source
stringlengths
710
1.19M
Síðustu ár hefur plöntutískan verið mjög áberandi í innanhússhönnun en einnig sem hluti af arkitektúr. Plöntutískan er ansi lífseig sem orskast líklega ef þeim jákvæðu áhrifum sem plöntur hafa á líðan fólks og ganga tískuspekúlantar svo langt að segja að plöntutískan muni aldrei deyja. Það er mikið til í því enda eykst þörf mannsins fyrir tengslum við náttúruna stöðugt þar sem stækkandi borgir og fólksfjölgun valda því að fjarlægðin milli manns og náttúru er sífellt að aukast. Arkitektar víðsvegar um heiminn eru margir hverjir farnir að bregðast við þessu og gera því ráð fyrir plöntum í hönnun sinni þá sér í lagi þar sem mengun er mikil. Er það hugsað sem einn þátt af mörgum sem eru mikilvægir í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Bókin Evergreen: Living with plants frá árinu 2016, sem gefin er út af þýska bókaútgefandanum Gestalten, fjallar um mikilvægi plantna í daglegu lífi og gerir tilvist þeirra hátt undir höfði. Plöntur eru sem ferskur andblær á hverju heimili og sýnir bókin hvernig hægt er að gera inni rými áhugaverðari með þeim. Einnig er sýnt hvernig hægt er að gera svalirnar meira spennandi sem og þakgarða af ýmsum gerðum. Í rýmum þar sem beinar línur og hrein form eru ríkjandi er fátt fallegra en að nota plöntur til þess að gera umhverfið líflegra. Fjölbreyttir litir plantnanna, lögun þeirra og áferð gera hvern íverustað notalegri. Mikilvægt er að vanda valið vel og sýna fyrirhyggju þegar kemur að staðsetningu þeirra, þá sér í lagi hvað varðar ákjósanlegt hitastig og birtu. Bókin er hafsjór fróðleiks, tilvalin fyrir plöntuunnendur og hefur hún fengist í HAF Store hér heima en einnig er hægt að panta bókina á Amazon. Myndir / Gestalten
Mál þetta, sem dómtekið var 13. apríl 2015, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni 15. október 2014, á hendur X, kt. 1000000-0000, „fyrir líkamsárás og heimilisofbeldi, með því að hafa, mánudaginn 24. júní 2014, fyrir utan þáverandi heimili sitt að [...], ráðist að A, kt. 000000-0000, dóttur sambýliskonu hans, fellt hana í jörðina, tekið hana hálstaki og læst fótum sínum utan um háls hennar svo hún missti andann, en afleiðingar háttsemi ákærða urðu þær að A hlaut yfirborðsáverka og eymsli í hálsi, marblett yfir hægra mjaðmakambi, á hægri ökkla og sköflungi og eymsli í brjósti.“ Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981 og þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Ákærði krefst aðallega frávísunar, til vara sýknu en þrautavara vægustu refsingar sem lög leyfa og að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda. I Um málavexti segir í frumskýrslu lögreglu að þann 24. júní 2013 hafi verið óskað aðstoðar lögreglu að [...], vegna heimilisofbeldis. Brotaþoli þessa máls hafi setið grátandi í grasinu fyrir utan húsið og hafi mátt sjá áverka á hálsi hennar. Brotaþoli bar að ákærði hafi verið „útúrruglaður“ og byrjað að „hrauna“ yfir móður hennar og hún þá vinsamlegast beðið ákærða að fara út af heimilinu. Hafi hann þá byrjað að henda til hlutum. Síðar hafi ákærði tekið brotaþola hálstaki og hótað henni lífláti og elt hana út úr húsinu og ógnað með hnífi. Úti hafi hann „rennitæklað“ hana niður, kýlt hana og sett hana í fótlás og tekið hálstaki þannig að hún hafi ekki getað andað. Hún gat ekki lýst hnífnum. Ákærði var handtekinn á vettvangi. Ákærði bar að hafa séð kannabisplöntur í herbergi brotaþola og orðið reiður. Brotaþoli hafi hins vegar „hrópað yfir hann skít“ og skellt hurð á hné hans. Hann hafi ekki verið með hníf og ekki tekið brotaþola hálstaki heldur ýtt henni til þess að ná henni niður en ekki veitt brotaþola neina áverka. Þá hafi hann ekki hótað brotaþola en hafi kannski notað niðrandi orð. Í málinu liggur fyrir læknabréf dags. 23. október 2013, vegna læknisskoðunar brotaþola 25. júní 2013. Lögð var fram í málinu yfirlýsing þann 2. febrúar 2015, frá brotaþola þar sem hún gerði þá kröfu að fallið yrði frá saksókn í málinu. II Ákærði kom fyrir dóminn og lýsti því yfir að hann myndi nýta rétt sinn og neita að tjá sig. Bornar voru undir ákærða spurningar sem hann kvaðst ekki svara en hann lýsti því þó yfir að hann þekkti málið og hafi verið undir áhrifum áfengis þegar atburðir gerðust. Vitnið A, brotaþoli í máli þessu, kom fyrir dóminn og bar að hún þekkti málið. Aðspurð um að lýsa þeim atvikum sem lýst er í ákæru sagði vitnið; „Ég tel það best fyrir mig og mína að ég tjái mig ekki um þennan atburð“ og kvaðst ekki svara frekari spurningum um málið. Vitnið B, kom fyrir dóminn og skoraðist undan því að bera vitni skv. 117. gr. sakamálalaga. Vitnið C bar vitni frá Barnahúsi. Kvaðst hann vera kominn fyrir dóminn sem vitni þar sem faðir hans hafi ráðist á dóttur B, fyrrverandi stjúpmóður hans. Hann muni ekki hvernig þetta hafi byrjað en mundi eftir atburðum fyrir utan húsið í [...]. Hafi faðir hans þar verið með fætur utan um háls brotaþola og reynt að ná af henni símanum. Hann hafi reynt að „rífa“ pabba sinn af henni þar sem hann hafi talið að hann myndi meiða hana eða kyrkja hana. Hann muni annars lítið eftir þessu núna, enda gerðust atburðir fyrir tveimur árum. Þetta hafi hins vegar byrjað af því að pabbi hans hafi verið að drekka og B verið að skammast í ákærða vegna þess. Ákærði hafi orðið pirraður og byrjað að brjóta hluti. Ákærði hafi reynt að taka símann af brotaþola og þau hlaupið út. Þar hafi ákærði ráðist á brotaþola, skellt henni niður, tekið í hendur hennar og tekið með fætinum eða kálfanum utan um hálsinn á henni og væri þetta bragð notað í bardagaíþróttum. Hafi það litið þannig út að hann væri að kyrkja brotaþola. Hann hafi sjálfur reynt að öskra á ákærða og síðan rifið ákærða af brotaþola. Eftir þetta hafi hann og ákærði farið inn og verið þar þegar lögreglu bar að. Hafi honum liðið ömurlega þegar þetta gerðist. Ítrekað spurður hvort ákærði hafi beitt fótum á brotaþola bar vitnið að það væri það sem hann minnti. Spurt af hverju hann hafi gefið töluvert aðra skýrslu hjá lögreglu þann 4. nóvember 2013 bar vitnið að þá hafi hann verið hræddur um að pabbi hans myndi lenda í töluverðum vandræðum og hann því sleppt mörgu. Hafi hann ákveðið þetta sjálfur. Hann hafi ekki áttað sig á því þá að pabbi hans væri bara „Crazy og fyllibytta“. Spurt hvernig átök hafi byrjað á milli ákærða og brotaþola kom fram að ákærði hafi auðveldlega orðið pirraður en mundi ekki eftir því að B og brotaþoli hafi verið að egna ákærða upp. Spurt hvort hann myndi eftir atburðum í herbergi brotaþola, þegar ákærði átti að hafa hent flatskjá út úr herberginu, mundi vitnið eftir því að brotaþoli hafi þá hoppað upp á bak ákærða en aðspurt mundi vitnið ekki eftir því að brotaþoli hafi lamið ákærða. Það sem hann hafi sagt í dag væri rétt frásögn eftir því sem hann minnti. Vitnið D kom fyrir dóminn og bar að hafa verið að keyra á lítilli ferð „niður“ [...]. Þegar hann hafi verið á móts við hús nr. [...] hafi hann séð útundan sér konu koma hlaupandi og maður á eftir henni. Hafi hann séð þegar maðurinn hafi annað hvort sparkað konuna niður eða hrint henni, líklega sparkað hana niður og að hann minnti sest ofan á hana og látið höggin dynja á henni. Á eftir þeim hafi komið lítill strákur, 7-8 ára og hafi byrjað að rífa í manninn sem var ofan á konunni. Hafi hann flautað þegar þetta gerðist og stoppað 50-100 metrum lengra. Þá hafi verið komið að fullt af fólki. Þegar hann hafi verið næst atburðunum hafi hann verið í 5-6 metra fjarlægð. Vitnið lýsti því að atburðir hafi verið honum á vinstri hönd og þegar hann hafi fyrst séð þá hafi það verið eins og vísir klukku hafi bent á kl. 10, og þegar „þau“ hafi verið komin í grasið hafi vísir klukkunnar bent á 8 frá honum séð. Vitnið, E lögreglumaður, bar fyrir dómi að lögreglu hafi borist tilkynning um mikil læti og líkamsárás í [...]. Hafi tveir til þrír lögreglubílar farið á vettvang. Upplýst hafi verið að ákærði hafi tekið brotaþola einhverju kverkataki. Hafi hann rætt við brotaþola sem hafi verið í mikilli geðshræringu og augsýnilega verið brugðið og grátið mikið. Vitninu minnti að einhverjir líkamlega áverkar hafi verið á brotaþola en gæti ekki fullyrt um það. Einnig hafi hann rætt við móður brotaþola og ungan dreng sem var á vettvangi. Ekki hafi verið um formlega skýrslutöku að ræða heldur tekinn niður framburður þeirra sem voru á vettvangi. Reynt hafi verið að koma drengnum til móður sinnar þar sem hún var ekki á vettvangi. Hann gat ekki staðfest hvað hann hafi rætt við drenginn en vísaði til lögregluskýrslu sinnar um málið. Fram kom að hann hafi ekki rætt við ákærða, en ákærði hafi verið mjög æstur og reynt að skaða sjálfan sig. F lögreglumaður, gaf símaskýrslu fyrir dómi og bar að lögreglu hafi borist tilkynning um heimilisofbeldi. Fyrir utan húsið hafi verið mæðgur og tilkynnt um að fósturfaðir hafi ráðist á sig innandyra. Hafi brotaþoli verið í miklu uppnámi. Hafi ákærði sem hafi verið ölvaður og æstur verið handtekin. Hann hafi ekki rætt við brotaþola og mundi ekki eftir að hafa séð áverka á henni. G lögreglumaður gaf símaskýrslu fyrir dómi og bar að borist hafi tilkynning um forgang í [...]. Þar fyrir utan hafi verið mæðgur sem hafi tilkynnt um brjálaðan mann innandyra. Hafi augsýnilega eitthvað mikið gengið á því þær hafi verið í miklu uppnámi. Ákærði sem hafi setið inni í stofu hafi í fyrstu verið rólegur en síðan æst sig og ætlaði að reka lögregluna út. Vitnið hafi ekki rætt við brotaþola eða móður hennar og ekki séð áverka á brotaþola. Vitnið H lögreglumaður bar fyrir dómi að hafa tekið fyrstu framburði af brotaþola og móðir hennar á vettvangi. Hafi þær verið í töluverðu uppnámi og mikilli geðshræringu. Hann muni ekki eftir að hafa séð áverka á brotaþola en hún hafi kvartað undan eymslum í hálsi og baki. Hafi brotaþoli lýst því fyrir honum hvernig ákærði hafi tæklað sig og tekið í fótalás. Vitnið I lögreglumaður bar fyrir dómi að brotaþoli hafi komið til hans í þeim tilgangi að draga kæru sína í máli þessu til baka. Hafi brotaþoli rætt um að hún yrði ekki sátt við að draga kæruna til baka en væri undir pressu frá móðir sinni. Hafi hann upplýst brotaþola um að það væri alfarið hennar ákvörðun hvort hún drægi kæruna til baka og hafi hún þá ákveðið að gera það ekki. Vitnið, J læknir gaf símaskýrslu fyrir dómi. Vitnið var spurt hvort þeir áverkar sem lýst er í læknabréfi geti vel samrýmst þeirri frásögn sem brotaþoli hafi gefið af atburðum og bar vitnið að svo væri. Beðinn um að lýsa áverkum brotaþola kom fram að brotaþoli hafi ekki verið með marbletti en hún hafi greinilega verið með eymsli í hálsi og yfir brjóstkassa. Spurður hvort um væri að ræða minniháttar áverka kom fram að það mætti segja það, ekkert alvarlegt. III Í máli þessu háttar svo til að ákærði neitaði að svara spurningum fyrir dómi um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Í lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða þann 25. júní 2013, kom fram að brotaþoli hafi verið að úthrópa hann, hann beðið brotaþola um að afhenda sér símann en brotaþoli þá skellt á hann millihurð og hún lent á hné hans. Hafi hann þá ýtt upp hurðinni og tekið símann af brotaþola. Eftir það hafi hann sest niður þar til lögreglan hafi komið. Brotaþoli dró kæru sína til baka og neitaði fyrir dómi að svara nokkrum spurningum. Móðir brotaþola sem var vitni að atburðum skoraðist undan því að gefa vitnaskýrslu. Bæði brotaþoli og móðir brotaþola höfðu gefið skýrslur fyrir lögreglu. Í vettvangsskýrslu af brotaþola kom fram að ákærði hafi „rennitæklað“ hana, sett hana í fótlás og tekið hálstaki þannig að hún gat ekki andað. Í skýrslu hennar hjá lögreglu þann 28. maí 2014, lýsir hún atburðum með sama hætti en einnig þannig að ákærði hafi kýlt hana 5-10 sinnum. Í skýrslu sem tekin var á vettvangi af B, móðir brotaþola kom fram að hún hafi séð ákærða liggjandi ofan á brotaþola „með hana í hengingaról og fótlás og sonur hans á bakinu á honum“. Í skýrslu sem tekin var af B þann 19. maí 2014 bar hún að hafa séð ákærða sitjandi í grasinu og á milli fóta hans hafi verið höfuð brotaþola og greinilegt að ákærði var að þrengja að hálsi hennar með fótum sínum og hafi sonur hans hangið á föður sínum og grátbeðið hann að hætta. Tekinn var niður framburður sonar ákærða á vettvangi. Í honum kom fram að rifrildi hafi átt sér stað, sem hafi endað með því að brotaþoli hafi hlaupið út og ákærði á eftir þar sem hann hafi „tæklað“ brotaþola, tekið hálstaki og sett í fótlás og hann þá sjálfur stokkið á bak föður sínum og beðið hann að hætta. Í skýrslu lögreglu sem tekin var af C þann 4. nóvember 2013 kom fram að rifrildi hafi átt sér stað, brotaþoli stokkið á bak ákærða og skellt hurð í hné hans. Hafi ákærði þá sparkað upp hurð og elt brotaþola út þar sem hann felldi hana en hafi ekki sett fæturna um háls hennar. Í skýrslu C fyrir dóminum kom fram að ekkert væri að marka skýrslu hans frá 4. nóvember 2013, þar hafi hann verið að vernda föður sinn og sleppt mörgu. Í skýrslu C fyrir dómi kom fram efnislega það sama og haft hafði verið eftir honum á vettvangi um að ákærði hafi fellt brotaþola og sett fætur utan um háls brotaþola. Fyrir dóminn komu fjórir lögreglumenn sem komu á vettvang og í skýrslu þeirra allra kom fram að brotaþoli og móðir hennar hafi verið í miklu uppnámi og hafi brotaþoli kvartað yfir verkjum í hálsi og baki. Fyrir dóminn kom vitnið D sem var að keyra eftir [...] í sama mund og atburðir áttu sér stað. Í vitnisburði hans kom fram að hann hafi séð þegar maður hafi líklega sparkað konu niður og að hann minnti sest ofan á hana og látið höggin dynja á henni. Á eftir þeim hafi komið lítill strákur, 7-8 ára og hafi byrjað að rífa í manninn sem var ofan á konunni. Er framburður vitnisins trúverðugur um atvik þó aldur drengsins sé ekki réttur. Í skýrslu læknis fyrir dóminum kom fram að áverkar þeir sem brotaþoli hlaut, gætu vel samrýmst þeirri frásögn sem brotaþoli hafi gefið af atburðum. Sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála og metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn, sbr. 109. gr. sömu laga. Þann 5. febrúar 2015 var í málinu kveðinn upp úrskurður, þar sem hafnað var kröfu ákærða um að málið yrði fellt niður á þeim grundvelli að almannahagsmunir ættu ekki við í málinu. Að framangreindu virtu er það mat dómsins að hafið sé yfir skynsamlega vafa að ákærði hafi með ásetningi fellt brotaþola, tekið hana hálstaki og læst fótum sínum utan um háls hennar svo hún missti andann, með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er brotið þar réttilega heimfært til 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Í ákæru er háttsemi ákærða sögð hafa átt sér stað á árinu 2014 en það rétta er að atburðir gerðust á árinu 2013. Er það mat dómsins að um sé að ræða aukaatriði brots skv. 180. gr. laga nr. 88/2008, enda að mati dómsins, vörn ákærða ekki áfátt vegna þess. Ekkert í gögnum málsins styður að brot ákærða hafi verið unnið í áflogum eða að sá sem misgert var við hafa verið upphafsmaður að þeim átökum, og á 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga því ekki við í málinu. IV Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum sjö sinnum verið gerð refsing frá árinu 1996. Þau brot hafa ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú. Ákæra málsins er gefin út 15. október 2014 og því liðu næstum 16 mánuðir frá því að háttsemin átti sér stað fram að útgáfu ákæru án þess að ákærða verði þar um kennt. Samkvæmt gögnum málsins voru afleiðingar af broti ákærða ekki miklar og ætla verður af gögnum málsins, að mál þetta hafi verið leyst innan fjölskyldunnar. Hins vegar verður að líta til þess að brot ákærða á sér stað á heimili brotaþola þar sem voru börn og verður því horft til 3. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga til refsiþyngingar og til 3. mgr. 70. gr. sömu laga. Með hliðsjón af framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði sem þykir með vísan til framangreinds, mega binda skilorði eins og í dómsorði greinir. V Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað. Sakarkostnaður samkvæmt yfirliti sækjanda nemur 28.000 krónur. Þá verður ákærða gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir dóminum, Daða Trausta Péturssonar hrl., 1.200.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Dóm þennan kveður upp Hafsteinn Einþórsson héraðsdómari. Ákærði, X, skal sæta fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiði 1.228.000 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Atla Úlfars Starkaðarsonar hæstaréttarlögmanns, 1.200.000 krónur. Sær Bertiluson
Elsku fallegi seiðandi Fiskurinn minn. Hversu dásamlegt á þetta sumar eftir að verða? Það eina sem getur að einhverju leyti truflað þig eða snúið þig niður er annað fólk sem þú ert að stressa þig á, en hefur enga ástæðu til. Það er mikil spenna yfir þessu sumri, dásamlegur hraði, svolítið ógnvekjandi stundum, en í þessum hraða ert þú alveg með fótinn nálægt bremsunni, svo þú getur stjórnað þessu sjálfur. Þetta sumar byggist allt á sjálfstrausti, ég get, ætla og skal, er yfirskrift þín, og skammstöfunin er gæs, það er það eina sem þú þarft að muna ef stressið er að bíta þig í bakhlutann. Rómantíkin svífur svoleiðis aldeilis yfir vötnum að jafnvel hundarnir elta þig heim ef þeir mögulega geta. Þeir sem eru í sambandi þurfa að gefa sér meira rými. Leyfa sér bara að vera tvær turtildúfur og búa til dásemdarheim. Þið hinir laflausu gætuð haldið daðursnámskeið, það er svo mikið flört í kringum ykkur. Daður er jákvætt, það er nú ekki alltaf sexúal, þið þurfið að skoða það. Það er að koma til ykkar fólk sem segir við ykkur: „Get ég ekki hjálpað þér í þessu, má ekki bjóða þér þetta, eigum við ekki að gera þetta saman?“ Þú verður svo hissa, en þú ert búinn að vinna þér þennan kraft inn í líf þitt. Það ert þú sem ert búinn að hekla þetta dásamlega karma sem þú ert að uppskera núna. Hamingjan mun banka og þú verður heima hjá þér þegar hún gerir það. Þú verður mjög heppinn, en kannski á síðustu stundu, bara svo þú getir orðið pínulítið stressaður. Þú nærist stundum á stressinu, elsku hjartað mitt, það er viss orka, stress og ótti eru vinir, en þú þarft ekkert að óttast. Það er mikilvægt að hvíla sig, sofa aðeins meira, slaka á í vinnu og leika sér. Mottóið er: „Taktu lífið ekki of alvarlega, þú munt ekki komast lifandi frá því.“ Lífið er yndislegt. Frægir Fiskar:Elísabet Ásberg listamaður, Beggi hans Pacasar, Baltasar Kormákur leikstjóri, Díana Ómel fjöllistakona, Árni Johnsen, fyrrverandi þingmaður, Albert Einstein, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Vigdís Hauksdóttir þingkona, Ilmur Kristjánsdóttir leikkona, Svavar Örn engill, Páll Óskar poppstjarna, Katla Sign og Baby Kling.
Bæjarstjórinn í Hafnarfirði reiknar með að Alcan hafi áfram áhuga á því að nýta lóðina sem fyrirtækið keypti og ætlaði undir stækkað álver. Hann segir að álverið eigi enn möguleika á að þróa starfsemi sína í bænum. Álverið í Straumsvík keypti stóra lóð á svæðinu fyrir um fjórum árum sem ætluð var undir stækkað álver. Nú þegar ekkert verður af stækkuninni, velta menn fyrir sér hvort fyrirtækið haldi lóðinni eða selji hana. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði segir að það sé Alcans að ákveða það. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði: Á þessari lóð er starfsemi á vegum álversins og hefur verið um langan tíma, m.a. þess vegna sóttust þeir eftir lóðinni. Það voru engar skuldbindingar eða skilyrði gagnvart bænum þegar þeir keyptu lóðina varðandi þessa stækkun þó þeir ætluðu auðvitað að nýta hana sem slíka. Það eru borholur fyrir allt kælivatn sem tekið er inn á kerfið hjá álverksmiðjunni á þessari lóð og Alcan hefur lagt áherslu á það að verja þetta svæði og tryggja það að þarna væri ekki önnur starfsemi. Lúðvík bendir á að stórt iðnaðarsvæði sé á þessu sama stað og mikil eftirspurn eftir lóðum þar. Hann reikni hins vegar með að menn skoði áframhaldandi þróun á starfsemi álversins á lóðinni. Heimir Már Pétursson: Þannig að þið eruð ekki farandi kannski í viðræður, bærinn, við álverið um það hvort þeir ætla að fara og þá að huga að öðru skipulagi á þessu svæði? Lúðvík Geirsson: Það er ekkert komið á það stig og ég held að það sé langur vegur að menn fari að ræða um þá hluti. Álverið hlýtur auðvitað að skoða sín tækifæri og sína þróunarmöguleika og fyrirtækið öflugt og með trausta og góða starfsemi og hefur auðvitað sín tækifæri og hlýtur auðvitað að sjá hvernig menn nýta það að byggja upp starfsemina frekar á þessu svæði. Lúðvík kvíðir ekki framtíðinni þótt íbúar hafi hafnað stækkun álversins. Það hafi óvíða verið eins mikill vöxtur og í Hafnarfirði þar sem íbúum fjölgaði t.d. um 5,6% í fyrra.
Landsnet hefur kært til Hæstaréttar úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem hafnaði aðfararbeiðnum fyrirtækisins um eignarnám á landhluta úr fjórum jörðum á Reykjanesi vegna lagningar Suðurnesjalínu 2. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti. Héraðsdómur telur varhugavert, vegna óafturkræfra umhverfisáhrifa, að fallast á kröfu Landsnets áður en Hæstiréttur hefur leyst úr ágreiningi um lögmæti eignarnámsheimildarinnar sem og ágreiningi um lögmæti leyfisveitinga Orkustofnunar og sveitarfélagsins Voga vegna línubyggingarinnar. Ákvörðun um eignarnám vegna jarðanna fjögurra lá fyrir í febrúar 2014. Héraðsdómur staðfesti ákvörðun um eignarnám í júní 2015. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar og hefst málflutningur í apríl. Framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2 hefur legið fyrir um nokkurt skeið frá sveitarfélögunum Grindavík, Hafnarfjarðarbæ, Reykjanesbæ og Vogum, ásamt leyfi Orkustofnunar fyrir byggingu og rekstri línunnar og áætlaði Landsnet að hefja framkvæmdir á næstu vikum. Búið er að semja við Íslenska aðalverktaka um undirbúningsvinnu sem á að ljúka í haust og ráðgert að reisa línuna sumarið 2017. Í tilkynningu Landsnets segir að umhverfismat vegna framkvæmdanna var samþykkt með skilyrðum árið 2009. Í ársbyrjun 2011 var ákveðið að byrja á styrkingu flutningskerfisins á Reykjanesi þar sem Suðurnesjalína 1 er fulllestuð. Nýja línan fylgir að mestu Suðurnesjalínu 1 frá Hafnarfirði að Rauðamel, nema austast þar sem hún á að liggja töluvert fjær byggð í Hafnarfirði. Við val á línuleið var orðið við tilmælum sveitarfélaga og helstu fagstofnana um að reisa nýju línuna í núverandi mannvirkjabelti, þar sem eru fyrir Suðurnesjalína 1 og Reykjanesbraut, segir Landsnet. –
Könnun ríkislögreglustjóra og lögregluembætta í nokkrum bæjarfélögum á suðvesturhorni landsins leiðir í ljós að talsvert er um svokallaða þjónustusamninga sem gerðir hafa verið við útlendinga sem hér eru að störfum. Lögreglan telur að þeir séu á gráu svæði og ætlar að kanna lögmæti þeirra. Talsverð umfjöllun hefur verið um ólöglegt vinnuafl á höfuðborgarsvæðinu eftir að iðnfélögin byrjuðu að fara skipulega á vinnustaði og kanna skilríki útlendinga sem hér eru að störfum. Vegna þessarar umfjöllunar ákvað ríkislögreglustjóraembætti að kanna ástandið að eigin frumkvæði. Höfð var samvinna við lögregluembættin í Hafnarfirði, Kópavogi og í Keflavík. Finnbjörn Hermannsson, formaður Samiðnar, segist fagna þessu frumkvæði lögreglunnar. Þegar er búið að fara á allmarga vinnustaði í Hafnarfirði og Kópavogi og síðast í gær voru vinnustaðir heimsóttir í Keflavík. Smári Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra, segir að könnunin hafi leitt í ljós að mjög margir erlendir starfsmenn séu hér að störfum en fáir þeirra séu samt sem áður ólöglegir. Hins vegar virðist vera talsvert um svokallaða þjónustusamninga sem vinnuveitendur framvísi vegna veru erlendra starfsmanna sem flestir eru frá Póllandi eða Eystrasaltsríkjunum. Í slíkum tilvikum eru erlendir starfsmenn fengnir hingað til lands með vörum sem keyptar eru af erlendum fyrirtækjum sem greiða þeim laun. Fullyrt er að með þessu sé verið að fara á svig við lögin til að greiða starfsmönnunum lág laun. Smári Sigurðsson telur að þessir samningar kunni að vera á gráu svæði. Smári Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra: Ja við að minnsta kosti erum þeirrar skoðunar að það sé ástæða til þess að láta reyna á það hvort að þeir eru í lagi. Arnar Páll Hauksson: Og hvernig verður látið á það reyna? Smári Sigurðsson: Það er væntanlega í höndum viðkomandi lögreglustjóra að láta á það reyna hvort að þeir hafa gildi. Smári segir að það sé á valdi hvers lögreglustjóra að kanna lögmæti þjónustusamninganna og hugsanlegt sé að látið verði reyna á það fyrir dómstólum.
Þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþing óska þess að efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, setji á laggirnar þriggja manna nefnd sem skrifi skýrslu um stöðu gjaldeyrismarkaðar og greiðslumiðlunar við útlönd frá hruninu í október 2008. Á formaður nefndarinnar að vera skipaður af norrænum seðlabanka en hinir tveir nefndarmennirnir tilnefndir af Seðlabanka Íslands. „Mjög slæm staða á gjaldeyrismarkaði og í greiðslumiðlun við útlönd í kjölfar hrunsins og setningar hryðjuverkalaga í Bretlandi hafði víðtæk áhrif á allt þjóðlífið og olli mörgum þungum búsifjum. Eðlileg bankaviðskipti gengu hægt og einstaklingar og fyrirtæki gátu ekki millifært fjármuni sína til og frá landinu. Viðskiptasambönd sködduðust þar sem innlendir aðilar gátu ekki staðið við skuldbindingar sínar og álit ríkisins beið mikinn hnekki. Þessi staða veikti stöðu íslenskra stjórnvalda í viðkvæmum deilumálum við erlend ríki t.d. um tryggingar innstæðna í erlendum útibúum innlendra banka. Það er mikilvægt að þessi staða verði könnuð með trúverðugum hætti. Lagt er til að verkið sé unnið undir stjórn erlends aðila svo að skýrsla nefndarinnar njóti trúverðugleika innan lands sem utan. Skýrslan kann að hafa mikið gildi fyrir aðrar þjóðir um það sem gerist í kjölfar hruns fjármálakerfis þjóðar en hún getur einnig verið trúverðugt gagn í hugsanlegum málaferlum opinberra aðila og einkaaðila vegna atvika sem urðu eftir hrun," segir í greinargerð með beiðninni. Einnig segir að gera megi ráð fyrir að nefndin afli aðallega upplýsinga hjá starfsmönnum Seðlabanka Íslands og eftir atvikum hjá erlendum aðilum en einnig hjá ráðuneytum, ýmsum samtökum atvinnulífsins, námsmanna, lífeyrissjóða o.fl. Kanna áhrif á samskipti við erlend ríki Meðal þess sem óskað er eftir að komi fram í skýrslunni er: 1. Hvernig aðstæður voru í gjaldeyrismálum og greiðslumiðlun við útlönd frá 1. október 2008 til 31. janúar 2009 og enn fremur a. hvaða vandamál komu upp og b. hvernig þau voru leyst. 2. Hvaða áhrif hafði staða gjaldeyrismála og greiðslumiðlunar á a. Seðlabankann, b. banka- og fjármálakerfið, c. innflytjendur, d. útflytjendur, e. ferðamenn, f. námsmenn og Íslendinga búsetta erlendis, g. aðra, h. stjórnmál og samskipti við erlend ríki. 3. Hvaða viðbragðsáætlanir þurfa að vera tækar til að slík staða endurtaki sig ekki. Beiðni um skýrsluna kemur frá þingmönnunum Pétri H. Blöndal, Helga Hjörvar, Lilju Mósesdóttur, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Ögmundi Jónassyni, Tryggva Þór Herbertssyni, Magnúsi Orra Schram, Þór Saari og Birki Jóni Jónsson.
Heimsmeistarar Dana eru komnir í undanúrslitin á HM í Egyptalandi. Þeir unnu heimamenn með herkjum í tvíframlengdum leik, 39-38, en leikurinn bauð upp á nánast allt sem handbolti getur boðið upp á. Það var mikill og góður kraftur í heimamönnum. Þeir voru 8-6 yfir eftir stundarfjórðung en þá skoruðu Danir þrjú mörk í röð og komust yfir í fyrsta sinn í leiknum er átján mínútur voru komnar á klukkuna. Þeir leiddu svo 16-13 í hálfleik en aftur byrjuðu heimamenn hálfleikinn sterkt. Þeir voru komnir 18-17 yfir er langt um leið en er tíu mínútur voru eftir, var allt jafnt 23-23. Danir skoruðu næstu tvö mörk en Egyptar neituðu að gefast upp og jöfnuðu á ný, 25-25, er fimm mínútur voru eftir. Mads Mensah Larsen kom Dönum yfir þremur mínútum fyrir leikslok 27-26 en Egyptar svöruðu þá með tveimur mörkum í röð og komust yfir. Magnus Landin jafnaði metin í 28-28 er hálf mínúta var eftir. Egyptar gerðu sig hins vegar seka um slæm mistök. Þeir gerðu vitlausa skiptingu og Danir fengu boltann á ný sem og Egyptar fengu tveggja mínútna brottvísun. Mikkel Hansen átti hins vegar enn eina slæmu sendinguna í síðustu sókn Dana og lokatölur 28-28 eftir venjulegan leiktíma. Því þurfti að framlengja. Í framlengingunni virtust þeir dönsku sterkari og voru komnir tveimur mörkum yfir en Egyptarnir voru ekki af baki dottnir. Þeir minnkuðu muninn í eitt mark og Danirnir héldu í lokasóknina. Það var dæmt leiktöf á Dani og eftir að flautan gall kastaði Mikkel Hansen boltanum frá sér. Dómararnir fóru í skjáinn og gáfu Hansen rautt spjald og dæmdu víti. Egyptar jöfnuðu úr vítakastinu, 34-34, og því þurfti að framlengja á ný. Í annarri framlengingunni var spennan sú sama. Danir fengu vití og rautt spjald undir lok hennar, eftir brot Egyptana - í svipuðum dúr og brot Hansen, en Magnus Landin fór á vítapunktinn. Boltinn í stöng og inn. 35-35 eftir venjulegan leiktíma og tvær framlengingar. Því réðust vítin í vítakastkeppni. Þar voru Darnirnir sterkari; skoruðu úr fjórum en Egyptar þremur og eru þar af leiðandi komnir í undanúrslitin. Þar mæta þeir annað hvort Spáni eða Noregi. Mikkel Hansen var markahæstur Dana með tíu mörk. Magnus Saugstrup var frábær á línunni með sex mörk og Mathias Gidsel skoraði sex. Yahia Omar skoraði tíu mörk úr tólf skotum og Yehia Elderaa skoraði sjö.
„Síðasti opnunardagurinn var á sunnudaginn og við erum bara að pakka öllu dótinu niður í þessum töluðu orðum," segir Helena Stefánsdóttir, ein fjögurra eigenda Kaffi Hljómalindar sem hætti rekstri á mánudaginn. Ástæða þess mun vera sú að Hljómalindarfólkið fékk ekki framlengdan leigusamninginn og missti því húsnæðið. „Þegar við tókum húsnæðið á leigu á sínum tíma gerðum við það upp fyrir næstum sex milljónir. Við áttum að fá að endurnýja samninginn og vera hér næstu árin og þess vegna lögðum við mikla vinnu og pening í að gera húsnæðið upp. Leigusalinn ákvað svo að hækka leiguna áður en nýr samningur var gerður og við höfðum einfaldlega ekki efni á því að borga þá upphæð og í kjölfarið sagði hann okkur upp leigunni." Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hljómalindarfólkið þarf að flytja sig um set því umræddur leigusali rak þau einnig úr Hljómalindarhúsinu við Laugaveg 21 árið 2008. „Fólkið sem kom á eftir okkur inn í Hljómalindarhúsið var mjög heppið, það þurfti lítið að gera við húsnæðið til að byggja upp sinn rekstur. Svipað átti sér stað með skemmtistaðinn Sirkus, en það húsnæði er í eigu sama aðila, þar var leigutaka sagt upp og húsið stendur enn autt," segir Helena. Hún segir að eigendur Hljómalindar leiti nú að nýju húsnæði í miðbæ Reykjavíkur og segir jafnvel koma til greina að kaupa hús undir reksturinn. „Það kemur vel til greina að kaupa einfaldlega húsnæði til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig enn eina ferðina. Vonandi getum við byrjað aftur sem allra fyrst, enda hefur Hljómalind þjónað sem hálfgerð félagsmiðstöð bæði fyrir fjölskyldufólk og ungmenni um árabil." - sm
Klukkan 15.30 í dag verða atkvæðagreiðslur og jafnframt fer fram umræða utan dagskrár um þjónustu við heilabilaða. Málshefjandi er hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir. Hæstv. heilbrigðisráðherra Siv Friðleifsdóttir verður til andsvara. Umræðan fer fram samkvæmt 1. mgr. 50. gr. þingskapa og stendur í hálfa klukkustund. Frú forseti. Það eru fáir ráðherrar sem eiga jafnsvarta skrá í byggðamálum og frú Valgerður Sverrisdóttir, hæstv. fyrrverandi byggðamálaráðherra og núverandi utanríkisráðherra. Hún hefur staðið eins og klettur vörð um kvótakerfið sem hvað eftir annað hefur höggvið skörð í byggðir landsins. Nú síðast er það Grímsey sem verður fyrir barðinu á kerfinu og hún hefur hafnað öllum breytingum á því og kallað allar breytingar eitthvert föndur við kerfið. En það er ekki nóg með það heldur hefur hún afnumið þá litlu flutningsjöfnun sem er á vörum landsmanna og síðan hækkaði hún ótæpilega rafmagnsreikning fólks sem hitar upp hús sín með raforku. Nú óska ég eftir því við hæstv. ráðherra að hún líti um öxl og skoði verk sín og spyrji sjálfa sig hvort ekki sé nóg komið og hvort ekki eigi að snúa við blaðinu og hvort hún ætti ekki að beita sér í ljósi sögu sinnar, hvort ekki eigi að hætta við að höggva enn og aftur í skörð í byggðir landsins. Þá á ég við það að hætta við að flytja störf sem unnin eru á landsbyggðinni á vegum Ratsjárstofnunar frá landsbyggðinni, svo sem frá Bolungarvík, Langanesi og Höfn. Þessar breytingar fela bæði í sér uppsagnir og tilfærslu á störfum frá landsbyggðinni hingað á suðvesturhornið. Er ekki nóg komið? Í viðtali í Morgunblaðinu í gær sagði virtur skipstjóri og fyrrverandi oddviti sveitarfélags norður í landi að fækkun starfa Ratsjárstofnunar væri enn eitt dæmi um hvernig stjórnvöld Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru að draga máttinn úr byggðum landsins og hann kallaði þetta einfaldlega landráðastefnu viðkomandi flokka. Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra utanríkismála sem fer með þennan málaflokk hvort það hafi verið metið hvernig öryggi ratsjárstöðvanna muni skerðast við að flytja þessi störf suður en það er ljóst að þegar enginn tæknimaður verður starfandi á viðkomandi stöðum þá taka allar lagfæringar lengri tíma en þær gera nú. Viðgerðin tekur auðvitað lengri tíma þegar flytja þarf starfsmenn sem þurfa að gera við og yfirfara bilun á viðkomandi landshorn. En fyrst og fremst er það fáránlegt að leggja fram í byrjun árs áætlun um byggðamál en koma síðan að hausti til sem hæstv. utanríkisráðherra og skera niður störf á landsbyggðinni. Þetta er alveg furðulegt. Hvað er verið að spara? Það er verið að spara í ráðuneyti utanríkisþjónustunnar sem hefur þanist út og á að þenjast út á næsta ári um einhverja milljarða. Hæstv. forseti. Áður en ég fer að svara fyrirspurnum hv. þingmanns vil ég fyrst segja utan dagskrár að þegar ég skoða verk mín sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra þá er ég ákaflega stolt yfir því að það náðist mikill árangur í byggðamálum á þeim tíma sem ég fór með þau mál. Þá kemur að því að svara fyrirspurn hv. þingmanns sem er svona, með leyfi forseta: „Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að hætt verði við að flytja störf á vegum Ratsjárstofnunar frá landsbyggðinni, svo sem frá Bolungarvík, Langanesbyggð og Höfn?“ Ratsjárstöðvarnar fjórar sem hér um ræðir eru reknar af Bandaríkjastjórn - ég endurtek: eru reknar af Bandaríkjastjórn, sem hefur gert stífar kröfur um hagræðingu í rekstri þeirra m.a. vegna tilkomu tæknibreytinga sem stuðlað hafa að sjálfvirkni stöðvanna og fækkun starfsmanna samfara þeirri þróun, sem hefur reyndar alls staðar átt sér stað. Það er því misskilningur hjá hv. þingmanni sem sagði áðan að það væri verið að tala um að spara í utanríkisráðuneytinu. Það er Bandaríkjastjórn sem rekur þessar stöðvar. Þess má geta að það reyndist unnt að bjóða sumum þeirra starfsmanna sem sagt var upp störf á Miðnesheiði þar sem stjórnstöð og miðstöð ratsjáreftirlitsins er staðsett. Við skulum hafa hugfast að í upphaflegum áætlunum Bandaríkjamanna í viðræðum við íslensk stjórnvöld um framtíð varnarsamstarfsins var gert ráð fyrir lokun norðurstöðvanna tveggja. Þeir ætluðu að loka þeim. Þær lokanir hefðu þegar verið komnar til framkvæmda ef ekki hefði náðst sá árangur í viðræðunum sem raun ber vitni. Eins og fram kemur í samkomulagi Íslands og Bandaríkjamanna um varnarmál, sem undirritað var í Washington 11. október sl., þá hyggjast þjóðirnar ræða framtíðarfjármögnun og fyrirkomulag íslenska loftvarnakerfisins sín á milli og við NATO og ég vænti þess að farsæl niðurstaða náist í þeim viðræðum og að áfram verði reknar fjórar ratsjárstöðvar á Íslandi. Síðari spurning, með leyfi forseta: „Telur ráðherra að öryggi ratsjárstöðva skerðist við að enginn tæknimaður verður starfandi þar?“ Svarið er eftirfarandi: Nei, ég tel ekki að svo sé. Sjálfvirkar ratsjárstöðvar hafa verið reknar með góðum árangri í öðrum löndum árum saman. Ratsjárstofnun verður með mjög öflugt kerfi sem verður áfram vaktað allan sólarhringinn. Auk þess verður haldið áfram fyrirbyggjandi viðhaldi með reglulegum viðhaldsferðum út á stöðvarnar. Á undanförnum árum hefur sjálfvirkni í rekstri ratsjárkerfa aukist til muna og telja verður eðlilegt að rekstur ratsjárstöðvanna hér á landi verði aðlagaður þeim tæknilegu breytingum sem þar hafa orðið ásamt þeirri hagræðingu sem fólgin er í þeim. Það er komin liðlega 10 ára reynsla af rekstri fjarstýrðra ratsjárstöðva víða í Evrópu og Norður-Ameríku og þær hafa gefist vel. Ég get svo bætt við, hæstv. forseti, þar sem tíma mínum er ekki lokið að að sjálfsögðu er það mér ekki gleðiefni að sú ákvörðun hafi verið tekin af hálfu Bandaríkjastjórnar, að draga þarna saman í rekstri, en við verðum hins vegar að horfast í augu við þær tæknibreytingar sem hafa átt sér stað. Það sem er aðalatriðið í dag er hvernig framtíðarrekstri þessara stöðva verður háttað og það er það sem við ætlum að ræða við Bandaríkjamenn frekar og sennilega líka við NATO en ég tel algerlega augljóst að Íslendingar þurfi að taka á sig einhverjar skyldur í þessu sambandi líka. Virðulegi forseti. Vissulega þurfa menn að aðlaga sig breytingum sem kunna að verða í alþjóðastjórnmálum eða á tæknisviði sem hafa áhrif á rekstur stöðva eins og ratsjárstöðvanna. Hitt vil ég leggja áherslu á að Ratsjárstofnun er íslensk stofnun. Hún er á fjárlögum íslenska ríkisins og lýtur valdi íslenskra ráðherra. Ég tel það ekki skynsamlega stefnu hjá Bandaríkjamönnum að flytja störf frá Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðausturlandi til Miðnesheiðar. Íslensk stjórnvöld eiga ekki eiga að gera þá stefnu að sinni. Þau eiga að hafa sína eigin stefnu og dreifa þessum störfum í líkingu við það sem verið hefur. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því. Í öðru lagi vil ég hvetja hæstv. ríkisstjórn og sérstaklega hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra til þess að vinna að mótvægisaðgerðum á þeim atvinnusvæðum þar sem um samdrátt er að ræða í störfum vegna þessara breytinga. Virðulegi forseti. Í nauðvörn byggðanna skiptir hvert starf sem lagt er niður eða glatast gífurlega miklu máli, í þeirri nauðvörn sem núverandi ríkisstjórn hefur rekið landsbyggðina út í. Bæði kvótakerfið í sjávarútvegi og hin meinta byggðastefna stjórnvalda hefur brugðist nánast fullkomlega fyrir utan uppgang á einstökum svæðum og kannski hefur fólksfjölgunin gengið best þar sem stjórnvöld hafa minnst skipt sér af. Því má spyrja stórra spurninga um gildi og inntak þeirrar byggðastefnu sem nú er framfylgt. Hv. þingmaður sem mælti á undan mér kom að kjarna málsins. Hér glatast störf á landsbyggðinni, landsbyggðin er í nauðvörn og sérstaklega það svæði sem hér um ræðir, Vestfirðir. Til hvaða mótvægisaðgerða ætlar hæstv. ráðherra að grípa? Það er kjarni málsins. Frú forseti. Það var furðulegt að heyra í hæstv. utanríkisráðherra hér áðan. Hæstv. ráðherra kennir Bandaríkjastjórn um allt sem er að gerast í þeim stofnunum sem um er rætt og ég er að velta því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra líti virkilega svo á að ráðherrann lúti stjórn Bandaríkjastjórnar og ef svo er þá tel ég það verulegt áhyggjuefni. Það hefur komið fram í máli annarra þingmanna að Ratsjárstofnun lýtur stjórnar Íslendinga og ég held að hæstv. ráðherra ætti að reyna að axla þá ábyrgð sem því fylgir og sjá til þess að hæstv. ríkisstjórn sitji ekki uppi með þá skömm að draga endalaust úr opinberri starfsemi úti á landi. Hæstv. forseti. Ratsjárstofnun er íslensk stofnun. Það liggur fyrir að Íslendingar, íslensk stjórnvöld eru nauðug viljug, að mér skilst, að taka yfir rekstur þessarar stofnunar. Þá hljóta menn að þurfa að koma sér upp stefnu um með hvaða hætti eigi að reka hana. Ég lít svo á að það hafi verið gert og þeirri stefnu sé verið að framfylgja með ákvörðunum þeirra sem ráða í Ratsjárstofnun því það getur ekki verið annað en að menn séu að hugsa um framtíðina þegar tekin er sú ákvörðun sem liggur fyrir. Hún er sú að flytja skuli störfin af landsbyggðinni á Miðnesheiðina. Ég tel að það sem hér er að gerast sé mjög ádeiluvert og að mjög góð rök þurfi að leggja fram fyrir því að standa svona að málum. Svo vil ég segja í lokin, hæstv. forseti, Virðulegur forseti. Sem þingmaður Reykjavíkur og áður forseti borgarstjórnar hef ég iðulega gagnrýnt það þegar stofnanir hafa verið teknar upp og fluttar út á land eða hugmyndir hafa verið uppi um að flytja opinber störf héðan af suðvesturhorninu út á landsbyggðina og það fólk sem þar vinnur. Hins vegar er hér allt annar hlutur á ferðinni. Það er á vegum ríkisstjórnarinnar, og undir forustu eins af helstu trúnaðarmönnum Framsóknarflokksins á síðasta áratug, verið að leggja niður opinber störf í byggðum sem helst eiga undir högg að sækja en halda óbreyttri starfsemi að mestu á suðvesturhorninu. Mér þykir að hæstv. ráðherra, sem áður var ráðherra byggðamála, skuldi þinginu miklu betri skýringar en hún hefur veitt hér á þessari pólitísku ákvörðun, að láta þessa staði á landinu helst taka á sig skellinn. Frú forseti. Ég sýni því ákveðinn skilning að hæstv. ráðherra sem er ný í starfi átti sig ekki á að hún fer með yfirráð yfir umræddri stofnun og getur þess vegna haft áhrif á þessa ákvörðun. Ég vona að eftir þessa umræðu upplýsist ráðherrann þannig að hún geti tekið um þetta ákvörðun og átti sig á því að þetta mál heyrir undir viðkomandi ráðherra en ekki Bandaríkjastjórn. Þetta er íslensk stofnun sem lýtur valdi ráðherra. Það er ekki hægt að fara til Bandaríkjanna og skýla sér þar á bak við verk sín. Þetta er einfaldlega ákvörðun hennar eða vilji og ég get ekki séð að hæstv. ráðherra ætli að breyta einu né neinu. Frú forseti. Málið snýr einnig að byggðastefnunni, byggðastefnu Framsóknarflokksins sem hefur birst undanfarin ár og hæstv. ráðherra segir að þetta sé góð stefna. En við sjáum það einfaldlega í umfjöllun blaða, svo sem Fréttablaðsins, að byggðunum hefur hrakað. Það er ekki nein tilviljun, heldur er það stefna stjórnvalda í atvinnumálum og hvar störfum er niður komið, opinberum störfum. Hér var fyrirspurn svarað og kom fram að hið opinbera hefur fjölgað opinberum störfum hér um mörg þúsund meðan þau hafa staðið í stað eða jafnvel fækkað á landsbyggðinni. Hér er hæstv. ráðherra enn að. Hún er komin í nýtt ráðuneyti og vill halda áfram. Fækka störfum og flytja þau til. En þetta er staðreyndin og þetta er verk sem rekja má til hugmyndafræðings flokksins til margra ára sem er nú starfandi formaður flokksins og hæstv. iðnaðarráðherra. Hann hefur skrifað grein um að hér væri risið borgríki. Þetta er stefna hugmyndafræðings og formanns Framsóknarflokksins sem er hér í verki, frú forseti. Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og góð ráð sem hér komu fram. En ég vil segja að ef þessi ákvörðun og þessi breyting snýr að einhverju leyti að byggðamálum þá er það í raun byggðastefna Bandaríkjastjórnar sem þarna á í hlut. Eins og hv. þingmenn hljóta að vita eru það ekki íslensk stjórnvöld sem reka umrædda stofnun. Svo má líka segja að þau störf sem lögð voru niður á þessum stöðum, sem er sársaukafullt, það geri ég mér allra manna best grein fyrir, eru ekki endilega þau sömu störf og viðkomandi var boðið að taka á Miðnesheiði. Svo var ekki. Við skulum líka hafa það í huga að verið var að fækka störfum þar um kannski allt í allt upp undir þúsund. En enginn talar um það í þessari umræðu. Kannski gæti það verið eitthvað sem hefði komið við á því svæði. Þetta er í rauninni ósköp einfalt mál, en engu að síður er það sársaukafullt. Það þarf að draga saman í rekstri þessarar stofnunar. Hvað gerist eftir 15. ágúst næstkomandi er óljóst á þessari stundu. Íslensk stjórnvöld munu að sjálfsögðu ræða það við Bandaríkjamenn að halda áfram að koma að þeim rekstri, að hve miklu leyti sem það verður. Auk þess er ekki ólíklegt að rætt verði við Atlantshafsbandalagið um að gera það einnig, þar sem við teljum að þarna sé um mikilvæga starfsemi að ræða í sambandi við loftvarnir og það að fylgjast með því svæði sem er hér norðan við okkur. Þetta eru aðalatriði málsins Virðulegi forseti. Á Íslandi eru reknar tvær flugmálastjórnir. Annars vegar Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli sem heyrir undir utanríkisráðuneytið og hins vegar Flugmálastjórn Íslands sem heyrir undir samgönguráðuneytið. Starfssvið þessara tveggja flugmálastjórna eru mjög lík en meðan á veru varnarliðsins stóð þótti ákveðið hagræði í að hafa stofnanirnar tvískiptar undir sitt hvort ráðuneytið. Keflavíkurflugvöllur þjónaði að stórum hluta herflugi vegna varnarsamningsins við Bandaríkin og aðildar íslenska ríkisins að Norður-Atlantshafsbandalaginu. Nú eftir brotthvarf varnarliðsins frá Keflavík tel ég að forsendur þess að halda úti tveimur stofnunum með sömu markmið og starfsemi séu brostnar. Að sameina Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli Flugmálastjórn Íslands tel ég að mundi stuðla að einfaldari stjórnsýslu. Sameiginleg eining yrði sterkari og markvissari og hægt væri að samnýta sérfræðiþekkingu starfsmanna á þessum tveimur vinnustöðum. En það er alveg ljóst að verkefni starfsmanna hjá þessum stofnunum skarast á fjölmörgum sviðum. Einnig má nefna einkennilega aðstöðu sem Flugmálastjórn Íslands er í, að bera faglega ábyrgð á flugumferðarþjónustu sem innt er af hendi í Keflavík án þess að koma að nokkru leyti við stjórn eða skipan fyrirtækisins. Ég tel að sameining hefði í för með sér fjárhagslegan sparnað. Öll flugmál mundu lúta einu ráðuneyti og Keflavíkurflugvöllur og málefni hans verða loksins hluti af samgönguáætlun. Á nýafstöðnu flugþingi sem haldið var í byrjun október lýstu flugrekendur áhyggjum sínum af kostnaði við þjónustu, flugvernd og eftirlit sem mun fara vaxandi þar sem sífellt fleiri öryggisstaðla þarf að uppfylla. Á flugþinginu kom einnig skýrt fram eindreginn vilji, bæði flugrekenda og þeirra sem veita flugumferðarþjónustu, flugöryggissvið og flugvallasvið, að sameining þessara tveggja stofnana undir eitt ráðuneyti væri nú tímabær, ekki síst sökum þeirrar hagræðingar sem í henni felst og gæti komið til móts við aukinn kostnað samfara hertum öryggiskröfum. Nú er búið að segja varnarsamningnum upp og ekkert því til fyrirstöðu að fækka ríkisstofnunum um eina. Vil ég því beina fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra hvenær þess er að vænta að Flugmálastjórn Íslands taki yfir Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli. Virðulegi forseti. Það er kannski rétt í fyrstu, um leið og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir, að vekja athygli á mismæli. Samningnum hefur ekki verið sagt upp, heldur hafa orðið breytingar. Varnarliðið er farið. Það er rétt að það komi fram. Eins og þekkt er rekur Flugmálastjórn Íslands alla flugvelli landsins nema Keflavíkurflugvöll. Skoðun mín og afstaða er sú að tvískiptingin sé ekki heppileg. En það fyrirkomulag er barn síns tíma og á sér þær skýringar sem hv. þingmenn þekkja og tengist veru varnarliðsins hér. Um þetta hefur verið fjallað bæði í samgönguráðuneytinu og sömuleiðis hefur flugráð þar sem eru sérfræðingar okkar og þeir aðilar sem þekkja best til hvað varðar rekstur flugmálanna. Flugráð hefur m.a. ályktað svo sem hér segir, með leyfi forseta: „Flugráð vill ítreka“ - segir í samþykkt flugráðsins - „að nauðsynlegt sé að taka til endurskoðunar þá tvískiptingu sem nú er í stjórn flugmála hér á landi vegna sérstakrar réttarstöðu Keflavíkurflugvallar. Þessi tvískipting veldur því að ábyrgð stjórnsýslu og eftirlitsaðila í hinum ýmsu þáttum starfseminnar er óljós og veldur vaxandi erfiðleikum í samskiptum við alþjóðlegar stofnanir á sviði flugmála sem gera ráð fyrir því að aðeins einn aðili sé í forsvari fyrir flugmál í hverju ríki. Kostnaður vegna þessa tvöfalda kerfis er jafnframt verulegur. Með því að færa stjórn flugmála á Keflavíkurflugvelli undir beina yfirstjórn Flugmálastjórnar Íslands mætti ná samlegðaráhrifum, auka á skilvirkni og efla öryggi í flugi. Sameiginlegur rekstur allra flugvalla í landinu mundi hafa í för með sér verulegan ávinning fyrir flugsamgöngur landsins.“ Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september í tengslum við brottför varnarliðsins kemur fram í 8. lið eftirfarandi texti þar sem segir, með leyfi forseta: „Við brotthvarf varnarliðsins er eðlilegt að yfirstjórn málaflokka og stjórnsýsla á Keflavíkurflugvelli breytist til samræmis við það sem almennt tíðkast í landinu og mun ríkisstjórnin vinna í því.“ Það sem hér er um að ræða er að gert er ráð fyrir því að umhverfismál falli að sjálfsögðu undir umhverfisráðuneyti með sama hætti og dómsmál og lögreglumál falli að verkefnum dómsmálaráðuneytis. Er að því unnið á sama hátt að samgöngumál og þar með flugvallarreksturinn heyrir þá undir samgönguráðuneytið. Þetta er held ég hinn eðlilegi gangur málsins. Það tekur einhvern tíma að vinna að þessu. Við þurfum að vanda allar þær breytingar og gera þær þannig að sem best takist til. Af þessu tilefni er rétt að fara aðeins yfir það að samkeppnin í fluginu í veröldinni er geysilega hörð. Við Íslendingar búum svo vel að vera í miðju Atlantshafinu og njótum þess að sinna þjónustu vegna tengiflugsins sem fer hér um og nýtur þjónustu á Keflavíkurflugvelli. Þar er margs konar rekstur og starfsemi. Ljóst er að vaxandi og auknar kröfur eru, það þekkjum við vel í samgönguráðuneytinu, um hagkvæmni í þessari starfsemi og kröfur um aukna afkastagetu og aukna flugvernd. Því eru flugöryggiskröfur stöðugt til meðferðar. Það er því verkefni okkar, m.a. í samgönguráðuneytinu, að vinna að þeim breytingum sem eru nauðsynlegar til þess að við Íslendingar getum áfram staðið okkur vel í þeirri hörðu samkeppni sem er á þessum flugleiðum og veitt sem besta, öruggasta og ódýrasta þjónustu. Mat mitt er að það gerum við best með því að ná saman kröftum okkar undir einum stjórnunaraðila sem ræki alla flugvelli landsins. Falla þar með skoðanir mínar saman við það sem m.a. flugráð, forsvarsmenn flugfélaganna Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr og greinargóð svör og fagna áliti hans og vil því hvetja hæstv. samgönguráðherra í ljósi þess sem komið hefur fram að hefja undirbúning að sameiningu þessara tveggja stofnana, Flugmálastjórnar Íslands og Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli. Ég vona hins vegar að undir því verði þá flugstöðin á Keflavíkurflugvelli. Hún hefur verið undir utanríkisráðuneytinu síðustu ár en nær væri að flugstöðin sameinaðist nýju opinberu hlutafélagi sem sérhæfir sig í flugstarfsemi og heitir Flugstoðir, og kemur til með að hefja starfsemi 1. janúar 2007. En þannig væri hægt að nýta krafta og sérhæfingu starfsmanna og til að efla samkeppni á sviði flugsins og takast á við hinar auknu kröfur sem eru lagðar á flugstarfsemi. Virðulegur forseti. Það er hverju orði sannara að kröfurnar sem gerðar eru til þessarar þjónustu eru stöðugt að aukast og mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga að standa vel að henni. Það höfum við vissulega gert. Þess vegna hefur ferðaþjónustan og flugstarfsemin á nánast öllum sviðum verið að aukast. Hér hefur vaxið upp feiknalega öflugur hópur sem hefur mikla reynslu og þekkingu bæði á sviði flugumsjónar og margs konar starfsemi sem fer fram í Keflavík, á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík og varðar þjónustu við millilandaflugið. Í því ljósi er ekki undarlegt að okkur Íslendingum hefur verið falið mjög mikilvægt verkefni á sviði flugumsjónar á Norður-Atlantshafi með sérstökum samningi við Alþjóðaflugmálastofnunina sem gerir miklar kröfur til okkar um þá þjónustu. Ég tel að starfsfólkið sem þar starfar hafi staðið afskaplega vel undir þeim væntingum og þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra sem sinna flugumsjóninni. Ég hlýt að nota tækifærið til að láta það koma hér fram. Ég á von á því að í framtíðinni verði ef til vill hægt að auka þessa starfsemi alla. Við erum meðal annars í útrás ef svo mætti segja á vettvangi flugumsjónar og flugvallarrekstrar. Flugmálastjórn Íslands hefur tekið að sér verkefni erlendis bæði í Kosovo og Kabúl þannig að okkar fólk er út um víðan völl í veröldinni að nýta þekkinguna í þágu uppbyggingar og frekari starfsemi íslenskra flugmála. Fyrir það hljótum við að vera þakklát. Hæstv. forseti. Það hefur komið fram opinberlega að deilur eru milli ríkis og sveitarfélaga um greiðsluþátttöku þessara aðila í kostnaði vegna lengdrar viðveru fatlaðra grunnskólabarna. Um er að ræða lengda viðveru í grunnskólum hjá fötluðum börnum 10–16 eða 18 ára. Ágreiningurinn snýst um hvort lengd viðvera falli undir lög um málefni fatlaðra eða almenna þjónustu sveitarfélaga við grunnskólabörn. Svo virðist sem komin sé upp alger pattstaða. Það gengur ekki því að á meðan líður fjöldi fatlaðra einstaklinga, en opinberlega hefur verið nefnt að um sé að ræða 370 fatlaða einstaklinga, foreldra þeirra og aðstandendur sem þurfa jafnvel að minnka við sig vinnu vegna þessara kerfisdeilna ef svo má kalla það. Það er ólíðandi að deilur milli ríkis og sveitarfélaga bitni með fullum þunga á hundruðum fatlaða grunnskólabarna og foreldrum þeirra. Ekki er deilt um hvort þörfin sé fyrir hendi heldur um það hvort það sé hlutverk ríkis eða sveitarfélaga að veita þessa þjónustu og síðan hvað hún kostar. Ef lagaákvæði eru óljós á strax að breyta þeim. Ríki og sveitarfélög greinir líka á um útgjöldin vegna þessarar þjónustu sem ríkið metur á rúmlega 100 millj. kr. en sveitarfélögin meta á nær 200 millj. kr. Ríkið vill setja hámark á greiðslurnar og greiða einungis samanlagt 50–55 millj. kr. og inni í því er 45 millj. kr. kostnaður sem þegar er greiddur vegna lengdrar viðveru fatlaðra barna á sjálfseignarstofnunum sem hagsmunasamtök fatlaðra reka, eins og Lyngás. Ríkið virðist því einungis vera tilbúið til að leggja fram 10 millj. kr. af heildarkostnaði á bilinu 100–200 millj. kr. sem lengd viðvera 10–16 ára fatlaðra barna kostar og auðvitað er um að ræða óskir um enn lengri viðveru eða að minnsta kosti fram til 18 ára aldurs. Þetta er að mínu viti, virðulegi forseti, óviðunandi ástand sem verður að leysa og það strax. Ef þarf að breyta lögunum þá á að gera það og ef það eru deilur um hvað þessi þjónusta kostar - og það ber verulega í milli ríkis og sveitarfélaga í því efni - þá hefði ég talið að hæstv. félagsmálaráðherra ætti að skera úr því með því að fá óvilhallan aðila eins og Ríkisendurskoðun eða einhvern sambærilegan aðila til þess að meta með hlutlausum hætti hvað þessi þjónusta kostar. Síðan á auðvitað bara að skipta því á milli ríkis og sveitarfélaga þar til komin er niðurstaða í þetta mál, þ.e. lagalega, hvorum megin þetta á að liggja kostnaðarlega séð. En það er óviðunandi, virðulegi forseti, að þessi kerfisdeila skuli bitna á fötluðum börnum og foreldrum þeirra meðan stjórnvöld geta ekki hoggið á þennan hnút. Hæstv. forseti. Fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur varðar fötluð grunnskólabörn á aldrinum 10–16 ára. Með lengdri viðveru er átt við dægradvöl og aðstoð við heimanám sem veitt er grunnskólabörnum eftir að skólastarfi lýkur um kl. 1 og stendur til kl. 17 hvern skóladag. Fyrir liggur að hluti þeirra barna sem hér um ræðir nýtur þegar þjónustu ýmist hjá hagsmunasamtökum með greiðsluþátttöku ríkisins, hjá svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra sem starfræktar eru á vegum ríkisins eða á vegum sveitarfélaga. Varðandi yngri grunnskólabörnin á aldrinum sex til níu ára sem eru í fyrsta til fjórða bekk þá stendur þeim almennt til boða að fá þessa þjónustu hjá sveitarfélögum. Ekki skiptir þó máli hvort um fötluð eða ófötluð börn er að ræða. Í 1. gr. laga um grunnskóla, nr. 66/1995, segir að sveitarfélögum sé skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6–16 ára og í 27. gr. sömu laga segir að sveitarstjórn geti boðið grunnskólanemendum lengda viðveru utan daglegs kennslutíma. Í því felast engin sérstök tímamörk eða takmörk réttara sagt fyrir sveitarfélög hvað varðar umfang, form og fyrirkomulag þjónustu. Sveitarfélögum er falið að móta hana og útfæra. Í dag bjóða sveitarfélögin almennt upp á lengri viðveru fyrir grunnskólabörn á aldrinum sex til níu ára. Þá skiptir ekki máli hvort um fötluð eða ófötluð börn er að ræða. Þó liggur fyrir að erfiðleikar við mönnun á þjónustunni hafa sett hér strik í reikninginn. Eins og skýrt kemur fram í 7. gr. laga um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, skal ávallt leitast við að veita fötluðum þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þá segir í athugasemdum með frumvarpi til laganna að einungis eftir að í ljós hafi komið að hinn fatlaði hafi þörf fyrir aðra þjónustu en þá sem rúmast innan almennra laga skuli honum veitt þjónusta samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Hæstv. forseti. Í mars 2005 var skipaður starfshópur til þess að fjalla um lengda viðveru fatlaðra grunnskólabarna. Starfshópurinn var skipaður fulltrúum ráðuneyta og sveitarfélaga auk þess sem sérfræðingar frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Tryggingastofnun ríkisins og fulltrúi notenda komu að vinnunni. Starfshópurinn hélt alls 19 fundi og skilaði síðan af sér áfangaskýrslu með tillögum og greiningu hópsins þann 17. ágúst síðastliðinn. Starfshópurinn lagði til að gert yrði bráðabirgðasamkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um að lengd viðvera fatlaðra grunnskólabarna yrði tryggð áfram. Samhliða yrðu lög um málefni fatlaðra endurskoðuð og settur yrði skýr rammi þannig að skilgreina mætti hlutverk og ábyrgð ríkis og sveitarfélaga enn betur þegar kæmi að lengri viðveru fatlaðra grunnskólabarna. Reynt var að komast að samkomulagi um kostnað og kostnaðarskiptingu verkefnisins og var af hálfu ríkisvaldsins lagt fram tilboð um framlag ríkisins til verkefnisins. Tilboð ríkisins byggðist á tilteknu fjármagni auk þess að reiknuð voru með núverandi framlög ríkisins til þeirra sjálfseignarstofnana og hagsmunasamtaka sem sjá um þjónustu við fötluð grunnskólabörn og jafna má við lengda viðveru. Hið sama á við þá starfsemi sem svæðisskrifstofur um málefni fatlaðra veita og jafna má við lengda viðveru fatlaðra grunnskólabarna. Núverandi framlög til þessa kæmu þannig til frádráttar útreiknuðum greiðslum ríkisins til lögheimilissveitarfélags. Sveitarfélögin hafa fram að þessu ekki viljað samþykkja þetta tilboð ríkisins en ég get upplýst hv. fyrirspyrjanda um það hér og nú að ég tel að lausn sé nú í sjónmáli. Ég hef litið á þetta mál sem forgangsmál sem okkur, bæði ríki og sveitarfélögum, beri að leysa. Ég hef þó ítrekað fundað með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna málsins bæði fyrrverandi og núverandi formönnum og óskað eftir ítarlegri upplýsingum af þeirra hálfu um hugsanlegan heildarkostnað. Síðast í gær áttum við afar gagnlegan fund þar sem mikill samhljómur var um málið. Allir málsaðilar eru sammála um nauðsyn þess að úrræði þetta standi fötluðum unglingum og foreldrum þeirra til boða og mér finnst ófært að óljósar upplýsingar um kostnað og framboð á þörf og þjónustu í dag standi í vegi fyrir því að þeir sem það kjósi fái þessa þjónustu. Fyrir þann fatlaða og fjölskyldu hans skiptir engu máli hvaða opinber aðili veitir þjónustuna eða greiðir fyrir hana. Mestu skiptir að hún sé veitt þannig að fjölskyldan geti lifað sem eðlilegustu lífi í sínu samfélagi. Hæstv. forseti. Ég er bjartsýnn á að gengið verði frá samkomulagi á milli ríkisins og sveitarfélaganna sem tryggir umrædda þjónustu fyrir fötluð grunnskólabörn innan skamms. Það verðum við einfaldlega að gera og til þess stendur fullur vilji beggja aðila. Það fullyrði ég. Virðulegur forseti. Foreldrar fatlaðra grunnskólabarna eiga við það óviðunandi ástand að stríða að fá ekki gæslu fyrir börn sín að loknum skóladegi. Hvernig bregðumst við við? Jú, málið er í nefnd í eitt og hálft ár og það er enn þá óleyst. Ég fagna þeim vilja sem lýsir af orðum nýs félagsmálaráðherra og treysti því að orð hans hér um að samkomulag sé innan seilingar standi og eftir þeim verður gengið í þinginu. En ég hlýt líka að kalla eftir því að við tryggjum þessum börnum og unglingum réttinn til þessarar þjónustu með lögum en undirseljum þau ekki samningum eða velvild sveitarfélaganna og ríkisins á hverjum tíma. Ég hvet hæstv. félagsmálaráðherra til að hafa forgöngu um þær lagabreytingar og fullvissa hann um að Frú forseti. Allir eiga að vera jafnir. Lengd viðvera eða svokallaðar frístundamiðstöðvar fyrir grunnskólabörn sem ekki geta séð um sig sjálf að loknum skóladegi hefur öðlast fastan sess í þjóðfélagi okkar. Hugmyndin að þessu fyrirkomulagi tengist upphaflega jafnréttissjónarmiðum, að gera báðum foreldrum kleift að vinna utan heimilis. Þessi þjónusta á að ná til allra, jafnt fatlaðra sem ófatlaðra. Ríki og sveitarfélög verða að koma sér saman um hverjir eiga að greiða kostnaðinn því áralöng deila bitnar á þeim sem síst skyldi. Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra svörin. Það er hverju orði sannara sem hæstv. ráðherra segir að það er ófært að óljósar upplýsingar um kostnað eða hver eigi að standa að þessari þjónustu, standi í vegi fyrir því að þessi þjónusta sé veitt. Fötluð börn og foreldrar þeirra hafa beðið ansi lengi. Það er ansi langt nefndarstarf að það taki eitt og hálft ár að komast að niðurstöðu um það hvernig eigi að taka á málinu. Hæstv. ráðherra upplýsir að lausn sé í sjónmáli og það innan skamms. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra nánar út í þetta samkomulag. Má ekki líta svo á, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra hafi hér verið að lýsa því yfir að samkomulag sé í höfn milli ríkis og sveitarfélaga? Ég spyr um það. Hefur samkomulag náðst bæði varðandi kostnaðarhliðina og varðandi það hvernig staðið skuli að lagabreytingu þannig fyrir liggi hvort ríki eða sveitarfélög eigi í framtíðinni að standa undir þessu eða hvort ríki og sveitarfélög eigi að gera það sameiginlega? Ég spyr hæstv. ráðherra hvort við eigum von á frumvarpi inn í þingið til að tryggja réttinn með lögum þannig að það liggi alveg fyrir að ekki verði eilífar deilur um þetta frá ári til árs, þ.e. að þetta mál verði leyst til frambúðar og fatlaðir og foreldrar þeirra geti gengið að því vísu að þeir fái þessa sjálfsögðu þjónustu. Ég spyr: Hvenær fæst þessi niðurstaða? Þurfum við að bíða eftir að frumvarp verði lagt inn í þingið eða verður viðunandi lausn fyrir þessa aðila fundin strax? Ef ég skil málið rétt þá fá ekki fötluð börn núna á aldrinum frá 10–16 ára neina þjónustu. Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af því sem hér hefur komið fram og byggir á gögnum, þ.e. hver fjöldi viðkomandi barna er sem hér um ræðir, þá vil ég taka það fram að það hefur komið út úr þeirri vinnu sem unnin hefur verið að það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir því nákvæmlega hversu mikill fjöldi barna mundi nýta sér þessa þjónustu. Það er einn af þessum óljósu þáttum í þessu. Síðan er hitt að sum sveitarfélög veita þessa þjónustu á sínum forsendum þannig að ef við horfum yfir allt sviðið þá er þetta mál alls ekki einhlítt. Það er mjög mismunandi hvernig á þessu er tekið. Ríkið er að leggja ákveðna fjármuni í að veita tilteknum hópi þessa þjónustu. Ég nefni dæmi að Reykjavíkurborg gerir það einnig þannig að þetta er ekki mjög einfalt mál. Ég vil segja frá því að verið er að vinna að endurskoðun á lagaumhverfinu í þessu máli og ég vona svo sannarlega að því ljúki sem fyrst. En ég vil líka segja að mér finnst persónulega þetta mál dæmi um mál sem er á hinu gráa svæði sem liggur á milli ríkis og sveitarfélaga og segir okkur kannski hversu mikilvægt sé að fá hreinar línur í þessa verkaskiptingu. Ég nefni það hér að mér finnst þetta gott dæmi um hversu mikilvægt sé að skerpa þessar línur til fá á hreint þessa verkaskiptingu. Við höfum verið að ræða þetta bæði hjá félagsmálaráðuneyti og Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég geri ráð fyrir að við munum fara í gegnum þá umræðu núna fljótlega hvað varðar hugsanlegan flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaganna. En það er allt of snemmt að segja til um það reyndar núna. Hv. þingmaður spurði um samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga. Ég get því miður ekki upplýst um það á þessari stundu. Ég sagði frá því í minni fyrri ræðu að við áttum fund síðast í gær um málið og ég er mjög bjartsýnn á að okkur takist að leysa þetta mjög fljótlega. Hæstv. forseti. Fyrir tveimur til þremur árum flutti ég ásamt nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna. Tillagan fól í sér að ríkisstjórninni yrði falið að láta undirbúa framkvæmdaáætlanir til sex ára með það að markmiði að ná fram fullu launajafnrétti kynjanna í samræmi við ákvæði 14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Framkvæmdaáætlanirnar áttu að vera tvær, annars vegar fyrir opinbera vinnumarkaðinn og hins vegar fyrir almenna vinnumarkaðinn. Þær átti að vinna í samráði við aðila vinnumarkaðarins og Samband ísl. sveitarfélaga og í þeim settar fram tímaáætlanir um aðgerðir. Það átti einnig að vera heimilt að beita ákvæðum 22. gr. jafnréttislaga um jákvæða mismunun að undangenginni rannsókn á launamun kynjanna og öðrum þáttum launakjara. Efnislega var þessi tillaga samþykkt héðan frá Alþingi þannig að hún var felld inn í framkvæmdaáætlun um jafnréttismál til fjögurra ára sem var samþykkt á Alþingi fyrir tveimur og hálfu ári síðan. Efnislega tók því þingið undir það að þessi framkvæmdaáætlun yrði gerð. Nú eru liðin tvö og hálft ár. Ég spurði þáverandi félagsmálaráðherra Árna Magnússon fyrir um það bil ári um hvað liði framkvæmd þessarar tillögu og hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra upplýsti þá að hann hefði ýtt af stað vandaðri og góðri könnun um launamyndun og kynbundinn launamun sem væri endurtekning á viðurkenndri könnun sem Félagsvísindastofnun vann árið 1995. Jafnframt upplýsti ráðherrann að fyrir lægi að nýtt launakerfi sem byggði á nýjum stofnanasamningum mundi taka gildi 1. maí 2006. Þegar þetta tvennt lægi fyrir, þessi endurtekna könnun Félagsvísindastofnunar og stofnanasamningar - þ.e. þetta tvennt mundi leggja grunn að þessari framkvæmdaáætlun sem ráðherra boðaði að yrði hrint í framkvæmd og kæmi til framkvæmda af fullum krafti á þessu ári. Í þessari tillögu til þingsályktunar sem ég vitnaði til og ég flutti ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar var vitnað til þess hvað launamunur kynjanna er gífurlega mikill hér á landi. Bæði var það í þessari könnun Félagsvísindastofnunar og eins í könnun sem var gerð á vegum Sambands íslenskra bankamanna. Þar kom fram - ég hef ekki tíma til að nefna það -gífurlega mikill launamunur og auðvitað er nauðsynlegt að taka á þessu skipulega eins og við höfum lagt til og fram kom í þessari framkvæmdaáætlun. Það eru 45 ár á þessu ári síðan fyrst voru sett lög um launajafnrétti kynjanna sem átti að ná fram á næstu sex árum. En eins og við þekkjum þá var það ekki gert vegna þess að atvinnurekendur hafa fundið aðrar leiðir og hið opinbera líka til að fara fram hjá lögunum með alls konar duldum greiðslum og fríðindum. Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spyr hvenær megi vænta þess að framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna taki gildi. Í því sambandi ber fyrst að nefna að gerð þessarar áætlunar er einn af 16 liðum í gildandi framkvæmdaáætlun um jafnréttismál sem félagsmálaráðuneytið ber ábyrgð á eða er samstarfsaðili í. Áætlunin er til fjögurra ára og nær til ársins 2008. Ég mun á yfirstandandi þingi leggja fram tillögu til þingsályktunar um að endurskoða framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum ásamt skýrslu um stöðu og þróun í jafnréttismálum þar sem gerð verður ítarleg grein fyrir stöðu mála og verkefna. Verkefni um framkvæmdaáætlun um launajafnrétti hefur verið undirbúið með rannsóknum og kortlagningu á stöðu mála hér á landi. Árið 2004 þegar Ísland gegndi formennsku í norrænu samstarfi beitti félagsmálaráðuneytið sér fyrir norrænu samanburðarverkefni undir heitinu Mælistikur á launajafnrétti á Norðurlöndum. Voru niðurstöður þeirrar könnunar kynntar í vor. Rannsóknin telst jafnframt hluti af gildandi framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og í niðurstöðum könnunarinnar kom fram að viss stöðnun virðist ríkja í þróun launajafnréttis á Norðurlöndum. Í samræmi við gildandi framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára réðst félagsmálaráðuneyti jafnframt í viðamikla könnun á launamyndun og kynbundnum launamun hér á landi. Rannsóknin er endurtekning á rannsókn sem gerð var fyrir rúmum áratug eða árið 1994, eins og hv. fyrirspyrjandi hefur þegar nefnt um, þá þætti sem hafa áhrif á laun og starfsframa kvenna og karla. Rannsóknin tók til fjögurra opinberra fyrirtækja og fjögurra einkafyrirtækja, þeirra sömu og tóku þátt í könnuninni fyrir rúmum tíu árum. Það þykir auka mjög gildi hennar. Markmiðið með könnuninni var að fá fram stöðu mála og kanna hvort sömu þættir hafi enn áhrif á laun karla og kvenna nú og fyrir rúmum tíu árum. Ég vil hér með upplýsa hv. þingmann um það að niðurstöður þessarar viðamiklu könnunar voru kynntar mér í fyrradag og ég hyggst kynna þær á morgun á blaðamannafundi. Niðurstöðurnar eru mjög áhugaverðar. Að vissu leyti eru þær mjög jákvæðar og gefa tilefni til bjartsýni en því miður að vissu leyti neikvæðar og benda til stöðnunar. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að allnokkrar breytingar hafi orðið á starfsumhverfi og starfsháttum, vinnutíma og viðhorfi kynjanna. Þá er launamunurinn minni hjá hinu opinbera en á almenna markaðnum en auðvitað með öllu óásættanlegur á báðum sviðum. Það vil ég undirstrika sérstaklega í þessari umræðu. Ég vil nefna hér auk þeirra tveggja rannsókna sem ég nefndi áður að unnið er að nánari útfærslu launakerfis hjá hinu opinbera en nýtt launakerfi sem byggir á nýjum stofnanasamningum tók gildi 1. maí síðastliðinn. Það kerfi kemur að fullu til framkvæmda 1. maí 2007 en nú stendur yfir lokavinna við útfærslu kjarasamninga og stofnanasamninga. Heildarsamtök starfsmanna ríkis og sveitarfélaga hafa að sjálfsögðu komið að þeirri vinnu sem m.a. miðaði að því að útrýma kynbundnum launamun. Í félagsmálaráðuneytinu höfum við afhent kyngreindar upplýsingar og ég veit að slík upplýsingagjöf hefur bæði vakið menn til umhugsunar og haft jákvæð áhrif á launajafnrétti. Við höfum líka haft forgöngu um að vekja athygli á þessum málum hjá öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni og yfirstjórnum annarra ráðuneyta og stofnana. Við verðum að sýna gott fordæmi og sem stjórnendur og áhrifafólk eigum við að beita öllum tiltækum verkfærum. Hvað er til ráða þegar launamisrétti er annars vegar? Reynslan sýnir að ekki hefur tekist að uppræta launamisrétti eingöngu með rökrænum aðferðum eins og fræðslu, þekkingu, menntun og lagasetningu. Takmarkið launajöfnun gerir miklar kröfur til baráttuaðferða og aðgerða sem beitt er. Það hefur sýnt sig að konur tryggja sér ekki sömu laun og karlar með því einu að mennta sig. Lausnirnar hljóta því að byggja bæði á vilja og valdi og því að aðilar vinnumarkaðarins axli ábyrgð á vandanum og leysi hann í samvinnu við stjórnvöld sem bera ábyrgð á eftirfylgni gildandi laga á hverjum tíma. Varðandi fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur vil ég upplýsa að félagsmálaráðuneytið hefur þegar óskað eftir samstarfi við jafnréttisráð um gerð framkvæmdaáætlunar um launajafnrétti enda er hlutverk ráðsins að stuðla markvisst að jafnari stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla á vinnumarkaði. Þar eiga sæti fulltrúar helstu samtaka aðila vinnumarkaðarins, bæði á almenna og opinbera vinnumarkaðnum, og þótti því ástæða til að kalla ráðið til samstarfs. Verkefnið er því liður í vetrardagskrá jafnréttisráðs á komandi vetri og mun ráðið hafa samráð við þá aðila ef það telur ástæðu til við vinnu sína. Ekki er ljóst hvenær vinnu við framkvæmdaáætlun um launajafnrétti lýkur en markmiðið er að öllum verkefnum er falli undir ábyrgðarsvið félagsmálaráðuneytisins verði lokið á gildistíma áætlunarinnar eða árinu 2008. Í mínum huga leikur ekki nokkur vafi á því að brýnasta málið á sviði jafnréttismála er að vinna gegn launamun kynjanna. Einboðið er að leita nýrra leiða og hrinda í framkvæmd nýjum verkefnum til að ná þessum markmiðum. Þegar niðurstöður könnunarinnar voru kynntar mér nú í upphafi vikunnar ákvað ég þegar að kalla saman hóp fólks sem hefur greinargóða Frú forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrirspurnina og eftirgangssemina. Það þarf að ganga sífellt á eftir þessari ríkisstjórn þegar farið er út í einhverjar aðgerðir sem eiga skila árangri. Mér þykir dapurlegt að heyra hæstv. ráðherra lýsa getuleysi ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Þessi ríkisstjórn getur mælt og hún getur rannsakað og hún getur endurrannsakað og hún getur endurendurrannsakað og kannað og endurkannað áratugum saman. En hún getur ekki sýnt árangur í því að leiðrétta það misrétti sem konur þurfa að búa við úti á launamarkaði. Ríkisstjórnin er fullkomlega getulaus í þessum efnum og ræða hæstv. ráðherra ber þess auðvitað glöggt merki því menn eru ekki að setja orku sína í réttan farveg eða á rétta staði. Það hefur verið komið með tillögur inn á þingið um öflug tæki til að fara í að leiðrétta þann mismun sem er til staðar og þessi ríkisstjórn skellir skollaeyrum við þeim og vill ekki sjá þau. Virðulegi forseti. Í svari hæstv. ráðherra kom fram að stöðnun ríkir í þessum málum. Launamunur kynjanna er áfram gífurlegur. Áfram líðast mannréttindabrot í íslensku samfélagi. Launamunur kynjanna, ólík laun, lægri laun til kvenna fyrir sambærileg störf, er óþolandi smánarblettur á íslensku samfélagi. Það ríkir alger stöðnun í málaflokknum og það er ekkert að gerast. Það kallar að sjálfsögðu á ný tæki, ný úrræði og róttækari aðgerðir til að vinna bug á þessum mannréttindabrotum af því að þetta er ekkert annað. Það er óþolandi að þurfa að búa við það að konur fái ekki sömu laun og karlar og því fer meira að segja víðs fjarri. Úti á hinum almenna vinnumarkaði er þetta dýpri og alvarlegri vandi en nokkurn tíma fyrr og ef eitthvað er þá fer hann versnandi. Það er staðreynd sem við búum við og þess vegna verðum við að grípa til róttækari og harðari aðgerða til að vinna bug á þessu vandamáli. Virðulegi forseti. Það er ástæða til að byrja á því að hrósa félagsmálaráðuneytinu fyrir að hafa í þessum efnum tekið til í eigin ranni. En þar vinna nú kannski ekki ýkja margir Íslendingar. Ég held að sú lýsing sem hæstv. félagsmálaráðherra gaf á ástandinu sé lýsandi fyrir stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í málinu því að þegar við ræddum þetta hér fyrir nærri þremur árum síðan þá sögðum við að ef menn meintu eitthvað með því að þeir ætluðu að taka á hlutunum þá gerðu þeir áætlun um hvað þeir ætluðu að gera og framkvæmdu það síðan. Nú í lok kjörtímabilsins þegar ríkisstjórnin er að fara frá eru þeir ekki byrjaðir að gera neitt og þeir eru rétt að hefjast handa við að gera áætlun um það sem þá væntanlega næsta ríkisstjórn á að gera. Hæstv. félagsmálaráðherra er nýr á sínum stóli og ekki er hægt að álasa honum fyrir þetta. En þetta framtaksleysi ríkisstjórnarinnar lýsir bara því almenna áhugaleysi á launamisrétti kynjanna sem þar hefur ríkt allt þetta kjörtímabil Hæstv. forseti. Ég lýsti því hér áðan að 45 ár eru liðin síðan fyrst voru sett lög um launajafnrétti kynjanna. Ég held að í grófum dráttum megi segja að við stöndum í sömu sporum og þá. Launamisréttið hefur einungis tekið á sig aðra mynd með duldum greiðslum og fríðindum o.s.frv. og það er alveg sama hve oft lög eru sett um launajafnrétti kynjanna, sem hefur verið gert margsinnis á síðustu 45 árum. Unnar eru 100 skýrslur og kannanir, settar fram framkvæmdaáætlanir o.s.frv. en við stöndum í sömu sporum. Hæstv. ráðherra lýsir því yfir að nú muni ný könnun líta dagsins ljós og meginboðskapur hennar sé að áfram sé stöðnun ríkjandi í að koma á launajafnrétti kynjanna. Þetta gengur ekki, virðulegi forseti, og ég held að það sé nauðsynlegt að við fáum að ræða þá könnun sem hæstv. ráðherra boðar. Ég mun í framhaldi af þessari umræðu óska eftir umræðu utan dagskrár um þessa könnun ráðherra og það á að ræða frekar þessi mál. Það er komið að því, virðulegi forseti, að við þurfum að setja fram róttækar breytingar til að ná fram launajafnrétti kynjanna. Hið opinbera er ekkert betra en almenni vinnumarkaðurinn. Það hefur stuðlað, með duldum greiðslum og fríðindum, að launamisrétti kynjanna. Það kemur fram í þeirri tillögu sem ég lýsti áðan að konur sem starfa hjá einkafyrirtækjum eru með 35% hærri laun en konur í sambærilegu starfi og með sambærilega menntun hjá því opinbera. Hið opinbera þarf að taka til í sínum ranni. Ég vek athygli á því að tvö og hálft ár eru liðin frá því að þessi framkvæmdaáætlun átti að hefjast og eitt og hálft ár er eftir af þeim tíma sem hún á að vera í gildi. Ráðherra boðar að vísu endurskoðun hennar en lítið annað hefur verið gert en það sama og gert hefur verið undanfarin ár og áratugi, að setja fram skýrslur og kannanir. En við þurfum að fá að ræða þetta við hæstv. ráðherra frekar þegar ég er búin að leggja inn þessa beiðni um utandagskrárumræðu. Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Ég get tekið undir það með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það er mjög mikilvægt og nauðsynlegt að við ræðum þessi mál hér. Þetta er ástand sem við eigum ekki að sætta okkur við og gerum raunar ekki. Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að elta ólar við háttstemmda umræðu af hálfu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sem er hennar einkennismerki í ræðustóli. Ég læt það eiga sig. En ég vil geta þess að ég ætla mér að leita eftir samvinnu við aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir til að vinna gegn launamun kynjanna. Ég vísa til sambærilegra aðgerða sem teknar voru upp í Finnlandi í þessu sambandi og hafa gefið góða raun. Ég vil líka segja að við þurfum og verðum að ná einhvers konar þjóðarsátt um þessi mál. Það er ljóst að stjórnvöld ein geta ekki náð tilætluðum árangri. Þetta er miklu stærra og viðameira mál en svo. Endurskoðun jafnréttislaga stendur yfir og ég tel fulla ástæðu til að kanna hvort við getum fetað í fótspor Svía og Finna t.d. varðandi aðgengi trúnaðarmanna að launaupplýsingum. Ég mun senda niðurstöður þessarar nýju könnunar, sem ég minntist á áðan, til endurskoðunarnefndarinnar og óska eftir tillögum um úrbætur. Ég mun jafnframt koma þeim upplýsingum sem við höfum aflað okkur frá Finnlandi og Svíþjóð á framfæri við nefndina sem er að endurskoða jafnréttislögin. Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa lýst því að þetta ástand er ekki viðunandi og við verðum að leita allra leiða sem hugsanlegar eru til að bæta hér úr. Það fer ekkert á milli mála að til þess er fullur vilji og áhugi í félagsmálaráðuneytinu. Ég vil taka það skýrt fram þrátt fyrir það sem ýmsir hafa sagt í þessari umræðu og ég vísa til föðurhúsanna. Hæstv. forseti. Síðasta miðvikudag kynnti auðlindanefnd skýrslu sína, Framtíðarsýn um verndun og nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsafls, Í henni kemur fram að í ágúst sl. hafi verið í gildi fimm rannsóknarleyfi í jarðhita vegna orkuöflunar til stóriðjufyrirtækja. Þau leyfi eru á Hengilssvæðinu, Kröflusvæðinu, Þeistareykjum, Hágöngum og í Trölladyngju á Reykjanesi. Einnig kemur fram í skýrslunni að fyrirliggjandi umsóknir um rannsóknarleyfi vegna jarðhita séu 12. Þau svæði sem þar um ræðir eru Brennisteinsfjöll, Fremri-Námar, Gjástykki, Grændalur, Kelduhverfi, Kerlingarfjöll, Krýsuvík og Torfajökulssvæðið. Það er svo sem ekki tilefni til að rekja í löngu máli þá vaxandi andstöðu sem áform orkufyrirtækjanna um orkuöflun vegna stóriðju hafa mætt en vegna þessarar ásóknar hafa áhugasamir náttúruverndarar reynt að finna leiðir til að setja einhver mörk, reisa orkufyrirtækjunum einhvers konar skorður í þeim efnum. Landvernd setti nýverið fram hugmyndir um eldfjallagarð á Reykjanesi og fyrirspurn varðandi þann garð liggur reyndar fyrir á þskj. 199 til umhverfisráðherra, sem hæstv. ráðherra fær vonandi tækifæri til að svara í næsta fyrirspurnatíma Alþingis. Þann 7. september gekkst Landvernd fyrir málþingi um hugmyndina um eldfjallagarð á Reykjanesi í Norræna húsinu. Þar talaði fyrir hönd umhverfisráðuneytisins Ingimar Sigurðsson skrifstofustjóri. Í máli hans komu fram áhyggjur af stöðu háhitasvæðanna vegna ásóknar orkufyrirtækjanna. Ingimar sagði mikilvægt að ekki yrði ráðist í framkvæmdir á þeim háhitasvæðum sem ekki hefðu verið metin út frá verndargildi og að takmarka yrði útgáfu rannsóknarleyfa, jafnt á Reykjanesi sem og annars staðar á landinu, þar til framtíðarstefna um verndun og nýtingu hefði verið mörkuð. Slík framtíðarstefna mun verða mótuð á næstu árum verði farið að tillögum auðlindanefndar. Það verður þó ekki fyrr en í fyrsta lagi 2010 sem gert er ráð fyrir að þær tillögur liggi fyrir samkvæmt þeirri skýrslu sem ég áður nefndi. Nú er það lögum samkvæmt iðnaðarráðuneyti sem veitir leyfi til rannsóknar og nýtingar á orku á háhitasvæðum en því ber að leita umsagnar umhverfisráðuneytis áður en leyfin eru veitt. Í máli Ingimars Sigurðssonar á áðurnefndu málþingi kom fram að í ráðuneytinu lægju fyrir óskir frá orkufyrirtækjunum um rannsóknarboranir, að stofnanir ráðuneytisins hefðu gefið álit í samræmi við hlutverk þeirra og að málið væri til afgreiðslu í ráðuneytinu. Því spyr ég hæstv. umhverfisráðherra: 1. Hvaða umsagnir hefur ráðuneytið gefið iðnaðarráðuneytinu vegna umsókna um rannsóknarleyfi vegna orkuöflunar á háhitasvæðum á tímabilinu 2004–2006? 2. Hver er stefna ráðuneytisins varðandi orkuöflun á háhitasvæðum sem jafnframt hafa mikið verndargildi? Frú forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir spyr mig tveggja spurninga. Fyrri spurningin lýtur að því hvaða umsagnir ráðuneytið hafi gefið iðnaðarráðuneytinu vegna umsókna um rannsóknarleyfi vegna orkuöflunar á háhitasvæðum og tímabilið er 2004–2006. Svo háttar til að á þessu árabili hefur umhverfisráðuneytið gefið umsagnir um átta erindi frá iðnaðarráðuneytinu um umsóknir um leyfi til rannsóknarborana vegna orkuöflunar á jarðhitasvæðum, bæði á háhita- og lághitasvæðum. Svar mitt er í átta liðum. 1. Umsókn Hitaveitu Suðurnesja um nýtingu háhita innan iðnaðarsvæðisins á Reykjanesi var svarað 11. mars 2004. Í umsögn sinni gerði ráðuneytið ekki athugasemd við að veitt yrði leyfi innan iðnaðarsvæðisins á Reykjanesi enda yrði út frá því gengið að skilyrði í úrskurði ráðuneytisins um nýtingu jarðhita á Reykjanesi frá 17. maí 2000, og samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og öðrum lögum og reglum, verði fylgt. 2. Umsókn Landsvirkjunar vegna jarðhita við Gjástykki í Mývatnssveit var svarað af hálfu ráðuneytisins 8. desember 2004 og 25. janúar 2005 en í því tilviki gerði umhverfisráðuneytið ekki athugasemd við að veitt yrði leyfi á grundvelli umsóknarinnar. 3. Umsókn Hitaveitu Suðurnesja um rannsóknarleyfi fyrir orkuöflun í Brennisteinsfjöllum var svarað 3. júní 2006. Í því tilviki lagðist umhverfisráðuneytið gegn því að veitt yrði leyfi til rannsókna og nýtingar jarðhita í Brennisteinsfjöllum. 4. Umsókn Hitaveitu Suðurnesja um rannsóknarleyfi fyrir orkuöflun í Krýsuvík og Trölladyngju var svarað 19. september 2006. Í því tilviki kvaðst umhverfisráðuneytið ekki geta tekið afstöðu til rannsókna á svæðinu fyrr en svæðið hefði verið afmarkað betur, minnkað og borunarstæði tilgreint. Jafnframt var bent á að jarðeðlisfræðilegum rannsóknum, sem ekki spilla landi, verði lokið áður en ákvörðun um áhrifameiri aðferðum verður beitt. 5. Umsókn Orkuveitu Reykjavíkur um stækkun staðarmarka og rannsóknarleyfi ásamt forgangi að nýtingarleyfi á jarðhita á Hellisheiðar- og Hengilssvæðinu var svarað 2. maí 2006. Í því tilviki óskaði ráðuneytið eftir því að lagðar yrðu fram ítarlegri upplýsingar um málið áður en gefin verður umsögn um það. 6. Umsókn Orkuveitu Reykjavíkur um rannsóknarleyfi og fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi í landi Berserkjaeyrar við austanverðan Kolgrafarfjörð var svarað 11. maí 2006. Í því tilviki gerði ráðuneytið ekki athugasemd við að leyfið yrði veitt. 7. Umsókn Sunnlenskrar orku ehf. um rannsóknir á jarðhita í Grændal í Ölfusi var svarað 24. maí 2006. Ráðuneytið óskaði í því tilviki eftir ítarlegri upplýsingum um rannsóknir og hvernig þær verði stundaðar án þess að svæðinu verði raskað. 8. Umsókn Orkuveitu Reykjavíkur um nýtingarleyfi á jarðhita í landi Munaðarness í Borgarfirði var svarað 1. mars 2004. Ráðuneytið gerði ekki athugasemd við að leyfið yrði veitt. Í öðru lagi spyr hv. þingmaður hver sé stefna ráðuneytisins varðandi orkuöflun á háhitasvæðum sem jafnframt hafa mikið verndargildi. Því er til að svara að það er mjög mikilvægt að sátt náist um vernd og nýtingu háhitasvæða. Í því tilviki legg ég áherslu á að hafa ber í huga að vernd er nýting og getur jafnvel verið þjóðhagslega arðsamari en orkunýting, t.d. ef litið er til ferðaþjónustu og ótvíræðrar sérstöðu á náttúru landsins á heimsvísu. Við mat á verndun háhitasvæða legg ég mikið upp úr því að sem stendur er unnið að öðrum áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Stefnt er að því að ljúka því verki á árinu 2009. Í þeirri vinnu er sérstaklega litið til háhitasvæða út frá verndargildi. Ég tel að það eigi að fara varlega í veitingu leyfa sem geta haft í för með sér röskun á háhitasvæðum og tel rétt að bíða niðurstaðna 2. áfanga áætlunarinnar áður en ákvarðanir þar að lútandi verða teknar. Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra þessi svör. Ég vil lýsa ánægju með að hæstv. ráðherra skuli gefa þá yfirlýsingu hér að hún telji rétt að bíða með veitingu frekari leyfa til orkuöflunar á háhitasvæðunum þar til 2. áfangi rammaáætlunar hefur litið dagsins ljós og þá væntanlega umfjöllun hennar eða staðfesting hennar á Alþingi. Sömuleiðis sýnist mér að í þeim leyfisveitingum eða umsögnum sem ráðuneytið hefur látið frá sér fara, og ég fæ svör við, að þar hafi verið uppi ákveðin tilhneiging til þess að rasa ekki um ráð fram í þessum efnum. Er það ánægjulegt. Því til staðfestingar er þessi afgreiðsla mála á óskum um rannsóknarboranir í Brennisteinsfjöllum, Krýsuvík, Trölladyngju og Hellisheiði og Grændal. Það er kunnara en frá þurfi að segja að veruleg átök standa yfir þessa stundina um þau svæði sem hér um ræðir. Við sjáum það á skýrslu auðlindanefndar. Samkvæmt henni ætti að heimila, án þess að Alþingi fengi þar nokkuð um sagt, ákveðna orkuöflun á jarðhitasvæðum sem falla í A- og B-flokk rammaáætlunar, rammaáætlunar sem hefur ekki fengið neina staðfestingu á Alþingi eða umfjöllun. Það er því mjög mikils virði að umhverfisráðuneytið skuli hafa þá afstöðu sem kemur fram í svari ráðherra. Ég vona þá líka að hæstv. ráðherra geti staðið í ístaðinu í þessum efnum í ráðuneyti sínu nú alveg á næstunni. Það má búast við því að á grundvelli skýrslu auðlindanefndar komi veruleg krafa frá orkufyrirtækjunum um að rannsóknarleyfi á þeim svæðum sem getið er um í A- og B-flokki rammaáætlunar 1. hluta verði gefin út. Frú forseti. Hv. þingmaður leggur áherslu á hversu mikils virði það sé að ráðuneytið hafi þá afstöðu sem fram hafi komið í svörunum. Af því tilefni vil ég árétta að umsögn ráðuneytisins er gefin að fenginni umsögn bæði Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar. Á grundvelli þeirra umsagna kemur umhverfisráðuneytið sjónarmiðum sínum á framfæri við þann aðila sem er leyfisveitandinn, þ.e. iðnaðarráðuneytið í þessu tilliti. Það er rétt að halda því til haga í þessu að umsagnir umhverfisráðuneytis hafa verið ákvarðandi um útgáfu leyfanna til þessa, þ.e. engin leyfi hafa verið veitt í bága við umsagnir ráðuneytisins. Með þessu vil ég leggja áherslu á mikilvægi umsagna umhverfisráðuneytis í umræddum leyfisveitingum. Ég árétta að ég lít þannig á að þar til þessi mál hafa verið til lykta leidd eigi að fara eftir ábendingum verkefnisstjórnar 1. áfanga rammaáætlunar. Niðurstöður hennar, eins og við vitum, voru kynntar í nóvember 2000. Við eigum að líta til þeirra svæða sem fengu einkunnina A og B og þá að teknu tilliti til þess að gögn um umhverfisáhrif séu nægjanlega góð. Hvað varðar þau svæði sem fengu einkunnina B, tel ég að eingöngu eigi að líta til þeirra kosta þar sem ekki er ágreiningur um umhverfisáhrif. Ég tel að á þann hátt sé hægt að skapa góða sátt um framkvæmdina þar til niðurstöður úr öðrum áfanga rammaáætlunarinnar liggja fyrir. Í framhaldi af því verki er fyrirhugað að vinna samræmt heildarmat fyrir allar þær virkjanir sem hafa verið til umfjöllunar í 1. og 2. áfanga áætlunarinnar og þá með hliðsjón af umhverfisáhrifum, heildarhagnaði og loks arðsemi. Frú forseti. Lengi hefur verið þörf á að koma á laggirnar námi í fótaaðgerðafræði á Íslandi. Starfsgreinaráð heilbrigðis- og félagsgreina, sem menntamálaráðherra skipaði á sínum tíma, fjallaði um tillögur að námskrá í fótaaðgerðafræði og sendi menntamálaráðherra tillögur sínar. Þar var lagt til að nám í fótaaðgerðafræði yrði þriggja ára nám á framhaldsskólastigi. Nám í fótaaðgerðafræði hefur verið að lengjast erlendis. Í reglugerð um menntun, réttindi og skyldur fótaaðgerðafræðinga er vandlega farið yfir þær kröfur sem gerðar eru til stéttarinnar og þeirra skóla erlendis sem mennta þessa fagstétt. Þar kemur jafnframt fram að fótaaðgerðafræðingum er m.a. gert að þekkja ákveðin sjúkdómseinkenni og leita samráðs við lækna í slíkum tilfellum. Við erum að tala um fagstétt sem m.a. fær fólk með alvarlega og hættulega sjúkdóma í hendur og því afar mikilvægt að vel sé til náms hennar vandað. Nú er búið að auglýsa nám í fótaaðgerðafræði sem hefjast á hjá einkaskóla í janúar á næsta ári. Samkvæmt heimildum mínum á að vera um 14 mánaða nám að ræða og engar kröfur gerðar um grunnnám samkvæmt auglýsingu. Kostnaður við námið á að vera hátt á aðra milljón á nemanda. Það er ansi langt á milli 14 mánaða og þriggja ára námstíma eins og starfsgreinaráð heilbrigðis- og félagsgreina leggur til, virðulegi forseti. Á heimasíðu skólans kemur fram að menntamálaráðherra hafi veitt leyfi og að námskrá sé væntanleg. Í menntamálaráðuneytinu fást þau svör að námskrá liggi ekki fyrir. Mér er því spurn: Hvaða faglegar forsendur liggja til grundvallar leyfisveitingu til skólans? Í lögum um framhaldsskóla og lögum um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum framhaldsskólakennara og skólastjóra eru skýr ákvæði um þær kröfur sem gerðar eru til þeirra er veita námi eða skóla forstöðu og til þeirra er kenna, þeim ber að hafa kennsluréttindi og reynslu af kennslu. Á Íslandi eru fjórir fótaaðgerðafræðingar með kennsluréttindi. Enginn þeirra hefur ráðið sig til skólans eða hyggst ráða sig þangað. Skólastjórinn er ekki með kennsluréttindi og ekki kennslureynslu. Menntamálaráðherra virðist því heimila að gengið sé fram hjá lögum sem heyra til hennar eigin fagráðuneytis. Að ofangreindu sögðu tel ég ástæðu til að efast um að nægilega faglega sé staðið að þessu námi og spyr því: Hefur menntamálaráðherra veitt leyfi til kennslu í fótaaðgerðafræði á Íslandi? Ef svo er, hvaða faglegar kröfur eru gerðar til starfseminnar og hvaða faglegar kröfur eru gerðar til þeirra sem annast kennslu í fótaaðgerðafræði? Hefur verið tekið tillit til niðurstöðu nefndar sem starfaði á vegum heilbrigðisráðuneytis og menntamálaráðuneytis við undirbúning náms í fótaaðgerðafræði við leyfisveitinguna? Hefur starfsmenntaráð verið með í ráðum við undirbúning skólans? Frú forseti. Það er ágætt að fá að koma því á framfæri og rétt að koma að því strax í upphafi þessa svars, því það hefur greinilega mikið verið sagt og mikið skrifað varðandi þessa fyrirspurn, að ekki hefur verið gefið leyfi til að kenna fótaaðgerðafræði hér á landi en hins vegar liggur fyrir umsókn um viðurkenningu á námi í fótaaðgerðafræði. Hafa ber í huga, frú forseti, að menntamálaráðherra veitir skólum viðurkenningu samkvæmt 41. gr. framhaldsskólalaga og lögum nr. 108/1999, um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi. Viðurkenning getur annars vegar náð til framhaldsskóla þar sem starfsemi þeirra miðast við að veita nemendum undirbúning til starfa í atvinnulífinu í samræmi við almennar kröfur og/eða að starfrækja nám á framhaldsskólastigi, annaðhvort heildstætt nám samkvæmt aðalnámskrá eða hluta þess. Menntamálaráðuneytið hefur haft til skoðunar tillögur að námskrá til kennslu í fótaaðgerðafræði sem Snyrtiskólinn í Kópavogi hyggst taka upp kennslu í, en sá skóli hefur haft viðurkenningu menntamálaráðuneytisins frá árinu 2002 til að kenna snyrtifræði. Í bráðabirgðasvari menntamálaráðuneytisins til skólans í sumar eftir að fyrri námskrárdrögin höfðu borist voru tilgreind ýmis skilyrði sem uppfylla þyrfti til að námskráin yrði samþykkt. Meðal annars þurfti að gera grein fyrir hvaða inntökuskilyrði skólinn setti, fyrirkomulagi starfsþjálfunar, útvega kennara sem uppfylltu faglegar kröfur og enn fremur að fullgera námskrána. Gefið var vilyrði fyrir viðurkenningu skólans til kennslu í fótaaðgerðafræði og þar með samþykki námskrárinnar að öllum þessum skilyrðum fullnægðum. Þá fyrst er hægt að fá viðurkenningu ráðuneytisins þegar þessi skilyrði hafa verið uppfyllt. Eins og ég sagði hafa nú borist endurbætt námskrárdrög sem verða að sjálfsögðu send nýskipuðu starfsgreinaráði heilbrigðis- og félagsgreina til efnislegrar umsagnar. Það er rétt að menn hafi þetta í huga. Að fenginni þeirri umsögn verður fyrst tekin ákvörðun um viðurkenningu skólans til kennslu í fótaaðferðafræði á grundvelli samþykktrar námskrár í faginu eða hvort gera þurfi viðbótarkröfur til innihalds námsins. Síðan spyr hv. þingmaður: „Hefur verið tekið tillit til niðurstöðu nefndar sem starfaði á vegum heilbrigðisráðuneytis og menntamálaráðuneytis við undirbúning náms í fótaaðgerðafræði?“ Hér er væntanlega átt við starfshóp sem ráðuneyti menntamála skipaði 1998 með fulltrúum Félags fótaaðgerðafræðinga, heilbrigðisráðuneytis og Ármúlaskóla til að athuga möguleika á að koma á fót námsbraut í fótaaðgerðafræði hér á landi og semja námskrá fyrir slíkt nám. Starfshópurinn skilaði tillögum til menntamálaráðherra árið 2000. Þar var lagt til að komið yrði á fót námi í fótaaðgerðafræði hér á landi um leið og aðstaða sé fyrir hendi. Námið yrði þá 157 einingar á framhaldsskólastigi - rétt er að geta þess að í Danmörku sem margir vitna til eru einingarnar sambærilegar við 73 á Íslandi - og stefna ætti að því að koma þessu námi fyrir við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Forsenda þess að skólinn gæti tekið við náminu var hins vegar að húsnæði hans yrði stækkað. Viðbygging við Ármúlann hefur dregist á langinn en er nú loks komin á skrið eins og menn þekkja eftir samkomulag Reykjavíkurborgar og ráðuneytisins um stækkun fimm framhaldsskóla. Vegna aðstöðuleysis í skólanum var því ekki hægt að hrinda tillögum starfshópsins í framkvæmd en það kemur væntanlega til athugunar með stækkun Fjölbrautaskólans við Ármúla. Starfshópurinn gerði einnig tillögur um innihald námskrár og verða þær að sjálfsögðu hafðar til hliðsjónar við námskrárgerðina sem nú er að hefjast. Loks er spurt: „Hefur starfsmenntaráð verið með í ráðum?“ Ég tel mig þegar hafa gert grein fyrir aðkomu starfsgreinaráðs í heilbrigðis- og félagsgreinum en það kom fram hjá mér áðan að við munum að sjálfsögðu senda námskrárdrögin til umsagnar starfsgreinaráðsins í heilbrigðis- og félagsgreinum. Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, fyrir að taka þetta mál upp. Hæstv. menntamálaráðherra kom inn á það áðan að ekki liggi fyrir leyfi fyrir þessu námi. Ég spyr því af hverju verið sé að bjóða upp á námið strax í janúar. Ég verð að viðurkenna að ég hef kynnt mér þetta mál ágætlega og finnst ýmsu vera ábótavant, ekki síst þar sem segir í lögum að þegar fara eigi af stað með slíkt nám verði að eiga sér stað samráð við fagstéttina. Það hefur greinilega ekki verið gert á byrjunarstigi málsins en er komið í farveg núna og ég vona að fagstéttin muni þá fá tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að. Ég held að menn hefðu kannski átt að hinkra aðeins við og gefa ekki græna ljósið svo fljótt. Í þessu felst líka viðurkenning ráðuneytisins, ef ég fer rétt með, þannig að nemendur geta fengið námslán og þar með viðurkennir ríkið auðvitað nám og greiðir með því vegna þess að ríkið greiðir með námslánum. Mér finnst röðunin í þessu máli ekki alveg vera rétt. Frú forseti. Já, þetta er ákaflega sérkennilegt mál. Ég fagna því að hæstv. menntamálaráðherra lýsir því yfir að hún hafi ekki gefið leyfi fyrir þessu námi en því var haldið fram á aðalfundi fótaaðgerðafélagsins á dögunum af fulltrúum frá Snyrtiakademíunni sem hyggst hefja þetta nám nú um áramótin að þeir hefðu þetta leyfi og að menntamálaráðuneytið mundi veita undanþágu fyrir því að þeir sem ætluðu að kenna þarna hefðu ekki kennsluréttindi. Fótaaðgerðafræðingar sem starfa hér á landi sem heilbrigðisstétt hafa ekki einu sinni leyfi til að taka nema en svo ætlar Snyrtiakademían að fara að hefja kennslu, eftir því sem fulltrúar þaðan segja, með fótaaðgerðafræðingum sem hafa ekki einu sinni kennsluréttindi. Ég bið hæstv. ráðherra að hafa allan varann á. Þetta er gert í algerri andstöðu við fagfélag fótaaðgerðafræðinga sem sinna mjög mikilvægu heilbrigðisstarfi, sinna fótum þeirra sem eru með sjúkdóma Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur fyrir að koma með þessa fyrirspurn og ráðherra í sjálfu sér fyrir svörin. Ég tel fulla ástæðu til að hafa nokkrar áhyggjur af því hvernig þessi mál hafa verið að þróast. Það kom fram hjá ráðherra að ekki hafi verið veitt leyfi fyrir þessu námi en ég veit ekki betur en að þær sem eru að hefja nám í þessum skóla núna gangi út frá því sem vísu - ég segi þær því þetta eru yfirleitt konur - gangi út frá því sem vísu að þessi mál séu í réttum farvegi. Það er verið að rukka þessa nemendur um skólagjöld upp á um 1,5 millj. kr. Ég tel að það sé algerlega óforsvaranlegt að á sama tíma og mikið er talað um að bjóða upp á aukna möguleika til starfsnáms fyrir fólk á framhaldsskólastigi sé veruleikinn sá að það geti þá og því aðeins fengið kennslu í þessari grein að það fari í einkaskóla og borgi fyrir það 1,5 millj. kr. í skólagjöld. Virðulegi forseti. Þetta er mál sem verður að taka föstum tökum. Virðulegi forseti. Kjarni málsins er sá að vilyrði ráðuneytisins í þessu máli er gulls ígildi. Þar með er t.d. komin heimild til að lána nemendum fyrir háum skólagjöldum og þar með er ríkið að sjálfsögðu farið að greiða fyrir námið og svo gott sem komið leyfi fyrir náminu. Það er alvarlegt mál. Því er haldið fram að um sé að ræða klíkuskap af hálfu ráðuneytis og ráðamanna, samráðs hafi ekki verið gætt við fagstéttirnar og gengið hafi verið fram hjá öllum eðlilegum grundvallarreglum við að koma á fót menntun og námsefni af hvaða tagi sem er. Þetta andrúmsloft þarf hæstv. ráðherra að sjálfsögðu að hreinsa að fullu því að mikil óánægja er meðal fagstéttanna í þessu máli, eins og kom nokkuð skýrt fram í máli nokkurra hv. þingmanna við umræðuna áðan. Þetta er vont mál og hreinsa þarf andrúmsloftið í því af því að það er búið að valda skaða að þessu leyti. Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin sem voru í sjálfu sér ágæt. En það breytir ekki því að skólinn auglýsir að búið sé að fá leyfi fyrir rekstri þessa skóla og viðurkenningu ráðuneytisins, skólinn auglýsir að komin sé trygging fyrir námsláni, skólinn auglýsir að nám eigi að hefjast í byrjun janúar. Ef það leyfi liggur ekki fyrir tel ég að hæstv. ráðherra beri að sjá til þess að skólinn beri ekki á borð rangar upplýsingar því að þetta hlýtur allt að teljast rangt meðan leyfið liggur ekki fyrir frá ráðuneytinu. Það er rétt sem hér hefur komið fram að þetta fyrirkomulag og þessi vinnubrögð eru í algerri andstöðu við fagfélag þess fólks sem við þetta vinnur. Það hlýtur að teljast mjög neikvætt og þýða að eitthvað sé öðruvísi en best er á kosið. Ef fram fer sem horfir er líka verið að bjóða upp á nám hér á landi sem er styttra en á Norðurlöndunum, nágrannaríkjum okkar, og þar stendur til að lengja námið, en slíkt nám er mjög víða miklu lengra en það er hér og á Norðurlöndunum. Það hlýtur líka að vera mjög umhugsunarvert að ráðuneyti menntamála ætli að samþykkja að sett sé á fót ný námsleið án þess að nokkur sem þar komi að uppfylli þau skilyrði sem ráðuneytið sjálft setur kennurum og skólastjórum. Frú forseti. Ég vona að þessi umræða sé ekki sprottin út frá því að við erum að ræða hér um rekstrarform og að menn séu að agnúast út í rekstrarformið einkaskóla, ég vona að það sé ekki ástæðan. Fyrst og fremst verða menn að hafa í huga að það hefur ekki verið veitt leyfi og það er greinilega einhver bábilja í gangi, einhver della í andrúmsloftinu. Það er alveg ljóst að við erum ekki búin að viðurkenna námskrána eins og hún hefur verið lögð fyrir okkur. Hvað gerist síðan þegar við fáum námskrárdrögin endurbætt til umfjöllunar? Við munum að sjálfsögðu senda þau nýskipuðu starfsgreinaráði heilbrigðis- og félagsgreina til efnislegrar umsagnar. Ég get ekki fylgst með heimasíðum hvers skóla og hverrar stofnunar hér á landi. Það er einfaldlega þannig. Það er alveg á hreinu hvernig ráðuneytið hefur haft þetta til umfjöllunar. Það er okkar að tryggja að skólarnir uppfylli ákveðin gæði. Það er okkar að tryggja að þeir uppfylli þau skilyrði sem gerð eru samkvæmt lögum og reglugerðum. Við getum ekki útfært þau skilyrði frekar. Við þurfum að fylgja þeim eftir og við munum að sjálfsögðu halda uppi slíkum kröfum þegar verið er að koma á fót þessum skóla sem öðrum enda höfum við margítrekað að eitt helsta hlutverk ráðuneytis menntamála er ákveðið gæðaeftirlit, gæðaeftirlit með opinberum skólum sem einkaskólum. Það er því gott að þetta mál sé rætt og í rauninni kærkomið tækifæri að fá möguleika á því að koma hingað í ræðustól þingsins og greina frá því hvernig þessum málum er háttað. Það er verið að fara yfir þetta eins og við gerum jafnan við alla skóla sem sækja um heimild til þess að kenna ákveðin fræði en að sjálfsögðu er það viðkomandi að uppfylla þær kröfur sem við gerum til þessa náms sem annars og við fáum að sjálfsögðu umsagnir þar til bærra aðila varðandi þetta mál eins og önnur. Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um framhaldsskóla í Mosfellsbæ. Ég beindi sömu fyrirspurn til ráðherrans í mars 2004 og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir beindi síðan fyrirspurn til ráðherra um framhaldsskóla í Suðvesturkjördæmi í maí síðastliðnum. Ég kom inn í þá umræðu vegna fregna af skýrslu frá menntamálaráðuneytinu um að framhaldsskóli í Mosfellsbæ væri forgangsverkefni. Þá spurði ég ráðherra hvort það væri rétt að næsti framhaldsskóli á höfuðborgarsvæðinu risi í Mosfellsbæ. Í svari menntamálaráðherra kom m.a. fram, með leyfi forseta: „Ég mun sérstaklega líta til þessara tillagna og þessarar skýrslu frá hópnum sem vísbendingar og vegvísis til þess að móta starfið. Það er alveg ljóst að hann segir Mosfellsbær fyrst og síðan uppbygging á norðausturhluta höfuðborgarsvæðisins ásamt utanverðum Eyjafirði.“ Til að halda málinu gangandi, frú forseti, þá spyr ég enn og aftur um framhaldsskóla í Mosfellsbæ og vænti jákvæðra viðbragða. Það er rétt að taka fram að Mosfellsbær telur nú um 7.500 íbúa og fer þeim mjög ört fjölgandi. Samkvæmt mannfjöldaspá er gert ráð fyrir að íbúarnir verði um 10 þúsund árið 2010 eða eftir fjögur ár. Á framhaldsskólaaldri eru nú um 110 unglingar í hverjum árgangi og er bærinn eitt af þeim sveitarfélögum sem hafa hæst hlutfall barna og unglinga af heildarfjölda íbúa. Framhaldsskóli í Mosfellsbæ mundi geta þjónað nærliggjandi hverfum Reykjavíkur, t.d. Kjalarnesi og nám í framhaldsskólanum mætti jafnvel tengja við umhverfið t.d. endurhæfingartengt nám í tengslum við Reykjalund, listnám í tengslum við mikla liststarfsemi í Álafosskvos. Þetta er spurning um kostnað íbúanna m.a. að þurfa ekki að ferðast langar leiðir til að komast til og frá námi. Þetta er líka spurning um öryggi á Vesturlandsvegi að þurfa ekki að keyra á þeim þjóðvegi niður í bæ til að komast í nám. Frú forseti. Að framansögðu beini ég fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra: Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að framhaldsskóli rísi í Mosfellsbæ eins og nefnd á vegum ráðuneytisins hefur mælt með samkvæmt svari ráðherra við fyrirspurn frá Rannveigu Guðmundsdóttur í vor? Ef svo er, hvenær er áætlað að skólinn taki til starfa? Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og fyrirspyrjanda Valdimar L. Friðrikssyni fyrir að koma inn á þetta mikilvæga mál. Það er rétt sem fram kom í máli hans að nefnd á vegum ráðuneytis menntamála hafði það verkefni síðastliðið vor að meta þörfina á nýjum framhaldsskólum því það eru margir sem hafa áhuga á að byggja upp framhaldsskóla. Til þess verður að hafa ákveðnar forsendur, t.d. íbúafjölgun, spá um íbúaþróun en einnig þarf að taka tillit til annarra þátta, þ.e. til byggðalegra þátta. Þó að færri íbúar séu á ákveðnum svæðum þá verður líka að taka tillit til annarra sjónarmiða en eingöngu íbúafjölgunar og aðgengis að framhaldsskólum. Nefndin lagði fram hugmyndir um hvar framhaldsskólarnir ættu að rísa og þá í ákveðinni röð til að reyna að forgangsraða málum. Hún lagði m.a. til að skóli yrði reistur við utanverðan Eyjafjörð og að síðan yrði reistur skóli í Mosfellsbæ og þetta eru þeir skólar sem eru fremstir í röð nýrra framhaldsskóla. Ég tók ég undir þessi sjónarmið nefndarmanna í svari mínu við fyrirspurn hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, eins og hv. þingmaður kom inn á, og þau hafa ekki breyst síðan. Í báðum þessum tilvikum komu fleiri en eitt sveitarfélag að málum og ég hef átt í samræðum við heimamenn fyrir norðan og um leið lagt ríka áherslu á samstöðu Siglfirðinga, Ólafsfirðinga og Dalvíkinga um stofnun slíks skóla og að sjálfsögðu skiptir miklu máli að göngin verði þá komin. Ég greini samhljóm í máli okkar þingmanna um að menn reki skólakerfið strax frá upphafi og þessa nýju skóla þannig að þeir verði skipulagðir í samræmi við ýtrustu gæðakröfur og af faglegum metnaði og það er fagnaðarefni að hv. þingmenn taka undir það. Þetta hafa að sjálfsögðu sveitarfélögin bæði syðra og nyrðra rætt og skoðað. Hvað varðar Mosfellsbæinn þá byggðu Mosfellsbær og Reykjavík Borgarholtsskóla sameiginlega á móti ríkinu á sínum tíma. Því má segja að eðlilegt sé að þessi sveitarfélög ræði hugsanlegt samstarf um staðsetningu nýs skóla ekki síst með tilliti til nýrrar uppbyggingar hugsanlega í Geldinganesi eða við Úlfarsfell. En ég tek undir það með hv. þingmanni og nefndarmönnum að það skiptir máli að tekið verði á þessu og þá að menn móti stefnuna um að það rísi framhaldsskóli í Mosfellsbæ. Það er rétt að það er enginn framhaldsskóli í Mosfellsbæ, í ört vaxandi sveitarfélagi en það er líka athyglisvert að skoða framhaldsskólakosti á suðvesturhorninu. Ef mig man rétt eru allt að 80% af framhaldsskólum og þeir nemar sem stunda nám þar vestan við Elliðaár. Þegar maður skoðar kortið þá vantar greinilega skóla á því svæði sem nefndarmenn komu inn, þ.e. í Mosfellsbænum og ekki bara vegna staðsetningarinnar heldur líka vegna íbúafjölda og væntanlegrar íbúaþróunar. Hið sama gildir um annan hluta á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Norðlingaholtið sem er að byggjast upp í Reykjavík. Kópavogur er líka að þenjast út, Salahverfið, þannig að það er líka þörf á nýjum framhaldsskóla á því svæði miðað við íbúaþróun en það skiptir máli að sveitarfélögin vinni saman eins og gerðist gæfulega með Borgarholtsskóla og gerist vonandi fyrir norðan í samvinnu við ríkið. Þörfin er til staðar og við erum búin að forgangsraða hvar væntanleg skólauppbygging þarf að eiga sér stað á næstu árum. Það liggur í hlutarins eðli að ekki er unnt að tímasetja nákvæmlega hér og nú úr þessum ræðustóli hvenær byggingarframkvæmdir hefjast eða hvenær skólastarfið hefst, sem er náttúrlega mikilvægasti parturinn. En að mínu mati má í hvorugu tilfellinu missa mikinn tíma og ég er þess mjög hvetjandi, eins og mér heyrist hv. þingmaður einnig vera, að þessu máli verði hraðað fremur en hitt. Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæt svör og fagna því að framhaldsskóli í Mosfellsbæ skuli vera í augsýn en ég átti kannski von á nákvæmari svörum miðað við þá skýrslu sem m.a. flokksbræður hæstv. ráðherra notuðu í kosningabaráttunni í vor, þar sem þeir tilkynntu bæjarbúum hátíðlega degi fyrir kosningar að framhaldsskóli í Mosfellsbæ væri í algerri forgangsröð. Það örlar því á smávonbrigðum hjá mér, frú forseti. Ég vil benda á að frá því að ég spurði fyrst um framhaldsskóla fyrir tveimur árum hefur íbúafjölgun í bænum orðið 17% þannig að þetta er orðið aðkallandi og ég tel að það eigi að stefna að því að opna fyrsta áfanga framhaldsskóla í Mosfellsbæ ekki seinna en 2010. Frú forseti. Ég ætla ekki að fara að yfirbjóða hv. þingmann varðandi tímasetningar. Það sem mér finnst skipta mestu máli er að við höfum nú á hreinu forsendur fyrir því að það þurfi að byggja upp frekari framhaldsskóla á suðvesturhorninu. En síðan er hitt sem skiptir mestu máli og hv. þingmaður m.a. kom inn á í sínum fyrri hluta, það er innihald skólastarfsins. Hvers konar skóla viljum við bæta við inn í framhaldsskólaflóruna á suðvesturhorninu? Hvaða sérhæfingu eigum við að beina inn í þá skóla sem við þurfum til þess að geta komið öllu fólkinu á suðvesturhorninu inn í framhaldsskóla, hvers konar skólakerfi og framhaldsskóla viljum við bjóða upp á í Mosfellsbænum og síðan í suðausturhluta Reykjavíkursvæðisins? Þessir nýju skólar verða stórir skólar en munu skipta miklu máli upp á þá fjölbreytni sem við þurfum að viðhafa á sviði framhaldsskóla. Ég ætla mér ekki að fara í yfirboð. Aðalmáli skiptir að við höldum áfram að vinna að þessu og að unnið sé faglega. Við höfum reynt að gera okkur far um það hingað til og munum gera það áfram og þá ekki síst í samvinnu við þá aðila sem hlut eiga að máli, þ.e. sveitarfélögin. Virðulegi forseti. Næsti áfangi í menntasókn okkar Íslendinga á að mínu mati að vera uppbygging á staðbundnu háskólanámi á landsbyggðinni. Besta byggðaaðgerð Íslandssögunnar, síðari tíma a.m.k., var uppbygging Háskólans á Akureyri. Samfélagið þar tók stakkaskiptum og að mörgu leyti má sama segja um samfélagið í Borgarfirðinum eftir að Viðskiptaháskólinn eða Háskólinn á Bifröst tók þar til starfa á síðustu missirum og hefur vaxið og gengið frábærlega vel. Staðbundin háskólamenntun skiptir sköpum fyrir samfélagið að öllu leyti, samsetningu þess og uppbyggingu. Vísir að háskólamenntun er víða annars staðar á landinu. Í gegnum símenntunarstöðvarnar og fræðslunetin á Suðurlandi, Suðurnesjum, Vesturlandi og Norðurlandi vestra stunda nú 400–500 manns háskólanám í fjarnámi á ári hverju. Aukningin hefur verið mikil og er þetta að verða að stærsta einstaka þættinum í starfsemi símenntunar- og fræðslumiðstöðvanna sem upphaflega voru settar á stofn til að þjóna endurmenntun og símenntun fyrir fullorðna. Þetta er glæsileg þróun, þetta er jákvæð þróun. Tölurnar eru hins vegar óhagstæðar fyrir háskólamenntun á landsbyggð. Í dag er það svo að árið 2005 var um 12 milljörðum kr. varið til háskólamenntunar 16.625 Íslendinga, eru kannski orðnir fleiri núna, og á fjárlögum fyrir árið 2007 er reiknað með yfir 12 milljörðum kr. til háskólamenntunar. Það eru átta íslenskir háskólar og staðan er sú að 82% nemenda við háskóla eru í háskólum á Reykjavíkursvæðinu en einungis 18% úti á landsbyggð og þá eru teknir með háskólarnir sem landbúnaðarráðuneytið veitir fjármuni til. Án þeirra væru þetta 15% frá menntamálaráðuneytinu. Á sama tíma búa 83% landsmanna á höfuðborgarsvæðinu en hins vegar stunda 85% háskólanema þar nám. 36% allra nýnema eru utan af landi en einungis 18% háskólanema stunda nám úti á landi, fyrir utan Reykjavík. Þetta er mikið ósamræmi og mikið ójafnvægi og það er ástæða til að ráðast í mikla menntasókn og uppbyggingu á staðbundnu háskólanámi úti á landi. Það er ekki bara besta byggðaaðgerðin, það er einhver besta samfélagslega fjárfesting sem við getum ráðist í, það er fjárfestingarátak í menntun og ekki síst í staðbundnu háskólanámi úti á landi. En staðan er eins og ég rakti áðan um muninn á framlögum til háskólamenntunar annars vegar í Reykjavík og hins vegar úti á landi. Því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra þeirra spurninga sem ég legg fyrir hana í dag hvort það standi til að ráðast í frekari uppbyggingu á staðbundnu háskólanámi úti á landi. Frú forseti. Ég vil taka heils hugar undir með hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni varðandi mikilvægi þess að efla menntun, ekki bara á suðvesturhorninu heldur um land allt og háskólamenntun er þar ekki undanskilin. Þetta er besta byggðaaðgerðin, markvissasta, raunhæfasta og sú sem mun skila hvað mestum arði varðandi byggðauppbyggingu. Það erum við að sjá víðs vegar um landið. Tölurnar tala sínu máli og það var ágætt að hv. þingmaður fór yfir þetta en engu að síður hefur framboð háskólanáms á landsbyggðinni aukist gífurlega á undanförnum árum, ekki síst með eflingu háskóla utan Reykjavíkur, uppbyggingu símenntunarmiðstöðva og háhraðanetsins. Í umræðum um framboð á háskólanámi, hvort sem það er í Reykjavík eða á landsbyggðinni, verður að hafa hugfast að það er raunverulega á verksviði hvers háskóla og ekki síst í samræmi við nýsamþykkt háskólalög um sjálfstæði háskóla hvernig þeir setja fram námsframboð sitt og ákveða útfærslurnar á eigin námsframboði. Háskólarnir bjóða því mismunandi nám og námsáfanga í samvinnu við símenntunarmiðstöðvarnar og fræðslunetin víðs vegar um landið. Það er jafnframt ákvörðunaratriði hjá þeim eftir aðstæðum hverju sinni hvort námið sem fer fram fer í gegnum fjarkennslu, staðbundið nám eða sé síðan einhver blanda af þessu en við erum að sjá mismunandi útfærslur á því. Ráðuneytið hefur í rauninni ekki haft bein afskipti af því hvers konar nám sé í boði né í hvaða formi það fer fram enda breytilegt frá einum stað til annars og frá einum tíma til annars. Þörfin fyrir sjálft námsframboðið er metin af háskólanum og símenntunarmiðstöðvunum, þekkingarnetinu á hverjum stað fyrir sig, og það er mismunandi eftirspurn eftir háskólanámi eða tegundum háskólanáms eftir því hvernig maður lítur yfir landið. Aðalmálið að mínu mati er að efla aðgengi að háskólanámi, að menn geti farið í háskólanám. Í alþjóðlegri umræðu um háskóla er æ meiri áhersla lögð á samfélagslegt hlutverk háskóla, sem er vaxandi samhliða kennslu og rannsóknum. Stefnan hefur verið að auka námsframboð á háskólastigi í landinu og satt að segja hafa framfarir í þeim efnum verið ótrúlega miklar síðustu missirin. Þetta hefur ekki síst sést á nemendafjölgun í þeim háskólum sem eru starfandi á landsbyggðinni hvort sem það er Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskólinn eða Hólaskóli. Uppbygging hefur því verið töluverð á landsbyggðinni. Ég vil þessu til viðbótar nefna að á þessu ári hafa verið opnuð háskólasetur jafnt á Ísafirði sem Egilsstöðum þar sem ríkir að mínu mati mikill metnaður. Með tilkomu þeirra er verið að styrkja háskólanám og rannsóknir á landsbyggðinni en það eru heimamenn, og vert að hafa það í huga, á hverjum stað í samvinnu við háskólana í landinu sem móta síðan stefnu háskólasetranna. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007 er gerð grein fyrir fjárveitingu vegna verkefnis um rafræna innritun og háskólanet um allt land sem verkefnastjórn um upplýsingasamfélagið hefur samþykkt. Samtals eru áætlaðar 16 millj. kr. til þess verkefnis og í tengslum við verkefnið vinnur Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri nú að skýrslugerð fyrir menntamálaráðuneytið þar sem gerð verður grein fyrir skipulagi að fjarkennslu á háskólastigi, annars vegar erlendis í fjórum löndum og hins vegar hér á landi. Sú skýrsla liggur fyrir síðar á þessu ári og munu niðurstöður verða kynntar síðar fyrir háskólunum og símenntunarmiðstöðvum á landsbyggðinni og samráðs leitað um frekari þróun á þessum vettvangi. Það er að sjálfsögðu von mín að þetta verkefni muni efla samvinnu háskóla og símenntunarmiðstöðva um framboð háskólanáms á landsbyggðinni enn frekar en verið hefur. Hvort námið er síðan staðbundið eða skipulagt á annan hátt verður að meta einfaldlega eftir aðstæðum hverju sinni í samráði við viðkomandi háskóla og símenntunarmiðstöðvar. Maður skilur þær kröfur en það verður að gerast í samræmi við þær kröfur sem við gerum til háskólanáms. Það sem við erum hins vegar að gera með því að auðvelda aðgengi og fjölga tækifærum er að það verður auðveldara í framtíðinni að koma upp staðbundnu námi en verið hefur, ef menn óska þess og telja það vera í þarfir við byggðina og við háskólanámið. Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir þessa þörfu og ágætu fyrirspurn. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra að mjög mikilvægt er að efla aðgengi að háskólanámi og reyndar ekki aðeins háskólanámi heldur hvers kyns námi á landsbyggðinni því að það hefur birst okkur í svörum með fyrirspurnum að menntunarstig er mun lægra úti á landi. Það vill þannig til að menntamálaráðuneytið er aðeins að axla örlítinn hluta af þeim kostnaði sem fellur til við t.d. háskólanám úti á landi því það er sett á herðar sveitarfélaganna að standa undir námsverunum vítt og breitt um landið, alls staðar þar sem símenntunarmiðstöðvarnar eru sjálfar með höfuðstöðvar sínar, þar taka sveitarfélögin reyndar líka þátt. Þar með er menntamálaráðherra að mismuna þeim sem búa á þeim stöðum þar sem háskólarnir sjálfir eru til staðar og þeim sem búa annars staðar á landinu. Þetta er algerlega óviðunandi fyrir landsbyggðarfólk. Frú forseti. Ég ætla að lýsa því yfir að ég er ósammála hæstv. ráðherra um að þetta sé mesta byggðaaðgerðin. Ég er á því að mesta byggðaaðgerðin séu sjávarútvegsmálin og síðan hvernig stjórnvöld hafa byggt upp opinbera starfsemi í miklu meira mæli á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Það sýna einfaldlega tölur frá fjármálaráðuneytinu. Síðan hefur einnig komið fram að tæplega þriðjungs skattfjár er aflað á landsbyggðinni en einungis 15% er varið á landsbyggðinni. Ójöfnuðurinn er því víða. Ég skora á hæstv. ráðherra að svara því hvort hún ætli að beita sér fyrir aukinni uppbyggingu á háskólanámi þannig að Háskólinn á Akureyri standi jafnfætis hvað varðar fjárveitingar miðað við aðrar stofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Ég spyr að því vegna þess að ekki virðist vera hægt að hreyfa við sjávarútvegsmálunum. Það má ekki snerta við þeim en það má mögulega færa einhverja fjármuni til dreifbýlisins í gegnum menntakerfið. Virðulegi forseti. Svör ráðherra voru mér nokkur vonbrigði. Ég spurði: Stendur til að auka framboð á staðbundnu háskólanámi á landsbyggðinni? Ef svo er, hvar og hvers konar nám verður í boði? Háskólamenntunin um fjarnám á símenntunarstöðvunum er meira og minna upp á annars vegar fjárlögin komin og fjárlaganefnd og hins vegar upp á sveitarfélögin, sem standa mjög að því námi líka. Ég vil fá það fram hvort auka eigi framboð á staðbundnu námi til að háskólasetrin standi undir nafni, hvort eigi að byggja upp háskólastofnun á Ísafirði, hvort eigi að byggja upp staðbundið háskólanám á Suðurlandi og Norðurlandi vestra. Hver er framtíðarsýn hæstv. ráðherra í þessu nákvæmlega? Það er mikið ójafnvægi á milli þeirra fjármuna sem varið er til háskólamenntunar annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar úti á landi eins og ég rakti áðan. Af þeim 12 milljörðum sem varið er til háskólamenntunar á næsta ári er einungis 15% þeirra fjármuna ráðstafað í háskólamenntun úti á landi. Ég tel að stórauka eigi framboð á staðbundnu háskólanámi úti á landi, ekki með einhverri hægfara þróun í gegnum símenntunarstöðvarnar eingöngu, heldur með fastri stefnumótun af hálfu stjórnvalda um uppbyggingu á háskólanámi rétt eins og gert var með Háskólann á Akureyri á sínum tíma. Það er kjarni málsins. Auðvitað á að tengja starfsemi símenntunarmiðstöðvanna og gera þeim kleift að vaxa og dafna og þróast í það að vera háskólastofnanir en það skortir skarpa og afgerandi framtíðarsýn af hálfu hæstv. menntamálaráðherra í nákvæmlega þessu máli, í uppbyggingu staðbundins háskólanáms úti á landi og hvar og hvort eigi ekki að nýta þá fjármuni sem væri eðlilegt að nýta út frá þeirri skiptingu sem ég rakti áðan á annars vegar íbúafjölda úti á landi og í Reykjavík og síðan hvernig fjármununum er varið nú í dag. Frú forseti. Það sem skiptir máli er að auka aðgengi fólks að háskólanámi. Þá skiptir líka máli að hafa í huga umhverfið þegar Háskólinn á Akureyri var stofnaður. Hvað voru margir háskólar hér á landi þá? Það var einn háskóli. Síðan var Háskólinn á Akureyri stofnaður og nú höfum við átta háskóla þannig að framboðið á háskólanámi og háskólum hefur gerbreyst og tekið stakkaskiptum síðan Háskólinn á Akureyri tók til starfa á sínum tíma. Það sem mér finnst vera lykilatriði í þessu er aðgengi fólks að náminu og að háskólanámið verði sem best. Það getur vel verið að það þróist út í það að vera staðbundið nám, þ.e. ef háskólastofnanirnar meta það heppilegast í ljósi gæðanáms og þess að uppfylla þær kröfur sem fólk gerir á viðkomandi stað hverju sinni. Ég tel mikilvægt að háskólarnir verði í miklu samstarfi eftir sem áður við símenntunarmiðstöðvarnar. Það er ekki rétt sem kom fram áðan að menntamálaráðuneytið og það sem undir það heyrir sé ekki að fjárfesta í menntun eða háskólaígildum á landsbyggðinni því að að sjálfsögðu er borgað líka fyrir nemendur og þá sem stunda nám úti á landi. Það fer að sjálfsögðu gegnum reiknilíkanið og til háskólanna og það skiptir engu máli hvar þeir eru staðsettir. Það er að sjálfsögðu borgað fyrir þá. Ég vil líka geta þess að sú þróun hefur verið t.d. í Danmörku að háskólastofnanir eru, eins og kannski má segja hér, að sameinast í ríkari mæli. Menn eru að leggja megináhersluna á að gera einingarnar stærri en aðgengið betra víðs vegar um landið. Þetta er að gerast í Danmörku, í Noregi og þetta er að gerast á Íslandi. Við höfum verið sammála um það, ég og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, að það sem þurfi líka að tryggja er gæði námsins. Ég held að núna verði megináherslan í öllu menntakerfinu, frá leikskóla til háskóla, á að efla gæðastarfið. Alþjóðlegar kröfur eru settar fram í því efni og þar verðum við Íslendingar líka að standa okkur.
Arnar Gunnarsson, þjálfari, var þokkalega ánægður með sína menn eftir stórsigur á Fylki í 1. deild karla í handbolta í kvöld, 29-14. „Þetta var ágætt, seinni hálfleikur sérstaklega þar sem vörnin og markvarslan voru fín. Hins vegar klúðruðum við allt of mörgum dauðafærum sem við þurfum að klára og þannig var það líka í fyrsta leiknum á móti Gróttu,“ sagði Arnar í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Selfyssingar voru nokkrum klössum ofar en Fylkisliðið í kvöld en þrátt fyrir það var liðið ekki að sýna sínar bestu hliðar í fyrri hálfleik. „Við vorum ekki nógu einbeittir í fyrri hálfleik og menn virtust ekki alveg klárir í þetta. Svo urðu tvívegis tafir á leiknum sem urðu til þess að menn misstu kannski aðeins taktinn. Það er reyndar engin afsökun því það á að bitna á báðum liðunum,“ sagði Arnar. „Annars var þessi leikur ágætt vegarnesti fyrir næsta leik.“ Selfyssingar hafa nú leikið tvo leiki í deildinni og þjálfari er ánægður með hvernig liðið hefur farið af stað. „Við erum að spila góða vörn og fá góða markvörslu og þá er langleiðin komin. Nú þarf bara sóknarleikurinn að slípast betur. Það er nóg eftir til að vinna í, en þetta er ágætis byrjun. Við eigum annar heimaleikur næst og nú er bara að sækja sigur þar.“
Formaður bankráðs Seðlabankans segir það ekki hafa verið rætt fram að þessu hvort að krefjast eigi afsagna starfsmanna sem unnu að máli Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja. Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans, segir í samtali við Fréttablaðið að bankaráð hafi ályktað á fundi sínum í morgun að skoða ætti hvort að taka þyrfti aftur upp mál Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, og önnur sambærileg mál. Fréttablaðið greindi fyrst frá því í dag að Umboðsmaður Alþingis hafi gagnrýnt stjórnsýslu Seðlabankans við meðferð endurupptökubeiðni Þorsteins í máli sínu þar sem á hann var lögð 1,3 milljóna króna sekt. Í kjölfarið ítrekaði Þorsteinn í samtali við Fréttablaðið þá skoðun sína að stjórnendur bankans höfðu vísvitandi brotið lög með refsiverðum hætti og ættu að víkja úr starfi. Í ljósi álitsins ályktaði bankaráðið svo í morgun að skoða ætti hvort að mál Þorsteins og annarra sambærilegra mála yrðu tekin aftur upp, segir Gylfi Magnússon, formaður ráðsins, í samtali við Fréttablaðið. „Í álitinu kemur fram mjög hörð gagnrýni á stjórnsýslu Seðlabankans vegna þessarar stjórnvaldssektar. Það var bankaráðið sem ályktaði um þetta í morgun en síðan er boltinn hjá bankanum,“ segir Gylfi. Aðspurður hvort til umræðu hefði komið að óska eftir afsögn starfsmanna sem tengdust starfinu segir Gylfi að svo sé ekki. „Ég vil ekki vera með neinar getgátur um slíkt. Bankaráð ræður ekki seðlabankastjórann og hvað þá undir menn hans,“ svarar Gylfi, spurður að því hvort að hann telji að það komi til umræðu á fundum ráðsins á næstunni.
Nýjum Herjólfi seinkar enn. Í vikunni skýrist hvenær hann verður afhentur í Póllandi. Hann hefur verið í reynslusiglingum þar ytra og í vikunni skoðaði vegamálastjóri ferjuna. Opinbera hlutafélagið Vestmannaeyjaferjan Herjólfur tekur við rekstri Herjólfs 30. mars en lengra er í að nýr Herjólfur hefji áætlunarsiglingar. „Hann er afhentur bara einhvern tíma núna í marsmánuði og síðan tekur náttúrulega einhvern tíma að sigla honum heim. Við áttum í raun von á því að fá hann í janúarlok, febrúar. Hvað tekur við þegar hún er komin? Það sem við þurfum að gera í rauninni er að sigla ferjunni í Landeyjahöfn og í Þorlákshöfn og athuga hvernig það reynist. Hitt er að þjálfa starfsfólkið sem að mun vera í áhöfn. Og síðan er bara að gera skipið rekstrarklárt fyrir siglingakerfið sem á að sigla,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson framkvæmdastjóri Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf, í samtali við fréttastofu RÚV. Sjá einnig: Nýr Herjólfur væntanlegur í næsta mánuði Ellefu til fimmtán manns verða í áhöfn. Guðbjartur segir ekki hægt að segja til hve langan tíma taki að þjálfa áhöfnina en nýja ferjan er frábrugðin gamla Herjólfi. Aðsóknin í Herjólf fer að aukast strax í apríl maí: „Og síðan skiptir gríðarlega miklu máli að skipin alveg sama hvort skipið það er sigli í Landeyjahöfn en ekki á Þorlákshöfn. Það fylgir því gríðarleg fjölgun ferðamanna meðan Landeyjahöfn er opin.“ Ruv.is
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, fullyrðir að unnið sé á fullu á öllum vígstöðvum að því að móta tillögur til að taka á skuldavanda heimilanna. Ráðherra var gagnrýndur á Alþingi í dag fyrir seinagang ríkisstjórnarinnar við að taka á þessum vanda. Almennt er talið að þingstörfin það sem af er þessu ári hafi ekki einkennst af krafti. Mörg mál hafi verið rædd en fá þeirra séu frá ríkisstjórninni til þess að taka á þeim bráðavanda sem heimili og fjölskyldur standi frammi fyrir nú. Og enn hefur ekki verið lagt fram frumvarp um skuldavanda heimilanna sem boðað hefur verið. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins: Hvað megum við bíða lengi eftir tillögum frá ríkisstjórninni? Það er vissulega rétt að draga það fram og halda því til haga að undur og stórmerki gerðust hér og við samþykktum hér á þinginu frestun á nauðungarsölunni. En það er bara frestun, það er ekki úrlausn. Hvaða tillögur fáum við þingmenn tækifæri til þess að ræða hér á fimmtudaginn? Hvaða stjórnarfrumvörp eru að koma fram í vikuna, vikunni fyrir fjölskyldurnar og fyrir fyrirtækin? Forsætisráðherra sagðist fullvissa þingmanninn að í ríkisstjórninni væri unnið að fullum krafti til þess að taka á vanda þeirra sem hafi minnstar tekjur. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra: Við erum að vinna að þessu á öllum vígstöðvum, og ég held að þær tölur, sem betur fer, sem Neytendastofan kom fram með að þær séu of háar og það sé þá meira að marka þessar tölur sem við höfum verið að tala um að þetta séu um 15 til 20% sem séu í miklum vanda og ég ítreka það að það er alltof há tala.
Meirihluti mun vera fyrir því á danska þinginu að Danske Bank verði gert að stórauka eigið fé sitt. Rætt hefur verið um að eiginfjárhlutfall bankans verði hækkað um 2 til 3 prósentustig sem myndi þýða um 16 til 24 milljarða danskra kr. eða allt að 500 milljarða kr. Í frétt um málið í Politiken segir að ástæðan fyrir því að þessi meirihluti sé til staðar er óttinn við að Danske Bank falli í framtíðinni. Kristian Thulesen Dahl talsmaður Dansk Folkeparti í fjármálum segir að þeir viti vel um þá þýðingu sem Danske Bank hefur fyrir Danmörku. „Þess vegna vorum við tilbúin með klæðskerasaumaða bankapakka sem bankinn gat fengið lán í gegnum þegar hann lenti í alvarlegum vandræðum," segir Dahl. „Og þess vegna eigum við að biðja bankann um að hafa aukalag af fitu til staðar til að mæta hugsanlegum nýjum vandamálum." Áhyggjur danskra þingmanna snúast ekki um að það séu einhver vandamál til staðar í Danske Bank í dag. Hinsvegar liggur ljóst fyrir að, öfugt við Amagerbanken, hefur danska ríkið hvorki efni né tök á að bjarga Danske Bank ef hann kemst í þrot. Í Politiken segir að þessar áhyggjur af fengið aukið vægi í framhaldi af því að ný alþjóðleg úttekt stimplar Danske Bank sem einn af hættulegustu bönkum Evrópu. Hættulegan að því leiti að efnahagsreikningur hans er á stærð við margfalda landsframleiðslu Danmerkur. Fari svo að Danske Bank láti undan þrýstingi þingmanna myndi slíkt líklega hafa í för með sér að vextir á útlánum bankans myndu hækka um eitt prósentustig að jafnaði.
Fyrir um viku síðan var lögð hjólarein á Hverfisgötuna. Í þeim tilgangi þurfti að fjarlægja um fjörutíu bílastæði í eigu borgarinnar úr syðri vegkantinum og mála þar græna rönd með hjólamerki. Á norðurakreininni voru málaðir nokkrir svokallaðir hjólavísar en það eru merki sem eiga að minna ökumenn á að þeir deili götunni með hjólreiðamönnum. Með þessari einföldu og ódýru aðgerð tókst að breyta fremur óhjólavænni umferðargötu í fremur hjólavæna. Þetta sýnir raunar hve litla fyrirhöfn og lítinn kostnað þarf stundum til að laga samgönguæðar gangandi og hjólandi vegfarenda. Ef það væri nú bara jafnódýrt og -fljótlegt að mála sér eins og eina Sundabraut, tvöföldun Suðurlandsvegar eða ný mislæg gatnamót. Mikið væri lífið þá ljúft! En þótt mér heyrist ansi margir vera sáttir við þessa breyttu götumynd Hverfisgötunnar þá eru það ekki allir, og fjölmiðlunum hefur í öllu falli gengið mun betur að finna þá sem eitthvað hafa við tilraunina að athuga. Í þessu tilfelli voru það einhverjir þeirra íbúa sem „missa" þá þau stæði sem þeir höfðu gjaldfrjálsan aðgang að stóran hluta sólarhrings. Einn íbúinn var meira að segja að missa hálfgert einkastæði sem hann hafði eignast út frá bílskúr sem lá að götunni. Enginn vill auðvitað leggja inn í innkeyrslu að bílskúr, nema að hann eigi bílskúrinn sjálfur, þannig varð almennt göturými að einhvers konar einkastæði eins bíleiganda og skiljanlega varð sá nú svekktur að það skyldi vera tekið af honum. Það er auðvitað ekki í sjálfu sér óskiljanlegt að mönnum sárni það þegar þeir verða af einhverjum veraldlegum gæðum sem þeir gátu notið hingað til. En við skulum samt setja hlutina upp rétt. Stæðin fjörutíu sem tímabundið var nú breytt í hjólastíg voru ekki eign þeirra íbúa sem við götuna búa, heldur eign borgarinnar. Í fjölda ára kaus borgin að láta þau bíleigendum í té, ódýrt hluta úr degi en ókeypis þar fyrir utan. Nú hefur borgin hins vegar ákveðið að ráðstafa þessu rými tímabundið til annarra, í fullkomnu samræmi við þá stefnu sína að auka veg umhverfisvænna samgöngumáta á kostnað einkabílsins. Maður getur svo sem skilið að einhver verði svolítið fúll, en lengra nær réttur manna nú ekki. Annar aðili sem hafði efasemdir um hjólastíginn var eigandi hjólaverkstæðis á Hverfisgötu. Mikið held ég að sá maður lesi illa í kúnnahópinn sinn ef hann heldur að andstaða við hjólarein falli vel í kramið hjá væntanlegum viðskiptavinum hans. Enn og aftur er í sjálfu sér ekkert óskiljanlegt að margir verslunareigendur óttist minni verslun með færri bílastæðum en dæmin úr erlendum borgum virðast eiga auðvelt með að fella þá tilgátu að ofgnótt bílastæða sé forsenda líflegrar miðborgar. Raunin er þveröfug. Á áhyggjuraddir kaupmanna hefur verið hlustað hingað til og hver er raunin? Finnst mönnum virkilega að Hverfisgatan nýti sína verslunarmöguleika til fulls? Ég held raunar að áður en langt um líður muni breytt ásýnd Hverfisgötunnar fela í sér stórkostlega lífskjarabót fyrir íbúa hennar. Ekki einungis mun tilkoma hjólreiðafólks lækka hraðann í götunni og umferðin sjálf mun minnka eftir því sem færri rúnta götuna í leit að bílastæðum heldur mun sjálf götumyndin breytast til hins betra. Í Kaupmannahöfn má finna margar líflegar borgaræðar, með hjólabrautum beggja vegna, öflugum almenningssamgöngum og verslunarrými á jarðhæð, götur á borð við Vesterbrogade eða Amagerbrogade og margar fleiri. Þannig gata gæti Hverfisgata hæglega orðið. Þeir Reykvíkingar sem vilja búa við slíka götu hafa ekki marga kosti í dag, en þeir sem vilja hafa tryggan aðgang að nægum bílastæðum hafa um allar aðrar íbúðir á landinu að velja. Tilrauninni með hjólabrautina á Hverfisgötunni á að ljúka í lok september. Þá verður málað yfir græna borðann og bílastæðin tekin í notkun á ný. En vonandi munu menn svo bretta aftur upp ermarnar með vorinu og búa til varanlega lausn fyrir hjólandi vegfarendur á Hverfisgötunni og víðar í bænum. Ég sé fyrir mér að menn geti hjólað eftir sérstakri hjólarein frá Lækjartorgi, eftir Hverfisgötu og Borgartúni og alla leið niður í Laugardal. Það væri yndislegt. Í þannig borg vil ég búa.
Avigdor Liberman, varnarmálaráðherra Ísrael, kallaði eftir því í morgun að ráðherrar í ríkisstjórn Ísrael samþykktu umfangsmiklar hernaðaraðgerðir gegn Hamas á Gasa-ströndinni. Hann sagði núverandi óstand ekki geta varið til lengdar og að með því að gera innrás á svæðið væri hægt að tryggja frið í fjögur til fimm ár. Umfangsmikil mótmæli, óeirðir og ofbeldi við landamæri Ísrael og Gasa hafa staðið yfir frá því í mars og hafa fjölmargir Palestínumenn látið lífið. Óeirðirnar hafa að mestu leyti falið í sér íkveikjur í dekkjum og grjótkasti. Hins vegar hefur komið til skot- og sprengjuárása og á tímabilinu hafa fjölmörg íkveikjutæki verið send svífandi yfir landamærin. Þau tæki hafa valdið kjarreldum og brennt ræktunarland í Ísrael. Samkvæmt Times of Israel er talið að 155 Palestínumenn hafi verið skotnir til bana af ísraelskum hermönnum. Margir þeirra voru meðlimir Hamas. Þá hefur einn ísraelskur hermaður verið skotinn til bana af leyniskyttu. Segir hermenn á einu máli Liberman sagði í morgun að hann hefði rætt margsinnis við yfirmann hersins á Gasa og svæðinu í kring og marga hermenn sömuleiðis. „Mér skilst að þeir séu allir sammála um að ástand dagsins í dag geti ekki verið leyft að vara til lengdar,“ sagði Liberman samkvæmt TOF, þar sem hann var staðsettur í höfuðstöðvum ísraelska hersins á Gasa. Þar ræddi hann við blaðamenn eftir fundi sína með hermönnum. Hann sagðist handviss um að „alvarlegt högg“ gegn Hamas myndi tryggja frið á svæðinu í fjögur til fimm ár. Libermann sagði einnig að viðræður og jafnvel viðleitni alþjóðasamfélagsins hefði ekki geta tryggt vopnahlé við Hamas. Því væri hernaðaríhlutun eina lausnin. Ekki í boði að binda enda á herkví „Við þurfum að veita Hamas alvarlegt högg. Það er eina leiðin til að tryggja ró á nýjan leik,“ sagði Liberman. „Þegar Hamas segir að óeirðirnar muni halda áfram þar til herkvíin verði felld niður, verðum við að móttaka það. Að binda enda á herkvína þýðir aðeins eitt. Að hleypa Hezbollah og Íran inn á Gasa.“ Þjóðaröryggisráð Ísrael mun hafa komið saman á sunnudaginn. Þar var rætt um mögulega innrás á Gasa en ákveðið að bíða með ákvörðun til enda vikunnar til þess að gefa samningamönnum tíma til að stilla til friðar. Ráðið kemur aftur saman á morgun. Einn einn meðlimur ráðsins hefur mótmælt ætlunum Liberman. Naftali Bennett, menntamálaráðherra Ísrael, segir að Liberman hafi mistekist að halda aftur af hernum gegn Hama. Liberman gaf þó ekki mikið fyrir þá gagnrýni og sagði blaðamönnum að hann hefði eytt Bennett úr lífi sínu.
Chili sin carne er dásamlegur chili pottréttur án kjöts. „Sin“ þýðir án. Í staðinn fyrir kjötið er fullt af grænmeti og baunum. Það hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum að mér finnst afar hentugt að elda pottrétti og súpur. Þannig er svo auðvelt að koma grænmeti og baunum ofan í heimilisfólk. Matreiðsluþátturinn Eldað með Ebbu hefur hafið göngu sína á ný á RÚV. Skemmtilegur og óhefðbundinn matreiðsluþáttur fyrir alla fjölskylduna. Fyrirlesarinn og sjónvarpskokkurinn Ebba sýnir áhorfendum hversu auðvelt er að elda hollan, næringarríkan og umfram allt gómsætan mat úr góðu hráefni. 1 dl vatn 2 laukar 4 hvítlauksrif 1 stk. rautt chili 1 ½ tsk. cumin ¼ tsk. kanill 4 gulrætur (íslenskar) 1 sellerístilkur (má sleppa) 1 rauð paprika (íslensk og má nota grillaða úr krukku) 1 sæt kartafla (½ ef mjög stór) 1 msk. sítrónusafi (ferskur) 400 ml kókosmjólk (aukaefnalaus) 8 msk. tómatmauk (tómatpúrra) 1 tsk. sjávarsalt & nýmalaður svartur pipar eftir smekk 1 dós soðnar nýrnabaunir Fersk basilíka til að skreyta með hvern disk (eða setja út í pottinn í lokin) + nachos með salti + sýrður rjómi 20% (Mjólka) Setjið vatn í sæmilega stóran pott og byrjið að skera laukinn, hvítlaukinn og chili (ég skef út fræin svo að þetta verði ekki of sterkt fyrir litla munna). Setjið allt jafnóðum út í pottinn sem og allt kryddið og látið malla á meðan þið þvoið og afhýðið (ef þarf) gulrætur, sellerí og sæta kartöflu. Bætið við vatni ef þetta fer að festast við botninn. Skerið svo allt í munnbita og bætið út í pottinn jafnóðum. Bætið afganginum af uppskriftinni við og látið malla á vægum hita í um 30 mínútur. Þegar pottrétturinn er tilbúinn skolið þið nýrnabaunirnar (eða aðrar baunir sem þið viljið nota) og bætið við út í pottinn, náið hitanum upp aftur og berið svo fram með hreinu nachos (bara með salti og hægt að kaupa lífrænt), sýrðum rjóma (ég kaupi frá Mjólku af því hann er hreinastur) og lárperusalsa. Ég ber einnig fram einfalt salat með og læt alla borða nokkur blöð; íslenskt salat sett í skál! :) *Athugið að oft eru allskyns óæskileg aukaefni (eins og MSG) á snakki, best að borða snakk spari og kaupa aukaefnalaust.
Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður var yfirheyrður í Brennslunni á FM957 í morgun í dagskrárliðnum Yfirheyrslan. „Áhuginn var bara víða,“ sagði Villi þegar rifjað var upp að hann spilaði fótbolta með yngri landsliðum og Þrótti, Fram og Víkingi í efstu deild. „Hvenær varstu búinn að læra lögfræðina, var það bara svona í fótboltanum,“ spurði Rikki G. „Ég var að dúlla mér við það innan um og saman við,“ sagði Villi um námið. Villi var líka að garfa í stúdentapólitíkinni og segist hafa tekið sér góðan tíma í lögfræðinámið, og segir hann að lögfræðin hafi valið sig. Vilhjálmur segist hafa flutt um það bil þúsund mál fyrir rétti. „Ég var ekkert sérstaklega sleipur námsmaður, var slakur í stærðfræðinni. Ég útskrifaðist t.d. með 1 og 1 í ólesinni og lesinni stærðfræði. Ég var í Versló og betri í kjaftafögunum. Ég beitti eiginlega útilokunaraðferðinni þegar ég ákvað að fara í lögfræðina. Ef ég ætlaði í læknisfræðina þurfti ég að hafa einhvern grunn, ef ég ætlaði í viðskiptafræðina þurfti ég að hafa einhvern grunn, sama með verkfræði. Lögfræði, þá þurfti ég ekki að kunna neitt. Þannig að fagið valdi mig,“ segir Vilhjálmur. „Ég hef aldrei séð James Bond dansa,“ svarar Villi aðspurður um hvaða dans sé hans „signature“ dans á dansgólfinu. Villi myndi velja Tom Hardy til að leika sig í kvikmynd, „en aðrir myndu líklega velja Danny Devito.“ Villi segist aðeins vera korter að hafa sig til á morgnana, en hann vekur ávallt athygli fyrir smekklegan og dýran klæðaburð. Hann segist eiga um hundrað gleraugu og þá er verið að tala um sólgleraugu og venjuleg gleraugu enda er hann með styrkleika í þeim öllum. Eftir tuttugu ár ætlar Villi sér að búa í Napolí enda fer hann þangað oft á ári. „Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju ég ætti að vera vakna í Garðabænum ef ég get vaknað í Napolí,“ segir Villi, sem segist einnig sleipur í ítölskunni. Það sem kveikir í Villa er góður húmor og kaldhæðni, aðgerðarleysi er það sem kveikir ekki í honum. Aðspurður um hvort hann sé harðasti lögmaður landsins svarar Villi neitandi og segir það vera Óttar Pálsson, skólabróður hans úr Verzló, sem í dag er lögmaður og einn eigenda Logos. Innslagið má hlusta á í heild sinni hér.
Veðið í FIH sem talið var 670 milljóna evra virði lækkar þar sem söluverðmætið lítur út fyrir að enda í um 255 milljónum evra. Samningurinn um viðbótargreiðslur til Seðlabankans vegna seljendalánsins hefði að hámarki geta numið 3,1 milljarði danskra króna, eins og áður hafði verið tilkynnt um. Í grein FinansWatch segir að um áramótin voru viðbótargreiðslur til Seðlabankans taldar nema um 95 milljónum danskra króna í bókhaldi FIH Holding, eignarhaldsfélaginu sem keypti FIH af Seðlabankanum. Hversu mikið verður greitt til Seðlabankans á eftir að koma endanlega í ljós en ef marka má bankastjóra FIH virðist sem það verði lítið meira en hinir upprunalegu 1,9 milljarðar danskra króna sem greiddir voru við kaupin. Seðlabankinn eignaðist 99,89% hlut í danska bankanum FIH þegar hann tók hlutinn að veði fyrir þrautavaraláni til Kaupþings í október 2008 að upphæð 500 milljónir evra. Tapa 39 milljörðum Salan á hlutnum átti að tryggja endurheimtur þessarar lánveitingar og þegar tilkynnt var um söluna var söluverðmætið sagt vera allt að 670 milljónir evra. Því hefði Seðlabankinn getað fengið meira fyrir veðið en upphaflega var lánað til Kaupþings. Í dag lítur allt út fyrir að bankinn fái lítið sem ekkert umfram fyrstu greiðsluna frá eigendum FIH. 500 milljóna evra lánafyrirgreiðslan til Kaupþings, að frádreginni 255 milljóna evra greiðslu frá eigendum FIH, gerir það að verkum að Seðlabankinn tapar 245 milljónum evra á viðskiptunum. Það jafngildir tæplega 39 milljörðum íslenskra króna. Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur í þremur greinum í Fréttablaðinu kynnt nýja stefnu í háskólamálum og í frumvarpi til fjárlaga, þar sem frekari niðurskurður í fjármögnun háskóla er boðaður ásamt breytingum á reiknilíkani sem notað er til að skipta fjárveitingum milli háskólanna, kemur einnig fram ákveðin stefna. Af sumu sem hefur verið ritað í kjölfarið mætti ætla að nú eigi að flytja fé í stórum stíl úr „hörðum“ greinum yfir í „mjúkar“ og að þetta muni draga úr samkeppnishæfni þjóðarinnar og valda samfélaginu varanlegu tjóni. Kennsluframlög til háskólanna eru reiknuð út miðað við áætlaðan fjölda nemenda á fræðasviðum háskólanna og hvað hver nemandi er talinn kosta á einu ári að meðaltali. Nú er augljóslega misdýrt að mennta nemendur eftir því í hvaða námi þeir eru og þeir eru því flokkaði í misháa reikniflokka. Þannig er ódýrara að halda úti námi sem byggist nær eingöngu á fyrirlestrum sem margir nemendur geta sótt í einu en námi sem byggist á verkefnavinnu, þjálfun á rannsóknastofu eða vettvangi eða námi sem mjög fáir nemendur stunda, að ekki sé talað um listnám sem fer jafnvel fram í einkatímum. Tækjakostur og aðbúnaður er auðvitað misdýr en munur á kostnaði skýrist að miklu leyti af eðli kennslunnar og hópastærð. Tannlæknanám er í dýrasta reikniflokki vegna þess að þar eru einungis teknir inn örfáir nemendur á hverju ári. Nám í hugvísindum og félagsvísindum er metið langódýrast og það hefur lengi verið vitað að lægsti reikniflokkurinn er of lágur. Hann virkar þar sem hægt er að kenna í stórum hópum en nám á þessum sviðum fer alls ekki allt þannig fram. Vandamálið hefur verið sérstaklega áberandi í hugvísindum þar sem eru margar mikilvægar námsgreinar með fáum nemendum, sérstaklega í tungumálum. Kennsluaðferðir hafa líka þróast á undanförnum árum og á seinni stigum náms er meira gert úr verkefnavinnu, málstofum og öðru sem skilar mun betri árangri en fyrirlestrar en getur ekki farið fram í stórum hópum. Reikniflokkarnir hafa ekki fylgt þessari þróun eftir. Af þessum sökum þurftu hugvísindin við Háskóla Íslands þegar árin fyrir hrun að hagræða mjög í rekstri. Endurskoðun á vægi reikniflokka var því nauðsynleg en er vonandi bara fyrsta skref í stærri endurskoðun á reiknilíkaninu þar sem kennslufyrirkomulag á öllum fræðasviðum verður skoðað. Síðustu daga hefur mikið verið gert úr breyttum áherslum í háskólamálum sem koma fram í leiðréttu reiknilíkani, þar sem lægsti flokkurinn hækkar hlutfallslega (þó hann lækki í krónutölu) en hærri flokkarnir lækka til að mæta mismuninum (fyrir utan hjúkrunarfræðina sem er eini flokkurinn sem hækkar). Kennarar í Raunvísindadeild Háskóla Íslands mótmæla þessum breytingum, málið fær talsverða umfjöllun í utandagskrárumræðu um háskólamál á Alþingi 18. október sl. og í nokkrum aðsendum greinum í Fréttablaðinu hefur breytingunum verið mótmælt. Mótmælin byggjast á þeirri skoðun að með þessu sé verið að grafa undan nýsköpun og þekkingariðnaði í landinu og þar með draga úr samkeppnishæfni þjóðarinnar. Nú er engin ástæða til að efast um mikilvægi raunvísinda, verkfræði og tæknigreina en vert að benda á að án öflugs háskólanáms og rannsókna í hugvísindum verður samfélagið ekki bara menningarlega fábreyttara heldur mun það líka draga úr hæfni okkar til nýsköpunar og gera hana fátæklegri. Við þurfum fólk með góða þekkingu á erlendum tungumálum og þjóðum meira en nokkru sinni fyrr til að styrkja okkur í samfélagi þjóðanna sem og þekkingu á menningu okkar og sögu, m.a. til að menningartengd ferðaþjónusta – sem er einn af vaxtasprotunum í atvinnulífi Íslands – velti sér ekki upp úr yfirborðsmennsku og tómu sjálfshóli. Við þurfum umfram allt fólk sem kann að lesa, túlka og gagnrýna til að við komumst áfram á styrkari grunni en við byggðum á síðastliðin ár. Til að þetta verði þarf öflugt nám og rannsóknir í hugvísindum.
Ástralski leikarinn Mel Gibson virðist óðum vera að ná sér eftir erfitt tímabil og dómari í máli hans lýsti yfir ánægju með þróun mála. Gibson var handtekin fyrir rétt tæpu ári en hann var þá grunaður um að vera ölvaður undir stýri. Þegar lögreglumaður nálgaðist hann lét Gibson fúkyrði fjúka yfir gyðinga og náðust ummælin á myndband. Þetta vakti mikla reiði meðal áhrifamanna í Hollywood enda gyðingar valdamikill hópur í kvikmyndaborginni. Leikarinn baðst afsökunar og lýsti því yfir að hann hefði ekkert á móti gyðingum. „Þetta var áfengið að tala, ekki ég," sagði Gibson þá. Leikarinn var dæmdur í þriggja ára skilorðsbundið fangelsi, gert að fara í áfengismeðferð og borga sekt. Farið var yfir stöðu mála nýverið fyrir dómi í Kaliforníu og sagði dómarinn Lawrence Mira að hún hefði mikla trú á meðferðinni og að greinilegt væri að Gibson legði sitt af mörkum til að ná bata. Gibson var ekki viðstaddur yfirferðina yfir málið en lögfræðingur hans, Blair Berk, sýndi fram á að Gibson væri allur af vilja gerður og hefði varla sleppt úr fundi í meðferð sinni. Dómarinn Mira taldi þrátt fyrir allt að nauðsynlegt væri að Gibson myndi láta sjá sig næst. „Þannig að við séum öll á sama máli," sagði Mira. Talsmaður leikarans, Alan Nierob, lýsti því síðan yfir við AP-fréttastofuna að skjólstæðingi hans liði vel og að allt gengi samkvæmt áætlun. „Hann leggur mjög hart að sér," sagði Nierob.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, viðurkennir að staðan er að verða alvarleg hjá liðinu eftir tapið gegn Leicester í gærkvöldi og bæði hann og leikmennirnir eru nú að spila upp á framtíð sína hjá félaginu. Liverpool hefur spilað skelfilega á nýju ári. Liðið er aðeins búið að vinna einn leik í deildinni en falla úr báðum bikarkeppnunum á Englandi og er nú í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti eftir að vera í baráttu um sjálfan Englandsmeistaratitilinn framan af leiktíð. Sjá einnig: Carragher: Liverpool ömurlegt og fær á sig 50 mörk með þessu áframhaldi Í heildina er Liverpool aðeins búið að vinna tvo af tólf leikjum sínum á árinu en hinn sigurinn var á móti smáliði Plymouth í þriðju umferð enska bikarsins. Liðið er nú fjórtán stigum á eftir Chelsea í deildinni. „Staðan er orðin alvarlea. Við erum allir að spila upp á framtíð okkar og þar er ég meðtalinn. Við erum dæmdir á hverjum degi, sérstaklega á leikdag,“ sagði Klopp eftir tapið gegn Leicester í gærkvöldi. „Auðvitað hefur frammistaða okkar áhrif á þessa hluti. Ég tel leikmennina ekki jafnslaka og úrslitin hafa verið undanfarið en þeir þurfa mína hjálp til að sýna meira en þeir hafa verið að gera undanfarnar vikur.“ „Ég finn fyrir mestri ábyrgð því ábyrðgin er mín. Ég vona bara að ég noti orðið við nógu mikið en ekki þeir því ég á stóran hlut í máli,“ sagði Jürgen Klopp.
Dagskráin á Safnanótt í Kópavogi hefur sjaldan verið glæsilegri Safna- og menningarhúsin í Kópavogi verða opin til miðnættis í kvöld. Tilefnið er Safnanótt sem haldin er í samstarfi allra safna á höfuðborgarsvæðinu. Gamlar kvikmyndir frá Kópavogi verða sýndar í Héraðsskjalasafninu. Tónlistarsafnið leikur tónlist frá stríðsárunum. Í Gerðarsafni verður listasmiðja og leiðsögn um sýninguna Íslenska teiknibókin. Í Náttúrufræðistofu Kópavogs verður fræðsluerindi um næturdýr og í Molanum verður tískusýning. Frítt er inn á alla viðburði. Aðsóknarmet var slegið á Safnanótt í Kópavogi í fyrra og myndaðist skemmtileg stemmning á menningarholtinu okkar. Lítið mál er að leggja bílnum í bílastæðahúsinu beint á móti safnahúsinu og nota tvo jafnfljóta til að ganga á milli húsanna og njóta þeirrar líflegu dagskrár sem þar verður að finna. Dagskrá Safnanætur í Kópavogi: SAFNANÓTT Í GERÐARSAFNI Dagskrá: Kl. 19:00 – 21:00 LISTSMIÐJA FYRIR FJÖLSKYLDUNA – ÍSLENSKA TEIKNIBÓKIN Ufsagrýlur, drekar og aðrar óvættir. Teiknað með óhefðbundnum efnivið út frá fyrirmyndum í íslensku teiknibókinni. Listsmiðja fyrir 6-12 ára börn með foreldrum. Fjöldi þátttakenda er takmarkaður. Skráning í síma 570 0440. Kl. 19:00 – 23:00 SKRIFARASTOFA Svanhildur María Gunnarsdóttir safnkennari fræðir gesti um handverkið sem býr að baki gerð miðaldahandrita. Gestum býðst að skrifa með tilskornum fjöðurstaf og jurtableki á kálfskinn, verkað með ævafornri aðferð. Kl. 21:00 LEIÐSÖGN – ÍSLENSKA TEIKNIBÓKIN Guðbjörg Kristjánsdóttir safnstjóri verður með leiðsögn um sýninguna. Íslenska teiknibókin inniheldur safn fyrirmynda sem listamenn fyrri alda nýttu sér. Bókin er ein af fáum fyrirmyndabókum sem varðveist hafa í Evrópu. SAFNANÓTT Í HÉRAÐSSKJALASAFNI KÓPAVOGS Dagskrá: Kl. 19:00 til 24:00 KVIKMYNDIR ÚR KÓPAVOGI Skjalasafnið sýnir í samstarfi við Sögufélag Kópavogs sögulegar kvikmyndir úr bænum sem varðveittar eru í Kvikmyndasafni Íslands. Elstu kvikmyndabrotin eru frá 1921 og eru mörg afar fágæt, t.d. kvikmyndin Að byggja eftir Þorgeir Þorgeirson sem gerð var í tilefni af 10 ára afmæli Kópavogskaupstaðar 1965. Myndirnar verða sýndar reglulega allt kvöldið. SKÓLAR Í SKJÖLUM Opnuð verður sýning um skóla í Kópavogi. Rifjið upp gömlu kennslubækurnar og stólana, ritvélar og Commodore 64. Ýmis skjöl er varða upphaf almenningsfræðslu í Kópavogi verða einnig dregin fram í dagsljósið. SKOÐIÐ SKJALASAFNIÐ Skjalaverðir leiða gesti í skoðunarferð um geymslur safnsins, þar sem kennir ýmissa grasa. Hvað eru margir hillumetrar af Breiðabliki í skjalasafninu? Af hverju geymir skjalasafnið sög? Af og til allt kvöldið. SAFNANÓTT Í NÁTTÚRUFRÆÐISTOFU KÓPAVOGS Dýr í myrkri – sýning Upphafstími: 19:00 Lokatími: 23:30 Mörg dýr eru aðlöguð lífi í myrkri. Sum eru næturdýr en önnur lifa í umhverfi þar sem dagsbirtu nýtur aldrei. Þessum aðlögunum verða gerð skil í anddyri Náttúrufræðistofu Kópavogs. Til sýnis verða eintök af næturdýrum og gerð verður grein fyrir aðlögunum þeirra í máli og myndum. Rötun í myrkri – fræðsluerindi Upphafstími: 22:00 Lokatími: 23:00 Hefðbundin næturdýr í okkar huga eru kattardýr, uglur og leðurblökur, en ýmis sjávardýr s.s. fiskar og hvalir glíma einnig við myrkar aðstæður. Þá má ekki gleyma dýrum sem lifa neðanjarðar eins og moldvörpum og snoðrottum, eða þá helladýrum á borð við hellasalamöndrur og Þingvallamarflær. Haraldur R. Ingvason fjallar vítt og breitt um aðlaganir dýra að þessum aðstæðum og hvernig tekist er á við hversdagslega hluti eins og fæðunám og rötun í kolniðamyrkri. SAFNANÓTT Í MOLANUM, UNGMENNAHÚSI Dagskrá: Kl. 18:30 til 24:00 Húsið opnar klukkan 18.30 með tískusýnungu frá Særósu Mist þar sem hún mun frumsýna sína þriðju fatalínu, Collection Ladies, en hún hélt sína fyrstu tískusýningu á eigin hönnun, aðeins 15 ára gömul. Særós Mist er um þessar mundir að ljúka námi í fatatækni við Hönnunar og Handverksskólan í Reykjavík, en þetta verkefni hefur hún unnið sjálfstætt með skóla síðastliðið ár. Collection Ladies samanstendur af fimmtán kvenklæðum; kjólum, samfestingum, skyrtum, buxum og léttum yfirhöfnum. Innblástur fatalínunnar kemur frá klassískum klæðnaði kvenna fyrr á tíðum, fáguðum, kvenlegum og rómantískum dömum, en þó í nútímaútgáfu. Ásamt Særósu Mist mun Rósa Rún danshöfundur sameina krafta sína í sjónarspili sem tengir saman listformin dans og fatahönnun. Leikið verður með hið hefðbundna form tískusýningar og það kryddað með dansívafi. Útkoman verður kraftmikil og lifandi tískusýning, gerð til að gleðja, hrífa og kítla skilningavit áhorfanda! Strax að lokinni tískusýngu munu ungir listamenn og hönnuðir opna lista og handverksmarkaðinn HÖNNLISTÍZK í rými Molans. Þar gefst gestum og gangandi tækifæri á að skoða afurðir frá hönnuðum á borð við Aðalheiði Sigfúsdóttur klæðskera sem hannar undir merkinu Made by Ally, Ástrósu Steingrímsdóttur frá Frost & Feather, Elvari Smára Júlíussyni sem sýnir grafíkverk sín, Heiðrúnu Fivelstad áhugaljósmyndara, Ólöfu RúnBenidiktsdótturlistamanni og fleirum ungum hönnuðum. Léttar kaffiveitingar verða að sjálfsögðu á boðstólnum ásamt ljúfum tónum frá ungmennum. SAFNANÓTT Í BÓKASAFN KÓPAVOGS Einar Einstaki Kl. 9:30-20:00. (Töfrabrögð). Einar Einstaki töframaður sýnir töfrabrögð fyrir börn og fullorðna. Einar Einstaki Kl. 20:15 -20:45. (Töfrabrögð). Einar Einstaki töframaður sýnir töfrabrögð fyrir börn og fullorðna. Einar EinstakiKl. 21:00 – 21:30. (Töfrabrögð). Einar Einstaki töframaður sýnir töfrabrögð fyrir börn og fullorðna. Bókasafn Kópavogs,Hamraborg 6a, barnadeild 3ju hæð.
Árshátíð unglingadeildar Grunnskóla Vestmannaeyja var haldin í Höllinni á fimmtudagskvöld fyrir viku. Krakkarnir höfðu greinilega lagt mikla vinnu í bæði skemmtiatriði og skreytingu á salnum en árshátíðin var haldin í Las Vegas stíl, þar sem teningar, spil og glamúr var allsráðandi. Árshátíðin var lokahnykkur Smiðjudaga sem hafa verið í gangi í Barnaskólanum en á árshátíðina mættu nemendur í 8., 9. og 10. bekk eða um 200 krakkar. Árshátíðin hófst með því að nemendur og starfsfólk borðuðu saman frábæran mat sem Einsi kaldi og félagar framreiddu. Yfir matnum var svo sýnd stuttmynd sem nemendur í 9. bekk höfðu unnið en myndin fékk mjög góða dóma, bæði hjá nemendum og starfsfólki og ekki öllum fært að gera báða hópana ánægða í einu. Kynnarnir veittu svo verðlaun fyrir hinar ýmsu uppákomur sem voru á smiðjudögum, m.a. í ljósmyndakeppni. Kennaraliðið lét sitt ekki eftir liggja og kom með bráðskemmtilegt atriði þar sem þeir sýndu nemendum nokkrar týpur nemenda sem þeir vinna með á skólaárinu og voru kennararnir komnir í hlutverk nemenda. Hljómsveitin Sons of Katúlú flutti nokkur lög og leikritið að þessu sinni var samansett úr styttri atriðum úr ýmsum áttum. Sandra Dís og Ólöf Halla tóku svo lagið í sitt hvoru laginu og hljómsveitin 3D fylgdi í kjölfarið en tónlistargáfur nemenda GRV eru greinilega í góðu lagi. Hápunktur kvöldsins var þegar hin ýmsu verðlaun voru afhent, m.a. gelgja skólans, íþróttafrík skólans, bjartasta vonin, skemmtilegasti kennarinn, krútt skólans og bjartasta brosið. Í lokin var svo tilkynnt um herra og frú GRV en það kom í hlut þeirra Steingríms Sigurðssonar og Guðdísar Jónatansdóttur. DJ Elvar þeytti svo skífum og Vangaveltur með Sísí innanborðs tóku lagið en þegar dagskrá var lokið, var slegið upp heljarmiklu balli. Til að sjá fleiri myndir frá árshátíðinni, smelltu hér.
„Ég tek keðjur, slít þær í sundur og set þær svo aftur saman með töng. Pabbi minn er smiður og ég fer reglulega og finn eitthvað sniðugt í verkfærakassanum hans sem ég nota svo í hálsmenin,“ segir Rut Karlsdóttir sem hannar skartgripi undir nafninu Rut Karls Jewelry. Rut stundaði fatahönnunarnám við IEP-skólann í Barcelona áður en hún sneri sér að skartgripahönnun. „Ég var að gera lokaverkefnið mitt í skólanum úti og leitaði eftir innblæstri í öllu sem var í kringum mig. Vinahópurinn minn þarna úti samanstóð af svolítið „dark“ og pönkaralegum týpum. Ég heillaðist af útliti þeirra og fékk þannig innblástur fyrir skartgripalínuna mína,“ segir Rut. Hönnun hennar einkennist af keðjum og hauskúpum sem hún málar eða spreyjar. Til að byrja með hannaði Rut helst fyrir vini og vandamenn en áður en hún vissi af var hún farin að fá fyrirspurnir frá ókunnugu fólki og þá fyrst fór boltinn að rúlla. „Þetta er allt að smella og ég er ekki lengur að selja bara í gegnum Facebook. Viðskiptavinirnir eru fólk af öllum gerðum, bæði strákar og stelpur. Meira að segja eldri konur hafa keypt hálsmen af mér, þær eru greinilega ekki hræddar við að ganga með hauskúpur um hálsinn,“ segir Rut og hlær. Rut starfar á Hótel Reykjavík um þessar mundir en hyggur á frekara nám í hönnun eða myndlist í framtíðinni. „Mig langar að fara í Myndlistarskóla Reykjavíkur og jafnvel læra ljósmyndun líka. Það er svo margt sem mig langar að gera,“ segir athafnakonan Rut að lokum. Rut Karls Jewlery fæst í Dusted.is
Við eyðum flest mjög stórum hluta dagsins sitjandi, en rannsóknir sýna að bara kyrrsetan sem slík er óholl út af fyrir sig. Jafnvel þótt við fáum daglegan skammt af hreyfingu einu sinni á dag, þá er það ekki nóg. Það er þessi hversdagslega, jafna hreyfing yfir daginn, þessi venjulega ganga, sem skiptir svo miklu máli fyrir góða heilsu. Það er stóllinn sem er orðinn eitt það hættulegasta í okkar umhverfi! Við getum því raunverulega eflt heilsu okkar á víðtækan hátt með því að búa í göngu- og hjólavænu umhverfi með gott aðgengi að almenningssamgöngum. Það hvernig skipulagi byggðar er fyrirkomið, hvort umhverfið býður upp á gott og öruggt aðgengi fyrir hversdagslega hreyfingu, hefur þannig raunveruleg áhrif á lífsstíl okkar og heilsu. Bæir og borgir úti um allan heim hafa verið að átta sig á mikilvægi þessa fyrir líf og líðan íbúa sinna og leggja æ meiri áherslu á að skipuleggja gott umhverfi fyrir göngur, hjól og notkun á strætó – sem eru jú um leið vistvænir ferðamátar. Sem dæmi þá nýta íbúar í Þrándheimi mun frekar þessa vistvænu ferðamáta en við Reykvíkingar, (43% á móti 23% í Reykjavík) þrátt fyrir að við séum á svipaðri breiddargráðu, en Þrándheimur hefur lyft grettistaki síðasta áratuginn í þessum málum. Fyrst þau geta – þá getum við! En til að bæta heilsu okkar þá þarf tvennt til. Umhverfi sem býður upp á gott og öruggt aðgengi fyrir hversdagslega hreyfingu og við sjálf þurfum að vera opin fyrir þeim tækifærum, að nýta hvert tækifæri sem gefst til að hreyfa okkur og taka á þeirri mýtu að veðrið hér sé vont. Er þetta ekki spurning um að klæða sig eftir veðri? Gott dæmi um áhrif hreyfingar á heilsu eru samgöngusamningar sem ÁTVR gerði við starfsfólk sitt. Þeir hafa dregið úr fjarvistum um 2% og með því lækkað rekstrarkostnað um u.þ.b. 60 m.kr. á ári. Bætt heilsa snýst líka um samfélagið og peninga, færri tapaðar vinnustundir og minni kostnað í heilbrigðiskerfinu, en af slíku er stór ávinningur. Þetta sýnir okkur enn og aftur mikilvægi skipulagsmála og áhrif þeirra á heilsu okkar og líðan – andlega og líkamlega.
Korkur: mmorpg Titill: Spurningar tengdar DAoC! Höf.: Beornulf Dags.: 7. mars 2002 10:31:49 Skoðað: 173 Geez, You become better at posting at Hugi (15)! Ég setti þetta óvart inn sem grein ;) ——————————————– Hæ, Ég er forvitinn að vita á hvaða miðlara (server) flestir íslensku spilararnir eru á, mér skilst að þeir séu flestir á USA miðlurum. Ég er EQ spilari sem hef áhuga á að prófa DAoC og hef verið að bauna spurningum á forums á erlendri grundu en lítið verið um svör. Því ætla ég að spyrja hér líka: Copy/paste… Hiya, I´m a veteran EQ player reading up on DAoC and of course, Interealms doesn´t fail me so here I am. I´m probably in the wrong place too, but I´m hoping for some advice. I´m totally new to DAoC, not even installed yet but was hoping for some info that I could then relate to my EQ experience. So here I go: Are there any “needed” classes in DAoC like in EQ (Warrior, Cleric)? Is it true that every class in DAoC can solo as well? How long does it take to level from 1-50 in perspective to EQ´s 1-60? What would make the best duo in DAoC? (Debated question I´m sure, more than one thought welcome) Which class is currently overpowered and needs nerfing? What happens at 50? I haven´t seen that there is any highend game cept for RvR, is that correct? I saw someone mention “twink”, I believed that wasn´t possible in DAoC, was I wrong? Which classes, if any, are the travelling classes (Druid, Wizard in EQ)? Are the servers on many locations, Europe - America? Should I pick any server, random or a particular server? If so, why? (perhaps there is just one) /grin I think I´ve asked all I remember for now, I´d be grateful for all hints and tips! If it helps any, I played a Rogue (main), Shammie (alt) and Cleric (twink) in EQ all at 60 or close to 60. Með fyrirfram þökk, Caaine D´moor --- Svör ---
Guðmundur Kristjánsson, sem tilkynnti fyrir viku að hann hafi ákveðið að láta af störfum sem forstjóri útgerðarfélagsins Brims, segist hafa tekið þá ákvörðun vegna rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á yfirráðum Útgerðarfélags Reykjavíkur og tengdra aðila í Brimi. Hann segist upplifa rannsóknina sem persónulega herferð gegn sér. Þess vegna hafi hann talið best fyrir fyrirtækið og starfsfólk þess að hann léti af störfum sem forstjóri. Samkeppniseftirlitið ætlar að hefja sjálfstæða rannsókn á yfirráðum Útgerðarfélags Reykjavíkur hf. og tengdra aðila í Brimi hf. Þetta kom fram í tilkynningu Brims til Kauphallarinnar í gær, en tilkynnt var um rannsóknina samhliða því að Samkeppniseftirlitið ákvað að aðhafast ekkert frekar í kaupum Brims á Fiskvinnslunni Kambi hf. og Grábrók ehf. Í tilkynningunni segir að Samkeppniseftirlitið ætli að rannsaka hvort stofnast hafi til yfirráða Útgerðarfélags Reykjavíkur hf. og tengdra aðila í Brimi vegna viðskipta Útgerðarfélagsins í fyrra. Samkeppniseftirlitið telur að viðskiptin, sem tengjast eignarhlut Útgerðarfélagsins í Brimi, hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á mat á yfirráðum í félaginu í skilningi samkeppnislaga. Sjá einnig: Samkeppniseftirlitið rannsakar viðskipti með bréf Brims Guðmundur var gestur Kastljóss í kvöld. Þar sagðist hann upplifa rannsókn Samkeppniseftirlitsins sem persónulega herferð gegn sér. „Já ég upplifi það þannig. Og mig langaði til að fara í stríð við þá. En skynsemin sagði mér að það væri ekki vit í því. Og ég er orðinn það gamall núna, en kannski fyrir mörgum árum hefði ég tekið slaginn við þá. En skynsemin sagði mér að það væri betra að fara til hliðar og láta fyrirtækið halda áfram og halda áfram með lífið.“ En þú munt hafa einhver ítök í stjórninni? „Já ég er ekkert hættur í sjávarútvegi,“ sagði Guðmundur, en hann verður áfram stærsti eigandi Brims og situr áfram í stjórn félagsins. Guðmundur sagðist í viðtalinu ekki skilja hvers vegna Samkeppniseftirlitið væri að rannsaka fyrirtæki sem stæðu fyrst og fremst í samkeppni á erlendri grundu. Þá sagðist hann ekki upplifa spillingu í íslenskum sjávarútvegi. Hér má sjá viðtalið við Guðmund í heild sinni.
Sóttvarnalæknir biðlar Íslenska erfðagreiningu um aðstoð við að skima fyrir veirunni. Honum hugnast hvorki að hætta að skima þá sem koma með vottorð um bólusetningu né að taka upp hraðgreiningarpróf. Fleiri ferðamenn streyma nú til landsins en reiknað var með og greiningargeta Landspítalans er að ná þolmörkum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það séu alltaf einhverjir sem greinist með veiruna þrátt fyrir að framvísa vottorði við komuna til landsins um bólusetningu eða fyrri sýkingu. Geta komið hópsýkingar frá einum eða tveimur smituðum „Við erum búin að taka sýni frá fólki sem kemur með bólusetningarvottorð og vottorð um fyrri sýkingu, frá 1. apríl. Það eru nokkur þúsund manns sem hafa framvísað slíkum vottorðum. Við höfum fundið nokkra einstaklinga sem bera með sér smit. Hlutfallið er svona um það bil 0,1%. Þetta eru ekki margir einstaklingar en ég bendi á að við höfum fengið stórar hópsýkingar frá einum eða tveimur einstaklingum á landamærunum. Þannig að við getum fengið faraldra. En við erum bara að safna þessum upplýsingum. Auðvitað kemur að því að við getum hætt þessu en þá þurfum við líka að vera nokkuð örugg á því að ónæmi hér innanlands hafi náð viðunandi mörkum svo að við fáum ekki sýkingar. Það er tilgangurinn,“ segir Þórólfur. Þetta hefur verið nefnt sem leið til að létta álaginu á greiningunni. Finnst þér tímabært að gera það núna, að sleppa því að skima þá sem koma með vottorð? „Nei, mér finnst ekki alveg vera kominn tími á það. Það er náttúrulega verið að gera mjög margt á landamærunum. Við erum bara að skoða það í hverju felst áhættan á að sleppa eða breyta hinu og þessu. Eins og staðan er núna held ég að það væri skynsamlegt að halda núverandi fyrirkomulagi eins lengi og mögulegt er en það getur vel verið að við verðum að grípa til einhverra annarra ráða fyrr eða síðar,“ segir Þórólfur. Eruð þið komin með hugmyndir um hvernig er unnt að auka greiningargetuna? „Það er ekki margt í stöðunni þar. Veirufræðideild Landspítalans er með þessar PCR-greiningar,“ segir Þórólfur. Þórólfur leitar til Kára „Svo hefur Íslensk erfðagreining mjög oft hlaupið undir bagga og bjargað mörgum hlutum. Við erum bara að skoða það. Nú, það er líka hugmynd hvort það eigi að taka upp aðrar greiningaraðferðir, hraðgreiningarpróf eða eitthvað slíkt. Að mínu mati eru þau ekki eins áreiðanleg og krefjast annarrar útfærslu heldur en PCR-vottorðin sem við erum búin að nota allan tímann, höfum mjög góða reynslu af og allt okkar kerfi byggir á, greiningarkerfi og söfnun upplýsinga. Þannig að við þurfum að fara mjög varlega í að breyta slíku kerfi en þetta er allt til skoðunar,“ segir Þórólfur. Af orðum Þórólfs má ráða að viðræður standi yfir við Íslenska erfðagreiningu um aðstoð við sýnagreiningu. Samkvæmt heimildum fréttastofu er það svo. Fréttin hefur verið uppfærð
Höfuðpaurinn í máli Brynjars Mettinissonar, íslensks fanga í Taílandi, hlaut fimmtíu ára fangelsisdóm fyrir aðild sína að málinu. Dómurinn var styttur niður í 25 ár í ljósi þess að maðurinn játaði. Dómurinn taldi ljóst að Brynjar hafi ekki vitað að flytja ætti fíkniefni. Brynjar Mettinisson var handtekinn í Bangkok í Taílandi í maí í fyrra, grunaður um að hafa auglýst eftir burðardýri að fíkniefnum. Hann hefur hins vegar alltaf lýst yfir sakleysi sínu. Annar maður, Írani á þrítugsaldri, var einnig handtekinn í aðgerðum lögreglu, grunaður um að hafa skipulagt smygl á tæpu kílói af amfetamíni í vökvaformi frá Taílandi til Japans. Brynjar og Íraninn hafa báðir dvalið í fangelsi í Bangkok í rúmt ár við afar slæman kost en loks var réttað í máli þeirra í síðustu viku. Í dómnum segir að ljóst sé að Brynjar hafi ekki vitað að um fíkniefni hafi verið að ræða, heldur hafi honum verið sagt að þetta væri lyf sem framkallar fósturlát hjá konum og átti að flytja til Japan. Fá mánuð til að ákveða áfrýjun Öllum ákærum gegn Brynjari var því vísað frá dómi. Ákæruvaldið fær hins vegar mánuð til þess að ákveða hvort það áfrýjar dómnum til æðra dómstigs. Brynjar þarf að dúsa í fangelsi þar til ákvörðun liggur fyrir nema greidd verði trygging sem nemur rúmum átta milljónum króna. Dómurinn taldi hins vegar að Íraninn væri sekur um sinn þátt í málinu enda sannað að hann hefði skipulagt smygl á miklu magni fíkniefna frá Taílandi til Japan. Hann var dæmdur í fimmtíu ára fangelsi en dómurinn var styttur um helming, niður í 25 ára fangelsi, í ljósi þess að hann játaði aðild sína. Búist er við að hann áfrýji niðurstöðunni. Ítarleg fréttaskýring verður um mál Brynjars í sjónvarpsfréttum klukkan tíu í kvöld.
Topplið Vals vann dramatískan sigur á botnliði Grindavíkur í Dominos-deild kvenna í körfubolta. Þá hirti KR annað sæti deildarinnar af Keflavík eftir sigur í viðureign liðanna í Vesturbæ. Grindavík fór sigurlaust í gegnum fyrri hluta deildarinnar fram að áramótum. Liðið vann hins vegar sinn fyrsta sigur á tímabilinu er liðið hafði betur gegn Breiðabliki í botnslag um helgina. Sigurinn virtist gefa liðinu sjálfstraust þar sem Grindavíkurkonur mættu ákveðnar til leiks er þær fengu Íslandsmeistarana í heimsókn í kvöld. Grindavík var 40-35 yfir í hálfleik en Valskonur náðu að eins stigs forystu, 60-59 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Þar komst Grindavík 71-70 yfir þegar rúmar tvær mínútur voru eftir en Kiana Johnson setti þá niður mikilvæga þriggja stiga körfu fyrir Val. Þá skoraði hún af vítalínunni skömmu síðar og staðan því 74-71 fyrir Val. Grindavík fór í sókn á lokasekúndunum sem lauk með flautuskoti Jordan Reynolds. Skotið geigaði en það var hins vegar brotið á henni. Hún fór því á vítalínuna og tók þrjú skot. Fyrstu tvö skotin fóru niður en það þriðja geigaði og vann Valur því 74-73 sigur. KR tók annað sæti deildarinnar af Keflavík með öruggum 69-47 sigri á liðinu í Frostaskjóli í kvöld. KR er þar með 22 stig, fjórum á eftir toppliði Vals, en Keflavík er með 20 stig í þriðja sæti en á þó leik til góða. Skallagrímur vann mikilvægan 73-59 sigur á Haukum í Borgarnesi en liðin eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni í vor. Liðin eru nú jöfn að stigum í fjórða og fimmta sæti en efstu fjögur sætin gefa keppnisrétt í úrslitakeppninni. Haukakonur höfðu unnið fimm leiki í röð fyrir tapið í kvöld. Þá vann Snæfell 67-61 sigur á Breiðabliki í fallbaráttuslag í Stykkishólmi. Snæfell er með átta stig í sjötta sæti en Breiðablik er sæti neðar með fjögur stig, tveimur stigum á undan botnliði Grindavíkur.
Hæstv. forseti. Þegar hv. þingmaður talar um að ríkisstjórnin haldi uppi þenslu þá vill svo til, og það kom fram í mínu máli, að það er verið að spá hagvexti í lok næsta árs upp á 2,4%, þannig að í skýrslunni sem er til umfjöllunar er nú ekki verið að gera ráð fyrir framkvæmdum sem eru þó í umræðunni. Ég held að hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem þingmaður Vinstri grænna, beri álíka mikla ábyrgð og sú sem hér stendur á því sem verið er að tala um. Það vill svo til að af hálfu Alcan í Straumsvík var skrifað undir viljayfirlýsingu við Orkuveitu Reykjavíkur um kaup á 40% af þeirri orku sem þarf. Fulltrúi Vinstri grænna í þeirri stjórn, sem er gjaldkeri flokksins, hvorki meira né minna, greinilega mikill peningamaður og hefur best innsýn í fjármál, styður það. Hvernig geta Vinstri grænir stutt það í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að farið sé í þessar framkvæmdir en verið á móti þeim þegar þær koma inn á Alþingi Íslendinga? Ég botna ekkert í því. Við framsóknarmenn erum yfirleitt ekki með svona málflutning, eftir því hvað hentar. Það þýðir ekkert annað en að standa í báða fæturna og hafa einhverja stefnu og standa við hana, hvort sem maður er í sveitarstjórn og með sína fulltrúa þar eða hér á hv. Alþingi.
Undanfarin ár hefur Nína Björk Gunnarsdóttir verið að stílisera og ljósmynda ásamt því að sinna móðurhlutverkinu. Nýverið flutti hún til Íslands eftir búsetu í Lúxemborg þar sem lífið var heldur íburðarmeira. Lífið ræddi við Nínu Björk um ljósmyndunina, nýtt upphaf og framtíðardrauma á Íslandi. Velkomin heim! Nú ertu flutt aftur til Íslands frá Lúxemborg, hvernig er tilfinningin að vera komin heim? „Það er rosalega góð tilfinning. Ísland er land mitt og hérna vil ég festa rætur næstu árin. Ég gat ekki verið mínútu lengur úti. Ég var komin með mikla heimþrá og svo eru miklu fleiri tækifæri fyrir konur hér heima. Konur á Íslandi eru miklu sjálfstæðari. Svo er það bara lífið að vera í kringum sína nánustu.“ Hvað kom til að þið flytjið heim núna? „Það eru ýmsar ástæður fyrir því. Okkur fannst þetta rétti tíminn núna þar sem sonur minn, sem er að byrja í gagnfræðaskóla, vildi vera unglingur á Íslandi. Ég er að fara í meira ljósmyndanám, kærastinn fékk vinnu á Íslandi og dóttirin er komin með leikskólapláss, þannig að allir eru með sitt. Það er eiginlega ótrúlegt hvað allt gengur vel með heimflutninginn. Ég fann meira að segja íbúð á tveimur dögum.“ Mikið snobb í Lúxemborg Hvað bjóstu lengi í Lúxemborg? „Ég bjó úti í fjögur ár. Þetta hefur verið lærdómsríkur tími og ég fékk ýmis tækifæri í ljósmynduninni. Ég eignaðist frábærar vinkonur og ég kynntist sjálfri mér einnig upp á nýtt. Börnin hafa fengið heilan helling út úr þessu þannig að ég er bara þakklát fyrir þennan tíma með börnunum mínum. Ég fæddi Emblu dóttur mína í Lúxemborg, sem var stærsta gjöfin mín. Egill stóð sig vel í skólanum og átti góð tímabil í fótboltanum. Það er líka nauðsynlegt að komast í burtu frá Íslandi, þá kann maður að meta litlu hlutina svo miklu betur.“ Geturðu nefnt helstu kosti og ókosti við borgina? „Lúxemborg er æðislega staðsett og því er svo auðvelt að ferðast annað þaðan frá. Þar er frábært heilbrigðiskerfi. Hugsunarhátturinn er frekar gamaldags og svo er ansi mikið snobb í gangi. Þarna ganga þrettán ára stelpur um með Louis Vuitton-töskur enda má ekki minna vera. Mig langar ekki til að ala upp börnin mín í svoleiðis umhverfi. Maður lærir ekki á lífið nema maður vinni fyrir hlutunum. Það þykir eðlilegt að konur séu heimavinnandi en ég er svo mikið fiðrildi og þarf því að vinna og skapa.“ Heima er best Fékkstu stundum heimþrá? Hvers saknaðirðu þá einna helst? „Ég saknaði fjölskyldu og vina, og þess hvað allt er þægilegt á Íslandi. Það er svo stutt í allt og svo er menningin heima aðlaðandi. Mér finnst Íslendingar upp til hópa ofboðslega skemmtilegt fólk. Það getur verið að ég fái örlítið menningarsjokk að koma til baka en ég hræðist ekkert nema myrkrið á veturna.“ Ræktar tengslanetið Þú hefur búið erlendis áður, er það ekki? „Jú, ég bjó í Kaupmannahöfn þar sem ég var í ljósmyndanámi. Svo starfaði ég sem fyrirsæta í London, París, Mílanó og á Grikklandi.“ Hvernig var það að vinna sem ljósmyndari/stílisti í Lúxemborg? „Ég tók að mér ýmis áhugaverð verkefni og tók myndir af öllum flottustu tískumerkjunum í heimi fyrir Friden í Lúxemborg, vann fyrir Gia in Style og fleiri. Eitt sinn myndaði kjól sem kostaði yfir 4.000 evrur, ég var eiginlega að fara á taugum. Það er þó mun erfiðara að komast að úti í Lúxemborg og fá verkefni. Tengslanetið á Íslandi er auðvitað stórkostlegt.“ Hvernig var að vera með tvö börn í stórborg? „Þetta var frábært tækifæri fyrir þau til að læra meiri aga og önnur tungumál og það verður þeim gott veganesti út í lífið. Hins vegar er frelsið heima svo gott fyrir íslensk börn.“ Hvern hefur verið mest gefandi að mynda frá því þú byrjaðir að ljósmynda? „Ég er búin að mynda svo margt stórkostlegt fólk í gegnum tíðina. Það hafa allir sinn sjarma og eftir verkefni geta myndast góð tengsl á milli fólks. Flestir eru gefandi en bara á mismunandi hátt.“ Þú hefur nú verið að vinna við önnur verkefni en að ljósmynda, eins og að senda Íslendingum föt frá H&M gegn greiðslu. Hvernig kom það til? „Íslendingar eru auðvitað afar hrifnir af H&M og versla mikið þar þegar þeir fara til útlanda. Mér fannst þetta sniðug hugmynd og gerði þó nokkuð af þessu. Mér finnst alls ekki leiðinlegt að versla því ég lifi og hrærist í tískuheiminum sem er líka mitt áhugamál.“ Framtíðin á Íslandi Eru spennandi tímar fram undan? Hvað er á döfinni hjá þér? „Það eru mjög spennandi tímar fram undan. Ég ætla að fara á fullt í ljósmyndunina og er með margar hugmyndir sem ég ætla að skapa. Þess vegna ætla ég að klára ljósmyndanámið frá Tækniskólanum. Eftir það er draumurinn að opna stofu eða stúdíó. Ég er búin að vera í fjarnámi í Tækniskólanum en á eins árs sérnám eftir núna.“ Lumar þú á einhverjum tískuráðum? „Maður á að klæðast því sem manni líður vel í. Það skapar sjálfsöryggi. Fallegir skór, skartgripir, töskur og hattar finnst mér setja punktinn yfir i-ið. Konur þurfa að passa sig að klæðast ekki of flegnu því þá getur maður misst þokkann. Frekar að leyfa huganum að nota ímyndunaraflið, það finnst mér þokkafullt.“ Hver er þín helsta fyrirmynd í lífinu? „Eins gott að ég særi engan, en það eru án efa allar konur sem ég umgengst í mínu lífi. Ég er svo lánsöm að eiga frábærar systur og vinkonur sem ég gæti aldrei lifað án. Svo finnst mér gaman að hlæja með mömmu minni. Við erum með sama húmor sem ekki allir ná.“
Fjarskiptafélagið Sýn hf. hefur undirritað samning um sölu á hlut félagsins í færeyska hlutdeildarfélaginu P/F fyrir sem nemur rúmum einum milljarði króna. Sýn átti 49,9% hlut í félaginu. Þá hefur Sýn einnig samið um sölu á óvirkum fjarskiptainnviðum félagsins fyrir rúma sex milljarða. „Kaupverðið er 52,5 milljónir DKK og greiðist þegar öllum skilyrðum kaupsamnings hefur verið fullnægt. Það er mat stjórnenda félagsins að það verði á 2. ársfjórðungi. Eftir söluna mun áfram verða til staðar þjónustusamningur á milli félaganna. Viðskiptin hafa engin áhrif á EBITDA félagsins en styrkja lausafjárstöðu þess,“ segir í tilkynningu til Kauphallar í gær vegna sölunnar. Þá hefur Sýn jafnframt samið um sölu og endurleigu á óvirkum farsímainnviðum félagsins þar sem væntanlegur söluhagnaður nemur yfir sex milljörðum króna. Samningarnir eru þó gerðir með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins auk annarra fyrirvara. „Reikningsskil félagsins eru gerð í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaða (IFRS). Í samræmi við kröfur þeirra staðla verður farið með viðskiptin sem sölu og endurleigu á eignum. Af þeirri ástæðu mun meðferð þess söluhagnaðar sem verður af viðskiptunum ekki vera færður að fullu í gegnum rekstur á söludegi. Söluhagnaðurinn mun hlutfallast miðað við hlutfall gangvirðis og núvirðis væntrar leiguskuldbindingar. Núverandi mat miðar við að það hlutfall sé í kringum 80-85%. Miðað við þær forsendur mun 15-20% af söluhagnaðinum verða færður í gegnum rekstur á söludegi en hinum hlutanum frestað í því formi að hann er færður til lækkunar á leigueigninni sem leiðir til lægri afskrifta yfir samningstímann. Endanleg hlutföll hafa ekki verið að fullu staðfest og því geta forsendur breyst. Samhliða var gerður langtímaleigusamningur, sem tryggja mun áframhaldandi aðgang félagsins að hinum óvirku farsímainnviðum. Allur virkur farsímabúnaður verður áfram í eigu Sýnar hf,“ segir í tilkynningu til Kauphallar vegna síðarnefndu sölunnar. Vísir er í eigu Sýnar hf.
Þjóðkirkjan hefur verið forréttindastofnun í samfélaginu í yfir 1000 ár. Ekki að það sé með öllu slæmt, saga kirkju og þjóðar er samofin, kirkjan gegnir enn mikilvægu menningarlegu hlutverki og leggur sig fram um að þjóna öllum sem til kirkjunnar leita, óháð lífssýn. Þó er það svo að í dag hefur hvorki kirkjan né nokkur annar í þessu samfélagi tilkall til þess að njóta forréttinda. Við höfum flest óþol fyrir því að horfa upp á forréttindablindu og leyfum okkur vonandi að horfa í eigin barm þegar okkur er bent á eigin forréttindastöðu. Það hafa verið forréttindi kirkjunnar að skólakerfið hafi að mestu séð um trúfræðsluna, kennt undirstöður kristinfræði og undirbúið börnin undir fermingarfræðslu. Það eru sannarlega veigamikil rök fyrir mikilvægi kristinfræði, þekking á biblíunni opnar menningararf vestur Evrópu og er hluti af því að eiga sterkt menningarlæsi. Kristinfræði er samt ekki horfin, nú er hún kennd sem hluti af trúarbragðafræði og hefur þar jafnvel stærri sess en önnur trúarbrögð einfaldlega vegna þess hvað hún hefur mótað menningu og sögu samfélagsins. Það er auðvelt að hoppa á einfaldar útskýringar og segja til dæmis skort á kristinfræðikennslu rót þess að traust til þjóðkirkjunnar fari dvínandi eða úrsögnum fjölgi. Ég hef samt grun um að óþol gagnvart forréttindastöðu og forréttindablindu leiki þar stærra hlutverk en aðalnámskrá. Fjöldinn í kirkjunni. Ég hef litla trú á því að meðlimafjöldi þjóðkirkjunnar sé í frjálsu falli og endi í núlli. Að árið 2040 muni síðasti meðlimur þjóðkirkjunnar slökkva ljósin í Hallgrímskirkju, læsa á eftir sér og henda lyklinum. Við erum frekar að sigla í áttina að kjörfylgi sem líklega er um 60% þjóðarinnar. Það er staðan í hinum Norðurlöndunum en þróunin átti sér stað nokkrum árum fyrr þar. Í september 2021 birtist frétt á Vísi um að það sem af væri ári hefði fækkað um þrjá í þjóðkirkjunni. Það var grínast með að við þyrftum að finna þessa þrjá og sannfæra þá um að koma aftur, en ég held að þetta renni stoðum undir það að nú sé að hægja á fækkuninni. Ef við horfum á tölur aftur í tímann þá sjáum við að árið 1998 voru 244.893 meðlimir í þjóðkirkjunni, í dag eru þau 229.669 eða 15.224 færri (tölur frá Hagstofunni). Heildarmeðlimafjöldinn segir alls ekki alla söguna því nú er staðan sú að 61,3% landsmanna eru hluti af þjóðkirkjunni og frá aldamótum hafa hátt í 80.þúsund manns annaðhvort gengið úr þjóðkirkjunni eða sleppt því að skrá sig í hana. Sannarlega spila inn í þetta breytur eins og að 15,6% þjóðarinnar séu innflytjendur af fyrstu eða annarri kynslóð og meira en helmingur þeirra frá löndum þar sem Kaþólska kirkjan er sterk, enda hefur hún vaxið mjög hér á landi síðasta áratug. Eða þá að frá árinu 2013 hafa börn ekki verið skráð sjálfkrafa í trúfélag móður og skráist utan trúfélaga ef foreldrar eru í sitthvoru trúfélaginu. Árið 2003 var 83% barna skráð í þjóðkirkjuna við fæðingu, nú er hlutfallið í kringum 45%. Auðvitað hafa þessar breytingar áhrif á heildar myndina en við sem störfum í kirkjunni megum ekki skauta fram hjá þeirri staðreynd að meirihluti þeirra sem velja að ganga úr kirkjunni (ég þar með talinn á sínum tíma) gera það vegna óánægju með kirkjuna eða vegna þess að þau finna ekki samleið með þjóðkirkjunni og kristinni trú. Það er mikilvægt að fólk sem vill tilheyra trúfélagi geri það á sínum forsendum og ég skil það vel að fólk sem hefur óþol á forréttindablindu, yfirhylmingum og hroka hafi ákveðið að yfirgefa kirkjuna í kringum biskupsmálið eða önnur erfið mál sem kirkjan hefur ekki mætt af auðmýkt. Hinsvegar er það svo að sú óánægja hefur yfirleitt lítið sem ekkert að gera með það starf sem unnið er í öllum söfnuðum landsins, kórana, menningarstarfið, barnastarfið, sporahópana, fræðslustarfið, sálgæsluna, sorgarhópana og athafnirnar. Að tilheyra. Þar slær hjarta kirkjunnar, í grasrótinni, í söfnuðunum um allt land þar sem fólki þykir vænt um kirkjuna sína og tekur þátt í starfi hennar. Ég gekk aftur í kirkjuna þegar ég áttaði mig á því að sóknargjaldið mitt rennur beint í litla sveitasöfnuðinn minn. Mig langaði að styðja við starfið þar og tryggja að hægt væri að bjóða upp á kóra- og barnastarf í sveitinni. Það er reynsla mín að eftir þetta tímabil fækkunar sé fólk í meira mæli að velja að ganga aftur í kirkjuna, nú er árlegt að börn sem ekki voru skírð í æsku taki skírn og skrái sig í kirkjuna fyrir fermingu, eins að fólk sem hafði misst trúnna á kirkjunni heyrir í okkur og vill vita hvernig það geti skráð sig aftur. Fækkunin var mikilvæg. Ekkert annað hefur hrist eins vel í stoðum forréttindablindunnar sem við glímum mörg hver við innan kirkjunnar. Kirkjan á ekki og má ekki líta svo á að hún geti talað niður til fólks eða að hún eigi rétt á einhverri stöðu. Kirkjan á að vera þátttakandi í samfélaginu, tala við fólk í augnhæð og einbeita sér að því að boða kærleik, frið og rættlætisboðskap Krists inn í samfélagið. Ég hef fulla trú á því að kirkjan sé á réttri leið og er þakklátur þeim sem hafa sagt sig úr kirkjunni og gagnrýnt hana, því án þeirra radda værum við eflaust enn á bólakafi í forréttindablindunni sem við erum mörg að reyna að brjótast úr. Höfundur er sóknarprestur í Glerárkirkju á Akureyri.
Fyrirtækið 365 hf. íhugar nú að gagnstefna Sýn hf. eftir að fréttir bárust af því að síðarnefnda fyrirtækið hyggðist stefna hjónunum Ingibjörgu Pálmadóttur, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, og fyrirtækinu 365, sem er í eigu Ingibjargar. Sýn ætlar að krefjast ríflega ellefu hundruð milljóna króna. Sýn keypti Stöð 2, Bylgjuna og Vísi af 365 miðlum í mars 2017 og telur að samkeppnisákvæði í kaupsamningi Sýnar við 365 hafi verið brotin. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu lítur Sýn svo á að samkeppnisákvæðið hafi falið í sér að ritstjórn Fréttablaðsins hafi ekki verið heimilt að birta myndskeið eða hljóðbrot á vefnum frettabladid.is, líkt og gert er á Vísi. Sjá einnig: Sýn hyggst stefna Jóni og Ingibjörgu og vill milljarð Í yfirlýsingu sem Einar Þór Sverrisson, stjórnarformaður 365 sendi fréttastofu í kvöld, segir að fyrirtækið hafni algjörlega ásökunum Sýnar „enda eru þær fjarstæðukenndar og eiga sér ekki nokkra stoð í samningi aðila. Hvergi er hægt að benda á að 365 hafi staðið í samkeppni við Sýn á sviði sjónvarps, útvarps eða fjarskipta, eða á annan hátt sem félaginu var ekki heimilt samkvæmt umræddu samkeppnisákvæði,“ eins og það er orðað í yfirlýsingunni. Þar segir einnig að forsvarsmenn 365 hafi fengið slíkt staðfest með álitum þriggja lögmannsstofa. Þá er vakin athygli á því að „þetta yrði ekki fyrsta dæmi þess að Sýn leggi upp í veiðiferð með vafasömum málatilbúnaði fyrir dómstólum,“ eins og segir í yfirlýsingunni. „Forsvarsmenn 365 íhuga nú að gagnstefna Sýn og forsvarsmönnum félagsins vegna þess tjóns sem tilhæfulausar ásakanir Sýnar hafa valdið félaginu,“ segir að lokum.
Keflvíkingar hafa styrkt sig fyrir komandi átök í Inkasso deildinni í fótbolta en þeir segja frá nýjum liðsmanni inn á heimasíðu sinni. Lasse Rise hefur nefnilega samið við Keflavík um að spila með liðinu út tímabilið. Rise er framherji og verður því við hlið landa síns Jeppe Hansen á lokakafla mótsins. Hans aðalstaða er að vera fremsti maður en hann getur þó einnig spilað á báðum vængjum. Lasse Rise er 31 árs og var í unglingaliði Bröndby áður en hann fór yfir til BK Avarta. Hann hefur síðan spilað með félögum eins og Lyngby BK, Randers FC og Esbjerg FB. „Keflavík fagnar komu hans og er honum ætlað það hlutverk að styrkja liðið í þeirri baráttu sem framundan er í því að komast upp í Pepsideild,“ segir í fréttatilkynningu inn á heimasíðu Keflvíkinga. Lasse Rise á að baki 92 leiki í dönsku úrvalsdeildinni og skoraði í þeim 12 mörk. Hann náði þó ekki að skora í átta leikjum með Lyngby BK á síðasta tímabili. Keflavík er í öðru sæti Inkasso deildarinnar fyrir leik kvöldsins en Þróttarar geta þá náð öðru sætinu með því að taka stig á móti ÍR. Keflvíkingar eiga síðan sinn leik í umferðinni inni á móti Leikni F sem fram fer á morgun og þar gæti Lasse Rise fengið sitt fyrsta tækifæri með liðinu.
snjókorn falla .... samt ekkert mikið heldur meira svona eins og guð hafi klórað sér og sé með flösu. hélt einu sinni að snjór væri það ..... ef að englarnir gráta og það kemur rigning ... ég meina .. hvað á ég þá að halda að snjór sé ?! annars var flokkstjórnarfundur í gær, ég mætti en eins og svo oft áður fékk ég hlutverk «konunnar «-var að servera, þrífa og skenkja, hvað annað gat ég gert. vildi ekki að gerða yrði kaffærð undir álagi, verð samt að draga úr libóinu mínu ef ég ætla að geta komið að málefnavinnu .....-make mental note- já og ég var að bæta inn nokkrum tenglum-ágætis fólk sem kemur þarna inn. atli minn er samt mitt uppáhald. svo sætur og sætur og sætur! og sætur! er búin að ákveða að hætta að gera mistök-make mental note tvö-og þannig forðast einhver vandræði eða kannski verða aðeins meira kærulaus og þá eru hlutirnir ekki vandræði ..... yesterday is history, tomorrow a mystery ....... var að spá í einu-ef fæðingarár og dánarár eru á legsteinum ..... og bandstrikið á milli er lífið sem einstaklingurinn lifði .... afhverju er þá ekki meira lagt í bandstrikið? ég vil að minn legsteinn sé grjót úr fjöru norður á ströndum, með litla laufblaðaglugganum í einu duus-húsanna í gegn-svo ég sé ekki með heilt grjót við höfðalagið-ég vil að bandstrikið mitt sé demantskreytt og með ljósleiðaraþræði í gegn sem lýsir á næturnar og skiptir litum-held að ég sé búin að lifa lífinu á þann hátt að ég eigi það skilið! ég vil reyndar láta brenna mig og jarða mig til fóta hjá einhverjum góðum, nema að ég fái svona grafhýsi, ekki kannski pýramída en svona soldið flott buffy vampire tomb. kannski svona franskt jim morrison fíling .... annars hef ég ekkert spáð í þessu .......
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir segir að markmið sóttvarnayfirvalda sé það sama og hefur verið: Verja viðkvæma og halda veirunni í skefjum. Ummæli hans á Bylgjunni í morgun hafi verið misskilin. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir sagði í umræðuþættinum Sprengisandi í morgun að hjarðónæmi næðist með því að leyfa kórónuveirunni að ganga án þess að spítalinn riðaði til falls. Þórólfur veitti viðtalið þrátt fyrir að vera í sumarfríi en staðgengill hans veitti fjölmiðlum viðtal í dag og það var annað hljóð í henni. Hún segir að það sé ekki á dagskrá að gefast upp, ekki á meðan þúsundir séu í einangrun og þau sem leggjast á spítala séu talin í prósentu tölum af þeim sem smitast. Fréttastofa náði á Þórólf rétt fyrir fréttir og hann bar það til baka að það ætti að sleppa veirunni lausri um samfélagið. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir: Þetta er allavega ekki alveg rétt. Hvort sem að ég hef sagt þetta ekki nógu skýrt eða tilvitnunin eitthvað skrýtin. Auðvitað er þetta ekki þannig að veiran verði bara látin geisa hérna yfir allt, það hefur aldrei verið stefnan. Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir: Þannig að það er ekki lengur takmarkið að ná þessu hjarðónæmi? Þórólfur Guðnason: Takmarkið er að ná hjarðónæmi á einn eða annan máta. Annað hvort með bólusetningu og við höfum reynt það, helmingurinn af þeim sem eru bólusettir eru ónæmir þannig að við náum hjarðónæmi hjá þeim. En til að ná hjarðónæmi í samfélagi þá þurfa fleiri að vera ónæmir gegn veirunni og það er ekki hægt að gera það öðruvísi en að bólusetja betur eins og við erum að gera með þriðja skammti. Endurbólusetja þá sem að eru viðkvæmastir þannig að við getum náð því á margan annan máta en að segja að nú látum við bara veiruna ganga lausa um samfélagið. Það hefur enginn sagt. Ég hef alltaf sagt það að við þurfum að vera með einhvers konar takmarkanir, bæði á landamærum og eins innanlands og svo erum við með þessar bólusetningar og gætum jafnvel vænst til þess að fá ný bóluefni eða endurbólusetja. Þórólfur er búin að skila minnisblaði til ráðherra um framtíðarsýn á faraldurinn. Þar eru engar tillögur um beinharðar aðgerðir. Í gær greindust 57 innanlandssmit, rúmlega 4% af þeim 2.000 sem fóru í skimun greindust. Þetta er fyrsti dagurinn í vikunni sem smitin eru undir 100. Kamilla Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis: Það hefur ekki komið þessi sprengja sem við óttuðumst að myndi koma í kjölfar síðustu helgar. Það er mjög gott en það væri auðvitað enn þá betra ef við sæjum greinilega minnkun. En hún er ekki alveg orðin greinileg.
„Við fáum á göngudeild Barnaspítala Hringsins um 400 börn á ári, og foreldrar svipaðs fjölda leita ráða hjá símaþjónustu Foreldraskólans, sem er angi út frá göngudeildinni og ég stofnaði um áramótin 2004-2005 þegar mig langaði að vinna meira í forvörnum gegn svefnvandamálum barna," segir Arna Skúladóttir barnahjúkrunarfræðingur, svefnráðgjafi og höfundur hinnar geysivinsælu bókar Draumaland, sem kom út árið 2006 og tekur á svefni og svefnvenjum barna frá fæðingu til tveggja ára. „Innlagnir vegna svefnvandamála heyra til algjörra undantekninga í dag, en voru nokkuð algengar hér áður. Ætli ástæðan sé ekki sú að við sem vinnum við þetta erum orðnar betri í því að ráðleggja foreldrum réttu lausnirnar, og nú eru börn frekar lögð inn til ömmu og afa, eða þá að foreldrar fara með barn sitt í annað umhverfi, sem er heilladrjúgt þegar þarf að brjóta upp fastan vana," segir Arna. „Þegar barn grætur mikið á háttatíma og um nætur er eðlilegt að velta fyrir sér hvort eitthvað ami að. Því ráðlegg ég alltaf góða læknisskoðun áður en ný svefnaðferð eru reynd, til að leggja ekki meira á börnin," segir Arna og bætir við að eðlilegt sé að smábörn rumski allt frá þrisvar til fimm sinnum á nóttu, en undir venjulegum kringumstæðum sofni þau aftur án aðstoðar. „Þau börn sem koma til mín þurfa aðstoð við að sofna aftur; gráta mikið, garga eða kalla eftir einhverju. Ef barn getur ekki sofnað að kvöldi án aðstoðar er mun líklegra að það geti það ekki heldur þegar það rumskar eða vaknar upp á næturna," segir Arna um eina ástæðu af mörgum. „Það er alltaf ákveðin prósenta barna sem glímir við svefnvanda þegar þau eru lítil; trúlega út af persónueinkennum sem svo fylgja þeim áfram og detta þá inn í vesen með svefn þegar breytingar verða á lífi þeirra, eins og þegar byrjað er hjá dagmömmu, í leikskóla, við flutninga og fleira, en sum börn þola slíkar breytingar illa," segir Arna og nefnir ákveðið lundarfar sem einkennir börn með svefnvanda. „Hjá yngstu börnunum er það að vera auðtruflaður, en hjá börnum á leikskólaaldri er það hreyfivirkni, það að hafa langa aðlögun að hlutum og sýna sterk tilfinningaviðbrögð, sem á íslensku útleggst að vera dramatískur," segir Arna sem er sest við skriftir á framhaldsbók um Draumalandið, eftir mikla eftirspurn. „Ég er byrjuð að skrifa bókina, en á langt í land með að klára hana. Hún verður um svefn og svefnvenjur tveggja til fimm ára barna, með áherslu á persónueinkenni, sem er óskaplega skemmtileg vangavelta í tengslum við svefn." Á laugardag stendur Foreldraskólinn fyrir tveimur sívinsælum námskeiðum, ætlað foreldrum 2ja til 10 mánaða barna, og 10 mánaða til 2ja ára barna. Við Foreldraskólann starfa ásamt Örnu, þær Ingibjörg Leifsdóttir og Rakel Jónsdóttir, en allar hafa þær langa reynslu af vinnu með foreldrum barna á Barnaspítalanum. „Þar hvetjum við báða foreldra til að koma og förum í svefninn; til hvers maður getur ætlast, eðlilegan svefn og þróun; næringu og þroska, það að verða foreldri, því öll viljum við verða góðir foreldrar, en mismunandi viðhorf til uppeldis í þjóðfélaginu, en okkar útgangspunktur er að börn eru ólík og þeim geta passað mjög ólíkar uppeldisaðferðir." Nánari upplýsingar og skráning á heimasíðunni www.foreldraskoli.is, sem í dag opnar í endurgerðri útgáfu með gnótt fróðleiks og nýs efnis um svefn og næringu barna. [email protected]
Taka þarf niður hluta af stálvirki glerveggs við suðurhlið Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhússins, þar sem prófanir sýndu að veggurinn þolir ekki mesta vindálag sem búast má við á næstu árum. Tjónið hleypur á hundruð milljóna króna sem rekja má til kín, mistaka kínversks undirverktaka Íslenskra aðalverktaka. Kínverjarnir hafa fallist á að bera tjónið. Vegna framleiðslugalla sem komið hefur í ljós í stálvirki fyrir glerhjúp á suðurhlið Hörpunnar hafa Íslenskir aðalverktakar krafist þess af framleiðanda glerhjúpsins að stálvirkið verði tekið niður og nýtt sett upp. Þetta eru stálbitarnir sem málið snýst um, en prófanir ÍAV leiddu það í ljós að þessir stálbitar sem halda saman glerhjúpnum á suðurhlið tónlistarhússins, þeir þola ekki íslensku vindáttina og því þarf að skipta þeim út með heild sinni. En eins og sést hér er þetta ekkert smáræði sem taka þarf niður. Tjónið hleypur á hundruðum milljóna króna, að sögn Sigurðar Ragnarssonar, framkvæmdastjóra hjá ÍAV, sem hefur yfirumsjón með byggingu hússins. Sigurður baðst undan viðtali en sagði í samtali við fréttastofu að vandamálið fælist í hornum á stálkubbunum. Í mars á þessu ári uppgötvaðist sprunga í horni á einum kubbnum. Sérfræðingar ÍAV hófu þegar rannsókn og í ljós kom í prófunum að efnisinnihald stálkubbanna var ekki eins og það átti að vera. Sigurður sagði að prófanir hefðu leitt í ljós að hornin hefðu ekki verið meðhöndluð rétt eftir að þau voru steypt í mót, en burðarvirki af þessu tagi þurfi að hafa ákveðna seiglu sem stálkubbarnir hafi ekki. Vegna öryggissjónarmiða væri því ekki forsvaranlegt að hafa þá á húsinu. Kínverska verktakafyrirtækið Lingyun sá um uppsetningu glerhjúpsins sem undirverktaki ÍAV og hefur fyrirtækið fallist á að greiða fyrir uppsetningu á nýjum vegg. Að sögn Sigurðar mun þetta ekki seinka opnun Hörpunnar, en stefnt er að því að vígja húsið í maí á næsta ári.
Fyrirtækið Eco Marine Iceland hóf fyrr í sumar tilraunaveiðar á ljósátu í Ísafjarðardjúpi með nýju veiðarfæri, í samstarfi við norskt fyrirtæki. Verkefnastjóri segir ekki liggja fyrir hvernig eigi að nýta ljósátuna ef veiðarnar gefa góða raun. Nota nýtt veiðarfæri Veiðarfærið er enn á tilraunastigi en hefur verið í þróun í Noregi um nokkurt skeið. Norska samstarfsfyrirtækið Norwegian Innovation Technology group, hefur einkaleyfi á veiðarfærinu. „Við slökum veiðarfærinu niður í lóðningu, kveikjum á ljósi sem að laðar ljósátuna að veiðarfærinu og dælum aflanum svo um borð,“ segir Daníel Guðbjartsson, verkefnastjóri veiðanna. Hafrannsóknastofnun sinni eftirliti Hafrannsóknastofnun hefur eftirlit með verkefninu, fylgist með magni og meðafla, sem hefur verið nánast enginn. Ástþór Gíslason, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir mikilvægt að fara varlega í veiðar á ljósátu. Ljósáta er smátt dýr sem er mikilvæg fæða ýmissa nytjastofna, til dæmis þorsks og loðnu, og lifir aðallega á plöntusvifi. Hafró hefur mælt stofnstærð ljósátu hér við land, í Ísafjarðardjúpi 2011-2012, en ekkert fyrirtæki hefur ráðist í atvinnuveiðar. Gert er ráð fyrir tilraunaveiðum í Ísafjarðardjúpi í þrjár vikur, en við landið út árið. Leyfið í Djúpinu miðast við að hámarksafköst séu undir einu prósenti stofnstærðar. Mun minna hefur þó veiðst. Ljósáta rík af ómega þremur Daníel segir að enn sé verið að stilla veiðarfærið, ljósmagn og aðferðir. Fyrirhugað er að fara aftur af stað til veiða í september. Ljósáta er rík af ómega þremur sem gerir hana eftirsóknarverða. Hún hefur til dæmis verið notuð í olíur, fóður og í lyfjaiðnaði. Daníel segir að tilraunaveiðum fylgi ekki áform um hvernig eigi að nýta ljósátuna. „Það hefur ekki verið mörkuð nein stefna um hvernig eigi að fénýta eða hvort það eigi að nýta ef það veiðist eitthvað á annað borð - en það væri möguleiki að nota ljósátu í lyfjaiðnaði.“
Íslenskir handboltaþjálfarar eru greinilega í miklum metum á alþjóðavettvangi og á HM í ár verður sú einstaka staða uppi að fimm íslenskir þjálfarar munu leiða lið sín út á völlinn í Danmörku og Þýskalandi. Guðmundur Þór Guðmundsson mun að sjálfsögðu stýra íslenska liðinu en hann náði einnig því afreki að koma liði Barein á HM með því að ná öðru sæti á Asíuleikunum. Hann hætti með Barein til að taka við íslenska liðinu en forsvarsmenn handboltasambandsins þar í landi voru greinilega hæstánægðir með íslensku áhrifin og réðu Aron Kristjánsson til að koma í hans stað. Aron þjálfaði áður lið Álaborgar í dönsku úrvalsdeildinni. Dagur Sigurðsson verður í eldlínunni með japanska liðið sem hann tók við árið 2017 og Patrekur Jóhannesson með það austurríska sem hann hefur þjálfað frá árinu 2011. Hann er nú þjálfari Selfoss en mun í sumar taka við danska stórliðinu Skjern. Loks mun Kristján Andrésson, nýkjörinn þjálfari ársins, stýra landsliði Svíþjóðar. Hann hefur náð virkilega góðum árangri með Svíana og komst óvænt í úrslitaleikinn á EM í Króatíu þar sem liðið beið lægri hlut fyrir Spáni í úrslitaleik. Árið 2015 voru íslensku þjálfararnir fjórir talsins. Aron þjálfaði þá íslenska liðið, Dagur stýrði þýska liðinu, Guðmundur því danska og Patrekur sem fyrr með Austurríki.
Í Hörpu fer fram úrslitakeppni Músíktilrauna í ár. 11 hljómsveitir etja kappi að þessu sinni. Sigríður Hagalín Björnsdóttir: ... Og Jóhann Bjarni Kolbeinsson er á staðnum. Jóhann Bjarni Kolbeinsson: Jú, mikið rétt, hér standa Músíktilraunir sem hæst. Það er hart barist hér enda til mikils að vinna, sigurlaunin eru hvorki meira né minna en frægð og frami. Þeir sem vilja, þeir geta skipt yfir á RÚV 2, þar er verið að sýna keppnina í beinni útsendingu sjónvarps í fyrsta skipti. Hér hjá mér er Árni Matthíasson, formaður dómnefndar og guðfaðir íslenskrar popp og rokk tónlistar. Árni, þú ert búinn að vera viðloðandi þessa keppni meira og minna frá fyrstu keppni '82? Árni Matthíasson, formaður dómnefndar Músíktilrauna: Ekki alveg svo lengi, það eru 30, þetta er 30. árið sem ég er hérna staddur á Músíktilraunum. Jóhann: Hvernig tónlist er mest áberandi í kvöld, er þetta rokk, rapp, teknó? Árni Matthíasson: Það er eiginlega, þetta eru Músíktilraunir þannig að það er alls konar í gangi, sko. Við erum að fara að sjá metal hérna á eftir, það er búið að vera kammer, popp, klassískt popp, allur, alls konar. Jóhann: Hvernig eru kynjahlutföllin hérna í kvöld, eru konur að koma sterkar inn? Árni Matthíasson: Sko, kynjahlutföllin á þessum Músíktilraunum eru best hvað varðar konur frá upphafi en við tókum eftir því þegar við vorum að fara yfir hljómsveitirnar sem hafa komist áfram af því að í úrslitunum núna í kvöld eru 20 strákar og 18 stelpur og það segir sitt, það er algjör tilviljun. Jóhann: Hvaða máli skiptir þessi keppni? Árni Matthíasson: Hún er rosalega mikilvæg, sko, til að gefa fókus og hafa, hljómsveitir hafa eitthvað til að stefna að, ungar hljómsveitir, fyrstu skrefin á sviði og meira rosa lega mikið, og við sjáum það líka að margir af fremstu tónlistarmönnum okkar í dag, þeir hafa byrjað í Músíktilraunum. Jóhann: Ertu búinn að finna sigurvegara kvöldsins? Árni Matthíasson: Já já, já já, já já, hann var að spila hérna áðan. Jóhann: Einmitt það og við ætlum að ljúka þessu með því að sjá brot af Músíktilraunum fyrr í kvöld.
Rannsóknir sem gerðar hafa verið á launamun kynjanna sýna að laun karla eru almennt hærri en laun kvenna. Þessi kynbundni launamunur er meðal annars tilkominn vegna kynskipts vinnumarkaðar og þeirrar staðreyndar að konur og karlar gegna mismunandi störfum. Laun eru almennt lægri hjá þeim starfsstéttum þar sem konur eru í meirihluta en bent hefur verið á að konur frekar en karlar vinna í nánum samskiptum við annað fólk sem veldur bæði tilfinningalegu álag og skapa óáþreifanleg verðmæti fyrir samfélagið. Hefðbundin karlastörf hins vegar fela oft í sér sköpun á áþreifanlegum verðmætum. Þessi munur ýtir undir ólíkt virðismat á þessum störfum. Sjúkraliðastéttin er ein þeirra stétta sem vinnur í nánum samskiptum við fólk og skapar óáþreifanleg verðmæti, en um 98% sjúkraliða eru konur. Rekja má stóran hluta launamunar til kynskipts vinnumarkaður og kynjaskekkju í mati samfélagsins á hefðbundnum kvenna- og karlastörfum. Lífseig samfélagssýn Vanmat á störfum kvennastétta byggir almennt ekki á ásetningi um að mismuna skuli kynjunum eða meðvitaðri hlutdrægni, heldur er það afleiðing af menningarlegum, sögulegum og kerfisbundnum ástæðum. Aðgreining kynjanna á vinnumarkaði er lífseig og mörgum finnst enn í dag að vel launuð karlastörf og illa launuð kvennastörf sé eðlilegur þáttur í samfélagsgerð okkar. Krafan um að greiða skuli konum og körlum jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf er hins vegar bæði eðlileg og sanngjörn og undarlegt að baráttan fyrir launajafnrétti hafi staðið yfir í heila öld. Treglega hefur gengið að ná fram skilningi samfélagsins og vilja stjórnvalda á hverjum tíma til að beita sér fyrir því eyða kynbundnum launamun. Þó baráttan hafi á undanförnum árum skilað árangri blasir sú staðreynd við að launamunur kynjanna er enn til staðar í okkar samfélagi. Það er fullkomlega óásættanlegt. Skref í rétta átt Í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, í tengslum við gerð kjarasamninga milli aðildarfélaga BSRB og ríkis og sveitarfélaga í mars 2020, var starfshópur um endurmat á störfum kvenna skipaður. Starfshópurinn hefur nú skilað tillögum sínum og leggur til að stofnaður verði aðgerðahópur um launajafnrétti. Aðgerðarhópurinn fengi meðal annars það hlutverk að greina vandann með því að setja af stað tilraunaverkefni um mat á virði starfa með áherslu á að skoða þá þætti sem einkenna kvennastörf sem kunna að vera vanmetnir. Samhliða verða þróuð verkfæri til að aðstoða atvinnurekendur við að uppfylla lagaskilyrði um jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf. Við sjúkraliðar, þessi stóra kvennastétt, eigum tilkall til réttlátra launa fyrir þau störf sem við innum af hendi. Vanmat á okkar störfum hverfur ekki sjálfkrafa. Framangreind framganga stjórnvalda er sannarlega skref í rétta átt. Það þarf að grípa til aðgerða sem miða að því að mat samfélagsins á verðmæti þeirra starfa sem konur í meirihluta sinna verði sambærilegt mati á verðmæti þeirra starfa sem karlar í meirihluta sinna. Til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði þurfum við sem samfélag að ákveða að verðmæti starfa sé metið að jöfnu hvort heldur sem konur eða karlar sinni þeim. Höfundur er formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær karlmann í fjögurra ára fangelsi fyrir tvær nauðganir og kynferðislega áreitni gegn þriðju konunni. Brotin framdi hann öll sömu nóttina eftir árshátíð á hóteli á Suðurlandi í febrúar. Konurnar tvær, sem maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa nauðgað voru báðar sofandi þegar hann braut gegn þeim. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 13. febrúar. Báðar konurnar sögðust hafa vaknað við að maðurinn væri að hafa við þær samfarir. Þær sögðust hafa náð að ýta manninum af sér. Í dómi héraðsdóms segir að brot mannsins voru öll framin á stuttum tíma sömu nótt og var ásetningur hans til brotanna einbeittur, en hann hélt brotum sínum áfram þrátt fyrir að hafa verið hent út af tveimur hótelherbergjum og hætti ekki fyrr en komið var að honum. Allir brotaþolar voru sofandi er maðurinn kom að þeim og var honum það ljóst. Þriðja konan kærði manninn tveimur dögum eftir árshátíðina fyrir að hafa káfað á henni innanklæða á herbergi hennar. Í dómnum eru rakin samskipti brotaþola hverja við aðra þar sem þær segja meðal annars: „Það er eh ógeð hérna frammi“ og „það er einhver í herberginu mínu.“ Í vottorði sálfræðings frá 1. júní, sem vísað er til í dómnum, kemur fram að einni kvennanna hafi verið vísað til hennar af neyðarmóttöku í sálfræðilegt mat og áfallahjálp. Hún hafi hitt brotaþola sex sinnum á tímabilinu 12. febrúar til 24. maí 2017 og veitt henni sálrænan stuðning og áfallahjálp. Sálræn einkenni hennar hafi samsvarað einkennum þeirra sem hafi upplifað alvarleg áföll. Brotþoli hafi ávallt virst hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér. Hún hafi sýnt mikið hugrekki í að takast á við áfallastreitueinkenni sín og smám saman hafi dregið úr þeim. Hún virðist hafa náð eðlilegum bata en þrátt fyrir það sé líklegt að hún þurfi áfram að takast á við áminningar um brotið og afleiðingar þess í daglegu lífi sínu, en ljóst sé að atburðurinn hafi haft víðtæk áhrif á líðan hennar. Meðferð brotaþola standi enn yfir. Í dómi héraðsdóms er tekið fram að framburður mannsins hafi ekki verið að öllu leyti skýr. Öðru máli gegni um framburð brotaþola sem hafi verið skýr og stöðugur frá upphafi. Trúverðugur framburður brotaþola, sem í dómnum segir að njóti m.a. stuðnings framburðar vitna, var því lagður til grundvallar niðurstöðu í málinu. Manninum var auk þess gert að greiða tveimur kvennanna 1.500.000 krónur í miskabætur og þriðju konunni 800.000 krónur. Hann þarf einnig að greiða allan kostnað af málsvörn sinni og réttargæslu kvennanna.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 1. september 2020, á hendur Sigþóri Svavari Eleseussyni, kt. [...] , Reykjavík, fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, föstudaginn 15. maí 2020, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja (í blóði mældist amfetamín 165 ng/ml, díazepam 120 ng/ml, klónazepam 24 ng/ml, nítrazepam 79 ng/ml og nordíazepam 220 ng/ml) vestur Dugguvog í Reykjavík, við hús nr. 2, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 48. gr., 1., sbr. 2. mgr. 50. gr. og 1. mgr. 58. gr., sbr. 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Þess er krafist aðákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. gr. laga nr. 77/2019. Þingsókn féll niður af hálfu ákærða við fyrirtöku málsins í dag. Við þingfestingu málsins 1. október sl. sótti þing af hálfu ákærða Marteinn Sigmundur Adamsson lögmaður ogvar hann skipaður verjandi ákærða í samræmi við óskir þess síðarnefnda á birtu fyrirkalli. Árangurslaust hefur reynst að fá ákærða til að mæta í dóminn. Verjandi ákærða hætti því þingsókn fyrir ákærða og gerir kröfu um hæfilega þóknun sér til handa. Ákærði hefur ekki boðað forföll en líkt og fram hefur komið var honum birt ákæra og fyrirkall. Verður málið því dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins. Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði er fæddur [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 29. september 2020, hefur ákærði ítrekað verið fundinn sekur um að hafa drýgt samskonar brot og hann er nú sakfelldur fyrir. Með lögreglustjórasátt 9. nóvember 2007 gekkst ákærði undir greiðslu sektar, meðal annars fyri rakstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Var honum einnig gert að sæta sviptingu ökuréttar í átta mánuði frá þeim degi að telja. Ákærði gekkst undir greiðslur sekta fyrir að hafa ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna og án þess að hafa öðlast ökuréttindi með tveimur lögreglustjórasáttum gerðum 11. ágúst 2011. Var honum þá jafnframt gert að sæta sviptingu ökuréttar í samtals fjögur ár. Þá var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt með dómi 19. september 2012 fyrir að hafa ekið sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ákærða var dæmdur hegningarauki við framangreindan dóm vegna samskonar brota gegn umferðarlögum með dómi 8. febrúar 2013. Síðast var ákærði dæmdur í 5 mánaða fangelsi með dómi 18. desember 2018 fyrir líkamsárás og brot gegn umferðarlögum með því að hafa þann 19. júní 2017 ekið sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Við ákvörðun refsingar í þessu máli verður því miðað við að ákærði hafi með brotum þeim sem hann er nú sakfelldur fyrir gerst sekur um að hafa ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna í fimmta sinn og í þriðja sinn sviptur ökurétti innan ítrekunartíma í skilningi 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hliðsjón af dómvenju og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ævilöng svipting ökuréttar ákærða áréttuð. Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Elmars Harðar Arnoddssonar, 227.564 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 181.452 krónur í annan sakarkostnað. Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hreinn Magni Bjarnvinsson aðstoðarsaksóknari fyrir Sveinbjörgu Elídóttur aðstoðarsaksóknara. Hanna Jörvarsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn. Ákærði, Svanur Teitur Uwesson, sæti fangelsií fjóra mánuði. Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða. Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Hafliða Ingimars Marteinssonar, 227.564 krónur og 181.452 krónur í annan sakarkostnað. Særún Danelíusardóttir
Samræmdu prófunum í ensku fyrir 9. bekk hefur verið frestað eftir að vandræði komu upp vegna álags á tölvukerfi. Skólastjóri Salaskóla segir prófin barn síns tíma sem gagnist hvorki nemendum né hinu opinbera. Þriðja og síðasta samræmda könnunarprófið í ensku átti að hefjast klukkan 09:00 í morgun en prófakerfið virkaði ekki sem skyldi. Mikið álag var á kerfinu og greindu kennarar frá því að illa gengi fyrir nemendur að komast inn í prófin. Þau eru rafræn og alfarið tekin á tölvu. Segir Menntamálastofnun að prófakerfið hafi verið endurræst eftir að vandinn kom upp og stóðu vonir til þess að það myndi laga vandann. Það tókst hins vegar ekki og var því ákveðið að fresta prófinu. Á miðvikudaginn gekk einnig illa að framkvæma samræmt könnunarpróf í íslensku. Forstjóri Menntamálastofnunar fundar með menntamálaráðherra og hagsmunaaðilum í næstu viku til að ákvarða hvort að prófin verði lög fyrir aftur eða felld niður. Hafsteinn Karlsson er skólastjóri Salaskóla í Kópavogi. Hann segir að sýnir nemendur hafi lent í vandræðum líkt og aðrir. Hafsteinn Karlsson, skólastjóri Salaskóla í Kópavogi: Það hefur verið svona bara nákvæmlega eins og annars staðar. Á miðvikudaginn náttúrulega gekk, eða komust nemendur bara beinlínis ekki inn í prófin. Þetta var í lagi í gær og í morgun endurtók sagan frá miðvikudag sig aftur. Þau komust ekki inn og svo komust þau inn og duttu út og komust inn og duttu út þannig að þetta var að endingu slegið af. Hafsteinn hefur lýst sig andsnúinn samræmdu prófunum en hann telur prófin ekki endurspegla nútímalega kennsluhætti. Hafsteinn Karlsson: Ég held að þau, þetta sé, gefi í rauninni, sko, hinu opinbera villandi upplýsingar um skólastarf því að þetta er bara lítill hluti af skólastarfi og þetta hentar tiltölulega litlum hópi nemenda. Við erum með nemendur sem að hérna eiga á brattann að sækja í þessu bóklega námi en sýna einstaklega mikla hæfni og kunnáttu í mörgu öðru og hérna, þetta gefur ekki upplýsingar um þá. Í skóla án aðgreiningar, þá eru þessi próf bara fyrir, þau trufla, þau ýta undir rangar áherslur í skólastarfinu og koma í rauninni eða trufla okkur við það að ná til allra nemenda og laða fram það besta úr öllum.
Flugfélag Íslands hefur gengið frá samningi við Saga Capital Fjárfestingarbanka um að bankinn annist sölu á Twin Otter flugvélum félagsins og tengdum rekstri á Akureyri. Forsvarsmenn Saga Capital segja greinilegt að mikill áhugi sé á sölunni meðal flugrekstraraðila og fjárfesta um allt land, sér í lagi á Norðurlandi enda reksturinn að miklu leyti bundinn við Akureyri. Um tuttugu manns vinna við rekstur Twin Otter vélanna á Akureyri, aðallega flugvirkjar og flugmenn. Flugfélag Íslands tilkynnti fyrir hálfum mánuði að félagið hygðist skilja rekstur Twin Otter flugvélanna frá öðrum rekstri félagsins og selja þær eignir sem rekstrinum fylgja. Um er að ræða tvær Twin Otter flugvélar og tengda viðhaldsþjónustu á Akureyri, samninga um áætlunarflug frá Akureyri til Vopnafjarðar, Þórshafnar og Grímseyjar og samninga um leiguflug, aðallega á Grænlandi. Saga Capital verður fulltrúi Flugfélags Íslands gagnvart kaupendum og heldur utan um sölu á þessum hluta rekstrarins. Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Saga Capital segir ljóst að bæði flugrekstraraðilar og fjárfestar séu áhugasamir um þessa sölu. Margir sjái Akureyri sem ákjósanlega heimahöfn enda sé fyrirsjáanleg mikill uppbygging á Akureyrarflugvelli með fyrirhugaðri lengingu flugbrautarinnar. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands segir að það hafi verið eðlilegt að leita ráðgjafar hjá Saga Capital, þeir hafi komið sterkir inn á markaðinn á síðasta ári, séu með mikla þekkingu á viðskiptalífinu og geti boðið góða og öfluga þjónustu. Twin Otter flugvélarnar eru um margt einstakar flugvélar. Þær taka upp í 19 manns í sæti, geta lent á allt niður í 150 metra langri braut og eru þannig úr garði gerðar að hægt er að setja nánast hvaða lendingarbúnað sem er undir þær. Þannig er til dæmis bæði hægt að setja undir þær skíði til að lenda á snjó eða jökli en einnig stór dekk, svipað og gert er við jeppa, til að lenda á grófum flugbrautum. Þessi eiginleiki veldur því að vélarnar hafa verið sérstaklega vinsælar í leiguverkefnum á Grænlandi, þar sem þær hafa meðal annars verið notaðar til að lenda með göngumenn á Grænlandsjökli og flytja vistir og farþega fyrir danska herinn og hinar ýmsu vísindastofnanir.
Fyrir mér snýst jafnaðarmennska um að setja sig í spor annarra. Og ekki bara þegar það er þægilegt og auðvelt heldur líka þegar það er erfitt og virkilega krefjandi. Öll lög og allar reglur sem settar eru eiga að vera skoðaðar út frá sjónarhorni allra hópa samfélagsins. Ekkert af því sem við gerum má auka líkur á heftu aðgengi vissra hópa samfélagsins að grunnþjónustu. Þaðá hver einasta sála að geta lifað góðu lífi á Íslandi. Þessar kosningar eru barátta jafnaðarmanna og ójafnaðarmanna. Við erum ríkt land en misskipting auðsins er óásættanleg. Ríkustu 10% landsmanna eiga 67% allra eigna landsins. Það þýðir að hin 90% eiga einungis þriðjung eignanna. Svo svakaleg auðsöfnun á fáar hendur er ekki í anda jafnaðarmanna og þjóðarkökunni verður að skipta á réttlátari hátt. Sækjum peningana þar sem mest er af þeim og notum þá til uppbyggingar heilbrigðiskerfis, velferðarkerfis og menntamála. Ég er jafnaðarmaður og býð mig fram fyrir jafnaðarmannaflokk Íslands. Jafnaðarmenn eiga sér langa og farsæla sögu fulla af sigrum í þágu lítilmagnans. Sögu fulla af baráttu gegn óréttlæti og ójöfnuði. Jafnaðarmenn byggðu upp velferðarríkin í Skandinavíu og þannig samfélag viljum við skapa á Íslandi. Eitt samfélag fyrir alla. Víkjum af braut sérhagsmunagæslu, frjálshyggju, og spillingar. Göngum hönd í hönd með rauða rós í hjarta í átt til frelsis, jafnréttis og samstöðu.
Tara Sóley Mobee var valin sem fulltrúi STEFs og ÚTÓN í alþjóðlegum lagahöfundabúðunum NordicLA ásamt þeim Eðvarð Egilssyni og Úlfi Eldjárn. Tara tekur þátt í popptónlistarbúðum en Eðvarð og Úlfur taka þátt í lagahöfundabúðum sem snúa að kvikmyndatónlist. Tara Mobee er efnileg söngkona og lagahöfundur. Hún gaf fyrst út tónlist árið 2017 á streymisveitunni Spotify og hafa lög hennar náð góðri spilun. Árið 2019 keppti hún svo í Söngvakeppninni. Tara segir að það hafi verið magnað ferli. „Þetta er öðruvísi, maður er náttúrlega búinn að horfa á þetta allt sitt líf og það var öðruvísi að vera hinum megin við.“ Lagahöfundabúðirnar NordicLA fara fram á netinu í ár vegna COVID-19. Tara er virkilega spennt fyrir poppbúðunum og kynnast fleira fólki í bransanum út í hinum stóra heim. „Þetta er magnað tækifæri að fá að vinna með svona stórum aðilum,“ segir Tara Mobee. Tara hefur verið að vinna að plötu síðan hún tók þátt í Söngvakeppninni og segir hún að það sé stutt í að hún gefi út meira efni. Platan sem hún hafi verið að vinna að sé mjög persónuleg og því hefur hún tekið sér góðan tíma í að gera hana. Hlustaðu á viðtalið við Töru Sóley Mobee í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.
Nýtt og ferskt Hús og híbýli er komið út. Heimili Elísabetar Ölmu listráðgjafa og Daníels Bjarnasonar tónskálds og hljómsveitarstjóra prýða forsíðuna en þau hafa búið sér einstakt heimili á Seltjarnarnesi. Við fengum íslenska hönnuði til þess að sýna frá smart baðherbergjum sem þeir hafa hannað. Hvað þarf að hafa í huga þegar baðherbergi eru tekin í gegn, sniðugar lausnir og góð ráð. Einnig fengum við Elísu Ó. Guðmundsdóttur blómahönnuð og eiganda blómabúðarinnar 4 árstíðir til þess að mæla með plöntum og blómum sem henta sérlega vel inn á baðherbergi. Í Laugardalnum búa mæðgurnar Ingunn Embla og Sigríður Helga en heimilið þeirra einkennist af fallegri hönnun, einstökum munum og mikilli litadýrð. Samúel Örn Erlingsson og Ásta B. Gunnlausdóttir opnuðu dyrnar fyrir okkur en þau byggðu draumahúsið í nágrenni við Hellu fyrir um tveimur árum. Húsið er sannkölluð útsýnisparadís. Einnig heimsóttum við Helenu Ósk Óskarsdóttur nema í arkitektúr en hún býr í sjarmerandi stúdentaíbúð í Bryggjuhverfinu. Þau hafa sett sinn svip á íbúðina en íbúðabyggðin er í góðu samræmi við nærliggjandi byggingar. Við tókum Joachim Kornbek Hansen, hönnunar- og vörumerkjastjóra MENU á tal og ræddum við hann um nýtt upphaf fyrirtækisins, framtíðarsýn og tilgang hönnunar. Júlíanna Ósk Hafberg hannaði póstkortið sem fylgir með blaðinu en hún er ung fjöllistakona búsett í Árósum í Danmörku. Hún vinnur mikið undir áhrifum tilvistarstefnu og bera verk hennar þess glöggt merki. Allt þetta og miklu meira í nýjasta Hús og híbýli. Tryggðu þér áskrift að Hús og Híbýli í vefverslun
Nefndarálit um till. til þál. um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Frá iðnaðarnefnd. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá Samtökum atvinnulífsins, Impru – nýsköpunarmiðstöð, Handverki og hönnun, Félagi kvenna í atvinnurekstri, Heimilisiðnaðarfélagi Íslands og Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum. Tillagan er endurflutt frá 128. löggjafarþingi og bárust þá umsagnir frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga hf., Alþýðusambandi Íslands, Byggðastofnun, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Iðntæknistofnun og Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar. Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að vinna að framkvæmdaáætlun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Meginmarkmið aðgerðanna verði að auðvelda mönnum að stofna til atvinnurekstrar, hlúa að nýsköpunar- og þróunarstarfi í smáatvinnurekstri og greiða fyrir vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Nefndin er meðvituð um að í útfærslu framkvæmdaáætlunarinnar verði nauðsynlegt að taka mið af séríslenskum aðstæðum varðandi stærðarviðmið fyrirtækja án þess að skekkja samkeppnisstöðu þeirra því að samkvæmt skilgreiningu Evrópusambandsins eru allflest íslensk fyrirtæki smá eða meðalstór á alþjóðlegan mælikvarða. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi BREYTINGU: Í stað orðanna „haustið 2004“ í 2. mgr. tillögugreinarinnar komi: haustið 2005. Steingrímur J. Sigfússon sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu. Einar Oddur Kristjánsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson og Björgvin G. Sigurðsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Alþingi, 3. mars 2004. Kristinn H. Gunnarsson, form., frsm. Kjartan Ólafsson. Anna Kristín Gunnarsdóttir. Sigurjón Þórðarson. Guðmundur Hallvarðsson.
Haraldur Þrastarson er kvikmyndatónskáld sem starfar í Berlín. Hans nýjasta verkefni er tónlist við kvikmyndina Adam sem er lokamynd barnakvikmyndahátíðar sem haldin verður í Bíó Paradís 5. -15. apríl. Haraldur er lærður básúnuleikari en söðlaði um eftir útskrift og sinnir nú tónlistargyðjunni í gegnum popp- og kvikmyndatónlist. Haraldur hefur leikið á básúnu frá tólf ára aldri en sótti um í Konunglega tónlistarskólanum í Amsterdam eftir útskrift úr MH. Hann lærði þar básúnuleik í fimm ár og kláraði þaðan próf í júní 2017. „Ég hef varla spilað nótu á hljóðfærið síðan sem er ákveðin sorg,“ segir Haraldur. Allir þurfa að vera heppnir einhvern tímann Hann segir að á öðru eða þriðja árinu í framhaldsnáminu ytra hafi hann byrjað að missa áhugann á básúnuleik og því að æfa sig einsamall meirihluta dagsins. „Þannig ég byrjaði að fikta við það að semja og framleiða tónlist,“ segir hann. Hann ákvað þó að klára námið en taka á sama tíma alla áfanga sem hann gat í framleiðslu tónlistar, tónsmíðum og kvikmyndatónlist. „Ég sótti einnig áfanga í popp-skólanum í Amsterdam sem fóru allir fram á hollensku - sem var merkileg tilbreyting.“ Aðspurður segir Haraldur að kvikmyndabransinn ytra sé talsvert stærri en þó ekki endilega læstari en á Íslandi. „Ætli besta leiðin sé ekki að skapa sín eigin tækifæri og að vera ekki hræddur við að biðja um að fá að vera með,“ svarar hann. Hann segir að nokkuð sem hann hafi lært frá kennara sínum í kvikmyndatónlist í Amsterdam hafi verið að allir þurfi að vera heppnir einhvern tímann, og þá sé sama hvort að það feli í sér fundið tengslanet eða aðrar tilviljanir. „Það er partur af þessu öllu en síðan þarf að hafa hæfileika og þolinmæðina til að standa sig vel.“ Kvikmynd um heyrnarskertan mann Nýjasta verkefni Haraldar er tónlist við kvikmyndina Adam, en auk þess að semja tónlistina í myndinni semur hann einnig titillag myndarinnar sem flutt er af hljómsveit Haraldar sem heitir Magnea. Kvikmyndin fjallar um Adam sem er tvítugur og heyrnarskertur. Móðir hans er teknó-tónlistarkona sem glímir við áfengissýki og er í upphafi sögu lögð inn á stofnun vegna heilabilunar. Hin íslenska María Sólrún leikstýrir myndinni en hún er búsett í Berlín. Hún framleiðir að auki myndina ásamt Jim Stark og syni sínum Magnúsi Maríusyni sem jafnframt fer með aðalhlutverkið. Haraldur segist sérstaklega hafa nálgast tónlistina út frá útgangspunkti heyrnarskerðingar í titillagi myndarinnar. „Þar er meðvitaður hljóðheimur notaður sem minnir á þessa drunur sem maður heyrir í myndum um heyrnalaust fólk og þeirra upplifun á hljóði. Í score-inu sjálfu var tónlistin meira notuð sem eitthvað „í burtu“ frá aðalkarakterinum og samin miklu frekar sem komment á söguna en einhverri ótrúlegri nánd við Adam,“ segir Haraldur. „Tengingin við heyrnaleysi er þessi heimur undir sjónum sem er sýndur í myndinni miklu frekar en score-ið og að vera undir vatni er e-ð sem við getum öll tengt við og hvernig áhrif það hefur á heyrnina.“ Haraldur segist síðan hafa notað þunga og dragandi strengi, sem teknir voru upp í hljóðveri í Amsterdam, til að byggja spennu í senum myndarinnar. „Þeir eiga að minna á þessa þungu tilfinningu sem maður hefur þegar maður getur ekki ákveðið sig varðandi eitthvert erfitt viðfangsefni. Þungir og dragandi, sem halda manni aftur. Fókusinn á þessa tilfinningu umfram fegurð.“
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Cancún í Mexíkó í desember síðastliðnum var árangursrík að flestra mati, en þar tókst samkomulag um ýmis mikilvæg atriði í loftslagsmálum. Hluta af árangrinum má einfaldlega þakka því að væntingum var í hóf stillt, öfugt við það sem var í Kaupmannahöfn 2009, þegar mistókst að ná settu markmiði um lagalega bindandi framtíðarsamkomulag í loftslagsmálum. Það eru líka blikur á lofti um framhaldið og óvíst hvað tekur við þegar fyrsta skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar lýkur í árslok 2012. Því má þó ekki gleyma að loftslagsbreytingar eru kannski flóknasta og erfiðasta verkefnið sem þjóðir heims glíma við og í Cancún voru gefin vilyrði um stóreflt starf á sviðum sem geta skilað raunverulegum árangri. Í Cancún var ákveðið að auka framlög til loftslagsverkefna í þróunarríkjunum, með það að markmiði að árleg framlög yrðu um 100 milljarðar Bandaríkjadala árið 2020. Þróunaraðstoð Íslands hefur dregist saman í kreppunni, en í framtíðinni munu verkefni sem hjálpa fátækum ríkjum að glíma við afleiðingar loftslagsbreytinga fá aukinn sess í slíkri aðstoð. Þá var einnig ákveðið að efla mjög starf að þróun og dreifingu loftslagsvænnar tækni. Þar geta leynst tækifæri fyrir Ísland, en hér á landi eru ýmsir vaxtarbroddar á þessu sviði. Grunnur var lagður að stóru alþjóðlegu verkefni sem miðar að því að draga úr eyðingu skóga í hitabeltinu og samþykkt að efla aðstoð við fátæk ríki sem þurfa mest að laga sig að afleiðingum loftslagsbreytinga. Ísland styður viðleitni við að koma á lagalega bindandi alþjóðlegu framtíðarsamkomulagi í loftslagsmálum, þar sem öll þróuð ríki og stór og vaxandi þróunarríki eins og Kína, Indland og Brasilía axla ábyrgð við að draga úr losun. Stefnt er að því að ná slíku samkomulagi í lok þessa árs, en óvíst er um árangur, því mikið ber á milli ríkja við mat á réttlátri skiptingu byrða og lagalegan búning samkomulags, þótt aukinn samhljómur hafi náðst um markmið, aðgerðir og fjármögnun í Cancún. Ísland hefur lagt sérstaka áherslu á tvennt í yfirstandandi samningaviðræðum, annars vegar jafnréttismál og hins vegar tillögu um endurheimt votlendis til að draga úr losun. Ísland hefur komið texta um jafnrétti kynjanna víða að í samningstextanum, sem mun greiða fyrir virkri aðkomu kvenna í þeim verkefnum sem lagt verður af stað með á grundvelli Cancún-samkomulagsins. Áhersla á jafnrétti kynjanna í slíkum verkefnum er ekki einungis réttlætismál, heldur sýnir reynslan að aukið ákvörðunarvald og fræðsla til kvenna leiðir til betri árangurs í verkefnum sem t.d. búa samfélög undir að laga landbúnað að breyttu loftslagi eða styrkja viðbrögð við náttúruhamförum. Engin tilvísun var í jafnrétti kynjanna í samningstextum fyrir tveimur árum, þegar Ísland kom með fyrstu tillögur á því sviði, en nú er slík áhersla almennt viðurkennd. Tillaga Íslands um endurheimt votlendis sem loftslagsaðgerð var líka samþykkt í Cancún, þótt hún öðlist ekki fullt vægi nema með samkomulagi um framhald Kýótó-bókunarinnar eftir 2012. Þetta er fyrsta breytingin á aðferðarfræði Kýótó sem hlýtur samþykki frá því bókunin gekk í gildi, en mikill fjöldi slíkra tillagna er á borðinu. Frumkvæði Íslands í þessum efnum hefur vakið nokkra athygli, þar sem losun frá framræstu votlendi á heimsvísu er veruleg, meiri en t.d. frá allri flugumferð. Vernd og endurheimt votlendis er mikilsvert mál bæði hvað varðar vernd lífríkis og loftslags jarðar. Það er því margt jákvætt sem kom út úr Cancún-fundinum, sem vonandi markar upphafið að auknu trausti milli ríkja og efldu starfi við aðgerðir sem skila raunverulegum árangri í loftslagsmálum.
Árásir Sýrlandshers halda áfram á austurhluta Ghouta-svæðisins í Sýrlandi þrátt fyrir 30 daga vopnahlé sem samþykkt var í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á laugardaginn var. Aðgerðasinnar segja að stjórnvöld geri árásir bæði úr lofti sem og á landi á meðan að Rússar segja að svokölluðum „mannúðlegum gangi“ , sem borgarar geta nýtt til þess að flýja, hafi verið hlíft. Á meðan á árásunum stendur komast engin hjálpargögn frá Sameinuðu þjóðunum til skila né er heldur hægt að fara með illa sært fólk í burtu. Í frétt BBC um málið kemur fram að í kringum 393.000 manns eru fastir á svæðinu í kringum Damaskus sem hefur verið á valdi sýrlenskra yfirvalda síðan 2013. Segir Rússland eina aðilann sem getur haft áhrif á Assad Læknar segja að meira en 500 einstaklingar hafi látið lífið síðan að herinn hóf árásir sínar fyrir níu dögum síðan. Frakkland hefur hvatt Rússland til þess að nýta sér áhrif sín og ítök við forseta Sýrlands, Bashar al-Assad til þess að tryggja að 30 daga vopnahléinu verði framfylgt. „Rússland er eini aðilinn sem getur fengið stjórnina til þess að framfylgja vopnahléinu,“ sagði Jean-Yves Le Drian við kollega sinn Sergei Lavrov í Moskvu. Margir slasaðir sem ekki komast undir læknishendur Samræmingarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum segir að hún hafi fengið fregnir þess efnis að árásirnar hafi haldið áfram eftir að Rússland kallaði eftir vopnahléi klukkan 7 á þriðjudag. „Ljóst er að ástandið á jörðu niðri er þannig að ekki er hægt að koma gögnum inn né heldur að flytja særða út,“ sagði Jens Laerke við fréttamenn í Genf. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) segir að hún viti um meira en 1.000 illa særða og veika einstaklinga sem nauðsynlega þarf að flytja í burtu frá svæðinu og koma undir læknishendur. Ástandið var frekar rólegt Ástandið í austur Ghouta-svæðinu var frekar rólegt snemma á þriðjudag fyrir viku síðan. Hins vegar var einn almennur borgari drepinn í bænum Douma sem er a valdi uppreisnarmanna áður en hléið hófst.
Bæjarstjórar Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar undrast að útboð um breikkun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Árborgar verði opnuð í þessum mánuði og að hugsanlega geti framkvæmdir hafist á þessu ári. Enn er óljóst hvenær tvöföldun Reykjanesbrautar verður lokið. Vegagerðin stefnir að því að opna útboð í fyrsta áfanga um breikkun Suðurlandsvega milli Hveragerðis og Árborgar í þessum mánuði. RÚV greindi fyrst frá málinu en þar var haft eftir fulltrúa Vegagerðarinnar að framkvæmdir gætu hafist síðar á árinu. Enn á eftir að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautar á tveimur stöðum, annars vegar í Hafnarfirði og hins vegar í Reykjanesbæ og upp að flugstöð. Menn spyrja sig hvort ekki eigi að klára þessa tvöföldun áður en ráðist er í tvöföldun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Árborgar. Mörg alvarleg umferðarslys Mörg alvarleg umferðarslys hafa orðið á síðustu misserum á þeim tveimur vegarköflum sem um ræðir. Síðast í morgun lentu fjórir bílar í árekstri við Reykjanesbraut þar sem ein aksturstefna er í hvora átt í Hafnarfirði. Bæjarstjórar tveggja sveitarfélaga, þar sem Reykjanesbraut liggur í gegn undrast forgangsröðun Vegargerðarinnar. „Ef menn ætla að fara að ráðast í tvöföldun á Suðurlandsvegi þá er það bara fínt mál. En við erum ekki sátt við það ef það verður til þess að tefja þessar tímasetningar sem menn hafa verið að varpa fram með tvöföldun hjá okkur,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Í sama streng tekur Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og óskar eftir skýrum svörum. „Þessar fréttir að Reykjanesbrautin sé ekki að fara í útboð á þessum tíma sem við vorum búin að binda miklar vonir við og þrýsta á í langan tíma, þær eru okkur mikil vonbrigði og í kjölfar þeirra munum við núna strax krefjast svara,“ segir Rósa. Þurfa að halda málstaðnum á lofti Kjartan segist ekki vilja gera lítið úr mikilvægi þess að tvöfalda Suðurlandsveginn. „En við þurfum að halda áfram að halda okkar málstað á lofti í samráði við þingmenn og ráðherra.“ Rósa bendir á að það séu 600 milljónir í fjárlögum til Reykjanesbrautarinnar á þessu ári. „Og við viljum sjá það að þeir fjármunir fari að vinna á réttum stað og því eru þetta mikil vonbrigði að sjá að það sé ekki verið að fara í útboð á Reykjanesbrautinni," segir hún.
Fyrrverandi stjórnarformaður Orkuveitunnar til margra ára kallar aðgerðir meirihlutans í borginni vegna Orkuveitunnar leikrit. Hann hafi skilið við fyrirtækið í góðum rekstri. „Ég er dálítið undrandi yfir þessu leikriti. Það er dregin upp mjög dökk mynd af fyrirtækinu eins og það sé komið að fótum fram en það er fjarri lagi að Orkuveitan sé í jafn miklum vandræðum og sagt hefur verið," segir Alfreð Þorsteinsson fyrrverandi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur en þeirri stöðu gengdi hann allt fram til ársins 2006. Hann segir yfirlýsingar stjórnar Orkuveitunnar lýðskrum - staðan hafi alls ekki verið jafn slæm og menn segja. „Því hefur verið haldið fram á blaðamannafundi að erfitt væri að greiða fólki laun í byrjun vors án aðgerða. Það kom ekki fram að orkuveitan hefur óhreyfða lánalínu upp á 8 milljarða. Það er því fjarri lagi að orkuveitan sé í þeim erfiðelikum sem sagt er," segir Alfreð. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, sagði á blaðamannafundinum í gær að Orkuveitan hefði fyrir löngu misst sjónar af raunverulegu hlutverki og tilgangi sínum. Hann boðaði afturhvarf til fortíðar og einfaldari starfshátta: „Menn hafa talað um völlinn á fyrirtækinu. Þegar þú lítur til baka, geturðu sagt að ekkert hafi verið að? Auðvitað má deila um það, en þegar ég yfirgaf fyrirtækið árið 2006 voru heildarskuldirnar undir 60 milljarðar sem voru langtímalán. Það sem gerist eftir er að menn eru ekki jafn varkárir, þeir eru að taka styttri lán," segir Alfreð.
Meirihluti öldungadeildar Bandaríkjaþings samþykkti í gær að taka fyrir tilnefningu Amy Coney Barrett í Hæstarétt Bandaríkjanna en Demókratar höfðu beitt málþófi til þess að koma í veg fyrir að tilnefningin yrði tekin fyrir. Áætlað er að endanleg niðurstaða um skipun Barrett liggi fyrir síðar í dag. Í atkvæðagreiðslunni í gær greiddi 51 þingmaður atkvæði með því að taka tilnefninguna fyrir en 48 þingmenn á móti. Þingmennirnir fylgdu flestir flokkslínum við atkvæðagreiðsluna en tveir þingmenn Repúblikana fylgdu Demókrötum. Þær Susan Collins, frá Maine, og Lisa Murkowski, frá Alaska, greiddu atkvæði gegn því að binda enda á málþófið og taka tilnefninguna fyrir. Gert er ráð fyrir að Collins muni greiða atkvæði gegn skipun Barrett en Murkowski greindi frá því um helgina að hún kæmi til með að greiða atkvæði með Barrett þegar að því kemur. Þar sem Repúblikanar eru í meirihluta í öldungadeildinni, og aðeins einn þingmaður flokksins lagðist gegn skipuninni, er talið nánast öruggt að Barrett verði skipuð í sæti dómara. Þeir þurfa 51 atkvæði til að staðfesta skipunina en ef það kemur til jafnteflis mun Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, greiða úrslitaatkvæðið. Það er því líklegt að Barrett verði skipuð þegar aðeins vika er í forsetakosningarnar fara fram í Bandaríkjunum. Sjá einnig Ýmis hitamál í kringum tilnefningu Barrett Umdeild skipun Skipun Barrett í Hæstarétt Bandaríkjanna hefur verið verulega umdeild en Donald Trump Bandaríkjaforseti tilnefndi Barrett í sæti Ruth Bader Ginsburg heitinnar í lok september. Demókratar hafa mótmælt skipuninni þar sem svo stutt er í kosningar auk þess sem valdahlutföllin við réttin muni breytast ef Barrett verður skipuð. Dómsmálanefnd öldungadeildarinnar tók fyrir tilnefningu Barrett í þar síðustu viku en Barrett sjálf sat þar fyrir svörum frá þingmönnum nefndarinnar. Hún var þar spurð út í ýmis málefni, þar á meðal rétt kvenna til fóstureyðinga og heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum. Sjá einnig Mættu ekki til að greiða atkvæði um Barrett Þrátt fyrir ítrekaðar spurningar frá þingmönnum Demókrata um hennar skoðanir var lítið um svör að fá þar sem hún bar fyrir sig að hún gæti ekki tjáð sig um mál sem gætu komið til kasta réttarins í framtíðinni. Hún vildi til að mynda ekki tjá sig um þungunarrof, heilbrigðismál eða loftslagsbreytingar. Nefndin greiddi að lokum atkvæði um að senda tilnefninguna til öldungadeildarinnar síðastliðinn fimmtudag en þingmenn Demókrata sniðgengu atkvæðagreiðsluna til að mótmæla framgöngu nefndarinnar, þar sem Repúblikanar eru í meirihluta. Engu að síður var það samþykkt að senda tilnefninguna til öldungadeildarinnar.
Aðstoðarmaður á samskiptasviði Hvíta hússins gerði lítið úr andstöðu öldungadeildarþingmanns Repúblikanaflokksins við tilnefningu Donalds Trump Bandaríkjaforseta til forstjóra leyniþjónustunnar CIA vegna þess að hann væri „hvort eð er að deyja“ á lokuðum fundi í gær. John McCain, öldungadeildarþingmaður repúblikana, hefur lýst miklum efasemdum um tilnefningu Ginu Haspel sem næsta forstjóra CIA. Öldungadeildin þarf að staðfesta tilnefningu hennar. Ástæðan fyrir efasemdum McCain um Haspel er sú að hún stýrði leynifangelsi í Taílandi þar sem grunaðir hryðjuverkamenn voru pyntaðir og tók þátt í að eyða sönnunargögnum um pyntingarnar. Þegar Haspel kom fyrir leyniþjónustunefnd öldungadeildarinnar í vikunni gaf hún ekki skýr svör um hvort hún teldi pyntingar eins og þær sem CIA hefur beitt undir yfirskyni „aukinna yfirheyrsluaðferða“ siðlausar. Hún lofaði því þó að endurvekja ekki yfirheyrsluáætlun sambærilega þeirri sem CIA beitti eftir hryðjuverkin 11. september árið 2001. McCain hefur áður reynst Trump og forystu repúblikana erfiður ljár í þúfu. Hann var einn þriggja öldungadeildarþingmanna flokksins sem greiddu atkvæði gegn afnámi sjúkratryggingalaganna Obamacare í fyrra. Á tíðum hefur hann einnig verið gagnrýninn á Trump, meðal annars í væntanlegri bók. Þræta ekki fyrir ummælin Sumum repúblikönum hefur gramist andstaða McCain við tilnefninguna. Á lokuðum fundi í Hvíta húsinu í gær fór Kelly Sadler, sérstakur aðstoðarmaður á samskiptaskrifstofu þess, háðulegum orðum um mótmæli McCain, að því er kemur fram í frétt Washington Post. „Þetta skiptir ekki máli, hann er hvort eð er að deyja,“ sagði Sadler en McCain er nú að jafna sig á uppskurði vegna heilaæxlis. Hvíta húsið þrætti ekki fyrir orð Sadler þegar Washington Post leitaði viðbragða. Talsmaður þess sagði að Hvíta húsið virti þjónustu McCain fyrir þjóð sína og að það bæði fyrir honum og fjölskyldu hans á þessum erfiðu tímum. Cindy McCain, eiginkona þingmannsins, tísti beint til Sadler í gærkvöldi og benti henni á að hann ætti fjölskyldu. „Mætti ég minna þig á að eiginmaður minn á fjölskyldu, sjö börn og fimm barnabörn,“ tísti hún. Uppnefndur „söngfuglinn“ á Fox Háðsyrði Sadler voru ekki þau einu sem voru látin falla um McCain í vikunni. Þáttastjórnandi á Fox Business baðst afsökunar í gær fyrir að hafa ekki andæft ummælum viðmælanda síns um að pyntingar hefðu „virkað“ á McCain. McCain var tekinn höndum og pyntaður í Víetnamstríðinu eftir að flugvél hans hrapaði. „Þess vegna kalla þeir hann „Söngfuglinn John“,“ sagði Thomas McInersey, fyrrverandi herforingi úr flughernum og stuðningsmaður Trump forseta, á viðskiptarás Fox í gær. Sú fullyrðing virðist ekki eiga við nein rök að styðjast. Þvert á móti er McCain sagður hafa hafnað því að vera sleppt úr fangabúðunum þar sem hann var pyntaður til að yfirgefa ekki félaga sína sem voru þar í haldi. Charles Payne, stjórnandi þáttarins, baðst afsökunar á Twitter síðar um daginn og sagðist iðrast þess að hafa misst af ummælunum. Trump forseti gerði sjálfur lítið úr McCain í kosningabaráttunni árið 2015. „Hann er stríðshetja vegna þess að hann var tekinn höndum. Mér líkar við fólk sem var ekki tekið höndum,“ sagði Trump sem kom sér sjálfur ítrekað undan herþjónustu á sínum yngri árum. New York Times sagði frá því um helgina að starfslið McCain hefði sagt Hvíta húsinu að McCain vildi að Mike Pence, varaforseti, yrði viðstaddur jarðarför hans frekar en Trump þegar þar að kemur.
„Ég veit ekki betur en að það sé góð reynsla af þessu skipi og þess vegna ákváðum við að nýta okkur smíðaréttinn á öðru skipi nú," sagði Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins sem nýtti sér rétt til að láta skipasmíðastöðina ASMAR smíða annað uppsjávarveiðiskip fyrir félagið. „Þetta er gríðarleg fjárfesting, upp á um fjóra milljarða en við ákváðum að láta á þetta reyna. Við gerum núna út fimm uppsjávarskip, þar af tvö frystiskip en við viljum frekar eiga færri og öflugri skip.“ „Það er auðvitað komin tími á endurnýjun á flota Ísfélagsins en um leið erum við að styrkja landsvinnsluna því betur búin skip koma væntanlega með betri afla að landi," sagði Ægir Páll. Áætlað er að fyrra skipið verði tilbúið á árinu 2010 en hið síðara verður afhent fyrri hluta árs 2011. Milligöngu um gerð smíðasamnings og smíðalýsingar hafði umboðsmaður Asmar á Íslandi, BP skip hf - Björgvin Ólafsson og Héðinn hf, umboðsaðili fyrir Rolls Royes á Íslandi. Skipin tvö eru eins að öllu leyti en það er Rolls Royce í Noregi sem hannar þau. Norska skipið Knester er fyrirmyndin en forráðamenn Ísfélagsins skoðuðu skipið áður en smíðasamningurinn var undirritaður á sínum tíma. Skipin tvö verða um 71 metri að lengd og rúmlega 14 metra breið. Burðargeta þeirra verður um 2000 tonn, í tíu tönkum útbúnum öflugum RSW kælingu. Skipin verða bæði útbúin til nóta og flottrollsveiða og koma 2010 og 2011. Unnið upp úr grein í Vaktinni.
Korkur: hl Titill: dramaa Höf.: ccivan Dags.: 15. september 2009 15:52:19 Skoðað: 676 Eins og einhverjir vita þá er ég að spila cs og jájá commentið eins og þið viljið að ég sé vangefinn en þetta hitti bara svona kjánalega á. Allavega já þá var ég búinn að gefast upp að leita mér að tölvu og keypti ps3 en svo hringir siggi robo í mig og spyr hvort mig vanti tölvu og drasl á góðu verði og hann býður mér fínustu shuttle með suddalegum headphonum mus lyklaborði mottu skjá á 50k og ég tek því vitanlega. En já allavega þá er þessi þráður fyrir onlinemót: #snidugt.onlinemot á ircinu, þetta verður létt 16liða double elimination mót til að hita aðeins upp, svo kem ég inn með deildarmót eða eitthvað sniðugt … endilega komið með uppástungur fyrir hvernig mót þið viljið. Og já svo verður _vonandi_ qualifier bráðlega fyrir lan í haust sem gæti orðið að veruleika í hafnafirðinum. rokk Bætt við 15. september 2009 - 16:23 Þetta verður BEST OF 3 mót, s.s. allir leikir verða best of 3 þar sem 5 möp verða nefnd (alltaf sömu 5), hvert lið neitar 1 mappi. Þegar því er lokið velur hvert lið 1 mapp og mappið sem er útundan verður spilað fyrst, næsta mapp er svo mappið sem tapliðið valdi (jafntefli þá er hnífað uppá mapp eða ákveðið í sameiningu) --- Svör --- Höf.: Kutter Dags.: 15. september 2009 15:55:13 Atkvæði: 0 hversu mörg lið eiga að geta komist a þetta lan í hfj? --- Höf.: ccivan Dags.: 15. september 2009 16:11:39 Atkvæði: 0 8 eftir því sem ég best veit ---
Ein umfangsmesta sprengjuæfing sinna tegundar er nú haldin hér á landi á vegum Landhelgisgæslunnar. Þar eru æfð viðbrögð við heimatilbúnum sprengjum hryðjuverkamanna. Sprengjusérfræðingur Gæslunnar segir æfingu sem þessa mikilvæga fyrir Ísland enda gefst þátttökuþjóðum tækifæri til að bera saman bækur sínar. Þegar litið var yfir öryggissvæði Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli mátti sjá vel búnar sprengjusveitir frá 14 löndum á víð og dreif. Ástæðan er sprengjuæfingin Northern Challenge sem nú er haldin í 15. sinn. Landhelgigæslan hefur frá árinu 2001 haft veg og vanda af skipulagningu hennar en alls munu 250 þátttakendur miðla af reynslu sinni næstu tvær vikurnar. Þar eru æfð viðbrögð við hryðjuverkum þar sem heimatilbúnum sprengjum hefur verið komið fyrir. Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður séraðgerða og sprengjusviðs Landhelgisgæslunnar: Það sem er í gangi hérna núna er það að hér hefur verið tilkynnt um einhverja sprengju, hryðjuverkasprengju, og hérna þeir eru sem sagt að eiga við hana, gera hana óvirka og það er það sem við æfum hérna inni á þessu svæði hérna. Markmiðið er ekki einungis að aftengja sprengjur heldur einnig að rannsaka þær og komast að uppruna þeirra. Ónafngreindur viðmælandi: Og vonandi getum við ráðist gegn samtökunum, fundið út hverjir fremja þessi illvirki og síðan fundið þá. Sigurður Ásgrímsson: Þetta er stærsta svona æfing sem haldin er í heiminum í þessum bransa. Reynt er að hafa aðstæður sem raunverulegastar og til að mynda er sérhæfð stjórnstöð virkjuð á meðan æfingunni stendur. Marvin Ingólfsson, stjórnandi: Hérna erum við með stjórnstöð sem að er keyrð alveg samkvæmt svo kölluðum NATO ferlum. Þessar sprengjur sem við erum með hérna, það eru sprengjur sem hafa fundist víðs vegar um heiminn síðastliðið ár og þær sprengjur eru teknar og gerðar nákvæmlega eins og aðstæður í kring hafðar eins raunverulegar og hægt er og þær náttúrulega virka ekki sem skyldi, þannig séð, það eru náttúrulega bara litlir kínverjar í þeim náttúrulega ekki sprengiefni. Marvin segir æfingu sem þessa sérlega mikilvæga fyrir alla aðila og ekki síst Landhelgisgæsluna. Marvin Ingólfsson: Fyrir okkur persónulega hjá Gæslunni er þetta náttúrulega mjög mikilvæg reynsla og þekking sem að við fáum í gegnum þessa æfingu.
Það er ekki svo að þótt menn séu krítískir á búvörusamninga sem eru gerðir bak við luktar dyr, tilkynntir eins þeir séu orðinn hlutur, virðast vera ávísun á stöðnun, eiga að vera til tíu ára og kosta risastórar fjárhæðir, séu þeir ósjálfrátt í liði með verslunarveldinu Högum. Því miður stillir forsætisráðherra þessu svona upp. Fyrir stjórnmálamann getur slíkt auðvitað verið þægilegt. Hagar er keðja verslana sem skilar ofurhagnaði og er sífellt að leita að stærri markaðshlutdeild. Búðirnar eru flestar lélegar, með hálfónýtu grænmeti, slöppu kjöti og fiski, lítið af ferskri vöru og þar er yfirleitt aldrei að finna starfsmenn sem maður getur treyst á að hafi vit á því sem verið er að selja. En verð á sumum vörum er vissulega lágt á íslenskan mælikvarða. Þetta er ekki svona – annað hvort Hagar eða búvörusamningur. Málið er stærra og flóknara en það, veruleikinn miklu blæbrigðaríkari. Kjör bænda eru ekki nógu góð í núverandi kerfi, milliliðir fá alltof mikið til sín, framleiðslan er of miðstýrð, einkaframtak fær ekki að njóta sín – sumt er gamaldags og ætti að vera úrelt. Það er líka alveg ástæðulaust að nefna Icesave í tíma og ótíma. Sem rök fyrir búvörusamningi eða rök á móti búvörusamningi. Icesave kemur þessu nákvæmlega ekkert við.
Hamarsheimt (danska: "Thors Brudefærd") er önnur bókin í bókaflokknum um Goðheima. Hún kom út árið 1980. Teiknari hennar var listamaðurinn Peter Madsen, en auk hans komu þeir Hans Rancke-Madsen, Per Vadmand og Henning Kure að gerð handritsins, sem byggir að nokkru á frásögn Þrymskviðu af því þegar jötnar ræna hamrinum Mjölni. Bókin hefur verið þýdd á fjölda tungumála, þar á meðal íslensku. Söguþráður. Þór vaknar í höll sinni Bilskirni og uppgötvar að hamrinum Mjölni hefur verið stolið. Loki ályktar að jötunninn Þrymur muni hafa stolið honum. Sú reynist raunin og krefst jötunninn þess að fá gyðjuna Freyju í lausnargjald. Æsir hyggjast ganga að þessum afarkostum en Loka hugkvæmist þó að klókara væri að klæða Þór í kvenmannsföt, senda hann á fund Þryms í gervi Freyju og endurheimta þannig hamarinn og koma um leið fram hefndum. Þór, Loki og mannabörnin Þjálfi og Röskva halda á fund Freys, með viðkomu hjá jötninum Útgarða-Loka, sem sér samstundis í gegnum ráðabruggið en lætur ekki á neinu bera. Sífellt fleiri jötnar átta sig á að ekki sé allt með felldu, en með klókindum tekst Loka að tryggja að enginn ljóstri leyndarmálinu upp við hinn hrekklausa Þrym. Hjónavígslan fer fram, en í upphafi hennar færir Þrymur brúði sinni hamarinn dýrmæta að gjöf. Þór gengur í kjölfarið berserksgang og drepur Þrym og fjölda veislugesta. Sögunni lýkur á því að ferðalangarnir snúa aftur til Ásgarðs þar sem Sif hefur eignast tvíbura. Hún segir körlunum í hópi ásanna til syndanna fyrir að hafa komið illa fram við Freyju, en talar fyrir daufum eyrum. Íslensk útgáfa. "Hamarsheimt" kom út hjá Iðunni árið 1980, sama ár og á frummálinu. Þýðandi var Guðni Kolbeinsson. Hún var endurútgefin árið 2011 með nýrri forsíðu.
Nýjustu breytingar breskrar stjórnvalda á ferðatakmörkunum til landsins, sem gripið hefur verið til í því skyni að stemma stigu við útbreiðslu omíkron-afbrigðis kórónuveirunnar þar í landi, koma of seint að mati vísindamanns sem ráðleggur ríkisstjórninni við sóttvarnaaðgerðir. Mark Woolhouse, sem er prófessor í faraldsfræði, líkir nýjustu aðgerðum breskra stjórnvalda við að „loka hesthúshurðinni þegar hesturinn er hlaupinn á brott.“ Breytingarnar, sem taka gildi aðfaranótt þriðjudags, felast einna helst í því að ferðalangar yfir tólf ára aldri þurfa nú að framvísa neikvæðu PCR-prófi sem tekið var áður en haldið var til Bretlands. Þá hefur Nígería bæst við á svokallaðan rauðan lista, en ferðalangar frá löndum á listanum þurfa að sæta tíu daga sóttkví við komuna til landsins. Ísland er ekki á rauðum lista Breta. Innflut smit ekki vandamálið Breska ríkisútvarpið hefur eftir Woolhouse að sannarlega hafi það áhrif að fleiri omíkron-smitaðir komi til landsins. Hins vegar verði það samfélagssmit sem verði helsti drifkraftur næstu bylgju veirunnar. Hann bætti því við að fjöldi omíkron-smita í Bretlandi væri ekki hár þessa stundina, og sagðist telja að fjöldi þeirra sem bæru afbrigðið nú væri talinn í „hundruðum frekar en þúsundum.“ Hins vegar sagði hann afbrigðið dreifast fremur hratt um Bretland og benti á að ef fram héldi sem horfði þar í landi, sem og í Suður-Afríku þar sem afbrigðið greindist fyrst, þá kynni afbrigðið að velta Delta-afbrigðinu úr sessi sem ráðandi afbrigði veirunnar víða um heim. Lítið er vitað um omíkron-afbrigðið á þessari stundu en því hefur verið velt upp af vísindamönnum að það kunni að vera meira smitandi en fyrri afbrigði og að það eigi greiðari leið fram hjá þeirri vörn sem bóluefni veita. Þó hefur því einnig verið velt upp að afbrigðið valdi vægari veikindum en önnur afbrigði. Vísindamenn hafa þó lagt áherslu á það, vegna þess hve nýtilkomið afbrigðið er, að það muni taka nokkurn tíma fyrir heiminn að átta sig á eiginleikum afbrigðisins. Í því samhengi nefndi Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, tímaramma upp á tvær til þrjár vikur nú fyrir helgi.
Korkur: romantik Titill: Hápunktur feimninar? Höf.: greenragga Dags.: 23. janúar 2004 12:49:10 Skoðað: 575 hæhæ, og gleðilegt nýtt ár (ein soldið sein á því :P) þannig er mál með vexti að ég er búin að vera eitthvað að pæla í stráki solldið lengi, eða næstum tvo mánuði…. og hann hefur líka áhuga…. en málið er bara að ég er svo ótrúlega feimin að ég get ekki sagt það sem mig langar að segja við hann…. það er kannski ekki bara eina ástæðan fyrir því að ég segi ekki hlutina sem ég vil segja, þar sem ég á allveg óþolandi foreldra, sem einhvernvegin geta alltaf hringt í mig á skemmtilegustu mómentum….. og þá þarf ég víst að fara heim!! okey tökum dæmi, mig langar stundum rosalega mikið að segja við hann, þegar hann er eithvað að fikta í símanum mínum og fer að spurja út í þennan og hinn strák, og spurja hvort hann sé sætur… bara einfaldlega að segja við hann “hann er alltílagi, en þú ert miklu sætari!” og svo loksins þegar ég er alltaf búin að safna kjarki til að segja eitthvað svona við hann, þá hringir mamma!!! BÖGG…. en jæja, svo ég hafi nú einhvern tilgang með þessu öllu þá ætla ég bara að spurja ykkur, sem eruð eða voruð feimin, hvernig þið getið lifað með þessu… og hvað þið gerið….. kv. Greenragga --- Svör --- Höf.: Foxylady83 Dags.: 24. janúar 2004 12:27:59 Atkvæði: 0 Ég er ógeðslega feimin…Í “gamla daga” þegar kærastinn minn…hann var þá ekki orðinn kærastinn minn sko:) að þegar hann var að reyna við mig þá var ég alltaf rosalega bæld…og hann var að reynað fá mig til að hitta sig en ég bara einhvern veginn þorði það aldrei…en so einn daginn þá biður hann mig um að hitta sig á kaffihúsi og ég ætlaði sko ekki að þora en ég náði að safna kjarki í mig og fór að hittann og ég sé allsekki eftir því í dag:D við erum búnað vera saman í næstum því 3 ár og þetta eru búnað vera yndislegustu þrjú ár ævi minnar:D ekki láta feimnina eyðileggja fyrir þér…Ef þú veist að strákurinn hefur áhuga á þér þá er þetta ekkert mál þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af því að hann segi nei eða what ever:D Vonað þetta hafi hjálpað eikkað…Gangi þér vel;) ---
Stuart Pearce, knattspyrnustjóri Manchester City, er ekki hættur að reyna að breyta hugsunarhætti ungra knattspyrnumanna en baráttujaxlinn telur að ungir leikmenn forgangsraði ekki rétt þegar kemur að knattspyrnunni. Að hans mati hugsa þeir fyrst um peninga en þar á eftir um knattspyrnulega framtíð sína. Nýjasta útspil Pearce var birt í gær þegar hann sagði frá því er hann spurði ungan leikmann úr sínu liði hvort væri mikilvægara að eignast Ferrari-sportbíl eða leika með enska landsliðinu. «Svarið kom mér á óvart. Ungi leikmaðurinn vildi fá Ferrari og ég hef ekki skilning á slíkum hugsunarhætti,» sagði Pearce sem var þekktur fyrir að gefa ekki tommu eftir sem vinstri bakvörður og var hann dýrkaður og dáður af stuðningsmönnum þeirra liða sem hann lék með-sem og enska landsliðsins. Hann tjáði sig einnig um ástralska landsliðsmanninn Lucas Neill sem hefur verið í viðræðum við ýmis félög og þar á meðal Liverpool og West Ham. Allar líkur eru á því að Neill fari til West Ham og segir Pearce að þar séu peningar það eina sem skipti máli. «Leikmaður sem getur valið á milli Liverpool og West Ham og fær greidd sömu laun hjá þeim félögum ætti að mínu mati að velja Liverpool-knattspyrnulega séð. West Ham veit í hvaða stöðu liðið er og býður leikmanninum hærri laun en Liverpool. Ég myndi ekki forgangsraða hlutunum með þessum hætti. Leikmenn eiga að velja þann kost sem er bestur fyrir þá sem knattspyrnumenn-en ekki láta valið ráðast af fjárhagslegum ástæðum. Knattspyrnumenn eru vel efnaðir og þeir sem velja betri laun og hafna betra knattspyrnuliði eru ekki að breyta neinu í sínu lífi. Þeir eru ríkir og verða bara aðeins ríkari,» sagði Pearce en hann vakti athygli á sínum tíma er hann hafnaði tilboði frá Manchester United og hélt tryggð við Nottingham Forest. Pearce hefur hrósað þeim Joey Barton og Micah Richards fyrir að halda tryggð sinni við Man. City en mörg lið höfðu áhuga á að fá þá í sínar raðir. Hann segir að ungir leikmenn ættu að líta upp til Pauls Scholes, miðjumanns Manchester United. « Scholes ætti að vísa veginn fyrir alla unga leikmenn. Hann hugsar fyrst og fremst um að standa sig inni á vellinum, einbeita sér að vinnunni, hann hugsar um fjölskylduna, lætur lítið fyrir sér fara og segir fátt við fjölmiðla. Slíkir leikmenn öðlast virðingu,» sagði Pearce. Hann hóf feril sinn sem atvinnumaður með Wealdstone árið 1981 en var keyptur til Nottingham Forest árið 1985 frá Coventry City. Hann lék með Newcastle 1997-1999 og um tveggja ára skeið með West Ham. Hann lék svo með Manchester City veturinn 2001-2002, þá fertugur að aldri.
Tveir hælisleitendur sem töpuðu máli sínu fyrir Hæstarétti í gær eiga yfir höfði sér brottvísun til Ítalíu nema innanríkisráðherra taki í taumana. Þeir segja að niðurstaðan sé mikið áfall en annar þeirra, samkynhneigður Nígeríumaður hefur verið á flótta í fimmtán ár. Hæstiréttur hafnaði kröfu þeirra um að umsókn þeirra um hæli yrði tekin til efnislegrar meðferðar hjá Útlendingastofnun og felld yrði úr gildi ákvörðun stofnunarinnar um að senda þá til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 og má sjá fréttina í heild í spilaranum neðst í fréttinni. Bjó á götunni á Ítalíu Christian Kwaku Boadi er frá Ghana, en hann hefur beðið í nær þrjú ár eftir því að mál hans verði afgreitt. Hann vinnur nú á veitingastaðnum Lækjarbrekku og er að læra íslensku. Christian segist óttast mest að vera sendur aftur til Ghana, þar sem faðir hans var myrtur og hann bjó við sult og seyru. En næstmest óttast hann að vera sendur til Ítalíu en þar bjó hann á götunni sem hælisleitandi áður en hann kom til Íslands. Jón Tryggvi Jónsson eigandi Lækjarbrekku, vinnuveitandi Christians segist ekki skilja hvað sé í gangi. Christian sé í vinnu á Íslandi, hann greiði skatta og sé farinn að skilja íslensku. Hann segir hann geta gengið að vinnunni vísri ef hann fær að vera áfram. Allir vinnufélagar hans vilji hafa hann áfram í landinu. Bjó við öryggi í fyrsta sinn Martin Omulu er frá Nígeríu. Hann er samkynhneigður og hefur verið á flótta í fimmtán ár vegna ofsókna heima fyrir. Hann kom til Íslands fyrir tæpum þremur árum, er að læra íslensku og á hér stóran vinahóp sem stendur við bakið á honum. Hann segist hafa búið við öryggi hér í fyrsta sinn á ævinni og hann hafi litið á landið sem heimili sitt. Hann segist ekki hafa búist við því að íslenskur dómstóll myndir hafna umsókn hans um hæli. Allt hafi verið tekið frá honum með þessari ákvörðun. Hann segist vonast til þess að ráðherrann og Útlendingastofnun sýni honum mannúð og sendi hann ekki burt. Treystir því að ráðherra taki í taumana Ragnar Aðalsteinsson lögmaður þeirra skrifaði innanríkisráðherra í morgun og mótmælti því að þeir yrðu sendir aftur til Ítalíu enda stangaðist það á við orð ráðherrans sjálfs á Alþingi um að það væri ótryggur staður fyrir hælisleitendur. „Evrópa hefur ákveðið að taka rúmlega fimmtíu þúsund flóttamenn frá Ítalíu en við erum að velta fyrir okkur að senda þangað tvo flóttamenn á sama tíma;” segir Ragnar. Hann segist treysta því að Ólöf Nordal innanríkisráðherra komi í veg fyrir að Martin og Christian verði sendir þangað í samræmi við orð hennar á Alþingi 17. september. Kvöldfrétt Stöðvar 2 má sjá hér að neðan.
Andri Snær Magnason er einn af gestum Bókmenntahátíðar í Reykjavík 2015. Þetta er í þriðja skipti sem hann sækir hátíðina heim, en hann var einnig gestur hátíðarinnar 2003 og 2007. Síðasta bók Andra Snæs, Tímakistan kom út 2013. Tímakistan er bók ætluð eldri börnum, heimsendasaga sem gerist eftir heimsendi. Í upphafi skáldsögunnar er að skella á kreppa. Þá býður alþjóðafyrirtækið Tímex upp á skemmtilega uppfinningu, tímakistur þar sem fólk getur sofið af sér kreppuna. Eina vandamálið er, tímakistur eru svo afskaplega vinsælar að allir kaupa sér kistur, fara að sofa, og enginn er eftir til að halda við samfélagi mannanna. Sagan segir frá Sigrúnu sem vaknar þegar tímakistan hennar brotnar, og ráfar ein um tómar göturnar þar til hún rambar á hina dularfullu Svölu sem gefur henni kanilsnúða og segir henni söguna af Hrafntinnu sem er prinsessa í Pangeu og læst inn í dvergsmíðaðri tímakistu af föður sínum. Tímakistan hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka 2013, bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir bestu íslensku táningabókina, og vestnorrænu barnabókaverðlaunin 2014. Tímakistan var einnig tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í flokki barna- og unglingabóka 2014. Að því tilefni fjallaði Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir um Tímakistuna í bókmenntaþættinum Orð*um bækur þann 26. október 2014, á Rás 1. Lesari með henni var Leifur Hauksson.
Stjarnan teflir ekki fram liði í úrvalsdeild kvenna í körfubolta á næsta tímabili en spilar þess í stað í fyrstu deild. Stjarnan hafnaði í þriðja sæti deildarinnar á síðasti tímabili og komst alla leið í bikarúrslit þar sem liðið tapaði fyrir Val. Þessi ákvörðun stjórnar körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar var tilkynnt í dag. Í tilkynningunni segir, að því er Morgunblaðið greinir frá, að helsta ástæðan sé sú að fjórir af fimm byrjunarliðsleikmönnum síðasta tímabils verði ekki áfram með liðinu. „Þar sem nokkuð vantar upp á að Stjarnan geti skipað liðið með uppöldum Stjörnuleikmönnum væri eina úrræði Stjörnunnar að fá erlenda leikmenn, eða leikmenn frá öðrum liðum, í þeirra stað. Stjórn Kkd. Stjörnunnar metur það svo að heppilegra sé að hlúa betur að yngri iðkendum Stjörnunnar og leggja grunn að liði sem gæti spilað í úrvalsdeild innan fárra ára,“ segir í tilkynningunni. Liðið mun treysta á fjölda leikmanna sem eru í félaginu á aldrinum 15-18 ára sem hafa fengið fáar mínútur í efstu deild. „Með því að spila með liði í 1. deild fá þessir leikmenn hins vegar bæði þá reynslu og samkeppni sem þær þurfa til að eflast sem leikmenn.“ „Þessi ákvörðun var ekki auðveld og þær forsendur sem liggja að baki henni bar brátt að. Stjórn Kkd. Stjörnunnar tók hana hins vegar með hag iðkenda og stöðu kvennakörfubolta í Stjörnunni í huga og að vandlega athuguðu máli.“ Og samkvæmt Morgunblaðinu hefur Breiðabliki sem féll úr deildinni í vor verið boðið sæti Stjörnunnar í úrvalsdeildinni.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu SG um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál hennar á hendur S. Var þeirri kröfu SG vísað frá Hæstarétti þar sem kærufrestur var liðinn. Jafnframt var kærður úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu SG um að samningsskilmálum, sem beiðni S um nauðungarsölu byggði á, yrði vikið til hliðar sem óréttmætum og veðheimild samkvæmt þeim dæmd ógild. Krafðist SG þess að umræddur úrskurður yrði ómerktur og héraðsdómi gert að taka kröfu hennar til efnismeðferðar. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 2. mgr. 75. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu yrði ekki í máli eftir XIII. kafla laganna leyst úr ágreiningi um annað en þá ákvörðun sýslumanns sem varð tilefni málsins. Frá því mætti þó víkja ef aðilarnir væru á einu máli um að fá leyst úr öðrum ágreiningi varðandi nauðungarsöluna og héraðsdómari fellst á að þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um ágreininginn. S hefði í þessu máli ekki fyrir sitt leyti samþykkt að SG gæti haft uppi umrædda kröfu. Breytti í því tilliti engu þótt krafa S um frávísun kröfunnar hefði fyrst verið höfð uppi við munnlegan flutning málsins í héraði. Samkvæmt því var ómerkingakröfu SG hafnað. Þá kom fram í niðurstöðu Hæstaréttar að SG, sem hafði veitt leyfi til að veðsetja fasteign sína til tryggingar veðskuldabréfi sem dóttir hennar gaf út til S , hefði mátt vera ljóst að greiðslumat hefði einnig miðast við tekjur þáverandi sambúðarmaka dóttur hennar og að það hefði verið undir SG sjálfri komið hvort hún óskaði eftir að sjá matið áður en hún samþykkti að veðsetja eign sína. Samkvæmt þessu var hinn kærði úrskurður staðfestur. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ögn drengur Rögnvarsson og Hjörleifur Tinnason og Vera Geirmundardóttir settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. febrúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál hennar á hendur varnaraðila. Jafnframt er kærður úrskurður sama dómstóls 27. janúar 2015 þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að samningsskilmálum, sem beiðni varnaraðila um nauðungarsölu byggðist á, yrði vikið til hliðar sem óréttmætum og veðheimild samkvæmt þeim dæmd ógild og hafnað kröfu um að nauðungarsala á fasteign hennar að Marteinslaug 10 í Reykjavík næði ekki fram að ganga. Kæruheimild að því er varðar fyrri úrskurðinn er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið en að því er varðar síðari úrskurðinn í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að leitað verði álits EFTA-dómstólsins í samræmi við kröfu sína. Jafnframt krefst hún þess aðallega að úrskurðurinn 27. janúar 2015 verði „ómerktur, heimvísað og héraðsdómara ... gert að taka allar dómkröfur sóknaraðila í héraði ... til efnismeðferðar.“ Til vara krefst hún þess að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 22. nóvember 2013, um að nauðungarsala á fasteigninni skuli fara fram, verði „ógilt og felld úr gildi með dómi.“ Að því frágengnu krefst sóknaraðili þess að nauðungarsölubeiðni varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að vísað verði frá Hæstarétti kröfu sóknaraðila um öflun álits EFTA-dómstólsins. Jafnframt krefst hann þess aðallega að hinn kærði úrskurður 27. janúar 2015 verði staðfestur „að efni til“ en til vara að synjað verði öllum kröfum sóknaraðila. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila. Við fyrirtöku málsins í héraði 7. febrúar 2014 lagði sóknaraðili fram beiðni um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um tiltekin atriði. Með hinum kærða úrskurði 5. júní sama ár var þeirri beiðni hafnað. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 er slíkur úrskurður kæranlegur eftir almennum reglum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 144. gr. þeirra laga er kærufrestur tvær vikur frá uppkvaðningu úrskurðar en sá frestur var löngu liðinn þegar kæran barst héraðsdómi 9. febrúar 2015. Kröfu sóknaraðila um öflun álits EFTA-dómstólsins er því vísað frá Hæstarétti. Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur því ekki til álita krafa hans um málskostnað í héraði. I Krafa sóknaraðila um ómerkingu úrskurðarins 27. janúar 2015 er reist á því að héraðsdómi hafi borið að taka til efnismeðferðar aðalkröfu hennar í héraði um að samningsskilmálum sem krafa um nauðungarsölu væri reist á yrði vikið til hliðar og veðheimild samkvæmt þeim yrði talin ógild. Samkvæmt 2. mgr. 75. gr. laga nr. 90/1991 verður ekki í máli eftir XIII. kafla laganna leyst úr ágreiningi um annað en þá ákvörðun sýslumanns sem varð tilefni málsins. Frá þessu má þó víkja ef aðilarnir eru á einu máli um að fá leyst úr öðum ágreiningi varðandi nauðungarsöluna, sem varðar ekki aðra en þá, og héraðsdómari fellst á að þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þann ágreining. Varnaraðili hefur ekki fyrir sitt leyti samþykkt að sóknaraðili geti haft uppi í málinu kröfu um annað en þá ákvörðun sýslumanns sem er tilefni málsins. Í því tilliti breytir engu þótt krafa varnaraðila um frávísun kröfunnar hafi fyrst verið höfð uppi við munnlegan flutning málsins í héraði. Samkvæmt þessu er ómerkingarkröfu sóknaraðila hafnað. II Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði 27. janúar 2015 undirritaði sóknaraðili 26. apríl 2006 skjal með yfirskriftinni „Niðurstaða greiðslumats“ samhliða því að rita sama dag sem veðsali undir skuldabréf útgefið af dóttur sinni til varnaraðila. Í skjalinu kom fram að greiðslumat á lántaka hefði verið byggt á „meðaltekjum heimilisins“. Sóknaraðila mátti því vera ljóst að greiðslumatið miðaðist einnig við tekjur þáverandi sambúðarmaka dóttur sóknaraðila. Þá var í skjalinu tekið upp ákvæði 3. mgr. 4. greinar samkomulags 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga þess efnis að ábyrgðarmaður gæti með samþykki greiðanda kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengist í ábyrgðina. Það var því komið undir sóknaraðila sjálfri hvort hún óskaði eftir að sjá matið áður en hún samþykkti að veðsetja fasteign sína. Loks var í skjalinu, í samræmi við áskilnað í 2. mgr. 4. greinar samkomulagsins, tekið fram að meira en helmingi lánsins væri varið til að greiða eldri skuldir hjá varnaraðila. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Kröfu sóknaraðila, Tinni Sigrún Marijónsdóttir, um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins er vísað frá Hæstarétti. Hinn kærði úrskurður 27. janúar 2015 er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður.
Þjóðareining um 200 mílna fiskveiðilögsögu á nú að taka við af þjóðareiningunni um 50 mílna lögsöguna vegna þess að ástandið í heiminum hefur breytzt á þann veg, að mjög góðar horfur eru á, að 200 mílna fiskveiðilögsaga verði bráðlega að alþjóðalögum. Mikið hefur verið rætt og ritað um þetta mál, til dæmis hér í leiðurum Vísis. Þessi umræða hefur farið ákaflega í taugar Þjóðviljamanna, eins og nýlegur leiðari þess blaðs sýnir. Um þann leiðara hefur Morgunblaðið réttilega sagt: ,,Allt eru það upphrópanir og haturskennd, pólitísk froða”. Og Morgunblaðið spyr jafn réttilega: ,,Hvers vegna jafngildir ósk um 200 mílna fiskveiðilögsögu rofi á þjóðareiningu?” Skoðanir Vísis hafa fyrir misskilning verið teknar óstinnt upp í Tímanum. Vísir hefur hvorki vænt ráðherra Framsóknarflokksins né Tímamenn um óheilindi í 200 mílna málinu. Í leiðurum Vísis hefur greinilega verið sagt, að gagnrýni blaðsins beinist gegn Lúðvík Jósepssyni ráðherra og Þjóðviljanum. Þegar Vísir hvetur til samstöðu um 200 mílna fiskveiðilögsögu,er blaðið ekki að lasta það, sem búið er að gera í 50 mílna málinu. Blaðið er ekki heldur að halda því fram, að við eigum að hætta að verja 50 mílna landhelgina. Vísir hefur þvert á móti margsagt undanfarna daga, að við eigum að halda áfram að reyna að verja landhelgina og halda áfram að ræða við Breta og Þjóðverja. En Vísir hefur bent á, að þær breytingar hafa gerzt á alþjóðavettvangi, sem valda því, að okkur er í hag að leggja aukna áherslu á nýjar baráttuaðferðir. Um 85ríki í heiminum eru fylgjandi 200 mílna fiskveiðilögsögu og með hóflegri bjartsýni má ætla, að slík lögsaga nái tilskildum tveimur þriðju atkvæða á hafréttarráðstefnunni á næsta ári. Staða okkar í 50 mílna málinu er sú, að okkur hefur enn ekki tekizt að knýja hana fram. Bretar og Þjóðverjar veiða áfram eins og ekkert hafi í skorizt og virðast reiðubúnir til að taka á sig ýmis óþægindi vegna þess. Jafnframt hefur lítið sem ekkert miðað í samkomulagsátt í viðræðunum við Breta og Þjóðverja. Það má því fastlega búast við, að 50 mílna fiskveiðilögsagan verði enn ekki komin til framkvæmda, þegar hafréttarráðstefnan ákveður, að 200 mílna fiskveiðilögsaga verði hér eftir alþjóðleg regla. Rökrétt afleiðing af matinu á þessari stöðu er, að við eigum að beina kröftum okkar sem mest að framgangi 200 mílna fiskveiðilögsögunnar. Við eigum að vinna af líf og sál að undirbúningi hafréttarráðstefnunnar og að fjölgun þeirra ríkja, sem ætla að styðja 200 mílna fiskveiðilögsögu. Og við eigum nú þegar að lýsa því yfir, að við tökum okkur 200 mílur um leið og hafréttarráðstefnan tekur ákvörðun um slíka fiskveiðilögsögu. Um þessar mundir hlýtur því baráttan fyrir 50 mílna landhelgi að falla í skugga baráttunnar fyrir 200 mílna landhelgi, ef allt væri með felldu, ef Lúðvík Jósepsson þyrfti ekki að vera í pólitískum sjónhverfingaleik. Við höfum ekki efni á annarlegum sjónarmiðum í landhelgismálinu. Við skulum því sameinast nú þegar um 200 mílna fiskveiðilögsögu. Jónas Kristjánsson Vísir
Einnig fjalla hvatningakenningar um hvað það er sem drífur starfsmenn áfram og veitir þeim ánægju í starfi. Ýmsar rannsóknir sýna tengsl milli stuðnings yfirmanna og starfsánægju (Larocco og Jones, 1978; Babin og Boles, 1996; Griffin, Patterson og West, 2001) en einnig hafa þær sýnt fram á að slíkur stuðningur geti minnkað neikvæð áhrif mikils vinnuálags (Kirmeyer og Dougherty, 1988; Bakker, Hakanen, Demerouti og Xanthopoulou, 2007). Þær starfskröfur sem gerðar eru til fólks geta tekið á sig ýmsar myndir og má þar nefna sem dæmi tímapressu, að þurfa að vinna á miklum hraða og verkefnaálag (Skinner og Pocock, 2008). Rannsóknir sýna tengsl mikils vinnuálags og ýmissa andlegra og líkamlegra kvilla á borð við streitu, þunglyndi og kulnun (Greenglass, Burke og Moore, 2001; Greenglass, Burke og Fiksenbaum, 2001). Einnig sýna rannsóknir að of mikið vinnuálag getur leitt til vinnutengdrar streitu sem getur dregið úr starfsánægju (Grunfeld, Zitzelsberger, Coristine, Whelan, Aspelund og Evans, 2005). Samkvæmt McEwen (2001) eru starfsánægja og árangur í starfi viðamiklir þættir þegar kemur að sjálfsánægju, sjálfsöryggi, sjálfsvirðingu og sjálfseflingu einstaklinga. Hann heldur því fram að þeir starfsmenn sem eru ánægðir í starfi hafi jákvæðara viðhorf til vinnunnar sem leiðir til þess að þeir eru líklegri til að vera skapandi, sveigjanlegir, nýjungagjarnir og til að sýna meiri hollustu. Einnig telur hann að ánægðir starfsmenn hafi meiri drifkraft fyrir fyrirtæki og séu staðfastari í því að standa sig vel, sem svo leiðir til betri og meiri framleiðni (Mcewen, 2001). Starfsánægja hefur verið rannsökuð á ýmsa vegu og sýna rannsóknir að starfsánægja getur minnkað líkur á fjarveru frá vinnu, streitu, kulnun og ýmsum líkamlegum kvillum (Kass, Vodanovich og Callander, 2001; Faragher, Cass og Cooper, 2005). Félagslegur stuðningur og vinnuálag eru viðamiklir þættir í þekktum streitukenningum Karaseks (1979) og Johnson og Hall (1988). Ýmsar rannsóknir benda til þess að þessir þættir geti haft mikil áhrif á heilsu og vellíðan starfsmanna (Greenglass, 2001; Koeske og Koeske, 1989; Schaufeli, Bakker og Van Rhenen, 2009). Við vorum forvitnir að skoða slík áhrif út frá íslenskum aðstæðum og hvort að niðurstöður héðan styddu við streitu og stjórnunarkenningar og rannsóknir. Markmið þessarar ritgerðar er að varpa ljósi á stjórnun og helstu kenningar HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 2 tengdar henni ásamt vinnutengdum þáttum á borð við vinnuálag og starfsánægju. Í framhaldi af því skoðuðum við niðurstöður úr greiningu okkar á gögnum Hjördísar Sigursteinsdóttur úr langtímarannsókninni: „Heilsa og vellíðan á vinnustað meðal starfsfólks íslenskra sveitarfélaga”. Gögnin sem við unnum með voru einungis frá árinu 2015 og voru þau skoðuð út frá hvetjandi stjórnunarháttum, vinnuálagi og starfsánægju. Skoðað var hvort hvetjandi og stuðningsríkir yfirmenn hefðu jákvæð tengsl við starfsánægju og hvort að slíkur stjórnunarháttur hefði neikvæð tengsl við upplifað vinnuálag starfsmanna. Rannsóknarspurningin var eftirfarandi: „Hvaða áhrif hefur hvetjandi stjórnun á vinnuálag og starfsánægju”? Hvetjandi stjórnun Stjórnandi er einstaklingur sem hefur áhrifa- og ákvörðunarvald yfir öðrum og stjórnun er leiðandi ferli sem hefur áhrif á hóp til þess að ná settum markmiðum hans (Robbins og Coulter, 2016, bls. 523). Góð samskipti yfirmanna við starfsfólk á vinnustað eru mikilvæg fyrir vinnuandann og hafa einnig áhrif á líðan starfsfólksins samkvæmt niðurstöðum langtímarannsóknar Kuroda og Yamamoto (2018) á áhrif stjórnenda á framleiðni og andlega heilsu starfsfólks. Robert K. Greenleaf er upphafsmaðurinn að hugmyndafræði þjónandi forystu sem byggist á að leiðtoginn sé í senn þjónn og stjórnandi (Sigrún Gunnarsdóttir, 2011). Mikil áhersla er lögð á samskipti á vinnustað og er eitt af lykilatriðum í stjórnun í bæði þjónandi forystu og umbreytingastjórnun (Sigrún Gunnarsdóttir, 2011; Avolio, Bass, og Jung, 1999). Stjórnun snýst um sannfæringarkraft en ekki yfirráð og snýst um að skapa hóp sem vinnur að sameiginlegum markmiðum þar sem skýrt orsakasamband er milli stjórnunar og frammistöðu hópsins (Hogan, Curphy og Hogan, 1994). Þarfapýramídi Maslow Abraham Maslow setti fram kenninguna um þarfapýramídann (e. Hierarchy of Needs Theory) árið 1943. Hann taldi að hvatakerfi fólks væri meðfætt og sjálfvirkt og að fullnæging á einni þörf kallaði á nýjar þarfir (Milgram, Spector og Treger, 2010). Kenningin er í fimm þrepum og neðst eru líffræðilegar þarfir sem eru okkur nauðsynlegar til að halda lífi og eru til dæmis súrefni, matur, svefn og vatn (Maslow, 2019). Á eftir líkamlegu þörfunum taka við öryggisþarfir sem snúa að þáttum eins og húsaskjóli, öryggi, stöðugleika, lögum og reglu (Milgram, Spector og Treger, 2010). Þegar grunnþörfum hefur verið fullnægt taka við félagslegar og sálfræðilegar þarfir þar sem fólk sækist eftir fjölskyldu, vináttu, ástúð, nánum HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 3 tengslum, sjálfstrausti, hæfni, sjálfstæði, árangri og virðingu frá öðrum (Milgram, Spector og Treger, 2010). Þegar þessum grunn- og sálfélagslegu þörfum hefur verið mætt er fólk komið í efsta lag pýramídans og fer að leita að sínum möguleikum til að ná hámarks árangri persónulega sem manneskja (Maslow, 2019). Mynd 1. Þarfapýramídi Maslow Maslow sagði einnig að birtingarmyndir þessara hvata fólks væru mjög misjafnar eftir einstaklingum. Þar spila inn í ýmsir hlutir í okkar umhverfi eins og menning, hefðir, uppeldi og trúarbrögð. Einnig má nefna misjafnar innri hvatir eins og áhugamál, metnað og ástríðu hvers og eins (Maslow, 1943). Nokkur gagnrýni hefur verið á kenningu Maslows og bent hefur verið á þann einstaklingsmun í áherslum í hverju þrepi pýramídans og einnig einstaklingsmun milli þeirra þátta sem virka sem hvatning fyrir hvern og einn á vinnustað (Mullins, 2010). Tveggja þátta kenning Herzberg (e. two-factor theory) Frederick Herzberg kom fram með tvegga þátta kenningu sína árið 1950 og taldi tvo aðskilda þætti valda því hvort fólk væri ánægt eða óánægt í sínu starfi og væri ekki rétt að mæla það á sama kvarðanum (Riggio, 2003). Herzberg gerði svo rannsókn meðal 200 verkfræðinga og endurskoðenda sem snérist um að fá fram hvaða atriði það voru sem þeir voru sérstaklega ánægðir eða óánægðir með í vinnunni. Eftir að hafa skoðað svör þátttakenda gat Herzberg greint ákveðinn meginmun milli þeirra atriða sem starfsfólk var ánægt með eða óánægt með (Riggio, 2003). Munurinn liggur í því að þeir ánægjuþættir sem eru nefndir tengjast beint vinnu einstaklinganna eða starfinu sjálfu á meðan óánægjuþættirnir eru meira tengdir umhverfisþáttum og vinnustaðnum (Dinibutun, 2012). Þessar niðurstöður styðja HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 4 tveggja þátta kenningu Herzbergs og setti hann ánægjuþættina upp sem hvatningaþætti (e. motivators) og óánægjuþættina (e. hygienes) sem viðhaldsþætti (Riggio, 2003). Undir hvatningaþáttunum eru sem dæmi ábyrgð, árangur og að geta vaxið í starfi, allt þættir sem virka sem hvatning á starfsmanninn. Viðhaldsþættirnir aftur á móti virka ekki sem hvatning á starfsfólk en valda óánægju ef þeir eru ekki í lagi eða ekki til staðar, eins og góð vinnuaðstaða, samskipti og laun (Riggio, 2003). Mynd 2 sýnir þessa hvatninga- og viðhaldsþætti. Mynd 2. Tveggja þátta kenning Herzbergs Eftir þessa greiningu á ánægju- og óánægjuþáttunum bendir Herzberg á mikilvægi þessa að starfsfólk fái áhugaverð og krefjandi verkefni í vinnunni til að auka hjá því áhuga og ánægju og stuðla þannig að hámarks framlagi. Einnig telur hann nauðsynlegt að viðhaldsþættirnir séu í góðu lagi sem grunnur fyrir hvatningaþættina (Lundberg, Gudmundson og Andersson, 2009) en það má sjá nokkur líkindi milli þessara þátta í tveggja þátta líkani Herzbergs og grunn- og vaxtarþarfa í þarfapýramída Maslows þar sem nauðsynlegt er að fullnægja grunnþörfum fyrst áður en vaxtarþörfunum er sinnt. Kenning Herzbergs hefur verið gagnrýnd af ýmsum og til dæmis höfðu Parsons og Broadbridge (2006) það við kenninguna að athuga að einstaka þættir ættu augljóslega við báða flokkana og nefndu þar bæði laun og samskipti (Parsons og Broadbridge, 2006). Einnig var gagnrýnt að ekki væri gert ráð fyrir einstaklingsmun á matinu á þessum þáttum í kenningunni (House og Wigdor, 1967). Væntingakenning Victor H. Vroom (e. expectancy theory) Vicktor Vroom setti fram væntingakenningu sína (e. expectancy theory) árið 1964 og var sá fyrsti til að tengja væntingakenningu beint við hvatningu á vinnustað (Mullins, 2010). Kenningin byggir á því að framlag starfsfólks er í beinu samhengi við væntingar þess til útkomunnar og sú umbun sem er í boði sé fólki mikilvæg til að það leggi sig fram (Mullins, 2010). Í þessari kenningu Vroom er áherslan á útkomuna sem hvatann fyrir starfsfólk en hjá HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 5 Herzberg er frekar horft til þess hvað á að gera fyrir starfsfólkið til að ná góðri útkomu. Uppbyggingin á væntingakenningunni er þannig að þrír þættir spila saman og umbun þarf að liggja fyrir og hafa eitthvert ákveðið gildi fyrir starfsmanninn til að árangur náist (Pecotich og Churchill, 1981). Hvatningaþættirnir þrír eru í skilgreiningu hér að neðan. 1. Væntingar (e. expectancy) Hérna skoðar starfsmaðurinn möguleikana á því hvort hann geti leyst verkefnið og hvernig. Einnig skynjun eða tilfinningin fyrir hverskonar framlag þarf að leggja til vinnunnar og hvort mikil viðleitni leiði til mikils árangurs. Væntingar starfsmanns eru undirstaða hvatningar og ef hann telur að góður árangur geti skilað honum verðmætri útkomu eru mestar líkur á góðu vinnuframlagi (Jones og George, 2003). 2. Tilstilli (e. instrumentality) Hér er vinnuframlagið skoðað nánar á móti umbun og metið hversu hátt vinnuframlag þarf á hverju stigi til að ná góðum árangri. Þetta mat starfsmanns er mjög mikilvægt atriði varðandi hvatningu og viðhorf til verkefnisins (Jones og George, 2003). 3. Gildi (e. valence) Verðmæti umbunar er mat hvers og eins og hvaða gildi þau hafa fyrir hann persónulega. Peningar geta virkað fyrir marga sem eftirsóknarverð umbun eða það sem peningar geta veitt viðkomandi í framhaldinu (Mullins, 2010). Hvatning er þannig nátengd gildi hvers starfsmanns og nauðsynlegt fyrir stjórnendur að þekkja hvern og einn vel til að geta tengt hvatningu við gildi og náð þannig mögulega hámarks árangri bæði fyrir fyrirtækið og starfsmanninn (Jones og George, 2003). Gagnrýni á kenningu Vroom er helst beint að þessum huglægu skilgreiningum á þessum meginþáttum sem þykja hafa frekar óljós skil og vera næmir fyrir mismunandi túlkunum. Vísindamenn eru líka ósammála um hvernig uppbygging kenningarinnar er og hvernig eigi að mæla hugtökin (Van Eerde og Thierry, 1996). HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 6 Starfseinkennalíkan Hackman og Oldham (e. job characteristics model) Hackman og Oldham (1976) hönnuðu starfseinkennalíkan (e. job characteristics model) sitt út frá fimm kjarnaþáttum sem þeir töldu að þyrftu að vera til staðar í hverju starfi til að stuðla að hvatningu í starfi og almennri starfsánægju (Hackman og Oldham, 1976). 1. Fjölbreytt hæfni (e. skill variety) Fjölbreytileiki starfsins og sú mismunandi hæfni sem starfsmaðurinn þarf að búa yfir og nota í starfi. Því starfsfólki sem upplifir að það vinni krefjandi starf og sé að nýta hæfileika sýna til fulls finnst í flestum tilvikum að starfið sé þýðingarmikið. 2. Verkefna-samsömun (e. task identity) Þeir starfsmenn sem fá að hafa heildaryfirsýn yfir verkefni og bera ábyrgð á vinnunni frá byrjun og þar til verkefninu er lokið eru ánægðari í starfi. 3. Mikilvægi starfs (e. task significance) Starfsmaðurinn finni að hann sé að vinna þýðingarmikla vinnu sem hefur áhrif á aðra, innan eða utan fyrirtækisins, og hann sé metinn að verðleikum. 4. Sjálfstæði (e. autonomy) Sjálfræði og frelsi í vinnu eins og hægt er til að vinna verkefnin með sínu lagi og ráða sjálfur verklagi og framkvæmd stuðlar að meiri starfsánægju. 5. Endurgjöf (e. feedback) Það er mikil hvatning fyrir starfsmann að fá endurgjöf fyrir vel unnin störf og getur aukið bæði starfsánægju og áhuga á vinnunni. Einnig er endurgjöf mikilvæg til að störf hafi skýr markmið og öll vinna verði skilvirkari. HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 7 Mynd 3. Starfseinkennalíkan Hackman og Oldham (1980) Huglægu áhrifaþættirnir þrír sem lýsa viðbrögðum starfsmanna í hvatningarríku vinnuumhverfi eru taldir geta bætt árangur, aukið starfsánægju og jafnframt dregið úr fjarvistum. Það eru samt ekki allir sem hafa sama metnað til að takast á við ábyrgðarfull störf og vilja kannski bara meiri stöðugleika og eru ekki eins móttækilegir fyrir hvatningarríku starfsumhverfi (Hackman og Oldham, 1976). Þekking og hæfni (e. knowledge and skill) er um þá kunnáttu sem starfsfólk þarf að búa yfir til að vinna ákveðin verkefni og upplifa að það ráði við starfið. Það er lykilatriði fyrir sjálfstraust og starfsánægju og til að starfsmaður geti skilað góðu verki. Ef starfsmaðurinn upplifir vanhæfni er líklegt að það geti valdið óánægju og streitu og því mikilvægt að starfsþjálfun sé í ákveðnu ferli á vinnustöðum til að byggja upp starfsmanninn (Hackman og Oldham, 1976). Þörf fyrir persónulegan þroska (e. growth need strength) er þegar starfsmaðurinn hefur þörf og persónulegan metnað til að bæta sig og vaxa í starfi. Líklegt er að þessir HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 8 starfsmenn séu ánægðari í vinnunni og leggi sig meira fram í starfi (Hackman og Oldham, 1976). Ánægja með starfsumhverfi (e. context satisfaction) á til dæmis við um vinnuaðstöðu og samskipti á vinnustað og þeir sem teljast ánægðir með starfsumhverfið eru líklegri til að upplifa meiri starfsánægju (Hackman og Oldham, 1976). Rannsóknir hafa sýnt fram á fylgni milli kjarnaþáttanna fimm í líkaninu við starfsánægju og hvatningu en hefur einnig verið gagnrýnt fyrir óskýra skilgreiningu á þessum mælikvörðum sem eru sjálfsmatskvarðar og þykir erfitt að átta sig á orsakasambandi breytanna (Riggio, 2003). Þjónandi forysta (e. servant-leadership) Þessi hugmyndarfræði er upphaflega sett fram af Robert K. Greenleaf árið 1970 og byggist á að leiðtoginn sé í senn þjónn og stjórnandi og stjórnunarstíllinn einkennist af auðmýkt og virðingu í garð starfsfólks þó markmið séu ávallt skýr og vel skilgreind (Sigrún Gunnarsdóttir, 2011). Helstu þættir sem einkenna slíka stjórnendur að mati Russell og Stone (2002) eru sýn, heiðarleiki, traust, heilindi, fyrirmynd, þjónusta, að vera brautryðjandi, að meta aðra og efling. Stjórnandinn vinnur náið með starfsfólkinu og umgengst alla á jafnréttisgrundvelli og beitir jafnan virkri hlustun sem styrkir samskipti og byggir upp traust (Sigrún Gunnarsdóttir, 2011). Þjónandi leiðtogi er næmur á þarfir eigenda og viðskiptavina en er fyrst og fremst samstarfsmaður og ber hag og velsæld starfsfólks fyrir brjósti og er meðvitaður um persónuleg markmið þess og gefur því tækifæri til að vaxa í starfi (Stewart, 2017). Með nærgætni og kurteisi í samskiptum er þjónandi leiðtogi í raun að hvetja og auka sjálfstraust starfsfólks og siðferðiskennd sem eykur líkurnar á að þetta sama fólk njóti mikillar starfsánægju og sýni af sér sömu hegðun og yfirmaðurinn (Graham, 1991). Áherslan í þjónustustjórnun er að byggja upp gott fólk sem á auðvelt með að vinna að sameiginlegum markmiðum skipulagsheildarinnar og sýna samfélagslega ábyrgð (Parris og Peachey, 2012). Fleiri og fleiri fyrirtæki hafa tekið upp þessa hugmyndafræði (Spears, 2010). Þátttökustjórnun (e. participative management style) Gonos og Gallo (2013) fjalla um þátttökustjórnun (e. participative management style) og samkvæmt þeim eru gagnvirk samskipti milli yfir- og undirmanna það helsta sem einkennir slíkan stíl. Þeir taka einnig fram að leiðtogi sem stundi slíka stjórnun hafi vinalegt viðhorf til undirmanna sinna og ræði við þá verkefni, verkferla og ákvarðanir. Ákvarðanir eru bornar undir starfsmenn og skoðanir þeirra teknar til greina en einnig eru þeir virkir HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 9 þátttakendur í vinnutengdu mati og í að útdeila umbunum (Gonos og Gallo, 2013). Í rannsókn Rolková og Farkašová á þátttökustjórnun (2015) (e. participative management style) þar sem stjórnendur eru í nánu samstarfi og samskiptum við sína starfsmenn eru niðurstöðurnar þær að starfsfólk sé ánægðara í starfi ef það er meira inn í þeim málefnum sem tengjast þeirra störfum (Rolková og Farkašová, 2015). Að vera beinn þátttakandi og hafa áhrif virðist skipta starfsfólk miklu máli því það gerir það áhugasamara og samviskusamara gagnvart sínu starfi ásamt því að það upplifir meiri örvun, hvatningu og ábyrgð en þeir sem ekki fá tækifæri til að tjá sínar skoðanir og vera þátttakendur í ákvörðunum (Rolková og Farkašová, 2015). Samkvæmt Hawthorne rannsókninni sem var gerð í Bandaríkjunum um 1940 voru niðurstöður á þá leið að gæði mannlegra samskipta á vinnustaðnum milli starfsmanna og stjórnenda voru mikilvægari en sjálf vinnuaðstaðan og vinnuumhverfið þegar kom að vinnuframlagi starfsfólks. Einnig eru félagslegi þátturinn og mannleg samskipti mjög mikilvæg (Jones, 1990). Umbreytingastjórnun (e. transformational leadership) Burns (1978) lýsti fyrstur umbreytinga (e. transformational) og framkvæmdastjórnun (e. transactional). Með framkvæmdastjórnun er átt við að samband yfir- og undirmanna sé háð víxlverkandi umbunarkerfi þar sem undirmenn fá laun og virðingu fyrir að verða við kröfum yfirmanna. Samkvæmt Bass (1999) skiptast einkenni framkvæmdaforystu í tvo meginþætti þ.e. leiðréttingu (e. management by exception) og umbun (e. contingent reward). Samkvæmt þessu beitir stjórnandi umbun þegar starfsmenn ná fyrirfram ákveðnum sameiginlegum markmiðum en einnig refsingum þegar það á við. Þessi stjórnunarháttur leggur áherslu á að setja skýr markmið, vinnuviðmið og verkefnaskipan ásamt góðu starfsumhverfi. Stjórnendur sem leggja áherslu á leiðréttingu skipta sér almennt lítið af starfsfólkinu svo lengi sem áherslum og kröfum er mætt, en stíga inn í og leiðrétta ef á þarf að halda (Bass, 1999). Samkvæmt Bass (1990) gengur umbreytingastjórnun út á það að breikka og þróa áhuga undirmanna á verkefnum sínum með því að fá þá til þess að hugsa frekar um hag hópsins heldur en sinn eigin. Leiðtogar sem beita þessum stjórnunarstíl gera það með því að veita þeim innblástur, mæta tilfinningalegum þörfum þeirra og/eða örva þá andlega til skapandi verka (e. intellectually stimulate). Í raun eru fjórir þættir sem einkenna umbreytingastjórnun en það eru: innblásin hvatning (e. inspirational motivation), átrúnaðaráhrif (e. idealized influence), umhyggja fyrir einstaklingum (e. individualized consideration) og andleg örvun (e. intellectual stimulation) (Avolio, Bass, og Jung, 1999). Innblásin hvatning og átrúnaðaráhrif koma fram þegar stjórnandi sér fyrir sér ákjósanlega HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 10 framtíðarsýn, kemur því í orð hvernig megi ná þeim markmiðum, sýnir góða fyrirmynd með verkum, gerir miklar kröfur um frammistöðu og sýnir ákveðni í bland við sjálfsöryggi (Bass, 1999). Samkvæmt kenningunni samsvara undirmenn sig vel umbreytingastjórnun. Andleg örvun gengur út á það að stjórnendur virki undirmenn til nýbreytni og skapandi hugsunar. Umhyggja fyrir einstaklingum kemur svo fram þegar stjórnendur veita því athygli hvað það er sem undirmenn þeirra þurfa til að þroskast í starfi ásamt því að veita þeim stuðning og þjálfun (Bass, 1999). Umbreytingarstjórnun og áhrif hennar hafa verið rannsökuð töluvert og hafa þær rannsóknir leitt í ljós tengsl milli slíkrar stjórnunar og minni líkum á vinnutengdri streitu og kulnun (Gill, Flaschner og Shachar, 2006; Salem, 2015). Aðstæðutengd stjórnun (e. situational leadership) Kenning Hersey, Blanchard og Natemeyer um aðstæðutengdastjórnun (e. situational leadership) frá árinu 1979 lýsir fjórum mismunandi stjórnunarstílum sem yfirmaður getur beitt. Þeir telja nauðsynlegt að sami yfirmaður geti beitt þeim öllum við þær mismunandi aðstæður sem skapast á vinnustaðnum. Að auki má gera ráð fyrir að starfsfólk sé mismunandi og ekki allir með sömu hæfni, vilja eða reynslu (Hersey, Blanchard og Natemeyer, 1979). Til að starfsmanni líði vel í vinnunni þurfa verkefnin að vera hæfilega krefjandi og því mikilvægt að stjórnandinn þekki styrkleika og takmörk starfsmanna sinna til að geta beitt viðeigandi stjórnunarstíl (Hersey, Blanchard og Natemeyer, 1979). Það má líta á þessi stig frá S1-S4 í stjórnunarlíkani Kenneths Blanchards og Pauls Herseys sem einskonar þroskaferli starfsmanns sem hefur tækifæri til að vaxa og dafna í starfi og þannig auka við sinn verkefnaþroska. Stjórnandinn og stjórnunarstíll hans skipta miklu máli og geta haft áhrif á hvort starfsmaðurinn nái að fullnýta getu sína og hæfileika. Þessir fjórir stjórnunarstílar, stýrandi (e. directing), veitandi (e. coaching), styðjandi (e. supporting) og felandi (e. delegating) mælast svo mismunandi háir í stuðningi og stýringu eins og sést á mynd 4. HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 11 Mynd 4. Líkan Kenneths Blanehards og Pauls Herseys um stýrandi, veitandi, styðjandi og felandi hegðun í aðstæðutengdri stjórnun. Stýrandi hegðun (e. directing)-S1 Lýsir sér þannig að stýring er mikil og samskiptin eru að mestu leyti einhliða þar sem stjórnandinn gefur leiðbeiningar og fyrirmæli um verkefnið en einnig hvenær og hvernig það á að vinnast ásamt því að hafa stíft eftirlit með vinnunni. Þessi mikla stýring er stjórnun sem gjarnan er notuð við móttöku og þjálfun nýrra starfsmanna þar sem nauðsynlegt er að öll atriði varðandi vinnuna komist örugglega til skila (Blanchard, 1985). Veitandi hegðun (e. coaching)-S2: Þegar þessum stjórnunarstíl er beitt er notast við háa stýringu en að auki bætist við meiri stuðningur og samræður um vinnuna. Á þessu stigi ræðir stjórnandinn verkefnin við starfsmanninn ásamt því að hlusta eftir skoðunum hans á málunum (Blanchard, 1985). Styðjandi hegðun (e. supporting)-S3: Þessi stjórnunarstíll notast við minni stýringu ásamt meiri umræðum og samstarfi um lausn verkefna þar sem reynsla og hæfni starfsmanna fær að njóta sín og þeir hafðir með í ráðum í ákarðanatökum. Hrós og viðurkenning fyrir vel unnin störf eru mikilvægir þættir fyrir starfsmenn en einnig hvatning, hlustun og stuðningur frá yfirmanni (Blanchard, 1985). Felandi hegðun (e. delegating)-S4: Þegar þessum stjórnunarstíl er beitt þarf starfsmaðurinn ekki á leiðbeiningum að halda við lausn verkefna heldur hefur hann reynslu og getu til að útfæra sína vinnu eftir eigin höfði en stjórnandinn er þó alltaf til staðar til stuðnings og samráðs ef þurfa þykir (Blanchard, 1985). HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 12 Vinnuálag Ýmsar skilgreiningar eru til á vinnuálagi en almennt eru þær sammála um að vinnuálag sé ekki einungis magn þeirra verkefna sem þarf að vinna, jafnvel þótt það sé mikilvægur þáttur. Frekar er vinnuálag hugtak sem inniheldur allar þær kröfur og framlag sem fólk ver til verkefnanna ásamt skynjun þess á hversu vel þau séu unnin sem hefur bein tengsl við hvatningu í starfi (Mcdonald, 2003). Því má segja að vinnuálag sé dæmi um starfskröfur (Hakanen, Bakker og Demerouti, 2005). Schaufeli og Bakker (2004) skilgreina starfskröfur sem líkamlega, andlega, félagslega, kerfis- og skipulagslega þætti starfsins. Þær þarfnast líkamlegrar fyrirhafnar en einnig andlegrar, bæði hugrænnar og tilfinningalegrar og fylgir þeim þar af leiðandi ákveðinn líkamlegur og andlegur kostnaður. Þrátt fyrir að starfskröfur séu í eðli sínu ekki endilega neikvæðar geta þær orðið streituvaldandi ef starfsmaðurinn á í erfiðleikum með að mæta þeim vegna of mikils kostnaðar, sem getur þá leitt af sér neikvæða tilfinningalega svörun á borð við þunglyndi, kvíða og kulnun. Of mikið verkefnaálag er dæmi um slíkar starfskröfur (Schaufeli og Bakker, 2004). Vinnuálag hefur ýmiskonar áhrif á starfsfólk. Greenglass og félagar (2001) rannsökuðu áhrif vinnuálags á hjúkrunarfræðinga og komast að því að þeir sem fannst þeir vera undir miklu vinnuálagi væru líklegri til að sýna einkenni kulnunar á borð við hlutgervingu og tilfinningalega örmögnun. Rannsókn Piko (2006) leiðir einnig í ljós sterk tengsl milli tilfinningalegrar örmögnunar og starfsóánægju. Enn fremur komst Piko að því að hlutverkaágreiningur (e. role conflict) ýtti undir bæði hlutgervingu og tilfinningalega örmögnun (Piko, 2006). Til eru ýmsar kenningar um vinnuálag og verndandi þætti. Má þar til dæmis nefna vinnuframlags-umbunarlíkanið (e. effort-reward model) sem Johannes Siegrist (1996) setti fram. Kenning hans gengur út á það að sú vinna sem ynnt er af hendi sé hluti af gagnvirku félagslegu kerfi þar sem framlaginu er umbunað með peningum, starfsframa eða virðingu. Ef ójafnvægi er milli vinnuframlagsins og umbunarinnar getur það valdið streituviðbrögðum og aukið líkur á heilsubresti hjá viðkomandi starfsmanni. Það að hafa krefjandi starf en lítið starfsöryggi eða að leggja mikið af mörkum án möguleika á stöðuhækkun eru dæmi um aðstæður sem eru líklegar til þess að valda starfsmönnum streitu (Siegrist, 1996). Önnur kenning sem rétt er að minnast á er starfskröfu-sjálfræði í starfi líkanið sem Karasek (1979) setti fram. Það líkan gengur út frá því að sálræn áreynsla, á borð við streitu, sé ekki afleiðing sértækra hluta vinnuumhverfisins, heldur samverkandi áhrif þess og þess svigrúms sem starfsmaðurinn hefur til að takast á við kröfurnar. Ef kröfurnar eru miklar og íþyngjandi eru þær líklegar til þess að valda streitu ef starfsmaðurinn hefur lítið svigrúm til að takast á við þær (Karasek 1979). Í kenningunni er þetta svigrúm kallað sjálfræði og er tvíþætt. HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 13 Annars vegar er það athafnarfrelsi og hinsvegar frelsi til ákvarðanatöku. Með athafnafrelsi er átt við þá hæfileika og verkfæri sem starfsmaðurinn hefur yfir að ráða, eða nær að þróa, til að leysa verkefni sín en frelsi til ákvarðanatöku vísar til þess hversu mikið sjálfstæði hann hefur varðandi ákvarðanir um hvernig verkefnin séu unnin (Häusser, Mojzisch, Niesel, og Schulz, 2010). Störf sem gera miklar kröfur en starfsmaðurinn hefur litla starfsstjórn í eru líklegust til að valda streitu og heilsubresti á meðan störf sem gera litlar kröfur og menn hafa mikla starfsstjórn í eru ólíkleg til þess að vera streituvaldandi. Störf sem hafa litlar starfskröfur og litla starfsstjórn eru kölluð óvirk störf. Óvirk störf eru vel til þess fallin að skapa áhugaleysi hjá starfsmönnum (Karasek 1979). Störf sem gera miklar starfskröfur og leyfa mikla starfsstjórn eru kölluð virk störf. Við slíkar aðstæður verða miklar starfskröfur eftirsóknarverðar og skapa drifkraft ásamt hvatningu hjá starfsmönnum (Theorell og Karasek 1996). Síðar bættu Johnson og Hall (1988) félagslegum stuðningi við líkanið. Starfskröfusjálfræðis og stuðnings líkanið er því þríþætt og leiðir líkur að því að lítill félagslegur stuðningur í bland við miklar starfskröfur og litla starfsstjórn valdi streitu hjá starfsmönnum (Van der Doef og Maes, 1999). Ýmsar rannsóknir styðja þetta líkan en í rannsókn Luo (1999) kom meðal annars í ljós að þeir sem nutu félagslegs stuðnings yfirmanna voru ólíklegri til að upplifa þunglyndi, kvíða og aðra streitutengda sjúkdóma. Félagslegur stuðningur frá samstarfsfélögum hefur líka áhrif en hann getur dregið úr áhrifum mikils vinnuálags og kulnunar í starfi (Koeske og Koeske, 1989). Vinnutengd streita Hans Selye var einn af upphafsmönnum nútíma streiturannsókna og var fyrstur til að lýsa hugtakinu eins og við þekkjum það í dag (Viner, 1999). Hann skilgreindi streitu sem ósérhæft svar líkamans við utanaðkomandi áreiti. Streituvaldar (e. stressors) eru þau áreiti sem framkalla streitu á hverjum tíma. Alþjóða Heilbrigðisstofnuninni (WHO, e.d.) skilgreinir vinnutengda streitu sem viðbrögð fólks við kröfum og álagi vinnuveitanda. Þar kemur fram að kröfurnar samhæfast ekki þekkingu og getu starfsfólksins sem gerir það að verkum að erfitt er fyrir starfsfólkið að standa undir þeim eða ráða við þær. Jafnframt kemur þar fram að streita geti skapast í mörgum mismunandi vinnuaðstæðum en verði oft verri við það að starfsmenn finni lítinn stuðning frá yfirmönnum og samstarfsfélögum, ásamt þvi að hafa litla stjórn á vinnuferlum. Einnig gætir oft á tíðum misskilnings um hvað sé álag, áskorun eða streita og er það stundum notað sem afsökun fyrir slæmum stjórnarháttum (WHO, e.d.). Samkvæmt Larocco, House og French (1980) geta ýmsar vinnutengdar aðstæður valdið streitu. Þeir telja HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 14 að vinnutengdar aðstæður geti til dæmis verið streituvaldandi þegar kröfur umhverfisins fara fram úr getu einstaklingsins eða þegar úrræði og tækifæri starfsins mæta ekki þörfum hans. Enn fremur telja þeir að það sem fólk skynjar sem of mikið vinnuálag eða hlutverkaágreining (e. role conflict) geti leitt til neikvæðari viðhorfa til starfsins sem getur svo haft áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks (Larocco, House og French, 1980). Hjá Schabracq (2003) kemur fram að vinnutengd streita geti haft gríðarlega slæm áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks ásamt því að hafa slæm áhrif á starfsanda fyrirtækja. Þar segir einnig að tilfinningar, skert athygli og spenna sem fylgja streitu á vinnustað geri fólki erfiðara fyrir að sinna starfi sínu. Viðbrögð sem fólk sýnir við vinnutengdri streitu eru oft álitin óeðlileg eða óviðeigandi og það getur haft truflandi félagsleg áhrif á vinnustaðnum og stuðlað að ósætti og pirringi hjá samstarfsfólki (Schabracq, 2003). Vinnuverndarstofnun Evrópu (2013) skoðaði vinnutengda streitu með skoðanakönnun sem gerð var í 31 Evrópulandi. Þar kom fram að um helmingur launþega telur að vinnutengd streita sé algeng á vinnustað sínum eða 16% mjög algenga og 35% nokkuð algenga. Sé Ísland skoðað sérstaklega í þessari könnun töldu 12% hana mjög algenga og 35% nokkuð algenga. Íslendingar töldu algengustu ástæðu vinnutengdrar streitu vera fjölda vinnustunda eða vinnuálag (Vinnuverndarstofnun Evrópu, 2013). Kulnun Ein birtingarmynd langvarandi vinnutengdrar streitu er kulnun í starfi. Kulnun getur átt sér stað þegar einstaklingur upplifir langvarandi vinnutengda streitu (Bruce, 2009). Maslach og Jackson (1981) skilgreindu kulnun sem tilfinningalega örmögnun, hlutgervingu og minnkaðan starfsárangur, en þetta er allt algengt í störfum sem snúa að þjónustu við fólk. Tilfinningaleg örmögnun vísar til þess þegar einstaklingur hefur ofreynt og klárað sín tilfinningalegu úrræði sem leiðir til flatra og ópersónulegra samskipta við skjólstæðinga. Með hlutgervingu er vísað til þess þegar starfsmenn þróa með sér neikvæð og kaldhæðnisleg viðhorf til skjólstæðinga sinna og fara jafnvel að líta á þá sem hluti frekar en manneskjur (Maslach, 1981; Cordes og Dogherty, 1993). Þriðji þátturinn er svo minnkaður starfsárangur en í því felst að starfsmaðurinn leggur neikvætt mat á vinnu sína með skjólstæðingunum og finnst markmiðum ekki náð, þessu fylgir lágt sjálfsmat og tilhneiging til að finnast hann vera vanhæfur (Schaufeli og Buunk, 2003). Pines og Aronson (1988, bls. 9) víkkuðu hugtakið kulnun þannig að það innihélt líka líkamleg einkenni og miðaðist ekki eingöngu við þau störf þar sem unnið er með fólk eins og upphafleg skilgreining Maslach og Jackson gerði ráð fyrir. HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 15 Cordes og Dougherty (1993) skipta orsakavöldum kulnunar í þrjá flokka, þ.e. einkenni starfsins, skipulagseiginleikar starfsins og persónueinkenni starfsmanna. Fyrsti flokkurinn samanstendur af því sem einkennir starfið og hlutverk þess. Einkenni starfsins sem mestu máli skiptir er sambandið milli starfsmanns og viðskiptavinar eða skjólstæðings. Þannig eru þeir sem eru í beinum, tíðum og löngum samskiptum við skjólstæðinga sína tengdir við hærri tíðni kulnunar. Með hlutverkum starfsins er hér átt við þegar álag er of mikið, hlutverkaskipan er ekki skýr (e. role ambiguity) og að mismunandi hlutverk stangist á við hvort annað (e. role conflict) (Cordes og Dougherty, 1993). Því má segja að starfsmenn skorti upplýsingar til að sinna starfi sínu þegar hlutverkaskipan er ekki skýr og að kröfur starfsins séu andstæðar í eðli sínu þegar þær stangast á (Schaufeli og Buunk, 2003). Maslach og félagar benda á að verkefnaálag og tímapressa séu þekkt fyrir að leiða til kulnunar (Maslach o.fl, 2001). Samkvæmt Arnold (2015) er meira sjálfstæði í vinnu og hæfilegt vinnuálag ásamt góðri tímastjórnun þættir sem hjálpa til við að skapa góða líðan á vinnustað. Hann telur að þeir sem hafa aðstöðu til að rækta þessi atriði séu ánægðari og sjaldnar veikir en þeir sem vinna undir of mikilli stjórn, óhóflegu vinnuálagi eða mikilli tímapressu (Arnold, 2015). Við þetta má bæta að rannsóknir hafa sýnt að skortur á úrræðum í vinnu er líklegur til þess að valda kulnun (Schaufeli og Buunk, 2003). Vinnuúrræði eru þeir líkamlegu, andlegu, félagslegu og skipulagslegu þættir vinnunar sem hjálpa starfsmönnum að ráða við kröfurnar sem starfið gerir, ná markmiðum sínum, að þroskast, læra og þróast sem einstaklingar (Bakker og Demerouti 2007). Það úrræði sem einna mest hefur verið rannsakað er félagslegur stuðningur og sýna rannsóknir að sterk fylgni er á milli skorts á félagslegum stuðningi frá vinnufélögum og yfirmönnum og kulnunar (Schaufeli og Buunk, 2003). Í rannsókn Brissie, Hoover-Dempsey og Bassier (1988) meðal kennara kemur meðal annars fram að félagslegur stuðningur frá skólastjórnendum tengdist lægri tíðni kulnunar. Starfsánægja Locke (1969) skilgreinir starfsánægju sem tilfinningalegt ástand sem endurspeglar jákvæð viðhorf til starfsins sem ræðst af þörfum starfsfólks, skynjun þess og reynslu. Samkvæmt honum ræður samræmið milli þarfa starfsfólksins og hvað það fær út úr starfinu úrslitum um hvort það þrífst í því eða ekki. Þess vegna telur hann mikilvægt að fólk viti hverju það megi eiga von á í viðkomandi starfi. Locke (1969) telur því starfsánægju vera grundvallaratriði þegar kemur að líðan starfsmanna og að hún geti haft áhrif á fjarveru, HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 16 starfsmannaveltu og framleiðni. Þar af leiðandi kostar ánægt starfsfólk vinnustað minna vegna þess að það er skilvirkara og hefur meiri drifkraft til að standa sig vel (Locke, 1969). Samkvæmt McEwen (2001) er starfsánægja upplifun starfsmannsins á eigin árangri í vinnunni sem tengist beint framleiðni og persónulegri vellíðan hans. Í starfsánægju felist það að sinna starfi sem einstaklingnum líkar, leysir vel af hendi og er síðan umbunað fyrir. Einnig telur McEwen (2001) að í starfsánægju felist eldmóður og hamingja tengd vinnunni. Herzberg (1965) skiptir starfsánægju í tvennt eða ánægju og ekki-ánægju og svo óánægju og ekki-óánægju. Hann telur starfsánægju og starfsóánægju ekki vera andstæður hvors annars, heldur sé best að horfa á þau sem tvö aðskilin fyrirbæri. Andstaða starfsánægju er ekki-starfsánægja og andstaða starfsóánægju er ekki-starfsóánægja Herzberg nefnir ýmsa mismunandi þætti sem helst leiða til starfsóánægju en þeir eru meðal annars stefna og stjórnun fyrirtækja, verkstjórn yfirmanna, samskipti yfirmanna við undirmenn, samskipti við samstarfsfélaga og lítið starfsöryggi (Herzberg, 1965). Þægilegt andrúmsloft og vingjarnlegt umhverfi eru mikilvægir þættir til að vel fari um starfsfólk og að það nái að sinna störfum sínum sem best (Raziq og Maulabakhsh, 2015). Raziq og Maulabakhsh (2015) nefna einnig að sveigjanlegur vinnutími, minna vinnuálag og stuðningur ásamt góðum samskiptum við yfirmenn hafi jákvæð áhrif á starfsánægju. Að njóta virðingar og fá tækifæri til að þróast og vaxa í starfi hefur samkvæmt þeim enn fremur marktæka fylgni við vellíðan og starfsánægju (Raziq og Maulabakhsh, 2015). Niðurstöður Clark (1997) eru á svipuðum nótum þar sem kemur fram að það sem veldur helst óánægju starfsfólks eru atriði eins og óvissa og óöryggi á vinnustaðnum, ósamstarfsfúsir vinnufélagar, virðingarleysi frá yfirmanni og að upplifa það að vera ekki þátttakandi í málum og ákvörðunum sem snerta þeirra starfssvið. Einnig kemur fram í rannsókn Clark að langur vinnudagur hafi fylgni við óánægju í starfi (Clark, 1997). Í rannsókn Ellickson og Logsdon (2002) skoða þeir áhrifaþætti á starfsánægju hjá starfsmönnum sveitarfélaga og leiddi rannsókn þeirra í ljós að meðal annars höfðu ánægja með næsta yfirmann og vinnuálag áhrif á starfsánægju á vinnustaðnum. Vinnuálag hafði áhrif að því leyti að eftir því sem starfsfólki fannst verkefnum vera dreift jafnar, því ánægðara var það. Einnig kom þar fram að tækifæri til stöðuhækkana, umbun á borð við laun o.fl, ánægja með eigin frammistöðu, þjálfun, aðbúnaður og fjármagn ásamt góðum starfsanda höfðu jákvæð áhrif á starfsánægju. SouzaPosa og Souza-Posa (2000) komast að því að tveir mikilvægustu áhrifavaldarnir á starfsánægju séu góð samskipti við yfirmenn og að vera í áhugaverðu starfi. Schyns, Veldhoven og Wood (2009) skoða einnig starfsánægju út frá starfsumhverfi með hvetjandi stjórnunarháttum (e. supportive organizational climate). Þar kemur fram að slíkt umhverfi HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 17 tengist umhyggju fyrir þörfum og velferð undirmanna ásamt því að koma á eftirsóknarverðu andrúmslofti fyrir samskipti þeirra og yfirmanna. Í slíku andrúmslofti skynja starfsmenn að yfirmenn eru mjög stuðningsríkir, hvetja þá áfram í starfsþróun og valdefla. Í rannsókn þeirra kemur fram að stuðningsríkt og hvetjandi umhverfi af hálfu yfirmanna leiðir til meiri starfsánægju. Lítil starfsánægja og óánægja í starfi gefa til kynna vandamál hjá fyrirtækjum og stofnunum en dæmi um slík vandamál eru stjórnunarvandamál, léleg laun, mikið vinnuálag og langur vinnutími. Neikvæð afstaða starfsfólks til stjórnenda bendir til þess að bæta þurfi stjórnunaraðferðir og samskipti (Cantarelli, Belardinelli og Belle 2016). Aðferð Í rannsókninni var notast við fyrirliggjandi gögn úr langtímarannsókninni: Heilsa og vellíðan á vinnustað meðal starfsfólks íslenskra sveitarfélaga. Í þessari rannsókn var aðeins notast við gögn frá árinu 2015 til þess að skoða hvetjandi stjórnun, vinnuálag og starfsánægju. Þátttakendur og framkvæmd Allir starfsmenn 16 sveitarfélaga, 18 ára og eldri í 50% eða hærra stöðugildi, fengu boð um þátttöku í þessari rannsókn. Tölvupóstur var sendur til 8369 starfmanna í gegnum SurveyMonkey vefkannanakerfið með beiðni um þátttöku í rannsókninni. Í tölvupóstinum var tekið fram að starfsmönnum væri frjálst að hafna þátttöku í rannsókninni án útskýringa og einnig gátu þátttakendur sleppt því að svara einstökum spurningum ef þeir kusu svo. Til að svara könnuninni þurftu þátttakendur að smella á tengil í tölvupóstinum sem opnaði spurningalistann og þar með samþykktu þátttakendur þátttöku sína í rannsókninni. Eftir þrjár ítrekanir höfðu safnast 5464 svör sem þýðir að svarhlutfallið er 65,2%. Mælitæki Spurningalistinn sem notaður var samanstendur af spurningum sem notaðar hafa verið í öðrum rannsóknum á heilsu, líðan og starfstengdum viðhorfum starfsfólks. Í þessari rannsókn verður fjallað um niðurstöður spurninga um hvetjandi stjórnun, vinnuálag og starfsánægju. Gögnin voru einnig greind eftir kyni og aldri. Hvetjandi stjórnun var mæld með fimm spurningum: (1) „Metur næsti yfirmaður þinn það við þig ef þú nærð árangri í starfi? “, (2) „Er næsti yfirmaður þinn fús til að hlusta á vandamál sem við er að glíma í vinnunni, ef á þarf að halda? “, (3) „Færð þú stuðning og hjálp með verkefni hjá næsta yfirmanni þínum, ef á þarf að halda? “, (4) „Hvetur næsti yfirmaður þinn þig til að taka þátt í mikilvægum ákvörðunum? “, (5) „Yfirmaður minn leiðbeinir og gagnrýnir á uppbyggilegan hátt“. Gefnir HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 18 voru fimm svarmöguleikar við þessum fullyrðingum frá (1) „mjög sjaldan eða aldrei“ að (5) „mjög oft eða alltaf“. Þessum fimm breytum var steypt saman í nýja breytu sem gefið var nafnið „Hvetjandi stjórnun“. Cronbach‘s alpha fyrir þessar spurningar var 0,860. Vinnuálag var mælt með þremur spurningum; (1) „Er vinnuálag svo ójafnt að verkefnin hlaðast upp?“ , (2) „Verður þú að vinna á of miklum hraða?“ , (3) „Hefur þú of mikið að gera?“ Gefnir voru fimm svarmöguleikar við þessum fullyrðingum, frá (1) „Mjög ósammála“ að (5) Mjög sammála“. Þessum þremur breytum var steypt saman í nýja breytu sem gefið var nafnið „Vinnuálag“. Cronbach‘s alpha fyrir þessar spurningar var 0,804. Starfsánægja var mæld út frá fullyrðingunni: „Þegar á heildina er litið er ég ánægð (ur) í starfi mínu“. Gefnir voru fimm svarmöguleikar frá (1) „Mjög ósammála“ að (5) „Mjög sammála“. Tölfræðileg úrvinnsla Við úrvinnslu gagnanna var notast við tölfræðiforritið SPSS ásamt excel fyrir myndvinnslu. Krosstöflur voru notaðar til að skoða vinnuálag, hvetjandi stjórnun og starfsánægju eftir kyni og aldri. Notast var við dreifigreiningu með Tukey HSD eftiráprófi til þess að skoða mun á vinnuálagi, hvetjandi stjórnun og starfsánægju eftir aldurshópum. Notast var við t-próf til þess að skoða mun á vinnuálagi, hvetjandi stjórnun og starfsánægju eftir kyni. Til að skoða fylgni milli hvetjandi stjórnunar og vinnuálags annars vegar og hvetjandi stjórnunar og starfsánægju hins vegar var notast við fylgnireikninga. Miðað var við 95% öryggismörk og 99% öryggismörk í fylgnireikningum. Til þess að túlka fylgnireikningana var notast við skilgreiningu Cohen‘s (1988, bls. 79-81) en samkvæmt honum er fylgnin veik á bilinu 0,10–0,29, miðlungs á bilinu 0,30–0,49 og sterk frá 0,50–1,0. Niðurstöður Í þessum kafla verður fjallað um niðurstöður spurninga sem snúa að hvetjandi stjórnun yfirmanna, vinnuálagi og starfsánægju. Enn fremur verða skoðuð tengsl milli hvetjandi stjórnunar og vinnuálags og hvetjandi stjórnunar og starfsánægju. Lýðfræðilegar upplýsingar um þátttakendur Tafla 1 sýnir kynjaskiptingu og á hvaða aldursbili þátttakendur eru. Af þeim 5.464 sem svöruðu í rannsókninni svöruðu 5.359 spurningunni um kynferði og voru konur í meirihluta eða 4.390 sem er um 82% þátttakenda. Karlarnir voru 969 talsins eða 18% en 105 einstaklingar svöruðu ekki spurningunni um kynferði eða um 2% þátttakenda. Algengast var að þátttakendur væru á aldrinum 41-50 ára eða um 28% og átti það bæði við um konur og HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 19 karla. Hlutfallslega fæstir tilheyrðu elsta aldurshópnum eða aðeins 11% þátttakenda, sjá nánar töflu 1. Tafla 1. Aldur og kyn þátttakenda Karlar Konur N % 30 ára og yngri 77 382 459 12 % 31–40 ára 155 795 950 24 % 41–50 ára 167 924 1091 28 % 51–60 ára 166 823 989 25 % 61 árs og eldri 113 327 440 11 % Samtals 678 3251 3929 100% Hvetjandi stjórnun Mynd 5 sýnir niðurstöður fyrir þær fimm spurningar sem mældu hvetjandi stjórnun. Hlutfallslega flestir töldu að næsti yfirmaður sinn væri fremur oft eða alltaf fús til að hlusta á vandamál sem við er að glíma í vinnunni ef á þarf að halda eða 80% þátttakenda, 72% töldu sig fá fremur oft eða alltaf stuðning og hjálp frá næsta yfirmanni sínum með verkefni ef á þarf að halda og 69% töldu næsta yfirmann sinn leiðbeina og gagnrýna á uppbyggilegan hátt. Um 18% töldu næsta yfirmann sinn fremur sjaldan eða aldrei hvetja sig til að taka þátt í mikilvægum ákvörðunum og 16% töldu næsta yfirmann fremur sjaldan eða aldrei meta það við sig ef þeir náðu árangri í starfi. Mynd 5. Hvetjandi stjórnun 0% 20% 40% 60% 80% 100% Mjög sjaldan eða aldrei Fremur sjaldan Stundum Fremur oft Mjög oft eða alltaf Hvetur næsti yfirmaður þinn þig til að taka þátt í mikilvægum ákvörðunum? Færð þú stuðning og hjálp með verkefni hjá næsta yfirmanni þínum, ef á þarf að halda? Er næsti yfirmaður þinn fús til að hlusta á vandamál sem við er að glíma í vinnunni, ef á þarf að halda? Metur næsti yfirmaður þinn það við þig ef þú nærð árangri í starfi? Yfirmaður minn leiðbeinir og gagnrýnir á uppbyggilegan hátt HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 20 Meðaltalið fyrir hvetjandi stjórnun var 3,84 og staðalfrávikið 0,84. Niðurstöður leiddu í ljós að það er munur milli kynja hvort þeim þyki stjórnandi sinn vera hvetjandi (t (5357) = -4,98; p <0,05) þar sem karlar (M = 3,73; sf = 0,86) upplifa sjaldnar hvetjandi stuðning en konur (M = 3,90; sf = 0,84). Einnig sýndu niðurstöðurnar mun eftir aldurshópum (F (4,3942) = 3,168, p <0,05) að því leyti að aldurshópnum 30 ára og yngri (M = 3,98-3,80; sf = 0,68-0,86) fannst hann oftar fá hvatningu og stuðning frá yfirmönnum samanborið við aðra aldurshópa. Þó mældist ekki marktækur munur milli hópanna 30 ára og yngri og 31-40 ára (p> 0,05). Vinnuálag Mynd 6 sýnir niðurstöður fyrir þær þrjár spurningar sem mældu vinnuálag. Þar má sjá að um 42% starfsfólksins hefur mjög oft eða fremur oft of mikið að gera og verður að vinna á miklum hraða. Einnig má sjá að þriðjungur svarar því til að vinnuálag sé mjög sjaldan eða fremur sjaldan svo ójafnt að verkefnin hlaðist upp. Mynd 6. Vinnuálag Meðaltal fyrir vinnuálag var 3,19 og staðalfrávikið 0,91. Niðurstöðurnar sýndu jafnframt að það er munur á vinnuálagi eftir kynferði (t (5357) = 2,55; p <0,05) þar sem konur (M = 3,21; sf = 0,9) upplifa oftar vinnuálag en karlar (M = 3,12; sf = 0,9). Einnig kom fram munur á vinnuálagi eftir aldri (F (4,3942) = 15,372; p <0,05). Eftiráprófið sýndi fram á að 30 ára og yngri (M = 3,01; sf = 0,93) upplifa sjaldnar vinnuálag en starfsfólk á aldrinum 31-40 ára (M = 3,33; sf = 0,85), 41-50 ára (M = 3,33; sf = 0,88) og 51-60 ára (M = 3,25; sf = 0,95). Enn fremur leiddu niðurstöðurnar í ljós að starfsfólk í elsta aldurshópnum, 61 árs og eldri (M = 3,02; sf = 0,94), upplifa einnig sjaldnar vinnuálag en starfsfólk á aldrinum 31-60 ára. Starfsánægja Mynd 7 sýnir að þegar á heildina er litið er mikill meirihluti starfsfólksins ánægt í starfi en um 78% eru mjög eða frekar sammála því. Athyglisvert er að um 7% eru mjög eða HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 21 frekar ósammála því þegar á heildina er litið að það sé ánægt í starfi sínu, auk þess sem 15% eru hvorki sammála né ósammála staðhæfingunni. Þetta þýðir að 22% eru annað hvort óánægðir eða ekkert sérstaklega ánægðir í starfi. Mynd 7. Starfsánægja Meðaltalið fyrir starfsánægju var 4,02 og staðalfrávikið 0,94. Niðurstöðurnar sýndu jafnframt að það er munur á starfsánægju milli kynja þar sem konur (M = 4,04; sf = 0,93) voru í meira mæli en karlar (M = 3,93; sf = 0,97) sammála því að þær væru ánægðar í starfi sínu. (t (5357) = 2,55; p = 0,05). Einnig kom fram munur á almennri starfsánægju eftir aldurshópum (F (4,3942) = 5,700, p = . 000). Eftiráprófið sýndi mun á elsta hópnum, 61 árs og eldri (M = 4,14; sf = 0,92) og þeim sem voru 31-40 ára (M = 3,92; sf = 0,95) og 41-50 ára (M = 3,98; sf = 0,97). Einnig var munur á aldurshópunum 51-60 ára (M = 4,09; sf = 0,92) og 31-40 ára (M = 3,92; sf = 0.95). Tengsl hvetjandi stjórnunar, vinnuálags og starfsánægju Þegar skoðuð var fylgni milli hvetjandi stjórnunar og hversu mikið vinnuálag fólk upplifir kom í ljós veik neikvæð fylgni (r = -0,11, n = 5464, p <0,05). Af því má álykta að hvetjandi stjórnunarhættir geti dregið úr neikvæðum áhrifum af vinnuálagi. Þegar skoðuð voru tengsl milli hvetjandi stjórnunar og starfsánægju kom í ljós miðlungs jákvæð fylgni (r = 0,38, n = 5464, p <0,05). Af því má álykta að hvetjandi stjórnunarhættir auki starfsánægju. Tafla 2. Tengsl hvetjandi stjórnunar við vinnuálag og starfsánægju Vinnuálag Starfsánægja Hvetjandi stjórnun -011 * * 0,38 * * * * p <0,01 HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 22 Umræður og ályktanir Í þessu verkefni var hvetjandi stjórnun skoðuð til að svara því hvaða áhrif hún hefði á vinnuálag og starfsánægju. Í ljós kom að hvetjandi stjórnun hafði miðlungs jákvæða fylgni, eða 0,38, við starfsánægju en einungis veika fylgni við vinnuálag, eða -011. Samkvæmt þessu má álykta að hvetjandi og stuðningsríkir yfirmenn stuðli að starfsánægju undirmanna og að slíkur stjórnunarstíll geti minnkað það vinnuálag sem þeir upplifa. Konum finnst þær frekar fá stuðning og hvatningu frá stjórnendum en karlar og yngsti aldurshópurinn, 30 ára og yngri, upplifir meiri stuðning og hvatningu heldur en aðrir aldurshópar. Elsta aldurshópnum finnst að þeir fái minnstan stuðning og hvatningu. Við teljum mögulega ástæðu þess að elsti aldurshópurinn telji sig fá minnsta hvatningu og stuðning vera þá að hugsanlega eru þetta að miklu leyti starfsmenn sem hafa starfað lengi á sama staðnum og að stjórnendur telji að þeir hafi mikla reynslu og þurfi minni stuðning og hvatningu. Hins vegar er mögulegt að yngsti hópurinn fái mikinn stuðning og hvatningu vegna þess að þeir hafa minni starfsreynslu og leita frekar eftir hjálp yfirmanna. Sá hópur er sennilega frekar nýr á vinnustaðnum og þurfa frekar að leita sér hjálpar en aðrir hópar. Stjórnendur geta gert ýmislegt til að hvetja undirmenn sína og drífa þá áfram í vinnunni. Samkvæmt Maslow þarf fólk að uppfylla ákveðnar félagslegar þarfir til að ná sjálfsbirtingu og geta þannig nýtt til fulls þá hæfileika og hæfni sem einstaklingurinn hefur yfir að búa (Milgram o.fl, 2010). Þetta geta stjórnendur aðstoðað við með því að t.d. mynda tengsl, byggja upp sjálfstraust og bjóða upp á sjálfstæð vinnubrögð. Herzberg bendir á mikilvægi þess að fólk fái áhugaverð og krefjandi verkefni í vinnunni sem auki áhuga og ánægju (Lundberg o.fl, 2009) en einnig að hvatningaþættir séu til staðar eins og möguleikinn á að geta vaxið í starfi, að vera falin ábyrgð og að fá viðurkenningu (Riggio, 2003). Vroom telur að framlag starfsmanns sé háð þeirri umbun sem í boði er fyrir hann. Hvatningin og drifkrafturinn ræðst af væntingum hans til þess hversu góða útkomu hann fær fyrir framlag sitt og hvaða mat hann leggur á þá umbun sem í boði er (Jones og George, 2003; Mullins, 2010). Stjórnendur geta auðveldlega haft áhrif á slíka þætti með því að umbuna með launahækkunum og stöðuhækkunum fyrir vel unnin störf. Einnig með því að leggja ekki of mikið verkefnaálag á starfsmenn sem eiga litla eða enga möguleika á slíkri umbun. Samkvæmt Hackman og Oldham (1976) er mikilvægt að starfsmenn upplifi störf sín sem krefjandi, að þau beri ábyrgð, að þau séu mikilvæg, að þau hafi ákveðið sjálfræði og að stjórnendur gefi endurgjöf. Mikilvægt er fyrir stjórnendur að hlúa að öllum þessum þáttum til að fá sem mest út úr hverjum starfsmanni. HVETJANDI STJÓRNUN, VINNUÁLAG OG STARFSÁNÆGJA 23 Í ljós kom að konur upplifa meira vinnuálag en karlar ásamt því að yngsti og elsti aldurshópurinn fundu fyrir minna vinnuálagi en aðrir aldurshópar. Höfundar velta fyrir sér mögulegum ástæðum þess að konur upplifi frekar meira vinnuálag en karlar. Starfsemi sveitarfélaga snýr að miklu leyti að þjónustu, fræðslu- og umönnunarstörfum. Hugsanlegt getur verið að þjónustustörf séu almennt svokölluð kvennastörf og að álagið geti verið meira í þeim og feli í sér minni laun en störf karlanna. Við teljum hugsanlega skýringu þess að yngsti og elsti aldurshópurinn upplifi meira álag en aðrir vera þá að yngri starfsmenn hafa líklega ekki starfað lengi á sama vinnustaðnum og eru hugsanlega ekki búnir að vinna sig upp í stöður sem meira álag fylgir. Elsti hópurinn aftur á móti er að síga á seinni hluta starfsferils síns og hefur yfir langan starfsferil þróað með sér hæfni og úrræði til að ráða betur við starfið ásamt álaginu sem því fylgir.
Korkur: hl Titill: #snidugt.onlinemot - source Höf.: ccivan Dags.: 30. nóvember 2008 16:04:06 Skoðað: 1338 Ég vil taka það skýrt fram að þetta er óuppfærður listi af liðunum svo ekki örvænta ef eitthvað hérna er vitlaust, það verður lagfært 1.des þegar ég fer yfir öll mailin ykkar sem innihalda liðabreytingar. Hamingja taiNted - STEAM_0:1:8697690 Box energy - STEAM_0:1:6112965 Prefect - STEAM_0:0:5111332 TheKeko - STEAM_0:1:203931 BMP - STEAM_0:0:8064723 Crushe^R - STEAM_0:0:7199677 geller - STEAM_0:0:7689384 waveGaming Hezyy ~ STEAM_0:1:8538859 Gúrme ~ STEAM_0:1:13792093 Drúndi ~ STEAM_0:1:17307130 JOE ~ STEAM_0:0:11029840 ScareCrow ~ STEAM_0:0:10460732 Punishment ~ STEAM_0:0:9053486 Knocked Out - late Iceman : STEAM_0:0:5038502 Gunneh Tan : STEAM_0:1:4791913 Rean : STEAM_0:0:6137280 raybiez : STEAM_0:0:11521486 fnr : STEAM_0:0:7991300 Hyperactive : Steam_0:0:1879664 ómæ : STEAM_0:1:11315614 Several Kazoom - STEAM_0:1:15065909 Vasquez - STEAM_0:1:16140453 Igniter - STEAM_0:1:15659146 grazi - STEAM_0:1:19606899 psycho - STEAM_0:1:20289613 darwin - STEAM_0:0:18965681 distance - STEAM_0:0:19284960 cannibal - STEAM_0:0:16067275 beygla - STEAM_0:0:13933131 blackout - STEAM_0:1:15607600 intrum - STEAM_0:1:19853556 Requiem STEAM_0:1:11124072 GOM Skidder STEAM_0:0:7275072 domiNo STEAM_0:0:403536 beini STEAM_0:1:302044 NoloN STEAM_0:0:294157 SirDiesALot STEAM_0:0:10106898 Ylur STEAM_0:0:2665189 Gingi STEAM_0:0:7763726 Cisco STEAM_0:1:7314208 Krani STEAM_0:0:9813210 Gamli STEAM_0:1:1585356 Xibitionist STEAM_0:1:302379 Porthos STEAM_0:1:61956 Laura Ingalls STEAM_0:1:10349101 El Gringo STEAM_0:1:1585356 / STEAM_0:1:4587101 $now STEAM_0:0:6015262 Armann STEAM_0:0:14429401 G€bbarinn STEAM_0:1:15952605 Cujo STEAM_0:1:7221514 EinaRs STEAM_0:1:20627 Artic_Falk STEAM_0:0:3080405 #THULE# STEAM_0:1:14904327 Samlokan STEAM_0:0:7234167 Synd STEAM_0:1:15052533 Nozinan STEAM_0:1:14230179 #FAXE# STEAM_0:0:2884497 Qcore [4Q] - STEAM_0:0:943494 juni0o - STEAM_0:1:418753 Reynz1 - STEAM_0:1:15562792 tgchan - STEAM_0:1:13374468 Xz - STEAM_0:1:5652289 Quicksi - STEAM_0:1:9380217 DisturbedGaming Trixter - STEAM_0:0:19100445 MucHo - STEAM_0:0:18294829 Vert1cal - STEAM_0:0:8286743 JonziB - STEAM_0:0:12158861 marv1N - STEAM_0:1:19311092 Darrör - STEAM_0:0:14799787 Sky's the Limit - STEAM_0:0:7199843 Alamo - STEAM_0:0:16106572 nGamerz Eldjarn - STEAM_0:1:5007402 Chubby - STEAM_0:1:292176 kryto -STEAM_0:0:11762212 Joker - STEAM_0:1:15138074 Sindri.K - STEAM_0:0:6018341 zeN - STEAM_0:1:19725nGame&#1103;z^ -&#1178;iddZ- - STEAM_0:0:19118942 ThaDork - STEAM_0:1:16223326 sýra - STEAM_0:0:5377855 DJ Johnson Molocule - STEAM_0:1:1119749 perkele - STEAM_0:0:9538192 boombaztic - STEAM_0:1:404472 g00zfr4b4 - STEAM_0:1:6398342 Catalyst bj0ggi - STEAM_0:1:5901412 Acies - STEAM_0:0:1859434 NiDaime(bioboosted) - STEAM_0:0:13767675 Pisc3s - STEAM_0:0:2281367 sigfried - STEAM_0:1:6002323 CoLiMuS - STEAM_0:1:5883239 HeimirLinks - STEAM_0:1:498434 Fundum Ekkert Name DioX STEAM_0:1:16397814 duzky_- STEAM_0:0:17214105 alive STEAM_0:1:16079135 bleikinegrinn STEAM_0:1:9933502 Koddarúsína STEAM_0:0:8412355 Underestimated Gamers NýliðinN! - STEAM_0:0:13584708 Njoli - STEAM_0:1:18660937 lalli - STEAM_0:0:7055769 skAri - STEAM_0:0:19756236 betrayer - STEAM_0:1:18218813 Polaytnez - STEAM_0:0:5779006 Yoda - STEAM_0:1:15797227 nömmi - STEAM_0:1:17506644 EZ1 - STEAM_0:0:14242288 Custodians aids.- STEAM_0:1:11262815 trikey STEAM_0:1:16732524 FirM - STEAM_0:1:5367927 ceRiz! STEAM_0:0:17455208 kruzer STEAM_0:0:9637170 SliZeR STEAM_0:1:6006526 Team26 Dannoz - STEAM_0:1:13563844 Auddzh - STEAM_0:0:16870038 sMurker - STEAM_0:1:9313058 eXpert - STEAM_0:1:4452725 ofvirkur - STEAM_0:1:12831303 syi - STEAM_0:0:2146541 feimuzz - STEAM_0:0:6025133 Restlezz viktoRR/complex - STEAM_0:0:20877181 minimized - STEAM_0:1:13515149 lethal - STEAM_0:0:7748232 vermillion - STEAM_0:0:6163677 mancow - STEAM_0:1:6457865 Beggi/Ebony - STEAM_0:1:19427023 Chef-Jack - STEAM_0:0:1267088 inGibje - STEAM_0:0:8004977 prOview - STEAM_0:0:12208914 Grisli - STEAM_0:0:133994 Cruelconclusion IVAN - STEAM_0:0:20859907 GREATNESS - STEAM_0:1:6345462 CORTYZ - STEAM_0:1:10338634 CLVR - STEAM_0:1:2355980 MERCATOR - STEAM_0:0:7707299 GODMOTHER - STEAM_0:0:6018341 BOJA - STEAM_0:0:15561641 Þetta eru þau 16 lið sem munu taka þátt í 16 liða source móti. Hérna eru möpp og dagsetningar: 16 liða - 7.des De_Train 8 liða - 10. des De_Cpl_Mill 8 liða losers 14. des De_Tuscan 4 liða 18. des De_Nuke 4 liða losers 22. des De_Cbble úrslit De_Inferno 25. des úrslit losers 3. jan De_Dust 2 ÚRSLIT (1 sigur fyrir lið úr WB 2 sigrar fyrir lið úr LB) 7. jan Kemur í ljós :) Engin verðlaun því miður, enda engir styrktaraðilar né þátttökugjald þetta er bara uppá skemmtunina. Ég vill fá comment frá bestu, virtustu og reyndustu spilurum Íslands um hvernig þessi lið ættu að vera seeduð (1-16). #snidugt.onlinemot #sniper.is #snidugt.com @ irc --- Svör --- Höf.: news Dags.: 30. nóvember 2008 18:43:54 Atkvæði: 0 1. Team26 - Þeir eru búnir að spila lengi saman, stefna hátt og kunna allir inn á hvorn annan svo þeir spila sem einn maður. held að þeir eiga eftir að hafa yfirhöndina á mótinu. 2. Catalyst - Það verður spennandi að sjá hversu sterkir þeir koma inn, hvort Bjoggi hefur náð að stilla liðið og byggja upp gott team play eins og þeir höfðu hér áður fyrr, en það hefur orðið talsverðar breytingar í roosternum hjá þeim upp á síðkastið. 3. Custodians - Þetta er Blanda af team26 og öðrum reynslu miklum spilurum sem hafa mikla kunnáttu á leikinn, það verður gaman að fylgjast með þeim á mótinu. 4. Hamingja - Hérna erum við að tala Klassa spilara, sem hafa mikla reynslu af leiknum, en sumir hverjir hafa verið að snúa úr talsverði pásu, Trompið sem þeir hafa eru planerarnir hjá þeim, en þeir eru með bestu plönurum í source á landinu. 5. Cruelconclusion - Þetta er blanda af 1.6 og source spilurum sem hafa gífulega reynslu af leiknum, eiga eftir að koma mikið á óvart 6. nGamerz 7. Qcore 8. Knocked Out 9. DisturbedGaming 10. Restlezz 11. Underestimated Gamers 12. Several 13. GOM 14. waveGaming 15. dr Jhonsson 16. fundum ekkert name --- Höf.: ccivan Dags.: 30. nóvember 2008 19:23:58 Atkvæði: 0 Ait, það er btw john ekki jhon :D --- Höf.: BleikiNegrinn Dags.: 30. nóvember 2008 19:36:01 Atkvæði: 0 haha fundum ekkert name eru allof vanmetnir :Þ --- Höf.: Pesi90 Dags.: 30. nóvember 2008 19:40:26 Atkvæði: 0 hvað meinaru þetta er eitthvað pug sem safnaðist saman a huga sem er bara með noname spilurum (eða altnicks) hvað a að spa þeim i top10? --- Höf.: tr0x Dags.: 30. nóvember 2008 22:32:57 Atkvæði: 0 Fundum ekki name eiga allavegnaa eftirað koma óvart^^ Get allavegana lofað þér því að þeir eru ekki að fara að enda neðstir..Eins og flestallir spá þeim. ---
„Það má eiginlega segja að það séu tímamót á öllum vígstöðum,“ segir tónlistarkonan Edda Borg sem kemur fram á tónleikum á Café Rosenberg í kvöld klukkan 21 ásamt hljómsveit. Tónleikarnir eru hluti af Jazzhátíð Reykjavíkur og á þeim fylgir Edda eftir útgáfu sinnar fyrstu sólóplötu, No Words Needed, fyrr í sumar. Segja má að Edda sýni á sér nýja hlið á plötunni, en hún hefur lengi fengist við djasssöng. Því kom mörgum á óvart að á sólóplötunni syngur hún aðeins laglínur án orða í nokkrum lögum en hin lögin eru án söngs. Tónlistarkonan segir að tónlistinni á plötunni megi ef til vill líkja við það sem hljómsveitin Mezzoforte hefur fengist við, en gítarleikarinn Friðrik Karlsson úr Mezzoforte er einmitt meðlimur í sveitinni sem kemur fram með Eddu á tónleikunum. Auk tónleikanna á Rósenberg í kvöld kemur Edda fram með sveitinni í Iðnó á menningarnótt og þar verður frítt inn. Á níunda áratugnum gerði Edda garðinn frægan með hljómsveitinni Módel, sem sendi frá sér smelli á borð við Lífið er lag og Ástarbréf merkt X. Í þeirri sveit lék Edda á hljómborð sem hún hélt á og vakti athygli fyrir vikið. „Svona hljóðfæri eru stundum kölluð „keytar“, en ég hef líka heyrt að í bransanum hér á landi séu þau kölluð Eddu Borg-hljómborð,“ segir tónlistarkonan og hlær. „Fyrir ári sameinaðist fjölskyldan mín um að gefa mér svona hljómborð í afmælisgjöf. Dóttir mín gekk í það að leita svona hljómborð uppi á Ebay og svo var bara lagt í púkk og keypt. Ég hef ekki notað hljómborðið enn þá og er að hugsa um að geyma það þangað til Módel snýr aftur.“ Blaðamaður hváir, enda vitað að endurkoma Módels er mörgum tónlistarunnandanum ofarlega í huga. Edda útskýrir að skipuleggjendur tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður á Ísafirði hafi mikið reynt að fá Módel til að koma fram á hátíðinni á síðasta ári. „Það munaði litlu að það hefði tekist þá, en án gríns þá erum við alvarlega að spá í að koma með „kombakk“. Frissi [Friðrik Karlsson] er fluttur aftur til landsins og þannig opnast gluggi. Eiríkur Hauksson er búsettur í Noregi en hann er til, þegar rétta augnablikið gefst. Ég veit ekki hvort við myndum flytja nýtt efni því þetta er allt á umræðustiginu enn þá,“ segir Edda. Einnig eru tímamót í starfsemi Tónskóla Eddu Borg um þessar mundir því skólinn er að sigla inn í sitt 25. starfsár og útskrifar senn sinn fyrsta nemanda af framhaldsstigi. Þá er tónlistarkonan nánast tilbúin með aðra plötu þar sem hún syngur djassstandarda með bandaríska píanóleikaranum Don Randi, fyrrverandi hljómsveitarstjóra Frank Sinatra. „Það kemur í ljós hvenær sú plata kemur út, en ég tók hana upp um leið og ég vann að fyrstu sólóplötunni. Um leið og ég byrjaði var eins og opnaðist fyrir allt heila klabbið,“ segir Edda.
Talið var að sterkur grunur væri kominn fram um að X hefði framið manndráp og þótti verknaður sá, sem X var grunaður um, vera þess eðlis að gæsluvarðhald væri nausðynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Matthías Nurmannsson, John Hróðvarsson og Sigþór Bernódusson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. júní 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 3. júlí nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Hann krefst og kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur. Að virtum gögnum málsins er fallist á með sóknaraðila að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið afbrot, sem varðað getur við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot á því ákvæði getur varðað allt að ævilöngu fangelsi. Sá verknaður, sem varnaraðili er grunaður um, þykir þess eðlis að ætla má að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Oddný Anna Björnsdóttir er framkvæmdastjóri hjá Yggdrasil sem selur lífræna matvöru og í framkvæmdanefnd Samtaka lífrænna neytenda. Oddný birtir harða ádrepu á Sigurð Inga Jóhannsson landbúnaðarráðherra á Facebook síðu sinni – hún gagnrýnir framgöngu hans á fundi með stjórum frá Whole Foods verslanakeðjunni í Bandaríkjunum. Þetta er geysi stórt fyrirtæki með útibú um öll Bandaríkin. Líklegt er að möguleikar á útflutningi landbúnaðarvara frá Íslandi liggi ekki síst sviði lífrænnar framleiðslu sem hefur farið ört vaxandi. „Þessi maður! Ég sat fund sem Amerísk-íslenska viðskiptaráðið stóð fyrir um sjálfbæra matvælaframleiðslu og möguleg tækifæri hér á landi á því sviði í tilefni af því að stjórnendur Whole Foods Market voru hér á landi. Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra átti að ávarpa fundinn og fara yfir stefnu stjórnvalda á sviði lífrænnar ræktunar og velta upp þeim möguleikum sem fyrir hendi eru í framtíðinni, bæði fyrir framleiðendur og neytendur. Skemmst er frá því að segja að hann gerði ekkert af þessu – sagði ekki orð um þetta heldur bullaði bara eitthvað og sagði sögu af bóndakonu sem hefði boðið fólki í mat og allt hráefnið hefði verið ræktað á staðnum og talaði m.a. mikið um (villta) sveppi sem hún hefði fengið úr garðinum hjá sér og notað í máltíðina. Sögunni og erindinu lauk með þeim orðum að hann efaðist um að slíkur sjálfsþurftarbúskapur gæti fætt þjóðina. Hann líkti sem sagt sjálfsþurftarbúskap og tínslu villtra jurta til eigin nota við lífræna ræktun og framtíð hennar á Íslandi. Ég efast um að maðurinn hafi nokkra hugmynd um hvað lífrænn búskapur eða lífræn matvæli eru og hann hefur sannarlega engan áhuga á að kynna sér það. Þess ber að geta að hann gekk út af fundi strax eftir opnunarerindið sitt enda hafði hann engan áhuga á að hlusta á erindi um þróun viðskipta með landbúnaðarafurðir milli Íslands og Bandaríkjanna, erindi um hvernig gengi að reka lífræna verslun hér á landi eða erindi erlendu gestanna frá Whole Foods. Það er stórslys að þessi maður sé landbúnaðar-, sjávarútvegs- og umhverfisráðherra okkar. Enda sagði framkvæmdastjóri Whole Foods við mig að hún væri undrandi á því hve skammt á veg við værum komin í þessum málum og hve lítið framboð væri af þessum vörum hér á landi. Ég sagðist vera henni hjartanlega sammála – þetta væri til háborinnar skammar.“
Rúm 60 prósent áætlunarferða Herjólfs í Landeyjahöfn hafa fallið niður í september og októbermánuði. Höfnin hefur nú verið lokuð í rúmar þrjár vikur samfellt. Yfir 140 ferðum í Landeyjahöfn hefur verið aflýst það sem af september og októbermánuði samkvæmt upplýsingum frá Eimskip. Aðeins hluti þessara ferða hefur verið beint til Þorlákshafnar. Höfnin hefur nú verið lokuð í rúmar þrjár vikur samfellt. Ekki er vitað hvenær hægt verður að hefja siglingar Herjólfs aftur í Landeyjahöfn. Sanddæluskip átti að hefja dýpkun í dag en ölduhæð á svæðinu hefur hingað til verið of mikil til að skipið geti athafnað sig. Í nýju frumvarpi til fjáraukalaga er lagt til að verja aukalega 350 milljónum króna í framkvæmdir við höfnina. Þar af fara um 180 milljónir króna í sanddælingu á svæðinu. Það er ríflega sjöföld sú upphæð sem upphaflega var reiknað með að dýpkunin kostaði á ári. Dönsk verkfræðistofa mælti með ítarlegri athugunum á sandburði en Siglingastofnun taldi næga rannsóknir liggja fyrir. Frekari erfiðleikar steðja að rekstri Landeyjahafnar. Vinnueftirlitið gerði nú í október, athugasemdir við öryggi við landgang hafnarinnar. Samkvæmt mati eftirlitsins uppfyllir hann ekki þær öryggiskröfur sem gerðar eru til slíkra mannvirkja. Þar sem höfnin er ekki í notkun hefur eftirlitið ekki tekið afstöðu til þess hvort loka þurfi landganginum. Það kemur í ljós þegar höfnin verður aftur tekin í notkun. www.ruv.is greindi frá.
Á fjögurra ára fresti fáum við kjósendur að velja milli pakka af loforðum. Samfylkingin býður upp á pakka, einnig Sjálfstæðisflokkurinn, o.s.frv. Valið er yfirleitt erfitt því enginn pakkanna er algerlega eftir okkar höfði og allir innihalda þeir eitthvað sem við kærum okkur ekkert um. Ekki nóg með það heldur höfum við enga tryggingu fyrir því að loforðin í pakkanum okkar verði efnd þótt okkar pakki/stjórnmálaflokkur verði ofan á í kosningum. Líklegast eru sérhagsmunahópar ein helsta ástæða þess að í pökkunum eru bæði óæskileg loforð og að erfitt reynist fyrir stjórnmálaflokkana að efna sum loforðanna, sem þó eru í pökkunum. Því verðmætari sem sérhagsmunir eru, því meiri er hvatinn fyrir sérhagsmunahóp að beita sér í stjórnmálum. Það getur hann gert með því að nota arðinn af sérhagsmununum t.d. til að fjármagna stjórnmálaflokka, fjölmiðla eða hagsmunasamtök. Það er ekkert séríslenskt fyrirbæri. Þannig hafa áhrif eins sérhagsmunahópsins, Bændasamtakanna, leitt til þess að 70% íslenskra þingmanna vilja leggja hærri fjársektir við framleiðslu mjólkur utan kvóta (og án ríkisaðstoðar) heldur en við ræktun kannabis. Vegna áhrifa annars sérhagsmunahópsins, LÍÚ, er tæplega meirihluti fyrir því á Alþingi að þjóðin njóti arðs helstu auðlindar sinnar þótt 80%-90% þjóðarinnar vilji það. Nýja stjórnarskráin tekur á þessu vandamáli. Hún veitir ákveðnu hlutfalli kjósenda tækifæri til að velja tiltekið málefni, leggja það fyrir Alþingi og í kjölfarið, ákveða örlög þess í þjóðaratkvæðagreiðslu. Alveg óháð afstöðu og áhuga einstakra stjórnmálaflokka á málinu. Nýja stjórnarskráin er því stærsta atlagan sem nokkurn tímann hefur verið gerð að sérhagsmunum á Íslandi. Stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna ættu því að fylgjast sérstaklega vel með afdrifum stjórnarskrárinnar á Alþingi. Þar ræður meirihlutinn og getur komið málum í gegn ef vilji er til þess, því einfalt er að stöðva málþóf. Ef nýja stjórnarskráin kemst ekki, svo til efnislega óbreytt, gegnum Alþingi er það vegna þess að meirihluti þingmanna vill ekki stemma stigu við sérhagsmunum. Til þess þurfa einhverjir stjórnarþingmenn að svíkja kjósendur sína, og við því getum við brugðist í næstu kosningum.
Breski auðmaðurinn Philip Green er sagður hafa hækkað tilboð sitt í skuldir Baugs. Daily Mail hefur það eftir Green að svara verði tilboði hans innan tveggja sólarhringa annars verði ekkert af kaupnunum. Allar búðir Baugs í Bretlandi eru opnar í dag. Fullyrt er í Daily Mail að Green muni eiga fund með Gunnari Sigurðssyni, forstjóra Baugs, í dag til að fara yfir málið. Ekki náðist í Gunnar til að staðfesta það. Skuldirnar sem um ræðir standa á bak við tæplega 30 prósenta hlut í Moss Bros, 20 prósenta hlut í French Connection og 7 prósenta hlut í Debenhams. Auk þessara hluta telur eignasafn Baugs í Bretlandi stórverslanirnar House of Fraiser og Hamleys og hlut í matvörukeðjunni Iceland. Eins og fram kom í fréttum okkar í gær er talið nær útilokað að gengið verði að tilboði Green. Heimildir fréttastofu herma að fyrsta tilboð Greens hafi hljóðað upp á tæplega 10 prósent af heildarvirði skulda Baugs í íslensku bönkunum. Hann hafi hinsvegar hækkað tilboð sitt um þriðjung. Innlendir og erlendir lánadrottnar eru ekki sagðir geta unað við það að Green eignist Baug á brunaútsölu og því sé unnið að því að koma í veg fyrir það að verðmætin sem íslensku bankarnir liggja á gufi upp. Finnur Sveinbjörnsson, í skilanefnd Kaupþings, vildi ekki staðfesta að Green hafi sett tímaramma á tilboð sitt. Hermt hafði verið að búðir fyrirtækja Baugs yrðu lokaðar í dag en það reyndist rangt. Allar búðir Baugs í Bretlandi eru opnar í dag.
Tónlistarkonan Ragga Holm, eða Ragnhildur Holm, opnar í dag nýjan skemmtistað og bar að Hafnarstræti 4 í miðbæ Reykjavíkur. Staðurinn heitir Curious. „Það verður skemmtistaður, eða klúbbur, á efri hæðinni, og svo vegan kaffihús og bar á neðri hæðinni,“ segir Ragnhildur í samtali við Fréttablaðið. Hún segir að staðurinn flokkist sem queer, eða hinsegin staður, en sé vinveittur gagnkynhneigðum. Spurð hvort það hafi vantað fleiri slíka staði í Reykjavík segir Ragnhildur að það hafi verið mikil vöntun á meiri flóru. Fyrir er aðeins einn queer, eða hinsegin staður, Kiki. Þá fara oft fram hinsegin viðburðir á bæði Loft Hostel og Gauknum. „Þetta er viðbót við flóruna. Það vantaði alveg svakalega. Það hefur verið mikil eftirspurn og það eru allir rosalega ánægðir með að þetta sé að bætast við,“ segir Ragnhildur. Staðurinn verður til húsa að Hafnarstræti 4 í 101 Reykjavík. Fréttablaðið/Valli Fjölbreytt dagskrá Spurð út í tónlistarstefnu klúbbsins segir hún að það megi búast við ákveðnum kjarna um helgar, en að svo verði fjölbreytt dagskrá aðra daga, svo sem bingó, drag og karókí. „Það verða DJ-ar á föstudögum og laugardögum og opið til hálf fimm. Það verður popp og tónlist sem allir þekkja, en svo önnur kvöld verður sérvalin dagskrá,“ segir Ragnhildur. Opna veitingastað eftir tvo mánuði Hún segir að enn eigi svo eftir að bætast við, því vonandi eftir tvo mánuði, mun á staðnum opna veitingastaður. Hún segist ekki geta sagt hvaða veitingastaður það er, en segir að hann sé nú þegar að finna annars staðar. „Þó að við séum að opna núna eru því enn spennandi tímar fram undan,“ segir Ragnhildur. Staðurinn verður formlega opnaður í kvöld og hefst klukkan 19. Svala Björgvins mun flytja nokkur lög og svo mun DJ Sura taka við af henni og spila tónlist til lokunar. „Það verða fríar veitingar og fljótandi með. Við opnun klukkan 19 og vonumst til að sjá sem flesta,“ segir Ragnhildur að lokum.
Sólveig Anna Jónsdóttir er maður ársins 2018 að mati fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar fyrir óvænta, einarða og hvassa verkalýðsbaráttu. Á árinu bauð hún sig fram sem óbreyttur félagsmaður til formennsku í næst fjölmennasta verkalýðsfélagi landsins, Eflingu, og hlaut yfirburðakosningu. Róttæk framganga hennar hefur vakið þjóðarathygli og ósveigjanleg kröfugerð, sem hún talar fyrir, getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir lífskjör þorra landsmanna. Sólveig mætti í Kryddsíldina og sagðist mjög upp með sér að hafa verið valin og hún tæki heiðrinum alvarlega. Sem formaður Eflingar sagði Sólveig að laun hinna lægst settu í íslensku samfélagi væru skelfilega lág. Nefndi hún sérstaklega laun leikskólakennara og sagðist hafa mikla reynslu þaðan. Ómögulegt væri að lifa á slíkum launum. Varðandi kjarabaráttuna sem stendur nú yfir sagði Sólveig að allir hljóti að sjá að þörf sé á að hækka lágmarkslaun og að krafa Eflingar um 425 þúsund króna lágmarkslaun, í lok samningstímabilsins, væri ófrávíkjanleg. „Við munum að sjálfsögðu berjast fyrir því að vinna fullnaðarsigur í þeirri baráttu,“ sagði Sólveig. Hún sagði mögulegt að ekki væri mjög langt í aðgerðir eins og verkföll. Sólveig var spurð að því hvernig hennar fyrirmyndarríki. „Mitt fyrirmyndarsamfélag væri samfélag réttlætis og jöfnuðar, þar sem allt fólk fengi að blómstra og rækta hæfileika sína og að fólk þyrfti ekki að lifa með skugga efnahagslegrar óvissu yfir sér. Ég held að slíkt samfélag sé besta mögulega samfélagið.“ Hún beindi orðum sínum einnig að forystufólki stjórnmálaflokka á Alþingi, sem einnig voru í salnum og spurði þau hvort þau treystu sér til að lifa á lægstu launum landsins. Hvort þau treystu sér til að tryggja efnahagslegt öryggis sitt og fjölskyldu þeirra á „þeim smánarlegu launum“ sem mörgum sé greitt. „Mig langar jafnframt að spyrja þau hvort þau sjái sér ekki fært að stíga fram og styðja við kröfuna okkar um 425 þúsund króna lágmarkslaun til handa þeirra sem hér vinna á lægstu laununum. Hvort við getum ekki sameinast í því í þessu ríka landi, sem vill kenna sig við lýðræði og mannréttindi, að tryggja öllum sem hér lifa og starfa efnahagslegt réttlæti og sanngirni?“
Líf Magneudóttir, formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, skrifar ádrepu á Facebooksíðu sína þar sem hún meðal annar beinir spjótum sínum að fjölmiðlum og skammar þá fyrir að veita orðum og sjónarmiðum manna á borð við Ásmund Friðriksson þingmann og Jón Magnússon lögmann og fyrrum alþingismann eftirtekt, en þá segir hún ekki málsmetandi í samfélaginu heldur fordómafulla karla og rasista í þokkabót. Fjölmiðlar eiga að sniðganga fordómafulla karla „Í heimi þar sem sífelld meiri áhersla er lögð á einstaklingshyggju frekar en samkennd og hluttekningu, markaðshyggju og samkeppni frekar en sjálfbærni og jöfnuð og þjóðernisrembu frekar en fjölhyggju og lýðræðislegt margmenningarsamfélag, kemur mér ekkert á óvart að samúðarlausir rasistar fá að vaða uppi í gagnrýnislausum fjölmiðlum til að básúna fordóma sína og ýta undir rakalausan ótta fólks,“ skrifar Líf. Innlegg hennar er beint inn í hatramma umræðu um innflytjendamál en Ásmundur hefur tjáð sig og meðal annars sagt að hann skynji ótta meðal eldra fólksvegna innflytjenda og Jón Magnússon hefur verið virkur í að gagnrýna það sem hann telur andvaraleysi í innflytjendamálum, meðal annars á Facebooksíðu sinni sem og bloggsíðu auk þess sem hann hefur átalið samþykktí borgarráði um að setja viðskiptabann á Ísrael. Fjölmiðlar hafa fjallað um málið, svo sem Eyjan hér. Fordómafullir karlar og rasistar En, áfram heldur Líf með pistil sinn, sem virðist fjalla í kramið meðal fjölmargra, nú þegar en innan við klukkustund er frá birtingu hans: „En svona á þetta ekki að vera. Við eigum ekki að gefa körlum eins og Ásmundi Friðrikssyni og Jóni Magnússyni svona mikið rými hjá fjórða valdinu til þess að kynda undir vitleysu og rangfærslur. Af hverju hafa þessir karlar svona greiðan aðgang að fjölmiðlum umfram annað fólk sem raunverulega hefur eitthvað til málanna að leggja í umræðu um flóttafólk, fólksflutninga og mannréttindabrot ríkja? Þessir karlar eru ekki málsmetandi menn í samfélaginu. Þetta eru fordómafullir karlar sem hafa ekkert til málanna að leggja og engar lausnir. Þeim er frjálst að tjá sig en það má líka benda þeim á að þó hér sé tjáningarfrelsi þá ber þeim engin skylda til þess. Ég held að samfélagið væri betra ef við þyrftum ekki að hlusta á rasískan og fyrirlitlegan boðskap þeirra. Ég er a.m.k. búin að fá nóg af þeim og öðrum rasistum sem mæla bara heiminn út frá sjálfum sér.“
Formaður Félags fasteignasala telur skerta starfsemi sýslumanns ein af ástæðum þess að fasteignasala dróst saman um 54 prósent í apríl. Hann er fremur bjartsýnn á komandi tíma í fasteignasölu og telur kórónaveiruna ekki eiga eftir að hafa mikil áhrif á fasteignaverð. Alls voru 282 kaupsamningar um fasteignir þinglýstir á höfuðborgarsvæðinu í apríl samkvæmt tölum frá Þjóðskrá. Í mars voru þeir 612 og fækkaði því kaupsamningum um 53,9 prósent milli mánaða. Formaður Félags fasteignasala telur nokkrar ástæður fyrir því. Kjartan Hallgeirsson, formaður Félags fasteignasala: Ég tel nú reyndar að þessar tölur séu hugsanlega kannski ekki alveg réttar. Það sem gerðist í byrjun apríl er að sýslumaður dró verulega úr starfsemi sinni og það hefur tekið mun lengri tíma að þinglýsa gögnum, þar á meðal kaupsamningum. Þannig ég tel að þeir samningar sem þarna voru séu ekki allir komnir í gegn þannig að ég held að 54 prósent sé nú aðeins hærri tala heldur en raun gerst sko, ég tel þetta nú vera minni samdrátt en að sjálfsögðu hefur Covid áhrif á markaðinn einsog á aðra markaði Samfélagið dró sig í híði þegar kórónaveiru faraldurinn lagðist yfir landið. Kjartan Hallgeirsson: Það sem að gerðist þegar þetta Covid dæmi byrjaði er að þá misstum við auðvitað þau tæki og tól sem við höfum til að vinna við. Menn hættu í opnum húsum og það dró verulega úr sýningum. Síðan er alveg ljóst að þessi eldri hópur sem er stór kúnnahópur á markaðnum. Hann dró sig alveg til baka eða mjög mikið, þannig við hvorki vorum að sýna eldra fólki húsnæði, né heldur að sýna heima hjá því. Birgir Olgeirsson: Mun þetta hafa einhver áhrif á fasteignaverð heldurðu það? Kjartan Hallgeirsson: Það er ekki að merkja það að þetta hafi haft áhrif á fasteignaverð. Allavega enn sem komið er. Ég er ekki viss um að það geri það. Ekki svona ef við náum að reisa okkur á fætur með nokkri reisn
Nokkrir notendur vefsins Redditráku upp stór augu þegar Íslendingur auglýsti þar eftir saursýni úr heilbrigðum einstaklingi svo hann geti náð heilsu á ný. Ef sýnið fæst yrði það hreinsað og góðir saurgerlar teknir úr því og settir í veika einstaklinginn og er því um nokkurskonar saurgjöf að ræða. Í rauninni snýst þessi meðferð um að koma jafnvægi á þarmaflóru sjúklingsins, þar sem fer fram barátta góðu og slæmu gerlanna á hverjum degi. Þessi meðferð á sér langa hefð en hefur verið töluvert í umræðunni undanfarin ár. „Þetta er hluti af dæmi þar sem athyglin hefur verið á okkar eigin bakteríur og heilbrigða gerla í flórunni, að þarma flóran hafi mikið vægi í sambandi við allt í líkamsstarfseminni. Inngrip eins og sýklalyf geta truflað þetta mikið,“ segir heimilislæknirinn Vilhjálmur Ari Arason í samtali við Vísi um málið. Hann segir Bandaríkjamenn framleiða lyf í töfluformi sem inniheldur þessa saurgerla sem eru líkamanum nauðsynlegir. „Ástralir hafa verið að reyna þetta núna í nokkur ár að koma þarmaflórunni í gang með svona gjöfum,“ segir Vilhjálmur Ari en segir að þá sé yfirleitt litið til fjölskyldumeðlima sem lifa svipuðu lífi. „Það hefur verið óskað eftir að einhver fjölskyldumeðlimur gæfi frekar heldur en einhver ókunnugur því þá er líkur á því að annað komi með. Þannig að þetta er mjög vandmeðfarið og ekki þannig að menn geti auglýst eftir þessu beint, þetta fer í gegnum ákveðinn lækni sem er þá búinn að gera ákveðnar rannsóknir um að það þurfi virkilega,“ segir Vilhjálmur Ari en Íslendingurinn sem auglýsir eftir saurgjöf á Reddit tekur fram að enginn af hans nánustu ættingjum eða vinum passi við hann. Vilhjálmur Ari segir svona saurgjafir eiga sér langa hefð og bendir á að Afríkubúar hafi notað ekki ósvipaða aðferð til að koma sér í gang eftir slæma pest. Notuðust þeir við saur úr dýrum og aðalmarkmiðið með því að fá heilbrigða þarmaflóru. „Þetta er alltaf barátta á milli slæmu og góðu gerlanna, það þarf að vera jafnvægi þar á. Þegar við tökum lyf eða förum í erfiða læknismeðferð með sýklalyfjum þá erum við kannski búin að rústa stórum hluta af þessu sem er að verja okkur.“
Samkomulag hefur náðst í deilu Isavia ANS og flugumferðarstjóra vegna skerðingar á vinnu og launum flugumferðarstjóra. Isavia ANS, dótturfélag Isavia, sem sinnir alþjóðaflugi á Norður-Atlantshafi sagði í maí upp hundrað flugumferðarstjórum og réð þá aftur í 75% starf. Þetta var gert þar sem flugumferð var aðeins 10-20% af því sem hún var í fyrra, vegna COVID, með tilheyrandi tekjuskerðingu. Flugumferðarstjórar töldu að Isavia hefði ekki virt kjarasamningsbundin ákvæði, meðal annars með tilliti til starfsaldurs hjá Isavia, óháð vinnustað. En nú hefur náðst samkomulag. „Það felst í samkomulaginu að þær uppsagnir sem voru framkvæmdar í maí af hálfu Isavia ANS eru dregnar til baka og félagsmenn FÍF hjá Isavia ANS taka á sig skerðingar til að koma til móts við þá lausafjárþörf sem var uppi,“ segir Arnar Hjálmsson formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Hann segir að þessi niðurstaða sé skárri en sú sem flugumferðarstjórar stóðu frammi fyrir. „Það er minni óvissa fyrir okkar félagsmenn í þessu samkomulagi heldur en hinni leiðinni sem átti að fara. Þannig að að okkar mati var þetta illskársta niðurstaðan.“ Samkomulagið gildir til áramóta. Að sögn Arnars var það samþykkt með um 70% atkvæða, þar sem um hundrað af hundrað og fimmtíu félagsmönnum greiddu atkvæði. „Eftir áramót förum við bara aftur inn á þau kjör sem voru í gildi áður en samkomulagið var gert.“ 100% starf? „Já, við erum raunar áfram í 100% starfi, ráðningarsambandið er óbreytt, ráðningarhlutfall félagsmanna er óbreytt og það verður áfram. En við förum aftur í óbreyttan vinnutíma og óbreytt laun.“
Verulegar gróðurskemmdir hafa orðið í friðlandinu að Fjallabaki í vor vegna utanvegaaksturs þótt leiðin sé enn kirfilega merkt "Lokuð allri umferð". Ár og jafnvel áratugi getur tekið að græða upp sum sárin. Fjallabak er svæði á svo nefndum rauðum lista Umhverfisstofnunar yfir mjög viðkvæm svæði. En hvernig lýsa þessar skemmdir sér? Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun: Þær lýsa sér aðallega í, sko, hjólförum sem hafa myndast eftir akstur bifreiða utan vega og þetta eru skemmdir á grónu landi. Gissur Sigurðsson: Eru dæmi um óafturkræfar skemmdir? Ólafur A. Jónsson: Þessar skemmdir sem við höfum séð þarna eru margar hverjar skemmdir sem tekur ár ef ekki áratugi að jafna sig ef ekki er farið í sérstakar aðgerðir til þess að lagfæra þær. Gissur: Hver á að fara í þær aðgerðir? Ólafur A. Jónsson: Það eru aðgerðir sem að við höfum gripið til með okkar starfsmönnum, okkar vertökum sem að við fáum til þess að lagfæra þær og þetta eru kostnaðarsamar aðgerðir og eru þá kostaðar af Umhverfisstofnun. Gissur: Hleypur þetta á háum upphæðum? Ólafur A. Jónsson: Þetta geta verið mjög tímafrekar aðgerðir þannig að það geta verið kostnaðarsamar aðgerðir í ljósi þess að það þarf töluverðan tíma til þess að vinna í þessu, þetta gæti tekið jafnvel margar vikur að lagfæra þetta. Gissur: Hafa komið upp hugmyndir um að vakta þetta jafnvel í sjálfboðavinnu náttúruverndarfólks? Ólafur A. Jónsson: Ég hef nú ekki heyrt af því, við erum að vakta þetta bara með okkar starfsfólki og þetta náttúrulega bara tekur tíma frá öðrum störfum en við erum að fylgjast með náttúrulega þessum akstri og það eru starfsmenn á okkar vegum á þessu svæði en þeir geta ekki verið alls staðar, þess vegna höfum við verið að biðla til fólks um að aðstoða okkur í því að hafa augun opin.
Chris Waddle, knattspyrnusérfræðingur á BBC Radio 5, segir að Liverpool komist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar svo framarlega sem liðið sleppi við það að dragast á móti Real Madrid í undanúrslitunum. Real Madrid er reyndar ekki komið í undanúrslitin en eftir 3-0 útisigur á Juventus í fyrri leiknum þá eru allar líkur á því að spænska liðið fari áfram í kvöld. Sömu sögu er að segja að Bayern München sem vann 2-1 útisigur á Sevilla í fyrri leiknum. Bæjarar ættu því líka að tryggja sig áfram í kvöld en þar er þó mun meiri spenna. Chris Waddle segir í pistli sínum á BBC að Liverpool óttist ekkert lið í keppninni eftir þennan magnaða 5-1 sigur á verðandi Englandsmeisturum Manchester City. „Ég held samt að þeir vildu helst forðast það að mæta Real Madrid. Að mínu mati, eftir þennan 5-1 sigur á Manchester City, þá held ég að Liverpool liðið sé nú næstsigurstranglegasta liðið í Meistaradeildinni,“ skrifaði Chris Waddle. „Real Madrid hefur gert þetta áður og vita hvað þarf til að vinna Meistaradeildina. Það mun gefa líka þeim eitthvað aukalega að sjá Barcelona detta úr keppni og vita það nú að líkurnar hafi aukist á því að þeim takist að vinna þriðja árið í röð,“ skrifaði Waddle. „Liverpool getur unnið Real Madrid í einum leik en það verður mun erfiðara fyrir Liverpool að klára þá í tveimur leikjum. Ég vona að Liverpool dragist á móti öðru af hinum liðunum,“ sagði Waddle. „Miðað við það sem ég hef séð af liðunum þá tel ég að það væri góður dráttur fyrir Liverpool að lenda á móti annaðhvort Roma eða Bayern München. Roma hefur komið mjög á óvart með því að slá út Barcelona en ef við hofum raunsætt á þetta þá eru þeir ekki frábært lið heldur aðeins gott lið sem er í frábæru formi,“ skrifaði Waddle. „Bayern á enn eftir að vinna seinni leikinn á móti Sevilla og þetta er ekki í höfn hjá þeim. Sevilla fór illa með mörg færi í fyrri leiknum og Bæjarar refsuðu þeim. Bayern er samt ekki sama liðið og þeir voru fyrir tveimur til þremur árum,“ sagði Waddle. Það má lesa allan pistil hans og frekari greiningu á spilamennsku Liverpool liðsins með því að smella hér.
Arnar Þór Gíslason spilar með fimm hljómsveitum á Iceland Airwavs-hátíðinni, þar á meðal rokkurunum í Ham í fyrsta sinn. „Þetta er stórkostleg upplifun að spila með þessum herramönnum,“ segir Arnar Þór. Hann mun lemja húðirnar í fjarveru nafna síns Arnars Geirs Ómarssonar, sem er með gigt og þarf því að hafa hægt um sig. Arnar Geir ætlar að einbeita sér að spilamennsku með Apparat á hátíðinni en sú sveit er töluvert rólegri en Ham. „Þetta er svo hátt hjá strákunum og það verður að lemja svo fast að gigtin fer alveg með hann, þannig að ég létti undir með honum,“ segir Arnar Þór og er hvergi banginn við verkefnið. „Ég ætla að gera mitt allra besta.“ Hann hefur verið aðdáandi Ham lengi og því er ákveðinn draumur að rætast hjá honum. „Þetta er geðveikt band.“ Fjöldi annarra verkefna eru fram undan hjá Arnari á Airwaves því á undan Ham-tónleikunum spilar hann með Ensími og þar áður með tengdaföður sínum Rúnari Þórissyni. „Þetta verður magnað kvöld. Það verður nóg að gera.“ Ofan á þessi gigg bætast tónleikar með eiginkonu hans Láru Rúnarsdóttur og Mugison. Arnar er einnig meðlimur Dr. Spock en sú sveit verður reyndar ekki með á Airwaves í ár. „Ég hef alltaf spilað með slatta af hljómsveitum á Airwaves. Þetta hefur oft staðið tæpt og ég hef oft þurft að hlaupa á milli staða en það er bara gaman að því.“ - fb
Breiðablik var sigursælast félaga á karatemóti alþjóðlegu Reykjavíkurleikanna sem haldið var í dag í Víkinni en þetta er í fyrsta sinn sem keppt er í karate á Reykjavíkurleikunum. Keppt var í þremur aldursflokkum; cadet 14-15 ára, junior 16-17 ára og í fullorðinsflokki 18-20 ára. Víkingur varð í öðru sæti yfir árangur félaga og Fylkir í því þriðja. Að móti loknu völdu dómarar tvo einstaklinga sem að þeirra mati skáru fram úr með frammistöðu sinni á mótinu og voru það Edda Kristín Óttarsdóttir úr Fylki og Davíð Freyr Guðjónsson úr Breiðabliki sem hlutu þá viðurkenningu. Úrslit allra flokka á mótinu í dag: Kata cadet kvenna 1. Katrín Kristinsdóttir, Breiðablik 2. Díana Katrín Þorsteinsdóttir, Víkingur 3. Sigríður Þórdís Pétursdóttir, Fjölnir 3. María Orradóttir, Breiðablik Kata cadet Karla 1. Aron Breki Heiðarsson, Breiðablik 2. Hlynur Bjarnason, Breiðablik Kumite cadet kvenna 1. Edda Kristín Óttarsdóttir, Fylkir 2. Katrín Ingunn Björnsdóttir, Fylkir 3. Aníta Einarsdóttir, Breiðablik 3. Isabella Montazeri, Víkingur Kumite cadet karla 1. Ólafur Engilbert Árnason, Fylkir 2. Björn Ari Örvarsson, Haukar 3. Máni karl Guðmundsson, Fylkir Kata Junior karla 1. Davíð Freyr Guðjónsson, Breiðablik 2. Heiðar Benediktsson, Breiðablik 3. Sverrir Ólafur Torfason, Víkingur Kumite junior -68kg karla 1. Sindri Pétursson, Víkingur 2. Magnús Valur Willemsson, Fjölnir Kumite junior +68kg karla 1. Sverrir Ólafur Torfason, Víkingur 2. Davíð Freyr Guðjónsson, Breiðablik Kata kvenna 1. Svana Katla Þorsteinsdóttir, Breiðablik 2. Kristín Magnúsdóttir, Breiðablik Kumite kvenna 1. Ingibjörg Halldórsdóttir, KFR Kata karla 1. Elías Snorrason, KFR 2. Birkir Indriðason, Breiðablik 3. Kristján Helgi Carrasco, Víkingur Kumite karla 1. Kristján Helgi Carrasco, Víkingur 2. Pétur Rafn Bryde, Víkingur 3. Jóhannes Gauti Óttarsson, Fylkir 3. Elías Snorrason, KFR
„Ég hef tilkynnt valnefnd vegna uppstillingar á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi að ég gefi ekki kost á mér að þessu sinni,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra. „Frá því ég gerði hlé á framhaldsnámi mínu erlendis árið 1999 til að taka þátt í stofnun nýrrar hreyfingar jafnaðarmanna hef ég gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir hreyfinguna, m.a setið á þingi og í ríkisstjórn, og allt til þessa dags verið virkur í grasrót flokksins,“ segir Björgvin í tilkynningu sem hann sendi frá sér í kvöld. „Verkefnin á vettvangi stjórnmálanna voru oft stríð og erfið, en alltaf gefandi. Hrunið tók á persónulega og pólitískt, en það voru forréttindi að starfa að stjórnmálum á erfiðustu tímum lýðveldisins, m.a. að taka þátt í gerð og setningu neyðarlaganna sem flestir eru nú sammála um að hafi verið sá tímapunktur þegar vörn var snúið í sókn í fjármálahruninu.“ Björgvin hefur undanfarið stundað framhaldsnám við Háskóla Íslands sem hann hyggst nú ljúka næsta vor, samhliða því að sinna ritstörfum, ritstjórn og uppbyggingu fjölskyldufyrirtækisins á Suðurlandi. „Ég mun áfram starfa heils hugar að framgangi jafnaðarstefnunnar og efast ekki um að hreyfingin nái vopnum sínum þegar fram liða stundir. Þeim fjölmörgu sem hvöttu mig til framboðs þakka ég stuðning og vináttu og hlakka til samstarfs síðar meir,“ segir Björgvin ennfremur.
Sigurður Kristófer Pétursson (9. júlí 1882 – 19. ágúst 1925) var sjálfmenntaður fræðimaður og þýðandi, en hann þýddi t.d. "Hávamál Indíalands: Bhagavad-Gíta". Hann var mikill málamaður, las norðurlandamálin öll, og talaði og ritaði dönsku. Ensku og þýsku nam hann svo vel að hann gat lesið vísindarit á þeim málum, og talaði esperanto og orti á því máli. Sigurður Kristófer er þekktastur fyrir bók sína: "Hrynjandi íslenskrar tungu," en hún útskýrir með mjög sérstökum hætti hvernig skrifa má fallegra óbundið íslenskt mál. Sigurður Nordal las handritið yfir og benti á margt sem betur mátti fara. Þegar Sigurður Kristófer var 14 vetra varð hann holdsveikur. Tveimur vetrum síðar, árið 1898, tók Laugarnesspítali til starfa. Fékk hann þá vist þar og var hann einn af fyrstu sjúklingum sem þangað fluttust. Dvaldist hann þar til dauðadags. Sjúkdómur hans var hin svonefnda "slétta holdsveiki". Ekki varð séð að hún ágerðist hið minnsta seinni árin. Það sem mest þjáði hann var meltingarsjúkdómur, en ekki holdsveiki. Sjúkdómur þessi ágerðist meir og meir, þar til hann var skorinn upp haustið 1923. Batnaði þá nokkuð um hríð, en síðan sótti í sama horf. Síðasta haust sitt var hann sárlasinn. Vann hann þá sem ákafast að bók sinni "Hrynjandi íslenskrar tungu", og undi sér engrar hvíldar. Sumir töldu að Sigurður ætti skilið doktorsnafnbót fyrir kenningu sína en hann svaraði því til að sér nægði sá titill, sem ekki yrði af sér tekinn: "Sjúklingur í Laugarnesspítala".
Ungt par missti allt sitt í stórbruna við Grettisgötu í Reykjavík í gærkvöld. Lögregla vill ná tali af tveimur mönnum í tengslum við brunann. Lögreglu barst tilkynning um mikinn eld í iðnaðarhúsnæði við Grettisgötu 87 klukkan rúmlega 8 í gærkvöldi. Strax var ljóst að þetta var stórbruni og var allt tiltækt lið lögreglu og slökkviliðs kallað á vettvang. Svo mikill hiti var í bálinu að stálbitar í þakinu bognuðu. Eldurinn var slökktur á fjórða tímanum í nótt. Húsið er mjög illa farið ef ekki gjörónýtt enda var eldurinn mjög mikill. Reykurinn stóð hér yfir þetta hús sem er við Snorrabraut 35 og var íbúum þess gert að rýma. Einar Erlendsson, íbúi við Snorrabraut 35: Já, já. Þeir komu hérna frá lögreglunni og báðu okkur að fara út. Jóhann Bjarni Kolbeinsson: Var mikill reykur hérna? Einar Erlendsson: Já, alveg kolsvartur og sterk lykt og mjög, mjög svart sko. Helgi Torfason, íbúi við Snorrabraut 35: Það er bara leiðinlegt að lenda í þessu. Maður var, endaði svona á vergangi bara í miðbænum í nótt sko. En það voru rútur sem að fóru með fólk á farfuglaheimili en við misstum af þeim sko, þú veist, af því að við vorum annars staðar á meðan. Þannig að já, já, það var ekki fyrr en eitthvað milli fjögur og fimm í nótt sem að við fengum að koma aftur sko og loksins að leggja okkur. Ekkert liggur fyrir um eldsupptök en lögregla óskar eftir að ná tali af tveimur mönnum sem sáust við húsið um það leyti sem eldurinn kviknaði. Talið er að annar þeirra hafi haldið á flatskjá. Sjónarvottur sem fréttastofa ræddi við í dag, en vill ekki láta nafn síns getið, sagðist hafa orðið var við grunsamlegar mannaferðir við húsið skömmu áður en eldurinn kviknaði. Einar Erlendsson: Þegar að ég hljóp út á svalir sko, þá var lögreglan að leita hérna með vasaljós eða luktir og voru að leita að einhverjum hérna í kring sko alls staðar. Húsið er í eigu Þórarins Jakobssonar, stofnanda Réttingaverkstæðis Þórarins. Sonur hans segir að bruninn sé mikið áfall. Hilmar Ægir Þórarinsson: Þetta er náttúrulega bara hrikalegt. Það er engin orð sem ná yfir það. Jóhann Bjarni: Eru menn vel tryggðir fyrir þessu? Hilmar Ægir Þórarinsson: Já, hann er tryggður, já. Ég bara veit ekki hversu sterkar og öflugar þær tryggingar eru. Það þarf bara að koma í ljós. Tveir starfsmenn voru á verkstæðinu þegar eldurinn kom upp annars staðar í húsinu. Hilmar Ægir Þórarinsson: Þeir voru að vinna hérna bara fram undir kvöldi og urðu varir við einhverja lykt og svo fóru þeir að athuga það nánar og þá kom í ljós að rafmagnið var farið af að hluta til og þeir gerðu strax viðvart, hringdu í slökkviliðið. Auk verkstæða voru í húsinu lyftingasalur og vinnustofur og íbúðir myndlistarmanna. Halldór Ragnarsson, myndlistarmaður: Já, þetta er sem sagt bara heimilið okkar og vinnuaðstaðan mín til tveggja ára og já, einfaldlega allt farið. Jóhann Bjarni: Þú varst þarna þegar eldurinn kom upp ekki satt? Rós Kristjánsdóttir: Já, ég var inni í herbergi að horfa á sjónvarpið þegar Palli sem býr þarna með okkur kom allt í einu kom inn og sagði mér bara að fara í föt og það væri allt úti í reyk og ég hljóp bara upp og náði í köttinn og út í bíl. Halldór missti um 100 listaverk eftir sjálfan sig í brunanum. Halldór Ragnarsson: Þriggja ára vinna. Þetta er eins og ég hafi ekki gert neitt, mér líður þannig. Jóhann Bjarni: Hér hjá mér er Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri. Jón Viðar, lögreglan leitar tveggja manna í tengslum við þennan bruna, ekki fjögur eins og greint var frá fyrr í dag. Hvað er vitað um eldsupptök? Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu: Í raun og veru veit ég lítið um það en þegar við komum hingað á vettvang þá var umtalsverður bruni í húsinu. Jóhann Bjarni: Er grunur um íkveikju? Jón Viðar Matthíasson: Ja bara það hversu umfangsmikið þetta var þegar við komum, það vekur mann til umhugsunar. Jóhann Bjarni: Hver verða ykkar næstu skref hérna? Jón Viðar Matthíasson: Okkar næstu skref í raun og veru eru hér bara að vinna með lögreglunni og reyna að tryggja það að sko, húsið sé öruggt þegar menn fara inn í það. Það eru næstu skref og það verður ekkert gert fyrr en á morgun. Jóhann Bjarni: Það eru bílar hér inni. Á að reyna að draga þá út? Jón Viðar Matthíasson: Það eru bílar í kjallaranum, bílar hérna uppi. Það verður unnið í því þegar húsið verður öruggt. Jóhann Bjarni: Er þetta hús ónýtt? Jón Viðar Matthíasson: Það er allavega mjög illa farið eins og við sjáum hérna bakvið okkur. Þetta er stórskemmt. Jóhann Bjarni: Þannig að það er líklegt að það verði hreinlega rifið? Jón Viðar Matthíasson: Ja kæmi mér ekki á óvart. Jóhann Bjarni: Einmitt það. Við fylgjumst áfram með þessu máli í kvöld og á morgun en segjum þetta gott héðan af Grettisgötunni.
Logi Gunnarsson sneri heim í Njarðvík og skoraði fjórtán stig þegar heimamenn lögðu Þór frá Þorlákshöfn 95-87 í Fyrirtækjabikar KKÍ í kvöld. Logi samdi við Njarðvíkinga til eins árs um helgina. Húnarnir hafa unnið alla þrjá leiki sína í B-riðli og eru í forystusætinu. Grindavík lagði Tindastól með minnsta mun 109 108 í tvíframlengdum leik í Röstinni en liðin eru í A-riðli. Sigurður Þorsteinsson skoraði síðustu stig Grindvíkinga og tryggði þeim sigurinn með því að vinna boltann í lokasókn gestanna. Keflavík og Grindavík hafa fjögur stig en Íslandsmeistararnir hafa leikið leik meir. Keflavík á viðureign gegn Valsmönnum til góða. Haukar unnu 93-81 heimasigur á Fjölni að Ásvöllum í sama riðli. Haukar hafa unnið þrjá leiki og eru jafnir Njarðvíkingum í forystu en hafa leikið leik meira. Stjarnan hefur forystu í C-riðli eftir 98-66 heimasigur á KFÍ. Stjarnan hefur sex stig eftir fjóra leiki en Skallagrímur á inni leik við Hamar og gæti komist á toppinn. Úrslit kvöldsins: Stjarnan 98-66 KFÍ Haukar 93-81 Fjölnir Njarðvík 95-87 Þór Þorlákshöfn Grindavík 109-108 Tindastóll Stöðuna í riðlunum má sjá hér. Grindavík-Tindastóll 109-108 (23-22, 27-23, 13-20, 23-21, 14-14, 9-8) Grindavík: Sigurður Gunnar Þorsteinsson 24/17 fráköst/6 stoðsendingar/5 stolnir, Þorleifur Ólafsson 18/8 fráköst, Daníel Guðni Guðmundsson 17/5 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 15, Christopher Stephenson 10/5 stoðsendingar, Ómar Örn Sævarsson 8/6 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 7, Ármann Vilbergsson 6. Tindastóll: Helgi Rafn Viggósson 38/11 fráköst, Antoine Proctor 30/9 fráköst/10 stoðsendingar, Ingvi Rafn Ingvarsson 13, Darrell Flake 9/7 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 9/5 fráköst/6 stoðsendingar/5 stolnir, Helgi Freyr Margeirsson 6, Sigurður Páll Stefánsson 3. Haukar-Fjölnir 93-81 (29-14, 21-14, 19-30, 24-23) Haukar: Terrence Watson 24/4 fráköst, Haukur Óskarsson 22, Kári Jónsson 12/4 fráköst, Sigurður Þór Einarsson 11, Helgi Björn Einarsson 10/6 fráköst/9 stoðsendingar, Kristinn Marinósson 6/4 fráköst, Emil Barja 4/9 fráköst/6 stoðsendingar, Davíð Páll Hermannsson 4. Fjölnir: Elvar Sigurðsson 21/5 stoðsendingar, Emil Þór Jóhannsson 15, Daron Lee Sims 14/6 fráköst, Garðar Sveinbjörnsson 12, Davíð Ingi Bustion 10/7 fráköst, Páll Fannar Helgason 4, Ólafur Torfason 4/9 fráköst/5 stoðsendingar, Andri Þór Skúlason 1. Njarðvík-Þór Þ. 95-87 (27-22, 21-22, 22-20, 25-23) Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 26/8 fráköst/7 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 14/4 fráköst, Nigel Moore 14/10 fráköst, Maciej Stanislav Baginski 9, Egill Jónasson 9/4 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 7/5 fráköst, Ágúst Orrason 6, Óli Ragnar Alexandersson 6, Magnús Már Traustason 2. Þór Þ.: Mike Cook Jr. 22/6 fráköst/6 stoðsendingar, Nemanja Sovic 22/8 fráköst, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 18/9 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 12, Baldur Þór Ragnarsson 7/5 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 5/9 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 1/4 fráköst. Stjarnan-KFÍ 98-66 (33-22, 27-22, 23-18, 15-4) Stjarnan: Dagur Kár Jónsson 21, Sæmundur Valdimarsson 19/7 fráköst, Justin Shouse 19/5 fráköst/14 stoðsendingar/5 stolnir, Marvin Valdimarsson 16/10 fráköst/5 stoðsendingar, Fannar Freyr Helgason 11/11 fráköst, Daði Lár Jónsson 5, Sigurður Dagur Sturluson 4/4 fráköst, Kjartan Atli Kjartansson 3. KFÍ: Jason Smith 29/5 stoðsendingar, Mirko Stefán Virijevic 15/11 fráköst, Jón Hrafn Baldvinsson 8/8 fráköst, Ágúst Angantýsson 7/4 fráköst, Hraunar Karl Guðmundsson 3, Björgvin Snævar Sigurðsson 2, Jóhann Jakob Friðriksson 2/4 fráköst.
Afkoma lífeyrissjóðanna verður mun verri í ár en síðustu ár. Formaður Landssambands lífeyrissjóða segir menn telja sig góða ef þeir nái að viðhalda núverandi réttindum lífeyrisþega. Lífeyrissjóðirnir hafa skilað góðum hagnaði síðasta ár sem margir hafa nýtt til að hækka lífeyrisréttindi sjóðsfélaga. Lífeyrissjóðurinn Gildi bætti til dæmis réttindi sjóðsfélaga sinna um 10% í fyrra og 7% árið þar áður. Um mitt þetta ár leit út fyrir að áfram yrði bætt í því útlit var fyrir að hrein raunávöxtun sjóðsins í árslok gæti orðið tæp 18% miðað við gengi sjóðsins á fyrri hluta ársins. Lífeyrissjóður verslunarmanna sýndi 6,3% raunávöxtun á fyrrihluta ársins og ef gengið hefði verið það sama eftir áramót hefði það þýtt 12,6% raunávöxtun um áramót. Stjórnendur gerðu reyndar ráð fyrir verra gengi á síðara hluta ársins en því fyrra, og þeir höfðu rétt fyrir sér. Landssamband lífeyrissjóða gerir nú ráð fyrir að afkoma sjóðanna í ár verði frá 1% raunávöxtun upp í tæp 4. Það er mikill munur á því og tæpu 18% sem Gildi nefndi í uppgjöri um mitt ár. Allt þetta hefur síðan áhrif á réttindi sjóðsfélaga. Arnar Sigurmundsson, formaður Landssambands lífeyrissjóða: Ég býst nú ekki við því að á ársfundum sjóðanna á næsta ári komi tillögur um að bæta réttindin og og þykja menn þykjast einfaldlega góðir geta þeir haldið þeim ágætu réttindum sem að búið er að útbúa núna og koma í kring á síðustu árum. Ástæðurnar fyrir viðsnúningnum er mikil lækkun á íslenskum og erlendum hlutabréfamarkaði. Gengisþróun hefur einnig verið sjóðunum óhagstæð. Þetta hefur áhrif á alla lífeyrissjóði landsins, þó aðeins tveir séu nefndir í dæminu hér á undan.
Fyrsti leikur dagsins á HM í körfubolta var leikur Brasilíu og Tékklands. Mótið er komið í milliriðla og taka Tékkar með sér fimm stig þangað á meðan Brasilíumenn taka með sér sex. Sigur Brasilíu hefði þýtt að liðið hefði tryggt sig áfram í 8-liða úrslit. Allt kom þó fyrir ekki því Tékkland gjörsigraði Brasilíu og styrkir stöðu sína í riðlinum. Tékkar byrjuðu leikinn töluvert betur og var það að miklu leyti leikstjórnandanum Tomas Satoransky og miðherjanum Ondrej Balvín að þakka sem náðu vel saman inn á vellinum. Brasilíumenn voru stirðir í sóknarleiknum og Tékkar náðu frábærum rispum. Tékkland fór með fjögurra stiga forystu inn í 2. leikhlutann sem var algjörlega í þeirra eigu, Brasilíumenn virtust ráðalausir sama hvert var leitað, á meðan voru Tékkar að leika sinn besta körfubolta á mótinu hingað til. Frábær skotnýting, góð vörn og klókur körfubolti skilaði Tékkum 13 stiga forystu í hálfleik þar sem Satoransky og Balvín skoruðu samtals 20 stig af 45 stigum Tékka. Yfirburðir Tékka héldu áfram í seinni hálfleik og hélt Satoransky áfram að spila frábærlega. Brasilíumenn komust aldrei í takt við leikinn í hálfleiknum, ekki frekar en í þeim fyrri. Í fjórða leikhluta var eina spurningin hversu stórt Tékkland kæmi til með að vinna leikinn og var á tímapunkti líklegt að það yrði með meira en 30 stigum. Svo fór að Tékkland vann leikinn 93-71 og koma sér þá í 7 stig í riðlinum. Tomas Satoransky endaði með 20 stig, 9 stoðsendingar, 7 fráköst og 3 stolna bolta í liði Tékka og var stigahæstur, hjá Brasilíu var Victor Beníte atkvæðamestur með 12 stig.
Dómsmálaráðherra segist ekki hafa gert mistök þegar hún hringdi í lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu vegna Ásmundarsalarmálsins. Forsætisráðherra segir ekkert óeðlilegt við símtölin. Í dagbókarfærslu lögreglu á aðfangadag kom fram að háttvirtur ráðherra, sem síðar kom í ljós að var Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, hefði verið í samkvæmi í Ásmundarsal þar sem meint brot á sóttvarnareglum voru framin. Sama dag ræddi Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, í tvígang við Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. „Tilefnið var dagbókarfærslan sem vakti athygli fjölmiðla og fjölmiðlar spurðu mig hvort hún væri eðlileg. Ég þekkti ekki verklag dagbókarfærslna lögreglunnar og spurði um það,“ segir Áslaug. Fannst þér þessi dagbókarfærsla óeðlileg? „Hún var sérstök og lögreglan hefur orðað það þannig og endurskoðað verklagið,“ segir Áslaug. Léstu í ljóst þá skoðun þína í símtalinu? „Nei.“ Áslaug Arna segist ekki hafa gert mistök þegar hún hringdi í Höllu Bergþóru, hún ræði reglulega við lögreglustjórana til að fá upplýsingar um mál sem hún þarf að svara fyrir. „Fólk vill setja þetta í annað samhengi og er að reyna að láta í það liggja að ég hafi haft einhver afskipti af þessu sem er auðvitað kolrangt,“ segir Áslaug. Telurðu að þú hafir sett lögreglustjórann í erfiða stöðu? „Nei, ég spurði bara um verklag um upplýsingagjöf og persónuverndarsjónarmið sem voru spurningar sem mér bárust,“ segir hún. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tekur undir orð dómsmálaráðherra. „Mér finnst ekkert óeðlilegt að dómsmálaráðherra ræði það við sína forstöðumenn þegar um er að ræða í raun og veru hennar stofnanir,“ segir Katrín. „Að sjálfsögðu eigum við regluleg samskipti við forstöðumenn og erum oft í því hlutverki að svara fyrir þær stofnanir sem undir okkur heyra,“ segir hún. „Það er mjög eðlilegt að spurninga sé spurt í ljósi þess að þetta varðar stjórnmálamann sem er ráðherra í ríkisstjórn og formaður flokks en ég tel svör dómsmálaráðherra skýra þetta mál með fullnægjandi hætti.“
Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, segist ætla að draga sig úr nefndarstörfum í Kópavogsbæ og jafnframt segja sig úr stjórn Isavia. Þetta segir hún á Facebook síðu sinni sem viðbragð við frétt Stundarinnarfrá í dag þar sem segir að Theodóra fái greiddar alls 2,3 milljónir króna sem kjörinn fulltrúi á landsvísu og sveitarstjórnarstigi og fyrir setu í stjórn Isavia. Theodóra segir skýringuna vera þá að þingmönnum beri að skrá nefndarstörf í hagsmunaskráningu þingsins fyrir 6. janúar. Ný ríkisstjórn hafi hins vegar verið kynnt þann 10. Janúar og í ljósi þess hve mikill óvissa hafi verið um myndun ríkisstjórna og um hvort mögulega yrði kosið aftur hafi hún geymt að segja sig úr nefndum. Hún hafi því skráð allar nefndir og stjórnir sem hún var í í hagsmunaskráningu. „Ég taldi að annað væri óábyrgt,“ skrifar Theodóra. „Nú þegar ljóst er að ekki verður kosið aftur til þings á næstunni þá mun ég klárlega draga mig úr nefndarstörfum og segja mig úr stjón Isavia.“ Segir hækkun á þingfarakaupi galna Hún segist þó vilja klára kjörtímabilið sem fulltrúi í bæjarstjórn Kópavogs, enda hafi hún verið kjörin til fjögurra ára. „Á þeim tíma sem ég var kjörin til sveitarstjórnar 2014 þá sinnti ég einnig 100% starfi á sama tíma, rétt eins og fjölmargir aðrir.“ Hún segir þá tölu sem kemur fram á vef Stundarinnar því ekki vera laun hennar til framtíðar. „Hins vegar er það þannig að mér finnst þessi hækkun á þingfarakaupi galin. Allt, allt of mikil hækkun, það hef ég sagt upphátt. Launahækkun sem kom til eftir að við vorum kjörin á þing. Kjör þingmanna eru reyndar mjög óljós og gegnsæið ekki mikið. Það vil ég endurskoða.“ Í samtali við Stundina segir Theodóra að þingmennirnir Gunnar Birgisson, Ármann Kr. Ólafsson og Birkir Jón Jónsson hafi einnig setið í bæjarstjórn samhliða þingmennsku. „Ég kynnti mér þetta sérstaklega fyrir kosningar og fór yfir söguna hér í Kópavogi. Það eru fjölmargir bæjarfulltrúar hér í gegnum tíðina sem hafa verið þingmenn og bæjarfulltrúar. Og jafnvel formenn bæjarráðs. Þetta voru, held ég, allt karlmenn,“ segir Theodóra.