source
stringlengths
710
1.19M
Sparisjóðurinn í Keflavík verður að öllum líkindum sameinaður Landsbankanum, en viðræður eru langt komnar. Stjórnarmenn í sparisjóðnum voru ekki hafðir með í ráðum og lásu fyrst um þetta í fjölmiðlum. Þeir búast við að þetta verði jafnvel klárað um helgina. Unnið er að því innan Bankasýslu ríkisins að renna SpKef, það er Sparisjóðnum í Keflavík, inn í Landsbankann en Bankasýslan heldur á hlutum ríkisins í báðum fyrirtækjunum. Þetta þýðir þó ekki að ríkissjóður komist hjá því að leggja 14-15 milljarða króna inn í SpKef til að mæta skuldbindingum vegna innistæðna, en heildarskuldbindingar vegna innistæðna nema alls 18 milljörðum króna hjá sparisjóðnum. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru viðræður um sameiningu SpKef og Landsbankans nú langt komnar. Svo virðist stjórn SpKef hafi ekki verið höfð með í ráðum, því stjórnarmenn sem fréttastofa ræddi við í dag sögðust fyrst hafa lesið um málið í fjölmiðlum og er nokkur gremja vegna málsins innan stjórnarinnar. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru þessar hugmyndir um sameiningu komnar frá Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, en Árni Páll hefur ekki svarað skilaboðum fréttastofu í dag. Stjórnarmenn hjá SpKef sem fréttastofa ræddi við sögðust jafnvel búast við að áform um sameiningu verði kynnt á mánudag og sameiningin verði því kláruð um helgina. Eftir því sem fréttastofa kemst næst verða þau útibú SpKef, sem rekin verða áfram, rekin undir merkjum Landsbankans ef sameiningin verður að veruleika. Nokkur umræða hefur verið að undanförnu um stærð bankakerfisins og nauðsyn frekari sameiningar til að ná fram hagræðingu. SpKef rekur í dag 16 útibú á landinu öllu, en þar af eru fimm í Reykjanesbæ.
Korkur: hljodfaeri Titill: Til sölu: 2 gítarar, gítarhaus og tuner Höf.: synschecter Dags.: 30. nóvember 2010 13:37:21 Skoðað: 367 Er með til sölu Dean Z XT Noir gítar, Ibanez GRG 170 DX, Randall KH-120 haus og Korg Tuner Dean Z XT Noir: Ég er búinn að láta laga action-ið á hálsinum á Dean Z nýlega og það er nýjir strengir í. Góður gítar og virkar fínt í rokk og metal. Hann er með Floyd Rose system og ég lét laga brúnna í leiðinni þegar var gert við hálsinn því hún var ekki fljótandi. Ég hef nánast ekkert notað hann eftir að ég keypti hann. Fylgja með nýjir strengir (eða allir þeir sem ég á eftir). Snúra fylgir. Mynd og smá info: http://www.themusicfarm.com/products/Dean-Z-Noir-XT-Explorer-Electric-Guitar-9262.html Verðhugmynd: 30.000 Ibanez GRG 170 DX: Hann er vel með farinn og góður í ýmsa tónlist enda er hann með 2 humbuckera og 1 single coil. mynd: http://www.wikizic.org/Ibanez-GRG170DX/gallery-1.htm Verðhugmynd: 25.000 Randall KH-120 hausinn: Keyptur fyrir tæpum 2 mánuðum. Hann er með clean channel, overdrive 1 og overdrive 2 channel og svo er reverb stilling sér. Það fylgir footswitch til að skipta á milli. Hann er mjög fínn í þyngri tónlist, rokk, metal og þannig, þ.e. allavega það sem ég spila mest. Snúra fylgir. Mynd og upplýsingar um hausinn: http://www.musiciansuniverse.com.au/d399-31/randall-kh-120rhs-stack/ Verðhugmynd: 25.000 Korg Tuner GA-30: Hann virkar fyrir bæði gítar og bassa. Hann er með plugin fyrir snúru. Verðhugmynd: 2.000 Ef einhver áhugi er á þessum græjum er hægt að hafa samband í einkapósti eða í síma 8207410. Kv. Jóhann --- Svör ---
Ölgerð Egils Skallagrímssonar fagnar í dag hundrað ára afmælis fyrirtækisins, m.a. með opnun nýs söguvefs. Ölgerð Egils Skallagrímssonar ætlar að verja hundrað milljónum króna í samfélagsverkefni í tilefni af 100 ára afmæli fyrirtækisins. Í tilkynningu frá Ölgerðinni segir að fyrir hundrað árum í dag hafi Tómas Tómasson stofnað fyrirtækið í kjallara Þórshamars við Templarasund. Fyrirtækið hafi þá verið starfrækt í tveimur herbergjum í kjallara hússins, sem nú er í eigu Alþingis. Í dag er starfsemi Ölgerðarinnar í 20.000 fermetra húsnæði við Grjótháls. Á fréttamannafundi í Þórshamri í dag tilkynntu Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar, og Andri Þór Guðmundsson, forstjóri, að fyrirtækið ætlaði að beita sér sérstaklega í ýmsum samfélagsverkefnum á afmælisárinu. Októ sagði á fundinum að Ölgerðin væri rótgróið fyrirtæki sem hafi frá upphafi lagt áherslu á að vera í góðu sambandi við þjóðina og að vilji sé til að þakka þjóðinni fyrir samfylgdina síðustu hundrað árin. Andri tók í sama streng og sagði það hluta af starfi fyrirtækisins að sinna samfélaginu. Á afmælisárinu muni fyrirtækið vinna að hundrað verkefnum sem snúi að ábyrgð þess gagnvart samfélaginu og veita hundrað milljónum króna í margvísleg verkefni. Verkefnunum verður skipt í fjóra flokka og verður árangur mældur og gefinn út opinberlega á hverju ári. Þá var í dag opnaður söguvefur Ölgerðarinnar en þar er farið yfir 100 ára sögu Ölgerðar Egils Skallagrímssonar í máli og myndum. Vefinn má finna hér.
Það ræðst á næstu klukkustundum eða dögum hvort ríkisstjórnin segir af sér vegna synjunar forseta Íslands á Icesave-lögunum. En það er einn kostur inni í stöðunni að mati forsætisráðherra. Telma Tómasson: Heimir Már Pétursson er á Alþingi og hefur fylgst með atburðarásinni í allan dag. Heimir, hvernig brást ríkisstjórnin við ákvörðun forsetans? Heimir Már Pétursson: Já, Telma. Ríkisstjórnin telur áhöld um að forsetinn geti eða eðlilegt sé að forsetinn beiti málskotsréttinum í milliríkjamálum. Utanríkisráðherra ætlar til dæmis ekki í opinbera heimsókn með forsetanum til Indlands sem stendur fyrir dyrum og fjármálaráðherra sagði í dag að ríkisstjórnina varðaði ekkert um ferðir forseta Íslands. Ríkisstjórnin sat á fundi á sama tíma og forsetinn tilkynnti ákvörðun sína í beinni útsendingu fjölmiðla og komst fyrst að niðurstöðu hans með því að fylgjast með fjölmiðlum. Forsætis- og fjármálaráðherrar ræddur við fjölmiðla í hádeginu og las forsætisráðherra ítarlega yfirlýsingu frá ríkisstjórninni. Þar segir að efnahagsáætlun stjórnvalda sé í tvísýnu vegna ákvörðunar forsetans og þeim árangri sem náðst hafi sé stefnt í voða. En lausn Icesave-deilunnar sé tengd efnahagsáætluninni í heild sinni, þar með lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum ríkjum. Þá hafi aðilar stöðugleikasáttmálans lagt mikla áherslu á lausn Icesave-deilunnar. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra: Án þessara lána er fjármögnun efnahagsáætlunarinnar ótrygg og framhald hennar óvíst. Og ríkisstjórnin efast um rétt forsetans í þessum efnum. Jóhanna Sigurðardóttir: Áhöld eru um það hvort það sé pólitískt og stjórnskipulega eðlilegt að forseti beiti málskotsrétti sínum þegar um er að ræða milliríkjamál líkt og Icesave-málið er, þar sem verið er að fylgja eftir skuldbindingum íslenskra stjórnvalda á alþjóðavettvangi. Hún sagði stjórnvöld hafa kappkostað að eyða óvissu á alþjóðavettvangi og leitast við að skapa traust til þjóðarinnar. Jóhanna Sigurðardóttir: Óvissa eða uppnám í fjármálalegum samskiptum við önnur ríki getur haft ófyrirsjáanlegar, víðtækar og mjög skaðlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag. Umheimurinn megi ekki hafa þá ímynd af Íslandi að Ísland ætli að hlaupast frá skuldbindingum sínum. Jóhanna Sigurðardóttir: Ríkisstjórn Íslands lýsir vonbrigðum með ákvörðun forseta og í ljósi þeirra alvarlegu áhrifa sem synjun forseta Íslands kann að hafa mun ríkisstjórnin nú meta stöðu mála og horfur varðandi þá endurreisnaráætlun sem hún hefur fylgt með góðum árangri. Gífurlega mikið hefur verið fjallað um þetta mál um allan heim í dag. Steingrímur J. Sigfússon, fármálaráðherra: En við ætlum einmitt að reyna að róa ástandið niður með því að senda strax út tilkynningu frá stjórnvöldum þar sem fram kemur að það er eindreginn ásetningur okkar eftir sem áður að landið standi við sínar skuldbindingar eftir því sem þær liggja fyrir. Þingflokkar stjórnarflokkanna funduðu síðdegis og fleiri fundir eru boðaðir fram eftir öllu kvöldi til að meta stöðu mála. Mikil óánægja ríkir innan stjórnarflokkanna með ákvörðun forsetans og ætlar utanríkisráðherra ekki með honum í opinbera heimsókn til Indlands í næstu viku eins og til stóð. Heimir Már: Hvað gefið þið ykkur langan tíma til þess að komast að niðurstöðu um það hvað þið munið gera, hvort það verður farið í þjóðaratkvæðagreiðsluna, hvernig hún verður framkvæmd og svo framvegis, eða hvort stjórnin hreinlega segi af sér? Jóhanna Sigurðardóttir: Við munum gefa okkur eins stuttan tíma eins og við mögulega getum til þess. Það þarf að eyða allri óvissu eins og hægt er en við erum náttúrulega komin út í óvissuástand hér með þessari ákvörðun forsetans. En við auðvitað framfylgjum því sem að við þurfum að gera varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna. Ríkisstjórnin hafi gert allt sem í hennar valdi stóð og náði meirihluta um málið á Alþingi. Heimir Már: Nú er forsetinn jafnvel á leiðinni úr landi í opinbera heimsókn, jafnvel að fara á morgun. Er ekki ljóst að forsætisráðherra og ríkisstjórnin í heild sinni verður að ákveða það á allra næstu klukkustundum eða dögum hvort að þessi stjórn ætlar sér að sitja áfram? Steingrímur J. Sigfússon: Við ætlum ekkert að láta ferðir forsetans hafa áhrif á okkur.
Björgunarmenn í Frakklandi hafa fundið lík þriggja ítalskra fjallgöngumanna, sem létu lífið í óveðri á Mont Blanc í fyrradag. Á sama tíma var fjallagarpurinn Teitur Þorkelsson að klífa fjallið ásamt bróður sínum. Þeir bræður ákváðu að fara af fjallinu áður en óveðrið kæmist í hámark. Í fyrradag voru bræðurnir Teitur og Baldur Helgi Þorkelssynir staddir á Mont Blanc du Tacul. Þegar þeir komu að örmjóum hrygg skall á mikið óveður þar sem þeir festust á eftir hægfara göngugörpum. Teitur Þorkelsson: Við erum komnir á hálfa leið upp á hrygginn og það er næstum því lóðrétt, tveir kílómetrar niður öðru megin og vindurinn var einmitt að koma hinu megin frá. Þannig að við stöndum ofan á hryggnum og viljum komast yfir hann sem fyrst en þá voru þrír gaurar á undan okkur sem eru með rosalega þungar klyfjar og labba svo hægt. Taka þrjú skref og stoppa eins og þeir væru á Everest með súrefnisgrímur, rosalega hægfara. Þá segir Teitur að vegna þess hve mjór hryggurinn er hafi ekki verið unnt að taka fram úr næstu mönnum og því þurftu þeir að bíða á hryggnum í um hálftíma. Teitur Þorkelsson: Þetta eru há fjöll og veður breytist fljótt, eins og á Íslandi. Það er alltaf eitthvað fólk að drepa sig þarna. Ég man að fyrir 20 árum síðan var ég þarna fyrst. Þá lentum við í þeim aðstæðum að á einni viku létust um 15 manns eða álíka. Maður verður að passa sig. Ég hefði ekki viljað mæta neinum á þessum hrygg. Þú vilt ekki treysta öðrum fyrir lífi þínu. Þú vilt ekki mæta fólki á þessum stöðum og maður bíður maður þá eftir því að fólk kemst niður. Þrír Ítalir létust á svæðinu í gær en Teitur var var við björgunarteymi. Teitur Þorkelsson: Almennt þyrluflug er ekki leyft í frönsku Ölpunum en einu þyrlurnar sem maður sér eru björgunarþyrlur og þegar maður er staddur þarna þá sér maður þrjár til fjórar björgunarþyrlur á dag sem fljúga hratt á milli staða. Þá er fólk í einhverjum vandræðum. Þeir bræður eru komnir í smábæ í Sviss og hyggjast reyna við hærri fjöll á næstu dögum.
Þokkagyðjan Nicole Scherzinger og ökuþórinn Lewis Hamilton ætla að fylgja stífum reglum í ástarsambandi sínu. Þau byrjuðu aftur saman fyrir skömmu eftir að hafa hætt saman í janúar. Hinir fjölmörgu aðdáendur hinnar kynþokkafullu Nicole og hins smáa en knáa Lewis voru í sárum eftir tíðindin um að slitnað hefði upp úr tveggja ára sambandi þeirra, enda þykja þau sérlega krúttlegt par. Ástæðan sem þau gáfu fyrir sambandsslitunum var stíf dagskrá þeirra beggja og sögðust þau engan tíma hafa lengur hvort fyrir annað. Hin 31 árs Scherzinger er söngkona hinnar vinsælu stúlknasveitar Pussycat Dolls og hinn 25 ára Hamilton er einn færasti ökuþór heimsins í Formúlu 1-kappakstrinum. Núna hefur Nicole sett á blað fjöldann allan af reglum sem þau þurfa að fylgja eigi sambandið að ganga upp í framtíðinni. Hamilton virðist vera á sama máli og ætlar að reyna hvað hann getur til að fylgja reglunum eftir. „Ástæðan fyrir því að þau hættu saman var sú að þau eyddu eiginlega engum tíma saman. En hið mikilvæga er að þau hættu aldrei að vera ástfangin hvort af öðru," sagði vinkona Nicole. „Eftir að þau höfðu talað saman í miklum trúnaði og á hjartnæman hátt rétt fyrir Valentínusardag ákváðu þau að gefa sambandinu eitt tækifæri í viðbót," sagði vinkonan og bætti við: „Eftir að hafa lagt fram stífar reglur um sambandið var Nicole sammála því að það þyrfti meiri rómantík í sambandið. Þeim fannst einnig góð hugmynd að hætta að lesa sögur í slúðurblöðunum um hvort annað." Nýlega var uppi orðrómur um að brúðkaup væri hugsanlega í vændum eftir að Nicole sagði búðarkonu að hún þyrfti á brúðarkjól að halda á þessu ári. Hvort þessar fregnir séu á rökum reistar verður aftur á móti að liggja á milli hluta. Fyrst þurfa þau væntanlega að láta reyna enn betur á sambandið og gefa því smá tíma áður en þau ganga upp að altarinu.
Níu ára lenti hún í slysi og missti sjón á vinstra auganu. Hún lá á sjúkrahúsi í þrjá mánuði og varð að liggja sem mest á bakinu til að bjarga auganu. Þá kviknaði áhugi hennar á myndlistinni því ekki hafði hún mikið annað fyrir stafni en teikna og mála. Ólöf Jóna Guðmundsdóttir er nú komin á fullorðinsár og er útsprunginn myndlistarmaður. Ólöf segir að árið 2007 hafi verið komið að því að skipta um starfsvettvang því málverkið kallaði svo sterkt á hana. „Þá var ég búin að vera í Myndlistarskóla Kópavogs í málun í tíu ár og varð einfaldlega að fara í myndlistina. Ég fékk mér vinnustofu á Korpúlfsstöðum á vegum Sambands íslenskra myndlistarmanna og byrjaði bara að mála. Tekjurnar hrundu en mikið var ég hamingjusöm! Ég hef síðan þá málað og málað og stundum eins og enginn væri morgundagurinn en myndirnar hafa hlotið góðar viðtökur. Ég hef selt þær í Gallerí Thors í Hafnarfirði, sem við rákum nokkrar konur, Gallerí List og síðustu fimm árin hef ég rekið Artgallery101 ásamt 15 öðrum listakonum við Laugaveg 44. Það var mikill uppgangur hjá okkur þegar landið var opið ferðamönnum en þá var 70% af sölunni til þeirra. Við erum einnig með netsíðuna www.artgallery101.is þar sem við seljum líka.“ Hver eru þín helstu mótív í listinni og hvað ertu að reyna að fanga? „Ég er að reyna að fanga augnblikið,“ segir Ólöf brosandi og heldur áfram: „Einu sinni sagði karlmaður við mig að ég hlyti að vera mjög kjörkuð að mála bera konulíkama. Ég veit ekki hvað var í hans huga en fyrir mér er konulíkaminn fallegasta formið í myndlistinni og slagurinn við það gefur mér mesta kikkið. Oft eru bölvaðar vitleysur í myndunum mínum og það verður bara að hafa það, enda er ég enginn snillingur í konulíkamanum.“ Aðspurð segist Ólöf ekki vita hvers vegna konulíkaminn sé svona sterkur í hennar huga. „Ef til vill er það vegna þess að ég vann svo lengi við að setja upp síður með fallegum konum á Nýju Lífi eða þá að móðurmissirinn hafi haft þessi áhrif á mig, nú eða vegna þess að ég er kona! Ætli það sé ekki bara sambland af öllu þessu,“ segir hún meðal annars í áhugaverðu viðtali í nýjustu Vikunni, tryggðu þér eintak eða áskrift. Myndir: Hákon Davíð Björnsson og úr einkasafni
Búmönnum er óheimilt að banna íbúum að segja upp samningi sínum við félagið segir húsnæðis- og félagsmálaráðherra. Tveir íbúar hafa höfðað mál og krefjast endurgreiðslu búsetugjalds sem Búmenn rukkuðu þá um. „Búseturétthafar eru að fá þær röngu upplýsingar að það megi ekki segja upp en lögin eru alveg skýr með það að það má segja upp með sex mánaða fyrirvara og að loknum honum hvílir engin greiðsluskylda á rétthöfum", segir Hjördís Birna Hjartardóttir, lögmaður íbúa. Eru Búmenn þá að gefa fólki rangar upplýsingar? „Já, að mínu viti klárlega", segir Hjördís. Fréttastofa hefur greint frá því að ættingjar búseturéttarhafa í Búmönnum þora ekki að hætta að borga af íbúðum skyldmenna sinna til að tapa ekki því fé sem greitt var fyrir búseturéttinn, svokölluðu tryggingargjaldi. Það nemur oft milljónum króna. Búmenn halda fast við ákvæði í samningum við félagsmenn um hann sé óuppsegjanlegur af hálfu beggja aðila. Félagsmálaráðuneytið telur það rangt og benti Búmönnum á það árið 2013 að ákvæðið stangaðist á við lög. „Það hefur komið fram í bréfi frá ráðuneytinu að það sé ekki heimilt að banna búseturéttarhöfum að segja upp samningi sínum", segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. Það fari hinsvegar eftir samþykktum félagsins hvernig útgreiðslu tryggingagjaldsins sé háttað. Ekki er kveðið skýrt á um það í samþykktum Búmanna. Þar segir að Búmenn megi leigja íbúðina út þar til búseturétturinn selst aftur. En víða er eftirspurnin lítil enda Búmenn í fjárhagslegri endurskipulagningu. Hjördís Birna segir að búseturéttarhafar eigi sterkari rétt: „Við teljum að þetta sé tryggingagjald sem beri að endurgreiða, annars er verið að taka eign af fólki bótalaust og það standist ekki". Á þetta mun reyna fyrir dómstólum í vor. Ráðherra undirbýr frumvarp sem meðal annars skýrir ábyrgð stjórnarmanna og eykur kröfur um hæfni þeirra og skýrir betur hvernig greiðslu tryggingargjalds verði háttað. Hún telur að þetta búsetuúrræði geti hentað mörgum þótt staðan sé alvarleg hjá Búmönnum: „Það skiptir máli að reka þau vel, það skiptir máli að taka rétta viðskiptalegar ákvarðanir, það gildir varðandi hlutafélög húsnæðissamvinnufélog og varðandi sjálfseignarstofnanir þannig eins og ég sagði þá skiptir það miklu máli að það séu skýrar kröfur varðandi hæfni stjórnarmanna og líka eigendur eða það er að segja þeir sem fara með atkvæðisréttinn á félagsfundum geri sér grein fyrir sinni ábyrgð".
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar segir það umhugsunarefni að ef Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður þá sé enginn varaflugvöllur til staðar ef Keflavíkurflugvöllur verður óstarfhæfur einhverra hluta vegna. Hann vill helst sjá flugvöllinn þar sem hann er, en segir að landsbyggðarmenn þurfi að taka þátt í þessari umræðu, málið komi þeim við. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar: Mér finnst að rödd okkar þurfi að hljóma í þessu því að þó að þeir sem að ætla sér að ráða málum í höfuðborginni sjái þetta fyrir sér með þessum hætti, að flugvöllurinn fari, þá hefur í rauninni ekkert verið sagt hvert og það skiptir mjög miklu máli. Við getum í sjálfu sér ekki sagt nei, nei, nei, hann skal aldrei fara úr Vatnsmýrinni, en við sem að búum á landsbyggðinni við höfum mikil samskipti við höfuðborgina og hún hefur hlutverk að rækja. Og það er bara það sem ég er að segja, við þurfum að minna þá sem búa og stýra málum í höfuðborginni á það hlutverk. Guðrún Sigurðardóttir: Hvar villt þú sjá flugvöllinn? Halldór Halldórsson: Mér finnst hann reyndar ágætlega staðsettur þar sem hann er, en ef hann getur ekki verið þar að þá er það náttúrulega eitthvað sem að gerist kannski ekki á morgun eða hinn heldur gerist á nokkuð mörgum árum, að þá sé ég hann fyrir mér einhvers staðar í nágrenni höfuðborgarinnar, höfuðborgarsvæðisins, vegna þess að það hlýtur líka að vera mikilvægt að hafa varaflugvöll á þessu svæði. Það getur vel verið að það sé hagkvæmt að nota bara Keflavíkurflugvöll en varaflugvöllur á þessu svæði, t.d. ef þarf að flytja fólk í burtu af höfuðborgarsvæðinu, í náttúruhamförum eða einhverju sem að gerist og gerir flugvöllinn í Keflavík óstarfhæfan, það getur líka eitthvað gerst þar sem gerir hann óstarfhæfan, þá er enginn flugvöllur á þessu svæði þar sem að langflestir landsmenn búa og það hlýtur að vera eitthvað sem menn þurfa að velta fyrir sér.
Hefur þú oft misst símann úr höndunum á þér? Fengið þér lyf sem sló svo ekki á einkennin þín? Fundist andlitsgríma of stór fyrir andlitið á þér? Eða bara verið kalt á skrifstofunni? Ef svarið við þessu öllu er já, er mjög líklegt að þú sért kona. Í nútímasamfélagi þurfa konur stöðugt að takast á við það að heimurinn sem þær lifa í var hannaður án tillits til þeirra. Ástæða þess er kynjaða gagnabilið: við reiðum okkur á gögn og tölur þegar kemur að því að ráðstafa fjármunum og taka afdrifaríkar ákvarðanir í efnahagslegri uppbyggingu, heilbrigðisþjónustu og menntakerfinu. Vandamálið er hins vegar að stór hluti gagnasöfnunar tekur ekki tillit til kyns og lítur á karlkynið sem sjálfgefið en kvenkynið sem frávik. Afleiðingin er að hlutdrægni er samofin kerfinu á öllum sviðum. Áhrifin geta verið minniháttar. Að skjálfa í skrifstofurými sem er stillt fyrir meðallíkamshitastig karla, til að mynda, eða að eiga í erfiðleikum með að ná upp í hillu sem er stillt út frá meðalhæð karla. Klárlega pirrandi og tvímælalaust ósanngjarnt. En ekki lífshættulegt. Ekki eins og að lenda í slysi í bíl með öryggisbúnað sem hefur verið hannaður án þess að taka mið af líkamsvexti kvenna; Þegar kona lendir í bílslysi er hún 47% líklegri en karl til að slasast alvarlega og 17% líklegri til að deyja. Eða að hjartaáfall sé ekki greint hjá konu vegna þess að einkennin eru „óhefðbundin.“ Fyrir þessar konur eru afleiðingar þess að lifa í heimi sem var hannaðar út frá karllægum gögnum lífshættulegar. Eitt af því mikilvægasta sem við kemur kynjaða gagnabilinu er að það er almennt ekki gert af illgirni, eða af ásettu ráði. Þvert á móti. Það er einfaldlega afleiðing hugsunarháttar sem hefur viðgengist í árþúsundir og snýst í raun um það að hugsa ekki. Að sjá karlmenn sjálfkrafa fyrir sér þegar hugsað er um manneskjur er grundvallaratriði í samfélagi manna. Menningin okkar er mörkuð af - afmynduð af - fjarveru í kvenkyns formi: í kvikmyndum, fréttum, bókmenntum, vísindum, borgarskipulagi, og hagfræði; Það eru fleiri styttur af körlum sem hétu John en af sögulegum, nafngreindum konum í Bretlandi (utan konungsfjölskyldunnar). Á síðustu árum hafa lofsverðar tilraunir verið gerðar til þess að taka á þessari menningarlegu karlhlutdrægni, en oft er því mætt með andstöðu. Þegar Thor var endurskapaður sem kona í Marvel teiknimyndasögunum, mótmæltu aðdáendur harðlega - þrátt fyrir að enginn hefði mótmælt því þegar Thor var breytt í frosk. Sumar breytingar hafa þó tekist vel. Lengst af á tuttugustu öld voru engir kvenkyns hljóðfæraleikarar í Fílharmóníuhljómsveit New York borgar. En með innleiðingu áheyrnaprufa þar sem hljóðfæraleikararnir sáust ekki á áttunda áratug síðustu aldar fór allt í einu eitthvað að breytast. Snemma á níunda áratugnum voru konur orðnar allt að fimmtíu prósent nýrra ráðninga. Í dag er hlutfall kvenkyns hljóðfæraleikara í Fílharmóníuhljómsveit New York rúmlega 45%. Vandamálið er djúpstæðara en svo að heimurinn henti ekki rúmleg helmingi íbúa þess, hefðbundin hönnun í mörgum geirum hefur tekið mið af „viðmiðunarmanninum“ hvítum karlmanni milli tuttugu og fimm og þrjátíu ára sem er 70 kg. Þetta hefur til dæmis haft þær afleiðingar að hinar ýmsu hlífðargrímur eru hannaðar út frá andlitsfalli bandarísks meðalmanns sem þýðir að grímurnar passa fæstum konum (og ekki heldur mörgum svörtum körlum og öðrum körlum í minnihlutahópum). Lausnin á gagnabilinu hvað varðar kynferði og kyngervi er skýr: við þurfum að loka bilinu í þátttöku kvenna. Þegar konur taka þátt í ákvarðanatöku, í rannsóknum, og að framleiða þekkingu gleymast þær ekki. Líf kvenna og sjónarhorn þeirra eru dregin út úr skugganum. Þetta er konum til hagsbóta alls staðar og við getum öll lagt okkar af mörkum að loka gagnabilinu. Höfundur er hagfræðingur og þýðandi bókarinnar Ósýnilegar konur - Afhjúpun gagnahlutdrægni í heimi hönnuðum fyrir karla.
Og formaður Framsóknarflokksins segir Íslendinga standa frammi fyrir mikilli hættu vegna stöðunnar á erlendum fjármálamörkuðum. Utanríkismálanefnd verður kölluð saman á fimmtudag til að ræða málið. Óskað hefur verið eftir því að forsætisráðherra sitji fundinn. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir stöðuna á evrópskum og bandarískum fjármálamörkuðum skapa hættu varðandi áhuga fjárfesta á að ráðast í ný verkefni á Íslandi og lánsfjármagni. Ástandið sé sérstaklega óheppilegt núna því íslensk stjórnvöld hafi ekki nýtt síðastliðinn tvö ár til þess að undirbúa hagkerfið. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins: Það var nefnilega tækifæri til þess. Það var þrátt fyrir allt ótrúlega mikill áhugi á því að fjárfesta á Íslandi. Þetta var á margan hátt kjörlendi fjárfestingar eftir niðursveifluna, lágt skráður gjaldmiðill, samt sterkir innviðir og, og, og svo framvegis en, en þessi fjölmörgu fyrirtæki sem að hafa haft áhuga á að fjárfesta hér hafa sett fyrir sig aðallega tvo hluti, pólitísku óvissuna, sérstaklega varðandi skattastefnuna og svo óvissu með orkuframleiðslu. Sigmundur segir því Íslendinga vera berskjaldaðri en þeir þyrftu að vera. Nú ríki óvissa um framhaldið. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson: Ótrúlega mikil værukærð með þetta allt saman. Mér fannst blasa við og ég var svo sem ekki einn um það, að, að það væri von á öðrum áfanga þessarar fjármálakrísu vegna þess að menn voru ekki búnir að leysa undirliggjandi vandamálin. Það var bara búið að flytja þau, vandamál sem byrjuðu hjá, hjá fyrirtækjum færðust svo yfir til bankanna, það var búið að flytja þau yfir til ríkjanna að miklu leyti. Fyrir nokkrum vikum óskaði Sigmundur Davíð eftir fundi í utanríkismálanefnd Alþingis til að ræða viðbrögð Íslands við þeirri ógn sem steðjaði af evrópskum fjármálamörkuðum. Formaður nefndarinnar taldi ekki brýna nauðsyn á kalla nefndina saman úr sumarleyfi til að ræða málið. Sigmundur segir hins vegar nefndina nú verða kallaða saman á fimmtudag til að fara yfir málið. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson: Og við höfum lagt á það áherslu að utanríkisráðherra og, og forsætisráðherra komi á fundinn og ég veit ekki ennþá hvort að, hvort að það er búið að ná sambandi við þá til þess að, að boða þá á fund.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var spurður út í bóluefni á upplýsingafundi almannavarna í dag en nokkuð hefur verið um jákvæðar fréttir af bóluefnum erlendis. Hann sagði þó mikilvægt að stíga varlega til jarðar en hafa þurfi ýmislegt í huga áður en bólusetning getur hafist hér á landi. Líkt og greint var frá í gær gaf breska lyfjaeftirlitið út neyðarheimild fyrir notkun bóluefnis Pfizer og BioNTech en lyfið er ekki með markaðsleyfi í Evrópu þar sem Lyfjastofnun Evrópu á enn eftir að samþykkja bóluefnið. Þórólfur sagði það varhugavert að hefja bólusetningu áður en allar upplýsingar liggja ekki fyrir. „Hvað okkur varðar og flestar Evrópuþjóðir líta þannig á að það sé skynsamlegast að bíða eftir niðurstöðu sérfræðinga Lyfjastofnunar Evrópu þannig að við verðum örugg með bólusetninguna og bóluefnið,“ sagði Þórólfur um málið. Þá sagði hann að ekki væri hægt að ganga út frá því sem vísu að hægt verði að hefja bólusetningu hér á landi fljótlega eftir áramót. Sjá einnig Ákvörðun Breta um bóluefni breyti ekki miklu fyrir Íslendinga Lyfjastofnun Evrópu mun taka ákvörðun um það hvort bóluefni BioNTech og Pfizer gegn COVID-19 fái skilyrt markaðsleyfi eigi síðar en 29. desember næstkomandi. Þá munu örlög Moderna bóluefnisins ráðast í síðasta lagi þann 12. janúar og bóluefni AstraZeneca síðar í janúar. Vega og meta áhættur bóluefnis Bólusetningar ættu tæknilega séð að geta hafist fljótlega hér á landi í kjölfar útgáfu leyfisins en þó verður það háð því hvenær bóluefnin berist til landsins. Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, sagði í gær að það væri raunhæft að hefja bólusetningar gegn COVID-19 hér á landi í janúar. Þórólfur sagði það þó alls ekki víst. Aðspurður um hvort yfirvöld muni hvetja einstaklinga til að fara í bólusetningu sagði Þórólfur að ef niðurstöður rannsókna sýni ekki fram á neinar alvarlegar aukaverkanir yrði það gert. Þó þyrfti að hafa í huga að um nýtt bóluefni væri að ræða þannig erfitt væri að meta langtímaafleiðingar bólusetningarinnar. Sjá einnig Mögulegt að hefja bólusetningar á Íslandi strax á nýju ári Einnig þyrfti að hafa í huga hverjar langtímaafleiðingar COVID-19 væru. „Menn þurfa að setja þetta á vogarskálarnar og spyrja, hvað viljum við? Viljum við losna út úr þessu eða viljum við láta þetta ganga yfir þjóðina með öllum þeim afleiðingum, eða viljum við taka sénsinn á bóluefninu? Það er það sem við þurfum að gera upp við okkur og vega og meta þegar við sjáum niðurstöður.“ Að því er kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðisráðuneytinu mun Ísland skrifa undir samning við Pfizer í næstu viku um kaup á bóluefni sem dugar fyrir 85 þúsund einstaklinga en þar kemur einnig fram að Ísland hafi þegar tryggt sér aðgang að bóluefni AstraZeneca fyrir 115 þúsund einstaklinga. Þá liggi fyrir drög að samningi við Moderna og Janssen um þeirra bóluefni en ekki liggur fyrir um hversu marga skammta er þar að ræða. Sjá einnig Ekki hægt að ætla að bólusetningar hefjist fljótlega eftir áramót Vinna að því að meta gögnin Lyfjastofnun Evrópu vinnur nú að því að meta öll gögn sem hafa borist með umsóknunum fyrir bóluefnin og mun sú vinna halda áfram yfir hátíðirnar. Áðurnefndar dagsetningar taka mið af því hvaða gögn hafa nú þegar verið metin í áfangamati lyfjanna og gætu tekið breytingum eftir því sem frekara mat fer fram. Greint er frá ferli Lyfjastofnunar Evrópu á vef íslensku lyfjastofnunarinnar. Á EES-svæðinu er mögulegt að veita lyfjum skilyrt markaðsleyfi þegar önnur úrræði koma ekki að gagni til að leysa bráðan heilbrigðisvanda. Eru slík leyfi veitt ef ávinningur af því að lyf eða bóluefni sé aðgengilegt sem fyrst er meiri en áhættan af því að einhver gögn um viðkomandi lyf séu ekki enn tiltæk. Meti Lyfjastofnun Evrópu umsóknirnar þannig að ávinningur af notkun bóluefnanna sé meiri en áhættan sem henni fylgir, mun stofnunin mælast til útgáfu skilyrtra markaðsleyfa. Því næst myndi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins flýta sínu ákvarðanaferli með það að leiðarljósi að skilyrt markaðsleyfi sem gildir á öllu EES-svæðinu geti verið gefin út nokkrum dögum síðar.
Finasta AB tekur við starfsemi MP sem lýtur að markaðsviðskiptum og eignastýringu. MP banki hefur gert samkomulag við Finasta AB um að taka við starfsemi bankans í Litháen sem lýtur að markaðsviðskiptum og eignastýringu. Aukin áhersla verður hins vegar lögð á uppbyggingu MP Pension Funds Baltic. Þetta kemur fram í tilkynningu frá MP banka. „Við höfum tekið ákvörðun um að snúa okkur alfarið að uppbyggingu lífeyrissjóðarekstursins í Litháen og draga okkur út úr annarri starfsemi. Þar liggur okkar þekking og framtíðarsýn. MP Pension Funds Baltic hefur frá upphafi sýnt framúrskarandi ávöxtun og verið vinsæll valkostur almennings í Litháen fyrir lífeyrissparnað sinn“, - segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, í tilkynningunni. Þá segir að Finasta AB sé leiðandi fjármálafyrirtæki í löndunum við Eystrasalt með áherslu á eignastýringu, markaðsviðskipti og fyrirtækjaráðgjöf. Þá segir jafnframt: „MP Pension Funds Baltic er eina sérhæfða lífeyrissjóðafyrirtækið í Litháen. Félagið rekur bæði annarrar og þriðju stoðar lífeyrissjóði. MP Pension Funds Baltic er litháískt hlutafélag með skrifstofur í Vilníus og Kaunas. Viðskiptavinir MP Pension Funds Baltic eru yfir 36.000 og eru eignir í stýringu á sjötta milljarð íslenskra króna. Framkvæmdastjóri félagsins er Ramunas Stankevicius og allir starfsmenn félagsins eru Litháar. Í stjórn félagsins hafa verið kjörnir: Jón Sigurðsson, Vygandas Juras, Baldur Oddur Baldursson, Jóhann Tómas Sigurðsson og Tryggvi Tryggvason.“
Meiri gangur er í atkvæðagreiðslu utankjörfundar í aðdraganda þingkosninga en á sama tíma við síðustu kosningar. Undirskriftasöfnun hjá nýju stjórnmálahreyfingunni Ábyrgri framtíð fer einkar rólega af stað en á meðal stefnumála hennar er að nota óhefðbundin lyf við COVID-19. Það er fyrsti í kosningamánuði og nokkur fjöldi landsmanna er þegar farin að taka forskot á sæluna nú þegar 24 dagar eru í eiginlegan kjördag. Það er ekki flókið eins og fréttamaður reyndi á eigin skinni. Maður sýnir bara skilríkir, sækir kjörseðil, athafnar sig svo í einrúmi og skilar svo atkvæðinu í réttan kassa og ef ég fæ bakþanka á næstu þremur vikum get ég kosið aftur eins oft og ég vil því utankjörfundar gildir bara nýjasta atkvæðið. Þegar hafa um 2.400 greitt atkvæði á höfuðborgarsvæðinu og samtals 3.100 um land allt. Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu: Það er bara fínn gangur. Við erum með miklu meiri opnun heldur en verið, meðal annars vegna ástandsins sem er þannig að við erum að dreifa fólkinu og það getur líka verið þess vegna sem er meira kosning. Nokkuð hefur borið á því að stjórnmálaöfl hvetja kjósendur beinlínis til að drífa sig að kjósa fyrir kjördag. Það er þá til að forða fólki frá vandræðum sem kunna að hljótast af einangrun og sóttkví í kringum kosningar. Annað eins á þó ekki að koma í veg fyrir að fólk geti kosið. Sigríður Kristinsdóttir: Þeir sem eru í sóttkví eða einangrun vegna COVID á kjördag, þeir geta kosið utankjörfundar. Greiði maður framboði atkvæði utankjörfundar sem síðan nær ekki að skila inn nauðsynlegum undirskriftum fyrir 10. september fellur það atkvæði dautt, en þá er gott að geta kosið aftur. Eitt framboð sem stendur nú í ströngu við að ná undirskriftum í tæka tíð er nýja stjórnmálahreyfingin Ábyrg framtíð sem hefur sterk tengsl við mótmælahreyfingu Kóvid spyrnuna. Hún er nýbúin að fá listabókstafinn Y, en stofnandinn segir undirskriftasöfnunina þó fara hægt af stað. Hann vill nota lyf sem bönnuð eru á Íslandi, efast stórlega um gagnsemi bólusetninga og er mjög gagnrýninn á það hvernig stjórnvöld tókust á við faraldurinn. Hann kallar eftir að þau taki ábyrgð. Jóhannes Loftsson, stofnandi Ábyrgrar framtíðar: Í staðinn fyrir að stjórna og reyna að ræða mögulegar vísindalegar lausnir til að takast á við vandanum þá földu yfirvöld sig bak við einhverja embættismenn sem síðan eru bara nánast fjarstýrðir frá alþjóðastofnunum og við vitum ekkert alveg hver er að stýra för lengur.
Mikilvægt er að verja auknu fé til sálgæslu fyrir börn þeirra sem lengi hafa verið atvinnulausir. Þetta segir þingmaður Samfylkingarinnar. Vaxandi vonleysi og svartsýni atvinnulausra foreldra bitni óhjákvæmilega á börnunum. Fjórtánþúsund manns eru án vinnu, þar af hafa nærri 5 þúsund verið atvinnulausir í eitt ár eða lengur. Alls eiga um 10 þúsund börn atvinnulaust foreldri og um 400 börn búa við það að báðir foreldrar eru án vinnu. Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að mikið hafi verið gert til að huga að atvinnulausum á Suðurnesjum en betur þurfi að huga að börnum þeirra sem hafi lengi verið án vinnu. Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar: Það sem að við finnum fyrir núna Suðurnesjamenn er aukaverkanir og alvarlegar afleiðingar og þung félagsleg mál sem að koma vegna langtíma atvinnuleysis. Þannig að til þess að koma betur inn í þetta ástand tel ég mikilvægt að, að ríkisvaldið komi með aukna fjármuni til þess að bæta hér í sálgæslu á svæðinu með þessi heimili sérstaklega í huga og ekki síst börnin. Því að, því að það eru mjög mörg börn sem að búa við það hér á Suðurnesjum að annað hvort annað hvort annað foreldri eða bæði eru atvinnulaus og hafa verið það lengi. Oddný bendir á að þetta eigi við um fleiri svæði en Suðurnesin en hlutfallslega er langtíma atvinnuleysi mest þar og á höfuðborgarsvæðinu. Oddný G. Harðardóttir: Langtímaatvinnuleysi fylgir t.d. þunglyndi og vonleysistilfinning. Slíkt umhverfi er ekki heppilegt, heppilegar uppeldisaðstæður fyrir börn.
Fáskrúðsfjarðarmálið teygir anga sína alla leið til Tékklands en einn hinna grunuðu í málinu var eftirlýstur þar í landi. Þá rannsakar lögreglan nú meðal annars hvort skútan sem kom í Fáskrúðsfjarðarhöfn fyrir tveimur árum hafi verið notuð til fíkniefnainnflutnings. Lögreglan í Tékklandi lýsti eftir Einari Jökli Einarssyni sem nú situr í gæsluvarðhaldi vegna Fáskrúðsfjarðarmálsins fyrr á þessu ári, meðal annars á heimasíðu sinni. Þá er verið að rannsaka hvort fjársterkur maður sem fyrir nokkrum árum fékk fimm ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl sé tengdur smyglinu nú og hafi hugsanlega fjármagnað fíkniefnakaupin. Hann mun hafa sést í Prag fyrr á þessu ári. Skömmu eftir aðgerðir lögreglu á Fáskrúðsfirði á fimmtudag var búið að taka allar upplýsingar um Einar Jökul af heimasíðu tékknesku lögreglunnar. Í samtali við fréttastofu vildi tékkneska lögreglan ekkert segja um ástæðu þess að Einar Logi var eftirlýstur þar í landi en vísaði á lögregluyfirvöld á íslandi. Lára Ómarsdóttir: Einn þessara manna sem var handtekinn er, það er lýst eftir honum í Tékklandi, af tékknesku lögreglunni. Vitið þið eitthvað meira um það? Karl Steinar Valsson, yfirmaður fíkniefnalögreglunnar: Við erum náttúrulega búnir að vera í samvinnu við lögregluyfirvöld, út um, í Evrópu og það er ýmislegt sem að hérna, er bara til skoðunar þar. Þannig að það er bara ekkert tímabært að greina neitt frá því. Lögreglan rannsakar nú einnig hvort skútan Lucky Day, sem siglt var til Fáskrúðsfjarðar fyrir tveimur árum hafi verið notuð til fíkniefnainnflutnings. Eins og fram hefur komið í fréttum þá sigldi Einar Jökull ásamt öðrum manni skútunni Lucky Day til Fáskrúðsfjarðar, tók allt hafurtask úr henni og skildi hana þar eftir. Síðar kom í ljós að bróðir Einars Jökuls, Logi Freyr Einarsson greiddi af henni hafnargjöld. Logi Freyr er nú í haldi norsku lögreglunnar. Skútan sem kom til Fáskrúðsfjarðar á fimmtudag er nú komin til Reykjavíkur. Að sögn lögreglu er verið að gera ítarrannsókn á henni.
Kolefnisfótspor og skaðleg áhrif þeirra á umhverfið eru starfsfólki EFLU verkfræðistofu ofarlega í huga ekki síst eftir að byrjað var að mæla dýpt kolefnisspora mötuneytismatseðils fyrirtækisins. Kokkurinn segir fólki bregða illilega þegar það stendur til dæmis andspænis sporþunga nautasteikarinnar. EFLA verkfræðistofa var með svokallaða umhverfisviku nýlega og þá byrjuðu kokkurinn Ágúst Már Garðarsson og Sigurður Loftur Thorlacius umhverfisverkfræðingur að prufukeyra hugbúnað sem mælir kolefnisspor hverrar máltíðar í mötuneyti fyrirtækisins. „Við vorum með umhverfisviku hérna nýlega og þá byrjuðum við Sigurður að prufukeyra þetta kolefnisteljaraprógramm,“ segir Ágúst sem færir nú matseðil hvers dags inn í gagnagrunn. „Þetta kemur svo myndrænt upp á skjá hérna inni í sal þannig að þegar fólk kemur að borða getur það séð skýrt hversu þungt próteinið; fiskurinn, kjúklingurinn, grísinn, eða hvað sem er, vegur í kolefnissporum á móti heilum grænmetisrétti.“ Ágúst segir að þótt nautakjötið sé „lang, lang mest sjokkerandi“ þá bregði fólki ekkert síður við að sjá kolefnissporin sem annað kjöt skilur eftir sig. „Þegar fólk sér muninn á til dæmis fiskréttinum á móti grænmetisréttinum þá bregður því svolítið. Þetta setur líka hlutina í samhengi sem fólk skilur. Fæstir hafa tilfinningu fyrir kolefnisgrömmum á hvert kíló en í þessu samhengi fer þetta ekkert á milli mála.“ Ágúst segist strax hafa orðið var við jákvæð áhrif og að það megi merkja nokkra breytingu á neyslumynstri samstarfsfólksins. „En áhrifin eru mest í umræðunni. Fólki bregður náttúrlega og það skapast umræður um þetta í matsalnum á hverjum einasta degi. Margir hafa ekkert leitt hugann að þessu, sumir eru alveg meðvitaðir en hafa ekki hugsað þetta neitt lengra,“ segir Ágúst sem er sjálfur gott dæmi um hversu mikil áhrif þessi tilraun getur haft á hugarfar fólks. „Ég er bara alvarlega að hugsa um að prófa að gerast vegan. Ég byrjaði á því í gær.“ Og það er umhverfisþátturinn sem hittir kokkinn svona hressilega í hjartastað að hann er byrjaður að prófa vegan. „Ég ólst upp í sveit og slátraði dýrum frá því ég var fimm ára þannig að dýravinkillinn hefur aldrei náð til mín. Ég er bara einn af þeim, sorrí með mig,“ segir Ágúst. Allir að tala um kolefnissporin „Umhverfisþátturinn er einmitt mjög mikilvægur og ég held að allir hugsi sig nú alveg um þegar þeir sjá hversu skýr og afgerandi munurinn er á kjötréttum annars vegar og grænmeti hins vegar. Þetta snýst um að miðla upplýsingum sem hafa ekki verið fólki mjög aðgengilegar áður,“ segir Sigurður. „Ég held líka að raunverulegar breytingar verði aldrei gerðar nema á grundvelli upplýsinga,“ bætir Ágúst við. „Það var rafvirki að borða hérna á miðvikudaginn, þegar það var einmitt naut á matseðlinum, og hann sagði mér að hann hefði heyrt orðið „kolefnisspor“ fimm sinnum á ævinni þangað til þarna í hádeginu þegar hann hefði ekki heyrt neitt annað. Umræðurnar á öllum borðum snerust bara um þetta,“ segir Ágúst. „Þetta er vissulega svolítill heilaþvottur eða svona sjokkmeðferð.“ Sigurður segir að frumútgáfan, sem nú er notuð til heimabrúks, sé langt komin. „Þetta er bara í vinnslu hjá okkur og við viljum náttúrlega endilega að þetta fari sem víðast og auðvelda fólki þannig að taka réttar ákvarðanir í matarmálum. Hér er þá komið tól sem getur nýst fyrirtækjum og einstaklingum við að halda utan um þetta.“ Ágúst og Sigurður segja að í byrjun sé hugmyndin að gera reiknivélina aðgengilega á heimasíðu þar sem fólk geti slegið inn sínar forsendur og skoðað kolefnisspor sín. Allt tekið með í reikninginn Sigurður segir umfangsmikinn gagnagrunninn að baki reiknivélinni byggja bæði á íslenskum og alþjóðlegum gögnum. „Við styðjumst meðal annars við greiningar sem við höfum gert sjálf og einnig aðrar íslenskar greiningar úr opinberum gögnum. Við notum þannig íslensk gögn eins og við getum en það er náttúrlega takmarkað til af þeim þannig að við styðjumst einnig við nýlegan, stóran og mikinn gagnagrunn sem byggir á tæplega 40 þúsund býlum í meira en 100 löndum. Þar er allt ferlið tekið; landnotkun, fóður, býlið, úrvinnsla, flutningar, umbúðir og sala. Þar sem vöruflutningar til Íslands eru alltaf áberandi í þessari umræðu bætum við sjóflutningi til Íslands ofan á,“ segir Sigurður. „Það kemur reyndar á óvart þegar maður notar þetta hversu flutningurinn er lítill hluti af þessu,“ segir Ágúst. „Það er eiginlega það sem maður verður einna mest hissa á.“ „Já, það kemur á óvart, en þetta er í samræmi við aðrar greiningar sem við höfum gert,“ tekur Sigurður undir og bætir við að þetta sé sérstaklega sláandi þegar nautakjötið er skoðað. „Þá vegur framleiðslan svo miklu þyngra heldur en flutningurinn. Það eru svo mikil áhrif fólgin í ræktun á þessu dýri. Bara vatnið, orkan og bensínið sem fer í hvert kíló af nautakjöti er ótrúlegt,“ segir Sigurður og Ágúst bendir á enn eitt veigamikið atriði: „Svo er líka metanið sem myndast í görnunum á dýrinu sjálfu. Þetta er síprumpandi.“
Kvennabósinn Calum Best er háður kókaíni og stundar hópkynlíf með vændiskonum. Þetta kom fram í breska dagblaðinu The Sun í gær en blaðið birti myndir af Best í félagsskap vændiskvenna þar sem hann neytti kókaíns. Best, sem er sonur knattspyrnuhetjunnar George Best heitins, komst nýverið í fréttirnar fyrir að slá sér upp með leikkonunni Lindsay Lohan. „Pabbi hans var vissulega fyllibytta og kvennabósi en Calum er verri, hann er kominn alveg á botninn," sagði vinur hans í samtali við blaðið. Þrátt fyrir að kærastan Lindsay Lohan sé ekki barnanna best þegar kemur að skemmtanalífinu hafði Calum haldið líferni sínu leyndu fyrir henni. Lindsay var sem kunnugt er handtekin með kókaín í fórum sínum um liðna helgi. Hún mun nú hafa innritað sig í meðferð í annað skipti á skömmum tíma. „Ég hef hegðað mér heimskulega og sé eftir öllu," sagði Calum í viðtali við The Sun. Þá hafði hann ekki enn sagt Lindsay frá leyndarmálum sínum. Breska dagblaðið hefur undir höndum myndbandsupptöku af Calum þar sem hann er með tveimur vændiskonum á hótelherbergi. Á myndbandinu sést hann í ástarleikjum með vændiskonunum á milli þess sem hann tekur kókaín í nefið. Calum lýsti því yfir eftir að hann kynntist Lindsay Lohan að hann væri tilbúinn að láta af villtum lífsstíl sínum og helga sig sambandi þeirra. Ólíklegt verður að teljast að af því verði nú.
„Hann byrjaði aftur að ofsækja mig eftir að hann áfrýjaði dómnum í byrjun júlí. Skilaboðin sem ég hef fengið á einum mánuði eru um tvö hundruð. Bara í dag hef ég fengið fimmtán skilaboð frá honum,“ segir Ásdís Hrönn Viðarsdóttir sem hefur ítrekað kært hótanir og brot á nálgunarbanni sem sett var á fyrrverandi sambýlismann hennar, fyrst árið 2012. Ásdís og maðurinn bjuggu saman í um tíu mánuði árið 2011 og eftir að samvistum lauk hefur hann meira og minna ofsótt hana. Ásdís sagði sögu sína í Kastljósi í fyrra og lagði þar áherslu á að nálgunarbann væri fullkomlega gagnslaust þegar lögregla brygðist ekki við því þegar það væri brotið. Af ótta við manninn ákvað Ásdís árið 2013 að flýja til Þórshafnar á Langanesi, ásamt börnum sínum og býr þar enn í dag. Sjá einnig: „Auðvitað væri betra ef ég væri heima á Íslandi“ 26. júní síðastliðinn féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness gegn fyrrverandi sambýlismanni Ásdísar. Að sögn Ásdísar var hann meðal annars sakfelldur fyrir líkamsárás, um átta hundruð brot á nálgunarbanni, brot gegn barnaverndarlögum og að hafa brotið gegn blygðunarsemi hennar. Hann hlaut fimmtán mánaða dóm, þar af þrjá mánuði óskilorðsbundna. Maðurinn hefur áfrýjað dómnum. „Og þá byrjuðu ofsóknirnar aftur, eftir árs pásu. Nú þarf ég aftur að sitja undir óhróðri og hótunum frá honum,“ segir Ásdís. „Ég mun aldrei gefast upp“, „Þú ert lygari og átt eftir að fá þetta í bakið“, og „Ég er ekki að fara neitt“ eru dæmi um nýleg skilaboð sem Ásdís hefur fengið. Hún segir hann senda foreldrum sínum og núverandi sambýlismanni skilaboð líka. „Hann er meira að segja farinn að senda börnum hans.“ Sjá einnig: Yngri synirnir sáu allt saman Að sögn Ásdísar hefur þessi tími reynst mjög erfiður og veit hún ekki hvað er hægt að gera í stöðunni. Ásdís keyrði frá Þórshöfn til Akureyrar í byrjun júlí til þess að láta taka afrit af skilaboðunum. „Ég krafðist nálgunarbanns hjá lögreglustöðinni á Þórshöfn og fór svo til Akureyrar á lögreglustöðina samdægurs með símann,“ segir Ásdís. „Ég hef ég ekkert heyrt frá lögreglunni. Það þarf eitthvað að laga í þessu kerfi, þetta er ekki hægt,“ segir Ásdís og bætir við að nú sé kominn mánuður síðan hún bað um nálgunarbann en það hafi enn ekki gengið úrskurður. „Ég er orðin svo ótrúlega þreytt á þessu.“
Ótímabundið verkfall flugvirkja sem boðað er á sunnudag getur haft áhrif á ferðaáætlanir þúsunda flugfarþega. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að kröfur flugvirkja séu algjörlega óraunhæfar. „Samninganefndir Samtaka atvinnulífsins og Icelandair hafa boðið mjög sanngjarnar launahækkanir sem eru fullkomlega í takt við það sem verið er að bjóða öðrum hópum. Það einfaldlega kemur ekki til álita af hálfu Samtaka atvinnulífsins að einstaka hópar skeri sig frá þegar kemur að kjaraviðræðum og það á jafnt við um flugvirkja sem og aðra,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hversu mikið ber í milli? „Við þurfum að hafa það í huga að launakröfur flugvirkja eru í raun himinháar og í raun óraunhæfar, eins og ég hef látið hafa eftir mér í fjölmiðlum. Þar er deilan stödd eins og sakir standa.“ Búið að marka línu í sandinn Aðspurður hvort hann eigi von á því að samningar náist fyrir sunnudag segir Halldór það samningsaðila að leysa deiluna. „En við þurfum að hafa það í huga að kjaraviðræður eru í raun viðræður um bætingu á lífskjörum fólks sem jákvæða þróun samfélagsins. Það liggur fyrir að aðilar vinnumarkaðarins hafa markað línu í sandinn og frá þeirri línu hvorki munu né geta Samtök atvinnulífsins kvikað.“ Hversu óraunhæfar eru kröfur flugvirkja? „Það er of snemmt að fara út í það á þessu stigi en það sem er aðalatriðið í umræðunni er þetta að flugvirkjum standa til boða sömu sanngjörnu launahækkanir og öðrum hópum á vinnumarkaði en í krafti hótunar um verkfallsaðgerðir á viðkvæmasta tíma ársins í aðdraganda jólahátíðar, freista þeir þess að knýja fram það sem ég kalla óraunhæfar launahækkanir í krafti þessarar verkfallsboðunar.“ Ekki merki um það sem koma skal Aðspurður hvort þetta sé merki um það sem koma skal í komandi kjaraviðræðum á næstu misserum segist Halldór ekki eiga von á því. „Ég tel að það sé eftirspurn í samfélaginu eftir ró og yfirvegun. Þess vegna met ég það sem svo að móttökuskilyrði í samfélaginu fyrir óraunhæfum launakröfum flugvirkja séu takmörkuð, sérstaklega í aðdraganda jólahátíðar.“ Deiluaðilar hittust á sínum þrettánda fundi hjá ríkissáttasemjara í dag en sá fundur reyndist eins og aðrir árangurslaus. Eitt erfiðasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að halda friði á vinnumarkaði þegar kjarasamningar losna. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra boðaði deiluaðila á sinn fund í gær og settan ríkissáttasemjara í dag, þar sem farið var yfir stöðuna. Ráðherra er skýr um aðkomu ríkisins að deilunni og segir engin áform uppi hjá ríkisstjórninni að setja lög á verkfall flugvirkja. Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi Innanríkisráðherra boðaði lagasetningu á verkfall flugvirkja í júní árið 2014 sem ríkisstjórnin studdi. Hanna Birna sagði þá að með lagasetningunni væri ekki verið að taka neina afstöðu til deilunnar heldur að tryggja almannahagsmuni. Flugvirkjum hugnaðist ekki inngrip alþingis á þeim tíma og sólarhring síðar aflýstu flugvirkjar verkfallinu áður en það hófst. Sumar- og jólaáætlanir flugfélaganna eru hvað viðkvæmastar enda mikið um bókanir. Sérstaklega í kringum jólin sem er háanna tími.
„Það eru engir almannahagsmunir eftir í þessari fyrirhuguðu framkvæmd og þess vegna er ekki boðlegt að fara fram með náttúrunni með þessum hætti,“ segir Elín Agla Briem, einn skipuleggjandi málþings um helgina um framtíð mála í Árneshreppi á Ströndum. Búist er við að fyrirferðarmesta umræðuefnið á málþinginu í Trékyllisvík verði áform einkafyrirtækisins Vesturverks sem gert hefur vatnsréttarsamninga við jarðeigendur í Ófeigsfirði vegna 55 megavatta virkjunar í Hvalá. Innan við fimmtíu íbúar eru skráðir í Árneshreppi, minnsta sveitarfélagi landsins. Elín Agla segir að íbúar hafi þungar áhyggjur af því að byggð leggist þar af innan fárra ára. „Það eru einhverjir sem eru á móti og það ber meira á þeim heldur en hinum þögla meirihluta,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti í Árneshreppi og hóteleigandi í Djúpuvík, um afstöðu íbúanna til virkjunarinnar. Elín Agla segir að þegar hún flutti í Árneshrepp árið 2007 hafi hún heyrt svo góð samfélagsleg rök fyrir Hvalárvirkjun að hún hafi þá verið áformunum algerlega samþykk. Hún hafi skipt um skoðun. „Þetta átti að bæta afhendingaröryggi á rafmagni á Vestfjörðum almennt, laga veginn til okkar, hingað myndi loks koma þriggja fasa rafmagn og hér yrðu til nokkur störf við virkjunina. Ekkert af þessu stendur lengur,“ fullyrðir Elín Agla sem er hafnarstjóri hreppsins og titlar sig þjóðmenningarbónda. Eva segir hins vegar að virkjuninni muni fylgja betra rafmagn og bættar samgöngur, meðal annars yfir Veiðileysuháls og síðan frá Eyrarhálsi og yfir í Ingólfsfjörð og Ófeigsfjörð. Það sé rangt hjá virkjunarandstæðingum að ekki verði bættar samgöngur og betra rafmagn. „Það eru notuð frekar léleg rök fyrir því að við ættum ekki að gera þetta.“ Að sögn Evu mun Vesturverk í sumar gera ýmsar rannsóknir í Ófeigsfirði. Síðan sé fyrirtækinu ekkert að vanbúnaði og framkvæmdir gætu hafist strax á næsta ári. Þær myndu taka þrjú til fjögur ár og hafa mjög jákvæð áhrif á verslun og þjónustu á því tímabili. Miklar líkur séu á að þetta verði að veruleika. „Ég lít líka á þetta sem ágætis tekjumöguleika fyrir sveitina,“ segir Eva. Virkjunin muni skila Árneshreppi um 30 milljónum króna í fasteignagjöld árlega. Það muni um minna í sveitarfélagi þar sem núverandi heildartekjur séu 60 milljónir, jafnvel þó að um 15 milljóna króna framlag úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga falli þá brott. Eftir stendur því að tekjurnar vaxa um 25 prósent, fara úr 60 milljónum í 75 milljónir. „Ég lít á þessa peninga sem stórkostlegt tækifæri til að gera eitthvað fyrir íbúana hérna. Til að bæta aðstöðu gamla fólksins sem hefur þurft að flytja unnvörpum burt þegar það er gamalt því við höfum ekki haft efni á að gera neitt fyrir það,“ segir Eva. Snorri Baldursson, formaður Landverndar, hefur gagnrýnt Hvalárvirkjun opinberlega, meðal annars í tveimur greinum á Kjarnanum í fyrrahaust. Sagði Snorri nær að stofna þjóðgarð á svæðinu og skoraði á heimamenn að hafna áformunum. „Langtímaávinningur samfélagsins á Ströndum af þjóðgarði og þeirri atvinnuuppbyggingu sem gæti orðið í kring um hann á næstu áratugum yrði margfaldur á við virkjun,“ skrifaði Snorri á sínum tíma. Eva oddviti kveðst undrandi á því að Landvernd hafi afskipti af málinu. „Það er eins og allir séu búnir að gleyma því að vatnsaflsstöðvar eru vistvænar. Ég bara skil ekki hvað Landvernd er að gera með því að setjast á svona lítið sveitarfélag og hindra framfarir í því,“ segir hún. Að sögn Elínar Öglu bindur hún vonir við að málþingið varpi betra ljósi á áhrif Hvalárvirkjunar heldur en hingað til hefur verið gert. Á heimsvísu sé reynt að sporna við ágangi á náttúruna, sérstaklega þegar einkaaðilar eigi í hlut. „Þarna er verið að skerða ósnortin víðerni og samkvæmt náttúrverndarlögum þarf að rökstyðja að það sé til almannahagsmuna,“ segir Elín Agla Briem.
Hverju gæti dottið í hug að byggja upp ferðaþjónustu á grunni draugasögu? Jú, bændunum á Myrká í Hörgárdal þar sem frægasti draugur Íslands, djákninn á Myrká, ásótti Guðrúnu forðum og kallaði Garúnu. Bærinn Myrká er í framanverðum Hörgárdal, handan við Hraundranga. Þar voru áður kirkja og prestssetur og kirkjugarðurinn er enn notaður. Þegar menn heyra um Myrká þá kemur fyrst í hugann draugur. Hér eru bændur að hugsa um að gera út á hann. Og hérna undir steininum utan kirkjugarðs, segir Oddgeir Sigurjónsson okkur að djákninn hvíli. Er hann þá hérna? Oddgeir Sigurjónsson, bóndi á Myrká: Já, í þjóðsögunni. Kristján Már Unnarsson: Er þorandi að fara lengra? Oddgeir Sigurjónsson: Já drengur minn. Hér var hann settur. Það var ekki hægt að setja hann innan garðs því að hann gekk aftur. Oddgeir og kona hans, Áslaug Stefánsdóttir, keyptu Myrká fyrir sex árum. Og skynjuðu strax frægð draugsins. Er fólk að koma hingað út af draugasögunni? Oddgeir Sigurjónsson: Já, mikið. Kemur mikið, það er þó nokkuð mikil umferð af því. Fólk kemur og spyr um raunveruleikann og vill gjarnan forvitnast meira en það hefur. Djákninn á Myrká átti að hafa drukknað í Hörgá á leið til ástkonu sinnar, Guðrúnar á Bægisá, en þegar hann loks náði fundum hennar var hann genginn aftur og gat því ekki sagt kristilegt nafn hennar. Því mælti hann Garún Garún þegar þau riðu saman út í tunglskininu og hún sá í bera hauskúpuna. En núna er búið að innrétta veitingasal á Myrká og Áslaug húsfreyja segist hafa byrjað á að fá hópa hestamanna. Áslaug Stefánsdóttir: Ég er að stefna bara að því að hafa svona litla hópa sem gætu komið og þegið einhverjar smáveitingar, bara þannig að ég stjórni því samt sjálf. Kristján: Er Myrká góður staður til að gera út á ferðamenn og kannski hestamenn? Áslaug Stefánsdóttir: Það á eftir að koma í ljós. Í draugasögunni bjargaði Guðrún sér frá draugnum með því að hringja kirkjuklukkunni. Myrkárbændur óttast hann þó ekki. Oddgeir Sigurjónsson: Þetta er mjög vingjarnlegur draugur í okkar huga, þó að hann hafi ekki verið það á þeim tíma, miðað við lýsingar. En hann kemur óskaplega vel fram við okkur.
Valur lenti á móti finnsku meisturunum í HJK Helsinki þegar dregið var í fyrstu umferð Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu i dag. Valskonur áttu möguleika á því að mæta annaðhvort HJK Helsinki frá Finnlandi eða KÍ Klaksvík frá Færeyjum. Þær gátu líka fengið annað hvort heimaleik eða útileik. Öllum liðunum var skipt niður í svæðaskipta fjögurra liða hópa þar sem síðan var dregið innbyrðis. Það var líka dregið um það hvort liðið væri á heimavelli. Valur og norska félagið Vålerenga gátu ekki mæst en áttu bæði möguleika á því að mæta annað hvort finnsku eða færeysku meisturunum. Valsliðið fékk heimaleik og það á móti finnsku meisturunum í HJK Helsinki. Leikurinn á að fara fram annaðhvort 3. eða 4. nóvember. Vålerenga fékk heimaleik á móti KÍ Klaksvík en með norska liðinu spilar íslenska landsliðskonan Ingibjörg Sigurðardóttir. Vinni Valsliðið þann leik bíður þeirra annar leikur í annarri umferð og sigurvegari þess leik tryggir sér sæti í 32 liða úrslitunum keppninnar. Þangað eru þegar komin 22 lið en Valur og hin liðin í undankeppninni berjast um hin tíu sætin. UEFA hætti við upprunalegu útgáfuna af undankeppninni vegna kórónuveirunnar. Í stað undanriðlanna eru því tvær umferðir í undankeppni með einum leik í hverri. HJK Helsinki eða Helsingin Jalkapalloklubi eins og liðið heitir fullu nafni varð finnskur meistari árið 2019 eins og Valur. Þetta var fyrsti meistaratitill félagsins síðan árið 2005 eða í fjórtán ár. Liðið er núna í fjórða sæti finnsku deildarinnar.
Gosstrókar fóru upp í sjötíu metra hæð í dag en hafa frá því að gos hófst verið um tuttugu til sextíu metra háir. Kraftur gossins er með svipuðu móti og verið hefur en örlítið dregið úr skjálftavirkni. Gosið er stöðugt og lítill sem enginn gosórói hefur mælst. Vísindamenn segja gosið samfellt og frekar hljóðlátt. Ekki eru líkur á flóði en hættustig er þó í gildi. „Það sem við erum hræddir við er að gosið opnist annars staðar og það byrji að gjósa undir jöklinum. Þá er flóðahætta. En á meðan við getum ekki útilokað það þá er það hluti af okkar áhættumati að það sé flóðahætta,“ segir Víðir Reynisson deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Hann segir þó einhverjar líkur á að gos opnist annars staðar. „Það er hætta meðan það er enn mikill gangur í þessu í bergganginum og framgangi þar. Þá er alltaf möguleiki á því að það gjósi annars staðar. En það kemur ekki í ljós fyrr en á morgun þegar mælingum dagsins og næturinnar verður lokið hvort það séu einhverjar breytingar,“ segir Víðir. Eldgosið hófst í Holuhrauni um klukkan fimm í morgun og er staðsett á sömu sprungu og eldgosið sem hófst á föstudag. Það er þó margfalt stærra. Myndband af gosstrókunum má sjá hér að neðan.
Bandaríkin hafa samþykkt að veita Ísrael hernaðaraðstoð næstu tíu árin fyrir 38 milljarða bandaríkjadala. Um er að ræða stærsta samning af þessu tagi í sögu Bandaríkjana en upphæðin nemur 4,3 billjónum íslenskra króna. Viðræður hafa staðið yfir í tíu mánuði og er áætlað samningurinn verði undirritaður á morgun. Samningurinn kemur í stað 10 ára áætlunar sem er áætlað að renni út árið 2018. Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segir þetta stærsta samning um tvíhliða hernaðarlega aðstoð í sögu Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í frétt BBC. Samningurinn felur í sér að Ísrael muni kaupa öll sín hergögn í gegnum BAndaríkin. Auk þess má Ísrael ekki sækja um aukna fjármuni frá bandaríska þinginu. Meðal annars mun Ísrael fá 500 milljónir bandaríjkadala á ári, eða um 57,5 milljarða íslenskra króna, til að verja í flugskeytavarnaráætlun. Talið er að með þessu sé Barack Obama bandaríkjaforseti að reyna að sýna stuðning sinn við Ísrael, en áður hafði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, gefið í skyn að hann myndi bíða eftir eftirmanni Obama í von um betri samning. Samskipti milli Obama og Netanyahu hafa verið stirð síðan í mars árið 2015, þegar sá síðarnefndi hélt tölu á bandaríska þinginu til að tala gegn samningi við Íran sem Obama var þá að reyna að fá samþykktan. Þá er talið að Obama og Netanyahu muni funda í New York í næstu viku á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Í dag er fyrsti dagur aðventunnar. Ég birti þennan pistil fyrir ári síðan á öðrum miðli en mér finnst hann eiga jafnvel við í ár og í fyrra. Á aðventunni eigum við að njóta, njóta í rólegheitum með kakóbolla, piparköku, teppi, kertaljós og góða bók. Feit snjókorn falla hægt niður í logninu fyrir utan gluggann, húsið er tandurhreint og fallega skreytt og falleg jólatónlist ómar. Börnin sitja hjá ykkur falleg og rjóð og lita mynd eða lesa sögu. Sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur? Í raunveruleikanum hjá venjulegri fjölskyldu er kannski séns að þessi stund náist í janúar. Aðventan er líklega annasamasti og mest taugatrekkjandi tími ársins. Það er víst ekki nóg að undirbúa jólin því að allir skólar, kórar, tónlistarskólar og íþróttafélög landsins þurfa að hafa mót, tónleika, búningaæfingar, pakkaleiki og sýningar í desember. Ekki má gleyma jólasveinunum 13 sem koma einnig í desember. Samfélagsmiðlar hrauna yfir okkur myndum af fullkomnum aðventukrönsum og brosandi börnum með ilmandi bakkelsi. Ofan á þetta allt leggjast svo vinahittingar, vinnuhittingar, jólahlaðborð, jólakortin, jólagjafir, baksturinn, þrífa og skreyta heimilið. Er ég að gleyma einhverju? Já! Alveg rétt, svo eru báðir foreldrar oftast í 100% vinnu. Já og eitt enn… það er myrkur allan sólahringinn. Eru ekki allir í jólafílíng? Ekki misskilja mig, aðventan er yndislegur tími en ég vil minna alla á að þið eruð ekki ein í jólastressinu. Út um allt er fólk sem er jafn stressað og illa sofið og þið. Finnið stuðning hjá vinum og fjölskyldu og sameinist um að hjálpast að og létta undir með hvert öðru. Aðventan snýst einmitt líka um það, að hugsa um náungann og gefa af sér og með sér. Við megum ekki setja allt of miklar kröfur á okkur og það er allt í lagi þó að það sé drasl heima hjá okkur og við séum ekki búin að baka 17 kökusortir. Það er líka allt í lagi að þið séuð ekki búin að finna fullkomin jóladress á börnin. Það er ekkert fullkomið í þessum heimi… ekki einu sinni aðventan og jólin. Reynum að hafa gaman af þessu líka, slökum á og horfa á björtu hliðarnar. Njótum samveru með fjölskyldu okkar og vinum í góðu tómi. Það skapar mun fallegri og betri minningar en hreint eldhús og óaðfinnanlegt baðherbergi. Ég vona að þið eigið yndislega aðventu og reynið eins og þið getið að slaka á í desember og hafa það notalegt með þeim sem eru ykkur kærastir. Guð blessi netverslanir og tilbúið kökudeig. Erna
New York Giants tapaði niður tíu stiga forskoti í fjórða leikhluta gegn Atlanta Falcons á heimavelli í gær en þetta er annar leikurinn í röð sem Giants glutrar niður tíu stiga forskoti í lokaleikhlutanum. Leikmenn Giants voru með 20-10 forskot fyrir lokaleikhlutan á MetLife-leikvanginum í gær en gestirnir frá Atlanta komust yfir þegar rúm mínúta var eftir á klukkunni þegar Devonta Freeman skoraði snertimark af stuttu færi. Giants héldu í sókn en komust aðeins að miðju vallarins þar til vörn Falcons stöðvaði sókn þeirra og tryggði sigurinn. Eru liðin á sitt hvorum enda töflunnar eftir leikinn en Falcons hafa unnið báða leiki sína hingað til á meðan Giants hafa tapað báðum. Stuðningsmenn Tampa Bay Buccaneers gátu fagnað sjaldgæfum sigri í gær er liðinu tókst að leggja nágrannana í New Orleans Saints að velli, 26-19, á heimavelli Saints í New Orleans. Var þetta fyrsti sigur leikstjórnandans Jameis Winston sem Buccaneers völdu með fyrsta valrétt í nýliðavalinu í vor. Leikmenn Green Bay Packers náðu að hefna fyrir tapið í úrslitum NFC-deildarinnar í fyrra með 27-17 sigri á Seattle Seahawks í lokaleik gærkvöldsins. Gestirnir frá Seattle náðu forskotinu í þriðja leikhluta en með góðum lokaleikhluta tókst heimamönnum í Green Bay að tryggja sigurinn. Eftir leikinn eru Seattle Seahawks án sigurs eftir tvo leiki en miklar væntingar voru gerðar til liðsins fyrir tímabilið eftir að hafa fengið stjörnuinnherjann Jimmy Graham til liðs við sig frá New Orleans Saints í sumar. Þá meiddist leikstjórnandi Dallas Cowboys, Tony Romo, í 20-10 sigri liðsins á Philadelphia Eagles í gær en talið er að Romo verði frá næstu mánuðina eftir að hafa viðbeinsbrotnað í leiknum. Gerist það aðeins viku eftir að stjörnu útherji liðsins, Dez Bryant, braut bein í fæti sínum, en Cowboys hafa unnið báða leiki sína hingað til. Voru alls 79 snertimörk í leikjum gærdagsins en síðasti leikur 2. umferðar fer fram í kvöld þegar Indianapolis Colts tekur á móti New York Jets. Má sjá helstu tilþrif gærdagsins hér. Úrslit gærdagsins: Carolina Panthers 24-17 Houston Texans Pittsburgh Steelers 43-18 San Fransisco 49ers New Orleans Saints 19-26 Tampa Bay Buccaneers Minnesota Vikings 26-16 Detroit Lions Chicago Bears 23-48 Arizona Cardinals Buffalo Bills 32-40 New England Patriots Cincinatti Bengals 24-19 San Diego Chargers Cleveland Browns 28-14 Tennesee Titans New York Giants 20-24 Atlanta Falcons Washington Redskins 24-10 St Louis Rams Jacksonville Jaguars 23-20 Miami Dolphins Oakland Raiders 37-33 Baltimore Ravens Dallas Cowboys 20-10 Philadelphia Eagles Green Bay Packers 27-17 Seattle Seahawks
Ísak Bergmann Jóhannesson var hetja íslenska sautján ára landsliðsins í dag þegar drengjalandsliðið okkar tryggði sér sæti í úrslitakeppni EM í sumar. Íslenska liðið vann 4-1 sigur á Hvíta-Rússlandi og Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði tvö fyrstu mörkin í leiknum. Seinni tvö mörkin gerðu þeir Andri Lucas Guðjohnsen og Andri Fannar Baldursson. Fyrra markið skoraði Ísak Bergmann eftir stoðsendingu frá Danijel Dejan Djuric á 13. mínútu en seinna markið hans Ísaks kom á 49. mínútu eftir stoðsendingu frá Davíð Snæ Jóhannssyni. Andri Lucas Guðjohnsen, skoraði þrennu í jafntefli á móti Þýskalandi, og hann nánast innsiglaði sigurinn með þriðja markinu á 73. mínútu. Íslenska liðið spilaði manni fleiri síðustu átján mínútur leiksins. Fjórða markið skoraði Andri Fannar Baldursson úr vítaspyrnu á 86. mínútu en Andri Lucas Guðjohnsen fiskaði vítið. Hvít-Rússar minnkuðu muninn tveimur mínútum síðar. Ísak Bergmann Jóhannesson er Skagamaður sem er nýkominn til sænska félagsins Norrköping en hann er sonur Jóhannes Karls Guðjónssonar, þjálfara meistaraflokks ÍA. Áður höfðu strákarnir gert 3-3 jafntefli við Þýskaland og unnið 2-1 sigur á Slóveníu. Íslenska liðið náði því í sjö stig af níu mögulegum í milliriðlinum og vann þar með riðilinn. Efsta liðið komst beint inn á EM en Þjóðverjar urðu í öðru sæti þrátt fyrir að vera á heimavelli. Sjö af átta liðum í öðru sæti fá líka farseðil á EM. Þjálfari íslenska liðsins er Davíð Snorri Jónasson og aðstoðarmenn eru Þorvaldur Örlygsson og Fjalar Þorgeirsson. Úrslitakeppnin fer fram á Írlandi frá 3. til 19. maí í voru. Sextán liðum verður þá skipt niður í fjóra riðla. Þetta er í níunda skiptið sem Ísland á lið í úrslitakeppni EM fyrir landslið 17 ára og yngri en síðast var Ísland með í lokakeppninni sumarið 2012. Lið Íslands í leiknum í dag: Ólafur Kristófer Helgason (markvörður) Róbert Orri Þorkelsson (86., Ólafur Guðmundsson) Oliver Stefánsson (fyrirliði) Jón Gísli Eyland Gíslason Valgeir Valgeirsson Ísak Bergmann Jóhannesson (87., Elmar Þór Jónsson) Andri Lucas Guðjohnsen (87., Eyþór Aron Wöhler) Davíð Snær Jóhannsson (80., Hákon Arnar Haraldsson) Andri Fannar Baldursson Orri Hrafn Kjartansson Danijel Dejan Djuric (67., Mikael Egill Ellertsson) Ónotaðir varamenn: Baldur Hannes Stefánsson Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson
Hinn ellefu ára gamli Kári Kamban á heldur óvenjuleg gæludýr en hann tók að sér munaðarlausan þrastarunga. Þrestinum finnst skemmtilegt að fara í göngutúra og vekur Kára klukkan átta á morgnana með fuglasöng. Kári Kamban Sigurborgarson fann þröstin fyrir rúmri viku síðan í Laugardalnum. Var fuglinn þá ræfilslegur og yfirgefin en foreldra hans var hvergi að sjá. Kári Kamban Sigurborgarson, 11 ára: Hann var bara einn og voru engir fuglar nálægt sóarann brúnum í gær og er, eins og ég gat bara klappað honum. Tók Kári þá fuglinn að sér í því skyni að gefa honum fæði svo hann myndi lifa af. Þegar fuglinn var orðinn stálpaður fór fjölskylda Kára með hann í sumarbústað í þeim tilgangi að sleppa honum lausum út í náttúruna en þá vildi hann hvergi fara. Kári Kamban Sigurborgarson: Fórum í sumarbústaðinn minn og við vorum að reyna sleppa honum þarna þá kom hann alltaf aftur til okkar. Elísabet Inga Sigurðardóttir: Þannig hann vill bara vera hjá þér? Kári Kamban Sigurborgarson: Já. Eftir nokkrar tilraunir til aðskilnaðar ákvað fjölskyldan að leyfa þrestinum að koma með Kára aftur heim í Hlíðarnar. Þeir félagar eru miklir vinir og spjalla heilmikill saman. Þrösturinn fékk nafnið Selma og er hún öllum stundum frjáls ferða sinna. Hún hefur fengið ótal tækifæri til að fljúga út í náttúruna en virðist ekki vilja fara langt frá Kára sem hugsar mjög vel um fuglinn. Kári Kamban Sigurborgarson: Ef maður fer eitthvert þá eltir hann mann. Selmu þykir skemmtilegt að fara út í göngutúra með Kára, hún sefur ýmist úti á svölum eða inni í svefnherbergi Kára á nóttunni og vekur hann á morgnana með fuglasöngi.
Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpunnar, segir tekjumöguleika hússins vera mikla til framtíðar litið og efast ekki um að rekstur hússins verði betri en hann er nú, innan fárra ára. Fráleitt væri að hætta rekstri hússins þegar landið væri að rísa eftir að hafa tekið ákvörðun um að reka húsið í djúpri kreppu. Ef fer sem horfir á þessu ári þá verður 407 milljóna króna halli á rekstri tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpunnar, en rekstraráætlun sem gerð var um rekstur hússins hefur engan vegin staðist. Ástæðurnar fyrir tapinu eru þær að fasteignagjöld eru hærri en áætlað var, rekstur hússins er dýrari en gert var ráð fyrir, tekjur af ráðstefnum skila sér hægar en áætlað var sem og tekjur af veitingasölu og bílastæðahúsi. Með öðrum orðum, þá hefur ekkert atriði í rekstraráætlun fyrir starfsemi í Hörpunni, sem ákvörðun ríkis og borgar um að halda byggingu hússins áfram eftir hrun, gengið eftir. Nýr forstjóri Hörpunnar, Halldór Guðmundsson, er vongóður um að reksturinn muni batna til framtíðar litið, og segir tekjumöguleika vera mikla. „Það er okkar verkefni sem komum að rekstri hússins er að búa til langtímaáætlun, sem byggir á okkar sannfæringu, hverju rekstur getur skilað til framtíðar litið. Þegar þetta hefur verið lagt fram og skoðað ofan í kjölinn þá er komin mun skýrari mynd á það hverju reksturinn getur skilað." Halldór segir ennfremur að fráleitt væri að hætta rekstri hússins, og því þurfi allir sem koma að rekstrinum að taka saman höndum og reyna að nýta það sem best. „Það á auðvitað ekki að reka húsið með miklum halla í mörg ár. En ætlar einhver að segja, að við höfum klárð húsið í kreppu, en lokað því þegar landið er rísa? Auðvitað verður þetta hús starfrækt áfram og eigendur þess, ríki og borg, verða að koma sér saman um framtíðarhlutverk þess og við sem þjóð að reyna að nýta það sem best."
Það var góð stemmning í Tjarnarbíói í morgun þegar Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, RIFF, tilkynnti að miðasalan opnaði á morgun, fimmtudaginn 18. september. Atli Bollason, ofurhipster, kynnti fyrirkomulag hátíðarinnar fyrir gestum. Þar kom meðal annars fram að myndir RIFF verða sýndar í fjórum bíóum í ár, það er Bíó Paradís, Háskólabíói, Norræna húsinu og svo Tjarnarbíói. Það var poppað í tilefni dagsins auk þess sem Jóhann Alfreð Kristinsson, uppistandarinn frægi í Mið-Íslandi, sló á létta strengi þegar hann kynnti veglega viðburðir hátíðarinnar. Á hátíðinni verða sýndar um yfir 100 myndir, þar af tæplega fimmtíu myndir eftir kvenleikstjóra en um er að ræða leiknar myndir, heimildarmyndir og stuttmyndir. Myndirnar koma víða að úr heiminum m.a. frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Grænlandi, Færeyjum, Eþópíu og Úkraínu. Hátíðin hefst á bandarísk/íslensku vegamyndinni Land Ho! eftir Martha Stephens og lýkur þann 5. október með sýningu myndarinnar Boyhood í leikstjórn Richard Linklater, en kvikmyndagerðarmaðurinn fylgdist með söguhetjunni í tólf ár. Myndin hefur fengið einróma lof gagnrýnanda og þykir kvikmyndalegt þrekvirki. RIFF er sannkölluð fjölmenningarhátið en myndirnar koma samanlagt frá fjörutíu löndum. Kvikmyndir RIFF í ár fjalla um allt milli himins og jarðar, allt frá trylltu ástarsambandi finnskra vandræðaunglinga yfir í átakanlega lélegt fótboltalið bandarísku Samóaeyjanna. Meðal annars má finna mynd um einkennilegt líf heiðarlega hrappsins, James Randi, sem hefur einsett sér að fletta ofan af þeim sem þykjast vera með yfirskilvitslega hæfileika. Við skoðum einfalt líf síðustu veiðimanna Badjao ættbálksins og reynum að ráða í dularfullar gátur í þýsku kvikmyndinni Fuglaþingið þar sem dýralífið virðist enduróma heilt tónverk. Á RIFF gerast ítalskir menntamenn glæpasnillingar og eþíópísk stúlka þarf að berjast fyrir tilverurétti sínum í þrúgandi heimi feðraveldisins. RIFF.is
James Bond hefur oft látið aðdáendur sína bíða eftir sér en sennilega hafa þeir aldrei verið jafn óþreyjufullir þar sem frumsýna átti 25. Bond-myndina, No Time to Die, í apríl á síðasta ári áður en öfl sem sjálfur James Bond ræður ekkert við slepptu Covid-19 lausu yfir heimsbyggðina. Sjá einnig Lashana Lynch sögð vera ný 007 No Time to Die er fimmta og síðasta Bond-mynd leikarans Daniels Craig, sem þó virðist hafa ætlað að kveðja með heilmiklum hvelli og stæl eftir að hafa lýst því yfir, eftir fjórar myndir, að hann væri spenntari fyrir því að skera sig á púls en leika Bond enn einu sinni. Hann dró þessi orð síðar til baka og fátt bendir til annars en að hann muni kveðja með heilmiklum hvelli og stæl. Gagnrýnendur hafa tekið No Time to Die fagnandi, auk þess sem ákveðið mynstur í Bond-myndum Craigs bendir eindregið til þess að þessi mynd eigi að vera góð. Sjá einnig Billie Eilish syngur titillag James Bond Craig fór feykivel af stað með frábærri endurræsingu myndabálksins í Casino Royale 2006. Síðan kom hin ömurlega Quantum of Solace, sem hlýtur að teljast með allra slökustu Bond-myndunum. Þá blandaði eðalleikstjórinn Sam Mendes sér í málið með glæsilegri 50 ára afmælisveislu myndabálksins í Skyfall, en missti síðan dampinn í Spectre sem olli nokkrum vonbrigðum, þannig að samkvæmt þessu er komið að góðri Bond-mynd. Bond gekk út úr síðasta ramma S.P.E.C.T.R.E. í fýlukasti og í upphafi No Time to Die kemur í ljós að hann yfirgaf MI6 í framhaldinu, missti kennitöluna 007 og nýtur lífsins þar til skyldan kallar á ný. Það leyndi sér varla að Daniel Craig hundleiddist í Spectre, sem benti til þess að hann ætlaði að kveðja Bond með hangandi hendi. No Time to Die hefst eiginlega í beinu framhaldi af bæði Spectre og afstöðu leikarans að henni lokinni. Sjá einnig Hinn eini sanni Bond er allur Nokkur ár eru síðan Bond kom erkióvini sínum, Blofeld, undir manna hendur. Bond er hættur störfum hjá MI6 og nýtur eftirlaunanna á Jamaíka og hefur því eðlilega verið sviptur kennitölunni 007 og leyfinu til að drepa, þegar gamall félagi, Felix Later frá CIA, fær hann til þess að taka upp fyrri hætti í einu endanlegu lokaverkefni. Sjá einnig Nýjasta Bond verði að fjalla með réttum hætti um konur Leiðangurinn sem Bond kýs að taka að sér felur í sér að hafa hendur í hári snarbilaðs náunga með græna fingur sem, venju samkvæmt, ætlar að tortíma heiminum. Rami Malek leikur sótraftinn þann sem kallast Safin og er hvergi nærri jafn geðþekkur og Freddie heitinn Mercury sem Malek lék með tilþrifum fyrir nokkrum árum. Síðan er það ekki beinlínis að auðvelda Bond endurkomuna að 007 leyfið er komið í hendur leyniþjónustukonunnar Nomi, sem Lashana Lynch leikur. Gamalgrónir Bond-aðdáendur gengu margir hverjir af göflunum þegar spurðist út að 007 væri orðin kona og gátu vart á sér heilum tekið. Bond, sem gömul kaldastríðseðla og steingerð karlremba, virðist hins vegar hafa tekið breytingunni af aðeins meira æðruleysi þannig að ballið í No Time to Die verður í meira lagi fjörugt. Nauðgari hennar hátignar Cary Fukunaga, leikstjóri No Time to Die, talar enga tæpitungu þegar hann gerir upp skuggalega fortíð Bonds í gömlu myndunum og segir hann í raun hafa verið nauðgara í elstu myndunum. Þannig að þótt upprunalegi Bondinn, Sean Connery, sé enn sá besti að margra mati, þola myndir hans nútímaviðhorf illa og Fukunaga nefnir til dæmis atriði í Thunderball þar sem ágengur Bond tekur nei engan veginn sem svar og fær sitt fram með ýtni og yfirgangi. „Þetta myndin ekki ganga í dag,“ segir Fukunaga. James Bond í meðförum Seans Connery kæmist ekki langt í dag og yrði útilokaður á núll einni fyrir framkomu sína og viðhorf til kvenna. Afkastamikill morðingi Talnaglöggum telst til að James Bond hafi drepið um 405 skúrka og fúlmenni í myndabálkinum frá því Sean Connery reið á vaðið í Dr. No 1962. Pierce Brosnan hefur reynst banvænasti Bondinn, með 135 dráp í aðeins fjórum myndum. Pierce Brosnan lét vopnin tala þegar hann tók við hlutverkinu, hefur sálgað flestum vondum köllum og ber höfuð og blóðugar herðar yfir hina Bondana fimm. George Lazenby náði fimm manns í sinni einu mynd, Timothy Dalton 23 í tveimur myndum. Roger Moore kom 90 manns í gröfina og sálgaði til dæmi aðeins einum, manninum með gylltu byssuna, í samnefndri mynd. Ungfrú 007 No Time to Die þykir ganga lengst, hingað til, í viðleitninni til þess að hrista karlrembuslepjuna af Bond enda almennt talið löngu tímabært að hann stígi báðum fótum yfir í 21. öldina. Leyfislaus Bond má gera sér að góðu að teika Nomi, sem Lashana Lynch leikur, og hefur tekið við kennitölunni 007. Merkingarbærasta breytingin að þessu sinni er að flytja einkanúmer Bonds yfir á Nomi, sem Lashana Lynch leikur, enda ærðust einhverjir óstöðugir við þetta. Barbara Broccoli, framleiðandi myndanna, segir löngu tímabært að fólk átti sig á og kyngi því að tímarnir eru breyttir og bendir á að fyrsta bókin um Bond var skrifuð 1952 og að fyrsta myndin hafi komið út 1962. Roger Moore lék Bond í sjö myndum sem er enn þann dag í dag metfjöldi þar sem Connery fylgir í kjölfarið með sex myndir og Daniel Craig með fimm. Sjöfaldur Moore Af þeim sex leikurum sem hafa tekið hlutverk Bonds að sér birtist Roger Moore í sjö myndum og heldur enn metinu, þar sem Daniel Craig lætur staðar numið við fimm. Moore eyddi 4.348 dögum sem 007 en Craig toppar hann í dagatalinu með 4,729 daga eftir No Time to Die. Alltaf blindfullur James Bond er annálaður ofdrykkjumaður og engin hætta á öðru en að í raunveruleikanum væri lifrin í honum handónýt, taugakerfið í henglum og hann sjálfsagt dauður úr drykkju. Bond var heldur blautur bak við eyrun í frumraun Daniels Craig, Casino Royale, og lét sig engu varða hvort martini hanastélið væri hrist eða hrært. Daniel Craig er drykkfelldasti Bondinn hingað til, eftir að hafa sturtað í sig 85 áfengiseiningum í fjórum myndum. Hann er til dæmis með 26 drykki í Casino Royale og vitaskuld mest í brenndum vínum. Einna helst vodka martini, hristum en ekki hrærðum. Craig tók hins vegar upp á að sulla í Heineken-bjór í Skyfall og Spectre sem þótti næstum jafn alvarlegt stílbrot og að úthluta konu 007. Hristur, hrærður, dauður. Erkifjandinn Bond hefur tekist á við halarófu af mikilmennskubrjáluðum illmennum í gegnum tíðina og þótt margir vilji meina að hinn gullóði Goldfinger sé besti Bond-skúrkurinn getur enginn annar en Ernst Stavro Blofeld, stofnandi S.P.E.C.T.R.E., talist hinn eini sanni erkióvinur. Fyrir utan náttúrlega hversu vel hann liggur við höggi í gríninu þannig að hann og kötturinn eru í raun sjálfstæð stærð í dægurmenningunni þar sem þeir hafa ítrekað verið stældir og skrumskældir. Vitaskuld með bestu árangri í Austin Powers-myndunum þar sem Mike Myers fór mikinn sem Dr. Evil. Donald Pleasence sló eign sinni á persónu Blofelds í You Only Live Twice 1967 og öndvegisleikarinn Christoph Waltz gerði atlögu að honum í S.P.E.C.T.R.E. 2015 auk þess sem Mike Myers gerði ógleymanlegt grín að skúrkinum sem Dr. Evil í Austin Powers myndun Blofeld kemur fyrir í nokkrum bókum og myndum þar sem hann er eftirminnilegastur í You Only Live Twice í meðförum Donalds Pleasence þar sem hann strauk hvíta kettinum ofan í óvirkum eldfjallagíg í Japan. Christoph Waltz tók síðast ágætis snúning á Blofeld í Spectre, vitaskuld, og eitthvað mun skína í rúnum rist smetti hans í No Time to Die.
Ofurbráð höfnun: Ofurbráð höfnun er nú afar sjaldgæf en hún orsakast af frumuskemmandi mótefnum gegn græðlingnum og einkennist af svæsnum æðaþelsskaða og segamyndun sem leiða til eyðileggingar græðlingsins á fyrstu dögunum eftir ígræðslu. Engin meðferð kemur að gagni. Þessi tegund höfnunar á sér stað þegar ABO-blóðflokkaósamræmi er milli þega og gjafa. Hún sést einnig í nýra-og hjartagræðlingum þegar mótefni gegn HLA-sameindum gjafans eru til staðar við ígræðslu (12). Slík mótefni geta myndast við meðgöngu og fæðingu, við blóðgjöf og við höfnun ígrædds líffæris. Til að hindra ofurbráða höfnun er ætíð tryggt að ABO-blóðflokkasamræmi sé fyrir hendi. Ennfremur er ávallt framkvæmt eitilfrumukrosspróf fyrir nýraígræðslu og hjá væntanlegum hjartaþegum er skimað fyrir þessum mótefnum og krossprófað fyrir ígræðslu ef þau reynast fyrir hendi. Bráð höfnun: Tíðni bráðrar höfnunar er talsvert mismunandi eftir tegund líffæris og er á bilinu 3060%. Hún á sér oftast stað á fyrstu þremur mánuðunum eftir ígræðslu en getur komið fyrir á hvaða tíma sem er, einkum ef ónæmisbæling er minnkuð eða stöðvuð. Einkennandi fyrir bráða höfnun er íferð bólgufrumna, einkum eitilfrumna og gleypifrumna, sem oft er mest áberandi umhverfis æðar (mynd 2). Aðrar markverðar vefjabreytingar eru æðaþelsbólga í smáum æðum og sköddun í starfrænum vef, svo sem píplubólga í nýra, vöðvafrumudrep í hjarta og gallgangabólga í lifur. Bráð höfnun veldur röskun á starfsemi græðlings. Hún er oft einkennalaus og því erfið í greiningu, sérstaklega eftir tilkomu öflugra ónæmisbælandi lyfja sem draga úr einkennum bólgusvörunar. Vefjagreining er yfirleitt nauðsynleg forsenda réttrar meðferðar því aðrar orsakir geta legið að baki skertri starfsemi græðlings. Rannsóknir miða að því að þróa aðferðir sem gera kleift að greina bráða höfnun með einföldum og skjótum hætti. Langvinn höfnun: Langvinn höfnun er algengasta orsök þess að græðlingar tapast í tímans rás og er eitt stærsta vandamálið á sviði líffæraflutninga í dag. Þetta er hægfara ferli sem sést yfirleitt ekki fyrr en nokkrum mánuðum eða árum eftir ígræðslu og er álitið að orsökin felist í endurtekinni bráðri höfnun eða viðvarandi forklínískri (subclinical) höfnun (13). Einkennandi fyrir langvinna höfnun nýra-og hjartagræðlinga eru æðaskemmdir í græðlingnum sem finnast í slagæðum af öllum stærðum (mynd 3). Aðrar sjúklegar breytingar eru mismunandi eftir því hvaða líffæri á í hlut. Í lifur er mikil fækkun gallganga áberandi, í hjarta sést útbreiddur kransæðasjúkdómur og stíflumyndandi berkjungabólga í lunga. Vefjabreytingarnar sýna oftast lítil merki um ónæmissvörun og því óljóst að hve miklu leyti skemmdirnar eru á þeim grundvelli. Því er oft talað
Nú þegar allir eru að einbeita sér að því að bíða eftir Bakkafjöruhöfn – hvað er þá að gerast á öðrum vígstöðvum? Hvað er að frétta af innanlandsfluginu? Það hefur nú verið fín drift í því í sumar sýnist mér, er alveg viss um að það er góð farþegaaukning þetta árið – þið leiðréttið mig þá ef þetta er ekki rétt hjá mér. En er ekki samningurinn við Flugfélag Íslands að renna út um áramót? Einhver sagði mér það um daginn. Er þá ekki kominn tími á að grafa hann upp og framlengja hann? Ég heyrði nefnilega að það væri ákvæði í honum um að framlengja hann til tveggja ára – held að menn ættu að drífa sig í að ganga þá frá því svo að við förum ekki að lenda í einhverju tjóni með þetta allt þegar nær dregur – við þurfum svo sannarlega á innanlandsfluginu að halda og ekki væri verra ef að það tækist að nýta þetta framlengingar ákvæði núna í þessum mánuði og þurfa þá ekki að hafa áhyggjur af þessu í 2 ár – á þeim tíma ætti að komast reynsla á Bakkafjörufjörið og því hægt að skoða þetta kannski á aðeins breyttum forsendum þegar nær því dregur. Legg traust mitt á þá er málið varðar að taka nú hendur úr vösum og draga fram gamla, en góða, kúlupennann og ganga frá þessu hið snarasta. - Flug til Eyja - já takk http://fosterinn.blog.is
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra smábátasjómanna, segir að ný ríkisstjórn verði að bregðast mjög ákveðið við fjárhagsvanda smábátasjómanna. Greinin sé mjög skuldsett líkt og aðrar atvinnugreinar landsins. Því verði stjórnvöld að grípa til aðgerða. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra smábátasjómanna: Menn eru mjög skuldsettir og þetta er að plaga þá og ég finn það að það líður líka að því að það styttist sá tími sem menn eru, sem að frystingu lána lýkur og það þarf að taka á þessu, af því að þegar fiskverðið heldur ekki í við fall krónunnar að þá er voðinn vís og ég finn það bara líka á einstaka útgerðarmönnum sem að, þó þeir séu eingöngu að greiða vextina að þá tekur það virkilega í og þetta er út af því hvað fiskverðið hefur lækkað mikið. Karl Eskil Pálsson: Er vitað nákvæmlega hversu skuldug greinin er? Örn Pálsson: Nei við vitum það ekki nákvæmlega en ég álít að þetta séu svona um einhverjir tugir milljarða, en við höfum ákveðið vegna þessa að reyna svona að kortleggja stöðuna og við erum nýbúnir að senda öllum smábátaeigendum bréf þar sem við óskum eftir upplýsingum og til þess að hafa þetta svona í einum, á einum stað og það gerir okkur svona betur í stakk búna til þess að ræða við ríkisvaldið og þá sem að ráða í sambandi við þessi lán. Karl Eskil: Og þið hugsið ykkur þá sem sagt að banka upp á hjá ja nýjum sjávarútvegsráðherra fljótlega eftir kosningar? Örn Pálsson: Já já það getur alveg gerst og mun alveg örugglega gerast og það er náttúrulega líka ýmislegt í veiðunum sem að má betur fara og við teljum til dæmis eins og með línuívilnunina, við höfum hvatt til þess að auka hana og helst að koma henni á alla dagróðrarbáta. Það eykur vinnu í landi og eykur líka framboð á besta hráefninu og síðan álít ég að eigi að reyna að gera átak í sölumálunum, það þarf að þjálfa það betur, við erum að skila hérna eins og ég segi besta hráefni sem til er og það að það sé ekki hægt að selja þetta á hærra verði heldur en síðustu mánuðir hafa sýnt okkur að það hlýtur að vera hægt að gera betur í þeim málum. Karl Eskil: Þið vonið væntanlega að það verði ekki stjórnarkreppa eftir kosningar? Örn Pálsson: Já ég held að það sé nú engum til góðs og vonum það að það komi bara ný, það sem að komi upp úr kjörkössunum það verði ný og fersk ríkisstjórn.
Íslendingar sem greiða í lífeyrissjóð í 40 ár og eru einnig með séreignarlífeyrissparnað geta átt von á því að halda meðal ævitekjum þegar þeir fara á eftirlaun. Þetta segir sérfæðingur hjá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu OECD og vísar í niðurstöður fjölþjóðlegrar rannsóknar sem kynnt var í dag. Samkvæmt henni munu lífeyrisþegar framtíðarinnar fá hærri lífeyri en þeir sem taka hann nú. Fjármálaeftirlitið og Landsamtök lífeyrissjóða kynntu í dag niðurstöður rannsóknar á íslenska lífeyriskerfinu. Rannsóknin er hluti af fjölþjóðlegu verkefni þar sem kannað er hvort lífeyriskerfi í ríkjum OECD dugi. Rannsóknin er gerð að frumkvæði OECD og var hún einnig gerð í Frakkland, Chile, Noregi, Hollandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. „Ísland, Frakkland og Bretland eru þau þrjú lönd þar sem gera má ráð fyrir hæstum lífeyri við starfslok,“ segir Stephanie Payet, sérfræðingur hjá OECD. Þeir sem hafa greitt í lífeyrissjóð í 40 ár og fá greiðslur úr honum, frá almannatryggingum og eru með séreignarlífeyrissparnað koma vel út. „Þeir geta búist við um 100 prósentum af þeim meðallaunum á starfsævinni.“ Kerfið gerir ráð fyrir því að menn vinni í 40 ár en margir ná því ekki. Flestir sem nú eru 67 ára eða eldri hafa ekki greitt iðgjöld alla starfsævina og fá þess vegna minni lífeyri en yngra fólk. Sama á við um fyrstu kynslóð innflytjenda og langskólagengið fólk. Rannsóknin leiðir í ljós að framtíðarlífeyrir verður 27 prósentum hærri en sá sem lífeyrisþegar fengu frá sjóðunum árið 2012. Þegar almannatryggingar bætast við verða greiðslur um 33 prósentum hærri. „Framtíðar lífeyrisþegar munu frá meiri lífeyri en núverandi lífeyrisþegar þannig að það er mjög góð vísbending þar og svo er þetta gott þetta samspil við almannatryggingar,“ segir Björn Ásgrímsson, sérfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu. „Það bætir upp þá sem eru með lægri lífeyristekjur, þeir fá meira frá almannatryggingum þannig að þetta eru svona jöfnunaráhrif.“ Stefán Halldórsson, verkefnastjóri hjá Landsamtökum lífeyrissjóðanna, segir að ávinningurinn af lífeyrissjóðskerfinu eigi eftir að koma fram í áföngum, stigvaxandi á komandi árum og áratugum. „Þeir sem eiga lengst í starfslok þeir munu fá meira en allir muni njóta batans." Lífeyrissjóðirnir hafi orðið fyrir skakkaföllum í hruninu en hafi staðið það af sér. „Þeir hafa átt góð ár að undanförnu, þar á meðal í fyrra, þannig að það hefur styrkt stöðu þeirra verulega." Stefán segir að þessi rannsókn byggi á raunverulegri stöðu og skili þeirri mynd að Íslendingar standi vel að vígi og muni njóta þess á komandi áratugum.
Hannes Þór Halldórsson neitar því ekki að hafa áhuga á að spila í Pepsi Max-deildinni í sumar en hann er þó enn leikmaður Qarabag í Aserbaísjan, þar sem hann fær afar fá tækifæri um þessar mundir. Hannes samdi við Qarabag síðastliðið sumar og gerði þá tveggja ára samning. En hann segir að staða hans nú sé erfið. „Það er erfitt að lýsa þsssu. Ráða í stöðuna og giska á hvað muni gerast. Það er algert frost eins og staðan er núna og þetta er skrýtið mál,“ sagði Hannes í samtali við Vísi í dag. En er hann að reyna að semja um starfslok hjá félaginu? „Ég er alltaf að reyna að spjalla við menn þarna og finna út úr því hver næstu skref verða. Ég get ekki farið út í nein smáatriði. En það er ekkert leyndarmál að ég er óánægður með stöðuna, ég er ekki að spila og það er enginn glaður þegar hann er ekki að spila.“ Hannes Þór hefur verið sterklega orðaður við Val en vildi engu svara hvort að hann væri á leið í rauða búninginn strax í sumar. „Þegar ég skrifaði undir hjá Qarabag var planið að vera þar í tvö ár og það er enn þannig. Svo verður bara að koma í ljós hvernig framtíðin verður. Hvort það verði Valur eða eitthvað annað, ég get ekki tjáð mig um það núna.“ Hugsa hlýtt til Pepsi Max-deildarinnar Hann neitar því ekki og hefur aldrei gert, að hann er spenntur fyrir því að spila aftur heima á Íslandi. „Ég hef alltaf stefnt á það að koma heim og spila. Ég hugsa hlýtt til Pepsi Max-deildarinnar og það hefur alltaf verið heillandi tilhugsun fyrir mig. Hvort sem það gerist núna í sumar, næsta eða þarnæsta - við verðum bara að sjá til.“ Fyrir núverandi landsliðsverkefni, sem Hannes er að búa sig undir, sagði þjálfarinn Erik Hamren að Hannes væri enn markvörður númer eitt hjá landsliðinu. „Það var gott að heyra það frá þjálfaranum því undirbúningur minn síðustu vikurnar hafa snúist um þessa leiki.“
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, var tekinn tali í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2 á sunnudagskvöld. Hann ræddi þar stöðu efnahagsmála, en var einnig spurður út í verðtrygginguna sem margir hafa illan bifur á. Fram kom í máli Steinþórs að bankarnir væru hvorki að reyna að koma í veg fyrir að verðtryggingin yrði bönnuð né afnumin. „Okkur er svo sem alveg sama með þessa verðtryggingu,“ sagði hann. „Við teljum bara mikilvægt að viðskiptavinirnir hafi val.“ Bankarnir eru nefnilega ekki að fara að gefa neinum peninga þótt bannað yrði að bjóða verðtryggð lán. Starfsemi þeirra gengur út á að geyma ýmist eða lána peninga og hafa af því tekjur um leið. Til að verja sig tapi í óstöðugu efnahagsumhverfi eru vextir bara hafðir hærri á óverðtryggðum lánum. Háir vextir eða sveiflur í vaxtastigi geta svo komið þeim í vandræði sem greiða þurfa af háu láni. Það búa ekki allir svo vel að ráða við að mánaðarlegar afborganir láns hækki um tugi þúsunda (og jafnvel meira) vegna verðbólguskots. Í hruninu bauðst þeim sem voru með þannig lán eða lán í erlendri mynt að festa afborgunina við einhverja viðráðanlega upphæð og bæta mismuninum „aftan á“ lánið, við höfuðstólinn. Eitthvað er lítill munur á þessu og verðtryggðu láni. Tilfellið er nefnilega að það er ekki verðtryggingin sem er vandamálið. Vandamálið er verðbólgan og hún verður seint afnumin eða bönnuð. Til að kljást við hana þarf ábyrga hagstjórn og hagstjórnartæki sem stuðla að stöðugleika, svo sem alþjóðlegan stöðugan gjaldmiðil sem tryggt getur fjárfestum, fyrirtækjum og almenningi stöðugt rekstrarumhverfi og fyrirsjáanleika. Að maður tali nú ekki um margfalt lægri vexti. Í því umhverfi sem okkur er búið, með íslenska krónu, væri algjört glapræði að banna verðtryggingu. Hún er nauðvörn til þess gerð að fólk missi ekki allt út úr höndunum í efnahagssveiflum. En með þeim tilkostnaði, vitanlega, að hér er margfalt kostnaðarsamara að skulda en í nágrannalöndunum, sem nota evru eða hafa bundið gjaldmiðil sinn við hana með samningi við Seðlabanka Evrópu. Í viðtalinu á Stöð 2 benti Steinþór líka á að í dag væru raunvextir af verðtryggðum lánum lægri en af óverðtryggðum. „Verðtryggingin léttir greiðslubyrðina en á móti kemur að eignamyndunin er mun hægari,“ sagði hann. „Við sem höfum kynnst verðbólgu í þessu landi – flest öll – erum svolítið mikið að velta fyrir okkur tvennu; hverjir eru raunvextirnir og hver er greiðslubyrðin.“ Þess vegna væru þeir margir sem veldu sér verðtryggð lán. Til að ráða við sveiflur afborgana óverðtryggðra lána þarf fólk að vera sterkefnað. Og þótt vel fari um þann hóp í því efnahagsumhverfi sem hér hefur verið komið á, er kannski orðið vel tímabært að hinir sem borga brúsann af kostnaðinum við krónuna, velti því fyrir sér í alvöru hvort ekki sé komið nóg.
Hið óhugnanlega er hugtak komið frá Freud sem lýsir því sem er í senn kunnuglegt og framandi. í ritgerð Freuds Das Unheimliche (Hið óhugnanlega) reynir hann að skýra eðli þess sem vekur okkur ótta og veldur hryllingi og byrjar á því að rýna í orðsifjafræði og merkingu þýska orðsins umheimlich. Þessi skoðun Freuds minnir á aðferðir sem seinna komu fram um afbyggingu (deconstruction) í textagreiningu. Hið óhugnanlega er gamalkunnugt efni sem er dregið fram í dagsljósið og Freud telur það vegna þess að við erum minnt á efni sem við viljum bæla niður og bægja frá okkur og fela og leyna. Tilfinningin vísar til þess að eitt hvað gamalkunnugt birtist okkur á óþægilegan, ókunnugan og framandi hátt og það sem er ókunnugt virðist vera undarlega kunnuglegt. Hugsunina um hvort vera sé lifandi sé af þeim toga og í skáldskap er það eitt dæmi um óhugnaðartilfinningu hjá lesendum ef þeir velkjast í vafa um hvort sögupersóna sé lifandi, tvífaraminni í skáldskap og endurtekningu á því sama eins og þegar maður reynir að rata í ókunnri borg og lendir alltaf á sama staðnum eða rekst á sömu tákn. Óhugnaðurinn við endurtekningu má rekja til þess að við erum minnt á eitt hvað sem við reynum að bæla.
Stígamót hafa gagnrýnt herferð Barnaheilla sem stendur nú yfir en samtökin segja efnistök herferðarinnar geta gefið þau skilaboð að börn geti komið í veg fyrir kynferðisofbeldi með því að segja nei og að aðstandendur barna geti með einhverjum hætti komið í veg fyrir slíkt ofbeldi. „Af reynslu okkar af því að starfa með brotaþolum kynferðisofbeldis í áratugi vitum við að svona skilaboð geta verið mjög varhugaverð og jafnvel skaðleg,“ segir í yfirlýsingu Stígamóta um málið en þau segja að börn ættu ekki að fá þau skilaboð að þau stjórni því hvort þau verði fyrir ofbeldi. Landsöfnun Barnaheilla hófst síðastliðinn mánudag með sölu á ljósinu og ber söfnunin heitið „Hjálpumst að við að vernda börn“ en söfnuninni lýkur þann 6. september. Þetta er í fyrsta sinn sem söfnunin er á vegum Barnaheilla en samtökin Blátt áfram, sem hafa séð um söluna í tíu ár, sameinuðust Barnaheillum í fyrra. Meðal annars sem kemur fram í herferð Barnaheilla er hvernig hægt sé að koma í veg fyrir ofbeldi. „Hættum að þolendaskamma börn“ Að því er kemur fram í yfirlýsingu Stígamóta eru ofbeldismenn oft aðilar sem börnin þekkja og þykir vænt um, og því geti þeir áunnið sér traust barnanna og aðstandenda þeirra. Þá kemur fram að fjölmargir hafi leitað til Stígamóta uppfullir af skömm því þeir gerðu ekkert til að stöðva ofbeldið. „Við á Stígamótum ítrekum að skaðinn af því að telja börnum og foreldrum trú um að þau stjórni á einhvern hátt gjörðum kynferðisbrotamanna er oft óafturkræfur og mótar fólk fyrir lífstíð,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni. „Við teljum að vel sé hægt að hanna herferð og forvarnaefni fyrir börn og aðstandur án þess að senda skilaboð sem geta ýtt undir skömm og sektarkennd. Hættum að þolendaskamma börn og setjum ábyrgðina þar sem hún á alltaf heima – á gerendur ofbeldis.“ Í ljósi herferðar Barnaheilla sem stendur yfir þessa dagana viljum við á Stígamótum koma eftirfarandi skilaboðum á... Posted by Stígamót on Friday, August 28, 2020
Margar af verðmætustu fasteignum landsins eru komnar undir stjórn eignarhaldsfélaganna sem viðskiptabankarnir hafa stofnað á undanförnum mánuðum. Fyrirtæki sem bankarnir hafa tekið yfir fjölgar mjög. Fasteignarfélög eins og Þyrping, sem á turnana í Skuggahverfinu, Eik, sem á stóran hluta í Smáralind og Landic, sem á Kringluna. Fyrirtæki eins og Húsasmiðjan, Hekla og Penninn. Allt þetta og reyndar meira til er nú komið eða er að færast undir stjórn eignarhaldsfélaga sem bankarnir þrír, Kaupþing, Íslandsbanki og Landsbankinn hafa stofnað á undanförnum mánuðum. Starfsemin er í sumum tilfellum rétt að byrja, annars staðar er hún komin í fullan gang. Landsbankinn er með tvö félög af þessu tagi; Reginn sem fer með rekstur fasteigna og fasteignafélaga, þar er Egilshöll niðurkomin til að mynda, og Vestia sem stýrir rekstrarfélögum á borð við Húsasmiðjuna. Vestia á einnig þriðjung í Landic á móti hinum bönkunum, Landic á til dæmis Kringluna. Hjá Kaupþingi eru þrjú félög; Landfestar sem fer með fasteignir, til dæmis eignir sem teknar voru af Exista og Þyrpingu, Landey sem sér um ófullgerðar fasteignir Þyrpingar eins og turnana í Skuggahverfinu, og Eignarsel sem á að taka við fyrirtækjum eins og Heklu og Pennanum þegar Kaupþing er búið að endurskipuleggja reksturinn. Íslandsbanki stofnaði eitt félag, Miðengi, og fimm félög undir því; Fjárengi, Engigerði, Útengi, Laufengi og Breiðengi. Þarna eru til að mynda Steypustöðin sem Glitnir eignaðist reyndar fyrir hrun, og fasteignafélagið Eik sem á stóran hluta í Smáralind. Eik stærir sig af því á heimasíðu félagsins að vera stærsti einstaki leigusalinn í miðborg Reykjavíkur og á reyndar stóran hluta af því húsnæði sem Landsbankinn notar þar um slóðir. Verðmæti þessara fasteigna og félaga sem bankarnir ráða nú yfir nemur milljörðum króna þrátt fyrir áföll á fasteignamarkaði, svo ekki sé talað um efnahagshrunið síðasta vetur. Stóra spurningin er síðan hvað bankarnir gera við þessar eignir. Innlendir og erlendir fjárfestar hafa þegar sýnt áhuga á nokkrum þeirra. Ljóst þykir að sumar þessara eigna verða í eigu bankanna næstu misserin, en stefnt er að sölu annarra á næstu mánuðum.
A. Útstrikun og umröðun: Frambjóðandinn í sætinu fyrir ofan hinn útvalda er strikaður út um leið og hinn útvaldi er settur í 1. sæti. Hver er röð nafna á kjörseðli eftir breytingar kjósanda? Í lögunum segir að einungis þeir frambjóðendur, sem skipa efstu sæti listans jafnmörg og nemur röðunartölunni, komi til álita í aðal- og varamannsæti listans; hjá lista sem hlaut 1 sæti þeir 3 efstu, 4 efstu hjá lista með 2 sæti og svo framvegis. Í kosningunum 2009 var Árni Johnsen enn færður niður um sæti, en þá var útstrikunarígildið 18,9%. Þetta er eina dæmið úr listakosningum til Alþingis um að breytingar kjósenda hafi fært til þingsæti. Það hefur þó ekki leitt til breytinga á skipan þingsins. Útstrikun kjósandans á 2. mynd á Gunnari á Hlíðarenda er því merkingarlaus. D. Umröðun: Nú er aðeins sýndur hinn raunverulegi vilji, það er að segja hinn útvaldi er merktur með númeri sætisins fyrir ofan. Hafa breytingar á listum umraðað frambjóðendur í liðinni tíð? Í kosningalögum[1] segir að kjósandi megi gera eftirfarandi breytingar á listanum: Þau miðast auðvitað við það að aðrir kjósendur N-listans hrófli ekki við röð nafna. Á árabilinu 1959-1999 urðu engar tilfærslur, enda hafði lögum verið breytt til að gera áhrif kjósenda minni, bæði með lagabreytingum 1959 en einkum þó 1987. Orðið stig er ekki að finna í lögunum en er notað hér til hægðarauka. Síðan fær annar maður á listanum, eða sá sem skipar það sæti eftir breytingar kjósandans, einu færri stiga og svo framvegis. B. Útstrikun: Skarphéðinn strikaður út, 20%. Með nýjum kosningalögum árið 2000 var kjósendum veit aukið vald til breytinga eins og lýst er að framan. Við bendum lesendum á að lesa svar sama höfundar við spurningunni Hvernig virkar kosningakerfið á Íslandi? en sérstaklega þó svarið við spurningunni Hvað þarf listi mikið fylgi til að hljóta sæti í alþingiskosningum? Hvaða áhrif hafa breytingar kjósandans? Þá skiptir máli hvernig atkvæðaseðlinum er breytt. Í sömu kosningum var Guðlaugur Þór Þórðarson færður úr 1. sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður með verulegum breytingum kjósenda listans eða ígildi þess að 23,6% þeirra hafi strikað hann út. Að öðru óbreyttu taka frambjóðendur sæti listans í þessari sömu röð; efsti maður á listanum fær fyrsta sæti hans og svo framvegis allt þar til lokið er að manna aðal- og varamannasæti listans. Merkingar kjósenda við sæti neðar á listanum skipta engu máli. Efsti maður – eins og hann er á listanum – eða verður eftir breytingar kjósandans – fær jafnmörg stig og nemur röðunartölunni. Þessu er ekki hægt að svara almennt þar sem sumir kjósendur breyta á einn veg en aðrir á annan. [Setja] tölustafinn 1 fyrir framan það nafn er hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa það þriðja o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til. En ætli stuðningmenn Skarphéðins hafi nú ekki haft varann á og beitt brögðum á móti! Nokkuð flókið er að svara þessu. Flokkar bjóða fram lista í kjördæmum með nöfnum frambjóðenda, jafnmörgum og nemur tvöfaldri þeirri tölu þingsæta sem kjördæminu ber. Hvað má kjósandinn gera? Samkvæmt ákvæðum kosningalaganna[2] þarf að ákveða hverjum lista svokallaða röðunartölu en það er tvöföld tala þeirra sæta sem listinn hefur hlotið (kjördæmis- eða jöfnunarsæti samanlagt), en þó er röðunartalan aldrei lægri en þrír (sem á einungis við þegar listi hefur hlotið eitt þingsæti en þá er röðunartalan 3, ekki 2). ^ Sjá 110. gr. sömu laga. Kjósendur eiga þess þó kost að breyta röðinni á þeim lista sem þeir hafa merkt við – en aðeins í þeim lista. Það fer eftir því hvaða aðferðum þeir hefðu beitt. Segjum að samstilltur hópur stuðningsmanna eins frambjóðenda vilji þoka honum upp um eitt sæti hið minnsta. Skýrum þetta út með Njáludæminu og gefum okkur að N-listinn hafi fengið 3 menn kjörna. Í þessu síðarnefnda svari er fjallað um það hvað listi þurfi mikið fylgi til að hljóta þingsæti. Röðun í 1. sæti: Hallgerður er sett í 1. sæti, 25%. B. Útstrikun: Aðeins er beitt útstrikuninni í aðferð A, ekki merkingu í 1. sæti. Ekki er beitt útstrikun. Í töflu 1 hér á eftir er því svarað hvað stuðningshópurinn þarf að vera stór hluti kjósenda listans til að ná árangri, þeim að koma sínum manni upp um eitt sæti. Það er útskýrt hér fyrir neðan. Víkjum þá aftur að lista Njálufólks. A. Útstrikun og umröðun: Skarphéðinn strikaður út um leið og Hallgerður er sett í 1. sæti. Hvernig virkar kosningakerfið á Íslandi, hvað þurfa flokkar mikla kosningu til að koma manni á þing o.s.frv.? Á 1. mynd er sýnt dæmi um það hvað kjósandi má gera. Þá þarf 14,3% til að ná árangri. Aðferðunum er hér raðað eftir áhrifamætti þeirra. Á lýðveldistímanum hefur það gerst fimm sinnum að kjósendur hafi náð að breyta röð frambjóðenda. Röðunartala hans er þá 6. Spurningin er hluti af lengri spurningu sem hljóðar svona: Töfluna má nýta til að finna hve marga stuðningsmenn Hallgerðar langbrókar hefði þurft til að lyfta henni upp fyrir Skarphéðinn. Spurningin er hvað hópurinn þarf að vera stór til að ná þeim árangri að frambjóðandinn færist upp um sæti. Við þetta féll Björn út af þingi en sá næsti fyrir neðan, Bjarni Benediktsson (eldri), fór inn í staðinn. Eftir það hafa frambjóðendur fjórum sinnum skipt um sæti fyrir atbeina kjósenda. D. Umröðun: Hallgerður færð í sæti Skarphéðins, 50%. ^ Sjá ákvæði 2. og 3. mgr. 82. gr. kosningalaganna nr. 24/2000. Fjórar meginaðferðir við breytingar á kjörseðlum koma til álita: Ef kjósandi vill hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs strikar hann yfir nafn hans. Næst þarf að ákveða þessum mönnum stig, svona eins og í Evróvisjón sem margir kannast við. Gert er ráð fyrir að hinir kjósendurnir – þeir sem vilja halda listanum óbreyttum – beiti sér ekki á móti á neinn hátt. Því verður að gefa sér einfaldar forsendur. Hins vegar er ekki sjálfgefið að efstu menn á lista hreppi þau sæti sem listanum hefur verið úthlutað. Rifjum upp að Hallgerður er í 3. sæti á N-listanum, en listinn fékk 3 þingsæti. Hvaða þarf til að röð frambjóðenda breytist? Röðun í 1. sæti: Útvaldi frambjóðandinn er merktur með 1 en ekki beitt útstrikun. Nöfnin á listunum eru í röð ofan frá og niður úr, eins og þau samtök sem að listanum standa hafa ákveðið, oft en ekki alltaf í kjölfar prófkjöra. Á 2. mynd sést hver er röð nafna á listanum fyrir og eftir breytingar kjósandans. Lágmarkshlutföllin sem þarf að yfirstíga til að Hallgerður færist upp eru fengin úr töflu 1. Í kosningunum 2007 var Árni Johnsen færður niður um sæti á lista Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi vegna ígildis um 21,3% útstrikana, það er að segja eins og beitt hefði verið aðferð B. Sama henti Björn Bjarnason sem færðist niður um sæti á lista Sjálfstæðismanna í Reykjavíkurkjördæmi suður með 18,3% útstrikunum, eða ígildi þeirra. Nú sýnir 3. mynd stigatölu röðunarmanna listans fyrir og eftir breytingar kjósandans. Í þingkosningum 1946 færðist Björn Ólafsson niður um sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en reglur voru þá aðrar en nú.
Vésteinn Guðmundsson (f. 14. ágúst 1914, d. 15. janúar 1980) var íslenskur efnaverkfræðingur, verksmiðjustjóri og framkvæmdastjóri. Vésteinn Guðmundsson var sonur Guðmundar Bjarnasonar (1870-1924), bónda á Hafurshesti (Hesti) í Önundarfirði, Mosvallahreppi, Vestur-Ísafjarðarsýslu, og konu hans Guðnýjar Arngrímsdóttur húsfreyju (1871-1920). Barn að aldri missti hann báða foreldra sína, og var alinn upp hjá systkinum sínum. Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1935. Próf í efnaverkfræði frá DTH, Danmarks Tekniske Höjskole, haustið 1940. Verkfræðingur hjá Niðursuðuverksmiðju Keflavíkur hf. 1941 og hjá Hraðfrystihúsi Innri-Njarðvíkur 1941-1943. Vésteinn réðist til síldarverksmiðju Kveldúlfs hf. á Hjalteyri 1943 og starfaði þar til 1967, þar af sem verksmiðjustjóri frá 1947. Frá 1967 þar til hann lést árið 1980 var Vésteinn framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar við Mývatn. Ýmsum aukastörfum og félagsmálastarfsemi sinnti Vésteinn á starfsferli sínum. Þannig var hann hreppsstjóri Arnarneshrepps við Eyjafjörð 1957-1967 og í hreppsnefnd sama hrepps 1946-1967. Formaður fasteignamatsnefndar Eyjafjarðarsýslu 1964-1967. Hann átti sæti í nefnd um tilraunir með ný veiðarfæri við síldveiðar 1950-1951, stjórnaði síldveiðitilraunum 1953-1954 og síldarflutningum frá Austurlandsmiðum til Hjalteyrar og Krossaness 1959-1964. Hann var í verðlagsráði sjávarútvegsins 1963-1967. Vésteinn var forgöngumaður um að hagnýta jarðgufu við vinnslu kísilgúrs, en slíkt hafði ekki verið reynt fyrr. Hann skrifaði grein um kísilgúrvinnsluna við Mývatn þar sem þessu er lýst. Vésteinn starfaði að stjórnmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var. m.a. í þriðja sæti á framboðslista flokksins við kosningar til Alþingis 1959 í sínu kjördæmi, Eyjafjarðarsýslu. Vésteinn var fréttaritari Morgunblaðsins á Hjalteyri um árabil. Páll Ólafsson verkfræðingur, skólafélagi Vésteins á mennta-og háskólaárunum, segir svo um hann: „Vésteinn var góðum gáfum gæddur. Hann var léttur í lund og átti sérstaklega gott með að umgangast aðra menn. Hann gerði sér far um að setja sig í spor þeirra sem hann átti skipti við og skilja þeirra sjónarmið. Hann lét sér annt um hag samstarfsmanna sinna og mun oft hafa verið leitað til hans um margs konar málefni. Þegar kísilgúrverksmiðjan tók til starfa í Mývatnssveit, litlu sveitarfélagi, sem er viðbrugðið fyrir fegurð og viðkvæma náttúru fór ekki hjá því, að upp kæmu ýmiss konar vandamál, bæði félagslegs og vistfræðilegs eðlis. Vésteinn lagði sig sérstaklega fram um að leysa þau mál og átti manna drýgstan þátt í því, að það tókst svo vel, að allir mega vel við una.“ Vésteinn Guðmundsson var tvígiftur. Fyrri kona hans var Elín Guðbrandsdóttir, verslunarmaður, f. 1. ágúst 1914 í Reykjavík, d. 16.09.1996. Börn þeirra Auður Sigurborg, f. 29. ágúst 1939. Guðný Elín, f. 1. desember 1944. Gunnhildur, f. 25. nóvember 1950. Vésteinn og Elín skildu. Seinni kona Vésteins var Valgerður Árnadóttir, f. 13. nóvember 1922, d. 6. nóvember 2001. Börn þeirra: Árni, f. 23. júní 1955. Valgerður, f. 26. september 1956. Vésteinn, f. 15. júní 1958.
Vorblót, vorútgáfa Reykjavík Dance Festival, hefst í dag í Tjarnarbíó. Hátíðin kannar mörk dans, tónlistar og sviðslistar og gefur áhorfendum tækifæri til að upplifa fjölbreytileikann í íslenskum sviðslistum. Steinunn Ketilsdóttir danshöfundur er meðal listamanna sem taka þátt í Reykjavík Dance Festival í vor. „Áhorfendur sem koma á hátíðina fá tilfinningu fyrir flórunni. Í stað þess að fara á stakt verk sem stendur eitt og sér færðu tilfinningu fyrir fjölbreytileikanum. Fólk er að gera svo rosalega ólíka hluti.“ Steinunn sýnir verkið 1.5 sem fjallar að hennar sögn um dansformið sem slíkt. „Þetta er sólóverk, 25 mínútur, ekki heil plata heldur smáskífa. Maður getur horft á dans og hreyfingu frá svo mörgum sjónarhornum. Flækjustigið verður alltaf meira og meira, samt kemur einhver skýrleiki á sama tíma.“ Teknófiðludúettinn Geigen kemur fram á hátíðinni Verkið Traces eftir Rósu Ómarsdóttur er líka á dagskrá hátíðarinnar. „Við frumsýndum það 2017 í Brussel og höfum síðan verið að sýna það víðs vegar um Evrópu og erum loksins núna, einu og hálfu ári síðar, að koma með það heim til Íslands. Við erum að skoða samband manns við umhverfi, þetta er mikið samspil sviðsmyndar, tónlistar og dansara. Það birtist landslag á sviðinu sem tekur breytingum gegnum verkið. Fólk kvartar stundum við mig yfir því að skilja ekki dansverk. Ég hvet þau bara til að mæta með öll skilningarvit opin. Þetta er ekki verk til að skilja heldur upplifa.“ Rætt var við Steinunni, Rósu og teknófiðludúettinn Geigen í Menningunni. Horfa má á innslagið hér fyrir ofan.
Jafnvægi virðist komið á hlutabréfamarkað með 0,14% lækkun Úrvalsvísitölunnar. Brim hækkar mest en Reitir lækka mest. Eftir miklar sviptingar á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi síðustu vikuna virðist nokkuð jafnvægi hafa náðst á ný með 0,14% lækkun Úrvalsvísitölunnar. Heildarviðskiptin í dag námu 2,5 milljörðum króna, þar sem fjögur félög hækkuðu í virði, fimm stóðu í stað og 12 lækkuðu í virði. Mestu viðskiptin voru með bréf í Arion banka, eða fyrir 433,1 milljón króna, en bréfin stóðu samt sem áður í stað í 80 krónum. Næst mestu viðskiptin voru með bréf Festi, eða fyrir 336,7 milljónir króna, og lækkaði gengi bréfanna í þeim um 1,56%, niður í 126 krónur, sem var þriðja mesta lækkunin í kauphöllinni í dag. Næst mesta lækkunin var á gengi bréfa Vís, eða um 1,72%, í 84 milljóna króna viðskiptum og fór gengið niður í 10,30 krónur. Gengi bréfa fasteignafélagsins Reita lækkaði svo mest, eða um 2,14%, í 105 milljóna króna viðskiptum og var lokagengið 68,70 krónur. Brim hækkaði hins vegar mest, eða um 1,75%, upp í 37,75 krónur, í 56 milljóna króna viðskiptum. Þar á eftir kom Reginn, sem hækkaði um 1,04%, í 125 milljóna króna viðskiptum, og fór gengi bréfa fasteignafélagsins í 19,40 krónur. Þriðja mesta hækkunin var svo á gengi bréfa Iceland Seafood, eða um 0,48%, upp í 9,46 krónur, í 102 milljóna króna viðskiptum. Viðskiptablaðið sagði frá því fyrr í dag að félagið hefði ákveðið að sameina starfsemi sína í Bretlandi á einum stað í Grimsby og byggja upp nýja aðstöðu þar með hátt í milljarðs króna fjárfestingu. Breska pundið komið yfir 163 krónur Gengi krónunnar stóð í stað gagnvart evru og dönsku krónunni í dag, og fæst evran nú á 141,73 krónur og danska krónan á 18,966 íslenskar. Bandaríkjadalur hækkaði gagnvart krónunni um 0,38%, í 127,35 krónur og breska pundið hækkaði um 0,37%, í 163,14 krónur. Norska og sænska krónan gaf svo eftir gagnvart þeirri íslensku, lækkaði sú fyrrnefnda um 0,04% í 13,727 íslenskar krónur en sú síðarnefnda lækkaði um 0,37%, niður í 13,404 krónur.
Hyundai á Íslandi frumsýnir á morgun, laugardag milli kl. 12 og 16 fólksbílinn Bayon sem er nýjasta viðbót framleiðandans hér á landi. Bayon er ríkulega búinn bíll með góðri veghæð og hárri yfirbyggingu í ætt við jepplinga, þar sem sest er beint inn og setið hátt. Meðfylgjandi er fréttatilkynning frá BL. Bayon fremur rúmgóður og auðveldur í umgengni. Það á ekki síst við þegar hlaða þarf farangri í 411 lítra farangursrýmið þar sem afturhlerinn opnast einstaklega hátt. Hægt er að stækka farangursrýmið í 1.205 lítra, sem er með því mesta í þessum stærðarflokki. Góður afþreyingar- og öryggisbúnaður Staðalbúnaður Bayon er sérlega góður, einkum þegar kemur að öryggi og akstursaðstoð. Meðal staðalbúnaðar í grunnútgáfunni Comfort er t.d. 8“ afþreyingarskjár, hraðastillir, brekkubremsa, akgreinavari og árekstrarvörn ásamt bakkmyndavél, fjarlægðarskynjara og aðvörun sé opin hurð. Meðal þægindabúnaðar má svo nefna lyklalaust aðgengi, skyggðar rúður, hita í stýri, upphitaða hliðarspegla, armpúða við framsæti, Bluetooth, USB og þráðlausa farsímahleðslu svo nokkuð sé nefnt. Í dýrari útfærslu Bayon, Style, bætast svo við fleiri eiginleikar á bæði öryggis- og þægindasviði, svo sem 10,25 tommu afþreyingar- og upplýsingaskjár, hljómtæki frá Bose, meiri öryggisbúnaður og akstursaðstoð og fleira eins og hægt er að kynna sér nánar á Hyundai.is. Einkennandi útlit nýrrar línu Hyundai Eins og nýr Tucon, Kona og Santa Fe er einkennismerki Bayon hið nýja ytra útlit fólksbílalínu Hyundai, þar sem framendinn er sérlega svipsterkur og grípur augað í umferðinni vegna samspils ljósabúnaðar og heildareiningar framendans. Þá er eftirtektarvert hve Bayon hefur háan lægsta punkt sem eru 18,3 cm sem er raunar með því besta sem gerist í stærðarflokknum. Bakssvipur Bayon ekki síður einkennandi þar sem búmeranglaga afturljósin eru einkennandi ásamt stalllaga afturhleranum en hvort tveggja innrammar sterka heildarhönnun Bayon. Snörp 100 hestafla vél með forþjöppu Hér á landi er Bayon til að byrja með boðinn með snarpri þriggja strokka eitt hundrað hestafla bensínvél við sjálfskiptingu og forþjöppu. Bayon er boðinn í tveimur búnaðarútfærslum, Comfort og Style, og er grunnverð bílsins 3.890.000 krónur. Eins og hægt er að kynna sér nánar hjá Hyundai við Kauptún á morgun, laugardag milli 12 og 16 þar sem reynsluakstursbílar eru til taks fyrir þá sem vilja koma og prófa nýja fjölskyldumeðliminn.
Susan Brownell Anthony (15. febrúar 1820 – 13. mars 1906) var bandarísk kvenréttindakona sem lék lykilhlutverk í baráttunni fyrir kosningarétti kvenna í Bandaríkjunum. Hún var dóttir kvekara og safnaði undirskriftum fyrir andstöðu við þrælahaldi þegar hún var sautján ára. Árið 1856 varð hún fylkisfulltrúi samtaka bandarískra þrælahaldsandstæðinga í New York. Árið 1851 kynntist Anthony Elizabeth Cady Stanton og með þeim tókst ævilangur vinskapur. Þær börðust saman fyrir samfélagsumbótum, sérstaklega kvenréttindum. Árið 1852 stofnuðu þær bindindisfélag kvenna í New York-fylki eftir að Anthony var meinað að flytja ræðu á ráðstefnu bindindismanna vegna kyns síns. Árið 1863 stofnuðu þær samtökin "Women's Loyal National League", sem safnaði tæpum 400.000 undirskriftum til stuðnings banns við þrælahaldi. Þetta var stærsta undirskriftasöfnun í Bandaríkjunum á þeim tíma. Árið 1866 stofnuðu þær bandarísku jafnréttissamtökin og töluðu með þeim fyrir jöfnum réttindum bæði kvenna og blökkumanna. Árið 1868 byrjuðu þær útgáfu kvenréttindablaðsins "The Revolution". Næsta ár stofnuðu þær samtök um kosningarétt kvenna og sameinuðust árið 1890 öðrum slíkum samtökum. Árið 1876 hófu Anthony og Stanton að vinna ásamt Matildu Joslyn Gage að sex binda sagnfræðiriti um baráttu kvenna fyrir kosningarétti. Árið 1872 var Anthony handtekin fyrir að greiða atkvæði í kosningum í heimabæ sínum, Rochester í New York-fylki. Hún var sakfelld eftir réttarhöld sem vöktu mikla athygli en hún neitaði að endingu að greiða sekt fyrir gjörninginn og yfirvöld ýttu ekki á eftir því. Árið 1878 kynntu þær Anthony og Stanton stjórnarskrárbreytingu fyrir bandaríska þinginu sem ætti að veita konum kosningarétt. Frumvarpið var kynnt á þinginu af þingmanninum Aaron A. Sargent og var kennt við Susan B. Anthony. Frumvarpið varð ekki að veruleika fyrr en með nítjánda viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna árið 1920. Anthony ferðaðist vítt og breitt í baráttunni fyrir kosningarétti kvenna og flutti um 75 til 100 ræður á hverju ári. Hún vann með konum um allan heim og átti þátt í stofnun Alþjóðaráðs kvenna, sem starfar enn í dag. Hún tók einnig þátt í skipulagningu kvennaþingsins á Kólumbusarsýningunni í Chicago árið 1893. Þegar Anthony byrjaði baráttu sína fyrir kvenréttindum var hún höfð að háði og spotti og sökuð um að vilja rústa heilagleika hjónabandsins. Almenningsálit á henni gerbreyttist á ævi hennar og þegar hún varð 80 ára hélt William McKinley forseti henni afmælisveislu í hvíta húsinu. Anthony varð fyrsta konan sem birtist á bandarískum gjaldmiðli þegar andlit hennar var sett á eins dollara mynt árið 1979.
Skólameistari Menntaskólans á Akureyri segir mikilvægt að stjórnvöld meti og virði störf kennara því rannsóknir sýni að öflugt skólastarf sé langbesta forvörnin gegn rótleysi og lífsfirringu. Hann fagnar að náðst hafi kjarasamningur milli ríkis og kennara. Þetta er meðal þess sem fram kom í ræðu Jóns Más Héðinssonar, skólameistara, þegar Menntaskólanum á Akureyri var slitið 131. sinn í dag. Jón Már sagði að á erfiðum tímum eins og nú mættu yfirvöld alls ekki skera endalaust niður fjárveitingar til skóla. Með því skapaðist vítahringur. Hann sagði að lakari þjónusta hefði í för með sér að nemendur flosnuðu upp frá námi og síðan væri kostað miklu fé til að fá þá til baka. „Það kostar fjórum sinnum meira að ná einstaklingi aftur inn í skólann en að bjóða honum fjölbreytilegt, einstaklingsmiðað nám, á meðan hann er í skólanum," sagði skólameistarinn. Í dag voru 166 nýstúdentar brautskráðir var skólanum. Stúdentsprófseinkunnir nemenda MA er meðaltal allra einkunna frá upphafi fyrsta bekkjar til loka þess síðasta. Meðaleinkunn stúdentahópsins var nærri 7,5 og 7 stúdentar luku prófi með ágætiseinkunn, 9 og hærra, Dux, með einkunnina 9,69, er Eva María Ingvadóttir. Tveir deila titlinum semidux, með næsthæsta einkunn, 9,5, Gauti Baldvinsson og Gunnar Björn Ólafsson, en sá síðarnefndi hlaut í gær styrk Afreks- og hvatningarsjóðs stúdenta Háskóla Íslands.
Búast má við að 30% fleiri ferðamenn dvelji hér á landi yfir jólin og áramótin en í fyrra. Nær allt gistirými á höfuðborgarsvæðinu er bókað um og yfir áramót. Færri fara út á land. Það er af sem áður var þegar veitingahús töpuðu peningum á að hafa opið um hátíðarnar, segir veitingamaður í miðborg Reykjavíkur. Samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu hefur ferðamönnum koma hingað til lands á árinu fjölgað um 30% að meðaltali. Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu má búast við að desember verði engin undantekning. Lausleg könnun fréttastofu sýnir að nær allt gistirými á höfuðborgarsvæðinu er bókað um áramót. Einnig er mikið bókað um jólin þótt það sé minna en um áramótin. Flestir virðast vilja dvelja á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi en færri annars staðar. Það gæti skýrst af því að í mörgum tilfellum dvelur fólk hér í stuttan tíma, eða um langa helgi. Það er af sem áður var þegar aðeins örfáir veitingastaðir voru opnir um jól og áramót. Samkvæmt samantekt frá upplýsingamiðstöð Ferðamanna í Reykjavík eru um 20 veitingastaðir opnir á aðfangadagskvöld en um áramótin eru rúmlega 40 staðir opnir. Þórir Björn Ríkharðsson, sem rekur Skólabrú í miðbæ Reykjavíkur, segir að aðsókn yfir hátíðarnar hafi stóraukist undanfarin ár. Þórir Björn Ríkharðsson, sem rekur Skólabrú í miðbæ Reykjavíkur: Ja, við opnuðum fyrir þremur árum á aðfangadagskvöld. Þá var svona töluvert að gera og svo næsta ár þá var ennþá meira að gera og í dag erum við með opið á þremur hæðum og það er allt uppbókað á aðfangadagskvöld og á jóladag. Þórir Björn segir að það sé af sem áður var þegar þetta voru einir erfiðustu dagar ársins. Þórir Björn Ríkharðsson: Ja, það var bara þannig í þessum veitingarekstri að þessir dagar voru bara dagarnir sem við vorum bara að tapa peningum alveg út í eitt og núna eru þetta orðnir stóru dagarnir á árinu og dagarnir sem skipta máli.
Nýliðar Þórs úr Þorlákshöfn leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik eftir 83-80 sigur gegn Íslandsmeistaraliði KR í kvöld. Þetta var þriðji sigur Þórsara í einvíginu sem endaði 3-1. Þór leikur gegn Stjörnunni eða Grindavík í úrslitum en staðan í þeirri rimmu er 2-1 fyrir Grindavík. Leikurinn var gríðarlega spennandi og bæði lið voru líkleg til þess að fagna sigri. Seigla Þórsara var mikil á lokakaflanum þar sem að hinn leikreyndi Guðmundur Jónsson gerð út um leikinn með vítaskoti 10 sekúndum fyrir leikslok, 83-80. Þórsarar eru til alls líklegir en liðið er búið að slá út Íslandsmeistara tveggja síðustu ára í úrslitakeppninni. Snæfell í 8-liða úrslitum og nú KR. Það var nánast jafnt á öllum tölum í leiknum í kvöld en heimamenn misstu forskotið aðeins tvívegis í leiknum. Staðan í hálfleik var 46-45 fyrir Þór og mesti munurinn á liðunum var 8 stig, 59-51 fyrir Þór. KR komst mest 2 stigum yfir í leiknum í stöðunni 38-40. Darren Govens var frábær í liði Þórs að venju og fáir sem standast honum snúning á slíkum kvöldum. Govens er "hershöfðinginn" sem stjórnar liði Þórs og hann lagði svo sannarlega sitt að mörkum í þessum leik, 22 stig, 8 fráköst og 10 stoðsendingar og ekki gleyma 6 stolnum boltum. Joseph Henley hefur einnig breytt miklu í liði Þórs frá því hann kom til liðsins í 2. leiknum gegn KR í þessari seríu. Henley nýtist best undir körfunni og þar kann hann best við sig. Leikstíll Þórs hefur því breyst mikið og það hafa leikmenn á borð við Guðmund Jónsson, Darra Hilmarsson og Grétar Ingi Erlendsson nýtt sér. KR-ingar léku alls ekki illa í þessum leik og þeir nýttu sér styrk sinn mun betur en í undanförnum leikjum. Robert Ferguson miðherji liðsins fékk meiri stuðning frá liðsfélögum sínum og boltinn fór oftar á stóru mennina undir körfunni. Joshua Brown var einnig öflugur með 19 stig og 10 stoðsendingar. Finnur Magnússon sýndi styrk sinn líkt og Hreggviður Magnússon en það dugði ekki til. Íslandsmeistararnir eru farnir í sumarfrí sem þeir ætluðu sér svo sannarlega ekki að gera. Nýliðar Þórs voru einfaldlega betri í þessu einvígi - svo einfalt er það. Stemningin i Þorlákshöfn er engu lík. Græni Drekinn, stuðningsmannahópur Þórs hefur svo sannarlega staðið sig í stykkinu. Gríðarlegur meðbyr hjá félaginu sem er til alls líklegt í framhaldinu. Þór Þorlákshöfn - KR 83-80(19-18, 27-27, 23-21, 14-14) Þór Þorlákshöfn:Darrin Govens 22/8 fráköst/10 stoðsendingar/6 stolnir, Joseph Henley 16/11 fráköst, Guðmundur Jónsson 16, Grétar Ingi Erlendsson 12, Blagoj Janev 8/8 fráköst, Darri Hilmarsson 7, Baldur Þór Ragnarsson 2, Emil Karel Einarsson 0, Erlendur Ágúst Stefánsson 0, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0, Vilhjálmur Atli Björnsson 0, Þorsteinn Már Ragnarsson 0. KR: Joshua Brown 19/10 stoðsendingar, Robert Lavon Ferguson 17/8 fráköst, Finnur Atli Magnusson 15/10 fráköst, Hreggviður Magnússon 12, Dejan Sencanski 10/7 fráköst, Martin Hermannsson 5, Skarphéðinn Freyr Ingason 2, Emil Þór Jóhannsson 0, Páll Fannar Helgason 0, Kristófer Acox 0, Jón Orri Kristjánsson 0/4 fráköst, Ágúst Angantýsson 0. Dómarar: Kristinn Óskarsson, Björgvin Rúnarsson Myndbandsviðtal við Benedikt Guðmundsson: Myndbandsviðtal við Grétar Erlendsson leikmann Þórs: Myndbandsviðtal við Hrafn Kristjánsson þjálfara KR: Myndbandsviðtal við Darra Hilmarsson leikmann Þórs: Benedikt: Sannfærður um að við getum orðið meistarar „Við erum bara búnir að sýna það í vetur og í úrslitakeppninni að það er engin tilviljun að við erum á þessum stað. Ég sannfærður um að við getum orðið Íslandsmeistarar og ef einhver getur útskýrt það fyrir mér afhverju við gætum ekki orðið meistarar þá má hann hafa samband við mig," sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórs í leikslok. „Það var lítið sem ekkert fjallað um okkur í vetur hvað varðar meistarabaráttuna. Við læddumst svona með og komum aftan að mönnum. Andlegi styrkurinn er mikill í þessu liði, ég hef lært það að það eru ekki alltaf leikkerfin sem skipta öllu máli. Það þarf líka að vinna í huganum á mönnum. Eitt af því sem ég gerði var að banna mönnum að lesa um okkur í fjölmiðlum," bætti Benedikt við. Viðtalið við Benedikt í heild sinni: Hrafn: Mér fannst við koma vel inn í þetta Hrafn Kristjánsson þjálfari KR var að vonum svekktur með niðurstöðuna. „Við vorum að spila gegn frábæru liði sem fór á annað getustig í þessari leikseríu. Það breytir því ekki að þessi leikur átti ekki að vera leikurinn þar sem við vorum að bjarga lífi okkar. Mér fannst við koma vel inn í þetta en það sem varð okkur að falli voru leikirnir tveir þar á undan," sagði Hrafn Kristjánsson þjálfari KR í leikslok en hann vonast til þess að fá tækifæri til þess að halda áfram sem þjálfari KR á næstu leiktíð. „Við erum ekki búnir að skrifa undir eitt né neitt en ég farinn að undirbúa næsta vetur." Viðtalið við Hrafn í heild sinni: Hér er textalýsing blaðamanns frá leiknum: 40. mín. Þór - KR 83-80. Leik lokið. Nýliðar Þórs eru komnir í úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik í fyrsta sinn í sögu félagsins. Íslandsmeistaralið KR er úr leik og eru þessi úrslit því söguleg svo ekki sé meira sagt. 38. mín. Staðan er 82-80 fyrir Þór. KR-ingar taka leikhlé, 1.13 eftir af leiknum. Dómarar leiksins dæmdu körfu af KR-ingum þar sem 24 sek. skotklukkan var runninn út. 37. mín: Staðan er 78-78. Gott áhlaup frá KR-ingum aðeins 2.57 mín eftir af leiknum. Þórsarar taka leikhlé. Grétar Ingi Erlendsson er með 5 villur í liði Þórs og kemur ekki meira við sögu. 35. mín: Staðan er 74-72 fyrir Þór. 33. mín. Staðan er 74-69 fyrir Þór. Finnur Magnússon skoraði þriggja stiga körfu og fékk víti að auki. Grétar Ingi Erlendsson svaraði því með þriggja stiga körfu. Það er allt að verða vitlaust hérna í Þorlákshöfn. 32. mín. Staðan er 71-66 fyrir Þór:Govens var að fá dæmda á sig ruðningsvillu. Og er þetta fjórða villan hjá honum. Þórsarar mótmæla þessum dómi harðlega og þeir hafa eitthvað til síns máls því þetta var frekar skrýtinn dómur. 32. mín: Staðan er 71-66 fyrir Þór. Govens var að skora og virðist einbeittur fyrir lokakaflann. 30. mín. Staðan er 69-66 fyrir Þór:Joshua Brown var með sýningu undir lok þriðja leikhluta í liði KR. Hann skoraði nánast þegar honum sýndist. Hann er með 16 stig alls og 10 stoðsendingar. Darrin Govens er stigahæstur hjá Þór með 16 stig og Guðmundur Jónsson er með 15. Það er gríðarleg spenna hér í Þorlákshöfn og hávaðinn er ærandi svo ekki sé meira sagt. 28. mín. Staðan er 64-59 fyrir Þór:Hreggviður var að fá sína fjórðu villu hjá KR. 25. mín: Staðan er 59-57 fyrir Þór:Rosaleg barátta úti á vellinum og menn vita að það er allt lagt undir í þessum leik. Nýliðarnir einu skrefi frá lokaúrslitum og Íslandsmeistararnir einu skrefi frá því að fara í sumarfrí. 24. mín: Staðan er 57-49 fyrir Þór: Ferguson var að fá sína þriðju villu hjá KR. Það er lítil ánægja með dómgæsluna í herbúðum KR enda er liðið með 19 villur en Þór 9. 23. mín. Staðan er 55-47 fyrir Þór. KR-ingar taka leikhlé. Það er ekkert að ganga upp hjá þeim í vörn né sókn. Guðmundur Jónsson var að sökkva einum stórum þristi fyrir heimamenn. Mesti munur á liðunum í leiknum. 22. mín: Staðan er 48-45 fyrir Þór:Grétar Erlendsson var að fá sína þriðju villu hjá Þór. Það eru þrír KR -ingar með þrjár villur. 21. mín: Staðan er 48-45 fyrir Þór. Síðari hálfleikur er byrjaður. Guðmundur Jónsson skoraði fyrstu stig Þórsara og stemningin er frábær hér í Þorlákshöfn. 20. mín. Staðan er 46-45 fyrir Þór. Fyrri hálfleik lokið. Stig Þórs:Darrin Govens 14, Joseph Henley 8,Darri Hilmarsson 7, Guðmundur Jónsson 6, Blagov Janev 6, Grétar Ingi Erlendsson 3, Baldur Þór Ragnarsson 2. Stig KR:Robert Ferguson 11, Hreggviður Magnússon 10, Finnur Magnússon 8, Joshua Brown 7, Dejan Sencanski 6, Martin Hermansson 3. Það hitnaði heldur betur í kolunum undir lok fyrri háfleiks. Dæmd var ásetningsvilla á Darrin Govens í liði Þórs. Heimamenn voru alls ekki sáttir við þann dóm. KR-ingar hafa verið mun grimmari að safna villum fram til þessa. KR er með 15 villur en Þórsarar eru með 7 villur. 18. mín: Staðan er 43-40 fyrir Þór:Darri Hilmarsson stal boltanum af KR-ingum, brunaði upp og skoraði, auk þess sem hann fékk vítaskot. Vel gert hjá Darra. 17. mín: Staðan er 38-40 fyrir KR.Martin Hermannsson skoraði þriggja stiga körfu fyrir KR. 16. mín: Staðan er 34-32: Þórsarar halda enn forskotinu og KR-ingar hafa enn ekki náð að komast yfir í þessum leik. 14. mín: Staðan er 28-28. KR-ingar náðu góðri rispu og hafa nú jafnað leikinn. 12. mín: Staðan er 26-21 fyrir Þór. KR-ingar eru að tapa baráttunni undir körfunni. Govens skoraði risaþrist og Baldur Ragnarsson bætti við stigum úr hraðaupphlaupi. KR-ingar hafa ekki sótt að körfunni eins og þeir gerðu svo vel undir lok fyrsta leikhluta. 10. mín: Staðan er 19-18 fyrir Þór: Fyrsta leikhluta lokið. Ferguson skoraði fjögur síðustu stig fyrsta leikhluta fyrir KR. Stóri maðurinn er að finna sig og hann sækir hart að Henley undir körfunni. Darrin Govens, aðalskorari Þórs, hefur aðeins skorað 2 stig. 9. mín: Staðan er 18-14:Hrafn Kristjánsson þjálfari KR tekur leikhlé. 8. mín: Staðan er 16-12:Henley var að troða með tilþrifum fyrir Þórsara. Vörn KR er ekki að virka og heimamenn þurfa að hafa mun minna fyrir því að skora en gestirnir. 6. mín: Staðan er 12-9:Guðmundur Jónsson var að skora þriggja stiga körfu fyrir Þór. 5. mín: Staðan er 7-7:Joseph Henley kemur inn á í liði Þórs. 4. mín: Staðan er 5-3:Fyrsta sókn KR-inga snérist eingöngu um að koma Robert Ferguson miðherja liðsins inn í leikinn. Hann var slakur í síðasta leik. Skot hans geigaði og KR-ingar vita að þeir þurfa að koma boltanum á stóru mennina undir körfunni ef þeir ætla að leggja Þór að velli. 2. mín: Janev skorar fyrstu stig leiksins fyrir Þórsara með þriggja stiga skoti. 3-0. 1. mín:Þá er leikurinn byrjaður og stemningin í húsinu er gríðarleg. Þetta verður fróðlegur leikur svo ekki sé meira sagt. Fyrir leik:Byrjunarliðin eru þannig skipuð: Þór: Darrin Govens, Guðmundur Jónsson, Grétar Ingi Erlendsson, Blagoj Janev og Darri Hilmarsson. KR: Martin Hermansson, Dejan Sencanski, Robert Ferguson, Joshua Brown og Finnur Atli Magnússon. Fyrir leik:Trommarar Græna Drekans ná að yfirgnæfa tónlistana sem er á háum styrk í hljóðkerfinu. Hávaðinn er ærandi og sá sem þetta skrifar hefur ekki hugmynd um hvaða tónlist er í gangi hérna í Þorlákshöfn - en ég myndi allavega ekki kaupa diskinn. Fyrir leik: Það eru 15 mínútur þar til að leikurinn hefst. Liðsmenn Græna Drekans eru áberandi og vel vopnaðir með trommur og lúðra. Það fer minna fyrir stuðningsmönnum KR. Einn þeirra er þó með stóran félagsfána í KR-búningnum og þar með er það upptalið. Fyrir leik:Dómarar leiksins eru Kristinn Óskarsson og Björgvin Rúnarsson. Jón Bender er eftirlitsdómari. Fyrir leik:Staðan í einvíginu er 2-1 fyrir Þór. Með sigri komast nýliðarnir í úrslitaeinvígið gegn sigurliðinu úr einvígi Stjörnunnar og deildarmeistaraliði Grindavíkur. Ekkert lið hefur varið Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki frá því að Keflavík varði titilinn árið 2005 samkvæmt tölfræði sem Óskar Ófeigur Jónsson íþróttafréttamaður á Fréttablaðinu og Vísi tók saman. Sagan frá árinu 2006 er þannig: 2006Keflavík (Undanúrslit, 2-3 tap fyrir Skallagrími),2007Njarðvík (2. sæti, 1-3 tap fyrir KR),2008KR (8 liða úrslit, 1-2 tap fyrir ÍR),2009Keflavík (Undanúrslit, 0-3 tap fyrir KR),2010KR (Undanúrslit, 2-3 tap fyrir Snæfelli),2011Snæfell (Undanúrslit, 0-3 tap fyrir Stjörnunni),2012KR (???) Fyrir leik: Sæl verið þið. Það er mikil spenna í loftinu. Bæði lið eru byrjuð að hita upp og áhorfendur ætla ekki að láta sig vanta á stórleikinn. Það er þétt setið á áhorfendabekkjunum og útlit fyrir að það verði troðfullt hús.
Guðrún Brá og Róbert Ísak voru valin íþróttafólk Hafnarfjarðar árið 2021 í rafrænni kosningu sem fram fór í dag. Þá hlaut meistaraflokkur kvenna í körfuknattleik hjá Haukum titilinn „afrekslið Hafnarfjarðar 2021“. Guðrún Brá Björgvinsdóttir er einn fremsti kylfingur landsins en á árinu varð hún Íslandsmeistari kvenna í holukeppni og sigraði á móti B59, mótaröð þeirra bestu. Hún tók þátt í sextán mótum á árinu og lenti meðal annars í 12. sæti á Aramco mótinu í júlí og 8. sæti á ATS í Sádí-Arabíu í nóvember. Hún endaði enn fremur í 75. sæti á styrkleikalista LET Evrópumótaraðarinnar og heldur fullum rétti á næsta ári í mótaröðinni sem hefst í febrúar á næsta ári. Róbert Ísak Jónsson er sundmaður íþróttafélagsins Fjarðar og er fjórfaldur Íslandsmeistari í 25 metra laug í flokki S14 og þrefaldur Íslandsmeistari í 50 metra laug. Róbert Ísak vann meðal annars silfur- og bronsverðlaun á EM í Madeira í Portúgal fyrr á árinu. Hann er þar að auki margfaldur Íslandsmethafi og stóð sig með stakri prýði á Ólympíumóti fatlaðra í Tókýó fyrr í sumar. Þá var meistaraflokkur kvenna í köfuknattleik hjá Haukum var valið afrekslið Hafnarfjarðar árið 2021. Liðið lenti í öðru sæti á Íslandsmóti, varð bikarmeistari og meistari meistaranna í haust. Haukar unnu einnig fyrsta Evrópuleik sem íslenskt kvennalið hefur unnið og fóru í riðlakeppni Evrópukeppninnar. Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ er atburðurinn sagður einstakur í íslenskri íþróttasögu.
Róttæki sumarháskólinn býður upp á námskeið um anarkisma, jafnrétti og galla frjálshyggjunnar. Ókeypis er í skólann og allir kennarar gefa vinnu sína. Róttæki sumarháskólinn verður til húsa í Reykjavíkurakademíunni. Við hittum tvo af kennurum skólans á Hjartatorginu í dag þar sem hópur ungs fólks dansaði samba í sumarblíðunni. Helga Tryggvadóttir, kennari við Róttæka sumarháskólann: Hugmyndin á bakvið þetta er að sameina róttæka hugsun og róttækar aðgerðir. Helga og Valdís sjá um námskeið um þriðja heiminn, femínisma og grasrótarhreyfinguna Róstur. Af öðrum kennurum við skólann má nefna Hauk Hilmarsson, sem flaggaði Bónus-fánanum í búsáhaldabyltingunni. Hann mun sjá um námskeið um kynþáttastefnu íslenskra stjórnvalda. Mynduð þið lýsa ykkur sem róttæklingum? Valdís Björt Guðmundsdóttir, kennari við Róttæka sumarháskólann: Já í vissu samhengi já. Helga Tryggvadóttir: Já, ég hugsa að róttæklingur sé bara sá sem að hefur áhuga á að breyta samfélaginu til þess betra og þar af leiðandi myndi ég kalla mig róttækling. Skólasetning verður þann 13. ágúst og getur fólk skráð sig í námið á Facebook-síðu Róttæka sumarháskólans. En þarf maður að vera róttækur til að skrá sig í skólann? Helga Tryggvadóttir: Í rauninni snýst þetta bara um að hérna hittast og, og koma saman með ýmsar hugmyndir. Mér finnst ekki að fólk þurfi að vera róttækt fyrir eða, í rauninni þarf það ekki að hafa verið endilega að pæla í neinum svona hlutum. Það er bara ef það er forvitið og vill kynnast einhverju nýju þá er þetta staðurinn fyrir þig.
Við aðra umræðu fjárlagafrumvarpsins var samþykkt breyting á frumvarpinu sem felur í sér 350 milljóna króna fjárframlag til uppbyggingar varnargarða í Njarðvíkurhöfn. Um er ræða óþarfan og lítt dulbúinn ríkisstyrk til eins fyrirtækis, Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur, sem skapar hættulegt fordæmi. Þingmenn virðast ekki gera sér grein fyrir hvaða áhrif svona inngrip ríkisvaldsins getur haft fyrir samkeppni á markaði fyrir skipaþjónustu í landinu. Nokkuð hefur verið fjallað í fjölmiðlum um áform um uppbyggingu skipaþjónustuklasa í Njarðvík. Fyrr á þessu ári var undirrituð viljayfirlýsing um verkefnið af fulltrúum Reykjaneshafnar, Reykjanesbæjar og Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur, sem á frumkvæði að málinu. Í þessum skipaþjónustuklasa verður yfirbyggð skipakví sem Skipasmíðastöð Njarðvíkur hyggst reisa. Frumforsenda þess að áformin nái fram að ganga er að ríkissjóður fjármagni uppbyggingu sjóvarnargarða í Njarðvíkurhöfn. Í umræðu um þetta mál hefur ekkert verið minnst á þá staðreynd að áðurnefnt fyrirtæki er eitt af mörgum fyrirtækjum starfandi í þessari grein á landinu. Öll þessi fyrirtæki eru í eigu einkaaðila. Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis gerði breytingartillögu við frumvarp til fjárlaga um 350 milljóna króna fjárframlag ríkissjóðs til Hafnabótasjóðs til að fjármagna „umfangsmiklar framkvæmdir í Njarðvíkurhöfn sem hafa verið undirbúningi“. Síðar í meirihlutaáliti fjárlaganefndar segir að tilgangurinn sé atvinnuþróun. Tillagan kemur beint frá meirihluta fjárlaganefndar og virðist eiga sér rætur í málafylgju sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum og forsvarsmanna áðurnefnds fyrirtækis. Þannig kom tillagan ekki frá skrifstofu samgöngumála í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu eins og er venjan þegar þessi málaflokkur er annars vegar. Frumvarp til fjárlaga var svo samþykkt í þessari mynd að lokinni annarri umræðu um frumvarpið síðastliðinn föstudag. Ríkisvaldið rænir starfsmenn annara fyrirtækja stöfum sínum Hafnabótasjóður veitir ríkisstyrki til hafnargerðar á grundvelli hafnalaga en samkvæmt lögunum er heimilt að veita framlög úr ríkissjóði til þeirra verkefna á sviði hafnargerðar sem mælt er fyrir um í lögunum. Þar er m.a. kveðið á um nýframkvæmdir við skjólgarða og brimvarnir. Skilyrði fyrir úthlutun styrkja úr ríkissjóði eru meðal annars að um sé að ræða „framkvæmd sem hefur mikla þýðingu fyrir almannahagsmuni á viðkomandi stað“ og að „framlag ríkissjóðs raski ekki ótilhlýðilega samkeppni milli hafna samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.“ Framlag ríkisins til uppbyggingar í Njarðvíkurhöfn er eingöngu til þess að liðka fyrir skipaþjónustuklasanum sem áður er getið og er forsenda þess að Skipasmíðastöð Njarðvíkur geti reist yfirbyggða skipakví á staðnum. Hvaða þýðingu hefur það fyrir almannahagsmuni að áform þessa fyrirtækis verði að veruleika? Það nægir ekki að framkvæmdin leiði til fjölgunar starfa til að skilyrði laganna séu uppfyllt. Þetta framlag til Hafnabótasjóðs vegna framkvæmda í Njarðvíkurhöfn er í reynd lítt dulbúinn ríkisstyrkur til þessa eina fyrirtækis, Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur. Að framansögðu virtu er vandséð að framkvæmdin uppfylli skilyrði hafnalaga sem gerir þessa fjárveitingu til Hafnabótasjóðs enn einkennilegri. Hér er verið að veita 350 milljónir króna til verkefnis sem að öllum líkindum gengur í berhögg við almenn jafnræðissjónarmið hér innanlands, svo ekki sé minnst á ríkisstyrkjareglur Evrópusambandsins og þar með ákvæði EES-samningsins. Svo virðist sem breytingartillaga meirihluta fjárlaganefndar sé algjörlega vanhugsuð enda virðast þingmennirnir sem að henni standa ekkert hafa hugleitt hvaða áhrif svona ríkisframlag hefur á frjálsa samkeppni í landinu. Það er ekkert sem mælir sérstaklega með því að ríkið styrki skipaþjónustu í Njarðvík enda eru einkafyrirtæki, t.d. í Reykjavík, á Akureyri og í Hafnarfirði, sem sinna slíkri þjónustu. Þarna er verið að hygla einu fyrirtæki, Skipasmíðastöð Njarðvíkur, á kostnað annarra fyrirtækja í sömu atvinnugrein. Við vitum ekki hvort þingmenn Reykjavíkur-kjördæmanna, Norðausturkjördæmis og Suðvesturkjördæmis geri sér grein fyrir hvaða afleiðingar þetta gæti haft fyrir störf í þessum kjördæmum hjá fyrirtækjum í skipaþjónustu vegna röskunar á samkeppni. Í raun og veru eru þingmenn að senda starfsmönnum fyrirtækja okkar þau skilaboð að þeir vilji leggja sitt af mörkum til að afleggja störf þeirra á starfstöðvum okkar. Meirihluti fjárlaganefndar vill því stuðla að því að starfsmenn okkar verði rændir störfum sínum og þau flutt annað. Við hvetjum alþingismenn til að falla frá þessari breytingartillögu fyrir þriðju umræðu fjárlagafrumvarpsins og hætta við 350 milljóna króna framlag til Hafnabótasjóðs vegna uppbyggingar í Njarðvíkurhöfn. Hér er um að ræða ríkisstyrk og þar með óeðlilegt inngrip ríkisvaldsins inn í frjálsa samkeppni á markaði fyrir þjónustu, viðgerðir og viðhald skipa. Á engan hátt er óeðlilegt að fyrirtækið sem mun njóta þessa ríkisstyrks leggi sjálft út fjármuni vegna eigin uppbyggingar. Höfundar eru Eiríkur S. Jóhannsson framkvæmdastjóri Slippsins Akureyri ehf., Bjarni Thoroddsen framkvæmdastjóri Stálsmiðjunnar-Framtaks ehf. og Eiríkur Ormur Víglundsson framkvæmdastjóri Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf.
Það átak sem gera á í búsetu- og stoðþjónustumálum geðfatlaðra á næstu árum munu skila samfélaginu arði ef stjónvöld standa sína sína pligt, segir framkvæmdastjóri Geðhjálpar. Hann segir að ekki dugi að taka til í búsetumálunum, styðja þurfi við bakið á geðfötluðum í samræmi vilja þeirra og getu en ekki forskrift embættismanna. Ráðherrar heilbrigðis- og félagsmála kynntu á miðvikudag áfangaskýrslu um þjónustu við geðfatlaða. Þar kemur meðal annars fram að á árunum 2006-2010 sé ætlunin að verja um einum og hálfum milljarði til þess að kaupa og byggja íbúðir, íbúðakjarna og áfangaheimili fyrir geðfatlaða og tryggja þeim stoðþjónustu með það að markmiði að virkja þá frekar í samfélaginu og auka lífsgæði þeirra. Uppbyggingin er í höndum sérstakrar verkefnisstjórnar sem leita mun viðhorfa og hugmynda hjá notendunum sjálfum og aðstandendum þeirra. Þess vegna var meðal annars haldið sérstakt notendaþing í gær. Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, sem kemur að vinnunni, segir áfangaskýrsluna í heildina góða og að verið sé að ganga í mál sem barist hafi verið fyrir í áratugi. Mikilvægt sé að hlusta á notendurna og aðstandendur þeirra en það dugi ekki eitt og sér að taka til í búsetumálum. Stoðþjónusta við geðfatlaða þurfi að vera í samræmi við þarfir þeirra og vilja en ekki forskrift fólks úti í bæ. Aðspurður segist hann verða að trúa því að miklar breytingar verði á högum geðfatlaðra á næstu árum. Það komið þjóðfélaginu í heild til góða. Uppbyggingin komi til með að skila samfélaginu arði þegar fram líði stundir ef menn standi sína pligt.
Vinnumálastofnun hefur ákveðið að loka útibúum sínum í Vestmannaeyjum, Sauðárkróki og á Húsavík. Starfsmönnum í Vestmannaeyjum og Húsavík hefur verið sagt upp frá 1. september og verður skrifstofunum lokað 1. desember næstkomandi. Enginn starfsmaður hefur verið á Sauðárkróki á þessu ári. Þetta er enn eitt opinbera starfið sem hverfur frá Vestmannaeyjum. „Ég er auðvitað mjög ósáttur við þessa ákvörðun og hef þegar rætt þetta við nokkra af þingmönnum kjördæmisins,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri. „Þjónusta Vinnumálastofnunar er auðvitað afar mikilvæg hér í Eyjum eins og víðar. Þessi þjónustustofnun heldur m.a. utan um skráð atvinnuleysi hér í Eyjum og vinnur að úrræðum fyrir atvinnulausa. Ég er líka mjög undrandi á því að á sama tíma og stjórnvöld slá sér á brjóst vegna flutnings Fiskistofu til Akureyrar til að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, þá skuli sömu stjórnvöld vinna markvisst að því að leggja niður opinber störf og þjónustu hér í Eyjum. Ætli þetta merki ekki að í þessari viku verði tvö opinber störf flutt frá Eyjum því nú styttist í að ráðinn verði nýr framkvæmdastjóri yfir Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja. Þetta er skrýtin stjórnsýsla svo ekki sé meira sagt og kallar á harða gagnrýni og svör. Mín næstu skref í þessu máli er að vísa þessu til um-fjöllunar í bæjarráði og vinna síðan eftir ákvörðunum þess.“
Hópur ungra kvenna hefur rannsakað samfélagið á Egilsstöðum og kynnir niðurstöður sínar í formi dans í gamla sláturhúsinu í kvöld. Gamla sláturhúsinu á Egilsstöðum var á sínum tíma breytt í menningarhús og undanfarnar vikur hafa þar haldið til ungir dansarar sem kalla sig Foreign mountain. Koma þeirra er hluti af norrænu og baltnesku verkefni, Wilderness. Dansarar fá að ferðast, setja upp verk og öðlast reynslu. Verkið þeirra samanstendur af dansi og útgáfu tímarits. Yfirskriftin er Organ Orchestra eða Innyflahljómsveitin. Ásrún Magnúsdóttir, dansari og danshöfundur: Við gátum eiginlega ekki hundsað það að vera í sláturhúsi að vinna með líffærin og slátra þeim þannig að já, við sækjum mjög mikinn innblástur í það. Við erum búin að vera að hitta fólk frá Egilsstöðum alla síðustu viku og, og fá að vita hvernig Egilsstaðir virka og hvað fólk gerir hér og svoleiðis og eiginlega út frá því unnum við merkið okkar. Okkur fannst svolítið merkilegt hvernig samfélagið byggist upp svona í hringi, það er að segja svona innsti hringur og ytri hringur og hringirnir síðan í utan við það og innsti kjarninn sem að í raun svona ræður á Egilsstöðum. Og það má greina boðskap í þessum limaburði. Ásrún Magnúsdóttir: Við erum að fara eftir mjög settum reglum sem að við, bara það er ómögulegt að, að brjóta því að við, veggurinn hindrar okkur alltaf eða eitthvað sem stoppar okkur. Við ferðuðumst í þessari hringrás sem að er full af hindrunum og það aðskilur okkur.
Önnur umræða um nýjasta Icesave-samning ríkisstjórnarinnar stendur nú sem hæst á Alþingi og niðri á þingi er Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður. Það kom fram að Sjálfstæðismenn í fjárlaganefnd leggja til að þessi Icesave-samningur verði samþykktur. Kom þetta á óvart. Mér finnst mjög sennilegt að þetta, þessi niðurstaða hafi komið mörgum á óvart, en því má hins vegar ekki gleyma að Lárus Blöndal, fulltrúi stjórnarandstöðunnar í samninganefndinni, sagði strax fimmtudaginn 9.desember síðastliðinn, þegar nefndin kom heim með nýjan samning, að þetta væri sá besti í stöðunni. Við skulum hins vegar fyrst heyra brot úr umræðunni sem var, er, stendur nú sem hæst. Fyrst er það Oddný Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar, sem talar og svo Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sem telur of áhættusamt að samþykkja samninginn. Oddný Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar: Icesave-samningarnir, sem nú liggja fyrir, fela í sér veruleg, verulega endurbót, bæði að því er varðar fjárhæðir sem koma til greiðslu og ýmissa aðra skilmála og eru ekki lengur skuldabréf með skilmálum eins og fyrri samningar sögðu til um. Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar: Eftir stendur þó að það er alls ekki útkljáð hvort Íslendingum beri yfir höfuð nokkur skylda til að greiða kröfu Hollendinga og Breta enda ekki gert ráð fyrir ríkisábyrgð á innistæðutryggingum í tilskipunum Evrópusambandsins. Eftirtektarvert er að einn samningamanna fyrir Ísland, Lee Che Bucheit, hefur sagt að persónulega telji hann að Ísland eigi ekki að greiða Icesave. Nú, eins og stendur í nefndaráliti Sjálfstæðismanna þá sjá þeir ekki ástæðu til að standa gegn því samkomulagi sem nú liggi fyrir og leggja til að málið verði samþykkt, eins og þú bentir á áðan, Hallgrímur. Þeir segja að samningsdrögin feli í sér miklum mun minni kostnað fyrir Ísland en fyrri samningar og ekki séu væntingar um að ná megi betri samningum. En þá má benda á það að þeir benda líka á í nefndaráliti sínu að það sé í sjálfu sér óskiljanlegt af hverju þeir sem samninginn, það er að segja, fyrsta samninginn, hafi ekki beðist afsökunar á því hvernig staðið var að málum, skömm þeirra sé mikil og ævarandi.
Hann komst að því að stjórnendur í mismunandi löndum eru mjög ólíkir hvað varðar ýmis gildi og viðhorf og sérstök þjóðmenning geti haft áhrif á hegðun starfsmanna innan skipulagsheilda. Rannsóknina byggði hann á gögnum frá 116.000 starfsmönnum IBM í meira en 40 þjóðlöndum á árunum 1967-1973 (Hof stede, 1980, 1991; Hofstede, G. og Hofstede, G.J., 2005 og Hofstede, Neuijen, Ohayv og Sanders, 1990). Hofstede studdist þó fyrst og fremst við gögn frá 40 stærstu lönd unum og seinna víkkaði hann rannsóknina út með því að skoða fleiri lönd. Mikið er vitnað til rann sókna Hofstede á þjóðmenningu og því er löngu kominn tími til að framkvæma mælingu á íslenskri þjóðmenningu. Niðurstöður slíkra mælinga geta gagnast þeim skipulagsheildum sem eru starfandi í ólíkum menningarheimum eða hyggja á starfsemi í öðrum löndum. Í þessari grein verður fjallað um niðurstöður þar sem lagt er mat á þjóðmenningu á Íslandi með því að nota spurningalista Geert Hofstede, VSM 94. Spurningalistinn var lagður fyrir nemendur í grunnnámi á félagsvísindasviði HÍ. Leitast er við að svara því hver eru helstu einkenni þjóðmenningar á Íslandi út frá menningarvíddum Hofstede og hvernig íslensk þjóðmenning er frábrugðin sambærilegu úrtaki í fjórum löndum, Bandaríkjunum, Austurríki, Japan og Argentínu (Bearden, Money og Nevins, 2006). Enn fremur er íslensk þjóðmenning borin saman við þjóðmenningu hinna Norður landanna en gjarnan er sagt að íslensk þjóðmenning beri einkenni þjóðmenningar frænda okkar á hinum Norðurlöndunum. STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA 354 Fræðigreinar Veftímarit des 2011-lok _ Stjórnmál & Stjórnsýsla-Skapalón 24.2.2012 14:07 Page 354 1. Menningarvíddir Hofstede Á grunni rannsóknar sinnar greindi Hofstede menningu út frá fjórum víddum en seinna bættist fimmta víddin við. Víddirnar eru: Valdafjarlægð, PDI (e. power distance) segir til um hvernig valdi er dreift innan stofnana og samfélagsins, jafnt eða ójafnt. Þar sem valdafjarlægðin er veik (e. weak power distance) eiga allir jafnan rétt, ójöfnuður er lítill, vald- og dreifstýring er mikil, yfirmenn reyna gjarnan að ráðfæra sig við undirmenn sína og forréttindi og stöðutákn eru lítt áberandi. Stigveldi er lítið og lögð er mikil áhersla á ábyrgð einstaklingsins og valdi er sýnt frekar lítil virðing. Þar sem valdafjarlægðin er mikil (e. strong power distance) er litið á ójöfnuð meðal samfélagsþegna sem æskilegan, valdhafar og stjórnendur eiga að njóta forréttinda, miðstýring er mikil og valdið er gjarnan hjá fáum. Líklegt er að sjá megi mikla gjá á milli starfsmanna og stjórnenda þar sem valdafjarlægð er mikil. Sama gildir um hlunnindi og stöðu. Hofstede komst að því að lönd Suður-Ameríku og sum lönd Suður–Evrópu (t.d. Spánn) mældust með mikla valdafjarlægð og sama gilti um lönd Afríku og Asíu. Á hinn bóginn mældist lítil valdafjarlægð í Bandaríkjunum, Bretlandi sem og fyrrum nýlendum þeirra ásamt og norður og vestur hluta Evrópu (Hofstede, 1991 og 2001). Einstaklingshyggja, IDV (e. individualism), byggir á því hvort einstaklingar eru uppteknir af eigin hagsmunum eða hagsmunum heildarinnar. Í samfélögum þar sem mikil einstaklingshyggja er ríkjandi eru tengsl og bönd frekar veik og ætlast er til að sérhver einstaklingur beri ábyrgð á sjálfum sér og fjölskyldu sinni fyrst og fremst. Í samfélögum með mikla einstaklingshyggju er mikil áhersla á frelsi einstaklingsins til athafna og frjáls vilji og afskiptaleysi ríkisvaldsins er eitt af grunngildum samfélagsins. Í samfélögum þar sem heildarhyggja er ríkjandi (lítil einstaklingshyggja) tengist fólk sterkum böndum, hópar eða fjölskyldur styðja vel við bakið á hvort öðru og mikill hollusta er til staðar. Hagsmunir hópsins, skipulagsheildarinnar eða samfélagsins, eru settir ofar hagsmunum einstaklingsins. Mælingar Hofstede sýndu að auðugar þjóðir mældust hátt á einstaklingshyggju víddinni, Hong Kong og Singapúr voru þó undantekning. Bandaríkin, Ástralía, Bretland, Kanada, Holland og Nýja Sjáland skoruðu hátt á þessari vídd. Á hinn bóginn mátti sjá minni einstaklingshyggju hjá fá tækari löndum svo sem Indónesíu, Gvatemala, Ekvador, Panama, Venesúela og Kólombíu (Hofstede, 1991 og 2001). Karllægni, MAS (e. masculinity), segir til um hversu hlutverk kynjanna innan sam félagsins eru ólík. Þar sem karllæga víddin mælist há er hlutverk kynjanna mjög að greint. Karlmenn eru sagðir vera harðir og einbeita sér að efnislegum þáttum á meðan konur eru taldar hógværari, viðkvæmari og uppteknar af lífsgæðum eða lífsgildum. Þar sem karllæga víddin er lítil er á hinn bóginn skörun á hlutverki kynjanna, jafnréttis hugmyndin er ríkjandi, bæði konum og körlum er ætlað að vera hógvær, viðkvæm og láta sér annt um lífsgæðin. Lönd eins og Japan, Ítalía, Austurríki, Sviss, Mexíkó og Gvatemala mælast hátt á karllægu víddinni, Bretland, Þýskaland og Bandaríkin mælast tiltölulega hátt einnig. Þau lönd sem skora lágt á karllægu víddinni eru Norðurlöndin, Holland og Kosta Ríka (Hofstede, 1991 og 2001). Óvissa–hliðrun, UAI (e. uncertainty-avoidance) segir til um hversu mikið STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA 355 Íslensk þjóðmenning í ljósi menningarvídda Hofstede Gylfi Dalmann Aðalsteinsson ofl. Veftímarit des 2011-lok _ Stjórnmál & Stjórnsýsla-Skapalón 24.2.2012 14:07 Page 355 einstaklingum í samfélagi stendur ógn af óvissu og óþekktum aðstæðum. Þau samfélög sem mælast lágt á þessari vídd búa yfir miklum þolgæðum og einstaklingarnir eru oft þrautgóðir á raunastund. Meðlimir samfélagins leggja hart að sér þegar þess er þörf og áhersla er lögð á nákvæmni og stundvísi. Fólki líður vel ef frávik eru frá reglum. Það sem hvetur fólk áfram er frumkvæðiskraftur og sú tilfinning að tilheyra ákveðnum hópi. Þau samfélög sem skora hátt á þessari vídd hræðast óskýrar aðstæður og óþekkta áhættu. Lönd sem skora hátt á óvissu víddinni eru Suður-Ameríka, Suður–Evrópa og miðjarðarhafssvæðið, Japan og Suður-Kórea. Þýskaland, Austurríki og Sviss eru í meðal skori. Asíuþjóðir utan Japans og Suður-Kóreu, ásamt Afríkuþjóðum, Bretlandi, Hollandi og Norðurlöndunum skora lágt (Hofstede, 1991 og 2001). Langtímahyggja, LTO (e. long-term orientation) er fimmta víddin. Hún nær yfir langtíma og skammtíma afstöðu einstaklinga. Þessi vídd kom inn í mælingar Hofstede í kjölfar rannsókna á stúdentum í 23 þjóðlöndum (Bond, 1988). Notaður var spurn inga listi sem hannaður var af kínverskum fræðimönnum og fékkst við mælingar á dyggð um ýmis konar í anda heimspeki Konfúsíusar. Þau samfélög sem aðhyllast skamm tímahyggju bera mikla virðingu fyrir hefðum, leggja mikla áherslu á reglur og skyldur einstaklinga og einblína jafn mikið á fortíð og framtíð. Gerð er krafa um skjóta af greiðslu mála og lögð er mikil áhersla á sannleikann. Þar skiptir miklu máli að uppfylla félagslega ábyrgð og halda andlitinu sama hvað á dynur. Langtímahyggjan leggur mikla áherslu á ráðdeild og þrautseigju. Hefðir eru aðlagaðar að nútímalegum gildum og mikil áhersla er á framtíðarsýn. Lönd eins og Bandaríkin mælast hæst á skammtímahyggju ásamt löndum eins og Kanada, Bretlandi, Pakistan, Zimbabve og Nígeríu. Holland var það Evrópuland sem mældist hvað hæst í langtímahyggjunni. Önnur lönd sem mældust hátt voru Kína, Hong Kong, Tævan, Brasilía, Suður-Kórea og Japan (Hofstede, 1991 og 2001; Hofstede, Neuijen, Ohayv og Sanders, 1990). 2. Áhrif rannsókna Hofstede á þjóðmenningu Hofstede (2001) taldi að upphaflegt líkan sitt gæti einungis verið notað til að mæla þjóðmenningu en ætti ekki við um samskipti einstaklinga. Dorfman og Howell (1988) þróuðu hins vegar aðferðir byggðar á upprunalegum breytum Hofstede (1980) sem unnt var að nota við rannsóknir á einstaklingum eða smærri hópum. Þær aðferðir innihalda breytur sem mæla fjórar víddir Hofstede ásamt einni til viðbótar sem mælir hversu viðeigandi það sé fyrir stjórnendur að sýna einkalífi starfsmanna áhuga. Aðrir fræðimenn sem hafa byggt verk sín og rannsóknir á Hofstede eru t.d. Samiee og Atanassiou (1988) ásamt Hofstede og Bond (1998). Samkvæmt niðurstöðum þeirra er ljóst að stjórnunarstíll tekur mið af þjóðmenningu (Dorfman og Howell, 1988; Casimir og Keats, 1996), ákvarðanatöku (Shapiro, Kirkman og Courtney, 2007; Ali, 1993) og mannauðsstjórnun (Cable og Judge, 1994; Earely, 1986). Margar rannsóknir í bæði þróuðum og vanþróuðum ríkjum hafa skoðað tengsl þjóð menningar við atvinnuleysi, fólksfjölgun og pólitískan stöðugleika í viðkomandi ríki (Sjá Harrison og Huntington, 2000). Franke, Hofstede og Bond (1991) báru saman tengsl hagvaxtar og þjóðmenningar í 20 löndum á tímabilinu 1965-1980 og 1980-1987. Niðurstöður þeirrar rannsóknar voru síðan bornar saman við breytur Hof stede (1980) til að STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA 356 Fræðigreinar Veftímarit des 2011-lok _ Stjórnmál & Stjórnsýsla-Skapalón 24.2.2012 14:07 Page 356 skoða tengsl milli þjóðmenningar og árangur ríkja í efnahagsmálum. Þá greindu Franke o.fl. (1991) tvær breytur, einstaklingshyggju og langtímahyggju, sem sýndu fram á samband þeirra við hagvöxt. Þessar niðurstöður leiddu til að fjöldi fræðimanna, rithöfunda, blaðamanna og stjórnmálamanna hafa horft til þess að þjóðmenning geti hugsanlega haft áhrif á þróun efnahagsmála í einstökum ríkjum (Harrison og Huntington, 2000). Kenningar Hofstede voru síðast þróaðar í hinni svokallaðri GLOBE rannskókn, en GLOBE stendur fyrir Global Leadership and Organizational Behavior Effectiveness Research Project. Í þeirri rannsókn tóku 127 fræðimenn þátt frá 62 löndum. Markmið rannsóknarinnar var að þróa nýtt líkan til að lýsa, skilja og meta áhrif þjóðmenningar á leiðtogastíl og skipulagsferla (e. organiza tional processes). Spurningalistar voru sendir til um 17 þúsund millistjórnenda hjá um 950 fyrirtækjum í þremur iðngreinum (House, Javidan, Dorfman og Gupta, 2004). Báðar rannsóknir hafa fengið á sig nokkra gagnrýni sem helst felur í sér nálgun rann sakenda á viðfangsefninu (Shi, og Want, 2011). Á meðan líkan Hofstede byggir á fimm víddum, kynnti GLOBE rannsóknin til sögunnar níu víddir og átján undirvíddir (e. culture scores). Þá geri níu víddir og 18 undirvíddir viðfangsefnið flóknara og telja sumir að of mikil samsvörun sé á milli breytanna. Markmið Hofstede með sinni rann sókn var að framkvæma samanburðarrannsókn og var úrtakið starfsmenn alþjóðlega fyrirtækisins IBM eins og áður greinir. Javidan, House, Dorfman, Hanges og de Luque (2006) hafa gagnrýnt framkvæmd rannsóknarinnar og val hans á fyrirtæki þar sem Hofstede hafi verið á launaskrá vegna annarra verkefna hjá IBM þegar rannsóknin var framkvæmd. Aðrir fræðimenn, s.s. Fishcer, Ferreira, Assmar, Redford og Harb (2005) hafa hins vegar fært rök fyrir því að í alþjóðlegum samanburðarrannsóknum sem þessum sé nauðsynlegt að úrtakið sé byggt á sambærilegum grunni hvar sem er í heim inum. Það sé því styrkur þessarar rannsóknar frekar en veikleiki að úrtakið skuli miðast við alþjóðafyrirtæki á borð við IBM. Þessi styrkleiki verði hins vegar að veikleika þegar niðurstöður séu notaðar til að túlka gildi eða viðhorf heillar þjóðar. Sem dæmi um þetta megi nefna Íran. Þannig hefur Latifi (2006) bent á að starfsmenn IBM í Íran á þessum tíma hafi gjarnan verið úr millistétt, vel menntaðir „hvítflibba” starfsmenn. Það sé því spurning hversu lýsandi starfsmenn IBM geti verið fyrir heila þjóð eins og Íran í þessu tilviki. Rannsóknir Smith, Dungan og Trompenaars (1996) ásamt House o. fl. (2006) gagnrýna hversu fáar víddir Hofstede notar til að mæla þjóðmenningu. Einnig hefur verið bent á að ógerningur sé fyrir einn aðila að semja spurningalista til að meta þjóðmenningu ólíkra þjóða. Hofstede var alinn upp í Hollandi og því ekki líklegt að hann hafi þekkt til menningu allra þeirra þjóða sem rannsóknin náði til. Fimmta vídd Hofstede var t.d. upphaflega uppgötvuð af Bond (1998) þegar hann vann að rannsóknum á asískri menningu. Jafnframt hafa fræðimenn gagnrýnt að gögn frá 1968 og 1973 séu einungis lýsandi fyrir þennan tíma og að margt hafi breyst í menningu þjóða síðan þá (Baumgertel og Hill, 1982; Lowe, 1981). Javidan o.fl. (2006) hafa til að mynda bent á að líkan Hofstede sé frekar lýsandi um það tímabil sem gögnunum var safnað á og síðan þá hafi átt sér stað fjölmargar félagslegar breytingar í heiminum. Einnig hafi tækni fleygt fram með tilkomu veraldarvefsins og þá hafi ferðalögum einstaklinga fjölgað verulega milli landa sem aukið hefur frekar á samskipti milli einstaklinga. STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA 357 Íslensk þjóðmenning í ljósi menningarvídda Hofstede Gylfi Dalmann Aðalsteinsson ofl. Veftímarit des 2011-lok _ Stjórnmál & Stjórnsýsla-Skapalón 24.2.2012 14:07 Page 357 Bond og Chi (1997) hafa gagnrýnt líkan Hofstede á þann veg að fimm víddir leiði til að alhæft verði um ákveðin þjóðareinkenni út frá þjóðerni. Kanter (1991) bendir á að varast beri að alhæfa um einstaklingshyggju Bandaríkjamanna út frá mælingum Hofstede. Þó þeir mælist hátt þarf það ekki endilega að þýða að hinn almenni Bandaríkjamaður sé sérstaklega mikill einstaklingshyggjumaður. Færð hafa verið fyrir því rök að aukin fjarskipti og tölvunotkun auðveldi samskipti einstaklinga af mismunandi þjóðerni. Einnig er því haldið fram að bættar samgöngur valdi því að heimurinn sé að verða eitt alheimsþorp þar sem við tökum upp siði og venjur hvers annars og viðhorf einstaklinga muni samþættast í ríkara mæli (Harrison og Huntington, 2000). Með tilkomu evrópska efnahagssvæðisins, sem felur í sér frjálst flæði vöru, þjónustu, fjármagns og vinnuafls innan EES–svæðisins var talið að menn ingar munur á milli ríkja innan svæðisins myndi minnka (Boxall, 1992; Standing, 1997; Brewster, Mayrhofer og Morley, 2000). Í ljós hefur komið að hið gagnstæða hefur átt sér stað. Einstaklingar virðast halda jafnvel fastar í sín þjóðlegu gildi og venjur en áður. Englendingar kenna sig t.d. ennþá við England og Danir við Danmörku frekar en að segjast vera frá Evrópu (Brewster, et al. 2000). Lönd eins og Sviss og Noregur hafa ekki sýnt því áhuga að ganga í Evrópusambandið og hafa sagt að þau hyggist standa fyrir utan sambandið og standa vörð um sjálfstæði sitt (Tyson, Withcer, Doherty, 1994). Standing (1997) hefur fært fyrir því rök að stjórnunaraðferðir innan aðildaríkja Evrópusambandsins séu enn mjög ólíkar og hafi ekki tekið mið af eða aðlagast ólíkum menningaþáttum eins og búist hafði verið við. Um tíma var talið að góður stjórnandi í Englandi myndi einnig vera góður stjórnandi í öðrum löndum og að góðar viðskipta venjur og hefðir í Englandi myndu einnig vera árangursríkar hvar sem er í heiminum (Hofstede og McCrae, 2004). Rannsóknir Hofstede hafa hins vegar sýnt fram á að nauð synlegt er að aðlaga stjórnunaraðferðir aðstæðum hverju sinni, því ef litið sé fram hjá þeim gildum og viðhorfum sem ríkja í þjóðmenningu hvers lands séu starfsmenn líklegri til að sýna aukna starfsóánægju og vera síður hliðhollir fyrirtækinu (Newman og Nollen, 1996). Stjórnunaraðferðir sem hafa tekið mið af þjóðmenningu séu því mun líklegri til að hvetja til og leiða af sér fyrirsjáanlega hegðun (Wright og Mischel, 1987), auka afkastagetu einstaklinga og sýna fram á betri frammistöðu skipulagsheilda (Earley, 1994). Ljóst er að þær lýðfræðilegu breytingar sem hafa átt sér stað innan Evrópusam bandsins veita tækifæri jafnt sem áskoranir fyrir skipulagsheildirnar. Fjölbreytileiki og fjölþjóðleg menn ing gegna mikilvægu hlutverki í rekstri skipulagsheilda í dag. Hvar svo sem skipu lagsheildir eru starfræktar þurfa stjórnendur að vera meðvitaðir um hugsanlega menninga árekstra og hafa þekkingu á ólíkri menningu. Þetta er hins vegar ekki alltaf auðvelt og bendir m.a. Hofstede (2001) á að líkan hans sé einungis beina grind sem stjórnendur og fræðimenn geti stuðst við. Þrátt fyrir að líkan Hofstede hafi sætt mikilli gagnrýni þá gefur það stjórnend um tæki til að greina og meta mismunandi þjóðmenningu. Vegna hnattvæðingar og sam þættingu markaða er líkan Hofstede viðeigandi í dag og gott innlegg til stjórnunarfræðanna. 3. Rannsóknaraðferð og niðurstöður Í rannsókninni var spurningalistinn VSM 94 notaður (Hofstede, 1994) en hann hefur verið notaður víða um heim til að leggja mat á þjóðmenningu. Nokkrar tilraunir hafa STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA 358 Fræðigreinar Veftímarit des 2011-lok _ Stjórnmál & Stjórnsýsla-Skapalón 24.2.2012 14:07 Page 358 verið gerðar til að skoða, skilja og greina íslenska þjóðmenningu út frá aðferðum Hofstede. Hrafnhildur og Smith (1996) gerðu rannsókn í þeim tilgangi og báru hana saman við víddir Hofstede út frá viðhorfum íslenskra stjórnenda. Hallur Páll Jónsson (2004) notaði spurningalista Hofstede til að bera saman eitt fyrirtæki og eina stofnun á Íslandi. Í rannsóknunum kom fram að menningareinkennin líkjast einna helst menningareinkennum Norðurlandanna. Í þessari rannsókn var spurningalistinn lagður fyrir nemendur í Háskóla Íslands. Ástæðan fyrir vali á úrtaki voru tvíþættar. Annars vegar var lögð áhersla á að úrtakið sé eins einsleitt og hægt er (Hofstede, 1994) og því lágmarks breytileiki hvað varðar aldur, menntun, tekjur og aðrar bakgrunnsbreytur. Hins vegar voru niðurstöður bornar saman við rannsókn Bearden og félaga (2006) en þar var unnið með gögn frá háskólum frá Argentínu, Austurríki, Japan og Bandaríkjunum. Hafa ber í huga að Bearden og félagar gagnrýna mælitækið sem slíkt en í þessari rannsókn er stuðst við niðurstöður mælinga þeirra í þeim tilgangi að fá fram samanburð á milli hópa. Í þeirri viðleitni að reyna að hafa svarhópinn eins einsleitan og hægt var, var könnunin aðeins send á nem endur í grunnnámi á félagsvísindasviði skólans. Unnið var út frá tveimur rann sókn ar spurningum: 1. Hver eru einkenni þjóðmenningar á Íslandi út frá víddum Hofstede? 2. Hver eru þessi einkenni samanborin við sambærilegt úrtak í fjórum löndum? 3.1. Undirbúningur og framkvæmd Eins og áður segir var spurningalistinn VSM 94 notaður. Listinn er til á nokkrum tungu málum (sjá www.geerthofstede.nl/research—vsm/vsm-94. aspx) en þó ekki íslensku. Því var byrjað á að þýða spurningalistann, en hann var ekki bakþýddur eins og stundum er gert heldur gekk hann á milli einstaklinga í rannsóknarhópnum sem komu með ábendingar um það sem betur mátti fara. Til að tryggja eins réttan skilning svarenda á spurningunum og mögulegt var, var ákveðið að hafa spurningarnar bæði á íslensku og ensku. Eftir að hópurinn var orðinn sáttur við þýðinguna og orðalag einstakra spurninga var listinn settur upp í vefforritið WebSurveyor. Könnunin var því netkönnun, send á alla nemendur í grunnnámi á félagsvísindasviði. Gagnaöflun fór af stað 1. september 2009 og lauk 14. september sama ár og stóð því yfir í 14 daga. 3.2 Greining gagna og úrvinnsla Eftir að gagnaöflun lauk voru þau flutt yfir í SPSS og Excel til nánari úrvinnslu. Í SPSS voru meðaltöl einstakra spurninga reiknuð og kannað með t-prófi hvort munur væri á afstöðu eftir kyni, en kynjaskipting er mjög ójöfn í svarhópnum og því ástæða til að skoða það sérstaklega. Í Excel voru gildi víddanna reiknuð út en það er gert samkvæmt ákveðinni reiknireglu fyrir hverja vídd (sjá www.geerthofstede.nl/research—vsm/vsm-94. aspx). Eins og áður segir eru víddirnar fimm, valdafjarlægð (e. power distance, PDI), einstaklingshyggja (e. individualism, IDV), karllægni (e. masculinity, MAS), óvissa STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA 359 Íslensk þjóðmenning í ljósi menningarvídda Hofstede Gylfi Dalmann Aðalsteinsson ofl. Veftímarit des 2011-lok _ Stjórnmál & Stjórnsýsla-Skapalón 24.2.2012 14:07 Page 359 hliðrun (e. uncertainty-avoidance, UAI) og langtímahyggja (e. long-term orientation, LTO). Gildin eru reiknuð samkvæmt eftirarandi: PDI = –35m (03) +35m (06) +25m (14)–20m (17)–20 IDV = –50m (01) +30m (02) +20m (04)–25m (08) +130 MAS = +60m (05)–20m (07) +20m (15)–70m (20) +100 UAI = +25m (13) +20m (16)–50m (18)–15m (19) +120 LTO = -20m (10) +20m (12) +40 Þar sem m (03) er meðalgildi fyrir spurningu 3, m (06) er meðalgildi fyrir spurningu 6, m (14) er meðalgildi fyrir spurningu 14 o.s.frv. Gildin, eða vísitalan, er venjulega á bilinu 0-100 þar sem lágt gildi táknar að menningareinkennið er lítt áberandi á meðan hátt gildi táknar að menningareinkennið er mjög áberandi. Tæknilega séð geta gildin verið lægri en 0 og hærri en 100. Það hafði þó ekki áhrif á túlkun niðurstaðna. 3.3 Niðurstöður Alls svöruðu 427 nemendur könnuninni. Það er um 15% svarhlutfall, en haustið 2009 voru 2.834 nemendur skráðir í grunnnám á félagsvísindasviði. Hlutfall kvenna í svar hópn um var 72,3% en haustið 2009 var hlutfall kvenna í grunnnámi á félagsvísindasviði rúm 60%. Þetta þarf að hafa í huga við túlkun niðurstaðna. Til glöggvunar fyrir lesendur eru teknar saman niðurstöður fyrir karla annars vegar og konur hins vegar. Rúm 65% eru 39 ára eða yngri, 77,1% eru í hjónabandi eða sambúð og tæp 68% eiga eitt barn eða fleiri. Tæplega 41% eru með lægri laun en 300 þúsund krónur á mánuði og flest svör komu frá stærstu deildunum innan félagsvísindasviðs þ.e. félags- og mannvísindadeild og viðskiptafræðideild. Á mynd 1 má sjá að þjóðmenning Íslendinga, eins og hún er metin af svarendum, einkennist af lítilli valdafjarlægð (PDI), mikilli einstaklingshyggju (IDV), lítilli karl lægni (MAS), mikilli óvissu-hliðrun (UAI) og langtímahyggja er í meðallagi (LTO). Mynd 1. Niðurstöður VSM 94 spurningalistans fyrir Ísland, öll svör. STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA 360 Fræðigreinar                                                           Veftímarit des 2011-lok _ Stjórnmál & Stjórnsýsla-Skapalón 24.2.2012 14:07 Page 360 Eins og sjá má á mynd 1 þá eru þrjár víddir nokkuð afgerandi en það er einstakl ingshyggja (IDV) með 91,5 stig, karllægni (MAS) með 17,3 stig og óvissa-hliðrun (UAI) með 82,4 stig. Í töflu 1 má sjá niðurstöður fyrir hverja spurningu fyrir sig. Þar kemur fram fjöldi svara, hæsta gildi, lægsta gildi, meðaltal og staðalfrávik fyrir hverja spurningu. Vakin er athygli á því að spurningar 13 og 14 hafa öfugan kvarða og eru gildin í töflunni eftir að tekið hefur verið tillit til þess. Það eru þau gildi sem notuð eru við útreikning á einstaka menningarvíddum. Tafla 1: Lýsandi tölfræði fyrir niðurstöður VSM 94 Eins og sjá má í töflu 1 var breytileikinn nokkur í einstaka spurningum en í sex spurn ingum af 20 var staðalfrávikið 1 eða hærra. Þegar kannaður var mismunur eftir kyni kom í ljós munur í fjórum spurningum af 20. Þannig þykir körlum mikilvægara (M = 2,08, SD = 0,79) að hafa nægan tíma fyrir einkalífið en konum [M = 1,83, SD = 0,69; t (417 = 3,176, p <0,05]. Reiknað Eta (0,002) bendir þó til að áhrifin séu mjög veik en samkvæmt Cohen (1988) eru veik áhrif þegar gildið er minna en 0,01. Hér er aðeins hægt að útskýra 0,2% af breytileikanum í afstöðu til spurningarinnar út frá kyni. Einnig kom í ljós að körlum þykir mikilvægara (M = 1,65, SD = 0,69) að starfið sé fjölbreytt og skemmtilegt en konum [M = 1,47, SD = 0,59; t (184 = 2,459, p <0,05]. Reiknað Eta var 0,014 sem bendir til að áhrifin séu veik enda aðeins hægt að útskýra 1,4% af breytileikanum í afstöðu til spurningarinnar út frá kyni. Í ljós kom að konur (M = 3,1, SD = 1) telja frekar að undirmenn séu hræddir við að láta í ljósi skoðanir sínar séu þær öndverðar við skoðanir yfirmanna sinna en karlar [M = 2,75, SD = 0,99; t (410 = 3,146, p <0,05]. Hér var reiknað Eta 0,024 sem bendir til að áhrifin séu lítil enda aðeins hægt að rekja 2,4% af breytileikanum í afstöðu til spurningarinnar til STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA 361 Íslensk þjóðmenning í ljósi menningarvídda Hofstede Gylfi Dalmann Aðalsteinsson ofl. Veftímarit des 2011-lok _ Stjórnmál & Stjórnsýsla-Skapalón 24.2.2012 14:07 Page 361 kyns. Einnig kom í ljós að konur (M = 2,95, SD = 1,1) eru frekar sammála fullyrðingunni „Oft geta þeir sjálfum sér um kennt sem mistekst í lífinu“ en karlar [M = 2,52, SD = 1,1; t (416 = 3,558, p <0,005]. Reiknað Eta var 0,029 sem bendir til að um meðaláhrif sé að ræða enda hægt að rekja tæplega 3% af breytileikanum í afstöðu til spurningarinnar til kyns. Af framansögðu má álykta að þrátt fyrir að fram komi munur í fjórum spurningum af 20 þá séu áhrifin óveruleg og því ekki ástæða að hafa áhyggjur af ójöfnu kynjahlutfalli í svarhópnum enda endurspeglar hann ágætlega kynjasamsetningu þýðisins. Eftir sem áður var ákveðið að reikna út menningarvíddir fyrir hvort kyn um sig og er gerð grein fyrir því hér á eftir. Á mynd 2 má sjá niðurstöður fyrir karla annars vegar og konur hins vegar. Þar má sjá að heildareinkennin hjá körlum eru svipuð. Einstaklingshyggjan (IDV) skorar hæst með 83,3 stig, þá óvissa-hliðrun (UAI) með 81,2 stig. Gildin fyrir valdafjarlægð (PDI) og langtímahyggju (LTO) eru svipuð og á heildarmyndinni. Mynd 2. Niðurstöður VSM spurningalistans fyrir Ísland, svör karla og kvenna. Helsti munurinn er gildið á karllægninni en hjá körlum fær þessi vídd mun hærra gildi en á heildarmyndinni eða 49,2 stig á móti 17,3. Þegar niðurstöður fyrir konur eru skoðaðar má sjá að heildarmyndin er svipuð en munurinn á milli kynjanna virðist fyrst og fremst endurspeglast í mati á karllægu víddinni þar sem karlar telja menninguna karllægari en konur gera. Einnig telja konur einstaklingshyggju meira einkennandi fyrir menninguna en karlar. Bearden og félagar (2006) notuðu VSM 94 í rannsókn sinni á mismunandi aðferðum við að leggja mat á þjóðmenningu. Þar var spurningalistinn lagður fyrir nemendur í fjórum löndum; Argentínu, Austurríki, Japan og Bandaríkjunum og var hugmynd rannsakanda að þessi lönd gætu endurspeglað mismunandi menningarheima, Norður-Ameríku, Suður-Ameríku, Evrópu og Asíu. Þessar niðurstöður og samanburð við niðurstöður fyrir Ísland má sjá á mynd 3. STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA 362 Fræðigreinar                                                         Karlar Konur                                    Veftímarit des 2011-lok _ Stjórnmál & Stjórnsýsla-Skapalón 24.2.2012 14:07 Page 362 Mynd 3. Samanburður þjóðmenningar með VSM 94, fimm lönd Eins og sjá má á mynd 3 eru niðurstöður fyrir Ísland sambærilegar og fyrir Banda ríkin (US) í valdafjarlægð (PDI) og einstaklingshyggju (IDV). Þetta eru að mörgu leyti eðlilegar niðurstöður en búast má við því að þeir sem skori lágt í valdafjarlægð skori hlutfallslega hátt í einstaklingshyggju. Karllægni víddin sker sig nokkuð úr en þar er gildið lægra en í öðrum löndum. Hér kann ástæðan að vera sú að meirihluti svarenda eru konur en jafnvel þó svo að svör karla yrðu notuð hér væri gildið samt sem áður lægra en hjá öðrum en þó nær gildi Bandaríkjanna. Í rannsókn Bearden og félaga (2006) voru ekki gerðar mælingar á langtímahyggju fyrir Argentínu og Austurríki og því ekki hægt að bera niðurstöður saman við þau lönd. Þar liggur gildið mitt á milli Bandaríkjanna og Japan. Ekki kemur á óvart að víddin fær hátt skor í Japan enda sú þjóð, ásamt mörgum Asíuríkjum, þekkt fyrir að hugsa marga leiki fram í tímann. 4. Umræða Áhrif þjóðmenningar hefur um langa hríð verið mikilvægt rannsóknarefni innan stjórn un arfræðanna (Gelfand, Erex og Aycan, 2007; Leung, Bhagat, Buchnan, Erez, og Triandis, 2005; Tsui, Nifadkar, and Ou, 2007) sem og í viðskiptalífinu (Friedman, 2005; Sirkin, Hemerling og Bhattacharya, 2008). Helst hefur áhugi fræðimanna á viðfangsefninu beinst að því hvernig hægt er að útskýra og skilja (Chen, Mannix og Okumura, 2003; Earley og Singh, 1995), eða finna nýjar leiðir til að skilja menningar mun milli þjóða (Brockner, 2003; Kitayama, 2002; Tsui o. fl., 2007; Von Glinow, Shapiro og Brett, 2004). Niðurstöður þessarar rannsóknar eru því mikilvægar í ljósi þess að hér er komin vísbending um það hvar Ísland er staðsett á menningarvíddum Hofstede (1980). Niðurstöðurnar sýna að íslensk menning einkennist af lítilli valdfjarlægð (38,8). Þegar valdafjarlægðin er skoðuð í víðara samhengi kemur í ljós að Íslandi svipar mjög til Noregs (31) Finnlands (33), Nýja Sjálands (22), en Austurríki (11) mælist allra landa lægst. Þau lönd sem mælast með lágt skor á þessari vídd hafa gjarnan mælst með nokkuð lítinn fjárhagslegan ójöfnuð í þjóðfélaginu og er almenn talið að borgarar eigi að hafa jafnan rétt. Fjárhagslegum ójöfnuði er reynt að mæta með skattlagningu. Stjórn armynstur í þessum löndum er gjarnan samsteypustjórnir sem leggja áherslu á STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA 363 Íslensk þjóðmenning í ljósi menningarvídda Hofstede Gylfi Dalmann Aðalsteinsson ofl.                                                   ! " #  $%   & "'(Veftímarit des 2011-lok _ Stjórnmál & Stjórnsýsla-Skapalón 24.2.2012 14:07 Page 363 jöfnuð og félagslega velferð. Í vinnuumhverfinu er litið á yfirmenn sem jafningja og þeir ráðfæra sig gjarnan við undirmenn sína þegar ákvarðanir eru teknar. Æðstu stjórnendur eru gjarnan yngri en hjá þjóðum sem mælast mjög hátt í valdafjarlægðinni og er alþýðleg hegðun talin þeim til tekna. Líklegt er að foreldrar komi fram við börnin sín sem jafningja og að kennarar komi fram við nemendur á jafningjagrundvelli. Einnig hefur verið bent á það að þegar eitthvað fer miður hjá einstaklingum þá hafa þeir ríkari tilhneigingu til að kenna kerfinu um frekar en að viðurkenna eigin ábyrgð. Eins og sjá má á mynd 1 þá sýna niðurstöður að Ísland (91,5) mælist hærra en Bandaríkin (90) á víddinni einstaklingshyggja. Íslendingar eru því komnir í fyrsta sæti hvað þetta varðar og til þessa hefur ekkert land mælst með fleiri stig en Bandaríkin frá því mælingar Hofstede (1980) hófust. Þegar þessar niðurstöður eru skoðaðar í víðara samhengi kemur í ljós að Íslandi svipar mjög til Bretlands (89), Nýja Sjálands (78) og Ástralíu (90). Hofstede (1980) hefur bent á neikvætt samband á milli víddanna einstaklingshyggju og valdfjarlægðar í einstaka tilfellum og á það við um Ísland og hin Norðurlöndin. Innan Evrópu er þetta þó ekki alltaf viðkvæðið því lönd frá latnesku Evrópu eins og Frakkland og Belgía skora t.d. hátt bæði í valdfjarlægð og ein stakl ingshyggju (Hofstede 1980). Einkenni þeirra þjóða sem skora hátt á einstaklingshyggjuvíddinni eru þau að mikil áhersla er á einstaklingsframtakið og að hver og einn einstaklingur taki sína ákvörðun óháð öðrum. Samkeppni er talin af hinu góða og ætlast er til að einstaklingar beri fyrst of fremst ábyrgð á sjálfum sér og fjölskyldu sinni. Þá er mikið lagt upp úr fjárhagslegu sjálfstæði frá fjölskyldu og vinum. Börn fara gjarnan að heiman fyrr og sjá um sig sjálf en tíðkast hjá þjóðum sem mælast lágt á einstaklingshyggjunni. Ágrein ingur telst eðlilegur og einstaklingar eru frekar hvattir til að láta ánægju sína í ljós en óánægju. Í þeim löndum þar sem einstaklingshyggjan mælist há eru fleiri merki um að einstaklingar eigi frumkvæði á hinum ýmsu sviðum og eru sprotafyrirtæki algengari. Einstaklingar eru líklegri til að sækjast eftir frelsi og áskorun í starfi og er áhersla lögð á framgang í starfi og veitingu stöðu byggða á hæfni. Hvatning og umbun til starfsmanna er gjarnan einstaklingsmiðuð. Í samfélögum þar sem einstaklingshyggja er ríkjandi eru einstaklingar líklegir til að sjá sjálfir um hin ýmsu verkefni svo sem viðhaldi heima fyrir, lesa fleiri bækur og hafa góða tölvuþekkingu. Einnig hefur verið bent á að einstaklingar í samfélögum sem mælast há í einstaklingshyggju gangi hraðar en einstaklingar í löndum þar sem einstaklingshyggja mælist lág. Gjarnan er litið á fötlun sem viðfangsefni sem skuli takast á við af bjartsýni og jákvæðum huga, en ekki sem óyfirstíganlega hindrun. Þegar karllægni er borin saman við rannsókn Bearden og félaga (2006) kemur í ljós að Ísland (17,3) mælist áberandi lægst meðal þeirra landa sem rannsóknin tekur mið af. Til samanburðar hefur Noregur mælst með 8 stig og Svíþjóð með lægsta gildi sem vitað er um eða 5. Í þeim löndum þar sem karllægni mælist lág er gjarnan mikil áhersla á jafna stöðu kynjanna og mun líklegara að fleiri konur séu í stjórnunarstöðum og taki þátt í atvinnulífinu almennt. Benda má á í því samhengi að samkvæmt skýrslu sem unnin var á vegum World Economic Forum árið 2010 og nefnist The Global Gender Gap Report (GGR, 2010), kemur í ljós að Ísland er í efsta sæti hvað varðar STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA 364 Fræðigreinar Veftímarit des 2011-lok _ Stjórnmál & Stjórnsýsla-Skapalón 24.2.2012 14:07 Page 364 STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA 365 Íslensk þjóðmenning í ljósi menningarvídda Hofstede Gylfi Dalmann Aðalsteinsson ofl. lítinn mun milli kynja í þjóðfélaginu og fylgir Noregur og Svíþjóð þar fast á eftir. Tekið skal fram að ekki var tekinn fyrir launamunur kynjanna í könnuninni. Í löndum þar sem karllægni mælist lág er minna um ýmis konar viðurkenningar, verðlaun og orðu veitingar. Bent hefur verið á að almennt sé ekki eins mikil áhersla á frammúr skarandi árangur og meðal árangur gjarnan viðurkenndur. Líklegt er að samfélagið líti ekki brottfall úr skóla alvarlegum augum. Hins vegar, í löndum þar sem karllægni eru há eins og t.d. í Japan (95) og Þýskalandi (66), er brottfall litið alvarlegum augum og jafnvel með skömm. Í löndum sem mælast lágt á karllægninni er meira um að fólk búi í sambúð og fjölskylduformið er flóknara en í löndum sem skora hátt á þessari vídd.
Um þrjátíu nýjar tegundir hafa komið í íslenska fiskveiðilögsögu eftir að sjórinn fór að hlýna. Þá hefur ýsan færst þrjú hundruð kílómetrum norðar. Sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun segir að flestir fiskistofnar hafi styrkst við hlýnunina en aldrei geti allir fiskistofnar í einu verið sterkir. Hlýnun sjávar hefur haft mikil áhrif á hvert ýmsir stofnar í íslenskri lögsögu ganga. Þetta hefur í mörgum tilvikum komið sér vel, þar er makríllinn þekktasta dæmið sem hefur reynst mikil búbót fyrir Ísland. En á móti hefur loðnan hörfað lengra norður. En þetta á líka við um botnfiskinn, til að mynda ýsuna. Sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, segir að hún sé að færa sig sífellt norðar. Ólafur S. Ástþórsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun: Svona meginstofninn má segja að hafi kannski flust þrjú hundruð kílómetra norður á bóginn þegar við berum saman svæðið eða tímabilið milli 1985 til 1995 og svo aftur frá 2000 og fram til dagsins í dag. Skötuselur hefur einnig flust norðar en þorskurinn hefur haldið stöðu sinni. Ólafur hefur þó ekki áhyggjur af þeir stofnar sem hafi flutt sig norðar séu á leið út fyrir lögsöguna. Ólafur S. Ástþórsson: Botnfiskategundirnar eru náttúrulega bundnar botninum og utan við landgrunnið snardýpkar og ég myndi halda að þær myndu halda sig á landgrunninu en kannski færast til innan þess. Hlýnunin hefur einnig orðið til þess að nýjar tegundir hafa komið inn í lögsöguna. Ólafur S. Ástþórsson: Og á undanförnum hvað 30 árum þá höfum við séð yfir þrjátíu nýjar tegundir, þær hafa veiðst hérna við landið og á landgrunninu. Þetta eru til dæmis batti, dílakjafta, maísíld, nefhali, pálsfiskur og skautsurtla. Fæstar tegundanna er þó hægt að nýta. Ólafur segir að almennt sé hlýnandi sjór betri fyrir lífríkið og flestir nytjastofnar hafi gert það gott á undanförnum árum. Ólafur S. Ástþórsson: Og við höfum verið að sjá aukningu í mörgum hlýsjávartegundunum en svo aftur og loðnan er kannski besta dæmið fyrir kaldsjávartegund, hún hefur aftur á móti verið hopa. Kannski höfum við aldrei alla stofna við landið í hámarki.
Korkur: skoli Titill: SKÓLABÆKUR TIL SÖLU(líka exlusive MR-hefti) Höf.: katharos Dags.: 15. ágúst 2008 23:41:43 Skoðað: 1453 Er frekar sein í því að gera þennan þráð en whatever: Íslenska Íslensk málsaga -Sölvi Sveinsson Íslenskar bókmenntir til 1550 Handbók um ritun og frágang Ljóðamál(er enn í plastinu) Íslenska eitt Hefðbundin setningafræði handa framhaldsskólum Hefðbundin setningafræði handa framhaldskólum - Þýska Þýska fyrir þig 1 - lesbók Þýska fyrir þig 1 - vinnubók(smá notuð en ekki allt, soldið sjúskuð í útliti samt) Þýska fyrir þig 2 - lesbók Þýska fyrir þig 2 - vinnubók(lítið notuð) Þýska fyrir þig - málfræði Friede Freude Eierkuchen Die liebe Familie Oktoberfest Annað Félagsfræði - einstaklingurinn og samfélagið Almenn sálfræði English Grammar in use(notuð en það má alltaf dunda sér við að stroka út) MR- bækur og hefti Sagnorð -leiðbeiningar og æfingar (hefti, keypt í lítilli holu í gamla skóla eins og öll hin heftin) - notað = minni heimavinna Bókstafareikningur handa 3.bekk - bók Viðauki við Stærðfræði handa 3.bekk - hefti Fallorð-leiðbeiningar og æfingar, hefti Enskir leskaflar fyrir 3.bekk náttúrufr.brautar - sjúskað í útliti en búið að glósa mikið inni í bókinni Jarðfræði Enskar smásögur handa 3.bekk Ensk stílaverkefni fyrir 3.bekk Grikkland hið forna Efnafræði handa 3.bekk MR náttúrufræðibrautar Á líka vænan bunka af glósum sem ég hef ekkert not fyrir en tími ekki að henda, get látið þær fylgja bókunum. Gæti svo verið að ég muni finna fleiri bækur í herberginu á næstunnni sem ég þarf að losna við --- Svör --- Höf.: [Notanda eytt] Dags.: 17. ágúst 2008 20:02:06 Atkvæði: 0 enskar smásögur handa 3. bekk (enska)… er hún vel farin og hvað er verðið?? Bætt við 17. ágúst 2008 - 20:08 enn þarna Jarðfræði (eftir Guðbjart Kristófersson) --- Höf.: katharos Dags.: 19. ágúst 2008 16:39:59 Atkvæði: 0 hún og jarðfræði bókin eru vel farnar(fyrir utan yfirstrikanir..), get látið þig fá þær báðar á c.a. 2000 k --- Höf.: [Notanda eytt] Dags.: 20. ágúst 2008 09:55:58 Atkvæði: 0 Já okay! Hvort ertu að tala um stykkið á 2000 eða báðar saman á 2000? -> og veistu hvað þær kosta í MR? --- Höf.: katharos Dags.: 20. ágúst 2008 15:29:25 Atkvæði: 0 veit reyndar ekki hvað þær kosta í mr en efast um að ég hafi borgað meira en c.a. 2500 fyrir þær báðar(saman) en það var náttúrulega áður en verðbólgan kom --- Höf.: [Notanda eytt] Dags.: 21. ágúst 2008 09:46:07 Atkvæði: 0 Já ok. Ég ætla bara að tjekka hvað þær kosta í MR (fer í dag) …ef það munar ekki miklu kaupi ég þær bara nýja ---
Nýlega var sagt frá því að Kodak risinn væri orðinn gjaldþrota. Um tíma var hann svo áberandi og sterkur að hann var talinn eins konar eilífðarvél, líkt og mörg önnur þekkt fyrirtæki vestanhafs. Örugg fúnksjón, sterkt vörumerki, góð tækni, framúrskarandi filmur og allt eftir bókinni um gott fyrirtæki. Kodak átti ekki að geta farið á höfuðið. Um erfiðleika þess hefur verið mikið fjallað í bandarískum fjölmiðlum. Gjaldþrot Kodaks sýnir okkur að fúnksjónir lifa en fyrirtæki koma og fara. Mörg fyrirtæki eru svo sterk að þau eru talin eilífðarvélar. Þeir sem réðu sig til slíkra fyrirtækja á árum áður töldu sig hafa öruggt ævistarf. Núna vita flestir að það er ekki á vísan að róa í þeim efnum. Eilífðarfyrirtækið hefur ekki verið fundið upp og verður aldrei. Þú stýrir ekki fyrirtæki að ákveðnum punkti og setur svo sjálfstýringuna á. Samband íslenskra samvinnufélaga, SÍS, var áratugum saman talið eilífðarfyrirtæki sem gæti ekki farið á höfuðið. SÍS féll á því að hafa of greiðan aðgang að lánsfé og fyrir vikið minnkaði krafan um arðsemi. Þegar veldi SÍS var mest skiptist atvinnulífið í þrennt; SÍS, hið opinbera og einkageirann. Það er ekki bara að fyrirtæki komi og fari; það sama er að segja um viðskiptajöfrana. Þeir eiga sína spretti og svo fennir furðufljótt í sporin. Hvers vegna fór Kodak á höfuðið? Verður Apple eins langlíft og Kodak? Hvað með Google og öll flottu fyrirtækin núna í heimsviðskiptunum? Kodak klikkaði á því að hunsa digital-tæknina, stafrænu tæknina, og trúa í blindni á filmuna. Það sem Kodak átti að gera var að fjárfesta í litlum sprotum þegar fyrstu stafrænu sprotarnir voru að stíga upp. Vera með í leiknum. Kodak er gjaldþrota en fúnksjónin lifir; þ.e. það að taka myndir. Sú fúnksjón hefur raunar aldrei lifað eins góðu lífi. Núna taka flestir myndir á stafrænar myndavélar, svo ekki sé talað um þá sem smella af með símunum sínum. Hver segir að Apple verði eilíft fyrirtæki? Fæstir. Margir óttast að illa fari eftir nokkur ár þegar fyrirtækið fer fyrir alvöru að finna fyrir því að Steve Jobs er allur. Eitt er víst að einhvers staðar er núna uppfinningamaður sem kemur á næstunni með einhverja lausn á einhverri þörf með notendavænu umhverfi sem ógnar Apple. Á Íslandi er mikið rætt um fyrirmyndarfyrirtæki líkt og erlendis. Ég minnist þess að á níunda áratugnum var fyrirtækið Hilda (flutti út lopapeysur) talið slíkt fyrirtæki, allir dásömuðu það og lofuðu, skömmu síðar var það búið að vera. Enn eru hins vegar seldar íslenskar lopapeysur og þær hafa aldrei verið eins vinsælar; tískuflíkur. Útlánabólan fór illa með flest fyrirtæki á Íslandi. Eimskip var lengi vel risi af gamla skólanum sem talinn var eilífur meðan byggð væri á Íslandi. Hann belgdist út og varð gjaldþrota. Úr varð nýtt félag í eigu kröfuhafa sem heitir Eimskip og sinnir eingöngu siglingum til og frá landinu. Funskjónin lifir – en nýtt fyrirtæki með gamla góða nafninu. Jóhannes Jónsson í Bónus sagði eitt sinn að Bónus hefði séð gat á markaðnum og uppfyllt þörf fyrir alvöru lágvöruverðsverslun. Bónusfjölskyldan hélt út á vit ævintýranna og missti að lokum fyrirtækið til kröfuhafa. Engum hefði dottið í hug að Bónusfjölskyldan valdaði ekki reitinn betur og missti þetta fjölskyldusilfur sitt. Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks, sagði í viðtali við Frjálsa verslun á síðasta ári að nýjar hugmyndir og nýir sprotar þyrftu ekki hvað síst að spretta út úr stóru fyrirtækjunum sem eitt sinn voru litlir sprotar. Össur og Marel eru með þekktustu og bestu fyrirtækjum landsins. Þau þurfa eins og önnur að vera á tánum. Eitt sinn voru þau litlir sprotar. Eru inni í þessum fyrirtækjum „órólegar deildir“ sem koma auga á nýja sprota og hugmyndir sem ógna þeim? Það að sjá ógnina og viðurkenna hana er fyrir mestu. Það eru örugglega einhverjir uppfinningamenn einhvers staðar núna að leita að bættri tækni í stoðtækjum. Sniðugt væri af Össuri að fjárfesta í þessum sprotum. Bræðurnir í matvælarisanum Bakkavör voru um tíma með mestu athafnamönnum landsins. Þeir þöndu veldi sitt út og fóru illa að ráði sínu í útlánabólunni. Bakkavör Group er enn stærsta fyrirtæki Íslands og þar eru þeir bræður við völd í skjóli kröfuhafa sem eiga núna fyrirtækið. Stundum er sagt að allt gangi út á að vera réttur maður, á réttum stað og á réttum tíma. Fyrirtæki getur fallið með góða hugmynd en tíu árum síðar blómstrar hún undir nýjum formerkjum. Kodak er gjaldþrota. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar. Við flettum fjölskyldualbúminu, hlæjum að öllum góðu minningunum og tökum myndir sem aldrei fyrr - en með nýrri tækni. Fúnksjónir lifa – en fyrirtæki og athafnamenn koma og fara. Eilífðarvélin og eilífðarfyrirtækið er ekki til. Jón G. Hauksson [email protected]
Leghálskrabbameinsleit er stærsti þátturinn í að draga úr tíðni leghálskrabbameins. Bólusetning kvenna mun ekki koma í veg fyrir nauðsyn þess að konur mæti til leitar. Leghálskrabbameinsleit hófst hér á landi árið 1964 og eru konur á aldrinum 25-69 ára boðaðar í leit á tveggja til þriggja ára fresti. Árlega greinast 15 til 18 konur með leghálskrabbamein og hátt í 1500 hundruð konur með forstigsbreytingar. Leghálskrabbameinsleitin sjálf hefur gert það að verkum að langflestar konur greinast snemma. Kristján Sigurðsson, yfirlæknir hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins, segir að leghálskrabbameinsleit kvenna hafi dregið úr tíðni leghálskrabbameins úr öðru sæti í það ellefta þegar algengi krabbameina er skoðað. Leghálskrabbamein orsakast af HPV veiru en verið er að vinna að bóluefni sem gæti valdið byltingu á sviði leghálskrabbameins. Bóluefnið virkar á tvo algengustu stofana af átján sem orskar um 70% af leghálskrabbameini. Bóluefnið mun þó aðallega nýtast næstu kynslóð kvenna. Kristján segir að bóluefnið komi ekki í veg fyrir að konur þurfi að mæta til leitar. Þær sem eru bólusettar þurfa áfram að mæta til leitar því bóluefnið nær ekki yfir alla stofna veirunnar. HPV smitast við kynmök og hafa þessi smit hæsta tíðni meðal yngri kvenna fyrst eftir að þær hefja kynlíf. Tíðni sýkinga minnkar með aldrinum og nær jafnvægi eftir fertugt. Talið er að um 80% kvenna smitist einhvern tímann af HPV og minnir Kristján á nauðsyn þess að nota verjur við samfarir. HPV smit eykst með fjölda rekkjunauta en veiran berst með þeim mönnum sem konurnar sofa hjá.
Þrátt fyrir að íslenskir kennarar séu sáttir í starfi telja þeir sig engu að síður lítils metna í þjóðfélaginu og litna hornauga af fjölmiðlum. Þeir eru umtalsvert óánægðari með laun sín en kennarar annars staðar á Norðurlöndum auk þess sem nemendur þeirra virðast vera óstýrilátari. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar rannsóknar sem lögð var fyrir alla kennara og skólastjóra á unglingastigi grunnskóla hérlendis í vor. Rannsóknin er framkvæmd reglulega á vegum OECD en þetta var í þriðja sinn sem Ísland tók þátt. Niðurstöður rannsóknarinnar þar sem svör íslenskra kennara eru borin saman við svör kennara á öðrum Norðurlöndum voru birtar í dag og kennir þar ýmissa grasa. Til að mynda til virðast íslenskir kennarar vera yfirhöfuð mjög ánægðir í starf sínu, en rúmlega 90% þeirra sögðust í heildina vera sáttir við starf sitt og skólann þar sem þeir starfa. Um helmingur íslenskra kennara veltir þó fyrir sér hvort betra hefði verið að velja annað starf og áberandi færri kennarar hér á landi telja að kennarastarfið sé mikils metið í þjóðfélaginu, í samanburði við önnur Norðurlönd. Að sama skapi telja aðeins um 7% kennara að þeir séu mikils metnir í fjölmiðlum hér á landi. Þá er ánægja með laun kennara umtalsvert minni hér á landi en á Norðurlöndunum almennt. Rúm 6% íslenskra kennara eru sáttir við laun sín, samanborið við 40% kennara í Skandinavíu og Finnlandi. Svör kennaranna virðast jafnframt benda til lakari aga í íslenskum skólastofum en þeim norrænu. Rúmlega 40% kennara á Íslandi þurfa að bíða nokkuð í upphafi kennslustundar áður en nemendur gefa hljóð og sama hlutfall telur sig tapa töluverðum tíma vegna truflunar nemenda, samanborið við fjórðung norræna kennara. Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði í samtali við fréttastofu í dag næstu skref verði að kafa djúpt ofan í skýrsluna með menntamálastofnun og menntamálaráðuneytinu til að greina hvernig megi nýta skýrsluna í umbótatilgangi, starfsfólki og nemendum til heilla.
Verkföll starfsmanna á Landspítalanum hafa valdið því að krabbameinssjúkir fá ekki viðeigandi meðferð. Biðlistar lengjast óðum. Verkföllin hafa staðið í tæpar tvær vikur. Geislafræðingar, ljósmæður, líffræðingar og lífeindafræðingar á Landspítalanum hafa verið í verkfalli frá því 7. apríl. Fresta hefur þurft myndgreiningum og meðferðum nýgreindra krabbameinssjúklinga á tímabilinu. Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga: Þessi verkföll hafa haft margvísleg áhrif, því miður og við höfum auðvitað áhyggjur af því. Það hefur mjög margt verið gert og skipulagt hér hjá okkur til þess að reyna að láta þjónustuna ganga sem best fyrir sig. Okkar von er fyrst og fremst sú að deiluaðilar komist að samkomulagi og það verði unnt að leysa málið. Sunna Valgerðardóttir: Þetta er einhvern veginn svona sagan endalausa hérna á Landspítalanum, það er nú ekki langt síðan læknar voru í umfangsmiklu verkfalli þar sem að aðgerðirnar þeirra höfðu víðtæk áhrif. Eruð þið búnir að vinda ofan af þeim afleiðingum? Ólafur Baldursson: Ja það er skiljanlegt að þessi spurning komi upp og stutta svarið við þessu er nei. Það er þannig að í starfsemi eins og okkar, sem er flókin, þá er barátta á hverjum degi að halda uppi öryggi. Á miðnætti hefjast verkföll um 100 starfsmanna BHM. Dýralæknar, náttúrufræðingar og næringarfræðingar hjá Matvælastofnun fara í ótímabundið verkfall, sem gerir það að verkum að slátrun stöðvast sem og mikill hluti inn- og útflutnings dýraafurða og eftirlit með velferð dýra. Ekkert hefur verið fundað í Karphúsinu með BHM mönnum um helgina. Fjöldi funda er á dagskrá á morgun. Og á miðnætti hefst líka þriggja vikna verkfall hjá starfsmönnum í stéttarfélagi háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins, sem vinna hjá Fjársýslu ríkisins. Það getur orðið til þess að barnabætur greiðast ekki fyrr en um miðjan maí. Búið er að sækja um undanþágu vegna þessa.
Dante Alighieri (um 29. maí 1265 – 14. september 1321) var skáld frá borgríkinu Flórens á Ítalíuskaganum. Verk hans "Hinn guðdómlegi gleðileikur" ("La divina commedia") er talið með merkustu bókmenntum sem skrifaðar voru á miðöldum. Verkið er einnig talið hafa myndað grundvöllinn að ítölsku ritmáli. Dante fæddist inn í virðulega fjölskyldu í Flórens. Hann varð, líkt og fjölskylda hans, hallur undir málstað Gvelfa (sem voru hallir undir páfa) í átökum þeirra við Gíbellína (sem hölluðust að keisaranum. Hann barðist sjálfur í orrustunni við Campaldino (11. júní 1289) sem festi Gvelfa í sessi á valdastóli í Flórens. Eftir ósigur Gíbellína skiptust Gvelfar í tvær fylkingar (hvíta og svarta) þar sem Dante var í fyrrnefndu fylkingunni. 1301 var von á Karli af Valois sem Bónífasíus VIII hafði útnefnt sáttasemjara í Toskana til Flórens. Dante fór þá fyrir sendinefnd til Rómar til að komast að fyrirætlunum páfa. Páfi sendi hina sendimennina burt en skipaði Dante að vera um kyrrt. Á meðan hélt Karl inn í Flórens með her svartra Gvelfa sem tóku stjórn borgarinnar í sínar hendur og drápu flesta andstæðinga sína. Dante gat ekki snúið aftur og var dæmdur til ævilangrar útlegðar. Dante tók þátt í nokkrum tilraunum til að koma hvítum Gvelfum aftur til valda í Flórens, en þær mistókust allar. Hann dó að lokum í útlegð í Ravenna. Verk. "Hinn guðdómlegi gleðileikur" er nokkurs konar leiðsla sem lýsir ferð Dantes um Víti ("Inferno"), Skírnarfjallið ("Purgatorio") og Paradís ("Paradiso"), fyrst undir leiðsögn rómverska skáldsins Virgils og síðan í fylgd sinnar ástkæru Beatrís. Verkið er ritað á mállýsku heimabæjar Dantes, en með þessu meistaraverki staðfesti hann að ítalskan væri nothæf sem bókmenntamiðill og gerði það einnig að verkum að toskanska varð grundvöllurinn að ítölsku ritmáli. Önnur verk hans eru meðal annars "De vulgari eloquentia" um bókmenntir á talmálinu og "La vita nuova", sem er saga ástar hans á Beatrice Portinari. Ítarefni. Dante Alighieri; Einar Thoroddsen þýddi (2021). "Skírnarfjallið: annar hluti Gleðileiksins guðdómlega." Guðrún útgáfufélag ehf, Reykjavík.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segist vongóð um að vinnubrögð á Alþingi breytist til batnaðar í vetur. Hún flutti stefnuræðu sína í gærkvöldi. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra: Mér fannst ég á margan hátt svona skynja breytingu hér í þinginu og í þá átt að menn vilji leggja sig fram um að bæta hér starfshætti og ég vona það að það verði, gífuryrðin voru um margt miklu minni heldur en maður á að venjast í slíkri umræðu. En ég tók líka eftir því sem að ég hef áhyggjur af að sjálfstæðismenn fannst mér tala í þá átt að þeim fyndist við ganga of langt í úrbótum í fjárlagafrumvarpinu, ég óttast það að þeir muni ef að þeir komast til valda breyta þeim úrbótum sem við erum að boða og sem við höfum farið í . Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki sjá merki þess eftir umræðu gærkvöldsins að tekið verði málefnalega á verkefnum vetrarains á þingi. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins: Mér fannst menn mjög uppteknir af því að tala niður til Sjálfstæðisflokksins og minna um málefnin. Ég kallaði eftir því í minni ræðu að menn reyndu í átökum hérna á þinginu að einskorða þann ágreining við málefnin en gera minn af því að fara í menn. Hins vegar er auðvitað ekkert á það hlustað af stjórnarliðum eins og við sáum hér í hverri ræðunni á fætur annarri og það er bara til vitnis um það að menn óttast um stöðu sína, þegar að meirihluti ræðunnar hjá hverjum stjórnarliðanum á fætur öðrum fer í það að tala um Sjálfstæðisflokkinn en ekki um málefnin.
Lýðflokkurinn vann stórsigur í þingkosningunum á Spáni í gær. Fékk flokkurinn 45 prósent atkvæða, og góðan meirihluta í neðri deild þingsins, Cortes, eða 186 sæti af 350. Þetta er mesti kosningasigur hægri flokks á Spáni frá því einræðisherrann Francisco Franco lést 1975, fasistastjórn hans hrökklaðist frá völdum og tekið var upp lýðræði í landinu. Sósíalistaflokkurinn, fráfarandi valdaflokkur Spánar, fékk 29 prósent atkvæða í gær, og 110 þingmenn. Formælandi hans óskaði Mariano Rajoy, leiðtoga Lýðflokksins, og verðandi forsætisráðherra, til hamingju með sigurinn, og velfarnaðar í embætti, í gærkvöld. Rajoy verður þó ekki forsætisráðherra fyrr en eftir mánuð, fram að því gegnir Jose Luis Rodriguez Zapatero embættinu til bráðabirgða. Rajoy er 56 ára lögfræðingur og fyrrverandi innanríkisráðherra. Hann þykir rólegur og yfirvegaður, sumir segja hann daufgerðan og litlausan. Hann sagðist í gærkvöld ekki búa yfir neinum töfralausnum á efnahagsvanda Spánverja, en hann legði ótrauður til baráttu í fylkingarbrjósti landsmanna, 46 milljóna talsins. Ummæli Miguels Arias, kosningastjóra Lýðflokksins, benda til þess sem framundan er á Spáni. Hann segir alla þurfa að færa miklar fórnir, Spánverjar hafi vanist góðri félagslegri þjónustu og verði að sætta sig við gríðarlegan niðurskurð. Þeir séu fátæk þjóð, og stórskuldug, og verði að sníða sér stakk eftir vexti. Fimm milljónir Spánverja eru þegar atvinnulausar. Og hvergi í aðildarríkjum Efnahags-og myntbandalags Evrópu, evruríkjunum, er fleira ungt fólk án vinnu, 25 ára og yngra, eða 45 prósent. Sú tala á eftir að snarhækka. Ríkisskuldirnar eru gríðarlegar. Þannig náði ávöxtunarkrafa spænskra ríkisskuldabréfa rétt tæpum 7 prósentum rétt fyrir helgi.
Dags daglega hugsum við kannski ekki mikið um mannréttindi enda búum við í samfélagi þar sem mannréttindi eru ágætlega tryggð. Ísland er í fremstu röð þegar kemur að mannréttindum og við getum verið stolt af því samfélagi sem við höfum byggt, samfélag sem grundvallað er á mannréttindum, lögum og rétti. En þótt við göngum að þessum mannréttindum sem vísum þá lýkur aldrei baráttunni og varðstöðunni fyrir þau. Gleðigangan er frábær leið til að fagna þeim mannréttindum sem áunnist hafa og um leið undirstrikar hún að baráttunni fyrir þeim lýkur aldrei. Það er ekki annað hægt en að vera glöð og stolt yfir því hversu samfélagi okkar hefur miðað í átt til skilnings á þeirri einföldu reglu að kynhneigð hvers og eins er einkamál sem hvorki ríkisvaldi né nokkrum öðrum kemur við. Nokkuð er síðan mismunun í lögum vegna samkynhneigðar var afnumin og hjónabönd samkynhneigðra eru til jafns við önnur hjónabönd. Þetta er reyndar svo sjálfsagt að það á ekki að þurfa að tala um þetta, en það eru ekki margir áratugir síðan staðan var allt önnur. En það er ekki nóg að jöfn lagaleg staða fólks óháð kynhvöt hafi áunnist. Viðurkenning samfélagsins, skilningur og víðsýni veitir lögunum innihald og skapar raunverulegt jafnrétti og raunverulegt frelsi. Við skulum nefnilega muna að mannrétti eins eru um leið mannréttindi allra, ábyrgðin okkar á því að sækja þau og verja er því sameiginleg, rétt eins og ávinningurinn sem felst í því að lifa og búa í sanngjörnu, víðsýnu og umburðarlyndu þjóðfélagi – göngum saman fyrir okkur öll.
Íslenskir matvælaframleiðendur virðast oft ekki gera sér grein fyrir því að gáleysi við merkingar getur kostað barn með fæðuofnæmi miklar þjáningar og jafnvel lífið. Þetta var meðal þess sem fram kom á stofnfundi Félags foreldra barna með ofnæmi og astma í dag. Það skortir verulega á skilning og kunnáttu fólks þegar kemur að málefnum barna með astma og ofnæmi. Stofnandi félagsins segir foreldra þurfa að berjast fyrir mörgum málum og bæta þurfi skilning heilbrigðisyfirvalda á þeim. Guðrún Ósk Guðjónsdóttir, stofnandi félagsins: Þetta getur alveg kostað barn lífið. Erfitt getur verið að finna dagforeldra fyrir börnin, enda fylgir þeim mikil aukavinna sem allir eru ekki tilbúnir að inna af hendi eða hafa þekkingu til. Dóttir Guðrúnar Erlu Þorvarðardóttir þróaði með sér bráðaofnæmi fyrir hnetum og mjólk vegna þess hve hún fékk þær vörur ítrekað fyrir slysni í daggæslu. Guðrún Erla Þorvarðardóttir, móðir stúlku með bráðaofnæmi: Já, hún er með ofnæmi sem sagt fyrir mjólk og egg og hnetum og það náttúrlega hefur haft miklar afleiðingar fyrir hana. Hún sem sagt byrjaði bara á þessu venjulega ofnæmi en er orðin með bráðaofnæmi fyrir mjólk og hnetum. Karen Kjartansdóttir: Þannig að hún er lífshættulega veik núna útaf gáleysi? Guðrún Erla Þorvarðardóttir: Já, í raun og veru sko. Þá þurfa foreldrar einnig að kosta miklu í lyf, tæki, auk þess sem þeir missa mikið úr vinnu vegna veikinda barnanna. Guðrún Yrsa Richter, móðir stúlku með bráðaofnæmi: Að okkar mati finnst okkur vanta mjög mikið í þeim efnum. Ég veit ekki hvort að þeir geri sér grein fyrir afleiðingum þess að það vanti sem sagt, að það sé ekki tilgreint á innihaldslýsingum ofnæmisvaldar og við þekkjum af eigin reynslu að ganga með barn um gólf og, og fara upp á spítala vegna slíkra hluta. Og, og þá á tímabili var það orðið þannig að við þorðum eiginlega ekki að taka inn nýjar vörur nema hreinlega hringja í fyrirtækin ef okkur grunaði eitthvað og oftar en einu sinni þá kom það fyrir að, að það hafa verið ofnæmisvaldar þrátt fyrir að það hafi ekki verið tilgreint. Það hefur reyndar verið gert mjög mikið í þessum efnum, það hefur verið eins og fólk hefur eflaust tekið eftir þá hefur verið mikið um að vörur hafa verið innkallaðar sem sagt vegna þessa og, og hérna, en við þekkjum það að það þýðir ekkert að tala beint við fyrirtækin. Að við höfum þurft að hafa samband við heilbrigðiseftirlitið til þess að eitthvað sé gert í málum, við biðum í þrjá mánuði með eina vöru og ekkert var gert.
Korkur: deiglan Titill: Stríðið í Irak og mannsföll Höf.: [Notanda eytt] Dags.: 21. september 2003 10:00:28 Skoðað: 228 <a href=" http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1050299 "> http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1050299</a > Í hvert skiptið sem ég les fréttir af Íraks stríðinu þá hefur oft fylgt með fréttinni hvað margir Bandarískir eða Breskir hermenn hafa fallið. “Alls hefur 81 bandarískur hermaður látið lífið í Írak frá því bardögum þar lauk að mestu 1. maí” Tekið af síðunni. Já 81 hermenn er soldið stór tala. En ekki neitt miðað við hvað þeir hafa drepið marga sjálfir. Hvað hafa mörg börn verið drepin í stríðinu? Konur? Hvað hefur verið nauðgað mörgum Kvennmönnum? Og ekki segja að það hafi ekki skéð því annars myndum við vita af því. Þú hlýtur að átta þig á því að allt sem skeður fyrir þetta fólk fáum við ekkert að vita um. Annars værum við búnnir að lesa hve margir Irakar hafa fallið í stríðinu. Eða kannski eru það svo margir að þeir misstu tölu? Mér fynst mbl.is og fleirri fréttavefir vera vanvirða Iraka með því að segja okkur ekki meira en þetta. Þetta er bara sorglegt hvernig Bush stjórnar USA. Ætla enda þetta með þessum orðum. Isabel fellibylurinn fór yfir austur strönd USA og ég veit með myndum frá gerfihnatta diskum þá er hægt að sjá hvar hann upprunalega byrjaði að myndast. Ætlar Bush að gera árás á þá?<br><br><b>Kveðja Scorpion-</b> CS: Fréttaritari á <a href=" http://www.Counter-Strike.is “>www.Counter-Strike.is</a> Vefstjóri á <a href=” http://easy.go.is/dyrlingur/ “>Counter-Strike</a> —– RealLife: Enþá á lífi. —– HipHop: Semjandi alla daga. —– Senda mér Email? <a href=”mailto:[email protected]">[email protected]</a --- Svör --- Höf.: skuggi85 Dags.: 21. september 2003 15:39:44 Atkvæði: 0 7 þúsund er ekkert rosalega slæm tala miða við stríð í svona stóru landi. Ekki gleyma því líka að stór hluti af þeim sem að dóu var í raun Saddam að kenna þar sem hann raðaði upp fólki í byggingum (sem hefðu getað verið mannlausar) til þess að láta Bandaríkjamenn lýta illa út. Saddam á beina og óbeina ábyrgð á dauða 200.000+ manns… Þessi nokkur þúsund sem að dóu í stríðinu “borga sig upp” á nokkrum árum… bjarga þúsundum í viðbót og bætir líf milljóna manna sem búa í Írak. En auðvitað er leiðinlegt að það sé ekki hægt að gera svona aðgerðir án þess að þúsundir manna missi líf sitt :(<br><br>______________________________________________________________________________________________ <b>I think I´m still clean living… you know, I mean I don’t go home and have orgies or anything like that. I´m still the same person I have always been. (Britney Spears, CNN 2003)</ --- Höf.: mayapaya Dags.: 24. september 2003 00:16:25 Atkvæði: 0 Sko, það er ekki hægt að segja að 7 þús sé ekkert rosalega slæm tala, og mér er andskotans sama um hvort að það sé stríð í stóru landi eða ekki. Líf er líf og þegar manneskja er búin að taka líf annarrar manneskju, sama hvort að það líf eigi eftir að bjarga tveim eða fleiri, þá er það orðið rangt rangt og aftur rangt! Ég bið þig endilega að gefa þessari síðu smá athygli og segðu það sem þú sagðir áður aftur, http://www.robert-fisk.com/iraqwarvictims_mar2003.htm Endalaus heimska í okkar helvítis mannkyni. Ótrúlegt hvað við gerum. Og við köllum okkur gáfaðar lífverur. Við smíðum kjarnorkusprengjur (nógu gáfuð til að gera það) og síðan dettur okkur virkilega í hug að nota þær. Það ætti aldrei nokkurn tímann að ríkja nokkurs konar umburðarlyndi gagnvart svona verkum. Ég hef enga lausn, hvorki á þessu né nokkru öðru, en ég veit bara það að enginn hefur rétt, að hirða líf frá lífi. --- Höf.: skuggi85 Dags.: 24. september 2003 00:23:05 Atkvæði: 0 Já 7 þús ekkert rosalega slæm tala…. þú ert þá örugglega sátt við það að leyfa Saddam að vera við völd og drepa önnur 200 þús manns ? :) Eða hvað ? Held að fólk innst inni veit að á endanum er þetta betra fyrir Írak… eina sem pirrar fólk er að þetta eru aðgerðir Bandaríkjana til þess að græða á því… fólk semsagt vill fórna framtíð Íraks af því það pirrar þau að Bandaríkin græði á þessum aðgerðum. Já eins og þú sagðir þá erum við mannkynið rosalega gáfuð.. við fylgjum hópnum og mótmælum öllum stríðum í stað þess að viðurkenna að þau geti mörg haft jákvæð áhrif. Þú værir örugglega sátt við það ef að nasistar í Þýskalandi stjórnuðu heiminum í dag ekki satt ? :)<br><br>______________________________________________________________________________________________ <b>I think I´m still clean living… you know, I mean I don’t go home and have orgies or anything like that. I´m still the same person I have always been. (Britney Spears, CNN 2003)</ --- Höf.: mayapaya Dags.: 24. september 2003 00:30:37 Atkvæði: 0 Þó svo að Saddam hafi gert slæma hluti í Írak, og ég geri mér grein fyrir hversu slæma, þá réttlætir það ekki aðgerðir Bandaríkjamanna og Breta. --- Höf.: skuggi85 Dags.: 24. september 2003 00:34:30 Atkvæði: 0 Já… aldrei sá maður mótmælagöngur þegar Saddam var að drepa fólk.. eða út af stríðum í Afríku. Það er nefnila tíska í dag (sem þú fylgir greinilega) að gagnrýna bara heimsveldi eins og Bandaríkin og Bretland. Hvað hefði gert þetta stríð “rétt” ? Blessun frá Sameinuðu þjóðunum ? Blessun frá EVRÓPU ? Eða þarf Guð að samþykkja það ? Hver á að ákveða hvaða stríð eru rétt eða röng ? Er það ekki alltaf bara á endanum skoðun fólks ?<br><br>______________________________________________________________________________________________ <b>I think I´m still clean living… you know, I mean I don’t go home and have orgies or anything like that. I´m still the same person I have always been. (Britney Spears, CNN 2003)</ --- Höf.: mayapaya Dags.: 24. september 2003 00:39:50 Atkvæði: 0 Segð þú mér endilega, finnst þér það góð hugsun að hálfvitar útí heimi geta haft um það að segja hvort að þú getir lifað? Með hálfvitum á ég við Bandaríkjaforseta, forsætisráðherra Breta, Saddam Hussein og yfir höfuð alla þá sem hafa þetta vald og kunna ekki að fara með það. --- Höf.: skuggi85 Dags.: 24. september 2003 00:41:43 Atkvæði: 0 Já en hvað er svona skárra við að Saddam hafi valdið en t.d. Bush ?<br><br>______________________________________________________________________________________________ <b>I think I´m still clean living… you know, I mean I don’t go home and have orgies or anything like that. I´m still the same person I have always been. (Britney Spears, CNN 2003)</ --- Höf.: mayapaya Dags.: 24. september 2003 00:55:47 Atkvæði: 0 Akkúrar ekkert. Verra örugglega. En það er ekki málið. Það sem skiptir máli er að þetta ætti ekki einu sinni að koma fyrir, þetta ætti ekki að vera eitthvað sem við sættum okkur við og við ættum ekki að segja ‘svona er þetta’! Vegna þess að þetta er ekki svona! Þetta eru menn á bakvið skrifborð í jakkafötum með allt sem þau eiga ekki sem ákveða þetta. Þetta er ekki svona. --- Höf.: skuggi85 Dags.: 24. september 2003 01:08:32 Atkvæði: 0 Það er þín skoðun en ekki staðreynd.<br><br>______________________________________________________________________________________________ <b>I think I´m still clean living… you know, I mean I don’t go home and have orgies or anything like that. I´m still the same person I have always been. (Britney Spears, CNN 2003)</ --- Höf.: mayapaya Dags.: 24. september 2003 01:20:07 Atkvæði: 0 Skoðun.. þú mátt kalla þetta skoðun ef þú vilt. Sjálf myndi ég flokka þetta undir almenna skynsemi. Þetta er eitt af því sem maður á að læra á fyrstu árunum sínum. Ekki stinga fingrunum í rafmagnsinstungu, ekki grípa utan um hnífsblað og ekki lemja barnið á leikskólanum sem þú þolir ekki. Það er ástæða fyrir því að óbeit á Bandaríkjunum fer vaxandi. Og það er líka ástæða fyrir hryðjuverkum. Til að forðast allan misskilning þá styð ég ekki hryðjuverk. Þú virðist eiga það til að sleppa því að lesa sum orðin áður en þú svarar. --- Höf.: skuggi85 Dags.: 24. september 2003 01:29:30 Atkvæði: 0 Já ég er líka á móti hryðjuverkum… enda styð ég stríðið gegn hryðjuverkum. Leiðinlegt að Bandaríkin fá ekki meiri stuðning frá Evrópu.<br><br>______________________________________________________________________________________________ <b>I think I´m still clean living… you know, I mean I don’t go home and have orgies or anything like that. I´m still the same person I have always been. (Britney Spears, CNN 2003)</ --- Höf.: HinrikSig Dags.: 26. september 2003 16:48:24 Atkvæði: 0 Fight fire with fire?<br><br>___________ “Engin skal keyra linux sem heimilistölvu nema hann sé lítið efnaður. Linux skal eingöngu vera notað af servers og hackers.” - <i>skaarjking, 9. mars 2003</i --- Höf.: skuggi85 Dags.: 26. september 2003 16:59:10 Atkvæði: 0 “Fight fire with fire?” Getur stundum virkað ágætlega í stríðum. Þú veist að stundum í raunveruleikanum virkar ekkert að sprauta vatni á eldinn, það sama gildir um Saddam. 0,00001% líkur á að leysa vandamálin í Írak með því að setjast niður og ræða við þennan mann! En með stríðinu er það svona 50/50<br><br>______________________________________________________________________________________________ <b>I think I´m still clean living… you know, I mean I don’t go home and have orgies or anything like that. I´m still the same person I have always been. (Britney Spears, CNN 2003)</ ---
Twitter drottningin Chrissy Teigen leyfir sér að efast um hversu raunveruleg Netflix raunveruleikaþáttaröðin Selling Sunset sé í raun og veru. Nýlega kom þriðja þáttaröðin út en þættirnir fjalla um sölu glæsihýsa í Los Angeles. „Ég er alltaf að skoða fasteignir í LA og ég hef aldrei séð neitt af þessu fólki lol, ekki frekar en fasteignasalar okkar, sem ég hef ítrekað spurt,“ skrifaði fyrirsætan á Twitter. Fasteignasalar eða leikarar Fasteignasalarnir sem þættirnir fylgjast með eru meðal annars þær Chrishell Stause, Christine Quinn, Mary Fitzgerald, Heather Young, Amanza Smith, Maya Vander og Davina Potratz. Þær þykja allar vera óaðfinnanlegar í útliti og hafa aðdáendur þáttanna margir velt fyrir sér hvort þær starfi sem fasteignasalar í sínu daglega lífi. Það eru hins vegar engar rök sem renna stoðum undir þær vangaveltur. Konurnar eru allar titlaðar sem fasteignasalar á heimasíðu fasteignasölunnar The Oppenheim Group sem kemur að gerð þáttanna. Fasteignasalarnir sem fram koma í þáttunum Selling Sunset. Fréttablaðið/Getty Venjulegt drama Þrátt fyrir efasemdir sínar kveðst Teigen ekki vera jafn hissa og fylgjendur hennar yfir rígnum sem hefur myndast milli kvennanna í þáttunum. „Ég held að það sé engin jafn illkvittin eða brjáluð og þið segið? Kannski er það bara vegna þess að ég bý hérna og er svo vön þessu? Þetta er frekar venjulegt og sumar þeirra eru frekar indælar,“ skrifaði Teigen. „Kannski veit ég líka að allir í sjónvarpi ýkja persónuleikann sinn. Þær eru allar að gera það.“
Verkefnisstjóri stjórnvalda um lækkun húsnæðislána segir það ekki smekklegt hjá bönkunum að taka uppgreiðslugjald af leiðréttingu stjórnvalda á húsnæðislánum eins og Arion banki hefur ákveðið að gera. Það hafi komið honum á óvart að bankinn skyldi fara þessa leið. Húsnæðislán geta ýmist verið með uppgreiðslugjaldi eða ekki en lán sem hafa slíkt gjald í skilmálum sínum bera alla jafna lægri vexti en lán sem ekki hafa ákvæði um gjaldið. Arion banki hefur ákveðið að innheimta 2% uppgreiðslugjald af niðurgreiðslu, þeim hluta niðurgreiðslna húsnæðislána sem kemur af séreignasparnaði lántakenda, samkvæmt skriflegu svari bankans til Morgunblaðsins. Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnisstjóri stjórnvalda um leiðréttingu húsnæðisskulda, sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að þetta kæmi honum á óvart. Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnisstjóri stjórnvalda um leiðréttingu húsnæðisskulda: Og ef við tölum fyrst um höfuðstólslækkunina, það er að segja þetta sem við erum að borga niður af lánum fyrir eða sem ríkið er að borga niður af lánum fyrir fólk að þá eru engin uppgreiðslugjöld þar og þá var í samningum sem að stóðu yfir í marga mánuði á síðasta ári að þá var þetta meðal annars eitt af atriðunum sem að við fórum fram á að það yrðu ekki uppgreiðslugjöld. Undir þessa samninga milli stjórnvalda og lánastofnana hafi verið skrifað undir á Þorláksmessu. Hvað séreignasparnaðinn varði sé fjármálastofnunum hins vegar í sjálfsvald sett hvort þær innheimti gjaldið eða ekki. Tryggvi Þór Herbertsson: Sem sagt að við gátum ekki blandað okkur inn í það hvort að, að reyna einhvern veginn að semja um það, það, af því að það er raunverulega einkamál á milli sjóðsfélaga og fjármálastofnunar. Gjaldið sé út frá hagsmunum fjármálastofnana hugsað til að verja hagsmuni þeirra þegar lán til langs tíma sé greitt upp og skapi þeim þar af leiðandi ekki lengur tekjur. Þetta sé til að mynda rót vanda Íbúðalánasjóðs. Tryggvi Þór Herbertsson: En ég verð nú að segja það að í þessari aðgerð sem beinist beint að því að svona lagfæra skuldir heimilanna og þá finnst mér það ekkert sérstaklega smekklegt að vera að taka upp uppgreiðslugjald.
Munnlegur málflutningur hefst í Icesavemálinu fyrir EFTA-dómstólnum í fyrramálið og er gert ráð fyrir að honum ljúki á morgun. Fyrrverandi ritari við dómstólinn telur að dómur verði kveðinn upp eftir um þrjá mánuði. Málið verður flutt í húsnæði verslunarráðs Luxemborgar því húsnæði EFTA er of lítið. Munnlegur málflutningur verður í Icesavemálinu fyrir EFTA-dómstólnum á morgun. Skúli Magnússon, fyrrverandi ritari við dómstólinn, telur að dómur verði kveðinn upp eftir um þrjá mánuði. Reynslan sýni að dómsuppsaga taki þann tíma að lágmarki og lengri tíma í málum sem krefjist mikillar vinnu. Skúli bendir á að málsmeðferð og samning dóma sé þung hjá alþjóðlegum dómstólum, honum kæmi því ekki á óvart að dómsuppsagan dragist á þriðja mánuð. Skúli segir að dómurinn verði ekki á þann veg að Íslendingar eigi að greiða ákveðna upphæð á ákveðnum tíma. Hugsanlegt sé að frekari málaferli verði ef íslenska ríkið verður dæmt fyrir brot á jafnræðisreglu með því að mismuna innstæðueigendum eftir þjóðerni. Ef svo færi kæmu almenn skilyrði skaðabóta til skoðunar. Þá verði að liggja fyrir brot, orsakasamband og brotið verði að vera nægilega alvarlegt til að skapa bótaskyldu. Brot gegn tilskipuninni gæti mögulega orðið til þess íslenska ríkið yrði að greiða einhverja fjárhæð til þess að það teldist bætt úr brotinu en þetta verði allt vega og meta þegar dómur liggur fyrir.
Liverpool vann fjögurra marka stórsigur á Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi og jók um leið forskot sitt á toppnum upp í þrettán stig. Stærð sigursins er merkileg í sögulegu samhengi. Aðeins einu sinni áður hefur topplið ensku úrvalsdeildarinnar unnið stærri sigur á liðinu sem var á þeim tíma í öðru sætinu. Til að finna stærri sigur þarf að fara aftur til ársins 2011 þegar Manchester City vann frægan 6-1 sigur á nágrönnum sínum í Manchester United í október. Sigur Manchester City á United 23. október 2011 var einnig stórsigur á útivelli eins og sá hjá Liverpool í gærkvöldi. Manchester City var með tveggja stiga forystu á Manchester United fyrir leikinn en United var ríkjandi meistari og á heimavelli þannig að margir bjuggust við öflugri frammistöðu frá heimamönnum. Annað kom hins vegar á daginn. Einn leikmaður spilaði í tapliðinu í báðum leikjum en Jonny Evans, sem var í vörn Leicester City í gær, fékk rauða spjaldið á 47. mínútu í 6-1 tapinu fyrir Manchester City fyrir meira en átta árum síðan. Þá var staðan 1-0 fyrir Manchester City eftir mark frá Mario Balotelli á 22. mínútu leiksins. Mario Balotelli bætti við öðru marki sínu og öðru marki City á 60. mínútu og níu mínútum síðar var Sergio Agüero búinn að skora þriðja markið. Darren Fletcher minnkaði muninn í 3-1 á 81. mínútu en City liðið skoraði síðan þrjú mörk á lokamínútum leiksins. Þau mörk skoruðu þeir Edin Dzeko (2) og David Silva. Mario Balotelli stal fyrirsögnunum eftir leikinn með „Why always me?“ bolnum sínum sem hann sýndi heiminum eftir fyrsta markið sitt í leiknum. Manchester City vann síðan ensku úrvalsdeildina á markamun en bæði Manchester liðin enduðu með 89 stig. City var með átta mörkum betri markatölu sem þýðir að ef City hefði unnið fyrrnefndan leik með einu marki í stað fimm þá hefði Manchester United unnið ensku úrvalsdeildina þetta vor.
Á fjórða tug manna hefur verið yfirheyrður vegna rannsóknar lögreglu og Samkeppnisstofnunar á meintu samráði Húsasmiðjunnar og Bykó. Rannsóknin er sú umfangsmesta sem samkeppniseftirlitið hefur hrundið af stað. Tugir manna hafa réttarstöðu grunaðra í rannsókn lögreglu og samkeppnisyfirvalda á meintu samráði Húsasmiðjunnar og Byko. Rannsóknin er í fullum gangi hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og Samkeppnisstofnun. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hafa hátt í fjörtíu manns verið yfirheyrðir. Þeir hafa réttarstöðu grunaðra í þessu umfangsmikla máli. Nítján manns voru handteknir og yfirheyrðir snemma í mars og þá var gerð húsleit á skrifstofum Byko og Húsasmiðjunnar. Tæpri viku síðar var aftur gerð húsleit í þessum fyrirtækjum og fimmtán stjórnendur og starfsmenn fyrirtækjanna voru handteknir. Þessa dagana er verið að fara yfir gögn sem lagt var hald á en samkvæmt upplýsingum fréttastofu voru tölvur stjórnenda meðal þess sem lögregla haldlagði þegar húsleitin var gerð. Þetta eru stærstu og umfangsmestu aðgerðir sem samkeppnisyfirvöld hér á landi hafa ráðist í. Aldrei áður hafa fleiri verið handteknir og yfirheyrðir vegna meintra brota á samkeppnislögum. Efnahagsbrotadeildin fer með rannsókn á meintum brotum einstaklinga úr röðum Húsasmiðjunnar og Bykó, brotum sem gætu varðað refsingu, en Samkeppnisstofnun fer með ætluð brot fyrirtækjanna sjálfra. Eins og fréttastofa hefur greint frá snýst rannsóknin um meint samráð fyrirtækjanna á verðlagningu svokallaðrar grófvöru. Það er til dæmis steinull, spónaplötur og timbur. Stjórn Húsasmiðjunnar hefur sent þrjá starfsmenn í leyfi vegna þessa máls og sérfræðingar í samkeppnisrétti hafa verið fengnir til að taka út starfshætti fyrirtækisins. Engar aðgerðir af þessu tagi hafa verið ákveðnar hjá stjórn Bykó.
Leikmenn danska landsliðsins sem og knattspyrnusamband Danmerkur, DBU, fordæma aðstæður í Katar þar sem heimsmeistaramótið mun fara fram á næsta ári. Þetta kemur fram í yfirlýsingu liðsins í aðdraganda leikja í undankeppni HM. Í yfirlýsingu á vef danska knattspyrnusambandsins er greint frá því að leikmannaráð landsliðsins hafi fundað með formanni sambandsins og forráðamönnum þess. Meðal þess sem var rætt var til að mynda bág staða verkafólks í Katar. Leikmennirnir taka undir gagnrýndi sambandsins á aðstæður í landinu. „Eftir frábært Evrópumót þá hlakkar okkur til að komast á lokakeppni HM á nýjan leik. Sem fyrirliði verð ég þó að segja að við, leikmennirnir, ákváðum ekki að HM 2022 yrði spilað í Katar. Við erum mjög gagnrýnir á bága stöðu mannréttinda í landinu,“ sagði Simon Kjær, fyrirliði danska landsliðsins, um málið. „Við höfum opinberlega tjáð okkur um málið oftar en einu sinni en nú þurfum við að einbeita okkur að leiknum sjálfum, á vellinum, og reyna komast á lokakeppni HM. Við þurfum að leyfa DBU að sjá um pólitísk átök utan vallar,“ bætti hann við. Jesper Møller, formaður DBU, fagnar því að sambandið hafi stuðning leikmanna liðsins í þessu máli. „DBU og leikmenn danska landsliðsins komu ekki nálægt þeirri ákvörðun að halda HM í Katar. Þetta er umdeild ákvörðun og það eru enn mörg vandamál á sjóndeildarhringnum. Sérstaklega hvað varðar mannréttindi. Frá 2015 höfum við í samráði við aðrar Norðurlandaþjóðir höfum við reynt að breyta þeim hlutum sem við getum í Katar. Það er okkar skylda að berjast fyrir bættri stöðu mannréttinda í Katar,“ sagði Møller, að endingu.
Bækur **** Furðustrandir Arnaldur Indriðason Vaka-Helgafell 2010 Erlendur rannsóknarlögreglumaður, söguhetjan í flestum sakamálasögum Arnaldar Indriðasonar, er merkileg týpa. Afdaladrengur að austan með dimmar sorgir á bakinu og lifir hálfur í fortíðinni. Í Furðuströndum er hann á heimaslóðum, í eyðibýlinu sem eitt sinn var æskuheimili hans og þar sem harmurinn dundi yfir. Hann er einn, hefur ekkert samband við fólkið sitt eða samstarfsmenn í borginni og fer upp á eigin spýtur að garfa í hvarfi konu á Eskifirði árið 1942. Hún er talin hafa horfið á heiðinni í aftakaveðrinu sem hópur breskra hermanna lenti í fyrir austan í janúar 1942, en Erlendur, með sína áráttu fyrir mannshvörfum, á erfitt með að kyngja þeirri skýringu. Um leið er sagan lýsing á hverfandi heimi, rannsóknin fer fram í skugga byggingar álvers og Kárahnjúkastíflu og sá heimur sem Erlendur og fólkið sem aðild á að glæpnum tilheyrir er um það bil að deyja út. Dauðinn er óhugnanlega nálægur bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu og má eiginlega segja að ásamt Erlendi sé hann aðalsöguhetja bókarinnar. Formið er hér annað en fyrr hjá Arnaldi, lengi framan af er ekki einu sinni ljóst hvort nokkur glæpur hefur verið framinn en þeim mun betur farið í saumana á löngu liðnum samskiptum fólks í plássunum fyrir austan. Inn á milli koma kaflar sem við könnumst við úr fyrri bókum; Erlendur einn með hugsunum sínum um hvarf bróðurins, einmanaleikann og sektarkenndina, en hér eru þeir mun betur útfærðir og falla betur inn í frásögnina. Óblíð lífsbaráttan og átökin við náttúruöflin eru ekki einkaharmur hans heldur örlagavaldur í lífi allra sem við sögu koma. Frásögnin stigmagnast eftir því sem Erlendi miðar áfram með rannsóknina á hvarfi konunnar og eigin harmi og fer undir lokin alveg að mörkum hrollvekjunnar. Spennan skapast ekki eingöngu af því að fleiri púslbitar falli á sinn stað í rannsókn málsins heldur ekki síður af þróuninni í sögu Erlendar sjálfs og glímu hans við drauga fortíðinnar. Þeir lesendur sem saknað hafa Erlendar í síðustu bókum fá hér næstum yfirskammt af honum, sjá inn í kviku og komast kannski að fleiru um hann en þeir kærðu sig um að vita. Furðustrandir eru metnaðarfullt verk og betur stílað en fyrri bækur höfundarins. Þetta er Arnaldur eins og hann gerist bestur, jafnvel betri. Fantavel byggð breið skáldsaga um ástir og örlög fólks í litlu sjávarþorpi um miðja síðustu öld og minnir á köflum á þjóðfélagsbreytingaskáldsögur þess tíma. Kæmi ekki á óvart þótt næstu verk Arnaldar yrðu á allt öðrum nótum en sakamálasögurnar sem hann hefur skrifað undanfarin fjórtán ár. Niðursstaða: Fantavel byggð breið skáldsaga sem minnir á þjóðfélagsbreytingaskáldsögur fyrri tíma. Arnaldur eins og hann gerist bestur, jafnvel betri.
„Þetta er ekki alveg svo einfalt að verið sé að leita utan landsteinanna eftir lægri launakostnaði og framleiðslukostnaði,“ segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands. Fundið hefur verið að því að Bjarg íbúðafélag, húsnæðissjálfseignarstofnun sem stofnuð er af ASÍ og BSRB, muni reisa 33 íbúðir á Akranesi með einingahúsum sem framleidd eru og flutt inn frá Lettlandi. Húsin koma nær fullsmíðuð að utan og þarf í raun aðeins að púsla þeim saman og klæða að utan. Þetta styttir byggingartímann um helming og gerir það að verkum að fólk í húsnæðisvanda kemst fyrr í öruggt leiguhúsnæði. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins barst þessi innflutningur og aðkoma erlends vinnuafls til tals í fyrirspurn á fundi Sjálfstæðismanna á Akranesi með verkalýðsforystunni í bænum fyrir skemmstu. Þar var varpað fram þeirri spurningu hvort verkalýðsforystan væri búin að verðleggja íslenskt vinnuafl svo hátt að það yrði að kaupa allt í verkið að utan. Drífa, sem aðeins var skipuð formlega í stjórn Bjargs í fyrradag, segir að það sem hún hafi kynnt sér af málinu snúist í fyrsta lagi um hverjir geti framleitt þetta og í öðru lagi um stærðarhagkvæmni. „ASÍ kaupir vörur erlendis þó við reynum að beina viðskiptum okkar til innlendra framleiðslufyrirtækja ef það er mögulegt. Þetta er ekki bara hagkvæmnisjónarmið til að gera þetta ódýrara, heldur tel ég að það sé ekki víst að það séu fyrirtæki sem geti annað þessu í þessu magni sem Bjarg er að óska eftir,“ segir Drífa. „Þetta er alltaf hagsmunamat. Við erum að reyna að lækka leigu, við erum að reyna að byggja fljótt og örugglega og það liggur mjög á að koma húsum upp þannig að það er víðtækt hagsmunamat sem fer þarna í gang.“ Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, benti á það í samtali við Fréttablaðið á dögunum að umrædd hús væru framleidd af Byko-LAT, timburverksmiðju íslenska byggingarvörurisans BYKO í Lettlandi. Modulus, sem útvegi einingarnar, sé einnig íslenskt fyrirtæki tengt Byko-fjölskyldunni og allt sé þetta íslensk hönnun. Húsin komi í flytjanlegum einingum búin gólfefnum, innréttingum, máluð að innan og nær tilbúin. Aðeins eigi eftir að púsla þeim saman á staðnum og klæða að utan. Lágmarkslaun í Lettlandi eru sem nemur 60 þúsund krónum á mánuði, meðallaun rúmar 80 þúsund, og því ljóst að vinnuaflið er ódýrara þar í landi en hér. Í samtali við RÚV í fyrradag sagði Björn að þrýstingur um hagkvæmni sem fylgt hafi stofnframlögum frá Íbúðalánasjóði hefði orðið til þess að þessi leið var valin á Akranesi. „Það vantar íbúðir núna og ef við getum helmingað smíðatíma húsa þá þýðir það að fólk sem vantar húsnæði fær það fyrr. Það er það sem þjóðfélagið er að kalla á í dag og við erum að reyna að koma til móts við þær þarfir,“ segir Björn í samtali við Fréttablaðið.
Kim Jong-un gekk yfir landamærin til grannríkisins Suður-Kóreu í nótt. Með því varð hann fyrsti leiðtogi Norður-Kóreu sem stígur fæti á suður-kóreska grundu síðan árið 1953, þegar ríkin tvö undirrituðu vopnahlé í Kóreustríðinu. Á afvopnaða svæðinu á landamærum ríkjanna tók hann í hönd forseta Suður-Kóreu, Moon Jae-in, áður en hann fékk forsetann til að stíga með sér í stundarkorn aftur yfir landamærin til Norður-Kóreu. Því næst gengu þeir saman hlið við hlið í átt til sameiginlegs fundar, þar sem samskipti ríkjanna og kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu verður rædd. Eftir að leiðtogarnir voru sestir niður til morgunfundar með sendinefndum sínum ávörpuðu þeir blaðamenn stuttlega. Kim sagðist vonast eftir hreinskilnum samræðum um málefni líðandi stundar og vonast hann til þess að niðurstöður fundarins verði farsælar. „Ég vona að ég geti skrifað nýjan kafla í sögu okkar, þetta er nýtt upphaf fyrir okkur,“ sagði Kim. „Það hefur tekið 11 ár að koma þessum fundi um kring. Þegar ég gekk hér í dag velti ég því fyrir mér af hverju það hafi tekið svo langan tíma.“ Þá sagði Kim að hann vonaðist til þess að því sem samþykkt væri á fundinum yrði fylgt eftir. „Ég vona að við getum staðið undir þeim væntingum sem aðrir gera til okkar,“ sagði Kim og bætti við „Ég vona að þessir samningar uppfylli þessar miklu væntingar.“ Moon sagðist jafnframt vona að heimurinn fyldist með „vorinu sem breiddist út um Kóreuskagann. Það hvílir mikil ábyrgð á okkar herðum. Heimsbyggðin hefur miklar væntingar,“ sagði Moon. „Heimsókn þín gerir afvopnaða svæðið að merki friðar, ekki aðskilnaðar. Ég þakka þér innilega fyrir hugrekki þinn. Samtal okkar í dag verður að vera hreinskilið. Við munum loksins eiga samtalið sem við höfum ekki átt síðastliðinn áratug,“ sagði Moon og beindi orðum sínum að Kim. Kaldar núðlur og svefnfriður Þrátt fyrir að dagurinn hafi verið hinn hátíðlegasti sást einnig glitta í mannlegu hlið norður-kóreska leiðtogans. Kim opinberaði til að mynda að hann hafi komið með kaldan núðlurétt frá Pjongjang til fundarins og sagðist hann vona að Moon kynni að meta norður-kóreskar núðlur. Um fátt er meira talað á suður-kóreskum samfélagsmiðlum en einmitt þessar köldu núðlur. Þá baðst Kim jafnframt afsökunar á því að hafa vakið Moon með kjarnorkutilraunum sínum á síðast ári. Fylgjast má með framvindu dagsins á vef Guardian.
„Við erum oft feimin við að koma með skapandi lausnir í ýmsum verkefnum,“ segirKarl Guðmundssonen hann stendur fyrir fyrirlestriToms Kelleyí Háskólabíóiklukkan tólf í dag. Kelley er einn eigenda hönnunarskrifstofunnar IDEO og höfundur metsölubókarinnar The Art of Innovation en hann gaf nýlega út bókina Sköpunarkjarkur sem þýdd var á íslensku. „Það er almennt viðurkennt að nýsköpun og skapandi hugsun séu drifkrafturinn að baki árangri fyrirtækja og einna verðmætustu eiginleikar leiðtoga á okkar dögum,“ segir Karl. „Við þurfum ekki öll að vera listamenn en við getum verið skapandi lögfræðingar, læknar, framkvæmdastjórar eða sölumenn.“ Karl kynntist Kelley þegar hann bjó í San Francisco og starfaði hjá Ekso Bionics og segir það hafa verið tilviljun að þeir hafi kynnst á góðgerðarsamkomu. „Við vorum að kynna tækið okkar sem hjálpar mænusködduðum að ganga,“ segir Karl. „Honum leist svo vel á verkefnið að það endaði með því að við unnum verkefnið með IDEO og upp úr því hittumst við oft og hann talaði mikið um þessa bók sem ég var svo áhugasamur um.“ Í bókinni reynir höfundurinn að fá fólk til að verða meira skapandi einstaklingar og bókin inniheldur nokkrar reynslusögur fólks sem fer eftir aðferðum Kelleys. „Þegar ég kláraði að lesa hana þá fannst mér hún bara þurfa að koma út á íslensku og hótaði að þýða hana sjálfur ef forlagið myndi ekki finna góðan þýðanda,“ segir Karl og hlær. „Það er gríðarlegur áhugi fyrir þessu á Íslandi. Þetta á við fleiri en bara nýsköpunarfyrirtæki, það geta allir komið með meira skapandi lausnir í þeim verkefnum sem þeir sinna dagsdaglega.“ Eins og áður hefur komið fram fer fyrirlesturinn fram í Háskólabíói klukkan 12.00og er hann haldinn í samstarfi við Hönnunarmiðstöðina, Símann og Háskóla Íslands en aðgangur er ókeypis.
Sjónvarpskonan Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir er verið á sjónvarpsskjáum landsmanna undanfarin ár og þá aðallega sem sjónvarpskokkur. Núna er Eva orðin dagskrágerðarmaður í þættinum Íslandi í dag á Stöð 2. Eva hefur átt viðburðarríka ævi og er hún annar gestur í annarri þáttaröð af Einkalífinu en þátturinn er einnig aðgengilegur á Stöð 2 Maraþon en í þáttunum er rætt við fólk sem skarar fram úr á sínu sviði. Faðir Evu var sjónvarpsmaðurinn ástsæli Hermann Gunnarsson en hún kynntist honum fyrst á unglingsaldri og náði að mynd sterkt samband við Hemma þangað til hann lést skyndilega árið 2013. Seint á síðasta ári opnaði Eva Laufey sig um fósturmissi sem hún varð fyrir og hvernig það hafði áhrif á hana. „Það hjálpaði mér hvað mest að tala um þetta og það mun alltaf skila manni lengra, í staðinn fyrir að byrgja allt inni. En þetta hefur verið hellings vinna,“ segir Eva Laufey. „Maður spáir oft í því hversu langt á leið maður væri komin en svo á sama tíma leyfi ég mér ekki að staldra við þær hugsanir og horfi bara á stelpurnar mínar og hugsa, guð minn góður hvað ég er heppin.“ Hún segist þakka fyrir það sem hún eigi á hverjum einasta degi. „Þetta er sko ekki sjálfgefið. Það var alveg ótrúlegt hvað margar konur opnuðu sig við mig, konur sem höfðu ekki þorað að tala um þetta lengi. Þær höfðu litið á þetta sem einhverja skömm sem er alveg agalegt. Ég fékk sjálf mjög mikið út úr því að vita að ég er ekki sú eina. Ef við tölum meira um þetta og þetta er á yfirborðinu hjálpar það kannski fleiri konum í þessari stöðu.“ Í þættinum ræðir Eva Laufey meðal annars um samband sitt við föður sinn, Hemma Gunn, og hversu sárt það hafi verið að missa hann, það hvernig hún náði að tuða sig inn í sjónvarpsbransann, æskuna og æskuástina,, hvernig hún fer að því að tapa fyrir Gumma Ben í Ísskápastríðinu og margt fleira. Hér að neðan má sjá þriðja þáttinn af Einkalífinu en þátturinn vikulegi er í loftinu á fimmtudögum á Vísi og Stöð 2 Maraþon.
Adam Lallana tryggði Liverpool stig með marki undir lok leiks er topplið ensku úrvalsdeildarinnar gerði 1-1 jafntefli við Manchester United á Old Trafford í stórleik helgarinnar í enska boltanum. Marcus Rashford hafði komið heimamönnum yfir í fyrri hálfleik. Fyrir leikinn höfðu Liverpool menn unnið alla átta leiki sína í deildinni á meðan Manchester United hefur átt erfitt uppdráttar og var í neðri hluta töflunnar. Ole Gunnar Solskjær kom nokkuð á óvart með liðsvali sínu en hann byrjaði með fimm manna varnarlínu. Heimamenn í Manchester urðu þó fyrir áfalli í upphitun þegar Axel Tuanzebe meiddist og Marcos Rojo kom inn í byrjunarliðið, það reyndist afdrifarík ákvörðun. Þá voru bæði Alisson og David De Gea á sitthvorum enda vallarins en sá brasilíski hefur ekkert spilað undanfarnar vikur vegna meiðsla og De Gea fór meiddur af velli í leik Spánar og Svíþjóðar í vikunni. Leikurinn fór rólega af stað og var ekki beint einhver flugeldasýning. Heimamenn í United lágu til baka og freistuði þess að nýta hraða Daniel James og Marcus Rashford í skyndisóknum á meðan Liverpool var meira með boltann. Leikplan United gekk upp á 36. mínútu þegar United vann boltann og sótti hratt. James fékk sendingu upp í horn, hann átti stórkostlega fyrirgjöf á Rashford sem hafði tekið gott hlaup og hann skoraði framhjá Alisson í marki Liverpool. Staðan orðin 1-0 Manchester Unitd í vil og allt ætlaði um koll að keyra á Old Trafford. Leikmenn Liverpool vildu fá dæmda aukaspyrnu í aðdraganda marksins en þar sem ekki var um augljós mistök að ræða hjá Martin Atkinson þá stóð markið. Undir lok fyrri hálfleiks jafnaði Sadio Mané metin en markið var réttilega dæmt af þar sem Senegalinn handlék knöttinn áður en hann skoraði. Að því sögðu leit Victor Lindelöf, miðvörður Man United, vægast sagt skelfilega út í markinu. Staðan því enn 1-0 og þannig var hún í hálfleik. Í síðari hálfleik lögðust leikmenn United í skotgrafirnar á meðan Liverpool sótti án afláts. Það virtist þó sem heimamenn ætluðu að halda út allt þangað til Adam Lallana skaut upp kollinum á 85. mínútu og jafnaði metin eftir sendingu Andy Robertson. Staðan orðin 1-1 og reyndust það lokatölur leiksins.
Flugmálastjórn er langt komin við að meta umsókn hollenska fyrirtækisins E.C.A. Program um að skrásetja um 20 óvopnaðar orrustuþotur hér á landi. „Það styttist í að hægt sé að taka pólitíska ákvörðun um hvort ríkisstjórn og Alþingi vilji að undirbúningi málsins verði haldið áfram," sagði Ingvar Sverrisson, aðstoðarmaður samgönguráðherra. Ekki er talið að íslensk lög og reglugerðir um flugmál nái utan um flugrekstur óvopnaðra orrustuþotna. Í öðrum löndum eru til sérstök lög um heri og hergögn. Ingvar segir að líklega yrði að skrifa sérstakar reglugerðir fyrir vopnlausar orrustuþotur í íslenska flugflotanum ef af komu E.C.A. verður. Áður en starfsemin hefst þyrfti E.C.A. einnig að ljúka samningum við Keflavíkurflugvöll ohf. um 12.000 fermetra aðstöðu í risastóru flugskýli, sem er lítið nýtt eftir að Bandaríkjaher hvarf héðan af landi brott. Áætlað er að endurbætur á flugskýlinu í þágu E.C.A. kosti um 4,5 milljarða króna. Samið hefur verið við ÍAV þjónustu um að annast framkvæmdir E.C.A. hér á landi. ÍAV þjónusta annast einnig ýmis samskipti við íslensk stjórnvöld, að sögn Melville ten Cate. E.C.A. mun einnig hafa lýst áhuga á að semja við utanríkisráðuneytið um aðstöðu á afgirta varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Engu þessara mála er lokið í íslensku stjórnsýslunni. Langmest af þeirri 200 milljarða króna fjárfestingu, sem E.C.A. gerir ráð fyrir að ráðast í til að setja á laggirnar fyrirtæki sem sérhæfir sig í að leigja óvinaflugvélar til þátttöku í heræfingum, tengist kaupum á þotum, stjórnstöðvum, ratsjám og rafeindabúnaði og upplýsingakerfum. Forstjórinn fullyrti í samtali við blaðamann að næg viðskipti væru í boði frá flugherjum og ríkisstjórnum til að standa undir þessari fjárfestingu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins úr stjórnkerfinu hafa forsvarsmenn fyrirtækisins ekki enn sýnt íslenskum stjórnvöldum fram á að fjármögnun áformanna sé lokið. Fyrirtækið er sagt í eigu nokkurra hollenskra og bandarískra einstaklinga, sem eru flestir fyrrverandi orrustuflugmenn. [email protected]
Þórdís Ingadóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, segir óvíst hversu mörg málin yrðu sem farið yrði fram á endurupptöku á færi svo að Ísland tapaði fyrir Mannréttindadómstólnum. Hreinlegast kynni vera að Alþingi setti lög um þessi mál sérstaklega þannig að málin færu beint í málsmeðferð í stað þess að fara fyrir endurupptökunefnd. Rætt var við Þórdísi og Kjartan Bjarna Björgvinsson, formann Dómarafélags Íslands. Hér má horfa á allt viðtalið. Aðalmeðferð yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu fór fram í gær. Sjá einnig: „Það er í rauninni allt undir“ Þórdís segir að formlegt ferli fari af stað hér á landi ef Ísland tapar dóminum í Mannréttindadómstól Evrópu. Íslensk stjórnvöld þurfi að senda ráðherranefnd Evrópuráðsins tilllögur um það hvernig þau vilja bregðast við dóminum. Tilgreina þurfi hvort skaðabætur hafi verið greiddar, koma með tillögur að einstaklingsbundnum aðgerðum og tillögur að almennum aðgerðum til þess að stöðva brotið og koma í veg fyrir að sama brot eigi sér stað í framtíðinni. Þórdís segir að stofnun Landsréttar sé dæmi um almenna aðgerð til að bregðast við fyrri dómum. Tapi Ísland fyrir yfirdeildinni þarf að fara fram á endurupptöku mála? Þórdís segir að það sé grundvallarregla hjá MDE og fleiri dómstólum sé að setja þurfi dómhafa í sömu aðstöðu og ef brotið hefði ekki átt sér stað. Oft sé eina einstaklingsbundna aðgerðin að biðja um endurupptöku máls, sérstaklega í sakamálum, fólk vilji fara af sakaskrá og miklir hagsmunir. Ráðherranefnd hittist fjórum sinnum á ári til þess að fara yfir viðbrögð stjórnvalda við dómum hafi gefið út leiðbeiningar um endurupptökumála. Í réttarfarslögum hér séu heimildir til endurupptöku mála og reynt hafi talsvert á það á undanförnum árum út af dómum Mannréttindadómstólsins, eins og skattalagadómur árið 2017, þar sem Ísland hafi talið brjóta gegn banni gegn tvöfaldri refsingu. „Þá var búist við miklum fjölda mála í endurupptöku en það varð ekki.“ Sjá einnig: Mannréttindadómstóll dæmdi Jóni Ásgeiri í hag Þegar það er heilt dómstig og tugir dóma, þurfa íslensk stjórnvöld að setja ný lög um öll þessi mál sérstaklega? Þórdís segir að Hæstiréttur hafi í dómi í fyrra tekið ákveðna afstöðu um að ekki væri heimild í réttarfarslögum að biðja um endurupptöku á grundvelli dóms frá Mannréttindadómstólnum. Frumvarp sé nú fyrir þingi um að rýmka þær heimildir. Þórdís segir þó óvíst sé hversu mörg málin yrðu í reynd. „Þá væri einfaldasta leiðin að Alþingi setti bara lög um þau viðbrögð. Hvort fólk ætti þá í sakamálum til dæmis rétt á endurupptöku mála. Að það færi bara sjálfkrafa þá aftur í málsmeðferð í stað þess að fara í gegnum endurupptökunefnd og hin almennu skilyrði. Það væri svona hreinlegast.“ Þórdís segir að dómararnir fjórir sitji allir í sitthvoru dómstiginu innan Landsréttar og það margfaldi þau mál sem þetta hafi áhrif á. „Ég fékk þær upplýsingar eins og sakamál, þetta eru bara 85 mál og sumt af þeim er sýkna og í öðrum kannski enginn áhugi á að biðja um endurupptöku, fólk hefur bara haldið áfram með sitt líf og sama kannski í einkamálum. Þannig að þetta er alveg meðfærilegt. Þetta eru engar hamfarir.“
Algjör eyðilegging blasir við í bæjum og þorpum nærri upptökum jarðskjálftans sem reið yfir Nepal í síðustu viku, og brýnt að bágstöddum þar sé komið til bjargar hið fyrsta. Þetta segir Rauði krossinn. Staðfest er að 6200 fórust í jarðskjálftanum sem reið yfir á laugardaginn, en yfirvöld í Nepal segja líklegt að alls hafi að minnsta kosti tíu þúsund farist. Enn er óvíst um afdrif þúsunda íbúa á afskekktari svæðum. Erfitt hefur verið fyrir björgunarmenn að komast til bæja og þorpa nærri upptökum skjálftans vegna skemmda á vegum, aurskriða og illviðris. Tuttugu þyrlur hafa að undanförnu flutt mat og aðrar nauðsynjar til afskekktra bæja, en björgunarmenn segja brýna þörf á fleiri þyrlum svo hægt sé að koma öllum til aðstoðar. Búist er við því að Kínverjar sendi fleiri þyrlur á næstunni, og nepölsk stjórnvöld biðla til alþjóðasamfélagsins um enn frekari aðstoð. Björgunarsveit frá Alþjóða rauða krossinum fór í gær um Sindhupalchok, svæði norðaustur af Katmandú sem talið er að hafi orðið hvað verst úti í skjálftanum. Í yfirlýsingu frá Rauða krossinum segir að í einum bæ hafi 90 prósent allra bygginga hrunið. Þar á meðal sé sjúkrahús bæjarins. Örvæntingarfullt fólk grafi í rústum húsa með berum höndum í veikri von um að finna ástvini á lífi. Líklegt sé, segir í yfirlýsingu Rauða krossins, að ástandið í öðrum bæjum og þorpum sé jafn slæmt, ef ekki verra.
Viðræður eru málefnalegar og ganga vel, segir ríkissáttasemjari um kjaradeilu grunnskólakennara. Mikið mæðir á starfsmönnum embættisins þessa dagana, meira en í áraraðir. Óhætt er að fullyrða að ekki hafi verið meira umstang á skrifstofu ríkissáttasemjara í áraraðir. Eigi færri en fimmtán kjaradeilur inni á borði þar nú og fleiri á leiðinni. Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari: Já það er alveg rétt, þetta er orðin nokkuð góð skorpa. Frá verkfalli grunnskólakennara fyrir áratug má heita að launþegar hafi ekki beitt verkfallsvopninu í kjaradeilum síðan. Ekki einu sinni í kjölfar efnahagshrunsins 2008 skapaðist mikill órói á vinnumarkaðnum. Annað er hinsvegar uppi á teningnum núna. Hjörtur Hjartarson: Má ætla að launþegar, bæði í opinbera geiranum og í einkageiranum, líti sem svo á að ja kreppan sé á enda og nú megi launþegar fara að fá stærri bita af kökunni? Magnús Pétursson: Ja það má vel vera að það sé þannig. Hins vegar verður líka að segja að þrátt fyrir kreppuna og í kjölfar kreppunnar þá hefur kaupmáttur verið að styrkjast hægt og bítandi, en auðvitað vilja menn sjá meiri hraða og hærri hlutföll í því efni. Sólahrings vinnustöðvun sjúkraliða og starfsmanna SFR á hjúkrunarheimilum hófst á miðnætti. Sáttafundur hófst núna síðdegis en á miðvikudaginn hefst allsherjarverkfall ef ekki semst fyrir þann tíma. Þá leggja grunnskólakennarar niður störf öðru sinni á miðvikudaginn náist ekki samkomulag á næstu tveimur dögum. Magnús Pétursson: Ja almennu fréttirnar eru þær að það er mjög málefnaleg umræða í þessum deilum og yfirleitt færast þær svona nær niðurstöðu. En það er ekki hægt að segja hvenær það verður eða getur orðið. Icelandair felldi niður 11 ferðir í dag vegna manneklu og urðu tafir á mörgum ferðum einnig. Yfirvinnubann hjá Flugfreyjufélagi Íslands tók gildi í gærmorgun og þá neita margir flugmenn að vinna yfirvinnu. Enn er ósamið við flugvirkja sem funduðu í dag. Sjómenn fiskiskipaflotans og samninganefnd útvegsmanna ræddu málin hjá ríkissáttasemjara í morgun en deilunni var vísað til ríkissáttasemjara fyrir tveimur árum. Ljóst má vera af þessari upptalningu að eftir stórátakalausan áratug á vinnumarkaðnum, ja í það minnsta hvað kjaradeilur varðar, erum við stödd í ólgusjó. Ríkissáttasemjari er hinsvegar æðrulaus gagnvart þeim verkefnum sem hann glímir við núna og eins þeim sem framundan eru. Magnús Pétursson: Á endanum nást alltaf niðurstöður.
Mikilvægt er að fá raforku úr fyrirhugaðri virkjun Hvalár á Ströndum inn á Vestfirði þar sem hringtenging Vestfjarða er íbúum lífsnauðsynleg. Þetta segir þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Bæjarfulltrúi Ísafjarðarbæjar tekur undir og segir það ekki spennandi kost að virkja falleg svæði og náttúruperlur til útflutnings. Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum er í nýtingarflokki Rammaáætlunar og umhverfismat virkjunarinnar liggur fyrir hjá Skipulagsstofnun. Lagt hefur verið til afhendingarstaður raforku virkjunarinnar verði færður í Ísafjarðardjúp og flutningsleið raforkunnar frá virkjuninni þannig stytt. Með þeirri breytingu verði virkjunin arðbær og um leið raunhæfur kostur. Á fundi um framtíðarsýn í raforkumálum á Vestfjörðum, sem fór fram í Edinborgarhúsinu í gær, kom fram að Ragnheiður Elín Árnadóttir, Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er bjartsýn á að hægt verði að færa tengipunktinn. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, fagnar því að möguleiki á hringtengingu opnist og raforkuöryggi aukist þar með. „Menn eru samt ekki tilbúnir að segja að það þýði samt að við fáum raforkuna inn á svæðið og hringtenginguna sem er okkur lífsnauðsynleg. Það er þetta sem ég vil árétta að sveitarstjórnarmenn hérna á svæðinu, þingmenn og aðrir sem koma að þessu máli, gæti þess.“ Daníel Jakobsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ, tekur undir orð Ólínu: „Það verður að segjast eins og er að það er ekkert spennandi að fara að virkja falleg svæði og náttúruperlur til útflutnings, við þekkjum það úr sjávarútveginum að fiskurinn er að mestu fluttur í burtu. Við viljum nota auðlindirnar okkar í þágu byggðarinnar hérna.“ Daníel segir mikilvægt að tryggja grundvöll fyrir því að flytja orkuna vestur: „Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að Vestfirðingar finni þau verkefni og ég held að það séu mörg smá verkefni sem við viljum sjá á endann á snúrunni. Við erum spennandi fjárfestingarkostur og þess vegna held ég að það sé eitthvað slíkt sem við ættum að stefna á og leggjast öll á árarnar með það.“
Steinunn Jónsdóttir og faðir hennar, Jón Helgi Guðmundsson, eigandi Bykó, seldu Burðarási hlut Steinunnar og komu þannig í veg fyrir að eignarhaldsfélag Karls Wernerssonar, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Hannesar Smárasonar næði ráðandi hlut í Íslandsbanka. Þetta kemur fram í grein Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu í dag. Jón Helgi sagði í samtali við fréttastofu í morgun að Agnes hefði sínar upplýsingar ekki frá þeim feðginum en taldi ekkert fleipur í frásögn hennar. Að öðru leyti vildi Jón ekki tjá sig um málið. Segir í greininni að óánægja Steinunnar með þróun mála innan bankans hafi orðið til þess að hún ákvað að selja hlut sinn Burðarási en ekki nýstofnuðu eignarhaldsfélagi Karls, Jóns Ásgeirs og Hannesar. Karl Wernersson, stjórnarmaður í Íslandsbanka, er annar stærsti hluthafinn í bankanum ásamt systkinum sínum. Í Morgunblaðinu segir að Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs Group, Karl og Hannes Smárason, stjórnarformaður FL Group og fyrrverandi eiginmaður Steinunnar, stefndu að því að nýtt eignarhaldsfélag þeirra keypti öll bréf Straums í Íslandsbanka, rúm 21%, sem og hlut Karls Wernerssonar og systkina hans, tæp 13%. Félagið væri þá með ráðandi hlut í Íslandsbanka. Karl Wernersson mun hafa greint Steinunni Jónsdóttur frá þessum áformum á fundi með henni, Einari Sveinssyni, formanni stjórnar Íslandsbanka og Jóni Snorrasyni, stjórnarmanni í Íslandsbanka, í síðustu viku. Nýju eignarhaldsfélagi yrði skipt til helminga milli Werners-systkinanna annars vegar, með 51% hlut og Jóns Ásgeirs og Hannesar hinsvegar, þar sem þeir skiptu á milli sín 49%. Steinunn seldi Burðarási, fjárfestingafélagi Björgólfsfeðga, hlut sinn á genginu 13,6 fyrir 7 milljarða og 340 milljónir króna.
Meira en 76 prósent landsmanna vilja að útgerðin greiði markaðsgjald fyrir afnot af fiskimiðunum. Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar sem samtökin Þjóðareign, hópur áhugafólks um að þjóðin fái sanngjarnt afgjald fyrir auðlindir, lét Gallup gera. Ef aðeins eru teknir þeir sem afstöðu tóku með eða á móti markaðsgjaldi er hlutfall stuðningsmanna tæp 93 prósent. Niðurstöðurnar eru afgerandi þvert á stjórnmálaflokka, aldurs- og tekjuhópa, óháð menntun og því hvort fólk býr á höfuðborgarsvæðinu eða utan þess. Með markaðsgjaldi er átt við að haldið yrði uppboð á veiðileyfum, þannig að útgerðir fengju alltaf sjálfkrafa 90-95 prósent af kvóta fyrra árs í sinn hlut, útboðið næði aðeins til 5-10 prósenta af árlegum heildarafla. Jákvæðastir eru kjósendur Pírata, Samfylkingarinnar og Viðreisnar, en 97 prósent kjósenda Pírata segjast vera hlynnt markaðsgjaldi, 100 prósent af kjósendum Viðreisnar og 98 prósent af kjósendum Samfylkingarinnar, ef aðeins eru skoðaðir þeir sem taka afstöðu. Könnunin var gerð 21. júlí til 4. ágúst. 1.695 manns voru í úrtaki og svarhlutfall var 51 prósent. Leggjast gegn tillögunni Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, leggjast gegn þeirri tillögu Þjóðareignar að bjóða út 5-10 prósent aflaheimilda árlega. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir tilraunir Færeyinga til að bjóða út aflaheimildir ekki hafa tekist vel. Fréttablaðið/Stefán „Uppboð afla hugnast okkur ekki. Reynsla annarra þjóða hefur sýnt að þau gefa ekki góða raun. Það er aukin samþjöppun, aukin skuldsetning, verri umgengni við auðlindina og í ljós kemur að það eru hinir stærri og sterkari sem bera sigur úr býtum á uppboðum. Þannig að ef hugsunin er að halda sjávarútvegi í dreifðri eignaraðild þá eru uppboð ekki ákjósanleg leið,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, í samtali við Fréttablaðið. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir veiðigjaldið nú þegar hafa tengingu við markað. „Samkvæmt lögum greiðir sjávarútvegurinn á Íslandi veiðigjald sem byggir að nokkru leyti á markaðnum fyrir sjávarfang, er 33 prósent af aflaverðmæti. Veiðigjaldið hefur að þessu leyti tengingu við markað með sjávarafurðir,“ segir hann. Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra. Fréttablaðið/Anton Brink „Þegar vel árar þá hækkar gjaldið og þegar illa árar þá lækkar það. Nú hefur veiðigjaldið til dæmis hækkað úr 4,8 milljörðum króna í rúma 7 milljarða á milli ára. “ Óvæntur stuðningur þvert á flokka Þjóðareign hafnar því að útboð muni leiða til þess að stærri útgerðir nái til sín meiri kvóta en nú er, þar sem lög í landinu banni slíkt og þeim þurfi einfaldlega að framfylgja. Þá telja samtökin að útboð myndi tryggja dreifingu og jafnt verð fyrir alla sem bjóða yfir lægsta útboðsverði og auðvelda nýliðun í sjávarútvegi þar sem allir geta boðið í aflaheimildir á opnum markaði. Bolli Héðinsson, forsvarsmaður samtakanna, segir að til að skapa sátt um sjávarútveg verði að eyða tortryggni. Til þess þarf aðferðin til að úthluta aflaheimildum að vera einföld og gagnsæ. Hann segir óvæntustu niðurstöður könnunarinnar vera hversu afgerandi stuðningur er við hugmyndina þvert á alla flokka. „Þetta er mjög afgerandi stuðningur alls almennings hvar sem borið er niður,“ segir Bolli. Heiðrún Lind segir að tilraunir Færeyinga til þess að bjóða upp aflaheimildir hafi ekki heppnast vel. „Reynsla Færeyinga er sú að það var engin nýliðun í þeim uppboðum sem þeir framkvæmdu. Ég tel uppboð ekki réttu leiðina til að hámarka verðmæti sjávarauðlindarinnar. Síðan liggur fyrir að fyrsta skrefið fælist í því að innkalla þær aflaheimildir sem á að bjóða út. Þessar æfingar myndu mjög fljótt þurrka upp eigið fé í sjávarútvegi og auka á samþjöppun. Það hugnast mér ekki," segir Heiðrún. Bolli segir að tilraunir Færeyinga til að bjóða út aflaheimildir hafi misheppnast og telur raunar ekki að um eiginlegt uppboð hafi verið að ræða. Bolli Héðinsson forsvarsmaður Þjóðareignar segir að eyða verði tortryggni til að skapa sátt um sjávarútveg. Fréttablaðið/Óttar „Eftir lýsingum að dæma var sú aðgerð öll í skötulíki og fráleitt að hægt sé að miða við hana sem raunhæfan valkost. Það er ekki nóg að gefa hlutunum nafn og segjast þá hafa framkvæmt það sem í nafninu ætti að vera fólgið,“ segir Bolli.
Framfarir í augnlækningum hafa verið gríðarlegar á undanförnum árum. Þessar aðferðir eru þó komnar allmiklu skemmra á veg. Þeir gagnast enn sem komið er einungis þeim sem eru með væga nærsýni. Þrátt fyrir miklar vinsældir þessara aðgerða og gríðarlegar framfarir eru þær ekki lausar við fylgikvilla. Eitt af því nýstárlegasta sem fram hefur komið á síðustu áratugum eru aðgerðir við sjónlagsgöllum, það er að segja nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju. Meðal annars var þróuð aðferð til að skera af kúpu hornhimnunnar á sérstakan hátt, ekki ósvipað því þegar ostur er skorinn með ostaskera. Hornhimnan brýtur geislana þá minna en áður, sem er einmitt það sem nærsýnir þurfa, þar eð þeir eru með lengra auga en eðlilegt er. eftir Þuríði Þorbjarnardóttur (Þess má þó geta að aðgerðir við sjónskekkju hafa verið að þróast frá öndverðri nítjándu öld.) eftir Þuríði Þorbjarnardóttur Hvað er náttblinda og hvað veldur henni? Fyrir nærsýna er hægt að ná þessu takmarki með því að fletja út hornhimnuna sem er í framhlið augans. Þetta þótti þó gefa misjafna raun, þar sem hnífarnir gáfu ekki nógu nákvæman skurð. Hægt er að meðhöndla sjónskekkju um leið og nærsýnin eða fjarsýnin er meðhöndluð. eftir Þórdísi Kristinsdóttur Þó ber að hafa í huga að um er að ræða aðgerð á annars heilbrigðu auga og skyldi fólk kynna sér vel alla þá kosti og galla sem þessi aðgerð hefur í för með sér áður en haldið er af stað. Með þróun leysitækninnar kom í ljós að leysirinn gat skorið mjög nákvæma þykkt af hornhimnunni. Árið 1985 var fyrsta mannsaugað meðhöndlað með þessari nýju tækni og árið 1988 var fyrsta sjáandi augað meðhöndlað. Gera þarf þá hornhimnuna kúptari til að hún brjóti geislana í ríkara mæli. Eftirspurn eftir aðgerðum við sjónlagsgöllum hefur orðið meiri en nokkurn óraði fyrir. Stefnir í að LASIK verði algengasta augnaðgerð sem framkvæmd er í Bandaríkjunum en um 700.000 slíkar aðgerðir voru gerðar þar á síðasta ári, sem samsvarar 700 aðgerðum á ári á Íslandi. Þær byggjast einkum á því að breyta lagi hornhimnunnar til að breyta þeim geislum sem koma til augans. Úr hverju er augað? Þessir fylgikvillar eru þó sjaldgæfir og er jafnan hægt að meðhöndla þá án þess að viðkomandi missi sjón varanlega ef þeir greinast í tæka tíð. Þessi leysitækni hefur síðan verið þróuð enn frekar og hefur nánast alfarið rutt gömlu skurðtækninni úr vegi. Nú er unnt að meðhöndla fjarsýni með því að gera hornhimnuna kúptari. Þessar aðgerðir voru þróaðar á síðustu áratugum tuttugustu aldar og hafa náð gríðarlegum vinsældum, einkum á síðasta áratug. Skipta má framförunum í fernt: Hægt er að meðhöndla meiri nærsýni en áður var hægt, allt niður í -14.00 til -16.00. Þessi aðgerð var nokkrum annmörkum háð og þóttu skurðirnir veikja hornhimnuna og gera hana óstöðuga. Með þessu má í mörgum tilfellum komast hjá því að nota gleraugu til að breyta geislunum. Öfugt er farið með fjarsýna, sem eru með styttra auga en gengur og gerist. Hvað er ský á auga? Af öðrum aðferðum sem þróaðar hafa verið við sjónlagsgöllum má nefna linsur sem settar eru inn í augað, annaðhvort fyrir framan eða aftan lithimnu, og sérstaka silikonhringi sem komið er fyrir inni í hornhimnu og sem fletja hana út. Fyrstu hornhimnuaðgerðirnar til að breyta sjónlagi voru eingöngu framkvæmdar á nærsýnu fólki, og byggðust á því að gerðir voru litlir skurðir á hornhimnuna sem höfðu þau áhrif að hún flattist út. Af hverju sér maður stundum bletti fyrir augunum? Frá sjötta áratugnum voru vísindamenn iðnir við að þróa margvíslegar aðferðir við að breyta lögun hornhimnunnar. Með nýrri tækni, svokallaðri LASIK, er hægt að fá hraðari bata en áður þekktist, auk þess sem fólk er jafnan nær einkennalaust eftir aðgerðina og getur farið í vinnu daginn eftir. Frekara lesefni á Vísindavefnum: Þær náðu nokkrum vinsældum, sérstaklega í Evrópu og þá ekki síst í Rússlandi, þar sem aðgerðin var fundin upp og þróuð. Þeir helstu eru bólga í hornhimnu, vöxtur hornhimnuþekju undir skurðflipann (á við um LASIK), sýking í hornhimnu og hornhimnuör. Sýnt er að margir vilja leggja ýmislegt á sig til að leggja gömlu gleraugun eða linsurnar á hilluna.
Á sunnudaginn frumsýnir skemmtikrafturinn Lárus Blöndal Guðjónsson, einnig þekktur sem Lalli töframaður, sýninguna Lalli og töframaðurinn. „Þetta er nú eiginlega titlað sem fjölskylduleikrit, sem mér finnst skrýtið. Maður þarf ekkert að vera með fjölskyldu til að koma. Mér finnst líka skrýtið að kalla þetta barnaleikrit, því þetta er alveg jafn mikið fyrir fullorðna. Þetta er í raun fyrir alla á öllum aldri,“ segir Lalli. Fyrir alla Hann segist koma fram fyrir breiðan aldurshóp og sýningin sé því ekki gerð með einn ákveðinn hóp í huga. En um hvað fjallar sýningin? „Þetta er smá flókið. Hún fjallar um Lalla sem er starfsmaður Tjarnarbíós, sem mætir og er að fara að gera allt klárt fyrir sýningu töframannsins Lalla. Þá kemur í ljós að Lalli töframaður hefur eitthvað ruglast og er mættur allt of seint. Lalli, starfsmaður Tjarnarbíós, þarf þá einhvern veginn að redda því, að setja upp sýningu á meðan allir eru að horfa. Það er mikið um töfra og skemmtilegir hlutir gerast,“ segir Lalli. Hann segist því vera að leika tvö hliðarsjálf. „Það eru mörg lög á þessu verki, flókið verk. Fullorðna fólkið á eftir að fyllast af spurningum á leiðinni heim. Um lífið, tilveruna og töfra. Það mun eflaust spyrja sig: „Hvernig getur þetta verið? Hvernig voru tveir Lallar?“ og mun í kjölfarið gruna mig um að eiga eineggja tvíbura,“ segir hann og hlær. Sýningin hefur verið í bígerð í tvö ár og stóð upphaflega til að frumsýna hana í vor. Því varð þó að fresta vegna heimsfaraldursins. Lalli segir það hafa verið algjört lán í óláni. „Það er miklu betra að vera að frumsýna núna. Sýningin var tilbúin en af því að henni var frestað gafst tækifæri til að gera hana ennþá betri. Hún er í raun orðin ennþá skemmtilegri.“ Lalli segir sýninguna hafa verið tvö ár í bígerð Ný plata Í nóvember kemur út jólaplata frá Lalla. „Hún er tilbúin og ég er bara að bíða eftir að fá vínylinn. Á henni eru góðir gestir og dásamlegir hljóðfæraleikarar, Purumenn, Ævar Vísindamaður og Heiðrún konan mín. Hún syngur með mér lagið Jólastelpa,“ segir Lalli, sem tók plötuna að mestu leyti upp í sumar. Lalli byrjaði snemma í töframennskunni og hann segir það alltaf hafa verið planið að gera það að ævistarfi. „Ég vissi alltaf að ég væri orðinn það djúpt sokkinn í töfrana að ég vissi að þessi þekking myndi aldrei fara og myndi alltaf nýta þetta. Ég fattaði fyrir mörgum árum að minn tilgangur á jörðinni er að gleðja fólk. Það er fullt af fólki að gera alls konar magnaða og merkilega hluti í samfélaginu. Ég áttaði mig bara á því að mitt hlutverk og tilgangur væri að að gleðja fólk.“ Hann segist hafa áttað sig á því hve mikilvægt og gaman það er að koma fólki til að brosa. „Þar kem ég inn. Ég hef verið spurður í gegnum tíðina við hvað ég vinni. Ég svara alltaf: „Ef það er eitthvað skemmtilegt, þá er ég að vinna í því. Ef þig vantar einhvern í eitthvað sem er skemmtilegt, þá er ég þinn maður,“ segir Lalli og hlær. Sýningin Lalli og töframaðurinn er sýnd alla sunnudaga í október í Tjarnarbíói. Miða er hægt að nálgast á tix.is.
Áhrif breytinga á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar fyrir 10 árum urðu meiri en menn sáu fyrir segir Björg Thorarensen, lagaprófessor. Meðalhófs- og jafnræðisreglu hafi verið beitt oftar en búist var við. Björg telur ekki þörf á að skoða mannréttindakaflann sérstaklega nú. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og Mannréttindaskrifstofa Íslands stóðu fyrir ráðstefnu í Öskju í dag þar sem rætt var um mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar í 10 ár, áhrif þeirra og framtíðarsýn. Björg telur að áhrif breytinga 1995 hafi verið meiri en búist var við, en þær einskorðuðust ekki við breytingar á stjórnarskrá. Björg Thorarensen, lagaprófessor: Svona framþróun sem enginn bjóst við með þessa jafnræðisreglu sem við höfum sett inn í okkar stjórnarskrá ''95, hún er eitt af þessum ákvæðum sem hefur haft kannski óvæntustu áhrifin vegna þess að dómstólar eru kannski í ríkari mæli en áður farnir að skoða hvort að löggjöf uppfyllir skilyrðin um jafnræði og það kannski var ekki búist við því að það yrði í jafnmiklum mæli ''95 eins og raunin varð á. Við endurskoðunina ''95 var mjög horft til mannréttindasáttmála Evrópu. Björg telur að það hafi náðst að styrkja stjórnarskrána til þess að verja rétt fólks í samskiptum þess við ríkisvaldið. En telur hún brýnt að skoða mannréttindakaflann í endurskoðuninni nú? Björg Thorarensen: Ég er ekki svo viss um það þurfi að taka mannréttindakafla stjórnarskrárinnar íslensku. Hann hefur verið... hann virkar mjög ákveðið og haft mikil áhrif í þessu 10 ár. Björgu finnst að á þessum tíma hafi mótast venjur um hvernig jafnræðisreglunni er beitt. Túlkun hennar hafi verið óljóst í byrjun. Björg Thorarensen: Ég er ekki alveg viss um að það eigi að brjóta allt upp aftur meðan að það hefur ekki alveg náð svona eitthvað jafnvægi í þá framkvæmd sem hefur verið að mótast. En auðvitað verður þetta allt væntanlega tekið til skoðunar núna á næstu misserum þegar verið er að fjalla um stjórnarskrána. Nánar verður fjallað um mannréttindi og stjórnarskrár í Speglinum eftir fréttir.
EINUM starfsmanna Slökkviliðs Akureyrar var tilkynnt, þegar hann mætti til vinnu síðastliðinn mánudag, eftir vaktafrí, að hann væri ekki lengur í slökkviliðinu. Hefði verið tekinn af launaskrá. Viðkomandi telur sig hafa verið rekinn en slökkviliðsstjóri lítur hins vegar svo á að starfsmaðurinn hafi sjálfur sagt upp störfum fyrir þremur mánuðum. Mál þetta bar á góma á fundi bæjarráðs Akureyrar í gærmorgun og var því vísað til umfjöllunar framkvæmdaráðs bæjarins, sem fundar árla í dag. Sá sem hér um ræðir, Sigurður L. Sigurðsson, hefur verið trúnaðarmaður starfsmanna og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á vegum Landssambands slökkviliðsmanna í gegnum tíðina. Hann var varðstjóri um tíma, eftir að núverandi slökkviliðsstjóri tók við því starfi en var aftur settur í stöðu slökkviliðsmanns að ári liðnu. «Hann sagði upp fyrir þremur mánuðum,» sagði Erling Þór Júlínusson slökkviliðsstjóri við Morgunblaðið í gær og vísar til tölvubréfs sem Sigurður sendi honum í febrúar á þessu ári, fljótlega eftir að Erling tilkynnti Sigurði bréflega að senn væri sá tími liðinn sem miðað hefði verið við «til reynslu í stöðu varðstjóra Slökkviliðs Akureyrar» en Sigurður segist raunar hafa verið settur varðstjóri ótímabundið frá og með 19. febrúar 2003. «Honum var gerð ljós uppsögn skriflega og í vitna viðurvist og það hefur verið ljóst alla tíð síðan. Hvers vegna þessa dramatík er núna á þessum tímapunkti skal ég ekki segja um,» sagði slökkviliðsstjóri í gær. Hann sagði Sigurð hafa lokið störfum í slökkviliðinu og því yrði ekki breytt. Erling segir þá niðurstöðu hvorki eiga að koma Sigurði né öðrum í slökkviliðinu á óvart en eflaust geti það reynst erfitt fyrir bæjarbúa að reyna að setja sig inn í málið. Og Erling fullyrðir að mál þetta sé hluti af «gömlum vandamálum» innan slökkviliðsins. Sigurður vill ekki tjá sig um málið að öðru leyti en því að hann hafi ekki sagt upp og hann því verið rekinn. Morgunblaðið veit að sú hugmynd kom upp á fundi bæjarráðs í gær að fá hlutlausan aðila til þess að fara yfir málefni slökkviliðsins og var henni vel tekið. Bæjarfulltrúi sem Morgunblaðið ræddi við í gær sagðist hafa áhyggjur af þróun mála, slökkviliðið væri mjög mikilvæg öryggisstofnun-bæði hvað varðar slökkvistarf og sjúkraflutninga-og óbreytt gæti ástandið ekki verið. Slíkum deilum innan liðsins yrði að linna.
Ágæti heilbrigðisráðherra! Ég vil byrja á að þakka þér fyrir að hafa, fyrstu mánuðina í starfi, verið duglegur að hlýða á raddir lækna, meðal annars á aðalfundi Læknafélags Íslands 10. október síðastliðinn. Það er ánægjulegt að greina þann áhuga sem þú hefur á málflutningi lækna og hefur þú þegar gert meira í þeim málum en forverar þínir. Daginn eftir ávarp þitt á aðalfundi LÍ var haldið málþing um stöðu heilbrigðiskerfisins fimm árum eftir hrun, þar sem fram komu ýmsar ábendingar og lausnir varðandi það sem betur mætti fara. Landlæknir sat þar á fremsta bekk og hlustaði af athygli, en læknum þótti miður að þangað mætti hins vegar hvorki ráðherra eða aðrir ráðuneytismenn, né heldur stjórnendur Landspítala eða annarra heilbrigðisstofnana. Athyglisvert þótti mér að í ávarpi þínu, sem annars var mjög gott, gerir þú „lausbeislaðan“ fréttaflutning að umræðuefni. Læknar hafa alla tíð þótt frekar vel taminn hópur og seinþreyttir til vandræða og því þykir það tíðindum sæta séu þeir orðnir tregir í taumi. Tel ég að fréttaflutningur sá, sem læknar hafa undanfarnar vikur tengst, beri skýr merki um neyð. Í orðum þeirra felst neyðarkall og örvænting vegna langvarandi skeytingarleysis stjórnenda og stjórnvalda sem markvisst hafa lagt sig fram um að hlusta ekki á skynsemisraddir og hógværar lýsingar lækna sem margítrekað hafa lýst yfir áhyggjum sínum. Í fjölmiðlaumfjöllun undanfarinna missera hefur ekki verið farið fram með glannaskap, úrtölum og upphrópunum, heldur yfirveguðum en beinskeyttum staðreyndum. Ég geri mér grein fyrir því að það getur verið erfitt að horfast í augu við þessar staðreyndir, einkum ef sá sem valdið hefur upplifir viðfangsefnið óyfirstíganlegt eða erfitt viðfangs. Eftirsóknarverður starfskraftur Íslenskir læknar eru eftirsóknarverður starfskraftur. Við höfum góða menntun, oftast töluverða starfsreynslu, erum agaðir og sjálfstæðir og búum yfir ríkulegri sjálfsbjargarviðleitni. Við erum auk þess vinnusamir einstaklingar, sem vanir erum harðræði og lágum launum. Við sinnum störfum okkar vel, af hugsjón og með hagsmuni sjúklinga okkar í fyrirrúmi. Við vitum að verk okkar lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks eru mikilvæg og að víða vinnum við sannkölluð kraftaverk við erfiðar aðstæður. Ég tel ónauðsynlegt í þessari stuttu grein að fara yfir allar þær ábendingar og lausnir sem læknar hafa bent á. Nokkrar af þeim ábendingum hafa snúið að húsnæðismálum, tækjakosti, gríðarlegri manneklu og álagi, ásamt skorti á samstarfi milli stjórnenda og starfsmanna. Þessi mál þekkir þú vel frá okkar fundum. Hins vegar vil ég kafa dýpra í launamálin, sem þú gerir að sérstöku umtalsefni í grein þinni sem birt var á heimasíðu velferðarráðuneytis í lok fundarins 10. október, auk þess sem þau voru reifuð í sjónvarpsþætti á dögunum. Þar hefur þú fallið í sömu gryfju og aðrir heilbrigðisráðherrar og látið lækna líta út fyrir að vera ofurlaunamenn, ásamt því að reyna að grafa undan vandamálinu með því að minnast á launatölur í fjarlægum löndum eins og Dubai eða litlum, einangruðum og sérhæfðum sjúkrahúsum þar sem greitt er ríflega fyrir rétta starfskraftinn. Þegar læknar tala um launin sín, eru þeir ekki að biðja um 5 milljónir á mánuði. Þeir eru einfaldlega að benda á að laun lækna eru ekki boðleg, hvorki í innlendum né erlendum samanburði! Óeðlileg launaþróun Útskrifaður læknakandídat er með 340.734 krónur í dagvinnulaun fyrir 100% vinnu eftir 6 ára háskólanám og eru þeir því lægst launaða háskólastéttin miðað við fjölda ára í námi, ótengt álagi og ábyrgð í starfi. Þessi kandídat fær því 248.032 krónur í útborguð laun. Það er því eins gott fyrir hann að eiga hvorki maka, börn, húsnæði eða bíl þar sem að hann hefur ekki efni á því, sé litið til neysluviðmiða Hagstofu, velferðarráðuneytisins eða Umboðsmanns skuldara. Á síðustu fimm árum hafa dagvinnulaun allra lækna hækkað um 16%, á meðan algengar tölur annarra starfsstétta eru 27-49%. Það dylst því engum að laun íslenskra lækna hafa ekki þróast á eðlilegan hátt miðað við laun hérlendis. Sé horft til heildarlauna kandídata og almennra lækna sést að þau hafa hækkað um 8,5% á fimm árum. Á sama tíma hefur neysluverðsvísitalan hækkað um 43%, launavísitalan um 33% og lágmarkslaun um 41%. Vissulega geta læknar bætt við sig vöktum og aukavinnu, á kostnað fjölskyldu, áhugamála og líkamlegrar og andlegrar heilsu, en það eru ekki rök fyrir því að laun þeirra eigi ekki í það minnsta að fylgja eðlilegri launaþróun. En hvernig ætli staðan sé fyrir almenna lækna erlendis? Í Svíþjóð eru dagvinnulaun læknakandídata 564 þúsund krónur og í Noregi 640 þúsund krónur. Það munar því 66-88% á launum nýútskrifaðra kandídata á Íslandi og í þessum löndum og er þarna um að ræða algeng laun á sjúkrahúsum sambærilegum Landspítala. Það gefur augaleið að þó að Ísland hafi alla þá kosti sem þér er tíðrætt um, þá hrökkva þeir kostir skammt þegar grunnlaun eru svo lág að ítrekað þarf að grípa til vakta- og aukavinnu ofan á 100% dagvinnu, fjarri fjölskyldu og heimili, til að ná endum saman. Ágæti heilbrigðisráðherra! Landflótti lækna og launaþróun eru alvarlegt málefni, sem nauðsynlegt er að bregðast við. Þar ert þú og aðrir ráðamenn í lykilstöðu. Ég biðst forláts ef þér þykja skrif mín lausbeisluð og glannaleg, en sannleikurinn er oft ótrúlegri en nokkur skáldskapur!
Guðlaugur Gauti Jónsson arkitekt skrifar grein í Fréttablaðið fimmtudaginn 31. maí um nýjan Landspítala. Það er ekki mitt að finna að stílbrögðum annarra. Ég tel þó nauðsynlegt að leiðrétta Guðlaug Gauta því hann gefur sér rangar forsendur og dregur af þeim stóryrtar fullyrðingar. Guðlaugi Gauta er tíðrætt um aukna umferð og áhrif af henni á umhverfið. Nú er það svo að bygging nýs Landspítala felur aðallega í sér að flytja starfsemi Landspítala úr Fossvogi og sameina hana annarri starfsemi Landspítala við Hringbraut. Áhrif af þessum flutningi á umferð eru hverfandi, en þetta hefur komið skýrt fram í rannsóknum á umferð og ferðavenjum starfsfólks. Sem dæmi mun umferð um Miklubraut vestan Lönguhlíðar aukast um 2,8% á sólarhring og um 2,1% um Bústaðaveg vestan Lönguhlíðar. Sú staðreynd að starfsmenn spítalans eru fyrr á ferð til vinnu en flestir aðrir borgarbúar hefur í för með sér að áhrifin eru enn minni en ella. Þá eru komur sjúklinga og gesta á Landspítala dreifðar yfir daginn og falla minnst á annatíma í umferðinni. Landspítali liggur vel við almenningssamgöngum, en sjö strætisvagnaleiðir fara hjá lóðinni. Þá er gott göngu- og hjólastígakerfi að lóðinni. Um helmingur starfsmanna býr þannig að hann getur hjólað eða gengið á 14 mínútum eða skemmri tíma til vinnu. Guðlaugur Gauti fellur í þá gryfju að taka trúanlega vitleysu sem hann hefur séð á bloggi á netinu. Hann fer að bera saman Smáralind við spítalabyggingar. Það eru ekki fagleg vinnubrögð. Bera verður saman álíka byggingar, enda er verslunarmiðstöð allt öðruvísi bygging en spítali. Staðreyndin er að sú framkvæmd sem á að fara að bjóða út núna er um 75.000 m2 sjúkrahúsbygging og nota á áfram 53.000 m2 af eldri byggingum. Byggingarmagn á lóðinni verður áþekkt því sem menn þekkja vel úr miðbæ Reykjavíkur og hæðir bygginga verða 4-6 hæðir sem sömuleiðis er algengt í miðbænum. Guðlaugur Gauti er ekki hrifinn af staðarvalinu án þess að benda á annan stað. Vissulega er ekki hægt að ætlast til þess að allir séu sammála um hvar spítalinn skuli standa. Enda hefur staðarval hans verið rækilega ígrundað og rannsakað og niðurstaðan ávallt verið sú að Hringbraut sé langbesti kosturinn. Nokkur rök vega þyngst varðandi uppbygginguna við Hringbraut: Hagkvæmasti kosturinn fjárhagslega – eldri byggingar nýttar áfram. Góð tenging við almenningssamgöngur. Hverfandi áhrif á umferð (2-4%). Nálægð við Heilbrigðisvísindasvið Háskólans. Guðlaugur Gauti telur upp aðferðafræði, svo sem hagkvæmnimat, sem ætti að nota við mat á byggingu nýs Landspítala. Hér hefði arkitektinn átt að kynna sér betur ítarlegan undirbúning verkefnisins áður en hann skrifaði greinina. Hagkvæmnimat hefur verið gert í tvígang af erlendum sérfræðingum. Allar þessar greiningar eru opinber gögn sem eru aðgengileg á heimasíðu verkefnisins nyrlandspitali.is.
Með þátttöku sinni í starfi Héraðanefndarinnar auka sveitarstjórnarfulltrúar þekkingu sína á hinu sívaxandi regluverki Evrópusambandsins og sú reynsla kemur að góðum notum fyrir sveitarfélögin sjálf. 1.2 Byggðastefna Evrópusambandsins Það var ljóst við undirritun Rómarsáttmálans frá árinu 1957 að það þyrfti að samhæfa byggðastefnu aðildarríkjanna. Þó að frjáls markaður og niðurfelling tolla kæmu sér vel fyrir ríkin, þá var það til lítils ef gjáin á milli ríku svæðanna og þeirra Framkvæmdastjórn ESB,“ Committee of the Regions: commissions”. (á.á.) http://www.cor.europa.eu/pages/PresentationTemplate.aspx?view=folder&id=69f24f89-c555-46cab023-082335023657&sm=69f24f89-c555-46ca-b023-082335023657 (sótt 5. janúar 2012) Desmond Dinan, Ever Closer Union, An Introduction to European Integration, 4. útg (London: Palgrave MacMillan, 2010): 286-287 Eiríkur Bergmann: Frá Evróvisjón til Evru (Reykjavík: Veröld, 2009): 49-50 Anna G. Björnsdóttir og Anna M. Guðjónsdóttir. Áhrif Evrópusambandsaðildar á íslenska sveitarstjórnarstigið (Reykjavík: 20. janúar 2009) http://www.samband.is/media/althjodamal/Ahrifadildar-ad-ESB.pdf: 11. (sótt: 15. september 2011) fátæku væri of breið. Það var þó ekki fyrr en árið 1973, þegar Bretland, Írland og Danmörk gengu í sambandið að vinna hófst fyrir alvöru við gerð sameiginlegrar byggðastefnu. Fyrir þann tíma var það einungis Ítalía sem var á eftir hinum stofnríkjunum í efnahagslegum styrkleika. 5 Það var svo árið 1975 sem Byggðaþróunarsjóður Evrópu (e. European Regional Development Fund, ERDF) var stofnaður. Tilgangur hans var að stuðla að samhæfingu byggðastefna og létta undir þeim svæðum þar sem atvinnuvegir væru einhæfir og hagvöxtur lítill. 6 Með innkomu Miðjarðarhafslandanna þriggja, Grikklands árið 1981 og svo Spánar og Portúgals árið 1986, varð ójöfnuðurinn innan sambandsins enn meiri. Menn áttuðu sig á því að til þess að grunngildi sambandsins myndu virka sem skyldi, þá mætti ekki vera of mikið efnahagslegt ójafnvægi á milli aðildarríkja og svæða innan þeirra. Með Einingarlögunum (e. Single Act) árið 1986 var sett inn það ákvæði að aðildarríkin myndu vinna að því að efla efnahagslega sameiningu og tryggja jafnvægi í framþróun þeirra með því að draga úr aðstöðumun hinna ýmsu svæða og bæta hag þeirra sem stæðu höllum fæti. 7 Við undirritun Einingarlaganna urðu til ákveðin grunngildi sem eru notuð enn þann dag í dag þegar verið er að úthluta styrkjum úr byggðasjóðum Evrópusambandsins. Þessi gildi eru viðbót (e. Additionality) sem þýðir að styrkir úr sameiginlegum sjóðum eiga ekki að koma í staðinn fyrir útgjöld þjóðríkja. Styrkirnir eru hugsaðir sem sú viðbót sem svæði innan aðildarríkjanna þurfa til þess að geta fjármagnað þau verkefni og framkvæmdir sem eru talin vera mikilvæg til þess að efla þessi tilteknu svæði. 8 Samvinna (e. Partnership) er eitt af aðal grunngildunum og ástæða þess að farið var út í sköpun sameiginlegrar byggðastefnu. Krafan er sú að aðildarríki vinni saman að áætlanagerðum í náinni samvinnu við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Áður en Einingarlögin voru samþykkt, fékk Framkvæmdaráðið ótal beiðnir um styrki til alls kyns verkefna, stórra jafnt sem smárra. Hinsvegar þegar Einingarlögin voru samþykkt var kveðið á um að þau svæði sem óskuðu eftir aðstoð skyldu setja fram nákvæma áætlun (e. Mark Wise ofl. Single Market to Social Europe (New York: Longman Scientific & Technical, 1993): 201. Wise: Single Market to Social Europe: 133. Stefán Már Stefánsson. Evrópusambandið og Evrópska efnahagsbandalagið (Reykjavík: Bókaútgáfa Orators, 2000): 951 Dinan, Ever Closer Union: 350 programming). Styrkir fyrir þessum verkefnum eru háðir því að þetta eru langtíma verkefni. Síðasta grunngildið er forgangsmál (e. concentration). Þetta grunngildi þýðir að þau svæði sem stæðu sig einna verst og væru á eftir hinum í efnahagslegum styrkleika, myndu ganga fyrir þegar kæmi að efnahagslegri aðstoð. Grunngildið forgangsmál er nátengt 1. markmiði Byggðastefnunar 9 sem fjallað verður um hér síðar. Aðaltilgangur byggðastefnu ESB er eins og áður segir að draga úr misvægi á milli svæða. Einnig er ýtt undir að svæði jafnt innan ríkja sem og á milli þeirra auki með sér samvinnu til þess að leysa verkefni í sameiningu. Mikilvæg þekkingarmiðlun á sér stað með byggðastefnu Evrópusambandins og vegna hennar fer þekking og reynsla á milli svæða og svæði hjálpa hvort öðru til þess að finna sem hagkvæmustu lausnina á hvers kyns verkefnum. Byggðastefna sambandsins á einnig að ýta undir nútímavæðingu iðnaðs í þeim ríkjum þar sem þess gerist þörf og að endingu skal Evrópusambandið ásamt aðildarríkjum berjast gegn langtíma atvinnuleysi og aðstoða ungt fólk við að aðlagast vinnumarkaði. 10 Frá því að skrifað var undir Einingarlögin hefur það verklag verið haft á úthlutun úr byggðasjóðum ESB, að gerðar eru áætlanir sem gilda í 5-7 ár í einu. Sú áætlun sem er í gildi núna spannar tímabilið frá árinu 2007 til ársins 2013. Um 35% af heildarfjárlögum Evrópusambandsins, eða um 347 milljörðum evra er varið í byggðamál á þessu tímabili. 11 Þessi upphæð sýnir glöggt hve mikilvæg byggðamál eru og sú áskorun að jafna hlut þeirra svæða sem reka lestina. Til þess að fá úthlutað úr byggðasjóðum þarf viðkomandi ríki að leggja fram mótframlag en hversu há sú upphæð er, er breytilegt frá einu ríki til annars. Oftast er það þannig að viðkomandi ríki nær samkomulagi við ESB, en mótframlagið er yfirleitt 25%-75% af heildarframlagi úr byggðasjóðunum. 12 Dinan, Ever Closer Union: 350-351 Dick Leonard. Guide to the European Union, the definitive guide to all aspects of the EU (London: Profile books, 2005), 172-173 11 Framkvæmdastjórn ESB. „Regional Policy: The Funds.“ (á.á.) http://ec.europa.eu/regional_policy/thefunds/funding/index_en.cfm (Sótt 21. oktober 2011) Anna G. Björnsdóttir og Anna M. Guðjónsdóttir. Áhrif Evrópusambandsaðildar á íslenska sveitarstjórnarstigið: 7 Við upphaf hvers tímabils setur ESB sér svokölluð markmið (e. objectives). Þessi markmið hafa breyst mikið frá því að þau voru fyrst sett fram samhliða því að sambandið stækkaði og ný ríki með meiri þörf fyrir efnahagsaðstoð urðu aðildarríki. Áður fyrr voru markmiðin 5-6 og þannig voru settar meiri takmarkanir á það hvaða svæði gætu fengið fjárframlög. Fyrir tímabilið 2000-2006 var markmiðunun fækkað niður í 3 og helst sú tala fyrir núverandi tímabil. 13 Þessi markmið eru samleitni (e. Convergency), samkeppnishæfni og atvinnusköpun (e. Competitivness and employment) og svæðasamstarf (e. Territorial Cooperation). 14 Fyrsta markmiðið gengur út á að styrkja þau svæði sem standa einna verst. Það eru svæði innan 18 aðildarríkja sem falla undir þetta markmið en verg landsframleiðsla á mann er um eða undir 75% af meðaltali í ríkjum sambandsins. Lönd í Austur Evrópu falla öll, fyrir utan Eistland, undir þetta markmið og þá ekki einstaka svæði heldur löndin í heild. Þetta er þó ekki eina svæðið innan sambandsins sem fær styrki út af samleitnis markmiðinu, til dæmis eru svæði á Spáni og Portúgal sem hljóta styrki og það sama má segja um svæði á Ítalíu. 15 Áhersla er lögð á að bæta stjórnsýslu í þessum ríkjum, ásamt því að stuðla að nýsköpun og iðnaði og að styrkja félagslega og efnahagslega innviði ríkjanna. Samleitnismarkmiðið er langstærsti kostnaðarliðurinn en um 282.8 milljörðum evra er áætlað að verja í markmiðið á árunum 2007-2013. 16 Til þess að efla samkeppnishæfni og stuðla að atvinnusköpun hyggst ESB ýta undir nýsköpun, þekkingariðnað, frumkvöðlastarf og stuðla að sjálfstæðum fyrirtækjarekstri. Bæta skal samgöngur í dreifbýli og ýta undir umhverfisvernd. Einnig á að bæta vinnuaðstöðu fólks með því að nútímavæða iðnaðinn. Þau svæði sem falla undir þetta markmið eru í 19 aðildarríkjum og eru undanskilin samleitnismarkmiðinu. 11.4 milljörðum evra verður varið í þetta markmið. 17 Þriðja markmiðið gengur út á að styrkja samstarf yfir landamæri, milli ríkja og svæða innan þeirra. Þá á að stuðla að Framkvæmdastjórn ESB. „History.“ 2007. (á.á.) http://ec.europa.eu/regional_policy/sources/slides/2007/history.ppt (sótt 17. oktober 2011) Dinan: Ever Closer Union: 354-355 Framkvæmdastjórn ESB, „Is my region covered?“ (á.á.) http://ec.europa.eu/regional_policy/how/coverage/index_en.cfm#1 (Sótt 18. nóvember 2011) Framkvæmdastjórn ESB, „Three objectives. „(á.á.) http://ec.europa.eu/regional_policy/how/index_en.cfm#1 (Sótt 17. oktober 2011) Framkvæmdastjórn ESB, „Three objectives.“ samvinnu á sviði rannsókna og nýsköpunar og samhæfa aðgerðaáætlanir vegna sameiginlegra vandamála, svo sem hlýnunar jarðar. Samstarfsmarkmiðið fær 8,7 milljarða evra og eru öll aðildarríki ESB þátttakendur. 18 1.2.1 Svæðaskipting. Þegar kemur að því að útdeila styrkjum úr sjóðum Evrópusambandsins er notast við tölfræðistuðulinn NUTS (e. Nomenclature of Territorial units for statistics). Þessi stuðull var búinn til af Eurostat, sem er tölfræðistofnun Evrópusambandsins, en tilgangurinn var meðal annars að búa til gagnagrunn með sanngjörnum grunneiningum, það er hinum svokölluðu NUTS svæðum. Í stuttu máli sagt er hverju ríki fyrir sig skipt upp í einingar á grundvelli stærðar, landfræðilegrar legu eða íbúafjölda. Viðmiðið er að svæðin eigi eitthvað sameiginlegt hvor sem það er landfræðilegar, efnahagslegar eða félagslegar ástæður. 19 Með þessum grunneiningum er hægt að bera saman aðstæður á milli svæða og fylgjast með breytingum innan hvers svæðis. Þessar upplýsingar eru meðal annars notaðar til þess að búa til mælikvarða sem notast er við þegar ákveðið er hversu hátt hlutfall hvert aðildarríki fær úr sameiginlegum sjóðum sambandsins. 20 Tilgangurinn er einnig sá að búa til gagnagrunn þar sem samanburður á milli svæða er byggður á. Þessi skipting skiptir miklu máli upp á það hversu háa styrki ríki geta fengið úr sjóðum Evrópusambandsins. NUTS stuðullinn er notaður til þess að flokka stærri svæði og síðan er einnig notast við LAU (e. Local Administrative Units) en sá stuðull er notaður til þess að flokka minni svæði, svo sem sveitarfélög. 21 NUTS svæðunum er skipt niður í þrjú svæði, NUTS-I, NUTS-II og NUTS-III. Þessi skipting virkar þannig að innan NUTS-I eru fleiri NUTS-II og innan þess eru svo enn Framkvæmdastjórn ESB, „Three objectives.“ Eurostat,“ Glossary: NUTS”. 16. febrúar 2011 http://epp.eurostat.ec.europa.eu/statistics_explained/index.php/Glossary:NUTS (Sótt 4. janúar 2012) Framkvæmdastjórn ESB (á.á.):“ Eurostat: Your key to European Statistics.“ http://epp.eurostat.ec.europa.eu/portal/page/portal/nuts_nomenclature/principles_characteristics (sótt 16. oktober 2011) Anna G. Björnsdóttir og Anna M. Guðjónsdóttir. Áhrif Evrópusambandsaðildar á íslenska sveitarstjórnarstigið: 11 fleiri NUTS-III. Hér að neðan má sjá töflu fyrir þá viðmiðun sem er notuð af Eurostat fyrir svæðaskiptingu fyrir tímabilið 2007-2013: 22 Tafla 1: Íbúafjöldi til viðmiðunar fyrir NUTS svæðaskiptingu NUTS Lágmark Hámark NUTS I 3 milljónir 7 milljónir NUTS II 800.000 3 milljónir NUTS III 150.000 800.000 Þegar kemur að því að skipta ríkjum niður eftir NUTS stuðlinum er reynt að hafa þau svipuð, það er að stærð þeirra, landfræðileg lega og menning sé að einhverju leyti lík. Oft er þetta ekki hægt og þau ríki sem eru skipt niður í sama NUTS svæðið eiga lítið sem ekkert sameiginlegt. 1.2.2 Sjóðir Byggðastefnu Evrópusambandsins Úthlutun styrkja á núverandi tímabili úr sjóðum byggðastefnunnar er að mestu leyti byggð á NUTS II svæðum. 23 Oftast er það í þágu ríkja að vera skipt í sem flest NUTS II svæði en það er ekki algilt og ræðst það til að mynda af þéttleika byggðar og tekjum íbúa. Eins og áður segir er LAU flokkunarstuðull fyrir minni svæði innan aðildarríkjanna. Það eru tveir flokkar í þessum tölfræðistuðli en skilgreiningin á þeim er eins svo að LAU 2 flokknum er yfirleitt alltaf sleppt. LAU 1 eru því sveitarfélög með færri en 150 þúsund íbúa. 24 Síðar í ritgerðinni verður farið betur yfir það hvernig Íslandi er skipt upp eftir þessum tölfræðistuðli og hvaða áhrif það hefur á möguleika landsins til þess að fá styrki. Þegar Einingarlögin voru samþykkt, voru settar strangari starfsreglur gagnvart styrktarsjóðum ESB. Þegar kemur að byggðasjóðum sambandsins þá er það í verkahring Framkvæmdastjórnarinnar að ákvarða hversu háa fjárhæð hvert aðildarríki fær úr sjóðum sambandsins. Það er margt sem hefur áhrif á ákvörðunina, Framkvæmdastjórn ESB: Eurostat: Your key to European Statistics. Anna G. Björnsdóttir og Anna M. Guðjónsdóttir. Áhrif Evrópusambandsaðildar á íslenska sveitarstjórnarstigið: 9. Anna G. Björnsdóttir og Anna M. Guðjónsdóttir. Áhrif Evrópusambandsaðildar á íslenska sveitarstjórnarstigið: 11 svo sem íbúafjöldi, atvinnuleysistölur og fjárhagsleg staða ríkisins og sveitarfélaga. 25 Það er svo í höndum hvers aðildarríkis fyrir sig að deila þessari fjárhæð niður á svæði í landinu. Áður en hægt er að fá úthlutun úr byggðasjóðunum þurfa aðildarríkin að senda frá sér landsáætlun (e.National Strategic Reference Framework, NSRF). Þessi áætlun tekur mið af stefnumótun ESB fyrir hvert byggðastefnutímabil. Í landsáætluninni er farið yfir það hvernig aðildarríkið ætlar að vinna að markmiðunum þremur og einnig í hvaða framkvæmdir skuli ráðast í á tímabilinu. 26 Byggðaþróunarsjóður (e. European Regional Development Fund-ERDF): Hlutverk sjóðsins er að styrkja efnahagslega og félagslega samstöðu og einnig að uppræta það misræmi sem er á milli svæða innan ESB. Veittir eru styrkir til uppbyggingar og nýsköpunar og einnig er fjárfest í fyrirtækjum í því skyni að styðja við þróun í sveitarfélögum og búa þannig til ný störf. Þetta er langstærsti sjóðurinn með rúmlega helming af heildarfjármagni byggðastefnunnar. 27 Einangraðar byggðir geta fengið fjármagn til þess að bæta samgöngur og svæði sem hafa átt erfitt vegna landfræðilegrar legu sinnar, fá styrki úr sjóðnum. Byggðaþróunarsjóðurinn veitir aftur á móti fjármagn til þess að vinna að öllum markmiðunum þremur. Samstöðusjóður (e.Cohesion Fund): Þau aðildarríki þar sem vergar þjóðartekjur á hvern einstakling eru undir 90% af meðaltali ESB ríkja geta fengið fjármagn úr þessum sjóði. Markmið sjóðsins er að efla efnahag ríkjanna og einnig að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi. Fjármagn er veitt til þess að efla ýmiskonar grunngerð (e. infrastructure) innan svæða og milli þeirra, svo sem samgöngur. Lögð er mikil áhersla á að umhverfismál verði framarlega á forgangslista þeirra ríkja sem fá úthlutað úr samstöðusjóðnum á yfirstandandi tímabili. Fjárfest verður í verkefnum sem snúa að vinnu með endurnýtanlega orku, betri orkunýtingu og bættum Framkvæmdastjórn ESB. „Regional Policy, Funds available“. 20. júní 2008. http://ec.europa.eu/regional_policy/policy/fonds/index_en.htm (sótt 26. oktober 2011) Framkvæmdaráð ESB. „Regional Policy, National Strategic Reference Framework.“ (á.á.) http://ec.europa.eu/regional_policy/glossary/national_strategic_reference_framework_en.htm (Sótt 26. oktober 2011) 27 Framkvæmdastjórn ESB. „Regional Policy, European Regional Development Fund.“ (á.á) http://ec.europa.eu/regional_policy/thefunds/regional/index_en.cfm (26. oktober 2011) almenningssamgöngum svo fátt eitt sé nefnt. Um 20% af heildarfjármagni byggðastefnunnar fer í samstöðusjóðinn. 28 Félagsmálasjóður (e. European Social Fund-ESF). Markmið sjóðsins er að styðja við og efla atvinnulíf í aðildarríkjunum og svæðum innan þeirra. Sjóðurinn vinnur að því að auka aðlögunarhæfni vinnufólks, vinna gegn atvinnuleysi og hjálpa fólki að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Fjármagn er veitt til þess að betrumbæta menntakerfi og gera fólki auðveldara að sækja sér endurmenntun. Sjóðurinn vinnur einnig gegn hvers kyns mismunun. Þær framkvæmdir og verkefni sem falla undir samleitnismarkmiðið og svo samkeppnishæfni- og atvinnusköpunarmarkmiðið geta fengið fjármagn úr félagsmálasjóðnum en um 21.5% af heildarfjármagni byggðastefnunnar fer í félagsmálasjóðinn. 29 Mynd 2: Samspil milli markmiða og sjóða byggðastefnu Evrópusambandsins Heimild: Samningahópur Íslands; Byggðastefna ESB. 30 1.2.3 Aðrir sjóðir Dreifbýlissjóður (e. European Agriculture fund for Rural Development): Þó að þessi sjóður heyri undir landbúnaðarstefnu Evrópsambandsins þá lýtur hann sömu Framkvæmdastjórn ESB. „Regional Policy, Cohesion Fund“. (á.á) http://ec.europa.eu/regional_policy/thefunds/cohesion/index_en.cfm (Sótt 26. oktober 2011) Framkvæmdastjórn ESB. „Regional Policy, European Social Fund.“ (á.á) http://ec.europa.eu/regional_policy/thefunds/social/index_en.cfm (Sótt 26. oktober 2011) Utanríkisráðuneytið, Aðildarviðræður Íslands við ESB-22. Byggðastefna ESB. 23. mars 2011. http://esb.utn.is/media/byggdamal/Greinargerd-22.-Byggdamal.pdf: 1 (Sótt 15. desember 2011) lögmálum og sjóðir byggðastefnunnar enda var hann áður hluti af byggðasjóðunum. Markmið dreifbýlissjóðsins er að styrkja búsetu í dreifðum byggðum og styðja við samkeppnishæfni landbúnaðar. 31 Sjávarbyggðasjóður (e. European Fisheries Fund): Fjármagni úr þessum sjóði er varið til þess að veita aukinn stuðning og fjölbreytni í atvinnulíf í þeim byggðum sem nær eingöngu treysta á fiskveiðar sem afkomu. Sjóðurinn vinnur að fjórum markmiðum fyrir tímabilið 2007-2013 en þau eru: að aðlaga fiskveiðiflota, markaðssetja fiskafurðirbetur, efla fiskeldi og nútímavæða fiskvinnslu. 32 Aðlögunarsjóður (e. Instrument for Pre-Accession). Úr þessum sjóði geta ríki sem eiga í aðildarviðræðum við Evrópusambandið fengið styrki til þess að aðlaga regluverk sambandsins að sínum. Sjóðurinn veitir meðal annars fjármagn til þess að efla stjórnsýslu, undirbúa atvinnulífið, stuðla að samvinnu við önnur svæði og styrkja sveitarfélög svo fátt eitt sé nefnt. Lönd sem eiga möguleika á því að taka upp aðildarviðræður við ESB í náinni framtíð geta einnig fengið fjárstyrk úr aðlögunarsjóðnum. 33 Samstöðusjóður (e.European Union Solidarity Fund). Ef aðildarríki verða fyrir miklum náttúruhamförum geta þau leitað í þennan sjóð til þess að fá fjármagn til enduruppbyggingar. Það er engin krafa um mótframlag frá ríkjum í þennan sjóð en þau ríki sem vilja fá fjármagn verða að sýna fram á það að eyðileggingin sé um 0.6% af vergri landsframleiðslu. 34 1.2.4 Svæðasamstarf og verkefni Innan Evrópusambandsins eru margvísleg verkefni og áætlanir í gangi sem eiga að stuðla að því að styrkja samstarf milli svæða. ESB hefur ýtt undir þá þróun að svæði Framkvæmdastjórn ESB. „Agriculture and Rural Development.“ 18-04-2008. http://ec.europa.eu/agriculture/rurdev/index_en.htm (Sótt 26. oktober 2011) Framkvæmdastjórn ESB. „Regional Policy, European Fisheries Fund.“ (á.á) http://ec.europa.eu/regional_policy/glossary/european_fisheries_fund_en.htm (Sótt 26. okotber 2011) Framkvæmdastjórn ESB. „Regional Policy, Instrument for Pre-Accession.“ 2-7-2008 http://ec.europa.eu/regional_policy/funds/ipa/index_en.htm (Sótt 27. oktober 2011) Framkvæmdastjórn ESB. „Regional Policy, EU Solidarity Fund.“ (á.á) http://ec.europa.eu/regional_policy/thefunds/solidarity/index_en.cfm (sótt 27. oktober 2011) sem hafa sameiginlega hagsmuni að gæta myndi með sér náin tengsl sem eiga að stuðla að betri nýtingu tækifæra. INTERREC IV (Innovation & Environment Regions of Europe sharing solutions) INTERREC IV er áætlun á vegum byggðasjóðs Evrópusambandsins og er hlutverk hennar að hjálpa svæðum að deila deila þekkingu og reynslu. INTERREC IV styrkir verkefni á sviði nýsköpunar, þekkingariðnaðs og umhverfismála. 35 Verkefnin þurfa að vera samstarfsverkefni á milli að minnsta kosti þriggja ríkja og tvö af þeim verða að vera aðildarríki ESB. Áætlunin skiptist niður í þrjár mismunandi útgáfur INTERREG A, B og C. Ísland tekur þátt í Norðurslóðáætluninni, sem er hluti af INTERREG IVB, sem fjallað verður um hér síðar INTERREG IVA er stærsta áætlunin með 52 verkefni og fjárhagsáætlun upp á 5,7 milljarða evra. Áætlunin styður við verkefni á svæðum þar sem landfræðileg staðsetning dregur, til dæmis úr samkeppnis möguleikum þess. Áætlunin gengur út á þróun atvinnulífs, auka menntun, stuðla að rannsóknum og auka samkeppnishæfni svæðisins. Verkefni INTERREG IVA eru ýmiskonar, svo sem áætlanagerð vegna siglingasvæða, samvinna innan og milli svæða ESB og einnig við þau ríki sem eru í aðildarviðræðum við sambandið. 36 INTERREG IVB er áætlun sem snýr að samvinnu milli landa. Áætlunin einblínir á þau lönd sem liggja að hafi, svo sem löndin að Eystrasaltshafinu. Þessi lönd eiga ýmsar áskoranir sameiginlegar, svo sem eru annmarkar í öryggi á sjó, ójafnræði í efnahag svæða og svo munu þessi lönd þurfa að takast á við loftslagsbreytingar, þá sérstaklega hækkun sjávarmáls. Áætlunin ýtir undir samvinnu milli þessara ríkja, svæði innan þeirra og svo Evrópusambandsins til þess að mæta þessum vandamálum með sameiginlegum lausnum. INTERREG IVB er með 1.8 milljarð evra til þess að styrkja verkefni á borð við umhverfisrannsóknir, bæta samskiptakerfi og auka öryggi til sjós 37, svo fátt eitt sé nefnt. Sú áætlun sem Ísland tekur þátt í fellur undir þessa áætlun en það er Norðurslóðaáætlunin (e.Northern Periphery Programme, NPP). INTERREC IVC, „About the programme,“ (á.á) http://www.interreg4c.eu/about_programme.html (sótt 2. nóvember 2011) Framkvæmdastjórn ESB, European Territorial Co-operation: Building bridges between people. September 2011 http://ec.europa.eu/regional_policy/information/pdf/brochures/etc_book_lr.pdf: 12 (Sótt 6. janúar 2012) Framkvæmdastjórn ESB, European Territorial Co-operation: Building bridges between people: 14 Markmið hennar er að aðstoða jaðarsvæði í norðanverðri Evrópu við að samhæfa möguleika sína á sviði efnahagsmála, atvinnumála, félagsmála og umhverfismála. 38 Þetta er samstarfsverkefni sem nær yfir landamæri og eru fyrirtæki, ríkisstofnanir, einstaklingar, sveitarfélög og fræðisamfélög þátttakendur í því. Finnland, Svíþjóð, Írland, Skotland og Norður Írland eru þau Evrópusambandsríki sem eru þátttakendur í Norðurslóðaáætluninni en Noregur, Ísland, Grænland og Færeyjar taka einnig þátt. Þessi lönd eiga það sameiginlegt að veðurfar getur verið slæmt, þau eru strjálbýl og langt er á milli byggðalaga. Þetta eru allt áhrifaþættir sem hafa ýtt undir þátttöku þeirra í áætluninni. Norðurslóðaáætlunin er gerð til 6 ára í senn og tók núverandi tímabil gildi árið 2007 og mun enda árið 2013. Áhersluþættir hennar eru tvennskonar. Í fyrsta lagi á áætlunin að efla nýsköpun, samstarfsnet, samgöngur og samkeppnishæfni innan þátttökuríkja. Í öðru lagi á að ýta undir sjálfbæra þróun, auka umhverfisvernd og styrkja tengsl á milli svæða. 39 Áætlunin er byggð þannig upp að það þarf að vera eitt Evrópusambandsríki sem tekur þátt í verkefnum á vegum hennar og að minnsta kosti þrír samstarfsaðilar frá jafn mörgum löndum. Byggðasjóður Evrópusambandsins sér um fjármagn en fyrir núverandi tímabil er áætlað að sjóðurinn leggi 45 milljónir evra í áætlunina. Ríki utan ESB munu leggja um 10.2 milljónir evra. Framlag einstakra ríkja mun þó aldrei verða hærra en 50% af heildarkostnaði verkefna. 40 Á núverandi tímabili áætluninnar tekur Ísland þátt í 14 verkefnum tengdum henni en þau spanna ólík svið, allt frá því að vera um þróun farsíma leiðarvísa fyrir ferðamenn til þróun öryggismál fyrir þéttbýli. 41 INTERREG IVC áætlunin styður við tvennskonar verkefni. Í fyrsta lagi njóta þau verkefni stuðnings sem eru að frumkvæði svæðanna sjálfra. Þátttakendur skiptast á þekkingu innan ákveðins sviðs og þarf samstarfið ekki að vera formlegt, frekar að svæðin hafi samráð sín á milli og deila skoðunum og reynslu. Í öðru lagi er það Byggðastofnun, „Norðurslóðaáætlunin-Northern Periphery Programme, NPP.“ 29.09.2011. http://www.byggdastofnun.is/is/page/npp (sótt 1. nóvember 2011) Byggðastofnun, Norðurslóðaáætlunin-Northern Periphery Programme, NPP, Northern Periphery Programme, „Funding, „(á.á) http://www.northernperiphery.eu/en/content/show/&tid=180 (sótt 1. nóvember 2011) Byggðastofnun, Verkefnayfirlit, (á.á) http://www.byggdastofnun.is/static/files/NPP/200713/Verkefnayfirlit_2010.pdf (Sótt 1. nóvermber 2011) fjármögnun núverandi verkefna. Markmiðið er að leggja fé í verkefni sem hafa skilað góðum árangri og þannig láta þá vinnu rata í uppbyggingu og þróun á byggðastefnu Evrópusambandsins. 42 INTERREG IVC áætlunin hefur þrjár undiráætlanir sem heita ESPON (European Observation Network on Territorial Development and Cohesion), INTERACT II og URBACT II. ESPON er er rannsóknarverkefni þar sem gerður er samanburður milli svæða og framtíðarþróun svæðanna er kortlögð. Byggðastofnun er þátttakandi í þessu verkefni 43. Með því að taka þátt í ESPON verkefninu fá íslensk sveitarfélög tækifæri til þess að innleiða þá verkferla sem notast er við þegar byggðastefna Evrópusambandsins er unnin. 44 INTERACT II er verkefni sem bæði aðstoðar ríki í Evrópu og sveitarfélög innan þeirra og svo ríki sem eru í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. 45 Aðstoðin er í formi stuðnings og þjálfunar um allt sem viðkemur regluverki ESB. URBACT II gengur út á það að borgir í Evrópu myndi með sér tengslanet með það að markmiði að skiptast á reynslu og sérþekkingu. 46 1.2.5 Framtíð Byggðastefnu Evrópusambandsins Líkt og fram hefur komið hér að ofan eru markmiðin skýr fyrir núverandi tímabil. Í greinargerð (e. Regional Policy Smart growth in Europe 2020) sem Evrópusambandið gaf út, koma fram skýr markmið sem eiga að nást fyrir árið 2020. Þar er meðal annars kveðið á um að til þess að minnka gjánna sem er á milli efnahagskerfa innan sambandsins þarf að leggja mikla fjármuni í nýsköpun, eflingu menntakerfisins og gefa sérfræðingum færi á að vinna náið saman óháð búsetu. 47 INTERREC IVC, „About the programme.“ Byggðastofnun, „ESPON“. 26.05.2011. http://www.byggdastofnun.is/is/page/espon (Sótt 2. nóvember 2011) Reinhard Reynisson, Vesturland og svæðasamstarf í Evrópu: Greinargerð um möguleika og tækifæri Vesturlands sem svæðis til þátttöku í svæðasamstarfi í Evrópu. Júní 2008. http://www.ssv.is/files/Skra_0032506.pdf (Sótt 3. oktober 2011) Interact, „About Us,“ 18.05.2011, http://www.interact-eu.net/about_us/about_interact/22/2911 (sótt 2. nóvember 2011) URBACT, „URBACT in words.“ (á.á) http://urbact.eu/en/header-main/about-urbact/urbact-at-aglance/urbact-in-words/ (Sótt 2. nóvember 2011 Framkvæmdastjórn ESB. „Regional Policy for smart growth in Europe 2020. „(á.á) http://ec.europa.eu/regional_policy/what/europe2020/index_en.cfm 24-26 (sótt 15. oktober 2011) Núverandi tímabil byggðastefnu ESB mun renna sitt skeið á enda árið 2013 og því er ljóst að ef Ísland mun samþykkja aðild að Evrópusambandinu, mun landið taka þátt í næsta tímabili sem mun spanna árin 2014-2020. Samkvæmt tillögu framkvæmdastjórnar ESB frá því í júní 2011, skulu áherslur næsta tímabils vera svipaðar og á núverandi tímabili, með 376 milljarða evra í sjóðum byggðastefnu sambandsins. 48 Fyrirhugaðar eru þó breytingar á verkferlum þegar kemur að úthlutunum úr sjóðum byggðastefnu ESB til þess að samhæfa betur þau markmið sem eiga að nást á næstkomandi tímabili. Svæði sem eru vel stödd er gefin meiri gaumur en gagnrýnisraddir hafa verið upp um að mikið fé er lagt í „veik“ svæði á meðan þau sem eru í betri stöðu koma oft að lokuðum dyrum varðandi fjárstyrki hjá byggðastefnu ESB. 49 Nýjasta viðbótin er svokallað „öryggisnet“ fyrir þau svæði sem fengu styrki vegna samleitnis markmiðsins en landsframleiðslan er nú orðin hærri en 75% af vergri landsframleiðslu ríkja ESB. Þessi svæði munu eiga rétt á fjárveitingum úr sjóðunum sem mun nema allt að tveimur þriðju hluta þess sem tiltekið svæði fékk á núverandi tímabili. Framkvæmdastjórn ESB setur einnig skilyrði fyrir því hvernig fjármunum skuli vera varið. Til að mynda þá skal 80% af styrkjum úr Byggðaþróunarsjóðnum vera nýttir í orkunýtingarverkefni, nýsköpun og í að styrkja minni og meðalstór fyrirtæki. Félagssjóðurinn skal vera nýttur til þess að styðja við atvinnu, berjast gegn fátækt, fjárfesta á í menntun og styrkja innviði opinberrar stjórnsýslu. 50 Þema næsta tímabils verður á svipuðu róli og á núverandi tímabili. Hins vegar á að gera skrifræðið minna og einfalda allt regluverk í kringum áætlanavinnu og verkefna undirbúning. Einnig á að skerpa á reglum og gera augljósara hvar ábyrgðin liggi. Takmarkið er því það sama fyrir árin 2014 til 2020. Það á að hjálpa svæðum sem hafa veikari innviði og svo á styðja við uppbyggingu og styrkingu félagslega kerfisins á þeim svæðum sem þess þurfa. Fyrst og fremst á að hjálpa þessum svæðum til þess Framkvæmdastjórn ESB. Cohesion Policy 2014-2020: Investing in growth and jobs. 2011 http://ec.europa.eu/regional_policy/sources/docoffic/official/regulation/pdf/2014/proposals/regulati on 2014 _ leaflet _ en.pdf: 1 (Sótt 5. janúar 2012) Dinan: Ever Closer Union: 356 Framkvæmdastjórn ESB. Cohesion Policy 2014-2020: Investing in growth and jobs: 5-8 að vinna sig upp og verða samkeppnishæf í staðinn fyrir að vera stöðnuð eða falla enn frekar á eftir öðrum svæðum. Ólíkt mörgum stefnum Evrópusambandsins nýtur byggðastefnan vinsælda hjá almenningi og það eru ekki sjáanleg átök um hana í framtíðinni. Þó að það séu deilur um hvort bilið milli velstæðra ríkja og svo þeirra sem eiga erfiðara hafi minnkað og þá hversu mikið, eru til sýnileg dæmi um gagnsemi byggðastefnu ESB og vinnuaðferða hennar. Desmond Dinan tekur Pólland sem dæmi um hversu vel byggðastefna ESB getur nýst aðildarríkjum. 51 Þar í landi hefur verið fjárfest á skynsaman hátt og stjórnsýslan hefur verið tekin til endurskoðunar. Á öllum stjórnsýslustigum landsins er unnið náið saman að markmiðunum sem byggðastefna ESB hefur sett fram. Dinan tekur fram að frá því að efnahagskreppan skall á heimsbyggðina haustið 2008 hefur Póllandi tekist að laða að sér erlenda fjárfesta, þökk sé aðild landsins að ESB og því hvernig innviðir stjórnsýslunnar hafa verið aðlagaðir að regluverki sambandsins. 52 Dinan: Ever Closer Union: 355 Dinan: Ever Closer Union: 356-357 2 Finnland og Evrópusambandið Finnland er skipt upp í 20 héruð með Álandseyjum meðtöldum en eyjarnar eru sjálfstjórnarhérað sem nýtur sjálfstæðis í flest öllum sínum málum. Í hverju héraði eru Héraðsráð sem eru samráðsvettvangur fyrir sveitarfélögin. Nefndarmenn eru allir fulltrúar sveitarfélaganna og helsta verkefnið sem er á ábyrgð Héraðsráðanna er að sjá til þess að byggðaþróun sé sem skyldi í héraðinu. Nefndarmenn eru ekki kosnir til setu í ráðinu heldur eru þeir tilnefndir sem þykir ekki mjög lýðræðislegt. Það eru 342 sveitarfélög í Finnlandi. Þau sjá um flest öll svið velferðarþjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu, sjá um grunn- og framhaldsskóla og hafa talsvert svigrúm til skatt innheimtu. 53 Finnland varð aðili að Evrópusambandinu árið 1995, ásamt Svíþjóð og Austurríki. Áður en til aðildar að ESB kom, hafði Finnland orðið fyrir miklu efnhagslegu bakslagi þegar Sovétríkin féllu og kreppa fylgdi í kjölfarið. Útflutningur dróst saman um meira en 15 %, atvinnuleysi fór í 20% og finnska markið hrapaði í gildi. Í dag er öðruvísi um að litast í landinu en Finnland er leiðandi í tækniiðnaði og hafa fyrirtæki á borð við Nokia rifið upp finnskan efnahag. Til að mynda var tækniiðnaðurinn um 6% af vergri landsframleiðslu á árunum 1998-2000. 54 Fyrirtæki í þessum atvinnugeira eru flestöll staðsett í suður Finnlandi. Skógarhögg og vinnsla með afurðir tengdu því er einnig mikilvægt fyrir finnskan efnahag en þessi atvinnugrein er mikilvæg undirstaða fyrir héruð í norður og austur Finnlandi. Þessar tvær atvinnugreinar eru mjög ólíkar og ekki jafn arðbærar og því er mikill munur á landssvæðunum hvað varðar fjárhagslega stöðu sveitarfélaga, atvinnuþátttöku íbúa og íbúafjölda. Fjögur svæði skara fram úr en þau eiga það sameiginlegt að vera öll á suðurströnd landsins þar sem tækniiðnaðurinn blómstrar. Það getur munað allt að helmingi á því hversu mikið suður Finnland og svo önnur svæði leggi til við landsframleiðslu. 55 Council of European Municipalities and Regions, „Members. „(27. november 2011) http://www.ccre.org/finlande_en.htm (sótt 28. nóvember 2011) Olavi Rantala, Regional Economic Development in Finland in the 1990s and the Outlook to 2005. Febrúar 2001, bls 64-70. http://www.etla.fi/files/935FES012regional.pdf: 65 (Sótt 23. nóvember 2011) Rantala: Regional Economic Development in Finland in the 1990s and the Outlook to 2005: 66 Við gerð aðildarsamningsins við Evrópusambandið, lögðu Finnar mikla áherslu á það að tekið væri tillit til stöðu og landfræðilegrar legu landsins. 174. grein stjórnarskrár ESB fjallar um það að veita skuli sérstakan stuðning þeim svæðum sem búa við varanlegar takmarkanir svo sem vegna erfiðs veðurfars, fólksfækkunar og strjábýlla byggða. 56 Finnland nýtti sér þessa grein til þess að leggja fram kröfu um sérstakan stuðning frá Evrópusambandinu til þess að geta staðið undir þeim breytingum sem aðild að ESB myndi hafa í för með sér. Með aðild Finnlands og Svíþjóðar voru ýmsar sérlausnir settar fram til þess að mæta kröfum ríkjanna tveggja. Til að mynda er finnskum og sænskum stjórnvöldum heimilt að styrka landbúnað síns lands 35% umfram það sem önnur aðildarríki mega. Þetta á við um allan landbúnað sem eru fyrir norðan 62. breiddargráðu. Finnland fékk það einnig í gegn að þau svæði sem eiga í erfiðleikum með að aðlagast landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins eiga rétt á auknum fjárstyrk 57 svo sem uppbótargreiðslur til bænda vegna breytinga á verðlagi og svo undanþágur frá reglum um ríkisstyrki sem voru þó tímabundnar. Þegar Finnland gekk í Evrópusambandið var ljóst að landið þyrfti á umtalsverðum fjárstuðningi að halda og með inngöngu fékk landið aðgang að miklum fjármunum úr sjóðum Evrópusambandsins. Líkt og áður hefur komið fram var efnahagslíf landsins í stöðnun og atvinnuleysi gífurlega hátt. Því hafa styrkjatímabíl uppbyggingasjóðanna einkennst af því að fjölga störfum og skapa ný atvinnutækifæri. Á fyrsta styrkjatímabilinu sem spannaði árin 1995-2000 fékk Finnland 194 milljónir evra 58 úr sjóðum Evrópusambandsins til þess að skapa ný störf, auka samkeppnishæfni fyrirtækja og einnig til að auka framleiðslugetu ákveðinna landshluta. 59 Þó að markmiðin hafi verið háleit og metnaðarfull, var árangurinn á heildina litið góður. Það tókst hins vegar ekki að koma í veg fyrir stöðugan Eur-Lex:“ Official journal of the European Union. „16. Desember 2004. http://eurlex.europa.eu/JOHtml.do?uri=OJ:C:2004:310:SOM:EN:HTML (sótt 23. nóvember 2011) Eur-Lex: „Commission opinion on the applications for accession to the European Union by the Republic of Austria, the Kingdom of Sweden, the Republic of Finland and the Kingdom of Norway.“ 19. ágúst 1994 http://eurlex.europa.eu/en/treaties/dat/11994N/htm/11994N.html (sótt 23. nóvember 2011) Á verðgildi þess tíma. Jussi Kinnunen, The Dynamics of EU Cohesion Policy. The Structural Funds as a Vector of Change in Finland. Ritstj. Mary Browne. 2004. www.oeue.net/papers/finlandthestructuralfundsasave.pdf: 14 (sótt 20. nóvember 2011) fólksflutning frá norðurhluta Finnlands en það er harðbýlt svæði með kulda og erfið landbúnaðarskilyrði. Engu að síður voru sköpuð ný störf og ný fyrirtæki voru sett á stofn. Samkvæmt opinberum tölum minnkaði atvinnuleysi um 25%, um 12.000 ný störf voru búin til og allt að 3700 ný fyrirtæki sett á stofn. 60 Þó að erfitt sé að segja með algjörri vissu að allt þetta hafi einungis verið uppbyggingasjóðum Evrópusambandsins að þakka, er ekki hægt að neita því að án þeirra hefði reynst mun erfiðara fyrir finnsku þjóðina að rétta úr kútnum. 61 Á öðru tímabilinu sem hófst árið 2000 og tók enda 2006, fékk Finnland 2.39 milljarða evra úr byggðasjóðum Evrópusambandsins til þess að vinna að verkefnum í þeim landshlutum þar sem íbúafjöldi var lítill og dreifður og ekki hafði ekki tekist sem skyldi að byggja upp atvinnulífið á fyrra tímabilinu. Megináherslur voru á nýsköpun, þróun og rannsóknir og fyrirtækjum var hjálpað að aðlaga starfssemi sína að síbreytilegum áherslum og stefnum hnattvæðingar og tækniframförum. Einnig átti að bregðast við langtímaatvinnuleysi en það hafði verið viðvarandi vandamál í Finnlandi síðan að kreppan skall þar á. 62 Árangurinn af öðru tímabilinu þótti góður. 6500 ný störf voru sköpuð og það tókst að viðhalda 42 þúsundum starfa en mikið af þessum störfum voru í dreifbýlinu. Samgöngur voru bættar og samkeppnishæfni fyrirtækja var bætt með því að koma á samvinnu milli þeirra og svo rannsóknarstofa þar sem illa gekk fyrir miðlungsstór fyrirtæki að eiga aðgang að stórum og dýrum tækjum sem aðgengileg voru á rannsóknarstofum. Þó að árangur hafi náðst í málefnum dreifbýlissvæðanna, til dæmis með því að auka störf þar, tókst ekki að koma í veg fyrir atvinnuleysi í frumvinnslugreinum svo sem skógarhöggi og landbúnaði. 63 Atvinnu- og efnhagsmálaráðuneyti Finnlands, „The 1995-1999 programming period. „20.2.2008. http://www.tem.fi/index.phtml?l=en&s=2208 (sótt 20. nóvember 2011) Kinnunen: 16-17 Rantala: Regional Economic Development in Finland in the 1990s and the Outlook to 2005: 68-69 Applica Ismeri Europa, Ex Post Evaluation of Cohesion Policy Programmes 2000-2006 financed by the European Regional Development Fund in Objective 1 and 2 Regions. 2008. http://ec.europa.eu/regional_policy/sources/docgener/evaluation/pdf/expost2006/wp1_tsk4_finlan d.pdf: 24-25. (sótt 27. nóvember 2011) Á núverandi tímabili fær Finnland 1,7 milljarð evra úr byggðasjóðum ESB en leggur á móti 1,98 milljarða evra í þau verkefni sem til ráðast í á árunum 2007-2013. 64 Á þessu tímabili er Finnlandi skipt upp í fimm NUTS II svæði og 20 NUTS III. Síðarnefnda skiptingin fellur að staðbundinni héraðaskiptingu og stjórnsýslu landsins. Þó að NUTS II séu ekki eiginleg héruð, samanber umfjöllun hér að framan, hafa þessi svæði hlutverki að gegna en hvert og eitt þeirra er saman sett af nokkrum NUTS III héruðum sem mynda með sér samráð til þess að gera áætlanir um sameiginleg verkefni fyrir allt svæðið. 65 Eins og áður hefur komið fram er núverandi byggðastefna ESB byggð á þremur mismunandi markmiðum og munu ríki sem hljóta styrki vera skilgreind út frá þeim. Finnland mun ekki hljóta styrki út af samleitnismarkmiðinu (1. markmið) sem er í fyrsta sinn. Ástæðurnar fyrir þessu er einkum þær að staða landsins hefur batnað til muna 66 og svo með stækkun sambandsins árið 2004 komu inn fleiri ríki sem þurfa meira á þessum styrkjum að halda og því breyttist viðmið byggðastefnunar þegar kom að því að flokka ríki. Finnland er því skilgreint undir markmiði 2 en austurhluti landsins fær þó sérstakar aukagreiðslur. Ástæðan fyrir þessari undanþágu er að þetta svæði (Ita-Suomi) hefur ekki náð sér á styrk þrátt fyrir efnahagsaðstoð síðustu ára. Þessi partur af Finnlandi er mjög dreifbýll, fólksflótti er mikill og meðalaldur þeirra sem eftir eru, fer hækkandi. Atvinnuleysi er einnig mikið. Þetta hefur allt stuðlað að hægum efnahagsbata og því er Ita-Suomi minna samkeppnishæft heldur en restin af landinu. 67 Árangur síðasta tímabils var þó góður og á árunum 2007-2013 á að byggja á þeim grunni. Styrkur svæðisins eru náttúruauðlindir þess, sterkir háskólar og tækni iðnaðurinn fer ört stækkandi. Þessi atriði eiga að styrkja austur Finnland enn frekar og gera borgir og bæi samkeppnishæfa og aðlaðandi fyrir ungt og mennta fólk. Framkvæmdastjórn ESB, European Cohesion Policy in Finland 2007-13. (á.á) http://ec.europa.eu/regional_policy/sources/docgener/informat/country2009/fi_en.pdf:1. (Sótt 2. nóvember 2011) Anna G. Björnsdóttir og Anna M. Guðjónsdóttir. Áhrif Evrópusambandsaðildar á íslenska sveitarstjórnarstigið: 18 Efnahags- og avinnumálaráðuneyti Finnlands, „Structural Fund programmes of the EU 2007-2013.“ 18. febrúar 2008. http://www.tem.fi/index.phtml?l=en&s=2183 (sótt 3. desember 2011) Framkvæmdastjórn ESB, „Regional Policy: Operational Programme“ Eastern Finland”“ (2008) http://ec.europa.eu/regional_policy/country/prordn/pdf.cfm?gv_PGM=1237&lan=7:1 (Sótt 19. nóvember 2011) Markmiðið er að búa til að minnsta kosti 800 ný störf í tækniiðnaði, bæta á samgöngur allverulega til þess að laða ný fyrirtæki og auka ferðmannastraum. 68 Á öðrum svæðum landsins er lögð áhersla á að vinna í samræmi við 2. markmið byggðastefnu ESB. Það á að efla á nýsköpun og þá sérstaklega á sviði upplýsingatækni. Lögð er rík áhersla á það að mynda tengslanet milli rannsókarstofnana og fyrirtækja. 69 2.1.1 Áhrif byggðastefnu Evrópusambandsins í Finnlandi Öll stjórnsýsluuppbygging Finnlands er unnin út frá þeirri hugsjón að hafa sameinaða þjóð í fullvalda miðstýrðu ríki. Valdið er á einum stað en ekki dreift á mörg stjórnsýslustig enda þótti það ekki henta á tímum þegar nágranninn í austri var valdamikið herveldi. Þær breytingar sem hafa verið gerðar á stjórnsýslu landsins hafa verið framkvæmdar í smáskrefum. Til að mynda voru fyrstu lög um byggðamál sett í kringum 1980 og þá átti að færa mikið að verkefnum frá ríkinu til sveitarfélagana en þar sem stjórnmálaflokkar landsins áttu erfitt með að koma sér saman um verkskipulag varð minna úr breytingum til stóð í byrjun. 70 Því var ljóst þegar Finnland gekk í Evrópusambandið að miklar breytingar þyrftu að eiga sér stað á stjórnsýslu landsins. Nálægðarregla ESB gerði það að verkum að vald færðist í auknu mæli frá ríki til sveitarfélaga og voru fyrrnefnd héraðaráð stofnuð til þess að auka skilvirkni vegna þessara breytinga. Þetta hefur leitt til þess að sveitarfélög og héruð í Finnlandi hafa meira um byggðamál og þróun að segja og hafa einnig fengið vettvang til þess að láta til sín taka í alþjóðamálum, samanber þátttöku í Héraðanefnd Evrópusambandsins. Í Brussel eru starfræktar 7 skrifstofur á vegum héraða í Finnlandi og rekur samband sveitarfélaga landsins eina til viðbótar. 71 Markmið þeirra er að gæta að hagsmunum héraðana, veita upplýsingar og vekja athygli á kostum landsins og héraðana. Framkvæmdstjórn ESB,“ Eastern Finland”: 3. Framkvæmdastjórn ESB, European Cohesion Policy in Finland 2007-13: 4 Rantala: Regional Economic Development in Finland in the 1990s and the Outlook to 2005: 65 Utanríkisráðuneyti Finnlands, „Finnish Regional Offices in Brussels. „14.11.2011. http://www.finland.eu/public/default.aspx?nodeid=35801&contentlan=2&culture=en-US (Sótt 23. nóvember 2011) Samkvæmt tölum frá Evrópusambandinu hafa verið búin til 14.600 ný störf í Finnlandi á síðustu tveimur styrkja tímabilum og 2850 ný fyrirtæki sett á stofn. Samgöngur hafa verið bættar til muna og þá sérstaklega í dreifbýlum landshlutum og svo ferjusamgöngur á milli hinna fjölmörgu eyja sem liggja að ströndum landsins. Einnig hefur menntakerfi Finnlands verið styrkt til muna og áhersla lögð á að auka sérþekkingu fólks. 72 Það leikur lítill vafi á því að Finnland hefur notið góðs af byggðastefnu Evrópusambandsins og hafa fjármunir verið nýttir á skynsaman hátt til þess að byggja upp innviði landsins og auka samkeppnishæfni allra landshluta. Sjálfstæði sveitarfélaganna og héraða hefur verið aukið mikið og þeim gefin möguleiki á því að koma sér á framfæri á alþjóðavettvangi. Framkvæmdastjórn ESB, European Cohesion Policy in Finland 2007-13: 1-2 3 EES samningurinn og íslensk sveitarfélög Frá því að Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1944 hefur það verið virkur þátttakandi í alþjóðasamstarfi. Ári eftir að Sameinuðu Þjóðirnar voru stofnaðar árið 1945, varð Ísland meðlimur í þessu samstarfi fullvalda þjóða. Fjórum árum síðar varð Ísland eitt af stofnríkjum Atlantshafsbandalagsins, NATO. Ísland gekk í EFTA árið 1970. Þó að aðild að öllum þessum mikilvægu stofnunum hafi haft mikil áhrif á Ísland, er það alveg ljóst að EES samningurinn er einn sá umfangsmesti sem Ísland hefur skrifað undir hingað til. 3.1.1 Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) Árið 1992 var skrifað undir samningin um Evrópska efnahagssvæðið í Portúgal. EES samningurinn er einn sá stærsti alþjóðasamningur sem Ísland hefur gert hingað til og tók hann gildi hér á landi árið 1994. Það voru þrjú af fjórum EFTA ríkum sem skrifuðu undir hann, Ísland, Noregur og Liecthenstein ásamt þeim fimmtán Evrópusambandsríkjum sem gengin voru inní sambandið á þeim tíma. Þau ríki sem hafa orðið aðilar að ESB eftir það eru skyldug til þess að gerast aðilar að EES samningnum. 73 Markmið EES samningsins er að „stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði“. 74 Markmiðið með EES samningnum var einni að koma á hinu svokallaða fjórfrelsi en það felur í sér frjálsa vöruflutninga, frelsi í fjármagnsflutningum, frjálsa för fólks á milli landa og frjálsa þjónustustarfsemi. Til þess að ná þessum markmiðum samningsins var kveðið á um að EFTA ríkin sem skrifuðu undir EES samninginn tækju yfir löggjöf frá Evrópusambandinu sem myndi leiða til þess að samræmning myndi nást á þeim reglum og lögum sem varða fjórfrelsið. Samningurinn nær einnig til náinnar samvinnu á sviði rannsókna, umhverfismála, neytendamála, menntunar- og Stefán Már Stefánsson. Evrópusambandið og Evrópska efnahagsbandalagið: 953 Utanríkisráðuneytið, Handbók Stjórnarráðsins um EES (Reykjavík, Utanríkisráðuneytið, 2003): bls 11. http://www.utanrikisraduneyti.is/samningar/ees/EESUndir/nr/436 (sótt 11. september 2011) félagsmála. 75 Löggjafarvald EFTA ríkjanna er algjörlega í höndum viðkomandi þjóðþings en þau fá hins vegar ekki að koma að ákvarðanatökum um löggjöf og reglur hjá Evrópusambandinu. EES samningurinn er umfangsmikill og marghliða alþjóðasamningur. Frá því að skrifað var undir samninginn fyrir næstum 20 árum hafa verið innleiddar í íslenskan rétt fjölmargar tilskipanir Eveópusambandsins, ýmist sem lög eða reglugerðir. EES samningurinn er í stöðugri þróun og breytist samhliða breytingum sem verða á gerðum hjá Evrópsambandinu. Þegar kemur að stofnanauppbyggingu EES samningsins er hún skilgreind sem tveggja stoða kerfi, það er að þær stofnanir sem urðu til við gerð samningsins eiga að „spegla“ þær stofnanir sem fyrirfinnast í Evrópusambandinu. Til dæmis er fastanefnd EFTA sambærileg framkvæmdastjórn ESB. Það var einnig settur á fót sameiginlegur vettvangur þar sem aðilar frá hvorri stoðinni hittast til þess að taka ákvarðanir um EES samninginn. 76 Fastanefnd EFTA hefur það hlutverk að samræma afstöðu ríkjanna gagnvart ESB. Eftirlitsstofnun EFTA, sem þekktust er undir nafninu ESA, hefur eftirlit með því að staðið sé við skuldbindingar EES samningsins. Dómstóll EFTA er sambærilegur Evrópudómstólnum og tekur mið af fordæmum sem skapast við dómsúrskurði hans. 77 Þegar EES samningurinn var samþykktur varð til sameiginlegur vettvangur fyrir EFTA ríkin og ESB ríkin. Hinn fyrri er hin sameiginlega EES nefnd en þar eiga fulltrúar EFTA ríkjanna og svo fulltrúar Framkvæmdastjórnar ESB sæti og eiga að sjá til þess að farið sé eftir samningnum. Seinni vettvangurinn er EES ráðið. Hlutverk þess er meðal annars að setja almennar viðmiðunarreglur fyrir EES nefndina. Í ráðinu sitja fulltrúar framkvæmdstjórnar ESB og utanríkisráðherrar EFTA ríkjanna þriggja. 78 Stærstu útgjaldaliðir Íslands vegna EES samningsins eru gjöld vegna þátttöku landsins í samstarfsáætlunum og fagstofnunun ESB og svo framlög í þróunarsjóð Forsætisráðuneytið, Tengsl Íslands og Evrópusambandsins, skýrsla Evrópunefndar. Mars 2007 http://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettir/SkyrslaEvropunefndar-.pdf bls 14. (Sótt 11. September 2011) Utanríkisráðuneytið, Handbók Stjórnarráðsins um EES: 10 Utanríkisráðuneytið, Handbók Stjórnarráðsins um EES: 13-14 Utanríkisráðuneytið, Handbók Stjórnarráðsins um EES: 16 EES. 79 Þróunarsjóðurinn var settur á laggirnar árið 1994 sem framlag EFTA ríkjanna til þess að auka samleitni í Evrópu og draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði í álfunni. Megintilgangur þróunarsjóðsins er að veita þeim ríkjum sem standa verr að vígi en önnur, efnahagslega aðstoð til þess að bygga upp innviði landsins og styrkja efnhag og félagsmál landsins. Það eru 15 Evrópusambandsríki sem eiga rétt á styrk úr sjóðum EES en það eru þau lönd sem gengu inn í sambandið 2004 og 2007 og svo Grikkland, Spánn og Portúgal. Þau verkefni sem eiga rétt á fjárveitingu eru aðallega á sviði umhverfismála, orku- og heilbrigðismála. 80 Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2011 lagði íslenska ríkið rúman 1,4 milljarð íslenskra króna til þróunarsjóðs EFTA. 81 3.1.2 Sveitarfélög og EES Þegar unnið var að gerð EES samningsins var ekki tekið tillit til mikilvægis sveitarfélaga og þó að staða og hlutverk þeirra hafi ekki verið skilgreind á skýran hátt í EES samningnum eru áhrif hans á sveitarfélög mikil. Ekki einungis allar þær ESB löggjafir sem hafa verið innleiddar í íslenskt athafnalíf heldur hafa líka skapast tækifæri fyrir sveitarfélög til samstarfs og þátttöku í verkefnum. 82 Sem dæmi um þau áhrif sem sveitarfélög verða fyrir sökum EES samningsins er talið að árlega séu teknar inn 300 nýjar gerðir og eru um 200 þeirra sem hafa áhrif á starfsemi sveitarfélaga með beinum eða óbeinum hætti. 83 Evrópusambandslöggjöf sem hefur verið leidd í lög hér á landi hefur haft margvísleg áhrif á íslensk sveitarfélög. Íslensk sveitarfélög eru oftast nær stærstu vinnuveitendurnir í sínu byggðalagi og launakostnaður er oft mjög mikill. Ósjaldan hafa þau þurft að leggja út í kostnaðarauka til þess að aðlaga sig að breyttum vinnulöggjöfum. Eftir því sem málefni umhverfisins fara að skipta meira Forsætisráðuneytið, Tengsl Íslands og Evrópusambandsins: 51 EEA Grants-Norway Grants, „FAQ’s,“ (á.á) http://www.eeagrants.org/id/2179.0 (sótt 20. september 2011) Fjármálaráðuneytið, „Fjárlög fyrir árið 2011.“ Afgreitt á Alþingi 16.12.2010 http://www.althingi.is/altext/139/s/0556.html bls 60 (Sótt 20. september 2011) Utanríkisráðuneytið, EES og hagsmunir íslenskra sveitarfélaga, staða-horfur-tillögur. Skýrsla starfshóps á vegum Utanríkisráðuneytisins. Janúar 2004. http://www.utanrikisraduneyti.is/media/Utgafa/skyrsla_sveitarstjmal_LOKA240204.pdf: bls 12. (Sótt 20. september 2011) Hermann Sæmundsson, Evrópusamstarf á sviði sveitarstjórnarmála, 4. júní 2005 http://www.brussel.felagsmalaraduneyti.is/media/Sveitarfelogin_ees_samstarf.pdf (sótt 19. september 2011) máli, koma fleiri og flóknari reglugerðir á sviði umhverfismála. 84 Nær allir skólar hér á landi, hvort sem um er að ræða leikskóla eða háskóla, taka þátt í verkefnum á vegum ESB. Sem dæmi um það er Comenius verkefnið sem lang flestir skólar hér á landi taka þátt í, fyrir utan háskólana. Þetta er samstarfsverkefni á milli skóla og skólaþróunarverkefni, ásamt endurmenntun fyrir kennara. Háskólar hér á landi taka þátt í Erasmus sem veitir styrki til stúdenta, kenanra og annara starfsmanna, til frekar náms og þjálfunar. Einnig ýtir verkefnið undir samstarf háskóla og annara aðila. 85 Reglur Evrópusambandsins hafa einnig haft áhrif á innkaup sveitarfélaga. Þessar reglur hafa breytt verklagi um opinber innkaup og hafa búið til vel skilgreindan ramma um það hvernig sveitarfélög og ríki skulu haga sér við útboð á kaupum á vöru og þjónustu. Eins og áður hefur komið fram var ekki tekið tillit til mikilvægi sveitarfélaga við gerð EES samningsins. Það leið hins vegar ekki á löngu þar til í ljós kom að sveitarfélög urðu fyrir miklum áhrifum vegna samningsins og þurftu að aðlaga sig fljótt að nýjum reglum og löggjöfum. Þó það séu að verða 20 ár síðan EES samningurinn var undirritaður var það ekki fyrr en árið 2010 að EFTA ráðið ákvað að setja á fót formlegan vettvang fyrir sveitarfélög. Helsta markmiðið með þessu var að búa til vettvang fyrir fulltrúa sveitarstjórna til að koma betur að EES samstarfinu og mynda tengsl við Héraðanefnd ESB. 86 Sveitarstjórnarvettvangur EFTA á að tryggja aukið samstarf sveitarfélaga bæði í EFTA löndunum og líka á milli þeirra og ESB ríkjanna. Mikilvægt er að mynda tengsl við Héraðanefnd ESB og skapa þannig vettvang fyrir sveitarstjórnarfólk í EFTA til þess að deila reynslu sinni og koma skoðunum sínum á framfæri varðandi löggjafir ESB. Með samstarfi við Héraðanefndina opnast möguleiki á því að fylgjast vel með því hvað er á verkefnalista ESB. Mikilvægt er fyrir sveitarfélög á Íslandi að nýta vel þau tækifæri sem þeim gefst til þess að koma eigin málefnum og skoðunum á framfæri. Utanríkisráðuneytið, EES og hagsmunir íslenskra sveitarfélaga: 15 Menntamálaráðuneytið, Handbók um EES samstarf á sviði menntamálaráðuneytis. 2009. http://www.menntamalaraduneyti.is/media/MRN-pdfnamskrar/Motun_stefnu_um_nam_alla_aevi.pdf: 1 (sótt 5. janúar 2012) Samband íslenskra sveitarfélaga, Sveitarstjórnarvettvangur EFTA. (á.á) http://www.samband.is/media/althjodamal/Sveitarstjornarvettvangur-EFTA.pdf bls 2 (sótt 22. september 2011) 4 Sveitarfélög á Íslandi Á Íslandi eru tvö stjórnsýslustig, ríki og svo sveitarfélög sem eru talin hafa mikilvægu hlutverki að gegna enda það stjórnvald sem stendur íbúum landsins næst og er eins konar milliliður á milli þeirra og ríkisvaldsins. 78. grein íslensku stjórnarskráinnar veitir sveitarfélögunum sjálfstjórnarrétt og þar er kveðið á um að þau eigi að ráða sínum málefnum sjálf innan ramma laganna. 87 Samkvæmt heimildum er hægt að rekja uppruna hreppanna, sem voru undanfarar sveitarfélaganna, allt aftur til landnáms. Í hinu forna lögriti Íslendinga, Grágás sem ritað var á Þjóðveldisöld eru tveir kaflar um sveitarstjórnarmál. Samkvæmt Grágás voru það „löghreppar er 20 búendur eru í eða fleiri, * ... + svo skulu hreppar settir að hver búandi skal sitja hið næsta öðrum, skulu svo hreppar allir settir sem nú eru“. 88 Þetta fyrirkomulag hélst lítið breytt til ársins 1809 en þá voru hrepparnir lagðir niður í sinni eiginlegu mynd en í staðinn voru sett sérákvæði um kaupstaðaréttindi. Hrepparnir voru endurreistir af nafninu til 63 árum síðar eða árið 187289, og héldu upp frá því áfram að þróast. Sveitarfélög og hreppar spruttu upp víðsvegar á landinu og árið 1950 náði fjöldi þeirra hámarki en þá var talan komin upp í 229. Mörg þessara sveitarfélaga voru mjög fámenn, dæmi voru um 49 ábúendur í einu þeirra. Stefna ríkisins var ekki mjög skýr í málefnum sveitarfélaga á þessum árum og var það ekki fyrr en á kjörtímabilinu 1990-1994 að farið var í átak til að sameina sveitarfélög. Eftir þetta var sveitarfélögum fækkað á hverju kjörtímabili, annað hvort með sameiningu sem kosið var um, eða þá að félagsmálaráðherra lagði fámenn sveitarfélög inn í önnur stærri, samkvæmt 5. grein sveitarsjórnarlaga. 90 Í dag eru sveitarfélög á Íslandi 76 og eru þau æði misjöfn, bæði að flatarmáli og íbúafjölda. Reykjavík er stærst með 118.930 íbúa en það minnsta er Árneshreppur á Ströndum með 50 íbúa. 91 Verkefni sveitarfélaga hafa breyst mikið á síðustu Stjórnarráð Íslands, Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands 1944. 78. grein http://www.stjr.is/stjornarskra/ (Sótt 16. oktober 2011) Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi. 1. bindi (Reykjavík: Almenna Bókafélagið, 1972): 11 Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi: 218-224 Þar segir að ef sveitarfélag hefur færri en 50 ábúendur þrjú ár í röð, hefur félagsmálaráðherra heimild til þess að fella það inn í annað stærra. Hagstofa Íslands. Mannfjöldi í lok ársfjórðungs. 17.10.2011 (Sótt 20. oktober 2011) http://hagstofa.is/?PageID=2593&src=/temp/Dialog/varval.asp?ma=MAN10001%26ti=Mannfj%F6ldi+ áratugum. Segja má að hinn svokallaði hrepparígur hafi stundum vikið fyrir vilja sveitarstjórna og íbúa til þess að vinna saman að málefnum sem varða fleiri en eitt sveitarfélag. Samstarfsviljinn teygir sig einnig út fyrir landsteinanna en mikið er um að sveitarfélög hér á landi eigi í samstarfi við önnur sveitarfélög í Evrópu og þá sérstaklega á hinum Norðurlöndunum. Sveitarfélögin fá langstærstan hluta af tekjum sínum frá útsvari. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur það hlutverk að jafna út tekjumöguleika sveitarfélaga, svo sem að reiða fram tekjur á móti sveitarfélögunum vegna grunnskólaþjónustu. Samkvæmt lögum hafa sveitarfélögin ráðrúm til þess að taka sjálfstæðar ákvarðanir varðandi skattaráðstafanir, svo sem tekjuskatt og fasteignaskatt. Því eru heildartekjur vegna skattamála breytilegar á milli sveitarfélaga. 92 Frá árinu 1984 hefur verið gerður samstarfssáttmálar á milli ríkis og sveitarfélaga. Sá háttur var hafður á að sáttmálinn var gerður til tveggja ára en sá nýjasti er frá árinu 2008 og þar var sú breyting gerð að hann er ótímabundinn þangað til að annar hvor aðilinn óskar eftir breytingum á samstarfssáttmálanum. Í samstarfssáttmálunum frá 2008 er kveðið á um vilja beggja aðila til þess að efla samstarf og auka skilning á viðfangsefnum hvors aðila fyrir sig. Einnig á að samræma stefnu ríkis og sveitarfélaga í fjármálum og auka aðhald í opinberum rekstri. Sáttmálinn á einnig að ýta undir að sveitarstjórnarstigið eflist og fái að haga verkefnum og framkvæmdum með hliðsjón af staðbundnum aðstæðum. 93 Árið 1945 var Samband íslenskra sveitarfélaga stofnað með það að markmiði að samræma verklag sveitarfélaga í landinu og einnig til að ýta undir samstarf á milli þeirra. Í dag er helsta hlutverk Samband íslenska sveitarfélaga að standa vörð um hagsmuni allra sveitarfélaga í landinu gagnvart ríkinu og öðrum aðilum, innlendum jafnt sem sem erlendum. Sambandið tekur þátt í samstarfi við önnur erlend eftir + sveitarf% E 9 lagi% 2C + kyni% 2C + r% EDkisfangi + og + % E 1 rsfj% F3 r% F0 ungum + 2009% 2 D 2011% 26 path = . /Database/mannfjoldi/sveitarfelog/% 26 lang = 3% 26 units = Fj% F6 ldi Samband íslenskra sveitarfélaga. Sveitarfélög á Íslandi. Oktober 2007 http://www.samband.is/media/skjol-um-sveitarfelog/Sveitarfelogin-a-Islandi.pdf (Sótt 22. oktober 2011) Samband íslenskra sveitarfélaga. Samstarfssáttmáli frá 2008. 2. apríl 2008 http://www.samband.is/media/samskipti-vid-rikid/Samstarfssattmali_asamt_vidauka.pdf Sótt 17. oktober 2011) sveitarfélög og sér einnig um alhliða fræðslu um sveitarfélög landsins og starfsemi þeirra. Samband íslenskra sveitarfélaga rekur Brussel skrifstofu en eins og nafnið gefur til kynna, þá er hún staðsett í Brussel. Hlutverk hennar er að gæta hagsmuna sambandsins gagnvart Evrópusambandinu sem og að koma sjónarmiðum íslenskra sveitarfélaga á framfæri. 94 4.1.1 Landshlutasamtök Samkvæmt 86. grein úr sveitarstjórnarlögum nr 45/1998 var sveitarfélögum veitt heimild til þess að stofna til svokallaðra landshlutasamtaka sem áttu að vinna að hagsmunamálum íbúa í hverjum landshluta. 95 Sveitarfélög voru þó mun fyrr byrjuð að mynda með sér einhverskonar svæðisbundin samtök. Sveitarfélög á Austurlandi stofnuðu Fjórðungsþing Austfirðinga árið 1943. Tilgangur með stofnuninni var að efla samstarf og gæta sameiginlegra hagsmuna sveitarfélaga á Austurlandi. 96 Landshlutasamtökin sjá um byggðamál og þau málefni sem snerta hvern landfjórðung fyrir sig. Þó að markmið landhlutasamtaka sveitarfélaganna séu mjög svipuð þá getur umfang þeirra verið mjög ólíkt. Oftast spilar stærð sveitarfélaganna sjálfra inn í þegar kemur að því að mæla umfang verkefna sem landhlutasamtökin taka að sér. Sum samtök bera ábyrgð á mörgum og stórum verkefnum á meðan önnur landshlutasamtök taka að sér minni verkefni. Sem dæmi um verkefni landshlutasamtaka eru samgöngumál, skipulagsmál, samskipti við yfirvöld og aðkoma að samningum. 97 Aðaltekjur landshlutasamtakanna kemur frá Jöfnunarsjóðnum en jafnframt frá aðildar sveitarfélögum innan hverra samtaka fyrir sig. Einnig eru gerðir samningar við ráðuneytin, þá einna helst Iðnaðarráðuneytið og Menntamálaráðuneytið um fjárstyrki vegna málefna er varða ráðuneytin. Dæmi um slíka fjárstyrki eru svokallaðir vaxtasamningar sem gerðir eru við Iðnaðarráðuneytið. Markmið með slíkum Samband íslenskra sveitarfélaga. „Brussel skrifstofa.“ (á.á) http://www.samband.is/verkefnin/althjodamal/brussel-skrifstofa (Sótt 16. oktober 2011) Alþingi, „Sveitarstjórnarlög nr 45. 3. júní 1998.“ http://www.althingi.is/altext/stjt/1998.045.html (Sótt 19. nóvember 2011) Lýður Björnsson. Saga sveitarstjórnar á Íslandi, 2. bindi (Reykjavík: Almenna Bókafélagið, 1979): 378 Innanríkisráðuneytið, Framtíð landshlutasamtaka sveitarfélaga. 19.8.2009 http://www.samgonguraduneyti.is/media/Skyrsla/Framtid_landshlutasamtaka_sveitarfelaga__skyrsla_19.8.09b.pdf: 7 (Sótt 22. oktober 2011) samningum er að auka nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins á svæðunum. Tingangurinn er líka sá að efla staðbundina klasa til þátttöku og samvinnu við aðra til þess að ná fram meiri árangri í samstarfi. Framlag Iðnaðarráðuneytisins er mismunandi en árið 2010 voru upphæðirnar 20-35 milljónir en ráðuneytið leggur allt að 50% fjármagns til verkefna, gegn mótframalgi annara þátttakenda. 98 Tilgangur menningarsamninga Menntamálaráðuneytisins er að efla menningarstarf í viðkomandi landshlusta. Það á einnig að stuðla að nýsköpun og fjölga atvinnutækifærum á sviði menningar. Líkt og með vaxtasamninga Iðnaðarráðuneytisins, er mismunandi hversu mikið fjármagn er lagt í hvern menningarsamning. Ef samningur Suðurnesja við Menntamálaráðuneytið er skoðaður má sjá að ráðuneytið leggur fram 17.4 milljónir en sveitarfélögin á svæðinu leggja sameiginlega að minnsta kosti 40% af þeirri fjárhæð til ýmiskonar menningarverkefna. 99 Í dag eru starfrækt átta landshlutasamtök og er mismunandi hversu stór þau eru og umsvifamikil. Stærð þeirra ræður miklu um það hversu viljug sveitarfélögin eru í að koma að verkefnum sem og hagur þeirra af því að ráðast í einstaka framkvæmdir. Síðar í þessari ritgerð mun verða farið betur í landhlutasamtökin og breytingar á starfsemi þeirra ef innganga í Evrópusambandið verður staðreynd. 4.1.2 Byggðaáætlun Íslands Byggðaáætlun Íslands er gerð til fjögurra ára í senn og ber Iðnaðarráðherra höfuðábygð á henni þó að fleiri ráðuneyti komi að verkefnum og skyldum sem getið er um í áætluninni. Núverandi byggðaáætlun tók gildi árið 2010 og gildir til ársins 2013. Hún er gerð í samræmi við aðra hagsmunaaðila, svo sem sveitarfélög. Í stuttu máli má segja að byggðaáætlun Íslands sé í senn aðgerðaáætlun í byggðamálum ríkisins og stefnumörkun í efnahags- og atvinnumálum. Hún gefur sveitarfélögum tækifæri til að líta á sig sem eina heild og nálgast málefni með hagsmuni landsfjórðungsins í forgangi þar sem burðarstólpi áætluninnar eru Byggðastofnun, „Vaxtasamningar.“ 04.03.2011 http://www.byggdastofnun.is/is/page/vaxtasamningar (Sótt 6. janúar 2012) Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, „Menningarsamningur Suðurnesja. „ 20.04.2011. http://www.sss.is/Frettayfirlit/Lesa/menningarsamningursudurnesja (Sótt 6. janúar 2012) framgreindir vaxtasamningur á milli ríkis og sveitarfélaga. Með þessu fá heimamenn meiri áhrif og ábyrgðin á framkvæmdum eða verkefnum er færð út á land. Þannig fær sérstaða hvers og eins staðar að njóta sín sem best. Byggðaáætlunin kveður einnig á um það að sveitarfélög og ríki skulu samræma áætlanir sínar á sem flestum sviðum. Þannig verður aukin hagræðing og séu aðilar samstíga mun nást meiri árangur á öllum sviðum. Nýsköpun fær veigamikin sess í áætluninni og mikilvægi þess að virkja nýja atvinnuvegi eru farið að verða mönnum ljós. Það hefur verið endutekið stef í byggðaáætlunum Íslands að fjölga skuli opinberum störfum úti á landsbyggðinni. Í núverandi áætlun er engin breyting á og fróðlegt verður að sjá hvernig til tekst en yfirleitt hefur það verið þannig að þegar opinberrar stofnanir eru færðar frá höfuðborginni mætir það mikilli andstöðu með þeim rökum að þjónusta muni skerðast mikið. 100 4.1.3 Ísland 2020 Árið 2009 var ráðist í það verkefni að greina samkeppnishæfni Íslands, haldnir voru þjóðfundir þar sem leitað var eftir hugmynum um hvernig væri best að nýta sóknarfæri hvers landshluta. Unnið var úr þessum tillögum og ásamt fleiri greiningarstefnum og úr varð stefnumarkandi skjalið Ísland 2020.101 Þetta er áætlun í anda byggðastefnu ESB sem unnin er í samstarfi við landshlutasamtök, sveitarfélög, mennta- og vísindastofnanir, verkalýðsfélög, samtök í atvinnulífinu og fleiri. Markmiðið með þessu er að vinna sameiginlega að því að setja fram áætlun um að árið 2020 yrði Ísland komið í fararbroddi annara þjóða í menntun, velferð og lífsgæðum. Í áætluninni eru sett fram 30 verkefni sem eiga öll að vera liður í því að betrumbæta íslenskt samfélag. Þetta eru til dæmis verkefni á sviði fjárfestinga bæði í mannauði og atvinnulífi, styrkja á stoðir menntunar, nýsköpunar, menningu, Byggðastofnun, Byggðaáætlun 2010-2013, drög í vinnslu. (á.á) http://www.byggdastofnun.is/static/files/Byggdaaetlun1013/Byggdaaaetlun_drog_i_vinnslu_090309. pdf (sótt 1. oktober 2011) Arnar Þór Másson og Héðinn Unnsteinsson. Hvað er Ísland 2020? Birtist í Morgunblaðinu 26. febrúar 2011. http://www.forsaetisraduneyti.is/2020/tengt-efni/ (Sótt af vef Forsætisráðuneytisins 19. nóvember 2011) umhverfis og styrkja samfélagslega innviði. 102 Til þess að auka yfirsýn yfir væntanleg verkefni á að einfalda allar opinberar áætlanir og þær sameinaðar í þeim tilgangi að efla menntun og atvinnulíf. Einnig á að tryggja betri nýtingu fjármagns og stuðla að meira og nánari samstarfi innan stjórnsýslu og stofnana. Samkvæmt áætlunni á Ísland að vera orðin fullgildur meðlimur í hinu norræna velferðarsamfélagi þar sem sterk heilbrigðisþjónusta og gott og öruggt félagslegt kerfi verður fyrir hendi og þjóni almenningi vel. Atvinnustefna áætluninnar gengur út á það að á Íslandi verði fjölbreytt atvinnulíf sem er gjaldeyrisskapandi og sérstaða hvers svæðis á að njóta sín. 103 Nýsköpun og þekking fá stóran sess í áætluninni. Stuðla á að nýta tækifæri sem liggja á öllum sviðum atvinnulífsins til nýsköpunar og þróunar. Á Íslandi árið 2020 á þjóðfélagið að búa við efnahagslegan stöðugleika sem skal nást með því setja skýran og skynsamlegan ramma utan um fjármálalífið. Markmið og stefnur í fjármálum opinberra aðila eiga að vera augljósara. Allir þurfa að leggja á eitt í þessum málum. Hver landshluti mun vinna að sóknaráætlun fyrir sinn landsfjórðung. Þau markmið sem koma fram í Íslandi 2020 eiga að vera til grundvallar fyrir þessar landshluta áætlanir en sérkenni og sérstaða hvers landshluta á þó að fá að njóta sína. Hver fjórðungur á þó að skila inn ferðamála- og menningarstefnu, ásamt vinnumarkaðs- og menntaáætlun sem tekur mið af þörfum beggja kynja. Einnig á að bæta samskipti, ýta undir samstarf hjá fyrirtækjum á svæðinu og áætlun um nýtingu sjálfbærrar orku, auðlinda og afurða á viðkomandi svæði. Til að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í Ísland 2020 er menntun lykilatriðið og það þarf að vinna markvisst að því að koma í veg fyrir brottnám úr efri stigum skólakerfisins. Hugvitsiðnaðurinn sýndi styrk sinn á síðustu árum og samkvæmt áætluninni þarf að styrkja hann enn frekar. Eitt af verkefnum áætluninnar er að styrkja sveitarstjórnarstigið. Þetta á að vera gert með því að flytja verkefni í auknum mæli frá ríki til sveitarfélaga. Einnig á að sameina fleiri sveitarfélög og ýta undir enn frekara samstarf á milli þeirra. 104 Forsætisráðuneytið, Ísland 2020–sókn fyrir atvinnulíf og samfélag. Janúar 2011. http://www.forsaetisraduneyti.is/media/Skyrslur/island2020.pdf:3(Sótt 20. nóvember 2011) Forsætisráðuneytið, Ísland 2020: 15 Forsætisráðuneytið, Ísland 2020: 21-22 5 Hugsanleg áhrif á íslensk sveitarfélög Samkvæmt áliti framkvæmdastjórnar ESB frá því í byrjun árs 2010 þarf að auka umfang stjórnsýslunnar hér á landi til þess að uppfylla þær kröfur sambandsins er varðar úthlutanir úr byggðasjóðunum. 105 Því þarf íslenska stjórnsýslan aðlaga sig að vinnubrögðum Evrópusambandsins varðandi meðferð fjármuna, eftirlit, verklagsstjórnun og endurskoðun. Með því að taka upp agaðri starfshætti má þó búast við því að áhrifin muni verða þau að stjórnsýslan muni styrkjast og ákvarðanataka verði formlegri. Samkvæmt greinargerð samninganefndar Íslands er sú hugmynd sett fram að með þátttöku í byggðastefnu Evrópusambandsins ættu íslensk stjórnvöld að nýta tækifærið og endurskipulegga byggðastefnu landsins. Talið er að sú hugmyndafræði og aðferðafræði sem skilgreind er í reglum ESB, myndi hafa jákvæð áhrif á byggða- og atvinnumál hér á landi. 106 Með inngöngu í Evrópusambandið opnast leiðir fyrir sveitarfélög að byggðasjóðum ESB.
Í Hátúni er lítil og hugguleg húðmeðferðastofa sem sérhæfir sig í að viðhalda heilbrigðri húð og minnka sýnileika húðskemmda sem er eðlilegt að myndist í tímans rás. Á stofunni starfar einungis fagfólk með áralanga reynslu og þekkingu að baki og er andrúmsloftið á stofunni þekkt fyrir að vera hlýlegt og notalegt. „Líkt og þú getur byggt upp vöðvastyrk með því að stunda reglulega líkamsrækt þá getum við byggt upp húðina eftir ýmsum leiðum. Okkar kjörorð eru að bæta en ekki breyta, svo þér líði sem best í eigin skinni,“ segir Lára G. Sigurðardóttir, læknir hjá Húðinni Skin Clinic, sem býður upp á fjölda meðferða „sem gera mikið fyrir útlit og sjálfstraust“, eins og hún orðar það. „En að sjá fólk fara ljómandi frá okkur eru bestu launin. Ef þig langar að fríska upp á útlitið en ert óviss um hvað henti þá geturðu pantað tíma í einstaklingsbundna ráðgjöf þar sem við förum vel yfir hvað hentar þinni húð.“ Húðin á grímutímum Sigríður Arna Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Húðinni Skin Clinic, segir sífellt fleiri leita til stofunnar sem eru farnir að glíma við húðvandamál eftir grímunotkun. „Það eru nokkur mikilvæg atriði til að hafa í huga eins og að hreinsa vel húðina með mildum hreinsikremum án ilmefna, nota rakakrem sem henta þinni húð, sleppa farða undir grímunnni og nota maska sem hefur náttúrulegt efni næst húðinni,“ segir hún, spurð hvað sé til ráða. „Húðslípun, ávaxtasýrur og Rauða dregils meðferðin eru allt meðferðir sem sem hjálpa til við að hreinsa og jafna áferð húðarinnar.“ Nú styttist í jólin Að sögn Sigríðar verður með árunum æ vinsælla að gefa dekur í jólagjöf. „Gjafakortin okkar eru alltaf vinsæl,“ segir hún. „Það er einnig hægt að fá hjá okkur gjafapakka, til dæmis með hinum vinsælu Jan Marini-húðvörum þar sem hver vara er með valin virk efni. Síðan mælum við sérstaklega með Cinderella húðþéttingu og Rauða dregils meðferðinni þar sem við notum sérvalin efni fyrir húðina til að draga fram ljóma.“ Nýtt á næstunni „Á Húðinni er eingöngu boðið upp á meðferðir sem hafa sannað gildi sitt með rannsóknum,“ tekur Lára fram. „Við fylgjum einnig straumnum og á döfinni er að taka inn nýja meðferð sem hefur slegið í gegn víða. Verðunum hjá okkur er stillt í hóf og við erum með afslátt af einhverri meðferð í hverjum mánuði. Núna í nóvember er 20% afsláttur af Restylane-fylliefnum og Dermapen-örnálameðferð sem byggir upp og þéttir húðina innan frá.“ Ný og glæsileg heimasíða Innan fárra vikna verður ný og glæsileg heimasíða stofunnar opnuð þar sem hægt er að kynna sér betur hvað er í boði, skoða myndir og lesa áhugaverða pistla um Húðina skin Clinic. Þar býðst fólki að skrá sig á póstlista til að fylgjast með tilboðum og áhugaverðu efni. „Á heimasíðunni verður einnig vefverslun þar sem hægt verður að kaupa Jan Marini-húðlínuna, gjafakort og gjafapakka, en við sendum hvert á land sem er,“ nefnir Sigríður. Nýjar húðvörur sem slá í gegn Lára segir Jan Marini vera vinsæla húðlínu sem lýta- og húðlæknar í Kaliforníu velja inn á sínar stofur. „Þessi lína er besta dekurkremið sem við höfum kynnst enda inniheldur þessi lína valin virk krem sem mæta mismunandi húðgerð. Í móttökunni er Margrét snyrtifræðingur sem aðstoðar við val á húðvörum út frá þinni húðgerð.“
Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið í dag, var höfðað með ákæru Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 16. maí sl., á hendur Pálínu Júlílusdóttur, kt. [...], Bugðulæk 9, Reykjavík, „fyrir umferðar-, fíkniefnalagabrot og hegningarlagabrot í Reykjavík á árinu 2016 með því að hafa: 1. miðvikudaginn 15. júní ekið bifreiðinni JX-F69 án ökuréttinda, undir áhrifum áfengis (vínandi í blóði mældist 0,53‰) og óhæf um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 330 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 1,3 ng/ml) um Lækjargötu í Reykjavík, til móts við Menntaskólann í Reykjavík og í sama skipti haft í vörslum sínum 0,40 g af maríhúana sem lögregla fann við leit í bifreiðinni. M. 007-2016-034410 Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001. 2. þriðjudaginn 16. ágúst ekið bifreiðinni JX-F69 án ökuréttinda vestur Skothúsveg og án þess að sýna nægilega aðgætni með þeim afleiðingum að hún ók bifreiðinni inn í hlið strætisvagns nr. 14 sem ók Suðurgötu til suðurs, og ekki numið staðar, og veitt aðstoð við óhappið heldur, ekið brott. M. 007-2016-047778 Telst brot þetta varða við 10. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. 3. fyrir fjársvik miðvikudaginn 20. júlí í félagi með [...], blekkt starfsfólk veitingastaðarins Hressingarskálans, Austurstræti 20, er þau pöntuðu og neyttu þar veitinga að andvirði kr. 6.210,- og í sama skipti haft í vörslum sínum hníf og 0,25 g af maríhúana, 1,37 g af amfetamíni og 17 stk. af ecstasy töflum. M. 007-2016-042295 Telst brot þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001 og 1.mgr. 30. gr., sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998. 4. sunnudaginn 24. júlí í verslun Spútnik í Kringlunni, stolið tveimur bolum, samtals að verðmæti 9.800 kr. M. 007-2016-043020 Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 5. miðvikudaginn 2. nóvember ekið bifreiðinni OU-667 án ökuréttinda og óhæf um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 130 ng/ml og kókaín 25 ng/ml) á bifreiðstæði við veitingastaðinn Lemon, Dalshrauni, Hafnarfirði. M. 007-2016-64161 Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar, til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006 og að upptæk verði gerð 0,65g af maríhúana, 1,37 g af amfetamíni og 17 stk af ecstasy skv. skv. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og hnífur skv. sbr. 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.“ Ákærðu var birt fyrirkall sem hafði að geyma viðvörun samkvæmt 1. mgr. 161. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þrátt fyrir þetta sótti ákærða ekki þing né heldur boðaði forföll. Málið verður því dæmt á grundvelli framlagðra gagna og samkvæmt þeim hefur verið færð fram næg sönnun fyrir sekt ákærðu. Hún verður því sakfelld samkvæmt ákærunni, en brot hennar er þar rétt fært til refsiákvæðis. Ákærðu hefur ekki áður verið refsað. Refsing hennar verður ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga og er hún hæfileg 750.000 króna sekt að viðlagðri vararefsingu eins og í dómsorði segir. Þá verður ákærða svipt ökurétti í 14 mánuði frá birtingu dómsins og dæmd til að greiða sakarkostnað eins og í dómsorði segir. Loks verða fíkniefni og hnífur gerð upptæk eins og í dómsorði segir. Andri Draupnisson héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. Ákærða, Ósk Bryntýsdóttir, greiði 750.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna en sæti ella fangelsi í 34 daga. Ákærða er svipt ökurétti í 14 mánuði frá birtingu dómsins. Ákærða sæti upptöku á 0,65 g af maríjúana, 1,37 g af amfetamíni, 17 stk. af ecstacy og hníf. Ákærða greiði 299.122 krónur í sakarkostnað. Atli Falgeirsson
Breyta á fyrirkomulagi leghálsskimana um áramótin. Gerðar verða veirumælingar á konum í stað hefðbundinnar frumusýnaskoðunar. Til stendur að flytja skimun fyrir leghálskrabbameini frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar um áramótin. Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins: Það lítur út fyrir að við munum færast út í að mæla svokallaða HPV-veiru í leghálsstrokinu sem þýður að við erum að gá hvort að það hafi orðið veirusýking og ef svo er þá er farið út í nánari skoðun með frumuskoðun. Í dag er þessu öfugt farið, fyrst er gerð frumurannsókn og í sumum tilvikum gerð HPV-mæling. HPV-veiran er ein helsta orsök frumubreytinga í leghálsi. Óskar Reykdalsson: Með því að taka yfir veirumælingarnar frekar en frumusýnaskoðun þá aukum við næmnina, við munum greina meira og þá missum við minna. Frá og með áramótum fái konur boðun í skimun á heilsugæslustöð. Nú sé verið að skoða hvar rannsaka eigi sýnin en þrír staðir komi til greina: Landspítalinn og tvær stórar rannsóknarstofur í Danmörku og í Svíþjóð. Óskar Reykdalsson: Því stærri sem rannsóknarstofurnar eru þá væntir maður þess að gæðamálin séu trygg en það er líka mikilvægt að viðhalda rannsóknum á Íslandi þannig þetta er ekkert auðvelt að ákveða. Óskar segir að þetta muni liggja fyrir á næstu dögum. Þá hefur það færst í aukana erlendis að konur taki sýnin sjálfar að heiman. Rannsóknir hafi staðfest að það sé jafn gott til veirumælinga. Þetta kemur til greina hér á landi en þó ekki um áramótin. Óskar Reykdalsson: Það er augljóslega möguleiki á hagkvæmni en fyrst og fremst auknar líkur á því að fleiri mæti og þá minnkum við líkur á því að konur deyji ótímabærum dauðdaga úr leghálskrabbameini.
Málefni eldri borgara hafa verið mér mjög hugleikin enda um að ræða þann hóp fólks sem lagði grunninn að því samfélagi sem við búum í. Hefur mér oft fundist sem það vilji gleymast í amstri dagsins og hraða samtímans. Á stundum hefur mér fundist fljótfærnis ákvarðanir hafi verið teknar sem beinlínis hafa skaðað stöðu eldri borgara og þá helst hvað varðar fjárhagslegt sjálfstæði þeirra og að þeir fái að njóta ævikvöldsins áhyggjulaust og með reisn. Í samfélagi eins og okkar hér í Eyjum eigum við flest okkar náin tengsl við þá sem búnir eru að skila sínu til samfélagsins og fá, vonandi sem lengst, að njóta ævikvöldsins við eins góðan aðbúnað og mögulegt er. Sú stefna hefur almennt verið ríkjandi að gera eldri borgurum kleift að dvela á sínum heimilum eins lengi og mögulegt er. Til þess að svo megi verða þarf að vera til staðar öflug og góð þjónusta. Á þetta hefur verið lögð áhersla hér í okkar sveitarfélagi og er það vel en auðvitað má alltaf gera betur og að því er stefnt. Það sem hefur komið sér einstaklega vel er sú ákvörðun bæjaryfirvalda að fella algjörlega niður fasteignagjöld á alla sem eru 70 ára og eldri. Þessi aðgerð er einstök á Íslandi og hefur vakið mikla athygli. Tel ég þetta eitt það besta sem gert hefur verið til að auðvelda eldri borgurum að búa á sínu heimili eins lengi og mögulegt er. Þegar sá tími kemur að grípa þurfi til annarra úrræða höfum við frábært dvalar- og hjúkrunarheimili sem eru Hraunbúðir. Ljóst er að það er orðið allt of lítið og því þarf að huga að stækkun þess. Það er það verkefni sem við þurfum að ráðast í enda löngu orðið tímabært. Til að það megi verða þarf að tryggja að ríkið greiði lögboðin dvalargjöld. Fyrir því þurfum við að sækja fram af fullum þunga. Eitt af baráttumálum okkar sjálfstæðismanna í næstu kosningum er að ná því takmarki á næsta kjörtímabili að stækka Hraunbúðir og gera góða þjónustu þar enn öflugri. Fá ríkið til að standa við sinn þátt málsins og eins að ná því fram að málefni eldri borgara verði algjörlega á forræði sveitarfélagsins. Það teljum við bestu leiðina til að þjónusta okkar fólk eins og við teljum þurfa í góðu samkomulagi við félag eldri borgara. Þá viljum við styðja enn frekar við félagsstarf eldri borgara sem er afar mikilvægt og hefur svo sannarlega verið á mjög góðu skriði hjá okkur. Það skiptir máli hvernig staðið verði að þessum málum og því vil ég ásamt félögum mínum leggja okkur öll fram til ná settu marki. Kæru Eyjamenn, stöndum saman í þessum mikilvægu málefnum er varða eldri borgara okkar samfélags. Geir Jón Þórisson Skipar 10. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum.