landi brott. Það kemur alltaf eitthvað annað í staðinn, til dæmis að klára bókina sem ég er byrjaður á, möguleikarnir eru ansi margir. Næsta verkefni verður hið minnsta að bretta enn frekar upp ermar og stuðla að bættu heilbrigðiskerfi sem áhuga- og fagmaður, ekki veitir af! En ég ætla að byrja á því að halda upp á afmælið mitt í dag. Takk kærlega fyrir mig og góðar stundir! |
Gríðarleg fjölgun hefur orðið í fjölgun erlendra skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar undanfarin ár. Árið 2009 komu 26 skemmtiferðaskip með rúmlega 13.000 farþega. Í ár er von á 50 skipum með rúmlega 46.000 farþega, en það er fjölgun um 350% á fimm árum.
„Ég held að aðalástæðan hljóti að vera sú að Ísland er að selja vel í túrisma almennt, og líka í viðkomu skemmtiferðaskipa. En samt er fjölgunin í prósentum talið, mun meiri hjá okkur en til dæmis á Akureyri eða í Reykjavík,“ segirGuðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri á Ísafirði.
Hann segir stórlega vanmetið hversu miklar tekjur verða eftir í samfélaginu vegna komu erlendra skemmtiferðaskipa.
„Ég tel að í allri ferðaþjónustunni hér í bænum, þá sé að sitja eftir hérna ekki undir 500 milljónum króna, vegna þess að hér er verið að kaupa skoðunarferðir og aðra afþreyfingu af heimamönnum,“ segir Guðmundur.
Hann sér fram á áframhaldandi fjölgun skipa næstu ár. Nú þegar sé búið að bóka 48 skip fyrir næsta sumar og farþegafjöldinn mun þá í fyrsta skipti fara yfir 50 þúsund.
„Ég vona bara að við náum að halda því áfram að fólki finnist gaman að koma hingað. Það er það sem við viljum, að fólk upplifi gleði og hamingju hér á Ísafirði. Eins og Ísafjörður er, geislar alltaf af gleði og hamingju.“ |
Bráðabirgðaniðurstöður breskrar rannsóknar benda til þess að næstum 70% áður heilbrigðra einstaklinga sem glíma við langvarandi eftirköst vegna Covid-19, þjáist af einhvers konar rýrnun á virkni eins eða fleiri líffæra.
„Góðu fréttirnar eru að virknirýrnunin er væg en jafnvel þótt þú horfir á þetta gegnum íhaldssöm gleraugu þá er engu að síður um rýrnun að ræða og hjá 25% einstaklinga er um að ræðra tvö eða fleiri líffæri,“ hefur Guardian eftir Amitava Banerjee, hjartasérfræðingi og prófessor við University College London.
Hann segir niðurstöðurnar mikilvægar; nauðsynlegt sé að fylgjast með viðkomandi einstaklingum til að athuga hvort virknirýrnunin gangi til baka eða hvort einhverjum fjölda kunni að versna.
Koma á fót 40 miðstöðvum til að taka á „langvarandi Covid“
Niðurstöðurnar ná til 200 ungra og heilbrigðra einstaklinga sem glímdu við eftirköst Covid-19 í að minnsta kosti fjóra mánuði eftir greiningu. Tilgangur rannsóknarinnar er meðal annars þróun lyfja og/eða meðferðar við eftirköstunum, sem eru margvísleg.
Flestir sem glíma við það sem hefur verið kallað „langvarandi Covid“ tala um þreytu, heilaþoku, öndunarerfiðleika og verki. Í Bretlandi eru um 60 þúsund einstaklingar taldir þjást af langvarandi Covid; þ.e.a.s. þeir greinast ekki lengur með sjúkdóminn en glíma enn við fylgikvilla.
Breska heilbrigðisþjónustan hefur greint frá því að til stendur að koma á fót neti 40 miðstöðva þar sem læknar, hjúkrunarfræðingar og ýmsir meðferðaaðilar munu vinna með fólki sem glímir við líkamleg eða andleg eftirköst Covid-19.
Setja ákveðna fyrirvara við niðurstöðurnar
Í sumum, en ekki öllum, tilvikum fundust tengsl milli einkenna Covid-19 og þeirra líffæra sem reyndust minna virk en hjá heilbrigðum einstakling. Öndunarerfiðleikar tengdust til dæmis rýrnun í hjarta og lungum.
Rannsakendurnir benda hins vegar á að ekki hafi verið sýnt fram á að virknirýrnun ákveðinna líffæra sé orsök langvarandi einkenna. Þá ítreka þeir að þrátt fyrir að fólkið hafi upplifað sig sem heilbrigt áður en það fékk Covid-19, sé ekki hægt að fullyrða um ástand innri líffæra.
Umfjöllun Guardian. |
Riyad Mahrez verður í sviðsljósinu í kvöld þegar Englandsmeistarar Manchester City heimsækja í Leicester City í átta liða úrslitum enska deildarbikarsins.
Manchester City keypti Riyad Mahrez frá Leicester City fyrir 60 milljónir punda í sumar en í janúar fór Riyad Mahrez í tíu daga „verkfall“ til að reyna að þvinga fram söluna til City.
Riyad Mahrez var einn af aðalmönnunum þegar Leicester City vann enska meistaratitilinn vorið 2016. Hann skoraði alls 42 mörk í 179 leikjum fyrir félagið.
Claude Puel, knattspyrnustjóri Leicester City í dag, hefur talað fyrir því að stuðningsmenn félagsins taki vel á móti Riyad Mahrez í kvöld.
„Riyad gerði sitt besta fyrir félagið á meðan hann var hér,“ sagði Claude Puel.
„Ég vona að hann geti komið hingað aftur, sitji á bekknum og allt verði í góðu milli hans og fólksins,“ sagði Puel. Líklegra verður þó að telja að Pep Guardiola setji Riyad Mahrez í byrjunarliðið sitt.
„Hann var mikilvægur hluti af liðinu sem vann titilinn og við megum ekki gleyma því sem hann gerði fyrir félagið. Ég vona að hann fái góðar mótttökur,“ sagði Puel.
Mahrez vann sér ekki inn miklar vinsældir þegar hann fór í umræddar verkfallsaðgerðir til þess að komast í burtu frá Leicester City.
„Ég reyndi að vinna með hann en það var mjög erfitt tímabil í vetrarglugganum þegar hann vildi fara. Þetta var erfitt mál gagnvart stuðningsmönnunum, gagnvart félaginu og gagnvart liðsfélögunum. Það var mikilvægt að koma honum í gegnum þetta,“ sagði Puel.
„Hann fékk tíma til loka tímabilsins eftir að hann kom aftur til baka. Hann gerði sitt besta og skoraði mikilvæg mörk fyrir félagið,“ sagði Puel.
Leikur Leicester og Manchester City hefst klukkan 19.45 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. |
Samkeppniseftirlitið heimilaði í gær yfirtöku Artasan ehf. á IceCare ehf. að vissum skilyrðum uppfylltum. Með samrunanum verður til eitt stærsta fyrirtæki landsins hvað varðar sölu á lyfjum, heilsuvörum, hjúkrunarvörum og lækningatækjum.
Artasan annast innflutning, skráningu og markaðssetningu á samheitalyfjum, lausasölulyfjum og heilsuvörum. Vörur fyrirtækisins eru seldar til apóteka, sjúkrahúsa, hjúkrunarheimila, dagvöruverslana og bensínstöðva. IceCare hefur hingað til annast innflutning og heildsölu á vítamínum og öðrum heilsuvörum.
Tilkynnt var um samrunann þann 23. mars síðastliðinn og hefur málið verið til meðferðar hjá eftirlitinu síðan þá. Í júní tilkynnti það samrunaaðilum að hugsanlega þyrfti að grípa til íhlutunar vegna samrunans þar sem sameinað fyrirtæki yrði of stórt á tilteknum mörkuðum.
Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að sameinað fyrirtæki muni koma til með að verða stærsta fyrirtækið á vítamína- og bætiefnamarkaði hérlendis með ríflega fjórðungshlutdeild. Sömu sögu er að segja af markaði fyrir bætiefni fyrir meltingu og liði auk tannhreinsivara en þar yrði hlutdeildin um og yfir helmingur af markaðnum.
Það var niðurstaða eftirlitsins að sameinað fyrirtæki Artasan og IceCare myndi ná markaðsráðandi stöðu hvað bætiefni fyrir liði varðar. Í því skyni að sporna við samþjöppun á markaði skuldbundu fyrirtækin sig til þess að undanskilja þann lið frá kaupunum. IceCare mun því þurfa að ráðstafa réttindum til sölu ákveðinna bætiefna til annars aðila en Artasan. |
Finnur Bjarki Tryggvason, sonur Tryggva Ingólfssonar sem er lamaður fyrir neðan háls eftir fall af hestbaki, segir starfsfólk hjúkrunar- og dvalarheimilisins Kirkjuhvols, þar sem Tryggvi hefur dvalið í ellefu ár, hafa neitað að taka við föður hans eftir að hann hugðist snúa aftur eftir aðgerð. Finnur Bjarki segir málið óskiljanlegt.
„Pabbi fer á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi til að byrja með og svo vonumst við til að hann komist á dvalar- og hjúkrunarheimlið Lund á Hellu,“ segir Finnur Bjarki Tryggvason, sonur Tryggva Ingólfssonar sem er lamaður að hálsi eftir alvarlegan mænuskaða eftir að hann datt af hestbaki 2006.
„Það er búið að draga okkur á asnaeyrunum síðan um páska því þá átti hann að fara aftur á Kirkjuhvol eftir að hafa þurft að vera á Landsspítalanum í nokkrar vikur eftir aðgerð. Þegar hann átti að fara þangað var honum hótað að 12 manns úr starfsliði Kirkjuhvols gengju út ef hann kæmi heim. Í morgun var okkur sagt að Kirkjuhvoll segði sig frá því verkefni að sinna pabba eftir 11 ára góðan árangur.“
Tryggvi þarf aðstoð allan sólarhringinn við allar athafnir. Hann hefur búið á Kirkjuhvoli sem er dvala- og hjúkrunarheimili í ellefu ár.
„Málið er óskiljanlegt fyrir okkur því það hafa alltaf verið góð samskipti við starfsfólk Kirkjuhvols og hnökrar leystir með samtali þar til nú,“ bætir Finnur Bjarki við. Lundur, sem er dvalar- og hjúkrunarheimili á Hellu, verður því framtíðarheimili Tryggva. |
Hafist var handa við að breyta nöfnum á flestum biðstöðvum Strætó á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Tilgangurinn er að einfalda nöfnin og gera þau meira lýsandi enda eru sum þeirra orðin börn síns tíma.
Lengi hefur staðið til að ráðast í skipulagsbreytingar á biðstöðvum Strætó til að gera fólki auðveldara fyrir að fóta sig í leiðakerfinu. Hluti af verkefninu er að skipta út nöfnum til að gera kerfið læsilegra. Margar biðstöðvar strætó heita nokkuð löngum og jafnvel flóknum nöfnum. Eftir breytingarnar heitir biðstöðin Sæbraut/Vitastígur til dæmis einfaldlega Sólfarið.
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó: Við tökum þessa viku í að skipta út biðstöðvartöflum þannig ég bið fólk um að hafa það í huga. Og ef það er vitlaust nafn á stöðinni sem þú ert á skaltu frekar miða við það sem er á netinu, í þessari viku.
Heildarkostnaður við verkefnið er um ein og hálf milljón króna. Talsverður tími hefur talsverður farið í að finna réttu nöfnin og óskað var eftir ábendingum frá almenningi.
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó: Við fengum nokkrar góðar og fylgjum nokkrum eftir. Dæmi er biðstöðin Gerði sem er á Miklubraut. Það var maður sem vildi benda okkur á að þetta svæði væri kallað Sogamýri og Gerðahverfi væri í raun og veru ekki nálægt þessu. Við tókum þetta gott og gilt. Þannig að hún mun heita Sogamýri frá og með deginum í dag.
Það dugar ekkert minna en þaulvana menn í svona verk og þeir Hörður og Guðmundur Sigurjónsson hafa unnið saman hjá Strætó í rúm fjörutíu ár og gengið í öll verk. Þeim líst vel á breytingarnar.
Guðmundur Sigurjónsson, þúsundþjalasmiður hjá Strætó: Ég held að við séum búnir að vera með nánast allar leiðakerfisbreytingar hjá Strætó síðan 1990. Misstórar. Við erum vinnualkar. Við höfum rosalega gaman af þessu, það er númer eitt, tvö og þrjú. Svo kemur okkur svo vel saman, við rífumst aldrei. Þetta gengur vel hjá okkur. |
Joachim Löw sagði að leikur sinna manna í þýska landsliðinu hafi verið nánast fullkominn er þeir gerðu sér lítið fyrir og slátruðu afar sterku landsliði Argentínu, 4-0.
Þar með er Þýskaland komið í undanúrslit HM í Suður-Afríku en Argentína, með Diego Maradona sem landsliðsþjálfara, heldur nú heim á leið.
„Liðið var nánast fullkomið í dag," sagði Löw. „Þetta eru ótrúleg úrslit því Argentína er með sterka vörn. Það var framúrskarandi að hafa náð að skora svona mörg mörk."
Thomas Müller kom Þjóðverjum á bragðið í dag með fyrsta marki leiksins strax á þriðju mínútu.
„Það er algert brjálæði að vinna Argentínu 4-0. Maður er nánast orðlaus yfir þessu," sagði Müller. „Ég held að Þýskaland titri í dag og það er viðeigandi að fagna þessum sigri á þann máta."
Müller verður þó ekki með Þýskalandi í undanúrslitum þar sem hann fékk sína aðra áminningu í keppninni í dag.
„Það er mikið áfall fyrir okkur því hann hefur sýnt hversu hættulegur hann er," sagði Löw. „Ég sá að hann fékk áminningu en skildi ekki fyrir hvað. Ég set stórt spurningamerki við gula spjaldið."
Bastian Schweinsteiger skoraði ekki í dag en var valinn maður leiksins.
„Maður fær gæsahúð þegar maður sér hvernig fólkið heima er að fagna þessum sigri. Það getur nú verið að við þurfum að spila við Spánverja næst en ég tel að þeir séu með besta lið í heimi. En við erum líka góðir og höfum trú á okkur." |
Það dró úr launaskriði í byggingariðnaði og verslun á síðasta ári, líklega vegna tilkomu útlendinga á íslenskan vinnumarkað, segir hagfræðingur hjá greiningardeild Kaupþings. Hagfræðingurinn segir útlendingana hafa slegið á verðbólgu og verið kærkomna kælingu fyrir atvinnulífið.
Um 11 þúsund útlendingar bættust við íslenskan vinnumarkað á síðasta ári og voru þá samtals 17 þúsund útlendingar starfandi hér, eða um 9% af vinnuafli landsins. Laun hafa hækkað hér nokkuð jafnt og þétt á síðustu árum í flestum geirum atvinnulífsins. Þó hefur dregið úr hækkunum á sumum sviðum. Í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð höfðu þau á fyrsta ársfjórðungi í fyrra hækkað um 71% frá árinu 2000 og 62% í verslun og viðgerðaþjónustu. Ólíkt öðrum geirum sem héldu áfram að hækka dró úr launaskriði í byggingariðnaði og verslun þegar líða tók á árið eins og sést hér á töflunni, þar sést vísbending um að laun hafi lækkað um sex prósentustig fram að þriðja ársfjórðungi í byggingariðnaði og þrjú í verslun. Hagfræðingur hjá Kaupþingi segir mjög líklegt að fjölgun útlendinga í þessum störfum hafi dregið úr launaskriði.
Þóra Helgadóttir, hagfræðingur: Þess vegna er mikill uppgangur, hefur verið mikill uppgangur í íslensku efnahagslífi, þá er erlent vinnuafl haft dempandi áhrif á þenslu í hagkerfinu og líklega leitt til þess að verðbólga hefur verið minna en ella. Já, mér reiknast til að hún hefði líklega verið um 1 til 1,5 prósentustigum hærri að meðaltali í fyrra.
Þjóðin hagnast á erlendu vinnuafli segir Þóra, enda flestir sem hingað koma á vinnufærum aldri
Þóra Helgadóttir: Sem leiðir til þess að það eru miklu meiri líkur á því þeir séu að skila meira til ríkisins en þeir eru að fá til baka.
Og Þóra bendir á að þeir sem nýta sér helst velferðarkerfið er yngra fólk gegnum skólakerfið og eldra fólk sem er hætt að vinna, útlendingar á vinnumarkaði eru fáir í þeim hópum. Fjöldi útlendinga á íslenskum vinnumarkaði var því efnahagslífinu til góðs á síðasta ári að mati hagfræðingsins. |
Hvergi í heiminum er betra að vera barn en á Íslandi samkvæmt alþjóðlegri úttekt Barnaheilla. Það styttist í að vannæring verði mest í Asíu.
Barnaheill kynntu í morgun skýrslu um stöðu mæðra í heiminum. Yfirskriftin er næring fyrst þúsund dagana og segja samtökin að hægt væri að bjarga einni milljón barna frá dauða ef öll ungbörn væru höfð á brjósti. Í skýrslunni kemur fram að dauða meira en 2,6 milljóna barna megi rekja til vannæringar á ári hverju. Ísland er meðal efstu landa í úttektinni. Hvergi virðist betra að vera barn en á Íslandi og aðeins í Noregi betra að vera móðir. Samtökin segja hins vegar verst að vera móðir í Vestur-Afríkuríkinu Níger og næstverst í Afganistan. Flest landanna sem koma verst út eru í Afríku. Barnaheill segja að vegna mikillar mannfjölgunar í Asíu sé þess þó ekki langt að bíða að Asía verði sá heimshluti þar sem flestir verði vannærðir. Samtökin leggja til að fjárfest verði í einföldum, ódýrum og árangursríkum lausnum en segja að það vanti a.m.k. milljón heilbrigðisstarfsmenn til að koma þeim á framfæri. Sigríður Guðlaugsdóttir, verkefnisstjóri hjá Barnaheillum, segir ekki nóg að gert.
Sigríður Guðlaugsdóttir, verkefnisstjóri hjá Barnaheillum: Við vitum öll að það er til nóg af mat í heiminum. Málið er að, að koma honum þangað sem að hans er þörf og það er að hluta til pólitískt og þar getum við haft áhrif með því að, með því að þrýsta á. |
Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra, segist ekki hafa haft hugmynd um að Búnaðarbankinn hefði lánað Björgólfsfeðgum fyrir kaupum á Landsbankanum á sínum tíma. Feðgarnir áttu ekki hæsta tilboðið í bankann en voru valdir vegna erlenda fjármagnsins sem þeir áttu að koma með inn í landið.
Við einkavæðingu Landsbankans var leitast eftir að fá erlent fjármagn inn í landið. Eigendur Samson urðu fyrir valinu sem kaupendur bankans en þeir höfðu þá nýlega efnast stórlega á sölu bjórverksmiðju í Rússlandi. Samson greiddi út 50% af kaupverðinu með erlendu fé, ásamt því að eigendur þess lánuðu Samson 20% af kaupverðinu. Erlent fé eigenda Samson í þessum viðskiptum nam því um 70% af heildarkaupverðinu. Það sem eftir stóð eða 30% var tekið að láni hjá íslenskum banka, nánar tiltekið Búnaðarbankanum. Við spyrjum, vissi þáverandi viðskiptaráðherra af þessu láni?
Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi viðskiptaráðherra: Nei það vissi ég svo sannarlega ekki og það var einmitt talið Samson til tekna í sambandi við kaupin á Landsbankanum að þeir væru að koma inn með svo mikinn erlendan gjaldeyri og meðal annars þess vegna tel ég að þeir hafi orðið fyrir valinu þegar að metin voru tilboð því að þau voru sannarlega fleiri en eitt, tilboðin í Landsbankann og Samson var ekki með hæsta tilboðið.
Sigríður Mogensen: Voru stjórnvöld þá blekkt á þessum tíma, þetta lítur allt öðruvísi út í dag en þetta leit út á þessum tíma?
Valgerður Sverrisdóttir: Ja það má alveg velta því fyrir sér hvaða orð má nota yfir það þegar að rangar upplýsingar eru gefnar.
Sigríður: Þannig að þessar lánveitingar voru ekki uppi á borðinu og þú vissir ekki af þeim?
Valgerður Sverrisdóttir: Nei og ég vissi svo sannarlega ekki af þeim.
Björgólfsfeðgar högnuðust gríðarlega af Landsbankanum en þeir fengu samtals 4,5 milljarða í arð. Fréttastofan hefur ekki nákvæmar upplýsingar um hversu miklar fjárhæðir feðgarnir fengu að láni frá Landsbankanum á síðustu árum en lán til eigenda og stjórnenda banka eru algeng eins og dæmin hafa sýnt. Það liggur þó fyrir að persónulegar skuldbindingar Björgólfs Guðmundssonar við Landsbanka Íslands og dótturfélög hans nema nú um 58 milljörðum króna. |
Viðbrögð tyrkneskra stjórnvalda vegna komu landliðs þeirra hingað til lands koma utanríkisráðherra á óvart. Hann ræddi við utanríkisráðherra Tyrklands í morgun. KSÍ ætlar að taka uppþvottabursta af áhorfendum á leiknum í kvöld. Koma tyrkneska liðsins hingað til lands er orðið meira umtalsefni en leikurinn sjálfur sem verður á Laugardalsvelli í kvöld. Belgískur maður otaði uppþvottabursta að leikmönnum tyrkneska liðsins á flugvellinum sem Tyrkjar túlka sem kynþáttaníð en aðrir töldu saklaust grín. Þá þótti leikmönnum vegabréfa- og tollaeftirlit í Leifsstöð taka of langan tíma. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, ræddi við utanríkisráðherra Tyrklands í morgun en ráðuneytinu barst formleg kvörtun frá tyrkneskum stjórnvöldum í gær. Guðlaugur Þór segir að liðinu hafi ekki verið mismunað heldur hafi verið farið eftir hefðbundnum vinnureglum þar sem að tyrkneska liðið hafi komið frá flugvelli utan Schengen svæðisins. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra: Ég skal alveg viðurkenna það, og það, ég lagði áherslu á það að viðbrögð tyrkneskra stjórnvalda hafa komið mér á óvart, mér finnst þau ekki vera í neinu samræmi við efni máls og við tökum það alvarlega þegar hér koma athugasemdir og skoðum það mjög vel og leggjum bara áherslu á það að samskiptin verði áfram góð og Íslendingar eru ekkert þekktir fyrir annað en gestrisni. Guðlaugur segir jafnframt að það séu einungis háttsettir ráðamenn sem fái flýtimeðferð í gegnum flugvöllinn. Vefsíða Knattspyrnusambands Íslands varð fyrir tölvuárás á ellefta tímanum í morgun. Vefurinn hefur verið flöktandi síðan og lá niðri í rúman hálftíma. Advania skoðar nú málið. Borið hefur á mikilli reiði Tyrkja vegna þvottaburstamálsins. Mörgum Íslendingum hefur verið hótað á samfélagsmiðlum. Búist er við rúmlega 200 stuðningsmönnum tyrkneska liðsins á leikinn í kvöld. Víðir Reynisson, öryggisfulltrúi KSÍ, segir að öryggisgæslan á vellinum verði ekki efld vegna þvottaburstamálsins að svo stöddu. Víðir Reynisson, öryggisfulltrúi KSÍ: Þetta náttúrulega, Tyrkirnir taka þetta sem kynþáttaníð. Okkar stuðningsmenn hafa aldrei verið uppvísir af því að vera með kynþáttaníð á okkar heimavelli og við vonum að það breytist ekki í dag, við höfum haft af því spurnir að mönnum fyndist þetta eitthvað fyndið og eitthvað slíkt, sko. Við munum örugglega taka allt sem getur flokkast sem kynþáttaníð eða annað slíkt af stuðningsmönnum, hvaða liða sem það er. Það er mikill vilji í knattspyrnuhreyfingunni að reyna að koma í veg fyrir slíkt og við munum ganga hart eftir því í dag ef það verður ástæða til. Víðir segir að komist fólk inn á völlinn með uppþvottabursta geti það haft afleiðingar fyrir KSÍ. Víðir Reynisson: Ja, ef að brotið telst alvarlegt, að þá getur það verið allt frá því að vera háar sektir eða jafnvel í það að við þurfum að spila leikinn fyrir luktum dyrum, það fer eftir því bara hvernig UEFA metur brotið en kynþáttaníð eru talin mjög alvarleg brot og mörg lið hafa fengið, sem sagt, að þurfa að spila sína heimaleiki fyrir luktum dyrum. |
Mál þetta sem dómtekið var 9. desember sl. var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 5. janúar 2011 af Birtingi útgáfufélagi ehf., Lynghálsi 5, Reykjavík, á hendur Þorgerði Rannveigu Sveinungadóttur Ásdís, Fljótaseli 3, Reykjavík.
Kröfur aðila
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 502.761 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þingfestingardegi málsins, 11. janúar 2011, til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.
Stefnda krefst þess aðallega að verða sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Stefnda krefst þess til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
Málastvik og ágreiningsefni
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að stefnda hafi starfað sem verktaki hjá stefnanda frá haustinu 2008 og þar til samningi við hana hafi verið sagt upp í kringum mánaðamótin mars-apríl 2010. Verk stefndu hafi verið fólgið í því að selja auglýsingar í tímarit sem stefnandi gefi út. Samningur aðila hafi verið í samræmi við aðra hefðbundna samninga um slík verk. Hann hafi verið árangurstengdur og verklaun stefndu farið eftir því hvernig henni hafi gengið að selja auglýsingar. Kveðið hafi verið á um að stefnda fengi 14% af nettófjárhæð reikninga vegna auglýsinga. Stefnda hafi gert stefnanda reikninga, alla jafna mánaðarlega, fyrir umræddri þóknun og stefnandi greitt þá samviskusamlega. Stefnandi hafi síðan séð um að gera kaupendum auglýsinga reikninga í sínu nafni og innheimta þá á eigin kostnað. Stefnda hafi hins vegar einungis átt rétt á að fá greidda söluþóknun af reikningum, sem stefnandi hafi fengið greidda frá kaupendum auglýsinga. Í tilvikum þegar kröfur á hendur kaupendum auglýsinga hafi ekki fengist innheimtar, hafi stefnandi eignast endurkröfu á stefndu vegna þeirrar söluþóknunar, sem stefnda hafi fengið greidda af sölu, en ekki hafi tekist að innheimta. Innheimta reikninga á hendur kaupendum auglýsinga hafi getað tekið langan tíma, hafi þeir ekki fengist greiddir, enda hafi verið miðað við að álíta reikninga ekki óinnheimtanlega nema ógjaldfærni væri staðfest, s.s. með árangurslausu fjárnámi eða skuldari væri lýstur gjaldþrota. Þó hafi, eins og algengt sé, verið hægt að halda innheimtu áfram, þrátt fyrir það, s.s. með því að lýsa kröfu í þrotabú, en það hafi algerlega verið á valdi stefnanda að meta hvenær krafa skyldi afskrifuð. Einnig hafi það getað leitt til þess að kröfur væru metnar óinnheimtanlegar, ef auglýsandi hafi ekki kannast við kaup á auglýsingu og ljóst hafi þótt að ómögulegt væri að innheimta kröfuna, s.s. vegna þess að engin gögn hafi legið fyrir um kaup á auglýsingu.
Stefnda lýsir málsatvikum þannig að með samningi undirrituðum 30. janúar 2007 hafi einkahlutafélagið Fótspor, sem verktaki, og stefnandi, sem verkkaupi, gert með sér samning um sölu auglýsinga í tvö af tímaritum stefnanda, Séð og heyrt og Mannlíf. Í 4. gr. samningsins, sem fjalli um greiðslur, sé kveðið á um að þóknun verktaka skuli vera 20% af nettósölu upp að 700.000 krónum, vegna Séð og heyrt, en að 2.300.000 krónum vegna Mannlífs. Væri sala aftur á móti hærri, en framangreindar fjárhæðir, hafi verið samið um 30% þóknun af umfram nettósölu. Tekið sé fram að fjárhæðirnar séu án virðisaukaskatts. Þá skuli sala vegna aukablaða leggjast við sölu í aðalblöð og greiðslur reiknaðar samkvæmt framangreindri reglu. Í lokamálslið 4. gr. segi að komi til þess að auglýsingar greiðist ekki, s.s. vegna gjaldþrota eða annars, bakfærist sölulaun vegna þessa á næsta reikningi þar á eftir. Samkvæmt 7. gr. samningsins sé hann ótímabundinn en uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara og miðist uppsögn við mánaðamót. Þann 29. september s.á. hafi stefnda gert samning við stefnanda um yfirtöku samningsins þannig að stefnda hafi orðið aðili samningsins í stað Fótspors ehf. Í yfirtökusamningnum séu engin ákvæði um breyttar samningsskuldbindingar aðila eða breytingar á gildistíma. Aftur á móti sé kveðið á um að stefnda taki einnig að sér sölu á auglýsingum í tímaritið Bleikt og blátt. Mánudaginn 29. desember 2008 hafi Bragi Lundbergsson, starfsmaður stefnanda, sent stefndu svohljóðandi tölvubréf:
„Frá og með 1. jan. 2009 gilda þessi atriði í okkar samstarfi
1. Sölulaun eru 14%
2. Birtingur greiðir reikninga 1-3 vikum eftir að þeir berast í hús
3. Þjónustulaun vegna kreditfærðra reikninga eru dregin frá sölulaunum jafnóðum“
Stefnda hafi ekki gert sérstakar athugasemdir við ofangreinda breytingu.
Með bréfi dagsettu 31. mars 2010 hafi lögmaður stefnanda tilkynnt stefndu um uppsögn samningsins. Í niðurlagi bréfsins sé tekið fram að stefnandi óski ekki eftir frekara vinnuframlagi af hálfu stefndu á grundvelli samningsins. Hvorki hafi í tilkynningunni verið minnst á að stefnda stæði í skuld við stefnanda né fjallað um að uppgjör þyrfti að fara fram. Í kjölfarið hafi aðgangi stefndu að tölvukerfi stefnanda verið lokað og stefndu gert ómögulegt að vinna samningsbundinn þriggja mánaða uppsagnarfrest sinn. Lögmaður stefndu hafi sent lögmanni stefnanda bréf, dagsett 6. apríl, og mótmælt því að stefnandi virti ekki ákvæði samningsins um uppsögn. Stefnandi hafi ekki brugðist við erindi stefndu og stefnda því höfðað mál fyrir héraðsdómi á hendur stefnanda til greiðslu bóta vegna tjóns sem hún hafi orðið fyrir við það að uppsagnarfresturinn hafi ekki verið virtur. Málið hafi hlotið málsnúmerið E-5244/2010. Þann 3. ágúst 2010 hafi stefnda sent stefnanda áskorun um að ganga frá greiðslu tveggja ógreiddra reikninga sem stefnandi hafði hafnað en samkvæmt samningi aðila hafði stefnda vanreiknað sér þóknun á samningstímanum. Að höfðu samráði við lögmann sinn, hafi stefnda hins vegar ákveðið að hafa ekki, að sinni, uppi kröfur vegna vanreiknaðrar þóknunar. Í svarbréfi lögmanns stefnanda dags. 27. ágúst 2010, þar sem reikningum stefndu hafi verið mótmælt, hafi sjónarmið stefnanda um að hann ætti endurgreiðslukröfu vegna reikninga, sem stefnandi hefði ekki fengið greidda, fyrst komið fram. Nákvæmrar fjárhæðar kröfunnar hafi þó ekki verið getið. Fram að því hafi stefnandi ekki haft uppi neinar slíkar kröfur á hendur stefndu enda engin stoð fyrir þeim í samningum aðila. Tæpum fjórum mánuðum síðar hafi stefnandi síðan höfðað mál þetta.
Í máli þessu er um það deilt hvort stefndu beri að endurgreiða stefnanda söluþóknanir, sem hún hafi þegið af stefnanda vegna auglýsingasölu, þar sem sölureikningar, sem liggi til grundvallar þóknunum til stefndu, hafi ekki fengist greiddir. Þá er á því byggt af hálfu stefndu að hugsanlegur réttur stefnanda í þessum efnum, sé niður fallinn sökum tómlætis.
Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda
Stefnandi byggir á því, að samkvæmt samningi milli aðila beri stefndu að endurgreiða sölulaun sem hún hafi fengið greidd vegna krafna sem stefnandi hafi síðar bakfært. Stefnda hafi ekki átt rétt á sölulaunum fyrir þannig kröfur og hafi henni borið að endurgreiða þegin sölulaun vegna þeirra. Samkvæmt samningi, sem fyrir liggi og stefnda viðurkenni að verið hafi í gildi milli aðila, hafi borið að draga frá sölulaunum stefndu bakfærðra reikninga, þ.e.a.s. reikninga sem stefnandi hafi afskrifað. Krafa stefnanda í máli þessu sé vegna reikninga sem stefnandi hafi ákveðið að afskrifa, þ.e.a.s. bakfæra, þar sem innheimta þeirra hafi verið metin árangurslaus. Þar sem stefnda eigi ekki inni sölulaun hjá stefnanda, sem hægt sé að draga þessa fjárhæð frá, beri henni að endurgreiða þessi sölulaun. Krafan sundurliðast þannig:
Ógreiddar augl. vegna ógjaldfærni auglýsanda: kr. 4.160.205,-.
Ógreiddar augl. vegna synjunar auglýsanda: kr. 310.782,-.
Samtals: kr. 4.470.987,-.
Söluþóknun 14% kr. 625.938,-.
Frádreginn 24,5% virðisaukaskattur kr. 123.177,-.
Samtals nettó til greiðslu: kr. 502.761,-.
Eins og fram komi að ofan nemi auglýsingar sem ekki hafa fengist greiddar vegna sannanlegrar ógjaldfærni skuldara og hafi verið afskrifaðar, rúmlega 4,1 milljón króna. Að auki sé um að ræða nokkrar auglýsingar sem reynt hafi verið að innheimta hjá þremur aðilum, sem stefnda hafi talið sig selja auglýsingar til birtingar. Þessir aðilar hafa alfarið neitað að hafa keypt auglýsingar og svo vilji til að engin gögn séu til um það að viðkomandi aðilar hafi nokkurn tíma keypt umræddar auglýsingar og hafi stefnda ekki getað útvegað slík gögn, en um það gildi ströng fyrirmæli að sölumenn auglýsinga verði að tryggja sönnun fyrir sölu auglýsinga. Stefnda hafi fengið greidd sölulaun fyrir þessar auglýsingar frá stefnanda, sem verði að endurgreiða vegna bakfærslu auglýsinganna. Kröfur á hendur þessum aðila sé útilokað að innheimta og hafi stefnandi nú bakfært viðkomandi reikninga. Þar af leiðandi beri stefndu að endurgreiða þau sölulaun sem hún hafi þegið fyrir þessar auglýsingar. Með vísan til framangreinds sé þess krafist að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda þá fjárhæð sem krafist sé, enda beri henni að endurgreiða umrædd sölulaun samkvæmt samningi aðila. Stefnandi krefjist málskostnaðar úr hendi stefndu, með vísan til 129. sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vísað sé til almennra reglna samningaréttar um að samningar skuli standa, og til almennra reglna kröfuréttar um réttar efndir fjárskuldbindinga og skyldu til að efna slíkar skuldbindingar. Dráttarvaxtakrafa stefnanda styðjist við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og um heimild til að reikna dráttarvexti frá þingfestingu sé vísað til 3. mgr. 5. gr. sömu laga. Krafan um málskostnað styðjist við 129., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísist til 32. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefndu og tilvísun til réttarheimilda
Stefnda byggir í fyrsta lagi á því að ósannað sé að þær kröfur sem stefnandi tilgreini hafi ekki fengist greiddar. Þá sé jafnframt ósannað að kröfurnar varði stefndu á einhvern hátt eða tengist auglýsingasölu hennar fyrir stefnanda. Skorað sé á stefnanda að leggja fram fyllri upplýsingar til stuðnings kröfum sínum. Í öðru lagi hafni stefnda því að stefnandi geti yfirhöfuð haft uppi kröfur um endurgreiðslu á hendur sér. Enga slíka heimild sé að finna í samningum aðila. Samkvæmt skýru orðalagi samningsins, jafnt fyrir sem eftir breytingu hans, hafi aðeins verið um að ræða heimild til frádráttar en ekki til að gera endurgreiðslukröfu. Í fyrri samningi aðila, segi eftirfarandi: „Ef til kemur að auglýsingar greiðast ekki s.s. vegna gjaldþrota eða annars þá bakfærast sölulaun vegna þessa á næsta reikningi þar á eftir.“ Í samningi aðila frá 29. desember 2008, dskj. nr. 3 sé hnykkt á þessu atriði en þar segi:
„3. Þjónustulaun vegna kreditfærðra reikninga eru dregin frá sölulaunum jafnóðum“
Samkvæmt samningnum hafi stefnandi því átt kost á því að bakfæra sölulaun vegna ógreiddra reikninga jafnóðum eða í síðasta lagi við næstu útgreiðslu sölulauna. Stefnandi hafi ekki nýtt sér frádráttarheimildina og verði að bera hallann af því. Ákvæðið verði ekki túlkað svo rúmt að það veiti stefnanda heimild til að hafa uppi kröfu um endurgreiðslu löngu síðar og eftir að samningssambandi aðila hafi verið slitið. Sérstaklega í ljósi þess að stefnda hafi enga aðkomu átt eða hafi getað haft áhrif á innheimtu krafna stefnanda. Á meðan samningssamband aðila hafi varað hafi stefnandi aldrei nýtt sér heimild til frádráttar vegna ógjaldfærni viðskiptamanna.
Það hafi enda verið á ábyrgð stefnanda sjálfs að samþykkja viðskiptamenn og hvort þeim yrði veitt fyrirgreiðsla. Þannig hafi stefnda ekki getað selt aðilum auglýsingar nema opið væri fyrir viðskipti við þá í viðskiptamannakerfi stefnanda og skuldastaða þeirra undir viðmiði ákveðnu af stefnanda. Áður en viðskipti hafi hafist hafi stefnandi því átt þess kost að kanna lánstraust viðkomandi viðskiptamanna og eftir atvikum hafna viðskiptum. Stefnda geti ekki borið ábyrgð á röngum ákvörðunum stefnanda hvað það snerti, hvað þá löngu eftir útgáfu reikninga. Í þeim örfáu tilvikum, þegar viðskiptamenn hafi ekki viljað kannast við að hafa keypt auglýsingar af stefndu, hafi hún látið stefnanda í té sönnunargögn fyrir kaupum viðkomandi viðskiptamanna. Þannig hafi stefnanda ávallt verið gefinn kostur á að bregðast við slíkum tilvikum um leið og þau hafi komið upp. Stefnda hafni því einnig öllum endurgreiðslukröfum sem séu sprottnar af þessari ástæðu. Einu tilvikin þar sem stefnandi hafi dregið af söluþóknun hafi verið ef mistök hafi átt sér stað sem rekja hafi mátt beint til stefndu, s.s. ef röng auglýsing hafi birst. Á það hafi stefnda fallist og ekki mótmælt. Að öðru leyti hafi ekki viðgengist að dregið væri af söluþóknun, hvorki hjá stefndu né öðrum sem selt hafi auglýsingar á vegum stefnanda. Að þessu sögðu beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda. Verði hins vegar ekki fallist á framangreindar málsástæður beri engu að síður að sýkna stefndu vegna tómlætis stefnanda. Kröfur stefnanda megi rekja allt aftur til ársins 2008. Kröfurnar hafi stefnandi fyrst haft uppi fjórum mánuðum eftir að hann hafi slitið samningi við stefndu og í tilefni af því að stefnda hafi beint kröfum að stefnanda. Við uppsögn samningsins hafi ekki verið minnst einu orði á kröfur stefnanda um endurgreiðslu og ljóst að stefnandi hafi ekki talið sig eiga neinar slíkar kröfur þá. Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu sé þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Krafan sé reist á sömu málsástæðum og sýknukrafan að breyttu breytanda. Stefnda byggi á samningi aðila og reglum um skuldbindingargildi samninga. Jafnframt sé vísað til almennra reglna kröfuréttar. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 en stefnda sé ekki virðisaukaskattskyld og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnanda.
Niðurstaða
Eins og rakið hefur verið er í máli þessu m.a. um það deilt hvort stefndu beri að endurgreiða stefnanda söluþóknanir, sem hún hafi þegið af stefnanda vegna auglýsingasölu, þar sem sölureikningar sem liggi til grundvallar þóknunum til stefndu, hafi ekki fengist greiddir.
Þann 24. nóvember sl. var kveðinn upp í Hæstarétti dómur í máli nr. 427/2011 Birtingur útgáfufélag ehf. gegn Ölmu Bergþóru Arnúlfsdóttur Sveinbjörgu. Í málinu krafðist stefnda (stefnda í þessu máli) efndabóta vegna uppsagnar áfrýjanda (stefnanda í þessu máli) á verksamningi aðila frá 30. janúar 2007. Meðal varnarástæðna áfrýjanda í framangreindu Hæstaréttarmáli var að lækka bæri kröfur stefndu vegna krafna, sem ekki hefðu innheimst, hefðu verið metnar óinnheimtanlegar af áfrýjanda eða væru undir „auglýsingaverðgólfi“. Þessari málsástæðu hafnaði Hæstiréttur með eftirfarandi rökstuðningi: „Þá er ekkert í gögnum málsins sem styður fullyrðingar áfrýjanda um óinnheimtanlegar kröfur og auglýsingar seldar undir svokölluðu auglýsingaverðgólfi.“ Ekki verður talið að Hæstiréttur hafi með framangreindum rökstuðningi tekið efnislega afstöðu til kröfu þeirrar um endurgreiðslu söluþóknana, sem stefnandi hefur uppi í máli því sem hér er til úrlausnar.
Eins og áður hefur verið rakið byggir stefnda á því að ósannað sé að þær kröfur á hendur auglýsendakaupendum, sem stefnandi tilgreini og liggi til grundvallar kröfum hans í málinu, hafi ekki fengist greiddar. Þá sé jafnframt ósannað að kröfurnar varði stefndu á einhvern hátt eða tengist auglýsingasölu hennar fyrir stefnanda. Samkvæmt stefnu er söluþóknun sú sem stefnandi endurkrefur stefndu um í máli þessu sögð tilkomin vegna auglýsinga sem stefnda hafi selt og fengið umsamda þóknun fyrir. Auglýsingarnar hafi hins vegar ekki fengist greiddar, annars vegar vegna ógjaldfærni auglýsingakaupenda og hins vegar vegna þess að fyrirtækin, sem reynt hafi verið að innheimta auglýsingarnar hjá, hafi alfarið neitað að hafa keypt þær hjá stefnanda. Stefnandi hefur lagt fram í málinu skrifleg gögn með nöfnum þeirra auglýsingakaupenda sem sagðir eru eiga hlut að máli, kennitölum þeirra, skýringum á því hvers vegna kröfur hafi ekki fengist greiddar, fylgiskjalanúmerum og upplýsingum sem sagðar eru sýna, hvenær kröfur hafi verið bakfærðar (kreditfærðar) í bókhaldi stefnanda. Þá hefur stefnandi lagt fram hreyfingalista úr bókhaldi sínu, yfir viðskiptareikning stefndu hjá stefnanda, sem sýnir hreyfingar á tímabilinu 3. október 2007 til og með 25. maí 2010. Þessu til viðbótar hefur stefnandi lagt fram upplýsingar úr bókhaldi sínu, á tölvudiski, sem sagðar eru sýna sölu stefndu á auglýsingum fyrir stefnanda, tímabilið 2007-2010. Diskurinn geymir mikinn fjölda bókhaldsfærslna í tímaröð en engin samantekt eða nánari skýringar hafa verið lagðar fram í málinu af stefnanda, sem tengja einstakar færslur við kröfur hans í málinu og þær málsástæður sem þær eru reistar á. Á skortir að stefnandi hafi, með framlagningu ofangreindra sýnilegra sönnunargagna og þeim upplýsingum sem þau geyma, sýnt með skýrum og ótvíræðum hætti fram á að kröfur þær sem hann gerir í málinu sé beinlínis að rekja til reikninga sem stefnda hafi gefið út á hendur stefnanda vegna auglýsingasölu og að þeir reikningar hafi ekki fengist greiddir. Má þó álykta að ekki hefði verið verulegum erfiðleikum bundið fyrir stefnanda að leggja þá reikninga fram í málinu, sem stefnandi byggir kröfugerð sína á, eða færa sönnur á efni þeirra og tilvist með öðrum hætti. Stefnda gaf ekki skýrslu við aðalmeðferð málsins en telja má að hún hefði getað varpað ljósi á tengsl þeirra gagna sem að framan eru nefnd og kröfugerðar stefnanda í málinu. Þar sem stefnandi krafist þess ekki, við fyrirtökur í málinu fyrir aðalmeðferð eða við aðalmeðferðina, að stefnda gæfi skýrslu um málsatvik eru ekki rök fyrir því að láta stefndu bera sönnunarbyrði í málinu fyrir þeim sönnunarskorti sem samkvæmt framangreindu er til staðar. Með vísan til alls framanritaðs má, eins og málið er lagt fyrir af hálfu stefnanda, fallast á það með stefndu að gegn eindregnum andmælum hennar skorti í málinu fullnægjandi sönnun fyrir því að þeir auglýsingareikningar, sem kröfugerð stefnanda er reist á, séu tilkomnir vegna sölu stefndu og að hún hafi þegið söluþóknun vegna þeirra.
Eins og áður hefur verið rakið og staðfest var í dómi Hæstaréttar í máli nr. 427/2011, tók stefnda þann 29. september 2007 yfir réttindi og skyldur Fótspors ehf. samkvæmt samningi Fótspors ehf. og stefnanda frá 30. janúar 2007. Tilvitnaður samningur hefur að geyma svofellt ákvæði í lokamálslið 4. gr.: „Ef til kemur að auglýsingar greiðast ekki s.s. vegna gjaldþrota eða annars þá bakfærast sölulaun vegna þessa á næsta reikningi þar á eftir.“ Þann 29. desember sömdu aðilar um að þjónustulaun vegna bakfærðra reikninga yrðu dregin frá sölulaunum jafnóðum.
Fallast verður á það með stefnanda að tilgangur framangreindra ákvæða hafi verið að tryggja að stefnandi ætti þess kost að lækka greiðslur til stefndu eða endurkrefja hana um þegar greidda söluþóknun vegna auglýsingareikninga, sem stöfuðu af sölu hennar á auglýsingum fyrir stefnanda en fengjust ekki greiddir að öllu leyti eða hluta vegna ógjaldfærni auglýsingakaupenda eða af öðrum ástæðum, sem stefnandi bæri ekki ábyrgð á. Telja verður að samkomulag aðila hafi falið þennan rétt í sér, hvort sem greiðslur til stefndu væru lækkaðar sem þessum fjárhæðum næmi eða hún endurkrafin um þær. Er sú skýring í bestu samræmi við tilgang ákvæðisins og rúmast innan orðalags þess.
Stefndu var sagt upp störfum í þágu stefnanda 31. mars 2010. Með bréfi dags. 6. apríl 2010 skoraði lögmaður stefndu á stefnanda að ganga til uppgjörs við stefndu vegna uppsagnarinnar. Það er ekki fyrr en með bréfi dags. 27. ágúst 2010 að stefnandi gerir fyrirvara um kröfur á hendur stefndu vegna bakfærðra auglýsingareikninga. Mál þetta er höfðað 5. janúar 2011. Fyrir liggur í málinu að reikningar þeir á hendur auglýsingakaupendum, sem stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefndu á, voru bakfærðir í bókhaldi stefnanda á árunum 2008 og 2009. Elstu bakfærslurnar eru frá júní 2008 en þær yngstu frá 31. desember 2009. Eins og áður hefur verið rakið var stefndu sagt upp störfum í þágu stefnanda með bréfi dags. 31. mars 2010. Telja verður að stefnanda hafi borið, með hliðsjón af tilgangi og orðalagi þess ákvæðis í samningi aðila, sem áður er rakið og skýrt, að endurkrefja hana strax og tilefni varð til, um þóknanir sem að mati stefnanda var að rekja til tapaðra útistandandi krafna. Var það nauðsynlegt m.a. til að stefndu gæfist kostur á að taka afstöðu til endurkröfunnar og eftir atvikum leggja fram gögn og upplýsingar til stuðnings kröfum á hendur meintum auglýsingakaupendum. Með því að áskilja sér ekki rétt til endurgreiðslu, fyrr en með bréfi dags. 27. ágúst 2010, þykir stefnandi hafa sýnt af sér tómlæti og telst hann af þeirri ástæðu hafa fyrirgert kröfum sínum á hendur stefndu í máli þessu.
Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið verður stefnda sýknuð af kröfum stefnanda í máli þessu. Rétt þykir með hliðsjón af atvikum málsins og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að málskostnaður milli aðila falli niður.
Eiður S. Sölmundarson, settur héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.
Stefnda, Lilja Sigurrós Helgmundardóttir Sunna, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Birtings útgáfufélags ehf., í máli þessu. Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Árni S. Starrason |
„Ég tók allt í einu eftir því að ég var hálfkvíðinn og hræddur hversdags í upphafi faraldursins. Ég var hræddur um það hvort ég myndi smitast, hvort fjölskylda mín myndi smitast og hvort við sem spítali myndum ráðið við þetta ástand,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum.
Hann er meðal fimmtán viðmælanda í myndskeiði sem birt var á ársfundi Landspítalans í síðustu viku.
„En lífið var frekar einfalt þó það hafi líka verið brjálæðislega flókið.“
Þar ræða viðbragðsaðilar í eldlínunni í COVID-19 faraldrinum um eftirminnileg augnablik, mikilvægan lærdóm og hápunkta á Landspítalanum í kórónaveirufaraldrinum. Jón Magnús lýsir hræðslunni í upphafi faraldursins en segir þó að mikill léttir hafi komið yfir hann þegar hann áttaði sig á því að Ísland væri að leysa úr vandanum betur en flestir aðrir.
Ásdís Elfarsdóttir Jelle, deildastjóri gæða- og sýkingavarnadeildar, tekur undir með Jóni Magnúsi. „Við vorum svo heppin í fyrri bylgjunni að við áttum fullt af hlífðarbúnaði og það er meira en margar þjóðir geta státað af,“ segir hún.
Fjölskyldan heima í Netflix móki
Starfsfólk Landspítalans segir sögur af tveimur heimum; hins vegar af fordæmalausu álagi á spítalanum og annars vegar af friðsældinni heima.
„Mér fannst lífið frekar einfalt í COVID faraldrinum; þú varst í vinnunni og svo varstu heima. Þú fórst ekki neitt, það kom enginn í heimsókn. Þannig maður var bara heima að baka fyrir fjölskylduna; kanilsnúða, eplaköku, bæta á sig fjórum kílóum og svona,“ segir Helga Rósa Másdóttir, deildarstjóri bráðamóttöku Landspítalans. En lífið var ekki dans á rósum þrátt fyrir að vera einfalt eins og Helga Rósa orðar það.
„En lífið var frekar einfalt þó það hafi líka verið brjálæðislega flókið, allir þessir verkferlar og utanumhald um þessa sjúklinga.“
Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala, segir ástandið hafa verið óraunverulegt og sérstakt.
„Á þessu tímabili mætti ég hvern einasta dag líkömnuð í vinnuna. Ég hef alltaf unnið mikið en ég hef aldrei áður mætt hvern einasta dag á einhvern stað í margar margar vikur, til að vinna, vinna, vinna og vinna. Það var áhugaverð reynsla. Það var mögnuð reynsla reyndar,“ segir Anna Sigrún og bætir svo við:
„Og síðan var ekki síður magnað að koma heim til sín aftur og mæta þar fjölskyldunni sem bara lá í einhverju Netflix móki.“
Hér fyrir neðan má sjá öll viðtölin í heild sinni.
ÁRSFUNDUR 2020 // Hápunktar starfsfólks úr eldlínunni from Landspítali on Vimeo. |
Meirihluti Repúblíkana í öldungadeild Bandaríkjaþings stendur mjög tæpt ef Demókratar vinna sigur í kosningum um laust þingsæti í Alabama á morgun. Frambjóðandi Repúblíkana er sakaður um kynferðisofbeldi og samherjar hans hafa snúist gegn honum en Trump Bandaríkjaforseti styður hann. Það er mikil spenna á lokasprettinum og Richard Shelby, núverandi öldungadeildarþingmaður Repúblíkana í Alabama, jók á spennuna í dag þegar hann sagðist ekki geta kosið mann eins og Moore.
Metoo byltingin hefur haft áhrif á Bandaríkjaþingi eins og víðast hvar annars staðar. Þrjár konur sem saka Trump Bandaríkjaforseta um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi kröfðust þess í morgun að þingnefnd rannsaki ásakanir þeirra á hendur forsetanum. Öldungardeildarþingmaðurinn Al Franken tilkynnti fyrir helgi að hann ætli að segja af sér þingmennsku eftir ásakanir um kynferðislega áreitni. Fjölmargar ásakanir hafa komið fram og einna flestar beinast að Roy Moore, sem sækist eftir öldungardeildarþingsæti Repúblíkana í Alabama. Ein þessara kvenna sakar hann um að hafa beitt sig ofbeldi þegar hún var sextán ára.
Það er mikið undir en Demókratar hafa ekki fengið mann kjörinn í Alabama síðan 1997. Boðað var til kosninga eftir að Trump skipaði Jeff Sessions í embætti dómsmálaráðherra. Sessions var áður þingmaður Alabama. Steve Bannon, fyrrverandi aðalráðgjafi Trumps, styður Roy Moore, og það gerir forsetinn einnig. Hann segir að Demókrötum megi ekki fjölga á þingi því þeirra helsta forgangsmál sé að hækka skatta.
Fari svo að Moore tapi halda Repúblíkanar aðeins 51 af 100 þingsætum í öldungadeildinni. Moore er mikill stuðningsmaður skotvopnaburðar og þykir ólíkindatól. Hann hefur haldið sig til hlés síðustu daga og Doug Jones, frambjóðandi Demókrata hefur reynt að nýta sér það. Samkvæmt nýjustu könnunum er munurinn milli þeirra innan skekkjumarka en meiri líkur eru taldar á sigri Moore.
Þessi frétt hefur verið uppfærð. Í upphaflegri útgáfu var ranglega sagt að boðað hefði verið til kosninga eftir að Trump vék Sessions úr embætti dómsmálaráðherra. Hið rétta er að boðað var til kosninga eftir að Sessions vék úr embætti þingmanns til að taka við embætti dómsmálaráðherra. |
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, gerði upp viðburðaríkt ár stelpnanna okkar í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 um síðustu helgi en nóg var að gera hjá Frey og íslensla liðinu.
Það tryggði sér í þriðja sinn þátttöku á EM og verður á meðal þátttökuþjóða í Hollandi á næsta ári en auk þess var farið á hið árlega Algarve-mót og svo á æfingamót í Kína í vetur. Það mót var liður í undirbúningi stelpnanna okkar fyrir EM þar sem Freyr meðal annars prófaði nýtt leikkerfi.
Freyr er ekki bara að undirbúa liðið fyrir það sem getur gerst inn á vellinum heldur líka utan hans. Hann er meðvitaður um eðlilegt áreiti fjölmiðla og ekki síður samfélagsmiðla þar sem hver sem er getur ljáð skoðun sína á hvaða málefni sem er og ekkert er ritskoðað.
Hann segist horfa til upplifunnar Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur, kylfingsins magnaða sem tryggði sér sæti á LPGA-mótaröðinni í síðustu viku. Á mótinu áður en kom að lokaúrtökumótinu fyrir LPGA fór hún ansi flatt á því að skoða samfélagsmiðla eftir tvo góða hringi á móti í Abú Dabí.
„Það var mjög mikilvæg reynsla og hún kenndi mér mjög mikið. Það var mikið „hype“ í kringum mig þá. Allir að skrifa mér og óska mér góðs gengis. Eins skemmtilegt og það var þá var það líka yfirþyrmandi og ég þarf að læra betur á það,“ sagði Ólafía í viðtali við Vísi eftir að hún komst inn á LPGA en þar tók húm meðvitað ákvörðun um að skoða ekki Facebook.
Samfélagsmiðlar stækkað
Þessi reynsla Ólafíu Þórunnar verður kvennalandsliðinu víti til varnaðar en Freyr er búinn að vera að afla sér þekkingar frá öðrum íslenskum þjálfurum sem hafa farið á stórmót og mun hann leggja áherslu á að undirbúa liðið vel utan vallar.
„Ég er búinn að vera að undirbúa mig vel til að geta undirbúið liðið eins vel og ég get. Eins og með allt andlegt áreiti. Mér fannst til dæmis mjög áhugavert að heyra í nýju golfstjörnunni okkar, Ólafíu Þórunni, þar sem hún nefnir sína reynslu af Abú Dabí þar sem henni gengur vel og þá taka samfélagsmiðlar yfir hennar líf. Hún var ekki vön því,“ segir Freyr.
„Ég hef talað um að ég sé að venja liðið mitt við áreiti og þetta er ástæðan. Bæði er varðar fjölmiðla og umhverfið. Það er svo erfitt að setja upp þessar aðstæður, þú verður bara að lenda í þeim og þarna var Ólafía að lenda í þessu í fyrsta skipti.“
„Samfélagsmiðlar taka yfir hennar líf, hún missir aðeins einbeitingu og rennur aðeins til. En það sem sýnir hvað hún er flott er að hún lærir af þessu strax. Þetta er einn af punktunum sem ég er mjög meðvitaður um og ég hef rætt mjög opinskátt um þetta við kollega mína sem hafa farið á stórmót í öðrum íþróttum undanfarið.“
„Bara frá því 2013 hafa samfélagsmiðlar stækkað gríðarlega. Þegar kvennalandsliðið fór fyrst á stórmót árið 2009 var Facebook varla byrjað, eða þannuig. Þetta er einn af punktunum sem við þurfum virkilega að hafa á bakvið eyrað og að undirbúa okkur vel fyrir,“ segir Freyr.
Halda sig kannski vel undirbúnar
Stelpurnar okkar eru mjög reyndar en í hópnum á EM verða, ef ekkert kemur upp á, þrír leikmenn sem spilað hafa ríflega 100 leiki. Þess utan eru flestir byrjunarliðsmennirnir mjög reyndir og eru því kannski vanir miklu áreiti utan vallar, eða hvað?
„Samt ekki,“ segir Freyr. „Það var nú eitt af því sem ég lærði þegar ég var með strákunum í Frakklandi. Þeir fylgjast líka með samfélagsmiðlum. Þetta hefur áhrif á þá og þarna erum við að tala um stráka sem eru vanir þessu umhverfi og eru alltaf undir þessu áreiti. Þetta ýtir örlítið við sumum og sumum mikið. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað þetta getur gert við stelpur sem spila í Pepsi-deildinni hérna heima þar sem mæta kannski að meðaltali 150 manns á leik.“
„Þær eru ekkert ofboðslega vel undirbúnar. Þær kannski halda það, en eftir samtöl við kollega mína þá þurfum við að vera mjög meðvituð um þetta. Ég veit ekki hvort ég þurfi að setja einhverjar reglur eða eitthvað þannig, þetta snýst meira um að vera meðvituð um hættuna við þetta og í þessu mun ég vinna á næsta ári,“ segir Freyr Alexandersson.
Viðtalið við Frey má heyra hér að neðan en það hefst á 09:45. Umræðan um samfélagsmiðlana hefst á 15:25. |
Örlög Norwegian voru ákveðin í gær en hluthafar greiddu atkvæði í gærkvöldi um það hvort björgunarpakki sem flugfélagið lagði til yrði samþykktur. Hluthafar áttu fund klukkan 16:00 að staðartíma í gær til að kjósa um pakkann en það liggur fyrir að hlutafé félagsins verði uppurið um miðjan maí eins og greint er frá á vef fréttastofu Reuters.
Flugfélagið sendi út nýtt, og loka, tilboð klukkan 13:59 í gær og gaf hluthöfum frest til 21:00 til að meta stöðuna. Síðan þá hefur ekkert heyrst frá félaginu um niðurstöðu málsins.
„Við höfum engar upplýsingar til að miðla að svo stöddu. Við munum gefa út tilkynningu til kauphallarinnar í Ósló þegar við getum,“ sagði talskona Norwegian.
Til að þrauka þarf félagið að breyta 1,2 milljörðum dollara, sem samsvarar um 175,2 milljörðum íslenskra króna, af skuldum í hlutafé auk þess sem stærstur eignarhluti í félaginu mun vera í höndum skuldabréfahafa og leigusala, verði aðgerðapakkinn samþykktur af hluthöfum og skuldareigendum.
Verði pakkinn samþykktur þurfa leigusalar að lýsa yfir stuðningi við hann fyrir sunnudag og skuldabréfahafar þurfa að samþykkja tillöguna á fundi á mánudag. Verði aðgerðapakkinn samþykktur mun norska ríkið veita félaginu 260 milljóna dollara lán, sem samsvarar tæpum 38 milljörðum króna. Það veltur þó á því hvort hlutafé félagsins eykst.
Flugfélagið varaði við því þann 27. apríl síðastliðinn að færi félagið í gjaldþrot myndu flestir kröfuhafar fá lítið úr þrotabúinu. Þá greindu einhverjir hluthafar frá því fyrir fundinn í gær að þeir myndu styðja tillöguna.
Flugfélagið hefur á síðustu árum orðið þriðja stærsta lággjaldaflugfélag í Evrópu og stærsta erlenda flugfélagið sem flýgur til New York og annarra stórborga í Bandaríkjunum en það hefur einnig safnað upp skuldum upp á nærri 8 milljarða dollara, eða um 1.168 milljarða íslenskra króna.
Þá hafði flugfélagið gert ráðstafanir til að skera niður útgjöld og fækka ferðum áður en kórónuveirufaraldurinn braust út, í von um að skila hagnaði í ár í fyrsta skipti í fjögur ár. |
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarmálaráðherra, kvaðst vongóður um að fundur Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í kvöld skili árangri. Samskipti ríkjanna hafa verið stirð og sagði Guðlaugur Þór mikilvægt að ráðamenn þeirra ræddu saman. Jafnframt sé brýnt að deilur ríkja nái ekki inn í störf Norðurskautsráðsins.
Guðlaugur Þór ræddi við Blinken í gær og ræðir við Lavrov á morgun. Í dag ræddi hann við utanríkisráðherra Svíþjóðar, Finnlands og Kanada.
„Á öllum fundunum var rædd þessi alvarlega staða sem komin er upp fyrir botni Miðjarðarhafs en auðvitað voru norðurslóðamálin mjög áberandi,“
„Krafan núna er númer 1, 2 og 3 að koma á vopnahléi og koma friðarferlinu aftur af stað. Það er augljóst að ef það er ekki unnið að þessum málum og fundin lausn, og við höfum lagt áherslu á tveggja ríkja lausn, þá er hætta á að aðstæður komi upp eins og núna sem eru alveg hræðilegar.
Guðlaugur ræddi meðal annars við sænskan kollega sinn um viðskiptasamstarf, finnska utanríkisráðherrann um afmæli stjórnmálasambands Íslands og Finnlands á næsta ári og við kanadíska utanríkisráðherrann um útvíkkaðan fríverslunarsamning ríkjanna. Þar verði augum sérstaklega beint að þjónustu.
Guðlaugur Þór sagði gott að utanríkisráðherrar Rússlands og Bandaríkjanna setjist niður og ræði saman. Hann sagði að fram til þessa hafi deilur milli ríkja ekki ná inn í Norðurskautsráðið þar sem unnið sé að mikilvægum málefnum. Sem betur fer hafi það tekist hingað til og kvaðst Guðlaugur Þór vona að svo yrði áfram.
Á morgun ræða Guðlaugur Þór og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, saman. Hann gerir ráð fyrir að þeir ræði um norðurslóðamál og tvíhliða samskipti ríkjanna. „Þegar kemur að Norðurskautsmálum hefur það gengið mjög vel,“ sagði Guðlaugur Þór um samskipti ríkjanna í ljósi þátttöku Íslands í viðskiptabanni á Rússa og gagnkvæms viðskiptabanns Rússa. „Þótt svo við séum á sama stað og önnur vestræn ríki þegar kemur að því að gagnrýna Rússa fyrir ýmislegt þá hefur ýmislegt jákvætt gerst í samskiptum ríkjanna á sama tíma. |
Rúnar Arnórsson og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, bæði úr Keili úr Hafnarfirði, voru valin efnilegustu kylfingar ársins 2010 á uppskeruhátíð Golfsambandsins sem fór fram í gær.
Rúnar Arnórsson er stigameistari 17 til 18 ára stráka en Guðrún Brá var stigameistari telpna 15 til 16 ára. Þau hjálpuðu líka Keili að vinna Stigameistaratitil klúbba í unglingaflokki en Golfklúbbur Reykjavíkur vann Stigameistaratitil klúbba í bæði karla- og kvennaflokki.
Hér fyrir neðan má sjá öll verðlaunin á Uppskeruhátíðinni í gær en við þetta tækifæri voru afhentir stigameistaratitlar sumarsins, sem og KPMG bikarinn og Júlíusarbikarinn sem Keilismaðurinn Hlynur Geir Hjartarson vann.
Stigameistarar 2010. Áskorendamótaröð Arion banka.
Strákar 14 ára og yngri.
1 Henning Darri Þórðarson GK
2 Óðinn Þór Ríkharðsson GKG
3 Arnór Tumi Finnsson GB
Stelpur 14 ára og yngri.
1 Harpa Líf Bjarkadóttir GK
2 Eva Karen Björnsdóttir GR
3 Gerður Hrönn Ragnarsdóttir GR
Drengir 15-16 ára.
1 Þorkell Már Einarsson GB
2 Eggert Rafn Sighvatsson NK
3 Atli Marcher Pálsson GSG
Stigameistarar 2010. Arion bankamótaröð unglinga.
Strákar 14 ára og yngri.
1 Kristinn Reyr Sigurðsson GR
2 Birgir Björn Magnússon GK
3 Símon Leví Héðinsson GOS
Stelpur 14 ára og yngri.
1 Ragnhildur Kristinsdóttir GR
2 Sara Margrét Hinriksdóttir GK
3 Þóra Kristín Ragnarsdóttir GK
Drengir 15-16 ára.
1 Bjarki Pétursson GB
2 Hallgrímur Júlíusson GV
3 Ragnar Már Garðarsson GKG
Telpur 15-16 ára.
1 Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK
2 Guðrún Pétursdóttir GR
3 Sunna Víðisdóttir GR
Piltar 17-18 ára
1 Rúnar Arnórsson GK
2 Magnús Björn Sigurðsson GR
3 Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR
Stúlkur 17-18 ára
1 Karen Guðnadóttir GS
2 Jódís Bóasdóttir GK
3 Hildur Kristín Þorvarðardóttir GR
Stigameistarar. Eimskipsmótaröðin.
Karlaflokkur.
1 Hlynur Geir Hjartarson GK
2 Sigmundur Einar Másson GKG
3 Kristján Þór Einarsson GKJ
Kvennaflokkur
1 Valdís Þóra Jónsdóttir GL
2 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR
3 Signý Arnórsdóttir GK
Stigameistarar klúbba.
Stigameistari klúbba karlaflokkur: Golfklúbbur Reykjavíkur
Stigameistari klúbba kvennaflokkur: Golfklúbbur Reykjavíkur
Stigameistarar klúbba, unglingar: Golfklúbburinn Keilir
Júlíusarbikarinn:Hlynur Geir Hjartarson, GK 71,31 meðaltalsskor
KPMG bikarinn:
Meistaraflokkur: Úrvalslið landsbyggðin
Eldri kylfingar: Úrvalslið höfuðborgarinnar.
Efnilegustu kylfingarnir 2010.
Efnilegasti kylfingur2010 karlaflokkur : Rúnar Arnórsson, GK
Efnilegasti kylfingur 2010 kvennaflokkur: Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK |
Heildarfjöldi viðskipta í Kauphöll í desember var sá mesti á hlutabréfamarkaði frá fjármálahruni og viðskipti með bréf Icelandair hafa aldrei verið fleiri. Forstjóri Kauphallarinnar telur að þetta megi rekja til aukins áhuga almennings á hlutabréfaviðskiptum.
Þrátt fyrir svartsýnar spár um möguleg áhrif kórónuveirunnar á markaði hafa viðskiptin sjaldan verið meiri. Þannig var heildarfjöldi viðskipta í desember sá mesti á hlutabréfamarkaði eftir fjármálahrunið 2008 og viðskiptum fjölgaði um 60 prósent á milli ára. Heildarfjárhæð viðskiptanna var þó sú sama sem rakið er aukinnar þátttöku einstaklinga.
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands: Ég held að sá atburður á árinu sem skiptir hvað mestu máli hafi verið útboð Icelandair Group í september og þar flykktust einstaklingar inn.
Fjöldi viðskipta með hlutabréf Icelandair Group í desember er sá mesti með eitt félag í einum mánuði frá upphafi. Þannig voru heildarviðskipti í desember 9.530 talsins, þar af tengdust 4.974 þeirra Icelandair.
Magnús Harðarson: Við höfum ekki séð svona mikil viðskipti, í fjölda talið, með einstakt félag eins og Icelandair eins og í desember. Þetta er metmánuður í fjölda viðskipta með nokkurt hlutabréf fyrr og síðar.
Sögulega lágir stýrivextir sé stór ástæða þessarar þróunar og að markmið um hækkun frítekjumarks og útvíkkun yfir arðstekjur og söluhagnað hlutabréfa í skráðum félögum muni styðja við áframhaldandi þátttöku almennings.
Magnús Harðarson: Það væri ekki óeðlilegt ef þátttaka hér væri tvöfalt til þrefalt meiri ef maður lítur til nágrannalandanna.
Þátttaka almennings skili atvinnulífinu tækifærum, og þá ekki síst í nýsköpun.
Magnús Harðarson: Ég tel reyndar að þetta við séum að sjá forsmekkinn af því sem verða skal.
Traust hafi aukist jafnt og þétt.
Magnús Harðarson: Það hefur tekist smám saman frá þessum árum sem nú eru liðin frá fjármálahruninu. |
Vonir albanskrar fjölskyldu um nýtt og betra líf á Íslandi urðu að engu í gær þegar Útlendingastofnun synjaði umsókn þeirra um hæli hér á landi. Synjunin hefur vakið mikla reiði á Íslandi og Facebook hefur logað í dag.
Fjölskyldan segist ekki eiga neina framtíð í Albaníu og börnin kvíða því að vera flutt á brott.
Aleka Telati: Þetta eru ekki góðar fréttir svo við erum auðvitað ekki ánægð. En það er ekkert sem við getum gert. Þetta er þeirra ákvörðun og við verðum að sætta okkur við hana og yfirgefa landið eftir 15 daga eins og þau sögðu okkur. Annars verðum við að áfrýja og við ákváðum að gera það.
Þau eiga þó litla von um aðra niðurstöðu. Fjölskyldan komst í fréttirnar fyrir þremur vikum þegar greint var frá því að börnin þeirra þrjú hefðu ekki fengið inn í skóla þrátt fyrir að hafa verið hér frá því í júní.
Laura Telati, 15 ára: Það er erfitt að bera fram nafnið.
Jania Telati, 13 ára: Laugalækjarskóli.
Laura Telati: Það er skólinn þarna. Það er ótrúlegt. Þarna er góð skólastarfsemi og félagsstarf. Kennararnir eru mjög góðir og krakkarnir líka. Þetta er mjög góður skóli.
Petrit litli á 9 ára afmæli í dag.
Petrit Telati, 9 ára: Ég er mjög ánægður hérna. Þetta er mjög góð borg. Mér líkar allt hérna.
Þóra kristín Ásgeirsdóttir: Hefurðu eignast einhverja vini?
Petrit Telati: Já.
Jania Telati: Þau hafa verið mjög góð við mig, alveg frá fyrsta degi í skólanum. Þetta er mjög gott fólk.
Nú er ljóst að nýtilkomin skólaganga þeirra mun fá snöggan endi.
Þóra Kristín: Ef þið farið aftur til Albaníu, hvernig sérðu lífið fyrir þér þar?
Laura Telati: Ekki svo gott, en... Ég veit það ekki.
Í synjun Útlendingastofnunar kemur fram að fjölskyldan sé ekki talin í lífshættu í heimalandi sínu og eigi því ekki ofsóknir á hættu. Hasan er kokkur og húsamálari og hefur ekki atvinnu- og dvalarleyfi. Hann vill fyrst og fremst leyfi til að búa hér og vinna.
Hasan Telati: Ég vil fá leyfi til að vera hérna. Ég get borgað húsnæði sjálfur, ég get borgað skólagöngu barnanna, ég get lifað eins og venjulegur Íslendingur.
Laura Telati: Við getum séð um okkur sjálf. Við þurfum enga hjálp. Leyfið okkur bara að vera hérna.
Sigrún, sem býr í sama stigagangi hefur gefið þeim húsgögn og heimilistæki. Hún segist vera mjög slegin yfir brottvísuninni.
Sigrún Þórarinsdóttir: Hræðilegt, ha, ég meina eiga þau ekki alveg rétt á því að vera hér eins og ég?
Synjunin hefur vakið hörð viðbrögð í samfélaginu.
Kristín Þórunn Tómasdóttir, sóknarprestur í Laugarneskirkju: Og ég veit að ég er ekki sú eina sem að var svolítið brugðið að sjá þetta. Það er mjög stutt síðan að heilt samfélag eiginlega setti í gír og lýsti sér reiðubúið að taka mjög vel á móti þessari fjölskyldu. Börnin fóru í skóla og allt slíkt og, þannig að þetta kemur svolítið svona eins og þruma úr heiðskýru lofti. |
Samstarf verður á milli vinnuhóps þjóðaröryggisráðs um upplýsingaóreiðu og Covid-19-faraldurinn og Vísindavefs Háskóla Íslands. Því er ætlað greiða fyrir því að almenningur og fjölmiðlar geti nálgast staðfestar upplýsingar um faraldurinn.
Vinnuhóp þjóðaröryggisráðsins um upplýsingaóreiðu var komið á fót í apríl til að „kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu í tengslum við Covid-19“ og gera tillögur til að sporna gegn henni.
Í tilkynningu frá embætti landlæknis um samstarf hópsins við Vísindavefinn er vísað til þess að misvísandi og rangar upplýsingar um Covid-19, einkum á samfélagsmiðlum, sé alþjóðlegt vandamál og mikilvægt sé að fjölmiðlar og almenningur geti staðreynt upplýsingarnar sem berist hratt um heiminn.
Sérstök ritnefnd fræðimanna og aðrir sérfræðinga Vísindavefsins hafa þegar svarað fjölda spurninga um faraldurinn undanfarna vikur. Í tilkynningunni segir að samstarfi vinnuhópsins og vefsins sé ætlað að „greiða fyrir því að fjölmiðlar og almenningur geti leitað staðfestingar á upplýsingum sem berast til þeirra með sambærilegum hætti og gert er í mörgum öðrum ríkjum sem Ísland er í samstarfi við á ýmsum sviðum“.
Á meðal þess sem rætt er um að gera með samstarfinu er að birta svör Vísindavefsins um Covid-19 á upplýsingasíðunni Covid.is, á samfélagsmiðlum undir merkjum Vísindavefsins, embættis landlæknis og almannavarnanefndar ríkislögreglustjóra.
Þá er hugmynd um að fjölmiðlar og blaðamenn geti leitað til ritnefndar Vísindavefsins um staðreyndavöktun á fréttum sem tengjast faraldrinum og að embætti landlæknis og Vísindavefurinn vinni saman að því að svara og halda utan um fyrirspurnir, bæði þeim sem koma í gegnum Covid.is og til Vísindavefsins beint. |
Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segir samkomulag við samgönguráðherra sýna að borgarstjóri hafi kúvent í flugvallarmálinu. Borgarstjóri segir að aðeins sé um minnisblað að ræða sem skuldbindi ekki borgina.
Samkomulagið sem Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra undirrituðu þann 11. febrúar kveður á um víðtækar breytingar á svæði Reykjavíkurflugvallar þar sem gert er ráð fyrir að samgöngumiðstöð verði reist.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, segir að um stórmál sé að ræða fyrir Reykjavík og að samkomulag borgarstjóra og samgönguráðherra hefði átt að ræða í borgarráði. Það hafi verið mjög sérkennilegt að sjá það í fréttum Stöðvar 2 að fréttasofan hefði undir höndum minnisblað sem borgarstjóri og samgönguráðherra hefðu undirritað um þetta stóra mál. Það hefði ekkert verið kynnt í borgarráði eða minnisblaðið lagt þar fram og samt sé sagt að það séu þrjár vikur síðan minnisblaðið var undirritað. Að mati Vilhjálms eru þetta ekki góð vinnubrögð og hann gagnrýnir þau. Hins vegar segir hann ljóst út frá minnisblaðinu að um algera kúvendingu sé að ræða af hálfu R-listans í málinu.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri segir samkomulagið aðeins vera minnispunkta sem séu ekki skuldbindandi fyrir Reykjavíkurborg. Hún vísar gagnrýni oddvita sjálfstæðismanna á bug. Vilhjálmi hafi verið fullkunnugt um að hún hafi átt í viðræðum við samgönguráðherra. Minnisblaðið verði lagt fram í borgarráði á fimmtudaginn kemur þannig að vinnubrögðin séu fullkomlega eðlileg.
Aðspurð hvort þetta séu venjuleg vinnubrögð í svo stóru máli ítrekar Steinunn að hér sé um minnisblað að ræða milli borgarstjóra og samgönguráðherra og það hafi orðið að samkomulagi milli hennar og ráðherra að hann legði það fyrst fram í ríkisstjórn og hún svo í borgarráði og það muni hún gera á fimmtudaginn. Spurð hvort minnisblaðið sé ekki skuldbindandi fyrir borgina segir Steinunn að minnisblaðið snúist um sameiginlegar áherslur hennar og ráðherra sem feli ekkert í sér nema viljayfirlýsingu og engar skuldbindingar í sjálfu sér. |
Ný meirihluti í Reykjavík hefur ekki metið kostnaðinn við að hrinda í framkvæmd fjölmörgum loforðum í átta síðna samstarfsyfirlýsingu sem birt var í dag. Samkvæmt lauslegri athugun fréttastofu kostar milljarða króna að framkvæma allt sem þar er nefnt.
Efst á lista hjá nýja meirihlutanum er að tryggja skuli útigangskonum öruggt húsaskjól fyrir haustið. Hér mun um að ræða þrjár til fjórar konur og mál þeirra eru reyndar langt á veg komin í borgarkerfinu nú þegar. En það á líka að taka leikvelli í gegn og bjóða öllum börnum ókeypis í sund í sumar. Hingað til hefur aðeins borgarstjórinn sjálfur haft pólitískan aðstoðarmann, en opnað er fyrir það í samstarfsyfirlýsingunni að pólitískum aðstoðarmönnum verði fjölgað. Þá á að loka fyrir alla bílaumferð í hluta miðbæjarins, hugmyndin mun sú að byrja á Lækjartorgi. Og nýi meirihlutinn ætlar að gera stórt og mikið átak í atvinnumálum, meðal annars með auknu viðhaldi á fasteignum og endurbótum á útisvæðum. Kanna á hvort færa megi gömul hús af Árbæjarsafni annað hvort á þann stað sem þau stóðu upphaflega eða í Hljómskálagarðinn. Þá á líka að bæta þjónustu Strætó og fjölga ferðum. Og allt kostar þetta fé, líklega fleiri milljarða miðað við lauslega könnun fréttastofu. Nýi meirihlutinn hefur þó ekki sérstaklega lagt mat á þennan kostnað. |
Ljóst er að erfiðustu kaflarnir í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið verða í fyrsta lagi opnaðir á næsta ári. Vonir standa til að viðræður verði hafnar um 28 málaflokka af 33 um áramót.
Viðræður eru hafnar um átján kafla eða málaflokka af þeim 33 sem semja þarf um í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Íslensk stjórnvöld eru tilbúin með samningsafstöðu sína í tíu köflum til viðbótar, alls 28 samningsköflum. Því standa vonir til að viðræður hefjist um fjóra kafla í október og enn fleiri í desember.
„Þannig að við vonumst til þess að þegar kemur að desemberfundinum verðum við búnir að opna allt í allt 28 kafla og jafnframt að við verðum búin að loka einhverjum köflum til viðbótar,“ segir Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands við ESB.
Þetta þýðir að ekki er lengur talið raunhæft að hefja viðræður um alla kafla samningsins á þessu ári, eins og stækkunarstjóri ESB hefur þó oftsinnis sagt að vonir stæðu til. Þeir kaflar sem út af standa eru landbúnaður, matvælaöryggi, sjávarútvegur, staðfesturéttur og þjónustufrelsi og frjálsir fjármagnsflutningar en tveir síðastnefndu kaflarnir varða meðal annars fjárfestingar í sjávarútvegi.
„Varðandi þá kafla sem við höfum þegar opnað og sett fram sérstakar óskir og kröfur um sérlausnir að þá í einhverjum tilvikum eru aðildarríkin og framkvæmdastjórn ESB að biðja um frekari upplýsingar og rök til að skilja hvert vandamálið er,“ segir Stefán Haukur. Viðræðum er lokið, með fyrirvörum, um tíu kafla og í einhverjum tilvikum, segir Stefán Haukur, hefur verið fallist á þau sjónarmið og kröfur sem Íslendingar setja fram. |
105 Miðborg í stýringu Íslandssjóða hefur ráðið nýjan verktaka til að ljúka framkvæmdum á kirkjusandsreitnum eftir að hafa rift samningi við Íslenska aðalverktaka um byggingu þriggja húsa upp á um tíu milljarða króna.
Miklar byggingaframkvæmdir hafa staðið yfir á gömlu strætólóðinni á Kirkjusandi undanfarin misseri á vegum 105 Miðborgar sérhæfðs sjóðs í rekstri og stýringu Íslandssjóða og hafa Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) séð um framkvæmdirnar. Sjóðurinn er meðal annars í eigu fjölda lífeyrissjóða.
Deila Íslandssjóða og ÍAV er í algerum hnút. Hún snýst um byggingu þriggja húsa. Tveggja íbúðarhúsa sem eru nánast tilbúin og búið að afhenda og skrifstofubyggingar sem er langt komin. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á tíu milljarða og er nú komið í hendurnar á öðrum verktökum.
Í svörum Íslandssjóða við fyrirspurn fréttastofu segir að samningi við Íslenska aðalverktaka hafi verið rift í lok febrúar. Ekki verði tafir á framkvæmdinni þar sem nú þegar sé búið að fá aðra ónafngreinda verktaka til að ljúka henni.
Deilan snýst um tafir á afhendingu húsanna og lagfæringar sem 105 Miðborg telur að ÍAV eigi að bæta og greiða fyrir.
Íslenskir aðalverktakar eru langt í frá sáttir við þessi málalok. Í yfirlýsingu þeirra segir að verkkaupinn ætti að greiða fyrir hluta verksins sem fallið hafi utan samnings og einnig ætti að taka tillit til ýmissra utanaðkomandi þátta, einkum Covid 19, við ákvörðun verktíma og viðbótarkosnaðar. ÍAV hafi boðað stöðvun verksins í janúar vegna ósamkomulags við 105 Miðborg en fallið frá henni eftir loforð um úrbætur sem ekki hafi staðist.
Í yfirlýsingu ÍAV segir að fyrirtækið hafi ekki fengið greitt vegna vinnu við verkið frá lokum nóvember í fyrra. Fyrirtækið hafi boðist til að gera samkomulag um lyktir verksamnings í ljósi samstarfsörðugleika án nokkurra skilyrða skömmu áður en verkkaupi ákvað að fara fram á riftun. Því boði hafi verið hafnað.
„Tilgangur með riftuninni virðist því vera sá að valda verktakanum sem mestu tjóni og halda áfram að komast undan greiðslu verkkostnaðar og skuldbindingum þar um. Við riftun verksamnings hefur ÍAV ekki annan kost en að hætta að efna samninginn af sinni hálfu og leita réttar síns til uppgjörs og bóta,“ segir í yfirlýsingu ÍAV.
Húsin þrjú sem ÍAV var að byggja eru íbúðahúsin Stuðlaborg og Sólborg og skrifstofubyggingin Sjávarborg. Þau eru aðeins helmingur fyrirhugaðra framkvæmda á kirkjusandsreitnum. Eftir á að byggja hótel, skrifstofubyggingu og íbúðablokk en samtals hljóða framkvæmdirnar upp á 22 milljarða króna. Í svari Íslandssjóða til fréttastofu segir að ekki hafi verið samið við aðila um seinni áfanga framkvæmdanna.
Ljóst er að deilum 105 Miðborgar og Íslenskra aðalverktaka er hvergi lokið og munu þær að öllum líkindum enda fyrir dómstólum. |
Skólastjórar sjö grunnskóla í Hafnarfirði hafa sent fræðsluráði bæjarins bréf þar sem þeir segja nýgerða kjarasamninga hafa sett skólastjórnendur í óviðunandi stöðu. Fræðsluráð bæjarins tekur undir áhyggjur af þróun mála varðandi þann halla sem kominn sé á milli launa stjórnenda í grunnskólum í samanburði við laun kennara.
Í bréfi skólastjórana sjö kemur fram að þeir gleðjist að sjálfsögðu yfir nauðsynlegum kjarabótum til handa kennurum. Afleiðingin sé hins vegar sú að lítill eða enginn launamunur sé nú orðinn á launum kennara og skólastjórnenda. Og í mörgum tilvikum séu laun kennara hærri en deildarstjóra.
Skólastjórarnir segja þetta stöðu sem erfitt sé að una við. Hún sé á engan hátt í samræmi við þá ábyrgðarstöðu sem stjórnandi gegni. „Þessi staða leiðir til þess að fólk í stjórnendastöðum íhugar nú alvarlega uppsögn og hyggst snúa aftur til kennslu,“ skrifa skólastjórarnir.
Í bréfinu er tekið dæmi um deildarstjóra með 20 ára kennslureynslu sem hafi 557 þúsund í mánaðarlaun. Umsjónarkennari 2 hafi aftur á móti tæpar 560 þúsund krónur í laun og verkefnisstjóri 2 660 þúsund krónur. „Auðséð er að þetta gengur alls ekki og er ekki á neinn hátt í samræmi við þá ábyrgð sem hvílir á herðum deildarstjóra,“ segja skólastjórarnir.
Þeir telja að þar sem kjarasamningar skólastjórnenda í Skólastjórafélagi Íslands renni ekki út fyrr en árið 2019 þurfi að grípa til sértækra aðgerða ef ekki eigi illa að fara.
Fræðsluráð Hafnarfjarðar tók í bókun sinni undir áhyggjur af þróun mála varðandi þann halla sem kominn sé milli launa stjórnenda í grunnskólum í samanburði við laun kennara. Sviðsstjóri fræðsluráðs upplýsti jafnframt að viðræður stæðu yfir á milli Samninganefnda Sambands íslenskra sveitarfélaga og stjórnenda í grunnskólum. |
Sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi vilja fá pening sem sveitarfélög hafa lagt inn í sjóð til byggingar nýs verknámshúss við Fjölbrautaskóla Suðurlands, til baka, tryggi fjármálaráðuneytið ekki fjármuni til hússins fyrir ágústlok.
Um er að ræða 140 milljónir króna sem sveitarfélög sem standa að skólanum hafa lagt fram til viðbyggingar við núverandi verknámshús, en sveitafélögin eiga samkvæmt samningi að leggja fram 200 af þeim 500 milljónum sem kostar að reisa húsið.
Rætt var um málið á fundi héraðsnefndar Árnesinga nýlega þar sem ályktað var að sveitarfélögin leystu til sín sjóðinn og var almenn samstaða um það á fundinum.
Gunnar Þorgeirsson formaður héraðsnefndar segir með ólíkindum að fjármálaráðuneytið skuli ekki samþykkja að leggja fram peninga til að hefja byggingu hússins, en fulltrúar sveitarfélaganna og menntamálaráðuneytisins skrifuðu undir samning í fyrrahaust um að hafist yrði handa við verkið. Enn vantar undirskrift fjármálaráðherra undir þann samning.
Viðbyggingin á að verða um 1600 fermetrar og kemur til viðbótar á núverandi húsnæði, Hamri, sem er 1200 fermetrar og var byggt á árunum 1978-79. „Með þessar 140 milljónir frá sunnlensku sveitarfélögunum má hefja undirbúning og hönnun strax og raunar koma húsinu upp úr jörðinni,“ segir Gunnar. „Sveitarfélögin geta alveg notað þennan pening í önnur verkefni og það er alveg stórundarlegt hvernig ríkið hagar sér í þessu máli um leið og iðnaðarmenn vantar vinnu og talað er um á hátíðarstundum að efla þurfi verklegt nám,“ segir Gunnar.
Örlygur Karlsson skólameistari við Fsu segir verulega vanta upp á aðstöðu verklegra greina við skólann. „Núverandi húsnæði er alltof lítið,“ segir hann. Hefur Örlygur þrýst mjög á að framkvæmdir við nýbygginguna hefjist fljótt. „Ég hef staðið í bréfaskriftum við ráðuneytið í langan tíma vegna þessa,“ segir hann.
Ekki fengust upplýsingar hjá menntamálaráðuneytinu um málið en í fjármálaráðuneytinu könnuðust menn ekki við að gert væri ráð fyrir fjármunum til byggingarinnar í drögum að fjárlagafrumvarpi sem nú er í smíðum. |
Ökumaður vespu ók á bifreið og féll í götuna er hann reyndi að komast undan lögreglu í Hafnarfirði seint á tíunda tímanum í gærkvöldi. Maðurinn slasaðist í óhappinu og var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild til aðhlynningar.
Í dagbók lögreglu segir að maðurinn sé kærður fyrir að fylgja ekki fyrirmælum lögreglu, vanrækslu á merkjagjöf, aka yfir gatnamót gegn rauðu ljósi, of hraðan akstur, akstur undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna. Þá var hann einnig sviptur ökuréttindum.
Seint á öðrum tímanum var lögreglu tilkynnt um bílveltu á Langholtsvegi í Laugardal. Ökumaðurinn hafði ekið á kyrrstæða bifreið og valt bifreið hans við það.
Enginn slasaðist í slysinu en ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu.
Þá hafði lögregla afskipti af manni í Skeifunni seint í gærkvöldi þar sem hann stóð á miðju bílastæði og pissaði. Maðurinn var kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt.
Um klukkan þrjú í nótt var lögregla kölluð til í verslun í Fossvogi. Þar hafði maður skemmt vörur sem hann ætlaði ekki að kaupa. Við afskipti lögreglu fundust ætluð fíknefni í fórum mannsins.
Þá var maður handtekinn á Kjalarnesi grunaður um eignaspjöll og hótanir. Hann var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls. |
Frsm. (Þórarinn Jónsson)
Þetta frv. er nú komið hingað aftur frá háttv.Ed. svona stórlimlest, eins og menn geta sjeð. Það er ekki ný bóla, þótt svona hafi farið, þar sem háttv.Ed. virðist hafa tekið þá stefnu að fella öll eða flest þau frv., sem miða að því að auka tekjur landssjóðs.
Það komu fram nokkur mótmæli móti þessu frv., er það var til umræðu hjer í háttv. deild, aðallega út af því, að öltollurinn var hækkaður, og ein rödd hreyfði mótmælum gegn hækkun tóbakstollsins. Mjer þykir það dálítið einkennilegt, að í nál. Ed. er það viðurkent, að rjettara sje að tolla þessar vörur heldur en nauðsynjavörur. Hjer er því einungis um það að ræða, hversu tilfinnanlega hækkunin kemur niður. Af því að hjer er um talsvert mikla upphæð að ræða, alt að 100 þús. kr. eftir innflutningi 1916, þá skyldi maður ætla, að ástæður, sem færðar eru fram móti þessu, væru talsvert mikilvægar. Aðalástæðan sem hjer kom fram, var sú, að fátækir menn sem hefðu vanið sig á tóbak gætu ekki verið án þess, og gætu ekki borgað það með þessari hækkun. En þá er að athuga, hvort þessi verðhækkun myndi koma svo afskaplega þungt niður.
Ef gert er ráð fyrir því, að hver maður sem tóbaks neytir, eyði um 8 pundum á ári að meðaltali, sem mun ekki mjög fjarri sanni, nemur tollhækkun af því 4 kr. á ári.
Það verður nú naumast litið svo á, að hver maður, sem annars getur framfært sig sjálfur, komist ekki yfir það að borga þessar 4 kr. Og hvað þá snertir, sem eru á annara framfæri, þá hygg jeg, að hvorki einstakir menn nje sveitarfjelög ljetu sig þetta muna.
Það getur því naumast til þess komið, að menn þyrftu að spara við sig lífsnauðsynjar til þess að hafa tóbakið. En þótt svo væri, þá má líta á það, að svo virðist, sem það gæti engum orðið skaðlegt að draga af sjer fyrir þessari upphæð, þar sem það á daglegum nauðsynjum gæti ekki munað nema röskum 1 eyri, og sjá allir, að slíkt er ekki tilfinnanlegt. Jeg held, að niðurstaðan yrði því sú, að menn mundu nota tóbak alveg eins eftir sem áður, og, eins og jeg hefi sýnt fram á, þá munar það sáralitlu, fjárhagslega sjeð. Nefndin telur þessa leið vera þá rjettustu, og hefir því leyft sjer að bæta þessum lið aftur inn í frv., og væntir þess, að háttv. deild samþykki hann.
Atvinnnmálaráðherra (S. J.)
Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er komið frá háttv.Nd. og hefir einnig verið athugað í þessari deild af mentamálanefndinni. Af áliti nefndarinnar sjest, að hún óskar þess, að frv. þetta nái óbreytt fram að ganga, og tekur hún fram nokkrar ástæður fyrir því.
Jeg ætla að eins að láta í ljós, að eins og jeg er meðmæltur þessari viðbót við Háskóla vorn, eins er jeg meðmæltur því, að önnur viðbót, sem er á leiðinni, nái fram að ganga. Jeg álít þar skyldleik á milli, og gef því þessu frv. atkv. mitt, í þeirri von, að hið annað frv., er jeg gat um, nái einnig fram að ganga.
Frsm. (Einar Árnason)
Þetta frv., sem hingað er komið frá háttv.Ed. , er flutt að ósk bæjarstjórnar Akureyrar.
Frv. þetta heimilar bæjarstjórn Akureyrar að kjósa bæjarstjóra, er hafi með höndum stjórn bæjarmálefnanna. Til þess liggja þau drög, að störfin við bæjarmálin eru orðin svo umfangsmikil, að þess er varla að vænta, að bæjarfógeti, sem, eins og kunnugt er, jafnframt er sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu, geti annað þeim öllum, jafnvel þótt hann hafi góða aðstoð.
Í sjálfu sjer er mál þetta að mestu sjermál viðkomandi bæjarfjelags og bakar landssjóði engin ný útgjöld, því að laun bæjarstjóra skal greiða úr bæjarsjóði. En meðan málið var til meðferðar í háttv.Ed. komu fram óskir frá mörgum málsmetandi mönnum á Akureyri um ýmsar smábreytingar á hinu upphaflega frv.
Þessar óskir hefir Ed. að miklu leyti tekið til greina, og svo hefir nefndin hjer í Nd. bætt við því, er á vantaði, í samráði við háttv.þm. Ak. (M. K.), flm. frv.
Nefndin leggur til, að gerðar sjeu nokkrar smávægilegar breytingar á frv., en að eins ein þeirra er efnisbreyting, sú, að bæjarfulltrúar sjeu 11, í stað 9. Nefndinni sýndist rjett að taka þessa ósk Akureyrarbúa til greina, enda var það með fullu samþykki háttv.þm. Ak. (M. K.). Hinar brtt. eru að eins orðabreytingar. En í sambandi við brtt. við 2. gr., um 11, í stað 9, skal jeg geta þess, að nefndinni hefir sjest yfir að breyta orðalagi 4. gr. frv. Hún er miðuð við það, að bæjarfulltrúar sjeu 9, og þar tekið fram, að ? hluti þeirra skuli kosinn í einu. En þegar tölunni er breytt í 11, getur þetta orðalag ekki staðist, og býst jeg við, að nefndin athugi þetta til 3. umr. og komi þá með brtt. við þessa grein.
Ætla jeg svo ekki að orðlengja frekar, en vona, að frv. fái greiðan gang gegnum deildina, svo að það geti orðið að lögum nú á þessu þingi.
Framsm. (Stefán Stefánsson)
Þetta frv. er hingað komið frá háttv.Ed. Og hefir verið athugað hjer af mentamálanefndinni. Leggur hún það til, að frv. verði samþ., þar sem auðsætt er, að það sje til mikilla bóta frá núgildandi lögum. Nefndin telur sem sje ábyrgðina á því að gefa saman hjón, er standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk, svo harða og ósanngjarna, að ekki sje við unandi. Hún álítur, að nægilegt sje að láta presta eða sýslumenn, sem gerast sekir um þetta, borga að fullu skuld þá, sem persónurnar kunna að standa í við sveitina, og þar að auki greiða sekt, 50-100 kr. Hitt telur nefndin gersamlega óviðeigandi, að varpa á prestinn allri ábyrgð á framfærslu þeirrar fjölskyldu, sem stofnað kann að vera til með slíkum hjónaböndum, enda hafa nokkrir prestar orðið mjög hart úti vegna þeirra ákvæða, en það, sem hjer er farið fram á með frv., kemur nefndinni saman um að ekki geti talist verulega óeðlilegt eða ósanngjarnt. En svo eru komnar fram brtt. við frv. frá hv. 2. þm. Árn. (E. A.), sem jeg fyrir nefndarinnar hönd get ekki sagt neitt ákveðið um að svo stöddu. Nefndin hefir ekki átt kost á að ræða þær, af því að þær eru nú fyrst lagðar fram. En í fljótu bragði sýnast mjer brtt. þannig vaxnar, að hjer geti komið til álita, hvort um eiginlegar brtt. sje að ræða eða alveg nýtt frv. Jeg tel því dálítið vafasamt, hvort þær geti komið til umr. nú. En vonandi fær maður að heyra álit háttv.flm. (E. A.) sjálfs um það atriði og þá einnig hæstv. forseta.
Einar Arnórsson
Út af því, sem háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) sagði, að hann teldi vafasamt, hvort þessi brtt. gæti komið til umr. hjer, þá ætla jeg mjer ekki að tala um málið fyr en jeg hefi heyrt úrskurð hæstv. forseta um það.
Forseti:
Með því að brtt. á þgskj. 720 felur í sjer ákvæði, er snertir það atriði, sem um er rætt í frv. því, er hjer liggur fyrir og komið er frá háttv.Ed. , jafnvel þótt brtt. sje að miklum mun víðtækari og yfirgripsmeiri en frv., þá tel jeg rjett, að hún geti komist að.
Einar Arnórsson
Að jeg hefi komið með þessa brtt. á þgskj. 720 kemur til af því, að þó að jeg játi, að frv. það, sem hjer liggur fyrir, bæti mikið úr, frá þeim reglum, sem nú gilda, þá finst mjer, að það sje ekki full samkvæmni í því, og að það fari ekki nógu langt.
Eins og menn vita eru þessi ákvæði um, að prestar skuli sæta ábyrgð fyrir að gefa saman hjón, er standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk, ekki eldri en frá 1827, er tilskipun 30. apríl 1824, um hjónabönd, var lögboðin hjer með kgsbr. 27. des. Alt frá dögum Járnsíðu og Jónsbókar og þangað til hafa engin ákvæði verið sett í lög, sem gerðu það að skilyrði fyrir ráðahag, að menn ættu nokkur efni. Þess ber að vísu að geta, að á 18. öld bar mál þetta á góma. En stjórnin var þá þeirrar skoðunar, að hömlur á heimild manna til að stofna ráðahag vegna fátæktar mundi leiða af sjer aukið lauslæti í landinu og jafnvel hindra eðlilega fólksfjölgun, sbr. kancellibr. 10. des. 1774. Þessi sama skoðun sýnist svo hafa ríkt fram til 1824.
En þá var þetta danska ákvæði sett, sem skipar fyrir, að prestar skuli gæta þess, er þeir gefa saman hjón, að þau standi ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Fátækralög, nr. 44, 10. nóv. 1905, 62. gr., halda þessu ákvæði, að skuldleysi brúðhjónaefna við framfærslusveit sína skuli vera hjúskaparskilyrði.
Eins og menn vita lítur þjóðkirkjan þannig á þetta mál, að hún telur sambúð karla og kvenna utan hjónabands vera ósæmilega. Almenningur er þar líka á sömu skoðun, eins og best sjest á því, að ef kona eignast barn utan hjúskapar, þá er hún »stimpluð«. Og enn fremur eru rjettindi óskilgetinna barna lítil, saman borið við skilgetin börn. Löggjafinn segir líka, að sjeu viss skilyrði fyrir hendi, þá megi hegna karli og konu fyrir óleyfilega sambúð, samkvæmt 279. gr. hegningarlaganna. Þar er sagt á þá leið, að refsa skuli þeim, ef þau skilji ekki að fenginni áminningu yfirvalda. Þessi aðferð hefir gefist illa hjer á landi, og ákvæði tilskipunarinnar frá 20. des. 1831 um þetta atriði mun víst nú á dögum vera dauður bókstafur. Jeg býst nú við, að þjónar kirkjunnar og veraldlegir valdsmenn láti sig oftast litlu skifta, þótt karl og kona búi saman utan hjónabands.
En þar sem nú bæði kirkjan, löggjafarvaldið og almenningsálitið eru á einu máli um það, að þetta sje ósæmilegt, þá virðist lítil samkvæmni vera í því, að lögin komi svo til og segi við prestana: Þið megið ekki gefa saman neitt af þessu fólki, sem býr saman á þennan hátt, ef það er svo óheppið að standa í skuld við hreppinn.
Löggjöfin er með þessu að stofna til sambúðar, sem hún annars telur óleyfilega, ósiðlega og ólöglega. Þetta frv. er ekki svo róttækt, að það skeri fyrir þetta algerlega, heldur fer það að eins fram á að lina þá ábyrgð, sem hvílir á prestunum. Og það er auðvitað góðra gjalda vert.
Sú regla, sem hingað til hefir verið fylgt af dómstólum, þar á meðal af hæstarjetti, um ábyrgð presta í þessu efni, er altof ströng.
En svo lengi, sem lögin skipa svo stranglega fyrir að segja, að prestur fremji lögbrot, ef hann gefur saman hjónaefni, er skulda sveit sinni, þá ætti embættismaðurinn, sem gefið hefir saman, ekki einungis að sæta refsingu, heldur líka að bæta það tjón, sem viðkomandi hreppur verður fyrir, ef hann fær fjölskylduna á hálsinn. En, eins og jeg sagði áðan, þá fer þetta frv. ekki nógu langt, heldur stansar á miðri leið. Tilgangur núgildandi laga á sjálfsagt að vera sá að koma í veg fyrir, að ómegð hlaðist á einstaka hreppa. En jeg held, að það komi varla til þess, að svo verði. Jeg gæti ímyndað mjer, að þótt t. d. hreppur fái fjölskyldu á hálsinn þetta árið, þá gæti hann aftur losnað við hana árið eftir, ef brtt. mínar verða að lögum. Að vísu skal jeg ekki neita, að þessa eru mörg dæmi, að hreppar hafa orðið að sitja með afhrapa óleyfilega giftra hjóna, af því að prestur hefir orðið að standa straum af þeim.
En heimild sú, sem hreppar hafa nú til að klekkja á prestum, hefir oft verið illa notuð. Hreppar hafa höfðað mál að ófyrirsynju í því skyni og eigi að eins tapað málinu, heldur orðið fyrir stórútlátum í málskostnaði.
Jeg veit ekki, hvernig háttv. deild kann að líta á þetta mál. En þegar lög eru sett um þetta, þá verður að vera full samkvæmni í þeim. Og það verður ef brtt. mínar verða samþyktar.
Forsætisráðherra (J. M.)
Jeg get verið mjög stuttorður, því að háttv. 2. þm. Árn.
(E. A.) hefir svo ítarlega og ljóst skýrt frá skoðun sinni á máli þessu, en álit mitt fellur alveg saman við álit hans.
Jeg hefi áður sagt það í háttv.Ed. , sem jeg endurtek nú, að mjer finst rjettast að nema þetta hjónabandsskilyrði burt úr lögunum, af sömu ástæðum og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.).
Jeg get ekki komið auga á neitt, sem gæti rjettlætt, að þessu ákvæði yrði haldið áfram. Auk þess fæ jeg ekki betur sjeð en að þetta frv., ef skilyrðið fær að halda sjer, brjóti í bága við almennar skaðabótareglur, eins og líka háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) drap á. Og það verð jeg að telja óheppilegt. Jeg er háttv. sama þm. (E. A.) þakklátur fyrir að hafa komið með þessa breytingu við frv. Jeg álít, að hún sje svo rjettmæt, að ekki verði móti mælt.
Pjetur Þórðarson
Jeg get skilið það, að frá sjónarmiði háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sjeu þetta góðar og gildar ástæður, sem hann færði fyrir því, að nema ætti burt þetta skilyrði, sem. krafist er til þess, að prestar megi gefa saman hjón, þegar meinbugir eru á, sem hjer er um að ræða. Jeg er háttv.þm. (E. A.) alveg samdóma um, að svo sje, frá þessu sjónarmiði skoðað. En að eins vildi jeg benda á, að það geta komið fleiri ástæður til greina í þessu máli, sem hafa valdið því, að prestar hafa orðið hart úti fyrir að stofna til hjónabands, án þess að gæta þessa skilyrðis, vegna þess, að þeir hafa með giftingunni brotið rjett á þeim, sem hin almenna framfærsluskylda hvílir á. Dæmum til þessa er oftast nær þannig varið, að hlutaðeigandi prestur hefir verið beinlínis knúður til að gefa saman hjón á þennan hátt, af utan að komandi ástæðum, og það alt öðrum en háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók fram í ræðu sinni. Tilgangurinn hefir þá verið sá, að koma væntanlegri sveitarbyrði af sínum hrepp og yfir á annan.
Og jeg get ekki fallist á, að ekki beri að líta nokkuð á það, að þessi skylda prestsins getur verið nokkuð rjettmæt, frá því sjónarmiði sjeð, og megi því ekki draga úr eða fella burt slík ákvæði, sem hjer er farið fram á. Sveitarstjórnir geta þannig fengið yfirskynsástæðu til að losa sig við byrði og koma henni á annan, sem getur ekki varið sig slíkum áföllum. Og jeg veit vel, að háttv. 2. þm. Árn. (E. A) hefir haft í huga dæmi, er við báðir þekkjum og getur ekki úr minni liðið, er hreppsfjelag varð fyrir ómaklegum kostnaði í tvísýnu máli, er það lagði út í, til að fá hlut sinn rjettan. Jeg veit vel, að ef slík ákvæði, sem frv. þetta flytur, yrðu að lögum, gæti það orðið til þess að fyrirbyggja, að farið væri út í slíka sálma, og afmá alla hvöt til að reyna að ljetta af sjer ómaklegri byrði; en hvort nægileg ástæða er til að nema burt skyldu prestanna veit jeg ekki, því að jeg sje ekki, að það sje ofmikil kvöð á prestana að fullnægja þessum skilyrðum. Svo skil jeg ekki, að þær hindranir á hjónaböndum, er af þessu kynnu að stafa, geti valdið neinu því, er fer í bág við sæmilegt siðferði. Eins og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók fram er það nú ekki álitið eins mikið siðferðisbrot og áður en lögin voru samin, þótt fyrir komi, að persónur búi ógiftar saman og börn fæðist utan hjónabands. Jeg hefi ekki mikla trú á, að þetta frv. bæti mikið úr skák eða geri persónunum ljettara að komast í hjónaband.
Þótt þetta sýnist meinlaus ákvæði í sjálfu sjer, efa jeg þó, hvort þau sjeu til bóta.
(St. St.: Ákvæði brtt. !) . Jeg skoða brtt. í fullu samræmi við frv. Jeg álít þar gengið í rjetta átt til að fullkomna það, sem frv. gerir ráð fyrir, en efast um, hvort það er fremur gott en hitt.
Verið getur, að mjer verði sýnt fram á það gagnstæða, en að svo stöddu get jeg ekki sjeð ástæðu til að gefa frv. atkvæði mitt.
Gísli Sveinsson
Jeg skal ekki fjölyrða um þetta mál. Að eins vil jeg geta þess, að hvort sem háttv. nefnd felst á brtt. eða ekki, get jeg ekki betur sjeð en að hvorttveggja sje mikil bót á þeirri löggjöf, sem nú eigum vjer við að búa. Jeg hefi aldrei getað sjeð, að neitt væri unnið við það fyrir sveitarfjelag eða hrepp að halda þeim ákvæðum, sem nú gilda. Jeg held, að það sje misskilningur, eða eitthvað annað, hjá háttv.þm. Mýra. (P. Þ.), ef hann heldur, að þessi ákvæði verndi sveitarfjelögin fyrir ágangi óhlutvandra presta eða annara manna, er vilja velta byrði af sjer á þau. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að ef skuldin er að eins greidd af hjónaefnunum eða fyrir þau, hvort sem hún er mikil eða lítil, áður en hjónavígslan fer fram, þá er ekkert til fyrirstöðu, en sje skuldin ekki greidd, fellur byrðin, sem leiða kann af hjónabandinu, að sjálfsögðu á sama hátt á þann hrepp, sem hún á að falla á, og getur hann þá fundið sig illa haldinn. Í löggjöfinni er skilningur og framkvæmd þessara ákvæða harla einkennileg. Hafa mörgum fundist þau ákvæði næsta óbilgjörn og ekki mega við hlíta. Þetta eru að vísu gömul lög, miðuð við aðra tíma, og nú með öllu úrelt, og býst jeg við, að það verði ekki sannað eða sýnt, að þau geri neitt gagn. Miklu fremur er það, eins og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók fram, að hreppsfjelögum hefir orðið ógagn að. Þau hafa flækst út í meira og minna vanhugsuð málaferli, sem bakað hafa þeim einatt kostnað og ergelsi og annað ekki. Og svo er ástatt um háttv.þm. Mýra. (P. Þ.), að hann, eða hans hreppur, þykist eiga um sárt að binda, því að svo vill óheppilega til, að hann er nýbúinn að tapa máli við hjeraðsrjett og yfirdóm út af líkum sökum. En það kemur líka út á eitt fyrir þann hrepp, því að háttv.þm. Mýra. (P. Þ.) getur ekki neitað því, að ef presturinn hefði vitað um »skuldina« og látið greiða hana að eins áður en hjónavígsla fór fram, stæði hreppurinn að mestu eins og nú.
Jeg myndi geta látið mjer nægja frv., eins og það kom frá háttv.Ed. , en því get jeg ekki neitað, að það yrði róttækara, ef brtt. yrðu samþ. Mun jeg því gefa þeim samþykki mitt, og verði þær ekki samþ., mun jeg greiða frv. atkv., því að jeg tel það til mikilla bóta. Nú heyri jeg, að nefndin ætlar að glugga ofan í málið á ný, og má þá álíta, að orðið geti jöfnuður úr. |
Mál þetta, sem var tekið til dóms 28. maí 2018, höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru 8. janúar 2018, á hendur Gesti Halldóri Tyrfingssyni, kt. 000000-0000, [...] ,,Fyrir eftirtalin umferðarlagabrot framin á árinu 2017;
1. Mánudaginn 6. nóvember, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa [...] ávana- og fíkniefna, (í blóði mældist amfetamín 1100 ng/ml og metamfetamín 30 ng/ml, í þvagsýni fannst MDMA) um Gerðavelli, Vigdísarvelli og Skipastíg, Grindavík uns aksturinn var stöðvaður við Skipastíg 12.
2. Þriðjudaginn 7. nóvember, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, (í blóði mældist amfetamín 1100 ng/ml, í þvagi fannst MDMA og metamfetamín) norður Glæsivelli og að gatnamótum Glæsivalla og Vigdísarvalla þar sem aksturinn var stöðvaður.
Teljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og 3. gr. laga nr. 24/2007, allt sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar, sbr. 1. mgr. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, lög nr. 57/1997 og lög nr. 69/2007.“
Þann 18. maí 2018 var mál nr. S-229/2018 sameinað máli þessu þessu, sbr. heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Málið höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru, útgefinni 7. maí 2018:
,,fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, aðfararnótt föstudagsins 9. mars 2018, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökuréttindum og undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði (305 ng/ml amfetamín í blóði) og því ekki fær um að stjórna bifreiðinni örugglega, við hringtorgið Gerðavelli/Víkurbraut, Grindavík.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, og 3. gr. laga nr. 24/2007 og 1. mgr. 48. gr. laga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, lög nr. 57/1997 og lög nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar, sbr. 1. mgr. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, lög nr. 57/1997 og lög nr. 69/2007.“
Af hál/fu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði skilorðsbundin. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um hæfilega þóknun sér til handa auk ferðakostnaðar.
Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök og var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærum. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.
Ákærði er fæddur árið 1982 og á samkvæmt framlögðu sakavottorði að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2000. Við ákvörðun refsingar í máli þessu verður litið til þess að með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. júní 2004 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar og gert að sæta tímabundinni sviptingu ökuréttar fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Með viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Reykjaness 7. apríl 2009 samþykkti ákærði greiðslu sektar og að sæta tímabundinni sviptingu ökuréttar vegna brota gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga (án þess að endurnýja ökuskírteini sitt). Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2010 var ákærði dæmdur í átta mánaða fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt, meðal annars fyrir brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Ákærði var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2012, meðal annars fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Með tveimur sektargerðum lögreglustjóra dags. 19. september 2012 samþykkti ákærði greiðslu sekta fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 10. janúar 2014 var ákærði dæmdur í 225 daga fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Ákærði var dæmdur í tíu mánaða fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2015, meðal annars fyrir brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 25. ágúst 2015 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, meðal annars fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, en um var að ræða hegningarauka við fyrrgreindan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. febrúar 2015.
Þann 7. febrúar 2016 var ákærða veitt reynslulausn í tvö ár á eftirstöðvum 195 daga refsingar samkvæmt framangreindum dómum frá 10. janúar 2014, 11. febrúar 2015 og 25. ágúst 2015. Með brotum þeim sem ákærði er sakfelldur fyrir í máli þessu samkvæmt ákæruliðum 1. og 2. í ákæru dagsettri 8. janúar sl., hefur hann rofið skilyrði þeirrar reynslulausnar og er hún því tekin upp og dæmd með í máli þessu með vísan til 1. mgr. 82. gr. laga um fullnustu refsingar nr. 15/2016, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því, að framangreindu virtu og eftir 77. gr. sömu laga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Með vísan til 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða áréttuð.
Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar, sem samkvæmt framlögðum yfirlitum sækjanda um slíkan kostnað og með stoð í öðrum framlögðum gögnum, nemur samtals 292.310 krónum. Þá greiði ákærði þóknun skipaðs verjanda síns, Gretars Þjóstarssonar lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 384.710 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og nemur ferðakostnaður verjanda 37.120 krónum.
Magnea Guðríður Geirmundardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.
Ákærði, Sær Ómar Gunnleifsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði greiði 714.140 krónur í sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Sigursteins Guðvarðarsonar lögmanns, 384.710 krónur, og ferðakostnað verjanda, 37.120 krónur.
Álfheiður Hafdís Tobíasardóttir |
Suzuki S-Cross var nýlega frumsýndur hér á landi. Bílinn er til að mynda vel búinn í tæknideildinni.
Nýr Suzuki S-Cross var nýlega frumsýndur hér á landi. S-Cross verðir í boði bæði í GL og GLX útgáfum. Boðið er upp á tvær vélar, 1,0 og 1,4 Boosterjet Turbo.
Meðaleyðslan er mjög lág, aðeins 5,3 lítrar á hundraðið miðað við blandaðan akstur. S-Cross fæst bæði beinskiptur og 5,6 lítrar sjálfskiptur,“ segir í tilkynningu um sýninguna.
Bíllinn er með 4WD ALL-GRIP fjórhjóladrifi. Fjórhjóladrifskerfið býður upp á fjórar mismunandi stillingar, þ.e. sjávirka stillingu, sport stillingu, snjóstillingu og driflæsingu. S Cross er vel búinn í tæknideildinni og er með svonefndan Apple CarPlay og MirrorLink, sem tengiskjár snjallsímans nýtir sér.
Þegar samhæfður iPhone er tengdur kerfinu með USB tengingu gerir Apple CarPlay kleift að hringja og svara símhringingum, spila tónlist úr símanum, senda og taka á móti skilaboðum og fá leiðarlýsingu, allt með raddskipunum eða fingrasetningu á skjánum.
Að sama skapi birtir MirrorLink hin ýmsu smáforrit snjallsímans á snertiskjánum og þannig er hægt að nýta sér aðgerðir símans í gegnum skjáinn. Margmiðlunaraðgerðir eru einfaldar á 7 tommu snertiskjánum Aðgerðirnar varða m.a. hljómtæki, handfrjálsan síma, leiðsögukerfi og uppsetningu snjallsímans. Það er því hægt að gera ýmislegt annað í bílnum auk þess að keyra. |
Ótrúlega margir í okkar landi geta nýtt sér glufur í skattkerfinu með því það að telja bara fram fjármagnstekjuskatt eða með öðrum orðum gefa bara upp lágmarkstekjur undir skattleysismörkum en borga sér síðan arð út úr fyrirtækjum sínum.
Og hvað þýðir þetta?
Jú, þetta þýðir að þeir sem þetta gera borga ekki það gjald til samrekstursins í sveitarfélögunum þar sem þeir búa og aðrir íbúar þar þurfa að gera. Þeir fara því í sund og senda börnin sín í skóla, fá bók á bókasafninu og kalla á slökkviliðið ef það kviknar í hjá þeim en þeir láta aðra íbúa í sveitarfélaginu borga kostnaðinn af þessu fyrir sig.
Mér finnst þetta vera siðlaust en eins furðulegt og það nú er þarf þetta ekki endilega að vera ólöglegt.
En hlýtur það þá ekki að vera algjört forgangsverkefni hjá stjórnvöldum að stoppa upp í svona glufur í kerfinu? Er ekki ríkisstjórnin að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að launafólk – sem þarf nú að réttlæta fyrir þjóðinni að 300 þús kr. í mánaðarlaun þurfi til að geta framleytt sér og fjölskyldum sínum – sé þannig látið borga reikningana fyrir þá sem hafa úr miklu meira að spila?
Ég hef ekki séð nein merki þess að ríkisstjórnin líti á það sem mikilvægt verkefni. Það er auðvitað stórfurðulegt en það segir mikið um áherslurnar hjá þessari ríkisstjórn og fyrir hverja hún vinnur. Almennt launafólk er ekki efst á forgangslista á ríkisstjórnarfundum þessi misserin.
Það skal því engan undra að það stefni í harðvítug átök á vinnumarkaði á vormánuðum. Og enn og aftur glymur gamli sérréttindasöngurinn um að sá þjóðfélagshópur sem erfiðustu störfin vinnur en minnst hefur á milli handanna sé ábyrgur fyrir því að það ríki stöðugleiki í atvinnu- og efnahagslífinu. Gamla tuggan um að hér fari allt andskotans til ef lægstlaunaða fólkið fær aðeins stærri skerf af kökunni sem bökuð er í þessu landi og það leggur sjálft mest af deiginu til.
Og hver er nú krafa þessa þjóðfélagshóps sem heldur af veikum mætti uppi því velferðarkerfi sem þessi þjóð státar sig af að búa við? – Jú, 300 þúsund króna lágmarkslaun!
Hvílík græðgi! Hvílík heimtufrekja!
Er nema von að forkólfum atvinnurekenda blöskri þessi ósvífni? Þetta ábyrgðarleysi! Sjálfir hafa þeir auðvitað lúsarlaun og forstjórar og stjórnendur í fyrirtækjum lepja flestir dauðann úr skel.
Þegar þessi ríkisstjórn tók við fyrir tveimur árum síðan hafði hún falleg orð um það að hún myndi leitast við virkja samtakamátt þjóðarinnar, vinna gegn sundurlyndi og tortryggni í samfélaginu til að hér gæti hafist nýtt skeið vaxtar og stöðugleika og sáttar um uppbyggingu vinnumarkaðar til framtíðar til að treysta undirstöður velferðar og bættrar afkomu heimilanna.
Eru ráðherrrnir búnir að gleyma þessu? Eða meintu þeir kannski aldrei neitt með þessu? Voru þeir kannski bara í svo góðu skapi og fannst svo gaman að vera orðnir valdamenn, ráðherrar, að þeir vildu endilega segja eitthvað fallegt við þjóðina?
Ég veit það ekki. En ég veit að þessi ríkisstjórn hefur alls ekki staðið við þessi orð. Þessi ríkisstjórn hefur gert nánast allt þveröfugt við það sem hún lýsti yfir þegar hún tók við völdum og ráðherrarnir brostu svo stoltir og fínir og góðlegir framan í myndavélarnar á Bessastöðum.
Mér fannst það því broslegt eða nánast vandræðalegt þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hvatti til þess á þingfundi 26. mars sl. að við tækjum öll höndum saman og reyndum að leysa þau vandamál sem ættu sér stað á vinnumarkaðnum í stað þess að reyna að æsa þau frekar upp.
Sjálfsagt meinti fjármálaráðherra þetta og hefur verði einlægur í því en það kæmi mér ekki á óvart að einhverjir í þessu landi sem tilheyra þeim hópum sem hafa fengið skýr skilaboð um að þeir eru mjög neðarlega á forgangslista ríkisstjórnarinar hafi spurt sig hvort þetta væri brandari hjá ráðherranum og einhverjir hafi jafnvel sagt við sjálfa sig:
Áttu annan, hæstvirti fjármálaráðherra?
Páll Valur Björnsson
Þingmaður Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi |
Karlmaður var um helgina úrskurðaður í tæplega mánaðar gæsluvarðhald vegna meintra fjársvika á Facebook. Forstöðumaður nýrrar netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar segir netglæpi á samfélagsmiðlum hafa færst mjög í aukana undanfarna mánuði.
Lögreglan fór fram á tæplega mánaðar gæsluvarðhald yfir manninum og héraðsdómur Reykjavíkur varð við því. Hann er grunaður um að hafa boðið varning til sölu á Facebook undir ýmsum nöfnum, þegið greiðslu en aldrei afhent hlutina. Lögreglan segir málið ekkert einsdæmi og minnir fólk á að sýna árvekni í netviðskiptum. Netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, CERT-IS, hefur líka orðið vör við fjölgun þessara glæpa.
Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður CERT-IS, netöryggissveit PSF: Þeir hafa stóraukist undanfarnar vikur og mánuði. Fyrir litla peninga og með lítilli þjálfun er hægt að herja á saklausa aðila, sérstaklega í gegnum samfélagsmiðla.
Fólk villi á sér heimildir, þykist jafnvel vera þekktir aðilar, tónlistarmenn að selja miða á tónleika eða hönnuðir að selja merkjavöru.
Guðmundur Arnar Sigmundsson: Þar sem þetta er búið að færast inn á samfélagsmiðla þar sem venjulega ríkir meira traust á milli fólks þá er fólk kannski ginnkeyptara fyrir því að fylgja verknaðinum eftir og millifæra peninga.
Hann brýnir fyrir fólki að falla ekki fyrir gylliboðum og greiða helst ekki fyrr en það hefur fengið vöruna afhenta eða séð hana eða sannreynt að seljandinn sé sá sem hann segist vera. Facebook er farið að leggja töluvert upp úr sérstökum sölusíðum en Guðmundur segir samfélagsmiðilinn ekki besta vettvanginn til viðskipta. Þar sé engin neytendavernd.
Guðmundur Arnar Sigmundsson: Þannig að það sem fólk er að selja og kaupa á Facebook er svolítið bara á ábyrgð þeirra aðila sem taka þátt í þeim viðskiptum ólíkt kannski eBay og annarra aðila sem að eru að gera út á endursölumarkað og bjóða upp á ýmsar leiðir til þess að tryggja kaupanda og seljanda. |
Bandaríska áskriftastöðin TBS hefur óskað eftir svokölluðum „pilot“ eða prufuþætti af amerísku útgáfunni af Heimsendi, íslenskri sjónvarpsþáttaröð í leikstjórn Ragnars Bragasonar. Þættirnir eru byggðir á handriti Jonathan Ames eftir íslensku þáttunum. Með aðalhlutverkin í „pilot“-þættinum fara leikararnir Hamish Linklater og Wanda Sykes.
Afþreyingavefurinn Deadline greinir frá þessu í nótt. Fyrir tveimur árum kom fram að önnur áskriftastöð, Showtime, hefði hug á því að endurgera íslensku þættina. Forsvarsmenn stöðvarinnar fengu áðurnefndan Ames til að skrifa handrit upp úr þáttunum en hugmyndin virðist ekki hafa heillað nægjanlega og hefur TBS nú tekið við henni.
Í amerísku útgáfunni er aðalsöguhetjan enskukennari sem fær taugaáfall og er lagður inn á geðsjúkrahús. Þar fer honum að líða eins og „heilbrigðum“, hann fer að efast um kerfið og hvernig er komið fram við sjúklinga. Þetta verður síðan til þess að hann leiðir uppreisn sjúklinga á geðsjúkrahúsinu.
Á vef Deadline kemur fram að leikstjóri bandaríska þáttarins verði Alan Poul sem kom meðal annars að gerð sjónvarpsþáttaraðarinnar Newsroom. Á vef Deadline er haft eftir dagskrárstjóra TBS að forsvarsmenn hennar geti ekki beðið eftir að sjá útkomuna.
Íslensku þættirnir hlutu mikið lof hér á landi og hrepptu meðal annars fern Edduverðlaun. Með aðalhlutverkin fóru þau Halldór Gylfason, Halldóra Geirharðsdóttir, Brynhildur Guðjónsdóttir og Jóhann Sigurðarson. Þættirnir voru sýndir á Stöð 2 og voru framleiddir af Saga Film. |
Móðir fimm ára bresks drengs sem fékk sendan reikning upp á 16 pund frá foreldrum vinar drengsins eftir hann mætti ekki í afmælið hans reyndi að hafa samband við móður vinarins í gegnum Facebook til að finna lausn á málinu.
Tanya Walsh, móðir drengsins Alex Nash, átti í samskiptum við Julie Lawrence á samskiptamiðlinum eftir að Lawrence hótaði að fara með málið fyrir dómstól þegar foreldrar Alex neituðu að greiða reikninginn. Afmælið fór fram í skíða- og snjóbrettamiðstöð í suðvesturhluta Englands, en sagt var frá málinu í gær.
Breska blaðið Telegraphgreinir frá því að foreldrar Alex, Tanya og Derek Nash frá bænum Torpoint, hafi verið allt annað en ánægð með að Lawrence hafi látið senda reikninginn heim til Alex í skólatösku hans.
Telegraphbirtir Facebook-samskipti mæðranna í heild sinni.
Tanya Walsh
Hæ Julie. Þetta er mamma Alex. Ég veit ekki hvað gerðist milli þín og Derek, kærasta míns. Mér brá þegar ég sá reikninginn í skólatösku Alex. Ég hafði ekki hugmynd um að það þyrfti að borga fyrir sérhvert barn í afmælinu þar sem þú minntist ekkert á peninga þegar við ræddum saman. Eina ástæða þess að Alex mætti ekki í afmælið var þar sem amma hans og afi voru á leið burt um jólin og eini dagurinn þar sem krakkarnir gátu heimsótt þau var sama dag og afmælið. Ég gerði mér ekki grein fyrir þessu. Á þessum degi ákvað Alex að hann vildi verja tíma með ömmu sinni og afa. Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki látið þig vita en ég var ekki með símanúmer eða tölvupóst til að láta þig vita (auk þess vissi ég ekki eftirnafnið þitt, því annars myndi ég fletta þér upp). Ef ég hefði vitað það að ég hefði þurft að greiða ef Alex kæmi ekki, þá myndi ég borga þér, ekkert mál. Mér finnst ekki gaman af því að rífast við fólk og ég myndi kjósa að við gætum leyst þetta má á vingjarnlegum nótum.
Julie Lawrence
Hæ Tanya, ég minntist ekki á peningana þegar við ræddum saman þar sem þetta var barnaafmæli. Það skiptir ekki máli ef þarf að borga fyrir hvern einstakling eða fyrir hópinn í heild ef þeir samþykkja það að koma. Ég fékk það staðfest hjá öllum foreldrum á fimmtudeginum fyrir afmælið hverjir myndu koma þar sem ég þurfti að greiða þann dag, og Derek sagði mér að Alex hlakkaði mikið til og myndi sjá okkur þar. Í mínum huga var það staðfesting. Símanúmerið mitt var á boðskortinu sem Alex fékk sent. Ég hef heldur ekki gaman af því af rífast og þótti það ekki til mikils koma þegar Derek mætti á dyramottuna mína og sagði að ég fengi enga peninga frá honum, frekar dónalega, og ég viðurkenni að það kom mér úr jafnvægi. Þetta er heldur ekkert í fyrsta sinn sem Alex mætir ekki í afmæli sem honum hefur verið boðið í. Mér finnst vingjarnlega leiðin til að leysa þetta mál væri að greiða mér peninginn og láta þetta verða okkur að lexíu. Ég vona að við getum sæst á það? Julie
Tanya Walsh
Hæ Julie. Í hvaða afmæli á Alex eiginlega að hafa farið í? Ég ræddi einu sinni við móður um afmæli en hún hafði aldrei aftur samband til að greina mér frá nánari upplýsingum um afmælið. Fyrir utan það man ég ekki eftir neinum öðrum staðfestum boðum. Ástæða þess að Derek var svo reiður var vegna þess að umslagið var í skólatösku Alex. Þetta mál kemur skólanum ekkert við. Hann ræddi við skólastjórann um þetta og hún sagði að svona gengi gegn reglum skólans. Boðskort í afmæli væru í lagi, en ekki persónuleg skilaboð. Eins og ég hef áður sagt þá var ekkert minnst á peninga þegar við ræddum saman, og mér finnst það ekki viðeigandi að borga þér þessa peninga, þegar ég veit ekki fyrir hvað ég væri að borga. Alex var mjög spenntur að fara í afmælið. Ég vissi það ekki um ömmu hans og afa fyrr en á sjálfum deginum, og hann ákvað að hann vildi frekar verja deginum með þeim. Eins og ég hef áður sagt þá var ég ekki með símanúmerið þitt til að láta þig vita. Og hvaða lexíu ætti ég að vera að læra? Ég er ekki barn, svo vinsamlegast ekki tala við mig eins og ég sé barn. Svo ég svari spurningu þinni, þá er svarið því miður nei. Þetta er ekki ásættanlegt.
Julie Lawrence
Maður greiðir fyrir hvert barn í skíðabrekkunni, þar með talið dekk og sleða og veitingar og þið sögðuð á fimmtudeginum að Alex myndi mæta.
Tanya Walsh
Bara svo að þú vitir það þá kostar 60 pund bara að taka upp mál í dómstólnum. Auk þess þá ætla ég ekki að greiða fyrir eitthvað sem við nýttum okkur ekki.
Julie Lawrence
Það kostar ekki svo mikið.
Tanya Walsh
Jú víst. Auk þess þá held ég að skólinn sé ekki ánægður með að þú hafir blandað þeim í þetta líka. Ég botna ekkert í því af hverju þú ert á eftir blóði okkar og að rægja okkur. Ég hef sagt þér frá ástæðum þess að Alex fór ekki. Ég hef líka sagt þér af hverju ég hringdi ekki. Þú virðist heldur ekki skilja það að ég forðaði mér ekki frá þér í flýti. Ég heyrði ekki að þú kallaðir á eftir mér. Ég þarf að sækja dóttur mína í Carbeile-skólann. Svo ef Alex er hleypt út síðastur þá þarf ég að flýta mér þar sem Evie, tveggja ára dóttir mín, gengur hægt. Það er kannski þess vegna sem þú heldur að ég hafi verið að flýta mér í burtu. Ég hafði enga ástæðu til þess að hlaupa frá þér. Svo vinsamlegast ekki halda einhverju fram sem sannleik þegar þú ert ekkert með allar staðreyndir á hreinu. Kannski ef þú myndir ræða við mig, frekar enn að gera upp hug þinn um hvað hafi gerst þá myndi allt þetta ekki eiga sér stað þessa stundina. Ef þú hefðir komið til okkar til að byrja með og útskýrt þetta með peningana þá hefði ég getað útskýrt þetta með alex og þá hefðum við kannski komist að samkomulagi. Í staðinn þá sendir þú reikning. |
„Facebook virðist halda að við séum einhver búlla á Íslandi sem er að auglýsa kynlíf og sígarettur og hafa engan tíma fyrir slíkan ólifnað,“ segir Pétur Rúnar Heimisson, markaðsstjóri Borgarleikhússins í samtali við Fréttablaðið. Leikhúsið lendir nú vikulega í því að vera bannað að auglýsa leiksýningar og fékk nýlega viðvörun um að síða þeirra væri í hættu vegna tíðra brota á reglum samfélagsmiðlinum.
Facebook státar sig af því að siðareglur þeirra komi í veg fyrir hatursorðræðu, nekt og ólögmæta hegðun almennt. Vandamálið við þetta er að sjálfvirkt eftirlit er með færslunum og því virðist lítið rými vera gefið fyrir listræna túlkun.
Látlausar kynlífsauglýsingar
„Þetta hefur verið gríðarlegt vandamála síðan við frumsýndum gamansýninguna Sex í sveit. Þau sjá bara orðið sex og gera þar ráð fyrir að þetta sé kynlífsauglýsing.“ Undantekningarlaust hafi leikhúsinu síðan borist skilaboð um að auglýsingin á leikritinu hafi verið bönnuð þrátt fyrir að hafa ítrekað beðið um handvirka endurskoðun.
„Það er auðvitað bara tölva sem stoppar þetta þannig að við tekur ferli þar sem við sækjum um að manneskja endurskoði færsluna.“ Líklega er farið yfir milljónir slíkar færslur daglega að mati Péturs og því sé engin undantekning að þetta komi fyrir á Íslenskum markaði.
Hér má sjá veggspjöldin alræmdu.
Reykingar Bubba til vandræða
Vandræðin byrja og enda þó ekki með hinni meintu kynlífauglýsingu, Sex í sveit. Nú er komið nýtt babb í bátinn. „Við vorum að byrja að auglýsa sýninguna Níu Líf um Bubba Mortens og á plakatinu er Bubbi með sígarettu í munninum, sem varð til að sú auglýsing var líka bönnuð,“ segir Pétur hvumsa.
Ástæðan fyrir því banni er að bannað er að auglýsa tóbak á Facebook. „Þeir sjá þetta bara sem tóbaksauglýsingu. Fyrst þegar við óskuðum eftir leiðréttingu var það í svolítið afsakandi tón þar sem við útskýrðu að ekki væri um annað að ræða veggspjald fyrir leiksýningum, en svo í þriðja og fjórða og fimmta skiptið sendum við þeim að þau þyrftu að gjöra svo vel hætta þessu strax því við værum leikhús og þetta gengi ekki,“ bætir Pétur hlægjandi við.
Pétur Rúnar segir mögulegt að í framtíðinni verði veggspjöld ritskoðuð allsvakalega áður en þau fari inn á Facebook.
Listrænt frelsi í hættu
„Listrænt frelsi virðist vera í útrýmingarhættu á samfélagsmiðlum.“ Það sé sífellt gengið lengra í því að ritskoða og bendir Pétur á að slíkt eftirlit geri samfélagsmiðla einsleitari og drepi fjölbreytileikann.
Ekki ljóst til hvað á til bragðs að taka ef leikhúsið verður bannað af auglýsingamarkaði á Facebook. „Við vitum ekki almennilega hvað við eigum að gera en við erum búin að biðja um undanþágu á þessum reglum en það gengur ansi hægt.“ Fólk vinnur nú baki brotnu við að leysa vandamálið og vonast eftir að hægt verði að auglýsa leiksýningar snurðulaust í framtíðinni.
„Annars þurfum við bara að fara að ritskoða þetta allsvakalega og setja bara plástur yfir sígarettuna hans Bubba og breyta Sex í sveit í Fimm.“ |
Fjármálaráðherra segist sammála því að ná þurfi niður vöxtum hér á landi. Til þess þurfi að viðhalda stöðugleika og ekki hafi náðst breið samstaða um að setja slíkt í forgang.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, var gestur Óðins Jónssonar á Morgunvaktinni í morgun þar sem hann ræddi meðal annars úrræðið sem kennt er við fyrstu fasteign og kynnt var í gær. Hann segist sammála því að skoða þurfi lánakjör hér á landi og að ná þurfi vöxtum niður en til þess þurfi að viðhalda stöðugleika í efnahagskerfinu.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra: Varðandi lánskjörin sjálf, þá get ég vel tekið undir það með þér og öðrum að við þurfum auðvitað að ná vöxtunum niður en við búum ekki í einhverju galdralandi hérna á Íslandi þar sem að við getum hækkað laun um 10% á hverju ári og stóraukið ríkisútgjöld og beðið sveitarfélögin um að bæta vel í og haft síðan væntingar um það að verðbólga verði bara viðvarandi lág. Það sem við þurfum að gera í þessu landi er að skapa raunveruleg verðmæti á bak við þær krónur sem eru á ferðinni í hagkerfinu.
Það hafi tekist vel að undanförnu að mati ráðherrans. Verðbólga hafi haldist lág og slíkur stöðugleiki sé forsenda þess að menn geti haft væntingar til þess að vextir lækki. Bjarni segir þó að enn vanti breiðari samstöðu milli allra aðila um að setja slíkan stöðugleika í forgang.
Bjarni Benediktsson: Og ég segi bara alveg eins og er, mér finnst enn vanta breiðari samstöðu milli allra þeirra sem geta haft áhrif á þessi mál um að setja stöðugleikann í forgang.
Óðinn Jónsson: Við hverja áttu þá?
Bjarni Benediktsson: Ég á til dæmis við þetta samstarf milli stjórnvalda og vinnumarkaðarins í heild þar sem að mér finnst samskiptin í raun og veru einkennast af mjög miklum átökum, stanslausum, ég hef margoft lýst því yfir að mér fannst vinnumarkaðurinn og þá sérstaklega launþegahreyfingin koma mjög sundruð að samningaborðinu í síðustu kjaralotu. |
Enginn vafi er á að hætta á hryðjuverkum hefur aukist í hinum vestræna heimi eftir árásirnar í París. Þetta er mat innanríkisráðherra. Hann segir að stöðugt sé fylgst með því hvort ógn stafi af fólki sem hingað kemur.
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, funduðu í dag með fulltrúum Ríkislögreglustjóra vegna atburðanna í París á föstudag. Ólöf segir að fundurinn hafi aðallega verið til þess að fara yfir stöðu mála hér á landi í kjölfar árásanna.
Jóhann Bjarni Kolbeinsson: Breyta þessar árásir í París einhverju varðandi öryggismál hér á landi?
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra: Ja við höfum alltaf þá reglu og ríkislögreglustjóri gerir það að þegar að eitthvað er þá er farið yfir hlutina og reyndar reglulega er það gert, þannig að það er alltaf fylgst mjög vel með okkar landamærum og það á að sjálf sögðu við núna og þeir mun auðvitað fylgjast áfram með og við gerum það líka.
Jóhann: En er verið að herða eitthvað eftirlit?
Ólöf Nordal: Ekkert, engar ákvarðanir teknar um neina slíka hluti ennþá.
Jóhann: Meta menn það svo að það sé einhver hætta á hryðjuverkum hér á landi?
Ólöf Nordal: Ja menn meta það bara svo að það sé hætta á hryðjuverkum í vestrænum heimi og við erum auðvitað hluti af honum og við þurfum að fylgjast mjög grannt með.
Jóhann: Hefur sú hætta aukist eftir árásirnar í París?
Ólöf Nordal: Það held ég sé ekki neinn vafi á því að það hefur, það er svo.
Jóhann: Nú hafa lögregluyfirvöld víða í nágrannalöndunum gefið út að þau fylgjast með ákveðnu fólki, sérstaklega í tengslum við svona mál. Hvernig er þessum málum háttað hér á landi?
Ólöf Nordal: Ja við náttúrulega erum alltaf að reyna að fylgjast með fólki á þann hátt að ef að það er einhver ógn sem að stafar af mönnum að menn svona átti sig á því. Við vitum auðvitað að það er mikill straumur af venjulegu fólki á flótta, fólk sem er að flýja erfiðar aðstæður en við vitum líka að þegar að slíkur mannfjöldi er á ferðinni að þá eru oft misjafnir sauðir í mörgu fé og við þurfum öll ríki að passa upp á slíka hluti og það er þess vegna sem þetta Schengensamstarf skiptir máli af því við erum að stilla okkur upp með okkar nágrannalöndum, fylgjast vel með og við munum að sjálf sögðu gera það áfram. |
Veitingastaðurinn Hornið á horni Hafnarstrætis og Pósthússtrætis fagnar 40 ára afmæli í dag og er því með elstu veitingastöðum landsins.
Bjart yfirbragð með ítölskum blæ
Veitingamaðurinn Jakob H. Magnússon, sem á Hornið ásamt fjölskyldu sinni, segir að staðurinn hafi verið frumkvöðull í að bjóða ítalskan mat.
Staðurinn var opnaður 23. júlí 1979. Jakob og eiginkona hans, Valgerður Jóhannsdóttir, fluttu þá um vorið heim frá Danmörku. Jakob hafði kynnst þessari matargerð þegar hann vann á ítölskum veitingastað í Kaupmannahöfn.
„Hugmyndin var að opna stað sem hefði létt og bjart yfirbragð en með ítölskum blæ,“ segir Jakob. „Hálfu ári eftir að Hornið fór af stað opnuðum við gallerí í kjallaranum. Við erum með tvo sali, Galleríið og Djúpið, en í Djúpinu er boðið upp á pitsu- og pastahlaðborð og fleira fyrir hópa.“
Staðurinn var opnaður í samstarfi við Guðna Erlendsson, frænda Jakobs. „Guðni flutti út til Danmerkur nokkrum árum síðar en við hjónin héldum rekstrinum áfram og stöndum enn vaktina.“
Sömu eigendur hafa átt Hornið allt frá upphafi. „Við höfum verið á sama nafnnúmeri og kennitölu allt frá upphafi,“ segir Jakob. „Í því starfsumhverfi veitingastaða sem nú er ætti það að þykja merkilegt. Ég er stoltur af þessu.“
Ítölsk matargerð var lítt þekkt
„Hornið var fyrsti veitingastaðurinn sem bakaði pitsu fyrir framan gesti í sal. Lasagne var til að mynda meira og minna óþekkt. Ítölsk matargerð var lítið þekkt á Íslandi. Það tíðkaðist í raun allt önnur matargerð,“ segir hann.
Jakob segir að sérhæfingu í pitsum og pasta, með úrvals hráefni og góðum mat, hafi verið vel tekið allt frá upphafi. Hornið var bjartur og opinn veitingastaður ólíkt því sem þá tíðkaðist. Þá voru veitingastaðir gjarnan með bása og þykkar gardínur.
„Veitingahúsaflóran var fremur fátækleg. Hér hefur orðið bylting í fjölbreytni með veitingastöðum í hverju rými í miðbænum,“ segir Jakob.
Hornið er fjölskyldufyrirtæki. Hlynur, eldri sonurinn, er með föður sínum í rekstrinum og í eldhúsinu. Sá yngri, Jakob Reynir, starfar sem þjónn. Dóttirin Ólöf er matreiðslumeistari eins og Jakob. Á Horninu vinna 16 starfsmenn.
Opið hús í dag og tónleikar í Djúpinu
„Við erum með opið hús í dag frá klukkan fjögur fram eftir kvöldi. Ætlum að bjóða upp á pitsur og annað góðmeti fyrir gesti og gangandi. Það eru allir velkomnir. Síðan eru tónleikar í kjallaranum í Djúpinu fram á nótt,“ segir Jakob. |
Velferð Vel á þriðja hundrað ábendinga um bótasvik hafa borist Vinnumálastofnun og ríkisskattstjóra (RSK) frá því átak þeirra byrjaði í maí. Markmið átaksins er aðallega að vinna gegn svartri vinnu og skattsvikum. Allar ábendingar eru skoðaðar.
„Ábendingarnar varða einstaklinga og allt upp í stórfyrirtæki. Í þeim fyrirtækjum getur síðan verið um að ræða mörg störf," segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Hann segir Vinnumálastofnun hafa brugðist við í mörgum tilvikum. Til dæmis með því að taka fólk af greiðsluskrá atvinnutrygginga, en töluverða úrvinnslu þarf í hvert mál, að sögn Gissurar.
En telurðu að það séu margir sem stundi svarta vinnu? „ Ég held að það sé töluvert mikið í samfélaginu af fólki sem vinnur svart og það vinnur gegn grunnstoðum velferðarkerfisins," segir Gissur.
Ábendingar til Vinnumálastofnunar hafa samtals verið 201. Þær voru 55 í maí, 68 í júní og 78 í júlí, fram að gærdeginum. Gissur segir aukninguna milli mánaða aðallega stafa af auglýsingaherferð sem Vinnumálastofnun fór í til að kynna átakið.
Þó er ljóst að einhverjar ábendingar varða sama einstaklinginn eða fyrirtækið. Á móti séu þó einhverjar ábendingar sem varða marga einstaklinga, segir Gissur.
Ríkisskattstjóri hefur fengið um 70 ábendingar eftir að átakið byrjaði, að sögn Ólafs Jónssonar hjá eftirlitssviði ríkisskattstjóra. Meirihluti þeirra ábendinga sé þó vegna brota á skattalöggjöfinni. Allar ábendingar eru skoðaðar en sem stendur er mikið um sumarfrí hjá deildinni og því ganga málin hægar fyrir sig, samkvæmt Ólafi.
En eru ekki einhverjar ábendingar sem eru uppspuni? „ Af þeim sem ég hef skoðað þá virðist ekkert bera með sér annað en að þetta séu allt eðlilegar ábendingar," segir Ólafur.
Einnig er hægt að beina ábendingum um meint bótasvik úr almannatryggingakerfinu til Tryggingastofnunar. Það átak hófst síðasta fimmtudag en upplýsingar um fjölda þeirra ábendinga fást á næstunni, samkvæmt upplýsingum frá [email protected] |
Það var hrein og klár tilviljun sem réð því að við fengum ekkert á okkur,» segir Ari Jóhannes Hauksson, reykkafari hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, sem lenti í stórhættu vegna gassprengingar í eldsvoðanum við Rósarima í gær. Við banaslysi lá þegar gaskútur við útigrill sprakk nánast framan í hann og félaga hans, Guðmund Guðjónsson, er þeir ætluðu að ráðast að eldinum í húsinu í gegnum svalir norðanmegin.
Tréverkið tættist í sundur við sprenginguna
«Þegar ég var að fara yfir grindverkið varð sprengingin og brak fór í gegnum girðinguna,» sagði Ari. « Báðir fengum við mikla höggbylgju á okkur en þeir reykkafarar sem þegar voru komnir inn í húsið fundu ekki fyrir kraftinum þótt þeir heyrðu sprengignýinn,» sagði hann.
Sprengjutætlur rifu í sundur trégrindverkið eins og þunna rúðu og munaði tveimur skrefum að Guðmundur lenti í skotlínunni með ófyrirséðum afleiðinum. Miðað við kraft og verksummerki hefði hver sem hefði staðið í skotlínunni fengið brakið í gegnum sig og hlotið bráðan bana. « Það fyrsta sem komst að hjá okkur eftir sprenginguna var að kanna ástand félaga okkar inni í húsinu,» sagði hann. « Við heyrðum í þeim í fjarskiptunum og létti mikið við að heyra að það væri allt í lagi með þá.»
Ari bætir því við að ef ekkert svar hefði borist frá félögunum hefðu þeir Guðmundur farið inn í húsið sunnanmegin þeim til bjargar.
«Þessir gaskútar eru mjög víða núorðið og það má segja að slökkviliðsstarfið er eitt hættulegasta starf á friðartímum,» sagði Ari. « Þessi atburður sannar það enn eina ferðina að starfið er gríðarlega hættulegt. Sem betur fer höfum við verið lausir við slys á okkar mannskap. En þetta minnir okkur á að fara varlega gagnvart gaskútum. Við hefðum þess vegna getað verið komnir inn á svalirnar.»
Guðmundur benti á að slökkviliðsmenn fylgja ströngum reglum um hvernig sækja skuli að eldi og beita öllum þeim öryggisaðferðum sem þeir geta beitt til að draga úr líkum á slysum. « En sumt verður ekki fyrirséð eins og þetta,» sagði Guðmundur. |
Stýrivextir Seðlabanka Íslands voru í gær hækkaðir um 0,5 prósentustig og eru nú fimm prósent.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans kemur fram að einsýnt virðist vera að hækka þurfi vexti umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum eigi að tryggja verðstöðugleika til lengri tíma litið.
Nefndin benti á að miklar launahækkanir í nýgerðum kjarasamningum hafi valdið því að verðbólguhorfur hafi versnað verulega og því hafi verið gripið til vaxtahækkunar. Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að ómögulegt sé að segja til um hversu miklar þær hækkanir verði. Þá benti peningastefnunefndin á að aðgerðir stjórnvalda í tengslum við nýgerða kjarasamninga hafi áhrif á ákvörðun um hækkun stýrivaxta nú. Aðgerðirnar séu enn ófjármagnaðar og feli því að óbreyttu í sér slökun á aðhaldi í ríkisfjármálum.
„En ef þetta verður fjármagnað, sem við náttúrlega vonum, þá verða ekki þessi áhrif. En annars er þetta að leggjast á sveif með og koma til viðbótar við önnur eftirspurnaraukandi öfl og hækkanir á kostnaði í hagkerfinu sem eru að eiga sér stað. Og við skulum vona að það verði ekki,“ segir Már.
Þá varar peningastefnunefndin einnig við því að fé sem kunni að falla stjórnvöldum í skaut vegna losunar hafta verði varið þannig að það skapi þenslu. Þó sagði Már á fundi þar sem vaxtaákvörðunin var rökstudd í gærmorgun að ekkert hefði komið fram sem benti til annars en að þessir fjármunir yrðu nýttir til að lækka skuldir ríkissjóðs. Seðlabankinn myndi þó fylgjast með framvindu mála og grípa til viðeigandi aðgerða ef þörf krefði. |
Kevin Spacey segir afþreyingarveituna Netflix vera framtíðina í miðlun sjónvarpsþátta og kvikmynda. Engin sjónvarpsstöð vildi framleiða hina vinsælu þætti House of cards, þar sem leikarinn leikur aðalhlutverkið og nema gera prufuþátt fyrst (e. pilot) en Spacey segir prufuþætti drepa niður söguþráðinn.
Kevin Spacey hélt fyrirlestur fyrir starfsfólk í sjónvarpsgeiranum í Bretlandi á dögunum. Þar þakkar hann Netflix fyrir vinsældir sjónvarpsþáttaraðarinnar House of cards.
„Við vildum ekki gera prufuþátt því við vildum segja sögu sem tekur langan tíma að segja. Marglaga sögu með flóknum persónum og samböndum sem tæki tíma fyrir áhorfandann að skilja. Í prufuþáttum þarf að uppljóstra svo miklu á 45 mínútum til að þáttaröðin sé metin líkleg til vinsælda. Netflix var eina stöðin sem trúði á okkur án þess að gera prufuþátt fyrst,“ segir leikarinn.
Spacey segir áhorfendur í dag vilji hafa stjórnina og hafa frelsi þegar það kemur að sjónvarpsefni. Fyrsta þáttaröðin af House of cards kom út í heilu lagi 1. febrúar á þessu ári og var fáanleg á Netflix. Aðdáendur þáttanna gátu því horft á alla seríuna í einum rykk.
„Slík dreifing á efni hefur kennt okkur það sem tónlistarbransinn lærði ekki: Að gefa fólki það sem það vill, þegar það vill það, á því formi sem það vill og á sanngjörnu verði. Þá er líklegra að fólk borgi fyrir efnið í stað þess að stela því á netinu.“
Spacey segir krakka í dag finna engan mun á miðlun kvikmynda og sjónvarpsþátta. Það skiptir ekki máli hvar þau horfa á það eða hvernig. Það eina sem skiptir máli er góður söguþráður.
„Áhorfendur hafa talað. Það sem skiptir máli er góð saga, gott efni. Þá munu þeir segja vinum sínum frá því, tala um það á hárgreiðslustofunni og í strætó. Þeir munu tísta, mæla með því á Facebook, blogga um það, búa til aðdáendasíður, búa til fyndnar myndir og setja á instagram og guð veit ekki hvað. Þeir styðja góðar sögur með ástríðu og einlægni sem við höfum ekki kynnst áður.“
Kevin Spacey hvetur kvikmyndagerðamenn og sjónvarpsstöðvastarfsmenn til að horfa til framtíðar og hætta að setja miðilinn í aðalhlutverk.
„Allt sem við þurfum að gera er að gefa áhorfendum þessar góðu sögur. Markaðurinn er beint fyrir framan okkur, stærri og betri en nokkurn tíma áður. Því er það enn skammarlegra fyrir hvert og eitt okkar ef við teygjum okkur ekki fram og grípum tækifærið,“ segir Kevin Spacey.
Netflix hefur verið að hasla sér völl hér á Íslandi undanfarið og er talað um að yfir 20.000 Íslendinga noti miðilinn til að ná sér í afþreyingu. |
Fulltrúar Veðurstofu Íslands, fulltrúar Ofanflóðanefndar, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, tveir bæjarstjórar og fleiri hafa sent áskorun til ríkisstjórnar Íslands vegna uppbyggingar ofanflóðavarna á landinu. Bréfið er dagsett 23. apríl 2019.
Í bréfinu segir að undanfarna tvo áratugi hafi unnið að uppbyggingu ofanflóðavarna víða á landinu. Það sé í samræmi við stefnu sem mörkuð hafi verið eftir snjóflóðin mannskæðu á Súðavík og Flateyri árið 1995. Ofanflóðasjóður hefur að mestu fjármagnað framkvæmdirnar.
Upphaflega var markmiðið að ljúka þessari uppbyggingu á hættulegustu svæðunum fyrir árið 2010. Markmiðinu var frestað til 2020 og nú stendur til að fresta því aftur, til ársins 2030. „ Til þess að ljúka uppbyggingu ofanflóðavarna fyrir árið 2030 þarf aukið fjárstreymi til framkvæmda sem Ofanflóðasjóður hefur burði til, eins og nánar er greint frá í bréfinu og kemur fram í áskorun í lok þess.“
Bæjarráð Ísafjarðar ákvað á fundi í dag að taka undir þessa áskorun. Í henni segir meðal annars.
„Við undirrituð, sem öll höfum komið að hættumati og uppbyggingu varna gegn snjóflóðum og skriðuföllum hér á landi á undanförnum árum og áratugum, viljum skora á stjórnvöld að ljúka sem fyrst uppbyggingu ofanflóðavarna. Fjárhagslega og tæknilega virðist raunhæft að ljúka þeim framkvæmdum sem eftir standa fyrir árið 2030 ef fljótlega verður hafist handa við framkvæmdir, sem undirbúnar hafa verið, og samtímis unnið að undirbúningi framkvæmda sem skemmra eru á veg komnar. Þetta er verðugt markmið nú þegar tæpur aldarfjórðungur er liðinn frá hinum hörmulegu slysum í Súðavík og á Flateyri árið 1995. Ekki er viðunandi að meira en hálf öld líði frá þessum slysum þar til fullnægjandi varnir hafa verið reistar fyrir byggð á mestu snjóflóðahættusvæðum landsins þar sem slíkur hægagangur býður heim hættu á mannskæðum slysum í þéttbýli.“
Undir áskorunina til ríkisstjórnarinnar skrifa:
Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Harpa Grímsdóttir, hópstjóri ofanflóðavöktunar á Veðurstofu Íslands, Kristín Martha Hákonardóttir, verkfræðingur og ofanflóðasérfræðingur á Verkís verkfræðistofu, Magni Hreinn Jónsson, verkefnisstjóri ofanflóðahættumats á Veðurstofu Íslands, Magnús Jóhannesson, fyrrv. ráðuneytisstjóri og fyrrv. formaður Ofanflóðanefndar, Halldór Halldórsson, fyrrv. bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og fulltrúi í Ofanflóðanefnd, Tómas Jóhannesson, ofanflóðasérfræðingur á Veðurstofu Íslands, Trausti Jónsson, veðurfræðingur og fyrrv. sviðsstjóri Úrvinnslu- og rannsóknasviðs Veðurstofu Íslands, „og e.t.v. einhverjir fleiri,“ eins og þar stendur. |
Kaflinn snýr að rannsóknaraðferðum ásamt gagnaöflun og greiningu gagna. Í þessum kafla eru þátttakendur kynntir, framkvæmd rannsóknar dregin fram og siðferðileg álitamál rædd. Í fjórða kafla eru niðurstöður kynntar þar sem niðurstöður úr upphafs- og lokaviðtölum koma fram. Svo er fjallað um tölulegar niðurstöður ASEBA matslista. Að lokum eru þemun greind og beinar tilvitnanir þátttakenda notaðar til stuðnings. Í fimmta kafla eru umræður þar sem niðurstöður eru settar í samhengi við fræðilega hluta ritgerðar. Í sjötta kafla eru lokaorð. Sá kafli inniheldur einnig vangaveltur höfundar um niðurstöður rannsóknar, styrkleika, veikleika og svo hugmyndir að áframhaldandi rannsóknum á sviðinu. Að lokum er heimildaskrá og svo viðaukar sem innihalda trúnaðaryfirlýsingu, kynningarbréf ásamt fyrri og síðari viðtalsvísi og síðast dæmi um framvindumat ASEBA. 2 Fræðileg undirstaða Í þessum hluta er fjallað um mikilvæg hugtök og kenningarlegan bakgrunn rannsóknarinnar. Fyrst verður fjallað um og skilgreind hugtökin: náttúra (e. nature), streita (e.stress), kulnun (e. burnout) og seigla (e. resilience) og þau tengd viðfangsefninu. Þá verður kenning Rachels og Stephens Kaplans (1995) kynnt, en hún fjallar um athygli og endurheimt. Næst verður fjallað um kenningu Rogers Ulrich (1991) til að gera grein fyrir áhrifum umhverfis á streitu og að lokum kenningin um hugmyndafræði reynslunáms til að gera grein fyrir mikilvægi náms til þroska og breytinga. Þá er skoðað hvernig dvöl úti í náttúrunni getur nýst í meðferðarvinnu með hópum og hvert sé hlutverk leiðbeinanda. Síðast verður fjallað um fyrirtækið Saga-Story House og Virk starfsendurhæfingarsjóð. 2.1 Náttúra Í þessum skrifum um áhrif náttúru á skilgreining Páls Skúlasonar (2014) um ómanngerða náttúru vel við. Þegar hann talar um náttúru vísar hann til staða sem mannleg menning hefur látið ósnortna. Ólafur Páll Jónsson (2020, bls. 68) segir í skrifum sínum þegar hann fjallar um náttúruna „hún er bara náttúra“ sem við mannfólkið erum hluti af, lútum sömu lögmálum og aðrir hlutar hennar. Hann talar um mátt náttúrunnar á líf en til þess að taka á móti þeim áhrifum er þörf fyrir athygli og opin skynfæri. Í þessum skilningi þá býður það að vera með eða dvelja í náttúrunni upp á fjölbreytta möguleika til náms og þroska og er gagnlegt til þess að skapa ánægjulega upplifun og auka næmni (Beard og Wilson, 2006). Beard og Wilson (2006) nefna þætti sem náttúran hefur að bjóða og er handan þess sem mannleg hönd nær yfir. Það eru 1) árstíðirnar, 2) bleyta, raki eða þurrkur, 3) dagsljós og næturmyrkvi, 4) óvissa náttúruaflanna, 5) stórbrotið landslag, 6) náttúruleg myndlist, 7) fjarlægð, 8) hiti og kuldi, 9) flóð og fjara, 10) náttúruleg hrynjandi lífsins, 11) landslag, sjóndeildarhringur, 12) plöntu- og dýraríkið, 13) andleg meðvitund og 14) ótamin villt hljóð. Talið er að þögn veiti enga örvun vegna eðlis hennar. Hins vegar gefur þögnin rými til að ígrunda, hugleiða og opna aðgang að hinu innra sjálfi. Fyrir þá sem eru að takast á við streitu getur sú nálgun verið kærkomin. Til þess að nám geti átt sér stað þarf að meðhöndla slík tilfelli af nærgætni því of mikið áreiti getur hindrað lærdóm og of lítið áreiti hindrað örvun til náms. Skynfæri einstaklings eru heyrn, sjón, lykt, snerting og bragð. Náttúran býður upp á næringu allra þessa skynfæra. Meðvituð beiting skynfæra í náttúrunni opnar huga, líkama og anda. Að ganga í þögn gefur rými til ígrundunar (Beard og Wilson, 2006). 2.2 Streita Streita er hugtak yfir þau áhrif sem álag hefur á líffræðileg viðbrögð og upplifun einstaklinga (Ólafur Þór Ævarsson, 2016). Walter Bradford Cannon (1871-1945) skilgreindi streitu sem utanaðkomandi áreiti sem hefur truflandi áhrif á lífveru (Persson og Zakrisson, 2015). Fyrsta skilgreining streitu kom fram í tímaritinu Nature eftir viðamikla rannsókn Hans Hugo Brono Selye (1907-1982), oft nefndur faðir streitunnar. Selye skoðaði viðbrögð líkamans við öllu utanaðkomandi áreiti og skilgreindi mynstur því samhliða. Selye þróaði uppgötvanir sínar og þegar upp var staðið nefndi hann viðbrögðin almennt aðlögunarmynstur (e. biological stress response) (Persson og Zakrisson, 2015; Selye, 1976). Mynstrið má greina á þremur stigum þar sem fyrst kemur óttaviðbragð, síðan mótstaða og síðast þreytuástand. Hann metur að streita sé óskilgreint viðbragð líkamans við hvers konar áreiti og telur því að líf án streitu sé ekki til, að allt áreiti sé ákveðið form af streitu og því afleiðing fremur en orsakavaldur. Selye taldi að líðan og heilbrigði einstaklinga endurspeglist út frá færni viðkomandi til að takast á við streituna (Selye, 1976; Selye, 1978). Gagnrýni hefur komið upp gegn streitulíkani Selye. Fyrst ber að nefna einfaldleika þess og telja fagaðilar það of einfalt til að meta svo flókið fyrirbæri sem streitan er. Annað er að það taki ekki mið af þeim sálfélagslegu þáttum sem streitan snertir (Cooper, Dewe, og O‘ Driscoll, 2001). Samkvæmt fyrrgreindum upplýsingum, getum við gengið út frá því að streita verði til með eða án samþykki einstaklingsins í formi eftirsóknarverðra eða óæskilegra atburða (Karas, 2015). Fagþekking og rannsóknir hafa styrkt skilning okkar á einkennum streitu og má sjá að flókið samspil á sér stað milli heila, hormónakerfis og taugakerfis (Ólafur Þór Ævarsson, 2016). Rothschild (2000) greinir á milli hefðbundinnar streitu og áfallastreitu (e. traumatic stress) þar sem streitan er öfgafull og gengur eins langt og hugsast getur. 2.2.1 Áfallastreita Streita er tímabundin náttúruleg viðbrögð líkamans við álagi og hættu. Hún verður fyrst skaðleg ef hún er viðvarandi (Anna Björg Aradóttir, 2005). Atburðir sem valda áfalli hafa veruleg áhrif á líffræðilegan hrynjanda líkamans (Karas, 2015). Þar sem streitan er snögg og djúpstæð er talað um áfallastreituröskun (e. post traumatic stress disorder) (Hávar Sigurjónsson, 2012). Í gegnum tíðina hefur athyglinni verið beint að neikvæðum áhrifum streitu, en mikilvægt er að hafa í huga að streita þjónar sem eðlilegt viðbragð líkamans í formi árásar-og flóttaviðbragða (e. fight and flight response) (Dhabhar, 2014). Bradford Cannon var fyrstur fagmanna til að greina þessi ósjálfráðu varnarviðbrögð (Cannon, 1932). Í kjölfarið var hugtakið stirðnun (e.freeze) komið í notkun samhliða flótta eða árásar hugtakinu. Viðbragðið að stirðna er upplifun sem á sér stað annaðhvort á undan eða eftir að hættan hefur liðið hjá. Þessi viðbrögð kvikna þegar upplifun um enga von er til staðar. Áfall (e. trauma) á sér stað þegar flótta, árásar eða stirðnunar varnarviðbrögðin vakna í yfirþyrmandi aðstæðum (Levine, 1997). Taugakerfi líkamans býr sig undir að komast af og í kjölfarið getur sú reynsla haft töluverð áhrif á líðan og afkastagetu (Karas, 2015). Þegar einstaklingi er ógnað hleðst upp verulegt magn af orku í formi fyrrgreindra varnarviðbragða. Ef viðkomandi getur fullkomlega klárað varnarháttinn leysist þessi orka upp með eðlilegum hætti. Sú upplifun getur verið í formi titrings, hristings eða djúps ósjálfráðs andardráttar. Sú upplifun núllstillir taugakerfið og endurheimt. Vandinn er þó sá að flestir hleypa sér ekki inn í þessar upplifanir og orkan sem vildi losna, festist í líkamanum. Áfallið hefur þá áhrif á líkamlega og sálræna líðan, hegðun og hugarfar (Levine, 1997). Einstaklingur sem er að takast á við árásar varnarviðbragðið gæti verið pirraður, reiður, ofur árvakur og/eða sýnt árásarhneigð. Hann gæti skynjað raunveruleikann sem ógnandi og verið með bráða skapgerð. Viðkomandi gæti einnig upplifað öfgar í aðra átt sem væri þá þunglyndi, sinnuleysi og vonleysi. Þeir sem eru að takast á við flótta varnarviðbragðið gætu verið að upplifa kvíða, ofsahræðslu og forðunarhegðun. Þessir einstaklingar gætu upplifað stöðuga þörf til að forðast aðstæður sem eru kvalafullar, gætu skapað átök eða árekstra. Eins og nefnt er hér að ofan þá er viðbragðið að frjósa það sem tekur við ef enga von er að finna, enda talið það viðbragð sem hefur hvað mestu áhrif á líðan einstaklings. Viðbragðið er líkt því að sitja í bíl með vélina í gangi, bensíngjöfina í botni en bíllinn hreyfist ekki. Hér gæti viðkomandi verið með lamandi upplifun (Karas, 2015). Fleiri einkenni geta komið fram eins og óöryggi, vöntun á tengslum við sig sjálfan og aðra, einangrun, vöntun á tilgangi, martraðir, svefnvandi, skömm, stoðkerfisvandi, traustvandi, vímuefnavandi og fleira (Van Der Kolk, 2014). Ef viðkomandi á flókna áfallasögu hafa rannsóknir sýnt að viðkomandi tengir síður við sitt innra sjálf og á í vanda með sjálfsstjórn (Cook, Spinazzola, Ford, Lanktree, Blaustein og Cloitre, 2017). 2.2.2 Kulnun og sjúkleg streita Árið 2012 tóku Hawkins og Shohet saman lista yfir helstu einkenni mikillar streitu fagaðila í heilbrigðisstéttinni. Þeir greindu einkennin niður í líkamleg, tilfinningaleg, hugræn og svo hegðunarleg mynstur (Hawkins og Shohet, 2012). Anderson og Kingston (2016) varpa streitueinkennunum svo upp í einfaldan streitustiga í bók sinni Stop Stress–håndbog for ledere til að auka skilning á einkennum streitunnar fyrir einstaklinga og stjórnendur bæði sem forvörn og/eða sem viðmið ef grípa þarf til viðeigandi ráðstafana. Streitustiginn auðveldar samskipti og skilning á alvarleika stöðunnar hverju sinni. Þær gefa hverju stigi fyrir sig einföld heiti sem auðvelt er að innleiða og beita. Þau koma í þessari röð (1) svalur, þá er jafnvægi, virkni, vinnugleði og mikil orka ríkjandi (2) volgur, hér er aukið álag, minnkuð gæði, núningur og streitueinkenni gera vart við sig, svo sem breyttar matarvenjur, pirringur og/eða meiri hraði (3) logandi, á þessu stigi er stöðugt álag, sjálfsálit minnkar, mistök og slök forgangsröðun, svefnörðugleikar, höfuðþyngsli, magaverkir, minnkuð orka og óróleiki (4) bráðnaður, hér er langvarandi álag, vanhæfni, depurð, vanlíðan, fjarvera vegna veikinda, andlegt og líkamlegt niðurbrot (5) brunninn, er lokastigið þar sem harðvítugt og langvarandi álag hefur verið til staðar, flatneskja vitsmunalega og tilfinningalega, sjúkleg streita, heilmikil vanhæfni í starfi og langtíma fjarvera (Anderson og Kingston, 2016). Síðustu misseri hefur athyglinni verið beint að fyrirbærinu eða heilkenninu kulnun (e. burnout) þar sem áherslan hefur verið á vinnuumhverfi og hæfni viðkomandi til að takast á við streitu því tengdu. Ein helsta ástæða fjarveru frá vinnu í Svíþjóð síðan 1990 (Adevi og Mårtensson, 2013) má rekja til streitutengdrar geðröskunar (e. stress-related mental disorder). Hér er átt við sálfélagslegt álag eins og ofþreytu, kulnun, örmögnun, þunglyndi, kvíða eða aðlögunarröskun. Vegna fjölgunar tilfella lagði Landlæknisembætti Svíþjóðar (e. National Board of Health and Welfare in Sweden) til að nefna fyrirbærið sjúklega streitu (e. exhaustion disorder). Þetta var gert til að auðvelda greiningu í klínísku umhverfi. Forsenda greiningar er að viðkomandi hafi verið undir ýktu álagi síðustu 6 mánuði og einkenni viðvarandi í tvær vikur. Greiningin byggir á flokkun Evrópska sjúkdómsflokkunarkerfisins, ICD (e. International Classification of Disease and Related Conditions) sem Alþjóðaheilbrigðisstofnun WHO (e. World Health Organization) gefur út. Í sumum nákvæmari undirflokkum ICD er sjúkleg streita látin fylgja sjúkdómum sem þróast í kjölfar áfalla. Birtingarmyndir sjúklegrar streitu og kulnunar eru keimlíkar og ekki virðist vera skýr greining þar á milli. Rannsóknir hafa staðfest að þeir sem eru að takast á við sjúklega streitu geta einnig verið skilgreindir með kulnun. Kjarnaeinkenni sjúklegrar streitu eru veruleg þreyta og örmögnun, skert frumkvæði og líkamlegt úthald. Önnur einkenni eru minnisleysi, einbeitingarskortur, svimatilfinning, meltingartruflanir, svefntruflanir, stoðkerfisverkir, hjartsláttartruflanir, öfgakenndar tilfinningasveiflur og sérstök viðkvæmni fyrir hávaða og áreiti (Berglind Stefánsdóttir, 2020; Ólafur Þór Ævarsson, 2016; Anna María Pálsdóttir, Persson, Persson og Grahn, 2014). Landlæknisembætti Íslands ákveður hvaða flokkunarkerfi skulu notuð hér á landi og er það ICD-10 sem hefur verið í gildi frá 1. janúar 2014. WHO hefur gefið út ICD-11 með nokkrum breytingum frá fyrra flokkunarkerfi þar sem meiri áhersla er lögð á vinnuumhverfi eða atvinnuleysi, sem þrengir og einfaldar meðhöndlun. Í ICD-10 er nefnt að kulnun sé lífsþreytuástand, tengist einstaklingnum sjálfum og því talið að vandinn sé einkamál hans, sem er þá fremur opin skilgreining. Kulnun er ekki skilgreind sem sjúkdómur eða röskun, fremur nefnt að það sé fyrirbæri eða heilkenni (Berglind Stefánsdóttir, 2020; Embætti landlæknis, e.d.). Rannsóknir sýna að þeir sem hafa jákvæða sjálfsmynd og trú á eigin hæfni takist betur á við daglega streitu (Schönfeld, Brailovskaia, Bieda, Chi Zhang og Margraf, 2016). 2.2.3 Seigla Seigla (e. resilience) er hæfni einstaklings til að lifa innihaldsríku lífi í núinu þrátt fyrir streitu og álag daglegs lífs. Seigla er einnig styrkur einstaklings ásamt samfélagsins til að bera kennsl á jákvæða eiginleika og veita stuðning til að takast á við raunveruleikann (Karas, 2015). Í fyrstu var nefnt að seigla væri persónueinkenni notað til að takast á við streitu og áföll og viðkomandi annaðhvort fæddist með seiglu eða ekki (Asendorpf og van Aken, 1999; Hart, Hofmann, Edelstein og Keller, 1997). Í dag hefur verið sýnt fram á að seiglu er hægt að styrkja og móta með tímanum þar sem samfélagslegt og félagslegt umhverfi ásamt jákvæðni gagnvart einstaklingnum er styðjandi (Lee. o.fl., 2013). APA (American Physcological Association) skilgreinir seiglu sem hæfni til að takast á við mótlæti, áföll og ógæfu. Einnig kemur fram hæfnin til að takast á við streituvaldandi þætti eins og samskiptavanda innan fjölskyldunnar, alvarleg veikindi, dauðsföll, fjárhagsvanda eða álagsþætti tengda atvinnu, hvort sem viðkomandi er án atvinnu eða ekki. Seigla inniheldur samþykki raunveruleikans og upplifun af einhverju sem gerist atburðinum sem hefur raunverulegan persónulegan vöxt í för með sér. Styrking seiglu snýr að upplifun sársaukans í meðvitund með heilbrigði að leiðarljósi sem valdeflir viðkomandi til að takast á við aðra krefjandi reynslu. Seigla er hæfni sem allir geta öðlast. Leiðir til að styrkja seiglu er að 1) auka heilbrigð félagsleg tengsl, 2) tengjast jákvæðu hópastarfi, 3) hlúa að líkamlegri og andlegri vellíðan, 4) sporna gegn áfengis-og/eða fíkniefnaneyslu, 5) finna tilgang með því að hjálpa öðrum, 6) setja sér markmið, 7) stuðla að jákvæðu hugarfari með samþykki, von og lærdómi reynslunnar og 8) leita sér aðstoðar (American Psychological association, e.d.). Sýnt hefur verið fram á að seigla styrkist þegar einstaklingar eru í tengslum við náttúruna og innleiða hana í sína daglegu rútínu (Hartig, Mang og Evans, 1991). 2.3 Kenningar Í þessum kafla verður fjallað um kenningar sem tengjast áhrifum þess að dvelja úti í náttúrunni á endurheimt eftir örmögnun. 2.3.1 Kenningin um athygli og endurheimt Rachel og Stephen Kaplan settu fram kenningu um athygli og endurheimt (e. attention restoration theory) árið 1989. Með kenningunni er sjónum beint að því hvað dregur úr örmögnun og stuðlar að endurheimt. Þegar talað er um endurheimt er átt við bata frá örmögnun. Einn þeirra þátta sem nefndir eru að stuðli að endurheimt er að vera úti í náttúrunni og það staðhæft að athygli eða einbeiting einstaklings aukistí kjölfarið. Með kenningunni er gerð tilraun til að útskýra hvaða áhrif náttúran hefur á einstaklinga sem þjást vegna örmögnunar. Því er haldið fram að náttúran í sjálfri sér búi yfir einfaldleika, mýkt og heillandi upplifunum án þess að hafa sérstaklega fyrir því (Kaplan, 1995). Í kenningunni eru nefndir fjórir grundvallarþættir sem eru til þess fallnir að stuðla að endurheimt. Fyrst er það að fara úr aðstæðum (e. being away), svo upplifun víðáttu (e. extent), næst að umhverfið sé hrífandi (e. fascination) og síðast að umhverfið sé í samræmi (e. compatibility) við þarfir og langanir (Kaplan, 1995). Áður en fjallað verður um þessa fjóra grunnþætti endurheimtar er mikilvægt að kynna hugtökin bein og óbein athygli og hugtakiðhrifningu og tengja þau við bata. Bein og óbein athygli Bein og óbein athygli eru háðar hvor annarri og einstaklingurinn er ávallt að takast á við beina athygli með óbeinni athygli. Bein athygli (e. directed attention) getur haft jákvæðar og neikvæðar afleiðingar fyrir einstaklinga. Að ná beinni athygli getur hjálpað einstaklingum að ná árangri en ef hún stendur of lengi yfir á einstaklingur í hættu á að örmagnast. Örmögnun í kjölfar langvarandi beinnar athygli virðist eiga við í samtímanum þar sem einstaklingar lifa eftir fyrirframgefinni dagskrá og þvinga sig til ákveðinna verka sem er andstæða þess að lifa í flæði (e. flow). Annað hugtak sem nefnt er í þessu samhengi er árvekni (e. vigilance) sem er merki þess að vera til staðar, að vera vakandi fyrir umhverfi sínu og hafa svigrúm til að takast á við það sem að höndum ber. Ef horft er til forfeðra okkar þá var sá eiginleiki til staðar vegna eðli þess umhverfis sem þeir voru í. Þar mátti finna dýr, hættu, hella, blóð o.s.frv. sem er heillandi í sjálfu sér og krefst ekki beinnar athygli. Kaplan nefnir að nútímamaðurinn þurfi ítrekað að beita sig aga við að gera það sem talið er mikilvægt og þá á sama tíma bæla niður áreiti frá því athyglisverða (Kaplan, 1995). Óbein (e.involuntary) athygli er hægt að túlka sem andstæðu beinnar athygli, hún krefst ekki álags og gefur rými til hvíldar frá beinni athygli. Kaplan talar um þessa tilfinningu sem hrifningu (e. fascination) og sem einskonar miðpunkt endurheimtar. Kaplan nefnir tvær myndir hrifningar og talar annars vegar um harða hrifningu (e. hard fascination) og svo mjúka hrifningu (e. soft fascination). Hörð hrifning hertekur hugann og getur í mörgum tilfellum verið aðlaðandi stundar hrifning en hún gefur oft lítið rými til íhugunar. Dæmi um harða hrifningu er sjónvarpsáhorf, samfélagsmiðlar, íþróttaviðburðir, lesa áreynslulausa bók og fleiri vinsælar leiðir samtímans til að slaka á og flýja. Náttúran er aftur á móti talin til mjúkrar hrifningar því hún gefur nægilegt rými til íhugunar og styrkir hæfnina til að takast á við óleystar hugsanir (Basu, Duvall, Kaplan, 2019; Kaplan, 1995). Að fara úr aðstæðum (e. being away) eða fjarvera, beinist að því að þá fari einstaklingurinn í allt annað umhverfi líkamlega og/eða andlega sem frelsar viðkomandi frá því sem krefst beinnar athygli. Ólíklegt er að viðkomandi upplifi endurheimt ef sömu hugsanirnar eru til staðar á nýja staðnum. Því er talið að stýring hugarfarslegrar athygli þurfi að eiga sér stað með því að vera undir leiðsögn t.d fagaðila. Einstaklingar þurfa að upplifa víðáttu, rýmið er þá það stórt að það gefur upplifun umfangs og tengsla. Umhverfið birtist sem allt annar veruleiki og býður upp á nægilega mikið til að sjá, upplifa og hugleiða. Víðáttan tekur viðunandi pláss af því lausa rými sem er í huga viðkomandi. Varðandi mikilvægi umhverfis hefur einnig verið bent á að það sé í samræmi við þarfir og langanir notandans. Kaplan telur að allir þessir þættir þurfi að vera til staðar svo endurheimt eigi sér stað (Kaplan, 1992; Kaplan, 1995; Kaplan, 2001). Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að óbein athygli í náttúrunni stuðli að endurheimt og streitulosun (Han, 2010; Staats, Jahncke, Herzog og Hartig, 2016; Kaplan, 1995). Ulrich o.fl (1991) gagnrýna kenningu Kaplan og nefna að örmögnun í kjölfar beinnar athygli megi skilgreina sem streitu. Því er gagnlegt að fjalla næst um kenningu Ulrich um streitulosun. 2.3.2 Kenningin um streitulosun Í umhverfinu eru þættir sem hafa jákvæð eða neikvæð áhrif á líðan, hvort sem um manngert umhverfi eða náttúru er að ræða. Rogers Ulrich og hans teymi þróuðu kenningu um streitulosun (e. stress recovery theory) (Ulrich, Simons, Losito, Fiorito, Miles og Zelson, 1991). Rauði þráður kenningarinnar er streita (e. stress) og endurheimt. Streita er ferli sem birtist bæði sálrænt og líkamlega. Sálrænar birtingarmyndir eru upplifun tilfinninga eins og sorg, ótti, reiði og/eða ströggl við að komast af. Líkamleg áhrif streitu geta komið fram í sjúkdómum í hjarta- og æðakerfi, vöðva- og stoðkerfi og síðast en ekki síst taugakerfinu. Ef slíkt ástand er viðvarandi getur það leitt til örmögnunar. Þol við áreiti og hugræn hæfni getur einnig minnkað í kjölfar mikillar streitu ásamt afkastagetu (Cohen, ofl. 1986; Ulrich, ofl., 1991). Endurheimt er annað mikilvægt hugtak kenningarinnar líkt og á við um kenninguna um athygli og endurheimt. Þá er átt við jákvæðar breytingar sálrænar eða líkamlegar eða bata frá streitueinkennum. Endurheimt felur þá í sér jákvæðara viðhorf, minni ótta eða reiði, eða jákvæðar breytingar í hegðun, hugarfarslegri virkni eða afkastagetu (Zuckerman, 1977; Ulrich, 1979). Ulrich og félagar (1991) rannsökuðu endurheimt í náttúrunni sem var þá andstæða þess að dvelja í þéttbýli og leiddu niðurstöður í ljós að endurheimt væri hraðari og endanlegri úti í náttúrunni en í þéttbýli. Niðurstöður sýndu að dvöl í náttúrunni hafði áberandi áhrif á heila- og spjaldtaugahluta sjálfvirka taugakerfisins (e. parasympathetic nervous system) á meðan að dvelja inn í þéttbýli hafði engin áhrif. Það voru bein jákvæð tengsl milli viðbragðs hjartavöðvans (e. cardiac) og náttúru til móts við þéttbýli. Niðurstöður leiddu því í ljós að eiginleikar þess að dvelja í náttúrunni á líðan og endurheimt væru jákvæð. Líffræðileg (e. physiological) virkni jókst sem voru þá bein tengsl við eftirtekt og jákvæða upplifun. Þeir sýndu fram á að blóðþrýstingur lækkaði og vellíðan jókst þegar viðkomandi tengdist náttúrunni. Ulrich og félagar (1991) töldu að streitulosun í náttúrunni væri meðfædd, mætti rekja til ættfeðra okkar og tengsla við náttúruna. Þeir nefna að þröng húsasund, hávaði, umferð og háar byggingar hafi neikvæð áhrif á líðan okkar þegar aftur á móti trjágróður, vatn og plöntur hafi jákvæð áhrif. Mikilvægt er að nefna í þessu samhengi sálþróunarkenningu Rogers Ulrich síðan 1983. Sálþróunarkenningin fjallar um meðfædda þörf einstaklingsins til að nálgast náttúruna og talið að hún sé nauðsynleg til að stuðla að líkamlegu og andlegu heilbrigði. Með kenningunni er gengið út frá því að tilfinningaleg upplifun og reynsla skipti máli til að viðhalda lærdómnum. Skjót tilfinningaviðbrögð (e. affective response) eigi sér stað þegar náttúran snerti vit einstaklingsins og skynfærin vakna. Talið er að umfang náttúrunnar séu það mikið að ekki sé rými fyrir aðrar hugsanir en þær sem snúa að henni. Tilfinningaviðbrögðin geta verið hrifning, ótti eða athygli. Taugakerfi líkamans örvast sem metur nýjar aðstæður með upplifun fyrri reynslu af svipuðum atburðum. Forðunarhegðun (avoidance behaviour) eða nándarhegðun (e. approach behaviour) getur átt sér stað þegar einstaklingur tengist náttúrunni. Hið fyrra snýr að því að forðast tilteknar aðstæður og hið síðara að því að einstaklingur vill nálgast og njóta þeirra aðstæðna sem fyrir eru (Ulrich, 1983). Í kjölfar þessarar umræðu er fjallað umkenningu reynslunáms sem bindur kenningarlega nálgun rannsakanda saman. 2.3.3 Kenningin um reynslunám Þróun heimspekilegrar hugsunar um reynslu og upplifun er hægt að rekja aftur til tíma Grikkja (Beard og Wilson, 2006). Grunnforsenda er að hún eigi sér stað í innra og ytra umhverfi nemans, er alltumlykjandi, bæði líkamlega, tilfinningalega og hugarfarslega (Björn Vilhjálmsson, 2020). Nokkrir fræðimenn hafa mótað kenningar og líkön um reynslunám (e. experiential learning). Kenninguna má rekja til hugmynda John Dewey á fyrri hluta 20. aldar. Dewey nefnir að menntun og þroski einstaklings þroskist í samfelldu ferli. Hann notar hugtakið reynsla (e. experience) sem fangar fræði og upplifun í samverkandi ferli. Þá lærir einstaklingur af þeirri reynslu sem hann upplifir (Beard og Wilson, 2006; Björn Vilhjálmsson, 2020; Sigrún Júlíusdóttir, 2002). Dewey nefnir ákveðið ferli reynslunáms í eftirfarandi röð: 1) Viðkomandi tekst á við verkefni eða atvik, 2) ígrundar reynslu sína með gagnrýni að leiðarljósi með þeim afleiðingum að 3) ný reynsla og skynjun á sér stað sem 4) leiðir til breyttrar hegðunar eða nýr skilningur verður til. Þessi nýju viðbrögð hafa svo áhrif á aðra reynslu og ferlið endurtekur sig (Dewey, 1938; Sigrún Júlíusdóttir, 2002). Í samtímanum er reynslunámshringur Kolb frá 1984 mikið notaður þegar nám og reynsla er annars vegar. Kolb mótar kenningu sína út frá forverum sínum, Lewin, Dewey og Piaget og setti fram líkan sem tekur á því hvernig reynsla verður að hagnýtu námi. Líkanið byggir á fimm þáttum, fyrst er það 1) upplifunin sjálf eða reynslan (experiencing/noticing) sem hefur upphaf og endi, háð ákveðnum staðháttum, varir í ákveðinn tíma í tilteknu rými. Svo er það 2) ígrundun (e. interpreting/reflecting), sem verður til með upprifjun, endurspeglun atburða og athygli að birtingarmyndum reynslunnar. Næst er 3) alhæfing (e. generalization/judging), þá er spurt hvaða lærdómur hafi orðið til af tilsettri reynslu og ígrundun. Síðan er 4) nýting námsins (e. applying/testing), þar sem mikilvægt er að nemandinn fái færi til nýta alhæfinguna sem hefur fengist með reynslunni svo flutningur yfir á önnur svið lífsins eigi sér stað. Svo að endingu er 5) flutningur námsins. Þá er átt við að reynslan nýtist í nýjum aðstæðum (Beard og Wilson, 2006; Björn Vilhjálmsson, 2020). Ígrundun Þegar Dewey (1944) fjallar um reynslunám segir hann ígrundun vera óaðskilinn þátt námsins. Þegar horft sé til baka og ígrundun eigi sér stað uppskeri viðkomandi innsæi eða visku (e. discernment) sem styrki hæfni hans til að meta afleiðingar framkvæmda. Hann telur ígrundun kjarna reynslunáms. Að læra af reynslunni er því upplifun sem á sér stað þegar einstaklingur tengir framkvæmd og afleiðingu við framtíð og fortíð. Hann taldi lífsreynslu viðkomandi vera undirstöðu alls náms og að námið leysi þá reynslu úr hlekkjum með ígrundun, gefi reynslunni nýtt rými og geti leitt til breytinga (Jóhanna Einarsdóttir, 2010). Korthagen, Kim og Greene (2013) nefna að ein leið til ígrundunar sé að hugsa, svo í kjölfarið að finna, sem leiðir af sér löngun. Þau lýsa ígrundunarferlinu sem lyftu sem fer frá huga, sem felst í hugsuninni, niður í hjarta, sem felst í tilfinningunni, og svo niður í maga, sem snertir þá löngunina. Með þessu móti verður til samverkandi ferli náms sem kallast flæði (e. flow). Flæði er þegar einstaklingur upplifir uppljómun að innan sem flæðir frá einstaklingnum innan frá og út. Ígrundunin vekur upp innsæið sem er þá hin faldi demantur innra með einstaklingnum (Korthagen, Kim og Green, 2013). Lauklíkanið (e. onion model) mótað af Bateson lýsir ígrundunarferlinu. Þetta ferli hefur verið yfirfært á mismunandi námsumhverfi en kjarnahugmyndin er ávallt sú sama (Korthagen og Vasalos, 2005; Nur og Tevfik, 2017). Þá er litið á kjarnann í lauknum sem innstu kjarnaeiginleika einstaklings sem hefur úrslitaáhrif á það hvernig viðkomandi bregst við sínu ytra umhverfi. Ferlinu lýsa þeir að 1) það sem hrífur einstaklinginn að innan hefur samverkandi áhrif á 2) hvernig viðkomandi telur sig vera, sjálfsmynd viðkomandi, sem hefur áhrif á 3) hverju viðkomandi trúir, sem hefur áhrif á 4) hvað viðkomandi gerir, sem hefur áhrif á 5) hvað viðkomandi er að takast á við hverju sinni. Eitt getur ekki án annars verið og er því ofið saman í eina heild. Upplifunin getur verkað utan frá og inn og svo öfugt (Korthagen o.fl. (2013). Reynsluna má öðlast í beinni snertingu við náttúruna sem er talin veigamikil nálgun náms og mótunar (Beard og Wilson, 2006). Luckner og Nadler (1997) nefna að reynslunám sé valdeflandi að því leyti að nemandinn eða þátttakandinn á persónulega upplifun sína sem styrkir þátttöku og áhuga hans á ferlinu og að flutningur náms sé mikilvægur þáttur þess ferlis. 2.4 Meðferð úti í náttúrunni Mismunandi meðferðarform hafa sprottið fram síðustu misseri þar sem áhersla er á það að dvelja úti í náttúrunni. Í þessum hluta verður fjallað um náttúrumeðferð sem, eins og nafnið gefur til kynna, fer fram í náttúrunni. Áhersla er lögð á hæglæti og þögn ásamt hnitmiðuðum æfingum sem auka tengsl og samtal einstaklings við náttúruna. Síðan verður fjallað um umhverfissálfræði sem er meðal annars hugmyndafræði námskeiðsins sem rannsóknin snertir. Þá verður talað um hlutverk leiðbeinenda, núvitund og að síðustu verður fjallað um niðurstöður nýlegra rannsókna sem fjalla um náttúrumeðferð. Náttúrumeðferð Miles og Priest (1999) nefna að nám sé reynsla sem hrindi af stað breytingaferli sem snerti skynjun, hugsanir og hegðun einstaklings. Nám með ásetningi sem er viðhaldið yfir lengri tíma er líklegra til að stuðla að varanlegum breytingum. Nám hefur þær afleiðingar að einstaklingurinn er ekki samur á eftir. Náttúrumeðferð (e. nature therapy) er skapandi meðferðarnálgun í náttúrunni þar sem náttúran þjónar sem meðferðaraðili í sjálfu sér (Berger, 2009; Berger og Lahad, 2013). Nálgunin er ofin saman úr nokkrum meðferðarformum. Fyrst er það skapandi póstmódernískar nálganir eins og leikmeðferð (e. play therapy), drama meðferð (e. drama therapy), frásagnarnálgun (e. narrative) og gestalt meðferð. Svo eru það náttúrumiðaðar nálganir svo sem umhverfissálfræði (e. ecopsychology) sem er grunnur meðferðarinnar og djúp náttúrusálfræði (e. deep ecology) ásamt ævintýra og öræfameðferð (e. adventure and wilderness therapy) og síðast ber að nefna fornar hefðir (Berger, 2009). Meginforsenda er að beina sjónum að því hvernig líðan einstaklings er í tengslum við náttúruna. Hún á sér stað í náttúrunni þar sem áhersla er lögð á náttúrugöngu í hægð og þögn ásamt hnitmiðuðum æfingum sem auka tengsl og samtal einstaklings við náttúruna (Berger og McLeod, 2006; Berger, 2020). Meðferðin gengur út frá því að samtíminn sé sveltur tengslum við náttúruna og birtingarmyndir þess séu af sálfélagslegum toga. Birtingarmyndirnar eru skortur á sjálfsvirðingu og tilgangi, þunglyndi, kvíði, einmanaleiki og firring. Náttúrumeðferð gengur út frá því að með því að tengjast náttúrunni tengist fólk styrkleikum sínum, virki heilandi kraft hið innra og dýpki skynjun á sínu náttúrulega eðli. Náttúrumeðferð gengur einnig út frá því að náttúran geti þroskað vitneskju um það sem er stærra en það sjálft, hið ómannlega sem veitir fólki vellíðan (Berger, 2009; Jordan og Hinds, 2016; McGeeney, 2016; Roszak, 2001; Totton, 2003). Umhverfissálfræði Með umhverfissálfræði (e. ecopsychology) er lögð áhersla á hið ósýnilega samband milli náttúrunnar og einstaklinga, og þess að heilsa fólks sé í beinum tengslum við náttúruna. Umhverfissálfræðingar telja að tengsl við náttúruna hafi heilandi áhrif á líðan einstaklings og í kjölfarið munu heilbrigðir einstaklingar endurheimta náttúruna (Brown, 1995; Rader, 2009; Roszak, 1992). Femínískt sjónarhorn (e. ecofeminism) er kjarninn í umhverfissálfræði. Hugtakið var fyrst notað 1974 af franska femínistanum Francoise D‘Eaubonne. Áherslan er á umhverfishyggju, femínisma, andlega upplifun, dýravernd og aðra þætti sem stuðla að hvers kyns jafnrétti (McGuire og McGuire, 2004). Halloway (1991) nefnir nokkur sjónarmið í samskiptum nálgunarinnar, 1) jafnvægi og jafnrétti þar sem flatt valdaskipulag er ríkjandi, 2) tengsl í stað aðgreiningar, 3) fjölbreytileiki samþykktur með jafnrétti að leiðarljósi, 4) í samskiptum er áhersla lögð á kærleika, samkennd, samvinnu og flæði í stað samkeppni eða samanburðar veraldlegra hluta og síðast, 5) er litið á yfirráð eða drottnun sem menningarlega arfleifð. Björn Vilhjálmsson (2020) nefnir svo í bók sinni Hálendishópurinn 1989-2000 sjö viðfangsefni femíníska sjónarhornsins sem leitt getur til aukins þroska sem er fyrrgreindri upptalningu til stuðnings. Nálgunin fjallar um fámennan námshóp í náttúrunni. Fyrst er fúsleikinn til að vinna í og með náttúrunni, næst er að samþykkja og njóta náttúrunnar eins og hún er, svo er áhersla lögð á sveigjanlega stjórnun þar sem forsendur skapast til uppbyggingar og öryggis, síðan er sjónum beint að samstarfi og samvinnu, þá styrkleikum í stað veikleika og virðingar þar sem samþykki fyrir fjölbreytileika og ólíkum raunveruleika kristallast. Síðast er ræktun persónulegra markmiða og árangurs. Núvitund Núvitund (e. mindfulness) er oft tengd náttúru nálgun, þeirri hugmynd að dvelja með náttúrunni sem Kaplan (1995) fjallaði um sem árvekni. Núvitund hefur jákvæð áhrif á fjölbreytta sálræna líðan, geðvefrænan (e. psychosomatic) og streitutengdan vanda þar á meðal þunglyndi og langvinn veikindi. Rannsóknir leiða einnig í ljós að nálgunin hefur víðtæk jákvæð áhrif á líkamlegt heilbrigði eins og lækkun á blóðþrýstingi og streituhormóninu kortisól ásamt endurheimt ónæmissvörunar (e. immune response). Nálgunin hefur einnig áhrif á þau svæði heilans sem hafa með tilfinningaúrvinnslu að gera sem í kjölfarið breytir þeim svæðum heilans er kemur að tengslum við líkamlega líðan og úrvinnslu ótta (Williams og Penman, 2011/2018; Van der Kolk, 2014). Núvitund tengir einstaklinginn við síbreytilegt landslag innri veruleikaskynjunar. Einstaklingur sem veitir líkamlegri svörun athygli nær að skilgreina flóð og fjöru tilfinninganna og nær þá betri stjórn á þeim (Van der Kolk, 2014). Ein leið til að útskýra umbreytandi áhrif núvitundar er að ímynda sér linsu sem veitir tættri, stjórnlausri og viðbragðsnæmri orku hugans athygli með samþykki sem samverkar leysandi, heilandi og lífsgefandi (Van der Kolk, 2014). Kirk Brown og Richard Ryan (2003) sýna fram á í rannsókn sinni að þeir sem stunda núvitund standa fremur með sjálfum sér og öðlast meiri sjálfsvitund. Einnig tekur fólk síður þátt í athöfnum til að hylla aðra eða til að vera stoltari af sjálfu sér. Þeir sem stunda núvitund sækjast fremur eftir því sem nærir, kætir og veitir lífsfyllingu fyrir sig sjálfa. Sýnt hefur verið fram á gagnsemi núvitundarhugleiðslu þar sem áhersla var lögð á mildi og gæsku í eigin garð og annarra. Eftir níu vikna þjálfun kom í ljós að jákvæðar tilfinningar og lífsánægja jókst, tilgangur með lífinu kviknaði, einangrun minnkaði og tengsl jukust. Einnig dró úr líkamlegum einkennum eins og höfuðverk, stíflum, slappleika og brjóstverk (Fredrickson, Cohn, Coffrey, Pek og Finkel, 2008). Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á styrkingu seiglu. Þátttakendur voru lífsglaðari, upplifðu minni streitu, meiri orku og tilgang. Þeir virtust líta á lífið sem tækifæri til að takast á við áskoranir fremur en sem ógn (Dobkin, 2008; Weissbecker, o.fl., 2002). 2.5 Leiðbeinendur í hópavinnu Leiðbeinendur í hópavinnu þurfa að búa yfir viðeigandi menntun og reynslu til þess að vera hæfir til þess að leiða ráðgjafa- og stuðningshópa (e. counseling groups). Í þess háttar hópum er markmiðið að styðja þátttakendur til breytinga í lífi sínu, einstaklinga sem stríða við erfiðan lífsvanda (Gladding, 2016; Lindsay og Orton, 2011). Samkæmt Samtökum sérfræðinga í hópavinnu (e. Association for Specialists in Group Work) eiga leiðbeinendur ráðgjafa og stuðningshópa auk grunnnáms í hópavinnu að hafa 45-60 stunda þjálfun frá sérfræðingi áður en þeir fara að starfa sjálfstætt með hópa. Niðurstöður rannsókna hafa bent á að til þess að vera árangursríkur leiðbeinandi er mikilvægt að hafa lagt stund á sjálfsvinnu, ígrundað persónuleg og fagleg mörk, hafa unnið að því að styrkja innsæi sitt og ræktað hæfni til að sýna auðmýkt. Leiðbeinandi þarf að velja viðeigandi umhverfi eða rými til að geta stutt við heilbrigð samskipti þátttakenda, breytingaferli og virkni. Hann þarf að skapa öryggi og umhyggju til þess að þátttakendur geti tjáð tilfinningar sínar, vera lausnarmiðaður og valdeflandi. Fjallað hefur verið um að leiðbeinandi í hópavinnu þurfi að búa yfir sömu hæfni og sá sem stundar einstaklingsmeðferð þ.e. að hlusta, umorða, útskýra, draga saman, spyrja spurninga, styðja og ögra ásamt því að veita svörun við þeim tilfinningum sem upp koma hverju sinni (Björn Vilhjálmsson, 2020; Forsyth, 2013; Gladding, 2016). Í sama streng er tekið í skrifum Hervarar Ölmu Árnadóttur og Sóleyjar Daggar Hafbergsdóttur (2015) um reynslu leiðbeinenda sem höfðu leitt hópavinnu með ungmennum úti í náttúrunni en í niðurstöðum kemur fram að auk fyrrnefndra atriða hafi persónulegir eiginleikar, áhugi og styrkur leiðbeinenda áhrif á árangur starfsins. Hópdýnamík (e. group dynamic) er eitt lykilhugtaka í hópavinnu og hefur verið skilgreint á þann hátt að hópurinn saman stendur af innihaldi hópsins (e. group content) og ferli hópsins (e. group process). Innihald hóps eru yrt skilaboð, hugmyndirnar, markmið hópsins og þær upplýsingar sem hafa komið fram. Þegar nægt traust hefur náðst innan hópsins verður til ferill hóps sem eru samskiptin, orkan, andinn og flæðið innan hópsins og eykst áherslan á það síðarnefnda eftir því sem tímanum líður. Hvort getur þó ekki án hins verið og það er leiðbeinandans að reyna að sjá til þess að jafnvægi sé á milli þessara þátta (Lewin, 1945; Gladding, 2016). 2.6 Rannsóknir um áhrif náttúrunnar í hópavinnu Rannsóknir sýna að tengsl við náttúru hafa jákvæð áhrif á líðan og heilsufar (Mitchell og Popham, 2008). Þá hafa rannsóknir einnig sýnt fram á betri endurheimt huglægrar virkni og ríkara viðnám gegn streitutengdum vanda (Ottoson og Grahn, 2006; Tyrväinen, Ojala, Korpela, Lanki, Tsunetsugu og Kagawa, 2014). Adevi og Mårtensson (2013) sýndu fram á heilandi áhrif náttúru í rannsókn sinni og aukinnar hæfni einstaklingsins til að ná jafnvægi sjálfsins (e. self regulation). Talið er að fjölbreytileiki náttúrunnar gefi okkur djúpa upplifun öryggis með þeim afleiðingum að við slökum á (Appleton, 1996; Coss og Moore, 1990; Ulrich, 1999). Reynsluathuganir (e. empirical) hafa sýnt fram á gagnsemi þess að vera í náttúrulegu umhverfi til móts við steinsteypu og þess að græn náttúra ýti undir betri líðan og heilsu (Korpela og Hartig, 1996; Purcell, Peron og Berto, 2001). Tengsl eru milli þess að búa í snertingu við náttúru og þá upplifa betri heilsu, með öðrum orðum, því grænna umhverfi því betri heilsa (Maas, Verheij, Groenewegen, deVries og Spreeuenberg, 2006). Árið 2014 rannsökuðu Sahlin, Ahlborg, Matuszczyk og Grahn námskeið sem bauð upp á náttúrumeðferð og hvort sú meðferð hefði jákvæð áhrif á þá sem væru komnir með heilsutengdan vanda í kjölfar aukinnar streitu. Einnig var markmið að kanna hvernig þátttakendur upplifðu náttúru og garðyrkju þátt námskeiðs. Þátttakendur voru 33 konur og notast var við blandaða aðferð. Rannsóknarspurningarnar voru 1) spornar þátttaka í NBSC (e. nature-based stress management course) við kulnun, streitutengdum einkennum og veikindaleyfum? Eykur þátttaka sjálfsþekkingu á vinnumarkaði (e. self-rated work ability)? 2) Öðlast þátttakendur verkfæri til að takast á við streituna og nýta þátttakendur þessi verkfæri eftir námskeiðið? 3) Hvernig upplifðu þátttakendur náttúru og garðvinnu hluta námskeiðsins? Niðurstöður leiddu í ljós að einkenni kulnunar höfðu minnkað hratt, starfshæfni hafði aukist 6-12 mánuðum síðar og langtíma veikindaleyfum hafði fækkað 6–12 mánuðum síðar. Jákvæð þróun var á heilsutengdum vanda og mátti sjá verulega breytingu í sumum tilfellum. Þátttakendur virtust nýta þekkingu sem var fengin á námskeiðinu eftir að því lauk. Niðurstöður sýndu að náttúra og garðyrkja sporna gegn streitu og þjóna sem streitulosun. Einnig sóttu margir þátttakendur í garðyrkju heima fyrir að námskeiði loknu (Sahlin, Ahlborg, Matuszczyk og Grahn, 2014). Sama ár birtu Anna María Pálsdóttir, Persson, Persson, og Grahn niðurstöður langtímarannsóknar um áhrif náttúru gegn streitutengdum vanda þátttakenda meðferðarinnar Alnrap Rehabilitation Garden í Svíþjóð. Meðferðin spannaði 12 vikna tímabil. Þátttakendur voru 43 og náði rannsóknin yfir fjögur ár. Beitt var eigindlegri rannsóknaraðferð ásamt fyrirbærafræðilegri nálgun. Rannsakendur greindu þriggja stiga ferli á þessum 12 vikum sem virtist einkenna þá sem fóru í gegnum meðferðina. Fyrst var það aðdragandinn (e. prelude) sem innihélt sameiningu (e. alliance) og undanlátssemi (e. permissiveness). Á þessu stigi upplifðu þátttakendur vanvirkni sína og voru fremur uppteknir af innri líðan og reynslu. Næst var það endurheimt (e. recuperating) þar sem þátttakendur lýstu því að þeir væru að vakna (e. awakening) og meðtaka (e. processing). Á því stigi mátti sjá tilfinningalega þátttöku og viðbrögð. Þriðja og síðasta stig námskeiðsins var valdeflingin (e. empowerment) og augnablikið sem þátttakendur halda áfram. Á því stigi mátti sjá þátttakendur í meiri tengslum og vingjarnlegri. Niðurstöður leiddu í ljós að þátttakendur tengdu við jákvæð áhrif náttúrunnar á öllum stigum meðferðarinnar og að náttúran veitti þeim stuðning í gegnum reynslu sína. Það sem vakti athygli rannsakenda var djúp reynsla þátttakenda á samskiptum þeirra við náttúruna í gegnum þögn (e social quietness). Sú reynsla hafði ekki einungis endurheimt í för með sér heldur virtist hún einnig leysa flókna andlega upplifun þeirra. Það sem þátttakendur nefndu sem stuðning frá umhverfinu var að vera í burtu, upplifa einingu, ró og afdrep eða skjól (Anna María Pálsdóttir, Persson, Persson, & Grahn, 2014). Fleiri rannsóknir hafa sýnt fram á að tengsl við náttúru minnka streituviðbrögð og örmögnun (e. directed attention fatique) (Kaplan, 2001). Einnig hefur verið sýnt fram á að tengsl við náttúruna geta haft jákvæð áhrif á upplifun og líðan (Mitchell og Popham (2008). Niðurstöður rannsókna hafa einnig bent til þess að náttúran getur bætt líðan kvenna í formi sjálfsnægju, bættrar athygli, betri tengslum við aðra og andlegum skýrleika (Pohl, Borrie og Patterson, 2000). 2.7 Saga-Story House Hugmyndafræði Saga Story House Saga–Story House ehf. var stofnað 2. janúar 2019 og megináhersla hefur frá upphafi verið á fræðslu og námskeiðshald sem stofnendur og eigendur hafa hingað til séð sjálfir um að þróa, kenna og fylgja eftir. Leiðarljós Sögu–Story House ehf er að efla tengsl einstaklinga við sjálfa sig, samferðafólkið og náttúruna. Hvatinn að stofnun Sögu–Story House ehf var ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að breyta St. Jósefsspítala í Hafnarfirði í Lífsgæðasetur, klasasamfélag fyrir fyrirtæki, einstaklinga og félagasamtök, sem væru að vinna að lífsgæðum fólks á einn eða annan hátt, frá vöggu til grafar (Guðbjörg Björnsdóttir, munnleg heimild, 10. desember 2020). Stofnendur Sögu–Story House ehf eru Guðbjörg Björnsdóttir iðjuþjálfi og Yoga Nidra kennari og Ingibjörg Valgeirsdóttir MBA (Master of Business Administration) og BA í uppeldis- og menntunarfræðum. Ingibjörg er með bæði Yoga- og Yoga Nidra kennararéttindi (Saga-Story House, e.d-a). Námskeiðið Staldraðu við–heilandi áhrif náttúru á streitu Námskeiðið Staldraðu við–heilandi áhrif náttúru á streitu (SHÁNS), var fyrsta námskeiðið sem eigendur Sögu–Story House settu á laggirnar og var upphaflega hannað sem sumarnámskeið (Saga-Story House, e.d-b). Aðdragandi námskeiðsins á rætur að rekja til reynslu eigendanna af streitu í bæði lífi og starfi (Ingibjörg Valgeirsdóttir, munnleg heimild, 10. desember 2020). Leiðarljós námskeiðsins er hlýja, hægð og núvitund þar sem markmið er að auka lífsgæði og jákvæðari líðan þátttakenda. Lögð er áhersla á að tengjast íslenskri náttúru í kyrrðargöngu með ólíkum þemum hverju sinni. Horft er til heilandi áhrifa mismunandi birtingarmynda náttúrunnar á líðan og upplifun. Lagt er til að hvíla með náttúrunni í þögn og tengjast eigin innsæi gegnum skynjun. Á námskeiðinu er einnig lögð rík áhersla á að auka þekkingu með ígrundun, fræðslu og gagnlegum verkfærum til að takast á við streitu, þreytu og hraða í lífi og starfi. Djúpslökun er einnig mikilvægur þáttur námskeiðs og er boðið upp á slíka í hverjum tíma með aðferðum yoga nidra og núvitundar. Mýkt, mildi, öndun, kyrrð, hvíld og hlýja er markviss leiðsögn í gegnum námskeiðið sem skapar mjúka og alltumlykjandi stemningu. Námskeiðið stendur yfir í fjórar vikur og er mæting þátttakenda tvisvar sinnum í viku, þrjár klukkustundir í senn. Eina forsenda þess að taka þátt er að viðkomandi upplifi streitu í lífi sínu og hafi vilja og löngun til að innleiða hægð, núvitund og mildi í daglegt líf til að sporna við streitu (Saga-Story House, e.d-b). Í september 2019 höfðu Ingibjörg og Guðbjörg þróað og sett á markað framhaldsnámskeið til að mæta þörfum þátttakenda fyrir eftirfylgd eftir grunnnámskeiðið (Guðbjörg Björnsdóttir, munnleg heimild, 10. desember 2020). Stuðst er við hugmyndafræði iðjuþjálfunar, umhverfissálfræði, kenningar um heilandi áhrif náttúru, hæglætishugmyndafræði (e. slow living), hugmyndafræði reynslunáms (e. experiental learning), þá með mildri nálgun, yoga nidra og núvitundarþjálfun (e. mindfulness) (SagaStory house, e.d-b). Einnig leggur Saga–Story House ríka áherslu á að horfa til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og framsetningu Landlæknisembættis Íslands á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þriðja markmið samtakanna er í brennidepli fyrirtækisins sem er heilsa og vellíðan. Markmiðin eru sautján talsins og hnýtir þriðja markmið samtakanna þau sautján vandlega saman (Félag Sameinuðu þjóðanna, e.d; Saga-Story House, e.d-b). Grunnnámskeiðið er í boði allan ársins hring og hefst nýtt námskeið strax að loknu öðru, eða á 4 vikna fresti. Framhaldsnámskeiðin eru í boði nokkrum sinnum yfir árið og vegna aukinnar eftirspurnar haustið 2020 eru þau nú í boði á 4 vikna fresti eins og grunnnámskeiðin. Um áramótin 2020-2021 hafa 25 hópar lokið námskeiðum, Staldra við–heilandi áhrif náttúru á streitu, 19 grunnnámskeið og 6 framhaldsnámskeið (Guðbjörg Björnsdóttir, munnleg heimild, 10. desember 2020). Hvatinn að baki námskeiðinu liggur í stjórnunarreynslu eigenda Sögu–Story House, áhuga þeirra á heilandi áhrifum náttúrunnar og fjölgun einstaklinga í íslensku samfélagi sem eru að upplifa að streita og örmögnun hamli starfsgetu og lífsgæðum í daglegu lífi. Í sjórnendastöðum sínum fundu þær fyrir þörf á úrræðum sem starfsfólk jafnt sem aðstandendur gætu leitað í sem forvörn til að fyrirbyggja áframhaldandi þróun á álagi, streitu og kulnun í lífi og starfi. Ingibjörg og Guðbjörg hafa báðar mikla reynslu af að nýta náttúruna í heilandi tilgangi og sem vettvang fyrir starf með fólki. Ingibjörg starfaði um árabil sem hópstjóri Hálendishópsins, öræfameðferð fyrir ungt fólk sem var að takast á við krefjandi verkefni í lífinu. Úrræðið var samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Félagsþjónustu og Barnaverndar Reykjavíkur. Guðbjörg hefur einnig áralanga reynslu af ævintýrameðferðum í náttúrunni fyrir ungmenni á Barna- og unglingageðdeild. Námskeiðið er hluti af starfendurhæfinga úrræðum Virk, þar sem markmiðið er að efla hæfni, bæta líðan og auka jafnvægi einstaklinga í líf og starfi þar sem stefnt er á aukna þátttöku á vinnumarkaði. Eigendur Sögu fylgja þátttakendum eftir með því að senda umsagnir til Virk ráðgjafa viðkomandi einstaklings varðandi mætingu og þátttöku á námskeiði. Þá er Saga Story House einnig í samstarfi við Vinnumálastofnun og býður upp á námskeið fyrir atvinnuleitendur (Guðbjörg Björnsdóttir, munnleg heimild, 10. desember 2020). 2.8 VIRK–Starfsendurhæfingarsjóður Saga Virk Árið 2008 sömdu Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins um endurbætur á starfsendurhæfingu á Íslandi. Í kjölfarið árið 2009 voru stofnaðilar Virk–Starfsendurhæfing opinberir atvinnurekendur og stéttarfélög opinberra starfsmanna. Sú aðgerð sameinaði í fyrsta sinn helstu aðila atvinnumarkaðarins á Íslandi. Við lok september árið 2009 hóf fyrsti þjónustuhafinn endurhæfingu á vegum Virk, við lok þess árs voru þeir orðnir 363 og Virk ráðgjafar orðnir 14. Í dag, árið 2020 eru ráðgjafarnir orðnir 59 talsins og staðsettir um allt land. Árið 2015 náðist samkomulag um aðkomu ríkisvaldsins að Virk sem tryggði öllum með takmarkaða starfsgetu atvinnutengda starfsendurhæfingu (Virk starfsendurhæfingarsjóður. e.d-a). Stefna og gildi Virk Virk leggur sérstaka áherslu á að koma í veg fyrir að einstaklingur fari á varanlega örorku og hverfi af vinnumarkaði. Virk hefur það að markmiði að valdefla einstakling í kjölfar veikinda eða slysa og efla atvinnuþátttöku. Skilyrði fyrir þjónustu hjá Virk er 1) að einstaklingur takist á við heilsufarsvanda sem hindri þátttöku hans á atvinnumarkaði, 2) viðkomandi stefni út á vinnumarkað svo fljótt sem auðið er, 3) hafi þörf á þjónustunni og hún muni auðvelda ferlið aftur út á vinnumarkað á þeim tíma sem veittur er af Virk, 4) og hafi getu og fullan áhuga fyrir því að taka þátt í þeirri áætlun sem lögð er fram og taka markvissan þátt í atvinnutengdri starfsendurhæfingu (Virk-starfsendurhæfingarsjóður, e.d-b). 3 Aðferð Markmið rannsóknar var að kanna upplifun og reynslu þátttakenda af áhrifum náttúru á streitu af námskeiði sem er hluti af starfsendurhæfingu einstaklinga. Megináhersla liggur í að vinna með náttúruna sem streitulosandi þátt með því að beina athygli og upplifun þátttakenda að henni. Undirmarkmið er að kanna hvaða vísbendingar niðurstöðurnar gefi um gæði og árangur námskeiðsins. Með hliðsjón að þessum markmiðum eru rannsóknarspurningarnar: Hver er upplifun og reynsla þátttakenda af áhrifum náttúru á streitu af námskeiði þar sem áhersla er á það að dvelja úti í náttúrunni? Undirspurningin er: Hvaða vísbendingar gefa niðurstöðurnar um gæði og árangur námskeiðsins? Í þessum kafla mun höfundur fjalla um þær rannsóknaraðferðir sem notast var við í vinnslu rannsóknar. Næst er fjallað um mælitæki megindlega hluta rannsóknarinnar og í kjölfarið um gagnaöflun og greiningu. Svo eru þátttakendur kynntir og framkvæmd rannsóknar lýst. Síðast er fjallað um siðferðileg álitamál og takmarkanir rannsóknar. 3.1 Rannsóknaraðferðir Í grunninn eru tvær megin rannsóknaraðferðir innan félagsvísinda, megindleg og eigindleg (Padgett 2008). Í þessari rannsókn er samþætting (e. triangulation) beggja aðferða notuð við öflun gagna og leitast við að blanda saman niðurstöðukaflanum. Samþætting býr til samlegðaráhrif og eykur réttmæti rannsóknarinnar (Sigríður Halldórsdóttir og Sigurlína Davíðsdóttir, 2013). Það kallast blönduð aðferð þar sem notast er við bæði megindlega og eigindlega nálgun. Gagnanna er aflað samhliða hvor annarri og nefnist tengt snið (e. embedded design). Í tengdu sniði er önnur rannsóknin mikilvægari og hin notuð til stuðnings niðurstaðna (Sigurlína Davíðsdóttir og Anna Ólafsdóttir, 2013). Í þessari rannsókn er eigindlega aðferðin mikilvægari. Megindleg aðferð byggir á því að rannsóknargögnum er safnað á kerfisbundinn hátt, gögnin eru tölusett og með því er hægt er að mæla þau. Rannsóknarsnið í megindlegum rannsóknaraðferðum eru til dæmis greining fyrirliggjandi gagna, spurningalistar, tilraunir og megindleg innihaldsgreining (Sigurlína Davíðsdóttir, 2013). Einn helsti kostur megindlegrar aðferðar er að almennt er auðvelt að endurtaka hana og ef úrtakið sem verið er að rannsaka er nógu stórt er hægt að færa niðurstöður af úrtakinu yfir á þýði (Jón Gunnar Bernburg, 2005). Megindlegi hluti þessara rannsóknar er svokölluð lýsandi rannsókn þar sem notast er við einliðasnið (e. single-subject design). Með lýsandi rannsókn (e. descriptive research) er markmiðið að kanna stöðu mála á þeim tíma sem verið er að framkvæma rannsóknina og lýsa ákveðnum fyrirbærum og samböndum án þess að hafa áhrif á það sem verið er að mæla (Ragnheiður Harpa Arnardóttir, 2013). Einliðasnið er öflug leið til samhæfingar rannsókna þar sem hegðun einstaklings er skoðuð með endurteknum mælingum mismunandi tímaskeiða. Eitt tímaskeiðið er grunnskeið og kallað tímabil viðmiðsskráninga (Guðrún Árnadóttir og Þorlákur Karlsson, 2013). Megindlegi hluti þessarar rannsóknar byggir á notkun alþjóðlegs og viðurkennds matstækis sem metur breytingar á milli mælinga með stöðluðum hætti. Lagðir voru fyrir matslistar og niðurstöður þeirra notaðar til að varpa ljósi á stöðu þátttakenda. Eigindlegri rannsóknaraðferð er ætlað að fanga reynslu og upplifun fólks í lífinu. Sú aðferð snýr að því að skilja eitthvað fyrirbæri án þessu að spá fyrir um eitthvað. Niðurstöður þeirra er ekki tölulegur samanburður heldur leitast við að skilja reynslu ólíkra einstaklinga og hópa. Eigindlegi rannsakandinn getur einnig brugðist við hrynjanda í frásögn og lífsreynslu þátttakanda (Drake, o.fl., 1993; Jón Gunnar Bernburg, 2005; Sigríður Halldórsdóttir, 2013). Megindlegar rannsóknir eru góðar í að meta hvað virkar á meðan eigindlegar aðferðir eru til þess fallnar að meta hvernig fyrirbærið virkar (Drake, o.fl., 1993; Reichardt og Rallis, 1994; Sigurlína Davíðsdóttir og Anna Ólafsdóttir, 2013). Í þessari rannsókn eru eigindlegi og megindlegi hlutinn metnir í sitthvoru lagi en styðja hvorn annan. Megindlegi hlutinn metur breytingar á líðan og hegðun þátttakenda fyrir og eftir námskeið ásamt því að meta upplifun þátttakenda af streitu. Eigindlegi hlutinn metur upplifun og reynslu þátttakenda af áhrifum náttúru á streitu. Fyrir megindlega hlutann var annars vegar notast við sjálfsmatslista sem mæla breytingar á líðan og hegðun þátttakenda og hins vegar skalaspurningar til þess að mæla upplifun þeirra af streitu. Með þessu móti er hægt að samþætta gagnaöflunina til að fá ítarlegri mynd af rannsóknarefninu og stöðu þátttakenda. 3.2 Matslistar ASEBA ASEBA er skammstöfun fyrir Achenbach System of Empirically Based Assessment. ASEBA er staðlað mælitæki sem notað er til að meta fólk á aldrinum 1,5 árs til 90 + ára og er notað við fjölbreyttar aðstæður innan velferðarþjónustunnar. Staðlað matstæki merkir að það er sambærilegt milli landa, niðurstöður samanburðarhæfar milli einstaklinga og gefin eru út fyrirmæli um fyrirlögn og úrvinnsla gagna. ASEBA matslistarnir eru ætlaðir til gagnaöflunar við mat á stöðu, líðan og hegðun einstaklinga. Hægt er að nýta matslistana til að afla gagna frá einstaklingnum sjálfum, maka eða öðrum sem þekkja til viðkomandi. ASEBA matslistarnir eru notaðir í skólum, heilbrigðisþjónustu, geðheilbrigðissviði, félagsþjónustu, meðferðarvinnu, þjálfun ýmiss konar, lýðheilsukönnunum og í rannsóknarskyni líkt og hér er gert (Aseba á Íslandi, e.d.; Halldór Sigurður Guðmundsson, 2006). Matslistarnir sem notast var við í þessari rannsókn samanstanda af fjórum blaðsíðum þar sem á fyrstu tveimur síðum er spurt út í félagslega þætti í lífi og starfi og aðlögunarhæfni einstaklinga. Til þess að skoða það nánar er spurt út í þætti eins og hjúskaparstöðu, samskipti við maka, menntun, vini og vinatengsl, atvinnuhagi og samskipti á vinnustað, fjölskyldu og samskipti innan hennar. Þessir þættir mynda saman þátt sem hægt væri að kalla aðlögun og færni einstaklingsins. Á blaðsíðu tvö eru líka opnar spurningar sem kanna styrkleika og áhyggjur og síðan eru 126 fullyrðingar þar sem þátttakandi þarf að svara eða meta hverja fullyrðingu með því að merkja við 0, 1 eða 2. Gildin standa fyrir 0 = ekki rétt, 1 = að einhverju leyti eða stundum rétt, og 2 = á mjög vel við eða er oft rétt. Við úrvinnslu listanna er notast við sérstakan vefhugbúnað (aseba-web) fyrir ASEBA matslistanna sem býður upp á að setja fram niðurstöður á myndrænan og tölulegan máta. Við úrvinnsluna raðast fullyrðingarnar í átta flokka sem kallast einkennaþættir ASEBA. Niðurstöður úr matslistunum eru styrkleikar (e. personal strengths), innri líðan (e. internalizing problems), hegðunarerfiðleikar (e. externalizing problems) og heildarerfiðleikar (e. total problems). Svokallaðir undirþættir koma undir hvern þessarra safnflokka. Undir styrkleika eru sjálfsmynd og hugmyndir um eigin getu. Undir innri vanlíðan eru kvíði/þunglyndi, hlédrægni/óframfærni og líkamleg vanlíðan. Undirþættir hegðunarerfiðleika eru reiði/árásarhegðun, óhlýðni/andfélagsleg hegðun og uppáþrengjandi hegðun (Halldór Sigurður Guðmundsson, 2006). Áreiðanleiki (e. reliability), réttmæti (e. validity) og þáttabygging (e. factor structure) ASEBA matslista er staðfestur með ítarlegum rannsóknum (Achenbach og Rescorla, 2015; Halldór Sigurður Guðmundsson, 2006). Þegar talað er um áreiðanleika er átt við að samræmi er á milli endurtekinna mælinga. Réttmæti fjallar um hvort það sem raunverulega er verið að mæla sé rétt metið af matstækinu. Innra réttmæti snýr að matstækinu sjálfu og hve vel það fellur að því sem verið er að mæla og ytra réttmæti fjallar um alhæfingagildi niðurstaðna yfir á þýði (David og Sutton, 2011; Guðrún Pálmadóttir, 2013). Í þessari rannsókn var notaður ASR sjálfsmatslisti fullorðinna á aldrinum 18-59 ára (e. adult self report) sem var lagður fyrir þátttakendur og ABCL matslisti fyrir maka og aðra (e. adult behavior checklist) sem var lagður fyrir aðstandendur. Listarnir eru samhljóða. ABCL metur félagsfærni (e. adaptive functioning scale) og skoðar því samskipti við vini, maka, fjölskyldu, vinnu, menntun og styrkleika viðkomandi. Í þessari rannsókn er áhersla lögð á að skoða breytingu milli mælinga á líðan, hegðun, heildarerfiðleikum og styrkleikum. Við þann samanburð eru notuð t-gildi sem koma fram við skorun listanna í þeim hugbúnaði sem svör við spurningum eru slegin inn í. T-gildin eru reiknuð á grunni viðmiða sem byggja á íslenskum rannsóknargögnum og eru samanburðarhæf á milli einstaklinga og endurtekinna mælinga (Achenbach og Rescorla, 2015). Skalaspurningar Notast var við skalaspurningar til þess að meta upplifun þátttakenda af streitu fyrir og eftir námskeið. Spurningarnar voru tvær og eftirfarandi: 1. Á skalanum 0–10 hvernig upplifir þú streitu þína í dag? 0 er engin streita, 10 er mesta mögulega streita sem þú upplifir. 2. Hvernig upplifir þú lífið þitt í dag, gott eða vont á kvarðanum 0 til 10? 0 er slæmt, 10 gott. Svörin voru slegin inn í töflureikni og niðurstaða sett fram sem stöplarit. 3.3 Gagnaöflun og greining Til að tryggja aðferðafræðilegan staðal er mikilvægt að huga að framsetningu og öflun gagna (Padgett, 2008). Í þessari rannsókn var notast við fyrrgreindar aðferðir við gagnaöflun. Við öflun eigindlegra gagna var stuðst við fyrirbærafræðilega nálgun (e. phenomenology) sem rannsakar upplifun og reynslu þátttakenda ásamt því að reyna að skilja aðstæður þeirra (Padgett, 2008). Notast var við hálfstöðluð viðtöl (e. semistructured interwiew). Padgett nefnir að slík viðtöl gefi rými til frjálslegra samskipta og samtals milli þátttakanda og rannsakanda ásamt því að fanga upplifun og reynslu viðmælenda. Viðtalsvísir (fylgiskjal 1 og 2) var hafður til hliðsjónar á meðan á viðtölum stóð og leitaðist rannsakandi við að spyrja opinna spurninga. Padgett (2008) nefnir að opnar spurningar auki breidd og dýpt viðtalanna. Rannsakandinn notaði einnig fylgispurningar (e. probing) til að fá meiri dýpt í viðtölin. Með þeim er spurt frekar út í ákveðin atriði viðtals og viðmælandi hvattur til að útskýra betur hvað hann er að segja hverju sinni ásamt því að bera saman við það sem áður var sagt (Padgett, 2008). Rannsakandi skráði einnig vettvangsnótur og athugasemdir í þar til gerða bók eftir að viðtali lauk en Padgett nefnir að vettvangsnótur (e. field notes) séu mikilvægur þáttur í gagnaöflun. Mikilvægt er að þær séu skráðar um leið eða strax eftir að viðtali lýkur ásamt því að rannsakandi sé vakandi fyrir eigin fordómum og/eða eigin hugmyndum um viðfangsefnið (Padgett, 2008). Viðtölin voru tekin upp og svo afrituð, viðtölin kóðuð og þemagreind með opinni kóðun (e. open codes) og svo þemagreiningu (e. theme analysis). Markmiðið var að tengja það sem spurt var um í viðtalsvísi við rannsóknarspurningarnar ásamt því að kanna hvað væri sameiginlegt í frásögnum þátttakenda (Sigurlína Davíðsdóttir, 2013; Padgett, 2008). Síðan voru sameiginleg þemu flokkuð í yfir- og undir þemu (Elliot, 2018; Sigríður Halldórsdóttir og Ragnheiður Harpa Arnardóttir, 2013). Eins og fram kemur í viðtalsvísi 1, voru áherslur í upphafsviðtali að kanna aldur, félagsstöðu, upplifun og birtingarmyndir streitu, hvernig þátttakandi hefði tekist á við streitu fram til þessa, tengsl við náttúru og tilfinningalega líðan. Síðari viðtalsvísir var svo mótaður út frá fyrri viðtölum þar sem áhersla var lögð á náttúruupplifun, upplifun streitu og hvort streitueinkenni hefðu breyst við að taka þátt í námskeiðinu og fara út í náttúruna. Í megindlega hluta rannsóknarinnar voru lagðir fyrir matslistar frá ASEBA fyrir þátttakendur og aðstandendur auk skalaspurninga fyrir þátttakendur. Fjórir þátttakendur af sjö samþykktu að biðja aðstandenda að fylla út matslista og þrír af þeim skiluðu listunum. Með því að leggja matslista fyrir aðstandendur var ætlunin að fá ítarlegri mynd af stöðu þátttakandans þar sem aðstandandi lýsir upplifun sinni og mati. Með því að bera saman niðurstöður þátttakenda og aðstandenda er hægt sjá hvort samræmi sé á milli svaranna. Notast var við vefhugbúnaðinn (e. aseba-web) til þess að vinna úr niðurstöðum matslistanna og bera saman svör þátttakanda og aðstandanda (aseba-web. e.d). Þá voru svör þátttakenda við sjálfsmatslistanum (ASR) keyrð í nýlegum hugbúnaði (e. progress and outcomes) sem hannaður er til að reikna úr breytingar á milli mælinga, þ.e. hvort breytingin á milli upphafs- og lokamælingu sé marktæk eða tilviljun (Achenbach, 2020). 3.4 Þátttakendur Þýðið voru þátttakendur á námskeiðinu í júlí 2020 og tóku allir þátt í rannsókninni. Allir þátttakendur áttu það sameiginlegt að vera vísað á námskeiðið frá VIRK starfsendurhæfingu og voru að takast á við streitutengdan vanda. Þátttakendur voru sjö, á aldrinum 32–62 ára (sjá töflu 1). Þátttakendur voru annaðhvort í veikindaleyfi eða án atvinnu fyrir utan einn sem var í 50% starfi og hjúskaparstaða þeirra mismunandi. Einn þátttakandi var heyrnarlaus og var túlkur fenginn til aðstoðar, bæði á námskeiðinu og í viðtölum. Nöfnum, aldri, hjúskaparstöðu og fjölda barna og kyni hefur verið breytt til að tryggja trúnað. Upplýsingar sem hér koma fram byggja á upplýsingum úr fyrra viðtali. Tafla 1 Þátttakendur Nafn Aldur Hjúskapar-staða Menntun Atvinnustaða Ögur 32 Einstætt Framhaldsskólapróf veikindaleyfi Logn 50 Einstætt Háskólapróf veikindaleyfi Norðan 61 Fráskilin Grunnskóli Án atvinnu Brim 45 Gift Háskólapróf veikindaleyfi Austan 62 Gift Grunnskóli Án atvinnu Stormur 41 Sambúð Háskólapróf veikindaleyfi Vestan 47 Gift Háskólapróf 50% veikindaleyfi 3.5 Framkvæmd rannsóknar Viðtöl og fyrirlagning matslista og skalaspurninga fóru fram í upphafi og lok námskeiðsins. Þátttakendur fengu matslista og skalaspurningar útprentaðar í umslagi og svöruðu á staðnum. Aðstandendur fengu afhentan matslista í lokuðu umslagi sem þátttakandi kom svo til skila til rannsakanda. Fimm af sjö þátttakendum rannsóknarinnar svöruðu matslistum eftir fyrsta tíma námskeiðsins en tveir svöruðu áður en að námskeið hófst. Fjögur viðtöl fóru fram eftir að fyrsta tíma var lokið en þrjú viðtöl fóru fram áður en námskeið hófst. Allir þátttakendur höfðu lokið námskeiðinu þegar síðara viðtalið fór fram. Tími á milli viðtala og fyrirlagningu matslista var breytilegur, eða á bilinu 16 til 40 dagar. Viðtölin fóru ýmist fram á starfsstöð rannsakanda eða í lokuðu rými á bókasafni. Eins og áður kom fram var notast við viðtalsvísi í upphafi sem hafði verið útbúinn með markmið rannsóknarinnar í huga en í því síðara var einnig stuðst við fyrirliggjandi gögn úr fyrri viðtölum. Hliðarverðir (e. gatekeepers) eru þeir sem samþykkja rannsóknina svo hún geti átt sér stað ásamt því að aðstoða rannsakanda við að ná til þess hóps sem rannsóknin beinist að (Padgett, 2008). Hliðarverðir þessara rannsóknar voru eigendur og stofnendur Saga-Story House ehf sem voru jafnframt leiðbeinendur námskeiðsins SHÁNS. Þeir sendu kynningarbréf um rannsóknina með tölvupósti til allra sem skráðir voru á námskeiðið, ásamt beiðni um þátttöku í rannsókninni (viðauki 2). Í kynningarbréfinu kom meðal annars fram markmið rannsóknar, trúnaður og meðhöndlun gagna. Til þess að freista þess að tryggja þátttöku mætti rannsakandi einnig í upphafi námskeiðs til þess að kynna rannsóknina og óska eftir þátttöku. Leiðbeinendur sendu svo rannsakanda upplýsingar í gegnum tölvupóst um þá sem hefðu samþykkt þátttökuna. Í kjölfarið hafði rannsakandi beint samband við þátttakendur og skipulagði fund í samráði við þá. Allir þátttakendur skrifuðu undir trúnaðaryfirlýsingu og upplýst samþykki (viðauki 1). 3.6 Siðferðileg álitamál og takmarkanir rannsóknar Siðferðileg viðmið í rannsóknum voru höfð að leiðarljósi við framkvæmd rannsóknarinnar, en þau eru sjálfræðisreglan (e. principle of respect for autonomy), skaðleysisreglan (e. principle of non-maleficence), velgjörðarreglan (e. principle of beneficence) og réttlætisreglan (e. principle of justice). Sjálfræðisreglan fjallar um rétt hverrar manneskju til sjálfstæðis, nafnleyndar, virðingar, réttar til að hætta þátttöku hvenær sem á rannsókn stendur og að gefa viðkomandi rými til að svara ekki ákveðnum spurningum ef hann kýs svo. Rannsakandi nefndi þessa þætti í trúnaðaryfirlýsingunni og svo í upphafi viðtals. Skaðleysisreglan á við um mikilvægi þess að rannsóknin skaði ekki þátttakanda með nokkru móti. Allir þátttakendur fengu kynningarbréf þar sem markmið, tímalengd rannsóknar og lýsing á henni komu fram. Síðar lásu allir þátttakendur trúnaðaryfirlýsingu þar sem nafnleynd kom fram sem þeir og rannsakandi kvittuðu svo undir. Hver þátttakandi fékk dulnefni og nokkrum þáttum var breytt sem hefur ekki áhrif á niðurstöður rannsóknar, til að tryggja trúnað. Einnig lagði rannsakandi til hlutlausan stað og öruggt umhverfi til viðtals. Velgjörðarreglan inniheldur tilmæli um að rannsóknin leiði eitthvað gott af sér og nýti leiðir sem fórna sem minnstu. Í kynningarbréfi var nefnt að niðurstöður rannsóknar muni nýtast til frekari rannsóknar á sviði úrræða gegn streitu og rannsakandi lagði sig fram við að rannsóknin hefði sem minnst áhrif á daglegt líf þátttakenda. Síðast er það réttlætisreglan en hún snýr að minnihlutahópum og verndun þeirra fyrir allri mögulegri áhættu. Rannsakandi lagði sig fram við að virða manngildi og sérstöðu hvers þátttakenda og fara ekki í manngreinarálit (Sigurður Kristinsson, 2013). Padgett (2008) nefnir mikilvægi þess að rannsakandi skrái niður hvert skref rannsóknarferilsins í þar til gerða dagbók. Rannsakandi gerði það. Í upphafs- og lokaviðtölum spurði rannsakandi út í viðkvæmar upplýsingar og opnaði í sumum tilfellum á erfiða reynslu sem kom þá viðmælanda í tilfinningalegt uppnám. Padgett (2008) nefnir að þá sé mikilvægt að benda viðmælanda til viðeigandi fagaðila, sem rannsakandi gerði. Rannsakandi áttaði sig á mikilvægi þess að aðskilja eigin upplifun og reynslu af áhrifum þess að dvelja í náttúru á streitu frá reynslu viðmælendanna til að geta greint það sem þeir væru að lýsa. Morse og Field (1995) nefna mikilvægi þeirrar hæfni í eigindlegum rannsóknaraðferðum. Padgett (2008) nefnir að mikilvægt sé að vera vakandi fyrir eigin fordómum og hlutdrægni og að vera næmur fyrir upplifun og reynslu þeirra sem rannsakandinn er að rannsaka. Hlutdrægni viðmælanda getur einnig haft áhrif. Rannsakandi leitaðist við að vera vakandi fyrir eigin skoðunum, tilfinningum eða hlutdrægni þegar kom að því að kóða og þemagreina gögnin. Viðmælendur voru sjö þátttakendur. Þrátt fyrir fáa viðmælendur þá geta þeir útskýrt fyrirbærið ef nægileg mettun (e. saturation) næst í viðtölum. Ein af þeim hættum sem skapast í rannsóknum á fyrirbærum er að hætta of snemma að safna gögnum sem veldur því að rannsakandinn er ekki komin með nógu skýra sýn á það sem verið er að rannsaka. Ef rannsakandi heldur áfram að safna gögnum þar til hann er í raun hættur að heyra nýja hluti varðandi fyrirbærið sem hann er að rannsaka, þá er talað um að mettun hafi náðst. Mettun er hluti af innra réttmæti, oft kallað trúverðugleiki innan eigindlegra rannsókna og vísar til þess hversu vel er hægt að fullyrða að þær breytingar sem rannsókn sýnir fram á, hafi raunverulega orðið vegna meðferðarinnar sem verið er að skoða (Sigríður Halldórsdóttir og Sigurlína Davíðsdóttir, 2013). Því eru niðurstöðurnar í þessari rannsókn notaðar til skilnings og aukinnar þekkingar á því sem verið var að rannsaka. Einn þátttakandi var heyrnarskertur og þurfti að nota túlkaþjónustu. Rannsakandi fór yfir mikilvægi þess að koma upplýsingum sem skýrast til skila og koma í veg fyrir mögulegan misskilning. Sérstaklega var rýnt í sum svör viðmælandans og spurningar endurteknar í einhverjum tilfellum. Padgett (2008) nefnir mikilvægi þess ef nýta þurfi slíka þjónustu þurfi samskiptin að vera skýr frá upphafi. Hafa ber í huga áhrif sem rannsakandi og rannsóknin sjálf getur haft á þátttakendur rannsóknarinnar, svokölluð Hawthorn áhrif (e. effect). Áhrifin lýsa sér í því að þátttakendur í rannsókn breyta hegðun sinni af því að þeir eru til rannsóknar og eru þá breytingar sem mælast, ekki vegna meðferðarinnar sjálfrar heldur vegna þessara áhrifa (Adair, 1984; Sigríður Halldórsdóttir, 2013). Fagmenn nefna að þeir sem taka þátt í rannsókn geti mögulega átt betri upplifun af fyrirbærinu vegna athygli rannsakanda á reynslu þeirra og líðan í upphafi og lok rannsóknar (Padgett, 2008). Rannsakandi veitti því athygli að mögulega gæti aðkoma rannsakanda og rannsóknin sjálf haft áhrif á reynslu þeirra af námskeiðinu og upplifun af því að dvelja í náttúrunni. Ekki var talin þörf á að sækja um leyfi persónuverndar vegna eðlis rannsóknarinnar (Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000). 4 Niðurstöður Við framsetningu niðurstaðna er byrjað á því að bera eigindleg viðtöl hvers einstaks þátttakanda saman, upphafsviðtal og svo lokaviðtal. Á eftir því eru niðurstöður einstaklinga samkvæmt fyrri og seinni mælingu ASR sjálfsmatslistans settar fram með myndrænum hætti (stöplarit). Þá er loks leitast við að lýsa samsettum niðurstöðum fyrir alla þátttakendur og gerð grein fyrir marktekt niðurstaðna samkvæmt sjálfsmatslistum. Í lokin er fjallað um niðurstöður skalaspurninga og í kjölfarið eru þemun greind ásamt undirþemum. 4.1 Niðurstöður viðtala og matslista Áður en lengra er haldið er mikilvægt að fjalla um af hverju þátttakendur ákváðu að koma á námskeiðið og hverjar væntingar þeirra voru. Eins og áður kom fram þá áttu þátttakendur það sameiginlegt að vera takast á við streitutengdan vanda ásamt því að sækja þjónustu til Virk. Þátttakendur nefndu að þeir vildu fá verkfæri til að takast á við streituna og upplifa aukna hæfni til að fanga líðan sína. Þeir vildu upplifa meiri virkni, vellíðan og sátt. Sumir vildu ná meiri tengslum við sitt innra sjálf eins og það er orðað og komast í meiri tengsl við núið. Logn Logn er 50 ára, einstætt foreldri og býr með uppkomnu barni sínu. Logn hefur lokið háskólaprófi og er í leyfi frá störfum þegar þessi rannsókn er gerð. Logn kvíðir því að byrja aftur að vinna og hefur verið í leyfi með hléum síðasta eitt og hálft árið. Töluverð streita er í starfsumhverfi Logns en einnig má merkja streitu í nánasta umhverfi og bakgrunni. Logn hefur mætt óvæntum hindrunum innan Virk bæði vegna Covid-19 og vanda með að finna úrræði sem hentaði. Bjartsýni Logns fyrir námskeiðinu virðist takmörkuð og nefnir að eftir þetta námskeið sé tímabært að hætta frekari tilraunum til bata. Logn er alin upp af fatlaðri móður og lærði fljótt að það var erfitt að mótmæla henni, það reyndist því auðveldara að gefa eftir með þeim afleiðingum að Logn þykir erfitt að setja mörk gagnvart sér og umhverfinu ásamt því að sýna sér mildi og skilning. Logn ól barn sitt upp sem var töluvert krefjandi, án stuðnings maka. Logn kveðst takast á við streitu með því að gefa eftir í samskiptum, borða sælgæti og sofa heilu dagana. Samkvæmt lýsingum og mati er Logn að takast á við þunglyndi, kvíða, einmanaleika, félagsfælni, vanvirkni, reiði og pirring, upplifir mikinn hraða í vinnunni og verulega tilfinningalega lægð þess á milli. Í síðara viðtali var annað yfirbragð á Logn. Logn sagðist ætla að fara á framhaldsnámskeið og lýsir meiri virkni ásamt aukinni félagsfærni. Logn endurvakti sundiðkun sína eftir að hafa lagt hana á hilluna í mörg ár. Logn upplifði meiri aðsókn í félagsskap og umhverfi náttúrunnar eða heilsurækt. Logn lýsti einnig meiri tengslum við tilfinningar sínar, minni streitu og upplifði þá von að allt færi til betri vegar. Logn talaði um minni dómhörku í eigin garð og að sér gengi betur að sýna sér mildi, samþykki og skilning. Logn sagðist vera jákvæðari, lífsglaðari og lýsti lífinu sem auðveldara en það var fyrir námskeið og sagðist upplifa meiri ró og jafnaðargeð. Logn var engu að síður enn að upplifa depurð, streitu og löngun í sælgæti eftir námskeiðið en sagðist vera í betri tengslum við tilfinningar sínar sem væri gott. Mikilvægt er að hafa í huga að þó Logn hafi upplifað miklar breytingar þá voru streitueinkenni enn til staðar í lok námskeiðsins, en í minna mæli en áður. Samandregnar niðurstöður sjálfsmatslista (ASR) hjá Logn sýna að styrkleikar hafi minnkað en innri líðan og hegðunarerfiðleikar batnað og heildarerfiðleikar minnkað. Mælingin sýnir að líkamlegir þættir/vanlíðan hefur aukist lítillega milli mælinga og því hefur líðan lítillega breyst, þrátt fyrir verulega minni kvíða og depurð. Logn upplifir að reiðitengd hegðun hafi minnkað verulega. Þó að styrkleikar minnki þá benda önnur atriði matslistans til þess að um jákvæða breytingu sé að ræða í heildina tekið og vísbendingar um aukið næmni eða innsæi í eigin líðan og hegðun. Niðurstöður skv. sjálfsmati Logns, reiknast marktækar varðandi hegðun og heildarerfiðleikar við 68% öryggismörk ( * ) skv. framvindumati Aseba en ekki hvað varðar styrkleika og líðan. Mynd 1. Samsettar niðurstöður skv. mati Logn (ASR) 70 713963020406080 Styrkleikar Innri líðan Hegðun * Heildarerfiðleikar * Logn Upphafsmæling LokamælingVestan Vestan er 47 ára, býr með maka sínum, hefur lokið háskólaprófi og er í 50% starfsleyfi. Töluverða streitu má finna í frásögn Vestan sem talar um andlegt og líkamlegt ofbeldi bæði í bernsku og á fullorðinsaldri sem viðkomandi hefur ekki unnið úr. Vestan missti gæludýrið sitt á árinu sem hefur valdið mikilli sorg, ekki síður vegna skilningsleysis nánustu aðstandenda að mati Vestan. Vestan hefur gengið nærri sér reglulega síðustu ár í vinnunni og tekur veikindaleyfi út sem frídaga og fagnar því að fara í veikindaleyfi þegar minnst er að gera. Vestan upplifir ótta við að missa vinnuna ef farið er í 100% veikindaleyfi og leitar fremur í samþykki annarra en eigið samþykki og segist ekki upplifa sig sem nóg. Vestan á erfitt með að setja sig í forgang að eigin sögn. Birtingarmyndir streitu hjá Vestan eru svefnleysi, sviði yfir kviðsvæði, ráðaleysi, vöðvabólga, skjálfti, ofvirkni, verkir í stoðkerfi, fullkomnunarárátta, kvíði, sorg, forðunarhegðun og einangrun. Í síðara viðtali lýsti Vestan því að hafa gengið í gegnum veikindi í þrjár vikur og þá misst af tveimur gönguferðum. Vestan mætti í öll verkefnin þrátt fyrir veikindin. Vestan lýsti aukinni athygli, dýpri tengslum við sjálfa sig og aukinni seiglu. Vestan lýsti því einnig að hugarfarið væri að breytast meðmeiri mildi gagnvart sér og samþykki að aukast. Vestan upplifir sig vera í upphafinu á löngu ferli og þetta séu fyrstu skrefin í átt að bata. Streita hefur minnkað að einhverju leiti en Vestan upplifir sig þó vera enn í mikilli streitu og hraða. Vestan þykir lífið örlítið auðveldara en það var í fyrra viðtali en upplifir ótta við að falla í sama farið nema fara á framhaldsnámskeið. Vestan upplifir enn miklar kröfur frá ytra umhverfi, á erfitt með að setja sig í forgang og samþykkja tilfinningar sínar. Vestan leyfir sér ekki að upplifa sorgina sem ekki var unnið úr, af ótta við að missa alveg tökin. Vestan er enn í 50% starfshlutfalli og segir að lífinu fylgi mikill hraði og stjórnleysi. Vestan fór beint til vinnu eftir námskeiðið hverju sinni og segir að líklega hefði reynslan verið önnur ef svo hefði ekki verið. Vestan lýsir enn mikilli þreytu og því að eiga erfitt með að hlúa að sér. Samandregnar niðurstöður sjálfsmatslista (ASR) Vestan sýna að í heild hafa styrkleikar minnkað rétt eins og hjá Logn en innri líðan og hegðun batnað og heildarerfiðleikar minnkað. Við nánari skoðun kemur í ljós að upplifun um eigið virði hefur styrktst og sektarkennd minnkað sem er jákvætt gagnvart kvíðanum sem Vestan talar um að upplifa. Þá hefur dregið úr neikvæðri hegðun og árásahneigð en þörfin til að vera í friði eða einangra sig aukist. Breytingar á milli mælinga skv. sjálfsmati Vestan, reiknast marktækar varðandi styrkleika og hegðun við 68% öryggismörk ( * ) en ekki hvað varðar líðan og heildarerfiðleika skv. framvindumati ASEBA. Mynd 2. Samsettar niðurstöður skv. mati Vestan (ASR) Ögur Ögur er 36 ára, einstætt foreldri og býr með barni sínu á grunnskólaaldri. Ögur var ættleiddur, hefur lokið framhaldsskólaprófi og hefur sinnt sama starfi í um áratug. Ögur hefur verið í leyfi frá vinnu í einn dag þegar þessi rannsókn er framkvæmd og greina má streitutengda atburði. Báðir fósturforeldrar greindust með krabbamein með stuttu millibili og eru látnir og Ögur greindist svo sjálfur með krabbamein stuttu eftir að fósturforeldrarnir greindust. Foreldrar voru báðir alkóhólistar og nefnir Ögur mikla streitu í bernskunni sem afleiðingu þess. Ögur telur atvinnuna streituvaldandi og nefnir einnig að hafa átt í vanda í samskiptum við sína nánustu. Ögur talar um að leita í áfengi til þess að takast á við streituna, ekki síst þegar barnið er aðra hverja helgi hjá hinu foreldrinu. Þá segist Ögur einnig eiga erfitt með að setja sér og öðrum mörk og að kunna ekki að tala út eigin upplifun af raunveruleikanum. Ögur talar líka um að upplifa slæmar tilfinningar á borð við kvíða, depurð og sorg. Ögur nefnir í síðara viðtali að líðan hafi batnað og talar um dýpri tengsl við sig og meiri hæfni til að setja sig í forgang. Ögur segist sýna sér meiri mildi og samþykki en áður og að aukin slökun í tengslum við námskeiðið sé valdeflandi. Ögur segist upplifa minni streitu en segir á sama tíma að lífið sé enn frekar krefjandi. Ögur nefnir að streitan sé ekki alveg farin, hæfnin til að fanga hana hefur einfaldlega aukist. Ögur upplifir meiri hægð og ró en í síðara viðtali og segist léttari í lund. 6663646010305070 Styrkleikar * Innri líðan Hegðun * Heildarerfiðleikar Vestan Upphafsmæling LokamælingSamandregnar niðurstöður sjálfsmatslista (ASR) Ögur sýna að styrkleikar hafa aukist en vanlíðan, hegðun og heildarerfiðleikar hafa aukist miðað við fyrri niðurstöðurnar. Niðurstöður mælinganna eru í raun úr takti við það sem Ögur segist vera að upplifa en talaði þó um aukna hæfni til að takast á við streitu. Það gæti verið vísbending um að þrátt fyrir að mælingin sýni meðal annars aukin kvíða og árásarhneigð, þá séu tilfinningaleg tengsl hugsanlega að aukast. Niðurstöður skv. sjálfsmati Ögurs, reiknast marktækar varðandi líðan, hegðun og heildarerfiðleikar við 68% öryggismörk ( * ) skv. framvindumati ASEBA en breyting varðandi styrkleika reiknast ekki marktæk. Mynd 3. Samsettar niðurstöður skv. mati Ögur (ASR) Brim Brim er 45 ára, hefur lokið háskólaprófi, er í fjarbúð og á fjögur börn. Brim er í veikindaleyfi frá störfum og hefur verið um tvo mánuði þegar rannsókn er framkvæmd. Brim fór í Virk í kjölfar veikindaleyfis og er þetta námskeið þáttur endurhæfingarinnar. Það má heyra talsverða álagspunkta í sögu Brim sem hefur haft veruleg áhrif á líðan og afkastagetu. Fyrir um áratug missti Brim barn og talar um að aldrei hafi náðst að vinna almennilega úr því áfalli. Brim telur sorgina vera uppsprettu örmögnunar í sínu lífi. Brim nefnir þörf fyrir að fá samþykki og viðurkenningu frá ytra umhverfi og sú þörf ýti undir vanda við að setja sér heilbrigð mörk og gefa sér persónulegt rými. Brim talar um fjölmörg atriði varðandi birtingarmyndir streitunnar. Þar á meðal eru höfuðverkur, minnisleysi, svimi, óróleiki og hraði, ráðaleysi, kvíði, hjartsláttaróregla, sorg, framkvæmdarleysi, ógleði, lágur áreitisþröskuldur og óþolinmæði. 58 51 5361 55 5710305070 Styrkleikar Innri líðan * Hegðun * Heildarvandi * Ögur Upphafsmæling Lokamæling Í síðara viðtali lýsti Brim aukinni hæfni til að njóta og vera og sagðist upplifa meiri mildi, sjálfsskilning og nærgætni gagnvart sér. Þá talar Brim um minni hörku og sjálfsgagnrýni en á sama tíma meðvitund um að eiga þó nokkuð í land til að endurheimta sig. Brim nefndi meiri áherslu á að setja sig í forgang og upplifði meiri tengsl við innri líðan og raunveruleikaskynjun. Brim lýsti reynslu sinni að hafa verið á flótta frá raunveruleikanum og hörkunni og upplifði meiri meðvitund og samþykki í kjölfar námskeiðs. Brim upplifði minni streitu og að lífið væri auðveldara en fyrir námskeið. Brim sagðist dæma sig fyrir að vera í veikindaleyfi en lærði á námskeiðinu að mæta sér oftar með skilningi mildis. Samandregnar niðurstöður sjálfsmatslista (ASR) Brim sýna að styrkleikar hafa aukist og innri vanlíðan, hegðunarerfiðleikar og heildarerfiðleikar minnkað. Mælingin sýnir talsverðan mun á milli mælinga, þar á meðal áberandi jákvæða breytingu varðandi innri líðan, kvíða og jákvæðara hugarfar. Það passar vel við frásögn Brim af upplifuninni af námskeiðinu auk þess hafa þættir sem snúa að ytri vanda í flestum tilvikum batnað. Þar á meðal á Brim betra með að halda athygli og neikvæð hegðun hefur minnkað. Niðurstöður skv. sjálfsmati Brim sýna einnig að þær reiknast marktækar varðandi styrkleika við 68% öryggismörk og við 95% mörk varðandi líðan og heildarerfiðleika skv. framvindumati ASEBA en ekki mældist marktækur munur hvað varðar hegðun. Mynd 4. Samsettar niðurstöður skv. mati Brim (ASR) Stormur Stormur er 41 árs, í sambúð, á engin börn og hefur lokið háskólamenntun. Mánuður er liðinn frá því Stormur fór í veikindaleyfi vegna streitu þegar fyrra viðtalið var tekið. Þegar saga Storms 70 683964 6310305070 Styrkleikar * Innri líðan * * Hegðun Heildarerfiðleikar * * Brim Upphafsmæling Lokamælinger skoðuð komu streitutengdir atburðir fram sem höfðu haft töluverð áhrif á líðan. Stomur segist hafa verið í krefjandi alkóhólísku sambandi og átti erfitt með að skilgreina sig í sambandinu. Stormur segir að makinn hafi beitt sig andlegu ofbeldi sem aldrei hafi verið unnið úr. Stormur vinnur í umhverfi þar sem mikil streita einkennir hvern dag og taldi sambland óunninna tilfinninga og streitu vera forsenda örmögnunar. Stormur segist sækja í samþykki annarra til dæmis með því að leggja mikið á sig til að fá hrós með þeim afleiðingum að hafa átt erfitt með að setja sér heilbrigð mörk bæði í vinnu og persónulegu lífi. Stormur hefur sótt tíma hjá sálfræðingi sem hafi skilað árangri. Stormur segist nota hreyfingu og áfengi til að takast á við streitu. Samkvæmt Storm eru birtingarmyndir streitunnar mikil fullkomnunarárátta, þráhyggja, kvíði og hraði í bland við framkvæmdarleysi og vanda með að halda athygli. Í síðara viðtali lýsti Stormur talsverðri breytingu sem fæli í sér aukna ró, núvitund og jákvæðari líðan. Einnig nefndi Stormur aukna hæfni til að sýna sér mildi og samkennd ásamt ríkari löngun að setja sig í forgang. Nærandi skynjun, umhyggja og sjálfsást voru orð sem Stormur notaði sem lýsingar af reynslu sinni. Streitan minnkaði og Stormur upplifði að lífið væri orðið auðveldara eftir námskeiðið. Stormur talaði samt um ótta við að fara aftur til vinnu og hvort sú reynsla sem hefði áunnist myndi viðhaldast í umhverfi þar sem streitan væri mikil. Stormur sagðist hafa látið áfengisneyslu eiga sig á meðan á námskeiðinu stóð og sagðist í framhaldi af námskeiðinu upplifa meiri ró, minni hörku í eigin garð og aukna ábyrgðartilfinningu gagnvart líðan sinni og upplifunum. Samandregnar niðurstöður sjálfsmatslista (ASR) Storms sýna að styrkleikar hafa töluvert aukist og innri vanlíðan, hegðunarerfiðleikar og heildarerfiðleikar minnkað. Samkvæmt niðurstöðunum eru breytingar gagnvart þáttunum fjórum allar marktækar. Jákvæðar breytingar hafa orðið á nánast öllum þáttum sem snúa að innri og ytri þáttum mælinganna þar með talið minni kvíði, aukin vellíðan og jákvæðara hugarfar sem passar vel við frásögn Storms um að lífið væri orðið auðveldara. Eins og áður sagði sýnir mælingin að niðurstöðurnar reiknast marktækar. Þær eru marktækar miðað við 68% öryggismörk ( * ) varðandi innri líðan en 95% öryggismörk ( * * ) varðandi hina þrjá þættina skv. framvindumati ASEBA. Mynd 5. Samsettar niðurstöður skv. mati Storm (ASR) Norðan Norðan er 61 árs, fráskilið, einstætt foreldri með fjögur börn og lauk á sínum tíma grunnskólaprófi en hefur ekki sótt frekara nám eftir það. Norðan var í veikindaleyfi en í kjölfar Covid-19 faraldursins var starfinu sagt upp eftir 25 ár í starfi. Norðan var alin upp á brotnu heimili og foreldrar Norðan skildu í bernsku. Norðan segist hafa verið undir miklu álagi í starfi og talar um tíð umskipti yfirmanna og flutninga á milli deilda. Mikil veikindi, dauðsfall og samskiptavandi áttu sér stað innan fjölskyldunnar sem hafa haft sín áhrif á líðan. Norðan segist hafa tamið sér að fórna sér fyrir aðra, setja aðra í forgang og stýrast af samviskubiti og upplifun um að vera ekki að gera nóg. Norðan upplifir ótta við framhaldið og vonar innilega að fá starf sitt aftur. Til þess að takast á við streitu segist Norðan fara út í náttúruna í einrúmi. Norðan hefur verið í leyfi í nokkra mánuði þegar þessi rannsókn var framkvæmd en talar um fjölmörg einkenni sem birtingarmyndir streitunnar í gegnum tíðina. Meðal einkenna sem Norðan nefnir eru félagsfælni, kvíða, hausverkur og örmögnun. Þá talar Norðan einnig um vanda við að næra og þrífa sig ásamt svefnvanda, hjartsláttaróreglu, lág þolmörk, ógleði, hraða og svima. Norðan talar einnig um að hafa upplifað viðkvæmni fyrir áreiti hvort sem það tengist því að einbeita sér við að horfa á sjónvarp, lesa eða spjalla við aðra. Sumar birtingarmyndir segir Norðan að séu horfnar á meðan aðrar séu þrautseigari. Norðan segir að líðan hafi breyst til batnaðar frá því að hafa farið í veikindaleyfi fram að deginum í dag. Í kjölfar námskeiðsins lýsti Norðan jákvæðum breytingum gagnvart líðan sinni. Norðan upplifði meiri tengsl við tilfinningar sínar, meiri núvitund og ró ásamt meiri athygli sem snerti 62 63 6554 56 5510305070 Styrkleikar * * Innri líðan * * Hegðun * Heildarerfiðleikar * * Stormur Upphafsmæling Lokamælingbæði innri líðan og ytra umhverfi. Norðan lýsti jákvæðara hugarfari og meiri hæfni að setja sig í forgang og setja mörk gagnvart sér. Norðan nefndi þó enn ríka sektarkennd við að setja sig í forgang en aukin meðvitund var komin og um leið möguleikinn á að breyta þeirri upplifun. Norðan upplifir streituna með svipuðum hætti og í fyrra viðtalinu en upplifir lífið þó auðveldara eftir að hafa tekið þátt í námskeiðinu. Norðan talaði líka um minni dómhörku gagnvart sér og aukinni ábyrgð gagnvart örmögnuninni. Engu að síður finnst Norðan erfitt að samþykkja það sem raunverulega hvað hefur gerst varðandi líðan sína. Norðan upplifði mikla stoðkerfisverki en betri andlega líðan. Samandregnar niðurstöður sjálfsmatslista (ASR) Norðan sýna að styrkleikar hafa aukist og innri vanlíðan, hegðunarerfiðleikar og heildarerfiðleikar minnkað. Niðurstöðurnar sýna jákvæðar breytingar gagnvart svo til öllum þáttum mælinganna, bæði innri og ytri þáttum. Vísbendingar eru um betri líðan og minni kvíða auk þess sem mælingin staðfestir jákvæðara hugarfar sem Norðan talar um að finna fyrir. Niðurstöður skv. sjálfsmati Norðan, eru marktækar miðað við 68% öryggismörk ( * ) varðandi hegðun og heildarerfiðleika og 95% mörk ( * * ) varðandi innri líðan. skv. framvindumati ASEBA. En ekki mældist marktækur munur hvað varðar styrkleika. Mynd 6. Samsettar niðurstöður skv. mati Norðan (ASR) Austan Austan er 62 ára, á uppkomið barn, býr með maka sínum og er án atvinnu. Austan lauk grunnskólaprófi á sínum tíma en hefur ekki menntað sig eftir það. Austan nefnir nokkra streitutengda atburði sem hafa haft áhrif á líðan í gegnum tíðina. Austan hefur verið án atvinnu í meira enn eitt ár og maki er að takast á við krabbamein sem hefur haft gríðarleg áhrif á líðan. 6362555710305070 Styrkleikar Innri líðan * * Hegðun * Heildarerfiðleikar * Norðan Upphafsmæling LokamælingEinnig hefur verið samskiptavandi innan fjölskyldunnar. Austan hefur að eðlilegum ástæðum áhyggjur af framtíðinni, afkomu sinni og framtíðarhorfum maka. Austan segist nota áfengi til að takast á við streitu. Austan segist vera að takast á við kvíðaeinkenni, félagsfælni og að eiga í vanda með að halda athygli. Austan segist eiga erfitt með að treysta öðrum og upplifa vonleysi á sumum sviðum lífsins ásamt framkvæmdarleysi. Til þess að takast á við streitu segist Austan nýta sér náttúruna. Í síðara viðtali lýsti Austan bættri líðan og meiri meðvitund um innri líðan og umhverfi sitt. Austan sagðist upplifa meiri ró og hægð miðað við það sem áður var og meiri löngun til að mæta sér varðandi eigin líðan og raunveruleika. Austan lýsir vanmætti yfir stöðunni sem tekur við eftir að námskeiði lýkur, sérstaklega gagnvart fjárhagsstöðunni og veikindum maka sem hafa mikil áhrif. Austan segist þó upplifa minni streitu en á sama tíma væri upplifunin sú að lífið væri í raun erfiðara. Austan nefnir að breyting sé á því hvernig tekist er á við aðstæðurnar þó þær breytist ekki. Austan talar einnig um löngun til að fara á framhaldsnámskeið til að viðhalda nýfenginni reynslu. Austan segist upplifa meiri von, seiglu og tengsl við tilfinningar sínar. Samandregnar niðurstöður sjálfsmatslista (ASR) Austan sýna að styrkleikar hafa minnkað, innri vanlíðan minnkað, hegðun staðið í stað og heildarerfiðleikar minnkað. Lítils háttar breyting til batnaðar hefur orðið gagnvart kvíða, þá aðallega óöryggi og ótta. Einnig er orðin breyting til batnaðar varðandi einbeitingu og meiri geta til að skipuleggja. Niðurstöður gefa vísbendingar um að Austan viðurkenni við síðari mælingu ákveðinn vanda í samskiptum innan fjölskyldunnar en eigi jafnframt auðveldara með að umgangast aðra og hafi minni þörf til að einangra sig sem sýnir sig meðal annars í því að vilja fara á framhaldsnámskeið. Niðurstöður skv. sjálfsmati Austan eru marktækar miðað við 68% öryggismörk ( * ) varðandi innri líðan en 95% mörk ( * * ) varðandi styrkleika skv. framvindumati ASEBA. En ekki mældist marktækur munur hvað varðar hegðun og heildarerfiðleika. Mynd 7. Samsettar niðurstöður skv. mati Austan (ASR) 4.2 Samandregnar niðurstöður ASEBA matslista allra þátttakenda Þegar samandregnar niðurstöður styrkleikamats þátttakenda eru skoðaður kemur í ljós að styrkleikar/aðlögunarhæfni jukust hjá fjórum en minnkuðu hjá þremur og reyndust breytingarnar marktækar í fjórum tilvikum ýmist miðað við 68% ( * ) eða 95% ( * * ) öryggismörk. Undirþættir styrkleika eða aðlögunarhæfni eru vinir, makatengsl, fjölskyldutengsl, atvinna og menntun. Mynd 8. Samandregnar niðurstöður fyrir ASR styrkleika hjá öllum þátttakendum. 60 603460 6110305070 Styrkleikar * * Innri líðan * Hegðun Heildarerfiðleikar Austan Upphafsmæling Lokamæling 423146 4633 41 39 4034103050 Logn Vestan * Ögur Brim * Stormur * * Norðan Austan * * Styrkleikar Upphafsmæling LokamælingSamanburður á niðurstöðum um innri líðan allra þátttakenda sýnir að líðan batnaði hjá sex einstaklingum og er sú breyting marktæk hjá fjórum (95% eða 68% öryggismörk) en versnaði hjá einum (65% öryggismörk). Þegar innri líðan er metin er verið að skoða hleðslu á þrjá þætti, þ.e. kvíða og þunglyndi, hlédrægni eða óframfærni og svo líkamlega vanlíðan. Mynd 9. Samandregnar niðurstöður fyrir alla þátttakendur (ASR). Innri líðan. Samanburður á niðurstöðum þátttakenda á hegðunarerfiðleikum sýndi að allir upplifðu minni eða breytt vandkvæði vegna hegðunar og var breytingin marktæk hjá fimm af sjö. Þegar hegðunarerfiðleikar er metin er horft á hleðslu á þættina reiði og árásarhneigð, óhlýðni eða andfélagslega hegðun og svo uppáþrengjandi hegðun. Hjá Ögur jukust hegðunarerfiðleikar og hjá Austan breyttist samsetning og vægi undirþátta varðandi hegðun sem mælist í heild með sama stigafjölda í báðum mælingum. 6670 62 63696154 55 5510305070 Logn Vestan Ögur * Brim * * Stormur * * Norðan * * Austan * Innri líðan Upphafsmæling Lokamæling Mynd 10. Samandregnar niðurstöður fyrir alla þátttakendur (ASR). Hegðunarerfiðleikar. Samanburður á samandregnum niðurstöðum heildarerfiðleika allra þátttakenda sýndi að hann varð minni hjá öllum nema hjá Ögur. Breytingin var marktæk hjá öllum nema Vestan og Austan. Þegar heildarerfiðleikar er metin er hleðsla þáttanna líðan og hegðun að viðbættum hugarfarslegs vanda ásamt hleðslu athygli og einbeitingar. Minni vandi hjá Brim og Storm, er marktækur við 95% öryggismörkin og hjá Logn og Austan við 65% mörkin. Aukinn heildarerfiðleikar hjá Ögur er marktækur við 65% mörkin, en lækkun stiga hjá Vestan reiknast ekki marktæk. Mynd 11. Samandregnar niðurstöður fyrir alla þátttakendur (ASR). Heildarerfiðleikar. 556858 60486448020406080 Logn * Vestan * Ögur * Brim Stormur * Norðan * Austan Hegðunarerfiðleikar Upphafsmæling Lokamæling 637262 636063 55 57020406080 Logn * Vestan Ögur * Brim * * Stormur * * Norðan * Austan Heildarerfiðleikar Upphafsmæling Lokamæling 4.2.1 Niðurstöður matslista aðstandenda Þrír aðstandendur svöruðu matslista um þátttakanda (ABCL). Það var fyrir Brim, Storm og Austan. Niðurstöður þeirra gagna eru samhljóða niðurstöðum viðmælenda og staðfesta sjálfsmatið um framvindu og jákvæðar breytingar. Maki Brims hefur ekki áhyggjur af líðan Brim og metur makinn að hegðunarerfiðleikar og heildarerfiðleikar hafa minnkað í lok námskeiðs. Þær niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður Brim en reiknast ekki marktækar varðandi hegðunina. Stormur metur aukna styrkleika og minni vanda í lokin sem maki Storms gerir einnig, meira að segja svo mikið að maki metur heildarerfiðleika fara úr 61 t-skori niður í 49. Austan metur árangur sinn heldur minni en maki gerir. Aðstandendur telja heildarerfiðleika, innri vanlíðan og hegðunarerfiðleika almennt vera minni en þátttakendurnir gera sjálfir. Með öðrum orðum telja makar að erfiðleikarnir séu minni en viðmælendurnir sjálfir telja. Aðeins þrír skiluðu mati og samkvæmt þeim niðurstöðum ætti að vera tilefni til að nýta ABCL til staðfestingar á frekari breytingum á milli mælinga. 4.2.2 Mat á áreiðanleika breytinga á milli upphafs- og lokamælinga Þegar svör vegna ASEBA eru skoðuð í heildina með áreiðanleika í huga, kemur í ljós að munurinn á milli mælinganna er marktækur varðandi einhverja tvo eða fleiri þætti hjá öllum þátttakendum miðað við 68% til 95% öryggismörk (Aseba, e.d-c). Þá er átt við að með 68%–95% vissu er hægt að segja að breytingin sé ekki tilviljun. Í eftirfarandi töflu má sjá yfirlit um hvaða þættir mældust með marktækan mun samkvæmt mati á framvindu milli mælinga. Tafla 2. Niðurstaða marktektarprófs tveggja mælinga með ASR sjálfsmatslista Styrkleikar Líðan Hegðun Heildarerfiðleikar Logn-- * * Vestan * - * -Ögur- * * * Brim * * * - * * Stormur * * * * * * * Norðan- * * * * Austan * * * --68% áreiðanleiki = * 95% áreiðanleiki = * * 4.2.3 Skalaspurningar Sem hluta af viðtalsvísi í eigindlega hluta rannsóknarinnar var spurt hvernig viðmælendur upplifðu streitu í lífi sínu og þau beðin að merkja við skala á bilinu núll til tíu þar sem núll var engin streita og tíu var þá mesta mögulega streita sem viðkomandi upplifði. Einnig var spurt hvernig þátttakendur upplifðu lífið á skalanum núll til tíu. Núll var þá tiltölulega auðvelt og lítil áreynsla á meðan tíu var verulega krefjandi og erfitt. Skalarnir voru lagðir fyrir í upphafsviðtali og svo lokaviðtali eftir lok námskeiðs og fengu þátttakendur ekki að sjá fyrra svar sitt. Streitan minnkaði hjá fimm þátttakendum en ekki hjá tveimur. Hún jókst hjá Logni um 0,5 stig en stóð í stað hjá Norðan. Streitan minnkaði að meðaltali um 2,2 stig. Mynd 12. Upplifun streitu í upphafi og eftir lok námskeiðs Fimm af sjö þátttakendum upplifðu að lífið hefði orðið auðveldara með þátttöku í námskeiðinu. Hjá Ögri var það jafn krefjandi á meðan Austan upplifði það erfiðara. Upplifun af lífinu varð jákvæðari að meðaltali um 2,07 stig. 13579 Logn Vestan Ögur Brim Stormur Norðan Austan Upplifun streitu Upphafsmæling Lokamæling Mynd 13. Lífið auðvelt eða erfitt í upphafi og eftir lok námskeiðs 13579 Logn Vestan Ögur Brim Stormur Norðan Austan Lífið auðvelt eða erfitt Upphafsmæling Lokamæling 4.3 Greining eigindlegra gagna Næst verður fjallað um greiningu eigindlegra gagna. Greind voru fimm þemu sem eru umgjörð, umhyggja, ígrundun, nærandi upplifun og úrvinnslu. 4.3.1 Umgjörð, umhyggja og ígrundun Við greiningu komu fram þrjú þemu sem snúa að umgjörð, umhyggju og ígrundun. Fyrst verður fjallað um þau þemu út frá reynslu þátttakenda af námskeiðinu, leiðbeinendum og reynslunámi. Námskeiðið Þátttakendur voru allir sammála því að uppbygging námskeiðs væri góð og hefði aukið lífsgæði og jákvæða líðan. Þeir nefndu einnig að námskeiðið ætti sitt ferli sem hefði upphaf og svo endi. Sumir nefndu að það kæmi þeim á óvart hversu mikil áhrif fjögurra vikna námskeið gæti haft og nánast allir nefndu löngun til að fara á framhaldsnámskeið. Einnig kom fram að þau hefðu fengið verkfæri í hendurnar til að upplifa meiri ró og núvitund. Brim segir til dæmis þetta: Það kom mér og er enn að koma mér á óvart hvað í rauninni 4 vikna námskeið getur haft mikil áhrif. Fyrst hugsaði ég hversu mikið svona stuttur tími og tvö skipti í viku í fjórar vikur getur gert. Það er í raun dálítið magnað hvað það í rauninni virðist vera að hafa mikil áhrif ... sko ég hugsa að þessar vikur séu að gefa mér ákveðin verkfæri til þess að róa svona einhvern veginn, ég er á annarri stillingu. Fjórir nefndu erfiðleika við að tileinka sér nýja hegðun í upphafi námskeiðs og upplifðu annaðhvort ótta eða kvíða í tengslum við það ferli sem fólst í óvissunni við að fara út í náttúruna. Streitan og hraðinn voru þá enn til staðar. Austan náði fyrst ekki sambandi við náttúruna og upplifði mikla streitu í upphafi en breyttist eftir því sem leið á námskeiðið: Fyrstu tvo tímana hvarf ég og fór að hugsa um eitthvað allt annað. Náði ekki sambandi við náttúruna sem mér fannst breytast eftir fyrstu tvo tímanna. Þegar ég fór að skynja hljóðin, fuglinn, árniðinn, birkiilminn. Þetta kom inn eftir fyrstu einn tvo tímanna. Ég var bara í einhverju stress kasti og var bara allt í einu farin að hugsa um eitthvað allt annað fyrsta labbitúrinn. En síðustu tímarnir voru meiriháttar. Leiðbeinendur Það var samróma upplifun hversu miklu máli leiðbeinendurnir skiptu fyrir námskeiðið og þátttakendur. Þeir lýstu hvernig leiðbeinendurnir drógu fram athyglina með því að staldra við, veita skynfærunum athygli þar sem nærandi mildi, samþykki og ró var höfð að leiðarljósi. Einnig lýstu þátttakendur trausti, öryggi og samþykki sem kom fram í nærveru leiðbeinendanna og athygli þeirra að hverjum og einum með umhyggju. Með því náðu viðmælendur að meðtaka leiðsögn þeirra og innleiða að eigin reynslu. Einnig lýstu viðmælendur að án leiðbeinendanna hefði reynslan ekki verið söm. Hér er lýsing Vestan á því hvernig allt byrjar hjá leiðbeinendunum með einu hugtaki og verkefni sem fær óskipta athygli. Einnig sést hvernig leiðbeinendurnir ná að fanga athygli þátttakenda í núvitund hvort sem það snýr að einu hugtaki eða skynjun: Þær eru að virkja þessa skynjun. Núna áttu bara að einbeita þér að því ef þú finnur lykt, sérð eða heyrir. Hvernig vindurinn snertir húðina og svona, skilurðu. Það byrjar allt hjá þeim með eitt hugtak eða eitt orð sem er verkefni dagsins og maður er að pæla í því eins og ábyrgð, eða bandamenn eða nærandi athafnir, nærandi skynjun, nærandi næring í starfi og það rætt og maður fer alveg inn í hausinn til að skoða það. Maður fer svo úr þessu þegar maður er búin að vera fókusera á það í göngunni og þá er maður bara umvafinn í náttúrunni og mér fannst það svo gott. Maður getur ekkert verið að gera eitthvað annað á meðan. Ögur tekur í sama streng og bætir svo við hvað umhyggja og nærvera leiðbeinenda skiptir miklu máli: Þær voru svo yndislegar og með svo góða nærveru að ég væri til í að taka þær með mér heim. Reynslunám Viðmælendur lýstu allir einhverskonar reynslu og töluðu um að þeim fyndist þau vera önnur en þegar þau byrjuðu. Án leiðbeinendanna hefði reynslan ekki orðið til og er því reynslan samofin umgjörðinni. Þátttakendur lærðu að nýta náttúruna með öðrum hætti en áður. Þeir lýstu meira innsæi og visku sem birtist þá í aukinni seiglu, sjálfsvirðingu og samkennd með sjálfum sér. Viðmælendur töluðu einnig um upplifun flæðis sem verður til eftir að ígrundun hefur átt sér stað í kjölfar tengsla við náttúruna. Þátttakendur lýstu því einnig að reynslan hefði búið til ný viðbrögð eins það að fara út í náttúruna í stað þess að sitja heima og aðeins hugleiða möguleikann. Reynslan af því að dvelja í náttúrunni á námskeiðinu bjó til löngunina í að upplifa meira af henni. Það kom nokkrum á óvart að uppgötva náttúruna á fullorðinsaldri og læra að njóta hennar. Brim hafði orð á því og Austan nefndi það sérstaklega: Það kom mér á óvart að ég skyldi á þessum aldri vera að læra að njóta náttúrunnar á nýjan hátt, á dýpri hátt. Núna fer ég út í stað þess að sitja heima. Þetta stutta ferðalag hefur hjálpað mér að komast þangað. Meira enn að hugsa það og raunverulega langa það og gera eitthvað í því. Flestir viðmælendur nefndu að löngun til að dvelja í náttúrunni til að takast á við streitu hefði aukist í kjölfar námskeiðsins. Sumir sögðust hafa lært að vera úti og í tengslum við náttúruna. Logn var alin upp þar sem náttúran var ekki aðgengileg og lærði ekki að nýta hana. Logni þótti reynslan heilandi og notaleg og kom á óvart að það þyrfti ekki að gera neitt, einfaldlega taka eftir, skynja og svo upplifa. Logn segir þetta: Þetta var notalegt og heilandi þó maður hafi ekki verið að gera neitt. Því ef ég færi ein þá myndi ég ekkert vita hvað ég ætti að vera lengi og myndi ekki vita hvað ég væri eiginlega að gera þarna eða hvert ég ætti að fara. Nokkrir viðmælendur lýstu meira samþykki á raunveruleikanum og þá frekari hæfni til að setja sig í forgang. Einnig töluðu þeir um dýpri meðvitund og sumir nefndu breytt hugarfar sem varð til með ígrundun reynslunnar. Þá nefndu viðmælendur minni hörku og meiri mildi sem endurspeglaðist í ríkari sjálfsvirðingu. Stormur átti það einmitt til að sýna sér hörku en lærði að sýna sér mildi. Hér lýsir Stormur reynslu sinni: Ég hélt að ég þyrfti að fara í ræktina á morgnanna til þess að vakna og koma mér inn í daginn. Ég hélt að sjálfsást væri að fara í ræktina og fara svo í vinnuna. Ég hélt það, en það kom mér á óvart að læra það. það er þessi sjálfsumhyggja. Þú veist, aðeins að strjúka handleggina og herðarnar og sýna sjálfum sér svolitla ástúð. Þátttakendur töluðu um aukna sjálfsvirðingu sem fólst að taka afstöðu með þeim raunveruleika sem þau voru komin í vegna alvarlegra streitueinkenna. Sú afstaða kom í kjölfar ígrundunar sem átti sér stað á námskeiðinu. Tveir þátttakendur komust að því að atvinnan var ekki að næra þá lengur og að þeirra sögn fengu þeir rými og hugrekkið sem þurfti til að taka afstöðu með sjálfu sér. 4.3.2 Nærandi upplifun og úrvinnsla Einnig komu fram tvö þemu sem varða nærandi upplifun og úrvinnslu þátttakenda. Þessi þemu eru í umfjölluninni hér á eftir sett í samhengi við hugtökin náttúru, athygli og endurheimt. Náttúran Flestir þátttakendur tjáðu sig um að fara út í náttúruna á þessu námskeiði hafi haft róandi áhrif og þau hefðu fundið fyrir ákveðinni kyrrð. Lyktin virkaði róandi og nærandi fyrir sálina og með henni kæmi ákveðin hlýja sem í sumum tilfellum olli því að hugurinn leitaði til bernskunnar. Einnig nefndu sumir að með því að dvelja í náttúrunni væri hún eins og góður vinur og aðrir sögðust elska náttúruna. Þá nefndu viðmælendur að tengsl við náttúruna veitti öryggi, ástúð og gæfi orku eða væri einhver óútskýranlegur kraftur. Nokkrir sögðu að þau yrðu streitulaus í náttúrunni. Ásamt þessu nefndu sumir þátttakendur hversu mikla ró og jákvæða líðan fengist í tengslum við náttúruna til móts við þéttbýli. Þeir nefndu einnig fjölbreytileika náttúrunnar og veðráttuna sem hafði ýmist jákvæð eða neikvæð áhrif á upplifunina. Stormur sér náttúruna sem órjúfanlega tengingu við einstaklinginn og hún veiti ástúð, öryggi og orku. Hann nefnir einnig að náttúran gefi jákvæðni og andlega vellíðan ef við gefum henni tíma okkar. Hann hefur þetta að segja sem er í takt við lýsingu annarra þátttakenda: Náttúran náttúrulega gefur manni þessa ástúð, öryggi og orku. Tenging náttúru og fólks, hún verður að vera. Þetta er í rauninni órjúfanlegt. Við verðum að hugsa um náttúruna. Það þýðir að náttúran gefur okkur jákvæðni og svona andlega vellíðan til baka. Þetta er svo náið. Þrír nefndu upplifun þess að vera í þéttbýli til móts við að dvelja í náttúrunni. Norðan líður mun betur í náttúrunni en í þéttbýli og leggur sig fram við að komast út úr hringiðunni inn í kyrrðina: Mér líður betur í náttúrunni í kyrrð og ró heldur en í hringiðunni. Ég vil komast út úr þéttbýlinu, vera á hestbaki einhversstaðar upp í sveit, vera í fjöru, vera við sjóinn, þá í kyrrðinni. Athygli Viðmælendur áttu það sameiginlegt að lýsa aukinni athygli sem varð til á námskeiðinu. Athyglinni lýstu þeir sem nærandi löngun til að snerta náttúruna með höndunum eða skynja hana með skynfærunum og þá upplifa náttúruna fyrir sig. Margir sögðust finna fyrir aukinni einbeitingu í formi þess að hlusta, skynja, finna lykt eða horfa. Þau hlustuðu á fuglasönginn, vindinn, brakið í hverju skrefi eða gutl í vatni. Þau töluðu um að skynja vindinn snerta húðina eða skynja úr hvaða átt vindurinn væri að koma einnig hvernig sólin snerti og vermdi á sama tíma. Sumir nefndu hvernig mölin þrýsti upp í iljarnar, mismunandi undirlag og veittu því athygli hvað væri að gerast í hverju skrefi. Viðmælendur nefndu lyktarskynið, þá birkiilminn, sjávarangan, lyktina af trjánum og svo af moldinni. Sumir lýstu uppgötvuninni að raunverulega horfa á það sem þau væru að sjá og athyglinni þá beint að hverju smáatriði, allt frá formi laufblaða eða dropa yfir í 360 gráðu sjóndeildarhring. Viðmælendur sögðu sum að þau væru að fara af sjálfstýringunni inn í meiri meðvitund þar sem virkni allra skynfæra ætti sér stað. Nokkrir lýstu þessari reynslu sem hreinsun hugans því upplifunin hægði á huganum og hugsanirnar væru ekki út um allt. Austan talaði um reynsluna líkt og kviknað hefði á einhverju og að gangan væri hætt að snúast um að horfa á tærnar á sér. Austan nefnir hvað sú reynsla sé jákvæð og lýsa aðrir viðmælendur jákvæðri upplifun með aukinni athygli: Ég er mikið meðvitaðri um bara allt í kringum mig. Ekki endilega fólkið í kringum mig bara náttúruna sem slíka. Maður var farin að spá í skóginum og landslaginu þannig að það kom mjög sterkt. Það kviknaði á einhverju! Þarna er ég hættur að horfa á tærnar á mér og farin að spá í hvað þetta er „æðislegt“. Endurheimt Viðmælendur nefndu að tengsl við náttúruna með því móti sem var höfð að leiðarljósi á þessu námskeiði hafi dregið úr upplifun streitu og sumir höfðu orð á að streitan beinlínis hyrfi eftir að hafa verið í náttúrunni. Viðmælendur lýstu endurheimtinni líkamlega, hugarfarslega og tilfinningalega. Viðmælendur upplifðu meiri ró, frið og minni áhyggjur. Sumir töluðu um minni spennu í líkamanum en áttu erfitt með að lýsa því öðruvísi en að líðanin yrði betri bæði líkamlega og andlega. Flestir upplifðu meiri jákvæðni, þá von, þakklæti og tilhlökkun. Viðmælendur nefndu þætti sem þyrftu að vera til staðar til að upplifa endurheimtina. Þá töluðu sumir viðmælendur um að fara í annað umhverfi sem minnir ekki á streituvaldana, veita öðru athygli en það sem hefur skapað streituna, einveru og svo rými til að að fanga líðanina, hugsanirnar og raunveruleikann. Norðan upplifði breytingu, hugarfarslega og tilfinningalega og kemur orðum að því hvað það gefur mikið að fara út í náttúruna að ganga þar sem er þögn og einvera. Norðan lýsir hér einnig í stuttu máli hvernig tengsl við náttúruna aðstoðar við samþykki raunveruleikans. Fleiri þátttakendur lýstu svipaðri reynslu: Ég finn það að fara út í náttúruna að ganga hvað það gefur mér rosalega mikið og vera einhvers staðar í burtu frá öllu þar sem er hljóð, það er ótrúlegt hvað það gefur. Ég get þá hugsað í friði. Það er engin að trufla mig. Maður nær að átta sig á því hvar maður lenti og hvernig maður geti komið sér út úr því. Viðmælendur nefndu tilfinningalega úrvinnslu og þá upplifun að um leið og tengsl við náttúruna áttu sér stað var líkt og innri tengsl yrðu til. Einn þátttakandi nefndi að aukin innri tengsl hafi búið til löngun í ríkari félagsleg tengsl og virkni. Sá þátttakandi hafði upplifað félagsfælni og depurð. Sumir upplifðu sorgarúrvinnslu á meðan aðrir upplifðu fjölbreytt litróf tilfinninganna og áttu erfitt með greina hver tilfinningin væri hverju sinni. Samróma voru þó allir um tilfinningalega reynslu og að úrvinnsla væri jákvæð þó hún væri í sumum tilfellum óþægileg. Nokkrir viðmælendur áttu auðveldara með að setja sig í forgang og mæta þá þörfum og löngunum sínum í kjölfar þess að tengjast innri líðan. Þá nefndu nokkrir að auðveldara væri að samþykkja raunveruleikann ásamt því að mæta sér með mildi, hægð og samkennd til að upplifa endurheimt. Brim missti barn sitt og hafði átt erfitt með tilfinningalega úrvinnslu í kjölfar þess missi. Brim fór til vinnu nokkrum mánuðum eftir áfallið og stóð svo í þeim sporum nokkrum árum síðar að upplifa algjört hrun líkamlega, tilfinningalega og hugarfarslega. Brim segir að náttúran gráti með sér og græði á sama tíma en á erfitt með að útskýra nákvæmlega hvað eigi sér stað. Brim segir að tengsl við náttúruna hafi áhrif sem mannlegur máttur megni ekki: Náttúran bæði grætur með mér og græðir á sama tíma. Það að finna mér stað í náttúrunni hvort sem það er að liggja eða standa og bara vera, það gerir svo mikið sem er kannski erfitt að útskýra í svona sorgarúrvinnslu og áfallavinnu. Ég get talað og talað mig í kaf einhvern veginn en stundum er það eitt og sér ekki nóg. Það þarf eitthvað meira til. Og náttúran kemur svona sterk þarna inn. 5 Umræður Í þessum kafla verða ályktanir dregnar saman úr niðurstöðum í samhengi við rannsóknarspurningarnar og fræðilega þekkingu. Eins og fram hefur komið var markmið rannsóknar að kanna hver upplifun og reynsla þátttakenda væri af áhrifum náttúru á streitu af námskeiði þar sem áhersla er á náttúru og hvort sú nálgun gæti verið beitt sem úrræði fyrir fleiri fagaðila. Einnig að kanna hvaða vísbendingar niðurstöður gæfu um gæði og árangur námskeiðs. Því var spurt: Hver er upplifun og reynsla þátttakenda af áhrifum náttúru á streitu af námskeiði þar sem áhersla er á það að dvelja úti í náttúrunni? Og undirspurningin var: Hvaða vísbendingar gefa niðurstöðurnar um gæði og árangur námskeiðsins? |
Skiptastjóri þrotabús Fons ætlar að láta reyna á riftun 11 samninga samtals að andvirði 9 milljarða króna sem gerðir voru síðustu tvö árin áður en Fons varð gjaldþrota. Meðal þess sem reynt verður að rifta er 4 milljarða króna arðgreiðsla til félags í Lúxemborg ári fyrir bankahrun.
Óskar Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús Fons, eignarhaldsfélags Pálma Haraldssonar, vill rifta alls 11 samningum um lán og arðgreiðslur út úr félaginu síðustu tvö árin áður en fyrirtækið óskaði eftir gjaldþrotaskiptum. Um er að ræða samninga upp á samtals níu milljarða króna en þetta var kynnt fyrir kröfuhöfum Fons á fundi fyrr í dag. Skiptastjórinn vill meðal annars rifta arðgreiðslu frá árinu 2007 upp á 4,4 milljarða króna til félagsins Matthews Holding SA í Lúxemborg, en fyrirtækið var í eigu Pálma og viðskiptafélaga hans Jóhannesar Kristinssonar. En fréttastofa greindi sem kunnugt er frá því um miðjan janúar síðastliðinn að verið væri að kanna grundvöllinn fyrir riftun umræddrar arðgreiðslu. Pálmi Haraldsson sagði í samtali við fréttastofu að hann hefði látið endurskoðendur og lögfræðinga fara sérstaklega yfir arðgreiðsluna og að engar líkur væru á því að hægt yrði að rifta henni. Arðgreiðslan hefði verið vegna hagnaðar Fons á árinu 2006 að félagið hefði verið gjaldfært þegar hún átti sér stað. Þá sagði Pálmi að arðgreiðslan hefði verið fyllilega í samræmi við lög og reglur. |
Það virðist ríkja nokkuð gott samkomulag um að kvótakerfi sé góð leið til að nýta takmarkaða auðlind á sjálfbæran hátt. Rökin fyrir gagnsemi kerfisinns komu vel fram í ræðu formanns LÍÚ á aðalfundi sambandsins 2013:
„Sjávarútvegurinn hefur í gegnum tíðina lagt mikið til þjóðarbúsins og við erum í þeirri eftirsóknarverðu stöðu að greinin skilar umtalsverðum tekjum til samfélagsins. Það sama á alls ekki við í öllum löndum þar sem sjávarútvegurinn er ríkisstyrktur til að hann fái þrifist. Ein af meginástæðum þess að sjávarútvegurinn hér á landi er í þessari stöðu er það kerfi sem hér hefur verið við lýði í 30 ár. Þetta kerfi hefur búið þeim fyrirtækjum sem í greininni starfa fyrirsjáanleika í rekstri sínum og þar með möguleika til að skipuleggja sig og hagræða. Með kerfinu hefur einnig komið hvatinn til að auka verðmæti og fjárfesta.“
Fyrst kvótakerfi hefur reynst okkur slíkt öndvegisáhald er þá ekki rétt að huga að því að taka upp slíkt fyrirkomulag í öðrum greinum? Ég hef starfað í um þrjátíu ár á sviði sem kallað hefur verið þekkingariðnaður og fæ ekki betur séð en að allar röksemdir sem styðja notkun kvótakerfis í þorskveiðum eigi líka við í þekkingariðnaði. Skoðum það nánar. Flestir eru sammála um að þekking sé auðlind. Ef dæma má af ræðum á tyllidögum þá er það meira að segja okkar verðmætasta auðlind. Menn þurfa svo að vera talsvert hrokafullir til að samþykkja ekki að þekking sé takmörkuð auðlind.
Þekking er sem sagt takmörkuð auðlind og því ættu lögmál kvótakerfis að virka í þekkingariðnaði. En hvernig skipuleggjum við kvótakerfi í þessari grein? Fyrst þarf að koma kerfinu á. Ef við förum eins að og við upphaflega úthlutun fiskveiðikvótans, þá látum við þá sem eiga atvinnutækin á einhverjum tíma öðlast rétt til kvóta. Þannig myndu hugbúnaðarhús og verkfræðistofur öðlast rétt til að ráða til sín úthlutað hlutfall af því fólki sem útskrifast úr tengdum greinum. Nýliðun í greininni ætti sér síðan stað með því að þeir sem áhuga hefðu leigðu eða keyptu kvóta af þeim sem fyrir eru í greininni.
Með möguleika á framsali og veðsetningu væri fjármögnun fyrirtækja í greininni verulega auðvelduð. Það blasir við að ef menn gætu veðsett óorðna uppfyndni, yrði staða þeirra talsvert sterkari.
Þessar hugmyndir finnst trúlega mörgum nýstárlegar, en hvað mátti ekki segja um upphaflega kvótakerfið á sínum tíma. Hvaða önnur þjóð hefði haft þann drífanda og dirfsku sem þurfti til að framkvæma þá hugdettu að flytja helstu auðlind þjóðar með einni lagasetningu úr eigu allra yfir í eigu fárra til hagsbóta fyrir alla. Það þótti og þykir enn nýstárlegt. Það gefur vissulega von að nú situr eins samsett stjórn og árið 1993 þegar kerfinu var upphaflega komið á, stjórn Framsóknar og Sjáfstæðisflokks undir forsæti Framsóknar. Formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, lagði nýverið fram hugmyndir sem líta má á sem fyrsta skref á þessari vegferð. Hún vill að þeir sem flytja þekkingu sína af landi brott, svo hún gagnast ekki landi og þjóð, greiði til baka þann kostnað sem þekkingaröfluninni fylgdi. Auðlindir ættu jú að vera sameign og því ekki eðlilegt að menn séu frjálsir af því að flytja þær úr landi án þess að eithvað komi fyrir.
Nú gæti einhver lesandi hugsað sem svo að þessi tillaga sé fullkomlega galin og vísast í andstöðu við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þeim vil ég benda á að:
Menn gjarnan að geðþótta samtalið beygja
Í samtímans samhengi er rökrétt að segja:
Viska vor öll virðist auðlind án hirðis.
Með velreyndum ráðum vex hún okkur til virðis |
Korkur: romantik
Titill: Vandræði og vesen.
Höf.: sokri
Dags.: 16. júlí 2005 01:57:41
Skoðað: 566
Eflaust djöfuls rugl og væl í mér.
En það er málið að ég á vinkonu sem ég sé hreinlega ekki sólina fyrir. Erum búinn að þekkjast og vera nær óaðskiljanleg í um tvö ár, með smávegis hléum sem eru tilkomin vegna væntanlega sjúklegrar afbríðisemi í mér. Í bæði skiptin vegna þess að ég gat hreinlega ekki talað við hana því hún hafði einhvern áhuga á öðrum guttum.
En svo virðist sem við samt sem áður getum ekki slitið okkur hvort frá öðru þegar við svo tölum saman. Og svona einhvernvegin allan tíman hefur verið einhverskonar spenna á milli okkar, spenna sem mér þykir erfitt að höndla og skilja. Nefnilega erum í raun miklu meira en bara vinir, án þess þó að það hafi einhvertíman farið yfir mörk hins siðlega. Getum allt að því klárað setningar sem hitt byrjaði á, og við getum þagað í langa stund saman án þess að þögnin verði nokkurtíman vandræðaleg. Hún hefur játað fyrir mér að þegar ég er nálægt þá einhvernvegin finni hún fyrir öryggi og finnist hún geta verið hún sjálf, án þess að vera að feika nokkuð. Og oft á tíðum mætti skilja líkamsmálið líkt og hún vildi eitthvað meira en bara vinskap. Nema hvað þetta allt er aðgera mig gjörsamlega brjálaðan, því mér þykir alveg þvílíkt vænt um hana. Veit að ég í raun elska hana, en fer alveg rosalega í mig að geta ekki sýnt henni það. Hún nefnilega veit að ég hef alltaf verið mjög heitur fyrir henni, allt frá því að ég leit hana augum fyrst. Og alls ekki vegna þess að ég hef sagt henni það, hún hefur fundið það. Svo stundum hefur borist talið af okkar mjög brothætta “sambandi”. Þá talar hún eins og hún vilji eitthvað en þori ekki vegna þess að vinskapurinn gæti farið í súginn. Nema hvað að í okkar tilfelli þá í raun höfum við allt sem gott samband þarf að príða. Hún talar alltaf um kannski og ef eitthvað myndi gerast. Nema hvað að hlutirnir hafa þegar farið af stað, en verið stöðvaðir, því miður.
Td um daginn, þá vorum við í góðu game-i heima hjá henni að horfa á imbann. Jújú ekkert nema gott um það að segja. Nema hvað að svefnin gjörsamlega sigrar okkur bæði. Vöknum þó einhvertíman þegar líða er farið á nóttina. Nema hvað að letin er alveg að fara með mig og í raun vissi ég hvað myndi gerast ef ég færi ekki. Þannig að ég af einhverjum undalegum ástæðum ákvað að vera þarna nóttina, hátta ofaní rúm og bara legst undir privat sæng þarna og alles. Nema hvað að við erum bæði gjörsamlega andvaka í dágóða stund. Og allt í einu eins og hendi væri veifað þá erum við alltí einu að kyssast líka svona rosalega, algjörlega án þess að nokkuð hafi verið sagt. Vissulega einhverjir þeir frábærustu kossar sem ég hef upplifað, og vildi gjarnan fá tækifæri til að fá fleiri. Lengra fór þetta þó ekki, og ég var ekkert að minnast á það, enda fannst mér bara alls ekkert liggja á, en ég heyrði að hún bölvaði því samt við sjálfa sig í hálfum hljóðum.
En ástæðuna fyrir þessum kossum sagði hún vera að hana hafi bara alltaf langað til að kyssa mig og í raun væri lítið bak við þetta annað en það. En ég samt sem áður þykist vita að hún er nú ekki eins shallow og hún vill láta líta út fyrir. Búinn að þekkkja hana alveg nóg og lengi til þess. Veit að henni þykir rosalega vænt um mig og allt það. Og það bara hlýtur að vera eitthvað meira á bakvið þetta. Meina manneskjan tæki varla sjénsinn á þessu vitandi það að ég myndi vera hálf haltur á eftir, eða? Maður spyr sig. En þrátt fyrir öll áföllin sem við höfum mátt þola, þó ég nefni nú ekki þau helstu hér, þá þykir mér alls ekki minna vænt um það fyrir því. Styrkist ef eitthvað er. En nú þegar “sambandið” er aftur komið í gamla farið, þar sem einu kostirnir virðast vera að við gerum eitthvað í þessu öllu og hefjum eiginlegt samband með öllu tilheyrandi eða allt hreinlega springi í loft upp, þá veit ég varla mitt rjúkandi ráð. Rétt næ fyrir einhverja hundaheppni að halda andlitinu.
Þannig að ég spyr, er virkilega einhver framtíð í þessu og er þetta kannski bara hræðsla í henni? Hvað gæti hún hugsanlega sett fyrir sig? Eða er ég bara verulega hrifinn af rangri mannsekju, þó svo að samband okkar hafi grundvallast á svona samskiptum alla tíð. Þetta hefur alltaf verið svona, og mun varla breytast nema við gerumst skyndilega kunningjar uppúr þurru. Ég td passa mig mikið að vera ekkert að hringja af fyrrabragði nema við höfum rætt það eitthvað, nema að mig alveg hreint dauðlangi að heyra röddina hennar. En hún hringir alltaf í mig um leið og hún veit af mér í bænum, vinn langt í burtu og er mikið fjarverandi vegna þess. Og á meðan ég er heima þá bara kæmist varla hnífsblað á milli okkar. Meina, allir í kringum okkur halda að við séum saman, eða allavega að eitthvað sé í gangi. Mamma heldur jafnvel að þetta sé tilvonandi tengdadóttir hennar, og hún segir að foreldrar hennar hætti varla að tala um mig, hvað ég sé dásamlegur og þar fram eftir götunum. Ég hálfpartin fer hjá mér að heyra það, en framkoma mín við hana lýsir sér algjörlega eins og tilfinningar mínar til hennar eru. Það er ekki neitt sem ég get neitað henni um, innan skynsamlegra marka þó. En samt sem áður þori ég lítið að taka af skarið, bý nefnilega í glerhúsi og því óráðlegt að kasta fyrsta steininum.
Þannig að já, ég held að þetta sé bara komið, allavega í bili. Endilega skrifið hvað ykkur finnst og endilega að kommenta á þetta.
kv.
---
Svör
---
Höf.: Ljomalindin
Dags.: 16. júlí 2005 19:28:57
Atkvæði: 0
Ahh.. sú litla en oft óyfirstíganlega línan milli vináttu og ástar :)
Stelpur vilja oft ekki leyfa sjálfum sér að verða svona ástfangnar af vinum sínum, því að ef allt fer í klessu, þá missa þær ekki aðeins ástina sína, heldur líka besta vin sinn.
En ef hún fór þarna að kyssa þig og hvaðeina, þá myndi ÉG halda að henni þyki meira en vænt um þig.
Kannski er hún hrædd um að þú sért ekki sama sinnis?
Kannski er hún hrædd við þetta sem ég skrifaði hérna fyrir ofan?
Ég get ekki svarað.. þú verður hreinlega að spurja hana. Hún er sú eina sem getur gefið þér réttu svörin. :]
---
Höf.: sokri
Dags.: 17. júlí 2005 23:56:58
Atkvæði: 0
Ég held persónulega að hún sé sama sinnis, in a way allavega.
Hún myndi allavega ekki missa vin sinn þó að eitthvað myndi ekki fúnkera. Ég allavega hef lofað sjálfum mér því að ég muni reyna að láta það ekki henda, mjög mikið.
Ég trúi því ekki að hún hafi eingöngu látið þrána eftir að prófa að kyssa mig stjórna sér.
En eitt er víst, ég á rosalega erfitt með að koma orðum að þesso, og þora að segja eitthvað. Ég vil ekki valda henni vonbrigðum á neinn hátt, en samt er ólýsanlega erfitt að birgja þetta allt saman inni og geta ekki sýnt henni í verki hvað mér þýkir raunverulega vænt um það. Ég vissulega reyni að ræða þetta, eða ætla það, en ég frýs alltaf eins og einhver aumingi. :s
---
|
forseti (JörB):
Forsetum hefir borizt skeyti frá konungi þess efnis, að krónprinsinn og Ingrid Svíaprinsessa hafi opinberað trúlofun sína. Forsetar hafa sent konungshjónunum heillaóskaskeyti.
Flm. (Thor Thors)
Þetta frv., sem hér liggur fyrir, miðar að því að koma hið fyrsta á stofn sérstakri nýrri deild við Háskóla Íslands, er nefnist atvinnudeild og hefir það verkefni með höndum að kenna hin hagnýtu fræði, er geta komið að notum í atvinnulífi voru. Í sambandi við þessa atvinnudeild skal starfrækja rannsóknar- og tilraunstofnun í þágu atvinnuveganna, og skal þessi rannsóknarstofnun starfa í þremur deildum, er nefnast landbúnaðardeild, fiskideild og iðnaðardeild. Skal hver þessara deilda hafa með höndum rannsóknir í þágu þeirra atvinnuvega, sem nöfn þeirra eru tengd við. Þetta frumv. byggist á frumv. um stofnun atvinnudeildar, sem lagt var fyrir síðasta Alþingi, en það er fyllra og víðtækara en frumv. frá því í fyrra, þar sem bætt er inn í það ákvæðum um fullkomna rannsóknarstofnun í sambandi við atvinnudeildina. Ég vil ennfremur geta þess, að frumv. á rót sína að rekja til tillagna ýmsra háskólakennara. Það mál, sem hér var til umræðu á undan, sem sé frumv. skipulagsnefndar atvinnumála um rannsóknarstofnun í þarfir atvinnuveganna, tekur að nokkru leyti til sama efnis, en er að dómi okkar flm. þessa frumv. ófullnægjandi að ýmsu leyti.
Það, sem fyrst og fremst ber hér á milli, er það samband, sem þessari rannsóknarstofnun er ætlað að hafa við Háskóla Íslands, svo og það veigamikla atriði, hvort hefja skuli sem fyrst kennslu í hinum hagnýtu fræðum við háskólann og gera á þann hátt íslenzkum stúdentum það kleift að ganga í þjónustu atvinnulífsins og njóta til þess æðri menntunar.
Fyrir okkur flm. vakir það, að efla hinn unga og fáþætta háskóla vorn, að gróðursetja þar nýjan stofn, sem við höfum trú á, að með tíð og tíma geti orðið sterkur og tengt greinar hinnar æðri menntunar inn í hið fáskrúðuga og fallvalta atvinnulíf vort.
Við lítum því svo á þetta mál, að aðstaðan til þess byggist fyrst og fremst á því, hvern hug menn bera til háskólans, hvert hlutverk menn vilja ætla honum í menningarlífi þjóðarinnar og hvert hlutskipti þeir þar af leiðandi vilja skammta honum. Tel ég því rétt í þessu svo veigamikla atriði í framtíðarlífi háskólans að minnast nokkrum orðum á sögu hans með þjóðinni og lýsa því, hverjar vonir ýmsir af forvígismönnum þjóðarinnar hafa frá upphafi þessa máls tengt við þessa æðstu menntastofnun hér á landi.
Það er greinileg táknmynd þýðingar hinnar æðstu menntastofnunar fyrir sjálfstæði lands vors og menningarlíf þjóðarinnar, að þetta mál skyldi vera eitt hinna allra fyrstu, er borin voru fram á hinn fyrsta þingi hins endurreista Alþingis árið 1845. Og vissulega eykur það réttmæti og nauðsyn þessa máls, að sá maður, sem þetta bar fram, skyldi einmitt vera hinn glæsilegasti forvígismaður þjóðarinnar, Jón Sigurðsson, sá er allir Íslendingar nú telja, að verið hafi sómi Íslands, sverð þess og skjöldur. Krafa Jóns Sigurðssonar og félaga hans laut að stofnun allsherjar æðri menntastofnunar, og vildu þeir nefna skóla þennan þjóðskóla. Þeir vildu rökstyðja þetta nafn með því, að þar eigi fyrst og fremst að kenna þjóðleg fræði, íslenzka tungu og norræna bókvísi. Ennfremur skyldi þar kenna forspjallsvísindi, guðfræði, læknisfræði og lögfræði. Einnig segir svo í bænarskrá þeirri, er Alþingi var send, „að hið bráðasta verði stofnuð kennsla í skólanum handa þeim, sem girnast menntunar, en ætla þó ekki að verða embættismenn.“ Til skilgreiningar þessu fór Jón Sigurðsson um það þessum orðum: „Þá er því næst að nefna menntun þeirra, sem ekki ætla að verða embættismenn. Þessir eru einkum sem segir fyrr í bænarskránni, sjómannaefni. kaupmannaefni og iðnaðarmenn. Það er ljósara en frá þurfi að skýra, hversu mjög slíkir menn þurfa menntunar við, enda er mér og kunnugt, að það er almenn ósk, að kostur mætti gefast á kennslu handa þeim, og þjóðin mundi fúslega styrkja, að slíku mætti verða framgengt.“
Þessi orð og þessar óskir eru greinilegur vottur um hina miklu framsýni þessa forvígismanns þjóðarinnar. Það er ennfremur athyglisvert í sambandi við þann ágreining, sem nú kann fram að koma á þingi um meðferð þessa máls, að Jón Sigurðsson lagði ríka áherzlu á það, að þjóðskóli þessi gæti veitt svo mikla menntun sérhverri stétt, sem nægði þörf þjóðarinnar, og ennfremur tók hann það skýrt fram, að þetta yrði allt einn skóli, því að með því móti yrðu og einnig bezt notaðir allir þeir kraftar, sem varið verður til kennslu. Mér hefir þótt hlýða að rekja þetta mál hér, enda þótt það félli niður að þessu sinni og hugir manna hneigðust í þess stað að því að koma hér á fót skóla fyrir embættismenn landsins. Raunin varð líka sú, að þessi skóli komst upp, fyrst með prestaskólanum árið 1847, síðan hófst innlend læknakennsla árið 1862, og með lögum frá 1876 var stofnaður sérstakur læknaskóli. Síðan kom svo lagaskólinn, sem tók til starfa 1. okt. 1908.
En sjálf háskólahugmyndin lifði þó ætíð í hugum ýmsra beztu manna þjóðarinnar, og þykir þar fyrst hlýða að minnast afskipta Benedikts Sveinssonar, er bar fram á Alþingi 1881 frumv. um stofnun háskóla og barðist ötullega fyrir því máli af hinni þjóðkunnu mælsku sinni. Mér þykir rétt að tilgreina hér nokkur ummæli hans til rökstuðnings háskólahugmynd hans: „Eins og vísindi, framför og frelsi hafa jafnan verið samfara hjá þjóðunum yfir höfuð, þannig hefir innlend menntun, framför og frelsi jafnan verið þrjár skilgetnar himinbornar systur, sem hafa haldizt í hendur og leitt hverja einstaka þjóð að því takmarki, sem forsjónin hefir sett henni. Lítið á sögu sjálfra vor. Oss hefir aldrei leiðzt að renna augum vorum til hinnar fögru og frægu fornaldar vorrar. Má ég spyrja: Voru það ekki þær hinar sömu þrjár himinbornu systur, sem héldust í hendur einnig hjá oss? Og fór það ekki svo, að þegar þær hurfu, þá var allri vorri frægð, öllum vorum frama lokið? Það var þannig ekki úr lausu lofti gripið, er hið fyrsta endurreista Alþingi 1845 bar hina innlendu þjóðmenntun fram mála fyrst. Eins og orðið „mamma“ er hið fyrsta orð, sem vér heyrum af vörum barnsins, þannig var orðið „þjóðskóli“ hið fyrsta orð af vörum Alþingis 1845, fram borið í nafni og umboði þjóðarinnar af þeim manni, þeirri frelsishetju, sem nú er að vísu látinn, en hin andlega og líkamlega ímynd hans mænir yfir oss hér í salnum, og ég vildi óska, að hún æ og æfinlega hefði sem mest og bezt áhrif á oss innan þessara helgu vébanda.“ - Ennfremur sagði hann: „Að vér erum bæði fátæk og fámenn þjóð, er einmitt hin sterkasta ástæða með frumvarpi mínu, því þess meiri háski er oss og þjóðerni voru búinn, að vér hverfum sem dropi í hafinu inn í önnur sterkari og aflmeiri þjóðerni á móti tilætlun forsjónarinnar, sem gaf oss sérstakt þjóðerni, og því meira verðum vér að leggja í sölurnar til þess að svo verði ekki.“
En þrátt fyrir þennan ágæta rökstuðning Benedikts Sveinssonar náði þetta mál eigi fram að ganga á þessu þingi, en á næsta þingi, 1883, bar hann þetta mál fram að nýju, og náði það þá samþykki Alþingis, en lögunum var synjað staðfestingar frá konungi. Þrátt fyrir það var málinu hreyft á næstu þingum og það samþ. enn á ný á Alþingi 1893, en því var sem fyrr synjað staðfestingar. Síðan lá málið í þagnargildi um hríð, en samþ. var þál. í neðri deild Alþingis 1907 þess efnis að skora á landsstjórnina að semja frv. um stofnun háskóla, er skyldi lagt fyrir Alþingi 1909. Þáv. ráðh., Hannes Hafstein, tók þá málið í sínar hendur og fól forstöðumönnum hinna æðri menntastofnana að semja frumv. til laga um stofnun háskóla. Sömdu þeir frumv. að mestu eftir nýjum norskum háskólalögum, og var þetta frumv. samþ. á þinginu 1909. Er Hannes Hafstein lagði það fyrir þingið, kvaðst hann fela það velvild þingmanna sem eitt af helztu velferðarmálum þjóðarinnar, sem ætti að geta orðið ein af lyftistöngunum til þess að hefja menningar- og framtíðarþroska þjóðarinnar og auka henni gengi og álit í augum annara þjóða. Loks rak svo Alþingi 1911 smiðshöggið á þetta mál, þar sem það veitti fé til þess að Háskóli Íslands gæti tekið til starfa 17. júní 1911, á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, sem eins og að framan greinir má telja fyrsta forvígismann þessa máls hér á landi, sem og fleiri menningar- og nytjamála þjóðarinnar. Í hinni fyrstu setningarræðu háskólans fór rektor dr. Björn M. Ólsen þeim orðum um markmið háskólans, er mér þykir rétt að tilgreina í sambandi við það mál, sem hér er til umræðu. Hann komst svo að orði:
„Markmið háskóla er fyrst og fremst þetta tvennt:
1) að leita sannleikans í hverri fræðigrein fyrir sig, - og
2) að leiðbeina þeim, sem eru í sannleiksleit, hvernig þeir eigi að leita sannleikans í hverri grein fyrir sig.
Með öðrum orðum: háskólinn er vísindaleg rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun.
Í þessu sambandi get ég ekki bundizt þess að drepa á afstöðu háskólanna við landsstjórnina eða stjórnarvöldin í hverju landi fyrir sig. Reynslan hefir sýnt, að fullkomið rannsóknarfrelsi og fullkomið kennslufrelsi er nauðsynlegt skilyrði fyrir því, að starf háskóla geti blessazt. Á miðöldunum voru oft háskólar settir á stofn við biskupsstóla eða klaustur, og gefur að skilja, að klerkavaldið, sem réð slíkum stofnunum, var þröskuldur í vegi fyrir frjálsum vísindaiðkunum. Síðar, einkum eftir reformationina, settu konungar eða aðrir stórhöfðingjar oft háskóla á stofn og lögðu fé til þeirra. Þóttust þeir því hafa rétt til að leggja höft á rannsóknarfrelsi og kennslufrelsi háskólanna, og hafði það hvarvetna hinar verstu afleiðingar. Frjáls rannsókn og frjáls kennsla er eins nauðsynleg fyrir háskólana og andardrátturinn er fyrir einstaklinginn. Landsstjórnin á því að láta sér nægja að hafa eftirlit með því, að háskóla skorti ekki fé til nauðsynlegra útgjalda og að þeir fylgi þeim lögum, sem þeim eru sett, en láta þá að öðru leyti hafa sem frjálsastar hendur um starf þeirra og málefni.“
Þess var þá einnig vandlega gætt, að leyfa háskólanum það sjálfsforræði, er allar aðrar menningarþjóðir hafa talið lífsnauðsyn sinna æðstu menningarstofnana. Það voru margar glæstar vonir, sem í upphafi voru tengdar við stofnun Háskóla Íslands, og þegar litið er yfir starf háskólans þann tæpa aldarfjórðung, sem hann nú hefir starfað, þá hygg ég, að allir góðir Íslendingar hljóti að viðurkenna, einkum er þeir hafa nokkurt tillit til fámennis og fátæktar þjóðarinnar, að stofnun háskólans markar stórt spor í menningar- og sjálfstæðissögu þjóðarinnar.
Ég geri ráð fyrir, að hv. andstæðingum mínum hér þyki lítils um vert, því ég freistist til þess frá eigin brjósti að lýsa afrekum og aðgerðum háskóla vors á farinni braut. Ég mun því leiða það hjá mér að öðru en því, að minnast með þakklæti á ágæta kennslu háskólans og góða umhyggju prófessora hans fyrir velferð nemendanna, jafnframt því sem rétt er að benda á þau félagslegu bönd, sem háskólinn hefir tengt meðal menntamanna þjóðarinnar. En ég vil taka upp ummæli, sem einn af mætustu mönnum háskólans hefir viðhaft um starfsemi hans. Það eru ummæli prófessors Ólafs Lárussonar við setningu háskólans haustið 1931, er háskólinn hafði starfað í 20 ár. Hann komst svo að orði:
„En þrátt fyrir allt, sem nú hefi ég lýst, þá hefir háskólinn samt unnið sitt verk í þessi 20 ár. Honum var og er ætlað að sjá embættismannaefnum þjóðarinnar fyrir nauðsynlegri sérmenntun, guðfræðingum, læknum og lagamönnum. Á þessum 20 árum hafa, að því er mér telst til, 270 manns lokið prófi á háskólanum í þessum fræðum. Nú er svo komið, að meiri hluti af þjónandi prestum landsins og meiri hluti af starfandi lögfræðingum og læknum landsins eru menn, sem fengið hafa sérmenntun sína hér við háskólann. Þessir menn hafa reynzt fyllilega hlutgengir, þeir hafa reynzt standa fyllilega hinum eldri mönnum á sporði, er menntun höfðu hlotið annarsstaðar. Í þessum hópi er fjöldi manna, sem eru mjög vel að sér í sínum fræðum, fjöldi manna, sem þegar hafa sýnt sig að vera hinir mestu nytjamenn, þó þeir séu enn ungir. Þessir menn eru háskólanum vitni, lifandi vitni og gott vitni þess, að starf hans hefir þrátt fyrir alla örðugleika ekki verið unnið fyrir gíg. Á þessum 20 árum hefir einnig vísindaleg starfsemi, í ritum og rannsóknum, verið miklu meiri hér á landi en nokkru sinni fyrr, og mest af því starfi má rekja til háskólans með einhverjum hætti. Einnig á því sviði hefir háskólinn því unnið töluvert verk, þó miklu sé það minna en vera hefði átt. Og vér höfum séð þess fagran vott, að háskólinn á nokkur tök í hugum fólksins, er menn af ýmsum stéttum hafa talið hann verðastan þess að njóta eigna sinna eftir sinn dag, eða treyst honum bezt til þess að verja þeim samkvæmt því, er þeir vildu helzt“.
En prófessor Ólafur Lárusson kvartar undan einu, er háir mjög vexti háskólans, og það er ræktarleysi það, er ýmsir eldri nemenda háskólans sýni honum, er þeir eru horfnir þaðan. Það mun nú ef til vill koma fram við afgreiðslu þessa máls, hversu mikil er tryggð ýmsra hinna eldri nemenda háskólans í garð þessarar stofnunar, er veitti þeim þá hina æðri menntun, er leitt hefir þá til vegs og valda í þjóðfélaginu. En prófessorinn telur það eitt af mestu þrifamálum háskólans, ef bak við hann standi ávallt góðir hugir nemenda hans, eldri sem yngri, ef hann væri í hugum þeirra í raun og sannleika þeirra alma mater, sem þeir litu jafnan til með ást og þakklæti. Og það færi betur, ef slík ræktarsemi hinna eldri nemenda mætti framvegis koma áþreifanlegar í ljós en hingað til.
Enda þótt benda megi á mörg afrek og marga kosti háskólans, þá verður því samt eigi neitað, að nokkur hætta vofir yfir framtíð hans, og hún er sú, hversu fáar hafa verið deildir hans og því fábreytt úrræði stúdentanna til framhaldsnáms. Um þetta atriði farast prófessor Ólafi Lárussyni orð á þessa leið:
„Þó hefir önnur breyting til hins verra orðið á högum stúdenta síðan 1911, og hún miklu alvarlegri, svo ískyggileg, að hún má teljast fullkomið áhyggjuefni; það er sú breyting, sem orðin er á framtíðarhorfum þeirra, hversu nú er miklu tvísýnna en áður, að sérnám þeirra geti komið þeim að gagni í lífsbaráttu þeirra síðar meir. Stúdentaviðkoman hefir margfaldazt síðan 1911 og stúdentatalan hér við háskólann meira en þrefaldazt. Fjölgunin hefir orðið langmest í tveim af deildunum, læknadeild og lagadeild, og enn er ekki farið að draga úr aðstreyminu að þeim. Nú þegar er svo komið, að kandídatar frá þessum deildum eru orðnir svo margir, að í þeim stéttum er orðið yfirfullt, og það er full vissa fyrir því, að mjög margir af þeim mönnum, sem útskrifuðust úr þessum tveimur deildum, nokkuð mörg næstu árin, eiga þess engan kost að fá lögfræði- eða læknisstörf, sem þeir geta lifað við. Þeir verða að leita fyrir sér við önnur störf, eftir að hafa kastað nokkrum beztu árum æfi sinnar á glæ, í nám, sem verður þeim að litlu liði, og eftir að hafa safnað skuldum við það nám, sem verður þeim hlekkur um fót. Þetta er svo komið fyrir handvömm og sinnuleysi þeirra, sem hér eiga hlut að máli, því koma mátti í veg fyrir þetta með ýmsum ráðum. Það mátti með nokkrum fjárkostnaði opna stúdentum nýjar leiðir til framhaldsnáms, sem tryggði þeim betur afkomu síðar meir en þetta embættisnám“.
Frá því að þessi orð voru töluð hefir ástandið vissulega ekki batnað í þessu efni. Þetta ár (1931) voru í læknadeild 64 nemendur, síðan hafa þeir aukizt um 13 að meðaltali á ári; hinsvegar hafa útskrifazt um 10 að meðaltali árlega, svo að nú í ár eru í læknadeild 68 nemendur. Í lagadeild voru þetta ár 42 nemendur, síðan hafa þeir aukizt um 12 á ári, en útskrifazt um 7 árlega. Nú í haust voru í lagadeild um 53 nemendur. Síðastl. ár útskrifuðust í Rvík 37 stúdentar, en á Akureyri 17, eða samtals 54, og af þeim fóru um 30 í lagadeild og læknadeild. Þegar nú er litið á þann fjölda kandídata, sem útskrifazt hafa úr þessum deildum síðastl. ár, og athugaður er hinn mikli fjöldi stúdenta, sem nú eru í þessum deildum, má það öllum ljóst vera. hversu ískyggilegar horfur eru framundan fyrir þessa ungu menntamenn. Þetta bendir því vissulega til þess, hversu rík nauðsyn er nú fyrir hendi vegna stúdentanna sjálfra að skapa þeim hið allra bráðasta ný skilyrði fyrir framhaldsmenntun. Það verður að dreifa stúdentastraumnum. Það er einnig hið mesta heillaráð vegna atvinnuvega landsmanna, að leitast við að fá sem flesta af hinum ungu menntamönnum þjóðarinnar til þess að taka virkan þátt í atvinnulífi hennar.
Allir virðast sammála um nauðsyn þess, að vísindaleg rannsókn sé viðhöfð í þágu atvinnuveganna, en þær staðreyndir, sem að framan greinir um fjölda stúdentanna og þarfir atvinnuveganna fyrir starfskrafta þeirra, ættu að benda til þess, hversu æskilegt sé, að samkomulag náist einnig um stofnun atvinnudeildar við háskólann hið allra fyrsta. Ég þykist hafa bent á það, hvernig kunnugir menn hér á landi hafa litið á nauðsyn sjálfsstjórnar háskólans og hversu aðrar menningarþjóðir láta sér annt um þennan hyrningarstein hinna æðstu menntastofnana þeirra. Þegar háskólalögin voru samin árið 1909, var í rauninni aðeins um að ræða sameiningu hinna þriggja embættiskóla, auk stofnunar nýrrar heimspekideildar. Þá var allur þingheimur sammála um tvo aðaldrætti þessa máls, sem voru sameining og sjálfsstjórn. Það væri betur, að sama viðsýnis gæti nú á Alþingi þjóðarinnar.
Ég vil svo að lokum vísa til þeirrar grg., er fylgir þessu frv., er fyllilega skýrir, hver munur er á því og hinn frv., sem meiri hl. allshn. flytur. Það mun gefast tækifæri til þess við síðari umr. þessa mál að rekja þann mun enn greinilegar, og ég læt því staðar numið að sinni og vil loks mælast til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn. , í þeirri von, að takast megi að fá samkomulag þar um málið.
Emil Jónsson
Það er í raun og veru leiðinlegt, að ekki eru fleiri hv.þdm. hér til þess að hlusta á þessa mjög ýtarlegu sögu háskólans, sem hv.þm. Snæf. hafði nú hér yfir. Hún var í senn fróðleg og um leið ánægjuleg, þar sem hún sýndi það, hversu djúp ítök háskólinn hefir átt í hugum ýmsra góðra manna hérlendis, og sýndi einnig, að hann hefir sitt stutta starfstímabil haft á hendi afarþýðingarmikið starf. En mér finnst, að þetta út af fyrir sig komi ekki svo mjög við þessu máli, sem hér liggur fyrir. Það er ákaflega gott, og það er gaman að geta rifjað upp fyrir sér þessa staðreynd, en það vísar manni ekki þær réttu leiðir í þessu efni. Það segir okkur ekki, hversu velja skuli á milli þessa frv. um stofnun atvinnudeildar við háskólann og þess frv., sem hér var til umr. í gær um rannsóknarstofnun í þágu atvinnuveganna. Þessi frv. eru í raun og veru sama málið, eða kannske heldur sömu tvö málin. Ég kemst því ekki hjá því að bera þessi tvö mál nokkuð saman, enda þótt ekki eigi að fara mjög út í einstök ákvæði við þessa umr.
Það, sem hér er um að ræða, er tvennt. Í fyrsta lagi er það rannsóknarstofnun í þarfir atvinnuveganna, sem hugsað er að tengja við háskólann, og í öðru lagi er það aukin stúdentafræðsla í ýmsum greinum, og hvernig eigi að leggja þar inn á nýjar brautir meira en verið hefir. Um þetta er frv., og það er þetta, sem fyrst og fremst ber að ræða í þessu sambandi.
Þessi tvö mál eiga sér líka sína sögu. Sögu rannsóknarstofnunar fyrir atvinnuvegina má rekja, en ég kann ekki að rekja hana lengra en (6-8 ár aftur í tímann. Fyrsta sjálfsagða sporið í löggjöf landsins í þessu var auðvitað það, þegar samþ. voru árið 1929 lög um rannsóknarstofu í þarfir atvinnuveganna.
Hitt atriðið, að beina stúdentafræðslunni inn á nýjar brautir, er ekki nýtt. Um það var borin fram þál. á þinginu 1931, sem einhverra hluta vegna dagaði uppi. Í sambandi við þá till. var leitað álits tveggja félaga um málið, vísindafélagsins og verkfræðingafélags Íslands. Hvort mál þetta var rætt í vísindafélaginu, veit ég ekki, því að ég er ekki kunnugur þar, en í verkfræðingafélaginu var það tekið upp og rætt, og skal ég í fáum orðum lýsa undirtektum þess undir málið. Það var gengið út frá því, að það útskrifuðust 30-40 stúdentar á ári, og að 1/2 þeirra til 3/4 stunduðu nám hér heima. Hinir færu utan til náms. Væri þetta tekið frá fjárhagslegu sjónarmiði, myndi vitanlega borga sig fyrir þjóðfélagið, peningalega séð í svipinn, að offra miklu fé til þess að halda þeim stúdentum heima, sem utan fara. Líka væri það til hóta fyrir háskólann, að sem flestir stúdentarnir stunduðu nám hér, og vitanlega væri æskilegt, að sem mest af vísindastarfsemi landsmanna færi fram í sambandi við háskólann. En þá er bara spurningin, á hvern hátt hægt er að gera þetta.
Stúdentar þeir, sem fara utan til náms, eru aðallega þeir, sem lesa teknisk fræði. Þau hefir ekki verið hægt að læra hér heima. Það, sem nefnt hefir verið fræðigreinar í þágu atvinnuveganna, er að meira og minna leyti angar af hinu tekniska námi. Þeir stúdentar, sem ætla að nema hin teknisku fræði og náttúrufræði, verða fyrst að hafa lært vissan forða af stærðfræði. Reynslan hefir því verið sú, að þeir, sem nema þessi fræði, geta verið saman við nám 2-3 fyrstu árin. Álit verkfræðingafélagsins var því á þá leið, að helzt myndi tiltækilegt að stofna hér við háskólann kennarastól, þar sem hægt væri að veita stúdentum kennslu í hinu sameiginlega námi í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði, sem er grundvöllurinn undir hinni eiginlegu sérmenntun í þessum fræðigreinum. Þyrftu stúdentar þá ekki að sækja út annað en sérfræðinámið eitt. Ég skal geta þess hér, að verkfræðingafélagið lagði til, að stofnuð yrðu þrjú prófessorsembætti í þessu skyni. Í samræmi við þetta höfum við í skipulagsnefnd byggt upp frv. okkar, og um það er þar enginn ágreiningur. Á þessu stigi málsins töldum við ekki fært að slá því föstu, hverskonar prófessorsembætti skyldi stofna, hvort þau skyldu vera í stærðfræði, eðlisfræði eða efnafræði. En það er víst, að enginn, sem um þessi mál hugsar af alvöru, leggur til, að byrjað verði á því að setja á stofn prófessorsembætti í náttúrufræði.
Eins og sjá má á frv. okkar, þá gerir það ráð fyrir tveimur meginatriðum þessa máls, fyrst rannsóknarstofnun við háskólann, og í öðru lagi heldur það opnum möguleikanum fyrir því að auka stúdentafræðsluna. Að halda opinni fræðslu við háskólann án þess að prófskylda sé, eins og frv. þeirra tvímenninganna gerir ráð fyrir, held ég að sé misráðið. Þeir stúdentar, sem slíka fræðslu fengju, myndu tæplega standa þeim á sporði, sem læsu ytra og tækju þar próf.
þá talaði hv.þm. Snæf. um ræktarsemi við háskólann, hversu hún væri nauðsynleg o. s. frv. Þetta er vitanlega gott og sjálfsagt, og ég skal segja það fyrir mig, að enda þótt ég hafi ekki stundað nám í háskóla okkar, þá ann ég honum alls hins bezta, en ég held, að þessi hv.þm. og meðflm. hans hefðu farið öðruvísi að í þessu máli en þeir hafa gert, ef þeir væru heilir í því. Þeir hefðu reynt að fá breyt. inn í frv. í allshn. , í stað þess að bera fram nýtt frv., sem alls ekki er tímabært, því að þetta mál verður að byggja upp neðan frá, en ekki ofan frá. Ég segi ekki, að fyrir þessum hv.þm. hafi vakað pólitískur ávinningur með þessu, sérstaklega ekki eftir að hafa heyrt hv.þm. Snæf. segja það í gær, að það væri illa gert að fara að draga þetta mál inn í pólitískar deilur. En ég fæ bara ekki séð, hvað þeim hefir gengið til með því að fara að flytja þetta sérstaka frv., með þeim einum breyt. frá frv. okkar, sem áreiðanlega eru til ills eins.
Í frv. skipulagsnefndar er gert ráð fyrir að auka kennslu í þessum fræðum við háskólann strax og rannsóknarstofan telur það tímabært, og ég vænti, að það verði eins heillavænlegt eins og að ákveða nú þegar 3 prófessorsembætti í þessum fræðum við háskólann, svo að segja alveg út í loftið, eins og frv. hv. minni hl. gerir ráð fyrir.
Það munu allir á einu máli um, að hér sé um mjög merkilegt mál að ræða. Er því illa farið, ef hv. minni hl. allshn. tekst að draga það á langinn um skör fram. Ég fyrir mitt leyti sé ekkert því til fyrirstöðu að greiða atkv. á móti frv. þeirra tvímenninganna nú þegar. En fyrir kurteisissakir mun ég þó ekki verða því til fyrirstöðu, að það fái að ganga til n. og athugast þar eins og önnur frv. Geri ég það í trausti þess, að slíkt verði ekki látið tefja þetta sameiginlega áhugamál okkar allra, að komið verði upp rannsóknarstofnun í þarfir atvinnuveganna við háskóla Íslands. því að samkomulag hefir tekizt við happdrættisráðið um það, að hafizt verði handa um að hefja byggingu á húsi fyrir stofnunina eins fljótt og unnt er, ekki síðar en að hausti komanda.
Flm. (Thor Thors)
Hv. þm. Hafnf. reyndi að tala af nokkurri sanngirni um þetta mál, eins og hans er venja yfirleitt. En ég tel hann ekki óhlutdrægt vitni í þessu máli, þar sem hann á sæti í skipulagsnefnd, en hún hefir eins og kunnugt er samið frv. það, sem hann berst fyrir. Það eru þó ýms atriði í ræðu hv.þm., sem ég þarf að svara. Hann byrjaði á því að segja, að það hefði verið ánægjulegt að heyra sögu háskólans sagða hér á Alþingi, enda þótt hún skipti ekki máli í þessu sambandi. En ég verð nú að segja þessum hv.þm. það, að saga háskólans, og skoðanir forgöngumanna hans og stofnenda á því, hvernig þeir höfðu hugsað sér að byggja háskólann upp og gera hann að veglegri stofnun, skiptir einmitt miklu máli í þessu sambandi. Hvað er kannske meira vert, þegar ræða á um slíkt mál sem þetta, en að kynna sér, hvernig þeir menn, sem mest hafa borið hagsmuni háskólans fyrir brjósti, hafa hugsað sér að láta hann eflast, þar til hann hefði fullkomið sjálfsforræði yfir sínum málum og yrði megnugur þess að vera það, sem hann á að vera, æðsta og göfugasta menntastofnun þjóðarinnar.
Ræða hv.þm. var að mestu leyti fræðilegur fyrirlestur, sem ég get alls ekki fallizt á, að öllu leyti að minnsta kosti, enda þótt ég geti ekki borið mína teknisku þekkingu saman við hans. Hann viðhafði sömu vígorðin og rangfærslurnar og samflokksmenn hans í gær, að fyrir okkur flm. þessa frv. vekti aðeins það eitt að fá komið nokkrum nýjum prófessorum að háskólanum. Ég vil nú benda honum á, að hér ber ekki svo mikið á milli frv. Í frv. því, sem hv.þm. styður, er ætlazt til, að 3 vísindamenn vinni að rannsóknum. Það er það sama og við viljum. Munurinn aðeins sá, að við leggjum til, að þeir verði kallaðir prófessorar, og við viljum þjóðnýta þá meira en jafnaðarmennirnir vilja, þar sem við viljum láta þá annast vísindalega kennslu við háskólann samhliða rannsóknarstarfinu. Þessir menn, sem við ætlumst til, að nefndir yrðu prófessorar, myndu verða lærðir menn í fiskifræði, efnafræði og búvísindum. Ég býst því við, að þeir gætu kennt hinum ungu stúdentum nægilega mikið í þessum fræðigreinum, að það gæti orðið þeim að miklu gagni í þágu atvinnulífsins.
Þá gat hann þess, að það væri ekki ætlazt til, að þeir menn, sem nám stunduðu við þessa deild, þyrftu að taka próf. Út af þessu vil ég benda honum á, að 1911, þegar háskólinn var stofnaður, var ekki ætlazt til, að frá heimspekideildinni væri hægt að taka próf. Hér er því ætlazt til hins sama fyrirkomulags fyrst um sinn. Annars býst ég ekki við, að þessi hv.þm. neiti því, að t. d. stúdent, sem vill snúa sér að búskap, hafi ekki gott af því að sækja fyrirlestra til prófessors, sem er sérfræðingur í búvísindum. Eða þá að stúdent, sem ætlar að leggja fyrir sig útgerð, hafi ekki gott af því að hlýða á fyrirlestra í fiskifræði. Þá gæti það og komið til mála, að stúdentar leituðu til erlendra háskóla eftir 2-3 ára nám hér, og tækju þar fullnaðarpróf í þeim fræðigreinum, sem þeir hefðu lagt stund á hér. Á þann hátt gæti atvinnudeildin því orðið til þess að spara mikinn kostnað, sem annars yrði að greiða út úr landinu.
Þá sagði hv.þm., að við byrjuðum á öfugum enda í þessu máli. Ég get hreint og beint ekki skilið, hvað hann á við með þessu. Við byrjum á sama enda og hann og meðnm. hans. Við viljum láta rannsóknarstarfsemina byrja þegar í stað, en við leggjum aðeins til, að þeir, sem hana verða látnir annast, verði jafnframt látnir annast kennslu. Við förum á þann hátt lengra í því að vilja hagnýta starfsorku þeirra manna, sem hér eiga að starfa fyrir ríkið.
Hann talaði og um það, hv.þm., að það væri vafasamt, hversu við flm. frv. þessa værum heilir í þessu máli, úr því að við hefðum farið að koma fram með sérstakt frv., þar sem við ættum sæti í allshn. og ættum því kost á að koma að breyt. við frv. meiri hl. Ég gat í gær vinnubragðanna í nefndinni, að frv. hefði t. d. verið lesið upp á ca. 1/4 klst. og sagt, að það væri komið frá skipulagsnefnd, og því gætum við ekki fengið að koma að breytingum. Var því ekki annað fyrir okkur að gera en flytja þetta frv. Það, sem við förum fram á, er að tryggja háskólanum hina ágætu starfskrafta, sem koma til með að vinna að rannsóknarstarfseminni. Þetta hljóta allir skynbærir menn að sjá, að er heilbrigt, og ég er f. d. viss um, að jafngreindur maður og hv.þm. Hafnf. er sér þetta líka, og hefir strax séð í skipulagsnefnd, en hann hefir bara orðið að láta þar í minni pokann og gera annað en skynsemin bauð honum.
Annars þykir mér undarleg andstaða hv.þm. Hafnf. gegn frv. okkar, því að í fyrra, þegar frv. um svipað efni lá fyrir þinginu, sendi menntmn. Ed. skipulagsn. atvinnumála, sem þessi hv.þm. á sæti i, frv. þetta til umsagnar, og í bréfi til þessarar n. frá skipulagsnefnd var það tekið fram, að n. teldi mikilsvert, að stofnað yrði til fjölbreyttrar rannsóknarstarfsemi við háskóla Íslands í þágu atvinnuveganna, og ennfremur það, að nauðsynlegt væri, að stúdentum væri gefinn kostur á fjölbreyttara námi en verið hefir við háskólann. En þetta er einmitt það tvennt, sem við erum að berjast fyrir og næst með frv. okkar hv. 8. landsk.
Hv. þm. Hafnf. má gera okkur hvaða getsakir sem hann vill í þessu máli, en fyrir okkur vakir ekki annað en að tryggja þessi tvö höfuðatriði, sem tekin eru fram í áðurnefndu bréfi skipulagsnefndar. Og hvað því viðvíkur, að flýtt sé afgreiðslu þessa máls, þá viljum við fúslegu styðja að því, en við viljum vernda frjálsræði háskólans og tryggja möguleika hans sem menntastofnunar meðan kostur er á.
Emil Jónsson
Hv. Þm. Snæf. var í ræðu sinni að vitna í vinnubrögð tveggja nefnda, hv.allshn.Nd. og skipulagsnefndar. Þessar tvær n. hafa það sameiginlegt, að hv. 2. þm. Reykv. er formaður í þeim báðum. En það virtist eiga að vera sönnun þess, að í þeim n. þýddi ekki fyrir einstaka nm. að malda í móinn. Ég þekki ekki til vinnubragða í hv.allshn., en í skipulagsnefnd er reynsla mín sú, að ég hefi aldrei komið þar fram með aths., sem ekki hafa fyllilega verið teknar til greina af form. n. Þetta er nú mín reynsla, en það má vel vera, að hv.þm. Snæf. þykist hafa aðra reynslu af hv. 2. þm. Reykv. í allshn.
Ég skal svo með nokkrum orðum svara því, sem hann var að andmæla í minni ræðu. Hann byrjaði á því að tala um, að ég væri ekki óvilhallt vitni í þessu máli, þar sem ég ætti sæti í skipulagsnefnd og hefði samið frv. En ég tel mig hafa sérstaka aðstöðu til þess að bera vitni í þessu tilfelli, þar sem ég hefi sérstaklega numið þá fræðigrein, sem hér er um að ræða. Ég hefi auk þess kynnt mér þetta mál mikið og mér var falið að semja svar skipulagsnefndar til allshn. Ed. , og ég er enn, eins og ég var þá, fyllilega samþ. því bréfi, m. a. því, sem hv.þm. las upp úr bréfi n., að nauðsynlegt sé að gera starf háskólans fjölbreyttara, bæði sem rannsóknar- og kennslustofnun. Ég er enn fyllilega á þessari sömu skoðun. En ég álít, að frv. það, sem hér liggur fyrir, samrýmist ekki þeirri stefnu. Og þó ég hafi flutt frv., sem fer í gagnstæða átt, þá tel ég, eins og ég hefi þegar tekið fram, að ég hafi aðstöðu til þess að dæma óvilhallt um þetta atriði.
Þau sterkustu rök, sem hv.þm. Snæf. flutti fyrir sínu frv., voru þau, að með því væri stefnt að því að nota betur en gert væri ráð fyrir í frv. allshn. starfskrafta rannsóknarstofunnar, að þeir vildu þjóðnýta þá meira en við. Ég hefi ekkert við það að athuga, þó hv.þm. Snæf. og hv. 8. landsk. vilji þjóðnýta, en mér virðist sú þjóðnýting, sem þeir stefna að með þessu frv. sínu, vera fremur ópraktísk og kákkennd.
Þar, sem ég þekki til slíkra háskóladeilda í öðrum löndum, eru hafðir specialprófessorar í hverri grein, sem ekki eru látnir kenna aðrar greinar en þá, sem hver er sérfræðingur í. Þar kæmi t. d. ekki til mála að láta sérfræðing í líffærafræði kenna eðlisfræði, stærðfræði og efnafræði. Þó hann að sjálfsögðu hafi numið nokkuð í þeim fræðigreinum, þá væri hann vitanlega langt frá fær um að kenna þær við háskóla. Í þessu samþ. vil ég sérstaklega geta þess, að til þess að kenna þessar sömu fræðigreinar við menntaskólann hér þarf kennarinn að vera magister með háskólaprófi, og má þá nærri geta, hvort eðlilegt er að gera minni kröfur til kennara í sömu greinum við háskólann. Nú vil hv.þm., að fiskifræðingurinn kenni stærðfræði og eðlisfræði, en það er bersýnilega óviðunandi við háskóla, bæði hér á landi og annarsstaðar, eins og ég hefi þegar sýnt fram á.
Þá minntist hv.þm. á prófin og vildi halda því fram, að mikið gagn gæti orðið að kennslunni, þó ekki væri um próf að ræða. T. d. hefðu stúdentar, sem ætluðu að stunda búskap, mikið gagn af því að hlusta á fyrirlestra um búskap, og þeir stúdentar, sem ætluðu að stunda útgerð, hefðu mikið gagn af því að hlýða á fyrirlestra fiskifræðilegs efnis, þó þeir tækju ekki próf í þessum greinum. Ég skal ekki halda því fram, að ekkert gagn væri að slíku námi, en það væri þá aðeins það, sem á dönsku er kallað „populær“ fræðsla. En af slíkri kennslu verður aldrei neitt vísindalegt gagn. Hv. þm. sagði, að hér yrði um að ræða upphaf fræðslu, sem þeir nemendur gætu byggt ofan á, er þess óskuðu, en þetta er ekki heldur rétt, hér er aðeins um „populæra“ fræðslu að ræða, m. ö. o. , slík fræðsla yrði aðeins gutl, því eins og ég tók fram áðan greinilega, þá eru stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði þau undirstöðuatriði, sem atvinnuvísindin byggjast á, og þær námsgreinar verða ekki kenndar nema af faglærðum mönnum, svo að fullkomnu vísindalegu gagni sé. Við höfum aðeins einn sérfræðing í einni þessari grein, efnafræðinni. Hann getur kennt í þeirri grein, en ekki öðrum. En það nær ekki nokkurri átt að byrja með því að láta fiskifræðing eða landbúnaðarfræðing kenna stúdentum á fyrsta ári stærðfræði og eðlisfræði, þær grundvallarfræðigreinar, sem verður að byrja á.
Við hv.þm. Snæf. viljum báðir styðja háskólann. Ég legg áherzlu á að innleiða þar ekkert fúsk. Það er minn metnaður, að skólinn standi jafnfætis erlendum háskólum í þeim greinum, er hann tekur fyrir, og ég álít, að hann eigi ekki að taka meira fyrir en hann getur sómasamlega staðið við, og það er að taka stúdentafræðsluna fyrstu tvö árin með sama fyrirkomulagi og tíðkast við háskóla erlendis, en lengra eigi hann ekki að fara fyrst um sinn.
Ég hefi í höndum skrá yfir þá íslenzka stúdenta, sem stunda nám erlendis. Þeir eru nú 90 talsins, og það eru æðimargar fræðigreinar, sem þeir stunda, t. d. hagfræði, vátryggingarfræði, verzlunarfræði, landafræði, dýrafræði, grasafræði. jarðfræði, eðlisfræði, efnafræði og stærðfræði o. fl. Svo er verkfræði. Þar getur verið um fjórar og jafnvel sex greinir að ræða; svo er tannlækningafræði, lyfjafræði, byggingarfræði, gerlafræði og margar, margar fleiri fræðigreinir, sem ég hirði ekki að telja upp. En undirstöðuatriði allra þessara fræðigreina má kenna hér heima; það er hægt að leggja grundvöllinn að hverskonar sérmenntun hér, en toppinn verður að sækja til erlendra háskóla, að því er mér virðist. Þó við höfum sérfræðing í einu fagi, þá getur hann ekki veitt kennslu nema í því fagi. Hann getur aðeins starfað á sínu afmarkaða sviði. Ég álít, að einmitt þetta eigi að vera metnaður íslenzkra stúdenta, að eiga kost á sem fullkomnastri undirbúningsfræðslu fyrir sem flestar sérfræðigreinar, en að sækja verði toppinn af menntuninni til útlanda, meðan ekki eru bentugleikar á því að fá hana fullkomna hér á landi. Þess vegna er mér ákaflega illa við að slá því föstu, að gera að prófessorum í hinum nýju fræðigreinum aðra en þá, sem hafa fyllstu sérfræðimenntun í hverju fagi. Ég er sannfærður um, að með því er lagt út á skakka braut, og það hefir ekkert komið fram, sem afsanni þá skoðun mína.
Sigurður Einarsson
Mér heyrðist síðan í umr., að hv.þm. Snæf. væri að lýsa eftir óvilhöllu vitni í þessu máli, og þar sem mér heyrðist á honum, að sá hv.þm., sem hann átti þá orðastað við, væri tæplega fullnægjandi í því efni, þá ætla ég að reyna, hvort ég get gilt sem vitni, er hann tekur til greina, þó ég viti ekki, hver dómur bíður mín í því efni. En tvo góða eiginleika hefi ég til brunns að bera í þessu máli, sem varðar Háskóla Íslands. Annar er sá, að vera gamall nemandi úr háskólanum, og hitt, sem ef til vill er meira virði, og það er að vera ekki í skipulagsnefnd, en á þeim mönnum, sem þar eiga sæti, virðist hv.þm. Snæf. hafa tilhneigingu til að hafa litla trú.
Það var eitt í ræðu hv.þm. Snæf. , sem kom mér sem gömlum háskólanemanda til að taka til máls, og það var það, að mér fannst þar skína gegnum ræðu hv.þm., að þeir, sem ekki fylgdu hans frv., hefðu ekki rétt til þess að heita unnendur háskólans. En þetta er mesti misskilningur. Ég held, að það verði út af fyrir sig engu slegið föstu um það, hvorir vilji háskólanum betur, og a. m. k. finnst mér að það séu ekki þeir hv.þm. Snæf. og hv. 8. landsk.
Þegar ég var nemandi í háskólanum, þá var mér það ljóst, að hann hafði bæði marga kosti og marga ókosti, og í tilefni af þeim umr., er farið hafa hér fram, vildi ég rifja upp nokkuð af því, sem mér þótti mest ábótavant. Það er þá það fyrst, sem við nemendur fundum að háskólanum, að námið var óvísindalegt, auk þess, sem hér var fátæk stofnun, húsnæðislaus, er átti við marga fleiri erfiðleika að stríða. Ég býst ekki við, að nokkur í minni deild hafi verið svo hrokafullur að halda því fram, að kennslan væri vísindalega fullkomin. Og ég vil taka fram, að ég held, að munurinn á minni deild og öðrum deildum skólans hafi verið sáralítill. Ég segi þetta ekki af neinum kala til stofnunarinnar eða einstakra manna, en skólinn var eins og barn, sem er að rakna úr reifunum. Þess vegna hlýtur það að gleðja gamla nemendur, þegar tilraun er gerð til að ráða bót á þessu og háskólinn á að fá skilyrði til þess að verða vísindastofnun. En hingað til hefir hann alltaf verið fyrst og fremst arftaki þeirra þriggja embættaskóla, sem hann var stofnaður upp úr. Hann hefir m. ö. o. verið embættismannaskóli.
Í frv. því, sem fyrir liggur frá allshn. , er m. a. stefnt að þessu tvennu: Fyrst að fullnægja margra ára ósk um það, að komið verði á stofn sem fjölbreyttustum vísindalegum rannsóknum fyrir atvinnuvegina, og í öðru lagi það, að þegar stofnuninni vex fiskur um hrygg, þá geti þar hafizt vísindaleg kennsla. Þó ég telji það ekki mitt verk að bæta upp hv.þm. Hafnf. , þá held ég, að það sé þetta, sem hann átti við með því „að byrja á réttum enda“.
Hv. þm. Snæf. taldi sig berjast fyrir sjálfsstjórn háskólans og taldi það atriði ásamt rannsóknarfrelsinu stofnuninni mest virði. Ég skal viðurkenna það, að sjálfsforræði háskólans er mikils virði, en ég vil skjóta því til hv.þm., hvort sjálfsforræði háskólans er ekki einmitt bezt tryggt með því að fara þær leiðir, sem háskólaráðið hefir mælt með. Nú er það upplýst, að frv. allshn. er samþ. af háskólaráði. Ég veit hinsvegar ekkert, hvað ráðið segir um frv. hv.þm. Snæf. og hv. 8. landsk. , en hv. sessunautur minn, 8. landsk.þm., skýtur því að mér, að tvær deildir skólans vilji samþ. það. Þetta má vel vera, en það liggur ekkert um það fyrir hv.þd. En það er skoplegt, ef það á að vera sérstakur talsmaður sjálfsforræðis háskólans, sem kappkostar að vinna gegn vilja og í trássi við meiri hl. háskólaráðs, með því að fylgja þeim tveim deildum, sem fara vilja sínar eigin götur. Hv. þm. Snæf. þykist vilja vernda háskólann gegn óvinum hans, með því að koma í veg fyrir, að samþ. verði frv. allshn„ af því það stefni að því að rýra háskólann. En þar sem þetta sama frv. er samþ. af sjálfu háskólaráðinu, þá er stefna þessa hv.þm. og hv. 8. landsk. sú, að vernda háskólann gegn sjálfum sér. Það virðist ekki vera sem bezt samræmi í því, að þykjast vilja auka sjálfsforræði háskólans, en flytja til þess frv., sem háskólaráðið er mótfallið. Háskólaráðið hefir sýnt, að það er fylgjandi frv. því, sem var hér til umr. í gær, um að byrja á rannsóknum fyrir atvinnuvegina, og síðan að taka kennslu fyrir, er stofnuninni vex fiskur um hrygg, með því að vilja verja fé happdrættisins til bygginga í samræmi við það frv. Ég vil öruggt treysta því, að stefna háskólaráðsins muni vera skólanum fyrir beztu, en tel hitt hæpið, að stuðningur eða andstaða gegn frv. hv.þm. Snæf. sé nokkur mælikvarði á ræktarsemi gamalla nemenda og annara við háskólann.
Flm. (Thor Thors)
Það eru nokkur atriði í ræðu tveggja hv. síðustu ræðumanna, sem ég vil svara. Hv. þm. Hafnf. sagði, að flokksbróðir sinn, hv. 2. þm. Reykv., væri ákaflega samvinnuþýður. Ég skal ekki efa, að hann geti verið það, en ég held þá, að sú hlið snúi aðeins að samflokksmönnum hans, en ekki andstæðingum. Ég býst við, að flokksmenn hans verði meir varir blíðu hans en við andstæðingar hans. Það er rétt hjá honum, að frv. meiri hl. allshn. er flutt í samráði við meiri hl. háskólaráðs; hv. 9. landsk. minntist á hið sama, en ég vil benda á það, að í svari háskólaráðs til hæstv. kennslumálaráðh. út af þessu frv. er það tekið fram, að háskólaráðið geti fallizt á frv. með því móti, að úr því væru felld nokkur atriði. Þetta hefir að vísu verið gert, ákvæðin hafa verið felld úr frv., en þó ekki betur en svo, að þó ákvæði þessi hafi verið felld úr frv. sjálfu, þá byggir grg. enn á þeim ákvæðum. Það hefir því ekki fyllilega verið gengið inn á skilyrði háskólaráðsins, og ennfremur segir háskólaráðið í bréfi sínu, að það áskilji sér rétt til þess að koma með brtt. við frv. á þinginu. ef því sýnist þess þörf við nánari athugun. Háskólaráðið hefir því enganveginn samþ. frv. eins og það er, heldur óskað að mega flytja brtt. við það. Háskólaráðið hefir því svipaða afstöðu til frv. og n. á Alþingi, sem vill, að eitthvert sérstakt mál nái fram að ganga og skrifar undir álit þess efnis, en einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja brtt. í málinu. Og hv.þm. vita, að þessi réttur nefndarmanna getur náð til verulegra málsatriða. Þó það hafi marizt í gegn að fá þrjá menn úr háskólaráðinu af fimm til þess að tjá sig frv. fylgjandi í aðalatriðum, þá er mér kunnugt, að fjórir af meðlimum háskólaráðsins hafa hug á því að koma með verulegar brtt. við þetta frv., sem allar stefna í sömu átt og okkar frv., og hv. 9. landsk. má enganveginn misskilja það, þó háskólaráðið hafi fallizt á þetta frv. í bili, þar sem það sér, að það, sem betra er, fæst ekki, og álitur því rétt að sætta sig við það, sem minna er. Afstaða háskólaráðs virðist því sú, að það tekur við öllu, sem að því er rétt, en eigi „með auðmýkt né knúsandi lotning“, eins og mig minnir, að þessi hv.þm. hafi komizt að orði eitt sinn í vísu í skóla. Vilji háskólaráðsins er sá sami og var á síðasta þingi, er frv. um atvinnudeild var borið fram af kennurum háskólans, og þeirra óskir eru ennþá þær sömu og verið hefir.
Hv. 9. landsk. fór mörgum orðum um sjálfsforræði vísindastofnana og virtist því hlynntur, enda er svo, að engin menningarþjóð lætur sér sæma neitt annað en fullkomið sjálfsforræði sinna vísindastofnana, því að um leið og þær væru sviptar frelsi sínu væri girt fyrir allan vöxt þeirra og þróun. Það nægir t. d. að benda á, hve ríka áherzlu Englendingar leggja á það, að þeirra háskólar hafi algerð ráð yfir öllum sínum málefnum, ekki aðeins fullkomið sjálfsforræði til vísindalegrar starfsemi, heldur einnig fullkomin fjárráð. Þeir háskólar í hinu brezka heimsveldi, sem standa á traustustum grundvelli, eru háskólarnir í Oxford og Cambridge, sem eru algerlega sjálfstæðar stofnanir og óháðar ríkisvaldinu.
Þá vil ég aftur víkja að hv.þm. Hafnf. Mér fannst kenna þess hjá honum, að hann sem sá strangvísindalegi maður, eins og hann er eða vill vera, vildi gera fyllstu kröfur til vísindalegrar starfsemi háskólans. Ég verð að taka undir það, sem flokksbróðir hans, hv. 9. landsk. , sagði, að Háskóli Íslands getur ekki, af þeim ástæðum, sem hann tók fram, orðið nokkurntíma fullkomin vísindaleg stofnun. Hv. þm. Hafnf. sagði, að að þessum mikilvægu málum og vísindagreinum, sem rætt er um í þessu frv., starfaði fjöldi sérfræðinga og prófessora erlendis. Það er rétt, en þetta sama á sér stað um aðrar deildir háskólans, sem nú eru starfandi. Það mun t. d. hvergi í heiminum þekkjast, að prófessorar í læknisfræði séu látnir kenna jafnmikinn fjölda vísindagreina og hér. Og hvergi nokkursstaðar þekkist, að prófessorar í lögfræði séu látnir kenna jafnmargar greinir lögfræðinnar og hér. Við höfum orðið að gera þetta, því að við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti. Hv. þm. Hafnf. spurði. hvaða heilvita maður gæti látið sér til hugar koma að láta prófessor í fiskifræði kenna stærðfræði. En hver er kominn til að segja, að prófessor í fiskifræði geti ekki haft verulega þekkingu á stærðfræði? Á sama hátt mætti segja, að það sé óviðeigandi að láta sérfræðing í refsirétti kenna ríkisrétt, og eins mætti segja, að ófært væri að láta prófessor í lyfjafræði kenna handlækningafræði. við verðum að blanda þessu saman að meira og minna leyti, vegna þess að við höfum ekki ráð á að halda við háskólann allan þann sérfræðingafjölda, sem stærri og ríkari þjóðir geta veitt sér.
Hv. þm. Hafnf. sagðist geta fallizt á, að það gæti orðið nokkuð mikið gagn að þessum fyrirlestrum fyrir þá stúdenta, sem ætluðu sér í atvinnudeildina, en vildi skopast að því, að ég hafði látið þau orð falla, að að því mundi verða eitthvert alþýðlegt gagn. Mér þykir það koma úr hörðustu átt, þegar maður úr Alþfl. skopast að því, sem kallað er alþýðlegt gagn, en ég vil telja það, að almennt gagn út af fyrir sig, þó að það sé ekki strangvísindalegt, sé spor í rétta átt. En mér fannst kenna missagnar í ræðu þessa hv.þm. þegar hann í sambandi við þetta atriði sagði, að upphafið væri ekki rétt að kenna hér, en sagði svo síðar, að undirstöðuna í þessum greinum mætti kenna hér við háskólann, en „toppinn“ yrði að fá erlendis. Hér fundust mér rökin stangast.
Ég hygg, að það atriði sé réttara, að einmitt upphafið megi kenna hér heima, og þá sérstaklega með því að leiðbeina stúdentum um, hvaða bækur þeir eigi að lesa, og síðan komi svo „toppurinn“ erlendis, ef þeir óska að fullnema sig vísindalega. Hv. þm. Hafnf. viðurkenndi í þessu sambandi, að nokkuð mætti draga úr straumi stúdenta til erlendra háskóla með stofnun atvinnudeildar, en ég hygg, að sá straumur verði aldrei stöðvaður, og ég efast um, að rétt væri að stöðva hann. Það eru til þær vísindagreinir, sem menn munu alltaf nema betur við stærstu háskóla erlendis heldur en hér heima. En það er annað, sem það getur haft áhrif á að stofna atvinnudeild, og það er, að með því er hægt að bjarga mörgum stúdentum úr læknadeildinni og lögfræðingadeildinni, þeim stúdentum, sem neyðast til að fara í þær deildir, frá því að eyða sínum beztu árum í nám, sem fyrirsjáanlegt er, að ekki getur veitt þeim lífsviðurværi, og að þjóðin hefir ekki þörf fyrir á næstu árum. Þetta er ef til vill stærsta atriðið, að breyta þessum stúdentastraum, hvort sem hann verður kyrr innanlands af fjárhagsástæðum eða öðrum ástæðum.
Ég efast um, að þýði nokkuð að lengja þessar umr. Það er orðið nokkuð skýrt, hvað á milli ber, en í sambandi við það atriði, sem kom fram í ræðu hv. 9. landsk. , að hann teldi það litla ræktarsemi við háskólann, þó að atvinnudeildin væri stofnuð, þá vil ég minna á það, að þessi nýja deild miðar að því að gera háskólann fjölbreyttari og fjölþættari en áður. Hún miðar að því að gera honum kleift að taka við fleiri stúdentum en áður hefir verið, og gerir honum ennfremur kleift að senda frá sér kandídata og menntamenn út á fleiri svið þjóðlífsins en hingað til hefir verið. Ég vil telja, að þessi atriði sem öll miða að því að efla og styrkja háskólann, hljóti að benda til þess, hvort um ræktarsemi til háskólans er að ræða eða ekki.
Emil Jónsson
Ég er að mörgu leyti ánægður með þessar umr., því að þær hafa nú um síðir komizt að kjarna málsins, svo að nú er hægt að taka skýra afstöðu með eða móti, og ég vænti, að hv.þdm. verði ekki í vandræðum með það.
Deilan snýst aðallega um það, hvort á að láta fiskifræðinginn kenna stærðfræði og landbúnaðarkandidata eðlisfræði. Ég hika ekki við að láta það í ljós, að ég vil heldur enga stærðfræði heldur en að láta fiskifræðinginn kenna hana, og enga eðlisfræði heldur en að láta landbúnaðarkandídat kenna hana. En þetta er atriði, sem hver gerir upp við sjálfan sig, eftir því sem hann hefir þekkingu og vit til. Það hefir einu sinni komið fyrir, að grasafræðingur hefir kennt mér stærðfræði, og það er sú aumasta kennsla, sem ég hefi nokkurntíma fengið. Var þó maðurinn mjög vel fær á síns sviði, sem var raunar allt annað en stærðfræði.
Þá vildi hv.þm. Snæf. skopast að því, eða snúa út úr því, sem ég sagði um „populæra“ fyrirlestra, og vildi þýða það sem alþýðlega fyrirlestra. Ég veit, að þetta er sagt á móti betri vitund. Hann veit vel, hvað er meint með „populærum“ fyrirlestrum og háskólafyrirlestrum. Háskólamenntun byggist á strangvísindalegum grundvelli, þar sem teknir eru hinir færustu menn, sem völ er á, til þess að hægt sé að taka málin eins föstum tökum og eins vísindalega og unnt er. Aftur á móti miðar þetta fyrirlestrahald, sem ég nefndi „populæra“ fyrirlestra og ekki er rétt þýtt að kalla alþýðlega fyrirlestra - að því að segja mönnum frá ýmsum hlutum almennt, án þess að rekja rætur þeirra ofan í kjölinn. M. ö. o. að láta menn fá yfirborðsþekkingu án þess að rekja orsakir og afleiðingar eins langt og hægt er. Þetta er munurinn á þessu tvennu. Ég veit, að hv.þm. gerir sér það ljóst, þó að hann væri að reyna að snúa út úr fyrir mér. Ég vildi með þessu sýna fram á, að það er óheilbrigt, þegar háskólanámið er komið í það horf að vera yfirborðsfræðsla, því að það er í raun og veru rétta þýðingin á því orði, sem ég notaði, en ekki hitt, sem hv.þm. vildi kalla alþýðlega fræðslu.
Þá eru tvö atriði ennþá, sem ég vildi minnast á. Hv. þm. sagði, að háskólaráðið hefði ekki samþ. frv. eins og það lá fyrir. Ég kann þessu illa, því að ég veit ekki betur en formaður háskólaráðsins og rektor háskólans hefðu verið með okkur á fundi, þegar gengið var frá frv. Og ég man eftir, að ég spurði hann, hvort hann gæti fellt sig við frv. eins og það lá fyrir, og kvað hann já við því, og ætla ég, að hann beri ekki á móti því.
Þá minntist hv. síðasti ræðumaður á sjálfsforræði þessarar deildar. Ég skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr frv. okkar síðari málsgr. 14. gr.:
„Kennarar rannsóknarstofnunarinnar mynda þá sérstaka kennsludeild í háskólanum, og lýtur hún sömu almennum fyrirmælum um skipulag sem aðrar kennsludeildir háskólans.“
Það er enginn munur á yfirstjórn þessarar deildar eftir að hún er komin í gang og hinna annara deilda háskólans. Þess vegna er það rangt, að yfirráð þessarar deildar séu hrifsuð undir aðra aðila heldur en aðrar deildir háskólans, sem fyrir eru. En hitt er annað mál, að með rannsóknarstofnuninni er því komið nokkuð öðruvísi fyrir, þar sem atvmrh. er ætlað að hafa yfirstjórn hennar að nokkru leyti, til þess að geta lagt fyrir hana nauðsynleg verkefni, sem hann telur mest aðkallandi.
Ég hefi tilhneigingu til, ef ég væri ekki búinn með minn ræðutíma, að fara nokkuð út í þær greinar frv. hv.þm., þar sem felld eru niður yfirráð atvinnuveganna með öllu móti yfir þessari rannsóknarstofnun, en ég get kannske síðar fengið tækifæri til þess.
Þá minntist hv.þm. á, að það kenndi nokkurs tvískinnungs hjá mér, þegar ég talaði um, að undirstaðan ætti að nemast hér heima, en „toppinn“ yrði að fá erlendis, og svo hinsvegar, að sumir menn gætu tekið að sér að kenna hann hér heima. Það má vera, að við fljótlega athugun virðist þetta vera einhver tvískinnungur, en svo er þó alls ekki. Mín meining er sú, að aðalstarf þessarar deildar eigi að vera undirbúningur, en í þeim einstöku fáu tilfellum, sem „toppinn“ er hægt að fá hér heima, þá getur verið, að mögulegt sé að fá specialista, tvo, þrjá eða fjóra, sem geta útskrifað kandídata. En það verður ekki aðalatriðið, heldur hitt, að undirbúa. Þess vegna hefir mér aldrei dottið í hug, að stöðvaður yrði straumurinn til útlanda, en ég álít mikið undir því komið að mega taka tvö til þrjú fyrstu árin hér heima. Ég vænti þess, að um það getum við orðið sammála.
Sigurður Einarsson
Ég hafði tekið eftir þessum orðum í bréfi háskólarektors, sem hv.þm. Snæf. vitnaði í. Niðurlag bréfsins er ósköp einfalt; háskólaráðið hefir áskilið sér rétt til þess að koma fram með brtt. við frv., ef því sýndist þess þörf eftir nánari athugun á því. Bréfið er dagsett 4. marz. Það er því orðið langt síðan. Ég ætla að gera ráð fyrir, þar sem um svona mál er að ræða, að sú nána athugun, sem háskólarektor gat um, hafi nú þegar farið fram, en við umr. málsins gaf sig enginn fram með brtt. , sem háskólarektor hefði viljað gera, svo að þetta út af fyrir sig hefir ekkert að segja. Það er óviðfelldið að vera að vitna í það, sem fer á milli manna í einkamálum eða einkaviðræðum, en ég hefi átt tal við prófessora í háskólanum um þetta mál og sé enga ástæðu til þess að taka það hátíðlega, að þessu frv., sem hv. meiri hl. allshn. flytur, sé á neinn hátt kúgað upp á háskólaráðið. Ég hefi ástæðu til þess að ætla, að háskólaráðinu sé alls ekki óljúft að fá þessa merkilegu og miklu aukningu við háskólann, enda hefði það varla farið að kaupa hana því verði, sem raun er á, ef þeim væri það óljúft.
Svo er eitt enn, sem ég ætla að minnast á, rétt til gamans í þessum umr. í lokin. Hv. þm. Snæf. játaði, að því er snerti þá kennslu, sem hann í sínu frv. gerir ráð fyrir að fari fram, að hún geti orðið að talsverðu gagni, þó að hún yrði ekki strangvísindaleg. Og mér fannst, ef ég hefi ekki misskilið hann, að hann játaði með þessum orðum, að svo mundi fara, að þetta yrði ekki strangvísindaleg kennsla. En í lok ræðu sinnar kvað hann nytsemina af sínu frv. vera einkum þá, að með því, sem þar er gert ráð fyrir, væru háskólanum gefnir möguleikar til þess að taka fleiri stúdenta og senda fleiri kandidata út á fleiri svið þjóðlífsins. En í 3. gr. frv. segir svo, að kennslu og próf skuli ákveða í háskólareglugerð, en þó megi fresta að veita deildinni prófréttindi að einhverju leyti eða öllu. M. ö. o. , hv.þm. gerir ráð fyrir, að því verði frestað að veita henni prófréttindi, en samt ætlar hann að láta þessa deild senda fleiri kandidata út á fleiri svið þjóðlífsins. - Það má hv.þm. Snæf. vei vita, að það munn ekki margir stúdentar stunda nám í þessari deild, sem þeir eru vissir um, að ekki verður skoðuð sem vísindastofnun og þeir tækju aldrei próf frá og þar af leiðandi yrðu aldrei skoðaðir sem kandidatar. Þetta er því eitthvað losaralegt, og ég fæ ekki skilið, að það fylgi ströng alvara málum hjá hv.þm. Snæf. , þegar hann er að tala um hina mörgu væntanlegu kandídata, sem eigi að útskrifast frá þessari deild, þar sem svo í 3. gr. frv. er svo kveðið á, að engin próf skuli taka í deildinni, eða a. m. k. ekki að fullu.
Garðar Þorsteinsson [óyfirl.] :
Ég mun ekki lengja mikið umr. um þetta mál á þessu stigi. Það verður efalaust athugað í n. og við 2. umr.
Mér skilst, að það sé ekki mikill ágreiningur um það, að þeirri rannsóknarstofnun, sem gert er ráð fyrir í báðum frv., sé svipað fyrir komið í þeim báðum. Henni er skipt í jafnmargar deildir og það eru jafnmargir menn, sem eiga að starfa við hana eftir báðum frv. Það, sem ágreiningurinn virðist vera um, er það, hvort jafnframt því, að þessir menn, sem eiga að hafa á hendi vísindalega starfsemi, eigi að vera kennarar við háskólann eða ekki. Ég verð að segja, að mér finnst sú mikla andstaða, sem hv.þm. Hafnf. kom fram með gegn frv., sem einmitt byggðist á þessu atriði, vera undarleg, þegar hann í öðru orðinu segir, að það sé knýjandi nauðsyn að efla háskólann sem mest og gera hann svo fjölþættan, að þeir stúdentar, sem nú leita út fyrir landsteinana, þurfi þess ekki. Ég skil ekki, ef efni þessara tveggja frv. er að þessu leyti til shlj. og ef hv.þm. jafnframt álítur, að það beri að efla háskólann, hvers vegna hv.þm. vill ekki ganga einhverja miðlunarleið á móti okkur, sem flytjum þetta frv. til þess einmitt að geta fullnægt þessu atriði.
Hv. þm. hefir sagt það í öllum ræðum, sem hann hefir flutt í þessu máli, að hann vilji ekki láta kennsluna vera neitt kák. Nú hefir þessi hv.þm. alls ekki sannfært mig um það, að þeir menn, sem gert er ráð fyrir, að starfi í atvinnudeildinni og hafi hinar aðrar undirdeildir, séu ekki svo faglærðir, að þeir geti tekið að sér þessa kennslu á vísindalegan hátt. Ég vil benda á, að samkv. okkar frv. eiga að starfa þarna auk prófessors í búnaðarvísindum, annars í fiskifræði og þriðja í efnafræði, aukakennarar, ekki fleiri en 6 samkv. nánari ákveðum regluverðar, eða 9 kennarar alls.
Nú fæ ég ekki séð annað en að þessir þrír prófessorar og hinir aðrir 6 menn, sem gert er ráð fyrir, að kenni í þessari deild, séu færir um að kenna undirstöðuatriðin, sem hv.þm. Hafnf. var að tala um, auk þess að alltaf mætti auka við starfskrafta. Ég er því viss um, að hv.þm. er ekki á móti þessu frv. vegna þess, að það sé óframkvæmanlegt, heldur miklu fremur vegna hins, að það virðist vera „princip“ hjá sósíalistum, að það „pródúkt“, sem kemur frá þeirri rauðu nefnd, sem hv.þm. á sæti í, sé svo gott, að ekki megi þynna það út með till. sjálfstæðismanna. Þessu til sönnunar skal ég ennfremur benda á, að í 14. gr. frv. meiri hl. allshn. er gert ráð fyrir því, að þeir menn, sem samkv. báðum frv. eiga að starfa við rannsóknarstofnunina skuli vera kennarar í þessari kennsludeild háskólans. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp 14. gr. frv.:
„Þegar því verður við komið, að dómi rannsóknarstofnunarinnar og atvinnumálaráðherra, að tekin verði upp kennsla við Háskóla Íslands í þeim fræðigreinum, sem rannsóknarstofnunin einkum fjallar um, skulu starfsmenn stofnunarinnar annast kennsluna. Kennarar rannsóknarstofnunarinnar mynda þá sérstaka kennsludeild í háskólanum, og lýtur hún sömu almennum fyrirmælum um skipulag sem aðrar kennsludeildir háskólans.“
„Þegar því verður við komið“, segir í 14. gr. frv., skulu starfsmenn stofnunarinnar annast kennsluna. Það er ekki annað, sem við förum fram á. En ef þetta er ekki nægilegt samkv. okkar frv., hvernig getur það þá verið það samkv. frv. meiri hl. allshn. ? Og ef það er ekki, hvers vegna hefir þessi hv.þm. þá ekki sett ákvæði um það, hverjir skuli kenna þessi undirstöðuatriði, stærðfræði og efnafræði?
Hv. þm. sagði, að rektor háskólans hefði þegar gengið inn á frv. og lýst yfir því, á fundi, að hann væri því samþykkur. Með allri virðingu fyrir rektor háskólans, þá vil ég segja það, að hann hefir ekki talað þarna í umboði háskólaráðsins, því að það var klofið í málinu, og meiri hl. kennara háskólans var á móti frv. n., þótt meiri hl. háskólaráðs væri e. t. v. með því. Þetta veit hv.þm. Hafnf. , þótt hann vilji dylja það fyrir d., og ef hann og hv. 9. landsk. vilja fá rétta umsögn um málið, þá skora ég þá að beita sér fyrir því, að flokksbróðir þeirra, sósíalistinn Héðinn Valdimarsson, 2. þm. Reykv., form. allshn. , sendi háskólaráði og hinum einstöku deildum háskólans frv. til umsagnar. Það ætti að vera þeim ljúft, ef þeir eru eins vissir um fylgi þessara aðilja og þeir láta.
Flm. (Thor Thors)
Ég get, eins og hv.þm. Hafnf. , látið í ljós ánægju mína yfir þessum umr., því að þær munu hafa skýrt málið fyrir þingheimi. Virðist vera aðalatriðið, hvort atvinnudeildina skuli stofna nú þegar, eða bíða eftir því, að vísindamenn séu til í öllum þeim greinum innan stofnunarinnar, sem kennsla á að fara fram í. Ef hnigið er að því ráði að bíða, hlýtur að verða frestur á framkvæmdum um alla ófyrirsjáanlega framtíð. Því að það veit hv.þm. eins vel og ég, að svo margar vísindagreinar munu verða innan stofnunar þessarar, að áratugir hljóta að líða þangað til við eigum sérfræðinga á öllum þeim sviðum, sem færir eru um að takast á hendur kennslu við háskólann.
Hv. þm. heldur því fram, að það sé talsverður munur á því að halda vísindalega fyrirlestra eða „populæra“ fyrirlestra. Hann þarf ekki að fræða mig um þetta. Mér er það fullkomlega ljóst. En samkv. þeirra frv. eiga ekki að vera vísindalegir fyrirlestrar og ekki heldur alþýðlegir fyrirlestrar, og yfirleitt engin kennsla. En við viljum hafa bæði vísindalega fyrirlestra og alþýðlega, því að það er okkar skoðun, að fjöldi alþýðumanna sé það vei að sér um þessi mál, að þeir geti haft full not að því, sem hv.þm. kallar „populæra“ fyrirlestra. Annars fer það vel saman við þessa skoðun hv.þm., sem fram kemur í frv., hvernig gengið er frá stofnun atvinnudeildar samkv. því, því að rannsóknarstofnunin sjálf á ekki að vera einráð um það, hvenær kennsla verður tekin upp, heldur þarf atvmrh. að leggja samþykki sitt á það, áður en hún tekur til starfa; m. ö. o. , hvaða atvmrh. sem er getur tafið það atriði um ófyrirsjáanlegan tíma. Og út frá því, sem sagt hefir verið um sjálfsforræðið, þá er það skemmt með því, að fulltrúar frá atvinnuvegunum eiga að ráða yfir rannsóknum stofnunarinnar, sem hljóta þó alltaf að verða annar aðalþáttur þessa fyrirtækis. Yfirráðin eru líka næsta þýðingarlítil og óþörf, því að atvinnuvegirnir geta á hvaða tíma sem er fengið eðlilegum kröfum sínum framfylgt hjá þessari stofnun, ef hún er sérstök vísindaleg stofnun, sem ætlazt er til.
Út af því, sem hv.þm. Hafnf. sagði síðast, að okkur gengi það til með því að vilja endursenda frv. til háskólans, að hindra framkvæmdir nú í sumar í máli þessu, þá er vel hægt að láta til skarar skriða í þessu máli, þótt svo færi, að l. næðu ekki samþykki nú. Það má með einfaldri þáltill. í Sþ. , sem allir flokkar gætu sjálfsagt fallizt á, skora á ríkisstj. að sjá um, að hafizt verði handa um byggingu rannsóknarstofnunarinnar, í trausti þess, að frv. nái fram að ganga í byrjun næsta þings. Það þarf ekki að tefja framgang málsins, þótt það fái þann undirbúning og rannsókn, sem því ber. Það er skylda Alþ. að ganga svo frá þessu máli, að það megi til frambúðar standa.
Ræðu hv. 9. landsk. þarf ég ekki mörgu að svara. Hann virtist kveinka sér undan því, að ég fór hér með saklausan vísupart eftir hann, skáldskap, sem hann þarf ekkert að skammast sín fyrir og hann var mjög ánægður með á skólaárum sínum og lét okkur alla heyra. Tel ég það ekki að róta upp í einkamálum manna, þótt farið sé með slíkan skáldskap sem þennan. En ef þessi hv.þm. er allt í einu orðinn svona viðkvæmur gagnvart einkamálum manna, þá ætti hann að rannsaka vel framkomu sína gagnvart mönnum, sem ekkert hafa gert honum nema gott eitt, og gæti þá rifjast upp fyrir honum „ræktarsemin“, svo að ég noti hans eigin orð. - Hv. þm. skopaðist að því, að ég sagði, að atvinnudeildin ætti að senda kandídata út á fleiri svið, en hefði þó sagt jafnframt, að því mætti fresta, að deildin fengi prófréttindi. Þetta er ekkert ósamræmi. Þegar heimspekideildin var stofnuð, var í l. þetta sama ákvæði, að fresta mætti því, að d. fengi prófréttindi. Nú hefir þessi deild samt sent frá sér marga kandídata, og eins er ætlazt til, að atvinnudeildin geri, þótt ekki sé það fyrirskipað í öndverðu. Hafi hv.þm. ætlað að verða fyndinn - og hann lét þess getið í upphafi, að svo ætti að verða, enda var það vissara, því að enginn hefði annars tekið eftir því -, þá hefir það mistekizt og hann skotið algerlega yfir markið með fyndni sinni.
Garðar Þorsteinsson [óyfirl.] :
Hv. þm. Hafnf. þóttist ekki hafa tíma til að svara nema tveimur atriðum í minni ræðu, en kvaðst mundu hafa getað svarað miklu fleiru. Það, sem hann fyrst og fremst virtist leggja áherzlu á, var það, að ef þessir menn, sem eiga að starfa við hina tilvonandi atvinnudeild, ættu að kenna stærðfræði og efnafræði o. s. frv., þyrftu þeir að hafa háskólapróf. Nú hefi ég áður bent þessum hv.þm. á það, að það er ekkert, alls ekkert, sem út af fyrir sig útilokar það, að einn eða fleiri af þessum nýju mönnum, sem samkv. frv. má gera ráð fyrir, að starfi við þessa deild, hafi háskólasérmenntun í þessum undirstöðuatriðum, sem hann talar um. Ég fæ ekki séð, hvers vegna hann vill stöðugt berja höfðinu við steininn og segja, að þetta samræmist ekki, - það sé verið að byrja á öfugum enda, þótt með reglugerð eða brtt. við þetta frv. megi koma því svo fyrir, að vissir menn, 2 eða fleiri, sem eiga að starfa við þessa deild, hefðu þá háskólamenntun, sem nauðsynleg væri. Hv. þm. getur ekki sannfært neinn um, að ekki sé hægt að koma þessu fyrir, enda gefur hann þá sjálfum sér laglegan kinnhest með því að vísa til 14. gr. í hans eigin frv., þar sem gert er ráð fyrir því, að þessir 9 menn starfi allir sem kennarar, þegar kennsla á að hefjast við háskólann, án þess að hann hafi komið fram með nokkuð, sem bendi í þá átt, að stofna þurfi 3 prófessorsembætti að auki. Það er hægur vandi að leysa þetta mál á þann hátt, að allir gætu orðið ánægðir, ef sósíalistarnir bara vildu. Og það er einkennilegt, að hv.þm. Hafnf. skuli, jafnframt því að hann lýsir yfir því, að þörf sé á því að koma þessari atvinnudeild á stofn við háskólann, segja í lok sinnar ræðu, að hann sé reiðubúinn að greiða atkv. gegn þessu frv., sem hér liggur fyrir og miðar í þessa átt og er samið í samráði við prófessora Háskóla Íslands. Hann vill drepa frv., þótt hann viðurkenni nauðsynina á stofnun atvinnudeildar, sem frv. fer fram á. Ég teldi nú, að ef hv.þm. Hafnf. og hv. 9. landsk. eru alveg eins vissir um fylgi háskólans við þetta frv. þeirra, vissir um, að með því yrði mælt, en gegn okkar, þá bæri þeim að senda frv. til umsagnar, því að af bréfi rektors verður eigi annað séð en að hann ætlist til þess, að frv. komi enn til háskólans. Hv. þm. Hafnf. sagði - og kom að mínu áliti illa upp um sig þar -, að það væri sama og senda frv. út í opinn dauðann, ef háskólaráðið fengi það aftur. Ég fæ ekki séð, að hægt sé að fá betri yfirlýsingu um vondan málstað og vissu fyrir því, að þetta frv. þeirra sé að innihaldi verra en okkar, ef því er ekki hugað líf af sjálfum flm. , fái háskólinn að fjalla um það nú.
Sigurður Einarsson
Mér þykir það nú hátíðlega orðað hjá hæstv. forseta, að hann ætlaði að veita mér orðið til þess að bera af mér sakir. En ég vil þá nota mér þann rétt til þess að gera nokkrar aths. við ræðu hv.þm. Snæf. , sem gerði mér þá sæmd og gleði að minnast skáldskapar míns frá æskuárunum, sem ég sjálfur var nú búinn að gleyma. Ef ég tæki mig til, mundi ég einnig geta rifjað eitthvað upp af skáldskap ettir hann, sem sízt væri betra. Annars er það einkennilegt, að það, sem hv.þm. nefndi skáldskap, var vísa, er ég orti í tilefni af þeirri verstu einkunn, sem ég hefi fengið í nokkurri námsgrein. En þar kenndi líka grasafræðingur stærðfræði jafnvísindalega og hv.þm. Snæf. vill láta gera í háskólanum samkv. frv. sínu.
Hv. þm. Snæf. misskildi vafalaust það, sem ég nefndi einkamál; honum hættir yfirleitt til þess að vera nokkuð hörundssár og hikar þá ekki við að rangfæra. Hann um það.
Ég ætlaði ekki að víkja persónulega að einstökum prófessorum háskólans, en ég gat ekki skilið annað en þeir væru sammála um frv. það, er meiri hl. allshn. flytur, og skil það ekki enn.
þá var það ódýr fyndni, að ég hefði tilkynnt, að ég ætlaði að verða fyndinn í minni ræðu; en ég sagði aðeins, að ég ætlaði að benda á, til gamans, nokkur atriði í ræðu hv.þm., sem ekki væru í samræmi við það, sem hann sagði í sinni fyrri ræðu. Þetta var nú öll fyndnin, sem ég boðaði. En í lok ræðu hv.þm. skaut upp atriði, sem skiptir miklu máli, þar sem hann sagði, að ekki skaðaði, þó afgreiðsla málsins drægist; það mætti eins byrja að byggja í sumar fyrir því, - það mætti ráðstafa þangað öllu happdrættisfénu, eða tryggja það á annan hátt með þál. En ég tel mjög vafasamt að hefjast handa meðan allt er svo óbundið. Sé ég ekki annað en þetta sé tilraun til þess að fá þingið til að aka málinu af sér, en það ætti þó að fá að ráða nokkru um, í hvaða sniði byggt verður.
Nú þykir mér miður, að hv. 8. landsk. er ekki við. Hann vill senda háskólanum frv. aftur til umsagnar, en ég sé ekki betur en það sé hinn mesti óþarfi og ástæðulaust að gera ráð fyrir þeim vindhanahætti frá hálfu háskólans, að umsögn hans yrði ekki á sama hátt og áður.
Einnig verð ég að segja, að ég varð hissa, þegar hv. 8. landsk. fór að tala um að senda frv. einstökum deildum háskólans til umsagnar. Mér kom það á óvart vegna þess, að það er að gera ráð fyrir og ala á óheppilegri óeiningu innan háskólans sjálfs, sem ég vil ekki geta ástæðu til.
Flm. (Thor Thors)
Út af orðum hv. síðasta ræðumanns, 9. landsk. , vil ég taka það fram, að atvinnudeildin á að geta sent frá sér útskrifaða menn, þó þeir hafi ekki prófessorsréttindi. Ég vil einnig mótmæla því, að við séum að tefja málið, þó við viljum láta það fá nægan undirbúning. Þó málið væri afgr. með þál. , gæti hún verið svo ákveðið orðuð, að allir aðilar væru skyldugir til að fylgja henni, og ef allir flokkar stæðu saman að því að samþ. hana, er það algerlega rangt, að það sé laus grundvöllur undir málið.
Ég er annars hissa, hvað hv.þm. er viðkvæmur fyrir því, þó hann sé nefndur skáld; flestir aðrir eru upp með sér af því. Ég skal svo ekki blanda mér inn í, þó hv. 9. landsk. væri að ámæla 9. landsk. fyrir vindhanahátt.
Jón Baldvinsson [óyfir.] :
Með þessu frv. á að færa aftur í sama horf og áður var, þannig að Búnaðarfél. skipi sjálft stjórn sína. En það var, að ég ætla, sett inn í jarðræktarlögin frá 1923, að þingið skyldi nefna til menn í stjórn þess. Þetta var gert vegna þess, að Alþ. fól Búnaðarfél. að hafa umsjón með framkvæmd jarðræktarlaganna og það hefir með höndum fjárveitingar fyrir ríkissjóð, þar sem það úthlutar þeim styrk, sem veittur er til jarðabóta. Ég hefi alltaf skilið þetta svo, sem þingið vildi með þessu tryggja sér nokkur ráð með fjárveitingum Búnaðarfél. Margir álíta, að vel færi á því, að stjórn félagsins, eða þessi störf, sem lúta að útdeilingu fjár, heyrðu beint undir ríkisstj. Og í raun og veru eiga þessi störf að vera framkvæmd í stjórnarráðinu sjálfu, eins og ég álít réttast, að þessi mál Fiskiveiðafélagsins væru í einni deild stjórnarráðsins.
Mér finnst það dálítið undarlegt, að Alþ. skuli vera að fela hinum og þessum stofnunum að útdeila því fé, sem ætti að heyra beint undir ríkisstj. og hún ætti að geta veitt til þeirra þarfa, sem brýnastar eru og mest aðkallandi. Það er og því minni þörf að fara að gera breyt. á þessu nú, þegar það er ákaflega vafasamt, hvort ríkið getur haldið áfram að greiða jafnháa styrki til jarðræktunar eins og nú er gert ráð fyrir í fjárlögum. Það eru áreiðanlega ýmsar aðrar brýnar þarfir, sem vel gæti komið til mála að veita fé til, en það er ekki hægt nema séð verði fyrir gjaldeyri til þess. T. d. hefir verið talað um frekari uppbót á kjöti, en þar á móti kemur þá auðvitað krafa frá sjávarútvegsmönnum um að greiða það, sem ekki selst af fiski, en þessi fjárhæð er svo gífurleg, að ekki er hægt að gera ráð fyrir, að ríkissjóður geti greitt hana, og er þá sýnilega dálítið varhugavert að sleppa umráðum yfir því fé, sem Alþingi úthlutar, og ég álít, að ekki eigi að hverfa að því ráði nú og þá beri líka að athuga, í sambandi við það, breytingar á öllu þessu fyrirkomulagi, t. d. ef svo færi, að draga þyrfti úr því fé, sem Búnaðarfél. Ísl. hefir frá Alþ. Ég vil skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann vill ekki leyfa, að málið sé tekið út af dagskrá, svo mér ynnist tími til að athuga um brtt. , sem ég myndi koma með, ef frestur yrði gefinn.
Forseti (EÁrna):
Ég veit ekki, hvort ástæða er til þess að taka málið út af dagskrá, þar sem þetta er 2. umr., en hinu skal ég lofa, að taka málið ekki á dagskrá til 3. umr. fyrr en hv. 4. landsk. hefir unnizt tími til að gera þær brtt. , sem honum sýnist.
Frsm. (Jón Auðunn Jónsson)
Frv. þetta er shlj. samskonar lögum, sem gilda fyrir Reykjavík, og bæjarstj. á Ísafirði er á einu máli um það, að rétt sé að breyta til og taka upp þá aðferð, sem er notuð hér, sem sé þá, að bæjarstj. ráði hafnsögumann og hann taki laun úr bæjarsjóði, en öll hafnargjöld renni í bæjarsjóð.
N. leggur til í einu hljóði, að frv. þetta verði samþ.
Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson)
Eins og nál. á þskj. 120 ber með sér, hefir landbn. ekki orðið sammála um frv. Meiri hl., en hann skipum við tveir og hv. 2. þm. Rang., lítur svo á, að eðlilegast sé, að Búnaðarfél. Ísl. skipi sjálft stjórn sína, og því leggjum við til, að frv. verði samþ. Frá minni hendi er sú endanlega samþ. frv. bundin því skilyrði, að það samkomulag, sem fengizt hefir um skipun þessara mála, haldist.
Minni hl. hefir ekki skilað áliti, svo mér sé kunnugt, og skal ég ekki frekar fara út í þær ástæður, sem urðu til þess að n. klofnaði um málið. |
Andri Snær Magnason, forsetaframbjóðandi, segir að niðurstöður skoðanakönnunar MMR komi sér ekki á óvart. Guðni Th. Jóhannesson mælist þar með um 60 prósent fylgi en Andri Snær með 8,5 prósent.
„Það fór strategísk bylgja af stað með Guðna um að hann væri sá sem gæti fellt Ólaf Ragnar. Hann var að stíga þarna inn en ég hafði til að mynda mælst með mikið fylgi í vikunni á undan. Ég trúi því að þetta eigi því eftir að jafnast út og að Halla Tómasdóttir eigi eftir að rísa líka. Svo núna þegar Ólafur Ragnar er hættur við held ég líka að allt gjörbreytist,“ segir Andri Snær í samtali við Vísi og vísar í fregnir þess efnis að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, sem ætlaði að fara fram aftur er nú hættur við að fara í framboð.
Könnunin var gerð dagana 6.-9. maí en Guðni lýsti yfir framboði þann 5. maí. Í gær steig svo Davíð Oddsson fram á völlinn og fengu því 27 prósent aðspurðra nafn Davíðs sem valmöguleika í könnuninni. Mælist hann með 3,1 prósent fylgi en Andri Snær segir ómögulegt að segja hversu mikið fylgi Davíð sé í raun með.
Aðspurður hvort tíðindi gærdagsins um framboð Davíðs og svo fréttir dagsins í dag um að Ólafur sé hættur við komi honum á óvart segir Andri Snær:
„Þessar seinustu vikur hafa verið með svo miklum ólíkindum að allt sem hefur gerst hefur komið mér á óvart. Ég geri ráð fyrir því að næstu tveir mánuðir eigi líka eftir að koma á óvart.“
Andri Snær segist alltaf hafa gert ráð fyrir því að byrja með lítið fylgi í skoðanakönnunum. Nú sé hins vegar kosningabaráttan að fara á fullt og þá geti allt gerst. Hann hefur ekki velt því fyrir sér að hætta við framboðið.
„Ég held að áherslumunurinn milli mín og annarra frambjóðenda eigi eftir að skýrast betur þegar allir frambjóðendur verða endanlega komnir fram og kosningabaráttan hefst,“ segir Andri. |
Gamlir skreiðarhjallar sem staðið höfðu ónotaðir árum saman á Sauðárkróki hafa öðlast líf að nýju þökk sé óvenjustórum þorski. Svo stórir eru þorskhausarnir að þurrkverksmiðjan ræður ekki við þá og því þarf að hengja þá upp með gamla laginu.
Eldri kynslóðir muna þann tíma þegar skreiðarhjallar settu svið sinn á sjávarbyggðir en svo hurfu þeir flestir. En menn eru ekki alveg hættir að nýta hjallana, hér á Sauðárkróki er verið að hengja upp þorskhausa. Hér hittum við nokkra starfsmenn Fisk Seafood en þeir segjast hafa byrjað að hengja upp í byrjun marsmánaðar. Við drögum tvo þeirra í viðtal, þá Árna Grétarsson og Hrólf Þey Þorrason.
Kristján Már Unnarsson: Voruð þið í þessu í gamla daga líka?
Hrólfur Þeyr Þorrason: Ég er í þessu í fyrsta skipti.
Árni Grétarsson: Ég var í þessu í gamla daga.
Tilgangurinn er að þurrka hausana og það tekur sinn tíma utan húss.
Árni Grétarsson: Þrjá og hálfan mánuð.
Kristján: Og hver vill svo fá þetta, hvert er selt?
Árni Grétarsson: Til Nígeríu.
Kristján: Og er þetta eitthvað að seljast?
Árni Grétarsson: Jú, það er brjáluð sala í þessu alveg, það er svo mikið prótein í þessu.
En það er komin ný tækni og nýjar aðferðir eins og þessu húsi hér við hliðina. Með fiskþurrkunarhúsinu sem tekið var í notkun fyrir fjórum árum komu nýjar og fljótlegri aðferðir.
Hrólfur Þeyr Þorrason: Síðan hefur bara orðið mikil þróun í svona inniþurrkun.
Árni Grétarsson: Þeir eru miklu fljótari að þorna í inniþurrkun.
Hrólfur Þeyr Þorrason: Mikil svona tæknibylting í þessu.
Kristján: Haldið þið að það sé ennþá einhverjir að hengja upp svona úti með gamla laginu?
Hrólfur Þeyr Þorrason: Ég veit ekki til þess.
Árni Grétarsson: Nei, ég held ekki.
Hrólfur Þeyr Þorrason: Alla vega ekki eins og við erum að gera þetta hér, ekki svo ég viti til.
Tæknin hefur sem sagt ekki alveg náð að útrýma gömlu aðferðinni.
Hrólfur Þeyr Þorrason: Gerðum þetta síðast fyrir þremur árum.
Árni Grétarsson: Já.
Hrólfur Þeyr Þorrason: Þetta eru sem sagt hausar sem við getum ekki þurrkað inni, þeir eru of stórir.
Karlarnir geta því þakkað það stórum þorski að fá tilbreytingu með útivinnu.
Kristján: Er þetta gaman að standa í þessu?
Árni Grétarsson: Jú jú, svona skemmtilegt að fara út.
Hrólfur Þeyr Þorrason: Já, svona eftir veðri kannski. |
375. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samninga við Efnahagsbandalag Evrópu um fiskveiðimál og lífríki hafs ins.
(Lögð fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd:
1 . samning í formi erindaskipta milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu um fiskveiðimál sem gerður var í Óportó 2. maí 1992;
2 . samning um fiskveiðimál og lífríki hafsins milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu sem gerður var í Brussel 27. nóvember 1992.
Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.
Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili staðfestingu samninga þeirra milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu um fiskveiðimál og lífríki hafsins sem gerðir voru í Óportó 2. maí 1992 og í Brussel 27. nóvember 1992. Samningarnir eru birtir sem fylgiskjöl með þingsályktunartillögu þessari. Einnig eru hér birtar sem fylgiskjal niður stöður fiskimálaviðræðna milli Íslands og Efnahagsbandalagsins, sem lauk í Brussel 27. nóvember 1992, um tilhögun veiða á árinu 1993.
Samkomulagið við EB er skv. framansögðu þrískipt: Í fyrsta lagi erindaskiptin frá 2. maí sem eru ákvarðandi um öll atriði sem þar eru tilgreind, í öðru lagi rammasamningurinn þar sem endurtekin eru sum atriðin úr erindaskiptunum en öðrum þáttum bætt við eins og rakið verður hér á eftir og svo í þriðja lagi árlega samkomulagið þar sem einnig eru endurteknir þættir úr er indaskiptunum en einkum bætt við nánari ákvæðum um framkvæmd á skiptum umræddra veiðiheimilda loðnu og karfa og eftirlit með veiðunum.
3. Um samning í formi erindaskipta, dags. 2. maí 1992.
Samningaviðræður Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu um samstarfssamning um sjávar útvegsmál hófust eftir lausn landhelgisdeilnanna við Bretland og Þýskaland og gildistöku bók unar nr. 6 við fríverslunarsamning Íslands og EB árið 1976. Þær stóðu yfir með hléum fram til 1981. Þá lágu fyrir drög að rammasamningi sem voru viðunandi að dómi beggja samninga nefnda en upp úr samningum slitnaði vegna ágreinings um skiptingarhlutföll sameiginlegra fiskistofna í lögsögu Íslands og Grænlands sem þá var innan EB.
Þríhliða viðræður um loðnustofninn milli Íslands, Noregs og EB fóru fram árin 1982 – 1983 en samningar tókust ekki heldur. Grænland fór út úr bandalaginu 1985 en umræður um gerð sjávarútvegssamnings Íslands og EB héldu áfram öðru hverju allt til ársins 1990.
Þegar samningaviðræður um Evrópska efnahagssvæðið voru komnar ve1 á veg á árinu 1991 var ákveðið að hefja að nýju viðræður um rammasamning um sjávarútvegsmál og umhverfi hafsins. Vegna annarra fundarhalda í tengslum við EES-samningana vannst samningamönnum bandalagsins ekki tími til að halda formlega fundi um rammasamninginn þar sem fulltrúar allra aðildarríkja EB væru boðaðir, eins og tilskilið er um gerð slíkra samninga í reglum bandalagsins. Sá kostur var því valinn að framkvæmdastjórn EB og fulltrúar Íslands skyldu freista þess að ná samkomulagi sín á milli um helstu atriði sem skyldu vera í rammasamningi og í árlegum framkvæmdasamningi á grundvelli rammasamningsins. Útlínur þess samnings voru lagðar á ráðherrafundum EB og EFTA í október 1991 og um ýmis nánari atriði var síðan samið við bandalagið á næstu mánuðum. Endanleg gerð lá fyrir þegar samningaviðræðum lauk 14. febrúar 1992 og var hún árituð af samningamönnum 14. apríl 1992.
Í tengslum við ráðherrafund EF'TA og EB í Óportó 2. maí 1992 þar sem EES-samningurinn var undirritaður var framangreindur samningur síðan einnig undirritaður og er hann ákvarðandi um öll þau atriði sem þar eru tilgreind þegar gengið er formlega frá rammasamningi og árlegum framkvæmdasamningum.
Í samningnum frá 2. maí eru helstu efnisatriði eftirfarandi:
Gagnkvæm skipti á fiskveiðiheimildum. Bandalagið fær veiðiheimildir á tilgreindum svæðum í efnahagslögsögu Íslands fyrir 3.000 tonna karfaígildi gegn veiðiheimildum fyrir Ísland á 30.000 tonnum af loðnu sem bandalagið hefur keypt af Grænlandi með samningi þessara aðila um fiskveiðimál.
Á árinu 1993 skulu aflaheimildir bandalagsins gilda fyrir beinar karfaveiðar en allur aukaafli er innifalinn í tölunni 3.000 tonn af karfaígildum og enginn þorskur verður leyfður í aukaafla. Eftir 1993 geta aðilar komið sér saman um að breyta samsetningu tegunda í þessum 3.000 karfaígildum í ljósi frekari rannsókna á langhalastofnunum við Ísland. Eru úthlutuð svæði m.a. ákvörðuð með þetta í huga.
Í samningnum frá 2. maí 1992 er ennfremur ákveðið að frekari samningaviðræður um ramma samninginn skuli byggðar á framangreindum drögum að slíkum samningi frá 1981 og að kveðið skuli á um skilmála fyrir nýtingu fiskveiðiheimildanna. Meða1 skilmálanna skyldi vera að út yrði gefinn takmarkaður fjöldi veiðileyfa til togara, annarra en verksmiðjutogara, á tímabilinu júlí–desember, koma og brottför úr fiskveiðilögsögu tilkynnt og að allir sömu skilmálar varðandi fiskverndarmál gildi og um innlend fiskiskip, m.a. að krefjast megi að skip skuli hafa um borð eftirlitsmann á eigin kostnað þegar það er innan fiskveiðilögsögunnar.
4. Samningurinn um fiskveiðimál og lífríki hafsins (rammasamningurinn), sem gerður var í Brussel 27. nóvember 1992:
Í samskiptum Evrópubandalagsins við ríki utan þess hefur það tíðkast um langt árabil að gera rammasamninga um einstaka málaflokka til að skapa bandalaginu lagalegan grundvöll fyrir samstarfið og fylla síðan inn efnisatriðin með reglulegu, t.d. árlegu, samráði. Þessi tilhögun er m.a. gerð af hagkvæmnisástæðum og nær til ýmissa sviða. Þar má m.a. nefna rammasamninga um vísinda- og tæknisamstarf og hefur Ísland þegar gert slíkan samning við bandalagið. Rammasamningar á sviði sjávarútvegs eru ein tegund þessa og hefur Evrópubandalagið gert slíka samninga við fjölda ríkja. Textar þessara rammasamninga eru að mestu í stöðluðu formi, þótt einstökum atriðum sé svo bætt við eða þeim breytt eitthvað. Svo er einnig um þann rammasamning sem nú liggur fyrir milli Íslands og EB.
Samningurinn er að mestu í stöðluðu formi en þó eru nokkur frávik og ákvæðin um lífríki hafsins eru sérstök fyrir þennan samning.
Þegar gengið var frá erindaskiptunum 2. maí í Óportó var samkomulag um að drög aðila að rammasamningi frá 1981 skyldu notuð sem grunnur að nýjum rammasamningi. Þetta var síðan gert en nokkrum atriðum þurfti þó að breyta vegna þess að síðar hafði verið gengið frá hafréttarsáttmálanum og Græn1and hafði farið úr EB, auk þess sem Ísland vildi leggja meiri áherslu á samstarf um lífríki hafsins.
Rammasamningur Íslands og EB á fyrst og fremst við um sameiginlega stofna og þar á meðal hagkvæma nýtingu þeirra með skiptum á veiðiheimildum. Svo dæmi sé tekið er kolmunninn flökkustofn sem fer um lögsögu aðila á mismunandi tímum árs. Til þess að unnt sé að stunda hagkvæmar veiðar á sérbúnum skipum er æskilegt að geta fylgt stofninum eftir úr einni lögsögu í aðra og gæti þá samstarfið t.d. falist í því að veita hvor öðrum veiðiheimildir úr sama stofni þann tíma sem hann er í lögsögu hlutaðeigandi aðila eða annar aðilinn stundi kolmunnaveiðar en hinn fái veiðiheimildir úr öðrum stofnum.
Sé skipst á veiðiheimildum úr stofnum sem ekki eru sameiginlegir, eins og gert er í erindaskiptunum frá 2. maí 1992, gilda síðan ákvæði rammasamningsins eins og við á, m.a. um tilhögun við úthlutun leyfa, skyldu til að virða verndarráðstafanir o.s.frv.
Hér á eftir verður rakið efni upphafsorða og einstakra greina rammasamningsins:
Um upphafsorð.
Vikið er að nánu sambandi samningsaðila, áhuga beggja á að stuðla að hagkvæmri nýtingu auðæfa hafsins, verndun lífríkis hafsins, vísað í hafréttarsáttmálann sem báðir aðilar hafa undirritað, vísað í 200 mílna lögsögu aðila, vísað í að hluti sjávarauðlinda aðila séu sameiginlegir eða skyldir stofnar sem báðir hafi áhuga á að nýta og varðveita og vísað m.a. til samvinnu innan Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar.
Um það sem að framan er rakið er rétt að víkja hér að einu atriði, þ.e. sameiginlegum eða skyldum stofnum. Fyrir liggur að kolmunnastofninn er sameiginlegur Íslandi, EB og fleiri ríkjum. Aðrir stofnar eru ekki sannanlega sameiginlegir eins og mál standa en með hliðsjón af óvissu um dreifingu ýmissa lítt þekktra fiskistofna þótti rétt að hafa tilvísunina í fleirtölu.
Í upphafsorðunum er síðan vísað til samnings aðila í formi erindaskipta sem undirritaður var í Óportó 2. maí 1992, viðurkennt er mikilvægi fiskveiða fyrir Ísland (en sambærilegt orðalag er ekki að finna í öðrum rammasamningum EB) og loks sagt að aðilar vilji setja almenna skilmála varðandi þau fiskveiðimál sem eru gagnkvæm hagsmunamál þeirra.
Um 1. gr.
Fjallar um þá stofna sem eru sameiginlegir Íslandi, EB og fleirum. Eins og áður sagði er hér fyrst og fremst átt við kolmunnastofninn en fleiri stofnar vannýttra tegunda kunna að falla hér undir þegar frekari rannsóknir hafa farið fram. Samvinna ska1 höfð um þessa stofna, verndun og nýtingu þeirra, ákvörðun hámarksafla og úthlutun veiðiheimilda.
Um 2. gr.
Fjallar um vísindarannsóknir, einkum á sameiginlegum stofnum.
Um 3. gr.
Kveður á um samvinnu varðandi lífríki, hafsins þar sem við á.
Um 4. gr.
Segir að aðilar skuli árlega hafa samráð um úthlutanir á veiðiheimildum og leyfisveitingar. Samkvæmt upphafsorðum samningsins og efni 1.-3. gr. á þessi grein við um sameiginlega stofna en því til viðbótar koma síðan undir þessa grein og aðrar viðeigandi greinar samningsins þau 3.000 tonn af karfaígildum og 30 þúsund tonn af loðnu sem samið var um í erindaskiptunum og falla utan hugtaksins sameiginlegir stofnar. M.a. kemur aukning langhala í karfaígildakvótanum til umræðu í þessum árlegu viðræðum.
Um 5. gr.
Fjallar almennt um tilhögun leyfisveitinga.
Um 6. gr.
Fjallar um verndunaraðgerðir og eftirlit með að reglum um þær sé fylgt.
Um 7. gr.
Kveður á um samráð um góða framkvæmd samningsins og skýrslugjöf um afla.
Um 8. gr.
Segir að ekkert í þessum samningi hafi áhrif á afstöðu aðila til málefna sem falla undir hafréttarsáttmálann. Þar gæti m.a. verið um að ræða víðáttu lögsögu og önnur skyld atriði.
Um 9. gr.
Fjallar um aðra samninga og segir í reynd að þessi rammasamningur hafi engin áhrif á tvíhliða samning Íslands og Belgíu um fiskveiðar.
Um 10. gr.
Segir á hvaða landsvæðum samningurinn gildi.
Um 11. gr.
Fjallar um gildistökudag samningsins.
Um 12. gr.
Fjallar í 1. tölul. um gildistíma rammasamningsins sem slíks og í 2. tölul. um gerð annars svipaðs samnings í hans stað ef þessi samningur er ekki framlengdur. Væri sá samningur þá til þess að gefa bandalaginu nauðsynlegan lagalegan ramma til að framkvæma ákvæði erindaskiptanna frá 2. maí 1992 og er að sjálfsögðu háður því að erindaskiptin sjálf verði þá enn í gildi þegar þar að kemur.
Fylgiskjöl:
Fylgiskjal l: Samningur í formi erindaskipta milli Efnahagsbandalags Evrópu og lýðveldisins Íslands um fiskveiðimál, dags. 2. maí 1992.
Fylgiskjal 2: Samningur um fiskveiðimál og lífríki hafsins, eins og hann var endanlega frágenginn af hálfu samninganefndanna 27. nóvember1992.
Fylgiskjal 3: Niðurstöður viðræðna milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu um tilhögun veiða og eftirlit á árinu 1993, dags. 27. nóvember 1992. |
Neytendastofa ætlar að sekta smálánafyrirtæki fyrir að fara ekki að tilmælum stofnunarinnar. Sektirnar geta numið allt að 20 milljónum króna.
Áfrýjunarnefnd neytendamála komst nýverið að þeirri niðurstöðu, að smálánafyrirtækin Kredia og Smálán brytu gegn lögum um neytendalán með því að innheimta kostnað fyrir flýtiafgreiðslu á lánum. Fyrirtækjunum hafi verið óheimilt að tilgreina ekki kostnaðinn í árlegri hlutfallstölu kostnaðar.
Samkvæmt lögum um neytendalán má sú prósentutala ekki vera hærri en 50% að viðbættum stýrivöxtum. Þegar flýtikostnaðurinn er reiknaður með verður talan hins vegar rúmlega 3.000%. Fyrirtækin hafa lýst því yfir að þau ætli með málið fyrir dómstóla, og að þjónustunni verði haldið áfram með sama hætti.
„En staðan er sú að þó þeir fari fyrir dómstóla, þá frestar það ekki réttaráhrifum ákvörðunar okkar", segir Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri hjá Neytendastofu
Verði þeir ekki að ykkar kröfum, verður þá sektum beitt?
„Já, við munum þá nota þau úrræði sem við höfum sem eru meðal annars sektir. Og þá annað hvort stjórnvaldssektir sem geta numið allt að 20 milljónum, eða dagsektir sem eru á bilinu 50.000-500.000 á dag", segir Þórunn.
En ykkur fannst ekki eðlilegra að bíða þangað til niðurstaða er komin í dómsmálið, með að beita þessum úrræðum?
„Í sjálfu sér höfum við heimild til að fara strax með þessi úrræði þó að farið sé með málið fyrir dómstóla. Og það getur náttúrulega tekið, eins og við þekkjum, langan tíma og annað þess háttar að gera það. Við erum búin að fá staðfestingu á okkar ákvörðun frá áfrýjunarnefnd neytendamála. Þannig að okkur fannst ekki ástæða til að bíða frekar", segir Þórunn og segist vona að búið verði að taka ákvörðun um málið fyrir jól.
Neytendastofa komst að sömu niðurstöðu varðandi hin smálánafyrirtækin - 1909, Hraðpeninga og Múla. Þeim úrskurði var einnig áfrýjað til áfrýjunarnefndarinnar en niðurstaða í því máli liggur ekki fyrir |
Korkur: hl
Titill: cs - listviðburður af bestu gerð!
Höf.: rooster
Dags.: 10. maí 2002 14:46:57
Skoðað: 401
Kæru Huga-lesendur
Ég má til með að vekja athygli á þessu hér. Enn ber til tíðinda þegar listin og [GGRN] er annars vegar. Margir rómaða sýningu þegar [GGRN]Castor Pollux sýndi í listasafninu í Kópavogi fyrir nokkrum mánuðum. Nú er komið að annarri listsýningu sem enginn má láta fram hjá sér fara.
END OF RANT verður frumsýnd í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi (Errósafn) við Tryggvagötu, kl 15.00 á sunnudag. Hún mun síðan “loopa” í 3 mánuði samfleytt í safninu og gera GGRN að frægasta klani Íslandssögunnar.
Myndina sá ég á vinnslustigi og er óhætt að segja hana kristaltæra snilld - er svona “day in life” dæmi hjá Castornum og vinum hans í GGRN, og er unnin í samvinnu við BIRTINGAHOLT og NannaDeBowac productions. Þetta er ekkert pancy fancy Murk dæmi - með fullri virðingu - heldur the [GGRN] way. Castorinn sem terroristi, kófsveittur, þreyttur og drulluskítugur on a mission á Dust að drepa mann og annan. Og það sem meira er, hann heldur cool-inu, sama á hverju gengur. Clint má fara að vara sig. Castorinn er kannski ekki bestur - en hann er vissulega flottastur!
Með aðalhlutverk fara:
CastorPollux
Sk4v3n
DangerGirl
Josh
Mawbid
TuDDi
TILT
PSYCHo
daXarinn
JeriLynnRyan
AnyKey
Fieldy
StoneM
Willkill4food
Memnoch
Preacher
TomBob &
Rooster – as the man in the tent
auk ca 100 aukaleikara, sem deyja reyndar allflestir ef ekki allir.
Leikstjóri er CastorPollux og camerur í höndum snillinganna Fudge, Roach og Johnny.
Í samhengi við þetta er sýning á 24 olíumálverkum Jóns Óskars af helstu hetjum GGRN í gegnum tíðina.
Ég ræddi við Castor áðan og vill hann eindregið hvetja alla til að láta sjá sig klukkan 15:00 í Hafnarhúsinu. Þetta er upplagt tækifæri til að hittast og vera um leið viðstaddir mikinn listviðburð. Þetta má heita skyldumæting!
Með kveðju,
<br><br><a href="
http://www.ggrn.org
">[GGRN]</a>Rooste
---
Svör
---
Höf.: BenDover
Dags.: 10. maí 2002 15:34:40
Atkvæði: 0
Að fá mig ekki í hlutverk í myndinni er náttúrulega skandall!
Má ég benda þér á það Rooster að ég fór með stórt hlutverk í Hvíta Víkingnum og hef því umtalsverða reynslu af kvikmyndaleik, að ekki sé nú minnst á reynslu mína sem CS-leikandi.
úff
En ég kem!
Ben
---
Höf.: Josh
Dags.: 11. maí 2002 00:15:51
Atkvæði: 0
Eigi skalt þú örvænta, því ég hef séð allan leikaralistann og þar kemur þú fyrir minn væni.
Þinn vinur,
<br><br><a href="
http://www.ggrn.org
">[GGRN]</a>Josh*** <img src="
http://www.freakygamers.com/smilies/s2/contrib/geno/para.gif
"
---
|
Formaður Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins telja ekki þörf á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Forsætisráðherra og formenn annarra flokka eru á öndverðum meiði.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er sammála Bjarna Benediktssyni um að ekki sé þörf á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Þetta kemur fram í fundargerð af fundi formanna stjórnmálaflokkanna um endurskoðun stjórnarskrárinnar 16. janúar síðastliðinn.
Á fundi formannanefndarinnar í október lét Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, bóka að hann teldi ekki þörf á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Þótt hann beri virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum formannanna um efnið teldi hann hópinn kominn á kaf í umræðu um efni sem standi fyrir utan það sem hann telji þörf á að ræða.
Á janúarfundi formannanna hóf Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, umræðu um efnið í tilefni fyrrgreindrar bókunar Bjarna. Var bókað eftir Loga að spurningar vöknuðu um hvort forsendur fyrir áframhaldandi vinnu væru brostnar, enda væri skýrt tekið fram í minnisblaði forsætisráðherra um vinnu formannanefndarinnar að um heildarendurskoðun væri að ræða.
Nokkur umræða fór fram um efnið meðal formanna flokkanna og í kjölfarið lagði forsætisráðherra fram bókun um mikilvægi þess að halda áfram því verkefni sem þau hefðu hafið sem fæli í sér heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum. Undir bókun forsætisráðherra tóku formenn Viðreisnar, Flokks fólksins og Framsóknarflokksins.
Formaður Miðflokksins kvaðst hins vegar vilja taka undir bókun formanns Sjálfstæðisflokksins frá fyrri fundi.
„Það liggur fyrir að flokkarnir hafa ólíkar skoðanir um hversu miklu eigi að breyta en sú vinna sem hefur átt sér stað hefur gengið mjög vel og er á áætlun,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hún telur forsendur fyrir vinnunni ekki brostnar þrátt fyrir bókanir formanna Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins og er sátt við framvinduna í vinnunni.
„Það er auðvitað grafalvarlegt þegar það liggur fyrir fyrirkomulag sem forsætisráðherra leggur upp með og formaður flokks sem starfar með henni í ríkisstjórn sér ástæðu til að bóka gegn,“ segir Logi Einarsson um bókun sína. Hann segir mikilvægt að þeir sem komi að vinnunni hafi sameiginlegan skilning á verkefninu, ekki síst í ljósi þess hvernig vinnunni er forgangsraðað. „Ég get samt tekið undir með Katrínu að þetta er tilraunarinnar virði og það skiptir máli að reyna þetta,“ segir Logi.
Vinna formanna flokkanna um endurskoðun stjórnarskrárinnar byggir á minnisblaði forsætisráðherra frá janúar 2018. Í því er vísað til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem vikið er að endurskoðuninni með orðunum: „Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs.“ Ljóst er að ekki eru allir formenn stjórnarflokkanna á einu máli um endurskoðunina, hvað sem stjórnarsáttmálanum líður. |
Korkur: hestar
Titill: Óvæntur gripur.
Höf.: lilje
Dags.: 19. janúar 2007 18:07:59
Skoðað: 437
Það má segja að þetta er einn af bestu dögum lífs míns hingað til. Ég héldi að þessi dagur yrði eins og allir aðrir venjulegjir dagar hjá mér. T.d fara í hesthúsið og skólan og allt svona.. Þegar við vorum kominn að hesthúsinu og vorum að fara úr bílnum réttir hún Bibi(hún er bara kölluð það) blað með mynd af folaldi.. Ég vissi strax að bibi ætlaði að gefa mér folaldið. Á blaðinu fylgdi texti.. Þar stóð að ég ætti núna Kvist frá Þúfu, tveggja vetra fola. Hann er svona ljósbrúnskjóttur með stjörnu á enni og lítla rák á nösinni, og sokka á öllum fótum.. Ótrúlega flottur litur. Stakkur frá Þúfu er faðir hans og móðirin er Ugla frá Skipanesi. Stakkur er geðveikur keppnishestur og hún Ugla er æðisleg hryssa, lyftir vel og er mjög flott móbrún meri. Það eru myndir af Stakki í myndum(hér á huga). Hann Kvistur verður hnakk vanin og beislis vaninn í sumar on hann verður taminn næsta vetur :D…
Kvistur frá Þúfu.
Faðir Kvist..Stakkur frá Þúfu. Systir hans er með 1.verðlaun.
Afi(faðir Stakks). Vængur frá Auðsholtshjáleigu.
Ætt Vængs.
F. Orri frá Þufu
FF Otur frá Sauðárkróki
Fm
Dama frá þúfu
Mor Rán frá Flugumýri
Mf Freyr frá Flugumýri
MM Ingu-skjóna frá Flugumýri
Mamma Stakks hún Brynja frá Feti. 1.verðlaun.
Faðir hennar er Haukur from Akurgerði.
Mamma hennar er Drangey, sem hefur gefið flott afkvæmi.
Móðir Kvist er Ugla frá Skipanesi
. Í ætt hennar er hann Hrafn frá Holtsmúla og hann Ófeigur frá Hvanneyri.
Veit ekki mikið um ætt Uglu.
Og þetta er það sem ég veit um Kvist, ég fer í næstu viku og kíki á hann. Stakkur faðir hans er nú á húsi og er mjög flottur.
kveðja.Lilje
Bætt við 20. janúar 2007 - 12:28
Hérna er mynd af honum.
http://dyrarikid.is/gallery/MyndSkoda.aspx?M=157070
Ég get ekki sent mynd á huga.. Það er eitthvað bilað :S..
---
Svör
---
Höf.: Tinni99
Dags.: 20. janúar 2007 11:52:30
Atkvæði: 0
vááá frábært:D til hamingju
---
Höf.: lilje
Dags.: 20. janúar 2007 12:24:55
Atkvæði: 0
Takk :D.. Ég varð ótrúlega glöð ;P.. Enda fyrsti hestur sem ég á ein :D
---
Höf.: Tinni99
Dags.: 20. janúar 2007 12:27:01
Atkvæði: 0
já skil þig vel:D ég fékk mína fyrstu hesta sem ég átti ein í fermingargjöf fékk tvo ;)
---
Höf.: lilje
Dags.: 20. janúar 2007 12:27:46
Atkvæði: 0
Vá heppin :D
---
Höf.: Tinni99
Dags.: 20. janúar 2007 12:31:42
Atkvæði: 0
já er að fara að taka þá inn núna á morgun eða næstu helgi:d hlakka gegt til sko;) þú getur farið á
http://www.dyrariki.is/gallery/GallerySkoda.aspx?G=702
og skiðað myndir af þeim:D
---
Höf.: lilje
Dags.: 20. janúar 2007 12:33:06
Atkvæði: 0
Jámm.. He´ran er mynd af Kvisti ;)
http://dyrarikid.is/gallery/MyndSkoda.aspx?M=157070
---
Höf.: Tinni99
Dags.: 20. janúar 2007 12:38:55
Atkvæði: 0
já hann er allgjör dúlla sko:D
---
Höf.: lilje
Dags.: 20. janúar 2007 13:06:15
Atkvæði: 0
Líka gustur og tinni ;D Hestarnir þínir :D Hvað eru þeir gamlir ??
---
Höf.: Tinni99
Dags.: 20. janúar 2007 14:04:46
Atkvæði: 0
en hvað ert þú gömul?
---
Höf.: lilje
Dags.: 20. janúar 2007 14:18:01
Atkvæði: 0
Ég er 14 ára.
Bætt við 20. janúar 2007 - 14:23
En þú ??
---
Höf.: Tinni99
Dags.: 22. janúar 2007 16:56:37
Atkvæði: 0
ég mun vera 14 að vera 15 ára
---
Höf.: lilje
Dags.: 22. janúar 2007 17:36:45
Atkvæði: 0
Ég líka ;P..
---
|
Valgerði Sverrisdóttur, utanríkisráðherra líka ekki ummæli Sighvats Björgvinssonar, framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands um nýja skýrslu um framtíð stofnunarinnar og segir þau furðuleg. Sighvatur fordæmdi vinnubrögð ráðuneytisins í málefnum stofnunarinnar og sagði þau forkastanleg.
Í skýrslunni um framtíðarskipulag Þróunarsamvinnustofnunar Íslands sem Valgerður Sverrisdóttir kynnti utanríkismálanefnd í gær eru lagðar til tvær leiðir við breytingar á stofnuninni. Annars vegar að stofnunin verði áfram sjálfstæð og hins vegar að hún heyri undir utanríkisráðuneytið en Valgerður hefur lýst því yfir að hún vilji að sú leið verði farin.
Sighvatur Björgvinsson, framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands: Starfsfólk Þróunarsamvinnustofnunar, sumt fær þetta sent í tölvupósti í gær, að það standi til að leggja stofnunina sem það vinnur hjá niður. Aðrir starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar fá engar fréttir af þessu. Og ég fæ ekkert um þetta að vita. Þannig að vinnubrögðin eru forkastanleg. Og ég fordæmi svona aðferðafræði.
Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra (B): Ég ætla ekki að munnhöggvast við Sighvat Björgvinsson, framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands sem er undirstofnun utanríkisráðuneytisins og auk þess er hann sendiherra í utanríkisþjónustunni. Þannig að ég ætla ekki að gera það. Ég bara get þó sagt að þessi ummæli hans eru furðuleg og koma mér mjög á óvart.
Hún segir það misskilning að leggja eigi stofnunina niður.
Valgerður Sverrisdóttir: Ef að þetta verður niðurstaðan þá er starfsemin færð inn í ráðuneytið í staðinn fyrir að vera í mjög laustengdri stofnun sem að er Þróunarsamvinnustofnun Íslands og það er ekki verið að gagnrýna Þróunarsamvinnustofnun Íslands í þessari skýrslu, alls ekki. Og við erum ekki að stefna starfsöryggi starfsmanna í hættu eða neitt slíkt. Það er bara spurning um fyrirkomulag. |
Þetta byrjaði reyndar árið 2003 með fyrstu Jólagestum Björgvins á Nordica hótelinu og þar var ég með góða gesti eins og Siggu Beinteins, Eyjólf Kristjáns, Jóhönnu Vigdísi og Pál Rósinkranz og frábæra hljómsveit. Okkur langaði að gera þetta með svolitlum „bravúr“ í Las Vegas stílnum með stórum borðum, fallega skreyttum sal og fjórrétta „a la carte“ jólamatseðli. Þetta tókst mjög vel og var vel sótt í ein 10 skipti fyrir fullum sal. Það var upphafið og var allt byggt upp á Jólagestaplötunum mínum eins og nú,“ segir Björgvin Halldórsson, spurður út í upphaf Jólagesta Björgvins, en tónleikarnir verða haldnir í tíunda sinn á laugardaginn, 10. desember, í Höllinni.
Að vanda verður gestalistinn ekki af verri endanum, fjölmargir þjóðþekktir söngvarar stíga á svið og syngja inn jólin ásamt Stórsveit Jólagesta undir stjórn Þóris Baldurssonar, strengjasveit undir stjórn Gretu Salome, Barnakór Kársnesskóla undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur, Karlakórnum Þröstum undir stjórn Jóns Karls Einarssonar og Gospelkór Reykjavíkur undir stjórn Óskars Einarssonar. Tónleikarnir hafa notið mikilla vinsælda í gegn um árin.
„Ég hef verið svo heppinn að hafa fengið að vinna með fyrsta flokks fagfólki frá byrjun, svo á ég frábæra fjölskyldu sem hefur staðið eins og klettur við hliðina á mér, ásamt úrvals tónlistar- og tæknifólki sem hefur gert þessa tónleikaröð ógleymanlega,“ segir Björgvin og bætir við að ekki megi gleyma Ísleifi Þórhalls og hans fólki hjá Senu Live sem hefur haldið utan um tónleikana með stæl með þeim Gunnari Helgasyni leikstjóra og Birni G. Björnssyni sem hefur umsjón með handriti.
Flestallir þekkja jólalagið vinsæla Ég hlakka svo til, sem dóttir Björgvins, Svala, söng svo eftirminnilega um árið. Hún hefur verið gestur á tónleikunum þó nokkrum sinnum og fengið virkilega góð viðbrögð áhorfenda.
„Svala mín verður með á tónleikunum í ár, en hún hefur búið í Los Angeles í átta ár og það er alltaf gaman ef hún getur komið til landsins og tekið þátt. Það er gott að vinna með Svölu. Hún er mjög fagleg og kröfuhörð við sjálfa sig og það líkar mér. Ég má ekki ljóstra upp lögunum sem hún mun flytja en þau eru góð og að sjálfsögðu syngjum við saman dúett,“ segir Björgvin.
Hvað stendur upp úr á þessum tíu árum?
„Allar þær góðu og frábæru minningar frá þessu mikla ævintýri. Allt þetta góða fólk sem ég hef kynnst í gegnum tónleikana. Frábærir söngvarar og hljóðfæraleikarar sem tekið hafa þátt með okkur sem ég er mjög þakklátur fyrir. Það er þetta fólk sem ég þakka þessa velgengni í gegnum árin,“ segir hann þakklátur.
Val á jólastjörnunni hefur orðið æ umfangsmeira síðustu árin og er verkefnið orðið að vinsælum sjónvarpsþætti ár hvert. Guðrún Lilja Dagbjartsdóttir, níu ára stúlka frá Grindavík, var valin Jólastjarnan 2016 og mun hún koma fram ásamt fjölda þekktra stórsöngvara næstu helgi.
„Mér finnst Jólastjörnuþættirnir frábærir, okkur langaði alltaf að láta Jólagestatónleikana höfða til breiðari hóps og það hefur tekist vel með þessum þáttum. Það er svo skemmtilegt að vinna með þessum frábæru krökkum sem tekið hafa þátt og margir hverjir haldið áfram og gengið vel sem er frábært,“ segir Björgvin.
Þetta mun verða í síðasta sinn sem Jólagestir Björgvins verða í Höllinni en talsverðar breytingar eru framundan, sem verður skemmtilegt að fylgjast með.
„Ég mun halda áfram að taka á móti jólagestum eins og áður, en sjálfsagt eiga þeir eftir að breytast þar sem við stefnum á Eldborg á næsta ári. Ég mun sakna Laugardalshallarinnar, en þar hefur verið frábært að vera í öll þessi ár. Harpan er allt öðruvísi hús og býður upp á aðra spennandi möguleika sem er frábært. Við munum auðvitað reyna að toppa okkur eins og alltaf sem er ögrandi og skemmtilegt. Við munum eflaust brydda upp á nýjungum sem eiga eftir að falla tónleikagestum vel í geð. Það er næsta verkefni sem ég hlakka mikið til að vinna að,“ segir Björgvin. |
Cristiano Ronaldo kom sá og sigraði er Juventus landaði öllum þremur stigunum í leik kvöldsins gegn Parma. Lokatölur 2-1 þar sem Ronaldo skoraði tvívegis.
Parma tókst að halda Ronaldo og samherjum hans í skefjum allt fram að markamínútunni sjálfri. Þá fékk Ronaldo knöttinn vinstra megin við vítateig Parma. Hann lék inn að marki og lét vaða, knötturinn hafði viðkomu í varnarmanni áður en hann endaði í netinu. Staðan orðin 1-0 og markið skráð á Ronaldo þar sem skotið var á leið á rammann.
Eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik þá jafnaði Parma metin þökk sé marki frá hinum danska Andreas Cornelius. Gestirnir voru eflaust enn að fagna þegar Ronaldo kom Juventus aftur yfir þremur mínútum síðar eftir sendingu frá Paulo Dybala.
Var það 11. mark Ronaldo í síðustu sjö leikjum og 432. deildarmark hans á ferlinum. Tókst honum, í skamma stund, að jafna Lionel Messi í mörkum skoruðum í stærstu fimm deildum Evrópu. Svo virðist sem fréttir af marki Ronaldo hafi ratað til Spánar en Messi skoraði skömmu síðar og er því kominn með 433 deildarmörk.
Lokatölur á Allianz vellinum í Tórínó eins og áður sagði 2-1 þökk sé tvennu frá Ronaldo. Juventus er því komið með fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar þar sem Inter Milan mistókst að sigra Lecce á útivelli fyrr í dag. Parma er með 28 stig í 8. sæti.
Fyrr í dag vann Roma 3-1 sigur á Genoa á útivelli þökk sé mörkum Cengiz Under, Davide Biraschi og Edin Dzeko. Roma er í 4. sæti með 38 stig, 13 stigum á eftir Juventus. |
Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að í ár stefni í að heildarútköll flugdeildar verði 62 prósentum fleiri en þau voru fyrir fimm árum, árið 2011.
Útköll hjá flugdeild Landhelgisgæslunnar voru 251 talsins í ár, í fyrra voru þau 218 en árið 2011 voru þau aðeins 155.
Fjölgun ferðamanna möguleg ástæða
Í tilkynningunni segir að leitar- og björgunarútköllum flugdeildarinnar hafi fjölgað nokkuð, bæði á sjó og landi. Í ár voru slík útköll 44 talsins en aðeins 26 árið 2011.
„Fjölgun sjóútkalla er meðal annars rakin til þess að þegar bátar og skip detta út úr ferilvöktun stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar er þyrla eða flugvél yfirleitt kölluð út til leitar,“ segir í tilkynningunni.
Þá hafi leitar- og björgunarútköllum fjölgað áberandi mikið í óbyggðum. „Líkleg skýring á því er fjölgun ferðamanna á hálendinu og öðrum óbyggðum svæðum.“
Sjúkraflutningum Landhelgisgæslunnar hefur einnig fjölgað milli ára og er aukning ferðamanna einnig talin eiga þátt í þeirri fjölgun. „Hugsanlega endurspeglast því í þessari aukningu vaxandi bílaumferð vegna fleiri ferðamanna. Að sama skapi má gera ráð fyrir að fleiri sjúkraútköll í óbyggðum tengist aukinni umferð ferðamanna á hálendinu eða öðrum afskekktum og óbyggðum svæðum þar sem hefðbundnir sjúkraflutningar með bílum eru illframkvæmanlegir,“ segir í tilkynningu Landhelgisgæslunnar.
Útköllum vegna Íslendinga fjölgar líka
Athygli vekur að hlutfall erlendra sjúklinga sem fluttir eru, í samanburði við hlutfall Íslendinga, hefur lítið breyst milli ára.
„Þótt sjúklingum hafi almennt fjölgað benda þessar bráðabirgðatölur ekki til að erlendum sjúklingum hafi fjölgað meira en Íslendingum. Hlutfallið á milli þeirra er nánast það sama allt tímabilið: Um það bil þriðjungur þeirra eru erlendir en tveir þriðju Íslendingar. Þetta kemur nokkuð á óvart í ljósi mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna undanfarin ár.“
Vakin er athygli á því að ekki er um endanlegar tölur að ræða enda næstum tveir dagar eftir af árinu. Því gætu þær breyst lítillega á næstu dögum. |
Forstjóri Sýnar segir ljóst að áætlanir félagsins um ábata af kaupum á eignum 365 miðla hafi verið óraunhæfar.
Sameiningunni er lokið en hún tók miklu lengri tíma og var kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir,“ segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar. Sýn tilkynnti á miðvikudaginn að afskrifa ætti 2,5 milljarða viðskiptavild sem kom til vegna kaupa félagsins á fjölmiðlum og fjarskiptahluta 365 miðla árið 2017. „Síðasta ár markast af því að verið er að ljúka ýmsum hlutum sem kostnaður hlaust af. Núna erum við komin með miklu sterkara fyrirtæki til að sækja fram,“ segir Heiðar. Starfsmönnum Sýnar fækkaði um 60 á síðasta ári, skipt var um fjóra af fimm í framkvæmdastjórn félagsins og Heiðar tók við sem forstjóri af Stefáni Sigurðssyni. Afskriftin sem slík hafi þó engin áhrif á rekstur félagsins og greinendur hafi verið fyrir löngu búnir að átta sig á stöðunni.
Óraunhæfar áætlanir
Þegar gengið var frá kaupum á eignum 365 1. desember 2017 var stefnt að því að samlegðaráhrif af sameiningunni myndu skila sér á 12 til 18 mánuðum og næmu 1,75 milljörðum króna á ári. Þau áform hafa ekki staðist. „Það voru klárlega óraunhæfar áætlanir en við erum að vinna með fyrirtækið eins og það er. Við höfum fulla trú á því að það verði vel arðbært í framtíðinni,“ segir Heiðar. Hann lét hafa eftir sér í ágúst að sparnaðurinn af uppsögnunum og endurskipulagningu myndi bæta afkomu félagsins um 50 milljónir á mánuði eða 600 milljónir á ársgrundvelli.
Kaupverðið of hátt?
Sýn greiddi 8,3 milljarða króna fyrir eignir 365 miðla árið 2017. 2,1 milljarður var greiddur með hlutafé í Sýn, þá greiddi félagið upp lán seljanda upp á 4,6 milljarða og 1,6 milljarðar króna voru greiddar í reiðufé.
Markaðsvirði Sýnar hefur lækkað um helming frá mars 2018 og er í dag 10,5 milljarðar króna eða 2,2 milljörðum hærra en kaupverð eigna 365 miðla var árið 2017. Spurður hvort kaupverðið fyrir eignir 365 miðla hafi verið of hátt á sínum tíma segir Heiðar: „Það er alltaf hægt að vera vitur eftir á. Það er alveg klárt að áætlanir stóðust ekki en það á eftir að koma í ljós hvort of mikið hafi verið greitt fyrir eignirnar.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. |
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Páll Jóhann Pálsson, formaður fjarskiptasjóðs, og forsvarsmenn sveitarfélaga, skrifuðu í dag undir samninga um samvinnustyrki frá fjarskiptasjóði og byggðastyrki frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu til ljósleiðaravæðingar sveitarfélaga í tengslum við landsátakið Ísland ljóstengt. Fjórtán sveitarfélög eiga að þessu sinni kost á byggðastyrk á grundvelli byggðaáætlunar og 22 sveitarfélög eiga kost á samvinnustyrk. Þar á meðal er Húnaþing vestra sem á kost á 58,4 milljónum króna í samvinnustyrk og 10 milljónum í byggðastyrk.
Samningarnir gefa 23 sveitarfélögum kost á samtals um 1.475 milljónum króna í styrki á árunum 2019 til 2021 til þess að tengja með ljósleiðara allt að 1.700 styrkhæfa staði auk fjölda annarra bygginga samhliða sem ekki hljóta styrk. Eigið framlag sveitarfélaga/íbúa er umtalsvert og að lágmarki 500.000 kr. fyrir hvern tengdan styrkhæfan stað. Samningar árin 2020 og 2021 eru með fyrirvara um fjárlög.
Styrkveitingarnar miðast við að tryggja verklok hjá allflestum sveitarfélögum sem um ræðir og þar með að náð verði að mestu leyti markmiði ríkisstjórnarinnar um ljósleiðaravætt dreifbýli landsins. Stefnt er að því að lokaúthlutun á grundvelli Ísland ljóstengt verði á næsta ári með það að markmiði að öll áhugasöm sveitarfélög ljúki lagningu ljósleiðara í dreifbýli fyrir árslok 2021 hið síðasta.
Verkefnið Ísland ljóstengt hófst formlega vorið 2016. Er þetta því fjórða úthlutun fjarskiptasjóðs og jafnframt þriðja úthlutun ráðuneytisins á grundvelli byggðaáætlunar á jafn mörgum árum.
Yfirlit um styrki í tengslum við Ísland ljóstengt má sjá hér. |
Þingflokkar stjórnarflokkanna funduðu í gærkvöldi um frumvarp um fiskveiðistjórnun. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins samþykkti þingflokkur Vinstri grænna að leggja frumvarpið fram, en Samfylkingin vill skoða ákveðin atriði þess innan ríkisstjórnar. Málið verður rætt á ríkisstjórnarfundi í dag og stefnt er að því að leggja það fram í kjölfarið.
Það er ekki seinna vænna því frestur til að leggja fram mál á Alþingi rennur út í dag. Eftir það þarf að veita afbrigði til að mál séu tekin á dagskrá. Þá eru aðeins eftir 38 fundadagar á Alþingi, samkvæmt áætlun, að deginum í dag meðtöldum.
Heimildir Fréttablaðsins herma að frumvarpið, sem Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra leggur fram, sé óbreytt í grundvallaratriðum frá því sem var frestað á síðasta þingi. Þingflokkarnir hafa ekki séð frumvarpið í heild sinni, en þau atriði sem vitað er að ágreiningur er um hafa verið kynnt.
Á meðal þess sem deilt er um er hve byggðapottar eiga að vera stórir. Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, og Ólína Þorvarðardóttir Samfylkingunni hafa bæði lýst yfir andstöðu við ákveðna þætti frumvarpsins, ekki síst byggðatengingu.
Þær raddir gerast æ háværari að ríkisstjórnin sé einfaldlega fallin á tíma – og stuðningi – til að ljúka málinu. Hún hefur ekki lengur þingmeirihluta, en aðeins 31 þingmaður er í stjórnarflokkunum. Þá bíða fjölmörg stór mál afgreiðslu þingsins og ljóst þykir að forgangsraða þurfi þeim. Þau náist ekki öll í gegn.
Innan Samfylkingarinnar hefur, samkvæmt heimildum blaðsins, sú skoðun verið uppi að frumvarpið sé fulllangt frá því sem lagt var upp með í stjórnarsáttmála. Á það ekki síst við um aðgang að greininni. |
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna telur að að aðgerðaáætlun um höfuðstólslækkun húsnæðislána feli í sér ágætar tillögur „eins langt og þær ná, en að þær séu samt sem áður allt of léttvægar miðað við ástandið eins og það er orðið í dag.“
Í tilkynningu frá stjórninni segir að rétt sé að hafa í huga að tillögurnar eigi eftir að hljóta þinglega meðferð og samþykki, þar sem þær geti tekið talsverðum breytingum eða jafnvel verið synjað. „Forskriftin að aðgerðaráætluninni var lögð fram með þingsályktunartillögu forsætisráðherra á sumarþinginu og skiluðu HH inn ítarlegri umsögn um hana. Hefði aðgerðaráætlunin litið dagsins ljós strax árið 2009 hefðu HH efalaust fagnað henni ákaft enda er hún mjög í samræmi við kröfur samtakanna á þeim tíma.“
Að mati samtakanna eru forsendurnar nú, þegar fimm ár eru liðin frá hruni hins vegar talsvert breyttar. „Og finnst okkur í HH tími til kominn að stjórnvöld horfist í augu við vandann í stað þess að setja sífellt fleiri plástra með fallegum myndum á svöðusárin.“
Þá segir ennfremur, að gangi boðuð aðgerðaáætlun eftir, muni það vissulega gagnast einhverjum hluta heimila landsins. „Þrýstingur á ríkisstjórnina um að setja fram einhverja áætlun var vissulega mikill í ljósi þeirra loforða sem gefin voru í kosningabaráttunni síðasta vor. Það er hins vegar ekki nóg að gera “bara eitthvað”,“ eins og segir í tilkynningunni.
Að lokum er bent á að talsverð óvissa sé uppi um lögmæti útfærslu verðtryggingar á neytendalánum og fyrir dómstólum eru nokkur mál vegna þessa. „Meðal annars er mál að tilstuðlan HH og félagsmanna í samtökunum þar sem byggt er á því að útfærsla og framkvæmd verðtryggingar á neytendalánum hafi verið ólögmæt allt frá árinu 2001. Þetta þykir sumum kannski fjarstæðukennt en í því samhengi má minna á að samtökin höfðu rétt fyrir sér um ólögmæti gengistryggðra lána.“
Aðgerðir til skuldalækkana áður en útkljáð hefur verið fyrir dómstólum hvort að verðtrygging hafi verið löglega framkvæmd geta reynst samfélaginu öllu mjög dýrkeyptar. Mikilvægt er að uppgjöri þrotabúa föllnu bankanna og afléttingu gjaldeyrishafta verði ekki lokið fyrr en álitamál um lögmæti samninga í lánasöfnum nýrra fjármálafyrirtækja í eigu þeirra, hafa verið útkljáð“.
Hagsmunasamtökin segja að áður en það hafi verið gert sé jafnframt varhugavert að leggja áhættu af því á herðar ríkissjóðs. Þá vilja samtökin gagnrýna að ekki séu í aðgerðaáætlunni nein úrræði til að verja heimilin gegn óréttmætum nauðungarsölum án undangenginna dómsúrskurða, í það minnsta þar til boðaðar skuldaleiðréttingar komi til framkvæmda, sem getur verið eftir allt að 6 mánuði samkvæmt áætluninni.
„Ekki síst í ljósi þess að miðað við fram komnar tillögur um skuldaleiðréttingu er ljóst að þær kröfur sem hafðar eru í frammi við slíkar fullnustugerðir eru oftar en ekki á órökréttum grunni reistar. Leiða má líkur að því að í mjög mörgum tilvikum hefði heimilismissir verið óþarfur fyrir þær fjölskyldur sem í hlut eiga fyrir utan það tilfinningalega og sálræna álag sem það veldur fjölskyldum að þurfa að eiga á hættu að missa heimili sín, á meðan beðið er boðaðra aðgerða.“
Í þessu sambandi minna samtökin á að haft var eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra á RÚV hinn 11. nóvember að hún mundi skoða að stöðva nauðungarsölur á heimilum fólks og það yrði að fara saman við þær tillögur sem lúta að skuldamálum sem lagðar yrðu fram í lok nóvember. „Nú bólar hinsvegar ekkert á efndum heldur er í raun gefið í og áfram veitt veiðileyfi á heimilin næstu 6 mánuði á meðan unnið verði að nánari útfærslu aðgerðaráætlunarinnar“ |
Sigtún þróunarfélag og Umhverfisstofnun hafa gert með sér samning sem gengur út á að byggingar nýs miðbæjarkjarna á Selfossi verði umhverfisvottaðar með Svansvottun.
Samningur um þessa framtíðarsýn var undirritaður á Selfossi í dag. Markmið samningsins er að skilgreina þær meginkröfur sem byggingarnar verða að uppfylla til að teljast vottunarhæfar sem og hlutverk samningsaðila í ferlinu. Þetta er í fyrsta skipti sem undirritað er samkomulag um Svansvottun klasa húsa hér á landi.
„Með verkefninu sem snýr bæði að heilsu fólks sem mun starfa og búa í þessum húsum sem og í heildrænu umhverfislegu tilliti er um nýtt og spennandi skref að ræða. Ég fagna að sveitarfélagið Árborg og Sigtún Þróunarfélag sýni þetta frumkvæði. Það er til mikillar eftirbreytni,“ segir Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.
Minnka umhverfisáhrif framkvæmdanna
Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og hefur svansvottun verið í mikilli sókn hin síðari ár, ekki síst hér á landi. Mikil umhverfisáhrif fylgja byggingargeiranum, en með Svansvottun húsnæðis er markvisst unnið að því að minnka umhverfisáhrif framkvæmdanna og því voru viðmið Svansins fyrir nýbyggingar þróuð 2003. Tvær byggingar hafa nú þegar hlotið svansvottun hér á landi og hefur stofnunin í kjölfarið orðið vör við vitundarvakningu í málaflokknum. Í dag ná viðmið Svansins fyrst og fremst til íbúðarhúsnæðis og skólabygginga og eru því ekki til viðmið fyrir allar tegundir bygginga.
UST rýnir í gæðaferla og notkun byggingarefna
Nýr miðbæjarkjarni Selfoss samanstendur af blandaðri byggð þar sem gert er ráð fyrir íbúðarhúsnæði í bland við atvinnuhúsnæði. Þær byggingar verkefnisins sem falla ekki undir núverandi viðmið Svansins fyrir nýbyggingar eru aðallega hótel, skrifstofur og þjónustubyggingar. Uppbyggingin mun hins vegar fylgja viðmiðum Svansins fyrir allar nýbyggingar verkefnisins en vottunin byggist á tilteknum fjölda skyldukrafna auk lágmarksfjölda stiga. Ekki eru gefnar einkunnir líkt og í öðrum vottunarkerfum sem þekkjast hérlendis því ef byggingin stenst allar skyldukröfur, þ.m.t. lágmarks fjölda stiga telst hún Svansvottuð. Á byggingartíma munu starfsmenn Umhverfisstofnunar m.a. rýna gæðaferla, hönnun, notkun byggingaefna og efnavöru og fylgjast með úrgangsflokkun.
Leó Árnason, framkvæmdastjóri Sigtúns þróunarfélags, segir samninginn stóran áfanga í því markmiði að gera miðbæinn eins umhverfisvænan og unnt er.
„Við erum einnig að vinna að því að votta deiliskipulagið með Breeam vistvottun og stefnum að því að allur rekstur í miðbænum verði umhverfisvottaður með Svaninum eða öðru viðeigandi umhverfismerki,” segir Leó.
Jafnframt undirritaði Sigtún þróunarfélag í dag viljayfirlýsingu við JÁVERK, sem reisir húsin í miðbænum, um innleiðingu umhverfisstjórnunarkerfis og verkferla sem tryggi að verkframkvæmd og efnisnotkun uppfylli kröfur Svansins fyrir nýbyggingar. |
Fræðslu- og leiðbeiningarit nr. 17 Öryggis- og heilbrigðisáætlun fyrir byggingarvinnustaði Inngangur Við byggingarframkvæmdir og mannvirkjagerð eru slys og óhöpp algeng hér á landi eins og víðast hvar erlendis. Mörg þeirra má rekja til skipulagsleysis á byggingarvinnustað. Mikið er um fallslys af margvíslegu tagi svo eitthvað sé nefnt. Það er álit flestra að bæta megi öryggismál mikið við þessa starfsemi en til þess þarf nýjar aðferðir. Þær þurfa að fela í sér m.a. meiri ábyrgð verkkaupa á skipulagi og samræmingu verkþátta. Árið 1997 tóku gildi hér á landi reglur um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Reglur þessar voru settar með hliðsjón af tilskipun sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu. Markmið reglnanna er að samræma öryggis- og heilbrigðisráðstafanir á þessum stöðum. Sérstaklega er fjallað um ábyrgð og skyldur þar sem fleiri en einn verktaki er að störfum. Skilgreint er hlutverk verkkaupa, verkefnastjóra, atvinnurekenda, verktaka og samræmingaraðila öryggis- og heilbrigðisráðstafana bæði á undirbúnings- og framkvæmdarstigi verks. Mörg ný ákvæði eru í reglunum sem ekki var að finna í eldri reglum um öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum. Í því sambandi má t.d. nefna ábyrgð verkkaupa. Með þessum reglum eru lagðar á hann skyldur sem honum ber að uppfylla við byggingarframkvæmd. Honum ber t.d. að skipa samræmingaraðila öryggis- og heilbrigðisráðstafana bæði á undirbúnings- og framkvæmdarstigi verks. Verkkaupa ber einnig að sjá um að gerð sé öryggis- og heilbrigðisáætlun þar sem samtímis starfa tveir eða fleiri atvinnurekendur eða verktakar á sama byggingarvinnustað og starfsmenn eru fleiri en tíu. Slíka áætlun skal einnig gera ef vinna er hættuleg. Með þessum leiðbeiningabæklingi er reynt að auðvelda öllum þeim, sem vinna að byggingarframkvæmdum og mannvirkjagerð, að átta sig á ábyrgð sinni og skyldum við framkvæmdina. Bæklingnum er skipt upp í þrjá hluta. Í fyrsta hluta er farið yfir skyldur aðila, s.s. verkkaupa og annarra sem hann hefur valið til að gegna skyldum fyrir sig, s.s. samræmingaraðila öryggis- og heilbrigðisráðstafana. Í öðrum hluta er fjallað um gerð öryggis- og heilbrigðisáætlunar, gerð grein fyrir hvernig standa skuli að gerð áætlunarinnar og hvað sé nauðsynlegt að hafa í slíkri áætlun. Í þriðja og síðasta hluta eru sett fram dæmi um atriði sem þarf að skoða við gerð öryggis- og heilbrigðisáætlunarinnar eða gátlista sem notaðir verða á byggingarvinnustað. Byggingarframkvæmd og mannvirkjagerð er afar mismunandi að umfangi og það sama getur gilt fyrir öryggis- og heilbrigðisáætlanir. Eins getur haft áhrif hvar framkvæmdin fer fram, t.d. í byggð eða utan byggðar, og sá starfsmannafjöldi sem hún krefst. Mörgum kann að finnast gerð öryggis- og heilbrigðisáætlunar nokkuð flókið verk. Því var ákveðið að gefa þessar leiðbeiningar út til að auðvelda það verk. Eins skal bent á að sérstakir aðilar, s.s. verkfræði- og ráðgjafastofur, taka að sér slík verk fyrir þá sem það kjósa. I. hluti Helstu skyldur aðila Hvað telst byggingarframkvæmd og mannvirkjagerð? Með byggingarframkvæmdum og mannvirkjagerð er m.a. átt við vinnu við:-að reisa byggingar og mannvirki, þ. á m. vinnu við að setja saman einingar-vegalagningu, jarðgangagerð, brúarsmíði, hafnargerð o. fl.-uppgröft og jarðvinnslu í tengslum við ofangreint-röra- og kaplalögn-endurnýjun og standsetningu-viðgerðir og viðhald í sambandi við ofangreint-að taka niður og taka sundur það sem hér hefur verið nefnt-breytingar eða uppsetningu búnaðar-viðhald Sjá nánar I. viðauka í reglunum. Hver er verkkaupi við byggingarframkvæmdir? Verkkaupi við byggingarframkvæmdir er sá einstaklingur eða lögaðili sem lætur reisa byggingar eða önnur mannvirki og greiðir kostnaðinn. Það geta t. d. verið:-einstaklingar-fyrirtæki-opinberar eða einkareknar stofnanir-félög-byggingarfélög. Sá aðili, sem lætur reisa bygginguna, telst verkkaupinn. Ef framkvæmdaraðili byggir t. d. fyrir eigin reikning með sölu fyrir augum, eða ef samið hefur verið um að notandinn kaupi bygginguna eftir að verkinu er lokið, telst framkvæmdaraðilinn verkkaupi í báðum tilvikum. Sama gildir um byggingar sem leigja á út. Þá telst eigandinn, sá sem leigir út, vera verkkaupinn. Ábyrgð og skyldur verkkaupans Verkkaupi við byggingarframkvæmdir og mannvirkjagerð ber ábyrgð samkvæmt vinnuverndarlögunum á því að:-móta öryggisráðstafanir og verklagsreglur á sameiginlegum svæðum, sjá bls. 15-16.-samræma vinnuverndarstarfið á vinnusvæðinu-skipa samræmingaraðila á undirbúningsstigi verks-skipa samræmingaraðila á framkvæmdarstigi verks-gera eða sjá til þess að gerð sé öryggis- og heilbrigðisáætlun við skipulag og rekstur byggingarvinnustaðarins eða mannvirkisins-tilkynna Vinnueftirlitinu um vinnustaðinn áður en framkvæmdir hefjast-o.fl. Ábyrgð og skyldur verkkaupans eru eins og lýst er hér að ofan þegar byggingarframkvæmdum eða mannvirkjagerð er þannig háttað að tveir eða fleiri atvinnurekendur eða verktakar eru með fleiri en 10 starfsmenn í vinnu á svæðinu. Þetta gildir enda þótt verkkaupinn hafi samið við einn aðalverktaka sem kann að hafa ráðið undirverktaka til starfa á staðnum. Verkkaupinn á að fylgjast stöðugt með fjölda starfsmanna og atvinnurekenda á byggingarvinnustaðnum. Honum ber að setja það skilyrði í útboði að hann fái jafnóðum tilkynningu um undirverktaka og fjölda þeirra sem starfa hverju sinni á svæðinu hjá hinum einstöku fyrirtækjum. Skipun samræmingaraðila Verkkaupa ber að skipa samræmingaraðila öryggis- og heilbrigðisráðstafana á undirbúnings- og framkvæmdarstigi verks til starfa á byggingarsvæði þar sem fleiri en einn atvinnurekandi eða verktaki er að störfum. Skyldur samræmingaraðila Undirbúningsstig verks Verkkaupi skal á hönnunar- og undirbúningsstigi verks gera ráðstafanir sem tryggja að við framkvæmd verksins verði unnt að gæta fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Á undirbúningsstigi verks skal samræmingaraðili öryggis- og heilbrigðisráðstafana sjá til þess að gerð verði öryggis- og heilbrigðisáætlun. Framkvæmdarstig verks Hlutverk samræmingaraðila öryggis- og heilbrigðisráðstafana á framkvæmdarstigi verks er m.a. að: a samræma framkvæmd forvarna og öryggisráðstafana við skipulagningu og tímasetningu hinna ýmsu verkþátta sem eiga að fara fram samtímis eða hver á eftir öðrum b. samræma aðgerðir til að tryggja öryggi allra, sem vinna að framkvæmd verks á byggingarvinnustað, og fylgja öryggis- og heilbrigðisáætlun sem gerð hefur verið fyrir verkið c. framkvæma, eða sjá til þess að framkvæmdar verði, nauðsynlegar breytingar á öryggis- og heilbrigðisáætluninni d. miðla upplýsingum og skipuleggja samstarf milli atvinnurekenda, hvort sem þeir vinna samtímis eða hver á eftir öðrum á byggingarvinnustað e. samhæfa aðgerðir til að tryggja að réttum vinnuaðferðum sé beitt með tilliti til öryggis og heilsuverndar f. gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að aðeins þeir, sem þangað eiga erindi, fái aðgang að byggingarsvæðinu. Sami aðili getur gengt skyldum samræmingaraðila bæði á undirbúnings- og framkvæmdarstigi verks, ef henta þykir. Verkefnastjóri eða byggingarstjóri Verkefnastjóri er aðili sem ber ábyrgð á skipulagi, framkvæmd eða eftirliti með verki og starfar í þágu verkkaupa. Verkkaupi getur falið verkefnastjóra að gegna skyldum sem verkkaupa eru falin. Skyldur atvinnurekenda eða verktaka Atvinnurekendur eða verktakar sem hafa tekið að sér vinnu á byggingarvinnustað skulu hlíta öllum reglum, sem gilda á vinnustaðnum og lúta að öryggi og heilbrigðisráðstöfunum, einkum er varðar eftirfarandi þætti:-reglufestu og hreinlæti-meðferð hinna ýmsu efna-geymslu á efni einkum ef um hættulegt efni er að ræða-brottflutningi á efni, sérstaklega hættulegu efni-eftirliti og viðhaldi búnaðar áður en hann er tekinn í notkun og meðan hann er í notkun-staðsetningu starfsstöðva með tilliti til aðgengis-samstarfi við aðra verktaka og þá sem sjá um samræmingu öryggismála. Skyldur hönnuða Hönnuðir, sem verkkaupi hefur ráðið til að vinna við hönnun á byggingu eða mannvirki, bera skyldu til að vinna eftir þeim reglum sem í gildi eru. Það á ekki síst við um þau atriði sem varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi þeirra sem munu starfa við bygginguna eða mannvirkið sem verið er að hanna hverju sinni. Það er eðlilegt að þeir ræði við verkkaupa um skyldur hans, t.d. um gerð öryggis- og heilbrigðisáætlunar fyrir verkið. Hönnuðir geta tekið þátt í gerð áætlunarinnar á undirbúningsstigi verks og þurfa að hafa góða samvinnu við samræmingaraðila á undirbúnings- og framkvæmdarstigi verks. Tilkynning til Vinnueftirlitsins áður en vinna hefst Verkkaupi eða aðili sem hann hefur falið umsjón byggingarframkvæmda, t.d. aðalverktaki, samræmingaraðili eða verkefnastjóri, skal senda tilkynningu um byggingarframkvæmd til Vinnueftirlitsins áður en vinna hefst á til þess gerðu eyðublaði, ef: a. um er að ræða byggingarvinnustað þar sem ráðgert er að vinna standi lengur en 30 vinnudaga og þar sem fleiri en 20 starfsmenn eru í vinnu samtímis, eða b. um er að ræða byggingarvinnustað þar sem ráðgert er að vinna sé meira en 500 dagsverk. Hvað skal vera í útboðsgögnum og verksamningum? Það er hlutverk verkkaupa að sjá til þess að í útboðsgögnum sé skilgreint á fullnægjandi hátt hvaða kröfur þarf að uppfylla varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á byggingarvinnustað, m.a. um hver á að gera hvað, hvaða reglur beri að uppfylla o.s.frv. Ef verkkaupinn ætlar öðrum að sjá um þau mál fyrir sína hönd skal það gert ljóst strax í útboðsgögnunum til að ekkert fari á milli mála í því sambandi. Mikilvægt er t.d. að samræmingaraðili á undirbúningsstigi verks sé valinn sem fyrst á hönnunarstiginu. Hlutverk hans er þá að sjá til þess að öryggismál séu samræmd, þ.e. milli mismunandi verktaka frá byrjun, og að gerð sé öryggis- og heilbrigðisáætlun fyrir framkvæmdina. Þar sem verkkaupinn ræður þá, sem verkið vinna, getur hann haft veruleg áhrif á hvernig starfsumhverfið verður á væntanlegum byggingarvinnustað. Honum ber að skoða vandlega öryggis- og heilbrigðismálin áður en verk eru boðin út. Verkkaupi getur haft veruleg áhrif á starfsumhverfið meðan á byggingarframkvæmdum stendur með því að gera kröfur um að hættuminnsta byggingarefnið og byggingarhlutarnir séu valdir. Það getur einnig haft áhrif á starfsumhverfi í fullgerðum byggingum, t. d. inniloft. Varðandi kröfur í útboðsgögnum sjá einnig ábyrgð og skyldur verkkaupans bls. 10 og sameiginleg svæði bls. 16-17. Öryggishandbók fyrir byggingarsvæðið Samræmingaraðili skal varðveita og uppfæra öryggishandbók sem gilda skal fyrir alla framkvæmdina. Í henni á að vera öryggis- og heilbrigðisáætlunin sem unnin var á undirbúningsstigi verksins. Hann skal sjá um að uppfæra þá áætlun eftir þörfum. Í öryggishandbók eiga einnig að vera helstu lög, reglur og önnur skjöl sem fara ber eftir við verkið, svo og öll helstu gögn sem varða öryggi og heilbrigði sem samræmingaraðilinn vinnur eða lætur vinna á verktímanum. Hér skal varðveita upplýsingar um heimsókn eftirlitsmanna Vinnueftirlitsins, vinnuvélaskoðanir, eftirlitsaðferðir öryggisnefnda, skráningu slysa og óhappa, fundargerðir, upplýsingar um kosningu öryggistrúnaðarmanna og skipun öryggisvarða. Í öryggishandbók skulu vera skriflegar upplýsingar, fyrirmæli eða samkomulag við undirverktaka um það sem ætlast er til af þeim. Heimild verkkaupa til að fela öðrum skyldur Í reglunum er lögð sú skylda á verkkaupa að skipa samræmingaraðila öryggis- og heilbrigðisráðstafana þar sem fleiri en einn atvinnurekandi eða verktaki eru að störfum. Ástæðan er sú að ekki stunda allir verkkaupar við byggingarframkvæmdir og mannvirkjagerð slíka starfsemi að jafnaði eða hafa næga faglega þekkingu á þessu sviði. Það skilyrði er sett að sá, sem tekur á sig ábyrgð og skyldur verkkaupans, hafi þá sérþekkingu og burði sem til þarf. Verkkaupinn þarf að sýna fram á að gerður hafi verið skýr samningur um þetta og þarf hann að vera skriflegur til að ekkert fari á milli mála. Áður er komið fram hver verkefni samræmingaraðila skulu vera. Samræmingaraðili ber ábyrgð á verkum sínum samkvæmt almennum reglum en í 7. gr. reglnanna kemur fram að verkkaupi, verkefnastjóri eða verktaki losni ekki undan ábyrgð sinni þótt skipaður hafi verið samræmingaraðili. Í 3. gr. reglnanna kemur fram að auk skyldunnar til að skipa samræmingaraðila skuli verkkaupi sjá til þess að gerð sé öryggis- og heilbrigðisáætlun og sjá um tilkynningu til Vinnueftirlitsins. Það eru þessar skyldur verkkaupa sem honum er heimilt að fela verkefnastjóra eða verktaka og skal slíkt samkomulag gert skriflegt. Ábyrgðin hvílir eftir sem áður á verkkaupa að sjá til þess að ofangreindaráðstafanir hafi verið gerðar. Samræmingaraðili skal uppfæra öryggis- og heilbrigðisáætlunina þannig að hún sé jafnan í samræmi við aðstæður er verkinu vindur fram. Sá sem tekur á sig verkkaupaábyrgðina getur ekki framselt hana til annarra. Verkkaupinn getur hvenær sem er afturkallað framsalið og gengist sjálfur í ábyrgðina eða falið hana nýjum aðila. Sá, sem tekur á sig samræmingarábyrgð verkkaupans og ábyrgð á að öryggis- og heilbrigðisáætlunin sé endurskoðuð í samræmi við framvindu verksins, þarf helst að vera í fastri vinnu á staðnum. Til að samræma verkefnin, sem varða öryggi, aðbúnað og hollustuhætti, skal samræmingaraðilinn vera til staðar á byggingarvinnustaðnum svo að starfsmenn og verktakar geti haft samband við hann persónulega. Þannig getur framsal ábyrgðar til verktaka, sem sér um allt verkið, eða aðalverktaka reynst heppilegra en að leita til fagaðila enda eru hinir fyrrnefndu viðlátnir allan byggingartímann. Taki fagaðili á sig ábyrgðina skal hann vera til staðar allan byggingartímann. Þegar minnst er á skyldur verkkaupa hér á eftir á það einnig við þá sem kunna að hafa tekið að sér að uppfylla þær, t.d. samræmingaraðila. Öryggisráðstafanir á sameiginlegum svæðum Áður en framkvæmdir við byggingar eða önnur mannvirki hefjast skal verkkaupinn gera grein fyrir því hvar á byggingarsvæðinu verði umferð og hvar á svæðinu verði sameiginleg svæði. Sem dæmi um þau má nefna:-umferðar- og aðgangsleiðir-birgðasvæði-svæði þar sem rusli og byggingarafgöngum er safnað-vinnupalla-göngubrýr-starfsmannarými á svæðinu-sérstök vinnusvæði þar sem nokkur fyrirtæki starfa samtímis. Verkkaupinn skal semja við einstaka verktaka um hver taki að sér að setja upp búnað sem ætlaður er til sameiginlegs öryggis, halda honum við og taka loks niður. Til dæmis má nefna vinnupalla, handrið, lýsingu, umferðarleiðir og hreinsun á rusli. Þetta skal koma fram í öryggis- og heilbrigðisáætluninni. Ef verktaki lætur undirverktaka annast hluta af verki skal hann semja við undirverktaka sína um hver gengur frá því sem ætlað er til að tryggja öryggi á sameiginlegum svæðum, heldur því við og tekur loks niður. Skilgreina skal öryggisráðstafanir á sameiginlegu svæðunum þegar í útboðsgögnum þannig að kostnaður við þær komi inn í tilboðsupphæðina. Í útboðsgögnum og samningum skal reyndar koma fram á hvaða tímabili ábyrgð á öryggisráðstöfununum hvíli á einstökum verktökum. Komi á byggingartímanum í ljós að þessar upplýsingar eru ófullnægjandi skal bæta úr því. Áætlanir verkkaupans skulu fela í sér að ráðstafanir, sem ætlað er að tryggja velferð starfsmanna, gagnist öllum, líka starfsmönnum sem annast verkefni sem taka stuttan tíma. Verkkaupinn skal sjá til þess að ljóst sé í samningum við verktaka hver skuli sjá til þess að svo geti orðið. Verkkaupanum er ekki heimilt að drepa þessum skuldbindingum á dreif með því að setja almenn ákvæði í útboðsgögn um að hver verktaki um sig skuli annast þær ráðstafanir sem ætlað er að tryggja velferð starfsmanna hans. Fundir um öryggismál Verkkaupinn skal sjá um að haldnir séu fundir um öryggismál á vinnusvæðinu. Reglulega fundi ætti að halda minnst einu sinni í mánuði og mun oftar í stærri verkum. Þessa fundi ætti að tengja fundum sem haldnir eru um framkvæmdina. Sérstaka fundi um öryggismál skal halda ef alvarlegt slys verður, eitrun kemur upp eða annað, sem ógnar heilbrigði starfsmanna, eða óhapp verður sem skapar slíka hættu. Að öðru leyti skal efna til sérstakra funda um öryggi eftir þörfum. Auk verkkaupans er heppilegast að allir atvinnurekendur og verktakar á staðnum eða fulltrúar þeirra taki þátt í fundunum, svo og öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn á staðnum. Verkkaupinn boðar til öryggisfundanna og lætur skrá fundargerð. Þar skal gera grein fyrir því hvaða vandamál voru rædd, hver ber ábyrgð á að leysa þau og fyrir hvaða tíma það skal gert. Fundargerðina skal senda öllum atvinnurekendum og verktökum, verkstjórum á byggingarvinnustaðnum, öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum sem þar kunna að vera. Aðrir aðilar sem kunna að hafa verið á fundinum skulu einnig fá fundargerð. Verkkaupi skal sjá um að öryggis- og heilbrigðisáætlunin sé forsenda og bakgrunnur umræðna á fundum um öryggismál. Hann skal einnig sjá um að uppfærðar áætlanir, í samræmi við framgang verksins og breytingar sem verða á skipulagi vinnustaðarins, séu kynntar og ræddar. Samræming vinnuverndarstarfsins á byggingarsvæði Verkkaupinn skal samræma vinnuverndarstarfið hjá öllum atvinnurekendum og verktökum á svæðinu, og gildir það líka um undirverktaka sem hann hefur ekki gert samning við. Samræmingin fer þannig fram að verkkaupinn heldur sameiginlega fundi um öryggismál eða hefur beint persónulegt samband við þá sem málið varðar. Ef verkkaupanum berst á milli funda vitneskja um atriði, sem varða öryggi og krefjast tafarlausra viðbragða, hefur hann samband við þann verktaka sem ber ábyrgð á öryggisatriðinu, sem um ræðir, í því skyni að fá úr því bætt. Sé um meiri háttar framkvæmdir við byggingu eða önnur mannvirki að ræða, þar sem 50 starfsmenn eða fleiri starfa um lengri tíma, skal stofna öryggisnefnd byggingarvinnustaðarins. Í öryggisnefndinni skulu vera auk verkkaupans tveir öryggistrúnaðarmenn á vinnustaðnum og tveir fulltrúar atvinnurekendanna eða verktaka. Verkkaupinn er formaður öryggisnefndar. Telji Vinnueftirlitið og verkkaupi að vinnuverndarstarf á vinnusvæðinu geti gengið nægilega vel fyrir sig með því að haldnir séu öryggisfundir, þarf ekki að stofna öryggisnefnd. Ef öryggisnefnd starfar á byggingarvinnustað annast hún að jafnaði þau verkefni sem venjulega eru tekin fyrir á öryggisfundum. Fundir í öryggisnefndinni fara í megindráttum eftir því sem gerist á öryggisfundum að því er varðar fundarboð, fundatíðni og fundargerð. Þegar verkkaupinn er fyrirtæki í rekstri Sé verkkaupinn fyrirtæki og svo háttar til að framkvæmdirnar eru innan þess eða á yfirráðasvæði þess, þannig að starfsmenn fyrirtækisins geta orðið fyrir skaðvænlegum áhrifum af framkvæmdunum, ber verkkaupanum skylda til að hafa samstarf við starfsmennina um öryggis- og heilbrigðismál. Sama gildir ef aðstæður í fyrirtækinu ógna með einhverjum hætti öryggi og heilbrigði utanaðkomandi starfsmanna. Atvinnurekanda sem verkkaupa byggingarframkvæmda eða annarrar mannvirkjagerðar er skylt að hafa samstarf við aðra atvinnurekendur á svæðinu til að tryggja góð vinnuskilyrði allra sem þar starfa. Ef framkvæmdin er ætluð til eigin nota fyrirtækisins ber verkkaupanum sem atvinnurekanda að sjá svo um að öryggisnefnd fyrirtækisins taki þátt í skipulagningu vinnustaðarins í samræmi við lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Skýrsla vegna síðari framkvæmda Við stærri framkvæmdir skal samræmingaraðili á undirbúningsstigi verks vinna að gerð skýrslu þar sem fram koma mikilvægar upplýsingar um öryggi og heilbrigði sem hafa ber í huga við rekstur byggingarinnar eða mannvirkisins. Þessi skýrsla skal varðveitt af verkkaupa eða öðrum seinni eigendum og er henni ætlað að auðvelda viðhald og rekstur. Skýrsla þessi skal geymd ásamt teikningum og öðrum gögnum sem lýsa skipulagi byggingarinnar eða mannvirkisins. Skýrslan skal m.a. fela í sér upplýsingar um byggingarefni og viðhaldsáætlun og hvernig sé best og öruggast að standa að verki, t.d. við framkvæmdir sem talið er að geti verið hættulegar. Ef henta þykir getur öryggis- og heilbrigðisáætlunin verið hluti af þessari skýrslu. II. hluti Öryggis- og heilbrigðisáætlun-Hvers vegna? Hvenær? Hver? Áður en byggingarsvæði er skipulagt ber verkkaupa að sjá um að gerð sé öryggis- og heilbrigðisáætlun þar sem settar eru fram verklagsreglur er gilda á byggingarvinnustaðnum sem í hlut á. Í áætluninni skal m.a. mælt fyrir um sérstakar ráðstafanir varðandi verk sem hafa í för með sér hættur fyrir starfsmenn og falla undir einn eða fleiri flokka sem tilgreindir eru í II. viðauka reglnanna. Tilgangur með öryggis- og heilbrigðisáætlun Tilgangurinn með gerð öryggis- og heilbrigðisáætlunar er að tryggja öllum, sem vinna við byggingarframkvæmdir eða aðra mannvirkjagerð, gott starfsumhverfi. Áætlunin á að verða til þess að tryggja sem öruggasta framkvæmd vinnunnar. Áætlunin er einnig stjórntæki fyrir sameiginlegt starf að öryggismálum á vinnustaðnum. Hvenær skal gera öryggis- og heilbrigðisáætlun? Gera skal öryggis- og heilbrigðisáætlun ef tveir eða fleiri atvinnurekendur eða verktakar eru samtals með fleiri en 10 manns í vinnu á byggingarvinnusvæðinu. Hver skal gera öryggis- og heilbrigðisáætlunina? Verkkaupa ber að sjá um að gerð sé öryggis- og heilbrigðisáætlun fyrir byggingarsvæðið. Á undirbúningsstigi verks skal hann skipa samræmingaraðila öryggis- og heilbrigðisráðstafana sem skal hafa umsjón með því að slík áætlun sé gerð. Það getur verið við hæfi að sá aðili, sem hefur annast verkhönnunina, beri ábyrgð á fyrstu gerð öryggis- og heilbrigðisáætlunar eða sé með í ráðum. En það getur einnig vel verið óháður aðili, t.d. ráðgjafarfyrirtæki, sem tekur að sér slíkt verk, einkum ef ráðgjafarfyrirtækið hefur sérhæft sig í slíkri vinnu. Á framkvæmdarstigi verks skal samræmingaraðili á því stigi m.a. sjá um að unnið sé eftir þeirri áætlun og framkvæma, eða sjá til þess að framkvæmdar verði, nauðsynlegar breytingar á öryggis- og heilbrigðisáætluninni. Hvenær á áætlunin að liggja fyrir? Áður en vinna hefst skal gera öryggis- og heilbrigðisáætlun um skipulag og rekstur byggingarvinnustaðarins. Æskilegt er að þegar útboð fer fram sé áætlunin tilbúin sem samhangandi skjal og að hún hafi verið unnin með hliðsjón af því sem fram kemur í teikningum og aðstæðum á vinnustaðnum. Áætlunin skal liggja fyrir í heild áður en vinnan hefst. Áætlunin skal vera öllum aðgengileg Öryggis- og heilbrigðisáætlunin á að vera öllum á vinnustaðnum aðgengileg, þ. e. geymd á stað sem allir hafa aðgang að í vinnutíma, t.d. þar sem öryggisfundir eru haldnir. Áætlunin skal sett fram sem samhangandi skjal, sem t.d. má geyma í öryggishandbók þar sem allar upplýsingarnar er að finna. Uppfærsla áætlunarinnar Áætlunina skal uppfæra jafnt og þétt, a.m.k. jafnan þegar nýr áfangi framkvæmdanna er að hefjast og alltaf þegar breytingar verða á skipulagi vinnustaðarins. Ef tímasetning breytist skal færa það með viðeigandi hætti inn í áætlunina. Dæmi um innihald öryggis- og heilbrigðisáætlunar Áætlunin skal geyma upplýsingar sem hafa eða geta haft þýðingu fyrir sameiginlega öryggisstarfsemi á staðnum. Enn fremur skal hafa þar almennar öryggis- og hollustuháttaupplýsingar um staðinn sem varða alla sem þar starfa, s.s. skipulag byggingarvinnustaðarins, yfirlitsteikningu, neyðarsíma o.fl. Upplýsingar um starfsemi hjá einstökum fyrirtækjum, sem getur skapað hættu fyrir aðra á svæðinu, skal hafa í áætluninni. Sem dæmi má nefna vinnu með lífræn leysiefni, rykmengun eða hávaða sem kann að fylgja vinnu. Hvert fyrirtæki getur sjálft annast nauðsynlegar ráðstafanir til að bregðast við áhrifum af slíku. Leiðbeinandi gátlistar um atriði til skoðunar eru mikilvægir í öryggis- og heilbrigðisáætlun, sbr. III. hluta þessara leiðbeininga. Skipulag vinnustaðarins Hagnýtar upplýsingar þurfa að koma fram, s.s. nöfn, heimilisföng, símanúmer o.fl. eftir því sem við á hjá t.d: a. verkkaupanum b. hönnuðum/ráðgjöfum c. þeim sem bera ábyrgð á gerð áætlunarinnar d. samræmingaraðila öryggisráðstafana, þeim sem ber ábyrgð á uppfærslu áætlunarinnar Einnig þarf að koma fram e. uppbygging öryggisstarfsins og öryggisfundir f. skipurit öryggismála fyrir stærri verk. Yfirlitsteikning Í öryggishandbók skulu vera teikningar sem sýna hvernig allt byggingarvinnusvæðið er skipulagt þannig að fram komi hvar t.d. eftirfarandi er staðsett:-stjórn byggingarvinnustaðarins-starfsmannarými, stjórnstöðvar, bílastæði. -vélar og tæki, s.s. byggingarkranar og föst vinnusvæði, t.d. fyrir járnavinnu-lýsing (vinnulýsing)-sameiginlegar aðgangs- og flutningaleiðir fyrir ökutæki og gangandi, lyftur, stigar, hífing á efni, o.fl.-efnisgeymslur fyrir hina ýmsu verktaka-lagnir (rafmagn, vatn, frárennsli)-aðstaða til skyndihjálpar (sími, brunavarnir o.fl.)-lagnir sem fyrir eru í jörðu-svæði sem bjóða sérstakri hættu heim, t.d. hrunhættu eða hættu vegna jarðvegsframkvæmda. Tímaáætlun Með hliðsjón af hönnunargögnum skal áætlunin geyma frekari útfærslu sem lýsir því hvernig einstök verkefni og verkhlutar eru skipulögð með tilliti til hvers annars. Í útfærslunni felst m.a. að greint er frá hvenær hinir ýmsu verktakar vinna að verkefnum á byggingarvinnustaðnum og hve mikill tími er ætlaður til verksins. Tekið skal skýrt fram hvar og hvenær vinnunni fylgi sérstök hætta, sbr. II. viðauka reglnanna. Lýsing á aðstæðum Í áætluninni skal lýsa öllum aðstæðum, sem þýðingu hafa fyrir öryggi og heilbrigði, svo að tryggt sé að hinir ýmsu atvinnurekendur eða verktakar geti unnið að verkefnum sínum í samræmi við kröfur vinnuverndarlaganna. Í áætluninni skal m.a. koma skýrt fram hver hefur það hlutverk á hverjum tíma að setja upp öryggisbúnað sem gert er ráð fyrir í áætluninni, halda honum við og taka niður. Einnig skal geta um hvenær þetta skal gert. Þetta gildir um allt sem nefnt er hér á eftir: Aðstæður í upphafi Í áætluninni skal, með hliðsjón af því sem gefið er upp af hönnuðum eða ráðgjöfum, lýsa ráðstöfunum sem gripið er til í öryggisskyni, þ. á m. merkingum á:-hvar leiðslur liggja í jörðu, staðsetningu háspennulína o.fl.-hvar kunna að vera hættusvæði. Öryggisráðstafanir sem snerta marga Þegar gera þarf nauðsynlegar öryggisráðstafanir, sem snerta fleiri en einn verktaka, þarf að koma skýrt fram í áætluninni t.d. hver skal gera hvað, hvenær og hvaða gæðakröfur þarf að uppfylla. Sem dæmi skal nefnt, hvaða kröfur eru gerðar til vinnupalla, hvenær á að setja þá upp og hver á að gera það. Tryggja skal að vinnupallarnir fullnægi kröfum allra þeirra aðila sem ætlað er að nota þá við störf sín. Þeir verða því að henta fyrir alla vinnu sem fram fer á þeim. Starfsmannaaðstaða-önnur sameiginleg aðstaða Öll starfsmannaaðstaða, sem sett er upp á byggingarsvæðinu, skal uppfylla IV. viðauka C. hluta reglnanna. Kveðið skal á um í öryggis- og heilbrigðisáætlun hversu mikla aðstöðu skal setja upp og hver eigi að útvega hana. Aðstaðan skal sett upp áður en framkvæmdir hefjast og hún skal ávallt miðuð við þann mesta starfsmannafjölda sem þar starfar hverju sinni. Miða á áætlunina við að það, sem sett er upp, geri starfsumhverfið vistlegt og gott og sé öllum ætlað til afnota án tillits til þess hve langan tíma verk þeirra tekur eða þess hve margir eru að störfum hjá einstökum atvinnurekendum eða verktökum. Fram skal koma áætlaður fjöldi þeirra sem eiga að geta notfært sé aðstöðuna þegar unnið er við einstaka áfanga byggingarframkvæmdanna. Áhætta sem fylgir framkvæmdum Með hliðsjón af gögnum frá hönnuðum skal lýsa t.d. eftirfarandi:-vinnu sem felur í sér sérstaka áhættu, sbr. II. viðauka reglnanna-notkun hættulegra efna-vinnuaðferðum sem kunna að ógna öryggi og heilbrigði-sérstökum verkþáttum sem þrengja svigrúm til að nota venjubundnar öryggisráðstafanir-verkþáttum sem fara óhjákvæmilega fram þar sem aðrir fara um, starfa eða dveljast. Björgunar- og æfingaáætlun Sé sérstök hætta á að starfsmenn lendi í varasömum vinnuaðstæðum, t.d. vegna efnanotkunar eða eldhættu, sprengingar eða slyss, skal móta björgunar-, undankomu- og æfingaáætlun. Áætlunin skal tryggja að slíkar ráðstafanir séu samræmdar ef þörf er á því. Áætlunin skal geyma upplýsingar um tæki og búnað sem þörf er á, t.d. slökkvitæki, björgunarbúnað, viðvörunarkerfi, vöktun og það sem ætlað er til skyndihjálpar. Upplýsingar fyrir einstaka atvinnurekendur og verktaka Áætlunin skal geyma upplýsingar um hvernig skuli tryggja sem áfallaminnsta framvindu verksins. Þar á meðal skal taka fram hvar og hvenær einstakir atvinnurekendur eða verktakar geta:-sett upp flytjanlegt starfsmannahúsnæði-sett upp tæki og búnað (t.d. byggingarkrana, vinnupalla o. s. frv.)-komið fyrir föstum vinnustöðum, s.s. fyrir járnavinnu, annarri aðstöðu, t.d. sem vinna þarf við í skjóli-komið fyrir efni á byggingarsvæðinu, s.s. byggingareiningum, rörum, timbri og ýmsu öðru byggingarefni-losnað við rusl og afgangsefni-tengt við rafmagn, vatn, frárennsli o.fl.-notað sameiginlega aðstöðu, t.d. flutningaleiðir, krana, lyftur, vinnupalla o.fl. Þá skal áætlunin innihalda sérstakar kröfur um framkvæmd verka eftir því sem tilefni er til, s.s. ráðstafanir til að draga úr hávaða og ryk- og efnamengun. III. hluti. Gátlisti Í gátlistanum eru talin upp ýmis atriði sem fjalla þarf um í áætluninni. Listinn er ekki tæmandi. Almenn atriði Listi yfir nöfn, heimilisföng, símanúmer og tengiliði byggingarvinnustaðarins hjá:-byggingarvinnustaðnum-hönnuðum-byggingarnefnd og byggingarstjóra-verkkaupa-verktökum-samræmingaraðila-Vinnueftirlitinu-lögreglu-sjúkraliði Öryggisnefnd-gera grein fyrir hverjir sjá um skipulag öryggismála Ábyrgðaraðilar öryggis- og heilbrigðisáætlunar-hvert er hlutverk hvers og eins við útfærslu og uppfærslu áætlunarinnar Tímaáætlun-hvenær eru hinir ýmsu atvinnurekendur eða verktakar með starfsemi á svæðinu og hvar-hve margir starfa við hin ýmsu verkefni-ráðstafanir í öryggis- og heilbrigðismálum sem eiga að koma inn í tímaáætlunina Almennar reglur-reglur sem gilda eiga á byggingarsvæðinu-reglur um umgengni á byggingarsvæðinu-reglur gildi fyrir alla, einnig fyrir þá sem eiga erindi á svæðið-hvernig á að girða og merkja svæðið? -fyrirbyggja eins og kostur er að óviðkomandi fari inn á svæðið-hverjir mega hafa aðgang að svæðinu? Afmörkun og samræming-nöfn þeirra aðila sem bera ábyrgð á að koma upp sameiginlegum öryggisráðstöfunum, halda þeim við og taka þær niður-aðferðir við eftirlit, t.d. með öryggisráðstöfunum og sérstakri áhættu Á teikningu af skipulagi og staðsetningu þurfa að koma fram-atriði sem varða þægindi og heilbrigði, s.s. vatn, frárennsli og rafmagn-umferðarleiðir bifreiða og tækja-umferðarleiðir og aðgengi starfsmanna-efnisgeymslur fyrir hina ýmsu byggingarhluta og starfsgreinar-fastar vinnustöðvar, t.d. fyrir járnabindingar-vinnuvélar og hjálpartæki, s.s. kranar, lyftur og vinnupallar-gámar fyrir rusl og afgangsefni-vinnulýsing í vinnurými og vinnusvæði-leiðslur í jörðu, þ.á m. merkingar á lögnum sem fyrir eru-hættusvæði, þar sem krafist er persónuhlífa-viðvörunar-, slökkvi- og björgunarbúnaður, undankomuleiðir, sími og tengi- og rafmagnstöflur Starfsmannaaðstaða og skrifstofur-staðsetning-allt skipulag þarf að taka mið af fjölda starfsmanna og stærð vinnusvæðis-nægjanlegur búnaður Aðgangs- og flutningsleiðir-akstursleiðir-bílastæði-aðgangsleiðir fyrir fótgangandi-aðgangur frá bílastæði að starfsmannarými-göngubrýr og tröppur-aðgangsleiðir innan byggingar-flutningur efnis um svæðið Slys og slysavarnir-hvað skal gert til að fyrirbyggja slys? -hvernig skal bregðast við slysum? -skyndihjálparbúnaður-þjálfun starfsmanna-fræðsla starfsmanna-æfingar fyrir starfsmenn-björgunarlið-sjúkrastofa-sjúkraflutningar-skráning vinnuslysa-skráning hér-um-bil-slysa-tilkynning til Vinnueftirlitsins um slys á þar til gerðu eyðublaði Önnur atriði Hættusvæði-hættuleg vinna-svæði þar sem varasamt ryk myndast, t.d. stein- eða steinullarryk-svæði þar sem myndast þungt loft og óþefur þannig að þörf er á sérstakri loftræstingu-hávaði-geislun-hátt eða lágt hitastig-vinna við hættulegar aðstæður-viðbragðsáætlun vegna hættuástands Svæði þar sem margs konar vinna fer fram samtímis-samræma verkefni-gagnkvæmar öryggisráðstafanir Vinna t.d. á þökum, vinnupöllum og í hálfbyggðum húsum og mannvirkjum-vinna í hæð-uppsetning fallvarna-handrið, aflokun og merkingar-göt í gólfum og veggjum-frágangur stiga-áhrif vetrarveðra, aflokun að reistu burðarvirki, vinnupallar og aðrir opnir staðir Jarðvegsframkvæmdir-ráðstafanir vegna hættu á hruni og jarðvegsskriði-kröfur við skurði-merkingar og girðingar Vinnuvélar og tæki-viðeigandi og hentug tæki til að hífa og lyfta hvort sem um efni eða fólk er að ræða-kröfur til lyftibúnaðar-starfsreglur um hífingar-kröfur til vinnuvéla Vélbúnaður-vélar uppfylli kröfur varðandi öryggisbúnað, s.s. hlífa- og stjórnbúnað-kröfur til rafbúnaðar Vinna með hættuleg og varasöm efni-velja hættuminnstu efnin-aðrar ráðstafanir sem geta þarf um vegna notkunar hættulegra eða varasamra efna-hvaða varasöm og hættuleg efni verða notuð? -listi yfir efni-öryggisleiðbeiningar um notkun efna-upplýsingar til starfsmanna-geymsla efna-persónuhlífar við meðhöndlun efna Loftræsting-athuga loftræstingu-afsog vegna mengunar Líkamsbeiting-meðferð þungra byrða-vinna í þrengslum-flutningur og afhending efnis-notkun hjálpartækja og búnaðar sem gera vinnuskilyrði þægilegri Hreinsun á rusli og efnisafgöngum, þrif-þrif og hreingerningar-ryksugun-snjóruðningur-sandur eða salt borið á Vinna sem gerir sérstakar kröfur-ráðstafanir til að upplýsa starfsmenn um að hættuleg vinna fari fram, t.d. merkingar eða afgirðing svæðis-vinna sem krefst sérstakra leiðbeininga eða sérþekkingar, s.s. við niðurrif á asbesti eða við notkun á lífrænum leysiefnum-vinna sem krefst vöktunar og áætlunar um undankomu, t.d. vinna inni í leiðslum, geymum eða ef ætla má að súrefnisskortur geti orðið í rýminu-vinna sem getur valdið sérstakri hættu-vinna þar sem mikilvægt er að allt sé gert í réttri röð Eldvarnir-slökkvitæki-annar nauðsynlegur búnaður Persónuhlífar-hvaða persónuhlífar ber að nota á vinnusvæðinu? -reglur um notkun persónuhlífa, t.d. hjálma, öryggisskóa, öryggisgleraugna, heyrnahlífa, öryggislína, öryggisbelta-persónuhlífar við mismunandi vinnuaðstæður Flóttaleiðir-flóttaleiðir ákveðnar-flóttaleiðir merktar-flóttaleiðir skulu vera greiðfærar-neyðarlýsing á flóttaleiðum Lýsing-lýsing á vinnusvæðum-lýsing á aðgangs- og umferðarleiðum Vinnupallar-vinnupallar valdir með hliðsjón af vinnu sem á að framkvæma-ábyrgð á uppsetningu, viðhaldi og að taka niður Lausir stigar-allir stigar uppfylli lágmarkskröfur um efnisval-álstigar uppfylli kröfur staðla Skilgreiningar Byggingarvinnustaður eða byggingarsvæði: staður þar sem byggingarframkvæmdir og mannvirkjagerð fer fram. Verk: mannvirkjagerð eða byggingarstarfsemi hverrar tegundar sem er. Verkkaupi: einstaklingur eða lögaðili sem lætur vinna verk. Verktaki: hver sá sem með verksamningi tekur að sér að vinna verk. Verkefnastjóri (byggingarstjóri): einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á skipulagi, framkvæmd eða eftirliti með verki, og starfar í þágu verkkaupa. Atvinnurekandi: sá sem rekur atvinnustarfsemi hvort sem hann hefur einn eða fleiri starfsmenn í vinnu, eða er sjálfstætt starfandi einstaklingur. Samræmingaraðili öryggis- og heilbrigðisráðstafana á undirbúningsstigi verks: einstaklingur eða lögaðili sem falið er, meðan á undirbúningi verkhönnunar stendur, að hafa umsjón með því að skyldur á undirbúningsstigi verks séu ræktar. Samræmingaraðili öryggis- og heilbrigðisráðstafana á framkvæmdarstigi verks: einstaklingur eða lögaðili sem falið er, meðan framkvæmd stendur yfir, að hafa umsjón með því að skyldur á framkvæmdarstigi verks séu ræktar. Öryggishandbók: mappa þar sem öryggis- og heilbrigðisáætlunin er geymd og einnig helstu lög, reglur og önnur skjöl sem fara ber eftir við verkið. Starfsmannarými er eftirfarandi: A: Búningsherbergi, fatahengi, fataskápar og þurrkaðstaða. B: Snyrtiherbergi, salerni og þvagstæði. C: Matstofur og kaffistofur. Önnur fræðslu- og leiðbeiningarit í þessari ritröð Nr. 1 Öryggi við notkun drifskafta (útg. 1983) Nr. 2 Varúð-asbest (14 bls., útg. 1984) Nr. 5 Jarðgangagerð (20 bls., útg. 1985) Nr. 7 Varúð! -lífræn leysiefni (26 bls., útg. 1986, 1995 m. breyt. Endurskoðuð útgáfa 2000) Nr. 8 Öryggi við notkun dráttarvéla (24 bls., útg. 1986). Reglur sem prentaðar eru aftast í bæklingnum eru fallnar úr gildi varðandi vélar árgerð 1997 og yngri. Nú gilda reglur nr. 580/1995 Nr. 9 Starfsmannarými (40 bls., útg. 1988. Komnar eru nýjar reglur um húsnæði vinnustaða nr. 581/1995 í stað þeirra sem birtar eru aftast í ritinu.) Nr. 10 Rétt líkamsbeiting (19 bls., útg. 1989, 2. útg. 2001) Nr. 12 Færanlegar vinnulyftur (25 bls., útg. 1994) Nr. 13 Vellíðan í vinnunni (21 bls., útg. 1994) Nr. 14 Vinna við tölvu (24 bls., útg. 1995) Nr. 15 Líffræðilegir skaðvaldar (25 bls., útg. 1999) Nr. 16 Vinnuskipulag og líðan fólks (17 bls., útg. 2000) |
Samkvæmt heimildum gengur erfiðlega að manna framboð hægri grænna. Það er dálítið stór ákvörðun að gefa kost á sér í alþingiskosningum. Margir eru hræddir við það. Hræddir við að það eyðileggi starfsferil sinn. Hræddir við að ná ekki kjöri - og kannski líka hræddir við að ná kjöri. Sumir óttast að lækka í launum - þingmannskaupið er ekki sérlega samkeppnishæft. Margir hafa hugsjónina, en reiða sig á að einhverjir aðrir taki slaginn.
Það átti víst að vera búið að kynna framboðið - en það hefur ekki gerst vegna þess hve fólk er tvístígandi að taka sæti á lista. Samfylkingin krækti í nokkuð stóran bita þegar hún fékk Reyni Harðarson, stjórnarmann í Framtíðarlandinu, til að setjast á lista hjá sér. Þar er líka Sólveig Arnarsdóttir sem hefur verið starfsmaður Framtíðarlandsins.
Hverjir eru þá eftir til að skipa lista hægri grænna? Ómar Ragnarsson? Margrét Sverrisdóttir sem engan rekur minni til að hafi haft sérlega sterkar skoðanir á umhverfismálum? Jakob Frímann Magnússon, nýgenginn úr Samfylkingunni? Jón Baldvin Hannibalsson?
Ef hann fer í framboð á þessum vettvangi er ljóst að að margir kratar sem starfa í Samfylkingunni munu telja það svik við sig. Á móti kemur að einkennilegt er að ekki var hægt að finna Jóni stað á framboðslistum Samfylkingarinnar. Var honum hent þaðan út eftir viðtalið fræga í Silfrinu?
--- --- ---
Einu sinni var sagt í Ameríku: "Það sem er gott fyrir General Motors, er gott fyrir þjóðina."
Ég er ekki viss um að þetta sé svona lengur.
Á Íslandi er sagt: "Það sem er gott fyrir bankana, er gott fyrir þjóðina."
Ég er ekki viss um að það sé alltaf satt.
Nú segir lánshæfisfyrirtækið Moodys að það sé styrkur fyrir bankana að vera í landi sem hefur eigin mynt. Jú, jú. Það er örugglega rétt að bankarnir hafa stórgrætt á því að spila með krónuna. Hið sama verður ekki sagt um almenning í þessu landi. Reyndar hafa fjármagnsmarkaðir verið mjög fjörugir síðustu ár í löndum sem eru á jaðri evrusvæðisins - til dæmis í Ungverjalandi, Tyrklandi og á Íslandi.
Samt hefur helsti bankamógúll Íslands, Sigurður Einarsson, margoft sagt að íslenska krónan sé á leiðinni út.
--- --- ---
Varaformaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson segir að allir vilji vinna í banka.
Ég er ekki viss um að það sé satt.
--- --- ---
Niðurstaða skoðanakönnunar Fréttablaðsins í morgun er stórmerkileg. Og það er ekki síður merkilegt að hlutfall óákveðinna er fjarska lágt. Það er spurt hvort rétt hafi verið af Hótel Sögu að vísa frá gestum meintrar klámráðstefnu? Yfirgnæfandi meirihluti, 61 prósent, segir að það hafi verið rangt. Ákvörðunin nýtur ekki meirihluta meðal kvenna og ekki meðal kjósenda neins flokks – nema Vinstri grænna.
Má hugsast að stjórnmálamenn hafi misst sig aðeins í hysteríunni út af þessum blessaða fundi? Mislásu stjórnmálamenn almenningsálitið? Þar á meðal borgarstjórinn í Reykjavík? Eru tök fyrirferðarmikils hóps femínista svona roslega mikil nú í aðdraganda kosninga? |
Korkur: tolvuleikir
Titill: kvk. tölvuleikjaspilarar ATH!
Höf.: mancubus
Dags.: 26. febrúar 2008 00:52:15
Skoðað: 515
Við erum hérna tveir græjusjúkir gaurar, sem erum að fara af stað með sjónvarpsþátt.
Aðalega á þetta að vera þáttur um tölvur, stílað á þá sem eru haldnir ‘græju-losta’. En við viljum líka taka fyrir það nýjasta sem er að gerast í tölvuleikjum, í samhengi við það sem er að gerast hvað varðar tæknina til að spila þessa leiki.
Vegna þess að við sem erum að pródúsa þennan þátt erum ekki svo mikið inni í tölvuleikjum sjálfir, þá erum við að leita að aðila sem vill vera með okkur í þessum þætti, við kynningar og dagskrárgerð.
Helst vildum við fá aðila sem er kvenkyns (strákar meiga þó líka hafa samband), sem mótvægi við okkur strákana og til að sýna að það eru ekki bara strákar sem hafa vit á tölvum. Það mætti segja að við viljum gæta jafnréttis í þessum þætti.
Réttur aðili:
* verður að vera vel inni í því sem er að gerast á tölvuleikja og eða vélbúnaðar geiranum.
* verður að hafa góða framkomu, ákveðin sjarma og vera fljótur í tilsvörum.
* verður að hafa gott vald á íslensku málfari og einnig því ‘lingói’ sem er notað í tölvu geiranum.
* verður að vera sjálfsörugg(ur) og ófeimin(n)
Áhugasamir sendi tölvupóst á: [email protected]
---
Svör
---
Höf.: IGB
Dags.: 26. febrúar 2008 21:09:44
Atkvæði: 0
Ég er of ungu
---
|
Það styttist í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar en það er samt ekki alveg ljóst hvar allir leikirnir verða spilaðir.
Liverpool mætir þýska liðinu RB Leipzig í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar en ferðabann í Þýskalandi hefur skapað óvissu um hvar fyrri leikur liðanna verður spilaður.
Þjóðverjar eru eins og aðrar þjóðir Evrópu í harðri baráttu við kórónuveiruna og til að koma í veg fyrir að breska afbrigðið nái einhverri fótfestu í Þýskalandi þá hefur þýska ríkisstjórnin bannað flug frá Bretlandi til 17. febrúar.
RB Leipzig átti að taka á móti Liverpool í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitunum 16. febrúar. Knattspyrnusamband Evrópu þarf því að finna lausn á þessu vandamáli en Liverpool Echo skrifar um málið.
Einn möguleikinn er að skipta á heimaleikjum og spila fyrri leikinn á heimavelli Liverpool en þann seinni í Þýskalandi en sá leikur á að fara fram 10. mars næstkomandi.
Liverpool væri þá að gefa eftir réttinn sem liðið vann sér inn með því að vinna sinn riðil en það er að eiga heimaleikinn til góða. Það er varla góður kostur fyrir Englandsmeistarana.
Það gæti því farið svo að þýska liðið yrði að spila heimaleikinn sinn á hlutlausum velli. Það yrði raunin ef Liverpool fær ekki leyfi til að lenda í Þýskalandi.
Fleiri ensk lið eru í svipuðum vandamálum eins og Arsenal sem á að mæta Benfica í Portúgal í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar 18. febrúar. Arsenal er að ræða við UEFA um að finna hlutlausan leikstað. |
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur ákveðið að grípa til aðgerða vegna fjölda banaslysa í umferðinni á þessu ári.
Nítján hafa látist í umferðarslysum það sem af er árinu, jafnmargir og allt árið í fyrra. Þar af létust átta í ágústmánuði. Ofsaakstur, kappakstur og vítavert gáleysi hafa orsakað fleiri banaslys í ár en áður og það kallar Sturla óviðunandi ástand í umferðinni. Aðgerðir hafa verið undirbúnar í samráði við Umferðarstofu, ríkislögreglustjóra og Vegagerðina.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra: Og mitt fólk hefur verið að gera tillögur um hvað sé til ráða og í fyrsta lagi tel ég vera sé nauðsynlegt að herða umferðareftirlitið. Við höfum verið, eða réttara sagt Umferðarstofa og Vegagerðin hafa verið í mjög góðu samstarfi við lögregluna og við settum sérstaka fjármuni af samgönguáætlun til þess að auka eftirlitið. Við gerum ráð fyrir því að það verði framlengdur sá samningur þannig að þetta aukna eftirlit verði áfram og væntanlega hert enn frekar.
Þar að auki stendur til að flýta uppsetningu hraðamyndavéla milli Reykjavíkur og Borgarness og endurskoða viðurlög við umferðarlagabrotum. Sturla viðurkennir raunar að slík endurskoðun sé ekki alfarið á valdi samgönguráðuneytisins en að óhjákvæmilegt sé að þeir sem sýni vítavert gáleysi í umferðinni verði látnir sæta ábyrgð. Loks vill Sturla að endurbótum á stofnbrautum verði hraðað til að bregðast við ófremdarástandinu. En er það hægt í ljósi þess að öllum opinberum framkvæmdum hefur verið frestað vegna þenslu?
Sturla Böðvarsson: Ja, það er nú ýmislegt svona, ýmsar minniháttar lagfæringar eins og við gatnamót sem við eigum að horfa til sérstaklega en þetta er auðvitað langtímaverkefni. Við leysum þetta ekki allt á einni nóttu. Við erum að endurskoða samgönguáætlunina og það er nú í því ljósi sem að sá þáttur er til skoðunar að við myndum fremur leggja áherslu á endurbætur á umferðarþyngstu stofnbrautunum fremur en ýmislegt annað. |
Heimsmeistarar Frakka féllu úr leik á EM karla í fótbolta í gær. Leikurinn kláraðist í vítaspyrnukeppni þar sem franska stórstjarnan Kylian Mbappe reyndist örlagavaldurinn.
Leikur Frakklands og Sviss fór fram í Búkarest í Rúmeníu og þar fengu áhorfendur sannarlega nóg fyrir peninginn. Staðan var jöfn, 3-3, eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að grípa til framlengingar. Þar tókst hvoruðu liðinu að bæta við marki og farið var í vítaspyrnukeppni. Sviss var búið að skora úr öllum fimm spyrnum sínum þegar kom að Kylian Mbappe hjá Frökkum. En fimmta vítaspyrna Frakka fór forgörðum og Frakkland úr leik á EM.
Brasilíska goðsögnin Pelé, einn besti knattspyrnumaður fótboltasögunnar, var ekki lengi að senda Mbappe kveðju á Twitter. „Berðu höfuðið hátt, Kylian. Á morgun er fyrsti dagur nýrrar vegferðar.“
Mbappe sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann kveðst miður sín. „Sorgin er mikil eftir þessi úrslit og við náðum ekki markmiðum okkar. Mér þykir leitt að hafa klúðrað vítaspyrnunni. Ég vildi hjálpa liðinu en það tókst ekki. Það verður erfitt að sofna í kvöld en þetta er víst það sem fylgir íþróttinni sem ég elska."
Sviss mætir Spáni í 8-liða úrslitum en Spánverjar þurftu líka framlengingu til að klára sinn leik gegn Króatíu. Þeir sluppu þó við vítaspyrnukeppnina því Alvaro Morata og Mikel Oyarzabal skoruðu sitt markið hvor í framlenginunni og tryggðu Spáni 5-3 sigur. |
Talsverður viðbúnaður var í Garðabæ í dag þegar kúahræ sem að talin voru sýkt af miltisbrandi voru grafin upp. Ekki er ljóst hvað gert verður við úrganginn.
Gröfumaður sem vann við framkvæmdir í Hraunholti í Garðabæ kom niður á hræin í gær. Hann lokaði strax gröfinni og gerði yfirvöldum viðvart því vitað er um að sýkt hræ voru grafin á þessum slóðum árið 1941. Í dag var svo hafist handa við að fjarlæga jarðveginn á svæðinu undir eftirliti slökkviliðsins og héraðsdýralæknis.
Höskuldur Einarsson, deildarstjóri hjá slökkviliðinu: Já það er búið að finna allavega 2 dýr þarna. Búið að grafa niður á 2 dýr og verið að moka þeim upp. Þau munu síðan ganga frá þessum hræjum í stampa sem að þarna eru og koma þeim í viðeigandi pökkun.
Það er vissulega óhugnanlegt að sjá þessa menn með gasgrímur og í hlífðargöllum kraflandi ofaní jörðina. En yfirvöld ítreka samt að fólkið hér í nágrenninu stafi engin hætta af þessum framkvæmdum.
Höskuldur Einarsson: Það er engin hætta af þessu eins og við erum búnir að ganga frá þessu hérna. Við erum búnir að girða hérna í kring það hættusvæði og þeir sem að eru inná svæðinu eru í sérstökum búningum. Þeir verða skolaðir áður en þeir fara útaf svæðinu og þau tæki og búnaður sem eru þarna inná svæðinu verður skolaður á sérstakan máta. Sótthreinsaður en nágrönnum þeirra. Það er engan hætta á ferðum.
Miltisbrandsgró geta legið í dvala í 200 ár og eitrun af þeirra völdum getur dregið menn til dauða. Því er ávallt farið af mikilli gát þar sem grunur leikur á smithættu. Sá hængur er hins vegar á að þessu sinni að sorpbrennslan sem átti að taka við jarðveginum hefur beðist undan því. Úrgangurinn verður því geymdur í kyrfilega lokuðum gámi þangað til einhver fæst til að farga honum. |
Illa er komið fyrir nýrri ríkisstjórn strax í upphafi ferils hennar. Hún nýtur engra hveitibrauðsdaga í hagkvæmnishjónabandi sínu. Samkvæmt skoðanakönnun DV í gær hefur hún einungs helming af fylgi kjósenda, minnsta fylgi, er mælzt hefur hjá nýrri ríkisstjórn.
Algilt hefur verið, að nýjar ríkisstjórnir fái að minnsta kosti rúmlega 60% gengi í fyrstu skoðanakönnunum eftir stjórnarmyndun. Metið átti ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen, sem hafði 90% fylgi í upphafi og naut hveitibrauðsdaga fram undir andlátið.
Enn verri er staða annars stjórnarflokksins, Alþýðuflokksins, sem má þola fylgishrun úr 15% niður í 10%. Þetta bendir til, að gæfa Alþýðuflokksins verði minni í þessari ríkisstjórn en hún var í hliðstæðu stjórnarmynztri á viðreisnartíma sjöunda áratugarins.
Viðreisnarstjórnin var byltingarstjórn á sínum tíma. Hún ruddist fram með nýjungar, sem frelsuðu Ísland úr verstu Framsóknarhlekkjum kreppustefnunnar og lögðu grundvöll að velmegun þjóðarinnar nú á tímum. Hún stóð á skýrum hugmyndafræðilegum grunni.
Viðreisnarstjórnin entist líka í meira en áratug. Alþýðuflokkurinn þoldi stjórnarsamstarfið í þrjú kjörtímabil, þótt hörð hríð væri gerð að honum frá vinstra afturhaldinu. Slík festa í stjórnarmynztri hefur hvorki þekkst fyrr né síðar á lýðveldistímanum.
Ríkisstjórn hinna sömu stjórnmálaflokka, sem nú hefur setzt að völdum, hefur engan hugmyndafræðilegan grunn. Til dæmis er hún laus við frjálshyggju, þótt tilhneiginga í þá átt hafi gætt í báðum flokkunum, ekki síður í Alþýðuflokknum en Sjálfstæðisflokknum.
Hugsjónalaus ríkisstjórn nýtur engra hveitibrauðsdaga. Þjóðin sér enga breytingu frá fyrri ríkisstjórn til hinnar nýju. Enda er þetta í stórum dráttum nákvæmlega sama ríkisstjórn, efnislega séð, og sú sem fór frá völdum. Það eru bara nýir menn í ráðherrastólum.
Það eru einmitt ráðherrastólarnir, sem eru hornsteinn þessarar ríkisstjórnar. Steingrímur Hermannsson gat aðeins boðið Alþýðuflokknum þrjá stóla í nýrri, fjögurra flokka vinstri stjórn. Davíð Oddsson gat hins vegar boðið honum fimm stóla í tveggja flokka stjórn.
Þetta var tilboð, sem Alþýðuflokkurinn þóttist ekki geta hafnað. Hinn óljósi málefnasamningur, sem smíðaður var í skyndingu, skiptir nauðalitlu máli í þessu samhengi, enda hefði hann alveg eins getað verið málefnasamningur hjá fjögurra flokka vinstri stjórn.
Myndun þessarar ríkisstjórnar markar í rauninni þáttaskil í stjórnmálasögu okkar. Ekki er lengur umtalsverður munur á athöfnum stjórnmálaflokka, þótt ytri málabúnaður sé stundum misjafn. Stjórnmál á Íslandi snúast ekki lengur um málefni. Þau snúast um stóla.
Þótt þessi ríkisstjórn sé mynduð af sömu stjórnmálaflokkum og mynduðu viðreisnarstjórnina, er fjarri lagi að kenna hana við nýja viðreisn. Hún er eins langt frá viðreisn og hugsazt getur. Hún er íhalds- og hagsmunastjórn, sem mun gæta þess að breyta sem allra fæstu.
Almenningur er þegar búinn að finna lyktina af hinni nýju ríkisstjórn og finnst hún ekki góð. Þess vegna sýndi skoðanakönnun DV í gær, að þetta er fyrsta ríkisstjórnin, sem ekki nýtur neinna hveitibrauðsdaga hjá þjóð sinni. Og öruggt má telja, að hún verði ekki langlíf.
Svona fer, er skammtímamenn ganga í hagkvæmnishjónaband um ráðherrastóla og kjötkatla. Svona fer, er þjóð gælir við loddara, kosningar eftir kosningar.
Jónas Kristjánsson
DV |
Nú er komin ný ríkisstjórn og hún fékk fljúgandi start. Allir voru orðnir þreyttir á þeirri gömlu og töldu að ekki myndi það versna. Bráðabirgðastjórn sem ætlaði að klára brýnar efnahagsaðgerðir virtist einmitt vera svarið við kröfum fólksins. Minnihlutastjórn getur aldrei verið sterk stjórn, en þessi stjórn hefði átt að eiga séns því að hennar beið einfalt verkefni. Ekki létt, en einfalt verkefni. Að koma íslensku efnahagslífi aftur í gang. Til þess hafði stjórnin 84 daga. Reyndar ekki nema rúmlega 60 því að síðustu þrjár vikurnar fyrir kosningar situr þingið heima.
Venjulegt fólk bíður eftir því að þess tími komi.
Verkefnaskráin þurfti ekki að vera flókin:
1. Koma í veg fyrir að atvinnulífið stöðvist
2. Koma bönkunum í gang
3. Lækka vexti
4. Spara í ríkisrekstrinum
5. Skapa traust milli almennings og stjórnkerfisins
6. Sækja um aðild að Evrópusambandinu
Líklega var það síðasta vonlaust í samvinnu við VG, þó að það sé það gagnlegasta sem hægt er að gera núna til þess að endurreisa traust á Íslandi. Þó má ekki gleyma því að Samfylking taldi það stjórnarslitamál ef Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti ekki aðildarumsókn á landsfundi.
Eflaust er seðlabankafrumvarpið liður í því að reyna að auka traust á bankanum. Forsætisráðherra hefur gengið afar klaufalega fram í því máli, með bréfaskriftum til bankastjóranna og ítrekuðum yfirlýsingum um stöðu málsins. Það er kjánalegt að láta eins og þingmenn sem vilja fá að sjá hvert Evrópumenn stefna með sínum seðlabankalögum haldi frumvarpinu „í gíslingu“ svo að vitnað sé í einn fréttamann. Að undanförnu hafa umræður í þjóðfélaginu snúist um að þingmenn vandi sig ekki og boðaðar breytingar á kosningalögum og stjórnarskrá til þess að tryggja að valdir verði betri þingmenn. Á meðan er ástæðulaust að ráðast á þingmann sem vill vanda sig. Það getur ekki breytt öllu hvort Davíð er deginum lengur eða skemur í bankanum.
Það vakti hins vegar athygli að þegar seðlabankafrumvarpið kom ekki úr nefnd hafði ríkisstjórnin ekkert mál til að leggja fram á þingi. Fyrstu rúmlega 20 dagana hefur stefnuskrá Jóhönnu verið einföld:
1. Að reka Davíð Oddsson
Spurningin er: Hvað svo? Hvers vegna spyr enginn fréttamaður Jóhönnu hver það verði sem hittir IMF mennina á fimmtudaginn ef Davíð verður þá farinn? Hún ætlar að setja einhvern (sagði reynda sjálf skipa, en það var mismæli) til bráðabirgða. Það er eðlilegt að hún svari því hver þessi maður sem ráðinn verður án auglýsingar er. Ekki auka slík vinnubrögð traust á Seðlabankanum.
Og nýr bankastjóri Seðlabankans bætir ekki hag íslenskra fjölskyldna. Þær bíða enn eftir því að þeirra tími komi.
Það er ósanngjarnt að segja að ekkert annað sé í bígerð.
Talað er um að breyta kosningalögum. Það kann að vera ágætt, en það eflir ekki atvinnustigið. Almenningi virðist það ekki vera brýnasta verkefnið núna.
Tillögur til breytingar á stjórnarskránni munu líka liggja fyrir. Ólíkt því sem áður hefur verið er ekki leitað breiðrar samstöðu um slíkar breytingar.
Það er gott að hafa góða stjórnarskrá, en að setja þær breytingar í forgang virðist svipað og að eigandi að brennandi húsi hringdi í landslagsarkitekt til þess að fegra garðinn, í stað þess að reyna að bjarga verðmætum frá því að verða eldinum að bráð.
Almenningur bíður. Fyrirtækin bíða. Hvenær kemur þeirra tími?
Það er ekki uppbyggilegt að hlusta á einskisnýtt þras stjórnarflokkanna þriggja. Skylmingar stjórnar og stjórnarandstöðu í öllum málum benda til þess að fáir geri sér grein fyrir því að hver dagur er dýrmætur. Ekki flýtti það fyrir uppbyggingu bankanna að ýta til hliðar tveimur reyndum bankaráðsformönnum. Bankarnir verða að komast í gang aftur, helst í eigu útlendinga að hluta.
Stund Davíðs er á næsta leiti.
Það eru 35 vinnudagar eftir. Í stað þess að eyða tímanum í fjölmörg mismunandi mál á ríkisstjórnin að einbeita sér að efnahagsmálunum.
Hvenær muni tími almennings renna upp?
Benedikt Jóhannesson |
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að almenningur hafi í gær sett fram skýra kröfu á þingmenn að þeir ljúki nú við frumvarp að nýrri stjórnarskrá svo hægt verði að kjósa um það í vor. Þingmaður Sjáflstæðisflokksins segir að framhaldið sé enn óljóst.
Það var mikill fögnuður á Hótel Borg í gærkvöldi þegar fyrstu tölur voru birtar en þar höfðu Samtök um nýja stjórnarskrá blásið til fagnaðar. Við tókum Salvöru Nordal, formann stjórnlagaráðs tali á Borginni. Hún sagði sérstaklega ánægjulegt að sjá hve mikinn stuðning fyrsta spurningin hafi fengið í atkvæðagreiðslunni og að nú sé boltinn hjá Alþingi.
Salvör Nordal, formaður stjórnlagaráðs: Ég held að það sé óhjákvæmilegt að Alþingi taki tillögurnar alvarlega og það verði núna alvarleg og efnisleg umræða um tillögurnar í framhaldinu.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, tekur undir með Salvöru:
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra: Ég er mjög stolt með það að þjóðin skuli skila þinginu svona afdráttarlausri niðurstöðu og þarna hefur verið tekin afstaða, afgerandi afstaða í stórum deilumálum sem að lengi hafa verið uppi hjá þjóðinni.
Jóhanna segist ekki þeirrar skoðunar að þátttakan hafi verið dræm, og að niðurstaðan sé nægilega afdráttarlaus til þess að þinginu beri að taka hana alvarlega og hún vill klára málið fyrir næstu kosningar.
Jóhanna Sigurðardóttir: Þetta er krafa frá þjóðinni, það eru bara skilaboðin til þingsins. Ég ætla bara að leyfa mér að vera bjartsýn að menn fari nú ekki að læsast niðri í skotgröfunum heldur setjist málefnalega niður við þetta verkefni sem okkur hafur verið falið að gera og að þetta verði afgreitt frá þinginu fyrir næstu Alþingiskosningar.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir hins vegar ljóst að kjörsóknin sé lítil.
Birgir Ármansson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins: Sem vekur auðvitað spurningar um það hvenig stór hluti kjósenda leit á þessa atkvæðagreiðslu. Það er auðvitað dálítið bratt að ætla sér að segja nákvæmlega til um það hvað allt það fólk var að hugsa og ég hugsa að ástæðurnar geti verið mjög mismunandi.
Birgir segir framhaldið óráðið, ljóst sé þó að meirihlutinn muni leggja fram frumvarp um málið á þingi.
Birgir Ármansson: Þá er öll málsmeðferð í þinginu eftir og það er auðvitað ekki ljóst á þessu stigi hvaða stefnu hún tekur eða hversu mikið svigrúm þingmenn munu telja sig hafa til þess að gera breytingar á þeim texta sem þar liggur fyrir. |
Klukkukerfið sem tekið var í notkun á Akureyri í gær er ekki fýsilegur kostur fyrir Reykjavíkurborg segir formaður framkvæmdaráðs borgarinnar. Hann segir að stöðumælarnir í Reykjavík séu settir upp til hagsbóta fyrir kaupmenn.
Árstekjur Bílastæðasjóðs í Reykjavík er tæpur hálfur milljarður króna, en að sögn Önnu Kristinsdóttur, borgarfulltrúa og formanns framkvæmdaráðs, eru tekjur af sömu starfsemi á Akureyri milli 15 og 20 milljónir. Þá eru tekjur Bílastæðasjóðs í Reykjavík notaðar í rekstur sjóðsins sem og byggingu og rekstur bílastæðahúsa í borginni sem nú eru orðin 6. En er vilji fyrir því að halda áfram með stöðumæla í Reykjavík?
Anna Kristinsdóttir, formaður framkvæmdaráðs Reykjavíkur: Já, ég held að það sé engin spurning. Við verðum með einhverjum hætti að tryggja það að fólk sem er að sækja í miðborgina og þá fyrst og fremst eftir þeirri þjónustu og verslun sem að þar er rekin, að það fólk sem að sækir i það það hafi möguleika á því að fá skammtímastæði.
Guðrún Heimisdóttir: En svona klukkukerfi, heldurðu að það kæmi ekki í veg fyrir að fólk myndi leggja allan daginn?
Anna Kristinsdóttir: Við höfum ekki... við teljum ekki svo vera.
Anna segir að með klukkukerfinu á Akureyri hafi bærinn verið að reyna að fá betri nýtingu á stæðin, en að ekki sé þörf fyrir því í Reykjavík. Á gjaldsvæði 1 í borginni, sem er dýrasta gjaldsvæðið, er yfir 90% nýting á stæðunum. Hún segir stöðumælana vera í hag verslunarrekenda í miðbænum, því með gjaldskyldunni er hægt að koma í veg fyrir að fólk leggi í stæðin allan daginn. Þannig séu mælarnir í hag verslunarrekenda sem séu ánægðir með fyrirkomulagið, en verið er að vinna að nýju bílastæðahúsi ofarlega á Laugaveginum sem komi til með að þjóna fjölmörgum viðskiptavinum verslana við götuna. |
Guðbjörg Sæunn Friðriksdóttir er vaktstjóri hjá Kentucky Fried í Mosfellsbæ og unir hag sínum vel í starfinu. "Ég byrjaði hjá fyrirtækinu fyrir sjö árum, en hef nú verið vaktstjóri í Mosfellsbæ frá því við opnuðum árið 2001. Fram að því var ég í afgreiðslunni," segir Guðbjörg.
Sem vaktstjóri ber hún alla ábyrgð á vaktinni og stjórnar starfsfólkinu, en það er misjafnt hversu margir vinna undir stjórn Guðbjargar. Það fer eftir vöktunum.
"Þetta er mjög gefandi og skemmtilegt starf. Það er ofboðslega gaman að vinna með krökkunum, þau eru upp til hópa frábært starfsfólk og andinn er jákvæður og góður."
Það kemur til kasta Guðbjargar ef kúnninn kvartar yfir einhverju, sem hlýtur að vera óskemmtilegt. "Já, en ef það eru okkar mistök reynum við að græja það í einum hvelli og koma til móts við fólk. Það gerist sem betur fer sjaldan, það eru miklu fleiri sem eru ánægðir og láta það í ljósi. Það er alveg ómetanlegt að fá hrós frá viðskiptavinunum og ég reyni líka að hrósa mínu fólki fyrir það sem vel er gert, það hvetur fólk til frekari dáða."
Guðbjörg er á tólf tíma vöktum en hún segist ekkert þreytast þó vaktin sé löng. "Þetta kemst fljótt upp í vana og tíminn líður ótrúlega hratt. Það er auðvitað af því að vinnan er skemmtileg."
"Mér hefur líkað vel hérna þessi sjö ár og er ekkert að hugsa mér til hreyfings," segir Guðbjörg og sver og sárt við leggur að þrátt fyrir sjö ár hjá fyrirtækinu kunni hún ekki uppskriftina að hinum frægu Kentucky-kjúklingum. "Hún er algjört leyndarmál," segir Guðbjörg og hlær. |
Efnaðir innistæðueigendur á Kýpur, það er þeir sem eiga meir en 100.000 evrur inn á reikningum sínum í tveimur stærstu bönkunum, gætu tapað 8,2 milljörðum evra eða tæplega 1.300 milljörðum kr.
Þetta kemur fram í nýjum gögnum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur látið útbúa. Tekið er fram að fyrrgreind upphæð er hámarkstap þessara innistæðueigenda í tengslum við skilyrði neyðarlánsins sem Kýpur fékk til að bjarga bankakerfi eyjunnar og forðast þjóðargjaldþrot. Upphæðin muni minnka í samræmi við heimturnar úr þrotabúi Laiki banka, næststærsta bankans á Kýpur og þess sem gæti komið út úr endurskipulaginu Kýpur bankans, þess stærsta á eyjunni.
Í frétt um málið á Reuters segir að hluthafar og skuldabréfaeigendur muni tapa öllu sínu fé í Laiki bankanum og þeir sem eiga óvarin skuldabréf í Kýpur bankanum muni einnig tapa verulega upphæðum.
Gögnin sem hér um ræðir eru dagsett 12. apríl. Í svipuðum gögnum sem sett voru fram 9. apríl kom fram að Kýpur þarf um 5 milljörðum evra meira fé en nemur neyðarláninu frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þeim aðgerðum sem þegar höfðu verið ákveðnar af stjórnvöldum á Kýpur.
Upphaflega var talið að upphæðin væri rúmlega 17,5 milljarðar evra og þar af var lánið frá ESB og AGS upp á 10 milljarða evra. Þann 9. apríl kom svo fram að þörfin er um 23 milljarðar evra en mismunurinn verður að stórum hluta sóttur í vasa efnaðra innistæðueigenda og handhafa skuldabréfa í fyrrgreindum bönkum. |
Þingmaður Viðreisnar segir að mótmælendur hafi ekki vegið að heiðri Íslands með því að hengja skilti á styttu hans á Austurvelli og bendir á að Jón hafi oft tekið þátt í mótmælum. Hann segir það rétt okkar allra að mótmæla.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, fjallar um það í færslu á Facebook-síðu sinni að þingmenn, bæði fyrrverandi og núverandi, hafi kvartað undan því og talið það „ólíðandi“ að mótmælendur hafi vegið að heiðri Jóns Sigurðssonar, forseta, með því að hengja skilti á styttu hans á meðan mótmælum þeirra stendur.
Þorsteinn bendir þó á, í færslu sinni, að Jón hafi verið virkur mótmælandi í hinum ýmsu mótmælum sem farið hafa fram á Austurvelli og birtir ýmsar myndir því til stuðnings á síðu sinni.
„Hann hefur klæðst bleikum kjól til stuðnings kynjajafnrétti og álpappír til að mótmæla stóriðju. Það kemur kannski ekki á óvart enda Jón einn þekktasti "mótmælandi" þjóðarinnar sjálfur,“ segir Þorsteinn.
Hann veltir þeirri spurningu síðan fram hvort það hafi skipt þingmennina máli hverjir hafi verið að mótmæla. En í þetta skiptið voru það hópur flóttafólks. Þorsteinn segir að ekki skipti máli um hver ræðir. Við eigum öll réttinn á þvi að mótmæla og það sé „merki heilbrigðs lýðræðisríkis að fólk fái að safnast saman í friði og berjast fyrir réttindum sínum og hagsmunum.“
Hann segir það ekki „móðgun við arfleifð“ okkar sem þjóðar þó að Jón fái tímabundið hlutverk í mótmælum.
„Austurvöllur og styttan af Jóni er táknmynd sjálfstæðis- og frelsisbaráttu okkar sem þjóðar. Það er ágætt að muna að rétturinn til að mótmæla er grundvallarréttur sem tryggður er, m.a. í Mannréttindasáttmála Evrópu, sem við ræðum nú í þinginu af öðrum ástæðum. Við eigum alltaf að virða rétt allra til þess, óháð uppruna, kynþætti eða öðru,“ segir Þorsteinn. |
Laxveiðin í Blöndu gengur vel en alls hafa veiðst 745 laxar sem af er sumri samkvæmt vef Landssambands veiðifélaga og gaf vikuveiðin 231 laxa. Veiðin er þó talsvert minni nú ef hún er borin saman við sama tíma í fyrra en þá höfðu veiðst 1492 laxar. Meira veiðist í Laxá á Ásum nú samanborið við sama tíma í fyrra en alls hafa 345 laxar komið á land í sumar samanborið við 225 í fyrra. Þess ber að geta að í ár er veitt á fjórar stangir í ánni í stað tveggja í fyrra. Víðdalsá er komin í 315 laxa, Hrútafjarðará í 90 laxa og Svartá í 28 laxa.
Miðfjarðará hefur verið með mesta veiði af húnvetnsku ánum í sumar en ekki eru komnar nýjar veiðitölur inn á vef Landsambands veiðifélaga um veiði í ánni síðustu vikuna.
Beðið eftir smálaxinum
Ágætur gangur er í Vatnsdalsá en þar hafa 216 laxar veiðst í sumar. Á sama tíma í fyrra höfðu 338 laxar komið á land. Pétur Pétursson, leigutaki Vatnsdalsár, er þokkalega ánægður með veiðina sem af er, þó hann hefði auðvitað kosið að hún væri meiri. Hann segir að vel geti ræst úr sumrinu, sérstaklega ef smálaxinn láti sjá sig. Á þeim langa tíma sem Pétur hefur verið leigutaki í Vatnsdalsá hefur hann upplifað margt og segir hann að oft hafi veiðin glæðst um mánaðarmótin júlí/ágúst, ef það gerist ekki núna eru líkur á að veiðisumarið verði með lélegra móti í Vatnsdalnum. Of snemmt sé þó að segja til um það. Hann segir veiðimenn nú bíða eftir stórstreyminu 24. júlí í þeirri von að smálaxinn láti sjá sig í meira mæli. Aðspurður um breytingarnar sem gerðar voru á silungasvæðinu í sumar, að leyfa eingöngu fluguveiði, segir Pétur að þær hafi komið vel út og sé veiðin þar meiri en áður. |
Fleiri kaupsamningum þinglýst en meðalvelta minnkar
Velta á fasteignamarkaði í vikunni minnkaði talsvert milli vikan eða um 23%, þrátt fyrir að fleiri kaupsamningum væri þinglýst en í vikunni áður en þá hafði veltan aukist um 30% milli vikna samkvæmt tölum frá Fasteignamati ríkisins (FMR).
Á myndinni hér til hliðar má sjá breytingu á fjögurra vikna meðalveltu á milli ára. Fasteignasala sveiflast gjarnan mikið á milli vikna og þess vegna er horft til meðalveltu fjögurra vikna og breytinga á henni milli ára.
Í vikunni sem leið var velta á fasteignmarkaði um 2,3 milljarðar en var í fyrri viku um 3 milljarðar sem var þó nokkuð yfir meðallagi en meðalvelta á viku frá áramótum er tæplega 2,4 milljarðar.
Á ársgrundvelli hefur velta á fasteignamarkaði dregist saman um 75% og gefur það heildstæðari mynd af fasteignamarkaði. Kaupsamningum hefur fækkað milli ára og er vægi hvers kaupsamnings meira fyrir vikið. Auk þess getur hver samningur falið í sér fleiri en eina eign auk þess sem eignir eru mismunandi.
Fjöldi þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu í vikunni sem leið voru 82 en í fyrri viku voru 64 samningum þinglýst. Að meðaltali hefur 72 samning verið þinglýst á viku frá áramótum.
Meðalvelta á hvern samning í vikunni var tæplega 28 milljónir króna sem nær meðallagi en í fyrri viku var meðalvelta á hvern samning nokkuð há eða tæplega 48 milljónir. Meðaltal á hvern samning frá áramótum er um 33 milljónir króna. |
Og þá ætlum við að bregða okkur aftur niður á Alþingi þar sem Lára Ómarsdóttir, fréttamaður er og nú er hún búin að ná í, nú er hún búin að ná í Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Lára Ómarsdóttir. Já, hér hjá mér er Kristján L. Möller. Kristján, hvers vegna eruð þið að setja lög á verkfall flugumferðarstjóra.
Kristján L. Möller, samgönguráðherra: Ja, nú get ég sagt frá því bara að ég er nýbúin að fá símtal frá flugumferðarstjórum, þar sem að þeir hafa aflýst verkfalli á morgun og á mánudag og þess vegna verður þingfundur, settur hér á eftir væntanlega og frestað, að það verður semsagt ekki flutt þetta frumvarp í kvöld.
Lára: Bíddu hvenær gerðist þetta?
Kristján L. Möller: Ja, þetta var bara að gerast á þessum mínútum. Flugumferðarstjórar, ég lét þá vita eftir að ríkisstjórn hafði ákveðið að flytja frumvarp og þeir svona nefndu þetta sem mögulega leið og við erum sátt við það og það er bara ánægjulegt til þess að vita að þeir hafa þá aflýst þessum tveimur dögum og flug heldur þá bara áfram óhindrað og verður engin röskun á því. Það var mjög alvarleg staða á morgun, það eru margir að ferðast og tíminn verður þá bara notaður hjá sáttasemjara og viðsemjendur ræðist þá við og sjá hvort að þeir nái ekki samningum, sem er auðvitað það æskilegasta í stöðunni.
Lára: Ertu ekki með þessu að setja óeðlilega pressu á samningaviðræðurnar?
Kristján L. Möller: Jú, það er óeðlileg pressa á öllum. Ferðaþjónustunni, flugfélögunum og öllum. Þetta er mjög alvarlegt mál, þetta hefur mikinn skaða fyrir ferðaþjónustuna og flugfélagið. Það eru upplýsingar um það að farþegar séu að hætta að fara flugvélar Flugleiða frá Ameríku yfir hafið og fari í aðra og flugfélagið er jafnvel að benda fólki á að gera það. Þannig að þetta er mjög skaðvænlegt. Og þess vegna grípum við til þessa ráðs. Þetta er auðvitað ekkert gaman að grípa inn í kjaradeilur en, en nú er staðan bara svo alvarleg fyrir okkur í þjóðarbúinu og, og þessar viðræður, skulum við bara að vona þá að gangi eftir og menn verða bara að einskorða sér að, að ná samningum. En það er auðvitað þannig að það er mjög þröng staða.
Lára: Voru þeir með óraunhæfar kröfur?
Kristján L. Möller: Ég vil nú ekkert segja um það. Þetta er á trúnaðarstigi hjá sáttasemjara en, en staðan er einfaldlega þannig að ég veit að staða opinberu hlutafélaganna er ekkert sérstaklega góð. Þau eru, þau eru rekin með tapi. Þau hafa líka farið illa út úr hruninu. Þau skulduðu mikið í erlendu og svigrúmið er ekkert hjá okkur til að gera það. Og síðan erum við náttúrulega þá í kjarasamningum við aðila sem eru með mjög há meðallaun, svona miðað við það sem gengur og gerist í þjóðfélaginu. Og þess vegna erum við ekki tilbúin til að slaka á neinum svakalegum kröfum hvað það varðar en, en meira vil ég ekki segja um þetta, vegna þess að ég blanda mér ekki inn í þær viðræður.
Lára: Þakka þér kærlega fyrir Kristján Möller. Já, þar heyrið þið það, það er semsagt búið að aflýsa verkfallinu í fyrramálið. Flugumferðarstjórar komu með gagntilboð og, og nú fer þetta bara í venjulegt sáttaferli. Engin lög verða sett hér í kvöld og við segjum þessu lokið héðan úr Alþinginu.
Takk fyrir það Lára Ómarsdóttir og þessar nýjustu fréttir sem voru að berast okkur hérna í beinni útsendingu í Sjónvarpinu. |
Í hverfisversluninni Kjöt og fiski á Bergstaðastræti í Reykjavík er matur sem er að komast á síðasta söludag gefinn viðskiptavinum. Eiganda verslunarinnar segist líða betur í sálinni eftir að hann hætti að henda mat.
Í körfunni hérna hjá þeim í dag eru tveir pelar af rjóma, komnir á síðasta söludag. Svo er hérna kippa af bönunum, aðeins farnir að dökkna og svo tveir bakkar af salati sem er aðeins farið að gulna en lítur samt alveg ágætlega út.
Pavel Ermolinski, kaupmaður: Í byrjun, þá vorum við mikið að henda svo einn daginn hugsaði ég bara þetta meikar ekki sens, mér leið bara illa með að vera að henda þessu þannig að við hentum þessari körfu upp og hún hefur bara slegið í gegn. Sumir eru hérna náttúrulega, kannski, hafa ekki séð þetta annars staðar þannig að þeir eru smá hikandi og spyrja: "Megum við bara taka þetta? Á ég ekki að borga neitt fyrir þetta."
Hólmfríður Helga Sigurðardóttir: Myndirðu einhvern tímann ná þér í eitthvað úr svona körfu?
Skarphéðinn Gunnarsson: Ég veit það ekki, sjálfsagt, sko, ef mér dytti það í hug.
Svava Kristín Ingólfsdóttir: Ég myndi svona hugsa málið hvort að einhver kannski þyrfti frekar á því að halda en ég en kannski, það færi svona eftir því hvernig stæði á, sko, ef það væri eitthvað sem mér litist vel á og langaði þá kannski myndi ég gera það bara.
Ónafngreindur viðmælandi #1: Það verður að vera einhver vakning í þessum málum að hérna, ef að jafn lítil búð og þessi þarf að gera þetta, þá get ég ekki ímyndað mér hvað þessar stærri verslanir eru að henda.
Svava Kristín Ingólfsdóttir: Mér finnst að það ætti bara að gera þetta í öllum verslunum. Líka mætti bara lækka verð á því sem er svona orðið eldra og svona. Þú veist í stað þess að henda því.
Pavel Ermolinski: Mér líður betur í sálinni heldur en þegar ég var að henda þessu í ruslafötuna. |
Donald Trump hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að segja forstjóra alríkislögreglunnar upp í gær. Sá fór með yfirumsjón rannsóknar á meintum tengslum Bandaríkjastjórnar við Rússa í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra. Það verður mjög erfitt fyrir nýjan forstjóra alríkislögreglunnar að sverja af sér tengsl við Bandaríkjaforseta, segir stjórnmálafræðingur.
Donald Trump var tíðrætt um ágæti James Comey í starfi forstjóra alríkislögreglunnar FBI á meðan hann var í forsetaframboði, og ekki síst framgöngu hans í rannsókn á tölvupóstnotkun mótframbjóðanda hans Hillary Clinton.
„Ég ber ómælda virðingu fyrir FBI og hef fulla trú á getu þeirra til að sýna hvað er rétt í þessu máli,“ sagði Trump þann 28. október í fyrra, þegar hann var í forestaframboði.
Forstjóri Alríkislögreglunnar er ráðinn til 10 ára og var Comey skipaður af Barack Obama árið 2013.
„Þið sitjið því uppi með mig í sex og hálft ár í viðbót,“ sagði Comey, þegar hann hélt fyrirlestur í háskóla á dögunum.
Þar reyndist Comey reyndar ekki sannspár því í gær fékk hann reisupassann frá Bandaríkjaforseta.
„Hann stóð sig einfaldlega ekki vel í starfi,“ sagði Bandaríkjaforseti stuttlega á blaðamannafundi í dag.
Frétti af uppsögninni í sjónvarpinu
„Opinbera yfirlýsingin er auðvitað að það sé ekki hægt að treysta Comey vegna þess hvernig hann höndlaði málefni Hillary Clinton og tölvupóstana í kringum það. Það sem virðist hins vegar vera undirliggjandi er frekar að Comey hafi verið of sjálfstæður,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt í stjórnmálafræði hjá Háskóla Íslands.
Tölvupóstnotkun Clinton er nefnilega ekki það eina sem Comey hefur haft á sinni könnu. Hann fór fyrir rannsókn á meintum tengslum Bandaríkjastjórnar í aðdraganda forsetakosninganna við stjórnvöld í Rússlandi.
Sjálfur frétti Comey af uppsögninni þegar hann sá fréttinni bregða fyrir á sjónvarpsskjá á fundi með starfsmönnum FBI í Los Angeles í gær. Hann mun fyrst hafa haldið að um gabb væri að ræða, en svo var ekki og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Fréttaskýrendur hafa sakað forsetann um að misbeita valdi sínu og deila margir þeirra áhyggjum með þingmönnum Demókrata af því hvað verði um rannsókn á meintum tengslum Bandaríkjastjórnar við Rússa.
Clinton og Nixon
Þetta er í annað sinn í um aldarlangri sögu alríkislögreglunnar sem Bandaríkjaforseti víkur yfirmanni hennar frá störfum. Árið 1993 rak Bill Clinton William Sessions úr embætti.
„En þá voru brot í starfi, það er misnotkun á hlunnindum sem virðist ekki hafa verið umdeilanlegt,“ segir Silja Bára.
Öllu háværari samanburður við atvik úr stjórnmálasögunni er ákvörðun Richards Nixon að reka á sínum tíma yfirmann sjálfstæðrar rannsóknarnefndar sem átti að rannsaka Watergate málið.
„Það verður mjög erfitt fyrir nokkurn þann sem Trump skipar að sitja ekki undir grun um það að vera of handgenginn forsetanum,“ segir Silja Bára. Hún segir ákvörðun Trumps síst til þess fallna að styrkja traust á lýðræðið í Bandaríkjunum.
„Það vilja allir forsetar raða í kringum sig fólki sem það treystir. Það eru ákveðin embætti engu að síður sem eiga að vera utan þessara áhrifasvæða forsetans, og þeirra á meðal er forstjóri FBI,“ segir Silja Bára. |
„Þetta svíður alveg svakalega,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, gráti nær eftir frábæran varnarleik gegn Andy Schmid og félögum í svissneska landsliðinu í dag, sem dugði ekki til. Sviss vann 20-18 sigur og Ísland er því enn með tvö stig eftir þrjá leiki í milliriðlakeppninni á HM.
Ýmir fór fyrir íslenska liðinu í varnarleiknum en í sókninni gekk Íslandi afleitlega allan leikinn. Ýmir leit hins vegar á björtu hliðarnar:
„Baráttan í liðinu allan tímann… það var unun að horfa á þetta held ég. Ég er stoltur af okkur því við gefumst ekki upp, en þetta féll ekki með okkur sóknarlega, því miður. En liðsandinn, hvernig við byrjum og klárum leikinn, er frábært,“ sagði Ýmir í viðtali við RÚV í Egyptalandi.
„Við fáum bara á okkur 20 mörk í dag en ef að við skorum ekki fleiri þá skiptir þetta ekki máli. Við lögðum upp með ákveðna hluti í vörninni og mér fannst þeir ganga upp mjög vel. Auðvitað koma alltaf einhverjar línusendingar og skot, því þetta er frábært lið og með frábæra markmenn. Þeir voru bara betri í dag, því miður,“ sagði Ýmir við RÚV, og bætti við:
„Við erum ekki nógu grimmir heldur í hröðum upphlaupum. Það gengur því miður ekki nógu vel. Við verðum líka að hrósa Svisslendingum. Þeir spiluðu rosalega flotta vörn, með sterkan markmann á bakvið sig, og gerðu þetta vel.“ |
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra hyggst boða fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar til fundar til að ræða efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar spurði ráðherrann hvernig hann hygðist bregðast við þeirri skoðun ASÍ að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar setti kjarasamninga í uppnám. Ráðherra sagðist ósammála ASÍ en of snemmt væri að segja til um áhrif skattalækkana, til dæmis meðan hækkun baranbóta væri ekki endanlega ákveðin.
Í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær vildi formaður Samfylkingarinnar fá svar forsætisráðherra við því hver hann teldi vera áhrif efnahagsstefnu ríkisstjórnar sinnar á kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Sérhver ríkisstjórn hafi kappkostað að sem bestu samstarfi við verkalýðshreyfinguna og reynt að ná stöðugleika á vinnumarkaði. Þetta hafi oft tekist í samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu en nú væri annað uppi því í fyrsta skipti sem Halldór Ásgrímsson legði fram efnahagsstefnu sína þá samþykki ASÍ harðorða ályktun um að hún setji kjarasamninga í uppnám og leggi grunn að djúpstæðri deilu við verkalýðshreyfinguna um velferðar- og kjaramál.
Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar: Og það er sérstaklega tekið fram í þessari harkalegu ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands að skattastefna núverandi ríkisstjórnar hún verki eins og það sé verið að hella olíu á eld. Það er mjög sjaldgæft herra forseti að verkalýðshreyfingin hún grípi til svona sterkra andmæla við efnahagsstefnu nokkurrar ríkisstjórnar og ég spyr hæstvirtan forsætisráðherra, hvernig hyggst hann bregðast við því að verkalýðshreyfingin hún telur að efnahagsstefna ríkisstjórnar hans sé að setja forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í uppnám.
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra (B): Ég er ósammála því sem kemur fram í þessari ályktun. Ég hyggst hins vegar eiga fund með forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar á næstunni til þess að fara yfir þessi mál. En það liggur alveg ljóst fyrir að fjárlagafrumvarpið er með ágætum afgangi og þar er verið að auka útgjöld til margvíslegra velferðarmála og það er jafnframt ljóst að fyrirhugaðar skattalækkanir þær munu auka kaupmátt verulega og hafa góð áhrif á kaupmátt einstaklinga. Hins vegar hafa þær ekki nákvæmlega verið útfærðar. Það hefur til dæmis ekki verið endanlega ákveðið hversu mikið barnabætur verða hækkaðar og hvernig útfærslan verður í því sambandi. Fyrr en það liggur fyrir þá er ekki hægt að fullyrða um áhrif skattalagabreytinganna á kaupmátt einstaklinganna og ákveðinna fjölskyldustærða. En það er af og frá að fjárlagafrumvarpið og fyrirhugaðar skattalækkanir setji forsendur kjarasamninga í uppnám. |
Ríkisstjórnin hefur nú stigið fyrsta skrefið til að reyna að koma enn frekari böndum á verðbólguna í kjölfar samkomulags vinnumarkaðarins og skattayfirlýsinganna sem gefnar voru í tengslum við undirskrift þess. Það var mikilvægt að Samtök atvinnulífsins og ASÍ skyldu ná saman um endurskoðun kjarasamninga til loka næsta árs og að ríkisstjórnin skyldi eyða óvissunni varðandi skattamálin, en það þarf meira að koma til, ekki aðeins hjá ríkissvaldinu, heldur einnig hjá sveitarfélögum og lánastofnunum.
Stóran hluta þeirrar verðbólguhvetjandi fasteignasprengingar sem orðið hefur hér á undanförnum misserum, og þá aðallega á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannabyggðum, má rekja til hærri íbúðalána bæði af hálfu hins opinbera og ekki síst af hálfu bankanna, sem voru í því að yfirbjóða hið opinbera íbúðalánakerfi og freistuðu margra verðandi íbúðaeigenda með lánamöguleikum sínum. Bankarnir hafa nú sem betur fer hægt á sér í þessum yfirboðum, og gera nú meiri og strangari kröfur til lántakenda en áður.
Þróunin á fasteignamarkaði hér hefur verið ótrúleg á síðustu misserum bæði hvað varðar fjölda bygginga og verðlag. Frá því bankarnir fóru að bjóða íbúðalán í stórum stíl fyrir tæpum tveimur árum hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað upp undir 70 af hundraði og þar með er fasteignaverð í Reykjavík orðið með því hæsta í höfuðborgum Evrópu.
Með aðgerðum þeim sem ríkisstjórnin boðaði í gær varðandi lægra lánshlutfall hjá Íbúðalánasjóði og lækkun hámarkslána leggur ríkisstjórnin enn eitt lóðið á vogarskálarnir til að stuðla að hjöðnun verðbólgunnar. Þetta getur haft úrslitaáhrif á það hjá mörgum hvort þeir leggja út í fasteignakaup. Það er þá spurningin hvort þetta komi ekki aðallega niður á þeim tekjulægstu og þeim sem erfiðast eiga með að fjármagna sín íbúðakaup. Það má kannski segja sem svo að þeir eigi ekkert að vera að huga að slíkum málum, en ráðstafanir sem þessar mega ekki verða til þess að tekjulágir hópar og þeir sem búa á landsbyggðinni verði út undan í þessum efnum. Hinir efnameiri finna alltaf einhverja leið til að fjármagna fasteignakaup sín og eru ekki upp á hið opinbera komnir í þeim efnum.
Jafnframt því að takmarka lánamöguleika hjá Íbúðalánasjóði hefur ríkisstjórnin nú gefið út að frestað verði útboðum og upphafi nýrra framkvæmda, og að rætt verði við Samtök sveitarfélaga og stærstu sveitarfélögin með það að markmiði að dregið verði úr framkvæmdum á þessu ári og hinu næsta. Það er hæpið að nokkur verulegur árangur verði af þessu fyrr en seint á þessu ári og líklega ekki að nokkru gagni fyrr en á næsta ári, nema hjá ríkinu sjálfu. Þar hefur tíðum verið gripið til þess að skera niður vegaframkvæmdir við svipaðar aðstæður og svo hefur það líka tíðkast að veita meira fé til samgöngubóta, þegar efnahagslífið hefur verið í lægð. Vegaframkvæmdir verða því áreiðanlega skornar niður að þessu sinni auk annarra framkvæmda.
Stjórnvöld mega ekki grípa til einhverra skyndiráðstafana, sem líkja má við taugaveiklun á markaði, því það getur líka verðið hættulegt að spennan í efnahagslífinu falli mjög snöggt, þótt allir séu sammála um brýna nauðsyn þess að verðbólgan hjaðni, jafnframt því sem kaupmáttur launatekna verði varðveittur. Leiðin að þessum tveimur markmiðum getur verið vandrötuð, en hún á að vera fær ef vilji er fyrir hendi hjá þeim sem sitja undir stýri og stjórna ferðinni. |
Ríkissaksóknari í Alsír fyrirskipaði í dag rannsókn á því að æstur múgur tók mann af lífi án dóms og laga. Talið var að hann bæri ábyrgð á víðfeðmum skógareldum í landinu. Yfirvöld telja næsta öruggt að eldarnir hafi kviknað af mannavöldum og eru fjórir í haldi vegna þess.
Mannskaðaeldar hafa logað í landinu alla vikuna en að minnsta kosti sextíu og níu eru látin af þeirra völdum. Myndskeið sem birtist á Netinu sýnir þau sem réðust að hinum 38 ára listamanni Jamal Ben Ismail berja hann til ólífis og bera loks eld að líki hans.
Atvikið átti sér stað í bænum Larbaa Nath Irathen í Tizi Ouzou-héraðinu austan höfuðstaðarins Algeirsborgar. Þar um slóðið er ástandið af völdum skógareldanna sínu verst.
Í yfirlýsingu saksóknara segir að þungar refsingar bíði þeirra sem eigi sök á ódæðinu. Mannréttindasamtökin Amnesty International hvöttu alsírsk yfirvöld til að rannsaka andlát Ben Ismails og innlend mannréttindasamtök kváðu atburðinn vera grimmilegan.
Það hafi hreinlega verið ógnvekjandi að sjá ungan mann myrtan sem eingöngu ætlaði sér að hjálpa til við slökkvistarfið. Faðir hins látna hvatti til rósemi en brýndi yfirvöld til þess að varpa ljósi á það sem gerðist.
Þriggja daga þjóðarsorg til minningar um fórnarlömb skógareldanna hófst í Alsír í dag. |
Alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney hefur valið Landsbankann besta bankann á Íslandi.
Alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney hefur valið Landsbankann besta bankann á Íslandi og er þetta annað árið í röð sem bankinn hlýtur þessa viðurkenningu.
Euromoney útnefnir árlega bestu banka víða um heim og veitir þeim viðurkenninguna Award for Excellence. Við útnefninguna er litið til ýmissa þátta í rekstri og stefnu bankanna, eins og afkomu af reglulegri starfsemi, kostnaðarhagræðingar og þjónustuframboðs.
Í umsögn Euromoney kemur fram að á árinu 2019 hafi verið farið að draga úr efnahagsbatanum á Íslandi sem hafi að mestu byggt á vexti ferðaþjónustu. Áhrif kórónuveirunnar á alþjóðleg ferðalög og ferðaþjónustu séu því mikil áskorun fyrir íslenska banka. Landsbankinn hafi staðið betur í aðdraganda faraldursins og virðist í betri stöðu til að takast á við erfiðleika en keppinautar hans, einkum vegna mikillar skilvirkni í rekstri bankans, en kostnaðarhlutfalll á árinu 2019 hafi einungis verið 43%. Euromoney bendir einnig á að Landsbankinn hafi á árinu boðið viðskiptavinum sínum upp á Apple Pay, Fitbit Pay og Garmin Pay, tekið í gagnið markaðstorg fyrir forritaskil (API) sem hluta af opnu bankakerfi og sjálfsafgreiðslu fyrir skammtímalán.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Við erum mjög ánægð að Euromoney hafi útnefnt Landsbankann sem besta banka á Íslandi, annað árið í röð. Áhersla okkar á að veita framúrskarandi fjármálaþjónustu, jafnt með öflugum stafrænum lausnum sem persónulegri þjónustu, hefur leitt til aukinnar ánægju viðskiptavina sem endurspeglast m.a. í því að bankinn var í efsta sæti í Íslensku ánægjuvoginni. Viðurkenning Euromoney hvetur okkur til að halda áfram á sömu braut, að veita frábæra þjónustu en um leið sjá til þess að bankinn sé rekinn með hagkvæmum og traustum hætti.“ |
Bankarnir verða fyrir áfalli ef Hæstiréttur dæmir gjaldeyrisbindingu lána ólögmæta. Þrjú slík mál bíða nú dóms Hæstaréttar. Verði lánin dæmd ólögmæt skerðist eigið fé bankanna talsvert þannig að eigendur þeirra þurfa þá að leggja þeim til aukið eigið fé. Þeir fulltrúar bankanna sem fréttastofan ræddi við voru sammála um að rekstri þeirra verði ekki stefnt í hættu þótt lánin verði dæmd ólögmæt.
Afar erfitt er að sjá glögga mynd af því hve miklir fjármunir eru í húfi fyrir bankana. Hluti þess, sem skráð er í bækur þeirra sem gjaldeyrislán eða erlend lán, er raunverulega lán á erlendum gjaldeyri, til dæmis til útflutningsfyrirtækja. Hluti er hins vegar lán, einkum til einstaklinga, þar sem skuldarinn fékk íslenskar krónur lánaðar en verðtryggðar með tengingu við erlenda mynt. Verði síðarnefndu lánin dæmd ólögmæt en þau fyrrnefndu lögmæt er áfall bankanna miklum mun minna en ráða má af ársreikningum þeirra, þar sem samtala erlendra lána er birt. Fulltrúar allra bankanna, sem rætt var við, lögðu áherslu á að mikil óvissa væri um afstöðu Hæstaréttar og hversu langt hann gangi. Héraðsdómur dæmdi í einu málanna að umrætt lán væri lögmætt. Í tveimur málanna dæmdi Héraðsdómur að lánin væru ólögmæt og skyldu standa í upphaflegri krónutölu, að teknu tilliti til afborganna og á upphaflegum vöxtum sem eru mun lægri en íslenskir vextir eru nú og voru þá. Íslandsbanki segir að fari svo að öll lán í erlendri mynt til einstaklinga verði dæmd ólögleg gæti nafnvirði þeirra lækkað töluvert. Samkvæmt útreikningum bankans yrði hugsanleg áhrif þess á eigið fé bankans þó ekki meiri en svo að bankinn myndi áfram uppfylla eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins, það er, 16 prósent. Landsbankinn segir að í versta falli nemi fjárhæðin um 80 milljörðum en talsvert minna ef aðeins lán einstaklinga verði dæmd ólögmæt. Stjórnvöld gætu þurft að leggja bankanum til eigið fé eða grípa til annarra ráðstafanna til að bankinn uppfylli eiginfjárkröfurnar. Arion-banki segir óábyrgt af hálfu bankans að geta sér til um hugsanlega niðurstöðu dómsins með opinberum hætti en það sé mat lögfræðinga bankans að erlend lán hans séu lögleg. Samkvæmt mati bankans stefni engin þeirra hugsanlegu dæma, sem upp kunna að koma, rekstri bankans á nokkurn hátt í hættu. |
Ríkissaksóknari fer fram á að Þorsteinn Kragh og Jakob Van Hinte verði dæmdir í tíu ára fangelsi að lágmarki fyrir aðild sína að stórfelldum fíkniefnainnflutningi með Norrænu í sumar. Aðalmeðferð í málinu var fram haldið í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sækjandi byggir kröfu sína um svo þunga dóma á því mikla magni sem mennirnir eru ákærðir fyrir að hafa reynt að smygla til landsins en alls var um að ræða tæp 200 kíló af fíkniefnum. Í máli sækjanda í morgun kom meðal annars fram að smyglið hafi verið gríðarlega vel skipulagt en til dæmis voru efnin vel falin í sérútbúnum húsbíl.
Efnin voru enda svo vel falin að á þau fundust ekki fyrr en Van Hinte hafði vísað á þau. Í máli sækjanda í morgun var Van Hinte einmitt talið það til tekna að hann hafi vísað á efnin auk þess sem hann hafi gefið ítarlegan vitnisburð í upphafi málsins, sem bendlaði Þorstein við málið. Van Hinte dró raunar þann framburð til baka síðar meir en saksóknari segir upprunalega framburðinn þó greinilega vel studdan öðrum gögnum málsins.
Þá kom fram í morgun að Þosteinn hafi áður verið dæmdur fyrir innflutning á fíkniefnum. Árið 1986 var hann sakfelldur fyrir aðild að smygli á einu kílói af hassi frá Hollandi.
Forsaga málsins er að Van Hinte var stöðvaður í ferjunni Norrænu í júní 2008 með um 190 kíló af hassi, eitt kíló af kókaíni og eitt og hálft kíló af maríjúana, vandlega falið í bíl sínum.
Athafnamaðurinn Þorsteinn Kragh var handtekinn um mánuði síðar grunaður um aðild að málinu og hafa þeir setið í gæsluvarðhaldi alla tíð síðan. Verjandi Þorsteins krafðist frávísunar á dögunum á grundvelli þess að umbjóðandi sinn hefði ekki fengið aðgang að málsgögnum eins og hann á rétt á. Dómari féllst ekki á kröfuna. |