Search is not available for this dataset
url
stringlengths
21
288
text
stringlengths
1
1.35M
https://www.akureyri.is/is/frettir/oldungamotid-i-beinni-a-ruv
Öldungamótið í beinni á RÚV Öldungamót Blaksambands Íslands stendur nú sem hæst í íþróttahúsum bæjarins og er talið að hátt í 1.000 manns séu í bænum af þessu tilefni, auk þess sem annar eins fjöldi er hér vegna Andrésar Andar leikanna. Á morgun, laugardaginn 22. apríl, verður leikið til úrslita í blakinu og þá verður bein útsending í Sjónvarpinu frá kl. 13.05-16.10. Dagskrá mótsins á morgun er þessi: 23. apríl - laugardagur 08.30 Leikir hefjast í öllum íþróttahúsum. 13.00 Úrslitaleikur í Bikarkeppni í blaki kvenna, bein útsending. 15.00 Lokaleikir í 1. deild karla og kvenna í Íþróttahúsi KA. 16.30 Verðlaunaafhending í Íþróttahúsi KA. 19.30 Lokahóf í Íþróttahöllinni - húsið opnar. 20.15 Borðhald hefst - veislustjóri - Jón Ólafsson, skemmtiatriði - Hundur í óskilum, hljómsveit - Bylting. 03.00 Dansleik lýkur.
https://www.akureyri.is/is/frettir/verdlaun-fyrir-mars-2005
Verðlaun fyrir mars 2005 Afhent hafa verið verðlaun fyrir þátttöku í heilsueflingarátakinu “Einn tveir og nú!” í mars 2005. Í hverjum mánuði eru dregin út nokkur innsend fjölskyldukort og hljóta eigendur þeirra viðurkenningu fyrir þátttökuna. Hver fjölskylda skráir alla hreyfingu á “Fjölskyldukort”, sem er einskonar almanak fyrir hvern mánuð. Kortinu skal skila inn fyrir tíunda hvers mánaðar og úr innsendum kortum eru dregin út nokkur nöfn sem fá verðlaun fyrir þátttökuna. Vinningshafarnir ásamt Pétri Ólafssyni, þjálfara meistaraflokks Þórs í knattspyrnu (standandi næstlengst til hægri), en hann afhenti verðlaunin. Eftirtalin duttu í lukkupottinn að þessu sinni: 1. Fjölskyldan Grenilundi 7 – Ívar Örn, Bjarki Freyr og Inga Bryndís Árnabörn. Ívar Örn, 9 ára, Bjarki Freyr, 5 ára, og Inga Bryndís, 15 ára, fengu flíspeysur frá 66°N. 2. Fjölskyldan Reykjasíðu 17 – Sigmar Pálsson, Inga Rakel Pálsdóttir, Páll Kristjánsson og Elva Haraldsdóttir. Sigmar, 7 ára, og Inga Rakel, 4 ára, fengu sitt hvorn bakpokann frá 66°N. 3. Fjölskyldan Skottugili 1 – Silja Rún Gunnlaugsdóttir, Sylvía Rán Gunnlaugsdóttir og Símon Reyr Gunnlaugsson. Silja Rún, 12 ára, Sylvía Rán, 10 ára, og Símon Reyr, 4 ára, fengu bakpoka frá 66° Norður. 4. Fjölskyldan Duggufjöru 2 – Aðalsteinn Leifsson, Aðalbjörn Leifsson, María Aðalsteinsdóttir og Leifur K. Þormóðsson, Duggufjöru 2. Fékk að launum sundkort fyrir fjölskylduna. 5. Fjölskyldan Einholti 11 – Hilma Elísabet Valdimarsdóttir. Fékk að launum sundkort fyrir fjölskylduna. 6. Fjölskyldan Lækjartúni 2 – Skarphéðinn Leifsson, Heiðrún Jóhannsdóttir, Guðrún María Skarphéðinsdóttir og Alexander Skarphéðinsson. Fékk að launum sundkort fyrir fjölskylduna. Tómas Leó, 15 ára, Tinna Mjöll, 13 ára, og Maron Trausti, 8 ára, fengu sundkort fyrir alla fjölskylduna. 7. Fjölskyldan Borgarhlíð 11d – Oddfríður Skúladóttir. Fékk að launum sundkort fyrir fjölskylduna. 8. Fjölskyldan Grundargerði 6c - Dagný Hlín Rafnsdóttir, Rafn Elíasson og Una Þórey Sigurðardóttir. Dagný Hlín, 7 ára, fékk gjöf frá Landsbankanum. 9. Fjölskyldan Steinahlíð 1h – Guðmundur Bjarnar Guðmundsson, Sigrún Eydís Jónsdóttir, Andri Guðmundsson, Heimir Guðmundsson og Jón Þór Guðmundsson. Andri, 13 ára, Heimir, 12 ára, og Jón Þór, 22ja ára, fengu gjafir frá Landsbankanum. 10. Fjölskyldan Heiðarlundi 7a – Svana Rún Aðalbjörnsdóttir, Helgi Freyr Aðalbjörnsson, Páll Arnar Aðalbjörnsson, María Arngrímsdóttir og Aðalbjörn Pálsson. Svana Rún, 7 ára, Helgi Freyr, 11 ára, og Páll Arnar, 15 ára, fengu gjafir frá Landsbankanum. Heilsueflingarátakið “Einn tveir og nú!” stendur til vors. Upplagt er að skrá hreyfingu – þ.m.t. sundferðina, gönguferðina, “út að leika”, fótbolta, snú-snú eða hvað annað. Sumarið er gengið í garð og þá fer fólk á stjá sem aldrei fyrr eftir langan og dimman vetur. Það eitt að fylla út fjölskyldukort og skila því inn gefur góða möguleika á veglegum verðlaunum. Athugið að átakinu lýkur 21. maí þegar haldinn verður Göngudagur Fjölskyldunnar og skila verður inn kortum fyrir apríl og maí í síðastalagið 18. maí. Hægt er að nálgast ný fjölskyldukort í Þjónustuanddyri Akureyrarbæjar (Geislagötu 9), Sundlaug Akureyrar eða hjá riturum grunnskólanna, Félagssviði Akureyrarbæjar að Glerárgötu 26 og á heimasíðu verkefnisins www.akureyri.is/12ognu
https://www.akureyri.is/is/frettir/hver-er-besta-leidin
Hver er besta leiðin? Akureyrarbær boðar til opins samráðsfundar um framtíðarlegu tengibrauta við Lundarhverfi í kvöld, þriðjudaginn 26. apríl, klukkan 20.00 á Hótel KEA, undir yfirskriftinni "Hver er besta leiðin?" Dagskrá fundarins er svohljóðandi: Niðurstöður samráðs með íbúum og hagsmunaaðilum í nærliggjandi hverfum. Helstu spurningar varðandi mismunandi kosti – tilraun til svara. Umræður og samráð þar sem allir fundarmenn geta tekið þátt. Fundurinn er í umsjá ráðgjafarfyrirtækisins Alta. Helstu gögn er að finna HÉR
https://www.akureyri.is/is/frettir/hvert-liggur-leid
Hvert liggur leið? Akureyrarbær bauð í gærkvöldi, þriðjudagskvöldið 26. apríl, til opins samráðsfundar á Hótel KEA um fratmíðarlegu tengibrauta við Lundarhverfi. Um 160 íbúar sóttu fundinn sem þótti takast ágætlega þótt að sjálfsögðu kæmu fram skiptar skoðanir um fundarefnið. Spunnust fjörlegar umræður um skipulagsmál svæðisins og stóð fundurinn í hálfa þriðju klukkustund. Það voru fulltrúar frá ráðgjafafyrirtækinu Alta sem stjórnuðu umræðum og var þetta þriðji fundurinn í þessu samráðsferli. Alta ráðgerir að skila niðurstöðum fyrir 9. maí nk. og koma þær þá til frekari vinnslu hjá Akureyrarbæ. Fulltrúar ráðgjafafyrirtækisins Alta stýrðu þessum fjölmenna íbúafundi. Ólafur Jónsson, fulltrúi íbúa í kringum Lundarskóla, var meðal þeirra sem stigu í pontu. Bæjarfulltrúar létu sig að sjálfsögðu ekki vanta á fundinn. Fundurinn á Hótel KEA var afar vel sóttur.
https://www.akureyri.is/is/frettir/thjonustugaedi-i-ferdathjonustu
Þjónustugæði í ferðaþjónustu Á morgun, fimmtudaginn 28. apríl, verður haldin forvitnileg ráðstefna á vegum Ferðamálaseturs Íslands og Viðskiptadeildar Háskólans á Akureyri um þjónustugæði í ferðaþjónustu. Ráðstefnan, sem er öllum opin, verður haldin í stofu L201 í Háskólanum og hefst kl. 13.30. Dagskrá: 13.30 Setning ráðstefnu Dr. Ingjaldur Hannibalsson, prófessor við Háskóla Íslands og stjórnarformaður Ferðamálaseturs Íslands 13.40 Stjórnun þjónustugæða: Fræði og framtíð Hafdís Björg Hjálmarsdóttir, lektor við Viðskiptadeild HA 14.00 Stjórnun þjónustugæða: Minn Garðabær Guðfinna B Kristjánsdóttir, upplýsingastjóri hjá Garðabæ 14.20 Stjórnun þjónustugæða: SPRON sparisjóður Þórný Pétursdóttir, staðgengill framkvæmdastjóra SPRON sparisjóðs 14.40 Kaffihlé 15.10 Stjórnun þjónustugæða: Höldur – Bílaleiga Akureyrar Steingrímur Birgisson, forstjóri Höldurs 15.30 Stjórnun þjónustugæða: Bláa lónið Kári Þór Guðjónsson, markaðsstjóri hjá Bláa lóninu 15.50 Stjórnun þjónustugæða: Forsenda árangurs í ferðþjónustu Jón Karl Ólafssson, verðandi forstjóri Icelandair og stjórnarformaður SAF 16.10 Samantekt erinda Dr. Ingjaldur Hannibalsson, prófessor við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands 16.20 Ráðstefnulok Ráðstefnustjóri er Helgi Gestsson, forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands og lektor við Viðskiptadeild HA. Ráðstefnugestum er boðið að þiggja léttar veitingar í ráðstefnulok.
https://www.akureyri.is/is/frettir/motmaelastada-gegn-ofbeldi
Mótmælastaða gegn ofbeldi Birting - ungt fólk gegn ofbeldi - efnir til þögullar mótmælastöðu gegn ofbeldi kl. 17 í dag, föstudaginn 29. apríl, á Ráðhústorgi. Búist er við fjölda manns á torgið til að mótmæla þeim ofbeldisglæpum sem upp hafa komið í bænum undanfarið. Að lokinni athöfninni leikur KK nokkur lög. Í fréttatilkynningu frá Birtingu segir: "Undanfarin misseri hefur aukið ofbeldi í samfélaginu verið mikið í umræðunni. Nú teljum við að komið sé nóg. Við getum ekki setið aðgerðalaus lengur. Við viljum senda skýr skilaboð bæði til stjórnvalda og almennings og vekja landann til umhugsunar um hve stórt vandamálið er. Saklaust fólk hefur ítrekað orðið fyrir barðinu á ofbeldismönnum sem virðast geta vaðið uppi í samfélaginu án þess að gripið sé til nokkurra aðgerða. Þetta viljum við stöðva! Við skorum því á stjórnvöld jafnt sem almenning að taka til hendinni í þessum málum. Vandinn verður ekki leystur nema allir leggist á eitt. Við búum til okkar eigið samfélag. Boðað er til þögullar mótmælastöðu gegn ofbeldi á Akureyri nk. föstudag, 29. apríl, klukkan 17.00 á Ráðhústorgi. Bæjarbúar eru hvattir til að mæta tímanlega, gefa ofbeldinu rauða spjaldið og sameinast í stuttri þögn. Tónlistarmaðurinn KK mun einnig spila nokkur lög. Sýnum samstöðu í verki. Þessum þöglu mótmælum er beint gegn ofbeldi almennt sem hvorki á að þekkjast í fjölskyldubænum Akureyri né annars staðar. Rauðum spjöldum verður dreift á staðnum. Einnig eru fyrirhuguð mótmæli annars staðar á landinu á næstunni. BIRTING - ungt fólk gegn ofbeldi Að Birtingu stendur öflugur hópur ungs fólks sem vill stuðla að betri ímynd ungs fólks og bættu samfélagi."
https://www.akureyri.is/is/frettir/heimilisfolk-tok-sjalft-fyrstu-skoflustungurnar
Heimilisfólk tók sjálft fyrstu skóflustungurnar Fyrstu skóflustungurnar að nýbyggingu við Öldrunarheimili Akureyrarbæjar Hlíð var tekin í gær af heimilisfólkinu Irene Gook og Alfreð Jónssyni. Einnig var á þeim tímamótum skrifað undir samning við aðalverktakann, Tréverk ehf. Í nýbyggingunni verður hjúkrunarheimili með 60 einstaklingsherbergjum, eldhús, matsalur og búningsaðstaða fyrir starfsfólk. Byggingin verður þrjár hæðir og tæknirými í risi. Er 1. hæð 909,2 m², 2. hæð 1505,6 m², 3. hæð 1497,7 m² og þakhæð 51,6 m², samtals 3.964 m² og 15.292,0 m³. Staðsetning byggingarinnar er vestan við núverandi byggingar, í landhalla, og verður neðsta hæðin í jarðhæð að austan en 2. hæðin í jarðhæð að vestan. Tengigangur verður frá byggingunni yfir í eldri byggingu. Myndirnar hér að neðan voru teknar þegar Irene og Alfreð tóku fyrstu skóflustungurnar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/nordurlandameistarar-i-lundarskola
Norðurlandameistarar í Lundarskóla Nemendur úr 9. bekk í Lundarskóla urðu á þriðjudag Norðurlandameistarar í KappAbel stærðfræðikeppninni. Bæjarstjórinn á Akureyri var meðal þeirra sem tók á móti krökkunum á Akureyrarflugvelli við heimkomuna og sagði við það tækifæri að þessi frábæri árangur bæri vott um mjög gott starf sem unnið sé í skólum bæjarins. Í frétt af heimasíðu Lundarskóla segir: "Þau Auðunn, Eyþór, Kamilla og Sunna sátu við og dýpkuðu verkefni sitt dagana fyrir keppnina og nutu við það dyggrar aðstoðar kennara síns Sigurveigar Maríu Kjartansdóttur. Einnig fengu þau hjálp frá Ásgeiri Alexandersson eðlisfræðispekúlant og Birnu Margréti Arnþórsdóttur enskukennara. Þau fóru síðan til Reykjavíkur þar sem keppnin var haldin mánudaginn 25. apríl og þriðjudaginn 26. apríl. Þátttakendur í keppninni komu frá öllum Norðurlöndunum en eins og stigin sýndu stóð okkar hópur sig lang best af öllum (24 stig af 25 mögulegum). Þess má líka til gamans geta að allur bekkurinn brunaði suður í rútu til að styðja sitt fólk. Sunna, Kamilla, Eyþór og Auðunn komu svo til Akureyrar í morgun (miðvikudag 27. apríl) ásamt Sigurveigu stærðfræðikennara. Á flugvellinum beið allt unglingastig Lundarskóla (160 nemendur) ásamt kennurum, skólastjóra, deildarstjóra skóladeildar, fulltrúa skólanefndar og bæjarstjóra Akureyrarbæjar til að bjóða þau velkomin. Þessi frábæri árangur hvetur nemendur til dáða og styrkir skólastarfið í heild." Norðurlandameisturunum fjórum var vel fagnað við heimkomuna til Akureyrar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyringar-motmaeltu-ofbeldi
Akureyringar mótmæltu ofbeldi Félag ungs fólks gegn ofbeldi - Birting - efndi í dag til mótmælastöðu á Ráðhústorgi á Akureyri gegn ofbeldi. Að sögn lögreglunnar voru um 1.500 manns á torginu sem aðstandendur Biringar telja gott miðað við að í bænum var kalt og aðeins um 6 gráðu hiti að norðan. Tilefni samkundunnar voru ofbeldismál sem upp hafa komið í bænum undanfarið en fólkið í Birtingu tekur fram að þriggja mínútna mótmælastaða gegn ofbeldi, með friði, hafi ekki verið beint gegn ákveðnum einstaklingum eða á móti. Ástæða samkomunnar var að bæjarbúum er nóg boðið að heyra fréttir af ofbeldisverkum í fjölskyldu- og skólabænum Akureyri. Myndirnar hér að neðan voru teknar við mótmælastöðuna og það var enginn annar en KK sem lék sum sín bestu lög að þessu tilefni.
https://www.akureyri.is/is/frettir/hljomar-og-heimir
Hljómar og Heimir Hljómar frá Keflavík og Karlakórinn Heimir úr Skagafirði, undir stjórn Stefáns R. Gíslasonar, leiða saman hesta sína á stórtónleikum í KA-heimilinu á Akureyri laugardaginn 7. maí kl. 16. Þetta eru fjórðu tónleikarnir sem Hljómar og Heimismenn efna til á þessu vori, en áður hafa þeir haldið tónleika á Sauðárkróki, í Stapanum í Reykjanesbæ og Háskólabíói. Á öllum tónleikunum hefur verið framúrskarandi aðsókn og rífandi stemning. Samstarf Hljóma og Heimismanna kom til í framhaldi af Sæluvikuballi í Miðgarði á síðasta ári þar sem Hljómar léku fyrir dansi. Sú hugmynd kviknaði að þessir vinsælu tónlistarmenn ynnu saman og nú hefur hún orðið að veruleika. Á tónleikunum í KA-heimilinu verður blönduð dagskrá. Heimismenn syngja nokkur af sínum þekktu lögum, síðan stíga Hljómar á stokk og flytja nokkur gömul og ný Hljómalög og loks bresta Heimismenn í söng með undirleik Hljóma. Meðal annars verða flutt lög frá gullaldarárum Hljóma og annarra hljómsveita þar sem Hljómar komu við sögu. Til dæmis syngja Álftagerðisbróðirinn Óskar Pétursson og Engilbert Jensen saman "Bláu augun þín" ásamt Karlakórnum Heimi, "Harðsnúna Hanna" kemur við sögu og hið gullfallega lag Gunnars Þórðarssonar, "Þitt fyrsta bros", sem Óskar Pétursson syngur. Þetta er aðeins lítið brot af fjölbreyttri efnisskrá. Hljóma skipa þeir Gunnar Þórðarson, Rúnar Júlíusson, Engilbert Jensen og Erlingur Björnsson. Með þeim á tónleikunum verða Gunnlaugur Briem á trommur og Jón Kjell Seljeseth á hljómborð. Kynnir á tónleikunum verður Óskar Pétursson. Forsala aðgöngumiða er í KA-heimilinu og í verslun Og Vodafone á Glerártorgi. Verð aðgöngumiða er kr. 2.500.
https://www.akureyri.is/is/frettir/launajafnretti-kynjanna
Launajafnrétti kynjanna Föstudaginn 6. maí verður haldið á Akureyri athyglisvert málþing um áhrif kjarasamninga og starfsmats á laun kvenna og karla. Það er Akureyrarbær sem stendur fyrir þinginu en sem kunnugt er hefur nafn bæjarins á ýmsan hátt tengst umræðu um jafnréttismál á umliðnum árum. Yfirskrift málþingsins, sem haldið verður í Ketilhúsinu, er "Launajafnrétti kynjanna: Fjarlægur draumur eða raunhæfur möguleiki?" og er áætlað að það standi frá kl. 13-17. Málþingið er öllum opið og aðgangur ókeypis. Skráning í síma 460 1000 eða netfangið [email protected]. Málþingsstjóri er Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður. Dagskrá: Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri – flytur inngangsávarp. Sigurður Óli Kolbeinsson sviðsstjóri lögfræðisviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga – Kjarasamningar og jafnréttislög. Halldóra Friðjónsdóttir formaður BHM – Nýgerðir samningar BHM við ríkið – skref í átt til launajafnréttis. Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ – fjallar um aðkomu/ábyrgð stéttarfélaga varðandi launamun kynjanna. Birgir Björn Sigurjónsson forstöðumaður kjaraþróunardeildar Reykjavíkurborgar - Markmið Reykjavíkurborgar með starfsmati og innleiðing þess. Margrét María Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu – fjallar um hvernig Jafnréttisstofa getur unnið með atvinnulífinu að launajafnrétti kynjanna. Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytis – Einskært ævintýri...? Valgerður H. Bjarnadóttir fræðikona – fjallar um draumsýnina um launajafnrétti. Málþingið er haldið í tengslum við landsfund jafnréttisnefnda sveitarfélaga sem haldinn er á Akureyri 6.-7. maí.
https://www.akureyri.is/is/frettir/eftirsottar-einbylishusalodir
Eftirsóttar einbýlishúsalóðir Lokið er úthlutun 10 einbýlishúsalóða við Vallartún og Vörðutún í Naustahverfi. Umsóknir voru alls 66, þar af 61 gild. Lóðirnar voru dregnar út að umsækjendum viðstöddum á fundi í ráðhúsinu í dag. Einbýlishúslóðirnar 10 eru í 1. skipulagsáfanga Naustahverfis, við göturnar Vallartún og Vörðutún, næst norðan við bæinn Naust II. Áætlað er að þær verði byggingarhæfar 1. júlí í sumar. Þegar umsóknarfrestur rann út 28. apríl s.l. höfðu 66 umsóknir borist. Við yfirferð umsóknanna reyndust 61 umsækjandi uppfylla sett skilyrði. Á fundi í ráðhúsinu, sem hófst kl. 13:15 í dag, var hver og einn umsækjandi látinn draga sér númeraða kúlu upp úr pappakassa, og þeir sem hlutu lægstu tölurnar stóðu að lokum uppi sem nýbakaðir lóðarhafar. Einstaklingar ganga fyrir byggingarfyrirtækjum við úthlutun einbýlishúsalóða á Akureyri og þurfa þeir að framvísa greiðslumati frá viðurkenndri fjármálastofnun á greiðslugetu sinni. Þeir sem höfðu fengið úthlutað lóð undir einbýlis-, par- eða tvíbýlishús í bænum á sl. 5 árum komu ekki til álita við útdráttinn.
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyringar-hjola-i-vinnuna
Akureyringar hjóla í vinnuna Nú stendur yfir verkefnið “Hjólað í vinnuna”, sem er á vegum ÍSÍ. Margir vinnustaðir á Akureyri taka þátt í þessu verkefni. Í dag eru Síðuskóli og Halldór G Halldórsson ehf. í efstu sætum í viðkomandi stærðarflokkum og leikskólinn Flúðir er í þriðja sæti. Nánar má fræðast um verkefnið á vefslóðinni hjolad.isisport.is. Það stendur til föstudagsins 13. maí nk. Á myndinni er lið Ráðhúsins, sem telur alls 15 manns.
https://www.akureyri.is/is/frettir/misstir-thu-af-stridsarunum
Misstir þú af stríðsárunum? Stríðsárin eru mönnum hugleikin þessa dagana og í dag, föstudaginn 6. maí verður opnuð sýning á Glerártorgi sem tengist þeim hildarleik sem á þessum árum var háður í Evrópu. Einnig verður haldinn ljósmyndafyrirlestur undir yfirskriftinni "Akureyri í hers höndum" sunnudaginn 8. maí. People Who Won the War Mánudaginn 9. maí nk. verða liðin 60 ár frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar. Af því tilefni efnir Rússneska sendiráðið í Reykjavík til sýningarinnar “People who won the war” á Glerártorgi á Akureyri. Á sýningunni verða sýndar 50 ljósmyndir sem sýna ýmis atvik úr þeim hildarleik sem seinni heimsstyrjöldin var. Valery G. Polyakov sendiráðsritari mun opna sýninguna kl. 15 föstudaginn 6. maí n.k. og hún er öllum opin. Sýningunni lýkur sunnudaginn 15. maí. Akureyri í hers höndum 17. maí 1940 tók breski herinn land á Akureyri. Hermennirnir voru ekki gráir fyrir járnum heldur var hörundsliturinn heldur fölur þar sem sjóveiki hafði skotið sér niður í hópinn. Forvitnir bæjarbúar flykktust niður að höfn til að skoða herlegheitin. Nú 65 árum síðar gefst áhugasömum kostur á að svala forvitninni á Minjasafninu á Akureyri. Sunnudaginn 8. maí munu Hörður Geirsson, safnvörður, og Jón Hjaltason, sagnfræðingur, halda ljósmyndafyrirlestur í Minjasafninu á Akureyri um hernám Akureyrar og Eyjafjarðar. Þeir munu í máli og myndum gefa innsýn í líf hermanna á stríðsárunum. Sýndar verða ljósmyndir sem margar hverjar hafa ekki komið áður fyrir sjónir almennings. Einnig verða til sýnis munir frá hermönnum. Fyrirlesturinn hefst kl. 14.00 í Minjasafninu á Akureyri Aðalstræti 58.
https://www.akureyri.is/is/frettir/borgarafundur-unga-folksins
Borgarafundur unga fólksins Í dag kl. 17.00, föstudaginn 6. maí, verður haldinn borgarafundur unga fólksins í sal Brekkuskóla. Á fundinum verður fjallað um uppbyggingu hjólabretta- og línuskatagarðs á Akureyri. Allir sem hafa unun af hjólabrettum og línuskautum, og eins aðstandendur þeirra, eru hvattir til að mæta á fundinn, kynna sér fyrirliggjandi hugmyndir og taka þátt í umræðum um framtíðaruppbyggingu fyrir hjólabretti og línuskauta. Það er Íþrótta- og tómstundaráð Akureyrarbæjar sem boðar til fundarins.
https://www.akureyri.is/is/frettir/mozart-og-mendelssohn-a-tonleikum
Mozart og Mendelssohn á tónleikum Sinfóníuhljómsveit Norðurlands heldur tónleika í Akureyrarkirkju sunnudaginn 8. maí kl. 16.00. Á efnisskrá eru tvö verk eftir W.A.Mozart, forleikur að óperunni Don Giovanni og fiðlukonsert í G-dúr þar sem Greta Guðnadóttir konsertmeistari hljómsveitarinnar leikur einleik. Ennfremur er á efnisskránni sinfónía í A-dúr - Ítalska sinfónían - eftir Felix Menderssohn. Einleikarinn á tónleikunum, Greta Guðnadóttir fiðluleikari, lauk einleikaraprófi úr Tónlistarskólanum í Reykjavík 1983, meistaragráðu frá Manhattan School of Music í New York 1987 og doktorsprófi frá Florida State University í Flórídafylki 1995. Doktorsritgerð hennar er um fiðlutónverk eftir íslensk tónskáld. Greta hefur starfað sem leiðari annarrarfiðludeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands síðan 1992 og kennir við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Síðastliðin tvö ár hefur hún verið konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Greta hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur verið virkur þátttakandi í flutningi kammertónlistar hér á Íslandi. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er að þessu sinni skipuð 40 hljóðfæraleikurum sem koma víðsvegar að af landinu, þó að stærstum hluta sé um að ræða hljóðfæraleikara sem búa og starfa á Norðurlandi. Stjórnandi hljómsveitarinnar er Guðmundur Óli Gunnarsson en hann hefur verið aðalhljómsveitarstjóri SN frá stofnun hennar. Verð aðgöngumiða er 1.500 kr. Eldri borgarar 1.000 kr. Aðgangur ókeypis fyrir 20 ára og yngri.
https://www.akureyri.is/is/frettir/jean-paul-sartre-i-deiglunni
Jean-Paul Sartre í Deiglunni Laugardaginn 7. maí verður haldið málþing í Deiglunni á Akureyri í tilefni 100. ártíðar franska tilvistarspekingsins Jean-Paul Sartre. Þingið hefst kl. 14.00 og er öllum opið. Þann 21. júní hefði franski rithöfundurinn og heimspekingurinn Jean Paul Sartre orðið hundrað ára ef hann hefði lifað. Sartre var einn helsti talsmaður tilvistarstefnunar (existensialism). Í verkum hans koma einnig fram áhrif frá sálgreiningu og marxisma. Ekki hefur farið mikið fyrir Sartre í íslenskri heimspekiumræðu undanfarið en á því verður vonandi breyting með málþinginu "Sartre Sympósíum". Frummælendur eru Páll Skúlason, Jóhann Björnsson, Vilhjálmur Árnason og Ragnar Hólm Ragnarsson. Fundarstjóri er Þórgnýr Dýrfjörð. Merkasta heimspekirit Sartres er L´Etre et le néant (1943) en af skáldsögum hans má nefna La Nausée (1938) og Les chemins de la liberté (1945-49). Sartre var afkastamikið leikskáld og skrifaði m.a. Les Mouches (1943), Huis clos (1944), Les Mains sales (1948; Flekkaðar hendur Þjóðleikhúsið 1951) og LEs Séquestrés d´Altona (1959; Fangarnir í Altona Leikfélag Reykjavíkur 1963). Endurminningar Sartres Les Mots, komu út 1964. Hann hafnaði bókmenntaverðlaunum Nóbels 1964.
https://www.akureyri.is/is/frettir/tillogur-um-nyjan-midbae-kynntar-i-dag
Tillögur um nýjan miðbæ kynntar í dag Mikil og góð þátttaka var í hugmyndasamkeppni um skipulag miðbæjarins á Akureyri undir kjörorðunum "Akureyri í öndvegi". Niðurstöður dómnefndar verða kynntar í Hólum, húsi Menntaskólans á Akureyri, klukkan 15 í dag, og að því loknu verður opnuð sýning á öllum tillögunum. Dagskrá laugardagsins 7. maí: Verðlaunaafhending, opin almenningi, fer fram í Hólum, húsi Menntaskólans á Akureyri, og hefst athöfnin klukkan 15.00. Setning: Andri Teitsson, forstjóri KEA Ávarp, störf dómnefndar: Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri Niðurstöður dómnefndar: Pétur H. Ármannsson, arkitekt Hlín Sverrisdóttir, skipulagsfræðingur Árni Ólafsson, arkitekt Verðlaunaafhending: Ragnar Sverrisson, kaupmaður í JMJ Sýning á tillögum þátttakenda verður opnuð kl. 16.30 að Glerárgötu 36 og stendur til kl. 18.00. Þar verða til sýnis 151 tillaga frá 35 löndum. Sýningin verður opin 10-18 sunnudaginn 8. maí og um hvítasunnuhelgina, dagana 14., 15. og 16. maí frá 13-17.
https://www.akureyri.is/is/frettir/tonleikar-i-tonlistarskolanum
Tónleikar í Tónlistarskólanum Þrennir tónleikar verða haldnir í Tónlistarskólanum á Akureyri á föstudag og laugardag. Tónleikarnir eru hluti af framhaldsprófi nemenda við skólann. Föstudaginn 13. maí kl. 18.30 verða tónleikar í sal skólans að Hvannavöllum 14 þar sem fram kemur Teitur Birgisson, saxófónleikari. Laugardaginn 14. maí verða svo tvennir fiðlutónleikar á sama stað. Kl. 14.00 spilar Unnur Birna Björnsdóttir og kl. 16.00 Pawel og Tomasz Kolosowski. Meðleikari á píanó á öllum tónleikunum er Helga Bryndís Magnúsdóttir. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.
https://www.akureyri.is/is/frettir/vorsyning-listnamsbrautar-vma
Vorsýning listnámsbrautar VMA Laugardaginn 14. maí kl. 13 opnar sýning á verkum nemenda listnámsbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri. Á listnámsbraut skólans eru nú um 120 nemendur á þremur kjörsviðum; hönnun og textíl-, myndlistar- og tónlistarkjörsviði. Frá vorsýningu nemenda 2004. Á sýningunni verða verk nemenda úr verklegum greinum af hönnunar og textíl- og myndlistarkjörsviði. Verkin eru fjölbreytt; vefnaður, tauþrykk, fatnaður (hand- og vélsaumaður), ljósmyndir, málverk, teikningar, grafík, módelteikningar, og þrívíð verk unnin í ýmiskonar efni. Sýningin verður í húsnæði Verkmenntaskólans á Eyrarlandsholti, Hringteigi 2, í nýrri álmu þar sem meðal annars listnámsbrautin er til húsa. Gestum gefst því einnig kostur á að skoða glæsilegar aðstæður brautarinnar. Einnig verða sýndar glærur sem er kynning á listnámsbrautinni og sýnishorn af listfræði fyrirlestrum. Opið verður á laugardag og sunnudag milli kl. 13 og 17 báða daga. Gengið er inn um norðurinngang Verkmenntaskólans á Eyrarlandsholti.
https://www.akureyri.is/is/frettir/landsfundur-jafnrettisnefnda
Landsfundur jafnréttisnefnda Dagana 6. og 7. maí hélt jafnréttis- og fjölskyldunefnd Akureyrarbæjar landsfund jafnréttisnefnda sveitarfélaga. Fundurinn fór fram í Ketilhúsinu og voru til umfjöllunar ýmis málefni sem snerta jafnrétti kynjanna í sveitarfélögum landsins. Í tengslum við landsfundinn boðaði Akureyrarbær til málþings um áhrif kjarasamninga og starfsmats á laun kvenna og karla. Heiti málþingsins var "Launajafnrétti kynjanna: Fjarlægur draumur eða raunhæfur möguleiki?" Málþingið var vel sótt enda um að ræða málefni sem varðar jafnt atvinnurekendur, stéttarfélög og starfsfólk. Fjölmenni var á málþinginu í Ketilhúsinu. Í lok landsfundarins voru samþykktar eftirfarandi ályktanir um launajafnrétti kynjanna, fjölgun kvenna í sveitarstjórnum og um gerð jafnréttisvogar. Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga haldinn á Akureyri 6.-7. maí 2005 ályktar um launajafnrétti kynjanna: Þó mikið hafi áunnist í að jafna stöðu karla og kvenna í íslensku samfélagi síðustu áratugi þá er enn langt í land á mörgum sviðum að jafnrétti hafi náðst. Eitt af því sem enn sker í augu er mikill munur á launum karla og kvenna. Landsfundurinn telur að til þess að hægt sé að leiðrétta þennan ójöfnuð þurfi virkar aðgerðir og samstillt átak atvinnurekenda, stéttarfélaga og stjórnvalda. Eitt tæki til að leiðrétta launamun er samræmt starfsmat. Landsfundurinn skorar á sveitarfélög, sem atvinnurekendur, og stéttarfélög starfsmanna að fella öll störf undir starfsmat þannig að grunnröðun starfa verði samræmd. Annað sem getur stuðlað að launajafnrétti er að afnema launaleynd, afnema ómálefnalegar aukagreiðslur, fjölga körlum í hefðbundnum kvennastörfum og konum í hefðbundnum karlastörfum og auka þátttöku karla í fjölskylduábyrgð. Landsfundurinn skorar á alla aðila vinnumarkaðarins að vinna að þessum málum. Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga haldinn á Akureyri 6.-7. maí 2005 ályktarum nauðsyn þess að fjölga konum í sveitarstjórnum: Nauðsynlegt er að tryggja að kynja- og jafnréttissjónarmið verði höfð til hliðsjónar þegar stillt er upp á framboðslista til sveitarstjórnarkosninga. Landsfundurinn hvetur til þess að sveitarfélög og önnur stjórnvöld stuðli að aukinni þátttöku kvenna í sveitarstjórnum, t.d. með stjórnmálanámskeiðum fyrir konur í haust. Landsfundurinn bendir á að fyrir Alþingi liggur nú tillaga til þingsályktunar frá öllum þingflokkum um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum, sbr. mál nr. 393, þskj. 491. Landsfundurinn skorar á Alþingi að samþykkja þessa tillögu fyrir þinglok. Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga haldinn á Akureyri 6.-7. maí 2005 ályktar um jafnréttisvog: Jafnréttisvog er mælitæki sem gerir samanburð á stöðu jafnréttismála milli sveitarfélaga mögulegan. Fundurinn hvetur félagsmálaráðherra til að beita sér fyrir því að íslensk jafnréttisvog geti orðið að veruleika fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Erindin sem flutt voru á landsfundinum og málþinginu má nálgast á vefsíðunni www.jafnretti.is/gogn/radstefnur/landsfundur2005/landsfundur2005.htm
https://www.akureyri.is/is/frettir/endurbaetur-a-heilsugaeslustodinni
Endurbætur á Heilsugæslustöðinni Á dögunum undirritaði heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, samningur um endurbætur á 3. hæð á heilsugæslunni. Gerðar verða breytingar og bætur á hæðinni og byrja þær seinnipartinn í maí. Áætlað er að breytingarnar taki fimm mánuði og lokið verði við verkið í september. Meðan á framkvæmdum stendur verður allri hæðinni lokað og starfsfólk mun dreifa sér á aðrar hæðir heilsugæslunnar. Þar með verður endurbótum á Heilsugæslustöðinni á Akureyri að mestu lokið og stöðin verður orðin eins og til var ætlast þegar ríkið keypti húsnæðið árið 1994. Samninginn undirrituðu Jón Kristjánsson ráðherra og verktakinn sem sjá mun um verkið, Ingibjartur Jóhannesson hjá Timbursmiðjunni.
https://www.akureyri.is/is/frettir/davidsvaka-i-ketilhusinu
Davíðsvaka í Ketilhúsinu Afmælisveislan í tilefni af 110 ára afmæli Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi heldur áfram. Í janúar voru haldnir hátíðartónleikar og vel sótt málþing um skáldið, auk sýningar í Amtsbókasafninu. Og í kvöld, fimmtudagskvöldið 12. maí, er boðið til kvöldvöku í Ketilhúsinu kl. 20.30. Þar mun Samkór Svarfdæla og félagar hans flytja afar fjölbreytilega dagskrá í tali og tónum. Mest fer fyrir söngatriðum, en einnig verða fluttir þættir úr ævi skáldsins og örleikrit. Auk kórsins sjálfs, koma fram Íris Ólöf Sigurjónsdóttir, Anna Sólveig Sigurjónsdóttir, Hjörleifur Hjartarson, Svana Halldórsdóttir, Guðrún Lárusdóttir, Guðmundur Árnason og Þórarinn Hjartarson. Þeir tveir síðast nefndu flytja nýtt lag Guðmundar við ljóðið Hrafnamóðir. Stjórnandi kórsins er Petra Björk Pálsdóttir og undirleikari er Helga Bryndís Magnúsdóttir. Davíðsvakan er samstarfsverkefni menningarmálanefndar Akureyrar og Samkórs Svarfdæla. Hún hefst kl. 20.30, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
https://www.akureyri.is/is/frettir/graena-landid-a-akureyri
Græna landið á Akureyri Sýning Þjóðleikhússins, Græna landið eftir Ólaf Hauk Símonarson, verður sýnd tvisvar sinnum í Samkomuhúsinu á Akureyri á föstudag og laugardag, 13. og 14. maí. Græna landið hlaut fjórar tilnefningar til Grímunnar - Íslensku leiklistarverðlaunanna síðastliðið vor. Gestasýningar Þjóðleikhússins á Akureyri eru í samstarfi við Leikfélag Akureyrar. Þessi áhrifamikla sýning, um hlutskipti þeirra sem glata minningum löngu áður en lífið hverfur þeim, hefur verið sýnd rúmlega 60 sinnum fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu. Kári Sólmundarson byggingarmeistari reisti á sinni tíð hús sem teygðu sig allt upp til skýjanna. Nú situr hann einn eftir, hans nánustu eru horfnir honum, hver á sinn hátt, og jafnvel minningarnar eru að hverfa. Nema þær sárustu, þær sitja lengst eftir. Heimilishjálpin Lilja, hressileg kona á besta aldri, reynist óvæntur bandamaður og vinur. Er einhver von til að öðlast fyrirgefningu áður en allt hverfur? Ólafur Haukur Símonarson er eitt mikilvirkasta og vinsælasta leikskáld Íslendinga en hann hefur einnig sent frá sér ljóðabækur, smásögur og skáldsögur, skrifað útvarps-, sjónvarps- og kvikmyndahandrit, gefið út hljómplötur með eigin lögum og söngtextum og þýtt bækur, leikrit og kvikmyndir. Leikrit Ólafs Hauks hafa verið sýnd víða en fyrsta leikrit hans sem tekið var til sýninga í Þjóðleikhúsinu var þríleikurinn Milli skinns og hörunds sem sýndur var árið 1984. Í kjölfarið fylgdu Bílaverkstæði Badda, Hafið, Gauragangur, Þrek og tár, Kennarar óskast og Meiri gauragangur. Síðasta verk Ólafs sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu var Viktoría og Georg, sem sýnt var á síðasta leikári. Hafið hlaut Menningarverðlaun DV 1993, var tilnefnt til Norrænu leikskáldaverðlaunanna og valið til sýningar á leiklistarhátíðinni í Bonn. Ólafur Haukur hefur skrifað handrit tveggja kvikmynda, sem báðar byggja á leikritum eftir hann, kvikmyndirnar Ryð og Hafið. Leikritið er samið fyrir þau Gunnar Eyjólfsson og Kristbjörgu Kjeld en auk þeirra leikur Björn Thors í sýningunni. Hann hlaut Grímuna - Íslensku leiklistarverðlaunin sem leikari ársins í aukahlutverki í vor. Tónlist samdi Gunnar Þórðarson, lýsingu hannaði Ásmundur Karlsson, höfundur leikmyndar er Gretar Reynisson og leikstjóri er Þórhallur Sigurðsson. Sýningar á Akureyri verða föstudaginn 13. maí kl. 20.00 og laugardaginn 14. maí kl. 15.00. Miðasala er hjá Leikfélagi Akureyrar í síma 4 600 200, einnig er hægt að kaupa miða á netinu eða með tölvupósti, [email protected]
https://www.akureyri.is/is/frettir/vorsyning-2006
Vorsýning 2005 Árleg vorsýning Myndlistaskólans á Akureyri verður opnuð í húsnæði skólans að Kaupvangsstræti 16, laugardaginn 14. maí kl. 14.00. Þar gefur að líta sýnishorn af því helsta sem nemendur hafa verið að fást við í myndlist og hönnun á þessu skólaári. Á sýningunni er greinargott yfirlit þeirrar vinnu sem nemendur í fornámsdeild hafa fengist við á skólaárinu. Námið er skipulagt með hliðsjón af aðalnámskrá framhaldsskóla og í því felst listrænn og tæknilegur undirbúningur fyrir framhaldsnám á sviði myndlistar, hönnunar og arkitektúrs. Í sérnámsdeildum skólans er fengist við frjálsa myndlist annarsvegar og hönnun hinsvegar. Nám í Fagurlistadeild er fjölþætt, þriggja ára sérhæft nám sem veitir starfsmenntun í frjálsri myndlist. Nemendur fá nauðsynlega þjálfun og tilsögn sem gerir þá hæfari til að takast á við ólík viðfangsefni og fjölbreyttar aðferðir í listsköpun sinni. Í Listhönnunardeild er lögð áhersla á tækniþekkingu og frumlega framsetningu hugmynda. Á þremur árum öðlast nemendur yfirgripsmikla þekkingu og þjálfun í faginu sem gerir þá hæfa til að fást við krefjandi verkefni á sviði hönnunar fyrir prentmiðla eða margmiðlun. Auk þess sem að ofan er talið verða sýnd verk eftir börn sem hafa stundað nám í barnalistadeild skólans um lengri eða skemmri tíma. Vorsýning Myndlistaskólans á Akureyri verður opin hvítasunnuhelgina kl. 14.00 – 18.00 í húsnæði Myndlistaskólans að Kaupvangsstræti 16, og eru allir hjartanlega velkomnir. Heimasíða skólans: www.myndak.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/ny-syning-a-listasafninu-2
Ný sýning á Listasafninu Sunnudaginn 15. maí kl. 11 árdegis verður opnuð samsýning á nýjum verkum eftir bandaríska ofurstirnið Matthew Barney (barnsfaðir Bjarkar Guðmundsdóttur söngkonu) og Gabríelu Friðriksdóttur, en hún verður fulltrúi Íslands á Feneyjar-tvíæringnum í sumar sem kalla mætti Ólympíuleika myndlistarinnar. Ástæðan fyrir þessum óvanalega opnunartíma er sú að sýningin er hluti af Listahátíð í Reykjavík og mun fjöldi erlendra blaðamanna og gagnrýnenda verða viðstaddir opnunina, ásamt forseta Íslands, menntamálaráherra og borgarstjóranum í Reykjavík. Boðið verður til dögurðar í hlaðvarpanum og sér Einar Geirsson landsliðskokkur á Karólína Restaurant og hans fólk um veitingarnar. Yfirskrift myndlistarhluta Listahátíðar er tími, rými, tilvera. Gabríela sýnir í miðsalnum verkið Operazione oesophagus (latína: aðgerð á vélinda) sem var unnið sérstaklega fyrir Listasafnið með hliðsjón af framlagi Matthew Barney, en það samanstendur af teikningum og málverkum, skúlptúr og myndbandsverki á þremur skjám. Í austursal safnsins mjá sjá myndbandið Hoist eftir Matthew Barney á stórum plasmaskjá og er hér um frumsýningu á verkinu að ræða. Hins vegar getur að líta sérstaka útgáfu á kvikmyndinni De Lama Lâmina (portúgalska: Úr leðju blað) í vestursal safnsins sem Barney gerði fyrir sýninguna. Auk þess eru skúlptúrar, teikningar og ljósmyndir eftir Barney á sýningunni sem spruttu út frá áðurnefndum verkum. Þegar þau komu saman fyrst til að ræða undirbúninginn fyrir þessa sameiginlegu sýningu ákváðu þau að vinna út frá orðunum mold, gubb og slím og höfðu þau að leiðarljósi við vinnslu verkanna. Segja má að bæði Barney og Gabríela komi til dyra eins og þau eru klædd; fígúran sem bregður fyrir í skúlptúr og myndbandi Gabríelu er nánast nakin og skartar ofvöxnum og ákaflega loðnum sköpum; í þessu verki breytist vélindað eiginlega í sögupersónu, stígur út úr líkamanum og fer gubbandi á stjá. Gabríela ýkir kvensköpin en Barney notar aftur á móti mjög raunsæja lýsingu á hinum reista lim, samfarataktinum og að lokum sáðfalli aðalpersónunnar, Greenman, í Hoist . Slímugur vökvi kemur út um líkamsop á efri hluta búksins hjá Gabríelu en hið sama gerist neðan við mitti hjá Matthew Barney. Áherslan á ýkt kynfæri, getnað og líkamsop vísar í þann sterka frumkraft sem drífur lífið áfram, sjálfan lífsneistann. Sjá einnig heimasíðu safnsins: http://www.listasafn.akureyri.is/ . Safnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17.
https://www.akureyri.is/is/frettir/ortrod-vid-listasafnid
Örtröð við Listasafnið Mikill mannfjöldi var við opnun sýningarinnar "Hoist" í Listasafninu á Akureyri í morgun. Þar sýna Gabríela Friðriksdóttir og Matthew Barney verk sín og er sýningin hluti af Listahátíð 2005. Tvær fullar flugvélar lentu á Akureyrarvelli um kl. 11.30 og var gestum ekið beint upp í Listagil að sjá sýninguna. Þetta flug var hluti af "Listflugi" og var fólkið að koma frá Ísafirði. Héðan var ferðinni heitið til Egilsstaða og Seyðisfjarðar og lýkur hringferðinni um landið í Vestmannaeyjum. Í hópnum voru meðal annarra forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, og borgarstjórinn í Reykjavík, Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Fólkinu var boðið í léttan hádegisverð úti undir beru lofti við Listasafnið, enda veðurblíðan einstök. Myndirnar hér að neðan tala sínu máli.
https://www.akureyri.is/is/frettir/heimahjukrun-faer-hofdinglega-gjof
Heimahjúkrun fær höfðinglega gjöf Elton John félag Menntaskólans á Akureyri færði á dögunum heimahjúkrun veglegan styrk, eða hvorki meira né minna en 60.000 kr. Félagsmenn Elton John félags MA, eða EMA eins og það er skammstafað, ákváðu að safna og gefa peninga til góðra málefna líkt og Elton John hefur gert. Formaður félagsins Vilhjálmur Bergmann Bragason, nemandi í MA, sagði félagið hafa ákveðið að færa einhverju félagi/samtökum peningagjöf og að heimahjúkrun hafi orðið fyrir valinu að þessu sinni. Vilhjálmur sagði ástæðuna fyrir vali þeirra vera meðal annars vegna þess að heimahjúkrun hjálpar öllum, óháð aldri og sjúkdómum og einnig vegna þess að með þessu móti kæmu peningarnir að notum hér í bænum. Peningnum safnaði félagið með því að halda skemmtikvöld í skólanum þar sem meðal annars voru seldir happdrættismiðar, en allur ágóði skemmtikvöldsins rann óskert til heimahjúkrunar. Heimahjúkrun var að vonum afar þakklát þessari veglegu gjöf og kann þeim EMA-félögum bestu þakkir fyrir.
https://www.akureyri.is/is/frettir/nyr-flygill-vigdur
Nýr flygill vígður Tónlistarfélag Akureyrar og menningarmálanefnd bæjarins efna á laugardag til tónlistarviðburðar í Ketilhúsinu á Akureyri. Tilefnið er að keyptur hefur verið vandaður flygill í Ketilhúsið. Þar með getur húsið loksins staðið undir nafni sem tónleikahús. Tónlistarfólk hefur hælt mjög hljómburði Ketilhússins og þykir salurinn henta mjög vel fyrir smærri tónleika, einsöngs- og einleikstónleika, kammertónleika og þess háttar viðburði. Skortur á slíkum sal með sómasamlegu hljóðfæri hefur einmitt staðið tónlistarflutningi á Akureyri fyrir þrifum um árabil. Flygillinn verður vígður formlega klukkan tvö á laugardag með tónleikum Tónlistarfélags Akureyrar og menningarmálanefndar Akureyrarbæjar. Daníel Þorsteinsson píanóleikari skipuleggur tónleikana og fræðir tónleikagesti um tónlistina sem flutt verður. Auk Daníels kemur fram sellóleikarinn Ülle Hahndorf og messósópransöngkonan Sigríður Aðalsteinsdóttir. Á dagskránni verða íslensk sönglög, aríur eftir Mozart, verk fyrir selló og píanó eftir Fauré, píanóverk eftir Webern, Chopin o.fl. Þegar Tónlistarfélag Akureyrar var endurvakið á liðnu hausti var því af hálfu Akureyrarbæjar falið að stuðla að tónlistarflutningi í Ketilhúsinu en sá galli var á gjöf Njarðar að ekkert hljóðfæri var til í húsinu. Það var því eitt af fyrstu baráttumálum núverandi stjórnar félagsins að þrýsta á um að keyptur yrði flygill í Ketilhúsið. Þeim áfanga hefur nú verið náð. Flygillinn er handsmíðaður í japönsku hljóðfærasmiðjunni Kawai, nokkurs konar Spari-Kawai. Hafa margir af fremstu píanóleikurum landsins lokið lofsorði á þessi hljóðfæri og borið þau saman við hljóðfæri frá virtustu píanósmiðjum. Píanóleikarar eru þegar farnir að óska eftir því að fá að halda einleikstónleika í Ketilhúsinu.
https://www.akureyri.is/is/frettir/uppnam-2005
UPPNám 2005 Laugardaginn 21. maí ætla nemendur á 4. ári félagsfræðibrautar í Menntaskólanum á Akureyri að kynna rannsóknarverkefni sín í lokaáfanga í uppeldisfræði. Kennari áfangans er Dagbjört Brynja Harðardóttir. Um er að ræða ráðstefnu sem ber heitið UPPNám 2005. Hún hefst klukkan 10:00 í Kvos Menntaskólans á Akureyri og lýkur klukkan 15:00. Allir eru velkomnir hvort sem er í stutta eða langa heimsókn. Veitingar verða í boði ýmissa fyrirtækja. Umfjöllunarefni verða af ýmsum toga. Fjallað verður m.a. um samkynhneigð og viðhorf grunnskólanemenda, tónlistarmyndbönd og áhrif þeirra á unglingsstúlkur, stöðu íslenskra drengja í framhaldsskólum, lífstíl íslenskra barna, viðhorf leikskólabarna til vaxtarlags, ungbarnanudd, einelti og SMS- og netnotkun ungmenna. Einnig verða hönnunarverkefni nemenda til sýnis. Þessi verkefni eru unnin upp úr niðurstöðum rannsókna þeirra og ætluð m.a. til forvarna, fræðslu og úrræða. Sem dæmi má nefna fræðslubæklinga, nuddgalla, barnabækur, veggspjöld, heimasíður og kennsluefni. Markmið ráðstefnunnar eru að gefa nemendum færi á að miðla þekkingu sinni sem þeir hafa aflað sér með rannsóknum sínum, þjálfa þá í að koma hugmyndum og niðurstöðum sínum á framfæri, efla sjálfstæði þeirra í faglegum vinnubrögðum um leið og gefa fólki innsýn í störf nemenda í Menntaskólanum á Akureyri. Einnig má líta á þessa ráðstefnu sem leið til að brúa bil á milli skólastiga en boðsgestir koma m.a. frá öllum skólastigum og er von okkar sú að ráðstefnan komi til með að svara ýmsum spurningum og vekja upp aðrar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/leiklistarnamskeid-fyrir-born-og-fullordna
Leiklistarnámskeið fyrir börn og fullorðna Í júní hefjast leiklistarnámskeið hjá LA, en námskeið LA s.l. haust slógu algerlega í gegn og var troðfullt á öll námskeiðin. Yfir 100 krakkar á aldrinum 8 – 14 ára tóku þátt og hafa margir hverjir sýnt leiklist lifandi áhuga síðan m.a. með því að vera fastagestir í leikhúsinu í vetur! Því verður fjörið endurtekið. Leiklistarnámskeið eru sambland af skemmtun og alvöru, á þeim fá nemendur þjálfun í að koma fram fyrir framan aðra, aukið sjáfstraust og hvatningu til að hugsa sjálfstætt, grunnþjálfun í sviðsframkomu og leiktækni. Markmiðið er að efla einbeitingu, frumkvæði, skapandi hugsun og tilfinningalegt innsæi nemenda sem og að þroska með þeim hæfileikann til að vinna í náinni samvinnu með öðrum. Kennslan fer fram með æfingum og leikjum. Farið verður í spuna, leikhússport og æfðar stuttar senur eftir því sem efni standa til. Nemendur og kennari spinna sig saman gegnum ævintýri leikhússins. Leiklistarnámskeið fyrir fullorðna eru nýjung hjá LA. Þau eru fyrir fólk sem vill láta gamla drauma rætast eða gera eitthvað nýtt og skemmtilegt. Á þeim námskeiðum verða æfðar senur, draumasenur þátttakenda eða senur sem nemendur velja í samráði við kennara. Á námskeiðinu fá nemendur þjálfun í að koma fram, tjá sig, kynnast sjálfum sér og leika sér! Kennt verður á sviði leikhússins og nemendur kynnast krókum og kimum hússins. Námskeiðin verða sem hér segir: 8 – 9 ára: 6. – 16. júni. Kennt frá mánudegi til fimmtudags kl. 13 – 15. 10 – 11 ára: 6. – 16. júní. Kennt frá mánudegi til fimmtudags kl. 15. 30 – 17.30 12 – 14 ára: 20. – 30. júní. Kennt frá mánudegi til fimmtudags kl. 15.30 – 17.30 15. ára og eldri: 6. – 29. júní. Kennt á mánudögum og miðvikudögum kl. 20.00 – 22.00 Fullorðnir: 7. – 30. júni. Kennt á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 20 til 22. Enn eru nokkur sæti laus á námskeiðin. Öll námskeiðin eru 8 skipti, kennt er 2 tíma í senn. Kennari Hildigunnur Þráinsdóttir Verð: 8000 Hægt er að skrá sig á netfangið [email protected] eða í síma 862 8011 eftir klukkan 17. á daginn. Nánari upplýsingar á heimasíðu LA: leikfelag.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/opnun-vefsidu
Opnun Vefsíðu Á sýningunni Norðurland 2005, sem haldin var í Íþróttahöllinni 13.-15. maí sl.,opnaði Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar-og viðskiptaráðherra, nýjan vef Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi undir vefslóðinni www.nordurland.is. Á vefsíðunni er að finna helstu upplýsingar um ferðamöguleika, afþreyingu og annað sem þarf til að skipuleggja ferð um Norðurland. Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi er í eigu ferðamálasamtaka Norðurlands eystra og Norðurlands vestra og starfar fyrir ferðaþjónustufyrirtæki og sveitarfélög á Norðurlandi. Helsta hlutverk hennar er að samræma og sjá um almenna kynningu á Norðurlandi sem ferðamannasvæði í samvinnnu við ferðaþjónustufyrirtækin. Framkvæmdastjóri Markaðsskrifstofunnar er Kjartan Lárusson.
https://www.akureyri.is/is/frettir/naustahverfi-ii-af-tillaga-ad-deiliskipulagi
Naustahverfi, II. áf. - tillaga að deiliskipulagi Bæjarstjórn Akureyrar auglýsir hér með skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.b. tillögu að deiliskipulagi II. skipulagsáfanga Naustahverfis. II. áfanginn liggur vestan I. áfanga, sem er í byggingu, og afmarkast sá fyrrnefndi af golfvelli að vestan og af Tjarnarhól að norðan. Stærð skipulagssvæðisins er 19,9 ha og er gert ráð fyrir alls 432 íbúðum samkvæmt tillögunni í húsum af ýmsum gerðum. Tillöguuppdrættir og skýringargögn munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, til föstudagsins 1. júlí 2005, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillöguna og gert við hana athugasemdir. Tillagan er einnig birt hér á heimasíðunni: Tillöguuppdráttur (PDF, 630k) ... Skýringaruppdráttur (PDF, 670k) ... Greinargerð og skilmálar (PDF, 260k) Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna rennur út kl. 16:00 föstudaginn 1. júlí 2005 og skal athugasemdum skilað til Umhverfisdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við auglýsta tillögu innan þessa frests telst vera henni samþykkur. 20. maí 2005 Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/sermerkt-staedi-fatladra-a-einkalodum
Sérmerkt stæði fatlaðra á einkalóðum Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í gær, 19. maí, að frá og með 26. ágúst nk. verði lögð aukastöðugjöld á þá sem leggja án heimildar í sérmerkt stæði fatlaðra á einkalóðum. Hér er um að ræða brýnt hagsmunamál fyrir fatlaða og verður gerð gangskör í því að stæði ætluð þeim verði ekki notuð af öðrum. Vegna umræðu um sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða inni á einkalóðum hjá Reykjavíkurborg og samskipta fulltrúa fatlaðra um sama mál hjá Akureyrarbæ var ákveðið á fundi í framkvæmdastjórn að setja á laggirnar vinnuhóp til að fara yfir málið í ljósi niðurstöðu lögmanns Reykjavíkurborgar, um að ekkert væri því til fyrirstöðu að leggja sektir á þá sem leggja án heimildar í sérmerkt stæði fatlaðra á einkalóðum. Niðurstaða vinnuhópsins var að leggja til að lagt verði aukastöðugjöld á þá sem leggja án heimildar í sérmerkt stæði fatlaðra á einkalóðum. Það er ljóst að þetta er mikið hagsmunamál fyrir fatlaða, meðal annars í ljósi þess að þeim er þessi réttur tryggður með lögum, en í skipulags- og byggingarlögum er kveðið á um að fasteignaeigendur skuli sérmerkja stæði fyrir fatlaða á lóðum sínum. Réttur þeirra um aðgengi að þessum stæðum er ekki alltaf virtur og því nauðsynlegt tryggja þeim þann rétt. Þessi réttur þeirra verður ekki tryggður nema með einhvers konar eftirliti, t.d. með því að stöðumælavörður fari um bæinn og gefi stæðunum gætur.
https://www.akureyri.is/is/frettir/ert-thu-med-sniduga-uppakomu-i-sumar
Ert þú með sniðuga uppákomu í sumar? Nú er unnið að bæklingi þar sem auglýstir verða viðburðir og uppákomur á Akureyri í júní, júlí og ágúst. Bæklingurinn verður borinn í öll hús á Akureyri, auk þess sem hann mun liggja frammi á helstu viðkomustöðum ferðamanna. Hér er á ferðinni leiðarvísir um alla meiriháttar viðburði sem eru á döfinni í bænum í sumar og verður hann með svipuðu sniði og sá sem gefinn var út í lok febrúar. Allir sem standa fyrir skemmtilegum viðburðum í sumar eru hvattir til að senda inn upplýsingar – dagsetningu, tíma, dagskrá og stutta lýsingu – á netfangið [email protected]
https://www.akureyri.is/is/frettir/mikid-um-ad-vera-i-hlidarskola
Mikið um að vera í Hlíðarskóla Undanfarið hafa nemendur og starfsfólk Hlíðarskóla norðan Akureyrar haft í nógu að snúast því fimmtudaginn 26. maí kl. 14 opna þau myndlistarsýningu í Deiglunni. Þann sama dag verður verður frumsýning á nýrri kvikmynd sem kvikmyndaklúbbur skólans hefur gert í Nýja Bíói kl. 15. Ókeypis er á sýninguna í Nýja Bíói. Myndlistarsýningin í Deiglunni verður opin á fimmtudag og föstudag frá kl. 14-17.
https://www.akureyri.is/is/frettir/gongudagur-fjolskyldunnar-lok-heilsueflingarataksins-ldquo-einn-tveir-og-nu-rdquo
Göngudagur fjölskyldunnar - Lok heilsueflingarátaksins “Einn, tveir og nú!” Í vetur hefur Heilsueflingarráð Akureyrar staðið fyrir heilsueflingarátakinu “Einn, tveir og nú!” þar sem fyrst og fremst hefur verið lögð áhersla á að virkja börn á grunnskólaaldri og foreldra þeirra til reglulegrar hreyfingar. Átakinu lýkur nk. sunnudag, 29. maí kl. 13-16, með Göngudegi fjölskyldunnar. Miðstöð Göngudags fjölskyldunnar verður á tjaldsvæðinu að Hömrum, sunnan Akureyrar, og verður þar fjölbreytt dagskrá. Boðið verður upp á gönguferðir með leiðsögn um Kjarnaskóg þar sem áhersla verður lögð á sögu skógarins, vistkerfið og gróðurinn sem fyrir augu ber, einnig verður gönguferð um skóginn þar sem fornminjar á svæðinu verða skoðaðar og saga Kjarnabæjarins rakin, Ferðafélag Akureyrar mun kynna gönguleiðir og nýjum kortum af gönguleiðum á Akureyri og nágrenni verður dreift. Boðið verður upp á kynningu á stafagöngu og frisbígolfi, ennfremur verða ratleikir og útileikir. Þá verður boðið upp á ókeypis veitingar og tónlistaratriði, en öll áðurnefnd dagskráratriði eru öllum opin án endurgjalds. Einnig verða afhent verðlaun fyrir þátttöku í “Einn, tveir og nú!” í apríl og maí. Sem fyrr segir hefur heilsueflingarátakið “Einn, tveir og nú!” staðið í allan vetur – eða frá því í september 2004. Fjölskyldur hafa skráð hverskyns hreyfingu á fjölskyldukort sem síðan hefur verið skilað inn og í hverjum mánuði hafa síðan verið dregin út tíu kort og eigendur þeirra verið verðlaunaðir fyrir þátttökuna með gjöfum frá 66° Norður, Skautahöllinni, Hlíðarfjalli, Sundlaug Akureyrar og Landsbankanum. Alls hafa liðlega fjögur þúsund manns tekið þátt í átakinu og um 200 fjölskyldumeðlimir fengið verðlaun fyrir að skila inn fjölskyldukorti. Heilsueflingarráð Akureyrar hvetur grunnskólabörn, fjölskyldur þeirra og aðra Akureyringa til aukinnar hreyfingar og þátttöku á Göngudegi fjölskyldunnar. Nánari upplýsingar veita: María Helena Tryggvadóttir, starfsmaður Heilsueflingarráðs, í síma 460 1468 eða Bryndís Arnarsdóttir, formaður Heilsueflingarráðs í síma 460 1454
https://www.akureyri.is/is/frettir/hlidarfjall-snjogerdarkerfi-tillaga-ad-breytingu-a-deilisk
Hlíðarfjall, snjógerðarkerfi, tillaga að breytingu á deiliskipulagi Bæjarstjórn Akureyrar auglýsir hér með skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.b. tillögu að breytingum á deiliskipulagi svifbrautar í Hlíðarfjalli. Breytingarnar felast í því að gildissvæði skipulagsins er stækkað og inn á það bætt mannvirkjum sem tengjast fyrirhuguðu snjógerðarkerfi fyrir skíðasvæðið; þ.e. söfnunarlóni fyrir vatn, dælustöð og lagnaleiðum fyrir vatn og rafmagn. Heiti skipulagsins verði eftir breytingu: Deiliskipulag í Hlíðarfjalli – Svifbraut og snjógerðarkerfi. Tillöguuppdráttur mun liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, til föstudagsins 8. júlí 2005, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillöguna og gert við hana athugasemdir. Tillagan er einnig birt hér á vef Akureyrarbæjar: Tillöguuppdráttur (pdf, 1300 k) .... Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna rennur út kl. 1600 föstudaginn 8. júlí 2005 og skal athugasemdum skilað til Umhverfisdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við auglýsta tillögu innan þessa frests telst vera henni samþykkur. 27. maí 2005 Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/blasaramot
Blásaramót Núna um helgina, 28. til 29. maí, stendur Tónlistarskólinn á Akureyri fyrir blásarasveitamóti á Akureyri. Frumkvæði að mótinu kemur frá Lúðrasveit Akureyrar en aðalstjórnandi hennar er Kaldo Kiis, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans. Um nýjung er að ræða í tónlistarlífi bæjarins því blásarasveitamót með þessu sniði hefur ekki áður verið haldið með þátttöku valinna hljómsveita. Aðstandendur mótsins vona að svo vel takist til að viðburðurinn festi sig í sessi í menningarflóru bæjarins. Gestahljómsveitir koma frá Dalvík, Blönduósi og S-Þingeyjarsýslu. Sérstakir gestir helgarinnar eru félagar í Big Band hljómsveit FÍH undir stjórn Edwards Frederiksen. Hljómsveitirnar munu hafa aðsetur í Brekkuskóla og mæta þar snemma á laugardagsmorgninum þar sem æft verður bæði saman og hver í sínu lagi. Á milli klukkan 14.00 og 16.30 á laugardag verður brugðið á leik og hljómsveitirnar heimsækja Sundlaug Akureyrar, verslanirnar Bónus og Hagkaup, Glerártorg og Blómaval, og spila fyrir fólk sem á þar leið um. Á laugardagskvöld verða tónleikar Big Band hljómsveitar FÍH kl 21.00 í Ketilhúsinu. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Mótinu lýkur á sunnudag með tónleikum í Brekkuskóla, nýju byggingunni, kl 10.30 þar sem allar hljómsveitirnar koma fram. Bæjarbúar eru hvattir til að fjölmenna bæði á tónleikana í Ketilhúsinu á laugardagskvöld og síðan á lokatónleikana í Brekkuskóla á sunnudag. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Tónlistarskólans á Akureyri www.tonak.is.
https://www.akureyri.is/is/frettir/verdlaun-veitt
Verðlaun veitt Á Göngudegi fjölskyldunnar í Kjarnaskógi sl. sunnudag voru afhent verðlaun fyrir þátttöku í heilsueflingarátakinu “Einn tveir og nú!” í apríl og maí 2005, en átakinu lauk formlega í gær. Að venju voru dregin út tíu fjölskyldukort fyrir annars vegar apríl og hins vegar maí og voru eigendur þeirra verðlaunaðir. Þátttakan í Göngudegi fjölskyldunnar var ágæt, en boðið var upp á skemmtilegar gönguferðir um Kjarnaskóg og Hamrasvæðið, ratleik, kennslu í stafagöngu og frisbígolfi o.fl. Einnig var Ferðafélag Akureyrar með kynningu á gönguleiðum í nágrenni Akureyrar og víðar, jafnframt því sem félagið kynnti ferðaáætlun sumarsins.Göngudagurinn markaði lok heilsueflingarátaksins Einn, tveir og nú!, sem hefur staðið í allan vetur og hefur haft það markmið að fá grunnskólabörn til að stunda holla líkamshreyfingu með foreldum sínum. Óhætt er að segja að skátar hafi lyft Grettistaki í uppbyggingu Hamrasvæðisins. Búið er að koma upp mjög skemmtilegum tjörnum á svæðinu með bátum og ýmsum öðrum leiktækjum sem hafa aðdráttarafl á börnin og þá er ætlunin að koma mjög fljótlega upp varanlegum búnaði fyrir frisbígolf, sem er bráðskemmtileg íþrótt sem er fyrir alla fjölskylduna. Tjaldsvæðið á Hömrum nýtur vaxandi vinsælda og hefur aðsókn að því aukist ár frá ári, enda ekki skrítið þegar aðstaðan á svæðinu er orðin eins og raun ber vitni. Eftirtaldir duttu í lukkupottinn fyrir þátttöku í “Einn tveir og nú!” í apríl: 1. Fjölskyldan Grundargerði 6c – Dagný Hlín Rafnsdóttir, Rafn og Una Dagný Hlín Rafnsdóttir, 7 ára, fékk flíspeysu frá 66°N. 2. Fjölskyldan Sólvöllum 11 – Unnur, Lilja, Jón Haukur, Fjölnir og Hugrún Anna Unnarsbörn. Jón Haukur, 13 ára, Fjölnir, 8 ára, og Hugrún Anna, 2 ára, fengu öll að launum bakpoka frá 66°N. 3. Fjölskyldan Steinahlíð 2a – Haukur Gunnarsson, Jenný Gunnarsdóttir, Gunnar Gunnarsson og Birgitta Níelsdóttir. Haukur, 6, ára, og Jenný, 12, ára, fengu bæði bakpoka frá 66° Norður. 4. Fjölskyldan Stapasíðu 15d – Sigurður Traustason, 7 ára, Harpa Marín Traustadóttir, 11 ára, og Katrín Lóa Traustadóttir, 9 ára. Fengu að launum sundkort fyrir fjölskylduna. 5. Fjölskyldan Lönguhlíð 5f – Jónas Mitt Kuusmik, 10 ára. Fékk að launum sundkort fyrir fjölskylduna. 6. Fjölskyldan Huldugili 43b – Sigurður, Heiða Björk Sigurðardóttir og Mikael Máni Sigurðsson, 2 ára. Fengu að launum sundkort fyrir fjölskylduna. 7. Fjölskyldan Norðurgötu 19 – Gunnþór, Stefanía og Kristján Gunnþórsson Fengu að launum sundkort fyrir fjölskylduna. 8. Snjólaug Jóhannesdóttir, Skarðshlíð 219 Fékk gjöf frá Landsbankanum. 9. Fjölskyldan Eyrarlandsvegi 8 – Lísa Rún Arngrímsdóttir og Ingi Þór Arngrímsson. Lísa Rún, 13 ára, og Ingi Þór, 10 ára, fengu gjafir frá Landsbankanum. 10. Fjölskyldan Espilundi 11 – Katrín, Þórarinn, Agnes Eva, Steinar Gauti og Auðunn Elfar Þórarinsbörn. Agnes Eva, 12, ára, Steinar Gauti, 9 ára, og Auðunn Elfar, 2 ára, fengu gjafir frá Landsbankanum. Fyrir þátttöku í “Einn, tveir og nú!” í maí 2005 fengu eftirtalin verðlaun: 1. Fjölskyldan Háalundi 11 – Guðmundur, Ingibjörg, Helga María, Berglind Björk, Guðrún Rut og Baldur Ingimar Guðmundsbörn Helga María, 5 ára, Berglind Björk, 7 ára, Guðrún Rut, 9 ára, og Baldur Ingimar, 2 ára, fengu öll bakpoka frá 66°N. 2. Fjölskyldan Stekkjargerði 5 – Baldvin Orri Smárason, Rakel Heba Smáradóttir og stúlka Smáradóttir. Rakel Heba, 5 ára, Baldvin Orri, 11 ára, og stúlka Smáradóttir, 5 mánaða, fengu öll að launum bakpoka frá 66°N. 3. Fjölskyldan Stekkjartúni 1 – Ólöf, Sigurður, Ingibjörg Ragna Malmquist og Magnús Már Sigurðsson, Ingibjörg Ragna, 15 ára, og Magnús Már, 10 ára, fengu bæði bakpoka frá 66° Norður. 4. Fjölskyldan Norðurgötu 53 – Viðar Þór Pálsson, Sólveig Styrmisdóttir, Ásta Rakel og Katrín Karítas Viðarsdætur. Fengu að launum sundkort fyrir fjölskylduna. 5. Fjölskyldan Grundargerði 6j – Kristján Valur, María, Eygló Björk Arnórsdóttir og Katla María Kristjánsdóttir. Fengu að launum sundkort fyrir fjölskylduna. 6. Fjölskyldan Heiðarlundi 7b – Arnar Burkni, 4 ára, Bergljót 8 ára, og Vignir, 6 ára, Gunnarsbörn. Fengu að launum sundkort fyrir fjölskylduna. 7. Fjölskyldan Spónsgerði 5 – Jón Sveinbjörn Vigfússon, Hafdís Björg Bjarnadóttir, Rósa Björg, Helena og Sveinn Brimar Jónsbörn. Fengu að launum sundkort fyrir fjölskylduna. 8. Fjölskyldan Furulundi 6j – Guðný, Halldór og Andrea Rún Halldórsdóttir. Andrea Rún fékk gjöf frá Landsbankanum. 9. Fjölskyldan Dalsgerði 5j – Brynhildur, Baldur, Arnar Freyr, Guðmundur Orri og Sigrún Harpa Baldursbörn. Arnar Freyr, 12 ára, Guðmundur Orri, 8 ára, og Sigrún Harpa, 6 ára, fengu gjafir frá Landsbankanum. 10. Fjölskyldan Flötusíðu 6 – Þórólfur og Ásbjörn Guðlaugssynir. Tvíburarnir Ásbjörn og Þórólfur, 3ja ára, fengu gjafir frá Landsbankanum.
https://www.akureyri.is/is/frettir/utskrift-menntasmidja-unga-folksins
Útskrift - Menntasmiðja unga fólksins Þann 25. maí sl. útskrifaðist fjórði nemendahópurinn úr Menntasmiðju unga fólksins en smiðjan sú er tilraunaverkefni á vegum Menntasmiðjunnar á Akureyri. Nemendurnir hafa stundað námið síðan 19. janúar sl. og útskrifuðust 10 manns í þetta sinn. Hópurinn er á aldrinum 17-29 ára af báðum kynjum og eru Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar og Svæðisvinnumiðlun Norðurlands eystra, helstu samstarfsaðilar Menntasmiðjunnar í þessu verkefni. Námið í Menntasmiðju unga fólksins er byggt á reynslunni úr Menntasmiðju kvenna og sömu hugmyndafræði. Námið er þríþætt þ.e. sjálfsstyrkjandi, hagnýtt og skapandi. Ungmennin hafa með þessu námi fengið tækifæri til að staldra við og skoða stöðu sína í margvíslegu samhengi. Fundið styrk sinn í nýjum hlutum, skilgreint veikleika sína og skoðað nýja möguleika í lífinu. Þau hafa í hinum ýmsu námsþáttum unnið að fjölbreyttum verkefnum, huglægum og verklegum. Í september 2005 hefst námskeið í Menntasmiðju kvenna en næsta Menntasmiðja fyrir ungt fólk hefst í janúar 2006.
https://www.akureyri.is/is/frettir/framruduklukkur
Framrúðuklukkur Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær, 31. maí, að breyta samþykktum fyrir Bifreiðastæðasjóð þannig að frá og með 26. ágúst nk. mun í stað stöðumæla og fjölmæla verða teknar upp framrúðuklukkur. Fimmtudagurinn 25. ágúst 2005 verður því síðasti dagurinn sem stöðumælar verða notaðir í miðbæ Akureyrar. Eftir það verður öllum sem leggja í miðbæ Akureyrar skylt að hafa framrúðuklukku á mælaborðinu eða límda á framrúðuna sem sýnir hvenær bílnum var lagt í stæðið. Öll bílastæði bæjarins verða því gjaldfrjáls.
https://www.akureyri.is/is/frettir/matthiasarvaka
Matthíasarvaka Næstkomandi sunnudag, 5. júní, efnir MENOR til glæsilegrar hátíðardagskrár í tilefni þess að 170 ár eru liðin frá fæðingu Matthíasar Jochumssonar. Dagskráin eru svohljóðandi: Kl. 13 - Sigurhæðir, hús Matthíasar Jochumssonar opnar og meðan vakan stendur yfir verður þar opið hús með leiðsögn og kaffiveitingum á vegum Akureyrarbæjar Kl. 13.30 - Helgistund í Akureyrarkirkju. Prestur og tónlistarfólk kirkjunnar, í tali og tónum. Kl. 14.00 - Matthíasarvakan formlega sett í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju. Ávarp formanns MENOR Roars Kvam Erindi: Þórunn Valdimarsdóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, les úr bók sinni um Matthías sem kemur út í haust. Sr. Hannes Örn Blandon. Tónlistaratriði: Frá Tónlistarskólanum á Akureyri. Fiðluleikur. frá Tónlistarskóla Valsárskóla. Kristín Magnúsdóttir, flauta, Helga Kvam, píanó frá Tónskóla Roars. Agnes Harpa Jósavinsdóttir, píanó frá Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Hornleikur. Ljóðalestur: Erlingur Sigurðarson frá Grænavatni Andrea Dögg Kjartansdóttir, Hafralækjarskóla, S. Þing., Gunnar Þór Gunnarsson, Árskóla, Sauðárkróki, Brynjar Elís Ákason, Síðuskóla, Akureyri. Guðmundur Ármann, myndlistarmaður og -kennari sér um kynningu á leiktjöldum úr fyrstu sýningu á Skuggasveini/Útilegumönnunum. Kaffi og konfekt í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju í boði MENOR Kl. 16.00 - Leiklistarsýning í Ketilhúsinu. Umf. Efling í leikstjórn Arnórs Benónýssonar sýna atriði úr Skuggasveini/Útilegumönnunum. Kl. 16.30 - Verðlaunaafhending í Örsögukeppni MENOR og Máls og menningar. Verðlaunasögurnar verða fluttar. Kl. 17.00 - Tónleikar í Ketilhúsinu. Sigríður Aðalsteinsdóttir, mezzosópran og Michael Jón Clarke, bariton ásamt Helgu Bryndísi Magnúsdóttur, píanóleikara. Verðlaunaafhending í tónsmíðakeppni MENOR 2005. Verðlaunaverkin verða frumflutt. Lokaávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra Akureyrarbæjar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/songvaka-i-minjasafnskirkjunni-4
Söngvaka í Minjasafnskirkjunni Minjasafnið á Akureyri hefur boðið upp á söngvökur síðan 1994. Þær hafa vakið verðskuldaða athygli enda hvergi hægt að finna skemmtidagskrá af þessum toga. Fyrsta söngvaka sumarsins verður haldin laugardaginn 4. júní kl. 20:30 í Minjasafnskirkjunni við Aðalstræti. Í sérstakri en viðeigandi umgjörð Minjasafnskirkjunnar eru áheyrendur leiddir í söngferðalag í tali og tónum um íslenska tónlistarsögu frá miðöldum til okkar daga. Efnisskráin er afar fjölbreytt og spannar allt frá dróttkvæðum miðalda til söngva og þjóðlaga frá nítjándu og tuttugustu öld. Fram að 20. öld er íslensk tónlistarsaga nær einvörðungu saga söngs, og sá söngur var nátengdur orðsins list sem ávallt hefur verið þungamiðja íslenskrar menningar. Öðruvísi gat tónlistin varla verið þ.e. lengst af voru nær engin hljóðfæri til í landinu. Efniviður til að smíða hljóðfæri var enginn til né heldur fjármunir til að kaupa þau. Ekki var heldur til stétt hefðarfólks sem í útlöndum hélt uppi hljómsveitum og hljóðfæraleikurum. Flytjendur eru þau Hjörleifur Hjartarson og Íris Ólöf Sigurjónsdóttir. Aðgangseyrir er kr. 1000.
https://www.akureyri.is/is/frettir/hvernig-verdur-akademiskt-samfelag-til
Hvernig verður akademískt samfélag til? Mánudaginn 6. júní stendur Félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri fyrir málþingi um tilurð akademísks samfélags. Íslenskir háskólar eru ekki gamlar stofnanir. Háskóli Íslands, sem er langelstur þessara skóla, er ekki enn orðinn hundrað ára og lengi vel var hann fyrst og fremst embættismannaskóli. Mikil andstaða var við stofnun Háskólans á Akureyri og efuðust margir um réttmæti þess að "skipta" því fé sem veitt var til háskóla á Íslandi á fleiri staði og töldu litlar líkur á að hægt væri að byggja upp raunverulegt háskólaumhverfi í dreifbýlinu. Á síðustu árum hafa tvær einkastofnanir (ríkisreknir einkaskólar) bæst í hóp íslenskra háskóla og hefur það fjölgað en ósvöruðum spurningum um forsendur og tilurð akademísks samfélags á Íslandi. Með þessu málþingi er vonast til þess að heldur fjölgi pensilförunum í mynd hinnar íslensku akademíu. Málþingið verður haldið í stofu L101 á Sólborg v/Norðurslóð og hefst kl. 9 árdegis með setningarræðu Þórodds Bjarnasonar. Erindi flytja Bryndís Hlöðversdóttir, verðandi deildarforseti Bifröst, Sigurður Kristinsson, lektor Háskólanum á Akureyri, Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólanum á Akureyri, og Þórólfur Þórlindsson, prófessor Háskóla Íslands. Fundarstjóri er Ágúst Þór Árnason.
https://www.akureyri.is/is/frettir/menningarhusid-tilbuid-2007
Menningarhúsið tilbúið 2007 Í gær, fimmtudaginn 2. júní, undirrituðu Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, fyrir hönd Akureyrarbæjar, og Sigurður Hallgrímsson, arkitekt faí, fyrir hönd Arkþings ehf., hönnunarsaming um húsnæði menningarhúss og tónlistarskóla á Akureyri. Húsið verður í miðbæ Akureyrar, við gatnamót Strandgötu og Glerárgötu. Frá undirritun hönunnarsamningsins í gær. Talið frá vinstri: Þórður Þorvaldsson, arkitekt hjá Arkþingi, Sigurður Hallgrímsson, arkitekt hjá Arkþingi, Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, og Ingi Björnsson, formaður bygginganefndar menningarhúss á Akureyri. Forsaga málsins er sú að í apríl 2003 var undirritaður samningur milli ríkisvaldsins og Akureyrarbæjar um byggingu menningarhúss í bænum. Skömmu síðar var efnt til samkeppni um hönnun hússins og skilaði dómnefnd niðurstöðum í ágúst á síðasta ári. Þeim tilmælum var í framhaldi beint til Akureyrarbæjar að ganga til samningaviðræðna við höfunda þeirrar tillögu sem þótti best, með það í huga að orðið gæti að framkvæmd hennar fyrir kostnaðaráætlun sem væri innan viðmiðunarmarka keppnislýsingar. Í október síðastliðnum var ákveðið að staldra við og huga betur að forsendum málsins. Byggingarnefnd var falið að nota tímann til að styrkja ákvarðanatökuna með frekari athugunum á kostnaði við bygginguna og rekstur hússins. Í endurskoðaðri tillögu er gert ráð fyrir að Tónlistarskólanum á Akureyri verði fundinn staður til framtíðar á þriðju hæð hússins. Áður hafði verið lagt til að lausn á húsnæðismálum skólans yrði eins konar viðbót við hönnun hússins á síðari stigum. Nú hefur bæjarstjórn Akureyrar tekið endanlega ákvörðun um að ráðast í byggingu menningarhúss á uppfyllingunni við Torfunef. Strax verður hafist handa við hönnun hússins og gera má ráð fyrir að útboð framkvæmda fari fram í byrjun næsta árs. Stefnt er að því að nýtt og fullkomið menningarhús verði tilbúið til notkunar fyrir árslok 2007.
https://www.akureyri.is/is/frettir/slokkvilidid-med-jafnrettisaaetlun
Slökkviliðið með jafnréttisáætlun Slökkvilið Akureyrar hefur fyrst stofnana bæjarins sett sér jafnréttisáætlun í samræmi við jafnréttislög og jafnréttisstefnu bæjarins. Frá því um áramót hefur staðið yfir vinna við gerð jafnréttisáætlana stofnana Akureyrarbæjar þar sem starfa fleiri en 25 manns. Þær stofnanir sem um ræðir eru: Grunnskólarnir, leikskólinn Krógaból, Slökkviliðið, Framkvæmdamiðstöðin, Heilsugæslustöðin, Öldrunarheimilin og Heimaþjónustan. Jafnréttislög gera ráð fyrir að öll fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn setji sér jafnréttisáætlun. Í þeim áætlunum skal kveða á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsmönnum þau réttindi sem kveðið er á um í 14.-17. gr. laganna. Þau atriði eru: Launajafnrétti, aðgengi að lausum störfum, starfsþjálfun og endurmenntun, samræming fjölskyldu- og atvinnulífs og kynferðisleg áreitni. Að auki leggja jafnréttislög þá skyldu á skólana að þar sé veitt fræðsla um jafnréttismál, í náms- og starfsfræðslu sé leitast við að kynna bæði piltum og stúlkum störf sem litið hefur verið á sem hefðbundin karla- eða kvennastörf og þess gætt að kennslu- og námsgögn mismuni ekki kynjunum. Jafnréttisáætlun Slökkviliðs Akureyrar er sú fyrsta sem samþykkt hefur verið í jafnréttis- og fjölskyldunefnd bæjarins en á næstunni má gera ráð fyrir að fleiri jafnréttisáætlanir verði lagðar fyrir nefndina til samþykktar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/fjolnyting-jardhitans-i-hrisey
Fjölnýting jarðhitans í Hrísey Í gær, miðvikudaginn 8. júní, var skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf, sem miðar að því að úr jarðhitanum í Hrísey verði unnin öll orka sem þar er þörf á. Núna eru húsin í eyjunni hituð upp með hitanum, sem undir eyjunni er, en vonir standa til að þróa megi búnað sem framleiðir rafmagn úr honum og hugsanlega vetni á farartæki. Auk þess eru uppi hugmyndir um að í fjölnýtingu jarðhitans geti falist rekstur ylstrandar, sem gæti eflt ferðaþjónustuna í eyjunni. Jarðhitinn í Hrísey er svonefndur “lághiti”, sem gerir aðrar kröfur til búnaðar til raforkuframleiðslu en “háhiti”. Vonast er til að sú þróun sem þetta samstarf gerir ráð fyrir geti nýst við svipaðar aðstæður annars staðar, bæði hér á landi og erlendis. Þeir sem koma að þessu verkefni eru: Akureyrarbær, Norðurorka hf., auðlindadeild Háskólans á Akureyri, LIH Consulting AS í Danmörku, ÍSOR hf., Exorka ehf. og Útrás ehf. Fjölnýting jarðhitans í Hrísey er hluti verkefnisins “Sjálfbært samfélag í Hrísey”, sem hleypt var af stokkunum í apríl 2003, með stuðningi iðnaðarráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins. Á vegum þess verkefnis var stofnað, 7. júní sl. Markaðsráð Hríseyjar, sem mun m.a. kynna og markaðssetja Hrísey fyrir ferðamenn sem sjálfbært samfélag. Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar. Á myndinni eru f.v.: Kristján Þór Júlíusson, Þórhallur Bjarnason, Björn Gunnarsson, Bjarni Gautason og Franz Árnason.
https://www.akureyri.is/is/frettir/spain-lofar-godu
Spáin lofar góðu Afar gott veður var á Akureyri í gær, fimmtudag, og helgarspáin lofar svo sannarlega góðu. Þeir sem ætla að leggja leið sína norður ættu að hafa í farteskinu nóg af sólaráburði og muna eftir sólgleraugunum. Fólk var sveitt af hita í miðbænum í gær og það er spáð jafnvel enn hlýnandi. Veðurspáin er annars þessi fyrir helgina: Hæg suðvestlæg eða breytileg átt. Bjartviðri en þokubakkar við ströndina, einkum vestanlands. Hiti 9 til 20 stig, hlýjast norðaustanlands. Einfalt og gott fyrir Akureyringa og gesti bæjarins!
https://www.akureyri.is/is/frettir/eistneski-korinn-noorus
Eistneski kórinn NOORUS NOORUS (æska) sem er blandaður kór ungmenna 18 – 25 ára verður með tónleika í Glerárkirkju í kvöld, mánudaginn 13. júní kl. 20:30. Þessi kór var stofnaður 1959. Hann hefur ferðast víða og unnið til fjölda verðlauna. Söngskrá þeirra samanstendur af eistneskum lögum, klassískum og nýjum, ásamt verkum eftir hina og þessa evrópsku höfunda frá ýmsum tímabilum. Stjórnandi er Raul Tamar. Ekki missa af þessu!
https://www.akureyri.is/is/frettir/brautskraning-kandidata
Brautskráning kandídata Á háskólahátíð laugardaginn 11. júní sl. voru brautskráðir 291 kandídat frá Háskólanum á Akureyri. Þar af voru 111 fjarnemendur eða tæplega 40% af heildarfjölda kandídata og hefur sá hópur aldrei verið fjölmennari en nú. Deildirnar sem brautskráðu fjarnemendur voru auðlindadeild, kennaradeild, heilbrigðisdeild og viðskiptadeild. Í ræðu sinni fjallaði rektor m.a. um mikilvægi þess að standa vörð um akademískt frelsi háskóla til rannsókna og kennslu þrátt fyrir aðkomu ólíkra aðila að rekstri þeirra. Hann sagði: „Eftir því sem skilningur eykst á því að sú þekking sem verður til í háskólum í gegnum rannsóknir og kennslu sé einn megindrifkraftur efnahagslegra og félagslegra framfara eykst áhugi stjórnmálamanna og fjármálamanna á að koma að starfsemi háskóla. Meðan þessi þátttaka setur ekki skilyrði á hina frjálsu þekkingarleit vísindamanna ber að fagna auknum áhuga þessara afla á að styrkja háskólastarfið með ýmsum hætti.“ Háskólaárið 2004 - 2005 voru starfræktar sex deildir við Háskólann á Akureyri með samtals 1.516 nemendum: auðlindadeild með 117 nemendur, félagsvísinda- og lagadeild með 191 nemanda, heilbrigðisdeild með 312 nemendur, kennaradeild með 556 nemendur, viðskiptadeild með 299 nemendur og upplýsingatæknideild með 41 nemanda. Á laugardaginn var fyrsta brautskráning félagsvísinda- og lagadeildar, en þá voru brautskráðir þrír nemendur með B.A. próf í nútímafræði.
https://www.akureyri.is/is/frettir/skolaslit
Skólaslit Menntaskólanum á Akureyri verður slitið í Íþróttahöllinni á Akureyri föstudaginn 17. júní. Þetta verða 125. skólaslit síðan norðlenskur skóli var endurvakinn á Möðruvöllum í Hörgárdal 1880, en áður hafði lærður skóli á Norðurlandi verið á Hólum í Hjaltadal frá 1106 fram til aldamótanna 1800. Í ár eru jafnframt 75 ár síðan arftaka Möðruvallaskóla, Gagnfræðaskólanum á Akureyri, var gefin full heimild til að brautskrá stúdenta og taka nafnið Menntaskólinn á Akureyri og á liðnum vetri var minnst 100 ára afmælis Gamla skóla, hins fagra norskættaða timburhúss á Brekkunni. Athöfnin hefst í Íþróttahöllinni klukkan 10.00. Húsið verður opnað klukkan 9.00 og er gestum ráðlagt að koma tímanlega til að tryggja sér góð sæti. Jón Már Héðinsson skólameistari flytur skólaslitaræðu, fulltrúar afmælisárganga flytja ávörp: Sr. Sigurður Guðmundsson vígslubiskup fyrir hönd 65 ára stúdenta, Ingvi S. Ingvason fyrir hönd 60 ára stúdenta, Nörður P. Njarðvík fyrir hönd 50 ára stúdenta, Páll Skúlason fyrir hönd 40 ára stúdenta, Jón Hjaltason fyrir hönd 25 ára stúdenta og Ólafur Rúnar Ólafsson fyrir hönd 10 ára stúdenta. Bergþóra Benediktsdóttir fráfarandi formaður Hugins skólafélags MA flytur kveðju nýstúdenta. Teitur Birgisson nýstúdent leikur á saxófón ásamt Sigurði Helga Oddssyni píanóleikara, konsertmeistara MA. Loks verða brautskráðir 134 stúdentar. Klukkan 14.00 verður afhjúpað útilistaverkið Tilvera eftir Steinunni Þórarinsdóttur á skólatorginu við aðalinngang skólans á Hólum. Verkið er gjöf 40 og 50 ára stúdenta með styrk Listskreytingasjóðs ríkisins. Opið hús verður í skólanum klukkan 14.00-17.00. Þá er gestum boðið að skoða hús skólans, sýningu á munum og minjum á Suðurlofti, þiggja léttar veitingar og skoða verkefni nemenda. Búist er við fjölda gesta, meðal annars nýstúdentum og fjölskyldum þeirra svo og afmælisstúdentum, sem koma hundruðum saman til MA-hátíðar í Íþróttahöllinni að kvöldi 16. júní. Þeir eru auk þess mjög áberandi í bæjarlífinu þessa daga og hótel og gistiheimili meira og minna fullsetin og veitingastaðir líka, auk þess sem farið er í margvíslegar kynnisferðir um bæinn og nágrannasveitir. Klukkan 20.00 að kvöldi 17. júní hefst hátíðarveisla nýstúdenta í Íþróttahöllinni. Húsið verður opnað klukkan 19.00. Þar verður reiddur fram hátíðarmatur að hætti Bautans fyrir gesti sem verða um 1000 talsins.Nokkrir úr hópi nýstúdenta munu flytja ýmis skemmtiatriði meðan á borðhaldi stendur. Einnig verður almennur söngur og munu nýstúdentar auk þess syngja saman eins og á söngsal. Um miðnætti fara nýstúdentar og dansa og syngja um sinn á Ráðhústorgi, en koma aftur í Höllina þar sem verður dansað fram á nótt við undirleik hljómsveitarinnar Í svörtum fötum.
https://www.akureyri.is/is/frettir/oliver-tilnefnd-sem-leiksyning-arsins
Óliver! tilnefnd sem leiksýning ársins Á morgun, fimmtudaginn 16. júní verða Íslensku leiklistarverðlaunin – Gríman afhent við hátíðlega athöfn í Þjóðleikhúsinu. Tilkynnt hefur verið hvaða sýningar eru tilnefndar til verðlauna þetta árið og hlaut Leikfélag Akureyrar fjórar tilnefningar. Leiksýningin Óliver sem sýnd var við miklar vinsældir hjá Leikfélagi Akureyrar hefur verið tilnefnd sem leiksýning ársins að mati áhorfenda. Nú stendur yfir kosning milli þeirra sýninga sem tilnefndar eru en auk Óliver eru Híbýli vindanna, Mýrarljós, Hárið og Brilljant skilnaður tilnefnd. Þrír leikarar LA eru tilnefndir fyrir hlutverk sín í leikhúsinu í vetur: Ólafur Egill Egilsson er tilnefndur fyrir Fagin í Óliver, Ilmur Kristjánsdóttir er tilnefnd fyrir Ausu og Ingvar E. Sigurðsson fyrir Svik. Áhorfendur ráða úrslitum. Þeim sem sáu sýninguna og finnst hún eiga skilið að verða valin besta sýningin að mati áhorfenda er bent á að hægt er að kjósa Óliver! með því að hringja í síma 900 1105. Nánari upplýsingar um kosninguna og aðrar sýningar sem tilnefndar eru, er að finna á http://www.visir.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/vetnishjol
Vetnishjól Fimm manna hópur Japanskra áhugamanna um nýtingu hreinnar orku (Green Energy Adventure) kom til Akureyrar sl. mánudag, 13. júní, á vetnishjóli, en Akureyri er einn af áfangastöðum hópsins á ferð sinni í kringum landið. Hópurinn hóf ferð sína í kringum landið á vetnishjóli laugardaginn síðasta, þann 11. júní. Farartækið er nokkurs konar þríhjól sem knúið er efnarafala og nýtir vetni sem orkugjafa. Ferðin hófst við Perluna þar sem Borgarstjóri Reykjavíkur, frú Steinunn Valdís Óskarsdóttir fylgdi þeim úr hlaði. Ferðin mun taka um tvær vikur og hægt verður að fylgjast með ferðum hópsins á vefsíðu Íslenskrar NýOrku www.newenergy.is Forseti bæjarstjórnar Akureyrar, frú Þóra Ákadóttir, og Ingimar Eydal formaður náttúrverndarnefndar fylgdu vetnislundanum svo aftur úr hlaði frá Ráðhústorginu. Ísland er orðið þekkt um allan heim fyrir frumkvæði í nýtingu vetnis. Það sem og skýr stefna stjórnvalda og þátttaka Reykjavíkurborgar í tilraunaakstri vetnisstrætisvagna laðar nú til landsins ýmis vetnisverkefni. Líta má á þetta sem gott dæmi um hvernig nota má vetni til að draga úr mengun, bæta nýtingu innlendra umhverfisvænna orkugjafa og stuðla að vistvænna samgöngukerfi. Ferð vetnislundans sýnir að vetnistæknin er að ryðja sér til rúms á flestum sviðum samgangna. Tilraunir eru víða í gangi með vetnisreiðhjól og minni bifhjól. Ljóst er að ríki eins og Taiwan, Kína og Indland hafa sýnt slíkum hjólum mikinn áhuga og gera má ráð fyrir að létt bifhjól (vespur) verði komnar á markað innan fárra ára. Ferðin er samstarf innlendra aðila, Íslenskrar NýOrku, Sendiráðs Íslands í Japan, ÍSAGA, Icelandair, VistOrku, og annara japanska aðila.
https://www.akureyri.is/is/frettir/90-ara-afmaeli-90-ara-kosningarettur-kvenna-til-althingis
90 ára afmæli - 90 ára kosningaréttur kvenna til Alþingis Sunnudaginn 19. júní næstkomandi mun jafnréttis- og fjölskyldunefnd ásamt Zontaklúbbunum á Akureyri, UNIFEM og fl. standa fyrir dagskrá í Lystigarðinum í tilefni 90 ára afmælis kosningaréttar kvenna til Alþingis. Dagskráin verður á veisluflötinni efst í garðinum og hefst kl. 14. Áætlað er að hún taki u.þ.b. klukkustund. Flutt verða stutt ávörp, kvenprestar fjarðarins verða með helgistund, Kvennakór Akureyrar og Stúlknakór Akureyrarkirju syngja o.fl. Allir eru hvattir til þess að flykkjast í Lystigarðinn í tilefni þessara merku tímamóta. Áhugasamar/ir geta kynnt sér nánar kosningaréttarafmælið á vef Kvennasögusafnsins: http://www.kona.bok.hi.is/Kosningarettur/Kosningarettur%2090%20ara.htm
https://www.akureyri.is/is/frettir/tjaldstaedi
Tjaldstæði Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti, ofan við Sundlaugina verður lokað um helgina, en til stendur að opna það 20. júní nk. Ferðafólki er því bent á tjaldstæðið að Hömrum, innan og ofan við byggðina á Akureyri. Það skal þó tekið fram að þeim sem ekki hafa náð hafa 18 ára aldri er ekki heimilt að gista á tjaldstæðinu að Hömrum um helgina nema í fylgd með fullorðnum. Tilgangurinn með þessu er að sögn Þóru Ákadóttur, forseta bæjarstjórnar Akureyrar, að skapa fjölskylduvænt umhverfi og afmá útihátíðastimpilinn sem fylgt hefur tjaldsvæðunum.
https://www.akureyri.is/is/frettir/thjodhatidardagurinn-17-juni-thjodleg-baejarhatid-a-akureyri
Þjóðhátíðardagurinn 17. júní - Þjóðleg bæjarhátíð á Akureyri Líkt og áður verður mikið um að vera í bænum á Þjóðhátíðardaginn 17. júní. Íþróttafélagið Þór hefur umsjón með dagskránni og hefur Örn Ingi séð til þess að hún verði sem glæsilegust. Dagskráin er sem hér segir: Frá kl. 9 til kl. 11 ekur BLÓMABÍLLINN um götur Akureyrar Frá kl. 10 til kl. 16 BÍLASÝNING Bílaklúbbs Akureyrar við Oddeyrarskóla Kl. 13:30 HELGISTUND við Hamarkotsklappir Kl. 13:50 SKRÚÐGANGA frá klöppunum - Gasblöðrur handa börnunum meðan birgðir endast Kl. 14:10 HÁTÍÐARDAGSKRÁ hefst á Ráðhústorgi Kórar - Ávörp - Fjallkona - Þjóðdansar og sérstakur heiðurslistamaður kemur gagngert frá Danmörku til þess að taka þátt í hátíðarhöldunum KRISTJÁN INGIMARSSON LEIKARI SLÖKKVILIÐIÐ 100 ÁRA - AFMÆLISBARN BÆJARINS HEIÐRAÐ Mikið sjónarspil með óvæntum glaðningi valinkunnra fyrirtækja. Kl. 15:30 hefst opin dagskrá á sviðinu ... ALLT GETUR GERST Frábær atriði fyrir börn, dansar, íþróttasýningar, tónlist, söngur og gleði fyrir alla aldurshópa ARNGRÍMUR JÓHANNSSON flýgur listflug yfir Miðbæinn CIRKUS ATLANTIS fer á kostum um bæinn og býður upp á sirkusskóla ... fyrir þá sem vilja spreyta sig Fleiri götulistamenn munu láta sjá sig ÝMSAR SÝNINGAR verða í gluggum við göngugötuna og sérstakt kaffihús í Amarohúsinu - ÞÓRSKAFFI MYNDLISTARSÝNING BÆJARLISTAMANNA verður í Gallerí gersemi (fyrir ofan Bláu könnuna) Frá kl. 16 til kl. 18 verða stuttar skemmtisiglingar með HÚNA um Pollinn við undirleik harmonikuleikara Kl. 16 DAVÍÐSHÚS OPNAÐ AFTUR eftir gagngerar endurbætur - Heitt á könnunni, ljóðalestur og getraun Kl. 20 hefst mikil TÓNLISTARHÁTÍÐ á torginu ... Margar hljómsveitir troða upp Kl. 20 til kl. 21 verður haldin kvöldvaka til heiðurs skáldum bæjarins í brekkunni við Sigurhæðir - Ávarp, ljóðaflutningur, tónlist og hagyrðingagleði - Götunni verður lokað og fólk horfir upp í brekkuna og nýtur þess sem í boði verður í gegnum gott hljóðkerfi DAGSKRÁIN ER Í BOÐI VIÐKOMANDI LISTAMANNA Kl. 21:30 á Ráðhústorgi GAMANVÍSUR EFTIR STEFÁN VILHJÁLMSSON verða fluttar af söngvurunum MICHAEL CLARKE OG SIGRÍÐI AÐALSTEINSDÓTTUR VIÐ UNDIRLEIK BJÖRNS ÞÓRARINSSONAR Þar á eftir koma fleiri hljómsveitir og spaug þar til dregur að lokum með þátttöku flottustu kvennahljómsveitar í Evrópu HEIMILISTÓNUM SEM JAFNFRAMT LEIÐIR HÁTÍÐINA TIL LOKA Á TORGINU Í VIRKU SAMSPILI MARGRA AÐILA Kl. 00:30 SÍKISDANS við Torfunefsbryggju til kl. 01:30 - Hljómsveit verður um borð í Húna sem ætlað er að slá botninn í hátíðina með ljúfri stemningu Kynnar verða Margrét Blöndal og Sygin Blöndal FÓLK ER SÉRSTAKLEGA HVATT TIL ÞESS AÐ VERA SPARIKLÆTT OG BÖRNIN VERÐI MEÐ ÍSLENSKA FÁNANN - EKKI MÁ GLEYMA AÐ TAKA KLAPP- EÐA GARÐSTÓLINN MEÐ OG JAFNVEL NESTI SETJUM MANNLÍFIÐ Á AKUREYRI Í ÖNDVEGI!
https://www.akureyri.is/is/frettir/millilandaflug
Millilandaflug Á morgun, þriðjudaginn 21. júní kl. 12:10-13:20 verður haldin opinn fundur á Hótel KEA Akureyri um millilandaflug frá Norður- og Austurlandi til Evrópu. Er það stórt hagsmunamál allra sem hér búa, ekki síst þeirra sem starfa við ferðaþjónustu. Fundur Ferðaþjónustuklasans sem haldinn var 2. maí sl. sendi frá sér ályktun þar sem skorað var á samgönguyfirvöld um lengingu flugbrautar við Akureyrarvöll en það er ein grunnforsendan fyrir því að hægt sé að koma á beinu flugi. Á fundinum þann 21. júní verður kynnt verkefni RHA þar sem teknir eru fyrir eftirfarandi þættir: 1) möguleikar á fjölgun erlendra ferðamanna til svæðisins 2) markaður heimamanna fyrir millilandaflug 3) vöruflutningar með flugi Dagskrá fundaris er eftirfarandi: 1. Kynning á verkefninu fyrir hönd RHA: Njáll Trausti Friðbertsson, viðskiptafræðingur og flugumferðastjóri 2. Pallborðsumræður: -Arngrímur Jóhannsson, flugstjóri -Ásbjörn Björgvinsson, formaður stjórnar Markaðsskrifstofu Ferðamála á Norðurlandi -Benedikt Sigurðarson, stjórnarformaður KEA -Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri -Njáll Trausti Friðbertsson, skýrsluhöfundur frá RHA -Aðalsteinn Helgason, Samherja Fundarstjóri: Andri Teitsson, framkvæmdastjóri KEA Boðið verður upp á sjávarréttasúpu á fundinum og kostar hún 700 kr.
https://www.akureyri.is/is/frettir/oliver-syning-arsins-ad-mati-ahorfenda-islensku-leiklistarverdlaunin-ndash-griman
Óliver! sýning ársins að mati áhorfenda - Íslensku leiklistarverðlaunin – Gríman Fimmtudaginn 16. júní voru Íslensku leiklistarverðlaunin – Gríman afhent við hátíðlega athöfn í Þjóðleikhúsinu. Leikfélag Akureyrar fékk önnur af tveimur aðalverðlaunum hátíðarinnar að þessu sinni því Óliver var valin leiksýning ársins að mati áhorfenda. Í forkosningu höfðu fimm sýningar verið valdar, en hinar fjórar voru Alveg brillíant skilnaður, Híbýli vindanna, Mýrarljós og Hárið. Óliver! er eftir Lionel Bart, en leikstjóri var Magnús Geir Þórðarson. Sýningin var sett upp af LA í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og með stuðningi KEA-Hótel, Norðurorku, Visa og PWC. Ólafur Egill Egilsson hlaut Grímuna sem leikari ársins í aðalhlutverki fyrir Fagin í Óliver hjá LA og hlutverk í Svartri mjólk í Þjóðleikhúsinu. Tveir aðrir leikarar voru tilnefndir fyrir hlutverk sín hjá LA, Ingvar E. Sigurðsson var tilnefndur fyrir Svik og Ilmur Kristjánsdóttir fyrir Ausu.
https://www.akureyri.is/is/frettir/listasumar-sett-a-morgun
Listasumar sett á morgun Setning Listasumars 2005 verður á Akureyri á morgun, miðvikudaginn 22. júní, og um leið hefst alþjóðlega leiklistarhátíðin "Leikum núna". Dagskráin hefst í miðbæ Akureyrar kl. 13.00 á opnunarsýningu Leikum núna þar sem götudansleikhúsið ásamt félögum úr Leikklúbbnum Sögu og fleirum sýna listir sínar. Á Ráðhústorginu kl. 14.30 verður formleg opnun á leiklistarhátíðinn Leikum núna þar sem verndari hátíðarinnar, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, flytur opnunarræðu. Formleg setning Listasumars 2005 verður í Ketilhúsinu kl. 16 í boði breska sendiráðsins á Íslandi. Ávarp flytja Sigrún Björk Jakobsdóttir, formaður mennimgarmálanefndar Akureyrarbæjar, og Alp Mehmet, sendiherra Bretlands á Íslandi. Á dagskránni verða einnig tónlistaratriði þar sem fram koma: Sigríður Aðalsteinsdóttir, mezzósópran og Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanóleikari, flytja létta klassíska tónlist María Gunnarsdóttir, söngkona og Eiríkur Stephensen, gítarleikar, flytja leikhústónlist frá ýmsum þjóðlöndum Kaldo Kiis, tónlistarmaður og Margot Kiis, söngkona, flytja létt djass og dægursveiflu Allir eru hjartanlega velkomnir.
https://www.akureyri.is/is/frettir/ragnheidur-grondal-a-heitum-fimmtudegi
Ragnheiður Gröndal á Heitum fimmtudegi Á fyrsta Heita fimmtudegi sumarsins leikur Oktett Ragnheiðar Gröndal sígildar djassperlur og blús í nýjum útsetningum eftir Hauk Gröndal. Tónleikarnir verða á Græna hattinum fimmtudagskvöldið 23. júní kl. 21:30. Heitir fimmtudagar eru hluti af dagskrá Listasumars 2005 á Akureyri en það er Jazzklúbbur Akureyrar sem skipuleggur vikulega djasstónleika um tveggja mánaða skeið. Allir sem staddir verða á Akureyri á fimmtudagskvöldum frá og með 23. júní geta hlustað á djass eins og hann gerist bestur. Tónleikar Oktetts Ragnheiðar Gröndal fara sem áður segir fram á Græna hattinum en aðrir djasstónleikar á dagskrá Listasumars fara fram í Grófargili, í Deiglunni eða Ketilhúsi. Hljómsveitina skipa tónlistarmenn úr hópi okkar bestu djassara en það eru þeir: Haukur Gröndal á altósaxófón og klarínett, Eyjólfur Þorleifsson á tenórsaxófón, Ólafur Jónsson á tenórsaxófón, Sigurður Flosason á barítonsaxófón og þverflautu og Ásgeir Ásgeirsson á gítar. Á kontrabassa leikur hinn kanadíski Graig Earle og Svíinn Erik Qvick leikur á trommur. Sveitin mun í júlíbyrjun koma fram á hinni víðþekktu djasshátíö "Copenhagen Jazz Festival" auk þess að leika á nokkrum vel völdum stöðum á Íslandi og einnig er áætlað að gera upptökur í af efninu í sumar með útgáfu í huga.
https://www.akureyri.is/is/frettir/golf-i-midnaetursol-a-arctic-open
Golf í miðnætursól á Arctic Open Arctic Open golfmótið verður haldið á Jaðarsvelli á Akureyri dagana 22. - 25. júní nk. Arctic Open er alþjóðlegt golfmót sem hefur verið haldið frá árinu 1986 og hafa á þriðja þúsund innlendir og erlendir gestir látið drauminn rætast og tekið þátt í mótinu. Í ár eru yfir 160 þátttakendur skráðir til leiks þar af um 40 útlendingar frá 6 löndum. Keppendur eru sammála um að það sé einstök upplifun að spila golf í blóðrauðu sólarlagi um miðnæturbil svo nærri heimskautsbaugi. Stemmningin á þessari fjögurra daga golfhátíð sé engri lík. Veglegir vinningar verða í boði Taylor Made og verslunarinnar Nevada Bob auk þess sem allir þátttakendur fá sérstaka þátttökugjöf sem að þessu sinni er leðurtaska undir golfskó frá Adidas og golfjakki frá Stormtech og Bros auglýsingavörum. Mótið hefst á miðvikudagskvöldi með glæsilegri opnunarhátíð sem hefur ávallt notið mikilla vinsælda. Fimmtudag og föstudag eru síðan leiknar samtals 36 holur þegar hallar degi og fram yfir miðnættið. Leikið er eftir Stableford punktakerfi með og án forgjafar auk þess sem verðlaun eru veitt fyrir besta árangur í kvenna- og öldungaflokki án forgjafar. Samhliða leik er spiluð liðakeppni. Fjórir eru saman í liði og valið er í liðin af handahófi. Á laugardagskvöld er loks slegið upp veislu í lokahófi þar sem verðlaunin eru afhent og boðið upp á skemmtiatriði. Í lokahófinu mun Friðrik V. Karlsson matreiðslumeistari töfra fram tólf rétti sem unnir úr hráefnum frá sjávarútvegs- og matvælafyrirtækjum á Eyjafjarðarsvæðinu. Hin síðari ár hefur færst mjög í vöxt að fyrirtæki nýti uppákomur sem Arctic Open til hvata- og boðsferða fyrir starfsmenn og viðskiptavini. Í ár hefur verið lögð aukin áhersla á að kynna mótið fyrirtækjum sem vilja bjóða innlendum sem erlendum starfsmönnum eða viðskiptavinum til mótsins. Síminn og Flugfélag Íslands hafa tekið höndum saman með Golfklúbbi Akureyrar og hefur það samstarf gert klúbbnum kleift að gera mótið sérstaklega veglegt og áhugavert. Upplýsingar um Arctic Open veitir Jón Birgir Guðmundsson í síma 844 2385 og G. Ómar Pétursson í síma 860 6700. Nánari upplýsingar einnig á www.arcticopen.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/fjolmennur-fundur-um-millilandaflug-fra-akureyri
Fjölmennur fundur um millilandaflug frá Akureyri Lenging flugbrautarinnar á Akureyrarflugvelli er ein meginforsenda þess að unnt sé að hefja reglubundið millilandaflug frá Akureyrarflugvelli. Þetta kom fram í máli Njáls Trausta Friðbertssonar, viðskiptafræðings og flugumferðarstjóra, sem kynnti á fundi á Hótel KEA í gær skýrslu sem hann hefur tekið saman um millilandaflug frá Norður- og Austurlandi. Frá vinstri: Ari Teitsson, framkvæmdastjóri KEA, Njáll Trausti Friðbertsson, viðskiptafræðingur og flugumferðarstjóri, og Ásbjörn Björgvinsson, formaður stjórnar Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi. Fundurinn var gríðarlega vel sóttur og þurfti að bæta við fjölda stóla til þess að koma öllum fundarmönnum fyrir. Bendikt Sigurðarson, formaður stjórnar KEA, hafði á orði að þessi góða fundarsókn væri staðfesting á því að mikil þörf hafi verið á því að taka saman slíka skýrslu og fólk hefði augljóslega mikinn áhuga á þessu máli. Sjá nánar á heimasíðu KEA. Ætla má að um 200 manns hafi sótt fundinn. Arngrímur Jóhannsson, flugstjóri, sagði að gott væri að vera bjartsýnn en jákvæð niðurstaða væri ekki auðveldlega í sjónmáli vegna ýmissa kostnaðarþátta.
https://www.akureyri.is/is/frettir/adalfundur-northern-forum-i-kina
Aðalfundur Northern Forum í Kína Tveir fulltrúar Akureyrarbæjar sóttu um síðustu helgi aðalfund Northern Forum, samtaka héraða og borga á norðurslóðum, sem haldinn var í Harbin í Heilongjiang-héraði í Kína. Markmið samtakanna er að mynda traust tengslanet staðbundinna stjórnvalda til að stuðla að bættum lífsskilyrðum fólks í þessum heimshluta. Dagana fyrir aðalfundinn var farið yfir þau fjölmörgu verkefni sem unnið er að á vegum samtakanna en þau lúta flest að umhverfismálum af ýmsu tagi. Aðalfundinn sóttu fulltrúar héraða og borga í Bandaríkjunum (Alaska), Kanada, Finnlandi, Rússlandi, Kína og Japan, auk fulltrúa Akureyrarbæjar. Í lok aðalfundarins sunnudaginn 19. júní undirrituðu formenn sendinefndanna svonefnda Harbin-yfirlýsingu, þar sem m.a. er lögð áhersla á að auka þátttöku ungs fólks í starfi samtakanna, að stuðla enn frekar en áður að heilbrigðum lífsháttum, að auka samvinnu um gróðurhúsaáhrif og að styrkja samstarf samtakanna við fulltrúa viðskiptalífsins í viðkomandi héruðum. Jakob Björnsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, undirritar yfirlýsinguna fyrir hönd Akureyrarbæjar. Með honum á myndinni eru fulltrúar Alaska og Hokkaido í Japan. Síðar í sumar verður Umhverfisþing ungmenna 2005 (Youth Eco Forum 2005) haldið á Akureyri en það er einmitt eitt um 20 verkefna sem samtökin Northern Forum standa að. Á umhverfisþingið koma um 30 erlendir unglingar á aldrinum 16-19 ára og auk þess sækja það 10 unglingar frá Akureyri og nágrenni. Yfirskrift þingsins er “Loftlagsbreytingar og endurnýjanlegir orkugjafar”.
https://www.akureyri.is/is/frettir/bachelor-a-akureyri
Bachelor á Akureyri? Fyrstu Íslensku bachelorþættirnir eru að hefjast á SKJÁEINUM! Leitin að íslenska bachelornum og stúlkunum 25, sem berjast um hylli hans er í fullum gangi. Nú er það Akureyri. Leitað er að einhleypum körlum og konum á aldrinum 21-35 ára. Viðtöl munu fara fram nk. laugardag, 25. júní, á Café Amour frá kl. 11. Þetta er fyrsta alvöru veruleikasjónvarpið á Íslandi og stefnt er að því að útlit og innihald þáttanna verði eftir því – semsagt afar glæsilegt og vandað! Þáttastjórnandi er Jón Ingi Hákonarson, leikari, sem starfaði um tíma hjá LA og er Akureyringum því að góðu kunnur. Áhugasamir eru hvattir til þess að sækja um. Umsóknareyðublöð finnast hjá Símanum á Akureyri og á vefsíðu www.S1.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/rannsoknaboranir-i-sumar
Rannsóknaboranir í sumar Á aðalfundi Greiðrar leiðar sem haldin var í gær var samþykkt að auka hlutafé félagsins í allt að 100 milljónir króna. Í júlí nk. hefst undirbúningsvinna fyrir rannsóknaboranir vegna gerðar jarðganga undir Vaðlaheiði og er miðað við að síðla september verði lokið við að bora rannsóknaholurnar. Með þessum borunum fást nauðsynlegar upplýsingar um jarðlög svæðisins, þar með talinn vatnsleka í berglögunum. Að þeim loknum tekur við úrvinnsla gagna, en gert er ráð fyrir að jarðfræðiupplýsingar fyrir hönnun ganganna gætu legið fyrir í árslok og jarðfræðiskýrsla vegna útboðs verði tilbúin í febrúar á næsta ári. Yfirumsjón með rannsóknaborunum í Vaðlaheiði hefur Ágúst Guðmundsson, jarðfræðingur, sem hefur á síðustu misserum unnið að forathugunum á legu jarðganga undir Vaðlaheiði. Gert er ráð fyrir að kostnaður við rannsóknaboranir og úrvinnslu gagna geti numið allt að 60 milljónum króna. Ágúst Guðmundsson, jarðfræðingur, sem stýrir jarðfræðirannsóknum vegna ganganna. Greiðri leið breytt í framkvæmdafélag Greið leið ehf. var stofnuð 28. febrúar 2003 í þeim tilgangi að standa fyrir nauðsynlegum undirbúningi fyrir stofnun félags um framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng. Þrjátíu hluthafar eiga hlut í Greiðri leið. Stærstu hluthafar eru Akureyrarbær (35,91%), KEA (22,67%) og Þingeyjarsveit (11,33%). Aðrir hluthafar eiga allir innan við 10% hlut hver. Á aðalfundi Greiðrar leiðar á Akureyri í gær, 22. júní, var samþykkt að breyta Greiðri leið úr því að vera undirbúningsfélag vegna Vaðlaheiðarganga í framkvæmdafélag, sem standi fyrir kynningarstarfi, áætlanagerð, jarðfræðirannsóknum, umhverfismati og samningum við ríki og fjárfesta. Þá mun Greið leið ehf. fjármagna gerð ganganna, láta gera þau og reka með innheimtu veggjalds. Einnig er í nýjum samþykktum kveðið á um að ríkissjóði verði afhent göngin þegar öll lán verði greidd upp og hlutafé verði greitt til baka til eigenda með hæfilegri ávöxtun. Nokkuð góðar aðstæður til jarðgangagerðar Þess er vænst að rannsóknaboranirnar í sumar gefi endanleg svör um heppilegustu legu ganga undir Vaðlaheiði, en sú leið sem til þessa hefur þótt hvað vænlegust gerir ráð fyrir gangamunna upp af Hallandsnesi Eyjafjarðarmegin og við Skóga í Fnjóskadal. Slík göng yrðu um 7 kílómetra löng. Hugsanlegt er að niðurstöður borana leiði til þess að nauðsynlegt verði að færa gangamunna. Nú þegar hefur fengist töluvert glögg mynd af jarðlögum á þessu svæði, sem bendir til þess að í vestanverðri Vaðlaheiði séu jarðlög heppileg til jarðgangagerðar, en ætla megi að vatnsleki sé mun meiri í berglögum í austanverðri heiðinni. Í samanburði við önnur jarðgöng á Íslandi er talið að aðstæður til jarðgangagerðar í Vaðlaheiði séu í meðallagi góðar. Kostnaður og fjármögnun Ef miðað er við sjö kílómetra göng og þar af verði vegskálar bæði vestan og austan megin Vaðlaheiðar samtals um 300 metrar, má ætla að heildarkostnaður við Vaðlaheiðargöng verði röskir fjórir milljarðar króna. Fram til þessa hafa undirbúningsrannsóknir verið kostaðar af Kaupfélagi Eyfirðinga, en félagið bauð fram fjármagn til þess að standa straum af þeim. Jafnframt samþykkti stjórn KEA á síðasta ári að leggja Greiðri leið til allt að 100 milljónir króna þegar félagið verði framkvæmdafélag, en með breytingu á samþykktum félagsins í gær hefur það skref nú verið stigið. Aðalfundur Greiðrar leiðar ehf. í gær samþykkti að heimila aukningu hlutafjár félagsins úr röskum 4,4 milljónum króna í allt að 100 milljónir króna. Í rekstrarlíkani sem forsvarsmenn Greiðrar leiðar hafa unnið með vegna fjármögnunar og reksturs ganganna er gert ráð fyrir um 500 milljóna króna stofnframlagi frá ríkinu til gerðar Vaðlaheiðarganga, jafnframt því sem virðisaukaskattur verði felldur niður vegna gerðar ganganna, með sama hætti og gert var við gerð Hvalfjarðarganga. Fram kom á aðalfundi Greiðrar leiðar í gær að stjórn félagsins hafi rætt við fjármálastofnanir um hugsanlega fjármögnun Vaðlaheiðarganga, sem hafi allar lýst miklum áhuga að koma að málum. Gert er ráð fyrir að innheimta veggjöld af vegfarendum, sem verði sem næst helmingi lægri en nú eru innheimt af vegfarendum um Hvalfjarðargöng. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að umferð um Víkurskarð hefur aukist mjög á undanförnum árum – um 5% á ári að jafnaði síðustu átta árin. Árið 1996 var sólarhringsumferð um Víkurskarð 693 bílar, en árið 2004 voru þeir 1023. Næstu skref Í kjölfar rannsóknaborananna í sumar verður væntanlega unnt að staðsetja gangamunnana. Framundan eru samningar við landeigendur beggja vegna Vaðlaheiðar og viðræður við stjórnvöld um mögulega aðkomu ríkisins að framkvæmdinni. Ekki hefur til þessa fengist rannsóknafé frá ríkinu, en þess er vænst að verkefnið verði áður en langt um líður tekið inn á vegaáætlun. Þá verður á næstunni gengið úr skugga um hvort Vaðlaheiðargöng eru umhverfismatskyld framkvæmd. Einnig er til skoðunar að gera úttekt á samfélagslegum áhrifum Vaðlaheiðarganga. Vegagerðin mun í sumar framkvæma ítarlega umferðarkönnun á Svalbarðsströnd þar sem aflað verður ýmissa upplýsinga frá vegfarendum, sem munu nýtast vel fyrir Greiða leið. Hvenær væri mögulegt að hefja framkvæmdir? Erfitt er að áætla hvenær unnt verði að hefjast handa við gerð Vaðlaheiðarganga, en gangi undirbúningur áfram vel og ekkert óvænt komi upp á næstu misserum gæti borun ganganna hafist á árinu 2008. Ekki er óraunhæft að ætla, miðað við reynslu af jarðgangagerð á Austurlandi, bæði í Fáskrúðsfjarðargöngum og Kárahnjúkavirkjun, að um þrjú ár taki að fullgera Vaðlaheiðargöng. Gangi það eftir gæti reynst mögulegt að opna Vaðlaheiðargöng fyrir umferð á árinu 2011. Stjórn Greiðrar leiðar ehf. endurkjörin Á aðalfundi Greiðrar leiðar ehf. í gær var stjórn félagsins endurkjörin. Aðalmenn í stjórn eru Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings, formaður, Andri Teitsson, framkvæmdastjóri KEA, og Ásgeir Magnússon, starfsmaður Skrifstofu atvinnulífsins á Akureyri. Varamenn eru Bjarni Jónasson, Akureyri, og Jóhann Guðni Reynisson, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/gonguferd-um-hrisey
Gönguferð um Hrísey Á morgun, laugardaginn 25. júní, gefst fólki tækifæri til að kynnast náttúruperlunni Hrísey með leiðsögn kunnugra. Farin verður gönguferð um eyjuna undir handleiðslu Þorsteins Þorsteinssonar og Hönnu Rósu Sveinsdóttur en leiðin liggur meðal annars um rústir eyðibýlisins Hvatastaða. Einnig verður komið við í Gamla-Syðstabæjarhúsinu og Holti. Gangan tekur um 2 klukkustundir og er um það bil 5 km löng. Lagt verður af stað frá Árskógssandi kl. 13.30 á laugardag. Fargjald fram og til baka fyrir 16 ára og eldri er 700 kr. og fyrir börn frá 12 til 15 ára 350 kr. Börn yngri en 11 ára greiða ekki fargjald. Verð fyrir leiðsögn er 500 kr. fyrir 16 ára og eldri. Ókeypis fyrir börn. Upplýsingar veitir starfsfólk Minjasafnsins á Akureyri í síma 462 4162.
https://www.akureyri.is/is/frettir/mikilvaegur-samstarfssamningur
Mikilvægur samstarfssamningur Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri og Dr. Xu Xianming, rektor China University of Political Science and Law (CUPL) undirrituðu samstarfssamning 19. júní sl. CUPL er einn virtasti lagaháskóli Kína, en hann er staðsettur í Haidian og Corps Hill í Peking. Frá undirritun samningsins Á fimmtíu árum hefur CUPL útskrifað 10.000 lögfræðinga. Í skólanum er meðal annars boðið upp á nám við Institute of Human Rights and Humanitarian Law, School of Civil, Commercial and Economic Law og School of International Law meðal annarra. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu CUPL: http://www.cupl.edu.cn/en/ Samstarfssamningurinn tekur fyrst og fremst til félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri og kveður á um nemenda- og kennaraskipti á komandi misserum, auk þess sem áform eru uppi um samstarf á sviði mannréttindamála og lagarannsókna. Þeim sem vilja kynna sér nám við félagsvísinda- og lagadeild er bent á að hafa samband við skrifstofu deildarinnar. Nánari upplýsingar veita: Mikael M. Karlsson, deildarforseti félagsvísinda- og lagadeildar HA ([email protected]) Þórleifur Stefán Björnsson, forstöðumaður alþjóðasviðs HA ([email protected])
https://www.akureyri.is/is/frettir/tonleikar-a-fimmtudag-og-fostudag
Tónleikar á fimmtudag og föstudag Það er nóg um að vera í tónlistarlífinu á Listasumri 2005. Á fimmtudagskvöld heldur Blúskompaníið tónleika í Ketilhúsinu og á föstudag verða hádegistónleikar á sama stað með Trio Trix. Á öðrum Heitum fimmtudegi sumarsins kemur fram hið margrómaða Blúskompaní Magnúsar Eiríkssonar. Það var stofnað af Magnúsi Eiríkssyni, einum fremsta blúsmanni landsins, fyrir rúmum þremur áratugum og hefur starfað með hléum síðan. Blúskompaníið skipa, ásamt Magnúsi Eiríkssyni og Pálma Gunnarssyni, söngvara og bassaleikara, þeir Benedikt Brynleifsson, trommuleikari, og Kristján Edelstein, gítarleikari. Þeir félagar gerðu m.a. garðinn frægan er þeir opnuðu Blúshátíð Reykjavíkur fyrir troðfullu húsi á sl. ári. Tónleikar Blúskompanísins hefjast kl. 21.30 á fimmtudagskvöld í Ketilhúsinu. Í hádeginu daginn eftir, föstudaginn 1. júlí, verða síðan haldnir hádegistónleikar í Ketilhúsinu þar sem fram kemur Tríó Trix. Það skipa tónlistarkonurnar Sigríður Bjarney Baldvinsdóttir, fiðluleikari, Vigdís Másdóttir, víóluleikari, og Helga Björg Ágústsdóttir, sellóleikari. Tríó Trix mun vera eina starfandi strengjatríóið á Íslandi og var stofnað 2003. Á efnisskránni verða Serenada op. 10 e Ernst von Dohnányi, Strengjatríó í B-dúr e. Franz Schubert og Strengjatríó í a-moll e. Max Reger. Tónleikarnir hefjast kl. 12 og taka u.þ.b. 45-50 mínútur. Aðgangseyrir á hvora tónleika fyrir sig er 1.000 kr.
https://www.akureyri.is/is/frettir/skrymsl
Skrýmsl Sumarsýning Listasafnsins á Akureyri, sem verður opnuð laugardaginn 2. júlí, fjallar um ófreskjur og kynjaverur af öllum gerðum í íslenskri myndlist. Sýningarstjóri að þessu sinni er Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur sem var beðin að varpa sýn sinni á ákveðið þema að eigin vali og gera grein fyrir máli sínu. „Mér er ómögulegt að átta mig á hrifningu minni á skrýmslum og afskræmum hverskyns, en hugsa stundum með sjálfri mér að nafn mitt, Úlfhildur, hafi ekki beint gefið mér mikið val. Hvernig sem á málið er litið er niðurstaðan sú sama, mér finnst skrýmsli skemmtileg. Kóngulær, slöngur, leðurblökur og skriðdýr, öll voru þessi kvikindi í miklu uppáhaldi hjá mér þar sem ég sat hjá afa og skoðaði hina ríkulega myndskreyttu Pictorial Encylopedia of the Animal Kingdom, níðþunga í svörtu bandi... En hvað með aumingja skrýmslið? Sjálfa óvættina? Er ég ekki búin að draga úr henni tennurnar með þessari taumlausu gleði? Skrýmsl er almennt tengt ótta og skelfingu, árásargirni og illsku. Skrýmslið er andstæða mennskunnar, það þrífst á manninum, bókstaflega, því flest skrýmsl eru mannætur, og í yfirfærðri merkingu á ótta mannsins,“ segir Úlfhildur meðal annars í grein sinni. „En hver er þá þessi ógn og hversvegna skyldi hún endilega vera eftirsóknarverð? Ég á svar við þessu (eins og öllu þegar kemur að skrýmslum); ógn skrýmslisins felst í því að minna okkur á að hið ‘rétta’ viðmið, viðmiðið sem skrýmslið er afskræming á, er alltaf í hættu. Normið er í raun ekki til, það er bara búið til og það er skrýmslið sem býr það til. Tilvera skrýmslisins gerir hvorttveggja í senn að staðfesta að til sé eitthvað ‘rétt’ viðmið, eitthvað norm og form sem það er afmyndun á, og að ógna þessu normi, því ef normið er háð tilvist skrýmslisins, tjah, þá er allur strúktúrinn orðinn svoldið viðkvæmur, því eins og áður sagði er það aðalsmerki skrýmsla að vera óreiðukennd og óútreiknanleg — og þarmeð ólíkleg til að kæra sig um að leika sitt borgaralega hlutverk... Þannig má segja að birting skrýmslisins sé ávallt einskonar áminning.“ Sýningin mótaðist annars vegar af eigin hugmyndum Úlfhildar og hins vegar af úrvali verka í eigu Listasafns Reykjavíkur og Listasafni Íslands. Einnig var leitað til einstakra listamanna sem lögðu til verk í þetta skrýmslasafn. Á sýningunni eru verk eftir 23 listamenn, en þeir eru: Alfreð Flóki, Ásgrímur Jónsson, Ásmundur Sveinsson, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Dunganon, Erró, Finnbogi Pétursson, Gabríela Friðriksdóttir, Gunnar Örn Gunnarsson, Hulda Hákon, Jón Gunnar Árnason, Kristín Gunnlaugsdóttir, Magdalena Kjartansdóttir, Magnús Kjartansson, Magnús Tómasson, Margrét Jónsdóttir, Olga Bergmann, Ólöf Nordal, Sigurjón Ólafsson, Sissú (Sigþrúður Pálsdóttir), Sóley Eiríksdóttir, Valgerður Guðlaugsdóttir og Þorri Hringsson.
https://www.akureyri.is/is/frettir/fullur-baer-af-folki
Fullur bær af fólki Þúsundir manna eru nú í bænum í tengslum við Esso-mót KA og Pollamót Þórs sem fara fram um helgina. 17. Pollamót Þórs hófst kl 10 í morgun. Þar eru 62 lið skráð til keppni, 52 karlalið og 10 kvennalið. Eins og fram kemur á vef íþróttafélagsins Þórs hefur keppnin farið vel af stað í ágætis veðri hlýtt, sólarlaust og þurrt. Nánari upplýsingar um mótið má finna hér: http://www.thorsport.is Essó-mót KA hófst hinsvegar sl. miðvikudag og eru 34 félög skráð til leiks. Nú þegar hafa verið spilaðir um 288 leikir á mótinu og í þeim skoruð 1398 mörk, eða 4,9 mörk að meðaltali. Nánari upplýsingar um mótið þar sem meðal annars er hægt að fylgjast með úrslitum leikja og fl. má finna hér: http://www.ka-sport.is/essomot/
https://www.akureyri.is/is/frettir/glerlist-a-blomaker
Glerlist á blómaker Í dag var unnið að því að fúgufylla keramikið sem sett hefur verið utan á steinsteyptu blómakerin á Ráðhústorgi og setja þau nú talsverðan svip á miðbæinn. Listakonan Margrét Jónasdóttir, sem stýrir verkinu, segir að hugmyndin hafi kviknað á íbúaþinginu sem haldið var í tengslum við verkefnið "Akureyri í öndvegi". Fólk hafði á orði að líklega þyrfti að bíða þess í nokkurn tíma að hinar stærri hugmyndir um breyttan miðbæ kæmust í framkvæmd. Það vildi hins vegar að eitthvað yrði gert strax til að lífga upp á miðbæinn. Margar snjallar hugmyndir komu fram og Margrét ákvað að koma þessari strax í framkvæmd. Hún auglýsti eftir efni í glerlistaverkin frá bæjarbúum og barst mikið af flísum, gömlum diskum og öðru sem gott var að nota. Sjálfboðaliðar hafa unnið að því í dag og í gær að klára verkið.
https://www.akureyri.is/is/frettir/menning-og-listir
Menning og listir Menningarlífið blómstraði á Akureyri þessa helgina. Á laugardag voru opnaðar a.m.k. fjórar myndlistarsýningar. Á Listasafninu gaf að líta sýningu um Skrýmsl og Sveinbjörg Hallgrímsdóttir sýndi tréristur í gallerí "Svartfugl og hvítspói". Kristján Pétur var með "tónfræði fyrir að(fram)komna" í Deiglunni og í Ketilhúsinu gaf að líta kínverska list. Loks opnuðu listakonur sýninguna "Undir Hannesi" í sýningarsal Jónasar Viðars, undir Listasafninu, og fleira mætti upp telja. Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri, á stund milli stríða. Sumarsýning Listasafnsins ber yfirskriftina "Skrýmsl". Kristján Pétur opnaði sýningu sína "Tónfræði fyrir aðframkomna" og söng nokkur lög fyrir gesti.
https://www.akureyri.is/is/frettir/strandgata-torfunef-tillogur-ad-breytingum-a-adalskipulag
Strandgata - Torfunef, tillögur að breytingum á aðalskipulagi og deiliskipulagi Bæjarstjórn Akureyrar auglýsir hér með skv. 1. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.b. tillögu að breytingu á aðalskipulagi á hafnar- og miðsvæði sunnan Strandgötu og austan Glerárgötu. Breytingin felst einkum í stækkun miðsvæðisreits á kostnað hafnarsvæðis og er megintilefni hennar fyrirhuguð bygging menningarhúss á svæðinu, en einnnig áformuð viðbygging við núverandi líkamsræktarstöð. Jafnframt er auglýst skv. 25. gr. sömu laga tillaga að nýju deiliskipulagi sama reits, sem kemur í stað skipulags frá 1990. Í henni eru markaðir byggingarreitir fyrir ofangreindar byggingar, lóðarmörk dregin og grein gerð fyrir bílastæðum. Gert er ráð fyrir að Torfunefsbryggja verði lengd og landfylling aukin innan hennar. Lóð líkamsræktarstöðvar stækki til austurs og þar komi viðbygging. Tillöguuppdrættir þessir munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð til miðvikudagsins 17. ágúst 2005, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillögurnar og gert við þær athugasemdir. Tillögurnar eru einnig birtar hér á heimasíðunni: Tillöguuppdráttur aðalskipulagsbreytingar (891 kb) Tillöguuppdráttur deiliskipulagsbreytingar (2,69 Mb) Frestur til að gera athugasemdir við tillögurnar rennur út kl. 16:00 miðvikudaginn 17. ágúst 2005 og skal athugasemdum skilað til Umhverfisdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við auglýsta tillögu innan þessa frests telst vera henni samþykkur. 6. júlí 2005 Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar
https://www.akureyri.is/is/frettir/endurvarpsstod-fyrir-farsima-a-midhusakloppum-og-orlofshusab
Endurvarpsstöð fyrir farsíma á Miðhúsaklöppum og orlofshúsabyggð í Búðargili, deiliskipulagsbreytingar Akureyrarbær auglýsir hér með skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga 2 tillögur að breytingum á deiliskipulagi: 1 Skipulag hesthúsahverfis í Breiðholti Gerð er tillaga um að efst á Miðhúsaklöppum, norðan hesthúsa við Sörlagötu, komi endurvarpsstöð fyrir farsímakerfi. Afmörkuð er 100 m2 lóð og innan hennar gert ráð fyrir tækjaskýli og 16 m háu mastri. 2 Orlofshúsabyggð við Búðargil Meginbreytingar skv. tillögunni eru þær að byggingarreitir verða 8,6 m á breidd í stað 8 m áður, hámarksstærð orlofshúsa verður 78 m2 í stað 70 áður og lágmarksþakhalli 20° í stað 25° áður. Tillögurnar ásamt fylgigögnum munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð til miðvikudagsins 17. ágúst 2005, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér þær og gert við þær athugasemdir. Tillögurnar eru einnig birtar hér á heimasíðunni: Skoða tillöguuppdrátt vegna endurvarpsstöðvar (845 kb) Skoða tillöguuppdrátt vegna Búðargils (10,8 Mb) . . skýringarmynd vegna Búðargils (8,51 Mb) Frestur til að gera athugasemdir við tillögurnar rennur út kl. 16:00 miðvikudaginn 17. ágúst 2005 og skal athugasemdum skilað til Umhverfisdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við auglýsta tillögu innan þessa frests telst vera henni samþykkur. 6. júlí 2005 Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar
https://www.akureyri.is/is/frettir/atak-i-forvornum-mixum-betri-bae
Átak í forvörnum - Mixum betri bæ Áfengis- og vímuvarnanefnd Akureyrarbæjar hefur gert samstarfssamning við Ölgerðina Egil Skallagrímsson og Ásprent-Stíl um átak í forvörnum undir yfirskriftinni “Mixum betri bæ”. Samningurinn kveður á um að Ölgerðin leggi Áfengis- og vímuvarnanefnd til 10 kr. af hverri seldri Egils Mix flösku frá 1. júní til 31. ágúst og Ásprent-Stíll gefur 249 þús. krónur vegna hönnunar og kostnaðar við markaðssetningu átaksins sumarið 2005. Frá undirskrift samningsins í morgun. F.v. Hafþór Jörundsson, svæðisstjóri Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar, Bryndís Arnarsdóttir, forvarnafulltrúi Akureyrarbæjar, og G. Ómar Pétursson, framkvæmdastjóri Ásprents-Stíls. Áfengis- og vímuvarnanefnd Akureyrarbæjar ráðstafar þeim fjármunum sem þannig verða til með sölu Mix-drykksins og hefur samráð við unglinga í bænum um það hvernig ráðstafa skuli þeim peningum sem safnast með þessu móti. Haldið verður málþing þar sem unglingar verða hvattir til að koma fram með tillögur sínar og óskir hvað það varðar. Samingurinn er til þriggja ára með möguleika á framlengingu. Einnig eru í honum ákvæði sem gera öðrum fyrirtækjum kleift að koma að samstarfinu síðar með beinum fjárframlögum eða öðrum hætti. Stórauknum fjármunum hefur verið varið til forvarnarstarfs á Akureyri á síðustu árum, en vissulega má gera enn betur ef það gæti orðið til að koma í veg fyrir að ungmenni á Akureyri hefji neyslu tóbaks, áfengis og eða fíkniefna. Akureyrarbær fagnar þessu framtaki og hvetur önnur fyrirtæki á Akureyri til að bætast í hópinn og leggja forvörnum lið.
https://www.akureyri.is/is/frettir/mimoun
Mimoun Funk-hljómsveitin Mimoun frá Hollandi verður með hádegistónleika í Ketilhúsinu föstudaginn 8. júlí nk. kl. 12. Mimoun þýðir kameldýr á hlaupum í eyðimörkinni sem stoppar öðru hvoru við hillingar: Meðlimir hljómsveitarinnar sem eru Saskja Meijs, fiðla, Mark Tuinstra, gítar, loops, cavaquinho, Marcel Krömker, bassi og Sjahin Düring, ýmis afríkönsk ásláttarhljóðfæri; flytja litríka tónlistarblöndu sem samanstendur af austurlenskri og lýriskri balkantónlist og arabískum sambarythma. Tónleikarnir taka u.þ.b. 50 mínútur og er aðgangseyrir kr. 1000 lælæl
https://www.akureyri.is/is/frettir/skeljahatid-i-hrisey
Skeljahátíð í Hrísey Nk. laugardardag, 9. júlí, býður Norðurskel ykkur að njóta veitinga og skemmtiatriða í Hrísey. Friðrik V mun sjá um eldamennsku og eldar með gestum þar sem veisluborðin munu svigna undan ljúffengum kræklingi og öðru lostæti sjávar. Mikið verður um að vera og má þar nefna Íslandsmeistaramót í bláskeljakappáti þar sem Íslandsmeistari verður krýndur. Þá verður “Sjávardýragarður” opin þar sem gefur að líta margskonar sjávardýr úr Eyjafirði. Leiktæki verða fyrir krakkana. Farið verður í siglingu út að bláskeljalínum, dráttarvélaferðir, tónlist og fleira. Hátíðin mun hefjast kl. 14.00. Hríseyjarferjan fer frá Árskógssandi kl. 11.30, 13.30, 14.30, 15.30, os.frv.
https://www.akureyri.is/is/frettir/skufholkar-og-silfursmidi-i-laufasi
Skúfhólkar og silfursmíði í Laufási Silfur og skrautmunir prýða Gamla bæinn í Laufási á íslenska safnadeginum sunnudaginn 10. júlí. Tvær konur munu sýna og segja frá silfurgripum og kvennaskrauti íslenska búningsins milli kl. 14:30 og 16. Í stofu Gamla bæjarins mun Inga Arnar, nemi í þjóðfræði við Háskóla Íslands, sýna og spjalla um skúfhólka, sem skreyttu skotthúfur íslenska búningsins. Það er ekki síst sagan sem gerir hlutinn merkilegan. Skúfhólkar erfast gjarnan milli kynslóða eins og annað búningasilfur. Í fallegum skúfhólk er talsverð eign, enda gátu skúfhólkar verið trúlofunargjafir. Fólk er hvatt til að koma með skúfhólka, peysufatahúfur og annað kvensilfur og mun Inga rannsaka þau á staðnum. Í skála Gamla bæjarins mun Anja Broch, silfursmiður, sýna silfursmíði. Kaffi og veitingar eru til sölu í Gamla Prestshúsinu.Laufás er opið frá 9-18. Nánari upplýsingar veitir Inga í Laufási s: 463 3196
https://www.akureyri.is/is/frettir/lifskjor
Lífskjör Í mars síðastliðnum framkvæmdi IMG Gallup víðamikla könnun á lífskjörum íbúa á Akureyri annars vegar og íbúa á höfuðborgarsvæðinu hins vegar. Úrtakið var handahófsvalið úr þjóðskrá, 750 manns á Akureyri og 800 manns á höfuðborgarsvæðinu. Svarhlutfall var 53,7%. Helstu niðurstöður könnunarinnar eru eftirfarandi. Færri íbúar Akureyrar myndu flytja á höfuðborgarsvæðið nú en áður. Íbúar Akureyrar eru ánægðari með veðurfar og vegasamgöngur innanbæjar og telja hættu vegna glæpa og ofbeldis mun minni en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Auðveldara aðgengi að plássi hjá dagmæðrum og í leikskóla á Akureyri en á höfuðborgarsvæðinu sem og betra mat á þjónustu þessara aðila. Vaxandi ánægja íbúa Akureyrar með gæði framhaldsskóla bæjarins. Hækkun meðallauna á Akureyri. Íbúar Akureyrar meta stöðuna á húsnæðismarkaðinum betri en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Niðurstöðum könnunarinnar verða gerð frekari skil síðar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/fjolskylduhatid-i-hrisey
Fjölskylduhátíð í Hrísey Hin árlega Fjölskylduhátíð í Hrísey verður haldin dagana 15-17 júlí n.k. Þar verður margt í boði og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Hátíðin verður sett föstudaginn 15. júlí kl 14:00, þá verða leiktækin opnuð og verða þau opin til kl 22.00. Á föstudeginum verður heilmikil dagskrá og má þar nefna Ökuferðir um þorpið með Skralla trúð, Gunni og Felix fara út í óvissuna með börnin, leik og grunnskólabörn skemmta okkur, boðið verður uppá andlitsmálun, Vitaferðir, Disko og karaoke verður á sínum stað og dansleikur fyrir alla fjölskylduna með hljómsveitinni Sent, Óvissuferðin verður farin á föstudagskvöldinu og Brekka og Fossinn verða með opið fram á nótt.
https://www.akureyri.is/is/frettir/jazz-tonleikar
Jazz- tónleikar Á "Heitum fimmtudegi" þann 14. júlí, kl: 21:30, leikur Park Project eigin tónlist, sem er skemmtilegur bræðingur úr djass- og popptónlist. Pálmi Gunnarsson og Kristján Edeklstein stofnuðu bandið, Park Project, sem er nú að gefa út sína fyrstu hljómplötu. Bandið varð til í rökréttu framhaldi af samvinnu þeirra tveggja við samningu söngva og hljóðfæraleiks í sjónvarpsþáttum. Pálmi Gunnars hefur eins og þjóðin veit verið leiðandi söngvari í dægurlagaheiminum, en hann hefur einnig sem bassaleikari látið mikið að sér kveða í djassinum og lék t.d. um skeið með hinum eina og sanna Guðmundi Ingólfssyni djasspíanista. Kristján Edelstein hefur um árabil verið í röð okkar slyngustu rafgítarista og er eins og Pálmi búsettur á Akureyri. Í Park project leika auka Pálma og Krissa; Agnar Már Magnússon á píanó og hammond og Benedikt Brynleifsson á trommur. Agnar Már hefur löngu sannað sig sem einn okkar allrabesti djasspíanisti og útsetjari og færni hans fengið lof jafnt heima og erlendis. Benni er einkar flinkur og geislandi góður trommuleikari. Aðgangseyrir er kr. 1.000
https://www.akureyri.is/is/frettir/fostudagshadegistonleikar
Föstudagshádegistónleikar Nk. föstudag, þann 15. júlí, verður The Slide Show Secret með hádegistónleika í Ketilhúsinu. Kristján Orri Sigurleifsson, kontrabassi og Eva Zöllner, harmónika eru dúó sem kalla sig The Slide Show Secret. Þau hafa það að markmiði að koma nýjum þýskum og íslenskum tónskáldum á framfæri m.a. með því að panta verk frá þeim og flytja. Meðal tónskálda má nefna, Helmut Zapf, Knut Guettler, John Cage, Peter Gahn, Inga Garðar Erlendsson og Arvo Pärt. Stemningin á tónleikunum er afslöppuð og róleg enda skapar hljóðfærasamsetningin mjög milda tóna. Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa í um 50 mínútur. Aðgangseyrir kr. 1000
https://www.akureyri.is/is/frettir/starfsdagur-i-laufasi-2
Starfsdagur í Laufási Flest tökum við nútíma þægindum sem sjálfsögðum hlut. Við kvörtum yfir tímaleysi en hvernig færum við að ef við þyrftum að búa til jafn hverstakslegan hlut eins og smjör eða skyr? Hvernig fór fólk eiginlega að þessu í gamla daga? Í Gamla bænum Laufási við Eyjafjörð verður hægt að fylgjast með fólki að störfum sunnudaginn 17. júlí milli 13:30 og 16:30. Byrjað verður á samverustund í kirkjunni kl 13:30. Í Gamla bænum verður fólk að störfum við tóvinnu og matargerð. Þar verður unnið úr undirstöðu matarræðis Íslendinga fyrr á öldum, mjólkinni. Hægt verður að fylgjast með því hvernig skyr var búið til. Boðið verður upp á nýstrokkað smjör með rúgbrauði og hangikjöti. Kynt verður undir hlóðum og bakaðar gómsætar lummur. Á hlaðinu verður heypskapur í fullum gangi undir hljómfagurri tónlist Einars og Hauks. Danshópur svífur um hlaðið og sýnir þjóðdansa kl. 15:30. Veitingasala er í Gamla prestshúsinu. Laufás er opið frá 9-18 alla daga og til 22 á fimmtudögum. Frekari upplýsingar veitir Inga í Laufási s: 463-3104
https://www.akureyri.is/is/frettir/sumartonleikar
Sumartónleikar Þriðju tónleikar Sumartónleika í Akureyrarkirkju verða haldnir sunnudaginn 17. júlí, kl. 17. Flytjendur að þessu sinni verða Hymnodia - Kammerkór Akureyrarkirkju, stjórnandi: Eyþór Ingi Jónsson. Á efnisskrá verða kórverk eftir : Arvo Pärt, Jaakko Mäntyjärv, Josquin Despréz, Pierre Attaingnant, Thomas Jennefelt, Heinrich Poo, Sergej Rachmaninov, Marco Antonio Ingegneri, Jakob Tryggvason og Davíð Brynjar Franzson. Ennfremur sænsk og íslensk þjóðlög í útsetningu Jakobs Tryggvasonar, Jóns Hlöðvers Áskelssonar og Jóns Leifs og einnig verður fluttur kórspuni. Aðgangur er ókeypis Hymnodia þýðir dýrðarsöngur. Þetta er latnesk útgáfa gríska orðsins hymnos. Hymnodia er í raun sálmasöngur bundinn í ljóðform, lofsöngur við helgihald kristinna manna. Upphaflega var þetta þó söngur safnaðarins sjálfs við helgihaldið. Á síðari árum hefur íslenska þjóðkirkjan hvatt mjög til þess að söfnuðurinn tæki þátt í sálmasöng við guðsþjónustur og aðrar helgiathafnir. Því má segja að við séum komin aftur til upphafsins í kirkjunni og söngur kirkjugesta sé hinn eini og sanni hymni. En Hymnodia er líka kammerkór Eyþórs Inga Jónssonar, annars tveggja organista og söngstjóra við Akureyrarkirkju. Í kórinn hefur Eyþór valið einvalalið söngfólks á Akureyri til þess að flytja metnaðarfulla kórtónlist, bæði kirkjuleg verk og veraldleg. Hymnodia hefur sungið við helgihald í Akureyrarkirkju, sungið vesper og við miðnæturmessu á jólum. Þá hefur Hymnodia komið fram á Hólahátíð, sungið á tónleikum í kirkjunni, í Ketilhúsinu og víðar. Hymnodia stefnir að því að vera í fremstu röð kóra á Íslandi.
https://www.akureyri.is/is/frettir/fullur-baer-af-folki-2
Fullur bær af fólki Stærsta skemmtiferðaskip sumarsins, Sea Princess, liggur nú við Oddeyrarbryggju og annað hér um bil jafnstórt, Aurora, er á Pollinum. Hátt í 4.000 manns eru með þessum skipum og er bærinn fullur af fólki í blíðskapar verðri. Hitinn er rúmar 20 gráður. Myndirnar hér að neðan tala sínu máli.
https://www.akureyri.is/is/frettir/dagskra-hriseyjarhatidar
Dagskrá Hríseyjarhátíðar Fjölskylduhátíðin í Hrísey verður sett í dag, föstudaginn 15. júlí kl 14:00. Fjölmargt verður í boði og vonandi finna því allir eitthvað við sitt hæfi og koma til með að njóta dvalarinnar í Perlu Eyjafjarðar. Dagskráin er eftirfarandi: Föstudagur 15. júlí Kl 13.00 Miðasala hefst. Kl 14.00 Ómar Hlynsson kynnir hátíðarinnar til fjölda ára setur hátíðina. Leiktæki opnuð og verða opin til kl 22.00. Blessun. Sr. Sólveig Lára Guðmundsdóttir. Kl 15.00 Ökuferð um þorpið á dráttarvél með Skralla. Kl 16.00 Leik og grunnskólabörn stíga á stokk. Kl 17.00 Óvissuferð fyrir börn með sprelligosunum Gunna og Felix.(skráning í miðasöluskúr) Ökuferð um þorpið, vinningsferð. Kl 18.00 Disko og Karaoke fyrir alla fjölskylduna. Kl 18.30 Kveikt upp í grillum á hátíðarsvæði. Kl 20.00 Vitaferð ( skráning í miðasöluskúr) Kynning á brekkusöngslagi 2005. Fjöllistamaðurinn Mighty Gareth skemmtir. Kl 21.00 Dansleikur fyrir alla fjölskylduna með hljómsveitinni Sent. Kl 22.00 Óvissuferð (skráning í miðasöluskúr) Kl 00.00 Uppákomur í Fossinum og Brekku. Laugardagur 16. júlí Kl 09.00 Sundlaugin opnar. Kl 10.00 Leiktæki opnuð og opin til kl 19.00. Leiklistarnámskeið fyrir börn til kl 12.00, mæting við grunnskóla. Kl 11.00 Kassaklifur- æfingartími til kl 13.00. Stultuganga- æfingartími til kl 13.00 Sögustund útí náttúrunni, mæting við grunnskóla. Kl 13.00 Söngvarakeppni barna ( Skráning í miðasöluskúr) Stultugöngukeppni.(skráning í miðasöluskúr) Kvenfélagskonur verða með kaffisölu í hátíðartjaldi, kaffi, kakó og heimabakað bakkelsi. Nemendaráð grunnskólans selur popp og candiflos. Kl 13.30 Vitaferð með Gunna og Felix. Kl 15.00 Fjölskylduskemmtun á palli. Atriði úr ávaxtakörfunni, Benedikt búálfur og Gunni og Felix. Verðlauna afhending fyrir söngvarakeppni og stultugöngu. Kl 16.00 Kynning á Hríseyjarlaginu 2005. Kl 16.30 Dráttarvélaferð með Skralla. Kl 17.00 Fitnesskeppni við grunnskólann fyrir krakka á aldrinum 13-15 ára.( skráning í miðasöluskúr) Dráttarvélaferð með Skralla. Vitaferð. Kl 17.30 Dráttarvélaferð/ vinningsferð. Kl 18.00 Hópakstur á dráttarvélum um þorpið. Kl 18.30 Kveikt upp í grillum á hátíðarsvæði. Kl 20.30 Kvöldvaka á hátíðarpalli. Gísli S. Einarsson flytur okkur skemmtilegan pistil. Þórarinn Hjartarson frá Tjörn mætir með gítarinn. Hundur í óskilum. Fjöllistamaðurinn Mighty Gareth. Brekkusöngur og varðeldur. Flugeldasýning. Kl 00.00 Útidansleikur með Stuðmönnum. Sunnudagur 17. júlí. Kl 09.00 Sundlaugin opnar Kl 10.00 leiktæki opnuð og opin til kl 17.00 Kassaklifur æfing fyrir keppendur til kl 11.00 Kl 11.00 Kaffisala í hátíðartjaldi. Hríseyjarmótið í kassaklifri.(skráning í miðasöluskúr) Ratleikur fyrir alla fjölskylduna.(skráning í miðasöluskúr) Kl 12.00 Stangveiðikeppni.(skráning í miðasöluskúr) Kl 13.00 Leiklistarnemar sýna afrakstur námskeiðsins á hátíðarpalli. Ökuferð á dráttarvélum um þorpið. Kl 13.30 Skemmtun á hátíðarpalli. Hvítasunnukórinn frá Akureyri. Djassbandið Helena Eyjólfsdóttir. Vipepe Marimba frá Hafralækjarskóla. Aðalsteinn Bergdal spilar á sög. Kl 15.00 Akstursleikni á dráttarvélum. Vitaferð. Kl 17.00 Vitaferð. Kl 18.00 Hátíðarslit. Aðgangseyrir er 2500 krónur fyrir 16 ára og eldri (1989) 12-15 ára greiða 1000 kr (1990-1993) frítt fyrir yngri en 12 ára. (1994-2005) Elli og örorkulífeyrisþegar greiða 1000 kr. Tjaldstæði eru innifalin í aðgangseyri. Atriði sem ekki eru innifalin í aðgangseyri eru óvissuferðir, vita og dráttarvélaferðir og leiktæki Á sunnudeginum er aðgangseyrir 1000 kr fyrir 16 ára og eldri , 500 kr fyrir 12-15 ára. Frítt fyrir yngri en 12 ára. Börn yngri en 18 ára verða að vera í fylgd með fullorðnum. Verðskrá fyrir leiktækjaland: Armband í leiktæki keypt á föstudegi, 1800 kr og gildir alla helgina. Armband keypt á laugardegi, 1800 kr og gildir alla helgina. Armband keypt á sunnudegi 1000 krónur. Hægt er að kaupa stakar ferðir í leiktækjalandið á 200 kr (1 spesía) í 15 mínútur. Hákarlasafnið verður opið frá kl 14-17 alla helgina.
https://www.akureyri.is/is/frettir/umhyggja-adhald-og-eftirlit
Umhyggja, aðhald og eftirlit Elskum börnin okkar, þau vilja umhyggju, aðhald og eftirlit eru einkunnarorð sumarátaks á vegum SAMAN hópsins. Borðar með sömu einkunnarorðum eru á strætisvögnum Akureyrarbæjar og birtast í næstu dagskrám. Áfengis- og vímuvarnanefnd Akureyrarbæjar vill með þessum skilaboðum vekja foreldra og forráðamenn til umhugsunar um að börn og unglingar þurfa og vilja umhyggju, aðhald og eftirlit, þá sér í lagi yfir sumartímann. Sumarið er tími þar sem oft vill slakna á öllu taumhaldi meðan fjölskyldan er í sumarleyfi og daglegt skipulag vill riðlast. Sumarið er tími tækifæra, tækifæri fjölskyldunnar til að gera það sem henni er hugleikið hverju sinni eins og að ferðast, fara í gönguferðir og margt fleira. En fyrst og fremst er sumarið tækifæri til að verja skemmtilegum tíma með þeim sem eru okkur dýrmætast af öllu, börnunum okkar. Sumarið er oft tími þar sem ungmenni leiðast út í sína fyrstu drykkju oft með ófyrirséðum afleiðingum og sár á sálinni sem þau vildu vera án. Það er okkar fullorðinna að leiðbeina og stýra þeim sem yngri eru, margar kannanir og rannsóknir sýna að það að þó ungmenni okkar vilji sjálfstæði og sveigjanleika þá vilji þau umfram allt umhyggju, aðhald og eftirlit. Að elska börnin okkar merkir það að við sem foreldrar verðum að taka ábyrga afstöðu gegn unglingadrykkju og oft á tíðum óvinsælar ákvarðanir varðandi útivistartíma og félagslíf ungmenna okkar. En þær ákvarðanir tökum við á þeim forsendum að við elskum börnin okkar og viljum þeim það besta í lífinu. Áfengis og vímuvarnanefnd vill hvetja til aukinna samverustunda fjölskyldunnar og vekja athygli foreldra á að þeir bera ábyrgð á börnum sínum til 18 ára aldurs. Skilaboðin eru skýr og jákvæð og meginstef þeirra er: umhyggja, aðhald og eftirlit: Nýtum hverja stund til að vera með börnum okkar og söfnum góðum minningum - saman. Bryndís Arnarsdóttir, forvarnafulltrúi Akureyrarbæjar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/haltur-leidir-blindan
Haltur leiðir blindan Hugmynd kviknaði hjá Bjarka Birgissyni afreksmanni í sundi og sundþjálfara og Guðbrandi Einarssyni nuddara, kennara og bónda að ganga kringum Ísland en áður höfðu þeir verið að grínast með það. Bjarki er hreyfihamlaður og Guðbrandur er nærri blindur en þeir láta það ekki trufla líf sitt en reyna frekar að sigrast á öllum þrautum. Þeir leituðu eftir stuðningi hjá Sjónarhóli og þar var hugmyndinni vel tekið og Sjónarhóll hjálpaði þeim að finna einhverja til að borga kostnaðinn og aðstoða þá. Núna eru þeir að koma til Akureyrar eftir að hafa gengið suður fyrir land og austur og þaðan hingað. Okkur langar að taka á móti þeim við Leirunesti og ganga með þeim inn í miðbæ, það væri gaman ef þú getur gert það líka annað hvort alla leið eða komið í gönguna á leiðinni. Bjarki og Guðbrandur koma að Leirunesti miðvikudaginn 20. júlí um kl. 16:00
https://www.akureyri.is/is/frettir/samid-um-lagningu-ljosleidara
Samið um lagningu ljósleiðara Akureyrarbær hefur gert samning við Tengi hf. um lagningu ljósleiðara sem víðast um bæinn. Samningurinn felur í sér að Akureyrarbær taki ljósleiðaratengingar inn í þær stofnanir sínar sem ekki eru þegar tengdar við gagnaflutningsnetið, enda verði þjónusta og verð samkeppnishæft við gagnaflutningsleiðir annarra fjarskiptafyrirtækja og flutningsgeta miðuð við þörf viðkomandi stofnunar. Með sömu skilyrðum færir Akureyrarbær heimatengingar starfsmanna sinna yfir á ljósleiðaranetið þegar aðstæður til þess skapast í viðkomandi hverfi. Frá undirritun samstarfssamningsins. Talið f.v.: Franz Árnason, forstjóri Norðurorku, Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, og Gunnar Björn Þórhallsson, framkvæmdastjóri Tengis. Ljósleiðaranetið er fullkomnasta gagnaflutningsleið sem þekkt er. Um ljósleiðara er hægt að flytja öll stafræn gögn á ljóshraða. Í tæp þrjú ár hefur staðið yfir tilraun hérlendis þar sem ákveðinn fjöldi heimila hefur verið tengdur ljósleiðarakerfi og notað þjónustu frá ýmsum aðilum sem hafa verið þátttakendur í verkefninu. Nú þegar eru fjölmargir aðilar tilbúnir til að selja þjónustu sína á ljósleiðaranetinu. Búast má við að flestir sem bjóða margmiðlunarefni og fjarskiptaþjónustu nýti sér ljósleiðaranetið sem dreifileið. Á ljósleiðarakerfinu munu símafyrirtæki og fjarskiptafyrirtæki bjóða hefðbundna símaþjónustu og netaðgang eins og verið hefur og fljótlega má búast við nýjum þjónustuþáttum á þessu sviði. Má þar nefna ókeypis símtöl innanbæjar og myndsímaþjónustu. Dæmi um aðra þjónustu sem verður á ljósleiðarakerfinu er öryggisgæsla (vöktun á húsi /íbúð/hverfi), leiga á hugbúnaði, stakar beinar útsendingar í sjónvarpi, aðgangur að samskiptum við þjónustustofnanir sveitarfélaga, fjarvinnsla, gagnvirk samskipti, til dæmis við heilbrigðisstofnanir eða lækna, og beintengd heimilistæki.
https://www.akureyri.is/is/frettir/midaldalif-og-messa-a-gasum
Miðaldalíf og messa á Gásum Næstkomandi sunnudag, 24. júlí mun andi miðalda svífa yfir verslunarstaðnum á Gásum í Hörgárbyggð 11 km norðan við Akureyri. Hópur danskra handverksmanna frá Middelaldercentret í Nykøbing verður á svæðinu og mun ásamt félögum úr Laufáshópnum endurskapa lífið eins og það gæti hafa verið á blómatíma Gása. Í danska hópnum eru kaupmenn og handverksfólk en einnig bogskytta sem mun gefa fólki kost á að reyna sig við bogfimi, saumakona og fleiri sem gefa staðnum alþjóðlegt yfirbragð eins og líklegt er að hafi verið meðan verslað var á staðnum. Laufáshópurinn mun m.a.baka “miðaldabrauð” á hlóðum, hita jurtate og vinna að vattarsaumi og tréskurði. Skrifari, eða leturgerðarkona, sýnir sitt sérhæfða handverk og hefur til sölu. Einn megin tilgangur heimsóknar hinna dönsku gesta er þó að sækja brennistein til Mývatnssveitar og gera tilraun til að hreinsa hann en brennisteinn var mikilvæg verslunarvara á miðöldum. Fornleifarannsóknirnar á Gásum síðustu sumur hafa m.a. leitt í ljós að hreinsun brennisteins hafi átt sér stað þar en það er athyglisvert þar sem heimildir segja að það hafi ekki verið reynt fyrr en á 18. öld á Íslandi. Við hreinsun margfaldaðist brennisteinninn í verði. Hluti af danska hópnum mun reyna að hreinsa brennistein eins og gert var á miðöldum. Dagskráin á sunnudaginn hefst með því að sóknarprestur Möðruvallaklaustursprestakalls messar við kirkjutóttina á Gásum ásamt kirkjukór og undirleikara. Milli kl. 14 og 17 verður handverksfólk að störfum í tjöldunum en á Gásum var búið í tjöldum meðan þar var stundaður kaupskapur. Á Gásum dvaldi fólk hluta úr sumri, þar voru bæði Íslendingar og erlendir farmenn og kaupmenn saman komnir, og má búast við að mannlíf hafi verið þó nokkuð fjölskrúðugt. Unnið verður að fornleifauppgreftri staðarins, sem að þessu sinni er í gangi fimmta sumarið í röð, meðan á dagskránni stendur og munu fornleifafræðingarnir verða fyrir svörum ef spurningar vakna hjá gestum um fornleifarannsóknirnar. Vakin er athygli á sýningu um verslunarstaðinn á Gásum á Minjasafninu á Akureyri í Aðalstræti 58 sem opið er alla daga milli 10 og 17. Einnig er vakin athygli á heimasíðunum www.gasir.is og www.middelaldercentret.dk Minjasafnið á Akureyri skipuleggur rannsóknirnar og kynningu staðarins ásamt Gásafélaginu en Fornleifastofnun Íslands sér um fornleifauppgröftinn. Nánari upplýsingar veita Kristín Sóley Björnsdóttir í símum 462-4162 og 846-5338 og Guðrún M. Kristinsdóttir í síma 462-4162 og á netfanginu [email protected]
https://www.akureyri.is/is/frettir/trio-sunnu-gunnlaugs
Tríó Sunnu Gunnlaugs Á “Heitum fimmtudegi” þann 21. júlí nk. leikur píanistinn Sunna Gunnlaugs ásamt bandaríska trommaranum Scott McLemore og norska bassaleikaranum Eivind Opsvik en þau eru meðlimir í kvartett Sunnu Gunnlaugs sem hefur gert út frá New York og farið í tónleikaferðir um Evrópu, Kanada og Japan undanfarin ár. Á efnisskránni er nýtt efni eftir meðlimi tríósins í bland við eitthvað eldra en það stendur til að hljóðrita nýja tríó plötu í vikunni á eftir. Tónlist Sunnu hefur verið sögð "heillandi blanda af fáguðum evrópujazzi með brennandi bandarískum rythma" -All About Jazz. Tónleikarnir eru í Ketilhúsinu og hefjast þeir kl. 21.30 Sunna Gunnlaugsdóttir hefur um árabil verið í röð okkar fremstu djasspíanóleikara. Henni hefur hlotnast margskonar viðurkenningar og vakið athygli með leik sínum bæði austan hafs og vestan. Hún bjó um árabil í New York, en er nú flutt heim. Eivind Opsvik (sonur Peter Opsvik sem hannaði TrippTrapp barnastólinn) hefur verið að geta sér góðs orðs í New York. Hann hefur gefið út 2 geisladiska undir merkjum Fresh Sound New Talent útgefandans. Fyrsta platan hans "Overseas" hlaut frábæra dóma hjá gagnrýnendu í New York og var á lista tímaritsins Downbeat yfir bestu diska ársins 2003. Eivind flýgur til Íslands í boði Norska Sendiráðsins. Heimasíðu hans má sjá hér: www.eivindopsvik.com Scott McLemore, eiginmaður Sunnu, hefur margoft leikið á Íslandi. Hann er einnig afkastamikill lagasmiður og mun hans fyrsti geisladiskur "Found Music" koma út í haust á vegum Fresh Sound New Talent. Heimasíðu hans má sjá hér: www.scottmclemore.com Tríóið leikur einnig í Gamla bænum við Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit kvöldið eftir.
https://www.akureyri.is/is/frettir/list-a-laugardegi
List á laugardegi Mikið verður um að vera nk. laugardag, en þá munu m.a. tvær sýningar opna. Annars vegar er það ljósmyndasýningin "Íslendingar" og hins vegar myndlistarsýning Eiríks Arnars. Auk þess verður "Sumarhappening" um kvöldið. Eiríkur Arnar Magnússon opnar myndlistarsýningu kl.14 á Café Karólínu í Listagilinu á Akureyri. Eiríkur Arnar er fæddur á Akureyri 1975. Hann stundaði nám á listasviði Fjölbrautar í Breiðholti, 1998-´99 og nám við Myndlistaskólann á Akureyri 2002-´04 og stundar nú myndlistarnám í Listaháskóla Íslands. Þetta er hans fyrsta einkasýning. Sýningin stendur til 26. ágúst. Ljósmyndasýningin “Íslendingar” opnar í Listagilinu á Akureyri. Um er að ræða sýningu sem byggð er á samnefndri bók með myndum eftir Sigurgeir Sigurjónsson og texta eftir Unni Jökulsdóttur. Sama sýning naut gríðarlegra vinsælda á Austurvelli í Reykjavík á síðasta ári. Í bókinni eru 200 glæsilegar ljósmyndir, en á sýningunni í Gilinu verður aðeins hluti myndanna til sýnis. Skipt verður um myndir um miðjan ágúst og með því móti verða sýndar um 40 myndir. Sýningin mun standa fram í miðjan september og er samvinnuverkefni Listasumars á Akureyri, Eddu útgáfu og KB-Banka. Um kvöldið, nánar tiltekið kl. 20 munu Habbý og Jóna Hlíf standa fyrir “Sumarhappening” í Gallerí Boxi, Listagili. Habbý mun vera með gjörning nr. 2 í Boxinu og Jóna með textaverk í setustofunni. Léttar veitingar verða í boði og mun Dj Take me home halda uppi stuðinu. Habbý stundar nám í AKI í Hollandi og er þetta hluti af röð gjörninga sem hún mun gera á Akureyri í sumar. Jóna Hlíf útskrifaðist úr Myndlistaskólanum á Akureyri sl. vor.
https://www.akureyri.is/is/frettir/natturumyndir-og-tonlist
Náttúrumyndir og tónlist Á Föstudagshádegistónleikum á morgun 22. júlí fá áhorfendur að upplifa samspil náttúruljósmynda og djasstóna þar sem íslenskum náttúruöflum verða gerð skil. Tveir jeppar, fjórir jarðfræðingar og fimm dagar á hálendi Íslands urðu kveikjan að samstarfsverkefninu “Spaces & Places” sem unnið er af danska saxófónistanum Dorthe Højland og sænska ljósmyndaranum og jarðfræðingnum Fredrik Holm. Hljómsveit Dorthe Højland er skipuð af: Jacob Højland, píanó og hljómborð, Andreas Dreier, kontrabassa, Søren Olsen, trommur og Dorthe Højland, sópran- og altsaxófón. Tónleikarnir eru í Ketilhúsinu og taka u.þ.b. 50 mín. Aðgangseyrir kr. 1.000
https://www.akureyri.is/is/frettir/haltur-leidir-blindan-a-akureyri
Haltur leiðir blindan á Akureyri Félagarnir Bjarki Birgisson og Guðbrandur Einarsson komu til Akureyrar í gær á hringferð sinni um landið undir kjörorðunum "Haltur leiðir blindan". Nokkur fjöldi fólks slóst í för með þeim í Vaðlaheiðinni og við Leirunesti. Þeirra á meðal voru bæjarfulltrúar og bæjarstjórinn á Akureyri. Þetta er mikið afrek hjá þeim félögum Bjarka og Guðbrandi því Bjarki er hreyfihamlaður og Guðbrandur nærri því blindur. Þeir láta það hins vegar ekki trufla líf sitt og reyna að sigrast á öllum þrautum. Það sýna þeir svo um munar með hringferðinni um Ísland. Myndirnar hér að neðan tala sínu máli.
https://www.akureyri.is/is/frettir/husnaedismarkadurinn
Húsnæðismarkaðurinn Mikið líf hefur verið í fasteignaviðskiptum undanfarið á Akureyri og sést það vel þegar litið er til fjölda þinglýstra kaupsamninga sem gerðir hafa verið. Eins og fram kemur á vef fasteignamats ríkisins www.fmr.is var fjöldi slíkra samninga 29 á tímabilinu 1. júlí 2005 til og með 7. júlí 2005 en meðalfjöldi þinglýstra kaupsamninga sl. 12 vikur er 20 samningar. Þess má geta að árið 2004 var fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir 726 í heildina og var það 30,8% aukning frá árinu áður, en þá var fjöldinn 555. Fjöldi kaupsamninga sem gerðir hafa verið frá upphafi þessa árs og fram til dagsins í dag eru um 512 talsins. Samkvæmt könnnun sem IMG Gallup framkvæmdi í mars sl. telja 81,2% aðspurðra Akureyringa stöðu á húsnæðismarkaðnum góða. Þátttakendur voru einnig spurðir að því hvort þeir myndu meta möguleika sína, á því að eignast hentugt eigið húsnæði, mikla eða litla. Tæplega 2/3 hluti eða 63,5% svarenda á Akureyri taldi sig eiga mikla möguleika á því. Hér fyrir neðan má sjá kökurit sem sýna svör Akureyringa við þessum spurningum samanborið við svör höfuðborgarbúa. Telur þú að staðan á húsnæðismarkaðinum í því bæjarfélagi sem þú býrð í sé góð eða slæm? Akureyri Höfuðborgin Metur þú möguleika þína, mikla eða litla, á því að eignast hentugt eigið húsnæði? Akureyri Höfuðborgin
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyri-i-ondvegi
Akureyri í Öndvegi Nú stendur yfir í Glerárgötu 36 sýning á tillögum sem bárust í hugmyndasamkeppni um nýjan miðbæ á Akureyri í verkefninu "Akureyri í öndvegi". Einnig eru sýndar þar þær tillögur sem hlutu verðlaun og viðurkenningar þegar efnt var til hönnunarsamkeppni um menningarhús á Akureyri. Sýningin verður opin til 31. ágúst, alla virka daga og einnig um helgar frá kl. 13 til 18. Sýnt er á þriðju og fjórðu hæð húsnæðisins að Glerárgötu 36. Aðgangur er ókeypis.
https://www.akureyri.is/is/frettir/ein-med-ollu
Ein með öllu Ein af stærstu ferðahelgum ársins, verslunarmannahelgin, er framundan. Búast má við því að fjöldi fólks leggi leið sína til Akureyrar þar sem fjölskylduhátíðin “Ein með öllu” verður haldin. Hátíðin verður formlega sett kl. 20 á föstudag. Af því fjölmörgu sem í boði verður á hátíðinni má nefna Tívolí Uk, Ávaxtakörfuna, Hildi Völu, Nylon, Pétur Pókus, Singstar söngvakeppni, Guðþjónustur, Skemmtigöngur, Ratleiki, Grillveislur, Stúku- og brekkusöng og Flugeldasýningu. Tjaldsvæðin á Akureyri um verslunarmannahelgina eru: Fjölskyldutjaldsvæðið að Hömrum (461-2284) Fjölskyldutjaldsvæðið við Þórunnarstræti (462-3379) Tjaldsvæði Íþróttafélagsins Þórs í Glerárhverfi (461-2080) En auk þess eru nokkur tjaldsvæði í nágrenni Akureyrar: Hrafnagil (463-1400), Dalvík (466-3233), Húsabrekka (462-4921), Sigríðarstaðir (4626731) og Vaglaskógur (4624755). Dagskrá fjölskylduhátíðarinnar Ein með öllu er að finna hér
https://www.akureyri.is/is/frettir/vedurblida
Veðurblíða Einmuna veðurblíða hefur verið á Akureyri í dag og var hitamælirinn á Ráðhústorgi kominn upp í 15 gráður strax klukkan 9 í morgun. Fólk hefur notið þess að vera úti við og líklega óska flestir þess að spár veðurfræðinga haldi áfram að rætast ekki með öllu. Annars eru nú suðaustlægar áttir í kortunum og er þá veðrið jafnan einna best á Norðaustur- og Austurlandi. Við brugðum okkur í bæinn í dag og tókum nokkrar myndir sem tala sínum máli. Krakkarnir í Íþróttaskóla Þórs brugðu sér í fjöruferð í góða veðrinu. Misjafnt var hversu heitt mönnum var og þótti sumum ástæða til að kæla sig aðeins í sjónum. Þessar myndir voru teknar af börnunum á leikskólanum Síðuseli. Þessar myndir voru teknar af smíðavellinum við Vestursíðu, en þar hafa krakkar á aldrinum 8-12 ára verið að smíða sér kofa undanfarnar vikur. Námskeiðinu lýkur nú í lok vikunnar og fá börnin þá að taka kofana með sér heim.
https://www.akureyri.is/is/frettir/soguganga
Söguganga Laugardaginn 30. júlí býður Minjasafnið á Akureyri upp á sögugöngu um Oddeyrina. Fyrstu atburðir á Eyrinni sem sögur greina frá eru í tengslum við þinghald um 1300. Upp úr 1550 lögðu herskip konungs við akkeri innan við Oddeyrina sem líklega var þá þegar þekkt hafnskipalægi, því þegar einokunarverslun komst á árið 1602 var Akureyri orðin aðalhöfnin við Eyjafjörð. Á Eyrinni var beitarland Stóra Eyrarlands og Lögmannshlíðar og síðar túnstæði eftir að Akureyri tók að vaxa fiskur um hrygg á seinni hluta 19. aldar. Gránufélagið byggði þar upp bækistöðvar sínar nokkru seinna, og standa þau hús enn sem hluti af gömlu byggðinni við Strandgötu. Mikill vaxtarkippur hljóp í byggðina á Oddeyri á tveim síðustu áratugum 19. aldar. Undirstaðan var fyrst og fremst útgerðin frá Eyrinni og Tanganum, en líka smáiðnaður, verslun og veitingarekstur. Um aldamótin 1900 þreifst fjölskrúðugt mannlíf á Oddeyrinni. Á velefnuðum heimilum var helst töluð danska, en í öðrum húsum deildu margar fjölskyldur lélegum, þægindalausum herbergjum. Á sunnanverðri Oddeyri er timburhúsabyggð brotin upp af einstöku steinhúsum. Við Strandgötu eru hús útgerðarmanna og stórkaupmanna en í hliðargötunum íburðarminni hús sem sum hafa verið stækkuð margsinnis til að mæta vaxandi húsnæðisþörf. Í bakgörðum eru skúrar til vitnis um smábúskap sem flestir stunduðu meðfram vinnu. Í sögugöngu er horft eftir húsagerðum og skemmtilegum smáatriðum um leið og saga húsanna er rifjuð upp. Sögugangan um Oddeyri byrjar við Gránufélagshúsin, Strandgötu 49, kl. 14. Ekkert þátttökugjald er tekið og allir velkomnir. Leiðsögn er á íslensku.